Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Aðförin að sannleikanum

Leiðari

Eftir / Magnús Geir Eyjólfsson

Það voru ekki nema mínútur liðnar af forsetatíð Donalds Trump þegar fyrsta lygin var borin á borð. Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins hélt því blákalt fram að aldrei hafi jafnmargir verið viðstaddir innsetningarathöfn forseta og þann daginn um leið og hann sakaði þá sem héldu öðru fram um að bera út falskar fréttir. Þetta fullyrti hann þrátt fyrir að sjónvarpsmyndir, talningar opinberra aðila og allar aðrar fyrirliggjandi staðreyndir sýndu svart á hvítu að þetta var fjarstæðukennt rugl. Könnun sem birtist nokkru síðar sýndi, þrátt fyrir allar fyrirliggjandi staðreyndir, að einungis 56 prósent Bandaríkjamanna  treysti sér til að fullyrða að þetta væri rangt. Þetta var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi því fyrstu tvö ár hans í embætti hafði hann sett fram 8.158 rangar eða misvísandi fullyrðingar. Maðurinn sem skipar valdamesta embætti heims lýgur að meðaltali sex sinnum á dag!

Upplýsingabyltingin sem við upplifum hefur haft það í för með sér að sannleikurinn á undir högg að sækja. Skoðanir, sama hversu fjarstæðukenndar þær kunna að vera, eru farnar að hafa sama vægi og staðreyndir. Tilfinningar trompa rök. Þessi þróun hefur margar og alvarlegar afleiðingar. Ein sú alvarlegasta er að það molnar undan trausti í samfélaginu. Almenningur missir trú á stjórnmálin, kerfið, dómstólana, fjölmiðla og umfram allt náungann. Þegar maðurinn hættir að geta tekið mark á staðreyndum tekur eðlishvötin yfir. Þar er óttinn ríkjandi tilfinning.

Bæði á Íslandi og úti í heimi sjáum við hvernig lýðskrumarar spila á ótta fólks til að koma sjálfum sér og sinni ofstækisfullu hugmyndafræði á framfæri. Uppskriftin er alls staðar sú sama. Fyrst er að finna óvin sem hægt er að kenna um meinsemdir samfélagsins. Þetta geta verið pólitískir andstæðingar, embættismenn, fjölmiðlar eða, þeir sem oftast verða fyrir valinu, útlendingar. Þessi ímyndaði óvinur er ógn og hefur í hyggju að mergsjúga samfélagið og þeir einu sem geta stöðvað þessa ógn eru lýðskrumararnir sem vara við henni. Lyginni er dreift sem víðast og endurtekin nógu oft þannig að hún fer að hljóma eins og algildur sannleikur. Markmiðið er ekki alltaf að sannfæra fólk, heldur fá það til að efast um sannleikann.

Birtingarmyndirnar, stórar sem smáar, sjáum við víða. Forsetatíð Trumps og þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit eru einhvers konar árshátíðir að þessu leyti. Í Ungverjalandi situr ríkisstjórn sem hefur tekið yfir alla helstu fjölmiðla og fjöldaframleiðir samsæriskenningar í massavís. Það þarf ekki einu sinni ríkisstjórnir til. Víðs vegar um heiminn, í Svíþjóð til að mynda, spretta upp fjölmiðlar sem hafa það eitt að markmiði að ala á ótta gagnvart innflytjendum. Þessi sömu öfl afneita meira að segja viðteknum sannindum um hlýnun loftlags á jörðinni. Hér heima hafa ákveðnir aðilar séð sér hag í að reka fleyga í samfélagið undir flaggi þjóðernishyggju. Skólabókardæmi um þetta eru umræðan um þriðja orkupakkann og málefni hælisleitenda.

Svo virðist sem íslensk stjórnvöld séu meðvituð um vandamálið. Skipaður var starfshópur til að koma með tillögur um að efla traust á stjórnmálum og til stendur að efla rekstrarumhverfi fjölmiðla í því skyni að efla sjálfstæði þeirra. Eins góðar og þessar tillögur eru er hætt við að þær dugi skammt. Það þarf eitthvað mun meira og róttækara að koma til.

„Gaman að ganga á fjöll“

|
|

Þuríður Sigurðardóttir steig á svið í Bæjarbíói í Hafnarfirði í gærkvöldi og mun endurtaka leikinn í kvöld þar sem hún fagnar stórafmælum í lífi og söng. Þuríður sem nú er sjötug varð landsþekkt söngkona sextán ára gömul þegar hún söng með einni vinsælustu hljómsveit landsins, Lúdó sextett.

Síðan þá hefur hún komið fram með ýmsum hljómsveitum, við allskonar tilefni, sungið inn á fjöldamargar hljómplötur og komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Að auki hefur hún starfað sem flugfreyja, útvarpskona, unnið í verslun, verið í auglýsingabransanum og þula í sjónvarpi allra landsmanna. Rúmlega fimmtug útskrifaðist hún með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands og haslaði sér völl sem listmálari og hefur haldið fjölda málverkasýninga auk þess að kenna myndlist.

Þuríður á margar eftirminnilegar og góðar minningar frá ferlinum sem hún getur ekki gert upp á milli en segir okkur hér frá einni.

„Fyrsta kvöldið sem ég söng með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu árið 1975 var löng röð gesta fyrir utan innganginn og þegar ég loks komst að útihurðinni stóð þar dyravörður, mikill að vexti  og spurði hvað ég vildi. Ég stóð þarna á síðum, flegnum kjól á hælaháum skóm og sagði: „Tja, ég er nú bara að mæta til vinnu.“ Hann mældi mig þá út frá toppi til táar og svaraði: „Jæja, og hvað þykist þú starfa hér á hótelinu?““ segir hún hlæjandi.

Hún segir að sá meðbyr sem hún hefur fundið og sá áhugi sem fólk hefur sýnt tónleikunum sé með ólíkindum. „Og fyrir mig, myndlistarmanninn, sem vinnur yfirleitt einn er hann eins og vítamínssprauta. Ég held ég geti líkt því við að standa á fjallstindi eftir góða göngu, sem hægt er að líkja við aðdragandann. Svo er það bara spurningin um hvernig manni líður á tindinum og hvort leiðin niður verði torveld. Mér finnst gaman að ganga á fjöll.“

Á tónleikunum fer hún í gegnum söngferilinn frá fyrstu tíð til þessa dags og dregur fram ótalmargar perlur sem hafa fylgt henni í gegnum tíðina. Með henni eru hljóðfæraleikararnir Pálmi Sigurhjartarson, Benedikt Brynleifsson, Gunnar Hrafnsson, Grímur Sigurðsson og Hjörleifur Valsson ásamt gestasöngvaranum Sigurði Helga Pálmasyni sem er sonur Þuríðar.

Myndir / Ragnheiður Arngrímsdóttir

Var með eina og hálfa manneskju utan á sér

|||
|16. tbl. 2019

Tómas Þór Þórðarson hefur verið ráðinn til að stýra þætti um enska boltann þegar Sjónvarp Símans tekur við útsendingum frá ensku deildunum í sumar. Hann segist vera ánægður með nýja starfið, þótt hann sé í eðli sínu lítið gefinn fyrir breytingar. Fáir hafa þó gert meiri breytingar á lífi sínu en hann undanfarin ár því árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en er í dag 105 kíló og í fínu formi. Hann segir breytinguna jafnast á við að losna úr fjötrum.

Tómas er heima að vaska upp þegar Mannlíf nær tali af honum en hann er enn í fullu starfi sem íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport og verður það fram á sumarið þegar hann flytur sig um set yfir á Símann.

„Ég fékk tilboð um að ritstýra enska boltanum hjá Símanum eftir að þeir keyptu réttinn á útsendingum. Enski boltinn hefur verið á Stöð 2 Sport ansi lengi og þeir hjá Símanum voru í leit að einhverjum til að vera aðallýsir og ritstýra enska boltanum. Eins og frægt er orðið leituðu þeir fyrst til Gumma Ben en það gekk ekki þannig að ég var næstur á blaði hjá þeim. Ég var ekkert ósáttur við það að vera „second choice“, ég get alveg sætt mig við það hlutskipti í lífinu að vera næstur á eftir Gumma Ben,“ segir Tómas og hlær.

Fékk ekki krónu fyrstu árin

Tómas hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni, byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings. En hvað kom til að hann tók þá ákvörðun að gera þetta að ævistarfi?

„Ég hef alltaf haft brjálaðan áhuga á íþróttum og ég held ég hafi alltaf vitað innst inni að þetta yrði framtíðarstarf mitt. Á þeim tíma var ekkert auðvelt að komast í starfið, held það sé auðveldara í dag, en þetta var árið 2007 og ég byrjaði með því að skrifa á fotbolti.net og hef haldið tryggð við þá síðan, meira að segja verið með útvarpsþátt í þeirra nafni í tíu ár. Ég fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin en var mjög metnaðarfullur, mætti á alla landsleiki og fullt af öðrum leikjum og skrifaði um þá og þá fóru einhverjir að taka eftir mér. Ég átti ágætis félaga sem heitir Benedikt Bóas og þegar það losnaði staða hjá honum á DV 2008 fór ég þangað. Settist við skrifborð þar 2. janúar 2008 í mínu fyrsta starfi sem blaðamaður á launum og hef síðan verið í þessu starfi í rúm ellefu ár.“

Frá DV fór Tómas yfir á Morgunblaðið, þar sem hann var í rúm tvö ár en þá fékk hann tilboð um starf hjá Fréttablaðinu og þrátt fyrir að líka vel á Mogganum endaði með því að hann tók því. „Ég kunni vel við mig á Mogganum og ætlaði ekkert að fara þaðan en 365 miðlar sóttu hart að fá mig yfir til sín og buðu mér hærri laun, þannig að ég bað um mjög litla kauphækkun hjá Mogganum til að vera þar áfram en yfirmenn þar höfðu ekki þá framtíðarsýn að halda mér. Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma. Þannig að ég gekk þaðan út, svolítið vonsvikinn yfir því að þeir vildu ekki halda í mig, og fór yfir á Fréttablaðið og Vísi í byrjun febrúar 2014 og hef verið þar síðan. Fylgdi svo Vísis- og Stöðvar 2 Sport-pakkanum yfir til Sýnar.“

„Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma.“

Hvernig leggst í þig að skipta um vinnustað eftir svona langan tíma á sama stað?

„Ég er náttúrlega að fara inn í nýtt fyrirtæki, í nýjar höfuðstöðvar með nýju fólki, þannig að maður þarf að fara í nafnaleikinn aftur,“ segir Tómas og glottir. „Það leggst bara vel í mig þótt ég sé í grunninn enginn maður breytinga og finnist mjög þægilegt að vera í því sem ég þekki. Ef ég fengi alltaf að velja í lífinu vildi ég helst bara borða það sama, vinna við það sama og gera það sama. Þetta eru reyndar kannski smáýkjur en mér líður mjög vel þar sem ég er en svona gerast bara kaupin á eyrinni í þessum bransa og ég er mjög sáttur.“

Búinn að missa 120 kíló

Talandi um breytingar, fáir menn hafa breytt lífi sínu á eins róttækan hátt og Tómas hefur gert undanfarin ár. Átak í Meistaramánuði 2014 dróst á langinn og endaði með því að hann er búinn að missa 120 kíló. Það hljómar ekki eins og einhver sem er ekki hrifinn af breytingum. „Það er satt,“ segir hann. „Ég er ekki alveg sami maðurinn og ég var í október 2014, eiginlega bara allt annar maður, alla vega útlitslega. Ég held samt að ég hafi ekki breyst mikið sem persóna, nema eitthvað aðeins til batnaðar. Ég er alveg sami gæinn en lífið er hollara og töluvert bjartara eftir þessar breytingar.“

Tómas Þór hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni, en hann byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings, og kemur nú til með að stýra þætti um enska boltann.

Spurður hvenær offitan hafi orðið vandamál fyrir hann veltir Tómas svarinu fyrir sér dágóða stund. „Ég hef oft pælt í því hvað má kalla vandamál,“ segir hann.

„Ég hef verið þybbinn eða feitur allt mitt líf, ég var voða sætur með krullur og svona þegar ég var lítill en alltaf bústinn. Svo man ég að tveir kennarar mínir höfðu orð á því í tíunda bekk að ég væri kannski orðinn of feitur. Það var í fyrsta sinn sem einhver skipti sér af því hvað ég þyngdist mikið. Þeir reyndu ekkert að leiðbeina mér, höfðu bara svona orð á þessu en ég lét það sem vind um eyru þjóta. Sem unglingur vann ég nokkur sumur hjá Vegagerðinni, þar sem pabbi minn var að vinna í um fjörutíu ár, og þar vann ég á risastóru plani sem lá í brekku þannig að ég þurfti mikið að rölta hingað og þangað til að sækja timbur, gera og græja. Þarna var ég um tvítugt og farinn að fá í bakið ef ég gekk mikið en ég tók það ekkert alvarlega og hélt bara áfram og áfram án þess að gera nokkuð í málinu, sama þótt foreldrar mínir og fleiri væru að reyna að hjálpa mér að gera breytingar. Vegna þess að ég tók þyngdaraukningunni ekki alvarlega varð ástandið að lokum grafalvarlegt, hélt bara áfram að versna næstu tíu árin þangað til ég var orðinn eins og lítil pláneta. Síðast þegar ég leit á vigtina áður en ég tók mig á var ég 225 kíló þannig að ég miða við það.“

Tómas upplýsir að í dag sé hann 105 kíló. Það eru sem sagt 120 kíló fokin, eins og áður segir, og hlæjandi segist Tómas nú ekki sakna þeirra mikið. „Ég sakna sumra hluta í mínu lífi en ég sakna ekki þessarar einu og hálfu manneskju sem ég bar utan á mér. Hins vegar verður maður ekki svona stjarnfræðilega stór án þess að glíma við hluti eins og matarfíkn og alveg ofsafengna leti þannig að ég segi stundum við kærustuna mína að ég sakni þess að geta ekki straujað niður einni 16 tommu pítsu eins og ekkert sé. Þetta er sagt bæði í gríni og alvöru en í raun og veru sakna ég þess ekki því ef ég hefði ekki farið í magaermiaðgerð og gæti enn þá borðað eins og ég borðaði áður þá væri ég ekki búinn að ná þessum árangri.“

„Var fastur inni í mér, horfandi út

Spurður hvort offitunni hafi fylgt þunglyndi, setur Tómas fyrirvara. „Ég vil ekki hafa orðið þunglyndi í flimtingum,“ segir hann. „Ég hef aldrei verið greindur með þunglyndi en auðvitað var maður andlega þungur. Sérstaklega árið 2014 þegar ég náði botninum. Allt það ár upplifði ég mikla vanlíðan, fór ekki á fætur fyrr en rétt áður en ég átti að mæta í vinnuna á kvöldvakt klukkan fjögur. Ég bara komst ekki fram úr rúminu og fannst allt voðalega ómögulegt. Ég lifi að stórum hluta fyrir íslenska fótboltann en var hættur að geta farið á völlinn. Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

Tómas segist ekki síst þakka hvatningu frá fólkinu í kringum hann að hann skyldi að lokum ákveða að prófa að taka mataræðið í gegn.

„Þessi mynd er tekin árið 2016, þá var ég búinn að missa 60 kíló.“

„Allt í kringum mig var fólk sem vissi hvað í mér bjó, hvað ég gat og get varðandi vinnuna. Alveg frá því að ég lýsti mínum fyrsta leik hef ég fundið hvað það á vel við mig og ég geri það vel, eins og sést kannski á því að nú er verið að kaupa mig til að lýsa enska boltanum sem tugþúsundir horfa á – svo eitthvað hef ég verið að gera rétt. Ég hef kannski ekki mesta sjálfstraust í heimi, út af mínum komplexum í gegnum tíðina. Ég var alltaf að líta í kringum sig til að gá hvort einhver væri að benda á mig eða tala um mig sem byggði upp óöryggi og gerði mér erfitt fyrir að vera eitthvað breimandi af sjálfstrausti út á við.

„Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló.“

En samt sem áður þá hef ég alltaf vitað að í þessum eina geira, að minnsta kosti, þá get ég fjallað og talað um íþróttir og lýst þeim. Ég hef það, en gat aldrei verið fyrir framan myndavél, bara lýst leikjum þar sem enginn möguleiki var á að ég þyrfti að vera í mynd. Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló. Ég vissi samt að ég gat það og vissi líka að það voru fleiri á þeirri skoðun þótt ég væri ekki líkamlega í standi til þess. Það olli mér vanlíðan að vita hvað ég gat en þurfa að horfa á það líf sem ég gæti átt í gegnum einhverja rimla. Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út. Og sem betur fer braust ég á endanum út og er núna með tvo sjónvarpsþætti auk þess að lýsa oft beinum útsendingum og hef átt alveg frábær ár undanfarið.“

Brenndur eftir fyrstu höfnunina

Þegar ég spyr Tómas hvað hafi að lokum ýtt honum út í að fara að gera eitthvað í sínum málum, hvort hann hafi orðið ástfanginn eða eitthvað, fer hann aftur að hlæja. „Nei, það kom síðar og hefur gert endalaust af hlutum fyrir mig líka,“ segir hann og brosir út að eyrum.

