Miðvikudagur 23. október, 2024
7.8 C
Reykjavik

Munntóbaksnotkun ungra kvenna færist í vöxt

Sú ákvörðun að banna sölu fínkorna neftóbaks og munntóbaks var hluti af víðtækum tóbaksvarnarlögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1996.

Neysla munntóbaks var reyndar ekki sérlega útbreidd á þessum tíma og fáheyrt að íslenska neftóbakið væri notað undir vör, eða eins og segir í greinargerð frumvarpsins: „Tóbaksneysla er hér um bil úr sögunni og neysla neftóbaks sem framleitt er hér á landi hefur dregist mjög saman og er að mestu leyti bundin við roskna karlmenn.“

Hins vegar var bent á að tóbaksframleiðendur væru að markaðssetja nýjar tegundir munntóbaks sem blandað væri bragðefnum og ætlað að höfða til ungs fólks. Þessi tegund tóbaks væri ekki síður ávanabindandi en reyktóbak. ÁTVR flutti ekki inn slíkt tóbak en það gerði tóbaksbúðin Björk og dreifði til verslana og einstaklinga. „Þetta hefur leitt til staðbundinna neyslufaraldra meðal barna og unglinga og hafa borist uggvænlegar fréttir þar að lútandi. Við þessu þarf að bregðast af fullri einurð.“ Sem sagt, markmiðið með því að banna vöruna var að vernda ungviðið.

Þessi aðferð hefur mistekist illilega eins og tölurnar sýna. Könnun Gallup fyrir Landlæknisembættið sýnir að langstærsti hópurinn sem notar munntóbak eru karlmenn á aldrinum 18 til 34 ára. Þá færist munntóbaksnotkun meðal ungra kvenna í vöxt. Í langflestum tilvikum nota þessir hópar íslenskt neftóbak til verksins, vöru sem var „að mestu leyti bundin við roskna karlmenn“ þegar lögin voru samþykkt.

Þórdís Kolbrún hjólar í andstæðinga þriðja orkupakkans og segir þá fara með „hrein ósannindi“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra segir áhyggjur fólks vegna þriðja orkupakkans meðal annars tilkomnar vegna þess að „menn með málefnalega innistæðu í gegnum áratugina eru að halda einhverju fram sem að sjálfsögðu hræðir fólk.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var gestur í Silfrinu á RÚV í morgun og ræddi þar meðal annars ólgu vegna þriðja orkupakkans. Hún sagði andstæðinga orkupakkans fara fram með „hrein ósannindi“ og tók undir með þáttastjórnanda að málið væri „ótrúlega skrítið“.

Hún sagði innleiðingu orkutilskipana Evrópusambandsins eiga sér langan aðdraganda. „Í grunninn eru allar þessar þrjár raforkutilskipanir – þessir þrír pakkar –  svipaðir í eðli sínu. Þeir snúa ekki að aðgangi að auðlindum heldur að aðgangi að innviðum. Við erum að tala um jafnan aðgang að flutningsinnviðum í þágu frjálsra viðskipta. Það er ferli sem hófst löngu löngu fyrir mína tíð.“ – Jafnvel í tíð þeirra sem berjast hvað hatramast gegn þessu núna? „Það er nákvæmlega þannig. Þessir pakkar skilda engan til að byggja ákveðna innviði. Bara alls ekki. Að halda því fram að þetta snúi að því, einkavæðingu Landsvirkjunar eða sölu á einhverjum auðlindum eru bara hrein ósannindi,“ sagði ráðherra.

Sjá einni: Orkupakkinn skekur stjórnmálin

Aðspurð hvort hún væri að halda því fram að andstæðingar pakkans fari fram með rangfærslur sagði ráðherra svo vera. „Já, já, þeir eru það. Þegar sagt er; næsta skref er að einkavæða Landsvirkjun og skipta henni upp. Það er ekki rétt. Þegar sagt er; næsta skref er bara að leggja sæstreng eða við munum vera skyldug til að leggja sæstreng. Það er ekki rétt. Þegar sagt er; við munum missa forræði á auðlindum okkar. Það er ekki rétt. Það er alveg sama hversu oft hetjur lyklaborðsins halda einhverju fram. Það verður ekkert satt fyrir vikið. Það er þetta sem mér finnst við þurfa að svara.“

„Mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.“

Ráðherra sagði málið efnislega lítið en að það snerti á miklum hagsmunum í tengslum EES-samninginn. „Það mun enginn eftir ár sitja og segja heyrðu rosaleg snilld var þessi þriðji orkupakki það er bara allt annað líf á Íslandi í dag. Það er heldur ekki þannig að eftir ár muni fólk segja hvað varð um fossana okkar, hvað varð um landsvirkjun og stýringu okkar á auðlindum við það að samþykkja þennan þriðja orkupakka. Hann er hluti af fjórða viðauka EES-samningsins sem mörg fyrirtæki byggja mjög verulega á. Á aðgangi inn á Evrópu og hann er hluti af EES samningnum sem skiptir okkur ótrúlega miklu máli og er mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.“

„Sjálfstæðisflokkurinn er fremstur þegar kemur að alþjóðasamvinnu“

Aðspurð hvort hennar eigin flokkur hafi staðið sig nægilega vel í að tala fyrir alþjóðasamstarfi og mikilvægi EES-samningsins og þá hugsanlegum áhrifum þess sagði ráðherra umræðuna sína að sumir hafi villst af leið. „Þetta er mjög góð spurning. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað þurft – og þurft segi ég – að eyða mjög miklum tíma og orku í að tala gegn aðild að Evrópusambandinu. Það má spyrja hvaða áhrif það hefur haft á almenna umræðu um alþjóðasamvinnu og samvinnu innan Evrópu. Mér finnst þetta svolítið sýna að einhverjir hafa villst af leið í því. Þetta sýnir að við munum ekki bara núna, og þetta klárast ekki í þessu máli, að við munum þurfum að halda vel á lofti kostum þess að vera í þessu samstarfi og hvað EES-samningurinn þýðir fyrir okkur. Saga Sjálfstæðisflokksins sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er fremstur þegar kemur að alþjóðasamvinnu og það er sú saga sem við eigum. Ég held að við séum núna á ákveðnum – ég segi kannski ekki krossgötum – en við munum þurfa að eyða mjög miklum tíma í að tala fyrir því. Og marka okkur þá skýru stöðu sem við höfum í gegnum söguna verið í, til þess að tryggja bara lífskjör Íslendinga hér. Þessi aðgangur að þessum mörkuðum. Við erum útflutningsþjóð. Þetta skiptir okkur öllu máli. Við erum að nýta fullveldi okkar til þess að vera í slíku samstarfi.“

Málefni hælisleitenda „tragískur spegill á stefnu stjórnvalda“

„Það er endalaust verið að moka fólki til Grikklands án þess að við þurfum þess,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi aðstoðarkona Þorsteins Víglundssonar  félags- og jafnréttismálaráðherra, í Silfrinu á RÚV í morgun. Hún starfar nú hjá Ríkissaksóknara. „Mér finnst þetta tragískur spegill á stefnu stjórnvalda.“

Ummælin lét Þorbjörg falla er rætt var um aukna einangrunarhyggju í stjórnmálum hér heima og erlendis. Þorbjörg sagði dæmi um hvernig sú þróun sést hér á landi meðal annars vera umræðan um þriðja orkupakkann sem og afstöða Íslands til flóttafólks.  „Við Sjáum þetta í afstöðu okkar, og að einhverju leiti stjórnvalda líka, til þess hvernig Ísland ætla að taka þátt í því að taka á móti flóttamönnum og axla sína ábyrgð þar. Mér finnst það algjörlega skýr spegill á þetta sama trend.“

Sjá einnig: „Hér er friður eins og ég hef aldrei upplifað áður“

Hún nefnd mál Zainab Safari 14 ára nemanda við Hagaskóla sem fyrirhugað er að vísa úr landi. Um 600 nemendur skólans hvöttu stjórnvöld til að tryggja henni og fjölskyldunni öruggt heimili á Íslandi. Kærunefnd útlendingamála hafnaði um miðjan apríl kröfu fjölskyldu Zainab um að fá að vera hér á landi. Að óbreyttu verður fjölskyldunni því vísað úr landi. Þá var mál sýrlenskrar flóttakonu sem starfaði á leikskólanum Vinagarði nefnd sem annað dæmi. Konan kallar sig Sophiu þar sem hún telur ekki óhætt að koma fram undir nafni. Umsókn hennar var ekki tekin til efnismeðferðar. Í niðurstöðu íslenskra yfirvalda segir að hún hafi þegar hlotið vernd í Grikklandi.

Þorbjörg sagði þessi mál dæmi um fólk sem augljóslega væri að koma úr erfiðum aðstæðum. „Við höfum alla getu, alla burði og allar heimildir til að taka á móti þessu fólk. Það er pólitísk afstaða að gera það ekki.“

Fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin

Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Tómas Þór Þórðarson, sem nýverið var ráðinn til að lýsa enska boltanum í Sjónvarpi Símans næsta hausti, hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni og byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings. En hvað kom til að hann tók þá ákvörðun að gera þetta að ævistarfi?

„Ég hef alltaf haft brjálaðan áhuga á íþróttum og ég held ég hafi alltaf vitað innst inni að þetta yrði framtíðarstarf mitt. Á þeim tíma var ekkert auðvelt að komast í starfið, held það sé auðveldara í dag, en þetta var árið 2007 og ég byrjaði með því að skrifa á fotbolti.net og hef haldið tryggð við þá síðan, meira að segja verið með útvarpsþátt í þeirra nafni í tíu ár. Ég fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin en var mjög metnaðarfullur, mætti á alla landsleiki og fullt af öðrum leikjum og skrifaði um þá og þá fóru einhverjir að taka eftir mér. Ég átti ágætis félaga sem heitir Benedikt Bóas og þegar það losnaði staða hjá honum á DV 2008 fór ég þangað. Settist við skrifborð þar 2. janúar 2008 í mínu fyrsta starfi sem blaðamaður á launum og hef síðan verið í þessu starfi í rúm ellefu ár,“

segir Tómas í ítarlegu forsíðuviðtali í Mannlífi. Frá DV fór Tómas yfir á Morgunblaðið, þar sem hann var í rúm tvö ár en þá fékk hann tilboð um starf hjá Fréttablaðinu og þrátt fyrir að líka vel á Mogganum endaði með því að hann tók því. „Ég kunni vel við mig á Mogganum og ætlaði ekkert að fara þaðan en 365 miðlar sóttu hart að fá mig yfir til sín og buðu mér hærri laun, þannig að ég bað um mjög litla kauphækkun hjá Mogganum til að vera þar áfram en yfirmenn þar höfðu ekki þá framtíðarsýn að halda mér. Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma. Þannig að ég gekk þaðan út, svolítið vonsvikinn yfir því að þeir vildu ekki halda í mig, og fór yfir á Fréttablaðið og Vísi í byrjun febrúar 2014 og hef verið þar síðan. Fylgdi svo Vísis- og Stöðvar 2 Sport-pakkanum yfir til Sýnar.“

Hvernig leggst í þig að skipta um vinnustað eftir svona langan tíma á sama stað? „Ég er náttúrlega að fara inn í nýtt fyrirtæki, í nýjar höfuðstöðvar með nýju fólki, þannig að maður þarf að fara í nafnaleikinn aftur,“ segir Tómas og glottir. „Það leggst bara vel í mig þótt ég sé í grunninn enginn maður breytinga og finnist mjög þægilegt að vera í því sem ég þekki. Ef ég fengi alltaf að velja í lífinu vildi ég helst bara borða það sama, vinna við það sama og gera það sama. Þetta eru reyndar kannski smáýkjur en mér líður mjög vel þar sem ég er en svona gerast bara kaupin á eyrinni í þessum bransa og ég er mjög sáttur.“

Árásin í Noregi: Sá grunaði með afbrotaferil að baki

|
|

Maðurin sem er talinn hafa orðið bróður sínum að bana í í Mehamn í Finmörku í Noregi í gærmorgun er með afbrotaferil að baki á Íslandi. Hafði hann haft í hótunum við hinn látna, sem hafði fengið nálgunarbann á bróður sinn.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem lögreglan í Meham sendi frá sér rétt í þessu. Lögregla hefur hingað til varist frétta af málinu en í tilkynningunni kemur fram að gæsluvarðhalds verði krafist yfir mönnunum tveimur sem ovoru handteknir í tengslum við málið; m.a. fjögurra vikna varðhaldi yfir þeim sem hleypti af skotvopninu. Skýrsla var tekin af vitnum í tengslum við málið í gær.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var lögregla kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 í gærmorgun. Maðurinn sem varð fyrir skotinu var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni. Maðurinn sem lét lífið eftir skotárásina hét Gísli Þór Þórarinsson. Hann var fertugur og búsettur í Meham.

Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að árásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi. Voru tveir menn handteknir vegna málsins, eftir að stolinn bíll fannst skammt frá.

Maðurinn sem er talinn hafa skotið hinn látna birti játningu og afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni skömmu eftir atvikið. Hann er 35 og var hálfbróðir hins látna og með afbrotaferil að baki á Íslandi. Hafði hann haft í hótunum við hinn látna, sem hafði fengið nálgunarbann sett á hann sem tók gildi fyrir rúmri viku eða 17. apríl, að því er kemur fram á RÚV.

Hinn maðurinn sem var handtekinn er 32 ára og neitar hann sök. Segir verjandi hann, Jens Bernhard Herstad að hann hafi rætt stuttlega við skjólstæðing sinn og skilji maðurinn ekki hvers vegna hann sitji í gæsluvarðhaldi. Mennirnir tveir koma til með að verða yfirheyrðir af lögreglu á næstu dögum.

Reynsluboltar með nýtt lag

Hljómsveitin KUL sendi nýlega frá sér lagið Hot Times en það er annað lagið sem sveitin sendir frá sér og fylgir þannig eftir laginu Drop Your Head sem kom út seinni hluta 2018.

KUL er hljómsveit með mikla reynslu að baki en meðlimir hljómsveitarinnar hafa allir verið virkir í íslensku tónlistarlífi um árabil, en hljómsveitina skipa Heiðar Örn Kristjánsson (Botnleðja, The Viking Giant Show, Pollapönk), Helgi Rúnar Gunnarsson (Benny Crespo’s Gang, Elín Helena, Horrible Youth), Hálfdán Árnason (Himbrimi, Sign, Legend) og Skúli Gíslason (The Roulette, Different Turns). Hljómsveitin vinnur þessa dagana að plötu með upptökustjóranum Arnari Guðjónssyni (Leaves, Warmland). Hægt er að hlusta á Hot Times á öllum helstu streymisveitum og á Albumm.is.

