Miðvikudagur 23. október, 2024
6.5 C
Reykjavik

Vilja sýna fólki hvað það er skemmtilegt að elda vegan-mat

|||
|||

Grænkerinn Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir deilir hér nokkur uppskriftum að dásamlegum vegan-réttum.

Þórdís heldur úti vefsíðunni graenkerar.is þar sem hún deilir með lesendum dásemdar vegan-uppskriftum sem ljósmyndarinn og kærasti hennar, Aron Gauti Sigurðar, myndar af mikilli snilld.

Þau gerðust bæði vegan fyrir þremur árum eftir að hafa horft á heimildamyndina Cowspiracy og hafa aldrei litið til baka. „Við teljum að vegan-mataræði sé besta og jafnframt einfaldasta leiðin til að stuðla að betri heimi fyrir okkur, dýrin og jörðina. Eftir að við breyttum um mataræði tók við tímabil þar sem við áttum í smávandræðum með hvað við gætum borðað. Það tímabil stóð sem betur fer stutt yfir og við tók heill heimur af uppskriftum, mat og fróðleik sem kemur okkur enn á óvart. Okkur finnst plöntumiðað fæði frábært í alla staði, hvort sem horft er til bragðlaukanna eða til heilsu, umhverfis og dýra.“

Með vefsíðunni vilja þau sýna fólki hvað það er auðvelt og skemmtilegt að elda vegan-mat og að grænkerar geti vel verið sælkerar.

Hvar lærðir þú að elda?

Þegar ég var 10 ára fékk ég það verkefni að elda kvöldmat einu sinni í viku. Ég eldaði einfalda heimilisrétti til að byrja með og fékk hjálp frá foreldrum mínum eftir þörfum. Þetta gaf mér gríðarlegt sjálfstraust í eldhúsinu og fljótlega var ég byrjuð að biðja um að fá að elda oftar og prófa mig áfram með nýja rétti.

Hver er fyrsti rétturinn sem þú lærðir að búa til?

Ég hugsa að fyrsti rétturinn hafi verið grjónagrautur. Það var uppáhaldsmaturinn minn og í raun er mjög einfalt að elda hann, svo lengi sem maður fylgist vel með og hrærir reglulega í grautnum.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?

Ég er mjög heilluð af allri heilsusamlegri matargerð sem er laus við dýraafurðir. Einnig höfðar hráfæði sérstaklega til mín. Ég hef ekki enn prófað að borða eingöngu hráfæði en mun ábyggilega gera það einhvern tímann. Þangað til reyni ég að innlima hráfæðisrétti í mataræðið mitt eftir bestu getu.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?

Einu sinni var ég að útbúa sætkartöflusúpu og setti hana í blandara til að mauka. Það er víst ekki sniðugt að setja heitan vökva í blandara því lokið þaut af og appelsínugult grænmetismauk skvettist út um allt eldhúsið og upp í loft. Ég held að það megi enn finna leifar af þessu slysi, ef vel er gáð.

Hver er uppáhaldsmatreiðslubókin þín?

Mér þykir alltaf vænt um gömlu, snjáðu möppuna hennar mömmu þar sem hún hefur safnað saman öllum sínum uppáhaldsuppskriftum frá vinum og ættingjum. Ég kíki enn í þessa möppu til að fá hugmyndir og vegan-væði jafnvel rétti sem þar er að finna.

„Það var nokkuð stór áskorun að gerast vegan, sérstaklega þar sem ég varð vegan á einu kvöldi og þurfti skyndilega að endurhugsa alla mína matseld.“

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?

Það var nokkuð stór áskorun að gerast vegan, sérstaklega þar sem ég varð vegan á einu kvöldi og þurfti skyndilega að endurhugsa alla mína matseld. Þessi áskorun var þó, eftir á að hyggja, talsvert minni en ég hafði búist við og á skömmum tíma var ég búin að gjörbreyta um lífsstíl án þess að sakna neins.

Önnur áskorun sem ég mætti í eldamennsku var sú að byrja að skrifa niður uppskriftirnar mínar. Ég lærði aldrei að elda eftir uppskriftum heldur lagði meiri áherslu á að prófa mig áfram og að smakka matinn til. Það var því mikil breyting að opna uppskriftasíðuna og þurfa skyndilega að mæla hráefni og skrá niður.

Kasjúhnetupiparostur

Mynd / Hallur Karlsson

1,5 dl kasjúhnetur
2 dl sykurlaus plöntumjólk, t.d. sojamjólk
1/2 tsk. agar-agar
1,5 msk. sítrónusafi
1/2 hvítlauksrif
1/2 dl kókosolía
1/4 tsk. salt
1/2 tsk. hlynsíróp
1 msk. næringarger
svartur pipar eftir smekk

Leggið kasjúhnetur í bleyti í 3 klst. eða yfir nótt. Þessu má þó sleppa ef notaður er öflugur blandari.

Setjið plöntumjólk og agar-agar í pott og hitið að suðu. Setjið öll hráefnin í blandara og blandið þar til silkimjúkt. Smakkið til og bætið við sítrónusafa, salti og svörtum pipar eftir smekk.

Setjið blönduna loks í sílíkonmót eða lítið smelluform og geymið í kæli þar til osturinn hefur stífnað.  Eftir að osturinn stífnar er fallegt að þekja hann með muldum, svörtum pipar.

Chili-sulta Jennýar

5 stk. chili-pipar
1 rauð paprika
2 appelsínugular paprikur
50 ml eplaedik
100 g hrásykur
1/2 tsk. agar-agar

Fræhreinsið paprikurnar en ekki hreinsa fræin úr chili-ávöxtunum. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og blandið þar til þau hafa maukast vel.

Setjið blönduna í pott og sjóðið í 10 mín. Hellið loks sultunni í hreinar krukkur.

Pítsa með indversku ívafi
2 pítsubotnar

Mynd / Hallur Karlsson

pítsudeig, keypt eða heimagert
1 krukka grænt vegan-pestó (t.d. frá Himneskt)
1 eggaldin
1/2 askja sveppir
1/2 rauðlaukur
1 dolla Oatly på Mackan-rjómaostur
1 dós kjúklingabaunir
1/2 msk. garam masala
1 tsk. hlynsíróp
salt og pipar

Kveikið á ofninum og stillið á 180°C. Skerið eggaldin í þunnar sneiðar og steikið á pönnu upp úr olíu. Kryddið sneiðarnar með salti og pipar og snúið þeim við svo þær brúnist á báðum hliðum.

Hellið vatninu af kjúklingabaununum og skolið þær. Steikið kjúklingabaunirnar á pönnu upp úr olíu ásamt garam masala og hlynsírópi. Bætið við salti og pipar eftir smekk. Fletjið út pítsudeig og myndið tvo botna.

Smyrjið botnana með grænu pestói. Raðið eggaldinsneiðunum ofan á botnana ásamt skornum sveppum og rauðlauk. Setjið stórar klípur af Oatly-rjómaostinum ofan á og dreifið loks kjúklingabaununum yfir.

Bakið pítsurnar í 10-15 mín., eða þar til botninn hefur bakast og osturinn brúnast.

Súkkulaðihrákaka

Mynd / Hallur Karlsson

8 stk. Medjool-döðlur (um 2 dl)
2 dl kókosflögur
2 dl möndlur
2 msk. kakóduft
1 tsk. vanilludropar

Setjið kókosflögur og möndlur í matvinnsluvél og blandið þar til úr verður grófgerð mylsna. Hreinsið steinana úr döðlunum og setjið þær út í matvinnsluvélina ásamt hinum hráefnunum.

Blandið þar til hægt er að klípa saman deigið. Klæðið botninn á 22 cm smelluformi með smjörpappír og þrýstið deiginu í botninn. Geymið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling

2 lítil avókadó
1 banani
1 dl möndlusmjör
2 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
2 dl bragð- og lyktarlaus kókosolía
1 msk. kakósmjör (má nota kókosolíu í staðinn)
1 dl hlynsíróp
4 msk. kakóduft
1 tsk. vanilludropar
salt eftir smekk

Bræðið kókosolíuna og kakósmjörið á lágum hita. Setjið öll hráefnin í blender og blandið þar til silkimjúkt. Hellið fyllingunni yfir botninn og geymið í frysti þar til kakan er frosin.

Losið kökuna úr smelluforminu og færið hana yfir á kökudisk. Best er að láta kökuna þiðna í ísskáp og bera hana fram kalda ásamt ferskum berjum og vegan-rjóma.

Myndir / Hallur Karlsson

„Fínasta vorveður” á sumardaginn fyrsta og fram í næstu viku

|
|

Veðurstofan boðar sumarveður á morgun, sumardaginn fyrsta, og er spáð björtu yfir landið með möguleika á 16-17 stigum á suður- og vesturlandi.

„Hlýindin eru á leiðinni og munu haldast eitthvað fram yfir helgi og í byrjun næstu viku,“ hefur Mannlíf eftir Þorsteini V. Jónssyni, veðurfræðingi á Veðurstofunni. Aðspurður hvenær sól og hlýju var síðast spáð á sumardaginn fyrsta, hló Þorsteinn létt og sagðist ekki muna það.

Vanafastir geta þó tekið gleði sína en Veðurstofan spáir rigningu um mest allt land þegar líður á kvöldið og má búast við rigningabökkum fram yfir helgina. Sól verður þó á norður- og vesturlandi.

„Búist er við áframhaldandi austanátt, en því fylgir þessir rigningabakkar sem koma og fara, en það verður nokkuð milt veður fram yfir helgina og fram í næstu viku. Fínasta vorveður,” segir Þorsteinn.

Mynd / Unsplash / Evelyn Paris

Forsvarsmenn Manna í vinnu stofna nýja starfsmannaleigu

Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf. hafa stofnað nýja starfsmannaleigu. Formaður Eflingar hvetur fólk til að stunda ekki viðskipti við þetta nýja fyrirtæki.

Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu hafa stofnað nýja starfsmannaleigu, nýja fyrirtækið heitir Seigla ehf. „Við hvetjum öll fyrirtæki til að stunda ekki viðskipti við þetta nýjasta afsprengi vinnumarkaðarins,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í grein sem birtist á vef Eflingar. „Það myndi spara félaginu talsverðan lögfræðikostnað.“

 

Starfsmannaleigan Menn í vinnu rataði í fréttirnar á síðasta ári þegar 18 rúmenskir starfsmenn fyrirtækisins leituðu sér aðstoðar vegna vangoldinna launa. Starfsmennirnir greindu einnig frá því að þeir hafa dvalið í ólöglegu íbúðarhúsnæði og borgað háar upphæðir í leigu sem dregnar voru frá launum þeirra. Þeir kvörtuðu undan hótunum og illri meðferð. Efl­ing stéttarfélag út­veg­ði verka­mönn­un­um lög­mann sem fór með umboð af hálfu Eflingar til að innheimta vangoldin laun.

Í síðustu viku lagði Vinnumálastofnun 2,5 milljón króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið Menn í vinnu vegna stórfenglegt misræmi milli skráningar starfsmanna hjá Vinnumálastofnun annars vegar og starfsmanna sem greiddu skatt hins vegar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessu sektarákvæði er beitt.

Hægt að sjá nákvæmlega hvar fötin eru framleidd

Sænska fatakeðjan H&M hefur tekið í notkun tækni sem gerir viðskiptavinum kleift að sjá uppruna allra flíka, þar kemur fram upplýsingar um framleiðanda, nafn á verksmiðju og staðsetningu hennar ásamt fjölda starfsmanna.

Einnig verður hægt að fá ítarlegri upplýsingar um textílefnin sem notuð eru við framleiðsluna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá H&M.

„Með auknu gangsæi verður auðveldara fyrir viðskiptavini að hafa sjálfbærni að leiðarljósi og taka upplýstari kaupákvarðanir,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Við viljum sýna heiminum að það er hægt að vera stór og samtímis gagnsær. Með því að opinbera hvar vörurnar okkar eru framleiddar viljum við setja staðla fyrir iðnaðinn og gera það auðveldara fyrir viðskiptavini okkar að huga að sjálfbærni þegar kemur að fatakaupum,‟ er haft eftir Isak Roth, yfirmanni alþjóðlegra sjálfbærnimála hjá H&M.

Upplýsingar um bakgrunn allra vara H&M má finna í netverslunum á heimasíðum fyrirtækisins. Eins og er verður þjónustan ekki í boði fyrir þau lönd sem ekki hafa netverslun en hinsvegar verða upplýsingarnar aðgengilegar öllum á vefverslunum. Íslendingar geta kynnt sér bakgrunn varanna til dæmis á bresku H&M-síðunni eða þeim skandinavísku.

Í vefverslunum H&M er hægt að nálgast upplýsingar um þær verksmiðjur sem sjá um framleiðslu fyrir fyrirtækið.

Stóri plokkdagurinn haldinn á sunnudaginn

Stóri plokkdagurinn svokallaði verður haldinn á sunnudaginn en það er hópurinn „Plokk á Íslandi“ sem stendur fyrir deginum.

Í ár mun hópurinn beina sjónum sínum að Reykjanesbrautinni, Vesturlandsveginum og umhverfi stærri umferðaræða landsins. Ferðafélag Íslands hefur slegist í hóp skipuleggjenda en í félaginu eru margir öflugir plokkarar. Þá mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, taka þátt í deginum er fram kemur í tilkynningu um Stóra plokkdaginn.

Þess má geta að hópurinn Plokk á Íslandi stóð fyrir plokkdegi í fyrra með góðum árangri.

Öllum er velkomið að taka þátt í Stóra plokkdeginum. Plokkurum er bent á að nota myllumerkið #plokk19 á samfélagsmiðlum.

Hér er þá listi yfir þau svæði sem Plokk á Íslandi hefur skipulagt plokk á:

  • Reykjanesbær svæði 1-5, ræst af planinu hjá Bónus á Fitjum.
  • Vogar svæði 1-3, ræst við bílastæði brúna undir brautina að Vogum.
  • Hafnarfjörður svæði 1-3, ræst af bílastæðinu hjá N1 Lækjargötu.
  • Garðabær svæði 1-2, ræst af bílastæði IKEA.
  • Kópavogur svæði 1-3, ræst af bílastæði Smáralindar.
  • Reykjavík Elliðaárdalur og Fossvogs svæði 1-3, ræst af bílastæði Sambíóanna.
  • Reykjavík – Stórhöfði og Árbær 1-3, ræst af bílastæðinu við Select og Ölgerðina.
  • Reykjavík – Grafarvogur Grafarholt 1-3, ræst af bílastæðinu hjá Húsasmiðjunni.
  • Mosfellsbær 1-3, ræst af bílastæðinu við N1.

Gæðabakstur boðar verðhækkanir í kjölfar kjarasamninga þrátt fyrir tuga milljóna hagnað

Gæðabakstur sem tilkynnt hefur um rúmlega sex prósent hækkun á öllum vörum fyrirtækisins hagnaðist árið 2017 um rúmlega 87 milljónir. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, sagði við Vísi á dögunum að fyrirtækið sé knúið til að hækka verð. Það sé ekki aðeins vegna kjarasamninga heldur einnig hækkunar á hráefni.

„Síðustu ár höfum við verið að hagræða og gera betur í verksmiðjunni. Það er bara ekki hægt lengur,“ segir hann. Hann sé með 170 manns í vinnu og hækkun á launum verði hátt í fimm milljónir á mánuði.

Í þessari umræðu hefur ekkert verið pælt í því að draga verðhækkanirnar til baka og finna aðrar leiðir? „Nei ég hef ekki gert. Ég tel það vera að við þurfum á þessu að halda. Við höfum ekki einhverja djúpa vasa að fara í, því miður,“ sagði Vilhjálmur við Fréttablaðið.

„Við höfum ekki einhverja djúpa vasa að fara í, því miður.“

Ársreikningur félagsins sýnir þó að félagið er ágætlega statt. Hagnaður er nokkur og eigið fé tiltölulega hátt. Árið 2017 greiddi gæðabakstur um 60 milljónir í arð.

Eigendur Gæðabaksturs ehf eru samkvæmt upplýsingum á vef félagsins. Viska hf. (80%) Vilhjálmur Þorláksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Gæðabaksturs frá stofnun (20%). Eignarhald Visku hf. er að meirihluta á hendi danskra félaga en Orkla ASA í Noregi kemur þar líka við sögu í gegnum danska félagið Dragsbæk A/S. „Gæðabakstur er íslenskt framleiðslufyrirtæki að öllu leyti, öflugt og rótgróið sem slíkt. Eignarhaldið er danskt, norskt og íslenskt – traust, norrænt samstarf!“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, útilokar ekki að sambandið hvetji félagsmenn til að sniðganga fyrirtæki sem boða verðhækkanir í kjölfar kjarasamninga. Drífa sagði við Morgunútvarp rásar tvö á þriðjudag að markmið samninganna sé að gefa tækifæri til vaxtalækkunar og stemma stigu við verðbólgu. Hún sagði verkalýðshreyfinguna hafa sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga. Fyrirtæki sem hækki vöruverð vinni gegn þeim markmiðum.

