Nú er sumar og þá er gott að njóta þess að lesa. Í hröðum heimi tækni og eilífra breytinga er gott að geta gripið niður í bók því á meðan stendur tíminn í stað. Sagan grípur og flytur lesandann ýmist fram eða aftur í tíma.
Litrík æska vísindamanns
Ævar vísindamaður er börnum þessa lands að góðu kunnur, enda kann hann að gera áhugaverðar og fræðandi tilraunir í sjónvarpi. Bækurnar um bernskubrek hans eru ekki síður vinsælar og ef marka má það sem þar kemur fram hefur æska hans verið viðburðarrík, skemmtileg og ansi hreint skrautleg.
Í nýjustu bókinni um hann Óvænt endalok, hendist vísindamaðurinn upp á hálendi Íslands og tekst þar á við nýjustu tækni sem farið hefur úr böndunum. Ævar kann sannarlega að byggja upp spennu, hann er fyndinn og textinn einstaklega lipur og líflegur. Þetta er frábær bók fyrir stálpaða krakka og foreldra þeirra. Útg. Mál og menning
Ást og söknuður
Á heimsenda eftir Dagnýju Maggjýar lýsir viðleitni dóttur til að fá móður sína aftur eftir sú síðarnefnda sviptir sig lífi. Þetta er sönn saga og enn átakanlegri fyrir vikið. Magnea Guðný Stefánsdóttir er sextug, lífsglöð kona og langar að líta betur út. Hún fer því í aðgerð til að laga slitför á maganum en vaknar upp svo heltekin af þunglyndi að ekkert nær að létta því.
Börnin hennar og eiginmaður standa ráðalaus hjá meðan veikindin aukast og að hún nær að lokum að fremja sjálfsvíg í þriðju tilraun. Bókin er einstaklega vel skrifuð á kjarngóðu og fallegu íslensku máli þótt það sé svolítið leiðinlegt að textinn er ekki nógu vel prófarkalesinn. Lýsingar Dagnýjar á uppvexti og æsku móður sinnar eru einstaklega vel unnar og gefa innsýn í veröld sem nú er löngu horfinn. Þótt vissulega virðist að þunglyndið hafi snögglega náð tökum á Magneu er samt ljóst að hún hefur þurft að glíma við margvísleg áföll og erfiðleika allt frá fæðingu. Hér er svo margt sagt sem þörf er á að veita út í umræðuna og örlagasaga þessarar konu svo mögnuð að enginn getur lesið þessa bók ósnortinn. Útg. Dagný Maggjýar
Útlaginn ráðagóði
Engin málamiðlun eftir Lee Child er nýjasta bók hans um útlagann og fyrrum herlögreglumanninn Jack Reacher. Að þessu sinni ákveður hann að fara úr lestinni í smábæ sem heitir Mother’s Rest. Nafnið vakti áhuga hans en fljótlega verður ljóst að líkt og venjulega hefur Jack stigið inn í dularfulla atburðarás.
Þessi persóna er hinn dæmigerði ameríski útlagi vestranna. Hann ferðast einn, er afburðasnjall rannsakandi og slagsmálahundur en réttlætiskenndin rekur hann ætíð til að hjálpa þeim sem um sárt eiga að binda. Michelle Chang leitar félaga síns, einkaspæjarans Keevers sem er horfinn en sást síðast í Mother’s Rest. Útg. JPV
Heima er best eða hvað?
Þegar skáldsagan Gilead eftir Marilynne Robinson kom út hefðu flestir spáð henni slöku gengi. Sagan tekst á við ýmsar trúarlegar spurningar, efann og þær kvaðir sem trúin leggur á menn. Í forgrunni er náðin og fyrirgefningin. Geta menn breyst og ef þeir iðrast er náðin þá nóg til að bjarga þeim? Heima segir sögu sama fólks frá öðru sjónarhorni, Glory, aðalpersónan er yngri systir Jack Broughtons. Alkóhólista sem frá æsku hefur verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni, sá sem alltaf var í vandræðum og olli vonbrigðum.
Glory er snúin aftur til Gilead til að hugsa um föður þeirra, gamlan prest í ellinni þegar Jack boðar komu sína heim. Systkinin eiga sér bæði leyndarmál og berjast við sorg en þau geta ekki talað um hana. Að þessu sinni þarf lesandinn að spyrja sig hvað gerir hús að heimili og hvað er fjölskylda? Hvað bindur okkur öðrum manneskjum og hvernig getum við nýtt okkur stuðning og ást fjölskyldunnar? Kannski er það engum að kenna að einhver einn kemur aldrei til með að tengjast fullkomlega, tilheyra hinum. Þetta er mögnuð saga, skrifuð á lágstemmdan áhrifamikinn hátt. Útg. Ugla.
Í gegnum árin hefur Hús og híbýli skoðað ótal falleg íslensk sumarhús. Hér er smá brot af þeim sumarhúsum sem við höfum skoðað en þau hafa verið eins misjöfn og þau eru mörg.
„Stolinn koss er ávallt sætastur,“ sagði einhver. Jú, það getur vissulega verið sætt að stela sér kossi en ef viðkomandi er ókunnugur, eða svo gott sem, er huggulegt að biðja um leyfi. Spurningin „má ég kyssa þig?“ getur jafnvel verið mjög sexí og kveikt neista sem fer eins og eldur um sinu.
Ég veit svo sem ekki hvort það sé hægt að kenna einhverjum listina að kyssa vel; kannski er þetta svolítið spurning um að vera annaðhvort góður í því eður ei. Svo er auðvitað huglægt hjá hverjum og einum hvað er góður koss og hvað ekki. En eitt er víst að það er um að gera að æfa sig og kossar skaða ekki, sé rétt farið að og þeir skiljia ekki eftir sig frunsu eða bitsár.
Ég held því fram, algjörlega kinnroðalaust, að ég sé mjög góð í að kyssa. Og mér finnst það afar gaman þótt ég geri ekki alveg nógu mikið af því þessa dagana. „Gerðu meira af því sem gerir þig glaða,“ er ágætis tilvitnun sem ég ætti kannski að taka til athugunar. Og jafnvel ganga lengra og segja: „Gerðu meira af því sem gerir þig glaða og graða.“
Þegar pör hafa verið lengi saman gleymist nefnilega stundum að kossar geta verið stór hluti af forleiknum, það er oft verið að flýta sér og fólk dembir sér beint í rúmið án þess að gera mikið meira en rífa sig úr fötunum og ganga til verks. Hvað kveikir meira í manni en kossar og létt kitl á næmu svæðin eins og til dæmis varirnar og hálsinn?
Holly Richmond, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi, hvetur sambúðarfólk og kærustupör til að gera meira af því að kyssast og segir að kelerí hafi önnur áhrif á tilfinningar fólks heldur en kynlíf. Kossar gefi til kynna að maður hafi áhuga á viðkomandi og langi til að eiga tíma með honum, það liggi ekkert á og aðalmálið sé að njóta. Það sé sem sagt ekki bara verið að stefna á að ná fullnægingu eins og er nú líklega oftast málið í kynlífinu.
Velkomin heim, voff voff
Ég skil hvað Holly er að fara með kossa í samböndum en verandi einhleyp er ég meira að kyssa mér til gamans. Reyndar finnst mér þetta auðvitað líka spurning um að sjá svo hvort kossaflensið geti leitt til einhvers meira. Að mínu mati skiptir góð færni í kossum mjög miklu máli og ég myndi satt að segja ekki nenna að eyða mjög löngum tíma í að reyna að fá einhvern til að verða betri í þessari list sem kossar eru. Ég hef kysst nokkuð marga gaura og það hefur verið jafnmisjafnt og þeir hafa verið margir.
„Það er líka eitthvað kynæsandi við það að vera beðinn svona um leyfi fyrir kossi.“
Þegar hinn gríski Konstantinos, sem var líkastur grískum guði í mannsmynd, hallaði sér að mér og spurði hvort hann mætti kyssa mig, kiknaði ég í hnjánum og fékk fiðring út um allt. Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki orðið annað en stórkostlegt svo ég kinkaði kolli, ég gat ekki talað því ég kom ekki upp orði fyrir spennu. Konstantinos með sínar þykku og fagurlega löguðu varir hallaði sér rólega að mér og horfði djúpt í augu mín. Hann mátti eiga það að hann byrjaði vel. Það er líka eitthvað kynæsandi við það að vera beðinn svona um leyfi fyrir kossi. En svo byrjaði ballið. Grikkinn fór hamförum með vörunum og tungunni, rétt eins og andlitið á mér væri risastór sleikipinni. Hann kyssti mig með opnum munni yfir allt andlitið og sleikti mig einhvern veginn í framan í hverjum kossi. Nú hef ég aldrei átt hund, en ég get ímyndað mér að svona myndi húsbóndahollur hundur taka á móti eiganda sínum eftir langan aðskilnað. Voff!
Svo var það hinn þýski Michael. Hann var hvorki með þykkar varir né fagurlega lagaðar og það að kyssa hann gerði barasta ekkert fyrir mig. Hann skaut tungubroddinum alltaf upp í mig ótt og títt, mjög hratt, inn út, inn út, inn út. Þegar ég lokaði augunum ímyndaði ég mér að ég væri að kyssa slöngu, þið vitið hvernig þær eru; skjótandi út úr sér tungunni. Ég hugsaði líka að þetta hlyti að vera óskaplega þreytandi fyrir hann, þ.e.a.s. ef maður getur orðið þreyttur í tungunni. Við Michael vorum búin að hittast í smátíma þegar ég ákvað að segja við hann að ég væri ekki alveg að fíla þessa slöngu-aðferð hans. Hann tók ekkert sérlega vel í þessa athugasemd mína og sagði: „Allar konur sem ég hef kysst hafa sagt að þeim þætti þetta rosalega gott.“ Ég brosti blítt og sagðist þá annaðhvort vera sú fyrsta sem þetta höfðaði ekki til eða ég væri sú fyrsta sem þyrði að segja satt.
Svo hef ég kysst menn sem hafa alveg verið með þetta og ég hefði hugsanlega getað staðið í kossaflensi með þeim allan sólarhringinn. Og margir þeirra hafa verið íslenskir, ég vil taka það fram svo ekki sé á strákana okkar hallað.
Að spyrja um leyfi getur verið sexí
„Góður koss ætti að vera eins og góðar samræður,“ sagði vinur minn um daginn þegar ég var að leggja drög að þessum kossapistli mínum og spurði hann hvað honum þætti um kossa. „Maður þarf að koma með innlegg í umræðuna, fattarðu. Og það sama á við um kossa. Maður til dæmis hægir á sér og þá læðir hinn aðilinn tungunni inn fyrir varirnar á mér á meðan. Mér finnst líka geggjað ef hún færir sig frá því að narta létt í varirnar yfir í það að narta létt í eyrnasneplana. En það má ekki bíta fast, nema með mínu leyfi,“ sagði hann og blikkaði mig.
„Góður koss ætti að vera eins og góðar samræður.“
Vinkona mín sem sat þarna við borðið hjá okkur kinkaði kolli og sagði að það skipti líka máli að hinn aðilinn væri með athyglina í lagi. „Ef hann til dæmis er alltaf að reyna að reka upp í mig tunguna en ég er með munninn harðlokaðan, þá er greinilegt að mig langar ekkert að hleypa henni upp í mig,“ sagði hún ákveðin. „Ég vil ekki að gaurinn ráðist á mig eins og ég sé risastór ís með dýfu. Fyrir mér skiptir máli að byrja rólega á kossinum, með lokaðan munn og svo er hægt að opna örlítið fyrir fleiri möguleika. Mér finnst líka alltaf notalegt þegar hann tekur varlega utan um höfuðið á mér eða gælir við hárið í hnakkanum á meðan við erum að kyssast.“
Við sammæltumst um að það væri svo sem ekkert eitt rétt í þessum kossamálum. Aðalatriðið væri að sýna virðingu og vera meðvitaður um að lesa í aðstæður.
Ekki gleyma kossunum þegar kemur að forleiknum
Það skiptir máli í þessu, eins og í svo mörgu öðru, að báðir aðilar séu á eitt sáttir og það sé ekki verið að þvinga neinn til að gera eitthvað sem hann ekki vill. Þess vegna er gott að spyrja um leyfi áður en maður smellir óumbeðnum kossi á varir einhvers. Sérstaklega ef þið þekkist lítið sem ekkert. „Má ég kyssa þig?“ getur verið mjög sexí spurning. Það er til dæmis hægt að hvísla því lostafullt í eyra hins aðilans og gera þetta svolítið sexí. Ókunnugi maðurinn hristir kannski höfuðið og þá nær það ekki lengra. Þá má bara halda leitinni áfram.
En svo geta kossar líka verið hluti af forleiknum, bæði hjá ykkur sem þekkist lítið sem ekkert, eða ykkur sem eruð í föstu sambandi eða hjónabandi. Smellið kossi á eiginmanninn næst þegar þið undirbúið kvöldmatinn í eldhúsinu. Það getur verið mjög rómantískt. Eða þar sem þið eruð í göngutúr í Heiðmörk. Maður er svo fljótur að festast í hversdagsleikanum og vananum og gleyma litlu hlutunum sem gefa lífinu smávegis lit. Varirnar eru ekki eini staðurinn sem hægt er að kyssa. Það má kyssa augnlokin, kinnarnar og í kringum eyrun. Svo er hálsinn næmt svæði og hægt að koma mörgum til með því að kyssa eða renna tungunni þar létt yfir.
Nokkur kossaráð Veru
Burstaðu tennurnar og notaðu tannþráð. Það er reyndar magnað hvurslags kraftaverk tannþráður einn og sér getur gert. Rotnandi matarleifar gefa ekki góða lykt og það er rosalega fráhrindandi að vera með andfýlu eins og það kraumi í graftarpolli í iðrunum.
Ekki byrja á tungunni – hviss, bamm, búmm. Kossinn byrjar með vörunum. Mundu að það má líka kyssa aðra staði en varirnar, til dæmis kinnarnar, hálsinn og eyrun.
Passaðu þrýstinginn. Þetta á ekki að vera eins og að kyssa tuskudúkku, þannig að þrýstinginn má ekki vanta en hann má heldur ekki vera of mikill.
Ekki ofhugsa kossana en reyndu samt að lesa í aðstæðurnar og hvernig og hvar hinn aðilinn er að kyssa þig því það er líklegt að hann vilji að þú kyssir hann þannig á móti.
Hafðu hemil á munnvatninu. Munnurinn á þér á ekki að vera eins og krani.
Ef þú veist ekki hvort hinn aðilinn sé hrifinn af því að láta narta í varirnar á sér, skaltu sleppa því. Sumum finnst það gott en öðrum ekki og það er betra að vera viss. Það má spyrja og svo má líka prófa sig rólega áfram með því að sjúga til dæmis neðri vörina varlega og narta svo örlétt í hana. En ekki sjá hinn aðilann fyrir þér sem safaríkan hamborgara sem þú ætlir að sökkva tönnunum í, það kann ekki góðri lukku að stýra.
Hér kemur uppskrift að geggjaðri brúskettu með lárperu, eggi og dilli. Fullkominn réttur í brunchinn.
Hérna setur dillið punktinn yfir i-ið en dill er frábær kryddjurt sem getur dafnað mjög vel í íslenskum görðum. Ferskt dill er alls ekki það sama og þurrkað dill og þó að fólk sé ekki hrifið af þurrkuðu dilli getur allt annað verið uppi á teningnum þegar kemur að því ferska.
Brúsketta með lárperu, eggi og dilli fyrir 1-2
3 msk. saxað dill
2 msk. saxaður graslaukur
2 msk. söxuð steinselja
1-2 harðsoðin egg
3-4 msk. majónes
3 tsk. dijon-sinnep
1-2 súrdeigsbrauðsneiðar
1 lárpera, skorin í sneiðar
2-3 tsk. kapers
ferskt dill, til skrauts
nýmalaður svartur pipar
gróft sjávarsalt
góð ólífuolía, til þess að dreypa yfir
Blandið saman söxuðum kryddjurtum og veltið soðnu eggjunum upp úr þeim. Setjið þau til hliðar.
Blandið kryddjurtunum sem eftir eru saman við majónes og dijon-sinnep, bragðbætið með salti og pipar.
Ristið brauðsneiðina á grilli eða pönnu, dreifið vel af sósunni á brauðið, raðið lárperu og eggjum ofan á, dreifið kapers yfir ásamt dilli, salti og pipar og dreypið ólífuolíu yfir.
Í þeim hafsjó af öppum sem leynast í AppStore (iPhone) og PlayStore (Android) getur verið erfitt að finna það sem hentar þér best. Við tókum saman nokkur öpp sem öll tengjast heilsu sem óhætt er að mæla með.
Daily Burn Trainer Workouts
Þetta app er velþekkt meðal líkamsræktarunnenda og lofað af mörgum einkaþjálfurum. Þarna færðu aðgang að þúsundum æfinga, allt frá 10 mínútna löngum upp í klukkutíma. Innan þess er virkt samfélag notenda sem nýtist mörgum vel sem hvatning og stuðningur.
Keep It Cleaner
Auk þess að innihalda matarplön og hundruð uppskrifta, býður Keep it Cleaner-appið upp á 12 vikna þjálfunarprógramm, lagalista og utanumhald mælinga. Svitnaðu með HIIT-þolæfingum, boxi, jóga eða pilates-æfingum, en mundu eftir upphitunum og teygjum. Leiðbeiningar að öllu þessu má finna í Keep It Cleaner-appinu.
Yoga Wake Up
Ef þú ert ekki morgunmanneskja en langar að verða það, gæti þetta app verið svarið. Það leiðir þig í gegnum stutta jógaæfingu eða hugleiðslu, sérhannaða til að byrja daginn sem best. Mildar og þægilegar æfingar án nokkurs hamagangs.
Strava
Ef þú hleypur eða hjólar, verðurðu að ná þér í Strava. Appið skráir niður æfingarnar þínar með GPS og greinir fjarlægðir, hjartslátt og fleira. Þar getur þú einnig fundið hugmyndir að nýjum leiðum. Þetta er eins og háþróuð hjólatölva í símanum. Taktu þátt í áskorunum, deildu myndum og fylgstu með vinum þínum inni í notendasamfélagi Strava.
