Miðvikudagur 23. október, 2024
7.1 C
Reykjavik

Bára fegin að kröfum Miðflokksmanna hafi verið hafnað

Bára Halldórsdóttir.

Bára Halldórsdóttir fagnar niðurstöðu stjórnar Persónuverndar, en ítrekar að hún hafi ekkert að fela.

„Ég er bara fegin að niðurstaðan skuli vera sú að gögnin séu ekki talin tengjast upphaflega málinu, sem gengur út á það hvort það hafi verið löglegt eða ekki að taka þetta upp og deila með fjölmiðlum. Það er þægilegt að stjórnin skuli sjá hlutina svipað og við gerum,“ segir Bára Halldórsdóttir í samtali við Mannlíf um þá niðurstöðu að stjórn Persónuverndar hafi hafnað kröfu lögmanns fjögurra þingmanna Miðflokksins um frekari gagnaöflun í Klausturmálinu.

Krafa lögmanns þingmannanna gekk meðal annars út á það að þingmennirnir vildu fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru á tímabilinu 15. nóvember til 15.desember. Eins var krafist upplýsinga um smáskilaboð og símtöl til Báru.

„Ég er bara fegin að niðurstaðan skuli vera sú að gögnin séu ekki talin tengjast upphaflega málinu, sem gengur út á það hvort það hafi verið löglegt eða ekki að taka þetta upp og deila með fjölmiðlum.“

Á vef RÚV er greint frá því að Persónuvernd telji sig einfaldlega ekki hafa heimild til öflunar upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum vegna meðferðar kvörtunarmáls sem varði ekki viðkomandi fyrirtæki heldur í þessu tilviki Báru sjálfa. Stjórn Persónuverndar telji m.a. að atvik málsins verði talin nægilega upplýst til að Persónuvernd geti komist að efnislegri úrlausn. Þess sé krafist að málinu verði í heild sinni vísað frá þar sem inntak þess lúti að mörkunum milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Stofnun eins og Persónuvernd eigi ekki að skera úr um það heldur dómstólar, eins og fram kemur á vef RÚV.

Þrátt fyrir að vera fegin þessari niðurstöðunni ítrekar Bára að hún sjálf hafi ekkert að fela. „Nei, eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum þá hef ég ekkert að fela. Bara ekki neitt. Ef þessir menn vilja vita hvað ég nota stórar nærbuxur, þá get ég alveg upplýst þá um það,“ segir hún yfirveguð.

Þú virðist taka þessu öllu með ótrúlegu jafnaðargeði. „Auðvitað er það ekki þannig að þetta hafi engin áhrif á mig,“ segir hún þá. „En ég verð að halda ró minni sama hvað gengur á. Ég hef bara ekki um annað að velja, til að viðhalda heilsu minni. Það er fyrir öllu.“

Gunnar í gæsluvarðhald

Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson hálf­bróður sinn til bana í Mehamn um helg­ina, hefur verið úr­sk­urðaður í fjög­urra vikna gæslu­v­arðhald í Héraðsdómi Aust­ur-Finn­merk­ur.

Þetta var samþykkt þegar beiðni um varðhald var tekin fyrir í dómstóli þar fyrir skemmstu. Miðillinn iFinnmark greinir frá því að Gunnar hafi virst sleginn og byggir það á frásögnum blaðamanna sem voru á staðnum.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum á Gunnar að baki langan sakaferil hér á landi. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir nauðgun, handrukkun, stórfelldar líkamsárásir, frelsissviptingu, rán umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot.

Þeir Gunnar Jóhann og Gísli Þór voru hálfbræður og voru þeir báðir búsettir í Mehamn í Noregi þar sem þeir störfuðu í sjávarútvegi. Fram hefur komið að Gunnar Jóhann hafi í aðdraganda morðsins ítrekað haft í hótunum við Gísla Þór og var hann dæmdur í nálgunarbann vegna þessa um miðjan apríl.

Gunn­ar kvaðst samþykk­ur úr­sk­urðinum þegar héraðsdóm­ari innti hann álits í kvöld. Ann­ar maður, sem tal­inn er hafa verið sam­verkamaður hans, við kom fyr­ir dóm­inn hálf­tíma síðar.

Vilja að „íslensk lopapeysa“ verði verndað afurðarheiti

Hópur í Handprjónasambandi Íslands telja að „íslensk lopapeysa“ ætti að vera verndað afurðarheiti til að koma í veg fyrir að neytendur kaupi eftirlíkingar óafvitandi.

 

Framleiðendahópur á handprjónuðum og hefðbundnum lopapeysum úr íslenskri ull hefur sótt um vernd fyrir afurðarheitið íslensk lopapeysa. Forsvarsaðilli umsóknarinnar er Handprjónasamband Íslands. Þetta kemur fram á vef MAST.

Í umsókn Handprjónasambands Íslands kemur fram að á undanförnum árum hefur sala og eftirspurn á íslenskum lopapeysum aukist verulega og því sé mikilvægt að tryggja rekjanleika þeirra peysa sem eru seldar sem „íslenskar lopapeysur“. Þá sé mikilvægt að það sé hægt að ganga úr skugga um að peysan sé raunverulega prjónuð úr íslenskum lopa og að hún sé handprjónuð á Íslandi.

„Aukin erlend framleiðsla á „lopapeysum“ úr erlendir ull/gerviefnum þar sem líkt er eftir formi og hefðbundnum lopapeysumynstrum knýr einnig á um að kaupendur hafi möguleika til að gera á milli „íslenskrar lopapeysu“ og eftirlíkinga,“ segir í umsókninni.

Í umsókninni eru þá talin upp nokkur atriði sem gera lopapeysu að hefðbundinni íslenskri lopapeysu.

Hélt í hönd Agnesar á meðan hún var hálshöggvin

|
|

Fríða Bonnie Andersen, höfundur skáldsögunnar Að eilífu ástin sem hefur vakið mikla lukku, segir að myndmál sé stór hluti af lestrarupplifun sinni. Sjálfsagt eigi hún það móður sinni að þakka þegar hún las fyrir hana The Tall Book of Nursery Tales fyrir svefninn, ævintýri og dæmisögur, sem kenndu góða siði og örvuðu ímyndunaraflið. En hvaða bækur skyldu hafa haft djúpstæðust áhrif á rithöfundinn?

 

Kunni lengi vel ekki að meta ljóð

„Langir og flúraðir textar hafa ekki átt upp á pallborðið hjá mér. Lengi vel kunni ég heldur ekki að meta ljóð en hef þroskast sem betur fer og á ég Ásdísi Óladóttur og Unni Guttormsdóttur það að þakka. Bók Unnar, Það kviknar í vestrinu, er dæmi um ríkulegt myndmál sem höfðar til mín, glettnin ræður ríkjum þótt einnig megi finna alvarlegan og sáran undirtón.“

Sögurnar sneru öllu á hvolf

„Ég man hvað bók Vigdísar Grímsdóttur, Eldur og regn, hafði mikil áhrif á mig. Sögurnar sneru öllu á hvolf, mér leið eins og hún hefði rétt mér blöðru sem flestir hefðu látið sér nægja að blása upp og binda hnút á. En blöðru Vigdísar mátti fylla af vatni og sulla með, fylla af lofti og hleypa því aftur út og láta ýla í henni eða sleppa blöðrunni án þess að binda fyrir og leyfa henni að flögra stefnulaust út um hvippinn og hvappinn. Sögurnar hennar fóru með mig í óvæntar áttir.“

Ef til vill ekki harðsvíraður morðingi

Náðarstund eftir Hönnuh Kent.

„Náðarstund eftir Hönnuh Kent í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar fannst mér mögnuð. Ég las hana fyrst og fremst vegna þess að séra Þorvarður sem var langafi konu minnar fékk það erfiða hlutverk að halda í hönd Agnesar á meðan hún var hálshöggvin. Fljótt var það aukaatriði því sagan var svo vel sögð og þýðing Jóns svo afburðavel gerð að ég las sumar setningarnar oft og dvaldi við þær. Sögulok eru líka áhrifarík því við Íslendingar þekkjum þessa sögu vel en ástralska höfundinum tekst að veita mun manneskjulegri sýn á Agnesi og skilur okkur eftir með þá hugsun að ef til vill hafi hún alls ekki verið sá harðsvíraði morðingi sem við töldum hana vera.“

Gríðarleg stemning á aldamótatónleikum

Gleðin var við völd á aldamótatónleikum á föstudaginn eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Á föstudaginn fór fram heljarinnar ball í Háskólabíói undir yfisrkriftinni aldamótatónleikar. Landslið poppara kom þar fram sem eiga það öll sameiginlegt að hafa verið í nokkrum af vinsælustu hljómsveitum tíunda áratugarins.

Skítamórall, Írafár, Á móti sól og Land og synir tröllriðu öllu og voru og eru sannkallaðar poppstjörnur!

Öllu var til tjaldað í Háskólabíói en fram komu Magni, Hreimur, Gunni Óla, Einar Ágúst og Birgitta Haukdal. Hljómsveitarstjóri var hinn eini sanni Viggi úr Írafár.

Hafsteinn Snær Þorsteinsson mætti á ballið og tók þessar flottu ljósmyndir fyrir hönd Albumm.is.

Lýsti Gísla sem rólegum og ábyrgðarfullum

Yfirmaður Gísla Þórs Þórarinssonar lýsti honum sem rólyndismanni sem var góður í mannlegum samskiptum.

Oddvar Jenssen, yfirmaður Gísla Þórs Þórarinssonar, mannsins sem var myrtur í Mehamn í Noregi á laugardaginn, segir Gísla hafa verið ábyrgðarfullanog skilningsríkan. Þetta segir hann í viðtali við norska miðilinn iFinnmark.

Umfjöllunina má lesa hér.

Í viðtalinu segir Oddvar að Gísli hafi verið góður í mannlegum samskiptum og rólegur að eðlisfari. Oddvar rekur fiskvinnslufyrirtækið Nordkyn Seafood og starfaði Gísli þar.

Sjá einnig: Hjartnæm Facebook-færsla fyrrverandi kærustu Gísla

Hjartnæm Facebook-færsla fyrrverandi kærustu Gísla

|
Frá Mehamn í Noregi

Bríet Sunna Valdimarsdóttir, fyrrverandi kærasta Gísla Þórs Þórarinssonar, mannsins sem var myrtur í norska þorpinu Mehamn aðfaranótt laugardags, skrifar hjartnæm minningarorð á Facebook um Gísla.

Bríet segir Gísla hafa búið yfir einstökum persónutöfrum og ljóma. „Þú varst gæddur þessum einstöku persónutöfrum og ljóma. Þú sagðir alla hluti beint út án þess að særa neinn, það tóku allir mark á því sem þú sagðir og þú náðir til allra.“

Bríet segir meðal annars í skrifum sínum að Gísli hafi glaðst mikið þegar hún sagði honum að hún ætti von á barni: „Þú varst svo ánægður þegar ég sagði þér að ég væri loksins ólétt því við gátum aldrei eignast barn en ákváðum bæði að sætta okkur við það og að lífið yrði samt æðislegt því við vorum saman. Ég lokaði sambandinu okkar því ég vissi að þú gast aldrei sleppt mér sjálfur því þú vildir aldrei særa mig. Þú vissir samt jafnvel og ég að sambandið gengi ekki í svona mikilli og langri fjarveru. Þessi mikli og kærleiksmikli vinskapur slitnaði þó aldrei, þó svo við gátum oft stuðað hvort annað þá var það aldrei í langan tíma og fyrirgefningin var alltaf mjög ofarlega hjá okkur báðum.“

Hún bætir við að Gísli hafi vitað að hún ætti von á strák á undan öllum öðrum. „Ég vissi ekki kynið þá og enginn. Í gær kom í ljós að ég geng með strák. Þú hafðir rétt fyrir þér Gísli. Ég veit nú að strákurinn okkar Stefáns hefur besta og fallegast verndarengil sem til er,“ skrifar hún.

Með kveðjunni deilir Bríet svo afmæliskveðju sem hún skrifaði til Gísla fyrir tveimur árum. Í kveðjunni lýsir hún því meðal annars hvernig þau kynntust.

Færsluna má sjá hér fyrir neðan:

Lýðfræði fjármagnseigenda

|
|

Umræða um misskiptingu hefur farið hátt á seinustu árum. En hvernig skiptast fjármagnstekjur milli kynslóða?

 

Í grein sem birtist í Mannlífi á dögunum var skoðað hvernig heildartekjur, og hlutur einstaklinga í greiðslu tekjuskatts, skiptist eftir aldursárum. Við sáum hvernig tekjur — og hlutur einstaklinga í greiðslu tekjuskatts — vaxa frá unglingsárum fram á miðjan aldur, og fara svo þverrandi fram á efri ár. Upplýsingarnar eru fengnar úr staðtölum ríkisskattstjóra, sem áhugavert er að kanna frekar, og munum við hér skoða hvernig fjármagnstekjur dreifast á einstaklinga eftir aldri.

Hér fyrir neðan sjáum við hvernig heildartekjur einstaklinga, þ.á.m. fjármagnstekjur, skiptast eftir tekjustofnum fyrir aldursár (mynd 1).

Varla kemur á óvart að fyrri hluta ævinnar eru helstu tekjur einstaklinga í formi launa (blátt svæði) og á efri árum lífeyris- og tryggingargreiðslur (rautt svæði). Síðasti stóri tekjustofninn eru svo fjármagnstekjur (aðrar tekjur eru t.a.m. náms- og rannsóknarstyrkir og atvinnuleysisbætur). Segja má að þær taki að vaxa hjá einstaklingum á fertugsaldri, og haldist svo tiltölulega stöðugar fram eftir aldri. Fjármagnstekjur eru í heildina lægri en launatekjur og lífeyrir, en þær dreifast á mun færri hendur. Árið sem gögnin taka til (2016) þénaði eitt prósent tekjuhæstu hjóna (samskattaðra) 49% af öllum fjármagnstekjum samskattaðra, og 10% tekjuhæsti hluti samskattaðra þénaði 71,5% allra fjármagnstekna þess hóps. Því hefði takmarkaða þýðingu að skoða meðal-krónutölupphæð fjármagnstekna á mann.