„Ég veit eiginlega ekki alveg hvað gerðist en í októbermánuði 2014 ákvað ég, meira í gríni en alvöru, að taka þátt í Meistaramánuði, sem er reyndar konsept sem ég hef gert grín að í gegnum tíðina. Það bara virtist ekki óyfirstíganlegt að borða ekki ógeðslega óhollan mat eða nammi og drekka ekki sykrað gos í einn mánuð. Það gekk upp en þegar þú ert svona feitur og færð þér til dæmis epli í staðinn fyrir Snickers í vinnunni hafa allir skoðun á því og vilja endilega ræða það við þig, sem er það versta sem fólk í minni stöðu getur lent í. Ég veit að þetta er vel meint og fólk er boðið og búið til að hjálpa þér og styðja þig, en maður þarf ekki komment á hvern einasta hlut sem maður gerir ef maður er að reyna að taka sig á. Þetta var auðveldara undir yfirskininu Meistaramánuður. Það kostaði færri komment frá fólkinu í kring sem var gott, maður vill byrja þessa ferð með sjálfum sér.“

„Það gekk upp en þegar þú ert svona feitur og færð þér til dæmis epli í staðinn fyrir Snickers í vinnunni hafa allir skoðun á þv.“

Til að gera langa sögu stutta þá gekk Tómasi ágætlega að halda sig frá óhollustunni í einn í mánuð þannig að hann ákvað að framlengja Meistaramánuðinn einn mánuð í einu þangað til hann var búinn með eitt meistaraár, tók mataræðið í gegn, hætti að borða sælgæti og drekka gos á kvöldin og, eins og hann segir sjálfur, fór bókstaflega að geta gengið aftur án þess að þurfa að setjast og hvíla sig eftir 50-60 metra. Hann segir kílóin ekki hafa hrunið af sér en honum hafi liðið betur og líkaminn hafi verið betur á sig kominn. Það sem gerði svo útslagið var að hann komst að sem hugsanlegur kandidat í magaermisaðgerð, sem honum hafði árið áður verið neitað um á þeim forsendum að hann væri of feitur.

„Það voru mjög erfið skilaboð að vera sagt að maður væri of feitur til að geta fengið hjálp við offitu,“ segir hann. „Ég harðneitaði fyrst að fara aftur til læknisins, sagði við foreldra mína sem höfðu sett þetta ferli aftur í gang, að ég væri bara enn þá svo brenndur eftir höfnunina frá honum, ég gæti ekki meðtekið aðra höfnun. Þau ráku mig samt til hans og þótt ég væri ekki búinn að losna við nema tíu kíló og væri því enn of þungur til að fara í aðgerðina sjálfa sagði hann að þetta liti mun betur út. Ég fékk bolta með vatni í magann og var með hann í tvo mánuði, missti tuttugu kíló og var þá gjaldgengur í aðgerðina sem ég fór í í mars 2016. Síðan hafa kílóin bara verið á strauinu niður.“

„Sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat

Spurður hver stærsta breytingin sé eftir að kílóin fuku dæsir Tómas og segir að það sé einfaldlega allt. Hann hafi til dæmis getað farið til útlanda í fyrsta skipti í mörg ár og nú geti hann gengið um allt, hafi til dæmis gengið 16 kílómetra á einum degi í New York fyrir skömmu. Mesta breytingin sé þó kannski sú að þurfa ekki lengur að vera að fela vandann og ljúga því að fólkinu sínu að hann sé að taka sig á.

Fáir hafa gert meiri breytingar á lífi sínu og Tómas. Árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en í dag er hann 105 kíló og í fínu formi.

„Ég var alltaf að ljúga því að ég væri að gera eitthvað í þessu,“ segir hann. „Það er mjög erfitt að vera í endalausum blekkingaleik, aðallega við sjálfan sig auðvitað, en líka þá sem standa manni næst. Lygar og feluleikir eru algjörlega órjúfanlegur hluti af fíknihegðuninni og það er alveg ótrúlegt hvað það er erfitt að fá hjálp við matarfíkn. Ég vona samt að það sé komið eitthvað lengra núna en það var á þeim árum. Ég fór endalaust til næringarfræðinga og lækna sem allir höfðu sína lausn á vandamálinu og ég get alveg sagt að ég var í undirbúningsvinnu fyrir þetta í tuttugu ár. Ég vissi alltaf hverjar hætturnar voru og hvað gæti gerst, var búinn að fá allar upplýsingar um hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að nærast, ég bara fór aldrei eftir því sem mér var sagt fyrr en ég loksins tók mig á.“

Komum aftur að því hver er stærsta breytingin?

„Já, á rosalega skömmum tíma var ég farinn að geta gert alls konar hluti sem ég hafði ekki getað áður,“ útskýrir Tómas. „Ég hafði til dæmis ekki getað farið í vinnuferðir til útlanda síðan 2008 þegar ég fór á EM í Frakklandi 2016. Ég hafði bara einu sinni á þeim tíma farið í flug, í afmælisferð með pabba til Manchester 2014. Ég var bara fangi á Íslandi. Síðan ég fór í aðgerðina hef ég farið í endalausar flugferðir, bæði vegna vinnunar og til að skemmta mér með kærustunni. Og ég get gengið.

„Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat.“

Ég veit ekki hvort nokkur maður áttar sig á því hvernig það er að geta ekki labbað nema 60 metra í einu og geta ekki staðið í lappirnar meira en fjórar mínútur í einu án þess að þurfa að setjast, þannig að mér finnst næstum því eins stórkostlegt að geta gengið um allt eins og að sjá alla þessa stórkostlegu staði. Svo er ég náttúrlega kominn með minn eigin sjónvarpsþátt sem ég hélt að myndi aldrei gerast, það var verið að kaupa mig í aðra vinnu og ég er kominn í sambúð. Þannig að hlutirnir hafa gengið alveg rosalega hratt fyrir sig eftir að ég loksins komst í stand til að gera venjulega hluti í lífinu, ná frama í vinnunni og verða ástfanginn til dæmis. Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat, þannig að markmiðið er að reyna að gera eitthvað af viti á þessum blessaða fertugsaldri.“

Bara pláss í íþróttahjartanu fyrir Víking

En kom aldrei neitt annað starf til greina?

Hefurðu ekki áhuga á neinu nema íþróttum?„Eh, nei, eiginlega ekki,“ segir Tómas og skellihlær. „En ég hef áhuga á eiginlega öllum íþróttagreinum og þær eru ansi margar. Íþróttir eru mínar ær og kýr og ég veit alveg ótrúlega mikið um þær. Ég geri ekki upp á milli íþróttagreina, ef einhver getur unnið í leiknum þá hef ég áhuga.“

Íslenskum íþróttafréttamönnum er stundum legið á hálsi fyrir að halda með ákveðnum liðum í enska boltanum og ég dreg þá ályktun af sögu Tómasar um flugferðina til Manchester að hann sé stuðningsmaður Manchester United. Hann neitar því ekki, en segist þó alls ekki vera einhver eldheitur stuðningsmaður liðsins. „Það halda til dæmis margir að ég haldi með Southampton,“ segir hann sposkur. „Ég hef aldrei verið svo mikill stuðningsmaður að það hafi farið í taugarnar á fólki þegar ég er að lýsa leikjum. Ég hef bara pláss í íþróttahjartanu til að vera sturlaður stuðningsmaður eins liðs og það er Víkingur. Það er nógu mikil sorg og lítið af gleði hjá stuðningsmönnum þess liðs, þannig að ég hef einhvern veginn hvorki hjarta né taugar í það að hella mér út í stuðning við fótboltalið í útlöndum.“

Tómas er enn á Stöð 2 Sport, eins og fyrr segir, og verður þar fram í lok maí en þá fer hann yfir til Símans og hefur undirbúning að upphafi útsendinga á enska boltanum í byrjun ágúst. Eitthvað sem við getum öll hlakkað til.

 Myndir / Hákon Davíð Björnsson

„Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir“

Íslenskur karlmaður og 15 ára sonur hans voru hætt komnir þegar þeim var byrlað ólyfjan og þeir rændir um hábjartan dag á Tenerife fyrir skemmstu. Þeir rönkuðu við sér lemstraðir og minnislausir við ruslagám nokkru síðar.

Mannlíf ræddi við manninn sem féllst á að segja sögu sína en óskaði þess að nöfn þeirra feðga kæmu ekki fram að tillitsemi við son hans. Maðurinn segir að um ósköp venjulegan dag hafi verið að ræða, þeir hafi verið að rölta í rólegheitunum heim af ströndinni þegar þeir ákváðu að tylla sér á matsölustað og fá sér hressingu. „Við gengum eftir götu sem heitir Veronicas en þar eru til dæmis matsölustaðir og skemmtistaðir,“ útskýrir maðurinn.

Feðgarnir stöldruðu við á matsölustað sem heitir Joyce og settust við borð á útisvæði staðarins og pöntuðu sér gosdrykki. Maðurinn segir að næstu staðir hafi til dæmis verið Subway og KFC, þarna hafi verið fólk á öllum aldri, niður í sjö ára börn, og þeim hafi því ekki þótt ástæða til að óttast. Ekkert hafi bent til annars en að þeir væru á öruggum stað. Það hafi þó breyst á augabragði.

„Þegar við höfðum fengið okkur sopa af drykkjunum þá munum við ekki eftir að hafa lagt glösin aftur niður og það verður bara allt svart í minninu. Við munum þó báðir eftir fjólubláu ljósi þar sem við liggjum á dýnum.“

„Við keyptum gleraugu af götusala beint fyrir framan staðinn. Síðan settumst við og fengum drykkina okkar,“ segir maðurinn og bætir við að skyndilega hafi allt orðið svart. „Þegar við höfðum fengið okkur sopa af drykkjunum þá munum við ekki eftir að hafa lagt glösin aftur niður og það verður bara allt svart í minninu. Við munum þó báðir eftir fjólubláu ljósi þar sem við liggjum á dýnum,“ útskýrir hann en hvorugur þeirra feðga gat hreyft legg eða lið meðan á þessu stóð. Maðurinn segir að eina hugsunin sem komst að hjá sér hafi verið hvar sonur hans væri. Hann hafi reynt að lyfta upp höndunum en ekki getað það. „Svo man ég að það kom einhver og sagði mér að halda áfram að sofa.“

Þegar feðgarnir komust til meðvitundar um fjórum klukkustundum seinna hafði þeim verið kastað eins og hverju öðru rusli á bak við ruslagám, búið að taka af þeim um 80 þúsund í peningum, greiðslukort sem þjófarnir náðu að taka 50 þúsund út af, síma og önnur verðmæti. Þeir voru mjög illa áttaðir þegar þeir rönkuðu við sér. „Strákurinn minn var með sár á líkamanum, rispaður í framan og bólginn á höndum eins og hann hafi eitthvað reynt að verjast,“ rifjar maðurinn upp og segir þá feðga í kjölfarið hafa farið á hótelið. Lögregla hafi verið kölluð á vettvang, en þeir feðgar hafi hins vegar verið svo ringlaðir þegar þeir tilkynntu árásina að lögreglan taldi að þeir væru í vímu og bað þá um að koma síðar í skýrslutöku.

„Lögreglan útskýrði fyrir okkur að okkur hefði verið byrlað eitur sem kallast burundanga og setti allt af stað til að finna ódæðismennina.“

„Við fórum þá á sjúkrahúsið í blóðtökur og myndatökur þar sem staðfest var að okkur hafði verið byrlað eitur. Starfsfólk sjúkrahússins leit málið alvarlegum augum og vildi í kjölfarið halda okkur í sólarhring. Við fórum því aftur á fund lögreglunnar sem tók málið einnig mjög alvarlega. Lögreglan útskýrði fyrir okkur að okkur hefði verið byrlað eitur sem kallast burundanga og setti allt af stað til að finna ódæðismennina. Þetta var umfangsmikil aðgerð, við sáum það,“ lýsir maðurinn hrærður. Hann bætir við að Sigvaldi Kaldalóns og Halla Birgisdóttir, fararstjórar hjá VITA-ferðaskrifstofu, hafi aðstoðað þá feðga í gegnum allt ferlið, útvegað túlk og veitt þeim góðan stuðning. „Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir.“

„Fátt leiðinlegra en þegar allir eru eins“

|
Helga Katrín Stefánsdóttir við dragsterinn Batman. Ingólfur Arnarsson er eigandi þessa tryllitækis. Vélin er 11

Fatahönnuðurinn og Austfirðingurinn Stefán Svan Aðalheiðarson er mikill fagurkeri og svo sannarlega með puttann á púlsinum þegar kemur að tísku.

Stefán Svan er annar eigandi Stefánsbúðar/p3 sem hefur verið starfandi síðan 2017 og er staðsett í Ingólfsstræti 2b.

„Við bjóðum upp á vöru sem okkur finnst einfaldlega frábær og það sem ekki fæst annars staðar. Seljum vörur frá danska hönnuðinum Henrik Vibskov og frá Katharine Hamnett sem er bresk. Erum svo með vel valda vintage-merkjavöru á efri hæðinni og blöndu af nýjum og skemmtilegum aukahlutum, sokkum, sólgleraugum og skarti,“ lýsir hann.

Eitt af því sem fylgir því að reka tískuvöruverslun er að fara reglulega á sýningar erlendis. Stefán segir að það skemmtilegasta og mest gefandi við þessar ferðir séu löngu dagarnir sem fari í innkaup.

„Í þessum ferðum hittir maður skemmtilegt fólk sem maður hefur myndað tengsl við í gegnum innkaup og maður fær alltaf innblástur og nýjar hugmyndir. En þessar ferðir eru þó ekki eins „glamorous“ og sumir ímynda sér. Þetta snýst ekki bara um glæsilegar tískusýningar, kampavín og kavíar, heldur er maður á hlaupum á milli funda og sýninga. Þetta er heljarinnar vinna.“

„Margt ungt fólk í dag er alveg frábært og hugsar mikið um hvaðan hlutirnir koma og hvað verður um það sem við látum frá okkur.“

Hann segir að fatabransinn á Íslandi sé sömuleiðis erfiður og að mikil vinna fari í að halda úti fatamerki. „Það hafa nú oft áður verið fleiri íslenskir hönnuðir starfandi en akkúrat núna,“ segir hann. „Margt ungt fólk í dag er alveg frábært og hugsar mikið um hvaðan hlutirnir koma og hvað verður um það sem við látum frá okkur. Ég kann líka vel við að það sé verið að blanda saman stílum alveg óhikað og að fólk prófi sig áfram, enda fátt leiðinlegra en þegar allir eru eins.“

Alltaf haft áhuga á tísku

Hefurðu alltaf verið áhugasamur um tísku?

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að spá í hverju aðrir voru. Skóna og kjólana sem mamma átti en hún saumaði mikið á okkur krakkana. Mamma hefur næmt auga fyrir öllu fallegu og hún kenndi mér allt sem ég kann. Ég prófaði ýmislegt þar til ég dreif mig í fatahönnunarnám og þá var ekki aftur snúið,“ svarar hann og bætir við að það sem heilli hann einna helst við tísku sé hvernig hún geti látið fólki líða.

„Mér finnst líka tískan hverju sinni heillandi. Áhugavert hvernig hönnuðir í dag túlka strauma og stefnur og gaman að fylgjast með hvernig fortíðin hefur áhrif á tískuna núna án þess að hún verði endilega „copy/paste“.“

Spurður hvað hann telji að verði heitt í sumar og hvað honum finnist vera út úr kú í tískubransanum segist Stefán vera lítið gefinn fyrir „trend“. „Trendmiðuð fyrirtæki eru að verða alveg „off“ í bransanum og eins að huga ekki að manngæsku og sjálfbærni. En það verður klárlega heitt í sumar,“ segir hann og hlær.

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Brynjar Snær

 

 

Skoffín bjargar heiminum – útgáfutónleikar

Fyrr í apríl sendi hljómsveitin Skoffín frá sér plötuna Skoffín Bjargar Heiminum. Í dag föstudaginn 26. apríl verður haldið upp á áfangann með útgáfutónleikum í Tjarnarbíói.

Einnig koma fram Szymon Keler, Ásta og Spaðabani, þannig að það má aldeilis búast við fjöri. Húsið verður opnað klukkan 19, en ókeypis er inn og allir velkomnir.

Hellingur af afsökunarbréfum…

|||
|||

Það er eitthvað að gerast í Arion banka

|
Arion

Miklar breytingar hafa orðið hjá stærsta bankanum sem er einkaeigu á skömmum tíma. Innlendir einkafjárfestar, með sögu sem teygir sig aftur fyrir bankahrun, eru orðnir stórir eigendur í Arion banka.

Á síðustu vikum hefur framkvæmdastjóri sjóðsstýringarfyrirtækis bankans hætt, skipt hefur verið um stjórnarformann og nýlega sagði bankastjórinn upp. Mestu hræringar í íslensku fjármálakerfi frá hruni eru að eiga sér stað.

Í vik­unni áður en Hösk­uldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, til­kynnti um afsögn sína ákvað Kaup­þing, stærsti eig­andi bank­ans, að selja tíu pró­sent hlut í honum í lok­uðu útboði. Stoð­ir, sem einu sinni hétu FL Group, keyptu stóran hluta af því hlutafé auk þess sem Íslands­banki keypti umtals­verðan hlut fyrir við­skipta­vini sína í fram­virkum samn­ing­um.

Til við­bótar við þessi tíu pró­sent seldi Kaup­þing ehf., félag utan um eft­ir­stand­andi eignir þrota­bús bank­ans sem féll með látum í októ­ber 2008, einnig fimm pró­sent hlut til vog­un­ar­sjóðs­ins Taconic Capital á 6,5 millj­arða króna.

Mikið er rætt um hvað sé framundan í Arion banka. Margir viðmælenda Kjarnans, bæði innan fjármálakerfisins og innan stjórnsýslunnar, telja að í bígerð séu tilraunir til að sameina Kviku banka við Arion banka. Þær hugrenningar eru rökstuddar með því að stutt sé á milli margra hluthafa í bönkunum tveimur.

Lestu ítarlega fréttaskýringu um málið á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Framtíðarlausnir sem geta breytt heiminum

Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðalinn hérlendis sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Tíu spennandi teymi frumkvöðla voru valin úr hópi rúmlega sjötíu umsókna.

Á Íslandi má finna ótrúlega hugmyndauðgi í nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi, tveimur af grunnstoðum íslensks atvinnulífs, að sögn Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur, verkefnastjóra hjá Icelandic Startups.

Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðalinn hérlendis sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi en tíu teymi frumkvöðla voru valin úr hópi rúmlega sjötíu umsókna. „Við val á teymum skiptu tveir þættir mestu máli, nýnæmi vörunnar eða þjónustunnar og teymið sjálft. Það er nefnilega ekki nóg að vera með góða hugmynd heldur skiptir öllu að hafa gott þverfaglegt teymi á bak við hugmyndina svo hún vaxi, dafni og verði að veruleika.“

Stífar vikur fram undan

Viðskiptahraðallinn hófst í lok mars og stendur yfir til loka maí. „Þetta eru stífar níu vikur hjá frumkvöðlunum okkar sem innihalda m.a. sjö lotur af vinnusmiðjum og fundi með yfir 40 mentorum en þann hóp skipa stjórnendur, frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir sérfræðingar úr atvinnulífinu. Auk þess fá hóparnir fyrsta flokks vinnuaðstöðu í Íslenska ferðaklasanum úti á Granda. Hraðlinum lýkur svo 24. maí með uppskerudegi í Tjarnarbíói þar sem hóparnir munu kynna viðskiptahugmyndirnar sínar. Allt þetta, og raunar meira til, er þátttakendum að kostnaðarlausu.“

Fjölbreyttar lausnir

Icelandic Startups keyrir sambærilega viðskiptahraðla er snúa að stórum atvinnugreinum. „Þar er Startup Reykjavík sennilega sá þekktasti en hann einblínir á tækni og skapandi greinar. Einnig höldum við Startup Energy Reykjavik fyrir frumkvöðla í orkugeiranum og Startup Tourism fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu. Það lá því beinast við að setja á fót sams konar hraðal fyrir þessar tvær höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað. Það var krefjandi verkefni að velja úr þeim fjölda góðra umsókna sem við fengum en loks voru tíu teymi valin til þátttöku. Þrjú þeirra vinna að tæknilausnum en hin sjö eru afurðartengd og koma bæði úr landbúnaði og sjávarútvegi. Mér finnst ótrúleg breidd í þessum hópi og það verður sannarlega spennandi að sjá hvernig teymunum tíu tekst til.“

Öllu ferlinu hraðað

Til sjávar og sveita á að vera uppspretta nýrra vara og þjónustu og varpa ljósi á tækifærin sem felast í sjálfbærri nýtingu auðlinda á Íslandi að sögn Melkorku. „Helsta markmið hraðalsins er að hraða ferlinu frá hugmynd til fyrirtækis og hjálpa við að fullvinna vöru eða þjónustu. Það er mjög mikilvægt að hlúa að frumkvöðlum á þessu stigi en margir sprotar þurfa langan þróunartíma sökum nýnæmis hugmyndanna, jafnvel 5-10 ár. Með því að hraða og einfalda þetta ferli, sem er oft nógu flókið fyrir, leggjum við okkar að mörkum við að styðja við framtíðarlausnir sem sumar hafa jafnvel möguleika á að breyta heiminum.“

Djarfar hugmyndir virka vel

Það kemur vafalaust mörgum á óvart hversu mikil nýsköpun er í landbúnaði og sjávarútvegi hér á landi segir Melkorka. „Þar má m.a. nefna Jurt Hydroponics sem er að rækta íslenskt wasabi á Austfjörðum, Lava cheese er að framleiða lágkolvetna ostasnakk, Havarí býr til vegan-pulsur úr byggi og Kerecis er að nýta fiskiroð til að græða sár. Hér má finna mikið af ótrúlega spennandi hráefnum í bland við áræðna frumkvöðla með djarfar hugmyndir.“

Þýðir ekki að missa af byltingunni

Auk þess búum við yfir svo mörgu hér á landi til að geta brugðist við breyttum neysluvenjum bætir hún við. „Nýjar kynslóðir ýta á breytingar í neyslu á mat og matarvenjum sem hafa áhrif á framleiðslu um allan heim. Þar má nefna auknar kröfur um gegnsæi í framleiðslu og flutningsferli, minni neyslu á dýraafurðum út af umhverfissjónarmiðum, meiri sjálfbærni, áherslu á vörur úr nærumhverfi, lóðrétta ræktun og margt fleira. Ég vil líta á þetta sem ótrúlega spennandi tíma og við Íslendingar verðum að taka þátt og vera samkeppnishæfir á erlendum grundvelli. Það þýðir ekki að missa af þeirri tækni- og matvælabyltingu sem á sér stað um allan heim, við höfum nefnilega alla burði til að vera í fararbroddi þegar kemur að nýjungum og lausnum í þessum atvinnugreinum.“

Til sjávar og sveita viðskiptahraðallinn er haldinn í samstarfi við Íslenska Sjávarklasann og með stuðningi frá IKEA á Íslandi, Matarauði Íslands, HB Granda og Landbúnaðarklasans.

Nánari upplýsingar má finna á tilsjavarogsveita.is.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita

 

Vinkona mín gerir lítið úr mér

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég tilheyri stórum vinahópi sem hefur haldið saman lengi. Fimm okkar kynntust fyrst í barnaskóla en svo bættust við kærastar, kærustur og vinir vina þar til hópurinn þéttist og varð að þeim kjarna sem nú myndar hópinn. Mér hefur alltaf liðið vel með þessu fólki eða þar til síðastliðið ár. Þá byrjaði ein úr hópnum að gera stöðugt lítið úr mér fyrir framan hina og nú finnst mér ég ekki vita hvar ég hef neinn.

Í raun byrjaði þetta mun fyrr. Þegar ég hugsa til baka var hún alltaf að skjóta á mig en ég hló bara og svaraði henni. Hin hlustuðu ekki á hana og ég fann að ég hafði sterkari stöðu en hún innan hópsins. Mér hefur alltaf gengið vel bæði í skóla og vinnu en í fyrir um það bil einu og hálfu ári lenti ég í áfalli þegar mér var óvænt sagt upp vinnunni. Þetta kom mér mjög á óvart en ástæðan sem gefin var upp var skipulagsbreytingar. Ég leitaði mikið til minnar bestu vinkonu á þessum tíma en hún er nátengd þeirri sem hefur sýnt mér þessa leiðinlegu hegðun. Kannski var það kveikjan að þessum leiðindum.

Ég fékk aðra vinnu og náði mér smátt og smátt aftur á strik. Við hittumst oft og borðum saman þessi hópur minn og fljótlega fór ég að taka eftir að í hvert skipti sem ég sagði eitthvað greip þessi vinkona, Elsa, fram í ýmist til að bera á móti því sem ég sagði eða hreinlega talaði yfir mig eins og ég hefði ekki sagt neitt. Ef hún sá nokkuð færi á því gerði hún grín að einhverju í mínu fari eða útliti mínu.

Ég svaraði henni fáu til að byrja með en þegar þetta ágerðist fór ég að svara fullum hálsi. Sjaldnast nennti ég þó að eltast við leiðinleg fram í grip hennar og barnalegar tilraunir til að gera lítið úr mér. Svo fór mér að finnast þau hin taka upp hennar siði.

Enginn vill taka afstöðu

Kannski verður umkvörtunarefni mínu best lýst með því að segja frá matarboði fyrir tveimur vikum. Við komum saman heima hjá einum af strákunum og ég fór að segja fyndna sögu af samstarfsmanni mínum. Ég var ekki komin langt þegar Elsa byrjaði skyndilega að tala. Hún fór að lýsa aksturslagi einhvers bílstjóra sem hún hafði mætt á leiðinni og þegar ég reyndi að halda áfram hækkaði hún róminn. Þeir sem næstir okkur stóðu sneru sér að henni, hlustuðu á það sem hún sagði og hlógu með henni.

Ég gekk í burtu og settist hjá nokkrum öðrum og við spjölluðum góða stund.

Rétt áður en við stóðum upp til að ganga að matarborðinu nefndi ein af stelpunum bók sem hún var að lesa og fannst góð. Ég hafði lesið hana líka og sagði að mér hefði þótt endirinn óvenjulega góður og rakti hvernig ég túlkaði hann. Elsa kallaði þá yfir stofuna: „Nei, þetta er ekki rétt. Það var alveg augljóst að þetta fór á allt annan veg.“

Konurnar sem ég hafði verið að tala við ypptu öxlum og löbbuðu burtu. Annaðhvort hafa þær ekki nennt að standa í þrætum eða fundist ég hafa sagt eitthvað heimskulegt.

Svona gekk þetta allt kvöldið og mér var farið að líða mjög illa. Ég fór snemma heim og hef ekki hitt hópinn minn síðan. Í raun var ég farin að velta fyrir mér hvort ég ætti heima í þessum hópi. Ég hringdi í bestu vinkonuna eftir þetta kvöld og ræddi við hana um upplifun mína. Hún hafði ekki tekið eftir neinu, sagði hún en lofaði að hafa augu og eyru opin næst þegar við kæmum saman. Ég talaði líka við aðra úr hópnum, sumir höfðu orðið varir við þessa togstreitu milli mín og Elsu en sögðu að þeir vildu ekki blanda sér í málið vildu vera vinir okkar beggja. Þeir hvöttu mig til að ræða við Elsu og athuga hvort við gætum ekki fundið lausn. Ég gerði það en hún lést koma af fjöllum og alls ekki skilja hvað ég væri að fara. Skildi bara alls ekki hversu ofurviðkvæm ég væri.

Þannig standa málin núna, í einhverri pattstöðu og ég sé enga leið út. Í aðra röndina finnst mér ósanngjarnt að ég hrekist í burtu vegna leiðinda stæla í einni manneskju og finnst það ekki góðir vinir sem ekki eru tilbúnir að taka á einelti í sínum hópi.

„Ég var bara fangi á Íslandi“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tómas Þór Þórðarson hefur verið ráðinn til að stýra þætti um enska boltann hjá Sjónvarpi Símans. Hann segist vera ánægður með nýja starfið þótt hann sé í eðli sínu lítið gefinn fyrir breytingar. Fáir hafa hins vegar gert eins miklar breytingar á lífi sínu og Tómas sem hefur á fimm árum losnað við 120 kíló og líður miklu betur.

„Lygar og feluleikir eru algjörlega órjúfanlegur hluti af fíknihegðuninni og það er alveg ótrúlegt hvað það er erfitt að fá hjálp við matarfíkn. Ég vona samt að það sé komið eitthvað lengra núna en það var á þeim árum,“ segir Tómas Þór í opinskáu viðtali við Mannlíf sem kemur út á morgun. Þar ræðir hann meðal annars um þá miklu breytingu sem hefur átt sér stað í hans lífi eftir að hann grenntist.

„Á rosalega skömmum tíma var ég farinn að geta gert alls konar hluti sem ég hafði ekki getað áður,“ útskýrir Tómas.

„Ég hafði til dæmis ekki getað farið í vinnuferðir til útlanda síðan 2008 þegar ég fór á EM í Frakklandi 2016. Ég hafði bara einu sinni á þeim tíma farið í flug, í afmælisferð með pabba til Manchester 2014. Ég var bara fangi á Íslandi. Síðan ég fór í aðgerðina hef ég farið í endalausar flugferðir, bæði vegna vinnunar og til að skemmta mér með kærustunni. Og ég get gengið. Ég veit ekki hvort nokkur maður áttar sig á því hvernig það er að geta ekki labbað nema 60 metra í einu og geta ekki staðið í lappirnar meira en fjórar mínútur í einu án þess að þurfa að setjast, þannig að mér finnst næstum því eins stórkostlegt að geta gengið um allt eins og að sjá alla þessa stórkostlegu staði.

„Ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat.“

Svo er ég náttúrlega kominn með minn eigin sjónvarpsþátt sem ég hélt að myndi aldrei gerast, það var verið að kaupa mig í aðra vinnu og ég er kominn í sambúð. Þannig að hlutirnir hafa gengið alveg rosalega hratt fyrir sig eftir að ég loksins komst í stand til að gera venjulega hluti í lífinu, ná frama í vinnunni og verða ástfanginn til dæmis. Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat, þannig að markmiðið er að reyna að gera eitthvað af viti á þessum blessaða fertugsaldri.“

Ekki missa af Mannlífi á morgun.

Uppfært:
Lestu viðtalið við Tómas í heild sinni hérna: Var með eina og hálfa manneskju utan á sér

Stór hópur viðskiptavina vill plaströrin aftur

Um 38.000 manns hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem farið er fram á að skyndibitakeðjan McDonalds bjóði áfram upp á plaströr.

Forsvarsmenn McDonalds í Bretlandi og Írlandi ákváðu nýverið að skipta drykkjarrörum úr plasti út fyrir pappírsrör vegna pressu frá viðskiptavinum en ekki eru allir á eitt sáttir.

Mikil óánægja ríkir meðal stórs hóps viðskiptavina McDonalds vegna pappírsröranna sem boðið er upp á núna. Margt fólk vill meina að pappírsrörin leysist upp í drykkjunum.

Í frétt BBC kemur fram að McDonalds í Bretlandi noti 1,8 milljón rör hvern dag. Þetta er gríðarlegt magn og í ljósi þess sé sérstaklega mikilvægt að skipta plastinu út fyrir umhverfisvænni kost.

Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum síðan pappírsrörin voru tekin í notkun hjá keðjunni. Sumir eru óánægðir á meðan aðrir hrósa fyrirtækinu fyrir að taka skref í rétta átt.

https://twitter.com/meganmudiex/status/1120060323329990665

 

Þetta er mamma Gretu Thunberg

|||
Mynd t.h. / EPA|Andrew og Jeffrey Epstein voru vinir. Mynd / EPA|Andrew steig til hliðar frá opinberum skyldum innan konungsfjölskyldunnar í nóvember vegna tengsla sinna við Jeffrey Epstein. Mynd / EPA|epa07857637 Sixteen-year-old climate activist Greta Thunberg speaks at the Youth Climate Strike in Battery Park in New York

Móðir hinnar 16 ára Gretu Thunberg er söngkonan Malena Ernman. Þessi tengsl hafa vakið mikla athygli í dag.

Sænski umhverfissinninn Greta Thunberg hefur vakið mikla athygli undanfarið en hún er 16 ára og hefur farið reglulega í verkfall frá skólanum til að berjast fyrir aðgerðum í loftslagsmálum.

En það sem hefur vakið mikla athygli í dag er sú staðreynd að mamma Thunberg er söngkonan Malena Ernman sem keppti fyrir hönd Svíþjóðar í Eurovision árið 2009. Ernman er líka mikill umhverfissinni.

Framlag Ernman í Eurovision má sjá hér fyrir neðan.

Þessi fjölskyldutengsl hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum í dag og í gær.

 

Níu leiðir til að minnka plastnotkun

Plast eyðist ekki auðveldlega náttúrunni heldur safnast upp, mengar höf og lönd og hefur stórfelld áhrif á lífríki jarðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að endurvinna plast í stað þess að henda því í almennt rusl.

Einnig er vert að skoða leiðir til að minnka plastnotkun almennt í okkar daglega lífi. Með breyttum neysluvenjum getum við aukið framboð af umbúðalausri matvöru og jafnvel dregið úr framleiðslu á plasti, eða að minnsta kosti dregið úr óþarfa plastumbúðum.

1. Fjölnota innkaupapokar

Við vitum flest að við eigum að nota fjölnota innkaupapoka og þess vegna er merkilegt hversu margir reiða sig enn á plastpokana í matvöruverslunum. Hægt er að fá fjölnota poka sem pakkast saman í mjög litla einingu og sniðugt er að vera með þá á nokkrum stöðum; til dæmis í töskunni, hanskahólfinu í bílnum og úlpuvasanum.

Mikilvægast er þó að muna eftir að ganga frá pokanum og setja hann strax á sinn stað því annars er hætta á að þú gleymir honum.

2. Umbúðalaus matvæli

Eitt versta dæmi um ofnotkun á plasti er umbúðir utan um grænmeti, jafnvel það sem er í lausasölu. Margar búðir bjóða þó upp á gott úrval af umbúðalausum ávöxtum og grænmeti sem eru einnig lífræn í þokkabót.

Hægt er að kaupa sérstaka fjölnota grisjupoka undir ávexti og grænmeti sem er lítið mál að taka með sér í búðina. Sumar verslanir hafa þá selt hnetur, fræ, þurrkaða ávexti, olíur, krydd og fleira í lausu þannig að þú mætir með eigið ílát sem þú fyllir á. Ef slíkt hentar þér ekki er gott ráð að velja frekar vörur í pappírs- eða glerpakkningu.

Eitt versta dæmi um ofnotkun á plasti er umbúðir utan um grænmeti.

3. Taubleyjur á börnin

Talið er að hvert barn noti ríflega fimm þúsund bréfbleyjur á fyrstu árunum. Þessar einnota bleyjur fara svo í ruslið og enda á haugunum, en milli 5 og 10% sorps sem er urðað eru bréfbleyjur. Þó að þær kallist bréfbleyjur, innihalda þær plastefni og fleiri ónáttúruleg efni.

Það er því mun umhverfisvænna að nota svokallaðar taubleyjur og vinsældir þeirra hafa aukist til muna á síðustu árum. Upphafskostnaður þeirra er vissulega meiri en við hefðbundnar bréfbleyjur en þær er hægt að nota aftur og aftur – jafnvel fyrir fleiri en eitt barn.

4. Eldaðu frá grunni

Tilbúinn matur er yfirleitt í plastumbúðum og oftast eru þær umbúðir ekki endurnýtanlegar. Langbesta lausnin á þeim vanda að elda heima mat frá grunni, hvort sem það er í nesti eða kvöldmatinn.

Síðan er miklu betra fyrir heilsuna að borða mat sem hefur verið eldaður frá grunni því hann inniheldur engin rotvarnarefni eða slíkt. Gott er að fjárfesta í umhverfisvænu og eiturefnalausu nestisboxi til að nota ekki samlokupoka eða slíkt.

