Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
8.6 C
Reykjavik

Í mál vegna Boeing 737 Max flugvéla

Fyrirtækið sakað um að hafa lagt áherslu á gróða á kostnað heiðarleika og öryggis.

Hluthafar í Boeing hafa höfðað mál á hendur fyrirtækinu á þeim forsendum að það hafi ekki verið heiðarlegt vegna öryggisbúnaðar Boeing 737 Max flugvéla, en eins og kunnugt er urðu tvö mannskæð flugslys með nokkra mánaða millibili sem eru rakin til bilunar í búnaði slíkra véla. Annars vegar flugslys í Eþíópíu í síðasta mánuði þegar allir 157 farþegar um borð létust og hins vegar þegar flugvél Lion Air hrapaði í Jövuhaf undan ströndum Indónesíu í október.

Samkvæmt lögsókninni á Boeing að hafa lagt áherslu á gróða og stækkunarmöguleika fyrirtækisins á kostnað heiðarleika og öryggis, að því er fram kemur á vefsíðu Reuters. Hluthafinn Richard Seeks sakar Boeing um að hafa flýtt fyrir framleiðsluferli 737 Max til að geta keppt við samkeppnisaðilann Airbus og um leið hafi fyrirtækið vanrækt að hafa aukabúnað með vélunum, búnað sem hefði geta komið í veg fyrir fyrrnefnd slys.

Eins og greint hefur verið frá á Mannlífi hefur Icelandair tekið sínar Boeing 737 Max flugvélar úr rekstri um óákveðinn tíma. Icelandair mun ekki fljúga nýjum flugvélum sínum þangað til búið verður að ganga úr skugga um að öryggi þeirra sé tryggt. Flugfélög og stjórnvöld víða um heim höfðu ákveðið að kyrrsetja vélar af þessari tegund áður en Icelandair tók sína ákvörðun. Allt fram að tilkynningunni var það afstaða Icelandair að flugvélarnar væru öruggar og að ekki væri ástæða til að kyrrsetja vélarnar.

Ekki eru nema tvö ár síðan Boeing 737 Max flugvélar voru teknar í notkun.

Komið í ljós hver mun leika Díönu í The Crown

Leikkonan sem mun fara með hlutverk Díönu prinsessu í þáttunum The Crown þykir ansi lík prinsessunni í útliti.

Netflix-þættirnir The Crown hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir komu fyrst út árið 2016. Þætt­irn­ir fjalla um líf Elísa­bet­ar Eng­lands­drottn­ing­ar og fjöl­skyldu henn­ar. Aðdáendur þáttanna hafa undanfarið velt vöngum yfir því hver mun leika Díönu í fjórðu seríu þáttanna.

Í gær var greint frá því að búið er að ráða leikkonu í hlutverkið.

Í frétt The Guardian segir að leikkonan sem mun fara með hlutverk Díönu hafi heillað þau sem annast leikaraval strax upp úr skónum.

Leikkonan sem um ræðir er 23 ára og heitir Emma Corrin og er nýgræðingur í leiklistarheiminum en er mikill aðdáandi þáttanna The Crown. „Ég hef verið límd við þættina síðan fyrsta þátturinn var sýndur,“ var haft eftir Emmu.

Höfundur þáttanna, Peter Morgan, segir Emmu afar hæfileikaríka og búa yfir sakleysislegu yfirbragði líkt og Díana gerði. „Hún heillaði okkur um leið og hún kom inn í áheyrnarprufu.“

Leikaravalið hefur vakið töluverða athygli en Emma þykir nokkuð lík Díönu í útliti.

Hörbrúnn er móðins um þessar mundir

Náttúrulegir og hlýlegir litatónar eru að verða meira áberandi þessi misserin, kaldir tónar eru víkja fyrir hlýlegum litum.

Það getur komið vel út að velja keimlíka litatóna í sama rými og mála jafnvel hillur og skenk til dæmis í sama lit eða svipuðum tón og veggina. Það skapar dýpt og hlýleika, það er að segja ef litirnir eru hlýlegir og mjúkir, ef þannig má komast að orði.

Ritstjórn Húsa og híbýla valdi hlýlegan brúngráan lit nýlega sem fer örugglega vel á flest rými. Liturinn fæst í BYKO.

Myndir / BYKO

Nú má heita Systa og Lynd en ekki Sukki

Mannanafnanefnd samþykkti tvö eiginnöfn með úrskurðum þann 25. mars. Það eru kvenkynseiginnöfnin Lynd og Systa. Nefndin hafnaði þá eiginnöfnunum Valthor (kk), Thurid (kvk) og Sukki (kk).

Í úrskurði mannanafnanefnd um nafnið Sukki segir meðal annars: „Eiginnafnið Sukki er dregið af nafnorðinu sukk, sem merkir ‘svall, óregla; eyðslusemi, óráðsía’ eða ‘hávaði, háreysti’. Nafnorðið sem nafnið er dregið af hefur því mjög neikvæða merkingu.“ Þá segir að nafnið geti hugsanlega orðið barni til ama.

Nöfnunum Valthor og Thurid var hafnað á grundvelli þess að þau ritast ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensk máls.

Nöfnin Systa og Lynd voru samþykkt og færð á mannanafnaskrá.

 

Sonur Ragnars Lýðssonar: „Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar“

Ingi R. Ragnarsson

„Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil,“ skrifar Ingi R. Ragnarsson, sonur Ragnars Lýðssonar sem lést af völdum bróður síns á bæn­um Gýgjar­hóli II í fyrra.

 

Þann 24. september var Valur Lýðsson dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að verða valdur að dauða bróður síns, Ragnars Lýðssonar, þann 31. mars 2018, á bæn­um Gýgjar­hóli II í Blá­skóga­byggð. Ríkissaksóknari áfrýjaði þeim dómi og hófst aðalmeðferð í máinu Landsrétti í gær.

Ingi R. Ragnarsson, sonur Ragnars Lýðssonar, tjáir sig um málið í langri færslu á Facebook. Færsluna skrifar hann undir yfirskriftinni „Morðið að Gýgjarhóli – Sannleikurinn“.

Svona hefst færsla Inga: „Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar og mis skrautlegar. Upphaflega ætlaði hann að halda sig við að hann hefði komið að föður mínum um morguninn og að hann myndi óljóst eftir átökum. Hann minnti þó að faðir minn hefði átt upptökin og að þeir hefðu skilið sáttir um nóttina. Hann hefði svo komið að honum látnum um morguninn“.

Ingi skrifar þá að blóðferlarannsókn á vettvangi og krufning á líki föður hans hafi leitt í ljós að fátt passaði við frásögn Vals.

„Lögreglan áætlaði mjög fljótlega að föður mínum hefði verið komið að óvörum, hann sleginn mjög þungu höggi og strax fallið niður á fjóra fætur. Það getur lögreglan ályktað út frá blóðslettum á vettvangi, meðal annars á þvottavél. Þar traðkar Valur á pabba sem liggur á fjórum fótum, þar til pabbi missir hendurnar undan sér og fellur í gólfið. Blóðslettur sem spýttust út um munnvik föður míns og áverkar á andliti sýna að Valur traðkar á höfði föður míns eftir að hann fellur. Höggin eru það mörg og það þung að andlit föður míns var mjög illa farið,“ skrifar hann meðal annars og vísar svo í niðursöður rannsóknar réttarmeinafræðingssins Sebastians Kunz.

„Réttarmeinafræðingur staðfesti að það voru engir áverkar, mar eða nokkur skapaður hlutur á föður mínum sem benti til þess að hann hefði slegið til Vals eða varið sig. Andlit föður míns var blátt og afmyndað. Pabbi liggur þvert í gegnum anddyrið á Gýgjarhóli og lögregluna grunaði strax í upphafi að hann hefði verið sleginn með barefli í upphafi atlögunnar. Gerð var ítarleg leit en henni var síðan hætt á þeim forsendum að réttarmeinafræðingur taldi mögulegt að hægt væri að valda áverkum föður míns með berum höndum og fótum. Þá er árásin talin svo ofboðslega heiftúðug að lögreglan taldi barefli hvort sem er ekki hafa mikið að segja við málsmeðferð.“

Ingi skrifar svo að þrátt fyrir að Valur hafi breytt frásögn sinni nokkrum sinnum þá hefur hún aldrei passað við það sem sönnunargögn hafa leitt í ljós. „Þrátt fyrir endalausar hagræðingar Vals á frásögn sinni þessa nótt, er hún ekki enn farin að ríma við sönnunargögnin á vettvangi og krufningu föður míns.“

Í lok færslunnar kemur þá fram að Inga hafi þótt mikilvægt að skrifa og birta grein um málið.

„Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt.“

„Fólk hefur keypt sögusagnir af atburðum þessarar nætur og hefur ekki ennþá meðtekið að Valur sé fær um svona ofbeldisverk. Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt. Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá er siðblindur einstaklingur undantekningin á því að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þegar annar einstaklingurinn er siðlaus þá þurfa tveggja hliða deilur ekki að koma til. Heiðarlegri og réttsýnni menn en pabbi eru vandfundnir, þó hann hafi haft nóg af göllum eins og hver annar. Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil opinberlega og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið þá get ég ekki látið síðustu orðin um föður minn vera nafnlausan rógburð frá Val Lýðssyni og fylgjum hans og því settist ég við skriftir.“

Færslu Inga má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Er alltaf að komast nær sínum eigin stíl

Ísak Marvins er myndlistarmaður á uppleiði. Eftir þrjú ár í grafískri hönnun stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Krot ehf. Ísak gaf út nokkrar fatalínur sem seldust upp ásamt því að hanna vinnustofur fyrir fyrirtæki.

 

Ísak Marvin segist vera fyrst og fremst myndlistarmaður en verkin sem hann málar eru stór og setur hann í þau mikla orku.

„Ég mála á mjög „expressioniskan“ hátt. Stærð málverkanna skiptir mig miklu máli og mér líður best þegar ég er að mála stór verk, það er svo mikið frelsi. Mig langar auðvitað að fara lengra og það kemur með tímanum en ég tel það vera eðlilega þróun listamannsins að vilja eitthvað stærra og meira en maður sjálfur,“ útskýrir hann og bætir við að einnig hefur hann mikinn áhuga á því að smíða skúlptúra úr allskonar efnum en þau verk eru enn á tilraunarstigi.

Eftir námið í grafískri hönnun var hann farinn að mála á fullu og var búinn að breyta dimmum og köldum bílskúrnum hjá mömmu sinni í vinnustofu.

„Mér bauðst að fara til Berlín í stutt og gott nám sem gekk vel, kom svo heim og sárvantaði nýja vinnuaðstöðu og það leiddi að því að ég fór í samstarf við fasteignafélag um stofnum Artsalir-Studios sem eru fjölnota vinnustofur að Bíldshöfða 18, ætlaðar fyrir allskyns starfsemi og þar er ég með nýju vinnustofuna mína. Svo auðvitað mála ég eins og enginn sé morgundagurinn.

„Þar sem ég þvældist um safnið í flýti labbaði ég fram hjá sal fullum af verkum eftir Mark Rothko og það var þá sem list höfðaði í fyrsta skipti til mín af fullum þunga“

Uppgötvaði listina í London

Ísak hefur alltaf verið að mála og teikna alveg frá því hann gat haldið sjálfur á blýanti og pensli sem barn. „Ég var mikið hjá ömmum mínum og öfum sem barn og þar var ég yfirleitt að skapa, bæði mála og teikna en einnig að smíða hina og þessa hluti, það kom allt bara svo náttúrulega hjá mér og gerir enn. Þegar ég var um 10 ára þá byrjaði ég að fikta mig áfram í graffinu og þannig þróaðist ég alltaf meira og meira yfir í myndlistina,“ rifjar hann upp.

En þegar Ísak virkilega uppgötvaði list var þegar hann var staddur í London í námsferð 2016. Hann var búin að týna hópnum sínum en þá rambaði hann inná Tate Museum. „Þar sem ég þvældist um safnið í flýti labbaði ég fram hjá sal fullum af verkum eftir Mark Rothko og það var þá sem list höfðaði í fyrsta skipti til mín af fullum þunga. Síðan þá hef ég helgað mig myndlistinni.“

Ísak málar gjarnan stór verk.

Fyrirmyndirnar koma úr mörgum ólíkum áttum

Fyrst var það auðvitað Mark Rothko sem kveikti áhugann og þaðan kemur hluti af því að vilja mála stór verk. Á tímabili var ég kallaður „Sakki Pollock“ vegna þess að ég málaði mikið eins og Jackson Pollock og eftir það hef ég safnað saman hugmyndum frá mörgum helstu listmálurum heims og tek það sem höfðar til mín frá hverjum og einum,“ segir hann.

„Einnig hefur Bjarni Sigurbjörnsson myndlistarmaður og Lúðvík Karlsson listamaður, sem er einnig þekktur sem Liston, haft áhrif á mig með kennslu sinni og verkum.“

Eðli listamanna að halda sýningar

Ásamt því að vera í Myndlistarskólanum í Reykjavík er ísak að mála á fullu ný verk á nýju vinnustofunni sinni hjá Artsalir-studios og segir hann að hann er alltaf að komast nær sínum eigin stíl og hlakkar mikið til að sýna þessi nýju verk sýn. Framtíðin er spennandi hjá Ísaki og er hann alltaf að vinna að því að koma sjálfum sér á framfæri og taka ferilinn og sjálfan sig á næsta stig. Einnig er hann alltaf að vinna í næstu sýningu.

„Það er í eðli listamanna að halda sýningar og vilja sýna verkin sín,“ segir hann. „Ég stefni á að næsta sýning verði eftir rúmlega tvo mánuði en ég er enn að vinna í smáatriðunum. Einnig er ég að vinna að því að byggja upp gott umhverfi í kringum Artsalir-studios,“ segir hann. En Ísak er einnig með augun á Berlín vegna verkefnis sem hann sótti um að fá að taka þátt í og mun það leiða af sér sýningu árið 2020. „Ég hef alltaf elt innsæið og ég hvet aðra til að gera það sama. Svo auðvitað ef ykkur vantar stúdíó, þá endilega verið í sambandi.“

Eflaust ellimerki að kjósa fræðandi bækur

|
|

Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi og formaður Hinsegin daga, kýs bækur sem veita innsýn í samfélag og sögu.

„Í sannleika sagt þá les ég allt of lítið og er alltaf að reyna að taka mig á í þeim efnum enda hef ég mjög gaman af lestri góðra bóka,“ segir Gunnlaugur Bragi.

„Fyrst eftir að ég lauk háskólanámi fannst mér tilhugsunin um meiri lestur svolítið erfið og því las ég einna helst auðlesna krimma eða annað í þeim dúr á ferðalögum. Á síðustu árum hef ég hins vegar sífellt meiri þörf fyrir að lesa fræðandi bækur, bækur sem veita mér nýja þekkingu og betri innsýn í samfélag og sögu. Eflaust er það einhvers konar ellimerki en ég tek því fagnandi. Bækurnar sem koma strax upp í hugann sem þær áhrifamestu sem ég hef lesið eru einmitt bækur af þessum toga.“

Sláandi frásögn

„Fyrst ber þar að nefna trílógíu hins sænska Jonas Gardell, Þerraðu aldrei tár án hanska. Verandi virkur þátttakandi í baráttunni fyrir áframhaldandi sýnileika og auknum réttindum hinsegin fólks í samfélaginu finnst mér afar mikilvægt að fræðast um fyrri tíma. Sagan má aldrei gleymast en ég trúi því líka að hluta svarsins við því hvert við stefnum sé einmitt að finna í því hvaðan við erum að koma.

Og það er einmitt það sem þessi trílógía gerir. Þarna er á ferð sláandi fyrstu handar frásögn um unga menn sem finna ást í örmum hvor annars snemma á níunda áratugnum. Þarna spila m.a. inn í trúarbrögð, fordómar, einmanaleiki og sorg en ekki síst HIV-faraldurinn. Upp úr bókunum þremur voru svo gerðir sjónvarpsþættir sem m.a. vöktu mikla athygli á RÚV fyrir nokkrum árum.“

Saga sem gleymist seint

„Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig og hefur fylgt mér allar götur síðan er bókin Mennirnir með bleika þríhyrninginn eftir Heinz Heger sem kom út árið 1972 en í íslenskri þýðingu árið 2013. Þar er sögð saga Josef Kohout sem árið 1939 var handtekinn af Gestapo, leynilögreglu nasista, ákærður fyrir alvarlegan saurlifnað og dæmur til þrælkunar.

Þar var Kohout einn af þúsundum samkynhneigðra karla sem látnir voru bera bleikan þríhyrning í fangabúðum nasista. Sárafátt hefur varðveist sem lýsir aðbúnaði hinsegin fólks í fangabúðunum en Kohout lifði þrælkunina af og í dag er saga hans líklega frægust þeirra sem lýsa hlutskipti homma í Þriðja ríki Hitlers. Átakanleg frásögn sem ég spændi í mig í flugi fyrir nokkrum árum og hefur átt sérstakan stað í hjarta mér síðan.“

Hlúum að framtíðarlandinu

Skoðun

Eftir / Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Að undanförnu hefur mikið gengið á í íslenskri ferðaþjónustu. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að umræðan snúist fyrst og fremst um áskoranir skammtímans, hvaða afleiðingar þær kunni að hafa og hvernig þurfi að bregðast við þeim. En það er mikilvægt að gleyma ekki sýninni til langs tíma. Allt sem við gerum í dag hefur áhrif inn í framtíðina.

