Ágúst Már Garðarsson, kokkur hjá verkfræðistofunni Eflu, ákvað að gerast grænkeri eftir að hann ásamt Sigurði Lofti Thorlacius, umhverfisverkfræðingi, hófu að mæla dýpt kolefnisspora þess matar sem boðið er upp á í mötuneyti Eflu.
Ágúst viðurkennir að hann takist nú á við krefjandi lífsstílsbreytingu en að hann geti ekki haldið áfram að borða dýraafurðir með góðri samvisku eftir að hann kynnti sér málið.
„Ég er í grunninn kjötæta, ég er alinn upp í sveit, hef slátrað dýrum og veiddi minka sem barn,“ segir Ágúst sem er nú orðinn vegan.
„…ég er alinn upp í sveit, hef slátrað dýrum og veiddi minka sem barn.“
Ágúst segist hafa verið mikil kjötæta og aldrei íhugað að hætta að borða kjöt áður en hann fór að skoða muninn á kolefnisspori kjötfæðis annars vegar og grænmetisfæðis hins vegar.
„Ég var ekkert að fara að breytast. Ég hafði litla löngun til að breyta mataræðinu. En fyrir þremur vikum hófst umhverfisvikan í Eflu og við fórum að prufukeyra mælingarforritið. Ég hélt að þetta myndi ekki hafa mikil áhrif á mig en þegar dagarnir liðu og ég fór að stimpla hráefnin inn og sjá tölurnar sem komu upp þá brá mér svolítið,“ útskýrir Ágúst. Í kjölfarið fór hann að lesa sér til um kjötframleiðslu og landbúnað.
„Það er alveg hægt að breytast, ég meina, þetta er hálf vandræðalegt fyrir mig því ég er með slátursvín húðflúrað á framhandlegginn,“ segir hann og skellir upp úr.
„Ég vissi ekki að ég væri svona háður osti“
Spurður út í hvort að hann sé orðinn vegan til frambúðar svarar hann játandi. „Já, alveg hiklaust. Ég er enn þá að læra inn á þetta. Ég var til dæmis að komast að því að það er býflugnavax í rauðum Ópal og þess vegna er hann ekki í boði lengur. En ég ætla að gera mitt besta.“
Aðspurður hvort það sé einhver ákveðinn matur sem hann hefur saknað eftir að hann gerðist vegan segir hann: „Ostar. Ég vissi ekki að ég væri svona háður osti. Ég var til dæmis að baka pítsur fyrir stelpurnar mínar á föstudaginn og mér fannst ég vera að fara á mis við eitthvað í lífinu, að geta ekki fengið mér pítsu með osti“ segir Ágúst og hlær.
Í dag er fjölbreytt úrval veganosta til í verslunum en Ágúst hefur ekki fundið veganost sem hann er hrifinn af enn þá. „Þeir eru bara ekki nógu góðir að mínu mati. En maður veit ekki, vísindunum fleytir fram og kannski tekst einhverjum að búa til fullkominn veganost.“
Krefjandi en skemmtilegt verkefni
Ágúst viðurkennir að það sé krefjandi að gera svona mikla breytingu á mataræði sínu. „Þetta er svo margbrotið. Þetta reynir vissulega á en það er gaman að takast á við svona verkefni. Maður þarf að hugsa svo margt upp á nýtt. En þegar ég sá að veganmatur getur líka verið sveittur með majónesi, þá fór ég að trúa að þetta sé hægt,“ segir hann og hlær.
„Þegar ég sá að veganmatur getur líka verið sveittur með majónesi, þá fór ég að trúa að þetta sé hægt.“
Ágúst tekur fram að úrval alls kyns matar sem unninn er úr jurtaríkinu en líkist kjöti komi sér vel í eldamennskuna. „Þessi veganmatur sem notaður er sem staðgengill fyrir kjöt er að ná auknum vinsældum og úrvalið er orðið mikið. Í gamla daga var þetta algjört „no no“ og það þótti bara hallærislegt,“ segir Ágúst sem mælir eindregið með að fólk kynni sér vegan lífsstílinn.
Fyrir áhugasama er hér fyrir neðan tafla um kolefnisspor þeirra máltíða sem starfsfólki Eflu var boðið upp á þann 17. apríl.
Hún Edda á Birkimelnum, söguhetjan í Eddubókum Jónínu Leósdóttur, hefur unnið hugi og hjörtu íslenskra lesenda með vasklegri framgöngu við lausn sakamála, óseðjandi forvitni og hressilega hreinskilnislegum skoðunum á hinu og þessu í samfélaginu.
Hún er eiginlega frekar óþolandi persóna sem lesendur myndu kannski forðast ef hún væri raunveruleg en sem sögupersóna hittir hún í mark og minnir um margt á eina ástsælustu persónu glæpabókmenntanna, hina hnýsnu slettireku Miss Marple sem Agatha Christie gerði ódauðlega í hverri metsölubókinni af annarri á síðustu öld. Það er eitthvað við þessar afskiptasömu eldri dömur sem er einfaldlega ómótstæðilegt.
Í einni bókinni um Eddu ásakar Snorri, hinn önuglyndi sonur hennar, hana um að vera haldin „Miss Marple-komplex“ og hann hefur ýmislegt til síns máls. Eins og Miss Marple er Edda bráðskörp, hefur óþrjótandi áhuga á umhverfi sínu og öðru fólki og er glúrin við að finna þræðina sem leiða til þess að glæpamaðurinn finnst. Edda er hins vegar auðvitað mun nútímalegri persóna en Miss Marple, enda kom sú góða kona fyrst fram á sjónarsviðið árið 1927 og er skilgetið afkvæmi síns tíma. Í fyrstu bókinni, Morðið á prestsetrinu, er hún reyndar hvorki vinsæl né aðdáunarverð persóna, mikil slúðurkerling með nefið ofan í hvers manns koppi, smjattandi á óförum annarra og lesendur voru frekar ósáttir við hana en Agatha Christie gerði hana viðkunnanlegri í seinni bókum og það endaði auðvitað með því að lesendur voru farnir að elska og dá þessa gömlu piparjúnku sem endalaust skipti sér af lífi annarra.
„Ekki svo að skilja að Edda taki meðvitaða ákvörðun um það að gerast einhver Miss Marple, forvitni hennar og löngun til að hjálpa náunganum leiða hana óvart út á þessa braut og eftir fyrsta málið verður ekki aftur snúið. Hún verður að leysa gáturnar.“
Miss Marple hefur aldrei unnið utan heimilis, og reyndar varla innan heimilis heldur, þar sem hún hefur alltaf þjónustustúlkur á heimilinu, en Edda er hins vegar fyrrverandi verslunarstjóri bókabúðar og fullkomlega fær um að sjá um sig sjálf. Í fyrstu bókinni, Konan í blokkinni, er hún nýkomin á eftirlaun og pínulítið áttavillt í tilverunni, verandi íðilhress kona á besta aldri þarf hún augljóslega á því að halda að finna lífi sínu tilgang og fylla dagana af einhverju áhugaverðu og þar koma sakamálin til sögunnar. Ekki svo að skilja að Edda taki meðvitaða ákvörðun um það að gerast einhver Miss Marple, forvitni hennar og löngun til að hjálpa náunganum leiða hana óvart út á þessa braut og eftir fyrsta málið verður ekki aftur snúið. Hún verður að leysa gáturnar.
Kafað í samfélagið
Þrátt fyrir ýmis líkindi þeirra stallsystra Eddu og Jane Marple er þó miklu fleira sem er ólíkt með þeim, sérstaklega í einkalífi þeirra og aðstæðum. Jane Marple hefur aldrei gifst, á engin börn né nána ættingja og virðist verja meirihlutanum af lífi sínu í heimsóknum hjá fólki sem hún þekkir mismikið. Edda, hins vegar, á hjónaband að baki, hún á tvö börn, tvo tengdasyni og tvö barnabörn og stærðarinnar tengslanet.
Hún er vön því að bjarga sér sjálf og þótt samskiptin við börnin séu svona upp og niður eru þau þó snar þáttur í lífi hennar og engan veginn hægt að segja að hún sé ein í lífsbaráttunni. Ein skemmtilegasta aukapersóna bókanna er svo tengdasonurinn Viktor, en hann og Edda eru miklir vinir og hittast oft til að slúðra og drekka rauðvín saman. Samræður þeirra eru oft stórskemmtilegar og sýna hlið á Eddu sem hún birtir ekki oft í samskiptum við aðra.
Það sem bókaflokkarnir um Eddu og Miss Marple eiga þó enn frekar sameiginlegt en líkindin milli aðalpersónanna, er að höfundarnir eru miklir mannþekkjarar og sögur persónanna sem blandast í málin sem þær stöllur leysa eru djúpar og vel byggðar.
Ólíkt því sem oft gerist í glæpasögum fáum við að kynnast þeim sem viðkomandi glæpir snerta mest og um leið verða sögurnar samfélagsrýni sem skiptir máli, ekki bara einfaldar morðgátur sem öll frásögnin gengur út á að leysa.
Jónína Leósdóttir hefur í bókum sínum um Eddu tekið fyrir ýmis mál sem eru áberandi í samfélagsumræðunni og í nýjustu bókinni, Barnið sem hrópaði í hljóði, er meginþemað heimilisofbeldi og þá ekki síst áhrif þess á börn að alast upp við slíkt.
Óhemju sterkir kaflar eru sagðir í fyrstu persónu af barni sem horfir upp á föður sinn misþyrma móður sinni og það er hjartalaus manneskja sem ekki verður djúpt snortin af þeim lestri. Í bókinni er sjónum einnig beint að hlutskipti trans barna í íslensku samfélagi og sú saga er ekki síður hugvekjandi. Því þótt yfirbragð bókanna um Eddu sé léttleikandi og oft og tíðum drepfyndið þá er hér samt tekist á við alvarleg samfélagsmein með afgerandi hætti og lesandinn neyddur til að horfast í augu við ýmislegt óþægilegt sem oft er sópað undir teppi. Og það án þess að nokkurs staðar örli á predikun eða tilraunum til að troða boðskapnum upp á lesandann. Þetta er skemmtilestur með grafalvarlegum undirtóni.
„Í einni bókinni um Eddu ásakar Snorri, hinn önuglyndi sonur hennar, hana um að vera haldna „Miss Marple-komplex“ og hann hefur ýmislegt til síns máls. Eins og Miss Marple er Edda bráðskörp, hefur óþrjótandi áhuga á umhverfi sínu og öðru fólki og er glúrin við að finna þræðina sem leiða til þess að glæpamaðurinn finnst.“
Jónína hefur gefið það í skyn að næsta bók um Eddu verði sú síðasta í bókaflokknum en aðdáendur Eddu eru síður en svo sáttir við það. Okkur finnst eiginlega lágmark að Edda fái tólf bækur um sig eins og Miss Marple vinkona hennar og að við fáum að fylgjast með henni eldast. Það væri ekki sanngjarnt að láta okkur elska hana meira með hverri bók og taka hana síðan frá okkur. Við þurfum okkar árlega Edduskammt. Hún er nefnilega skuggalega ávanabindandi.
„ÍSAM auðvaldið útvegar kennsluefnið í viðvarandi kennslustundina sem við sitjum öll um þessar mundir,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook vegna tilkynningar ÍSAM um verðhækkanir fyrirtækja í eigu félagsins verði kjarasamningar samþykktir. „Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefur verið troðið ofan í okkur eins og kássu búinni til úr grænum baunum, sírópi, franskbrauði, kexi, síld og tannkremi (og argað um leið og við kúgumst: Þetta er víst gott, aumingi!) hefur sem grundvallarlygi að ekkert sé betra fyrir lýðræðið en óheft markaðsfrelsi.“
Fréttablaðið sagði frá því í morgun að Ísam, heildsölu og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boði nú verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækjanna ef samningar verða samþykktir. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við RÚV það vera einsdæmi að fyrirtæki boði verðhækkanir ef kjarasamningar verði samþykktir. Björn Snæbjörnsson sagði við Morgunblaðið að hann telji klofning innan raða Samtaka atvinnulífsins og að ákveðin fyrirtæki vilji fella samninginn. „Mér finnst eins og fyrirtæki innan Samtak atvinnulífsins séu að hvetja til þess að kjarasamningarnir séu felldir. Það er eins og það sé ákveðinn klofningur innan samtakanna.“
Sólveig segir ekkert jafn andlýðræðislegt og auðvaldið og vill meina að hugmyndir um markaðsfrelsi og lýðræði séu lygi haldið að fólki. „það er gömul saga og glæný. Ætli við verðum ekki bara að vera pínku glöð yfir því að Hermann [Stefánsson] afhjúpar sig og sinn þankagang svona rösklega. Það hlýtur að færa okkur endurnýjaðan baráttuanda og skarpan fókus á það hvers vegna breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu.“
„Mér finnst eins og fyrirtæki innan Samtak atvinnulífsins séu að hvetja til þess að kjarasamningarnir séu felldir. Það er eins og það sé ákveðinn klofningur innan samtakanna,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður starfsgreinasambandsins, við Morgunblaðið í kjölfar tilkynninga um verðhækkanir sökum kjarasamninga. Björn segir við blaðið að framsetning þeirra sem tilkynn hafa um hækkanir sé ósmekkleg. Ríki og sveitarfélög hafa þega gefið út að þau muni halda aftur af verðhækkunum.
Fréttablaðið sagði frá því í morgun að Ísam, heildsölu og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boði nú verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækjanna ef samningar verða samþykktir. Þá segir Fréttablaðið frá fyrirhugaðri hækkun Gæðabaksturs vegna samninganna. Fyrirtækið boðar 6.2% hækkun gengishækkunar á hveiti og vegna samninganna. Í fréttinni kemur fram að hækkun vegna hveitis sé um þrjú prósent.
„Ég er ekki að segja það að fólk eigi ekki skilið það sem það fær í laun. En ef við fáum á okkur þessa hækkun þá verðum við að setja það út í verðlagið til að mæta þessu,“ segir Vilhjálmur Þorláksson,framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, við Fréttablaðið.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við RÚV það vera einsdæmi að fyrirtæki boði verðhækkanir ef kjarasamningar verði samþykktir, líkt og ÍSAM gerði í gær. „Við erum með endurskoðunarákvæði sem snúa að því að kaupmáttur launa verði tryggður og vextir lækki. Ég tel að þetta ógni því að svo geti orðið. Þá munu kjarasamningar væntanlega losna og við munum sækja þær kaupmáttarkrónur, eða þær kjarabætur sem við töldum okkur gefa eftir til þess að ná niður vöxtum, af mikilli hörku ef það kemur til þess að samningar losni,“ segir Ragnar.
Formaður Starfsgreinasambandsins segir við Morgunblaðið að Brauðgerð Kristjáns Jónssonar á Akureyri hafi tilkynnt sambandinu að þeirra vörur muni hækka um 6.2%
Kjarasamningar verslunar- og verkafólks eru til rúmlega þriggja ára. Þeir gilda frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022 verði þeir samþykktir. Lægstu laun munu hækka mest en sú hækkun nemur 30% á lægstu taxta. Útfærsla er í samningnum til styttri vinnuviku. Þá fylgir þeim eingreiðsla upp á kr. 26 þúsund sem greidd er út í byrjun maí 2019. Ein forsenda samninganna er að skattbyrði tekjulægstu hópa lækkar um kr. tíu þúsund á mánuði.
Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir fylgdi föður sínum, Sveinbirni Bjarkasyni, í gegnum stigvaxandi alkóhólisma sem að lokum dró hann til dauða langt fyrir aldur fram. Sú reynsla hefur markað líf Guðrúnar Láru alla tíð en fyrir jólin sendi hún frá sér bókina Orðlaus þar sem hún kallast á við ljóð föður síns með upprifjunum á eigin reynslu. Hún segir vinnuna við bókina að mörgu leyti hafa verið frelsandi en hún glími þó enn við meðvirkni og aðrar afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma foreldris.
Guðrún Lára var ættleidd af Sveinbirni Bjarkasyni og Kristjönu Þráinsdóttur ásamt systur sinni sem er tveimur árum eldri. Hún þekkti aldrei kynföður sinn en hefur alltaf vitað af kynmóður sinni og verið í sambandi við hana annað slagið í gegnum tíðina. Framan af átti hún litríka og áfallalausa æsku og segist bara eiga góðar minningar um foreldra sína frá þeim tíma.