Árásin í Noregi: Nafn mannsins sem lést

Annar mannanna sem var handtekinn í tengslum við skotárásina í Mehamn í Finmörku í Noregi er bróðir hins látna.

Lögregla var kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 í fyrrinótt. Maðurinn sem varð fyrir skotinu var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.

Maðurinn sem lét lífið eftir skotárásina hét Gísli Þór Þórarinsson. Hann var fertugur.

Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að árásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi. Voru tveir menn handteknir vegna málsins.

Maðurinn sem er talinn hafa skotið hinn látna birti játningu og afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni skömmu eftir atvikið. Hann er 35 og var hálfbróðir hins látna.

Hinn, sem er grunaður um aðild að málinu, er 32 ára en hann neitar sök.

Mennirnir tveir koma til með að verða yfirheyrðir í dag. Báðir hafa stöðu grunaðs manns. Í Verdens Gang segir verjandi annars þeirra, Jens Bernhard Herstad að skjólstæðingur sinn neiti sök í málinu og segist ekki bera ábyrgð. Lögmaðurinn hyggst ræða við manninn í dag með aðstoð túlks.

Minn­ing­ar­at­höfn var haldin um Gísla Þór í Mehamn-kirkju í gær hjá séra Mariu Dale sókn­ar­presti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ríkir mikil sorg í Mehamn og eru íbúarnir í áfalli vegna málsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Færsla á Facebook frá öðrum hinna grunuðu lýsir skotárásinni sem óviljaverki

|
|

Annar mannanna sem handtekinn var í kjölfar skotárásar, í Mehamn í Finnmörku, sem varð íslenskum mann á fertugsaldri að bana baðst fyrirgefningar í færslu á Facebook og segist ekki hafa ætlað sér að skjóta manninn. Þetta kemur fram í umfjöllun norska blaðsins Verdens Gang (VG).

Leinan Mathiesen, lögreglustjóri í Porsanger, segir við VG  lögregluyfirvöld vinni enn að rannsókn málsins. Því séu upplýsingar af skornum skammti. Lögreglan hefur staðfest að þau hafi séð færsluna en yfirvöld vilja ekki tjá sig um innihald hennar.

Staðarmiðilinn iFinnmark segir að í færslunni komi fram að maðurinn hafi ekki ætlað sér að hleypa af skoti.

Lögregla var kölluð til um klukkan 5.30 í í nótt. Maðurinn var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.

Lítið vitað um íslenska tóbakið

Varað hefur verið við því að stóraukin tóbaksnotkun muni skila sér í hrinu krabbameina þegar fram í sækir. Um það er þó ekkert hægt að fullyrða því engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum íslenska neftóbaksins.

Í nýjasta tölublaði Mannlífs er fjallað ítarlega um stóraukna munntóbaksnotkun á meðal Íslendinga, en í fyrra seldust tæplega 45 tonn af íslensku munntóbaki sem að mestu er notað í vor. Aldrei áður hefur selst jafn mikið magn af tóbaki. Áhrifin af þessari miklu notkun eru þó enn ekki komin fram.

„Ég hef ekki séð neitt tilfelli á Íslandi enn þá þar sem einhver hefur fengið krabbamein í munn en reynslan af því að troða íslensku neftóbaki upp í munninn er ekki enn komin fram,“ segir Hannes Hjartarson, háls-, nef- og eyrnalæknir, sem hefur áratuga reynslu af lækningum á krabbameini í höfði og hálsi.

Umtalsverður munur er á íslensku neftóbaki og sænsku munntóbaki. Ekki bara er það íslenska umtalsvert sterkara og þar af leiðandi meira ávanabindandi heldur er kornastærðin meiri, það er bæði grófara og þurrara. Hannes undrast þá stefnu stjórnvalda að banna innflutning á sænsku munntóbaki, sem hefur verið margrannsakað, en á sama tíma heimila sölu á því íslenska sem ekkert er vitað um. „Það er búið að gera fjölda rannsókna í Svíþjóð og það hefur aldrei verið sýnt fram á að það valdi krabbameini í munni eins og margir hafa verið að slúðra um. Þótt það vissulega valdi ofholdgun og bólgum. Þess vegna væri miklu eðlilegra að nota það sem búið er að rannsaka og er ekki krabbameinsvaldandi frekar en eitthvað sem er miklu sterkara og við vitum ekkert hverjar afleiðingarnar eru til lengri tíma litið.“

Hvert höggið á fætur öðru hefur dunið á Arion

|
Arion

Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, er sigurvegari vikunnar á meðan hvert höggið á fætur öðru hefur dunið á Arion banka.

Góð vika – Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisráðherra hefur mátt þola töluverða gagnrýni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem vilja auka veg einkareksturs í heilbrigðiskerfinu. Svandís hefur kosið að svara fyrir sig á vellinum, ef svo má segja, og í vikunni skrifaði hún undir samstarfssamning við kollega sína í Noregi og Danmörku um sameiginlega þátttöku í lyfjaútboðum.

Ef vel tekst til gæti þetta þýtt umtalsvert lægri lyfjakostnað fyrir sjúklinga og fréttir um að alvarlega veikir einstaklingar fái ekki lyf vegna lyfjaskorts eða kostnaðar munu vonandi heyra til undantekninga. Þegar upp er staðið gæti þetta orðið stærsta einstaka afrek Svandísar á ráðherraferlinum.

Slæm vika – Arion banki

Það hefur hvert höggið á fætur öðru dunið á Arion banka undanfarnar vikur og mánuði. Bankinn hefur tapað miklum fjármunum á gjaldþrotum flugfélaganna Primera og WOW svo ekki sé minnst á vandræðaganginn í kringum kísilverksmiðjuna í Helguvík sem enn sér ekki fyrir endann á. Í vikunni kom svo bylmingshögg þegar Valitor var dæmt til að greiða rekstrarfélagi Wikileaks 1,2 milljarða í skaðabætur.

Í kjölfarið var send út afkomuviðvörun þar sem segir að tjón bankans vegna þessa nemi 600 milljónum króna. Bankastjórinn Höskuldur Ólafsson hvarf á braut á dögunum og ljóst að eftirmaður hans á ærið verk fyrir höndum.

Íslendingur látinn eftir skotárás í Noregi

Íslenskur maður á fertugsaldri lést eftir skotárás í Mehamn í Finmörku í Noregi í nótt. Aftenposten greinir frá.

Lögregla var kölluð tl um klukkan 5.30 í í nótt. Maðurinn var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.

Tveir menn voru handteknir vegna málsins. Þeir eru sagðir þekkja manninn en ekki kemur fram hver tengslin eru.

Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að skotárásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi.

Umboðsmaður Alþingis ítrekað óskað svara frá utanríkisráðuneytinu vegna Hauks Hilmarssonar

|
Mynd: Leikmenn án landamæra/Simon Downey|

Utanríkisráðuneytið hefur ítrekað hunsað fyrirmæli umboðsmanns Alþingis um svör vegna kvörtunar foreldrar Hauks Hilmarssonar sem fullyrt er að hafi fallið í Sýrlandi í febrúar árið 2018.

 

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, birti bréf umboðsmanns á Facebook í gær og gagnrýnir að stjórnsýslan telji sig ekki bundna af fyrirmælum umboðsmanns. „Ísland er landið þar sem mótmælendur eiga að hlýða löggunni þegar hún bannar þeim að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að láta skoðanir sínar í ljós. En líka landið þar sem stjórnsýslan þarf ekki að hlýða Umboðsmanni Alþingis,“ skrifar Eva.

Þann 8. júní næstkomandi stendu hópurinn Leikmenn án landamæra fyrir málþingi um hugsjónir Hauks Hilmarssonar. Málþingið fer fram í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar.

Leituðu til umboðsmanns til að knýja fram svör

Foreldrar Hauks leituðu til umboðsmanns Alþingis í nóvember á síðasta ári til að knýja fram svör frá utanríkisráðuneytinu um aðgerðir stjórnvalda vegna leitarinnar að Hauki og svara um afdrif hans. Fátt hefur verið um svör um beinar aðgerðir ráðuneytisins til aðstandenda vegna málsins. „Úrskurðarnefnd upplýsingamála gerði utanríkisráðuneytinu að afhenda okkur slatta af gögnum til viðbótar við það sem þau voru búin að láta okkur fá. Það voru ekki gögn heldur bara tímalína um það hverja hefði verið haft samband við en ekkert hægt að sjá nein samskipti. Okkur fannst úrskurður ÚNU ekki ganga nærri nógu langt og skorta rök fyrir því hversvegna við mættum ekki sjá meira.“ segir Eva í samtali við Mannlíf.

Í bréfi umboðsmanns til utanríkisráðuneytinsins sem dagsett er 26. apríl kemur fram að umboðsmaður hafi ítrekað óska svara en ekki fengið. „Ég leyfi mér að ítreka þau tilmæli í bréfi, dags 31. desember 2018 og 26. mars sl., að utanríkisráðherra láti umboðsmann Alþingis í té upplýsingar og skýringar í tilefni af kvörtun sem Eva Hauksdóttir og Hilmar Bjarnasona hafa borið fram með hliðsjón af því sem um er beðið í bréfi umboðsmanns,“ segir í bréfinu.

Tyrkneski fjölmiðlar fullyrtu snemma í mars árið 2018 að Haukur hafi fallið í loftárás Tyrkja á Badina-Dimilya í febrúar sama ár. Aðstandendur Hauks hafa síðan leitað svara og ekki hefur tekist að hafa upp á líkamsleifum Hauks.

„Rýr í roðinu“

Eva hefur gagnrýnt íslensk yfirvöld fyrir framtaksleysi og skort á svörum vegna hvarfs Hauks. Fyrir rúmu ári sagði hún á Facebook að gögn sem ráðuneytið hafi afhent henni séu heldur „rýr í roðinu“. „Ég sé því fram á margra mánaða ferli við að knýja fram rétt minn, fyrst í gegnum Úrskurðarnefnd um upplýsingamál og ef það dugar ekki þá í gegnum Umboðsmann Alþingis. Ég hef nóg annað að gera þessa dagana svo allar hugmyndir um skilvirkari leiðir eru vel þegnar,“ skrifaði Eva fyrir ári.

Málið er nú á borði umboðsmanns en lítið virðist bóla á svörum.

Efast um hina opinberu sögu

Síðastliðin mars fjallaði Stundin ítarlega um leitina að Hauk og sagði frá því að nánir vinir hans efist um hina opinberu frásögn af andláti Hauks. Blaðið ræddi við Snorra Pál Jónsson og Steinunni Gunnlaugsdóttir sem ásamt Fatimu, unnustu Hauks, hafa lagst í mikla rannsóknarvinnu og leitað svara. Frásagnir þeirra sem þau hafa rætt við af vettvangi eru á margan hátt á skjön við fyrrgreinda yfirlýsingu YPG. „Við höfum fengið þær upplýsingar eftir ýmsum leiðum að Haukur hafi horfið, ekki skilað sér til baka úr varnaraðgerð í kringum aðra viku febrúar. Félagar hans hafi leitað hans í um það bil tvær vikur, allt þar til YPG lýsti því yfir að hann væri fallinn. Sú yfirlýsing byggist á því einu að hægt var að staðfesta andlát annarra hermanna á þessu svæði á svipuðum tíma,“ segir Snorri Páll í viðtali við Stundina þar sem hann rekur með ítarlegum hætti hverju rannsókn þeirra hefur skilað og hverju ekki.

Hefur ráðherra „gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk“?

Margrét Tryggvadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn að Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, á þingi í nóvember síðastliðnum. Þar sagði hún fjölskyldu Hauks ekki hafa fengið skýr svör um hvað orðið hafi um líkamsleifar hans. „Hafa íslensk stjórnvöld spurt tyrknesk stjórnvöld beint hvað hafi orðið um líkamsleifar þeirra sem féllu í árásunum 24. febrúar sl.? Þegar ég segi beint á ég við ekki við hvort rætt hafi verið við sendiráð Tyrkja í Ósló eða aðrar diplómatískar leiðir notaðar heldur hvort utanríkisráðherra sjálfur hafi beitt sér sérstaklega og krafist svara frá tyrkneskum stjórnvöldum um afdrif Hauks Hilmarssonar. Hefur ráðherrann krafist þess að farið verði inn á svæði þar sem átökin voru og þeirra sem þar féllu leitað?“ spurði Margrét ráðherra. Guðlaugur Þór sagði þá að allra leiða hafi verið leitað vegna málsins. „Samstarfsríki okkar vöruðu við því í upphafi að staðan væri einstaklega flókin og erfitt að afla upplýsinga og var reyndin sú að þau hafa takmarkaða aðstoð getað veitt. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum um málið frá tyrkneskum stjórnvöldum og fengið staðfest eftir mörgum leiðum að þarlend stjórnvöld telji Hauk af. Fjölskylda hans hefur verið upplýst um það eins og öll önnur skref sem tekin hafa verið í leitinni að Hauki. Við teljum borgaraþjónustuþætti málsins lokið í bili en lögreglan rannsakar málið sem mannshvarf. Utanríkisþjónustan mun áfram eiga regluleg samskipti við fulltrúa tyrkneskra yfirvalda í tengslum við þetta mál. Íslensk stjórnvöld munu einnig tala áfram fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðlegum mannréttindum í Tyrklandi og annars staðar í tvíhliða samskiptum og á alþjóðavettvangi eftir því sem tækifæri gefst, til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópuráðinu og hjá ÖSE.“

Margrét ítrekaði þá fyrirspurnina og spurði ráðherra hvort hann telji sig „persónulega hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk eða lík hans ef hann er sannarlega látinn og tryggja að það verði flutt heim?“

Því svaraði utanríkisráðherra játandi. „Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa til í þessu máli. Ég hef m.a. rætt þetta við kollega mína í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það er mér til efs að stjórnvöld hafi gengið jafn langt í sambærilegu máli og við Íslendingar höfum gert. Ef það er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa frekar til við þetta erfiða mál munum við gera það. En við höfum leitað allra þeirra leiða sem við höfum talið geta hjálpað í þessu erfiða máli. Ef eitthvað kemur upp þannig að við teljum að við getum gert meira munum við auðvitað gera það.“

Guðlaugur Þór fundaði með efnahgsmálaráðherra Tyrklands

Utanríkisráðherra hitti Nihat Zeybekci efnahagsmálaráðherra Tyrklands í lok júlí árið 2018. Þá átti Guðlaugur Þór fund með honum á EFTA-fundi í Skagafirði. „Hann fullvissaði okkur um það að hann myndi skoða þetta og koma þá með upplýsingar til okkar. Ég vil trúa að hann geri það og ég vona svo sannarlega að við getum náð einhverjum árangri í þessu erfiða máli,“ sagði Guðlaugur við RÚV eftir fundinn.

