Íslenska hljómsveitin Of Monsters And Men sendi frá sér sína þriðju breiðskífu, Fever Dream, á föstudaginn.
Nýja platan inniheldur 11 lög. Plötuumslagið er unnið í samstarfi við íslenska listamanninn Jón Sæmund en hann hefur starfrækt merkið DEAD um áraraðir.
Hægt er að nálgast Fever Dream í öllum betri plötubúðum og á streymisveitum.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið við lagið Alligator af nýju plötunni.
Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, er gestaritstjóri septembertölublaðs bresku útgáfu tímaritsins Vogue. Þessu er sagt frá á vef BBC og á Instagram-síðu hertogahjónanna af Sussex.
Einblínt verður á kraftmiklar konur í blaðinu en 15 konur prýða forsíðu blaðsins. Í hópnum fjölbeytta eru til dæmis sænski umhverfissinninn Greta Thunberg, fyrirsætan Christy Turlington, boxarinn Ramla Ali og leikkonan Jameela Jamil svo nokkur dæmi séu tekin. Auða plássið á forsíðunni á svo á tákna spegil.
Það var Peter Lindbergh sem tók myndirnar á forsíðu.
Í blaðinu verður einnig að finna viðtal við fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, sem Meghan tók.
Haft er eftir Meghan að hún voni að blaðið muni veita fólki innblástur.
Þess má geta að Edward Enninful er ritstjóri breska Vogue, hann er þekktur fyrir að fara óhefðbundnar leiðir.
Lilja Oddsdóttir er alin upp á sveitabæ í Kjósinni, yngst af sex systkinum. Hún er sveitastelpa inn við beinið og segir náttúruna hafa bjargað sér í uppvextinum því þangað leitaði hún í vellíðan ef henni leið ekki nógu vel. Þegar Lilja var þriggja ára yfirgaf móðir hennar heimilið, eiginmann og sex börn og kom aldrei aftur. Lilja segir móðurmissinn hafa mótað allt hennar líf og skilið eftir gapandi sár sem hún hafi unnið með að láta gróa.
„Mamma var 48 ára þegar ég fæddist og pabbi var 59 ára en eftir fæðingu mína fékk hún fæðingarþunglyndi. Mamma mín var mild kona að upplagi en aðstæður og ósætti á bæjunum voru þannig að hún var uppgefin á líkama og sál, gat ekki meir og fór á burt. Pabbi var ættaður úr þessari sveit en mamma var úr Dýrafirði og fór þangað þegar ég var þriggja ára og kom ekki aftur til okkar,“ útskýrir Lilja og segir frá því að systur hennar hafi gengið henni í móðurstað.
„Seinna varð mér ljóst að þessar tilfinningar höfnunar höfðu djúpstæð áhrif á mig. Mér fannst ég yfirgefin og einskis virði sem barn. Að mamma fór frá okkur, varð verkefni sem ég hef unnið með allt mitt líf. Ég held að ég sé búin að prófa allar meðferðir sem til eru, til þess að hjálpa mér að láta hjartasár mitt gróa.
„Seinna varð mér ljóst að þessar tilfinningar höfnunar höfðu djúpstæð áhrif á mig.“
Móðurást skipti mig svo miklu máli. Að fá ekki að njóta umhyggju frá móður minni sem barn, setti tómarúm í mig. Pabbi fyllti ekki upp í þetta hjartarúm, hann var ekki af þeirri kynslóðinni, honum fannst nóg að halda í höndina á mér stöku sinnum og lesa Íslendingasögur fyrir mig enda var nóg að gera á bænum og verk að vinna. Mér leið best þegar ég var send ein út með kýrnar og sat í túninu, mitt í náttúrunni. Ég fann sterka tengingu við náttúruna frá fyrstu tíð. Pabbi kenndi mér að planta trjám og virða náttúruna, fyrir það er ég mjög þakklát.“
Lilja segir tilfinningar sínar ekki hafa fengið að þroskast eðlilega í uppvextinum að mati hennar og að hún hafi ósjálfrátt leitað að viðurkenningu frá öðrum og ást.
„Þegar maður kemur úr svona tilfinningalöskuðum uppvexti þá verður maður svo meðvirkur. Í minningunni finnst mér ég hafa verið alin upp við þögn, tilfinningar voru ekki ræddar, það var bara haldið áfram á hörkunni. Innri röddin er verst og maður verður að losa sig við alla innri dóma því maður dæmir sjálfan sig mest. Aðrir dæma mann ekki svona hart og eru yfirleitt ekki að hugsa neikvætt til manns eins og maður gerir sjálfur. Fólk dæmir sjálft sig harðast og kannski sérstaklega konur. Innri röddin getur blekkt okkur illa ef hún er ekki með okkur í liði.“
Lilja kynntist mömmu sinni svo á fullorðinsárum. „Ég hef aldrei dæmt hana fyrir það sem hún gerði, þetta var bara svona. Það hefur örugglega ekki verið létt fyrir hana að yfirgefa börnin sín og hún hefur þurft hugrekki til þess,“ segir Lilja meðal annars um móður sína í viðtalinu.
Lestu þetta áhugaverða viðtal við Lilju í heild sinni í 29. tölublaði Vikunnar.
Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi þann 6. september. Myndin hefur fengið afar góða dóma. Meðfylgjandi er stikla.
Ingvar E. Sigurðsson, aðalleikari myndarinnar, tók við verðlaunum um helgina á kvikmyndahátíðinni Motovun í Króatíu þar sem Hvítur, hvítur dagur var valin besta myndin. Þetta kemur fram á vef Rúv.
Í maí hlaut Ingvar þá verðlaun sem besti leikarinn á Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám Cannes kvikmyndahátíðarinnar, fyrir hlutverk sitt í myndinni.
Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í leyfi frá vinnu frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum.
Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju.
Bráðlega verður Gumma Ben bar opnaður þar sem skemmtistaðurinn Húrra var til húsa. Barinn heitir einfaldlega Gummi Ben bar.
Fjölmiðlamaðurinn Guðmundur Benediktsson, Gummi Ben, deilir lógói nýja staðarins á Twitter og skrifar „soon“.
Samkvæmt heimildum Mannlífs verður staðurinn opnaður um miðjan ágúst og er undirbúningur í fullum gangi. Um sportbar er að ræða, einnig verður hægt að fara í karókí á staðnum.
Andrés Þór Björnsson og Ómar Ingimarsson, eigendur Drunk Rabbit, eru mennirnir á bak við Gumma Ben bar.
Samfélagið okkar er neyslusamfélag, staðalmynd nútíma vestræns samfélags. Mannskepnan er flókið dýr með góðar gáfur. Það er samt auðvelt að breyta okkur í sofandi vélmenni þegar kemur að hinum ýmsu innkaupum, hluti sem við teljum okkur „þurfa“. Á 21. öldinni hafa tæknibreytingar líkt og auðveld netverslun og stöðugar auglýsingar gert okkur það erfiðara fyrir að verja okkur fyrir ásælni markaðsins í seðlaveskið. Líklega erum við ómeðvituð um hversu mikil áhrif auglýsingarnar hafa. Þá erum við jafnframt hjarðdýr og staða fólks er iðulega bundin við sem það á. Fólk ber sig saman við aðra hvort sem það eru húsgögn, tegund af bíl, skíðum, hjóli, nýjasti hönnunarapinn, hvar það borðar og svo framvegis. En sannleikurinn er sá að á endingu eru þetta bara hlutir og næring.
Hversu oft hugsar þú um hvað þú raunverulega þarft í innkaupum þegar þú ert að versla – hversu mikið stýrir það innkaupunum? Hversu oft borðar þú miklu meira en líkaminn þarf? Heiðarlegt mat á stöðunni er að meira og minna flest sem við gerum og neytum er ofaukið. Hlutirnir sem við kaupum eru ekki hlutir sem við raunverulega þurfum. Við kaupum það af því að við veljum það. Fatnaður, raftæki, húsgögn, snyrtivörur, matur, ferðalög o.s.frv. Matarsóun er til að mynda um 40% af framleiddri matvöru í vestræna heiminum. Það þýðir að 40% af orkunni sem fer í að búa til þann mat, jarðveg og vinnu er sóað. Það er hreint sorgleg staðreynd. Í ofanálag er það ríkasta 20% sem neytir mest í heiminum.
„Hvernig væri að við gæfum okkur tíma til að virða alla vinnuna, framlög fólks og jarðar, til að koma matnum sem við innbyrðum eða fötin sem klæðir okkur á þessar hillur?“
Ofneysla heimsins er ennfremur beintengd loftslagsbreytingum. Því hefur verið fleygt að sjúkdómurinn er neyslan, einkennin eru loftslagsbreytingar. Samgöngur og millilandaflutningar. Iðnaðurinn sjálfur. Allt krefst þetta auðlinda í framleiðslu sem eru fengar frá jörðinni. Þá geyma föt talsvert af plastögnum, mikið fer í pakkningar og svo framvegis. Ofan á umhverfisáhrifin koma svo augljós neikvæð félagsleg áhrif eins og t.d. að föt og hlutir hvers konar eru framleiddir í þriðja heims ríkjum þar sem vinnuafl er ódýrt og misneyting auðlinda algeng.
Við erum aftengd
Við erum aftengd. Við vitum ekki lengur hvaðan hlutir raunverulega koma eða hvert er framleiðsluferlið. Börnin eru flest löngu hætt að fara í „sveitina“ eða að kíkja í verksmiðjur í Kína. Fötin og dótið er bara keypt í Kringlunni. Kjúklingur innpakkaður í plast og frauðplast í hillunni í Bónus. Við viljum ekki sjá né heyra. Fáfræði er sæla, eins og einhver sagði. En við erum fullorðin og höfum ekki afsökun né réttlætingar. Réttlætingarnar eru t.d.: „allir aðrir gera það“, „samfélagið er svona uppbyggt“ og sú besta er: „ég hef ekki tíma“. Hvernig væri að við gæfum okkur tíma til að virða alla vinnuna, framlög fólks og jarðar, til að koma matnum sem við innbyrðum eða fötin sem klæðir okkur á þessar hillur? Myndi það draga úr neyslunni?
Mörg okkar vita þetta. Hægt erum við að gera einhverjar þægilegri breytingar og spyrja gagnrýnna spurninga. Staðan í umhverfismálum hefur óumflýjanlega leitt það af sér að við getum ekki snúið blinda auganu lengur. Lengi höfum við gert það í tengslum við ódýrar vörur framleiddar af fólki sem fær varla lágmarkslaun í verksmiðju við fáránlegar aðstæður í þriðja heims ríkjum. Á heimsvísu er neysla hins vegar að aukast, samfara því að lífsgæði eru að batna í fjölmennum samfélögum eins og í Kína og Afríku.
Að breyta neyslumynstrinu, eða öllum heldur að brjótast út úr því, er ekki auðvelt þegar samfélagið og kerfið sem við lifum við vinnur ekki með okkur. Nú er t.d. ekki hægt að fara í gegnum samfélagsmiðla án þess að fá senda auglýsingu sem er sérstaklega sniðin að því sem þú hefur verið að skoða á netinu, sem er fengið með algórytmum og gervigreind. Neysluhungrið er forritað í okkur af markaðssamfélaginu hvort sem okkur líkar betur eða verr einkum með auglýsingum og markaðssetningu. Við erum í eðli okkar áhrifagjörn og bregðumst við því sem menningin setur fyrir framan okkur. Það er í sjálfu sér samt ekki afsökun. Með því að þjálfa sig í aukinni meðvitund er hægt að sjá þetta betur og betur og átta sig á hversu mikil áhrif þetta hefur á okkar daglega líf. Neyslusamfélagið sem við búum í er líka allt tengt öðrum þáttum– hér má nefna fíknir hvers konar. Að kaupa eitthvað gefur okkur skyndiánægju og kann að fylla tóm innra með okkur. Fólk kann að vera háð tilteknum hlutum. Í því ástandi er maðurinn ekki frjáls.
Með gleraugum sannleikans sjáum við að lifnaðarhættir okkar samræmast ekki sjálfbærum lífstíl. Því sem jörðin og við þurfum á að halda. Við þurfum að slaka á hraðanum og neyslunni. Við vitum þetta flest nú orðið innst inni þó sumir vilji vera í afneitun. Breytingar þurfa í eðli sínu ekki að vera flóknar þó þær muni óumflýjanlega leiða til breytinga á samfélagsmynstrinu. Við gætum byrjað á því að vera með merkingar á öllum fötum, hvaðan föt koma. Við gætum bannað allt plast í pakkningum á öllum vörum. Við gætum aukið við skiptimarkaði og verslanir með notaða hluti. Við getum verið með umbúðafrjálsar matvöruverslanir. Við getum sett umhverfisskatta á vörur sem hafa losað mikið af gróðurhúsalofttegundum í framleiðsluferlinu og svo framvegis. Fjárhagslegar ívilnanir á umhverfisvænar vörur. Deilisamfélagið stóraukið með almenningssamgöngum og svona má lengi telja. Allt krefst þetta bara ímyndundarafls. Spurningin er: Hvenær ætlum við að taka ábyrgð og raunverulega krefjast samfélagsbreytinga?
Þegar ég var ítrekað stoppuð af lögreglunni fyrir engar sakir skildi ég ekkert hvað var í gangi. Svo fór mig að gruna að þetta tengdist nágrannaerjum og þótt ég gæti ekki sannað það fékk ég þó aðstoð úr óvæntri átt til að stöðva þessar ofsóknir.
Á þessum tíma var ég nýskilin við manninn minn til margra ára og hafði skilnaðarferlið verið erfitt. Ég bjó í frekar litlu fjölbýlishúsi þar sem allir höfðu sérinngang, var gjaldkeri húsfélagsins sem var nokkuð ónæðissamt starf á þessum tíma og nágrannarnir komu á öllum tímum til að borga reikningana sína.
Þriggja ára sonur minn veiktist mjög alvarlega og þar sem ég þurfti að vera hjá honum nánast allan sólarhringinn á sjúkrahúsinu kom ég eldra barninu fyrir hjá ættingjum. Enginn af nágrönnunum var til í að taka að sér gjaldkerastarfið, ég fór íbúð úr íbúð, sagði þeim að barnið mitt væri mjög veikt í lyfjameðferð og ég treysti mér ekki lengur til að sjá um hússjóðinn. Mikið var ég sár og ekki síður undrandi. Sjálf hefði ég ekki hikað við að taka þessa aukabyrði af manneskju í svona erfiðleikum.
Þetta var skelfilegt tímabil, stundum hélt ég að barnið mitt dæi, svo veikt var það. Ekki hafði ég nokkurn stuðning af fyrrum eiginmanni eða fólkinu hans. Skilnaðurinn var vissulega erfiður og hatrammur en að láta það bitna á þennan hátt á barninu var ofar mínum skilningi. Samband hans við börnin var ekki sérlega náið en hann var þó pabbi þeirra. Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn en tautaði alltaf að hann þyldi ekki sjúkrahús og svo var hann farinn eftir smástund. Hann bauð ekki fram neina hjálp, eins og að leysa mig af við sjúkrabeðinn. Það var starfsfólkið sem sá til þess að ég kæmist annað slagið heim. Stundirnar heima notaði ég til að gráta því á sjúkrahúsinu varð ég að vera sterk fyrir barnið mitt.
Ekki fékk ég mikinn frið til að gráta, heldur var stöðugt hamast á hurðinni hjá mér, nágrannar á ferð til að borga rafmagn og hita og þess háttar, höfðu séð bílinn minn í innkeyrslunni og komu þá strax.
Eftir að ég skildi og stóð uppi ein með börnin fann ég fyrir auknu virðingarleysi frá nágrönnunum í minn garð, aðallega hjónunum á hæðinni fyrir ofan mig, og það var eins og engu skipti að ég væri með fárveikt barn.
Ekki í vinsældakeppni
Lífið varð sífellt erfiðara, reikningarnir hrúguðust upp og á tímabili voru fjölmargir lögfræðingar á hælunum á mér. Ef ég hefði búið á litlum stað úti á landi hefði eflaust verið haldin söfnun fyrir mig en ég hvarf í fjöldann í Reykjavík.
Ég hafði hvorki tíma né geð í mér til að vera í vinsældakeppni í húsinu á þessum erfiðu tímum og þegar hjón í húsinu vildu frá sérhita í íbúð sína var ég sú eina sem samþykkti það ekki. Þessi hjón bjuggu næst hitainntakinu og vildu spara sér fé en á kostnað okkar hinna sem enginn hugsaði út í. Mér datt ekki í hug að gera þessu fólki neinn greiða, hjónin sýndu mér algjört tómlæti þegar ég sagði frá veikindum sonar míns og bað þau um að sjá um gjaldkerastöðuna fyrir mig. Átti ég nú að fara að borga hærri hita fyrir þau?
Karlinn á hæðinni fyrir ofan mig vann hjá Reykjavíkurborg og einn daginn mætti hann með reikning til mín fyrir málningu sem hann hafði reddað húsfélaginu í gegnum afsláttarkjör hjá borginni. Mér fannst þetta óheyrilega dýrt og eitt símtal upp í Málningu sýndi mér að við hefðum getað fengið nákvæmlega sömu málningu á húsveggi, glugga og þak á helmingi lægra verði þar.
„Alltaf sýndi ég lögreglunni fyllstu kurteisi þótt ég yrði sífellt pirraðri. Ég var stundum látin blása í áfengismæli þótt hábjartur dagur væri og börnin í aftursætinu.“
„Og hver ákvað að þakið ætti að vera rautt?“ spurði ég pirruð, ég þoli ekki rauð þök. Hann benti á næsta hús þar sem var rautt þak og sagði fordæmi fyrir þessu vali en ég benti á húsin í kring og mislit þökin á þeim.
Hinir nágrannarnir samþykktu alltaf allt sem karlinn lagði til, eða þorðu ekki að mótmæla, það var bara ég, gjaldkeri húsfélagsins, sem mótmælti yfirgangi hans. Auðvitað hefði átt að halda húsfund og ákveða þetta í sameiningu en karlinn var svo frekur.
Einn daginn þegar ég var heima í kærkominni grátpásu tók ég mig til og opnaði gluggaumslögin sem biðu í hrúgum. Eitt þeirra var frá tryggingarfélaginu mínu sem tilkynnti að búið væri að kaupa húseigandatryggingu fyrir mig. Ég hringdi undrandi í tryggingarfélagið og sá sem ég talaði við sagði að ódýrara væri að hafa allt húsið með í pakkanum. Ég bað hann um að fletta upp kennitölunni minni, þá sæi hann að ég væri skuldug hjá þeim, hvort ekki væri sniðugra ef ég borgaði eldri skuldir áður en ég stofnaði til nýrra.
Stríð vegna garðvinnu
Lítill garður fylgdi öllum íbúðunum, granninn á efri hæðinni hafði svalir, ég var með smáverönd en svo var hluti garðsins sameiginlegur með íbúðum. Ég og freki granninn vorum í endaíbúðum og þar voru bara tvær hæðir svo ekki voru fleiri um garðskikann okkar. Hann og kona hans gerðu aldrei neitt þar svo það kom í minn hlut að slá, reyta arfa og girða, en eitt árið voru settir upp skjólveggir sem gerðu garðana meira kósí og sér. Ég reyndi reglulega að virkja fólkið uppi í garðvinnu en tókst ekki.
Syni mínum batnaði hægt og rólega og ég fékk stundum að taka hann heim en þá varð hann að vera í einangrun. Ég lét nágranna mína vita af því og sagði þeim að hann mætti ekki leika við börn þeirra vegna smithættu. Ekki var hlustað á það, börnin af efri hæðinni komu iðulega út í garð þegar þau sáu son minn þar að leik svo ég þurfti að taka hann inn. Svo hringdu börnin dyrabjöllunni hjá mér ef þeim var mál. Ef ég sagði þeim að fara heim til sín og pissa þar sögðu þau kannski að mamma þeirra væri að leggja sig og yrði svo reið …
Loks eftir langa hríð gafst ég upp, fór upp til nágranna minna og hreinlega bannaði þeim að nota garðinn þar sem þeir sæju sér aldrei fært að gera neitt þar. Þessir nágrannar mínir eru útlenskir og töluðu fínustu íslensku en báru þó alltaf fyrir tungumálaörðugleikum ef ég þurfti að ræða eitthvað við þá. Þetta fólk var rammkaþólsk og sagðist ekki mega gera neitt á sunnudögum, hvíldardaginn hélt það að sjálfsögðu hátíðlegan. Hina sex daga vikunnar var það of upptekið við annað.
Eftir þetta skall á fullur fjandskapur. Ég komst fljótlega að því að þessi hjón hefðu gengið á milli hinna í húsinu og nítt mig niður því ég fór að finna fyrir óvæntri andúð frá nokkrum öðrum. Ekki hafði ég nokkra orku til að reyna að leiðrétta lygarnar.
Gamlar vinkonur mínar þekkja eina nágrannakonuna sem var gift lögreglumanni, og er kannski enn, og heyrðu svo krassandi sögur af mér hjá henni að þær birtust óvænt hjá mér. Ég bauð þeim inn og upp á kaffi og svo spurðu þær hreinskilnislega hvort það væri rétt að ég væri orðin fyllibytta, þessi kona hefði sagt þeim það. Hún hefði talað um að ég ætti svo mikið af vínglösum … ég leit á skápinn minn með fínu vínglösunum sem ég hafði safnað í 15 ár og sagði brosandi: „Ef ég væri fyllibytta myndi ég líklega drekka úr sultukrukkum!“
Þær skellihlógu, svolítið skömmustulegar yfir því að hafa trúað þessu. Áður fyrr komu vissulega einhverjir nágrannar í kaffi til mín og sáu þá eflaust glasasafnið, en allar heimsóknir lögðust af eftir að sonur minn veiktist og þurfti að vera í einangrun heima, og um leið tækifæri mín til að halda góðu sambandi við nágrannana.
Leynifundur í næstu íbúð
Eitt kvöldið fór ég út á veröndina mína til að anda að mér fersku lofti. Ég heyrði strax að fjöldi fólks var í íbúðinni á neðri hæðinni við hliðina á mér en sá ekkert fyrir skjólveggnum háa. Gluggi var opinn í íbúðinni svo ég heyrði orðaskil. Þegar nafn mitt bar á góma brá mér og ég færði mig nær veggnum og settist niður á stéttina til að heyra betur. Ég veit að maður á ekki að liggja á hleri en ég gat ekki stillt mig og er fegin því vegna þess sem síðar gerðist. Þarna voru meðal annars grannarnir af efri hæðinni og töluðu á góðri íslensku um vandræðamanneskjuna mig og nauðsyn þess að losna við mig úr húsinu.
„Er hann örugglega til í þetta?“ heyrði ég svo að einn karlinn sagði og hann fékk jákvætt svar við því. Ég dreif mig fljótlega inn, fannst þetta of óþægilegt.
Mjög fljótlega eftir þetta fór lögreglan að ónáða mig í tíma og ótíma þegar ég var á bílnum. Mér fannst það afar óþægilegt og þegar þetta hætti ekki fór mér að finnast þetta undarlegt. Ég mátti varla aka Ártúnsbrekkuna án þess að sjá blikkandi ljós í baksýnisspeglinum. Alltaf sýndi ég lögreglunni fyllstu kurteisi þótt ég yrði sífellt pirraðri. Ég var stundum látin blása í áfengismæli þótt hábjartur dagur væri og börnin í aftursætinu.
„Ég fékk aldrei að vita hvað kom út úr rannsókn varðstjórans eða hvort eftirmál hefðu orðið vegna hennar en þessar ofsóknir hættu strax.“
Einu sinni á leið minni á Landspítalann skipti ég yfir á vinstri akrein til að liðka fyrir umferð frá aðrein, til að þeir bílstjórar kæmust strax inn á hægri akrein á aðalbraut. Þetta er svo sjálfsagt að ég skil ekki þegar fólk gerir þetta ekki. Í kjölfarið var ég stoppuð af lögreglu og fékk áminningu … fyrir að flakka á milli akreina. Ég þurfti að mæta niður á stöð vegna þessa máls og sagði meðal annars í skýrslutökunni að svona akstursmáti væri skylda um alla Evrópu. „Við erum ekki í Evrópu,“ var svarið. „Nú, hvar erum við þá?“ spurði ég kurteislega á móti en fékk ekkert svar. Mér var sagt í lokin að ég fengi að heyra frá lögfræðideildinni en síðan eru um 20 ár og enn hefur ekkert heyrst.
Varðstjórinn hennar mömmu
Ég sagði mömmu frá þessu og að það væri eitthvað gruggugt í gangi, mig væri farið að gruna að nágrannar mínir stæðu á bak við þetta. Mamma veit að ég ímynda mér ekki hlutina og hún ákvað að hjálpa mér við að komast til botns í þessu. Hún þekkti varðstjóra sem hún hafði kynnst á sólarströnd sumarið áður og lánað honum peninga eftir að hann týndi vísakortinu sínu eða eitthvað slíkt.
Við mamma fórum saman niður á lögreglustöð þar sem varðstjórinn hennar tók vel á móti okkur. Þegar hann hafði heyrt málavöxtu lofaði hann að kanna málið. Hann vissi ekki hvort um upplognar ásakanir á hendur mér væri að ræða eða hvort eitthvað annað hefði orðið þess valdandi að ég væri undir smásjá.
Ég fékk aldrei að vita hvað kom út úr rannsókn varðstjórans eða hvort eftirmál hefðu orðið vegna hennar en þessar ofsóknir hættu strax.
Það er mjög alvarlegt ef einhver hefur misnotað búning sinn og vald til að níðast á manneskju vegna upploginnar sögu um að hún væri fyllibytta, þá gæti hver sem er sem þekkir lögreglumann komið óvinum sínum í klípu.
Þrátt fyrir þennan góða varðstjóra, vin mömmu, þá tók mig langan tíma að taka lögregluna í sátt aftur.
Þegar ég flutti loks úr þessu húsi fannst mér þungu fargi af mér létt og síðan hef ég aðeins átt góða granna. Það þarf greinilega ekki nema einhvern einn til að eyðileggja allt.
