Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Atvinnuleysi ekki verið meira síðan 2015

Um 6.900 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok marsmánaðar sem er það mesta síðan árið 2014.

Hlutfallslega hefur atvinnuleysi ekki verið meira síðan 2015. Búist er við að það fjölgi í hópi atvinnulausra í apríl áður en áhrifa sumarstarfa fer að gæta en atvinnuleysi er alla jafna í lágmarki yfir sumartímann.

Samkvæmt nýútkominni hagspá Arion banka er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist hratt út þetta ár og nái hámarki á næsta ári áður en það fer lækkandi á ný. Er gert ráð fyrir að í ársbyrjun slagi hlutfallið hátt í 4,8%. Aukin alþjóðleg samkeppni og versnandi samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er sögð valda auknu atvinnuleysi.

Atvinnuleysi er ívið meira á meðal karla en kvenna og mest meðal einstaklinga á aldrinum 25 til 34 ára. Rúmlega fjórir af hverjum tíu atvinnulausra hafa eingöngu lokið grunnskólanámi á meðan 24% hafa lokið háskólamenntun. Minnst er atvinnuleysið meðal iðnmenntaðra. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá hefur farið ört vaxandi á undanförnum mánuðum, úr 25% í um 35%.

Í lok febrúar var atvinnuleysi langmest á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Gjaldþrot WOW air hefur langsamlega mest áhrif á þessi atvinnusvæði og í því skyni ákvað ríkisstjórnin að veita 80 milljónum króna til að styrkja starfsemi Vinnumálastofnunar á þessum stöðum. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær sömuleiðis aukna fjármuni til að bregðast við stórauknu atvinnuleysi á svæðinu.

Sjá einnig: Bíða átekta fram yfir sumarleyfi

„Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða“

Lögreglan hvetur fólk til að vera vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum í kringum páskana.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er fólk beðið um að vera vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum í kringum páskana. Þá er fólk beðið um að taka niður bílnúmer, skrifa niður lýsingar og taka ljósmyndir ef það sér eitthvað sem gæti talist grunsamlegt.

„Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga,“ segir meðal annars í færslunni.

Þá segir einnig að fólk ætti að tilkynna grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. „Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan.“

Franska slökkviliðið slökkti í Trump

|
|

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, var á meðal þeirra sem tjáðu sig um eldsvoðann í Notre Dame í gær. Hann gat ekki stillt sig um að ausa úr viskubrunni sínum og ráðleggja Frökkum hvernig ætti að slökkva eldinn. Þjóðráð hans féll hins vegar í grýttan jarðveg.

Slökkviliðsmönnum tókst að slökkva síðustu glæðurnar í frúarkirkjunni laust fyrir klukkan 8 í morgun. Þótt tjónið sé ómetanlegt verður að segjast að slökkvistörf hafi tekist með ágætum. Báðir turnar kirkjunnar standa enn auk þess sem það tókst að bjarga sögulegum munum frá eldhafinu. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur þegar boðað að kirkjan verði endurbyggð.

Heimsbyggðin stóð á öndinni er hún fylgdist með kirkjunni brenna í beinni útsendingu á öllum helstu fréttamiðlum. Á meðal þeirra sem fylgdist með var Donald Trump sem ráðlagði Frökkum að nota flugvélar til að slökkva eldinn, líkt og þegar skógareldar geysa.

Greinilegt er að ráðleggingar forsetans hafi náð eyrum björgunarmanna í París því ekki löngu síðar birtist færsla á Twitter þar sem sagði að hundruð slökkviliðsmanna geri allt sem í þeirra valdi stendur til að slökkva eldinn. Það er, allt nema að nota flugvélar enda myndi það skapa stórhættu eins og lýst er í færslunni.

Forseti Íslands: „Slæmar fréttir frá París”

|
|

Forseti Íslands, Guðni TH. Jóhannesson tjáir sig um bruna Notre Dame.

„Fortíð og framtíð, fólk nær og fjær. Slæmar fréttir bárust í gær frá París, að Notre Dame kirkjan, Kirkja Vorrar frúar, stæði í ljósum logum. Hún verður endurreist, lofa Frakkar, og því ber að fagna. Við verðum að eiga þræði sem tengja okkur við líf og sögu fyrri kynslóða, kunna að meta það sem getur staðist tímans tönn, þrátt fyrir allt, styrjaldir og aðra óáran,” segir í færslu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar á Facebook.

„Fortíð og framtíð, fólk nær og fjær. Slæmar fréttir bárust í gær frá París, að Notre Dame kirkjan, Kirkja Vorrar frúar, stæði í ljósum logum.”

Notre Dame er eitt helsta kennileiti Parísarborgar, en hún var reist á árunum 1163 til 1345  og milljónir manna heimsækja kirkjuna árlega. Í gær braust út eldur í kirkunni og átti slökkvilið borgarinnar í fullu fang með að ráða niðurlögum eldsins, en verkinu lauk ekki að fullu fyrr en í morgun. Tókst slökkviliðinu að bjarga stórum hluta 850 ára gömlu kirkjunnar og tveimur turnum hennar og ýmsum merkum munum úr kirkjunni. Þak Notre Dame hrundi aftur á móti og ekki liggur enn fyrir hvað skemmdirnar eru miklar. Þá eru upptök eldsins óljós á þessari stundu en talið er að þau megi rekja til endurbóta á kirkjunni.

Forseti Frakklands hefur heitið því að kirkjan verði endurreist. Hefur söfnunarátak vegna þess verið hrundið af stað og hafa miklir fjármunir þegar safnast en þeir hafa borist víðs vegar að úr heiminum.

Fólk víða um veröld hefur lýst yfir sorg sinni vegna bruna Notre Dame. Í morgun sagði m.a. Frans Páfi að hugur sinn væri hjá Frökkum vegna eldsvoðans. Fjöldi Íslendinga hefur tjáð sig um málið, þar á meðal Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í París, sem sagði í gær á twitter að sorglegt væri að sjá Notre Dame brenna. Forseti íslands segir ennfremur að það sé lán að enginn mannsföll hafi orðið af völdum brunans. „Og huggun var harmi gegn að enginn lét lífið í eldsvoðanum. Það lán hjálpar okkur vonandi að greina hismi frá kjarna í ys og þys líðandi stundar,” segir Guðni Th. í færslunni á Facebook.

Sjá einnig: Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!”

Mynd / Forseti.is

Mannéttindadómstól Evrópu dæmir ríkið fyrir brot á mannréttindum Bjarna Ármannssonar

Íslenska ríkið braut gegn mannréttindum Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, með því að refsa Bjarna í tvígang fyrir sama brot. Í dómnum kemur fram að brotið hafi verið gegn fjórðu grein mannréttindasáttmálans sem leggur bann við refsingu í tvígang fyrir sama brot.

Bjarna eru dæmdar fimm þúsund evrur í miskabætur og 29.800 evrur í málskostnað. Þá skal ríkið greiða vaxtakostnað og skatta vegna greiðslnanna.

Árið 2013 var Bjarni dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Bjarni viðurkenndi fyrir dóm að hafa vantalið tekjur sínar en sagði það hafa verið mistök. Hæstiréttur þyngdi síðar dóminn í átta mánuði. Bjarni taldi að málinu hefði átt að ljúka með úrskurð ríkisskattstjóra enda hefði hann greitt að fullu opinber gjöld í samræmi við úrskurð ríkisskattstjóra auk álagsgreiðsla.

Það er á þessum forsendum sem málinu var vísað til Mannéttindadómstól Evrópu og dómur féll.

Mynd / Sigurjón Ragnar

Sendiherra Íslands í París: „Sorglegt að sjá Notre Dame brenna”

Frakklandsforseti hefur heitið að kirkjan verði endurreist í allri sinni dýrð. Auðkýfingar leggja milljónir evra í verkið.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands hefur heitið því að Notre Dame kirkjan í París verði endurreist. Hefur Macron kallað eftir aðstoð hæfleikaríkasta fólks við endurreisn kirkjunnar. Söfnunarátak á að hefjast í dag og hafa tveir franskir auðkýfingar þegar gefið yfirlýsingu um að þeir ætli að leggja til fé endureisnar kirkjunni. Það eru þeir Bernard Arnault, sem ætlar að setja 200 milljónir evrur í verkið og Francois-Henri Pinault, famkvæmdastjóri félagsins Kering sem rekur m.a. Gucci og Yves Saint Laurent, sem ætlar að setja 100 milljónir í það. Þá hafa miklir fjármunir þegar safnast en þeir hafa borist víðs vegar að úr heiminum.

„Þetta er hryllingur”
Í gærkvöld þegar bruninn kom upp í Notre Dame ræddi Mannlíf við Íslendinga sem eru búsettir í París en þeir voru harmi slegnir vegna eldsvoðans. Kristín Jónsdóttir, sem hefur verið búsett í París í þrjátíu ár og er þar með skipulagðar ferðir um borgina m.a. fyrir Íslendinga, var í áfalli. „Þetta er hryllingur,” sagði Kristín um brunann en Notre Dame hefur verið einn af vinsælli viðkomustöðunum í ferðunum sem hún hefur boðið upp á.

Vera Pálsdóttir ljósmyndari sem er sömuleiðis búsett í París sagði í samtal við Mannlíf að fólk væri harmi slegið. „Kirkjan í Saint German brann fyrir ekki löngu. Nú brennur saga Frakklands. Fólk grætur.”

Heimsbyggðin harmi slegin
Síðustu eldarnir í Notre Dame kirkjunni voru slökktir í  morgun, en slökkvilið Parísar hafði staðið í ströngu við að slökkva þá. Tókst slökkviliðinu að bjarga stórum hluta 850 ára gömlu kirkjunnar og tveimur turnum hennar og ýmsum merkum munum úr kirkjunni. Þak Notre Dame hrundi aftur á móti og ekki liggur enn fyrir hvað skemmdirnar eru miklar. Þá eru upptök eldsins óljós á þessari stundu en talið er að þau megi rekja til endurbóta á kirkjunni.

Fjöldi Íslendinga hefur lýst yfir sorg á samfélagsmiðlum vegna brunans, þar á meðal Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í París, sem sagði í gær á twitter að sorglegt væri að sjá Notre Dame brenna, og sömuleiðis fólk um allan heim. Í morgun sagði m.a. Frans Páfi að hugur sinn væri hjá Frökkum vegna brunans.

Duglega fólkið

Síðast en ekki síst

 

Ég hugsa reglulega til samtals við fyrrum kollega minn. Þetta var um vetur og helmingurinn af fólkinu á skrifstofunni lá heima með inflúensu. Við kaffivélina andvörpuðum við yfir ástandinu, agalegt að vera svona lasinn. „Ég hef unnið hérna í sex ár og bara tekið einn veikindadag,“ sagði hann loks hróðugur. Mér fannst raunverulega mikið til koma og reiddi upp hægri höndina til að hlaða í eitt high five. Hvílík hundaheppni að verða svona sjaldan lasinn! „Jú sko,“ bætti hann við. „Ég mæti sko í mína vinnu þó að ég sé með hita og ógeðslega slappur. Ligg ekki í rúminu eins og einhver aumingi.“

Það runnu á mig tvær grímur. Skyndilega greip mig þörf til þess að færa höndina, sem ég hafði hafið á loft litlu fyrr, eilítið í suðausturátt og reka þessum samstarfsmanni mínum löðrung fyrir kjánaganginn.

Einhver benti á að ef hér kæmi upp bráðsmitandi og lífshættuleg farsótt myndi fjöldi fólks falla í valinn. Og það þrátt fyrir að nú væri boðið upp á talsvert betri heilbrigðisþjónustu heldur en til dæmis þegar spænska veikin herjaði á þjóðina fyrir rúmri öld. Það er nefnilega ekki móðins að liggja hálfeinangraður og veikur heima hjá sér.

Enginn dugnaður í því að taka það rólega, slökkva jafnvel á símanum, sofa, drekka nóg og leyfa líkamanum að jafna sig. Þá þykir betra að hólkast aftur hálflasinn til vinnu á hálfum afköstum, ef það, og reyna af veikum mætti að gera eitthvert gagn. Annars gæti vinnuveitandinn farið að ókyrrast, pirringur farið að sækja á samstarfsfólk.

Þetta er ekki eðlilegt fyrirkomulag. Ef maður er veikur, þá er maður veikur. Það verða alltaf til einhverjir gemlingar sem taka sér veikindadag án þess að vera veikir. Svoleiðis er það bara.

En það má ekki fæla fólk sem raunverulega verður lasið, frá því að nýta veikindarétt sinn. Þar fyrir utan er það einfaldlega ákveðið ábyrgðarleysi að mæta veikur til vinnu og deila jafnvel pestinni með samstarfsfólki og/eða viðskiptavinum. Ef maður er veikur, þá er maður veikur. Punktur.

„Notre-Drame“ – Logandi dómkirkjan prýðir forsíður franskra blaða

||||
||||

Dómkirkjan Notre-Dame, eitt af kennileitum Parísarborgar, varð fyrir talsverðum skemmdum eftir brunann sem heltók bygginguna í gærkvöldi.

Prýðir dómkirkjan nú forsíður helstu morgunblaða og vekja mörg þeirra sterk viðbrögð með tilfinningaþrungnum titlum á borð við „Le désastre“ og „La désolation“ sem þýða má sem hamfarir og harmur. Le Parisien birti mynd af logandi turninum með fyrirsögninni „Notre-Dame des Larmes“ eða „Frúarkirkjan í tárum“.

Le Parisien.

Fréttablaðið Libération leikur sér að franska orðinu „Drame“ sem einfaldlega þýðir drama eða sorgarleikur og er keimlíkt orðinu „Dame“ eða dama sem er hluti af nafni dómkirkjunnar. Fyrirsögnin hljóðaði svo; „Notre Drame“ sem má bæði lesa sem „Frúin okkar“ eða „Sorgin okkar“.

Libération.

Fyrirsögn Rómversk-kaþólska fréttablaðsins La Croix lýsir sorgarástandi borgarinnar ágætlega en lýsa þeir ástandinu sem „Le coeur en cendres“ sem þýðir „Hjartað í ösku“.

La Croix.

Eitt elsta fréttablað landsins Le Figaro valdi fyrirsögnina „Notre-Dame de Paris – Le désastre“ eða „Frúarkirkja Parísar – Hamfarirnar“. Fréttakona hjá blaðinu, Camille Lecuit, deildi forsíðunni á Twitter með tilvitnun úr skáldsögunni „Hringjarinn í Notre-Dame“.

Le Figaro.

Uppbygging á Notre-Dame hófst árið 1160 og stóð yfir um 100 ár. Á tíma frönsku byltingarinnar varð dómkirkjan fyrir talsverðum skemmdum en endurbætur fóru ekki fram fyrr en á árunum 1844-1864. Skáldsaga Victors Hugo „Hringjarinn í Notre-Dame” var gefin út árið 1831 og tókst að endurvekja áhuga borgarbúa á dómkirkjunni sögufrægu. Varð skáldsagan þannig kveikurinn að framkvæmdunum.

Notre-Dame, sem var reist í gotneskum stíl, tekur á móti um 13 milljónum ferðamanna ár hvert.

Sjá einnig: Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!”

Hatarar séu þátttakendur í „áróðursmaskínunni“ þvert á eigin hugmyndir um sérstöðu

||||
||||

„Hatari, sem telja sig hafa einhvers konar sérstöðu vegna óljósra yfirlýsinga um mótmæli, taka þannig með beinum þætti í áróðursmaskínunni,“ segir í yfirlýsingu frá Sniðgöngum Eurovision í Ísrael sem birt var á Facebook í gærkvöldi. Í gær birtust myndskeið í fjölmiðlum frá upptökum á póstkorti fyrir beina útsendingu keppninnar.