Gæðabakstur og Ísam, heildsölu og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boði nú verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækjanna ef samningar verða samþykktir. Sú ákvörðun hefur vakið hörð viðbrögð forystufólks stéttarfélaga.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við RÚV það vera einsdæmi að fyrirtæki boði verðhækkanir ef kjarasamningar verði samþykktir, líkt og ÍSAM gerði í gær.

„Við erum með endurskoðunarákvæði sem snúa að því að kaupmáttur launa verði tryggður og vextir lækki. Ég tel að þetta ógni því að svo geti orðið. Þá munu kjarasamningar væntanlega losna og við munum sækja þær kaupmáttarkrónur, eða þær kjarabætur sem við töldum okkur gefa eftir til þess að ná niður vöxtum, af mikilli hörku ef það kemur til þess að samningar losni,“ segir Ragnar.

„Mér finnst eins og fyr­ir­tæki inn­an Sam­taka at­vinnu­lífs­ins séu að hvetja til þess að kjara­samn­ing­arn­ir séu felld­ir. Það er eins og það sé ákveðinn klofn­ing­ur inn­an sam­tak­anna,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður starfsgreinasambandsins, við Morgunblaðið í kjölfar tilkynninga um verðhækkanir. Björn sagði við blaðið að framsetning þeirra sem tilkynnt hafa um hækkanir sé ósmekkleg. Ríki og sveitarfélög hafa þegar gefið út að þau muni halda aftur af verðhækkunum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði forstjóra Ísam hafa sýnt þankagang sinn rækilega „Ætli við verðum ekki bara að vera pínku glöð yfir því að Hermann [Stefánsson] afhjúpar sig og sinn þankagang svona rösklega. Það hlýtur að færa okkur endurnýjaðan baráttuanda og skarpan fókus á það hvers vegna breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu.“

Mynd / Gæðabakstur

Leitar meira inn á við en áður

Á morgun, 25. apríl, kemur út þriðja breiðskífa Joey Christ sem heitir Joey 2.

Platan er unnin í samstarfi við Martein Hjartarson, einnig þekktur sem BNGR BOY, og einnig syngur Floni inn á lagið 100p.

Þetta er fyrsta plata Joey Christ í samstarfi við Sony og má þar finna skírskotanir í íslenskan samtíma og poppmenningu auk þess að listamaðurinn leitar meira inn á við en áður.

Smáskífa plötunnar „Jákvæður” kom út á föstudaginn og hefur síðan þá setið á topplistum á Spotify.

Joey Christ er hliðarsjálf Jóhanns Kristófers Stefánssonar en fyrsta lag hans, „Joey Cypher” náði miklum vinsældum.

Á tveimur árum gaf Jóhann út tvær plötur undir nafni Joey Christ, hitaði upp fyrir heimsfrægu rapparana Young Thug og Migos, leikstýrði og gaf út tónlistarmyndbönd, bæði við eigin lög sem og annarra. Auk þess vann Joey Christ til tvennra verðlauna á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2017.

Rekin vegna berbrjósta myndar sem dreift var án hennar samþykkis

Lauren Miranda, 25 ára kennari í Bellport grunnskóla á Long Island, var sagt upp störfum, í kjölfar þess að samstarfsmaður hennar og fyrrverandi kærasti virðist hafa dreift mynd af henni í heimildaleysi.

 

Nemendur skólans hófu að dreifa myndinni sín á milli í janúar. Hún hafði sent myndina til starfsfélaga og þáverandi kærasta árið 2016. The Guardian og Washington Post greina frá.

„Ég gaf einungis einni manneskju leyfi til þess að eiga þessa mynd. Hvernig hún komst í dreifingu veit ég ekki en ég gaf engum öðrum leyfi til þess að eiga þessa persónulegu mynd af mér,” hefur Guardian eftir Lauren sem einnig vekur áhuga á því að nafn mannsins hefur ekki komið fram. Hefur hann heldur ekki verið yfirheyrður eða kærður vegna mögulegra þáttöku í dreifingu myndarinnar. „Þetta hefur alltaf verið strákar að særa stelpur og stelpurnar að taka skellinn,” segir Lauren.

Samkvæmt frétt Washington Post er ekki ólöglegt fyrir konur að vera berbrjósta meðal almennings í New York ríki. „Hvað er að þessari mynd?” er haft eftir lögfræðingi Lauren. „Þegar þú tekur sambærilega mynd af karlmanni, þá er ekkert vandamál. Eini munurinn er að hún getur gefið barni á brjóst, en ekki hann.”

Margir hafa lýst yfir stuðningi sínum í garð Lauren og heimamenn mótmælt framkomu skólayfirvalda. „Það er víst ekki hægt að vera kynvera og fyrirmynd á sama tíma? Þetta mál vekur löngun hjá mér að berja eigið höfuð utan í vegg,” tísti Ej Dickson, fréttakona hjá Rolling Stone. Aðgerðarsinni sem kallar sig Sister Leone hefur einnig líst yfir stuðningi og hefur mótmælt ber að ofan fyrir utan grunnskóla í hverfinu. Hægt er að sjá viðtal fréttamiðilsins Vice við Leone hér.

Í réttarskjölum kemur fram að Lauren hefur kært skólayfirvöld Bellport vegna vanrækslu á málinu, að yfirvöld þar neituðu henni um „ítarlega og fullnægjandi” rannsókn og ráku hana á grundvelli kynja hennar. Hefur hún farið fram á endurráðningu og þrjár milljónir dollara í miskabætur.

Bellport er almenningsskóli í samnefndu hverfi á Long Island í New York ríki. Í skólanum eru í kringum þúsund nemendur á aldrinum 11-13 ára.

Bæjarráð Vestmannaeyja segir verktaka halda samfélaginu í gíslingu

Gamli Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn.

„Krafa Bæjarráðs er að Vegagerðin finni tafarlaust dýpkunarskip sem hefur burði til þess að opna Landeyjahöfn,“ segir í ályktun aukafundar bæjarráðs Vestmannaeyja sem haldinn var í gær vegna Landeyjarhafnar. Bæjarráð segir verktaka ábyrgan fyrir dýpkun hafnarinnar halda samfélaginu í gíslingu.

 

„Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa margoft ítrekað áhyggjur sínar af afkastagetu verktakans til dýpkunar. Við það bætist nú að þrátt fyrir fögur fyrirheit og fullyrðingar um metnað verktakans til þess að dýpka þegar færi gefst, er lítið um efndir. Staðan er með öllu ólíðandi fyrir íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum,“ segir í fundagerð bæjarráðs.

Bæjaryfirvöld í bænum krefjast aðgerða. „Að leitað verði út fyrir landsteinana að aðila sem getur sinnt verkinu og opnað höfnina án þess að það dragist langt fram á vorið. Ekki er boðlegt að dýpkunaraðili sem sinnir verkinu hafi hvorki tækjakost né metnað til þess og haldi þannig samfélaginu í Vestmannaeyjum í gíslingu. Ekki verður búið við ástandið lengur og er aðgerða þörf.“

Þá kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins að Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa þegar átt í samskiptum við aðila erlendis sem þau telja að geti sinnt verkefninu betur. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjarbæjar, segir við RÚV að bæjaryfirvöld vilji að Vegagerðin fari í að fá öflugri dýpkunarskip að utan. „Við teljum þetta fullreynt,“ segir bæjarstjóri. „Við viljum bara að Vegagerðin kanni það hvort að það sé ekki hægt að fá allavega fleiri aðila að þessu. Þetta gengur ekki eins og þetta er núna.“

„Við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa“

|
Kári Stefánsson

Þriðja orkupakkann eiga Íslendingar að láta vera að mati Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreininga. Kári telur almenning þó svo vana „bjánasköpum“ að líklega lifi fólk samþykkt pakkans af.

„Þegar maður veltir fyrir sér orkupakkanum þriðja í tengslum við hugmyndir um það hvernig orkan sem við virkjum úr íslenskri náttúru sé nýtt og mikilvægi hennar fyrir framtíð þjóðarinnar, þá held ég að við ættum að láta hann vera þótt ekki sé nema vegna þeirra skilaboða sem samþykkt hans myndi senda börnum okkar og barnabörnum,“ skrifar Kári í aðsendri grein í Fréttablaðinu um þriðja orkupakkann.

Sjá einnig: Sigurðu Ingi segir ekki hafa tekist að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um fyrirvara við þriðja orkupakkann

„En ef Alþingi samþykkir orkupakkann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austurvallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.“

Í greininni fjallar Kári um orkuverð á Íslandi og bendir á að ódýr raforka sé hagsmunamál fyrir almenning. Hann segir umræðu um þriðja orkupakkann farna að hljóma eins og „frekar innihaldslítil deila um keisarans skegg í stað þess að vera okkur ástæða til þess að endurskoða afstöðu til þess hvernig við nýtum þá raforku sem er sameign þjóðarinnar.“ Kári bendir á að afkoma Landsvirkjunar hafi verið betri árið 2018 en árið áður. Þrátt fyrir það segir Kári standa til að hækka gjaldskrá raforku. „Landsvirkjun er í eigu ríkisins þannig að tekjur hennar umfram rekstrarkostnað eru einfaldlega óbein skattlagning,“ skrifar Kári.

Sjá einnig: Þingmaður varð fyrir aðkasti í Hagkaup

„Raforka sem er seld til málmbræðslna í eigu erlendra fyrirtækja er verðlögð samkvæmt samningum til margra ára þannig að ekki er líklegt að þær gjaldi í bráð þessa aukna fjárþorsta Landsvirkjunar. Það sama verður ekki sagt um íslensk fyrirtæki og heimilin í landinu,“ skrifar Kári og bætir við að útsöluverð á raforku hafi verið notað til að sannfæra erlend fyrirtæki um að byggja málmbræðslur á tíma þegar ekki var talinn vænni kostur í stöðunni.

„Nú held ég að sé kominn tími á að við horfum til þess möguleika að nýta auðveldan aðgang að vistvænni orku til þess að ýta undir annars konar og meira aðlaðandi uppbyggingu. Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það til þess að lækka kostnað heimilanna og hlúa að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Eitt dæmi um möguleika sem lægra rafmagnsverð gæti skapað liggur í landbúnaði. Í dag flytjum við inn meiri hlutann af því grænmeti sem við neytum frá löndum sem rækta grænmeti í gróðurhúsum. Mjög stór hluti af rekstrarkostnaði gróðurhúsa fer í rafmagn. Við eigum að sjá til þess að við séum samkeppnishæf í rekstri gróðurhúsa svo við getum ræktað okkar grænmeti sjálf, þannig gætt íslenskan landbúnað nýju lífi og aukið sjálfbærni mannlífs á Íslandi.“

Kári tekur gagnaver sem dæmi um iðnað sem gæti gefið mikið af sér hér á landi með stuðning í formi lágs orkuverðs. „Gagnaverin og þjónusta og tækniþróun í kringum þau gætu, ef rétt er haldið á spilunum, gert upplýsingatækni að raunverulegum stóriðnaði í landinu í stað þess að vera sífellt einhvers konar hérumbil grein. Til þess þurfa gagnaverin að eiga aðgang að miklu ódýrari orku. Það væri líka sniðugt ef Alþingi setti lög til að tryggja öryggi gagna í gagnaverum til dæmis með því að lýsa gagnaverin helg vé, sem enginn mætti sækja í gegn vilja þeirra sem gögnin eiga, hvorki hið opinbera á Íslandi né fulltrúar erlendra ríkja. En það er önnur saga.“

Kári segir skipta máli þegar umræða um lagasetningu um örlög þeirrar orku sem virkjuð er hér á landi að orkan er ekki eingöngu til húshitunar og lýsingar. Orkunni fylgi möguleikar til framkvæmda. „Vistvæna orkan okkar ætti að geta jafnað samkeppnisaðstöðuna á mörgum sviðum ef hún væri skynsamlega verðlögð. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar en hagar sér því miður eins og það sé hennar aðal markmið að fá sem hæst verð fyrir rafmagnið, án tillits til þess hvernig það bitnar á atvinnuþróun í landinu.“

Um sæstreng virðist Kári ekki alveg sannfærður. „Ein af þeim aðferðum sem hún [Landsvirkjun] virðist vilja nota til þess að hækka verðið er að selja rafmagn í gegnum sæstreng til annarra landa. Það er lítill vafi á því að það væri hægt að fá hærra verð fyrir rafmagnið annars staðar sem myndi leiða til þess að verðið hækkaði hér og samkeppnisaðstaða okkar yrði öll önnur og verri. Við komum aldrei til með að geta lifað af því einu saman að selja rafmagn, en við gætum svo sannarlega lifað mun betra lífi með því að nýta það til að bæta samkeppnisaðstöðu okkar á hinum ýmsu sviðum. Mín afstæðiskenning sem lýtur að verði á rafmagni er svona: Frá sjónarhóli Landsvirkjunar sem sjálfstæðs fyrirtækis á að selja rafmagn eins dýrt og mögulegt er. Frá sjónarhóli íslenskrar þjóðar á Landsvirkjun að selja rafmagn eins ódýrt og hægt er. Landsvirkjun er ekki sjálfstætt fyrirtæki heldur eign þjóðarinnar. Hagsmunir þjóðarinnar eiga að ráða og það er ekkert afstætt við það.“

Ýmsar getgátur uppi um ófætt barnið

Nú styttist óðum í að Meghan Markle og Harry Bretaprins eignist sitt fyrsta barn og margir aðdáendur konungsfjölskyldunnar eiga erfitt með að bíða. Ýmsar getgátur eru uppi um hvenær barnið komi í heiminn, hvað það muni heita, hvort um stelpu eða strák sé að ræða og hvernig fæðingunni verði háttað svo nokkur dæmi séu tekin.

Breskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga keppst við að reyna að svara ýmsum spurningum um barnið en lítið fæst staðfest.

Samkvæmt breskum miðlum á barnið að koma í heiminn seint í apríl eða snemma í maí.

Hvað kynið varðar hafa Meghan og Harry ekki greint frá því hvort um stelpu eða strák sé að ræða en samkvæmt heimildum Us Weekly mun Meghan hafa sagt vinkonum sínum að hún ætti von á dreng.

Ýmsar getgátur hafa þá verið uppi um nöfn en fregnir herma að Meghan og Harry séu með langan lista yfir nöfn sem koma til greina. Hingað til hafa þau þá kallað ófædda barnið „little bump“ eða „litlu kúlu“.

Greint hefur verið frá því að Meghan muni eiga barnið á lúxusálmu á St. Mary’s-spít­al­anum í London, líkt og mágkona hennar Kate Middleton gerði. En nýrri fregnir herma að Meghan ætli að eiga barnið heima.

Harry og Meghan eru þá sögð vilja vera utan við sviðsljósið í kringum fæðingu barnsins og því hafa þau flutt á Frogmore-setrið við Windsor-kastala í von um að fá meira næði. Og samkvæmt frétt Vanity Fair leggja þau áherslu á umhverfisvænar lausnir þegar kemur að barnaherberginu.

Samkvæmt breskum miðlum er móðir Meghan, Doria Ragland, stödd í London vegna þess að nú styttist í fæðingu barnsins, hennar fyrsta barnabarns. Samkvæmt Entertainment Tonight gerir Meghan ráð fyrir að fá hjálp frá móður sinni fyrstu vikurnar og mánuðina í stað þess að ráða barnapíur.

Hermann sterklega orðaður við Arion banka

Orðrómur er uppi um að Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá muni taka við af Höskuldi H. Ólafssyni sem bankastjóri Arion banka.

Hermann Björnson, forstjóri Sjóvá tryggingafélags, er sterklega orðaður við stöðu bankastjóra Arion banka. Eins og kunnugt er sagði Höskuldur H. Ólafsson starfi sínu lausu sem bankastóri Arion fyrr í mánuðinum eftir hafa starfað þar í níu ár og í kjölfarið hafa ýmsir verðir nefndir sem mögulegir arftakar Höskuldar.