5. Drykkir á ferðinni

Það er mikilvægt að svala þorstanum reglulega. Við á Íslandi búum svo vel að geta fengið tandurhreint vatn beint úr krananum. Góð regla er að hafa alltaf fjölnota vatnsflösku við höndina, til dæmis á skrifborðinu í vinnunni og í bílnum, þá þarftu ekki að kaupa þér vatn eða gos í hvert skipti og þú finnur fyrir þorsta.

Kaffidrykkjufólk ætti einnig að fjárfesta í fjölnota kaffimáli því öll helstu kaffihús landsins afgreiða kaffipöntun þína beint í málið þitt og sum gefa meira að segja afslátt út á það.

6. Engin plaströr

Nú eru fjölmargar verslanir farnar að selja drykkjarrör úr pappír sem geta auðveldlega komið í staðinn fyrir þau úr plasti. Í nokkrum Evrópuborgum er nú hafði átak þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru hvattir til að skipta plaströrunum út fyrir pappír. Einnig er hægt er að kaupa fjölnota stálrör til að nota heimafyrir.

7. Pakkaðu inn í pappír

Smám saman getur þú skipt út matarfilmu og pokum fyrir vaxpappír. Á Netinu er hægt að panta fjölnota vaxpappír, ýmist úr býflugna- eða sojabaunavaxi. Hægt er að pakka slíkum pappír utan um samlokur og matarafganga sem þú ætlar að geyma í kælinum – pappírinn nýtist einnig fyrir mat sem á að fara í frystinn. Annað gott ráð er að setja matarafganga í fernur eftir að þú hefur skolað úr þeim.

8. Endurnýttu ílát

Hægt er að endurnýta ýmis plastílát sem matvæli koma í, til dæmis plastbox utan af sósum eða salati. Hreinsaðu ílátin þegar að þú klárar úr þeim og geymdu þau. Hægt er að nota þau til að geyma matarafganga eða undir nesti.

Víða erlendis er einnig hægt að nota slík ílát til að sækja mat í búðir, til dæmis kjöt eða fisk úr borði eða tilbúna rétti. Enn sem komið er leyfir heilbrigðiseftirlitið það ekki hér á landi en það mun vonandi breytast í framtíðinni.

9. Dagleg umhirða

Það er einnig fullt af plasthlutum sem við notum í okkar daglegu umhirðu sem við gætum hæglega skipt út fyrir aðra umhverfisvænni kosti. Til dæmis eru einnota rakvélar og rakvélarhausar úr plasti og í þeim felst mikil sóun.

Lítið mál er að kaupa góða, gamaldags rakvél sem tekur einföld rakvélarblöð, en þau blöð endast ekki bara lengur heldur eru mun ódýrari. Einnig er meirihluti tannbursa úr plasti og mælt er með að við skiptum um þá ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti – það gerir allavega fjóra tannbursta á ári.

Nú eru fáanlegir tannburstar úr bambus sem brotnar auðveldlega niður í náttúrunni, ólíkt plasti.

Veðrið aðalumræðuefnið á Twitter: „Það er búið að breyta veðurspá sumardagsins fyrsta“

Netverjar eru margir hverjir frekar svekktir yfir veðrinu í dag og vilja senda veðurfræðinga landsins í námskeið í væntingastjórnun.

Veðurfræðingar spáðu bongóblíðu í dag, sumardaginn fyrsta, og samkvæmt textaspá Veðurstofunnar í gær mátti búast við allt að 17 stiga hita í dag og  sól. En netverjar virðast eitthvað svekktir með veðrið ef marka má umræðuna á Twitter og vilja senda veðurfræðinga í væntingastjórnunarnámskeið.

Veðrið er aðalumræðuefnið á Twitter í dag, sumir eru vonsviknir á meðan aðrir halda í jákvæðnina.

„Í eldhúsinu mínu fá allir að spreyta sig og skapa alls konar listaverk“

Sævar Lárusson er yfirkokkur á Kol Restaurant og gerðist þar að auki meðeigandi að staðnum nýlega. Hann hefur, að eigin sögn, haft áhuga á matreiðslu síðan hann man eftir sér og er jafnduglegur að elda heima hjá sér og í vinnunni.

„Boltinn hefur rúllað ansi hratt síðan ég komst á samning á Hótel Sögu árið 2011,“ segir Sævar um bakgrunn sinn í matreiðslunni. „Ég hef verið á Kol síðan 2014, en ég var fyrsti neminn þar til að útskrifast með sveinspróf árið 2015. Á þeim tíma var ég orðinn vaktstjóri og yfirkokkurinn minn og meistari var þá Kári Þorsteinsson. Þegar hann ákvað að færa sig um set var mér boðin staðan sem yfirmatreiðslumaður. Þá dreif ég mig í Meistaraskólann og kláraði hann í byrjun 2018.“

Vinnudagurinn hefst á hókí-pókí

Sævar segir samvinnu vera lykilatriði í eldhúsinu. „Löngu vaktirnar og álagið sem fylgir þeim getur tekið á, þess vegna er mikilvægt að vera vel skipulagður og að vinnuumhverfið sé gott. Vinnudagurinn hefst á því að við tökum einn „hókí-pókí“ og förum yfir verkefni dagsins saman. Við borðum svo góðan staffamat áður en staðurinn opnar og byrjum að afgreiða seinnipartinn. Mér finnst mjög skemmtilegt og gefandi að framreiða góðan og fallegan mat, í eldhúsinu mínu fá allir að spreyta sig og skapa alls konar listaverk.“

Sævar segist vera alæta á mat en taco sé í miklu uppáhaldi hjá honum þessa dagana. „Mér finnst líka alltaf gaman að elda mismunandi rétti frá hinum og þessum heimshornum. Ég sé um eldamennskuna heima líka og oftast verða taco, taco-pítsur, pasta eða asískur matur fyrir valinu.“

Við fengum Sævar til að útbúa og gefa okkur uppskrift að þremur réttum af matseðli Kol.

Rauðrófu-carpaccio

Rauðrófu-carpaccio.

2 stk. rauðrófur
100 g furuhnetur
1 stk. appelsína
50 g klettasalat
4 stk. jarðskokkar
truffluolía
sjávarsalt
svartur pipar

Rauðrófurnar

Skerið aðra rauðrófuna örþunnt í mandólíni og hina í litla, óreglulega bita. Snöggsjóðið skífurnar og setjið þær í klakavatn svo þær verði ekki of mikið eldaðar. Blandið saman 1 hluta vatni, 1 hluta sykri og 1 hluta ediki og setjið í pott og sjóðið rauðrófubitana í því þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Furuhnetukrem

Setjið furuhnetur í pott með vatni, salti og smávegis sítrónusafa. Náið upp suðu og setjið því næst allt saman í blandara og maukið þar til áferðin er silkimjúk. Skerið appelsínuna í lauf. Klettasalatið er dressað upp með góðri jómfrúarólífuolíu og salti.

Yellowfin-túnfiskur 

Yellowfin-túnfiskur.

1 biti yellowfin-túnfiskur, u.þ.b. 500 g

Sinuhreinsið túnfiskinn og skerið hann í langa bita. Snöggbrennið eða snöggsteikið hann því næst á pönnu til þess að fá brúna húð utan á hann. Skerið hann næst í 1-2 cm þykkar, fallegar sneiðar. Dressið síðan eða dreypið ponzu-gjáa yfir bitana.

Vatnsmelóna

1 stk. vatnsmelóna
Skerið smásneið úr vatnsmelónunni og afhýðið. Skerið hana því næst í teninga.

Aioli

300 ml hvítlauksolía
100 ml eggjarauða

Útbúið majónes með því að setja eggjarauðurnar í skál, þeytið þær með písk þar til þær fara að þykkjast. Hellið hvítlauksolíunni varlega saman við í mjórri bunu og haldið áfram að þeyta þar til fer að myndast majónes. Hægt er að þynna það út með vatni eða sítrónusafa. Smakkið til með salti.

Kasjúhnetu- og trönuberjamauk 

100 g kasjúhnetur
100 g trönuber
100 ml rauðrófusafi
salt

Setjið kasjúhnetur og trönuber í pott með vatni, rauðrófusafa og salti. Sjóðið því næst allt í 5 mínútur og maukið síðan strax í blender og sigtið. Áferðin á að vera silkimjúk, smakkið til með salti.

Eldpiparsmarmelaði

2 stk. eldpipar
100 ml sykur
100 ml vatn

Setjið allt í pott, sjóðið í 10 mínútur og maukið.

Ponzu-gljái

100 ml sojasósa
1 stk. engifer
1 stk. sítróna
100 g sykur
sesamolía
bonito flakes

Blandið saman sojasósu, rifnu engifer, sesamolíu, sítrónusafa og bonito flakes og látið standa í 30 mínútur við stofuhita. Sigtið síðan gljáann og setjið strax inn í kæli.

Bonito-kex

Fletjið út brick-deig og setjið á bökunarpappír. Penslið með smávegis rauðrófusafa og stráið bonito-flögum yfir. Bakið við 180°C í 12 mínútur, án blásturs.

Kolaður lax

Kolaður lax.

1 flakaður lax, u.þ.b 2 kg
200 g sykur
200 g salt
rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu

Flakið laxinn og beinhreinsið, leggið flakið í bakka og blandið saman salti, sykri og rifnum sítrónuberki og stráið vel yfir laxinn. Látið laxinn liggja í maríneringunni í 25 mínútur. Skolið því næst flakið og þerrið. Skerið laxinn í nokkra um það bil 160 g skammta og setjið í vacum-poka.

Eldið laxinn medium rare í sous vide sem er stilltur á 48°C í 7 mínútur. Brennið hann með gasbrennara áður en hann er borinn fram.

Fennel-escabeche

3 stk. fennel
3 skalotlaukar
1 g saffran
300 ml hvítvínsedik
300 ml vatn
1 appelsína

Skerið fennelið og skalotlaukinn í þunnar sneiðar. Svitið í potti og bætið síðan hvítvínsediki og vatni út í og látið malla í um það bil 10 mínútur. Bætið síðan saffraninu saman við og safa úr einni appelsínu. Smakkið til með salti.

Granóla

100 g möndluflögur
100 g graskersfræ
100 g sólblómafræ
10 ml hlynsíróp
10 ml repjuolía
100 g þurrkuð trönuber

Blandið öllu saman og setjið á bökunarpappir í ofnskúffu. Bakið við 160°C í 20 mínútur og hrærið í með 5 mínútna millibili til að fá jafna brúnun. Þegar búið er að elda granólað, látið það standa í nokkrar mínútur. Setjið það því næst í skál og myljið niður, bætið þurrkuðum trönuberjum við.

Dill hollandaise

4 egg
300 ml dillolía
100 ml jómfrúarólífuolía
12 g salt
12 ml Xeres-edik

Nauðsynlegt er að nota qisac-sprautu og 2 gashylki.

Setjið allt í blandara og maukið vel. Hellið því næst blöndunni yfir í qisac-sprautu og tveimur gashylkjum skotið inn í. Hristið vel fyrir notkun.

Myndir / Hallur Karlsson

Forvitnilegur hljóðheimur sem auðvelt er að sogast inn í

Tónlistarkonan MSEA var að senda frá sér plötuna Hiding under things en platan inniheldur fjögur frumsamin lög.

Hljóðhemur MSEA er virkilega forvitnilegur og stór sem auðvelt er að sogast inn í. Hiding under things en ferðalag frá byrjun til enda en þegar fjórða og síðasta lagið er á enda er gott að skella á „repeat.”

MSEA eða Maria Carmela eins og margir kalla hana mun halda tónleika á morgun, föstudaginn 26. apríl, á Loftinu undir yfirskriftinni Can’t think just feel #4 // White Teeth og hefjast þeir stundvíslega klukkan 20:30.

Fram Cryptochrome,  K.óla og AXIS DANCEHALLog mælum við eindregið með að þið mætið og njótið.

„Engin tæknileg mistök hér“

Forstjóri Boeing segir að flugvélaframleiðandinn hafi ekki gert tæknileg mistök í hönnun 737 MAX-vélanna.

Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segir að það hafi ekki verið tæknileg mistök í hönnun 737 MAX-véla Boeing sem olli þeim tveimur mannskæðu flugslysum sem urðu í október og mars en slysin hafa verið rakin til bilunar í búnaði vélanna.

„Það eru engin tæknileg mistök hér,“ sagði Muilenburg í samtali við fjárfesta þegar hann kynnti fyrir þeim ársfjórðungsskýrslu Boeing í gær.

Hann viðurkenndi þó að skynjarar flugvélanna hefðu gefið stýrikerfi vélanna rangar upplýsingar þegar slysin tvö urðu. Þessar röngu upplýsingar munu hafa virkjað sjálfstjórnunarbúnað sem lét vélina taka dýfu þar sem talin var hætta á ofrisi.

Samt sem áður fullvissaði hann fjárfesta að 737 MAX-vélarnar væru öruggar. „Við þekkjum flugvélarnar okkar. Við skiljum hönnun vélanna, hvernig við fengum vottunina og við erum fullkomlega öruggir með þessa vöru,“ sagði hann einnig.

Sjá einnig: Boeing glatar traustinu

Miðasala á Secret Solstice þrátt fyrir óvissu

Tveir mánuðir eru í Secret Solstice sem auglýst er að fari fram í Reykjavík. Samningur við borgina hefur ekki verið undirritaður og rekstraraðili hátíðarinnar hefur átt viðræður við bæjaryfirvöld í Ölfussi.

Stundin fjallar um málið í dag. Nýr rekstraraðili hátíðarinnar á að greiða 19 milljónir króna til að tryggja að hátíðin færi fram í Laugardalnum í lok júní eins og undanfarin ár. Samningurinn hefur ekki verið undirritaður og greiðslan ekki verið innt af hendi. Hins vegar er miðasala í fullri ferð.

Secret Solstice Productions ehf. hefur rekið hátíðina hingað til en er ógjaldfært. Fjöldi listamanna og starfsmanna hafa ekki fengið greitt fyrir sína vinnu. Þungarokksveitin Slayer hefur stefnt aðstandendum auk þess sem skuld er hjá tollstjóra.

Sjúkraliðar gefast upp vegna álags

Alvarlegur sjúkraliðaskortur á heilbrigðisstofnunum veldur miklu álagi, aukinni kulnun og fjölmörgum dæmum um að fólk falli úr vinnu.

 

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir við Vísi á þirðjudag að kulnun meðal sjúkraliða hafi aukist. „Það er grafalvarleg staða í kerfinu vegna skorts á sjúkraliðum og hefur ekki tekist að fylla í allar þær stöður sem þörf er á, sem er mikið áhyggjuefni. Það vantar einkum sjúkraliða á Landspítalann og þá er alvarlegur skortur á hjúkrunarheimilum. Loks hefur sjúkraliðum fækkað á Landspítalanum sem er einnig mikið áhyggjuefni,“ sagði Sandra.

Hún segir að ástandið hafi alvarleg áhrif á þá sem nú starfa í faginu. „Vinnan verður erfiðari og þyngri og svo er gengið meira á fólk að taka aukavaktir sem veldur líka auknu álagi, Í svona ástandi finna fleiri fyrir kulnun en áður en við höfum fengið fjölmörg dæmi til okkar á skrifstofuna þar sem fólk er að detta úr vinnu vegna kulnunar,“ segir Sandra að lokum.

Fréttablaðið fjallar einnig um alvarlega stöðu mála í morgun. „Alls eru 2.100 sjúkraliðar starfandi á Íslandi í dag og er meðalaldurinn 47 ára. Samkvæmt mannaflaspá Embættis landlæknis frá árinu 2010 var gert ráð fyrir að þeir yrðu fleiri en 2.800 árið 2019. Er þá gert ráð fyrir 114 nýjum sjúkraliðum árlega til ársins 2030 en sú spá hefur ekki ræst til þessa. Aðeins um 60 af þeim sem útskrifast á hverju ári fara að starfa við fagið á sama tíma og 20 láta af störfum á ári sökum aldurs eða örorku. Það hefur leitt til þess að meirihluti þeirra sem starfa á öldrunarheimilum eru ófaglærðir. Sandra segir þörfina á sjúkraliðum ekki jafn sýnilega og þegar kemur að hjúkrunarfræðingum þar sem hjúkrunarfræðingar geti gengið í störf sjúkraliða en ekki öfugt. Ein birtingarmynd vandans er að skortur á sjúkraliðum eykur álagið á hjúkrunarfræðinga sem og annað samstarfsfólk.“

Kjarasamningar sjúkraliða losnuðu í lok mars 2019. Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) semur við fjóra aðila um kjarasamning, þ.e. fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV).

„Þeir þættir sem samið er um í kjarasamningunum snúa einkum að launataxta, vinnutíma, vaktaálagi, réttindum eins og veikindum, orlofi og uppsagnarfresti. Að auki er samið um almenn réttindi, starfsheiti, persónubundna þætti og launaröðun. Samhliða kjarasamningum við ríkið og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru stofnanasamningar sem fela í sér nánari útfærslu á kjarabundnum þáttum við hverja stofnun fyrir sig,“ samkvæmt upplýsingum á vef Sjúkraliðafélagsins.

Aðförin að sannleikanum

Leiðari

Eftir / Magnús Geir Eyjólfsson

Það voru ekki nema mínútur liðnar af forsetatíð Donalds Trump þegar fyrsta lygin var borin á borð. Fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins hélt því blákalt fram að aldrei hafi jafnmargir verið viðstaddir innsetningarathöfn forseta og þann daginn um leið og hann sakaði þá sem héldu öðru fram um að bera út falskar fréttir. Þetta fullyrti hann þrátt fyrir að sjónvarpsmyndir, talningar opinberra aðila og allar aðrar fyrirliggjandi staðreyndir sýndu svart á hvítu að þetta var fjarstæðukennt rugl. Könnun sem birtist nokkru síðar sýndi, þrátt fyrir allar fyrirliggjandi staðreyndir, að einungis 56 prósent Bandaríkjamanna  treysti sér til að fullyrða að þetta væri rangt. Þetta var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skyldi því fyrstu tvö ár hans í embætti hafði hann sett fram 8.158 rangar eða misvísandi fullyrðingar. Maðurinn sem skipar valdamesta embætti heims lýgur að meðaltali sex sinnum á dag!