„Hefð er fyrir því að spila stutt myndskeið á undan atriðum í Eurovision, sem eru gjarnan notuð til að kynna landið sem heldur keppnina fyrir áhorfendum. Ísrael hefur lagt mikla vinnu í póstkortin í ár, en formaður Kan sjónvarpsstöðvarinnar hefur kallað þau fullkomið tækifæri til að sýna 200 milljón áhorfendum „fagurt andlit Ísrael“,“ segir í tilkynningunni. Sniðgöngum Eurovision í Ísrael segir landið nota póstkortin sem tækifæri til að sýna hernumin og innlimuð svæði Ísraels. „Þema póstkortanna í ár er „dansandi Ísrael“, en þau eru tekin upp á völdum stöðum sem Ísrael vill sýna áhorfendum, meðal annars í Golan-hæðum. Við sjáum þannig með skýrum hætti hvernig Eurovision skapar tækifæri til að sýna ólöglega innlimuð og/eða hernumin svæði á borð við Golan-hæðir og palestínsku Austur-Jerúsalem sem hluta af Ísrael. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um hvernig keppnin er notuð í áróðursskyni og í pólitískum tilgangi af Ísrael.“

Vilja nýta dagskrárvaldið til að gagnrýna stefnu Ísrael

Meðlimir Hatara sögðu í viðtali við Stundina síðastliðinn febrúar að fráleitt væri að Ísland taki þátt í keppni sem haldin er í ríki sem traðki á mannréttindum fólks. „Gagnrýnin á okkur er skiljanleg og til marks um að fjölmörgum Íslendingum svíður meðferðin á Palestínumönnum. Okkur finnst sjálfsagt að svara henni af virðingu og án þess að snúa svarinu upp í grín, sem við gerum vanalega í framkomu okkar við fjölmiðla. Það er ekkert öfgakennt við að tala fyrir sniðgöngu á keppninni. Við erum sammála þeim sjónarmiðum sem þar liggja að baki. Páll Óskar gerði til að mynda vel með því að sniðganga keppnina opinberlega. Þar með nýtti hann áhrif sín sem opinber persóna og nafntogaður Eurovision-spekúlant til að halda á lofti gagnrýnu samtali um Ísrael og sniðgöngu,“ hefur Stundin eftir Höturum.

Ísland og Ísrael voru miklar vinaþjóðir

Árið 1947 var Ísland eitt þeirra landa sem ljáðu skiptingu bresku Palestínu stuðning sinn. Svæðinu yrði skipt í ríki gyðinga annars vegar og ríki araba hins vegar. Tillagan var borin upp og samþykkt 29. október 1947. Ísland og Ísrael áttu náin og vinsamleg samskipti næstu árin og lengi vel voru Íslendingar meðal helstu stuðningsmanna Ísraelsríkis. Í sáttanefnd um Palestínu var Thor Thors, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann var framsögumaður niðurstöðu nefndarinnar.

Af fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla á fimmta áratug síðustu aldar má greina að Íslendingar hafi verið nokkuð stoltir af þætti sínum, og Thor Thors, í stofnun Ísraelsríkis. „Enginn vafi er á því, að nefnd sú, sem sendiherrann hefur nú verið kosinn í, er hin mikilvægasta,“ segir Morgunblaðið um málið. Óvíst er hvort sú túlkun blaðsins eigi sérstaklega við rök að styðjast enda var fjöldinn allur af nefndum stofnaðar um skiptingu bresku Palestínu milli gyðinga og araba. Íslendingar tóku veru sína í Sameinuðu þjóðunum afar alvarlega á fimmta áratugnum enda þátttaka okkar í ráðinu talin hluti af viðurkenningu annara þjóða á Íslandi sem sjálfstæðu ríki.

Vísir 12. nóvember 1964, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræðir við blaðamenn um för sína til Ísrael.

Skilyrðislaus vinátta

Sú var tíðin að vinsemd Íslands og Ísrael var slík að tekið var eftir. Íslensk stjórnvöld sýndu Ísrael strax mestu vinsemd og raunar mun meiri vinsemd en stjórnvöld annara Norðurlanda. Árið 1949 greiddu Íslendingar atkvæði með aðild Ísrael að Sameinuðu þjóðunum en Danir og Svíar sátu hjá. Þá höfðu sendiherrar þjóðanna tveggja skipst á trúnaðarbréfum þegar árið 1951. Vakin er athygli á samstarfi Íslands og Ísrael í lokaritgerð Jakobs Snævars Ólafssonar lokaritgerð til BA-gráðu frá árinu 2013 er fjallað um samskipti Íslands og Ísrael frá stofnun landsins. Jakob segir að Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra hafi eftir heimsókn sína til Ísraels árið 1960 vakið athygli Norðurlandaþjóða á hugmyndum Ísrael um að Norðurlönd myndu beita sér í auknu mæli í Afríku til að vega upp á móti áhrifum stórveldanna. Hugmyndin hlaut ekki hljómgrunn.

Landhelgisdeilur

Ísraelar ljáðu Íslandi stuðning sinni í Landhelgismálinu, það er að segja, þegar Íslendingar vildu færa eigin landhelgi í 12 mílur. Árið 1958 blésu Sameinuðu þjóðirnar til hafréttarráðstefnu í Genf, Sviss. Engar stórvægilega breytingar voru samþykktar á ráðstefnunni en Ísland ákvað í kjölfarið að færa eigin landhelgi út í 12 mílur. Viðbrögð Breta létu ekki á sér standa. Þeir mótmæltu ákaft og sendu herskip til þess að verja togara sína gegn íslensku varðskipunum. Hófst nú þorskastríð milli Íslands og Bretlands. Ísrael greiddi atkvæði með málstað Íslendinga á hafréttarráðstefnu nokkru síðar. Deila Íslendinga og Breta stóð til ársins 1961. Ísrael var heilt á litið mótfallið öllu takmörkuðu aðgengi að fiskimiðum. Þau töldu hins vegar að gera yrði undantekningu fyrir þjóðir sem lifðu nánast eingöngu á fiskveiðum.

Aðdáun á báða bóga

Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, ávarpaði árið 1966 ísraelska þingið, Knesset. Ásgeir var þá fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn til að hlotnast sá heiður. Heimsókn Ásgeirs stóð yfir í níu daga og var öll hin vinalegust. Ásgeir fór einnig fyrir vígsluathöfn nýrrar götu í Jerúsalem að viðstöddu fjölmenni. Ferðalag Ásgeirs var ekki fyrsta heimsókn Íslenskra ráðamanna til Ísrael en áður hafði Gísli Þ. Gíslason menntamálaráðherra heimsótt Ísrael í opinberum erindagjörðum árið 1965. Ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í Guðmundsson höfðu sömuleiðis farið í heimsókn til landsins. Birgir Finnsson, þá forseti sameinaðs Alþingis, ávarpaði ísraelska þingið árið 1966, líkt og Ásgeir hafði gert. Samskipti ríkjanna voru ekki aðeins góð heldur ríkti gagnkvæm virðing og áhugi ríkjanna á milli. Íslendingar voru stoltir af þætti sínum í stofnun Ísrael og dáðust af elju Ísraela við uppbyggingu hins nýja ríkis. Þá virðast íslenskir ráðamenn almennt hafa verið stuðningsmenn zionisma og gerðu ekki athugasemdir við hugmyndafræðina. Ásgeir heiðraði á sínum tíma Theodor Herzl, upphafsmann stefnunnar, þegar hann lagði blóm að leiði hans. Bjarni Benediktsson gerði hið sama árið 1964.

Umfjöllun í Vikunni um Ísrael árið 1973.

Skilyrtur vinskapur

Almennt naut Ísraelsríki velvildar vesturríkjanna en eftir sex daga stríðið, árið 1967, fjölgaði ályktunum þar sem gjörðir Ísrael voru fordæmdar. Í áðurnefndri ritgerð Jakobs Snævar Ólafssonar segir að það hafi ekki verið fyrr en árið 1973 sem Ísland greiddi atkvæði með ályktun gagnrýnni á aðgerðir Ísrael. Íslendingar áttu það til að sitja hjá við kosningar vegna ályktana sem vörðuðu stöðu Jerúsalem eða ályktanir þar sem því var haldið fram að Ísrael bryti mannréttindi Palestínumanna. Í ályktunum þar sem ýtt var á Ísrael að draga til baka af herteknu svæðunum var sama uppi á teningnum; Ísland hélt sig til hlés.

Ísland gegn Ísrael

Árið 1971 greiddu íslensk stjórnvöld atkvæði með ályktun þar sem aðgerðir Ísrael gagnvart Palestínumönnum voru gagnrýndar. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar stefndi að sjálfstæðari utanríkisstefnu frá stórveldunum en þar til hafði verið raunin. Ætlunin var meðal annars að styðja betur við bakið á þjóðum þriðja heimsins. Undir lok ársins kom upp ágreiningur innan fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Innan hópsins þótti nokkrum Hannes Kjartansson, fastafulltrúi Íslands ganga gegn stefnu ríkisstjórnarinnar með stuðningi sínum við Ísrael. Hann mun hafa mótmælt því og sagt að alltaf hefði ríkt samhugur um að styðja við bakið á Ísrael. Hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi blönduðust svo inn í málin. Árið 1973 greiddu íslensk yfirvöld atkvæði með ályktun sem gagnrýndi notkun Ísraela á náttúruauðlindum svæða sem þeir höfðu hertekið í sex daga stríðinu árið 1967. Stríðið var á milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Stríðið var háð milli 5.–10. júní. Írak, Sádi-Arabía, Súdan, Túnis, Marokkó og Alsír lögðu einnig til hersveitir til stuðnings aröbum. Atkvæði Íslands með ályktuninni var afar óvenjulegt. Það var þó ekki svo að virðing við mannréttindi Palestínubúa ræki Íslendinga áfram í málinu. Sjálfir stóðu Íslendingar í baráttu yfir eigin náttúruauðlindum og höfðu af þeim sökum áður fengið samþykkta ályktun um yfirráð þróunarríkja á eigin náttúruauðlindum. Sú ályktun var í meginatriðum sú sama og ályktun um auðlindir hertekinna svæða. Fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum töldu sig þar af leiðandi ekki geta annað en samþykkt ályktunina. Hætt er við að hefðu Íslendingar ekki stutt ályktunina um auðlindir herteknu svæðanna að erfiðlega hefði gengið fyrir stjórnvöld að treysta á stuðning þróunarríkja í landhelgisdeilu Íslendinga. Áður höfðu Ísraelsmenn stutt Ísland í landhelgisdeilu landsins en nú var svo komið að Ísrael sat hjá í málinu. Stuðningur Ísrael við landhelgiskröfur Íslands var því liðin tíð. Árið 1974 sat Íslands aftur á móti hjá þegar samskonar ályktun um auðlindir herteknu svæðanna var afgreidd á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ný ríkisstjórn hafði í millitíðinni tekið við en sú stjórn hafði minni áhyggjur af sjálfstæði utanríkisþjónustu gagnvart Bandaríkjunum.

Ísland viðurkennir Palestínu

Diplómatísk samskipti Íslands og Ísrael eru í dag fremur köld. Árið 2012 tók Shimon Peres, þá forseti Ísrael, það sérstaklega fram að samskipti Íslands og Ísrael væru í kaldara lagi er hann tók við trúnaðarbréfi sendiherra Íslands gagnvart Ísrael. Hann bætti við að færi væri til að bæta úr því. Viðurkenning Alþingis á sjálfstæði Palestínu ári áður hafði ekki orðið til þess að sætta Ísraelsmenn sérstaklega. Þá virðist Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa verið einstaklega lítið í mun að ganga í augun á Ísrael. Árið 2011 fór Össur í heimsókn til Miðausturlanda en forðaðist samskipti við Ísrael í þeirri ferð. Það vakti viðbrögð í Ísrael en Manfred Gerstenfeld formaður Miðstöðvar um almannatengsl í Jerúsalem skrifaði afar harðorða grein um hroka Össurar gagnvart Ísraelsmönnum. Össur gaf lítið fyrir þá gagnrýni. Frægust er þó ræða Össurar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, frá september árið 2012, þar sem utanríkisráðherra fór hörðum orðum um Ísrael. Í ræðunni ávarpaði hann Netanyahu og kallaði eftir því að hann rífi niður aðskilnaðarvegg Ísraela á Vesturbakkanum.

Þess má geta að meðal þeirra sem greiddu tillögu Alþingis, um viðurkenningu sjálfstæðis Palestínu, atkvæði sitt var Amal Tamimi, varaþingkona Samfylkingarinnar. Amal er fædd og uppalin í Jerúsalem. Í ævisögu sinni segir Amal frá því að þegar hún þrettán ára var handtekin og ákærð fyrir að kasta steinum í ísraelska hermenn. Að eigin sögn sat Amal í fangelsi í tvær vikur á meðan hún beið réttarhalda og hlaut sex mánaða dóm.

Vinsæll og veit af því

Erfitt getur verið að ímynda sér stuðning við Palestínu og óhug vegna aðgerða Ísrael sem jaðarskoðun. Almennt eru Íslendingar í dag stuðningsmenn Palestínu enda höfum við gengið lengra en önnur vestræn ríki í að viðurkenna stöðu Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Sú var þó staðan á Íslandi framan að. Stuðningur og raunar samúð við Palestínu var jaðarskoðun langt til vinstri á meðan Ísrael vakti áhuga og aðdáun Íslendinga. Gríðarleg uppbygging var í Ísrael á áratugunum eftir stofnun. Þeir sem hölluðu til hægri litu gjarnan svo á að Ísrael væri ríki vestrænnar menningar í heimi araba og mikilvægt sem slíkt. Vinstrimenn voru gjarnan hrifnir af sósíalískum áherslum Ísraela. Vinstrimiðlar hér á landi voru afar hrifnir af áherslu Ísrael á samvinnufélög og samyrkjubúskap. Íslendingar tengdu sömuleiðis baráttu ísraelskra gyðinga fyrir eigin ríki við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Þótt breytingin hafi orðið á löngum tíma og sé afleiðing margra þátta er vert að nefna sérstaklega þátt Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins en sem ráðherra var hann afar gagnrýninn á Ísrael í samanburði við forvera sína og tók gjarnan undir málstað Palestínumanna. Leiða má að því líkur að vilji æðsta embættismanns Íslands til að taka upp hanskann fyrir málstað Palestínumenn eigi talsverðan þátt í að færa þá umræðu frá jaðri rökræðunnar út til miðju umræðunnar. Sömuleiðis tók Steingrímur ítrekað upp hanskann fyrir Palestínumenn á meðan hann var utanríkisráðherra og það þrátt fyrir að samstarfsflokkurinn væri oft afar ósáttur við afstöðu Steingríms.

Uppreisn Palestínumanna

Í ævisögu Steingríms segir að viðbrögð Ísraela við uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum sem braust út árið 1987 hafi orðið til þess að hann ákvað að gagnrýna Ísrael með jafn afgerandi hætti og raun varð. Steingrímur hafði fram að því ekki sýnt stöðu Palestínumanna sérstakan áhuga og hafði raunar sagt að hann skyldi sjónarmið Ísrael. Eftir að Ísraelar brutu að baki uppreisnina af mikill hörku breyttist tónninn. „Mér sýnist ekki unnt að líkja því við neitt annað en hin verstu hryðjuverk,“ sagði Steingrímur, þá utanríkisráðherra, um aðgerðir Ísraelshers í umræðum um málið á þingi. Þá sagði hann að enginn gæti stutt morð á ófrískum konum og gamalmennum. Skömmu síðar lýsti hann því yfir að Frelsissamtök Palestínumanna PLO væru raunar lögmæt fulltrúasamtök Palestínumanna. Steingrímur steig þannig nauðsynlegt skref í átt að því að færa samskipti Íslands og fulltrúa Palestínu á jafnréttisgrundvöll sem sjálfstæð og fullvalda ríki. PLO voru, á þessum tíma, að mati Ísraela hryðjuverkasamtök og því er ljóst að ummæli hans og afstaða til PLO settu samskipti ríkjanna í viðkvæma stöðu. Þorsteinn Pálsson sem þá var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tók ekki í mál að hitta eða ræða við PLO. Í ævisögu sinni segir Steingrímur að honum hafi þótt þetta barnaleg afstaða en að hann hafi tímabundið hætt við að hitta Yasser Arafat, formann frelsissamtaka Palestínu, sökum harkalegra viðbragða Sjálfstæðismanna.