Til frekari glöggvunar á skiptingu fjármagnstekna eftir aldri skulum við styðjast við hve stórt hlutfall af fjármagnstekjum fellur í skaut hvers aldurshóps (mynd 2).

Fyrst veitum við athygli hve óregluleg gögnin eru. Þessar miklu sveiflur milli aldursára endurspegla lítinn fjölda fjármagnseigenda, en einn einstaklingur sem hagnast um hundruði eða þúsundir milljóna hefur mikil áhrif fyrir hvert aldursár. Þá væri e.t.v. sanngjörn lýsing að fjármagnstekjur séu hlutfallslega lágar meðal hópa fram á miðjan fertugsaldur þar sem þær taka að vaxa fram á miðjan sextugsaldur. Hlutur aldursbila minnkar svo fram á tíræðisaldur. Mestar fjármagnstekjur Íslendinga falla þannig í skaut aðila sitthvorum megin við 57 ára aldur. Lækkun hlutdeildar í fjármagnstekjum fram á tíræðisaldur skýrist af fámennari hópum eins og sjá má á næstu mynd.

Hún sýnir hversu stórt hlutfall allra fjármagnstekna fellur að meðaltali í hlut einstaklinga á hverju aldursbili (mynd 3).

Sú mynd bendir til þess að fjármagnseign einstaklinga haldist almennt að mestu til æviloka. Gögnin sýna enda að arður af verðbréfum (þ.m.t. eigin rekstri) er lægri meðal eldri aldurshópanna, en vextir af áhættuminni bankainnistæðum þeim mun meiri. Við skoðum að lokum hlut aldurshópa í arðgreiðslum, sem endurspeglar að einhverju leyti völd í íslensku atvinnulífi (mynd 4).

Hlutur einstaklinga er mestur kringum 56-61 árs aldur, sem er bilið milli toppanna tveggja fyrir miðja mynd. Fram til 37 ára aldurs ná fjármagnstekjur á mann ekki fimmtungi af þeirri upphæð, og við 79 ára aldur hríðlækkar hlutur einstaklinga í arði af verðbréfum. Samræmist það almennum hugmyndum um aukinn sparnað, uppbyggingu fyrirtækja og auknum líkum á að tæmast arfur fram á fullorðinsár.

Samandregið eru megintekjur Íslendinga í formi launa fyrri hluta ævinnar, og lífeyris- og tryggingargreiðslna á efri árum. Mestar fjármagnstekjur falla í skaut fólks í kringum sextugt. Þær eru lægri hjá yngri hópum sem þéna minni fjármagnstekjur að meðaltali og lægri hjá eldri hópum þar sem þeir eru fámennari, en fjármagnstekjur hvers einstaklings haldast að meðaltali stöðugar fram á tíræðisaldur.

Nákvæm skipting hagsældarinnar milli kynslóða er þó auðvitað ekki stöðug og tíminn einn mun leiða í ljós hve mikið yngri kynslóðir munu auka við sinn hlut. Hvort hlut kynslóðanna hefur alltaf verið svona skipt er svo efni í aðra grein.

Áttaði sig ekki á því að hægt væri að starfa sem fatahönnuður

Signý Þórhallsdóttir, fata- og prenthönnuður, vinnur nú að eigin merki og segist sækja innblástur í íslenska náttúru.

 

Hvernig hönnuður eða listamaður ert þú?
„Ég er fatahönnuður sem vinnur mikið með prentaðan textíl.“

Signý vinnur mikið með prentaðan textíl.

Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað?
„Hvað prentin varðar þá teikna ég þau aðallega fyrir fatnað. Ég er núna að vinna í mínu eigin merki, en það heitir Morra.“

Hvaða litir heilla þig?
„Ég er mjög mikið fyrir heita liti og dregst alltaf að appelsínugulum tónum. Mest er ég þó hrifin af óvæntum litasamsetningum.“

„Ég var alltaf að teikna og sauma sem krakki og unglingur en áttaði mig ekki á því að hægt væri að starfa sem fatahönnuður fyrr en í menntaskóla.“

Hvaðan færðu innblástur?
„Ég flutti nýlega heim til Íslands aftur eftir nær sjö ár erlendis. Upp á síðkastið hef ég því fengið mikinn innblástur frá íslenskri náttúru sem ég var farin að sakna mikið. Þar fyrir utan hafa söfn og gallerí alltaf verið þeir staðir sem örva mig mest í átt að sköpunargleðinni.“

Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða hönnuður eða gerðist það bara „óvart“?
„Ég var alltaf að teikna og sauma sem krakki og unglingur en áttaði mig ekki á því að hægt væri að starfa sem fatahönnuður fyrr en í menntaskóla. Þá kom eiginlega ekkert annað til greina.“

Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna?
„Já, mér hefur alltaf þótt það gaman þótt það hafi auðvitað komið hæðir og lægðir.“

Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna?
„Mér finnst alltaf best að vinna í dagsbirtu.“

Vinnuaðstaða Signýjar.

Hvaða hönnuðir og listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
„Það er erfitt að nefna sérstaka hönnuði, en ég fylgist þó til dæmis alltaf vel með Dries van Noten og auðvitað Vivienne Westwood en ég vann þar í nokkur ár. Ég hef líka verið spennt fyrir ungum fatahönnuði sem heitir Matty Bovan. Upp á síðkastið hef ég mikið skoðað listamenn eins og Louise Bourgeois, Barböru Hepworth, Gerði Helgadóttur, Evu Hesse og Anselm Kiefer.“

Hvað er fram undan á næstu misserum?
„Ætlunin er að halda áfram að þróa vörumerkið Morra frekar.“

Mynd / Hallur Karlsson

Myndir / Hallur Karlsson

Hitti átrúnaðargoðið og átti erfitt með sig

Hafsteinn Már Sigurðsson

Nýtt hlaðvarp um veiði og veiðitengd mál er farið í loftið. Umsjónarmenn þess eru í skýjunum með viðtökurnar.

„Undirtektirnar hafa komið skemmtilega á óvart. Þær eru miklu meiri en við bjuggumst við, því satt að segja vissum ekki hvernig viðbrögðin yrðu, hvort 25 eða 2.500 manns kæmu til með að hlusta. En yfir þúsund hlustendur hafa nú þegar hlýtt á fyrsta þáttinn og við náðum á listann yfir mest spiluðu hlaðvörpin á iTunes. Þannig að þetta er skemmtilegt, eiginlega bara alveg geggjað,“ segir Hafsteinn Már Sigurðsson, annar umsjónarmanna nýs hlaðvarps um veiði sem fór í loftið á dögunum og hefur þegar vakið lukku.

Hlaðvarpið sem kallast Flugucastið einblínir á fluguveiði og veiðitengd málefni en í hverjum þætti fá þeir Hafsteinn og félagi hans, Sigþór Steinn Ólafsson, til sín nýjan gest sem deilir meðal annars með þeim veiðisögum og gefur ýmis ráð varðandi veiði og einstaka veiðistaði. „Við fáum einn viðmælanda í hvern þátt og þeir koma inn á allt þetta, segja líka til dæmis frá uppáhaldsánni sinni og -flugunni og svo framvegis og fara síðan í gegnum sína veiðisögu, hvernig þeir hafi byrjað að veiða, „gæda“ eða unnið í veiðikofa,“ lýsir hann.

„Það var geggjað að fá hann, sjálft átrúnaðargoðið manns til að segja sína sögu … Við Sigþór vorum alveg með stjörnur í augum.“

Þeir félagar hafa þegar fengið til sín nokkra góða gesta, þeirra á meðal eru veiðimennirnir Björn K. Rúnarsson, Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson, sem hefur í samstarfi við félaga sína fjallað á samfélagsmiðlum um veiði, og síðast en ekki síst Eggert Skúlason sem gerði á sínum tíma hina vinsælu veiðiþætti Sporðaköst en Hafsteinn segir að það hafi verið sannkallaður heiður að spjalla við hann.

„Það var geggjað að fá hann, sjálft átrúnaðargoð manns til að segja sína sögu og söguna á bak við Sporðaköst sem ollu auðvitað straumhvörfum fyrir tuttugu árum. Við Sigþór vorum alveg með stjörnur í augum,“ segir hann og getur þess að sumir gestanna ljóstri upp ýmsum áhugaverðum leynitrixum. „Þetta er alls konar fróðleikur sem getur nýst byrjendum jafnt og þeim sem eru lengra komnir.“

Með ólæknandi veiðibakteríu

Spurður hvernig hugmyndin að hlaðvarpinu hafi kviknað segir Hafsteinn að þeir Sigþór séu báðir miklir áhugamenn um veiði. Sigþór hafi stundað allt frá fluguhnýtingum yfir í leiðsögn víðsvegar um landið og sjálfur kveðst Hafsteinn hafa fengið veiðbakteríuna á þrítugsaldri og verið ólækandi síðan. Þeir hafi svo hvor í sínu lagi gengið með þá hugmynd í maganum að fara af stað með hlaðvarp um veiði, en það hafi ekki verið fyrr en sameiginlegur vinur kynnti þá að þeir ákváðu að gera eitthvað í málunum. „Þannig að við þekktumst ekkert áður en bara smullum saman og upp úr því varð Flugucastið til.“

Fjórir þættir af Flugucastinu hafa þegar litið dagsins ljós, en nýr þáttur fer í loftið á hverjum fimmtudegi og segir Hafsteinn ýmislegt spennandi vera á döfinni. Þannig sé til dæmis von á stórum nöfnum úr veiðinni en hann segir hins vegar ekki tímabært að segja nánar frá þeim að svo stöddu. Fólki verði bara að fylgjast með.

En hvar er hægt að nálgast hlaðvarpið?
„Flugucastið er aðgengilegt á Apple Podcasts, Soundclouds og Spotify,“ svarar Hafsteinn. „Svo er hlaðvarpið á Facebook undir Flugucastið en þar verður hægt fylgjast með fréttum af nýjum þáttum.“

Hárgreiða fylgir með plötunni

Ný plata frá Langa Sela og Skuggunum.

 

Hjómsveitin Langi Seli og Skuggarnir sendu frá sér nýja þröngskífu, Bensínið er búið á alþjóðlegum degi plötuverslana,13. apríl. Platan inniheldur fjögur ný lög og það fyrsta sem heyrist á öldum ljósvakans er sjálft titillagið Bensínið er búið, sem er dillandi rokksmellur. Sérstaka athygli vekur að með fyrstu eintökum plötunnar fylgja hárgreiða og límmiði í anda 6. áratugarins en sveitin er einmitt þekkt fyrir kraftmikinn „rokkabilly“ hljóm.

Eins og kunnugt er eiga Langi Seli og Skuggarnir farsælan feril að baki en sveitin hefur starfað með hléum í yfir 30 ár og fagnar um þessar mundir 30 ára afmæli plötunnar Breiðholtsbúgí, sem kom út árið 1989. Ári áður hafði sveitin sent frá sér smáskífuna Kontinentalinn sem var fyrsta efnið frá sveitinni sem kom út á hljómplötu. Báðar plötur hafa nú verið gerðar aðgengilegar á Spotify.

Nýju skífuna, Bensínið er búið er hægt að nálgast á 10″ vinylplötu, á Albumm.is og á öllum helstu streymisveitum en henni verður fylgt eftir með hljómleikahaldi vítt og breitt um landið.

Hinn grunaði á langan sakaferil að baki á Íslandi

|
Frá Mehamn í Noregi

Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið Gísla Þór Þórarinssyni að bana á að baki langan sakaferil hér á landi. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir nauðgun, rán og líkamsárásir.

Sakaferill mannsins var rakinn í hádegisfréttum RÚV og hann nafngreindur. Mun maðurinn, Gunnar Jóhann Gunnarsson, hafa fyrst hlotið dóm árið 1999 fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot. Þremur árum síðar er Gunnar Jóhann, þá 19 ára gamall, dæmdur í 22 mánaða fangelsi ásamt öðrum manni fyrir að nauðga 16 ára stúlku. Síðan þá hefur hann verið dæmdur fyrir tvær stórfelldar líkamsárásir, frelsissviptingu og rán.

Þeir Gunnar Jóhann og Gísli Þór voru hálfbræður og voru þeir báðir búsettir í Mehamn í Noregi þar sem þeir störfuðu í sjávarútvegi. Fram hefur komið að Gunnar Jóhann hafi í aðdraganda morðsins ítrekað haft í hótunum við Gísla Þór og var hann dæmdur í nálgunarbann vegna þessa um miðjan apríl.

Ákvörðun um gæsluvarðahald yfir Gunnari Jóhanni og meintum vitorðsmanni, sem einnig er íslenskur, verður tekin fyrir norskum dómstólum í kvöld.

Vaxandi ójöfnuður er ógn við okkur öll

Drífa Snædal. Mynd / Aðsend

Skoðun.

Höfundur / Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Síðustu tvo áratugi hefur auðurinn í heiminum þrefaldast en kjör vinnandi fólks hafa á sama tíma ekki þrefaldast, þvert á móti. Í mörgum löndum hefur vinnandi fólk það verra í dag en fyrir tuttugu árum. Hvernig má þetta vera?

Þegar máttur og vald peninganna verður meira en máttur og vald almennings gerist það að völd og peningar sogast til þeirra sem fyrir eru á fleti. Í krafti peninga er hægt að sannfæra kjörna fulltrúa og almenning um að það sé á einhvern hátt betra fyrir alla að stórfyrirtæki geti makað krókinn að vild og séu ekki sett undir sömu reglur um skatta og skyldur og vinnandi fólk. Þannig hafa eigendur stórfyrirtækja um allan heim margfaldað gróða sinn án þess að hafa nokkrar áhyggjur af afkomu almennings. Sókn í meiri gróða hefur orðið til þess að sífellt er leitað leiða til að greiða sem lægst laun og skatta til samfélagsins.