Gott orð fer af Hermanni sem hefur starfað hjá Sjóvá síðan 2011. Fyrr á árinu var hann valinn yfirstjórnandi ársins af Stjórnvísi og í fyrra, á hundrað ára afmæli Sjóvár, varð félagið undir hans stórn, efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni sem mælir ánægju viðskiptavina fyrirtækja í nokkrum mismunandi atvinnugreinum. Hefur félagið einnig mælst mjög ofarlega þegar kemur að ánægju meðal starfsmanna. Þá greindi Viðskiptablaðið frá því í fyrra að Sjóvá hafi farið úr 472 milljóna tapi á þriðja ársfjórðungi 2017 í hagnað árið 2018. Ljóst er að Hermann hefur viðamikla reynslu úr viðskiptalífinu. Áður en hann tók við stöðu forstjóra Sjóvár árið 2011 hafði hann m.a. gengt starfi forstöðumanns rekstrardeildar Íslandsbanka, seinna stöðu forstöðumanns útibúasviðs Íslandsbanka og svo aðstoðarframkvæmdastjóra þess sviðs og síðar stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs hjá Kaupþingi. Vafalaust skemmir svo ekki fyrir Hermanni að á árunum 2009 til 2011 gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Arion banka.

Fleiri hafa verið orðaðir við stöðuna og er einn þeirra er Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. Samkvæmt upplýsingum Mannlífs hafa forsvarsmenn Arion banka þegar haft samband við þá Hermann og Sigurð með forstjórastólinn í huga.

Aðrir sem hafa verið orðaðir við starfið eru Benedikt Gíslason, stjórnarmaður í Arion banka sem hefur starfað fyrir Kaupþing, sem enn er stærsti hluthafi bankans. Ármann Þorvaldsson, sem tók við sem forstjóri Kviku fjárfestingabanka 2017, Marínó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóri Kviku banka, Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, hafa öll líka verið nefnd á nafn í þessu samhengi og nú fyrrnefndur forstjóri Sjóvár, Hermann Björnsson samkvæmt heimildum Mannlífs.

Staða bankastjóra Arion banka þykir mjög eftirsótt, ekki síst vegna launa. Þannig var Höskuldur Ólafs­son með 6,2 millj­ónir á mán­uð­i þegar hann gengdi stöðu bankastjóra Arion, eins og Kjarninn greindi frá í síðasta mánunði. En til samanburðar má geta þess að Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans var með 3,8 milljónir á mánuði í fyrra og Birna Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Íslands­banka var með 5,3 millj­ónir á mán­uði. Þáverandi bankastjóri Arion banka var því lík­ast til launa­hæsti banka­maður lands­ins á meðan hann gegndi starfinu og líklegt að arftaka Höskuldar komi til með að vera boðinn enn betri kjör.

Þess má geta að Stefán Pétursson, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­sviðs Arion bank­a, gegnir tímabundið starfi bankastjóra Arion, eða frá 1. maí og þar til stjórn hef­ur ráðið banka­stjóra til fram­búðar.

Mynd: Sjóvá-Almennar

Áhugaleysið á árásunum er sláandi

|
|Mæðgurnar Viktoría og Hanna í upphafi ferðar.

Ritstjóri Gestgjafans, sem var stödd í Sri Lanka, furðar sig á áhugaleysi umheimsins á mannskæðum hryðjuverkaárásum.

Mæðgurnar Viktoría og Hanna í upphafi ferðar.

„Mér finnst þetta bara sorglegt, en ef ég á að segja eins og er þá held ég að hluti vandans sé hvað við á Vesturlöndum getum verið sjálfmiðuð,“ segir Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritstjóri Gestgjafans, um fréttir þess efnis að bruni Notre Dame veki sjöfaldan áhuga Netverja á Vesturlöndum á við hryðjuverkin í Sri Lanka, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Google.

Hanna var ásamt dóttur sinni Viktoríu Kjartansdóttur stödd í Negombo í Sri Lanka daginn áður en þar var framin skelfileg hryðjuverkaárás í kirkjunni með þeim afleiðingum að 67 manns lét­ust.

Var árásin hluti af röð skipulagðra sprengjuárása sem gerðar voru í Sri Lanka, en talið er að minnst 370 manns hafi látið lífið í þeim og fleiri hundruð særst.
Virðast árásirnar hafa beinst gegn kristn­u fólki og ferðamönn­um, þar sem hótel og kirkjur í landinu voru helstu skotmörkin, en árásirnar eru þær mannskæðustu sem hafa verið gerðar í Suður og Suðaustur-Asíu.

Hanna segir að í ljósi fyrrgreindra upplýsinga frá Google sé áhugaleysi Vesturlandabúa á árásunum í Sri Lanka í raun og veru sláandi. Vissulega hafi mikil menningarverðmæti farist í bruna Notre Dame í París, kirkju sem hún kveðst sjálf halda mikið upp á, en kirkjuna sé alltaf hægt að endurreisa. Mannslífin sem týndust í Sri Lanka komi hins vegar aldrei aftur.

Spurð hvernig þeim mæðgum líði eftir árásirnar segir Hanna að þær séu enn að meðtaka þetta allt saman. „Það er margt sem er búið að fara í gegnum huga minn. Ég sé fyrir mér andlitin á börnum og fólki sem við hittum og mér finnst skrítið að hafa verið svona nálægt þessu,“ segir Hanna, sem þakkar Viktoríu dóttur sinni fyrir að þær skyldu hafa ferðast frá Sri Lanka til Maldavíeyja daginn áður en árásirnar voru gerðar, því sjálf hafi hún viljað fresta förinni um einn dag.

„Það er margt sem er búið að fara í gegnum huga minn. Ég sé fyrir mér andlitin á börnum og fólki sem við hittum og mér finnst skrítið að hafa verið svona nálægt þessu.“

Þær mæðgur eru nú staddar á Maldavíeyjum og segist Hanna ætla að ráðfæra sig við ferðaskrifstofuna þeirra meðan á dvölinni stendur og fylgjast vandlega með framvindu mála.

Sjá einnig:Notre Dame bruninn vekur sjöfaldan áhuga vesturlandabúa á við hryðjuverkin í Sri Lanka

Jónína Ben og Gunnar í Krossinum skilin

Jónína Ben og Gunnar í Krossinum eru skilin eftir níu ára hjónaband.

Jónína Benediksdóttir og Gunnar Þorsteinsson í Krossinum eru skilin er fram kemur í frétt DV.

Jónína og Gunnar giftu sig árið 2010 og fjölluðu fjölmiðlar um að þau hefðu gift sig í laumi við rómantíska athöfn. Þá höfðu þau þekkst í um fimm ár en átt í ástarsambandi um nokkurra mánaða skeið.

Mynd / Hákon Davíð

Spennandi og matarmikið ávaxtabrauð

Ávaxtabrauð
Mynd/Karl Petersson

Þetta brauð er matarmikið og spennandi og í því er fjölbreytt næring, alls konar mjöl, fræ, hnetur og ávextir. Brauðið passar með öllu mögulegu og er frábært á ostabakkann.

170 g brauðhveiti
80 g haframjöl
60 g rúgmjöl
1 msk. lyftiduft
2 tsk. anísfræ (má sleppa eða nota kúmen í staðinn)
80 g þurrkuð trönuber
100 g apríkósur, skornar í bita
80 g pekanhnetur, brotnar gróft niður
120 g sólkjarnar
60 g hörfræ
8 dl súrmjólk eða ab-mjólk
¾ dl hunang eða síróp
½ dl olía
1 tsk. sjávarsalt

Hitið ofninn í 180°C. Setjið allt sem fer í brauðið í hrærivélarskál og hrærið saman. Smyrjið jólakökuform að innan með smjöri eða olíu. Jafnið deiginu í formið og bakið í 1 klukkustund. Brauðið geymist í nokkra daga vel innpakkað og það má frysta, geymist þannig í 6 mánuði.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

„Ótrúlegt ferli“ að koma banana frá Ekvador til Íslands

|
Óhætt er að segja að Björn Steinar hafi í nógu að snúast því hann vinnur nú að plastendurvinnslu verkefninu Plastplan samhliða því að framleiða húsgögn úr íslensku timbri fyrir Skógarnytja verkefnið. „Það er aldrei dauð stund,“ segir hann og hlær. Mynd / Aldís Pálsdóttir|

Vöruhönnuðirnir Björn Steinar Blumenstein og Johanna Seelemann voru með verkið Banana Story til sýnis á HönnunarMars. Verkið segir sögu frá sjónarhóli banana sem er fluttur frá Ekvdor til Íslands.

„Banana Story á sér langan aðdraganda,“ segir Björn þegar hann er spurður út í verkið. „Við höfum um langt tímabil haft mikinn áhuga á uppruna hversdagslegra hluta. Verkið okkar Cargo, sameiginlegt útskriftarverkefni okkar beggja úr Listaháskóla Íslands, fjallar til að mynda um hvernig flókið ferli farmflutninga á heimsvísu gerir nútíma lifnaðarhætti okkar í raun mögulega. Í hönnunarferli fyrir Cargo vaknaði áhugi okkar á uppruna og sögu hluta fyrir alvöru.“

„Eitt kvöld fyrir nokkrum árum fórum við að „dumpster dive-a“ og fundum fullan gám af bönunum í ruslinu.“

Björn segir að svokallað „dumpster diving“, eða „ruslarót“ eins og það hefur stundum verið kallað á íslensku, hafi veitt þeim innblástur. „Eitt kvöld fyrir nokkrum árum fórum við að „dumpster dive-a“ og fundum fullan gám af bönunum í ruslinu. Í kjölfarið fengum við fund með matvælainnflytjenda sem útskýrði fyrir okkur hvernig heimurinn er að minnka á sífellt auknum hraða fyrir tilstilli farmflutninga,“ útskýrir Björn.

Sýningin Banana Story byggir meðal annars á viðtölum við matvælainnflytjendur og farmaflutningafyrirtæki, gögnum frá Hagstofunni og sambærilegum stofnunum erlendis ásamt upplýsingum frá ýmsum dreifingar- og framleiðslufyrirtækjum víða um heim. Björn segir einn tilgang með sýningunni vera þann að vekja fólk til umhugsunar.

Þess má geta að grafíski hönnuðurinn og listamaðurinn Magnús Ingvar Ágústsson útfærði Banana Made-in miðann ásamt þeim Birni og Johönnu.

„Við viljum miðla upplýsingum um þetta ótrúlega ferli sem þarf til að koma hversdagslegum hlutum frá einni heimsálfu til annarrar, allt fólkið sem við eigum í raun og veru í samskiptum við í hvert skipti sem við kaupum vöru og þær afleiðingar sem neyslan okkar hefur. Við viljum miðla þessari þekkingu svo fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir þegar kemur að kaupum,“ útskýrir Björn.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Amma kom fyrir mig vitinu

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Mörgum árum eftir skilnað foreldra minna áttaði ég mig á því að mömmu hafði nánast tekist að eyðileggja samband mitt við pabba.

 

Ég var fimm ára þegar foreldrar mínir skildu. Þau voru mjög ólík á allan hátt, ég skil eiginlega ekki hvernig þau náðu saman á sínum tíma.

Mamma fór að læra hjúkrun þegar ég var tveggja ára og hefur alla tíð unnið við það. Pabbi er mikill bíladellukarl og alla tíð, fyrir utan nokkur ár úti á sjó, hefur hann unnið á hinum ýmsu verkstæðum. Hann er listamaður á sínu sviði og hefur gert upp marga bíla og þótt hann sé ekki lærður bifvélavirki er hann eftirsóttur starfsmaður. Mamma vildi að hann menntaði sig og þau rifust mikið um það. Síðar kom í ljós að pabbi er lesblindur og það hafði mikið dregið úr honum því hann hélt að hann væri of heimskur til að geta lært.

Einn og einn bíltúr

Eftir um það bil tvö ár kynntist mamma góðum manni sem hún giftist. Hann var og er frábær og þótt ég kallaði hann ekki pabba, var hann mér eins og besti faðir. Þau mamma eignuðust saman þrjú börn á næstu árum.

Pabbi fór á sjóinn eftir skilnaðinn og var sjómaður í tvö eða þrjú ár. Enginn samningur var gerður um umgengni en líklega var þögult samkomulag um að hann hitti mig þegar hann gæti. Hann bjó hjá foreldrum sínum úti á landi á meðan hann safnaði sér fyrir eigin íbúð og sótti sjóinn þaðan.

Pabbi bauð mér stöku sinnum í bíltúr þegar hann kom í land og ég man að mér þótti mjög gaman að hitta hann. Það kom einhvern veginn aldrei til greina að ég gisti hjá honum. Þegar pabbi var síðan fluttur í eigin íbúð í Reykjavík var engin hefð fyrir að ég gisti og þar fyrir utan langaði mig ekki til þess.

Mamma var alltaf leiðinleg við pabba þegar hann hringdi. Svo tautaði hún eitthvað eins og hún vorkenndi mér að þurfa að hitta hann. „Pabbi þinn hafði samband. Nennirðu að hitta hann á þriðudaginn eftir skóla?“ spurði hún kannski ef ég var ekki heima þegar hann hringdi. Svo er ég viss um að ég hef ekki fengið að vita af öllum skiptunum sem hann hringdi.

„Mamma var alltaf leiðinleg við pabba þegar hann hringdi. Svo tautaði hún eitthvað eins og hún vorkenndi mér að þurfa að hitta hann.“

Þetta síaðist inn og smám saman dró úr tilhlökkun minni að vera með pabba. Stundum sagðist ég frekar vilja leika mér við vinkonurnar en fara í bíltúr með honum og ég held að það hafi glatt mömmu.

Þótt mamma segði aldrei beint við mig að pabbi væri asni eða aumingi, fann ég alltaf vel fyrir pirringi og fyrirlitningu hennar í hans garð. Ég man að amma, mamma hennar, sagði stundum: „Láttu barnið ekki heyra til þín,“ ef hún var viðstödd og heyrði eitthvað.

Á unglingsárunum var pabbi í mínum huga einhver maður sem átti að heita pabbi minn en átti það varla skilið. Mér þótti vænt um hann á vissan hátt en vildi samt sem minnst af honum vita. Hann bjó með konu sem átti tvö börn fyrir og saman eignuðust þau tvö í viðbót. Ég hitti konuna nokkrum sinnum, hún var ósköp indæl og litlu hálfsystkini mín mikil krútt en ég leit ekki á þetta fólk sem hluta af fjölskyldu minni.

Fallegur greiði eða smjaður?

Þótt mamma hafi oft verið eitruð í orðum gagnvart pabba, get ég ekki kennt henni alfarið um sambandsleysið við pabba. Hann var sjálfur svolítið óframfærinn og hefur eflaust fundið straumana frá okkur mömmu því ég var örugglega orðin kuldaleg og oft fúl við hann strax í kringum tíu, ellefu ára aldurinn. Óafvitandi kenndi ég honum um hversu sjaldan við hittumst.

Ég var orðin sautján ára þegar ég vaknaði loks til vitundar um þann ljóta leik sem mamma hafði leikið …

Mamma og stjúpi minn höfðu gefið mér gamlan en góðan bíl sem skemmdist illa nokkrum mánuðum seinna þegar ég lenti í árekstri. Ökumaðurinn sem kom á móti mér var annars hugar, eflaust í símanum, og bíll hans rásaði yfir á minn vegarhelming. Enginn slasaðist, sem betur fer, líklega vegna þess að ég hafði séð í hvað stefndi og var nánast búin að stöðva bílinn þegar áreksturinn varð, hinn var ekki á mikilli ferð.

Pabbi frétti af þessu og hringdi í mig. Hann fullvissaði sig um að allt væri í lagi hjá mér og bauðst til að lána mér ágætan bíl sem ég mætti hafa eins lengi og ég vildi. Ég þáði það og þegar ég sagði mömmu frá því gretti hún sig og sagði: „Á nú að fara að smjaðra fyrir þér?“ Ég yppti öxlum og sagði að það hlyti að vera. Ég fæ enn sting í magann þegar ég hugsa um þetta.

Pabbi kom með bílinn og ég þakkaði honum fyrir. Ég man að mér fannst þetta sjálfsagt, eins og hann hreinlega skuldaði mér þetta fyrir að vera svona lélegur faðir …

Augun opnast

Ég heimsótti ömmu ekki svo löngu seinna, móðurömmu mína sem ég hafði verið mikið hjá í gegnum tíðina. Hún er hrein og bein manneskja sem kenndi mér að búa til bestu pönnukökur í heimi.