Hatari stíga á svið í Tel Aviv þann 14. maí næstkomandi með lag sitt Hatrið mun sigra.

Mynd / Magnús Andersen fyrir Grapevine

Rokkaraleg með nútímanlegu ívafi

Ester Ýr Borg Jónsdóttir segir fullkomna svarta kápu vera efst á hennar óskalista en hún er sannfærð um að sú rétta bíði sín einhvers staðar þarna úti. Við fengum að skyggnast inn í fataskáp Esterar Ýrar þar sem kenndi ýmissa grasa.

„Hringarnir mínir hafa tilfinningalegasta gildið sem og flestallt skartið mitt.“

Ester lýsir sjálfri sér sem dundara sem elskar að verja tíma með sjálfri sér og gera eitthvað skapandi. „Mér finnst gaman að teikna og leika mér að taka myndir. Ég elska líka tónlist og finnst fátt skemmtilegra en að fara á góða tónleika. Ég er dýravinur og líður sjaldnast betur en þegar það eru dýr í kringum mig. Þessa dagana er ég mikið í andlegum pælingum, lærði nýverið reiki og stunda hugleiðslu. Næst á dagskrá verður að læra jóga.“

Aðspurð hvaðan Ester Ýr sæki innblástur nefnir hún fyrst Instagram. „Ég er með non binary-fatastíl svo ég skoða bæði flottar stelpur og stráka á Instagram og sæki innblástur frá þeim. Stíllinn minn er blanda af 70’s-90’s, svolítið rokkaralegt en með nútímalegu ívafi en ég er mjög hrifin af verslununum Zara og Mango. Mér finnst gaman að rölta milli second hand-verslana og finna einhverjar gersemar þar.

„Það er mjög erfitt að velja einn eftirlætishlut en ætli ég verði ekki að segja vestin mín og hattasafnið mitt.“

Ég elska að kaupa mér föt og vil helst fara í þau strax, einkum og sér í lagi elska ég frakka og kápur, helst einhverjar sem eru öðruvísi. Ég var að rölta um Köben nýverið og rakst á eina skemmtilega second hand-verslun þar sem ég fann sjúklega flotta 70’s-rúskinnskápu sem ég varð alveg ástfangin af en ég elska jafnframt allt sem er köflótt eða röndótt. Furðulegustu kaupin í fataskápnum mínum eru hins vegar svolítið skemmtilegur fjólublár og svartur jakki sem ég fann í Gyllta kettinum um daginn en hann er hannaður í kjólfatalegu sniði.“

„Ég fann svo sjúklega flotta hvíta silkiskyrtu í Zara þegar ég var í Köben sem er með pífum að framan og síðan fann ég alveg eins svarta í Zara í Noregi þannig ég keypti hana líka.“

Þegar talið berst að skylduflík í alla fataskápa vefst svarið ekki fyrir Ester Ýri. „Klárlega rúllukragabolur, þeir eru algjört „must“. Mér finnst hins vegar langleiðinlegast að máta buxur, ég get nefnilega vippað mér í flestar flíkur án þess að fara í mátunarklefann en þegar maður mátar buxur neyðist maður til að fara inn í klefa og þarf þar að auki að klæða sig úr skónum.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!“

||||
||||

Notre Dame kirkjan í París stendur í ljósum logum. Íslendingur, sem eru búsettir í borginni, eru í áfalli.

„Þetta er hryllingur. Ég veit ekki hvort það er fólk í turnunum, ég var bara að sjá þetta núna,“ segir Kristín Jónsdóttir en eitt helsta kennileiti Parísarborgar, hin gotneska kirkja Notre Dame sem var reist á árunum 1163 til 1345 stendur nú í ljósum logum. Eldtungur stíga upp úr byggingunni og berst mikill reykur frá henni. Slökkvilið í París berst nú af öllu afli við eldinn, en ekki er ljóst um upptök hann þótt helst sé talið að þau tengist framkvæmdum á svæðinu.

„Saga Frakklands brennur. Fólk grætur.“

Kristín hefur verið búsett í París í þrjátíu ár og er þar með skipulagðar ferðir um borgina m.a. fyrir Íslendinga. Hefur Notre Dame verið einn af vinsælli viðkomustöðunum í þessum ferðum. „Latínuhverfistúrinn, sá fyrsti sem ég bjó til, hefst þarna við kirkjuna. Íslenskir kórar hafa sungið þarna. Og ég átti einmitt stefnumót þarna fyrir framan kirkjuna á fimmtudag,“ segir Kristín, sem var mikið niðri fyrir þegar Mannlíf setti sig í samband við hana.

Vera Pálsdóttir ljósmyndari sem er sömuleiðis búsett í París segir að fólk sé harmi slegið. „Kirkjan í Saint German brann fyrir ekki löngu. Nú brennur saga Frakklands. Fólk grætur.“

Notre Dame  er ein frægasta kirkja heims og milljónir manna heimsækja hana árlega. Myndum og myndböndum sem sýna hana logandi hefur verið deilt á samfélagsmiðlum. Götum í nágrenni kirkjunnar hefur verið lokað vegna slökkvistarfsins. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur frestað ávarpi þar sem hann ætlaði að tilkynna um breytingar á stefnu sinni vegna brunans.

 

Skipulögð glæpastarfsemi sem teygir anga sína um allan heim

|||
|||adsf

Heimildamyndin Stolin list eða Nefertiti The Lonely Queen fjallar um stöðuna á menningarlegum verðmætum sem hafa verið stolin frá upprunaþjóðum og komið fyrir á söfnum fyrrum nýlenduvelda. Myndin hlaut góðar viðtökur þegar hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíð í Grikklandi á dögunum.

„Við erum þarna að fjalla um stöðuna á þjóðagersemum sem hafa verið teknar með vafasömum hætti og eru nú til sýnis á stórum stöfnum eins og British Museum og Louvres. Verðmæti sem gamlar nýlenduþjóðirnar neita að skila upprunaþjóðunum,“ útskýrir Örn Marinó Arnarsson hjá Markell Productions sem stendur að baki gerð myndarinnar, í samvinnu við RÚV og grísku sjónvarpsstöðvarnar OTE og ERT.

„Á eftir alþjóðlegri eiturlyfja- og vopnasölu er þetta hrikalega stórt dæmi. Svarti markaðurinn er alveg gígantískur.

Að hans sögn er þetta umfangsmikið umfjöllunarefni enda sé skipulögð glæpastarfsemi í kringum stolna list mikil, í raun mun meiri en hann hafi gert sér grein fyrir í upphafi. „Á eftir alþjóðlegri eiturlyfja- og vopnasölu er þetta hrikalega stórt dæmi. Svarti markaðurinn er alveg gígantískur. Í kjölfar arabíska vorsins hefur til að mynda verið stanslaus straumur af munum frá löndum eins og Egyptalandi og Sýrlandi, bæði „orginal“ stolnum hlutum og fölsuðum sem hafa mikið til verið seldir til Bandaríkjanna, Evrópu og Kína, oft í skiptum fyrir vopn og eiturlyf. Falsanirnar eru svo góðar að fólk veit hreinlega ekki hvort það er að kaupa ósvikna muni eða ekki,“ lýsir hann og bætir við að þessi glæpastarfsemi hafi auðvitað valdið gríðarlegu tjóni, ekki aðeins fyrir þjóðir sem hafa verið rændar eins og í Egyptalandi, Írak, Líbíu og Sýrlandi, heldur einnig fyrir fornleifafræðinga sem vilja rannsaka munina. „Vandamálið er bara að þessi heimur er svo dulinn að það virðist vera erfitt, í raun bara ógerningur að uppræta starfsemina.“

Mafían að verki
Í ljósi þess um hversu umsvifamikla starfsemi sé að ræða segir Örn tökur hafa farið fram víða um heim; í Grikklandi, á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Þýskalandi, Egyptalandi, Sýrlandi og víðar þar sem hann og Þorkell Harðarson, samstarfsmaður hans, söfnuðu heimildum. Eftir það hafi tekið við tveggja ára vinna sem fór í að fullgera myndina og þrjá þætti sem hafa verið gerðir upp úr efninu fyrir sjónvarp.

Spurður hvort þeir félagar hafi lent í einhverjum hættum á þessum ferðalögum, segir Örn að þeir hafi blessunarlega sloppið við allt slíkt. Hins vegar hafi fljótlega komið í ljós að þeir sem standi á bakvið glæpastarfsemina séu langt frá því að vera einhver lömb að leika sér við, því þar sé mafían meðal annars að verki.

En vitið þið hvort þessi glæpastarfsemi teygi sig til Íslands? Var eitthvað í ykkar rannsóknum sem gaf það til kynna? „Það er erfitt að segja til um það,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega allt svo falið.“

Vakti athygli í Grikklandi

„Grikkjunum … finnst að Bretar eigi að skila þeim Parthenon-höggmyndunum eins og þær leggja sig. Það er þeirra viðhorf en stundum nægir þessum þjóðum bara að fá lykilverkin heim.“

Samkvæmt Erni hafa myndin og þættirnir engu að síður sterka tengingu við Ísland þar sem í þeim er meðal annars fjallað um íslensku handritin. „Já, við komum inn á þau en í dag er helmingur þeirra á Íslandi og helmingur í Danmörku og þjóðirnar tvær hafa verið að stúdera þau saman. Sem sýnir að þessar fyrrverandi nýlenduþjóðir þurfa auðvitað ekkert að sitja á verðmætum annarra þjóða. Það er vel hægt að semja um þessa hluti og eiga í góðu samstarfi,“ segir hann og bætir við að sá þáttur hafi einmitt vakið athygli þegar Stolin list var heimsfrumsýnd á hinni kunnu heimildamyndahátíð í Þessalóníku í Grikklandi í mars.

„Grikkjunum fannst þetta ánægjulegt. Þeir voru reyndar líka hissa þar sem þeim finnst að Íslendingar eigi að fá öll handritin. Rétt eins og þeim finnst að Bretar eigi að skila þeim Parthenon-höggmyndunum eins og þær leggja sig. Það er þeirra viðhorf en stundum nægir þessum þjóðum bara að fá lykilverkin heim.“

Myndin hlaut góðar viðtökur í Grikklandi og segir Örn að sýningarrétturinn að henni hafi þegar verið seldur til þriggja sjónvarpsstöðva. Nú sé verið að skoða framhaldið en greinilegt sé að mikill áhugi sé á myndinni.

Aðalmynd: Örn Marinó Arnarsson hjá Markell Productions 

Það versta að baki

|
|Karl Sigurðsson

Nýliðinn marsmánuður var sá svartasti á vinnumarkaði frá því eftir hrun en þá fengu alls 1.600 manns uppsagnarbréf í hendur.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

Þar stendur fimmtudagurinn 28. mars upp úr þar sem yfir vel yfir 1.000 manns misstu vinnuna einn og sama daginn sem er einsdæmi í Íslandssögunni. Þar munar að mestu um gjaldþrot WOW air en einnig voru hópuppsagnir hjá fyrirtækjum eins og Airport Associates, Lyfju, Pipar/TBWA og Kynnisferðum.

„Við höfum á tilfinningunni að þetta hafi verið eitt stórt högg nú í mars og að staðan sé ekki eins alvarleg og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.“

Í lok mars voru um 6.900 manns á atvinnuleysisskrá og telur Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, að sú tala eigi eftir að hækka eitthvað í apríl. Það væri óvenjulegt í venjulegu árferði þar sem atvinnuleysi minnkar alla jafna milli mars og apríl. Hann vonast þó til að það versta sé yfirstaðið.

„Okkur heyrist að það sé tiltölulega gott hljóð varðandi sumarið, bæði í byggingariðnaði og ferðaþjónustu nú þegar önnur flugfélög eru farin að fylla í skarðið sem WOW skildi eftir sig. Við höfum á tilfinningunni að þetta hafi verið eitt stórt högg nú í mars og að staðan sé ekki eins alvarleg og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Það mun svo skýrast í lok mánaðar hvort það verði einhverjar hópuppsagnir í apríl en við höfum enn sem komið er ekki heyrt af neinu slíku.“

Fjármálaeftirlitið krafðist þess að söfnunarsíðunni yrði lokað

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við fjármögnunarsíðuna hluthafi.com.

Í gær var greint frá því að vefsíða um stofnun nýs flugfélags væri farin í loftið á slóðinni hlutahafi.com. Þar var óskað eftir hlutafjárloforði að minnsta kosti tíu til tuttugu þúsund hluthafa í þeim tilgangi að endurreisa flugfélagið WOW air eða stofna nýtt lággjaldaflugfélag. Fjármálaeftirlitið krefst þess að síðunni verði lokað.

Fjármálaeftirlitið hóf í gær athugun á hlutafjárútboðinu sem auglýst var á síðunni. Í grein á vef Fjármálaeftirlitsins segir: „Fjármálaeftirlitið taldi að framangreind áskriftarsöfnun félli undir hugtakið almennt útboð verðbréfa, sbr. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, en með almennu útboði er átt við hvers konar boð til almennings um kaup á verðbréfum. Áður en farið er í almennt útboð verðbréfa þarf að gefa út lýsingu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. laga um verðbréfaviðskipti.“

Þá kemur einnig fram að Fjármálaeftirlitið hafi sent erindi til forsvarsmanna hluthafi.com þar sem gerð var krafa um að heimasíðunni yrði lokað þar sem ekki virtust uppfyllt skilyrði laga um verðbréfaviðskipti, meðal annars varðandi útgáfu lýsingar.

„Í kjölfar þessa hafa forsvarsmenn hluthafi.com breytt fyrirkomulagi áskriftarsöfnunarinnar á þann hátt að nú er miðað við skráningu fyrir hlutaskírteini í einkahlutafélagi sem fellur ekki undir lög um verðbréfaviðskipti,“ segir einnig.

Fjármálaeftirlitið vekur þá athygli á að almennir fjárfestar njóta ekki sömu verndar vegna kaupa í einkahlutafélagi og þegar þeir taka þátt í almennu hlutafjárútboði.

Sjá einnig: Fjármögnunarsíða fyrir nýtt flugfélag farin í loftið

Edda Björgvins um Margréti Müller: „Þessi vonda kerling níddist á öllum börnunum“

|
Edda Björgvinsdóttir

Leikkonan Edda Björgvinsdóttir bætist í hóp þeirra sem stíga fram og minnast ofbeldisins í Landakotsskóla.

„Ég marg reyndi að klaga í fræðsluyfirvöld þegar Róbert var þarna og þessi vonda kerling níddist á öllum börnunum í bekknum hans,“ skrifar hin ástsæla leikkona Edda Björgvinsdóttir á Facebook, en Róbert er yngri sonur hennar og Gísla Rúnars Jónssonar leikara.

Skrif Eddu eru ummæli við Facebook-færslu söngvarans Krumma Björgvinssonar, frænda Eddu þar sem hann lýsir því hvernig Séra Ágústus George, fyrrverandi skólastjóri Landakotsskóla og kennarinn Margrét Müller beittu hann ofbeldi í æsku, en í marga áratugi beittu þau skötuhjú börn við skólann andlegu og líkamlegu ofbeldi sem og kynferðisofbeldi sem uppgötvaðist ekki fyrr en nokkrir þolendanna stigu fram í Fréttatímanum árið 2011 og lýstu þar voðaverkunum. Kaþólska kirkjan setti í kjölfarið á laggirnar rannsóknarnefnd til að rannsaka ódæðiðsverkin og þann 2. nóvember árið 2012 gaf hún út skýrslu um glæpina. Þremur árum síðar, eða árið 2015 samþykkti Alþingi að greiða út sanngirnisbætur til þolenda.