Árið 2013 hrundi átta hæða fataverksmiðja í Bangladesh til grunna og 1.134 létu lífið. Verksmiðjan framleiddi þekkt vörumerki fyrir vestrænan markað en byggingareglur höfðu verið sniðgengnar og aðbúnaður og öryggismál verkafólks viku fyrir gróðahyggju. Þannig varð krafa vestrænna stórfyrirtækja um ódýra vöru og aukinn gróða þess valdandi að fátækt fólk lét lífið í einu stærsta vinnuslysi heims.

Samtakamáttur vinnandi fólks mikilvægur
Lönd sem hafa náð að halda í lífsgæði almennings og veita fyrirtækjum aðhald eiga nokkuð sameiginlegt. Það eru ríki þar sem lýðræð er virkt, velferðarkerfi er til staðar, verkalýðshreyfing er sterk og fyrirtæki eru í tengslum við samfélagið. Að reyna að grafa undan þessum stoðum er ávísun á verri lífskjör almennings. Það er mikið hættuspil að vega að þessu skipulagi.

Við Íslendingar höfum sem betur fer miklar skoðanir og þannig á það að vera. Við tökumst á um einstaka mál og gagnrýnum okkar kjörnu fulltrúa hvort sem er í stjórnmálum eða félagasamtökum og það er vel. Áhyggjur mínar verða hins vegar meiri þegar vegið er að grunnhugmyndum um lýðræði eða þegar grafa á undan velferðarkerfinu sem við höfum byggt upp saman. Tilhneigingu í þessa átt er að finna víða um heim og jafnvel í ríkjum með mikla lýðræðishefð. Þátttaka í stéttarfélögum fer minnkandi mjög víða. Þar með er dregið úr því afli sem býr í samtakamætti vinnandi fólks til að gæta hagsmuna og semja um kaup og kjör. Að grafa undan verkalýðshreyfingu er það sama og að afhenda stórfyrirtækjum aukin völd.

Í stóra samhenginu megum við hér á Íslandi vera afskaplega stolt af okkar verkalýðshreyfingu og samfélaginu sem við höfum byggt upp en við megum aldrei taka þessu skipulagi sem gefnu eða gefa eftir gagnvart röddum sem vilja draga okkur í aðrar áttir.

Yfirheyrðir á miðvikudag að viðstöddum verjendum og túlki

Íslendingarnir tveir sem eru í haldi lögreglunnar í Noregi í tengslum við morðið á Gísla Þór Þórarinssyni verða yfirheyrðir á miðvikudaginn.

 

Mennirnir tveir sem eru í haldi í tengslum við harmleikinn í Mehamn í Noregi, þar sem íslenskur karlmaður, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn til bana, verða yfirheyrðir á miðvikudaginn að viðstöddum verjendum og túlki. Þetta kemur fram í svari Silju Arvola hjá lögreglunni í Finnmörku við fyrirspurn fréttastofu Vísis.

Í frétt Vísis kemur einnig fram að mennirnir verða leiddir fyrir dómara klukkan 19.00 og 19.30 í kvöld að staðartíma.

Á norska héraðsfréttavefnum ifinnmark.no er haft eftir talmanni lögreglunnar í Finnmörku að réttarhöldin hafi tafist þar sem beðið er eftir íslenskum túlki. Ferðalag hans til Vadsø mun hafa tafist vegna verkfalla flugmanna SAS.

Þá segir einnig að farið verði fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir öðrum manninum, þeim sem er hálfbróðir hins látna. Krafist verður vikulangs gæsluvarðhalds yfir hinum manninum. Báðir eru þeir Íslendingar.

Sjá einnig: Systir hins látna tjáir sig: „Sársaukinn er ólýsanlegur”

Rúmlega þúsund börn á Íslandi hafa misst foreldri frá árinu 2009

„Á árunum 2009–2018 missti að jafnaði 101 barn foreldri árlega, fæst árið 2015 þegar 89 börn misstu foreldri en flest árið 2010 eða 133 börn. Alls misstu 1.007 börn foreldri yfir tímabilið, 525 drengir og 482 stúlkur.“ Þetta kemur fram tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Hagstofan hefur tekið saman upplýsingar frá árinu 2009. „Alls létust 649 foreldrar barna á tímabilinu, þar af voru 448 feður og 201 móðir. Flestir feðra sem létust voru eldri en 49 ára, 172 talsins eða 38%. Næstflestir voru milli 40 og 49 ára, 140 feður eða 31% af heildarfjölda feðra. Flestar mæður sem létust voru á aldrinum 40–49 ára, 85 talsins eða um 42%. Næststærsti hópurinn var á aldrinum 30–39 ára, 56 mæður, tæplega 28%.“

Þá kemur fram í gögnum Hagstofunnar að á tímabilinu 2009–2018 hafi flestir foreldrar sem létust fallið frá af völdum illkynja æxlis eða 257, tæplega 40%. „Næstalgengast var að foreldri létist vegna ytri orsaka áverka og eitrana, tæplega 34% tilvika eða 218 manns. Tveir undirflokkar dauðsfalla af völdum ytri orsaka áverka og eitrana voru skoðaðir sérstaklega, annars vegar óhöpp og hins vegar sjálfsvíg og vísvitandi sjálfsskaði. Meirihluti foreldra sem létust af völdum ytri orsaka, létust af völdum sjálfsvígs og vísvitandi sjálfsskaða, alls 106 (48,6% af heildarfjölda foreldra sem lést af völdum ytri orsaka og 16,3% af heildarfjöldanum).“

Krabbameinsfélagið heldur málþing um rétt barna, stöðu þeirra og þarfir við fráfall foreldris í dag, mánudag klukkan 15.00 til 17.45. Málþingið fer fram í húsi Íslenskrar erfðagreiningar og ber yfirskriftina „Hvað verður um mig?”. Á málþinginu verða gögn Hagstofu kynnt en meðal þátttakenda í málþinginu eru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Á málþinginu verða kynntar rannsóknir um upplifun barna eftir fráfall foreldris og hvernig nýta má þær upplýsingar sem fram komu til að skapa umgjörð fyrir fagfólk og alla sem standa að börnunum. Jafnframt verður greint frá rannsóknum á stöðu barna sem aðstandenda krabbameinssjúklinga. Fjallað verður um eigin rétt barnanna og þarfir fyrir stuðning og leiðsögn, skyldur og ábyrgð hins opinbera, tengsl fjölskyldu, samfélags og sjálfstæða þörf barna fyrir sorgarvinnslu og utanumhald allt til fullorðinsára.

„Áfangastaðurinn skiptir engu ef þú naust ekki ferðarinnar“

Ari Ólafsson stundar tónlistarnámi í The Royal Academy of Music í London og er byrjaður að huga að plötu sem hann langar að senda frá sér.

Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt hjá Ara Ólafssyni söngvara en hann keppti sem kunnugt er fyrir Íslands hönd í Eurovision í fyrravor. Þrátt fyrir þessa viðkomu í poppinu er Ari tenórsöngvari og hefur lært klassískan söng frá unglingsaldri.

„Ég byrjaði að læra klassískan söng þegar ég var 12 ára og var þá nemandi hjá Garðari Thor Cortes í Söngskólanum í Reykjavík,“ segir Ari sem byrjaði ferilinn í söngleiknum Oliver Twist sem var leikstýrt af Selmu Björnsdóttur en þar lék hann sjálfan Oliver Twist. „Ég tók oft þátt í söngleikjum og leiklist en var samt alltaf að læra klassískan söng með og hef því alltaf verið virkur í allskonar tónlist. Ég valdi strax að læra klassískan söng því það er besta leiðin til að þróa góða, öfluga og heilbrigða rödd. Út frá því er svo hægt að fara í hvaða útgáfu af söng sem er,“ heldur Ari áfram og útilokar ekkert í þeim efnum en hann hefur líkt og margir hafa tekið eftir verið að koma sér á framfæri sem tenórsöngvari og sló meðal annars í gegn á úrslitakvöldi Söngvakeppni RÚV með laginu Grande amore ásamt þeim Bergþóri Pálssyni og Gissuri Páli Gissurarsyni.

„Mér líður best þegar ég er með mörg mismunandi verkefni í gangi – nenni ekki að slaka á og vera bara í einhverju einu. Ég vil vera fjölhæfur, ég þrái að læra meira og er alltaf að byggja ofan á það sem ég hef gert og lært. Án þess að lofa of miklu, þar sem ég bý í London og er í krefjandi tónlistarnámi, er ég loksins byrjaður að vinna að hugsanlegri plötu en ég þrái að koma með eitthvað nýtt inn í tónlistarheiminn. Ég er virkilega spenntur fyrir öllum verkefnunum sem bíða mín í framtíðinni. En eins og þeir segja; góðir hlutir gerast hægt, bara vonandi ekki of hægt.“

„Ég fann að ég bjó yfir meiri styrk en ég vissi af, ég stóðst álagið og ég kom sáttur heim með hausinn vonandi á réttum stað.“

„Hef verið lánsamur“

Ari var nýlega búinn að klára framhaldsstigsprófið í söng og kominn inn á fullum skólastyrk í The Royal Academy of Music þegar hann fór í Söngvakeppnina og Eurovision. Þar var söngvarinn Ari kynntur til leiks, ef svo má að orði komast, en færri vissu að það færi klassískur söngvari. „Eurovision var í raun algjör kynning á mér og síðasta ár hefur verið gífurlega lærdómsríkt og skemmtilegt. Stærsti lærdómurinn var líklega að ég uppgötvaði að ég gæti gert allt þetta. Ég fann að ég bjó yfir meiri styrk en ég vissi af, ég stóðst álagið og ég kom sáttur heim með hausinn vonandi á réttum stað. Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og láta vaða því annars kemst maður ekkert áfram,“ segir Ari.

„En núna er komið að mér að sanna mig sem tónlistarmaður og söngvari. Ég veit hvað ég vil – ég vil læra meira og þroskast sem tónlistarmaður og njóta ferðarinnar hvert sem hún leiðir, áfangastaður skiptir engu ef þú naust ekki ferðarinnar. Ég hef verið lánsamur í lífinu og held að lykillinn að því sé að halda í jákvæðnina, horfa frekar á það sem er til staðar heldur en að einblína á það sem manni finnst vanta. Einnig er mikilvægt að vera trúr sjálfum sér og leyfa sér að finna fyrir tilfinningunum sínum. Ást og friður,“ segir Ari að lokum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Bíllausum heimilum fækkar þrátt fyrir aðgerðir í átt að grænni samgöngum

|
|

Bíllausum heimilum fer fækkandi sem og heimilum sem reka aðeins einn bíl. Þetta er niðurstaða neyslukönnunar Gallup sem fyrirtækið birti nýlega. Samkvæmt henni hefur fjöldi bifreiða á hvert heimili fjölgað frá árinu 2015. heimili með tvo, þrjá eða fleiri bíla fjölgar.

 

Samkvæmt Neyslukönnun Gallup hefur heimilum með tvo, þrjá eða fleiri bíla fjölgað frá árinu 2015. Á sama tíma hefur heimilum fækkað sem hafa einn eða engan bíl til ráðstöfunar.

Það er stefna núverandi borgarmeirihluta að auka vægi annarra ferðamáta en einkabílsins. Þar á meðal er nýlega ákvörðun um að frítt skuli í strætó á „gráum dögum“ það eru dagar þar sem styrkur svifryks mælist yfir heilsumörkum. Þann 7. apríl síðast liðinn mældist sólarhringsmeðaltal nokkuð hátt eða um 53 míkrógrömm á rúmmetrar við Njörvasund/Sæbraut. Bauðst borgarbúum að ferðast með strætó frítt þá daga sem mengunin var í hámarki. Von borgaryfirvalda er að með slíkum aðgerðum leggi fólk einkabílum þá daga. Vert er að taka fram að könnun Gallup mælir ekki daglega notkun bifreiðanna.

Í fyrrasumar stóð Reykjavíkurborg meðal annars fyrir verkefni sem fól i sér lán á rafhjólum. Það mun hafa reynst vel og þegar hefur verið tilkynnt að verkefnið skuli endurtekið í sumar með 25 nýjum rafhjólum. Fyrsti hópurinn í tilraunaverkefninu í sumar fékk rafhjól afhend 15. apríl. „Rafhjól eru fyrir marga orðin samkeppnishæfur valkostur við einkabílinn“ sagði Kristinn J. Eysteinsson, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg, á reykjavik.is. „Áhugi fyrir verkefninu í fyrra var svo góður að ekki var hægt að lána öllum sem óskuðu rafhjól. Rúmlega þúsund manns sóttu um þátttöku en alls fengu 125 manns hjól lánuð eftir valferli. Bætt var við einu tímabili til að fá reynslu af rafhjólum á hausttímabili.“

Fjöldi nýskráðra fólksbíla náði hámarki árið 2017 en heildarfjöldi nýskráninga nam 23.917. Var það 15% aukning frá 2016. Hlutfallsleg aukning milli ára var þó minni milli 2017 og 2018 samkvæmt upplýsingum frá Árbók bílgreina 2018.

Sjórinn er upphaf alls lífs

Urta Islandica þróar jurtabragðbætt, kolsýrt og steinefnaríkt drykkjarvatn úr köldum jarðsjó. Fimm fjölskyldumeðlimir koma að rekstrinum og hlakka þau til að takast á við næstu áskoranir.

Fyrirtækið Urta Islandica er í startholunum með að framleiða jurtabragðbætt, kolsýrt og steinefnaríkt drykkjarvatn sem er unnið úr köldum jarðsjó. Stofnandi þess er Þóra Þórisdóttir en hún ólst upp fyrir vestan og norðan þar sem tengslin við náttúruna voru mikil í barnæsku.

