Föstudagur 20. september, 2024
9.9 C
Reykjavik

Eftirlæti Andrews Lloyd Webber

Andrew Lloyd Webber heyrði Garðar Thór Cortes syngja í fyrsta sinn fyrir rúmum þremur árum og bókaði hann á staðnum til að fara með hlutverk Óperudraugsins í Love Never Dies. Garðar prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun.

Garðar Thór Cortes hefur ekki verið mikið í fréttum á Íslandi undanfarin ár en það þýðir þó engan veginn að hann hafi setið auðum höndum. Hann hefur verið að syngja aðalhlutverkið í söngleik Andrews Lloyd Webber, Love Never Dies, víða um Evrópu og túrað með söngleiknum um Bandaríkin.

Og það sem meira er, Lloyd Webber handvaldi hann sjálfur í hlutverkið. Nú er Garðar Thór kominn heim, búinn að kaupa hús í Vesturbænum og mun syngja hlutvek Alfredos í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Traviata í vor.

Ef maður er búinn að bóka sig í eitthvað þá á maður að standa við það.

Garðar Thór viðurkennir að það hafi verið mikill heiður fyrir hann að þurfa ekki að mæta í neinar prufur heldur vera valinn af höfundinum. Hann verður meira að segja hálffeiminn þegar hann ljóstrar því upp að Andrew Lloyd Webber hafi sagt að ekki væri til betri Óperudraugur en Garðar Thór.

„Ég veit ekki hvort það er rétt hjá honum,“ segir hann. „En það er vissulega gaman að fá þessa umsögn frá honum sjálfum. Það var svo hringt í mig og ég beðinn um að koma fram á sýningu þar sem sett eru saman atriði úr öllum söngleikjum Lloyd Webbers í tilefni af því að sjálfsævisaga hans er að koma út. En þá var ég búinn að bóka mig hjá Friðriki Ómari til að syngja með honum á jólatónleikunum hans hérna heima svo ég neitaði.

Ég hefði svo sem getað sagt við Friðrik Ómar að Andrew Lloyd Webber vildi fá mig á sama tíma, en ég er bara ekki þannig manneskja. Ef maður er búinn að bóka sig í eitthvað þá á maður að standa við það,“ segir Garðar Thór.

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlífi á morgun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sjarmerandi illvirki og ógeð

|
|

Borgarleikhúsið frumsýnir Ríkharð III eftir Shakespeare laugardaginn 29. desember og fer Hjörtur Jóhann Jónsson með hlutverk hans en um er að ræða eitt stærsta karlhlutverk leiklistarsögunnar.

„Ég hef aldrei áður fengist við svona stórt hlutverk,“ segir Hjörtur Jóhann, „enda eru fá hlutverk svona stór. Ég þarf svolítið á öllu mínu að halda. Maður reynir að nálgast þetta af öllum sínum lífs- og sálarkröftum.“

Talið er að Shakespeare hafi skrifað verkið Ríkharð III í kringum 1593 sem verður frumsýnt 29. desember í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Hjörtur Jóhann Jónsson fer með hlutverk Ríkharðs III sem er eitt stærsta karlhlutverk leiklistarsögunnar. Um er að ræða nýja þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar.

„Ég hef aldrei áður fengist við svona stórt hlutverk,“ segir Hjörtur Jóhann, „enda eru fá hlutverk svona stór. Ég þarf svolítið á öllu mínu að halda. Maður reynir að nálgast þetta af öllum sínum lífs- og sálarkröftum. Ég þurfti að kynna mér bragarháttinn sérstaklega mikið og sömuleiðis fór ég í líkamlega vinnu sem tengist fötlun Ríkharðs III – ég þarf að hafa styrk til að bera til að ég meiði mig ekki og svo er Ríkharður með kryppu.

Ég þurfti að kynna mér bragarháttinn sérstaklega mikið og sömuleiðis fór ég í líkamlega vinnu sem tengist fötlun Ríkharðs III.

Ég las mikið um Shakespeare, Ríkharð sjálfan, fræðirit og fleira og nálgaðist þetta úr öllum áttum. Ég hef gert mikið af radd- og öndunaræfingum en Shakespeare-textar eru oft með sérlega löngum setningum. Það er til dæmis ein setning í fyrstu ræðunni sem er 14 línur. Það væri fáránlegt að flytja hana alla án þess að anda að sér en hugsunin þarf þó að vera þannig og þá er öndunin hluti af því.“

Spennandi, skemmtileg og krefjandi

Ríkharður III er að sögn Hjartar Jóhanns eitt frægasta illmenni leikbókmenntanna. „Hann er rosalega mikill dólgur og grimmdarseggur. Í verkinu er hann kallaður villigöltur, sóðasvín og afskræmdur fyrirburi og alls konar viðbjóður sagður um hann. En hann hefur á sama tíma einhvern sjarma og aðdráttarafl og hann hefur oft á tíðum mikinn húmor og glettni. Hann er brjálæðislega klár og hefur mikinn drifkraft og vilja. Hann setur sér markmið og svo eirir hann engu þangað til hann hefur náð þeim markmiðum.

Hann er rosalega mikill dólgur og grimmdarseggur.

„Ég finn að maður lærir svo ótrúlega margt af því að takast á við svona safaríkt hlutverk.“ Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Það sem gerir hann skemmtilegan er að þó að hann sé svikahundur þá segir hann í upphafi allt sem hann ætlar að gera. Hann er fullkomlega hreinskilinn við áhorfendur. Hann segist ætla að verða versti þrjótur allra tíma, ráðgera hitt og þetta og kvænast ákveðinni konu. Þetta er eitthvert afdráttarleysi sem er heillandi. Það er eitthvert afl í honum og orka sem dregur fólk að honum.“

Það er gaman að koma að verkefnum þar sem maður hugsar … hvernig í ósköpunum á maður að gera þetta?

Hjörtur Jóhann segir að þetta hlutverk skipti hann miklu máli af því að sér finnst það vera svo spennandi, skemmtilegt og krefjandi. „Ég finn að maður lærir svo ótrúlega margt af því að takast á við svona safaríkt hlutverk. Það er líka búið að vera yndislegt að vinna með Brynhildi leikstjóra. Manni finnst maður stækka um nokkur númer við að takast á við svona. Það er gaman að koma að verkefnum þar sem maður hugsar … hvernig í ósköpunum á maður að gera þetta? og finna svo leiðina. Það er það sem stækkar mann – bæði í vinnunni og lífinu.“

Allt litrófið

Hjörtur Jóhann segir að honum finnist almennt vera gaman að gera sem ólíkustu hluti þegar kemur að hlutverkum.

„Mér finnst gaman að prófa allt litrófið. Ég veit að ég er voðalega orkumikill; stundum um of. Ég er oft beðinn um að draga úr mér sem mér finnst fínt. Mér finnst gaman að gera of mikið og þá er hægt að draga úr. Maður prófar til dæmis ýmislegt í æfingaferlinu og það er skemmtilegt að lita með stórum sveiflum og prófa alla litina í kassanum. Þá er alltaf hægt að pilla úr.“

Hjörtur Jóhann hefur vakið athygli bæði í uppsetningum leikhússins og víðar. Hann fer með hlutverk í Ellý, í kvikmyndinni Lof mér að falla og í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátunni. Þá leikur hann einnig í Ófærð og í Héraðinu, nýrri mynd Gríms Hákonarsonar.

Hann er spurður hvað leiklist sé í huga sínum. „Samtal. Samtal við áhorfendur, við samfélagið, við söguna, listina, lífið og dauðann.“

Aðalmynd/ Sigurjón Ragnar
Texti / Svava Jónsdóttir

 

 

 

 

Kennarar smánaðir á samfélagsmiðlum

Nemendur deila myndum af kennurum í afkáralegum stellingum.

Fátt hefur fengið viðlíka athygli í fjölmiðlum og þjóðfélagsumræðunni en Klaustursmálið svokallaða. Fyrir utan sjokkið við að heyra ógeðfeld samtölin á milli þingmannanna á upptökunum sem um ræðir þá hefur málið vakið upp margar spurningar í kjölfarið. Ein þeirra er hvenær má og hvenær má ekki hljóðrita opinberar persónur?  Þá má einnig velta því fyrir sér hversu algengt það er yfirhöfuð að fólk noti snjalltæki sín til þess að hljóðrita eða festa á mynd annað fólk án samþykkis og deila efninu jafnvel áfram á samfélagsmiðlum.

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, segir í samtali við Mannlíf að umræða á milli kennara í grunn- og framhaldsskólum snúist í auknum mæli um einmitt þetta.

„Það hefur ekki komið neitt ákveðið mál mér vitandi hér innanhúss hjá okkur í Verzlunarskólanum. Maður heyrir það almennt í umræðunni bæði í grunn- og framhaldsskólum að nemendur séu oft að taka t.d. myndir af kennara, þar sem hann er í afkáralegri stellingu og verið að senda áfram á samfélagsmiðlum. Ég gef mér það að þetta gerist hér eins og annars staðar,“ segir hann og tekur fram að hann hafi heyrt frá forystu Kennarasambandsins að þetta sé vaxandi vandamál.

Maður heyrir það almennt í umræðunni bæði í grunn- og framhaldsskólum að nemendur séu oft að taka t.d. myndir af kennara, þar sem hann er í afkáralegri stellingu og verið að senda áfram á samfélagsmiðlum.

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, tekur undir með Inga. Hún staðfestir í samtali við Mannlíf að sambandið hafi fengið inn á borð til sín mál þar sem myndum af kennurum í vandræðalegum aðstæðum hafi verið deilt á samskiptamiðlum t.d. Twitter og Instagram.

„Við höfum fengið mál þar sem teknar hafa verið myndir af rassi kennara eða þar sem kennarar eru sýnilega sveittir undir höndum og fleira í þeim dúr,“ segir Anna María og bætir við að síðan séu myndirnar merktar með vandræðalegum upphrópunum á samskiptaforritum.

„Óneitanlega eru vandamál sem þessu fylgir, einnig eru nemendur einfaldlega of mikið í símunum og eru að nota þá í kennslustundum m.a. til að senda á milli sín myndir og annað slíkt,“ segir hún og tekur fram að hún sé framhaldsskólakennari og tali út frá sínum veruleika.

Anna María segir að ekki séu nein samræmd viðurlög eða verklagsreglur um það hvernig eigi að takast á við þetta vandamál en bendir á að kennarar séu með ákveðnar siðareglur þar sem tekið er á rafrænum samskiptum og þær gætu átt við í þessu samhengi. Hún tekur einnig fram að opinber myndbirting af einstaklingum án þeirra samþykkis geti stangast á við lög, sér í lagi ef um er að ræða ólögráða einstaklinga og að vandamálið sé mikið rætt innan kennarastéttarinnar.

„Ég hef líka setið í stjórn norrænu kennarasamtakanna þar sem þessi mál hafa verið rædd en þetta er fyrst og fremst á umræðustigi enn sem komið er,“ segir hún.

Snillingur að taka sig til á stuttum tíma

Hulda Vigdísardóttir vinnur á auglýsingastofunni Pipar/TBWA en hefur jafnframt starfað sem fyrirsæta í rúm sex ár, hér heima og erlendis. Hún þýddi einnig bókina Hnotubrjóturinn og músakóngurinn eftir E.T.A. Hoffmann sem nýlega kom út í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu. Myndskreytingar í bókinni eru eftir listakonuna Margréti Reykdal. Hulda leyfði okkar að kíkja aðeins í fataskápinn sinn.

„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tungumálum og málvísindum en fyrir tveimur árum lauk ég M.A.-prófi í íslenskri málfræði. Eins hef ég gaman af ljósmyndun, skapandi skrifum og þýðingum. Ég myndi segja að fatastíllinn minn sé frekar afslappaður þótt mér finnist á sama tíma skemmtilegt að skera mig úr og koma fólki á óvart. Góð vinkona mín sagði eitt sinn að ég væri „snillingur í að taka mig til á stuttum tíma“ og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á mínum persónulega stíl. Hverju ég klæðist, veltur ansi mikið á hvernig skapi ég er í þá stundina en yfirleitt er ég þó með eitthvert skart á mér líka. Ég gæti verið í hettupeysu og gallabuxum í dag en síðkjól og pels á morgun. Sú flík sem hefur mesta tilfinningagildið er sennilega bleik ullarpeysa sem amma átti. Hún er ákaflega hlý fyrir kuldaskræfu eins og mig.“

Að hennar mati ættu allar konur að eiga fallegar látlausar og vandaðar svartar buxur sem ganga við öll tilefni. Síðan komi sér líka vel að eiga hlutlausa boli og flotta klúta í lit sem passa við allt.

„Nýjustu kaupin í fataskápnum mínum er rósbleikur Stadium-jakki, svartur Trefoil-kjóll og bleikar Adibreak Tracsuit-buxur sem ég fékk á adidas.is. Ég er eiginlega búin að vera skotin í Adidas síðan ég var átta ára og fékk fyrsta alvöruíþróttagallann minn en á meðan flestar stelpurnar í bekknum völdu sér Nike-galla vildi ég ekki sjá annað en línurnar þrjár. Ég á meira að segja jakkann enn og nota af og til, þótt hann sé ef til vill í minnsta lagi. Mig hefur lengi langað í þessar þrjár Adidas-flíkur.“ Mynd/Hallur Karlsson
„Efst á óskalistanum þessa stundina er silfurlituð úlpa en mig hefur dreymt um slíka flík óralengi. Síðastliðið vor varð svo þessi úlpa á vegi mínum og ég hef varla farið úr henni síðan.“ Mynd/Hallur Karlsson.
„Uppáhaldsflíkin mín er, í fullri hreinskilni, dúnskór úr Ikea sem besta vinkona mín gaf mér í gríni um síðustu jól. Þar á eftir held ég síðan mest upp á fallegan rauðan síðkjól úr blúnduefni sem ég fékk eftir eina fyrstu myndatökuna mína.“ Mynd/Hallur Karlsson

 

„Ég á nokkra uppáhaldsskartgripi sem ég get ekki gert upp á milli. Gullhring sem föðuramma mín lét smíða handa mér úr trúlofunarhring sínum, gullhálsmen sem móðuramma mín fékk frá afa og gaf mér í fermingargjöf, silfurarmband frá mömmu og fleira.“ Mynd/Hallur Karlsson

Hollensk hjón sameina krafta sína

Tinta Luhrman og Rutger de Ruiter virðast engin takmörk sett þegar kemur að hönnun.

Frá unga aldri hefur Tinta Luhrman haft ómældan áhuga á hönnun, litum og sköpun. Það var því snemma ljóst að hugur hennar stefndi að hönnunarnámi. Eiginmaður hennar, Rutger de Ruiter, á mjög erfitt með að sitja auðum höndum og líður hvað best við smíðaborðið. Fyrir rúmu ári síðan sameinuðu þessi hugmyndaríku hjón krafta sína og stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Woodchuck. Hollensku hjónin eiga það sameiginlegt að elska Japan, jóga, brimbretti, einfaldleika og hönnun. Allt þetta að ógleymdri dótturinni Dieuwertje veitir þeim ómældan innblástur í sköpun sinni.

„Þó svo að við elskum einfaldleikann, skín hlýleikinn alltaf í gegnum hönnun okkar og sköpun. Hjá Woodchuck sérðu hvernig hægt að skapa þægilega stemningu þó að efniviðurinn sé mínimalískur.“

Sérsniðnar lausnir með japönsku ívafi

Hjónunum virðast engin takmörk sett þegar kemur að verkefnum, þau hanna húsgögn og smíða innréttingar, endurhanna eldri rými, þróa hugmyndir og veita innanhússráðgjöf ásamt því að aðstoða við litasamsetningar og útstillingar. Takmarkið er þó ávallt það sama; að sérsníða verkefnin að óskum viðskiptavinarins.

Þrátt fyrir að fyrirtækið sé ungt hafa hjónin haft nóg fyrir stafni þetta fyrsta ár og verið dugleg við að hanna húsgögn og smáhluti sem þau selja í vefverslun sinni á milli þess sem þau taka að sér stærri verkefni. Eins og nafnið Woodchuck gefur til kynna spilar viður stórt hlutverk í allri hönnun og sköpun hjónanna. Hönnun þeirra á það sameiginlegt að vera bæði einföld og notaleg í senn, japönsk áhrif eru áberandi í öllum þeirra verkum þar sem leitast er við að finna hinn fullkomna litatón til þess að undirstrika mýkt og hlýleika sérhvers verkefnis.

Texti / Katrín Andrésdóttir
Myndir / Frá framleiðanda

Stelpulegur stíll í Urriðaholti

Á einkar blautum og vindasömum mánudagsmorgni brunuðu blaðamaður og ljósmyndari í innlit í Urriðaholtinu, en þar býr Kristjana Sunna í 95 fm íbúð í nýju fjölbýlishúsi.

Kristjana flutti inn í apríl fyrr á árinu og hefur bersýnilega verið dugleg við að koma sér fyrir og nostra við heimilið. Hún stundar fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri ásamt því að starfa í heildsölu Swiss Color Iceland, þar sem hún sér um sölu- og markaðsmál.

Dýrðlegt útsýni yfir Urriðavatn

Mynd/Aldís Pálsdóttir

Hvernig líkar þér hér í Urriðaholtinu og hvað heillaði við hverfið? „Ég er úr Hafnarfirðinum og bjó á Völlunum áður en ég flutti hingað, en ég hafði verið að leita að réttu íbúðinni í tvö ár og var alltaf að skoða í þessu hverfi. Þegar ég gekk hér inn fann ég strax að þetta væri rétta íbúðin.“

Kristjana segist hafa kolfallið fyrir eigninni og það sem heillaði helst var skipulagið, borðstofuhornið, birtan og útsýnið, ásamt því að íbúðin tikkaði í öll boxin; gólfsíðir gluggar, suðursvalir, gluggi á baðherberginu, opið eldhús, þvottahús í íbúðinni og aukin lofthæð.

„Mér fannst mjög skemmtilegt í þessu ferli að kaupa og innrétta íbúð, að sjá hvað íslensk fyrirtæki eru komin langt hvað varðar gæði þjónustu – en það að fá góða þjónustu þykir mér alveg ómetanlegt og spilar stærsta þáttinn í vali á fyrirtæki og kaupferlinu öllu!“

Áttu þér uppáhaldsstað hér heimafyrir? „Uppáhaldsstaðurinn minn er klárlega borðstofukrókurinn, en þar er mjög gott að setjast niður og læra með góðan kaffibolla, þar hef ég einnig skapað góðar minningar með vinum og fjölskyldu.“

Aðspurð um hvort það séu einhverjar frekari breytingar eða framkvæmdir í kortunum svarar hún: „Ég hætti eiginlega alveg að græja og gera hérna heimafyrir þegar ég tók þá ákvörðun að fara í meistaranám í stjórnun á Spáni í janúar næstkomandi, svo íbúðin verður í útleigu næstu tvö árin eða lengur, og ég mun því halda áfram að dúlla við íbúðina þegar ég kem heim aftur.“

 Frískað upp á stílinn við flutninga

„Hann er svolítið stelpulegur, ég er rosalega hrifin af öllu sem glansar eða glitrar, eins og hlutum úr kristal, en mér er sagt að ég hafi erft stílinn frá langömmu minni,“ segir Kristjana þegar hún er beðin um að lýsa stílnum sínum.

Ég er rosalega hrifin af öllu sem glansar eða glitrar, eins og hlutum úr kristal, en mér er sagt að ég hafi erft stílinn frá langömmu minni

Aðspurð um áherslur í litavali segir hún pastelliti og bleikan vera í miklu uppáhaldi og þá helst í bland við hreinlega ljósa tóna, glansandi málma og glært gler. Þar sem íbúðin er í nýbyggingu og enginn búið þar áður, segist Kristjana hafa hugsað þetta kjörið tækifæri til að endurhugsa stílinn örlítið.

„Töluvert af innbúinu úr gömlu íbúðinni minni var orðið lúið og kominn tími á að endurnýja, svo það var tilvalið að hreinsa aðeins til í stílnum við flutningana.“

Í forstofunni hangir litfagurt málverk sem grípur augað, verkið er eftir listamanninn Norr, einnig þekktur sem Gummi kíró, og segist Kristjana vera í skýjunum með það. Hún gaf sjálfri sér verkið í innflutningsgjöf og segir það einskonar tákn til að minna sig á árið sem leið og allt það góða sem átti sér stað.

Hvaðan koma hlutirnir þínir og hvaða verslanir eru í uppáhaldi? „Ég held mikið upp á ljósið í borðstofunni frá By Rydens sem ég keypti í Rafkaup, svo er ég mjög hrifin af versluninni Fakó og fékk til dæmis borðstofuborðið og velúrstólana þar. Einnig finnst mér gaman að vafra um á Netinu og ég versla töluvert við netverslanir, en þær eru oft óháðar öðrum og með annað úrval, það er mikilvægt að styðja við ung sjálfstæð fyrirtæki. Svo verð ég að minnast á allar litlu búðirnar erlendis sem mér finnst gaman að skoða og get gleymt mér í, og tek ég þá gjarnan einn hlut með mér heim frá hverju landi þegar ég hef færi á.“

Hún bætir við að auðvitað sé alltaf gaman að taka hring í Epal eða Snúrunni, en þar séu margir hlutir að hennar skapi og tróna New Wave Optic-veggljósið, Flos-ljósakróna og String-hilla með skáp ofarlega á óskalistanum.