Aðstandendur Hauks hafa opnað vefinn Leikmenn án landamæra sem tileinkaður er Hauki, leitinni af svörum og baráttu Hauks. „Sonur minn Byltingin helgaði líf sitt andófi gegn ríkisvaldi, auðvaldi og hervaldi. Hann stóð fyrir og tók þátt í beinum aðgerðum gegn umhverfisspjöllum, kapítalisma og fasisma, bæði á Íslandi og erlendis. Hann var virkur liðsmaður Saving Iceland í baráttunni gegn Kárahnúkavirkjun, sjálfboðaliði í Palestínu, meðlimur í Heimssambandi verkafólks, virkur í hústökuhreyfingum á Íslandi og í Grikklandi. Hann var frumkvöðull í baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi og vann að björgun flóttamanna í Grikklandi,“ segir í skrifum Evu um Hauk á vefnum.

Aðalmynd: Leikmenn án landamæra/Simon Downey

Skaðablót í Bíó Paradís

Það má reikna með að mikil stemning verði í Bíó Paradís laugardaginn 27. apríl þegar hið svokallaða Skaðablót verður haldið.

Fram koma: Bjarki, Video1. Plútó Djs, Bruce B2B Árni, Hermigervill, Van ta, Örvar Smárason, Tirador, Sólveig Matthildur, Jana Spacelight, Allenheimer, Good Moon Deer, Dynkur og Jade Gola. Stuðið hefst stundvíslega klukkan 20. Aðgangseyrir er 2.000 krónur. Forsala á tix.is.

„Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tómas Þór Þórðarson var í forsíðuviðtali á Mannlífi í gær þar sem hann sagði meðal annars frá mikilli lífsstílsbreytingu en árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en er í dag 105 kíló og í fínu formi. Undir það síðasta átti hann orðið erfitt með að koma sér fram úr rúminu og þyngdin hafði hamlandi áhrif á frama hans í starfi.

Spurður hvort offitunni hafi fylgt þunglyndi, setur Tómas fyrirvara. „Ég vil ekki hafa orðið þunglyndi í flimtingum,“ segir hann. „Ég hef aldrei verið greindur með þunglyndi en auðvitað var maður andlega þungur. Sérstaklega árið 2014 þegar ég náði botninum. Allt það ár upplifði ég mikla vanlíðan, fór ekki á fætur fyrr en rétt áður en ég átti að mæta í vinnuna á kvöldvakt klukkan fjögur. Ég bara komst ekki fram úr rúminu og fannst allt voðalega ómögulegt. Ég lifi að stórum hluta fyrir íslenska fótboltann en var hættur að geta farið á völlinn. Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

„ Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

Tómas segist ekki síst þakka hvatningu frá fólkinu í kringum hann að hann skyldi að lokum ákveða að prófa að taka mataræðið í gegn. „Allt í kringum mig var fólk sem vissi hvað í mér bjó, hvað ég gat og get varðandi vinnuna. Alveg frá því að ég lýsti mínum fyrsta leik hef ég fundið hvað það á vel við mig og ég geri það vel, eins og sést kannski á því að nú er verið að kaupa mig til að lýsa enska boltanum sem tugþúsundir horfa á – svo eitthvað hef ég verið að gera rétt. Ég hef kannski ekki mesta sjálfstraust í heimi, út af mínum komplexum í gegnum tíðina. Ég var alltaf að líta í kringum sig til að gá hvort einhver væri að benda á mig eða tala um mig sem byggði upp óöryggi og gerði mér erfitt fyrir að vera eitthvað breimandi af sjálfstrausti út á við.

„Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út.“

En samt sem áður þá hef ég alltaf vitað að í þessum eina geira, að minnsta kosti, þá get ég fjallað og talað um íþróttir og lýst þeim. Ég hef það, en gat aldrei verið fyrir framan myndavél, bara lýst leikjum þar sem enginn möguleiki var á að ég þyrfti að vera í mynd. Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló. Ég vissi samt að ég gat það og vissi líka að það voru fleiri á þeirri skoðun þótt ég væri ekki líkamlega í standi til þess. Það olli mér vanlíðan að vita hvað ég gat en þurfa að horfa á það líf sem ég gæti átt í gegnum einhverja rimla. Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út. Og sem betur fer braust ég á endanum út og er núna með tvo sjónvarpsþætti auk þess að lýsa oft beinum útsendingum og hef átt alveg frábær ár undanfarið.“

Rappópera á Grandagarði

Styrmir og Læknadeildin ætla að fagna útgáfu á bók- og vínilplötuverkinu What Am I Doing With My Life? að Grandagarði 27, á morgun, laugardaginn 27. apríl.

Verkið What Am I Doing With My Life? er hvort tveggja í senn rappópera á 12 tommu vínilplötu og bók með sérútbúnum tónlistarteikningum sem urðu til í kjölfarið á Evróputúr Styrmis Arnar Guðmundssonar og félaga sem hann eignaðist á ferðalaginu og mynda nú Læknadeildina. Fjörið hefst að Grandagarði 27 í dag klukkan 17 og stendur til klukkan 21.

Ekki lengur bara tískubylgja

Samfelld aukning á notkun munntóbaks er verulegt áhyggjuefni og er aukningin slík að ekki er hægt að tala um tískubylgju lengur. Notkun eykst þrátt fyrir að verð á tóbaki hafi hækkað um mörg hundruð prósent.

Í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR kom fram að sala á íslensku neftóbaki hafi aldrei veri ðmeiri en í fyrra. Selt magn nam tæplega 45 tonnum. Þó að um neftóbak sé að ræða er áætlað að á milli 70 til 80 prósent tóbaksins sé notað í munn samkvæmt rannsókn Embættis landlæknis. Notkunin er mest á meðal karlmanna á aldrin – um 18 til 34 ára. Í þessum aldurs – hópi nota 14 prósent karla tóbak í vör daglega og rúmlega 6 prósent sjaldnar en daglega. Heildarhlutfall ungra karlmanna sem notar tóbak er því tæplega 22 prósent.

Þetta er svipað og verið hefur undanfarin ár en það sem er nýtt er að ungar konur eru farnar að nota tóbak í vör í auknum mæli. „Það hefur orðið aukning á tóbaksnotkun ungra kvenna í Noregi en þetta er alveg ný mynd fyrir okkur. Þetta vekur upp áhyggjur þótt þessi viðbót skýri alls ekki alla aukninguna,“ segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis.

„Það hefur orðið aukning á tóbaksnotkun ungra kvenna í Noregi en þetta er alveg ný mynd fyri rokkur. Þetta vekur upp áhyggjur …“

Um tvö prósent kvenna á aldrinum 18 til 34 ára nota munntóbak daglega og 5 öðru hvoru. Árið 2002 nam selt magn neftóbaks 10,9 tonnum og hefur neyslan því fjórfaldast síðan þá þrátt fyrir að smásöluverð hafi aukist um mörg hundruð prósent. „Það er ekki hægt að kalla þetta tískubylgju lengur þegar við höfum verið að horfa upp á samfellda aukningu í 15 ár. Við sjáum í gögnum frá Svíþjóð að þegar ungir karlmenn eru orðnir háðir munntóbaki þá er meðalneysla 13 til 14 tímar á dag. Menn þurfa stöðugt að vera að nota tóbak og þar af leiðandi er erfitt að hætta,“ segir Viðar sem telur þrátt fyrir allt að verðstýring hafi haft áhrif.

„Ráðleggingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar þegar kemur að forvörnum eru númer eitt að hækka verð, sérstaklega þegar kemur að ungu fólki. Það voru miklar hækkanir 2013 og um þarsíðustu áramót og þá sló á aukninguna en áhrifin dvína eftir því sem lengra líður frá. Þannig að þessar hækkanir virka en þær þurfa að vera meira viðvarandi.“

Töldu að neyslan myndi deyja út
Upphaflegt markmið með banni á innflutningi munntóbaks að sporna við neyslu meðal ungmenna. Það kom því flatt upp á marga þegar fólk fór að taka upp á því að nota íslenska munntóbakið í vörina.

„Ég byrjaði að vinna í tóbaksvörnum árið 1998 og þá sáu menn þetta alls ekki fyrir. Ástæðan fyrir því að íslenskt neftóbak var selt áfram á Íslandi og ekki bannað samhliða hinu tóbakinu var ákvæði í EES-samningnum sem segir að ef það er vara fyrir á markaði sem hefur ákveðna hefð, þá mátti leyfa hana. Það var notað fyrir neftóbakið á sínum tíma og svo sáu menn fyrir sér að það myndi bara deyja út.“ Ekki hefur komið til tals innan embættisins að mæla með að banna íslenskt neftóbak með öllu líkt og gert var með það innflutta.

„Fyrir mörgum árum gerði ÍBR áhugaverða könnun sem leiddi í ljós að drengir sem stunda íþróttir nota tóbak í vör til jafns á við aðra sem eru ekki í íþróttum. Það er þess vegna ekki þannig að það sé algengara að íþróttafólk taki í vörina.“

Viðar segir að reglulega uppgötvi menn eitthvað nýtt þegar kemur að tóbaksnotkun. Þannig gáfu menn sér að þeir sem notuðu neftóbak í nefið væru einkum eldri karlmenn. „Svo þegar við gerðum stóra könnun árið 2012 sáum við að stærsti hópurinn var karlmenn á miðjum aldri. Notkunin minnkar stöðugt eftir því sem aldurinn
færist ofar eða neðar. Þetta breytti al gjörlega heimsmyndinni.“

Íþróttamenn hafðir fyrir rangri sök
Munntóbaksneysla hefur gjarnan verið tengd við íþróttaiðkun, það er að ungir menn komi saman í búningsklefanum fyrir og eftir æfingar og fái sér í vörina. Kannanir sýna hins vegar að þetta er byggt á falskri ímynd. „Fyrir mörgum árum gerði ÍBR áhugaverða könnun sem leiddi í ljós að drengir sem stunda íþróttir nota tóbak í vör til jafns á við aðra sem eru ekki í íþróttum. Það er þess vegna ekki þannig að það sé algengara að íþróttafólk taki í vörina. Þetta verður hins vegar sýnilegra meðal íþróttafólks og þess vegna er stutt í fullyrðingar að það sé fyrst og fremst íþróttafólk sem notar þetta, þótt það sé ekki endilega satt,“ segir Viðar.

Kviknaði á ljósaperu á heiðinni

Líkt og mörg frumkvöðlafyrirtæki fæddist hugmyndin að Feed the Viking við óvenjulegar aðstæður. Fyrirtækið framleiðir hollt og prótínríkt snakk úr þurrkuðu kjöti og fiski, best þekktu undir enska heitinu Jerky, en það nýtur mikilla vinsælda víða um heim.

Stofnandi fyrirtækisins, Friðrik Guðjónsson var í útkalli með Hjálparsveit skáta í Garðabæ sumarið 2016, þegar hann fékk en hann hefur verið félagi í sveitinni í rúmlega áratug. Hann segist alltaf hafa verið með bandarískt Beef Jerky með sér í ferðum og útköllum vegna þess hve fljót, handhæga og góða orku slík fæða gefi. „Í þessu tiltekna útkalli höfðu tveir aðilar örmagnast við göngu upp á Hellisheiði í vondu veðri. Eftir að hafa gefið þeim Beef Jerky og vatn fengu þeir nægilega orku til að labba niður af sjálfsdáðum og í kjölfarið  kviknaði á ljósaperu í kollinum á mér og hugmynd að eigin framleiðslu. Nú fá auðvitað allir sem ég hitti á fjöllum íslenskt Jerky til að bragða á.“

Náið samstarf

Fyrsta varan var Fish Jerky sem kom á markað í ágúst 2017 í samstarfi við Skinney-Þinganes. Tæpu ári síðar bættist Lamb Jerky við en viðtökurnar við báðum vörunum hafa verið algjörlega frábærar að hans sögn. „Í janúar á síðasta ári kom Ari Karlsson inn í reksturinn með mér eftir að hafa unnið með mér og Norðlenska í þróuninni á Lamb Jerky-vörunni. Við erum æskuvinir og okkur hefur lengi dreymt um að vinna saman. Ari er matreiðslumeistari að mennt og hefur alþjóðlega reynslu af hinni ýmsu matvælagerð sem nýtist svo sannarlega vel hjá félaginu. Við erum í mikilli vöruþróun og vorum til að mynda að bæta við Beef Jerky í byrjun apríl og kjötsúpan bætist svo við í sumar. Annars sér Ari að mestu um vöruþróun og sölu á meðan ég er meira í rekstrinum og erlendu sókninni en saman sjáum við um að pakka vörunum og keyra út pantanirnar.“

Sjálfur er Friðrik viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík og hefur stofnað og tekið þátt í rekstri á þremur öðrum fyrirtækjum áður enn hann stofnaði Feed the Viking.

Kjötbragðið nýtur sín

Jerkey-vörurnar eru með sterka skírskotun í íslenskar matarhefðir að sögn Friðriks og er öllum aukefnum, svo sem sykri og salti, stillt í eins mikið hóf og mögulegt er. „Lamb Jerky er t.d. kryddað með íslensku sjávarsalti og kryddblöndu sem amma hans Ara notaði fyrir sunnudagslærið þegar hún eldaði fyrir fjölskylduna. Beef Jerky er örlítið sterkari enda með chili-pipar. Þó eiga báðar vörurnar það sameiginlegt að þær leyfa kjötbragðinu að njóta sín. Öll framleiðsla okkar er úr íslensku hráefni og unnin hér á landi. Því er um atvinnuskapandi framleiðslu að ræða þar sem mörg eru handtök eru í framleiðsluferlinu.“

Nýta hraðalinn vel

Félagarnir segjast gríðarlega stoltir og ánægðir með að hafa verið valdir í viðskiptahraðalinn og ætla svo sannarlega að nýta sér hann út í ystu æsar. „Við erum komnir vel á veg með vörurnar okkar en þær  eru nú til sölu á öllum helstu ferðamannastöðum á landinu auk þess sem þær fást einnig í vefverslun okkar og á Amazon. Í viðskiptahraðlinum fáum við leiðbeiningar og handleiðslu við að stækka fyrirtækið okkar og sækja á ný markaðssvæði með hjálp frá því frábæra tengslaneti sem við erum að tengjast. Hingað til höfum við fyrst og fremst selt vörur okkar til erlendra ferðamanna sem sækja landið heim en einnig höfum átt í góðum viðræðum við nokkrar innlendar matvörubúðir og vonumst til að geta hafið sölu á vörunum okkar til íslenskra neytanda núna í sumar. Stefnan er því sett enn frekar á íslenska smásölumarkaðinn en við horfum líka mikið til útflutnings. Við erum að fá miklu meiri og betri viðbrögð við vörum okkar á Amazon en við áttum von á og höfum þær nú til sölu í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og Þýskalandi og bætum Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Mexíkó við á næstu misserum. Þannig að það eru mjög spennandi tímar fram undan hjá okkur.“

Gefandi umhverfi

Íslenska frumkvöðlaumhverfið er ekki nýtt fyrir Friðriki sem hefur, eins og áður segir, komið að stofnun og rekstri nokkurra fyrirtækja. „Ég er mjög hrifinn af frumkvöðlaumhverfinu hérlendis og hef starfað í því í áratug. Bæði hef ég séð um rekstur á hugmyndum sem voru komnar af stað og eins stofnað fyrirtæki og síðar selt það. Hugmyndin þarf að sjálfsögðu að vera góð, það þarf að vera markaður fyrir hana og svo þarf að þekkja helstu gildrur og hættur sem fylgja fyrirtækjarekstri. Þetta er mjög langt frá því að vera auðvelt en þetta er gefandi og getur verið vel þess virði þegar vel gengur.“

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Þorði ekki að segja frá klikkuninni

Undirstaðan í snyrtivörunum frá Beauty by Iceland eru gulrætur og rófur úr blómlegum sveitum Suðurlands.