Ferðaþjónusta verður áfram grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Ferðamenn munu ekki hverfa eins og síldin þó að fjöldi þeirra sveiflist milli ára. Sú uppbygging sem hefur orðið um allt land með tilkomu ferðaþjónustunnar mun halda áfram. Hvers vegna?

Áfangastaðurinn Ísland er einfaldlega kominn á kortið sem ferðamannaland. Við búum yfir náttúru og menningu sem ferðamenn hafa áhuga á og reynslan hefur sýnt að slíkur áfangastaður á góða möguleika á að byggja upp sterka langtímaferðaþjónustu.

Stóra tækifærið fyrir íslenska ferðaþjónustu, og mikilvægt tækifæri fyrir samfélagið allt, er að ná jafnvægi í greininni til framtíðar með um 3-5% fjölgun ferðamanna á ári, líkt og við sjáum í alþjóðlegum tölum um vöxt ferðamennsku. Sú framtíðarsýn mun byggja undir efnahagslegan stöðugleika og bætt lífskjör allra í samfélaginu.

Sameiginleg sýn inn í framtíðina

Til þess að þessi sýn geti raungerst þarf að halda vel á spöðunum á næstu mánuðum og árum. Ferðaþjónustuaðilar hafa áður tekist á við sveiflur og munu leggja mikið á sig til að vinna úr þeim vanda á næstu mánuðum og árum. En það er einnig nauðsynlegt að mæta því höggi sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir af falli WOW air og verkfallsaðgerðum með skynsamlegum aðgerðum af hálfu opinberra aðila.

Ferðaþjónustan hefur drifið lífskjarabætur undanfarinna ára með því að búa til fordæmalausar aðstæður í efnahagslífinu þar sem vöru- og þjónustujöfnuður hefur verið jákvæður um margra ára skeið. Það þýðir að íslenska hagkerfið hefur líkst því þýska meira en því gríska á undanförnum árum sem hefur lagt grunninn að þeirri uppsveiflu og kaupmáttaraukningu sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Það er því skynsamleg ráðstöfun fyrir stjórnvöld að stíga inn og taka utan um atvinnugreinina með hvetjandi ráðstöfunum nú þegar gefur harkalega á bátinn til að hún komist sem fyrst upp úr öldudalnum.

Það er mikilvægt fyrir allt samfélagið að það takist að stytta þann tíma sem tekur ferðaþjónustuna að vinna úr áföllunum, því sterk íslensk ferðaþjónusta er allra hagur. Það sést ekki síst á landsbyggðinni þar sem uppbygging atvinnutækifæra hefur tekið stakkaskiptum frá því sem áður var.

Það er þróun sem er mikilvægt að haldi áfram og styðja þarf við. Styrkur ferðaþjónustu á landsbyggðinni er forsenda þess að við getum boðið ferðamönnum að upplifa einstaka náttúru landsins alls, byggt upp fleiri áfangastaði sem léttir álagið af vinsælustu stöðunum og færir fólki verðmæti í heimabyggð.

Ferðaþjónustulandið Ísland er komið til að vera. Það eru góðar fréttir fyrir okkur öll.

Vann með heimsþekktu tónlistarfólki í London

|
|

Tónlistarmaðurinn Gísli vinnur nú að nýrri plötu sem verður hans fjórða plata í fullri lengd og er væntanleg seinna á árinu. Platan hefur fengið heitið The Skeleton Crew, sem þýðir lágmarks mannskapur til að framkvæma hluti.

„Mér fannst þetta viðeigandi þar sem ég spila á öll hljóðfærin á plötunni sjálfur, tek allt upp og mixa heima í stúdíóinu mínu í Höfnum á Reykjanesi,“ segir hann.

Áður var Gísli á samningi hjá útgáfufyrirtækinu EMI UK í nokkur ár þar sem hann gaf út meðal annars lagið How about that sem naut mikilla vinsælda. Eftir það vann hann m.a. við að semja og útsetja fyrir aðra, mest í London en líka í Ameríku og Noregi þar sem hann bjó í mörg ár áður en hann fluttist til London. Í London starfaði hann með ýmsu áhugaverðu tónlistarfólki eins og Mick Jones úr hljómsveitinni The Clash og tónlistarkonunum Carhey Dennis og Duffy.

Fyrir skömmu sendi Gísli frá sér lagið Tidal Wave sem hefur hefur fengið góða spilun hérlendis.

Hægt er að hlusta á það á Albumm.is.

Fjölskylda Jóns Þrastar frábiður sér aðstoð miðla og sjáenda

||
Leitað er eftir Jóni Þresti í almenningsgarði í Norður Dublin

Fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar, sem saknað hefur verið síðan í byrjun febrúar, hefur afþakkað aðstoð miðla og annarra sem telja sig hafa yfirnáttúrlega burði til að segja til um hvar hann er niðurkominn. Fjölskyldunni hefur borist fjöldi slíkra ábendinga sem sumar hverjar hafa gengið mjög nærri fjölskyldunni.

Jóns Þrastar hefur verið leitað í Dublin síðan hann gekk af hótelherbergi sínu í Dublin þann 8. febrúar.

Fjölskylda Jóns Þrastar segir í yfirlýsingu að henni hafi borist fjölmargar stuðnings- og samúðarkveðjur vegna málsins, jafnt frá fjölskyldu, vinum og bláókunnugum. Margar þessar kveðjur hafi veitt fjölskyldunni ómetanlegan stuðning í leitinni.

Hins vegar hafi einnig borist fjöldi skilaboða frá fólki sem skilgreinir sem miðla eða sjáendur og telja sig vita hvar Jón Þröstur er niður kominn. Slíkum skilaboðum fari sífellt fjölgandi og benda þau öll í sitt hvora áttina. Er svo komið að fjölskyldan hefur séð sig tilneydda til að frábiðja sér slík skilaboð.

„Við virðum afstöðu ykkar og lífstíl en ef þið væruð í okkar sporum hljótið þið að skilja hvað það er gríðarlega sársaukafullt að fá skilaboð á nokkurra daga fresti frá fólki sem fullyrðir að okkar elskulegi bróðir sé fastur undir grjóthnullungi í námu eða þaðan af verra. Ef svo ólíklega vill til að við viljum óska eftir aðstoð miðla, sjáenda eða annarra með yfirnáttúrulega hæfileika, þá munum við sjálf leita til þeirra,

segir í yfirlýsingunni. Hins vegar eru þeir sem hafa mögulega hitt Jón Þröst á förnum vegi hvattir til þess að hafa samband.

 

New York Loft á Grandanum 

Hjördís Árnadóttir, myndlistarmaður og hönnuður, heillaðist af Grandanum enda býr gamla hafnarsvæðið í Reykjavík yfir miklum sjarma.

Gamla hafnarsvæðið í Reykjavík býr yfir miklum sjarma og á undanförnum árum hefur Grandagarður tekið meiri háttar breytingum. Þar sem áður voru verbúðir sjómanna, neftóbakskarlar og nær eingöngu starfsemi sem tengdist sjávarútvegi hefur nú myndast blómlegt og skemmtilegt nýsköpunarsvæði og fjölbreyttara mannlíf.

Það er óhætt að segja að hafnarsvæðið sé orðið hip og kúl en víða erlendis hefur þróunin orðið á þessa leið; það er að segja að gömul iðnaðarhverfi verða að líflegum nýsköpunarhverfum þar sem vinnustofur, sprotafyrirtæki, kaffihús, verslanir, veitingastaðir og mannlíf blómstrar.

Sjávarlyktin berst inn

Ein þeirra sem hefur heillast af þessu gamla hafnarsvæði er Hjördís Árnadóttir, myndlistarmaður og hönnuður, eftir að hafa búið í New York og verið með vinnustofu í gömlu iðnaðarhverfi þar í borg heillaðist hún af Grandanum í Reykjavík. Hún segir að stemningin sé að verða svolítið svipuð þar og í iðnaðarhverfinu í stórborginni þar sem hún bjó áður og sér ekki eftir því að hafa fjárfest í húsnæði á svæðinu þar sem útsýni er yfir höfnina og sjávarilmurinn berst inn um gluggana.

Bjó í gamalli sykurverksmiðju

Hjördís Árnadóttir er myndlistarmaður með BA-gráðu frá Listaháskólanum og masters-gráðu frá School of Visual Arts í New York þar sem hún bjó áfram í nokkur ár eftir útskrift. Hún tók þátt í listasýningum þar í borg, var með vinnustofu og bjó í gömlu iðnarhúsnæði ásamt nokkrum öðrum listamönnum sem voru með henni í náminu.

„Við hreiðruðum um okkur í gamalli sykurverksmiðju á bökkum East river með útsýni yfir Manhattan. Þetta var gamalt iðnaðarhverfi í niðurníðslu sem listamenn fóru að hafa áhuga á, eitt og eitt kaffihús og listamannastúdíó voru opnuð í hverfinu, ekki ólíkt því sem hefur verið að gerast á Grandanum núna undanfarið og hverfið þróaðist í að vera líflegt nýsköpunarhverfi. Ég bjó þarna í fimm til sex ár, kynntist svo manninum mínum hér heima og flutti heim til Íslands í kjölfarið, tveimur árum seinna,“ segir hún brosandi.

Minnir á listamannaloft á Manhattan

Hvernig æxlaðist það svo að þið keyptum húsnæði á Grandanum?

„Fyrir nokkrum árum síðan fjárfestum við í iðnaðarhúsnæði á Grandanum með það að markmiði að endurbyggja það og hanna á þann hátt að úr yrði áhugavert vinnurými fyrir fólk í skapandi greinum. Í heildina var um að ræða þrjú hundruð fermetra húsnæði eða þrjú 100 fermetra rými, auk 30 fermetra opinnar hæðar í hverju rými. Við hönnun og endurbyggingu leitaðist ég eftir að halda í upprunan og einfaldleikann með því að hafa opið í stálgrind í lofti og halda milliveggjum í algjöru lágmarki þannig að rýmið fengi að njóta sín sem heild. Veggirnir sem ná mest sex metra hæð voru sprautaðir hvítir og flóðlýstir og gólf steypuflotuð,“ svarar hún og við spyrjum hana að endingu hvað sé mest heillandi við þetta hafnarsvæði borgarinnar?

„Á næstu árum verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta svæði verður skipulagt og hvort þarna þarna fái að þróast íbúabyggð.“

„Fyrir utan staðsetninguna minnir húsnæðið á klassísk listamannaloft í New York með tvöfaldri lofthæð og opinni hæð en húsnæði af þessu tagi er ekki algengt hér í Reykjavík. Í raun væri eins heillandi möguleiki að nota svona húsnæði sem íbúðarhúsnæði en enn sem komið er er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á Grandanum. Á næstu árum verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta svæði verður skipulagt og hvort þarna þarna fái að þróast íbúabyggð í bland við áframhaldandi skapandi atvinnustarfsemi og menningu,“ segir Hjördís brosandi og fær sér kaffisopa.

Blaðamaður kveður myndlistarmanninn og hönnuðinn sem hefur skapað þetta skemmtilega rými á einum besta stað bæjarins þar sem ávallt er líf og fjör og sjávarlyktin fyllir vitin.

Myndir / Aðsendar

Hljóðrituðu plötuna á gömlum sveitabæ

Íslensk-rússneska tvíeykið Pale Moon gefur út sína fyrstu EP-plötu, Dust of Days, mánudaginn 15. apríl.

Meðlimir sveitarinnar eru Natasha Sushchenko og Árni Guðjónsson tónsmiður en þau tóku plötuna upp á gömlum sveitabæ á Suðurlandi, sem þau fengu að láni og segja að hún sé undir áhrifum frá meðal annars Carole King og Rolling Stones-plötunni Exile on Main St.

Þess má geta að Natasha og Árni reka líka saman tísku- og lífsstílsverslunina Kvartýra 49 á Laugavegi og í nafni hennar birta þau mánaðarlegt hlaðvarp þar sem fjallað er um nýútkomna íslenska tónlist, bjóða viðmælendum sínum í heimsókn og fá þá til að leika fyrir dansi á milli fataslánna.

Hlaðvarpið kallast Gulu Bogagöngin og má finna á Itunes, Podcast appinu og Soundcloud. Platan Dust of Days er fyrsta fullvaxta tónlistarverkefni þeirra Natöshu og Árna.

Fyrirtæki orðin algeng skotmörk

Tölvuglæpir og nettengd afbrot af margvíslegu tagi hafa færst mjög í aukana undnafarin ár. Valdimar Óskarsson, sérfræðingur í tölvuöryggi, segir marga netglæpi beinast að fyritækjum.

„Ég myndi telja að við séum að sjá fleiri glæpi sem er beint að fyrirtækjum, þ.e. þar sem fyrirtækin eru skotmörk. Óprúttnir aðilar komast inn fyrir varnir, fylgjast með daglegri vinnslu áður en þeir slá til. Svona aðilar sjá til þess að aðgerðir þeirra séu illrekjanlegar,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis, sem sérhæfir sig í tölvuöryggi í samtali við Mannlíf.

Aðspurður um hverjir séu líklegastir til að falla fyrir svikum á Netinu, þ.e. hvort einhverjir ákveðnir markhópar séu til fyrir slíka tölvuþrjóta segi Valdimar að það fari eftir eðli tölvuglæpsins. „Dulkóðun gagna þar sem greiða þarf gjald til að fá gögnin aftur er oft beint að einstaklingum en getur einnig haft áhrif á fyrirtæki.

Svokölluð framkvæmdastjóra- eða fjármálastjórasvik er oftast beint að fyrirtækjum og þau eru skipulögð. Þeim er hægt að verjast, að hluta til með betri auðkenningu og verklagi en það eru til ýmsar aðferðir til að blekkja starfsfólk þar sem óværu er komið í tölvu notanda og óprúttinn aðili nær yfirráðum tölvunnar,“ segir hann.

Valdimar leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa góðar atburðaskráningar (e. logga) til að geta rannsakað atvik sem koma upp. „Og geta fullvissað sig um að ekki séu aðrar tölvur smitaðar sömu óværu þar sem óprúttni aðilinn bíður færis á að slá til aftur.“

Virðist geta staðið flest allt af sér

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er án efa umdeildasti stjórnmálamaður samtímans. Hann kom mjög ungur inn í stjórnmál þegar hann var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á skrautlegan hátt í byrjun árs 2009.

Hann hafði skráð sig í flokkinn tveimur vikum áður en flokksþingið fór fram. Upphaflega var greint frá því að Höskuldur Þórhallsson hefði verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins þar en síðar reyndist talning hafa verið röng og var tilkynnt um að Sigmundur Davíð væri réttkjörinn formaður. Hann vantaði þá enn tvo mánuði í að vera 34 ára gamall.

Fjórum árum síðar var hann orðinn yngsti forsætisráðherra lýðveldissögunnar eftir mikinn kosningasigur Framsóknarflokksins í apríl 2013.

Sigmundur Davíð sagði af sér því embætti 5. apríl 2016 eftir að Panamaskjölin höfðu opinberað hann sem eiganda aflandsfélagsins Wintris og kröfuhafa í bú föllnu bankanna sem ríkisstjórn hans hafði verið að semja við. Viðtal þar sem Sigmundur Davíð sagði ósatt þegar hann var spurður út í Wintris fór sem eldur um sinu út um allan heim. Daginn áður en hann sagði af sér fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar á Austurvelli þegar 26 þúsund manns mótmæltu Sigmundi Davíð, öðrum ráðherrum sem voru í Panamaskjölunum og ríkisstjórninni sem þeir sátu í.

Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar sem gerð var á þeim tíma sem leið frá því að sér­stakur Kast­ljós­þáttur um skjölin var sýndur og þar til Sig­mundur Davíð steig til hliðar kom fram að 78 pró­sent lands­manna vildi að hann myndi segja af sér.

Þetta var ekki staða sem margir stjórnmálamenn hefðu snúið aftur úr.

Eftir nokkurra mánaða frí vildi Sigmundur Davíð, þá enn formaður Framsóknarflokksins, taka aftur við stjórnartaumunum. Hann var sannfærður um að vera fórnarlamb samsæris og að hann hefði ekki gert neitt rangt. Síðar opinberaði Kjarninn að Wintris hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur og óskað eftir því að fá að gera þá rétt upp við skattayfirvöld.

Sigmundur Davíð tapaði svo í formannsslag við Sigurð Inga Jóhannsson í Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninganna 2016 og sat í nokkurs konar sjálfskipaðri útlægð sem þingmaður flokksins næsta tæpa árið. Á þeim tíma tók hann lítinn þátt í þingstörfum en einbeitti sér að því að stofna Framfarafélagið, vettvang utan um hugmyndir hans sem stjórnmálamanns sem átti að nýtast til að fleyta honum aftur til valda innan Framsóknarflokksins.