Vegna fámennis og fábreytni hófu hún og systur hennar snemma að nýta allt sem þær fundu í fjöru og á landi sem efnivið í allskonar föndur og leiki. Þessir æskuleikir áttu vafalaust stóran þátt í þeim verkefnum sem hún tók þátt í síðar á lífsleiðinni, ekki síst með þróun jurtafyrirtækisins Urta Islandica sem sérhæfir sig í framleiðslu á jurtatei, jurtasalti og jurtasírópi sem matargjafavörur á ferðamannamarkað. „Árið 2013 stofnaði ég formlega eignarhaldsfélagið Urta Islandica ehf. með fjölskyldu minni og við höfum unnið saman í fyrirtækinu síðan. Tveimur árum eftir stofnun þess fluttum við framleiðsluna til Keflavíkur. Við létum bora holu ofan í hraunið á lóðinni til að fá upp ferskan sjó sem við létum rannsaka og í ljós kom að hann var hreinn, tær og ómengaður. Upphaflega hugmyndin var að framleiða bað- og spavörur úr steinefnunum úr sjónum. Fljótlega var ljóst að það yrði mikið magn afgangs af steinefnaríku afsöltuðu sjóvatni og eftir nokkra rannsóknarvinnu ákváðum við að fara í nýtt þróunarverkefni til að nýta þetta vatn og markaðssetja sem drykkjarvatn.“

„ … næringarsérfræðingar, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, telja að það sé veruleg heilsubót af því að drekka steinefnaríkt vatn frekar en steinefnasnautt.

Hlaðið steinefnum
Hugmynd teymisins er að selja sjóvatnið í þremur styrkleikum, bæði kolsýrt og ókolsýrt, bragðbætt með jurtum og hreint, og pakka því í endurvinnanlegar glerflöskur. „Það sem vatnið hefur fram yfir venjulegt íslenskt vatn er að það er hlaðið steinefnum úr sjónum en steinefnin í sjónum eru í sömu hlutföllum og steinefnin í blóði okkar. Því ætti sjóvatnið að vera góður kostur fyrir þá sem vilja ekki rugla í steinefnabúskapnum sínum með því að taka inn stök steinefni. Sjóvatnið vökvar líkamann vel og margir næringarsérfræðingar, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, telja að það sé veruleg heilsubót af því að drekka steinefnaríkt vatn frekar en steinefnasnautt. Þá eru margir á því að steinefnaríkt vatn sé auk þess bragðbetra.“

Góð samvinna
Það er óhætt að segja að samvinna fjölskyldunnar einkenni fyrirtækið en fimm meðlimir fjölskyldunnar starfa þar með einum eða öðrum hætti. „Utan mín má fyrst nefna Sigurð Magnússon eiginmann minn sem er iðnaðartæknifræðingur og snillingur í tölvum, tækjum, smíði og reddingum. Hann lætur hlutina gerast, verkstýrir og heldur utan um ferla og skráningar.“

Stjórnarformaður fyrirtækisins er Guðbjörg Lára dóttir þeirra sem hefur að sögn Þóru yfirumsjón með allri hönnun og markaðsmálum en þessi tvö svið eru samofin hjá fyrirtækinu að hennar sögn. „Lára er með næmt fagurfræðilegt auga, hugmyndarík og með ómetanlegt innsæi inn á markaðinn. Hún er hamhleypa til verka, góð í samskiptum og mun stýra því hvernig jarðsjóvatnið okkar mun líta út og verða markaðssett.“

Kolbeinn Lárus, sonur þeirra hjóna, er nýútskrifaður flugvélaverkfræðingur og segir Þóra hann smellpassa í verkefnið. „Hlutverk hans er að halda utan um og aðlaga þá tækni sem við munum nota við að afsalta sjóinn, setja upp og prófa vinnslulínu ásamt því að gera tilraunir og búa til prótótýpurnar.“

Yngsti sonurinn heitir Þangbrandur Húmi sem Þóra segir vera þann allra fjölhæfasta í hópnum. „Hann vinnur með okkur á öllum sviðum verkefnisins, hefur umsjón með gæðamálum og birgðamálum. Hann sér einnig um að finna tæki, tól og umbúðir til vinnslunnar.“

Áskorun að treysta
Hún segir þátttökuna í hraðlinum gefa þeim tækifæri til að opna hugmyndina fyrir öðrum, stækka tengslanetið og miðla af þekkingu sinni til annarra í leiðinni. „Helsta áskorunin í byrjun er að treysta og segja frá því hvað við erum að gera því við erum öll „intróvertar“ og höfum hingað til verið svolítið út af fyrir okkur. Fyrst og fremst vonast ég eftir ólíkum sjónarhornum og góðum ráðum sem munu nýtast okkur við framleiðsluna og markaðssetninguna.“

Bjartsýn á framhaldið
Mögulegir viðskiptavinir er breiður hópur segir Þóra og nefnir m.a. alla þá sem vilja fá meiri heilsuávinning úr flöskuvatni eða gosi. „Ef við reynum að sérhæfa okkur þá liggur beinast við að skoða ferðamannamarkaðinn þar sem við erum fyrir með vörur okkar og einnig veitingahúsin. Þá eru markhópar eins og líkamsræktarfólk og hlauparar sem þurfa að endurhlaða steinefni eftir æfingar, veikt fólk og börn sem hafa misst vökva.“

Hún er bjartsýn á framhaldið og segir teymið stefna að því að verkefnið verði orðið sjálfbært, skapi vinnu og skili hagnaði innan tveggja ára. „Á svipuðum tímapunkti viljum við líka vera byrjuð í útflutningi og vera í þeirri stöðu að varan okkar hafi vakið alvöruathygli innanlands sem erlendis, vegna einstakra eiginleika hennar og uppruna. Við bindum því miklar vonir við að þátttaka okkar í Til sjávar og sveita, hjálpi okkur að ná þeim markmiðum okkar.“

Myndatexti: Þóra Þórisdóttir og Sigurð Magnússon og börn þeirra Guðbjörg Lára, Kolbeinn Lárus og Þangbrandur Húmi.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Systir hins látna tjáir sig: „Sársaukinn er ólýsanlegur“

Heiða B. Þórðardóttir, systir Gísla Þórs Þórarinssonar sem skotinn var til bana í Noregi, var í losti eftir að lögreglan færði henni tíðindin. Þau Gísli Þór voru náin. Heiða segir þau hafa rætt saman daglega vikuna fyrir andlátið. Fréttablaðið greinir frá.

„Sársaukinn er ólýsanlegur” er haft eftir Heiðu. Hún segir bróður sinn hafa verið með „mikinn og stóran persónuleika og ljóst sé að margir syrgi hann”.

Gísli Þór var fertugur þegar hann lést og er talið að maðurinn sem hleypti af skotinu sé hálfbróðir hans. Hinn grunaði birti játningu á Facebook skömmu eftir atvikið. Hinn grunaði er með afbrotaferil að baki á Íslandi og mun hafa haft í hótunum við hinn látna, sem hafði fengið nálgunarbann sett á hann sem tók gildi fyrir rúmri viku eða 17. apríl.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem lögreglan í Meham sendi frá sér í gær. Lögregla hefur varist frétta af málinu en í tilkynningunni kemur fram að gæsluvarðhalds verði krafist yfir mönnunum tveimur sem voru handteknir í tengslum við málið; m.a. fjögurra vikna varðhaldi yfir þeim sem hleypti af skotvopninu. Skýrsla var tekin af vitnum í tengslum við málið í gær.

Lögregla kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 á staðartíma síðastliðinn laugardag. Gísli Þór var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni. Eins og áður hefur komið fram var Gísli Þór fertugur og búsettur í Meham.

Hinn maðurinn sem var handtekinn er 32 ára og neitar hann sök. Segir verjandi hans, Jens Bernhard Herstad, að hann hafi rætt stuttlega við skjólstæðing sinn og skilji maðurinn ekki hvers vegna hann sitji í gæsluvarðhaldi.

Náttúruvæn og vistvæn lúxusafurð

Íslenski æðardúnninn er einstök náttúruafurð en stór hluti heimsframleiðslunnar er tíndur hér á landi og fluttur úr landi óunninn. Fyrirtækið Íslenskur dúnn ætlar að breyta því.

Heimsókn eitt sumarið til Borgarfjarðar eystri fyrir nokkrum árum átti heldur betur eftir að reynast afdrifarík fyrir Rögnu S. Óskarsdóttur og sambýlismann, Þóri Guðmundsson. Í kjölfarið festu þau kaup á húsi þar, í magnaðri náttúrufegurð og einstöku samfélagi manna eins og hún orðar það, og gerðu að sínu öðru heimili.

Það var í heimsókn til Ólafs Aðalsteinssonar, æðarbónda í Loðmundarfirði, og eiginkonu hans, Jóhönnu Óladóttur, síðasta sumar sem hugmyndin fæddist hjá þeim; að kaupa æðardún af bændum, framleiða úr honum og selja innanlands og erlendis í gegnum Netið. „Við vörðum deginum með þeim heiðurshjónum og Ólafur leiddi okkur í allan sannleika um æðardúninn auk þess að ganga með okkur um varpstöðvarnar, en það eitt og sér er ævintýri út af fyrir sig. Ólafur hafði þá miklar áhyggjur af því að megnið af þessum dásamlega dúni væri fluttur út óunninn ár hvert. Þær áhyggjur og samræður okkar á milli í kjölfarið kveiktu heldur betur í okkur og allt fór í gang.“

„Því er afurðin eins náttúruvæn og vistvæn og hugsast getur. Að auki er dúnninn náttúrulegt undraefni sem á sér ekki hliðstæðu.“

Vilja breyta ferlinu
Ragna segir að frá þeirri stundu, þegar þau keyrðu úr hlaði frá þeim hjónum, hafi ekki verið aftur snúið. „Veturinn hefur farið í alls kyns pælingar og áætlanagerð. Nú erum við fimm í hópnum, öll með ólíka styrkleika sem hentar verkefninu vel.

Að meðaltali flytja Íslendingar út um þrjú tonn af dúni á ári sem er um ¾ heimsframleiðslunnar. Dúnninn er að mestu leyti fluttur út hreinsaður, en að öðru leyti óunninn og eru helstu viðtökulönd Japan og Þýskaland. Þessu viljum við hjá Íslenskum dún breyta, við viljum þvo og fullvinna æðardúninn hér heima.“

Auk Rögnu og Þóris skipa hópinn fyrrnefndur Ólafur æðarbóndi, Kristján Már Gunnarsson og Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir. „Ég stýri verkefninu og Kristján sér um vefsíðugerð og markaðssetningu á Netinu. Óli safnar dúninum og er auk þess sérfróður í öllu sem viðkemur vinnslu æðardúns. Þórir sér um uppbyggingu verkferla og verkstæðis. Síðast en ekki síst sér Ástrós um efniskaup og samsetningu værðarvoða.“

Einstök náttúruafurð
Það sem er mest spennandi við verkefnið, að hennar sögn, er sú staðreynd að Íslendingar eru nánast með einokunaraðstöðu á heimsins besta dúni, sem er æðardúnninn. „Hann er algjörlega einstök náttúruafurð. Frá landnámi hafa þeir bændur sem höfðu æðarvarp á jörðum sínum, vakað yfir varpinu á vormánuðum, stuggað burt vargfugli og tófu, ásamt því að hjálpa fuglinum við hreiðurgerð og umönnun eggja og unga. Þegar æðarkollan verpir tætir hún dúninn af bringu sinni til að halda hita á eggjunum. Ef bóndinn myndi ekki hirða dúninn úr hreiðrunum myndi hann aðeins fjúka í burtu, engum til gagns. En í stað þess hafa bændur í gegnum aldirnar nýtt þessa einstöku auðlind til að halda hita á sér og sínum.“

Algjört undraefni
Ragna segir æðarfuglinn vera eina fuglinn sem fellir dún í þessu magni í hreiður sín. „Annar dúnn sem við þekkjum er reyttur af fuglunum. Því er afurðin eins náttúruvæn og vistvæn og hugsast getur. Að auki er dúnninn náttúrulegt undraefni sem á sér ekki hliðstæðu.

Eiginleikar hans eru einstakir því hann er þakinn örfínum, mjúkum, króklaga þráðum sem valda samloðun hans. Hann er loftmikill sem veldur einstökum léttleika, háu einangrunargildi og góðri öndun. Úr hverju hreiðri safnast um 15-17 g af dúni og því þarf um 60-80 hreiður til að safna 1 kg af dúni.“

Hún minnir á að flestir verji um þriðjungi ævinnar umvafðir sæng. „Því eigum við aðeins að sætta okkur við það besta þegar kemur að vali hennar. Það má því segja að viðskiptavinir okkar séu þeir sem vita hvers virði góður svefn er.“

Vilja fullvinna innanlands
Teymið stefnir að því að leggja sitt á vogarskálarnar til að draga úr útflutningi á óunnum æðardúni. „Við viljum róa að því öllum árum að fullvinna þessa dásamlegu og einstöku afurð innanlands. Með stofnun fyrirtækisins viljum við líka fjölga störfum í heimabyggð, en Borgarfjörður eystri tekur þátt í verkefni Byggðastofnunar sem kallast Brothættar byggðir. Markmið þess er að styrkja atvinnusköpun í sveitarfélögum sem hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum.“

Bera saman bækur
Markmið þeirra með þátttöku í viðskiptahraðlinum er fyrst og fremst að koma verkefninu í gegnum þá þeytivindu sem viðskiptahraðall af þessu tagi er. „Fjöldi sérfræðinga úr atvinnulífinu, bæði sem fyrirlesarar og ráðgjafar, koma með hafsjó af ábendingum og athugasemdum sem nýtast okkur til að gera hugmyndirnar okkar enn betri. Ekki má síðan gleyma hinum teymunum sem taka þátt í verkefninu, það er ómetanlegt að geta borið saman bækur og miðlað reynslu á milli teymanna. Sem betur fer er stuðningur bæði einkaaðila og yfirvalda við íslenska frumkvöðla alltaf að aukast enda sjáum við urmul spennandi fyrirtækja spretta upp víðs vegar um landið. Við hlökkum sannarlega til að slást í hóp þessara fyrirtækja.“

Myndatexti: Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir, Ragna S. Óskarsdóttir og Kristján Már Gunnarsson.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Bára fegin að kröfum Miðflokksmanna hafi verið hafnað

Bára Halldórsdóttir.

