Föstudagur 20. september, 2024
9.9 C
Reykjavik

Fékk hrukkukrem fyrir augu 13 ára

Söngkonan Greta Salóme heldur ýmsar jólahefðir í heiðri. Hana vantar ekkert fyrir jólin nema marenskökuna hennar mömmu sinnar, hún verður að vera.

Hvernig verða jólin þín í ár? „Ég er alltaf heima hjá foreldrum mínum á aðfangadag. Mamma og pabbi hafa alltaf haldið jólin svo ótrúlega hátíðleg og mikið af hefðum í kringum þau sem mér finnst ómissandi. Ég er yfirleitt alltaf að koma fram á aðfangadag en í ár er ég í fríi og ætla að njóta þess í botn. Ég hef verið svo mikið að spila erlendis og hef lítið verið heima þannig að markmið jólanna og aðventunnar í ár er að eyða sem mestum tíma með vinum og fjölskyldu.“

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? „Mín uppháhaldsjólahefð er hádegismaturinn heima hjá mömmu og pabba á aðfangadag. Þar kemur saman frændfólk sem er að keyra út pakkana og við fáum okkur svona „brot af því besta“ sem er í jólamatinn. Svona hálfgert hlaðborð. Þessi hádegismatur er alltaf svo ótrúlega skemmtilegur og mikil stemning.“

Hvað er efst á óskalistanum þínum? „Þetta hljómar kannski eins og algjör klisja en eftir alla fjarveruna á þessu ári og endalaus ferðalög að spila hingað og þangað þá er samvera með fjölskyldunni efst á óskalistanum. Maður gleymir því stundum hvað lífið er bæði ótrúlega stutt og svo hvað tíminn er dýrmætur. Fyrir utan það þá vantar mig ekki neitt … nema kannski marenskökuna hennar mömmu. Ég yrði ekki sátt ef hún yrði ekki.“

Maður gleymir því stundum hvað lífið er bæði ótrúlega stutt og svo hvað tíminn er dýrmætur.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið? „Ég man eftir að hafa fengið hrukkukrem fyrir augu þegar ég var 13 ára og svo fékk ég einu sinni kartöflu í skóinn. Situr enn þá í mér og Kertasníkir er enn þá í minnsta uppáhaldinu hjá mér.“

Besta jólalag allra tíma? „Hátíð fer að höndum ein og Kom þú kom vor Immanúel.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ekkert hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu“

|||
|||

Það er fyrir löngu orðið jólalegt um að litast í miðborg Reykjavíkur, en neðst í Skólavörðuholtinu er þó allt með kyrrum kjörum. Þar tekur Pálmar Ragnarsson á móti blaðamanni með þéttu handtaki og hlýlegu brosi. En Pálmar hefur að undanförnu getið sér gott orð sem fyrirlesari um samskipti fólks. Hann hefur einnig notið fádæma vinsælda sem körfuboltaþjálfari fyrir yngstu kynslóðina, en í því starfi hefur hann lagt áherslu á gleði og vellíðan barnanna.

Aðspurður hvort að hann sé kominn í hið víðfræga jólaskap brosir hann út að eyrum og segir að það sé í raun óumflýjanlegt í hans tilviki.

„Ég tapaði jólagleðinni um tíma á unglingsárunum og það var ekki fyrr en ég var fenginn til þess að koma með pabba mínum á jólaball í hlutverki jólasveins þegar ég var tuttugu og fjögurra ára sem þetta breyttist.

Ég man að ég var dauðstressaður og fannst þetta bæði óþægilegt og erfitt en samt nógu gaman til að gera þetta aftur. Síðan hef ég leikið jólasvein á hverju einasta ári í tíu ár og núorðið kemst ég auðvitað ekkert hjá því að fara í jólaskap, því á hverjum degi í desember syng ég jólalög,“ segir Pálmar og skellihlær.

Pálmar er ættaður norðan af Ströndum, alinn upp í Grafarvogi og kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu, hann segir að lífið hafi alfarið snúist um körfuna á hans yngri árum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Talar daglega við ókunnuga

Pálmar er ættaður norðan af Ströndum, alinn upp í Grafarvogi og kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu, hann segir að lífið hafi alfarið snúist um körfuna á hans yngri árum. „Ég var feiminn og hlédrægur strákur, átti mína vini en þorði ekki að tala fyrir framan fólk eða við ókunnuga, hvað þá stelpur. Það var ekki fyrr en ég var eiginlega neyddur til þess að taka á þessu í Versló, þegar ég var í tímum sem hétu tjáning. Þá þurfti ég fyrst að mæta og segja nafnið mitt fyrir framan bekkinn og það var ótrúlega erfitt.

Ég var með kvíðahnút í maganum og langaði til þess að sleppa því að mæta en gerði það þó og það var erfitt. Í næsta tíma átti maður líka að segja frá áhugamálum sínum og þannig skref fyrir skref og þetta skánaði smám saman. Þetta var fyrsta skrefið fyrir mig í þá átt að gera eitthvað sem mér fannst mjög erfitt og ég er ekki viss um að ég hefði einhvern tímann tekið þessi skref sem þurfti hefði ég ekki verið neyddur til þess á þessum tímapunkti. Núna, eftir að hafa sagt já við öllum tækifærum sem hafa boðist á lífsleiðinni, finnst mér ekki margt vera svo erfitt eða íþyngjandi lengur.“

Pálmar segir að hann hafi á þessum árum sett sér það markmið að segja já og forðast ekki það sem hræddi hann. „Ef það er erfitt þá geri ég það. Hluti af þessu er að ég setti mér það markmið að tala við ókunnuga á hverjum degi. Oft bara í röðinni í bankanum, á kassanum í Bónus eða hvar sem er. Bara að spjalla án þess að vera uppáþrengjandi og langflestir taka þessu vel, en auðvitað verður maður að kunna sig og þekkja sín mörk. En ég held að fólk mætti gera meira af þessu frekar en að grúfa sig yfir símann. Við þurfum að temja okkur að vera með fólki og innan um fólk og leggja þá símana frá okkur.“

„Ef það er erfitt þá geri ég það. Hluti af þessu er að ég setti mér það markmið að tala við ókunnuga á hverjum degi. Oft bara í röðinni í bankanum, á kassanum í Bónus eða hvar sem er.“

Forsendan er góð samskipti

Pálmar segir að eftir að hafa verið duglegur námsmaður í grunnskóla hafi hann farið að slaka á og verið latur við námið í Versló. Eftir stúdentsprófið hafi hann svo ýmist verið að skussast við nám í sálfræði eða viðskiptafræði og árangurinn verið eftir því.

„Ég var svona á þessu: Æ, þetta reddast-viðhorfi en það reddaðist auðvitað ekki af sjálfu sér því lífið snerist bara um körfubolta og félagslíf. Eftir þrjú ár af þessu bulli skráði ég mig aftur í sálfræði og setti mér loksins markmið. Ég ætlaði að dúxa. Ætlaði að læra meira og vera duglegri en allir hinir 350 sem skráðu sig. Ég var í frábærri stöðu til þess að leggja mig allan fram, nýtti mér bæði íþróttahugarfarið og keppnisskapið, mætti alla daga, um helgar, á afmælinu mínu, alltaf. Lærði eins og brjálæðingur og sagði öllum sem ég gat að ég væri að fara að dúxa, til þess að setja pressuna á mig. Svona gekk þetta í þrjú ár og heldurðu að ég hafi dúxað? Nei, en ég útskrifaðist og með góða einkunn svo ég þurfti ekki að sjá eftir neinu,“ segir Pálmar og hlær við tilhugsunina.

„Markmiðið er einfaldlega að standa sig vel og til þess þarf maður að leggja sig fram.“

Ég ætlaði að dúxa. Ætlaði að læra meira og vera duglegri en allir hinir 350 sem skráðu sig.

Pálmar lauk prófi með BS-gráðu í sálfræði og bætti síðar við sig MA-gráðu í viðskiptafræði. Á þessum tíma hefur hann einnig sinnt ýmsum störfum en flestir þekkja hann þó í hlutverki körfuboltaþjálfara barna.

„Ég sneri mér að þjálfun eftir að hafa meiðst illa á hné. Mig langaði ekki til þess að fara að þjálfa því mér fannst óþægilegt að þurfa að tala fyrir framan krakkana og hvað þá foreldrana. En ég lét tilleiðast og fann fljótt hvað þetta er rosalega skemmtilegt og var með þennan flokk í þrjú ár. Eftir það sneri ég mér alfarið að því að þjálfa yngstu börnin og þar fór ég geta mér góðs orðs fyrir að það mynduðust góð samskipti innan hópsins. Hvað börnunum líður vel, þau hlakka til að mæta, þau langar að leggja sig fram, og við þetta varð alveg gríðarleg fjölgun á æfingum.

Þessa ánægju rek ég til þeirrar áherslu að öllum börnum líði eins og þau séu mikilvægur hluti af hópnum, óháð getu. Það skiptir mig engu máli hvað barnið er flinkt eða hvort það hegðar sér vel. Ég vil að hvert einasta barn sem mætir á æfingu finni að það skipti máli og forsenda þess séu góð samskipti. Ekkert annað.“

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Að stíga skrefið formlega

Pálmar segir að það hafi svo verið í gegnum þjálfarastarfið sem hann byrjaði að halda fyrirlestra. Aldrei hafi honum dottið í hug að hann ætti eftir að vinna við það í fullu starfi að halda fyrirlestra á eigin vegum en nú, tveimur árum og einum 350 fyrirlestrum síðar, sé það samt raunin.

„Það merkilega er að ég hef aldrei beðið einhvern um að fá að halda fyrirlestur en þetta byrjaði í gegnum það að ÍSÍ hafði samband því þar á bæ höfðu menn frétt af minni nálgun. Þau voru að fara halda ráðstefnu um aðferðir í íþróttaþjálfun ungmenna og báðu mig um að koma og segja frá hvað ég er að gera með börnunum, segja frá samskiptunum við börnin. Mér fannst þetta erfið tilhugsun en ég sagði auðvitað já út af markmiði mínu um að taka erfiðum áskorunum. En mig langaði til þess að halda geggjaða ræðu og slá í gegn svo ég fór að semja og æfa mig sem skilaði sér í mjög fínni frammistöðu, þótt ég segi sjálfur frá.

Eftir þetta fór fleira fólk að hafa samband og biðja mig um að flytja þessa ræðu og í framhaldinu hafði Dale Carnegie samband og bað mig um að halda fyrirlestra fyrir þeirra fólk, fyrir sína þjálfara, og þá fékk ég stærsta hnútinn í magann. En mér hefur líkast til aldrei verið eins vel tekið og af þessu fólki sem vinnur við að halda ræður. Þau kunna að taka vel á móti fólki og láta því líða vel. Eftir þetta ákvað ég að að stofna síðu á Facebook, Pálmar Ragnarsson fyrirlestrar, og við það fór þetta á næsta stig. Er þar með orðinn fyrirlesari að atvinnu. Ég mæli með því ef maður er með einhvern draum að stíga skrefið svona formlega, því það gerir það enginn fyrir mann.“

Mæli með að ferðast einn

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs.

„Ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig eða pæla eitthvað í þessu, ákvað bara að fara til Mexíkó af því að mér finnst það hljóma vel og var harðákveðinn í að vera í ekki tölvupóstsambandi eða öðru slíku á meðan. Ég vissi ekkert hvað beið mín, keypti bara miða aðra leið og lét vaða. Það eina sem ég gerði daginn sem ég fór af stað var að bóka mér pláss á hosteli fyrstu þrjár næturnar. Þegar ég er kominn út, gerðist eitthvað innra með mér.

Ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig eða pæla eitthvað í þessu, ákvað bara að fara til Mexíkó af því að mér finnst það hljóma vel og var harðákveðinn í að vera í ekki tölvupóstsambandi eða öðru slíku á meðan.

Stressið, streitan og álagið sem var farið að segja til sín hreinlega gufaði upp. Það kom yfir mig einhver innri friður sem ég hafði nánast ekki fundið síðan ég var unglingur og svo fór ég að finna hvað þetta yrðimikið ævintýri. Ekkert plan og eina markmið að kynnast fólki og reyna að sjá mikið af spennandi hlutum. Þannig ferðaðist ég eftir því sem hugurinn bar mig hverju sinni, gisti á hostelum og kynntist mörgu frábæru fólki. Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt. Það er allt annað. Margir halda að þeir verði einmana en ég var það aldrei. Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana. Þegar maður ferðast á milli hostela er margt fólk sem er líka eitt á ferð og það hópar sig saman, kynnist og gerir skemmtilega hluti.

Ég lagði mig fram um að kynnast fólki frá Mexíkó. Þetta er dásamlegt fólk, lífsglatt og skemmtilegt og það virðist ekki skipta það öllu máli hvað það á af hlutum eins og er hérna heima. Það eru nefnilega ekki hlutir sem veita lífshamingju. Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó, en ég gat ekki betur séð en að það væri jafnvel meiri gleði og hlátur þar ef eitthvað er.“

Skiptir engu máli hvað ég hefði keypt

„Á sama tíma sá ég líka að þarna lifa margir við erfiðar aðstæður og þar á meðal mörg börn. Hvert sem ég fór varð ég var við börn í slæmum aðstæðum, svöng og í slitnum fötum. Þarna sá ég himin og haf á milli þeirra aðstæðna sem við flest búum við hér á Íslandi og hvernig mörg börn hafa það í Mexíkó. Ég hugsaði því um það að búa á Íslandi og vera í þeirri forréttindastöðu að geta látið gott af sér leiða. Því setti ég mér það markmið úti í Mexíkó að gera eitthvað gott fyrir börnin í landinu.

Þegar ég kom heim velti ég því fyrir mér hvort væri mikilvægara að ég keypti mér fleiri hluti, kannski nýjan og flottari bíl, eða að eitthvað af börnunum í Mexíkó hefði það kannski örlítið betra? Og það er sama hvað ég hugsaði þetta oft, svarið var alltaf það sama: Það er alltaf mikilvægara að bæta aðstæður barnanna en að auka við minn lúxus. Ég vona að ég muni ná að halda þessum hugsunarhætti og láta áfram gott af mér leiða.“

Pálmar segir að eftir að hann kom heim hafi hann unnið mikið með það markmið að leiðarljósi að geta gefið milljón krónur til hjálparstarfs fyrir börn í Mexíkó. „Þegar það var komið kynnti ég mér hvernig væri best að gera þetta, bar þetta undir marga og fékk alls konar viðbrögð. Sumir sögðu já, það er frábært, en aðrir svona reyndu að telja mér hughvarf, sögðu að þetta breytti engu úti í hinum stóra heimi. En auðvitað breytir það miklu fyrir börnin sem fá að njóta þess þó svo ég sé ekki að fara að breyta öllum heiminum.

Niðurstaðan varð sú að ég styrkti SOS barnaþorpin um 600.000 kr. sem fara í að kaupa þvottavélar, eldavélar og rúmdýnur handa barnaþorpi í Mexíkóborg.

Þannig að ég lagðist í smárannsóknarvinnu og hafði samband við SOS barnaþorp á Íslandi og Barnaheill. Niðurstaðan varð sú að ég styrkti SOS barnaþorpin um 600.000 kr. sem fara í að kaupa þvottavélar, eldavélar og rúmdýnur handa barnaþorpi í Mexíkóborg. Svo gef ég 400.000 kr. til Barnaheilla og það fer í uppbyggingu fyrir börn og fjölskyldur á jarðskjálftasvæðum í Mexíkó.“
Pálmar staldrar við og segir að í kjölfarið að hann kom peningunum frá sér á þennan hátt, hafi komið yfir hann góð tilfinning.

„Mér leið mjög vel. Það er ekkert sem hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu en þetta, það skiptir engu máli hvað ég hefði keypt mér. Engu máli. Sama hvað, þá get ég alla vega sagt við sjálfan mig að ég hafi gert eitthvað gagn.“

„Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum og stundum eigum við kannski bara nóg og getum nýtt tækifærið sem í því felst.“ Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Draumurinn að gera meira

„Við bræðurnir pælum mikið í þessu, hvernig maður geti látið gott af sér leiða í heiminum og mér finnst æðislegt þegar fólk tekur þátt í hjálparstarfi. Það er gaman að hugsa til þess hvort einhver þarna úti sé tilbúinn til þess að neita sér um hluti og munað, eingöngu í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða fyrir aðra.

