Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í morgun tillögu Íslands um stöðu mannréttindamála á Filipseyjum. Filipseyingar eru allt annað en sáttir við niðurstöðuna.
Með samþykktinni lýsir Mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af stöðu mála á Filipseyjum og hvetur stjórnvöld þar í landi til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga. Þá er biðlað til stjórnvalda á Filipseyjum um að sýna skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og öðrum stofnunum SÞ samstarfsvilja.
Þúsundir óbreyttra borgara hafa verið teknir af lífi, margir hverjir án dóms og laga, eftir að Rodrigo Duterte var kjörinn forseti. Stríð gegn fíkniefnum voru eitt hans helsta kosningamál en aðferðir hans hafa verið harðlega gagnrýndar af mannréttindasamtökum um allan heim. Hafa borist fregnir af dauðasveitum sem ganga húsa á milli og taka fólk af lífi, gildir þá einu hvort um ræðir fíkniefnasala eða veika fíkla.
Stjórnvöld á Filipseyjum hafa brugðist ókvæða við tillögu Íslands og sagði utanríkisráðherrann að Ísland og þau ríki sem fylktu sér að baki tillögunni væru með þessu að ganga í lið með eiturlyfjasölum. Gagnrýnin hélt áfram að lokinni atkvæðagreiðslunni og sakaði fulltrúi Filipseyja í ráðinu þær þjóðir sem studdu tillöguna um hræsni og sagði að þessu myndi fylgja afleiðingar. Að sama skapi hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fagnað samþykkt tillögunnar. Ástand mannréttindamála á Filipseyjum fari stigversnandi og full ástæða sé til að grípa í taumana.
Tillagan var samþykkt með 18 atkvæðum gegn 14 en 15 ríki sátu hjá. Auk Íslands studdu eftirfarandi þjóðir tillöguna: Argentína, Ástralía, Austurríki, Bahamas, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Króatía, Fiji, Ítalía, Mexíkó, Perú, Slóvakía, Spánn, Tékkland, Úkraína og Úrúgvæ.
Þau ríki sem greiddu atkvæði gegn tillögunni voru: Angóla, Barein, Kamerún, Katar, Kína, Kúba, Egyptaland, Erítrea, Ungverjaland, Indland, Írak, Filipseyjar, Sádí Arabía og Sómalía.
Þessi ríki sátu hjá við atkvæðagreiðsluna: Afganistan, Bangladess, Brasilía, Búrkína Fasó, Chile, lýðveldið Kongó, Japan, Nepal, Nígería, Pakistan, Rúanda, Senegal, Suður Afríka, Tógó og Túnis.
Árið 2018 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildarlauna var 632 þúsund krónur og var því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofunnar.
Þegar horft er á dreifingu heildarlauna var algengast að mánaðarleg heildarlaun væru á bilinu 550 til 600 þúsund krónur og var rúmlega tíundi hver fullvinnandi launamaður með heildarlaun á því bili.
Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 729 þúsund krónur á mánuði árið 2018 hjá fullvinnandi starfsmönnum. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 818 þúsund krónur að meðaltali en 593 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga.
Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum, þannig voru um 70% starfsmanna sveitarfélaga með heildarlaun undir 650 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um 35% ríkisstarfsmanna og tæplega 55% starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Um 5,5% starfsmanna á almennum vinnumarkaði og ríkisstarfsmanna var með heildarlaun yfir 1.400 þúsund krónur á mánuði en óverulegur hluti starfsmanna sveitarfélaga var með þau laun.
Í fyrsta skipti reiknar Hagstofan sérstaklega launagreiðslur í gististaða- og veitingageiranum og kemur í ljós að launagreiðslur þar eru í lægri kantinum, eða 504 þúsund krónur að meðaltali. Miðgildi heildarlauna var 495 þúsund krónur. Í atvinnugreininni er dreifing heildarlauna verulega frábrugðin dreifingu grunnlauna þar sem greiðslur vaktaálags eru algengar og einnig er nokkuð um yfirvinnu.
Tæplega 60% fullvinnandi starfsmanna voru með grunnlaun undir 400 þúsund krónur á mánuði og tæplega 25% starfsmanna ef horft til heildarlauna. Greiddar stundir á mánuði í atvinnugreininni voru að meðaltali 183,6 sem er rétt undir meðaltali allra, en það var 184,5 greiddar stundir.
Hin árlega Hríseyjarhátíð verður haldin um helgina þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Hápunktinum verður náð á laugardagskvöld með varðeldi og kvöldvöku þar sem sjálfur Bjartmar Guðlaugsson stýrir fjöldasöng, ásamt fleirum.
Hríseyjarhátíðin hefst föstudaginn 13. júlí með því að nokkrir Hríseyingar og sumarhúsaeigendur bjóða heimafólki og gestum í kaffisopa heim í görðunum sínum. Upplagt er að rölta á milli garðanna og njóta gestrisni og samvista við skemmtilegt fólk í fallegu umhverfi. Einnig verða óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna.
Aðaldagskráin er laugardaginn 14. júlí og er þá í boði dagskrá frá hádegi og fram á kvöld, sem felst í fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðum, boltafjör/vatnsbolta, BMX brós, gömludansaball, tónlist og fleira. Boðið verður upp á aðgang að leiktækjum. Að venju endar hátíðin á kvöldvöku á sviðinu, varðeldi og brekkusöng. Hátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Í Hrísey er öll almenn þjónusta til staðar s.s verslun, veitingahús, sundlaug, tjaldsvæði og gisting. Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar og er boðið upp á allt að níu ferðir á dag. Siglingin tekur aðeins 15 mínútur frá Árskógssandi, sem er um 35 kílómetra frá Akureyri. Nánari upplýsingar um Hrísey, ferjuáætlun og þjónustu má nálgast á og á www.hrisey.net.
Aðgangur á hátíðina er ókeypis.
Dagskrá 2019:
Hátíðin hefst með garðakaffi á föstudeginum kl. 15.00- 18.00, þá bjóða íbúar og sumarhúsaeigendur gestum og gangandi í kaffi í görðunum sínum. Í ár eru það sex staðir sem bjóða upp á garðakaffi. Óvissuferð fullorðinna verður á sínum stað á föstudagskvöldið.
Á laugardeginum verður kvenfélagið með sína árlegu kaffisölu á hátíðarsvæðinu, Skralli trúður fer í sína síðustu fjöruferð, Stúlli og Danni taka lagið á sviðinu, María Reyndal og Hrafnhildur Orradóttir verða með stuð og leiki fyrir 12 ára og eldri, kvöldvaka þar sem Bjartmar Guðlaugsson kemur fram ásamt fleirum eftir kvöldvökuna er síðan brekkusöngur og varðeldur að venju.
Föstudagur 12. júlí
Kl. 15.00-18.00 Kaffi í görðum
Kl. 18.00 Óvissuferð barna
Kl. 22.00 Óvissuferð með Hjálmari Erni
Laugardagur 13. júlí
Kl. 13.00 Dagskrá hefst
– Kaffisala kvenfélagsins – Traktorsferðir um þorpið – Leikir og sprell í Íþróttamiðstöðinni – Gömludansaball – Hríseyjarmót í Pönnufótbolta – Tónlistaratriði á sviðinu – Stúlli og Danni – Fjöruferð með Skralla Trúð – Ratleikur – Hópakstur dráttarvéla
Kl. 21.00 Kvöldvaka
– Bjartmar Guðlaugsson ásamt fleirum. Varðeldur og brekkusöngur.
Einn er í haldi lögreglu eftir hnífstungu í heimahúsi á Neskaupstað í nótt. Hinn slasaði var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann gengst undir aðgerð.
Ekki er vitað um líðan hins slasaða né hver tildrög árásarinnar eru. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og fluttur í fangageymslur á Eskiferði. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík verður innan handar við rannsókn málsins.
Rokkhátíðin Eistnaflug stendur nú yfir í bænum. Samkvæmt Vísi, sem greindi fyrst frá málinu, tengist árásin hátíðinn ekki á nokkurn hátt.
Eiríkur Stephensen sendi nýverið frá sér sína fyrstu bók, Boðun Guðmundar. Bókin hefur fengið flotta dóma og um hana segir Guðmundur Andri Thorsson meðal annars: „Hún er býsna raunsæ um leið og hún er fullkomin fantasía; bráðfyndin og sorgleg í senn, hugljúf og mjög umhugsunarverð.“
„Hugmyndin að bókinni kviknaði fyrir um það bil 6-7 árum en eins og svo margar góðar hugmyndir þá birtist hún bara einn daginn án þess að gera boð á undan sér,“ segir Eiríkur sem annars er verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands.
Bókin fjallar um Guðmund Kára sem er miðaldra tónlistarkennari í tilvistarkreppu. Síðustu vikur hefur hann glímt við þráláta síþreytu sem hann skrifar fyrst í stað á timburmenn en þegar þeir dragast á langinn án tilefnis ákveður hann að fara til læknis. Á sama tíma fara ýmis dýr, hvít að lit, að gera sig heimakomin við kjallaraíbúð Guðmundar við Grenimel. Þegar læknirinn boðar hann svo alvarlegur á sérstakan fund óttast Guðmundur hið versta, segir á bókarkápu Boðunnar Guðmundar.
„Ég hvet þó fólk til að fara varlega í að lesa bókina með sjálfsævisögulegum gleraugum.“
„Sagan er alger uppspuni en ég hefði væntanlega ekki skrifað hana ef ég væri ekki ég sjálfur þannig að ég býst við að hún beri þess einhver merki. Ég hvet þó fólk til að fara varlega í að lesa bókina með sjálfsævisögulegum gleraugum,“ segi Eiríkur og svarar því aðspurður að boðskapur bókarinnar sé leyndarmál.
„Það væri gaman að skrifa fleiri bækur en ég lofa nú engu um það.“
Sumartónleikaröðin Summer sessions á sér stað á Vínyl Bistro á Hverfisgötu í sumar.
Fjölmörg bönd eru þegar skráð til leiks og munu eflaust fleiri bætast við en hljómsveitirnar eiga lítið annað sameiginlegt en að hafa innanborðs meðlimi sem hafa heilsað Ara Árelíus með innilegu faðmlagi.
Hér ægir saman fjölmörgum stílbrigðum tónlistar; poppi, klassík, jazzi og dub. Frítt er inn þannig að ekki láta þig vanta.
Hér er það sem ákveðið er af dagskránni: 18. júlí, Quest, 1. ágúst, Omnipus, 15. ágúst, Óskar og 29. ágúst, Flavor Fox.
„Eddy, Eddy, hæ, Eddy, hvernig hefurðu það,“ hljómaði um skólann þegar hinn 19 ára Bobby Shafran hóf þar nám árið 1980. Þetta var fyrsti dagurinn hans í þessum skóla og hlýjar móttökurnar greinilega ætlaðar einhverjum öðrum. Þetta var upphafið að magnaðri sögu af endurfundum bræðra sem höfðu verið aðskildir sem ungbörn og óvæntum uppgötvunum.
Eddy Galland hafði flosnað upp úr námi og ætlaði ekki að koma aftur í Sullivan Community College. Það vissi vinur hans, Michael Domnit, sem drap á dyr hjá Bobby í heimavistinni. Michael byrjaði á því að spyrja hvort Bobby hefði verið ættleiddur. Svarið var játandi og þegar í ljós kom að hann átti afmæli sama dag og Eddy, þurfti ekki frekar vitnanna við. „Þú átt tvíburabróður,“ sagði Michael. Hann lét ekki staðar numið, heldur hringdi heim til Eddys sem brá í brún þegar hann heyrði í Bobby og röddin hljómaði eins og hans. Spjall í síma dugði ekki, bræðurna langaði til að hittast svo Bobby og Michael óku heim til Eddys strax eftir símtalið.
„Þegar dyrnar opnuðust sá ég mitt eigið andlit stara á mig, allt varð eins og í móðu og aðeins við Eddy þarna,“ sagði Bobby síðar.
Sagan þótti svo mögnuð að hún rataði í fjölmiðla. Nokkru seinna sat David nokkur Kellmann og las grein um endurfundina. Ég er ekki frá því að ég sé sá þriðji, hugsaði hann. Eddy og Bobby líktust honum ekki aðeins mjög í útliti og höfðu verið ættleiddir eins og hann, heldur deildu þeir með honum fæðingardeginum 12. júlí 1961.
Í ljós kom að David, Eddie og Bobby voru eineggja þríburar og höfðu verið ættleiddir hálfs árs gamlir hver til sinnar fjölskyldu sem fékk ekki að vita að sonurinn ætti bræður.
Óaðskiljanlegir
Bræðurnir urðu strax óaðskiljanlegir. Þeir voru vinsælt umfjöllunarefni í fjölmiðlum og birtust m.a. í spjallþáttum í sjónvarpi og fengu meira að segja lítið aukahlutverk í kvikmyndinni Desperately Seeking Susan (1985) þar sem þeir áttu að brosa til Madonnu áður en hún gekk inn í byggingu. Þeir leigðu saman íbúð í Queens í New York-borg og árið 1988 stofnuðu þeir veitingastað í Soho, Triplets Roumanian Steakhouse. Bobby hætti samstarfinu nokkrum árum síðar og árið 2000 var staðnum lokað.