Bára Halldórsdóttir fagnar niðurstöðu stjórnar Persónuverndar, en ítrekar að hún hafi ekkert að fela.

„Ég er bara fegin að niðurstaðan skuli vera sú að gögnin séu ekki talin tengjast upphaflega málinu, sem gengur út á það hvort það hafi verið löglegt eða ekki að taka þetta upp og deila með fjölmiðlum. Það er þægilegt að stjórnin skuli sjá hlutina svipað og við gerum,“ segir Bára Halldórsdóttir í samtali við Mannlíf um þá niðurstöðu að stjórn Persónuverndar hafi hafnað kröfu lögmanns fjögurra þingmanna Miðflokksins um frekari gagnaöflun í Klausturmálinu.

Krafa lögmanns þingmannanna gekk meðal annars út á það að þingmennirnir vildu fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru á tímabilinu 15. nóvember til 15.desember. Eins var krafist upplýsinga um smáskilaboð og símtöl til Báru.

„Ég er bara fegin að niðurstaðan skuli vera sú að gögnin séu ekki talin tengjast upphaflega málinu, sem gengur út á það hvort það hafi verið löglegt eða ekki að taka þetta upp og deila með fjölmiðlum.“

Á vef RÚV er greint frá því að Persónuvernd telji sig einfaldlega ekki hafa heimild til öflunar upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum vegna meðferðar kvörtunarmáls sem varði ekki viðkomandi fyrirtæki heldur í þessu tilviki Báru sjálfa. Stjórn Persónuverndar telji m.a. að atvik málsins verði talin nægilega upplýst til að Persónuvernd geti komist að efnislegri úrlausn. Þess sé krafist að málinu verði í heild sinni vísað frá þar sem inntak þess lúti að mörkunum milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Stofnun eins og Persónuvernd eigi ekki að skera úr um það heldur dómstólar, eins og fram kemur á vef RÚV.

Þrátt fyrir að vera fegin þessari niðurstöðunni ítrekar Bára að hún sjálf hafi ekkert að fela. „Nei, eins og þegar hefur komið fram í fjölmiðlum þá hef ég ekkert að fela. Bara ekki neitt. Ef þessir menn vilja vita hvað ég nota stórar nærbuxur, þá get ég alveg upplýst þá um það,“ segir hún yfirveguð.

Þú virðist taka þessu öllu með ótrúlegu jafnaðargeði. „Auðvitað er það ekki þannig að þetta hafi engin áhrif á mig,“ segir hún þá. „En ég verð að halda ró minni sama hvað gengur á. Ég hef bara ekki um annað að velja, til að viðhalda heilsu minni. Það er fyrir öllu.“

Gunnar í gæsluvarðhald

Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son, sem grunaður er um að hafa skotið Gísla Þór Þórarinsson hálf­bróður sinn til bana í Mehamn um helg­ina, hefur verið úr­sk­urðaður í fjög­urra vikna gæslu­v­arðhald í Héraðsdómi Aust­ur-Finn­merk­ur.

Þetta var samþykkt þegar beiðni um varðhald var tekin fyrir í dómstóli þar fyrir skemmstu. Miðillinn iFinnmark greinir frá því að Gunnar hafi virst sleginn og byggir það á frásögnum blaðamanna sem voru á staðnum.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum á Gunnar að baki langan sakaferil hér á landi. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir nauðgun, handrukkun, stórfelldar líkamsárásir, frelsissviptingu, rán umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot.

Þeir Gunnar Jóhann og Gísli Þór voru hálfbræður og voru þeir báðir búsettir í Mehamn í Noregi þar sem þeir störfuðu í sjávarútvegi. Fram hefur komið að Gunnar Jóhann hafi í aðdraganda morðsins ítrekað haft í hótunum við Gísla Þór og var hann dæmdur í nálgunarbann vegna þessa um miðjan apríl.

Gunn­ar kvaðst samþykk­ur úr­sk­urðinum þegar héraðsdóm­ari innti hann álits í kvöld. Ann­ar maður, sem tal­inn er hafa verið sam­verkamaður hans, við kom fyr­ir dóm­inn hálf­tíma síðar.

Vilja að „íslensk lopapeysa“ verði verndað afurðarheiti

Hópur í Handprjónasambandi Íslands telja að „íslensk lopapeysa“ ætti að vera verndað afurðarheiti til að koma í veg fyrir að neytendur kaupi eftirlíkingar óafvitandi.

 

Framleiðendahópur á handprjónuðum og hefðbundnum lopapeysum úr íslenskri ull hefur sótt um vernd fyrir afurðarheitið íslensk lopapeysa. Forsvarsaðilli umsóknarinnar er Handprjónasamband Íslands. Þetta kemur fram á vef MAST.

Í umsókn Handprjónasambands Íslands kemur fram að á undanförnum árum hefur sala og eftirspurn á íslenskum lopapeysum aukist verulega og því sé mikilvægt að tryggja rekjanleika þeirra peysa sem eru seldar sem „íslenskar lopapeysur“. Þá sé mikilvægt að það sé hægt að ganga úr skugga um að peysan sé raunverulega prjónuð úr íslenskum lopa og að hún sé handprjónuð á Íslandi.

„Aukin erlend framleiðsla á „lopapeysum“ úr erlendir ull/gerviefnum þar sem líkt er eftir formi og hefðbundnum lopapeysumynstrum knýr einnig á um að kaupendur hafi möguleika til að gera á milli „íslenskrar lopapeysu“ og eftirlíkinga,“ segir í umsókninni.

Í umsókninni eru þá talin upp nokkur atriði sem gera lopapeysu að hefðbundinni íslenskri lopapeysu.

Hélt í hönd Agnesar á meðan hún var hálshöggvin

|
|

Fríða Bonnie Andersen, höfundur skáldsögunnar Að eilífu ástin sem hefur vakið mikla lukku, segir að myndmál sé stór hluti af lestrarupplifun sinni. Sjálfsagt eigi hún það móður sinni að þakka þegar hún las fyrir hana The Tall Book of Nursery Tales fyrir svefninn, ævintýri og dæmisögur, sem kenndu góða siði og örvuðu ímyndunaraflið. En hvaða bækur skyldu hafa haft djúpstæðust áhrif á rithöfundinn?

 

Kunni lengi vel ekki að meta ljóð

„Langir og flúraðir textar hafa ekki átt upp á pallborðið hjá mér. Lengi vel kunni ég heldur ekki að meta ljóð en hef þroskast sem betur fer og á ég Ásdísi Óladóttur og Unni Guttormsdóttur það að þakka. Bók Unnar, Það kviknar í vestrinu, er dæmi um ríkulegt myndmál sem höfðar til mín, glettnin ræður ríkjum þótt einnig megi finna alvarlegan og sáran undirtón.“

Sögurnar sneru öllu á hvolf

„Ég man hvað bók Vigdísar Grímsdóttur, Eldur og regn, hafði mikil áhrif á mig. Sögurnar sneru öllu á hvolf, mér leið eins og hún hefði rétt mér blöðru sem flestir hefðu látið sér nægja að blása upp og binda hnút á. En blöðru Vigdísar mátti fylla af vatni og sulla með, fylla af lofti og hleypa því aftur út og láta ýla í henni eða sleppa blöðrunni án þess að binda fyrir og leyfa henni að flögra stefnulaust út um hvippinn og hvappinn. Sögurnar hennar fóru með mig í óvæntar áttir.“

Ef til vill ekki harðsvíraður morðingi

Náðarstund eftir Hönnuh Kent.

„Náðarstund eftir Hönnuh Kent í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar fannst mér mögnuð. Ég las hana fyrst og fremst vegna þess að séra Þorvarður sem var langafi konu minnar fékk það erfiða hlutverk að halda í hönd Agnesar á meðan hún var hálshöggvin. Fljótt var það aukaatriði því sagan var svo vel sögð og þýðing Jóns svo afburðavel gerð að ég las sumar setningarnar oft og dvaldi við þær. Sögulok eru líka áhrifarík því við Íslendingar þekkjum þessa sögu vel en ástralska höfundinum tekst að veita mun manneskjulegri sýn á Agnesi og skilur okkur eftir með þá hugsun að ef til vill hafi hún alls ekki verið sá harðsvíraði morðingi sem við töldum hana vera.“

Gríðarleg stemning á aldamótatónleikum

Gleðin var við völd á aldamótatónleikum á föstudaginn eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Á föstudaginn fór fram heljarinnar ball í Háskólabíói undir yfisrkriftinni aldamótatónleikar. Landslið poppara kom þar fram sem eiga það öll sameiginlegt að hafa verið í nokkrum af vinsælustu hljómsveitum tíunda áratugarins.

Skítamórall, Írafár, Á móti sól og Land og synir tröllriðu öllu og voru og eru sannkallaðar poppstjörnur!

Öllu var til tjaldað í Háskólabíói en fram komu Magni, Hreimur, Gunni Óla, Einar Ágúst og Birgitta Haukdal. Hljómsveitarstjóri var hinn eini sanni Viggi úr Írafár.

Hafsteinn Snær Þorsteinsson mætti á ballið og tók þessar flottu ljósmyndir fyrir hönd Albumm.is.

Lýsti Gísla sem rólegum og ábyrgðarfullum

Yfirmaður Gísla Þórs Þórarinssonar lýsti honum sem rólyndismanni sem var góður í mannlegum samskiptum.

Oddvar Jenssen, yfirmaður Gísla Þórs Þórarinssonar, mannsins sem var myrtur í Mehamn í Noregi á laugardaginn, segir Gísla hafa verið ábyrgðarfullanog skilningsríkan. Þetta segir hann í viðtali við norska miðilinn iFinnmark.

Umfjöllunina má lesa hér.

Í viðtalinu segir Oddvar að Gísli hafi verið góður í mannlegum samskiptum og rólegur að eðlisfari. Oddvar rekur fiskvinnslufyrirtækið Nordkyn Seafood og starfaði Gísli þar.

Sjá einnig: Hjartnæm Facebook-færsla fyrrverandi kærustu Gísla

Hjartnæm Facebook-færsla fyrrverandi kærustu Gísla

|
Frá Mehamn í Noregi

Bríet Sunna Valdimarsdóttir, fyrrverandi kærasta Gísla Þórs Þórarinssonar, mannsins sem var myrtur í norska þorpinu Mehamn aðfaranótt laugardags, skrifar hjartnæm minningarorð á Facebook um Gísla.

Bríet segir Gísla hafa búið yfir einstökum persónutöfrum og ljóma. „Þú varst gæddur þessum einstöku persónutöfrum og ljóma. Þú sagðir alla hluti beint út án þess að særa neinn, það tóku allir mark á því sem þú sagðir og þú náðir til allra.“

Bríet segir meðal annars í skrifum sínum að Gísli hafi glaðst mikið þegar hún sagði honum að hún ætti von á barni: „Þú varst svo ánægður þegar ég sagði þér að ég væri loksins ólétt því við gátum aldrei eignast barn en ákváðum bæði að sætta okkur við það og að lífið yrði samt æðislegt því við vorum saman. Ég lokaði sambandinu okkar því ég vissi að þú gast aldrei sleppt mér sjálfur því þú vildir aldrei særa mig. Þú vissir samt jafnvel og ég að sambandið gengi ekki í svona mikilli og langri fjarveru. Þessi mikli og kærleiksmikli vinskapur slitnaði þó aldrei, þó svo við gátum oft stuðað hvort annað þá var það aldrei í langan tíma og fyrirgefningin var alltaf mjög ofarlega hjá okkur báðum.“

Hún bætir við að Gísli hafi vitað að hún ætti von á strák á undan öllum öðrum. „Ég vissi ekki kynið þá og enginn. Í gær kom í ljós að ég geng með strák. Þú hafðir rétt fyrir þér Gísli. Ég veit nú að strákurinn okkar Stefáns hefur besta og fallegast verndarengil sem til er,“ skrifar hún.

Með kveðjunni deilir Bríet svo afmæliskveðju sem hún skrifaði til Gísla fyrir tveimur árum. Í kveðjunni lýsir hún því meðal annars hvernig þau kynntust.

Færsluna má sjá hér fyrir neðan:

Lýðfræði fjármagnseigenda

|
|

Umræða um misskiptingu hefur farið hátt á seinustu árum. En hvernig skiptast fjármagnstekjur milli kynslóða?

 

Í grein sem birtist í Mannlífi á dögunum var skoðað hvernig heildartekjur, og hlutur einstaklinga í greiðslu tekjuskatts, skiptist eftir aldursárum. Við sáum hvernig tekjur — og hlutur einstaklinga í greiðslu tekjuskatts — vaxa frá unglingsárum fram á miðjan aldur, og fara svo þverrandi fram á efri ár. Upplýsingarnar eru fengnar úr staðtölum ríkisskattstjóra, sem áhugavert er að kanna frekar, og munum við hér skoða hvernig fjármagnstekjur dreifast á einstaklinga eftir aldri.

Hér fyrir neðan sjáum við hvernig heildartekjur einstaklinga, þ.á.m. fjármagnstekjur, skiptast eftir tekjustofnum fyrir aldursár (mynd 1).

Varla kemur á óvart að fyrri hluta ævinnar eru helstu tekjur einstaklinga í formi launa (blátt svæði) og á efri árum lífeyris- og tryggingargreiðslur (rautt svæði). Síðasti stóri tekjustofninn eru svo fjármagnstekjur (aðrar tekjur eru t.a.m. náms- og rannsóknarstyrkir og atvinnuleysisbætur). Segja má að þær taki að vaxa hjá einstaklingum á fertugsaldri, og haldist svo tiltölulega stöðugar fram eftir aldri. Fjármagnstekjur eru í heildina lægri en launatekjur og lífeyrir, en þær dreifast á mun færri hendur. Árið sem gögnin taka til (2016) þénaði eitt prósent tekjuhæstu hjóna (samskattaðra) 49% af öllum fjármagnstekjum samskattaðra, og 10% tekjuhæsti hluti samskattaðra þénaði 71,5% allra fjármagnstekna þess hóps. Því hefði takmarkaða þýðingu að skoða meðal-krónutölupphæð fjármagnstekna á mann.

