Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Segja frá ofbeldi Harvey Weinstein í nýrri heimildarmynd

Skjáskot úr Untouchable.

Í nýrri heimildarmynd frá Hulu er fjallað um kynferðisofbeldi, áreitni og hótanir kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.

 

Untouchable, ný heimildarmynd frá Hulu um ásakanirnar á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein, kemur út 2. september. 

Í stiklu úr myndinni má sjá fórnarlömb hans og fólk úr kvikmyndabransanum segja ofbeldi Weinstein og hegðun hans.

Meðal þeirra sem segja sögur sínar í myndinni eru leikkonurnar Rosanna Arquette, Caitlin Dulany og Paz de la Huerta.

Meðfylgjandi er stiklan úr Untouchable.

*TW* Trigger Warning/*VV*varúð váhrif

Bandaríska barnið ekki sýkt af E.coli

efstidalur
Mynd / Unnur Magna

Engin tilfelli af E. coli greindust í dag en í morgun voru rannsökuð saursýni frá 15 einstaklingum sem borist hafa undanfarna daga með tilliti til E. coli sýkinga og greindist enginn með sýkinguna. 

Þetta kemur fram á vef Landlæknis.

Þann 19. júlí sl. var greint frá einum einstaklingi sem var grunaður um sýkingu og reyndist hann vera sýktur af E. coli bakteríunni. Hann hafði borðað ís í Efstadal fyrir um þremur vikum og hafði auk þess umgengist sýktan einstakling fyrir 1-2 vikum. Um er að ræða þriggja og hálfs árs gamalt barn sem heilsast vel og verður í eftirliti á Barnaspítala Hringsins.

Bandaríska barnið grunað um E. coli sýkingu og fjallað hefur verið um á undanförnum dögum er hins vegar ekki með E. coli sýkingu samkvæmt rannsóknum í Bandaríkjunum.

Alls hafa því 22 einstaklingar greinst með E. coli sýkingu, þar af tveir fullorðnir og 20 börn. Annar hinna fullorðnu borðaði ís í Efstadal 8. júlí en enginn annar tengist Efstadal eftir 4-5. júlí en þá hófust fyrri aðgerðir sem miðuðu að því að rjúfa smitleiðir. Seinni aðgerðir í Efstadal hófust 18-19. júlí og eftir þann tíma hafa engir einstaklingar greinst.

Rannsóknir í Efstadal hafa enn ekki sýnt með óyggjandi hætti hvernig E. coli sýkillinn barst í einstaklingana sem veiktust. Allir einstaklingarnir áttu það hins vegar sameiginlegt að hafa borðað ís í Efstadal fyrir utan eitt barn sem virðist hafa smitast af systkini.

Sófar í lit á fallegum heimilum

Í gegnum tíðina hafa blaðamenn Húsa og híbýla heimsótt mörg falleg heimili þar sem sófar í lit setja skemmtilegan svip á stofurýmið. Hér koma nokkrar myndir.

 

Svartir og gráir sófar hafa notið vinsælda í undanfarin ár en það er alltaf gaman að sjá þegar fólk þorir að fjárfesta í sófa í skemmtilegum lit í stað þess að fara út í hlutlausari tóna.

Fallegt heimili á Flókagötu. Mynd / Aldís Pálsdóttir.,
Sófi í fallegum bláum lit heima hjá Birgittu Líf. Mynd / Hákon Björnsson
Sófi sem tónar vel við litinn á veggnum. Mynd /Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Hér gerir græni sófinn mikið fyrir rýmið. Mynd / Hákon Davíð
Sófi með skemmtilegu fölbleiku áklæði. Mynd / Hallur Karlsson

 

Hlýlegt og flott. Mynd / Heiðdís Guðbjörg
Fallegir litatónar í þessari stofu. Mynd / Hákon Davíð
Litríkt og skemmtilegt rými. Mynd / Hallur Karlsson

Myndir / Hallur Karlsson

Rússneskur ryðdallur nærri sokkinn í Njarðvíkurhöfn

Rússneski togarinn Orlik

Rússneski togarinn Orlik var nærri sokkinn í Njarðvíkurhöfn í gær. Ástand skipsins er afar bágborið og verður því fargað á næstu dögum.

Togarinn hefur legið bundinn við bryggju frá árinu 2014 og hefur ástand hans farið hríðversnandi. Skipið er að ryðga í sundur og er ryðgat á skrokki hans ástæða þess að það var nærri sokkið.

Samkvæmt vef Víkurfrétta, sem greindi fyrst frá málinu, var það Sigurður Stefánsson kafari sem tók eftir því í gærkvöldi að skipið væri að sökkva. Dælum var komið fyrir um borð í skipinu sem komst á réttan kjöl um 2 leytið í nótt.

Fleiri göt eru tekin að myndast á skrokknum og hefur verið ákveðið að flýta förgun skipsins. Það verður dregið upp í fjöru við Skipasmíðastöð Njarðvíkur á næstu dögum þar sem því verður fargað.

Innheimta ólögmæt lán af fullu afli

Mynd/Pixabay

Neytendasamtökin hafa skorað á innheimtufyrirtækið Almenna innheimtu ehf. að stöðva tafarlaust innheimtu á smálánaskuldum sem þau segja byggja á ólögmætum lánum.

Á vef Neytendasamtakanna segir að fyrir liggi að vextir á smálánum séu margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það séu lántakendur krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum og ekkert virðist fá stöðvað innheimtufyrirtækið sem tekið hefur að sér að innheimta lánin.

Þannig sé fyrirtækinu fyrirmunað að senda lántakendum skýra sundurliðinum á kröfum skipt niður í lánsupphæð, vaxtakostnað og innheimtukostnað, þrátt fyrir fjölda beiðna þess efnis. Fyrirtækið gefi sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar. „Það vekur furðu að fyrirtækið hafi ekki tiltæka sundurliðun á kröfum sem það telur sér þó fært að innheimta. Þá telja Neytendasamtökin í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum. Slíkt geti ekki verið löglegt.“

Þá segjast samtökin hafa undir höndum gögn sem sýni að heildarendurgreiðslur lántakenda séu mun hærri en lög leyfa, jafnvel þótt miðað sé við hæstu löglegu vexti. Þrátt fyrir það haldi fyrirtækið áfram innheimtu sinni og hótunum um skráningu á vanskilaskrá Creditinfo. „Samtökin telja að þar sem eigendum, stjórn og starfsmönnum Almennrar innheimtu megi vera ljóst að kröfutilbúningurinn standist ekki lög, séu jafnvel líkur á að bótaábyrgð hafi skapast, ekki síst í þeim tilfellum þar sem lántakendur hafa verið settir á vanskilaskrá að ósekju.“

Blygðunarlausir apakettir stefna veröldinni í hörmungar

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna

„Ef þú ert nógu mikill rugludallur og helst dóni líka sem skeytir engu um sannleika eða rök, geturðu verið nokkuð viss um að þú eigir góðan sjens á að ná í um það bil 20% fylgi í kosningum, jafnvel meira. Slíkt fylgi er nóg til að hafa veruleg áhrif í vestrænum lýðræðisríkjum.“

Þetta skrifar Guðmundur Steingrímsson í vikulegum pistli í Fréttablaðinu. Máli sínu til stuðnings nefnir Guðmundur sérstaklega Donald Trump sem á undanförnum vikum hefur afhjúpað sig sem grímulausan rasista og dóna. Það sama sé að gerast í Bretlandi og útlit er fyrir að á Íslandi ætli nokkrir að leika þennan leik. „Dónaröfl á Klausturbar skilar árangri. Virðingarleysi fyrir staðreyndum í flóknum deilumálum líka. Í rauninni er þetta mesta nýjungin í stjórnmálakænsku á síðari árum. Vertu bara nógu mikill asni.

Fyrir þessu eru nokkrar ástæður, segir Guðmundur. Í fyrsta lagi eigi þessi hegðun hljómgrunn hjá kjósendum sem eru svo óánægðir með tilveruna að þeir vilja helst kjósa þá sem gera mestan usla. Í öðru lægi virkar asnaskapur í offlæði upplýsinga þar sem sumir kjósendur vilja ekki láta sérfræðinga segja sér fyrir verkum. Í þriðja lagi nefnir Guðmundur það yfirgripsmikla vantraust sem ríkir í garð stjórnmála sem stafar meðal annars af því að stjórnmálamenn ráða í raun engu. Þeir lofa fyrir kosningar en þegar á hólminn er komið kemur í ljós að stjórnmálamenn ráða engu einir og ná þar af leiðandi ekki að uppfylla loforðin.

Fjórða ástæðan, segir Guðmundur, er sú alvarlegasta. Hún er einfaldlega sú að það er til óhemju fjöldi fólks sem trúir rugli. „Jörðin er flöt. Evrópusambandið er samsæri. Litað fólk á að fara „heim til sín“. Gróðurhúsaáhrifin eru ekki til. Ef þú ert þannig innréttaður, eins og Trump og fleiri, geturðu talað til þessa fólks og verið þess maður. Atkvæði er atkvæði.

En hvenrig á að bregaðst við þessu, spyr Guðmundur, því mannkynið megi ekki við svona löguðu. „Blygðunarlausir apakettir mega ekki æða með veröldina í enn einn hörmungarhringinn. Jörðin hitnar. Nú þarf aðgerðir og samstöðu. Ógnir blasa við. Stærsta viðfangsefni nútímastjórnmála — og lífið liggur við — er að finna leið til þess að segja drullusokkum á einhvern hátt sem virkar að grjóthalda kjafti og skammast sín.

Tíndu 977 blautklúta í fjörunni á Seltjarnarnesi

|
|

Starfsmenn Umhverfisstofnunar tíndu 977 blautklúta í fjöruferð fyrir skemmstu. Aldrei hafa fundist eins margir blautklútar í einni ferð.

 

Fyrir skemmstu fóru starfsmenn Umhverfisstofnunar í fjöruferð á Seltjarnarnesi og tíndu rusl vegna vöktunarverkefnis stofnunarinnar.

„Vöktunin felur í sér að tína allt rusl á 100 m kafla, fjórum sinnum á ári. Ruslið er flokkað eftir staðlaðri aðferðafræði og eru gögnin notuð til að fylgjast með þróun á magni og samsetningu rusls á ströndum,“ segir í grein á vef stofnunarinnar.

Vöktunin leiddi í ljós að fjöldi blautklúta sem fer í klósettið hefur aukist. „Alls voru tíndir 977 blautklútar, en það hafa aldrei fundist eins margir blautklútar í einni ferð. Til samanburðar, þá voru alls tíndir 753 blautklútar árið 2017 og 605 árið 2018.“

Í grein Umhverfisstofnunar er fólk minnt á að blautklútar eiga að fara í ruslafötuna en ekki klósettið. „Að gefnu tilefni viljum við ítreka að klósettið er ekki ruslafata.“

Vöktun Umhverfisstofnunar felur í sér að tína allt rusl á 100 m kafla, fjórum sinnum á ári.

Myndir / Af vef Umhverfisstofnunar

Hönnunargullmolar Marcel Breuer: Wassily og B32UF

Wassily og B32UF er hönnun sem stenst tímans tönn.

Wassily-stólinn var hannaður af Marcel Breuer 1925-1926, þá var Breuer einungis 24 ára gamall og á þeim tíma var þetta örugglega talin framúrstefnuleg hönnun en það má segja að Wassily-stóllinn hafi staðist tímans tönn.

Wassily-stólinn.

Þetta var eitt fyrsta húsgagnið sem Marcel Breuer smíðaði úr málmi og hann var hannaður með það í huga að hægt væri að smíða hann úr stálrörum sem voru fáanleg.

Hönnuðurinn fæddist í Ungverjalandi en hann starfaði í Bandaríkjunum og Evrópu og fékk þjálfun hjá Bauhaus en nafnið á stólnum sem upphaflega hét B3 má rekja þangað því þar kenndi málari að nafni Wassily Kandinsky. Þessi stóll sem er úr leðri og málmi er ein þekktasta hönnun Breuer en hann hannaði líka B32-stólinn árið 1928.

B32-stóllinn.

B32-stóllinn er önnur klassísk hönnun Breuer, hann er úr stálrörum og við en bakið og sessan eru úr reyr.

Þessir tveir úr smiðju Breuer sem lést árið 1981 eru eigulegir hönnunargullmolar.

Siðblind stórasystir

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Frá barnæsku hefur eldri systir mín verið afar ómerkileg persóna. Hún blekkti, sveik, og stal og stjórnaði okkur systkinunum með harðri hendi. Á fullorðinsárum komst hún upp með mjög ósvífið athæfi gagnvart okkur.

 

Við erum fjögur systkinin, þrjár systur og einn bróðir. Ekki get ég sagt að samlyndið hafi verið upp á sitt besta lengst af og það kenni ég Elsu, elstu systurinni, alfarið um. Hún virtist njóta þess að etja okkur yngri systkinunum saman og gerði það iðulega á svo lúmskan hátt að við áttuðum okkur ekki á því fyrr en í kringum unglingsárin.

Pabbi hafði látið sig hverfa þegar bróðir minn var ársgamall og stofnað nýja fjölskyldu. Mamma vann mikið og var iðulega dauðþreytt svo hún vissi ekki hvernig ástandið var. Hún borgaði Elsu fyrir að passa okkur og hafði eflaust ekki hugmynd um hvað Elsu tókst að gera líf okkar erfitt í skjóli þess valds sem hún hafði yfir okkur sem barnfóstra.

Hálsmenið sem hvarf

Ég fékk fallegt hálsmen í fermingargjöf. Einn daginn hvarf það og ég var miður mín. Nokkrum dögum seinna sagði Elsa við mig að hún hefði séð Möggu systur læðupokast með hálsmenið. Ég varð tortryggin en hún fékk mig þó til að leita í skápum og skúffum Möggu sem var ekki heima. Elsa var óvenjuhjálpleg og viti menn, hún fann hálsmenið mitt í einni skúffunni.

„Ég varð tortryggin en hún fékk mig þó til að leita í skápum og skúffum Möggu sem var ekki heima.“

Magga sagðist ekki hafa snert hálsmenið, henni fannst mjög undarlegt að það hefði fundist hjá henni. Elsa klagaði í mömmu og Möggu var gert að halda sig inni í herbergi sínu allt kvöldið. Það var slæm refsing á þessum árum að fá ekki að horfa á sjónvarpið.

Ég hafði sjálf verið þjófkennd af Elsu, alveg saklaus, og það rifjaðist upp fyrir mér þetta kvöld þegar ég sá hvað hún var glaðhlakkaleg. Ég laumaðist inn til Möggu og spurði hana hvort það gæti verið að Elsa hefði sjálf tekið hálsmenið og falið það til að koma sökinni á Möggu. Það fannst henni líklegt og ég treysti Möggu betur en Elsu.

Eftir þetta höfðum við yngri systkinin alltaf varann á okkur gagnvart Elsu. Hún reyndi annað slagið að segja eitthvað eða gera til að koma upp á milli okkar en það tókst sjaldnast hjá henni. Það var helst mamma sem trúði lygum hennar.

Elsa flutti að heiman í kringum tvítugt og giftist fyrsta eiginmanni sínum. Hjónabandið entist í nokkur ár en þegar hún skildi átti hún þrjú lítil börn. Við Magga pössuðum oft fyrir hana og þótti vænt um börnin hennar.

Ósvífinn þjófnaður

Mamma missti heilsuna á miðjum aldri, eða í kringum sextugt, og lést fáum árum seinna. Við Magga sáum að mestu um undirbúning útfararinnar og erfidrykkjuna en enga hjálp var að fá frá Elsu sem hafði aldrei tíma … Bróðir okkar bjó í útlöndum og þegar hann kom til landsins aðstoðaði hann á allan hátt.

Áður en hann flaug heim fórum við yngri systkinin yfir reytur mömmu en Elsa mætti ekki þótt við hefðum öll ætlað að hittast.

Mamma hafði alltaf sagt að hún ætlaði sjálf að borga eigin útför. Hún hafði átt miklu meira fé en við vissum af, og hefði getað greitt fyrir tíu útfarir af dýrara taginu en bankabókin hennar hafði verið tæmd skömmu fyrir dauða hennar. Við komumst að því að Elsa hafði tekið peningana út með umboði frá mömmu en undirskriftin var þó ekki mömmu.

Þegar við gengum á Elsu reiddist hún og sagði að mamma hefði gefið sér peningana, hún hefði meiri þörf fyrir þá en við. Auðvitað vissum við að Elsa hefði stolið þessum peningum en þrátt fyrir slæma reynslu okkar af henni kom okkur á óvart að hún skyldi leggjast svona lágt. Ef þetta er ekki siðblinda veit ég ekki hvað siðblinda er.