Sleep Cycle
Svefn skiptir miklu máli hvað varðar heilsu okkar og vellíðan. Með notkun Sleep Cycle færð þú góða yfirsýn yfir svefnvenjur þínar og gæði svefns þíns. En það sem gerir þetta app sérstakt er að það vekur þig á morgnana þegar þú ert á léttasta stigi svefnsins, svo þegar þú vaknar ættir þú að vera rólegri, úthvíld/ur og tilbúin/n í daginn. Hljómar vel, ekki satt? Að minnsta kosti þess virði að prófa.
Ítalska húsgagnafyrirtækið Kartell hefur sett á markað nýja útgáfu af sinni þekktustu hirslu en hún er nú framleidd úr lífrænu plasti.
Hönnunin er unnin í samstarfi við ítalska plastframleiðandann Bio-on sem sérhæfir sig í lífrænu plasti og er það unnið úr lífrænum landbúnaðarúrgangi ásamt því að vera algerlega sjálfbært.
Hrönn Traustadóttir, ætlaði aldrei að feta í fótspor móður sinnar en lífið hagaði því þannig til að Hrönn vinnur við listir í dag, ásamt því að kenna öðrum teikningu, litafræði og hönnun við Tækniskólann.
Hrönn er einkadóttir Fríðar Ólafsdóttur, fatahönnuðar og sérfræðings í íslenska þjóðbúningnum, en Fríður kenndi einnig textílmennt við Kennaraháskóla Íslands. Hrönn hefur því fetað í fótspor móður sinnar en auðvitað einnig farið sínar eigin leiðir í lífinu sem hefur verið mjög viðburðaríkt.
Ólst upp í listrænum jarðvegi
Fyrstu tvö árin ólst Hrönn upp í Kópavogi, þá flutti hún ásamt móður sinni og föður til Berlínar en þangað fóru foreldrar hennar í nám.
„Mamma var að fara í fatahönnun og pabbi, Trausti Valsson, í arkitektúr. Seinna sérhæfði mamma sig í íslenska þjóðbúningnum og kenndi við Kennó og pabbi varð prófessor í skipulagsfræðum. Ég er einkabarn foreldra minna sem skildu en síðar eignaðist pabbi aðra dóttur þannig að við systurnar erum samfeðra,“ segir Hrönn sem býður blaðamanni upp á blátt blómate. Róandi fagurblátt tevatnið passar vel við stemninguna sem Hrönn er búin að skapa í fallegri aðstöðu sem hún nefnir Lífsstöðina og er staðsett í miðborg Reykjavíkur. Litir skipa stóran sess í lífi Hrannar sem klæðist litríkum fallegum fötum og skreytir umhverfi sitt í miðborginni með litum. Þarna er lítil aðstaða fyrir jóga og heilun þar sem gong-hljóðfærið skipar stóran sess.
„Blár litur er róandi fyrir okkur. Heima á Selfossi er efri hæðin öll máluð í bláum tónum. Það er engin tilviljun að María mey var í bláum kufli eða að Rafael erkiengill lækni með bláum lit. Himinblár litur hefur góð áhrif á okkur. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á litum og get lesið í litatóna. Það er gott að hafa marga liti heima hjá okkur. Börn þurfa lita örvun þegar þau fæðast, það er partur af þroska barnsins. Þess vegna svo mikilvægt að umkringja börn allskonar skærum litum. Það er ekki gott fyrir neinn að klæðast svörtum lit alla daga. Við þurfum fleiri liti, bæði börn og fullorðnir því þeir næra sálina okkar,“ segir Hrönn sem deilir með lesendum Vikunnar allskonar fróðleik í eftirfarandi viðtali sem fram fór á dögunum í blíðskaparveðri.
Konur verða að stíga fram núna
Já, lífið hefur leitt Hrönn áfram til sjálfsþekkingar í gegnum áföll og ákvarðanir um að snúa áföllum í sigur.
„Undanfarin ár hef ég verið að læra heilunaraðferðir með jóga. Ég hef stundað nám í HAF Yoga í vatni, Reiki heilun og Yoga Nidra ásamt því að þjálfast í notkun gongs- ásláttarhljóðfæris sem hefur ótrúlega djúp heilunaráhrif fyrir taugakerfið og líkamann í heild sinni. Ég var einmitt að klára fimm daga þjálfun í hljóðheilun með mjög færum erlendum gong-meisturum sem komu hingað til lands. Gong er hljóðfæri friðar og ljóss, það hjálpar til við að heila heiminn okkar og auka frið. Gong-meistararnir sögðu að tími kvenna væri komin, þær yrðu að stíga fram og hjálpa til við heilun jarðarinnar. Konur verða að hætta að halda aftur af sér. Þeir sögðu tímana núna fram til ársins 2025 vera umbrotatíma.
„Konur skipta miklu máli í þessari uppbyggingu sem fram undan er á jörðunni.“
Andlega þenkjandi fólk er að tengjast betur því þörfin er núna fyrir þessar hógværu sálir að stíga inn í mátt sinn og valdefla sig. Konur skipta miklu máli í þessari uppbyggingu sem fram undan er á jörðunni. Umburðarlyndi verður að aukast fyrir fólki sem er ólíkt okkur sjálfum, allir verða að vera sveigjanlegir í viðhorfum sínum því fjölbreytileiki er af hinu góða.
Gamli tíminn er að hverfa og ný jörð er að fæðast. Mér fannst mjög merkilegt að hlusta á þessa menn og læra af þeim. Ég finn að ég er ein af þessum konum sem eiga að vera sýnilegar en við erum miklu fleiri. Konur þurfa að opna fyrir þá hæfileika sem þær búa yfir og nota þá mannkynið til framdráttar. Tími eigingirni og græðgi er liðinn. Nú verðum við að vinna saman að betri jörð, lækna umhverfi okkar og bæta samskipti okkar á milli,“ segir Hrönn með áherslu og maður finnur kraftinn þegar hún talar, að henni er alvara. Tíminn er núna, ekki á morgun.
Áföll leiddu hana í heilun
Hrönn er að fara í sumarfrí frá lifibrauði sínu sem er kennsla við Tækniskólann og langar að stíga skrefið núna með það sem hjarta hennar þráir en það er að hjálpa öðrum. Hrönn hefur þjálfað sig í margskonar heilunaraðferðum í gegnum árin, sem voru fyrst og fremst til þess að hjálpa henni sjálfri í upphafi. Hún hafði lent í tveimur bílslysum sem ollu henni miklum áverkum og hún var mörg ár að vinna úr.
Á þrítugsaldri þurfti hún að leita sér hjálpar á Reykjalundi. Óhefðbundnar leiðir hafa einnig gert heilmikið fyrir hana ásamt þeirri læknishjálp sem hún hefur fengið frá læknum á árunum eftir bílslysin. Þessi áföll opnuðu fyrir áhuga hennar á fleiri leiðum til lækninga. Lífsstöðin er einmitt svoleiðis staður, þar sem Hrönn ætlar að opna dyrnar fyrir þeim sem eru að leita að vellíðan. Í Lífsstöðinni býður Hrönn upp á Reiki heilun, Gong-hljóðheilun og slökun, Yoga Nidra, Litameðferð og Slow Yoga en HAF Yoga fer fram annars staðar í vatni.
Alltaf verið næm á fólk og dýr
Við gefum Hrönn orðið um leið og við biðjum hana um að rifja upp æviskeið sitt:
„Ég hef alltaf verið næm og amma Hrefna, móðuramma mín, var það einnig. Við vorum alltaf mjög góðar vinkonur á meðan hún lifði. Ég bjó ásamt foreldrum mínum í Berlín frá tveggja til sjö ára aldurs en þá sagðist ég vilja fara heim til ömmu Hrefnu og afa í Kópavogi og fékk það. Þegar ég var fimm ára fékk ég heilahimnubólgu, þá stödd í Danmörku og líkurnar á bata voru ekki góðar. Mamma mátti bara heimsækja mig og hringdi í ömmu á Íslandi til að biðja um hjálp. Amma talaði meðal annars við Einar á Einarsstöðum og sagði mömmu daginn eftir að hinir og þessir læknar að handan, hefðu farið inn til mín, að þeir hafi farið þarna inn ganginn og lýsti umhverfinu þar sem ég lá. Hún fékk þau skilaboð að ég myndi læknast og verða heil. Þetta fékk ég að heyra seinna frá ömmu en það tíðkaðist ekki að tala um svona hluti. Við amma skildum vel hvor aðra.
Ég var send í sveit í sjö sumur eftir að ég flutti heim til Íslands. Það fannst mér gaman og langaði að verða bóndi því mér leið svo vel í sveitinni. Ég hef alltaf verið nátengd dýrum, gat talað hesta og hunda til og fékk hundinn á bænum til að gera hluti sem engin annar gat. Þetta fannst fólkinu á bænum merkilegt. En lífið var ekki bara dans á rósum því ég var með mótþróa á unglingsárum og ætlaði ekki að vera skapandi eins og mamma mín. Ég ætlaði að verða sálfræðingur því ég var sú sem aðrir leituðu til og var oft að hjálpa vinum mínum og fannst þess vegna skynsamlegt að ég yrði sálfræðingur.
Ég var mjög oft beðin um að kíkja í tarotspil fyrir vini mína og síðar tók ég alla sálfræðikúrsa í menntó sem ég gat. Eftir menntaskólann ákvað ég samt að starf sálfræðings væri líklega allt of erfitt fyrir mig. Mér fannst ég líka farin að taka svo mikið inn á mig. Þarna er ég farin að smakka áfengi og varnir mínar veiktust við það en það þarf að passa sig á þessu þegar maður er næmur. Mig langaði ekki lengur í þetta andlega og fór til Heidelberg í Þýskalandi í listasögu við háskólann þar. Mamma og fósturpabbi minn voru nokkur ár þarna úti og ég var mikið í kringum þau.
Mér fannst það ákveðið öryggi fyrir mig. Svo veiktist ég upp úr þurru og varð rosalega veik. Ég horaðist niður og læknar vissu ekki hvað var að gerast og ég hélt að ég væri komin með magakrabba. Ég hringdi í ömmu sem sagði mér að koma heim í ömmumat sem ég gerði og var lengi heima hjá ömmu á Íslandi. Ég fór aftur út til Þýskalands þegar ég var orðin hraust og dvaldi þá til 25 ára aldurs í Þýskalandi.“
Fór að vinna hjá RÚV
„Eftir að ég kom heim aftur þá fékk ég vinnu á RÚV í búningadeild og við að útbúa auglýsingar. Það var skemmtilegt starf og síðan var ég aðstoðarkona Helgu Stefáns með búningana í kvikmyndinni Svo á jörðu sem á himni. Allt voða gaman nema að þegar við vorum við tökur á Höfn í Hornafirði þá lenti ég í slæmu bílslysi og fór illa í bakinu því ég fékk ekki þá aðhlynningu sem ég þurfti strax eftir slysið. Læknir gaf mér deyfilyf og ég sá stjörnur en hélt áfram að vinna. Við vorum á leið upp á Vatnajökul í tökur og ég var aftan á snjósleða sem hossaði á ísnum.
Þetta var svakalega vont og ég henti mér af sleðanum en maðurinn tók ekki eftir því. Ég gerði þetta viljandi því mér var svo illt í bakinu og gat ekki hossast meir. Þeir fóru svo að leita að mér og fundu mig liggjandi á ísnum en ég var svo kvalin að ég gat ekki talað. Þegar sjúkrabíllinn kom fékk ég fimm morfínsprautur en ekki dugði minna til að slá á sársauka minn. Ég er send til Reykjavíkur og í kjölfarið lögð inn á Reykjalund þar sem ég fór í endurhæfingu í þrjá mánuði.“
Ítalía heillaði Hrönn í hönnunarnám
„Þarna er ég orðin 26 ára gömul og nýbúin í endurhæfingu á Reykjalundi. Á þessum tíma fór ég að spá hvað ég ætti að læra sem ég myndi finna mig í og fékk sendan ofboðslega fallegan bækling frá einum besta hönnunarskóla í Mílanó á Ítalíu, Marangoni, sem enginn Íslendingur hafði þá stundað nám við. Það var mjög strangt inntökupróf í þennan skóla og erfitt að fá lán frá LÍN til að stunda nám við skólann. Ég þurfti að fá alla pappíra frá skólanum og senda til LÍN til að námið yrði lánshæft en fyrst fór ég til Flórens og lærði ítölsku í þrjá mánuði. Ég dvaldi síðan í sjö ár í Mílanó.
Á miðri leið í náminu skipti ég um hest í ánni og lærði Trend-hönnun sem mér fannst ótrúlega spennandi nám og finnst enn. Þarna var ég komin í nám sem tók á straumum og stefnum í hönnun á heimsvísu í framtíðinni. Þarna vorum við að áætla tískustrauma á fatnaði, bílum, kremi, ilmvatni, pólitík, tónlist og miklu fleira. Mér fannst þetta stórkostlegt nám en það eru ráðgjafar innan stórra fyrirtækja sem eru með svona Trend-hönnuði á snærum sínum,“ segir Hrönn uppveðruð þegar hún lýsir þessum stórkostlega hönnunarháskóla á Ítalíu.
Ástin bankar upp á
Námsferðin til Ítalíu varð örlagarík því Hrönn eignast ítalskan kærasta og á með honum son. „Við slitum samvistum og ég var um stund einstæð móðir á Ítalíu sem var erfitt og því ákvað ég að fara heim til Íslands. Mig langaði samt ekkert að stoppa lengi heima og vildi frekar halda áfram til Los Angeles og fara þar í nám í teiknimyndagerð, brellum og tækni. Fósturpabbi minn jarðtengdi mig og benti mér á að skapa öryggi fyrir mig og son minn með föstum mánaðartekjum. Ég hélt áfram í búningabransanum um tíma en svo um haustið 1998 sótti ég um kennarastarf á mínu sviði við Iðnskólann í Reykjavík og fékk,“ segir Hrönn sposk og maður fær á tilfinninguna að einhver sæt saga sé í uppsiglingu.
„Við vorum fjórtán nýir kennarar ráðnir við Iðnskólann þetta haust og ég fann að ég var ánægð þarna. Þegar líða tók að jólum var haldið jólaball fyrir kennarana og ég ætlaði ekki að nenna en ég var eiginlega rekin á þessa skemmtun af systur minni. Þannig að það var í eina skiptið sem ég fór ein á ball. Þar kom til mín maður sem spurði hvort ég vildi dansa – ég spurði hvort hann væri maki einhvers því ég hafði ekki séð þennan mann áður. Við byrjuðum þá víst bæði um haustið að kenna við Iðnskólann án þess að ég hefði hugmynd um að hann væri þarna. Þetta kvöld á jólaballinu var ankerið sett niður af mér og Tomma sem er eiginmaður minn í dag. Það var samt ekkert létt hjá okkur Tómasi Jónssyni í byrjun sambandsins því hann Tommi minn var einstæður faðir þá með dóttur með downs-heilkenni. Að auki var hann tvífráskilinn sem þótti ekki gott afspurnar.
„Það var samt ekkert létt hjá okkur Tómasi Jónssyni í byrjun sambandsins því hann Tommi minn var einstæður faðir þá með dóttur með downs-heilkenni. Að auki var hann tvífráskilinn sem þótti ekki gott afspurnar.“
Allir í kringum mig spurðu hvort ég væri ekki frekar á leiðinni til LA í frekara nám, hvað ég væri að gera með honum. Fólk hafði verulegar áhyggjur af mér með einstæðum föður sem átti þrjár dætur og að ein þeirra væri þroskaheft. Ástin batt okkur saman og við fluttum inn hvort með sitt barnið á Njarðargötu, í hús sem hafði verið byggt af systrum ömmu minnar úr föðurætt og fjölskyldum þeirra. Ég hélt áfram að kenna við Iðnskólann, sótti um sem sviðsstjóri hönnunarsviðs skólans og stýrði því starfi í átta ár. Í dag kennum við hjónin enn í skólanum,“ segir Hrönn.
Svo liðu árin. Hrönn og Tomma langaði að eignast barn saman en það gekk ekki. Þau ákváðu eftir þriggja ára mislukkaðar hormónameðferðir og glasafrjóvgun að ættleiða barn frá Kína. Það tók önnur þrjú ár og gekk ekki snurðulaust heldur því yfirvöldum fannst þau eiga nóg af börnum. Þau sóttu aftur um ættleiðingu og eiga í dag tólf ára stúlku sem heitir Harpa.
„Við ættleiddum lítið tíu mánaða gamalt stúlkubarn frá Kína sem heitir Harpa Hua Zi Tómasdóttir. Þegar við sóttum hana loks til Kína þá var hún svo lítil að við þurftum að klæða hana í stærð 62/68 af ungbarnafötum. Hún var í bleikum bómullargalla þegar við sáum hana fyrst með límmiða framan á sér þar sem nafnið hennar stóð Hua Zi sem þýðir fallegt blóm á kínversku. Hún er einstaklega ljúf og glöð stúlka með marga hæfileika, meðal annars í badminton og tónlist. Við erum með hana eina hjá okkur heima í dag því sonur minn er fullorðinn maður, kominn með eigin fjölskyldu og dóttir Tomma fór til móður sinnar rétt áður en hún varð átján ára og býr þar,“ segir Hrönn.
Ævintýri í Hrísey
Þau hjónin búa í dag á Selfossi rétt við Ölfusá og keyra til höfuðborgarinnar í vinnu en þau eiga griðastað í Hrísey. Þar er hús sem kom upp í hendurnar á þeim má segja fyrir átján árum en hjónin eru greinilega óhrædd við að stökkva á tækifærin þegar þau gefast.
„Við leigðum okkur hús í eina viku í Hrísey sumarið 2001, vorum bæði að koma þangað í fyrsta sinn og leið strax vel á eyjunni. Það er einstök orka þarna fyrir norðan. Eftir vikudvöl vildum við ekki fara alveg strax heim aftur og spurðumst fyrir hvort hægt væri að leigja aðra íbúð í nokkra daga. Þannig kynnumst við honum Geira sem býr þarna allt árið um kring ásamt öðrum tæplega tvö hundruð íbúum eyjunnar. Þegar komið var að heimferð þá kom Geiri til okkar, bankaði á dyrnar og bauðst til að sýna okkur hús suður í ey sem síðar kom í ljós að var erfðabú en bróðir hans hafði búið þar en hann lést fyrr um vorið. Við löbbum með Geira að gömlu húsi og förum inn.