Bræðurnir hittu lífmóður sína í eitt skipti, snemma á níunda áratugnum, en hún sýndi ekki áhuga á að hitta þá aftur.
Dullarfulla rannsóknin
Drengirnir fæddust á Hillside-sjúkrahúsinu í Glen Oaks í New York-ríki. Móðir þeirra var mjög ung, hafði orðið ófrísk eftir útskriftarballið (e. prom). Þeir voru aðskildir sex mánaða gamlir og ættleiðingarstofan Louise Wise Servises fann þeim heimili. Áður en væntanlegir foreldrar fengu þá í hendur var þeim sagt að drengirnir yrðu þátttakendur í nokkurs konar rútínukenndri sálfræðirannsókn og sterklega gefið í skyn að þátttakan væri skilyrði fyrir ættleiðingunni.
Þeir ólust upp í New York-ríki, í aðeins rúmlega 100 kílómetra fjarlægð hver frá öðrum. Næstu árin fengu drengirnir og foreldrar þeirra reglulega heimsóknir frá rannsóknarteymi undir stjórn dr. Peters Neubauer barnasálfræðings sem vann m.a. náið með Önnu, dóttur Sigmund Fraud. Þeir voru látnir púsla og teikna, þrautir lagðar fyrir þá og fylgst með þroska þeirra og getu. Allt var vandlega skráð og kvikmyndað. Enginn vissi að þetta væri yfirgripsmikil rannsókn á fjölburum sem voru aðskildir og ættleiddir hver í sínu lagi. Rannsóknin hélt áfram eftir að drengirnir eltust en þá var meira fylgst með þeim úr fjarlægð.
Foreldrar þríburanna voru ólíkir og sennilega valdir til að hægt væri að rannsaka áhrif mismunandi uppeldis á drengina. David ólst upp hjá Kellman-hjónunum sem töldust vera af verkamannastétt. Faðir hans rak matvöruverslun og var sérlega hlýr og ástríkur maður sem tók bræðrum Davids sem sínum eigin. Bobby var ættleiddur af Shafran-hjónunum úr efri millistétt en faðir hans var læknir sem sýndi honum fálæti. Galland-hjónin, úr millistétt, ólu Eddy upp en í æsku upplifði hann litla umhyggju, að minnsta kosti af hendi föðurins sem var algjör andstæða hins hlýja föður Davids.
Allir áttu bræðurnir við hegðunarvandamál að stríða frá upphafi. Þeir tóku vanlíðunarköst og börðu þá höfðinu í rimlana í barnarúmum sínum. Án efa stafaði það af aðskilnaðarkvíða, vill einn bróðirinn meina. Þeir voru jú saman fyrstu sex mánuði lífsins. David og Eddy voru lagðir inn á geðdeild nokkrum sinnum á unglingsárum og Bobby var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 1978 í tengslum við rán og morð.
„Fólkið sem rannsakaði okkur horfði aðgerðalaust á vandamál okkar verða stærri og meiri og gerði ekkert til að hjálpa. Ég er reiðastur yfir því,“ sagði David í viðtali. „Þau hefðu getað hjálpað okkur en gerðu það ekki.“
Fátt um svör
Á meðan þríburarnir nutu lífsins og samvistanna ákváðu foreldrar þeirra að leita svara við þeim fjölmörgu spurningum sem höfðu vaknað. Þau heimsóttu ættleiðingarstofuna og kröfðust skýringa. Þeim var sagt að ástæða þess að drengirnir voru aðskildir hafi verið sú að erfiðara hefði verið að koma þeim á eitt heimili en þrjú. Faðir Davids svaraði því til að ef þeim hjónum hefði boðist að ættleiða alla þrjá hefðu þau tekið því fagnandi. Að öðru leyti var lítið um svör og foreldrarnir voru afar ósáttir þegar þeir yfirgáfu stofuna.
Pabbi Bobbys gleymdi regnhlíf sinni og fór aftur inn til að sækja hana. Þegar hann kom inn í fundarherbergið sá hann að forsvarsfólk stofunnar hafði opnað kampavínsflösku og var að skála hvert við annað, eins og það hefði einhvern veginn sloppið með skrekkinn.
Foreldrarnir vildu ekki gefast upp og reyndu að fá aðstoð frá fleiri en einni lögmannsstofu til að komast til botns í málinu en án árangurs. Mikil leynd hvíldi og hvílir enn yfir þessari fjölburarannsókn. Niðurstöðurnar voru aldrei birtar, heldur innsiglaðar til ársins 2065 í Yale-háskóla. Þá verða liðin 104 ár frá fæðingu þríburanna.
Líklegt verður að teljast að fólk sem ættleitt var á svipuðum tíma og þríburarnir og aðskilið sem hluti af rannsókninni, eigi sér systur eða bróður einhvers staðar þarna úti.
Ástir, gleði og sorgir
Þríburarnir stofnuðu hver sína fjölskyldu með tímanum. David giftist Janet og þau eiga dæturnar Ali og Reyna. Bobby og Ilena eiga dótturina Elyssu og soninn Brandon, og Eddy og Brenda eignuðust dótturina Jamie.
Eddy fór ekki bara verst út úr uppeldinu af bræðrunum, heldur virtist hann hafa haft mestu þörfina fyrir bræðurna. Eftir að hann hitti Bobby og David leit hann á þá sem alvörufjölskyldu sína og vildi vera með þeim öllum stundum. Hann glímdi við andleg veikindi og árið 1995 svipti hann sig lífi á heimili sínu. Við þetta áfall fjarlægðust Bobby og David hvor annan. Við gerð heimildamyndar um sögu þeirra, Three Indentical Strangers (2018) hittust þeir eftir langan aðskilnað og samband þeirra lagaðist í kjölfarið.
Bobby er lögmaður í Brooklyn. David er nýlega fráskilinn og vinnur sjálfstætt sem tryggingasölumaður. Hann hefur haldið góðu sambandi við ekkju Eddys og dóttur. Báðir eru bræðurnir afar ósáttir yfir því að hafa verið tilraunadýr í rannsókn sem miðaði að því að aðskilja þá og rannsaka áhrif þess og mismunandi uppeldis sem hafði án nokkurs vafa sterk áhrif á líf þeirra.
Eftir langa og stranga baráttu fengu þeir loks send skjöl úr rannsókninni en þar var í raun ekkert sem gat varpað ljósi á nokkuð. Þetta voru mest meinlausar athugasemdir og myndbrot og þess gætt að það sem hvor bróðirinn fékk tengdist aðeins honum einum. Bobby og David hafa ekki gefist upp og vona að heimildamyndin verði til þess að fleiri spurningum verði svarað.
Megan Rapinoe, sem fór heim hlaðin gulli af HM kvenna í knattspyrnu, sendi Donald Trump Bandaríkjaforseta skýr og skorinort skilaboð í sjónvarpsviðtali.
Rapinoe fór fyrir bandaríska liðinu sem vann fjórða heimsmeistaratitil Bandaríkjanna. Hún og liðsfélagar hennar hafa vakið mikla athygli fyrir hispurslausa gagnrýni á því misrétti milli kynjanna sem viðgengist hefur knattspyrnunnar, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Þannig fær bandaríska kvennaliðið langtum minna borgað fyrir þátttöku í landsliðsverkefnum en karlaliðið, þrátt fyrir að státa af mun betri árangri og áhorfi.
Rapinoe, sem er samkynhneigð, hefur sömuleiðis gagnrýnt stefnu Trumps í málefnum LBGT fólks. Í viðtali við Anderson Cooper á CNN var Rapinoe spurð hvort hún hefði einhver skilaboð til forsetans.
„Skilaboð þín útiloka fólk. Þú útilokar mig, þú útilokar fólk sem lítur út eins og ég, þú útilokar litað fólk og þú útilokar jafnvel fólk sem styður þig,“ sagði Rapinoe sem segist ekki átta sig á því hvað Trump eigi við þegar hann í sífellu talar um að gera Bandaríkin frábær að nýju. „Þú dásamar tímabil sem var ekki frábært fyrir alla – það var kannski frábært fyrir nokkra útvalda og kannski eru Bandaríkin frábær fyrir nokkra einstaklinga núna, en þau eru það ekki fyrir alltof marga Bandaríkjamenn.“
Heimsmeisturunum hefur enn ekki verið boðið í Hvíta húsið líkt og venjan er þegar amerísk íþróttalið hampa titli. Fjölmargir þingmenn hafa hins vegar boðið liðinu til fundar í Washington.
Í nýja blaðinu er að finna einstaklega freistandi uppskriftir á sumarlegum og léttum nótum.
Sniðugir réttir á pallinn og í sumarbústaðinn ásamt einstaklega skemmtilegum og léttum pastaréttum sem Folda töfraði fram sem gæla við bragðlaukana.
Spennandi garðveisla og sjúklega góðar sumarkökur eru meðal efnis að ógleymdum rabarbararéttum og geggjuðum kjúklingaleggjum og -vængjum.
Þess má geta að allar uppskriftir í Gestgjafanum eru þróaðar af blaðamönnum blaðsins, þær eru allar prófaðar og eldaðar í tilraunaeldhúsi blaðsins. Bergþóra blaðakona lagði leið sína út á land ásamt Aldísi ljósmyndara en saman heimsóttu þær frumkvöðul í Þykkvabænum og litu inn á eþíópískan stað á Flúðum.
Dominique fjallar um Gyllta glasið og Decanter-verlaunin Ásamt því að ræða fjóslykt í víni. Hanna fjallar um grunnatriði í vínsmökkun og parar nokkur vín við sumarréttina ásamt því að fræða okkur um Dubrovnik í Króatíu á ferðasíðunum.
Sigurður Hlynur Helguson Snæbjörnsson, bóndi að Öndólfsstöðum í Reykjadal, hefur fengið heimild hjá Þjóðskrá Íslands til að breyta um nafn. Framvegis heitir hann Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.
Breytingin er gerð á grundvelli nýrra laga um kynrænt sjálfræði. Í samtali við RÚV segir Sigríður Hlynur að hann hafi viljað heita í höfuðið á ömmu sinni. Hann hefur fram að þessu lítið sem ekkert notast við Sigurðs-nafnið og flestir honum nákomnir kalla hann Hlynur. Aðspurður segist hann lítið finna fyrir fordómum vegna þessa nema frá nokkrum „virkum í athugasemdum.“
Alls hafa tíu umsóknir borist Þjóðskrá um breytingu á skráningu kyns frá því lögin tóku gildi. Í öllum tilfellum nema einu er einnig farið fram á nafnabreytingu en Sigríður Hlynur er sá eini sem hefur óskað eftir nafnbreytingu einni og sér.
Það kostar 9.000 krónur að breyta eiginnafni og er hægt að ganga frá greiðslu í heimabanka. Um leið og staðfesting frá Þjóðskrá berst tekur breytingin gildi.
Heilbrigðisyfirvöld telja sterkustu líkurnar á því að E.coli smit í Efstadal 2 megi rekja til íss sem framleiddur var á staðnum.
10 börn hafa verið lögð inn á sjúkrahús vegna alvarlegrar sýkingar af völdum E.coli bakteríu. Í gær var greint frá því að uppruni bakteríunnar hafi verið rekinn til ferðaþjónustunnar í Efstadal 2 þar sem meðal annars er veitingastaður og boðið upp á heimagerðan ís.
Einnig fannst E.coli í úrgangi af kálfi og af fréttum í gær mátti ráða að börnin hafi smitast eftir að hafa verið í snertingu við kálfa. Embætti Landlæknis hefur af þessu tilefni sent frá sér áréttingu. Þar kemur fram að helmingur barnanna sem sýktust hafi ekki verið í tengslum við kálfa á staðnum. Hins vegar hafi öll börnin átt það sameiginlegt að hafa neytt íss á staðnum, en tíunda barnið smitaðist af systkini.
Mögulegar smitleiðir á bænum eru margar en sterkustu faraldsfræðilegu tengslin eru við ís sem framleiddur var á staðnum.
Fram kemur í áréttingu á vef Landlæknis að þær bakteríu sem sýktu börnin hafi ekki greinst í ís á staðnum en ísinn sem rannsakaður var var ekki sá sami og börnin höfðu borðað því ný framleiðsla var komin í sölu.
„Af ofangreindu má því sjá að ekki er hægt að fullyrða að börnin hafi sýkst af umgengni við kálfa. Mögulegar smitleiðir á bænum eru margar en sterkustu faraldsfræðilegu tengslin eru við ís sem framleiddur var á staðnum,“ segir í áréttingunni.
Aðgerðir og ráðstafanir sem gripið var til beinast einmitt að því að rjúfa þessar smitleiðir með því að stöðva framleiðslu á ís og samgangi við kálfa á staðnum, og skerpa á vinnureglum og hreinlæti.