Þegar kosningar skullu skyndilega á haustið 2017 breyttust þau áform. Sigmundur Davíð og nokkrir tryggir fylgismenn gengu úr Framsóknarflokknum, stofnuðu Miðflokkinn og buðu fram út um allt land. Einu og hálfu ári eftir Panamaskjölin vann hann kosningasigur.

Þegar Klausturmálið kom upp voru áhrifin ekki ósvipuð og eftir Panamaskjalahneykslið. Í könnun sem birt var 3. desember 2018 kom fram að á milli 74 og 91 pró­sent Íslend­inga er hlynnt afsögn alþing­is­mann­anna sex. Flestum fannst að Gunnar Bragi ætti að segja af sér en næstum jafnháu hlut­falli fannst að Berg­þór ætti einnig að gera það. Þá töldu 86 prósent landsmanna að Sigmundur Davíð ætti að víkja.

Þessa stöðu virðast Miðflokksmenn nú hafa staðið af sér.

Karl Kristján Davíðsson sýnir veggjalist

Karl Kristján Davíðsson sýnir veggjalist í Hlutverkasetrinu Ae.

Karl Kristján er fæddur í Reykjavík árið 1977. Hann ólst upp í Vesturbænum og flutti svo um 11 ára aldur til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni. Þar fékk hann fljótlega áhuga á myndlist. Hann er fyrst og fremst sjálflærður en hefur einnig sótt nokkur námskeið hér og þar.

Karl hefur haldið um 20 sýningar frá árinu 1999 eftir að hafa verið í módelteikningu í Reykjavík og Borups Folkhojskole í Kaupmannahöfn. Hann hefur hlotið góða umsögn og vakið áhuga í myndlistinni.

Sýningin opnar í Hlutverkasetrinu Ae á í dag, mánudag, 8. apríl klukkan, 14.00.

„Mamma og amma gengu í gegnum algjört helvíti“

||
||

Unnar Þór Sæmundsson byrjaði ungur að drekka og nota eiturlyf og það tímabil sem hann var í neyslu hefur sett stórt stik í reikninginn hjá honum og aðstandendum hans. Núna eru þrjú ár liðin síðan hann varð edrú og síðan þá hefur hann unnið að því að vinna traust vina og fjölskyldu til baka.

Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir fíknisjúkdóma hafa mikil áhrif á aðstandendur þeirra einstaklinga sem glíma við fíkn. Unnar viðurkennir að hans neysla hafi haft mikil áhrif á hans nánustu.

„Ég byrjaði að drekka og nota eiturlyf um fermingaraldur. En eftir 10. bekk varð neyslan meiri. Ég var búsettur á Flúðum á þeim tíma og það var mikið mál að verða sér úti um eiturlyf þarna á þessum tíma,“ segir Unnar og viðurkennir að hann hafi haft mikið fyrir því að nálgast eiturlyf. „Ég þurfti að láta senda pakka með rútunni,“ bætir hann við og hlær.

Unnar segist oft hafa velt því fyrir sér hvað olli því að hann byrjaði að nota eiturlyf. „Ég hef oft reynt að skilja af hverju ég varð fíkill. Vinir mínir sem hafa verið í neyslu eru allir með einhverja áfallasögu á bakinu en ég varð ekki fyrir neinu áfalli. Ég átti góða æsku og góða fjölskyldu. En ég var ofvirkur og með athyglisbrest og í litlu samfélagi geta fordómar verið miklir. Ég varð fljótt svarti sauðurinn í sveitinni,“ útskýrir hann.

„…ég gat ekki lifað með sjálfum mér í óbreyttu ástandi.“

Unnar segist hafa verið umtalaður í sveitinni enda lét hann oft eins og hálfviti eins og hann orðar það. Þetta varð til þess að Unnar fór í hálfgert hlutverk og gerði í því að láta illa. „Ég fann fljótt að þegar fólk var hrætt við mig þá var það síður að skipta sér af mér. En eyðileggingin var algjör og ég gat ekki lifað með sjálfum mér í óbreyttu ástandi. Þannig að ég fór að breyta líðan minni með eiturlyfjaneyslu í auknum mæli.“

Fjölskyldan gekk í gegnum helvíti

Þegar hann er spurður út í aðstandendur sína og áhrif neyslunnar á þá segir Unnar að hegðun hans hafi vissulega sett líf hans nánustu úr skorðum. „Þau gerðu allt sem þau gátu til að hjálpa. Það hefði enginn getað gert neitt betur. Þau gerðu ýmislegt til að grípa inn í enda voru þau hrædd um mig. En mér var bara skítsama því sjálfsblekkingin var mikil á þessum tímapunkti.“

Unnar segir fíkn hans hafa haft sérstaklega mikil áhrif á mömmu hans og ömmu.

„Þær tóku þetta nærri sér. Mamma beið bara eftir að ég yrði tekinn úr umferð eða myndi deyja. Mamma og amma sváfu ekki á nóttunni og gengu í gegnum algjört helvíti. Aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma ganga í gegnum helvíti og ég hef stundum sagt að þeir gangi í gegnum meira helvíti en fíkillinn sjálfur því þeir sitja heima með kvíðahnút í maganum. Þeir hafa enga leið til að deyfa sig,“ segir Unnar.

„Aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma ganga í gegnum helvít.“

Hann bætir við: „Í hvert skipti sem síminn hringdi hjá mömmu þá var hún viss um að það væri verið að láta hana vita að ég væri dáinn. Ég gerði nokkrar tilraunir til sjálfsvígs og mamma fékk einu sinni símtal um miðja nótt þar sem henni var sagt að ég væri þungt haldinn á spítala. Henni var sagt að drífa sig til mín ef hún ætlaði að ná að kveðja mig, það leit úr fyrir að ég ætti ekki langt eftir. Þannig að vanlíðanin og áhyggjurnar sem ég hef valdið henni, guð minn góður.“

Unnar viðurkennir að hafa lagt mikið á mömmu sína og ömmu á þeim tíma sem hann var í neyslu.

Eftir mikla sjálfsvinnu hefur Unnar ákveðið að tala opinskátt um þetta tímabil í lífi hans sem spannar um 11 ár. Hann hefur þá unnið að því að vinna traust fólks til baka.

„Ég hef verið opinn og talað opinskátt um þetta. Ég tók meðvitaða ákvörðum um að ég gæti ekki farið leynt með fortíðina mína. Þá fyrst myndi fólk reyna að nota fortíðina gegn mér,“ segir Unnar sem starfar sem gjaldkeri framkvæmdaráðs Pírata. Hann segist afar þakklátur því trausti sem sér hefur verið sýnt innan flokksins. „Þetta traust sem mér hefur verið sýnt … það sannar bara að allir eiga séns. Það skiptir ekki máli hver þú ert. Það geta allir komið sér á beinu brautina aftur.“

Spurður út í traust hans nánustu gagnvart honum, svarar Unnar: „Samskiptin við mömmu og ömmu eru góð í dag og mér þykir svo vænt um að fólkið mitt er farið að treysta mér aftur. Ég tek það samt fram að ég hætti fljótt að ljúga að mömmu eftir að ég fór í neyslu, ég reyndi að svara henni alltaf, segja henni hvað ég væri að gera og hvaða lyf ég væri að taka inn. Ég veit ekki hvort henni fannst það betra, að vita hvað væri í gangi nákvæmlega, en hún sagði mér að sér þætti það betra.“

Spurður út í hvort hann telji að hann sé búinn að brenna einhverjar brýr að baki sér varanlega svarar hann játandi.

„Þannig að fólk er með varann á gagnvart mér og ég skil það vel.“

„Já. En ég set samt fyrirvara við orðið „varanlega“, því maður veit aldrei. Ég vil leyfa fólki að ákveða þetta með sjálfu sér, hvort það vill bætt samband við mig eða ekki. Ég vil ekki heimta það. Ég er tilbúinn til að bæta fyrir það sem ég hef gert en ég hef óneitanlega lagt mikið á fólk, alla stórfjölskylduna meira að segja. Þannig að fólk er með varann á gagnvart mér og ég skil það vel. Ég get ekki verið reiður ef fólk vill ekki eiga í samskiptum við mig, ég veit ekki hvernig mér myndi líða ef einhver væri búinn að bregðast mér svona oft.“

Ætlar að vera til staðar fyrir dóttur sína

Unnar varð faðir í fyrsta sinn í maí 2015. „Dóttir mín var nokkurra mánaða þegar ég datt í það í síðasta sinn, fyrir rúmum þremur árum. Fíknin getur nefnilega verið sterkari en foreldraástin. Ég rankaði við mér inni á geðdeild eftir að hafa verið meðvitundarlaus í þrjá daga, stútfullur af dópi og með lungnabólgu. Þá hugsaði ég; fokk, ég má ekki bregðast dóttur minni aftur. Aldrei aftur. Og það hefur verið mitt markmið síðan þá, númer eitt, tvö og þrjú, að standa mig fyrir hana,“ útskýrir Unnar.

„Ég vona að það sé líka gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að lesa um mína sögu. Vonandi veitir það von,“ segir Unnar.

Þó að Unnar sé á góðum stað í dag, stað sem hann hefði ekki trúað að hann kæmist á fyrir nokkrum árum, þá á hann mikla vinnu fram undan að eigin sögn.

„Ég er auðvitað búinn að sóa miklum tíma í neyslu, afbrot og ógeð. Og ég finn að ég er pínulítið eftir á hvað ýmislegt varðar vegna neyslunnar. Stundum staldra ég við og sé að það er margt sem ég þarf að læra betur. En ég tel mig vera kominn langt og ég hef verið að setja mér verkefni, til dæmis sem snúast um að tala fallega til fólks og vera duglegur að hrósa. Þetta eru litlir hlutir.“

„Það voru til dæmis allir búnir að gefast upp á mér á sínum tíma og fólk var alveg hætt að treysta mér.“

Að lokum vill Unnar hughreysta fólk sem er í sömu stöðu og hann var í fyrir nokkrum árum. „Það er alltaf séns. Alltaf. Það voru til dæmis allir búnir að gefast upp á mér á sínum tíma og fólk var alveg hætt að treysta mér. Ég var bara „lost case“ en ég hef náð engum smáárangri á síðustu þremur árum. Þannig að það er alltaf von. Þú þarft að vinna vinnuna, það gerir það enginn fyrir þig, og það verður erfitt. En það jafnast ekkert á við það sem þú færð til baka. Ég vona að það sé líka gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að lesa um mína sögu. Vonandi veitir það von.“

Sjá einnig: Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Myndir / Hallur Karlsson

„Ég næ að lifa eðlilegu lífi en það er alltaf svolítil sorg í manni“

Sirrý Laxdal Jóhannesdóttir þekkir vel hversu mikil áhrif fíknisjúkdómar geta haft á dýnamík innan fjölskyldna. Sirrý er móðir Þóru Bjargar Sigríðardóttur sem margir kannast við úr heimildamyndinni Lof mér að lifa sem sýnd var á RÚV. Í henni fengu áhorfendur innsýn í heim fíknarinnar.

 

Sjá einnig: Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Þegar Sirrý er beðin um að lýsa reynslu sinni segir hún: „Þessi reynsla er ofboðslega sorgleg. Þetta er 16 ára saga og henni hafa fylgt stórir sigrar og líka gríðarleg vonbrigði og hlutir sem er erfitt að sætta sig við.“

Það sem hefur reynst Sirrý hvað erfiðast er þegar Þóra fellur aftur eftir að hafa verið edrú í ákveðinn tíma.

„Það sem hefur verið svo sorglegt er að til dæmis þegar Þóra var edrú í fjögur og hálft ár á sínum tíma þá fór hún í skóla og henni gekk vel. Allir sem hún umgekkst báru henni vel söguna og hún stóð sig svo vel. Þannig að vonbrigðin voru mikil þegar það gekk ekki upp þó að ég vissi alltaf að það væri möguleiki á að hún félli aftur,“ útskýrir Sirrý.

„Þegar vel gengur hjá Þóru þá er maður svo glaður en ég hef lært að tipla á tánum og minna mig á þó að hún verði edrú þýði það ekki að þetta sé endilega komið.“

Erfitt fyrir alla fjölskylduna

Sirrý Laxdal Jóhannesdóttir.

Spurð út hvaða áhrif fíknisjúkdómur Þóru hafi haft á ástandið innan fjölskyldunnar og hennar eigin líðan segir Sirrý sjúkdóminn oft hafa sett stórt strik fjölskyldulífið. „Fjölskyldan getur orðið heltekin af þessu og sjúk. Á tímabili, alltaf þegar ég talaði við mömmu mína, þá snerist allt um Þóru. Mamma spurði alltaf fyrst út í hvernig Þóra hefði það og fátt annað komst að. Þannig er þetta oft. En auðvitað er gott að finna að fólk hugsar til hennar og vilji vita hvernig hún hafi það. Svo eru auðvitað margir sem spyrja aldrei um hana, kannski þora ekki allir að tala um þetta við mig. Þannig að jú, vissulega þykir mér vænt um það þegar fólk spyr.

 „Fjölskyldan getur orðið heltekin af þessu og sjúk.“

En þetta hefur verið erfitt fyrir alla í fjölskyldunni, líka mömmu og pabba sem hafa verið með mér í þessu. Maðurinn minn er mjög raunsær og hefur náð að halda mér á jörðinni á meðan ég fagna þegar Þóra Björg klárar heila meðferð, sem gerist ekki alltaf. Á sama tíma hefur hann verið minn klettur og stutt mig, t.d. með því að samþykkja að taka hana inn á heimili okkar í september eftir að hún kom úr meðferð. Fyrir mig samþykkti hann að hún kæmi hingað. Þetta var það eina sem ég átti eftir að prófa og hann skildi að ég þurfti að prófa það,“ útskýrir Sirrý.

„En á þeim tímapunkti sem mér tókst að læra að það væri ekkert sem ég gæti gert til að breyta ástandinu, gat ég búið mér til smápláss. Ég var mörg ár að átta mig á þessu og þegar það gerðist þá fylgdi því frelsistilfinning en líka mikil sorg. Það að átta mig á að þetta var ekki í mínum höndum heldur í hennar höndum, að verða edrú og halda sér edrú, var erfitt.

„…mér tókst að læra að það væri ekkert sem ég gæti gert til að breyta ástandinu.“

Þegar ég náði að sætta mig við að geta ekki breytt ástandinu fór mér að líða betur. Auðvitað er þetta alltaf erfitt og ég hugsa um Þóru á hverjum einasta degi. En ég náði að einbeita mér meira að mínu lífi þegar ég áttaði mig á að ég hef ekki stjórn á hennar hegðun og líðan. Auðvitað koma sveiflur. Það er sárt að geta ekki verið í eðlilegum samskitpum við viðkomandi og geta t.d. ekki varið jólunum með dóttur sinni. Við ætluðum til að mynda að vera saman á jólunum núna síðast en það gekk ekki upp,“ útskýrir Sirrý.

Með því að setja ákveðin mörk hefur Sirrý tekist að búa sér til rými til að sinna sjálfri sér en ekki síst öðrum fjölskyldumeðlimum.

„Það er ekki á mínu valdi að breyta þessu. Og ég á aðra dóttur, Ellen Sif, sem hefur stundum gleymst í þessu ferli því það komu tímar sem ég náði ekki að sinna henni nógu vel þegar hún var yngri. Ég var kannski ekki alltaf til staðar fyrir hana þegar hún þurfti á mér að halda. Þetta hefur verið mikið álag á heimilið. En í dag reyni ég að vera alltaf til staðar ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað hana og fjölskyldu hennar með,“ segir Sirrý sem eignaðist dótturson í desember árið 2017.

„Ég vil verja sem mestum tíma með honum og aðstoðað þau á allan þann hátt sem ég get. Ellen Sif á það inni hjá mér.“

Þóra og Ellen ásamt Halldóri Erni, syni Ellenar.

Spurð nánar út í mörkin sem hún hefur sett eldri dóttur sinni segir Sirrý að það sé svo erfitt að horfa upp á hana í mikilli neyslu og því rugli sem fylgir neyslunni þannig að til að gera lífið bærilegra hafa þær Þóra gert þegjandi samkomulag. „Þegar hún er í miklu rugli eru samskipti okkar í lágmarki. Hún lætur samt reglulega vita af sér, þannig að ég viti að hún sé lifandi.“

Komst fjótt yfir skömmina

Aðspurð hvort að hún hafi einhvern tímann fundið fyrir skömm vegna ástandsins hugsar Sirrý sig um og segir svo: „Sko, það er auðvitað svo langt síðan þessi saga hófst, um 16 ár, þannig að Þóra hefur verið í þessu verkefni sínu meira en helming ævi sinnar. Og hér áður fyrr hélt ég alltaf að börn og unglingar í neyslu kæmu frá heimilum þar sem ríkti óregla. En ég varð að éta þetta ofan í mig vegna þess að ég var bara venjuleg kona sem átti venjulegt heimili. Þannig að já, í upphafi upplifði ég skömm. En ég setti mig samt sjálf í samband við Barnaverndarstofu og óskaði eftir aðstoð á sínum tíma, þegar ég komst að því í hvaða far Þóra Björg var komin, ég vissi ekki hvernig ég átti að tækla þetta.“

Sirrý segir barnavernd hafa reynst sér vel í gegnum tíðina. „Oftast er talað um barnavernd sem eitthvað fyrirbæri sem þú vilt ekki hafa á bakinu. En á þessum tíma vildi ég hafa hana á bakinu, ef svo má að orði komast. Ég var svo vanmáttug. Þar kynntumst við yndislegri manneskju sem hefur fylgst með okkur Þóru, líka eftir að Þóra varð 18 ára,“ segir Sirrý sem er þakklát þeim fulltrúum Barnaverndarstofu sem veittu henni aðstoð á sínum tíma. „Sérstaklega er ég þakklát þessari konu sem er enn til staðar með ráðleggingar, löngu eftir að Þóra varð 18 ára.