Við kærðum Elsu, annað var ekki hægt. Ekki af því að okkur langaði svona í peningana, heldur til að kenna henni í eitt skipti fyrir öll að hún kæmist ekki upp með allt. Því miður töpuðum við málinu. Ekki var hægt að sanna að undirskriftin væri fölsuð eða afsanna að mamma hefði gefið Elsu peningana.

„Ekki var hægt að sanna að undirskriftin væri fölsuð eða afsanna að mamma hefði gefið Elsu peningana.“

Við seldum litlu íbúðina hennar mömmu og andvirðinu var skipt í fernt eftir að skattmann hafði tekið sitt. Elsa fékk sinn hlut og fannst það alveg réttlátt. Hún uppskar algjöra fyrirlitningu okkar systkinanna. Það urðu engin formleg og tilfinningaþrungin sambandsslit, við bara hættum öll að tala við hana.

Óvænt heimsókn

Rúm tuttugu ár liðu. Ég fékk alltaf annað slagið fréttir af Elsu í gegnum börnin hennar sem ég held góðu sambandi við. Hún giftist tvisvar í viðbót og skildi jafnoft. Hún drakk mikið og það tók hana sorglega skamman tíma að sóa öllum arfinum og peningunum illa fengnu, og fékk góða hjálp við það frá ræflunum sem hún laðaði að sér.

Börn Elsu fluttu snemma að heiman. Eitt þeirra var ekki nema fimmtán ára. Þau hafa öll spjarað sig vel þrátt fyrir erfiðan uppvöxt. Öll búa þau á landsbyggðinni og hafa skapað sér gott líf þar.

Einn fallegan sumardag var ég við garðvinnu heima þegar ókunnug kona vatt sér inn í garð. Ég stóð upp og bauð góðan dag en svo sá ég að þetta var Elsa og stirðnaði. Hún var skælbrosandi, lét sem ekkert væri og sagði að það væri svo langt síðan hún hefði séð mig. Ég var orðlaus af undrun. Mér tókst þó að stynja upp: „Viltu ekki kaffi?“ og hún þáði það.

Elsa masaði endalaust í eldhúsinu og óð úr einu í annað. Hún var gengin í sértrúarsöfnuð og vildi endilega fá mig til að koma með sér á samkomu. Ónei, hugsaði ég en leyfði henni að tala. Hún var óstöðvandi. Henni tókst einhvern veginn að ná að rakka niður útlit mitt, fína eldhúsið og atvinnu mína, allt á innan við mínútu. Ég uppgötvaði að stórasystir var orðin að óbærilega leiðinlegri kerlingu. „Voðalega ertu mjó, ertu með anorexíu? Ekki? En væri samt ekki ráð að leita læknis, þetta er ekki eðlilegt.“ Og yfir í annað: „Ég man eftir þegar ég var með svipaða eldhúsinnréttingu, mér fannst hún svo ljót að ég skipti.“ Eflaust fyrir peningana sem þú stalst frá mömmu, hugsaði ég. Enn malaði hún: „Hvað segirðu, ertu að vinna þarna, en ömurlegt, aldrei myndi ég nenna að vinna á skrifstofu.“ Svona lét hún dæluna ganga og ég var næstum fallin í öngvit af leiðindum.

Hvítar lygar

Þegar maðurinn minn kom heim uppveðraðist hún enn frekar og byrjaði að flissa eins og smástelpa. Áður en hún segði eitthvað andstyggilegt við hann um mig, eins og henni var trúandi til, flýtti ég mér að segja að við hjónin værum að fara út, sem var hvít lygi, og þyrftum að drífa okkur.

Ég bað Elsu um að hringja á undan sér ef hún ætlaði að koma aftur í heimsókn. „Ha! Ertu ekki að grínast, ég droppa í heimsóknir þegar ég vil,“ sagði hún svolítið móðguð. „Mér er alveg sama um drasl,“ bætti hún við og leit á eldhúsbekkinn þar sem mátti sjá áhöld og fleira tengt garðvinnunni. Annað „drasl“ var ekki að sjá. Ég var mjög ákveðin þegar ég sagði henni að MÉR fyndist betra ef hún og aðrir gestir gerðu það.

Elsa heimsækir mig reyndar ekki oft, kannski tvisvar, þrisvar á ári og myndi gera það oftar ef ég leyfði henni það. Nokkrum sinnum hef ég þurft að láta eins og ég væri ekki heima, þegar hún kemur án þess að gera boð á undan sér en þeim skiptum fer fækkandi.

Ástæðan fyrir því að ég leyfi henni að koma er sú að ég hef nokkra samúð með henni. Hún er öryrki, missti heilsuna vegna lífernisins og er búin að brenna allar brýr að baki sér. Hún hefur komið sér alls staðar úr húsi nema í söfnuðinum, enda munar eflaust um tíundina af bótunum hennar. Henni tókst ekki að endurnýja sambandið við hin systkini mín, þau geta ekki hugsað sér að umgangast hana.

Meira að segja börn Elsu forðast hana. Þau treysta sér ekki einu sinni til að halda jól með henni, hún er svo leiðinleg að hún eyðileggur alla stemningu, segja þau. Það létti mikið á þeim þegar hún gekk í söfnuðinn því hún ver miklum tíma með fólkinu þar. Það er líka léttir fyrir mig, ég myndi ekki vilja vita af henni einni yfir jól og myndi jafnvel gera eigin fjölskyldu brjálaða í einhverri andartaksfljótfærni með því að bjóða henni í jólamatinn.

Áhugaverð og umhugsunarverð nálgun á hönnun

Hollenski vöruhönnuðurinn Christien Meindertsma hefur unnið fjölda áhugaverðra verkefna frá útskrift sinni frá Design Academy Eindhoven árið 2003. Rannsóknir hafa skipað mikilsvert hlutverk í hennar starfi og hefur hún meðal annars lagt upp úr því að kanna líf vara og óunninna eða hrárra efna.

 

Í sumum tilfellum er lokaútkoma verkefnanna ferlið sjálft, meðan í öðrum verða til hefðbundnari framleiðsluvörur. Rík áhersla er á að varpa ljósi á þau ferli sem hafa orðið okkur fjarlæg í kjölfar iðnbyltingarinnar og dýpka skilning á þeim efnum og vörum sem eru allt í kringum okkur.

Verkefnin hennar eru óneitanlega út fyrir það sem flestir hugsa að vöruhönnuður geri og vekja mann til umhugsunar, bæði um eigið líf og heiminn okkar. Verk Christien Meindertsma eru til sýnis í MOMA-safninu í New York, The Victoria & Albert Museum í London og Vitra Design Museum í Weil am Rein. Hún hefur einnig unnið til fjölda verðlauna fyrir störf sín, Dutch Design Award, Index Award og Future Award.

PIG 05049

Í þessu verkefni kannaði Christien tengsl milli hrárra og óunninna efna og þeirra hversdagslegu hluta sem við notumst við í daglegu lífi. Rannsóknin leiddi í ljós einskonar net milli uppsprettunnar eða hráa efnisins og neytandans en þessi tenging hefur orðið sífellt ósýnilegri í nútímasamfélagi.

Bókin PIG 05049 gefur yfirsýn yfir allar þær vörur og afurðir sem svínið er notað í.
Bókin hlaut Hollensku hönnunarverðlaunin árið 2008 og Index-verðlaunin árið 2009.

Undir lok verkefnisins PIG 05049 árið 2007 setti hönnuðurinn saman afar áhugaverða bók, þar sem talinn er upp hver einasti hlutur framleiddur úr svínum eða einhverskonar svínaafurðum. Lesendur fá yfirgripsmikla sýn yfir hversu víða ein afurð  eða hráefni dreifist og í hve marga hversdagslega hluti þær eru notaðar.

Bókin hlaut Hollensku hönnunarverðlaunin árið 2008 og Index-verðlaunin árið 2009.

Flax Project

Verkefnið hófst árið 2008, stendur enn yfir og hefur leitt af sér marga anga og áhugaverð hliðarverkefni. Eitt þeirra fól í sér að hönnuðurinn tók þá ákvörðun að fjárfesta í heilli uppskeru af hör af hollenskum bónda, heilum 10.000 kg.

Christien Meindertsma tók þá ákvörðun að fjárfesta í heilli uppskeru af hör af hollenskum bónda, heilum 10.000 kg.

Hör er enn ræktaður víða um Evrópu þar sem loftslagið er rakt og hlýtt, en 90% af evrópsku uppskerunni er seld til Kína þar sem ofið er efni úr hör. Christien vildi kanna hvort mögulegt væri að nýta efnið á staðbundnari hátt en gert er í dag og skapa heildstæða vörulínu úr uppskerunni.

Stóll unninn úr hör og vistvænu plasti.

Í upphafi hófst hún handa við að spinna fíngert garn úr hör, sem hún nýtti svo til framleiðslu á viskustykkjum, dúkum og servíettum. Síðar vann hún annað verkefni úr uppskerunni en það var stóll úr hör og PLA, sem er vistvænt niðurbrjótanlegt plast. Stólinn er einstaklega sterkbyggður en hann er úr löngum hörtrefjum sem búið er að þæfa og síðar pressaðar inn í bráðið plastið til að móta stólinn.

Áhugaverð nálgun Christien Meintertsma á hönnun er umhugsunarverð og gefur mögulega innsýn í hvað hönnuðir framtíðarinnar munu koma til með að fást við.

Verkefnið Arita var hannað með það í huga að upphefja sögu og kunnáttu postulínsgerðarfólks á Arita-svæðinu í Japan.

Myndir / Frá framleiðendum

Við getum stjórnað draumum okkar

Okkur dreymir öll en munum ekki endilega draumana. Við getum þjálfað okkur til að muna og einnig hafa áhrif á draumana. Það er hægt að breyta þeim og það kemur fram hér í frásögnum þriggja íslenskra kvenna sem tókst að breyta endurteknum draumum sínum.

 

Ekki er mjög langt síðan farið var að rannsaka drauma á vísindalegan hátt en vísindamenn eru þó ekki allir sammála um af hverju fólk dreymir.

Samkvæmt vísindum er ekkert yfirnáttúrulegt við drauma. Þeir eru starfsemi hugans í svefni, á sama hátt og hugsanir okkar eru starfsemi hugans í vöku, segir á Vísindavefnum. Þar segir einnig að ein hugmynd sé að draumar séu hreinlega afleiðing af þeirri miklu heilavirkni sem á sér stað í svefni. Í REM-svefni sé heilavirkni mikil og draumar sömuleiðis algengir. Ein kenningin sé að í REM-svefni styrkist nýjar minningar og tengist við eldri. Þess vegna skýrist algengi drauma á þessu svefnstigi ef til vill einfaldlega af því að verið sé að „taka til“ í heilanum. Draumar verði því til vegna starfsemi heilans í svefni.

Skírdreymi

Stigið sem kallast lucid-dreaming, eða skírdreymi á íslensku, er þegar við erum meðvituð um að okkur sé að dreyma, ekki ósvipað því að vera á milli svefns og vöku. Draumar á skírdreymisstiginu hafa áhrif á líkamann og ljúfur draumur gæti því dregið úr kvíða og streitu. Á þessu stigi svefnsins gætum við einnig fengið ýmiss konar hugljómun.

Fólk sem fær oft martraðir ætti að geta þjálfað sig til að stöðva drauminn og vakna strax. Eða, eins og kemur fram í einni reynslusögunni hér, breyta martröðinni meðvitað.

En til að breyta draumum sínum þarf að muna þá og ráð til þess er að endurtaka nokkrum sinnum hvert kvöld fyrir svefninn: „Ég ætla að muna það sem mig dreymir.“

Þegar þú finnur að þetta ber árangur geturðu farið að stjórnast í draumunum. Ef þú þarft að leysa vandamál skaltu hugsa um það fyrir svefninn og láta það vera þína síðustu hugsun áður en þú fellur í svefn. Ef vandamálið tengist manneskju skaltu hugsa um hana. Gott er líka að æfa í huganum sérstaka senu yfir daginn til að hún birtist í draumum þínum, eins og samtal eða aðstæður. Á meðan þú sefur reynir undirmeðvitundin nefnilega að leysa málið.

Ef þú ert myndlistamaður sem hefur misst andagiftina sjáðu fyrir þér auðan striga áður en þú festir svefn. Rithöfundur með ritstíflu gæti fundið nýjan flöt á söguþræði eða komist áfram með bókina með því að láta sig dreyma um það … og svo framvegis. Það eru engar takmarkanir nema eigið ímyndunarafl.

Haltu endilega draumadagbók. Áður en þú opnar augun skaltu rifja drauminn vel upp til að þú gleymir engu og skrifaðu drauminn niður. Smám saman finnurðu tengingu á milli draumanna og getur farið að lesa í merkinguna.

Laus við martraðirnar

„Í vöku er ég ekkert sérlega lofthrædd en hins vegar snerust allar martraðir mínar árum saman um einhverjar hremmingar sem ég lenti í þegar ég var að klifra óvarin utan á alls kyns húsum við óöruggar aðstæður. Ef ég var undir álagi sóttu þessar martraðir frekar á mig. Þegar ég gekk í gegnum erfitt tímabil í lífinu, skilnað og sársaukafullan missi kvað sérlega rammt að þessum ósköpum og ég var farin að kvíða því að fara að sofa. Draumarnir voru hræðilega skýrir, þótt ég vissi hálfpartinn af því að mig væri að dreyma. Ég byrjaði að klifra upp stillansa, eða jafnvel upp eftir veggjum með því að halda mér í syllur og ójöfnur, og ég er alls ekki íþróttamanneskja og dytti ekki í hug að taka upp á svona löguðu í vöku. Mig dreymdi aldrei nákvæmlega að einhver væri að elta mig en það hlýtur samt að hafa verið svo því ég varð að gera þetta. Stundum fór ég utan á svölum í mikilli hæð á háhýsum og þá lárétta leið en oftar var ég að klífa upp byggingar og það var hátíð ef ég hafði stillansa til að halda mér í. En jafnvel þá var ég skíthrædd og sá hræðilega raunverulegt landið fyrir neðan mig. Oftast voru það steypt bílaplön og eitthvað sem var sjálfgefið að myndi drepa mig ef ég dytti.

Fjölbreytnin í þessum draumum eða martröðum var óendanleg og hræðslan var þannig að ég hrökk stundum upp með andfælum en gat samt ekki losað mig út úr draumnum og þurfti að halda áfram að sofa og glíma við þessa erfiðu áskorun.

„Ef ég var undir álagi sóttu þessar martraðir frekar á mig.“

Mikil tilviljun olli því að mér tókst að rjúfa þennan vítahring. Ég var í langri lestarferð í Mið-Evrópu og það var farið að líða á kvöldið. Þessi lest var með klefum, ekki þó svefnklefum, og með mér í klefa var kona nokkuð eldri en ég, frá Bandaríkjunum. Hún var, eins og margir Kanar, mjög skrafhreifin, og búin að segja mér hálfa ævisöguna, frá skilnuðum tveimur, hvað táningsdóttir hennar hataði hana og hvað hún væri rosalega flinkur sálfræðingur. Ég kemst yfirleitt í vörn þegar ég sit með svona opinskáu fólki en þegar leið nærri miðnætti stakk hún upp á að við legðum okkur á þokkalega þægilegum sætum í þessum klefa, þrjú sæti hvor.

Af einhverri rælni fór ég að segja henni að ég væri stundum hálfkvíðin að fara að sofa þegar ég væri mjög þreytt og undir álagi, eins og í þessari ferð, vegna þessara martraða sem sæktu á mig. Hún bað mig að segja sér mjög nákvæmlega frá draumunum og ég sá ekkert því til fyrirstöðu. Hún hlustaði af athygli og greip ekkert fram í, eins og ég hefði búist við, og þegar ég lauk frásögninni fann ég að ég var orðin talsvert miður mín. Hún greip um báðar hendurnar á mér, nokkuð sem mér fannst fullmikil nánd, hallaði sér fram og horfði í augun á mér. „Viltu losna við þetta?“ spurði hún. „Já, auðvitað,“ svaraði ég, svolítið snúðugt. „Hlustaðu þá,“ sagði hún með mjög sefandi röddu. „Það sem þú þarf að gera er að „fara inn í drauminn“ og fara eins nákvæmlega gegnum dæmigert ferli, þangað til þú kemur að þeim hluta þar sem þú ert hræddust. Þá skaltu fara aftur út úr draumnum og hugsa þér hvernig þú getur leyst þetta af hendi þannig að þú sért ekkert hrædd og komir út úr draumnum sem sigurvegari. Lausnin þarf að vera sennileg en alls ekki sönn.