Við forvitnumst um söguna bak við stóran skúlptúr af andliti ásettan smáum speglum sem hangir á vegg í stofunni. „Mamma gaf mér hann í innflutningsgjöf því ég elska allt sem glitrar og henni fannst hún eiginlega verða að gefa mér hann, en hann er frá Zolo og co í Keflavík.“

Kristjana segist hafa fengið marga fallega hluti að gjöf við hin ýmsu tilefni og er dugleg að nota þá muni sem hún á til. „Ég reyni að skipta hlutunum mínum reglulega út fyrir aðra sem hafa hvílt í geymslunni, en ég vil ekki hafa of mikið uppi við í einu, einnig finnst mér skemmtilegast að vera með hluti sem hafa tilfinningalegt gildi og minna mig á fjölskylduna og góða vini.“

Við kveðjum Kristjönu og hlýlegu íbúðina í Urriðaholtinu að sinni og óskum henni góðs gengis í meistaranáminu í Barcelona.

Næsti tunglmyrkvi verður í janúar

|
Mynd/Gassi|

Sævar Helgi Bragason sendir frá sér bókina Svarthol: Hvað gerist ef ég dett ofan í? fyrir jólin en hún er hugsuð fyrir vísindaáhugafólk frá níu ára aldri.

„Ég veit að yngri lesendur njóta bókarinnar einnig með mömmu og pabba,“ segir Sævar sem hefur marga starfstitla; kennari, dagskrárgerðarmaður og rithöfundur sem segist umfram allt vera fræðari.

„Þetta er vísindabók á íslensku um ótrúlega heillandi viðfangsefni eins og þyngdarkraftinn og tímann en bæði þessi fyrirbæri tengjast órjúfanlegum böndum í svartholum. Ég hef fengið að heyra það frá börnum og fullorðnum að bókin sé auðskiljanleg, fyndin, fróðleg og mjög skemmtileg og er auðvitað hjartanlega sammála því.“

Áhugi Sævars á geimnum kviknaði þegar hann var lítill og horfði heillaður upp í stjörnubjartan himin.

„Ég hef alltaf verið einstaklega forvitinn og langað til að vita allt um náttúruna, sér í lagi himingeiminn. Svo fékk ég að kíkja á Satúrnus í gegnum sjónauka hjá föðurbróður mínum og eftir það var ekki aftur snúið. Mér finnst heimurinn svo ótrúlega áhugaverður og hef einhverja óseðjandi þörf fyrir að segja öðrum frá því. Ég lenti bara óvart í því að fræða börn um þessi mál en það má kannski segja að stjörnufræðingurinn Carl Sagan hafi verið þar stærsti áhrifavaldurinn. En það er líka bara svo hrikalega skemmtilegt að sjá undrun kvikna í andlitum barna yfir því hvað heimurinn er fallegur og merkilegur.“

Mér finnst heimurinn svo ótrúlega áhugaverður og hef einhverja óseðjandi þörf fyrir að segja öðrum frá því.

Það magnaðasta sem Sævar hefur upplifað varðandi geiminn til þessa er almyrkvi á sólu.

„Það er stórkostlegasta sýn sem hægt er að sjá í náttúrunni á jörðinni. Fæ enn gæsahúð bara af því að hugsa um það. Við sjáum almyrkva frá Íslandi næst miðvikudaginn 12. ágúst 2026 og ég get ekki beðið,“ segir hann spenntur.

„En vonandi á ég eftir að upplifa það magnaðasta, sem væri að sjá plánetuna okkar utan úr geimnum. Ég held að ekkert sé fegurra en jörðin, sem við erum því miður að fara allt of illa með.“

Snemma á næsta ári, aðfaranótt 21. janúar, verður tunglmyrkvi en þá verður tunglið rauðleitt á himninum þegar Jörðin varpar á það skugganum sínum.

„Ég hvet alla til að vera alltaf forvitnir og hætta aldrei að spyrja af hverju. Að lokum óska ég þess að allir eigi gleðilega umhverfisvæna hátíð, þar sem við afþökkum óþarfa, minnkum matarsóun, endurvinnum, endurnotum og endurnýtum og hugsum vel um hvert annað og plánetuna Jörð, eina heimilið sem við eigum í þessum risastóra alheimi.“

Lífið er of stutt fyrir vont kaffi

Kaffið er punkturinn yfir i-ið eftir góða veislu eða með kökunum. Um jólin er einmitt tíminn til að gera vel við sig svo ekki gleyma að velja þér gott kaffi til að njóta yfir hátíðarnar. Lífið er of stutt fyrir vont kaffi.

Íslandi er hægt að kaupa mikið úrval af góðu kaffi, bæði í sérverslunum fyrir kaffi og úti í stórmarkaði. Í Hagkaup í Garðabæ sá ég nýlega að fínasta kaffi var þar til sölu, m.a. frá Kaffitári, Te og kaffi og fleiri íslenskum fyrirtækjum. Þegar ég skrifaði um kaffi fyrir Gestgjafann hér áður fyrr mælti ég annað slagið með kaffi sem fékkst í stórmörkuðum, eins og Svörtum Rúbín, Illy, Lavazza Club, Café Noir og fleiri tegundum, en úrvalið hefur aukist síðan þá.

Eitt sinn gerði ég óformlega rannsókn fyrir Gestgjafann og þar kom í ljós að kostnaður af einum uppáhelltum bolla af dýrara kaffi á móti ódýru náði ekki að vera einni krónu hærri, þarna munaði aurum á hvern bolla. Eflaust hefur þetta breyst en það getur varla munað nema örfáum krónum á milli bolla.

Bragðmikið með kökum

Í kökuveisluna er bragðmikið kaffi algjör dásemd, ekki síst með súkkulaðikökum. Hátíðakaffi frá Kaffitári fæst víða á þessum árstíma, og Jólakaffi Te og kaffis, og það ætti að höfða til sem flestra. Það hentar vel í venjulega uppáhellingu, pressukönnu eða baunavél.

Þeir sem nota mjólk út í kaffi gætu gert enn betur við sig og notað kaffirjóma sem er svo góður út í bragðmikið kaffi.

Espressókaffi er alls ekki eingöngu fyrir espressókönnur eða baunavélar, það er hægt að nota það líka í venjulega uppáhellingu eða pressukönnu. Í baunavélina mína nota ég iðulega bragðmikið kaffi, eins og Espresso Roma frá Te og kaffi, og þegar ég bregð mér í bæinn kaupi ég oft Húsblönduna frá Kaffitári sem fæst í kaffibúðum Kaffitárs. Svo á ég tvær miklar uppáhaldstegundir þegar kemur að bragðmiklu kaffi í pressukönnu. Það eru Espressó Krakatá frá Kaffitári og French Roast frá Te og kaffi en þessar tegundir eru líka afar góðar í venjulegri uppáhellingu.

Alls konar kaffi

Milt Afríkukaffi nýtur sín vel eitt og sér, eins og Kenía- eða Eþíópíukaffi, en slepptu því alfarið að reyna að gera þér espressó úr því. Þegar kaffi er ljósbrennt njóta fínleg blæbrigði þess og ávaxtatónar sín til hins ýtrasta. Það er mjög gott í venjulegri uppáhellingu og pressukönnu.

Meðalbrennt kaffi, eins t.d. frá Gvatemala eða Kólumbíu, höfðar til margra. Það hefur eftirbragð eins og dökkbrennt kaffi og hentar bæði vel eitt og sér og með kökum. Hægt er að búa það til í venjulegri uppáhellingu, í pressukönnu eða baunavél. Það er gott með mjólk og án hennar.

Bragðbætt kaffi elska margir og það fæst iðulega fyrir jólin og þá með t.d. kanilbragði. Alls ekki setja það í baunavél, nema þú viljir að venjulega kaffið þitt bragðist eins og jólakaffi fram eftir næsta ári …

Einnig er hægt að kaupa ýmis konar síróp, líka sykurlaus, til að setja út í kaffið sitt.

Leitaðu ráða hjá starfsfólki kaffibúða, það hefur fengið fræðslu og getur hjálpað þér að finna besta kaffið fyrir þig. Lestu líka á miðann á pökkunum og prófaðu þig áfram. Inni á vefnum kaffitar.is er hægt að taka sniðugt kaffipróf og finna þannig sína uppáhaldstegund.

Kaffi gleður

Fyrir rúmum sautján árum keypti ég Espressó Krakatá frá Kaffitári fyrir erfidrykkju pabba heitins sem haldin var í stórum sal. Krakatá er dökkbrennt og bragðmikið kaffi, mjög gott með kökum. Ég gleymi aldrei frænkunum sem gripu þéttingsfast í ermina á jakkanum mínum og spurðu klökkar af hrifningu hvaða kaffi þetta væri. Þær væru sannarlega ekki vanar því að fá svona gott kaffi í erfidrykkjum eða veislum. Ég þurfti að skrifa niður nafnið á kaffinu fyrir þær og nokkra aðra gesti í erfidrykkjunni. Ef maður hugsar út í það, því að bjóða upp á allt það fínasta og besta í kökum en klikka svo á kaffinu?

Höfum í huga við kaffigerð

– Hafðu áhöld til kaffineyslu hrein.

– Ekki undirbúa kaffikönnuna kvöldinu áður með því að setja vatnið og kaffiduftið í hana. Sá tímasparnaður er ekki þess virði því þetta skerðir bragðgæði kaffisins til muna.

– Notaðu venjulegt magn af dökkbrenndu kaffi í könnuna, þótt það sé dökkt er það ekki sterkara, bara bragðmeira. Það sama gildir um ljósbrennt kaffi, það verður hreinlega vont ef þú notar of mikið magn af því á móti vatni.

– Ekki kaupa of mikið kaffi í einu. Kaffi geymist best við herbergishita en um leið og það hefur setið lengi í opnum pakka gufar ilmurinn og góða bragðið smám saman upp og kaffið fær hvimleitt geymslubragð.

„Dolly er mín sjálfshjálparbók“

|
|

Dögg Hjaltalín, bókaútgefandi hjá Sölku forlagi, segist yfirleitt vera með nokkrar bækur á náttborðinu til að velja á milli eftir því hvernig hún er stemmd. Mest lesi hún bækur almenns eðlis og sígildan skáldskap, það ráðist svolítið af umhverfinu hverju sinni. Þegar Dögg ferðast finnst henni t.d. tilvalið að lesa bækur um áfangastaðina sem hún heimsækir eða skáldskap eftir þarlenda höfunda. Það sé kjörin leið til að gera ferðina eftirminnilegri. En af þeim bókum sem hún hefur lesið, hverjar skyldu standa upp úr?

„Ég beið við tölvuna eftir að bókin Ég er Malala kæmi út til að geta keypt hana og lesið samdægurs. Saga þessarar stelpu er ótrúlega áhrifarík og viðhorf hennar til menntunar og stöðu ungra stelpna er svo magnað að það er ekki annað hægt en að drekka boðskap hennar í sig. Ég hef lesið hana nokkrum sinnum,“ segir Dögg og bætir við að hún hafi verið svo heppin að geta gefið út þýdda útgáfu af bókinni fyrir fáeinum árum og þ.a.l. sé boðskapur Malölu nú aðgengilegur dætrum hennar á íslensku.

Harmur englanna eftir Jón Kalman.

Harmur englanna eftir Jón Kalman er síðan eftirminnilegasta skáldsagan sem ég hef lesið um ævina,“ heldur hún áfram. „Ég las bókina í snjóbyl á Hólmavík á Ströndum og mér varð hreinlega kalt við tilhugsunina um að fólki hafi þurft að fara milli bæja og yfir heiðar alveg sama hvernig viðraði og í algjörri óvissu um að það næði á áfangastað. Aðstæður Íslendinga fyrr á öldum sitja enn í mér eftir lesturinn.“

Þá segir Dögg að „Þetta breytir öllu“ eftir Naomi Klein sé sú bók sem veki upp mestar tilfinningar hjá henni. „Ég hef lesið hana nokkrum sinnum og í sannleika sagt verð ég alveg brjáluð í hvert sinn,“ viðurkennir hún en bókin fjallar um umhverfismál í víðu samhengi og hvaða öfl stjórna gangi mála í heiminum í dag. „Vonandi lesa bara sem flestir þessa bók,“ segir hún, „og fara að leyfa náttúrunni að njóta vafans.“

Sú bók sem Dögg segist hins vegar alltaf hafa á náttborðinu og glugga reglulega í er Dream more eftir „eina flottustu konu heims“ eins og hún orðar það, Dolly Parton. „Dolly fjallar þarna um viðhorf til lífsins og í bókinni má finna svar við öllum vandamálum heimsins með slatta af húmor, en Dolly er mín sjálfshjálparbók.“

 

 

Hómer Simpson-jólabindi ein eftirminnilegasta gjöfin

Heiðar Austmann útvarpsmaður byrjar aðfangadag á ristuðu brauði með graflaxi. Jólalagið „Happy Christmas War is Over“ með John Lennon og Yoko Ono er í uppáhaldi.

Hvernig verða jólin þín í ár? Jólin mín verða bara frekar hefðbundin eins og önnur ár. Það eru einhver jólaboð, mannamót og spilakvöld plönuð þannig að tilhlökkunin er mikil. Ég verð hjá Björgu systur minni á aðfangadag þar sem nánasta fjölskylda verður, þ.e. systir mín og fjölskylda hennar, mamma mín, yngri dóttir mín Emilía Þórunn og fleira gott fólk úr fjölskyldum okkar. Eva Björk eldri dóttir mín verður erlendis með móður sinni þennan aðfangadaginn.

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? Heldur betur. Á aðfangadagsmorgun þegar ég vakna hef ég haft þann vana í ríflega 17 ár að fá mér ristað brauð með graflaxi og sósu. Síðar um daginn förum við Þórunn Kristín, mamma mín, og ég að heimsækja fólkið okkar í kirkjugörðunum. Amma Magga og Eymundur afi, Emil afi, Ragnheiður systir, Gunnar besti vinur minn og svo fósturforeldrar hennar mömmu eru meðal þeirra sem við heimsækjum. Við förum með kerti og jólagreni og leggjum á leiðið þeirra og þökkum fyrir að hafa fengið að hafa þau í okkar lífi.  Svo ef tími gefst þá tek ég Lord Of The Rings-maraþon.

Ein jólin fékk ég mynd af Pocanhontas í ramma og Hómer Simpson-jólabindi sem mér fannst æðislegt. Mjög eftirminnilegt.

Hvað er efst á óskalistanum þínum? Að dætur mínar séu hamingjusamar, heilbrigðar og líði vel. Ekki bara á jólunum heldur alltaf. Þær eru mér allt og skiptir hamingja þeirra og vellíðan mig öllu.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Hef fengið svo margar frábærar gjafir. Fyrstu gjafirnar frá stelpunum sem þær bjuggu til á leikskólum sínum eiga alltaf sérstakan stað í mínu hjarta. Gaman að fá fyrstu gjöfina frá þeim. Ætli það séu hins vegar ekki jólagjafirnar frá Gunnari heitnum vini mínum sem eru eftirminnilegastar. Við ákváðum það þegar við vorum yngri að við myndum alltaf gefa eitthvert „djók“ í jólagjöf.  Ekki setja of mikla hugsun í gjafirnar, skilurðu?  Ein jólin fékk ég mynd af Pocanhontas í ramma og Hómer Simpson-jólabindi sem mér fannst æðislegt. Mjög eftirminnilegt.

Besta jólalag allra tíma? Ég myndi segja „Happy Christmas War is Over“ með John Lennon og Yoko Ono.  Það nær mér einhvern veginn alltaf. Finnst það mjög fallegt. Gömlu Jackson 5- og Stevie Wonder-jólalögin eiga líka sérstakan sess í mínu hjarta. Uppáhalds íslenska jólalagið mitt um þessar mundir er hins vegar Það snjóar, með Sigurði Guðmundssyni.

Mynd / Ernir Eyjólfsson

 

Hvað eigum við að gera við allt dótið?

Leiðari

„Hlutir veita ekki lífshamingju,“ segir Pálmar Ragnarsson í forsíðuviðtali Mannlífs en hann hefur að undanförnu getið sér gott orð sem fyrirlesari um samskipti fólks og notið vinsælda sem körfuboltaþjálfari fyrir yngstu kynslóðina. Þetta er hvorki í fyrsta né annað skipti sem við heyrum þessi orð, sem jafnan fylla okkur góðum ásetningi um að draga úr lífsgæðakapphlaupinu og hlúa í staðinn betur að okkar innra sjálfi.

Svo koma jólin og áður en við vitum af erum við komin í kapphlaup á milli verslana í leit að einhverju sem við höfum ekki hugmynd um hvort fólkið í kringum okkur langar að eignast eða ekki.

Sjálf fáum við svo alls konar gjafir sem við tökum upp með tilhlökkun á aðfangadag og hrúgum upp á stofugólfinu innan um pappírsruslið sem dreifst hefur um allt. Þá er eins og renni upp fyrir okkur ljós – hvað eigum við gera við allt þetta dót? Ekki það að við séum ekki þakklát og hlutirnir ekki fallegir, það er bara svo mikið til. Peningaeyðsluþynnkan hellist yfir, við biðjum guð um hjálp og lofum að fara aðeins hægar í sakirnar um næstu jól.

Nokkrar fjölskyldur sem komið hafa fram að undanförnu hafa farið inn í aðventuna með nýjum hætti. En það er svokallað öfugt jóladagatal. Í stað þess að bæta nýjum hlutum inn á heimilið fyrir jólin eru hlutir teknir út af heimilinu. Einn hlutur þann 1. desember, tveir hlutir þann 2. desember og svo framvegis.

Þetta gerði til dæmis sjö manna fjölskylda á Djúpavogi og þegar jólin koma verða farnir 2.100 gagnslausir hlutir af heimilinu sem margir fá framhaldslíf hjá öðrum sem á þurfa að halda. „Flæðið inn á heimilið verður að minnka,“ sagði móðirin á heimilinu, Ágústa Arnardóttir, í viðtali á RÚV og það sem hún vonar að skili sér til barnanna er að með hverjum hlut sem þau eignast fylgi skuldbinding. Hluti átaksins snúist um að draga úr sóun en líka að bæta fjölskyldulífið.

Lítum á nokkrar tölur. Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs kemur fram að hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu fleygir að meðaltali um 223 kílóum af úrgangi í tunnuna á ári, það er rúmlega eitt tonn á fimm manna fjölskyldu. Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðaljarðarbúi. Um 60% af vefnaðarvöru endar í ruslinu.

Fyrrnefndur Pálmar segir það einnig í forsíðuviðtalinu að heimsókn hans til Mexíkó á síðasta ári hafi breytt viðhorfum hans til hluta. Þar hitti hann lífsglatt og skemmtilegt fólk sem var lítið upptekið af því sem það átti ekki. „Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó en ég gat ekki betur séð en að þar væri jafnvel meiri gleði og hlátur.“

Við erum aðeins einu símtali frá ákvörðun meðal vina og ættingja um að hætta gjafakaupum á milli. Við getum valið fjallgöngu eða kaffihúsaferð fram yfir verslunarferðir og afþakkað alla auglýsingabæklingana til að láta ekki glepjast af hlutum sem við höfðum ekki hugmynd um að okkur vantaði. Því þegar allt kemur til alls þá er það samveran við ástvini sem skiptir mestu máli og veitir okkur lífshamingjuna. Hlúum að okkur og þeim sem við elskum. Gleðileg jól.

 

 

Áhugaverðar bækur fyrir jól

Óvenjulega margar nýjar bækur komu út núna fyrir jólin. Lesendum býðst að ferðast aftur í tímann og til annarra landa, kynnast spennandi söguheimum, sérstæðum persónum og ýmsu áhugaverðu bregður einnig fyrir.

 Svik, ábyrgð og tryggð

Heiður eftir Sólveigu Jónsdóttur er ekki sakamálasaga í hefðbundnum skilningi en samt er hún svo spennandi að hún heldur lesandanum límdum við síðurnar allt til enda. Pabbi Heiðar McCarron hverfur af landi brott með bróður hennar. Eftir sitja þær mæðgur með sorgina og reiðina sem tætir þær báðar.

Tuttugu og átta árum síðar liggja leiðir systkinanna saman á ný í borginni Derry. Heiður leitast við að skilja þann málstað sem pabbi hennar fórnaði lífinu fyrir og gefst ekki upp fyrr en hún fær svar við því hvers vegna pabbi hennar fór. Þetta er margslungin saga um hvernig þjóðfélag sundurtætt af hatri skilar brotnum einstaklingum út í lífið. Sólveig er góður rithöfundur og þetta er virkilega fín bók. Mál og menning, 2018.

Verðlaunabók

Ljóðabókin Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson hlaut ljóðaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og bókin er vel að þeim komin. Þetta eru margslungnar og fjölbreyttar vistarverur sem gaman er að ganga á milli og finna stöðugt einhver ný blæbrigði og myndir. Haukur er afskaplega flinkur að fara með orð og móta falleg ljóð. Útg. Mál og menning.

Þögnin rofin

Erfðaskráin er fimmta bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn forvitna Ölmu Jónsdóttur. Hún getur aldrei stillt sig um að reka nefið í annarra manna málefni og grafa ögn dýpra. Að þessu sinni kemur hún dóttur sinni til aðstoðar á bóndabæ fyrir austan fjall. Þar er Gunnhildur að hugsa um þrjú gömul systkini. Eitt þeirra deyr og Gunnhildur hefur á tilfinningunni að ekki sé allt með felldu.

Líkt og í fyrri bókunum um Ölmu liggja margir þræðir frá fortíðinni til nútímans og lausnina er finna í fjölskyldusögunni. Þetta er lifandi frásögn sem heldur lesandanum spenntum til enda. Eitt af því sem er skemmtilegt við bækur Guðrúnar er hversu litríkt og skemmtilegt mál er á þeim. Útg. GPA

Bráðskemmtilegar minningar

Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson byggir á minningum hans um þrjá óvenjulega listamenn sem hann var samtíða á síðustu öld. Þeir Alfreð Flóki, Dagur Sigurðarson og Steinar Sigurjónsson settu svip á bæjarlífið og listiðkun hér á landi meðan þeir voru við iðju sína. Í dag er litið til baka og áhrif þeirra metin og auðséð að þau voru sterk. Ólafur skrifar listavel og dregur upp einstaklega fallega mynd af þessum breysku vinum sínum.