„Við pabbi vorum mjög náin,“ segir Guðrún Lára, sem reyndar er alltaf kölluð Lára, spurð um samband sitt við föður sinn. „Pabbi var hálfgerð ævintýrapersóna og náði vel til barna og við systurnar áttum margar eftirminnilegar og góðar stundir með honum í æsku. Þegar ég var sex ára missti pabbi fyrirtækið sitt og varð gjaldþrota og upp úr því byrjaði hann að drekka stíft. Hann hafði drukkið áður, en ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver vandræði. Mamma var flugfreyja og mikið að heiman, þannig að pabbi var mikið með okkur systurnar. En í kjölfar gjaldþrotsins misstu foreldrar mínir íbúðina sína í Árbænum og fluttu í miðbæinn í leiguíbúð. Pabbi átti erfitt með að sætta sig við þetta og deyfði hugann í drykkju sem ágerðist og var orðin dagleg. Það var eins og hann hefði verið rændur karakternum sínum. Hann stjórnaði okkur tilfinningalega og beitti okkur alvarlegu andlegu ofbeldi á þessum tíma. Þetta voru erfiðir tímar fyrir okkur öll þar sem við héldum alltaf í vonina um að hann myndi taka sig á, eins og hann lofaði svo oft. Því miður gerðist það ekki og drykkjan var orðin stjórnlaus. Hann hvarf heilu vikurnar og hann var farinn að beita mömmu líkamlegu ofbeldi þegar þau skildu. Þá hef ég verið níu ára.“
Reyndi að stjórna drykkju föðurins
Eftir að foreldrar hennar skildu umgekkst Lára föður sinn stopulla, en þær systurnar fóru þó alltaf til hans annað slagið og sóttu mikið í nærveru hans, að hennar sögn. „Ég sótti mikið í pabba,“ segir hún. „Hann drakk líka þegar við vorum hjá honum en hann reyndi að halda því innan marka á meðan. Ég vorkenndi honum og var einhvern veginn alltaf að reyna að passa upp á hann. Hélt að ef ég væri með honum þá myndi hann ekki drekka, en það var auðvitað ekki þannig. Ég sé það í dag að þetta var rosaleg meðvirkni, maður sækir í einhvern sem maður er að reyna að stjórna með því að koma inn hjá honum samviskubiti. Ég tuðaði oft í honum að hætta að drekka eins og ég veit að aðstandendur gera. Ég man vel eitt sinn þegar ég bað hann að gefa mér það í afmælisgjöf að hætta að drekka og hann svaraði því að hann skyldi hætta að drekka ef ég myndi hætta að borða nammi. Ég sé það auðvitað núna hvað hann var orðinn rosalega veikur, að segja þetta við við mig.“
„Ég kom oft þreytt og tætt í skólann þegar mamma og pabbi voru enn saman og var orðin félagslega einangruð. Sagði fátt og var orðin bæld í samræðum við vinkonur mínar. Það hafði áhrif á vináttuna og tengsl við skólafélaga.“
Spurð hvaða áhrif skilnaðurinn og ástand föðurins hafi haft á hana, hvort það hafi til dæmis haft áhrif á árangur hennar í skóla, segir Lára að það hafi sjálfsagt gert það að einhverju leyti, hún hafi verið berskjölduð og lent í hálfgerðu einelti af hendi nokkurra skólafélaga þegar verst stóð á heima fyrir. „Ég kom oft þreytt og tætt í skólann þegar mamma og pabbi voru enn saman og var orðin félagslega einangruð. Sagði fátt og var orðin bæld í samræðum við vinkonur mínar. Það hafði áhrif á vináttuna og tengsl við skólafélaga. Það endaði svo á því að ég var skilin út undan og gert grín að því hvernig ég hagaði mér.
Eftir að mamma og pabbi skildu og ég var hjá pabba kom ég líka oft seint eða mætti ekki þar sem pabbi var ekki í standi til að keyra mig í skólann, þá hringdum við inn veikindi. Þetta hafði þau áhrif að ég var óörugg með sjálfa mig og fannst eins og allir sæju í gegnum mig, vandamálin urðu stærri og ég gat ekki tjáð mig um þau.
Ég held að það gerist oft með krakka sem búa við slæmar heimilisaðstæður, þeir verða berskjaldaðir, þá er léttara fyrir hina krakkana að atast í þeim.
Ég skammaðist mín líka oft fyrir pabba og fékk síðan samviskubit yfir því. Það fylgdi þessu endalaus togstreita. Einu sinni var ég að keppa í fótbolta og pabbi kom á leikinn. Hann var fullur og gólaði og öskraði inn á völlinn. Honum fannst hann vera hvetjandi og gerði sér enga grein fyrir því hvað þetta var orðið skammarlegt. Ég skammaðist mín mikið fyrir hvernig hann hegðaði sér og fann hvernig liðið mitt og þjálfarinn vorkenndu mér.“
Lára segist ekki hafa fengið mikla aðstoð við að takast á við þessar stríðandi tilfinningar, það hafi einhvern veginn ekki verið venjan á þeim tíma. „Kennarinn minn hafði samband við mömmu um að koma okkur systrum að hjá félagsráðgjafa í skólanum og við fórum þangað. Ég hefði örugglega þurft að ganga til sálfræðings á þessum tíma líka en þetta var bara öðruvísi í gamla daga, það var ekki eins aðgengilegt að fara til sálfræðings eins og er í dag.
Eftir að mamma og pabbi skildu giftist mamma öðrum manni og við fluttum í Mosfellsbæ. Þar fann ég meiri stöðugleika heima fyrir og átti auðveldara með sjálfa mig. Eignaðist yndislega vini sem ég held enn sambandi við og sjálfsmyndin efldist.“
Líka reið við mömmu
„Mamma var ekkert voðalega hrifin af því að við værum svona mikið hjá pabba, en við vildum alltaf fara til hans og hann var yfirleitt edrú þegar hann kom að sækja okkur, svo hún gat lítið gert. Ég laug líka að mömmu, sagði að hann hefði verið edrú þótt hann hefði verið fullur og svona. Við vorum oft mjög tættar þegar við komum heim og vildum ekki ræða neitt um það hvernig dvölin hjá pabba hefði verið. En þetta var allt svo flókið, ég var eiginlega bálreið út í mömmu líka. Hún átti í fyrsta lagi ekkert að vera að skipta sér af þessu, þetta var pabbi okkar, en svo vildi maður líka að hún myndi taka utan um mann og hugga mann. Þetta var algjör tilfinningarússíbani.“
Lára segist hafa brenglaða mynd af nánum samböndum og það hafi kannski markað hana hvernig samskiptin við föður hennar voru. Hún eigi erfitt með að treysta og viti eiginlega ekkert hvað eðlilegt samband sé. „Mamma mín og stjúppabbi minn áttu vinalegt samband og það er ágætt viðmið. En það er eins og ég kunni ekki að meta þannig sambönd sjálf og ég finn það alveg að ég hrífst af mönnum sem eru líkari pabba. Það er eitthvað sem ég er að vinna í og er mjög sátt við að vera ein í dag.“
Um það bil að gefast upp
Þegar Lára var í framhaldsskóla var pabbi hennar nánast kominn á götuna og orðinn útigangsmaður, eða það sem kallað var á þeim tíma að vera að róni. Það hlýtur að hafa verið erfið reynsla. „Pabbi eignaðist líka aðra konu sem var okkur systur minni mjög góð og við eigum enn í dag í góðu sambandi við. Þau voru saman í nokkur ár en undir það síðasta var samband þeirra slitrótt og átakanlegt. Pabbi var orðinn mjög veruleikafirrtur og illa haldinn af sínum sjúkdómi. Eftir að þau skildu var niðurleiðin hröð. Hann fluttist milli íbúða en gat ekki staðið í skilum með leiguna og kom sér fjárhagslega og andlega á mun verri stað. Hann bjó oftast nálægt miðbænum og umgekkst fólk sem var í slæmu ástandi líka. Um þetta leyti hætti ég að mestu að fara heim til hans, en ég reyndi samt að halda sambandi við hann þótt það væri erfitt. Hann var oft týndur eða hafði lent í slagsmálum og lenti stundum upp á spítala nær dauða en lífi af drykkju og vímuefnum. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þegar hann hafði verið lagður inn með gröft í lungunum og eitrun í blóðinu og læknarnir sögðu okkur að það væri óvissa um ástand hans. Ég vonaði þó að hann myndi fara í meðferð. En daginn eftir mætti ég upp á spítala og þá var hann farinn, hann hafði farið í spítalasloppnum með æðalegginn hangandi framan á sér. Þá fékk ég nánast taugaáfall. Ég skildi ekki hvernig hægt var að hleypa manninum út og átti áhrifaríkt samtal við hjúkrunarkonu. Hún benti mér á að það væri ekki hægt að halda fólki óviljugu á spítalanum en ég gæti mögulega farið fram á að svipta hann sjálfræði tímabundið. Ég fór heim til hans til að athuga hvort hann væri þar og það reyndist rétt. Hann leit hræðilega illa út, var gulleitur á hörund og gröftur lak úr hendinni á honum. Hann gat ekki talað og augnaráð hans var fjarrænt. Ég bað hann að koma með mér aftur upp á spítala en hann hlustaði ekki. Hann gekk út í átt að Austurvelli. Ég gekk á eftir honum og sá hvernig fólk starði á hann. Hann gekk beint inn í ríkið og reyndi að kaupa sér áfengi en hafði bara tekið notað símafrelsiskort með sér. Ég borgaði fyrir hann og hljóp í burtu. Þessum tímapunkti í lífi mínu gleymi ég aldrei. Pabbi sagði mér þó síðar að hann hefði farið aftur upp á spítala um nóttina og svo í framhaldinu á geðdeild.“
„Það var partí heima hjá honum þar sem 16 ára stúlku var nauðgað hrottalega af tveimur mönnum inni á baðherbergi. Hann sjálfur var áfengisdauður inni í svefnherberginu á meðan því stóð og mundi ekkert.“
Lára segist á þessum tíma hafa verið um það bil að gefast upp á föður sínum og það sama hafi gilt um alla aðra sem þekktu hann. „Vinur minn sagði mér einu sinni af því þegar hann hitti pabba niðri í bæ í slæmum fráhvörfum og gaf honum peninga fyrir afréttara og mat. Frænka mín grét eitt sinn í jólaboði eftir að hafa hitt pabba á bekk í bænum. Sumir sem þekktu hann vildu ekki sjá hann, urðu reiðir og kölluðu hann aumingja. Ég gerði allt þetta líka. Ég hitti hann líka stundum í misjöfnu ásigkomulagi. það var sárt að sjá hann og ég skammaðist mín fyrir hann. En það erfiðasta var að hann vildi ekki hjálp og ég gat ekkert gert sama hvað ég reyndi.“
Sveinbjörn dó af völdum alkóhólismans þegar Lára var tuttugu og fjögurra ára, en áður hafði hann náð að vera edrú í tvö ár og þau ár voru afar mikilvæg fyrir Láru. „Pabbi var á botninum þegar hann tók þá ákvörðun að verða edrú. Nánustu ættingjar og vinir voru alveg búnir að loka á hann og það hefði ekki komið mörgum á óvart að hann hefði dáið á þessum tíma. Hann bjó á Snorrabrautinni þegar hræðilegur atburður gerðist sem varð til þess að hann tók sig á og varð edrú,“ segir Lára og þagnar. „Það var partí heima hjá honum þar sem 16 ára stúlku var nauðgað hrottalega af tveimur mönnum inni á baðherbergi. Hann sjálfur var áfengisdauður inni í svefnherberginu á meðan því stóð og mundi ekkert. Hann kenndi þó sjálfum sér um þetta og sá að hann vildi ekki lifa svona lengur. Hann hafði oft farið í meðferð áður en aldrei náð tökum á edrúmennskunni en í þetta sinn fór hann í gegnum allan meðferðarpakkann og var edrú í tvö ár eftir það. Sá tími var okkur dýrmætur og hann vildi allt fyrir okkur systur og barnabörn gera, enda var hann ljúfur og góður maður. Þetta var eins og fá pabba aftur.“
Gat loks fyrirgefið mér
Sælan entist ekki lengi og Sveinbjörn fór að drekka aftur, sú drykkja dró hann hratt til dauða. Meðan hann var edrú hafði hann ætlað sér að gefa út ljóðabók eftir sig og aðra sem höfðu gefið honum ljóð á förnum vegi. Sú bók átti að heita Orð. „Ég hafði hvatt hann árum saman til að safna ljóðum sínum og halda utan um þau og hann gerði það. Hann var kominn langt á leið með að setja ljóðin sín saman í bók áður en hann datt í það. Þegar hann var svo fallinn reyndi ég að fá hann til að verða edrú aftur og lofaði að aðstoða hann með bókina. Þá sagði hann kaldhæðnislega að ef hann lifði það ekki að bókin kæmi út ætti hún að heita Orðlaus. Þegar hann dó sat ég uppi með heilan helling af ljóðum, bæði eftir hann og aðra. Ég tók þau ljóð sem ég vissi að voru hans en það eru þrjú ljóð í bókinni sem gætu mögulega verið annarra en þau fylgdu honum og eiga greinilega erindi hvort sem þau eru hans eða annarra.
Daginn fyrir afmælið hans, 25. október 2007, var ég að bíða eftir honum heima hjá honum. Þegar hann kom heim var hann með kippur af bjór og orðinn léttur. Hann hafði verið á brúninni með að falla og hafði dottið tvisvar í það áður en þarna vissi ég að hann var fallinn. Ég varð gjörsamlega eyðilögð. Ég gekk út frá honum eftir að hafa sagt alls konar leiðinlega og særandi hluti við hann. Hann reyndi að hringja í mig en í fyrsta sinn ákvað ég að loka á hann og svaraði honum ekki. Ég hélt þá að ég væri að gera rétt og þetta myndi jafnvel hafa áhrif á að hann hætti. Ég hitti hann einu sinni aftur áður en hann dó. Þá kom hann í vinnuna til mín fullur og ég vildi ekki sjá hann. Ég heyrði af honum og þá var hann á stanslausu fylliríi og orðinn illa haldinn á sál og líkama. Ef ég ætti að ráðleggja sjálfri mér í dag, myndi ég ekki loka á hann. Ég hefði viljað svara símanum og segja honum að ég elskaði hann, þótt ég gæti ekki talað við hann núna.“
Spurð hvort hún hafi leitað sér hjálpar við að vinna úr tilfinningunum sem þessi reynsla hefur valdið segist Lára ekki hafa gert mikið af því. „Ég hef ekki farið til sálfræðings en ég hef verið að vinna úr þessu með góðri konu og mér hefur loksins tekist að fyrirgefa sjálfri mér,“ segir Lára og greinilega er stutt í kökkinn í hálsinum. „Það tók mig alveg svakalega langan tíma að fyrirgefa mér.“
Forðaðist sjálfa sig
Lára segir fyrstu árin eftir að faðir hennar dó hafa einkennst af því að hún hafi keppst við að gera hluti sem hún vissi að hann hefði orðið stoltur af. Hún fór til dæmis í íþróttafræði og útskrifaðist sem íþróttafræðingur, vann við að kenna súlufimi og líkamsrækt í nokkur ár.
„Ég gerði þessi ár eiginlega að keppni við sjálfa mig,“ útskýrir hún. „Ég var alltaf að ögra sjálfri mér og flýta mér að klára þetta eða hitt. Ég held að það hafi verið mín leið til að reyna að komast undan sorginni. Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó, en ég einhvern veginn lokaði á allar tilfinningar, ég gat til dæmis ekki grátið, ég hló bara þegar eitthvað var sorglegt. Fólki fannst þetta mjög skrítið og ég stóð mig að því að gera mér upp grát þegar ég vissi að maður ætti að gráta. Seinna kom það svo aftan að mér, ég var orðin rosalega þung og eirðarlaus en djöflaðist bara áfram og lét eins og þetta væri ekkert mál. Ég gleymdi alveg að líta inn á við og þekkti ekki sjálfa mig, var bara svakalega hörð og lét eins og ég gæti allt. Síðan kom að því að ég meiddist illa í vinnu og gat ekki lengur gert það sem ég var vön að gera og þá breyttist allt. Þótt það hafi verið vont að meiðast var þetta samt gott fyrir mig. Ég neyddist til að stoppa og fara að skoða sjálfa mig og hvernig mér leið í raun og veru.“
„Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó, en ég einhvern veginn lokaði á allar tilfinningar, ég gat til dæmis ekki grátið, ég hló bara þegar eitthvað var sorglegt. Fólki fannst þetta mjög skrítið og ég stóð mig að því að gera mér upp grát þegar ég vissi að maður ætti að gráta.“
Lára var alltaf með það í bakhöndinni að gefa ljóð föður síns út. Hún ætlaði upphaflega að gefa út hefðbundna ljóðabók og fór á námskeið í skapandi skrifum 2012 hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Þar byrjaði hún hins vegar að skrifa sínar eigin minningar út frá ljóðunum sem hún hafði setið á í fimm ár. Þorvaldur og hópurinn hennar hvöttu hana áfram og hún sendi Þorvaldi uppkast að bókinni í febrúar 2013. Þá nótt lést Þorvaldur og hún tók sér langa pásu frá bókinni eftir það. „Árið 2016 var ég nokkurn veginn búin að gefast upp á bókinni. Þá kom vinkona mín í heimsókn til mín til Noregs þar sem ég bjó þá og ég sagði henni frá handritinu. Hún hvatti mig til að klára bókina og fékk tengdamömmu sína, Helgu Haraldsdóttur, til að aðstoða mig. Sú yndislega kona sneri mér í hring og gaf mér ráð sem breytti mörgu fyrir mér. Hún sagði mér að vera ég sjálf í minningunum mínum. Áður hafði ég búið til sögur eða verið einhver annar í minningunum. Það var erfitt að verða ég, en ég er mjög sátt við það í dag.