Erna Hödd Pálmadóttir ólst upp í sveit á Suðurlandi þar sem grænmetisframleiðsla hefur staðið í miklum blóma í áratugi og varð fyrir vikið snemma meðvituð um næringargildi grænmetis. Það vakti athygli hennar á unga aldri hversu mikið af grænmetisframleiðslu fjölskyldunnar var sent til baka frá verslunum og um leið hversu mikið af grænmeti fékk aldrei að fara úr vöruhúsinu vegna útlitsgalla.

„Á þessum árum var ég farin að huga meira að heilbrigði húðarinnar og sá þá möguleikann sem var beint fyrir framan mig öll þessi ár, þ.e. að framleiða snyrtivörur úr íslensku og næringarríku grænmeti sem er útlitsgallað og ekki talið söluhæft. Fjölskyldan ræktar gulrætur og rófur sem eru ríkar af vítamínum og ég sá tækifæri í að framleiða snyrtivörur úr þeim.“

Hún ákvað því að leggja allt undir og setti á fót fyrirtækið Beauty by Iceland samhliða námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Búa yfir mikilli hollustu

Í fyrstu hóf Erna að afla sér heimilda erlendis frá þar sem rannsóknir hafa verið gerðar á hráefninu og sá þá betur hvernig hún gæti hagað framleiðslu sinni. „Ég viðurkenni það alveg að ég þorði ekki að segja neinum frá þessari klikkun til að byrja með. Mögulega hafði ég ekki trú á sjálfri mér en einnig hafa íslenskir snyrtivöruframleiðendur ekki notast mikið við matvæli í framleiðslu sinni, utan sjávarfangs, eftir því sem ég best veit.“

Undirstaðan í framleiðslunni eru gulrætur og rófur sem búa yfir mikilli hollustu að hennar sögn. „Gulrætur eru ríkar af andoxunarefnum en þau vítamín sem við varðveitum í vörunum eru A-, C- og E-vítamín auk fosfórs en þessi efni eru nauðsynleg fyrir heilsu húðar, hárs og taugar líkamanns.“

Rófurnar eru ekki síðri að hennar sögn en þær innihalda m.a. natrín, kalín, sykrur, A-, C- og D-vítamín, kalsín, magnesíum og járn. „Þegar C-vítamíni er bætt við daglega umhirðu húðar jafnar það húðlit og ver hana fyrir sýnilegum áhrifum mengunar auk þess að bæta rakastig og viðhalda unglegri húð.“

Ótrúlega þakklátar

Í dag starfa tveir starfsmenn hjá fyrirtækinu. Utan Ernu, sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra, er Bóel Guðlaugsdóttir fjármálastjóri og saman vinna þær að vöruþróun. „Við höfum einnig fengið inn fagaðila að ólíkum verkefnum, t.d. efnafræðing, hönnuð og annað fagfólk á snyrtivörumarkaði.“

Hún segir þær alls ekki hafa búist við því að komast inn í viðskiptahraðalinn þegar þær skiluðu umsókninni. „Því erum við svo ótrúlega þakklátar fyrir að fá að taka þátt. Við höfum sett okkur mælanleg markmið í þróun á vörunum en þar sem framleiðslan er árstíðabundin nýtum við hraðalinn til að byggja upp markaðssetningu og vöruþróun. Það hefur verið ómetanlegt að fá innsýn í alla þá vitneskju sem þetta stórkostlega fólki býr yfir sem kemur að hraðlinum og er að aðstoða okkur. Fyrstu vikurnar hafa sannarlega farið fram úr væntingum okkar.“

Skemmtileg samkeppni

Erna segir grunngildi fyrirtækisins snúa að því að allir eigi rétt á því að líða vel með sjálfan sig og húð sína. „Því erum við fyrst og fremst að horfa til þeirra hópa sem eiga við húðvandamál að stríða. Vörur okkar munu innihalda þessi vítamín sem ég minntist á áðan en engum óæskilegum aukefnum er bætt við. Flestir vita að grænmeti er hollt og því ættu allir að geta borið það á sig líka, jafnvel borðað það.“

Mjög mikil samkeppni ríkir á snyrtivörumarkaði en Erna lítur ekki á hana sem ógn heldur segir hana bara vera skemmtilega. „Þau fyrirtæki sem eru í snyrtivöruframleiðslu á Íslandi eru mörg hver að gera stórkostlega hluti. Því tel ég að Beauty by Iceland geti einnig lært mikið af þeim í stað þess að líta á þau sem ógn, því neytandinn er að leita að mismunandi vörum sem hægt er að blanda saman.“

Margir tilbúnir að hjálpa

Aðspurð um framtíðarhorfur segir Erna stefnu fyrirtækisins vera að fá sem flesta grænmetisbændur hérlendis í lið með sér og þróa bestu snyrtivörur sem völ er á. „Til þess munum við nota hráefni sem aðrir sjá ekki tækifæri í að nota, þar með talið aðrar tegundir grænmetis sem hafa frábæra kosti fyrir húðumhirðu. Alþjóðlegur markaður er stór og ef við tökum nágrannaþjóðir okkar þá er sóun matvæla enn stærra vandamál þar. Þetta hráefni viljum við nýta í okkar framleiðslu á næstu árum.“

Hún segir íslenskt samfélag vera að vakna til meðvitundar um hversu mikils virði landbúnaður sé í raun og veru. „Þau fyrirtæki sem hafa farið í gegnum svona viðskiptahraðal eru að gera frábæra hluti og ég tel að frumkvöðlaumhverfið sé mjög opið fyrir frábærum hugmyndum. Ekki má heldur gleyma að nefna hversu margir eru tilbúnir að aðstoða með hugmyndir og vísa manni á réttan stað. Það er sannarlega mikils virði og mun leiða til enn frekari verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.“

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Tryggja ferskleika alla leið til kaupandans

Tracio er nýtt upplýsingakerfi fyrir matvælaiðnað sem eykur rekjanleika, skilvirkni og traust í virðiskeðju matvæla.

Stefán P. Jones hefur verið viðloðandi sjávarútveg frá því hann var þrettán ára gamall og því ekki furða að hugmyndir hans um næstu kynslóð rekjanleika og upplýsingakerfa sem eykur skilvirkni og traust í virðiskeðju matvæla, megi rekja þangað. „Eftir ellefu ár á sjó fór ég í land og stofnaði sölu- og útflutningsfyrirtæki þar sem ég keypti og seldi fiskafurðir til Evrópu. Þar upplifði ég alls kyns vandamál í virðiskeðju fisksendinga, t.d. að vita nánast ekkert um vöruna eftir að hún lenti á meginlandinu. Fyrir vikið tapaði ég oft háum fjárhæðum vegna gæðavandamála sem ég gat með engu móti leyst sökum þess að ég hafði engar áreiðanlegar upplýsingar um meðhöndlun vörunnar.“

Í úrslit í frumkvöðlakeppni

Í kjölfarið segist hann hafa fengið mikinn áhuga á því hvernig leysa mætti slík vandamál með svo kallaðri IoT-tækni sem á þeim tíma var mjög dýr. „Það var svo árið 2015 sem ég kom auga á áhugaverða tækni sem byggir á prentanlegum rafrásum og skynjurum. Sú tækni er margfalt ódýrari en hefðbundinn IoT-búnaður, lögun þess örþunn og þar með hægt nota eins og hefðbundinn merkimiða.“

Árið 2016 stofnaði Stefán fyrirtækið Seafood IQ þar sem stefnan var að þróa prentanlega skynjara í samstarfi við leiðandi hátæknifyrirtæki frá Suður-Afríku. „Skynjarinn og hugbúnaðurinn áttu að vera sérstaklega hannaðir fyrir sjávarútveg. Við fengum strax fínar móttökur og fengum t.d. tvenn nýsköpunarverðlaun auk þess að komast í úrslit í frumkvöðlakeppni sem haldin var í Stanford-háskólanum í Bandaríkjunum.“

Mikil stefnubreyting

Eftir miklar viðræður við framleiðendur hér á landi tók fyrirtækið stefnubreytingu árið 2018 sem miðaði af því að taka inn landbúnað og þar með setja fókusinn á almenn matvæli undir nýjum hatti Tracio. „Við þessar breytingar, ásamt nýju viðskiptamódeli, fengum við byr undir báða vængi og má segja að tækifærin séu nú margfalt meira spennandi þar sem við erum komnir á risavaxinn markað, búnir að lækka fjárþörf til muna og sjáum fram á að geta markaðssett okkar fyrstu vöru á næstu mánuðum.“

Margar lausnir í einum pakka

Stefán útskýrir betur hvað Tracio gengur út á. „Um er að ræða nýtt upplýsingakerfi fyrir matvælaiðnað. Ólíkt samkeppninni mun Tracio-„platformið“ bjóða í framtíðinni allt á einum stað: lausnir sem hjálpa fyrirtækjum í matvælaiðnaði að auka samkeppnishæfni, skapa traustan rekjanleika, lækka áhættu og tryggja ferskleika á vörum þeirra til kaupanda. Með því að selja margar lausnir í einu „platformi“ skapast mikil hagræðing. Það mætti líkja Tracio við Office-pakkann frá Microsoft en samkeppnin sem treystir á eitt tekjustreymi komandi frá t.d. rekjanleika þjónustu mun seint geta keppt við okkur.“

Tryggir gæðin

Fyrsta vara fyrirtækisins heitir Tracio assurance en um er að ræða nýja þjónustu sem byggir á skynjara fyrirtækisins, Temp Tracker Pro, sem mælir nákvæmt hitastig matvæla í flutningsferlinu og birgðageymslum segir Stefán. „Þessi þjónustulausn mun auka gagnsæi, rekjanleika og tryggja gæði í flutningsferlinu auk þess að straumlínulaga birgðaumsýslu og vörustjórnun. Matvara sem er vöktuð með Tracio assurance skapar traustan rekjanleika og kemur í veg fyrir slæma meðhöndlun í virðiskeðjunni og tryggir þar með gæði til kaupanda.“

Í góðum félagsskap

Vinnudagarnir hafa verið langir hjá Stefáni síðustu árin og hann segist sinna mörgum hlutverkum innan fyrirtækisins. „Ég hef legið yfir þessu síðustu fjögur árin því ég tel mjög mikilvægt að vita nákvæmlega hvernig búnaðurinn virkar svo ég geti áttað mig betur á hvaða möguleikar eru í boði þegar kemur að vöruþróun.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Allt í einu farin að hlusta á Jóa P og Króla

|||
|||

Listakonan Eyrún Ósk Jónsdóttir kveðst nota tónlist mikið til að koma sér í ákveðinn gír. Þessa dagana er hún að skrifa bók og notar hana þá til að fá innblástur og hvatningu.

 

Töfrandi föstudagar

Platan Töfrabörn með Ragnheiði Gröndal.

„Á föstudögum er ég enn í sköpunargírnum og skrifa eitthvað fram eftir kvöldi. Undanfarið hafa tveir tónlistarmenn gert föstudagskvöldin mín töfrandi, báðir með rætur í þjóðlagastílnum sem ég hef alltaf heillast hvað mest af. Það er annars vegar nýja platan hennar Ragnheiðar Gröndal Töfrabörn. Eins og nafnið gefur til kynna er eitthvað einstaklega töfrandi við þessa plötu. Þarna staðfestir Ragnheiður enn á ný að hún er ein stórkostlegasta tónlistarkona sem við eigum. Og svo er það nýja platan hans Ólafs Torfasonar, Hamskipti. Ég var heilluð eftir útgáfutónleika sem hann hélt í Fríkirkjunni í síðasta mánuði. Tónlistin talaði beint inn í hjarta mitt og ég upplifði einhverjar nýjar víddir.“

Rokkaðir laugardagar

„Á laugardögum finnst mér svo gott að fara í ræktina snemma, sonur minn er alltaf að biðja mig að setja á lög fyrir sig með Jóa Pé og Króla og svo allt í einu er ég farin að hlusta á þá sjálf í ræktinni og dúndra í Áfram Jóipé og Í átt að tunglinu þegar ég er að lyfta, svona í bland við Skunk Anansie auðvitað sem er alltaf í uppáhaldi. Svo ef veðrið er gott þá er gaman að fara í lítið „road trip“ aðeins út fyrir bæinn á laugardagseftirmiðdegi. Þá er vinsælt að skella Meatloaf í tækið. Uppáhaldslagið mitt í heiminum er einmitt með honum og heitir Rock and Roll Dreams Comes Through. Það lag hefur komið mér í gegnum ýmsar hindranir á lífsleiðinni.“

Rólegir sunnudagar

Eyrún Ósk hlustar gjarnan á Tom Waits á sunnudögum.

„Á sunnudögum er ég meira róleg heima, kannski að taka til eða leysa lífsgátuna í samræðum við manninn minn og þá er gott að hlusta á Tom Waits saman eða tónlist sem við erum nýbúin að uppgötva. Það er t.d. ungur drengur sem kallar sig Flammueus sem tók þátt í Músíktilraunum í ár með hljómsveit sinni. Við vorum alveg heilluð og ég mæli með að fólk hlusti t.d. á lagið Jenny með þeim yfir sunnudags-vegansteikinni.“

Munntóbaksnotkun ungra kvenna færist í vöxt

Sú ákvörðun að banna sölu fínkorna neftóbaks og munntóbaks var hluti af víðtækum tóbaksvarnarlögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 1996.