Þú verður sjálf að finna út úr því hvað hentar þér best, en það gæti til dæmis verið að þú minntir sjálfa þig á að þú hefðir fengið sérstaka þjálfun í klifri og værir meistari í því, værir með hanska sem væru alveg öruggir við þessar aðstæður, eða að þegar þú horfðir niður þá áttaðir þú þig á því að þú værir ekki svona hátt uppi eins og þú hélst, heldur bara tæpan metra frá jörðu. Farðu aftur og aftur í gegnum þessa atburðarás eftir að þú ert búin að snúa henni þér í hag, svo þú gleymir henni örugglega ekki. Þá mun þessi draumur vera auðveldur þegar hann sækir næst á þig og smátt og smátt, líklega fljótlega, hættir þig að dreyma þetta.

Ég hugsaði með mér að það sakaði ekkert að láta reyna á þetta og fór að upphugsa hvernig mín saga yrði. Merkilegt nokk þá hentaði mér best að telja sjálfri mér trú um að ég væri haldin ofurkrafti sem gerði svona ferðalög utan á húsum að skemmtun í staðinn fyrir ógnina sem hafði fram til þessa steðjað að mér. Því oftar sem ég fór í gegnum atburðarásina, þeim mun sennilegri fannst mér hún og ég var búin að máta þetta „trikk“ við næstum allar aðstæður sem ég mundi eftir að höfðu komið upp í draumunum vondu.

Á hóteli mínu í áfangastað, eftir þungan dag í vinnutengdum verkefnum, lagðist ég til svefns. Ég gætti þess vel að fara yfir „söguna“ mína áður en ég fór að sofa, og eins og við var að búast fór draumurinn af stað einhvern tíma undir morgun. Og ég vissi hálft í hvoru að mig var að dreyma en nú leysti ég með miklu stolti hverja klifurþrautina af annarri og vaknaði bara nokkuð ánægð með sjálfa mig og mjög meðvituð um að nú hefði ég notað þessa ótrúlegu tækni, sem mér fannst hálffjarstæðukennd þegar ég heyrði þessa konu segja mér af henni, en virkaði í fyrstu tilraun. Ég ætla ekki að líkja líðan minni daginn eftir við það sem hún hefði verið, hefði ég vaknað af martröðinni eftir ítrekaðar tilraunir eins og svo oft áður fyrr. Ég segi ekki að ég hafi hlakkað til að detta í þennan draum aftur, enda fór svo að hann yfirgaf mig eftir dálítinn tíma. En vanlíðanin var horfin. Vitneskjan um að ég þekki aðferð til að losa mig úr þessum aðstæðum hefur styrkt mig og gert líf mitt auðveldara á álagstímum.“

Tókst að stöðva sjóganginn

„Ég þjáðist af sjóveiki sem barn og kveið því mikið að þurfa stundum að taka Akraborgina. Þessi kvíði elti mig inn í drauma mína og iðulega dreymdi mig að ég væri um borð í ferjunni í miklum sjógangi með tilheyrandi veltingi og vanlíðan. Eina nóttina sem oftar dreymdi mig þennan draum nema þá virtist ég gera mér grein fyrir að mig væri að dreyma því ég sagði upphátt í draumnum: „Æ, nei, ekki þessi draumur aftur.“ Við þetta kyrrðist sjórinn og veltingurinn hætti. Mig dreymdi þennan draum aldrei aftur. Ekki hefði mig grunað áður en þetta gerðist að hægt væri að hafa áhrif á drauma sína.“

Óskýrar óskir

„Skömmu eftir útför föður míns dreymdi mig hann. Við töluðum ekki mikið saman en það var svo mikill hamingjuhljómur í rödd hans að ég vaknaði mun glaðari og sáttari. Mig hefur ekki dreymt hann síðan. Þegar uppáhaldssystir mín lést, tæpum tuttugu árum síðar, átti ég von á að mig dreymdi hana fljótlega sem gerðist þó ekki. Rúmu ári eftir að hún dó ákvað ég með sjálfri mér þegar ég lagðist í rúmið að það væri löngu tímabært að mig dreymdi hana. Um nóttina fannst mér einhver segja að mig dreymdi hana oft, ég bara myndi ekki eftir því.

„Rúmu ári eftir að hún dó ákvað ég með sjálfri mér þegar ég lagðist í rúmið að það væri löngu tímabært að mig dreymdi hana.“

Ég vildi muna og nokkrum kvöldum seinna sofnaði ég með þann ásetning og í þeim draumi sá ég systur mína úr fjarlægð. Næsta kvöld hugsaði ég sterkt um að mig langaði að heyra í henni. Þá um nóttina dreymdi mig að ég heyrði rödd hennar en röddin barst frá ókunnri konu. Meiri stælarnir í undirmeðvitundinni, hugsaði ég. Ég gafst upp í bili en fannst þó magnað að getað stjórnað draumum mínum á þennan hátt. Næst þegar ég geri þessa tilraun ætla ég að forma hugsanir mínar betur, hafa óskir mínar skýrari. Nú veit ég að ég get haft áhrif á það hvað mig dreymir og mér finnst það frábær uppgötvun.“

Geggjað karamellukornfleksnammi með lakkrísbitum

||
|Sara er snillingur í eldhúsinu. |

Sara Pálsdóttir er, þrátt fyrir ungan aldur, þaulvanur bakarameistari. Þeir sem fylgjast með móður hennar, Hrefnu Dan, á samfélagsmiðlum hafa eflaust flestir orðið varir við hverja veisluna af annarri sem Sara vílar ekki fyrir sér að reiða fram fyrir heppna fjölskyldumeðlimi.

Vikan fékk Söru til að deila með lesendum einni af sinni uppáhaldsuppskrift sem hún fékk frá grgs.is. Geggjað karamellukornfleksnammi með lakkrísbitum sem erfitt er að standast.

Sara er snillingur í eldhúsinu. Karamellukornfleksnammi með lakkrísbitum er í uppáhaldi hjá henni.

300 g Dumle-karamellur
130 g smjör
200 g fylltar lakkrísreimar
90 g kornfleks, mulið

Bræðið karamellurnar og smjör saman í potti. Bætið fyllta lakkrísnum og kornfleksinu saman við og blandið vel saman. Setjið í form hulið með smjörpappír og geymið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

400 g rjómasúkkulaði
60 g smjör

Bræðið súkkulaðið og smjörið saman yfir vatnsbaði. Þegar það er tilbúið, hellið því yfir yfir kornflexnammið. Setjið aftur inn í frysti í u.þ.b. 30 mín. Takið út og skerið í góða munnbita.

Nammi sem erfitt er að standast.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Rómantískur draumur sem varð að veruleika

Einn góðan sumardag héldu blaðamaður og ljósmyndari í sveitaleiðangur með það að markmiði að upplifa íslenskan mat beint frá bónda og fræðast í leiðinni um smáframleiðslu bænda og hugsjónir fólks sem stendur í slíku. Við vorum á leið í Friðheima í Reykholti þar sem hjónin Knútur Hrafn Ármann og Helena Hermundardóttir tóku á móti okkur en þau eiga og reka staðinn.

 

Knútur og Helena rækta tómata, reka veitingahús ásamt matar-minjagripabúð og stunda að auki hrossarækt. Þau eru með um 40 vinnumenn allt árið og en fleiri starfa hjá þeim yfir sumartímann en búskapurinn hefur ekki alltaf verið svona yfirgripsmikill.

Þau byrjuðu bara tvö árið 1996 þá bæði nýútskrifuð úr skóla og uppfull af hugmyndum og áhuga á garðyrkju og hrossahrækt. Það sem átti að vera lítil aukabúgrein hjá þeim varð sú stærsta og aldrei hefði þau órað fyrir því árið sem þau byrjuðu að þau ættu eftir að taka á móti 160 þúsund gestum yfir árið í 100 km fjarlægð frá höfuðborginni.

„Ferðafólk sem kemur hingað getur ekki ímyndað sér hvernig við förum að því að rækta grænmeti allt árið um kring á Íslandi,“ segir Knútur.

Knútur sagði okkur sögu þeirra hjóna, fallega rómantíska drauminn um að flytja upp í sveit sem varð svo að veruleika.

„En hér hafði enginn búið í 4-5 ár og var staðurinn í mikilli niðurníðslu þegar við keyptum hann.“

„Við erum bæði úr Reykjavík og kynntumst 17 ára gömul. Okkur langaði til að geta ræktað grænmeti og geta verið með hesta líka og áttum þann draum um að flytja upp í sveit. Það var einhver sveitarómantík í okkur og við stefndum að þessu mjög ung. Helena hafði mikinn áhuga á garðyrkju og ég hafði verið í sveit frá því ég var polli. Helena fór svo í garðyrkjuskólann og ég í búfræðinám. Síðan ári eftir að við útskrifuðumst árið 1995 fórum við að líta í kringum okkur og fundum þennan yndislega stað Friðheima til að byrja okkar búskap sem er í grunninn gömul garðyrkjustöð sem stofnuð var árið 1946 og var eitt sinn myndarlegt garðyrkjubú. En hér hafði enginn búið í 4-5 ár og var staðurinn í mikilli niðurníðslu þegar við keyptum hann,“ segir Knútur.

Að sögn Knúts voru þau heppin að ná þessum stað því hann var fyrst og fremst ódýr og þau nýútskrifuð úr námi og því hentaði hann vel til að byrja búskap. Þau ætluðu að byggja staðinn upp í rólegheitum og leggja áherslu á garðyrkjuna.

Þau byrjuðu að rækta gúrkur, tómata og paprikur en fóru fljótlega að leggja áherslu á tómatana. Í dag rækta þau þrjár tegundir af tómötum og framleiða eitt tonn á dag að meðaltali allan ársins hring og eru næststærst á Íslandi í tómataræktun. Neytendur geta oftast keypt tómatana þeirra sama dag og þeir eru tíndir af plöntunum og eru þeir merktir Friðheimum.

Gengur út á matarupplifun

Hugmyndin að veitingastaðnum fengu þau fyrir um 10 árum og átti að vera hliðarbúgrein hjá þeim hjónum. „Við höfum verið með hesta frá upphafi en fengum svo hugmynd fyrir um 10 árum síðan að opna hér veitingasölu og bjóða gestum til okkar. Fólk fengi að komast í návígi við íslenska hestinn, kíkja inn í gróðurhúsin og borða. Við vildum líka sýna gestum hvernig Íslendingar fara að því að rækta grænmeti allt árið. Ferðafólk sem kemur hingað getur ekki ímyndað sér hvernig við förum að því að rækta grænmeti allt árið um kring á Íslandi,“ segir Knútur.

„Við vildum líka sýna gestum hvernig Íslendingar fara að því að rækta grænmeti allt árið.“

Allir gestir fá stutta kynningu á tómataræktuninni hvort sem þeir koma í hóp eða ekki. Starfsfólkið er þjálfað til að geta kynnt starfsemina vel.

Tómatar leika aðalhlutverkið á matseðli Friðheima.

Allur matseðilinn er unninn út frá tómataplöntunum sem fólkið situr við hliðina á þegar það borðar. Boðið er upp á tómatsúpu, pasta og pestó, tortillur, bláskel, ís, bökur og ostakökur þar sem tómatar leika að sjálfsögðu aðalhlutverkið.

Basilíkuplanta er á hverju borði og gestirnir geta tekið sér af plöntunni eins og þeir vilja til að krydda matinn með. Að sögn þeirra hjóna hafa þau átt farsælt og gott samstarf við meistarakokkinn og vin, Jón K.B. Sigfússon, sem á heiðurinn af flestum uppskriftum Friðheima.

Lengri umfjöllun um Friðheima birtist í 10 tölublaði Gestgjafans 2018.

Myndir / Unnur Magna

 

Danskir skólafélagar gera það gott í hönnun

Skólafélagarnir og jafnaldrarnir Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn stofnuðu saman Norm Arcitechts árið 2008 en báðir útskrifuðust þeir með láði sem arkitektar frá The Royal Academy of Fine Arts nokkrum árum áður.

 

Kasper Rønn lagði sérstaka áherslu á húsgagnahönnun en Jonas Bjerre-Poulsen hafði áður lært listir og heimspeki í Róm, auk þess sem hann hefur lokið háskólaprófi í alþjóðaviðskiptum í Kaupmannahöfn, og getið sér gott orð á sviði ljósmyndunar. Það er því óhætt að segja að saman búi þessi danska tvenna yfir víðtækri þekkingu og reynslu og er það ekki að ástæðulausu sem þeir Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn eru nefndir til sögunnar þegar umræðan um útbreiðslu skandinavískrar hönnunar ber á góma.

Mynd / Norm

Hönnun Jonasar Bjerre-Poulsen og Kaspers Rønn er fyrst og fremst mínimalísk, tímalaus og hagnýt en skandinavískur módernismi er mjög einkennandi í öllum þeirra verkum. Í hugum Jonasar Bjerre-Poulsen og Kaspers Rønn snýst hönnun ekki um að búa til nýja þörf hjá neytendum heldur uppfylla raunverulegar þarfir sem þegar eru til staðar.

Mynd / Norm

Norm Arcitechts hafa hlotið mikið lof fyrir hönnun sína en stór hönnunarfyrirtæki í Skandinavíu hafa vakið mikla athygli fyrir vörur sínar hannaðar af Norm Arcitechts. Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn eiga meðal annars heiðurinn af Milk Lamp fyrir &Tradition auk Offset Sofa og Harbour Chair fyrir MENU. Þá virðast einfaldlega öll þau rými sem félagarnir vinna að verða að sannkölluðu augnakonfekti.

Mynd / Norm

Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn eru snillingar í að taka það sem fyrir er flókið og strípa það niður í mínimalískt, þar sem fagurfræði og notagildi ráða ávallt ríkjum. Þeir bera virðingu fyrir hönnun fyrri alda og reyna eftir fremsta megni að nýta sér hana í nýjar útfærslur og nútímavæðingu. Hvort sem verkefnin snúa að sýningarrýmum, vöruhönnun, arkitektúr eða iðnhönnun gætir djúpstæðs skilnings á náttúrulegum efnum og smáatriðum sem setja punktinn yfir i-ið.

Mynd / Norm

Texti / Katrín Andrésdóttir

Einar Vilberg sendir frá sér tvær smáskífur

Tónlistarmanninn Einar Vilberg þekkja margir úr rokkhljómsveitinni Noise en Einar hefur verið starfandi tónlistarmaður frá 16 ára aldri.

Einar stofnaði hljómsveitina Noise árið 2001 með bróður sínum Stefáni Vilberg og hefur bandið gefið út fjórar breiðskífur og farið í fjölda tónleikaferða um heiminn.

Einnig starfrækir Einar Vilberg eitt glæsilegasta stúdíó landsins, Hljóðverk, þar sem hann hefur annast framleiðslu, upptökur, hljóðblöndun og masteringu fjölda platna með mörgum af þekktustu hljómsveitum landsins.

Einar sendi nýlega frá sér tvær smáskífur af væntanlegri sólóplötu sinni. Lögin „So Long“ og „Sleepless“ gefa hlustendum forsmekk af því sem koma skal á plötunni sem er væntanleg í sumar.

Margar hendur vinna létt verk

Leiðari úr 28. tölublaði Vikunnar

„Hins vegar skil ég ekki af hverju er ekki alla vega hægt að hjálpa því fólki sem er búið að leggja það á sig að koma hingað sjálft,“ segir Jasmina Crnac í forsíðuviðtali Vikunnar að þessu sinni.

Mikið er ég sammála henni. Ég get ekki með nokkru móti séð neina skynsemi í því að vísa héðan manneskjum sem hafa lagt á sig langt og strangt ferðalag til að öðlast öryggi á Íslandi. Fólk sem er tilbúið til að vinna erfið og sóðaleg störf nokkuð sem innfæddir fúlsa við, vill læra íslensku, blandast samfélaginu og sýna þakklæti sitt í verki. Við höfum góða reynslu af að taka við flóttamönnum.

Margir þeirra hafa auðgað samfélagið hvort sem þeir hafa komið frá Ungverjalandi, Víetnam eða öðrum heimshornum. Hér vantar alltaf hendur, frjóa hugi og meira líf. Höfum það hugfast að margar hendur vinna létt verk og því fleiri sem hér borga skatta þess auðveldara verður að halda uppi því velferðarkerfi sem við öll viljum hafa. Það er auður í fjölbreytninni, nýsköpun og verðmæt menningaráhrif.