Að skrifa um mína eigin upplifun var afar hreinsandi fyrir mig. Eins konar heilun og það er meginmarkmið mitt með þessari opinberun að fá börn og unglinga sem eiga erfitt með að tjá sig, til að skrifa og koma hlutunum frá sér. Í dag er ég flugfreyja og einstæð móðir sex ára stelpu. Við mæðgur erum samrýndar og ég geri mitt besta til að sinna móðurhlutverkinu og búa til góðar og eftirminnilegar minningar fyrir hana. Ég skrifa enn og á minn fantasíuheim sem ég hverf inn í öðru hvoru. Það besta við söguheiminn er að hann er óendanlegur og maður getur gert og skapað það sem manni sýnist.“
Húðflúrarinn og teiknarinn Auður Ýr Elísabetardóttir notast mikið við blóm, pastelliti og einfaldar línur í verkum sínum, en hún lærði myndskreytingu í Academy of Art University.
Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað?
„Undanfarin ár hef ég aðallega verið í fullri vinnu sem húðflúrari, sem þýðir að ég teikna mikið upp eftir hugmyndum annarra. Blóm eru áberandi í verkunum mínum, bæði þeim sem ég skapa fyrir aðra og fyrir sjálfa mig.“
Hvaðan færðu innblástur?
„Úr náttúrunni, bókum og svo fylgi ég fullt af frábærum listamönnum á Instagram.“
Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna?
„Mér finnst best að vinna upp úr hádegi, ég elska að taka rólegan morgun með kaffibolla og koma mér hægt í gang. Svo vinn ég þar til dóttir mín kemur heim úr skólanum.“
Hvaða litir heilla þig?
„Ég er hrifin af mjög einföldum litapallettum, helst með pastellitum. Ég nota mikið einn til tvo liti í bland við einfaldar línuteikningar.“
Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða listamaður eða gerðist það bara „óvart“?
„Ég hef verið ákveðin í að vinna við að teikna síðan ég var um 8 ára.“
Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna?
„Já, ég á enn skissubækur og teikningar frá því ég var mjög ung og það er gaman að sjá hvað maður var að pæla þegar maður var yngri. Ímyndunaraflið var svo allt öðruvísi þegar maður var sjö ára og svo líka þegar maður var 15 ára. Ég hef alveg unnið með hugmyndir sem ég hef rekist á í þessum gömlu bókum.“
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
„Ég er ofboðslega hrifin af verkum Alphonse Mucha og Harry Clarke, svo er vinur minn Sölvi Dúnn algjör snillingur.“
Hvað er fram undan á næstu misserum?
„Ég er í fæðingarorlofi eins og er og verð fram á næsta sumar. Mig langar voðalega mikið að ná að skapa eitthvað fyrir mig á þeim tíma þar sem ég mun ekkert vera að flúra og kannski ná að setja upp sýningu. Svo mæti ég fersk til leiks aftur á Íslenzku húðflúrsstofuna.“
Ostakökur eru uppáhald margra. Þeir sem eru fyrir ostakökurnar eru oft ástríðufullir aðdáendur þeirra og nota hvert tækifæri til að gæða sér á þeim. Hér er uppskriftir að einni góðri þar sem Oreo-kex spilar stórt hlutverk.
Myljið kex og bætið púðursykri og kakói saman við. Bætið smjöri út í og blandið vel saman. Setjið bökunarpappír á botninn á smelluformi. Það má líka nota bökuform og þá þarf engan pappír. Þrýstið kexmylsnunni á botninn á forminu.
Kakan:
2 matarlímsblöð
500 g rjómaostur
50 g sykur
2 dl rjómi, þeyttur
2 tsk. vanilludropar
8 Oreo-kexkökur, saxaðar
6-8 Oreo-kexkökur, skornar í tvennt, til að skreyta með
Leggið matarlímsblöð í bleyti í kalt vatn. Hrærið rjómaost og sykur vel saman. Bætið þeyttum rjóma, vanilludropum og söxuðum kexkökum varlega saman við. Bræðið matarlím ásamt 2 msk. af vatni yfir vatnsbaði og hellið því út í blönduna.
Hellið ostablöndunni í formið ofan á kexbotninn. Skreytið með Oreo-kexkökum og kælið.
Átt þú eftir að kaupa páskaeggin? Þá borgar sig að lesa yfir þetta.
Allt að 67% verðmunur var á páskaeggjum mill verlsana í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi 11. apríl. Þetta kemur fram í grein sem birtist á vef ASÍ á dögunum.
Verðkönnun ASÍ leiddi í ljós að munurinn á hæsta og lægsta verði nam oft mörg hundruð krónum og mest 1.400 krónum á einu og sama páskaegginu.
Bónus var oftast með lægstu verðin á páskaeggjum eða í 28 af 30 tilfellum. Super 1 var oftast með hæstu verðin eða í 13 tilfellum af 30 en Iceland fylgir fast á eftir með hæstu verðin í 11 tilfellum.
3.579 krónur í Bónus en 4.599 krónur í Super 1
Af páskaeggjum var verðmunurinn mestur á litlum rís páskaeggjum frá Freyju, fjórum saman í pakka eða 67% en lægst var verðið í Bónus, 359 kr. en hæst í Hagkaup 599 kr.
Í krónum talið var verðmunurinn mestur á Nóa Siríus risa páskaeggi, 1.401 kr. eða 25%. Lægst var verðið í Bónus 5.598 kr. en hæst var verðið 6.999 kr. í Super 1. Þá var 28% munur á hæsta og lægsta verði á Nóa Siríus eggi nr.7. Lægst var verðið í Bónus, 3.579 kr. en hæst, 4.599 kr. í Super 1 en það gerir 1.020 kr. verðmun.
Morðcastið er nýtt hlaðvarp (e. podcast) úr smiðju Unnar Örnu Borgþórsdóttur sem hefur lokið grunnnámi lögfræði, býr í Kaupmannahöfn og er sérstaklega áhugasöm um íslenskan refsirétt.
„Hugmyndin er nú ekki ný af nálinni,“ segir Unnur í samtali við Mannlíf. „Ég hef alltaf verið hugfangin af glæpum og sakamálum og hef í gegnum tíðina mikið kynnt mér slíkt, meðal annars með því að hlusta af ákafa á erlend hlaðvörp þar sem fjallað er um efnið. Mér hefur hins vegar alltaf fundist slíkt vanta fyrir íslenskan markað og sérstaklega þar sem íslenskir glæpir eru teknir fyrir.“
Í lögfræðináminu hefur Unnur varið miklum tíma í að skoða gömul mál og áhugaverða dóma. „Ég tuðaði mikið um að það vantaði svona íslenskt hlaðvarp og vinkonur mínar sögðu mér að ég ætti þá bara að gera það sjálf. Stuttu seinna voru upptökugræjur á leiðinni og ég á Youtube að finna út úr því hvernig á að klippa saman hlaðvarpsþátt.“
Mál Mary Vincent á toppnum
Í þættinum verða tekin fyrir íslensk og skandinavísk morð- og sakamál á aðeins léttari nótum. „Ég stefni á að kynna hlustendur fyrir tveimur sakamálum í hverjum þætti en það fer eðlilega líka eftir umfangi málanna sem tekin eru fyrir. Einnig koma gestir í þáttinn til mín sem segja frá sínum uppáhaldsmálum en ég vil endilega ná að fræða hlustendur og jafnframt hafa þetta í spjallformi upp að vissu marki,“ segir Unnur sem heillast hefur af fjölmörgum málum í gegnum tíðina.
„Ég er ekki mikið fyrir þessa stærstu raðmorðingja, heldur hef ég heillast meira af því sem endar vel eða eru flókin í sönnunarfærslu eða hinu lagalega umhverfi.“
„Ég er ekki mikið fyrir þessa stærstu raðmorðingja, heldur hef ég heillast meira af málum sem enda vel eða eru flókin í sönnunarfærslu eða hinu lagalega umhverfi. Málið hennar Mary Vincent er alveg vafalaust á toppnum hjá mér þegar talað er um uppáhaldssakamál, en hún einmitt lifði af hrottalega árás. Annars verð ég alltaf mjög heilluð af því sem ég skoða hverju sinni. Íslensk sakamál hafa líka alltaf heillað mig mikið, sérstaklega þar sem mér finnst oft sem það sé látið sem þau hafi hreinlega ekki átt sér stað og umræðan er lítil sem engin um þau. Með Morðcastinu vil ég þess vegna opna um þau umræðuna og gera þeim góð skil.“
Fyndin og hnyttin
Unnur svarar því bæði játandi og neitandi þegar hún er spurð hvort hún eigi sér fyrirmyndir í hlaðvarpsheiminum. „Mér finnst mikilvægt að þátturinn sem ég er að hlusta á grípi mig, hvort sem um er að ræða staka þætti eða heila seríu af þáttum. Serial, Up and Vanished og My Favorite Murder eru vafalaust nokkur af mínum uppáhaldshlaðvörpum og svo finnst mér Snorri Björns mjög góður þáttastjórnandi. Mér þætti þar af leiðandi gaman að vera einhverskonar blanda af þeim öllum. Ná að halda athygli hlustenda, vera fyndin og hnyttin, en samt geta frætt og vera vel upplýst.“
Þátturinn kemur út á hverjum fimmtudegi og hann er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum eins og iTunes, Apple podcasts, Podbean, Spotify, Podcast Addict, og Pocket casts. Morðcastið er að finna á Instagram og Twitter og svo er hægt að hafa samband við Unni gegnum [email protected].
Rétt meðlæti er oft það sem gerir máltíðina að sælkeramat. Hér gefum við ykkur uppskriftir að gómsætu meðlæti sem er fullkomið á páskaborðið.
Bakaðar gulrætur með parmesanosti og steinselju fyrir 4-6
2 msk. smjör, bráðið
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
8-10 heilar gulrætur, burstaðar og þvegnar
gróft sjávarsalt, eftir smekk
svartur nýmalaður pipar, eftir smekk
4 msk. parmesanostur, rifinn
2 msk. steinselja, söxuð
Hitið ofninn í 200°C. Blandið saman hvítlauk og smjöri og veltið gulrótunum upp úr því, Bragðbætið með salti og pipar. Bakið í 20 mín. Takið úr ofninum og stráið parmesanosti yfir og bakið áfram í 10 mín.
Stráið saxaðri steinselju yfir eftir að gulræturnar koma úr ofninum. Eldunartíminn fer svolítið eftir stærð á gulrótunum.
Perlulaukar soðnir í epladjús
10-12 stk. perlulaukar
500 ml epladjús
2 tsk. kjúklingakraftur
1 msk. ferskt timjan eða 1 tsk. þurrkað
½ tsk. pipar
½ tsk. salt
Sjóðið laukana í 1 mín. og takið hýðið af, þetta er gert til að auðveldara sé að ná hýðinu af lauknum. Setjið þá síðan á djúpa pönnu eða í pott ásamt öllum innihaldsefnum. Látið malla í 30-40 mín. og hrærið í annað slagið á meðan.
Laukurinn er tilbúinn þegar epladjúsinn hefur breyst í fallega karamellu utan um laukinn.
Steiktar apríkósur með kanil
1 tsk. kanill
2 msk. döðlusykur eða önnur sykurtegund
3 apríkósur, sneiddar í báta
2 msk. smjör
Blandið kanil og sykri saman og veltið apríkósubátunum upp úr blöndunni. Bræðið smjörið á pönnu og steikið bátana upp úr smjörinu í 5 mín.
Veltið þeim til á pönnunni á meðan. Þetta er einstaklega gott meðlæti með kjöti eins og svíni og lambi og jafnvel bragmiklu kjöti eins og villibráð.
Samfélagsmiðlastjörnurnar hafa í nógu að snúast í páskafríinu, ætla að njóta hátíðarinnar og að sjálfsögðu að fá sér páskaegg.
„Sko, mitt páskaegg í ár verður Bailyes-páskaegg. Er hægt að biðja um betra kombó?“ segir Sigrún Sigurpáls snappari frá Egilsstöðum sem nýlega keypti sér gamalt einbýlishús þar eystra ásamt sambýlismanninum Steinþóri Guðna Stefánssyni.
„Við erum náttúrlega að brasa í húsinu sem við vorum að kaupa og munum að einhverju leyti nota páskafríið í það. En aðallega ætla ég að vera með börnunum mínum fjórum, fara með þau út í náttúruna og leyfa þeim að upplifa hana. Það er svo mikilvægt að halda tengslum við náttúruna og kenna börnunum okkar að meta hana. Langbest að byrja á meðan þau eru ung. Þá læra þau frekar að leika sér úti og njóta þess að vera í fersku lofti en ekki lokuð inn í herbergi í tölvum.
Á páskadag fer fram hin árlega páskaeggjaleit og ég mun sem fyrr leggja mikinn metnað í að fela eggið hans Steinþórs. Ég hef falið það á ótrúlegustu stöðum þannig að hann hefur verið að því kominn að gefast upp. Einu sinni límdi ég það til dæmis einu sinni undir lazyboy-stólinn hjá pabba mínum,“ segir hún hlægjandi og bætir við: „Svo á ég afmæli annan í páskum og mun halda upp á það með mínum nánustu.“
Kominn tími til að þroskast
Ingólfur Grétarsson eða Gói Sportrönd eins og hann kallar sig ætlar að nýta páskana til að þroskast örlítið meira eins og hann orðar það sjálfur.
„Ég er að verða pabbi í ágúst þannig að mig langar að fókusa á það yfir páskana. Það er kominn tími til að þroskast aðeins meira,“ segir hann ábyrgðarfullur. „Ég á að vera á vakt föstudaginn en ætla að nota helgina til að koma mér á beinu brautina. Dropbox-, Spotify- og Adobe CC-áskriftirnar mínar voru að klárast og ég þarf að skoða hvernig ég á að haga peningamálunum mínum.“
Hann ætlar svo að fá sér 450 g páskaegg númer 5 frá Góu. „Já, frá Góu því ég er Hafnfirðingur. En var eitthvað að spá hvort ég ætti að fá mér hvítt páskaegg í ár en vildi ekki missa mig í flippinu þannig hefðbundið súkkulaði páskaegg varð ofan á.“
Klessa um páskana
„Páskarnir eru klessuhátíð í mínum augum,“ segir Eva Ruza þegar hún er spurð hvað hún ætli að gera um páskana. „Ég hef hugsað mér að vera klessa um páskana. Ég þarf aðeins að núllstilla mig eftir ansi langa skemmtanatörn og þá er ekkert betra en að liggja upp í sófa, borða súkkulaði og jafnvel horfa á Ryan Reynolds í þröngum, rauðum samfesting – Deadpool. Ég er að vona að það mæti ekki haustlægð yfir páskana svo ég geti aðeins farið út að viðra fjölskyldumeðlimina.“
Nóa páskaeggin hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá Evu en hún er farin að upplifa valkvíða þegar kemur að því að velja rétta páskaeggið. „Á ég að borða venjulegt eða henda mér i óvissuna. Held ég muni splæsa í saltlakkrís og sjávarsalt.“
Í byrjun apríl mætti enginn annar en Þráinn Árni Baldvinsson úr Skálmöld í horn Hljóðfærahússins.
Þráinn er að öðrum ólöstuðum ein fremsta gítarhetja landsins. Hann hefur gefið út fjölda platna með Skálmöld og síðasta áratuginn hafa þeir félagar túrað heiminn þveran og endilangan.
Snæbjörn Ragnarsson eða Bibbi eins og flestir þekkja hann er einnig meðlimur Skálmaldar en hann spurði Þráinn spjörunum úr og var ansi kátt í horninu þennan dag.
Heimsókn í Hornið fer fram fyrsta föstudaginn í hverjum mánuði og er spennandi sjá hver mætir næst í Hornið! Albumm mætti að sjálfsögðu á svæðið og úr varð þetta myndband sem unnið er af Thank You Studio fyrir Albumm.is.
Hér fyrir neðan má hlusta á hljóðupptökuna í heild sinni.
Verð á páskaeggjum hefur hækkað í verði á hverju ári frá árinu 2014 og er hækkunin aldrei meiri en í ár. Hins vegar hafa laun hækkað töluvert umfram hækkun páskaeggja á þessu sama tímabili þannig að landsmenn geta keypt fleiri páskaegg fyrir launin sín en áður.