„Vá hvað þetta er æðislegt,“ sagði ég og hreifst strax af öllu þarna inni og gat ekki leynt hrifningu minni. Þegar Geiri sá hversu hrifin ég var þá spurði hann hvort við værum ekki svona ungt fólk sem breytir öllu innanstokks en við svöruðum því neitandi og sögðum að svona ætti húsið að vera. Við keyptum húsið í júlí það ár og er í dag uppáhaldsstaður fjölskyldunnar. Okkur Tomma fannst húsið mjög sjarmerandi í upphafi en í fyrra ræddum við við Geira, sem er níræður núna og góður fjölskylduvinur, að við yrðum að uppfæra húsið og endurnýja eftir öll þessi ár. Þær framkvæmdir standa yfir núna. Við eigum margar góðar minningar í tengslum við Hrísey og eigum góða vini á staðnum. Þessi eyja og samfélagið hefur haft svo mikil áhrif á okkur að þarna viljum við Tommi verða gömul.
Í Hrísey á hjarta mitt heima og því vil ég láta dreifa öskunni minni í hafið í kringum eyjuna þegar að því kemur. Hrísey er yndislegur staður og þarna langar mig í sumar að bjóða upp á HAF Yoga í vatni og Gong-slökun. Það er einstök orka fyrir norðan og mér er sagt að þarna sé græn orkusúla. Í Hrísey fer ég til að næra sálina mína og hlaða mig og veit að það gildir um fleiri. Það er skrýtið að ég hef búið hér og þar um jörðina, í Heidelberg, Berlín, Flórens, Mílanó, París, Odense, Dortmund og San Fransisco en vinninginn hefur litla eyjan Hrísey og þar líður mér best. Þetta er besti staður í heimi. Svo elska ég að sjá hvað ástvinum mínum líður vel þarna,“ segir Hrönn og brosir.
Konur ekki lengur brenndar á báli
Hrönn hefur mikinn áhuga á andlegum málefnum og hittir stundum næmt fólk sem horfir í gegnum hana og segir henni hvað sé fram undan. Eina slíka konu hitti hún fyrr á þessu ári sem sagði við Hrönn að hún hefði einstakan næmleika sem henni bæri að nota. Tíðarandinn væri svoleiðis að hún þyrfti ekki að óttast að koma fram því konur væru ekki lengur brenndar á báli þótt þær sinntu andlegum málum. Konan sagði að Hrönn þyrfti að virkja hæfileika sína en þora fyrst að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri næm og ætti ekki að hunsa þessi skilaboð.
„Já, það er skrýtið að segja það upphátt en mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota. Konan sagði að ég væri, ásamt fleirum, komin til að biðja fyrir heiminum. Ég yrði að virkja hæfileika mína og mætti ekki berjast á móti þessu í sjálfri mér. Við fæðumst öll með hæfileika en við þurfum að þróa þá og þjálfa. Við megum ekki hunsa meðfædda hæfileika okkar því þá verðum við vansæl.
„Já, það er skrýtið að segja það upphátt en mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota.“
Við verðum að hlusta á hjartað okkar og leyfa því að ráða för en þar er röddin sem leiðir okkur á réttan veg í lífinu. Ég fann hvað ég hafði gott af því að fara í gegnum kennaranám í HAF Yoga en þar opnuðust allar rásir í mér. Þarna er núvitund í kjarna sínum en í vatninu förum við djúpt inn í innri vöðva okkar og nærum sálina í leiðinni. Vatn er heilandi og er eitt af því sem hefur hjálpað mér að ná góðum líkamlegum bata eftir bílslysin. Ég hef verið í rosalega mikilli sjálfsvinnu eftir þessi áföll en þau hafa kennt mér margt og leitt mig á góðan stað í lífi mínu, stað sem mig langar að leyfa öðrum einnig að upplifa,“ segir Hrönn hlýlega að lokum.
Texti / Marta Eiríksdóttir Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Hljómsveitin Pale Moon var að senda frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband en það er við lagið „Exile.” Myndbandið var tekið upp einn góðviðrisdag í apríl í miðbæ Reykjavíkur.
Mikið umstang fylgdi myndbandinu og yfir fimmtíu manns tóku þátt. Sauma þurfti búninga, loka götu, gulu baðkari komið fyrir á Bríetartúni, matarvagni plantað niður, límonaðistandi hent upp og svo lengi mætti telja.
Myndbandið, sem er ansi magnað, var tekið upp í einni samfelldri töku og ekkert klippt. Því þurfti allt að ganga upp. Runan var æfð og tekin upp minnst tíu sinnum.
Myndbandið var unnið í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Blind Spot en Viktor Aleksander Bodanski tók upp og leikstýrði. Búningahönnun, grafík og útlit var í höndum Natösju Sushchenko, en hún er annar helmingur Pale Moon.
Auðveldlega gekk að fá mannskap í myndbandið en svo skemmtilega vill til að flestir í myndbandinu eru einnig tónlistarfólk en það er bara útaf því að sveitin þekkir mikið af öðru tónlistarfólki. Lagið Exile má finna á þriggja laga smáskífuni Dust of Days sem dúettinn gaf frá sér nýverið.
En lagið var hljóðritað í Fljótshlíðinni, hljóðblandað af Arnari Guðjónssyni og tónjafnað af Bassa Ólafs.
Hljómsveitin Flavor Fox hefur sent frá sér nýtt lag sem ber titilinn „Coroner.”
Með laginu fylgir tónlistarmyndband sem Atli Þór Einarsson kvikmyndagerðarmaður framleiddi og leikstýrði. Coroner fjallar um örlög flóttamanna sem flýja heimkynni sín vegna borgarastyrjaldar.
Hljómsveitina skipa Stefán Laxdal sem er forsprakki sveitarinnar Ottoman, Ævar Örn Sigurðsson úr sveitinni Zhrine og Höskuldur Eiríksson úr sveitinni Godchilla. Flavor Fox er nokkuð nýtt band og gáfu þeir út sitt fyrsta lag „Pouring Rain” í byrjum sumars.
Hljómsveitin segist ekki binda sig við ákveðna stefnu en telur að Progressive Pop lýsi þeim vel.
Í flestum fjölskyldum þykir sjálfsagt að fólk hjálpi og styðji hvert annað. Mín fjölskylda er engin undantekning þar frá en nýlega tókum við hjónin ákvörðun um að hætta alveg að aðstoða systur hans, enda okkur báðum orðið ljóst að það væri eins og að moka í botnlausa tunnu.
Doddi, maðurinn minn, er elstur fjögurra systkina. Langyngst er Sóley en tíu ár eru milli hennar og Sigga sem er næstyngstur. Það kemur því sennilega engum á óvart að mikið var látið með Sóley í æsku og hún þurfti sjaldan að dýfa hendi í kalt vatn. Þegar eldri krakkarnir voru að alast upp var oft þröngt í búi en þegar Sóley tók að stálpast var róðurinn tekinn að léttast og tengdaforeldrar mínir gátu veitt henni ýmislegt sem hin fengu ekki. Hún fékk að taka þátt í tómstundastarfi með tilheyrandi kaupum á útbúnaði, ferðalögum og öðru sem hin höfðu aldrei notið. Enginn taldi þetta eftir eða öfundaði Sóleyju.
Líkt og hin systkinin menntaði Sóley sig en ólíkt þeim var hún alltaf í vandræðum. Námslánin dugðu aldrei og hún varð í hverjum mánuði að fá lán hjá foreldrum sínum. Hún virtist líka eiga í erfiðleikum með að aga sjálfa sig. Hún skilaði verkefnum ævinlega á síðustu stundu, stundum of seint og fékk ekki að taka próf þannig að hún lauk ekki námi fyrr tveimur árum seinna en jafnaldrar. Ekkert af þessu var hins vegar Sóleyju að kenna. Kennarinn hafði ekki verið nógu skýr, hún fékk ekki senda námsáætlunina, tölvan hrundi og fleira og fleira. Oft hjálpuðu systkinin henni að vinna verkefnin sín og iðulega settist Doddi með henni fyrir prófin og hjálpaði henni að glósa og vinna sig í gegnum bækurnar.
Sóley lauk námi og fékk fljótlega vinnu. Ekki tók betra við eftir það. Þrátt fyrir að vera með ágæt laun átti hún aldrei fyrir mat eða öðrum nauðsynjum þegar líða tók á mánuðinn. Foreldrar hennar hlupu undir bagga oftar en ekki og stundum systkini hennar. Allir reyndu að kenna henni að fara betur með. Anna setti upp fjárhagsáætlun, kom henni í greiðsluþjónustu og skipulagði sparnað fyrir hana. Ekkert af þessu dugði. Sóley var fljót að segja upp greiðsluþjónustunni og sagðist ætla að sjá um sitt sjálf. Ekki leið á löngu þar til allt var komið í óefni og Sóley farin að skulda alls staðar.
Borguðu upp skuldirnar
Foreldrar hennar borguðu upp skuldirnar og kallað var til fjölskyldufundar þar sem Sóleyju var gert ljóst að nú yrði hún að taka sig á og standa sig. Anna benti henni á að þær hefðu svipuð laun og sér hefði alltaf tekist að standa fullkomlega í skilum. Sóley reiddist þessu og sagði Önnu ósanngjarna. Ekki væri hægt að bera saman aðstæður þeirra, Anna væri eldri, ætti maka og væri búin að greiða af námslánum sínum lengi. Öll vissum við að ekkert af þessu skipti máli þegar kom að fjármálunum heldur munaði mest um að Anna hafði skynsamlega stjórn á sínu en Sóley ekki.
„Fyrstu tvo mánuðina kom greiðslan með skilum en þann þriðja hringdi Sóley og nú stóð svo illa á hjá henni að hún gat ekki borgað neitt.“
Nokkrum mánuðum eftir þetta var Sóleyju sagt upp vinnunni. Í ljós kom að hún hafði séð um starfsmannasjóðinn en þegar nýr aðili tók við kom í ljós nokkrar færslur voru óútskýrðar. Skiljanlega voru samstarfsmenn hennar ekki hrifnir af þessu en féllust á að kæra ekki ef Sóley greiddi til baka það sem hún hafði tekið. Að þessu sinni tók Doddi upp veskið. Um var að ræða 300.000 kr. Hann og Sóley gerðu samning um endurgreiðslur og hún ætlaði að borga 5.000 kr. á mánuði þar til skuldin væri gerð upp. Doddi vildi ekki ganga hart að systur sinni, þótt hún hefði fljótlega fengið loforð um aðra vinnu í gegnum Sigga. Fyrstu tvo mánuðina kom greiðslan með skilum en þann þriðja hringdi Sóley og nú stóð svo illa á hjá henni að hún gat ekki borgað neitt. Doddi samþykkti að sleppa einum mánuði úr ef hún tæki upp þráðinn aftur í næsta mánuði. Það var ekkert mál að mati skuldarans en sama sagan endurtók sig næst og svo aftur næst. Eftir það hætti hún að hringja og borga. Doddi ákvað að ganga ekki á eftir peningunum.
Um svipað leyti byrjaði Sóley með Gunna. Hann var indæll maður og fjölskyldunni leist ágætlega á sambandið. Þau byrjuðu að búa saman og næstu árin virtist allt með felldu. Gunni var duglegur, rak eigið fyrirtæki og var búinn að koma sér ágætlega fyrir þegar hann og Sóley byrjuðu saman. Þau eignuðust dóttur saman og Sóley virtist hamingjusöm. Þegar Gunnar gekk út af heimilinu dag nokkurn var hún gersamlega niðurbrotin. Hún sagðist alls ekki geta ímyndað sér hvers vegna hann hefði farið og var alveg eyðilögð.
Allir vildu hjálpa
Öll systkini Sóleyjar og foreldrar voru full samúðar og vildu allt fyrir þær mæðgur gera. Tengdaforeldrar mínir fóru með þær í sólarlandaferð og við hin reyndum að bjóða þeim oft í mat, taka þær með ef við vorum að fara eitthvað og á allan hátt hlúa að þeim. Gunni virtist ætla að reynast Sóleyju vel, að minnsta kosti hvað fjármál varðaði, því hann sagði að hún gæti fengið húsið gegn því að hún gerði enga kröfu í fyrirtæki hans. Anna skoðaði ársreikninga þess og fullyrti að þetta væri góður samningur því þótt fyrirtækið væri ágætlega rekið gæfi það ekki mikinn arð.
Úr varð að Sóley samþykkti skiptin og skilnaður gekk í gegn. Þótt ekkert okkar væri tilbúið að rækta einhvern óvinskap við Gunna æxlaðist það einhvern veginn þannig að enginn talaði við hann eftir skilnaðinn. Þegar ég hitti Alla, bróður hans, fyrir tilviljun í boði hjá sameiginlegu vinafólki sagði ég honum hvað okkur hefði öllum þótt leitt að missa Gunna úr fjölskyldunni og að okkar þætti vænt um hann. Að við bara skildum ekki af hverju hjónabandið hafi brostið. Alli var svolítið kenndur og horfði á mig skrýtinn á svipinn, svo sagði hann: „Ég er ekki hissa á að þið sjáið eftir Gunna. Hann hefur gert allt sem hann mögulega gat til að taka ábyrgð á manneskju sem virðist aldrei hafa vaxið upp og kann ekkert með peninga að fara. Hún gerði aldrei neitt inni á heimilinu, allt beið eftir að Gunni kæmi heim, sama hversu seint það var. Hún eyddi og sóaði hugsunarlaust og talaði þar að auki til bróður míns með svo niðurlægjandi hætti að okkur blöskraði öllum. Við í minni fjölskyldu erum á hinn bóginn hissa á að hjónabandið hafi enst svona lengi.“
Mér hnykkti við en ég áttaði mig á að allt sem Alli sagði var satt. Sóley var og er gersamlega hömlulaus. Ef henni mislíkar sleppir hún sér alveg og eys sér yfir fólk. Þá er sama hvar hún er stödd og hún sparar ekki stóru orðin. Við í fjölskyldu hennar erum sennilega orðin svo vön skapsmunum hennar að við erum hætt að taka því alvarlega. Kannski erum við svona meðvirk. En Alli opnaði augu mín og Didda. Við rifjuðum upp ótal atvik þar sem Sóley hafði gert lítið úr Gunna í boðum og í eyru barnsins hans. Við mundum líka eftir rifrildum og öskrum sem gengu alltof langt.
„Í ljós kom að Sóley hafði gengið mjög á eignir foreldra sinna og hafði tekið út meira en nam arfi hennar fyrirfram.“
En þótt Alli hafi þarna skýrt fyrir okkur hvers vegna hjónabandið brást hélt fjölskyldan áfram að dansa í kringum Sóleyju. Nú var hún einstæð móðir og notfærði sér sannarlega þá stöðu. Tengdafaðir minn dó fyrir tveimur árum og í vetur lést tengdamamma. Þá var farið að gera upp bú þeirra. Í ljós kom að Sóley hafði gengið mjög á eignir foreldra sinna og hafði tekið út meira en nam arfi hennar fyrirfram. Tengdapabbi hafði skráð þetta niður, enda sanngjarn maður sem vildi ekki gera upp á milli barna sinna. Hún brjálaðist þegar systkinin bentu henni á þetta en nú var hins vegar öllum nóg boðið. Þau neituðu að gefa eftir og skipta jafnt því sem eftir var í búinu. Þau sögðu henni sömuleiðis að hér eftir yrði hún að bjarga sér sjálf. Síðan hefur Sóley ekki talað við systkini sín og ber þau út við aðra ættingja og segir þau hafa stolið af sér arfinum eftir foreldrana. Við látum okkur það í léttu rúmi liggja. Flestir vita sannleikann hvort sem er og við höfum lært þá lexíu að sumu fólki er einfaldlega ekki hægt að hjálpa.
Íbúi í póstnúmeri 104 hvetur fólk til að læsta ávallt útidyrahurðinni heima hjá sér. Hún og eiginmaður hennar lentu í óhugnanlegu atviki í morgun þegar þjófur gerði sér lítið fyrir og gekk inn í íbúðina og stal greiðslukorti.
„Maður heldur að maður sé óhultur heima hjá sér með hurðina ólæsta, en er það greinilega ekki,“ segir íbúi í póstnúmeri 104 sem vill ekki láta nafns síns getið. Hún og maðurinn hennar urðu fyrir óhugnanlegu atviki í morgun og vill konan vekja athygli á málinu.
Konan segir frá því í samtali við mannlíf.is að í morgun hafi innbrotsþjófur labbað inn á heimili þeirra og stolið greiðslukorti.
„Þetta gerðist í morgun. Ég og maðurinn minn sitjum í sófanum, nánast á móti útidyrahurðinni. Hurðin er ólæst eins og oft áður, þannig hefur það oft verið þegar við erum heima. Allt í einu verður maðurinn minn var við að það er einhver kominn inn í forstofuna og hann ríkur upp. Þá sér hann þessa ungu konu sem hleypur í burtu. Við hlaupum á eftir henni og náum henni,“ útskýrir konan.
„Við vissum alveg að hún hefði tekið kortið en okkur fannst skynsamlegra að láta hana bara fara og loka svo kortinu.“
Hún segir þjófinn, unga íslenska konu, ekki hafa viðurkennt að hafa tekið greiðslukortið sem lá á borði við útidyrahurðina. Þau slepptu henni og hringdu strax í lögregluna.
„Við vissum alveg að hún hefði tekið kortið en okkur fannst skynsamlegra að láta hana bara fara og loka svo kortinu,“ segir konan sem fékk þær upplýsingar frá lögreglu að sama konan hefði farið inn í fleiri hús og íbúðir í hverfinu í morgun.
„Svona er þetta bara orðið. Þetta er að verða verra og verra og maður þarf greinilega að vera á varðbergi. Maður heldur að maður sé óhultur heima hjá sér en svo er ekki. Framvegis verðum við alltaf með hurðina læsta,“ segir konan.