Sóttvarnalæknir hefur einnig sett sig í samband við Safetravel.is og Samtök ferðaþjónustunnar um að koma nauðsynlegum upplýsingum til ferðamanna sem heimsótt hafa Efstadal 2 og kunna að hafa smitast. Einnig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) verið upplýst eins og alþjóðalög kveða á um.
Mæðgurnar Beyoncé og Blue Ivy Carter voru flottar á rauða dreglinum í gær.
Söngkonan Beyoncé Knowles sló í gegn á rauða dreglinum á heimsfrumsýningu Lion King í Los Angeles í gær. Hún klæddist glæsilegri hönnun frá tískuhúsi Alexander McQueen. Dóttir hennar, Blue Ivy, mætti að sjálfsögðu með og voru þær mæðgur í stíl á rauða dreglinum. Blue Ive klæddist látlausari útgáfu af dressi Beyoncé.
Þess má geta að Beyoncé ljáir Nölu rödd sína í nýju Lion King og samdi nýtt lag fyrir kvikmyndina.
Tveir fyrrverandi lykilstjórnendur hjá WOW air ásamt hópi fjárfesta vinna nú að stofnun nýs flugfélags, sem ber heitið WAB air, á grundvelli WOW. Fyrrverandi forstjóri WOW air kemur ekki nálægt stofnun félagsins.
Því hefur reglulega verið haldið fram í fjölmiðlum að Skúli Mogensen stofnandi og fyrrum forstjóri flugfélagsins WOW air, sem féll í mars, og fyrrum lykilstjórnendur innan WOW air hafi unnið hörðum höndum að því að afla fjár til að endurreisa flugfélagið. Skúli sjálfur kynnti ítarlegar hugmyndir að því hvernig hið endurreista flugfélag kæmi til með að líta út, á frumkvöðlaráðstefnunni Startup Iceland 2019 í Hörpu í byrjun júní. Án þess þó að segja með berum orðum að til stæði að endurreisa flugfélagið. Mannlíf hefur nú heimildir fyrir því að Skúli hafi ekki aðkomu að stofnun hins fyrrgreinda flugfélags, WAB air.
Áform er uppi um að félagið hefji rekstur í haust, gangi allt að óskum og fljúgi til fjórtán áfangastaða bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Ráðgert er að fimm hundruð starfsmenn verði ráðnir til félagsins og ein milljón farþega komi til með að ferðast með því á næstu tólf mánuðum. Áætlað er að sex vélar verði í rekstra fyrsta árið og veltan nemi tuttugu milljörðum króna á næsta ári. Frá þessum áformum er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag.
Ennfremur kemur fram að írski fjárfestingarsjóðurinn, Avianta Capital, hafi skuldbundið sig til þess að tryggja félaginu um fimm milljarða króna í nýtt hlutafé. Sem endurgjald muni Avianta Capital eignast 75 prósenta hlut í félaginu. Þá muni 25 prósent WAB air verða í eigu Neo, félags sem er í eigu Arnars Más Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs WOW, Sveins Inga Steinþórssonar, úr hagdeild WOW, sem sat í framkvæmdastjórn flugfélagsins, Boga Guðmundssonar, lögmanns hjá Atlantik Legal Services og stjórnarformanns BusTravel, og Þórodds Ara Þóroddssonar, ráðgjafa í flugvélaviðskiptum. Sveinn Ingi komi til með að verða forstjóri hins nýja félags en Arnar Már taki að sér hlutverk aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra flugrekstrar. Þ.e.a.s. gangi áformin eftir, því í fréttinni er haldið fram að rætt hafi verið við Arion banka og Landsbankann um að lána Avianta Capital um 3,9 milljarða króna, til eins árs í fyrirgreiðslu. Til standi að nýta lánsféð sem eigið fé til þess að slá lán hjá ónefndum svissneskum banka.
Forsvarsmenn Emirates flugfélagsins heimsóttu Ísland til að kanna þann möguleika að hefja flug til og frá landinu. Verði það raunin opnast Íslendingum dyr að mörgum af mest framandi stöðum heims.
Samkvæmt heimildum Viðskiptamoggans sendi Emirates, sem er ríkisflugfélagið í Dúbaí, fulltrúa sína hingað til lands og fundaði sendinefndin með fyrirtækjum sem tengjast flugrekstri. Hins vegar mun nefndin ekki hafa fundað með Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll. Tekið er fram að málið sé á frumstigi.
Emirates er eitt af stærstu flugfélögum heims með um 250 flugvélar í flota sínum. Heimahöfn þess er í Dúbaí en þaðan flýgur félagið til 138 áfangastaða í öllum heimshornum. Auk þess heldur Emirates úti áætlunarflugi til Oslóar, Stokkhólms og Kaupmannahafnar.
Ég var komin hátt á fimmtugsaldur þegar ég skildi. Í tíu ár var ég ein og fannst stöðugt ólíklegra að ástin bankaði aftur upp á í lífi mínu. Þegar ég kynntist Gunnari fannst mér lífið dásamlegt og eiginlega of gott til að vera satt. Það kom líka á daginn að hann var ekki sá sem ég hélt hann væri.
Gunnar var ekkjumaður. Hann hafði misst konu sína úr krabbameini um svipað leyti og ég skildi við manninn minn. Þau hjónin höfðu átt og rekið fyrirtæki saman og verið mjög vel stödd fjárhagslega. Gunnar sat í óskiptu búi en tvö barna hans unnu við fyrirtækið. Kona hans átti mikið af vönduðum fötum og skartgripum sem Gunnar hafði skipt milli dætra þeirra. Sonurinn fékk í staðinn bíl móður sinnar en allt annað á heimilinu var eins og hún skildi við það.
Gunnar bjó í stóru fallegu einbýlishúsi en ég átti litla íbúð. Við bjuggum hvort í sínu lagi en hittumst oft í viku og fljótlega var ég farin að vera meira heima hjá honum en mér. Ég var því farin að flytja með mér eitthvað af nauðsynlegum fötum og snyrtivörum. Gunnar tók því ágætlega bjó til rými fyrir mig í fataskápum og baðskáp en bað mig að láta ekki dótið mitt sjást. Hann sagði að þegar börnin hans kæmu við myndi það reynast þeim erfitt ef þeim fyndist að önnur kona væri að taka sess móður þeirra í lífi hans. Mér fannst það mjög eðlilegt til að byrja með og hugsaði með mér að þau hlytu að venjast við og smátt og smátt gæti ég eignast vináttu þeirra.
Börnin vildu ekki sjá hana
Ekki var því þó að heilsa. Þegar börnin hans litu við um helgar bað Gunnar mig að fara inn í herbergi og bíða þar áður en hann opnaði fyrir þeim. Ég sat þar og lét lítið fyrir mér fara þótt mér þætti þetta mjög óþægilegt. Stundum lét ég mig hverfa út um garðdyrnar og fór heim til barnanna minna til að bíða af mér heimsóknina. Nokkrum sinnum ræddi ég þetta við Gunnar og spurði hann hvort hann teldi ekki ómögulegt að við héldum sambandi okkar til streitu fyrst börnin hans væru því svo mótfallin. Hann svaraði því til að hann vildi alls ekki missa mig og við skyldum sjá til.
Samband okkar varð sífellt nánara og við komumst að því að við áttum mörg sameiginleg áhugamál. Gunnar var góður kokkur og var í matarklúbbi þar sem fólk kom saman og eldaði eftir hefðum mismunandi landa. Dregið var um í hverju boði hvaða land félli í hlut þess er átti að halda næsta. Við Gunnar fengum Ísrael í okkar hlut skömmu eftir að við vorum farin að kynna hvort annað fyrir vinahópunum. Þetta var mikil og skemmtileg áskorun, við elduðum saman og tókum á móti klúbbnum. Allt gekk vel en þegar þau voru að fara spurði ein konan mig hvernig fjölskyldur okkar Gunnars hefðu tekið samdrætti okkar.
Ég sagði henni að börnin mín væru mjög hrifin af Gunnari en ég hefði ekki enn hitt börnin hans. Þau ættu víst erfitt með að sætta sig við samband okkar og vildu ekki hitta mig. Hún varð mjög undrandi og sagði að þetta líktist alls ekki dætrum Gunnars sem hún þekkti mjög vel. Þær hefðu þvert á móti margoft talað um það við sig að þær myndu fagna því ef pabbi þeirra kynntist góðri konu. Eftir að kona hans dó hafði Gunnar sokkið ofan í djúpt þunglyndi og krakkarnir hans haft miklar áhyggjur af honum. Lengi hafði hann einangrað sig frá öllum og verið mjög einamana. Þessi kona hafði verið besta vinkona eiginkonu hans og þau hjónin ævinlega mjög náin þeim meðan hún lifði.
Símtal frá yngstu dótturinni
Hún sagðist þess vegna hafa tekið börn Gunnars upp á sína arma þegar móðir þeirra féll frá og faðir þeirra átti svo erfitt. Yngsta dóttirin var rétt rúmlega tvítug og það var henni mikið áfall að missa móður sína. Konan bætti við að þrátt fyrir það hefði hún aldei orðið þess vör að sú stúlka vildi að faðir hennar yrði einn það sem eftir væri.
Ég sagði henni að Gunnar væri mér einstaklega góður og ég væri ekki á förum. Ég hefði fulla trú á að börnin hans myndu koma til og fyrr eða síðar gætum við öll orðið vinir. Nokkrum dögum seinna fékk ég upphringingu. Í símanum var Kristín, yngri dóttir Gunnars. Hún hafði talað við konuna úr matarboðinu og vildi endilega hitta mig og stakk upp á að við færum saman í hádegismat. Ég varð auðvitað afskaplega glöð við og þar sem við vorum báðar lausar þennan dag ákváðum við að hittast strax þá.
Þegar ég kom inn á veitingastaðinn voru þar fyrir öll þrjú börnin hans Gunnars. Þau tóku mér fagnandi og sögðust glöð að ég vildi loksins hitta þau. Mér brá rosalega og sagði þeim eyðilögð að ég hefði alltaf haft mikinn áhuga á að kynnast þeim. Þau urðu undrandi og sögðu mér að pabbi þeirra hefði sagt þeim að ég væri feimin og kvíðin að hitta þau. Í hvert sinn sem þau létu í ljós löngun til að hitta mig hafði hann sagt að það yrði að bíða. Ég teldi enn ekki tímabært að allir kæmu saman og ég væri hrædd við að þau höfnuðu mér.
Móðguð yfir framkomunni
Þau höfðu verið óskaplega sár og svolítið móðguð yfir að ég léti mig alltaf hverfa inn í herbergi þegar þau kæmu eða laumaðist út bakdyramegin. Þau voru farin að velta fyrir sér hvort ég væri eitthvað skrýtin eða að mér væri ekki alvara með sambandi mínu við pabba þeirra. Þeim datt í hug að ég væri að reyna að fá sem mest út úr honum peningalega og ætlaði síðan að láta mig hverfa. Það fannst þeim líklegasta skýringin fyrst ég gæti ekki horfst í augu við þau eða tekið þátt í lífi pabba þeirra að fullu.
Ég varð að vonum slegin og eyðilögð. Sagði þeim að þetta væri alls ekki raunin. Gunnar hefði sagt mér að þeim þætti erfitt að horfa upp á mig inni á heimilinu sem mamma þeirra hefði skapað og hann hefði beðið mig að láta lítið fyrir mér fara og ekki dreifa mínum munum um húsið. Þau urðu mjög hissa og ég sá að þau voru í vafa um hvort þau ættu að trúa mér. Þessi fundur endaði með því að ég brotnaði niður og fór að gráta. Við kvöddumst þó án nokkurs kala og þau báðu mig að tala við pabba sinn og athuga hvort ekki væri hægt að skipuleggja matarboð eða einhverja samkomu svo hægt væri að byrja samskiptin á nýjum og betri nótum.
Ég hringdi í Gunnar um leið og ég kom út í bíl og sagði honum hvað hefði gerst. Ég bað hann að hitta mig heima hjá sér og tala út um þetta mál svo hringdi ég í vinnuna og lét vita að ég kæmi ekki eftir hádegið. Þegar heim til Gunnars kom mætti mér ekki iðrandi syndari sem sá eftir að hafa blekkt bæði mig og börnin sín. Þar sat kaldur og vondur maður sem jós úr skálum reiði sinnar yfir mig. Hann spurði meðal annars öskuillur hvernig ég dirfðist að tala við börnin sín án hans leyfis. Þá var mér nóg boðið. Ég stóð upp og tók saman það litla sem ég átti heima hjá honum, gekk út og lokaði á eftir mér. Gunnar hringdi í mig tvisvar eftir þetta en ég svaraði ekki.
Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna hann hegðaði sér eins og hann gerði. Hugsanlega fannst honum of mikil binding að opna alla leið inn í líf sitt eða kannski vildi hann bara hafa mig á einum stað í lífi sínu og börnin á öðru. Hvað sem það var þá var ég lengi brotin og særð eftir þessa reynslu. Mér fannst eins og ég hefði verið vegin og léttvæg fundin af þessum elskhuga mínum. Að minnsta kosti var ég ekki nægilega merkileg til að börnin hans mættu kynnast mér.