Neysla munntóbaks var reyndar ekki sérlega útbreidd á þessum tíma og fáheyrt að íslenska neftóbakið væri notað undir vör, eða eins og segir í greinargerð frumvarpsins: „Tóbaksneysla er hér um bil úr sögunni og neysla neftóbaks sem framleitt er hér á landi hefur dregist mjög saman og er að mestu leyti bundin við roskna karlmenn.“

Hins vegar var bent á að tóbaksframleiðendur væru að markaðssetja nýjar tegundir munntóbaks sem blandað væri bragðefnum og ætlað að höfða til ungs fólks. Þessi tegund tóbaks væri ekki síður ávanabindandi en reyktóbak. ÁTVR flutti ekki inn slíkt tóbak en það gerði tóbaksbúðin Björk og dreifði til verslana og einstaklinga. „Þetta hefur leitt til staðbundinna neyslufaraldra meðal barna og unglinga og hafa borist uggvænlegar fréttir þar að lútandi. Við þessu þarf að bregðast af fullri einurð.“ Sem sagt, markmiðið með því að banna vöruna var að vernda ungviðið.

Þessi aðferð hefur mistekist illilega eins og tölurnar sýna. Könnun Gallup fyrir Landlæknisembættið sýnir að langstærsti hópurinn sem notar munntóbak eru karlmenn á aldrinum 18 til 34 ára. Þá færist munntóbaksnotkun meðal ungra kvenna í vöxt. Í langflestum tilvikum nota þessir hópar íslenskt neftóbak til verksins, vöru sem var „að mestu leyti bundin við roskna karlmenn“ þegar lögin voru samþykkt.

Þórdís Kolbrún hjólar í andstæðinga þriðja orkupakkans og segir þá fara með „hrein ósannindi“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra segir áhyggjur fólks vegna þriðja orkupakkans meðal annars tilkomnar vegna þess að „menn með málefnalega innistæðu í gegnum áratugina eru að halda einhverju fram sem að sjálfsögðu hræðir fólk.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var gestur í Silfrinu á RÚV í morgun og ræddi þar meðal annars ólgu vegna þriðja orkupakkans. Hún sagði andstæðinga orkupakkans fara fram með „hrein ósannindi“ og tók undir með þáttastjórnanda að málið væri „ótrúlega skrítið“.

Hún sagði innleiðingu orkutilskipana Evrópusambandsins eiga sér langan aðdraganda. „Í grunninn eru allar þessar þrjár raforkutilskipanir – þessir þrír pakkar –  svipaðir í eðli sínu. Þeir snúa ekki að aðgangi að auðlindum heldur að aðgangi að innviðum. Við erum að tala um jafnan aðgang að flutningsinnviðum í þágu frjálsra viðskipta. Það er ferli sem hófst löngu löngu fyrir mína tíð.“ – Jafnvel í tíð þeirra sem berjast hvað hatramast gegn þessu núna? „Það er nákvæmlega þannig. Þessir pakkar skilda engan til að byggja ákveðna innviði. Bara alls ekki. Að halda því fram að þetta snúi að því, einkavæðingu Landsvirkjunar eða sölu á einhverjum auðlindum eru bara hrein ósannindi,“ sagði ráðherra.

Sjá einni: Orkupakkinn skekur stjórnmálin

Aðspurð hvort hún væri að halda því fram að andstæðingar pakkans fari fram með rangfærslur sagði ráðherra svo vera. „Já, já, þeir eru það. Þegar sagt er; næsta skref er að einkavæða Landsvirkjun og skipta henni upp. Það er ekki rétt. Þegar sagt er; næsta skref er bara að leggja sæstreng eða við munum vera skyldug til að leggja sæstreng. Það er ekki rétt. Þegar sagt er; við munum missa forræði á auðlindum okkar. Það er ekki rétt. Það er alveg sama hversu oft hetjur lyklaborðsins halda einhverju fram. Það verður ekkert satt fyrir vikið. Það er þetta sem mér finnst við þurfa að svara.“

„Mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.“

Ráðherra sagði málið efnislega lítið en að það snerti á miklum hagsmunum í tengslum EES-samninginn. „Það mun enginn eftir ár sitja og segja heyrðu rosaleg snilld var þessi þriðji orkupakki það er bara allt annað líf á Íslandi í dag. Það er heldur ekki þannig að eftir ár muni fólk segja hvað varð um fossana okkar, hvað varð um landsvirkjun og stýringu okkar á auðlindum við það að samþykkja þennan þriðja orkupakka. Hann er hluti af fjórða viðauka EES-samningsins sem mörg fyrirtæki byggja mjög verulega á. Á aðgangi inn á Evrópu og hann er hluti af EES samningnum sem skiptir okkur ótrúlega miklu máli og er mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.“

„Sjálfstæðisflokkurinn er fremstur þegar kemur að alþjóðasamvinnu“

Aðspurð hvort hennar eigin flokkur hafi staðið sig nægilega vel í að tala fyrir alþjóðasamstarfi og mikilvægi EES-samningsins og þá hugsanlegum áhrifum þess sagði ráðherra umræðuna sína að sumir hafi villst af leið. „Þetta er mjög góð spurning. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað þurft – og þurft segi ég – að eyða mjög miklum tíma og orku í að tala gegn aðild að Evrópusambandinu. Það má spyrja hvaða áhrif það hefur haft á almenna umræðu um alþjóðasamvinnu og samvinnu innan Evrópu. Mér finnst þetta svolítið sýna að einhverjir hafa villst af leið í því. Þetta sýnir að við munum ekki bara núna, og þetta klárast ekki í þessu máli, að við munum þurfum að halda vel á lofti kostum þess að vera í þessu samstarfi og hvað EES-samningurinn þýðir fyrir okkur. Saga Sjálfstæðisflokksins sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er fremstur þegar kemur að alþjóðasamvinnu og það er sú saga sem við eigum. Ég held að við séum núna á ákveðnum – ég segi kannski ekki krossgötum – en við munum þurfa að eyða mjög miklum tíma í að tala fyrir því. Og marka okkur þá skýru stöðu sem við höfum í gegnum söguna verið í, til þess að tryggja bara lífskjör Íslendinga hér. Þessi aðgangur að þessum mörkuðum. Við erum útflutningsþjóð. Þetta skiptir okkur öllu máli. Við erum að nýta fullveldi okkar til þess að vera í slíku samstarfi.“

Málefni hælisleitenda „tragískur spegill á stefnu stjórnvalda“

„Það er endalaust verið að moka fólki til Grikklands án þess að við þurfum þess,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi aðstoðarkona Þorsteins Víglundssonar  félags- og jafnréttismálaráðherra, í Silfrinu á RÚV í morgun. Hún starfar nú hjá Ríkissaksóknara. „Mér finnst þetta tragískur spegill á stefnu stjórnvalda.“

Ummælin lét Þorbjörg falla er rætt var um aukna einangrunarhyggju í stjórnmálum hér heima og erlendis. Þorbjörg sagði dæmi um hvernig sú þróun sést hér á landi meðal annars vera umræðan um þriðja orkupakkann sem og afstöða Íslands til flóttafólks.  „Við Sjáum þetta í afstöðu okkar, og að einhverju leiti stjórnvalda líka, til þess hvernig Ísland ætla að taka þátt í því að taka á móti flóttamönnum og axla sína ábyrgð þar. Mér finnst það algjörlega skýr spegill á þetta sama trend.“

Sjá einnig: „Hér er friður eins og ég hef aldrei upplifað áður“

Hún nefnd mál Zainab Safari 14 ára nemanda við Hagaskóla sem fyrirhugað er að vísa úr landi. Um 600 nemendur skólans hvöttu stjórnvöld til að tryggja henni og fjölskyldunni öruggt heimili á Íslandi. Kærunefnd útlendingamála hafnaði um miðjan apríl kröfu fjölskyldu Zainab um að fá að vera hér á landi. Að óbreyttu verður fjölskyldunni því vísað úr landi. Þá var mál sýrlenskrar flóttakonu sem starfaði á leikskólanum Vinagarði nefnd sem annað dæmi. Konan kallar sig Sophiu þar sem hún telur ekki óhætt að koma fram undir nafni. Umsókn hennar var ekki tekin til efnismeðferðar. Í niðurstöðu íslenskra yfirvalda segir að hún hafi þegar hlotið vernd í Grikklandi.

Þorbjörg sagði þessi mál dæmi um fólk sem augljóslega væri að koma úr erfiðum aðstæðum. „Við höfum alla getu, alla burði og allar heimildir til að taka á móti þessu fólk. Það er pólitísk afstaða að gera það ekki.“

Fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin

Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Tómas Þór Þórðarson, sem nýverið var ráðinn til að lýsa enska boltanum í Sjónvarpi Símans næsta hausti, hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni og byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings. En hvað kom til að hann tók þá ákvörðun að gera þetta að ævistarfi?

„Ég hef alltaf haft brjálaðan áhuga á íþróttum og ég held ég hafi alltaf vitað innst inni að þetta yrði framtíðarstarf mitt. Á þeim tíma var ekkert auðvelt að komast í starfið, held það sé auðveldara í dag, en þetta var árið 2007 og ég byrjaði með því að skrifa á fotbolti.net og hef haldið tryggð við þá síðan, meira að segja verið með útvarpsþátt í þeirra nafni í tíu ár. Ég fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin en var mjög metnaðarfullur, mætti á alla landsleiki og fullt af öðrum leikjum og skrifaði um þá og þá fóru einhverjir að taka eftir mér. Ég átti ágætis félaga sem heitir Benedikt Bóas og þegar það losnaði staða hjá honum á DV 2008 fór ég þangað. Settist við skrifborð þar 2. janúar 2008 í mínu fyrsta starfi sem blaðamaður á launum og hef síðan verið í þessu starfi í rúm ellefu ár,“

segir Tómas í ítarlegu forsíðuviðtali í Mannlífi. Frá DV fór Tómas yfir á Morgunblaðið, þar sem hann var í rúm tvö ár en þá fékk hann tilboð um starf hjá Fréttablaðinu og þrátt fyrir að líka vel á Mogganum endaði með því að hann tók því. „Ég kunni vel við mig á Mogganum og ætlaði ekkert að fara þaðan en 365 miðlar sóttu hart að fá mig yfir til sín og buðu mér hærri laun, þannig að ég bað um mjög litla kauphækkun hjá Mogganum til að vera þar áfram en yfirmenn þar höfðu ekki þá framtíðarsýn að halda mér. Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma. Þannig að ég gekk þaðan út, svolítið vonsvikinn yfir því að þeir vildu ekki halda í mig, og fór yfir á Fréttablaðið og Vísi í byrjun febrúar 2014 og hef verið þar síðan. Fylgdi svo Vísis- og Stöðvar 2 Sport-pakkanum yfir til Sýnar.“

Hvernig leggst í þig að skipta um vinnustað eftir svona langan tíma á sama stað? „Ég er náttúrlega að fara inn í nýtt fyrirtæki, í nýjar höfuðstöðvar með nýju fólki, þannig að maður þarf að fara í nafnaleikinn aftur,“ segir Tómas og glottir. „Það leggst bara vel í mig þótt ég sé í grunninn enginn maður breytinga og finnist mjög þægilegt að vera í því sem ég þekki. Ef ég fengi alltaf að velja í lífinu vildi ég helst bara borða það sama, vinna við það sama og gera það sama. Þetta eru reyndar kannski smáýkjur en mér líður mjög vel þar sem ég er en svona gerast bara kaupin á eyrinni í þessum bransa og ég er mjög sáttur.“

Árásin í Noregi: Sá grunaði með afbrotaferil að baki

|
|

Maðurin sem er talinn hafa orðið bróður sínum að bana í í Mehamn í Finmörku í Noregi í gærmorgun er með afbrotaferil að baki á Íslandi. Hafði hann haft í hótunum við hinn látna, sem hafði fengið nálgunarbann á bróður sinn.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í tilkynningu sem lögreglan í Meham sendi frá sér rétt í þessu. Lögregla hefur hingað til varist frétta af málinu en í tilkynningunni kemur fram að gæsluvarðhalds verði krafist yfir mönnunum tveimur sem ovoru handteknir í tengslum við málið; m.a. fjögurra vikna varðhaldi yfir þeim sem hleypti af skotvopninu. Skýrsla var tekin af vitnum í tengslum við málið í gær.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum var lögregla kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 í gærmorgun. Maðurinn sem varð fyrir skotinu var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni. Maðurinn sem lét lífið eftir skotárásina hét Gísli Þór Þórarinsson. Hann var fertugur og búsettur í Meham.

Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að árásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi. Voru tveir menn handteknir vegna málsins, eftir að stolinn bíll fannst skammt frá.

Maðurinn sem er talinn hafa skotið hinn látna birti játningu og afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni skömmu eftir atvikið. Hann er 35 og var hálfbróðir hins látna og með afbrotaferil að baki á Íslandi. Hafði hann haft í hótunum við hinn látna, sem hafði fengið nálgunarbann sett á hann sem tók gildi fyrir rúmri viku eða 17. apríl, að því er kemur fram á RÚV.

Hinn maðurinn sem var handtekinn er 32 ára og neitar hann sök. Segir verjandi hann, Jens Bernhard Herstad að hann hafi rætt stuttlega við skjólstæðing sinn og skilji maðurinn ekki hvers vegna hann sitji í gæsluvarðhaldi. Mennirnir tveir koma til með að verða yfirheyrðir af lögreglu á næstu dögum.

Reynsluboltar með nýtt lag

Hljómsveitin KUL sendi nýlega frá sér lagið Hot Times en það er annað lagið sem sveitin sendir frá sér og fylgir þannig eftir laginu Drop Your Head sem kom út seinni hluta 2018.

KUL er hljómsveit með mikla reynslu að baki en meðlimir hljómsveitarinnar hafa allir verið virkir í íslensku tónlistarlífi um árabil, en hljómsveitina skipa Heiðar Örn Kristjánsson (Botnleðja, The Viking Giant Show, Pollapönk), Helgi Rúnar Gunnarsson (Benny Crespo’s Gang, Elín Helena, Horrible Youth), Hálfdán Árnason (Himbrimi, Sign, Legend) og Skúli Gíslason (The Roulette, Different Turns). Hljómsveitin vinnur þessa dagana að plötu með upptökustjóranum Arnari Guðjónssyni (Leaves, Warmland). Hægt er að hlusta á Hot Times á öllum helstu streymisveitum og á Albumm.is.

Árásin í Noregi: Nafn mannsins sem lést

Annar mannanna sem var handtekinn í tengslum við skotárásina í Mehamn í Finmörku í Noregi er bróðir hins látna.

Lögregla var kölluð til á staðinn um klukkan 5.30 í fyrrinótt. Maðurinn sem varð fyrir skotinu var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.