Upplýsingabyltingin sem við upplifum hefur haft það í för með sér að sannleikurinn á undir högg að sækja. Skoðanir, sama hversu fjarstæðukenndar þær kunna að vera, eru farnar að hafa sama vægi og staðreyndir. Tilfinningar trompa rök. Þessi þróun hefur margar og alvarlegar afleiðingar. Ein sú alvarlegasta er að það molnar undan trausti í samfélaginu. Almenningur missir trú á stjórnmálin, kerfið, dómstólana, fjölmiðla og umfram allt náungann. Þegar maðurinn hættir að geta tekið mark á staðreyndum tekur eðlishvötin yfir. Þar er óttinn ríkjandi tilfinning.

Bæði á Íslandi og úti í heimi sjáum við hvernig lýðskrumarar spila á ótta fólks til að koma sjálfum sér og sinni ofstækisfullu hugmyndafræði á framfæri. Uppskriftin er alls staðar sú sama. Fyrst er að finna óvin sem hægt er að kenna um meinsemdir samfélagsins. Þetta geta verið pólitískir andstæðingar, embættismenn, fjölmiðlar eða, þeir sem oftast verða fyrir valinu, útlendingar. Þessi ímyndaði óvinur er ógn og hefur í hyggju að mergsjúga samfélagið og þeir einu sem geta stöðvað þessa ógn eru lýðskrumararnir sem vara við henni. Lyginni er dreift sem víðast og endurtekin nógu oft þannig að hún fer að hljóma eins og algildur sannleikur. Markmiðið er ekki alltaf að sannfæra fólk, heldur fá það til að efast um sannleikann.

Birtingarmyndirnar, stórar sem smáar, sjáum við víða. Forsetatíð Trumps og þjóðaratkvæðagreiðslan um Brexit eru einhvers konar árshátíðir að þessu leyti. Í Ungverjalandi situr ríkisstjórn sem hefur tekið yfir alla helstu fjölmiðla og fjöldaframleiðir samsæriskenningar í massavís. Það þarf ekki einu sinni ríkisstjórnir til. Víðs vegar um heiminn, í Svíþjóð til að mynda, spretta upp fjölmiðlar sem hafa það eitt að markmiði að ala á ótta gagnvart innflytjendum. Þessi sömu öfl afneita meira að segja viðteknum sannindum um hlýnun loftlags á jörðinni. Hér heima hafa ákveðnir aðilar séð sér hag í að reka fleyga í samfélagið undir flaggi þjóðernishyggju. Skólabókardæmi um þetta eru umræðan um þriðja orkupakkann og málefni hælisleitenda.

Svo virðist sem íslensk stjórnvöld séu meðvituð um vandamálið. Skipaður var starfshópur til að koma með tillögur um að efla traust á stjórnmálum og til stendur að efla rekstrarumhverfi fjölmiðla í því skyni að efla sjálfstæði þeirra. Eins góðar og þessar tillögur eru er hætt við að þær dugi skammt. Það þarf eitthvað mun meira og róttækara að koma til.

„Gaman að ganga á fjöll“

|
|

Þuríður Sigurðardóttir steig á svið í Bæjarbíói í Hafnarfirði í gærkvöldi og mun endurtaka leikinn í kvöld þar sem hún fagnar stórafmælum í lífi og söng. Þuríður sem nú er sjötug varð landsþekkt söngkona sextán ára gömul þegar hún söng með einni vinsælustu hljómsveit landsins, Lúdó sextett.

Síðan þá hefur hún komið fram með ýmsum hljómsveitum, við allskonar tilefni, sungið inn á fjöldamargar hljómplötur og komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Að auki hefur hún starfað sem flugfreyja, útvarpskona, unnið í verslun, verið í auglýsingabransanum og þula í sjónvarpi allra landsmanna. Rúmlega fimmtug útskrifaðist hún með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands og haslaði sér völl sem listmálari og hefur haldið fjölda málverkasýninga auk þess að kenna myndlist.

Þuríður á margar eftirminnilegar og góðar minningar frá ferlinum sem hún getur ekki gert upp á milli en segir okkur hér frá einni.

„Fyrsta kvöldið sem ég söng með Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu árið 1975 var löng röð gesta fyrir utan innganginn og þegar ég loks komst að útihurðinni stóð þar dyravörður, mikill að vexti  og spurði hvað ég vildi. Ég stóð þarna á síðum, flegnum kjól á hælaháum skóm og sagði: „Tja, ég er nú bara að mæta til vinnu.“ Hann mældi mig þá út frá toppi til táar og svaraði: „Jæja, og hvað þykist þú starfa hér á hótelinu?““ segir hún hlæjandi.

Hún segir að sá meðbyr sem hún hefur fundið og sá áhugi sem fólk hefur sýnt tónleikunum sé með ólíkindum. „Og fyrir mig, myndlistarmanninn, sem vinnur yfirleitt einn er hann eins og vítamínssprauta. Ég held ég geti líkt því við að standa á fjallstindi eftir góða göngu, sem hægt er að líkja við aðdragandann. Svo er það bara spurningin um hvernig manni líður á tindinum og hvort leiðin niður verði torveld. Mér finnst gaman að ganga á fjöll.“

Á tónleikunum fer hún í gegnum söngferilinn frá fyrstu tíð til þessa dags og dregur fram ótalmargar perlur sem hafa fylgt henni í gegnum tíðina. Með henni eru hljóðfæraleikararnir Pálmi Sigurhjartarson, Benedikt Brynleifsson, Gunnar Hrafnsson, Grímur Sigurðsson og Hjörleifur Valsson ásamt gestasöngvaranum Sigurði Helga Pálmasyni sem er sonur Þuríðar.

Myndir / Ragnheiður Arngrímsdóttir

Var með eina og hálfa manneskju utan á sér

|||
|16. tbl. 2019

Tómas Þór Þórðarson hefur verið ráðinn til að stýra þætti um enska boltann þegar Sjónvarp Símans tekur við útsendingum frá ensku deildunum í sumar. Hann segist vera ánægður með nýja starfið, þótt hann sé í eðli sínu lítið gefinn fyrir breytingar. Fáir hafa þó gert meiri breytingar á lífi sínu en hann undanfarin ár því árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en er í dag 105 kíló og í fínu formi. Hann segir breytinguna jafnast á við að losna úr fjötrum.

Tómas er heima að vaska upp þegar Mannlíf nær tali af honum en hann er enn í fullu starfi sem íþróttafréttamaður á Stöð 2 Sport og verður það fram á sumarið þegar hann flytur sig um set yfir á Símann.

„Ég fékk tilboð um að ritstýra enska boltanum hjá Símanum eftir að þeir keyptu réttinn á útsendingum. Enski boltinn hefur verið á Stöð 2 Sport ansi lengi og þeir hjá Símanum voru í leit að einhverjum til að vera aðallýsir og ritstýra enska boltanum. Eins og frægt er orðið leituðu þeir fyrst til Gumma Ben en það gekk ekki þannig að ég var næstur á blaði hjá þeim. Ég var ekkert ósáttur við það að vera „second choice“, ég get alveg sætt mig við það hlutskipti í lífinu að vera næstur á eftir Gumma Ben,“ segir Tómas og hlær.

Fékk ekki krónu fyrstu árin

Tómas hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni, byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings. En hvað kom til að hann tók þá ákvörðun að gera þetta að ævistarfi?

„Ég hef alltaf haft brjálaðan áhuga á íþróttum og ég held ég hafi alltaf vitað innst inni að þetta yrði framtíðarstarf mitt. Á þeim tíma var ekkert auðvelt að komast í starfið, held það sé auðveldara í dag, en þetta var árið 2007 og ég byrjaði með því að skrifa á fotbolti.net og hef haldið tryggð við þá síðan, meira að segja verið með útvarpsþátt í þeirra nafni í tíu ár. Ég fékk ekki krónu borgaða fyrstu árin en var mjög metnaðarfullur, mætti á alla landsleiki og fullt af öðrum leikjum og skrifaði um þá og þá fóru einhverjir að taka eftir mér. Ég átti ágætis félaga sem heitir Benedikt Bóas og þegar það losnaði staða hjá honum á DV 2008 fór ég þangað. Settist við skrifborð þar 2. janúar 2008 í mínu fyrsta starfi sem blaðamaður á launum og hef síðan verið í þessu starfi í rúm ellefu ár.“

Frá DV fór Tómas yfir á Morgunblaðið, þar sem hann var í rúm tvö ár en þá fékk hann tilboð um starf hjá Fréttablaðinu og þrátt fyrir að líka vel á Mogganum endaði með því að hann tók því. „Ég kunni vel við mig á Mogganum og ætlaði ekkert að fara þaðan en 365 miðlar sóttu hart að fá mig yfir til sín og buðu mér hærri laun, þannig að ég bað um mjög litla kauphækkun hjá Mogganum til að vera þar áfram en yfirmenn þar höfðu ekki þá framtíðarsýn að halda mér. Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma. Þannig að ég gekk þaðan út, svolítið vonsvikinn yfir því að þeir vildu ekki halda í mig, og fór yfir á Fréttablaðið og Vísi í byrjun febrúar 2014 og hef verið þar síðan. Fylgdi svo Vísis- og Stöðvar 2 Sport-pakkanum yfir til Sýnar.“

„Það var í rauninni allt gott á Mogganum nema æðstu yfirmenn á þeim tíma.“

Hvernig leggst í þig að skipta um vinnustað eftir svona langan tíma á sama stað?

„Ég er náttúrlega að fara inn í nýtt fyrirtæki, í nýjar höfuðstöðvar með nýju fólki, þannig að maður þarf að fara í nafnaleikinn aftur,“ segir Tómas og glottir. „Það leggst bara vel í mig þótt ég sé í grunninn enginn maður breytinga og finnist mjög þægilegt að vera í því sem ég þekki. Ef ég fengi alltaf að velja í lífinu vildi ég helst bara borða það sama, vinna við það sama og gera það sama. Þetta eru reyndar kannski smáýkjur en mér líður mjög vel þar sem ég er en svona gerast bara kaupin á eyrinni í þessum bransa og ég er mjög sáttur.“

Búinn að missa 120 kíló

Talandi um breytingar, fáir menn hafa breytt lífi sínu á eins róttækan hátt og Tómas hefur gert undanfarin ár. Átak í Meistaramánuði 2014 dróst á langinn og endaði með því að hann er búinn að missa 120 kíló. Það hljómar ekki eins og einhver sem er ekki hrifinn af breytingum. „Það er satt,“ segir hann. „Ég er ekki alveg sami maðurinn og ég var í október 2014, eiginlega bara allt annar maður, alla vega útlitslega. Ég held samt að ég hafi ekki breyst mikið sem persóna, nema eitthvað aðeins til batnaðar. Ég er alveg sami gæinn en lífið er hollara og töluvert bjartara eftir þessar breytingar.“

Tómas Þór hefur verið lengi í íþróttafréttamennskunni, en hann byrjaði strax á unglingsaldri að skrifa um leiki á heimasíðu síns félags, Víkings, og kemur nú til með að stýra þætti um enska boltann.

Spurður hvenær offitan hafi orðið vandamál fyrir hann veltir Tómas svarinu fyrir sér dágóða stund. „Ég hef oft pælt í því hvað má kalla vandamál,“ segir hann.

„Ég hef verið þybbinn eða feitur allt mitt líf, ég var voða sætur með krullur og svona þegar ég var lítill en alltaf bústinn. Svo man ég að tveir kennarar mínir höfðu orð á því í tíunda bekk að ég væri kannski orðinn of feitur. Það var í fyrsta sinn sem einhver skipti sér af því hvað ég þyngdist mikið. Þeir reyndu ekkert að leiðbeina mér, höfðu bara svona orð á þessu en ég lét það sem vind um eyru þjóta. Sem unglingur vann ég nokkur sumur hjá Vegagerðinni, þar sem pabbi minn var að vinna í um fjörutíu ár, og þar vann ég á risastóru plani sem lá í brekku þannig að ég þurfti mikið að rölta hingað og þangað til að sækja timbur, gera og græja. Þarna var ég um tvítugt og farinn að fá í bakið ef ég gekk mikið en ég tók það ekkert alvarlega og hélt bara áfram og áfram án þess að gera nokkuð í málinu, sama þótt foreldrar mínir og fleiri væru að reyna að hjálpa mér að gera breytingar. Vegna þess að ég tók þyngdaraukningunni ekki alvarlega varð ástandið að lokum grafalvarlegt, hélt bara áfram að versna næstu tíu árin þangað til ég var orðinn eins og lítil pláneta. Síðast þegar ég leit á vigtina áður en ég tók mig á var ég 225 kíló þannig að ég miða við það.“

Tómas upplýsir að í dag sé hann 105 kíló. Það eru sem sagt 120 kíló fokin, eins og áður segir, og hlæjandi segist Tómas nú ekki sakna þeirra mikið. „Ég sakna sumra hluta í mínu lífi en ég sakna ekki þessarar einu og hálfu manneskju sem ég bar utan á mér. Hins vegar verður maður ekki svona stjarnfræðilega stór án þess að glíma við hluti eins og matarfíkn og alveg ofsafengna leti þannig að ég segi stundum við kærustuna mína að ég sakni þess að geta ekki straujað niður einni 16 tommu pítsu eins og ekkert sé. Þetta er sagt bæði í gríni og alvöru en í raun og veru sakna ég þess ekki því ef ég hefði ekki farið í magaermiaðgerð og gæti enn þá borðað eins og ég borðaði áður þá væri ég ekki búinn að ná þessum árangri.“

„Var fastur inni í mér, horfandi út

Spurður hvort offitunni hafi fylgt þunglyndi, setur Tómas fyrirvara. „Ég vil ekki hafa orðið þunglyndi í flimtingum,“ segir hann. „Ég hef aldrei verið greindur með þunglyndi en auðvitað var maður andlega þungur. Sérstaklega árið 2014 þegar ég náði botninum. Allt það ár upplifði ég mikla vanlíðan, fór ekki á fætur fyrr en rétt áður en ég átti að mæta í vinnuna á kvöldvakt klukkan fjögur. Ég bara komst ekki fram úr rúminu og fannst allt voðalega ómögulegt. Ég lifi að stórum hluta fyrir íslenska fótboltann en var hættur að geta farið á völlinn. Það var algjör kvöl og pína að þurfa að horfa á leikina í sjónvarpinu eins og auli.“

Tómas segist ekki síst þakka hvatningu frá fólkinu í kringum hann að hann skyldi að lokum ákveða að prófa að taka mataræðið í gegn.

„Þessi mynd er tekin árið 2016, þá var ég búinn að missa 60 kíló.“

„Allt í kringum mig var fólk sem vissi hvað í mér bjó, hvað ég gat og get varðandi vinnuna. Alveg frá því að ég lýsti mínum fyrsta leik hef ég fundið hvað það á vel við mig og ég geri það vel, eins og sést kannski á því að nú er verið að kaupa mig til að lýsa enska boltanum sem tugþúsundir horfa á – svo eitthvað hef ég verið að gera rétt. Ég hef kannski ekki mesta sjálfstraust í heimi, út af mínum komplexum í gegnum tíðina. Ég var alltaf að líta í kringum sig til að gá hvort einhver væri að benda á mig eða tala um mig sem byggði upp óöryggi og gerði mér erfitt fyrir að vera eitthvað breimandi af sjálfstrausti út á við.

„Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló.“

En samt sem áður þá hef ég alltaf vitað að í þessum eina geira, að minnsta kosti, þá get ég fjallað og talað um íþróttir og lýst þeim. Ég hef það, en gat aldrei verið fyrir framan myndavél, bara lýst leikjum þar sem enginn möguleiki var á að ég þyrfti að vera í mynd. Það vill enginn horfa á mann sem er 225 kíló. Ég vissi samt að ég gat það og vissi líka að það voru fleiri á þeirri skoðun þótt ég væri ekki líkamlega í standi til þess. Það olli mér vanlíðan að vita hvað ég gat en þurfa að horfa á það líf sem ég gæti átt í gegnum einhverja rimla. Ég var bara fastur inni í mér, horfandi út. Og sem betur fer braust ég á endanum út og er núna með tvo sjónvarpsþætti auk þess að lýsa oft beinum útsendingum og hef átt alveg frábær ár undanfarið.“

Brenndur eftir fyrstu höfnunina

Þegar ég spyr Tómas hvað hafi að lokum ýtt honum út í að fara að gera eitthvað í sínum málum, hvort hann hafi orðið ástfanginn eða eitthvað, fer hann aftur að hlæja. „Nei, það kom síðar og hefur gert endalaust af hlutum fyrir mig líka,“ segir hann og brosir út að eyrum.