Það tók mig mörg ár að greiða allar skuldir mínar og jafna mig fjárhagslega eftir veikindi barnsins en mér tókst það fyrir rest þótt seint geti ég kallast rík kona. Ekki gerði það baráttuna léttbærari að þurfa að kljást við þessa erfiðu nágranna.
Ísland kemur nokkrum sinnum fyrir í myndbandi sem Bored Panda Art hefur tekið saman um verk listamannsins Rich McCor, eða Paperboyo eins og hann kallar sig, sem er þekktur fyrir að umbreyta kennileitum um heim allan með klippimyndum.
Listaverkin eru þannig gerð að Paperboyo setur skuggaklippimyndir inn á ljósmyndir af sögufrægum stöðum sem gefur áhorfandanum nýtt sjónarhorn á myndirnar. Paperboyo hefur meðal annars notað Kópavogskirkju, Geysi og Hallgrímskirkju í myndum sínum. Myndbandið sem Bored Panda Art klippti saman er hér fyrir neðan og hægt er að skoða verk Paperboyo á Instagram undir nafni listamannsins.
Þegar sólargeislarnir hellast yfir garðinn og hugurinn færist út fyrir dyrnar þá dreymir fólk um rjóðar kinnar og kalda drykki á pallinum. Þetta er tíminn sem við borðum morgunmatinn utandyra og krakkarnir bjóða vinum heim í himnasæng til að fylgjast með skýjunum hreyfast. Gefið hugmyndafluginu lausan tauminn, hér eru nokkrar sniðugar leiðir til að poppa upp pallinn.
Umsjón / Elva Hrund Ágústsdóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir
Anna Eðvaldsdóttir ljósmóðir hefur undanfarin ár tekið eftir mikilli aukningu á þvagfærasýkingum hjá konum á barneignaraldri og jafnvel allt niður í leikskólaaldur. Aðalástæða aukningarinnar telur Anna vera að konur þurrki sér ekki rétt eftir að þær eru búnar að pissa.
„Ég hef tekið eftir því bæði í vinnunni minni á meðgöngu- og sængulegudeildinni á Landspítalanum og í heimaþjónustum að fleiri konur eiga sögu um endurteknar þvagfærasýkingar, blöðrubólgu og jafnvel nýrnasýkingar,“ segir Anna sem hefur verið ljósmóðir í 24 ár.
„Síðastliðin ár hef ég markvisst spurt konurnar sem ég sinni og eru með þessa sögu hvernig þær þurrki sér eftir að þær eru búnar að pissa. Hvort þær fari á milli fóta og þurrki eða hvort þær fari frá annarri hvorri hliðinni og þurrki. Niðurstaðan er heldur betur athyglisverð því nánast undantekningarlaust eru konur sem eru með sögu um endurteknar e-coli-bakteríur í þvagi að þurrka sér vitlaust. Sem sagt, þær eru að fara með pappírinn á milli fóta og halda að þær séu ekki að fara með pappírinn nema bara yfir þvagrásina og alls ekki aftar, en það er bara oft þannig að pappírinn fer aðeins lengra en hann átti að fara og þá draga þær e-coli-bakteríurnar með pappírnum að eða yfir þvagrásina þegar þær „skoða“ pappírinn eftir að þær eru búnar að þurrka sér. Ef bakterían hefur einu sinni komist í þvagrásina og upp í blöðru, þá er eins og þvagrásin sé farin að þekkja þessa bakteríu og býður hana velkomna næst þegar hún á „leið fram hjá“.“
Niðurstaðan er heldur betur athyglisverð því nánast undantekningarlaust eru konur sem eru með sögu um endurteknar e-coli-bakteríur í þvagi að þurrka sér vitlaust.
Nauðsynlegt að kenna strax í leikskólum Það er upplifun Önnu að konur séu almennt ekki meðvitaðar um mikilvægi þess að skeina sig rétt.
„Þegar ég var lítil stelpa þá var lögð mikil áhersla á að passa að fara aldrei með pappírinn á milli fóta þegar ég þurrkaði mér eftir að ég var búin að pissa. Núna finnst mér konur verða dálítið hissa þegar ég spyr þær um þetta, því þær hafa bara aldrei heyrt að þetta gæti verið ástæðan fyrir því að þær fá endalausar blöðrubólgur. Það er auðsjáanlega lítið rætt eða kennt hvorki í skólum né leikskólum, hversu mikilvægt er að aðskilja algerlega svæðið í kringum endaþarminn, þar sem e-coli-bakteríurnar eru, þær geta líka verið á stærra svæði í kringum endaþarminn en að maður heldur. Þess vegna eiga konur alltaf að þurrka frá þvagrás og afturábak en alls ekki frá þvagrás og framávið, því þá er hætta orðin á að e-coli-bakteríur nái í bláendann á pappírnum og slæðist yfir þvagrásarsvæðið þá er leiðin greið upp í þvagfærin.“
Anna segir að átak sé nauðsynlegt í þessum fræðum og þar þyrfti að byrja strax á leikskólunum.
„Ég veit það með vissu að í mörgum leikskólum er litlu stelpunum kennt að þurrka sér þannig að þær fara með pappírinn á milli fóta og þerra pissið. Ef við komum þessu strax í ferli, frá því stelpur byrja að þurrka sér sjálfar, eftir að þær eru búnar að pissa, þá held ég að við gætum sparað mikið í sýklalyfjanotkun. Ég er sannfærð eftir þessa eftirfylgni mína síðastliðin tvö ár að sýkingarhætta yrði miklu minni ef við myndum kenna stelpum og konum að þurrka sér rétt,“ segir Anna.
Ef við komum þessu strax í ferli, frá því stelpur byrja að þurrka sér sjálfar, eftir að þær eru búnar að pissa, þá held ég að við gætum sparað mikið í sýklalyfjanotkun.
Konur sem breyttu skeiniaðferð hættu að fá sýkingar Hún hefur verið með konur í heimaþjónustu eftir barnsburð sem hafa verið á sýklalyfjum nokkrum sinnum á ári vegna sýkinga í þvagfærum og fékk að fylgja nokkrum þeirra eftir þegar þær breyttu um aðferðir við að þurrka sér eftir að þær voru búnar að pissa.
„Það kom mér bara ekkert á óvart að þvagfærasýkingarnar sem konurnar fengu nokkrum sinnum á ári höfðu bara ekki komið aftur eftir að þær breyttu um aðferð við að þurrka sér eftir þvaglát. Auðvitað er það líka þekkt að kynlíf er einn þáttur í e-coli-sýkingum í þvagfærum en ég held að ég geti fullyrt að ef konur passi upp á hvernig þær þurrki sér þá muni sýklalyfjanotkun vegna þvagfærasýkinga snarminnka. Því vil ég endilega skapa umræðu um þetta,“ segir Anna.
Hún bætir þó við að lokum að auðvitað séu alltaf einhverjar sem sleppi þó þær hafi alltaf þurrkað sér fram á við. „En eg tel þær bara heppnar að hafa ekki sýkst. Við erum mismeðtækilegar fyrir sýkingum og ef við fáum fyrstu sýkinguna, vilja gjarnan fleiri fylgja i kjölfarið. Allar konur ættu að hafa þetta í huga ef þær hafa einhvern tímann fengið þvagfærasýkingu.“
Á sólbjörtum dögum jafnast ekkert á við góða ístertu með kaffinu. Þær eru ferskar, góðar og gleðja alltaf. Hér er uppskrift að einstakri sumarístertu í boði Gestgjafans.
Ísterta með kaffimarens
fyrir 12
Marensbotnar
2 tsk. espressó-skyndikaffiduft
1 msk. sjóðandi vatn
4 eggjahvítur
¼ tsk. cream of tartar
¼ tsk. salt
2 dl sykur
1 tsk. vanilludropar
Stillið ofn á 130°C. Blandið saman kaffidufti og heitu vatni, setjið til hliðar og látið kólna. Setjið eggjahvítur, cream of tartar og salt saman í hrærivélarskál og þeytið saman. Þegar blandan byrjar að stífna er sykri bætt saman við í nokkrum skömmtum. Stífþeytið blönduna þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan hreyfist nokkuð til. Bætið þá vanilludropum og kaffiblöndunni út í og blandið vel saman. Búið til tvo botna úr deiginu með því að teikna tvo hringi í þeirri stærð sem tertan á að vera í (u.þ.b. 20-25 cm í þvermál) á bökunarpappír. Skiptið deiginu í tvennt, dreifið því innan hringjanna og bakið í 1 ½ klst. Slökkvið þá á ofninum og látið botnana vera áfram inni í a.m.k. 1 klst. Látið þá kólna alveg áður en bökunarpappírinn er tekinn af.
Athugið að baka þarf báða botnana í einu, í blástursofni er það lítið mál en ef ekki er blásturstilling á ofninum þarf að koma þeim saman fyrir á einni plötu. Eins má helminga uppskriftina, baka bara einn marensbotn og hafa hann þá á milli íslaganna.
Samsetning
1 l súkkulaðiís
1 l vanilluís eða karamelluís
50 g pekanhnetur, gróft skornar
Ofan á
2 ½ dl rjómi, þeyttur
kokteilber til skrauts
Hrærið súkkulaðiísinn mjúkan. Bætið pekanhnetunum út í. Hrærið vanilluísinn mjúkan. Setjið annan marensbotninn á disk sem þolir frost og dreifið súkkulaðiísnum varlega yfir. Setjið hinn botninn ofan á og síðan vanilluísinn þar ofan á. Breiðið plastfilmu yfir og setjið í frysti í a.m.k. 1 klst. Þegar kakan er borin fram er þeyttum rjóma dreift yfir hana og hún skreytt með kokteilberjum.
Ráð
Látið ísinn aðeins taka sig við stofuhita þannig að gott sé að hræra hann í hrærivél eða með þeytara.
Gott er að nota smelluform sem passar utan um marensbotnana til þess að fá kökuna jafna og fallega
Gott er að miða stærð tertunnar við smelluform heimilisins, þannig er hægt að nota það til þess að fá hana jafna og fallega. Setjið einfaldlega formið utan um neðri marensinn á diskunum (ekki nota botninn af forminu) og setjið tertuna saman eins og lýst er. Þegar tertan er tekin úr frysti er auðvelt að losa um hana með því að renna hníf inn eftir forminu.
Arnar Pétursson skráði sig í fyrsta sinn í Reykjavíkurmaraþonið þegar hann var átján ára og þá aðeins með þriggja vikna fyrirvara. Þrátt fyrir að undirbúningur Arnars fælist varla í öðru en að búa sér til play-lista fyrir hlaupið varð hann í öðru sæti af Íslendingum. Síðan þá er hann margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum og ferðast nú um landið í samstarfi við Íslandsbanka til að miðla þekkingu sinni og leiðbeina fólki sem langar að byrja að hlaupa eða ná meiri árangri.
„Það er hægt að verða mjög góður hlaupari á merkilega auðveldan hátt,“ segir Arnar þar sem hann situr gegnt blaðamanni á kaffihúsi í Perlunni. „Regla númer eitt, tvö og þrjú er að vera þolinmóður. Þá geta mjög góðir hlutir gerst. Maður þarf að horfa langt fram í tímann og setja sér markmið en hafa margar litlar vörður á leiðinni. Og maður þarf vissulega að hafa hausinn í lagi því það kemur alltaf mótlæti, til dæmis bara ein erfið brekka sem maður þarf að vera búinn að ákveða hvernig maður ætlar að tækla.“
Fannst hlaupaíþróttin sú einhæfasta en sá svo ljósið
Arnar byrjaði að æfa langhlaup af alvöru fyrir rétt rúmlega sjö árum en æfði áður fótbolta og körfubolta. „Mér datt ekki í hug að æfa hlaup þótt verið væri að benda mér á að ég væri góður hlaupari. Mér fannst þetta bara einhæfasta sport allra tíma og var örugglega mesti efasemdarmaður landsins í garð þess. En svo sjá ég nú loksins ljósið.“
Arnar segist hafa ætlað að hlaupa með pabba sínum í Reykjavíkurmaraþoninu þegar hann var sextán ára en hafi verið of ungur til að mega taka þátt þar sem aldurstakmark er átján ár. „Einu ári síðar ákvað ég því að skrá mig með þriggja vikna fyrirvara og hafði þá aldrei hlaupið lengra en tíu kílómetra. Ég hugsaði að fyrst pabbi hefði getað þetta, þá væri þetta örugglega ekkert mál fyrir mig,“ segir Arnar og glottir. „Eini undirbúningurinn minn var að gera góðan play-lista fyrir hlaupið. Ég endaði í öðru sæti af Íslendingunum og sló þrjátíu ára gamalt Íslandsmet í flokki 18-20 ára og 20-22 ára.“
„Eini undirbúningurinn minn var að gera góðan play-lista fyrir hlaupið. Ég endaði í öðru sæti af Íslendingunum og sló þrjátíu ára gamalt Íslandsmet í flokki 18-20 ára og 20-22 ára.“
Þarna sá Arnar að hlaupin hentuðu honum vel og hann var hvattur til að fara að æfa. „Mér fannst erfið tilhugsun að ætla að segja skilið við körfuna. Ég var í yngra landsliðinu í körfubolta; varð tvisvar Norðurlandameistari og var fyrirliðinn í meistaraflokki Breiðabliks. Svo hafði ég alltaf verið mikill efasemdarmaður um hlaupin og fannst þau mjög einhæf. Og ég held að margir hafi neikvæða upplifun af hlaupunum fram eftir menntaskólaárunum því hlaup eru mikið notuð í refsingarskyni, til dæmis á æfingum í boltaíþróttum.“
Ólympíuleikarnir raunhæfur möguleiki
Tveimur árum síðar, sumarið 2011, ákvað Arnar að taka aftur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og æfa að þessu sinni af alvöru fyrir hlaupið með um það bil fjögurra mánaða undirbúningi. Þá stóð hann uppi sem sigurvegari og segist þá hafa ákveðið að snúa sér alfarið að hlaupunum. „Ég prófaði reyndar að æfa bæði hlaupin og körfuboltann í um það bil hálft ár og æfingaálagið var fáránlegt. Ég hljóp sex kílómetra frá Kópavoginum á hlaupaæfingu í Laugardalnum. Hljóp síðan á hlaupaæfingunni, kannski sjö kílómetra, og hljóp svo aftur í Kópavoginn til að fara á körfuboltaæfingu í einn og hálfan klukkutíma. Þegar ég lít til baka sé ég að það er auðvitað fáránlegt að ég skyldi ná að höndla þetta álag. En svo sá ég að til að ná þeim árangri sem ég vildi ná í hlaupunum, yrði ég að leggja meiri áherslu á þau.“
Arnar brosir og segir að genatískt sé líka meira sem vinni með honum í hlaupunum en körfunni. „Ég er ekki tveir metrar á hæð með langar hendur en er með hraða og stökkkraft. Í hlaupunum hentar vel að vera nettur og með létt bein og geta svifið áfram.“
Arnar segir þó stóru ástæðuna fyrir því að hann sneri baki við körfunni og ákvað að láta reyna á hlaupin vera þá að hann sá að það væri raunhæfur möguleiki fyrir sig að komast á Ólympíuleikana 2020. „Ég hugsaði líka dálítið fram í tímann og hvernig mér myndi líða til dæmis fimmtugum með það að hafa ekki slegið til í hlaupunum, hvort ég myndi sjá eftir því að hafa ekki látið á þetta reyna. Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun minni. Þetta er búið að vera svo ótrúlega gefandi og gaman. Svo getur maður líka enst lengi í hlaupunum. Í körfunni hefði ég kannski átt tíu ár eftir, það er stundum talað um það þegar fólk er komið yfir þrítugt í íþróttinni að það sé röngu megin við þrítugt. Þá er farið að halla undan fæti en í hlaupunum er maður á þeim aldri að byrja að ná alvöruárangri og taka alvöruframförum.“
„Fólk heldur alltaf að það þurfi að fara hraðar en líkaminn aðlagast álagi ef þú gefur honum tíma til þess. Ef þú ferð nógu hægt með lítilli stigmögnun, geturðu náð ótrúlegum árangri. Og forðast meiðsli.“
Þessa dagana er Arnar að æfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og segir markmiðið vera að hlaupa undir 2 klst. og 20 mínútum. „Til að eiga möguleika á að komast á Ólympíuleikana verð ég að hlaupa vel undir þessum tíma en svo þarf ég líka að hlaupa annað maraþon í apríl á næsta ári. Síðan fær maður ekkert að vita fyrr en 1. maí þegar heimslistinn er birtur, þar þarf maður að vera meðal efstu 80 en þeir komast á leikana. Maður veit því ekki hvað verður nóg því það skiptir máli hvað allir hinir gera. Kannski hlaupa allir á sínum besta tíma og þá kemst maður ekki inn á topp 80 eða þeir hlaupa allir á sínum lakasta tíma og þar með er maður kominn á leikana. En þetta er eitthvað sem verður bara að koma í ljós.“
Hann segist búinn að vera að hlaupa 150 til 180 kílómetra á viku síðastliðnar tvær vikur. „En af þessum æfingum eru kannski 120 kílómetrar bara rólegt skokk og þegar ég segi rólegt þá meina ég virkilega rólegt,“segir Arnar með áherslu. „Það er erfitt að fara nógu hægt og eitt það merkilega við hlaupin, sérstaklega þegar fólk er að byrja. Oft er þetta bara skrefinu fyrir ofan labb. Þótt þú sért á þeim hraða ertu samt að fá ótrúlega mikið út úr æfingunni. Fólk heldur alltaf að það þurfi að fara hraðar en líkaminn aðlagast álagi ef þú gefur honum tíma til þess. Ef þú ferð nógu hægt með lítilli stigmögnun, geturðu náð ótrúlegum árangri. Og forðast meiðsli. Hámarka líkurnar á árangri en lágmarka líkurnar á meiðslum. Þú getur náð góðum hlaupaárangri með því að fara fimm sinnum út að hlaupa í viku, hlaupa hratt og verða góður hlaupari en það eru mjög miklar líkur á því að þú meiðist þar sem þú ert alltaf að hlaupa í svo mikilli ákefð. Ef þú meiðist, þá lendirðu kannski í því að geta ekki hreyft þig í mánuð og það er ömurlegt. Það þarf líka að vera gaman og gleði; það er mikilvægur punktur sem má ekki gleymast.“
Var hræddur við að mæta á fyrstu hlaupaæfinguna
Arnar gerir mikið af því að halda fyrirlestra fyrir hlaupahópa og fyrirtæki um allt land. Hann segist vilja deila því sem hann hefur sjálfur lært og sér finnist ótrúlega gaman og gefandi að miðla þekkingu sinni. Hann er líka farinn að taka fólk í þjálfun.
„Það er svo gaman að sjá fólk bæta sig og upplifa gleðina hjá því og finna þakklætið. Ég hef auðvitað mikla þekkingu á hlaupunum og lært mikið sjálfur, bæði á eigin skinni og af öðrum, og mér þætti synd að deila því ekki áfram. Ég vil líka kynna fólk fyrir hlaupahópum, því það eru allar líkur á því að það sé einn slíkur í hverfinu sem fólk jafnvel veit ekki af. Og hlaupahópar eru frábærir, þar er fólk af öllum stærðum og gerðum, atvinnuhlauparar og þeir sem hlaupa sér til gamans. Það er nefnilega oft þannig að fólk þorir ekki að mæta á æfingu og ég hef heyrt óteljandi sögur af því að fólk æfi sig áður en það mætir á hlaupahópsæfingu af því að það óttast að ná ekki að halda í við hina. Og það er mjög skiljanlegur, en algjörlega óþarfur, ótti. Ég var til dæmis sjálfur hræddur þegar ég mætti á mína fyrstu hlaupaæfingu því ég hélt ég gæti ekki hlaupið með neinum. En það hlaupa alltaf allir með einhverjum. Það er enginn skilinn eftir einn einhvers staðar.“
Aðspurður hvort það sé ekki sama uppi á teningnum þegar fólk þorir ekki að skrá sig í hlaup af ótta við að vera með lakastan tímann, svarar Arnar að það sé mikilvægt að kýla á það að hlaupa fyrsta hlaupið. „Það er ótrúlega mikilvægt því þar með færðu tímann þinn skráðan og því hægari tíma sem þú færð, því jákvæðara ætti það að vera því það er þá auðveldara að bæta tímann næst,“ segir Arnar og brosir breitt. „Það er eiginlega ekkert skemmtilegra í hlaupunum en að bæta tímann sinn. Því hægar sem maður byrjar, því meiri bætingar á maður inni. Það er þess vegna hægt að labba í gegnum fyrsta hlaupið, svo í því næsta er bætingin heilmikil og það er svo frábær tilfinning. Og það er enginn að spá í hvernig hinir hlaupa; það eru bara allir að hugsa um að ná bætingu og það samgleðjast allir þegar maður bætir sig. Hlaupasamfélagið er svo frábært.“
Skiptir hlaupastíllinn miklu máli?
„Já, algjörlega. Sérstaklega þegar kemur að því að forðast meiðsli. Ef þú ert til dæmis með hlaupastíl sem setur of mikið álag á ákveðinn hluta líkamans, þá getur það skapað meiðsli ef þú heldur áfram að hamra á þeim stað. Ég tek fólk í hlaupastílsgreiningar og vinn svo hægt og bítandi í hverjum þætti fyrir sig sem þarf að bæta. En það er gert á löngum tíma; það er betra að taka lengri tíma í að laga einn þátt því hreyfingin verður að vera orðin ósjálfráð áður en þú byrjar að einbeita þér að næsta þætti. Það er erfitt að hugsa um marga hluti í einu og þeir þurfa að verða ósjálfráðir. En ég segi alltaf að það er jákvætt að þurfa að bæta sig í einhverju af því að þá veistu að þú átt inn mjög miklar bætingar.“
Arnar ráðleggur fólki að forðast malbik eins og hægt er á hlaupunum. „Ég líki þessu við það þegar maður hendir golfkúlu í malbik, þá skoppar hún upp aftur og það er í raun eins og höggið sem kemur á beinin þegar hlaupið er á malbiki. Ef þú hendir golfkúlunni í gras eða möl, þá dempast höggið mun meira. Því ráðlegg ég fólki að hlaupa á sem mýkstu undirlagi til að fara betur með beinin og liðina. Ég reyni sjálfur að hlaupa 90% af öllum mínum hlaupum ekki á malbiki og spara frekar hraðar alvöruæfingar fyrir það. Minn uppáhaldshlaupastaður og sá sem ég tel þann besta á landinu, jafnvel í heiminum, er Heiðmörk. Þar er endalaust af góðum stígum og maður er að hlaupa í geggjaðri náttúru. Og nóg af mjúku undirlagi.“
Villist stundum viljandi á hlaupunum
Aðspurður hvað það sé nákvæmlega við hlaupin sem heilli svarar Arnar að það sé margt. Það sé meðal annars tímasparnaður fólginn í því að taka hlaupaæfingu. „Á hlaupunum getur maður skipulagt komandi daga og fundið lausn á einhverju vandamáli, hreinsað hugann og ákveðið hvernig maður ætli að tækla málin. Mér finnst frábært ef það er mikið að gera hjá mér að fara út og taka rólegt skokk og fara yfir málin í huganum á meðan ég er samt að taka nákvæmlega þá æfingu sem ég ætti að vera að taka samkvæmt æfingaplaninu. Ein mesta snilldin við hlaupin er að þú getur verið hvar sem er í heiminum en samt tekið æfinguna sem þú átt að taka, nákvæmlega eins og þú átt að taka hana. Og það er frábært að vera til dæmis á ferðalagi, á nýjum stað, því maður getur notað hlaupin til að skoða borgina en líka til að taka æfinguna sem er á planinu. Maður getur hlaupið hvar sem er og hvenær sem er. Eitt það skemmtilegasta sem ég upplifi við hlaupin er að upplifa nýja staði í gegnum þau,“ segir Arnar og ljómar bókstaflega.
„Þegar maður hleypur á ókunnugum stað er alltaf eitthvað nýtt að koma fyrir sjónir manns. Ég fer stundum af stað og villist viljandi.“
„Þegar maður hleypur á ókunnugum stað er alltaf eitthvað nýtt að koma fyrir sjónir manns. Ég fer stundum af stað og villist viljandi,“ segir Arnar og hlær þegar blaðamaður spyr hvort hann sé aldrei hræddur um að villast. „En ég er með Garmin-úr sem getur vísað mér leiðina til baka. Þannig að það er líka algjör snilld þegar maður er á ókunnugum stað að prófa bara að hlaupa eitthvað og velja svo leiðina til baka í úrinu eða símanum. Það er líka hægt. Ég mæli með að prófa það. En áður en ég fékk mér þetta úr var ég alltaf með smávegis pening á mér því það kom alveg fyrir að maður þurfti að taka leigubíl til baka. Einu sinni var ég í æfingabúðum á Spáni, það voru fyrstu æfingabúðirnar sem ég fór í, og ég ætlaði að hlaupa til baka á hótelið frá frjálsíþróttavellinum. Þá var ég ekki með neina peninga á mér, leiðin átti að vera frekar einföld og það var búið að segja mér hvert ég ætti að hlaupa. Ég var nýbúinn að hlaupa tólf, þrettán kílómetra á æfingunni. Svo hljóp ég af stað og aldrei birtist ströndin sem var búið að segja að ég ætti að sjá á leiðinni. En ég var svo þrjóskur að ég hélt alltaf áfram, mér fannst eitthvað svo ótrúlegt að ég hefði átt að beygja þarna á einu horninu eins og var búið að segja, mér fannst það bara ekki geta staðist. Ég var sjálfsagt búinn að hlaupa um fimmtán kílómetra, í steikjandi hita, og kominn í einhvern hjólhýsagarð sem var svona dálítið skuggalegur. Ég sá einhverja kókflösku liggja þarna og þegar ég áttaði mig á því að ég væri farinn að líta hýru auga til hennar þá hugsaði ég með mér að ég yrði að stoppa og reyna að redda mér einhvern veginn til baka aftur. Ég var auðvitað orðinn rosalega þreyttur, búinn að hlaupa samtals um einhverja þrjátíu kílómetra með æfingunni þarna fyrr um daginn og kominn út í einhverja auðn hreinlega. En ég fékk að hringja þarna einhvers staðar á leigubíl og þegar ég kom til baka á hótelið, örmagna, var allt í hálfgerðu uppnámi þar því ég hefði auðvitað átt að vera kominn til baka fyrir klukkutíma síðan. Allir voru orðnir mjög áhyggjufullir. Þá áttaði ég mig á því að það væri best að vera aðeins varkárari og vera með plan B,“ segir Arnar hlæjandi. „Þetta er fyndin lífsreynsla svona eftir á.“
Hlustar á líkamann í maraþoninu
Arnar segist hlusta mikið á hljóðbækur og hlaðvörp þegar hann hleypur á æfingum en í maraþoninu sjálfu hlaupi hann ekki með neitt í eyrunum. „Ég vil geta hlustað á líkamann og vera meðvitaður um það sem er að gerast í honum, hvort ég þurfi að taka inn orku eða fá mér vatn. Ég vil líka geta fylgst með hlaupastílnum, hvort hendurnar hreyfist rétt og hvort ég sé að hlaupa of hratt eða hægt. Hraðinn skiptir miklu máli því maður vill vera á jöfnum hraða í gegnum allt hlaupið. Það getur verið hættulegt að vera með of mikið stuðlag í eyrunum sem veldur því að maður hlaupi of hratt og kílómetra seinna er maður alveg að bugast því maður fór of hratt,“ segir Arnar hlæjandi.