Hann hlífir heldur ekki sjálfum sér og kemur vel til skila hvernig viðkvæmt egó listamanna átti til að bólgna og dragast saman á víxl. En fyrst og fremst er þetta skemmtileg bók og þeir sem muna eftir þessum mönnum á Mokka og víðar um bæinn munu án efa njóta þess að fá dýpri innsýn í sálarlíf þeirra. Útg. JPV

 

Best að finna jafnvægið í öllu

||
|Gísli prýddi forsíðu Vikunnar í janúar árið 2009.|Gísli Þór lýsti erfiðum uppvaxtarárum í viðtali við Vikuna árið 2009.

Hafrún Lilja Elíasdóttir er sannkallaður baksturssnillingur sem hefur þann hæfileika að baka ekki aðeins gómsætar kökur, heldur líka dásamlega fallegar kökur. Fjölskyldumeðlimir og vinir Hafrúnar njóta oft góðs af hæfileikum hennar en þegar kemur að hinum ýmsu tilefnum er hún ávallt boðin og búin að leggja sitt á vogarskálarnar.

Hafrún Lilja er að eigin sögn ekki ein af þeim sem kemst í jólaskap um leið og IKEA-geitin rís upp.

„Ég dett yfirleitt ekki í jólagírinn fyrr en í kringum 20. desember. Aðdragandinn finnst mér ekkert sérstakur, öll jólalögin, skrautið og stressið er ekki beint minn tebolli. En ég er mikið fyrir hefðirnar og samveruna með fólkinu mínu í kringum hátíðirnar, en við fjölskyldan höldum í nokkrar hefðir sem mér þykja ómissandi. Fyrst og fremst ber að nefna uppsetningu jólaþorpsins hjá foreldrum mínum, það er alveg heilög stund. Foreldrar mínir eru svo alltaf með hádegisboð á aðfangadag fyrir okkur systurnar, maka og börn. Það er ein af mínum uppáhaldshefðum og hringir pínulítið inn jólin.“

Ég er sem sagt mikil sósukona.

Þegar kemur að ómissandi hefðum tengdum mat nefnir Hafrún fyrst ristað brauð með graflax og heimatilbúna sósu með. „Svo býr pabbi til heimsins bestu sósu með jólamatnum sem ég kýs að kalla „pabbasósu“ en ég fæ mér yfirleitt smávegis kjöt með sósunni. Ég er sem sagt mikil sósukona. Svo má ekki gleyma því að njóta líka yfir hátíðirnar og safna orku. Ég geri það bæði með því að liggja í uppi í sófa, undir teppi  með söruskálina og með því að fara aðeins út í ferska loftið og kyrrðina og hreyfa mig. Mér finnst best að finna jafnvægið í öllu.“

Hafrún hefur mikinn áhuga á matargerð og bakstri og er dugleg að prófa sig áfram með nýjar uppskriftir. „Ég þarf oft að vera svolítið flókin þegar kemur að eldamennsku, vil oft vera með margar tegundir af meðlæti og svona, en Hjalti, kærasti minn, kýs að hafa hlutina örlítið einfaldari sem er bara frábært. Þar komum við aftur að jafnvæginu góða,“ segir hún. „Fyrir jólin baka ég yfirleitt sörur, mömmukossa og serenakökur. Svo bý ég líka til sultu og jólaís. En endalegur listi fer í raun allt eftir því hvað ég gef mér tíma í og hvað mig langar að gera hverju sinni.“

Sultan sem er góð með öllu

„Fyrst ætla ég að gefa uppskrift að sultu sem hefur verið lengi í uppáhaldi hjá mér með jólamatnum. Æskuvinkona móður minnar, sem kvaddi þessa veröld allt of snemma, gerði alltaf þessa sultu fyrir jólin. Hún keyrði hana alltaf út á aðfangadag til okkar og annarra. Þó að uppskriftin sé einföld er það minningin um þessa yndislegu manneskju sem ég kýs að halda á lofti á þennan hátt og gefur mér og fjölskyldu minni mikið. Ég hef undanfarin tvenn jól gert þessa sultu og laumað með til ættingja og vina og hyggst gera það áfram.

En það er svo frábært að hún er góð með öllu. Ég borða hana alltaf með hamborgarhryggnum á jólunum. En sultan er líka frábær með ostum, í jólagrautinn, ofan á brauð eða hvað sem er. Ég hvet ykkur til að prófa.“

Jarðaberjasulta með kanil

500 g jarðarber
250 g sykur
1-2 kanilstangir (ég set yfirleitt 2-3 stangir því ég vil meira kanilbragð)
½ poki sultuhleypir
20-30 ml vatn

Allt er sett saman í pott og látið malla á meðalháum hita í svona 30-40 mín. Ég kýs að hafa jarðarberin vel maukuð og því læt ég sultuna malla jafnvel lengur og stappa þau niður með sleifinni á meðan ég hræri. En ef jarðarberin eiga að halda lögun sinni skal láta sultuna malla á lægri hita.

47. tbl. 2018, Hafrún Lilja, kaka, kökublaðið, kökur, Margrét Björk, VI1810191960, vikan

Riz à l‘amande

125 g grautargrjón
50 g sykur
1 vanillustöng
1,2 l nýmjólk
500 ml þeyttur rjómi
200 g möndlur, saxaðar gróft

Setjið hrísgrjón, sykur og nýmjólk í pott. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið innihaldið ofan í pottinn. Látið stöngina fylgja með. Sjóðið rólega saman í 40 mín. Hrærið reglulega og gætið þess að grauturinn brenni ekki við. Slökkvið undir og setjið lok yfir. Látið standa og kólna. Kælið grautinn yfir nótt.

Þeytið rjómann og hakkið möndlurnar. Blandið varlega saman við grautinn. Gott er að gera það í þremur skömmtum. Geymið heila möndlu fyrir möndlugjöf. Berið fram með kirsuberjasósu (karamellusósu og/eða jarðarberja-kanilsultunni).

Skotheldur jólaís

Gott er að gera ísinn nokkrum dögum fyrir jólin.

„Hér er uppskrift að jólaísnum sem ég hef alltaf gert undanfarin ár. Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að skella í. Gott er að gera hana nokkrum dögum fyrir jólin og hafa eftirréttinn tilbúinn. Hægt er að leika sér með blönduna með því að setja mismunandi bragðdropa og kurl í hana. Á myndinni má sjá ísinn í litlum tupperware-ísformum sem eru húðuð með hjúpsúkkulaði og skreytt með ferskum berjum.

En það sem mér þykir svo gott við ísinn er að það er hægt að leika sér með allskyns útfærslur. Setja í mismunandi form og skreyta eftir tilefnum. Hlutföllin af blöndunni henta vel í eitt stórt íshringform og svo þrjú lítil form eins og sést á myndinni. En þessi stærð er að mínu mati fullkominn skammtur í eftirrétt á aðfangadagskvöld og svo á ég hringinn alltaf til við annað tilefni yfir hátíðirnar.“

5 eggjarauður
5 msk. sykur
1 vanillustöng
½ l þeyttur rjómi
½ tsk. vanilludropar
½ poki af Nóa-karamellukurli

Setjið eggjarauðurnar í hrærivélarskál og þeytið í 1 mínútu. Hellið sykrinum smátt og smátt saman við eggin og hrærið þar til sykurinn og rauðurnar verða léttar og ljósar eða í u.þ.b 5 mínútur. Skerið vanillustöngina til helminga eftir endilöngu og skafið kornin innan úr henni með hníf.

Setjið vanillukornin út í eggjarauðurnar og látið vélina ganga í 10 sek. Blandið 1/3 af þeytta rjómanum saman við eggjablönduna með píski. Blandið afganginum af rjómanum smátt og smátt saman við blönduna með stórri skeið eða sleif. Smakkið til með vanilludropum og setjið kurlið varlega í blönduna og hrærið til. Setjið ísblönduna í ísform og frystið.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Skemmtilegra að gefa gjafir en að fá þær

Alexandra Sif Nikulásdóttir, þjálfari hjá FitSuccess, borðar humarsúpu og hamborgarhrygg á jólunum. Henni þykir ómissandi að setja seríur á svalirnar og finnst skemmtilegra að gefa gjafir en að þiggja þær.

Hvernig verða jólin þín í ár? Þetta árið verð ég með tengdafjölskyldunni minni á aðfangadagskvöld. Það voru tvö lítil kríli að bætast við fjölskylduna sem gerir það að verkum að öll systkini kærasta míns og makar verða með þessi jólin. Þar er alltaf humarsúpa í forrétt og hamborgarhryggur í aðalrétt. Ég er líka búin að vera mjög spennt fyrir þessum jólum en helgina fyrir jól fer ég til London. Kærastinn gaf mér þá ferð í þrítugsafmælisgjöf. Það hefur verið draumur hjá mér að upplifa jólastemninguna þar, kaupa jólagjafir og njóta.

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? Já, í seinni tíð eftir að ég eignaðist eigið heimili hef ég hægt og rólega búið til mínar eigin hefðir og ég hlakka til að búa til fleiri. Ég set alltaf seríur á svalirnar, mér finnst það algjör nauðsyn til að skapa jólastemningu. Svo finnst mér jólin ekki koma nema að ég baki sörur. Ég hef það sem hefð að gera fjórfalda uppskrift með fimm mismunandi súkkulaðitegundum sem hjúp sem ég gef svo uppáhaldsfólkinu mínu fyrir jólin.

Hvað er efst á óskalistanum þínum? Vá, ég er alveg tóm. Mér finnst jólagjafirnar alltaf vera aukaatriði þegar kemur að sjálfri mér og jólaandinn alltaf það sem heillar mig mest við jólin. Mér finnst í rauninni skemmtilegra að gefa gjafir en að fá þær.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Það mun vera bleika KitchenAid-vélin mín. Ég hélt ég þyrfti að gifta mig til þess að eignast slíka vél en amma mín las alltaf blogg sem ég var með og sá að um hver einustu jól var þessi vél draumurinn. Ein jólin hringdi hún og sagðist ekki vilja gefa mér neitt annað og fékk pabba minn til þess að gefa hana með sér.

Besta jólalag allra tíma? Þessi er erfið, en ég man að ég keypti mér Pottþétt jól geisladiskinn hérna í gamla daga bara til þess að geta spilað Last Christmas, mér var sama um öll hin lögin. Þetta lag vekur upp fullt af góðum minningum þannig það verður fyrir valinu.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Gleðileg byltingarjól

|
|

Höfundur / Elísabet Ýr Atladóttir

Elísabet Ýr Atladóttir

Það eru að koma jól, ótrúlegt en satt. Byltingar, grjóthörð samfélagsumræða og hugrekki kvenna hefur sett sinn stimpil á þessa 12 mánuði. Vikan er varla búin áður en nýtt mál kemur upp á borðið og hendir öllu aftur í gang. Löngu áður en fólk er búið að jafna sig á því sem gekk á fyrir.

Mörgum finnst þetta óþolandi. Að það sé ekki stundarfriður fyrir þessum róttæklingum. Engum virðist treystandi, því svo margir hafa verið ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi í gegnum samstöðumátt #metoo. Fólk er enn í sjokki yfir því hvað þessi barátta stendur þeim nærri eftir allt saman. Enginn friður fyrir mannréttindum, svei mér þá.

En þetta eru merki um stórkostlega hluti, því breytingar gerast með aukinni samfélagsvitund. Fólk mun ræða öll þessi mál á árinu yfir jólasteikinni, af miklu jafnaðargeði eða eldmóð. Sum munu gera sitt besta til að gera lítið úr baráttunni, á meðan aðrir ættingjar reyna að halda kúlinu og garga ekki á þau að þegja svona einu sinni.

Einhver munu reyna að ræða þessi mál án þess að styggja neinn. Aðrar munu horfa stíft í augun á fólki og spyrja hvernig það vogi sér að gera lítið úr ofbeldi sem þær hafa upplifað sjálfar, sem vinkonur þeirra þurftu að upplifa. Fleiri en nokkurn tíma fyrr hafa séð hvernig kvenhatrið og fordómarnir ná inn í efstu lög samfélagsins. Enginn getur hunsað þetta lengur, þótt margir geri lítið úr því enn þá. Fjöldi fólks mun forðast þessi umræðuefni í veikri von um að halda friðinn, alla vega á meðan hann endist.

En friðurinn er úti. Það er enginn friður á meðan það ríkir óréttlæti. Vonandi taka fleiri afstöðu en áður, svo að næstu jól marki raunverulegar breytingar í átt að réttlæti. Við erum ekki alveg komin þangað. Þangað til vona ég að þið eigið gleðileg byltingarjól.

 

 

Léttbylgjutónlist góð gegn stressi

|
Andrés Jónsson

Almannatengillinn og lífskúnstnerinn Andrés Jónsson segist almennt hlusta á slatta af „old-school“-rappi, De la soul, A Tribe Called Quest og fleiri í þeim dúr en nú rétt fyrir jól verði hins vegar ljúfari tónar allsráðandi á heimilinu.

Föstudagur

Coldplay-safnplata. „Ég státa mig gjarnan af því að vera með fjölbreyttan tónlistarsmekk en ég játa það hér með að þegar ég er stressaður og er í tímapressu í vinnunni, þá set ég oft safnplötu Coldplay á fóninn. Það þykir ekki fínt meðal tónlistarspekúlanta að hlusta á Chris Martin og félaga en þessi léttbylgjutónlist hjálpar mér að einbeita mér þegar ég þarf að klára síðustu verkefnin fyrir jólafríið.“

Laugardagur

Pétur og úlfurinn. „Um jólin hittir maður vini og fjölskyldu og spjallar við litlu börnin sem eru yfirspennt af tilhlökkun yfir jólasveinum og pökkum. Eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hve mörg börn hlusta á Pétur og úlfinn, sem er plata sem mér þykir mjög vænt um. Ég hugsa því að ég finni hana á Spotify og rifji upp gamlar minningar undir þessum fallegu tónum Prokofiev.“

Eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hve mörg börn hlusta á Pétur og úlfinn, sem er plata sem mér þykir mjög vænt um.

Sunnudagur

Leonard Cohen – I’m Your Man. „Þetta er ekki jólaplata en Leonard Cohen er einfaldlega svo magnaður. Það er fátt jafnróandi og að hafa hans hrjúfu en um leið silkimjúku rödd á fóninum þegar maður er að dytta að einhverju og pakka inn síðustu jólagjöfunum.“

Mynd / Aðsend

„Kerfið lokar á mennskuna“

|
|

Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi og einn stofnenda Hugarafls, hefur unnið innan geðheilbrigðiskerfisins í hátt á þriðja áratug. Aðferðir hennar hafa að mörgu leyti verið byltingarkenndar því þær miða að því að koma fólki til bata og hjálpa því úti í samfélaginu en ekki inni á stofnunum. Auður var forstöðumaður GET, geðteymis innan heilsugæslunnar, í fimmtán ár en það starfaði í nánu samstarfi við Hugarafl. Nú hafa stjórnvöld ákveðið að hætta að veita því úrræði brautargengi þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á ótvíræðan árangur.

Varla líður sú vika án þess að fjallað sé um ófremdarástand í geðheilbrigðiskerfinu. Ungu fólki er vísað frá bráðageðdeild og stundum endar það með ósköpum. Sjálfsvíg ungmenna eru stór vandi, löng bið er eftir plássi á BUGL og sífellt fleiri glíma við fíkn. Öryrkjum í hópi ungs fólks fjölgar einnig ár frá ári og margir þeirra glíma við andleg veikindi, ekki líkamleg. Skýtur þá ekki svolítið skökku við að verið sé að loka á úrræði sem miðar að því að styðja fólk til sjálfbjargar og bata?

Óhefðbundnar leiðir eiga ekki upp á pallborðið.

„Í mörg ár var Hugarafl og GET, þekkt og metin stærð í samfélaginu og stöðin þróaðist hratt og eftirspurnin var alltaf mikil. Ástæða þess að Hugarafl og GET unnu í nánu samstarfi var að við vildum gefa fólki færi á að leita líka til þeirra sem reynsluna hafa af líkum vanda og þeir sjálfir en ekki eingöngu til fagmanna. Þegar við hófum starfsemi var okkur mætt af skilningi og áhuga innan kerfisins en núna er kalt andrúmsloft, of stofnanamiðað og sjúkdómsvæðing í gangi. Óhefðbundnar leiðir eiga ekki upp á pallborðið. Nú eiga allir að fara sömu leiðina, á göngubrettið inn í opinbera kerfið og það á taka við okkur. Því miður virkar það ekki. Ég er mjög sorgmædd yfir þessari þróun.“

Frá því Hugarafl var stofnað hefur þjónusta þess aukist jafnt og þétt og til GET og Hugarafls leituðu ríflega 1.000 manns árlega. En nú hefur GET sem sagt verið lokað. „Við höfum sýnt fram á gríðarlegan árangur,“ segir Auður.

„Við höfum líka unnið mikið með fjölskyldum og þar er jú að finna dýrmætasta baklandið. Starf Hugarafls og GET-teymisins var mjög ódýrt úrræði, sennilega það ódýrasta á landinu en það er samt lagt niður. Teymið kostaði 56 milljónir á ári og það hefur enginn getað rökstutt fyrir mér að leggja þurfi niður starf sem sinnti svo mörgum og er svo ódýrt en stofnuð séu í staðinn teymi sem kosta um 200 milljónir hvert innan heilsugæslunnar.

Nálgunin er önnur, ekki opin þjónusta, mun ekki líkjast þeirri samfélagslegu geðþjónustu sem við höfum sinnt og fylgir að mínu mati ekki nútímastefnumótun. Mér virðist áherslan býsna sjúkdómsmiðuð og í raun til að létta á starfsemi Landspítalans. Hér er verið að taka fjármagn úr úrræði sem stuðlaði að samfélagsþátttöku og bata og færa það yfir í úrræði sem byggir á sjúkdómsmiðaðri nálgun.

Hingað kom skýrsluhöfundur geðheilbrigðismála innan Sameinuðu þjóðanna og skilaði skýrslu í júní 2017. Dainius Puras kom í upphafi ársins og hitti m.a. aðila í velferðarnefnd þingsins og kom við hjá okkur. Hann sagði að ekki mætti leggja þetta niður því við værum að gera nákvæmlega það sem ætti að gera, þ.e. úrræði sem er opið, byggt á forsendum þeirra sem leita þjónustunnar, notendaþekking væri nýtt í starfinu öllu og stuðlað að bata og valdeflingu.

Hér er verið að taka fjármagn úr úrræði sem stuðlaði að samfélagsþátttöku og bata og færa það yfir í úrræði sem byggir á sjúkdómsmiðaðri nálgun.

Það er líka skrýtið að leggja niður starf sem algjörlega er byggt á þeirri stefnumótun sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO leggur áherslu á. Hér á landi höfum við ekki verið neitt sérstaklega dugleg í stefnumótun í heilbrigðismálum en árið 2016 var gefin út stefna í geðheilbrigðismálum og hún byggir einmitt á þeim hugtökum sem við höfum að leiðarljósi. Því tel ég heilbrigðisráðuneytið og ráðherra fara á móti stefnu Alþingis þegar lagt er niður mikilvægt starf sem vinnur nákvæmlega samkvæmt henni. Leitað var til mín þegar mótun stefnunnar fór fram en okkar starf var m.a. notað sem fyrirmynd stefnunnar.“

Vildi opna umræðu um lyfjanotkun

Í tvö ár hefur Hugarafl barist fyrir því að koma í veg fyrir að þessi samfélagslega geðheilbrigðisþjónusta sem GET veitti yrði lögð niður. „Við höfum vakið athygli á málinu í fjölmiðlum, verið með sýnilega viðburði og notendur og aðstandendur þeirra hafa látið í sér heyra,“ segir Auður.

„Fjöldinn allur af fólki sem náð hefur bata hefur tjáð sig um hann og kynnt hvernig það hefur komist út í samfélagið á ný til virkrar þátttöku. GET og Hugarafl hafa komið í veg fyrir að stór hópur manna fari á örorku og margborgað til baka það fjármagn sem til þeirra rann árlega. Hugarafl er einnig vinsælasta úrræðið meðal ungs fólks í dag því það sér að þetta nýtist því og stýrir út í lífið á ný. Hjá okkur eru um fimmtíu ungmenni í virkri þjónustu. Þau dvelja hjá okkur þar til batinn næst og þau geta farið aftur í skóla eða vinnu.“

Auður Axelsdóttir vill persónulega nálgun í geðheilbrigðismálum. Mynd / Hallur Karlsson

Hún segir að ekki hafi enn fengist rökstuðningur fyrir þessari ákvörðun. „Þegar við komum fyrir velferðarnefnd fundum við að rökstuðningur okkar var mun málefnalegri en embættismanna ráðuneytisins. Heilbrigðisráðuneytið bar fátt fram á móti svo við álitum okkur hafa komið vel út úr þessu. Allan tímann höfum við haft mikinn stuðning í þinginu og héldum að þetta hlyti að bjargast en allt kom fyrir ekki. Margt er því þarna mjög skrýtið. Engin rök að finna og eins og heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að hlusta hvorki á mig né aðra Hugaraflsmenn. Ég hef mætt kuldalegu viðmóti sem ég hef aldrei upplifað áður hjá ráðuneytinu og furðulega hefur verið komið fram við mig sem manneskju í þessu ferli.“

Hún, sem ríkisstarfsmaður innan heilsugæslunnar í starfi sínu sem forstöðumaður GET, gat í raun ekki fengið skýringar þegar heilsugæslan ákvað að leggja niður hennar starf og þá þjónustu sem hún var frumkvöðull að án röksemdafærslu.