Allir hafa gott af því að setja sig í spor annarra af og til, opna hjarta sitt og sýna meðlíðan. Flóttamenn og innflytjendur veita okkur gullið tækifæri til þess.

„Hún sýnir líka hvernig mannsandinn getur sigrast á aðstæðum sínum…“

Saga Jasminu Crnac er áhrifamikil og sorgleg. Hún sýnir hversu hræðilega mannfólkið getur farið hvert með annað, sýnir varnarleysi og skelfingu fjölskyldu sem býr við ógnir án þess að hafa nokkuð gert til að eiga slíkt skilið. Hún sýnir líka hvernig mannsandinn getur sigrast á aðstæðum sínum, fundið eitthvað jákvætt og gott þótt ekkert slíkt sé í raun að finna í umhverfinu. Jasmina flúði inn í heim bóka. Ég gerði það líka þegar ég var barn, ekki vegna þess að ég byggi við ógn heldur vegna þess að mér fannst heillandi að kynnast annars konar heimum.

Þegar ég las frásögn hennar langaði mig að rétta út höndina og snerta þessa litlu stelpu sem útbjó frumstætt ljós til að geta lesið á kvöldin og segja henni að svona hefði ég kúrt undir hlýrri sæng með vasaljós. Pabbi og mamma sátu frammi og spjölluðu og allt í kringum mig var kyrrð.

Hún vissi ekki hvort hún fengi að borða daginn eftir, ég var södd og sæl, hún átti ekki föt að klæðast og skó að ganga í, ég átti allt, hún vissi ekki hvort aftur myndi heimur hennar snúast á hvolf en ég var örugg um að eiga mér framtíð. Samt áttum við þetta sameiginlegt, að gleyma okkur í orðum merkra rithöfunda og njóta þess að taka þátt í sorgum og sigrum söguhetjanna.

Nú er þessi unga kona Íslendingur og mikið ofboðslega er ég ánægð með það. Ísland er heldur betur heppið að hafa Jasminu Crnac hér og væri það ekki stórkostlegt ef á næstu dögum opnaði ráðherra arma sína og segði við fjölskyldurnar tvær sem hér bíða milli vonar og ótta: „Velkomin heim.“

Sjá einnig: „Næsta dag voru nágrannarnir horfnir og sáust aldrei meir“

Skotheld partýförðun skref fyrir skref

Ekki alls fyrir löngu fengum við snillingana Söru Dögg Johansen og Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur, sem reka Reykjavík Makeup School, til að sýna okkur sitthvora útfærsluna af spariförðun.

 

Förðun eftir Söru

Módel / Kristín Liv Svabo Jónsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Ég ákvað að gera Halo-förðun sem er ein af mínum uppáhaldsförðunum. Hún er fullkomin fyrir fín tilefni. Hún er mjög einföld og hentar öllum augnumgjörðum.

Ég byrjaði á því að setja ljósbrúnan augnskugga (Birkin frá ABH) og millibrúnan augnskugga (Red Earth frá ABH) í innri og ytri augnkrók en skildi miðjuna á augnlokinu eftir. Í miðjuna setti ég fallegan sanseraðan augnskugga sem er nýr frá NYX professional makeup og heitir Foil play í litnum French Macaron.

Glimmerið setur punktinn yfir i-ið.

„Ég ákvað að gera Halo-förðun sem er ein af mínum uppáhaldsförðunum.“

Fyrir þá sem vilja bæta við glimmeri og gera förðunina örlítið ýktari þá setti ég glimmerið Midnight Cowboy frá Urban Decay í miðjuna á augnlokinu.

Ég notaði brúnan og svartan blýant í augnhárarótina sem eyliner en mér finnst fallegt að nota tvo tóna til að ná fallegri blöndun.

Sara notaði þessi augnhár í förðunina.

Til að ýkja augnhárin notaði ég svo uppáhaldsaugnhárin mín frá Eylure sem heita Duos & Trios en þau henta öllum þar sem þú getur leikið þér með þau hvort sem þú ert að leita eftir þéttleika, lengingu eða jafnvel hvorutveggja.

Á húðina notaði ég Away We Glow-ljómakremið frá NYX professional makeup og svo Giorgio Armani Luminous silk-farðann því hann gefur fallegan ljóma. Í skyggingu og highlight notaði ég Born to glow- pallettuna frá NYX Professional Makeup. Á varirnar notaði ég Angel-varalitinn frá MAC og nýja Shimmer Down-glossið í litnum Pink Pong frá NYX professional makeup.  Ég krullaði svo hárið á módelinu mínu með HH Simonsen Rod 4-keilujárninu og setti svo sufflée-krem yfir krullurnar til að fá þær mýkri.“

Leynitrix Söru:

Fyrir fín tilefni finnst mér mjög mikilvægt að nota gott setting sprey þar sem við viljum að förðunin endist vel og lengi. Uppáhalds setting sprey-ið mitt er Chill frá Urban Decay, en það gefur raka og róar húðina. Fyrir þá sem eru með glimmer á augunum er ótrúlega gott að taka pakkalímband og dúmpa yfir glimmerið þegar við erum að fara að taka förðunina af okkur í lok kvölds. Allt glimmerið festist þá í límbandinu og við getum þá þrifið okkur eins og önnur kvöld án þess að fá glimmer út um allt andlit.

Förðun eftir Sillu

Módel / Ragnheiður Theodorsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Hérna sýni ég smokey-förðun með smávegis glimmeri en smokey-förðun er mín allra mesta uppáhaldsförðun. Mér finnst finnst rosalega skemmtilegt að gera hana í margskonar útfærslum eins og til dæmis að leika mér með liti og áferðir, allt frá möttum augnskuggum yfir í sanseraða.

Að þessu sinni ákvað ég að gera kirsuberjalitað smokey og skreytti með mjög fíngerðu glimmeri. Ég lagði áherslu á augun og húðina og ákvað því að gera frekar látlausar varir við. Ég byrja alltaf á að gera augun fyrst og enda á því að gera húðina.

Naked Cherry-augnskuggapallettuna frá Urban Decay.

Í þessari augnförðun notaðist ég við Naked Cherry-augnskuggapallettuna frá Urban Decay. Ég byrja á að nota ljósan mattan lit sem fyrsta lit sem ég legg í glóbuslínu augnsvæðisins og blanda hann vel út upp á augnbeinið til að fá þessa svo kölluðu reyk eða smokey-áferð. Næst notaði ég tvo sanseraða augnskugga sem voru aðeins dekkri en fyrsti liturinn og setti þá á mitt augnlokið og nota síðan enn dekkri mattan augnskugga sem leiðir frá sanseruðu litunum niður að augnhárarót.

Glitter Goals í litnum Multiverse frá NYX.

Sama aðferð fer svo fram á neðra augnsvæðinu nema þá er gott að forðast að nota sanseraða augnskugga til að missa ekki dýptina í litunum. Ofan á augnlokið setti ég svo ótrúlega fallegt, fljótandi glimmer frá NYX professional makeup sem heitir Glitter goals liquid eyeshadow í lit sem heitir Multiverse. Ég setti svo nóg af rakakremi og ljómakremi undir farðann en ég notaði mjög léttan farða og lagði áherslu á ljóma í húðinni.“

Helstu vörur: Ég notaði Naked Cherry-augnskuggapallettu frá Urban Decay , NYX professional liquid eyeshadow , Creme  Cup-varalit frá MAC og Bobbi Brown highlighter sem heitir Bronze Glow.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Svalandi ferskjuís með saltkaramellusósu

Á góðviðrisdögum er fátt meira næs en að fá sér ís. Það eru yfileitt alltaf langar raðir ísóðra einstaklinga við helstu íbúllur bæjarins. Líka á rigningardögum. Það er í rauninni frekar einfalt að útbúa sinn eigin ís, misflókið eftir tegundum en suma er hægt að gera í blandara á tíu mínútum og skella í frystinn í smástund og fá alveg frábæran ís.

Hér kemur uppskrift að ljúffengum ferskjuís. Svo fylgir uppskrift að geggjaðri saltkaramellusósu með sem fullkomnar ísinn!

Ferskjuís

8 ferskjur
4 msk. sykur
5 eggjarauður
1 egg
1 vanillustöng, fræin skafin úr
250 g sykur
1 l rjómi

Sláið saman eggjum, vanillufræjum, vanillustönginni og sykri yfir vatnsbaði þangað til blandan er orðin létt og ljós og vel heit.

Kælið í kæliskáp með plastfilmu yfir.

Ef þið eruð að flýta ykkur er gott að hella blöndunni í grunnt form, þá tekur kælingin styttri tíma.

Fjarlægið vanillustöngina. Léttþeytið rjómann og blandið ⅓ af honum saman við köldu eggjablönduna og blandið svo restinni mjög varlega út í.

Setjið í ísgerðarvél skv. leiðbeiningum og svo í frysti. Ef þið eigið ekki þannig grip, fullþeytið þá rjómann og gerið eins og frystið. Hrærið svo í ísnum fjórum sinnum á klukkutíma fresti eða þangað til hann er alveg frosinn. Það er gott að frysta ísinn yfir nótt.

Ofnbakaðar ferskjur

Hitið ofninn í 180°C. Skerið ferskjurnar til helminga og fjarlægið steininn.

Raðið á ofnplötu og stráið sykrinum yfir. Bakið ferskjurnar í um 30-35 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar og byrjaðar að dökkna á köntunum.

Kælið og skerið í litla bita. Passið að ná öllum vökvanum með. Blandið svo saman við ísblönduna. Það er líka hægt að nota nektarínur, plómur, epli, jarðarber eða hvað eina í staðinn fyrir ferskjurnar.

Saltkaramellusósa

115 g púðursykur
120 g smjör
1 vanillustöng, fræin skafin úr
1 tsk. sjávarsalt
3 dl rjómi
1 msk. hveiti

Setjið púðursykur, smjör og hveiti í pott og sjóðið saman í 3 mínútur á miðlungshita.

Setjið vanillufræin, vanillustöngina og salt saman við og sjóðið í litla stund. Passið að hræra vel í blöndunni.

Bætið rjómanum við og sjóðið í 2-3 mín. Sósan verður þykkari eftir því sem hún er soðin lengur. Fjarlægið vanillustöngina og setjið blönduna í ílát.

Geymist í 1-2 vikur í kæli. Hitið upp áður en þið berið karamellusósuna fram.

Umsjón / Gunnar Helgi Guðjónsson
Ljósmyndari / Hákon Björnsson
Stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir

Hatari sem heillast af japönskum mínimalisma

Andrean Sigurgeirsson starfar sem dansari hjá Íslenska dansflokknum. Flestir þekkja hann sem dansara hljómsveitarinnar Hatara en einnig hefur hann unnið til fjölda verðlauna fyrir framúrskarandi árangur í dansi. Það er því tilefni til að kynnast þessum hæfileikaríka manni aðeins betur og spyrja hvað sé helst á óskalistanum?

 

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast? Laglegan persneskan kött og kannski alvöru persneskt teppi með því, í fallegri bjartri íbúð sem að væri innblásin af japönskum mínimalisma.

Andrean langar í ekta persneskt teppi og persneskan kött í stíl.

Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? Ég reyni nú til dags að kaupa mér góðar flíkur sem endast vel og er alltaf að heillast meira og meira að slow fashion. Ég er mjög hrifinn af hönnun Older Brother. Ég hef verið að kaupa flíkur sem að eru lífrænar, sjálfbærar og fair trade. Það væri næs að geta fyllt fataskápinn af svoleiðis vörum í bland við flottar vintage/second-hand flíkur til að poppa upp útlitið af og til.

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? Ég hef átt ódýrustu týpuna af stólum frá IKEA í 5 ár og þeir hafa nýst mér fjandi vel. Ég hef ekki verið að skoða stóla neitt sérstaklega en ætli ég myndi ekki vilja helst kaupa þá frá fyrirmyndafyrirtækjum eins og DeVorm, Offect eða Environment eða að reyna finna djásn úr Góða hirðinum.

Er eitthvert ljós eða lampi á óskalistanum þínum?
Ég þrái að fá Vertigo-ljósið frá Petite Friture.

Vertigo-ljósið frá Petite Friture þráir Andrean að fá inn á heimilið.

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? Ég hef verið með Son Doong-helli á heilanum undanfarið. Son Doong er stærsti hellir í heimi og er staðsettur í Víetnam. Hann er 5 kílómetra langur og nær 200 m á hæð og gríðarlega fallegur hellir með eintakt vistkerfi. Það komast aðeins um nokkur hundruð manns í þetta ferðalag á ári vegna strangra laga um varðveitingu á einstöku lífríki þar og náttúru.

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? Mig hefur alltaf langað í ósvikið kínverskt gongbi verk frá Song-tímabilinu en ef ég á aðeins að vera í samtímanum þá að langar mig að fylla húsið af verkum eftir vini mína og ég er svo heppinn að vera í kringum ansi mörg hæfileikabúnt. Ég hef líka lengi verið hrifinn af Henri Michaux.

Ósvikið kínverskt gongbi verk frá Song-tímabilinu er ofarlega á óskalistanum.

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? Uppþvottavél, það er ein vanmetnasta lúxusvara í heimi. Ég hef meira en minna vaskað upp allt mitt líf og þegar maður kynnist þessari töfravöru þá gjörbreytist líf manns, haha!

Stærsta óskin væri? Að ójöfnuður myndi minnka í heiminum og það minnsta að enginn þyrfti að líða hungur. Einnig að fólk taki gróðurhúsaáhrifunum alvarlega, ekki aðeins í orði heldur líka í verki því það varðar okkur öll.

Uppáhaldshönnuður? Þeir eru líka ansi margir en undanfarið, þegar það kemur að fatnaði, þá hef ég verið mjög hrifinn af Older Brother og nýjasta lína Virgil Abloh fyrir Louis Vuitton var sjúk. Þegar það kemur að vöruhönnun þá er Portland hérna heima að gera mjög spennandi hluti en þeir eru að vinna með sjálfbæra hönnun.

Áhrifaríkasta bók sem þú hefur lesið? Sjálfstætt fólk og einnig las ég oft bókina Kötturinn í örbylgjuofninum sem barn, hún hafði mjög skaðleg áhrif á myrkfælni mína.

Fallegasta bygging á Íslandi? Ásmundarsafn.

Ásmundarsafn er fallegasta bygging Íslands að mati Andreans.

Uppáhaldsborg og hvers vegna? Það er mjög erfitt að gera upp á milli allra þeirra borga sem maður hefur komið til. Það er alltaf eitthvað sem að heillar mann upp úr skónum en fyrir mér standa Yogjakarta og Tókýó upp úr. Yogjakarta iðar af lífi enda listaborg Indónesíu og nálægt henni eru sögulegu hofin Borabudur og Prambanan. Tókýó er ýkt, hröð, stórskrýtin, sjúklega skipulögð, módern en varðveitir gamla siði.

Besta kaffihúsið? Reykjavík Roaster í Brautarholti og Kattarkaffihúsið.

Flottasti veitingastaðurinn? Ég er fórnalamb Egg Florentine-réttarins á Coocoo’s Nest og þar er ég flestar helgar í góðum félagsskap að háma í mig, spjalla um yfirborðskennda hluti og súpandi Mimosa. Það er fallegur veitingastaður.

Sér eftir að hafa fengið sér tattúin

Jessica Alba hefur farið í lasermeðferðir í von um að losna við tvö gömul tattú en ekkert gengur.

Leikkonan Jessica Alba sér eftir að hafa fengið sér tvö af þeim nokkru húðflúrum sem prýða líkama hennar. Annað er mynd af slaufu og er staðsett á mjóbakinu og hitt er mynd af blómi, staðsett aftan á hálsi hennar.

Leikkonan hefur reynt að láta fjarlægja húðflúrin með lasermeðferð en án árangurs.

„Ég er með nokkur tattú, ég sé eftir að hafa fengið mér eitt þeirra, kannski tvö…,“ sagði leikkonan í viðtali við Refinery29.

Þetta eru tattúin sem Alba sér eftir að hafa fengið sér.

„Ég fékk mér blómatattúið þegar ég var um 17 ára gömul og ég er svo pirruð yfir að hafa fengið mér það. Ég hef margoft farið í laser er það fer ekki.“

Alba er þó greinilega hvergi nærri hætt að fá sér tattú því nýverið lét hún húðflúra stjörnumerki barna sinna þriggja á vinstri handlegg. Hún segir þau húðflúr vera í miklu uppáhaldi hjá sér.

Sjá einnig: Vilja losna við kínversk tákn og nöfn fyrrverandi

Segja frá ofbeldi Harvey Weinstein í nýrri heimildarmynd

Skjáskot úr Untouchable.