Ljósmyndarinn er mættur til að smella myndum af Arnari og þar sem hann stillir myndavélina spyr blaðamaður hvort það sé orðið of seint að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið með nokkurra vikna fyrirvara. Arnar fullvissar blaðamann um að svo sé ekki. „Ég myndi segja að það væri orðið of seint að byrja að æfa sig þegar það eru tvær vikur í hlaup. Fólk spyr mig oft að því rétt fyrir hlaup hvað það eigi að gera til að undirbúa sig og ég hryggi það með því að segja að því miður græði það lítið á því nema harðsperrur. Þú ert ekkert að fara að komast í form, þannig séð, á tveimur vikum. Þú ert bara að kalla yfir þig harðsperrur. Þá verður maður bara að sætta sig við það að maður var aðeins of seinn á ferðinni,“ segir hann og hlær, „og þjálfa sig frekar fyrir næsta ár.“
Fjórir punktar frá Arnari sem fólk mætti hafa í huga við undirbúning fyrir Reykjavíkurmaraþonið:
• Settu þér markmið. Markmið hjálpa okkur við að fara út að hlaupa.
• Stöðugleiki skiptir öllu máli. Æfðu að minnsta kosti þrisvar í viku því stöðugleiki í æfingum lætur líkamann bæta sig.
• Farðu hægt og hægðu svo á þér. Þegar rólegt skokk er á dagskrá er mikilvægt að fara nógu hægt. Í mörgum tilvikum er þetta næstum því labb en það er í góðu lagi.
• Hvíldu á hvíldartímabilinu. Hafðu inni í planinu þínu að þú ætlir að taka tvær vikur í hvíld eftir Reykjavíkurmaraþonið. Þetta mun auðvelda þér að leggja hart að þér í undirbúningnum.
Aldís Schram flutti aðra af aðalræðum Druslugöngunnar á Austurvelli í dag og fór hörðum orðum um opinbera stjórnsýslu gagnvart sér. Hún vitnaði meðal annars í skýrslu lögreglu sem unnin var úr yfirheyrslu lögreglu við Aldísi eftir að hún kærði ólögmætar nauðungavistanir en skýrslan er í mörgun atriðum í ósamræmi við það sem Aldís sagði í raun og veru. Auk Aldísar tóku dóttir hennar Tatjana Dís Aldísardóttir og lögmaðurinn Helga Baldvins Bjargar til máls. Hér má sjá ræður þeirra í fullri lengd.
„Gleðilegan dag, kæru landar.
Aldís heiti ég Schram.
Sú hin sama sem á fyrir svokallaðan föður fyrrum ráðherra og sendiherra er nú hefur verið opinberlega borinn sökum um kynferðisbrot af 23 konum (að mér meðtaldri) og stritar við það að telja þjóðinni trú um almætti mitt, þ.e. að ég hafi allar þessar konur á mínu valdi – þess valdandi að vitnisburðunum um kynferðisbrot hans hefur nú fjölgað nú upp í 43. Þessa sömu rullu þuldi umræddur frammi fyrir þjóðinni árið 2012, af því tilefni að Guðrún Harðardóttir birti þá opinberlega þau bréf sem hann hafði skrifað henni í æsku, þar sem hann m.a. lýsir sér sem „sígröðum geithafri“ sem „serðir án afláts“ konur „í draumaheimum.“
Svo er það ég sem á að heita „geðveik!“
Það er það fagnaðarerindi sem hann ásamt konu sinni hefur keppst við að breiða út allar götur síðan árið 1992, er ég í fyrsta sinni hermdi upp á hann kynferðisglæpi. Með þeim lyktum að ég var nörruð upp á geðdeild Landspítalans, greind á korteri með „alvarlegt ítrkekað þunglyndi“ og „maníu“ (sem er þversögn!) og síðan látin sæta nauðungarvistun, mánaðarlangt, án lagaheimildar, þar sem hún var hvorki borin undir ráðuneyti né dóm eins og bar lögum samkvæmt.
Með þeim afleiðingum að þaðan í frá mátti ég mín einskis gegn innrásum lögreglunnar, í fimmgang, í kjölfar þess að ég bar upp á þennan (þá) hæstvirta föður minn fleiri kynferðisbrot gagnvart öðrum (en sjálf mundi ég ekki eftir því hvað hann hafði gert mér fyrr en árið 2002).
Það sama ár, nánar tiltekið þann 13. apríl, sneri ég vörn í sókn og tilkynnti kynferðisbrot beiðanda nauðungarvistana minna til lögreglu, af því tilefni að þá voru til gögn sem sönnuðu hvern mann, sendiherrann, hafði að geyma, þ.e. hans eigin bréf til hins móðurlausa stúlkubarns, Guðrúnar Harðardóttur. Með þeim málalyktum að ég, 10 mínútum seinna, var fyrir beiðni móðurinnar, handtekin, og fyrir beiðni föðurins, nauðungarvistuð. Sem hinn háæruverðugi faðir minn síðan hampaði opinberlega, árið 2012, sem sönnun þess að hann væri saklaus af sök um kynferðisbrot gagnvart Guðrúnu Harðardóttur. Þá var mér, sem hafði reynt að gleyma og fyrirgefa (sem var full vinna því einhverra hluta vegna trúðu æ fleiri mér fyrir því sem þeir höfðu liðið af hendi föður míns), nóg boðið. Ég get og hef sætt mig við að vera útskúfuð úr samfélaginu vegna ljúgvitnis foreldranna – af því ég hef það sem máli skiptir – dásamlega dóttur, trausta vini og gefandi starf, en það sem ég hvorki vil, mun, né á að þurfa að sætta mig við er að vera sökuð um það að vera svo illa innrætt að ljúga kynferðisbrotum upp á sjálfan föður minn. Það er rangt og það er óréttlátt.
Fyrirgefning er jú holl, en hún á ekki að frýja illgjörðarmenn ábyrgð gjörða sinna. Ég ákvað því að sækja umræddan aftur til saka. En fyrst þurfti ég að fá það tryggt að ég yrði ekki handtekin og nauðungarvistuð fyrir vikið. Því var það að ég, þann 6. september árið 2013, arkaði á fund lögreglustjóra og spurði hann í viðurvist Harðar Jóhannessonar, aðstoðarlögreglustjóra, hvort ég, kynferðisbrotaþolinn, mætti eiga von á því að vera handtekin aftur, ef ég kærði gerandann. Lögreglustjórinn kvað nei við. Síðan lýsti ég því yfir að ég ætlaði að leita réttar míns gagnvart föður mínum, allsendis grunlaus um að umræddur Hörður hafði, árinu áður, kvittað upp á það fyrir umræddan geranda að hvorki hann né kona hans hefði nokkrun tíma „beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi“ mín vegna – sem eru ósannindi eins og lögreglugögn sanna.
Nokkrum dögum síðar – eins og við var að búast, gerði móðir mín tilraun til að láta loka mig inni með hringingum sínum til geðdeildar sem og heimilislæknis míns en varð ekki kápan úr því klæðinu þar sem hann tók hana ekki á orðinu og á ég það því þessum lækni mínum að þakka að ég gat mætt í skýrslutökuna, þann 8. oktober árið 2013. Þar rakti ég málavexti ítarlega, frammi fyrir kameru, með vísan í framlagða skriflega skýrslu mína og meðf. sönnunargögn, er sanna aðalkæruefnið sem var „ólögmæt nauðungarvistun.
Kynferðisbrot kærða – sem hann þá mér vitanlega hafði gerst sekur um að sögn 20 aðila (að mér meðtaldri), gat ég ekki hins vegar ekki kært af þeirri augljósu ástæðu að þau sem hann hafði framið gagnvart mér voru fyrnd. En viti menn, kæru minni var vísað frá af þeirri yfirlýstu ástæðu að kynferðisbrot kærða – sem ranglega eru sögð hafa verið „kærð,“ falli ekki undir kynferðisbrotakafla alm. hgl. og „að öðru leyti“ þyki „ekki efni til að hefja rannsókn út af kærunni.“ Þá ákvörðun staðfesti síðan ríkissaksóknari þann 28. febrúar 2014, þótt svo hann árétti sjálfur í bréfi sínu að ég hefði „tekið fram í skýrslutökunni“ að ég væri að „tilkynna“ um kynferðisbrot kærða en „ekki að leggja fram kæru.“ M.ö.o. byggir þessi niðurstaða á ófullnægjandi og röngum upplýsingum.
Því var það að ég fór þess á leit að fá afritun af upptökunni af skýrslutökunni, er ég fékk loks í desember árið 2015. Og þar með fæ ég sannað að rannsóknarlögreglan, í hlutdrægri „samantekt“ sinni á „aðalatriðum“ kæruskýrslu minnar, ýmist rangfærir hana eða leynir aðalatriðum hennar. Þ.e. „aðalkæruefninu“ sem var „nauðungarvistanir.“ Sem hún nefnir ekki á nafn og kallar „sjúkrahúsinnlagnir.“ Og þar með gefur til kynna að kæruefnið sé það að ég hafi lagst inn á sjúkrahús!
Eins og síðan ríkissaksóknari, sem kallar nauðungarvistun mína „vistun.“ Er leynir alvöru glæpsins – sem ríkissaksóknari tók ekki til efnisumfjöllunar að öðru leyti en því að hann sagði „mat lækna“ liggja fyrir um „veikindi“ kæranda. Eigi hann við „geðhvarfasjúkdóm“ þá réttlætir hann per se ekki nauðungarvistun enda ætti því samkvæmt að loka inni þrjú prósent þjóðarinnar!
Þessi vinnubrögð lögreglunnar og ríkissaksóknara kalla ég brot í opinberu starfi. Látum gögnin tala sínu máli. Tanja, dóttir mín og Helga Baldvins Bjargar, hdl., ætla nú að lesa þau upp.“
. . .
Tatjana Dís Aldísardóttir les:
„Starfsmaður geðdeildar Landspítalans skrifar:
„Fékk sprautu gegn vilja sínum kl. 9:00…
Leið illa, grét, spurði um barnið sitt. Var reið út í innlögnina og bað um lögfræðing … mjög
meir og viðkvæm. Hefur grátið töluvert …
Fljótlega var sjúklingur orðin mjög stíf í kjálkavöðvum og í tungunni … átti erfitt með mál og gat varla borðað …
Fékk röng lyf kl. 18:00.
Sjúklingur kvartar undan fótapirringi … Talsvert lyfjuð … Kvartar yfir slappleika … er
druggeruð töluvert, ör og dómgreindarlaus … einbeiting er lítil …
Mjög lyfjuð í morgun og slagaði um gangana … er með kippi í munnvikunum … Vildi ekki
svona ávanabindandi lyf … Hefur áhyggjur af aukaverkunum af ýmsum lyfjum.“
Hjúkrunarfræðingur skrásetur eftirfarandi:
„Þokkalega snyrtileg. Talþrýstingur og er æst og þrætir. Ókurteis á köflum.“ „Ásakanir gagnvart föður. Ekki vitað hvort réttar.“
Geðlæknir skrifar:
„ … hefur verið með ásakanir á sína nánustu eins og stundum þegar hún hefur verið ör og úr raunveruleikatengslum.“
Annar geðlæknir skrifar:
„ … stutt í pirring og æsing sérstaklega ef fjölskyldumál ber á góm. Þá hefur borið töluvert á ranghugmyndum og ásökunum af kynferðislegum toga.“
Sá þriðji skrifar:
„Mikil reiði og taumlausar ásakanir í garð fjölskyldu sinnar einkum föður. Óvíst hvort um
hreinar ranghugmyndir sé að ræða.“
Enda veitti Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, Aldísi afsökunarbeiðni fyrir hönd Landspítalans þann 11.11. árið 2014.“
. . .
Helga Baldvins Bjargar, lögmaður, les:
„Sú sem hér stendur horfði á upptökuna af skýrslugjöf Aldísar hjá lögreglu frá 2013. Myndbandið er 2 klst og 23 mín. Í tæplega tveggja blaðsíðna skriflegri skýrslu lögreglunnar segir:
„Eftirfarandi samantekt var gerð um skýrsluna. Tekið skal fram að stiklað er á aðalatriðum í
samantektinni en um smæstu atriði vísast á hljóð- og myndritun skýrslunnar.“
Eftir að hafa bæði lesið lögregluskýrsluna og horft á alla upptökuna vil ég koma nokkrum
athugasemdum á framfæri:
Í skýrslunni er margoft ekki greint frá því sem Aldís segir eða rangt farið með frásögn
hennar. Mig langar að taka hér þrjú dæmi:
Á upptökunni segir Aldís: „Við vöknuðum allar við hann um nætur – ég náttúrulega hélt bara í asnaskap mínum – ég hef ekki samanburðinn … að svona væri þetta bara, að maður vaknaði við föður sinn uppi í rúmi hjá sér.“
Í lögregluskýrslunni segir: „Aldís talaði um að [hann] hafi staðið yfir rúmi þeirra … þegar
hún var ung.“
Á upptökunni segir Aldís frá því að hún sé með 20 vitnisburði nafngreindra aðila um
kynferðisbrot í skýrslu sem hún leggur fram og segist „vona að lögreglan lesi vitnisburðinn
þeirra.”
Í lögregluskýrslunni segir: „Aldís talaði mikið um meint kynferðisbrot [hans] gegn öðrum
stúlkum og kvaðst hún vera með undir höndum vitnisburði sumra þeirra.“
Á upptökunni segir Aldís: „Við erum 5 sem höfum vaknað við hann um nætur …
Í lögregluskýrslunni segir: „Hún sagði lítillega frá því sem þessar stúlkur hefðu sagt
henni.“
Þá eru mörg atvik sem Aldís lýsir í skýrslutökunni sem ekki er greint frá í samantekt
lögreglunnar á „aðalatriðum!“
• Í lögregluskýrslunni er ekki greint frá því að það eru ásakanir Aldísar um kynferðisbrot, sem eru í öllum tilvikum aðdragandinn að beiðnum um nauðungarvistanir hennar.
• Það er ekki greint frá meintum brotum á reglum varðandi nauðungarvistanir og ólögmætar þvingaðar lyfjagjafir.
• Það er ekki greint frá því að sumar beiðnir um nauðungarvistanir eru skrifaðar á
bréfsefni sendiráðs þar sem beiðandinn titlar sig sendiherra Íslands.
• Í lögregluskýrslunni er dregið mjög úr alvöru sakarefnisins með því að kalla meintar
ólögmætar nauðungarvistanir ýmist „sjúkrahúsinnlagnir“ eða „aðgerðir.“
• Það er ekki greint frá meintu ólögmætu húsbroti sem Aldís sætti af hálfu systur sinnar
og lögreglu þann 9. apríl 1998.
• Það er ekki greint frá því að hið meinta húsbrot er skráð í málaskrá lögreglu sem
„aðstoð við erlend sendiráð.“
• Það er ekki greint frá meintri handtöku sem Aldís sætti þann 13. apríl 2002.
• Það er ekki greint frá því að sú handtaka átti sér stað 10 mínútum eftir að hún hringdi í
lögreglu til að tilkynna um meint kynferðisbrot föður síns.
• Það er ekki greint frá því að samþykki ráðuneytisins á nauðungarvistun Aldísar árið
2002, var veitt áður en beiðnin barst ráðuneytinu skv. mótttökustimpli.
• Það er ekki greint frá því að allar þessar nauðungarvistanir fóru yfir þann tíma sem lög
heimila án þess að fyrir því lægi úrskurður dómara um sjálfræðissviptingu hennar, eins
og lög kveða skýrt á um að þurfi.
Orðrétt segir í skýrslu lögreglunnar:
„Aldís byrjaði á því að segja frá meintum mannréttindabrotum [föður síns] gegn henni er
varðar sjúkrahúsinnlagnir hennar. Hún sagði að [hann] hefði í skugga stöðu sinnar sem
utanríkisráðherra hér á árum áður beitt sér fyrir því að hún yrði lögð inn á geðdeild og gefin
lyf.“
„Aldís fór mikinn um geðheilsu sína í skýrslutökunni og hélt því stakkt og stöðugt fram að
[faðir hennar] væri á bak við þær aðgerðir.“ „Hún vildi að lögregla myndi ræða við þolendur
[hans] og komast að hinu sanna í málinu.““
. . .
Aldís tekur þá aftur við:
„Hallgrímur Pétursson kvað:
Vei þeim dómara, er veit og sér
víst hvað um málið réttast er
vinnur það þó fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.
Má ég eiga von á réttlátri úrlausn minna mála?
Það ræðst af viðbrögðum lögreglustjóra, heilbrigðirsráðherra og dómsmálaráðherra sem hafa fengið gögn í hendur er sanna þessi alverlegu brot í opinberu starfi. Svo þið megið búast við framhaldssögu – en ég lofa ykkur ekki að hún fáist birt!
Kæru landar.
Það er hægt að sporna gegn kynferðisglæpum með breytingum á núgildandi lögum og setja
skýrar reglur til að tryggja framfylgd þeirra. Og ef þeir sem fara með þau völd fyrir okkur,
þegja yfir öllu röngu, þá verðum við víst að vinna verkin fyrir þau.
Það getum við, ef sameinuð stöndum.
Berjumst saman og upprætum kynferðisofbeldi í þessu ástkæra landi okkar!“
. . .
Ljóð sem Aldís vildi láta fylgja með en segist hafa gleymt að flytja:
HETJAN MÍN
Hún þorir að bíða, vona og þreyja
þá stund sem ekki aðrir eygja
kann ekki að láta bilbug sig beygja
né bugta fyrir þeim er hausinn reigja,
hún stekkur eftir hjartans helga boði
ei hlustar á köllin: „Voði, voði“
og galvösk vígvöllinn geysist á,
er guggna hinir og sitja hjá.
Það er hetjan mín, hér og nú,
hún ert þú, þú, þú, þú, þú …!
Druslugangan var farin klukkan 14 í dag og í kjölfarið voru fluttar ræður á Austurvelli. Önnur ræðukonan var Sigrún Bragadóttir sem deildi meðal annars reynslu sinni af bataferli eftir kynferðisofbeldi. Hér er ræða í heild sinni.
„Hæ
Ég heiti Sigrún og ég er drusla!
D. R. U. S. L. A.
DRUSLA
En hvað er það og hver ákveður það?
Haldiði ekki bara að árið 2019 skilgreini Íslensk nútímaorðabók druslu sem:
-konu sem hefur litla siðferðiskennd, lausláta konu
en samt líka:
-lélega flík
-lélegan bíll, bíldrusla
-duglaus manneskju, aumingja
Ég veit það sossum ekki fyrir víst EN mig grunar að þegar móðuramma mín,
sjóarinn og smyglarinn, talaði um að hún væri eitthvað drusluleg var hún
pottþétt ekki að meina: „Æji, ég er eitthvað svo agalega lauslát í dag, ha! Ég bara finn hvernig siðferðiskenndin mín hefur bara hríðfallið í dag, já sei sei.” Nei. Hún var pottþétt að meina að hún væri half slöpp, eitthvað „eymingjaleg” eins og hún hefði orðað það.
Árið er 2019 og orðið Drusla er enn notað til að stimpla, aðallega kvenkyns, brotaþola. Stimpillinn er kúgun og stimpillinn er þöggun. Stimpillinn er leið til að segja þeim að halda bara kjafti og vera sætar. Og gerir þær ábyrgar fyrir ofbeldinu. Það er þess vegna sem við tökum þennan stimpil í dag og afhelgum hann, gerum hann okkar. Og það! Það er valdefling.
Þið vitið það rétt eins og ég að brotaþolar eru allskonar. Brotaþolar eru á öllum aldri, af öllum kynjum og með allskonar líkama. Brotaþolar eru líka börn.
Fyrir 3 árum byrjaði ég með rafræna dagbók undir myllumerkinu Bataferli Sigrúnar á Twitter. Ég vildi gefa litlu stúlkunni mér pláss, stúlkunni og unglingnum sem var brotið á. Vildi gefa þeim tilverurétt.
Sjáiði til, áður fyrr ég vildi oft hverfa. Ég vildi segja þessum litlu stúlkum innra með mér að ofbeldið væri ekki þeim að kenna, að þær væru ekki aumingjar. Með sinn loðna lubba og stóru framtennur. Með sinn stóra hlátur sem truflaði marga. Hláturinn sem var við það koðna þegar ég byrjaði að skrifa um afleiðingar. Þetta var í aðdraganda druslugöngunnar 2016 og var líka gert í þeim tilgangi að fjalla um lúmskar afleiðingar kynferðisofbeldis.
Sjáið til, samfélagið, sérstaklega fjölmiðlar, lögreglu-, réttar- og dómskerfið, bíómyndir og þess háttar, er oft alveg úti að skíta þegar kemur að því að vita eitthvað um afleiðingar þess ofbeldis þegar líkaminn, hugurinn og tilveran er valdsvipt með þessum hætti.
Eða kanski bara villl samféalgið ekki vita það því það er svo agalegt óstuð að vera „fórnarlamb“ og ólekkert að hugsa til þess að heimurinn sé ekki öruggur staður að vera í. Hvað þá að brotaþolar geti verið bara venjulegt fólk að þrauka í tilverunni sinni, borga húsnæðislán, bora í nefnið eða að tana á Tene með fjöllunni.
Brotaþolar eru nefnilega allskonar og afleiðingarnar sem þeir druslast með í gegnum lífið og tilveruna eru líka allskonar. Afleiðngar eru nefnilega ekki eins og svona ONE SIZE-FITS ALL peysa úr H&M. Sumir brotaþolar eru reiðir, sumir eru breiðir-með sig. Aðrir brotaþolar eru ennþá dofnir og enn aðrir eru horfnir. Fyrir fullt og allt. Því ómeðhöndlaðar afleiðingar geta drepið. Ég hélt t.d. aldrei að ég myndi lifa svona lengi eins og ég hef gert. En mótþrói getur sko líka verið bjargráð.
Margir brotaþolar eru leiðir og flestir eru líka reiðir. Og viti hvað? Það er bara allt í læ’ þegar ekkert er í læ’. Reiði getur verið holl. Reiði er tilfinning. Og tilfinningar, þær bara eru. Hvorki réttar né rangar. Okkur getur ekki liðið rangt. En tilfinningar geta verið ólíkindatól, jafnvel logið að okkur. Sagt að við séum ógeðsleg, jafnvel aumingjar. Þannig túlka tilfinningar ekki alltaf raunveruleikann. Og fyrir brotaþola er oft kúnst að greina þarna á milli. Því við lærum að efast um dómgreindina okkar. Það gerir mandlan, þessi frumstæði hluti heilans sem
er við stjórnvölin þegar við verðum fyrir áföllum. Hún jafnvel segir okkur að við megum ekki vera reið, en reiðin er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Að segja brotaþolum að þeir megi ekki vera reiðir er bara ein birtingarmynd af HALTU KJAFTI OG VERTU SÆT
eða sætur – sætt. Því muniði? Brotaþolar eru af öllum kynjum.
Um daginn var ég rosa reið og það var gott. Því í gegnum bataferli mitt get ég beint reiðinni þangað sem hún á heima. Muniði hvað ég sagði með að reiði væri holl? Málið er að reiði getur verið óholl líka. Sérstaklega þegar henni er beint inn á við, að þeim eiga hana ekki skilið og þegar henni er beint að börnum. En um daginn var ég mjög reið. Úff já. Enn ein fréttin um firrtu raunveruleika- sápuóperuna sem hæstaréttur er.
Dómar hans í kynferðisbrotamálum gera mig alveg tjúll. Sem er frekar mikið afrek fyrir stútúngskjéllíngu eins og mig. Í marga áratugi deyfði ég mig til að forðast reiðina. En núna fer ég bara í störukeppni við helvítis tíkina, tek á móti, og hnoða jafnvel í eina litla ljóðalíkisdruslu sem ég kalla:HALTU KJAFTI OG VERTU SÆT. Ég set inn viðvörun hérna, því ljóðið samdi ég út frá gerendavænu orðarunkinu sem dynur á brotaþolum daglega.
Sérstaklega í athugasemdum netmiðlanna. Sem minna meira á vörtu á rasskinn Satans en
upplýsta umræðu. Það er líklegra að Þvörusleikir gefi mér juðara í skóinn en að þessir fjölmiðlar …
JÁ ANDSKOTINN HAFIÐA DV.IS ÉG ER AÐ HORFA Á ÞIG!!
… hætti að hafa opið fyrir athugasemdir á vefmiðlum sínum.
Ljóðið er einhvernveginn svona:
Haltu kjafti og vertu sæt
og ef þú værir æt
myndi ég bókstaflega éta þig
upp til agna
Haltu kjafti og vertu sæt
Af hverju ertu alltaf að snapa fight?
Ég hef ekki stjórn á mér
þegar ég er í kringum þig
Var ekki búið að kenna þér
að ÉG get ekki hamið mig?
Æi kommonn kysstu mig!