„Ég hef aldrei fyrr kynnst fólki sem mér finnst vera hreinlega illgjarnt eins og þessi tvö sem blóðug slóðin liggur eftir!“

Nú stendur fyrir dyrum að gera nýja heimildaþætti um málið og eru þeir tilefni skrifa Krumma, sem hafa vakið mikla athygli og skrifa Eddu frænku hans. Segir leikkonan í fyrrnefndum ummælum að hún hafi tekið son þeirra Gísla úr Landakotsskól á miðjum vetri og hún vorkenni enn öllum þeim börnum sem Margrét hélt áfram að pína. „Ég hef aldrei fyrr kynnst fólki sem mér finnst vera hreinlega illgjarnt eins og þessi tvö sem blóðug slóðin liggur eftir!“ skrifar Edda og vandar skólastjóranum fyrrverandi þannig ekki kveðjurnar.

Við Krumma segir hún: „Elsku hjartans Krummi frændi hvað þetta hefur verið ömurlegt og hræðileg lífsreynsla.“

„Jeminn hvað er glaður að Róbert var ekki þarna mikið lengur. Takk elsku frænka mín ❤️,“ svarar söngvarinn frænku sinni.

Sjá einnig: Vera Illugadóttir lagði fæð á séra George sem barn

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Orðin eru okkar kastalar

Skoðun
Eftir / Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur

Samskipti við og í gegnum tölvur og snjalltæki eru orðin stór hluti okkar daglega lífs. Hingað til hefur megnið af þessum samskiptum þurft að fara fram á öðrum tungumálum en íslensku. Máltækniáætlun fyrir íslensku er ætlað að sjá til þess að íslenska verði nothæf og notuð í stafrænni tækni, það er í samskiptum manns við tölvur og snjalltæki en ekki síður í samskiptum manns í gegnum tölvur og snjalltæki. Þetta þurfum við að gera einfaldlega vegna þess að það sem er ekki notað, gleymist og týnist. Ef ekki er hægt að nota íslensku á svona fyrirferðarmiklu sviði daglegs lífs er hætta á því að við töpum tungumálinu okkar.

Til þess að þetta verði að veruleika skiptir miklu máli að byggja upp nýsköpunarsamfélag í máltækni á Íslandi. Ef við berum þetta ferli saman við það að byggja hús, þá má segja að grunnurinn að allri nýsköpun í máltækni á íslensku séu málföng; gögn fyrir íslensku á borð við risamálheild og ákveðin grunntól sem gera rannsakendum kleift að vinna með tungumálið. Ofan á þennan grunn má síðan steypa sjálft húsið, hinar svokölluðu kjarnalausnir; talgreini, talgervil, vélþýðingar og málrýni. Þegar húsið hefur verið steypt taka nýsköpunarfyrirtæki og fleiri rannsakendur síðan við og nýta þessar kjarnalausnir, gögn – tól – hugbúnað, og smíða ofan á þær máltæknilausnir fyrir neytendamarkað, sem við síðan notum til dæmis til að geta átt samskipti við heimabankann okkar með tali í stað þess að skrifa á lyklaborð.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, sagði í innsetningarræðu sinni árið 1980 að orðin væru kastalar okkar Íslendinga, að við hefðum aldrei gleymt að setja í orð allan hag okkar og alla hugsun, og að orðin væru hinn eini varanlegi efniviður sem við ættum. Þarna tókst Vigdísi, eins og svo oft fyrr og síðar, að kjarna mikilvægi tungumálsins fyrir okkur Íslendinga. Hún lagði áherslu á að það væri íslensk tunga, öðru fremur, sem gerði okkur að Íslendingum, væri okkar raunverulega sameiningartákn og sameiningarafl.

Það er því sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að við getum áfram tjáð hugmyndir okkar og hugsanir á móðurmálinu, um leið og við opnum dyrnar og sýnum þeim sem vilja tileinka sér tungumálið umburðarlyndi og veitum þeim þá hjálp sem þeir þurfa til að læra það. Það er stundum auðveldara að varðveita það sem hægt er að snerta, það sem er hlutbundið, heldur en það sem er óhlutbundið. Með því að byggja upp samfélag nýsköpunar í máltækni á Íslandi mun okkur vonandi takast að vernda orðin, kastalana okkar, um leið og við byggjum íslenskunni nýtt hús.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni.

Ísland á svartan lista í júní vegna aðgerðarleysis gegn peningaþvætti

Ísland hefur frest fram í júní til að bæta lagaumhverfi og auka varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ellegar enda á svörtum lista.

Þetta kemur fram í umsögn frumvarps um skráningu raunverulegra eigenda sem nú er í fyrstu umræðu. Skylt verður að halda skrá um raunverulega eigendur fyrirtækja verði frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að lögum en frumvarpið er umtalsvert skref í átt að uppfyllingu skilyrðanna.

Hugtakið „raunverulegur eigandi“ fjallar um þá einstaklinga sem í raun eiga starfsemi eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingum sem formlega eiga eða stýra viðskiptunum.

Með lagabreytingunni verður því skylda að greina frá einstaklingum sem til að mynda „ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila; ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.“ Raunverulegir eigendur eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem samþykkt voru af Alþingi í desember á síðasta ári.

Hið nýja frumvarp er áframhald á aðgerðum yfirvalda gegn peningaþvætti en Alþjóðlegur vinnuhópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF, gerði árið 2017 úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. „Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með aðild sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og laga starfsreglur að tilmælum FATF. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau. Tilmælin mynda því grundvöll sameiginlegra viðbragða við framangreindum ógnum við sjálfstæði fjármálakerfisins og tryggja jafnvægi innan þess,“ segir í umsögn um frumvarpið.

Ísland fékk aðvörun í fyrra um að stjórnvöld yrðu að taka sig taki og innleiða betri varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ellegar yrði Ísland sett á alþjóðlegan lista yfir ósamvinnuþýð ríki. „Í úttekt samtakanna á stöðu mála Íslandi, sem var gerð opinber í apríl 2018, fengu varnir Íslands gegn peningaþvætti falleinkunn,“ segir í úttekt Kjarnans vegna málsins. „Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulega hnekki.

Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.“

Með frumvarpi ráðherra er að mörgu leyti komið til móts við athugasemdir hópsins. Ísland hefur frest fram í júní á þessu ári til að bregðast við niðurstöðu úttektarinnar.

Gert er ráð fyrir að skráðar verði upplýsingar um þá einstaklinga sem í raun geta tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna, stjórnun aðilans eða sem njóta góðs af þeim eignum sem um ræðir.

„Lagt er lagt til að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari og tollstjóri hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur lögaðila. Einnig er lagt til að skattyfirvöld hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókn. Lagt er til að tilkynningarskyldir aðilar í skilningi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.“

Sjá einnig: Eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fær falleinkunn

Rafskotið popp með dansvænu ívafi

Í dag kemur út platan Broken með tónlistarmönnunum Bistro Boy og Bjartmari Þórðarsyni.

Broken er afrakstur samstarfs þeirra félaga sem hófst fyrir um einu og hálfu ári en þeir hafa báðir verið viðloðandi íslenskt tónlistarlíf töluvert lengi en á ólíkum vettvangi. Broken inniheldur 6 lög en tónlistinni má lýsa sem rafskotnu poppi með dansvænu ívafi.

„Broken var hálfgerð óvissuferð þó við höfum haft ákveðnar hugmyndir um hvers konar lög okkur langaði að gera, sum voru nokkuð mótuð í upphafi þessa samstarfs en svo voru önnur sem urðu til á staðnum í upptökuferlinu,” segir Frosti Jónsson (Bistro Boy) aðspurður um tilurð plötunnar og samstarf þeirra félaga.

Bistro Boy hefur verið virkur á íslensku raftónlistarsenunni um nokkurt skeið og meðal annars gefið út þrjár breiðskífur, nú síðast „Píanó í þokunni” í október á síðasta ári. Bjartmar Þórðarson er leikari/leikstjóri, söngvari og lagahöfundur. Nýjasta verk hans er EP-platan Deliria frá 2018, þar sem hann leikur sér með dimman, rafrænan retró-stíl.

Platan er aðgengileg á Spotify, iTunes, BandCamp og víðar.

Krummi upplifði ofbeldi í Landakotsskóla

||
||

Séra Ágústus George, fyrrverandi skólastjóri Landakotsskóla og kennarinn Margrét Müller beittu Krumma Björgvinsson ofbeldi þegar hann var barn.

„Það var líka mikið um refsingar og einelti. Ég slapp við kynferðislegt ofbeldi en ég get því miður ekki sagt það sama um öll hin skólasystkin mín þrátt fyrir að Séra Georg reyndi það einu sinni með því að strjúka á mér lærið mjög nálægt klofi mínu með lostafullu augnaráði. Það má segja að ég brást mjög illa við og snögg reiddist en einhverra hluta vegna brást ég ekki eins við þegar hitt ofbeldið átti sér stað. Maður bara tók því einsog maður ætti það skilið. Eins fráleitt og það er,“ skrifar tónlistarmaðurinn í færslu á Facebook síðu sinni.

„Séra Georg reyndi það einu sinni með því að strjúka á mér lærið mjög nálægt klofi mínu með lostafullu augnaráði.“

Kveðst Krumma gruna að séra George og Margrét hafi verið smeyk við foreldra sína í ljósi þess að faðir hans, tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson var virtur og þjóðþekktur maður. „En það stoppaði ekki Margréti eða Georg að slá mann utan undir eða klípa mann mjög fast í handlegginn við minnsta tilefni. Ég tel að börnin sem minna mega sín urðu oftast fyrir barðinu á þeim.“

Tilefni skrifanna er umfjöllun Fréttablaðsins um nýja heimildaþætti um voðaverkin í Landakotsskóla sem Gunnþórunn Jónsdóttir, Þóra Tómasdóttir, Margréti Örnólfsdóttir og Kristín Andrea Þórðardóttir vinna að, en þau áttu sér stað á árunum 1954 til 1990 þegar skólastjórinn, kaþólski presturinn séra Ágúst George og kennarinn Margrét Muller beittu þar börn kynferðislegu og andlegu ofbeldi. Í kjölfarið hafa ýmsir stigð fram og minnst þessara ára með óhug, þar á meðal rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir sem kenndi einn vetur við skólann og blöskraði framkoma Margrétar í garð barnanna og svo Krummi, en í fyrrnefndri færslu kveðst hann enn glíma við reiði og gremju vegan ofbeldisins sem hann mátti þola sem barn í skólanum. Tónlistin og hans nánustu hafi hins vegar hjálpað honum að vinna úr reynslunni.

Sjáðu einnig: Edda Björgvins um Margréti Müller: „Þessi vonda kerling níddist á öllum börnunum”

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Fiskistofa vissi ekki af auknum kröfum til hvalveiða og getur ekki afturkallað leyfið

Creative Commons/Mnitparanoiac

„Við höfum hins vegar engin þvingunarúrræði hjá okkur til að knýja á um að gögnunum sé skilað og við getum til dæmis ekki afturkallað veiðileyfi þeirra,“ hefur Fréttablaðið eftir Eyþóri Björnssyni fiskistofustjóra í dag, mánudag.

Blaðið gerir heimildarleysi Fiskistofu til þvingunaraðgerða gagnvart fyrirtækinu að umfjöllunarefni. Hvalur hf. hefur ekki skilað inn dagbók um veiðarnar sem gerð er krafa um að skipstjóri hvalveiðiskips haldi vegna veiða á langreyðum. Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Fiskistofa hafi ítrekað óskað eftir afriti af dagbókunum vegna veiða fá árinu 2014, 2015 og 2018.

Auknar kvaðir eru gerðar til heimildar á veiðum á langreyði með breytingum árið 2014. Þó kemur fram í frétt Fréttablaðsins að Fiskistofa hafi ekki áttað sig á þessum breytingum fyrr en eftir að leyfi hafði verið veitt. Í febrúar var Hval veitt nýtt leyfi samkvæmt sama fyrirkomulagi án þess þó að gögnin hafi verið afhent. Heimild til að afturkalla leyfið vegna þessa vanefnda er þó ekki að finna og því getur Fiskistofa ekki þvingað fyrirtækið. Eyþór segir Fiskistofu vera að fara yfir málið og kalla eftir gögnunum.

Reglum um hvalskurð aldrei fylgt

Árið 2009 voru settar reglur um að hvalskurður stórhvela skuli gerast innandyra enda um matvæli að ræða. Í ágúst árið 2018 greindu fjölmiðlar hins vegar frá því að þeim reglum hefði Hvalur hf. aldrei fylgt. Kröfunni var síðar breytt og ekki lengur gerð krafa um yfirbyggðan skurð. Sú breyting átti sér stað aðeins tíu dögum eftir að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. sendi Krist­jáni Þór Júl­í­us­syn­i ­sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra tölvupóst þar sem hann óskaði eftir að reglur yrðu rýmkaðar. „Tíu dögum síðar skrif­aði ráð­herra undir breyt­ingu á reglu­gerð­inni. Í henni fólst meðal ann­ars að 10. gr í reglu­gerð­inni var breytt á þann veg að ekki var lengur gerð krafa um að skera hval á yfir­byggðum skurð­ar­flet­i,“ segir í umfjöllun Kjarnans af málinu. Samkvæmt tölvupóstunum telur Hvalur sig hafa náð betri árangri með öðrum aðferðum en að byggja yfir skurðinn.

Eftirlausar hvalveiðibyssur

Stundin sagði frá því í október 2018 að engin leyfi hafi þá fundist fyrir fjórum skutulbyssum sem notaðar hafa verið við veiðar á langreyð. Í raun voru byssurnar utan eftirlits. „Leyfi fyrir þeim finnst ekki á pappírsformi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en skip fyrirtækisins komu til landsins á árunum 1964 og 1965. Vopnin hafi því nú verið skráð í rafræna skotvopnaskrá Ríkislögreglustjóra,“ segir í frétt Stundarinnar af málinu. Þá kemur fram að á þeim tíma hafi hvorki Vinnueftirlitið né samgöngustofa haft eftirlit með vopnunum en að Vinnueftirlitið hafi eftirlit með sprengihleðslum sem fara í byssurnar.

Hvalmjöl sem ekki er til manneldis heimilað í bjór

Einn umdeildasti bjór íslands fór í sölu árið 2014 en bjórinn var bruggaður með hvalmjöli frá Hval hf. þrátt fyrr að fyrirtækið hafi ekki haft heimild til slíkrar framleiðslu til manneldis. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og núverandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, veiti heimild til sölunnar þrátt fyrir að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi áður bannað framleiðsluna.

Fiskistofa í molum

Ríkisendurskoðun birti síðastliðinn janúar stjórnsýsluúttekt vegna eftirlits Fiskistofu. Í skýrslunni kemur fram að styrkja þurfi eftirlit Fiskistofu til að styðja markmið um sjálfbæra og ábyrga nýtingu fiskimiða. Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli að eftirlit sé veikt, stofnunina skorti úrræði og aðföng til að sinna hlutverki sínu sem og að eftirlit með brottkasti sé veikburða og ómarkvisst.

Atvinnuleysi ekki verið meira síðan 2015

Um 6.900 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok marsmánaðar sem er það mesta síðan árið 2014.

Hlutfallslega hefur atvinnuleysi ekki verið meira síðan 2015. Búist er við að það fjölgi í hópi atvinnulausra í apríl áður en áhrifa sumarstarfa fer að gæta en atvinnuleysi er alla jafna í lágmarki yfir sumartímann.

Samkvæmt nýútkominni hagspá Arion banka er gert ráð fyrir að atvinnuleysi aukist hratt út þetta ár og nái hámarki á næsta ári áður en það fer lækkandi á ný. Er gert ráð fyrir að í ársbyrjun slagi hlutfallið hátt í 4,8%. Aukin alþjóðleg samkeppni og versnandi samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er sögð valda auknu atvinnuleysi.