„Ég veit eiginlega ekki alveg hvað gerðist en í októbermánuði 2014 ákvað ég, meira í gríni en alvöru, að taka þátt í Meistaramánuði, sem er reyndar konsept sem ég hef gert grín að í gegnum tíðina. Það bara virtist ekki óyfirstíganlegt að borða ekki ógeðslega óhollan mat eða nammi og drekka ekki sykrað gos í einn mánuð. Það gekk upp en þegar þú ert svona feitur og færð þér til dæmis epli í staðinn fyrir Snickers í vinnunni hafa allir skoðun á því og vilja endilega ræða það við þig, sem er það versta sem fólk í minni stöðu getur lent í. Ég veit að þetta er vel meint og fólk er boðið og búið til að hjálpa þér og styðja þig, en maður þarf ekki komment á hvern einasta hlut sem maður gerir ef maður er að reyna að taka sig á. Þetta var auðveldara undir yfirskininu Meistaramánuður. Það kostaði færri komment frá fólkinu í kring sem var gott, maður vill byrja þessa ferð með sjálfum sér.“

„Það gekk upp en þegar þú ert svona feitur og færð þér til dæmis epli í staðinn fyrir Snickers í vinnunni hafa allir skoðun á þv.“

Til að gera langa sögu stutta þá gekk Tómasi ágætlega að halda sig frá óhollustunni í einn í mánuð þannig að hann ákvað að framlengja Meistaramánuðinn einn mánuð í einu þangað til hann var búinn með eitt meistaraár, tók mataræðið í gegn, hætti að borða sælgæti og drekka gos á kvöldin og, eins og hann segir sjálfur, fór bókstaflega að geta gengið aftur án þess að þurfa að setjast og hvíla sig eftir 50-60 metra. Hann segir kílóin ekki hafa hrunið af sér en honum hafi liðið betur og líkaminn hafi verið betur á sig kominn. Það sem gerði svo útslagið var að hann komst að sem hugsanlegur kandidat í magaermisaðgerð, sem honum hafði árið áður verið neitað um á þeim forsendum að hann væri of feitur.

„Það voru mjög erfið skilaboð að vera sagt að maður væri of feitur til að geta fengið hjálp við offitu,“ segir hann. „Ég harðneitaði fyrst að fara aftur til læknisins, sagði við foreldra mína sem höfðu sett þetta ferli aftur í gang, að ég væri bara enn þá svo brenndur eftir höfnunina frá honum, ég gæti ekki meðtekið aðra höfnun. Þau ráku mig samt til hans og þótt ég væri ekki búinn að losna við nema tíu kíló og væri því enn of þungur til að fara í aðgerðina sjálfa sagði hann að þetta liti mun betur út. Ég fékk bolta með vatni í magann og var með hann í tvo mánuði, missti tuttugu kíló og var þá gjaldgengur í aðgerðina sem ég fór í í mars 2016. Síðan hafa kílóin bara verið á strauinu niður.“

„Sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat

Spurður hver stærsta breytingin sé eftir að kílóin fuku dæsir Tómas og segir að það sé einfaldlega allt. Hann hafi til dæmis getað farið til útlanda í fyrsta skipti í mörg ár og nú geti hann gengið um allt, hafi til dæmis gengið 16 kílómetra á einum degi í New York fyrir skömmu. Mesta breytingin sé þó kannski sú að þurfa ekki lengur að vera að fela vandann og ljúga því að fólkinu sínu að hann sé að taka sig á.

Fáir hafa gert meiri breytingar á lífi sínu og Tómas. Árið 2014 var hann orðinn 225 kíló og átti erfitt með að hreyfa sig en í dag er hann 105 kíló og í fínu formi.

„Ég var alltaf að ljúga því að ég væri að gera eitthvað í þessu,“ segir hann. „Það er mjög erfitt að vera í endalausum blekkingaleik, aðallega við sjálfan sig auðvitað, en líka þá sem standa manni næst. Lygar og feluleikir eru algjörlega órjúfanlegur hluti af fíknihegðuninni og það er alveg ótrúlegt hvað það er erfitt að fá hjálp við matarfíkn. Ég vona samt að það sé komið eitthvað lengra núna en það var á þeim árum. Ég fór endalaust til næringarfræðinga og lækna sem allir höfðu sína lausn á vandamálinu og ég get alveg sagt að ég var í undirbúningsvinnu fyrir þetta í tuttugu ár. Ég vissi alltaf hverjar hætturnar voru og hvað gæti gerst, var búinn að fá allar upplýsingar um hvað ég ætti að gera og hvernig ég ætti að nærast, ég bara fór aldrei eftir því sem mér var sagt fyrr en ég loksins tók mig á.“

Komum aftur að því hver er stærsta breytingin?

„Já, á rosalega skömmum tíma var ég farinn að geta gert alls konar hluti sem ég hafði ekki getað áður,“ útskýrir Tómas. „Ég hafði til dæmis ekki getað farið í vinnuferðir til útlanda síðan 2008 þegar ég fór á EM í Frakklandi 2016. Ég hafði bara einu sinni á þeim tíma farið í flug, í afmælisferð með pabba til Manchester 2014. Ég var bara fangi á Íslandi. Síðan ég fór í aðgerðina hef ég farið í endalausar flugferðir, bæði vegna vinnunar og til að skemmta mér með kærustunni. Og ég get gengið.

„Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat.“

Ég veit ekki hvort nokkur maður áttar sig á því hvernig það er að geta ekki labbað nema 60 metra í einu og geta ekki staðið í lappirnar meira en fjórar mínútur í einu án þess að þurfa að setjast, þannig að mér finnst næstum því eins stórkostlegt að geta gengið um allt eins og að sjá alla þessa stórkostlegu staði. Svo er ég náttúrlega kominn með minn eigin sjónvarpsþátt sem ég hélt að myndi aldrei gerast, það var verið að kaupa mig í aðra vinnu og ég er kominn í sambúð. Þannig að hlutirnir hafa gengið alveg rosalega hratt fyrir sig eftir að ég loksins komst í stand til að gera venjulega hluti í lífinu, ná frama í vinnunni og verða ástfanginn til dæmis. Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat, þannig að markmiðið er að reyna að gera eitthvað af viti á þessum blessaða fertugsaldri.“

Bara pláss í íþróttahjartanu fyrir Víking

En kom aldrei neitt annað starf til greina?

Hefurðu ekki áhuga á neinu nema íþróttum?„Eh, nei, eiginlega ekki,“ segir Tómas og skellihlær. „En ég hef áhuga á eiginlega öllum íþróttagreinum og þær eru ansi margar. Íþróttir eru mínar ær og kýr og ég veit alveg ótrúlega mikið um þær. Ég geri ekki upp á milli íþróttagreina, ef einhver getur unnið í leiknum þá hef ég áhuga.“

Íslenskum íþróttafréttamönnum er stundum legið á hálsi fyrir að halda með ákveðnum liðum í enska boltanum og ég dreg þá ályktun af sögu Tómasar um flugferðina til Manchester að hann sé stuðningsmaður Manchester United. Hann neitar því ekki, en segist þó alls ekki vera einhver eldheitur stuðningsmaður liðsins. „Það halda til dæmis margir að ég haldi með Southampton,“ segir hann sposkur. „Ég hef aldrei verið svo mikill stuðningsmaður að það hafi farið í taugarnar á fólki þegar ég er að lýsa leikjum. Ég hef bara pláss í íþróttahjartanu til að vera sturlaður stuðningsmaður eins liðs og það er Víkingur. Það er nógu mikil sorg og lítið af gleði hjá stuðningsmönnum þess liðs, þannig að ég hef einhvern veginn hvorki hjarta né taugar í það að hella mér út í stuðning við fótboltalið í útlöndum.“

Tómas er enn á Stöð 2 Sport, eins og fyrr segir, og verður þar fram í lok maí en þá fer hann yfir til Símans og hefur undirbúning að upphafi útsendinga á enska boltanum í byrjun ágúst. Eitthvað sem við getum öll hlakkað til.

 Myndir / Hákon Davíð Björnsson

„Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir“

Íslenskur karlmaður og 15 ára sonur hans voru hætt komnir þegar þeim var byrlað ólyfjan og þeir rændir um hábjartan dag á Tenerife fyrir skemmstu. Þeir rönkuðu við sér lemstraðir og minnislausir við ruslagám nokkru síðar.

Mannlíf ræddi við manninn sem féllst á að segja sögu sína en óskaði þess að nöfn þeirra feðga kæmu ekki fram að tillitsemi við son hans. Maðurinn segir að um ósköp venjulegan dag hafi verið að ræða, þeir hafi verið að rölta í rólegheitunum heim af ströndinni þegar þeir ákváðu að tylla sér á matsölustað og fá sér hressingu. „Við gengum eftir götu sem heitir Veronicas en þar eru til dæmis matsölustaðir og skemmtistaðir,“ útskýrir maðurinn.

Feðgarnir stöldruðu við á matsölustað sem heitir Joyce og settust við borð á útisvæði staðarins og pöntuðu sér gosdrykki. Maðurinn segir að næstu staðir hafi til dæmis verið Subway og KFC, þarna hafi verið fólk á öllum aldri, niður í sjö ára börn, og þeim hafi því ekki þótt ástæða til að óttast. Ekkert hafi bent til annars en að þeir væru á öruggum stað. Það hafi þó breyst á augabragði.

„Þegar við höfðum fengið okkur sopa af drykkjunum þá munum við ekki eftir að hafa lagt glösin aftur niður og það verður bara allt svart í minninu. Við munum þó báðir eftir fjólubláu ljósi þar sem við liggjum á dýnum.“

„Við keyptum gleraugu af götusala beint fyrir framan staðinn. Síðan settumst við og fengum drykkina okkar,“ segir maðurinn og bætir við að skyndilega hafi allt orðið svart. „Þegar við höfðum fengið okkur sopa af drykkjunum þá munum við ekki eftir að hafa lagt glösin aftur niður og það verður bara allt svart í minninu. Við munum þó báðir eftir fjólubláu ljósi þar sem við liggjum á dýnum,“ útskýrir hann en hvorugur þeirra feðga gat hreyft legg eða lið meðan á þessu stóð. Maðurinn segir að eina hugsunin sem komst að hjá sér hafi verið hvar sonur hans væri. Hann hafi reynt að lyfta upp höndunum en ekki getað það. „Svo man ég að það kom einhver og sagði mér að halda áfram að sofa.“

Þegar feðgarnir komust til meðvitundar um fjórum klukkustundum seinna hafði þeim verið kastað eins og hverju öðru rusli á bak við ruslagám, búið að taka af þeim um 80 þúsund í peningum, greiðslukort sem þjófarnir náðu að taka 50 þúsund út af, síma og önnur verðmæti. Þeir voru mjög illa áttaðir þegar þeir rönkuðu við sér. „Strákurinn minn var með sár á líkamanum, rispaður í framan og bólginn á höndum eins og hann hafi eitthvað reynt að verjast,“ rifjar maðurinn upp og segir þá feðga í kjölfarið hafa farið á hótelið. Lögregla hafi verið kölluð á vettvang, en þeir feðgar hafi hins vegar verið svo ringlaðir þegar þeir tilkynntu árásina að lögreglan taldi að þeir væru í vímu og bað þá um að koma síðar í skýrslutöku.

„Lögreglan útskýrði fyrir okkur að okkur hefði verið byrlað eitur sem kallast burundanga og setti allt af stað til að finna ódæðismennina.“

„Við fórum þá á sjúkrahúsið í blóðtökur og myndatökur þar sem staðfest var að okkur hafði verið byrlað eitur. Starfsfólk sjúkrahússins leit málið alvarlegum augum og vildi í kjölfarið halda okkur í sólarhring. Við fórum því aftur á fund lögreglunnar sem tók málið einnig mjög alvarlega. Lögreglan útskýrði fyrir okkur að okkur hefði verið byrlað eitur sem kallast burundanga og setti allt af stað til að finna ódæðismennina. Þetta var umfangsmikil aðgerð, við sáum það,“ lýsir maðurinn hrærður. Hann bætir við að Sigvaldi Kaldalóns og Halla Birgisdóttir, fararstjórar hjá VITA-ferðaskrifstofu, hafi aðstoðað þá feðga í gegnum allt ferlið, útvegað túlk og veitt þeim góðan stuðning. „Við lifðum af og fyrir það erum við þakklátir.“

„Fátt leiðinlegra en þegar allir eru eins“

|
Helga Katrín Stefánsdóttir við dragsterinn Batman. Ingólfur Arnarsson er eigandi þessa tryllitækis. Vélin er 11

Fatahönnuðurinn og Austfirðingurinn Stefán Svan Aðalheiðarson er mikill fagurkeri og svo sannarlega með puttann á púlsinum þegar kemur að tísku.

Stefán Svan er annar eigandi Stefánsbúðar/p3 sem hefur verið starfandi síðan 2017 og er staðsett í Ingólfsstræti 2b.

„Við bjóðum upp á vöru sem okkur finnst einfaldlega frábær og það sem ekki fæst annars staðar. Seljum vörur frá danska hönnuðinum Henrik Vibskov og frá Katharine Hamnett sem er bresk. Erum svo með vel valda vintage-merkjavöru á efri hæðinni og blöndu af nýjum og skemmtilegum aukahlutum, sokkum, sólgleraugum og skarti,“ lýsir hann.

Eitt af því sem fylgir því að reka tískuvöruverslun er að fara reglulega á sýningar erlendis. Stefán segir að það skemmtilegasta og mest gefandi við þessar ferðir séu löngu dagarnir sem fari í innkaup.

„Í þessum ferðum hittir maður skemmtilegt fólk sem maður hefur myndað tengsl við í gegnum innkaup og maður fær alltaf innblástur og nýjar hugmyndir. En þessar ferðir eru þó ekki eins „glamorous“ og sumir ímynda sér. Þetta snýst ekki bara um glæsilegar tískusýningar, kampavín og kavíar, heldur er maður á hlaupum á milli funda og sýninga. Þetta er heljarinnar vinna.“

„Margt ungt fólk í dag er alveg frábært og hugsar mikið um hvaðan hlutirnir koma og hvað verður um það sem við látum frá okkur.“

Hann segir að fatabransinn á Íslandi sé sömuleiðis erfiður og að mikil vinna fari í að halda úti fatamerki. „Það hafa nú oft áður verið fleiri íslenskir hönnuðir starfandi en akkúrat núna,“ segir hann. „Margt ungt fólk í dag er alveg frábært og hugsar mikið um hvaðan hlutirnir koma og hvað verður um það sem við látum frá okkur. Ég kann líka vel við að það sé verið að blanda saman stílum alveg óhikað og að fólk prófi sig áfram, enda fátt leiðinlegra en þegar allir eru eins.“

Alltaf haft áhuga á tísku

Hefurðu alltaf verið áhugasamur um tísku?

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að spá í hverju aðrir voru. Skóna og kjólana sem mamma átti en hún saumaði mikið á okkur krakkana. Mamma hefur næmt auga fyrir öllu fallegu og hún kenndi mér allt sem ég kann. Ég prófaði ýmislegt þar til ég dreif mig í fatahönnunarnám og þá var ekki aftur snúið,“ svarar hann og bætir við að það sem heilli hann einna helst við tísku sé hvernig hún geti látið fólki líða.

„Mér finnst líka tískan hverju sinni heillandi. Áhugavert hvernig hönnuðir í dag túlka strauma og stefnur og gaman að fylgjast með hvernig fortíðin hefur áhrif á tískuna núna án þess að hún verði endilega „copy/paste“.“

Spurður hvað hann telji að verði heitt í sumar og hvað honum finnist vera út úr kú í tískubransanum segist Stefán vera lítið gefinn fyrir „trend“. „Trendmiðuð fyrirtæki eru að verða alveg „off“ í bransanum og eins að huga ekki að manngæsku og sjálfbærni. En það verður klárlega heitt í sumar,“ segir hann og hlær.

Texti / Sigrún Guðjohnsen
Mynd / Brynjar Snær

 

 

Skoffín bjargar heiminum – útgáfutónleikar

Fyrr í apríl sendi hljómsveitin Skoffín frá sér plötuna Skoffín Bjargar Heiminum. Í dag föstudaginn 26. apríl verður haldið upp á áfangann með útgáfutónleikum í Tjarnarbíói.

Einnig koma fram Szymon Keler, Ásta og Spaðabani, þannig að það má aldeilis búast við fjöri. Húsið verður opnað klukkan 19, en ókeypis er inn og allir velkomnir.

Hellingur af afsökunarbréfum…

|||
|||

Það er eitthvað að gerast í Arion banka

|
Arion

Miklar breytingar hafa orðið hjá stærsta bankanum sem er einkaeigu á skömmum tíma. Innlendir einkafjárfestar, með sögu sem teygir sig aftur fyrir bankahrun, eru orðnir stórir eigendur í Arion banka.

Á síðustu vikum hefur framkvæmdastjóri sjóðsstýringarfyrirtækis bankans hætt, skipt hefur verið um stjórnarformann og nýlega sagði bankastjórinn upp. Mestu hræringar í íslensku fjármálakerfi frá hruni eru að eiga sér stað.

Í vik­unni áður en Hösk­uldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, til­kynnti um afsögn sína ákvað Kaup­þing, stærsti eig­andi bank­ans, að selja tíu pró­sent hlut í honum í lok­uðu útboði. Stoð­ir, sem einu sinni hétu FL Group, keyptu stóran hluta af því hlutafé auk þess sem Íslands­banki keypti umtals­verðan hlut fyrir við­skipta­vini sína í fram­virkum samn­ing­um.

Til við­bótar við þessi tíu pró­sent seldi Kaup­þing ehf., félag utan um eft­ir­stand­andi eignir þrota­bús bank­ans sem féll með látum í októ­ber 2008, einnig fimm pró­sent hlut til vog­un­ar­sjóðs­ins Taconic Capital á 6,5 millj­arða króna.

Mikið er rætt um hvað sé framundan í Arion banka. Margir viðmælenda Kjarnans, bæði innan fjármálakerfisins og innan stjórnsýslunnar, telja að í bígerð séu tilraunir til að sameina Kviku banka við Arion banka. Þær hugrenningar eru rökstuddar með því að stutt sé á milli margra hluthafa í bönkunum tveimur.

Lestu ítarlega fréttaskýringu um málið á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Framtíðarlausnir sem geta breytt heiminum

Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðalinn hérlendis sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi. Tíu spennandi teymi frumkvöðla voru valin úr hópi rúmlega sjötíu umsókna.