Í nýrri heimildarmynd frá Hulu er fjallað um kynferðisofbeldi, áreitni og hótanir kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.

 

Untouchable, ný heimildarmynd frá Hulu um ásakanirnar á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein, kemur út 2. september. 

Í stiklu úr myndinni má sjá fórnarlömb hans og fólk úr kvikmyndabransanum segja ofbeldi Weinstein og hegðun hans.

Meðal þeirra sem segja sögur sínar í myndinni eru leikkonurnar Rosanna Arquette, Caitlin Dulany og Paz de la Huerta.

Meðfylgjandi er stiklan úr Untouchable.

*TW* Trigger Warning/*VV*varúð váhrif

Bandaríska barnið ekki sýkt af E.coli

efstidalur
Mynd / Unnur Magna

Engin tilfelli af E. coli greindust í dag en í morgun voru rannsökuð saursýni frá 15 einstaklingum sem borist hafa undanfarna daga með tilliti til E. coli sýkinga og greindist enginn með sýkinguna. 

Þetta kemur fram á vef Landlæknis.

Þann 19. júlí sl. var greint frá einum einstaklingi sem var grunaður um sýkingu og reyndist hann vera sýktur af E. coli bakteríunni. Hann hafði borðað ís í Efstadal fyrir um þremur vikum og hafði auk þess umgengist sýktan einstakling fyrir 1-2 vikum. Um er að ræða þriggja og hálfs árs gamalt barn sem heilsast vel og verður í eftirliti á Barnaspítala Hringsins.

Bandaríska barnið grunað um E. coli sýkingu og fjallað hefur verið um á undanförnum dögum er hins vegar ekki með E. coli sýkingu samkvæmt rannsóknum í Bandaríkjunum.

Alls hafa því 22 einstaklingar greinst með E. coli sýkingu, þar af tveir fullorðnir og 20 börn. Annar hinna fullorðnu borðaði ís í Efstadal 8. júlí en enginn annar tengist Efstadal eftir 4-5. júlí en þá hófust fyrri aðgerðir sem miðuðu að því að rjúfa smitleiðir. Seinni aðgerðir í Efstadal hófust 18-19. júlí og eftir þann tíma hafa engir einstaklingar greinst.

Rannsóknir í Efstadal hafa enn ekki sýnt með óyggjandi hætti hvernig E. coli sýkillinn barst í einstaklingana sem veiktust. Allir einstaklingarnir áttu það hins vegar sameiginlegt að hafa borðað ís í Efstadal fyrir utan eitt barn sem virðist hafa smitast af systkini.

Sófar í lit á fallegum heimilum

Í gegnum tíðina hafa blaðamenn Húsa og híbýla heimsótt mörg falleg heimili þar sem sófar í lit setja skemmtilegan svip á stofurýmið. Hér koma nokkrar myndir.

 

Svartir og gráir sófar hafa notið vinsælda í undanfarin ár en það er alltaf gaman að sjá þegar fólk þorir að fjárfesta í sófa í skemmtilegum lit í stað þess að fara út í hlutlausari tóna.

Fallegt heimili á Flókagötu. Mynd / Aldís Pálsdóttir.,
Sófi í fallegum bláum lit heima hjá Birgittu Líf. Mynd / Hákon Björnsson
Sófi sem tónar vel við litinn á veggnum. Mynd /Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Hér gerir græni sófinn mikið fyrir rýmið. Mynd / Hákon Davíð
Sófi með skemmtilegu fölbleiku áklæði. Mynd / Hallur Karlsson

 

Hlýlegt og flott. Mynd / Heiðdís Guðbjörg
Fallegir litatónar í þessari stofu. Mynd / Hákon Davíð
Litríkt og skemmtilegt rými. Mynd / Hallur Karlsson

Myndir / Hallur Karlsson

Rússneskur ryðdallur nærri sokkinn í Njarðvíkurhöfn

Rússneski togarinn Orlik

Rússneski togarinn Orlik var nærri sokkinn í Njarðvíkurhöfn í gær. Ástand skipsins er afar bágborið og verður því fargað á næstu dögum.

Togarinn hefur legið bundinn við bryggju frá árinu 2014 og hefur ástand hans farið hríðversnandi. Skipið er að ryðga í sundur og er ryðgat á skrokki hans ástæða þess að það var nærri sokkið.

Samkvæmt vef Víkurfrétta, sem greindi fyrst frá málinu, var það Sigurður Stefánsson kafari sem tók eftir því í gærkvöldi að skipið væri að sökkva. Dælum var komið fyrir um borð í skipinu sem komst á réttan kjöl um 2 leytið í nótt.

Fleiri göt eru tekin að myndast á skrokknum og hefur verið ákveðið að flýta förgun skipsins. Það verður dregið upp í fjöru við Skipasmíðastöð Njarðvíkur á næstu dögum þar sem því verður fargað.

Innheimta ólögmæt lán af fullu afli

Mynd/Pixabay

Neytendasamtökin hafa skorað á innheimtufyrirtækið Almenna innheimtu ehf. að stöðva tafarlaust innheimtu á smálánaskuldum sem þau segja byggja á ólögmætum lánum.

Á vef Neytendasamtakanna segir að fyrir liggi að vextir á smálánum séu margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það séu lántakendur krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum og ekkert virðist fá stöðvað innheimtufyrirtækið sem tekið hefur að sér að innheimta lánin.

Þannig sé fyrirtækinu fyrirmunað að senda lántakendum skýra sundurliðinum á kröfum skipt niður í lánsupphæð, vaxtakostnað og innheimtukostnað, þrátt fyrir fjölda beiðna þess efnis. Fyrirtækið gefi sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar. „Það vekur furðu að fyrirtækið hafi ekki tiltæka sundurliðun á kröfum sem það telur sér þó fært að innheimta. Þá telja Neytendasamtökin í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum. Slíkt geti ekki verið löglegt.“

Þá segjast samtökin hafa undir höndum gögn sem sýni að heildarendurgreiðslur lántakenda séu mun hærri en lög leyfa, jafnvel þótt miðað sé við hæstu löglegu vexti. Þrátt fyrir það haldi fyrirtækið áfram innheimtu sinni og hótunum um skráningu á vanskilaskrá Creditinfo. „Samtökin telja að þar sem eigendum, stjórn og starfsmönnum Almennrar innheimtu megi vera ljóst að kröfutilbúningurinn standist ekki lög, séu jafnvel líkur á að bótaábyrgð hafi skapast, ekki síst í þeim tilfellum þar sem lántakendur hafa verið settir á vanskilaskrá að ósekju.“

Blygðunarlausir apakettir stefna veröldinni í hörmungar

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna

„Ef þú ert nógu mikill rugludallur og helst dóni líka sem skeytir engu um sannleika eða rök, geturðu verið nokkuð viss um að þú eigir góðan sjens á að ná í um það bil 20% fylgi í kosningum, jafnvel meira. Slíkt fylgi er nóg til að hafa veruleg áhrif í vestrænum lýðræðisríkjum.“

Þetta skrifar Guðmundur Steingrímsson í vikulegum pistli í Fréttablaðinu. Máli sínu til stuðnings nefnir Guðmundur sérstaklega Donald Trump sem á undanförnum vikum hefur afhjúpað sig sem grímulausan rasista og dóna. Það sama sé að gerast í Bretlandi og útlit er fyrir að á Íslandi ætli nokkrir að leika þennan leik. „Dónaröfl á Klausturbar skilar árangri. Virðingarleysi fyrir staðreyndum í flóknum deilumálum líka. Í rauninni er þetta mesta nýjungin í stjórnmálakænsku á síðari árum. Vertu bara nógu mikill asni.

Fyrir þessu eru nokkrar ástæður, segir Guðmundur. Í fyrsta lagi eigi þessi hegðun hljómgrunn hjá kjósendum sem eru svo óánægðir með tilveruna að þeir vilja helst kjósa þá sem gera mestan usla. Í öðru lægi virkar asnaskapur í offlæði upplýsinga þar sem sumir kjósendur vilja ekki láta sérfræðinga segja sér fyrir verkum. Í þriðja lagi nefnir Guðmundur það yfirgripsmikla vantraust sem ríkir í garð stjórnmála sem stafar meðal annars af því að stjórnmálamenn ráða í raun engu. Þeir lofa fyrir kosningar en þegar á hólminn er komið kemur í ljós að stjórnmálamenn ráða engu einir og ná þar af leiðandi ekki að uppfylla loforðin.

Fjórða ástæðan, segir Guðmundur, er sú alvarlegasta. Hún er einfaldlega sú að það er til óhemju fjöldi fólks sem trúir rugli. „Jörðin er flöt. Evrópusambandið er samsæri. Litað fólk á að fara „heim til sín“. Gróðurhúsaáhrifin eru ekki til. Ef þú ert þannig innréttaður, eins og Trump og fleiri, geturðu talað til þessa fólks og verið þess maður. Atkvæði er atkvæði.

En hvenrig á að bregaðst við þessu, spyr Guðmundur, því mannkynið megi ekki við svona löguðu. „Blygðunarlausir apakettir mega ekki æða með veröldina í enn einn hörmungarhringinn. Jörðin hitnar. Nú þarf aðgerðir og samstöðu. Ógnir blasa við. Stærsta viðfangsefni nútímastjórnmála — og lífið liggur við — er að finna leið til þess að segja drullusokkum á einhvern hátt sem virkar að grjóthalda kjafti og skammast sín.

Tíndu 977 blautklúta í fjörunni á Seltjarnarnesi

|
|

Starfsmenn Umhverfisstofnunar tíndu 977 blautklúta í fjöruferð fyrir skemmstu. Aldrei hafa fundist eins margir blautklútar í einni ferð.

 

Fyrir skemmstu fóru starfsmenn Umhverfisstofnunar í fjöruferð á Seltjarnarnesi og tíndu rusl vegna vöktunarverkefnis stofnunarinnar.

„Vöktunin felur í sér að tína allt rusl á 100 m kafla, fjórum sinnum á ári. Ruslið er flokkað eftir staðlaðri aðferðafræði og eru gögnin notuð til að fylgjast með þróun á magni og samsetningu rusls á ströndum,“ segir í grein á vef stofnunarinnar.

Vöktunin leiddi í ljós að fjöldi blautklúta sem fer í klósettið hefur aukist. „Alls voru tíndir 977 blautklútar, en það hafa aldrei fundist eins margir blautklútar í einni ferð. Til samanburðar, þá voru alls tíndir 753 blautklútar árið 2017 og 605 árið 2018.“

Í grein Umhverfisstofnunar er fólk minnt á að blautklútar eiga að fara í ruslafötuna en ekki klósettið. „Að gefnu tilefni viljum við ítreka að klósettið er ekki ruslafata.“

Vöktun Umhverfisstofnunar felur í sér að tína allt rusl á 100 m kafla, fjórum sinnum á ári.

Myndir / Af vef Umhverfisstofnunar

Hönnunargullmolar Marcel Breuer: Wassily og B32UF

Wassily og B32UF er hönnun sem stenst tímans tönn.

Wassily-stólinn var hannaður af Marcel Breuer 1925-1926, þá var Breuer einungis 24 ára gamall og á þeim tíma var þetta örugglega talin framúrstefnuleg hönnun en það má segja að Wassily-stóllinn hafi staðist tímans tönn.

Wassily-stólinn.

Þetta var eitt fyrsta húsgagnið sem Marcel Breuer smíðaði úr málmi og hann var hannaður með það í huga að hægt væri að smíða hann úr stálrörum sem voru fáanleg.

Hönnuðurinn fæddist í Ungverjalandi en hann starfaði í Bandaríkjunum og Evrópu og fékk þjálfun hjá Bauhaus en nafnið á stólnum sem upphaflega hét B3 má rekja þangað því þar kenndi málari að nafni Wassily Kandinsky. Þessi stóll sem er úr leðri og málmi er ein þekktasta hönnun Breuer en hann hannaði líka B32-stólinn árið 1928.

B32-stóllinn.

B32-stóllinn er önnur klassísk hönnun Breuer, hann er úr stálrörum og við en bakið og sessan eru úr reyr.

Þessir tveir úr smiðju Breuer sem lést árið 1981 eru eigulegir hönnunargullmolar.

Siðblind stórasystir

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Frá barnæsku hefur eldri systir mín verið afar ómerkileg persóna. Hún blekkti, sveik, og stal og stjórnaði okkur systkinunum með harðri hendi. Á fullorðinsárum komst hún upp með mjög ósvífið athæfi gagnvart okkur.

 

Við erum fjögur systkinin, þrjár systur og einn bróðir. Ekki get ég sagt að samlyndið hafi verið upp á sitt besta lengst af og það kenni ég Elsu, elstu systurinni, alfarið um. Hún virtist njóta þess að etja okkur yngri systkinunum saman og gerði það iðulega á svo lúmskan hátt að við áttuðum okkur ekki á því fyrr en í kringum unglingsárin.

Pabbi hafði látið sig hverfa þegar bróðir minn var ársgamall og stofnað nýja fjölskyldu. Mamma vann mikið og var iðulega dauðþreytt svo hún vissi ekki hvernig ástandið var. Hún borgaði Elsu fyrir að passa okkur og hafði eflaust ekki hugmynd um hvað Elsu tókst að gera líf okkar erfitt í skjóli þess valds sem hún hafði yfir okkur sem barnfóstra.

Hálsmenið sem hvarf

Ég fékk fallegt hálsmen í fermingargjöf. Einn daginn hvarf það og ég var miður mín. Nokkrum dögum seinna sagði Elsa við mig að hún hefði séð Möggu systur læðupokast með hálsmenið. Ég varð tortryggin en hún fékk mig þó til að leita í skápum og skúffum Möggu sem var ekki heima. Elsa var óvenjuhjálpleg og viti menn, hún fann hálsmenið mitt í einni skúffunni.

„Ég varð tortryggin en hún fékk mig þó til að leita í skápum og skúffum Möggu sem var ekki heima.“

Magga sagðist ekki hafa snert hálsmenið, henni fannst mjög undarlegt að það hefði fundist hjá henni. Elsa klagaði í mömmu og Möggu var gert að halda sig inni í herbergi sínu allt kvöldið. Það var slæm refsing á þessum árum að fá ekki að horfa á sjónvarpið.

Ég hafði sjálf verið þjófkennd af Elsu, alveg saklaus, og það rifjaðist upp fyrir mér þetta kvöld þegar ég sá hvað hún var glaðhlakkaleg. Ég laumaðist inn til Möggu og spurði hana hvort það gæti verið að Elsa hefði sjálf tekið hálsmenið og falið það til að koma sökinni á Möggu. Það fannst henni líklegt og ég treysti Möggu betur en Elsu.

Eftir þetta höfðum við yngri systkinin alltaf varann á okkur gagnvart Elsu. Hún reyndi annað slagið að segja eitthvað eða gera til að koma upp á milli okkar en það tókst sjaldnast hjá henni. Það var helst mamma sem trúði lygum hennar.

Elsa flutti að heiman í kringum tvítugt og giftist fyrsta eiginmanni sínum. Hjónabandið entist í nokkur ár en þegar hún skildi átti hún þrjú lítil börn. Við Magga pössuðum oft fyrir hana og þótti vænt um börnin hennar.

Ósvífinn þjófnaður

Mamma missti heilsuna á miðjum aldri, eða í kringum sextugt, og lést fáum árum seinna. Við Magga sáum að mestu um undirbúning útfararinnar og erfidrykkjuna en enga hjálp var að fá frá Elsu sem hafði aldrei tíma … Bróðir okkar bjó í útlöndum og þegar hann kom til landsins aðstoðaði hann á allan hátt.

Áður en hann flaug heim fórum við yngri systkinin yfir reytur mömmu en Elsa mætti ekki þótt við hefðum öll ætlað að hittast.

Mamma hafði alltaf sagt að hún ætlaði sjálf að borga eigin útför. Hún hafði átt miklu meira fé en við vissum af, og hefði getað greitt fyrir tíu útfarir af dýrara taginu en bankabókin hennar hafði verið tæmd skömmu fyrir dauða hennar. Við komumst að því að Elsa hafði tekið peningana út með umboði frá mömmu en undirskriftin var þó ekki mömmu.

Þegar við gengum á Elsu reiddist hún og sagði að mamma hefði gefið sér peningana, hún hefði meiri þörf fyrir þá en við. Auðvitað vissum við að Elsa hefði stolið þessum peningum en þrátt fyrir slæma reynslu okkar af henni kom okkur á óvart að hún skyldi leggjast svona lágt. Ef þetta er ekki siðblinda veit ég ekki hvað siðblinda er.