Atvinnuleysi er ívið meira á meðal karla en kvenna og mest meðal einstaklinga á aldrinum 25 til 34 ára. Rúmlega fjórir af hverjum tíu atvinnulausra hafa eingöngu lokið grunnskólanámi á meðan 24% hafa lokið háskólamenntun. Minnst er atvinnuleysið meðal iðnmenntaðra. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá hefur farið ört vaxandi á undanförnum mánuðum, úr 25% í um 35%.

Í lok febrúar var atvinnuleysi langmest á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Gjaldþrot WOW air hefur langsamlega mest áhrif á þessi atvinnusvæði og í því skyni ákvað ríkisstjórnin að veita 80 milljónum króna til að styrkja starfsemi Vinnumálastofnunar á þessum stöðum. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær sömuleiðis aukna fjármuni til að bregðast við stórauknu atvinnuleysi á svæðinu.

Sjá einnig: Bíða átekta fram yfir sumarleyfi

„Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða“

Lögreglan hvetur fólk til að vera vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum í kringum páskana.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er fólk beðið um að vera vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum í kringum páskana. Þá er fólk beðið um að taka niður bílnúmer, skrifa niður lýsingar og taka ljósmyndir ef það sér eitthvað sem gæti talist grunsamlegt.

„Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga,“ segir meðal annars í færslunni.

Þá segir einnig að fólk ætti að tilkynna grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. „Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan.“

Franska slökkviliðið slökkti í Trump

|
|

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, var á meðal þeirra sem tjáðu sig um eldsvoðann í Notre Dame í gær. Hann gat ekki stillt sig um að ausa úr viskubrunni sínum og ráðleggja Frökkum hvernig ætti að slökkva eldinn. Þjóðráð hans féll hins vegar í grýttan jarðveg.

Slökkviliðsmönnum tókst að slökkva síðustu glæðurnar í frúarkirkjunni laust fyrir klukkan 8 í morgun. Þótt tjónið sé ómetanlegt verður að segjast að slökkvistörf hafi tekist með ágætum. Báðir turnar kirkjunnar standa enn auk þess sem það tókst að bjarga sögulegum munum frá eldhafinu. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur þegar boðað að kirkjan verði endurbyggð.

Heimsbyggðin stóð á öndinni er hún fylgdist með kirkjunni brenna í beinni útsendingu á öllum helstu fréttamiðlum. Á meðal þeirra sem fylgdist með var Donald Trump sem ráðlagði Frökkum að nota flugvélar til að slökkva eldinn, líkt og þegar skógareldar geysa.

Greinilegt er að ráðleggingar forsetans hafi náð eyrum björgunarmanna í París því ekki löngu síðar birtist færsla á Twitter þar sem sagði að hundruð slökkviliðsmanna geri allt sem í þeirra valdi stendur til að slökkva eldinn. Það er, allt nema að nota flugvélar enda myndi það skapa stórhættu eins og lýst er í færslunni.

Forseti Íslands: „Slæmar fréttir frá París”

|
|

Forseti Íslands, Guðni TH. Jóhannesson tjáir sig um bruna Notre Dame.

„Fortíð og framtíð, fólk nær og fjær. Slæmar fréttir bárust í gær frá París, að Notre Dame kirkjan, Kirkja Vorrar frúar, stæði í ljósum logum. Hún verður endurreist, lofa Frakkar, og því ber að fagna. Við verðum að eiga þræði sem tengja okkur við líf og sögu fyrri kynslóða, kunna að meta það sem getur staðist tímans tönn, þrátt fyrir allt, styrjaldir og aðra óáran,” segir í færslu forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar á Facebook.

„Fortíð og framtíð, fólk nær og fjær. Slæmar fréttir bárust í gær frá París, að Notre Dame kirkjan, Kirkja Vorrar frúar, stæði í ljósum logum.”

Notre Dame er eitt helsta kennileiti Parísarborgar, en hún var reist á árunum 1163 til 1345  og milljónir manna heimsækja kirkjuna árlega. Í gær braust út eldur í kirkunni og átti slökkvilið borgarinnar í fullu fang með að ráða niðurlögum eldsins, en verkinu lauk ekki að fullu fyrr en í morgun. Tókst slökkviliðinu að bjarga stórum hluta 850 ára gömlu kirkjunnar og tveimur turnum hennar og ýmsum merkum munum úr kirkjunni. Þak Notre Dame hrundi aftur á móti og ekki liggur enn fyrir hvað skemmdirnar eru miklar. Þá eru upptök eldsins óljós á þessari stundu en talið er að þau megi rekja til endurbóta á kirkjunni.

Forseti Frakklands hefur heitið því að kirkjan verði endurreist. Hefur söfnunarátak vegna þess verið hrundið af stað og hafa miklir fjármunir þegar safnast en þeir hafa borist víðs vegar að úr heiminum.

Fólk víða um veröld hefur lýst yfir sorg sinni vegna bruna Notre Dame. Í morgun sagði m.a. Frans Páfi að hugur sinn væri hjá Frökkum vegna eldsvoðans. Fjöldi Íslendinga hefur tjáð sig um málið, þar á meðal Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í París, sem sagði í gær á twitter að sorglegt væri að sjá Notre Dame brenna. Forseti íslands segir ennfremur að það sé lán að enginn mannsföll hafi orðið af völdum brunans. „Og huggun var harmi gegn að enginn lét lífið í eldsvoðanum. Það lán hjálpar okkur vonandi að greina hismi frá kjarna í ys og þys líðandi stundar,” segir Guðni Th. í færslunni á Facebook.

Sjá einnig: Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!”

Mynd / Forseti.is

Mannéttindadómstól Evrópu dæmir ríkið fyrir brot á mannréttindum Bjarna Ármannssonar

Íslenska ríkið braut gegn mannréttindum Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, með því að refsa Bjarna í tvígang fyrir sama brot. Í dómnum kemur fram að brotið hafi verið gegn fjórðu grein mannréttindasáttmálans sem leggur bann við refsingu í tvígang fyrir sama brot.

Bjarna eru dæmdar fimm þúsund evrur í miskabætur og 29.800 evrur í málskostnað. Þá skal ríkið greiða vaxtakostnað og skatta vegna greiðslnanna.

Árið 2013 var Bjarni dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot. Bjarni viðurkenndi fyrir dóm að hafa vantalið tekjur sínar en sagði það hafa verið mistök. Hæstiréttur þyngdi síðar dóminn í átta mánuði. Bjarni taldi að málinu hefði átt að ljúka með úrskurð ríkisskattstjóra enda hefði hann greitt að fullu opinber gjöld í samræmi við úrskurð ríkisskattstjóra auk álagsgreiðsla.

Það er á þessum forsendum sem málinu var vísað til Mannéttindadómstól Evrópu og dómur féll.

Mynd / Sigurjón Ragnar

Sendiherra Íslands í París: „Sorglegt að sjá Notre Dame brenna”

Frakklandsforseti hefur heitið að kirkjan verði endurreist í allri sinni dýrð. Auðkýfingar leggja milljónir evra í verkið.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands hefur heitið því að Notre Dame kirkjan í París verði endurreist. Hefur Macron kallað eftir aðstoð hæfleikaríkasta fólks við endurreisn kirkjunnar. Söfnunarátak á að hefjast í dag og hafa tveir franskir auðkýfingar þegar gefið yfirlýsingu um að þeir ætli að leggja til fé endureisnar kirkjunni. Það eru þeir Bernard Arnault, sem ætlar að setja 200 milljónir evrur í verkið og Francois-Henri Pinault, famkvæmdastjóri félagsins Kering sem rekur m.a. Gucci og Yves Saint Laurent, sem ætlar að setja 100 milljónir í það. Þá hafa miklir fjármunir þegar safnast en þeir hafa borist víðs vegar að úr heiminum.

„Þetta er hryllingur”
Í gærkvöld þegar bruninn kom upp í Notre Dame ræddi Mannlíf við Íslendinga sem eru búsettir í París en þeir voru harmi slegnir vegna eldsvoðans. Kristín Jónsdóttir, sem hefur verið búsett í París í þrjátíu ár og er þar með skipulagðar ferðir um borgina m.a. fyrir Íslendinga, var í áfalli. „Þetta er hryllingur,” sagði Kristín um brunann en Notre Dame hefur verið einn af vinsælli viðkomustöðunum í ferðunum sem hún hefur boðið upp á.

Vera Pálsdóttir ljósmyndari sem er sömuleiðis búsett í París sagði í samtal við Mannlíf að fólk væri harmi slegið. „Kirkjan í Saint German brann fyrir ekki löngu. Nú brennur saga Frakklands. Fólk grætur.”

Heimsbyggðin harmi slegin
Síðustu eldarnir í Notre Dame kirkjunni voru slökktir í  morgun, en slökkvilið Parísar hafði staðið í ströngu við að slökkva þá. Tókst slökkviliðinu að bjarga stórum hluta 850 ára gömlu kirkjunnar og tveimur turnum hennar og ýmsum merkum munum úr kirkjunni. Þak Notre Dame hrundi aftur á móti og ekki liggur enn fyrir hvað skemmdirnar eru miklar. Þá eru upptök eldsins óljós á þessari stundu en talið er að þau megi rekja til endurbóta á kirkjunni.

Fjöldi Íslendinga hefur lýst yfir sorg á samfélagsmiðlum vegna brunans, þar á meðal Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í París, sem sagði í gær á twitter að sorglegt væri að sjá Notre Dame brenna, og sömuleiðis fólk um allan heim. Í morgun sagði m.a. Frans Páfi að hugur sinn væri hjá Frökkum vegna brunans.

Duglega fólkið

Síðast en ekki síst

 

Ég hugsa reglulega til samtals við fyrrum kollega minn. Þetta var um vetur og helmingurinn af fólkinu á skrifstofunni lá heima með inflúensu. Við kaffivélina andvörpuðum við yfir ástandinu, agalegt að vera svona lasinn. „Ég hef unnið hérna í sex ár og bara tekið einn veikindadag,“ sagði hann loks hróðugur. Mér fannst raunverulega mikið til koma og reiddi upp hægri höndina til að hlaða í eitt high five. Hvílík hundaheppni að verða svona sjaldan lasinn! „Jú sko,“ bætti hann við. „Ég mæti sko í mína vinnu þó að ég sé með hita og ógeðslega slappur. Ligg ekki í rúminu eins og einhver aumingi.“

Það runnu á mig tvær grímur. Skyndilega greip mig þörf til þess að færa höndina, sem ég hafði hafið á loft litlu fyrr, eilítið í suðausturátt og reka þessum samstarfsmanni mínum löðrung fyrir kjánaganginn.

Einhver benti á að ef hér kæmi upp bráðsmitandi og lífshættuleg farsótt myndi fjöldi fólks falla í valinn. Og það þrátt fyrir að nú væri boðið upp á talsvert betri heilbrigðisþjónustu heldur en til dæmis þegar spænska veikin herjaði á þjóðina fyrir rúmri öld. Það er nefnilega ekki móðins að liggja hálfeinangraður og veikur heima hjá sér.

Enginn dugnaður í því að taka það rólega, slökkva jafnvel á símanum, sofa, drekka nóg og leyfa líkamanum að jafna sig. Þá þykir betra að hólkast aftur hálflasinn til vinnu á hálfum afköstum, ef það, og reyna af veikum mætti að gera eitthvert gagn. Annars gæti vinnuveitandinn farið að ókyrrast, pirringur farið að sækja á samstarfsfólk.

Þetta er ekki eðlilegt fyrirkomulag. Ef maður er veikur, þá er maður veikur. Það verða alltaf til einhverjir gemlingar sem taka sér veikindadag án þess að vera veikir. Svoleiðis er það bara.

En það má ekki fæla fólk sem raunverulega verður lasið, frá því að nýta veikindarétt sinn. Þar fyrir utan er það einfaldlega ákveðið ábyrgðarleysi að mæta veikur til vinnu og deila jafnvel pestinni með samstarfsfólki og/eða viðskiptavinum. Ef maður er veikur, þá er maður veikur. Punktur.

„Notre-Drame“ – Logandi dómkirkjan prýðir forsíður franskra blaða

||||
||||

Dómkirkjan Notre-Dame, eitt af kennileitum Parísarborgar, varð fyrir talsverðum skemmdum eftir brunann sem heltók bygginguna í gærkvöldi.

Prýðir dómkirkjan nú forsíður helstu morgunblaða og vekja mörg þeirra sterk viðbrögð með tilfinningaþrungnum titlum á borð við „Le désastre“ og „La désolation“ sem þýða má sem hamfarir og harmur. Le Parisien birti mynd af logandi turninum með fyrirsögninni „Notre-Dame des Larmes“ eða „Frúarkirkjan í tárum“.

Le Parisien.

Fréttablaðið Libération leikur sér að franska orðinu „Drame“ sem einfaldlega þýðir drama eða sorgarleikur og er keimlíkt orðinu „Dame“ eða dama sem er hluti af nafni dómkirkjunnar. Fyrirsögnin hljóðaði svo; „Notre Drame“ sem má bæði lesa sem „Frúin okkar“ eða „Sorgin okkar“.

Libération.

Fyrirsögn Rómversk-kaþólska fréttablaðsins La Croix lýsir sorgarástandi borgarinnar ágætlega en lýsa þeir ástandinu sem „Le coeur en cendres“ sem þýðir „Hjartað í ösku“.

La Croix.

Eitt elsta fréttablað landsins Le Figaro valdi fyrirsögnina „Notre-Dame de Paris – Le désastre“ eða „Frúarkirkja Parísar – Hamfarirnar“. Fréttakona hjá blaðinu, Camille Lecuit, deildi forsíðunni á Twitter með tilvitnun úr skáldsögunni „Hringjarinn í Notre-Dame“.

Le Figaro.

Uppbygging á Notre-Dame hófst árið 1160 og stóð yfir um 100 ár. Á tíma frönsku byltingarinnar varð dómkirkjan fyrir talsverðum skemmdum en endurbætur fóru ekki fram fyrr en á árunum 1844-1864. Skáldsaga Victors Hugo „Hringjarinn í Notre-Dame” var gefin út árið 1831 og tókst að endurvekja áhuga borgarbúa á dómkirkjunni sögufrægu. Varð skáldsagan þannig kveikurinn að framkvæmdunum.

Notre-Dame, sem var reist í gotneskum stíl, tekur á móti um 13 milljónum ferðamanna ár hvert.

Sjá einnig: Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!”

Hatarar séu þátttakendur í „áróðursmaskínunni“ þvert á eigin hugmyndir um sérstöðu

||||
||||

„Hatari, sem telja sig hafa einhvers konar sérstöðu vegna óljósra yfirlýsinga um mótmæli, taka þannig með beinum þætti í áróðursmaskínunni,“ segir í yfirlýsingu frá Sniðgöngum Eurovision í Ísrael sem birt var á Facebook í gærkvöldi. Í gær birtust myndskeið í fjölmiðlum frá upptökum á póstkorti fyrir beina útsendingu keppninnar.