Til frekari glöggvunar á skiptingu fjármagnstekna eftir aldri skulum við styðjast við hve stórt hlutfall af fjármagnstekjum fellur í skaut hvers aldurshóps (mynd 2).

Fyrst veitum við athygli hve óregluleg gögnin eru. Þessar miklu sveiflur milli aldursára endurspegla lítinn fjölda fjármagnseigenda, en einn einstaklingur sem hagnast um hundruði eða þúsundir milljóna hefur mikil áhrif fyrir hvert aldursár. Þá væri e.t.v. sanngjörn lýsing að fjármagnstekjur séu hlutfallslega lágar meðal hópa fram á miðjan fertugsaldur þar sem þær taka að vaxa fram á miðjan sextugsaldur. Hlutur aldursbila minnkar svo fram á tíræðisaldur. Mestar fjármagnstekjur Íslendinga falla þannig í skaut aðila sitthvorum megin við 57 ára aldur. Lækkun hlutdeildar í fjármagnstekjum fram á tíræðisaldur skýrist af fámennari hópum eins og sjá má á næstu mynd.

Hún sýnir hversu stórt hlutfall allra fjármagnstekna fellur að meðaltali í hlut einstaklinga á hverju aldursbili (mynd 3).

Sú mynd bendir til þess að fjármagnseign einstaklinga haldist almennt að mestu til æviloka. Gögnin sýna enda að arður af verðbréfum (þ.m.t. eigin rekstri) er lægri meðal eldri aldurshópanna, en vextir af áhættuminni bankainnistæðum þeim mun meiri. Við skoðum að lokum hlut aldurshópa í arðgreiðslum, sem endurspeglar að einhverju leyti völd í íslensku atvinnulífi (mynd 4).

Hlutur einstaklinga er mestur kringum 56-61 árs aldur, sem er bilið milli toppanna tveggja fyrir miðja mynd. Fram til 37 ára aldurs ná fjármagnstekjur á mann ekki fimmtungi af þeirri upphæð, og við 79 ára aldur hríðlækkar hlutur einstaklinga í arði af verðbréfum. Samræmist það almennum hugmyndum um aukinn sparnað, uppbyggingu fyrirtækja og auknum líkum á að tæmast arfur fram á fullorðinsár.

Samandregið eru megintekjur Íslendinga í formi launa fyrri hluta ævinnar, og lífeyris- og tryggingargreiðslna á efri árum. Mestar fjármagnstekjur falla í skaut fólks í kringum sextugt. Þær eru lægri hjá yngri hópum sem þéna minni fjármagnstekjur að meðaltali og lægri hjá eldri hópum þar sem þeir eru fámennari, en fjármagnstekjur hvers einstaklings haldast að meðaltali stöðugar fram á tíræðisaldur.

Nákvæm skipting hagsældarinnar milli kynslóða er þó auðvitað ekki stöðug og tíminn einn mun leiða í ljós hve mikið yngri kynslóðir munu auka við sinn hlut. Hvort hlut kynslóðanna hefur alltaf verið svona skipt er svo efni í aðra grein.

Áttaði sig ekki á því að hægt væri að starfa sem fatahönnuður

Signý Þórhallsdóttir, fata- og prenthönnuður, vinnur nú að eigin merki og segist sækja innblástur í íslenska náttúru.

 

Hvernig hönnuður eða listamaður ert þú?
„Ég er fatahönnuður sem vinnur mikið með prentaðan textíl.“

Signý vinnur mikið með prentaðan textíl.

Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað?
„Hvað prentin varðar þá teikna ég þau aðallega fyrir fatnað. Ég er núna að vinna í mínu eigin merki, en það heitir Morra.“

Hvaða litir heilla þig?
„Ég er mjög mikið fyrir heita liti og dregst alltaf að appelsínugulum tónum. Mest er ég þó hrifin af óvæntum litasamsetningum.“

„Ég var alltaf að teikna og sauma sem krakki og unglingur en áttaði mig ekki á því að hægt væri að starfa sem fatahönnuður fyrr en í menntaskóla.“

Hvaðan færðu innblástur?
„Ég flutti nýlega heim til Íslands aftur eftir nær sjö ár erlendis. Upp á síðkastið hef ég því fengið mikinn innblástur frá íslenskri náttúru sem ég var farin að sakna mikið. Þar fyrir utan hafa söfn og gallerí alltaf verið þeir staðir sem örva mig mest í átt að sköpunargleðinni.“

Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða hönnuður eða gerðist það bara „óvart“?
„Ég var alltaf að teikna og sauma sem krakki og unglingur en áttaði mig ekki á því að hægt væri að starfa sem fatahönnuður fyrr en í menntaskóla. Þá kom eiginlega ekkert annað til greina.“

Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna?
„Já, mér hefur alltaf þótt það gaman þótt það hafi auðvitað komið hæðir og lægðir.“

Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna?
„Mér finnst alltaf best að vinna í dagsbirtu.“

Vinnuaðstaða Signýjar.

Hvaða hönnuðir og listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
„Það er erfitt að nefna sérstaka hönnuði, en ég fylgist þó til dæmis alltaf vel með Dries van Noten og auðvitað Vivienne Westwood en ég vann þar í nokkur ár. Ég hef líka verið spennt fyrir ungum fatahönnuði sem heitir Matty Bovan. Upp á síðkastið hef ég mikið skoðað listamenn eins og Louise Bourgeois, Barböru Hepworth, Gerði Helgadóttur, Evu Hesse og Anselm Kiefer.“

Hvað er fram undan á næstu misserum?
„Ætlunin er að halda áfram að þróa vörumerkið Morra frekar.“

Mynd / Hallur Karlsson

Myndir / Hallur Karlsson

Hitti átrúnaðargoðið og átti erfitt með sig

Hafsteinn Már Sigurðsson

Nýtt hlaðvarp um veiði og veiðitengd mál er farið í loftið. Umsjónarmenn þess eru í skýjunum með viðtökurnar.

„Undirtektirnar hafa komið skemmtilega á óvart. Þær eru miklu meiri en við bjuggumst við, því satt að segja vissum ekki hvernig viðbrögðin yrðu, hvort 25 eða 2.500 manns kæmu til með að hlusta. En yfir þúsund hlustendur hafa nú þegar hlýtt á fyrsta þáttinn og við náðum á listann yfir mest spiluðu hlaðvörpin á iTunes. Þannig að þetta er skemmtilegt, eiginlega bara alveg geggjað,“ segir Hafsteinn Már Sigurðsson, annar umsjónarmanna nýs hlaðvarps um veiði sem fór í loftið á dögunum og hefur þegar vakið lukku.

Hlaðvarpið sem kallast Flugucastið einblínir á fluguveiði og veiðitengd málefni en í hverjum þætti fá þeir Hafsteinn og félagi hans, Sigþór Steinn Ólafsson, til sín nýjan gest sem deilir meðal annars með þeim veiðisögum og gefur ýmis ráð varðandi veiði og einstaka veiðistaði. „Við fáum einn viðmælanda í hvern þátt og þeir koma inn á allt þetta, segja líka til dæmis frá uppáhaldsánni sinni og -flugunni og svo framvegis og fara síðan í gegnum sína veiðisögu, hvernig þeir hafi byrjað að veiða, „gæda“ eða unnið í veiðikofa,“ lýsir hann.

„Það var geggjað að fá hann, sjálft átrúnaðargoðið manns til að segja sína sögu … Við Sigþór vorum alveg með stjörnur í augum.“

Þeir félagar hafa þegar fengið til sín nokkra góða gesta, þeirra á meðal eru veiðimennirnir Björn K. Rúnarsson, Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson, sem hefur í samstarfi við félaga sína fjallað á samfélagsmiðlum um veiði, og síðast en ekki síst Eggert Skúlason sem gerði á sínum tíma hina vinsælu veiðiþætti Sporðaköst en Hafsteinn segir að það hafi verið sannkallaður heiður að spjalla við hann.

„Það var geggjað að fá hann, sjálft átrúnaðargoð manns til að segja sína sögu og söguna á bak við Sporðaköst sem ollu auðvitað straumhvörfum fyrir tuttugu árum. Við Sigþór vorum alveg með stjörnur í augum,“ segir hann og getur þess að sumir gestanna ljóstri upp ýmsum áhugaverðum leynitrixum. „Þetta er alls konar fróðleikur sem getur nýst byrjendum jafnt og þeim sem eru lengra komnir.“

Með ólæknandi veiðibakteríu

Spurður hvernig hugmyndin að hlaðvarpinu hafi kviknað segir Hafsteinn að þeir Sigþór séu báðir miklir áhugamenn um veiði. Sigþór hafi stundað allt frá fluguhnýtingum yfir í leiðsögn víðsvegar um landið og sjálfur kveðst Hafsteinn hafa fengið veiðbakteríuna á þrítugsaldri og verið ólækandi síðan. Þeir hafi svo hvor í sínu lagi gengið með þá hugmynd í maganum að fara af stað með hlaðvarp um veiði, en það hafi ekki verið fyrr en sameiginlegur vinur kynnti þá að þeir ákváðu að gera eitthvað í málunum. „Þannig að við þekktumst ekkert áður en bara smullum saman og upp úr því varð Flugucastið til.“

Fjórir þættir af Flugucastinu hafa þegar litið dagsins ljós, en nýr þáttur fer í loftið á hverjum fimmtudegi og segir Hafsteinn ýmislegt spennandi vera á döfinni. Þannig sé til dæmis von á stórum nöfnum úr veiðinni en hann segir hins vegar ekki tímabært að segja nánar frá þeim að svo stöddu. Fólki verði bara að fylgjast með.

En hvar er hægt að nálgast hlaðvarpið?
„Flugucastið er aðgengilegt á Apple Podcasts, Soundclouds og Spotify,“ svarar Hafsteinn. „Svo er hlaðvarpið á Facebook undir Flugucastið en þar verður hægt fylgjast með fréttum af nýjum þáttum.“

Hárgreiða fylgir með plötunni

Ný plata frá Langa Sela og Skuggunum.

 

Hjómsveitin Langi Seli og Skuggarnir sendu frá sér nýja þröngskífu, Bensínið er búið á alþjóðlegum degi plötuverslana,13. apríl. Platan inniheldur fjögur ný lög og það fyrsta sem heyrist á öldum ljósvakans er sjálft titillagið Bensínið er búið, sem er dillandi rokksmellur. Sérstaka athygli vekur að með fyrstu eintökum plötunnar fylgja hárgreiða og límmiði í anda 6. áratugarins en sveitin er einmitt þekkt fyrir kraftmikinn „rokkabilly“ hljóm.

Eins og kunnugt er eiga Langi Seli og Skuggarnir farsælan feril að baki en sveitin hefur starfað með hléum í yfir 30 ár og fagnar um þessar mundir 30 ára afmæli plötunnar Breiðholtsbúgí, sem kom út árið 1989. Ári áður hafði sveitin sent frá sér smáskífuna Kontinentalinn sem var fyrsta efnið frá sveitinni sem kom út á hljómplötu. Báðar plötur hafa nú verið gerðar aðgengilegar á Spotify.

Nýju skífuna, Bensínið er búið er hægt að nálgast á 10″ vinylplötu, á Albumm.is og á öllum helstu streymisveitum en henni verður fylgt eftir með hljómleikahaldi vítt og breitt um landið.

Hinn grunaði á langan sakaferil að baki á Íslandi

|
Frá Mehamn í Noregi

Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið Gísla Þór Þórarinssyni að bana á að baki langan sakaferil hér á landi. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir nauðgun, rán og líkamsárásir.

Sakaferill mannsins var rakinn í hádegisfréttum RÚV og hann nafngreindur. Mun maðurinn, Gunnar Jóhann Gunnarsson, hafa fyrst hlotið dóm árið 1999 fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot. Þremur árum síðar er Gunnar Jóhann, þá 19 ára gamall, dæmdur í 22 mánaða fangelsi ásamt öðrum manni fyrir að nauðga 16 ára stúlku. Síðan þá hefur hann verið dæmdur fyrir tvær stórfelldar líkamsárásir, frelsissviptingu og rán.

Þeir Gunnar Jóhann og Gísli Þór voru hálfbræður og voru þeir báðir búsettir í Mehamn í Noregi þar sem þeir störfuðu í sjávarútvegi. Fram hefur komið að Gunnar Jóhann hafi í aðdraganda morðsins ítrekað haft í hótunum við Gísla Þór og var hann dæmdur í nálgunarbann vegna þessa um miðjan apríl.

Ákvörðun um gæsluvarðahald yfir Gunnari Jóhanni og meintum vitorðsmanni, sem einnig er íslenskur, verður tekin fyrir norskum dómstólum í kvöld.

Vaxandi ójöfnuður er ógn við okkur öll

Drífa Snædal. Mynd / Aðsend

Skoðun.

Höfundur / Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Síðustu tvo áratugi hefur auðurinn í heiminum þrefaldast en kjör vinnandi fólks hafa á sama tíma ekki þrefaldast, þvert á móti. Í mörgum löndum hefur vinnandi fólk það verra í dag en fyrir tuttugu árum. Hvernig má þetta vera?

Þegar máttur og vald peninganna verður meira en máttur og vald almennings gerist það að völd og peningar sogast til þeirra sem fyrir eru á fleti. Í krafti peninga er hægt að sannfæra kjörna fulltrúa og almenning um að það sé á einhvern hátt betra fyrir alla að stórfyrirtæki geti makað krókinn að vild og séu ekki sett undir sömu reglur um skatta og skyldur og vinnandi fólk. Þannig hafa eigendur stórfyrirtækja um allan heim margfaldað gróða sinn án þess að hafa nokkrar áhyggjur af afkomu almennings. Sókn í meiri gróða hefur orðið til þess að sífellt er leitað leiða til að greiða sem lægst laun og skatta til samfélagsins.