Hún vill vekja athygli á málinu og hvetur fólk eindregið til að læsa undantekningarlaust útidyrahurðum heima hjá sér.
Rétt við Öskjuhlíðina í Reykjavík er nýtt hverfi í uppbyggingu, húsið sem við heimsóttum er enn á byggingarstigi en það er þó ekki að sjá þegar inn er komið. Sigurborg Selma og Gísli Ingimundarson búa hér ásamt þeim Kára sem er tíu ára og Benjamín litla sem er eins árs.
Gísli er forstöðumaður áhættustýringar og gæðamála hjá tryggingafélaginu Sjóvá og Sigurborg Selma er fatahönnuður að mennt, starfar sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu.
Nýbygging miðsvæðis
Sigurborg býður okkur ljósmyndara upp á dýrindis kaffi og við hefjum spjallið. Benjamín litli fylgist athugull með því sem fram fer, greinilega skemmtilegt þegar gesti ber að garði. „Ég átti Moccamaster-uppáhellingarvél en það tók svo langan tíma að hella upp á að ég náði aldrei að drekka kaffið því ég var alltaf eitthvað svo sein. Sjöstrand-vélin hentar mér mun betur,“ segir Sigurborg og hlær.
Íbúðin er rúmir 100 fermetrar og gott flæði er í björtu í meginrýminu þar sem stofa og borðstofa liggja saman og opið eldhúsið er greinilega hjarta heimilisins en þaðan má ganga beint út á sólríkar suðursvalirnar. Í hinum hluta íbúðarinnar eru þrjú svefnherbergi með gólfsíðum gluggum og rúmgott baðherbergi með beinu aðgengi að þvottahúsi og geymslu.
Hvað varð til þess að þetta hverfi varð fyrir valinu?
„Við vorum að leita að íbúð í Hlíðunum nálægt skólanum hans Kára, eldri sonar okkar, en það var einhvern veginn ekkert í boði sem hentaði okkur. Við duttum svo á þessa íbúð en byggingin er tæknilega séð í póstnúmeri 101 þótt hún sé eiginlega nær Hlíðunum. Kári er líka að æfa körfubolta hérna í Val svo það er mjög stutt fyrir hann að fara á æfingar, mjög praktískt.“
Sigurborg segir það hafa verið lítið mál að selja gömlu íbúðina í Hlíðunum en hún skellti henni í story á Instagram og hún hafi selst nánast um leið og aldrei náð inn á fasteignavefinn. „Við vorum með þeim fyrstu sem fluttu hingað en það er auðvitað stutt síðan húsið var byggt.“
Hafa ekki verið mikil læti hérna?
„Ekki núna, en ég veit að íbúarnir hinum megin í húsinu heyra töluvert frá byggingasvæðinu. Síðasta sumar var þó verið að vinna í planinu hér fyrir framan og ég var að ærast, enda var Benjamín nánast nýfæddur og mikil læti,“ segir Sigurborg. Hún bætir því við að í dag sé hávaðamestu framkvæmdunum þó lokið og að hér sé yndislegt að vera og stutt í náttúruna í Öskjuhlíðinni.
Tímalaus hönnun heillar mest
Stíll heimilisins er látlaus og klassískur, blanda af tímalausri hönnun og fallegum húsgögnum njóta sín vel við ljósa veggina. Greinilegt er að þau Sigurborg og Gísli hafa næmt auga fyrir fallegum hlutum.
Hvaðan koma húsgögnin ykkar?
„Margt er úr fjölskyldunni, stofuborðið er í miklu uppáhaldi en það kemur frá ömmu og afa sem eru miklir fagurkerar. Síðan fengum við Wishbone-stólana og stóra armljósið frá Flos í brúðargjöf síðasta sumar og við erum mjög ánægð með hvoru tveggja. Mamma hefur líka verið dugleg að hafa augun opin fyrir okkur á nytjamörkuðum og sölusíðum á Netinu, hún gefur okkur líka alltaf eitthvað fallegt fyrir heimilið í jóla- og afmælisgjafir.“
Sigurborg bendir á borðstofuborðið og -stólana og segir hvoru tveggja hafa komið af sölusíðum á Netinu en þar megi finna hinar ýmsu gersemar ef vel sé leitað. Við forvitnumst um rúmgaflinn sem er hrár og skemmtilegur, smíðaður úr krossvið.
„Rúmgaflinn er krossviðarplata sem vinur minn smíðaði fyrir sýningu en hún var á leiðinni á haugana.“
„Rúmgaflinn er krossviðarplata sem vinur minn smíðaði fyrir sýningu en hún var á leiðinni á haugana. Ég ákvað að prófa að skella henni upp bakvið rúmið og fannst hún koma svo skemmtilega út!“
Greinilegt er að mikið er um smekkfólk í fjölskyldunni og ekki eru allir svo heppnir að svo klassísk og tímalaus hönnun berist á milli fjölskyldumeðlima.
Víðsvegar um íbúðina má sjá fallega keramíkmuni, blómapotta, bolla og skálar, við forvitnumst um hvaðan þeir komi? „Mamma mín, hún Guðbjörg Káradóttir, hannar undir merkinu Ker og hefur lengi hannað fallega keramíkmuni. Þessa dagana er hún mest að hanna fyrir einstök verkefni og hefur mikið gert fyrir veitingastaði, síðan er hún að sérhanna bolla sem eru seldir í HAF store. Það má líka alltaf koma við í vinnustofuna hennar í Mávahlíð og næla sér í eitthvað fallegt.“
„Síðan erum við alltaf að reyna að bæta við fallegum listaverkum á heimilið…“
Áttu þér uppáhaldsverslanir?
„Ég er mjög hrifin af HAF store og Epal og ég kaupi líka mikið á Netinu, en við erum bæði mjög hrifin af klassískri hönnun sem við getum alltaf átt. Gísli bjó erlendis svo hann átti í raun enga búslóð þegar við fluttum inn saman og við gátum svolítið ákveðið í hvaða átt við vildum fara. Síðan erum við alltaf að reyna að bæta við fallegum listaverkum á heimilið en pabbi Gísla er mikill áhugamaður um myndlist og er duglegur að mæla með fallegum verkum.“
Þau Sigurborg og Gísli eru meðal annars með nokkur verk úr Gallery i8, verk eftir Sigríði Rún úr seríunni líffærafræði leturs, annað eftir Rán Flygenring og verk eftir Ignacio Uriarte sem er í miklu uppáhaldi.
Blaðamennskan heillaði
Nú starfar þú sem blaðamaður eftir að hafa lært fatahönnun, hvernig gerðist það? „Mér var boðið starf hjá Morgunblaðinu meðan ég var enn þá í námi í Listaháskólanum en ég ákvað þó að klára BA-gráðuna fyrst. Ég hef alltaf haft áhuga á blaðamennsku og ég held ég hafi í raun uppgötvað í náminu að það hentaði mér betur en að fatahönnun. Ég fór í starfsnám til Parísar á fyrsta námsárinu í LHÍ og starfaði þar á umboðsskrifstofu, ég fílaði það mjög vel og ætli áhuginn hafi ekki kviknað þá.“
Sigurborg Selma hefur starfað hjá Morgunblaðinu í um fimm ár og þar sér hún um tísku og hönnun í helgarblaðinu. Við þökkum Sigurborgu Selmu kærlega fyrir heimboðið, spjallið og kaffibollann og kveðjum að sinni.
Hitastig víns skipitir sköpum og nauðsynlegt er að hafa það sem réttast til að njóta vínsins sem best.
Of heitt rauðvín missir lykt og bragðefni útí andrúmslofti, of kalt hvítvín deyfir að mestu bragðlaukana. Menn eru sammála um að kjör hitastig sé 16-18C° fyrir rauðvín og 10-12C° fyrir hvítvínin, 8-10C° fyrir freyðivín. Margir halda að rauðvín eigi að vera við stofuhita sem er hér á landi um 25°C en er mikill misskilningur. Sömuleiðis verður að hafa í huga að vínskápur er best stilltur á um 15°C fyrir öll vínin, sem þýðir að rauðvín verður að fá svolítinn tíma til að ná réttu hitastigi og hvítvín og freyðivín þurfa að fara í kæli.
Það er hægt að fara nokkrar leiðir til að kæla vín. Ágætt er að hafa við höndina hitamæli því til að byrja með virðist rauðvín verulega „kalt“ við 16°C en ekki gleyma að það mun hækka um 1°C á 10 mínútna fresti þegar vín er borið á borð.
Kæling inni í ísskáp: Miðað við að hitastigið í ísskápnum sé í kringum 4-5°C tekur það um það bil 20 mínútur að kæla rauðvín sem er við stofuhita niður undir 20°C.
Kæling í fötu: Sennilega er þetta besta leiðin, einfaldlega láta renna kalt vatn í fötuna og setja 3-4 klakka úti – vínið verður komið niður í rétt hitastig eftir 10 mínútur.
Sokkaaðferðin: Mjög einföld leið, sokkurinn er í raun sérstakar umbúðir oftast með geli sem helst frosið í góðan tíma, en mikilvægt er að fylgjast vel með hitastiginu á víninu. Það er mest notað til að halda hvítvíni köldu en er gott til að kæla rauðvín.
Hitamæling: Til eru margar tegundir af hitamælum sem henta vel til að fylgjast með hitastigi vína. Betra er að nota mæli sem mælir hitann í víninu sjálfu en ekki hitann utan á flöskunni eins og mælarnir sem hægt er að smella utan á flöskuna gera en þeir eru afar ónákvæmir. Best er að nota infrarauðan mæli sem mælir vökvann án þess að snerta hann. Fljótlega kemst fólk upp á lagið sjálft og fær tilfinningu fyrir réttu hitastigi og þá verða mælarnir óþarfir.
Elísabet Margeirsdóttir er byrjuð að hlaupa aftur eftir að hafa þurft að hætta við að keppa á á heimsmeistaramóti í utanvegahlaupum til að hvílast.
Hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir stefndi á að keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Portúgal í júní en þurfi skömmu fyrir keppni að hætta við og taka sér pásu til hvílast. En Elísabet er komin á fullt aftur.
Hún segir frá þessu á Instagram. „Fyrir rúmum mánuði síðan þurfti ég að hætta við að fara með íslenska landsliðinu í utanvegahlaupum á mótið í Portúgal,“ skrifar hún.
„Hafði verið að díla við líkamlegt ástand sem kom niður á æfingum og líðan og andlega hliðin fór alveg niður. Þó að þessi pása hafi ekki verið löng þá er ólýsanlega góð tilfinning að koma til baka og langa að taka þátt í hlaupum aftur. Ultra trail du Mt. Blanc er komið á planið og set ég fókusinn í æfingum alveg á það næstu vikur og mánuði. Kannski er þetta of geyst en það verður bara að koma í ljós.“
Brotist var inn á hótelherbergi einnar af stjörnum bandaríska liðsins í fótbolta á sama tíma og hún fagnaði heimsmeistaratitlinum með liðsfélögum sínum.
Bandarísku konurnar fengu höfðinglegar móttökur við komuna frá Frakklandi og hófust hátíðarhöldin í New York þar sem borgarstjórinn, Bill de Blasio, afhenti þeim lykil að borginni, heiðursvott fyrir frábæra frammistöðu. Þaðan hélt liðið til Los Angeles þar sem frekari veisluhöld biðu.
Á sama tíma og liðið fagnaði í Los Angeles var brotist inn á hótelherbergi miðjumannsins Allie Long og persónulegum munum í hennar eigu stolið. Þar á meðal voru giftingarhringur hennar, reiðufé og lykillinn sem borgarstjórinn í New York hafði afhent henni fyrr um daginn. Blessunarlega fyrir Long komst þjófurinn ekki yfir verðlaunapeninginn frá HM.
Af Twitter færslu Long að dæma virðist hún einna helst sakna lykilsins að New York og spyr hún de Blasio hvort nokkur möguleiki sé að fá annan slíkan.
After the @ESPYS show someone stole my wedding ring, cash and the key to my favorite city after just receiving it from my hotel room. Do you make copies @NYCMayor ? I would love a new one.
Söngvarinn R. Kelly var handtekinn í gær. Hann á yfir höfði sér ákæru um vörslu barnaníðsefni og hindrun réttvísinnar. Þetta er aðeins brot af þeim ásökunum sem bornar hafa verið á söngvarann á undanförnum árum.
Kelly var handtekinn er hann var úti að ganga með hundinn sinn nærri heimili sínu í Chicago. Samkvæmt fréttum vestanhafs eru ákærurnar á hendur R. Kelly í 13 liðum. Talsmaður söngvarans segist ekki hafa séð ákæruskjalið. „Hr. Kelly hefur haldið fram sakleysi sínu frá fyrsta degi. Ég hef ekkert séð sem gæti leitt til sakfellingar,“ hefur NBC eftir talsmanninum, Darrell Johnson.
Ákærurnar 13 eru aðeins brot af umfangsmiklu máli gegn söngvaranum sem heitir fullu nafni Robert Sylvester Kelly. Hann var handsamaður í febrúar og stefnt fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, þar af þremur undir lögaldri. Það mál er enn í gangi en R. Kelly gekk laus gegn tryggingu.
Árið 2008 var R. Kelly sýknaður fyrir að hafa nauðgað 13 ára guðdóttur sinni og tekið athæfið upp á myndband. Ekki var hægt að sakfella hann þá þar sem stúlkan sagðist ekki vera sú sem sást á upptökunni.
Síðan þá hafa fjölmiðlar á borð við BuzzFeed og New York Times fjallað ítarlega um óðelileg og ólögleg samskipti hans við ólögráða stúlkur. Í fyrra kom út heimildarmyndin Surviving R. Kelly þar sem fullyrt var að söngvarinn héldi ungum og mörgum hverjum ólögráða stúlkum föngnum og misnotaði þær kynferðislega.
Verði R. Kelly fundinn sekur á hann margra ára fangelsi yfir höfði sér.
Gengi hlutabréfa í Icelandair hafa fallið um nærri 5 prósent það sem af er degi. Líklegt er að markaðsaðilar líti svo á að mun meiri alvara sé að baki bandarísku fjárfestunum en öðrum sem nefndir hafa verið til sögunnar.
Í morgun var greint frá því að hópur bandarískra fjárfesta hafi keypt eignir WOW Air úr þrotabúi félagsins í þeim tilgangi að setja flugfélagið aftur á fót. Hafa hinir nýju fjárfestar þegar fundað með samgönguyfirvöldum um útgáfu flugrekstrarleyfis, en á meðal eigna sem keyptar voru úr búinu voru bókunarkerfið, vörumerkið, flugrekstrarbækur og jafnvel einkennisfatnað.
Viðskiptablaðið segist hafa heimildir fyrir því að hinir bandarísku fjárfestar séu Michele Ballarin og félag henni tengt, Oasis Aviation Group. Ballirin hafi sýnt félaginu áhuga áður en það fór í þrot og nú þegar sé hún búin að setja sig í samband við einstaklinga sem áður störfuðu hjá WOW. Oasis Aviation Group býður upp á flug milli Washington og Djíbúti og sérhæfir sig meðal annars í flutningi vopna.
Ljóst er að fréttir af mögulegum nýjum keppinauti hafa áhrif á Icelandair sem hefur fallið um 4,94 prósent í kauphöllinni þegar þetta er skrifað. Virðist sem mun meiri alvara sé á bakvið hina bandarísku fjárfesta en þá sem standa að baki WAB-air og tilkynnt var um í gær. Þá bárust fréttir af því í gær að töf verður á því að Boeing MAX 737 flugvélarnar hefji sig aftur til flugs en kyrrsetning þeirra hefur valdið Icelandair umtalsverðum búsifjum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur séð ástæðu til að vara við mjög bíræfnum reiðhjólaþjófum á höfuðborgarsvæðinu.
Töluvert hefur verið um reiðhjólastuld á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Að sögn lögreglu eru þjófarnir „mjög bíræfnir“ og virðist ekki skipta máli þótt hjólin séu kyrfilega læst og vel gengið frá þeim. „Klippt er á lása og jafnvel farið inn í hjólageymslur til að stela þeim,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Lögreglan ætlar að þjófarnir reyni að selja hjólin og því sé brýnt að fólk tilkynni til lögreglu ef það grunar að reiðhjól sem það hyggst kaupa sé illa fengið. Þá er hægt að nálgast reiðhjól í óskilum á Pinterest síðu lögreglunnar.
Enn er nokkuð um reiðhjólaþjófnaði á höfuðborgarsvæðinu. Þjófarnir eru mjög bífrænir og það virðist ekki skipta þá miklu…
Þar kemur fram að handrit myndarinnar sé byggt á skáldsögunni Good Morning, Midnight og að tökur muni hefjast snemma í október. Tökur myndarinnar munu einnig fara fram í Bretlandi.
Þess má geta að bókin Good Morning, Midnight eftir bandaríska höfundinn Lily Brooks-Dalton kom út árið 2016 og segir frá tveimur vísindamönnum sem reyna að komast af eftir heimsendi.
Bandarísku fjárfestarnir sem keyptu allar eignir úr þrotabúi flugfélagsins WOW air munu kynna sig með greinargóðum hætti fyrir almenningi þegar það er tímabært að sögn lögmannsins Páls Ágústs Ólafssonar.
Lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson hefur annast milligöngu um samskipti fjárfesta við þrotabú vegna kaupa á eignum úr þrotabúi flugfélagsins WOW air. Páll segist í samtali við mannlíf.is lítið geta gefið upp um kaupandann en leggur áherslu á að um fjárfesti sem hefur áratuga reynslu af flugrekstri sé að ræða.
Páll segir að nú sé umræddur flugrekstarraðilli að ganga frá sínum málum gagnvart Samgöngustofu og opinberum aðilum. Þegar því er lokið verður hægt að kynna fyrir almenningi væntanlega starfsemi.
„Umbjóðendur mínir munu kynna sig og þær hugmyndir sem þeir hafa fyrir almenningi með greinargóðum hætti þegar það er tímabært,“ segir Páll.