Maðurinn sem lét lífið eftir skotárásina hét Gísli Þór Þórarinsson. Hann var fertugur.

Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að árásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi. Voru tveir menn handteknir vegna málsins.

Maðurinn sem er talinn hafa skotið hinn látna birti játningu og afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni skömmu eftir atvikið. Hann er 35 og var hálfbróðir hins látna.

Hinn, sem er grunaður um aðild að málinu, er 32 ára en hann neitar sök.

Mennirnir tveir koma til með að verða yfirheyrðir í dag. Báðir hafa stöðu grunaðs manns. Í Verdens Gang segir verjandi annars þeirra, Jens Bernhard Herstad að skjólstæðingur sinn neiti sök í málinu og segist ekki bera ábyrgð. Lögmaðurinn hyggst ræða við manninn í dag með aðstoð túlks.

Minn­ing­ar­at­höfn var haldin um Gísla Þór í Mehamn-kirkju í gær hjá séra Mariu Dale sókn­ar­presti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ríkir mikil sorg í Mehamn og eru íbúarnir í áfalli vegna málsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Færsla á Facebook frá öðrum hinna grunuðu lýsir skotárásinni sem óviljaverki

|
|

Annar mannanna sem handtekinn var í kjölfar skotárásar, í Mehamn í Finnmörku, sem varð íslenskum mann á fertugsaldri að bana baðst fyrirgefningar í færslu á Facebook og segist ekki hafa ætlað sér að skjóta manninn. Þetta kemur fram í umfjöllun norska blaðsins Verdens Gang (VG).

Leinan Mathiesen, lögreglustjóri í Porsanger, segir við VG  lögregluyfirvöld vinni enn að rannsókn málsins. Því séu upplýsingar af skornum skammti. Lögreglan hefur staðfest að þau hafi séð færsluna en yfirvöld vilja ekki tjá sig um innihald hennar.

Staðarmiðilinn iFinnmark segir að í færslunni komi fram að maðurinn hafi ekki ætlað sér að hleypa af skoti.

Lögregla var kölluð til um klukkan 5.30 í í nótt. Maðurinn var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.

Lítið vitað um íslenska tóbakið

Varað hefur verið við því að stóraukin tóbaksnotkun muni skila sér í hrinu krabbameina þegar fram í sækir. Um það er þó ekkert hægt að fullyrða því engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum íslenska neftóbaksins.

Í nýjasta tölublaði Mannlífs er fjallað ítarlega um stóraukna munntóbaksnotkun á meðal Íslendinga, en í fyrra seldust tæplega 45 tonn af íslensku munntóbaki sem að mestu er notað í vor. Aldrei áður hefur selst jafn mikið magn af tóbaki. Áhrifin af þessari miklu notkun eru þó enn ekki komin fram.

„Ég hef ekki séð neitt tilfelli á Íslandi enn þá þar sem einhver hefur fengið krabbamein í munn en reynslan af því að troða íslensku neftóbaki upp í munninn er ekki enn komin fram,“ segir Hannes Hjartarson, háls-, nef- og eyrnalæknir, sem hefur áratuga reynslu af lækningum á krabbameini í höfði og hálsi.

Umtalsverður munur er á íslensku neftóbaki og sænsku munntóbaki. Ekki bara er það íslenska umtalsvert sterkara og þar af leiðandi meira ávanabindandi heldur er kornastærðin meiri, það er bæði grófara og þurrara. Hannes undrast þá stefnu stjórnvalda að banna innflutning á sænsku munntóbaki, sem hefur verið margrannsakað, en á sama tíma heimila sölu á því íslenska sem ekkert er vitað um. „Það er búið að gera fjölda rannsókna í Svíþjóð og það hefur aldrei verið sýnt fram á að það valdi krabbameini í munni eins og margir hafa verið að slúðra um. Þótt það vissulega valdi ofholdgun og bólgum. Þess vegna væri miklu eðlilegra að nota það sem búið er að rannsaka og er ekki krabbameinsvaldandi frekar en eitthvað sem er miklu sterkara og við vitum ekkert hverjar afleiðingarnar eru til lengri tíma litið.“

Hvert höggið á fætur öðru hefur dunið á Arion

|
Arion

Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, er sigurvegari vikunnar á meðan hvert höggið á fætur öðru hefur dunið á Arion banka.

Góð vika – Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Heilbrigðisráðherra hefur mátt þola töluverða gagnrýni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem vilja auka veg einkareksturs í heilbrigðiskerfinu. Svandís hefur kosið að svara fyrir sig á vellinum, ef svo má segja, og í vikunni skrifaði hún undir samstarfssamning við kollega sína í Noregi og Danmörku um sameiginlega þátttöku í lyfjaútboðum.

Ef vel tekst til gæti þetta þýtt umtalsvert lægri lyfjakostnað fyrir sjúklinga og fréttir um að alvarlega veikir einstaklingar fái ekki lyf vegna lyfjaskorts eða kostnaðar munu vonandi heyra til undantekninga. Þegar upp er staðið gæti þetta orðið stærsta einstaka afrek Svandísar á ráðherraferlinum.

Slæm vika – Arion banki

Það hefur hvert höggið á fætur öðru dunið á Arion banka undanfarnar vikur og mánuði. Bankinn hefur tapað miklum fjármunum á gjaldþrotum flugfélaganna Primera og WOW svo ekki sé minnst á vandræðaganginn í kringum kísilverksmiðjuna í Helguvík sem enn sér ekki fyrir endann á. Í vikunni kom svo bylmingshögg þegar Valitor var dæmt til að greiða rekstrarfélagi Wikileaks 1,2 milljarða í skaðabætur.

Í kjölfarið var send út afkomuviðvörun þar sem segir að tjón bankans vegna þessa nemi 600 milljónum króna. Bankastjórinn Höskuldur Ólafsson hvarf á braut á dögunum og ljóst að eftirmaður hans á ærið verk fyrir höndum.

Íslendingur látinn eftir skotárás í Noregi

Íslenskur maður á fertugsaldri lést eftir skotárás í Mehamn í Finmörku í Noregi í nótt. Aftenposten greinir frá.

Lögregla var kölluð tl um klukkan 5.30 í í nótt. Maðurinn var alvarlega slasaður þegar lögregla kom á vettvang. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá norsku lögreglunni.

Tveir menn voru handteknir vegna málsins. Þeir eru sagðir þekkja manninn en ekki kemur fram hver tengslin eru.

Norska blaðið Verdens Gang (VG) segir að skotárásin hafi átt sér stað í heimahúsi en ekki kemur fram hver var húsráðandi.

Umboðsmaður Alþingis ítrekað óskað svara frá utanríkisráðuneytinu vegna Hauks Hilmarssonar

|
Mynd: Leikmenn án landamæra/Simon Downey|

Utanríkisráðuneytið hefur ítrekað hunsað fyrirmæli umboðsmanns Alþingis um svör vegna kvörtunar foreldrar Hauks Hilmarssonar sem fullyrt er að hafi fallið í Sýrlandi í febrúar árið 2018.

 

Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, birti bréf umboðsmanns á Facebook í gær og gagnrýnir að stjórnsýslan telji sig ekki bundna af fyrirmælum umboðsmanns. „Ísland er landið þar sem mótmælendur eiga að hlýða löggunni þegar hún bannar þeim að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að láta skoðanir sínar í ljós. En líka landið þar sem stjórnsýslan þarf ekki að hlýða Umboðsmanni Alþingis,“ skrifar Eva.

Þann 8. júní næstkomandi stendu hópurinn Leikmenn án landamæra fyrir málþingi um hugsjónir Hauks Hilmarssonar. Málþingið fer fram í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar.

Leituðu til umboðsmanns til að knýja fram svör

Foreldrar Hauks leituðu til umboðsmanns Alþingis í nóvember á síðasta ári til að knýja fram svör frá utanríkisráðuneytinu um aðgerðir stjórnvalda vegna leitarinnar að Hauki og svara um afdrif hans. Fátt hefur verið um svör um beinar aðgerðir ráðuneytisins til aðstandenda vegna málsins. „Úrskurðarnefnd upplýsingamála gerði utanríkisráðuneytinu að afhenda okkur slatta af gögnum til viðbótar við það sem þau voru búin að láta okkur fá. Það voru ekki gögn heldur bara tímalína um það hverja hefði verið haft samband við en ekkert hægt að sjá nein samskipti. Okkur fannst úrskurður ÚNU ekki ganga nærri nógu langt og skorta rök fyrir því hversvegna við mættum ekki sjá meira.“ segir Eva í samtali við Mannlíf.

Í bréfi umboðsmanns til utanríkisráðuneytinsins sem dagsett er 26. apríl kemur fram að umboðsmaður hafi ítrekað óska svara en ekki fengið. „Ég leyfi mér að ítreka þau tilmæli í bréfi, dags 31. desember 2018 og 26. mars sl., að utanríkisráðherra láti umboðsmann Alþingis í té upplýsingar og skýringar í tilefni af kvörtun sem Eva Hauksdóttir og Hilmar Bjarnasona hafa borið fram með hliðsjón af því sem um er beðið í bréfi umboðsmanns,“ segir í bréfinu.

Tyrkneski fjölmiðlar fullyrtu snemma í mars árið 2018 að Haukur hafi fallið í loftárás Tyrkja á Badina-Dimilya í febrúar sama ár. Aðstandendur Hauks hafa síðan leitað svara og ekki hefur tekist að hafa upp á líkamsleifum Hauks.

„Rýr í roðinu“

Eva hefur gagnrýnt íslensk yfirvöld fyrir framtaksleysi og skort á svörum vegna hvarfs Hauks. Fyrir rúmu ári sagði hún á Facebook að gögn sem ráðuneytið hafi afhent henni séu heldur „rýr í roðinu“. „Ég sé því fram á margra mánaða ferli við að knýja fram rétt minn, fyrst í gegnum Úrskurðarnefnd um upplýsingamál og ef það dugar ekki þá í gegnum Umboðsmann Alþingis. Ég hef nóg annað að gera þessa dagana svo allar hugmyndir um skilvirkari leiðir eru vel þegnar,“ skrifaði Eva fyrir ári.

Málið er nú á borði umboðsmanns en lítið virðist bóla á svörum.

Efast um hina opinberu sögu

Síðastliðin mars fjallaði Stundin ítarlega um leitina að Hauk og sagði frá því að nánir vinir hans efist um hina opinberu frásögn af andláti Hauks. Blaðið ræddi við Snorra Pál Jónsson og Steinunni Gunnlaugsdóttir sem ásamt Fatimu, unnustu Hauks, hafa lagst í mikla rannsóknarvinnu og leitað svara. Frásagnir þeirra sem þau hafa rætt við af vettvangi eru á margan hátt á skjön við fyrrgreinda yfirlýsingu YPG. „Við höfum fengið þær upplýsingar eftir ýmsum leiðum að Haukur hafi horfið, ekki skilað sér til baka úr varnaraðgerð í kringum aðra viku febrúar. Félagar hans hafi leitað hans í um það bil tvær vikur, allt þar til YPG lýsti því yfir að hann væri fallinn. Sú yfirlýsing byggist á því einu að hægt var að staðfesta andlát annarra hermanna á þessu svæði á svipuðum tíma,“ segir Snorri Páll í viðtali við Stundina þar sem hann rekur með ítarlegum hætti hverju rannsókn þeirra hefur skilað og hverju ekki.

Hefur ráðherra „gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk“?

Margrét Tryggvadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn að Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, á þingi í nóvember síðastliðnum. Þar sagði hún fjölskyldu Hauks ekki hafa fengið skýr svör um hvað orðið hafi um líkamsleifar hans. „Hafa íslensk stjórnvöld spurt tyrknesk stjórnvöld beint hvað hafi orðið um líkamsleifar þeirra sem féllu í árásunum 24. febrúar sl.? Þegar ég segi beint á ég við ekki við hvort rætt hafi verið við sendiráð Tyrkja í Ósló eða aðrar diplómatískar leiðir notaðar heldur hvort utanríkisráðherra sjálfur hafi beitt sér sérstaklega og krafist svara frá tyrkneskum stjórnvöldum um afdrif Hauks Hilmarssonar. Hefur ráðherrann krafist þess að farið verði inn á svæði þar sem átökin voru og þeirra sem þar féllu leitað?“ spurði Margrét ráðherra. Guðlaugur Þór sagði þá að allra leiða hafi verið leitað vegna málsins. „Samstarfsríki okkar vöruðu við því í upphafi að staðan væri einstaklega flókin og erfitt að afla upplýsinga og var reyndin sú að þau hafa takmarkaða aðstoð getað veitt. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum um málið frá tyrkneskum stjórnvöldum og fengið staðfest eftir mörgum leiðum að þarlend stjórnvöld telji Hauk af. Fjölskylda hans hefur verið upplýst um það eins og öll önnur skref sem tekin hafa verið í leitinni að Hauki. Við teljum borgaraþjónustuþætti málsins lokið í bili en lögreglan rannsakar málið sem mannshvarf. Utanríkisþjónustan mun áfram eiga regluleg samskipti við fulltrúa tyrkneskra yfirvalda í tengslum við þetta mál. Íslensk stjórnvöld munu einnig tala áfram fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðlegum mannréttindum í Tyrklandi og annars staðar í tvíhliða samskiptum og á alþjóðavettvangi eftir því sem tækifæri gefst, til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópuráðinu og hjá ÖSE.“

Margrét ítrekaði þá fyrirspurnina og spurði ráðherra hvort hann telji sig „persónulega hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk eða lík hans ef hann er sannarlega látinn og tryggja að það verði flutt heim?“

Því svaraði utanríkisráðherra játandi. „Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa til í þessu máli. Ég hef m.a. rætt þetta við kollega mína í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það er mér til efs að stjórnvöld hafi gengið jafn langt í sambærilegu máli og við Íslendingar höfum gert. Ef það er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa frekar til við þetta erfiða mál munum við gera það. En við höfum leitað allra þeirra leiða sem við höfum talið geta hjálpað í þessu erfiða máli. Ef eitthvað kemur upp þannig að við teljum að við getum gert meira munum við auðvitað gera það.“

Guðlaugur Þór fundaði með efnahgsmálaráðherra Tyrklands

Utanríkisráðherra hitti Nihat Zeybekci efnahagsmálaráðherra Tyrklands í lok júlí árið 2018. Þá átti Guðlaugur Þór fund með honum á EFTA-fundi í Skagafirði. „Hann fullvissaði okkur um það að hann myndi skoða þetta og koma þá með upplýsingar til okkar. Ég vil trúa að hann geri það og ég vona svo sannarlega að við getum náð einhverjum árangri í þessu erfiða máli,“ sagði Guðlaugur við RÚV eftir fundinn.

