Lífsreynslusaga úr Vikunni.
Fyrir tveimur árum flutti móðir mín í blokk. Hún hafði ákveðið að minnka við sig eftir að pabbi dó og þetta var falleg íbúð, fullkomin fyrir eina manneskju. Í byrjun gekk allt vel og mamma var mjög ánægð en svo flutti ný kona í húsið og þá breyttist allt.
Grannkonan bjó á móti mömmu og fljótlega fór hún að koma yfir í tíma og ótíma. Hún var mikill sjúklingur að eigin sögn og alltaf var eitthvað nýttt að henni. Fyrst var hún með krabbamein í ristli svo var það komið í magann, næst í heilann og svo í beinin. Hún hafði alltaf þjáðst af gigt og ofnæmi, verið með mígreni frá unga aldri og eyrnabólgur. Hún hafði ávallt nýja sorgarsögu að segja. Út af fyrir sig hefði það verið í lagi ef heimsóknirnar hefðu eingöngu snúist um að tala en svo var ekki. Í hvert sinn bað hún mömmu um hjálp við eitthvað.
Hún var líka óskaplega gleymin. Mamma var alltaf að hleypa henni inn eftir að hún hafði gleymt lyklunum sínum. Hún fékk svo að sitja inni hjá henni meðan beðið var eftir að sonurinn kæmi með aukalykla og opnaði íbúðina. Sífellt meiri truflun var að þessu fyrir mömmu og hún fékk oft ekki frið heima hjá sér dag eftir dag vegna grannkonunnar.
Fegurðardrottning
Þegar hún var ung hafði þessi kona verið áberandi í þjóðlífinu um tíma og flogið hátt eins og þar stendur. Hún tók þátt í fegurðarsamkeppni og vann. Eftir það starfaði hún sem fyrirsæta um tíma. Hún giftist manni í góðri stöðu og bjó lengi erlendis. Þegar þau hjónin skildu flutti hún heim. Mamma fékk að heyra langar og átakanlegar sögur af því hversu illa maðurinn hafði farið með hana og hvernig hann hafði séð til þess að hún færi slypp og snauð út úr skiptunum.
Hvernig sem því var nú háttað var að minnsta kosti víst að konan átti enga peninga. Sonur hennar keypti handa henni íbúðina á móti mömmu en að öðru leyti lifði hún á örorkubótum. Þær gáfu ekki rúm til að leyfa sér mikið og allt var grannkonunni ofboðslega erfitt. Oft bað hún mömmu að hjálpa sér við að greiða sér, naglalakka neglurnar eða einhver önnur smáviðvik. Svo var hún farin að þvo henni um hárið, setja í hana rúllur og hjálpa henni að hreinsa húðina.
Smátt og smátt jukust kröfurnar. Grannkonan bað mömmu æ oftar að fara út í búð fyrir sig, keyra sig til vinkvenna, lækna eða í hárgreiðslu. Hún var líka farin að kalla á mömmu þegar hún vildi flytja til húsgögn en hún var alltaf að breyta uppröðun í íbúð sinni. Reglulega kom hún og fékk lánaða mjólk, morgunkorn, hveiti eða eitthvað annað. Brátt var hún farin að mæta á matmálstímum og sat um að sníkja mat af mömmu.
Hélt uppteknum hætti
Ég fann fljóltega að þetta var farið að leggjast þungt á mömmu. Hún vorkenndi konunni en hafði enga orku til að sinna svona krefjandi manneskju. Mamma mín er rúmlega sjötug og konan á svipuðum aldri. Ég reyndi allt hvað ég gat að telja mömmu á að segja konunni einfaldlega að þetta gengi of langt en hún guggnaði ævinlega á því. Þess í stað var hún farin að fara út snemma á morgnana og laumast heim seinnipartinn.
„Hún vorkenndi konunni en hafði enga orku til að sinna svona krefjandi manneskju.“
Oft sat hún inni hjá sér með ljósin slökkt og þorði ekki að kveikja á sjónvarpi eða hlusta á tónlist af ótta við grannkonan heyrði og kæmi yfir. Væri dyrabjöllunni hringt þorði mamma ekki fyrir sitt litla líf að svara og lét sem hún væri ekki heima. Þegar ég komst að þessu vissi ég að við svo búið mætti ekki standa.