Margt fólk gefur þannig að það hafi engin áhrif á þeirra daglega líf. Gefur eitthvað sem breytir engu fyrir það, þannig að það þarf ekki að neita sér um neitt í staðinn. Það er mjög mikilvægt og ég er alls ekki að gagnrýna það, langt frá því. Auðvitað er alltaf frábært þegar fólk tekur þátt í hjálparstarfi en ég hef mikið verið að hugsa um það hvort það sé til fólk í heiminum sem neitar sér um jafnvel mikilvæga hluti til þess að geta látið gott af sér leiða fyrir aðra? Þegar ég heyri sögur af slíku fólki fæ ég alltaf mikinn innblástur þótt sögurnar séu ekki endilega margar. Ég er svo sannarlega ekki að segja að ég hafi verið eða sé kominn þangað. En með þessu langar mig þó til þess að taka skref í þessa átt á sama tíma og ég vona að þetta sé hvatning fyrir aðra til að taka svipuð skref.“

Aðspurður hvort að hann hafi ekki orðið var við umræðu um fátækt barna á Íslandi og jafnvel kynnst henni af raun í sínu starfi, segir Pálmar að vissulega hafi hann orðið var við að börn hafi það misgott á Íslandi. „Hins vegar hef ég ekki upplifað að börn sem koma til mín í íþróttastarf, upplifi skort. Að þau séu í ónýtum fötum eða svöng en þá verðum við að hafa í huga þann möguleika að þau börn skili sér ekki inn í íþróttirnar. En auðvitað hef ég fylgst með þessari umræðu eins og aðrir og það er dapurlegt að hugsa til þess að börn á Íslandi búi við fátækt.

Ekki síst í ljósi þess að við erum klárlega í aðstöðu til þess að koma í veg fyrir að það sé fátækt á Íslandi. En mín tilfinning er að þrátt fyrir að það sé fátækt á Íslandi þá er það mjög ólíkt þeirri fátækt sem mörg börn búa við úti í hinum stóra heimi. Þar sem börn eru horuð úr hungri, skólaus í ónýtum fötum og sofa jafnvel úti undir berum himni.“

„Áhrifin sem ég vil hafa á samfélagið er að smita út frá mér góðum samskiptum. Og Íslendingar almennt eiga í góðum samskiptum, það er að minnsta kosti mín tilfinning, að fólk hér sé að megninu til gott hvert við annað.“

Látum gott af okkur leiða

Pálmar hittir margt fólk í sínu starfi sem fyrirlesari og er greinilega umhugað um velferð náungans. Það er því ekki úr vegi að spyrja hvort að hann hafi hugsað sér að fara út í stjórnmál í framtíðinni?

„Þetta er góð pæling,“ segir Pálmar og brosir. „Áhrifin sem ég vil hafa á samfélagið er að smita út frá mér góðum samskiptum. Og Íslendingar almennt eiga í góðum samskiptum, það er að minnsta kosti mín tilfinning, að fólk hér sé að megninu til gott hvert við annað. Ég er farinn að nálgast 20.000 manns sem ég hef hitt á minni vegferð og ég bæði sé og finn að Íslendingar vilja leggja sig fram um að eiga í góðum samskiptum. Það væri erfitt fyrir mig að taka þátt í stjórnmálum á sama tíma og ég vil boða góð samskipti.

Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum.

Um leið og ég væri kominn í stjórnmálaflokk, alveg sama hvaða, mundi helmingur Íslendinga hætta að vilja hlusta á mig. En seinna meir hef ég ýmsar skoðanir á því hvernig best væri að gera hlutina og ég ætla ekkert að útiloka að ég komi einhvern tímann til með að sjást í stjórnmálum. En það sem mér finnst vera númer eitt, tvö og þrjú í íslenskum stjórnmálum er að koma heiðarleikanum á réttan stað. Málefni verða að vera í öðru sæti þangað til það er búið að laga heiðarleikann og traustið.“

Pálmar ítrekar að Íslendingar séu almennt í góðri aðstöðu til þess að láta gott af sér leiða í heiminum. „Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum og stundum eigum við kannski bara nóg og getum nýtt tækifærið sem í því felst. Og þótt við breytum ekki öllum heiminum, þá breytum við kannski öllu fyrir þau börn sem við getum hjálpað.

Ég hvet fólk til þess að láta gott af sér leiða. Í gegnum SOS, Heimsforeldra, Barnaheill og fleiri hjálparstofnanir, og núna er einmitt góður tími til þess að huga að slíku um jól og áramót. En svo hvet ég fólk auðvitað líka til þess að njóta hátíðarinnar, fara á eins mörg jólaböll og það mögulega getur. Komast í jólaskapið og nýta tækifærið til þess að eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Sá yðar sem siðlaus er …

Höfundur / Davíð Þór Jónsson

Ég minnist þess ekki að lykilhugtök úr guðfræði hafi áður verið jafnáberandi í þjóðfélagsumræðunni og þau eru nú. Orð á borð við „iðrun“, „fyrirgefning“ og „synd(leysi)“ fara hátt þessa dagana. Auðvitað hefur hver og einn rétt til að skilja þau á sinn hátt og það er fagnaðarefni að almenningur hugleiði þau. En þá er kannski ekki heldur úr vegi að impra aðeins á guðfræðilegu samhengi þess hvernig þau standa í trúararfinum.

Það að vilja halda misgjörðum til streitu og láta gerendur sæta ábyrgð hefur verið úthrópað sem ókristileg langrækni og heift. Sú túlkun byggir á mjög yfirborðskenndum skilningi á fyrirgefningunni. Þegar dæmisögur Jesú eru skoðaðar kemur nefnilega í ljós að fyrirgefningin er alltaf þrælskilyrt við játningu, iðrun og yfirbót. Án þessa getur ekki verið um neina fyrirgefningu að ræða. Ósannsögli, yfirklór og fullyrðingar um að aðrir hafi gerst sekir um miklu svakalegri hluti eru ekki líkleg til að afla viðkomandi fyrirgefningar. Þegar svo ber við er miklu líklegra að dæmisagan endi á tali um „ystu myrkur“ heldur en fyrirgefningu og sátt.

Sömuleiðis var setningin „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini“ notuð til að verja menn gagnrýni. Þessi orð lætur Jesús falla til að verja forsmáða, valdalausa og varnarlausa konu fyrir grjótkasti vel stæðra karla úr stétt góðborgara. Að heyra þessum orðum, sem sögð voru í þágu undirokaðra og réttlausra sem enga hönd gátu borið fyrir höfuð sér, beitt til að verja rétt vel stæðra karla úr stétt góðborgara til að kasta grjóti í þá sem minna mega sín, hlýtur að nísta þá inn að beini, sem gert hafa Krist að leiðtoga lífs síns og kynnt sér að einhverju leyti hvað í því felst. Þetta er næstum því jafnósvífið og að snúa Faðirvorinu upp á andskotann.

Áhugavert er að skoða hvað í hugtakinu „syndleysi“ felst í huga þess sem svona talar. Er sá syndlaus sem ekki hæðist að fötluðu baráttufólki og gerir grín að fötlun þess? Er sá syndlaus sem ekki hjólar kerfisbundið með níði og svívirðingum í hvern þjóðfélagshópinn af öðrum, koll af kolli, sem þurft hefur að heyja réttindabaráttu til að standa jafnfætis vel stæðum körlum úr stétt góðborgara gagnvart stofnunum samfélagsins? Er sá syndlaus sem ekki stærir sig af mútuþægni í opinberu embætti, hvort sem hann segir satt eða ósatt? Er sá syndlaus sem gengst við orðum sínum í stað þess að eigna þau umhverfishljóðum; stólaískri og reiðhjólabremsum?

Sé þetta skilgreiningin á „syndleysi“ og sá hluti þjóðarinnar, sem hún á við um, yrði nú við þeirri áskorun mælandans að kasta grjóti í hann er hætt við að grjóthrúgan, sem græfi hann, myndi skyggja á Esjuna.

Það er nefnilega þannig að þótt enginn sé syndlaus þá er fólk upp til hópa ekki siðlaust.

Höfundur er sóknarprestur í Laugarneskirkju.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ljósinu varpað á afskipti Rússa

Afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016 voru umfangsmikil og kerfisbundin og miðuðu að því að koma Donald Trump til valda. Þetta er niðurstaða skýrslu sem upplýsinganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings birti í vikunni og er þetta yfirgripsmesta samantektin um hvernig rússnesk stjórnvöld misnotuðu samfélagsmiðla til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Skýrslan var skrifuð af Oxford University´s Computational Propaganda Project og greiningarfyrirtækinu Graphika og byggir á gögnum sem Facebook, Twitter og Google létu af hendi. Washington Post fékk drög af skýrslunni í hendur á mánudaginn og birti helstu niðurstöður á mánudaginn. Þær eru í meginatriðum þær að rússneska fyrirtækið Internet Research Agency (IRA) notaði alla helstu samfélagsmiðla – Facebook, Twitter, Instragram, Youtube, Pinterest, Tumblr og Google+ – til að draga taum Donald Trump og Repúblíkanaflokksins, bæði fyrir og eftir forsetakosningarnar. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar ákært nokkra starfsmenn IRA fyrir glæpsamlega íhlutun í kosningunum en skýrslan sýnir að afskiptin hafi verið mun víðtækari en almennt var talið.
Rússarnir beindu spjótum sínum fyrst og fremst að tveimur þjóðfélagshópum, íhaldsmönnum annars vegar og blökkumönnum hins vegar og voru skilaboð Rússanna klæðskerasniðin með tilliti til þess. Þannig var því beint að íhaldssömum og hægri sinnuðum kjósendum að fylkja sér að baki Trump og var sérstaklega keyrt á málefnum eins og byssueign og innflytjendum. Að sama skapi voru skilaboðin sem beint var gegn blökkumönnum þess eðlis að rugla þá í ríminu með falsfréttum og fá þá til að missa trú á kerfinu. Þegar nær dró kosningum hófu Rússar að senda út misvísandi leiðbeiningar um hvernig ætti að kjósa. Aðrir þjóðfélagshópar fengu líka sinn skammt af klæðskerasniðnum skilaboðum – múslimar, kristnir, samkynhneigðir, konur og íbúar af spænskum uppruna.

Afskiptin ná aftur til 2013
Skýrslan sýnir að afskipti Rússa hófust svo snemma sem árið 2013. Tíðnin jókst í kringum þingkosningarnar 2014 og tók svo mikinn kipp í aðdraganda forsetakosninganna 2016 og mánuðina þar á eftir. Meginhluti starfseminnar fer fram innan veggja Internet Research Agency (IRA) í Pétursborg, fyrirtækis sem hefur beinlínis það markmið að tala máli rússneskra stjórnvalda og fyrirtækja á Internetinu. Með öðrum orðum „tröllaverksmiðja“. Afskiptin vestanhafs hófust á Twitter áður en þau yfir á YouTube og Instragram og loks Facebook þar sem útbreiðslan var mest.

Náðu til 126 milljóna Facebook-notenda
Á Facebook var megináherslan lögð á að ná til íhaldsmanna og blökkumanna. Á Facebook fór 99 prósent aðgerða Rússa fram í gegnum 20 síður sem báru nöfn eins og „Being Patriotic“, „Heart of Texas“, „Blacktivist“ og „Army of Jesus“. Efnið á þessum 20 síðum náði samanlagt til 126 milljóna Facebook-notenda og fékk efni þeirra deilingar sem náði yfir 31 milljón. Rússar stýrðu einnig 133 Instagram-reikningum með sambærilegum þemum. Árið 2016 deildu þessir reikningar samanlagt 2.600 færslum á mánuði og árið 2017 voru færslurnar orðnar 6.000. Á þeim þremur árum sem skýrslan spannar fengu rússneskar Instagram-færslur 185 milljón „like“ og 4 milljónir ummæla. Ekki bara tókst rússnesku tröllunum að hafa áhrif á hugarfar notenda, heldur náðu þau einnig að kría út fjárframlög og gengu svo langt að skipuleggja mótmæli og aðrar fjöldasamkomur í bandarískum borgum.

Samfélagsmiðlar skaðlegir lýðræðinu
Skýrsluhöfundar gagnrýna harðlega viðbrögð tæknirisana Facebook, Google og Twitter, bæði fyrir hversu seint þeir brugðust við afskiptum Rússa og hversu tregir þeir voru að láta upplýsingar af hendi. Þá er því lýst hversu skaðlegir samfélagsmiðlar geta verið fyrir lýðræðið. Ekki er langt síðan að litið var á þá sem mikilvægt tæki fyrir almenning til að koma skoðunum sínum á framfæri. Jafnvel kúguð alþýða í ráðstjórnarríkjum gat komið af stað byltingu líkt og gerðist í arabíska vorinu. Þetta hefur nú snúist við og í auknum mæli eru stjórnvöld farin að nota miðlana sem kúgunartæki. Þar geta þau bæði safnað persónulegum upplýsingum um borgarana í því skyni að kúga þá sem og misnotað þá til að hafa stjórn á umræðunni og koma áróðri á framfæri.

Reyndu ekki að fela slóðina
Loks er bent á að tæknirisarnir hefðu getað komið í veg fyrir þessa starfsemi mun fyrr. Í það minnsta voru Rússarnir lítið að hafa fyrir því að fela slóð sína. Þannig er greint frá því að Rússarnir hafi kosið að greiða fyrir kostaðar auglýsingar á samfélagsmiðlunum með rúblum og þeir gefið upp rússnesk símanúmer fyrir tengilið. Auk þess var hægt að rekja stóran hluta póstanna til rússneskra IP-talna. Fyrirtækin hafa lýst því yfir að þau hafi gripið til viðeigandi ráðstafana til að sporna gegn rússnesku tröllunum. Þannig kom Facebook upp svokölluðu „stríðsherbergi“ í haust til að fylgjast með mögulegum afskiptum fyrir þingkosningarnar í nóvember. Svo virðist sem Rússar hafi skipt um taktík því afskiptin fyrir þær kosningar voru ekki nándar jafnmikil og árið 2016.

Fleyg ummæli
„Það sem er ljóst að nærri öll þessi skilaboð miðuðu að því að draga taum Repúblíkanaflokksins – einkum og sér í lagi Donald Trump. Trump er nefndur á nafn í flestum þeim herferðum sem beindust að íhaldssömum og hægri sinnuðum kjósendum þar sem skilaboðin voru að þessir hópar ættu að styðja framboð hans. Hjá þeim hópum sem gátu skákað Trump var markmiðið að rugla þá í ríminu, beina athyglinni annað og loks að letja þá til að kjósa.“
Úr skýrslu bandarísku upplýsinganefndarinnar.

Ljúffengar sósur sem allir þurfa að kunna að búa til

||
||

Sósur spila stórt hlutverk þegar á að slá í gegn með steikinni. Hér höfum við tvær frábærar uppskriftir að ljúffengum sósum og má segja að þetta séu þær sósur sem allir ættu að eiga uppskrift að.

Villibráðarsósa

4 dl gott villibráðarsoð
1-2 dl rjómi
1 tsk. gráðostur
1-2 msk. rifsberjahlaup
salt og nýmalaður pipar
sósujafnari

Setjið allt saman í pott, hleypið suðunni upp og þykkið með sósujafnara

Þessa villibráðarsósu er auðvelt að búa til.

Piparsósa

2 msk. smjör
1 hvítlauksgeiri, marinn
1 skalotlaukur, saxaður
1 gulrót, smátt söxuð
1 sellerístöngull, saxaður smátt
2 dl rauðvín
¾ dl rauðvínsedik
½ tsk. tímían
1 lárviðarlauf
12 piparkorn, möluð gróft
2 dl nautasoð
2 msk. niðursoðinn pipar (má sleppa)
30 g kalt smjör, í bitum salt

Fullkomin með steikinni.

Brúnið hvítlauk, skalotlauk, gulrót og sellerístöngul í smjörinu góða stund. Bætið rauðvíni, rauðvínsediki, tímíani og lárviðarlaufi út í og sjóðið, án þess að hafa lok, í 10 mín.

Bætið piparkornum og soði í og niðursoðnum pipar ef þið viljið nota hann og látið malla í 5 mín. Takið pottinn af hellunni og hrærið smjörið út í með písk. Bragðbætið með salti.

Texti / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Tískuskandalar ársins 2018

|||
|||

Nú þegar árið er senn á enda er tilvalið að líta til baka og rifja upp það sem gerðist á árinu. Hér er samantekt yfir nokkra skandala sem komu upp í tískuheiminum á þessu ári.

Marc Jacobs 90 mínútum of seinn

Fatahönnuðurinn Marc Jacobs olli mikilli óánægju í september þegar hann mætti heilum 90 mínútum of seint á eigin tískusýningu á tískuvikunni í New York. Fljótlega fór slúður á flug um að Jacobs hefði seinkað sýningunni vísvitandi til að kom í veg fyrir að gestir hans kæmust á sýningu Rihönnu.

Umdeildur jakki Melaniu

Jakkinn sem Melania klæddist kom úr Zöru.

Jakki sem Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, klæddist í sumar þegar hún fór upp í flugvél til að heimsækja búðir fyrir börn ólöglegra innflytjenda á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna gerði allt vitlaust. Aftan á jakkanum, sem er frá Zöru, stóð „I really don‘t care. Do you?“ sem þýðist sem „Mér er alveg sama. Hvað með þig?“. Skilaboðin aftan á jakkanum slógu ekki í gegn. Talskona Melaniu sagði síðar að áletrunin hefði ekkert með heimsókn hennar að gera.