Þetta kemur fram í úttekt greiningardeildar Arion banka. Í greiningunni er stuðst við gögn úr verðlagskönnun ASÍ á sjö völdum tegundum páskaeggja á tímabilinu 2014 til 2019.
Greiningin leiðir í ljós að verð á öllum tegundum páskaeggja hefur hækkað á tímabilinu. Undantekningin á þessu er Góu páskaegg númer 5 sem hefur lækkað í verði frá árinu 2014. Er líkleg skýring sú að það páskaegg hafi verið á tilboðsverði á þeim tíma sem ASÍ gerði verðlagskönnun sína. Í öðrum tilfellum nemur hækkunin á bilinu 12 til 25 prósent.
Líklegar skýringar á hækkun páskaeggja eru samblanda af miklum launahækkunum á tímabilinu, hækkun á heimsmarkaðsverði á súkkulaði og veikari króna.
Sé aðeins litið til verðsamanburðar á milli áranna 2018 og 2019 hækka páskaeggin um 8 prósent eða meira. Það páskaegg sem hækkar mest er númer 5 frá Nóa Siríusi sem hækkaði um 11,9 prósent í verðkönnun ASÍ.
Hins vegar ber að líta til þess að frá árinu 2014 hafa laun á Íslandi hækkað um 43 prósent frá því í febrúar 2014. Þetta þýðir að laun hafa lækkað umtalsvert fram yfir verðlag á páskaeggjum þannig að landsmenn geta keypt fleiri páskaegg fyrir launin sín en áður. Eins og segir í dæmi greiningardeildarinnar:
„Hraunegg Góu hefur hækkað um tæplega 24% frá árinu 2014, út frá verðkönnun ASÍ. Á sama tíma hafa laun hækkað um 43%, sem samsvarar tæplega 16% kaupmáttaraukningu í Hrauneggjum á fimm árum!“
Sé hins vegar eingöngu horft til áranna 2018 og 2019 blasir við önnur mynd. Laun hafa hækkað um 5,6 prósent milli páskahátíða, en verð á páskaeggjum hefur hækkað um 8 prósent eða meira. Það þýðir að hinn hefðbundni launamaður getur keypt færri páskaegg fyrir launin sín en hann gat í fyrra.
„Höggið er þyngst fyrir aðdáendur rjómasúkkulaðis Nóa Siríusar, þar sem kaupmáttur mældur í hefðbundnum Nóa páskaeggjum númer 5 hefur minnkað um 5,6% milli ára. Kaupmáttarrýrnunin í Nóa páskaeggjum númer 4 er mun minni og því gætu rjómasúkkulaðisunnendur sem vilja „besta“ páskana fjárhagslega ,mögulega sætt sig við minna páskaegg í þetta skiptið. Þeir neytendur sem duttu niður á tilboðsverð á Góu páskaeggjum númer 5 geta hinsvegar glaðst, enda náð að læsa inni 13% kaupmáttaraukningu.“
Hér að neðan gefur að líta á línurit sem sýnir verðþróun á einstökum tegundum páskaeggja annars vegar og launaþróunar hins vegar.
Ágústa Magnúsdóttir og Gustav Jóhannsson voru á meðal þeirra hönnuða sem komu fram á HönnunarMars í ár. Þau sýndu nýja húsgagnalínu sem byggð er á spgegluðum formum, bæði í versluninni Akkúrat og sýningarrými þeirra að Funahöfða 3.
Nafn: Ágústa Magnúsdóttir / Gústav Jóhannsson
Aldur: 38 / 44
Menntun: Msc í Medialogy / Húsgagnasmiður
Var nýja línan lengi í þróun og vinnslu?
Þessi lína varð eiginlega til í kjölfar HönnunarMars í fyrra. Þá bjuggum við til ógrynni af nýjum vörum og þar á meðal bogastóla. Við höfum svo verið að framleiða þá síðastliðið ár og þeir gátu af sér afskurði af bogum sem okkur þótti spennandi að reyna að vinna með. Við reynum eftir bestu getu að nýta allt efni sem kemur inn á verkstæðið til fulls.
Hvernig var hönnunarferlið?
Hjá okkur er það yfirleitt nokkuð handahófskennt og er undirstaðan undantekningarlaust í efninu. Í þessu tilfelli stóðum við með hálfhring í höndunum og út frá því veltum við fyrir okkur hvernig við gætum sett þessa boga saman til að mynda form sem við gætum nýtt. Í mastersnáminu mínu mundi ég eftir að hafa lesið um það hvernig mynstur hafa áhrif á hugann, hvernig þau geta leitt til þess að við löðumst að einhverju en hvernig þau geta líka gert það að verkum að við fáum leið á einhverju ef þau eru ekki brotin upp.
Þessi húsgögn eru unnin með þetta í huga, við ákváðum að spegla formin og mynda úr þeim spegla. Hönnunin hjá okkur er mikið ítrunarferli og við höfum verið að hanna þennan bogastól í mörg ár. Beinagrindin af honum stóð lengi vel inni á verkstæði hjá okkur, þvinguð saman sem einhverskonar hugmynd en það tók okkur fjögur ár að ná lokaútgáfunni sem við teljum okkur vera komin niður á núna.
Eru þið umhverfisvæn í ykkar hönnun?
Hjá AGUSTAV leggjum við sérstaklega mikið upp úr því að vera umhverfisvæn. Við notum eingöngu umhverfisvænan efnivið og eiturefnafríar olíur. Við nýtum allt efni sem fellur til á verkstæðinu allt frá afskurði sem verður að nýjum vörum að sagi úr vélunum sem hefur nýst í hesthúsum. Þar að auki þá gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum.
Hefur hönnun, smíði og sköpun alltaf verið ykkur hugleikin?
Smíðin er í æðunum á Gústa má segja og húsgagnasmíðin hafði blundað í honum.
Ég var svo sjálf farin að teikna húsgögn sem unglingur og hef alla tíð haft mikla þörf fyrir að skapa í einhverju formi og vinna með hluti myndrænt.
Í sameiningu náum við svo einhverjum fallkrafti, hugmyndir kvikna og formast á milli okkar, jafnvel verða að einhverju nýju í samtalinu, mótast svo í höndunum og verða að lokum að fullmótuðum hlut.
Á hvaða tíma sólarhringsins vinni þið best?
Hvenær sem er þegar það fæst friður fyrir börnunum … annars sinnum við yfirleitt hugmyndavinnu á kvöldin og vinnum úr henni á daginn.
Hvað finnst þér um íslenska hönnun?
Það er margt áhugavert að gerast á Íslandi en ég held að það sem hamli íslenskri hönnun kannski mest séu framleiðslumöguleikarnir. Hönnunarsagan er ekki eins fastmótuð hér og hún er á hinum Norðurlöndunum en við við sjáum það sem einn helsta kost hönnunar á Íslandi; það að hún er í mótun og hún getur orðið það sem við viljum.
Hvernig er að markaðssetja sig sem hönnuður í dag?
Það er erfitt. Við sköpum allan daginn og hugsum í lausnum en erum ómögulegir sölumenn og finnst erfitt að bera okkar eigin kyndil.
Eftirlætishönnuður?
Maðurinn á ekki séns í náttúruna.
Hvar fást húsgögnin frá AGUSTAV?
Á síðunni okkar AGUSTAV.is og svo erum við með opið sýningarrými á Funahöfða 3 þar sem hægt er að koma og skoða og versla. Bráðlega má einnig finna úrval af vörum frá okkur í hönnunarversluninni Akkúrat.
Kostnaður vegna þjálfunar starfsfólks Icelandair í tengslum við leiguvélar félagsins liggur ekki enn fyrir.
Áætlað er að sautján flugmenn Icelandair þurfi að fara í flughermi í byrjun maí vegna vegna flugvéla sem félagið hefur tekið á leigu vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX véla félagsins. Námskeið fyrir flugáhafnir, um 50 manns, er þegar hafið. Alls eru þetta tæplega 70 manns. Kostnaður vegna þjálfunar starfsfólksins liggur ekki enn fyrir, en Icelandair útvegar kennslustofur og mun eigandi vélanna sjálfur sjá um þjálfun. Þetta kemur fram í skriflegu svari Icelandair til Mannlífs þegar ritstjórn spurðist fyrir um þjálfun starfsfólksins vegna þriggja véla sem félagið tók á leigu í kjölfars kyrrsetningar Boeing 737 MAX véla.
Eins og kunnugt er kyrrsetti félagið, líkt og flugfélög víða um heim, allar Boeing 737 MAX vélar sínar eftir að í ljós kom að galli í hugbúnaði þeirra var orsakavaldur tveggja mannskæðra flugslysa. Í kjölfarið gekk félagið frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum sem tilkynnt var um þann 1. apríl síðastliðinn og 10. apríl gekk félagið frá leigu á þriðju vélinni en hún er af gerðinni Boeing 757-200 og er 184 sæta. Hún verður í rekstri frá 15. maí fram í lok september 2019. Eru þetta vélarnar sem nú er verið að þjálfa starfsfólk Icelandair fyrir.
„Við fylgjumst vel með gangi mála og allar ákvarðanir verða teknar í samráði við flugyfirvöl, þar á meðal hvenær vélarnar verða teknar í notkun.“
Þegar ritstjórn falaðist eftir því að fá að vita hversu mikill kostnaður væri áætlaður vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvéla félagsins, var svar Icelandair eftirfarandi: „Fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar eru óviss á þessu stigi, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fæst bættur frá framleiðanda.“
Þegar ritsjórn spurði hvenær Boeing 737 MAX flugvélar félagsins kæmu til með að verða teknar aftur í notkun, var svarið að uppfærð flugáætlun Icelandair miði enn við að Boeing 737 MAX flugvélar félagsins verði kyrrsettar til 16. júní n.k. „Með þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til með því að bæta leiguvélum við flota félagsins hefur tekist að takmarka áhrifin á leiðarkerfið verulega,“ segir í svarinu. „Við fylgjumst vel með gangi mála og allar ákvarðanir verða teknar í samráði við flugyfirvöld, þar á meðal hvenær vélarnar verða teknar í notkun.“
Rúmur mánuður er liðinn frá því að Boeing 737 MAX þoturnar voru kyrrsettar. Hefur kyrrsetningin haft víðtæk áhrif á rekstur margra flugfélaga, þ.m.t. Icelandair.
Það er góð regla að bjóða ávallt upp á eitthvað sem grænmetisætur geta borðað í veislum og matarboðum þó svo að allir réttirnir þurfi kannski ekkert endilega að vera úr grænmeti, gaman er að blanda saman og gefa fólki val. Hér kemur uppskrift að grænmetispaté sem er fullkomið á veisluborðið.
Hitið ofninn í 180°C. Steikið laukinn upp úr olíunni í nokkrar mínútur, passið að hann brúnist ekki, bætið selleríi út í og steikið í 1-2 mín. með lauknum. Setjið hveiti saman við ásamt tómatmaukinu og hrærið vel saman.
Takið af hellunni. Setjið brauðrasp, gulrætur, hnetur, sojasósu og kóríander í skál og blandið því sem er á pönnunni saman við ásamt eggi. Bragðbæætið með salti og pipar.
Setjið deigið í 22 cm formkökuform sem hefur verið klætt með bökunarpappír eða smurt með smjöri. Setjið álpappír yfir og bakið í 1 klst.
Kælið og takið síðan úr forminu. Þetta paté er gott að bera fram með sýrðum rjóma og söxuðum kóríander eða hummus.
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Ég hef sagt það áður – lokunarmálin í miðborginni eru löngu orðin þráhyggja og á ekkert skylt við almenna skynsemi” skrifaði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á Facebook í morgun. Þá skoðun tjáir Vigdís vegna fyrirhugaðar lokunnar hluta Laugavegs fyrir bifreiðaumferð.
Um leið lýsir Vigdís þeirri sýn sinni að hún sé hér talsmaður hins „stóra meirihluta” og „almennrar skynsemi“ borgarbúa í málinu, þvert á fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG sem mynda meirihluta í borgarstjórn. „Ég er mjög afdráttarlaus í þessu máli – ég stend með stóra meirihlutanum sem vill ekki lokun”. Þá nefnir Vigdís að við talningu í gær standi 20 verslunar- og þjónusturými auð í miðbænum.
Vigdís lýsir vonbrigðum yfir þeirri ákvörðun Morgunblaðsins að birta ekki viðtal sem blaðið tók við hana vegna málefna Laugavegs, þá með stærri umfjöllun blaðsins, um fyrirætlanir um lokun sem birtist í blaðinu í dag. „Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna – ég vil að fjölbreytileikinn í samgöngum sé sem mestur og eitt útilokar ekki annað”.
Skýrsla Robert Mueller, um rannsókn á tengslum Trump við Rússland, verður opinberuð bandaríska þinginu á Skírdag eftir tveggja ára rannsóknarvinnu. Hvíta húsið hefur þegar fengið að sjá hluta skýrslunnar og vakti það mikla reiði og óánægju meðal Demókrata sem saka Trump-stjórnina um tilraunir til að grafa undan skýrslu Mueller.
Allt frá kosningabaráttu og síðar kjöri Donald Trump til forseta Bandaríkjanna hefur því ítrekað verið haldið fram að Rússar hafi blandað sér í forsetakosningarnar árið 2016. Eru starfsmenn Donald Trumps og forsetinn sjálfur sakaðir um að vinna náið með rússneskum yfirvöldum og þegið aðstoð við kosningabaráttuna. Í Bandaríkjunum eru afskipti erlendra ríkja að kosningum óheimil og það er brot á kosningalögum þar í landi að taka við fjárhagslegum stuðning vegna kosninga.
Blaðamannafundur á vegum dómsmálaráðherrans, William Barr, verður haldinn fyrir opinberun skýrslunnar og hefur forsetinn sagst íhuga að fylgja á eftir. Þessi ákvörðun hefur verið gagnrýnd enda fer fundurinn fram áður en skýrslan hefur verið birt þinginu og hvað þá síður almenningi. CNN bendir á að þetta geti haft áhrif á upplifun almennings á skýrslunni. CNN hefur áður greint frá áætlun Trumps og stjórnar hans um birtingu sérvalinna kafla úr skýrslunni og eigin túlkana áður en hún er gerð opinber. Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum sínum og fordæma aðgerðir Hvíta hússins í málinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til á bingókvöld sem fram fór á barnum Gullöldin Grafarvogi í gærkvöldi. Þáttakandi var ósáttur við bingóstjóra kvöldsins og sakaði hann um svindl. Annar þátttakandi kom bingóstjóranum til varnar en var fyrir vikið sleginn í andlitið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu sem Morgunblaðið greinir frá.
Blásið var til Páskabingós Gullaldarinnar í gærkvöldi en í auglýsingu viðburðarins á síðu barsins kemur fram að heildarverðmæti vinninga hlaupi á hundruð þúsunda. Þá fylgdi páskaegg með öllum verðlaunum. Það var því til mikils að vinna.
Nóttin var að öðru leiti róleg hjá lögreglu en níu voru teknir við akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Fjórir voru sviptir ökuréttindum og þrír voru án réttinda. Þá voru tveir aðilar með fíkniefni í fórum sér.
Wow og Isavia lögðu drög að samkomulagi í lok september 2018 vegna milljarð króna skuld flugfélagsins á þeim tíma, sem greiða átti í 13 aðskildum afborgunum sem myndu teygja sig yfir síðustu tvo mánuði ársins 2018 og fyrstu 11 mánuði ársins 2019. Skilum samkvæmt samkomulaginu stóðu fram í febrúar. Morgunblaðið greindi frá.
Eitt af skilyrðum samningsins var að minnsta kosti ein flugvél á flugrekstarleyfi félagsins þyrfti að vera til staðar á vellinum eða að vél á sama leyfi væri á leið til Keflavíkurflugvallar. Nauðsynlegt yrði að vélin væri með staðfestan komutíma til vallarins.
Vegna samkomulagsins var vél á vegum Wow air kyrrsett frá 18. mars þar til flugfélagið lýsti yfir gjaldþroti 28. mars. Eigendur flugvélarinnar, Air Lease Corporation, höfðu ekki verið upplýstir um samkomulagið milli Wow air og Isavia og vissu ekki að flugvél í þeirra eigu væri trygging fyrir skuld.
Ágúst Már Garðarsson, kokkur hjá verkfræðistofunni Eflu, ákvað að gerast grænkeri eftir að hann ásamt Sigurði Lofti Thorlacius, umhverfisverkfræðingi, hófu að mæla dýpt kolefnisspora þess matar sem boðið er upp á í mötuneyti Eflu.
Ágúst viðurkennir að hann takist nú á við krefjandi lífsstílsbreytingu en að hann geti ekki haldið áfram að borða dýraafurðir með góðri samvisku eftir að hann kynnti sér málið.