Vert’ekki svona þver!
Af hverju varstu þá svona ber
á Instagram?
Haltu barasta kjafti
og vertu sæt!
Þú veist’etta var þér að kenna
þér var nær
Það varst þú sem varst í stuttu pilsi
í gær
Þung á brún
há eða sver
hann, hún, hán
því er nú ver
það er þér að kenna
þegar miður fer
það segjaða allir
meira að segja kallarnir í hæstarétti
á Alþingi
OG á Klaustri
æi þessir þarna
sem tala með hraustri
röddu og segja:
haaaltu kjafti og vertu bara sæt
er ekki allt ollrætt?
Ha? Fallegt hatur og fínerí?
Kallarúnk og svínerí!
Já, er þetta ekki allt bara hluti af forleik
jafnvel spennu?
…
En ef þeir hefðu nú bara nennu
að taka höfuðið úr eigin forréttindarassi
sæu þeir að brotaþolar
eru allskonar fólk
með sitt venjulega líf
að þrauka í trassi
við trega, tráma, og tár.
Já …
En svo er það málið með vonina. Er það eitthvað ofan á brauð? Er eitthvað hægt að púkka upp á hana þegar allt virðist vera á leiðinni í norður og niðurfallið?
Ég mun aldrei segja öðrum brotaþolum hvernig þeir eiga að bera sig að í sínu eigin bataferli. Muniði það sem ég sagði áðan með að afleiðingar væru ekki eins og peysa úr
H&M? Það gildir nefnilega um bataferli líka. Vonin er það sem hélt mér á lífi. Fyrir mér er vonin er falleg og hún er drifkraftur. Og vonin fékk byr undir báða vængi þegar ég byrjaði að skrifa um bataferlið mitt.
Ég hafði ekki verið mikið fyrir að gaspra um mig og mína einkahagi á netinu. Þessi kvenlega hógværð „afsakið mig ef mig skyldi kalla” var nefnilega afleiðing, afleiðing sem var að kæfa mig. Afleiðing sem reyndi að sannfæra mig um að ég ætti ekki tilverurétt.
Og það sem ég var hrædd. Hrædd um að vera hafnað. Þó ég hafi alltaf verið stór og sterk og brussuleg með ADHD fyrir allan peningin, tala hátt og hlæja enn hærra þá fannst mér samt erfitt þegar athyglin beindist að MÉR. Píunni bak við grímuna. Ég hélt að það kæmist upp um mig, rétt eins og ég væri með morðið á Olaf Palme á samviskunni.
En vonin, krakkar mínir komiði sæl, vonin er lúmskur andskoti. Og það er vonin, og ókei … pínulitið mótþróinn líka … sem fær mig til að botna leirburðinn hér að framan. Núna frá sjónarhóli brotaþola til brotaþola að gefa skít í gerendameðvirkni.
Með því óska ég okkur öllum, brotaþolum, ættingjum og gerendum í bata, góðs gegnis í ykkar eigin bataferli.
Upp og áfram!
Lifi byltingin
Móðir, kona, meyja
fósturlandsins freyja
fagra vanadís
trúðu mér þegar ég segi:
ekki hlust’ á’ann
plís!
Hann lýgur meir’ en hann mýgur
Hann er skaðinn, hann er skollinn
og hann er voðinn vís
Sælasti svanni, sprækasta sprund
þetta hér
er þín stund!
Þú ert stormurinn, þú ert hafið
jafnvel með þitt blæðandi hjarta
og gapandi und
Út með sprokið
ég stend með þér
svo þeir fá ekki glæp sínum strokið
af sakramentinu burt
þetta verður ekki létt
þeir munu urrra, bíta og skrækja
HELVÍTIS SKÆKJA
en eitt máttu vita
ég trúi þér
og þér
og þér
Við neitum að halda kjafti
og vera bara sæt
Neitum að þegja og vera æt
Dullist hingað ef þið þorið
við erum tilbúin í’etta fokkíng fight!
Ingibjörg Helga Ágústsdóttir er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Bakgrunnur hennar er í fatahönnun en í gegnum rannsóknarvinnu á íslenska faldbúningnum kviknaði áhugi hennar á útskurði.
Frá árinu 2008 hefur Ingibjörg skorið út myndverk byggð á íslenskum þjóðsögum og hefur hún haldið sýningar í Stykkishólmi og víðar. Á vinnustofu sinni heldur hún einnig litlar sýningar á hverju ári.
Vinnustofa Ingibjargar er í kjallara Tang og Riis hússins í Stykkishólmi. Húsið á sér langa sögu en það var flutt inn tilsniðið frá Noregi árið 1890 og reist á eldri hleðslu sem er vinnustofan í dag.
Sögu kjallarans má síðan lesa af veggjum og lofti rýmisins en hefur húsið tekið miklum breytingum í tímans rás. Engir fastir opnunartímar eru á vinnustofunni nema þegar sýningar standa yfir en þar fyrir utan er opið eftir samkomulagi og er öllum velkomið að hafa samband við Ingibjörgu.
Aðspurð segist Ingibjörg taka við pöntunum á ákveðnum hlutum í tiltekinn tíma og þannig tryggir hún að hvert verk sé einstakt en ekki um framleiðslu að ræða. Þessa stundina er hún að vinna að pöntunum og verkum fyrir sýningar næsta árs en hægt er að fylgjast með Ingibjörgu á facebook-síðu hennar sem ber heitið Vinnustofan Tang og Riis.
Bræðslan, sem hefur fest sig í sessi sem einn af helstu tónlistarviðburðum ársins, hófst í þessari viku en þetta er í fimmtánda sinn sem hún fer fram á Borgarfirði eystra. Fjöldi skemmtikrafta kemur fram á Bræðslunni. Þar á meðal hljómsveitin Doctor Spock sem stígur á stokk í kvöld og segist forsprakkinn Óttarr Proppé hlakka til að trylla lýðinn.
„Það leggst mjög vel í mig,“ segir Óttar, spurður hvernig leggist í hann að troða upp. „Spockinn er svona skepna sem er mjög gott að viðra og virkar aldrei betur enn á nýjum slóðum og aðeins öðruvísi. Við höfum alltof lítið spilað síðustu árin og er farið að klæja í þennan sirkus.“
Að hans sögn er þetta í fyrsta sinn sem bandið kemur fram á Bræðslunni. „Við höfum spilað í hjólhýsi í Vestmannaeyjum, á fótboltavelli í Færeyjum og aftan í flutningabíl á Hólmsheiði en þetta verður eitthvað alveg nýtt. Það hefur alltaf verið æðisleg tilfinning að ímynda sér að manni yrði boðið að spila þarna og sjá fyrir sér dýrðina. Loks rætist gamall draumur,“ segir hann og tekur fram að hann hafi ekki einu sinni komið á Bræðsluna sem tónleikagestur. „Ég hef hins vegar einu sinni komið til Borgarfjarðar áður og þetta er einhver fallegasti staður á landinu,“ bætir hann við. „Þá hitti ég einhverja krakka og spurði hvort það væri hægt að kaupa kaffi. „Nei, amma er ekki heima,” svöruðu þau. Við vonum bara að amman verði á staðnum núna,“ segir hann kíminn. „Treystum reyndar á það því kaffilaus verður Spockinn ansi hastur læf.“
„ ég er búinn að afplána mitt í pólitíkinni og þjóna mínum tilgangi þar og er svo glaður með að hafa endurheimt kennitöluna mína að ég læt hana ekki svo glatt af hendi aftur.“
Undanfarið hefur lítið farið fyrir Doctor Spock og aðspurður út í það segir Óttar að það sé þetta helst að meðlimirnir hafi elst og lítið sem ekkert selst. „Það er langbesta staðan fyrir hljómsveit, autt blað. Okkur klæjar mikið að spila meira og semja,“ segir hann en sveitin sendi síðast frá sér nýja plötu í fyrra. „Við héldum upp á það að ég slapp úr pólitíkinni og ráðuneytinu í fyrra með því að taka upp plötuna Leður. Við höfum alltof lítið fylgt henni eftir þannig að við tökum slatta af því efni í kvöld. Það er annars orðið svo langt síðan við vorum hvað aktífastir að þegar við tökum gamalt efni verður það eiginlega nýtt við rembinginn við að rifja það up. Síðan semjum við alltaf eitthvað á sviðinu. Það er nýtt efni sem enginn sér fyrir nema að það verður örugglega allt eignað Sálinni hans Jóns míns að gömlum Spock-sið. Við ættum auðvitað að vera að kynna lögin af væntanlegri plötu en það verður aðeins að bíða.“
Þannig að ný plata er í vinnslu? „Við erum búnir að borga fyrir stúdíóið þannig að fljótlega pöntum við tíma og förum svo að semja lög.“
Vonar að konurnar taki við í pólitíkinni
En hvað ertu annars búinn að vera að bralla fyrir utan tónlistina? „Ég er kominn aftur í bókabransann og er verslunarstjíori í Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi,“ segir hann. „Það er góður vinnustaður og yndislegur bransi. Bækur laða að sér gott fólk, spekúlanta og hæfilega mikið af furðufuglum. Hér hittir maður alla og allskyns og lærir eitthvað nýtt á hverjum degi.“ Hann segir að í bókabúð afsannist því það bull að það sé ekkert nýtt undir sólinni. Það sé alltaf eitthvað nýtt undir þeirri stjörnu.
Þig langar ekkert aftur í pólitíkina? „Nei veistu, ég er búinn að afplána mitt í pólitíkinni og þjóna mínum tilgangi þar og er svo glaður með að hafa endurheimt kennitöluna mína að ég læt hana ekki svo glatt af hendi aftur. Það er komið nóg af gulhærðum vitlesingum í pólitík. Ég vil gera mitt til þess að bæta ekki í þá flóru,“ segir hann, greinilega dauðlifandi feginn að vera laus. „Ég vona eiginlega að stelpurnar taki við þessu á sem flestum sviðum. Það væri langmest vit.“
Mætir vel undirbúinn á svæðið
Fyrir utan að vinna í Bóksölunni og að tónlistinni segist Óttarr síðan alltaf vera að vinna að einhverju sem tengist listum. „Að minnsta kosti óbeint ef ekki beint. Eftir ráðherramaraþonið og allt tímaleysi síðustu árin var orðið ansi djúpt á manni,“ segir hann. „Þessi misserin fara kraftarnir mest í að safni í sarpinn svo maður hafi einhverju að gjósa. Ég finn að það er farinn að aukast þrýstingurinn og mælast meiri leiðni í mér með hverjum deginum.“
Talið berst þá aftur að fyrirhuguðum tónleikum sveitarinnar í kvöld og segir Óttar meðlimi hennar mæta vel undirbúnir á svæðið. „Það eina sem er óákveðið er hvernig við verjumst lundanum á sviðinu. Okkur skilst að það sé allt vaðandi í lunda þarna og hann laðast sérstaklega að blíðum tónum og fallegum klæðum eins og kría að hávöxnum og sköllóttum. Við munum annaðhvort spila í lundaheldum grímum, höfuðbúrum og/eða með mjög barðastóra hatta til að rugla fuginn í ríminu. Þetta getur ekki klikkað,“ segir hann léttur í lund.
Eitthvað sem þú vilt segja í lokin við væntanlega tónleikagesti kvöldsins í kvöld? „Þeir sem eru með óskalög geta lagt beint inn á okkur í Sparisjóði Garðabæjar og nágrennis eða hent gullmolum á sviðið. Við munum síðan árita líkamsparta beint eftir tónleikana og sitja fyrir með smábörnum á flugvellinum á Egilsstöðum 20 mínútur fyrir brottför á sunnudaginn. Ást og fiður.“
Ilmurinn sem kemur í eldhúsið þegar sítrónur eru notaðar í baksturinn er blátt áfram dásamlegur. Hér er uppskrift að einu vel ilmandi, gómsætu og fallegu sítrónupæi sem upplagt er að skella í.
Franskt sítrónupæ fyrir 10 180 g hveiti
2 msk. sykur
120 g kalt smjör í bitum
1 eggjarauða
4 msk. ískalt vatn
Setjið hveiti, sykur og smjör í matvinnsluvél og stillið á mesta hraða í 10 sek. athugið að smjörið á að vera frekar gróft eða eins og baunir í hveitinu. Bætið eggjarauðu og vatni út í og hrærið saman í 30 sek. eða þar til deigið er samlagað. Pakkið deiginu í plastfilmu og geymið í kæli í 10-15 mín. Fletjið deigið út og setjið í smurt form, 26 cm, kælið í 20 mín. Hitið ofninn í 180°C. Pikkið í botninn með gaffli og forbakið bökuskelina í 10-15 mín.
Hellið sítrónufyllingunni í bökuskelina, dreifið marensblöndunni yfir og bakið í 20 mín. Kælið.
Sítrónufylling: börkur og safi úr 3 sítrónum
180 g sykur
40 g kartöflumjöl
1/2-3/4 dl vatn
2 eggjarauður
30 g smjör
Setjið sítrónusafa í mæliglas og bætið vatni út í svo vökvamagnið mælist 450 ml eða 4 ½ dl. Setjið í pott ásamt sykri og hitið að suðu. Hrærið kartöflumjöl og vatn saman, takið pottinn af hellunni og bætið kartöflumjölsblöndunni út í. Setjið pottinn aftur yfir hitann og sjóðið sítrónublönduna þar til hún þykknar. Takið pottinn af hellunni og bætið eggjarauðum og smjöri út í. Hrærið saman þar til blandan er orðin vel samlöguð.
Marens: 3 eggjahvítur
160 g sykur
svolítið salt
Hrærið eggjahvítur þar til þær fara að verða stífar. Bætið sykri út í, einni skeið í einu, og hrærið áfram í 2-3 mín.
Druslugangan verður farin í níunda sinn í dag en tilgangur hennar er að sýna brotaþolum kynferðisofbeldis samstöðu og krefjast betra réttarkerfis og bætts samfélags. Að göngu lokinni verður skipulögð dagskrá á Arnarhóli, tónlistaratriði og ræðuhöld en meðal þeirra sem taka til máls er Sigrún Bragadóttir sem hefur meðal annars vakið athygli fyrir að tala opinskátt um afleiðingar kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir.
„Ég ætla að tala um bataferli í kjölfar kynferðisofbeldis og hvað þetta ferli getur verið misjafnt eftir brotaþolum. Það er nefnilega alltaf verið að draga upp þá staðalímynd af brotaþolum að þeir séu einir grátandi úti í horni, á meðan raunveruleikinn er sá að brotaþolar eru jafnólíkir og þeir eru margir og þeir koma sér upp alls konar bjargráðum til að komast af. Til að þrauka. Nokkuð sem mér finnst mikilvægt að benda á þar sem þetta gleymist gjarnan í umræðunni um þolendur kynferðisofbeldis,“ segir Sigrún.
Sigrún talar af reynslu því hún lenti í kynferðisofbeldi fyrst þegar hún var barn þegar maður sem tengdist henni í gegnum fjölskylduna misnotaði hana. Hún varð einnig fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns, henni var byrlað ólyfjan í menntaskóla og hún var áreitt kynferðislega á skólaballi þegar hún var í 8. bekk. Sigrún var orðin fertug þegar hún viðurkenndi þetta loks fyrir sjálfri sér og leitaði hjálpar hjá Stígamótum. Síðan þá hefur hún unnið úr afleiðingum kynferðisofbeldisins með ýmsum hætti og meðal annars haldið úti rafrænni dagbók utan um bataferli sitt á Twitter undir myllumerkinu #BataferliSigrúnar.
Átti erfitt með að opna sig um ofbeldið
„Rafræna dagbókin var fyrst hálfgert tilraunaverkefni í kjölfar Druslugöngunnar árið 2016, eða um það leyti sem ég fór í veikindaleyfi í vinnunni vegna afleiðinga kynferðisofbeldins sem ég varð fyrir, en í henni ákvað ég að fjalla á heiðarlegan hátt um það hvernig ég hafði verið að takast á við þessar afleiðingar,“ lýsir hún. „Þetta var mjög erfitt skref þar sem ég er ekki mikið gefin fyrir athygli þrátt fyrir að vera svolítil brussa, í jákvæðum skilningi orðsins. Mér fannst líka erfitt að ætla að taka mér þetta pláss fyrir mínar hugsanir og mína tilveru. Ég var svo sannfærð um að ef ég deildi reynslu minni og hugsunum með öðrum sæi fólk hvað ég væri raunverulega ömurleg og viðbjóðsleg og það myndi ekki vilja vita meira af mér. Ég vissi þá ekki að það er eitt einkenni á afleiðingum kynferðisofbeldis að þolendur eru stöðugt að passa upp á ímyndina því þeir eru svo hræddir við viðbrögð annarra. Hræddir við að vera hafnað.“
„Ég var svo sannfærð um að ef ég deildi reynslu minni og hugsunum með öðrum sæi fólk hvað ég væri raunverulega ömurleg og viðbjóðsleg og það myndi ekki vilja vita meira af mér.“
Sigrún segir dagbókina hafa verið æfingu í því að berskjalda sig á öruggan hátt því hún hafi ráðið nákvæmlega hvað hún sagði frá miklu. Og þvert á það sem hún bjóst við voru viðtökurnar góðar. „Ég fann óvænt fyrir meðbyr. Þá er ég ekki að tala um að einhver klappstýrufögnuður hafi brotist út heldur tengdu margir við það sem ég sagði og þar af leiðandi fékk ég á tilfinninguna að ég væri ekki ein á þessari vegferð. Að þetta hjálpaði öðrum. Að ég gæti veitt öðrum von með því að segja frá því hvernig ég hef unnið mig út úr þessu, líka frá mistökunum sem ég hef gert og hvernig líf mitt er í dag. Því án þess að ætla að hljóma eins og einhver amerísk fimmaurasálfræði og segja fólki hvað það á að gera þá finnst mér mikilvægt að sýna fólki að það er alltaf von. Von um bata. Von um betra líf. Að von er ekki einhver óraunhæfur draumur, heldur getur hún fleytt fólki ansi langt.“
Skilningslausir ráðamenn
Sigrún bætir við að markmiðið með dagbókinni hafi þó ekki síður verið að skera upp herör gegn þögguninni sem umlykur kynferðisbrot í íslensku samfélagi. „Það er alltaf verið að senda okkur þau skilaboð að halda kjafti og vera sæt, því þá erum við ekki fyrir og ekki til vandræða. Nú eru alls konar byltingar í gangi til að ögra þessari þöggun og ekki veitir af. Það er nefnilega ótrúlega sorglegt hvernig ráðamenn þjóðarinnar virðast líta á þessi mál. Batterí sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu berjast í bökkum, sem dæmi, sem er skelfilegt til að hugsa. Svo er líka verið að skera niður í geðheilbrigðisgeiranum. Þessi málaflokkur er bara ekki í forgangi á Alþingi, það er nokkuð ljóst.
Það er eins og þingmenn átti sig hreinlega ekki á því hversu mikilvægt er að veita brotaþolum áfallahjálp og hversu mikilvægt er að sinna fíknimeðferðum barna og unglinga svo þessi brotnu börn verði ekki brotnir fullorðnir einstaklingar sem ali aðra brotna einstaklinga. Eins og þeir skilji ekki að ef ekkert er að gert verður þetta eilífur vítahringur.“
Heldur fast í vonina
Sigrún segist þó trúa að einhvern tímann muni ástandið lagast og bindur vonir við að unga kynslóðin taki málin í sínar hendar. „Ég er bjartsýn á það, enda hefur þessi kynslóð sem er að vaxa úr grasi sýnt að hún er meðvituð um samfélagið, að henni stendur ekki á sama og það þvert á stjórnmálaflokka. Meira að segja í Sjálfstæðisflokknum er ungt fólk sem er farið að berjast fyrir umhverfinu. Já, það eru breytingar í aðsigi og ég bind vonir við þessa ungu kynslóð sem kemur til með að taka við af minni kynslóð, þessari forréttindafirrtu kynslóð sem nú er við völd. Ég er bjartsýnismanneskja og held fast í vonina.“
„Án þess að ætla að hljóma eins og einhver amerísk fimmaurasálfræði og segja fólki hvað það á að gera þá finnst mér mikilvægt að sýna fólki að það er alltaf von. Von um bata. Von um betra líf.“
Hún segist líka, þrátt fyrir allt, trúa því að fólk sé almennt gott og það vilji almennt vel. Illska sé ekki það sama og flónska. Almennt sé fólk að reyna að gera sitt besta þótt það sé „í vanmætti“, eins og hún orðar það. Það sé stóri lærdómurinn sem hún hafi dregið af því að halda úti fyrrnefndri dagbók. Bókinni sem átti bara að vera tilraunaverkefni í viku en er enn í vinnslu heilum þremur árum síðar.
En hvaða áhrif vonast hún til að það hafi að stíga fram og taka til máls í dag að lokinni Druslugöngunni? „Í stuttu máli vona ég að ég geti vakið upp, eða minnt á vonina hjá fólki,“ segir hún. „Það er mín einlæga ósk.“
Hönnuðurinn Kolbrún Ýr Gunnarsdóttir óskar eftir gömlum skartgripum sem fólk er hætt að nota. Gömlu skartgripunum gefur hún framhaldslíf með því að púsla þeim saman í nýja skartgripi.
Kolbrún heldur úti merkinu Kolbrun þar sem mikil áhersla er lögð á endurvinnslu og umhverfisvænar lausnir.
„Átt þú skart sem þú ert lönguhætt/ur að nota? Ég tek við öllu ónýtt eða ekki…ef þig langar að það fái fallegt framhaldslíf þá máttu senda mér skilaboð eða setja línu hér undir og ég verð í sambandi,“ skrifar Kolbrún á Facebook.
Hún tekur fram að hún sé tilbúin að sækja skartið heim til fólks eða greiða fyrir sendingarkostnað.
Kolbrún segir einnig frá því að það hafi verið árið 2012 sem hún hóf að búa til nýja skartgripi úr gömlu skarti. „[Ég] hef gert ótal mörg falleg hálsmen og armbönd,“ skrifar hún meðal annars og birtir myndir af því sem hún hefur skapað í gegnum tíðina úr gömlum skartgripum sem hefðu annars endað í ruslinu.
Vallanes á Fljótsdalshéraði í Vallahreppi er sannkölluð paradís. Vallanes á sér langa sögu og ná heimildir um búsetu aftur til tólftu aldar.
Í Vallanesi í dag fer fram lífræn ræktun á korni og grænmeti, fullvinnsla og framleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni sem ræktað er. Þar er einnig umfangsmikil skógrækt en á jörðinni hefur verið plantað fjölda trjáa og skjólbelta. Markmiðið er að rækta og nýta hráefni úr nánasta umhverfi.
Móðir Jörð heitir hollustu- og sælkeralína þeirra í Vallanesi og grundvallast hún á íslensku korni, grænmeti og jurtum. Hreinleiki er lykilatriði í ræktun og framleiðslu í Vallanesi þar sem ekki er notaður tilbúinn áburður eða eiturefni. Matvörurnar eru auk þess lausar við tilbúin hjálparefni, gervi- og litarefni sem er aldeilis í takt við þá þróun sem er að eiga sér stað svo víðs vegar um heiminn. Umhverfisvæn framleiðsla og ræktun er framtíðin sem við viljum sjá. Þess má geta að allar vörur frá Vallanesi bera vottunarmerki Vottunarstofunnar Tún um alþjóðlega viðurkennda framleiðsluhætti um lífræna ræktun og framleiðslu.
Hjón með hugsjónir
Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir eru bændur í lífrænni ræktun, hann er búfræðingur að mennt og starfaði að loknu námi erlendis við búrekstur; í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi. Eymundur hlaut Landbúnaðarverðlaunin árið 2004 fyrir notkun á skjólbeltum og skógrækt í landbúnaði og heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar árið 2011.
Árið 2012 var hann tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandanna m.a. fyrir að leggja áherslu á mannlegan fjölbreytileika en ár hvert starfa hjá honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem er trúr jörðinni og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu. Eygló er viðskiptafræðingur og er hún er einn af stofnendum Slow Food- hreyfingarinnar á Íslandi og einnig formaður VOR; Verndun og ræktun, sem er félag lífrænna framleiðenda.
Einstakt hús úr öspum
Húsið í Vallanesi, er kallað Asparhúsið og vekur athygli fyrir þær sakir að þetta mun líklega vera fyrsta húsið sem vitað er til að sé reist eingöngu úr íslensku timbri. Aspir sem uxu í Vallanesi voru nefnilega aðallega notaðar í húsbygginguna en einnig lerki og greni. Sami efniviðurinn var svo notaður í innréttingar og húsgögn sem skapar áhugaverða heild.
Aspirnar voru gróðursettar fyrir 30 árum og timbrið í húsið var unnið hjá Skógrækinni á Hallormsstað og hjá Skógarafurðum ehf. á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal. Húsið er sérlega heillandi og það er án efa gaman að sjá tré sem Eymundur plantaði sjálfur fyrir um 30 árum síðan verða að húsi. Húsið hýsir verslun Móður Jarðar þar sem í boði eru ýmsar lífrænar mat- og heilsuvörur sem framleiddar eru á staðnum úr íslensku hráefni, sem og ferskt grænmeti.
Í Vallanesi er boðið upp á staðbundinn morgunverð úr íslensku byggi og létta grænmetisrétti í hádeginu úr fersku, íslensku og útiræktuðu grænmeti. Eymundur og Eygló rækta lífrænt bygg og alls kyns grænmeti og framleiða fjöldann allan af vörum í Vallanesi undir vörumerkinu Móðir Jörð og við hvetjum alla sem eiga leið hjá að líta við hjá þeim og smakka lífrænt ræktaða hollustu beint frá bændum. Það er heillandi og skemmtilegt!
Þess má geta að Asparhúsið í Vallanesi er opið frá 9-18 virka daga, opið alla daga júní-ágúst. Er ekki tilvalið að skella sér í sumar?
Íslenska hljómsveitin Of Monsters And Men sendi frá sér sína þriðju breiðskífu, Fever Dream, á föstudaginn.
Nýja platan inniheldur 11 lög. Plötuumslagið er unnið í samstarfi við íslenska listamanninn Jón Sæmund en hann hefur starfrækt merkið DEAD um áraraðir.