Fléttur Kim Kardashian

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian var sökuð um menningarnám (e. cultural appropriation) þegar hún mætti með fléttað hár á MTV Movie & TV Awards hátíðina í júní. Sumir vildu þá meina að þessi hárgreiðsla væri álitin „sóðaleg“ þegar svartar konur skarta henni en „töff“ þegar hvítar konur eru með slíka greiðslu.

„Hún er svo ljót“

Tískuhönnuðurinn Stefano Gabbana sló ekki í gegn á samfélagsmiðlum þegar hann skrifaði: „hún er svo ljót“ undir myndir af söng- og leikkonunni Selenu Gomez á Instagra-síðu Catwalk Italia. Þetta varð til þess að margir ádáendur Selenu Gomez ákváðu að sniðganga vörur Dolce&Gabbana.

Þessi athugasemd sló ekki í gegn hjá aðdáendum Selinu.

Vandlát Kendall Jenner

Raunveruleikastjarnan og fyrirsætan Kendall Jenner reitti kollega sína til reiði sem ummælum sem hún lét falla í viðtali við LOVE magazine í ágúst. Þá gaf hún í skyn að hún væri vandlátari en flestar fyrirsætur og talaði um að hún tæki ekki hvaða atvinnutilboðum sem er. Margar fyrirsætur stigu þá fram í kjölfarið og bentu á að ummælin væri móðgandi fyrri flestar fyriræstur sem þurfa að hafa mikið fyrir að ná langt í bransanum.

Peysa H&M sögð rasísk

Barnapeysa sem H&M setti í sölu í upphafi árs olli nokkru fjaðrafoki þegar tónlistamaðurinn Weeknd lýsti yfir óánægju sinni. Hann kvaðst vera móðgaður vegna þess að H&M notaði svartan dreng til að auglýsa peysuna á vefsíðu sinni en á peysunni stóð „coolest monkey in the jungle“ sem þýðist sem „svalasti apinn í frumskóginum“. Hann sakaði H&M um rasisma og margir virtust sammála honum. Peysan var tekin úr sölu.

Tónlistamaðurinn Weeknd var ekki kátur með þessa auglýsingu.

 

Völvan um árið 2019

Nýjasta tölublað Vikunnar kemur í verslanir í dag og í því er að finna ítarlega völvuspá fyrir árið 2019.

Í byrjun desember var völva Vikunnar heimsótt. Vaxandi vindur ýldi í ufsum og setti ofurlítið tóninn fyrir komandi ár. Völvan er uggandi um margt og þegar spilin höfðu verið lögð rýndi hún um stund í kristalskúluna en síðan reis hún á fætur, gekk um gólf og ræddi við stjórnendur sína á öðru tilverustigi.

Í spá völvunnar sér hún sólríkt og fallegt sumar, áframhaldandi straum ferðamanna til landsins, ríkisstjórn sem leysist í sundur, dýfu á fasteignamarkaði og átak til að draga úr eiturlyfjavandanum sem herjar á landsmenn.

Hvað viðskiptalífið varðar segir völvan meðal annars: „Róbert Wesman gengur vel. Hann er ánægður og horfir um öxl sáttur. Hann er með ákveðin plön sem hann fer eftir. Mér finnst erfitt einkalífið hjá Skúla Mogensen. Hann þarf að hlúa að sér og sínum. Ég upplifi þreytu hjá honum. Lítið hefur farið fyrir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur og það verður áfram þannig á árinu.“

Mér finnst erfitt einkalífið hjá Skúla Mogensen. Hann þarf að hlúa að sér og sínum.

Spurð út í samgöngur og vegamál segir völvan: „Slysum á vegum á ekki eftir að fækka hér á landi. Það er komin ákveðin samgönguáætlun og ég sé ekki annað en henni verði fylgt eftir og engu bætt við. Vaðlaheiðargöng hafa kostað okkur óhemjufjármagn sem hefði mátt nota í annað. Þau voru illa undirbúin, eins og margt annað hér á landi. Menn unnu ekki grunnvinnuna sína, enn og aftur þurfum við að hysja upp um okkur og huga að því hverjar grunnstoðir samfélagsins eru og hvernig við vinnum úr hlutunum.“

Slysum á vegum á ekki eftir að fækka hér á landi.

Þá rýnir völvan einnig í menningamál, fjölmiðla, íþróttir, kóngafólk og Hollywood-stjörnur svo eitthvað sé nefnt.

Þetta og miklu meira í ítarlegri völvuspá í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana“

Pálmar Ragnarsson, körfuboltaþjálfari og fyrirlesari, ferðaðist einn um Mexíkó síðasta sumar. Það veitti honum innblástur til þess að gefa eina milljón króna í hjálparstarf til barna þar í landi eftir að heim var komið. Pálmar prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun.

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs.

„Þegar ég er kominn út, gerðist eitthvað innra með mér. Stressið, streitan og álagið sem var farið að segja til sín hreinlega gufaði upp. Það kom yfir mig einhver innri friður sem ég hafði nánast ekki fundið síðan ég var unglingur og svo fór ég að finna hvað þetta yrðimikið ævintýri. Ekkert plan og eina markmið að kynnast fólki og reyna að sjá mikið af spennandi hlutum. Þannig ferðaðist ég eftir því sem hugurinn bar mig hverju sinni, gisti á hostelum og kynntist mörgu frábæru fólki. Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt. Það er allt annað. Margir halda að þeir verði einmana en ég var það aldrei. Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana.

Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt.

Ég lagði mig fram um að kynnast fólki frá Mexíkó. Þetta er dásamlegt fólk, lífsglatt og skemmtilegt og það virðist ekki skipta það öllu máli hvað það á af hlutum eins og er hérna heima. Það eru nefnilega ekki hlutir sem veita lífshamingju. Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó, en ég gat ekki betur séð en að það væri jafnvel meiri gleði og hlátur þar ef eitthvað er.“

Lestu viðtalið við Pálmar í heild sinni í Mannlífi sem kemur út á morgun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Viðtalið í heild sinni: „Ekkert hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu“

Brynjar Níelsson eflir kvenlega innsæið

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðirsflokksins, eflir sitt kvenlega innsæi með því að lesa tímaritið Vikuna. Þessu greinir hann frá á Facebook.

„Til að efla mitt kvenlega innsæi les ég alltaf glanstímaritið Vikuna. Rétt fyrir jól ár hvert segir Völva Vikunnar okkur hvað gerist á næsta ári,“ skrifar Brynjar á Facebook.

Þá heldur hann áfram og veltir fyrir sér trúarbrögðum landsmanna. „Í mörgum öðrum fjölmiðlum á þessum árstíma eru einnig völvur sem leiða okkur inn í nánustu framtíð. Mörg okkar trúum þessu eins og nýju neti.

Trúum einnig á álfa og huldufólk og sumir stunda með þeim ástarleiki og ganga jafnvel í hjónaband með slíkum verum. Svo færum við til vegi til að trufla ekki líf þeirra. Svo þegar einhverjum dettur í hug að segjast trúa á Guð almáttugan nær þetta sama fólk ekki upp í nef sér af hneykslun yfir slíkum hindurvitnum. Orðatiltækið „að vera eins og álfur út úr hól“ varð ekki til úr engu.“

Sjá einnig: Völvan um árið 2019

Munu flugmiðar snarhækka?

|
|

Neytendasamtökin greindu frá því í á mánudaginn að verð á flugmiðum hjá WOW air og Icelandair til fjögurra algengra staða hefði hækkað að meðaltali um 35% eftir að tilkynnt var um fyrirhugaðan samruna félaganna í byrjun nóvember.

Líklega hefur fátt verið eins góð búbót fyrir Íslendinga og þegar flugfélagið Iceland Express hóf árið 2003 að bjóða upp á flug til London og Kaupmannahafnar í samkeppni við Icelandair. Með því snarlækkaði verð á flugmiðum til þessara áfangastaða. Icelandair var hins vegar dæmt árið 2007 til þess að greiða 192 milljónir króna í sekt fyrir að hafa misnotað sér markaðsráðandi stöðu sína. „Eftir að Iceland Express hóf áætlunarflug lækkaði Icelandair verð á viðskiptafargjöldum um allt að 41% á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar og 43% á flugleiðinni milli Keflavíkur og London,“ segir í umfjöllun um meinta misnotkun.

Þó verð á flugmiðum muni eitthvað breytast á næstunni verður þó að telja ólíklegt að Icelandair komist aftur í þá markaðsráðandi stöðu sem félagið var í áður en Iceland Express, forveri WOW air, kom inn á markaðinn.

Síðasta föstudag tilkynnti WOW air um uppsögn á 111 starfsmönnum og að flugvélum yrði fækkað úr 20 niður í 11. Síðar var tilkynnt um að Indigo Partners muni leggja 75 milljónir dollara, andvirði 9,3 milljarða króna, inn í WOW air. Kaupin eru háð ákveðnum skilyrðum. Indigo muni kaupa ótilgreindan fjölda hlutabréfa í WOW air auk þess sem bandaríska félagið leggur til fjármagn til að koma að endurreisn félagsins.

Hvernig mun rekstur WOW air breytast?

Líkt og Mannlíf hefur áður sagt frá hefur launakostnaður verið töluvert lægri hjá WOW air en Icelandair. Það sést vel í úttekt sem hagfræðideild Landsbankans gerði á félögunum tveimur. Þar kom fram að launakostnaður sem hlutfall af tekjum væri 19% hjá WOW air en 33% hjá Icelandair.

Áhugavert verður að sjá hvernig samkeppnisstaða WOW air og Icelandair verður á komandi ári. Mynd/Isavia

Með innkomu Indigo Partners sem hluthafa hjá WOW air má búast við því að félagið verði í töluvert betri stöðu til að veita Icelandair samkeppni. Þar mun miklu ráða hvernig verður samið um kjör við flugmenn og flugfreyjur WOW air. Er þar nefnt að starfsfólk verði ráðið í gegnum svokallaðar starfsmannaleigur. Spurningin er hins vegar hversu langan tíma fjárhagsleg og rekstrarleg endurskipulagning mun taka hjá WOW air. Vegna stærðar sinnar getur Indigo Partners líklega fært WOW air töluvert betri kjör á flestum aðföngum. Þá hefur verið nefnt að félagið muni einbeita sér að styttri flugleiðum.

Einnig verður að teljast líklegt að Icelandair geri frekari breytingar á starfsemi sinni. Það sem Icelandair vantar líklega er hins vegar annað hvort nýr erlendur forstjóri eða erlendur hluthafi sem hefur alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Ekki er hægt að segja að íslenskir lífeyrissjóðir sem eru stærstu hluthafar Icelandair búi yfir slíkri reynslu. Því þykir áhugavert að sjá hvernig samkeppnisstaða WOW air og Icelandair verður á komandi ári.

Eftirtektarverð fiskiflétta og rómantískir liðir

Ef hátíðargreiðslan vefst alltaf fyrir þér og situr á hakanum þegar kemur að sparigallanum á tyllidögum þá er þetta fyrir þig. Dagný Ósk, einn eigandi Sprey hárstofu, kennir lesendum að gera þessa sparilegu greiðslu.

Rómantískir liðir og fiskiflétta

Það þarf ekki að vera flókið að framkalla glæsilega sparigreiðslu.

„Ég notaði stóra öfuga keilu frá HH Simonsen til þess að ná liðunum jöfnum. Til þess að gera greiðsluna örlítið áhugaverðari bjó ég til fiskifléttu við andlitið og leyfði henni að vera lausri niður. Það er auðvitað hægt að spenna hana upp eða jafnvel gera báðum megin og láta þær svo mætast saman að aftan.

Það þarf alls ekki að vera með mjög þykkt hár til þess að ná fléttunni svona breiðri, ég einfaldlega notaði DOO.OVER frá Kevin Murphy og togaði fléttuna aðeins út sem gerir hana aðeins úfnari og meiri um sig,“ segir Dagný.

Eigendur Sprey hárstofu eru Katrín Sif og Dagný Ósk sem sjást fremst á myndinni.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Hagkvæmar hugmyndir í skóinn

Nokkrir jólasveinar eru ennþá væntanlegir til byggða og þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér vænlegum gjöfum sem heppilegar eru í skóinn. Við tókum saman nokkrar einfaldar og hagkvæmar hugmyndir fyrir jólasveininn.

Púsl og lítil spil eru ekki aðeins góð hugarþjálfun heldur getur orðið að skemmtilegri samverustund barna, systkina og foreldra.

Flestum börnum þykir gaman að lita, nýir litir í safnið ættu því alltaf að vekja lukku, sem og hvers kyns föndur sem fylgt gæti með.

Að mati margra er aðventan tími til að fylla híbýlin af bakstursilmi en mörgum börnum þykir gaman að taka þátt í smákökubakstrinum. Kökuform og hvers kyns bakstursáhöld sérsniðin fyrir smáar hendur gætu því glatt litla sælkera.

Flestum börnum þykir gaman að leira og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.

Límmiðar og tímabundin tattú slá alltaf í gegn án þess að kosta mikið. Auðvelt er að nálgast fjölbreytt úrval af ýmis konar örkum sem hægt er að dreifa yfir desember.

Jólasokkar og jólavettlingar njóta sífellt meiri vinsælda en hægt er að nálgast þá víða um borgina á hagstæðu verði.

Punt í hárið fylgir aðventunni og öllum þeim hátíðarhöldum sem fylgja þessum tíma árs, því er ekki úr vegi að lauma lítilli spennu eða spöng í skóinn.

Mörgum þykir spennandi að fá eitthvað ætt í skóinn án þess að það sé sælgæti. Mandarínur hafa lengi þótt vinsælt val en morgunkornspakkar og ávaxtastangir gætu líka slegið í gegn.

Skafmiðar kosta sáralítið en vekja alltaf mikla lukku hvort sem þeim fylgir vinningur eður ei.

Gaman er að gefa börnum fallegt jólaskraut sem þau geta skreytt herbergið sitt með eða hengt á jólatréð.

Sniðugt er að gefa börnum hvers kyns upplifun í skóinn. Hægt er að fá gjafabréf hjá kvikmyndahúsum, ísbúðum og svo auðvitað sundlaugum.

 

 

 

 

Stjörnurnar sem létust á árinu

|||||||
|||||||

Árið 2018 er senn á enda. Um viðburðaríkt ár var að ræða í skemmtanabransanum. Nýjar stjörnur komu fram á sjónarsviðið eins og gengur og gerist og nokkrar féllu frá. Þetta eru nokkrar af þeim erlendu stjörnum sem létust á árinu.

Stan Lee varð 95 ára.

Stan Lee. Teiknimyndahöfundurinn var 95 ára að aldri þegar hann lést í nóvember. Hann er einn af mönnunum á bak við ofurhetjurnar The Hulk og Spider Man. Hann lést í Los Angeles og dánarorsökin var lungnabólga.

Burt Reynolds lést í september.

Burt Reynolds. Leikarinn lést í september, 82 ára gamall. Hann var afar vinsæll á áttunda áratugnum og lék meðal annars í Smokey and the Bandit og Deliverance.

Mac Miller lést í september, 26 ára gamall.

Mac Miller. Rapparinn lést í september á heimili sínu í Kaliforníu. Hann lést af völdum ofneyslu eiturlyfja og áfengis.

Aretha Franklin. Söngkonan var 76 ára þegar hún lést í Detroit í Bandaríkjunum í ágúst. Hún greindist með krabbamein árið 2010.

Aretha Franklin fæddist í mars árið 1942 og lést í ágúst á þessu ári.

Anthony Bourdain. Kokkurinn og matargagnrýnandinn var 61 árs þegar hann lést í sumar.

Bourdain fannst látinn á hótelherbergi í Frakklandi í júní.

Kate Spade. Hönnuðurinn lést á heimili sínu í New York í júní, þá 55 ára að aldri.

Dolores O‘Riordan. Írska söngkonan lést á hóteli í London í janúar á þessu ári. Hún var söngkona hljómsveitarinnar The Cranberries. Hún var 46 ára þegar hún lést. Hún er sögð hafa drukknað í baðkari vegna ölvunar.

Mark var þekktur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Glee.

Mark Salling. Glee-leikarinn fannst látinn í janúar skammt frá heimili sínu. Hann hafði hengt sig. Skömmu áður hafði hann verið dæmdur fyrir vörslu barnakláms.

Avicii. Sænski plötusnúðurinn var 28 ára þegar hann lést í apríl. Hann svipti sig lífi. Ferill Avicii hófts þegar hann var 16 ára gamall en hann náði heimsfrægð árið 2011 með laginu Levels.

Verne Troyer. Bandaríski leikarinn lést 49 ára að aldri í apríl. Hann var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Mini-Me í kvikmyndunum um Austin Powers.

Verne Troyer fæddist í janúar árið 1969.

John Mahoney. Leikarinn var 77 ára að aldri þegar hann lést í febrúar. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Frasier. Hann lést á sjúkrahúsi í Chicago.

 

Guli kjóllinn kominn í sölu og rýkur út

|
|

Guli kjóllinn sem Amal Clooney klæddist í konunglega brúðkaupinu hefur verið settur í sölu. Hann selst eins og heitar lummur.