Nú er sumar og þá er gott að njóta þess að lesa. Í hröðum heimi tækni og eilífra breytinga er gott að geta gripið niður í bók því á meðan stendur tíminn í stað. Sagan grípur og flytur lesandann ýmist fram eða aftur í tíma.
Litrík æska vísindamanns
Ævar vísindamaður er börnum þessa lands að góðu kunnur, enda kann hann að gera áhugaverðar og fræðandi tilraunir í sjónvarpi. Bækurnar um bernskubrek hans eru ekki síður vinsælar og ef marka má það sem þar kemur fram hefur æska hans verið viðburðarrík, skemmtileg og ansi hreint skrautleg.
Í nýjustu bókinni um hann Óvænt endalok, hendist vísindamaðurinn upp á hálendi Íslands og tekst þar á við nýjustu tækni sem farið hefur úr böndunum. Ævar kann sannarlega að byggja upp spennu, hann er fyndinn og textinn einstaklega lipur og líflegur. Þetta er frábær bók fyrir stálpaða krakka og foreldra þeirra. Útg. Mál og menning
Ást og söknuður
Á heimsenda eftir Dagnýju Maggjýar lýsir viðleitni dóttur til að fá móður sína aftur eftir sú síðarnefnda sviptir sig lífi. Þetta er sönn saga og enn átakanlegri fyrir vikið. Magnea Guðný Stefánsdóttir er sextug, lífsglöð kona og langar að líta betur út. Hún fer því í aðgerð til að laga slitför á maganum en vaknar upp svo heltekin af þunglyndi að ekkert nær að létta því.
Börnin hennar og eiginmaður standa ráðalaus hjá meðan veikindin aukast og að hún nær að lokum að fremja sjálfsvíg í þriðju tilraun. Bókin er einstaklega vel skrifuð á kjarngóðu og fallegu íslensku máli þótt það sé svolítið leiðinlegt að textinn er ekki nógu vel prófarkalesinn. Lýsingar Dagnýjar á uppvexti og æsku móður sinnar eru einstaklega vel unnar og gefa innsýn í veröld sem nú er löngu horfinn. Þótt vissulega virðist að þunglyndið hafi snögglega náð tökum á Magneu er samt ljóst að hún hefur þurft að glíma við margvísleg áföll og erfiðleika allt frá fæðingu. Hér er svo margt sagt sem þörf er á að veita út í umræðuna og örlagasaga þessarar konu svo mögnuð að enginn getur lesið þessa bók ósnortinn. Útg. Dagný Maggjýar
Útlaginn ráðagóði
Engin málamiðlun eftir Lee Child er nýjasta bók hans um útlagann og fyrrum herlögreglumanninn Jack Reacher. Að þessu sinni ákveður hann að fara úr lestinni í smábæ sem heitir Mother’s Rest. Nafnið vakti áhuga hans en fljótlega verður ljóst að líkt og venjulega hefur Jack stigið inn í dularfulla atburðarás.
Þessi persóna er hinn dæmigerði ameríski útlagi vestranna. Hann ferðast einn, er afburðasnjall rannsakandi og slagsmálahundur en réttlætiskenndin rekur hann ætíð til að hjálpa þeim sem um sárt eiga að binda. Michelle Chang leitar félaga síns, einkaspæjarans Keevers sem er horfinn en sást síðast í Mother’s Rest. Útg. JPV
Heima er best eða hvað?
Þegar skáldsagan Gilead eftir Marilynne Robinson kom út hefðu flestir spáð henni slöku gengi. Sagan tekst á við ýmsar trúarlegar spurningar, efann og þær kvaðir sem trúin leggur á menn. Í forgrunni er náðin og fyrirgefningin. Geta menn breyst og ef þeir iðrast er náðin þá nóg til að bjarga þeim? Heima segir sögu sama fólks frá öðru sjónarhorni, Glory, aðalpersónan er yngri systir Jack Broughtons. Alkóhólista sem frá æsku hefur verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni, sá sem alltaf var í vandræðum og olli vonbrigðum.
Glory er snúin aftur til Gilead til að hugsa um föður þeirra, gamlan prest í ellinni þegar Jack boðar komu sína heim. Systkinin eiga sér bæði leyndarmál og berjast við sorg en þau geta ekki talað um hana. Að þessu sinni þarf lesandinn að spyrja sig hvað gerir hús að heimili og hvað er fjölskylda? Hvað bindur okkur öðrum manneskjum og hvernig getum við nýtt okkur stuðning og ást fjölskyldunnar? Kannski er það engum að kenna að einhver einn kemur aldrei til með að tengjast fullkomlega, tilheyra hinum. Þetta er mögnuð saga, skrifuð á lágstemmdan áhrifamikinn hátt. Útg. Ugla.
Í gegnum árin hefur Hús og híbýli skoðað ótal falleg íslensk sumarhús. Hér er smá brot af þeim sumarhúsum sem við höfum skoðað en þau hafa verið eins misjöfn og þau eru mörg.
„Stolinn koss er ávallt sætastur,“ sagði einhver. Jú, það getur vissulega verið sætt að stela sér kossi en ef viðkomandi er ókunnugur, eða svo gott sem, er huggulegt að biðja um leyfi. Spurningin „má ég kyssa þig?“ getur jafnvel verið mjög sexí og kveikt neista sem fer eins og eldur um sinu.
Ég veit svo sem ekki hvort það sé hægt að kenna einhverjum listina að kyssa vel; kannski er þetta svolítið spurning um að vera annaðhvort góður í því eður ei. Svo er auðvitað huglægt hjá hverjum og einum hvað er góður koss og hvað ekki. En eitt er víst að það er um að gera að æfa sig og kossar skaða ekki, sé rétt farið að og þeir skiljia ekki eftir sig frunsu eða bitsár.
Ég held því fram, algjörlega kinnroðalaust, að ég sé mjög góð í að kyssa. Og mér finnst það afar gaman þótt ég geri ekki alveg nógu mikið af því þessa dagana. „Gerðu meira af því sem gerir þig glaða,“ er ágætis tilvitnun sem ég ætti kannski að taka til athugunar. Og jafnvel ganga lengra og segja: „Gerðu meira af því sem gerir þig glaða og graða.“
Þegar pör hafa verið lengi saman gleymist nefnilega stundum að kossar geta verið stór hluti af forleiknum, það er oft verið að flýta sér og fólk dembir sér beint í rúmið án þess að gera mikið meira en rífa sig úr fötunum og ganga til verks. Hvað kveikir meira í manni en kossar og létt kitl á næmu svæðin eins og til dæmis varirnar og hálsinn?
Holly Richmond, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi, hvetur sambúðarfólk og kærustupör til að gera meira af því að kyssast og segir að kelerí hafi önnur áhrif á tilfinningar fólks heldur en kynlíf. Kossar gefi til kynna að maður hafi áhuga á viðkomandi og langi til að eiga tíma með honum, það liggi ekkert á og aðalmálið sé að njóta. Það sé sem sagt ekki bara verið að stefna á að ná fullnægingu eins og er nú líklega oftast málið í kynlífinu.
Velkomin heim, voff voff
Ég skil hvað Holly er að fara með kossa í samböndum en verandi einhleyp er ég meira að kyssa mér til gamans. Reyndar finnst mér þetta auðvitað líka spurning um að sjá svo hvort kossaflensið geti leitt til einhvers meira. Að mínu mati skiptir góð færni í kossum mjög miklu máli og ég myndi satt að segja ekki nenna að eyða mjög löngum tíma í að reyna að fá einhvern til að verða betri í þessari list sem kossar eru. Ég hef kysst nokkuð marga gaura og það hefur verið jafnmisjafnt og þeir hafa verið margir.
„Það er líka eitthvað kynæsandi við það að vera beðinn svona um leyfi fyrir kossi.“
Þegar hinn gríski Konstantinos, sem var líkastur grískum guði í mannsmynd, hallaði sér að mér og spurði hvort hann mætti kyssa mig, kiknaði ég í hnjánum og fékk fiðring út um allt. Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki orðið annað en stórkostlegt svo ég kinkaði kolli, ég gat ekki talað því ég kom ekki upp orði fyrir spennu. Konstantinos með sínar þykku og fagurlega löguðu varir hallaði sér rólega að mér og horfði djúpt í augu mín. Hann mátti eiga það að hann byrjaði vel. Það er líka eitthvað kynæsandi við það að vera beðinn svona um leyfi fyrir kossi. En svo byrjaði ballið. Grikkinn fór hamförum með vörunum og tungunni, rétt eins og andlitið á mér væri risastór sleikipinni. Hann kyssti mig með opnum munni yfir allt andlitið og sleikti mig einhvern veginn í framan í hverjum kossi. Nú hef ég aldrei átt hund, en ég get ímyndað mér að svona myndi húsbóndahollur hundur taka á móti eiganda sínum eftir langan aðskilnað. Voff!
Svo var það hinn þýski Michael. Hann var hvorki með þykkar varir né fagurlega lagaðar og það að kyssa hann gerði barasta ekkert fyrir mig. Hann skaut tungubroddinum alltaf upp í mig ótt og títt, mjög hratt, inn út, inn út, inn út. Þegar ég lokaði augunum ímyndaði ég mér að ég væri að kyssa slöngu, þið vitið hvernig þær eru; skjótandi út úr sér tungunni. Ég hugsaði líka að þetta hlyti að vera óskaplega þreytandi fyrir hann, þ.e.a.s. ef maður getur orðið þreyttur í tungunni. Við Michael vorum búin að hittast í smátíma þegar ég ákvað að segja við hann að ég væri ekki alveg að fíla þessa slöngu-aðferð hans. Hann tók ekkert sérlega vel í þessa athugasemd mína og sagði: „Allar konur sem ég hef kysst hafa sagt að þeim þætti þetta rosalega gott.“ Ég brosti blítt og sagðist þá annaðhvort vera sú fyrsta sem þetta höfðaði ekki til eða ég væri sú fyrsta sem þyrði að segja satt.
Svo hef ég kysst menn sem hafa alveg verið með þetta og ég hefði hugsanlega getað staðið í kossaflensi með þeim allan sólarhringinn. Og margir þeirra hafa verið íslenskir, ég vil taka það fram svo ekki sé á strákana okkar hallað.
Að spyrja um leyfi getur verið sexí
„Góður koss ætti að vera eins og góðar samræður,“ sagði vinur minn um daginn þegar ég var að leggja drög að þessum kossapistli mínum og spurði hann hvað honum þætti um kossa. „Maður þarf að koma með innlegg í umræðuna, fattarðu. Og það sama á við um kossa. Maður til dæmis hægir á sér og þá læðir hinn aðilinn tungunni inn fyrir varirnar á mér á meðan. Mér finnst líka geggjað ef hún færir sig frá því að narta létt í varirnar yfir í það að narta létt í eyrnasneplana. En það má ekki bíta fast, nema með mínu leyfi,“ sagði hann og blikkaði mig.
„Góður koss ætti að vera eins og góðar samræður.“
Vinkona mín sem sat þarna við borðið hjá okkur kinkaði kolli og sagði að það skipti líka máli að hinn aðilinn væri með athyglina í lagi. „Ef hann til dæmis er alltaf að reyna að reka upp í mig tunguna en ég er með munninn harðlokaðan, þá er greinilegt að mig langar ekkert að hleypa henni upp í mig,“ sagði hún ákveðin. „Ég vil ekki að gaurinn ráðist á mig eins og ég sé risastór ís með dýfu. Fyrir mér skiptir máli að byrja rólega á kossinum, með lokaðan munn og svo er hægt að opna örlítið fyrir fleiri möguleika. Mér finnst líka alltaf notalegt þegar hann tekur varlega utan um höfuðið á mér eða gælir við hárið í hnakkanum á meðan við erum að kyssast.“
Við sammæltumst um að það væri svo sem ekkert eitt rétt í þessum kossamálum. Aðalatriðið væri að sýna virðingu og vera meðvitaður um að lesa í aðstæður.
Ekki gleyma kossunum þegar kemur að forleiknum
Það skiptir máli í þessu, eins og í svo mörgu öðru, að báðir aðilar séu á eitt sáttir og það sé ekki verið að þvinga neinn til að gera eitthvað sem hann ekki vill. Þess vegna er gott að spyrja um leyfi áður en maður smellir óumbeðnum kossi á varir einhvers. Sérstaklega ef þið þekkist lítið sem ekkert. „Má ég kyssa þig?“ getur verið mjög sexí spurning. Það er til dæmis hægt að hvísla því lostafullt í eyra hins aðilans og gera þetta svolítið sexí. Ókunnugi maðurinn hristir kannski höfuðið og þá nær það ekki lengra. Þá má bara halda leitinni áfram.
En svo geta kossar líka verið hluti af forleiknum, bæði hjá ykkur sem þekkist lítið sem ekkert, eða ykkur sem eruð í föstu sambandi eða hjónabandi. Smellið kossi á eiginmanninn næst þegar þið undirbúið kvöldmatinn í eldhúsinu. Það getur verið mjög rómantískt. Eða þar sem þið eruð í göngutúr í Heiðmörk. Maður er svo fljótur að festast í hversdagsleikanum og vananum og gleyma litlu hlutunum sem gefa lífinu smávegis lit. Varirnar eru ekki eini staðurinn sem hægt er að kyssa. Það má kyssa augnlokin, kinnarnar og í kringum eyrun. Svo er hálsinn næmt svæði og hægt að koma mörgum til með því að kyssa eða renna tungunni þar létt yfir.
Nokkur kossaráð Veru
Burstaðu tennurnar og notaðu tannþráð. Það er reyndar magnað hvurslags kraftaverk tannþráður einn og sér getur gert. Rotnandi matarleifar gefa ekki góða lykt og það er rosalega fráhrindandi að vera með andfýlu eins og það kraumi í graftarpolli í iðrunum.
Ekki byrja á tungunni – hviss, bamm, búmm. Kossinn byrjar með vörunum. Mundu að það má líka kyssa aðra staði en varirnar, til dæmis kinnarnar, hálsinn og eyrun.
Passaðu þrýstinginn. Þetta á ekki að vera eins og að kyssa tuskudúkku, þannig að þrýstinginn má ekki vanta en hann má heldur ekki vera of mikill.
Ekki ofhugsa kossana en reyndu samt að lesa í aðstæðurnar og hvernig og hvar hinn aðilinn er að kyssa þig því það er líklegt að hann vilji að þú kyssir hann þannig á móti.
Hafðu hemil á munnvatninu. Munnurinn á þér á ekki að vera eins og krani.
Ef þú veist ekki hvort hinn aðilinn sé hrifinn af því að láta narta í varirnar á sér, skaltu sleppa því. Sumum finnst það gott en öðrum ekki og það er betra að vera viss. Það má spyrja og svo má líka prófa sig rólega áfram með því að sjúga til dæmis neðri vörina varlega og narta svo örlétt í hana. En ekki sjá hinn aðilann fyrir þér sem safaríkan hamborgara sem þú ætlir að sökkva tönnunum í, það kann ekki góðri lukku að stýra.
Hér kemur uppskrift að geggjaðri brúskettu með lárperu, eggi og dilli. Fullkominn réttur í brunchinn.
Hérna setur dillið punktinn yfir i-ið en dill er frábær kryddjurt sem getur dafnað mjög vel í íslenskum görðum. Ferskt dill er alls ekki það sama og þurrkað dill og þó að fólk sé ekki hrifið af þurrkuðu dilli getur allt annað verið uppi á teningnum þegar kemur að því ferska.
Brúsketta með lárperu, eggi og dilli fyrir 1-2
3 msk. saxað dill
2 msk. saxaður graslaukur
2 msk. söxuð steinselja
1-2 harðsoðin egg
3-4 msk. majónes
3 tsk. dijon-sinnep
1-2 súrdeigsbrauðsneiðar
1 lárpera, skorin í sneiðar
2-3 tsk. kapers
ferskt dill, til skrauts
nýmalaður svartur pipar
gróft sjávarsalt
góð ólífuolía, til þess að dreypa yfir
Blandið saman söxuðum kryddjurtum og veltið soðnu eggjunum upp úr þeim. Setjið þau til hliðar.
Blandið kryddjurtunum sem eftir eru saman við majónes og dijon-sinnep, bragðbætið með salti og pipar.
Ristið brauðsneiðina á grilli eða pönnu, dreifið vel af sósunni á brauðið, raðið lárperu og eggjum ofan á, dreifið kapers yfir ásamt dilli, salti og pipar og dreypið ólífuolíu yfir.
Í þeim hafsjó af öppum sem leynast í AppStore (iPhone) og PlayStore (Android) getur verið erfitt að finna það sem hentar þér best. Við tókum saman nokkur öpp sem öll tengjast heilsu sem óhætt er að mæla með.
Daily Burn Trainer Workouts
Þetta app er velþekkt meðal líkamsræktarunnenda og lofað af mörgum einkaþjálfurum. Þarna færðu aðgang að þúsundum æfinga, allt frá 10 mínútna löngum upp í klukkutíma. Innan þess er virkt samfélag notenda sem nýtist mörgum vel sem hvatning og stuðningur.
Keep It Cleaner
Auk þess að innihalda matarplön og hundruð uppskrifta, býður Keep it Cleaner-appið upp á 12 vikna þjálfunarprógramm, lagalista og utanumhald mælinga. Svitnaðu með HIIT-þolæfingum, boxi, jóga eða pilates-æfingum, en mundu eftir upphitunum og teygjum. Leiðbeiningar að öllu þessu má finna í Keep It Cleaner-appinu.
Yoga Wake Up
Ef þú ert ekki morgunmanneskja en langar að verða það, gæti þetta app verið svarið. Það leiðir þig í gegnum stutta jógaæfingu eða hugleiðslu, sérhannaða til að byrja daginn sem best. Mildar og þægilegar æfingar án nokkurs hamagangs.
Strava
Ef þú hleypur eða hjólar, verðurðu að ná þér í Strava. Appið skráir niður æfingarnar þínar með GPS og greinir fjarlægðir, hjartslátt og fleira. Þar getur þú einnig fundið hugmyndir að nýjum leiðum. Þetta er eins og háþróuð hjólatölva í símanum. Taktu þátt í áskorunum, deildu myndum og fylgstu með vinum þínum inni í notendasamfélagi Strava.