„Það virðist vera bein lína milli ráðherrans og heilsugæslunnar og ég hafði afar veika rödd í ferlinu og enginn gætti míns réttar eða skjólstæðinga þjónustunnar. Mér finnst þetta undarleg stjórnsýsla. Ég maldaði auðvitað í móinn og vildi fá samræðu og rök en framkoma þessara aðila byggði einna helst á þöggun. Ég vil ítreka að fjöldi einstaklinga sem voru í sínu bataferli hjá okkur hafa misst þjónustu og réttindi þeirra hafa ekki verið varin.“

Ég hef mætt kuldalegu viðmóti sem ég hef aldrei upplifað áður hjá ráðuneytinu og furðulega hefur verið komið fram við mig sem manneskju í þessu ferli.

Stendur með fólki með geðraskanir

Auður ákvað að sætta sig ekki við þetta en forseti Íslands var nýbúinn að sæma hana Fálkaorðunni þegar ákveðið var að leggja starf hennar niður fyrirvaralaust. „Mitt mál sendi ég til umboðsmanns Alþingis,“ segir hún.

„Niðurstaðan mun svo sem ekki skipta mestu máli en mér fannst það grundvallaratriði að Alþingi vissi hvernig komið er fram við fólk og það af ríkisstofnunum. Ég er brautryðjandi og vann allan sólarhringinn til að koma Hugarafli og GET á laggirnar. Þegar úrræðið hefur sannað sig er þessi stefna tekin. Ég veit ekki hvað veldur. Ef við tökum stóru myndina vill kerfið ekki láta ýta við sér. Ég er ein af þeim sem hef valið að standa með fólki með geðraskanir í einu og öllu og líka viljað hafa eðlilegt upplýsingaflæði um alla meðferð, m.a. geðlyfin. Við notum of mikið af geðlyfjum á Íslandi og of lengi. Við ættum að nýta aðrar aðferðir til að byrja með, gefa tíma og nánd og efla þannig möguleika á að hægt sé að komast í gegnum tilfinningalegt uppnám án lyfja.

Mér hefur þótt nauðsynlegt að hafa opna umræðu um lyfjanotkun og ýmiss konar meðferð almennt. Það eru ekki allir ánægðir með það. Ég hef líka talað fyrir persónulegri nálgun og sumum finnst það ekki smart. En það er ekki réttlætanlegt að leggja niður starfsemi vegna þess að forstöðumaður tjái sig opinberlega eða hafi skoðanir.

Við notum of mikið af geðlyfjum á Íslandi og of lengi.

Hvert erum við þá komin sem samfélag? Erum við á móti mennskunni? Auk alls þessa hef ég orðið fyrir rógburði. Lítil grúppa fagmanna sem hafði áhuga á að ýta okkur út, bæði mér og Hugarafli, vann markvisst að því. Það var meira að segja farið inn á minn vinnustað til að rógbera mig. Ég lít það mjög alvarlegum augum ef embættismenn hlusta á slíkt. Eins er óverjandi að forsvarsmenn annarra stofnana, úrræða eða félagasamtaka gangi svo langt að bera út róg um aðra er sinna sama hópi. Ég hef alltaf litið svo á að illmælgi segi meira um þann sem notar hana en hinn sem um er rætt. Hún er alltaf sprottin af einhverjum rótum sem gera hana ekki trúverðuga. Ég held í raun að öll trixin í bókinni hafi verið notuð í þessu ferli. Einn góður vinur minn kallar þetta hágæðaatgerviseinelti.“

Auður bætir því við að ef henni hefði verið gerð grein fyrir að nú væri tímabært að heilsugæslan leitaði nýrra leiða og veldi annan farveg hefði hún verið opin fyrir umræðu um hann. „Það var ekki gert,“ segir hún. „Mér var bara tilkynnt að svona yrði þetta. Þarna loka menn augunum fyrir árangri, orðspori, óskum notenda og aðstandenda. Starf okkar hefur verið óhefðbundið og fólk velur þetta úrræði sjálft og það stendur einnig fjölskyldunni til boða. Allt annað upphaf að bata er að geta valið eigin leið en þegar einhver segir þér að þú eigir að gera svona eða hinsegin. Við tókum einnig á bráðavanda og unnum þá gjarnan heima með fjölskyldunni. Það er lykilatriði að strax í upphafi sé hlustað á forsendur einstaklingsins og litið á veikindin sem tímabundin.“

Reynt að komast hjá innlögn

Þegar um andlega veika einstaklinga er að ræða er oft mikil togstreita í gangi bæði milli hans og fjölskyldunnar og innan hennar. „Það eru svo þung skref að þurfa að fara út og leita sér hjálpar hjá stofnun,“ segir Auður.

„Núna er ég í námi í fjölskyldumeðferð „Open Dialog“ sem ég hef lengi horft mikið til og byggir á að vinna með einstaklinga í geðrofi og fjölskyldu þeirra. Þá er allt tengslanetið kallað saman og tveir fagmenn bera ábyrgð á samtalinu sem fer í gang. Finnar gera þetta þannig að samtalið getur átt sér stað einu sinni á dag sé þörf á meðan geðrofið er að ganga yfir.

Fjölskyldan fær upplýsingar og stuðning til að halda þetta út og sá veiki er með í öllu ferlinu og engin ákvörðun tekin á bak við tjöldin. Fyrsta stefnan er að komast hjá innlögn og lyfjagjöf en ef ekki er hjá henni komist er innlögn eins stutt og hægt er og lyfin notuð eins lítið og hægt er. Finnar hafa náð þeim árangri að 82% þeirra einstaklinga sem fara í gegnum þessa meðferð fá bata. Það er ekkert smáræði. En þá er líka unnið út frá því að geðrof sé eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi. Þá er ekki verið að sjúkdómsgera tilfinningar.“

Stofnanakerfi hamlandi

En hver er bakgrunnur þinn og hvernig var Hugarafl til? „Ég útskrifaðist sem iðjuþjálfi frá Ergoterapeutskolen árið 1994,“ segir Auður, „og gekk beint inn á geðsvið Landspítalans. Að mínu mati var ómetanleg reynsla að fá að vinna á bráðageðsviði. Læra á hvað það þýðir að vera bráðveikur og líka hvernig þjónustan var. Eftir á að hyggja er ég mjög þakklát fyrir þetta tímabil.

En það truflaði mig alltaf að stofnanakerfi er í sjálfu sér svolítið hamlandi bæði fyrir fagmanninn og notandann. Ég fann á þessum árum hvað það var sem mér líkaði ekki og ramminn var fyrirstaða gagnvart þeirri nálgun sem mig langaði til að iðka. Kerfið lokaði á mennskuna. Sem fagmaður á bráðasjúkrahúsi veit maður lítið hvað verður um fólk og hvað gerist í samfélaginu þegar kemur að útskrift.

Ég vann á Hvíta bandinu þegar ég kynntist batamódelinu Pace sem ég er að vinna eftir í dag og er eftir Daniel Fisher geðlækni, M.D., PhD, og Laurie Ahern. Rauði þráðurinn í módelinu er að að bati er mögulegur fyrir alla og valdefling ein af forsendunum. Pace byggir fyrst og fremst á persónulegri þjónustu og áherslan er á daglegt líf í samfélaginu en ekki inni á stofnunum. Við Fisher höfum starfað náið saman síðan 2005 og hans hugmyndir eru vel kynntar í íslensku samfélagi. Hefðbundin meðferð byggir hins vegar meira á „viðhaldi“ en bata og því getur það ögrað fagfólki að starfa samkvæmt batahugmyndafræði sem byggir á jafningjagrunni.“

Fimmmenningarnir sem stofnuðu Hugarafl höfðu allir svipaðar skoðanir á geðheilbrigðismálum og vildu breyta þeirri þjónustu sem var í boði. „Við vorum einn fagmaður og fjórir með reynslu af því að notfæra sér aðstoð geðheilbrigðiskerfisins. Ein af fyrstu reglunum sem við settum okkur var einmitt að allir ættu að vera jafningjar. Við vorum svona að spekúlera hvernig við gætum nýtt okkar reynslu og annarra sem hafa þurft á þjónustu að halda og hvað það væri sem okkur líkaði ekki við í kerfinu og hverju við gætum breytt. Við ákváðum þarna að valdefling yrði okkar verkfæri, sömuleiðis batanálgunin og við vildum auka réttindi sjúklinga.“

Völdin tekin af fólki

Þú viðurkennir að þú hafir fljótt fundið að þér líkaði ekki alls kostar við þær aðferðir sem notaðar voru inni á stofnunum. Var það vegna þess að þér fannst stofnanir ekki færar um að veita einstaklingum þjónustu eða var það andrúmsloft er þar skapaðist á einhvern hátt til að hefta batann?

„Völdin eru tekin af fólki þegar það fer inn á stofnun og þegar fólk er að glíma við geðrænan vanda eða tilfinningalega vanlíðan er svo stutt í að menn missi völd og sjálfstjórn. Stofnanarammi getur illa lagað sig að forsendum einstaklingsins. Hann verður að laga sig að einhvers konar kerfi og innan hans er valdaójafnvægi ríkjandi. Einstaklingurinn fær eitthvert tilboð og hann verður bara að taka því eða missa þjónustuna. Valmöguleikar eru ekki margir.

Stofnanakerfið byggir einnig á sjúkdómsgreiningum og nálgunin þannig að manneskjan verður að passa inn í kassann en ekki öfugt. Við notum mikið af lyfjum á Íslandi og forðumst umræðuna um gagnsemi þeirra. Við notum 43% meira af lyfjum en t.d. Norðmenn en örorkuþegar eru mun fleiri á Íslandi. Á þeim tíma er ég vann innan kerfisins sá ég að ég mátti ekki vera persónuleg, mátti ekki nálgast um of. Ef manneskja var í geðrofi átti ég ekki að skipta mér af því og fleiri svona mýtur sem ég er löngu búin að henda.“

Góðir möguleikar á að ná bata

Hvernig fór svo starfsemin fram þegar Hugarafl var komið á laggirnar?

„Á sama tíma og hópurinn varð til fór ég með hugmynd að samfélagsþjónustu fyrir þáverandi samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fékk hana samþykkta á einu sumri. Það myndi ekki gerast í dag. Heilsugæslan kom að borðinu og óskaði eftir að fá eftirfylgdina til sín og ég samþykkti það. Ég var hvött til þess og það þótti öruggt að heilsugæslan yrði gott bakland fyrir þetta frumkvæði að samfélagslegri geðþjónustu. Því miður, segi ég í dag, því aldrei varð ég vör við baklandið og heilsugæslan ákvað að leggja þjónustu GET niður, hirða fjármagnið sem fylgdi verkefninu og þar með komst starfsemi Hugarafls í uppnám.“ Hún segir að Hugarafl hafi hins vegar ákveðið að gefast ekki upp og baráttan skilaði loks árangri því skrifað hafi verið undir samning við velferðarráðuneytið og vinnumálastofnun.

„Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra sýnir þar með að hann hlustaði á raddir fólks af öllu landinu sem sótt hafði þjónustu til GET og Hugarafls og náð bata. Einnig var hlustað á rödd fjölda þingmanna sem vildu að þessi þjónusta héldi áfram.  Vinnumálastofnun sér einnig gildi opinnar endurhæfingar með valdeflingu að leiðarljósi og Gissuri Péturssyni var falin samningagerð við Hugarafl og tókst afar vel úr hendi.“

Auður segir að baráttan fyrir GET sé hins vegar eftir, en hún muni áfram berjast fyrir samfélagslegri geðþjónustu sem byggir á forsendum notandans/fjölskyldunnar og ýtir undir bata en ekki stofnana nálgun.

„Þegar við lögðum af stað árið 2003 var ekki oft talað um bata og valdefling er tiltölulega nýtt hugtak í okkar samfélagi. En samfélagið var tilbúið og vildi breytingar í geðheilbrigðiskerfinu. Okkur var tekið opnum örmum margra hluta vegna og það var farvegur fyrir nýja nálgun. Við boðuðum til borgarafundar og þá höfðum við ekki einu sinni starfað í þrjá mánuði og þangað mættu þrjú hundruð manns. Sveiflan í þjóðfélaginu var jákvæð gagnvart nýrri nálgun,“ segir hún og bætir við að hún sé bjartsýn á að pendúllinn muni aftur sveiflast til baka.

Myndir / Hallur Karlsson

Upplifir spennuna og gleðina í gegnum dóttur sína

Tara Brynjarsdóttir starfar sem kennari í Laugalækjarskóla, þar sem hún kennir meðal annars heimilisfræði. Eitt af helstu áhugamálum Töru er að dunda sér í eldhúsinu, sérstaklega með dóttur sinni. Þar eiga þær mæðgur margar af sínum bestu gæðastundum.

Ertu mikið jólabarn? Á fyrri tíð var ég ekki mikið jólabarn en eftir að ég varð móðir upplifi ég spennuna og gleðina í gegnum stelpuna mína.

Ertu með einhverjar hefðir sem þér þykja ómissandi á aðventunni? Já, við vinkonurnar hittumst alltaf og bökum sörur sem er orðin ómissandi hefð fyrir jólin. Svo reynum við fjölskyldan að fara á eina jólatónleika.

Hvað ætlar þú að baka fyrir jólin? Ég baka alltaf sörur, súkkulaðibitakökur og lakkrístoppa, og piparkökur með stelpunni minni sem við skreytum saman.

Hver sér um eldamennskuna á jólunum? Ég myndi segja að ég sjái almennt um eldamennskuna á mínu heimili. Við mæðgur eigum einnig miklar gæðastundir í eldhúsinu og eldum og bökum mikið saman.

Hvað er ómissandi að þínu mati um jólin? Samveran með fjölskyldunni og vinum, spilakvöldin, baksturinn og rólegheitin í kringum hátíðirnar.

Frönsk súkkulaðikaka með karamellu og vanillusmjörkremi

„Ég var orðin þreytt á að baka þessa klassísku súkkulaðiköku og ákvað að prófa mig áfram og út kom þessi súkkulaðikaramellubomba sem slær alltaf í gegn. Súkkulaðitrén eru bráðið suðusúkkulaði sem ég sprautaði á bökunarpappír og kældi áður en ég skreytti kökuna. Það er ótrúlega gaman að leika sér með súkkulaði og alls ekki jafnflókið og maður heldur. Mæli með því að prófa.“

Eitt af helstu áhugamálum Töru er að dunda sér í eldhúsinu.

Botn

200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
4 egg
2 dl sykur
1 dl hveiti

Bræðið smjör og suðusúkkulaði á lágum hita, á meðan hrærið eggin og sykurinn á hæsta hraða þar til blandan er orðin létt og ljósgul. Bætið hveitinu rólega saman við ásamt súkkulaðinu og smjörinu. Bakið við 180°C, undir- og yfirhita, í 30 mínútur. Ég gerði tvöfalda uppskrift til að kakan yrði hærri.

Krem

250 g smjör
250 g smjörlíki
500 g flórsykur
1 msk. síróp
1-2 msk vanillusykur

Hrærið saman smjör, smjörlíki og síróp. Þegar það er orðið vel þeytt bætið þá flórsykrinum og vanillusykrinum út í. Ef smjörið og smjörlíkið er mjög kalt er gott að nota ostaskera til að skera það niður í þunnar sneiðar og þá tekur það styttri tíma að hrærast og hrærivélin ræður betur við það. Því lengur sem þið hrærið smjörið því ljósara verður kremið.

Karamella

1 poki bræddar ljósar karamellur

Ég er ekki mikið fyrir að flækja hlutina og bræði einfaldlega karamellurnar (Töggur) eða kaupi heita karamelluíssósu sem ég set á milli botnanna.

Myndir / Hallur Karlsson

Engar ómissandi jólahefðir

Bjartur Guðmundsson leikari segir frá jólunum sínum.

Hvernig verða jólin þín í ár? Þetta árið verða þau haldin heima í Garðabænum í faðmi kjarnafjölskyldunnar, kannski bætast einhverjar góðar sálir við hópinn, sjáum til. Þetta er í fyrsta skiptið sem við höldum jólin hér og ég hlakka mikið til. Við ætlum að hafa kalkún eftir uppskrift frá ömmu konunnar minnar en það er hefð sem er að festa sig í sessi. Sjálfur er ég sífellt að hallast meira í áttina að grænmetisfæði svo ég á eftir að finna eitthvert tvist á þetta sem mætir báðum pólum.

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? Já, nokkrar hefðir en ekkert sem er alveg ómissandi. Þetta helsta er sörubakstur, laufabrauð, svo erum við með þann háttinn á að hengja litlar gjafir á dagatal og telja þannig niður dagana fram að jólum. Það fá samt ekki allir gjöf alla dagana heldur fær bara einn fjölskyldumeðlimur gjöf á degi hverjum.

Hvað er efst á óskalistanum þínum? Ég er svo heppinn að eiga eiginlega allt sem ég þarf. Ég er líka þannig að ég þarf frekar lítið til að vera ánægður. Það er þó eitt apparat sem mig langar í þessa dagana og heitir MUSE. Þetta er tæki sem hjálpar fólki að ná tökum á hugleiðslu með því að mæla heilabylgjur og lætur vita þegar maður kemst í öflugt hugar- og tilfinningaástand. Þannig getur maður áttað sig á hvaða hugsanir virka best.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Þær eru margar, en þegar ég var 19 ára sagði ég systur minni að ég saknaði þess að fá eitthvað sem hefði ekkert annað notagildi en að leika sér með. Hún brá á það ráð að gefa mér pínulítinn fjarstýrðan bíl sem ég var himinlifandi yfir. Bíllinn var svo lítill að mér datt í hug að nota hann til að hrekkja mömmu og varði megninu af aðfangadagskvöldi við að sauma músabúning sem ég klæddi bílinn í.

Eins og góðri húsmóður sæmir þá rauk mamma af stað fussandi og sveiandi til að taka upp ruslið og þá kom músabíllinn æðandi í áttina að henni.

Svo plantaði ég bílamúsinni inn í eldhús og setti haug af mandarínuberki á gólfið nálægt músinni. Eins og góðri húsmóður sæmir þá rauk mamma af stað fussandi og sveiandi til að taka upp ruslið og þá kom músabíllinn æðandi í áttina að henni. Útkoman var eftirminnilegt öskur og eltingaleikur sem ætlaði engan enda að taka. Það var ekki fyrr en hún var orðin steinhissa á hugrekki músarinnar að hún tók eftir mér með fjarstýringuna í hláturskrampa og áttaði sig á hvað var í gangi.

Besta jólalag allra tíma? Upphaflega útgáfan af We Are the World. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á það. Boðskapurinn er fallegur og stemningin í laginu er kraftmikil.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Í útlöndum þessi jólin

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður hjá RÚV, sendi frá sér nýja matreiðslubók fyrir jólin sem heitir Hvað er í matinn? Þar reynir hún að svara sennilega einhverri algengustu spurningu á hverju heimili.

„Flestir svara oftast „bara eitthvað gott“ en vantar hugmyndir. Í bókinni gef ég uppskriftir fyrir alla daga vikunnar í níu vikur,“ segir Jóhanna Vigdís. „Mér þykir vænt um þessa bók, ég gekk með hana í tíu ár og lagði hug minn og hjarta í hana.“

Hún hefur haft áhuga á matargerð frá því hún man eftir sér. „Áhugann fékk ég fyrst frá mömmu og svo í gegnum þá sem á vegi mínum hafa orðið og líka hafa áhuga á matargerð.“

Stendur allan daginn í eldhúsinu

Jóhanna er fasheldin á margt á aðventu og finnst til dæmis ómissandi þáttur er að skrifa jólakortin. „Ég sendi afar mörg og læt hugann reika til þeirra sem ég skrifa hverju sinni. Svo er aðventan tími samveru – hún er best og mikilvægust.

Aðfangadagur snýst um matargerð hjá mér, ég er allan daginn í eldhúsinu og það finnst mér gera daginn fyrir mig. Á Þorláksmessu förum við alltaf út að borða á Ítalíu á Laugaveginum með systur minni og hennar fjölskyldu en það er hefð frá 1996 og er ómissandi. Þessi jól eru öðruvísi því ég er með mína fjölskyldu í útlöndum núna. Við fögnum stórafmæli mannsins míns og gerum það saman en verðum með hugann hjá fólkinu heima,“ segir Jóhanna.

Aðfangadagur snýst um matargerð hjá mér, ég er allan daginn í eldhúsinu og það finnst mér gera daginn fyrir mig.

Þegar þau bjuggu í Sviss byrjuðu þau að hafa kalkún á aðfangadag og halda í þá hefð. „Ég geri fyllingu, steiki mitt rauðkál og geri þær sósur sem hver og einn vill. Tengdasonur okkar tilvonandi er kokkur og hann hefur síðustu ár galdrað fram dásamlegan forrétt, humar-risotto, sem hefur slegið í gegn. Í eftirrétt erum við með heimatilbúinn ís með möndlu í, mjög skemmtilegt.“

Fjölga samverustundum

Jóhann sér bara fallegt í kringum nýja árið 2019. „Ég fer inn í það með fyrirheit um að gera betur, hlúa að fólkinu mínu og fjölga samverustundum. Þær eru þegar öllu er á botninn hvolft það sem skiptir öllu máli. Að vera góð hvert við annað. Ég hef líka metnað í vinnunni,  að gera betur í dag en í gær og efla hag fréttastofunnar. Vinna saman að því markmiði sem við reynum alla daga – að gera góða blaðamennsku enn betri, segja frá og koma því til lesenda, hlustenda og áhorfenda svo sómi sé að. Nýta sóknarfærin alltaf,“ segir Jóhanna að lokum.

Eftirlæti Andrews Lloyd Webber

Andrew Lloyd Webber heyrði Garðar Thór Cortes syngja í fyrsta sinn fyrir rúmum þremur árum og bókaði hann á staðnum til að fara með hlutverk Óperudraugsins í Love Never Dies. Garðar prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun.