„Það er engin skömm að því að vera með sjúkdóm eða vera aðstandandi sjúklings.“

En hvað skömmina varðar komst ég fljótt yfir hana og fór að tala opinskátt um hlutina. Það er eitthvað sem sumu fólki hefur eflaust þótt óþægilegt því þetta er auðvitað sorglegt. En það hefur hjálpað mér er að vera ekkert að fela ástandið. Það er auðvitað ekkert til að skammast sín fyrir. Það er engin skömm að því að vera með sjúkdóm eða vera aðstandandi sjúklings.“

„Hvert á hún þá að fara og hvað á hún að gera?“

Eins og áður sagði hafa komið góðir tímar hvað baráttu Þóru varðar. En eitt stórt vandamál, að mati Sirrýjar, er úrræðaleysi. Hún bendir á að það vanti úrræði fyrir það fólk sem hefur tekist að koma sér í gegnum meðferð við fíknisjúkdómum.

„Það er lítið verið að gera fyrir fólk sem hefur áhuga á að sigrast á fíkninni og koma sér aftur út í lífið. Fólk fer í meðferð og hvað svo? Það vantar eitthvað meira en meðferð. Einhvern undirbúning fyrir fólk til að skapa sér venjulegt líf. Ef við tökum til dæmis einstakling sem hefur verið langt leiddur í mörg ár, sá einstaklingur á ekkert. Ég er til dæmis með „allt“ dótið hennar Þóru inni í geymslu. En ef hún klárar meðferð, hvert á hún þá að fara og hvað á hún að gera? Það er svo erfitt fyrir þetta fólk að komast inn í rútínu aftur. Og það eru ekkert allir aðstandendur sem treysta sér til að taka fólkið sitt inn á heimilið eftir að það hefur klárað meðferð. Til dæmis er það fullreynt í okkar tilfelli. Það er mikið álag á heimilið að taka við eintaklingi með fíknisjúkdóm, hvað þá manneskju sem er orðin fullorðin eins og Þóra Björg er. Ég legg það ekki á mig eða aðra fjölskyldumeðlimi aftur.“

Sirrý hefur búið á Austfjörðum og á Norðurlandi undanfarin 10 ár og Þóra hefur verið í Reykjavík en Sirrý hefur verið reiðubúin til að hjálpa Þóru þegar hún hefur klárað meðferðir. „Hún flutti til dæmis til mín eftir að myndin [Lof mér að lifa] var tekin upp og var edrú í smátíma en það gekk ekki upp og vonbrigðin voru mikil – yfir því að hún hafi ekki nýtt tækifærið. Það kom mér langt niður,“ útskýrir Sirrý.

„Eftir að þættirnir voru svo sýndir, og Þóra Björg flutti til okkar í kjölfarið eftir að hafa klárað meðferð sem gekk ekki upp, hrundi ég algjörlega. Ég fór til læknis, alveg buguð. Ég hékk bara í vinnunni, bara umbúðirnar utan af mér. Ég man ekkert frá þessum tímabili og staulaðist bara einhvern veginn áfram. Ég óskaði eftir launalausu leyfi frá vinnu. Læknirinn sem ég hitti úrskýrði fyrir mér á mannamáli að sem aðstandandi hefur maður nefnilega verið í sorgarferli í svo mörg ár. Það er það sem ég upplifi.“

„Ég man ekkert frá þessum tímabili og staulaðist bara einhvern veginn áfram.“

Þrátt fyrir þetta stóra bakslag síðastliðið haust líður Sirrý ágætlega þessa stundina, að eigin sögn. „Ég hef lært að lifa með þessu. Ég næ að lifa eðlilegu lífi en það er alltaf svolítil sorg í manni. Það eru ákveðnir hlutir sem þú sættir þig aldrei við. Þó að ég hafi stundum á tilfinningunni að þetta verði bara lífsstíllinn sem hún muni lifa þá er ég klárlega alltaf að bíða eftir að hún rífi sig upp og komi sér á fætur,“ útskýrir hún.

Sirrý viðurkennir að þrátt fyrir að hún hafi fundið ákveðinn frið fái hún hnút í magann reglulega. „Til dæmis hellist yfir mig ótti þegar síminn hringir og ég þekki ekki númerið. Líka um daginn þegar lögreglumaður kom á vinnustað minn, hann var bara að sækja þjónustu eins og hver annar viðskiptavinur, en þá var ég svo viss um að það væri verið að koma með slæmar fréttir til mín.“

Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir fíknisjúkdóma hafa mikil áhrif á aðstandendur þeirra einstaklinga sem glíma við fíkn. Streitan sem myndast innan fjölskyldna vegna fíknisjúkdóma getur orðið til þess að aðstandendur verða veikir og finna fyrir líkamlegum kvillum vegna álags.

Undanfarið hafa fíknisjúkdómar verið mikið í umræðunni og stundum hefur verið talað um að fíknifaraldur geisi hér á landi. Á árinu 2018 voru innlagnir á sjúkrahúsið Vog 2.275 og í byrjun árs voru um 570 einstaklingar á biðlista eftir innlögn vegna fíknisjúkdóma.

Fíknisjúkdómar hafa mikil áhrif, ekki bara hjá þeim einstaklingum sem glíma við sjúkdóminn heldur einnig hjá aðstandendum þeirra.

Halldóra Jónasdóttir er áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ. Hún hefur í gegnum tíðina haldið utan um fjölskyldumeðferðir SÁÁ og þekkir vel hvaða áhrif fíknisjúkdómar hafa á aðstandendur þess einstaklings sem glímir við fíkn.

Spurð út í fjölskyldumeðferðir SÁÁ segir Halldóra: „Við höldum námskeið tvisvar í viku í fjórar vikur í senn fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma. Það eru lokuð námskeið en svo bjóðum við líka upp á viðtalsþjónustu. Á Vogi eru svo sérstakir foreldrahópar fyrir foreldra þeirra unglinga sem eru að glíma við fíkn. Þar er boðið upp á fræðslu og hópstarf.“

Í þessu starfi SÁÁ er fólk frætt almennt um fíknisjúkdóminn, áhrif hans og meðvirkni að sögn Halldóru.

„…breytingin sem verður á fíklinum verður til þess að jafnvægið í fjölskyldunni fer úr skorðum.“

„Það er gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að hittast og ræða saman. Það sem gerist oft er að aðstandendur verða mjög uppteknir af fíklinum og ástandinu. Ég segi stundum að fjölskyldur séu eins og órói; breytingin sem verður á fíklinum verður til þess að jafnvægið í fjölskyldunni fer úr skorðum og aðstandendurnir fara að leitast við að ná einhverju jafnvægi. Þá getur verið gott að ræða við aðra sem eru í svipuðum sporum.“

Beðin um að lýsa nánar því sem gerist gjarnan hjá aðstandendum og ástvinum þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma segir Halldóra: „Það sem gerist oft er að það skapast mikið streitu- og spennuástand. Hegðun þess sem er í neyslu, það er alveg sama hvort það er foreldri, barn, maki eða einhver annar, skapar mikið óöryggi hjá fólkinu í kring. Aðstandendur fara þá oft í það að reyna að hafa stjórn á þeim sem er að glíma við fíkn og þannig skapast mikil spenna.“

Halldóra segir hræðslutilfinningu vera algenga hjá aðstandendum þess sem er í neyslu. „Hræðsla um að viðkomandi fari sér að voða.“

„Alltaf skapast þessi spenna innan fjölskyldunnar“

Halldóra segir það vissulega vera breytilegt eftir aðstæðum hvaða áhrif fíknisjúkdómar hafa innan fjölskyldna. „Það skapast auðvitað ólíkar aðstæður eftir því hvernig einstaklingurinn hagar sér undir áhrifum og eftir því á hvaða aldri viðkomandi er. En alltaf skapast þessi spenna innan fjölskyldunnar.“

Aðstandendur þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma setja sjálfan sig gjarnan í annað sæti að sögn Halldóru. „Fólk verður stöðugt upptekið af líðan og hegðun annarrar manneskju. Sama hver hún er. Svo fer fólk að reyna að stjórna líðan og hegðun einstaklingsins og þá fer fólk smátt og smátt að setja sjálfan sig til hliðar.“

Halldóra tekur fram að ráðgjafar SÁÁ geti ekki sagt fólki hvað sé nákvæmlega hægt að gera í þeim erfiðu aðstæðum sem hafa myndast. „Oft er fólk orðið svo þreytt og vill bara fá einhvern leiðarvísi en við eigum hann ekki til. Það sem hjálpar fólki þó mikið er að hitta annað fólk í sömu stöðu og ræða hlutina. En auðvitað getur verið rosalega sárt og vont að fá þetta svar; að það sé engin ein lausn til.“

„Fólk verður bara að meta hlutina hjá sjálfu sér og skoða hvar það treystir sér til að setja mörkin.“

Halldóra segir ómögulegt að segja að eitthvað sé rétt eða rangt í þeirri stöðu sem myndast þegar ástvinur er farinn að misnota áfengi eða fíkniefni. „Það er ekkert endilega eitthvað rétt eða rangt sem fólk getur gert því ástandið er svo einstaklingsbundið. Við segjum fólki t.d. ekki að henda börnunum sínum eða mökum út af heimilinu ef neyslan er farin úr böndunum hjá viðkomandi. Fólk verður bara að meta hlutina hjá sjálfu sér og skoða hvar það treystir sér til að setja mörkin.“

Hvað mörk varðar segir Halldóra oft vera vandasamt að finna jafnvægi. „Fólk vill vera góður við þann sem er í neyslu án þess að ýta undir hegðunina. Fólk vill hjálpa ástvinum sínum en kannski ekki gera of mikið fyrir hann. Í þessu samhengi erum við að tala um fólkið sem okkur þykir vænst um en það verður svo mikil skekkja í samskiptum þegar annar aðilinn er í neyslu og traustið er gjarnan farið.“

Skömm algeng tilfinning

Halldóra segir algengt að aðstandendur haldi að þeir geti með einhverjum aðferðum komið í veg fyrir að ástvinur þeirra misnoti áfengi eða lyf eða að neyslan sé þeim að kenna. „Algengt sé að foreldrar kenni sér um neyslu hjá unglingunum sínum og reyni að finna einhverja ástæðu fyrir að unglingurinn fór út í neyslu. Fólk reynir að skilja hvað það gerði vitlaust. Á sama tíma reyna sumir foreldrar að telja sér trú um að þetta sé kannski eðlilegt, að allir unglingar séu að gera þetta.“

Halldóra segir skömm líka vera algenga tilfinningu hjá aðstandendum. „Þegar fólk skammast sín er hætta á að það leiti sér ekki hjálpar eða stuðnings og fari frekar að fela ástandið. Skömmin veldur því svo oft að fólk leitar sér ekki hjálpar fyrr en allt er komið í þrot.“

Markmiðið er að fræða

Spurð út í hvert markmiðið með fjölskyldumeðferð SÁÁ sé segir Halldóra: „Markmið okkar er að fræða fólk um fíknisjúkdóma og meðvirkni og að hjálpa því að átta sig á að það er ekki því að kenna að fólkið þeirra er í neyslu. Að það fái þá vitneskju um að þetta er sjúklegt ástand sem myndast. Meðvirkni er ekki skilgreind sem sjúkdómur en það er sjúklegt ástand og aðstandandinn getur orðið veikur. Það geta meira að segja komið fram líkamleg einkenni eftir alla streituna. Markmiðið er að fólk fái fræðslu og upplýsingar og geti unnið sig út frá því. Það hjálpar yfirleitt mjög mikið.“

Halldóra segir samtal geta gert ótrúlega hluti. „Að tala við einhvern getur breytt mjög miklu. En það er ekki þar með sagt að allt sé orðið gott aftur og ástandið lagist. En það er vissulega gott að fá upplýsingar.“

Upplýsingar um fjölskyldumeðferð SÁÁ er að finna á vef samtakanna.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hefði

Óttar M. Norðfjörð

Síðast en ekki síst
eftir Óttar M. Norðfjörð

Ég sá ljósið í síðustu viku. Ég var að hlusta á Skúla Mogensen útskýra hvað fór úrskeiðis hjá WOW air og segja að hann hefði átt að hefja endurskipulagningu fyrirtækisins fyrr. „Ég trúi því að ef við hefðum fengið meiri tíma hefðum við klárað þetta.“

Hefði. Svo fallegt orð, tregafullt, svo ljóðrænt. Það tók mig 39 ár að átta mig á því, en ekkert annað orð í íslenskri tungu lýsir okkur Íslendingum jafn vel. Við erum upp til hópa dugleg og sífellt að reyna, en á lokasprettinum klúðrum við alltaf einhverju og þá grípum við til hefði. Hversu margir íslenskir stjórnmálamenn hafa komist hjá því að segja af sér með því að nota gamla, góða hefði? „Ég hefði átt að gúggla betur“ var raunverulegt svar íslenskrar stjórnmálakonu við eigin afglöpum. Þetta er hin fullkomna afsökun þegar maður gerir upp á bak. Hefði – sjálf þjóðarsálin í fimm stöfum. Aðrar þjóðir stunda auðvitað líka hefði, en Íslendingar eru bara svo miklu betri í því, búnir að fullkomna listina. Við erum í raun svo góð í hefði að við ættum að flytja það út. Við myndum græða milljónir.

Nú hef ég upplifað þrjár kreppur, misstórar, á sirka tíu ára fresti og alltaf er stutt í blessað hefðið. Um árþúsundamótin var það netbólan sem sprakk með tilheyrandi hefði. 2008 var það bankahrunið, en aldrei í sögu hefðisins hafa heyrst jafnmörg hefði og þá. Og nú, rúmum tíu árum síðar, er ferðamannahrunið í fullum gangi og Skúli reið á vaðið í hefðinu, en er alveg örugglega ekki sá síðasti. Það þarf engan snilling til að sjá mynstrið. Ég bíð allavega spenntur eftir því að hetja Íslands eftir sirka áratug stígi fram þegar óskabarnsfyrirtækið hennar fer á hausinn og segi okkur hinum hvað hún eða hann hefði átt að gera.

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu“

Eftirminnileg ummæli í vikunni.

„Það virkar ekki þannig, svo ég segi það við háttvirtan þingmann og allan þingheim, að hið opinbera dragi upp ný flugfélög úr skúffunni þegar eitt flugfélag fer á hausinn.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki gefa mikið fyrir þann tón í fyrirspurnum þingmanna á Alþingi á þá vegu að stjórnvöld hafi ekki verið búin að búa sig undir gjaldþrot WOW air.

„Ég kem sterkari út úr þessu.“
Kolbeinn Sigþórsson, eftir að hafa skrifa undir tveggja og hálfs árs samning við AIK í Svíþjóð, en samningi hans við franska liðið Nantes var rift í síðasta mánuði.

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu.“
Bára Halldórsdóttir um samsæriskenningar Miðflokksmanna.

„PLEASE! Ertu að djóka Sigmar? Farðu með þetta yfir á Facebook. Ertu ekki hvort sem er að fjalla um Sóleyju þar?“
Fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson blandar sér í deilur Sigmars Vilhjálmssonar og Sóleyjar Tómasdóttur á Twitter, sem hafa staðið yfir frá því að Sóley ýjaði að því að gjaldþrot WOW væri ofvöxnu egói Skúla Mogensen að kenna. Sigmar og Sóley hafa tekist hart á um innihald færslunnar og femínisma.

„Nú reynir á þá forystumenn í verkalýðshreyfingunni sem hafa bæði vit og ábyrgð að afstýra verkföllum og stórtjóni og semja. Allir tapa á verkföllum, það er löngu sannað. Það er alveg ótrúlegt að þetta sé að gerast á árinu 2019.“
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.

„Það er bjart fram undan hjá okkur.“
Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV, þvertekur fyrir að innanhússdeilur geisi á miðlinum eftir að aðalritstjórinn Kristjón Kormákur Guðjónsson sagði upp.