Daginn eftir fór ég sjálf yfir og talaði við konuna og benti henni á að móðir mín væri fullorðin kona og stríddi við ýmsa kvilla líka. Það væri þess vegna ekki hægt að leggja á hana alls konar snúninga og vinnu í þágu annarra. Konan hlustaði á mig og sagðist skilja það ósköp vel. Hún væri bara svo ein í heiminum og mamma mín einstaklega greiðvikin og góð. Ég er harðari af mér en mamma svo ég sagði henni beint út að það gæfi engum leyfi til að misnota góðvild hennar. Sjálf ætti hún son og tengdadóttur og barnabörn og gæti líklega leita til þeirra. Jú, hún viðurkenndi það og lofaði að gera meira af því hér eftir. Hún var klökk þegar hún sagði þetta en ég lét engan bilbug á mér finna. Mamma átti betra skilið en að búa við hálfgert umsátursástand.
Ég hélt að þar með væri málið leyst en svo var aldeilis ekki. Nokkrum vikum seinna komst ég að því að konan hélt áfram að sitja um mömmu og biðja hana um greiða. Eini munurinn var að nú byrjaði hún allar beiðnir á: „Heldur þú að dóttur þinni þætti nokkuð of mikið ef þú gerðir mér smágreiða?“ Og mamma gaf alltaf eftir og gerði það sem beðið var um. Sameiginlegt þvottahús var í kjallara blokkarinnar og oft setti mamma í vél fyrir grannkonu sína, hengdi upp fyrir hana þvott og tók hann niður og færði henni. Reyndar var hún hætt að biðja mömmu að flytja húsgögn en mamma sótti fyrir hana pakka á pósthúsið og borgaði aðflutningsgjöld sem hin borgaði ekki til baka.
Hringt í soninn
Nú var mér algjörlega nóg boðið. Ég hafði upp á símanúmerinu hjá syninum og hringdi í hann. Ég benti honum á að móðir hans væri augljóslega mikið veik og nær ósjálfbjarga. Það hefði hingað til lent á mömmu minni að sinna henni nánast frá morgni til kvölds á kostnað hennar heilsu. Nú vildi ég að lát yrði á þessu. Ef konan gæti ekki búið ein yrðu þau að leggja drög að því að koma henni á stofnun eða ráða manneskju til að sinna henni. Hann hlustaði kurteislega á mig og sagðist mundu kanna málið.
Næstu daga fylgdist ég vel með og mamma fékk algjöran frið frá grannkonu sinni. Ég var farin að halda að málið væri leyst þegar ég frétti að konan var farin að herja á aðra manneskju í húsinu. Sonurinn hafði greinilega bannað henni að plaga mömmu svo hún var farin að hringja hjá konunni á hæðinni fyrir ofan þegar hún gleymdi lyklunum og setjast upp hjá henni.
„Mamma er auðvitað dauðfegin að vera laus og geta aftur gengið ófeimin um íbúðina sína.“
Ég vona sannarlega að sú kona hafi meira bein í nefinu en mamma og láta hlutina ekki ganga eins langt. Mamma er auðvitað dauðfegin að vera laus og geta aftur gengið ófeimin um íbúðina sína. Ég veit þó ekki hve lengi sú dýrð stendur því ég gæti vel trúað konunni til að byrja aftur að biðja hana um greiða ef ekki gengur vel að fá þá frá öðrum íbúum hússins.
Ég er líka mjög hissa á að félagsþjónustan skuli ekki gera meira fyrir hana. Hvort sem konan ýkir sjúkdóma sína og sjúkdómasögu eða ekki er augljóst að hún er ósjálfbjarga að mjög mörgu leyti. Ég hef sjálf séð að hún á mjög erfitt með gang og másar eins og físibelgur í hvert sinn sem hún þarf að ganga meira en nokkur skref. Ég veit að hún fær heimilishjálp en þyrfti mun meiri aðstoð. En mamma er alla vega laus í bili og er á meðan er.