Á Íslandi má finna ótrúlega hugmyndauðgi í nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi, tveimur af grunnstoðum íslensks atvinnulífs, að sögn Melkorku Sigríðar Magnúsdóttur, verkefnastjóra hjá Icelandic Startups.

Til sjávar og sveita er fyrsti viðskiptahraðalinn hérlendis sem einblínir á nýjar lausnir og sjálfbæra verðmætasköpun í landbúnaði og sjávarútvegi en tíu teymi frumkvöðla voru valin úr hópi rúmlega sjötíu umsókna. „Við val á teymum skiptu tveir þættir mestu máli, nýnæmi vörunnar eða þjónustunnar og teymið sjálft. Það er nefnilega ekki nóg að vera með góða hugmynd heldur skiptir öllu að hafa gott þverfaglegt teymi á bak við hugmyndina svo hún vaxi, dafni og verði að veruleika.“

Stífar vikur fram undan

Viðskiptahraðallinn hófst í lok mars og stendur yfir til loka maí. „Þetta eru stífar níu vikur hjá frumkvöðlunum okkar sem innihalda m.a. sjö lotur af vinnusmiðjum og fundi með yfir 40 mentorum en þann hóp skipa stjórnendur, frumkvöðlar, fjárfestar og aðrir sérfræðingar úr atvinnulífinu. Auk þess fá hóparnir fyrsta flokks vinnuaðstöðu í Íslenska ferðaklasanum úti á Granda. Hraðlinum lýkur svo 24. maí með uppskerudegi í Tjarnarbíói þar sem hóparnir munu kynna viðskiptahugmyndirnar sínar. Allt þetta, og raunar meira til, er þátttakendum að kostnaðarlausu.“

Fjölbreyttar lausnir

Icelandic Startups keyrir sambærilega viðskiptahraðla er snúa að stórum atvinnugreinum. „Þar er Startup Reykjavík sennilega sá þekktasti en hann einblínir á tækni og skapandi greinar. Einnig höldum við Startup Energy Reykjavik fyrir frumkvöðla í orkugeiranum og Startup Tourism fyrir frumkvöðla í ferðaþjónustu. Það lá því beinast við að setja á fót sams konar hraðal fyrir þessar tvær höfuðatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað. Það var krefjandi verkefni að velja úr þeim fjölda góðra umsókna sem við fengum en loks voru tíu teymi valin til þátttöku. Þrjú þeirra vinna að tæknilausnum en hin sjö eru afurðartengd og koma bæði úr landbúnaði og sjávarútvegi. Mér finnst ótrúleg breidd í þessum hópi og það verður sannarlega spennandi að sjá hvernig teymunum tíu tekst til.“

Öllu ferlinu hraðað

Til sjávar og sveita á að vera uppspretta nýrra vara og þjónustu og varpa ljósi á tækifærin sem felast í sjálfbærri nýtingu auðlinda á Íslandi að sögn Melkorku. „Helsta markmið hraðalsins er að hraða ferlinu frá hugmynd til fyrirtækis og hjálpa við að fullvinna vöru eða þjónustu. Það er mjög mikilvægt að hlúa að frumkvöðlum á þessu stigi en margir sprotar þurfa langan þróunartíma sökum nýnæmis hugmyndanna, jafnvel 5-10 ár. Með því að hraða og einfalda þetta ferli, sem er oft nógu flókið fyrir, leggjum við okkar að mörkum við að styðja við framtíðarlausnir sem sumar hafa jafnvel möguleika á að breyta heiminum.“

Djarfar hugmyndir virka vel

Það kemur vafalaust mörgum á óvart hversu mikil nýsköpun er í landbúnaði og sjávarútvegi hér á landi segir Melkorka. „Þar má m.a. nefna Jurt Hydroponics sem er að rækta íslenskt wasabi á Austfjörðum, Lava cheese er að framleiða lágkolvetna ostasnakk, Havarí býr til vegan-pulsur úr byggi og Kerecis er að nýta fiskiroð til að græða sár. Hér má finna mikið af ótrúlega spennandi hráefnum í bland við áræðna frumkvöðla með djarfar hugmyndir.“

Þýðir ekki að missa af byltingunni

Auk þess búum við yfir svo mörgu hér á landi til að geta brugðist við breyttum neysluvenjum bætir hún við. „Nýjar kynslóðir ýta á breytingar í neyslu á mat og matarvenjum sem hafa áhrif á framleiðslu um allan heim. Þar má nefna auknar kröfur um gegnsæi í framleiðslu og flutningsferli, minni neyslu á dýraafurðum út af umhverfissjónarmiðum, meiri sjálfbærni, áherslu á vörur úr nærumhverfi, lóðrétta ræktun og margt fleira. Ég vil líta á þetta sem ótrúlega spennandi tíma og við Íslendingar verðum að taka þátt og vera samkeppnishæfir á erlendum grundvelli. Það þýðir ekki að missa af þeirri tækni- og matvælabyltingu sem á sér stað um allan heim, við höfum nefnilega alla burði til að vera í fararbroddi þegar kemur að nýjungum og lausnum í þessum atvinnugreinum.“

Til sjávar og sveita viðskiptahraðallinn er haldinn í samstarfi við Íslenska Sjávarklasann og með stuðningi frá IKEA á Íslandi, Matarauði Íslands, HB Granda og Landbúnaðarklasans.

Nánari upplýsingar má finna á tilsjavarogsveita.is.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Til sjávar og sveita

 

Vinkona mín gerir lítið úr mér

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég tilheyri stórum vinahópi sem hefur haldið saman lengi. Fimm okkar kynntust fyrst í barnaskóla en svo bættust við kærastar, kærustur og vinir vina þar til hópurinn þéttist og varð að þeim kjarna sem nú myndar hópinn. Mér hefur alltaf liðið vel með þessu fólki eða þar til síðastliðið ár. Þá byrjaði ein úr hópnum að gera stöðugt lítið úr mér fyrir framan hina og nú finnst mér ég ekki vita hvar ég hef neinn.

Í raun byrjaði þetta mun fyrr. Þegar ég hugsa til baka var hún alltaf að skjóta á mig en ég hló bara og svaraði henni. Hin hlustuðu ekki á hana og ég fann að ég hafði sterkari stöðu en hún innan hópsins. Mér hefur alltaf gengið vel bæði í skóla og vinnu en í fyrir um það bil einu og hálfu ári lenti ég í áfalli þegar mér var óvænt sagt upp vinnunni. Þetta kom mér mjög á óvart en ástæðan sem gefin var upp var skipulagsbreytingar. Ég leitaði mikið til minnar bestu vinkonu á þessum tíma en hún er nátengd þeirri sem hefur sýnt mér þessa leiðinlegu hegðun. Kannski var það kveikjan að þessum leiðindum.

Ég fékk aðra vinnu og náði mér smátt og smátt aftur á strik. Við hittumst oft og borðum saman þessi hópur minn og fljótlega fór ég að taka eftir að í hvert skipti sem ég sagði eitthvað greip þessi vinkona, Elsa, fram í ýmist til að bera á móti því sem ég sagði eða hreinlega talaði yfir mig eins og ég hefði ekki sagt neitt. Ef hún sá nokkuð færi á því gerði hún grín að einhverju í mínu fari eða útliti mínu.

Ég svaraði henni fáu til að byrja með en þegar þetta ágerðist fór ég að svara fullum hálsi. Sjaldnast nennti ég þó að eltast við leiðinleg fram í grip hennar og barnalegar tilraunir til að gera lítið úr mér. Svo fór mér að finnast þau hin taka upp hennar siði.

Enginn vill taka afstöðu

Kannski verður umkvörtunarefni mínu best lýst með því að segja frá matarboði fyrir tveimur vikum. Við komum saman heima hjá einum af strákunum og ég fór að segja fyndna sögu af samstarfsmanni mínum. Ég var ekki komin langt þegar Elsa byrjaði skyndilega að tala. Hún fór að lýsa aksturslagi einhvers bílstjóra sem hún hafði mætt á leiðinni og þegar ég reyndi að halda áfram hækkaði hún róminn. Þeir sem næstir okkur stóðu sneru sér að henni, hlustuðu á það sem hún sagði og hlógu með henni.

Ég gekk í burtu og settist hjá nokkrum öðrum og við spjölluðum góða stund.

Rétt áður en við stóðum upp til að ganga að matarborðinu nefndi ein af stelpunum bók sem hún var að lesa og fannst góð. Ég hafði lesið hana líka og sagði að mér hefði þótt endirinn óvenjulega góður og rakti hvernig ég túlkaði hann. Elsa kallaði þá yfir stofuna: „Nei, þetta er ekki rétt. Það var alveg augljóst að þetta fór á allt annan veg.“

Konurnar sem ég hafði verið að tala við ypptu öxlum og löbbuðu burtu. Annaðhvort hafa þær ekki nennt að standa í þrætum eða fundist ég hafa sagt eitthvað heimskulegt.

Svona gekk þetta allt kvöldið og mér var farið að líða mjög illa. Ég fór snemma heim og hef ekki hitt hópinn minn síðan. Í raun var ég farin að velta fyrir mér hvort ég ætti heima í þessum hópi. Ég hringdi í bestu vinkonuna eftir þetta kvöld og ræddi við hana um upplifun mína. Hún hafði ekki tekið eftir neinu, sagði hún en lofaði að hafa augu og eyru opin næst þegar við kæmum saman. Ég talaði líka við aðra úr hópnum, sumir höfðu orðið varir við þessa togstreitu milli mín og Elsu en sögðu að þeir vildu ekki blanda sér í málið vildu vera vinir okkar beggja. Þeir hvöttu mig til að ræða við Elsu og athuga hvort við gætum ekki fundið lausn. Ég gerði það en hún lést koma af fjöllum og alls ekki skilja hvað ég væri að fara. Skildi bara alls ekki hversu ofurviðkvæm ég væri.

Þannig standa málin núna, í einhverri pattstöðu og ég sé enga leið út. Í aðra röndina finnst mér ósanngjarnt að ég hrekist í burtu vegna leiðinda stæla í einni manneskju og finnst það ekki góðir vinir sem ekki eru tilbúnir að taka á einelti í sínum hópi.

„Ég var bara fangi á Íslandi“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tómas Þór Þórðarson hefur verið ráðinn til að stýra þætti um enska boltann hjá Sjónvarpi Símans. Hann segist vera ánægður með nýja starfið þótt hann sé í eðli sínu lítið gefinn fyrir breytingar. Fáir hafa hins vegar gert eins miklar breytingar á lífi sínu og Tómas sem hefur á fimm árum losnað við 120 kíló og líður miklu betur.

„Lygar og feluleikir eru algjörlega órjúfanlegur hluti af fíknihegðuninni og það er alveg ótrúlegt hvað það er erfitt að fá hjálp við matarfíkn. Ég vona samt að það sé komið eitthvað lengra núna en það var á þeim árum,“ segir Tómas Þór í opinskáu viðtali við Mannlíf sem kemur út á morgun. Þar ræðir hann meðal annars um þá miklu breytingu sem hefur átt sér stað í hans lífi eftir að hann grenntist.

„Á rosalega skömmum tíma var ég farinn að geta gert alls konar hluti sem ég hafði ekki getað áður,“ útskýrir Tómas.

„Ég hafði til dæmis ekki getað farið í vinnuferðir til útlanda síðan 2008 þegar ég fór á EM í Frakklandi 2016. Ég hafði bara einu sinni á þeim tíma farið í flug, í afmælisferð með pabba til Manchester 2014. Ég var bara fangi á Íslandi. Síðan ég fór í aðgerðina hef ég farið í endalausar flugferðir, bæði vegna vinnunar og til að skemmta mér með kærustunni. Og ég get gengið. Ég veit ekki hvort nokkur maður áttar sig á því hvernig það er að geta ekki labbað nema 60 metra í einu og geta ekki staðið í lappirnar meira en fjórar mínútur í einu án þess að þurfa að setjast, þannig að mér finnst næstum því eins stórkostlegt að geta gengið um allt eins og að sjá alla þessa stórkostlegu staði.

„Ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat.“

Svo er ég náttúrlega kominn með minn eigin sjónvarpsþátt sem ég hélt að myndi aldrei gerast, það var verið að kaupa mig í aðra vinnu og ég er kominn í sambúð. Þannig að hlutirnir hafa gengið alveg rosalega hratt fyrir sig eftir að ég loksins komst í stand til að gera venjulega hluti í lífinu, ná frama í vinnunni og verða ástfanginn til dæmis. Mér finnst ég engan tíma mega missa þar sem ég sturtaði frá mér þrítugsaldrinum með mat, þannig að markmiðið er að reyna að gera eitthvað af viti á þessum blessaða fertugsaldri.“

Ekki missa af Mannlífi á morgun.

Uppfært:
Lestu viðtalið við Tómas í heild sinni hérna: Var með eina og hálfa manneskju utan á sér

Stór hópur viðskiptavina vill plaströrin aftur

Um 38.000 manns hafa skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem farið er fram á að skyndibitakeðjan McDonalds bjóði áfram upp á plaströr.

Forsvarsmenn McDonalds í Bretlandi og Írlandi ákváðu nýverið að skipta drykkjarrörum úr plasti út fyrir pappírsrör vegna pressu frá viðskiptavinum en ekki eru allir á eitt sáttir.

Mikil óánægja ríkir meðal stórs hóps viðskiptavina McDonalds vegna pappírsröranna sem boðið er upp á núna. Margt fólk vill meina að pappírsrörin leysist upp í drykkjunum.

Í frétt BBC kemur fram að McDonalds í Bretlandi noti 1,8 milljón rör hvern dag. Þetta er gríðarlegt magn og í ljósi þess sé sérstaklega mikilvægt að skipta plastinu út fyrir umhverfisvænni kost.

Mikil umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum síðan pappírsrörin voru tekin í notkun hjá keðjunni. Sumir eru óánægðir á meðan aðrir hrósa fyrirtækinu fyrir að taka skref í rétta átt.

https://twitter.com/meganmudiex/status/1120060323329990665

 

Þetta er mamma Gretu Thunberg

|||
Mynd t.h. / EPA|Andrew og Jeffrey Epstein voru vinir. Mynd / EPA|Andrew steig til hliðar frá opinberum skyldum innan konungsfjölskyldunnar í nóvember vegna tengsla sinna við Jeffrey Epstein. Mynd / EPA|epa07857637 Sixteen-year-old climate activist Greta Thunberg speaks at the Youth Climate Strike in Battery Park in New York

Móðir hinnar 16 ára Gretu Thunberg er söngkonan Malena Ernman. Þessi tengsl hafa vakið mikla athygli í dag.

Sænski umhverfissinninn Greta Thunberg hefur vakið mikla athygli undanfarið en hún er 16 ára og hefur farið reglulega í verkfall frá skólanum til að berjast fyrir aðgerðum í loftslagsmálum.

En það sem hefur vakið mikla athygli í dag er sú staðreynd að mamma Thunberg er söngkonan Malena Ernman sem keppti fyrir hönd Svíþjóðar í Eurovision árið 2009. Ernman er líka mikill umhverfissinni.

Framlag Ernman í Eurovision má sjá hér fyrir neðan.

Þessi fjölskyldutengsl hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum í dag og í gær.

 

Níu leiðir til að minnka plastnotkun

Plast eyðist ekki auðveldlega náttúrunni heldur safnast upp, mengar höf og lönd og hefur stórfelld áhrif á lífríki jarðarinnar. Þess vegna er nauðsynlegt að endurvinna plast í stað þess að henda því í almennt rusl.

Einnig er vert að skoða leiðir til að minnka plastnotkun almennt í okkar daglega lífi. Með breyttum neysluvenjum getum við aukið framboð af umbúðalausri matvöru og jafnvel dregið úr framleiðslu á plasti, eða að minnsta kosti dregið úr óþarfa plastumbúðum.

1. Fjölnota innkaupapokar

Við vitum flest að við eigum að nota fjölnota innkaupapoka og þess vegna er merkilegt hversu margir reiða sig enn á plastpokana í matvöruverslunum. Hægt er að fá fjölnota poka sem pakkast saman í mjög litla einingu og sniðugt er að vera með þá á nokkrum stöðum; til dæmis í töskunni, hanskahólfinu í bílnum og úlpuvasanum.

Mikilvægast er þó að muna eftir að ganga frá pokanum og setja hann strax á sinn stað því annars er hætta á að þú gleymir honum.

2. Umbúðalaus matvæli

Eitt versta dæmi um ofnotkun á plasti er umbúðir utan um grænmeti, jafnvel það sem er í lausasölu. Margar búðir bjóða þó upp á gott úrval af umbúðalausum ávöxtum og grænmeti sem eru einnig lífræn í þokkabót.

Hægt er að kaupa sérstaka fjölnota grisjupoka undir ávexti og grænmeti sem er lítið mál að taka með sér í búðina. Sumar verslanir hafa þá selt hnetur, fræ, þurrkaða ávexti, olíur, krydd og fleira í lausu þannig að þú mætir með eigið ílát sem þú fyllir á. Ef slíkt hentar þér ekki er gott ráð að velja frekar vörur í pappírs- eða glerpakkningu.

Eitt versta dæmi um ofnotkun á plasti er umbúðir utan um grænmeti.

3. Taubleyjur á börnin

Talið er að hvert barn noti ríflega fimm þúsund bréfbleyjur á fyrstu árunum. Þessar einnota bleyjur fara svo í ruslið og enda á haugunum, en milli 5 og 10% sorps sem er urðað eru bréfbleyjur. Þó að þær kallist bréfbleyjur, innihalda þær plastefni og fleiri ónáttúruleg efni.

Það er því mun umhverfisvænna að nota svokallaðar taubleyjur og vinsældir þeirra hafa aukist til muna á síðustu árum. Upphafskostnaður þeirra er vissulega meiri en við hefðbundnar bréfbleyjur en þær er hægt að nota aftur og aftur – jafnvel fyrir fleiri en eitt barn.