AA Gill var lengi einn vinsælasti blaðamaður Bretlandseyja. Hann var þekktastur fyrir veitingahúsagagnrýni sína en pistlar hans voru raunar af margvíslegu tagi. Frásagnir af ferðalögum vöktu ekki síst athygli. Hann hafði sérstakt lag á því að fá íbúa Mið-Englands til að frussa upp úr tebollunum með því að lýsa uppátækjum sínum víða um heim. Ekki síst þegar hann ferðaðist með fjölmiðlamanninum Jeremy Clarkson.
Þeir félagarnir komu einu sinni til Íslands og skrifuðu mikinn bálk um ævintýri sín í The Sunday Times. Það var í þá daga þegar enginn vissi neitt um Ísland og við klóruðum okkur í höfðinu yfir því hvort landið myndi þola það ef fjöldi ferðamanna færi yfir 100.000 á ári. Til þess að ganga fram af lesendum sínum í þetta sinn ákvað Gill að snæða hval. Réttlæting hans var að hvalir væru bara ofvaxnir fiskar – það sem hefði sporð og synti um í sjónum væri fiskur í hans bókum.
Í ljósi nýjustu frétta um að Hval hf. hafi verið veitt leyfi til veiða á langreyðum veltir maður því fyrir sér hvort Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi tekið grín Gills alvarlega um árið og ætli ekki að setja sig inn í siðferðilega umræðu um veiðar á sjávarspendýrum. Vissulega er í þetta sinn reynt að bæta umgjörð veiðanna með því að gera kröfu um skil á dagbókum en þó kemst maður ekki hjá því að undrast þá tímaskekkju sem veiðileyfið er.
Ég hef áður skrifað um það í blöðin hvernig siðferðileg viðmið fólks varðandi skotveiðar á villtum spendýrum hafa tekið miklum breytingum á undanförum áratugum. Í samtímanum hafa þessi viðmið tekið á sig nokkuð skarpa mynd. Auðvitað er það fólk til sem hafnar öllum skotveiðum á spendýrum, en ég efast um að svo róttækt viðhorf sé meginviðmið. Ef veiðar á langreyðum væru með þeim hætti að hægt væri að tryggja sem minnsta hreyfingu á dýri eða veiðimanni, og að hægt sé að bera góð kennsl á dýrið, til dæmis þannig að sjaldgæfir blendingar ættu ekki á hættu að fá skutul í sig, væru veiðarnar minna umdeildar. Einnig myndi það hjálpa ef ljóst væri að veiðarnar tryggðu lífsviðurværi fólks sem væri háð því að fá kjötið, ef okkur stæði ógn af villtum hvölum umhverfis landið eða ef við bærum ábyrgð á grisjun stofna eftir eigið inngrip í vistkerfi. Ekkert af þessu á við um veiðar Hvals hf. á langreyðum.
Ef ég man rétt reyndi Gill einnig að stríða lesendum sínum með því að dásama íslenska loðfeldi og var hann myndaður í einum slíkum. Ég man ekki hvort hann reyndi einu sinni að réttlæta það blæti sitt. Mig grunar að réttlætingin hefði verið svipuð þeim rökum sem sumir hafa reynt að beita til að styrkja siðferðilegar undirstöður framleiðslu á klámefni: Að fólk hafi rétt til að örvast. Eru það góð rök? Varla. Rök af því tagi geta haft ákveðið gildi í dægurumræðu en vonandi rata þau seint inn í ákvarðanatöku lýðræðislegra stofnana samfélagsins.
Biathlon er ný og spennandi íþróttagrein sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi en íþróttin sameinar hlaup og skotfimi. Óli Þór Júlíusson, verkefnastjóri hjá UMSK, hefur verið að kynna greinina hér á landi.
„Flestir þekkja til skíðaskotfimi þar sem gengið er á gönguskíðum og skotið úr riffli á skotmark. Biathlon, eins og við erum að kynna það, er hugsað eins nema án skíðanna,“ segir Óli Þór og bætir við að Biathon geti að auki sameinað fjölda annarra íþróttagreina, allt eftir áhuga og vilja þeirra sem taka þátt.
„Í þessari íþrótt er sjálfstjórnin alveg jafnmikilvæg og úthaldið þar sem hausinn þarf að vera skýr við hverja ákvörðunartöku.“
„Þeir sem hafa prófað Biathlon á Íslandi segja þetta frábæra og stórskemmtilega hreyfingu. Allt frá byrjendum til þeirra sem eru lengra komnir þá verður til spennandi keppni þar sem ákefð og einbeiting sameinast. Í þessari íþrótt er sjálfstjórnin alveg jafnmikilvæg og úthaldið þar sem hausinn þarf að vera skýr við hverja ákvörðunartöku. Nánast allir geta tekið þátt í Biathlon. Við erum að einblína á hlaupahópana núna þannig að aldursbilið er allt frá 20 til 60 + en við getum og stefnum að því að taka á móti fólki á aldrinum 12 ára og upp úr þegar fram líða stundir. Líkamsástand þátttakenda getur líka verið á alla vegu en við getum aðlagað hlaupin að þeim sem eiga erfiðara með að hlaupa þá fjóra kílómetra sem lagt er upp með.“
Kynntust sportinu í Danmörku
Biathlon á Íslandi er verkefni á vegum UMSK sem á rafbúnaðinn sem notaður er, riffla og samtengd skotmörk. UMSK stendur fyrir Ungmennasamband Kjalarnesþings sem er regnhlíf fyrir ungmenna- og íþróttafélög í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Kópavogi, Kjós, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.
„Framkvæmdastjóri UMSK, Valdimar Gunnarsson, fór og kynnti sér hvernig frændur okkar Danir gera þetta fyrir um það bil tveimur árum síðan og þá fór boltinn að rúlla. UMSK fjárfesti í búnaðinum og fyrsta kynningin á greininni fór fram síðastliðið sumar. Núna erum við að reyna taka skref fram á við í kynningu og erum markvisst að bjóða hlaupahópum í heimsókn til okkar. UMSK vinnur kynninguna á Biathlon í samstafi við frjálsíþróttadeild Breiðabliks og Skotíþróttafélag Kópavogs. Breiðablik hefur lánað okkur aðstöðu og mannskap til aðstoðar og Skotíþróttafélagið hefur tekið á móti áhugasömum þátttakendum í upphafi sumars og kennt á rifflana.“
Allir velkomnir í opna ókeypis tíma
Sjálfur hefur Óli Þór engan bakrunn í skotfimi en á nokkuð fjölbreyttan feril úr íþróttum. „Ég var lengi vel í fótbolta með HK en æfði einnig handbolta, dans og frjálsar íþróttir þegar ég var yngri. Seinna meir hef ég lagt stund á golf, lyftingar og utanvegahlaup mér til heilsubótar. Áhuginn á Biathlon kviknaði ekki fyrr en í vor þegar fór að vinna við það að kynna íþróttina. Við erum með opnar fríar æfingar alla miðvikudaga klukkan 17 á æfingasvæði frjálsíþróttadeildar Breiðabliks í Kópavogsdal. Það mega allir koma og taka þátt og reyna við brautarmetið en það stendur í 18 mínútum og 18 sekúndum þessa stundina. Við stefnum að því að setja upp mótaröð í september en við erum að leggja lokahönd á skipulag hennar og vonandi getum við auglýst mótaröðina á komandi vikum.
Þetta hefur verið mjög gaman og maður lærir jafnóðum þegar verið er að kynna svona nýja grein fyrir hópum. Til að mynda hélt ég að allir vissu hvernig ætti að halda á riffli bara við það eitt að taka hann upp, en það er langt frá því að vera raunin. Þátttakendur í einum af fyrstu hlaupahópunum sem kom til ykkar voru ítrekað að snúa rifflinum vitlaust þannig að ég hef lagt mikla áherslu á það framvegis í minni kynningu að tryggja að allir átti sig á hvernig hann snýr rétt.“
Óli Þór segir að þeir geti tekið á móti hópum og fyrirtækjum sem vilja gera sér dagamun. „Hvort sem hópurinn vill koma til okkar eða fá okkur eitthvað annað þá er um að gera að setja sig í samband við okkur og fá tilboð. Við erum mjög sanngjarnir í verðlagningu.“
Þrátt fyrir að úrslitin í Wimbledon-mótinu séu hvergi nærri ráðin, þá er stjarna mótsins nú þegar fundin. Þegar fram líða stundir verður þetta mót ávallt mótið sem Cori Gauff steig inn í sviðsljósið.
Þegar fyrstu spaðarnir fóru á loft hafði enginn utan tennisheimsins heyrt Gauff getið, en þessi 15 ára stúlka frá Delray Beach í Flórída lét strax að sér kveða í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar þegar hún sigraði átrúnaðargoðið sitt, sjálfa tennisdrottninguna Venus Williams. Hún sigraði síðan Magdalenu Rybarikovu og Polonu Hercog áður en hún beið lægri hlut gegn hinni rúmensku Simonu Halep í 16-manna úrslitum.
Þrátt fyrir það er Gauff orðin stórstjarna í Bandaríkjunum og sjálf hefur hún ekki farið varhluta af því. „Þetta er algjörlega klikkað, fólk á veitingastöðum og úti á götu er farið að þekkja mig. Ég hélt að þetta myndi aldrei gerast. Mig dreymdi alltaf um að keppa á Wimbledon og öðrum risamótum en mig hafði ekki dreymt um að fólk myndi í alvöru þekkja mig,“segir Gauff í viðtali við CNN. Stórstjörnur og fyrirmenni hafa keppst við að ausa hana lofi, þeirra á meðal Michelle Obama, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna.
Gauff segir Williams-systur, þær Venus og Serena, vera fyrirmyndirnar í hennar lífi og er herbergið hennar hlaðið veggspjöldum af þeim. Sú síðarnefnda segir að brátt verði það Gauff sem muni prýða veggi ungra tennisaðdáenda. „Hún er að standa sig frábærlega. Ég er mikill aðdáandi og mjög spennt fyrir hennar hönd,“ segir Serena.
Önnur goðsögn í tennisheiminum, Martina Navratilova, er sama sinnis. „Ég hef á tilfinningunni að Gauff muni breyta leiknum. Hún var fædd til að gera þetta. Ég man ekki eftir neinum sem kom inn með álíka stormi inn á stórmót.“
Gauff segist mjög upp með sér að helstu stjörnur íþróttarinnar séu að fylgjast með henni. Hún er nú þegar farin að undirbúa sig undir Opna bandaríska meistaramótið og viðurkennir að hún þurfi að vinna enn betur í sínum leik ef hún ætlar að komast á þann stað sem hún ætlar sér, á topp heimslistans. „Það verður mjög sérstakt fyrir mig því ég hef farið og horft á þetta mót síðan ég var átta ára gömul.“
Landlæknisembættið segir að E.coli smit í níu börnum megi rekja til ferðaþjónustunnar Efstadal 2 í Bláskógabyggð. Alls tíu börn hafa sýkst af bakteríunni, það yngsta 20 mánaða.
Þann 4. júlí var greint frá því að fjögur börn höfðu greinst með alvarlega sýkingu af völdum E.coli bakteríu.
Nú hafa sex börn á aldrinum 20 mánaða–12 ára greinst til viðbótar og eru tilfellin því alls tíu. Þessi sex börn eru ekki alvarlega veik en verða undir eftirliti á Barnaspítala Hringsins næstu daga. Börnin sem greindust í síðustu viku eru á batavegi.
Á vef Landlæknis segir að nú virðist ljóst að níu af börnunum smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð fyrir 10 dögum til þremur vikum síðan en eitt barn smitaðist að öllum líkindum af systkini sínu. Rannsóknir hafa sýnt að E. coli bakterían sem sýkti börnin finnst einnig í hægðasýni frá kálfum á staðnum.
Ekki er vitað með vissu hvernig smitið barst í börnin en frekari rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum á staðnum standa enn yfir. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun gripu til viðeigandi ráðstafana þann 4. júlí síðastliðinn í góðri samvinnu við staðarhaldara til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu bakteríunnar.
Rétt er að árétta að ekki er talið að smit hafi átt sér stað með vatni í Bláskógabyggð og ekkert bendir til að smitið eigi uppruna sinn annars staðar í sveitinni.
Einstaklingar sem heimsóttu ferðaþjónustuna á síðastliðnum tveimur vikum og fengu niðurgang innan 10 daga frá heimsókninni eru hvattir til að leita til síns læknis varðandi nánari greiningu. Einkennalausir einstaklingar sem heimsótt hafa Efstadal 2 þurfa ekki að leita læknis né heldur einstaklingar sem fengið hafa niðurgang sem nú er genginn yfir.
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í morgun tillögu Íslands um stöðu mannréttindamála á Filipseyjum. Filipseyingar eru allt annað en sáttir við niðurstöðuna.