„Viljum við geta talað við þurrkarann okkar og brauðristina á íslensku eða ætlum við að gera það á ensku eða þýsku? Það er erfitt að rífast við brauðrist á þýsku því hún hefur ákveðna yfirburði.“
Bragi Valdimar Skúlason segir mikilvægt að við hugum vel að íslenskunni.

„Ég verð bara að halda mig á mottunni.“
Jón Steinar Gunnlaugsson hét því að raka af sér yfirvararskeggið ef meira en milljón safnaðist til styrktar Mottumars. Það tókst ekki og er mottan því á sínum stað.

„Hverjum dettur í hug að selja pizzu á 3.490 kr.! Það eru 25 evrur! Fyrir pizzu!“
Gunnari Smára Egilssyni blöskrar verðlagið á íslenskum Dominos-pitsum.

Í mál vegna Boeing 737 Max flugvéla

Fyrirtækið sakað um að hafa lagt áherslu á gróða á kostnað heiðarleika og öryggis.

Hluthafar í Boeing hafa höfðað mál á hendur fyrirtækinu á þeim forsendum að það hafi ekki verið heiðarlegt vegna öryggisbúnaðar Boeing 737 Max flugvéla, en eins og kunnugt er urðu tvö mannskæð flugslys með nokkra mánaða millibili sem eru rakin til bilunar í búnaði slíkra véla. Annars vegar flugslys í Eþíópíu í síðasta mánuði þegar allir 157 farþegar um borð létust og hins vegar þegar flugvél Lion Air hrapaði í Jövuhaf undan ströndum Indónesíu í október.

Samkvæmt lögsókninni á Boeing að hafa lagt áherslu á gróða og stækkunarmöguleika fyrirtækisins á kostnað heiðarleika og öryggis, að því er fram kemur á vefsíðu Reuters. Hluthafinn Richard Seeks sakar Boeing um að hafa flýtt fyrir framleiðsluferli 737 Max til að geta keppt við samkeppnisaðilann Airbus og um leið hafi fyrirtækið vanrækt að hafa aukabúnað með vélunum, búnað sem hefði geta komið í veg fyrir fyrrnefnd slys.

Eins og greint hefur verið frá á Mannlífi hefur Icelandair tekið sínar Boeing 737 Max flugvélar úr rekstri um óákveðinn tíma. Icelandair mun ekki fljúga nýjum flugvélum sínum þangað til búið verður að ganga úr skugga um að öryggi þeirra sé tryggt. Flugfélög og stjórnvöld víða um heim höfðu ákveðið að kyrrsetja vélar af þessari tegund áður en Icelandair tók sína ákvörðun. Allt fram að tilkynningunni var það afstaða Icelandair að flugvélarnar væru öruggar og að ekki væri ástæða til að kyrrsetja vélarnar.

Ekki eru nema tvö ár síðan Boeing 737 Max flugvélar voru teknar í notkun.

Komið í ljós hver mun leika Díönu í The Crown

Leikkonan sem mun fara með hlutverk Díönu prinsessu í þáttunum The Crown þykir ansi lík prinsessunni í útliti.

Netflix-þættirnir The Crown hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir komu fyrst út árið 2016. Þætt­irn­ir fjalla um líf Elísa­bet­ar Eng­lands­drottn­ing­ar og fjöl­skyldu henn­ar. Aðdáendur þáttanna hafa undanfarið velt vöngum yfir því hver mun leika Díönu í fjórðu seríu þáttanna.

Í gær var greint frá því að búið er að ráða leikkonu í hlutverkið.

Í frétt The Guardian segir að leikkonan sem mun fara með hlutverk Díönu hafi heillað þau sem annast leikaraval strax upp úr skónum.

Leikkonan sem um ræðir er 23 ára og heitir Emma Corrin og er nýgræðingur í leiklistarheiminum en er mikill aðdáandi þáttanna The Crown. „Ég hef verið límd við þættina síðan fyrsta þátturinn var sýndur,“ var haft eftir Emmu.

Höfundur þáttanna, Peter Morgan, segir Emmu afar hæfileikaríka og búa yfir sakleysislegu yfirbragði líkt og Díana gerði. „Hún heillaði okkur um leið og hún kom inn í áheyrnarprufu.“

Leikaravalið hefur vakið töluverða athygli en Emma þykir nokkuð lík Díönu í útliti.

Hörbrúnn er móðins um þessar mundir

Náttúrulegir og hlýlegir litatónar eru að verða meira áberandi þessi misserin, kaldir tónar eru víkja fyrir hlýlegum litum.

Það getur komið vel út að velja keimlíka litatóna í sama rými og mála jafnvel hillur og skenk til dæmis í sama lit eða svipuðum tón og veggina. Það skapar dýpt og hlýleika, það er að segja ef litirnir eru hlýlegir og mjúkir, ef þannig má komast að orði.

Ritstjórn Húsa og híbýla valdi hlýlegan brúngráan lit nýlega sem fer örugglega vel á flest rými. Liturinn fæst í BYKO.

Myndir / BYKO

Nú má heita Systa og Lynd en ekki Sukki

Mannanafnanefnd samþykkti tvö eiginnöfn með úrskurðum þann 25. mars. Það eru kvenkynseiginnöfnin Lynd og Systa. Nefndin hafnaði þá eiginnöfnunum Valthor (kk), Thurid (kvk) og Sukki (kk).

Í úrskurði mannanafnanefnd um nafnið Sukki segir meðal annars: „Eiginnafnið Sukki er dregið af nafnorðinu sukk, sem merkir ‘svall, óregla; eyðslusemi, óráðsía’ eða ‘hávaði, háreysti’. Nafnorðið sem nafnið er dregið af hefur því mjög neikvæða merkingu.“ Þá segir að nafnið geti hugsanlega orðið barni til ama.

Nöfnunum Valthor og Thurid var hafnað á grundvelli þess að þau ritast ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensk máls.

Nöfnin Systa og Lynd voru samþykkt og færð á mannanafnaskrá.

 

Sonur Ragnars Lýðssonar: „Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar“

Ingi R. Ragnarsson

„Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil,“ skrifar Ingi R. Ragnarsson, sonur Ragnars Lýðssonar sem lést af völdum bróður síns á bæn­um Gýgjar­hóli II í fyrra.

 

Þann 24. september var Valur Lýðsson dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að verða valdur að dauða bróður síns, Ragnars Lýðssonar, þann 31. mars 2018, á bæn­um Gýgjar­hóli II í Blá­skóga­byggð. Ríkissaksóknari áfrýjaði þeim dómi og hófst aðalmeðferð í máinu Landsrétti í gær.

Ingi R. Ragnarsson, sonur Ragnars Lýðssonar, tjáir sig um málið í langri færslu á Facebook. Færsluna skrifar hann undir yfirskriftinni „Morðið að Gýgjarhóli – Sannleikurinn“.

Svona hefst færsla Inga: „Frásagnir Vals Lýðssonar af kvöldinu örlagaríka eru orðnar ansi margar og mis skrautlegar. Upphaflega ætlaði hann að halda sig við að hann hefði komið að föður mínum um morguninn og að hann myndi óljóst eftir átökum. Hann minnti þó að faðir minn hefði átt upptökin og að þeir hefðu skilið sáttir um nóttina. Hann hefði svo komið að honum látnum um morguninn“.

Ingi skrifar þá að blóðferlarannsókn á vettvangi og krufning á líki föður hans hafi leitt í ljós að fátt passaði við frásögn Vals.

„Lögreglan áætlaði mjög fljótlega að föður mínum hefði verið komið að óvörum, hann sleginn mjög þungu höggi og strax fallið niður á fjóra fætur. Það getur lögreglan ályktað út frá blóðslettum á vettvangi, meðal annars á þvottavél. Þar traðkar Valur á pabba sem liggur á fjórum fótum, þar til pabbi missir hendurnar undan sér og fellur í gólfið. Blóðslettur sem spýttust út um munnvik föður míns og áverkar á andliti sýna að Valur traðkar á höfði föður míns eftir að hann fellur. Höggin eru það mörg og það þung að andlit föður míns var mjög illa farið,“ skrifar hann meðal annars og vísar svo í niðursöður rannsóknar réttarmeinafræðingssins Sebastians Kunz.

„Réttarmeinafræðingur staðfesti að það voru engir áverkar, mar eða nokkur skapaður hlutur á föður mínum sem benti til þess að hann hefði slegið til Vals eða varið sig. Andlit föður míns var blátt og afmyndað. Pabbi liggur þvert í gegnum anddyrið á Gýgjarhóli og lögregluna grunaði strax í upphafi að hann hefði verið sleginn með barefli í upphafi atlögunnar. Gerð var ítarleg leit en henni var síðan hætt á þeim forsendum að réttarmeinafræðingur taldi mögulegt að hægt væri að valda áverkum föður míns með berum höndum og fótum. Þá er árásin talin svo ofboðslega heiftúðug að lögreglan taldi barefli hvort sem er ekki hafa mikið að segja við málsmeðferð.“

Ingi skrifar svo að þrátt fyrir að Valur hafi breytt frásögn sinni nokkrum sinnum þá hefur hún aldrei passað við það sem sönnunargögn hafa leitt í ljós. „Þrátt fyrir endalausar hagræðingar Vals á frásögn sinni þessa nótt, er hún ekki enn farin að ríma við sönnunargögnin á vettvangi og krufningu föður míns.“

Í lok færslunnar kemur þá fram að Inga hafi þótt mikilvægt að skrifa og birta grein um málið.

„Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt.“

„Fólk hefur keypt sögusagnir af atburðum þessarar nætur og hefur ekki ennþá meðtekið að Valur sé fær um svona ofbeldisverk. Fólk hefur einnig ekki meðtekið að um væri að ræða tilhæfulausa árás á mann sem var á förum þessa nótt. Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá er siðblindur einstaklingur undantekningin á því að sjaldan veldur einn þá tveir deila. Þegar annar einstaklingurinn er siðlaus þá þurfa tveggja hliða deilur ekki að koma til. Heiðarlegri og réttsýnni menn en pabbi eru vandfundnir, þó hann hafi haft nóg af göllum eins og hver annar. Sannleikanum hafa ekki verið gerð næg skil opinberlega og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið þá get ég ekki látið síðustu orðin um föður minn vera nafnlausan rógburð frá Val Lýðssyni og fylgjum hans og því settist ég við skriftir.“

Færslu Inga má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Er alltaf að komast nær sínum eigin stíl

Ísak Marvins er myndlistarmaður á uppleiði. Eftir þrjú ár í grafískri hönnun stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Krot ehf. Ísak gaf út nokkrar fatalínur sem seldust upp ásamt því að hanna vinnustofur fyrir fyrirtæki.

 

Ísak Marvin segist vera fyrst og fremst myndlistarmaður en verkin sem hann málar eru stór og setur hann í þau mikla orku.

„Ég mála á mjög „expressioniskan“ hátt. Stærð málverkanna skiptir mig miklu máli og mér líður best þegar ég er að mála stór verk, það er svo mikið frelsi. Mig langar auðvitað að fara lengra og það kemur með tímanum en ég tel það vera eðlilega þróun listamannsins að vilja eitthvað stærra og meira en maður sjálfur,“ útskýrir hann og bætir við að einnig hefur hann mikinn áhuga á því að smíða skúlptúra úr allskonar efnum en þau verk eru enn á tilraunarstigi.

Eftir námið í grafískri hönnun var hann farinn að mála á fullu og var búinn að breyta dimmum og köldum bílskúrnum hjá mömmu sinni í vinnustofu.

„Mér bauðst að fara til Berlín í stutt og gott nám sem gekk vel, kom svo heim og sárvantaði nýja vinnuaðstöðu og það leiddi að því að ég fór í samstarf við fasteignafélag um stofnum Artsalir-Studios sem eru fjölnota vinnustofur að Bíldshöfða 18, ætlaðar fyrir allskyns starfsemi og þar er ég með nýju vinnustofuna mína. Svo auðvitað mála ég eins og enginn sé morgundagurinn.

„Þar sem ég þvældist um safnið í flýti labbaði ég fram hjá sal fullum af verkum eftir Mark Rothko og það var þá sem list höfðaði í fyrsta skipti til mín af fullum þunga“

Uppgötvaði listina í London

Ísak hefur alltaf verið að mála og teikna alveg frá því hann gat haldið sjálfur á blýanti og pensli sem barn. „Ég var mikið hjá ömmum mínum og öfum sem barn og þar var ég yfirleitt að skapa, bæði mála og teikna en einnig að smíða hina og þessa hluti, það kom allt bara svo náttúrulega hjá mér og gerir enn. Þegar ég var um 10 ára þá byrjaði ég að fikta mig áfram í graffinu og þannig þróaðist ég alltaf meira og meira yfir í myndlistina,“ rifjar hann upp.

En þegar Ísak virkilega uppgötvaði list var þegar hann var staddur í London í námsferð 2016. Hann var búin að týna hópnum sínum en þá rambaði hann inná Tate Museum. „Þar sem ég þvældist um safnið í flýti labbaði ég fram hjá sal fullum af verkum eftir Mark Rothko og það var þá sem list höfðaði í fyrsta skipti til mín af fullum þunga. Síðan þá hef ég helgað mig myndlistinni.“

Ísak málar gjarnan stór verk.

Fyrirmyndirnar koma úr mörgum ólíkum áttum

Fyrst var það auðvitað Mark Rothko sem kveikti áhugann og þaðan kemur hluti af því að vilja mála stór verk. Á tímabili var ég kallaður „Sakki Pollock“ vegna þess að ég málaði mikið eins og Jackson Pollock og eftir það hef ég safnað saman hugmyndum frá mörgum helstu listmálurum heims og tek það sem höfðar til mín frá hverjum og einum,“ segir hann.

„Einnig hefur Bjarni Sigurbjörnsson myndlistarmaður og Lúðvík Karlsson listamaður, sem er einnig þekktur sem Liston, haft áhrif á mig með kennslu sinni og verkum.“

Eðli listamanna að halda sýningar

Ásamt því að vera í Myndlistarskólanum í Reykjavík er ísak að mála á fullu ný verk á nýju vinnustofunni sinni hjá Artsalir-studios og segir hann að hann er alltaf að komast nær sínum eigin stíl og hlakkar mikið til að sýna þessi nýju verk sýn. Framtíðin er spennandi hjá Ísaki og er hann alltaf að vinna að því að koma sjálfum sér á framfæri og taka ferilinn og sjálfan sig á næsta stig. Einnig er hann alltaf að vinna í næstu sýningu.

„Það er í eðli listamanna að halda sýningar og vilja sýna verkin sín,“ segir hann. „Ég stefni á að næsta sýning verði eftir rúmlega tvo mánuði en ég er enn að vinna í smáatriðunum. Einnig er ég að vinna að því að byggja upp gott umhverfi í kringum Artsalir-studios,“ segir hann. En Ísak er einnig með augun á Berlín vegna verkefnis sem hann sótti um að fá að taka þátt í og mun það leiða af sér sýningu árið 2020. „Ég hef alltaf elt innsæið og ég hvet aðra til að gera það sama. Svo auðvitað ef ykkur vantar stúdíó, þá endilega verið í sambandi.“

Eflaust ellimerki að kjósa fræðandi bækur

|
|

Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi og formaður Hinsegin daga, kýs bækur sem veita innsýn í samfélag og sögu.

„Í sannleika sagt þá les ég allt of lítið og er alltaf að reyna að taka mig á í þeim efnum enda hef ég mjög gaman af lestri góðra bóka,“ segir Gunnlaugur Bragi.

„Fyrst eftir að ég lauk háskólanámi fannst mér tilhugsunin um meiri lestur svolítið erfið og því las ég einna helst auðlesna krimma eða annað í þeim dúr á ferðalögum. Á síðustu árum hef ég hins vegar sífellt meiri þörf fyrir að lesa fræðandi bækur, bækur sem veita mér nýja þekkingu og betri innsýn í samfélag og sögu. Eflaust er það einhvers konar ellimerki en ég tek því fagnandi. Bækurnar sem koma strax upp í hugann sem þær áhrifamestu sem ég hef lesið eru einmitt bækur af þessum toga.“

Sláandi frásögn

„Fyrst ber þar að nefna trílógíu hins sænska Jonas Gardell, Þerraðu aldrei tár án hanska. Verandi virkur þátttakandi í baráttunni fyrir áframhaldandi sýnileika og auknum réttindum hinsegin fólks í samfélaginu finnst mér afar mikilvægt að fræðast um fyrri tíma. Sagan má aldrei gleymast en ég trúi því líka að hluta svarsins við því hvert við stefnum sé einmitt að finna í því hvaðan við erum að koma.

Og það er einmitt það sem þessi trílógía gerir. Þarna er á ferð sláandi fyrstu handar frásögn um unga menn sem finna ást í örmum hvor annars snemma á níunda áratugnum. Þarna spila m.a. inn í trúarbrögð, fordómar, einmanaleiki og sorg en ekki síst HIV-faraldurinn. Upp úr bókunum þremur voru svo gerðir sjónvarpsþættir sem m.a. vöktu mikla athygli á RÚV fyrir nokkrum árum.“

Saga sem gleymist seint

„Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig og hefur fylgt mér allar götur síðan er bókin Mennirnir með bleika þríhyrninginn eftir Heinz Heger sem kom út árið 1972 en í íslenskri þýðingu árið 2013. Þar er sögð saga Josef Kohout sem árið 1939 var handtekinn af Gestapo, leynilögreglu nasista, ákærður fyrir alvarlegan saurlifnað og dæmur til þrælkunar.