„Hefð er fyrir því að spila stutt myndskeið á undan atriðum í Eurovision, sem eru gjarnan notuð til að kynna landið sem heldur keppnina fyrir áhorfendum. Ísrael hefur lagt mikla vinnu í póstkortin í ár, en formaður Kan sjónvarpsstöðvarinnar hefur kallað þau fullkomið tækifæri til að sýna 200 milljón áhorfendum „fagurt andlit Ísrael“,“ segir í tilkynningunni. Sniðgöngum Eurovision í Ísrael segir landið nota póstkortin sem tækifæri til að sýna hernumin og innlimuð svæði Ísraels. „Þema póstkortanna í ár er „dansandi Ísrael“, en þau eru tekin upp á völdum stöðum sem Ísrael vill sýna áhorfendum, meðal annars í Golan-hæðum. Við sjáum þannig með skýrum hætti hvernig Eurovision skapar tækifæri til að sýna ólöglega innlimuð og/eða hernumin svæði á borð við Golan-hæðir og palestínsku Austur-Jerúsalem sem hluta af Ísrael. Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um hvernig keppnin er notuð í áróðursskyni og í pólitískum tilgangi af Ísrael.“

Vilja nýta dagskrárvaldið til að gagnrýna stefnu Ísrael

Meðlimir Hatara sögðu í viðtali við Stundina síðastliðinn febrúar að fráleitt væri að Ísland taki þátt í keppni sem haldin er í ríki sem traðki á mannréttindum fólks. „Gagnrýnin á okkur er skiljanleg og til marks um að fjölmörgum Íslendingum svíður meðferðin á Palestínumönnum. Okkur finnst sjálfsagt að svara henni af virðingu og án þess að snúa svarinu upp í grín, sem við gerum vanalega í framkomu okkar við fjölmiðla. Það er ekkert öfgakennt við að tala fyrir sniðgöngu á keppninni. Við erum sammála þeim sjónarmiðum sem þar liggja að baki. Páll Óskar gerði til að mynda vel með því að sniðganga keppnina opinberlega. Þar með nýtti hann áhrif sín sem opinber persóna og nafntogaður Eurovision-spekúlant til að halda á lofti gagnrýnu samtali um Ísrael og sniðgöngu,“ hefur Stundin eftir Höturum.

Ísland og Ísrael voru miklar vinaþjóðir

Árið 1947 var Ísland eitt þeirra landa sem ljáðu skiptingu bresku Palestínu stuðning sinn. Svæðinu yrði skipt í ríki gyðinga annars vegar og ríki araba hins vegar. Tillagan var borin upp og samþykkt 29. október 1947. Ísland og Ísrael áttu náin og vinsamleg samskipti næstu árin og lengi vel voru Íslendingar meðal helstu stuðningsmanna Ísraelsríkis. Í sáttanefnd um Palestínu var Thor Thors, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, en hann var framsögumaður niðurstöðu nefndarinnar.

Af fréttaflutningi íslenskra fjölmiðla á fimmta áratug síðustu aldar má greina að Íslendingar hafi verið nokkuð stoltir af þætti sínum, og Thor Thors, í stofnun Ísraelsríkis. „Enginn vafi er á því, að nefnd sú, sem sendiherrann hefur nú verið kosinn í, er hin mikilvægasta,“ segir Morgunblaðið um málið. Óvíst er hvort sú túlkun blaðsins eigi sérstaklega við rök að styðjast enda var fjöldinn allur af nefndum stofnaðar um skiptingu bresku Palestínu milli gyðinga og araba. Íslendingar tóku veru sína í Sameinuðu þjóðunum afar alvarlega á fimmta áratugnum enda þátttaka okkar í ráðinu talin hluti af viðurkenningu annara þjóða á Íslandi sem sjálfstæðu ríki.

Vísir 12. nóvember 1964, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræðir við blaðamenn um för sína til Ísrael.

Skilyrðislaus vinátta

Sú var tíðin að vinsemd Íslands og Ísrael var slík að tekið var eftir. Íslensk stjórnvöld sýndu Ísrael strax mestu vinsemd og raunar mun meiri vinsemd en stjórnvöld annara Norðurlanda. Árið 1949 greiddu Íslendingar atkvæði með aðild Ísrael að Sameinuðu þjóðunum en Danir og Svíar sátu hjá. Þá höfðu sendiherrar þjóðanna tveggja skipst á trúnaðarbréfum þegar árið 1951. Vakin er athygli á samstarfi Íslands og Ísrael í lokaritgerð Jakobs Snævars Ólafssonar lokaritgerð til BA-gráðu frá árinu 2013 er fjallað um samskipti Íslands og Ísrael frá stofnun landsins. Jakob segir að Guðmundur Í. Guðmundsson utanríkisráðherra hafi eftir heimsókn sína til Ísraels árið 1960 vakið athygli Norðurlandaþjóða á hugmyndum Ísrael um að Norðurlönd myndu beita sér í auknu mæli í Afríku til að vega upp á móti áhrifum stórveldanna. Hugmyndin hlaut ekki hljómgrunn.

Landhelgisdeilur

Ísraelar ljáðu Íslandi stuðning sinni í Landhelgismálinu, það er að segja, þegar Íslendingar vildu færa eigin landhelgi í 12 mílur. Árið 1958 blésu Sameinuðu þjóðirnar til hafréttarráðstefnu í Genf, Sviss. Engar stórvægilega breytingar voru samþykktar á ráðstefnunni en Ísland ákvað í kjölfarið að færa eigin landhelgi út í 12 mílur. Viðbrögð Breta létu ekki á sér standa. Þeir mótmæltu ákaft og sendu herskip til þess að verja togara sína gegn íslensku varðskipunum. Hófst nú þorskastríð milli Íslands og Bretlands. Ísrael greiddi atkvæði með málstað Íslendinga á hafréttarráðstefnu nokkru síðar. Deila Íslendinga og Breta stóð til ársins 1961. Ísrael var heilt á litið mótfallið öllu takmörkuðu aðgengi að fiskimiðum. Þau töldu hins vegar að gera yrði undantekningu fyrir þjóðir sem lifðu nánast eingöngu á fiskveiðum.

Aðdáun á báða bóga

Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, ávarpaði árið 1966 ísraelska þingið, Knesset. Ásgeir var þá fyrsti erlendi þjóðhöfðinginn til að hlotnast sá heiður. Heimsókn Ásgeirs stóð yfir í níu daga og var öll hin vinalegust. Ásgeir fór einnig fyrir vígsluathöfn nýrrar götu í Jerúsalem að viðstöddu fjölmenni. Ferðalag Ásgeirs var ekki fyrsta heimsókn Íslenskra ráðamanna til Ísrael en áður hafði Gísli Þ. Gíslason menntamálaráðherra heimsótt Ísrael í opinberum erindagjörðum árið 1965. Ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Guðmundur Í Guðmundsson höfðu sömuleiðis farið í heimsókn til landsins. Birgir Finnsson, þá forseti sameinaðs Alþingis, ávarpaði ísraelska þingið árið 1966, líkt og Ásgeir hafði gert. Samskipti ríkjanna voru ekki aðeins góð heldur ríkti gagnkvæm virðing og áhugi ríkjanna á milli. Íslendingar voru stoltir af þætti sínum í stofnun Ísrael og dáðust af elju Ísraela við uppbyggingu hins nýja ríkis. Þá virðast íslenskir ráðamenn almennt hafa verið stuðningsmenn zionisma og gerðu ekki athugasemdir við hugmyndafræðina. Ásgeir heiðraði á sínum tíma Theodor Herzl, upphafsmann stefnunnar, þegar hann lagði blóm að leiði hans. Bjarni Benediktsson gerði hið sama árið 1964.

Umfjöllun í Vikunni um Ísrael árið 1973.

Skilyrtur vinskapur

Almennt naut Ísraelsríki velvildar vesturríkjanna en eftir sex daga stríðið, árið 1967, fjölgaði ályktunum þar sem gjörðir Ísrael voru fordæmdar. Í áðurnefndri ritgerð Jakobs Snævar Ólafssonar segir að það hafi ekki verið fyrr en árið 1973 sem Ísland greiddi atkvæði með ályktun gagnrýnni á aðgerðir Ísrael. Íslendingar áttu það til að sitja hjá við kosningar vegna ályktana sem vörðuðu stöðu Jerúsalem eða ályktanir þar sem því var haldið fram að Ísrael bryti mannréttindi Palestínumanna. Í ályktunum þar sem ýtt var á Ísrael að draga til baka af herteknu svæðunum var sama uppi á teningnum; Ísland hélt sig til hlés.

Ísland gegn Ísrael

Árið 1971 greiddu íslensk stjórnvöld atkvæði með ályktun þar sem aðgerðir Ísrael gagnvart Palestínumönnum voru gagnrýndar. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar stefndi að sjálfstæðari utanríkisstefnu frá stórveldunum en þar til hafði verið raunin. Ætlunin var meðal annars að styðja betur við bakið á þjóðum þriðja heimsins. Undir lok ársins kom upp ágreiningur innan fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Innan hópsins þótti nokkrum Hannes Kjartansson, fastafulltrúi Íslands ganga gegn stefnu ríkisstjórnarinnar með stuðningi sínum við Ísrael. Hann mun hafa mótmælt því og sagt að alltaf hefði ríkt samhugur um að styðja við bakið á Ísrael. Hagsmunir Íslands á alþjóðavettvangi blönduðust svo inn í málin. Árið 1973 greiddu íslensk yfirvöld atkvæði með ályktun sem gagnrýndi notkun Ísraela á náttúruauðlindum svæða sem þeir höfðu hertekið í sex daga stríðinu árið 1967. Stríðið var á milli Ísraels annars vegar og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands hins vegar. Stríðið var háð milli 5.–10. júní. Írak, Sádi-Arabía, Súdan, Túnis, Marokkó og Alsír lögðu einnig til hersveitir til stuðnings aröbum. Atkvæði Íslands með ályktuninni var afar óvenjulegt. Það var þó ekki svo að virðing við mannréttindi Palestínubúa ræki Íslendinga áfram í málinu. Sjálfir stóðu Íslendingar í baráttu yfir eigin náttúruauðlindum og höfðu af þeim sökum áður fengið samþykkta ályktun um yfirráð þróunarríkja á eigin náttúruauðlindum. Sú ályktun var í meginatriðum sú sama og ályktun um auðlindir hertekinna svæða. Fulltrúar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum töldu sig þar af leiðandi ekki geta annað en samþykkt ályktunina. Hætt er við að hefðu Íslendingar ekki stutt ályktunina um auðlindir herteknu svæðanna að erfiðlega hefði gengið fyrir stjórnvöld að treysta á stuðning þróunarríkja í landhelgisdeilu Íslendinga. Áður höfðu Ísraelsmenn stutt Ísland í landhelgisdeilu landsins en nú var svo komið að Ísrael sat hjá í málinu. Stuðningur Ísrael við landhelgiskröfur Íslands var því liðin tíð. Árið 1974 sat Íslands aftur á móti hjá þegar samskonar ályktun um auðlindir herteknu svæðanna var afgreidd á þingi Sameinuðu þjóðanna. Ný ríkisstjórn hafði í millitíðinni tekið við en sú stjórn hafði minni áhyggjur af sjálfstæði utanríkisþjónustu gagnvart Bandaríkjunum.

Ísland viðurkennir Palestínu

Diplómatísk samskipti Íslands og Ísrael eru í dag fremur köld. Árið 2012 tók Shimon Peres, þá forseti Ísrael, það sérstaklega fram að samskipti Íslands og Ísrael væru í kaldara lagi er hann tók við trúnaðarbréfi sendiherra Íslands gagnvart Ísrael. Hann bætti við að færi væri til að bæta úr því. Viðurkenning Alþingis á sjálfstæði Palestínu ári áður hafði ekki orðið til þess að sætta Ísraelsmenn sérstaklega. Þá virðist Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa verið einstaklega lítið í mun að ganga í augun á Ísrael. Árið 2011 fór Össur í heimsókn til Miðausturlanda en forðaðist samskipti við Ísrael í þeirri ferð. Það vakti viðbrögð í Ísrael en Manfred Gerstenfeld formaður Miðstöðvar um almannatengsl í Jerúsalem skrifaði afar harðorða grein um hroka Össurar gagnvart Ísraelsmönnum. Össur gaf lítið fyrir þá gagnrýni. Frægust er þó ræða Össurar á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, frá september árið 2012, þar sem utanríkisráðherra fór hörðum orðum um Ísrael. Í ræðunni ávarpaði hann Netanyahu og kallaði eftir því að hann rífi niður aðskilnaðarvegg Ísraela á Vesturbakkanum.

Þess má geta að meðal þeirra sem greiddu tillögu Alþingis, um viðurkenningu sjálfstæðis Palestínu, atkvæði sitt var Amal Tamimi, varaþingkona Samfylkingarinnar. Amal er fædd og uppalin í Jerúsalem. Í ævisögu sinni segir Amal frá því að þegar hún þrettán ára var handtekin og ákærð fyrir að kasta steinum í ísraelska hermenn. Að eigin sögn sat Amal í fangelsi í tvær vikur á meðan hún beið réttarhalda og hlaut sex mánaða dóm.

Vinsæll og veit af því

Erfitt getur verið að ímynda sér stuðning við Palestínu og óhug vegna aðgerða Ísrael sem jaðarskoðun. Almennt eru Íslendingar í dag stuðningsmenn Palestínu enda höfum við gengið lengra en önnur vestræn ríki í að viðurkenna stöðu Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Sú var þó staðan á Íslandi framan að. Stuðningur og raunar samúð við Palestínu var jaðarskoðun langt til vinstri á meðan Ísrael vakti áhuga og aðdáun Íslendinga. Gríðarleg uppbygging var í Ísrael á áratugunum eftir stofnun. Þeir sem hölluðu til hægri litu gjarnan svo á að Ísrael væri ríki vestrænnar menningar í heimi araba og mikilvægt sem slíkt. Vinstrimenn voru gjarnan hrifnir af sósíalískum áherslum Ísraela. Vinstrimiðlar hér á landi voru afar hrifnir af áherslu Ísrael á samvinnufélög og samyrkjubúskap. Íslendingar tengdu sömuleiðis baráttu ísraelskra gyðinga fyrir eigin ríki við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.

Þótt breytingin hafi orðið á löngum tíma og sé afleiðing margra þátta er vert að nefna sérstaklega þátt Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins en sem ráðherra var hann afar gagnrýninn á Ísrael í samanburði við forvera sína og tók gjarnan undir málstað Palestínumanna. Leiða má að því líkur að vilji æðsta embættismanns Íslands til að taka upp hanskann fyrir málstað Palestínumenn eigi talsverðan þátt í að færa þá umræðu frá jaðri rökræðunnar út til miðju umræðunnar. Sömuleiðis tók Steingrímur ítrekað upp hanskann fyrir Palestínumenn á meðan hann var utanríkisráðherra og það þrátt fyrir að samstarfsflokkurinn væri oft afar ósáttur við afstöðu Steingríms.

Uppreisn Palestínumanna

Í ævisögu Steingríms segir að viðbrögð Ísraela við uppreisn Palestínumanna á herteknu svæðunum sem braust út árið 1987 hafi orðið til þess að hann ákvað að gagnrýna Ísrael með jafn afgerandi hætti og raun varð. Steingrímur hafði fram að því ekki sýnt stöðu Palestínumanna sérstakan áhuga og hafði raunar sagt að hann skyldi sjónarmið Ísrael. Eftir að Ísraelar brutu að baki uppreisnina af mikill hörku breyttist tónninn. „Mér sýnist ekki unnt að líkja því við neitt annað en hin verstu hryðjuverk,“ sagði Steingrímur, þá utanríkisráðherra, um aðgerðir Ísraelshers í umræðum um málið á þingi. Þá sagði hann að enginn gæti stutt morð á ófrískum konum og gamalmennum. Skömmu síðar lýsti hann því yfir að Frelsissamtök Palestínumanna PLO væru raunar lögmæt fulltrúasamtök Palestínumanna. Steingrímur steig þannig nauðsynlegt skref í átt að því að færa samskipti Íslands og fulltrúa Palestínu á jafnréttisgrundvöll sem sjálfstæð og fullvalda ríki. PLO voru, á þessum tíma, að mati Ísraela hryðjuverkasamtök og því er ljóst að ummæli hans og afstaða til PLO settu samskipti ríkjanna í viðkvæma stöðu. Þorsteinn Pálsson sem þá var forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins tók ekki í mál að hitta eða ræða við PLO. Í ævisögu sinni segir Steingrímur að honum hafi þótt þetta barnaleg afstaða en að hann hafi tímabundið hætt við að hitta Yasser Arafat, formann frelsissamtaka Palestínu, sökum harkalegra viðbragða Sjálfstæðismanna.