Ég sagði ömmu frá því að pabbi hefði lánað mér bíl og bætti hæðnislega við: „Hann er eitthvað að reyna að smjaðra fyrir mér.“

Ég vissi ekki hvert amma ætlaði. Hún skipaði mér að setjast niður og síðan las hún þvílíkt yfir mér á meðan ég sat eins og lömuð. Amma sagðist ekki hafa viljað skipta sér of mikið af því hvernig mamma talaði um sinn fyrrverandi en hana hefði ekki grunað að það hefði haft svona mikil áhrif á mig. Pabbi væri einstaklega góður maður og að þau mamma hefðu bara ekki átt vel saman. Það væri engin afsökun fyrir því að mamma talaði eins og hún gerði. Amma sagði að pabbi hefði saknað mín mikið en mamma reynt að vernda mig fyrir honum eins og hann væri eitthvert skrímsli. Fyrst eftir skilnaðinn hefði pabbi stundum komið í kaffi til hennar til að tala um mig og aldrei hefði hann sagt hnjóðsyrði um mömmu.

Fyrstu viðbrögð mín voru reiði en amma sagði að ég yrði að reyna að skilja mömmu. Hún hefði verið svekkt út í pabba og ekki fundist hann eiga skilið að vera í miklum samskiptum við barn sitt. Fyrstu árin eftir skilnaðinn drakk hann nokkrum sinnum í sig kjark til að hringja í mömmu og biðja um meiri umgengni við mig. Mamma hefði dæmt hann eftir þessum símtölum og viljað vernda mig fyrir honum en þetta hafi gengið allt of langt hjá henni. Það hefði orðið að vana hjá henni að tala um pabba af fyrirlitningu. Amma hefði ekki almennilega áttað sig á þessu fyrr en þennan dag hve mikil áhrif það hefði haft á mig.

„Öll ástin til pabba sem ég hafði ómeðvitað bælt niður kom til baka, enn sterkari en áður.“

Á tímabili reyndi pabbi mikið til að fá meiri umgengni við mig og ætlaði í hart. Hann var kominn með lögfræðing í málið en svo gugnaði hann vegna þess að hann vildi ekki koma lífi mínu í uppnám. Ég fékk tár í augun þegar amma sagði mér frá þessu og fannst ég hafa verið svikin. Öll ástin til pabba sem ég hafði ómeðvitað bælt niður kom til baka, enn sterkari en áður. Ég vildi að við amma hefðum átt þetta samtal löngu fyrr.

Góðar breytingar

Mér fannst ég ekki geta ráðist á mömmu og skammað hana en hún hefur ekki dirfst að segja neitt ljótt um pabba í mín eyru síðan amma talaði við mig. Það var miklu mikilvægara að efla sambandið við pabba en rífast í mömmu. Víst varð ég stundum fúl út í mömmu út af þessu og lét hana heyra það en ég skammaði pabba líka fyrir að hafa ekki reynt betur. „Ég vildi ekki pína þig til að hitta mig,“ svaraði hann bara.

Við pabbi erum í miklu og góðu sambandi. Við höfum haft fimmtán góð ár til að bæta upp glataðan tíma. Á meðan amma lifði minnti ég hana reglulega á að það væri henni að þakka hvað allt hefði breyst til góðs. Hún gladdist mikið yfir þessu en mamma virðist ekki sérlega sátt. Álit hennar á pabba hefur lítið breyst.

Ég gifti mig og eignaðist tvo stráka með manninum mínum. Við skildum en höfum drengjanna vegna reynt að halda samkomulaginu góðu þótt við séum ekki alltaf sátt hvort við annað. Hann hélt fram hjá mér og ég man að ég var svo reið að mér fannst hann ekki eiga skilið að umgangast drengina okkar en sú hugsun stóð þó ekki lengi.

Strákarnir búa hjá mér en hitta pabba sinn oft og mikið. Þeir dýrka hann og dá og ég mun aldrei segja neitt til að skemma það.

Ég get ekki skilið hvað mömmu gekk til á sínum tíma að koma í veg fyrir að við pabbi ættum góð samskipti. Hún fer í mikla vörn ef ég reyni að ræða það við hana. Ég held að verndarhvöt hafi fyrst og fremst ráðið ferðinni hjá henni en örugglega vottur af eigingirni og hefndarlöngun, líka ákveðið þroskaleysi. Ég get ekki erft þetta við hana, hún þjáist víst nóg yfir því að þurfa að vera í sömu barnaafmælum og pabbi og að vita hversu gott og náið samband ég á við hann.

Af innri og ytri átökum mannsins

Höfundur / Bjarni Þór Pétursson

Bjarni Þór Pétursson

Dominos deildin. Borgarslagur. Hefðin mætir hungrinu. Yfirvegun gegn grimmdinni. Fagurfræði andspænis ástríðunni. Ungir vs gamlir. Elítan og ghettóið. Miðbærinn gegn úthverfunum. Klofningur milli þings og þjóðar.

Búinn að segja þetta í fimm ár. Það verða ekki sjóarar, sveitamenn eða silfurskeiðar sem stöðva þetta einstaka KR lið, það verða dýragarðsbörnin djúpt úr iðrum Breiðholtsins sem góla á tunglið.

Lakers vs Pistons endurtekning – strákarnir úr LA (Laugarnesinu) gegn iðnaðarmönnunum beint útúr Breiðholtinu. Hverfi Breiðholtsins og póstnúmer renna í einn suðupott, það kraumar í kjötsúpunni. Synir Breiðholtsins! Stuðningsmannasveit Þóru Arnórsdóttur mætir á svæðið – með hljóðfæri… SAMEINUMST!

Hægur leikur, átök, stríð, skotgrafahernaður, handboltaskor, rifnar treyjur, iðnartroð, iðnarfráköst, almennur iðnaður – andleg og líkamleg bugun. Þykkur smurolíukenndur sviti, andköf og hitakóf. Leikmenn og aðdáendur sveittari en Sveittir gangaverðir rétt eftir aldamótin en ekkert boogie, boogie út á gólf fyrir þá sem vilja dansa – heldur alvöru iðnaðarrokk (höldum einbeitingu hérna!).

KR liðið mun þurfa að hafa fyrir hverju einasta stigi, frákasti, sendingu og drippli. Engin braut gönnuð, eintómar hraðahindranir og blindgötur í þokunni #brexit! Manneskjan í sjoppunni í Frostaskjóli mun þurfa að hafa fyrir því að slétta úr krumpuðum og snjáðum bréfpeningum og telja klinkið – engar snertilausar færslur takk fyrir. Í lok seríunnar verður Kjartan Atli í krumpuðum lörfum, tættum rúllukragabol með bauga og volga mjólk í skegginu – fokking Ron Burgundy meltdown.

Eftir þessa fimm leiki mun hvorugt liðið hafa getu til að lyfta þessum bikar. Síðasti leikurinn fyrir marga, one last dance. Að lokum verður öllum leikmönnum skóflað saman í kalda pottinn. Bugunin algjör, góðærið búið – Guð blessi Vesturbæinn.

Ghetto hooligans með yfirtöku á Kaffi Vest næsta mánuðinn. Lagt á nagladekkjum uppá öllum gangstéttum og flautað á hjólreiðafólk. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með grimm pro-úthverfatíst og banter á íbúa 107. Enginn kjúklingur í Melabúðinni og gufunni lokað í Vesturbæjarlaug. Ekkert sous vide, bara heiðarlega djúpsteikt og brasaðar fiskibollur á tilboði Mjódd-style. Glussamistur og almenn kaupstaðalykt mun smjúga inn um allt. Þormóði Egilssyni verður líklega rænt* (við Framarar kætumst yfir því, ákveðin sanngirni í slíku).

Það verður ekki nóg að panta prest í Fella- og Hólakirkju. Heldri borgarar á nesinu munu þurfa særingarmann fyrir þetta einvígi! Engar þéranir í Frostaskjólinu í vor OG ALLT Á CAPS LOCKS OG NÓG AF UPPHRÓPUNARMERKJUM!!!!! LÍFIÐ Í VESTURBÆNUM VERÐUR ÓBÆRILEGT!!!!!
Það að greina Hismið frá Kjarnanum var auðvelt en hvernig fer þetta einvígi með ástsælasta podcast tvíeyki þjóðarinnar? Klofningur? Hvað með Hismis-Grétar? Klofinn persónuleiki fyrir, á meðan og eftir að þessu einvígi lýkur? Maðurinn bjó svo gott sem inn i ÍR heimili hálfa ævi sína. Neyðar-Hismi! Og hvað gerir Gísli Marteinn? Borgarskipulag eða Breiðholtshjartað? Valkvíði?

Ég fann það hjá sjálfum mér að ég var þar – í valkvíða. Hef haldið með KR í úrslitunum síðustu fimm árin (og fyrir þann tíma) – still got five on it!

Ég mæti hins vegar ekki í KR treyju á heimaslóðir í Breiðholtinu! Slíkt væri skandall! Algjörlega galið! Óréttlætanlegt tilfinningalega! Skammarlegt gagnvart uppruna mínum! Kæmi ekki heill útúr slíku andlega né líkamlega! Hefnist þeim sem svíkur sína huldumey! Kossar mínir eru ekki Júdasarkossar!

Hér verða engar málamiðlanir, enginn lopi teygður, engar rósir til að tala undir, ekki klækindi stjórnmálamannsins, töfrabrögð úr handbók almannatengilsins né lagalegar réttlætingar lögmannsins. Hér eru menn annað hvort með okkur eða á móti okkur. Risamál, ekki lögreglumál heldur hitamál á Alþingi og það munu fara fram nafnaköll – menn munu þurfa að gera skýrt grein fyrir atkvæði sínu.

Tek mér pásu frá Litla-Stokkhólms heilkenninu og kafa djúpt í skápinn eftir skopparafötum æsku minnar. Í malbikinu liggja langar djúpar rætur og einkum í 109&111 Rvk. Hugurinn sagði KR, en hjarta mitt mun ætíð tilheyra Breiðholti… og verðum við ekki öll að láta hjartað ráða för?  Þeir sem enn telja sig ekki hafa innsæi né skilja hjarta sitt til að taka afstöðu í þessu máli ættu að spyrja sig sömu spurningar og Páll Skúlason spurði forðum:”Til hvers lifum við, hvaða gagn gerum við heiminum ef við vitum ekki hver við sjálf erum?”.

Í þessa stuttu stund verður því Breiðholtið mér í blóð borið. Í þessa stuttu stund mun ég yfirgefa fagurfræðina og standa með ættbálki mínum. Í þessa stuttu stund mun ég vona að strit hafi betur en vit, afl fremur en viska – megi kappið bera fegurðina ofurliði! Ég er tilbúinn andlega fyrir þetta einvígi. Líkami minn er reiðubúinn undir það að vera brottnuminn. Borgarslagur af bestu gerð – heiður og sæmd að veði. Á mér er eitt risastórt Anderson .Paak bros.109 að eilífu amen! YES LAWD!

*Ok, Þormóði Egilssyni verður líklega ekki rænt og ég hvet engan til slíks.

Notre Dame bruninn vekur sjöfaldan áhuga vesturlandabúa á við hryðjuverkin í Sri Lanka

Netverjar á vesturlöndum hafa sjöfalt meiri áhuga á brunanum í Notre Dame en hryðjuverkunum í Sri Lanka samkvæmt upplýsingum frá Google.

Nýjustu tölur herma að tala látinna í Sri Lanka sé 321 manns. Samkvæmt upplýsingum um leitarorð frá Google Trend voru orðin „Notre Dame” sjö sinnum algengari en „Sri Lanka” í vesturlöndum. Fréttamiðillinn Al Jazeera greinir frá.

Algengi leitarorðanna virðast svæðisbundin en í einungis þremur löndum var frekar leitast eftir fréttum af Sri Lanka; á Indlandi, í Indónesíu og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum. Upplýsingafræðingur Al Jazeera, Gabriele Kahlout, segir muninn liggja í getu lesanda til að tengja við fréttina en bruninn í París er því í námunda við vesturlönd. Á móti er Sri Lanka nær Indlandi og er tengingin þar í landi sterkari.

„Þetta er munstur sem við sjáum reglulega. Þegar fréttir af flugslysi Eþiopian airlines braust út, tilkynnti Google Trends að Bandaríkjamenn leituðu þá aðallega eftir mögulegum dauðsföllum samlanda sinna í slysinu,” hefur Al Jazeera eftir Gabriel.

Yfir 500 manns særðust í árásinni í Sri Lanka en heilbrigðisráðherra þar í landi fullyrti að rekja mætti árásina til hryðjuverkasamtaka sem starfræk er innanlands. Þó hafa engin samtök lýst yfir ábyrgð.

Þrátt fyrir að bruninn í París hafi ekki valdið neinum slysum eða dauðsföllum er hins vegar um mikil menningarverðmæti að ræða. Uppbygging á Notre Dame hófst árið 1160 og stóð yfir um 100 ár. Á tíma frönsku byltingarinnar varð dómkirkjan fyrir talsverðum skemmdum en endurbætur fóru ekki fram fyrr en á árunum 1844-1864. Skáldsaga Victors Hugo „Hringjarinn í Notre Dame” var gefin út árið 1831 og tókst að endurvekja áhuga borgarbúa á dómkirkjunni sögufrægu.

Varð skáldsagan þannig kveikurinn að framkvæmdunum. Notre Dame, sem var reist í gotneskum stíl, tekur á móti um 13 milljónum ferðamanna ár hvert.

Samkvæmt Google Trends var tíðni leitarorða tengd Notre Dame yfir 90% meiri í Frakklandi, Mexíkó, Argentínu, Ítalíu og Brasilíu en leitarorð tengd Sri Lanka.

Sjá einnig: Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!”

 

Kosningaáróðurssíða úr dvala til að berjast fyrir einkarekstri í heilbrigðismálum

|
|

Facebook-síðan Kosningar er vöknuð úr dvala til að tala fyrir framkvæmd liðskiptaaðgerða á einkareknum stofum hér á landi.

„Hatur VG á einkaframtaki og atvinnufrelsi er undirliggjandi ástæða þess að skattgreiðendur eru látnir borga kr. 3,5milljónir fyrir liðskiptiaðgerð í Svíþjóð í stað kr. 1,2m. á einkarekinni stofu á Íslandi,“ segir á Facebook-síðunni Kosningar.

Síðan hefur vakið athygli í undanförnum kosningum en ekki hefur tekist að staðfesta hverjir standa að baki síðunni. Þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka lögðu fram skýrslubeiðni í mars árið 2018 þar sem farið var fram á að yfirvöld gerði tilraun til að komast að því hver stæði að baki síðunni.

Kosningar höfðu þá sett fram ýmsar neikvæðar staðhæfingar um flokka og frambjóðendur sérstaklega á vinstri væng stjórnmálanna. Niðurstaða skýrslunnar var að ekki liggur fyrir að síðan tengist stjórnmálaflokkum og því ekki hægt að sína fram á að lög um fjármál stjórnmálasamtaka hafi verið brotin.

Skilaboð sem birtast á Kosningum.

Á laugardag birtu Kosningar aðra færslu þar sem málum er stillt upp sem baráttu við „góða fólkið“. Vitnað er óbeint til umræðu í þættinum Vikulokin á RÚV.

„Svo djúpt er hatur vinstri manna á einstaklingsframtakinu að réttlætanlegt er að fórna hagsmunum skattgreiðenda og sjúklinga á einu bretti fyrir útópíuhugsjónirnar um að allir eigi að hafa það jafn slæmt. Fyrir þá sem skilja ekkert í tilsvörum Marðar er einungis hægt að benda á endurspilunarhnappinn.“

Kosningar gekk áður undir nafninu 2017 og Kosningar 2018. Síðan vakti athygli sökum þess hve duglegir aðstandendur þeirra voru að kaupa kostanir fyrir skilaboðin sem koma skal á framfæri.

Íslendingar hafa að undanförnu farið til liðskiptiaðgerða á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð á vegum Klíníkurinnar sökum þess að ekki er samningur við Klíníkina um að gera sömu aðgerðir hér á landi. Kostnaður vegna aðgerðanna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands en dýrara er að gera aðgerðirnar erlendis en ef þær yrðu framkvæmdar hér heima.

Vilja sýna fólki hvað það er skemmtilegt að elda vegan-mat

|||
|||

Grænkerinn Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir deilir hér nokkur uppskriftum að dásamlegum vegan-réttum.

Þórdís heldur úti vefsíðunni graenkerar.is þar sem hún deilir með lesendum dásemdar vegan-uppskriftum sem ljósmyndarinn og kærasti hennar, Aron Gauti Sigurðar, myndar af mikilli snilld.