Garðar Thór Cortes hefur ekki verið mikið í fréttum á Íslandi undanfarin ár en það þýðir þó engan veginn að hann hafi setið auðum höndum. Hann hefur verið að syngja aðalhlutverkið í söngleik Andrews Lloyd Webber, Love Never Dies, víða um Evrópu og túrað með söngleiknum um Bandaríkin.

Og það sem meira er, Lloyd Webber handvaldi hann sjálfur í hlutverkið. Nú er Garðar Thór kominn heim, búinn að kaupa hús í Vesturbænum og mun syngja hlutvek Alfredos í uppfærslu Íslensku óperunnar á La Traviata í vor.

Ef maður er búinn að bóka sig í eitthvað þá á maður að standa við það.

Garðar Thór viðurkennir að það hafi verið mikill heiður fyrir hann að þurfa ekki að mæta í neinar prufur heldur vera valinn af höfundinum. Hann verður meira að segja hálffeiminn þegar hann ljóstrar því upp að Andrew Lloyd Webber hafi sagt að ekki væri til betri Óperudraugur en Garðar Thór.

„Ég veit ekki hvort það er rétt hjá honum,“ segir hann. „En það er vissulega gaman að fá þessa umsögn frá honum sjálfum. Það var svo hringt í mig og ég beðinn um að koma fram á sýningu þar sem sett eru saman atriði úr öllum söngleikjum Lloyd Webbers í tilefni af því að sjálfsævisaga hans er að koma út. En þá var ég búinn að bóka mig hjá Friðriki Ómari til að syngja með honum á jólatónleikunum hans hérna heima svo ég neitaði.

Ég hefði svo sem getað sagt við Friðrik Ómar að Andrew Lloyd Webber vildi fá mig á sama tíma, en ég er bara ekki þannig manneskja. Ef maður er búinn að bóka sig í eitthvað þá á maður að standa við það,“ segir Garðar Thór.

Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlífi á morgun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sjarmerandi illvirki og ógeð

|
|

Borgarleikhúsið frumsýnir Ríkharð III eftir Shakespeare laugardaginn 29. desember og fer Hjörtur Jóhann Jónsson með hlutverk hans en um er að ræða eitt stærsta karlhlutverk leiklistarsögunnar.

„Ég hef aldrei áður fengist við svona stórt hlutverk,“ segir Hjörtur Jóhann, „enda eru fá hlutverk svona stór. Ég þarf svolítið á öllu mínu að halda. Maður reynir að nálgast þetta af öllum sínum lífs- og sálarkröftum.“

Talið er að Shakespeare hafi skrifað verkið Ríkharð III í kringum 1593 sem verður frumsýnt 29. desember í Borgarleikhúsinu í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur. Hjörtur Jóhann Jónsson fer með hlutverk Ríkharðs III sem er eitt stærsta karlhlutverk leiklistarsögunnar. Um er að ræða nýja þýðingu Kristjáns Þórðar Hrafnssonar.

„Ég hef aldrei áður fengist við svona stórt hlutverk,“ segir Hjörtur Jóhann, „enda eru fá hlutverk svona stór. Ég þarf svolítið á öllu mínu að halda. Maður reynir að nálgast þetta af öllum sínum lífs- og sálarkröftum. Ég þurfti að kynna mér bragarháttinn sérstaklega mikið og sömuleiðis fór ég í líkamlega vinnu sem tengist fötlun Ríkharðs III – ég þarf að hafa styrk til að bera til að ég meiði mig ekki og svo er Ríkharður með kryppu.

Ég þurfti að kynna mér bragarháttinn sérstaklega mikið og sömuleiðis fór ég í líkamlega vinnu sem tengist fötlun Ríkharðs III.

Ég las mikið um Shakespeare, Ríkharð sjálfan, fræðirit og fleira og nálgaðist þetta úr öllum áttum. Ég hef gert mikið af radd- og öndunaræfingum en Shakespeare-textar eru oft með sérlega löngum setningum. Það er til dæmis ein setning í fyrstu ræðunni sem er 14 línur. Það væri fáránlegt að flytja hana alla án þess að anda að sér en hugsunin þarf þó að vera þannig og þá er öndunin hluti af því.“

Spennandi, skemmtileg og krefjandi

Ríkharður III er að sögn Hjartar Jóhanns eitt frægasta illmenni leikbókmenntanna. „Hann er rosalega mikill dólgur og grimmdarseggur. Í verkinu er hann kallaður villigöltur, sóðasvín og afskræmdur fyrirburi og alls konar viðbjóður sagður um hann. En hann hefur á sama tíma einhvern sjarma og aðdráttarafl og hann hefur oft á tíðum mikinn húmor og glettni. Hann er brjálæðislega klár og hefur mikinn drifkraft og vilja. Hann setur sér markmið og svo eirir hann engu þangað til hann hefur náð þeim markmiðum.

Hann er rosalega mikill dólgur og grimmdarseggur.

„Ég finn að maður lærir svo ótrúlega margt af því að takast á við svona safaríkt hlutverk.“ Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Það sem gerir hann skemmtilegan er að þó að hann sé svikahundur þá segir hann í upphafi allt sem hann ætlar að gera. Hann er fullkomlega hreinskilinn við áhorfendur. Hann segist ætla að verða versti þrjótur allra tíma, ráðgera hitt og þetta og kvænast ákveðinni konu. Þetta er eitthvert afdráttarleysi sem er heillandi. Það er eitthvert afl í honum og orka sem dregur fólk að honum.“

Það er gaman að koma að verkefnum þar sem maður hugsar … hvernig í ósköpunum á maður að gera þetta?

Hjörtur Jóhann segir að þetta hlutverk skipti hann miklu máli af því að sér finnst það vera svo spennandi, skemmtilegt og krefjandi. „Ég finn að maður lærir svo ótrúlega margt af því að takast á við svona safaríkt hlutverk. Það er líka búið að vera yndislegt að vinna með Brynhildi leikstjóra. Manni finnst maður stækka um nokkur númer við að takast á við svona. Það er gaman að koma að verkefnum þar sem maður hugsar … hvernig í ósköpunum á maður að gera þetta? og finna svo leiðina. Það er það sem stækkar mann – bæði í vinnunni og lífinu.“

Allt litrófið

Hjörtur Jóhann segir að honum finnist almennt vera gaman að gera sem ólíkustu hluti þegar kemur að hlutverkum.

„Mér finnst gaman að prófa allt litrófið. Ég veit að ég er voðalega orkumikill; stundum um of. Ég er oft beðinn um að draga úr mér sem mér finnst fínt. Mér finnst gaman að gera of mikið og þá er hægt að draga úr. Maður prófar til dæmis ýmislegt í æfingaferlinu og það er skemmtilegt að lita með stórum sveiflum og prófa alla litina í kassanum. Þá er alltaf hægt að pilla úr.“

Hjörtur Jóhann hefur vakið athygli bæði í uppsetningum leikhússins og víðar. Hann fer með hlutverk í Ellý, í kvikmyndinni Lof mér að falla og í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátunni. Þá leikur hann einnig í Ófærð og í Héraðinu, nýrri mynd Gríms Hákonarsonar.

Hann er spurður hvað leiklist sé í huga sínum. „Samtal. Samtal við áhorfendur, við samfélagið, við söguna, listina, lífið og dauðann.“

Aðalmynd/ Sigurjón Ragnar
Texti / Svava Jónsdóttir

 

 

 

 

Kennarar smánaðir á samfélagsmiðlum

Nemendur deila myndum af kennurum í afkáralegum stellingum.

Fátt hefur fengið viðlíka athygli í fjölmiðlum og þjóðfélagsumræðunni en Klaustursmálið svokallaða. Fyrir utan sjokkið við að heyra ógeðfeld samtölin á milli þingmannanna á upptökunum sem um ræðir þá hefur málið vakið upp margar spurningar í kjölfarið. Ein þeirra er hvenær má og hvenær má ekki hljóðrita opinberar persónur?  Þá má einnig velta því fyrir sér hversu algengt það er yfirhöfuð að fólk noti snjalltæki sín til þess að hljóðrita eða festa á mynd annað fólk án samþykkis og deila efninu jafnvel áfram á samfélagsmiðlum.

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, segir í samtali við Mannlíf að umræða á milli kennara í grunn- og framhaldsskólum snúist í auknum mæli um einmitt þetta.

„Það hefur ekki komið neitt ákveðið mál mér vitandi hér innanhúss hjá okkur í Verzlunarskólanum. Maður heyrir það almennt í umræðunni bæði í grunn- og framhaldsskólum að nemendur séu oft að taka t.d. myndir af kennara, þar sem hann er í afkáralegri stellingu og verið að senda áfram á samfélagsmiðlum. Ég gef mér það að þetta gerist hér eins og annars staðar,“ segir hann og tekur fram að hann hafi heyrt frá forystu Kennarasambandsins að þetta sé vaxandi vandamál.

Maður heyrir það almennt í umræðunni bæði í grunn- og framhaldsskólum að nemendur séu oft að taka t.d. myndir af kennara, þar sem hann er í afkáralegri stellingu og verið að senda áfram á samfélagsmiðlum.

Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, tekur undir með Inga. Hún staðfestir í samtali við Mannlíf að sambandið hafi fengið inn á borð til sín mál þar sem myndum af kennurum í vandræðalegum aðstæðum hafi verið deilt á samskiptamiðlum t.d. Twitter og Instagram.

„Við höfum fengið mál þar sem teknar hafa verið myndir af rassi kennara eða þar sem kennarar eru sýnilega sveittir undir höndum og fleira í þeim dúr,“ segir Anna María og bætir við að síðan séu myndirnar merktar með vandræðalegum upphrópunum á samskiptaforritum.

„Óneitanlega eru vandamál sem þessu fylgir, einnig eru nemendur einfaldlega of mikið í símunum og eru að nota þá í kennslustundum m.a. til að senda á milli sín myndir og annað slíkt,“ segir hún og tekur fram að hún sé framhaldsskólakennari og tali út frá sínum veruleika.

Anna María segir að ekki séu nein samræmd viðurlög eða verklagsreglur um það hvernig eigi að takast á við þetta vandamál en bendir á að kennarar séu með ákveðnar siðareglur þar sem tekið er á rafrænum samskiptum og þær gætu átt við í þessu samhengi. Hún tekur einnig fram að opinber myndbirting af einstaklingum án þeirra samþykkis geti stangast á við lög, sér í lagi ef um er að ræða ólögráða einstaklinga og að vandamálið sé mikið rætt innan kennarastéttarinnar.

„Ég hef líka setið í stjórn norrænu kennarasamtakanna þar sem þessi mál hafa verið rædd en þetta er fyrst og fremst á umræðustigi enn sem komið er,“ segir hún.

Snillingur að taka sig til á stuttum tíma

Hulda Vigdísardóttir vinnur á auglýsingastofunni Pipar/TBWA en hefur jafnframt starfað sem fyrirsæta í rúm sex ár, hér heima og erlendis. Hún þýddi einnig bókina Hnotubrjóturinn og músakóngurinn eftir E.T.A. Hoffmann sem nýlega kom út í fyrsta sinn í íslenskri þýðingu. Myndskreytingar í bókinni eru eftir listakonuna Margréti Reykdal. Hulda leyfði okkar að kíkja aðeins í fataskápinn sinn.

„Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tungumálum og málvísindum en fyrir tveimur árum lauk ég M.A.-prófi í íslenskri málfræði. Eins hef ég gaman af ljósmyndun, skapandi skrifum og þýðingum. Ég myndi segja að fatastíllinn minn sé frekar afslappaður þótt mér finnist á sama tíma skemmtilegt að skera mig úr og koma fólki á óvart. Góð vinkona mín sagði eitt sinn að ég væri „snillingur í að taka mig til á stuttum tíma“ og ætli það sé ekki bara ágætis lýsing á mínum persónulega stíl. Hverju ég klæðist, veltur ansi mikið á hvernig skapi ég er í þá stundina en yfirleitt er ég þó með eitthvert skart á mér líka. Ég gæti verið í hettupeysu og gallabuxum í dag en síðkjól og pels á morgun. Sú flík sem hefur mesta tilfinningagildið er sennilega bleik ullarpeysa sem amma átti. Hún er ákaflega hlý fyrir kuldaskræfu eins og mig.“

Að hennar mati ættu allar konur að eiga fallegar látlausar og vandaðar svartar buxur sem ganga við öll tilefni. Síðan komi sér líka vel að eiga hlutlausa boli og flotta klúta í lit sem passa við allt.

„Nýjustu kaupin í fataskápnum mínum er rósbleikur Stadium-jakki, svartur Trefoil-kjóll og bleikar Adibreak Tracsuit-buxur sem ég fékk á adidas.is. Ég er eiginlega búin að vera skotin í Adidas síðan ég var átta ára og fékk fyrsta alvöruíþróttagallann minn en á meðan flestar stelpurnar í bekknum völdu sér Nike-galla vildi ég ekki sjá annað en línurnar þrjár. Ég á meira að segja jakkann enn og nota af og til, þótt hann sé ef til vill í minnsta lagi. Mig hefur lengi langað í þessar þrjár Adidas-flíkur.“ Mynd/Hallur Karlsson
„Efst á óskalistanum þessa stundina er silfurlituð úlpa en mig hefur dreymt um slíka flík óralengi. Síðastliðið vor varð svo þessi úlpa á vegi mínum og ég hef varla farið úr henni síðan.“ Mynd/Hallur Karlsson.
„Uppáhaldsflíkin mín er, í fullri hreinskilni, dúnskór úr Ikea sem besta vinkona mín gaf mér í gríni um síðustu jól. Þar á eftir held ég síðan mest upp á fallegan rauðan síðkjól úr blúnduefni sem ég fékk eftir eina fyrstu myndatökuna mína.“ Mynd/Hallur Karlsson

 

„Ég á nokkra uppáhaldsskartgripi sem ég get ekki gert upp á milli. Gullhring sem föðuramma mín lét smíða handa mér úr trúlofunarhring sínum, gullhálsmen sem móðuramma mín fékk frá afa og gaf mér í fermingargjöf, silfurarmband frá mömmu og fleira.“ Mynd/Hallur Karlsson

Hollensk hjón sameina krafta sína

Tinta Luhrman og Rutger de Ruiter virðast engin takmörk sett þegar kemur að hönnun.

Frá unga aldri hefur Tinta Luhrman haft ómældan áhuga á hönnun, litum og sköpun. Það var því snemma ljóst að hugur hennar stefndi að hönnunarnámi. Eiginmaður hennar, Rutger de Ruiter, á mjög erfitt með að sitja auðum höndum og líður hvað best við smíðaborðið. Fyrir rúmu ári síðan sameinuðu þessi hugmyndaríku hjón krafta sína og stofnuðu fjölskyldufyrirtækið Woodchuck. Hollensku hjónin eiga það sameiginlegt að elska Japan, jóga, brimbretti, einfaldleika og hönnun. Allt þetta að ógleymdri dótturinni Dieuwertje veitir þeim ómældan innblástur í sköpun sinni.

„Þó svo að við elskum einfaldleikann, skín hlýleikinn alltaf í gegnum hönnun okkar og sköpun. Hjá Woodchuck sérðu hvernig hægt að skapa þægilega stemningu þó að efniviðurinn sé mínimalískur.“

Sérsniðnar lausnir með japönsku ívafi

Hjónunum virðast engin takmörk sett þegar kemur að verkefnum, þau hanna húsgögn og smíða innréttingar, endurhanna eldri rými, þróa hugmyndir og veita innanhússráðgjöf ásamt því að aðstoða við litasamsetningar og útstillingar. Takmarkið er þó ávallt það sama; að sérsníða verkefnin að óskum viðskiptavinarins.

Þrátt fyrir að fyrirtækið sé ungt hafa hjónin haft nóg fyrir stafni þetta fyrsta ár og verið dugleg við að hanna húsgögn og smáhluti sem þau selja í vefverslun sinni á milli þess sem þau taka að sér stærri verkefni. Eins og nafnið Woodchuck gefur til kynna spilar viður stórt hlutverk í allri hönnun og sköpun hjónanna. Hönnun þeirra á það sameiginlegt að vera bæði einföld og notaleg í senn, japönsk áhrif eru áberandi í öllum þeirra verkum þar sem leitast er við að finna hinn fullkomna litatón til þess að undirstrika mýkt og hlýleika sérhvers verkefnis.

Texti / Katrín Andrésdóttir
Myndir / Frá framleiðanda

Stelpulegur stíll í Urriðaholti

Á einkar blautum og vindasömum mánudagsmorgni brunuðu blaðamaður og ljósmyndari í innlit í Urriðaholtinu, en þar býr Kristjana Sunna í 95 fm íbúð í nýju fjölbýlishúsi.

Kristjana flutti inn í apríl fyrr á árinu og hefur bersýnilega verið dugleg við að koma sér fyrir og nostra við heimilið. Hún stundar fjarnám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri ásamt því að starfa í heildsölu Swiss Color Iceland, þar sem hún sér um sölu- og markaðsmál.

Dýrðlegt útsýni yfir Urriðavatn

Mynd/Aldís Pálsdóttir

Hvernig líkar þér hér í Urriðaholtinu og hvað heillaði við hverfið? „Ég er úr Hafnarfirðinum og bjó á Völlunum áður en ég flutti hingað, en ég hafði verið að leita að réttu íbúðinni í tvö ár og var alltaf að skoða í þessu hverfi. Þegar ég gekk hér inn fann ég strax að þetta væri rétta íbúðin.“

Kristjana segist hafa kolfallið fyrir eigninni og það sem heillaði helst var skipulagið, borðstofuhornið, birtan og útsýnið, ásamt því að íbúðin tikkaði í öll boxin; gólfsíðir gluggar, suðursvalir, gluggi á baðherberginu, opið eldhús, þvottahús í íbúðinni og aukin lofthæð.

„Mér fannst mjög skemmtilegt í þessu ferli að kaupa og innrétta íbúð, að sjá hvað íslensk fyrirtæki eru komin langt hvað varðar gæði þjónustu – en það að fá góða þjónustu þykir mér alveg ómetanlegt og spilar stærsta þáttinn í vali á fyrirtæki og kaupferlinu öllu!“

Áttu þér uppáhaldsstað hér heimafyrir? „Uppáhaldsstaðurinn minn er klárlega borðstofukrókurinn, en þar er mjög gott að setjast niður og læra með góðan kaffibolla, þar hef ég einnig skapað góðar minningar með vinum og fjölskyldu.“

Aðspurð um hvort það séu einhverjar frekari breytingar eða framkvæmdir í kortunum svarar hún: „Ég hætti eiginlega alveg að græja og gera hérna heimafyrir þegar ég tók þá ákvörðun að fara í meistaranám í stjórnun á Spáni í janúar næstkomandi, svo íbúðin verður í útleigu næstu tvö árin eða lengur, og ég mun því halda áfram að dúlla við íbúðina þegar ég kem heim aftur.“

 Frískað upp á stílinn við flutninga

„Hann er svolítið stelpulegur, ég er rosalega hrifin af öllu sem glansar eða glitrar, eins og hlutum úr kristal, en mér er sagt að ég hafi erft stílinn frá langömmu minni,“ segir Kristjana þegar hún er beðin um að lýsa stílnum sínum.

Ég er rosalega hrifin af öllu sem glansar eða glitrar, eins og hlutum úr kristal, en mér er sagt að ég hafi erft stílinn frá langömmu minni

Aðspurð um áherslur í litavali segir hún pastelliti og bleikan vera í miklu uppáhaldi og þá helst í bland við hreinlega ljósa tóna, glansandi málma og glært gler. Þar sem íbúðin er í nýbyggingu og enginn búið þar áður, segist Kristjana hafa hugsað þetta kjörið tækifæri til að endurhugsa stílinn örlítið.

„Töluvert af innbúinu úr gömlu íbúðinni minni var orðið lúið og kominn tími á að endurnýja, svo það var tilvalið að hreinsa aðeins til í stílnum við flutningana.“

Í forstofunni hangir litfagurt málverk sem grípur augað, verkið er eftir listamanninn Norr, einnig þekktur sem Gummi kíró, og segist Kristjana vera í skýjunum með það. Hún gaf sjálfri sér verkið í innflutningsgjöf og segir það einskonar tákn til að minna sig á árið sem leið og allt það góða sem átti sér stað.

Hvaðan koma hlutirnir þínir og hvaða verslanir eru í uppáhaldi? „Ég held mikið upp á ljósið í borðstofunni frá By Rydens sem ég keypti í Rafkaup, svo er ég mjög hrifin af versluninni Fakó og fékk til dæmis borðstofuborðið og velúrstólana þar. Einnig finnst mér gaman að vafra um á Netinu og ég versla töluvert við netverslanir, en þær eru oft óháðar öðrum og með annað úrval, það er mikilvægt að styðja við ung sjálfstæð fyrirtæki. Svo verð ég að minnast á allar litlu búðirnar erlendis sem mér finnst gaman að skoða og get gleymt mér í, og tek ég þá gjarnan einn hlut með mér heim frá hverju landi þegar ég hef færi á.“

Hún bætir við að auðvitað sé alltaf gaman að taka hring í Epal eða Snúrunni, en þar séu margir hlutir að hennar skapi og tróna New Wave Optic-veggljósið, Flos-ljósakróna og String-hilla með skáp ofarlega á óskalistanum.

Við forvitnumst um söguna bak við stóran skúlptúr af andliti ásettan smáum speglum sem hangir á vegg í stofunni. „Mamma gaf mér hann í innflutningsgjöf því ég elska allt sem glitrar og henni fannst hún eiginlega verða að gefa mér hann, en hann er frá Zolo og co í Keflavík.“

Kristjana segist hafa fengið marga fallega hluti að gjöf við hin ýmsu tilefni og er dugleg að nota þá muni sem hún á til. „Ég reyni að skipta hlutunum mínum reglulega út fyrir aðra sem hafa hvílt í geymslunni, en ég vil ekki hafa of mikið uppi við í einu, einnig finnst mér skemmtilegast að vera með hluti sem hafa tilfinningalegt gildi og minna mig á fjölskylduna og góða vini.“

Við kveðjum Kristjönu og hlýlegu íbúðina í Urriðaholtinu að sinni og óskum henni góðs gengis í meistaranáminu í Barcelona.