Við kærðum Elsu, annað var ekki hægt. Ekki af því að okkur langaði svona í peningana, heldur til að kenna henni í eitt skipti fyrir öll að hún kæmist ekki upp með allt. Því miður töpuðum við málinu. Ekki var hægt að sanna að undirskriftin væri fölsuð eða afsanna að mamma hefði gefið Elsu peningana.

„Ekki var hægt að sanna að undirskriftin væri fölsuð eða afsanna að mamma hefði gefið Elsu peningana.“

Við seldum litlu íbúðina hennar mömmu og andvirðinu var skipt í fernt eftir að skattmann hafði tekið sitt. Elsa fékk sinn hlut og fannst það alveg réttlátt. Hún uppskar algjöra fyrirlitningu okkar systkinanna. Það urðu engin formleg og tilfinningaþrungin sambandsslit, við bara hættum öll að tala við hana.

Óvænt heimsókn

Rúm tuttugu ár liðu. Ég fékk alltaf annað slagið fréttir af Elsu í gegnum börnin hennar sem ég held góðu sambandi við. Hún giftist tvisvar í viðbót og skildi jafnoft. Hún drakk mikið og það tók hana sorglega skamman tíma að sóa öllum arfinum og peningunum illa fengnu, og fékk góða hjálp við það frá ræflunum sem hún laðaði að sér.

Börn Elsu fluttu snemma að heiman. Eitt þeirra var ekki nema fimmtán ára. Þau hafa öll spjarað sig vel þrátt fyrir erfiðan uppvöxt. Öll búa þau á landsbyggðinni og hafa skapað sér gott líf þar.

Einn fallegan sumardag var ég við garðvinnu heima þegar ókunnug kona vatt sér inn í garð. Ég stóð upp og bauð góðan dag en svo sá ég að þetta var Elsa og stirðnaði. Hún var skælbrosandi, lét sem ekkert væri og sagði að það væri svo langt síðan hún hefði séð mig. Ég var orðlaus af undrun. Mér tókst þó að stynja upp: „Viltu ekki kaffi?“ og hún þáði það.

Elsa masaði endalaust í eldhúsinu og óð úr einu í annað. Hún var gengin í sértrúarsöfnuð og vildi endilega fá mig til að koma með sér á samkomu. Ónei, hugsaði ég en leyfði henni að tala. Hún var óstöðvandi. Henni tókst einhvern veginn að ná að rakka niður útlit mitt, fína eldhúsið og atvinnu mína, allt á innan við mínútu. Ég uppgötvaði að stórasystir var orðin að óbærilega leiðinlegri kerlingu. „Voðalega ertu mjó, ertu með anorexíu? Ekki? En væri samt ekki ráð að leita læknis, þetta er ekki eðlilegt.“ Og yfir í annað: „Ég man eftir þegar ég var með svipaða eldhúsinnréttingu, mér fannst hún svo ljót að ég skipti.“ Eflaust fyrir peningana sem þú stalst frá mömmu, hugsaði ég. Enn malaði hún: „Hvað segirðu, ertu að vinna þarna, en ömurlegt, aldrei myndi ég nenna að vinna á skrifstofu.“ Svona lét hún dæluna ganga og ég var næstum fallin í öngvit af leiðindum.

Hvítar lygar

Þegar maðurinn minn kom heim uppveðraðist hún enn frekar og byrjaði að flissa eins og smástelpa. Áður en hún segði eitthvað andstyggilegt við hann um mig, eins og henni var trúandi til, flýtti ég mér að segja að við hjónin værum að fara út, sem var hvít lygi, og þyrftum að drífa okkur.

Ég bað Elsu um að hringja á undan sér ef hún ætlaði að koma aftur í heimsókn. „Ha! Ertu ekki að grínast, ég droppa í heimsóknir þegar ég vil,“ sagði hún svolítið móðguð. „Mér er alveg sama um drasl,“ bætti hún við og leit á eldhúsbekkinn þar sem mátti sjá áhöld og fleira tengt garðvinnunni. Annað „drasl“ var ekki að sjá. Ég var mjög ákveðin þegar ég sagði henni að MÉR fyndist betra ef hún og aðrir gestir gerðu það.

Elsa heimsækir mig reyndar ekki oft, kannski tvisvar, þrisvar á ári og myndi gera það oftar ef ég leyfði henni það. Nokkrum sinnum hef ég þurft að láta eins og ég væri ekki heima, þegar hún kemur án þess að gera boð á undan sér en þeim skiptum fer fækkandi.

Ástæðan fyrir því að ég leyfi henni að koma er sú að ég hef nokkra samúð með henni. Hún er öryrki, missti heilsuna vegna lífernisins og er búin að brenna allar brýr að baki sér. Hún hefur komið sér alls staðar úr húsi nema í söfnuðinum, enda munar eflaust um tíundina af bótunum hennar. Henni tókst ekki að endurnýja sambandið við hin systkini mín, þau geta ekki hugsað sér að umgangast hana.

Meira að segja börn Elsu forðast hana. Þau treysta sér ekki einu sinni til að halda jól með henni, hún er svo leiðinleg að hún eyðileggur alla stemningu, segja þau. Það létti mikið á þeim þegar hún gekk í söfnuðinn því hún ver miklum tíma með fólkinu þar. Það er líka léttir fyrir mig, ég myndi ekki vilja vita af henni einni yfir jól og myndi jafnvel gera eigin fjölskyldu brjálaða í einhverri andartaksfljótfærni með því að bjóða henni í jólamatinn.

Áhugaverð og umhugsunarverð nálgun á hönnun

Hollenski vöruhönnuðurinn Christien Meindertsma hefur unnið fjölda áhugaverðra verkefna frá útskrift sinni frá Design Academy Eindhoven árið 2003. Rannsóknir hafa skipað mikilsvert hlutverk í hennar starfi og hefur hún meðal annars lagt upp úr því að kanna líf vara og óunninna eða hrárra efna.

 

Í sumum tilfellum er lokaútkoma verkefnanna ferlið sjálft, meðan í öðrum verða til hefðbundnari framleiðsluvörur. Rík áhersla er á að varpa ljósi á þau ferli sem hafa orðið okkur fjarlæg í kjölfar iðnbyltingarinnar og dýpka skilning á þeim efnum og vörum sem eru allt í kringum okkur.

Verkefnin hennar eru óneitanlega út fyrir það sem flestir hugsa að vöruhönnuður geri og vekja mann til umhugsunar, bæði um eigið líf og heiminn okkar. Verk Christien Meindertsma eru til sýnis í MOMA-safninu í New York, The Victoria & Albert Museum í London og Vitra Design Museum í Weil am Rein. Hún hefur einnig unnið til fjölda verðlauna fyrir störf sín, Dutch Design Award, Index Award og Future Award.

PIG 05049

Í þessu verkefni kannaði Christien tengsl milli hrárra og óunninna efna og þeirra hversdagslegu hluta sem við notumst við í daglegu lífi. Rannsóknin leiddi í ljós einskonar net milli uppsprettunnar eða hráa efnisins og neytandans en þessi tenging hefur orðið sífellt ósýnilegri í nútímasamfélagi.

Bókin PIG 05049 gefur yfirsýn yfir allar þær vörur og afurðir sem svínið er notað í.
Bókin hlaut Hollensku hönnunarverðlaunin árið 2008 og Index-verðlaunin árið 2009.

Undir lok verkefnisins PIG 05049 árið 2007 setti hönnuðurinn saman afar áhugaverða bók, þar sem talinn er upp hver einasti hlutur framleiddur úr svínum eða einhverskonar svínaafurðum. Lesendur fá yfirgripsmikla sýn yfir hversu víða ein afurð  eða hráefni dreifist og í hve marga hversdagslega hluti þær eru notaðar.

Bókin hlaut Hollensku hönnunarverðlaunin árið 2008 og Index-verðlaunin árið 2009.

Flax Project

Verkefnið hófst árið 2008, stendur enn yfir og hefur leitt af sér marga anga og áhugaverð hliðarverkefni. Eitt þeirra fól í sér að hönnuðurinn tók þá ákvörðun að fjárfesta í heilli uppskeru af hör af hollenskum bónda, heilum 10.000 kg.

Christien Meindertsma tók þá ákvörðun að fjárfesta í heilli uppskeru af hör af hollenskum bónda, heilum 10.000 kg.

Hör er enn ræktaður víða um Evrópu þar sem loftslagið er rakt og hlýtt, en 90% af evrópsku uppskerunni er seld til Kína þar sem ofið er efni úr hör. Christien vildi kanna hvort mögulegt væri að nýta efnið á staðbundnari hátt en gert er í dag og skapa heildstæða vörulínu úr uppskerunni.

Stóll unninn úr hör og vistvænu plasti.

Í upphafi hófst hún handa við að spinna fíngert garn úr hör, sem hún nýtti svo til framleiðslu á viskustykkjum, dúkum og servíettum. Síðar vann hún annað verkefni úr uppskerunni en það var stóll úr hör og PLA, sem er vistvænt niðurbrjótanlegt plast. Stólinn er einstaklega sterkbyggður en hann er úr löngum hörtrefjum sem búið er að þæfa og síðar pressaðar inn í bráðið plastið til að móta stólinn.

Áhugaverð nálgun Christien Meintertsma á hönnun er umhugsunarverð og gefur mögulega innsýn í hvað hönnuðir framtíðarinnar munu koma til með að fást við.

Verkefnið Arita var hannað með það í huga að upphefja sögu og kunnáttu postulínsgerðarfólks á Arita-svæðinu í Japan.

Myndir / Frá framleiðendum

Við getum stjórnað draumum okkar

Okkur dreymir öll en munum ekki endilega draumana. Við getum þjálfað okkur til að muna og einnig hafa áhrif á draumana. Það er hægt að breyta þeim og það kemur fram hér í frásögnum þriggja íslenskra kvenna sem tókst að breyta endurteknum draumum sínum.

 

Ekki er mjög langt síðan farið var að rannsaka drauma á vísindalegan hátt en vísindamenn eru þó ekki allir sammála um af hverju fólk dreymir.

Samkvæmt vísindum er ekkert yfirnáttúrulegt við drauma. Þeir eru starfsemi hugans í svefni, á sama hátt og hugsanir okkar eru starfsemi hugans í vöku, segir á Vísindavefnum. Þar segir einnig að ein hugmynd sé að draumar séu hreinlega afleiðing af þeirri miklu heilavirkni sem á sér stað í svefni. Í REM-svefni sé heilavirkni mikil og draumar sömuleiðis algengir. Ein kenningin sé að í REM-svefni styrkist nýjar minningar og tengist við eldri. Þess vegna skýrist algengi drauma á þessu svefnstigi ef til vill einfaldlega af því að verið sé að „taka til“ í heilanum. Draumar verði því til vegna starfsemi heilans í svefni.

Skírdreymi

Stigið sem kallast lucid-dreaming, eða skírdreymi á íslensku, er þegar við erum meðvituð um að okkur sé að dreyma, ekki ósvipað því að vera á milli svefns og vöku. Draumar á skírdreymisstiginu hafa áhrif á líkamann og ljúfur draumur gæti því dregið úr kvíða og streitu. Á þessu stigi svefnsins gætum við einnig fengið ýmiss konar hugljómun.

Fólk sem fær oft martraðir ætti að geta þjálfað sig til að stöðva drauminn og vakna strax. Eða, eins og kemur fram í einni reynslusögunni hér, breyta martröðinni meðvitað.

En til að breyta draumum sínum þarf að muna þá og ráð til þess er að endurtaka nokkrum sinnum hvert kvöld fyrir svefninn: „Ég ætla að muna það sem mig dreymir.“

Þegar þú finnur að þetta ber árangur geturðu farið að stjórnast í draumunum. Ef þú þarft að leysa vandamál skaltu hugsa um það fyrir svefninn og láta það vera þína síðustu hugsun áður en þú fellur í svefn. Ef vandamálið tengist manneskju skaltu hugsa um hana. Gott er líka að æfa í huganum sérstaka senu yfir daginn til að hún birtist í draumum þínum, eins og samtal eða aðstæður. Á meðan þú sefur reynir undirmeðvitundin nefnilega að leysa málið.

Ef þú ert myndlistamaður sem hefur misst andagiftina sjáðu fyrir þér auðan striga áður en þú festir svefn. Rithöfundur með ritstíflu gæti fundið nýjan flöt á söguþræði eða komist áfram með bókina með því að láta sig dreyma um það … og svo framvegis. Það eru engar takmarkanir nema eigið ímyndunarafl.

Haltu endilega draumadagbók. Áður en þú opnar augun skaltu rifja drauminn vel upp til að þú gleymir engu og skrifaðu drauminn niður. Smám saman finnurðu tengingu á milli draumanna og getur farið að lesa í merkinguna.

Laus við martraðirnar

„Í vöku er ég ekkert sérlega lofthrædd en hins vegar snerust allar martraðir mínar árum saman um einhverjar hremmingar sem ég lenti í þegar ég var að klifra óvarin utan á alls kyns húsum við óöruggar aðstæður. Ef ég var undir álagi sóttu þessar martraðir frekar á mig. Þegar ég gekk í gegnum erfitt tímabil í lífinu, skilnað og sársaukafullan missi kvað sérlega rammt að þessum ósköpum og ég var farin að kvíða því að fara að sofa. Draumarnir voru hræðilega skýrir, þótt ég vissi hálfpartinn af því að mig væri að dreyma. Ég byrjaði að klifra upp stillansa, eða jafnvel upp eftir veggjum með því að halda mér í syllur og ójöfnur, og ég er alls ekki íþróttamanneskja og dytti ekki í hug að taka upp á svona löguðu í vöku. Mig dreymdi aldrei nákvæmlega að einhver væri að elta mig en það hlýtur samt að hafa verið svo því ég varð að gera þetta. Stundum fór ég utan á svölum í mikilli hæð á háhýsum og þá lárétta leið en oftar var ég að klífa upp byggingar og það var hátíð ef ég hafði stillansa til að halda mér í. En jafnvel þá var ég skíthrædd og sá hræðilega raunverulegt landið fyrir neðan mig. Oftast voru það steypt bílaplön og eitthvað sem var sjálfgefið að myndi drepa mig ef ég dytti.

Fjölbreytnin í þessum draumum eða martröðum var óendanleg og hræðslan var þannig að ég hrökk stundum upp með andfælum en gat samt ekki losað mig út úr draumnum og þurfti að halda áfram að sofa og glíma við þessa erfiðu áskorun.

„Ef ég var undir álagi sóttu þessar martraðir frekar á mig.“

Mikil tilviljun olli því að mér tókst að rjúfa þennan vítahring. Ég var í langri lestarferð í Mið-Evrópu og það var farið að líða á kvöldið. Þessi lest var með klefum, ekki þó svefnklefum, og með mér í klefa var kona nokkuð eldri en ég, frá Bandaríkjunum. Hún var, eins og margir Kanar, mjög skrafhreifin, og búin að segja mér hálfa ævisöguna, frá skilnuðum tveimur, hvað táningsdóttir hennar hataði hana og hvað hún væri rosalega flinkur sálfræðingur. Ég kemst yfirleitt í vörn þegar ég sit með svona opinskáu fólki en þegar leið nærri miðnætti stakk hún upp á að við legðum okkur á þokkalega þægilegum sætum í þessum klefa, þrjú sæti hvor.

Af einhverri rælni fór ég að segja henni að ég væri stundum hálfkvíðin að fara að sofa þegar ég væri mjög þreytt og undir álagi, eins og í þessari ferð, vegna þessara martraða sem sæktu á mig. Hún bað mig að segja sér mjög nákvæmlega frá draumunum og ég sá ekkert því til fyrirstöðu. Hún hlustaði af athygli og greip ekkert fram í, eins og ég hefði búist við, og þegar ég lauk frásögninni fann ég að ég var orðin talsvert miður mín. Hún greip um báðar hendurnar á mér, nokkuð sem mér fannst fullmikil nánd, hallaði sér fram og horfði í augun á mér. „Viltu losna við þetta?“ spurði hún. „Já, auðvitað,“ svaraði ég, svolítið snúðugt. „Hlustaðu þá,“ sagði hún með mjög sefandi röddu. „Það sem þú þarf að gera er að „fara inn í drauminn“ og fara eins nákvæmlega gegnum dæmigert ferli, þangað til þú kemur að þeim hluta þar sem þú ert hræddust. Þá skaltu fara aftur út úr draumnum og hugsa þér hvernig þú getur leyst þetta af hendi þannig að þú sért ekkert hrædd og komir út úr draumnum sem sigurvegari. Lausnin þarf að vera sennileg en alls ekki sönn.