Hægt er að nálgast Fever Dream í öllum betri plötubúðum og á streymisveitum.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið við lagið Alligator af nýju plötunni.
Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, er gestaritstjóri septembertölublaðs bresku útgáfu tímaritsins Vogue. Þessu er sagt frá á vef BBC og á Instagram-síðu hertogahjónanna af Sussex.
Einblínt verður á kraftmiklar konur í blaðinu en 15 konur prýða forsíðu blaðsins. Í hópnum fjölbeytta eru til dæmis sænski umhverfissinninn Greta Thunberg, fyrirsætan Christy Turlington, boxarinn Ramla Ali og leikkonan Jameela Jamil svo nokkur dæmi séu tekin. Auða plássið á forsíðunni á svo á tákna spegil.
Það var Peter Lindbergh sem tók myndirnar á forsíðu.
Í blaðinu verður einnig að finna viðtal við fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, sem Meghan tók.
Haft er eftir Meghan að hún voni að blaðið muni veita fólki innblástur.
Þess má geta að Edward Enninful er ritstjóri breska Vogue, hann er þekktur fyrir að fara óhefðbundnar leiðir.
Lilja Oddsdóttir er alin upp á sveitabæ í Kjósinni, yngst af sex systkinum. Hún er sveitastelpa inn við beinið og segir náttúruna hafa bjargað sér í uppvextinum því þangað leitaði hún í vellíðan ef henni leið ekki nógu vel. Þegar Lilja var þriggja ára yfirgaf móðir hennar heimilið, eiginmann og sex börn og kom aldrei aftur. Lilja segir móðurmissinn hafa mótað allt hennar líf og skilið eftir gapandi sár sem hún hafi unnið með að láta gróa.
„Mamma var 48 ára þegar ég fæddist og pabbi var 59 ára en eftir fæðingu mína fékk hún fæðingarþunglyndi. Mamma mín var mild kona að upplagi en aðstæður og ósætti á bæjunum voru þannig að hún var uppgefin á líkama og sál, gat ekki meir og fór á burt. Pabbi var ættaður úr þessari sveit en mamma var úr Dýrafirði og fór þangað þegar ég var þriggja ára og kom ekki aftur til okkar,“ útskýrir Lilja og segir frá því að systur hennar hafi gengið henni í móðurstað.
„Seinna varð mér ljóst að þessar tilfinningar höfnunar höfðu djúpstæð áhrif á mig. Mér fannst ég yfirgefin og einskis virði sem barn. Að mamma fór frá okkur, varð verkefni sem ég hef unnið með allt mitt líf. Ég held að ég sé búin að prófa allar meðferðir sem til eru, til þess að hjálpa mér að láta hjartasár mitt gróa.
„Seinna varð mér ljóst að þessar tilfinningar höfnunar höfðu djúpstæð áhrif á mig.“
Móðurást skipti mig svo miklu máli. Að fá ekki að njóta umhyggju frá móður minni sem barn, setti tómarúm í mig. Pabbi fyllti ekki upp í þetta hjartarúm, hann var ekki af þeirri kynslóðinni, honum fannst nóg að halda í höndina á mér stöku sinnum og lesa Íslendingasögur fyrir mig enda var nóg að gera á bænum og verk að vinna. Mér leið best þegar ég var send ein út með kýrnar og sat í túninu, mitt í náttúrunni. Ég fann sterka tengingu við náttúruna frá fyrstu tíð. Pabbi kenndi mér að planta trjám og virða náttúruna, fyrir það er ég mjög þakklát.“
Lilja segir tilfinningar sínar ekki hafa fengið að þroskast eðlilega í uppvextinum að mati hennar og að hún hafi ósjálfrátt leitað að viðurkenningu frá öðrum og ást.
„Þegar maður kemur úr svona tilfinningalöskuðum uppvexti þá verður maður svo meðvirkur. Í minningunni finnst mér ég hafa verið alin upp við þögn, tilfinningar voru ekki ræddar, það var bara haldið áfram á hörkunni. Innri röddin er verst og maður verður að losa sig við alla innri dóma því maður dæmir sjálfan sig mest. Aðrir dæma mann ekki svona hart og eru yfirleitt ekki að hugsa neikvætt til manns eins og maður gerir sjálfur. Fólk dæmir sjálft sig harðast og kannski sérstaklega konur. Innri röddin getur blekkt okkur illa ef hún er ekki með okkur í liði.“
Lilja kynntist mömmu sinni svo á fullorðinsárum. „Ég hef aldrei dæmt hana fyrir það sem hún gerði, þetta var bara svona. Það hefur örugglega ekki verið létt fyrir hana að yfirgefa börnin sín og hún hefur þurft hugrekki til þess,“ segir Lilja meðal annars um móður sína í viðtalinu.
Lestu þetta áhugaverða viðtal við Lilju í heild sinni í 29. tölublaði Vikunnar.
Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi þann 6. september. Myndin hefur fengið afar góða dóma. Meðfylgjandi er stikla.
Ingvar E. Sigurðsson, aðalleikari myndarinnar, tók við verðlaunum um helgina á kvikmyndahátíðinni Motovun í Króatíu þar sem Hvítur, hvítur dagur var valin besta myndin. Þetta kemur fram á vef Rúv.
Í maí hlaut Ingvar þá verðlaun sem besti leikarinn á Critics‘ Week, einni af hliðardagskrám Cannes kvikmyndahátíðarinnar, fyrir hlutverk sitt í myndinni.
Myndin fjallar um lögreglustjórann Ingimund sem hefur verið í leyfi frá vinnu frá því að eiginkona hans lést óvænt af slysförum.
Í sorginni einbeitir hann sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og afastelpu, þar til athygli hans beinist að manni sem hann grunar að hafi átt í ástarsambandi við konu sína. Fljótlega breytist grunur Ingimundar í þráhyggju.
Bráðlega verður Gumma Ben bar opnaður þar sem skemmtistaðurinn Húrra var til húsa. Barinn heitir einfaldlega Gummi Ben bar.
Fjölmiðlamaðurinn Guðmundur Benediktsson, Gummi Ben, deilir lógói nýja staðarins á Twitter og skrifar „soon“.
Samkvæmt heimildum Mannlífs verður staðurinn opnaður um miðjan ágúst og er undirbúningur í fullum gangi. Um sportbar er að ræða, einnig verður hægt að fara í karókí á staðnum.
Andrés Þór Björnsson og Ómar Ingimarsson, eigendur Drunk Rabbit, eru mennirnir á bak við Gumma Ben bar.
Samfélagið okkar er neyslusamfélag, staðalmynd nútíma vestræns samfélags. Mannskepnan er flókið dýr með góðar gáfur. Það er samt auðvelt að breyta okkur í sofandi vélmenni þegar kemur að hinum ýmsu innkaupum, hluti sem við teljum okkur „þurfa“. Á 21. öldinni hafa tæknibreytingar líkt og auðveld netverslun og stöðugar auglýsingar gert okkur það erfiðara fyrir að verja okkur fyrir ásælni markaðsins í seðlaveskið. Líklega erum við ómeðvituð um hversu mikil áhrif auglýsingarnar hafa. Þá erum við jafnframt hjarðdýr og staða fólks er iðulega bundin við sem það á. Fólk ber sig saman við aðra hvort sem það eru húsgögn, tegund af bíl, skíðum, hjóli, nýjasti hönnunarapinn, hvar það borðar og svo framvegis. En sannleikurinn er sá að á endingu eru þetta bara hlutir og næring.
Hversu oft hugsar þú um hvað þú raunverulega þarft í innkaupum þegar þú ert að versla – hversu mikið stýrir það innkaupunum? Hversu oft borðar þú miklu meira en líkaminn þarf? Heiðarlegt mat á stöðunni er að meira og minna flest sem við gerum og neytum er ofaukið. Hlutirnir sem við kaupum eru ekki hlutir sem við raunverulega þurfum. Við kaupum það af því að við veljum það. Fatnaður, raftæki, húsgögn, snyrtivörur, matur, ferðalög o.s.frv. Matarsóun er til að mynda um 40% af framleiddri matvöru í vestræna heiminum. Það þýðir að 40% af orkunni sem fer í að búa til þann mat, jarðveg og vinnu er sóað. Það er hreint sorgleg staðreynd. Í ofanálag er það ríkasta 20% sem neytir mest í heiminum.
„Hvernig væri að við gæfum okkur tíma til að virða alla vinnuna, framlög fólks og jarðar, til að koma matnum sem við innbyrðum eða fötin sem klæðir okkur á þessar hillur?“
Ofneysla heimsins er ennfremur beintengd loftslagsbreytingum. Því hefur verið fleygt að sjúkdómurinn er neyslan, einkennin eru loftslagsbreytingar. Samgöngur og millilandaflutningar. Iðnaðurinn sjálfur. Allt krefst þetta auðlinda í framleiðslu sem eru fengar frá jörðinni. Þá geyma föt talsvert af plastögnum, mikið fer í pakkningar og svo framvegis. Ofan á umhverfisáhrifin koma svo augljós neikvæð félagsleg áhrif eins og t.d. að föt og hlutir hvers konar eru framleiddir í þriðja heims ríkjum þar sem vinnuafl er ódýrt og misneyting auðlinda algeng.
Við erum aftengd
Við erum aftengd. Við vitum ekki lengur hvaðan hlutir raunverulega koma eða hvert er framleiðsluferlið. Börnin eru flest löngu hætt að fara í „sveitina“ eða að kíkja í verksmiðjur í Kína. Fötin og dótið er bara keypt í Kringlunni. Kjúklingur innpakkaður í plast og frauðplast í hillunni í Bónus. Við viljum ekki sjá né heyra. Fáfræði er sæla, eins og einhver sagði. En við erum fullorðin og höfum ekki afsökun né réttlætingar. Réttlætingarnar eru t.d.: „allir aðrir gera það“, „samfélagið er svona uppbyggt“ og sú besta er: „ég hef ekki tíma“. Hvernig væri að við gæfum okkur tíma til að virða alla vinnuna, framlög fólks og jarðar, til að koma matnum sem við innbyrðum eða fötin sem klæðir okkur á þessar hillur? Myndi það draga úr neyslunni?
Mörg okkar vita þetta. Hægt erum við að gera einhverjar þægilegri breytingar og spyrja gagnrýnna spurninga. Staðan í umhverfismálum hefur óumflýjanlega leitt það af sér að við getum ekki snúið blinda auganu lengur. Lengi höfum við gert það í tengslum við ódýrar vörur framleiddar af fólki sem fær varla lágmarkslaun í verksmiðju við fáránlegar aðstæður í þriðja heims ríkjum. Á heimsvísu er neysla hins vegar að aukast, samfara því að lífsgæði eru að batna í fjölmennum samfélögum eins og í Kína og Afríku.
Að breyta neyslumynstrinu, eða öllum heldur að brjótast út úr því, er ekki auðvelt þegar samfélagið og kerfið sem við lifum við vinnur ekki með okkur. Nú er t.d. ekki hægt að fara í gegnum samfélagsmiðla án þess að fá senda auglýsingu sem er sérstaklega sniðin að því sem þú hefur verið að skoða á netinu, sem er fengið með algórytmum og gervigreind. Neysluhungrið er forritað í okkur af markaðssamfélaginu hvort sem okkur líkar betur eða verr einkum með auglýsingum og markaðssetningu. Við erum í eðli okkar áhrifagjörn og bregðumst við því sem menningin setur fyrir framan okkur. Það er í sjálfu sér samt ekki afsökun. Með því að þjálfa sig í aukinni meðvitund er hægt að sjá þetta betur og betur og átta sig á hversu mikil áhrif þetta hefur á okkar daglega líf. Neyslusamfélagið sem við búum í er líka allt tengt öðrum þáttum– hér má nefna fíknir hvers konar. Að kaupa eitthvað gefur okkur skyndiánægju og kann að fylla tóm innra með okkur. Fólk kann að vera háð tilteknum hlutum. Í því ástandi er maðurinn ekki frjáls.
Með gleraugum sannleikans sjáum við að lifnaðarhættir okkar samræmast ekki sjálfbærum lífstíl. Því sem jörðin og við þurfum á að halda. Við þurfum að slaka á hraðanum og neyslunni. Við vitum þetta flest nú orðið innst inni þó sumir vilji vera í afneitun. Breytingar þurfa í eðli sínu ekki að vera flóknar þó þær muni óumflýjanlega leiða til breytinga á samfélagsmynstrinu. Við gætum byrjað á því að vera með merkingar á öllum fötum, hvaðan föt koma. Við gætum bannað allt plast í pakkningum á öllum vörum. Við gætum aukið við skiptimarkaði og verslanir með notaða hluti. Við getum verið með umbúðafrjálsar matvöruverslanir. Við getum sett umhverfisskatta á vörur sem hafa losað mikið af gróðurhúsalofttegundum í framleiðsluferlinu og svo framvegis. Fjárhagslegar ívilnanir á umhverfisvænar vörur. Deilisamfélagið stóraukið með almenningssamgöngum og svona má lengi telja. Allt krefst þetta bara ímyndundarafls. Spurningin er: Hvenær ætlum við að taka ábyrgð og raunverulega krefjast samfélagsbreytinga?
Þegar ég var ítrekað stoppuð af lögreglunni fyrir engar sakir skildi ég ekkert hvað var í gangi. Svo fór mig að gruna að þetta tengdist nágrannaerjum og þótt ég gæti ekki sannað það fékk ég þó aðstoð úr óvæntri átt til að stöðva þessar ofsóknir.
Á þessum tíma var ég nýskilin við manninn minn til margra ára og hafði skilnaðarferlið verið erfitt. Ég bjó í frekar litlu fjölbýlishúsi þar sem allir höfðu sérinngang, var gjaldkeri húsfélagsins sem var nokkuð ónæðissamt starf á þessum tíma og nágrannarnir komu á öllum tímum til að borga reikningana sína.
Þriggja ára sonur minn veiktist mjög alvarlega og þar sem ég þurfti að vera hjá honum nánast allan sólarhringinn á sjúkrahúsinu kom ég eldra barninu fyrir hjá ættingjum. Enginn af nágrönnunum var til í að taka að sér gjaldkerastarfið, ég fór íbúð úr íbúð, sagði þeim að barnið mitt væri mjög veikt í lyfjameðferð og ég treysti mér ekki lengur til að sjá um hússjóðinn. Mikið var ég sár og ekki síður undrandi. Sjálf hefði ég ekki hikað við að taka þessa aukabyrði af manneskju í svona erfiðleikum.
Þetta var skelfilegt tímabil, stundum hélt ég að barnið mitt dæi, svo veikt var það. Ekki hafði ég nokkurn stuðning af fyrrum eiginmanni eða fólkinu hans. Skilnaðurinn var vissulega erfiður og hatrammur en að láta það bitna á þennan hátt á barninu var ofar mínum skilningi. Samband hans við börnin var ekki sérlega náið en hann var þó pabbi þeirra. Hann kom nokkrum sinnum í heimsókn en tautaði alltaf að hann þyldi ekki sjúkrahús og svo var hann farinn eftir smástund. Hann bauð ekki fram neina hjálp, eins og að leysa mig af við sjúkrabeðinn. Það var starfsfólkið sem sá til þess að ég kæmist annað slagið heim. Stundirnar heima notaði ég til að gráta því á sjúkrahúsinu varð ég að vera sterk fyrir barnið mitt.
Ekki fékk ég mikinn frið til að gráta, heldur var stöðugt hamast á hurðinni hjá mér, nágrannar á ferð til að borga rafmagn og hita og þess háttar, höfðu séð bílinn minn í innkeyrslunni og komu þá strax.
Eftir að ég skildi og stóð uppi ein með börnin fann ég fyrir auknu virðingarleysi frá nágrönnunum í minn garð, aðallega hjónunum á hæðinni fyrir ofan mig, og það var eins og engu skipti að ég væri með fárveikt barn.
Ekki í vinsældakeppni
Lífið varð sífellt erfiðara, reikningarnir hrúguðust upp og á tímabili voru fjölmargir lögfræðingar á hælunum á mér. Ef ég hefði búið á litlum stað úti á landi hefði eflaust verið haldin söfnun fyrir mig en ég hvarf í fjöldann í Reykjavík.
Ég hafði hvorki tíma né geð í mér til að vera í vinsældakeppni í húsinu á þessum erfiðu tímum og þegar hjón í húsinu vildu frá sérhita í íbúð sína var ég sú eina sem samþykkti það ekki. Þessi hjón bjuggu næst hitainntakinu og vildu spara sér fé en á kostnað okkar hinna sem enginn hugsaði út í. Mér datt ekki í hug að gera þessu fólki neinn greiða, hjónin sýndu mér algjört tómlæti þegar ég sagði frá veikindum sonar míns og bað þau um að sjá um gjaldkerastöðuna fyrir mig. Átti ég nú að fara að borga hærri hita fyrir þau?
Karlinn á hæðinni fyrir ofan mig vann hjá Reykjavíkurborg og einn daginn mætti hann með reikning til mín fyrir málningu sem hann hafði reddað húsfélaginu í gegnum afsláttarkjör hjá borginni. Mér fannst þetta óheyrilega dýrt og eitt símtal upp í Málningu sýndi mér að við hefðum getað fengið nákvæmlega sömu málningu á húsveggi, glugga og þak á helmingi lægra verði þar.
„Alltaf sýndi ég lögreglunni fyllstu kurteisi þótt ég yrði sífellt pirraðri. Ég var stundum látin blása í áfengismæli þótt hábjartur dagur væri og börnin í aftursætinu.“
„Og hver ákvað að þakið ætti að vera rautt?“ spurði ég pirruð, ég þoli ekki rauð þök. Hann benti á næsta hús þar sem var rautt þak og sagði fordæmi fyrir þessu vali en ég benti á húsin í kring og mislit þökin á þeim.
Hinir nágrannarnir samþykktu alltaf allt sem karlinn lagði til, eða þorðu ekki að mótmæla, það var bara ég, gjaldkeri húsfélagsins, sem mótmælti yfirgangi hans. Auðvitað hefði átt að halda húsfund og ákveða þetta í sameiningu en karlinn var svo frekur.
Einn daginn þegar ég var heima í kærkominni grátpásu tók ég mig til og opnaði gluggaumslögin sem biðu í hrúgum. Eitt þeirra var frá tryggingarfélaginu mínu sem tilkynnti að búið væri að kaupa húseigandatryggingu fyrir mig. Ég hringdi undrandi í tryggingarfélagið og sá sem ég talaði við sagði að ódýrara væri að hafa allt húsið með í pakkanum. Ég bað hann um að fletta upp kennitölunni minni, þá sæi hann að ég væri skuldug hjá þeim, hvort ekki væri sniðugra ef ég borgaði eldri skuldir áður en ég stofnaði til nýrra.
Stríð vegna garðvinnu
Lítill garður fylgdi öllum íbúðunum, granninn á efri hæðinni hafði svalir, ég var með smáverönd en svo var hluti garðsins sameiginlegur með íbúðum. Ég og freki granninn vorum í endaíbúðum og þar voru bara tvær hæðir svo ekki voru fleiri um garðskikann okkar. Hann og kona hans gerðu aldrei neitt þar svo það kom í minn hlut að slá, reyta arfa og girða, en eitt árið voru settir upp skjólveggir sem gerðu garðana meira kósí og sér. Ég reyndi reglulega að virkja fólkið uppi í garðvinnu en tókst ekki.
Syni mínum batnaði hægt og rólega og ég fékk stundum að taka hann heim en þá varð hann að vera í einangrun. Ég lét nágranna mína vita af því og sagði þeim að hann mætti ekki leika við börn þeirra vegna smithættu. Ekki var hlustað á það, börnin af efri hæðinni komu iðulega út í garð þegar þau sáu son minn þar að leik svo ég þurfti að taka hann inn. Svo hringdu börnin dyrabjöllunni hjá mér ef þeim var mál. Ef ég sagði þeim að fara heim til sín og pissa þar sögðu þau kannski að mamma þeirra væri að leggja sig og yrði svo reið …
Loks eftir langa hríð gafst ég upp, fór upp til nágranna minna og hreinlega bannaði þeim að nota garðinn þar sem þeir sæju sér aldrei fært að gera neitt þar. Þessir nágrannar mínir eru útlenskir og töluðu fínustu íslensku en báru þó alltaf fyrir tungumálaörðugleikum ef ég þurfti að ræða eitthvað við þá. Þetta fólk var rammkaþólsk og sagðist ekki mega gera neitt á sunnudögum, hvíldardaginn hélt það að sjálfsögðu hátíðlegan. Hina sex daga vikunnar var það of upptekið við annað.
Eftir þetta skall á fullur fjandskapur. Ég komst fljótlega að því að þessi hjón hefðu gengið á milli hinna í húsinu og nítt mig niður því ég fór að finna fyrir óvæntri andúð frá nokkrum öðrum. Ekki hafði ég nokkra orku til að reyna að leiðrétta lygarnar.
Gamlar vinkonur mínar þekkja eina nágrannakonuna sem var gift lögreglumanni, og er kannski enn, og heyrðu svo krassandi sögur af mér hjá henni að þær birtust óvænt hjá mér. Ég bauð þeim inn og upp á kaffi og svo spurðu þær hreinskilnislega hvort það væri rétt að ég væri orðin fyllibytta, þessi kona hefði sagt þeim það. Hún hefði talað um að ég ætti svo mikið af vínglösum … ég leit á skápinn minn með fínu vínglösunum sem ég hafði safnað í 15 ár og sagði brosandi: „Ef ég væri fyllibytta myndi ég líklega drekka úr sultukrukkum!“
Þær skellihlógu, svolítið skömmustulegar yfir því að hafa trúað þessu. Áður fyrr komu vissulega einhverjir nágrannar í kaffi til mín og sáu þá eflaust glasasafnið, en allar heimsóknir lögðust af eftir að sonur minn veiktist og þurfti að vera í einangrun heima, og um leið tækifæri mín til að halda góðu sambandi við nágrannana.
Leynifundur í næstu íbúð
Eitt kvöldið fór ég út á veröndina mína til að anda að mér fersku lofti. Ég heyrði strax að fjöldi fólks var í íbúðinni á neðri hæðinni við hliðina á mér en sá ekkert fyrir skjólveggnum háa. Gluggi var opinn í íbúðinni svo ég heyrði orðaskil. Þegar nafn mitt bar á góma brá mér og ég færði mig nær veggnum og settist niður á stéttina til að heyra betur. Ég veit að maður á ekki að liggja á hleri en ég gat ekki stillt mig og er fegin því vegna þess sem síðar gerðist. Þarna voru meðal annars grannarnir af efri hæðinni og töluðu á góðri íslensku um vandræðamanneskjuna mig og nauðsyn þess að losna við mig úr húsinu.
„Er hann örugglega til í þetta?“ heyrði ég svo að einn karlinn sagði og hann fékk jákvætt svar við því. Ég dreif mig fljótlega inn, fannst þetta of óþægilegt.
Mjög fljótlega eftir þetta fór lögreglan að ónáða mig í tíma og ótíma þegar ég var á bílnum. Mér fannst það afar óþægilegt og þegar þetta hætti ekki fór mér að finnast þetta undarlegt. Ég mátti varla aka Ártúnsbrekkuna án þess að sjá blikkandi ljós í baksýnisspeglinum. Alltaf sýndi ég lögreglunni fyllstu kurteisi þótt ég yrði sífellt pirraðri. Ég var stundum látin blása í áfengismæli þótt hábjartur dagur væri og börnin í aftursætinu.
„Ég fékk aldrei að vita hvað kom út úr rannsókn varðstjórans eða hvort eftirmál hefðu orðið vegna hennar en þessar ofsóknir hættu strax.“
Einu sinni á leið minni á Landspítalann skipti ég yfir á vinstri akrein til að liðka fyrir umferð frá aðrein, til að þeir bílstjórar kæmust strax inn á hægri akrein á aðalbraut. Þetta er svo sjálfsagt að ég skil ekki þegar fólk gerir þetta ekki. Í kjölfarið var ég stoppuð af lögreglu og fékk áminningu … fyrir að flakka á milli akreina. Ég þurfti að mæta niður á stöð vegna þessa máls og sagði meðal annars í skýrslutökunni að svona akstursmáti væri skylda um alla Evrópu. „Við erum ekki í Evrópu,“ var svarið. „Nú, hvar erum við þá?“ spurði ég kurteislega á móti en fékk ekkert svar. Mér var sagt í lokin að ég fengi að heyra frá lögfræðideildinni en síðan eru um 20 ár og enn hefur ekkert heyrst.
Varðstjórinn hennar mömmu
Ég sagði mömmu frá þessu og að það væri eitthvað gruggugt í gangi, mig væri farið að gruna að nágrannar mínir stæðu á bak við þetta. Mamma veit að ég ímynda mér ekki hlutina og hún ákvað að hjálpa mér við að komast til botns í þessu. Hún þekkti varðstjóra sem hún hafði kynnst á sólarströnd sumarið áður og lánað honum peninga eftir að hann týndi vísakortinu sínu eða eitthvað slíkt.
Við mamma fórum saman niður á lögreglustöð þar sem varðstjórinn hennar tók vel á móti okkur. Þegar hann hafði heyrt málavöxtu lofaði hann að kanna málið. Hann vissi ekki hvort um upplognar ásakanir á hendur mér væri að ræða eða hvort eitthvað annað hefði orðið þess valdandi að ég væri undir smásjá.
Ég fékk aldrei að vita hvað kom út úr rannsókn varðstjórans eða hvort eftirmál hefðu orðið vegna hennar en þessar ofsóknir hættu strax.
Það er mjög alvarlegt ef einhver hefur misnotað búning sinn og vald til að níðast á manneskju vegna upploginnar sögu um að hún væri fyllibytta, þá gæti hver sem er sem þekkir lögreglumann komið óvinum sínum í klípu.
Þrátt fyrir þennan góða varðstjóra, vin mömmu, þá tók mig langan tíma að taka lögregluna í sátt aftur.
Þegar ég flutti loks úr þessu húsi fannst mér þungu fargi af mér létt og síðan hef ég aðeins átt góða granna. Það þarf greinilega ekki nema einhvern einn til að eyðileggja allt.