Sleep Cycle
Svefn skiptir miklu máli hvað varðar heilsu okkar og vellíðan. Með notkun Sleep Cycle færð þú góða yfirsýn yfir svefnvenjur þínar og gæði svefns þíns. En það sem gerir þetta app sérstakt er að það vekur þig á morgnana þegar þú ert á léttasta stigi svefnsins, svo þegar þú vaknar ættir þú að vera rólegri, úthvíld/ur og tilbúin/n í daginn. Hljómar vel, ekki satt? Að minnsta kosti þess virði að prófa.
Ítalska húsgagnafyrirtækið Kartell hefur sett á markað nýja útgáfu af sinni þekktustu hirslu en hún er nú framleidd úr lífrænu plasti.
Hönnunin er unnin í samstarfi við ítalska plastframleiðandann Bio-on sem sérhæfir sig í lífrænu plasti og er það unnið úr lífrænum landbúnaðarúrgangi ásamt því að vera algerlega sjálfbært.
Hrönn Traustadóttir, ætlaði aldrei að feta í fótspor móður sinnar en lífið hagaði því þannig til að Hrönn vinnur við listir í dag, ásamt því að kenna öðrum teikningu, litafræði og hönnun við Tækniskólann.
Hrönn er einkadóttir Fríðar Ólafsdóttur, fatahönnuðar og sérfræðings í íslenska þjóðbúningnum, en Fríður kenndi einnig textílmennt við Kennaraháskóla Íslands. Hrönn hefur því fetað í fótspor móður sinnar en auðvitað einnig farið sínar eigin leiðir í lífinu sem hefur verið mjög viðburðaríkt.
Ólst upp í listrænum jarðvegi
Fyrstu tvö árin ólst Hrönn upp í Kópavogi, þá flutti hún ásamt móður sinni og föður til Berlínar en þangað fóru foreldrar hennar í nám.
„Mamma var að fara í fatahönnun og pabbi, Trausti Valsson, í arkitektúr. Seinna sérhæfði mamma sig í íslenska þjóðbúningnum og kenndi við Kennó og pabbi varð prófessor í skipulagsfræðum. Ég er einkabarn foreldra minna sem skildu en síðar eignaðist pabbi aðra dóttur þannig að við systurnar erum samfeðra,“ segir Hrönn sem býður blaðamanni upp á blátt blómate. Róandi fagurblátt tevatnið passar vel við stemninguna sem Hrönn er búin að skapa í fallegri aðstöðu sem hún nefnir Lífsstöðina og er staðsett í miðborg Reykjavíkur. Litir skipa stóran sess í lífi Hrannar sem klæðist litríkum fallegum fötum og skreytir umhverfi sitt í miðborginni með litum. Þarna er lítil aðstaða fyrir jóga og heilun þar sem gong-hljóðfærið skipar stóran sess.
„Blár litur er róandi fyrir okkur. Heima á Selfossi er efri hæðin öll máluð í bláum tónum. Það er engin tilviljun að María mey var í bláum kufli eða að Rafael erkiengill lækni með bláum lit. Himinblár litur hefur góð áhrif á okkur. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á litum og get lesið í litatóna. Það er gott að hafa marga liti heima hjá okkur. Börn þurfa lita örvun þegar þau fæðast, það er partur af þroska barnsins. Þess vegna svo mikilvægt að umkringja börn allskonar skærum litum. Það er ekki gott fyrir neinn að klæðast svörtum lit alla daga. Við þurfum fleiri liti, bæði börn og fullorðnir því þeir næra sálina okkar,“ segir Hrönn sem deilir með lesendum Vikunnar allskonar fróðleik í eftirfarandi viðtali sem fram fór á dögunum í blíðskaparveðri.
Konur verða að stíga fram núna
Já, lífið hefur leitt Hrönn áfram til sjálfsþekkingar í gegnum áföll og ákvarðanir um að snúa áföllum í sigur.
„Undanfarin ár hef ég verið að læra heilunaraðferðir með jóga. Ég hef stundað nám í HAF Yoga í vatni, Reiki heilun og Yoga Nidra ásamt því að þjálfast í notkun gongs- ásláttarhljóðfæris sem hefur ótrúlega djúp heilunaráhrif fyrir taugakerfið og líkamann í heild sinni. Ég var einmitt að klára fimm daga þjálfun í hljóðheilun með mjög færum erlendum gong-meisturum sem komu hingað til lands. Gong er hljóðfæri friðar og ljóss, það hjálpar til við að heila heiminn okkar og auka frið. Gong-meistararnir sögðu að tími kvenna væri komin, þær yrðu að stíga fram og hjálpa til við heilun jarðarinnar. Konur verða að hætta að halda aftur af sér. Þeir sögðu tímana núna fram til ársins 2025 vera umbrotatíma.
„Konur skipta miklu máli í þessari uppbyggingu sem fram undan er á jörðunni.“
Andlega þenkjandi fólk er að tengjast betur því þörfin er núna fyrir þessar hógværu sálir að stíga inn í mátt sinn og valdefla sig. Konur skipta miklu máli í þessari uppbyggingu sem fram undan er á jörðunni. Umburðarlyndi verður að aukast fyrir fólki sem er ólíkt okkur sjálfum, allir verða að vera sveigjanlegir í viðhorfum sínum því fjölbreytileiki er af hinu góða.
Gamli tíminn er að hverfa og ný jörð er að fæðast. Mér fannst mjög merkilegt að hlusta á þessa menn og læra af þeim. Ég finn að ég er ein af þessum konum sem eiga að vera sýnilegar en við erum miklu fleiri. Konur þurfa að opna fyrir þá hæfileika sem þær búa yfir og nota þá mannkynið til framdráttar. Tími eigingirni og græðgi er liðinn. Nú verðum við að vinna saman að betri jörð, lækna umhverfi okkar og bæta samskipti okkar á milli,“ segir Hrönn með áherslu og maður finnur kraftinn þegar hún talar, að henni er alvara. Tíminn er núna, ekki á morgun.
Áföll leiddu hana í heilun
Hrönn er að fara í sumarfrí frá lifibrauði sínu sem er kennsla við Tækniskólann og langar að stíga skrefið núna með það sem hjarta hennar þráir en það er að hjálpa öðrum. Hrönn hefur þjálfað sig í margskonar heilunaraðferðum í gegnum árin, sem voru fyrst og fremst til þess að hjálpa henni sjálfri í upphafi. Hún hafði lent í tveimur bílslysum sem ollu henni miklum áverkum og hún var mörg ár að vinna úr.
Á þrítugsaldri þurfti hún að leita sér hjálpar á Reykjalundi. Óhefðbundnar leiðir hafa einnig gert heilmikið fyrir hana ásamt þeirri læknishjálp sem hún hefur fengið frá læknum á árunum eftir bílslysin. Þessi áföll opnuðu fyrir áhuga hennar á fleiri leiðum til lækninga. Lífsstöðin er einmitt svoleiðis staður, þar sem Hrönn ætlar að opna dyrnar fyrir þeim sem eru að leita að vellíðan. Í Lífsstöðinni býður Hrönn upp á Reiki heilun, Gong-hljóðheilun og slökun, Yoga Nidra, Litameðferð og Slow Yoga en HAF Yoga fer fram annars staðar í vatni.
Alltaf verið næm á fólk og dýr
Við gefum Hrönn orðið um leið og við biðjum hana um að rifja upp æviskeið sitt:
„Ég hef alltaf verið næm og amma Hrefna, móðuramma mín, var það einnig. Við vorum alltaf mjög góðar vinkonur á meðan hún lifði. Ég bjó ásamt foreldrum mínum í Berlín frá tveggja til sjö ára aldurs en þá sagðist ég vilja fara heim til ömmu Hrefnu og afa í Kópavogi og fékk það. Þegar ég var fimm ára fékk ég heilahimnubólgu, þá stödd í Danmörku og líkurnar á bata voru ekki góðar. Mamma mátti bara heimsækja mig og hringdi í ömmu á Íslandi til að biðja um hjálp. Amma talaði meðal annars við Einar á Einarsstöðum og sagði mömmu daginn eftir að hinir og þessir læknar að handan, hefðu farið inn til mín, að þeir hafi farið þarna inn ganginn og lýsti umhverfinu þar sem ég lá. Hún fékk þau skilaboð að ég myndi læknast og verða heil. Þetta fékk ég að heyra seinna frá ömmu en það tíðkaðist ekki að tala um svona hluti. Við amma skildum vel hvor aðra.
Ég var send í sveit í sjö sumur eftir að ég flutti heim til Íslands. Það fannst mér gaman og langaði að verða bóndi því mér leið svo vel í sveitinni. Ég hef alltaf verið nátengd dýrum, gat talað hesta og hunda til og fékk hundinn á bænum til að gera hluti sem engin annar gat. Þetta fannst fólkinu á bænum merkilegt. En lífið var ekki bara dans á rósum því ég var með mótþróa á unglingsárum og ætlaði ekki að vera skapandi eins og mamma mín. Ég ætlaði að verða sálfræðingur því ég var sú sem aðrir leituðu til og var oft að hjálpa vinum mínum og fannst þess vegna skynsamlegt að ég yrði sálfræðingur.
Ég var mjög oft beðin um að kíkja í tarotspil fyrir vini mína og síðar tók ég alla sálfræðikúrsa í menntó sem ég gat. Eftir menntaskólann ákvað ég samt að starf sálfræðings væri líklega allt of erfitt fyrir mig. Mér fannst ég líka farin að taka svo mikið inn á mig. Þarna er ég farin að smakka áfengi og varnir mínar veiktust við það en það þarf að passa sig á þessu þegar maður er næmur. Mig langaði ekki lengur í þetta andlega og fór til Heidelberg í Þýskalandi í listasögu við háskólann þar. Mamma og fósturpabbi minn voru nokkur ár þarna úti og ég var mikið í kringum þau.
Mér fannst það ákveðið öryggi fyrir mig. Svo veiktist ég upp úr þurru og varð rosalega veik. Ég horaðist niður og læknar vissu ekki hvað var að gerast og ég hélt að ég væri komin með magakrabba. Ég hringdi í ömmu sem sagði mér að koma heim í ömmumat sem ég gerði og var lengi heima hjá ömmu á Íslandi. Ég fór aftur út til Þýskalands þegar ég var orðin hraust og dvaldi þá til 25 ára aldurs í Þýskalandi.“
Fór að vinna hjá RÚV
„Eftir að ég kom heim aftur þá fékk ég vinnu á RÚV í búningadeild og við að útbúa auglýsingar. Það var skemmtilegt starf og síðan var ég aðstoðarkona Helgu Stefáns með búningana í kvikmyndinni Svo á jörðu sem á himni. Allt voða gaman nema að þegar við vorum við tökur á Höfn í Hornafirði þá lenti ég í slæmu bílslysi og fór illa í bakinu því ég fékk ekki þá aðhlynningu sem ég þurfti strax eftir slysið. Læknir gaf mér deyfilyf og ég sá stjörnur en hélt áfram að vinna. Við vorum á leið upp á Vatnajökul í tökur og ég var aftan á snjósleða sem hossaði á ísnum.
Þetta var svakalega vont og ég henti mér af sleðanum en maðurinn tók ekki eftir því. Ég gerði þetta viljandi því mér var svo illt í bakinu og gat ekki hossast meir. Þeir fóru svo að leita að mér og fundu mig liggjandi á ísnum en ég var svo kvalin að ég gat ekki talað. Þegar sjúkrabíllinn kom fékk ég fimm morfínsprautur en ekki dugði minna til að slá á sársauka minn. Ég er send til Reykjavíkur og í kjölfarið lögð inn á Reykjalund þar sem ég fór í endurhæfingu í þrjá mánuði.“
Ítalía heillaði Hrönn í hönnunarnám
„Þarna er ég orðin 26 ára gömul og nýbúin í endurhæfingu á Reykjalundi. Á þessum tíma fór ég að spá hvað ég ætti að læra sem ég myndi finna mig í og fékk sendan ofboðslega fallegan bækling frá einum besta hönnunarskóla í Mílanó á Ítalíu, Marangoni, sem enginn Íslendingur hafði þá stundað nám við. Það var mjög strangt inntökupróf í þennan skóla og erfitt að fá lán frá LÍN til að stunda nám við skólann. Ég þurfti að fá alla pappíra frá skólanum og senda til LÍN til að námið yrði lánshæft en fyrst fór ég til Flórens og lærði ítölsku í þrjá mánuði. Ég dvaldi síðan í sjö ár í Mílanó.
Á miðri leið í náminu skipti ég um hest í ánni og lærði Trend-hönnun sem mér fannst ótrúlega spennandi nám og finnst enn. Þarna var ég komin í nám sem tók á straumum og stefnum í hönnun á heimsvísu í framtíðinni. Þarna vorum við að áætla tískustrauma á fatnaði, bílum, kremi, ilmvatni, pólitík, tónlist og miklu fleira. Mér fannst þetta stórkostlegt nám en það eru ráðgjafar innan stórra fyrirtækja sem eru með svona Trend-hönnuði á snærum sínum,“ segir Hrönn uppveðruð þegar hún lýsir þessum stórkostlega hönnunarháskóla á Ítalíu.
Ástin bankar upp á
Námsferðin til Ítalíu varð örlagarík því Hrönn eignast ítalskan kærasta og á með honum son. „Við slitum samvistum og ég var um stund einstæð móðir á Ítalíu sem var erfitt og því ákvað ég að fara heim til Íslands. Mig langaði samt ekkert að stoppa lengi heima og vildi frekar halda áfram til Los Angeles og fara þar í nám í teiknimyndagerð, brellum og tækni. Fósturpabbi minn jarðtengdi mig og benti mér á að skapa öryggi fyrir mig og son minn með föstum mánaðartekjum. Ég hélt áfram í búningabransanum um tíma en svo um haustið 1998 sótti ég um kennarastarf á mínu sviði við Iðnskólann í Reykjavík og fékk,“ segir Hrönn sposk og maður fær á tilfinninguna að einhver sæt saga sé í uppsiglingu.
„Við vorum fjórtán nýir kennarar ráðnir við Iðnskólann þetta haust og ég fann að ég var ánægð þarna. Þegar líða tók að jólum var haldið jólaball fyrir kennarana og ég ætlaði ekki að nenna en ég var eiginlega rekin á þessa skemmtun af systur minni. Þannig að það var í eina skiptið sem ég fór ein á ball. Þar kom til mín maður sem spurði hvort ég vildi dansa – ég spurði hvort hann væri maki einhvers því ég hafði ekki séð þennan mann áður. Við byrjuðum þá víst bæði um haustið að kenna við Iðnskólann án þess að ég hefði hugmynd um að hann væri þarna. Þetta kvöld á jólaballinu var ankerið sett niður af mér og Tomma sem er eiginmaður minn í dag. Það var samt ekkert létt hjá okkur Tómasi Jónssyni í byrjun sambandsins því hann Tommi minn var einstæður faðir þá með dóttur með downs-heilkenni. Að auki var hann tvífráskilinn sem þótti ekki gott afspurnar.
„Það var samt ekkert létt hjá okkur Tómasi Jónssyni í byrjun sambandsins því hann Tommi minn var einstæður faðir þá með dóttur með downs-heilkenni. Að auki var hann tvífráskilinn sem þótti ekki gott afspurnar.“
Allir í kringum mig spurðu hvort ég væri ekki frekar á leiðinni til LA í frekara nám, hvað ég væri að gera með honum. Fólk hafði verulegar áhyggjur af mér með einstæðum föður sem átti þrjár dætur og að ein þeirra væri þroskaheft. Ástin batt okkur saman og við fluttum inn hvort með sitt barnið á Njarðargötu, í hús sem hafði verið byggt af systrum ömmu minnar úr föðurætt og fjölskyldum þeirra. Ég hélt áfram að kenna við Iðnskólann, sótti um sem sviðsstjóri hönnunarsviðs skólans og stýrði því starfi í átta ár. Í dag kennum við hjónin enn í skólanum,“ segir Hrönn.
Svo liðu árin. Hrönn og Tomma langaði að eignast barn saman en það gekk ekki. Þau ákváðu eftir þriggja ára mislukkaðar hormónameðferðir og glasafrjóvgun að ættleiða barn frá Kína. Það tók önnur þrjú ár og gekk ekki snurðulaust heldur því yfirvöldum fannst þau eiga nóg af börnum. Þau sóttu aftur um ættleiðingu og eiga í dag tólf ára stúlku sem heitir Harpa.
„Við ættleiddum lítið tíu mánaða gamalt stúlkubarn frá Kína sem heitir Harpa Hua Zi Tómasdóttir. Þegar við sóttum hana loks til Kína þá var hún svo lítil að við þurftum að klæða hana í stærð 62/68 af ungbarnafötum. Hún var í bleikum bómullargalla þegar við sáum hana fyrst með límmiða framan á sér þar sem nafnið hennar stóð Hua Zi sem þýðir fallegt blóm á kínversku. Hún er einstaklega ljúf og glöð stúlka með marga hæfileika, meðal annars í badminton og tónlist. Við erum með hana eina hjá okkur heima í dag því sonur minn er fullorðinn maður, kominn með eigin fjölskyldu og dóttir Tomma fór til móður sinnar rétt áður en hún varð átján ára og býr þar,“ segir Hrönn.
Ævintýri í Hrísey
Þau hjónin búa í dag á Selfossi rétt við Ölfusá og keyra til höfuðborgarinnar í vinnu en þau eiga griðastað í Hrísey. Þar er hús sem kom upp í hendurnar á þeim má segja fyrir átján árum en hjónin eru greinilega óhrædd við að stökkva á tækifærin þegar þau gefast.
„Við leigðum okkur hús í eina viku í Hrísey sumarið 2001, vorum bæði að koma þangað í fyrsta sinn og leið strax vel á eyjunni. Það er einstök orka þarna fyrir norðan. Eftir vikudvöl vildum við ekki fara alveg strax heim aftur og spurðumst fyrir hvort hægt væri að leigja aðra íbúð í nokkra daga. Þannig kynnumst við honum Geira sem býr þarna allt árið um kring ásamt öðrum tæplega tvö hundruð íbúum eyjunnar. Þegar komið var að heimferð þá kom Geiri til okkar, bankaði á dyrnar og bauðst til að sýna okkur hús suður í ey sem síðar kom í ljós að var erfðabú en bróðir hans hafði búið þar en hann lést fyrr um vorið. Við löbbum með Geira að gömlu húsi og förum inn.