Með samþykktinni lýsir Mannréttindaráðið formlega yfir áhyggjum af stöðu mála á Filipseyjum og hvetur stjórnvöld þar í landi til að stöðva aftökur á fólki án dóms og laga. Þá er biðlað til stjórnvalda á Filipseyjum um að sýna skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna og öðrum stofnunum SÞ samstarfsvilja.
Þúsundir óbreyttra borgara hafa verið teknir af lífi, margir hverjir án dóms og laga, eftir að Rodrigo Duterte var kjörinn forseti. Stríð gegn fíkniefnum voru eitt hans helsta kosningamál en aðferðir hans hafa verið harðlega gagnrýndar af mannréttindasamtökum um allan heim. Hafa borist fregnir af dauðasveitum sem ganga húsa á milli og taka fólk af lífi, gildir þá einu hvort um ræðir fíkniefnasala eða veika fíkla.
Stjórnvöld á Filipseyjum hafa brugðist ókvæða við tillögu Íslands og sagði utanríkisráðherrann að Ísland og þau ríki sem fylktu sér að baki tillögunni væru með þessu að ganga í lið með eiturlyfjasölum. Gagnrýnin hélt áfram að lokinni atkvæðagreiðslunni og sakaði fulltrúi Filipseyja í ráðinu þær þjóðir sem studdu tillöguna um hræsni og sagði að þessu myndi fylgja afleiðingar. Að sama skapi hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fagnað samþykkt tillögunnar. Ástand mannréttindamála á Filipseyjum fari stigversnandi og full ástæða sé til að grípa í taumana.
Tillagan var samþykkt með 18 atkvæðum gegn 14 en 15 ríki sátu hjá. Auk Íslands studdu eftirfarandi þjóðir tillöguna: Argentína, Ástralía, Austurríki, Bahamas, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Króatía, Fiji, Ítalía, Mexíkó, Perú, Slóvakía, Spánn, Tékkland, Úkraína og Úrúgvæ.
Þau ríki sem greiddu atkvæði gegn tillögunni voru: Angóla, Barein, Kamerún, Katar, Kína, Kúba, Egyptaland, Erítrea, Ungverjaland, Indland, Írak, Filipseyjar, Sádí Arabía og Sómalía.
Þessi ríki sátu hjá við atkvæðagreiðsluna: Afganistan, Bangladess, Brasilía, Búrkína Fasó, Chile, lýðveldið Kongó, Japan, Nepal, Nígería, Pakistan, Rúanda, Senegal, Suður Afríka, Tógó og Túnis.
Árið 2018 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi heildarlauna var 632 þúsund krónur og var því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofunnar.
Þegar horft er á dreifingu heildarlauna var algengast að mánaðarleg heildarlaun væru á bilinu 550 til 600 þúsund krónur og var rúmlega tíundi hver fullvinnandi launamaður með heildarlaun á því bili.
Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 729 þúsund krónur á mánuði árið 2018 hjá fullvinnandi starfsmönnum. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 818 þúsund krónur að meðaltali en 593 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga.
Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum, þannig voru um 70% starfsmanna sveitarfélaga með heildarlaun undir 650 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um 35% ríkisstarfsmanna og tæplega 55% starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Um 5,5% starfsmanna á almennum vinnumarkaði og ríkisstarfsmanna var með heildarlaun yfir 1.400 þúsund krónur á mánuði en óverulegur hluti starfsmanna sveitarfélaga var með þau laun.
Í fyrsta skipti reiknar Hagstofan sérstaklega launagreiðslur í gististaða- og veitingageiranum og kemur í ljós að launagreiðslur þar eru í lægri kantinum, eða 504 þúsund krónur að meðaltali. Miðgildi heildarlauna var 495 þúsund krónur. Í atvinnugreininni er dreifing heildarlauna verulega frábrugðin dreifingu grunnlauna þar sem greiðslur vaktaálags eru algengar og einnig er nokkuð um yfirvinnu.
Tæplega 60% fullvinnandi starfsmanna voru með grunnlaun undir 400 þúsund krónur á mánuði og tæplega 25% starfsmanna ef horft til heildarlauna. Greiddar stundir á mánuði í atvinnugreininni voru að meðaltali 183,6 sem er rétt undir meðaltali allra, en það var 184,5 greiddar stundir.
Hin árlega Hríseyjarhátíð verður haldin um helgina þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa. Hápunktinum verður náð á laugardagskvöld með varðeldi og kvöldvöku þar sem sjálfur Bjartmar Guðlaugsson stýrir fjöldasöng, ásamt fleirum.
Hríseyjarhátíðin hefst föstudaginn 13. júlí með því að nokkrir Hríseyingar og sumarhúsaeigendur bjóða heimafólki og gestum í kaffisopa heim í görðunum sínum. Upplagt er að rölta á milli garðanna og njóta gestrisni og samvista við skemmtilegt fólk í fallegu umhverfi. Einnig verða óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna.
Aðaldagskráin er laugardaginn 14. júlí og er þá í boði dagskrá frá hádegi og fram á kvöld, sem felst í fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðum, boltafjör/vatnsbolta, BMX brós, gömludansaball, tónlist og fleira. Boðið verður upp á aðgang að leiktækjum. Að venju endar hátíðin á kvöldvöku á sviðinu, varðeldi og brekkusöng. Hátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Í Hrísey er öll almenn þjónusta til staðar s.s verslun, veitingahús, sundlaug, tjaldsvæði og gisting. Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar og er boðið upp á allt að níu ferðir á dag. Siglingin tekur aðeins 15 mínútur frá Árskógssandi, sem er um 35 kílómetra frá Akureyri. Nánari upplýsingar um Hrísey, ferjuáætlun og þjónustu má nálgast á og á www.hrisey.net.
Aðgangur á hátíðina er ókeypis.
Dagskrá 2019:
Hátíðin hefst með garðakaffi á föstudeginum kl. 15.00- 18.00, þá bjóða íbúar og sumarhúsaeigendur gestum og gangandi í kaffi í görðunum sínum. Í ár eru það sex staðir sem bjóða upp á garðakaffi. Óvissuferð fullorðinna verður á sínum stað á föstudagskvöldið.
Á laugardeginum verður kvenfélagið með sína árlegu kaffisölu á hátíðarsvæðinu, Skralli trúður fer í sína síðustu fjöruferð, Stúlli og Danni taka lagið á sviðinu, María Reyndal og Hrafnhildur Orradóttir verða með stuð og leiki fyrir 12 ára og eldri, kvöldvaka þar sem Bjartmar Guðlaugsson kemur fram ásamt fleirum eftir kvöldvökuna er síðan brekkusöngur og varðeldur að venju.
Föstudagur 12. júlí
Kl. 15.00-18.00 Kaffi í görðum
Kl. 18.00 Óvissuferð barna
Kl. 22.00 Óvissuferð með Hjálmari Erni
Laugardagur 13. júlí
Kl. 13.00 Dagskrá hefst
– Kaffisala kvenfélagsins – Traktorsferðir um þorpið – Leikir og sprell í Íþróttamiðstöðinni – Gömludansaball – Hríseyjarmót í Pönnufótbolta – Tónlistaratriði á sviðinu – Stúlli og Danni – Fjöruferð með Skralla Trúð – Ratleikur – Hópakstur dráttarvéla
Kl. 21.00 Kvöldvaka
– Bjartmar Guðlaugsson ásamt fleirum. Varðeldur og brekkusöngur.
Einn er í haldi lögreglu eftir hnífstungu í heimahúsi á Neskaupstað í nótt. Hinn slasaði var fluttur með sjúkraflugi á Landspítalann í Reykjavík þar sem hann gengst undir aðgerð.
Ekki er vitað um líðan hins slasaða né hver tildrög árásarinnar eru. Árásarmaðurinn var handtekinn á staðnum og fluttur í fangageymslur á Eskiferði. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Tæknideild lögreglunnar í Reykjavík verður innan handar við rannsókn málsins.
Rokkhátíðin Eistnaflug stendur nú yfir í bænum. Samkvæmt Vísi, sem greindi fyrst frá málinu, tengist árásin hátíðinn ekki á nokkurn hátt.
Eiríkur Stephensen sendi nýverið frá sér sína fyrstu bók, Boðun Guðmundar. Bókin hefur fengið flotta dóma og um hana segir Guðmundur Andri Thorsson meðal annars: „Hún er býsna raunsæ um leið og hún er fullkomin fantasía; bráðfyndin og sorgleg í senn, hugljúf og mjög umhugsunarverð.“
„Hugmyndin að bókinni kviknaði fyrir um það bil 6-7 árum en eins og svo margar góðar hugmyndir þá birtist hún bara einn daginn án þess að gera boð á undan sér,“ segir Eiríkur sem annars er verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands.
Bókin fjallar um Guðmund Kára sem er miðaldra tónlistarkennari í tilvistarkreppu. Síðustu vikur hefur hann glímt við þráláta síþreytu sem hann skrifar fyrst í stað á timburmenn en þegar þeir dragast á langinn án tilefnis ákveður hann að fara til læknis. Á sama tíma fara ýmis dýr, hvít að lit, að gera sig heimakomin við kjallaraíbúð Guðmundar við Grenimel. Þegar læknirinn boðar hann svo alvarlegur á sérstakan fund óttast Guðmundur hið versta, segir á bókarkápu Boðunnar Guðmundar.
„Ég hvet þó fólk til að fara varlega í að lesa bókina með sjálfsævisögulegum gleraugum.“
„Sagan er alger uppspuni en ég hefði væntanlega ekki skrifað hana ef ég væri ekki ég sjálfur þannig að ég býst við að hún beri þess einhver merki. Ég hvet þó fólk til að fara varlega í að lesa bókina með sjálfsævisögulegum gleraugum,“ segi Eiríkur og svarar því aðspurður að boðskapur bókarinnar sé leyndarmál.
„Það væri gaman að skrifa fleiri bækur en ég lofa nú engu um það.“
Sumartónleikaröðin Summer sessions á sér stað á Vínyl Bistro á Hverfisgötu í sumar.
Fjölmörg bönd eru þegar skráð til leiks og munu eflaust fleiri bætast við en hljómsveitirnar eiga lítið annað sameiginlegt en að hafa innanborðs meðlimi sem hafa heilsað Ara Árelíus með innilegu faðmlagi.
Hér ægir saman fjölmörgum stílbrigðum tónlistar; poppi, klassík, jazzi og dub. Frítt er inn þannig að ekki láta þig vanta.
Hér er það sem ákveðið er af dagskránni: 18. júlí, Quest, 1. ágúst, Omnipus, 15. ágúst, Óskar og 29. ágúst, Flavor Fox.
„Eddy, Eddy, hæ, Eddy, hvernig hefurðu það,“ hljómaði um skólann þegar hinn 19 ára Bobby Shafran hóf þar nám árið 1980. Þetta var fyrsti dagurinn hans í þessum skóla og hlýjar móttökurnar greinilega ætlaðar einhverjum öðrum. Þetta var upphafið að magnaðri sögu af endurfundum bræðra sem höfðu verið aðskildir sem ungbörn og óvæntum uppgötvunum.
Eddy Galland hafði flosnað upp úr námi og ætlaði ekki að koma aftur í Sullivan Community College. Það vissi vinur hans, Michael Domnit, sem drap á dyr hjá Bobby í heimavistinni. Michael byrjaði á því að spyrja hvort Bobby hefði verið ættleiddur. Svarið var játandi og þegar í ljós kom að hann átti afmæli sama dag og Eddy, þurfti ekki frekar vitnanna við. „Þú átt tvíburabróður,“ sagði Michael. Hann lét ekki staðar numið, heldur hringdi heim til Eddys sem brá í brún þegar hann heyrði í Bobby og röddin hljómaði eins og hans. Spjall í síma dugði ekki, bræðurna langaði til að hittast svo Bobby og Michael óku heim til Eddys strax eftir símtalið.
„Þegar dyrnar opnuðust sá ég mitt eigið andlit stara á mig, allt varð eins og í móðu og aðeins við Eddy þarna,“ sagði Bobby síðar.
Sagan þótti svo mögnuð að hún rataði í fjölmiðla. Nokkru seinna sat David nokkur Kellmann og las grein um endurfundina. Ég er ekki frá því að ég sé sá þriðji, hugsaði hann. Eddy og Bobby líktust honum ekki aðeins mjög í útliti og höfðu verið ættleiddir eins og hann, heldur deildu þeir með honum fæðingardeginum 12. júlí 1961.
Í ljós kom að David, Eddie og Bobby voru eineggja þríburar og höfðu verið ættleiddir hálfs árs gamlir hver til sinnar fjölskyldu sem fékk ekki að vita að sonurinn ætti bræður.
Óaðskiljanlegir
Bræðurnir urðu strax óaðskiljanlegir. Þeir voru vinsælt umfjöllunarefni í fjölmiðlum og birtust m.a. í spjallþáttum í sjónvarpi og fengu meira að segja lítið aukahlutverk í kvikmyndinni Desperately Seeking Susan (1985) þar sem þeir áttu að brosa til Madonnu áður en hún gekk inn í byggingu. Þeir leigðu saman íbúð í Queens í New York-borg og árið 1988 stofnuðu þeir veitingastað í Soho, Triplets Roumanian Steakhouse. Bobby hætti samstarfinu nokkrum árum síðar og árið 2000 var staðnum lokað.