Þau gerðust bæði vegan fyrir þremur árum eftir að hafa horft á heimildamyndina Cowspiracy og hafa aldrei litið til baka. „Við teljum að vegan-mataræði sé besta og jafnframt einfaldasta leiðin til að stuðla að betri heimi fyrir okkur, dýrin og jörðina. Eftir að við breyttum um mataræði tók við tímabil þar sem við áttum í smávandræðum með hvað við gætum borðað. Það tímabil stóð sem betur fer stutt yfir og við tók heill heimur af uppskriftum, mat og fróðleik sem kemur okkur enn á óvart. Okkur finnst plöntumiðað fæði frábært í alla staði, hvort sem horft er til bragðlaukanna eða til heilsu, umhverfis og dýra.“

Með vefsíðunni vilja þau sýna fólki hvað það er auðvelt og skemmtilegt að elda vegan-mat og að grænkerar geti vel verið sælkerar.

Hvar lærðir þú að elda?

Þegar ég var 10 ára fékk ég það verkefni að elda kvöldmat einu sinni í viku. Ég eldaði einfalda heimilisrétti til að byrja með og fékk hjálp frá foreldrum mínum eftir þörfum. Þetta gaf mér gríðarlegt sjálfstraust í eldhúsinu og fljótlega var ég byrjuð að biðja um að fá að elda oftar og prófa mig áfram með nýja rétti.

Hver er fyrsti rétturinn sem þú lærðir að búa til?

Ég hugsa að fyrsti rétturinn hafi verið grjónagrautur. Það var uppáhaldsmaturinn minn og í raun er mjög einfalt að elda hann, svo lengi sem maður fylgist vel með og hrærir reglulega í grautnum.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?

Ég er mjög heilluð af allri heilsusamlegri matargerð sem er laus við dýraafurðir. Einnig höfðar hráfæði sérstaklega til mín. Ég hef ekki enn prófað að borða eingöngu hráfæði en mun ábyggilega gera það einhvern tímann. Þangað til reyni ég að innlima hráfæðisrétti í mataræðið mitt eftir bestu getu.

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?

Einu sinni var ég að útbúa sætkartöflusúpu og setti hana í blandara til að mauka. Það er víst ekki sniðugt að setja heitan vökva í blandara því lokið þaut af og appelsínugult grænmetismauk skvettist út um allt eldhúsið og upp í loft. Ég held að það megi enn finna leifar af þessu slysi, ef vel er gáð.

Hver er uppáhaldsmatreiðslubókin þín?

Mér þykir alltaf vænt um gömlu, snjáðu möppuna hennar mömmu þar sem hún hefur safnað saman öllum sínum uppáhaldsuppskriftum frá vinum og ættingjum. Ég kíki enn í þessa möppu til að fá hugmyndir og vegan-væði jafnvel rétti sem þar er að finna.

„Það var nokkuð stór áskorun að gerast vegan, sérstaklega þar sem ég varð vegan á einu kvöldi og þurfti skyndilega að endurhugsa alla mína matseld.“

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?

Það var nokkuð stór áskorun að gerast vegan, sérstaklega þar sem ég varð vegan á einu kvöldi og þurfti skyndilega að endurhugsa alla mína matseld. Þessi áskorun var þó, eftir á að hyggja, talsvert minni en ég hafði búist við og á skömmum tíma var ég búin að gjörbreyta um lífsstíl án þess að sakna neins.

Önnur áskorun sem ég mætti í eldamennsku var sú að byrja að skrifa niður uppskriftirnar mínar. Ég lærði aldrei að elda eftir uppskriftum heldur lagði meiri áherslu á að prófa mig áfram og að smakka matinn til. Það var því mikil breyting að opna uppskriftasíðuna og þurfa skyndilega að mæla hráefni og skrá niður.

Kasjúhnetupiparostur

Mynd / Hallur Karlsson

1,5 dl kasjúhnetur
2 dl sykurlaus plöntumjólk, t.d. sojamjólk
1/2 tsk. agar-agar
1,5 msk. sítrónusafi
1/2 hvítlauksrif
1/2 dl kókosolía
1/4 tsk. salt
1/2 tsk. hlynsíróp
1 msk. næringarger
svartur pipar eftir smekk

Leggið kasjúhnetur í bleyti í 3 klst. eða yfir nótt. Þessu má þó sleppa ef notaður er öflugur blandari.

Setjið plöntumjólk og agar-agar í pott og hitið að suðu. Setjið öll hráefnin í blandara og blandið þar til silkimjúkt. Smakkið til og bætið við sítrónusafa, salti og svörtum pipar eftir smekk.

Setjið blönduna loks í sílíkonmót eða lítið smelluform og geymið í kæli þar til osturinn hefur stífnað.  Eftir að osturinn stífnar er fallegt að þekja hann með muldum, svörtum pipar.

Chili-sulta Jennýar

5 stk. chili-pipar
1 rauð paprika
2 appelsínugular paprikur
50 ml eplaedik
100 g hrásykur
1/2 tsk. agar-agar

Fræhreinsið paprikurnar en ekki hreinsa fræin úr chili-ávöxtunum. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og blandið þar til þau hafa maukast vel.

Setjið blönduna í pott og sjóðið í 10 mín. Hellið loks sultunni í hreinar krukkur.

Pítsa með indversku ívafi
2 pítsubotnar

Mynd / Hallur Karlsson

pítsudeig, keypt eða heimagert
1 krukka grænt vegan-pestó (t.d. frá Himneskt)
1 eggaldin
1/2 askja sveppir
1/2 rauðlaukur
1 dolla Oatly på Mackan-rjómaostur
1 dós kjúklingabaunir
1/2 msk. garam masala
1 tsk. hlynsíróp
salt og pipar

Kveikið á ofninum og stillið á 180°C. Skerið eggaldin í þunnar sneiðar og steikið á pönnu upp úr olíu. Kryddið sneiðarnar með salti og pipar og snúið þeim við svo þær brúnist á báðum hliðum.

Hellið vatninu af kjúklingabaununum og skolið þær. Steikið kjúklingabaunirnar á pönnu upp úr olíu ásamt garam masala og hlynsírópi. Bætið við salti og pipar eftir smekk. Fletjið út pítsudeig og myndið tvo botna.

Smyrjið botnana með grænu pestói. Raðið eggaldinsneiðunum ofan á botnana ásamt skornum sveppum og rauðlauk. Setjið stórar klípur af Oatly-rjómaostinum ofan á og dreifið loks kjúklingabaununum yfir.

Bakið pítsurnar í 10-15 mín., eða þar til botninn hefur bakast og osturinn brúnast.

Súkkulaðihrákaka

Mynd / Hallur Karlsson

8 stk. Medjool-döðlur (um 2 dl)
2 dl kókosflögur
2 dl möndlur
2 msk. kakóduft
1 tsk. vanilludropar

Setjið kókosflögur og möndlur í matvinnsluvél og blandið þar til úr verður grófgerð mylsna. Hreinsið steinana úr döðlunum og setjið þær út í matvinnsluvélina ásamt hinum hráefnunum.

Blandið þar til hægt er að klípa saman deigið. Klæðið botninn á 22 cm smelluformi með smjörpappír og þrýstið deiginu í botninn. Geymið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling

2 lítil avókadó
1 banani
1 dl möndlusmjör
2 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
2 dl bragð- og lyktarlaus kókosolía
1 msk. kakósmjör (má nota kókosolíu í staðinn)
1 dl hlynsíróp
4 msk. kakóduft
1 tsk. vanilludropar
salt eftir smekk

Bræðið kókosolíuna og kakósmjörið á lágum hita. Setjið öll hráefnin í blender og blandið þar til silkimjúkt. Hellið fyllingunni yfir botninn og geymið í frysti þar til kakan er frosin.

Losið kökuna úr smelluforminu og færið hana yfir á kökudisk. Best er að láta kökuna þiðna í ísskáp og bera hana fram kalda ásamt ferskum berjum og vegan-rjóma.

Myndir / Hallur Karlsson

„Fínasta vorveður” á sumardaginn fyrsta og fram í næstu viku

|
|

Veðurstofan boðar sumarveður á morgun, sumardaginn fyrsta, og er spáð björtu yfir landið með möguleika á 16-17 stigum á suður- og vesturlandi.

„Hlýindin eru á leiðinni og munu haldast eitthvað fram yfir helgi og í byrjun næstu viku,“ hefur Mannlíf eftir Þorsteini V. Jónssyni, veðurfræðingi á Veðurstofunni. Aðspurður hvenær sól og hlýju var síðast spáð á sumardaginn fyrsta, hló Þorsteinn létt og sagðist ekki muna það.

Vanafastir geta þó tekið gleði sína en Veðurstofan spáir rigningu um mest allt land þegar líður á kvöldið og má búast við rigningabökkum fram yfir helgina. Sól verður þó á norður- og vesturlandi.

„Búist er við áframhaldandi austanátt, en því fylgir þessir rigningabakkar sem koma og fara, en það verður nokkuð milt veður fram yfir helgina og fram í næstu viku. Fínasta vorveður,” segir Þorsteinn.

Mynd / Unsplash / Evelyn Paris

Forsvarsmenn Manna í vinnu stofna nýja starfsmannaleigu

Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf. hafa stofnað nýja starfsmannaleigu. Formaður Eflingar hvetur fólk til að stunda ekki viðskipti við þetta nýja fyrirtæki.

Forsvarsmenn starfsmannaleigunnar Menn í vinnu hafa stofnað nýja starfsmannaleigu, nýja fyrirtækið heitir Seigla ehf. „Við hvetjum öll fyrirtæki til að stunda ekki viðskipti við þetta nýjasta afsprengi vinnumarkaðarins,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, í grein sem birtist á vef Eflingar. „Það myndi spara félaginu talsverðan lögfræðikostnað.“

 

Starfsmannaleigan Menn í vinnu rataði í fréttirnar á síðasta ári þegar 18 rúmenskir starfsmenn fyrirtækisins leituðu sér aðstoðar vegna vangoldinna launa. Starfsmennirnir greindu einnig frá því að þeir hafa dvalið í ólöglegu íbúðarhúsnæði og borgað háar upphæðir í leigu sem dregnar voru frá launum þeirra. Þeir kvörtuðu undan hótunum og illri meðferð. Efl­ing stéttarfélag út­veg­ði verka­mönn­un­um lög­mann sem fór með umboð af hálfu Eflingar til að innheimta vangoldin laun.

Í síðustu viku lagði Vinnumálastofnun 2,5 milljón króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið Menn í vinnu vegna stórfenglegt misræmi milli skráningar starfsmanna hjá Vinnumálastofnun annars vegar og starfsmanna sem greiddu skatt hins vegar. Þetta er í fyrsta skipti sem þessu sektarákvæði er beitt.

Hægt að sjá nákvæmlega hvar fötin eru framleidd

Sænska fatakeðjan H&M hefur tekið í notkun tækni sem gerir viðskiptavinum kleift að sjá uppruna allra flíka, þar kemur fram upplýsingar um framleiðanda, nafn á verksmiðju og staðsetningu hennar ásamt fjölda starfsmanna.

Einnig verður hægt að fá ítarlegri upplýsingar um textílefnin sem notuð eru við framleiðsluna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá H&M.

„Með auknu gangsæi verður auðveldara fyrir viðskiptavini að hafa sjálfbærni að leiðarljósi og taka upplýstari kaupákvarðanir,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

„Við viljum sýna heiminum að það er hægt að vera stór og samtímis gagnsær. Með því að opinbera hvar vörurnar okkar eru framleiddar viljum við setja staðla fyrir iðnaðinn og gera það auðveldara fyrir viðskiptavini okkar að huga að sjálfbærni þegar kemur að fatakaupum,‟ er haft eftir Isak Roth, yfirmanni alþjóðlegra sjálfbærnimála hjá H&M.

Upplýsingar um bakgrunn allra vara H&M má finna í netverslunum á heimasíðum fyrirtækisins. Eins og er verður þjónustan ekki í boði fyrir þau lönd sem ekki hafa netverslun en hinsvegar verða upplýsingarnar aðgengilegar öllum á vefverslunum. Íslendingar geta kynnt sér bakgrunn varanna til dæmis á bresku H&M-síðunni eða þeim skandinavísku.

Í vefverslunum H&M er hægt að nálgast upplýsingar um þær verksmiðjur sem sjá um framleiðslu fyrir fyrirtækið.

Stóri plokkdagurinn haldinn á sunnudaginn

Stóri plokkdagurinn svokallaði verður haldinn á sunnudaginn en það er hópurinn „Plokk á Íslandi“ sem stendur fyrir deginum.

Í ár mun hópurinn beina sjónum sínum að Reykjanesbrautinni, Vesturlandsveginum og umhverfi stærri umferðaræða landsins. Ferðafélag Íslands hefur slegist í hóp skipuleggjenda en í félaginu eru margir öflugir plokkarar. Þá mun Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, taka þátt í deginum er fram kemur í tilkynningu um Stóra plokkdaginn.

Þess má geta að hópurinn Plokk á Íslandi stóð fyrir plokkdegi í fyrra með góðum árangri.

Öllum er velkomið að taka þátt í Stóra plokkdeginum. Plokkurum er bent á að nota myllumerkið #plokk19 á samfélagsmiðlum.

Hér er þá listi yfir þau svæði sem Plokk á Íslandi hefur skipulagt plokk á:

  • Reykjanesbær svæði 1-5, ræst af planinu hjá Bónus á Fitjum.
  • Vogar svæði 1-3, ræst við bílastæði brúna undir brautina að Vogum.
  • Hafnarfjörður svæði 1-3, ræst af bílastæðinu hjá N1 Lækjargötu.
  • Garðabær svæði 1-2, ræst af bílastæði IKEA.
  • Kópavogur svæði 1-3, ræst af bílastæði Smáralindar.
  • Reykjavík Elliðaárdalur og Fossvogs svæði 1-3, ræst af bílastæði Sambíóanna.
  • Reykjavík – Stórhöfði og Árbær 1-3, ræst af bílastæðinu við Select og Ölgerðina.
  • Reykjavík – Grafarvogur Grafarholt 1-3, ræst af bílastæðinu hjá Húsasmiðjunni.
  • Mosfellsbær 1-3, ræst af bílastæðinu við N1.

Gæðabakstur boðar verðhækkanir í kjölfar kjarasamninga þrátt fyrir tuga milljóna hagnað

Gæðabakstur sem tilkynnt hefur um rúmlega sex prósent hækkun á öllum vörum fyrirtækisins hagnaðist árið 2017 um rúmlega 87 milljónir. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Vilhjálmur Þorláksson, framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, sagði við Vísi á dögunum að fyrirtækið sé knúið til að hækka verð. Það sé ekki aðeins vegna kjarasamninga heldur einnig hækkunar á hráefni.

„Síðustu ár höfum við verið að hagræða og gera betur í verksmiðjunni. Það er bara ekki hægt lengur,“ segir hann. Hann sé með 170 manns í vinnu og hækkun á launum verði hátt í fimm milljónir á mánuði.

Í þessari umræðu hefur ekkert verið pælt í því að draga verðhækkanirnar til baka og finna aðrar leiðir? „Nei ég hef ekki gert. Ég tel það vera að við þurfum á þessu að halda. Við höfum ekki einhverja djúpa vasa að fara í, því miður,“ sagði Vilhjálmur við Fréttablaðið.

„Við höfum ekki einhverja djúpa vasa að fara í, því miður.“

Ársreikningur félagsins sýnir þó að félagið er ágætlega statt. Hagnaður er nokkur og eigið fé tiltölulega hátt. Árið 2017 greiddi gæðabakstur um 60 milljónir í arð.

Eigendur Gæðabaksturs ehf eru samkvæmt upplýsingum á vef félagsins. Viska hf. (80%) Vilhjálmur Þorláksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Gæðabaksturs frá stofnun (20%). Eignarhald Visku hf. er að meirihluta á hendi danskra félaga en Orkla ASA í Noregi kemur þar líka við sögu í gegnum danska félagið Dragsbæk A/S. „Gæðabakstur er íslenskt framleiðslufyrirtæki að öllu leyti, öflugt og rótgróið sem slíkt. Eignarhaldið er danskt, norskt og íslenskt – traust, norrænt samstarf!“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, útilokar ekki að sambandið hvetji félagsmenn til að sniðganga fyrirtæki sem boða verðhækkanir í kjölfar kjarasamninga. Drífa sagði við Morgunútvarp rásar tvö á þriðjudag að markmið samninganna sé að gefa tækifæri til vaxtalækkunar og stemma stigu við verðbólgu. Hún sagði verkalýðshreyfinguna hafa sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga. Fyrirtæki sem hækki vöruverð vinni gegn þeim markmiðum.