Kjóllinn kostar um 160.000 krónur.

Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney er mikil tískufyrirmynd og vakti athygli í brúðkaupi Harry Bretaprins og Meghan Markle í sumar fyrir klæðaburð. Hún klæddist skærgulum kjól úr smiðju Stellu McCartney og var með hatt í stíl. Á vef Marie Caire er kjóllinn sagður hafa verið sérsaumaður á Amal og var því ekki fáanlegur í verslunum, þar til núna.

Snið kjólsins er í gamaldags anda og klæddi Amal afar vel. Kjóllinn er nú kominn í sölu og er fáanlegur á vefversluninni MatchesFashion.com fyrir upphæð sem nemur 160.000 krónum. Hatturinn er þó ekki til sölu.

Kjóllinn rýkur nú út úr vefversluninni og er uppseldur í flestum stærðum.

Þess má geta að Amal er mikill aðdáandi hönnunar Stellu McCartney og hefur í gegnum tíðina klæðst kjólum, kápum, drögtum og öðru úr smiðju Stellu McCartney.

 

Prófessor við HÍ: „Get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað“

Prófessorinn Sigrún Helga Lund hefur sagt upp starfi sínu sem prófessor í líftölfræði við HÍ vegna framkomu yfirmanna og skólastjórnenda.

Í færslu sem Sigrún Helga Lund, prófessor við Háskóla Íslands, birtir á Facebook í dag segir hún að hún geti ekki hugsað sér að halda áfram að vinna á sama vinnustað vegna viðbragða skólastjórnenda við kvörtun hennar yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi yfirmanns hennar.

„Sumarið 2016 lýsti ég áhyggjum yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi af völdum yfirmanns míns í starfsmannaviðtali. Engin viðbrögð fylgdu þeirri kvörtun, ástandið versnaði ört og þegar það var loks orðið óbærilegt svaraði ég fyrir mig og löðrungaði yfirmanninn. Þá fyrst brást Háskólinn við en á allt annan máta en mig óraði fyrir,“ skrifar hún meðal annars í færslu sína.

Sigrún kveðst hafa útvegað sönnunargögn um alvarlegt ofbeldi og einelti en að ekki hafi verið gerð tilraun til að rannsaka málið. Henni var þá skipað að fara í veikindaleyfi.

Þegar ég neitaði að hlýða var mér hótað áminningu sem HÍ neyddist þó til að láta niður falla enda málið allt á sandi byggt.

Sigrún segir þá frá því að hún hafi kært málið til siðanefndar háskólans og unnið málið. „Nú var málið komið í hendur rektors og í fyrsta sinn bærðist með mér von um réttlæti. Ég fékk fregnir af því að siðanefnd hefði fundað með rektor og beið spennt eftir að heyra nánar frá honum. Fjórir mánuðir liðu og á morgunfundi um jafnréttismál í hátíðarsal HÍ sagði hann: „Hér í Háskóla Íslands höfum við lagt áherslu á að hlusta á sögur kvenna, draga af þeim lærdóm og bregðast fljótt og fumlaust við.” En aldrei heyrðist neitt. Nú er nær hálft ár liðið síðan dómur féll, ekki stakt orð borist frá rektor og allt ástand óbreytt – ef ekki verra. Nú er svo komið að ég get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað.“

Færslu Sigrúnar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Mynd / Háskóli Íslands

„Eyðum ekki jólunum á klósettinu“

Matvælastofnun hefur birt góð ráð varðandi matreiðslu í kringum jólin undir yfirskriftinni „eyðum ekki jólunum á klósettinu“.

Í grein MAST kemur fram að ráðin eru gefin í tilefni þess að nú nálgast jólin og mikið álag er á eldhúsum landsmanna yfir hátíðirnar. Því er fólk hvatt til að tileinka sér hreinlæti og rétta meðhöndlun matvæla. „Hreinlæti, kæling og rétt hitun matvæla er afar mikilvæg svo koma megi í veg fyrir að gestir og heimilisfólk fái matarborna sjúkdóma með tilheyrandi óþægindum,“ segir meðal annars.

Þá kemur fram að nóróveirur geti dreift sér hratt. „Reglulegur handþvottur minnkar líkur á smiti milli aðila eða frá menguðum matvælum.“

Þá er mælt með að forðast að geyma viðkvæm matvæli við stofuhita í langan tíma. „Við 37°C getur ein baktería fjölgað sér í 1000 á 3 tímum og í 1 milljón á 6 tímum. Það er því mikilvægt að geyma og meðhöndla matvæli við það hitastig að komið verði í veg fyrir hraða fjölgun baktería með því að takmarka þann tíma sem viðkvæm matvæli, s.s. reyktur og grafinn fiskur og álegg er á borðum við stofuhita.“

Meðfylgjandi eru svo ráðin frá MAST:

  • Hrátt kjöt og safi úr því skal ekki komast í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum ávexti og grænmeti til að varna því að bakteríur af því berist í matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum hendur áður en hafist er handa við matreiðslu og eftir snertingu við hrátt kjöt og óþvegið grænmeti
  • Þrífum skurðarbretti og áhöld strax eftir notkun eða notum sérstök skurðarbretti fyrir kjöt, grænmeti og tilbúin matvæli
  • Skipuleggjum ísskápinn vel og höldum honum hreinum til að varna því að krossmengun verði þar
  • Skiptum reglulega um borðtuskur, viskastykki og handþurrkur.

Alltaf forðast textaskrif en gefur nú út ævintýrabók

||
||

Karólína Pétursdóttir er lesblind og hefur í gegnum tíðina forðast það að skrifa texta. En nú hefur hún skrifað bók sem er sérhönnuð fyrir lesblinda. Hún kom sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

Hrauney er fyrsta bók Karólínu Pétursdóttur. Bókin er ævintýrabók skrifuð fyrir ungmenni og fjallar um 17 ára stelpu sem kemst yfir í álfaheim. „Þegar hún kemst í álfaheiminn er ekkert auðvelt að komast til baka. Bókin gerist á Íslandi en í annarri vídd,“ segir Karólína um bókina en passar sig að ljóstra engu upp.

Það sem gerir bókina einstaka er að hún er sérhönnuð fyrir lesblinda. Sjálf er Karólína lesblind og hefur oft átt erfitt með að komast í gegnum bækur vegna þess hvernig þær eru uppsettar.

„Ég er lesblind og fólkið sem hefur unnið með mér að Hrauney er meira og minna allt lesblint líka,“ segir Karólína og hlær. „Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp á að lesa. Þannig að mér fannst tilvalið að hanna mína bók með lesblinda í huga,“ útskýrir Karólína.

Letur bókarinnar er hannað fyrir lesblinda og línu- og orðabil er meira en gengur og gerist. Blaðsíður bókarinnar eru einnig gulleitar sem hjálpar lesblindum að sögn Karólínu.

Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp.

Letur bókarinnar er sérhannað fyrir lesablinda.

„Þetta hjálpar svakalega við lesturinn. Þetta letur kostaði aðeins meira en venjulegt letur og bókin varð aðeins lengri heldur en hún hefði þurft að vera. Þannig að allt ferlið varð aðeins dýrara en við gerðum ráð fyrir,“ segir Karólína hlæjandi.

„En það er algjörlega þess virði. Það fólk sem við höfum fengið til að prufulesa bókina fyrir okkur talar um að það haldist betur við lesturinn.“

Kom sjálfri sér á óvart

Bókin er skrifuð fyrir unglinga en Karólína segir söguna vera skemmtilega fyrir alla sem hafa áhuga á ævintýrum.

Karólína segir að fyrir nokkrum árum hefði það aldrei hvarflað að henni að hún myndi skrifa bók. Hún viðurkennir að hún hafi alltaf forðast það eins og heitan eldinn að skrifa texta. Hún kom því sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi skrifa bók. Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar. Ég skrifa ekki einu sinni færslur á Facebook. En þegar Elsa Egilsdóttir vinkona mín stakk upp á að við myndum gefa út unglingabók um álfa og huldufólk þá leist mér vel á það. Ég ætlaði bara að skrifa niður nokkra punkta til að byrja með og fá einhvern annan til að skrifa sjálfa bókina. En áður enn ég vissi af var ég búin að skrifa alla bókina,“ útskýrir Karólína.

Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar.

Karólína var að dreifa bókinni í búðir þegar blaðamaður náði tali af henni. „Tilfinningin við að klára bókina og vera á lokametrunum er rosalega góð. Þetta er búin að vera mikil vinna og það að gefa út bók er ekki beint það auðveldasta sem ég hef gert,“ segir hún og skellir upp úr.

Þess má geta að Karólína teiknaði meirihluta myndanna í bókinni sjálf og Elsa Egilsdóttir var henni innan handar í öllu ferlinu. Elsa hannaði forsíðu bókarinnar.

Rifjar upp skopleg atvik undir myllumerkinu #ársins

Undanfarin þrjú ár hefur Guðmundur Haukur Guðmundsson tekið saman nokkra hápunkta ársins á Twitter undir myllumerkinu #ársins.

Guðmundur Haukur Guðmundsson hefur vakið lukku á Twitter undanfarin ár þegar hann gerir upp árið með myllumerkinu #ársins og rifjar upp skopleg atvik sem vöktu athygli í fjölmiðlum á árinu. Þessa stundina er hann í óðaönn að birta upprifjun fyrir árið 2018 á Twitter.

Spurður út í hvernig þetta verkefni hófst segir Guðmundur: „Ég er með spurningakeppni fyrir félaga mína á hverju ári þar sem spurt er út í árið sem er að líða. Þetta hefur síðan sprungið aðeins út og hefur spurningakeppnin farið víða. Í kjölfarið fór ég að setja þessi kómísku atriði, sem munu ekki skila sér í hina hefðubundnu annála fyrir árið, á Twitter.“

Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því.

Aðspurður hvort þetta sé ekki mikil vinna, að rifja árið svona upp þegar áramótin nálgast segir hann: „Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því. Síðan vinn ég úr því í nóvember fyrir spurningakeppnina og í kjölfarið byrjar þessi yfirferð undir hashtagginu #ársins á Twitter.“

Fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.

Guðmundur hefur alltaf fengið góð viðbrögð við upprifjun sinni á Twitter: „Viðbrögðin í ár hafa verið mun meiri en síðustu ár og almennt bara mjög fín. Sérstaklega vegna þess að fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.“

Meðfylgjandi eru nokkur skopleg atriði sem Guðmundur hefur rifjað upp á Twitter undanfarið undir myllumerkinu #ársins.

Verstu mistökin að missa matinn í gólfið

Sjónvarpsstjarnan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er flestum landsmönnum vel kunn en hún gaf nýverið út bókina Hvað er í matinn. Þar er hægt að finna einfaldar uppskriftir gómsætra rétta fyrir öll kvöld vikunnar.

Hvað er í matinn er þriðja matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar en fyrri bækur hennar, Í matinn er þetta helst og Seinni réttir, komu út fyrir rúmum áratug. Tildrög þess að Jóhanna Vigdís settist aftur við skrifin var matreiðslunámskeið sem hún sótti í Flórens en margir réttanna eru undir ítölskum áhrifum.

„Mig langar líka að hvetja sem flesta áfram í baráttunni gegn matarsóun,“ segir Jóhanna Vigdís aðspurð um hvatann að baki bókinni.

Þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina.

„Ég var með matreiðsluþátt á RÚV árið 2009 eftir að ég gaf út matreiðslubækurnar. Það var svo merkilegt að þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina. Á einhvern hátt er eins og umræðan um mat og matreiðslu sé á hlutlausu svæði. Þegar ég byrjaði að hugsa um þessa bók var fyrsta hugsun mín: Hvað sameinar? Hver er algengasta spurningin á hverju heimili? Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessari ákvörðun, að hafa eitthvað í matinn sem freistar, kætir og sameinar. Þannig varð bókin til.“

Af pönnunni og niður á gólf

Aðspurð um ráð fyrir nýgræðinga innan eldhússins ítrekar Jóhanna Vigdís svo að mikla ekki hlutina fyrir sér.

„Þeir sem eru að halda sín fyrstu jól sjálfir eiga að setja einfaldleikann á oddinn. Hafa til dæmis bara einn rétt eða bara eitthvað sem menn kunna að búa til. Ekki að búa til flækjustig ef það er óþarfi. Jólin snúast fyrst og fremst um samveru og að njóta, og einfaldleikinn er alltaf bestur. Auðvitað gera allir mistök og að mínu mati hafa mín verstu mistök verið að missa matinn í gólfið eins og gerðist hérna um árið hjá mér þegar við Guðmundur vorum nýbyrjuð að búa og systir mín var í mat. Allt fór af pönnunni hægt og rólega niður á gólf, beint á teppið. Við bjuggum til þessar fínu samlokur á eftir.

Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri.

Annars höfum við alltaf kalkún með öllu tilheyrandi á aðfanagadagskvöld. Fylling, heimatilbúið rauðkál, brúnaðar kartöflur og steiktar og sósur við allra hæfi. Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri, sem minn yndislegi tilvonandi tengdasonur á allan heiðurinn af. Heimtailbúinn ís í eftirrétt með möndlu er svo alltaf á sínum stað. Hann er alltaf sá alvinsælasti á mínu heimili, alla daga ársins.“

Meðfylgjandi er uppskrift frá Jóhönnu að risotto, fullkominn forréttur.

Hátíðlegt Saffran-risotto

Risotto er til í ótal myndum, þetta er ein þeirra og hún er virkilega góð. Ef þið notið humar í skel skuluð þið alls ekki henda skeljunum því þær eru frábærar til að sjóða í súpu næsta dag og fá þannig góðan kraft. Ef þið eigið ekki saffran má alltaf bjarga sér með túrmeriki.

Jóhanna borðar risotto með humri í forrétt á jólunum.

humar / risarækja, magn eftir smekk
1 laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
2 msk. smjör
250 g risotto-hrísgrjón
1,2 l grænmetissoð
saffranþræðir
100 g parmesan-ostur

Ef þið eruð með frosinn humar eða risasækju þarf að láta skelfiskinn þiðna. Ef þið eruð með humar í skel, takið þá fiskinn úr skelinni. Skerið lauk og hvítlauk smátt. Hitið olíu og 1 msk. af smjöri í potti og steikið laukana í blöndunni þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Blandið nú ósoðnum hrísgrjónum saman við í smáum skömmtum og setjið grænmetissoð á milli þar til það gufar upp. Það er galdurinn við risotto, að hræra stöðugt en þetta tekur um 20 mínútur. Blandið saffrani saman við svo risottoið fái fallegan lit. rífið parmesan-ostinn yfir og blandið saman við.

Bræðið 1 msk. af smjöri á pönnu og setjið svolítið saffran saman við. Steikið skelfiskinn á öllum hliðum upp úr saffransmjörinu í stutta stund. Blandið öllu saman og berið fram með brauði og parmesan-osti.

Myndir / Magnús Hjörleifsson

Átti í sambandi við Woody Allen 16 ára gömul

Babi Christina Engelhardt kveðst hafa átt í löngu ástarsambandi við leikstjórann Woody Allen. Sambandið hófts þegar hún var 16 ára.

Kona að nafni Babi Christina Engelhardt hefur nú stigið fram og greint frá því að hún og Woody Allen áttu í ástarsambandi í um átta ára skeið. Sambandið hófst árið 1976, þegar hún var 16 ára og Allen 41 árs.

The Hollywood Reporter birti í gær ítarlegt viðtal við Babi. Þar kemur fram að ástarsamband þeirra Babi og Allen hafi hafist í október árið 1976 eftir að þau kynntust á veitingastað í New York. Á þessum tíma starfaði Babi sem fyrirsæta.

Babi kveðst hafa haft frumkvæði að samtalinu þegar hún skrifaði símanúmer sitt á servéttu og afhenti Allen. Eftir það hittust þau reglulega á heimili hans í New York og stunduðu kynlíf. Í viðtalinu segir Babi að hún hafi einnig komið með vinkonur sínar heim til Allen og að þau hafi stundað hópkynlíf.

Hún tekur fram að hún sé ekki að stíga fram og greina frá ástarsambandi sínu við Allen til að koma óorði á leikstjórann. „Ég er að tala um ástarsögu mína. Þetta mótaði mig. Ég sé ekki eftir neinu“.

Þess má geta að Woody Allen var í opinberu sambandi með leikkonunni Miu Farrow frá árinu 1980 til ársins 1992, þegar upp komst að Allen og ættleidd dóttir Farrow, Soon-Yi Previn, áttu í ástarsambandi.

Fékk hrukkukrem fyrir augu 13 ára

Söngkonan Greta Salóme heldur ýmsar jólahefðir í heiðri. Hana vantar ekkert fyrir jólin nema marenskökuna hennar mömmu sinnar, hún verður að vera.