Árið 2013 hrundi átta hæða fataverksmiðja í Bangladesh til grunna og 1.134 létu lífið. Verksmiðjan framleiddi þekkt vörumerki fyrir vestrænan markað en byggingareglur höfðu verið sniðgengnar og aðbúnaður og öryggismál verkafólks viku fyrir gróðahyggju. Þannig varð krafa vestrænna stórfyrirtækja um ódýra vöru og aukinn gróða þess valdandi að fátækt fólk lét lífið í einu stærsta vinnuslysi heims.

Samtakamáttur vinnandi fólks mikilvægur
Lönd sem hafa náð að halda í lífsgæði almennings og veita fyrirtækjum aðhald eiga nokkuð sameiginlegt. Það eru ríki þar sem lýðræð er virkt, velferðarkerfi er til staðar, verkalýðshreyfing er sterk og fyrirtæki eru í tengslum við samfélagið. Að reyna að grafa undan þessum stoðum er ávísun á verri lífskjör almennings. Það er mikið hættuspil að vega að þessu skipulagi.

Við Íslendingar höfum sem betur fer miklar skoðanir og þannig á það að vera. Við tökumst á um einstaka mál og gagnrýnum okkar kjörnu fulltrúa hvort sem er í stjórnmálum eða félagasamtökum og það er vel. Áhyggjur mínar verða hins vegar meiri þegar vegið er að grunnhugmyndum um lýðræði eða þegar grafa á undan velferðarkerfinu sem við höfum byggt upp saman. Tilhneigingu í þessa átt er að finna víða um heim og jafnvel í ríkjum með mikla lýðræðishefð. Þátttaka í stéttarfélögum fer minnkandi mjög víða. Þar með er dregið úr því afli sem býr í samtakamætti vinnandi fólks til að gæta hagsmuna og semja um kaup og kjör. Að grafa undan verkalýðshreyfingu er það sama og að afhenda stórfyrirtækjum aukin völd.

Í stóra samhenginu megum við hér á Íslandi vera afskaplega stolt af okkar verkalýðshreyfingu og samfélaginu sem við höfum byggt upp en við megum aldrei taka þessu skipulagi sem gefnu eða gefa eftir gagnvart röddum sem vilja draga okkur í aðrar áttir.

Yfirheyrðir á miðvikudag að viðstöddum verjendum og túlki

Íslendingarnir tveir sem eru í haldi lögreglunnar í Noregi í tengslum við morðið á Gísla Þór Þórarinssyni verða yfirheyrðir á miðvikudaginn.

 

Mennirnir tveir sem eru í haldi í tengslum við harmleikinn í Mehamn í Noregi, þar sem íslenskur karlmaður, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn til bana, verða yfirheyrðir á miðvikudaginn að viðstöddum verjendum og túlki. Þetta kemur fram í svari Silju Arvola hjá lögreglunni í Finnmörku við fyrirspurn fréttastofu Vísis.

Í frétt Vísis kemur einnig fram að mennirnir verða leiddir fyrir dómara klukkan 19.00 og 19.30 í kvöld að staðartíma.

Á norska héraðsfréttavefnum ifinnmark.no er haft eftir talmanni lögreglunnar í Finnmörku að réttarhöldin hafi tafist þar sem beðið er eftir íslenskum túlki. Ferðalag hans til Vadsø mun hafa tafist vegna verkfalla flugmanna SAS.

Þá segir einnig að farið verði fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir öðrum manninum, þeim sem er hálfbróðir hins látna. Krafist verður vikulangs gæsluvarðhalds yfir hinum manninum. Báðir eru þeir Íslendingar.

Sjá einnig: Systir hins látna tjáir sig: „Sársaukinn er ólýsanlegur”

Rúmlega þúsund börn á Íslandi hafa misst foreldri frá árinu 2009

„Á árunum 2009–2018 missti að jafnaði 101 barn foreldri árlega, fæst árið 2015 þegar 89 börn misstu foreldri en flest árið 2010 eða 133 börn. Alls misstu 1.007 börn foreldri yfir tímabilið, 525 drengir og 482 stúlkur.“ Þetta kemur fram tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Hagstofan hefur tekið saman upplýsingar frá árinu 2009. „Alls létust 649 foreldrar barna á tímabilinu, þar af voru 448 feður og 201 móðir. Flestir feðra sem létust voru eldri en 49 ára, 172 talsins eða 38%. Næstflestir voru milli 40 og 49 ára, 140 feður eða 31% af heildarfjölda feðra. Flestar mæður sem létust voru á aldrinum 40–49 ára, 85 talsins eða um 42%. Næststærsti hópurinn var á aldrinum 30–39 ára, 56 mæður, tæplega 28%.“

Þá kemur fram í gögnum Hagstofunnar að á tímabilinu 2009–2018 hafi flestir foreldrar sem létust fallið frá af völdum illkynja æxlis eða 257, tæplega 40%. „Næstalgengast var að foreldri létist vegna ytri orsaka áverka og eitrana, tæplega 34% tilvika eða 218 manns. Tveir undirflokkar dauðsfalla af völdum ytri orsaka áverka og eitrana voru skoðaðir sérstaklega, annars vegar óhöpp og hins vegar sjálfsvíg og vísvitandi sjálfsskaði. Meirihluti foreldra sem létust af völdum ytri orsaka, létust af völdum sjálfsvígs og vísvitandi sjálfsskaða, alls 106 (48,6% af heildarfjölda foreldra sem lést af völdum ytri orsaka og 16,3% af heildarfjöldanum).“

Krabbameinsfélagið heldur málþing um rétt barna, stöðu þeirra og þarfir við fráfall foreldris í dag, mánudag klukkan 15.00 til 17.45. Málþingið fer fram í húsi Íslenskrar erfðagreiningar og ber yfirskriftina „Hvað verður um mig?”. Á málþinginu verða gögn Hagstofu kynnt en meðal þátttakenda í málþinginu eru Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Á málþinginu verða kynntar rannsóknir um upplifun barna eftir fráfall foreldris og hvernig nýta má þær upplýsingar sem fram komu til að skapa umgjörð fyrir fagfólk og alla sem standa að börnunum. Jafnframt verður greint frá rannsóknum á stöðu barna sem aðstandenda krabbameinssjúklinga. Fjallað verður um eigin rétt barnanna og þarfir fyrir stuðning og leiðsögn, skyldur og ábyrgð hins opinbera, tengsl fjölskyldu, samfélags og sjálfstæða þörf barna fyrir sorgarvinnslu og utanumhald allt til fullorðinsára.

„Áfangastaðurinn skiptir engu ef þú naust ekki ferðarinnar“

Ari Ólafsson stundar tónlistarnámi í The Royal Academy of Music í London og er byrjaður að huga að plötu sem hann langar að senda frá sér.

Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt hjá Ara Ólafssyni söngvara en hann keppti sem kunnugt er fyrir Íslands hönd í Eurovision í fyrravor. Þrátt fyrir þessa viðkomu í poppinu er Ari tenórsöngvari og hefur lært klassískan söng frá unglingsaldri.

„Ég byrjaði að læra klassískan söng þegar ég var 12 ára og var þá nemandi hjá Garðari Thor Cortes í Söngskólanum í Reykjavík,“ segir Ari sem byrjaði ferilinn í söngleiknum Oliver Twist sem var leikstýrt af Selmu Björnsdóttur en þar lék hann sjálfan Oliver Twist. „Ég tók oft þátt í söngleikjum og leiklist en var samt alltaf að læra klassískan söng með og hef því alltaf verið virkur í allskonar tónlist. Ég valdi strax að læra klassískan söng því það er besta leiðin til að þróa góða, öfluga og heilbrigða rödd. Út frá því er svo hægt að fara í hvaða útgáfu af söng sem er,“ heldur Ari áfram og útilokar ekkert í þeim efnum en hann hefur líkt og margir hafa tekið eftir verið að koma sér á framfæri sem tenórsöngvari og sló meðal annars í gegn á úrslitakvöldi Söngvakeppni RÚV með laginu Grande amore ásamt þeim Bergþóri Pálssyni og Gissuri Páli Gissurarsyni.

„Mér líður best þegar ég er með mörg mismunandi verkefni í gangi – nenni ekki að slaka á og vera bara í einhverju einu. Ég vil vera fjölhæfur, ég þrái að læra meira og er alltaf að byggja ofan á það sem ég hef gert og lært. Án þess að lofa of miklu, þar sem ég bý í London og er í krefjandi tónlistarnámi, er ég loksins byrjaður að vinna að hugsanlegri plötu en ég þrái að koma með eitthvað nýtt inn í tónlistarheiminn. Ég er virkilega spenntur fyrir öllum verkefnunum sem bíða mín í framtíðinni. En eins og þeir segja; góðir hlutir gerast hægt, bara vonandi ekki of hægt.“

„Ég fann að ég bjó yfir meiri styrk en ég vissi af, ég stóðst álagið og ég kom sáttur heim með hausinn vonandi á réttum stað.“

„Hef verið lánsamur“

Ari var nýlega búinn að klára framhaldsstigsprófið í söng og kominn inn á fullum skólastyrk í The Royal Academy of Music þegar hann fór í Söngvakeppnina og Eurovision. Þar var söngvarinn Ari kynntur til leiks, ef svo má að orði komast, en færri vissu að það færi klassískur söngvari. „Eurovision var í raun algjör kynning á mér og síðasta ár hefur verið gífurlega lærdómsríkt og skemmtilegt. Stærsti lærdómurinn var líklega að ég uppgötvaði að ég gæti gert allt þetta. Ég fann að ég bjó yfir meiri styrk en ég vissi af, ég stóðst álagið og ég kom sáttur heim með hausinn vonandi á réttum stað. Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér og láta vaða því annars kemst maður ekkert áfram,“ segir Ari.

„En núna er komið að mér að sanna mig sem tónlistarmaður og söngvari. Ég veit hvað ég vil – ég vil læra meira og þroskast sem tónlistarmaður og njóta ferðarinnar hvert sem hún leiðir, áfangastaður skiptir engu ef þú naust ekki ferðarinnar. Ég hef verið lánsamur í lífinu og held að lykillinn að því sé að halda í jákvæðnina, horfa frekar á það sem er til staðar heldur en að einblína á það sem manni finnst vanta. Einnig er mikilvægt að vera trúr sjálfum sér og leyfa sér að finna fyrir tilfinningunum sínum. Ást og friður,“ segir Ari að lokum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Bíllausum heimilum fækkar þrátt fyrir aðgerðir í átt að grænni samgöngum

|
|

Bíllausum heimilum fer fækkandi sem og heimilum sem reka aðeins einn bíl. Þetta er niðurstaða neyslukönnunar Gallup sem fyrirtækið birti nýlega. Samkvæmt henni hefur fjöldi bifreiða á hvert heimili fjölgað frá árinu 2015. heimili með tvo, þrjá eða fleiri bíla fjölgar.

 

Samkvæmt Neyslukönnun Gallup hefur heimilum með tvo, þrjá eða fleiri bíla fjölgað frá árinu 2015. Á sama tíma hefur heimilum fækkað sem hafa einn eða engan bíl til ráðstöfunar.

Það er stefna núverandi borgarmeirihluta að auka vægi annarra ferðamáta en einkabílsins. Þar á meðal er nýlega ákvörðun um að frítt skuli í strætó á „gráum dögum“ það eru dagar þar sem styrkur svifryks mælist yfir heilsumörkum. Þann 7. apríl síðast liðinn mældist sólarhringsmeðaltal nokkuð hátt eða um 53 míkrógrömm á rúmmetrar við Njörvasund/Sæbraut. Bauðst borgarbúum að ferðast með strætó frítt þá daga sem mengunin var í hámarki. Von borgaryfirvalda er að með slíkum aðgerðum leggi fólk einkabílum þá daga. Vert er að taka fram að könnun Gallup mælir ekki daglega notkun bifreiðanna.

Í fyrrasumar stóð Reykjavíkurborg meðal annars fyrir verkefni sem fól i sér lán á rafhjólum. Það mun hafa reynst vel og þegar hefur verið tilkynnt að verkefnið skuli endurtekið í sumar með 25 nýjum rafhjólum. Fyrsti hópurinn í tilraunaverkefninu í sumar fékk rafhjól afhend 15. apríl. „Rafhjól eru fyrir marga orðin samkeppnishæfur valkostur við einkabílinn“ sagði Kristinn J. Eysteinsson, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg, á reykjavik.is. „Áhugi fyrir verkefninu í fyrra var svo góður að ekki var hægt að lána öllum sem óskuðu rafhjól. Rúmlega þúsund manns sóttu um þátttöku en alls fengu 125 manns hjól lánuð eftir valferli. Bætt var við einu tímabili til að fá reynslu af rafhjólum á hausttímabili.“

Fjöldi nýskráðra fólksbíla náði hámarki árið 2017 en heildarfjöldi nýskráninga nam 23.917. Var það 15% aukning frá 2016. Hlutfallsleg aukning milli ára var þó minni milli 2017 og 2018 samkvæmt upplýsingum frá Árbók bílgreina 2018.

Sjórinn er upphaf alls lífs

Urta Islandica þróar jurtabragðbætt, kolsýrt og steinefnaríkt drykkjarvatn úr köldum jarðsjó. Fimm fjölskyldumeðlimir koma að rekstrinum og hlakka þau til að takast á við næstu áskoranir.

Fyrirtækið Urta Islandica er í startholunum með að framleiða jurtabragðbætt, kolsýrt og steinefnaríkt drykkjarvatn sem er unnið úr köldum jarðsjó. Stofnandi þess er Þóra Þórisdóttir en hún ólst upp fyrir vestan og norðan þar sem tengslin við náttúruna voru mikil í barnæsku.