Aðstandendur Hauks hafa opnað vefinn Leikmenn án landamæra sem tileinkaður er Hauki, leitinni af svörum og baráttu Hauks. „Sonur minn Byltingin helgaði líf sitt andófi gegn ríkisvaldi, auðvaldi og hervaldi. Hann stóð fyrir og tók þátt í beinum aðgerðum gegn umhverfisspjöllum, kapítalisma og fasisma, bæði á Íslandi og erlendis. Hann var virkur liðsmaður Saving Iceland í baráttunni gegn Kárahnúkavirkjun, sjálfboðaliði í Palestínu, meðlimur í Heimssambandi verkafólks, virkur í hústökuhreyfingum á Íslandi og í Grikklandi. Hann var frumkvöðull í baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi og vann að björgun flóttamanna í Grikklandi,“ segir í skrifum Evu um Hauk á vefnum.

Aðalmynd: Leikmenn án landamæra/Simon Downey

Skaðablót í Bíó Paradís

Það má reikna með að mikil stemning verði í Bíó Paradís laugardaginn 27. apríl þegar hið svokallaða Skaðablót verður haldið.

Fram koma: Bjarki, Video1. Plútó Djs, Bruce B2B Árni, Hermigervill, Van ta, Örvar Smárason, Tirador, Sólveig Matthildur, Jana Spacelight, Allenheimer, Good Moon Deer, Dynkur og Jade Gola. Stuðið hefst stundvíslega klukkan 20. Aðgangseyrir er 2.000 krónur. Forsala á tix.is.

„Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tómas Þór Þórðarson var í forsíðuviðtali á Mannlífi í gær þar sem hann sagði meðal annars frá mikilli lífsstílsbreytingu en árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en er í dag 105 kíló og í fínu formi. Undir það síðasta átti hann orðið erfitt með að koma sér fram úr rúminu og þyngdin hafði hamlandi áhrif á frama hans í starfi.

Spurður hvort offitunni hafi fylgt þunglyndi, setur Tómas fyrirvara. „Ég vil ekki hafa orðið þunglyndi í flimtingum,“ segir hann. „Ég hef aldrei verið greindur með þunglyndi en auðvitað var maður andlega þungur. Sérstaklega árið 2014 þegar ég náði botninum. Allt það ár upplifði ég mikla vanlíðan, fór ekki á fætur fyrr en rétt áður en ég átti að mæta í vinnuna á kvöldvakt klukkan fjögur. Ég bara komst ekki fram úr rúminu og fannst allt voðalega ómögulegt. Ég lifi að stórum hluta fyrir íslenska fótboltann en var hættur að geta farið á völlinn. Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

„ Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

Tómas segist ekki síst þakka hvatningu frá fólkinu í kringum hann að hann skyldi að lokum ákveða að prófa að taka mataræðið í gegn. „Allt í kringum mig var fólk sem vissi hvað í mér bjó, hvað ég gat og get varðandi vinnuna. Alveg frá því að ég lýsti mínum fyrsta leik hef ég fundið hvað það á vel við mig og ég geri það vel, eins og sést kannski á því að nú er verið að kaupa mig til að lýsa enska boltanum sem tugþúsundir horfa á – svo eitthvað hef ég verið að gera rétt. Ég hef kannski ekki mesta sjálfstraust í heimi, út af mínum komplexum í gegnum tíðina. Ég var alltaf að líta í kringum sig til að gá hvort einhver væri að benda á mig eða tala um mig sem byggði upp óöryggi og gerði mér erfitt fyrir að vera eitthvað breimandi af sjálfstrausti út á við.

„Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út.“

En samt sem áður þá hef ég alltaf vitað að í þessum eina geira, að minnsta kosti, þá get ég fjallað og talað um íþróttir og lýst þeim. Ég hef það, en gat aldrei verið fyrir framan myndavél, bara lýst leikjum þar sem enginn möguleiki var á að ég þyrfti að vera í mynd. Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló. Ég vissi samt að ég gat það og vissi líka að það voru fleiri á þeirri skoðun þótt ég væri ekki líkamlega í standi til þess. Það olli mér vanlíðan að vita hvað ég gat en þurfa að horfa á það líf sem ég gæti átt í gegnum einhverja rimla. Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út. Og sem betur fer braust ég á endanum út og er núna með tvo sjónvarpsþætti auk þess að lýsa oft beinum útsendingum og hef átt alveg frábær ár undanfarið.“

Rappópera á Grandagarði

Styrmir og Læknadeildin ætla að fagna útgáfu á bók- og vínilplötuverkinu What Am I Doing With My Life? að Grandagarði 27, á morgun, laugardaginn 27. apríl.

Verkið What Am I Doing With My Life? er hvort tveggja í senn rappópera á 12 tommu vínilplötu og bók með sérútbúnum tónlistarteikningum sem urðu til í kjölfarið á Evróputúr Styrmis Arnar Guðmundssonar og félaga sem hann eignaðist á ferðalaginu og mynda nú Læknadeildina. Fjörið hefst að Grandagarði 27 í dag klukkan 17 og stendur til klukkan 21.

Ekki lengur bara tískubylgja

Samfelld aukning á notkun munntóbaks er verulegt áhyggjuefni og er aukningin slík að ekki er hægt að tala um tískubylgju lengur. Notkun eykst þrátt fyrir að verð á tóbaki hafi hækkað um mörg hundruð prósent.

Í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR kom fram að sala á íslensku neftóbaki hafi aldrei veri ðmeiri en í fyrra. Selt magn nam tæplega 45 tonnum. Þó að um neftóbak sé að ræða er áætlað að á milli 70 til 80 prósent tóbaksins sé notað í munn samkvæmt rannsókn Embættis landlæknis. Notkunin er mest á meðal karlmanna á aldrin – um 18 til 34 ára. Í þessum aldurs – hópi nota 14 prósent karla tóbak í vör daglega og rúmlega 6 prósent sjaldnar en daglega. Heildarhlutfall ungra karlmanna sem notar tóbak er því tæplega 22 prósent.

Þetta er svipað og verið hefur undanfarin ár en það sem er nýtt er að ungar konur eru farnar að nota tóbak í vör í auknum mæli. „Það hefur orðið aukning á tóbaksnotkun ungra kvenna í Noregi en þetta er alveg ný mynd fyrir okkur. Þetta vekur upp áhyggjur þótt þessi viðbót skýri alls ekki alla aukninguna,“ segir Viðar Jensson, verkefnisstjóri tóbaksvarna hjá Embætti landlæknis.

„Það hefur orðið aukning á tóbaksnotkun ungra kvenna í Noregi en þetta er alveg ný mynd fyri rokkur. Þetta vekur upp áhyggjur …“

Um tvö prósent kvenna á aldrinum 18 til 34 ára nota munntóbak daglega og 5 öðru hvoru. Árið 2002 nam selt magn neftóbaks 10,9 tonnum og hefur neyslan því fjórfaldast síðan þá þrátt fyrir að smásöluverð hafi aukist um mörg hundruð prósent. „Það er ekki hægt að kalla þetta tískubylgju lengur þegar við höfum verið að horfa upp á samfellda aukningu í 15 ár. Við sjáum í gögnum frá Svíþjóð að þegar ungir karlmenn eru orðnir háðir munntóbaki þá er meðalneysla 13 til 14 tímar á dag. Menn þurfa stöðugt að vera að nota tóbak og þar af leiðandi er erfitt að hætta,“ segir Viðar sem telur þrátt fyrir allt að verðstýring hafi haft áhrif.

„Ráðleggingar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar þegar kemur að forvörnum eru númer eitt að hækka verð, sérstaklega þegar kemur að ungu fólki. Það voru miklar hækkanir 2013 og um þarsíðustu áramót og þá sló á aukninguna en áhrifin dvína eftir því sem lengra líður frá. Þannig að þessar hækkanir virka en þær þurfa að vera meira viðvarandi.“

Töldu að neyslan myndi deyja út
Upphaflegt markmið með banni á innflutningi munntóbaks að sporna við neyslu meðal ungmenna. Það kom því flatt upp á marga þegar fólk fór að taka upp á því að nota íslenska munntóbakið í vörina.

„Ég byrjaði að vinna í tóbaksvörnum árið 1998 og þá sáu menn þetta alls ekki fyrir. Ástæðan fyrir því að íslenskt neftóbak var selt áfram á Íslandi og ekki bannað samhliða hinu tóbakinu var ákvæði í EES-samningnum sem segir að ef það er vara fyrir á markaði sem hefur ákveðna hefð, þá mátti leyfa hana. Það var notað fyrir neftóbakið á sínum tíma og svo sáu menn fyrir sér að það myndi bara deyja út.“ Ekki hefur komið til tals innan embættisins að mæla með að banna íslenskt neftóbak með öllu líkt og gert var með það innflutta.

„Fyrir mörgum árum gerði ÍBR áhugaverða könnun sem leiddi í ljós að drengir sem stunda íþróttir nota tóbak í vör til jafns á við aðra sem eru ekki í íþróttum. Það er þess vegna ekki þannig að það sé algengara að íþróttafólk taki í vörina.“

Viðar segir að reglulega uppgötvi menn eitthvað nýtt þegar kemur að tóbaksnotkun. Þannig gáfu menn sér að þeir sem notuðu neftóbak í nefið væru einkum eldri karlmenn. „Svo þegar við gerðum stóra könnun árið 2012 sáum við að stærsti hópurinn var karlmenn á miðjum aldri. Notkunin minnkar stöðugt eftir því sem aldurinn
færist ofar eða neðar. Þetta breytti al gjörlega heimsmyndinni.“

Íþróttamenn hafðir fyrir rangri sök
Munntóbaksneysla hefur gjarnan verið tengd við íþróttaiðkun, það er að ungir menn komi saman í búningsklefanum fyrir og eftir æfingar og fái sér í vörina. Kannanir sýna hins vegar að þetta er byggt á falskri ímynd. „Fyrir mörgum árum gerði ÍBR áhugaverða könnun sem leiddi í ljós að drengir sem stunda íþróttir nota tóbak í vör til jafns á við aðra sem eru ekki í íþróttum. Það er þess vegna ekki þannig að það sé algengara að íþróttafólk taki í vörina. Þetta verður hins vegar sýnilegra meðal íþróttafólks og þess vegna er stutt í fullyrðingar að það sé fyrst og fremst íþróttafólk sem notar þetta, þótt það sé ekki endilega satt,“ segir Viðar.

Kviknaði á ljósaperu á heiðinni

Líkt og mörg frumkvöðlafyrirtæki fæddist hugmyndin að Feed the Viking við óvenjulegar aðstæður. Fyrirtækið framleiðir hollt og prótínríkt snakk úr þurrkuðu kjöti og fiski, best þekktu undir enska heitinu Jerky, en það nýtur mikilla vinsælda víða um heim.

Stofnandi fyrirtækisins, Friðrik Guðjónsson var í útkalli með Hjálparsveit skáta í Garðabæ sumarið 2016, þegar hann fékk en hann hefur verið félagi í sveitinni í rúmlega áratug. Hann segist alltaf hafa verið með bandarískt Beef Jerky með sér í ferðum og útköllum vegna þess hve fljót, handhæga og góða orku slík fæða gefi. „Í þessu tiltekna útkalli höfðu tveir aðilar örmagnast við göngu upp á Hellisheiði í vondu veðri. Eftir að hafa gefið þeim Beef Jerky og vatn fengu þeir nægilega orku til að labba niður af sjálfsdáðum og í kjölfarið  kviknaði á ljósaperu í kollinum á mér og hugmynd að eigin framleiðslu. Nú fá auðvitað allir sem ég hitti á fjöllum íslenskt Jerky til að bragða á.“

Náið samstarf

Fyrsta varan var Fish Jerky sem kom á markað í ágúst 2017 í samstarfi við Skinney-Þinganes. Tæpu ári síðar bættist Lamb Jerky við en viðtökurnar við báðum vörunum hafa verið algjörlega frábærar að hans sögn. „Í janúar á síðasta ári kom Ari Karlsson inn í reksturinn með mér eftir að hafa unnið með mér og Norðlenska í þróuninni á Lamb Jerky-vörunni. Við erum æskuvinir og okkur hefur lengi dreymt um að vinna saman. Ari er matreiðslumeistari að mennt og hefur alþjóðlega reynslu af hinni ýmsu matvælagerð sem nýtist svo sannarlega vel hjá félaginu. Við erum í mikilli vöruþróun og vorum til að mynda að bæta við Beef Jerky í byrjun apríl og kjötsúpan bætist svo við í sumar. Annars sér Ari að mestu um vöruþróun og sölu á meðan ég er meira í rekstrinum og erlendu sókninni en saman sjáum við um að pakka vörunum og keyra út pantanirnar.“

Sjálfur er Friðrik viðskiptafræðingur að mennt frá Háskólanum í Reykjavík og hefur stofnað og tekið þátt í rekstri á þremur öðrum fyrirtækjum áður enn hann stofnaði Feed the Viking.

Kjötbragðið nýtur sín

Jerkey-vörurnar eru með sterka skírskotun í íslenskar matarhefðir að sögn Friðriks og er öllum aukefnum, svo sem sykri og salti, stillt í eins mikið hóf og mögulegt er. „Lamb Jerky er t.d. kryddað með íslensku sjávarsalti og kryddblöndu sem amma hans Ara notaði fyrir sunnudagslærið þegar hún eldaði fyrir fjölskylduna. Beef Jerky er örlítið sterkari enda með chili-pipar. Þó eiga báðar vörurnar það sameiginlegt að þær leyfa kjötbragðinu að njóta sín. Öll framleiðsla okkar er úr íslensku hráefni og unnin hér á landi. Því er um atvinnuskapandi framleiðslu að ræða þar sem mörg eru handtök eru í framleiðsluferlinu.“

Nýta hraðalinn vel

Félagarnir segjast gríðarlega stoltir og ánægðir með að hafa verið valdir í viðskiptahraðalinn og ætla svo sannarlega að nýta sér hann út í ystu æsar. „Við erum komnir vel á veg með vörurnar okkar en þær  eru nú til sölu á öllum helstu ferðamannastöðum á landinu auk þess sem þær fást einnig í vefverslun okkar og á Amazon. Í viðskiptahraðlinum fáum við leiðbeiningar og handleiðslu við að stækka fyrirtækið okkar og sækja á ný markaðssvæði með hjálp frá því frábæra tengslaneti sem við erum að tengjast. Hingað til höfum við fyrst og fremst selt vörur okkar til erlendra ferðamanna sem sækja landið heim en einnig höfum átt í góðum viðræðum við nokkrar innlendar matvörubúðir og vonumst til að geta hafið sölu á vörunum okkar til íslenskra neytanda núna í sumar. Stefnan er því sett enn frekar á íslenska smásölumarkaðinn en við horfum líka mikið til útflutnings. Við erum að fá miklu meiri og betri viðbrögð við vörum okkar á Amazon en við áttum von á og höfum þær nú til sölu í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi og Þýskalandi og bætum Ítalíu, Frakklandi, Spáni og Mexíkó við á næstu misserum. Þannig að það eru mjög spennandi tímar fram undan hjá okkur.“

Gefandi umhverfi

Íslenska frumkvöðlaumhverfið er ekki nýtt fyrir Friðriki sem hefur, eins og áður segir, komið að stofnun og rekstri nokkurra fyrirtækja. „Ég er mjög hrifinn af frumkvöðlaumhverfinu hérlendis og hef starfað í því í áratug. Bæði hef ég séð um rekstur á hugmyndum sem voru komnar af stað og eins stofnað fyrirtæki og síðar selt það. Hugmyndin þarf að sjálfsögðu að vera góð, það þarf að vera markaður fyrir hana og svo þarf að þekkja helstu gildrur og hættur sem fylgja fyrirtækjarekstri. Þetta er mjög langt frá því að vera auðvelt en þetta er gefandi og getur verið vel þess virði þegar vel gengur.“

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Þorði ekki að segja frá klikkuninni

Undirstaðan í snyrtivörunum frá Beauty by Iceland eru gulrætur og rófur úr blómlegum sveitum Suðurlands.