Hvernig verða jólin þín í ár? „Ég er alltaf heima hjá foreldrum mínum á aðfangadag. Mamma og pabbi hafa alltaf haldið jólin svo ótrúlega hátíðleg og mikið af hefðum í kringum þau sem mér finnst ómissandi. Ég er yfirleitt alltaf að koma fram á aðfangadag en í ár er ég í fríi og ætla að njóta þess í botn. Ég hef verið svo mikið að spila erlendis og hef lítið verið heima þannig að markmið jólanna og aðventunnar í ár er að eyða sem mestum tíma með vinum og fjölskyldu.“

Átt þú þér einhverjar ómissandi jólahefðir? „Mín uppháhaldsjólahefð er hádegismaturinn heima hjá mömmu og pabba á aðfangadag. Þar kemur saman frændfólk sem er að keyra út pakkana og við fáum okkur svona „brot af því besta“ sem er í jólamatinn. Svona hálfgert hlaðborð. Þessi hádegismatur er alltaf svo ótrúlega skemmtilegur og mikil stemning.“

Hvað er efst á óskalistanum þínum? „Þetta hljómar kannski eins og algjör klisja en eftir alla fjarveruna á þessu ári og endalaus ferðalög að spila hingað og þangað þá er samvera með fjölskyldunni efst á óskalistanum. Maður gleymir því stundum hvað lífið er bæði ótrúlega stutt og svo hvað tíminn er dýrmætur. Fyrir utan það þá vantar mig ekki neitt … nema kannski marenskökuna hennar mömmu. Ég yrði ekki sátt ef hún yrði ekki.“

Maður gleymir því stundum hvað lífið er bæði ótrúlega stutt og svo hvað tíminn er dýrmætur.

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið? „Ég man eftir að hafa fengið hrukkukrem fyrir augu þegar ég var 13 ára og svo fékk ég einu sinni kartöflu í skóinn. Situr enn þá í mér og Kertasníkir er enn þá í minnsta uppáhaldinu hjá mér.“

Besta jólalag allra tíma? „Hátíð fer að höndum ein og Kom þú kom vor Immanúel.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ekkert hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu“

|||
|||

Það er fyrir löngu orðið jólalegt um að litast í miðborg Reykjavíkur, en neðst í Skólavörðuholtinu er þó allt með kyrrum kjörum. Þar tekur Pálmar Ragnarsson á móti blaðamanni með þéttu handtaki og hlýlegu brosi. En Pálmar hefur að undanförnu getið sér gott orð sem fyrirlesari um samskipti fólks. Hann hefur einnig notið fádæma vinsælda sem körfuboltaþjálfari fyrir yngstu kynslóðina, en í því starfi hefur hann lagt áherslu á gleði og vellíðan barnanna.

Aðspurður hvort að hann sé kominn í hið víðfræga jólaskap brosir hann út að eyrum og segir að það sé í raun óumflýjanlegt í hans tilviki.

„Ég tapaði jólagleðinni um tíma á unglingsárunum og það var ekki fyrr en ég var fenginn til þess að koma með pabba mínum á jólaball í hlutverki jólasveins þegar ég var tuttugu og fjögurra ára sem þetta breyttist.

Ég man að ég var dauðstressaður og fannst þetta bæði óþægilegt og erfitt en samt nógu gaman til að gera þetta aftur. Síðan hef ég leikið jólasvein á hverju einasta ári í tíu ár og núorðið kemst ég auðvitað ekkert hjá því að fara í jólaskap, því á hverjum degi í desember syng ég jólalög,“ segir Pálmar og skellihlær.

Pálmar er ættaður norðan af Ströndum, alinn upp í Grafarvogi og kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu, hann segir að lífið hafi alfarið snúist um körfuna á hans yngri árum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Talar daglega við ókunnuga

Pálmar er ættaður norðan af Ströndum, alinn upp í Grafarvogi og kemur úr mikilli körfuboltafjölskyldu, hann segir að lífið hafi alfarið snúist um körfuna á hans yngri árum. „Ég var feiminn og hlédrægur strákur, átti mína vini en þorði ekki að tala fyrir framan fólk eða við ókunnuga, hvað þá stelpur. Það var ekki fyrr en ég var eiginlega neyddur til þess að taka á þessu í Versló, þegar ég var í tímum sem hétu tjáning. Þá þurfti ég fyrst að mæta og segja nafnið mitt fyrir framan bekkinn og það var ótrúlega erfitt.

Ég var með kvíðahnút í maganum og langaði til þess að sleppa því að mæta en gerði það þó og það var erfitt. Í næsta tíma átti maður líka að segja frá áhugamálum sínum og þannig skref fyrir skref og þetta skánaði smám saman. Þetta var fyrsta skrefið fyrir mig í þá átt að gera eitthvað sem mér fannst mjög erfitt og ég er ekki viss um að ég hefði einhvern tímann tekið þessi skref sem þurfti hefði ég ekki verið neyddur til þess á þessum tímapunkti. Núna, eftir að hafa sagt já við öllum tækifærum sem hafa boðist á lífsleiðinni, finnst mér ekki margt vera svo erfitt eða íþyngjandi lengur.“

Pálmar segir að hann hafi á þessum árum sett sér það markmið að segja já og forðast ekki það sem hræddi hann. „Ef það er erfitt þá geri ég það. Hluti af þessu er að ég setti mér það markmið að tala við ókunnuga á hverjum degi. Oft bara í röðinni í bankanum, á kassanum í Bónus eða hvar sem er. Bara að spjalla án þess að vera uppáþrengjandi og langflestir taka þessu vel, en auðvitað verður maður að kunna sig og þekkja sín mörk. En ég held að fólk mætti gera meira af þessu frekar en að grúfa sig yfir símann. Við þurfum að temja okkur að vera með fólki og innan um fólk og leggja þá símana frá okkur.“

„Ef það er erfitt þá geri ég það. Hluti af þessu er að ég setti mér það markmið að tala við ókunnuga á hverjum degi. Oft bara í röðinni í bankanum, á kassanum í Bónus eða hvar sem er.“

Forsendan er góð samskipti

Pálmar segir að eftir að hafa verið duglegur námsmaður í grunnskóla hafi hann farið að slaka á og verið latur við námið í Versló. Eftir stúdentsprófið hafi hann svo ýmist verið að skussast við nám í sálfræði eða viðskiptafræði og árangurinn verið eftir því.

„Ég var svona á þessu: Æ, þetta reddast-viðhorfi en það reddaðist auðvitað ekki af sjálfu sér því lífið snerist bara um körfubolta og félagslíf. Eftir þrjú ár af þessu bulli skráði ég mig aftur í sálfræði og setti mér loksins markmið. Ég ætlaði að dúxa. Ætlaði að læra meira og vera duglegri en allir hinir 350 sem skráðu sig. Ég var í frábærri stöðu til þess að leggja mig allan fram, nýtti mér bæði íþróttahugarfarið og keppnisskapið, mætti alla daga, um helgar, á afmælinu mínu, alltaf. Lærði eins og brjálæðingur og sagði öllum sem ég gat að ég væri að fara að dúxa, til þess að setja pressuna á mig. Svona gekk þetta í þrjú ár og heldurðu að ég hafi dúxað? Nei, en ég útskrifaðist og með góða einkunn svo ég þurfti ekki að sjá eftir neinu,“ segir Pálmar og hlær við tilhugsunina.

„Markmiðið er einfaldlega að standa sig vel og til þess þarf maður að leggja sig fram.“

Ég ætlaði að dúxa. Ætlaði að læra meira og vera duglegri en allir hinir 350 sem skráðu sig.

Pálmar lauk prófi með BS-gráðu í sálfræði og bætti síðar við sig MA-gráðu í viðskiptafræði. Á þessum tíma hefur hann einnig sinnt ýmsum störfum en flestir þekkja hann þó í hlutverki körfuboltaþjálfara barna.

„Ég sneri mér að þjálfun eftir að hafa meiðst illa á hné. Mig langaði ekki til þess að fara að þjálfa því mér fannst óþægilegt að þurfa að tala fyrir framan krakkana og hvað þá foreldrana. En ég lét tilleiðast og fann fljótt hvað þetta er rosalega skemmtilegt og var með þennan flokk í þrjú ár. Eftir það sneri ég mér alfarið að því að þjálfa yngstu börnin og þar fór ég geta mér góðs orðs fyrir að það mynduðust góð samskipti innan hópsins. Hvað börnunum líður vel, þau hlakka til að mæta, þau langar að leggja sig fram, og við þetta varð alveg gríðarleg fjölgun á æfingum.

Þessa ánægju rek ég til þeirrar áherslu að öllum börnum líði eins og þau séu mikilvægur hluti af hópnum, óháð getu. Það skiptir mig engu máli hvað barnið er flinkt eða hvort það hegðar sér vel. Ég vil að hvert einasta barn sem mætir á æfingu finni að það skipti máli og forsenda þess séu góð samskipti. Ekkert annað.“

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Að stíga skrefið formlega

Pálmar segir að það hafi svo verið í gegnum þjálfarastarfið sem hann byrjaði að halda fyrirlestra. Aldrei hafi honum dottið í hug að hann ætti eftir að vinna við það í fullu starfi að halda fyrirlestra á eigin vegum en nú, tveimur árum og einum 350 fyrirlestrum síðar, sé það samt raunin.

„Það merkilega er að ég hef aldrei beðið einhvern um að fá að halda fyrirlestur en þetta byrjaði í gegnum það að ÍSÍ hafði samband því þar á bæ höfðu menn frétt af minni nálgun. Þau voru að fara halda ráðstefnu um aðferðir í íþróttaþjálfun ungmenna og báðu mig um að koma og segja frá hvað ég er að gera með börnunum, segja frá samskiptunum við börnin. Mér fannst þetta erfið tilhugsun en ég sagði auðvitað já út af markmiði mínu um að taka erfiðum áskorunum. En mig langaði til þess að halda geggjaða ræðu og slá í gegn svo ég fór að semja og æfa mig sem skilaði sér í mjög fínni frammistöðu, þótt ég segi sjálfur frá.

Eftir þetta fór fleira fólk að hafa samband og biðja mig um að flytja þessa ræðu og í framhaldinu hafði Dale Carnegie samband og bað mig um að halda fyrirlestra fyrir þeirra fólk, fyrir sína þjálfara, og þá fékk ég stærsta hnútinn í magann. En mér hefur líkast til aldrei verið eins vel tekið og af þessu fólki sem vinnur við að halda ræður. Þau kunna að taka vel á móti fólki og láta því líða vel. Eftir þetta ákvað ég að að stofna síðu á Facebook, Pálmar Ragnarsson fyrirlestrar, og við það fór þetta á næsta stig. Er þar með orðinn fyrirlesari að atvinnu. Ég mæli með því ef maður er með einhvern draum að stíga skrefið svona formlega, því það gerir það enginn fyrir mann.“

Mæli með að ferðast einn

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs.

„Ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig eða pæla eitthvað í þessu, ákvað bara að fara til Mexíkó af því að mér finnst það hljóma vel og var harðákveðinn í að vera í ekki tölvupóstsambandi eða öðru slíku á meðan. Ég vissi ekkert hvað beið mín, keypti bara miða aðra leið og lét vaða. Það eina sem ég gerði daginn sem ég fór af stað var að bóka mér pláss á hosteli fyrstu þrjár næturnar. Þegar ég er kominn út, gerðist eitthvað innra með mér.

Ég hafði engan tíma til þess að undirbúa mig eða pæla eitthvað í þessu, ákvað bara að fara til Mexíkó af því að mér finnst það hljóma vel og var harðákveðinn í að vera í ekki tölvupóstsambandi eða öðru slíku á meðan.

Stressið, streitan og álagið sem var farið að segja til sín hreinlega gufaði upp. Það kom yfir mig einhver innri friður sem ég hafði nánast ekki fundið síðan ég var unglingur og svo fór ég að finna hvað þetta yrðimikið ævintýri. Ekkert plan og eina markmið að kynnast fólki og reyna að sjá mikið af spennandi hlutum. Þannig ferðaðist ég eftir því sem hugurinn bar mig hverju sinni, gisti á hostelum og kynntist mörgu frábæru fólki. Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt. Það er allt annað. Margir halda að þeir verði einmana en ég var það aldrei. Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana. Þegar maður ferðast á milli hostela er margt fólk sem er líka eitt á ferð og það hópar sig saman, kynnist og gerir skemmtilega hluti.

Ég lagði mig fram um að kynnast fólki frá Mexíkó. Þetta er dásamlegt fólk, lífsglatt og skemmtilegt og það virðist ekki skipta það öllu máli hvað það á af hlutum eins og er hérna heima. Það eru nefnilega ekki hlutir sem veita lífshamingju. Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó, en ég gat ekki betur séð en að það væri jafnvel meiri gleði og hlátur þar ef eitthvað er.“

Skiptir engu máli hvað ég hefði keypt

„Á sama tíma sá ég líka að þarna lifa margir við erfiðar aðstæður og þar á meðal mörg börn. Hvert sem ég fór varð ég var við börn í slæmum aðstæðum, svöng og í slitnum fötum. Þarna sá ég himin og haf á milli þeirra aðstæðna sem við flest búum við hér á Íslandi og hvernig mörg börn hafa það í Mexíkó. Ég hugsaði því um það að búa á Íslandi og vera í þeirri forréttindastöðu að geta látið gott af sér leiða. Því setti ég mér það markmið úti í Mexíkó að gera eitthvað gott fyrir börnin í landinu.

Þegar ég kom heim velti ég því fyrir mér hvort væri mikilvægara að ég keypti mér fleiri hluti, kannski nýjan og flottari bíl, eða að eitthvað af börnunum í Mexíkó hefði það kannski örlítið betra? Og það er sama hvað ég hugsaði þetta oft, svarið var alltaf það sama: Það er alltaf mikilvægara að bæta aðstæður barnanna en að auka við minn lúxus. Ég vona að ég muni ná að halda þessum hugsunarhætti og láta áfram gott af mér leiða.“

Pálmar segir að eftir að hann kom heim hafi hann unnið mikið með það markmið að leiðarljósi að geta gefið milljón krónur til hjálparstarfs fyrir börn í Mexíkó. „Þegar það var komið kynnti ég mér hvernig væri best að gera þetta, bar þetta undir marga og fékk alls konar viðbrögð. Sumir sögðu já, það er frábært, en aðrir svona reyndu að telja mér hughvarf, sögðu að þetta breytti engu úti í hinum stóra heimi. En auðvitað breytir það miklu fyrir börnin sem fá að njóta þess þó svo ég sé ekki að fara að breyta öllum heiminum.

Niðurstaðan varð sú að ég styrkti SOS barnaþorpin um 600.000 kr. sem fara í að kaupa þvottavélar, eldavélar og rúmdýnur handa barnaþorpi í Mexíkóborg.

Þannig að ég lagðist í smárannsóknarvinnu og hafði samband við SOS barnaþorp á Íslandi og Barnaheill. Niðurstaðan varð sú að ég styrkti SOS barnaþorpin um 600.000 kr. sem fara í að kaupa þvottavélar, eldavélar og rúmdýnur handa barnaþorpi í Mexíkóborg. Svo gef ég 400.000 kr. til Barnaheilla og það fer í uppbyggingu fyrir börn og fjölskyldur á jarðskjálftasvæðum í Mexíkó.“
Pálmar staldrar við og segir að í kjölfarið að hann kom peningunum frá sér á þennan hátt, hafi komið yfir hann góð tilfinning.

„Mér leið mjög vel. Það er ekkert sem hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu en þetta, það skiptir engu máli hvað ég hefði keypt mér. Engu máli. Sama hvað, þá get ég alla vega sagt við sjálfan mig að ég hafi gert eitthvað gagn.“

„Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum og stundum eigum við kannski bara nóg og getum nýtt tækifærið sem í því felst.“ Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Draumurinn að gera meira

„Við bræðurnir pælum mikið í þessu, hvernig maður geti látið gott af sér leiða í heiminum og mér finnst æðislegt þegar fólk tekur þátt í hjálparstarfi. Það er gaman að hugsa til þess hvort einhver þarna úti sé tilbúinn til þess að neita sér um hluti og munað, eingöngu í þeim tilgangi að láta gott af sér leiða fyrir aðra.

Margt fólk gefur þannig að það hafi engin áhrif á þeirra daglega líf. Gefur eitthvað sem breytir engu fyrir það, þannig að það þarf ekki að neita sér um neitt í staðinn. Það er mjög mikilvægt og ég er alls ekki að gagnrýna það, langt frá því. Auðvitað er alltaf frábært þegar fólk tekur þátt í hjálparstarfi en ég hef mikið verið að hugsa um það hvort það sé til fólk í heiminum sem neitar sér um jafnvel mikilvæga hluti til þess að geta látið gott af sér leiða fyrir aðra? Þegar ég heyri sögur af slíku fólki fæ ég alltaf mikinn innblástur þótt sögurnar séu ekki endilega margar. Ég er svo sannarlega ekki að segja að ég hafi verið eða sé kominn þangað. En með þessu langar mig þó til þess að taka skref í þessa átt á sama tíma og ég vona að þetta sé hvatning fyrir aðra til að taka svipuð skref.“

Aðspurður hvort að hann hafi ekki orðið var við umræðu um fátækt barna á Íslandi og jafnvel kynnst henni af raun í sínu starfi, segir Pálmar að vissulega hafi hann orðið var við að börn hafi það misgott á Íslandi. „Hins vegar hef ég ekki upplifað að börn sem koma til mín í íþróttastarf, upplifi skort. Að þau séu í ónýtum fötum eða svöng en þá verðum við að hafa í huga þann möguleika að þau börn skili sér ekki inn í íþróttirnar. En auðvitað hef ég fylgst með þessari umræðu eins og aðrir og það er dapurlegt að hugsa til þess að börn á Íslandi búi við fátækt.