Vegna fámennis og fábreytni hófu hún og systur hennar snemma að nýta allt sem þær fundu í fjöru og á landi sem efnivið í allskonar föndur og leiki. Þessir æskuleikir áttu vafalaust stóran þátt í þeim verkefnum sem hún tók þátt í síðar á lífsleiðinni, ekki síst með þróun jurtafyrirtækisins Urta Islandica sem sérhæfir sig í framleiðslu á jurtatei, jurtasalti og jurtasírópi sem matargjafavörur á ferðamannamarkað. „Árið 2013 stofnaði ég formlega eignarhaldsfélagið Urta Islandica ehf. með fjölskyldu minni og við höfum unnið saman í fyrirtækinu síðan. Tveimur árum eftir stofnun þess fluttum við framleiðsluna til Keflavíkur. Við létum bora holu ofan í hraunið á lóðinni til að fá upp ferskan sjó sem við létum rannsaka og í ljós kom að hann var hreinn, tær og ómengaður. Upphaflega hugmyndin var að framleiða bað- og spavörur úr steinefnunum úr sjónum. Fljótlega var ljóst að það yrði mikið magn afgangs af steinefnaríku afsöltuðu sjóvatni og eftir nokkra rannsóknarvinnu ákváðum við að fara í nýtt þróunarverkefni til að nýta þetta vatn og markaðssetja sem drykkjarvatn.“

„ … næringarsérfræðingar, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, telja að það sé veruleg heilsubót af því að drekka steinefnaríkt vatn frekar en steinefnasnautt.

Hlaðið steinefnum
Hugmynd teymisins er að selja sjóvatnið í þremur styrkleikum, bæði kolsýrt og ókolsýrt, bragðbætt með jurtum og hreint, og pakka því í endurvinnanlegar glerflöskur. „Það sem vatnið hefur fram yfir venjulegt íslenskt vatn er að það er hlaðið steinefnum úr sjónum en steinefnin í sjónum eru í sömu hlutföllum og steinefnin í blóði okkar. Því ætti sjóvatnið að vera góður kostur fyrir þá sem vilja ekki rugla í steinefnabúskapnum sínum með því að taka inn stök steinefni. Sjóvatnið vökvar líkamann vel og margir næringarsérfræðingar, m.a. hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO, telja að það sé veruleg heilsubót af því að drekka steinefnaríkt vatn frekar en steinefnasnautt. Þá eru margir á því að steinefnaríkt vatn sé auk þess bragðbetra.“

Góð samvinna
Það er óhætt að segja að samvinna fjölskyldunnar einkenni fyrirtækið en fimm meðlimir fjölskyldunnar starfa þar með einum eða öðrum hætti. „Utan mín má fyrst nefna Sigurð Magnússon eiginmann minn sem er iðnaðartæknifræðingur og snillingur í tölvum, tækjum, smíði og reddingum. Hann lætur hlutina gerast, verkstýrir og heldur utan um ferla og skráningar.“

Stjórnarformaður fyrirtækisins er Guðbjörg Lára dóttir þeirra sem hefur að sögn Þóru yfirumsjón með allri hönnun og markaðsmálum en þessi tvö svið eru samofin hjá fyrirtækinu að hennar sögn. „Lára er með næmt fagurfræðilegt auga, hugmyndarík og með ómetanlegt innsæi inn á markaðinn. Hún er hamhleypa til verka, góð í samskiptum og mun stýra því hvernig jarðsjóvatnið okkar mun líta út og verða markaðssett.“

Kolbeinn Lárus, sonur þeirra hjóna, er nýútskrifaður flugvélaverkfræðingur og segir Þóra hann smellpassa í verkefnið. „Hlutverk hans er að halda utan um og aðlaga þá tækni sem við munum nota við að afsalta sjóinn, setja upp og prófa vinnslulínu ásamt því að gera tilraunir og búa til prótótýpurnar.“

Yngsti sonurinn heitir Þangbrandur Húmi sem Þóra segir vera þann allra fjölhæfasta í hópnum. „Hann vinnur með okkur á öllum sviðum verkefnisins, hefur umsjón með gæðamálum og birgðamálum. Hann sér einnig um að finna tæki, tól og umbúðir til vinnslunnar.“

Áskorun að treysta
Hún segir þátttökuna í hraðlinum gefa þeim tækifæri til að opna hugmyndina fyrir öðrum, stækka tengslanetið og miðla af þekkingu sinni til annarra í leiðinni. „Helsta áskorunin í byrjun er að treysta og segja frá því hvað við erum að gera því við erum öll „intróvertar“ og höfum hingað til verið svolítið út af fyrir okkur. Fyrst og fremst vonast ég eftir ólíkum sjónarhornum og góðum ráðum sem munu nýtast okkur við framleiðsluna og markaðssetninguna.“

Bjartsýn á framhaldið
Mögulegir viðskiptavinir er breiður hópur segir Þóra og nefnir m.a. alla þá sem vilja fá meiri heilsuávinning úr flöskuvatni eða gosi. „Ef við reynum að sérhæfa okkur þá liggur beinast við að skoða ferðamannamarkaðinn þar sem við erum fyrir með vörur okkar og einnig veitingahúsin. Þá eru markhópar eins og líkamsræktarfólk og hlauparar sem þurfa að endurhlaða steinefni eftir æfingar, veikt fólk og börn sem hafa misst vökva.“

Hún er bjartsýn á framhaldið og segir teymið stefna að því að verkefnið verði orðið sjálfbært, skapi vinnu og skili hagnaði innan tveggja ára. „Á svipuðum tímapunkti viljum við líka vera byrjuð í útflutningi og vera í þeirri stöðu að varan okkar hafi vakið alvöruathygli innanlands sem erlendis, vegna einstakra eiginleika hennar og uppruna. Við bindum því miklar vonir við að þátttaka okkar í Til sjávar og sveita, hjálpi okkur að ná þeim markmiðum okkar.“

Myndatexti: Þóra Þórisdóttir og Sigurð Magnússon og börn þeirra Guðbjörg Lára, Kolbeinn Lárus og Þangbrandur Húmi.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Systir hins látna tjáir sig: „Sársaukinn er ólýsanlegur“

Heiða B. Þórðardóttir, systir Gísla Þórs Þórarinssonar sem skotinn var til bana í Noregi, var í losti eftir að lögreglan færði henni tíðindin. Þau Gísli Þór voru náin. Heiða segir þau hafa rætt saman daglega vikuna fyrir andlátið. Fréttablaðið greinir frá.

„Sársaukinn er ólýsanlegur” er haft eftir Heiðu. Hún segir bróður sinn hafa verið með „mikinn og stóran persónuleika og ljóst sé að margir syrgi hann”.

Gísli Þór var fertugur þegar hann lést og er talið að maðurinn sem hleypti af skotinu sé hálfbróðir hans. Hinn grunaði birti játningu á Facebook skömmu eftir atvikið. Hinn grunaði er með afbrotaferil að baki á Íslandi og mun hafa haft í hótunum við hinn látna, sem hafði fengið nálgunarbann sett á hann sem tók gildi fyrir rúmri viku eða 17. apríl.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem lögreglan í Meham sendi frá sér í gær. Lögregla hefur varist frétta af málinu en í tilkynningunni kemur fram að gæsluvarðhalds verði krafist yfir mönnunum tveimur sem voru handteknir í tengslum við málið; m.a. fjögurra vikna varðhaldi yfir þeim sem hleypti af skotvopninu. Skýrsla var tekin af vitnum í tengslum við málið í gær.

Lögregla kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 á staðartíma síðastliðinn laugardag. Gísli Þór var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni. Eins og áður hefur komið fram var Gísli Þór fertugur og búsettur í Meham.

Hinn maðurinn sem var handtekinn er 32 ára og neitar hann sök. Segir verjandi hans, Jens Bernhard Herstad, að hann hafi rætt stuttlega við skjólstæðing sinn og skilji maðurinn ekki hvers vegna hann sitji í gæsluvarðhaldi.

Náttúruvæn og vistvæn lúxusafurð

Íslenski æðardúnninn er einstök náttúruafurð en stór hluti heimsframleiðslunnar er tíndur hér á landi og fluttur úr landi óunninn. Fyrirtækið Íslenskur dúnn ætlar að breyta því.

Heimsókn eitt sumarið til Borgarfjarðar eystri fyrir nokkrum árum átti heldur betur eftir að reynast afdrifarík fyrir Rögnu S. Óskarsdóttur og sambýlismann, Þóri Guðmundsson. Í kjölfarið festu þau kaup á húsi þar, í magnaðri náttúrufegurð og einstöku samfélagi manna eins og hún orðar það, og gerðu að sínu öðru heimili.

Það var í heimsókn til Ólafs Aðalsteinssonar, æðarbónda í Loðmundarfirði, og eiginkonu hans, Jóhönnu Óladóttur, síðasta sumar sem hugmyndin fæddist hjá þeim; að kaupa æðardún af bændum, framleiða úr honum og selja innanlands og erlendis í gegnum Netið. „Við vörðum deginum með þeim heiðurshjónum og Ólafur leiddi okkur í allan sannleika um æðardúninn auk þess að ganga með okkur um varpstöðvarnar, en það eitt og sér er ævintýri út af fyrir sig. Ólafur hafði þá miklar áhyggjur af því að megnið af þessum dásamlega dúni væri fluttur út óunninn ár hvert. Þær áhyggjur og samræður okkar á milli í kjölfarið kveiktu heldur betur í okkur og allt fór í gang.“

„Því er afurðin eins náttúruvæn og vistvæn og hugsast getur. Að auki er dúnninn náttúrulegt undraefni sem á sér ekki hliðstæðu.“

Vilja breyta ferlinu
Ragna segir að frá þeirri stundu, þegar þau keyrðu úr hlaði frá þeim hjónum, hafi ekki verið aftur snúið. „Veturinn hefur farið í alls kyns pælingar og áætlanagerð. Nú erum við fimm í hópnum, öll með ólíka styrkleika sem hentar verkefninu vel.

Að meðaltali flytja Íslendingar út um þrjú tonn af dúni á ári sem er um ¾ heimsframleiðslunnar. Dúnninn er að mestu leyti fluttur út hreinsaður, en að öðru leyti óunninn og eru helstu viðtökulönd Japan og Þýskaland. Þessu viljum við hjá Íslenskum dún breyta, við viljum þvo og fullvinna æðardúninn hér heima.“

Auk Rögnu og Þóris skipa hópinn fyrrnefndur Ólafur æðarbóndi, Kristján Már Gunnarsson og Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir. „Ég stýri verkefninu og Kristján sér um vefsíðugerð og markaðssetningu á Netinu. Óli safnar dúninum og er auk þess sérfróður í öllu sem viðkemur vinnslu æðardúns. Þórir sér um uppbyggingu verkferla og verkstæðis. Síðast en ekki síst sér Ástrós um efniskaup og samsetningu værðarvoða.“

Einstök náttúruafurð
Það sem er mest spennandi við verkefnið, að hennar sögn, er sú staðreynd að Íslendingar eru nánast með einokunaraðstöðu á heimsins besta dúni, sem er æðardúnninn. „Hann er algjörlega einstök náttúruafurð. Frá landnámi hafa þeir bændur sem höfðu æðarvarp á jörðum sínum, vakað yfir varpinu á vormánuðum, stuggað burt vargfugli og tófu, ásamt því að hjálpa fuglinum við hreiðurgerð og umönnun eggja og unga. Þegar æðarkollan verpir tætir hún dúninn af bringu sinni til að halda hita á eggjunum. Ef bóndinn myndi ekki hirða dúninn úr hreiðrunum myndi hann aðeins fjúka í burtu, engum til gagns. En í stað þess hafa bændur í gegnum aldirnar nýtt þessa einstöku auðlind til að halda hita á sér og sínum.“

Algjört undraefni
Ragna segir æðarfuglinn vera eina fuglinn sem fellir dún í þessu magni í hreiður sín. „Annar dúnn sem við þekkjum er reyttur af fuglunum. Því er afurðin eins náttúruvæn og vistvæn og hugsast getur. Að auki er dúnninn náttúrulegt undraefni sem á sér ekki hliðstæðu.

Eiginleikar hans eru einstakir því hann er þakinn örfínum, mjúkum, króklaga þráðum sem valda samloðun hans. Hann er loftmikill sem veldur einstökum léttleika, háu einangrunargildi og góðri öndun. Úr hverju hreiðri safnast um 15-17 g af dúni og því þarf um 60-80 hreiður til að safna 1 kg af dúni.“

Hún minnir á að flestir verji um þriðjungi ævinnar umvafðir sæng. „Því eigum við aðeins að sætta okkur við það besta þegar kemur að vali hennar. Það má því segja að viðskiptavinir okkar séu þeir sem vita hvers virði góður svefn er.“

Vilja fullvinna innanlands
Teymið stefnir að því að leggja sitt á vogarskálarnar til að draga úr útflutningi á óunnum æðardúni. „Við viljum róa að því öllum árum að fullvinna þessa dásamlegu og einstöku afurð innanlands. Með stofnun fyrirtækisins viljum við líka fjölga störfum í heimabyggð, en Borgarfjörður eystri tekur þátt í verkefni Byggðastofnunar sem kallast Brothættar byggðir. Markmið þess er að styrkja atvinnusköpun í sveitarfélögum sem hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum.“

Bera saman bækur
Markmið þeirra með þátttöku í viðskiptahraðlinum er fyrst og fremst að koma verkefninu í gegnum þá þeytivindu sem viðskiptahraðall af þessu tagi er. „Fjöldi sérfræðinga úr atvinnulífinu, bæði sem fyrirlesarar og ráðgjafar, koma með hafsjó af ábendingum og athugasemdum sem nýtast okkur til að gera hugmyndirnar okkar enn betri. Ekki má síðan gleyma hinum teymunum sem taka þátt í verkefninu, það er ómetanlegt að geta borið saman bækur og miðlað reynslu á milli teymanna. Sem betur fer er stuðningur bæði einkaaðila og yfirvalda við íslenska frumkvöðla alltaf að aukast enda sjáum við urmul spennandi fyrirtækja spretta upp víðs vegar um landið. Við hlökkum sannarlega til að slást í hóp þessara fyrirtækja.“

Myndatexti: Guðrún Ástrós Bergsveinsdóttir, Ragna S. Óskarsdóttir og Kristján Már Gunnarsson.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita.

 

Raddir