Utanríkisráðuneytið hefur ítrekað hunsað fyrirmæli umboðsmanns Alþingis um svör vegna kvörtunar foreldrar Hauks Hilmarssonar sem fullyrt er að hafi fallið í Sýrlandi í febrúar árið 2018.
Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, birti bréf umboðsmanns á Facebook í gær og gagnrýnir að stjórnsýslan telji sig ekki bundna af fyrirmælum umboðsmanns. „Ísland er landið þar sem mótmælendur eiga að hlýða löggunni þegar hún bannar þeim að nýta stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að láta skoðanir sínar í ljós. En líka landið þar sem stjórnsýslan þarf ekki að hlýða Umboðsmanni Alþingis,“ skrifar Eva.
Þann 8. júní næstkomandi stendu hópurinn Leikmenn án landamæra fyrir málþingi um hugsjónir Hauks Hilmarssonar. Málþingið fer fram í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar.
Leituðu til umboðsmanns til að knýja fram svör
Foreldrar Hauks leituðu til umboðsmanns Alþingis í nóvember á síðasta ári til að knýja fram svör frá utanríkisráðuneytinu um aðgerðir stjórnvalda vegna leitarinnar að Hauki og svara um afdrif hans. Fátt hefur verið um svör um beinar aðgerðir ráðuneytisins til aðstandenda vegna málsins. „Úrskurðarnefnd upplýsingamála gerði utanríkisráðuneytinu að afhenda okkur slatta af gögnum til viðbótar við það sem þau voru búin að láta okkur fá. Það voru ekki gögn heldur bara tímalína um það hverja hefði verið haft samband við en ekkert hægt að sjá nein samskipti. Okkur fannst úrskurður ÚNU ekki ganga nærri nógu langt og skorta rök fyrir því hversvegna við mættum ekki sjá meira.“ segir Eva í samtali við Mannlíf.
Í bréfi umboðsmanns til utanríkisráðuneytinsins sem dagsett er 26. apríl kemur fram að umboðsmaður hafi ítrekað óska svara en ekki fengið. „Ég leyfi mér að ítreka þau tilmæli í bréfi, dags 31. desember 2018 og 26. mars sl., að utanríkisráðherra láti umboðsmann Alþingis í té upplýsingar og skýringar í tilefni af kvörtun sem Eva Hauksdóttir og Hilmar Bjarnasona hafa borið fram með hliðsjón af því sem um er beðið í bréfi umboðsmanns,“ segir í bréfinu.
Tyrkneski fjölmiðlar fullyrtu snemma í mars árið 2018 að Haukur hafi fallið í loftárás Tyrkja á Badina-Dimilya í febrúar sama ár. Aðstandendur Hauks hafa síðan leitað svara og ekki hefur tekist að hafa upp á líkamsleifum Hauks.
„Rýr í roðinu“
Eva hefur gagnrýnt íslensk yfirvöld fyrir framtaksleysi og skort á svörum vegna hvarfs Hauks. Fyrir rúmu ári sagði hún á Facebook að gögn sem ráðuneytið hafi afhent henni séu heldur „rýr í roðinu“. „Ég sé því fram á margra mánaða ferli við að knýja fram rétt minn, fyrst í gegnum Úrskurðarnefnd um upplýsingamál og ef það dugar ekki þá í gegnum Umboðsmann Alþingis. Ég hef nóg annað að gera þessa dagana svo allar hugmyndir um skilvirkari leiðir eru vel þegnar,“ skrifaði Eva fyrir ári.
Málið er nú á borði umboðsmanns en lítið virðist bóla á svörum.
Efast um hina opinberu sögu
Síðastliðin mars fjallaði Stundin ítarlega um leitina að Hauk og sagði frá því að nánir vinir hans efist um hina opinberu frásögn af andláti Hauks. Blaðið ræddi við Snorra Pál Jónsson og Steinunni Gunnlaugsdóttir sem ásamt Fatimu, unnustu Hauks, hafa lagst í mikla rannsóknarvinnu og leitað svara. Frásagnir þeirra sem þau hafa rætt við af vettvangi eru á margan hátt á skjön við fyrrgreinda yfirlýsingu YPG. „Við höfum fengið þær upplýsingar eftir ýmsum leiðum að Haukur hafi horfið, ekki skilað sér til baka úr varnaraðgerð í kringum aðra viku febrúar. Félagar hans hafi leitað hans í um það bil tvær vikur, allt þar til YPG lýsti því yfir að hann væri fallinn. Sú yfirlýsing byggist á því einu að hægt var að staðfesta andlát annarra hermanna á þessu svæði á svipuðum tíma,“ segir Snorri Páll í viðtali við Stundina þar sem hann rekur með ítarlegum hætti hverju rannsókn þeirra hefur skilað og hverju ekki.