Það tók mig mörg ár að greiða allar skuldir mínar og jafna mig fjárhagslega eftir veikindi barnsins en mér tókst það fyrir rest þótt seint geti ég kallast rík kona. Ekki gerði það baráttuna léttbærari að þurfa að kljást við þessa erfiðu nágranna.
Ísland kemur nokkrum sinnum fyrir í myndbandi sem Bored Panda Art hefur tekið saman um verk listamannsins Rich McCor, eða Paperboyo eins og hann kallar sig, sem er þekktur fyrir að umbreyta kennileitum um heim allan með klippimyndum.
Listaverkin eru þannig gerð að Paperboyo setur skuggaklippimyndir inn á ljósmyndir af sögufrægum stöðum sem gefur áhorfandanum nýtt sjónarhorn á myndirnar. Paperboyo hefur meðal annars notað Kópavogskirkju, Geysi og Hallgrímskirkju í myndum sínum. Myndbandið sem Bored Panda Art klippti saman er hér fyrir neðan og hægt er að skoða verk Paperboyo á Instagram undir nafni listamannsins.
Þegar sólargeislarnir hellast yfir garðinn og hugurinn færist út fyrir dyrnar þá dreymir fólk um rjóðar kinnar og kalda drykki á pallinum. Þetta er tíminn sem við borðum morgunmatinn utandyra og krakkarnir bjóða vinum heim í himnasæng til að fylgjast með skýjunum hreyfast. Gefið hugmyndafluginu lausan tauminn, hér eru nokkrar sniðugar leiðir til að poppa upp pallinn.
Umsjón / Elva Hrund Ágústsdóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir
Anna Eðvaldsdóttir ljósmóðir hefur undanfarin ár tekið eftir mikilli aukningu á þvagfærasýkingum hjá konum á barneignaraldri og jafnvel allt niður í leikskólaaldur. Aðalástæða aukningarinnar telur Anna vera að konur þurrki sér ekki rétt eftir að þær eru búnar að pissa.
„Ég hef tekið eftir því bæði í vinnunni minni á meðgöngu- og sængulegudeildinni á Landspítalanum og í heimaþjónustum að fleiri konur eiga sögu um endurteknar þvagfærasýkingar, blöðrubólgu og jafnvel nýrnasýkingar,“ segir Anna sem hefur verið ljósmóðir í 24 ár.
„Síðastliðin ár hef ég markvisst spurt konurnar sem ég sinni og eru með þessa sögu hvernig þær þurrki sér eftir að þær eru búnar að pissa. Hvort þær fari á milli fóta og þurrki eða hvort þær fari frá annarri hvorri hliðinni og þurrki. Niðurstaðan er heldur betur athyglisverð því nánast undantekningarlaust eru konur sem eru með sögu um endurteknar e-coli-bakteríur í þvagi að þurrka sér vitlaust. Sem sagt, þær eru að fara með pappírinn á milli fóta og halda að þær séu ekki að fara með pappírinn nema bara yfir þvagrásina og alls ekki aftar, en það er bara oft þannig að pappírinn fer aðeins lengra en hann átti að fara og þá draga þær e-coli-bakteríurnar með pappírnum að eða yfir þvagrásina þegar þær „skoða“ pappírinn eftir að þær eru búnar að þurrka sér. Ef bakterían hefur einu sinni komist í þvagrásina og upp í blöðru, þá er eins og þvagrásin sé farin að þekkja þessa bakteríu og býður hana velkomna næst þegar hún á „leið fram hjá“.“
Niðurstaðan er heldur betur athyglisverð því nánast undantekningarlaust eru konur sem eru með sögu um endurteknar e-coli-bakteríur í þvagi að þurrka sér vitlaust.
Nauðsynlegt að kenna strax í leikskólum Það er upplifun Önnu að konur séu almennt ekki meðvitaðar um mikilvægi þess að skeina sig rétt.
„Þegar ég var lítil stelpa þá var lögð mikil áhersla á að passa að fara aldrei með pappírinn á milli fóta þegar ég þurrkaði mér eftir að ég var búin að pissa. Núna finnst mér konur verða dálítið hissa þegar ég spyr þær um þetta, því þær hafa bara aldrei heyrt að þetta gæti verið ástæðan fyrir því að þær fá endalausar blöðrubólgur. Það er auðsjáanlega lítið rætt eða kennt hvorki í skólum né leikskólum, hversu mikilvægt er að aðskilja algerlega svæðið í kringum endaþarminn, þar sem e-coli-bakteríurnar eru, þær geta líka verið á stærra svæði í kringum endaþarminn en að maður heldur. Þess vegna eiga konur alltaf að þurrka frá þvagrás og afturábak en alls ekki frá þvagrás og framávið, því þá er hætta orðin á að e-coli-bakteríur nái í bláendann á pappírnum og slæðist yfir þvagrásarsvæðið þá er leiðin greið upp í þvagfærin.“
Anna segir að átak sé nauðsynlegt í þessum fræðum og þar þyrfti að byrja strax á leikskólunum.
„Ég veit það með vissu að í mörgum leikskólum er litlu stelpunum kennt að þurrka sér þannig að þær fara með pappírinn á milli fóta og þerra pissið. Ef við komum þessu strax í ferli, frá því stelpur byrja að þurrka sér sjálfar, eftir að þær eru búnar að pissa, þá held ég að við gætum sparað mikið í sýklalyfjanotkun. Ég er sannfærð eftir þessa eftirfylgni mína síðastliðin tvö ár að sýkingarhætta yrði miklu minni ef við myndum kenna stelpum og konum að þurrka sér rétt,“ segir Anna.
Ef við komum þessu strax í ferli, frá því stelpur byrja að þurrka sér sjálfar, eftir að þær eru búnar að pissa, þá held ég að við gætum sparað mikið í sýklalyfjanotkun.
Konur sem breyttu skeiniaðferð hættu að fá sýkingar Hún hefur verið með konur í heimaþjónustu eftir barnsburð sem hafa verið á sýklalyfjum nokkrum sinnum á ári vegna sýkinga í þvagfærum og fékk að fylgja nokkrum þeirra eftir þegar þær breyttu um aðferðir við að þurrka sér eftir að þær voru búnar að pissa.
„Það kom mér bara ekkert á óvart að þvagfærasýkingarnar sem konurnar fengu nokkrum sinnum á ári höfðu bara ekki komið aftur eftir að þær breyttu um aðferð við að þurrka sér eftir þvaglát. Auðvitað er það líka þekkt að kynlíf er einn þáttur í e-coli-sýkingum í þvagfærum en ég held að ég geti fullyrt að ef konur passi upp á hvernig þær þurrki sér þá muni sýklalyfjanotkun vegna þvagfærasýkinga snarminnka. Því vil ég endilega skapa umræðu um þetta,“ segir Anna.
Hún bætir þó við að lokum að auðvitað séu alltaf einhverjar sem sleppi þó þær hafi alltaf þurrkað sér fram á við. „En eg tel þær bara heppnar að hafa ekki sýkst. Við erum mismeðtækilegar fyrir sýkingum og ef við fáum fyrstu sýkinguna, vilja gjarnan fleiri fylgja i kjölfarið. Allar konur ættu að hafa þetta í huga ef þær hafa einhvern tímann fengið þvagfærasýkingu.“
Á sólbjörtum dögum jafnast ekkert á við góða ístertu með kaffinu. Þær eru ferskar, góðar og gleðja alltaf. Hér er uppskrift að einstakri sumarístertu í boði Gestgjafans.
Ísterta með kaffimarens
fyrir 12
Marensbotnar
2 tsk. espressó-skyndikaffiduft
1 msk. sjóðandi vatn
4 eggjahvítur
¼ tsk. cream of tartar
¼ tsk. salt
2 dl sykur
1 tsk. vanilludropar
Stillið ofn á 130°C. Blandið saman kaffidufti og heitu vatni, setjið til hliðar og látið kólna. Setjið eggjahvítur, cream of tartar og salt saman í hrærivélarskál og þeytið saman. Þegar blandan byrjar að stífna er sykri bætt saman við í nokkrum skömmtum. Stífþeytið blönduna þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan hreyfist nokkuð til. Bætið þá vanilludropum og kaffiblöndunni út í og blandið vel saman. Búið til tvo botna úr deiginu með því að teikna tvo hringi í þeirri stærð sem tertan á að vera í (u.þ.b. 20-25 cm í þvermál) á bökunarpappír. Skiptið deiginu í tvennt, dreifið því innan hringjanna og bakið í 1 ½ klst. Slökkvið þá á ofninum og látið botnana vera áfram inni í a.m.k. 1 klst. Látið þá kólna alveg áður en bökunarpappírinn er tekinn af.
Athugið að baka þarf báða botnana í einu, í blástursofni er það lítið mál en ef ekki er blásturstilling á ofninum þarf að koma þeim saman fyrir á einni plötu. Eins má helminga uppskriftina, baka bara einn marensbotn og hafa hann þá á milli íslaganna.
Samsetning
1 l súkkulaðiís
1 l vanilluís eða karamelluís
50 g pekanhnetur, gróft skornar
Ofan á
2 ½ dl rjómi, þeyttur
kokteilber til skrauts
Hrærið súkkulaðiísinn mjúkan. Bætið pekanhnetunum út í. Hrærið vanilluísinn mjúkan. Setjið annan marensbotninn á disk sem þolir frost og dreifið súkkulaðiísnum varlega yfir. Setjið hinn botninn ofan á og síðan vanilluísinn þar ofan á. Breiðið plastfilmu yfir og setjið í frysti í a.m.k. 1 klst. Þegar kakan er borin fram er þeyttum rjóma dreift yfir hana og hún skreytt með kokteilberjum.
Ráð
Látið ísinn aðeins taka sig við stofuhita þannig að gott sé að hræra hann í hrærivél eða með þeytara.
Gott er að nota smelluform sem passar utan um marensbotnana til þess að fá kökuna jafna og fallega
Gott er að miða stærð tertunnar við smelluform heimilisins, þannig er hægt að nota það til þess að fá hana jafna og fallega. Setjið einfaldlega formið utan um neðri marensinn á diskunum (ekki nota botninn af forminu) og setjið tertuna saman eins og lýst er. Þegar tertan er tekin úr frysti er auðvelt að losa um hana með því að renna hníf inn eftir forminu.
Arnar Pétursson skráði sig í fyrsta sinn í Reykjavíkurmaraþonið þegar hann var átján ára og þá aðeins með þriggja vikna fyrirvara. Þrátt fyrir að undirbúningur Arnars fælist varla í öðru en að búa sér til play-lista fyrir hlaupið varð hann í öðru sæti af Íslendingum. Síðan þá er hann margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum og ferðast nú um landið í samstarfi við Íslandsbanka til að miðla þekkingu sinni og leiðbeina fólki sem langar að byrja að hlaupa eða ná meiri árangri.
„Það er hægt að verða mjög góður hlaupari á merkilega auðveldan hátt,“ segir Arnar þar sem hann situr gegnt blaðamanni á kaffihúsi í Perlunni. „Regla númer eitt, tvö og þrjú er að vera þolinmóður. Þá geta mjög góðir hlutir gerst. Maður þarf að horfa langt fram í tímann og setja sér markmið en hafa margar litlar vörður á leiðinni. Og maður þarf vissulega að hafa hausinn í lagi því það kemur alltaf mótlæti, til dæmis bara ein erfið brekka sem maður þarf að vera búinn að ákveða hvernig maður ætlar að tækla.“
Fannst hlaupaíþróttin sú einhæfasta en sá svo ljósið
Arnar byrjaði að æfa langhlaup af alvöru fyrir rétt rúmlega sjö árum en æfði áður fótbolta og körfubolta. „Mér datt ekki í hug að æfa hlaup þótt verið væri að benda mér á að ég væri góður hlaupari. Mér fannst þetta bara einhæfasta sport allra tíma og var örugglega mesti efasemdarmaður landsins í garð þess. En svo sjá ég nú loksins ljósið.“
Arnar segist hafa ætlað að hlaupa með pabba sínum í Reykjavíkurmaraþoninu þegar hann var sextán ára en hafi verið of ungur til að mega taka þátt þar sem aldurstakmark er átján ár. „Einu ári síðar ákvað ég því að skrá mig með þriggja vikna fyrirvara og hafði þá aldrei hlaupið lengra en tíu kílómetra. Ég hugsaði að fyrst pabbi hefði getað þetta, þá væri þetta örugglega ekkert mál fyrir mig,“ segir Arnar og glottir. „Eini undirbúningurinn minn var að gera góðan play-lista fyrir hlaupið. Ég endaði í öðru sæti af Íslendingunum og sló þrjátíu ára gamalt Íslandsmet í flokki 18-20 ára og 20-22 ára.“
„Eini undirbúningurinn minn var að gera góðan play-lista fyrir hlaupið. Ég endaði í öðru sæti af Íslendingunum og sló þrjátíu ára gamalt Íslandsmet í flokki 18-20 ára og 20-22 ára.“
Þarna sá Arnar að hlaupin hentuðu honum vel og hann var hvattur til að fara að æfa. „Mér fannst erfið tilhugsun að ætla að segja skilið við körfuna. Ég var í yngra landsliðinu í körfubolta; varð tvisvar Norðurlandameistari og var fyrirliðinn í meistaraflokki Breiðabliks. Svo hafði ég alltaf verið mikill efasemdarmaður um hlaupin og fannst þau mjög einhæf. Og ég held að margir hafi neikvæða upplifun af hlaupunum fram eftir menntaskólaárunum því hlaup eru mikið notuð í refsingarskyni, til dæmis á æfingum í boltaíþróttum.“
Ólympíuleikarnir raunhæfur möguleiki
Tveimur árum síðar, sumarið 2011, ákvað Arnar að taka aftur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og æfa að þessu sinni af alvöru fyrir hlaupið með um það bil fjögurra mánaða undirbúningi. Þá stóð hann uppi sem sigurvegari og segist þá hafa ákveðið að snúa sér alfarið að hlaupunum. „Ég prófaði reyndar að æfa bæði hlaupin og körfuboltann í um það bil hálft ár og æfingaálagið var fáránlegt. Ég hljóp sex kílómetra frá Kópavoginum á hlaupaæfingu í Laugardalnum. Hljóp síðan á hlaupaæfingunni, kannski sjö kílómetra, og hljóp svo aftur í Kópavoginn til að fara á körfuboltaæfingu í einn og hálfan klukkutíma. Þegar ég lít til baka sé ég að það er auðvitað fáránlegt að ég skyldi ná að höndla þetta álag. En svo sá ég að til að ná þeim árangri sem ég vildi ná í hlaupunum, yrði ég að leggja meiri áherslu á þau.“
Arnar brosir og segir að genatískt sé líka meira sem vinni með honum í hlaupunum en körfunni. „Ég er ekki tveir metrar á hæð með langar hendur en er með hraða og stökkkraft. Í hlaupunum hentar vel að vera nettur og með létt bein og geta svifið áfram.“
Arnar segir þó stóru ástæðuna fyrir því að hann sneri baki við körfunni og ákvað að láta reyna á hlaupin vera þá að hann sá að það væri raunhæfur möguleiki fyrir sig að komast á Ólympíuleikana 2020. „Ég hugsaði líka dálítið fram í tímann og hvernig mér myndi líða til dæmis fimmtugum með það að hafa ekki slegið til í hlaupunum, hvort ég myndi sjá eftir því að hafa ekki látið á þetta reyna. Ég sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun minni. Þetta er búið að vera svo ótrúlega gefandi og gaman. Svo getur maður líka enst lengi í hlaupunum. Í körfunni hefði ég kannski átt tíu ár eftir, það er stundum talað um það þegar fólk er komið yfir þrítugt í íþróttinni að það sé röngu megin við þrítugt. Þá er farið að halla undan fæti en í hlaupunum er maður á þeim aldri að byrja að ná alvöruárangri og taka alvöruframförum.“
„Fólk heldur alltaf að það þurfi að fara hraðar en líkaminn aðlagast álagi ef þú gefur honum tíma til þess. Ef þú ferð nógu hægt með lítilli stigmögnun, geturðu náð ótrúlegum árangri. Og forðast meiðsli.“
Þessa dagana er Arnar að æfa sig fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst og segir markmiðið vera að hlaupa undir 2 klst. og 20 mínútum. „Til að eiga möguleika á að komast á Ólympíuleikana verð ég að hlaupa vel undir þessum tíma en svo þarf ég líka að hlaupa annað maraþon í apríl á næsta ári. Síðan fær maður ekkert að vita fyrr en 1. maí þegar heimslistinn er birtur, þar þarf maður að vera meðal efstu 80 en þeir komast á leikana. Maður veit því ekki hvað verður nóg því það skiptir máli hvað allir hinir gera. Kannski hlaupa allir á sínum besta tíma og þá kemst maður ekki inn á topp 80 eða þeir hlaupa allir á sínum lakasta tíma og þar með er maður kominn á leikana. En þetta er eitthvað sem verður bara að koma í ljós.“
Hann segist búinn að vera að hlaupa 150 til 180 kílómetra á viku síðastliðnar tvær vikur. „En af þessum æfingum eru kannski 120 kílómetrar bara rólegt skokk og þegar ég segi rólegt þá meina ég virkilega rólegt,“segir Arnar með áherslu. „Það er erfitt að fara nógu hægt og eitt það merkilega við hlaupin, sérstaklega þegar fólk er að byrja. Oft er þetta bara skrefinu fyrir ofan labb. Þótt þú sért á þeim hraða ertu samt að fá ótrúlega mikið út úr æfingunni. Fólk heldur alltaf að það þurfi að fara hraðar en líkaminn aðlagast álagi ef þú gefur honum tíma til þess. Ef þú ferð nógu hægt með lítilli stigmögnun, geturðu náð ótrúlegum árangri. Og forðast meiðsli. Hámarka líkurnar á árangri en lágmarka líkurnar á meiðslum. Þú getur náð góðum hlaupaárangri með því að fara fimm sinnum út að hlaupa í viku, hlaupa hratt og verða góður hlaupari en það eru mjög miklar líkur á því að þú meiðist þar sem þú ert alltaf að hlaupa í svo mikilli ákefð. Ef þú meiðist, þá lendirðu kannski í því að geta ekki hreyft þig í mánuð og það er ömurlegt. Það þarf líka að vera gaman og gleði; það er mikilvægur punktur sem má ekki gleymast.“
Var hræddur við að mæta á fyrstu hlaupaæfinguna
Arnar gerir mikið af því að halda fyrirlestra fyrir hlaupahópa og fyrirtæki um allt land. Hann segist vilja deila því sem hann hefur sjálfur lært og sér finnist ótrúlega gaman og gefandi að miðla þekkingu sinni. Hann er líka farinn að taka fólk í þjálfun.
„Það er svo gaman að sjá fólk bæta sig og upplifa gleðina hjá því og finna þakklætið. Ég hef auðvitað mikla þekkingu á hlaupunum og lært mikið sjálfur, bæði á eigin skinni og af öðrum, og mér þætti synd að deila því ekki áfram. Ég vil líka kynna fólk fyrir hlaupahópum, því það eru allar líkur á því að það sé einn slíkur í hverfinu sem fólk jafnvel veit ekki af. Og hlaupahópar eru frábærir, þar er fólk af öllum stærðum og gerðum, atvinnuhlauparar og þeir sem hlaupa sér til gamans. Það er nefnilega oft þannig að fólk þorir ekki að mæta á æfingu og ég hef heyrt óteljandi sögur af því að fólk æfi sig áður en það mætir á hlaupahópsæfingu af því að það óttast að ná ekki að halda í við hina. Og það er mjög skiljanlegur, en algjörlega óþarfur, ótti. Ég var til dæmis sjálfur hræddur þegar ég mætti á mína fyrstu hlaupaæfingu því ég hélt ég gæti ekki hlaupið með neinum. En það hlaupa alltaf allir með einhverjum. Það er enginn skilinn eftir einn einhvers staðar.“
Aðspurður hvort það sé ekki sama uppi á teningnum þegar fólk þorir ekki að skrá sig í hlaup af ótta við að vera með lakastan tímann, svarar Arnar að það sé mikilvægt að kýla á það að hlaupa fyrsta hlaupið. „Það er ótrúlega mikilvægt því þar með færðu tímann þinn skráðan og því hægari tíma sem þú færð, því jákvæðara ætti það að vera því það er þá auðveldara að bæta tímann næst,“ segir Arnar og brosir breitt. „Það er eiginlega ekkert skemmtilegra í hlaupunum en að bæta tímann sinn. Því hægar sem maður byrjar, því meiri bætingar á maður inni. Það er þess vegna hægt að labba í gegnum fyrsta hlaupið, svo í því næsta er bætingin heilmikil og það er svo frábær tilfinning. Og það er enginn að spá í hvernig hinir hlaupa; það eru bara allir að hugsa um að ná bætingu og það samgleðjast allir þegar maður bætir sig. Hlaupasamfélagið er svo frábært.“
Skiptir hlaupastíllinn miklu máli?
„Já, algjörlega. Sérstaklega þegar kemur að því að forðast meiðsli. Ef þú ert til dæmis með hlaupastíl sem setur of mikið álag á ákveðinn hluta líkamans, þá getur það skapað meiðsli ef þú heldur áfram að hamra á þeim stað. Ég tek fólk í hlaupastílsgreiningar og vinn svo hægt og bítandi í hverjum þætti fyrir sig sem þarf að bæta. En það er gert á löngum tíma; það er betra að taka lengri tíma í að laga einn þátt því hreyfingin verður að vera orðin ósjálfráð áður en þú byrjar að einbeita þér að næsta þætti. Það er erfitt að hugsa um marga hluti í einu og þeir þurfa að verða ósjálfráðir. En ég segi alltaf að það er jákvætt að þurfa að bæta sig í einhverju af því að þá veistu að þú átt inn mjög miklar bætingar.“
Arnar ráðleggur fólki að forðast malbik eins og hægt er á hlaupunum. „Ég líki þessu við það þegar maður hendir golfkúlu í malbik, þá skoppar hún upp aftur og það er í raun eins og höggið sem kemur á beinin þegar hlaupið er á malbiki. Ef þú hendir golfkúlunni í gras eða möl, þá dempast höggið mun meira. Því ráðlegg ég fólki að hlaupa á sem mýkstu undirlagi til að fara betur með beinin og liðina. Ég reyni sjálfur að hlaupa 90% af öllum mínum hlaupum ekki á malbiki og spara frekar hraðar alvöruæfingar fyrir það. Minn uppáhaldshlaupastaður og sá sem ég tel þann besta á landinu, jafnvel í heiminum, er Heiðmörk. Þar er endalaust af góðum stígum og maður er að hlaupa í geggjaðri náttúru. Og nóg af mjúku undirlagi.“
Villist stundum viljandi á hlaupunum
Aðspurður hvað það sé nákvæmlega við hlaupin sem heilli svarar Arnar að það sé margt. Það sé meðal annars tímasparnaður fólginn í því að taka hlaupaæfingu. „Á hlaupunum getur maður skipulagt komandi daga og fundið lausn á einhverju vandamáli, hreinsað hugann og ákveðið hvernig maður ætli að tækla málin. Mér finnst frábært ef það er mikið að gera hjá mér að fara út og taka rólegt skokk og fara yfir málin í huganum á meðan ég er samt að taka nákvæmlega þá æfingu sem ég ætti að vera að taka samkvæmt æfingaplaninu. Ein mesta snilldin við hlaupin er að þú getur verið hvar sem er í heiminum en samt tekið æfinguna sem þú átt að taka, nákvæmlega eins og þú átt að taka hana. Og það er frábært að vera til dæmis á ferðalagi, á nýjum stað, því maður getur notað hlaupin til að skoða borgina en líka til að taka æfinguna sem er á planinu. Maður getur hlaupið hvar sem er og hvenær sem er. Eitt það skemmtilegasta sem ég upplifi við hlaupin er að upplifa nýja staði í gegnum þau,“ segir Arnar og ljómar bókstaflega.
„Þegar maður hleypur á ókunnugum stað er alltaf eitthvað nýtt að koma fyrir sjónir manns. Ég fer stundum af stað og villist viljandi.“
„Þegar maður hleypur á ókunnugum stað er alltaf eitthvað nýtt að koma fyrir sjónir manns. Ég fer stundum af stað og villist viljandi,“ segir Arnar og hlær þegar blaðamaður spyr hvort hann sé aldrei hræddur um að villast. „En ég er með Garmin-úr sem getur vísað mér leiðina til baka. Þannig að það er líka algjör snilld þegar maður er á ókunnugum stað að prófa bara að hlaupa eitthvað og velja svo leiðina til baka í úrinu eða símanum. Það er líka hægt. Ég mæli með að prófa það. En áður en ég fékk mér þetta úr var ég alltaf með smávegis pening á mér því það kom alveg fyrir að maður þurfti að taka leigubíl til baka. Einu sinni var ég í æfingabúðum á Spáni, það voru fyrstu æfingabúðirnar sem ég fór í, og ég ætlaði að hlaupa til baka á hótelið frá frjálsíþróttavellinum. Þá var ég ekki með neina peninga á mér, leiðin átti að vera frekar einföld og það var búið að segja mér hvert ég ætti að hlaupa. Ég var nýbúinn að hlaupa tólf, þrettán kílómetra á æfingunni. Svo hljóp ég af stað og aldrei birtist ströndin sem var búið að segja að ég ætti að sjá á leiðinni. En ég var svo þrjóskur að ég hélt alltaf áfram, mér fannst eitthvað svo ótrúlegt að ég hefði átt að beygja þarna á einu horninu eins og var búið að segja, mér fannst það bara ekki geta staðist. Ég var sjálfsagt búinn að hlaupa um fimmtán kílómetra, í steikjandi hita, og kominn í einhvern hjólhýsagarð sem var svona dálítið skuggalegur. Ég sá einhverja kókflösku liggja þarna og þegar ég áttaði mig á því að ég væri farinn að líta hýru auga til hennar þá hugsaði ég með mér að ég yrði að stoppa og reyna að redda mér einhvern veginn til baka aftur. Ég var auðvitað orðinn rosalega þreyttur, búinn að hlaupa samtals um einhverja þrjátíu kílómetra með æfingunni þarna fyrr um daginn og kominn út í einhverja auðn hreinlega. En ég fékk að hringja þarna einhvers staðar á leigubíl og þegar ég kom til baka á hótelið, örmagna, var allt í hálfgerðu uppnámi þar því ég hefði auðvitað átt að vera kominn til baka fyrir klukkutíma síðan. Allir voru orðnir mjög áhyggjufullir. Þá áttaði ég mig á því að það væri best að vera aðeins varkárari og vera með plan B,“ segir Arnar hlæjandi. „Þetta er fyndin lífsreynsla svona eftir á.“
Hlustar á líkamann í maraþoninu
Arnar segist hlusta mikið á hljóðbækur og hlaðvörp þegar hann hleypur á æfingum en í maraþoninu sjálfu hlaupi hann ekki með neitt í eyrunum. „Ég vil geta hlustað á líkamann og vera meðvitaður um það sem er að gerast í honum, hvort ég þurfi að taka inn orku eða fá mér vatn. Ég vil líka geta fylgst með hlaupastílnum, hvort hendurnar hreyfist rétt og hvort ég sé að hlaupa of hratt eða hægt. Hraðinn skiptir miklu máli því maður vill vera á jöfnum hraða í gegnum allt hlaupið. Það getur verið hættulegt að vera með of mikið stuðlag í eyrunum sem veldur því að maður hlaupi of hratt og kílómetra seinna er maður alveg að bugast því maður fór of hratt,“ segir Arnar hlæjandi.