Bræðurnir hittu lífmóður sína í eitt skipti, snemma á níunda áratugnum, en hún sýndi ekki áhuga á að hitta þá aftur.
Dullarfulla rannsóknin
Drengirnir fæddust á Hillside-sjúkrahúsinu í Glen Oaks í New York-ríki. Móðir þeirra var mjög ung, hafði orðið ófrísk eftir útskriftarballið (e. prom). Þeir voru aðskildir sex mánaða gamlir og ættleiðingarstofan Louise Wise Servises fann þeim heimili. Áður en væntanlegir foreldrar fengu þá í hendur var þeim sagt að drengirnir yrðu þátttakendur í nokkurs konar rútínukenndri sálfræðirannsókn og sterklega gefið í skyn að þátttakan væri skilyrði fyrir ættleiðingunni.
Þeir ólust upp í New York-ríki, í aðeins rúmlega 100 kílómetra fjarlægð hver frá öðrum. Næstu árin fengu drengirnir og foreldrar þeirra reglulega heimsóknir frá rannsóknarteymi undir stjórn dr. Peters Neubauer barnasálfræðings sem vann m.a. náið með Önnu, dóttur Sigmund Fraud. Þeir voru látnir púsla og teikna, þrautir lagðar fyrir þá og fylgst með þroska þeirra og getu. Allt var vandlega skráð og kvikmyndað. Enginn vissi að þetta væri yfirgripsmikil rannsókn á fjölburum sem voru aðskildir og ættleiddir hver í sínu lagi. Rannsóknin hélt áfram eftir að drengirnir eltust en þá var meira fylgst með þeim úr fjarlægð.
Foreldrar þríburanna voru ólíkir og sennilega valdir til að hægt væri að rannsaka áhrif mismunandi uppeldis á drengina. David ólst upp hjá Kellman-hjónunum sem töldust vera af verkamannastétt. Faðir hans rak matvöruverslun og var sérlega hlýr og ástríkur maður sem tók bræðrum Davids sem sínum eigin. Bobby var ættleiddur af Shafran-hjónunum úr efri millistétt en faðir hans var læknir sem sýndi honum fálæti. Galland-hjónin, úr millistétt, ólu Eddy upp en í æsku upplifði hann litla umhyggju, að minnsta kosti af hendi föðurins sem var algjör andstæða hins hlýja föður Davids.
Allir áttu bræðurnir við hegðunarvandamál að stríða frá upphafi. Þeir tóku vanlíðunarköst og börðu þá höfðinu í rimlana í barnarúmum sínum. Án efa stafaði það af aðskilnaðarkvíða, vill einn bróðirinn meina. Þeir voru jú saman fyrstu sex mánuði lífsins. David og Eddy voru lagðir inn á geðdeild nokkrum sinnum á unglingsárum og Bobby var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi árið 1978 í tengslum við rán og morð.
„Fólkið sem rannsakaði okkur horfði aðgerðalaust á vandamál okkar verða stærri og meiri og gerði ekkert til að hjálpa. Ég er reiðastur yfir því,“ sagði David í viðtali. „Þau hefðu getað hjálpað okkur en gerðu það ekki.“
Fátt um svör
Á meðan þríburarnir nutu lífsins og samvistanna ákváðu foreldrar þeirra að leita svara við þeim fjölmörgu spurningum sem höfðu vaknað. Þau heimsóttu ættleiðingarstofuna og kröfðust skýringa. Þeim var sagt að ástæða þess að drengirnir voru aðskildir hafi verið sú að erfiðara hefði verið að koma þeim á eitt heimili en þrjú. Faðir Davids svaraði því til að ef þeim hjónum hefði boðist að ættleiða alla þrjá hefðu þau tekið því fagnandi. Að öðru leyti var lítið um svör og foreldrarnir voru afar ósáttir þegar þeir yfirgáfu stofuna.
Pabbi Bobbys gleymdi regnhlíf sinni og fór aftur inn til að sækja hana. Þegar hann kom inn í fundarherbergið sá hann að forsvarsfólk stofunnar hafði opnað kampavínsflösku og var að skála hvert við annað, eins og það hefði einhvern veginn sloppið með skrekkinn.
Foreldrarnir vildu ekki gefast upp og reyndu að fá aðstoð frá fleiri en einni lögmannsstofu til að komast til botns í málinu en án árangurs. Mikil leynd hvíldi og hvílir enn yfir þessari fjölburarannsókn. Niðurstöðurnar voru aldrei birtar, heldur innsiglaðar til ársins 2065 í Yale-háskóla. Þá verða liðin 104 ár frá fæðingu þríburanna.
Líklegt verður að teljast að fólk sem ættleitt var á svipuðum tíma og þríburarnir og aðskilið sem hluti af rannsókninni, eigi sér systur eða bróður einhvers staðar þarna úti.
Ástir, gleði og sorgir
Þríburarnir stofnuðu hver sína fjölskyldu með tímanum. David giftist Janet og þau eiga dæturnar Ali og Reyna. Bobby og Ilena eiga dótturina Elyssu og soninn Brandon, og Eddy og Brenda eignuðust dótturina Jamie.
Eddy fór ekki bara verst út úr uppeldinu af bræðrunum, heldur virtist hann hafa haft mestu þörfina fyrir bræðurna. Eftir að hann hitti Bobby og David leit hann á þá sem alvörufjölskyldu sína og vildi vera með þeim öllum stundum. Hann glímdi við andleg veikindi og árið 1995 svipti hann sig lífi á heimili sínu. Við þetta áfall fjarlægðust Bobby og David hvor annan. Við gerð heimildamyndar um sögu þeirra, Three Indentical Strangers (2018) hittust þeir eftir langan aðskilnað og samband þeirra lagaðist í kjölfarið.
Bobby er lögmaður í Brooklyn. David er nýlega fráskilinn og vinnur sjálfstætt sem tryggingasölumaður. Hann hefur haldið góðu sambandi við ekkju Eddys og dóttur. Báðir eru bræðurnir afar ósáttir yfir því að hafa verið tilraunadýr í rannsókn sem miðaði að því að aðskilja þá og rannsaka áhrif þess og mismunandi uppeldis sem hafði án nokkurs vafa sterk áhrif á líf þeirra.
Eftir langa og stranga baráttu fengu þeir loks send skjöl úr rannsókninni en þar var í raun ekkert sem gat varpað ljósi á nokkuð. Þetta voru mest meinlausar athugasemdir og myndbrot og þess gætt að það sem hvor bróðirinn fékk tengdist aðeins honum einum. Bobby og David hafa ekki gefist upp og vona að heimildamyndin verði til þess að fleiri spurningum verði svarað.
Megan Rapinoe, sem fór heim hlaðin gulli af HM kvenna í knattspyrnu, sendi Donald Trump Bandaríkjaforseta skýr og skorinort skilaboð í sjónvarpsviðtali.
Rapinoe fór fyrir bandaríska liðinu sem vann fjórða heimsmeistaratitil Bandaríkjanna. Hún og liðsfélagar hennar hafa vakið mikla athygli fyrir hispurslausa gagnrýni á því misrétti milli kynjanna sem viðgengist hefur knattspyrnunnar, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Þannig fær bandaríska kvennaliðið langtum minna borgað fyrir þátttöku í landsliðsverkefnum en karlaliðið, þrátt fyrir að státa af mun betri árangri og áhorfi.
Rapinoe, sem er samkynhneigð, hefur sömuleiðis gagnrýnt stefnu Trumps í málefnum LBGT fólks. Í viðtali við Anderson Cooper á CNN var Rapinoe spurð hvort hún hefði einhver skilaboð til forsetans.
„Skilaboð þín útiloka fólk. Þú útilokar mig, þú útilokar fólk sem lítur út eins og ég, þú útilokar litað fólk og þú útilokar jafnvel fólk sem styður þig,“ sagði Rapinoe sem segist ekki átta sig á því hvað Trump eigi við þegar hann í sífellu talar um að gera Bandaríkin frábær að nýju. „Þú dásamar tímabil sem var ekki frábært fyrir alla – það var kannski frábært fyrir nokkra útvalda og kannski eru Bandaríkin frábær fyrir nokkra einstaklinga núna, en þau eru það ekki fyrir alltof marga Bandaríkjamenn.“
Heimsmeisturunum hefur enn ekki verið boðið í Hvíta húsið líkt og venjan er þegar amerísk íþróttalið hampa titli. Fjölmargir þingmenn hafa hins vegar boðið liðinu til fundar í Washington.
Í nýja blaðinu er að finna einstaklega freistandi uppskriftir á sumarlegum og léttum nótum.
Sniðugir réttir á pallinn og í sumarbústaðinn ásamt einstaklega skemmtilegum og léttum pastaréttum sem Folda töfraði fram sem gæla við bragðlaukana.
Spennandi garðveisla og sjúklega góðar sumarkökur eru meðal efnis að ógleymdum rabarbararéttum og geggjuðum kjúklingaleggjum og -vængjum.
Þess má geta að allar uppskriftir í Gestgjafanum eru þróaðar af blaðamönnum blaðsins, þær eru allar prófaðar og eldaðar í tilraunaeldhúsi blaðsins. Bergþóra blaðakona lagði leið sína út á land ásamt Aldísi ljósmyndara en saman heimsóttu þær frumkvöðul í Þykkvabænum og litu inn á eþíópískan stað á Flúðum.
Dominique fjallar um Gyllta glasið og Decanter-verlaunin Ásamt því að ræða fjóslykt í víni. Hanna fjallar um grunnatriði í vínsmökkun og parar nokkur vín við sumarréttina ásamt því að fræða okkur um Dubrovnik í Króatíu á ferðasíðunum.
Sigurður Hlynur Helguson Snæbjörnsson, bóndi að Öndólfsstöðum í Reykjadal, hefur fengið heimild hjá Þjóðskrá Íslands til að breyta um nafn. Framvegis heitir hann Sigríður Hlynur Helguson Snæbjörnsson.
Breytingin er gerð á grundvelli nýrra laga um kynrænt sjálfræði. Í samtali við RÚV segir Sigríður Hlynur að hann hafi viljað heita í höfuðið á ömmu sinni. Hann hefur fram að þessu lítið sem ekkert notast við Sigurðs-nafnið og flestir honum nákomnir kalla hann Hlynur. Aðspurður segist hann lítið finna fyrir fordómum vegna þessa nema frá nokkrum „virkum í athugasemdum.“
Alls hafa tíu umsóknir borist Þjóðskrá um breytingu á skráningu kyns frá því lögin tóku gildi. Í öllum tilfellum nema einu er einnig farið fram á nafnabreytingu en Sigríður Hlynur er sá eini sem hefur óskað eftir nafnbreytingu einni og sér.
Það kostar 9.000 krónur að breyta eiginnafni og er hægt að ganga frá greiðslu í heimabanka. Um leið og staðfesting frá Þjóðskrá berst tekur breytingin gildi.
Heilbrigðisyfirvöld telja sterkustu líkurnar á því að E.coli smit í Efstadal 2 megi rekja til íss sem framleiddur var á staðnum.
10 börn hafa verið lögð inn á sjúkrahús vegna alvarlegrar sýkingar af völdum E.coli bakteríu. Í gær var greint frá því að uppruni bakteríunnar hafi verið rekinn til ferðaþjónustunnar í Efstadal 2 þar sem meðal annars er veitingastaður og boðið upp á heimagerðan ís.
Einnig fannst E.coli í úrgangi af kálfi og af fréttum í gær mátti ráða að börnin hafi smitast eftir að hafa verið í snertingu við kálfa. Embætti Landlæknis hefur af þessu tilefni sent frá sér áréttingu. Þar kemur fram að helmingur barnanna sem sýktust hafi ekki verið í tengslum við kálfa á staðnum. Hins vegar hafi öll börnin átt það sameiginlegt að hafa neytt íss á staðnum, en tíunda barnið smitaðist af systkini.
Mögulegar smitleiðir á bænum eru margar en sterkustu faraldsfræðilegu tengslin eru við ís sem framleiddur var á staðnum.
Fram kemur í áréttingu á vef Landlæknis að þær bakteríu sem sýktu börnin hafi ekki greinst í ís á staðnum en ísinn sem rannsakaður var var ekki sá sami og börnin höfðu borðað því ný framleiðsla var komin í sölu.
„Af ofangreindu má því sjá að ekki er hægt að fullyrða að börnin hafi sýkst af umgengni við kálfa. Mögulegar smitleiðir á bænum eru margar en sterkustu faraldsfræðilegu tengslin eru við ís sem framleiddur var á staðnum,“ segir í áréttingunni.
Aðgerðir og ráðstafanir sem gripið var til beinast einmitt að því að rjúfa þessar smitleiðir með því að stöðva framleiðslu á ís og samgangi við kálfa á staðnum, og skerpa á vinnureglum og hreinlæti.