Hefur ráðherra „gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk“?
Margrét Tryggvadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn að Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, á þingi í nóvember síðastliðnum. Þar sagði hún fjölskyldu Hauks ekki hafa fengið skýr svör um hvað orðið hafi um líkamsleifar hans. „Hafa íslensk stjórnvöld spurt tyrknesk stjórnvöld beint hvað hafi orðið um líkamsleifar þeirra sem féllu í árásunum 24. febrúar sl.? Þegar ég segi beint á ég við ekki við hvort rætt hafi verið við sendiráð Tyrkja í Ósló eða aðrar diplómatískar leiðir notaðar heldur hvort utanríkisráðherra sjálfur hafi beitt sér sérstaklega og krafist svara frá tyrkneskum stjórnvöldum um afdrif Hauks Hilmarssonar. Hefur ráðherrann krafist þess að farið verði inn á svæði þar sem átökin voru og þeirra sem þar féllu leitað?“ spurði Margrét ráðherra. Guðlaugur Þór sagði þá að allra leiða hafi verið leitað vegna málsins. „Samstarfsríki okkar vöruðu við því í upphafi að staðan væri einstaklega flókin og erfitt að afla upplýsinga og var reyndin sú að þau hafa takmarkaða aðstoð getað veitt. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað óskað eftir upplýsingum um málið frá tyrkneskum stjórnvöldum og fengið staðfest eftir mörgum leiðum að þarlend stjórnvöld telji Hauk af. Fjölskylda hans hefur verið upplýst um það eins og öll önnur skref sem tekin hafa verið í leitinni að Hauki. Við teljum borgaraþjónustuþætti málsins lokið í bili en lögreglan rannsakar málið sem mannshvarf. Utanríkisþjónustan mun áfram eiga regluleg samskipti við fulltrúa tyrkneskra yfirvalda í tengslum við þetta mál. Íslensk stjórnvöld munu einnig tala áfram fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðlegum mannréttindum í Tyrklandi og annars staðar í tvíhliða samskiptum og á alþjóðavettvangi eftir því sem tækifæri gefst, til að mynda á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í Evrópuráðinu og hjá ÖSE.“
Margrét ítrekaði þá fyrirspurnina og spurði ráðherra hvort hann telji sig „persónulega hafi gert allt sem í hans valdi stendur til að finna Hauk eða lík hans ef hann er sannarlega látinn og tryggja að það verði flutt heim?“
Því svaraði utanríkisráðherra játandi. „Ég hef gert allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa til í þessu máli. Ég hef m.a. rætt þetta við kollega mína í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það er mér til efs að stjórnvöld hafi gengið jafn langt í sambærilegu máli og við Íslendingar höfum gert. Ef það er eitthvað sem við getum gert til að hjálpa frekar til við þetta erfiða mál munum við gera það. En við höfum leitað allra þeirra leiða sem við höfum talið geta hjálpað í þessu erfiða máli. Ef eitthvað kemur upp þannig að við teljum að við getum gert meira munum við auðvitað gera það.“
Guðlaugur Þór fundaði með efnahgsmálaráðherra Tyrklands
Utanríkisráðherra hitti Nihat Zeybekci efnahagsmálaráðherra Tyrklands í lok júlí árið 2018. Þá átti Guðlaugur Þór fund með honum á EFTA-fundi í Skagafirði. „Hann fullvissaði okkur um það að hann myndi skoða þetta og koma þá með upplýsingar til okkar. Ég vil trúa að hann geri það og ég vona svo sannarlega að við getum náð einhverjum árangri í þessu erfiða máli,“ sagði Guðlaugur við RÚV eftir fundinn.
Aðstandendur Hauks hafa opnað vefinn Leikmenn án landamæra sem tileinkaður er Hauki, leitinni af svörum og baráttu Hauks. „Sonur minn Byltingin helgaði líf sitt andófi gegn ríkisvaldi, auðvaldi og hervaldi. Hann stóð fyrir og tók þátt í beinum aðgerðum gegn umhverfisspjöllum, kapítalisma og fasisma, bæði á Íslandi og erlendis. Hann var virkur liðsmaður Saving Iceland í baráttunni gegn Kárahnúkavirkjun, sjálfboðaliði í Palestínu, meðlimur í Heimssambandi verkafólks, virkur í hústökuhreyfingum á Íslandi og í Grikklandi. Hann var frumkvöðull í baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi og vann að björgun flóttamanna í Grikklandi,“ segir í skrifum Evu um Hauk á vefnum.
Aðalmynd: Leikmenn án landamæra/Simon Downey