Ljósmyndarinn er mættur til að smella myndum af Arnari og þar sem hann stillir myndavélina spyr blaðamaður hvort það sé orðið of seint að skrá sig í Reykjavíkurmaraþonið með nokkurra vikna fyrirvara. Arnar fullvissar blaðamann um að svo sé ekki. „Ég myndi segja að það væri orðið of seint að byrja að æfa sig þegar það eru tvær vikur í hlaup. Fólk spyr mig oft að því rétt fyrir hlaup hvað það eigi að gera til að undirbúa sig og ég hryggi það með því að segja að því miður græði það lítið á því nema harðsperrur. Þú ert ekkert að fara að komast í form, þannig séð, á tveimur vikum. Þú ert bara að kalla yfir þig harðsperrur. Þá verður maður bara að sætta sig við það að maður var aðeins of seinn á ferðinni,“ segir hann og hlær, „og þjálfa sig frekar fyrir næsta ár.“
Fjórir punktar frá Arnari sem fólk mætti hafa í huga við undirbúning fyrir Reykjavíkurmaraþonið:
• Settu þér markmið. Markmið hjálpa okkur við að fara út að hlaupa.
• Stöðugleiki skiptir öllu máli. Æfðu að minnsta kosti þrisvar í viku því stöðugleiki í æfingum lætur líkamann bæta sig.
• Farðu hægt og hægðu svo á þér. Þegar rólegt skokk er á dagskrá er mikilvægt að fara nógu hægt. Í mörgum tilvikum er þetta næstum því labb en það er í góðu lagi.
• Hvíldu á hvíldartímabilinu. Hafðu inni í planinu þínu að þú ætlir að taka tvær vikur í hvíld eftir Reykjavíkurmaraþonið. Þetta mun auðvelda þér að leggja hart að þér í undirbúningnum.
Aldís Schram flutti aðra af aðalræðum Druslugöngunnar á Austurvelli í dag og fór hörðum orðum um opinbera stjórnsýslu gagnvart sér. Hún vitnaði meðal annars í skýrslu lögreglu sem unnin var úr yfirheyrslu lögreglu við Aldísi eftir að hún kærði ólögmætar nauðungavistanir en skýrslan er í mörgun atriðum í ósamræmi við það sem Aldís sagði í raun og veru. Auk Aldísar tóku dóttir hennar Tatjana Dís Aldísardóttir og lögmaðurinn Helga Baldvins Bjargar til máls. Hér má sjá ræður þeirra í fullri lengd.
„Gleðilegan dag, kæru landar.
Aldís heiti ég Schram.
Sú hin sama sem á fyrir svokallaðan föður fyrrum ráðherra og sendiherra er nú hefur verið opinberlega borinn sökum um kynferðisbrot af 23 konum (að mér meðtaldri) og stritar við það að telja þjóðinni trú um almætti mitt, þ.e. að ég hafi allar þessar konur á mínu valdi – þess valdandi að vitnisburðunum um kynferðisbrot hans hefur nú fjölgað nú upp í 43. Þessa sömu rullu þuldi umræddur frammi fyrir þjóðinni árið 2012, af því tilefni að Guðrún Harðardóttir birti þá opinberlega þau bréf sem hann hafði skrifað henni í æsku, þar sem hann m.a. lýsir sér sem „sígröðum geithafri“ sem „serðir án afláts“ konur „í draumaheimum.“
Svo er það ég sem á að heita „geðveik!“
Það er það fagnaðarerindi sem hann ásamt konu sinni hefur keppst við að breiða út allar götur síðan árið 1992, er ég í fyrsta sinni hermdi upp á hann kynferðisglæpi. Með þeim lyktum að ég var nörruð upp á geðdeild Landspítalans, greind á korteri með „alvarlegt ítrkekað þunglyndi“ og „maníu“ (sem er þversögn!) og síðan látin sæta nauðungarvistun, mánaðarlangt, án lagaheimildar, þar sem hún var hvorki borin undir ráðuneyti né dóm eins og bar lögum samkvæmt.
Með þeim afleiðingum að þaðan í frá mátti ég mín einskis gegn innrásum lögreglunnar, í fimmgang, í kjölfar þess að ég bar upp á þennan (þá) hæstvirta föður minn fleiri kynferðisbrot gagnvart öðrum (en sjálf mundi ég ekki eftir því hvað hann hafði gert mér fyrr en árið 2002).
Það sama ár, nánar tiltekið þann 13. apríl, sneri ég vörn í sókn og tilkynnti kynferðisbrot beiðanda nauðungarvistana minna til lögreglu, af því tilefni að þá voru til gögn sem sönnuðu hvern mann, sendiherrann, hafði að geyma, þ.e. hans eigin bréf til hins móðurlausa stúlkubarns, Guðrúnar Harðardóttur. Með þeim málalyktum að ég, 10 mínútum seinna, var fyrir beiðni móðurinnar, handtekin, og fyrir beiðni föðurins, nauðungarvistuð. Sem hinn háæruverðugi faðir minn síðan hampaði opinberlega, árið 2012, sem sönnun þess að hann væri saklaus af sök um kynferðisbrot gagnvart Guðrúnu Harðardóttur. Þá var mér, sem hafði reynt að gleyma og fyrirgefa (sem var full vinna því einhverra hluta vegna trúðu æ fleiri mér fyrir því sem þeir höfðu liðið af hendi föður míns), nóg boðið. Ég get og hef sætt mig við að vera útskúfuð úr samfélaginu vegna ljúgvitnis foreldranna – af því ég hef það sem máli skiptir – dásamlega dóttur, trausta vini og gefandi starf, en það sem ég hvorki vil, mun, né á að þurfa að sætta mig við er að vera sökuð um það að vera svo illa innrætt að ljúga kynferðisbrotum upp á sjálfan föður minn. Það er rangt og það er óréttlátt.
Fyrirgefning er jú holl, en hún á ekki að frýja illgjörðarmenn ábyrgð gjörða sinna. Ég ákvað því að sækja umræddan aftur til saka. En fyrst þurfti ég að fá það tryggt að ég yrði ekki handtekin og nauðungarvistuð fyrir vikið. Því var það að ég, þann 6. september árið 2013, arkaði á fund lögreglustjóra og spurði hann í viðurvist Harðar Jóhannessonar, aðstoðarlögreglustjóra, hvort ég, kynferðisbrotaþolinn, mætti eiga von á því að vera handtekin aftur, ef ég kærði gerandann. Lögreglustjórinn kvað nei við. Síðan lýsti ég því yfir að ég ætlaði að leita réttar míns gagnvart föður mínum, allsendis grunlaus um að umræddur Hörður hafði, árinu áður, kvittað upp á það fyrir umræddan geranda að hvorki hann né kona hans hefði nokkrun tíma „beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi“ mín vegna – sem eru ósannindi eins og lögreglugögn sanna.
Nokkrum dögum síðar – eins og við var að búast, gerði móðir mín tilraun til að láta loka mig inni með hringingum sínum til geðdeildar sem og heimilislæknis míns en varð ekki kápan úr því klæðinu þar sem hann tók hana ekki á orðinu og á ég það því þessum lækni mínum að þakka að ég gat mætt í skýrslutökuna, þann 8. oktober árið 2013. Þar rakti ég málavexti ítarlega, frammi fyrir kameru, með vísan í framlagða skriflega skýrslu mína og meðf. sönnunargögn, er sanna aðalkæruefnið sem var „ólögmæt nauðungarvistun.
Kynferðisbrot kærða – sem hann þá mér vitanlega hafði gerst sekur um að sögn 20 aðila (að mér meðtaldri), gat ég ekki hins vegar ekki kært af þeirri augljósu ástæðu að þau sem hann hafði framið gagnvart mér voru fyrnd. En viti menn, kæru minni var vísað frá af þeirri yfirlýstu ástæðu að kynferðisbrot kærða – sem ranglega eru sögð hafa verið „kærð,“ falli ekki undir kynferðisbrotakafla alm. hgl. og „að öðru leyti“ þyki „ekki efni til að hefja rannsókn út af kærunni.“ Þá ákvörðun staðfesti síðan ríkissaksóknari þann 28. febrúar 2014, þótt svo hann árétti sjálfur í bréfi sínu að ég hefði „tekið fram í skýrslutökunni“ að ég væri að „tilkynna“ um kynferðisbrot kærða en „ekki að leggja fram kæru.“ M.ö.o. byggir þessi niðurstaða á ófullnægjandi og röngum upplýsingum.
Því var það að ég fór þess á leit að fá afritun af upptökunni af skýrslutökunni, er ég fékk loks í desember árið 2015. Og þar með fæ ég sannað að rannsóknarlögreglan, í hlutdrægri „samantekt“ sinni á „aðalatriðum“ kæruskýrslu minnar, ýmist rangfærir hana eða leynir aðalatriðum hennar. Þ.e. „aðalkæruefninu“ sem var „nauðungarvistanir.“ Sem hún nefnir ekki á nafn og kallar „sjúkrahúsinnlagnir.“ Og þar með gefur til kynna að kæruefnið sé það að ég hafi lagst inn á sjúkrahús!
Eins og síðan ríkissaksóknari, sem kallar nauðungarvistun mína „vistun.“ Er leynir alvöru glæpsins – sem ríkissaksóknari tók ekki til efnisumfjöllunar að öðru leyti en því að hann sagði „mat lækna“ liggja fyrir um „veikindi“ kæranda. Eigi hann við „geðhvarfasjúkdóm“ þá réttlætir hann per se ekki nauðungarvistun enda ætti því samkvæmt að loka inni þrjú prósent þjóðarinnar!
Þessi vinnubrögð lögreglunnar og ríkissaksóknara kalla ég brot í opinberu starfi. Látum gögnin tala sínu máli. Tanja, dóttir mín og Helga Baldvins Bjargar, hdl., ætla nú að lesa þau upp.“
. . .
Tatjana Dís Aldísardóttir les:
„Starfsmaður geðdeildar Landspítalans skrifar:
„Fékk sprautu gegn vilja sínum kl. 9:00…
Leið illa, grét, spurði um barnið sitt. Var reið út í innlögnina og bað um lögfræðing … mjög
meir og viðkvæm. Hefur grátið töluvert …
Fljótlega var sjúklingur orðin mjög stíf í kjálkavöðvum og í tungunni … átti erfitt með mál og gat varla borðað …
Fékk röng lyf kl. 18:00.
Sjúklingur kvartar undan fótapirringi … Talsvert lyfjuð … Kvartar yfir slappleika … er
druggeruð töluvert, ör og dómgreindarlaus … einbeiting er lítil …
Mjög lyfjuð í morgun og slagaði um gangana … er með kippi í munnvikunum … Vildi ekki
svona ávanabindandi lyf … Hefur áhyggjur af aukaverkunum af ýmsum lyfjum.“
Hjúkrunarfræðingur skrásetur eftirfarandi:
„Þokkalega snyrtileg. Talþrýstingur og er æst og þrætir. Ókurteis á köflum.“ „Ásakanir gagnvart föður. Ekki vitað hvort réttar.“
Geðlæknir skrifar:
„ … hefur verið með ásakanir á sína nánustu eins og stundum þegar hún hefur verið ör og úr raunveruleikatengslum.“
Annar geðlæknir skrifar:
„ … stutt í pirring og æsing sérstaklega ef fjölskyldumál ber á góm. Þá hefur borið töluvert á ranghugmyndum og ásökunum af kynferðislegum toga.“
Sá þriðji skrifar:
„Mikil reiði og taumlausar ásakanir í garð fjölskyldu sinnar einkum föður. Óvíst hvort um
hreinar ranghugmyndir sé að ræða.“
Enda veitti Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, Aldísi afsökunarbeiðni fyrir hönd Landspítalans þann 11.11. árið 2014.“
. . .
Helga Baldvins Bjargar, lögmaður, les:
„Sú sem hér stendur horfði á upptökuna af skýrslugjöf Aldísar hjá lögreglu frá 2013. Myndbandið er 2 klst og 23 mín. Í tæplega tveggja blaðsíðna skriflegri skýrslu lögreglunnar segir:
„Eftirfarandi samantekt var gerð um skýrsluna. Tekið skal fram að stiklað er á aðalatriðum í
samantektinni en um smæstu atriði vísast á hljóð- og myndritun skýrslunnar.“
Eftir að hafa bæði lesið lögregluskýrsluna og horft á alla upptökuna vil ég koma nokkrum
athugasemdum á framfæri:
Í skýrslunni er margoft ekki greint frá því sem Aldís segir eða rangt farið með frásögn
hennar. Mig langar að taka hér þrjú dæmi:
Á upptökunni segir Aldís: „Við vöknuðum allar við hann um nætur – ég náttúrulega hélt bara í asnaskap mínum – ég hef ekki samanburðinn … að svona væri þetta bara, að maður vaknaði við föður sinn uppi í rúmi hjá sér.“
Í lögregluskýrslunni segir: „Aldís talaði um að [hann] hafi staðið yfir rúmi þeirra … þegar
hún var ung.“
Á upptökunni segir Aldís frá því að hún sé með 20 vitnisburði nafngreindra aðila um
kynferðisbrot í skýrslu sem hún leggur fram og segist „vona að lögreglan lesi vitnisburðinn
þeirra.”
Í lögregluskýrslunni segir: „Aldís talaði mikið um meint kynferðisbrot [hans] gegn öðrum
stúlkum og kvaðst hún vera með undir höndum vitnisburði sumra þeirra.“
Á upptökunni segir Aldís: „Við erum 5 sem höfum vaknað við hann um nætur …
Í lögregluskýrslunni segir: „Hún sagði lítillega frá því sem þessar stúlkur hefðu sagt
henni.“
Þá eru mörg atvik sem Aldís lýsir í skýrslutökunni sem ekki er greint frá í samantekt
lögreglunnar á „aðalatriðum!“
• Í lögregluskýrslunni er ekki greint frá því að það eru ásakanir Aldísar um kynferðisbrot, sem eru í öllum tilvikum aðdragandinn að beiðnum um nauðungarvistanir hennar.
• Það er ekki greint frá meintum brotum á reglum varðandi nauðungarvistanir og ólögmætar þvingaðar lyfjagjafir.
• Það er ekki greint frá því að sumar beiðnir um nauðungarvistanir eru skrifaðar á
bréfsefni sendiráðs þar sem beiðandinn titlar sig sendiherra Íslands.
• Í lögregluskýrslunni er dregið mjög úr alvöru sakarefnisins með því að kalla meintar
ólögmætar nauðungarvistanir ýmist „sjúkrahúsinnlagnir“ eða „aðgerðir.“
• Það er ekki greint frá meintu ólögmætu húsbroti sem Aldís sætti af hálfu systur sinnar
og lögreglu þann 9. apríl 1998.
• Það er ekki greint frá því að hið meinta húsbrot er skráð í málaskrá lögreglu sem
„aðstoð við erlend sendiráð.“
• Það er ekki greint frá meintri handtöku sem Aldís sætti þann 13. apríl 2002.
• Það er ekki greint frá því að sú handtaka átti sér stað 10 mínútum eftir að hún hringdi í
lögreglu til að tilkynna um meint kynferðisbrot föður síns.
• Það er ekki greint frá því að samþykki ráðuneytisins á nauðungarvistun Aldísar árið
2002, var veitt áður en beiðnin barst ráðuneytinu skv. mótttökustimpli.
• Það er ekki greint frá því að allar þessar nauðungarvistanir fóru yfir þann tíma sem lög
heimila án þess að fyrir því lægi úrskurður dómara um sjálfræðissviptingu hennar, eins
og lög kveða skýrt á um að þurfi.
Orðrétt segir í skýrslu lögreglunnar:
„Aldís byrjaði á því að segja frá meintum mannréttindabrotum [föður síns] gegn henni er
varðar sjúkrahúsinnlagnir hennar. Hún sagði að [hann] hefði í skugga stöðu sinnar sem
utanríkisráðherra hér á árum áður beitt sér fyrir því að hún yrði lögð inn á geðdeild og gefin
lyf.“
„Aldís fór mikinn um geðheilsu sína í skýrslutökunni og hélt því stakkt og stöðugt fram að
[faðir hennar] væri á bak við þær aðgerðir.“ „Hún vildi að lögregla myndi ræða við þolendur
[hans] og komast að hinu sanna í málinu.““
. . .
Aldís tekur þá aftur við:
„Hallgrímur Pétursson kvað:
Vei þeim dómara, er veit og sér
víst hvað um málið réttast er
vinnur það þó fyrir vinskap manns
að víkja af götu sannleikans.
Má ég eiga von á réttlátri úrlausn minna mála?
Það ræðst af viðbrögðum lögreglustjóra, heilbrigðirsráðherra og dómsmálaráðherra sem hafa fengið gögn í hendur er sanna þessi alverlegu brot í opinberu starfi. Svo þið megið búast við framhaldssögu – en ég lofa ykkur ekki að hún fáist birt!
Kæru landar.
Það er hægt að sporna gegn kynferðisglæpum með breytingum á núgildandi lögum og setja
skýrar reglur til að tryggja framfylgd þeirra. Og ef þeir sem fara með þau völd fyrir okkur,
þegja yfir öllu röngu, þá verðum við víst að vinna verkin fyrir þau.
Það getum við, ef sameinuð stöndum.
Berjumst saman og upprætum kynferðisofbeldi í þessu ástkæra landi okkar!“
. . .
Ljóð sem Aldís vildi láta fylgja með en segist hafa gleymt að flytja:
HETJAN MÍN
Hún þorir að bíða, vona og þreyja
þá stund sem ekki aðrir eygja
kann ekki að láta bilbug sig beygja
né bugta fyrir þeim er hausinn reigja,
hún stekkur eftir hjartans helga boði
ei hlustar á köllin: „Voði, voði“
og galvösk vígvöllinn geysist á,
er guggna hinir og sitja hjá.
Það er hetjan mín, hér og nú,
hún ert þú, þú, þú, þú, þú …!
Druslugangan var farin klukkan 14 í dag og í kjölfarið voru fluttar ræður á Austurvelli. Önnur ræðukonan var Sigrún Bragadóttir sem deildi meðal annars reynslu sinni af bataferli eftir kynferðisofbeldi. Hér er ræða í heild sinni.
„Hæ
Ég heiti Sigrún og ég er drusla!
D. R. U. S. L. A.
DRUSLA
En hvað er það og hver ákveður það?
Haldiði ekki bara að árið 2019 skilgreini Íslensk nútímaorðabók druslu sem:
-konu sem hefur litla siðferðiskennd, lausláta konu
en samt líka:
-lélega flík
-lélegan bíll, bíldrusla
-duglaus manneskju, aumingja
Ég veit það sossum ekki fyrir víst EN mig grunar að þegar móðuramma mín,
sjóarinn og smyglarinn, talaði um að hún væri eitthvað drusluleg var hún
pottþétt ekki að meina: „Æji, ég er eitthvað svo agalega lauslát í dag, ha! Ég bara finn hvernig siðferðiskenndin mín hefur bara hríðfallið í dag, já sei sei.” Nei. Hún var pottþétt að meina að hún væri half slöpp, eitthvað „eymingjaleg” eins og hún hefði orðað það.
Árið er 2019 og orðið Drusla er enn notað til að stimpla, aðallega kvenkyns, brotaþola. Stimpillinn er kúgun og stimpillinn er þöggun. Stimpillinn er leið til að segja þeim að halda bara kjafti og vera sætar. Og gerir þær ábyrgar fyrir ofbeldinu. Það er þess vegna sem við tökum þennan stimpil í dag og afhelgum hann, gerum hann okkar. Og það! Það er valdefling.
Þið vitið það rétt eins og ég að brotaþolar eru allskonar. Brotaþolar eru á öllum aldri, af öllum kynjum og með allskonar líkama. Brotaþolar eru líka börn.
Fyrir 3 árum byrjaði ég með rafræna dagbók undir myllumerkinu Bataferli Sigrúnar á Twitter. Ég vildi gefa litlu stúlkunni mér pláss, stúlkunni og unglingnum sem var brotið á. Vildi gefa þeim tilverurétt.
Sjáiði til, áður fyrr ég vildi oft hverfa. Ég vildi segja þessum litlu stúlkum innra með mér að ofbeldið væri ekki þeim að kenna, að þær væru ekki aumingjar. Með sinn loðna lubba og stóru framtennur. Með sinn stóra hlátur sem truflaði marga. Hláturinn sem var við það koðna þegar ég byrjaði að skrifa um afleiðingar. Þetta var í aðdraganda druslugöngunnar 2016 og var líka gert í þeim tilgangi að fjalla um lúmskar afleiðingar kynferðisofbeldis.
Sjáið til, samfélagið, sérstaklega fjölmiðlar, lögreglu-, réttar- og dómskerfið, bíómyndir og þess háttar, er oft alveg úti að skíta þegar kemur að því að vita eitthvað um afleiðingar þess ofbeldis þegar líkaminn, hugurinn og tilveran er valdsvipt með þessum hætti.
Eða kanski bara villl samféalgið ekki vita það því það er svo agalegt óstuð að vera „fórnarlamb“ og ólekkert að hugsa til þess að heimurinn sé ekki öruggur staður að vera í. Hvað þá að brotaþolar geti verið bara venjulegt fólk að þrauka í tilverunni sinni, borga húsnæðislán, bora í nefnið eða að tana á Tene með fjöllunni.
Brotaþolar eru nefnilega allskonar og afleiðingarnar sem þeir druslast með í gegnum lífið og tilveruna eru líka allskonar. Afleiðngar eru nefnilega ekki eins og svona ONE SIZE-FITS ALL peysa úr H&M. Sumir brotaþolar eru reiðir, sumir eru breiðir-með sig. Aðrir brotaþolar eru ennþá dofnir og enn aðrir eru horfnir. Fyrir fullt og allt. Því ómeðhöndlaðar afleiðingar geta drepið. Ég hélt t.d. aldrei að ég myndi lifa svona lengi eins og ég hef gert. En mótþrói getur sko líka verið bjargráð.
Margir brotaþolar eru leiðir og flestir eru líka reiðir. Og viti hvað? Það er bara allt í læ’ þegar ekkert er í læ’. Reiði getur verið holl. Reiði er tilfinning. Og tilfinningar, þær bara eru. Hvorki réttar né rangar. Okkur getur ekki liðið rangt. En tilfinningar geta verið ólíkindatól, jafnvel logið að okkur. Sagt að við séum ógeðsleg, jafnvel aumingjar. Þannig túlka tilfinningar ekki alltaf raunveruleikann. Og fyrir brotaþola er oft kúnst að greina þarna á milli. Því við lærum að efast um dómgreindina okkar. Það gerir mandlan, þessi frumstæði hluti heilans sem
er við stjórnvölin þegar við verðum fyrir áföllum. Hún jafnvel segir okkur að við megum ekki vera reið, en reiðin er eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Að segja brotaþolum að þeir megi ekki vera reiðir er bara ein birtingarmynd af HALTU KJAFTI OG VERTU SÆT
eða sætur – sætt. Því muniði? Brotaþolar eru af öllum kynjum.
Um daginn var ég rosa reið og það var gott. Því í gegnum bataferli mitt get ég beint reiðinni þangað sem hún á heima. Muniði hvað ég sagði með að reiði væri holl? Málið er að reiði getur verið óholl líka. Sérstaklega þegar henni er beint inn á við, að þeim eiga hana ekki skilið og þegar henni er beint að börnum. En um daginn var ég mjög reið. Úff já. Enn ein fréttin um firrtu raunveruleika- sápuóperuna sem hæstaréttur er.
Dómar hans í kynferðisbrotamálum gera mig alveg tjúll. Sem er frekar mikið afrek fyrir stútúngskjéllíngu eins og mig. Í marga áratugi deyfði ég mig til að forðast reiðina. En núna fer ég bara í störukeppni við helvítis tíkina, tek á móti, og hnoða jafnvel í eina litla ljóðalíkisdruslu sem ég kalla:HALTU KJAFTI OG VERTU SÆT. Ég set inn viðvörun hérna, því ljóðið samdi ég út frá gerendavænu orðarunkinu sem dynur á brotaþolum daglega.
Sérstaklega í athugasemdum netmiðlanna. Sem minna meira á vörtu á rasskinn Satans en
upplýsta umræðu. Það er líklegra að Þvörusleikir gefi mér juðara í skóinn en að þessir fjölmiðlar …
JÁ ANDSKOTINN HAFIÐA DV.IS ÉG ER AÐ HORFA Á ÞIG!!
… hætti að hafa opið fyrir athugasemdir á vefmiðlum sínum.
Ljóðið er einhvernveginn svona:
Haltu kjafti og vertu sæt
og ef þú værir æt
myndi ég bókstaflega éta þig
upp til agna
Haltu kjafti og vertu sæt
Af hverju ertu alltaf að snapa fight?