Þar var Kohout einn af þúsundum samkynhneigðra karla sem látnir voru bera bleikan þríhyrning í fangabúðum nasista. Sárafátt hefur varðveist sem lýsir aðbúnaði hinsegin fólks í fangabúðunum en Kohout lifði þrælkunina af og í dag er saga hans líklega frægust þeirra sem lýsa hlutskipti homma í Þriðja ríki Hitlers. Átakanleg frásögn sem ég spændi í mig í flugi fyrir nokkrum árum og hefur átt sérstakan stað í hjarta mér síðan.“

Hlúum að framtíðarlandinu

Skoðun

Eftir / Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Að undanförnu hefur mikið gengið á í íslenskri ferðaþjónustu. Við slíkar aðstæður er eðlilegt að umræðan snúist fyrst og fremst um áskoranir skammtímans, hvaða afleiðingar þær kunni að hafa og hvernig þurfi að bregðast við þeim. En það er mikilvægt að gleyma ekki sýninni til langs tíma. Allt sem við gerum í dag hefur áhrif inn í framtíðina.

Ferðaþjónusta verður áfram grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Ferðamenn munu ekki hverfa eins og síldin þó að fjöldi þeirra sveiflist milli ára. Sú uppbygging sem hefur orðið um allt land með tilkomu ferðaþjónustunnar mun halda áfram. Hvers vegna?

Áfangastaðurinn Ísland er einfaldlega kominn á kortið sem ferðamannaland. Við búum yfir náttúru og menningu sem ferðamenn hafa áhuga á og reynslan hefur sýnt að slíkur áfangastaður á góða möguleika á að byggja upp sterka langtímaferðaþjónustu.

Stóra tækifærið fyrir íslenska ferðaþjónustu, og mikilvægt tækifæri fyrir samfélagið allt, er að ná jafnvægi í greininni til framtíðar með um 3-5% fjölgun ferðamanna á ári, líkt og við sjáum í alþjóðlegum tölum um vöxt ferðamennsku. Sú framtíðarsýn mun byggja undir efnahagslegan stöðugleika og bætt lífskjör allra í samfélaginu.

Sameiginleg sýn inn í framtíðina

Til þess að þessi sýn geti raungerst þarf að halda vel á spöðunum á næstu mánuðum og árum. Ferðaþjónustuaðilar hafa áður tekist á við sveiflur og munu leggja mikið á sig til að vinna úr þeim vanda á næstu mánuðum og árum. En það er einnig nauðsynlegt að mæta því höggi sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir af falli WOW air og verkfallsaðgerðum með skynsamlegum aðgerðum af hálfu opinberra aðila.

Ferðaþjónustan hefur drifið lífskjarabætur undanfarinna ára með því að búa til fordæmalausar aðstæður í efnahagslífinu þar sem vöru- og þjónustujöfnuður hefur verið jákvæður um margra ára skeið. Það þýðir að íslenska hagkerfið hefur líkst því þýska meira en því gríska á undanförnum árum sem hefur lagt grunninn að þeirri uppsveiflu og kaupmáttaraukningu sem við höfum upplifað á undanförnum árum. Það er því skynsamleg ráðstöfun fyrir stjórnvöld að stíga inn og taka utan um atvinnugreinina með hvetjandi ráðstöfunum nú þegar gefur harkalega á bátinn til að hún komist sem fyrst upp úr öldudalnum.

Það er mikilvægt fyrir allt samfélagið að það takist að stytta þann tíma sem tekur ferðaþjónustuna að vinna úr áföllunum, því sterk íslensk ferðaþjónusta er allra hagur. Það sést ekki síst á landsbyggðinni þar sem uppbygging atvinnutækifæra hefur tekið stakkaskiptum frá því sem áður var.

Það er þróun sem er mikilvægt að haldi áfram og styðja þarf við. Styrkur ferðaþjónustu á landsbyggðinni er forsenda þess að við getum boðið ferðamönnum að upplifa einstaka náttúru landsins alls, byggt upp fleiri áfangastaði sem léttir álagið af vinsælustu stöðunum og færir fólki verðmæti í heimabyggð.

Ferðaþjónustulandið Ísland er komið til að vera. Það eru góðar fréttir fyrir okkur öll.

Vann með heimsþekktu tónlistarfólki í London

|
|

Tónlistarmaðurinn Gísli vinnur nú að nýrri plötu sem verður hans fjórða plata í fullri lengd og er væntanleg seinna á árinu. Platan hefur fengið heitið The Skeleton Crew, sem þýðir lágmarks mannskapur til að framkvæma hluti.

„Mér fannst þetta viðeigandi þar sem ég spila á öll hljóðfærin á plötunni sjálfur, tek allt upp og mixa heima í stúdíóinu mínu í Höfnum á Reykjanesi,“ segir hann.

Áður var Gísli á samningi hjá útgáfufyrirtækinu EMI UK í nokkur ár þar sem hann gaf út meðal annars lagið How about that sem naut mikilla vinsælda. Eftir það vann hann m.a. við að semja og útsetja fyrir aðra, mest í London en líka í Ameríku og Noregi þar sem hann bjó í mörg ár áður en hann fluttist til London. Í London starfaði hann með ýmsu áhugaverðu tónlistarfólki eins og Mick Jones úr hljómsveitinni The Clash og tónlistarkonunum Carhey Dennis og Duffy.

Fyrir skömmu sendi Gísli frá sér lagið Tidal Wave sem hefur hefur fengið góða spilun hérlendis.

Hægt er að hlusta á það á Albumm.is.

Fjölskylda Jóns Þrastar frábiður sér aðstoð miðla og sjáenda

||
Leitað er eftir Jóni Þresti í almenningsgarði í Norður Dublin

Fjölskylda Jóns Þrastar Jónssonar, sem saknað hefur verið síðan í byrjun febrúar, hefur afþakkað aðstoð miðla og annarra sem telja sig hafa yfirnáttúrlega burði til að segja til um hvar hann er niðurkominn. Fjölskyldunni hefur borist fjöldi slíkra ábendinga sem sumar hverjar hafa gengið mjög nærri fjölskyldunni.

Jóns Þrastar hefur verið leitað í Dublin síðan hann gekk af hótelherbergi sínu í Dublin þann 8. febrúar.

Fjölskylda Jóns Þrastar segir í yfirlýsingu að henni hafi borist fjölmargar stuðnings- og samúðarkveðjur vegna málsins, jafnt frá fjölskyldu, vinum og bláókunnugum. Margar þessar kveðjur hafi veitt fjölskyldunni ómetanlegan stuðning í leitinni.

Hins vegar hafi einnig borist fjöldi skilaboða frá fólki sem skilgreinir sem miðla eða sjáendur og telja sig vita hvar Jón Þröstur er niður kominn. Slíkum skilaboðum fari sífellt fjölgandi og benda þau öll í sitt hvora áttina. Er svo komið að fjölskyldan hefur séð sig tilneydda til að frábiðja sér slík skilaboð.

„Við virðum afstöðu ykkar og lífstíl en ef þið væruð í okkar sporum hljótið þið að skilja hvað það er gríðarlega sársaukafullt að fá skilaboð á nokkurra daga fresti frá fólki sem fullyrðir að okkar elskulegi bróðir sé fastur undir grjóthnullungi í námu eða þaðan af verra. Ef svo ólíklega vill til að við viljum óska eftir aðstoð miðla, sjáenda eða annarra með yfirnáttúrulega hæfileika, þá munum við sjálf leita til þeirra,

segir í yfirlýsingunni. Hins vegar eru þeir sem hafa mögulega hitt Jón Þröst á förnum vegi hvattir til þess að hafa samband.

 

New York Loft á Grandanum 

Hjördís Árnadóttir, myndlistarmaður og hönnuður, heillaðist af Grandanum enda býr gamla hafnarsvæðið í Reykjavík yfir miklum sjarma.

Gamla hafnarsvæðið í Reykjavík býr yfir miklum sjarma og á undanförnum árum hefur Grandagarður tekið meiri háttar breytingum. Þar sem áður voru verbúðir sjómanna, neftóbakskarlar og nær eingöngu starfsemi sem tengdist sjávarútvegi hefur nú myndast blómlegt og skemmtilegt nýsköpunarsvæði og fjölbreyttara mannlíf.

Það er óhætt að segja að hafnarsvæðið sé orðið hip og kúl en víða erlendis hefur þróunin orðið á þessa leið; það er að segja að gömul iðnaðarhverfi verða að líflegum nýsköpunarhverfum þar sem vinnustofur, sprotafyrirtæki, kaffihús, verslanir, veitingastaðir og mannlíf blómstrar.

Sjávarlyktin berst inn

Ein þeirra sem hefur heillast af þessu gamla hafnarsvæði er Hjördís Árnadóttir, myndlistarmaður og hönnuður, eftir að hafa búið í New York og verið með vinnustofu í gömlu iðnaðarhverfi þar í borg heillaðist hún af Grandanum í Reykjavík. Hún segir að stemningin sé að verða svolítið svipuð þar og í iðnaðarhverfinu í stórborginni þar sem hún bjó áður og sér ekki eftir því að hafa fjárfest í húsnæði á svæðinu þar sem útsýni er yfir höfnina og sjávarilmurinn berst inn um gluggana.

Bjó í gamalli sykurverksmiðju

Hjördís Árnadóttir er myndlistarmaður með BA-gráðu frá Listaháskólanum og masters-gráðu frá School of Visual Arts í New York þar sem hún bjó áfram í nokkur ár eftir útskrift. Hún tók þátt í listasýningum þar í borg, var með vinnustofu og bjó í gömlu iðnarhúsnæði ásamt nokkrum öðrum listamönnum sem voru með henni í náminu.

„Við hreiðruðum um okkur í gamalli sykurverksmiðju á bökkum East river með útsýni yfir Manhattan. Þetta var gamalt iðnaðarhverfi í niðurníðslu sem listamenn fóru að hafa áhuga á, eitt og eitt kaffihús og listamannastúdíó voru opnuð í hverfinu, ekki ólíkt því sem hefur verið að gerast á Grandanum núna undanfarið og hverfið þróaðist í að vera líflegt nýsköpunarhverfi. Ég bjó þarna í fimm til sex ár, kynntist svo manninum mínum hér heima og flutti heim til Íslands í kjölfarið, tveimur árum seinna,“ segir hún brosandi.

Minnir á listamannaloft á Manhattan

Hvernig æxlaðist það svo að þið keyptum húsnæði á Grandanum?

„Fyrir nokkrum árum síðan fjárfestum við í iðnaðarhúsnæði á Grandanum með það að markmiði að endurbyggja það og hanna á þann hátt að úr yrði áhugavert vinnurými fyrir fólk í skapandi greinum. Í heildina var um að ræða þrjú hundruð fermetra húsnæði eða þrjú 100 fermetra rými, auk 30 fermetra opinnar hæðar í hverju rými. Við hönnun og endurbyggingu leitaðist ég eftir að halda í upprunan og einfaldleikann með því að hafa opið í stálgrind í lofti og halda milliveggjum í algjöru lágmarki þannig að rýmið fengi að njóta sín sem heild. Veggirnir sem ná mest sex metra hæð voru sprautaðir hvítir og flóðlýstir og gólf steypuflotuð,“ svarar hún og við spyrjum hana að endingu hvað sé mest heillandi við þetta hafnarsvæði borgarinnar?

„Á næstu árum verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta svæði verður skipulagt og hvort þarna þarna fái að þróast íbúabyggð.“

„Fyrir utan staðsetninguna minnir húsnæðið á klassísk listamannaloft í New York með tvöfaldri lofthæð og opinni hæð en húsnæði af þessu tagi er ekki algengt hér í Reykjavík. Í raun væri eins heillandi möguleiki að nota svona húsnæði sem íbúðarhúsnæði en enn sem komið er er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á Grandanum. Á næstu árum verður spennandi að fylgjast með því hvernig þetta svæði verður skipulagt og hvort þarna þarna fái að þróast íbúabyggð í bland við áframhaldandi skapandi atvinnustarfsemi og menningu,“ segir Hjördís brosandi og fær sér kaffisopa.

Blaðamaður kveður myndlistarmanninn og hönnuðinn sem hefur skapað þetta skemmtilega rými á einum besta stað bæjarins þar sem ávallt er líf og fjör og sjávarlyktin fyllir vitin.

Myndir / Aðsendar

Hljóðrituðu plötuna á gömlum sveitabæ

Íslensk-rússneska tvíeykið Pale Moon gefur út sína fyrstu EP-plötu, Dust of Days, mánudaginn 15. apríl.

Meðlimir sveitarinnar eru Natasha Sushchenko og Árni Guðjónsson tónsmiður en þau tóku plötuna upp á gömlum sveitabæ á Suðurlandi, sem þau fengu að láni og segja að hún sé undir áhrifum frá meðal annars Carole King og Rolling Stones-plötunni Exile on Main St.

Þess má geta að Natasha og Árni reka líka saman tísku- og lífsstílsverslunina Kvartýra 49 á Laugavegi og í nafni hennar birta þau mánaðarlegt hlaðvarp þar sem fjallað er um nýútkomna íslenska tónlist, bjóða viðmælendum sínum í heimsókn og fá þá til að leika fyrir dansi á milli fataslánna.

Hlaðvarpið kallast Gulu Bogagöngin og má finna á Itunes, Podcast appinu og Soundcloud. Platan Dust of Days er fyrsta fullvaxta tónlistarverkefni þeirra Natöshu og Árna.

Fyrirtæki orðin algeng skotmörk

Tölvuglæpir og nettengd afbrot af margvíslegu tagi hafa færst mjög í aukana undnafarin ár. Valdimar Óskarsson, sérfræðingur í tölvuöryggi, segir marga netglæpi beinast að fyritækjum.

„Ég myndi telja að við séum að sjá fleiri glæpi sem er beint að fyrirtækjum, þ.e. þar sem fyrirtækin eru skotmörk. Óprúttnir aðilar komast inn fyrir varnir, fylgjast með daglegri vinnslu áður en þeir slá til. Svona aðilar sjá til þess að aðgerðir þeirra séu illrekjanlegar,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis, sem sérhæfir sig í tölvuöryggi í samtali við Mannlíf.

Aðspurður um hverjir séu líklegastir til að falla fyrir svikum á Netinu, þ.e. hvort einhverjir ákveðnir markhópar séu til fyrir slíka tölvuþrjóta segi Valdimar að það fari eftir eðli tölvuglæpsins. „Dulkóðun gagna þar sem greiða þarf gjald til að fá gögnin aftur er oft beint að einstaklingum en getur einnig haft áhrif á fyrirtæki.

Svokölluð framkvæmdastjóra- eða fjármálastjórasvik er oftast beint að fyrirtækjum og þau eru skipulögð. Þeim er hægt að verjast, að hluta til með betri auðkenningu og verklagi en það eru til ýmsar aðferðir til að blekkja starfsfólk þar sem óværu er komið í tölvu notanda og óprúttinn aðili nær yfirráðum tölvunnar,“ segir hann.

Valdimar leggur áherslu á mikilvægi þess að hafa góðar atburðaskráningar (e. logga) til að geta rannsakað atvik sem koma upp. „Og geta fullvissað sig um að ekki séu aðrar tölvur smitaðar sömu óværu þar sem óprúttni aðilinn bíður færis á að slá til aftur.“

Virðist geta staðið flest allt af sér

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er án efa umdeildasti stjórnmálamaður samtímans. Hann kom mjög ungur inn í stjórnmál þegar hann var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á skrautlegan hátt í byrjun árs 2009.

Hann hafði skráð sig í flokkinn tveimur vikum áður en flokksþingið fór fram. Upphaflega var greint frá því að Höskuldur Þórhallsson hefði verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins þar en síðar reyndist talning hafa verið röng og var tilkynnt um að Sigmundur Davíð væri réttkjörinn formaður. Hann vantaði þá enn tvo mánuði í að vera 34 ára gamall.

Fjórum árum síðar var hann orðinn yngsti forsætisráðherra lýðveldissögunnar eftir mikinn kosningasigur Framsóknarflokksins í apríl 2013.

Sigmundur Davíð sagði af sér því embætti 5. apríl 2016 eftir að Panamaskjölin höfðu opinberað hann sem eiganda aflandsfélagsins Wintris og kröfuhafa í bú föllnu bankanna sem ríkisstjórn hans hafði verið að semja við. Viðtal þar sem Sigmundur Davíð sagði ósatt þegar hann var spurður út í Wintris fór sem eldur um sinu út um allan heim. Daginn áður en hann sagði af sér fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar á Austurvelli þegar 26 þúsund manns mótmæltu Sigmundi Davíð, öðrum ráðherrum sem voru í Panamaskjölunum og ríkisstjórninni sem þeir sátu í.