Hatari stíga á svið í Tel Aviv þann 14. maí næstkomandi með lag sitt Hatrið mun sigra.

Mynd / Magnús Andersen fyrir Grapevine

Rokkaraleg með nútímanlegu ívafi

Ester Ýr Borg Jónsdóttir segir fullkomna svarta kápu vera efst á hennar óskalista en hún er sannfærð um að sú rétta bíði sín einhvers staðar þarna úti. Við fengum að skyggnast inn í fataskáp Esterar Ýrar þar sem kenndi ýmissa grasa.

„Hringarnir mínir hafa tilfinningalegasta gildið sem og flestallt skartið mitt.“

Ester lýsir sjálfri sér sem dundara sem elskar að verja tíma með sjálfri sér og gera eitthvað skapandi. „Mér finnst gaman að teikna og leika mér að taka myndir. Ég elska líka tónlist og finnst fátt skemmtilegra en að fara á góða tónleika. Ég er dýravinur og líður sjaldnast betur en þegar það eru dýr í kringum mig. Þessa dagana er ég mikið í andlegum pælingum, lærði nýverið reiki og stunda hugleiðslu. Næst á dagskrá verður að læra jóga.“

Aðspurð hvaðan Ester Ýr sæki innblástur nefnir hún fyrst Instagram. „Ég er með non binary-fatastíl svo ég skoða bæði flottar stelpur og stráka á Instagram og sæki innblástur frá þeim. Stíllinn minn er blanda af 70’s-90’s, svolítið rokkaralegt en með nútímalegu ívafi en ég er mjög hrifin af verslununum Zara og Mango. Mér finnst gaman að rölta milli second hand-verslana og finna einhverjar gersemar þar.

„Það er mjög erfitt að velja einn eftirlætishlut en ætli ég verði ekki að segja vestin mín og hattasafnið mitt.“

Ég elska að kaupa mér föt og vil helst fara í þau strax, einkum og sér í lagi elska ég frakka og kápur, helst einhverjar sem eru öðruvísi. Ég var að rölta um Köben nýverið og rakst á eina skemmtilega second hand-verslun þar sem ég fann sjúklega flotta 70’s-rúskinnskápu sem ég varð alveg ástfangin af en ég elska jafnframt allt sem er köflótt eða röndótt. Furðulegustu kaupin í fataskápnum mínum eru hins vegar svolítið skemmtilegur fjólublár og svartur jakki sem ég fann í Gyllta kettinum um daginn en hann er hannaður í kjólfatalegu sniði.“

„Ég fann svo sjúklega flotta hvíta silkiskyrtu í Zara þegar ég var í Köben sem er með pífum að framan og síðan fann ég alveg eins svarta í Zara í Noregi þannig ég keypti hana líka.“

Þegar talið berst að skylduflík í alla fataskápa vefst svarið ekki fyrir Ester Ýri. „Klárlega rúllukragabolur, þeir eru algjört „must“. Mér finnst hins vegar langleiðinlegast að máta buxur, ég get nefnilega vippað mér í flestar flíkur án þess að fara í mátunarklefann en þegar maður mátar buxur neyðist maður til að fara inn í klefa og þarf þar að auki að klæða sig úr skónum.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Íslendingar í París í áfalli vegna Notre Dame: „Þetta er hryllingur!“

||||
||||

Notre Dame kirkjan í París stendur í ljósum logum. Íslendingur, sem eru búsettir í borginni, eru í áfalli.

„Þetta er hryllingur. Ég veit ekki hvort það er fólk í turnunum, ég var bara að sjá þetta núna,“ segir Kristín Jónsdóttir en eitt helsta kennileiti Parísarborgar, hin gotneska kirkja Notre Dame sem var reist á árunum 1163 til 1345 stendur nú í ljósum logum. Eldtungur stíga upp úr byggingunni og berst mikill reykur frá henni. Slökkvilið í París berst nú af öllu afli við eldinn, en ekki er ljóst um upptök hann þótt helst sé talið að þau tengist framkvæmdum á svæðinu.

„Saga Frakklands brennur. Fólk grætur.“

Kristín hefur verið búsett í París í þrjátíu ár og er þar með skipulagðar ferðir um borgina m.a. fyrir Íslendinga. Hefur Notre Dame verið einn af vinsælli viðkomustöðunum í þessum ferðum. „Latínuhverfistúrinn, sá fyrsti sem ég bjó til, hefst þarna við kirkjuna. Íslenskir kórar hafa sungið þarna. Og ég átti einmitt stefnumót þarna fyrir framan kirkjuna á fimmtudag,“ segir Kristín, sem var mikið niðri fyrir þegar Mannlíf setti sig í samband við hana.

Vera Pálsdóttir ljósmyndari sem er sömuleiðis búsett í París segir að fólk sé harmi slegið. „Kirkjan í Saint German brann fyrir ekki löngu. Nú brennur saga Frakklands. Fólk grætur.“

Notre Dame  er ein frægasta kirkja heims og milljónir manna heimsækja hana árlega. Myndum og myndböndum sem sýna hana logandi hefur verið deilt á samfélagsmiðlum. Götum í nágrenni kirkjunnar hefur verið lokað vegna slökkvistarfsins. Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur frestað ávarpi þar sem hann ætlaði að tilkynna um breytingar á stefnu sinni vegna brunans.

 

Skipulögð glæpastarfsemi sem teygir anga sína um allan heim

|||
|||adsf

Heimildamyndin Stolin list eða Nefertiti The Lonely Queen fjallar um stöðuna á menningarlegum verðmætum sem hafa verið stolin frá upprunaþjóðum og komið fyrir á söfnum fyrrum nýlenduvelda. Myndin hlaut góðar viðtökur þegar hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíð í Grikklandi á dögunum.

„Við erum þarna að fjalla um stöðuna á þjóðagersemum sem hafa verið teknar með vafasömum hætti og eru nú til sýnis á stórum stöfnum eins og British Museum og Louvres. Verðmæti sem gamlar nýlenduþjóðirnar neita að skila upprunaþjóðunum,“ útskýrir Örn Marinó Arnarsson hjá Markell Productions sem stendur að baki gerð myndarinnar, í samvinnu við RÚV og grísku sjónvarpsstöðvarnar OTE og ERT.

„Á eftir alþjóðlegri eiturlyfja- og vopnasölu er þetta hrikalega stórt dæmi. Svarti markaðurinn er alveg gígantískur.

Að hans sögn er þetta umfangsmikið umfjöllunarefni enda sé skipulögð glæpastarfsemi í kringum stolna list mikil, í raun mun meiri en hann hafi gert sér grein fyrir í upphafi. „Á eftir alþjóðlegri eiturlyfja- og vopnasölu er þetta hrikalega stórt dæmi. Svarti markaðurinn er alveg gígantískur. Í kjölfar arabíska vorsins hefur til að mynda verið stanslaus straumur af munum frá löndum eins og Egyptalandi og Sýrlandi, bæði „orginal“ stolnum hlutum og fölsuðum sem hafa mikið til verið seldir til Bandaríkjanna, Evrópu og Kína, oft í skiptum fyrir vopn og eiturlyf. Falsanirnar eru svo góðar að fólk veit hreinlega ekki hvort það er að kaupa ósvikna muni eða ekki,“ lýsir hann og bætir við að þessi glæpastarfsemi hafi auðvitað valdið gríðarlegu tjóni, ekki aðeins fyrir þjóðir sem hafa verið rændar eins og í Egyptalandi, Írak, Líbíu og Sýrlandi, heldur einnig fyrir fornleifafræðinga sem vilja rannsaka munina. „Vandamálið er bara að þessi heimur er svo dulinn að það virðist vera erfitt, í raun bara ógerningur að uppræta starfsemina.“

Mafían að verki
Í ljósi þess um hversu umsvifamikla starfsemi sé að ræða segir Örn tökur hafa farið fram víða um heim; í Grikklandi, á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Þýskalandi, Egyptalandi, Sýrlandi og víðar þar sem hann og Þorkell Harðarson, samstarfsmaður hans, söfnuðu heimildum. Eftir það hafi tekið við tveggja ára vinna sem fór í að fullgera myndina og þrjá þætti sem hafa verið gerðir upp úr efninu fyrir sjónvarp.

Spurður hvort þeir félagar hafi lent í einhverjum hættum á þessum ferðalögum, segir Örn að þeir hafi blessunarlega sloppið við allt slíkt. Hins vegar hafi fljótlega komið í ljós að þeir sem standi á bakvið glæpastarfsemina séu langt frá því að vera einhver lömb að leika sér við, því þar sé mafían meðal annars að verki.

En vitið þið hvort þessi glæpastarfsemi teygi sig til Íslands? Var eitthvað í ykkar rannsóknum sem gaf það til kynna? „Það er erfitt að segja til um það,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega allt svo falið.“

Vakti athygli í Grikklandi

„Grikkjunum … finnst að Bretar eigi að skila þeim Parthenon-höggmyndunum eins og þær leggja sig. Það er þeirra viðhorf en stundum nægir þessum þjóðum bara að fá lykilverkin heim.“

Samkvæmt Erni hafa myndin og þættirnir engu að síður sterka tengingu við Ísland þar sem í þeim er meðal annars fjallað um íslensku handritin. „Já, við komum inn á þau en í dag er helmingur þeirra á Íslandi og helmingur í Danmörku og þjóðirnar tvær hafa verið að stúdera þau saman. Sem sýnir að þessar fyrrverandi nýlenduþjóðir þurfa auðvitað ekkert að sitja á verðmætum annarra þjóða. Það er vel hægt að semja um þessa hluti og eiga í góðu samstarfi,“ segir hann og bætir við að sá þáttur hafi einmitt vakið athygli þegar Stolin list var heimsfrumsýnd á hinni kunnu heimildamyndahátíð í Þessalóníku í Grikklandi í mars.

„Grikkjunum fannst þetta ánægjulegt. Þeir voru reyndar líka hissa þar sem þeim finnst að Íslendingar eigi að fá öll handritin. Rétt eins og þeim finnst að Bretar eigi að skila þeim Parthenon-höggmyndunum eins og þær leggja sig. Það er þeirra viðhorf en stundum nægir þessum þjóðum bara að fá lykilverkin heim.“

Myndin hlaut góðar viðtökur í Grikklandi og segir Örn að sýningarrétturinn að henni hafi þegar verið seldur til þriggja sjónvarpsstöðva. Nú sé verið að skoða framhaldið en greinilegt sé að mikill áhugi sé á myndinni.

Aðalmynd: Örn Marinó Arnarsson hjá Markell Productions 

Það versta að baki

|
|Karl Sigurðsson

Nýliðinn marsmánuður var sá svartasti á vinnumarkaði frá því eftir hrun en þá fengu alls 1.600 manns uppsagnarbréf í hendur.

Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

Þar stendur fimmtudagurinn 28. mars upp úr þar sem yfir vel yfir 1.000 manns misstu vinnuna einn og sama daginn sem er einsdæmi í Íslandssögunni. Þar munar að mestu um gjaldþrot WOW air en einnig voru hópuppsagnir hjá fyrirtækjum eins og Airport Associates, Lyfju, Pipar/TBWA og Kynnisferðum.

„Við höfum á tilfinningunni að þetta hafi verið eitt stórt högg nú í mars og að staðan sé ekki eins alvarleg og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.“

Í lok mars voru um 6.900 manns á atvinnuleysisskrá og telur Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, að sú tala eigi eftir að hækka eitthvað í apríl. Það væri óvenjulegt í venjulegu árferði þar sem atvinnuleysi minnkar alla jafna milli mars og apríl. Hann vonast þó til að það versta sé yfirstaðið.

„Okkur heyrist að það sé tiltölulega gott hljóð varðandi sumarið, bæði í byggingariðnaði og ferðaþjónustu nú þegar önnur flugfélög eru farin að fylla í skarðið sem WOW skildi eftir sig. Við höfum á tilfinningunni að þetta hafi verið eitt stórt högg nú í mars og að staðan sé ekki eins alvarleg og svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Það mun svo skýrast í lok mánaðar hvort það verði einhverjar hópuppsagnir í apríl en við höfum enn sem komið er ekki heyrt af neinu slíku.“

Fjármálaeftirlitið krafðist þess að söfnunarsíðunni yrði lokað

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemd við fjármögnunarsíðuna hluthafi.com.

Í gær var greint frá því að vefsíða um stofnun nýs flugfélags væri farin í loftið á slóðinni hlutahafi.com. Þar var óskað eftir hlutafjárloforði að minnsta kosti tíu til tuttugu þúsund hluthafa í þeim tilgangi að endurreisa flugfélagið WOW air eða stofna nýtt lággjaldaflugfélag. Fjármálaeftirlitið krefst þess að síðunni verði lokað.

Fjármálaeftirlitið hóf í gær athugun á hlutafjárútboðinu sem auglýst var á síðunni. Í grein á vef Fjármálaeftirlitsins segir: „Fjármálaeftirlitið taldi að framangreind áskriftarsöfnun félli undir hugtakið almennt útboð verðbréfa, sbr. 43. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, en með almennu útboði er átt við hvers konar boð til almennings um kaup á verðbréfum. Áður en farið er í almennt útboð verðbréfa þarf að gefa út lýsingu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. laga um verðbréfaviðskipti.“

Þá kemur einnig fram að Fjármálaeftirlitið hafi sent erindi til forsvarsmanna hluthafi.com þar sem gerð var krafa um að heimasíðunni yrði lokað þar sem ekki virtust uppfyllt skilyrði laga um verðbréfaviðskipti, meðal annars varðandi útgáfu lýsingar.

„Í kjölfar þessa hafa forsvarsmenn hluthafi.com breytt fyrirkomulagi áskriftarsöfnunarinnar á þann hátt að nú er miðað við skráningu fyrir hlutaskírteini í einkahlutafélagi sem fellur ekki undir lög um verðbréfaviðskipti,“ segir einnig.

Fjármálaeftirlitið vekur þá athygli á að almennir fjárfestar njóta ekki sömu verndar vegna kaupa í einkahlutafélagi og þegar þeir taka þátt í almennu hlutafjárútboði.

Sjá einnig: Fjármögnunarsíða fyrir nýtt flugfélag farin í loftið

Edda Björgvins um Margréti Müller: „Þessi vonda kerling níddist á öllum börnunum“

|
Edda Björgvinsdóttir

Leikkonan Edda Björgvinsdóttir bætist í hóp þeirra sem stíga fram og minnast ofbeldisins í Landakotsskóla.

„Ég marg reyndi að klaga í fræðsluyfirvöld þegar Róbert var þarna og þessi vonda kerling níddist á öllum börnunum í bekknum hans,“ skrifar hin ástsæla leikkona Edda Björgvinsdóttir á Facebook, en Róbert er yngri sonur hennar og Gísla Rúnars Jónssonar leikara.

Skrif Eddu eru ummæli við Facebook-færslu söngvarans Krumma Björgvinssonar, frænda Eddu þar sem hann lýsir því hvernig Séra Ágústus George, fyrrverandi skólastjóri Landakotsskóla og kennarinn Margrét Müller beittu hann ofbeldi í æsku, en í marga áratugi beittu þau skötuhjú börn við skólann andlegu og líkamlegu ofbeldi sem og kynferðisofbeldi sem uppgötvaðist ekki fyrr en nokkrir þolendanna stigu fram í Fréttatímanum árið 2011 og lýstu þar voðaverkunum. Kaþólska kirkjan setti í kjölfarið á laggirnar rannsóknarnefnd til að rannsaka ódæðiðsverkin og þann 2. nóvember árið 2012 gaf hún út skýrslu um glæpina. Þremur árum síðar, eða árið 2015 samþykkti Alþingi að greiða út sanngirnisbætur til þolenda.