Sóttvarnalæknir hefur einnig sett sig í samband við Safetravel.is og Samtök ferðaþjónustunnar um að koma nauðsynlegum upplýsingum til ferðamanna sem heimsótt hafa Efstadal 2 og kunna að hafa smitast. Einnig hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) verið upplýst eins og alþjóðalög kveða á um.
Mæðgurnar Beyoncé og Blue Ivy Carter voru flottar á rauða dreglinum í gær.
Söngkonan Beyoncé Knowles sló í gegn á rauða dreglinum á heimsfrumsýningu Lion King í Los Angeles í gær. Hún klæddist glæsilegri hönnun frá tískuhúsi Alexander McQueen. Dóttir hennar, Blue Ivy, mætti að sjálfsögðu með og voru þær mæðgur í stíl á rauða dreglinum. Blue Ive klæddist látlausari útgáfu af dressi Beyoncé.
Þess má geta að Beyoncé ljáir Nölu rödd sína í nýju Lion King og samdi nýtt lag fyrir kvikmyndina.
Tveir fyrrverandi lykilstjórnendur hjá WOW air ásamt hópi fjárfesta vinna nú að stofnun nýs flugfélags, sem ber heitið WAB air, á grundvelli WOW. Fyrrverandi forstjóri WOW air kemur ekki nálægt stofnun félagsins.
Því hefur reglulega verið haldið fram í fjölmiðlum að Skúli Mogensen stofnandi og fyrrum forstjóri flugfélagsins WOW air, sem féll í mars, og fyrrum lykilstjórnendur innan WOW air hafi unnið hörðum höndum að því að afla fjár til að endurreisa flugfélagið. Skúli sjálfur kynnti ítarlegar hugmyndir að því hvernig hið endurreista flugfélag kæmi til með að líta út, á frumkvöðlaráðstefnunni Startup Iceland 2019 í Hörpu í byrjun júní. Án þess þó að segja með berum orðum að til stæði að endurreisa flugfélagið. Mannlíf hefur nú heimildir fyrir því að Skúli hafi ekki aðkomu að stofnun hins fyrrgreinda flugfélags, WAB air.
Áform er uppi um að félagið hefji rekstur í haust, gangi allt að óskum og fljúgi til fjórtán áfangastaða bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Ráðgert er að fimm hundruð starfsmenn verði ráðnir til félagsins og ein milljón farþega komi til með að ferðast með því á næstu tólf mánuðum. Áætlað er að sex vélar verði í rekstra fyrsta árið og veltan nemi tuttugu milljörðum króna á næsta ári. Frá þessum áformum er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag.
Ennfremur kemur fram að írski fjárfestingarsjóðurinn, Avianta Capital, hafi skuldbundið sig til þess að tryggja félaginu um fimm milljarða króna í nýtt hlutafé. Sem endurgjald muni Avianta Capital eignast 75 prósenta hlut í félaginu. Þá muni 25 prósent WAB air verða í eigu Neo, félags sem er í eigu Arnars Más Magnússonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs WOW, Sveins Inga Steinþórssonar, úr hagdeild WOW, sem sat í framkvæmdastjórn flugfélagsins, Boga Guðmundssonar, lögmanns hjá Atlantik Legal Services og stjórnarformanns BusTravel, og Þórodds Ara Þóroddssonar, ráðgjafa í flugvélaviðskiptum. Sveinn Ingi komi til með að verða forstjóri hins nýja félags en Arnar Már taki að sér hlutverk aðstoðarforstjóra og framkvæmdastjóra flugrekstrar. Þ.e.a.s. gangi áformin eftir, því í fréttinni er haldið fram að rætt hafi verið við Arion banka og Landsbankann um að lána Avianta Capital um 3,9 milljarða króna, til eins árs í fyrirgreiðslu. Til standi að nýta lánsféð sem eigið fé til þess að slá lán hjá ónefndum svissneskum banka.
Forsvarsmenn Emirates flugfélagsins heimsóttu Ísland til að kanna þann möguleika að hefja flug til og frá landinu. Verði það raunin opnast Íslendingum dyr að mörgum af mest framandi stöðum heims.
Samkvæmt heimildum Viðskiptamoggans sendi Emirates, sem er ríkisflugfélagið í Dúbaí, fulltrúa sína hingað til lands og fundaði sendinefndin með fyrirtækjum sem tengjast flugrekstri. Hins vegar mun nefndin ekki hafa fundað með Isavia sem rekur Keflavíkurflugvöll. Tekið er fram að málið sé á frumstigi.
Emirates er eitt af stærstu flugfélögum heims með um 250 flugvélar í flota sínum. Heimahöfn þess er í Dúbaí en þaðan flýgur félagið til 138 áfangastaða í öllum heimshornum. Auk þess heldur Emirates úti áætlunarflugi til Oslóar, Stokkhólms og Kaupmannahafnar.
Ég var komin hátt á fimmtugsaldur þegar ég skildi. Í tíu ár var ég ein og fannst stöðugt ólíklegra að ástin bankaði aftur upp á í lífi mínu. Þegar ég kynntist Gunnari fannst mér lífið dásamlegt og eiginlega of gott til að vera satt. Það kom líka á daginn að hann var ekki sá sem ég hélt hann væri.
Gunnar var ekkjumaður. Hann hafði misst konu sína úr krabbameini um svipað leyti og ég skildi við manninn minn. Þau hjónin höfðu átt og rekið fyrirtæki saman og verið mjög vel stödd fjárhagslega. Gunnar sat í óskiptu búi en tvö barna hans unnu við fyrirtækið. Kona hans átti mikið af vönduðum fötum og skartgripum sem Gunnar hafði skipt milli dætra þeirra. Sonurinn fékk í staðinn bíl móður sinnar en allt annað á heimilinu var eins og hún skildi við það.
Gunnar bjó í stóru fallegu einbýlishúsi en ég átti litla íbúð. Við bjuggum hvort í sínu lagi en hittumst oft í viku og fljótlega var ég farin að vera meira heima hjá honum en mér. Ég var því farin að flytja með mér eitthvað af nauðsynlegum fötum og snyrtivörum. Gunnar tók því ágætlega bjó til rými fyrir mig í fataskápum og baðskáp en bað mig að láta ekki dótið mitt sjást. Hann sagði að þegar börnin hans kæmu við myndi það reynast þeim erfitt ef þeim fyndist að önnur kona væri að taka sess móður þeirra í lífi hans. Mér fannst það mjög eðlilegt til að byrja með og hugsaði með mér að þau hlytu að venjast við og smátt og smátt gæti ég eignast vináttu þeirra.
Börnin vildu ekki sjá hana
Ekki var því þó að heilsa. Þegar börnin hans litu við um helgar bað Gunnar mig að fara inn í herbergi og bíða þar áður en hann opnaði fyrir þeim. Ég sat þar og lét lítið fyrir mér fara þótt mér þætti þetta mjög óþægilegt. Stundum lét ég mig hverfa út um garðdyrnar og fór heim til barnanna minna til að bíða af mér heimsóknina. Nokkrum sinnum ræddi ég þetta við Gunnar og spurði hann hvort hann teldi ekki ómögulegt að við héldum sambandi okkar til streitu fyrst börnin hans væru því svo mótfallin. Hann svaraði því til að hann vildi alls ekki missa mig og við skyldum sjá til.
Samband okkar varð sífellt nánara og við komumst að því að við áttum mörg sameiginleg áhugamál. Gunnar var góður kokkur og var í matarklúbbi þar sem fólk kom saman og eldaði eftir hefðum mismunandi landa. Dregið var um í hverju boði hvaða land félli í hlut þess er átti að halda næsta. Við Gunnar fengum Ísrael í okkar hlut skömmu eftir að við vorum farin að kynna hvort annað fyrir vinahópunum. Þetta var mikil og skemmtileg áskorun, við elduðum saman og tókum á móti klúbbnum. Allt gekk vel en þegar þau voru að fara spurði ein konan mig hvernig fjölskyldur okkar Gunnars hefðu tekið samdrætti okkar.
Ég sagði henni að börnin mín væru mjög hrifin af Gunnari en ég hefði ekki enn hitt börnin hans. Þau ættu víst erfitt með að sætta sig við samband okkar og vildu ekki hitta mig. Hún varð mjög undrandi og sagði að þetta líktist alls ekki dætrum Gunnars sem hún þekkti mjög vel. Þær hefðu þvert á móti margoft talað um það við sig að þær myndu fagna því ef pabbi þeirra kynntist góðri konu. Eftir að kona hans dó hafði Gunnar sokkið ofan í djúpt þunglyndi og krakkarnir hans haft miklar áhyggjur af honum. Lengi hafði hann einangrað sig frá öllum og verið mjög einamana. Þessi kona hafði verið besta vinkona eiginkonu hans og þau hjónin ævinlega mjög náin þeim meðan hún lifði.
Símtal frá yngstu dótturinni
Hún sagðist þess vegna hafa tekið börn Gunnars upp á sína arma þegar móðir þeirra féll frá og faðir þeirra átti svo erfitt. Yngsta dóttirin var rétt rúmlega tvítug og það var henni mikið áfall að missa móður sína. Konan bætti við að þrátt fyrir það hefði hún aldei orðið þess vör að sú stúlka vildi að faðir hennar yrði einn það sem eftir væri.
Ég sagði henni að Gunnar væri mér einstaklega góður og ég væri ekki á förum. Ég hefði fulla trú á að börnin hans myndu koma til og fyrr eða síðar gætum við öll orðið vinir. Nokkrum dögum seinna fékk ég upphringingu. Í símanum var Kristín, yngri dóttir Gunnars. Hún hafði talað við konuna úr matarboðinu og vildi endilega hitta mig og stakk upp á að við færum saman í hádegismat. Ég varð auðvitað afskaplega glöð við og þar sem við vorum báðar lausar þennan dag ákváðum við að hittast strax þá.
Þegar ég kom inn á veitingastaðinn voru þar fyrir öll þrjú börnin hans Gunnars. Þau tóku mér fagnandi og sögðust glöð að ég vildi loksins hitta þau. Mér brá rosalega og sagði þeim eyðilögð að ég hefði alltaf haft mikinn áhuga á að kynnast þeim. Þau urðu undrandi og sögðu mér að pabbi þeirra hefði sagt þeim að ég væri feimin og kvíðin að hitta þau. Í hvert sinn sem þau létu í ljós löngun til að hitta mig hafði hann sagt að það yrði að bíða. Ég teldi enn ekki tímabært að allir kæmu saman og ég væri hrædd við að þau höfnuðu mér.
Móðguð yfir framkomunni
Þau höfðu verið óskaplega sár og svolítið móðguð yfir að ég léti mig alltaf hverfa inn í herbergi þegar þau kæmu eða laumaðist út bakdyramegin. Þau voru farin að velta fyrir sér hvort ég væri eitthvað skrýtin eða að mér væri ekki alvara með sambandi mínu við pabba þeirra. Þeim datt í hug að ég væri að reyna að fá sem mest út úr honum peningalega og ætlaði síðan að láta mig hverfa. Það fannst þeim líklegasta skýringin fyrst ég gæti ekki horfst í augu við þau eða tekið þátt í lífi pabba þeirra að fullu.
Ég varð að vonum slegin og eyðilögð. Sagði þeim að þetta væri alls ekki raunin. Gunnar hefði sagt mér að þeim þætti erfitt að horfa upp á mig inni á heimilinu sem mamma þeirra hefði skapað og hann hefði beðið mig að láta lítið fyrir mér fara og ekki dreifa mínum munum um húsið. Þau urðu mjög hissa og ég sá að þau voru í vafa um hvort þau ættu að trúa mér. Þessi fundur endaði með því að ég brotnaði niður og fór að gráta. Við kvöddumst þó án nokkurs kala og þau báðu mig að tala við pabba sinn og athuga hvort ekki væri hægt að skipuleggja matarboð eða einhverja samkomu svo hægt væri að byrja samskiptin á nýjum og betri nótum.
Ég hringdi í Gunnar um leið og ég kom út í bíl og sagði honum hvað hefði gerst. Ég bað hann að hitta mig heima hjá sér og tala út um þetta mál svo hringdi ég í vinnuna og lét vita að ég kæmi ekki eftir hádegið. Þegar heim til Gunnars kom mætti mér ekki iðrandi syndari sem sá eftir að hafa blekkt bæði mig og börnin sín. Þar sat kaldur og vondur maður sem jós úr skálum reiði sinnar yfir mig. Hann spurði meðal annars öskuillur hvernig ég dirfðist að tala við börnin sín án hans leyfis. Þá var mér nóg boðið. Ég stóð upp og tók saman það litla sem ég átti heima hjá honum, gekk út og lokaði á eftir mér. Gunnar hringdi í mig tvisvar eftir þetta en ég svaraði ekki.
Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna hann hegðaði sér eins og hann gerði. Hugsanlega fannst honum of mikil binding að opna alla leið inn í líf sitt eða kannski vildi hann bara hafa mig á einum stað í lífi sínu og börnin á öðru. Hvað sem það var þá var ég lengi brotin og særð eftir þessa reynslu. Mér fannst eins og ég hefði verið vegin og léttvæg fundin af þessum elskhuga mínum. Að minnsta kosti var ég ekki nægilega merkileg til að börnin hans mættu kynnast mér.
AA Gill var lengi einn vinsælasti blaðamaður Bretlandseyja. Hann var þekktastur fyrir veitingahúsagagnrýni sína en pistlar hans voru raunar af margvíslegu tagi. Frásagnir af ferðalögum vöktu ekki síst athygli. Hann hafði sérstakt lag á því að fá íbúa Mið-Englands til að frussa upp úr tebollunum með því að lýsa uppátækjum sínum víða um heim. Ekki síst þegar hann ferðaðist með fjölmiðlamanninum Jeremy Clarkson.
Þeir félagarnir komu einu sinni til Íslands og skrifuðu mikinn bálk um ævintýri sín í The Sunday Times. Það var í þá daga þegar enginn vissi neitt um Ísland og við klóruðum okkur í höfðinu yfir því hvort landið myndi þola það ef fjöldi ferðamanna færi yfir 100.000 á ári. Til þess að ganga fram af lesendum sínum í þetta sinn ákvað Gill að snæða hval. Réttlæting hans var að hvalir væru bara ofvaxnir fiskar – það sem hefði sporð og synti um í sjónum væri fiskur í hans bókum.
Í ljósi nýjustu frétta um að Hval hf. hafi verið veitt leyfi til veiða á langreyðum veltir maður því fyrir sér hvort Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafi tekið grín Gills alvarlega um árið og ætli ekki að setja sig inn í siðferðilega umræðu um veiðar á sjávarspendýrum. Vissulega er í þetta sinn reynt að bæta umgjörð veiðanna með því að gera kröfu um skil á dagbókum en þó kemst maður ekki hjá því að undrast þá tímaskekkju sem veiðileyfið er.
Ég hef áður skrifað um það í blöðin hvernig siðferðileg viðmið fólks varðandi skotveiðar á villtum spendýrum hafa tekið miklum breytingum á undanförum áratugum. Í samtímanum hafa þessi viðmið tekið á sig nokkuð skarpa mynd. Auðvitað er það fólk til sem hafnar öllum skotveiðum á spendýrum, en ég efast um að svo róttækt viðhorf sé meginviðmið. Ef veiðar á langreyðum væru með þeim hætti að hægt væri að tryggja sem minnsta hreyfingu á dýri eða veiðimanni, og að hægt sé að bera góð kennsl á dýrið, til dæmis þannig að sjaldgæfir blendingar ættu ekki á hættu að fá skutul í sig, væru veiðarnar minna umdeildar. Einnig myndi það hjálpa ef ljóst væri að veiðarnar tryggðu lífsviðurværi fólks sem væri háð því að fá kjötið, ef okkur stæði ógn af villtum hvölum umhverfis landið eða ef við bærum ábyrgð á grisjun stofna eftir eigið inngrip í vistkerfi. Ekkert af þessu á við um veiðar Hvals hf. á langreyðum.
Ef ég man rétt reyndi Gill einnig að stríða lesendum sínum með því að dásama íslenska loðfeldi og var hann myndaður í einum slíkum. Ég man ekki hvort hann reyndi einu sinni að réttlæta það blæti sitt. Mig grunar að réttlætingin hefði verið svipuð þeim rökum sem sumir hafa reynt að beita til að styrkja siðferðilegar undirstöður framleiðslu á klámefni: Að fólk hafi rétt til að örvast. Eru það góð rök? Varla. Rök af því tagi geta haft ákveðið gildi í dægurumræðu en vonandi rata þau seint inn í ákvarðanatöku lýðræðislegra stofnana samfélagsins.
Biathlon er ný og spennandi íþróttagrein sem er að ryðja sér til rúms á Íslandi en íþróttin sameinar hlaup og skotfimi. Óli Þór Júlíusson, verkefnastjóri hjá UMSK, hefur verið að kynna greinina hér á landi.
„Flestir þekkja til skíðaskotfimi þar sem gengið er á gönguskíðum og skotið úr riffli á skotmark. Biathlon, eins og við erum að kynna það, er hugsað eins nema án skíðanna,“ segir Óli Þór og bætir við að Biathon geti að auki sameinað fjölda annarra íþróttagreina, allt eftir áhuga og vilja þeirra sem taka þátt.
„Í þessari íþrótt er sjálfstjórnin alveg jafnmikilvæg og úthaldið þar sem hausinn þarf að vera skýr við hverja ákvörðunartöku.“
„Þeir sem hafa prófað Biathlon á Íslandi segja þetta frábæra og stórskemmtilega hreyfingu. Allt frá byrjendum til þeirra sem eru lengra komnir þá verður til spennandi keppni þar sem ákefð og einbeiting sameinast. Í þessari íþrótt er sjálfstjórnin alveg jafnmikilvæg og úthaldið þar sem hausinn þarf að vera skýr við hverja ákvörðunartöku. Nánast allir geta tekið þátt í Biathlon. Við erum að einblína á hlaupahópana núna þannig að aldursbilið er allt frá 20 til 60 + en við getum og stefnum að því að taka á móti fólki á aldrinum 12 ára og upp úr þegar fram líða stundir. Líkamsástand þátttakenda getur líka verið á alla vegu en við getum aðlagað hlaupin að þeim sem eiga erfiðara með að hlaupa þá fjóra kílómetra sem lagt er upp með.“
Kynntust sportinu í Danmörku
Biathlon á Íslandi er verkefni á vegum UMSK sem á rafbúnaðinn sem notaður er, riffla og samtengd skotmörk. UMSK stendur fyrir Ungmennasamband Kjalarnesþings sem er regnhlíf fyrir ungmenna- og íþróttafélög í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Kópavogi, Kjós, Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi.
„Framkvæmdastjóri UMSK, Valdimar Gunnarsson, fór og kynnti sér hvernig frændur okkar Danir gera þetta fyrir um það bil tveimur árum síðan og þá fór boltinn að rúlla. UMSK fjárfesti í búnaðinum og fyrsta kynningin á greininni fór fram síðastliðið sumar. Núna erum við að reyna taka skref fram á við í kynningu og erum markvisst að bjóða hlaupahópum í heimsókn til okkar. UMSK vinnur kynninguna á Biathlon í samstafi við frjálsíþróttadeild Breiðabliks og Skotíþróttafélag Kópavogs. Breiðablik hefur lánað okkur aðstöðu og mannskap til aðstoðar og Skotíþróttafélagið hefur tekið á móti áhugasömum þátttakendum í upphafi sumars og kennt á rifflana.“
Allir velkomnir í opna ókeypis tíma
Sjálfur hefur Óli Þór engan bakrunn í skotfimi en á nokkuð fjölbreyttan feril úr íþróttum. „Ég var lengi vel í fótbolta með HK en æfði einnig handbolta, dans og frjálsar íþróttir þegar ég var yngri. Seinna meir hef ég lagt stund á golf, lyftingar og utanvegahlaup mér til heilsubótar. Áhuginn á Biathlon kviknaði ekki fyrr en í vor þegar fór að vinna við það að kynna íþróttina. Við erum með opnar fríar æfingar alla miðvikudaga klukkan 17 á æfingasvæði frjálsíþróttadeildar Breiðabliks í Kópavogsdal. Það mega allir koma og taka þátt og reyna við brautarmetið en það stendur í 18 mínútum og 18 sekúndum þessa stundina. Við stefnum að því að setja upp mótaröð í september en við erum að leggja lokahönd á skipulag hennar og vonandi getum við auglýst mótaröðina á komandi vikum.
Þetta hefur verið mjög gaman og maður lærir jafnóðum þegar verið er að kynna svona nýja grein fyrir hópum. Til að mynda hélt ég að allir vissu hvernig ætti að halda á riffli bara við það eitt að taka hann upp, en það er langt frá því að vera raunin. Þátttakendur í einum af fyrstu hlaupahópunum sem kom til ykkar voru ítrekað að snúa rifflinum vitlaust þannig að ég hef lagt mikla áherslu á það framvegis í minni kynningu að tryggja að allir átti sig á hvernig hann snýr rétt.“
Óli Þór segir að þeir geti tekið á móti hópum og fyrirtækjum sem vilja gera sér dagamun. „Hvort sem hópurinn vill koma til okkar eða fá okkur eitthvað annað þá er um að gera að setja sig í samband við okkur og fá tilboð. Við erum mjög sanngjarnir í verðlagningu.“
Þrátt fyrir að úrslitin í Wimbledon-mótinu séu hvergi nærri ráðin, þá er stjarna mótsins nú þegar fundin. Þegar fram líða stundir verður þetta mót ávallt mótið sem Cori Gauff steig inn í sviðsljósið.
Þegar fyrstu spaðarnir fóru á loft hafði enginn utan tennisheimsins heyrt Gauff getið, en þessi 15 ára stúlka frá Delray Beach í Flórída lét strax að sér kveða í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar þegar hún sigraði átrúnaðargoðið sitt, sjálfa tennisdrottninguna Venus Williams. Hún sigraði síðan Magdalenu Rybarikovu og Polonu Hercog áður en hún beið lægri hlut gegn hinni rúmensku Simonu Halep í 16-manna úrslitum.
Þrátt fyrir það er Gauff orðin stórstjarna í Bandaríkjunum og sjálf hefur hún ekki farið varhluta af því. „Þetta er algjörlega klikkað, fólk á veitingastöðum og úti á götu er farið að þekkja mig. Ég hélt að þetta myndi aldrei gerast. Mig dreymdi alltaf um að keppa á Wimbledon og öðrum risamótum en mig hafði ekki dreymt um að fólk myndi í alvöru þekkja mig,“segir Gauff í viðtali við CNN. Stórstjörnur og fyrirmenni hafa keppst við að ausa hana lofi, þeirra á meðal Michelle Obama, fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna.
Gauff segir Williams-systur, þær Venus og Serena, vera fyrirmyndirnar í hennar lífi og er herbergið hennar hlaðið veggspjöldum af þeim. Sú síðarnefnda segir að brátt verði það Gauff sem muni prýða veggi ungra tennisaðdáenda. „Hún er að standa sig frábærlega. Ég er mikill aðdáandi og mjög spennt fyrir hennar hönd,“ segir Serena.
Önnur goðsögn í tennisheiminum, Martina Navratilova, er sama sinnis. „Ég hef á tilfinningunni að Gauff muni breyta leiknum. Hún var fædd til að gera þetta. Ég man ekki eftir neinum sem kom inn með álíka stormi inn á stórmót.“
Gauff segist mjög upp með sér að helstu stjörnur íþróttarinnar séu að fylgjast með henni. Hún er nú þegar farin að undirbúa sig undir Opna bandaríska meistaramótið og viðurkennir að hún þurfi að vinna enn betur í sínum leik ef hún ætlar að komast á þann stað sem hún ætlar sér, á topp heimslistans. „Það verður mjög sérstakt fyrir mig því ég hef farið og horft á þetta mót síðan ég var átta ára gömul.“
Landlæknisembættið segir að E.coli smit í níu börnum megi rekja til ferðaþjónustunnar Efstadal 2 í Bláskógabyggð. Alls tíu börn hafa sýkst af bakteríunni, það yngsta 20 mánaða.
Þann 4. júlí var greint frá því að fjögur börn höfðu greinst með alvarlega sýkingu af völdum E.coli bakteríu.
Nú hafa sex börn á aldrinum 20 mánaða–12 ára greinst til viðbótar og eru tilfellin því alls tíu. Þessi sex börn eru ekki alvarlega veik en verða undir eftirliti á Barnaspítala Hringsins næstu daga. Börnin sem greindust í síðustu viku eru á batavegi.
Á vef Landlæknis segir að nú virðist ljóst að níu af börnunum smituðust á ferðaþjónustubænum Efstadal 2 í Bláskógabyggð fyrir 10 dögum til þremur vikum síðan en eitt barn smitaðist að öllum líkindum af systkini sínu. Rannsóknir hafa sýnt að E. coli bakterían sem sýkti börnin finnst einnig í hægðasýni frá kálfum á staðnum.
Ekki er vitað með vissu hvernig smitið barst í börnin en frekari rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum á staðnum standa enn yfir. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun gripu til viðeigandi ráðstafana þann 4. júlí síðastliðinn í góðri samvinnu við staðarhaldara til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu bakteríunnar.
Rétt er að árétta að ekki er talið að smit hafi átt sér stað með vatni í Bláskógabyggð og ekkert bendir til að smitið eigi uppruna sinn annars staðar í sveitinni.
Einstaklingar sem heimsóttu ferðaþjónustuna á síðastliðnum tveimur vikum og fengu niðurgang innan 10 daga frá heimsókninni eru hvattir til að leita til síns læknis varðandi nánari greiningu. Einkennalausir einstaklingar sem heimsótt hafa Efstadal 2 þurfa ekki að leita læknis né heldur einstaklingar sem fengið hafa niðurgang sem nú er genginn yfir.