Ekki síst í ljósi þess að við erum klárlega í aðstöðu til þess að koma í veg fyrir að það sé fátækt á Íslandi. En mín tilfinning er að þrátt fyrir að það sé fátækt á Íslandi þá er það mjög ólíkt þeirri fátækt sem mörg börn búa við úti í hinum stóra heimi. Þar sem börn eru horuð úr hungri, skólaus í ónýtum fötum og sofa jafnvel úti undir berum himni.“

„Áhrifin sem ég vil hafa á samfélagið er að smita út frá mér góðum samskiptum. Og Íslendingar almennt eiga í góðum samskiptum, það er að minnsta kosti mín tilfinning, að fólk hér sé að megninu til gott hvert við annað.“

Látum gott af okkur leiða

Pálmar hittir margt fólk í sínu starfi sem fyrirlesari og er greinilega umhugað um velferð náungans. Það er því ekki úr vegi að spyrja hvort að hann hafi hugsað sér að fara út í stjórnmál í framtíðinni?

„Þetta er góð pæling,“ segir Pálmar og brosir. „Áhrifin sem ég vil hafa á samfélagið er að smita út frá mér góðum samskiptum. Og Íslendingar almennt eiga í góðum samskiptum, það er að minnsta kosti mín tilfinning, að fólk hér sé að megninu til gott hvert við annað. Ég er farinn að nálgast 20.000 manns sem ég hef hitt á minni vegferð og ég bæði sé og finn að Íslendingar vilja leggja sig fram um að eiga í góðum samskiptum. Það væri erfitt fyrir mig að taka þátt í stjórnmálum á sama tíma og ég vil boða góð samskipti.

Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum.

Um leið og ég væri kominn í stjórnmálaflokk, alveg sama hvaða, mundi helmingur Íslendinga hætta að vilja hlusta á mig. En seinna meir hef ég ýmsar skoðanir á því hvernig best væri að gera hlutina og ég ætla ekkert að útiloka að ég komi einhvern tímann til með að sjást í stjórnmálum. En það sem mér finnst vera númer eitt, tvö og þrjú í íslenskum stjórnmálum er að koma heiðarleikanum á réttan stað. Málefni verða að vera í öðru sæti þangað til það er búið að laga heiðarleikann og traustið.“

Pálmar ítrekar að Íslendingar séu almennt í góðri aðstöðu til þess að láta gott af sér leiða í heiminum. „Við megum ekki gleyma því að við erum ein þeirra þjóða sem hefur það hvað best í heiminum og stundum eigum við kannski bara nóg og getum nýtt tækifærið sem í því felst. Og þótt við breytum ekki öllum heiminum, þá breytum við kannski öllu fyrir þau börn sem við getum hjálpað.

Ég hvet fólk til þess að láta gott af sér leiða. Í gegnum SOS, Heimsforeldra, Barnaheill og fleiri hjálparstofnanir, og núna er einmitt góður tími til þess að huga að slíku um jól og áramót. En svo hvet ég fólk auðvitað líka til þess að njóta hátíðarinnar, fara á eins mörg jólaböll og það mögulega getur. Komast í jólaskapið og nýta tækifærið til þess að eiga góðar stundir með vinum og fjölskyldu.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Sá yðar sem siðlaus er …

Höfundur / Davíð Þór Jónsson

Ég minnist þess ekki að lykilhugtök úr guðfræði hafi áður verið jafnáberandi í þjóðfélagsumræðunni og þau eru nú. Orð á borð við „iðrun“, „fyrirgefning“ og „synd(leysi)“ fara hátt þessa dagana. Auðvitað hefur hver og einn rétt til að skilja þau á sinn hátt og það er fagnaðarefni að almenningur hugleiði þau. En þá er kannski ekki heldur úr vegi að impra aðeins á guðfræðilegu samhengi þess hvernig þau standa í trúararfinum.

Það að vilja halda misgjörðum til streitu og láta gerendur sæta ábyrgð hefur verið úthrópað sem ókristileg langrækni og heift. Sú túlkun byggir á mjög yfirborðskenndum skilningi á fyrirgefningunni. Þegar dæmisögur Jesú eru skoðaðar kemur nefnilega í ljós að fyrirgefningin er alltaf þrælskilyrt við játningu, iðrun og yfirbót. Án þessa getur ekki verið um neina fyrirgefningu að ræða. Ósannsögli, yfirklór og fullyrðingar um að aðrir hafi gerst sekir um miklu svakalegri hluti eru ekki líkleg til að afla viðkomandi fyrirgefningar. Þegar svo ber við er miklu líklegra að dæmisagan endi á tali um „ystu myrkur“ heldur en fyrirgefningu og sátt.

Sömuleiðis var setningin „Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini“ notuð til að verja menn gagnrýni. Þessi orð lætur Jesús falla til að verja forsmáða, valdalausa og varnarlausa konu fyrir grjótkasti vel stæðra karla úr stétt góðborgara. Að heyra þessum orðum, sem sögð voru í þágu undirokaðra og réttlausra sem enga hönd gátu borið fyrir höfuð sér, beitt til að verja rétt vel stæðra karla úr stétt góðborgara til að kasta grjóti í þá sem minna mega sín, hlýtur að nísta þá inn að beini, sem gert hafa Krist að leiðtoga lífs síns og kynnt sér að einhverju leyti hvað í því felst. Þetta er næstum því jafnósvífið og að snúa Faðirvorinu upp á andskotann.

Áhugavert er að skoða hvað í hugtakinu „syndleysi“ felst í huga þess sem svona talar. Er sá syndlaus sem ekki hæðist að fötluðu baráttufólki og gerir grín að fötlun þess? Er sá syndlaus sem ekki hjólar kerfisbundið með níði og svívirðingum í hvern þjóðfélagshópinn af öðrum, koll af kolli, sem þurft hefur að heyja réttindabaráttu til að standa jafnfætis vel stæðum körlum úr stétt góðborgara gagnvart stofnunum samfélagsins? Er sá syndlaus sem ekki stærir sig af mútuþægni í opinberu embætti, hvort sem hann segir satt eða ósatt? Er sá syndlaus sem gengst við orðum sínum í stað þess að eigna þau umhverfishljóðum; stólaískri og reiðhjólabremsum?

Sé þetta skilgreiningin á „syndleysi“ og sá hluti þjóðarinnar, sem hún á við um, yrði nú við þeirri áskorun mælandans að kasta grjóti í hann er hætt við að grjóthrúgan, sem græfi hann, myndi skyggja á Esjuna.

Það er nefnilega þannig að þótt enginn sé syndlaus þá er fólk upp til hópa ekki siðlaust.

Höfundur er sóknarprestur í Laugarneskirkju.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ljósinu varpað á afskipti Rússa

Afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016 voru umfangsmikil og kerfisbundin og miðuðu að því að koma Donald Trump til valda. Þetta er niðurstaða skýrslu sem upplýsinganefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings birti í vikunni og er þetta yfirgripsmesta samantektin um hvernig rússnesk stjórnvöld misnotuðu samfélagsmiðla til að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Skýrslan var skrifuð af Oxford University´s Computational Propaganda Project og greiningarfyrirtækinu Graphika og byggir á gögnum sem Facebook, Twitter og Google létu af hendi. Washington Post fékk drög af skýrslunni í hendur á mánudaginn og birti helstu niðurstöður á mánudaginn. Þær eru í meginatriðum þær að rússneska fyrirtækið Internet Research Agency (IRA) notaði alla helstu samfélagsmiðla – Facebook, Twitter, Instragram, Youtube, Pinterest, Tumblr og Google+ – til að draga taum Donald Trump og Repúblíkanaflokksins, bæði fyrir og eftir forsetakosningarnar. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar ákært nokkra starfsmenn IRA fyrir glæpsamlega íhlutun í kosningunum en skýrslan sýnir að afskiptin hafi verið mun víðtækari en almennt var talið.
Rússarnir beindu spjótum sínum fyrst og fremst að tveimur þjóðfélagshópum, íhaldsmönnum annars vegar og blökkumönnum hins vegar og voru skilaboð Rússanna klæðskerasniðin með tilliti til þess. Þannig var því beint að íhaldssömum og hægri sinnuðum kjósendum að fylkja sér að baki Trump og var sérstaklega keyrt á málefnum eins og byssueign og innflytjendum. Að sama skapi voru skilaboðin sem beint var gegn blökkumönnum þess eðlis að rugla þá í ríminu með falsfréttum og fá þá til að missa trú á kerfinu. Þegar nær dró kosningum hófu Rússar að senda út misvísandi leiðbeiningar um hvernig ætti að kjósa. Aðrir þjóðfélagshópar fengu líka sinn skammt af klæðskerasniðnum skilaboðum – múslimar, kristnir, samkynhneigðir, konur og íbúar af spænskum uppruna.

Afskiptin ná aftur til 2013
Skýrslan sýnir að afskipti Rússa hófust svo snemma sem árið 2013. Tíðnin jókst í kringum þingkosningarnar 2014 og tók svo mikinn kipp í aðdraganda forsetakosninganna 2016 og mánuðina þar á eftir. Meginhluti starfseminnar fer fram innan veggja Internet Research Agency (IRA) í Pétursborg, fyrirtækis sem hefur beinlínis það markmið að tala máli rússneskra stjórnvalda og fyrirtækja á Internetinu. Með öðrum orðum „tröllaverksmiðja“. Afskiptin vestanhafs hófust á Twitter áður en þau yfir á YouTube og Instragram og loks Facebook þar sem útbreiðslan var mest.

Náðu til 126 milljóna Facebook-notenda
Á Facebook var megináherslan lögð á að ná til íhaldsmanna og blökkumanna. Á Facebook fór 99 prósent aðgerða Rússa fram í gegnum 20 síður sem báru nöfn eins og „Being Patriotic“, „Heart of Texas“, „Blacktivist“ og „Army of Jesus“. Efnið á þessum 20 síðum náði samanlagt til 126 milljóna Facebook-notenda og fékk efni þeirra deilingar sem náði yfir 31 milljón. Rússar stýrðu einnig 133 Instagram-reikningum með sambærilegum þemum. Árið 2016 deildu þessir reikningar samanlagt 2.600 færslum á mánuði og árið 2017 voru færslurnar orðnar 6.000. Á þeim þremur árum sem skýrslan spannar fengu rússneskar Instagram-færslur 185 milljón „like“ og 4 milljónir ummæla. Ekki bara tókst rússnesku tröllunum að hafa áhrif á hugarfar notenda, heldur náðu þau einnig að kría út fjárframlög og gengu svo langt að skipuleggja mótmæli og aðrar fjöldasamkomur í bandarískum borgum.

Samfélagsmiðlar skaðlegir lýðræðinu
Skýrsluhöfundar gagnrýna harðlega viðbrögð tæknirisana Facebook, Google og Twitter, bæði fyrir hversu seint þeir brugðust við afskiptum Rússa og hversu tregir þeir voru að láta upplýsingar af hendi. Þá er því lýst hversu skaðlegir samfélagsmiðlar geta verið fyrir lýðræðið. Ekki er langt síðan að litið var á þá sem mikilvægt tæki fyrir almenning til að koma skoðunum sínum á framfæri. Jafnvel kúguð alþýða í ráðstjórnarríkjum gat komið af stað byltingu líkt og gerðist í arabíska vorinu. Þetta hefur nú snúist við og í auknum mæli eru stjórnvöld farin að nota miðlana sem kúgunartæki. Þar geta þau bæði safnað persónulegum upplýsingum um borgarana í því skyni að kúga þá sem og misnotað þá til að hafa stjórn á umræðunni og koma áróðri á framfæri.

Reyndu ekki að fela slóðina
Loks er bent á að tæknirisarnir hefðu getað komið í veg fyrir þessa starfsemi mun fyrr. Í það minnsta voru Rússarnir lítið að hafa fyrir því að fela slóð sína. Þannig er greint frá því að Rússarnir hafi kosið að greiða fyrir kostaðar auglýsingar á samfélagsmiðlunum með rúblum og þeir gefið upp rússnesk símanúmer fyrir tengilið. Auk þess var hægt að rekja stóran hluta póstanna til rússneskra IP-talna. Fyrirtækin hafa lýst því yfir að þau hafi gripið til viðeigandi ráðstafana til að sporna gegn rússnesku tröllunum. Þannig kom Facebook upp svokölluðu „stríðsherbergi“ í haust til að fylgjast með mögulegum afskiptum fyrir þingkosningarnar í nóvember. Svo virðist sem Rússar hafi skipt um taktík því afskiptin fyrir þær kosningar voru ekki nándar jafnmikil og árið 2016.

Fleyg ummæli
„Það sem er ljóst að nærri öll þessi skilaboð miðuðu að því að draga taum Repúblíkanaflokksins – einkum og sér í lagi Donald Trump. Trump er nefndur á nafn í flestum þeim herferðum sem beindust að íhaldssömum og hægri sinnuðum kjósendum þar sem skilaboðin voru að þessir hópar ættu að styðja framboð hans. Hjá þeim hópum sem gátu skákað Trump var markmiðið að rugla þá í ríminu, beina athyglinni annað og loks að letja þá til að kjósa.“
Úr skýrslu bandarísku upplýsinganefndarinnar.

Ljúffengar sósur sem allir þurfa að kunna að búa til

||
||

Sósur spila stórt hlutverk þegar á að slá í gegn með steikinni. Hér höfum við tvær frábærar uppskriftir að ljúffengum sósum og má segja að þetta séu þær sósur sem allir ættu að eiga uppskrift að.

Villibráðarsósa

4 dl gott villibráðarsoð
1-2 dl rjómi
1 tsk. gráðostur
1-2 msk. rifsberjahlaup
salt og nýmalaður pipar
sósujafnari

Setjið allt saman í pott, hleypið suðunni upp og þykkið með sósujafnara

Þessa villibráðarsósu er auðvelt að búa til.

Piparsósa

2 msk. smjör
1 hvítlauksgeiri, marinn
1 skalotlaukur, saxaður
1 gulrót, smátt söxuð
1 sellerístöngull, saxaður smátt
2 dl rauðvín
¾ dl rauðvínsedik
½ tsk. tímían
1 lárviðarlauf
12 piparkorn, möluð gróft
2 dl nautasoð
2 msk. niðursoðinn pipar (má sleppa)
30 g kalt smjör, í bitum salt

Fullkomin með steikinni.

Brúnið hvítlauk, skalotlauk, gulrót og sellerístöngul í smjörinu góða stund. Bætið rauðvíni, rauðvínsediki, tímíani og lárviðarlaufi út í og sjóðið, án þess að hafa lok, í 10 mín.

Bætið piparkornum og soði í og niðursoðnum pipar ef þið viljið nota hann og látið malla í 5 mín. Takið pottinn af hellunni og hrærið smjörið út í með písk. Bragðbætið með salti.

Texti / Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Tískuskandalar ársins 2018

|||
|||

Nú þegar árið er senn á enda er tilvalið að líta til baka og rifja upp það sem gerðist á árinu. Hér er samantekt yfir nokkra skandala sem komu upp í tískuheiminum á þessu ári.

Marc Jacobs 90 mínútum of seinn

Fatahönnuðurinn Marc Jacobs olli mikilli óánægju í september þegar hann mætti heilum 90 mínútum of seint á eigin tískusýningu á tískuvikunni í New York. Fljótlega fór slúður á flug um að Jacobs hefði seinkað sýningunni vísvitandi til að kom í veg fyrir að gestir hans kæmust á sýningu Rihönnu.

Umdeildur jakki Melaniu

Jakkinn sem Melania klæddist kom úr Zöru.

Jakki sem Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna, klæddist í sumar þegar hún fór upp í flugvél til að heimsækja búðir fyrir börn ólöglegra innflytjenda á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna gerði allt vitlaust. Aftan á jakkanum, sem er frá Zöru, stóð „I really don‘t care. Do you?“ sem þýðist sem „Mér er alveg sama. Hvað með þig?“. Skilaboðin aftan á jakkanum slógu ekki í gegn. Talskona Melaniu sagði síðar að áletrunin hefði ekkert með heimsókn hennar að gera.

Fléttur Kim Kardashian

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian var sökuð um menningarnám (e. cultural appropriation) þegar hún mætti með fléttað hár á MTV Movie & TV Awards hátíðina í júní. Sumir vildu þá meina að þessi hárgreiðsla væri álitin „sóðaleg“ þegar svartar konur skarta henni en „töff“ þegar hvítar konur eru með slíka greiðslu.