Næsti tunglmyrkvi verður í janúar

|
Mynd/Gassi|

Sævar Helgi Bragason sendir frá sér bókina Svarthol: Hvað gerist ef ég dett ofan í? fyrir jólin en hún er hugsuð fyrir vísindaáhugafólk frá níu ára aldri.

„Ég veit að yngri lesendur njóta bókarinnar einnig með mömmu og pabba,“ segir Sævar sem hefur marga starfstitla; kennari, dagskrárgerðarmaður og rithöfundur sem segist umfram allt vera fræðari.

„Þetta er vísindabók á íslensku um ótrúlega heillandi viðfangsefni eins og þyngdarkraftinn og tímann en bæði þessi fyrirbæri tengjast órjúfanlegum böndum í svartholum. Ég hef fengið að heyra það frá börnum og fullorðnum að bókin sé auðskiljanleg, fyndin, fróðleg og mjög skemmtileg og er auðvitað hjartanlega sammála því.“

Áhugi Sævars á geimnum kviknaði þegar hann var lítill og horfði heillaður upp í stjörnubjartan himin.

„Ég hef alltaf verið einstaklega forvitinn og langað til að vita allt um náttúruna, sér í lagi himingeiminn. Svo fékk ég að kíkja á Satúrnus í gegnum sjónauka hjá föðurbróður mínum og eftir það var ekki aftur snúið. Mér finnst heimurinn svo ótrúlega áhugaverður og hef einhverja óseðjandi þörf fyrir að segja öðrum frá því. Ég lenti bara óvart í því að fræða börn um þessi mál en það má kannski segja að stjörnufræðingurinn Carl Sagan hafi verið þar stærsti áhrifavaldurinn. En það er líka bara svo hrikalega skemmtilegt að sjá undrun kvikna í andlitum barna yfir því hvað heimurinn er fallegur og merkilegur.“

Mér finnst heimurinn svo ótrúlega áhugaverður og hef einhverja óseðjandi þörf fyrir að segja öðrum frá því.

Það magnaðasta sem Sævar hefur upplifað varðandi geiminn til þessa er almyrkvi á sólu.

„Það er stórkostlegasta sýn sem hægt er að sjá í náttúrunni á jörðinni. Fæ enn gæsahúð bara af því að hugsa um það. Við sjáum almyrkva frá Íslandi næst miðvikudaginn 12. ágúst 2026 og ég get ekki beðið,“ segir hann spenntur.

„En vonandi á ég eftir að upplifa það magnaðasta, sem væri að sjá plánetuna okkar utan úr geimnum. Ég held að ekkert sé fegurra en jörðin, sem við erum því miður að fara allt of illa með.“

Snemma á næsta ári, aðfaranótt 21. janúar, verður tunglmyrkvi en þá verður tunglið rauðleitt á himninum þegar Jörðin varpar á það skugganum sínum.

„Ég hvet alla til að vera alltaf forvitnir og hætta aldrei að spyrja af hverju. Að lokum óska ég þess að allir eigi gleðilega umhverfisvæna hátíð, þar sem við afþökkum óþarfa, minnkum matarsóun, endurvinnum, endurnotum og endurnýtum og hugsum vel um hvert annað og plánetuna Jörð, eina heimilið sem við eigum í þessum risastóra alheimi.“

Lífið er of stutt fyrir vont kaffi

Kaffið er punkturinn yfir i-ið eftir góða veislu eða með kökunum. Um jólin er einmitt tíminn til að gera vel við sig svo ekki gleyma að velja þér gott kaffi til að njóta yfir hátíðarnar. Lífið er of stutt fyrir vont kaffi.

Íslandi er hægt að kaupa mikið úrval af góðu kaffi, bæði í sérverslunum fyrir kaffi og úti í stórmarkaði. Í Hagkaup í Garðabæ sá ég nýlega að fínasta kaffi var þar til sölu, m.a. frá Kaffitári, Te og kaffi og fleiri íslenskum fyrirtækjum. Þegar ég skrifaði um kaffi fyrir Gestgjafann hér áður fyrr mælti ég annað slagið með kaffi sem fékkst í stórmörkuðum, eins og Svörtum Rúbín, Illy, Lavazza Club, Café Noir og fleiri tegundum, en úrvalið hefur aukist síðan þá.

Eitt sinn gerði ég óformlega rannsókn fyrir Gestgjafann og þar kom í ljós að kostnaður af einum uppáhelltum bolla af dýrara kaffi á móti ódýru náði ekki að vera einni krónu hærri, þarna munaði aurum á hvern bolla. Eflaust hefur þetta breyst en það getur varla munað nema örfáum krónum á milli bolla.

Bragðmikið með kökum

Í kökuveisluna er bragðmikið kaffi algjör dásemd, ekki síst með súkkulaðikökum. Hátíðakaffi frá Kaffitári fæst víða á þessum árstíma, og Jólakaffi Te og kaffis, og það ætti að höfða til sem flestra. Það hentar vel í venjulega uppáhellingu, pressukönnu eða baunavél.

Þeir sem nota mjólk út í kaffi gætu gert enn betur við sig og notað kaffirjóma sem er svo góður út í bragðmikið kaffi.

Espressókaffi er alls ekki eingöngu fyrir espressókönnur eða baunavélar, það er hægt að nota það líka í venjulega uppáhellingu eða pressukönnu. Í baunavélina mína nota ég iðulega bragðmikið kaffi, eins og Espresso Roma frá Te og kaffi, og þegar ég bregð mér í bæinn kaupi ég oft Húsblönduna frá Kaffitári sem fæst í kaffibúðum Kaffitárs. Svo á ég tvær miklar uppáhaldstegundir þegar kemur að bragðmiklu kaffi í pressukönnu. Það eru Espressó Krakatá frá Kaffitári og French Roast frá Te og kaffi en þessar tegundir eru líka afar góðar í venjulegri uppáhellingu.

Alls konar kaffi

Milt Afríkukaffi nýtur sín vel eitt og sér, eins og Kenía- eða Eþíópíukaffi, en slepptu því alfarið að reyna að gera þér espressó úr því. Þegar kaffi er ljósbrennt njóta fínleg blæbrigði þess og ávaxtatónar sín til hins ýtrasta. Það er mjög gott í venjulegri uppáhellingu og pressukönnu.

Meðalbrennt kaffi, eins t.d. frá Gvatemala eða Kólumbíu, höfðar til margra. Það hefur eftirbragð eins og dökkbrennt kaffi og hentar bæði vel eitt og sér og með kökum. Hægt er að búa það til í venjulegri uppáhellingu, í pressukönnu eða baunavél. Það er gott með mjólk og án hennar.

Bragðbætt kaffi elska margir og það fæst iðulega fyrir jólin og þá með t.d. kanilbragði. Alls ekki setja það í baunavél, nema þú viljir að venjulega kaffið þitt bragðist eins og jólakaffi fram eftir næsta ári …

Einnig er hægt að kaupa ýmis konar síróp, líka sykurlaus, til að setja út í kaffið sitt.

Leitaðu ráða hjá starfsfólki kaffibúða, það hefur fengið fræðslu og getur hjálpað þér að finna besta kaffið fyrir þig. Lestu líka á miðann á pökkunum og prófaðu þig áfram. Inni á vefnum kaffitar.is er hægt að taka sniðugt kaffipróf og finna þannig sína uppáhaldstegund.

Kaffi gleður

Fyrir rúmum sautján árum keypti ég Espressó Krakatá frá Kaffitári fyrir erfidrykkju pabba heitins sem haldin var í stórum sal. Krakatá er dökkbrennt og bragðmikið kaffi, mjög gott með kökum. Ég gleymi aldrei frænkunum sem gripu þéttingsfast í ermina á jakkanum mínum og spurðu klökkar af hrifningu hvaða kaffi þetta væri. Þær væru sannarlega ekki vanar því að fá svona gott kaffi í erfidrykkjum eða veislum. Ég þurfti að skrifa niður nafnið á kaffinu fyrir þær og nokkra aðra gesti í erfidrykkjunni. Ef maður hugsar út í það, því að bjóða upp á allt það fínasta og besta í kökum en klikka svo á kaffinu?

Höfum í huga við kaffigerð

– Hafðu áhöld til kaffineyslu hrein.

– Ekki undirbúa kaffikönnuna kvöldinu áður með því að setja vatnið og kaffiduftið í hana. Sá tímasparnaður er ekki þess virði því þetta skerðir bragðgæði kaffisins til muna.

– Notaðu venjulegt magn af dökkbrenndu kaffi í könnuna, þótt það sé dökkt er það ekki sterkara, bara bragðmeira. Það sama gildir um ljósbrennt kaffi, það verður hreinlega vont ef þú notar of mikið magn af því á móti vatni.

– Ekki kaupa of mikið kaffi í einu. Kaffi geymist best við herbergishita en um leið og það hefur setið lengi í opnum pakka gufar ilmurinn og góða bragðið smám saman upp og kaffið fær hvimleitt geymslubragð.

„Dolly er mín sjálfshjálparbók“

|
|

Dögg Hjaltalín, bókaútgefandi hjá Sölku forlagi, segist yfirleitt vera með nokkrar bækur á náttborðinu til að velja á milli eftir því hvernig hún er stemmd. Mest lesi hún bækur almenns eðlis og sígildan skáldskap, það ráðist svolítið af umhverfinu hverju sinni. Þegar Dögg ferðast finnst henni t.d. tilvalið að lesa bækur um áfangastaðina sem hún heimsækir eða skáldskap eftir þarlenda höfunda. Það sé kjörin leið til að gera ferðina eftirminnilegri. En af þeim bókum sem hún hefur lesið, hverjar skyldu standa upp úr?

„Ég beið við tölvuna eftir að bókin Ég er Malala kæmi út til að geta keypt hana og lesið samdægurs. Saga þessarar stelpu er ótrúlega áhrifarík og viðhorf hennar til menntunar og stöðu ungra stelpna er svo magnað að það er ekki annað hægt en að drekka boðskap hennar í sig. Ég hef lesið hana nokkrum sinnum,“ segir Dögg og bætir við að hún hafi verið svo heppin að geta gefið út þýdda útgáfu af bókinni fyrir fáeinum árum og þ.a.l. sé boðskapur Malölu nú aðgengilegur dætrum hennar á íslensku.

Harmur englanna eftir Jón Kalman.

Harmur englanna eftir Jón Kalman er síðan eftirminnilegasta skáldsagan sem ég hef lesið um ævina,“ heldur hún áfram. „Ég las bókina í snjóbyl á Hólmavík á Ströndum og mér varð hreinlega kalt við tilhugsunina um að fólki hafi þurft að fara milli bæja og yfir heiðar alveg sama hvernig viðraði og í algjörri óvissu um að það næði á áfangastað. Aðstæður Íslendinga fyrr á öldum sitja enn í mér eftir lesturinn.“

Þá segir Dögg að „Þetta breytir öllu“ eftir Naomi Klein sé sú bók sem veki upp mestar tilfinningar hjá henni. „Ég hef lesið hana nokkrum sinnum og í sannleika sagt verð ég alveg brjáluð í hvert sinn,“ viðurkennir hún en bókin fjallar um umhverfismál í víðu samhengi og hvaða öfl stjórna gangi mála í heiminum í dag. „Vonandi lesa bara sem flestir þessa bók,“ segir hún, „og fara að leyfa náttúrunni að njóta vafans.“

Sú bók sem Dögg segist hins vegar alltaf hafa á náttborðinu og glugga reglulega í er Dream more eftir „eina flottustu konu heims“ eins og hún orðar það, Dolly Parton. „Dolly fjallar þarna um viðhorf til lífsins og í bókinni má finna svar við öllum vandamálum heimsins með slatta af húmor, en Dolly er mín sjálfshjálparbók.“

 

 

Hómer Simpson-jólabindi ein eftirminnilegasta gjöfin

Heiðar Austmann útvarpsmaður byrjar aðfangadag á ristuðu brauði með graflaxi. Jólalagið „Happy Christmas War is Over“ með John Lennon og Yoko Ono er í uppáhaldi.

Hvernig verða jólin þín í ár? Jólin mín verða bara frekar hefðbundin eins og önnur ár. Það eru einhver jólaboð, mannamót og spilakvöld plönuð þannig að tilhlökkunin er mikil. Ég verð hjá Björgu systur minni á aðfangadag þar sem nánasta fjölskylda verður, þ.e. systir mín og fjölskylda hennar, mamma mín, yngri dóttir mín Emilía Þórunn og fleira gott fólk úr fjölskyldum okkar. Eva Björk eldri dóttir mín verður erlendis með móður sinni þennan aðfangadaginn.

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? Heldur betur. Á aðfangadagsmorgun þegar ég vakna hef ég haft þann vana í ríflega 17 ár að fá mér ristað brauð með graflaxi og sósu. Síðar um daginn förum við Þórunn Kristín, mamma mín, og ég að heimsækja fólkið okkar í kirkjugörðunum. Amma Magga og Eymundur afi, Emil afi, Ragnheiður systir, Gunnar besti vinur minn og svo fósturforeldrar hennar mömmu eru meðal þeirra sem við heimsækjum. Við förum með kerti og jólagreni og leggjum á leiðið þeirra og þökkum fyrir að hafa fengið að hafa þau í okkar lífi.  Svo ef tími gefst þá tek ég Lord Of The Rings-maraþon.

Ein jólin fékk ég mynd af Pocanhontas í ramma og Hómer Simpson-jólabindi sem mér fannst æðislegt. Mjög eftirminnilegt.

Hvað er efst á óskalistanum þínum? Að dætur mínar séu hamingjusamar, heilbrigðar og líði vel. Ekki bara á jólunum heldur alltaf. Þær eru mér allt og skiptir hamingja þeirra og vellíðan mig öllu.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Hef fengið svo margar frábærar gjafir. Fyrstu gjafirnar frá stelpunum sem þær bjuggu til á leikskólum sínum eiga alltaf sérstakan stað í mínu hjarta. Gaman að fá fyrstu gjöfina frá þeim. Ætli það séu hins vegar ekki jólagjafirnar frá Gunnari heitnum vini mínum sem eru eftirminnilegastar. Við ákváðum það þegar við vorum yngri að við myndum alltaf gefa eitthvert „djók“ í jólagjöf.  Ekki setja of mikla hugsun í gjafirnar, skilurðu?  Ein jólin fékk ég mynd af Pocanhontas í ramma og Hómer Simpson-jólabindi sem mér fannst æðislegt. Mjög eftirminnilegt.

Besta jólalag allra tíma? Ég myndi segja „Happy Christmas War is Over“ með John Lennon og Yoko Ono.  Það nær mér einhvern veginn alltaf. Finnst það mjög fallegt. Gömlu Jackson 5- og Stevie Wonder-jólalögin eiga líka sérstakan sess í mínu hjarta. Uppáhalds íslenska jólalagið mitt um þessar mundir er hins vegar Það snjóar, með Sigurði Guðmundssyni.

Mynd / Ernir Eyjólfsson

 

Hvað eigum við að gera við allt dótið?

Leiðari

„Hlutir veita ekki lífshamingju,“ segir Pálmar Ragnarsson í forsíðuviðtali Mannlífs en hann hefur að undanförnu getið sér gott orð sem fyrirlesari um samskipti fólks og notið vinsælda sem körfuboltaþjálfari fyrir yngstu kynslóðina. Þetta er hvorki í fyrsta né annað skipti sem við heyrum þessi orð, sem jafnan fylla okkur góðum ásetningi um að draga úr lífsgæðakapphlaupinu og hlúa í staðinn betur að okkar innra sjálfi.

Svo koma jólin og áður en við vitum af erum við komin í kapphlaup á milli verslana í leit að einhverju sem við höfum ekki hugmynd um hvort fólkið í kringum okkur langar að eignast eða ekki.

Sjálf fáum við svo alls konar gjafir sem við tökum upp með tilhlökkun á aðfangadag og hrúgum upp á stofugólfinu innan um pappírsruslið sem dreifst hefur um allt. Þá er eins og renni upp fyrir okkur ljós – hvað eigum við gera við allt þetta dót? Ekki það að við séum ekki þakklát og hlutirnir ekki fallegir, það er bara svo mikið til. Peningaeyðsluþynnkan hellist yfir, við biðjum guð um hjálp og lofum að fara aðeins hægar í sakirnar um næstu jól.

Nokkrar fjölskyldur sem komið hafa fram að undanförnu hafa farið inn í aðventuna með nýjum hætti. En það er svokallað öfugt jóladagatal. Í stað þess að bæta nýjum hlutum inn á heimilið fyrir jólin eru hlutir teknir út af heimilinu. Einn hlutur þann 1. desember, tveir hlutir þann 2. desember og svo framvegis.

Þetta gerði til dæmis sjö manna fjölskylda á Djúpavogi og þegar jólin koma verða farnir 2.100 gagnslausir hlutir af heimilinu sem margir fá framhaldslíf hjá öðrum sem á þurfa að halda. „Flæðið inn á heimilið verður að minnka,“ sagði móðirin á heimilinu, Ágústa Arnardóttir, í viðtali á RÚV og það sem hún vonar að skili sér til barnanna er að með hverjum hlut sem þau eignast fylgi skuldbinding. Hluti átaksins snúist um að draga úr sóun en líka að bæta fjölskyldulífið.

Lítum á nokkrar tölur. Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs kemur fram að hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu fleygir að meðaltali um 223 kílóum af úrgangi í tunnuna á ári, það er rúmlega eitt tonn á fimm manna fjölskyldu. Hver Íslendingur kaupir rúmlega 17 kg af vefnaðarvöru árlega, sem er um þrisvar sinnum meira en meðaljarðarbúi. Um 60% af vefnaðarvöru endar í ruslinu.

Fyrrnefndur Pálmar segir það einnig í forsíðuviðtalinu að heimsókn hans til Mexíkó á síðasta ári hafi breytt viðhorfum hans til hluta. Þar hitti hann lífsglatt og skemmtilegt fólk sem var lítið upptekið af því sem það átti ekki. „Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó en ég gat ekki betur séð en að þar væri jafnvel meiri gleði og hlátur.“

Við erum aðeins einu símtali frá ákvörðun meðal vina og ættingja um að hætta gjafakaupum á milli. Við getum valið fjallgöngu eða kaffihúsaferð fram yfir verslunarferðir og afþakkað alla auglýsingabæklingana til að láta ekki glepjast af hlutum sem við höfðum ekki hugmynd um að okkur vantaði. Því þegar allt kemur til alls þá er það samveran við ástvini sem skiptir mestu máli og veitir okkur lífshamingjuna. Hlúum að okkur og þeim sem við elskum. Gleðileg jól.

 

 

Áhugaverðar bækur fyrir jól

Óvenjulega margar nýjar bækur komu út núna fyrir jólin. Lesendum býðst að ferðast aftur í tímann og til annarra landa, kynnast spennandi söguheimum, sérstæðum persónum og ýmsu áhugaverðu bregður einnig fyrir.

 Svik, ábyrgð og tryggð

Heiður eftir Sólveigu Jónsdóttur er ekki sakamálasaga í hefðbundnum skilningi en samt er hún svo spennandi að hún heldur lesandanum límdum við síðurnar allt til enda. Pabbi Heiðar McCarron hverfur af landi brott með bróður hennar. Eftir sitja þær mæðgur með sorgina og reiðina sem tætir þær báðar.

Tuttugu og átta árum síðar liggja leiðir systkinanna saman á ný í borginni Derry. Heiður leitast við að skilja þann málstað sem pabbi hennar fórnaði lífinu fyrir og gefst ekki upp fyrr en hún fær svar við því hvers vegna pabbi hennar fór. Þetta er margslungin saga um hvernig þjóðfélag sundurtætt af hatri skilar brotnum einstaklingum út í lífið. Sólveig er góður rithöfundur og þetta er virkilega fín bók. Mál og menning, 2018.

Verðlaunabók

Ljóðabókin Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson hlaut ljóðaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og bókin er vel að þeim komin. Þetta eru margslungnar og fjölbreyttar vistarverur sem gaman er að ganga á milli og finna stöðugt einhver ný blæbrigði og myndir. Haukur er afskaplega flinkur að fara með orð og móta falleg ljóð. Útg. Mál og menning.

Þögnin rofin

Erfðaskráin er fimmta bók Guðrúnar Guðlaugsdóttur um blaðamanninn forvitna Ölmu Jónsdóttur. Hún getur aldrei stillt sig um að reka nefið í annarra manna málefni og grafa ögn dýpra. Að þessu sinni kemur hún dóttur sinni til aðstoðar á bóndabæ fyrir austan fjall. Þar er Gunnhildur að hugsa um þrjú gömul systkini. Eitt þeirra deyr og Gunnhildur hefur á tilfinningunni að ekki sé allt með felldu.

Líkt og í fyrri bókunum um Ölmu liggja margir þræðir frá fortíðinni til nútímans og lausnina er finna í fjölskyldusögunni. Þetta er lifandi frásögn sem heldur lesandanum spenntum til enda. Eitt af því sem er skemmtilegt við bækur Guðrúnar er hversu litríkt og skemmtilegt mál er á þeim. Útg. GPA

Bráðskemmtilegar minningar

Listamannalaun eftir Ólaf Gunnarsson byggir á minningum hans um þrjá óvenjulega listamenn sem hann var samtíða á síðustu öld. Þeir Alfreð Flóki, Dagur Sigurðarson og Steinar Sigurjónsson settu svip á bæjarlífið og listiðkun hér á landi meðan þeir voru við iðju sína. Í dag er litið til baka og áhrif þeirra metin og auðséð að þau voru sterk. Ólafur skrifar listavel og dregur upp einstaklega fallega mynd af þessum breysku vinum sínum.