„Ég er í grunninn kjötæta, ég er alinn upp í sveit, hef slátrað dýrum og veiddi minka sem barn,“ segir Ágúst sem er nú orðinn vegan.
„…ég er alinn upp í sveit, hef slátrað dýrum og veiddi minka sem barn.“
Ágúst segist hafa verið mikil kjötæta og aldrei íhugað að hætta að borða kjöt áður en hann fór að skoða muninn á kolefnisspori kjötfæðis annars vegar og grænmetisfæðis hins vegar.
„Ég var ekkert að fara að breytast. Ég hafði litla löngun til að breyta mataræðinu. En fyrir þremur vikum hófst umhverfisvikan í Eflu og við fórum að prufukeyra mælingarforritið. Ég hélt að þetta myndi ekki hafa mikil áhrif á mig en þegar dagarnir liðu og ég fór að stimpla hráefnin inn og sjá tölurnar sem komu upp þá brá mér svolítið,“ útskýrir Ágúst. Í kjölfarið fór hann að lesa sér til um kjötframleiðslu og landbúnað.
„Það er alveg hægt að breytast, ég meina, þetta er hálf vandræðalegt fyrir mig því ég er með slátursvín húðflúrað á framhandlegginn,“ segir hann og skellir upp úr.
„Ég vissi ekki að ég væri svona háður osti“
Spurður út í hvort að hann sé orðinn vegan til frambúðar svarar hann játandi. „Já, alveg hiklaust. Ég er enn þá að læra inn á þetta. Ég var til dæmis að komast að því að það er býflugnavax í rauðum Ópal og þess vegna er hann ekki í boði lengur. En ég ætla að gera mitt besta.“
Aðspurður hvort það sé einhver ákveðinn matur sem hann hefur saknað eftir að hann gerðist vegan segir hann: „Ostar. Ég vissi ekki að ég væri svona háður osti. Ég var til dæmis að baka pítsur fyrir stelpurnar mínar á föstudaginn og mér fannst ég vera að fara á mis við eitthvað í lífinu, að geta ekki fengið mér pítsu með osti“ segir Ágúst og hlær.
Í dag er fjölbreytt úrval veganosta til í verslunum en Ágúst hefur ekki fundið veganost sem hann er hrifinn af enn þá. „Þeir eru bara ekki nógu góðir að mínu mati. En maður veit ekki, vísindunum fleytir fram og kannski tekst einhverjum að búa til fullkominn veganost.“
Krefjandi en skemmtilegt verkefni
Ágúst viðurkennir að það sé krefjandi að gera svona mikla breytingu á mataræði sínu. „Þetta er svo margbrotið. Þetta reynir vissulega á en það er gaman að takast á við svona verkefni. Maður þarf að hugsa svo margt upp á nýtt. En þegar ég sá að veganmatur getur líka verið sveittur með majónesi, þá fór ég að trúa að þetta sé hægt,“ segir hann og hlær.
„Þegar ég sá að veganmatur getur líka verið sveittur með majónesi, þá fór ég að trúa að þetta sé hægt.“
Ágúst tekur fram að úrval alls kyns matar sem unninn er úr jurtaríkinu en líkist kjöti komi sér vel í eldamennskuna. „Þessi veganmatur sem notaður er sem staðgengill fyrir kjöt er að ná auknum vinsældum og úrvalið er orðið mikið. Í gamla daga var þetta algjört „no no“ og það þótti bara hallærislegt,“ segir Ágúst sem mælir eindregið með að fólk kynni sér vegan lífsstílinn.
Fyrir áhugasama er hér fyrir neðan tafla um kolefnisspor þeirra máltíða sem starfsfólki Eflu var boðið upp á þann 17. apríl.
Hún Edda á Birkimelnum, söguhetjan í Eddubókum Jónínu Leósdóttur, hefur unnið hugi og hjörtu íslenskra lesenda með vasklegri framgöngu við lausn sakamála, óseðjandi forvitni og hressilega hreinskilnislegum skoðunum á hinu og þessu í samfélaginu.
Hún er eiginlega frekar óþolandi persóna sem lesendur myndu kannski forðast ef hún væri raunveruleg en sem sögupersóna hittir hún í mark og minnir um margt á eina ástsælustu persónu glæpabókmenntanna, hina hnýsnu slettireku Miss Marple sem Agatha Christie gerði ódauðlega í hverri metsölubókinni af annarri á síðustu öld. Það er eitthvað við þessar afskiptasömu eldri dömur sem er einfaldlega ómótstæðilegt.
Í einni bókinni um Eddu ásakar Snorri, hinn önuglyndi sonur hennar, hana um að vera haldin „Miss Marple-komplex“ og hann hefur ýmislegt til síns máls. Eins og Miss Marple er Edda bráðskörp, hefur óþrjótandi áhuga á umhverfi sínu og öðru fólki og er glúrin við að finna þræðina sem leiða til þess að glæpamaðurinn finnst. Edda er hins vegar auðvitað mun nútímalegri persóna en Miss Marple, enda kom sú góða kona fyrst fram á sjónarsviðið árið 1927 og er skilgetið afkvæmi síns tíma. Í fyrstu bókinni, Morðið á prestsetrinu, er hún reyndar hvorki vinsæl né aðdáunarverð persóna, mikil slúðurkerling með nefið ofan í hvers manns koppi, smjattandi á óförum annarra og lesendur voru frekar ósáttir við hana en Agatha Christie gerði hana viðkunnanlegri í seinni bókum og það endaði auðvitað með því að lesendur voru farnir að elska og dá þessa gömlu piparjúnku sem endalaust skipti sér af lífi annarra.
„Ekki svo að skilja að Edda taki meðvitaða ákvörðun um það að gerast einhver Miss Marple, forvitni hennar og löngun til að hjálpa náunganum leiða hana óvart út á þessa braut og eftir fyrsta málið verður ekki aftur snúið. Hún verður að leysa gáturnar.“
Miss Marple hefur aldrei unnið utan heimilis, og reyndar varla innan heimilis heldur, þar sem hún hefur alltaf þjónustustúlkur á heimilinu, en Edda er hins vegar fyrrverandi verslunarstjóri bókabúðar og fullkomlega fær um að sjá um sig sjálf. Í fyrstu bókinni, Konan í blokkinni, er hún nýkomin á eftirlaun og pínulítið áttavillt í tilverunni, verandi íðilhress kona á besta aldri þarf hún augljóslega á því að halda að finna lífi sínu tilgang og fylla dagana af einhverju áhugaverðu og þar koma sakamálin til sögunnar. Ekki svo að skilja að Edda taki meðvitaða ákvörðun um það að gerast einhver Miss Marple, forvitni hennar og löngun til að hjálpa náunganum leiða hana óvart út á þessa braut og eftir fyrsta málið verður ekki aftur snúið. Hún verður að leysa gáturnar.
Kafað í samfélagið
Þrátt fyrir ýmis líkindi þeirra stallsystra Eddu og Jane Marple er þó miklu fleira sem er ólíkt með þeim, sérstaklega í einkalífi þeirra og aðstæðum. Jane Marple hefur aldrei gifst, á engin börn né nána ættingja og virðist verja meirihlutanum af lífi sínu í heimsóknum hjá fólki sem hún þekkir mismikið. Edda, hins vegar, á hjónaband að baki, hún á tvö börn, tvo tengdasyni og tvö barnabörn og stærðarinnar tengslanet.
Hún er vön því að bjarga sér sjálf og þótt samskiptin við börnin séu svona upp og niður eru þau þó snar þáttur í lífi hennar og engan veginn hægt að segja að hún sé ein í lífsbaráttunni. Ein skemmtilegasta aukapersóna bókanna er svo tengdasonurinn Viktor, en hann og Edda eru miklir vinir og hittast oft til að slúðra og drekka rauðvín saman. Samræður þeirra eru oft stórskemmtilegar og sýna hlið á Eddu sem hún birtir ekki oft í samskiptum við aðra.
Það sem bókaflokkarnir um Eddu og Miss Marple eiga þó enn frekar sameiginlegt en líkindin milli aðalpersónanna, er að höfundarnir eru miklir mannþekkjarar og sögur persónanna sem blandast í málin sem þær stöllur leysa eru djúpar og vel byggðar.
Ólíkt því sem oft gerist í glæpasögum fáum við að kynnast þeim sem viðkomandi glæpir snerta mest og um leið verða sögurnar samfélagsrýni sem skiptir máli, ekki bara einfaldar morðgátur sem öll frásögnin gengur út á að leysa.
Jónína Leósdóttir hefur í bókum sínum um Eddu tekið fyrir ýmis mál sem eru áberandi í samfélagsumræðunni og í nýjustu bókinni, Barnið sem hrópaði í hljóði, er meginþemað heimilisofbeldi og þá ekki síst áhrif þess á börn að alast upp við slíkt.
Óhemju sterkir kaflar eru sagðir í fyrstu persónu af barni sem horfir upp á föður sinn misþyrma móður sinni og það er hjartalaus manneskja sem ekki verður djúpt snortin af þeim lestri. Í bókinni er sjónum einnig beint að hlutskipti trans barna í íslensku samfélagi og sú saga er ekki síður hugvekjandi. Því þótt yfirbragð bókanna um Eddu sé léttleikandi og oft og tíðum drepfyndið þá er hér samt tekist á við alvarleg samfélagsmein með afgerandi hætti og lesandinn neyddur til að horfast í augu við ýmislegt óþægilegt sem oft er sópað undir teppi. Og það án þess að nokkurs staðar örli á predikun eða tilraunum til að troða boðskapnum upp á lesandann. Þetta er skemmtilestur með grafalvarlegum undirtóni.
„Í einni bókinni um Eddu ásakar Snorri, hinn önuglyndi sonur hennar, hana um að vera haldna „Miss Marple-komplex“ og hann hefur ýmislegt til síns máls. Eins og Miss Marple er Edda bráðskörp, hefur óþrjótandi áhuga á umhverfi sínu og öðru fólki og er glúrin við að finna þræðina sem leiða til þess að glæpamaðurinn finnst.“
Jónína hefur gefið það í skyn að næsta bók um Eddu verði sú síðasta í bókaflokknum en aðdáendur Eddu eru síður en svo sáttir við það. Okkur finnst eiginlega lágmark að Edda fái tólf bækur um sig eins og Miss Marple vinkona hennar og að við fáum að fylgjast með henni eldast. Það væri ekki sanngjarnt að láta okkur elska hana meira með hverri bók og taka hana síðan frá okkur. Við þurfum okkar árlega Edduskammt. Hún er nefnilega skuggalega ávanabindandi.
„ÍSAM auðvaldið útvegar kennsluefnið í viðvarandi kennslustundina sem við sitjum öll um þessar mundir,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook vegna tilkynningar ÍSAM um verðhækkanir fyrirtækja í eigu félagsins verði kjarasamningar samþykktir. „Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefur verið troðið ofan í okkur eins og kássu búinni til úr grænum baunum, sírópi, franskbrauði, kexi, síld og tannkremi (og argað um leið og við kúgumst: Þetta er víst gott, aumingi!) hefur sem grundvallarlygi að ekkert sé betra fyrir lýðræðið en óheft markaðsfrelsi.“
Fréttablaðið sagði frá því í morgun að Ísam, heildsölu og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boði nú verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækjanna ef samningar verða samþykktir. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við RÚV það vera einsdæmi að fyrirtæki boði verðhækkanir ef kjarasamningar verði samþykktir. Björn Snæbjörnsson sagði við Morgunblaðið að hann telji klofning innan raða Samtaka atvinnulífsins og að ákveðin fyrirtæki vilji fella samninginn. „Mér finnst eins og fyrirtæki innan Samtak atvinnulífsins séu að hvetja til þess að kjarasamningarnir séu felldir. Það er eins og það sé ákveðinn klofningur innan samtakanna.“
Sólveig segir ekkert jafn andlýðræðislegt og auðvaldið og vill meina að hugmyndir um markaðsfrelsi og lýðræði séu lygi haldið að fólki. „það er gömul saga og glæný. Ætli við verðum ekki bara að vera pínku glöð yfir því að Hermann [Stefánsson] afhjúpar sig og sinn þankagang svona rösklega. Það hlýtur að færa okkur endurnýjaðan baráttuanda og skarpan fókus á það hvers vegna breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu.“
„Mér finnst eins og fyrirtæki innan Samtak atvinnulífsins séu að hvetja til þess að kjarasamningarnir séu felldir. Það er eins og það sé ákveðinn klofningur innan samtakanna,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður starfsgreinasambandsins, við Morgunblaðið í kjölfar tilkynninga um verðhækkanir sökum kjarasamninga. Björn segir við blaðið að framsetning þeirra sem tilkynn hafa um hækkanir sé ósmekkleg. Ríki og sveitarfélög hafa þega gefið út að þau muni halda aftur af verðhækkunum.
Fréttablaðið sagði frá því í morgun að Ísam, heildsölu og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boði nú verðhækkanir á öllum vörum fyrirtækjanna ef samningar verða samþykktir. Þá segir Fréttablaðið frá fyrirhugaðri hækkun Gæðabaksturs vegna samninganna. Fyrirtækið boðar 6.2% hækkun gengishækkunar á hveiti og vegna samninganna. Í fréttinni kemur fram að hækkun vegna hveitis sé um þrjú prósent.
„Ég er ekki að segja það að fólk eigi ekki skilið það sem það fær í laun. En ef við fáum á okkur þessa hækkun þá verðum við að setja það út í verðlagið til að mæta þessu,“ segir Vilhjálmur Þorláksson,framkvæmdastjóri Gæðabaksturs, við Fréttablaðið.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við RÚV það vera einsdæmi að fyrirtæki boði verðhækkanir ef kjarasamningar verði samþykktir, líkt og ÍSAM gerði í gær. „Við erum með endurskoðunarákvæði sem snúa að því að kaupmáttur launa verði tryggður og vextir lækki. Ég tel að þetta ógni því að svo geti orðið. Þá munu kjarasamningar væntanlega losna og við munum sækja þær kaupmáttarkrónur, eða þær kjarabætur sem við töldum okkur gefa eftir til þess að ná niður vöxtum, af mikilli hörku ef það kemur til þess að samningar losni,“ segir Ragnar.
Formaður Starfsgreinasambandsins segir við Morgunblaðið að Brauðgerð Kristjáns Jónssonar á Akureyri hafi tilkynnt sambandinu að þeirra vörur muni hækka um 6.2%
Kjarasamningar verslunar- og verkafólks eru til rúmlega þriggja ára. Þeir gilda frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022 verði þeir samþykktir. Lægstu laun munu hækka mest en sú hækkun nemur 30% á lægstu taxta. Útfærsla er í samningnum til styttri vinnuviku. Þá fylgir þeim eingreiðsla upp á kr. 26 þúsund sem greidd er út í byrjun maí 2019. Ein forsenda samninganna er að skattbyrði tekjulægstu hópa lækkar um kr. tíu þúsund á mánuði.
Guðrún Lára Sveinbjörnsdóttir fylgdi föður sínum, Sveinbirni Bjarkasyni, í gegnum stigvaxandi alkóhólisma sem að lokum dró hann til dauða langt fyrir aldur fram. Sú reynsla hefur markað líf Guðrúnar Láru alla tíð en fyrir jólin sendi hún frá sér bókina Orðlaus þar sem hún kallast á við ljóð föður síns með upprifjunum á eigin reynslu. Hún segir vinnuna við bókina að mörgu leyti hafa verið frelsandi en hún glími þó enn við meðvirkni og aðrar afleiðingar þess að alast upp við alkóhólisma foreldris.
Guðrún Lára var ættleidd af Sveinbirni Bjarkasyni og Kristjönu Þráinsdóttur ásamt systur sinni sem er tveimur árum eldri. Hún þekkti aldrei kynföður sinn en hefur alltaf vitað af kynmóður sinni og verið í sambandi við hana annað slagið í gegnum tíðina. Framan af átti hún litríka og áfallalausa æsku og segist bara eiga góðar minningar um foreldra sína frá þeim tíma.