Ég hef ekki stjórn á mér
þegar ég er í kringum þig
Var ekki búið að kenna þér
að ÉG get ekki hamið mig?
Æi kommonn kysstu mig!
Vert’ekki svona þver!
Af hverju varstu þá svona ber
á Instagram?
Haltu barasta kjafti
og vertu sæt!
Þú veist’etta var þér að kenna
þér var nær
Það varst þú sem varst í stuttu pilsi
í gær
Þung á brún
há eða sver
hann, hún, hán
því er nú ver
það er þér að kenna
þegar miður fer
það segjaða allir
meira að segja kallarnir í hæstarétti
á Alþingi
OG á Klaustri
æi þessir þarna
sem tala með hraustri
röddu og segja:
haaaltu kjafti og vertu bara sæt
er ekki allt ollrætt?
Ha? Fallegt hatur og fínerí?
Kallarúnk og svínerí!
Já, er þetta ekki allt bara hluti af forleik
jafnvel spennu?
…
En ef þeir hefðu nú bara nennu
að taka höfuðið úr eigin forréttindarassi
sæu þeir að brotaþolar
eru allskonar fólk
með sitt venjulega líf
að þrauka í trassi
við trega, tráma, og tár.
Já …
En svo er það málið með vonina. Er það eitthvað ofan á brauð? Er eitthvað hægt að púkka upp á hana þegar allt virðist vera á leiðinni í norður og niðurfallið?
Ég mun aldrei segja öðrum brotaþolum hvernig þeir eiga að bera sig að í sínu eigin bataferli. Muniði það sem ég sagði áðan með að afleiðingar væru ekki eins og peysa úr
H&M? Það gildir nefnilega um bataferli líka. Vonin er það sem hélt mér á lífi. Fyrir mér er vonin er falleg og hún er drifkraftur. Og vonin fékk byr undir báða vængi þegar ég byrjaði að skrifa um bataferlið mitt.
Ég hafði ekki verið mikið fyrir að gaspra um mig og mína einkahagi á netinu. Þessi kvenlega hógværð „afsakið mig ef mig skyldi kalla” var nefnilega afleiðing, afleiðing sem var að kæfa mig. Afleiðing sem reyndi að sannfæra mig um að ég ætti ekki tilverurétt.
Og það sem ég var hrædd. Hrædd um að vera hafnað. Þó ég hafi alltaf verið stór og sterk og brussuleg með ADHD fyrir allan peningin, tala hátt og hlæja enn hærra þá fannst mér samt erfitt þegar athyglin beindist að MÉR. Píunni bak við grímuna. Ég hélt að það kæmist upp um mig, rétt eins og ég væri með morðið á Olaf Palme á samviskunni.
En vonin, krakkar mínir komiði sæl, vonin er lúmskur andskoti. Og það er vonin, og ókei … pínulitið mótþróinn líka … sem fær mig til að botna leirburðinn hér að framan. Núna frá sjónarhóli brotaþola til brotaþola að gefa skít í gerendameðvirkni.
Með því óska ég okkur öllum, brotaþolum, ættingjum og gerendum í bata, góðs gegnis í ykkar eigin bataferli.
Upp og áfram!
Lifi byltingin
Móðir, kona, meyja
fósturlandsins freyja
fagra vanadís
trúðu mér þegar ég segi:
ekki hlust’ á’ann
plís!
Hann lýgur meir’ en hann mýgur
Hann er skaðinn, hann er skollinn
og hann er voðinn vís
Sælasti svanni, sprækasta sprund
þetta hér
er þín stund!
Þú ert stormurinn, þú ert hafið
jafnvel með þitt blæðandi hjarta
og gapandi und
Út með sprokið
ég stend með þér
svo þeir fá ekki glæp sínum strokið
af sakramentinu burt
þetta verður ekki létt
þeir munu urrra, bíta og skrækja
HELVÍTIS SKÆKJA
en eitt máttu vita
ég trúi þér
og þér
og þér
Við neitum að halda kjafti
og vera bara sæt
Neitum að þegja og vera æt
Dullist hingað ef þið þorið
við erum tilbúin í’etta fokkíng fight!
Ingibjörg Helga Ágústsdóttir er fædd og uppalin í Stykkishólmi. Bakgrunnur hennar er í fatahönnun en í gegnum rannsóknarvinnu á íslenska faldbúningnum kviknaði áhugi hennar á útskurði.
Frá árinu 2008 hefur Ingibjörg skorið út myndverk byggð á íslenskum þjóðsögum og hefur hún haldið sýningar í Stykkishólmi og víðar. Á vinnustofu sinni heldur hún einnig litlar sýningar á hverju ári.
Vinnustofa Ingibjargar er í kjallara Tang og Riis hússins í Stykkishólmi. Húsið á sér langa sögu en það var flutt inn tilsniðið frá Noregi árið 1890 og reist á eldri hleðslu sem er vinnustofan í dag.
Sögu kjallarans má síðan lesa af veggjum og lofti rýmisins en hefur húsið tekið miklum breytingum í tímans rás. Engir fastir opnunartímar eru á vinnustofunni nema þegar sýningar standa yfir en þar fyrir utan er opið eftir samkomulagi og er öllum velkomið að hafa samband við Ingibjörgu.
Aðspurð segist Ingibjörg taka við pöntunum á ákveðnum hlutum í tiltekinn tíma og þannig tryggir hún að hvert verk sé einstakt en ekki um framleiðslu að ræða. Þessa stundina er hún að vinna að pöntunum og verkum fyrir sýningar næsta árs en hægt er að fylgjast með Ingibjörgu á facebook-síðu hennar sem ber heitið Vinnustofan Tang og Riis.
Bræðslan, sem hefur fest sig í sessi sem einn af helstu tónlistarviðburðum ársins, hófst í þessari viku en þetta er í fimmtánda sinn sem hún fer fram á Borgarfirði eystra. Fjöldi skemmtikrafta kemur fram á Bræðslunni. Þar á meðal hljómsveitin Doctor Spock sem stígur á stokk í kvöld og segist forsprakkinn Óttarr Proppé hlakka til að trylla lýðinn.
„Það leggst mjög vel í mig,“ segir Óttar, spurður hvernig leggist í hann að troða upp. „Spockinn er svona skepna sem er mjög gott að viðra og virkar aldrei betur enn á nýjum slóðum og aðeins öðruvísi. Við höfum alltof lítið spilað síðustu árin og er farið að klæja í þennan sirkus.“
Að hans sögn er þetta í fyrsta sinn sem bandið kemur fram á Bræðslunni. „Við höfum spilað í hjólhýsi í Vestmannaeyjum, á fótboltavelli í Færeyjum og aftan í flutningabíl á Hólmsheiði en þetta verður eitthvað alveg nýtt. Það hefur alltaf verið æðisleg tilfinning að ímynda sér að manni yrði boðið að spila þarna og sjá fyrir sér dýrðina. Loks rætist gamall draumur,“ segir hann og tekur fram að hann hafi ekki einu sinni komið á Bræðsluna sem tónleikagestur. „Ég hef hins vegar einu sinni komið til Borgarfjarðar áður og þetta er einhver fallegasti staður á landinu,“ bætir hann við. „Þá hitti ég einhverja krakka og spurði hvort það væri hægt að kaupa kaffi. „Nei, amma er ekki heima,” svöruðu þau. Við vonum bara að amman verði á staðnum núna,“ segir hann kíminn. „Treystum reyndar á það því kaffilaus verður Spockinn ansi hastur læf.“
„ ég er búinn að afplána mitt í pólitíkinni og þjóna mínum tilgangi þar og er svo glaður með að hafa endurheimt kennitöluna mína að ég læt hana ekki svo glatt af hendi aftur.“
Undanfarið hefur lítið farið fyrir Doctor Spock og aðspurður út í það segir Óttar að það sé þetta helst að meðlimirnir hafi elst og lítið sem ekkert selst. „Það er langbesta staðan fyrir hljómsveit, autt blað. Okkur klæjar mikið að spila meira og semja,“ segir hann en sveitin sendi síðast frá sér nýja plötu í fyrra. „Við héldum upp á það að ég slapp úr pólitíkinni og ráðuneytinu í fyrra með því að taka upp plötuna Leður. Við höfum alltof lítið fylgt henni eftir þannig að við tökum slatta af því efni í kvöld. Það er annars orðið svo langt síðan við vorum hvað aktífastir að þegar við tökum gamalt efni verður það eiginlega nýtt við rembinginn við að rifja það up. Síðan semjum við alltaf eitthvað á sviðinu. Það er nýtt efni sem enginn sér fyrir nema að það verður örugglega allt eignað Sálinni hans Jóns míns að gömlum Spock-sið. Við ættum auðvitað að vera að kynna lögin af væntanlegri plötu en það verður aðeins að bíða.“
Þannig að ný plata er í vinnslu? „Við erum búnir að borga fyrir stúdíóið þannig að fljótlega pöntum við tíma og förum svo að semja lög.“
Vonar að konurnar taki við í pólitíkinni
En hvað ertu annars búinn að vera að bralla fyrir utan tónlistina? „Ég er kominn aftur í bókabransann og er verslunarstjíori í Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi,“ segir hann. „Það er góður vinnustaður og yndislegur bransi. Bækur laða að sér gott fólk, spekúlanta og hæfilega mikið af furðufuglum. Hér hittir maður alla og allskyns og lærir eitthvað nýtt á hverjum degi.“ Hann segir að í bókabúð afsannist því það bull að það sé ekkert nýtt undir sólinni. Það sé alltaf eitthvað nýtt undir þeirri stjörnu.
Þig langar ekkert aftur í pólitíkina? „Nei veistu, ég er búinn að afplána mitt í pólitíkinni og þjóna mínum tilgangi þar og er svo glaður með að hafa endurheimt kennitöluna mína að ég læt hana ekki svo glatt af hendi aftur. Það er komið nóg af gulhærðum vitlesingum í pólitík. Ég vil gera mitt til þess að bæta ekki í þá flóru,“ segir hann, greinilega dauðlifandi feginn að vera laus. „Ég vona eiginlega að stelpurnar taki við þessu á sem flestum sviðum. Það væri langmest vit.“
Mætir vel undirbúinn á svæðið
Fyrir utan að vinna í Bóksölunni og að tónlistinni segist Óttarr síðan alltaf vera að vinna að einhverju sem tengist listum. „Að minnsta kosti óbeint ef ekki beint. Eftir ráðherramaraþonið og allt tímaleysi síðustu árin var orðið ansi djúpt á manni,“ segir hann. „Þessi misserin fara kraftarnir mest í að safni í sarpinn svo maður hafi einhverju að gjósa. Ég finn að það er farinn að aukast þrýstingurinn og mælast meiri leiðni í mér með hverjum deginum.“
Talið berst þá aftur að fyrirhuguðum tónleikum sveitarinnar í kvöld og segir Óttar meðlimi hennar mæta vel undirbúnir á svæðið. „Það eina sem er óákveðið er hvernig við verjumst lundanum á sviðinu. Okkur skilst að það sé allt vaðandi í lunda þarna og hann laðast sérstaklega að blíðum tónum og fallegum klæðum eins og kría að hávöxnum og sköllóttum. Við munum annaðhvort spila í lundaheldum grímum, höfuðbúrum og/eða með mjög barðastóra hatta til að rugla fuginn í ríminu. Þetta getur ekki klikkað,“ segir hann léttur í lund.
Eitthvað sem þú vilt segja í lokin við væntanlega tónleikagesti kvöldsins í kvöld? „Þeir sem eru með óskalög geta lagt beint inn á okkur í Sparisjóði Garðabæjar og nágrennis eða hent gullmolum á sviðið. Við munum síðan árita líkamsparta beint eftir tónleikana og sitja fyrir með smábörnum á flugvellinum á Egilsstöðum 20 mínútur fyrir brottför á sunnudaginn. Ást og fiður.“
Ilmurinn sem kemur í eldhúsið þegar sítrónur eru notaðar í baksturinn er blátt áfram dásamlegur. Hér er uppskrift að einu vel ilmandi, gómsætu og fallegu sítrónupæi sem upplagt er að skella í.
Franskt sítrónupæ fyrir 10 180 g hveiti
2 msk. sykur
120 g kalt smjör í bitum
1 eggjarauða
4 msk. ískalt vatn
Setjið hveiti, sykur og smjör í matvinnsluvél og stillið á mesta hraða í 10 sek. athugið að smjörið á að vera frekar gróft eða eins og baunir í hveitinu. Bætið eggjarauðu og vatni út í og hrærið saman í 30 sek. eða þar til deigið er samlagað. Pakkið deiginu í plastfilmu og geymið í kæli í 10-15 mín. Fletjið deigið út og setjið í smurt form, 26 cm, kælið í 20 mín. Hitið ofninn í 180°C. Pikkið í botninn með gaffli og forbakið bökuskelina í 10-15 mín.
Hellið sítrónufyllingunni í bökuskelina, dreifið marensblöndunni yfir og bakið í 20 mín. Kælið.
Sítrónufylling: börkur og safi úr 3 sítrónum
180 g sykur
40 g kartöflumjöl
1/2-3/4 dl vatn
2 eggjarauður
30 g smjör
Setjið sítrónusafa í mæliglas og bætið vatni út í svo vökvamagnið mælist 450 ml eða 4 ½ dl. Setjið í pott ásamt sykri og hitið að suðu. Hrærið kartöflumjöl og vatn saman, takið pottinn af hellunni og bætið kartöflumjölsblöndunni út í. Setjið pottinn aftur yfir hitann og sjóðið sítrónublönduna þar til hún þykknar. Takið pottinn af hellunni og bætið eggjarauðum og smjöri út í. Hrærið saman þar til blandan er orðin vel samlöguð.
Marens: 3 eggjahvítur
160 g sykur
svolítið salt
Hrærið eggjahvítur þar til þær fara að verða stífar. Bætið sykri út í, einni skeið í einu, og hrærið áfram í 2-3 mín.
Druslugangan verður farin í níunda sinn í dag en tilgangur hennar er að sýna brotaþolum kynferðisofbeldis samstöðu og krefjast betra réttarkerfis og bætts samfélags. Að göngu lokinni verður skipulögð dagskrá á Arnarhóli, tónlistaratriði og ræðuhöld en meðal þeirra sem taka til máls er Sigrún Bragadóttir sem hefur meðal annars vakið athygli fyrir að tala opinskátt um afleiðingar kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir.
„Ég ætla að tala um bataferli í kjölfar kynferðisofbeldis og hvað þetta ferli getur verið misjafnt eftir brotaþolum. Það er nefnilega alltaf verið að draga upp þá staðalímynd af brotaþolum að þeir séu einir grátandi úti í horni, á meðan raunveruleikinn er sá að brotaþolar eru jafnólíkir og þeir eru margir og þeir koma sér upp alls konar bjargráðum til að komast af. Til að þrauka. Nokkuð sem mér finnst mikilvægt að benda á þar sem þetta gleymist gjarnan í umræðunni um þolendur kynferðisofbeldis,“ segir Sigrún.
Sigrún talar af reynslu því hún lenti í kynferðisofbeldi fyrst þegar hún var barn þegar maður sem tengdist henni í gegnum fjölskylduna misnotaði hana. Hún varð einnig fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns, henni var byrlað ólyfjan í menntaskóla og hún var áreitt kynferðislega á skólaballi þegar hún var í 8. bekk. Sigrún var orðin fertug þegar hún viðurkenndi þetta loks fyrir sjálfri sér og leitaði hjálpar hjá Stígamótum. Síðan þá hefur hún unnið úr afleiðingum kynferðisofbeldisins með ýmsum hætti og meðal annars haldið úti rafrænni dagbók utan um bataferli sitt á Twitter undir myllumerkinu #BataferliSigrúnar.
Átti erfitt með að opna sig um ofbeldið
„Rafræna dagbókin var fyrst hálfgert tilraunaverkefni í kjölfar Druslugöngunnar árið 2016, eða um það leyti sem ég fór í veikindaleyfi í vinnunni vegna afleiðinga kynferðisofbeldins sem ég varð fyrir, en í henni ákvað ég að fjalla á heiðarlegan hátt um það hvernig ég hafði verið að takast á við þessar afleiðingar,“ lýsir hún. „Þetta var mjög erfitt skref þar sem ég er ekki mikið gefin fyrir athygli þrátt fyrir að vera svolítil brussa, í jákvæðum skilningi orðsins. Mér fannst líka erfitt að ætla að taka mér þetta pláss fyrir mínar hugsanir og mína tilveru. Ég var svo sannfærð um að ef ég deildi reynslu minni og hugsunum með öðrum sæi fólk hvað ég væri raunverulega ömurleg og viðbjóðsleg og það myndi ekki vilja vita meira af mér. Ég vissi þá ekki að það er eitt einkenni á afleiðingum kynferðisofbeldis að þolendur eru stöðugt að passa upp á ímyndina því þeir eru svo hræddir við viðbrögð annarra. Hræddir við að vera hafnað.“
„Ég var svo sannfærð um að ef ég deildi reynslu minni og hugsunum með öðrum sæi fólk hvað ég væri raunverulega ömurleg og viðbjóðsleg og það myndi ekki vilja vita meira af mér.“
Sigrún segir dagbókina hafa verið æfingu í því að berskjalda sig á öruggan hátt því hún hafi ráðið nákvæmlega hvað hún sagði frá miklu. Og þvert á það sem hún bjóst við voru viðtökurnar góðar. „Ég fann óvænt fyrir meðbyr. Þá er ég ekki að tala um að einhver klappstýrufögnuður hafi brotist út heldur tengdu margir við það sem ég sagði og þar af leiðandi fékk ég á tilfinninguna að ég væri ekki ein á þessari vegferð. Að þetta hjálpaði öðrum. Að ég gæti veitt öðrum von með því að segja frá því hvernig ég hef unnið mig út úr þessu, líka frá mistökunum sem ég hef gert og hvernig líf mitt er í dag. Því án þess að ætla að hljóma eins og einhver amerísk fimmaurasálfræði og segja fólki hvað það á að gera þá finnst mér mikilvægt að sýna fólki að það er alltaf von. Von um bata. Von um betra líf. Að von er ekki einhver óraunhæfur draumur, heldur getur hún fleytt fólki ansi langt.“
Skilningslausir ráðamenn
Sigrún bætir við að markmiðið með dagbókinni hafi þó ekki síður verið að skera upp herör gegn þögguninni sem umlykur kynferðisbrot í íslensku samfélagi. „Það er alltaf verið að senda okkur þau skilaboð að halda kjafti og vera sæt, því þá erum við ekki fyrir og ekki til vandræða. Nú eru alls konar byltingar í gangi til að ögra þessari þöggun og ekki veitir af. Það er nefnilega ótrúlega sorglegt hvernig ráðamenn þjóðarinnar virðast líta á þessi mál. Batterí sem veita þolendum kynferðisofbeldis þjónustu berjast í bökkum, sem dæmi, sem er skelfilegt til að hugsa. Svo er líka verið að skera niður í geðheilbrigðisgeiranum. Þessi málaflokkur er bara ekki í forgangi á Alþingi, það er nokkuð ljóst.
Það er eins og þingmenn átti sig hreinlega ekki á því hversu mikilvægt er að veita brotaþolum áfallahjálp og hversu mikilvægt er að sinna fíknimeðferðum barna og unglinga svo þessi brotnu börn verði ekki brotnir fullorðnir einstaklingar sem ali aðra brotna einstaklinga. Eins og þeir skilji ekki að ef ekkert er að gert verður þetta eilífur vítahringur.“
Heldur fast í vonina
Sigrún segist þó trúa að einhvern tímann muni ástandið lagast og bindur vonir við að unga kynslóðin taki málin í sínar hendar. „Ég er bjartsýn á það, enda hefur þessi kynslóð sem er að vaxa úr grasi sýnt að hún er meðvituð um samfélagið, að henni stendur ekki á sama og það þvert á stjórnmálaflokka. Meira að segja í Sjálfstæðisflokknum er ungt fólk sem er farið að berjast fyrir umhverfinu. Já, það eru breytingar í aðsigi og ég bind vonir við þessa ungu kynslóð sem kemur til með að taka við af minni kynslóð, þessari forréttindafirrtu kynslóð sem nú er við völd. Ég er bjartsýnismanneskja og held fast í vonina.“
„Án þess að ætla að hljóma eins og einhver amerísk fimmaurasálfræði og segja fólki hvað það á að gera þá finnst mér mikilvægt að sýna fólki að það er alltaf von. Von um bata. Von um betra líf.“
Hún segist líka, þrátt fyrir allt, trúa því að fólk sé almennt gott og það vilji almennt vel. Illska sé ekki það sama og flónska. Almennt sé fólk að reyna að gera sitt besta þótt það sé „í vanmætti“, eins og hún orðar það. Það sé stóri lærdómurinn sem hún hafi dregið af því að halda úti fyrrnefndri dagbók. Bókinni sem átti bara að vera tilraunaverkefni í viku en er enn í vinnslu heilum þremur árum síðar.
En hvaða áhrif vonast hún til að það hafi að stíga fram og taka til máls í dag að lokinni Druslugöngunni? „Í stuttu máli vona ég að ég geti vakið upp, eða minnt á vonina hjá fólki,“ segir hún. „Það er mín einlæga ósk.“
Hönnuðurinn Kolbrún Ýr Gunnarsdóttir óskar eftir gömlum skartgripum sem fólk er hætt að nota. Gömlu skartgripunum gefur hún framhaldslíf með því að púsla þeim saman í nýja skartgripi.
Kolbrún heldur úti merkinu Kolbrun þar sem mikil áhersla er lögð á endurvinnslu og umhverfisvænar lausnir.
„Átt þú skart sem þú ert lönguhætt/ur að nota? Ég tek við öllu ónýtt eða ekki…ef þig langar að það fái fallegt framhaldslíf þá máttu senda mér skilaboð eða setja línu hér undir og ég verð í sambandi,“ skrifar Kolbrún á Facebook.
Hún tekur fram að hún sé tilbúin að sækja skartið heim til fólks eða greiða fyrir sendingarkostnað.
Kolbrún segir einnig frá því að það hafi verið árið 2012 sem hún hóf að búa til nýja skartgripi úr gömlu skarti. „[Ég] hef gert ótal mörg falleg hálsmen og armbönd,“ skrifar hún meðal annars og birtir myndir af því sem hún hefur skapað í gegnum tíðina úr gömlum skartgripum sem hefðu annars endað í ruslinu.
Vallanes á Fljótsdalshéraði í Vallahreppi er sannkölluð paradís. Vallanes á sér langa sögu og ná heimildir um búsetu aftur til tólftu aldar.
Í Vallanesi í dag fer fram lífræn ræktun á korni og grænmeti, fullvinnsla og framleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni sem ræktað er. Þar er einnig umfangsmikil skógrækt en á jörðinni hefur verið plantað fjölda trjáa og skjólbelta. Markmiðið er að rækta og nýta hráefni úr nánasta umhverfi.
Móðir Jörð heitir hollustu- og sælkeralína þeirra í Vallanesi og grundvallast hún á íslensku korni, grænmeti og jurtum. Hreinleiki er lykilatriði í ræktun og framleiðslu í Vallanesi þar sem ekki er notaður tilbúinn áburður eða eiturefni. Matvörurnar eru auk þess lausar við tilbúin hjálparefni, gervi- og litarefni sem er aldeilis í takt við þá þróun sem er að eiga sér stað svo víðs vegar um heiminn. Umhverfisvæn framleiðsla og ræktun er framtíðin sem við viljum sjá. Þess má geta að allar vörur frá Vallanesi bera vottunarmerki Vottunarstofunnar Tún um alþjóðlega viðurkennda framleiðsluhætti um lífræna ræktun og framleiðslu.
Hjón með hugsjónir
Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir eru bændur í lífrænni ræktun, hann er búfræðingur að mennt og starfaði að loknu námi erlendis við búrekstur; í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi. Eymundur hlaut Landbúnaðarverðlaunin árið 2004 fyrir notkun á skjólbeltum og skógrækt í landbúnaði og heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar árið 2011.
Árið 2012 var hann tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandanna m.a. fyrir að leggja áherslu á mannlegan fjölbreytileika en ár hvert starfa hjá honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem er trúr jörðinni og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu. Eygló er viðskiptafræðingur og er hún er einn af stofnendum Slow Food- hreyfingarinnar á Íslandi og einnig formaður VOR; Verndun og ræktun, sem er félag lífrænna framleiðenda.
Einstakt hús úr öspum
Húsið í Vallanesi, er kallað Asparhúsið og vekur athygli fyrir þær sakir að þetta mun líklega vera fyrsta húsið sem vitað er til að sé reist eingöngu úr íslensku timbri. Aspir sem uxu í Vallanesi voru nefnilega aðallega notaðar í húsbygginguna en einnig lerki og greni. Sami efniviðurinn var svo notaður í innréttingar og húsgögn sem skapar áhugaverða heild.
Aspirnar voru gróðursettar fyrir 30 árum og timbrið í húsið var unnið hjá Skógrækinni á Hallormsstað og hjá Skógarafurðum ehf. á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal. Húsið er sérlega heillandi og það er án efa gaman að sjá tré sem Eymundur plantaði sjálfur fyrir um 30 árum síðan verða að húsi. Húsið hýsir verslun Móður Jarðar þar sem í boði eru ýmsar lífrænar mat- og heilsuvörur sem framleiddar eru á staðnum úr íslensku hráefni, sem og ferskt grænmeti.
Í Vallanesi er boðið upp á staðbundinn morgunverð úr íslensku byggi og létta grænmetisrétti í hádeginu úr fersku, íslensku og útiræktuðu grænmeti. Eymundur og Eygló rækta lífrænt bygg og alls kyns grænmeti og framleiða fjöldann allan af vörum í Vallanesi undir vörumerkinu Móðir Jörð og við hvetjum alla sem eiga leið hjá að líta við hjá þeim og smakka lífrænt ræktaða hollustu beint frá bændum. Það er heillandi og skemmtilegt!
Þess má geta að Asparhúsið í Vallanesi er opið frá 9-18 virka daga, opið alla daga júní-ágúst. Er ekki tilvalið að skella sér í sumar?