Hann hlífir heldur ekki sjálfum sér og kemur vel til skila hvernig viðkvæmt egó listamanna átti til að bólgna og dragast saman á víxl. En fyrst og fremst er þetta skemmtileg bók og þeir sem muna eftir þessum mönnum á Mokka og víðar um bæinn munu án efa njóta þess að fá dýpri innsýn í sálarlíf þeirra. Útg. JPV

 

Best að finna jafnvægið í öllu

||
|Gísli prýddi forsíðu Vikunnar í janúar árið 2009.|Gísli Þór lýsti erfiðum uppvaxtarárum í viðtali við Vikuna árið 2009.

Hafrún Lilja Elíasdóttir er sannkallaður baksturssnillingur sem hefur þann hæfileika að baka ekki aðeins gómsætar kökur, heldur líka dásamlega fallegar kökur. Fjölskyldumeðlimir og vinir Hafrúnar njóta oft góðs af hæfileikum hennar en þegar kemur að hinum ýmsu tilefnum er hún ávallt boðin og búin að leggja sitt á vogarskálarnar.

Hafrún Lilja er að eigin sögn ekki ein af þeim sem kemst í jólaskap um leið og IKEA-geitin rís upp.

„Ég dett yfirleitt ekki í jólagírinn fyrr en í kringum 20. desember. Aðdragandinn finnst mér ekkert sérstakur, öll jólalögin, skrautið og stressið er ekki beint minn tebolli. En ég er mikið fyrir hefðirnar og samveruna með fólkinu mínu í kringum hátíðirnar, en við fjölskyldan höldum í nokkrar hefðir sem mér þykja ómissandi. Fyrst og fremst ber að nefna uppsetningu jólaþorpsins hjá foreldrum mínum, það er alveg heilög stund. Foreldrar mínir eru svo alltaf með hádegisboð á aðfangadag fyrir okkur systurnar, maka og börn. Það er ein af mínum uppáhaldshefðum og hringir pínulítið inn jólin.“

Ég er sem sagt mikil sósukona.

Þegar kemur að ómissandi hefðum tengdum mat nefnir Hafrún fyrst ristað brauð með graflax og heimatilbúna sósu með. „Svo býr pabbi til heimsins bestu sósu með jólamatnum sem ég kýs að kalla „pabbasósu“ en ég fæ mér yfirleitt smávegis kjöt með sósunni. Ég er sem sagt mikil sósukona. Svo má ekki gleyma því að njóta líka yfir hátíðirnar og safna orku. Ég geri það bæði með því að liggja í uppi í sófa, undir teppi  með söruskálina og með því að fara aðeins út í ferska loftið og kyrrðina og hreyfa mig. Mér finnst best að finna jafnvægið í öllu.“

Hafrún hefur mikinn áhuga á matargerð og bakstri og er dugleg að prófa sig áfram með nýjar uppskriftir. „Ég þarf oft að vera svolítið flókin þegar kemur að eldamennsku, vil oft vera með margar tegundir af meðlæti og svona, en Hjalti, kærasti minn, kýs að hafa hlutina örlítið einfaldari sem er bara frábært. Þar komum við aftur að jafnvæginu góða,“ segir hún. „Fyrir jólin baka ég yfirleitt sörur, mömmukossa og serenakökur. Svo bý ég líka til sultu og jólaís. En endalegur listi fer í raun allt eftir því hvað ég gef mér tíma í og hvað mig langar að gera hverju sinni.“

Sultan sem er góð með öllu

„Fyrst ætla ég að gefa uppskrift að sultu sem hefur verið lengi í uppáhaldi hjá mér með jólamatnum. Æskuvinkona móður minnar, sem kvaddi þessa veröld allt of snemma, gerði alltaf þessa sultu fyrir jólin. Hún keyrði hana alltaf út á aðfangadag til okkar og annarra. Þó að uppskriftin sé einföld er það minningin um þessa yndislegu manneskju sem ég kýs að halda á lofti á þennan hátt og gefur mér og fjölskyldu minni mikið. Ég hef undanfarin tvenn jól gert þessa sultu og laumað með til ættingja og vina og hyggst gera það áfram.

En það er svo frábært að hún er góð með öllu. Ég borða hana alltaf með hamborgarhryggnum á jólunum. En sultan er líka frábær með ostum, í jólagrautinn, ofan á brauð eða hvað sem er. Ég hvet ykkur til að prófa.“

Jarðaberjasulta með kanil

500 g jarðarber
250 g sykur
1-2 kanilstangir (ég set yfirleitt 2-3 stangir því ég vil meira kanilbragð)
½ poki sultuhleypir
20-30 ml vatn

Allt er sett saman í pott og látið malla á meðalháum hita í svona 30-40 mín. Ég kýs að hafa jarðarberin vel maukuð og því læt ég sultuna malla jafnvel lengur og stappa þau niður með sleifinni á meðan ég hræri. En ef jarðarberin eiga að halda lögun sinni skal láta sultuna malla á lægri hita.

47. tbl. 2018, Hafrún Lilja, kaka, kökublaðið, kökur, Margrét Björk, VI1810191960, vikan

Riz à l‘amande

125 g grautargrjón
50 g sykur
1 vanillustöng
1,2 l nýmjólk
500 ml þeyttur rjómi
200 g möndlur, saxaðar gróft

Setjið hrísgrjón, sykur og nýmjólk í pott. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið innihaldið ofan í pottinn. Látið stöngina fylgja með. Sjóðið rólega saman í 40 mín. Hrærið reglulega og gætið þess að grauturinn brenni ekki við. Slökkvið undir og setjið lok yfir. Látið standa og kólna. Kælið grautinn yfir nótt.

Þeytið rjómann og hakkið möndlurnar. Blandið varlega saman við grautinn. Gott er að gera það í þremur skömmtum. Geymið heila möndlu fyrir möndlugjöf. Berið fram með kirsuberjasósu (karamellusósu og/eða jarðarberja-kanilsultunni).

Skotheldur jólaís

Gott er að gera ísinn nokkrum dögum fyrir jólin.

„Hér er uppskrift að jólaísnum sem ég hef alltaf gert undanfarin ár. Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að skella í. Gott er að gera hana nokkrum dögum fyrir jólin og hafa eftirréttinn tilbúinn. Hægt er að leika sér með blönduna með því að setja mismunandi bragðdropa og kurl í hana. Á myndinni má sjá ísinn í litlum tupperware-ísformum sem eru húðuð með hjúpsúkkulaði og skreytt með ferskum berjum.

En það sem mér þykir svo gott við ísinn er að það er hægt að leika sér með allskyns útfærslur. Setja í mismunandi form og skreyta eftir tilefnum. Hlutföllin af blöndunni henta vel í eitt stórt íshringform og svo þrjú lítil form eins og sést á myndinni. En þessi stærð er að mínu mati fullkominn skammtur í eftirrétt á aðfangadagskvöld og svo á ég hringinn alltaf til við annað tilefni yfir hátíðirnar.“

5 eggjarauður
5 msk. sykur
1 vanillustöng
½ l þeyttur rjómi
½ tsk. vanilludropar
½ poki af Nóa-karamellukurli

Setjið eggjarauðurnar í hrærivélarskál og þeytið í 1 mínútu. Hellið sykrinum smátt og smátt saman við eggin og hrærið þar til sykurinn og rauðurnar verða léttar og ljósar eða í u.þ.b 5 mínútur. Skerið vanillustöngina til helminga eftir endilöngu og skafið kornin innan úr henni með hníf.

Setjið vanillukornin út í eggjarauðurnar og látið vélina ganga í 10 sek. Blandið 1/3 af þeytta rjómanum saman við eggjablönduna með píski. Blandið afganginum af rjómanum smátt og smátt saman við blönduna með stórri skeið eða sleif. Smakkið til með vanilludropum og setjið kurlið varlega í blönduna og hrærið til. Setjið ísblönduna í ísform og frystið.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Skemmtilegra að gefa gjafir en að fá þær

Alexandra Sif Nikulásdóttir, þjálfari hjá FitSuccess, borðar humarsúpu og hamborgarhrygg á jólunum. Henni þykir ómissandi að setja seríur á svalirnar og finnst skemmtilegra að gefa gjafir en að þiggja þær.

Hvernig verða jólin þín í ár? Þetta árið verð ég með tengdafjölskyldunni minni á aðfangadagskvöld. Það voru tvö lítil kríli að bætast við fjölskylduna sem gerir það að verkum að öll systkini kærasta míns og makar verða með þessi jólin. Þar er alltaf humarsúpa í forrétt og hamborgarhryggur í aðalrétt. Ég er líka búin að vera mjög spennt fyrir þessum jólum en helgina fyrir jól fer ég til London. Kærastinn gaf mér þá ferð í þrítugsafmælisgjöf. Það hefur verið draumur hjá mér að upplifa jólastemninguna þar, kaupa jólagjafir og njóta.

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? Já, í seinni tíð eftir að ég eignaðist eigið heimili hef ég hægt og rólega búið til mínar eigin hefðir og ég hlakka til að búa til fleiri. Ég set alltaf seríur á svalirnar, mér finnst það algjör nauðsyn til að skapa jólastemningu. Svo finnst mér jólin ekki koma nema að ég baki sörur. Ég hef það sem hefð að gera fjórfalda uppskrift með fimm mismunandi súkkulaðitegundum sem hjúp sem ég gef svo uppáhaldsfólkinu mínu fyrir jólin.

Hvað er efst á óskalistanum þínum? Vá, ég er alveg tóm. Mér finnst jólagjafirnar alltaf vera aukaatriði þegar kemur að sjálfri mér og jólaandinn alltaf það sem heillar mig mest við jólin. Mér finnst í rauninni skemmtilegra að gefa gjafir en að fá þær.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Það mun vera bleika KitchenAid-vélin mín. Ég hélt ég þyrfti að gifta mig til þess að eignast slíka vél en amma mín las alltaf blogg sem ég var með og sá að um hver einustu jól var þessi vél draumurinn. Ein jólin hringdi hún og sagðist ekki vilja gefa mér neitt annað og fékk pabba minn til þess að gefa hana með sér.

Besta jólalag allra tíma? Þessi er erfið, en ég man að ég keypti mér Pottþétt jól geisladiskinn hérna í gamla daga bara til þess að geta spilað Last Christmas, mér var sama um öll hin lögin. Þetta lag vekur upp fullt af góðum minningum þannig það verður fyrir valinu.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Gleðileg byltingarjól

|
|

Höfundur / Elísabet Ýr Atladóttir

Elísabet Ýr Atladóttir

Það eru að koma jól, ótrúlegt en satt. Byltingar, grjóthörð samfélagsumræða og hugrekki kvenna hefur sett sinn stimpil á þessa 12 mánuði. Vikan er varla búin áður en nýtt mál kemur upp á borðið og hendir öllu aftur í gang. Löngu áður en fólk er búið að jafna sig á því sem gekk á fyrir.

Mörgum finnst þetta óþolandi. Að það sé ekki stundarfriður fyrir þessum róttæklingum. Engum virðist treystandi, því svo margir hafa verið ásakaðir um kynferðislegt ofbeldi í gegnum samstöðumátt #metoo. Fólk er enn í sjokki yfir því hvað þessi barátta stendur þeim nærri eftir allt saman. Enginn friður fyrir mannréttindum, svei mér þá.

En þetta eru merki um stórkostlega hluti, því breytingar gerast með aukinni samfélagsvitund. Fólk mun ræða öll þessi mál á árinu yfir jólasteikinni, af miklu jafnaðargeði eða eldmóð. Sum munu gera sitt besta til að gera lítið úr baráttunni, á meðan aðrir ættingjar reyna að halda kúlinu og garga ekki á þau að þegja svona einu sinni.

Einhver munu reyna að ræða þessi mál án þess að styggja neinn. Aðrar munu horfa stíft í augun á fólki og spyrja hvernig það vogi sér að gera lítið úr ofbeldi sem þær hafa upplifað sjálfar, sem vinkonur þeirra þurftu að upplifa. Fleiri en nokkurn tíma fyrr hafa séð hvernig kvenhatrið og fordómarnir ná inn í efstu lög samfélagsins. Enginn getur hunsað þetta lengur, þótt margir geri lítið úr því enn þá. Fjöldi fólks mun forðast þessi umræðuefni í veikri von um að halda friðinn, alla vega á meðan hann endist.

En friðurinn er úti. Það er enginn friður á meðan það ríkir óréttlæti. Vonandi taka fleiri afstöðu en áður, svo að næstu jól marki raunverulegar breytingar í átt að réttlæti. Við erum ekki alveg komin þangað. Þangað til vona ég að þið eigið gleðileg byltingarjól.

 

 

Léttbylgjutónlist góð gegn stressi

|
Andrés Jónsson

Almannatengillinn og lífskúnstnerinn Andrés Jónsson segist almennt hlusta á slatta af „old-school“-rappi, De la soul, A Tribe Called Quest og fleiri í þeim dúr en nú rétt fyrir jól verði hins vegar ljúfari tónar allsráðandi á heimilinu.

Föstudagur

Coldplay-safnplata. „Ég státa mig gjarnan af því að vera með fjölbreyttan tónlistarsmekk en ég játa það hér með að þegar ég er stressaður og er í tímapressu í vinnunni, þá set ég oft safnplötu Coldplay á fóninn. Það þykir ekki fínt meðal tónlistarspekúlanta að hlusta á Chris Martin og félaga en þessi léttbylgjutónlist hjálpar mér að einbeita mér þegar ég þarf að klára síðustu verkefnin fyrir jólafríið.“

Laugardagur

Pétur og úlfurinn. „Um jólin hittir maður vini og fjölskyldu og spjallar við litlu börnin sem eru yfirspennt af tilhlökkun yfir jólasveinum og pökkum. Eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hve mörg börn hlusta á Pétur og úlfinn, sem er plata sem mér þykir mjög vænt um. Ég hugsa því að ég finni hana á Spotify og rifji upp gamlar minningar undir þessum fallegu tónum Prokofiev.“

Eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hve mörg börn hlusta á Pétur og úlfinn, sem er plata sem mér þykir mjög vænt um.

Sunnudagur

Leonard Cohen – I’m Your Man. „Þetta er ekki jólaplata en Leonard Cohen er einfaldlega svo magnaður. Það er fátt jafnróandi og að hafa hans hrjúfu en um leið silkimjúku rödd á fóninum þegar maður er að dytta að einhverju og pakka inn síðustu jólagjöfunum.“

Mynd / Aðsend

„Kerfið lokar á mennskuna“

|
|

Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi og einn stofnenda Hugarafls, hefur unnið innan geðheilbrigðiskerfisins í hátt á þriðja áratug. Aðferðir hennar hafa að mörgu leyti verið byltingarkenndar því þær miða að því að koma fólki til bata og hjálpa því úti í samfélaginu en ekki inni á stofnunum. Auður var forstöðumaður GET, geðteymis innan heilsugæslunnar, í fimmtán ár en það starfaði í nánu samstarfi við Hugarafl. Nú hafa stjórnvöld ákveðið að hætta að veita því úrræði brautargengi þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á ótvíræðan árangur.

Varla líður sú vika án þess að fjallað sé um ófremdarástand í geðheilbrigðiskerfinu. Ungu fólki er vísað frá bráðageðdeild og stundum endar það með ósköpum. Sjálfsvíg ungmenna eru stór vandi, löng bið er eftir plássi á BUGL og sífellt fleiri glíma við fíkn. Öryrkjum í hópi ungs fólks fjölgar einnig ár frá ári og margir þeirra glíma við andleg veikindi, ekki líkamleg. Skýtur þá ekki svolítið skökku við að verið sé að loka á úrræði sem miðar að því að styðja fólk til sjálfbjargar og bata?

Óhefðbundnar leiðir eiga ekki upp á pallborðið.

„Í mörg ár var Hugarafl og GET, þekkt og metin stærð í samfélaginu og stöðin þróaðist hratt og eftirspurnin var alltaf mikil. Ástæða þess að Hugarafl og GET unnu í nánu samstarfi var að við vildum gefa fólki færi á að leita líka til þeirra sem reynsluna hafa af líkum vanda og þeir sjálfir en ekki eingöngu til fagmanna. Þegar við hófum starfsemi var okkur mætt af skilningi og áhuga innan kerfisins en núna er kalt andrúmsloft, of stofnanamiðað og sjúkdómsvæðing í gangi. Óhefðbundnar leiðir eiga ekki upp á pallborðið. Nú eiga allir að fara sömu leiðina, á göngubrettið inn í opinbera kerfið og það á taka við okkur. Því miður virkar það ekki. Ég er mjög sorgmædd yfir þessari þróun.“

Frá því Hugarafl var stofnað hefur þjónusta þess aukist jafnt og þétt og til GET og Hugarafls leituðu ríflega 1.000 manns árlega. En nú hefur GET sem sagt verið lokað. „Við höfum sýnt fram á gríðarlegan árangur,“ segir Auður.

„Við höfum líka unnið mikið með fjölskyldum og þar er jú að finna dýrmætasta baklandið. Starf Hugarafls og GET-teymisins var mjög ódýrt úrræði, sennilega það ódýrasta á landinu en það er samt lagt niður. Teymið kostaði 56 milljónir á ári og það hefur enginn getað rökstutt fyrir mér að leggja þurfi niður starf sem sinnti svo mörgum og er svo ódýrt en stofnuð séu í staðinn teymi sem kosta um 200 milljónir hvert innan heilsugæslunnar.

Nálgunin er önnur, ekki opin þjónusta, mun ekki líkjast þeirri samfélagslegu geðþjónustu sem við höfum sinnt og fylgir að mínu mati ekki nútímastefnumótun. Mér virðist áherslan býsna sjúkdómsmiðuð og í raun til að létta á starfsemi Landspítalans. Hér er verið að taka fjármagn úr úrræði sem stuðlaði að samfélagsþátttöku og bata og færa það yfir í úrræði sem byggir á sjúkdómsmiðaðri nálgun.

Hingað kom skýrsluhöfundur geðheilbrigðismála innan Sameinuðu þjóðanna og skilaði skýrslu í júní 2017. Dainius Puras kom í upphafi ársins og hitti m.a. aðila í velferðarnefnd þingsins og kom við hjá okkur. Hann sagði að ekki mætti leggja þetta niður því við værum að gera nákvæmlega það sem ætti að gera, þ.e. úrræði sem er opið, byggt á forsendum þeirra sem leita þjónustunnar, notendaþekking væri nýtt í starfinu öllu og stuðlað að bata og valdeflingu.

Hér er verið að taka fjármagn úr úrræði sem stuðlaði að samfélagsþátttöku og bata og færa það yfir í úrræði sem byggir á sjúkdómsmiðaðri nálgun.

Það er líka skrýtið að leggja niður starf sem algjörlega er byggt á þeirri stefnumótun sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO leggur áherslu á. Hér á landi höfum við ekki verið neitt sérstaklega dugleg í stefnumótun í heilbrigðismálum en árið 2016 var gefin út stefna í geðheilbrigðismálum og hún byggir einmitt á þeim hugtökum sem við höfum að leiðarljósi. Því tel ég heilbrigðisráðuneytið og ráðherra fara á móti stefnu Alþingis þegar lagt er niður mikilvægt starf sem vinnur nákvæmlega samkvæmt henni. Leitað var til mín þegar mótun stefnunnar fór fram en okkar starf var m.a. notað sem fyrirmynd stefnunnar.“

Vildi opna umræðu um lyfjanotkun

Í tvö ár hefur Hugarafl barist fyrir því að koma í veg fyrir að þessi samfélagslega geðheilbrigðisþjónusta sem GET veitti yrði lögð niður. „Við höfum vakið athygli á málinu í fjölmiðlum, verið með sýnilega viðburði og notendur og aðstandendur þeirra hafa látið í sér heyra,“ segir Auður.

„Fjöldinn allur af fólki sem náð hefur bata hefur tjáð sig um hann og kynnt hvernig það hefur komist út í samfélagið á ný til virkrar þátttöku. GET og Hugarafl hafa komið í veg fyrir að stór hópur manna fari á örorku og margborgað til baka það fjármagn sem til þeirra rann árlega. Hugarafl er einnig vinsælasta úrræðið meðal ungs fólks í dag því það sér að þetta nýtist því og stýrir út í lífið á ný. Hjá okkur eru um fimmtíu ungmenni í virkri þjónustu. Þau dvelja hjá okkur þar til batinn næst og þau geta farið aftur í skóla eða vinnu.“

Auður Axelsdóttir vill persónulega nálgun í geðheilbrigðismálum. Mynd / Hallur Karlsson

Hún segir að ekki hafi enn fengist rökstuðningur fyrir þessari ákvörðun. „Þegar við komum fyrir velferðarnefnd fundum við að rökstuðningur okkar var mun málefnalegri en embættismanna ráðuneytisins. Heilbrigðisráðuneytið bar fátt fram á móti svo við álitum okkur hafa komið vel út úr þessu. Allan tímann höfum við haft mikinn stuðning í þinginu og héldum að þetta hlyti að bjargast en allt kom fyrir ekki. Margt er því þarna mjög skrýtið. Engin rök að finna og eins og heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að hlusta hvorki á mig né aðra Hugaraflsmenn. Ég hef mætt kuldalegu viðmóti sem ég hef aldrei upplifað áður hjá ráðuneytinu og furðulega hefur verið komið fram við mig sem manneskju í þessu ferli.“

Hún, sem ríkisstarfsmaður innan heilsugæslunnar í starfi sínu sem forstöðumaður GET, gat í raun ekki fengið skýringar þegar heilsugæslan ákvað að leggja niður hennar starf og þá þjónustu sem hún var frumkvöðull að án röksemdafærslu.