„Hún er svo ljót“

Tískuhönnuðurinn Stefano Gabbana sló ekki í gegn á samfélagsmiðlum þegar hann skrifaði: „hún er svo ljót“ undir myndir af söng- og leikkonunni Selenu Gomez á Instagra-síðu Catwalk Italia. Þetta varð til þess að margir ádáendur Selenu Gomez ákváðu að sniðganga vörur Dolce&Gabbana.

Þessi athugasemd sló ekki í gegn hjá aðdáendum Selinu.

Vandlát Kendall Jenner

Raunveruleikastjarnan og fyrirsætan Kendall Jenner reitti kollega sína til reiði sem ummælum sem hún lét falla í viðtali við LOVE magazine í ágúst. Þá gaf hún í skyn að hún væri vandlátari en flestar fyrirsætur og talaði um að hún tæki ekki hvaða atvinnutilboðum sem er. Margar fyrirsætur stigu þá fram í kjölfarið og bentu á að ummælin væri móðgandi fyrri flestar fyriræstur sem þurfa að hafa mikið fyrir að ná langt í bransanum.

Peysa H&M sögð rasísk

Barnapeysa sem H&M setti í sölu í upphafi árs olli nokkru fjaðrafoki þegar tónlistamaðurinn Weeknd lýsti yfir óánægju sinni. Hann kvaðst vera móðgaður vegna þess að H&M notaði svartan dreng til að auglýsa peysuna á vefsíðu sinni en á peysunni stóð „coolest monkey in the jungle“ sem þýðist sem „svalasti apinn í frumskóginum“. Hann sakaði H&M um rasisma og margir virtust sammála honum. Peysan var tekin úr sölu.

Tónlistamaðurinn Weeknd var ekki kátur með þessa auglýsingu.

 

Völvan um árið 2019

Nýjasta tölublað Vikunnar kemur í verslanir í dag og í því er að finna ítarlega völvuspá fyrir árið 2019.

Í byrjun desember var völva Vikunnar heimsótt. Vaxandi vindur ýldi í ufsum og setti ofurlítið tóninn fyrir komandi ár. Völvan er uggandi um margt og þegar spilin höfðu verið lögð rýndi hún um stund í kristalskúluna en síðan reis hún á fætur, gekk um gólf og ræddi við stjórnendur sína á öðru tilverustigi.

Í spá völvunnar sér hún sólríkt og fallegt sumar, áframhaldandi straum ferðamanna til landsins, ríkisstjórn sem leysist í sundur, dýfu á fasteignamarkaði og átak til að draga úr eiturlyfjavandanum sem herjar á landsmenn.

Hvað viðskiptalífið varðar segir völvan meðal annars: „Róbert Wesman gengur vel. Hann er ánægður og horfir um öxl sáttur. Hann er með ákveðin plön sem hann fer eftir. Mér finnst erfitt einkalífið hjá Skúla Mogensen. Hann þarf að hlúa að sér og sínum. Ég upplifi þreytu hjá honum. Lítið hefur farið fyrir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur og það verður áfram þannig á árinu.“

Mér finnst erfitt einkalífið hjá Skúla Mogensen. Hann þarf að hlúa að sér og sínum.

Spurð út í samgöngur og vegamál segir völvan: „Slysum á vegum á ekki eftir að fækka hér á landi. Það er komin ákveðin samgönguáætlun og ég sé ekki annað en henni verði fylgt eftir og engu bætt við. Vaðlaheiðargöng hafa kostað okkur óhemjufjármagn sem hefði mátt nota í annað. Þau voru illa undirbúin, eins og margt annað hér á landi. Menn unnu ekki grunnvinnuna sína, enn og aftur þurfum við að hysja upp um okkur og huga að því hverjar grunnstoðir samfélagsins eru og hvernig við vinnum úr hlutunum.“

Slysum á vegum á ekki eftir að fækka hér á landi.

Þá rýnir völvan einnig í menningamál, fjölmiðla, íþróttir, kóngafólk og Hollywood-stjörnur svo eitthvað sé nefnt.

Þetta og miklu meira í ítarlegri völvuspá í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana“

Pálmar Ragnarsson, körfuboltaþjálfari og fyrirlesari, ferðaðist einn um Mexíkó síðasta sumar. Það veitti honum innblástur til þess að gefa eina milljón króna í hjálparstarf til barna þar í landi eftir að heim var komið. Pálmar prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun.

Pálmar segir að síðastliðið vor hafi hann verið búinn að vinna gríðarlega mikið og fundið að það væri kominn tími á gott frí. Hann hafi því ákveðið að halda á vit ævintýranna með bakpoka á bakinu og hélt áleiðis til Mexíkó einn síns liðs.

„Þegar ég er kominn út, gerðist eitthvað innra með mér. Stressið, streitan og álagið sem var farið að segja til sín hreinlega gufaði upp. Það kom yfir mig einhver innri friður sem ég hafði nánast ekki fundið síðan ég var unglingur og svo fór ég að finna hvað þetta yrðimikið ævintýri. Ekkert plan og eina markmið að kynnast fólki og reyna að sjá mikið af spennandi hlutum. Þannig ferðaðist ég eftir því sem hugurinn bar mig hverju sinni, gisti á hostelum og kynntist mörgu frábæru fólki. Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt. Það er allt annað. Margir halda að þeir verði einmana en ég var það aldrei. Ég var einn í tvo mánuði en aldrei einmana.

Ég get ekki mælt nógsamlega mikið með því fyrir fólk að láta á það reyna að ferðast eitt.

Ég lagði mig fram um að kynnast fólki frá Mexíkó. Þetta er dásamlegt fólk, lífsglatt og skemmtilegt og það virðist ekki skipta það öllu máli hvað það á af hlutum eins og er hérna heima. Það eru nefnilega ekki hlutir sem veita lífshamingju. Við Íslendingar eigum almennt miklu fleiri og flottari hluti en fólkið í Mexíkó, en ég gat ekki betur séð en að það væri jafnvel meiri gleði og hlátur þar ef eitthvað er.“

Lestu viðtalið við Pálmar í heild sinni í Mannlífi sem kemur út á morgun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Viðtalið í heild sinni: „Ekkert hefði getað veitt mér meiri gleði og vellíðan í hjartanu“

Brynjar Níelsson eflir kvenlega innsæið

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðirsflokksins, eflir sitt kvenlega innsæi með því að lesa tímaritið Vikuna. Þessu greinir hann frá á Facebook.

„Til að efla mitt kvenlega innsæi les ég alltaf glanstímaritið Vikuna. Rétt fyrir jól ár hvert segir Völva Vikunnar okkur hvað gerist á næsta ári,“ skrifar Brynjar á Facebook.

Þá heldur hann áfram og veltir fyrir sér trúarbrögðum landsmanna. „Í mörgum öðrum fjölmiðlum á þessum árstíma eru einnig völvur sem leiða okkur inn í nánustu framtíð. Mörg okkar trúum þessu eins og nýju neti.

Trúum einnig á álfa og huldufólk og sumir stunda með þeim ástarleiki og ganga jafnvel í hjónaband með slíkum verum. Svo færum við til vegi til að trufla ekki líf þeirra. Svo þegar einhverjum dettur í hug að segjast trúa á Guð almáttugan nær þetta sama fólk ekki upp í nef sér af hneykslun yfir slíkum hindurvitnum. Orðatiltækið „að vera eins og álfur út úr hól“ varð ekki til úr engu.“

Sjá einnig: Völvan um árið 2019

Munu flugmiðar snarhækka?

|
|

Neytendasamtökin greindu frá því í á mánudaginn að verð á flugmiðum hjá WOW air og Icelandair til fjögurra algengra staða hefði hækkað að meðaltali um 35% eftir að tilkynnt var um fyrirhugaðan samruna félaganna í byrjun nóvember.

Líklega hefur fátt verið eins góð búbót fyrir Íslendinga og þegar flugfélagið Iceland Express hóf árið 2003 að bjóða upp á flug til London og Kaupmannahafnar í samkeppni við Icelandair. Með því snarlækkaði verð á flugmiðum til þessara áfangastaða. Icelandair var hins vegar dæmt árið 2007 til þess að greiða 192 milljónir króna í sekt fyrir að hafa misnotað sér markaðsráðandi stöðu sína. „Eftir að Iceland Express hóf áætlunarflug lækkaði Icelandair verð á viðskiptafargjöldum um allt að 41% á flugleiðinni milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar og 43% á flugleiðinni milli Keflavíkur og London,“ segir í umfjöllun um meinta misnotkun.

Þó verð á flugmiðum muni eitthvað breytast á næstunni verður þó að telja ólíklegt að Icelandair komist aftur í þá markaðsráðandi stöðu sem félagið var í áður en Iceland Express, forveri WOW air, kom inn á markaðinn.

Síðasta föstudag tilkynnti WOW air um uppsögn á 111 starfsmönnum og að flugvélum yrði fækkað úr 20 niður í 11. Síðar var tilkynnt um að Indigo Partners muni leggja 75 milljónir dollara, andvirði 9,3 milljarða króna, inn í WOW air. Kaupin eru háð ákveðnum skilyrðum. Indigo muni kaupa ótilgreindan fjölda hlutabréfa í WOW air auk þess sem bandaríska félagið leggur til fjármagn til að koma að endurreisn félagsins.

Hvernig mun rekstur WOW air breytast?

Líkt og Mannlíf hefur áður sagt frá hefur launakostnaður verið töluvert lægri hjá WOW air en Icelandair. Það sést vel í úttekt sem hagfræðideild Landsbankans gerði á félögunum tveimur. Þar kom fram að launakostnaður sem hlutfall af tekjum væri 19% hjá WOW air en 33% hjá Icelandair.

Áhugavert verður að sjá hvernig samkeppnisstaða WOW air og Icelandair verður á komandi ári. Mynd/Isavia

Með innkomu Indigo Partners sem hluthafa hjá WOW air má búast við því að félagið verði í töluvert betri stöðu til að veita Icelandair samkeppni. Þar mun miklu ráða hvernig verður samið um kjör við flugmenn og flugfreyjur WOW air. Er þar nefnt að starfsfólk verði ráðið í gegnum svokallaðar starfsmannaleigur. Spurningin er hins vegar hversu langan tíma fjárhagsleg og rekstrarleg endurskipulagning mun taka hjá WOW air. Vegna stærðar sinnar getur Indigo Partners líklega fært WOW air töluvert betri kjör á flestum aðföngum. Þá hefur verið nefnt að félagið muni einbeita sér að styttri flugleiðum.

Einnig verður að teljast líklegt að Icelandair geri frekari breytingar á starfsemi sinni. Það sem Icelandair vantar líklega er hins vegar annað hvort nýr erlendur forstjóri eða erlendur hluthafi sem hefur alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Ekki er hægt að segja að íslenskir lífeyrissjóðir sem eru stærstu hluthafar Icelandair búi yfir slíkri reynslu. Því þykir áhugavert að sjá hvernig samkeppnisstaða WOW air og Icelandair verður á komandi ári.

Eftirtektarverð fiskiflétta og rómantískir liðir

Ef hátíðargreiðslan vefst alltaf fyrir þér og situr á hakanum þegar kemur að sparigallanum á tyllidögum þá er þetta fyrir þig. Dagný Ósk, einn eigandi Sprey hárstofu, kennir lesendum að gera þessa sparilegu greiðslu.

Rómantískir liðir og fiskiflétta

Það þarf ekki að vera flókið að framkalla glæsilega sparigreiðslu.

„Ég notaði stóra öfuga keilu frá HH Simonsen til þess að ná liðunum jöfnum. Til þess að gera greiðsluna örlítið áhugaverðari bjó ég til fiskifléttu við andlitið og leyfði henni að vera lausri niður. Það er auðvitað hægt að spenna hana upp eða jafnvel gera báðum megin og láta þær svo mætast saman að aftan.

Það þarf alls ekki að vera með mjög þykkt hár til þess að ná fléttunni svona breiðri, ég einfaldlega notaði DOO.OVER frá Kevin Murphy og togaði fléttuna aðeins út sem gerir hana aðeins úfnari og meiri um sig,“ segir Dagný.

Eigendur Sprey hárstofu eru Katrín Sif og Dagný Ósk sem sjást fremst á myndinni.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Hagkvæmar hugmyndir í skóinn

Nokkrir jólasveinar eru ennþá væntanlegir til byggða og þá er ekki úr vegi að velta fyrir sér vænlegum gjöfum sem heppilegar eru í skóinn. Við tókum saman nokkrar einfaldar og hagkvæmar hugmyndir fyrir jólasveininn.

Púsl og lítil spil eru ekki aðeins góð hugarþjálfun heldur getur orðið að skemmtilegri samverustund barna, systkina og foreldra.

Flestum börnum þykir gaman að lita, nýir litir í safnið ættu því alltaf að vekja lukku, sem og hvers kyns föndur sem fylgt gæti með.

Að mati margra er aðventan tími til að fylla híbýlin af bakstursilmi en mörgum börnum þykir gaman að taka þátt í smákökubakstrinum. Kökuform og hvers kyns bakstursáhöld sérsniðin fyrir smáar hendur gætu því glatt litla sælkera.

Flestum börnum þykir gaman að leira og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.

Límmiðar og tímabundin tattú slá alltaf í gegn án þess að kosta mikið. Auðvelt er að nálgast fjölbreytt úrval af ýmis konar örkum sem hægt er að dreifa yfir desember.

Jólasokkar og jólavettlingar njóta sífellt meiri vinsælda en hægt er að nálgast þá víða um borgina á hagstæðu verði.

Punt í hárið fylgir aðventunni og öllum þeim hátíðarhöldum sem fylgja þessum tíma árs, því er ekki úr vegi að lauma lítilli spennu eða spöng í skóinn.

Mörgum þykir spennandi að fá eitthvað ætt í skóinn án þess að það sé sælgæti. Mandarínur hafa lengi þótt vinsælt val en morgunkornspakkar og ávaxtastangir gætu líka slegið í gegn.

Skafmiðar kosta sáralítið en vekja alltaf mikla lukku hvort sem þeim fylgir vinningur eður ei.

Gaman er að gefa börnum fallegt jólaskraut sem þau geta skreytt herbergið sitt með eða hengt á jólatréð.

Sniðugt er að gefa börnum hvers kyns upplifun í skóinn. Hægt er að fá gjafabréf hjá kvikmyndahúsum, ísbúðum og svo auðvitað sundlaugum.

 

 

 

 

Stjörnurnar sem létust á árinu

|||||||
|||||||

Árið 2018 er senn á enda. Um viðburðaríkt ár var að ræða í skemmtanabransanum. Nýjar stjörnur komu fram á sjónarsviðið eins og gengur og gerist og nokkrar féllu frá. Þetta eru nokkrar af þeim erlendu stjörnum sem létust á árinu.

Stan Lee varð 95 ára.

Stan Lee. Teiknimyndahöfundurinn var 95 ára að aldri þegar hann lést í nóvember. Hann er einn af mönnunum á bak við ofurhetjurnar The Hulk og Spider Man. Hann lést í Los Angeles og dánarorsökin var lungnabólga.

Burt Reynolds lést í september.

Burt Reynolds. Leikarinn lést í september, 82 ára gamall. Hann var afar vinsæll á áttunda áratugnum og lék meðal annars í Smokey and the Bandit og Deliverance.

Mac Miller lést í september, 26 ára gamall.

Mac Miller. Rapparinn lést í september á heimili sínu í Kaliforníu. Hann lést af völdum ofneyslu eiturlyfja og áfengis.

Aretha Franklin. Söngkonan var 76 ára þegar hún lést í Detroit í Bandaríkjunum í ágúst. Hún greindist með krabbamein árið 2010.

Aretha Franklin fæddist í mars árið 1942 og lést í ágúst á þessu ári.

Anthony Bourdain. Kokkurinn og matargagnrýnandinn var 61 árs þegar hann lést í sumar.

Bourdain fannst látinn á hótelherbergi í Frakklandi í júní.

Kate Spade. Hönnuðurinn lést á heimili sínu í New York í júní, þá 55 ára að aldri.

Dolores O‘Riordan. Írska söngkonan lést á hóteli í London í janúar á þessu ári. Hún var söngkona hljómsveitarinnar The Cranberries. Hún var 46 ára þegar hún lést. Hún er sögð hafa drukknað í baðkari vegna ölvunar.

Mark var þekktur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Glee.

Mark Salling. Glee-leikarinn fannst látinn í janúar skammt frá heimili sínu. Hann hafði hengt sig. Skömmu áður hafði hann verið dæmdur fyrir vörslu barnakláms.

Avicii. Sænski plötusnúðurinn var 28 ára þegar hann lést í apríl. Hann svipti sig lífi. Ferill Avicii hófts þegar hann var 16 ára gamall en hann náði heimsfrægð árið 2011 með laginu Levels.

Verne Troyer. Bandaríski leikarinn lést 49 ára að aldri í apríl. Hann var þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Mini-Me í kvikmyndunum um Austin Powers.