„Við pabbi vorum mjög náin,“ segir Guðrún Lára, sem reyndar er alltaf kölluð Lára, spurð um samband sitt við föður sinn. „Pabbi var hálfgerð ævintýrapersóna og náði vel til barna og við systurnar áttum margar eftirminnilegar og góðar stundir með honum í æsku. Þegar ég var sex ára missti pabbi fyrirtækið sitt og varð gjaldþrota og upp úr því byrjaði hann að drekka stíft. Hann hafði drukkið áður, en ég man ekki eftir því að það hafi verið einhver vandræði. Mamma var flugfreyja og mikið að heiman, þannig að pabbi var mikið með okkur systurnar. En í kjölfar gjaldþrotsins misstu foreldrar mínir íbúðina sína í Árbænum og fluttu í miðbæinn í leiguíbúð. Pabbi átti erfitt með að sætta sig við þetta og deyfði hugann í drykkju sem ágerðist og var orðin dagleg. Það var eins og hann hefði verið rændur karakternum sínum. Hann stjórnaði okkur tilfinningalega og beitti okkur alvarlegu andlegu ofbeldi á þessum tíma. Þetta voru erfiðir tímar fyrir okkur öll þar sem við héldum alltaf í vonina um að hann myndi taka sig á, eins og hann lofaði svo oft. Því miður gerðist það ekki og drykkjan var orðin stjórnlaus. Hann hvarf heilu vikurnar og hann var farinn að beita mömmu líkamlegu ofbeldi þegar þau skildu. Þá hef ég verið níu ára.“
Reyndi að stjórna drykkju föðurins
Eftir að foreldrar hennar skildu umgekkst Lára föður sinn stopulla, en þær systurnar fóru þó alltaf til hans annað slagið og sóttu mikið í nærveru hans, að hennar sögn. „Ég sótti mikið í pabba,“ segir hún. „Hann drakk líka þegar við vorum hjá honum en hann reyndi að halda því innan marka á meðan. Ég vorkenndi honum og var einhvern veginn alltaf að reyna að passa upp á hann. Hélt að ef ég væri með honum þá myndi hann ekki drekka, en það var auðvitað ekki þannig. Ég sé það í dag að þetta var rosaleg meðvirkni, maður sækir í einhvern sem maður er að reyna að stjórna með því að koma inn hjá honum samviskubiti. Ég tuðaði oft í honum að hætta að drekka eins og ég veit að aðstandendur gera. Ég man vel eitt sinn þegar ég bað hann að gefa mér það í afmælisgjöf að hætta að drekka og hann svaraði því að hann skyldi hætta að drekka ef ég myndi hætta að borða nammi. Ég sé það auðvitað núna hvað hann var orðinn rosalega veikur, að segja þetta við við mig.“
„Ég kom oft þreytt og tætt í skólann þegar mamma og pabbi voru enn saman og var orðin félagslega einangruð. Sagði fátt og var orðin bæld í samræðum við vinkonur mínar. Það hafði áhrif á vináttuna og tengsl við skólafélaga.“
Spurð hvaða áhrif skilnaðurinn og ástand föðurins hafi haft á hana, hvort það hafi til dæmis haft áhrif á árangur hennar í skóla, segir Lára að það hafi sjálfsagt gert það að einhverju leyti, hún hafi verið berskjölduð og lent í hálfgerðu einelti af hendi nokkurra skólafélaga þegar verst stóð á heima fyrir. „Ég kom oft þreytt og tætt í skólann þegar mamma og pabbi voru enn saman og var orðin félagslega einangruð. Sagði fátt og var orðin bæld í samræðum við vinkonur mínar. Það hafði áhrif á vináttuna og tengsl við skólafélaga. Það endaði svo á því að ég var skilin út undan og gert grín að því hvernig ég hagaði mér.
Eftir að mamma og pabbi skildu og ég var hjá pabba kom ég líka oft seint eða mætti ekki þar sem pabbi var ekki í standi til að keyra mig í skólann, þá hringdum við inn veikindi. Þetta hafði þau áhrif að ég var óörugg með sjálfa mig og fannst eins og allir sæju í gegnum mig, vandamálin urðu stærri og ég gat ekki tjáð mig um þau.
Ég held að það gerist oft með krakka sem búa við slæmar heimilisaðstæður, þeir verða berskjaldaðir, þá er léttara fyrir hina krakkana að atast í þeim.
Ég skammaðist mín líka oft fyrir pabba og fékk síðan samviskubit yfir því. Það fylgdi þessu endalaus togstreita. Einu sinni var ég að keppa í fótbolta og pabbi kom á leikinn. Hann var fullur og gólaði og öskraði inn á völlinn. Honum fannst hann vera hvetjandi og gerði sér enga grein fyrir því hvað þetta var orðið skammarlegt. Ég skammaðist mín mikið fyrir hvernig hann hegðaði sér og fann hvernig liðið mitt og þjálfarinn vorkenndu mér.“
Lára segist ekki hafa fengið mikla aðstoð við að takast á við þessar stríðandi tilfinningar, það hafi einhvern veginn ekki verið venjan á þeim tíma. „Kennarinn minn hafði samband við mömmu um að koma okkur systrum að hjá félagsráðgjafa í skólanum og við fórum þangað. Ég hefði örugglega þurft að ganga til sálfræðings á þessum tíma líka en þetta var bara öðruvísi í gamla daga, það var ekki eins aðgengilegt að fara til sálfræðings eins og er í dag.
Eftir að mamma og pabbi skildu giftist mamma öðrum manni og við fluttum í Mosfellsbæ. Þar fann ég meiri stöðugleika heima fyrir og átti auðveldara með sjálfa mig. Eignaðist yndislega vini sem ég held enn sambandi við og sjálfsmyndin efldist.“
Líka reið við mömmu
„Mamma var ekkert voðalega hrifin af því að við værum svona mikið hjá pabba, en við vildum alltaf fara til hans og hann var yfirleitt edrú þegar hann kom að sækja okkur, svo hún gat lítið gert. Ég laug líka að mömmu, sagði að hann hefði verið edrú þótt hann hefði verið fullur og svona. Við vorum oft mjög tættar þegar við komum heim og vildum ekki ræða neitt um það hvernig dvölin hjá pabba hefði verið. En þetta var allt svo flókið, ég var eiginlega bálreið út í mömmu líka. Hún átti í fyrsta lagi ekkert að vera að skipta sér af þessu, þetta var pabbi okkar, en svo vildi maður líka að hún myndi taka utan um mann og hugga mann. Þetta var algjör tilfinningarússíbani.“
Lára segist hafa brenglaða mynd af nánum samböndum og það hafi kannski markað hana hvernig samskiptin við föður hennar voru. Hún eigi erfitt með að treysta og viti eiginlega ekkert hvað eðlilegt samband sé. „Mamma mín og stjúppabbi minn áttu vinalegt samband og það er ágætt viðmið. En það er eins og ég kunni ekki að meta þannig sambönd sjálf og ég finn það alveg að ég hrífst af mönnum sem eru líkari pabba. Það er eitthvað sem ég er að vinna í og er mjög sátt við að vera ein í dag.“
Um það bil að gefast upp
Þegar Lára var í framhaldsskóla var pabbi hennar nánast kominn á götuna og orðinn útigangsmaður, eða það sem kallað var á þeim tíma að vera að róni. Það hlýtur að hafa verið erfið reynsla. „Pabbi eignaðist líka aðra konu sem var okkur systur minni mjög góð og við eigum enn í dag í góðu sambandi við. Þau voru saman í nokkur ár en undir það síðasta var samband þeirra slitrótt og átakanlegt. Pabbi var orðinn mjög veruleikafirrtur og illa haldinn af sínum sjúkdómi. Eftir að þau skildu var niðurleiðin hröð. Hann fluttist milli íbúða en gat ekki staðið í skilum með leiguna og kom sér fjárhagslega og andlega á mun verri stað. Hann bjó oftast nálægt miðbænum og umgekkst fólk sem var í slæmu ástandi líka. Um þetta leyti hætti ég að mestu að fara heim til hans, en ég reyndi samt að halda sambandi við hann þótt það væri erfitt. Hann var oft týndur eða hafði lent í slagsmálum og lenti stundum upp á spítala nær dauða en lífi af drykkju og vímuefnum. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þegar hann hafði verið lagður inn með gröft í lungunum og eitrun í blóðinu og læknarnir sögðu okkur að það væri óvissa um ástand hans. Ég vonaði þó að hann myndi fara í meðferð. En daginn eftir mætti ég upp á spítala og þá var hann farinn, hann hafði farið í spítalasloppnum með æðalegginn hangandi framan á sér. Þá fékk ég nánast taugaáfall. Ég skildi ekki hvernig hægt var að hleypa manninum út og átti áhrifaríkt samtal við hjúkrunarkonu. Hún benti mér á að það væri ekki hægt að halda fólki óviljugu á spítalanum en ég gæti mögulega farið fram á að svipta hann sjálfræði tímabundið. Ég fór heim til hans til að athuga hvort hann væri þar og það reyndist rétt. Hann leit hræðilega illa út, var gulleitur á hörund og gröftur lak úr hendinni á honum. Hann gat ekki talað og augnaráð hans var fjarrænt. Ég bað hann að koma með mér aftur upp á spítala en hann hlustaði ekki. Hann gekk út í átt að Austurvelli. Ég gekk á eftir honum og sá hvernig fólk starði á hann. Hann gekk beint inn í ríkið og reyndi að kaupa sér áfengi en hafði bara tekið notað símafrelsiskort með sér. Ég borgaði fyrir hann og hljóp í burtu. Þessum tímapunkti í lífi mínu gleymi ég aldrei. Pabbi sagði mér þó síðar að hann hefði farið aftur upp á spítala um nóttina og svo í framhaldinu á geðdeild.“
„Það var partí heima hjá honum þar sem 16 ára stúlku var nauðgað hrottalega af tveimur mönnum inni á baðherbergi. Hann sjálfur var áfengisdauður inni í svefnherberginu á meðan því stóð og mundi ekkert.“
Lára segist á þessum tíma hafa verið um það bil að gefast upp á föður sínum og það sama hafi gilt um alla aðra sem þekktu hann. „Vinur minn sagði mér einu sinni af því þegar hann hitti pabba niðri í bæ í slæmum fráhvörfum og gaf honum peninga fyrir afréttara og mat. Frænka mín grét eitt sinn í jólaboði eftir að hafa hitt pabba á bekk í bænum. Sumir sem þekktu hann vildu ekki sjá hann, urðu reiðir og kölluðu hann aumingja. Ég gerði allt þetta líka. Ég hitti hann líka stundum í misjöfnu ásigkomulagi. það var sárt að sjá hann og ég skammaðist mín fyrir hann. En það erfiðasta var að hann vildi ekki hjálp og ég gat ekkert gert sama hvað ég reyndi.“
Sveinbjörn dó af völdum alkóhólismans þegar Lára var tuttugu og fjögurra ára, en áður hafði hann náð að vera edrú í tvö ár og þau ár voru afar mikilvæg fyrir Láru. „Pabbi var á botninum þegar hann tók þá ákvörðun að verða edrú. Nánustu ættingjar og vinir voru alveg búnir að loka á hann og það hefði ekki komið mörgum á óvart að hann hefði dáið á þessum tíma. Hann bjó á Snorrabrautinni þegar hræðilegur atburður gerðist sem varð til þess að hann tók sig á og varð edrú,“ segir Lára og þagnar. „Það var partí heima hjá honum þar sem 16 ára stúlku var nauðgað hrottalega af tveimur mönnum inni á baðherbergi. Hann sjálfur var áfengisdauður inni í svefnherberginu á meðan því stóð og mundi ekkert. Hann kenndi þó sjálfum sér um þetta og sá að hann vildi ekki lifa svona lengur. Hann hafði oft farið í meðferð áður en aldrei náð tökum á edrúmennskunni en í þetta sinn fór hann í gegnum allan meðferðarpakkann og var edrú í tvö ár eftir það. Sá tími var okkur dýrmætur og hann vildi allt fyrir okkur systur og barnabörn gera, enda var hann ljúfur og góður maður. Þetta var eins og fá pabba aftur.“
Gat loks fyrirgefið mér
Sælan entist ekki lengi og Sveinbjörn fór að drekka aftur, sú drykkja dró hann hratt til dauða. Meðan hann var edrú hafði hann ætlað sér að gefa út ljóðabók eftir sig og aðra sem höfðu gefið honum ljóð á förnum vegi. Sú bók átti að heita Orð. „Ég hafði hvatt hann árum saman til að safna ljóðum sínum og halda utan um þau og hann gerði það. Hann var kominn langt á leið með að setja ljóðin sín saman í bók áður en hann datt í það. Þegar hann var svo fallinn reyndi ég að fá hann til að verða edrú aftur og lofaði að aðstoða hann með bókina. Þá sagði hann kaldhæðnislega að ef hann lifði það ekki að bókin kæmi út ætti hún að heita Orðlaus. Þegar hann dó sat ég uppi með heilan helling af ljóðum, bæði eftir hann og aðra. Ég tók þau ljóð sem ég vissi að voru hans en það eru þrjú ljóð í bókinni sem gætu mögulega verið annarra en þau fylgdu honum og eiga greinilega erindi hvort sem þau eru hans eða annarra.
Daginn fyrir afmælið hans, 25. október 2007, var ég að bíða eftir honum heima hjá honum. Þegar hann kom heim var hann með kippur af bjór og orðinn léttur. Hann hafði verið á brúninni með að falla og hafði dottið tvisvar í það áður en þarna vissi ég að hann var fallinn. Ég varð gjörsamlega eyðilögð. Ég gekk út frá honum eftir að hafa sagt alls konar leiðinlega og særandi hluti við hann. Hann reyndi að hringja í mig en í fyrsta sinn ákvað ég að loka á hann og svaraði honum ekki. Ég hélt þá að ég væri að gera rétt og þetta myndi jafnvel hafa áhrif á að hann hætti. Ég hitti hann einu sinni aftur áður en hann dó. Þá kom hann í vinnuna til mín fullur og ég vildi ekki sjá hann. Ég heyrði af honum og þá var hann á stanslausu fylliríi og orðinn illa haldinn á sál og líkama. Ef ég ætti að ráðleggja sjálfri mér í dag, myndi ég ekki loka á hann. Ég hefði viljað svara símanum og segja honum að ég elskaði hann, þótt ég gæti ekki talað við hann núna.“
Spurð hvort hún hafi leitað sér hjálpar við að vinna úr tilfinningunum sem þessi reynsla hefur valdið segist Lára ekki hafa gert mikið af því. „Ég hef ekki farið til sálfræðings en ég hef verið að vinna úr þessu með góðri konu og mér hefur loksins tekist að fyrirgefa sjálfri mér,“ segir Lára og greinilega er stutt í kökkinn í hálsinum. „Það tók mig alveg svakalega langan tíma að fyrirgefa mér.“
Forðaðist sjálfa sig
Lára segir fyrstu árin eftir að faðir hennar dó hafa einkennst af því að hún hafi keppst við að gera hluti sem hún vissi að hann hefði orðið stoltur af. Hún fór til dæmis í íþróttafræði og útskrifaðist sem íþróttafræðingur, vann við að kenna súlufimi og líkamsrækt í nokkur ár.
„Ég gerði þessi ár eiginlega að keppni við sjálfa mig,“ útskýrir hún. „Ég var alltaf að ögra sjálfri mér og flýta mér að klára þetta eða hitt. Ég held að það hafi verið mín leið til að reyna að komast undan sorginni. Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó, en ég einhvern veginn lokaði á allar tilfinningar, ég gat til dæmis ekki grátið, ég hló bara þegar eitthvað var sorglegt. Fólki fannst þetta mjög skrítið og ég stóð mig að því að gera mér upp grát þegar ég vissi að maður ætti að gráta. Seinna kom það svo aftan að mér, ég var orðin rosalega þung og eirðarlaus en djöflaðist bara áfram og lét eins og þetta væri ekkert mál. Ég gleymdi alveg að líta inn á við og þekkti ekki sjálfa mig, var bara svakalega hörð og lét eins og ég gæti allt. Síðan kom að því að ég meiddist illa í vinnu og gat ekki lengur gert það sem ég var vön að gera og þá breyttist allt. Þótt það hafi verið vont að meiðast var þetta samt gott fyrir mig. Ég neyddist til að stoppa og fara að skoða sjálfa mig og hvernig mér leið í raun og veru.“
„Ég átti rosalega erfitt fyrst eftir að hann dó, en ég einhvern veginn lokaði á allar tilfinningar, ég gat til dæmis ekki grátið, ég hló bara þegar eitthvað var sorglegt. Fólki fannst þetta mjög skrítið og ég stóð mig að því að gera mér upp grát þegar ég vissi að maður ætti að gráta.“
Lára var alltaf með það í bakhöndinni að gefa ljóð föður síns út. Hún ætlaði upphaflega að gefa út hefðbundna ljóðabók og fór á námskeið í skapandi skrifum 2012 hjá Þorvaldi Þorsteinssyni. Þar byrjaði hún hins vegar að skrifa sínar eigin minningar út frá ljóðunum sem hún hafði setið á í fimm ár. Þorvaldur og hópurinn hennar hvöttu hana áfram og hún sendi Þorvaldi uppkast að bókinni í febrúar 2013. Þá nótt lést Þorvaldur og hún tók sér langa pásu frá bókinni eftir það. „Árið 2016 var ég nokkurn veginn búin að gefast upp á bókinni. Þá kom vinkona mín í heimsókn til mín til Noregs þar sem ég bjó þá og ég sagði henni frá handritinu. Hún hvatti mig til að klára bókina og fékk tengdamömmu sína, Helgu Haraldsdóttur, til að aðstoða mig. Sú yndislega kona sneri mér í hring og gaf mér ráð sem breytti mörgu fyrir mér. Hún sagði mér að vera ég sjálf í minningunum mínum. Áður hafði ég búið til sögur eða verið einhver annar í minningunum. Það var erfitt að verða ég, en ég er mjög sátt við það í dag.