Gæðabakstur og Ísam, heildsölu og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boði nú verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækjanna ef samningar verða samþykktir. Sú ákvörðun hefur vakið hörð viðbrögð forystufólks stéttarfélaga.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við RÚV það vera einsdæmi að fyrirtæki boði verðhækkanir ef kjarasamningar verði samþykktir, líkt og ÍSAM gerði í gær.

„Við erum með endurskoðunarákvæði sem snúa að því að kaupmáttur launa verði tryggður og vextir lækki. Ég tel að þetta ógni því að svo geti orðið. Þá munu kjarasamningar væntanlega losna og við munum sækja þær kaupmáttarkrónur, eða þær kjarabætur sem við töldum okkur gefa eftir til þess að ná niður vöxtum, af mikilli hörku ef það kemur til þess að samningar losni,“ segir Ragnar.

„Mér finnst eins og fyr­ir­tæki inn­an Sam­taka at­vinnu­lífs­ins séu að hvetja til þess að kjara­samn­ing­arn­ir séu felld­ir. Það er eins og það sé ákveðinn klofn­ing­ur inn­an sam­tak­anna,“ sagði Björn Snæbjörnsson, formaður starfsgreinasambandsins, við Morgunblaðið í kjölfar tilkynninga um verðhækkanir. Björn sagði við blaðið að framsetning þeirra sem tilkynnt hafa um hækkanir sé ósmekkleg. Ríki og sveitarfélög hafa þegar gefið út að þau muni halda aftur af verðhækkunum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði forstjóra Ísam hafa sýnt þankagang sinn rækilega „Ætli við verðum ekki bara að vera pínku glöð yfir því að Hermann [Stefánsson] afhjúpar sig og sinn þankagang svona rösklega. Það hlýtur að færa okkur endurnýjaðan baráttuanda og skarpan fókus á það hvers vegna breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu.“

Mynd / Gæðabakstur

Leitar meira inn á við en áður

Á morgun, 25. apríl, kemur út þriðja breiðskífa Joey Christ sem heitir Joey 2.

Platan er unnin í samstarfi við Martein Hjartarson, einnig þekktur sem BNGR BOY, og einnig syngur Floni inn á lagið 100p.

Þetta er fyrsta plata Joey Christ í samstarfi við Sony og má þar finna skírskotanir í íslenskan samtíma og poppmenningu auk þess að listamaðurinn leitar meira inn á við en áður.

Smáskífa plötunnar „Jákvæður” kom út á föstudaginn og hefur síðan þá setið á topplistum á Spotify.

Joey Christ er hliðarsjálf Jóhanns Kristófers Stefánssonar en fyrsta lag hans, „Joey Cypher” náði miklum vinsældum.

Á tveimur árum gaf Jóhann út tvær plötur undir nafni Joey Christ, hitaði upp fyrir heimsfrægu rapparana Young Thug og Migos, leikstýrði og gaf út tónlistarmyndbönd, bæði við eigin lög sem og annarra. Auk þess vann Joey Christ til tvennra verðlauna á Íslensku Tónlistarverðlaununum 2017.

Rekin vegna berbrjósta myndar sem dreift var án hennar samþykkis

Lauren Miranda, 25 ára kennari í Bellport grunnskóla á Long Island, var sagt upp störfum, í kjölfar þess að samstarfsmaður hennar og fyrrverandi kærasti virðist hafa dreift mynd af henni í heimildaleysi.

 

Nemendur skólans hófu að dreifa myndinni sín á milli í janúar. Hún hafði sent myndina til starfsfélaga og þáverandi kærasta árið 2016. The Guardian og Washington Post greina frá.

„Ég gaf einungis einni manneskju leyfi til þess að eiga þessa mynd. Hvernig hún komst í dreifingu veit ég ekki en ég gaf engum öðrum leyfi til þess að eiga þessa persónulegu mynd af mér,” hefur Guardian eftir Lauren sem einnig vekur áhuga á því að nafn mannsins hefur ekki komið fram. Hefur hann heldur ekki verið yfirheyrður eða kærður vegna mögulegra þáttöku í dreifingu myndarinnar. „Þetta hefur alltaf verið strákar að særa stelpur og stelpurnar að taka skellinn,” segir Lauren.

Samkvæmt frétt Washington Post er ekki ólöglegt fyrir konur að vera berbrjósta meðal almennings í New York ríki. „Hvað er að þessari mynd?” er haft eftir lögfræðingi Lauren. „Þegar þú tekur sambærilega mynd af karlmanni, þá er ekkert vandamál. Eini munurinn er að hún getur gefið barni á brjóst, en ekki hann.”

Margir hafa lýst yfir stuðningi sínum í garð Lauren og heimamenn mótmælt framkomu skólayfirvalda. „Það er víst ekki hægt að vera kynvera og fyrirmynd á sama tíma? Þetta mál vekur löngun hjá mér að berja eigið höfuð utan í vegg,” tísti Ej Dickson, fréttakona hjá Rolling Stone. Aðgerðarsinni sem kallar sig Sister Leone hefur einnig líst yfir stuðningi og hefur mótmælt ber að ofan fyrir utan grunnskóla í hverfinu. Hægt er að sjá viðtal fréttamiðilsins Vice við Leone hér.

Í réttarskjölum kemur fram að Lauren hefur kært skólayfirvöld Bellport vegna vanrækslu á málinu, að yfirvöld þar neituðu henni um „ítarlega og fullnægjandi” rannsókn og ráku hana á grundvelli kynja hennar. Hefur hún farið fram á endurráðningu og þrjár milljónir dollara í miskabætur.

Bellport er almenningsskóli í samnefndu hverfi á Long Island í New York ríki. Í skólanum eru í kringum þúsund nemendur á aldrinum 11-13 ára.

Bæjarráð Vestmannaeyja segir verktaka halda samfélaginu í gíslingu

Gamli Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn.

„Krafa Bæjarráðs er að Vegagerðin finni tafarlaust dýpkunarskip sem hefur burði til þess að opna Landeyjahöfn,“ segir í ályktun aukafundar bæjarráðs Vestmannaeyja sem haldinn var í gær vegna Landeyjarhafnar. Bæjarráð segir verktaka ábyrgan fyrir dýpkun hafnarinnar halda samfélaginu í gíslingu.

 

„Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa margoft ítrekað áhyggjur sínar af afkastagetu verktakans til dýpkunar. Við það bætist nú að þrátt fyrir fögur fyrirheit og fullyrðingar um metnað verktakans til þess að dýpka þegar færi gefst, er lítið um efndir. Staðan er með öllu ólíðandi fyrir íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum,“ segir í fundagerð bæjarráðs.

Bæjaryfirvöld í bænum krefjast aðgerða. „Að leitað verði út fyrir landsteinana að aðila sem getur sinnt verkinu og opnað höfnina án þess að það dragist langt fram á vorið. Ekki er boðlegt að dýpkunaraðili sem sinnir verkinu hafi hvorki tækjakost né metnað til þess og haldi þannig samfélaginu í Vestmannaeyjum í gíslingu. Ekki verður búið við ástandið lengur og er aðgerða þörf.“

Þá kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins að Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa þegar átt í samskiptum við aðila erlendis sem þau telja að geti sinnt verkefninu betur. Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyjarbæjar, segir við RÚV að bæjaryfirvöld vilji að Vegagerðin fari í að fá öflugri dýpkunarskip að utan. „Við teljum þetta fullreynt,“ segir bæjarstjóri. „Við viljum bara að Vegagerðin kanni það hvort að það sé ekki hægt að fá allavega fleiri aðila að þessu. Þetta gengur ekki eins og þetta er núna.“

„Við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa“

|
Kári Stefánsson

Þriðja orkupakkann eiga Íslendingar að láta vera að mati Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreininga. Kári telur almenning þó svo vana „bjánasköpum“ að líklega lifi fólk samþykkt pakkans af.

„Þegar maður veltir fyrir sér orkupakkanum þriðja í tengslum við hugmyndir um það hvernig orkan sem við virkjum úr íslenskri náttúru sé nýtt og mikilvægi hennar fyrir framtíð þjóðarinnar, þá held ég að við ættum að láta hann vera þótt ekki sé nema vegna þeirra skilaboða sem samþykkt hans myndi senda börnum okkar og barnabörnum,“ skrifar Kári í aðsendri grein í Fréttablaðinu um þriðja orkupakkann.

Sjá einnig: Sigurðu Ingi segir ekki hafa tekist að sannfæra meirihluta þjóðarinnar um fyrirvara við þriðja orkupakkann

„En ef Alþingi samþykkir orkupakkann þriðja held ég að við lifum það svo sem af vegna þess að við erum öll, 350 þúsund, orðin atvinnumenn og konur í því að takast á við þau bjánasköp kjörinna fulltrúa þjóðarinnar sem þeir fremja gjarnan í nágrenni Austurvallar, þau afdrifaríku inni í hlöðnu steinhúsi sem blasir við Jóni Sigurðssyni, þau sem eru næstum takmarkalaust eymdarleg í depurð sinni í öðrum húsum þar í nágrenninu.“

Í greininni fjallar Kári um orkuverð á Íslandi og bendir á að ódýr raforka sé hagsmunamál fyrir almenning. Hann segir umræðu um þriðja orkupakkann farna að hljóma eins og „frekar innihaldslítil deila um keisarans skegg í stað þess að vera okkur ástæða til þess að endurskoða afstöðu til þess hvernig við nýtum þá raforku sem er sameign þjóðarinnar.“ Kári bendir á að afkoma Landsvirkjunar hafi verið betri árið 2018 en árið áður. Þrátt fyrir það segir Kári standa til að hækka gjaldskrá raforku. „Landsvirkjun er í eigu ríkisins þannig að tekjur hennar umfram rekstrarkostnað eru einfaldlega óbein skattlagning,“ skrifar Kári.

Sjá einnig: Þingmaður varð fyrir aðkasti í Hagkaup

„Raforka sem er seld til málmbræðslna í eigu erlendra fyrirtækja er verðlögð samkvæmt samningum til margra ára þannig að ekki er líklegt að þær gjaldi í bráð þessa aukna fjárþorsta Landsvirkjunar. Það sama verður ekki sagt um íslensk fyrirtæki og heimilin í landinu,“ skrifar Kári og bætir við að útsöluverð á raforku hafi verið notað til að sannfæra erlend fyrirtæki um að byggja málmbræðslur á tíma þegar ekki var talinn vænni kostur í stöðunni.

„Nú held ég að sé kominn tími á að við horfum til þess möguleika að nýta auðveldan aðgang að vistvænni orku til þess að ýta undir annars konar og meira aðlaðandi uppbyggingu. Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það til þess að lækka kostnað heimilanna og hlúa að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Eitt dæmi um möguleika sem lægra rafmagnsverð gæti skapað liggur í landbúnaði. Í dag flytjum við inn meiri hlutann af því grænmeti sem við neytum frá löndum sem rækta grænmeti í gróðurhúsum. Mjög stór hluti af rekstrarkostnaði gróðurhúsa fer í rafmagn. Við eigum að sjá til þess að við séum samkeppnishæf í rekstri gróðurhúsa svo við getum ræktað okkar grænmeti sjálf, þannig gætt íslenskan landbúnað nýju lífi og aukið sjálfbærni mannlífs á Íslandi.“

Kári tekur gagnaver sem dæmi um iðnað sem gæti gefið mikið af sér hér á landi með stuðning í formi lágs orkuverðs. „Gagnaverin og þjónusta og tækniþróun í kringum þau gætu, ef rétt er haldið á spilunum, gert upplýsingatækni að raunverulegum stóriðnaði í landinu í stað þess að vera sífellt einhvers konar hérumbil grein. Til þess þurfa gagnaverin að eiga aðgang að miklu ódýrari orku. Það væri líka sniðugt ef Alþingi setti lög til að tryggja öryggi gagna í gagnaverum til dæmis með því að lýsa gagnaverin helg vé, sem enginn mætti sækja í gegn vilja þeirra sem gögnin eiga, hvorki hið opinbera á Íslandi né fulltrúar erlendra ríkja. En það er önnur saga.“

Kári segir skipta máli þegar umræða um lagasetningu um örlög þeirrar orku sem virkjuð er hér á landi að orkan er ekki eingöngu til húshitunar og lýsingar. Orkunni fylgi möguleikar til framkvæmda. „Vistvæna orkan okkar ætti að geta jafnað samkeppnisaðstöðuna á mörgum sviðum ef hún væri skynsamlega verðlögð. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar en hagar sér því miður eins og það sé hennar aðal markmið að fá sem hæst verð fyrir rafmagnið, án tillits til þess hvernig það bitnar á atvinnuþróun í landinu.“

Um sæstreng virðist Kári ekki alveg sannfærður. „Ein af þeim aðferðum sem hún [Landsvirkjun] virðist vilja nota til þess að hækka verðið er að selja rafmagn í gegnum sæstreng til annarra landa. Það er lítill vafi á því að það væri hægt að fá hærra verð fyrir rafmagnið annars staðar sem myndi leiða til þess að verðið hækkaði hér og samkeppnisaðstaða okkar yrði öll önnur og verri. Við komum aldrei til með að geta lifað af því einu saman að selja rafmagn, en við gætum svo sannarlega lifað mun betra lífi með því að nýta það til að bæta samkeppnisaðstöðu okkar á hinum ýmsu sviðum. Mín afstæðiskenning sem lýtur að verði á rafmagni er svona: Frá sjónarhóli Landsvirkjunar sem sjálfstæðs fyrirtækis á að selja rafmagn eins dýrt og mögulegt er. Frá sjónarhóli íslenskrar þjóðar á Landsvirkjun að selja rafmagn eins ódýrt og hægt er. Landsvirkjun er ekki sjálfstætt fyrirtæki heldur eign þjóðarinnar. Hagsmunir þjóðarinnar eiga að ráða og það er ekkert afstætt við það.“

Ýmsar getgátur uppi um ófætt barnið

Nú styttist óðum í að Meghan Markle og Harry Bretaprins eignist sitt fyrsta barn og margir aðdáendur konungsfjölskyldunnar eiga erfitt með að bíða. Ýmsar getgátur eru uppi um hvenær barnið komi í heiminn, hvað það muni heita, hvort um stelpu eða strák sé að ræða og hvernig fæðingunni verði háttað svo nokkur dæmi séu tekin.

Breskir fjölmiðlar hafa undanfarna daga keppst við að reyna að svara ýmsum spurningum um barnið en lítið fæst staðfest.

Samkvæmt breskum miðlum á barnið að koma í heiminn seint í apríl eða snemma í maí.

Hvað kynið varðar hafa Meghan og Harry ekki greint frá því hvort um stelpu eða strák sé að ræða en samkvæmt heimildum Us Weekly mun Meghan hafa sagt vinkonum sínum að hún ætti von á dreng.

Ýmsar getgátur hafa þá verið uppi um nöfn en fregnir herma að Meghan og Harry séu með langan lista yfir nöfn sem koma til greina. Hingað til hafa þau þá kallað ófædda barnið „little bump“ eða „litlu kúlu“.

Greint hefur verið frá því að Meghan muni eiga barnið á lúxusálmu á St. Mary’s-spít­al­anum í London, líkt og mágkona hennar Kate Middleton gerði. En nýrri fregnir herma að Meghan ætli að eiga barnið heima.

Harry og Meghan eru þá sögð vilja vera utan við sviðsljósið í kringum fæðingu barnsins og því hafa þau flutt á Frogmore-setrið við Windsor-kastala í von um að fá meira næði. Og samkvæmt frétt Vanity Fair leggja þau áherslu á umhverfisvænar lausnir þegar kemur að barnaherberginu.

Samkvæmt breskum miðlum er móðir Meghan, Doria Ragland, stödd í London vegna þess að nú styttist í fæðingu barnsins, hennar fyrsta barnabarns. Samkvæmt Entertainment Tonight gerir Meghan ráð fyrir að fá hjálp frá móður sinni fyrstu vikurnar og mánuðina í stað þess að ráða barnapíur.

Hermann sterklega orðaður við Arion banka

Orðrómur er uppi um að Hermann Björnsson forstjóri Sjóvá muni taka við af Höskuldi H. Ólafssyni sem bankastjóri Arion banka.

Hermann Björnson, forstjóri Sjóvá tryggingafélags, er sterklega orðaður við stöðu bankastjóra Arion banka. Eins og kunnugt er sagði Höskuldur H. Ólafsson starfi sínu lausu sem bankastóri Arion fyrr í mánuðinum eftir hafa starfað þar í níu ár og í kjölfarið hafa ýmsir verðir nefndir sem mögulegir arftakar Höskuldar.