Erna Hödd Pálmadóttir ólst upp í sveit á Suðurlandi þar sem grænmetisframleiðsla hefur staðið í miklum blóma í áratugi og varð fyrir vikið snemma meðvituð um næringargildi grænmetis. Það vakti athygli hennar á unga aldri hversu mikið af grænmetisframleiðslu fjölskyldunnar var sent til baka frá verslunum og um leið hversu mikið af grænmeti fékk aldrei að fara úr vöruhúsinu vegna útlitsgalla.

„Á þessum árum var ég farin að huga meira að heilbrigði húðarinnar og sá þá möguleikann sem var beint fyrir framan mig öll þessi ár, þ.e. að framleiða snyrtivörur úr íslensku og næringarríku grænmeti sem er útlitsgallað og ekki talið söluhæft. Fjölskyldan ræktar gulrætur og rófur sem eru ríkar af vítamínum og ég sá tækifæri í að framleiða snyrtivörur úr þeim.“

Hún ákvað því að leggja allt undir og setti á fót fyrirtækið Beauty by Iceland samhliða námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Búa yfir mikilli hollustu

Í fyrstu hóf Erna að afla sér heimilda erlendis frá þar sem rannsóknir hafa verið gerðar á hráefninu og sá þá betur hvernig hún gæti hagað framleiðslu sinni. „Ég viðurkenni það alveg að ég þorði ekki að segja neinum frá þessari klikkun til að byrja með. Mögulega hafði ég ekki trú á sjálfri mér en einnig hafa íslenskir snyrtivöruframleiðendur ekki notast mikið við matvæli í framleiðslu sinni, utan sjávarfangs, eftir því sem ég best veit.“

Undirstaðan í framleiðslunni eru gulrætur og rófur sem búa yfir mikilli hollustu að hennar sögn. „Gulrætur eru ríkar af andoxunarefnum en þau vítamín sem við varðveitum í vörunum eru A-, C- og E-vítamín auk fosfórs en þessi efni eru nauðsynleg fyrir heilsu húðar, hárs og taugar líkamanns.“

Rófurnar eru ekki síðri að hennar sögn en þær innihalda m.a. natrín, kalín, sykrur, A-, C- og D-vítamín, kalsín, magnesíum og járn. „Þegar C-vítamíni er bætt við daglega umhirðu húðar jafnar það húðlit og ver hana fyrir sýnilegum áhrifum mengunar auk þess að bæta rakastig og viðhalda unglegri húð.“

Ótrúlega þakklátar

Í dag starfa tveir starfsmenn hjá fyrirtækinu. Utan Ernu, sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra, er Bóel Guðlaugsdóttir fjármálastjóri og saman vinna þær að vöruþróun. „Við höfum einnig fengið inn fagaðila að ólíkum verkefnum, t.d. efnafræðing, hönnuð og annað fagfólk á snyrtivörumarkaði.“

Hún segir þær alls ekki hafa búist við því að komast inn í viðskiptahraðalinn þegar þær skiluðu umsókninni. „Því erum við svo ótrúlega þakklátar fyrir að fá að taka þátt. Við höfum sett okkur mælanleg markmið í þróun á vörunum en þar sem framleiðslan er árstíðabundin nýtum við hraðalinn til að byggja upp markaðssetningu og vöruþróun. Það hefur verið ómetanlegt að fá innsýn í alla þá vitneskju sem þetta stórkostlega fólki býr yfir sem kemur að hraðlinum og er að aðstoða okkur. Fyrstu vikurnar hafa sannarlega farið fram úr væntingum okkar.“

Skemmtileg samkeppni

Erna segir grunngildi fyrirtækisins snúa að því að allir eigi rétt á því að líða vel með sjálfan sig og húð sína. „Því erum við fyrst og fremst að horfa til þeirra hópa sem eiga við húðvandamál að stríða. Vörur okkar munu innihalda þessi vítamín sem ég minntist á áðan en engum óæskilegum aukefnum er bætt við. Flestir vita að grænmeti er hollt og því ættu allir að geta borið það á sig líka, jafnvel borðað það.“

Mjög mikil samkeppni ríkir á snyrtivörumarkaði en Erna lítur ekki á hana sem ógn heldur segir hana bara vera skemmtilega. „Þau fyrirtæki sem eru í snyrtivöruframleiðslu á Íslandi eru mörg hver að gera stórkostlega hluti. Því tel ég að Beauty by Iceland geti einnig lært mikið af þeim í stað þess að líta á þau sem ógn, því neytandinn er að leita að mismunandi vörum sem hægt er að blanda saman.“

Margir tilbúnir að hjálpa

Aðspurð um framtíðarhorfur segir Erna stefnu fyrirtækisins vera að fá sem flesta grænmetisbændur hérlendis í lið með sér og þróa bestu snyrtivörur sem völ er á. „Til þess munum við nota hráefni sem aðrir sjá ekki tækifæri í að nota, þar með talið aðrar tegundir grænmetis sem hafa frábæra kosti fyrir húðumhirðu. Alþjóðlegur markaður er stór og ef við tökum nágrannaþjóðir okkar þá er sóun matvæla enn stærra vandamál þar. Þetta hráefni viljum við nýta í okkar framleiðslu á næstu árum.“

Hún segir íslenskt samfélag vera að vakna til meðvitundar um hversu mikils virði landbúnaður sé í raun og veru. „Þau fyrirtæki sem hafa farið í gegnum svona viðskiptahraðal eru að gera frábæra hluti og ég tel að frumkvöðlaumhverfið sé mjög opið fyrir frábærum hugmyndum. Ekki má heldur gleyma að nefna hversu margir eru tilbúnir að aðstoða með hugmyndir og vísa manni á réttan stað. Það er sannarlega mikils virði og mun leiða til enn frekari verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag til framtíðar.“

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Tryggja ferskleika alla leið til kaupandans

Tracio er nýtt upplýsingakerfi fyrir matvælaiðnað sem eykur rekjanleika, skilvirkni og traust í virðiskeðju matvæla.

Stefán P. Jones hefur verið viðloðandi sjávarútveg frá því hann var þrettán ára gamall og því ekki furða að hugmyndir hans um næstu kynslóð rekjanleika og upplýsingakerfa sem eykur skilvirkni og traust í virðiskeðju matvæla, megi rekja þangað. „Eftir ellefu ár á sjó fór ég í land og stofnaði sölu- og útflutningsfyrirtæki þar sem ég keypti og seldi fiskafurðir til Evrópu. Þar upplifði ég alls kyns vandamál í virðiskeðju fisksendinga, t.d. að vita nánast ekkert um vöruna eftir að hún lenti á meginlandinu. Fyrir vikið tapaði ég oft háum fjárhæðum vegna gæðavandamála sem ég gat með engu móti leyst sökum þess að ég hafði engar áreiðanlegar upplýsingar um meðhöndlun vörunnar.“

Í úrslit í frumkvöðlakeppni

Í kjölfarið segist hann hafa fengið mikinn áhuga á því hvernig leysa mætti slík vandamál með svo kallaðri IoT-tækni sem á þeim tíma var mjög dýr. „Það var svo árið 2015 sem ég kom auga á áhugaverða tækni sem byggir á prentanlegum rafrásum og skynjurum. Sú tækni er margfalt ódýrari en hefðbundinn IoT-búnaður, lögun þess örþunn og þar með hægt nota eins og hefðbundinn merkimiða.“

Árið 2016 stofnaði Stefán fyrirtækið Seafood IQ þar sem stefnan var að þróa prentanlega skynjara í samstarfi við leiðandi hátæknifyrirtæki frá Suður-Afríku. „Skynjarinn og hugbúnaðurinn áttu að vera sérstaklega hannaðir fyrir sjávarútveg. Við fengum strax fínar móttökur og fengum t.d. tvenn nýsköpunarverðlaun auk þess að komast í úrslit í frumkvöðlakeppni sem haldin var í Stanford-háskólanum í Bandaríkjunum.“

Mikil stefnubreyting

Eftir miklar viðræður við framleiðendur hér á landi tók fyrirtækið stefnubreytingu árið 2018 sem miðaði af því að taka inn landbúnað og þar með setja fókusinn á almenn matvæli undir nýjum hatti Tracio. „Við þessar breytingar, ásamt nýju viðskiptamódeli, fengum við byr undir báða vængi og má segja að tækifærin séu nú margfalt meira spennandi þar sem við erum komnir á risavaxinn markað, búnir að lækka fjárþörf til muna og sjáum fram á að geta markaðssett okkar fyrstu vöru á næstu mánuðum.“

Margar lausnir í einum pakka

Stefán útskýrir betur hvað Tracio gengur út á. „Um er að ræða nýtt upplýsingakerfi fyrir matvælaiðnað. Ólíkt samkeppninni mun Tracio-„platformið“ bjóða í framtíðinni allt á einum stað: lausnir sem hjálpa fyrirtækjum í matvælaiðnaði að auka samkeppnishæfni, skapa traustan rekjanleika, lækka áhættu og tryggja ferskleika á vörum þeirra til kaupanda. Með því að selja margar lausnir í einu „platformi“ skapast mikil hagræðing. Það mætti líkja Tracio við Office-pakkann frá Microsoft en samkeppnin sem treystir á eitt tekjustreymi komandi frá t.d. rekjanleika þjónustu mun seint geta keppt við okkur.“

Tryggir gæðin

Fyrsta vara fyrirtækisins heitir Tracio assurance en um er að ræða nýja þjónustu sem byggir á skynjara fyrirtækisins, Temp Tracker Pro, sem mælir nákvæmt hitastig matvæla í flutningsferlinu og birgðageymslum segir Stefán. „Þessi þjónustulausn mun auka gagnsæi, rekjanleika og tryggja gæði í flutningsferlinu auk þess að straumlínulaga birgðaumsýslu og vörustjórnun. Matvara sem er vöktuð með Tracio assurance skapar traustan rekjanleika og kemur í veg fyrir slæma meðhöndlun í virðiskeðjunni og tryggir þar með gæði til kaupanda.“

Í góðum félagsskap

Vinnudagarnir hafa verið langir hjá Stefáni síðustu árin og hann segist sinna mörgum hlutverkum innan fyrirtækisins. „Ég hef legið yfir þessu síðustu fjögur árin því ég tel mjög mikilvægt að vita nákvæmlega hvernig búnaðurinn virkar svo ég geti áttað mig betur á hvaða möguleikar eru í boði þegar kemur að vöruþróun.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til Sjávar og Sveita.

 

Allt í einu farin að hlusta á Jóa P og Króla

|||
|||

Listakonan Eyrún Ósk Jónsdóttir kveðst nota tónlist mikið til að koma sér í ákveðinn gír. Þessa dagana er hún að skrifa bók og notar hana þá til að fá innblástur og hvatningu.

 

Töfrandi föstudagar

Platan Töfrabörn með Ragnheiði Gröndal.

„Á föstudögum er ég enn í sköpunargírnum og skrifa eitthvað fram eftir kvöldi. Undanfarið hafa tveir tónlistarmenn gert föstudagskvöldin mín töfrandi, báðir með rætur í þjóðlagastílnum sem ég hef alltaf heillast hvað mest af. Það er annars vegar nýja platan hennar Ragnheiðar Gröndal Töfrabörn. Eins og nafnið gefur til kynna er eitthvað einstaklega töfrandi við þessa plötu. Þarna staðfestir Ragnheiður enn á ný að hún er ein stórkostlegasta tónlistarkona sem við eigum. Og svo er það nýja platan hans Ólafs Torfasonar, Hamskipti. Ég var heilluð eftir útgáfutónleika sem hann hélt í Fríkirkjunni í síðasta mánuði. Tónlistin talaði beint inn í hjarta mitt og ég upplifði einhverjar nýjar víddir.“

Rokkaðir laugardagar

„Á laugardögum finnst mér svo gott að fara í ræktina snemma, sonur minn er alltaf að biðja mig að setja á lög fyrir sig með Jóa Pé og Króla og svo allt í einu er ég farin að hlusta á þá sjálf í ræktinni og dúndra í Áfram Jóipé og Í átt að tunglinu þegar ég er að lyfta, svona í bland við Skunk Anansie auðvitað sem er alltaf í uppáhaldi. Svo ef veðrið er gott þá er gaman að fara í lítið „road trip“ aðeins út fyrir bæinn á laugardagseftirmiðdegi. Þá er vinsælt að skella Meatloaf í tækið. Uppáhaldslagið mitt í heiminum er einmitt með honum og heitir Rock and Roll Dreams Comes Through. Það lag hefur komið mér í gegnum ýmsar hindranir á lífsleiðinni.“

Rólegir sunnudagar

Eyrún Ósk hlustar gjarnan á Tom Waits á sunnudögum.

„Á sunnudögum er ég meira róleg heima, kannski að taka til eða leysa lífsgátuna í samræðum við manninn minn og þá er gott að hlusta á Tom Waits saman eða tónlist sem við erum nýbúin að uppgötva. Það er t.d. ungur drengur sem kallar sig Flammueus sem tók þátt í Músíktilraunum í ár með hljómsveit sinni. Við vorum alveg heilluð og ég mæli með að fólk hlusti t.d. á lagið Jenny með þeim yfir sunnudags-vegansteikinni.“

Raddir