4. Eldaðu frá grunni

Tilbúinn matur er yfirleitt í plastumbúðum og oftast eru þær umbúðir ekki endurnýtanlegar. Langbesta lausnin á þeim vanda að elda heima mat frá grunni, hvort sem það er í nesti eða kvöldmatinn.

Síðan er miklu betra fyrir heilsuna að borða mat sem hefur verið eldaður frá grunni því hann inniheldur engin rotvarnarefni eða slíkt. Gott er að fjárfesta í umhverfisvænu og eiturefnalausu nestisboxi til að nota ekki samlokupoka eða slíkt.

5. Drykkir á ferðinni

Það er mikilvægt að svala þorstanum reglulega. Við á Íslandi búum svo vel að geta fengið tandurhreint vatn beint úr krananum. Góð regla er að hafa alltaf fjölnota vatnsflösku við höndina, til dæmis á skrifborðinu í vinnunni og í bílnum, þá þarftu ekki að kaupa þér vatn eða gos í hvert skipti og þú finnur fyrir þorsta.

Kaffidrykkjufólk ætti einnig að fjárfesta í fjölnota kaffimáli því öll helstu kaffihús landsins afgreiða kaffipöntun þína beint í málið þitt og sum gefa meira að segja afslátt út á það.

6. Engin plaströr

Nú eru fjölmargar verslanir farnar að selja drykkjarrör úr pappír sem geta auðveldlega komið í staðinn fyrir þau úr plasti. Í nokkrum Evrópuborgum er nú hafði átak þar sem veitinga- og skemmtistaðir eru hvattir til að skipta plaströrunum út fyrir pappír. Einnig er hægt er að kaupa fjölnota stálrör til að nota heimafyrir.

7. Pakkaðu inn í pappír

Smám saman getur þú skipt út matarfilmu og pokum fyrir vaxpappír. Á Netinu er hægt að panta fjölnota vaxpappír, ýmist úr býflugna- eða sojabaunavaxi. Hægt er að pakka slíkum pappír utan um samlokur og matarafganga sem þú ætlar að geyma í kælinum – pappírinn nýtist einnig fyrir mat sem á að fara í frystinn. Annað gott ráð er að setja matarafganga í fernur eftir að þú hefur skolað úr þeim.

8. Endurnýttu ílát

Hægt er að endurnýta ýmis plastílát sem matvæli koma í, til dæmis plastbox utan af sósum eða salati. Hreinsaðu ílátin þegar að þú klárar úr þeim og geymdu þau. Hægt er að nota þau til að geyma matarafganga eða undir nesti.

Víða erlendis er einnig hægt að nota slík ílát til að sækja mat í búðir, til dæmis kjöt eða fisk úr borði eða tilbúna rétti. Enn sem komið er leyfir heilbrigðiseftirlitið það ekki hér á landi en það mun vonandi breytast í framtíðinni.

9. Dagleg umhirða

Það er einnig fullt af plasthlutum sem við notum í okkar daglegu umhirðu sem við gætum hæglega skipt út fyrir aðra umhverfisvænni kosti. Til dæmis eru einnota rakvélar og rakvélarhausar úr plasti og í þeim felst mikil sóun.

Lítið mál er að kaupa góða, gamaldags rakvél sem tekur einföld rakvélarblöð, en þau blöð endast ekki bara lengur heldur eru mun ódýrari. Einnig er meirihluti tannbursa úr plasti og mælt er með að við skiptum um þá ekki sjaldnar en á þriggja mánaða fresti – það gerir allavega fjóra tannbursta á ári.

Nú eru fáanlegir tannburstar úr bambus sem brotnar auðveldlega niður í náttúrunni, ólíkt plasti.

Veðrið aðalumræðuefnið á Twitter: „Það er búið að breyta veðurspá sumardagsins fyrsta“

Netverjar eru margir hverjir frekar svekktir yfir veðrinu í dag og vilja senda veðurfræðinga landsins í námskeið í væntingastjórnun.

Veðurfræðingar spáðu bongóblíðu í dag, sumardaginn fyrsta, og samkvæmt textaspá Veðurstofunnar í gær mátti búast við allt að 17 stiga hita í dag og  sól. En netverjar virðast eitthvað svekktir með veðrið ef marka má umræðuna á Twitter og vilja senda veðurfræðinga í væntingastjórnunarnámskeið.

Veðrið er aðalumræðuefnið á Twitter í dag, sumir eru vonsviknir á meðan aðrir halda í jákvæðnina.

„Í eldhúsinu mínu fá allir að spreyta sig og skapa alls konar listaverk“

Sævar Lárusson er yfirkokkur á Kol Restaurant og gerðist þar að auki meðeigandi að staðnum nýlega. Hann hefur, að eigin sögn, haft áhuga á matreiðslu síðan hann man eftir sér og er jafnduglegur að elda heima hjá sér og í vinnunni.

„Boltinn hefur rúllað ansi hratt síðan ég komst á samning á Hótel Sögu árið 2011,“ segir Sævar um bakgrunn sinn í matreiðslunni. „Ég hef verið á Kol síðan 2014, en ég var fyrsti neminn þar til að útskrifast með sveinspróf árið 2015. Á þeim tíma var ég orðinn vaktstjóri og yfirkokkurinn minn og meistari var þá Kári Þorsteinsson. Þegar hann ákvað að færa sig um set var mér boðin staðan sem yfirmatreiðslumaður. Þá dreif ég mig í Meistaraskólann og kláraði hann í byrjun 2018.“

Vinnudagurinn hefst á hókí-pókí

Sævar segir samvinnu vera lykilatriði í eldhúsinu. „Löngu vaktirnar og álagið sem fylgir þeim getur tekið á, þess vegna er mikilvægt að vera vel skipulagður og að vinnuumhverfið sé gott. Vinnudagurinn hefst á því að við tökum einn „hókí-pókí“ og förum yfir verkefni dagsins saman. Við borðum svo góðan staffamat áður en staðurinn opnar og byrjum að afgreiða seinnipartinn. Mér finnst mjög skemmtilegt og gefandi að framreiða góðan og fallegan mat, í eldhúsinu mínu fá allir að spreyta sig og skapa alls konar listaverk.“

Sævar segist vera alæta á mat en taco sé í miklu uppáhaldi hjá honum þessa dagana. „Mér finnst líka alltaf gaman að elda mismunandi rétti frá hinum og þessum heimshornum. Ég sé um eldamennskuna heima líka og oftast verða taco, taco-pítsur, pasta eða asískur matur fyrir valinu.“

Við fengum Sævar til að útbúa og gefa okkur uppskrift að þremur réttum af matseðli Kol.

Rauðrófu-carpaccio

Rauðrófu-carpaccio.

2 stk. rauðrófur
100 g furuhnetur
1 stk. appelsína
50 g klettasalat
4 stk. jarðskokkar
truffluolía
sjávarsalt
svartur pipar

Rauðrófurnar

Skerið aðra rauðrófuna örþunnt í mandólíni og hina í litla, óreglulega bita. Snöggsjóðið skífurnar og setjið þær í klakavatn svo þær verði ekki of mikið eldaðar. Blandið saman 1 hluta vatni, 1 hluta sykri og 1 hluta ediki og setjið í pott og sjóðið rauðrófubitana í því þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Furuhnetukrem

Setjið furuhnetur í pott með vatni, salti og smávegis sítrónusafa. Náið upp suðu og setjið því næst allt saman í blandara og maukið þar til áferðin er silkimjúk. Skerið appelsínuna í lauf. Klettasalatið er dressað upp með góðri jómfrúarólífuolíu og salti.

Yellowfin-túnfiskur 

Yellowfin-túnfiskur.

1 biti yellowfin-túnfiskur, u.þ.b. 500 g

Sinuhreinsið túnfiskinn og skerið hann í langa bita. Snöggbrennið eða snöggsteikið hann því næst á pönnu til þess að fá brúna húð utan á hann. Skerið hann næst í 1-2 cm þykkar, fallegar sneiðar. Dressið síðan eða dreypið ponzu-gjáa yfir bitana.

Vatnsmelóna

1 stk. vatnsmelóna
Skerið smásneið úr vatnsmelónunni og afhýðið. Skerið hana því næst í teninga.

Aioli

300 ml hvítlauksolía
100 ml eggjarauða

Útbúið majónes með því að setja eggjarauðurnar í skál, þeytið þær með písk þar til þær fara að þykkjast. Hellið hvítlauksolíunni varlega saman við í mjórri bunu og haldið áfram að þeyta þar til fer að myndast majónes. Hægt er að þynna það út með vatni eða sítrónusafa. Smakkið til með salti.

Kasjúhnetu- og trönuberjamauk 

100 g kasjúhnetur
100 g trönuber
100 ml rauðrófusafi
salt

Setjið kasjúhnetur og trönuber í pott með vatni, rauðrófusafa og salti. Sjóðið því næst allt í 5 mínútur og maukið síðan strax í blender og sigtið. Áferðin á að vera silkimjúk, smakkið til með salti.

Eldpiparsmarmelaði

2 stk. eldpipar
100 ml sykur
100 ml vatn

Setjið allt í pott, sjóðið í 10 mínútur og maukið.

Ponzu-gljái

100 ml sojasósa
1 stk. engifer
1 stk. sítróna
100 g sykur
sesamolía
bonito flakes

Blandið saman sojasósu, rifnu engifer, sesamolíu, sítrónusafa og bonito flakes og látið standa í 30 mínútur við stofuhita. Sigtið síðan gljáann og setjið strax inn í kæli.

Bonito-kex

Fletjið út brick-deig og setjið á bökunarpappír. Penslið með smávegis rauðrófusafa og stráið bonito-flögum yfir. Bakið við 180°C í 12 mínútur, án blásturs.

Kolaður lax

Kolaður lax.

1 flakaður lax, u.þ.b 2 kg
200 g sykur
200 g salt
rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu

Flakið laxinn og beinhreinsið, leggið flakið í bakka og blandið saman salti, sykri og rifnum sítrónuberki og stráið vel yfir laxinn. Látið laxinn liggja í maríneringunni í 25 mínútur. Skolið því næst flakið og þerrið. Skerið laxinn í nokkra um það bil 160 g skammta og setjið í vacum-poka.

Eldið laxinn medium rare í sous vide sem er stilltur á 48°C í 7 mínútur. Brennið hann með gasbrennara áður en hann er borinn fram.

Fennel-escabeche

3 stk. fennel
3 skalotlaukar
1 g saffran
300 ml hvítvínsedik
300 ml vatn
1 appelsína

Skerið fennelið og skalotlaukinn í þunnar sneiðar. Svitið í potti og bætið síðan hvítvínsediki og vatni út í og látið malla í um það bil 10 mínútur. Bætið síðan saffraninu saman við og safa úr einni appelsínu. Smakkið til með salti.

Granóla

100 g möndluflögur
100 g graskersfræ
100 g sólblómafræ
10 ml hlynsíróp
10 ml repjuolía
100 g þurrkuð trönuber

Blandið öllu saman og setjið á bökunarpappir í ofnskúffu. Bakið við 160°C í 20 mínútur og hrærið í með 5 mínútna millibili til að fá jafna brúnun. Þegar búið er að elda granólað, látið það standa í nokkrar mínútur. Setjið það því næst í skál og myljið niður, bætið þurrkuðum trönuberjum við.

Dill hollandaise

4 egg
300 ml dillolía
100 ml jómfrúarólífuolía
12 g salt
12 ml Xeres-edik

Nauðsynlegt er að nota qisac-sprautu og 2 gashylki.

Setjið allt í blandara og maukið vel. Hellið því næst blöndunni yfir í qisac-sprautu og tveimur gashylkjum skotið inn í. Hristið vel fyrir notkun.

Myndir / Hallur Karlsson

Forvitnilegur hljóðheimur sem auðvelt er að sogast inn í

Tónlistarkonan MSEA var að senda frá sér plötuna Hiding under things en platan inniheldur fjögur frumsamin lög.

Hljóðhemur MSEA er virkilega forvitnilegur og stór sem auðvelt er að sogast inn í. Hiding under things en ferðalag frá byrjun til enda en þegar fjórða og síðasta lagið er á enda er gott að skella á „repeat.”

MSEA eða Maria Carmela eins og margir kalla hana mun halda tónleika á morgun, föstudaginn 26. apríl, á Loftinu undir yfirskriftinni Can’t think just feel #4 // White Teeth og hefjast þeir stundvíslega klukkan 20:30.

Fram Cryptochrome,  K.óla og AXIS DANCEHALLog mælum við eindregið með að þið mætið og njótið.

„Engin tæknileg mistök hér“

Forstjóri Boeing segir að flugvélaframleiðandinn hafi ekki gert tæknileg mistök í hönnun 737 MAX-vélanna.

Forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, segir að það hafi ekki verið tæknileg mistök í hönnun 737 MAX-véla Boeing sem olli þeim tveimur mannskæðu flugslysum sem urðu í október og mars en slysin hafa verið rakin til bilunar í búnaði vélanna.

„Það eru engin tæknileg mistök hér,“ sagði Muilenburg í samtali við fjárfesta þegar hann kynnti fyrir þeim ársfjórðungsskýrslu Boeing í gær.

Hann viðurkenndi þó að skynjarar flugvélanna hefðu gefið stýrikerfi vélanna rangar upplýsingar þegar slysin tvö urðu. Þessar röngu upplýsingar munu hafa virkjað sjálfstjórnunarbúnað sem lét vélina taka dýfu þar sem talin var hætta á ofrisi.

Samt sem áður fullvissaði hann fjárfesta að 737 MAX-vélarnar væru öruggar. „Við þekkjum flugvélarnar okkar. Við skiljum hönnun vélanna, hvernig við fengum vottunina og við erum fullkomlega öruggir með þessa vöru,“ sagði hann einnig.

Sjá einnig: Boeing glatar traustinu

Miðasala á Secret Solstice þrátt fyrir óvissu

Tveir mánuðir eru í Secret Solstice sem auglýst er að fari fram í Reykjavík. Samningur við borgina hefur ekki verið undirritaður og rekstraraðili hátíðarinnar hefur átt viðræður við bæjaryfirvöld í Ölfussi.

Stundin fjallar um málið í dag. Nýr rekstraraðili hátíðarinnar á að greiða 19 milljónir króna til að tryggja að hátíðin færi fram í Laugardalnum í lok júní eins og undanfarin ár. Samningurinn hefur ekki verið undirritaður og greiðslan ekki verið innt af hendi. Hins vegar er miðasala í fullri ferð.

Secret Solstice Productions ehf. hefur rekið hátíðina hingað til en er ógjaldfært. Fjöldi listamanna og starfsmanna hafa ekki fengið greitt fyrir sína vinnu. Þungarokksveitin Slayer hefur stefnt aðstandendum auk þess sem skuld er hjá tollstjóra.

Sjúkraliðar gefast upp vegna álags

Alvarlegur sjúkraliðaskortur á heilbrigðisstofnunum veldur miklu álagi, aukinni kulnun og fjölmörgum dæmum um að fólk falli úr vinnu.

 

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, segir við Vísi á þirðjudag að kulnun meðal sjúkraliða hafi aukist. „Það er grafalvarleg staða í kerfinu vegna skorts á sjúkraliðum og hefur ekki tekist að fylla í allar þær stöður sem þörf er á, sem er mikið áhyggjuefni. Það vantar einkum sjúkraliða á Landspítalann og þá er alvarlegur skortur á hjúkrunarheimilum. Loks hefur sjúkraliðum fækkað á Landspítalanum sem er einnig mikið áhyggjuefni,“ sagði Sandra.

Hún segir að ástandið hafi alvarleg áhrif á þá sem nú starfa í faginu. „Vinnan verður erfiðari og þyngri og svo er gengið meira á fólk að taka aukavaktir sem veldur líka auknu álagi, Í svona ástandi finna fleiri fyrir kulnun en áður en við höfum fengið fjölmörg dæmi til okkar á skrifstofuna þar sem fólk er að detta úr vinnu vegna kulnunar,“ segir Sandra að lokum.

Fréttablaðið fjallar einnig um alvarlega stöðu mála í morgun. „Alls eru 2.100 sjúkraliðar starfandi á Íslandi í dag og er meðalaldurinn 47 ára. Samkvæmt mannaflaspá Embættis landlæknis frá árinu 2010 var gert ráð fyrir að þeir yrðu fleiri en 2.800 árið 2019. Er þá gert ráð fyrir 114 nýjum sjúkraliðum árlega til ársins 2030 en sú spá hefur ekki ræst til þessa. Aðeins um 60 af þeim sem útskrifast á hverju ári fara að starfa við fagið á sama tíma og 20 láta af störfum á ári sökum aldurs eða örorku. Það hefur leitt til þess að meirihluti þeirra sem starfa á öldrunarheimilum eru ófaglærðir. Sandra segir þörfina á sjúkraliðum ekki jafn sýnilega og þegar kemur að hjúkrunarfræðingum þar sem hjúkrunarfræðingar geti gengið í störf sjúkraliða en ekki öfugt. Ein birtingarmynd vandans er að skortur á sjúkraliðum eykur álagið á hjúkrunarfræðinga sem og annað samstarfsfólk.“

Kjarasamningar sjúkraliða losnuðu í lok mars 2019. Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) semur við fjóra aðila um kjarasamning, þ.e. fjármálaráðherra f.h. ríkissjóð, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV).

„Þeir þættir sem samið er um í kjarasamningunum snúa einkum að launataxta, vinnutíma, vaktaálagi, réttindum eins og veikindum, orlofi og uppsagnarfresti. Að auki er samið um almenn réttindi, starfsheiti, persónubundna þætti og launaröðun. Samhliða kjarasamningum við ríkið og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru stofnanasamningar sem fela í sér nánari útfærslu á kjarabundnum þáttum við hverja stofnun fyrir sig,“ samkvæmt upplýsingum á vef Sjúkraliðafélagsins.

Raddir