Gott orð fer af Hermanni sem hefur starfað hjá Sjóvá síðan 2011. Fyrr á árinu var hann valinn yfirstjórnandi ársins af Stjórnvísi og í fyrra, á hundrað ára afmæli Sjóvár, varð félagið undir hans stórn, efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni sem mælir ánægju viðskiptavina fyrirtækja í nokkrum mismunandi atvinnugreinum. Hefur félagið einnig mælst mjög ofarlega þegar kemur að ánægju meðal starfsmanna. Þá greindi Viðskiptablaðið frá því í fyrra að Sjóvá hafi farið úr 472 milljóna tapi á þriðja ársfjórðungi 2017 í hagnað árið 2018. Ljóst er að Hermann hefur viðamikla reynslu úr viðskiptalífinu. Áður en hann tók við stöðu forstjóra Sjóvár árið 2011 hafði hann m.a. gengt starfi forstöðumanns rekstrardeildar Íslandsbanka, seinna stöðu forstöðumanns útibúasviðs Íslandsbanka og svo aðstoðarframkvæmdastjóra þess sviðs og síðar stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs hjá Kaupþingi. Vafalaust skemmir svo ekki fyrir Hermanni að á árunum 2009 til 2011 gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Arion banka.

Fleiri hafa verið orðaðir við stöðuna og er einn þeirra er Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. Samkvæmt upplýsingum Mannlífs hafa forsvarsmenn Arion banka þegar haft samband við þá Hermann og Sigurð með forstjórastólinn í huga.

Aðrir sem hafa verið orðaðir við starfið eru Benedikt Gíslason, stjórnarmaður í Arion banka sem hefur starfað fyrir Kaupþing, sem enn er stærsti hluthafi bankans. Ármann Þorvaldsson, sem tók við sem forstjóri Kviku fjárfestingabanka 2017, Marínó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóri Kviku banka, Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, Katrín Ólafsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík og Ásgeir Jónsson, dósent og forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, hafa öll líka verið nefnd á nafn í þessu samhengi og nú fyrrnefndur forstjóri Sjóvár, Hermann Björnsson samkvæmt heimildum Mannlífs.

Staða bankastjóra Arion banka þykir mjög eftirsótt, ekki síst vegna launa. Þannig var Höskuldur Ólafs­son með 6,2 millj­ónir á mán­uð­i þegar hann gengdi stöðu bankastjóra Arion, eins og Kjarninn greindi frá í síðasta mánunði. En til samanburðar má geta þess að Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans var með 3,8 milljónir á mánuði í fyrra og Birna Ein­ars­dótt­ir, banka­stjóri Íslands­banka var með 5,3 millj­ónir á mán­uði. Þáverandi bankastjóri Arion banka var því lík­ast til launa­hæsti banka­maður lands­ins á meðan hann gegndi starfinu og líklegt að arftaka Höskuldar komi til með að vera boðinn enn betri kjör.

Þess má geta að Stefán Pétursson, fram­kvæmda­stjóri fjár­mála­sviðs Arion bank­a, gegnir tímabundið starfi bankastjóra Arion, eða frá 1. maí og þar til stjórn hef­ur ráðið banka­stjóra til fram­búðar.

Mynd: Sjóvá-Almennar

Áhugaleysið á árásunum er sláandi

|
|Mæðgurnar Viktoría og Hanna í upphafi ferðar.

Ritstjóri Gestgjafans, sem var stödd í Sri Lanka, furðar sig á áhugaleysi umheimsins á mannskæðum hryðjuverkaárásum.

Mæðgurnar Viktoría og Hanna í upphafi ferðar.

„Mér finnst þetta bara sorglegt, en ef ég á að segja eins og er þá held ég að hluti vandans sé hvað við á Vesturlöndum getum verið sjálfmiðuð,“ segir Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritstjóri Gestgjafans, um fréttir þess efnis að bruni Notre Dame veki sjöfaldan áhuga Netverja á Vesturlöndum á við hryðjuverkin í Sri Lanka, samkvæmt nýjum upplýsingum frá Google.

Hanna var ásamt dóttur sinni Viktoríu Kjartansdóttur stödd í Negombo í Sri Lanka daginn áður en þar var framin skelfileg hryðjuverkaárás í kirkjunni með þeim afleiðingum að 67 manns lét­ust.

Var árásin hluti af röð skipulagðra sprengjuárása sem gerðar voru í Sri Lanka, en talið er að minnst 370 manns hafi látið lífið í þeim og fleiri hundruð særst.
Virðast árásirnar hafa beinst gegn kristn­u fólki og ferðamönn­um, þar sem hótel og kirkjur í landinu voru helstu skotmörkin, en árásirnar eru þær mannskæðustu sem hafa verið gerðar í Suður og Suðaustur-Asíu.

Hanna segir að í ljósi fyrrgreindra upplýsinga frá Google sé áhugaleysi Vesturlandabúa á árásunum í Sri Lanka í raun og veru sláandi. Vissulega hafi mikil menningarverðmæti farist í bruna Notre Dame í París, kirkju sem hún kveðst sjálf halda mikið upp á, en kirkjuna sé alltaf hægt að endurreisa. Mannslífin sem týndust í Sri Lanka komi hins vegar aldrei aftur.

Spurð hvernig þeim mæðgum líði eftir árásirnar segir Hanna að þær séu enn að meðtaka þetta allt saman. „Það er margt sem er búið að fara í gegnum huga minn. Ég sé fyrir mér andlitin á börnum og fólki sem við hittum og mér finnst skrítið að hafa verið svona nálægt þessu,“ segir Hanna, sem þakkar Viktoríu dóttur sinni fyrir að þær skyldu hafa ferðast frá Sri Lanka til Maldavíeyja daginn áður en árásirnar voru gerðar, því sjálf hafi hún viljað fresta förinni um einn dag.

„Það er margt sem er búið að fara í gegnum huga minn. Ég sé fyrir mér andlitin á börnum og fólki sem við hittum og mér finnst skrítið að hafa verið svona nálægt þessu.“

Þær mæðgur eru nú staddar á Maldavíeyjum og segist Hanna ætla að ráðfæra sig við ferðaskrifstofuna þeirra meðan á dvölinni stendur og fylgjast vandlega með framvindu mála.

Sjá einnig:Notre Dame bruninn vekur sjöfaldan áhuga vesturlandabúa á við hryðjuverkin í Sri Lanka

Jónína Ben og Gunnar í Krossinum skilin

Jónína Ben og Gunnar í Krossinum eru skilin eftir níu ára hjónaband.

Jónína Benediksdóttir og Gunnar Þorsteinsson í Krossinum eru skilin er fram kemur í frétt DV.

Jónína og Gunnar giftu sig árið 2010 og fjölluðu fjölmiðlar um að þau hefðu gift sig í laumi við rómantíska athöfn. Þá höfðu þau þekkst í um fimm ár en átt í ástarsambandi um nokkurra mánaða skeið.

Mynd / Hákon Davíð

Spennandi og matarmikið ávaxtabrauð

Ávaxtabrauð
Mynd/Karl Petersson

Þetta brauð er matarmikið og spennandi og í því er fjölbreytt næring, alls konar mjöl, fræ, hnetur og ávextir. Brauðið passar með öllu mögulegu og er frábært á ostabakkann.

170 g brauðhveiti
80 g haframjöl
60 g rúgmjöl
1 msk. lyftiduft
2 tsk. anísfræ (má sleppa eða nota kúmen í staðinn)
80 g þurrkuð trönuber
100 g apríkósur, skornar í bita
80 g pekanhnetur, brotnar gróft niður
120 g sólkjarnar
60 g hörfræ
8 dl súrmjólk eða ab-mjólk
¾ dl hunang eða síróp
½ dl olía
1 tsk. sjávarsalt

Hitið ofninn í 180°C. Setjið allt sem fer í brauðið í hrærivélarskál og hrærið saman. Smyrjið jólakökuform að innan með smjöri eða olíu. Jafnið deiginu í formið og bakið í 1 klukkustund. Brauðið geymist í nokkra daga vel innpakkað og það má frysta, geymist þannig í 6 mánuði.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

„Ótrúlegt ferli“ að koma banana frá Ekvador til Íslands

|
Óhætt er að segja að Björn Steinar hafi í nógu að snúast því hann vinnur nú að plastendurvinnslu verkefninu Plastplan samhliða því að framleiða húsgögn úr íslensku timbri fyrir Skógarnytja verkefnið. „Það er aldrei dauð stund,“ segir hann og hlær. Mynd / Aldís Pálsdóttir|

Vöruhönnuðirnir Björn Steinar Blumenstein og Johanna Seelemann voru með verkið Banana Story til sýnis á HönnunarMars. Verkið segir sögu frá sjónarhóli banana sem er fluttur frá Ekvdor til Íslands.

„Banana Story á sér langan aðdraganda,“ segir Björn þegar hann er spurður út í verkið. „Við höfum um langt tímabil haft mikinn áhuga á uppruna hversdagslegra hluta. Verkið okkar Cargo, sameiginlegt útskriftarverkefni okkar beggja úr Listaháskóla Íslands, fjallar til að mynda um hvernig flókið ferli farmflutninga á heimsvísu gerir nútíma lifnaðarhætti okkar í raun mögulega. Í hönnunarferli fyrir Cargo vaknaði áhugi okkar á uppruna og sögu hluta fyrir alvöru.“

„Eitt kvöld fyrir nokkrum árum fórum við að „dumpster dive-a“ og fundum fullan gám af bönunum í ruslinu.“

Björn segir að svokallað „dumpster diving“, eða „ruslarót“ eins og það hefur stundum verið kallað á íslensku, hafi veitt þeim innblástur. „Eitt kvöld fyrir nokkrum árum fórum við að „dumpster dive-a“ og fundum fullan gám af bönunum í ruslinu. Í kjölfarið fengum við fund með matvælainnflytjenda sem útskýrði fyrir okkur hvernig heimurinn er að minnka á sífellt auknum hraða fyrir tilstilli farmflutninga,“ útskýrir Björn.

Sýningin Banana Story byggir meðal annars á viðtölum við matvælainnflytjendur og farmaflutningafyrirtæki, gögnum frá Hagstofunni og sambærilegum stofnunum erlendis ásamt upplýsingum frá ýmsum dreifingar- og framleiðslufyrirtækjum víða um heim. Björn segir einn tilgang með sýningunni vera þann að vekja fólk til umhugsunar.

Þess má geta að grafíski hönnuðurinn og listamaðurinn Magnús Ingvar Ágústsson útfærði Banana Made-in miðann ásamt þeim Birni og Johönnu.

„Við viljum miðla upplýsingum um þetta ótrúlega ferli sem þarf til að koma hversdagslegum hlutum frá einni heimsálfu til annarrar, allt fólkið sem við eigum í raun og veru í samskiptum við í hvert skipti sem við kaupum vöru og þær afleiðingar sem neyslan okkar hefur. Við viljum miðla þessari þekkingu svo fólk geti tekið upplýstar ákvarðanir þegar kemur að kaupum,“ útskýrir Björn.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Amma kom fyrir mig vitinu

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Mörgum árum eftir skilnað foreldra minna áttaði ég mig á því að mömmu hafði nánast tekist að eyðileggja samband mitt við pabba.

 

Ég var fimm ára þegar foreldrar mínir skildu. Þau voru mjög ólík á allan hátt, ég skil eiginlega ekki hvernig þau náðu saman á sínum tíma.

Mamma fór að læra hjúkrun þegar ég var tveggja ára og hefur alla tíð unnið við það. Pabbi er mikill bíladellukarl og alla tíð, fyrir utan nokkur ár úti á sjó, hefur hann unnið á hinum ýmsu verkstæðum. Hann er listamaður á sínu sviði og hefur gert upp marga bíla og þótt hann sé ekki lærður bifvélavirki er hann eftirsóttur starfsmaður. Mamma vildi að hann menntaði sig og þau rifust mikið um það. Síðar kom í ljós að pabbi er lesblindur og það hafði mikið dregið úr honum því hann hélt að hann væri of heimskur til að geta lært.

Einn og einn bíltúr

Eftir um það bil tvö ár kynntist mamma góðum manni sem hún giftist. Hann var og er frábær og þótt ég kallaði hann ekki pabba, var hann mér eins og besti faðir. Þau mamma eignuðust saman þrjú börn á næstu árum.

Pabbi fór á sjóinn eftir skilnaðinn og var sjómaður í tvö eða þrjú ár. Enginn samningur var gerður um umgengni en líklega var þögult samkomulag um að hann hitti mig þegar hann gæti. Hann bjó hjá foreldrum sínum úti á landi á meðan hann safnaði sér fyrir eigin íbúð og sótti sjóinn þaðan.

Pabbi bauð mér stöku sinnum í bíltúr þegar hann kom í land og ég man að mér þótti mjög gaman að hitta hann. Það kom einhvern veginn aldrei til greina að ég gisti hjá honum. Þegar pabbi var síðan fluttur í eigin íbúð í Reykjavík var engin hefð fyrir að ég gisti og þar fyrir utan langaði mig ekki til þess.

Mamma var alltaf leiðinleg við pabba þegar hann hringdi. Svo tautaði hún eitthvað eins og hún vorkenndi mér að þurfa að hitta hann. „Pabbi þinn hafði samband. Nennirðu að hitta hann á þriðudaginn eftir skóla?“ spurði hún kannski ef ég var ekki heima þegar hann hringdi. Svo er ég viss um að ég hef ekki fengið að vita af öllum skiptunum sem hann hringdi.

„Mamma var alltaf leiðinleg við pabba þegar hann hringdi. Svo tautaði hún eitthvað eins og hún vorkenndi mér að þurfa að hitta hann.“

Þetta síaðist inn og smám saman dró úr tilhlökkun minni að vera með pabba. Stundum sagðist ég frekar vilja leika mér við vinkonurnar en fara í bíltúr með honum og ég held að það hafi glatt mömmu.

Þótt mamma segði aldrei beint við mig að pabbi væri asni eða aumingi, fann ég alltaf vel fyrir pirringi og fyrirlitningu hennar í hans garð. Ég man að amma, mamma hennar, sagði stundum: „Láttu barnið ekki heyra til þín,“ ef hún var viðstödd og heyrði eitthvað.

Á unglingsárunum var pabbi í mínum huga einhver maður sem átti að heita pabbi minn en átti það varla skilið. Mér þótti vænt um hann á vissan hátt en vildi samt sem minnst af honum vita. Hann bjó með konu sem átti tvö börn fyrir og saman eignuðust þau tvö í viðbót. Ég hitti konuna nokkrum sinnum, hún var ósköp indæl og litlu hálfsystkini mín mikil krútt en ég leit ekki á þetta fólk sem hluta af fjölskyldu minni.

Fallegur greiði eða smjaður?

Þótt mamma hafi oft verið eitruð í orðum gagnvart pabba, get ég ekki kennt henni alfarið um sambandsleysið við pabba. Hann var sjálfur svolítið óframfærinn og hefur eflaust fundið straumana frá okkur mömmu því ég var örugglega orðin kuldaleg og oft fúl við hann strax í kringum tíu, ellefu ára aldurinn. Óafvitandi kenndi ég honum um hversu sjaldan við hittumst.

Ég var orðin sautján ára þegar ég vaknaði loks til vitundar um þann ljóta leik sem mamma hafði leikið …

Mamma og stjúpi minn höfðu gefið mér gamlan en góðan bíl sem skemmdist illa nokkrum mánuðum seinna þegar ég lenti í árekstri. Ökumaðurinn sem kom á móti mér var annars hugar, eflaust í símanum, og bíll hans rásaði yfir á minn vegarhelming. Enginn slasaðist, sem betur fer, líklega vegna þess að ég hafði séð í hvað stefndi og var nánast búin að stöðva bílinn þegar áreksturinn varð, hinn var ekki á mikilli ferð.

Pabbi frétti af þessu og hringdi í mig. Hann fullvissaði sig um að allt væri í lagi hjá mér og bauðst til að lána mér ágætan bíl sem ég mætti hafa eins lengi og ég vildi. Ég þáði það og þegar ég sagði mömmu frá því gretti hún sig og sagði: „Á nú að fara að smjaðra fyrir þér?“ Ég yppti öxlum og sagði að það hlyti að vera. Ég fæ enn sting í magann þegar ég hugsa um þetta.