Þú verður sjálf að finna út úr því hvað hentar þér best, en það gæti til dæmis verið að þú minntir sjálfa þig á að þú hefðir fengið sérstaka þjálfun í klifri og værir meistari í því, værir með hanska sem væru alveg öruggir við þessar aðstæður, eða að þegar þú horfðir niður þá áttaðir þú þig á því að þú værir ekki svona hátt uppi eins og þú hélst, heldur bara tæpan metra frá jörðu. Farðu aftur og aftur í gegnum þessa atburðarás eftir að þú ert búin að snúa henni þér í hag, svo þú gleymir henni örugglega ekki. Þá mun þessi draumur vera auðveldur þegar hann sækir næst á þig og smátt og smátt, líklega fljótlega, hættir þig að dreyma þetta.

Ég hugsaði með mér að það sakaði ekkert að láta reyna á þetta og fór að upphugsa hvernig mín saga yrði. Merkilegt nokk þá hentaði mér best að telja sjálfri mér trú um að ég væri haldin ofurkrafti sem gerði svona ferðalög utan á húsum að skemmtun í staðinn fyrir ógnina sem hafði fram til þessa steðjað að mér. Því oftar sem ég fór í gegnum atburðarásina, þeim mun sennilegri fannst mér hún og ég var búin að máta þetta „trikk“ við næstum allar aðstæður sem ég mundi eftir að höfðu komið upp í draumunum vondu.

Á hóteli mínu í áfangastað, eftir þungan dag í vinnutengdum verkefnum, lagðist ég til svefns. Ég gætti þess vel að fara yfir „söguna“ mína áður en ég fór að sofa, og eins og við var að búast fór draumurinn af stað einhvern tíma undir morgun. Og ég vissi hálft í hvoru að mig var að dreyma en nú leysti ég með miklu stolti hverja klifurþrautina af annarri og vaknaði bara nokkuð ánægð með sjálfa mig og mjög meðvituð um að nú hefði ég notað þessa ótrúlegu tækni, sem mér fannst hálffjarstæðukennd þegar ég heyrði þessa konu segja mér af henni, en virkaði í fyrstu tilraun. Ég ætla ekki að líkja líðan minni daginn eftir við það sem hún hefði verið, hefði ég vaknað af martröðinni eftir ítrekaðar tilraunir eins og svo oft áður fyrr. Ég segi ekki að ég hafi hlakkað til að detta í þennan draum aftur, enda fór svo að hann yfirgaf mig eftir dálítinn tíma. En vanlíðanin var horfin. Vitneskjan um að ég þekki aðferð til að losa mig úr þessum aðstæðum hefur styrkt mig og gert líf mitt auðveldara á álagstímum.“

Tókst að stöðva sjóganginn

„Ég þjáðist af sjóveiki sem barn og kveið því mikið að þurfa stundum að taka Akraborgina. Þessi kvíði elti mig inn í drauma mína og iðulega dreymdi mig að ég væri um borð í ferjunni í miklum sjógangi með tilheyrandi veltingi og vanlíðan. Eina nóttina sem oftar dreymdi mig þennan draum nema þá virtist ég gera mér grein fyrir að mig væri að dreyma því ég sagði upphátt í draumnum: „Æ, nei, ekki þessi draumur aftur.“ Við þetta kyrrðist sjórinn og veltingurinn hætti. Mig dreymdi þennan draum aldrei aftur. Ekki hefði mig grunað áður en þetta gerðist að hægt væri að hafa áhrif á drauma sína.“

Óskýrar óskir

„Skömmu eftir útför föður míns dreymdi mig hann. Við töluðum ekki mikið saman en það var svo mikill hamingjuhljómur í rödd hans að ég vaknaði mun glaðari og sáttari. Mig hefur ekki dreymt hann síðan. Þegar uppáhaldssystir mín lést, tæpum tuttugu árum síðar, átti ég von á að mig dreymdi hana fljótlega sem gerðist þó ekki. Rúmu ári eftir að hún dó ákvað ég með sjálfri mér þegar ég lagðist í rúmið að það væri löngu tímabært að mig dreymdi hana. Um nóttina fannst mér einhver segja að mig dreymdi hana oft, ég bara myndi ekki eftir því.

„Rúmu ári eftir að hún dó ákvað ég með sjálfri mér þegar ég lagðist í rúmið að það væri löngu tímabært að mig dreymdi hana.“

Ég vildi muna og nokkrum kvöldum seinna sofnaði ég með þann ásetning og í þeim draumi sá ég systur mína úr fjarlægð. Næsta kvöld hugsaði ég sterkt um að mig langaði að heyra í henni. Þá um nóttina dreymdi mig að ég heyrði rödd hennar en röddin barst frá ókunnri konu. Meiri stælarnir í undirmeðvitundinni, hugsaði ég. Ég gafst upp í bili en fannst þó magnað að getað stjórnað draumum mínum á þennan hátt. Næst þegar ég geri þessa tilraun ætla ég að forma hugsanir mínar betur, hafa óskir mínar skýrari. Nú veit ég að ég get haft áhrif á það hvað mig dreymir og mér finnst það frábær uppgötvun.“

Geggjað karamellukornfleksnammi með lakkrísbitum

||
|Sara er snillingur í eldhúsinu. |

Sara Pálsdóttir er, þrátt fyrir ungan aldur, þaulvanur bakarameistari. Þeir sem fylgjast með móður hennar, Hrefnu Dan, á samfélagsmiðlum hafa eflaust flestir orðið varir við hverja veisluna af annarri sem Sara vílar ekki fyrir sér að reiða fram fyrir heppna fjölskyldumeðlimi.

Vikan fékk Söru til að deila með lesendum einni af sinni uppáhaldsuppskrift sem hún fékk frá grgs.is. Geggjað karamellukornfleksnammi með lakkrísbitum sem erfitt er að standast.

Sara er snillingur í eldhúsinu. Karamellukornfleksnammi með lakkrísbitum er í uppáhaldi hjá henni.

300 g Dumle-karamellur
130 g smjör
200 g fylltar lakkrísreimar
90 g kornfleks, mulið

Bræðið karamellurnar og smjör saman í potti. Bætið fyllta lakkrísnum og kornfleksinu saman við og blandið vel saman. Setjið í form hulið með smjörpappír og geymið í frysti á meðan kremið er útbúið.

Krem

400 g rjómasúkkulaði
60 g smjör

Bræðið súkkulaðið og smjörið saman yfir vatnsbaði. Þegar það er tilbúið, hellið því yfir yfir kornflexnammið. Setjið aftur inn í frysti í u.þ.b. 30 mín. Takið út og skerið í góða munnbita.

Nammi sem erfitt er að standast.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Rómantískur draumur sem varð að veruleika

Einn góðan sumardag héldu blaðamaður og ljósmyndari í sveitaleiðangur með það að markmiði að upplifa íslenskan mat beint frá bónda og fræðast í leiðinni um smáframleiðslu bænda og hugsjónir fólks sem stendur í slíku. Við vorum á leið í Friðheima í Reykholti þar sem hjónin Knútur Hrafn Ármann og Helena Hermundardóttir tóku á móti okkur en þau eiga og reka staðinn.

 

Knútur og Helena rækta tómata, reka veitingahús ásamt matar-minjagripabúð og stunda að auki hrossarækt. Þau eru með um 40 vinnumenn allt árið og en fleiri starfa hjá þeim yfir sumartímann en búskapurinn hefur ekki alltaf verið svona yfirgripsmikill.

Þau byrjuðu bara tvö árið 1996 þá bæði nýútskrifuð úr skóla og uppfull af hugmyndum og áhuga á garðyrkju og hrossahrækt. Það sem átti að vera lítil aukabúgrein hjá þeim varð sú stærsta og aldrei hefði þau órað fyrir því árið sem þau byrjuðu að þau ættu eftir að taka á móti 160 þúsund gestum yfir árið í 100 km fjarlægð frá höfuðborginni.

„Ferðafólk sem kemur hingað getur ekki ímyndað sér hvernig við förum að því að rækta grænmeti allt árið um kring á Íslandi,“ segir Knútur.

Knútur sagði okkur sögu þeirra hjóna, fallega rómantíska drauminn um að flytja upp í sveit sem varð svo að veruleika.

„En hér hafði enginn búið í 4-5 ár og var staðurinn í mikilli niðurníðslu þegar við keyptum hann.“

„Við erum bæði úr Reykjavík og kynntumst 17 ára gömul. Okkur langaði til að geta ræktað grænmeti og geta verið með hesta líka og áttum þann draum um að flytja upp í sveit. Það var einhver sveitarómantík í okkur og við stefndum að þessu mjög ung. Helena hafði mikinn áhuga á garðyrkju og ég hafði verið í sveit frá því ég var polli. Helena fór svo í garðyrkjuskólann og ég í búfræðinám. Síðan ári eftir að við útskrifuðumst árið 1995 fórum við að líta í kringum okkur og fundum þennan yndislega stað Friðheima til að byrja okkar búskap sem er í grunninn gömul garðyrkjustöð sem stofnuð var árið 1946 og var eitt sinn myndarlegt garðyrkjubú. En hér hafði enginn búið í 4-5 ár og var staðurinn í mikilli niðurníðslu þegar við keyptum hann,“ segir Knútur.

Að sögn Knúts voru þau heppin að ná þessum stað því hann var fyrst og fremst ódýr og þau nýútskrifuð úr námi og því hentaði hann vel til að byrja búskap. Þau ætluðu að byggja staðinn upp í rólegheitum og leggja áherslu á garðyrkjuna.

Þau byrjuðu að rækta gúrkur, tómata og paprikur en fóru fljótlega að leggja áherslu á tómatana. Í dag rækta þau þrjár tegundir af tómötum og framleiða eitt tonn á dag að meðaltali allan ársins hring og eru næststærst á Íslandi í tómataræktun. Neytendur geta oftast keypt tómatana þeirra sama dag og þeir eru tíndir af plöntunum og eru þeir merktir Friðheimum.

Gengur út á matarupplifun

Hugmyndin að veitingastaðnum fengu þau fyrir um 10 árum og átti að vera hliðarbúgrein hjá þeim hjónum. „Við höfum verið með hesta frá upphafi en fengum svo hugmynd fyrir um 10 árum síðan að opna hér veitingasölu og bjóða gestum til okkar. Fólk fengi að komast í návígi við íslenska hestinn, kíkja inn í gróðurhúsin og borða. Við vildum líka sýna gestum hvernig Íslendingar fara að því að rækta grænmeti allt árið. Ferðafólk sem kemur hingað getur ekki ímyndað sér hvernig við förum að því að rækta grænmeti allt árið um kring á Íslandi,“ segir Knútur.

„Við vildum líka sýna gestum hvernig Íslendingar fara að því að rækta grænmeti allt árið.“

Allir gestir fá stutta kynningu á tómataræktuninni hvort sem þeir koma í hóp eða ekki. Starfsfólkið er þjálfað til að geta kynnt starfsemina vel.

Tómatar leika aðalhlutverkið á matseðli Friðheima.

Allur matseðilinn er unninn út frá tómataplöntunum sem fólkið situr við hliðina á þegar það borðar. Boðið er upp á tómatsúpu, pasta og pestó, tortillur, bláskel, ís, bökur og ostakökur þar sem tómatar leika að sjálfsögðu aðalhlutverkið.

Basilíkuplanta er á hverju borði og gestirnir geta tekið sér af plöntunni eins og þeir vilja til að krydda matinn með. Að sögn þeirra hjóna hafa þau átt farsælt og gott samstarf við meistarakokkinn og vin, Jón K.B. Sigfússon, sem á heiðurinn af flestum uppskriftum Friðheima.

Lengri umfjöllun um Friðheima birtist í 10 tölublaði Gestgjafans 2018.

Myndir / Unnur Magna

 

Danskir skólafélagar gera það gott í hönnun

Skólafélagarnir og jafnaldrarnir Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn stofnuðu saman Norm Arcitechts árið 2008 en báðir útskrifuðust þeir með láði sem arkitektar frá The Royal Academy of Fine Arts nokkrum árum áður.

 

Kasper Rønn lagði sérstaka áherslu á húsgagnahönnun en Jonas Bjerre-Poulsen hafði áður lært listir og heimspeki í Róm, auk þess sem hann hefur lokið háskólaprófi í alþjóðaviðskiptum í Kaupmannahöfn, og getið sér gott orð á sviði ljósmyndunar. Það er því óhætt að segja að saman búi þessi danska tvenna yfir víðtækri þekkingu og reynslu og er það ekki að ástæðulausu sem þeir Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn eru nefndir til sögunnar þegar umræðan um útbreiðslu skandinavískrar hönnunar ber á góma.

Mynd / Norm

Hönnun Jonasar Bjerre-Poulsen og Kaspers Rønn er fyrst og fremst mínimalísk, tímalaus og hagnýt en skandinavískur módernismi er mjög einkennandi í öllum þeirra verkum. Í hugum Jonasar Bjerre-Poulsen og Kaspers Rønn snýst hönnun ekki um að búa til nýja þörf hjá neytendum heldur uppfylla raunverulegar þarfir sem þegar eru til staðar.

Mynd / Norm

Norm Arcitechts hafa hlotið mikið lof fyrir hönnun sína en stór hönnunarfyrirtæki í Skandinavíu hafa vakið mikla athygli fyrir vörur sínar hannaðar af Norm Arcitechts. Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn eiga meðal annars heiðurinn af Milk Lamp fyrir &Tradition auk Offset Sofa og Harbour Chair fyrir MENU. Þá virðast einfaldlega öll þau rými sem félagarnir vinna að verða að sannkölluðu augnakonfekti.

Mynd / Norm

Jonas Bjerre-Poulsen og Kasper Rønn eru snillingar í að taka það sem fyrir er flókið og strípa það niður í mínimalískt, þar sem fagurfræði og notagildi ráða ávallt ríkjum. Þeir bera virðingu fyrir hönnun fyrri alda og reyna eftir fremsta megni að nýta sér hana í nýjar útfærslur og nútímavæðingu. Hvort sem verkefnin snúa að sýningarrýmum, vöruhönnun, arkitektúr eða iðnhönnun gætir djúpstæðs skilnings á náttúrulegum efnum og smáatriðum sem setja punktinn yfir i-ið.

Mynd / Norm

Texti / Katrín Andrésdóttir

Einar Vilberg sendir frá sér tvær smáskífur

Tónlistarmanninn Einar Vilberg þekkja margir úr rokkhljómsveitinni Noise en Einar hefur verið starfandi tónlistarmaður frá 16 ára aldri.

Einar stofnaði hljómsveitina Noise árið 2001 með bróður sínum Stefáni Vilberg og hefur bandið gefið út fjórar breiðskífur og farið í fjölda tónleikaferða um heiminn.

Einnig starfrækir Einar Vilberg eitt glæsilegasta stúdíó landsins, Hljóðverk, þar sem hann hefur annast framleiðslu, upptökur, hljóðblöndun og masteringu fjölda platna með mörgum af þekktustu hljómsveitum landsins.

Einar sendi nýlega frá sér tvær smáskífur af væntanlegri sólóplötu sinni. Lögin „So Long“ og „Sleepless“ gefa hlustendum forsmekk af því sem koma skal á plötunni sem er væntanleg í sumar.

Margar hendur vinna létt verk

Leiðari úr 28. tölublaði Vikunnar

„Hins vegar skil ég ekki af hverju er ekki alla vega hægt að hjálpa því fólki sem er búið að leggja það á sig að koma hingað sjálft,“ segir Jasmina Crnac í forsíðuviðtali Vikunnar að þessu sinni.

Mikið er ég sammála henni. Ég get ekki með nokkru móti séð neina skynsemi í því að vísa héðan manneskjum sem hafa lagt á sig langt og strangt ferðalag til að öðlast öryggi á Íslandi. Fólk sem er tilbúið til að vinna erfið og sóðaleg störf nokkuð sem innfæddir fúlsa við, vill læra íslensku, blandast samfélaginu og sýna þakklæti sitt í verki. Við höfum góða reynslu af að taka við flóttamönnum.

Margir þeirra hafa auðgað samfélagið hvort sem þeir hafa komið frá Ungverjalandi, Víetnam eða öðrum heimshornum. Hér vantar alltaf hendur, frjóa hugi og meira líf. Höfum það hugfast að margar hendur vinna létt verk og því fleiri sem hér borga skatta þess auðveldara verður að halda uppi því velferðarkerfi sem við öll viljum hafa. Það er auður í fjölbreytninni, nýsköpun og verðmæt menningaráhrif.