„Vá hvað þetta er æðislegt,“ sagði ég og hreifst strax af öllu þarna inni og gat ekki leynt hrifningu minni. Þegar Geiri sá hversu hrifin ég var þá spurði hann hvort við værum ekki svona ungt fólk sem breytir öllu innanstokks en við svöruðum því neitandi og sögðum að svona ætti húsið að vera. Við keyptum húsið í júlí það ár og er í dag uppáhaldsstaður fjölskyldunnar. Okkur Tomma fannst húsið mjög sjarmerandi í upphafi en í fyrra ræddum við við Geira, sem er níræður núna og góður fjölskylduvinur, að við yrðum að uppfæra húsið og endurnýja eftir öll þessi ár. Þær framkvæmdir standa yfir núna. Við eigum margar góðar minningar í tengslum við Hrísey og eigum góða vini á staðnum. Þessi eyja og samfélagið hefur haft svo mikil áhrif á okkur að þarna viljum við Tommi verða gömul.
Í Hrísey á hjarta mitt heima og því vil ég láta dreifa öskunni minni í hafið í kringum eyjuna þegar að því kemur. Hrísey er yndislegur staður og þarna langar mig í sumar að bjóða upp á HAF Yoga í vatni og Gong-slökun. Það er einstök orka fyrir norðan og mér er sagt að þarna sé græn orkusúla. Í Hrísey fer ég til að næra sálina mína og hlaða mig og veit að það gildir um fleiri. Það er skrýtið að ég hef búið hér og þar um jörðina, í Heidelberg, Berlín, Flórens, Mílanó, París, Odense, Dortmund og San Fransisco en vinninginn hefur litla eyjan Hrísey og þar líður mér best. Þetta er besti staður í heimi. Svo elska ég að sjá hvað ástvinum mínum líður vel þarna,“ segir Hrönn og brosir.
Konur ekki lengur brenndar á báli
Hrönn hefur mikinn áhuga á andlegum málefnum og hittir stundum næmt fólk sem horfir í gegnum hana og segir henni hvað sé fram undan. Eina slíka konu hitti hún fyrr á þessu ári sem sagði við Hrönn að hún hefði einstakan næmleika sem henni bæri að nota. Tíðarandinn væri svoleiðis að hún þyrfti ekki að óttast að koma fram því konur væru ekki lengur brenndar á báli þótt þær sinntu andlegum málum. Konan sagði að Hrönn þyrfti að virkja hæfileika sína en þora fyrst að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún væri næm og ætti ekki að hunsa þessi skilaboð.
„Já, það er skrýtið að segja það upphátt en mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota. Konan sagði að ég væri, ásamt fleirum, komin til að biðja fyrir heiminum. Ég yrði að virkja hæfileika mína og mætti ekki berjast á móti þessu í sjálfri mér. Við fæðumst öll með hæfileika en við þurfum að þróa þá og þjálfa. Við megum ekki hunsa meðfædda hæfileika okkar því þá verðum við vansæl.
„Já, það er skrýtið að segja það upphátt en mér var sagt að ég hefði einstaka náðargáfu sem mér bæri að nota.“
Við verðum að hlusta á hjartað okkar og leyfa því að ráða för en þar er röddin sem leiðir okkur á réttan veg í lífinu. Ég fann hvað ég hafði gott af því að fara í gegnum kennaranám í HAF Yoga en þar opnuðust allar rásir í mér. Þarna er núvitund í kjarna sínum en í vatninu förum við djúpt inn í innri vöðva okkar og nærum sálina í leiðinni. Vatn er heilandi og er eitt af því sem hefur hjálpað mér að ná góðum líkamlegum bata eftir bílslysin. Ég hef verið í rosalega mikilli sjálfsvinnu eftir þessi áföll en þau hafa kennt mér margt og leitt mig á góðan stað í lífi mínu, stað sem mig langar að leyfa öðrum einnig að upplifa,“ segir Hrönn hlýlega að lokum.
Texti / Marta Eiríksdóttir Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Hljómsveitin Pale Moon var að senda frá sér sitt fyrsta tónlistarmyndband en það er við lagið „Exile.” Myndbandið var tekið upp einn góðviðrisdag í apríl í miðbæ Reykjavíkur.
Mikið umstang fylgdi myndbandinu og yfir fimmtíu manns tóku þátt. Sauma þurfti búninga, loka götu, gulu baðkari komið fyrir á Bríetartúni, matarvagni plantað niður, límonaðistandi hent upp og svo lengi mætti telja.
Myndbandið, sem er ansi magnað, var tekið upp í einni samfelldri töku og ekkert klippt. Því þurfti allt að ganga upp. Runan var æfð og tekin upp minnst tíu sinnum.
Myndbandið var unnið í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Blind Spot en Viktor Aleksander Bodanski tók upp og leikstýrði. Búningahönnun, grafík og útlit var í höndum Natösju Sushchenko, en hún er annar helmingur Pale Moon.
Auðveldlega gekk að fá mannskap í myndbandið en svo skemmtilega vill til að flestir í myndbandinu eru einnig tónlistarfólk en það er bara útaf því að sveitin þekkir mikið af öðru tónlistarfólki. Lagið Exile má finna á þriggja laga smáskífuni Dust of Days sem dúettinn gaf frá sér nýverið.
En lagið var hljóðritað í Fljótshlíðinni, hljóðblandað af Arnari Guðjónssyni og tónjafnað af Bassa Ólafs.
Hljómsveitin Flavor Fox hefur sent frá sér nýtt lag sem ber titilinn „Coroner.”
Með laginu fylgir tónlistarmyndband sem Atli Þór Einarsson kvikmyndagerðarmaður framleiddi og leikstýrði. Coroner fjallar um örlög flóttamanna sem flýja heimkynni sín vegna borgarastyrjaldar.
Hljómsveitina skipa Stefán Laxdal sem er forsprakki sveitarinnar Ottoman, Ævar Örn Sigurðsson úr sveitinni Zhrine og Höskuldur Eiríksson úr sveitinni Godchilla. Flavor Fox er nokkuð nýtt band og gáfu þeir út sitt fyrsta lag „Pouring Rain” í byrjum sumars.
Hljómsveitin segist ekki binda sig við ákveðna stefnu en telur að Progressive Pop lýsi þeim vel.
Í flestum fjölskyldum þykir sjálfsagt að fólk hjálpi og styðji hvert annað. Mín fjölskylda er engin undantekning þar frá en nýlega tókum við hjónin ákvörðun um að hætta alveg að aðstoða systur hans, enda okkur báðum orðið ljóst að það væri eins og að moka í botnlausa tunnu.
Doddi, maðurinn minn, er elstur fjögurra systkina. Langyngst er Sóley en tíu ár eru milli hennar og Sigga sem er næstyngstur. Það kemur því sennilega engum á óvart að mikið var látið með Sóley í æsku og hún þurfti sjaldan að dýfa hendi í kalt vatn. Þegar eldri krakkarnir voru að alast upp var oft þröngt í búi en þegar Sóley tók að stálpast var róðurinn tekinn að léttast og tengdaforeldrar mínir gátu veitt henni ýmislegt sem hin fengu ekki. Hún fékk að taka þátt í tómstundastarfi með tilheyrandi kaupum á útbúnaði, ferðalögum og öðru sem hin höfðu aldrei notið. Enginn taldi þetta eftir eða öfundaði Sóleyju.
Líkt og hin systkinin menntaði Sóley sig en ólíkt þeim var hún alltaf í vandræðum. Námslánin dugðu aldrei og hún varð í hverjum mánuði að fá lán hjá foreldrum sínum. Hún virtist líka eiga í erfiðleikum með að aga sjálfa sig. Hún skilaði verkefnum ævinlega á síðustu stundu, stundum of seint og fékk ekki að taka próf þannig að hún lauk ekki námi fyrr tveimur árum seinna en jafnaldrar. Ekkert af þessu var hins vegar Sóleyju að kenna. Kennarinn hafði ekki verið nógu skýr, hún fékk ekki senda námsáætlunina, tölvan hrundi og fleira og fleira. Oft hjálpuðu systkinin henni að vinna verkefnin sín og iðulega settist Doddi með henni fyrir prófin og hjálpaði henni að glósa og vinna sig í gegnum bækurnar.
Sóley lauk námi og fékk fljótlega vinnu. Ekki tók betra við eftir það. Þrátt fyrir að vera með ágæt laun átti hún aldrei fyrir mat eða öðrum nauðsynjum þegar líða tók á mánuðinn. Foreldrar hennar hlupu undir bagga oftar en ekki og stundum systkini hennar. Allir reyndu að kenna henni að fara betur með. Anna setti upp fjárhagsáætlun, kom henni í greiðsluþjónustu og skipulagði sparnað fyrir hana. Ekkert af þessu dugði. Sóley var fljót að segja upp greiðsluþjónustunni og sagðist ætla að sjá um sitt sjálf. Ekki leið á löngu þar til allt var komið í óefni og Sóley farin að skulda alls staðar.
Borguðu upp skuldirnar
Foreldrar hennar borguðu upp skuldirnar og kallað var til fjölskyldufundar þar sem Sóleyju var gert ljóst að nú yrði hún að taka sig á og standa sig. Anna benti henni á að þær hefðu svipuð laun og sér hefði alltaf tekist að standa fullkomlega í skilum. Sóley reiddist þessu og sagði Önnu ósanngjarna. Ekki væri hægt að bera saman aðstæður þeirra, Anna væri eldri, ætti maka og væri búin að greiða af námslánum sínum lengi. Öll vissum við að ekkert af þessu skipti máli þegar kom að fjármálunum heldur munaði mest um að Anna hafði skynsamlega stjórn á sínu en Sóley ekki.
„Fyrstu tvo mánuðina kom greiðslan með skilum en þann þriðja hringdi Sóley og nú stóð svo illa á hjá henni að hún gat ekki borgað neitt.“
Nokkrum mánuðum eftir þetta var Sóleyju sagt upp vinnunni. Í ljós kom að hún hafði séð um starfsmannasjóðinn en þegar nýr aðili tók við kom í ljós nokkrar færslur voru óútskýrðar. Skiljanlega voru samstarfsmenn hennar ekki hrifnir af þessu en féllust á að kæra ekki ef Sóley greiddi til baka það sem hún hafði tekið. Að þessu sinni tók Doddi upp veskið. Um var að ræða 300.000 kr. Hann og Sóley gerðu samning um endurgreiðslur og hún ætlaði að borga 5.000 kr. á mánuði þar til skuldin væri gerð upp. Doddi vildi ekki ganga hart að systur sinni, þótt hún hefði fljótlega fengið loforð um aðra vinnu í gegnum Sigga. Fyrstu tvo mánuðina kom greiðslan með skilum en þann þriðja hringdi Sóley og nú stóð svo illa á hjá henni að hún gat ekki borgað neitt. Doddi samþykkti að sleppa einum mánuði úr ef hún tæki upp þráðinn aftur í næsta mánuði. Það var ekkert mál að mati skuldarans en sama sagan endurtók sig næst og svo aftur næst. Eftir það hætti hún að hringja og borga. Doddi ákvað að ganga ekki á eftir peningunum.
Um svipað leyti byrjaði Sóley með Gunna. Hann var indæll maður og fjölskyldunni leist ágætlega á sambandið. Þau byrjuðu að búa saman og næstu árin virtist allt með felldu. Gunni var duglegur, rak eigið fyrirtæki og var búinn að koma sér ágætlega fyrir þegar hann og Sóley byrjuðu saman. Þau eignuðust dóttur saman og Sóley virtist hamingjusöm. Þegar Gunnar gekk út af heimilinu dag nokkurn var hún gersamlega niðurbrotin. Hún sagðist alls ekki geta ímyndað sér hvers vegna hann hefði farið og var alveg eyðilögð.
Allir vildu hjálpa
Öll systkini Sóleyjar og foreldrar voru full samúðar og vildu allt fyrir þær mæðgur gera. Tengdaforeldrar mínir fóru með þær í sólarlandaferð og við hin reyndum að bjóða þeim oft í mat, taka þær með ef við vorum að fara eitthvað og á allan hátt hlúa að þeim. Gunni virtist ætla að reynast Sóleyju vel, að minnsta kosti hvað fjármál varðaði, því hann sagði að hún gæti fengið húsið gegn því að hún gerði enga kröfu í fyrirtæki hans. Anna skoðaði ársreikninga þess og fullyrti að þetta væri góður samningur því þótt fyrirtækið væri ágætlega rekið gæfi það ekki mikinn arð.
Úr varð að Sóley samþykkti skiptin og skilnaður gekk í gegn. Þótt ekkert okkar væri tilbúið að rækta einhvern óvinskap við Gunna æxlaðist það einhvern veginn þannig að enginn talaði við hann eftir skilnaðinn. Þegar ég hitti Alla, bróður hans, fyrir tilviljun í boði hjá sameiginlegu vinafólki sagði ég honum hvað okkur hefði öllum þótt leitt að missa Gunna úr fjölskyldunni og að okkar þætti vænt um hann. Að við bara skildum ekki af hverju hjónabandið hafi brostið. Alli var svolítið kenndur og horfði á mig skrýtinn á svipinn, svo sagði hann: „Ég er ekki hissa á að þið sjáið eftir Gunna. Hann hefur gert allt sem hann mögulega gat til að taka ábyrgð á manneskju sem virðist aldrei hafa vaxið upp og kann ekkert með peninga að fara. Hún gerði aldrei neitt inni á heimilinu, allt beið eftir að Gunni kæmi heim, sama hversu seint það var. Hún eyddi og sóaði hugsunarlaust og talaði þar að auki til bróður míns með svo niðurlægjandi hætti að okkur blöskraði öllum. Við í minni fjölskyldu erum á hinn bóginn hissa á að hjónabandið hafi enst svona lengi.“
Mér hnykkti við en ég áttaði mig á að allt sem Alli sagði var satt. Sóley var og er gersamlega hömlulaus. Ef henni mislíkar sleppir hún sér alveg og eys sér yfir fólk. Þá er sama hvar hún er stödd og hún sparar ekki stóru orðin. Við í fjölskyldu hennar erum sennilega orðin svo vön skapsmunum hennar að við erum hætt að taka því alvarlega. Kannski erum við svona meðvirk. En Alli opnaði augu mín og Didda. Við rifjuðum upp ótal atvik þar sem Sóley hafði gert lítið úr Gunna í boðum og í eyru barnsins hans. Við mundum líka eftir rifrildum og öskrum sem gengu alltof langt.
„Í ljós kom að Sóley hafði gengið mjög á eignir foreldra sinna og hafði tekið út meira en nam arfi hennar fyrirfram.“
En þótt Alli hafi þarna skýrt fyrir okkur hvers vegna hjónabandið brást hélt fjölskyldan áfram að dansa í kringum Sóleyju. Nú var hún einstæð móðir og notfærði sér sannarlega þá stöðu. Tengdafaðir minn dó fyrir tveimur árum og í vetur lést tengdamamma. Þá var farið að gera upp bú þeirra. Í ljós kom að Sóley hafði gengið mjög á eignir foreldra sinna og hafði tekið út meira en nam arfi hennar fyrirfram. Tengdapabbi hafði skráð þetta niður, enda sanngjarn maður sem vildi ekki gera upp á milli barna sinna. Hún brjálaðist þegar systkinin bentu henni á þetta en nú var hins vegar öllum nóg boðið. Þau neituðu að gefa eftir og skipta jafnt því sem eftir var í búinu. Þau sögðu henni sömuleiðis að hér eftir yrði hún að bjarga sér sjálf. Síðan hefur Sóley ekki talað við systkini sín og ber þau út við aðra ættingja og segir þau hafa stolið af sér arfinum eftir foreldrana. Við látum okkur það í léttu rúmi liggja. Flestir vita sannleikann hvort sem er og við höfum lært þá lexíu að sumu fólki er einfaldlega ekki hægt að hjálpa.
Íbúi í póstnúmeri 104 hvetur fólk til að læsta ávallt útidyrahurðinni heima hjá sér. Hún og eiginmaður hennar lentu í óhugnanlegu atviki í morgun þegar þjófur gerði sér lítið fyrir og gekk inn í íbúðina og stal greiðslukorti.
„Maður heldur að maður sé óhultur heima hjá sér með hurðina ólæsta, en er það greinilega ekki,“ segir íbúi í póstnúmeri 104 sem vill ekki láta nafns síns getið. Hún og maðurinn hennar urðu fyrir óhugnanlegu atviki í morgun og vill konan vekja athygli á málinu.
Konan segir frá því í samtali við mannlíf.is að í morgun hafi innbrotsþjófur labbað inn á heimili þeirra og stolið greiðslukorti.
„Þetta gerðist í morgun. Ég og maðurinn minn sitjum í sófanum, nánast á móti útidyrahurðinni. Hurðin er ólæst eins og oft áður, þannig hefur það oft verið þegar við erum heima. Allt í einu verður maðurinn minn var við að það er einhver kominn inn í forstofuna og hann ríkur upp. Þá sér hann þessa ungu konu sem hleypur í burtu. Við hlaupum á eftir henni og náum henni,“ útskýrir konan.
„Við vissum alveg að hún hefði tekið kortið en okkur fannst skynsamlegra að láta hana bara fara og loka svo kortinu.“
Hún segir þjófinn, unga íslenska konu, ekki hafa viðurkennt að hafa tekið greiðslukortið sem lá á borði við útidyrahurðina. Þau slepptu henni og hringdu strax í lögregluna.
„Við vissum alveg að hún hefði tekið kortið en okkur fannst skynsamlegra að láta hana bara fara og loka svo kortinu,“ segir konan sem fékk þær upplýsingar frá lögreglu að sama konan hefði farið inn í fleiri hús og íbúðir í hverfinu í morgun.
„Svona er þetta bara orðið. Þetta er að verða verra og verra og maður þarf greinilega að vera á varðbergi. Maður heldur að maður sé óhultur heima hjá sér en svo er ekki. Framvegis verðum við alltaf með hurðina læsta,“ segir konan.