„Ég hef aldrei fyrr kynnst fólki sem mér finnst vera hreinlega illgjarnt eins og þessi tvö sem blóðug slóðin liggur eftir!“

Nú stendur fyrir dyrum að gera nýja heimildaþætti um málið og eru þeir tilefni skrifa Krumma, sem hafa vakið mikla athygli og skrifa Eddu frænku hans. Segir leikkonan í fyrrnefndum ummælum að hún hafi tekið son þeirra Gísla úr Landakotsskól á miðjum vetri og hún vorkenni enn öllum þeim börnum sem Margrét hélt áfram að pína. „Ég hef aldrei fyrr kynnst fólki sem mér finnst vera hreinlega illgjarnt eins og þessi tvö sem blóðug slóðin liggur eftir!“ skrifar Edda og vandar skólastjóranum fyrrverandi þannig ekki kveðjurnar.

Við Krumma segir hún: „Elsku hjartans Krummi frændi hvað þetta hefur verið ömurlegt og hræðileg lífsreynsla.“

„Jeminn hvað er glaður að Róbert var ekki þarna mikið lengur. Takk elsku frænka mín ❤️,“ svarar söngvarinn frænku sinni.

Sjá einnig: Vera Illugadóttir lagði fæð á séra George sem barn

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Orðin eru okkar kastalar

Skoðun
Eftir / Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur

Samskipti við og í gegnum tölvur og snjalltæki eru orðin stór hluti okkar daglega lífs. Hingað til hefur megnið af þessum samskiptum þurft að fara fram á öðrum tungumálum en íslensku. Máltækniáætlun fyrir íslensku er ætlað að sjá til þess að íslenska verði nothæf og notuð í stafrænni tækni, það er í samskiptum manns við tölvur og snjalltæki en ekki síður í samskiptum manns í gegnum tölvur og snjalltæki. Þetta þurfum við að gera einfaldlega vegna þess að það sem er ekki notað, gleymist og týnist. Ef ekki er hægt að nota íslensku á svona fyrirferðarmiklu sviði daglegs lífs er hætta á því að við töpum tungumálinu okkar.

Til þess að þetta verði að veruleika skiptir miklu máli að byggja upp nýsköpunarsamfélag í máltækni á Íslandi. Ef við berum þetta ferli saman við það að byggja hús, þá má segja að grunnurinn að allri nýsköpun í máltækni á íslensku séu málföng; gögn fyrir íslensku á borð við risamálheild og ákveðin grunntól sem gera rannsakendum kleift að vinna með tungumálið. Ofan á þennan grunn má síðan steypa sjálft húsið, hinar svokölluðu kjarnalausnir; talgreini, talgervil, vélþýðingar og málrýni. Þegar húsið hefur verið steypt taka nýsköpunarfyrirtæki og fleiri rannsakendur síðan við og nýta þessar kjarnalausnir, gögn – tól – hugbúnað, og smíða ofan á þær máltæknilausnir fyrir neytendamarkað, sem við síðan notum til dæmis til að geta átt samskipti við heimabankann okkar með tali í stað þess að skrifa á lyklaborð.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, sagði í innsetningarræðu sinni árið 1980 að orðin væru kastalar okkar Íslendinga, að við hefðum aldrei gleymt að setja í orð allan hag okkar og alla hugsun, og að orðin væru hinn eini varanlegi efniviður sem við ættum. Þarna tókst Vigdísi, eins og svo oft fyrr og síðar, að kjarna mikilvægi tungumálsins fyrir okkur Íslendinga. Hún lagði áherslu á að það væri íslensk tunga, öðru fremur, sem gerði okkur að Íslendingum, væri okkar raunverulega sameiningartákn og sameiningarafl.

Það er því sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að við getum áfram tjáð hugmyndir okkar og hugsanir á móðurmálinu, um leið og við opnum dyrnar og sýnum þeim sem vilja tileinka sér tungumálið umburðarlyndi og veitum þeim þá hjálp sem þeir þurfa til að læra það. Það er stundum auðveldara að varðveita það sem hægt er að snerta, það sem er hlutbundið, heldur en það sem er óhlutbundið. Með því að byggja upp samfélag nýsköpunar í máltækni á Íslandi mun okkur vonandi takast að vernda orðin, kastalana okkar, um leið og við byggjum íslenskunni nýtt hús.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni.

Ísland á svartan lista í júní vegna aðgerðarleysis gegn peningaþvætti

Ísland hefur frest fram í júní til að bæta lagaumhverfi og auka varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ellegar enda á svörtum lista.

Þetta kemur fram í umsögn frumvarps um skráningu raunverulegra eigenda sem nú er í fyrstu umræðu. Skylt verður að halda skrá um raunverulega eigendur fyrirtækja verði frumvarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að lögum en frumvarpið er umtalsvert skref í átt að uppfyllingu skilyrðanna.

Hugtakið „raunverulegur eigandi“ fjallar um þá einstaklinga sem í raun eiga starfsemi eða stýrir þeim viðskiptamanni, lögaðila eða einstaklingum sem formlega eiga eða stýra viðskiptunum.

Með lagabreytingunni verður því skylda að greina frá einstaklingum sem til að mynda „ráða yfir meira en 25% atkvæðisréttar eða teljast á annan hátt hafa yfirráð yfir lögaðila; ákvæðið á þó ekki við um lögaðila sem skráðir eru á skipulegum markaði samkvæmt skilgreiningu laga um kauphallir.“ Raunverulegir eigendur eru skilgreindir í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem samþykkt voru af Alþingi í desember á síðasta ári.

Hið nýja frumvarp er áframhald á aðgerðum yfirvalda gegn peningaþvætti en Alþjóðlegur vinnuhópur gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF, gerði árið 2017 úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. „Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með aðild sinni skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf og laga starfsreglur að tilmælum FATF. Tilmæli FATF hafa verið leiðandi á heimsvísu og hafa tilskipanir Evrópusambandsins um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka verið í samræmi við þau. Tilmælin mynda því grundvöll sameiginlegra viðbragða við framangreindum ógnum við sjálfstæði fjármálakerfisins og tryggja jafnvægi innan þess,“ segir í umsögn um frumvarpið.

Ísland fékk aðvörun í fyrra um að stjórnvöld yrðu að taka sig taki og innleiða betri varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka ellegar yrði Ísland sett á alþjóðlegan lista yfir ósamvinnuþýð ríki. „Í úttekt samtakanna á stöðu mála Íslandi, sem var gerð opinber í apríl 2018, fengu varnir Íslands gegn peningaþvætti falleinkunn,“ segir í úttekt Kjarnans vegna málsins. „Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulega hnekki.

Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.“

Með frumvarpi ráðherra er að mörgu leyti komið til móts við athugasemdir hópsins. Ísland hefur frest fram í júní á þessu ári til að bregðast við niðurstöðu úttektarinnar.

Gert er ráð fyrir að skráðar verði upplýsingar um þá einstaklinga sem í raun geta tekið ákvörðun um ráðstöfun fjármuna, stjórnun aðilans eða sem njóta góðs af þeim eignum sem um ræðir.

„Lagt er lagt til að skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, lögregla, héraðssaksóknari og tollstjóri hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur lögaðila. Einnig er lagt til að skattyfirvöld hafi aðgang að öllum upplýsingum og gögnum um raunverulega eigendur vegna skatteftirlits, upplýsingaskipta milli landa og skattrannsókn. Lagt er til að tilkynningarskyldir aðilar í skilningi laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum þegar þeir framkvæma áreiðanleikakönnun og að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um nafn raunverulegs eiganda, fæðingarmánuð og ár, búsetuland, ríkisfang og stærð og tegund eignarhalds.“

Sjá einnig: Eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fær falleinkunn

Rafskotið popp með dansvænu ívafi

Í dag kemur út platan Broken með tónlistarmönnunum Bistro Boy og Bjartmari Þórðarsyni.

Broken er afrakstur samstarfs þeirra félaga sem hófst fyrir um einu og hálfu ári en þeir hafa báðir verið viðloðandi íslenskt tónlistarlíf töluvert lengi en á ólíkum vettvangi. Broken inniheldur 6 lög en tónlistinni má lýsa sem rafskotnu poppi með dansvænu ívafi.

„Broken var hálfgerð óvissuferð þó við höfum haft ákveðnar hugmyndir um hvers konar lög okkur langaði að gera, sum voru nokkuð mótuð í upphafi þessa samstarfs en svo voru önnur sem urðu til á staðnum í upptökuferlinu,” segir Frosti Jónsson (Bistro Boy) aðspurður um tilurð plötunnar og samstarf þeirra félaga.

Bistro Boy hefur verið virkur á íslensku raftónlistarsenunni um nokkurt skeið og meðal annars gefið út þrjár breiðskífur, nú síðast „Píanó í þokunni” í október á síðasta ári. Bjartmar Þórðarson er leikari/leikstjóri, söngvari og lagahöfundur. Nýjasta verk hans er EP-platan Deliria frá 2018, þar sem hann leikur sér með dimman, rafrænan retró-stíl.

Platan er aðgengileg á Spotify, iTunes, BandCamp og víðar.

Krummi upplifði ofbeldi í Landakotsskóla

||
||

Séra Ágústus George, fyrrverandi skólastjóri Landakotsskóla og kennarinn Margrét Müller beittu Krumma Björgvinsson ofbeldi þegar hann var barn.

„Það var líka mikið um refsingar og einelti. Ég slapp við kynferðislegt ofbeldi en ég get því miður ekki sagt það sama um öll hin skólasystkin mín þrátt fyrir að Séra Georg reyndi það einu sinni með því að strjúka á mér lærið mjög nálægt klofi mínu með lostafullu augnaráði. Það má segja að ég brást mjög illa við og snögg reiddist en einhverra hluta vegna brást ég ekki eins við þegar hitt ofbeldið átti sér stað. Maður bara tók því einsog maður ætti það skilið. Eins fráleitt og það er,“ skrifar tónlistarmaðurinn í færslu á Facebook síðu sinni.

„Séra Georg reyndi það einu sinni með því að strjúka á mér lærið mjög nálægt klofi mínu með lostafullu augnaráði.“

Kveðst Krumma gruna að séra George og Margrét hafi verið smeyk við foreldra sína í ljósi þess að faðir hans, tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson var virtur og þjóðþekktur maður. „En það stoppaði ekki Margréti eða Georg að slá mann utan undir eða klípa mann mjög fast í handlegginn við minnsta tilefni. Ég tel að börnin sem minna mega sín urðu oftast fyrir barðinu á þeim.“

Tilefni skrifanna er umfjöllun Fréttablaðsins um nýja heimildaþætti um voðaverkin í Landakotsskóla sem Gunnþórunn Jónsdóttir, Þóra Tómasdóttir, Margréti Örnólfsdóttir og Kristín Andrea Þórðardóttir vinna að, en þau áttu sér stað á árunum 1954 til 1990 þegar skólastjórinn, kaþólski presturinn séra Ágúst George og kennarinn Margrét Muller beittu þar börn kynferðislegu og andlegu ofbeldi. Í kjölfarið hafa ýmsir stigð fram og minnst þessara ára með óhug, þar á meðal rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir sem kenndi einn vetur við skólann og blöskraði framkoma Margrétar í garð barnanna og svo Krummi, en í fyrrnefndri færslu kveðst hann enn glíma við reiði og gremju vegan ofbeldisins sem hann mátti þola sem barn í skólanum. Tónlistin og hans nánustu hafi hins vegar hjálpað honum að vinna úr reynslunni.

Sjáðu einnig: Edda Björgvins um Margréti Müller: „Þessi vonda kerling níddist á öllum börnunum”

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Fiskistofa vissi ekki af auknum kröfum til hvalveiða og getur ekki afturkallað leyfið

Creative Commons/Mnitparanoiac

„Við höfum hins vegar engin þvingunarúrræði hjá okkur til að knýja á um að gögnunum sé skilað og við getum til dæmis ekki afturkallað veiðileyfi þeirra,“ hefur Fréttablaðið eftir Eyþóri Björnssyni fiskistofustjóra í dag, mánudag.

Blaðið gerir heimildarleysi Fiskistofu til þvingunaraðgerða gagnvart fyrirtækinu að umfjöllunarefni. Hvalur hf. hefur ekki skilað inn dagbók um veiðarnar sem gerð er krafa um að skipstjóri hvalveiðiskips haldi vegna veiða á langreyðum. Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Fiskistofa hafi ítrekað óskað eftir afriti af dagbókunum vegna veiða fá árinu 2014, 2015 og 2018.

Auknar kvaðir eru gerðar til heimildar á veiðum á langreyði með breytingum árið 2014. Þó kemur fram í frétt Fréttablaðsins að Fiskistofa hafi ekki áttað sig á þessum breytingum fyrr en eftir að leyfi hafði verið veitt. Í febrúar var Hval veitt nýtt leyfi samkvæmt sama fyrirkomulagi án þess þó að gögnin hafi verið afhent. Heimild til að afturkalla leyfið vegna þessa vanefnda er þó ekki að finna og því getur Fiskistofa ekki þvingað fyrirtækið. Eyþór segir Fiskistofu vera að fara yfir málið og kalla eftir gögnunum.

Reglum um hvalskurð aldrei fylgt

Árið 2009 voru settar reglur um að hvalskurður stórhvela skuli gerast innandyra enda um matvæli að ræða. Í ágúst árið 2018 greindu fjölmiðlar hins vegar frá því að þeim reglum hefði Hvalur hf. aldrei fylgt. Kröfunni var síðar breytt og ekki lengur gerð krafa um yfirbyggðan skurð. Sú breyting átti sér stað aðeins tíu dögum eftir að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. sendi Krist­jáni Þór Júl­í­us­syn­i ­sjáv­ar­út­vegs- og land­bún­að­ar­ráð­herra tölvupóst þar sem hann óskaði eftir að reglur yrðu rýmkaðar. „Tíu dögum síðar skrif­aði ráð­herra undir breyt­ingu á reglu­gerð­inni. Í henni fólst meðal ann­ars að 10. gr í reglu­gerð­inni var breytt á þann veg að ekki var lengur gerð krafa um að skera hval á yfir­byggðum skurð­ar­flet­i,“ segir í umfjöllun Kjarnans af málinu. Samkvæmt tölvupóstunum telur Hvalur sig hafa náð betri árangri með öðrum aðferðum en að byggja yfir skurðinn.

Eftirlausar hvalveiðibyssur

Stundin sagði frá því í október 2018 að engin leyfi hafi þá fundist fyrir fjórum skutulbyssum sem notaðar hafa verið við veiðar á langreyð. Í raun voru byssurnar utan eftirlits. „Leyfi fyrir þeim finnst ekki á pappírsformi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en skip fyrirtækisins komu til landsins á árunum 1964 og 1965. Vopnin hafi því nú verið skráð í rafræna skotvopnaskrá Ríkislögreglustjóra,“ segir í frétt Stundarinnar af málinu. Þá kemur fram að á þeim tíma hafi hvorki Vinnueftirlitið né samgöngustofa haft eftirlit með vopnunum en að Vinnueftirlitið hafi eftirlit með sprengihleðslum sem fara í byssurnar.

Hvalmjöl sem ekki er til manneldis heimilað í bjór

Einn umdeildasti bjór íslands fór í sölu árið 2014 en bjórinn var bruggaður með hvalmjöli frá Hval hf. þrátt fyrr að fyrirtækið hafi ekki haft heimild til slíkrar framleiðslu til manneldis. Þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og núverandi samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, veiti heimild til sölunnar þrátt fyrir að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands hafi áður bannað framleiðsluna.

Fiskistofa í molum

Ríkisendurskoðun birti síðastliðinn janúar stjórnsýsluúttekt vegna eftirlits Fiskistofu. Í skýrslunni kemur fram að styrkja þurfi eftirlit Fiskistofu til að styðja markmið um sjálfbæra og ábyrga nýtingu fiskimiða. Niðurstaða skýrslunnar er í stuttu máli að eftirlit sé veikt, stofnunina skorti úrræði og aðföng til að sinna hlutverki sínu sem og að eftirlit með brottkasti sé veikburða og ómarkvisst.

Raddir