Að skrifa um mína eigin upplifun var afar hreinsandi fyrir mig. Eins konar heilun og það er meginmarkmið mitt með þessari opinberun að fá börn og unglinga sem eiga erfitt með að tjá sig, til að skrifa og koma hlutunum frá sér. Í dag er ég flugfreyja og einstæð móðir sex ára stelpu. Við mæðgur erum samrýndar og ég geri mitt besta til að sinna móðurhlutverkinu og búa til góðar og eftirminnilegar minningar fyrir hana. Ég skrifa enn og á minn fantasíuheim sem ég hverf inn í öðru hvoru. Það besta við söguheiminn er að hann er óendanlegur og maður getur gert og skapað það sem manni sýnist.“
Húðflúrarinn og teiknarinn Auður Ýr Elísabetardóttir notast mikið við blóm, pastelliti og einfaldar línur í verkum sínum, en hún lærði myndskreytingu í Academy of Art University.
Hvernig verk gerir þú aðallega og fyrir hvað?
„Undanfarin ár hef ég aðallega verið í fullri vinnu sem húðflúrari, sem þýðir að ég teikna mikið upp eftir hugmyndum annarra. Blóm eru áberandi í verkunum mínum, bæði þeim sem ég skapa fyrir aðra og fyrir sjálfa mig.“
Hvaðan færðu innblástur?
„Úr náttúrunni, bókum og svo fylgi ég fullt af frábærum listamönnum á Instagram.“
Hvenær sólarhringsins finnst þér best að vinna?
„Mér finnst best að vinna upp úr hádegi, ég elska að taka rólegan morgun með kaffibolla og koma mér hægt í gang. Svo vinn ég þar til dóttir mín kemur heim úr skólanum.“
Hvaða litir heilla þig?
„Ég er hrifin af mjög einföldum litapallettum, helst með pastellitum. Ég nota mikið einn til tvo liti í bland við einfaldar línuteikningar.“
Ákvaðst þú á einhverjum tímapunkti að verða listamaður eða gerðist það bara „óvart“?
„Ég hef verið ákveðin í að vinna við að teikna síðan ég var um 8 ára.“
Hefur þú alla tíð haft gaman af því að teikna?
„Já, ég á enn skissubækur og teikningar frá því ég var mjög ung og það er gaman að sjá hvað maður var að pæla þegar maður var yngri. Ímyndunaraflið var svo allt öðruvísi þegar maður var sjö ára og svo líka þegar maður var 15 ára. Ég hef alveg unnið með hugmyndir sem ég hef rekist á í þessum gömlu bókum.“
Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
„Ég er ofboðslega hrifin af verkum Alphonse Mucha og Harry Clarke, svo er vinur minn Sölvi Dúnn algjör snillingur.“
Hvað er fram undan á næstu misserum?
„Ég er í fæðingarorlofi eins og er og verð fram á næsta sumar. Mig langar voðalega mikið að ná að skapa eitthvað fyrir mig á þeim tíma þar sem ég mun ekkert vera að flúra og kannski ná að setja upp sýningu. Svo mæti ég fersk til leiks aftur á Íslenzku húðflúrsstofuna.“
Ostakökur eru uppáhald margra. Þeir sem eru fyrir ostakökurnar eru oft ástríðufullir aðdáendur þeirra og nota hvert tækifæri til að gæða sér á þeim. Hér er uppskriftir að einni góðri þar sem Oreo-kex spilar stórt hlutverk.
Myljið kex og bætið púðursykri og kakói saman við. Bætið smjöri út í og blandið vel saman. Setjið bökunarpappír á botninn á smelluformi. Það má líka nota bökuform og þá þarf engan pappír. Þrýstið kexmylsnunni á botninn á forminu.
Kakan:
2 matarlímsblöð
500 g rjómaostur
50 g sykur
2 dl rjómi, þeyttur
2 tsk. vanilludropar
8 Oreo-kexkökur, saxaðar
6-8 Oreo-kexkökur, skornar í tvennt, til að skreyta með
Leggið matarlímsblöð í bleyti í kalt vatn. Hrærið rjómaost og sykur vel saman. Bætið þeyttum rjóma, vanilludropum og söxuðum kexkökum varlega saman við. Bræðið matarlím ásamt 2 msk. af vatni yfir vatnsbaði og hellið því út í blönduna.
Hellið ostablöndunni í formið ofan á kexbotninn. Skreytið með Oreo-kexkökum og kælið.
Átt þú eftir að kaupa páskaeggin? Þá borgar sig að lesa yfir þetta.
Allt að 67% verðmunur var á páskaeggjum mill verlsana í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ framkvæmdi 11. apríl. Þetta kemur fram í grein sem birtist á vef ASÍ á dögunum.
Verðkönnun ASÍ leiddi í ljós að munurinn á hæsta og lægsta verði nam oft mörg hundruð krónum og mest 1.400 krónum á einu og sama páskaegginu.
Bónus var oftast með lægstu verðin á páskaeggjum eða í 28 af 30 tilfellum. Super 1 var oftast með hæstu verðin eða í 13 tilfellum af 30 en Iceland fylgir fast á eftir með hæstu verðin í 11 tilfellum.
3.579 krónur í Bónus en 4.599 krónur í Super 1
Af páskaeggjum var verðmunurinn mestur á litlum rís páskaeggjum frá Freyju, fjórum saman í pakka eða 67% en lægst var verðið í Bónus, 359 kr. en hæst í Hagkaup 599 kr.
Í krónum talið var verðmunurinn mestur á Nóa Siríus risa páskaeggi, 1.401 kr. eða 25%. Lægst var verðið í Bónus 5.598 kr. en hæst var verðið 6.999 kr. í Super 1. Þá var 28% munur á hæsta og lægsta verði á Nóa Siríus eggi nr.7. Lægst var verðið í Bónus, 3.579 kr. en hæst, 4.599 kr. í Super 1 en það gerir 1.020 kr. verðmun.
Morðcastið er nýtt hlaðvarp (e. podcast) úr smiðju Unnar Örnu Borgþórsdóttur sem hefur lokið grunnnámi lögfræði, býr í Kaupmannahöfn og er sérstaklega áhugasöm um íslenskan refsirétt.
„Hugmyndin er nú ekki ný af nálinni,“ segir Unnur í samtali við Mannlíf. „Ég hef alltaf verið hugfangin af glæpum og sakamálum og hef í gegnum tíðina mikið kynnt mér slíkt, meðal annars með því að hlusta af ákafa á erlend hlaðvörp þar sem fjallað er um efnið. Mér hefur hins vegar alltaf fundist slíkt vanta fyrir íslenskan markað og sérstaklega þar sem íslenskir glæpir eru teknir fyrir.“
Í lögfræðináminu hefur Unnur varið miklum tíma í að skoða gömul mál og áhugaverða dóma. „Ég tuðaði mikið um að það vantaði svona íslenskt hlaðvarp og vinkonur mínar sögðu mér að ég ætti þá bara að gera það sjálf. Stuttu seinna voru upptökugræjur á leiðinni og ég á Youtube að finna út úr því hvernig á að klippa saman hlaðvarpsþátt.“
Mál Mary Vincent á toppnum
Í þættinum verða tekin fyrir íslensk og skandinavísk morð- og sakamál á aðeins léttari nótum. „Ég stefni á að kynna hlustendur fyrir tveimur sakamálum í hverjum þætti en það fer eðlilega líka eftir umfangi málanna sem tekin eru fyrir. Einnig koma gestir í þáttinn til mín sem segja frá sínum uppáhaldsmálum en ég vil endilega ná að fræða hlustendur og jafnframt hafa þetta í spjallformi upp að vissu marki,“ segir Unnur sem heillast hefur af fjölmörgum málum í gegnum tíðina.
„Ég er ekki mikið fyrir þessa stærstu raðmorðingja, heldur hef ég heillast meira af því sem endar vel eða eru flókin í sönnunarfærslu eða hinu lagalega umhverfi.“
„Ég er ekki mikið fyrir þessa stærstu raðmorðingja, heldur hef ég heillast meira af málum sem enda vel eða eru flókin í sönnunarfærslu eða hinu lagalega umhverfi. Málið hennar Mary Vincent er alveg vafalaust á toppnum hjá mér þegar talað er um uppáhaldssakamál, en hún einmitt lifði af hrottalega árás. Annars verð ég alltaf mjög heilluð af því sem ég skoða hverju sinni. Íslensk sakamál hafa líka alltaf heillað mig mikið, sérstaklega þar sem mér finnst oft sem það sé látið sem þau hafi hreinlega ekki átt sér stað og umræðan er lítil sem engin um þau. Með Morðcastinu vil ég þess vegna opna um þau umræðuna og gera þeim góð skil.“
Fyndin og hnyttin
Unnur svarar því bæði játandi og neitandi þegar hún er spurð hvort hún eigi sér fyrirmyndir í hlaðvarpsheiminum. „Mér finnst mikilvægt að þátturinn sem ég er að hlusta á grípi mig, hvort sem um er að ræða staka þætti eða heila seríu af þáttum. Serial, Up and Vanished og My Favorite Murder eru vafalaust nokkur af mínum uppáhaldshlaðvörpum og svo finnst mér Snorri Björns mjög góður þáttastjórnandi. Mér þætti þar af leiðandi gaman að vera einhverskonar blanda af þeim öllum. Ná að halda athygli hlustenda, vera fyndin og hnyttin, en samt geta frætt og vera vel upplýst.“
Þátturinn kemur út á hverjum fimmtudegi og hann er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum eins og iTunes, Apple podcasts, Podbean, Spotify, Podcast Addict, og Pocket casts. Morðcastið er að finna á Instagram og Twitter og svo er hægt að hafa samband við Unni gegnum [email protected].
Rétt meðlæti er oft það sem gerir máltíðina að sælkeramat. Hér gefum við ykkur uppskriftir að gómsætu meðlæti sem er fullkomið á páskaborðið.
Bakaðar gulrætur með parmesanosti og steinselju fyrir 4-6
2 msk. smjör, bráðið
2 hvítlauksgeirar, pressaðir
8-10 heilar gulrætur, burstaðar og þvegnar
gróft sjávarsalt, eftir smekk
svartur nýmalaður pipar, eftir smekk
4 msk. parmesanostur, rifinn
2 msk. steinselja, söxuð
Hitið ofninn í 200°C. Blandið saman hvítlauk og smjöri og veltið gulrótunum upp úr því, Bragðbætið með salti og pipar. Bakið í 20 mín. Takið úr ofninum og stráið parmesanosti yfir og bakið áfram í 10 mín.
Stráið saxaðri steinselju yfir eftir að gulræturnar koma úr ofninum. Eldunartíminn fer svolítið eftir stærð á gulrótunum.
Perlulaukar soðnir í epladjús
10-12 stk. perlulaukar
500 ml epladjús
2 tsk. kjúklingakraftur
1 msk. ferskt timjan eða 1 tsk. þurrkað
½ tsk. pipar
½ tsk. salt
Sjóðið laukana í 1 mín. og takið hýðið af, þetta er gert til að auðveldara sé að ná hýðinu af lauknum. Setjið þá síðan á djúpa pönnu eða í pott ásamt öllum innihaldsefnum. Látið malla í 30-40 mín. og hrærið í annað slagið á meðan.
Laukurinn er tilbúinn þegar epladjúsinn hefur breyst í fallega karamellu utan um laukinn.
Steiktar apríkósur með kanil
1 tsk. kanill
2 msk. döðlusykur eða önnur sykurtegund
3 apríkósur, sneiddar í báta
2 msk. smjör
Blandið kanil og sykri saman og veltið apríkósubátunum upp úr blöndunni. Bræðið smjörið á pönnu og steikið bátana upp úr smjörinu í 5 mín.
Veltið þeim til á pönnunni á meðan. Þetta er einstaklega gott meðlæti með kjöti eins og svíni og lambi og jafnvel bragmiklu kjöti eins og villibráð.
Samfélagsmiðlastjörnurnar hafa í nógu að snúast í páskafríinu, ætla að njóta hátíðarinnar og að sjálfsögðu að fá sér páskaegg.
„Sko, mitt páskaegg í ár verður Bailyes-páskaegg. Er hægt að biðja um betra kombó?“ segir Sigrún Sigurpáls snappari frá Egilsstöðum sem nýlega keypti sér gamalt einbýlishús þar eystra ásamt sambýlismanninum Steinþóri Guðna Stefánssyni.
„Við erum náttúrlega að brasa í húsinu sem við vorum að kaupa og munum að einhverju leyti nota páskafríið í það. En aðallega ætla ég að vera með börnunum mínum fjórum, fara með þau út í náttúruna og leyfa þeim að upplifa hana. Það er svo mikilvægt að halda tengslum við náttúruna og kenna börnunum okkar að meta hana. Langbest að byrja á meðan þau eru ung. Þá læra þau frekar að leika sér úti og njóta þess að vera í fersku lofti en ekki lokuð inn í herbergi í tölvum.
Á páskadag fer fram hin árlega páskaeggjaleit og ég mun sem fyrr leggja mikinn metnað í að fela eggið hans Steinþórs. Ég hef falið það á ótrúlegustu stöðum þannig að hann hefur verið að því kominn að gefast upp. Einu sinni límdi ég það til dæmis einu sinni undir lazyboy-stólinn hjá pabba mínum,“ segir hún hlægjandi og bætir við: „Svo á ég afmæli annan í páskum og mun halda upp á það með mínum nánustu.“
Kominn tími til að þroskast
Ingólfur Grétarsson eða Gói Sportrönd eins og hann kallar sig ætlar að nýta páskana til að þroskast örlítið meira eins og hann orðar það sjálfur.
„Ég er að verða pabbi í ágúst þannig að mig langar að fókusa á það yfir páskana. Það er kominn tími til að þroskast aðeins meira,“ segir hann ábyrgðarfullur. „Ég á að vera á vakt föstudaginn en ætla að nota helgina til að koma mér á beinu brautina. Dropbox-, Spotify- og Adobe CC-áskriftirnar mínar voru að klárast og ég þarf að skoða hvernig ég á að haga peningamálunum mínum.“
Hann ætlar svo að fá sér 450 g páskaegg númer 5 frá Góu. „Já, frá Góu því ég er Hafnfirðingur. En var eitthvað að spá hvort ég ætti að fá mér hvítt páskaegg í ár en vildi ekki missa mig í flippinu þannig hefðbundið súkkulaði páskaegg varð ofan á.“
Klessa um páskana
„Páskarnir eru klessuhátíð í mínum augum,“ segir Eva Ruza þegar hún er spurð hvað hún ætli að gera um páskana. „Ég hef hugsað mér að vera klessa um páskana. Ég þarf aðeins að núllstilla mig eftir ansi langa skemmtanatörn og þá er ekkert betra en að liggja upp í sófa, borða súkkulaði og jafnvel horfa á Ryan Reynolds í þröngum, rauðum samfesting – Deadpool. Ég er að vona að það mæti ekki haustlægð yfir páskana svo ég geti aðeins farið út að viðra fjölskyldumeðlimina.“
Nóa páskaeggin hafa alltaf verið í uppáhaldi hjá Evu en hún er farin að upplifa valkvíða þegar kemur að því að velja rétta páskaeggið. „Á ég að borða venjulegt eða henda mér i óvissuna. Held ég muni splæsa í saltlakkrís og sjávarsalt.“
Í byrjun apríl mætti enginn annar en Þráinn Árni Baldvinsson úr Skálmöld í horn Hljóðfærahússins.
Þráinn er að öðrum ólöstuðum ein fremsta gítarhetja landsins. Hann hefur gefið út fjölda platna með Skálmöld og síðasta áratuginn hafa þeir félagar túrað heiminn þveran og endilangan.
Snæbjörn Ragnarsson eða Bibbi eins og flestir þekkja hann er einnig meðlimur Skálmaldar en hann spurði Þráinn spjörunum úr og var ansi kátt í horninu þennan dag.
Heimsókn í Hornið fer fram fyrsta föstudaginn í hverjum mánuði og er spennandi sjá hver mætir næst í Hornið! Albumm mætti að sjálfsögðu á svæðið og úr varð þetta myndband sem unnið er af Thank You Studio fyrir Albumm.is.
Hér fyrir neðan má hlusta á hljóðupptökuna í heild sinni.