Í könnun Félags­vís­inda­stofn­unar sem gerð var á þeim tíma sem leið frá því að sér­stakur Kast­ljós­þáttur um skjölin var sýndur og þar til Sig­mundur Davíð steig til hliðar kom fram að 78 pró­sent lands­manna vildi að hann myndi segja af sér.

Þetta var ekki staða sem margir stjórnmálamenn hefðu snúið aftur úr.

Eftir nokkurra mánaða frí vildi Sigmundur Davíð, þá enn formaður Framsóknarflokksins, taka aftur við stjórnartaumunum. Hann var sannfærður um að vera fórnarlamb samsæris og að hann hefði ekki gert neitt rangt. Síðar opinberaði Kjarninn að Wintris hefði ekki greitt skatta í samræmi við lög og reglur og óskað eftir því að fá að gera þá rétt upp við skattayfirvöld.

Sigmundur Davíð tapaði svo í formannsslag við Sigurð Inga Jóhannsson í Framsóknarflokknum í aðdraganda kosninganna 2016 og sat í nokkurs konar sjálfskipaðri útlægð sem þingmaður flokksins næsta tæpa árið. Á þeim tíma tók hann lítinn þátt í þingstörfum en einbeitti sér að því að stofna Framfarafélagið, vettvang utan um hugmyndir hans sem stjórnmálamanns sem átti að nýtast til að fleyta honum aftur til valda innan Framsóknarflokksins.

Þegar kosningar skullu skyndilega á haustið 2017 breyttust þau áform. Sigmundur Davíð og nokkrir tryggir fylgismenn gengu úr Framsóknarflokknum, stofnuðu Miðflokkinn og buðu fram út um allt land. Einu og hálfu ári eftir Panamaskjölin vann hann kosningasigur.

Þegar Klausturmálið kom upp voru áhrifin ekki ósvipuð og eftir Panamaskjalahneykslið. Í könnun sem birt var 3. desember 2018 kom fram að á milli 74 og 91 pró­sent Íslend­inga er hlynnt afsögn alþing­is­mann­anna sex. Flestum fannst að Gunnar Bragi ætti að segja af sér en næstum jafnháu hlut­falli fannst að Berg­þór ætti einnig að gera það. Þá töldu 86 prósent landsmanna að Sigmundur Davíð ætti að víkja.

Þessa stöðu virðast Miðflokksmenn nú hafa staðið af sér.

Karl Kristján Davíðsson sýnir veggjalist

Karl Kristján Davíðsson sýnir veggjalist í Hlutverkasetrinu Ae.

Karl Kristján er fæddur í Reykjavík árið 1977. Hann ólst upp í Vesturbænum og flutti svo um 11 ára aldur til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni. Þar fékk hann fljótlega áhuga á myndlist. Hann er fyrst og fremst sjálflærður en hefur einnig sótt nokkur námskeið hér og þar.

Karl hefur haldið um 20 sýningar frá árinu 1999 eftir að hafa verið í módelteikningu í Reykjavík og Borups Folkhojskole í Kaupmannahöfn. Hann hefur hlotið góða umsögn og vakið áhuga í myndlistinni.

Sýningin opnar í Hlutverkasetrinu Ae á í dag, mánudag, 8. apríl klukkan, 14.00.

„Mamma og amma gengu í gegnum algjört helvíti“

||
||

Unnar Þór Sæmundsson byrjaði ungur að drekka og nota eiturlyf og það tímabil sem hann var í neyslu hefur sett stórt stik í reikninginn hjá honum og aðstandendum hans. Núna eru þrjú ár liðin síðan hann varð edrú og síðan þá hefur hann unnið að því að vinna traust vina og fjölskyldu til baka.

Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir fíknisjúkdóma hafa mikil áhrif á aðstandendur þeirra einstaklinga sem glíma við fíkn. Unnar viðurkennir að hans neysla hafi haft mikil áhrif á hans nánustu.

„Ég byrjaði að drekka og nota eiturlyf um fermingaraldur. En eftir 10. bekk varð neyslan meiri. Ég var búsettur á Flúðum á þeim tíma og það var mikið mál að verða sér úti um eiturlyf þarna á þessum tíma,“ segir Unnar og viðurkennir að hann hafi haft mikið fyrir því að nálgast eiturlyf. „Ég þurfti að láta senda pakka með rútunni,“ bætir hann við og hlær.

Unnar segist oft hafa velt því fyrir sér hvað olli því að hann byrjaði að nota eiturlyf. „Ég hef oft reynt að skilja af hverju ég varð fíkill. Vinir mínir sem hafa verið í neyslu eru allir með einhverja áfallasögu á bakinu en ég varð ekki fyrir neinu áfalli. Ég átti góða æsku og góða fjölskyldu. En ég var ofvirkur og með athyglisbrest og í litlu samfélagi geta fordómar verið miklir. Ég varð fljótt svarti sauðurinn í sveitinni,“ útskýrir hann.

„…ég gat ekki lifað með sjálfum mér í óbreyttu ástandi.“

Unnar segist hafa verið umtalaður í sveitinni enda lét hann oft eins og hálfviti eins og hann orðar það. Þetta varð til þess að Unnar fór í hálfgert hlutverk og gerði í því að láta illa. „Ég fann fljótt að þegar fólk var hrætt við mig þá var það síður að skipta sér af mér. En eyðileggingin var algjör og ég gat ekki lifað með sjálfum mér í óbreyttu ástandi. Þannig að ég fór að breyta líðan minni með eiturlyfjaneyslu í auknum mæli.“

Fjölskyldan gekk í gegnum helvíti

Þegar hann er spurður út í aðstandendur sína og áhrif neyslunnar á þá segir Unnar að hegðun hans hafi vissulega sett líf hans nánustu úr skorðum. „Þau gerðu allt sem þau gátu til að hjálpa. Það hefði enginn getað gert neitt betur. Þau gerðu ýmislegt til að grípa inn í enda voru þau hrædd um mig. En mér var bara skítsama því sjálfsblekkingin var mikil á þessum tímapunkti.“

Unnar segir fíkn hans hafa haft sérstaklega mikil áhrif á mömmu hans og ömmu.

„Þær tóku þetta nærri sér. Mamma beið bara eftir að ég yrði tekinn úr umferð eða myndi deyja. Mamma og amma sváfu ekki á nóttunni og gengu í gegnum algjört helvíti. Aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma ganga í gegnum helvíti og ég hef stundum sagt að þeir gangi í gegnum meira helvíti en fíkillinn sjálfur því þeir sitja heima með kvíðahnút í maganum. Þeir hafa enga leið til að deyfa sig,“ segir Unnar.

„Aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma ganga í gegnum helvít.“

Hann bætir við: „Í hvert skipti sem síminn hringdi hjá mömmu þá var hún viss um að það væri verið að láta hana vita að ég væri dáinn. Ég gerði nokkrar tilraunir til sjálfsvígs og mamma fékk einu sinni símtal um miðja nótt þar sem henni var sagt að ég væri þungt haldinn á spítala. Henni var sagt að drífa sig til mín ef hún ætlaði að ná að kveðja mig, það leit úr fyrir að ég ætti ekki langt eftir. Þannig að vanlíðanin og áhyggjurnar sem ég hef valdið henni, guð minn góður.“

Unnar viðurkennir að hafa lagt mikið á mömmu sína og ömmu á þeim tíma sem hann var í neyslu.

Eftir mikla sjálfsvinnu hefur Unnar ákveðið að tala opinskátt um þetta tímabil í lífi hans sem spannar um 11 ár. Hann hefur þá unnið að því að vinna traust fólks til baka.

„Ég hef verið opinn og talað opinskátt um þetta. Ég tók meðvitaða ákvörðum um að ég gæti ekki farið leynt með fortíðina mína. Þá fyrst myndi fólk reyna að nota fortíðina gegn mér,“ segir Unnar sem starfar sem gjaldkeri framkvæmdaráðs Pírata. Hann segist afar þakklátur því trausti sem sér hefur verið sýnt innan flokksins. „Þetta traust sem mér hefur verið sýnt … það sannar bara að allir eiga séns. Það skiptir ekki máli hver þú ert. Það geta allir komið sér á beinu brautina aftur.“

Spurður út í traust hans nánustu gagnvart honum, svarar Unnar: „Samskiptin við mömmu og ömmu eru góð í dag og mér þykir svo vænt um að fólkið mitt er farið að treysta mér aftur. Ég tek það samt fram að ég hætti fljótt að ljúga að mömmu eftir að ég fór í neyslu, ég reyndi að svara henni alltaf, segja henni hvað ég væri að gera og hvaða lyf ég væri að taka inn. Ég veit ekki hvort henni fannst það betra, að vita hvað væri í gangi nákvæmlega, en hún sagði mér að sér þætti það betra.“

Spurður út í hvort hann telji að hann sé búinn að brenna einhverjar brýr að baki sér varanlega svarar hann játandi.

„Þannig að fólk er með varann á gagnvart mér og ég skil það vel.“

„Já. En ég set samt fyrirvara við orðið „varanlega“, því maður veit aldrei. Ég vil leyfa fólki að ákveða þetta með sjálfu sér, hvort það vill bætt samband við mig eða ekki. Ég vil ekki heimta það. Ég er tilbúinn til að bæta fyrir það sem ég hef gert en ég hef óneitanlega lagt mikið á fólk, alla stórfjölskylduna meira að segja. Þannig að fólk er með varann á gagnvart mér og ég skil það vel. Ég get ekki verið reiður ef fólk vill ekki eiga í samskiptum við mig, ég veit ekki hvernig mér myndi líða ef einhver væri búinn að bregðast mér svona oft.“

Ætlar að vera til staðar fyrir dóttur sína

Unnar varð faðir í fyrsta sinn í maí 2015. „Dóttir mín var nokkurra mánaða þegar ég datt í það í síðasta sinn, fyrir rúmum þremur árum. Fíknin getur nefnilega verið sterkari en foreldraástin. Ég rankaði við mér inni á geðdeild eftir að hafa verið meðvitundarlaus í þrjá daga, stútfullur af dópi og með lungnabólgu. Þá hugsaði ég; fokk, ég má ekki bregðast dóttur minni aftur. Aldrei aftur. Og það hefur verið mitt markmið síðan þá, númer eitt, tvö og þrjú, að standa mig fyrir hana,“ útskýrir Unnar.

„Ég vona að það sé líka gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að lesa um mína sögu. Vonandi veitir það von,“ segir Unnar.

Þó að Unnar sé á góðum stað í dag, stað sem hann hefði ekki trúað að hann kæmist á fyrir nokkrum árum, þá á hann mikla vinnu fram undan að eigin sögn.

„Ég er auðvitað búinn að sóa miklum tíma í neyslu, afbrot og ógeð. Og ég finn að ég er pínulítið eftir á hvað ýmislegt varðar vegna neyslunnar. Stundum staldra ég við og sé að það er margt sem ég þarf að læra betur. En ég tel mig vera kominn langt og ég hef verið að setja mér verkefni, til dæmis sem snúast um að tala fallega til fólks og vera duglegur að hrósa. Þetta eru litlir hlutir.“

„Það voru til dæmis allir búnir að gefast upp á mér á sínum tíma og fólk var alveg hætt að treysta mér.“

Að lokum vill Unnar hughreysta fólk sem er í sömu stöðu og hann var í fyrir nokkrum árum. „Það er alltaf séns. Alltaf. Það voru til dæmis allir búnir að gefast upp á mér á sínum tíma og fólk var alveg hætt að treysta mér. Ég var bara „lost case“ en ég hef náð engum smáárangri á síðustu þremur árum. Þannig að það er alltaf von. Þú þarft að vinna vinnuna, það gerir það enginn fyrir þig, og það verður erfitt. En það jafnast ekkert á við það sem þú færð til baka. Ég vona að það sé líka gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að lesa um mína sögu. Vonandi veitir það von.“

Sjá einnig: Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Myndir / Hallur Karlsson

„Ég næ að lifa eðlilegu lífi en það er alltaf svolítil sorg í manni“

Sirrý Laxdal Jóhannesdóttir þekkir vel hversu mikil áhrif fíknisjúkdómar geta haft á dýnamík innan fjölskyldna. Sirrý er móðir Þóru Bjargar Sigríðardóttur sem margir kannast við úr heimildamyndinni Lof mér að lifa sem sýnd var á RÚV. Í henni fengu áhorfendur innsýn í heim fíknarinnar.

 

Sjá einnig: Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Þegar Sirrý er beðin um að lýsa reynslu sinni segir hún: „Þessi reynsla er ofboðslega sorgleg. Þetta er 16 ára saga og henni hafa fylgt stórir sigrar og líka gríðarleg vonbrigði og hlutir sem er erfitt að sætta sig við.“

Það sem hefur reynst Sirrý hvað erfiðast er þegar Þóra fellur aftur eftir að hafa verið edrú í ákveðinn tíma.

„Það sem hefur verið svo sorglegt er að til dæmis þegar Þóra var edrú í fjögur og hálft ár á sínum tíma þá fór hún í skóla og henni gekk vel. Allir sem hún umgekkst báru henni vel söguna og hún stóð sig svo vel. Þannig að vonbrigðin voru mikil þegar það gekk ekki upp þó að ég vissi alltaf að það væri möguleiki á að hún félli aftur,“ útskýrir Sirrý.

„Þegar vel gengur hjá Þóru þá er maður svo glaður en ég hef lært að tipla á tánum og minna mig á þó að hún verði edrú þýði það ekki að þetta sé endilega komið.“

Erfitt fyrir alla fjölskylduna

Sirrý Laxdal Jóhannesdóttir.

Spurð út hvaða áhrif fíknisjúkdómur Þóru hafi haft á ástandið innan fjölskyldunnar og hennar eigin líðan segir Sirrý sjúkdóminn oft hafa sett stórt strik fjölskyldulífið. „Fjölskyldan getur orðið heltekin af þessu og sjúk. Á tímabili, alltaf þegar ég talaði við mömmu mína, þá snerist allt um Þóru. Mamma spurði alltaf fyrst út í hvernig Þóra hefði það og fátt annað komst að. Þannig er þetta oft. En auðvitað er gott að finna að fólk hugsar til hennar og vilji vita hvernig hún hafi það. Svo eru auðvitað margir sem spyrja aldrei um hana, kannski þora ekki allir að tala um þetta við mig. Þannig að jú, vissulega þykir mér vænt um það þegar fólk spyr.

 „Fjölskyldan getur orðið heltekin af þessu og sjúk.“

En þetta hefur verið erfitt fyrir alla í fjölskyldunni, líka mömmu og pabba sem hafa verið með mér í þessu. Maðurinn minn er mjög raunsær og hefur náð að halda mér á jörðinni á meðan ég fagna þegar Þóra Björg klárar heila meðferð, sem gerist ekki alltaf. Á sama tíma hefur hann verið minn klettur og stutt mig, t.d. með því að samþykkja að taka hana inn á heimili okkar í september eftir að hún kom úr meðferð. Fyrir mig samþykkti hann að hún kæmi hingað. Þetta var það eina sem ég átti eftir að prófa og hann skildi að ég þurfti að prófa það,“ útskýrir Sirrý.

„En á þeim tímapunkti sem mér tókst að læra að það væri ekkert sem ég gæti gert til að breyta ástandinu, gat ég búið mér til smápláss. Ég var mörg ár að átta mig á þessu og þegar það gerðist þá fylgdi því frelsistilfinning en líka mikil sorg. Það að átta mig á að þetta var ekki í mínum höndum heldur í hennar höndum, að verða edrú og halda sér edrú, var erfitt.

„…mér tókst að læra að það væri ekkert sem ég gæti gert til að breyta ástandinu.“

Þegar ég náði að sætta mig við að geta ekki breytt ástandinu fór mér að líða betur. Auðvitað er þetta alltaf erfitt og ég hugsa um Þóru á hverjum einasta degi. En ég náði að einbeita mér meira að mínu lífi þegar ég áttaði mig á að ég hef ekki stjórn á hennar hegðun og líðan. Auðvitað koma sveiflur. Það er sárt að geta ekki verið í eðlilegum samskitpum við viðkomandi og geta t.d. ekki varið jólunum með dóttur sinni. Við ætluðum til að mynda að vera saman á jólunum núna síðast en það gekk ekki upp,“ útskýrir Sirrý.

Með því að setja ákveðin mörk hefur Sirrý tekist að búa sér til rými til að sinna sjálfri sér en ekki síst öðrum fjölskyldumeðlimum.

„Það er ekki á mínu valdi að breyta þessu. Og ég á aðra dóttur, Ellen Sif, sem hefur stundum gleymst í þessu ferli því það komu tímar sem ég náði ekki að sinna henni nógu vel þegar hún var yngri. Ég var kannski ekki alltaf til staðar fyrir hana þegar hún þurfti á mér að halda. Þetta hefur verið mikið álag á heimilið. En í dag reyni ég að vera alltaf til staðar ef það er eitthvað sem ég get aðstoðað hana og fjölskyldu hennar með,“ segir Sirrý sem eignaðist dótturson í desember árið 2017.