Pabbi kom með bílinn og ég þakkaði honum fyrir. Ég man að mér fannst þetta sjálfsagt, eins og hann hreinlega skuldaði mér þetta fyrir að vera svona lélegur faðir …

Augun opnast

Ég heimsótti ömmu ekki svo löngu seinna, móðurömmu mína sem ég hafði verið mikið hjá í gegnum tíðina. Hún er hrein og bein manneskja sem kenndi mér að búa til bestu pönnukökur í heimi.

Ég sagði ömmu frá því að pabbi hefði lánað mér bíl og bætti hæðnislega við: „Hann er eitthvað að reyna að smjaðra fyrir mér.“

Ég vissi ekki hvert amma ætlaði. Hún skipaði mér að setjast niður og síðan las hún þvílíkt yfir mér á meðan ég sat eins og lömuð. Amma sagðist ekki hafa viljað skipta sér of mikið af því hvernig mamma talaði um sinn fyrrverandi en hana hefði ekki grunað að það hefði haft svona mikil áhrif á mig. Pabbi væri einstaklega góður maður og að þau mamma hefðu bara ekki átt vel saman. Það væri engin afsökun fyrir því að mamma talaði eins og hún gerði. Amma sagði að pabbi hefði saknað mín mikið en mamma reynt að vernda mig fyrir honum eins og hann væri eitthvert skrímsli. Fyrst eftir skilnaðinn hefði pabbi stundum komið í kaffi til hennar til að tala um mig og aldrei hefði hann sagt hnjóðsyrði um mömmu.

Fyrstu viðbrögð mín voru reiði en amma sagði að ég yrði að reyna að skilja mömmu. Hún hefði verið svekkt út í pabba og ekki fundist hann eiga skilið að vera í miklum samskiptum við barn sitt. Fyrstu árin eftir skilnaðinn drakk hann nokkrum sinnum í sig kjark til að hringja í mömmu og biðja um meiri umgengni við mig. Mamma hefði dæmt hann eftir þessum símtölum og viljað vernda mig fyrir honum en þetta hafi gengið allt of langt hjá henni. Það hefði orðið að vana hjá henni að tala um pabba af fyrirlitningu. Amma hefði ekki almennilega áttað sig á þessu fyrr en þennan dag hve mikil áhrif það hefði haft á mig.

„Öll ástin til pabba sem ég hafði ómeðvitað bælt niður kom til baka, enn sterkari en áður.“

Á tímabili reyndi pabbi mikið til að fá meiri umgengni við mig og ætlaði í hart. Hann var kominn með lögfræðing í málið en svo gugnaði hann vegna þess að hann vildi ekki koma lífi mínu í uppnám. Ég fékk tár í augun þegar amma sagði mér frá þessu og fannst ég hafa verið svikin. Öll ástin til pabba sem ég hafði ómeðvitað bælt niður kom til baka, enn sterkari en áður. Ég vildi að við amma hefðum átt þetta samtal löngu fyrr.

Góðar breytingar

Mér fannst ég ekki geta ráðist á mömmu og skammað hana en hún hefur ekki dirfst að segja neitt ljótt um pabba í mín eyru síðan amma talaði við mig. Það var miklu mikilvægara að efla sambandið við pabba en rífast í mömmu. Víst varð ég stundum fúl út í mömmu út af þessu og lét hana heyra það en ég skammaði pabba líka fyrir að hafa ekki reynt betur. „Ég vildi ekki pína þig til að hitta mig,“ svaraði hann bara.

Við pabbi erum í miklu og góðu sambandi. Við höfum haft fimmtán góð ár til að bæta upp glataðan tíma. Á meðan amma lifði minnti ég hana reglulega á að það væri henni að þakka hvað allt hefði breyst til góðs. Hún gladdist mikið yfir þessu en mamma virðist ekki sérlega sátt. Álit hennar á pabba hefur lítið breyst.

Ég gifti mig og eignaðist tvo stráka með manninum mínum. Við skildum en höfum drengjanna vegna reynt að halda samkomulaginu góðu þótt við séum ekki alltaf sátt hvort við annað. Hann hélt fram hjá mér og ég man að ég var svo reið að mér fannst hann ekki eiga skilið að umgangast drengina okkar en sú hugsun stóð þó ekki lengi.

Strákarnir búa hjá mér en hitta pabba sinn oft og mikið. Þeir dýrka hann og dá og ég mun aldrei segja neitt til að skemma það.

Ég get ekki skilið hvað mömmu gekk til á sínum tíma að koma í veg fyrir að við pabbi ættum góð samskipti. Hún fer í mikla vörn ef ég reyni að ræða það við hana. Ég held að verndarhvöt hafi fyrst og fremst ráðið ferðinni hjá henni en örugglega vottur af eigingirni og hefndarlöngun, líka ákveðið þroskaleysi. Ég get ekki erft þetta við hana, hún þjáist víst nóg yfir því að þurfa að vera í sömu barnaafmælum og pabbi og að vita hversu gott og náið samband ég á við hann.

Af innri og ytri átökum mannsins

Höfundur / Bjarni Þór Pétursson

Bjarni Þór Pétursson

Dominos deildin. Borgarslagur. Hefðin mætir hungrinu. Yfirvegun gegn grimmdinni. Fagurfræði andspænis ástríðunni. Ungir vs gamlir. Elítan og ghettóið. Miðbærinn gegn úthverfunum. Klofningur milli þings og þjóðar.

Búinn að segja þetta í fimm ár. Það verða ekki sjóarar, sveitamenn eða silfurskeiðar sem stöðva þetta einstaka KR lið, það verða dýragarðsbörnin djúpt úr iðrum Breiðholtsins sem góla á tunglið.

Lakers vs Pistons endurtekning – strákarnir úr LA (Laugarnesinu) gegn iðnaðarmönnunum beint útúr Breiðholtinu. Hverfi Breiðholtsins og póstnúmer renna í einn suðupott, það kraumar í kjötsúpunni. Synir Breiðholtsins! Stuðningsmannasveit Þóru Arnórsdóttur mætir á svæðið – með hljóðfæri… SAMEINUMST!

Hægur leikur, átök, stríð, skotgrafahernaður, handboltaskor, rifnar treyjur, iðnartroð, iðnarfráköst, almennur iðnaður – andleg og líkamleg bugun. Þykkur smurolíukenndur sviti, andköf og hitakóf. Leikmenn og aðdáendur sveittari en Sveittir gangaverðir rétt eftir aldamótin en ekkert boogie, boogie út á gólf fyrir þá sem vilja dansa – heldur alvöru iðnaðarrokk (höldum einbeitingu hérna!).

KR liðið mun þurfa að hafa fyrir hverju einasta stigi, frákasti, sendingu og drippli. Engin braut gönnuð, eintómar hraðahindranir og blindgötur í þokunni #brexit! Manneskjan í sjoppunni í Frostaskjóli mun þurfa að hafa fyrir því að slétta úr krumpuðum og snjáðum bréfpeningum og telja klinkið – engar snertilausar færslur takk fyrir. Í lok seríunnar verður Kjartan Atli í krumpuðum lörfum, tættum rúllukragabol með bauga og volga mjólk í skegginu – fokking Ron Burgundy meltdown.

Eftir þessa fimm leiki mun hvorugt liðið hafa getu til að lyfta þessum bikar. Síðasti leikurinn fyrir marga, one last dance. Að lokum verður öllum leikmönnum skóflað saman í kalda pottinn. Bugunin algjör, góðærið búið – Guð blessi Vesturbæinn.

Ghetto hooligans með yfirtöku á Kaffi Vest næsta mánuðinn. Lagt á nagladekkjum uppá öllum gangstéttum og flautað á hjólreiðafólk. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu með grimm pro-úthverfatíst og banter á íbúa 107. Enginn kjúklingur í Melabúðinni og gufunni lokað í Vesturbæjarlaug. Ekkert sous vide, bara heiðarlega djúpsteikt og brasaðar fiskibollur á tilboði Mjódd-style. Glussamistur og almenn kaupstaðalykt mun smjúga inn um allt. Þormóði Egilssyni verður líklega rænt* (við Framarar kætumst yfir því, ákveðin sanngirni í slíku).

Það verður ekki nóg að panta prest í Fella- og Hólakirkju. Heldri borgarar á nesinu munu þurfa særingarmann fyrir þetta einvígi! Engar þéranir í Frostaskjólinu í vor OG ALLT Á CAPS LOCKS OG NÓG AF UPPHRÓPUNARMERKJUM!!!!! LÍFIÐ Í VESTURBÆNUM VERÐUR ÓBÆRILEGT!!!!!
Það að greina Hismið frá Kjarnanum var auðvelt en hvernig fer þetta einvígi með ástsælasta podcast tvíeyki þjóðarinnar? Klofningur? Hvað með Hismis-Grétar? Klofinn persónuleiki fyrir, á meðan og eftir að þessu einvígi lýkur? Maðurinn bjó svo gott sem inn i ÍR heimili hálfa ævi sína. Neyðar-Hismi! Og hvað gerir Gísli Marteinn? Borgarskipulag eða Breiðholtshjartað? Valkvíði?

Ég fann það hjá sjálfum mér að ég var þar – í valkvíða. Hef haldið með KR í úrslitunum síðustu fimm árin (og fyrir þann tíma) – still got five on it!

Ég mæti hins vegar ekki í KR treyju á heimaslóðir í Breiðholtinu! Slíkt væri skandall! Algjörlega galið! Óréttlætanlegt tilfinningalega! Skammarlegt gagnvart uppruna mínum! Kæmi ekki heill útúr slíku andlega né líkamlega! Hefnist þeim sem svíkur sína huldumey! Kossar mínir eru ekki Júdasarkossar!

Hér verða engar málamiðlanir, enginn lopi teygður, engar rósir til að tala undir, ekki klækindi stjórnmálamannsins, töfrabrögð úr handbók almannatengilsins né lagalegar réttlætingar lögmannsins. Hér eru menn annað hvort með okkur eða á móti okkur. Risamál, ekki lögreglumál heldur hitamál á Alþingi og það munu fara fram nafnaköll – menn munu þurfa að gera skýrt grein fyrir atkvæði sínu.

Tek mér pásu frá Litla-Stokkhólms heilkenninu og kafa djúpt í skápinn eftir skopparafötum æsku minnar. Í malbikinu liggja langar djúpar rætur og einkum í 109&111 Rvk. Hugurinn sagði KR, en hjarta mitt mun ætíð tilheyra Breiðholti… og verðum við ekki öll að láta hjartað ráða för?  Þeir sem enn telja sig ekki hafa innsæi né skilja hjarta sitt til að taka afstöðu í þessu máli ættu að spyrja sig sömu spurningar og Páll Skúlason spurði forðum:”Til hvers lifum við, hvaða gagn gerum við heiminum ef við vitum ekki hver við sjálf erum?”.

Í þessa stuttu stund verður því Breiðholtið mér í blóð borið. Í þessa stuttu stund mun ég yfirgefa fagurfræðina og standa með ættbálki mínum. Í þessa stuttu stund mun ég vona að strit hafi betur en vit, afl fremur en viska – megi kappið bera fegurðina ofurliði! Ég er tilbúinn andlega fyrir þetta einvígi. Líkami minn er reiðubúinn undir það að vera brottnuminn. Borgarslagur af bestu gerð – heiður og sæmd að veði. Á mér er eitt risastórt Anderson .Paak bros.109 að eilífu amen! YES LAWD!

*Ok, Þormóði Egilssyni verður líklega ekki rænt og ég hvet engan til slíks.

Notre Dame bruninn vekur sjöfaldan áhuga vesturlandabúa á við hryðjuverkin í Sri Lanka

Netverjar á vesturlöndum hafa sjöfalt meiri áhuga á brunanum í Notre Dame en hryðjuverkunum í Sri Lanka samkvæmt upplýsingum frá Google.

Nýjustu tölur herma að tala látinna í Sri Lanka sé 321 manns. Samkvæmt upplýsingum um leitarorð frá Google Trend voru orðin „Notre Dame” sjö sinnum algengari en „Sri Lanka” í vesturlöndum. Fréttamiðillinn Al Jazeera greinir frá.

Algengi leitarorðanna virðast svæðisbundin en í einungis þremur löndum var frekar leitast eftir fréttum af Sri Lanka; á Indlandi, í Indónesíu og Sameinuðu Arabísku furstadæmunum. Upplýsingafræðingur Al Jazeera, Gabriele Kahlout, segir muninn liggja í getu lesanda til að tengja við fréttina en bruninn í París er því í námunda við vesturlönd. Á móti er Sri Lanka nær Indlandi og er tengingin þar í landi sterkari.

„Þetta er munstur sem við sjáum reglulega. Þegar fréttir af flugslysi Eþiopian airlines braust út, tilkynnti Google Trends að Bandaríkjamenn leituðu þá aðallega eftir mögulegum dauðsföllum samlanda sinna í slysinu,” hefur Al Jazeera eftir Gabriel.

Yfir 500 manns særðust í árásinni í Sri Lanka en heilbrigðisráðherra þar í landi fullyrti að rekja mætti árásina til hryðjuverkasamtaka sem starfræk er innanlands. Þó hafa engin samtök lýst yfir ábyrgð.

Þrátt fyrir að bruninn í París hafi ekki valdið neinum slysum eða dauðsföllum er hins vegar um mikil menningarverðmæti að ræða. Uppbygging á Notre Dame hófst árið 1160 og stóð yfir um 100 ár. Á tíma frönsku byltingarinnar varð dómkirkjan fyrir talsverðum skemmdum en endurbætur fóru ekki fram fyrr en á árunum 1844-1864. Skáldsaga Victors Hugo „Hringjarinn í Notre Dame” var gefin út árið 1831 og tókst að endurvekja áhuga borgarbúa á dómkirkjunni sögufrægu.

Varð skáldsagan þannig kveikurinn að framkvæmdunum. Notre Dame, sem var reist í gotneskum stíl, tekur á móti um 13 milljónum ferðamanna ár hvert.

Samkvæmt Google Trends var tíðni leitarorða tengd Notre Dame yfir 90% meiri í Frakklandi, Mexíkó, Argentínu, Ítalíu og Brasilíu en leitarorð tengd Sri Lanka.

Sjá einnig: Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!”

 

Kosningaáróðurssíða úr dvala til að berjast fyrir einkarekstri í heilbrigðismálum

|
|

Facebook-síðan Kosningar er vöknuð úr dvala til að tala fyrir framkvæmd liðskiptaaðgerða á einkareknum stofum hér á landi.

„Hatur VG á einkaframtaki og atvinnufrelsi er undirliggjandi ástæða þess að skattgreiðendur eru látnir borga kr. 3,5milljónir fyrir liðskiptiaðgerð í Svíþjóð í stað kr. 1,2m. á einkarekinni stofu á Íslandi,“ segir á Facebook-síðunni Kosningar.

Síðan hefur vakið athygli í undanförnum kosningum en ekki hefur tekist að staðfesta hverjir standa að baki síðunni. Þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka lögðu fram skýrslubeiðni í mars árið 2018 þar sem farið var fram á að yfirvöld gerði tilraun til að komast að því hver stæði að baki síðunni.

Kosningar höfðu þá sett fram ýmsar neikvæðar staðhæfingar um flokka og frambjóðendur sérstaklega á vinstri væng stjórnmálanna. Niðurstaða skýrslunnar var að ekki liggur fyrir að síðan tengist stjórnmálaflokkum og því ekki hægt að sína fram á að lög um fjármál stjórnmálasamtaka hafi verið brotin.

Skilaboð sem birtast á Kosningum.

Á laugardag birtu Kosningar aðra færslu þar sem málum er stillt upp sem baráttu við „góða fólkið“. Vitnað er óbeint til umræðu í þættinum Vikulokin á RÚV.

„Svo djúpt er hatur vinstri manna á einstaklingsframtakinu að réttlætanlegt er að fórna hagsmunum skattgreiðenda og sjúklinga á einu bretti fyrir útópíuhugsjónirnar um að allir eigi að hafa það jafn slæmt. Fyrir þá sem skilja ekkert í tilsvörum Marðar er einungis hægt að benda á endurspilunarhnappinn.“

Kosningar gekk áður undir nafninu 2017 og Kosningar 2018. Síðan vakti athygli sökum þess hve duglegir aðstandendur þeirra voru að kaupa kostanir fyrir skilaboðin sem koma skal á framfæri.

Íslendingar hafa að undanförnu farið til liðskiptiaðgerða á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð á vegum Klíníkurinnar sökum þess að ekki er samningur við Klíníkina um að gera sömu aðgerðir hér á landi. Kostnaður vegna aðgerðanna er greiddur af Sjúkratryggingum Íslands en dýrara er að gera aðgerðirnar erlendis en ef þær yrðu framkvæmdar hér heima.

Raddir