Allir hafa gott af því að setja sig í spor annarra af og til, opna hjarta sitt og sýna meðlíðan. Flóttamenn og innflytjendur veita okkur gullið tækifæri til þess.

„Hún sýnir líka hvernig mannsandinn getur sigrast á aðstæðum sínum…“

Saga Jasminu Crnac er áhrifamikil og sorgleg. Hún sýnir hversu hræðilega mannfólkið getur farið hvert með annað, sýnir varnarleysi og skelfingu fjölskyldu sem býr við ógnir án þess að hafa nokkuð gert til að eiga slíkt skilið. Hún sýnir líka hvernig mannsandinn getur sigrast á aðstæðum sínum, fundið eitthvað jákvætt og gott þótt ekkert slíkt sé í raun að finna í umhverfinu. Jasmina flúði inn í heim bóka. Ég gerði það líka þegar ég var barn, ekki vegna þess að ég byggi við ógn heldur vegna þess að mér fannst heillandi að kynnast annars konar heimum.

Þegar ég las frásögn hennar langaði mig að rétta út höndina og snerta þessa litlu stelpu sem útbjó frumstætt ljós til að geta lesið á kvöldin og segja henni að svona hefði ég kúrt undir hlýrri sæng með vasaljós. Pabbi og mamma sátu frammi og spjölluðu og allt í kringum mig var kyrrð.

Hún vissi ekki hvort hún fengi að borða daginn eftir, ég var södd og sæl, hún átti ekki föt að klæðast og skó að ganga í, ég átti allt, hún vissi ekki hvort aftur myndi heimur hennar snúast á hvolf en ég var örugg um að eiga mér framtíð. Samt áttum við þetta sameiginlegt, að gleyma okkur í orðum merkra rithöfunda og njóta þess að taka þátt í sorgum og sigrum söguhetjanna.

Nú er þessi unga kona Íslendingur og mikið ofboðslega er ég ánægð með það. Ísland er heldur betur heppið að hafa Jasminu Crnac hér og væri það ekki stórkostlegt ef á næstu dögum opnaði ráðherra arma sína og segði við fjölskyldurnar tvær sem hér bíða milli vonar og ótta: „Velkomin heim.“

Sjá einnig: „Næsta dag voru nágrannarnir horfnir og sáust aldrei meir“

Skotheld partýförðun skref fyrir skref

Ekki alls fyrir löngu fengum við snillingana Söru Dögg Johansen og Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur, sem reka Reykjavík Makeup School, til að sýna okkur sitthvora útfærsluna af spariförðun.

 

Förðun eftir Söru

Módel / Kristín Liv Svabo Jónsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Ég ákvað að gera Halo-förðun sem er ein af mínum uppáhaldsförðunum. Hún er fullkomin fyrir fín tilefni. Hún er mjög einföld og hentar öllum augnumgjörðum.

Ég byrjaði á því að setja ljósbrúnan augnskugga (Birkin frá ABH) og millibrúnan augnskugga (Red Earth frá ABH) í innri og ytri augnkrók en skildi miðjuna á augnlokinu eftir. Í miðjuna setti ég fallegan sanseraðan augnskugga sem er nýr frá NYX professional makeup og heitir Foil play í litnum French Macaron.

Glimmerið setur punktinn yfir i-ið.

„Ég ákvað að gera Halo-förðun sem er ein af mínum uppáhaldsförðunum.“

Fyrir þá sem vilja bæta við glimmeri og gera förðunina örlítið ýktari þá setti ég glimmerið Midnight Cowboy frá Urban Decay í miðjuna á augnlokinu.

Ég notaði brúnan og svartan blýant í augnhárarótina sem eyliner en mér finnst fallegt að nota tvo tóna til að ná fallegri blöndun.

Sara notaði þessi augnhár í förðunina.

Til að ýkja augnhárin notaði ég svo uppáhaldsaugnhárin mín frá Eylure sem heita Duos & Trios en þau henta öllum þar sem þú getur leikið þér með þau hvort sem þú ert að leita eftir þéttleika, lengingu eða jafnvel hvorutveggja.

Á húðina notaði ég Away We Glow-ljómakremið frá NYX professional makeup og svo Giorgio Armani Luminous silk-farðann því hann gefur fallegan ljóma. Í skyggingu og highlight notaði ég Born to glow- pallettuna frá NYX Professional Makeup. Á varirnar notaði ég Angel-varalitinn frá MAC og nýja Shimmer Down-glossið í litnum Pink Pong frá NYX professional makeup.  Ég krullaði svo hárið á módelinu mínu með HH Simonsen Rod 4-keilujárninu og setti svo sufflée-krem yfir krullurnar til að fá þær mýkri.“

Leynitrix Söru:

Fyrir fín tilefni finnst mér mjög mikilvægt að nota gott setting sprey þar sem við viljum að förðunin endist vel og lengi. Uppáhalds setting sprey-ið mitt er Chill frá Urban Decay, en það gefur raka og róar húðina. Fyrir þá sem eru með glimmer á augunum er ótrúlega gott að taka pakkalímband og dúmpa yfir glimmerið þegar við erum að fara að taka förðunina af okkur í lok kvölds. Allt glimmerið festist þá í límbandinu og við getum þá þrifið okkur eins og önnur kvöld án þess að fá glimmer út um allt andlit.

Förðun eftir Sillu

Módel / Ragnheiður Theodorsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Hérna sýni ég smokey-förðun með smávegis glimmeri en smokey-förðun er mín allra mesta uppáhaldsförðun. Mér finnst finnst rosalega skemmtilegt að gera hana í margskonar útfærslum eins og til dæmis að leika mér með liti og áferðir, allt frá möttum augnskuggum yfir í sanseraða.

Að þessu sinni ákvað ég að gera kirsuberjalitað smokey og skreytti með mjög fíngerðu glimmeri. Ég lagði áherslu á augun og húðina og ákvað því að gera frekar látlausar varir við. Ég byrja alltaf á að gera augun fyrst og enda á því að gera húðina.

Naked Cherry-augnskuggapallettuna frá Urban Decay.

Í þessari augnförðun notaðist ég við Naked Cherry-augnskuggapallettuna frá Urban Decay. Ég byrja á að nota ljósan mattan lit sem fyrsta lit sem ég legg í glóbuslínu augnsvæðisins og blanda hann vel út upp á augnbeinið til að fá þessa svo kölluðu reyk eða smokey-áferð. Næst notaði ég tvo sanseraða augnskugga sem voru aðeins dekkri en fyrsti liturinn og setti þá á mitt augnlokið og nota síðan enn dekkri mattan augnskugga sem leiðir frá sanseruðu litunum niður að augnhárarót.

Glitter Goals í litnum Multiverse frá NYX.

Sama aðferð fer svo fram á neðra augnsvæðinu nema þá er gott að forðast að nota sanseraða augnskugga til að missa ekki dýptina í litunum. Ofan á augnlokið setti ég svo ótrúlega fallegt, fljótandi glimmer frá NYX professional makeup sem heitir Glitter goals liquid eyeshadow í lit sem heitir Multiverse. Ég setti svo nóg af rakakremi og ljómakremi undir farðann en ég notaði mjög léttan farða og lagði áherslu á ljóma í húðinni.“

Helstu vörur: Ég notaði Naked Cherry-augnskuggapallettu frá Urban Decay , NYX professional liquid eyeshadow , Creme  Cup-varalit frá MAC og Bobbi Brown highlighter sem heitir Bronze Glow.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Svalandi ferskjuís með saltkaramellusósu

Á góðviðrisdögum er fátt meira næs en að fá sér ís. Það eru yfileitt alltaf langar raðir ísóðra einstaklinga við helstu íbúllur bæjarins. Líka á rigningardögum. Það er í rauninni frekar einfalt að útbúa sinn eigin ís, misflókið eftir tegundum en suma er hægt að gera í blandara á tíu mínútum og skella í frystinn í smástund og fá alveg frábæran ís.

Hér kemur uppskrift að ljúffengum ferskjuís. Svo fylgir uppskrift að geggjaðri saltkaramellusósu með sem fullkomnar ísinn!

Ferskjuís

8 ferskjur
4 msk. sykur
5 eggjarauður
1 egg
1 vanillustöng, fræin skafin úr
250 g sykur
1 l rjómi

Sláið saman eggjum, vanillufræjum, vanillustönginni og sykri yfir vatnsbaði þangað til blandan er orðin létt og ljós og vel heit.

Kælið í kæliskáp með plastfilmu yfir.

Ef þið eruð að flýta ykkur er gott að hella blöndunni í grunnt form, þá tekur kælingin styttri tíma.

Fjarlægið vanillustöngina. Léttþeytið rjómann og blandið ⅓ af honum saman við köldu eggjablönduna og blandið svo restinni mjög varlega út í.

Setjið í ísgerðarvél skv. leiðbeiningum og svo í frysti. Ef þið eigið ekki þannig grip, fullþeytið þá rjómann og gerið eins og frystið. Hrærið svo í ísnum fjórum sinnum á klukkutíma fresti eða þangað til hann er alveg frosinn. Það er gott að frysta ísinn yfir nótt.

Ofnbakaðar ferskjur

Hitið ofninn í 180°C. Skerið ferskjurnar til helminga og fjarlægið steininn.

Raðið á ofnplötu og stráið sykrinum yfir. Bakið ferskjurnar í um 30-35 mínútur eða þar til þær eru orðnar mjúkar og byrjaðar að dökkna á köntunum.

Kælið og skerið í litla bita. Passið að ná öllum vökvanum með. Blandið svo saman við ísblönduna. Það er líka hægt að nota nektarínur, plómur, epli, jarðarber eða hvað eina í staðinn fyrir ferskjurnar.

Saltkaramellusósa

115 g púðursykur
120 g smjör
1 vanillustöng, fræin skafin úr
1 tsk. sjávarsalt
3 dl rjómi
1 msk. hveiti

Setjið púðursykur, smjör og hveiti í pott og sjóðið saman í 3 mínútur á miðlungshita.

Setjið vanillufræin, vanillustöngina og salt saman við og sjóðið í litla stund. Passið að hræra vel í blöndunni.

Bætið rjómanum við og sjóðið í 2-3 mín. Sósan verður þykkari eftir því sem hún er soðin lengur. Fjarlægið vanillustöngina og setjið blönduna í ílát.

Geymist í 1-2 vikur í kæli. Hitið upp áður en þið berið karamellusósuna fram.

Umsjón / Gunnar Helgi Guðjónsson
Ljósmyndari / Hákon Björnsson
Stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir

Hatari sem heillast af japönskum mínimalisma

Andrean Sigurgeirsson starfar sem dansari hjá Íslenska dansflokknum. Flestir þekkja hann sem dansara hljómsveitarinnar Hatara en einnig hefur hann unnið til fjölda verðlauna fyrir framúrskarandi árangur í dansi. Það er því tilefni til að kynnast þessum hæfileikaríka manni aðeins betur og spyrja hvað sé helst á óskalistanum?

 

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast? Laglegan persneskan kött og kannski alvöru persneskt teppi með því, í fallegri bjartri íbúð sem að væri innblásin af japönskum mínimalisma.

Andrean langar í ekta persneskt teppi og persneskan kött í stíl.

Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? Ég reyni nú til dags að kaupa mér góðar flíkur sem endast vel og er alltaf að heillast meira og meira að slow fashion. Ég er mjög hrifinn af hönnun Older Brother. Ég hef verið að kaupa flíkur sem að eru lífrænar, sjálfbærar og fair trade. Það væri næs að geta fyllt fataskápinn af svoleiðis vörum í bland við flottar vintage/second-hand flíkur til að poppa upp útlitið af og til.

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? Ég hef átt ódýrustu týpuna af stólum frá IKEA í 5 ár og þeir hafa nýst mér fjandi vel. Ég hef ekki verið að skoða stóla neitt sérstaklega en ætli ég myndi ekki vilja helst kaupa þá frá fyrirmyndafyrirtækjum eins og DeVorm, Offect eða Environment eða að reyna finna djásn úr Góða hirðinum.

Er eitthvert ljós eða lampi á óskalistanum þínum?
Ég þrái að fá Vertigo-ljósið frá Petite Friture.

Vertigo-ljósið frá Petite Friture þráir Andrean að fá inn á heimilið.

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? Ég hef verið með Son Doong-helli á heilanum undanfarið. Son Doong er stærsti hellir í heimi og er staðsettur í Víetnam. Hann er 5 kílómetra langur og nær 200 m á hæð og gríðarlega fallegur hellir með eintakt vistkerfi. Það komast aðeins um nokkur hundruð manns í þetta ferðalag á ári vegna strangra laga um varðveitingu á einstöku lífríki þar og náttúru.

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? Mig hefur alltaf langað í ósvikið kínverskt gongbi verk frá Song-tímabilinu en ef ég á aðeins að vera í samtímanum þá að langar mig að fylla húsið af verkum eftir vini mína og ég er svo heppinn að vera í kringum ansi mörg hæfileikabúnt. Ég hef líka lengi verið hrifinn af Henri Michaux.

Ósvikið kínverskt gongbi verk frá Song-tímabilinu er ofarlega á óskalistanum.

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? Uppþvottavél, það er ein vanmetnasta lúxusvara í heimi. Ég hef meira en minna vaskað upp allt mitt líf og þegar maður kynnist þessari töfravöru þá gjörbreytist líf manns, haha!

Stærsta óskin væri? Að ójöfnuður myndi minnka í heiminum og það minnsta að enginn þyrfti að líða hungur. Einnig að fólk taki gróðurhúsaáhrifunum alvarlega, ekki aðeins í orði heldur líka í verki því það varðar okkur öll.

Uppáhaldshönnuður? Þeir eru líka ansi margir en undanfarið, þegar það kemur að fatnaði, þá hef ég verið mjög hrifinn af Older Brother og nýjasta lína Virgil Abloh fyrir Louis Vuitton var sjúk. Þegar það kemur að vöruhönnun þá er Portland hérna heima að gera mjög spennandi hluti en þeir eru að vinna með sjálfbæra hönnun.

Áhrifaríkasta bók sem þú hefur lesið? Sjálfstætt fólk og einnig las ég oft bókina Kötturinn í örbylgjuofninum sem barn, hún hafði mjög skaðleg áhrif á myrkfælni mína.

Fallegasta bygging á Íslandi? Ásmundarsafn.

Ásmundarsafn er fallegasta bygging Íslands að mati Andreans.

Uppáhaldsborg og hvers vegna? Það er mjög erfitt að gera upp á milli allra þeirra borga sem maður hefur komið til. Það er alltaf eitthvað sem að heillar mann upp úr skónum en fyrir mér standa Yogjakarta og Tókýó upp úr. Yogjakarta iðar af lífi enda listaborg Indónesíu og nálægt henni eru sögulegu hofin Borabudur og Prambanan. Tókýó er ýkt, hröð, stórskrýtin, sjúklega skipulögð, módern en varðveitir gamla siði.

Besta kaffihúsið? Reykjavík Roaster í Brautarholti og Kattarkaffihúsið.

Flottasti veitingastaðurinn? Ég er fórnalamb Egg Florentine-réttarins á Coocoo’s Nest og þar er ég flestar helgar í góðum félagsskap að háma í mig, spjalla um yfirborðskennda hluti og súpandi Mimosa. Það er fallegur veitingastaður.

Sér eftir að hafa fengið sér tattúin

Jessica Alba hefur farið í lasermeðferðir í von um að losna við tvö gömul tattú en ekkert gengur.

Leikkonan Jessica Alba sér eftir að hafa fengið sér tvö af þeim nokkru húðflúrum sem prýða líkama hennar. Annað er mynd af slaufu og er staðsett á mjóbakinu og hitt er mynd af blómi, staðsett aftan á hálsi hennar.

Leikkonan hefur reynt að láta fjarlægja húðflúrin með lasermeðferð en án árangurs.

„Ég er með nokkur tattú, ég sé eftir að hafa fengið mér eitt þeirra, kannski tvö…,“ sagði leikkonan í viðtali við Refinery29.

Þetta eru tattúin sem Alba sér eftir að hafa fengið sér.

„Ég fékk mér blómatattúið þegar ég var um 17 ára gömul og ég er svo pirruð yfir að hafa fengið mér það. Ég hef margoft farið í laser er það fer ekki.“

Alba er þó greinilega hvergi nærri hætt að fá sér tattú því nýverið lét hún húðflúra stjörnumerki barna sinna þriggja á vinstri handlegg. Hún segir þau húðflúr vera í miklu uppáhaldi hjá sér.

Sjá einnig: Vilja losna við kínversk tákn og nöfn fyrrverandi

Raddir