Verð á páskaeggjum hefur hækkað í verði á hverju ári frá árinu 2014 og er hækkunin aldrei meiri en í ár. Hins vegar hafa laun hækkað töluvert umfram hækkun páskaeggja á þessu sama tímabili þannig að landsmenn geta keypt fleiri páskaegg fyrir launin sín en áður.
Þetta kemur fram í úttekt greiningardeildar Arion banka. Í greiningunni er stuðst við gögn úr verðlagskönnun ASÍ á sjö völdum tegundum páskaeggja á tímabilinu 2014 til 2019.
Greiningin leiðir í ljós að verð á öllum tegundum páskaeggja hefur hækkað á tímabilinu. Undantekningin á þessu er Góu páskaegg númer 5 sem hefur lækkað í verði frá árinu 2014. Er líkleg skýring sú að það páskaegg hafi verið á tilboðsverði á þeim tíma sem ASÍ gerði verðlagskönnun sína. Í öðrum tilfellum nemur hækkunin á bilinu 12 til 25 prósent.
Líklegar skýringar á hækkun páskaeggja eru samblanda af miklum launahækkunum á tímabilinu, hækkun á heimsmarkaðsverði á súkkulaði og veikari króna.
Sé aðeins litið til verðsamanburðar á milli áranna 2018 og 2019 hækka páskaeggin um 8 prósent eða meira. Það páskaegg sem hækkar mest er númer 5 frá Nóa Siríusi sem hækkaði um 11,9 prósent í verðkönnun ASÍ.
Hins vegar ber að líta til þess að frá árinu 2014 hafa laun á Íslandi hækkað um 43 prósent frá því í febrúar 2014. Þetta þýðir að laun hafa lækkað umtalsvert fram yfir verðlag á páskaeggjum þannig að landsmenn geta keypt fleiri páskaegg fyrir launin sín en áður. Eins og segir í dæmi greiningardeildarinnar:
„Hraunegg Góu hefur hækkað um tæplega 24% frá árinu 2014, út frá verðkönnun ASÍ. Á sama tíma hafa laun hækkað um 43%, sem samsvarar tæplega 16% kaupmáttaraukningu í Hrauneggjum á fimm árum!“
Sé hins vegar eingöngu horft til áranna 2018 og 2019 blasir við önnur mynd. Laun hafa hækkað um 5,6 prósent milli páskahátíða, en verð á páskaeggjum hefur hækkað um 8 prósent eða meira. Það þýðir að hinn hefðbundni launamaður getur keypt færri páskaegg fyrir launin sín en hann gat í fyrra.
„Höggið er þyngst fyrir aðdáendur rjómasúkkulaðis Nóa Siríusar, þar sem kaupmáttur mældur í hefðbundnum Nóa páskaeggjum númer 5 hefur minnkað um 5,6% milli ára. Kaupmáttarrýrnunin í Nóa páskaeggjum númer 4 er mun minni og því gætu rjómasúkkulaðisunnendur sem vilja „besta“ páskana fjárhagslega ,mögulega sætt sig við minna páskaegg í þetta skiptið. Þeir neytendur sem duttu niður á tilboðsverð á Góu páskaeggjum númer 5 geta hinsvegar glaðst, enda náð að læsa inni 13% kaupmáttaraukningu.“
Hér að neðan gefur að líta á línurit sem sýnir verðþróun á einstökum tegundum páskaeggja annars vegar og launaþróunar hins vegar.
Ágústa Magnúsdóttir og Gustav Jóhannsson voru á meðal þeirra hönnuða sem komu fram á HönnunarMars í ár. Þau sýndu nýja húsgagnalínu sem byggð er á spgegluðum formum, bæði í versluninni Akkúrat og sýningarrými þeirra að Funahöfða 3.
Nafn: Ágústa Magnúsdóttir / Gústav Jóhannsson
Aldur: 38 / 44
Menntun: Msc í Medialogy / Húsgagnasmiður
Var nýja línan lengi í þróun og vinnslu?
Þessi lína varð eiginlega til í kjölfar HönnunarMars í fyrra. Þá bjuggum við til ógrynni af nýjum vörum og þar á meðal bogastóla. Við höfum svo verið að framleiða þá síðastliðið ár og þeir gátu af sér afskurði af bogum sem okkur þótti spennandi að reyna að vinna með. Við reynum eftir bestu getu að nýta allt efni sem kemur inn á verkstæðið til fulls.
Hvernig var hönnunarferlið?
Hjá okkur er það yfirleitt nokkuð handahófskennt og er undirstaðan undantekningarlaust í efninu. Í þessu tilfelli stóðum við með hálfhring í höndunum og út frá því veltum við fyrir okkur hvernig við gætum sett þessa boga saman til að mynda form sem við gætum nýtt. Í mastersnáminu mínu mundi ég eftir að hafa lesið um það hvernig mynstur hafa áhrif á hugann, hvernig þau geta leitt til þess að við löðumst að einhverju en hvernig þau geta líka gert það að verkum að við fáum leið á einhverju ef þau eru ekki brotin upp.
Þessi húsgögn eru unnin með þetta í huga, við ákváðum að spegla formin og mynda úr þeim spegla. Hönnunin hjá okkur er mikið ítrunarferli og við höfum verið að hanna þennan bogastól í mörg ár. Beinagrindin af honum stóð lengi vel inni á verkstæði hjá okkur, þvinguð saman sem einhverskonar hugmynd en það tók okkur fjögur ár að ná lokaútgáfunni sem við teljum okkur vera komin niður á núna.
Eru þið umhverfisvæn í ykkar hönnun?
Hjá AGUSTAV leggjum við sérstaklega mikið upp úr því að vera umhverfisvæn. Við notum eingöngu umhverfisvænan efnivið og eiturefnafríar olíur. Við nýtum allt efni sem fellur til á verkstæðinu allt frá afskurði sem verður að nýjum vörum að sagi úr vélunum sem hefur nýst í hesthúsum. Þar að auki þá gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum.
Hefur hönnun, smíði og sköpun alltaf verið ykkur hugleikin?
Smíðin er í æðunum á Gústa má segja og húsgagnasmíðin hafði blundað í honum.
Ég var svo sjálf farin að teikna húsgögn sem unglingur og hef alla tíð haft mikla þörf fyrir að skapa í einhverju formi og vinna með hluti myndrænt.
Í sameiningu náum við svo einhverjum fallkrafti, hugmyndir kvikna og formast á milli okkar, jafnvel verða að einhverju nýju í samtalinu, mótast svo í höndunum og verða að lokum að fullmótuðum hlut.
Á hvaða tíma sólarhringsins vinni þið best?
Hvenær sem er þegar það fæst friður fyrir börnunum … annars sinnum við yfirleitt hugmyndavinnu á kvöldin og vinnum úr henni á daginn.
Hvað finnst þér um íslenska hönnun?
Það er margt áhugavert að gerast á Íslandi en ég held að það sem hamli íslenskri hönnun kannski mest séu framleiðslumöguleikarnir. Hönnunarsagan er ekki eins fastmótuð hér og hún er á hinum Norðurlöndunum en við við sjáum það sem einn helsta kost hönnunar á Íslandi; það að hún er í mótun og hún getur orðið það sem við viljum.
Hvernig er að markaðssetja sig sem hönnuður í dag?
Það er erfitt. Við sköpum allan daginn og hugsum í lausnum en erum ómögulegir sölumenn og finnst erfitt að bera okkar eigin kyndil.
Eftirlætishönnuður?
Maðurinn á ekki séns í náttúruna.
Hvar fást húsgögnin frá AGUSTAV?
Á síðunni okkar AGUSTAV.is og svo erum við með opið sýningarrými á Funahöfða 3 þar sem hægt er að koma og skoða og versla. Bráðlega má einnig finna úrval af vörum frá okkur í hönnunarversluninni Akkúrat.
Kostnaður vegna þjálfunar starfsfólks Icelandair í tengslum við leiguvélar félagsins liggur ekki enn fyrir.
Áætlað er að sautján flugmenn Icelandair þurfi að fara í flughermi í byrjun maí vegna vegna flugvéla sem félagið hefur tekið á leigu vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX véla félagsins. Námskeið fyrir flugáhafnir, um 50 manns, er þegar hafið. Alls eru þetta tæplega 70 manns. Kostnaður vegna þjálfunar starfsfólksins liggur ekki enn fyrir, en Icelandair útvegar kennslustofur og mun eigandi vélanna sjálfur sjá um þjálfun. Þetta kemur fram í skriflegu svari Icelandair til Mannlífs þegar ritstjórn spurðist fyrir um þjálfun starfsfólksins vegna þriggja véla sem félagið tók á leigu í kjölfars kyrrsetningar Boeing 737 MAX véla.
Eins og kunnugt er kyrrsetti félagið, líkt og flugfélög víða um heim, allar Boeing 737 MAX vélar sínar eftir að í ljós kom að galli í hugbúnaði þeirra var orsakavaldur tveggja mannskæðra flugslysa. Í kjölfarið gekk félagið frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum sem tilkynnt var um þann 1. apríl síðastliðinn og 10. apríl gekk félagið frá leigu á þriðju vélinni en hún er af gerðinni Boeing 757-200 og er 184 sæta. Hún verður í rekstri frá 15. maí fram í lok september 2019. Eru þetta vélarnar sem nú er verið að þjálfa starfsfólk Icelandair fyrir.
„Við fylgjumst vel með gangi mála og allar ákvarðanir verða teknar í samráði við flugyfirvöl, þar á meðal hvenær vélarnar verða teknar í notkun.“
Þegar ritstjórn falaðist eftir því að fá að vita hversu mikill kostnaður væri áætlaður vegna kyrrsetningar Boeing 737 MAX flugvéla félagsins, var svar Icelandair eftirfarandi: „Fjárhagsleg áhrif kyrrsetningarinnar eru óviss á þessu stigi, m.a. vegna þess að ekki liggur fyrir hversu mikið af þeim kostnaði sem hlýst af kyrrsetningunni fæst bættur frá framleiðanda.“
Þegar ritsjórn spurði hvenær Boeing 737 MAX flugvélar félagsins kæmu til með að verða teknar aftur í notkun, var svarið að uppfærð flugáætlun Icelandair miði enn við að Boeing 737 MAX flugvélar félagsins verði kyrrsettar til 16. júní n.k. „Með þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til með því að bæta leiguvélum við flota félagsins hefur tekist að takmarka áhrifin á leiðarkerfið verulega,“ segir í svarinu. „Við fylgjumst vel með gangi mála og allar ákvarðanir verða teknar í samráði við flugyfirvöld, þar á meðal hvenær vélarnar verða teknar í notkun.“
Rúmur mánuður er liðinn frá því að Boeing 737 MAX þoturnar voru kyrrsettar. Hefur kyrrsetningin haft víðtæk áhrif á rekstur margra flugfélaga, þ.m.t. Icelandair.
Það er góð regla að bjóða ávallt upp á eitthvað sem grænmetisætur geta borðað í veislum og matarboðum þó svo að allir réttirnir þurfi kannski ekkert endilega að vera úr grænmeti, gaman er að blanda saman og gefa fólki val. Hér kemur uppskrift að grænmetispaté sem er fullkomið á veisluborðið.
Hitið ofninn í 180°C. Steikið laukinn upp úr olíunni í nokkrar mínútur, passið að hann brúnist ekki, bætið selleríi út í og steikið í 1-2 mín. með lauknum. Setjið hveiti saman við ásamt tómatmaukinu og hrærið vel saman.
Takið af hellunni. Setjið brauðrasp, gulrætur, hnetur, sojasósu og kóríander í skál og blandið því sem er á pönnunni saman við ásamt eggi. Bragðbæætið með salti og pipar.
Setjið deigið í 22 cm formkökuform sem hefur verið klætt með bökunarpappír eða smurt með smjöri. Setjið álpappír yfir og bakið í 1 klst.
Kælið og takið síðan úr forminu. Þetta paté er gott að bera fram með sýrðum rjóma og söxuðum kóríander eða hummus.
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Ég hef sagt það áður – lokunarmálin í miðborginni eru löngu orðin þráhyggja og á ekkert skylt við almenna skynsemi” skrifaði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á Facebook í morgun. Þá skoðun tjáir Vigdís vegna fyrirhugaðar lokunnar hluta Laugavegs fyrir bifreiðaumferð.
Um leið lýsir Vigdís þeirri sýn sinni að hún sé hér talsmaður hins „stóra meirihluta” og „almennrar skynsemi“ borgarbúa í málinu, þvert á fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG sem mynda meirihluta í borgarstjórn. „Ég er mjög afdráttarlaus í þessu máli – ég stend með stóra meirihlutanum sem vill ekki lokun”. Þá nefnir Vigdís að við talningu í gær standi 20 verslunar- og þjónusturými auð í miðbænum.
Vigdís lýsir vonbrigðum yfir þeirri ákvörðun Morgunblaðsins að birta ekki viðtal sem blaðið tók við hana vegna málefna Laugavegs, þá með stærri umfjöllun blaðsins, um fyrirætlanir um lokun sem birtist í blaðinu í dag. „Reykjavík er höfuðborg allra landsmanna – ég vil að fjölbreytileikinn í samgöngum sé sem mestur og eitt útilokar ekki annað”.
Skýrsla Robert Mueller, um rannsókn á tengslum Trump við Rússland, verður opinberuð bandaríska þinginu á Skírdag eftir tveggja ára rannsóknarvinnu. Hvíta húsið hefur þegar fengið að sjá hluta skýrslunnar og vakti það mikla reiði og óánægju meðal Demókrata sem saka Trump-stjórnina um tilraunir til að grafa undan skýrslu Mueller.
Allt frá kosningabaráttu og síðar kjöri Donald Trump til forseta Bandaríkjanna hefur því ítrekað verið haldið fram að Rússar hafi blandað sér í forsetakosningarnar árið 2016. Eru starfsmenn Donald Trumps og forsetinn sjálfur sakaðir um að vinna náið með rússneskum yfirvöldum og þegið aðstoð við kosningabaráttuna. Í Bandaríkjunum eru afskipti erlendra ríkja að kosningum óheimil og það er brot á kosningalögum þar í landi að taka við fjárhagslegum stuðning vegna kosninga.
Blaðamannafundur á vegum dómsmálaráðherrans, William Barr, verður haldinn fyrir opinberun skýrslunnar og hefur forsetinn sagst íhuga að fylgja á eftir. Þessi ákvörðun hefur verið gagnrýnd enda fer fundurinn fram áður en skýrslan hefur verið birt þinginu og hvað þá síður almenningi. CNN bendir á að þetta geti haft áhrif á upplifun almennings á skýrslunni. CNN hefur áður greint frá áætlun Trumps og stjórnar hans um birtingu sérvalinna kafla úr skýrslunni og eigin túlkana áður en hún er gerð opinber. Demókratar hafa lýst yfir áhyggjum sínum og fordæma aðgerðir Hvíta hússins í málinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til á bingókvöld sem fram fór á barnum Gullöldin Grafarvogi í gærkvöldi. Þáttakandi var ósáttur við bingóstjóra kvöldsins og sakaði hann um svindl. Annar þátttakandi kom bingóstjóranum til varnar en var fyrir vikið sleginn í andlitið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu sem Morgunblaðið greinir frá.
Blásið var til Páskabingós Gullaldarinnar í gærkvöldi en í auglýsingu viðburðarins á síðu barsins kemur fram að heildarverðmæti vinninga hlaupi á hundruð þúsunda. Þá fylgdi páskaegg með öllum verðlaunum. Það var því til mikils að vinna.
Nóttin var að öðru leiti róleg hjá lögreglu en níu voru teknir við akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Fjórir voru sviptir ökuréttindum og þrír voru án réttinda. Þá voru tveir aðilar með fíkniefni í fórum sér.
Wow og Isavia lögðu drög að samkomulagi í lok september 2018 vegna milljarð króna skuld flugfélagsins á þeim tíma, sem greiða átti í 13 aðskildum afborgunum sem myndu teygja sig yfir síðustu tvo mánuði ársins 2018 og fyrstu 11 mánuði ársins 2019. Skilum samkvæmt samkomulaginu stóðu fram í febrúar. Morgunblaðið greindi frá.
Eitt af skilyrðum samningsins var að minnsta kosti ein flugvél á flugrekstarleyfi félagsins þyrfti að vera til staðar á vellinum eða að vél á sama leyfi væri á leið til Keflavíkurflugvallar. Nauðsynlegt yrði að vélin væri með staðfestan komutíma til vallarins.
Vegna samkomulagsins var vél á vegum Wow air kyrrsett frá 18. mars þar til flugfélagið lýsti yfir gjaldþroti 28. mars. Eigendur flugvélarinnar, Air Lease Corporation, höfðu ekki verið upplýstir um samkomulagið milli Wow air og Isavia og vissu ekki að flugvél í þeirra eigu væri trygging fyrir skuld.