„Það virðist vera bein lína milli ráðherrans og heilsugæslunnar og ég hafði afar veika rödd í ferlinu og enginn gætti míns réttar eða skjólstæðinga þjónustunnar. Mér finnst þetta undarleg stjórnsýsla. Ég maldaði auðvitað í móinn og vildi fá samræðu og rök en framkoma þessara aðila byggði einna helst á þöggun. Ég vil ítreka að fjöldi einstaklinga sem voru í sínu bataferli hjá okkur hafa misst þjónustu og réttindi þeirra hafa ekki verið varin.“

Ég hef mætt kuldalegu viðmóti sem ég hef aldrei upplifað áður hjá ráðuneytinu og furðulega hefur verið komið fram við mig sem manneskju í þessu ferli.

Stendur með fólki með geðraskanir

Auður ákvað að sætta sig ekki við þetta en forseti Íslands var nýbúinn að sæma hana Fálkaorðunni þegar ákveðið var að leggja starf hennar niður fyrirvaralaust. „Mitt mál sendi ég til umboðsmanns Alþingis,“ segir hún.

„Niðurstaðan mun svo sem ekki skipta mestu máli en mér fannst það grundvallaratriði að Alþingi vissi hvernig komið er fram við fólk og það af ríkisstofnunum. Ég er brautryðjandi og vann allan sólarhringinn til að koma Hugarafli og GET á laggirnar. Þegar úrræðið hefur sannað sig er þessi stefna tekin. Ég veit ekki hvað veldur. Ef við tökum stóru myndina vill kerfið ekki láta ýta við sér. Ég er ein af þeim sem hef valið að standa með fólki með geðraskanir í einu og öllu og líka viljað hafa eðlilegt upplýsingaflæði um alla meðferð, m.a. geðlyfin. Við notum of mikið af geðlyfjum á Íslandi og of lengi. Við ættum að nýta aðrar aðferðir til að byrja með, gefa tíma og nánd og efla þannig möguleika á að hægt sé að komast í gegnum tilfinningalegt uppnám án lyfja.

Mér hefur þótt nauðsynlegt að hafa opna umræðu um lyfjanotkun og ýmiss konar meðferð almennt. Það eru ekki allir ánægðir með það. Ég hef líka talað fyrir persónulegri nálgun og sumum finnst það ekki smart. En það er ekki réttlætanlegt að leggja niður starfsemi vegna þess að forstöðumaður tjái sig opinberlega eða hafi skoðanir.

Við notum of mikið af geðlyfjum á Íslandi og of lengi.

Hvert erum við þá komin sem samfélag? Erum við á móti mennskunni? Auk alls þessa hef ég orðið fyrir rógburði. Lítil grúppa fagmanna sem hafði áhuga á að ýta okkur út, bæði mér og Hugarafli, vann markvisst að því. Það var meira að segja farið inn á minn vinnustað til að rógbera mig. Ég lít það mjög alvarlegum augum ef embættismenn hlusta á slíkt. Eins er óverjandi að forsvarsmenn annarra stofnana, úrræða eða félagasamtaka gangi svo langt að bera út róg um aðra er sinna sama hópi. Ég hef alltaf litið svo á að illmælgi segi meira um þann sem notar hana en hinn sem um er rætt. Hún er alltaf sprottin af einhverjum rótum sem gera hana ekki trúverðuga. Ég held í raun að öll trixin í bókinni hafi verið notuð í þessu ferli. Einn góður vinur minn kallar þetta hágæðaatgerviseinelti.“

Auður bætir því við að ef henni hefði verið gerð grein fyrir að nú væri tímabært að heilsugæslan leitaði nýrra leiða og veldi annan farveg hefði hún verið opin fyrir umræðu um hann. „Það var ekki gert,“ segir hún. „Mér var bara tilkynnt að svona yrði þetta. Þarna loka menn augunum fyrir árangri, orðspori, óskum notenda og aðstandenda. Starf okkar hefur verið óhefðbundið og fólk velur þetta úrræði sjálft og það stendur einnig fjölskyldunni til boða. Allt annað upphaf að bata er að geta valið eigin leið en þegar einhver segir þér að þú eigir að gera svona eða hinsegin. Við tókum einnig á bráðavanda og unnum þá gjarnan heima með fjölskyldunni. Það er lykilatriði að strax í upphafi sé hlustað á forsendur einstaklingsins og litið á veikindin sem tímabundin.“

Reynt að komast hjá innlögn

Þegar um andlega veika einstaklinga er að ræða er oft mikil togstreita í gangi bæði milli hans og fjölskyldunnar og innan hennar. „Það eru svo þung skref að þurfa að fara út og leita sér hjálpar hjá stofnun,“ segir Auður.

„Núna er ég í námi í fjölskyldumeðferð „Open Dialog“ sem ég hef lengi horft mikið til og byggir á að vinna með einstaklinga í geðrofi og fjölskyldu þeirra. Þá er allt tengslanetið kallað saman og tveir fagmenn bera ábyrgð á samtalinu sem fer í gang. Finnar gera þetta þannig að samtalið getur átt sér stað einu sinni á dag sé þörf á meðan geðrofið er að ganga yfir.

Fjölskyldan fær upplýsingar og stuðning til að halda þetta út og sá veiki er með í öllu ferlinu og engin ákvörðun tekin á bak við tjöldin. Fyrsta stefnan er að komast hjá innlögn og lyfjagjöf en ef ekki er hjá henni komist er innlögn eins stutt og hægt er og lyfin notuð eins lítið og hægt er. Finnar hafa náð þeim árangri að 82% þeirra einstaklinga sem fara í gegnum þessa meðferð fá bata. Það er ekkert smáræði. En þá er líka unnið út frá því að geðrof sé eðlileg viðbrögð við óeðlilegu ástandi. Þá er ekki verið að sjúkdómsgera tilfinningar.“

Stofnanakerfi hamlandi

En hver er bakgrunnur þinn og hvernig var Hugarafl til? „Ég útskrifaðist sem iðjuþjálfi frá Ergoterapeutskolen árið 1994,“ segir Auður, „og gekk beint inn á geðsvið Landspítalans. Að mínu mati var ómetanleg reynsla að fá að vinna á bráðageðsviði. Læra á hvað það þýðir að vera bráðveikur og líka hvernig þjónustan var. Eftir á að hyggja er ég mjög þakklát fyrir þetta tímabil.

En það truflaði mig alltaf að stofnanakerfi er í sjálfu sér svolítið hamlandi bæði fyrir fagmanninn og notandann. Ég fann á þessum árum hvað það var sem mér líkaði ekki og ramminn var fyrirstaða gagnvart þeirri nálgun sem mig langaði til að iðka. Kerfið lokaði á mennskuna. Sem fagmaður á bráðasjúkrahúsi veit maður lítið hvað verður um fólk og hvað gerist í samfélaginu þegar kemur að útskrift.

Ég vann á Hvíta bandinu þegar ég kynntist batamódelinu Pace sem ég er að vinna eftir í dag og er eftir Daniel Fisher geðlækni, M.D., PhD, og Laurie Ahern. Rauði þráðurinn í módelinu er að að bati er mögulegur fyrir alla og valdefling ein af forsendunum. Pace byggir fyrst og fremst á persónulegri þjónustu og áherslan er á daglegt líf í samfélaginu en ekki inni á stofnunum. Við Fisher höfum starfað náið saman síðan 2005 og hans hugmyndir eru vel kynntar í íslensku samfélagi. Hefðbundin meðferð byggir hins vegar meira á „viðhaldi“ en bata og því getur það ögrað fagfólki að starfa samkvæmt batahugmyndafræði sem byggir á jafningjagrunni.“

Fimmmenningarnir sem stofnuðu Hugarafl höfðu allir svipaðar skoðanir á geðheilbrigðismálum og vildu breyta þeirri þjónustu sem var í boði. „Við vorum einn fagmaður og fjórir með reynslu af því að notfæra sér aðstoð geðheilbrigðiskerfisins. Ein af fyrstu reglunum sem við settum okkur var einmitt að allir ættu að vera jafningjar. Við vorum svona að spekúlera hvernig við gætum nýtt okkar reynslu og annarra sem hafa þurft á þjónustu að halda og hvað það væri sem okkur líkaði ekki við í kerfinu og hverju við gætum breytt. Við ákváðum þarna að valdefling yrði okkar verkfæri, sömuleiðis batanálgunin og við vildum auka réttindi sjúklinga.“

Völdin tekin af fólki

Þú viðurkennir að þú hafir fljótt fundið að þér líkaði ekki alls kostar við þær aðferðir sem notaðar voru inni á stofnunum. Var það vegna þess að þér fannst stofnanir ekki færar um að veita einstaklingum þjónustu eða var það andrúmsloft er þar skapaðist á einhvern hátt til að hefta batann?

„Völdin eru tekin af fólki þegar það fer inn á stofnun og þegar fólk er að glíma við geðrænan vanda eða tilfinningalega vanlíðan er svo stutt í að menn missi völd og sjálfstjórn. Stofnanarammi getur illa lagað sig að forsendum einstaklingsins. Hann verður að laga sig að einhvers konar kerfi og innan hans er valdaójafnvægi ríkjandi. Einstaklingurinn fær eitthvert tilboð og hann verður bara að taka því eða missa þjónustuna. Valmöguleikar eru ekki margir.

Stofnanakerfið byggir einnig á sjúkdómsgreiningum og nálgunin þannig að manneskjan verður að passa inn í kassann en ekki öfugt. Við notum mikið af lyfjum á Íslandi og forðumst umræðuna um gagnsemi þeirra. Við notum 43% meira af lyfjum en t.d. Norðmenn en örorkuþegar eru mun fleiri á Íslandi. Á þeim tíma er ég vann innan kerfisins sá ég að ég mátti ekki vera persónuleg, mátti ekki nálgast um of. Ef manneskja var í geðrofi átti ég ekki að skipta mér af því og fleiri svona mýtur sem ég er löngu búin að henda.“

Góðir möguleikar á að ná bata

Hvernig fór svo starfsemin fram þegar Hugarafl var komið á laggirnar?

„Á sama tíma og hópurinn varð til fór ég með hugmynd að samfélagsþjónustu fyrir þáverandi samninganefnd heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og fékk hana samþykkta á einu sumri. Það myndi ekki gerast í dag. Heilsugæslan kom að borðinu og óskaði eftir að fá eftirfylgdina til sín og ég samþykkti það. Ég var hvött til þess og það þótti öruggt að heilsugæslan yrði gott bakland fyrir þetta frumkvæði að samfélagslegri geðþjónustu. Því miður, segi ég í dag, því aldrei varð ég vör við baklandið og heilsugæslan ákvað að leggja þjónustu GET niður, hirða fjármagnið sem fylgdi verkefninu og þar með komst starfsemi Hugarafls í uppnám.“ Hún segir að Hugarafl hafi hins vegar ákveðið að gefast ekki upp og baráttan skilaði loks árangri því skrifað hafi verið undir samning við velferðarráðuneytið og vinnumálastofnun.

„Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra sýnir þar með að hann hlustaði á raddir fólks af öllu landinu sem sótt hafði þjónustu til GET og Hugarafls og náð bata. Einnig var hlustað á rödd fjölda þingmanna sem vildu að þessi þjónusta héldi áfram.  Vinnumálastofnun sér einnig gildi opinnar endurhæfingar með valdeflingu að leiðarljósi og Gissuri Péturssyni var falin samningagerð við Hugarafl og tókst afar vel úr hendi.“

Auður segir að baráttan fyrir GET sé hins vegar eftir, en hún muni áfram berjast fyrir samfélagslegri geðþjónustu sem byggir á forsendum notandans/fjölskyldunnar og ýtir undir bata en ekki stofnana nálgun.

„Þegar við lögðum af stað árið 2003 var ekki oft talað um bata og valdefling er tiltölulega nýtt hugtak í okkar samfélagi. En samfélagið var tilbúið og vildi breytingar í geðheilbrigðiskerfinu. Okkur var tekið opnum örmum margra hluta vegna og það var farvegur fyrir nýja nálgun. Við boðuðum til borgarafundar og þá höfðum við ekki einu sinni starfað í þrjá mánuði og þangað mættu þrjú hundruð manns. Sveiflan í þjóðfélaginu var jákvæð gagnvart nýrri nálgun,“ segir hún og bætir við að hún sé bjartsýn á að pendúllinn muni aftur sveiflast til baka.

Myndir / Hallur Karlsson

Upplifir spennuna og gleðina í gegnum dóttur sína

Tara Brynjarsdóttir starfar sem kennari í Laugalækjarskóla, þar sem hún kennir meðal annars heimilisfræði. Eitt af helstu áhugamálum Töru er að dunda sér í eldhúsinu, sérstaklega með dóttur sinni. Þar eiga þær mæðgur margar af sínum bestu gæðastundum.

Ertu mikið jólabarn? Á fyrri tíð var ég ekki mikið jólabarn en eftir að ég varð móðir upplifi ég spennuna og gleðina í gegnum stelpuna mína.

Ertu með einhverjar hefðir sem þér þykja ómissandi á aðventunni? Já, við vinkonurnar hittumst alltaf og bökum sörur sem er orðin ómissandi hefð fyrir jólin. Svo reynum við fjölskyldan að fara á eina jólatónleika.

Hvað ætlar þú að baka fyrir jólin? Ég baka alltaf sörur, súkkulaðibitakökur og lakkrístoppa, og piparkökur með stelpunni minni sem við skreytum saman.

Hver sér um eldamennskuna á jólunum? Ég myndi segja að ég sjái almennt um eldamennskuna á mínu heimili. Við mæðgur eigum einnig miklar gæðastundir í eldhúsinu og eldum og bökum mikið saman.

Hvað er ómissandi að þínu mati um jólin? Samveran með fjölskyldunni og vinum, spilakvöldin, baksturinn og rólegheitin í kringum hátíðirnar.

Frönsk súkkulaðikaka með karamellu og vanillusmjörkremi

„Ég var orðin þreytt á að baka þessa klassísku súkkulaðiköku og ákvað að prófa mig áfram og út kom þessi súkkulaðikaramellubomba sem slær alltaf í gegn. Súkkulaðitrén eru bráðið suðusúkkulaði sem ég sprautaði á bökunarpappír og kældi áður en ég skreytti kökuna. Það er ótrúlega gaman að leika sér með súkkulaði og alls ekki jafnflókið og maður heldur. Mæli með því að prófa.“

Eitt af helstu áhugamálum Töru er að dunda sér í eldhúsinu.

Botn

200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
4 egg
2 dl sykur
1 dl hveiti

Bræðið smjör og suðusúkkulaði á lágum hita, á meðan hrærið eggin og sykurinn á hæsta hraða þar til blandan er orðin létt og ljósgul. Bætið hveitinu rólega saman við ásamt súkkulaðinu og smjörinu. Bakið við 180°C, undir- og yfirhita, í 30 mínútur. Ég gerði tvöfalda uppskrift til að kakan yrði hærri.

Krem

250 g smjör
250 g smjörlíki
500 g flórsykur
1 msk. síróp
1-2 msk vanillusykur

Hrærið saman smjör, smjörlíki og síróp. Þegar það er orðið vel þeytt bætið þá flórsykrinum og vanillusykrinum út í. Ef smjörið og smjörlíkið er mjög kalt er gott að nota ostaskera til að skera það niður í þunnar sneiðar og þá tekur það styttri tíma að hrærast og hrærivélin ræður betur við það. Því lengur sem þið hrærið smjörið því ljósara verður kremið.

Karamella

1 poki bræddar ljósar karamellur

Ég er ekki mikið fyrir að flækja hlutina og bræði einfaldlega karamellurnar (Töggur) eða kaupi heita karamelluíssósu sem ég set á milli botnanna.

Myndir / Hallur Karlsson

Engar ómissandi jólahefðir

Bjartur Guðmundsson leikari segir frá jólunum sínum.

Hvernig verða jólin þín í ár? Þetta árið verða þau haldin heima í Garðabænum í faðmi kjarnafjölskyldunnar, kannski bætast einhverjar góðar sálir við hópinn, sjáum til. Þetta er í fyrsta skiptið sem við höldum jólin hér og ég hlakka mikið til. Við ætlum að hafa kalkún eftir uppskrift frá ömmu konunnar minnar en það er hefð sem er að festa sig í sessi. Sjálfur er ég sífellt að hallast meira í áttina að grænmetisfæði svo ég á eftir að finna eitthvert tvist á þetta sem mætir báðum pólum.

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? Já, nokkrar hefðir en ekkert sem er alveg ómissandi. Þetta helsta er sörubakstur, laufabrauð, svo erum við með þann háttinn á að hengja litlar gjafir á dagatal og telja þannig niður dagana fram að jólum. Það fá samt ekki allir gjöf alla dagana heldur fær bara einn fjölskyldumeðlimur gjöf á degi hverjum.

Hvað er efst á óskalistanum þínum? Ég er svo heppinn að eiga eiginlega allt sem ég þarf. Ég er líka þannig að ég þarf frekar lítið til að vera ánægður. Það er þó eitt apparat sem mig langar í þessa dagana og heitir MUSE. Þetta er tæki sem hjálpar fólki að ná tökum á hugleiðslu með því að mæla heilabylgjur og lætur vita þegar maður kemst í öflugt hugar- og tilfinningaástand. Þannig getur maður áttað sig á hvaða hugsanir virka best.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið? Þær eru margar, en þegar ég var 19 ára sagði ég systur minni að ég saknaði þess að fá eitthvað sem hefði ekkert annað notagildi en að leika sér með. Hún brá á það ráð að gefa mér pínulítinn fjarstýrðan bíl sem ég var himinlifandi yfir. Bíllinn var svo lítill að mér datt í hug að nota hann til að hrekkja mömmu og varði megninu af aðfangadagskvöldi við að sauma músabúning sem ég klæddi bílinn í.

Eins og góðri húsmóður sæmir þá rauk mamma af stað fussandi og sveiandi til að taka upp ruslið og þá kom músabíllinn æðandi í áttina að henni.

Svo plantaði ég bílamúsinni inn í eldhús og setti haug af mandarínuberki á gólfið nálægt músinni. Eins og góðri húsmóður sæmir þá rauk mamma af stað fussandi og sveiandi til að taka upp ruslið og þá kom músabíllinn æðandi í áttina að henni. Útkoman var eftirminnilegt öskur og eltingaleikur sem ætlaði engan enda að taka. Það var ekki fyrr en hún var orðin steinhissa á hugrekki músarinnar að hún tók eftir mér með fjarstýringuna í hláturskrampa og áttaði sig á hvað var í gangi.

Besta jólalag allra tíma? Upphaflega útgáfan af We Are the World. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á það. Boðskapurinn er fallegur og stemningin í laginu er kraftmikil.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Í útlöndum þessi jólin

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður hjá RÚV, sendi frá sér nýja matreiðslubók fyrir jólin sem heitir Hvað er í matinn? Þar reynir hún að svara sennilega einhverri algengustu spurningu á hverju heimili.

„Flestir svara oftast „bara eitthvað gott“ en vantar hugmyndir. Í bókinni gef ég uppskriftir fyrir alla daga vikunnar í níu vikur,“ segir Jóhanna Vigdís. „Mér þykir vænt um þessa bók, ég gekk með hana í tíu ár og lagði hug minn og hjarta í hana.“

Hún hefur haft áhuga á matargerð frá því hún man eftir sér. „Áhugann fékk ég fyrst frá mömmu og svo í gegnum þá sem á vegi mínum hafa orðið og líka hafa áhuga á matargerð.“

Stendur allan daginn í eldhúsinu

Jóhanna er fasheldin á margt á aðventu og finnst til dæmis ómissandi þáttur er að skrifa jólakortin. „Ég sendi afar mörg og læt hugann reika til þeirra sem ég skrifa hverju sinni. Svo er aðventan tími samveru – hún er best og mikilvægust.

Aðfangadagur snýst um matargerð hjá mér, ég er allan daginn í eldhúsinu og það finnst mér gera daginn fyrir mig. Á Þorláksmessu förum við alltaf út að borða á Ítalíu á Laugaveginum með systur minni og hennar fjölskyldu en það er hefð frá 1996 og er ómissandi. Þessi jól eru öðruvísi því ég er með mína fjölskyldu í útlöndum núna. Við fögnum stórafmæli mannsins míns og gerum það saman en verðum með hugann hjá fólkinu heima,“ segir Jóhanna.

Aðfangadagur snýst um matargerð hjá mér, ég er allan daginn í eldhúsinu og það finnst mér gera daginn fyrir mig.

Þegar þau bjuggu í Sviss byrjuðu þau að hafa kalkún á aðfangadag og halda í þá hefð. „Ég geri fyllingu, steiki mitt rauðkál og geri þær sósur sem hver og einn vill. Tengdasonur okkar tilvonandi er kokkur og hann hefur síðustu ár galdrað fram dásamlegan forrétt, humar-risotto, sem hefur slegið í gegn. Í eftirrétt erum við með heimatilbúinn ís með möndlu í, mjög skemmtilegt.“

Fjölga samverustundum

Jóhann sér bara fallegt í kringum nýja árið 2019. „Ég fer inn í það með fyrirheit um að gera betur, hlúa að fólkinu mínu og fjölga samverustundum. Þær eru þegar öllu er á botninn hvolft það sem skiptir öllu máli. Að vera góð hvert við annað. Ég hef líka metnað í vinnunni,  að gera betur í dag en í gær og efla hag fréttastofunnar. Vinna saman að því markmiði sem við reynum alla daga – að gera góða blaðamennsku enn betri, segja frá og koma því til lesenda, hlustenda og áhorfenda svo sómi sé að. Nýta sóknarfærin alltaf,“ segir Jóhanna að lokum.

Raddir