Hún vill vekja athygli á málinu og hvetur fólk eindregið til að læsa undantekningarlaust útidyrahurðum heima hjá sér.
Rétt við Öskjuhlíðina í Reykjavík er nýtt hverfi í uppbyggingu, húsið sem við heimsóttum er enn á byggingarstigi en það er þó ekki að sjá þegar inn er komið. Sigurborg Selma og Gísli Ingimundarson búa hér ásamt þeim Kára sem er tíu ára og Benjamín litla sem er eins árs.
Gísli er forstöðumaður áhættustýringar og gæðamála hjá tryggingafélaginu Sjóvá og Sigurborg Selma er fatahönnuður að mennt, starfar sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu.
Nýbygging miðsvæðis
Sigurborg býður okkur ljósmyndara upp á dýrindis kaffi og við hefjum spjallið. Benjamín litli fylgist athugull með því sem fram fer, greinilega skemmtilegt þegar gesti ber að garði. „Ég átti Moccamaster-uppáhellingarvél en það tók svo langan tíma að hella upp á að ég náði aldrei að drekka kaffið því ég var alltaf eitthvað svo sein. Sjöstrand-vélin hentar mér mun betur,“ segir Sigurborg og hlær.
Íbúðin er rúmir 100 fermetrar og gott flæði er í björtu í meginrýminu þar sem stofa og borðstofa liggja saman og opið eldhúsið er greinilega hjarta heimilisins en þaðan má ganga beint út á sólríkar suðursvalirnar. Í hinum hluta íbúðarinnar eru þrjú svefnherbergi með gólfsíðum gluggum og rúmgott baðherbergi með beinu aðgengi að þvottahúsi og geymslu.
Hvað varð til þess að þetta hverfi varð fyrir valinu?
„Við vorum að leita að íbúð í Hlíðunum nálægt skólanum hans Kára, eldri sonar okkar, en það var einhvern veginn ekkert í boði sem hentaði okkur. Við duttum svo á þessa íbúð en byggingin er tæknilega séð í póstnúmeri 101 þótt hún sé eiginlega nær Hlíðunum. Kári er líka að æfa körfubolta hérna í Val svo það er mjög stutt fyrir hann að fara á æfingar, mjög praktískt.“
Sigurborg segir það hafa verið lítið mál að selja gömlu íbúðina í Hlíðunum en hún skellti henni í story á Instagram og hún hafi selst nánast um leið og aldrei náð inn á fasteignavefinn. „Við vorum með þeim fyrstu sem fluttu hingað en það er auðvitað stutt síðan húsið var byggt.“
Hafa ekki verið mikil læti hérna?
„Ekki núna, en ég veit að íbúarnir hinum megin í húsinu heyra töluvert frá byggingasvæðinu. Síðasta sumar var þó verið að vinna í planinu hér fyrir framan og ég var að ærast, enda var Benjamín nánast nýfæddur og mikil læti,“ segir Sigurborg. Hún bætir því við að í dag sé hávaðamestu framkvæmdunum þó lokið og að hér sé yndislegt að vera og stutt í náttúruna í Öskjuhlíðinni.
Tímalaus hönnun heillar mest
Stíll heimilisins er látlaus og klassískur, blanda af tímalausri hönnun og fallegum húsgögnum njóta sín vel við ljósa veggina. Greinilegt er að þau Sigurborg og Gísli hafa næmt auga fyrir fallegum hlutum.
Hvaðan koma húsgögnin ykkar?
„Margt er úr fjölskyldunni, stofuborðið er í miklu uppáhaldi en það kemur frá ömmu og afa sem eru miklir fagurkerar. Síðan fengum við Wishbone-stólana og stóra armljósið frá Flos í brúðargjöf síðasta sumar og við erum mjög ánægð með hvoru tveggja. Mamma hefur líka verið dugleg að hafa augun opin fyrir okkur á nytjamörkuðum og sölusíðum á Netinu, hún gefur okkur líka alltaf eitthvað fallegt fyrir heimilið í jóla- og afmælisgjafir.“
Sigurborg bendir á borðstofuborðið og -stólana og segir hvoru tveggja hafa komið af sölusíðum á Netinu en þar megi finna hinar ýmsu gersemar ef vel sé leitað. Við forvitnumst um rúmgaflinn sem er hrár og skemmtilegur, smíðaður úr krossvið.
„Rúmgaflinn er krossviðarplata sem vinur minn smíðaði fyrir sýningu en hún var á leiðinni á haugana.“
„Rúmgaflinn er krossviðarplata sem vinur minn smíðaði fyrir sýningu en hún var á leiðinni á haugana. Ég ákvað að prófa að skella henni upp bakvið rúmið og fannst hún koma svo skemmtilega út!“
Greinilegt er að mikið er um smekkfólk í fjölskyldunni og ekki eru allir svo heppnir að svo klassísk og tímalaus hönnun berist á milli fjölskyldumeðlima.
Víðsvegar um íbúðina má sjá fallega keramíkmuni, blómapotta, bolla og skálar, við forvitnumst um hvaðan þeir komi? „Mamma mín, hún Guðbjörg Káradóttir, hannar undir merkinu Ker og hefur lengi hannað fallega keramíkmuni. Þessa dagana er hún mest að hanna fyrir einstök verkefni og hefur mikið gert fyrir veitingastaði, síðan er hún að sérhanna bolla sem eru seldir í HAF store. Það má líka alltaf koma við í vinnustofuna hennar í Mávahlíð og næla sér í eitthvað fallegt.“
„Síðan erum við alltaf að reyna að bæta við fallegum listaverkum á heimilið…“
Áttu þér uppáhaldsverslanir?
„Ég er mjög hrifin af HAF store og Epal og ég kaupi líka mikið á Netinu, en við erum bæði mjög hrifin af klassískri hönnun sem við getum alltaf átt. Gísli bjó erlendis svo hann átti í raun enga búslóð þegar við fluttum inn saman og við gátum svolítið ákveðið í hvaða átt við vildum fara. Síðan erum við alltaf að reyna að bæta við fallegum listaverkum á heimilið en pabbi Gísla er mikill áhugamaður um myndlist og er duglegur að mæla með fallegum verkum.“
Þau Sigurborg og Gísli eru meðal annars með nokkur verk úr Gallery i8, verk eftir Sigríði Rún úr seríunni líffærafræði leturs, annað eftir Rán Flygenring og verk eftir Ignacio Uriarte sem er í miklu uppáhaldi.
Blaðamennskan heillaði
Nú starfar þú sem blaðamaður eftir að hafa lært fatahönnun, hvernig gerðist það? „Mér var boðið starf hjá Morgunblaðinu meðan ég var enn þá í námi í Listaháskólanum en ég ákvað þó að klára BA-gráðuna fyrst. Ég hef alltaf haft áhuga á blaðamennsku og ég held ég hafi í raun uppgötvað í náminu að það hentaði mér betur en að fatahönnun. Ég fór í starfsnám til Parísar á fyrsta námsárinu í LHÍ og starfaði þar á umboðsskrifstofu, ég fílaði það mjög vel og ætli áhuginn hafi ekki kviknað þá.“
Sigurborg Selma hefur starfað hjá Morgunblaðinu í um fimm ár og þar sér hún um tísku og hönnun í helgarblaðinu. Við þökkum Sigurborgu Selmu kærlega fyrir heimboðið, spjallið og kaffibollann og kveðjum að sinni.
Hitastig víns skipitir sköpum og nauðsynlegt er að hafa það sem réttast til að njóta vínsins sem best.
Of heitt rauðvín missir lykt og bragðefni útí andrúmslofti, of kalt hvítvín deyfir að mestu bragðlaukana. Menn eru sammála um að kjör hitastig sé 16-18C° fyrir rauðvín og 10-12C° fyrir hvítvínin, 8-10C° fyrir freyðivín. Margir halda að rauðvín eigi að vera við stofuhita sem er hér á landi um 25°C en er mikill misskilningur. Sömuleiðis verður að hafa í huga að vínskápur er best stilltur á um 15°C fyrir öll vínin, sem þýðir að rauðvín verður að fá svolítinn tíma til að ná réttu hitastigi og hvítvín og freyðivín þurfa að fara í kæli.
Það er hægt að fara nokkrar leiðir til að kæla vín. Ágætt er að hafa við höndina hitamæli því til að byrja með virðist rauðvín verulega „kalt“ við 16°C en ekki gleyma að það mun hækka um 1°C á 10 mínútna fresti þegar vín er borið á borð.
Kæling inni í ísskáp: Miðað við að hitastigið í ísskápnum sé í kringum 4-5°C tekur það um það bil 20 mínútur að kæla rauðvín sem er við stofuhita niður undir 20°C.
Kæling í fötu: Sennilega er þetta besta leiðin, einfaldlega láta renna kalt vatn í fötuna og setja 3-4 klakka úti – vínið verður komið niður í rétt hitastig eftir 10 mínútur.
Sokkaaðferðin: Mjög einföld leið, sokkurinn er í raun sérstakar umbúðir oftast með geli sem helst frosið í góðan tíma, en mikilvægt er að fylgjast vel með hitastiginu á víninu. Það er mest notað til að halda hvítvíni köldu en er gott til að kæla rauðvín.
Hitamæling: Til eru margar tegundir af hitamælum sem henta vel til að fylgjast með hitastigi vína. Betra er að nota mæli sem mælir hitann í víninu sjálfu en ekki hitann utan á flöskunni eins og mælarnir sem hægt er að smella utan á flöskuna gera en þeir eru afar ónákvæmir. Best er að nota infrarauðan mæli sem mælir vökvann án þess að snerta hann. Fljótlega kemst fólk upp á lagið sjálft og fær tilfinningu fyrir réttu hitastigi og þá verða mælarnir óþarfir.
Elísabet Margeirsdóttir er byrjuð að hlaupa aftur eftir að hafa þurft að hætta við að keppa á á heimsmeistaramóti í utanvegahlaupum til að hvílast.
Hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir stefndi á að keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Portúgal í júní en þurfi skömmu fyrir keppni að hætta við og taka sér pásu til hvílast. En Elísabet er komin á fullt aftur.
Hún segir frá þessu á Instagram. „Fyrir rúmum mánuði síðan þurfti ég að hætta við að fara með íslenska landsliðinu í utanvegahlaupum á mótið í Portúgal,“ skrifar hún.
„Hafði verið að díla við líkamlegt ástand sem kom niður á æfingum og líðan og andlega hliðin fór alveg niður. Þó að þessi pása hafi ekki verið löng þá er ólýsanlega góð tilfinning að koma til baka og langa að taka þátt í hlaupum aftur. Ultra trail du Mt. Blanc er komið á planið og set ég fókusinn í æfingum alveg á það næstu vikur og mánuði. Kannski er þetta of geyst en það verður bara að koma í ljós.“
Brotist var inn á hótelherbergi einnar af stjörnum bandaríska liðsins í fótbolta á sama tíma og hún fagnaði heimsmeistaratitlinum með liðsfélögum sínum.
Bandarísku konurnar fengu höfðinglegar móttökur við komuna frá Frakklandi og hófust hátíðarhöldin í New York þar sem borgarstjórinn, Bill de Blasio, afhenti þeim lykil að borginni, heiðursvott fyrir frábæra frammistöðu. Þaðan hélt liðið til Los Angeles þar sem frekari veisluhöld biðu.
Á sama tíma og liðið fagnaði í Los Angeles var brotist inn á hótelherbergi miðjumannsins Allie Long og persónulegum munum í hennar eigu stolið. Þar á meðal voru giftingarhringur hennar, reiðufé og lykillinn sem borgarstjórinn í New York hafði afhent henni fyrr um daginn. Blessunarlega fyrir Long komst þjófurinn ekki yfir verðlaunapeninginn frá HM.
Af Twitter færslu Long að dæma virðist hún einna helst sakna lykilsins að New York og spyr hún de Blasio hvort nokkur möguleiki sé að fá annan slíkan.
After the @ESPYS show someone stole my wedding ring, cash and the key to my favorite city after just receiving it from my hotel room. Do you make copies @NYCMayor ? I would love a new one.
Söngvarinn R. Kelly var handtekinn í gær. Hann á yfir höfði sér ákæru um vörslu barnaníðsefni og hindrun réttvísinnar. Þetta er aðeins brot af þeim ásökunum sem bornar hafa verið á söngvarann á undanförnum árum.
Kelly var handtekinn er hann var úti að ganga með hundinn sinn nærri heimili sínu í Chicago. Samkvæmt fréttum vestanhafs eru ákærurnar á hendur R. Kelly í 13 liðum. Talsmaður söngvarans segist ekki hafa séð ákæruskjalið. „Hr. Kelly hefur haldið fram sakleysi sínu frá fyrsta degi. Ég hef ekkert séð sem gæti leitt til sakfellingar,“ hefur NBC eftir talsmanninum, Darrell Johnson.
Ákærurnar 13 eru aðeins brot af umfangsmiklu máli gegn söngvaranum sem heitir fullu nafni Robert Sylvester Kelly. Hann var handsamaður í febrúar og stefnt fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, þar af þremur undir lögaldri. Það mál er enn í gangi en R. Kelly gekk laus gegn tryggingu.
Árið 2008 var R. Kelly sýknaður fyrir að hafa nauðgað 13 ára guðdóttur sinni og tekið athæfið upp á myndband. Ekki var hægt að sakfella hann þá þar sem stúlkan sagðist ekki vera sú sem sást á upptökunni.
Síðan þá hafa fjölmiðlar á borð við BuzzFeed og New York Times fjallað ítarlega um óðelileg og ólögleg samskipti hans við ólögráða stúlkur. Í fyrra kom út heimildarmyndin Surviving R. Kelly þar sem fullyrt var að söngvarinn héldi ungum og mörgum hverjum ólögráða stúlkum föngnum og misnotaði þær kynferðislega.
Verði R. Kelly fundinn sekur á hann margra ára fangelsi yfir höfði sér.
Gengi hlutabréfa í Icelandair hafa fallið um nærri 5 prósent það sem af er degi. Líklegt er að markaðsaðilar líti svo á að mun meiri alvara sé að baki bandarísku fjárfestunum en öðrum sem nefndir hafa verið til sögunnar.
Í morgun var greint frá því að hópur bandarískra fjárfesta hafi keypt eignir WOW Air úr þrotabúi félagsins í þeim tilgangi að setja flugfélagið aftur á fót. Hafa hinir nýju fjárfestar þegar fundað með samgönguyfirvöldum um útgáfu flugrekstrarleyfis, en á meðal eigna sem keyptar voru úr búinu voru bókunarkerfið, vörumerkið, flugrekstrarbækur og jafnvel einkennisfatnað.
Viðskiptablaðið segist hafa heimildir fyrir því að hinir bandarísku fjárfestar séu Michele Ballarin og félag henni tengt, Oasis Aviation Group. Ballirin hafi sýnt félaginu áhuga áður en það fór í þrot og nú þegar sé hún búin að setja sig í samband við einstaklinga sem áður störfuðu hjá WOW. Oasis Aviation Group býður upp á flug milli Washington og Djíbúti og sérhæfir sig meðal annars í flutningi vopna.
Ljóst er að fréttir af mögulegum nýjum keppinauti hafa áhrif á Icelandair sem hefur fallið um 4,94 prósent í kauphöllinni þegar þetta er skrifað. Virðist sem mun meiri alvara sé á bakvið hina bandarísku fjárfesta en þá sem standa að baki WAB-air og tilkynnt var um í gær. Þá bárust fréttir af því í gær að töf verður á því að Boeing MAX 737 flugvélarnar hefji sig aftur til flugs en kyrrsetning þeirra hefur valdið Icelandair umtalsverðum búsifjum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur séð ástæðu til að vara við mjög bíræfnum reiðhjólaþjófum á höfuðborgarsvæðinu.
Töluvert hefur verið um reiðhjólastuld á höfuðborgarsvæðinu undanfarin misseri. Að sögn lögreglu eru þjófarnir „mjög bíræfnir“ og virðist ekki skipta máli þótt hjólin séu kyrfilega læst og vel gengið frá þeim. „Klippt er á lása og jafnvel farið inn í hjólageymslur til að stela þeim,“ segir í tilkynningu lögreglu.
Lögreglan ætlar að þjófarnir reyni að selja hjólin og því sé brýnt að fólk tilkynni til lögreglu ef það grunar að reiðhjól sem það hyggst kaupa sé illa fengið. Þá er hægt að nálgast reiðhjól í óskilum á Pinterest síðu lögreglunnar.
Enn er nokkuð um reiðhjólaþjófnaði á höfuðborgarsvæðinu. Þjófarnir eru mjög bífrænir og það virðist ekki skipta þá miklu…
Þar kemur fram að handrit myndarinnar sé byggt á skáldsögunni Good Morning, Midnight og að tökur muni hefjast snemma í október. Tökur myndarinnar munu einnig fara fram í Bretlandi.
Þess má geta að bókin Good Morning, Midnight eftir bandaríska höfundinn Lily Brooks-Dalton kom út árið 2016 og segir frá tveimur vísindamönnum sem reyna að komast af eftir heimsendi.
Bandarísku fjárfestarnir sem keyptu allar eignir úr þrotabúi flugfélagsins WOW air munu kynna sig með greinargóðum hætti fyrir almenningi þegar það er tímabært að sögn lögmannsins Páls Ágústs Ólafssonar.
Lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson hefur annast milligöngu um samskipti fjárfesta við þrotabú vegna kaupa á eignum úr þrotabúi flugfélagsins WOW air. Páll segist í samtali við mannlíf.is lítið geta gefið upp um kaupandann en leggur áherslu á að um fjárfesti sem hefur áratuga reynslu af flugrekstri sé að ræða.
Páll segir að nú sé umræddur flugrekstarraðilli að ganga frá sínum málum gagnvart Samgöngustofu og opinberum aðilum. Þegar því er lokið verður hægt að kynna fyrir almenningi væntanlega starfsemi.
„Umbjóðendur mínir munu kynna sig og þær hugmyndir sem þeir hafa fyrir almenningi með greinargóðum hætti þegar það er tímabært,“ segir Páll.