Verne Troyer fæddist í janúar árið 1969.

John Mahoney. Leikarinn var 77 ára að aldri þegar hann lést í febrúar. Hann er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Frasier. Hann lést á sjúkrahúsi í Chicago.

 

Guli kjóllinn kominn í sölu og rýkur út

|
|

Guli kjóllinn sem Amal Clooney klæddist í konunglega brúðkaupinu hefur verið settur í sölu. Hann selst eins og heitar lummur.

Kjóllinn kostar um 160.000 krónur.

Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney er mikil tískufyrirmynd og vakti athygli í brúðkaupi Harry Bretaprins og Meghan Markle í sumar fyrir klæðaburð. Hún klæddist skærgulum kjól úr smiðju Stellu McCartney og var með hatt í stíl. Á vef Marie Caire er kjóllinn sagður hafa verið sérsaumaður á Amal og var því ekki fáanlegur í verslunum, þar til núna.

Snið kjólsins er í gamaldags anda og klæddi Amal afar vel. Kjóllinn er nú kominn í sölu og er fáanlegur á vefversluninni MatchesFashion.com fyrir upphæð sem nemur 160.000 krónum. Hatturinn er þó ekki til sölu.

Kjóllinn rýkur nú út úr vefversluninni og er uppseldur í flestum stærðum.

Þess má geta að Amal er mikill aðdáandi hönnunar Stellu McCartney og hefur í gegnum tíðina klæðst kjólum, kápum, drögtum og öðru úr smiðju Stellu McCartney.

 

Prófessor við HÍ: „Get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað“

Prófessorinn Sigrún Helga Lund hefur sagt upp starfi sínu sem prófessor í líftölfræði við HÍ vegna framkomu yfirmanna og skólastjórnenda.

Í færslu sem Sigrún Helga Lund, prófessor við Háskóla Íslands, birtir á Facebook í dag segir hún að hún geti ekki hugsað sér að halda áfram að vinna á sama vinnustað vegna viðbragða skólastjórnenda við kvörtun hennar yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi yfirmanns hennar.

„Sumarið 2016 lýsti ég áhyggjum yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi af völdum yfirmanns míns í starfsmannaviðtali. Engin viðbrögð fylgdu þeirri kvörtun, ástandið versnaði ört og þegar það var loks orðið óbærilegt svaraði ég fyrir mig og löðrungaði yfirmanninn. Þá fyrst brást Háskólinn við en á allt annan máta en mig óraði fyrir,“ skrifar hún meðal annars í færslu sína.

Sigrún kveðst hafa útvegað sönnunargögn um alvarlegt ofbeldi og einelti en að ekki hafi verið gerð tilraun til að rannsaka málið. Henni var þá skipað að fara í veikindaleyfi.

Þegar ég neitaði að hlýða var mér hótað áminningu sem HÍ neyddist þó til að láta niður falla enda málið allt á sandi byggt.

Sigrún segir þá frá því að hún hafi kært málið til siðanefndar háskólans og unnið málið. „Nú var málið komið í hendur rektors og í fyrsta sinn bærðist með mér von um réttlæti. Ég fékk fregnir af því að siðanefnd hefði fundað með rektor og beið spennt eftir að heyra nánar frá honum. Fjórir mánuðir liðu og á morgunfundi um jafnréttismál í hátíðarsal HÍ sagði hann: „Hér í Háskóla Íslands höfum við lagt áherslu á að hlusta á sögur kvenna, draga af þeim lærdóm og bregðast fljótt og fumlaust við.” En aldrei heyrðist neitt. Nú er nær hálft ár liðið síðan dómur féll, ekki stakt orð borist frá rektor og allt ástand óbreytt – ef ekki verra. Nú er svo komið að ég get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað.“

Færslu Sigrúnar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Mynd / Háskóli Íslands

„Eyðum ekki jólunum á klósettinu“

Matvælastofnun hefur birt góð ráð varðandi matreiðslu í kringum jólin undir yfirskriftinni „eyðum ekki jólunum á klósettinu“.

Í grein MAST kemur fram að ráðin eru gefin í tilefni þess að nú nálgast jólin og mikið álag er á eldhúsum landsmanna yfir hátíðirnar. Því er fólk hvatt til að tileinka sér hreinlæti og rétta meðhöndlun matvæla. „Hreinlæti, kæling og rétt hitun matvæla er afar mikilvæg svo koma megi í veg fyrir að gestir og heimilisfólk fái matarborna sjúkdóma með tilheyrandi óþægindum,“ segir meðal annars.

Þá kemur fram að nóróveirur geti dreift sér hratt. „Reglulegur handþvottur minnkar líkur á smiti milli aðila eða frá menguðum matvælum.“

Þá er mælt með að forðast að geyma viðkvæm matvæli við stofuhita í langan tíma. „Við 37°C getur ein baktería fjölgað sér í 1000 á 3 tímum og í 1 milljón á 6 tímum. Það er því mikilvægt að geyma og meðhöndla matvæli við það hitastig að komið verði í veg fyrir hraða fjölgun baktería með því að takmarka þann tíma sem viðkvæm matvæli, s.s. reyktur og grafinn fiskur og álegg er á borðum við stofuhita.“

Meðfylgjandi eru svo ráðin frá MAST:

  • Hrátt kjöt og safi úr því skal ekki komast í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum ávexti og grænmeti til að varna því að bakteríur af því berist í matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum hendur áður en hafist er handa við matreiðslu og eftir snertingu við hrátt kjöt og óþvegið grænmeti
  • Þrífum skurðarbretti og áhöld strax eftir notkun eða notum sérstök skurðarbretti fyrir kjöt, grænmeti og tilbúin matvæli
  • Skipuleggjum ísskápinn vel og höldum honum hreinum til að varna því að krossmengun verði þar
  • Skiptum reglulega um borðtuskur, viskastykki og handþurrkur.

Alltaf forðast textaskrif en gefur nú út ævintýrabók

||
||

Karólína Pétursdóttir er lesblind og hefur í gegnum tíðina forðast það að skrifa texta. En nú hefur hún skrifað bók sem er sérhönnuð fyrir lesblinda. Hún kom sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

Hrauney er fyrsta bók Karólínu Pétursdóttur. Bókin er ævintýrabók skrifuð fyrir ungmenni og fjallar um 17 ára stelpu sem kemst yfir í álfaheim. „Þegar hún kemst í álfaheiminn er ekkert auðvelt að komast til baka. Bókin gerist á Íslandi en í annarri vídd,“ segir Karólína um bókina en passar sig að ljóstra engu upp.

Það sem gerir bókina einstaka er að hún er sérhönnuð fyrir lesblinda. Sjálf er Karólína lesblind og hefur oft átt erfitt með að komast í gegnum bækur vegna þess hvernig þær eru uppsettar.

„Ég er lesblind og fólkið sem hefur unnið með mér að Hrauney er meira og minna allt lesblint líka,“ segir Karólína og hlær. „Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp á að lesa. Þannig að mér fannst tilvalið að hanna mína bók með lesblinda í huga,“ útskýrir Karólína.

Letur bókarinnar er hannað fyrir lesblinda og línu- og orðabil er meira en gengur og gerist. Blaðsíður bókarinnar eru einnig gulleitar sem hjálpar lesblindum að sögn Karólínu.

Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp.

Letur bókarinnar er sérhannað fyrir lesablinda.

„Þetta hjálpar svakalega við lesturinn. Þetta letur kostaði aðeins meira en venjulegt letur og bókin varð aðeins lengri heldur en hún hefði þurft að vera. Þannig að allt ferlið varð aðeins dýrara en við gerðum ráð fyrir,“ segir Karólína hlæjandi.

„En það er algjörlega þess virði. Það fólk sem við höfum fengið til að prufulesa bókina fyrir okkur talar um að það haldist betur við lesturinn.“

Kom sjálfri sér á óvart

Bókin er skrifuð fyrir unglinga en Karólína segir söguna vera skemmtilega fyrir alla sem hafa áhuga á ævintýrum.

Karólína segir að fyrir nokkrum árum hefði það aldrei hvarflað að henni að hún myndi skrifa bók. Hún viðurkennir að hún hafi alltaf forðast það eins og heitan eldinn að skrifa texta. Hún kom því sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi skrifa bók. Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar. Ég skrifa ekki einu sinni færslur á Facebook. En þegar Elsa Egilsdóttir vinkona mín stakk upp á að við myndum gefa út unglingabók um álfa og huldufólk þá leist mér vel á það. Ég ætlaði bara að skrifa niður nokkra punkta til að byrja með og fá einhvern annan til að skrifa sjálfa bókina. En áður enn ég vissi af var ég búin að skrifa alla bókina,“ útskýrir Karólína.

Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar.

Karólína var að dreifa bókinni í búðir þegar blaðamaður náði tali af henni. „Tilfinningin við að klára bókina og vera á lokametrunum er rosalega góð. Þetta er búin að vera mikil vinna og það að gefa út bók er ekki beint það auðveldasta sem ég hef gert,“ segir hún og skellir upp úr.

Þess má geta að Karólína teiknaði meirihluta myndanna í bókinni sjálf og Elsa Egilsdóttir var henni innan handar í öllu ferlinu. Elsa hannaði forsíðu bókarinnar.

Rifjar upp skopleg atvik undir myllumerkinu #ársins

Undanfarin þrjú ár hefur Guðmundur Haukur Guðmundsson tekið saman nokkra hápunkta ársins á Twitter undir myllumerkinu #ársins.

Guðmundur Haukur Guðmundsson hefur vakið lukku á Twitter undanfarin ár þegar hann gerir upp árið með myllumerkinu #ársins og rifjar upp skopleg atvik sem vöktu athygli í fjölmiðlum á árinu. Þessa stundina er hann í óðaönn að birta upprifjun fyrir árið 2018 á Twitter.

Spurður út í hvernig þetta verkefni hófst segir Guðmundur: „Ég er með spurningakeppni fyrir félaga mína á hverju ári þar sem spurt er út í árið sem er að líða. Þetta hefur síðan sprungið aðeins út og hefur spurningakeppnin farið víða. Í kjölfarið fór ég að setja þessi kómísku atriði, sem munu ekki skila sér í hina hefðubundnu annála fyrir árið, á Twitter.“

Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því.

Aðspurður hvort þetta sé ekki mikil vinna, að rifja árið svona upp þegar áramótin nálgast segir hann: „Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því. Síðan vinn ég úr því í nóvember fyrir spurningakeppnina og í kjölfarið byrjar þessi yfirferð undir hashtagginu #ársins á Twitter.“

Fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.

Guðmundur hefur alltaf fengið góð viðbrögð við upprifjun sinni á Twitter: „Viðbrögðin í ár hafa verið mun meiri en síðustu ár og almennt bara mjög fín. Sérstaklega vegna þess að fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.“

Meðfylgjandi eru nokkur skopleg atriði sem Guðmundur hefur rifjað upp á Twitter undanfarið undir myllumerkinu #ársins.

Verstu mistökin að missa matinn í gólfið

Sjónvarpsstjarnan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er flestum landsmönnum vel kunn en hún gaf nýverið út bókina Hvað er í matinn. Þar er hægt að finna einfaldar uppskriftir gómsætra rétta fyrir öll kvöld vikunnar.

Hvað er í matinn er þriðja matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar en fyrri bækur hennar, Í matinn er þetta helst og Seinni réttir, komu út fyrir rúmum áratug. Tildrög þess að Jóhanna Vigdís settist aftur við skrifin var matreiðslunámskeið sem hún sótti í Flórens en margir réttanna eru undir ítölskum áhrifum.

„Mig langar líka að hvetja sem flesta áfram í baráttunni gegn matarsóun,“ segir Jóhanna Vigdís aðspurð um hvatann að baki bókinni.

Þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina.

„Ég var með matreiðsluþátt á RÚV árið 2009 eftir að ég gaf út matreiðslubækurnar. Það var svo merkilegt að þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina. Á einhvern hátt er eins og umræðan um mat og matreiðslu sé á hlutlausu svæði. Þegar ég byrjaði að hugsa um þessa bók var fyrsta hugsun mín: Hvað sameinar? Hver er algengasta spurningin á hverju heimili? Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessari ákvörðun, að hafa eitthvað í matinn sem freistar, kætir og sameinar. Þannig varð bókin til.“

Af pönnunni og niður á gólf

Aðspurð um ráð fyrir nýgræðinga innan eldhússins ítrekar Jóhanna Vigdís svo að mikla ekki hlutina fyrir sér.

„Þeir sem eru að halda sín fyrstu jól sjálfir eiga að setja einfaldleikann á oddinn. Hafa til dæmis bara einn rétt eða bara eitthvað sem menn kunna að búa til. Ekki að búa til flækjustig ef það er óþarfi. Jólin snúast fyrst og fremst um samveru og að njóta, og einfaldleikinn er alltaf bestur. Auðvitað gera allir mistök og að mínu mati hafa mín verstu mistök verið að missa matinn í gólfið eins og gerðist hérna um árið hjá mér þegar við Guðmundur vorum nýbyrjuð að búa og systir mín var í mat. Allt fór af pönnunni hægt og rólega niður á gólf, beint á teppið. Við bjuggum til þessar fínu samlokur á eftir.

Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri.

Annars höfum við alltaf kalkún með öllu tilheyrandi á aðfanagadagskvöld. Fylling, heimatilbúið rauðkál, brúnaðar kartöflur og steiktar og sósur við allra hæfi. Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri, sem minn yndislegi tilvonandi tengdasonur á allan heiðurinn af. Heimtailbúinn ís í eftirrétt með möndlu er svo alltaf á sínum stað. Hann er alltaf sá alvinsælasti á mínu heimili, alla daga ársins.“

Meðfylgjandi er uppskrift frá Jóhönnu að risotto, fullkominn forréttur.

Hátíðlegt Saffran-risotto

Risotto er til í ótal myndum, þetta er ein þeirra og hún er virkilega góð. Ef þið notið humar í skel skuluð þið alls ekki henda skeljunum því þær eru frábærar til að sjóða í súpu næsta dag og fá þannig góðan kraft. Ef þið eigið ekki saffran má alltaf bjarga sér með túrmeriki.

Jóhanna borðar risotto með humri í forrétt á jólunum.

humar / risarækja, magn eftir smekk
1 laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
2 msk. smjör
250 g risotto-hrísgrjón
1,2 l grænmetissoð
saffranþræðir
100 g parmesan-ostur

Ef þið eruð með frosinn humar eða risasækju þarf að láta skelfiskinn þiðna. Ef þið eruð með humar í skel, takið þá fiskinn úr skelinni. Skerið lauk og hvítlauk smátt. Hitið olíu og 1 msk. af smjöri í potti og steikið laukana í blöndunni þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Blandið nú ósoðnum hrísgrjónum saman við í smáum skömmtum og setjið grænmetissoð á milli þar til það gufar upp. Það er galdurinn við risotto, að hræra stöðugt en þetta tekur um 20 mínútur. Blandið saffrani saman við svo risottoið fái fallegan lit. rífið parmesan-ostinn yfir og blandið saman við.

Bræðið 1 msk. af smjöri á pönnu og setjið svolítið saffran saman við. Steikið skelfiskinn á öllum hliðum upp úr saffransmjörinu í stutta stund. Blandið öllu saman og berið fram með brauði og parmesan-osti.

Myndir / Magnús Hjörleifsson

Átti í sambandi við Woody Allen 16 ára gömul

Babi Christina Engelhardt kveðst hafa átt í löngu ástarsambandi við leikstjórann Woody Allen. Sambandið hófts þegar hún var 16 ára.

Kona að nafni Babi Christina Engelhardt hefur nú stigið fram og greint frá því að hún og Woody Allen áttu í ástarsambandi í um átta ára skeið. Sambandið hófst árið 1976, þegar hún var 16 ára og Allen 41 árs.

The Hollywood Reporter birti í gær ítarlegt viðtal við Babi. Þar kemur fram að ástarsamband þeirra Babi og Allen hafi hafist í október árið 1976 eftir að þau kynntust á veitingastað í New York. Á þessum tíma starfaði Babi sem fyrirsæta.

Babi kveðst hafa haft frumkvæði að samtalinu þegar hún skrifaði símanúmer sitt á servéttu og afhenti Allen. Eftir það hittust þau reglulega á heimili hans í New York og stunduðu kynlíf. Í viðtalinu segir Babi að hún hafi einnig komið með vinkonur sínar heim til Allen og að þau hafi stundað hópkynlíf.

Hún tekur fram að hún sé ekki að stíga fram og greina frá ástarsambandi sínu við Allen til að koma óorði á leikstjórann. „Ég er að tala um ástarsögu mína. Þetta mótaði mig. Ég sé ekki eftir neinu“.

Þess má geta að Woody Allen var í opinberu sambandi með leikkonunni Miu Farrow frá árinu 1980 til ársins 1992, þegar upp komst að Allen og ættleidd dóttir Farrow, Soon-Yi Previn, áttu í ástarsambandi.

Raddir