„Ég vil verja sem mestum tíma með honum og aðstoðað þau á allan þann hátt sem ég get. Ellen Sif á það inni hjá mér.“

Þóra og Ellen ásamt Halldóri Erni, syni Ellenar.

Spurð nánar út í mörkin sem hún hefur sett eldri dóttur sinni segir Sirrý að það sé svo erfitt að horfa upp á hana í mikilli neyslu og því rugli sem fylgir neyslunni þannig að til að gera lífið bærilegra hafa þær Þóra gert þegjandi samkomulag. „Þegar hún er í miklu rugli eru samskipti okkar í lágmarki. Hún lætur samt reglulega vita af sér, þannig að ég viti að hún sé lifandi.“

Komst fjótt yfir skömmina

Aðspurð hvort að hún hafi einhvern tímann fundið fyrir skömm vegna ástandsins hugsar Sirrý sig um og segir svo: „Sko, það er auðvitað svo langt síðan þessi saga hófst, um 16 ár, þannig að Þóra hefur verið í þessu verkefni sínu meira en helming ævi sinnar. Og hér áður fyrr hélt ég alltaf að börn og unglingar í neyslu kæmu frá heimilum þar sem ríkti óregla. En ég varð að éta þetta ofan í mig vegna þess að ég var bara venjuleg kona sem átti venjulegt heimili. Þannig að já, í upphafi upplifði ég skömm. En ég setti mig samt sjálf í samband við Barnaverndarstofu og óskaði eftir aðstoð á sínum tíma, þegar ég komst að því í hvaða far Þóra Björg var komin, ég vissi ekki hvernig ég átti að tækla þetta.“

Sirrý segir barnavernd hafa reynst sér vel í gegnum tíðina. „Oftast er talað um barnavernd sem eitthvað fyrirbæri sem þú vilt ekki hafa á bakinu. En á þessum tíma vildi ég hafa hana á bakinu, ef svo má að orði komast. Ég var svo vanmáttug. Þar kynntumst við yndislegri manneskju sem hefur fylgst með okkur Þóru, líka eftir að Þóra varð 18 ára,“ segir Sirrý sem er þakklát þeim fulltrúum Barnaverndarstofu sem veittu henni aðstoð á sínum tíma. „Sérstaklega er ég þakklát þessari konu sem er enn til staðar með ráðleggingar, löngu eftir að Þóra varð 18 ára.

„Það er engin skömm að því að vera með sjúkdóm eða vera aðstandandi sjúklings.“

En hvað skömmina varðar komst ég fljótt yfir hana og fór að tala opinskátt um hlutina. Það er eitthvað sem sumu fólki hefur eflaust þótt óþægilegt því þetta er auðvitað sorglegt. En það hefur hjálpað mér er að vera ekkert að fela ástandið. Það er auðvitað ekkert til að skammast sín fyrir. Það er engin skömm að því að vera með sjúkdóm eða vera aðstandandi sjúklings.“

„Hvert á hún þá að fara og hvað á hún að gera?“

Eins og áður sagði hafa komið góðir tímar hvað baráttu Þóru varðar. En eitt stórt vandamál, að mati Sirrýjar, er úrræðaleysi. Hún bendir á að það vanti úrræði fyrir það fólk sem hefur tekist að koma sér í gegnum meðferð við fíknisjúkdómum.

„Það er lítið verið að gera fyrir fólk sem hefur áhuga á að sigrast á fíkninni og koma sér aftur út í lífið. Fólk fer í meðferð og hvað svo? Það vantar eitthvað meira en meðferð. Einhvern undirbúning fyrir fólk til að skapa sér venjulegt líf. Ef við tökum til dæmis einstakling sem hefur verið langt leiddur í mörg ár, sá einstaklingur á ekkert. Ég er til dæmis með „allt“ dótið hennar Þóru inni í geymslu. En ef hún klárar meðferð, hvert á hún þá að fara og hvað á hún að gera? Það er svo erfitt fyrir þetta fólk að komast inn í rútínu aftur. Og það eru ekkert allir aðstandendur sem treysta sér til að taka fólkið sitt inn á heimilið eftir að það hefur klárað meðferð. Til dæmis er það fullreynt í okkar tilfelli. Það er mikið álag á heimilið að taka við eintaklingi með fíknisjúkdóm, hvað þá manneskju sem er orðin fullorðin eins og Þóra Björg er. Ég legg það ekki á mig eða aðra fjölskyldumeðlimi aftur.“

Sirrý hefur búið á Austfjörðum og á Norðurlandi undanfarin 10 ár og Þóra hefur verið í Reykjavík en Sirrý hefur verið reiðubúin til að hjálpa Þóru þegar hún hefur klárað meðferðir. „Hún flutti til dæmis til mín eftir að myndin [Lof mér að lifa] var tekin upp og var edrú í smátíma en það gekk ekki upp og vonbrigðin voru mikil – yfir því að hún hafi ekki nýtt tækifærið. Það kom mér langt niður,“ útskýrir Sirrý.

„Eftir að þættirnir voru svo sýndir, og Þóra Björg flutti til okkar í kjölfarið eftir að hafa klárað meðferð sem gekk ekki upp, hrundi ég algjörlega. Ég fór til læknis, alveg buguð. Ég hékk bara í vinnunni, bara umbúðirnar utan af mér. Ég man ekkert frá þessum tímabili og staulaðist bara einhvern veginn áfram. Ég óskaði eftir launalausu leyfi frá vinnu. Læknirinn sem ég hitti úrskýrði fyrir mér á mannamáli að sem aðstandandi hefur maður nefnilega verið í sorgarferli í svo mörg ár. Það er það sem ég upplifi.“

„Ég man ekkert frá þessum tímabili og staulaðist bara einhvern veginn áfram.“

Þrátt fyrir þetta stóra bakslag síðastliðið haust líður Sirrý ágætlega þessa stundina, að eigin sögn. „Ég hef lært að lifa með þessu. Ég næ að lifa eðlilegu lífi en það er alltaf svolítil sorg í manni. Það eru ákveðnir hlutir sem þú sættir þig aldrei við. Þó að ég hafi stundum á tilfinningunni að þetta verði bara lífsstíllinn sem hún muni lifa þá er ég klárlega alltaf að bíða eftir að hún rífi sig upp og komi sér á fætur,“ útskýrir hún.

Sirrý viðurkennir að þrátt fyrir að hún hafi fundið ákveðinn frið fái hún hnút í magann reglulega. „Til dæmis hellist yfir mig ótti þegar síminn hringir og ég þekki ekki númerið. Líka um daginn þegar lögreglumaður kom á vinnustað minn, hann var bara að sækja þjónustu eins og hver annar viðskiptavinur, en þá var ég svo viss um að það væri verið að koma með slæmar fréttir til mín.“

Aðstandendur geta orðið líkamlega veikir vegna streitunnar

Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir fíknisjúkdóma hafa mikil áhrif á aðstandendur þeirra einstaklinga sem glíma við fíkn. Streitan sem myndast innan fjölskyldna vegna fíknisjúkdóma getur orðið til þess að aðstandendur verða veikir og finna fyrir líkamlegum kvillum vegna álags.

Undanfarið hafa fíknisjúkdómar verið mikið í umræðunni og stundum hefur verið talað um að fíknifaraldur geisi hér á landi. Á árinu 2018 voru innlagnir á sjúkrahúsið Vog 2.275 og í byrjun árs voru um 570 einstaklingar á biðlista eftir innlögn vegna fíknisjúkdóma.

Fíknisjúkdómar hafa mikil áhrif, ekki bara hjá þeim einstaklingum sem glíma við sjúkdóminn heldur einnig hjá aðstandendum þeirra.

Halldóra Jónasdóttir er áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ. Hún hefur í gegnum tíðina haldið utan um fjölskyldumeðferðir SÁÁ og þekkir vel hvaða áhrif fíknisjúkdómar hafa á aðstandendur þess einstaklings sem glímir við fíkn.

Spurð út í fjölskyldumeðferðir SÁÁ segir Halldóra: „Við höldum námskeið tvisvar í viku í fjórar vikur í senn fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma. Það eru lokuð námskeið en svo bjóðum við líka upp á viðtalsþjónustu. Á Vogi eru svo sérstakir foreldrahópar fyrir foreldra þeirra unglinga sem eru að glíma við fíkn. Þar er boðið upp á fræðslu og hópstarf.“

Í þessu starfi SÁÁ er fólk frætt almennt um fíknisjúkdóminn, áhrif hans og meðvirkni að sögn Halldóru.

„…breytingin sem verður á fíklinum verður til þess að jafnvægið í fjölskyldunni fer úr skorðum.“

„Það er gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að hittast og ræða saman. Það sem gerist oft er að aðstandendur verða mjög uppteknir af fíklinum og ástandinu. Ég segi stundum að fjölskyldur séu eins og órói; breytingin sem verður á fíklinum verður til þess að jafnvægið í fjölskyldunni fer úr skorðum og aðstandendurnir fara að leitast við að ná einhverju jafnvægi. Þá getur verið gott að ræða við aðra sem eru í svipuðum sporum.“

Beðin um að lýsa nánar því sem gerist gjarnan hjá aðstandendum og ástvinum þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma segir Halldóra: „Það sem gerist oft er að það skapast mikið streitu- og spennuástand. Hegðun þess sem er í neyslu, það er alveg sama hvort það er foreldri, barn, maki eða einhver annar, skapar mikið óöryggi hjá fólkinu í kring. Aðstandendur fara þá oft í það að reyna að hafa stjórn á þeim sem er að glíma við fíkn og þannig skapast mikil spenna.“

Halldóra segir hræðslutilfinningu vera algenga hjá aðstandendum þess sem er í neyslu. „Hræðsla um að viðkomandi fari sér að voða.“

„Alltaf skapast þessi spenna innan fjölskyldunnar“

Halldóra segir það vissulega vera breytilegt eftir aðstæðum hvaða áhrif fíknisjúkdómar hafa innan fjölskyldna. „Það skapast auðvitað ólíkar aðstæður eftir því hvernig einstaklingurinn hagar sér undir áhrifum og eftir því á hvaða aldri viðkomandi er. En alltaf skapast þessi spenna innan fjölskyldunnar.“

Aðstandendur þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma setja sjálfan sig gjarnan í annað sæti að sögn Halldóru. „Fólk verður stöðugt upptekið af líðan og hegðun annarrar manneskju. Sama hver hún er. Svo fer fólk að reyna að stjórna líðan og hegðun einstaklingsins og þá fer fólk smátt og smátt að setja sjálfan sig til hliðar.“

Halldóra tekur fram að ráðgjafar SÁÁ geti ekki sagt fólki hvað sé nákvæmlega hægt að gera í þeim erfiðu aðstæðum sem hafa myndast. „Oft er fólk orðið svo þreytt og vill bara fá einhvern leiðarvísi en við eigum hann ekki til. Það sem hjálpar fólki þó mikið er að hitta annað fólk í sömu stöðu og ræða hlutina. En auðvitað getur verið rosalega sárt og vont að fá þetta svar; að það sé engin ein lausn til.“

„Fólk verður bara að meta hlutina hjá sjálfu sér og skoða hvar það treystir sér til að setja mörkin.“

Halldóra segir ómögulegt að segja að eitthvað sé rétt eða rangt í þeirri stöðu sem myndast þegar ástvinur er farinn að misnota áfengi eða fíkniefni. „Það er ekkert endilega eitthvað rétt eða rangt sem fólk getur gert því ástandið er svo einstaklingsbundið. Við segjum fólki t.d. ekki að henda börnunum sínum eða mökum út af heimilinu ef neyslan er farin úr böndunum hjá viðkomandi. Fólk verður bara að meta hlutina hjá sjálfu sér og skoða hvar það treystir sér til að setja mörkin.“

Hvað mörk varðar segir Halldóra oft vera vandasamt að finna jafnvægi. „Fólk vill vera góður við þann sem er í neyslu án þess að ýta undir hegðunina. Fólk vill hjálpa ástvinum sínum en kannski ekki gera of mikið fyrir hann. Í þessu samhengi erum við að tala um fólkið sem okkur þykir vænst um en það verður svo mikil skekkja í samskiptum þegar annar aðilinn er í neyslu og traustið er gjarnan farið.“

Skömm algeng tilfinning

Halldóra segir algengt að aðstandendur haldi að þeir geti með einhverjum aðferðum komið í veg fyrir að ástvinur þeirra misnoti áfengi eða lyf eða að neyslan sé þeim að kenna. „Algengt sé að foreldrar kenni sér um neyslu hjá unglingunum sínum og reyni að finna einhverja ástæðu fyrir að unglingurinn fór út í neyslu. Fólk reynir að skilja hvað það gerði vitlaust. Á sama tíma reyna sumir foreldrar að telja sér trú um að þetta sé kannski eðlilegt, að allir unglingar séu að gera þetta.“

Halldóra segir skömm líka vera algenga tilfinningu hjá aðstandendum. „Þegar fólk skammast sín er hætta á að það leiti sér ekki hjálpar eða stuðnings og fari frekar að fela ástandið. Skömmin veldur því svo oft að fólk leitar sér ekki hjálpar fyrr en allt er komið í þrot.“

Markmiðið er að fræða

Spurð út í hvert markmiðið með fjölskyldumeðferð SÁÁ sé segir Halldóra: „Markmið okkar er að fræða fólk um fíknisjúkdóma og meðvirkni og að hjálpa því að átta sig á að það er ekki því að kenna að fólkið þeirra er í neyslu. Að það fái þá vitneskju um að þetta er sjúklegt ástand sem myndast. Meðvirkni er ekki skilgreind sem sjúkdómur en það er sjúklegt ástand og aðstandandinn getur orðið veikur. Það geta meira að segja komið fram líkamleg einkenni eftir alla streituna. Markmiðið er að fólk fái fræðslu og upplýsingar og geti unnið sig út frá því. Það hjálpar yfirleitt mjög mikið.“

Halldóra segir samtal geta gert ótrúlega hluti. „Að tala við einhvern getur breytt mjög miklu. En það er ekki þar með sagt að allt sé orðið gott aftur og ástandið lagist. En það er vissulega gott að fá upplýsingar.“

Upplýsingar um fjölskyldumeðferð SÁÁ er að finna á vef samtakanna.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hefði

Óttar M. Norðfjörð

Síðast en ekki síst
eftir Óttar M. Norðfjörð

Ég sá ljósið í síðustu viku. Ég var að hlusta á Skúla Mogensen útskýra hvað fór úrskeiðis hjá WOW air og segja að hann hefði átt að hefja endurskipulagningu fyrirtækisins fyrr. „Ég trúi því að ef við hefðum fengið meiri tíma hefðum við klárað þetta.“

Hefði. Svo fallegt orð, tregafullt, svo ljóðrænt. Það tók mig 39 ár að átta mig á því, en ekkert annað orð í íslenskri tungu lýsir okkur Íslendingum jafn vel. Við erum upp til hópa dugleg og sífellt að reyna, en á lokasprettinum klúðrum við alltaf einhverju og þá grípum við til hefði. Hversu margir íslenskir stjórnmálamenn hafa komist hjá því að segja af sér með því að nota gamla, góða hefði? „Ég hefði átt að gúggla betur“ var raunverulegt svar íslenskrar stjórnmálakonu við eigin afglöpum. Þetta er hin fullkomna afsökun þegar maður gerir upp á bak. Hefði – sjálf þjóðarsálin í fimm stöfum. Aðrar þjóðir stunda auðvitað líka hefði, en Íslendingar eru bara svo miklu betri í því, búnir að fullkomna listina. Við erum í raun svo góð í hefði að við ættum að flytja það út. Við myndum græða milljónir.

Nú hef ég upplifað þrjár kreppur, misstórar, á sirka tíu ára fresti og alltaf er stutt í blessað hefðið. Um árþúsundamótin var það netbólan sem sprakk með tilheyrandi hefði. 2008 var það bankahrunið, en aldrei í sögu hefðisins hafa heyrst jafnmörg hefði og þá. Og nú, rúmum tíu árum síðar, er ferðamannahrunið í fullum gangi og Skúli reið á vaðið í hefðinu, en er alveg örugglega ekki sá síðasti. Það þarf engan snilling til að sjá mynstrið. Ég bíð allavega spenntur eftir því að hetja Íslands eftir sirka áratug stígi fram þegar óskabarnsfyrirtækið hennar fer á hausinn og segi okkur hinum hvað hún eða hann hefði átt að gera.

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu“

Eftirminnileg ummæli í vikunni.

„Það virkar ekki þannig, svo ég segi það við háttvirtan þingmann og allan þingheim, að hið opinbera dragi upp ný flugfélög úr skúffunni þegar eitt flugfélag fer á hausinn.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki gefa mikið fyrir þann tón í fyrirspurnum þingmanna á Alþingi á þá vegu að stjórnvöld hafi ekki verið búin að búa sig undir gjaldþrot WOW air.

„Ég kem sterkari út úr þessu.“
Kolbeinn Sigþórsson, eftir að hafa skrifa undir tveggja og hálfs árs samning við AIK í Svíþjóð, en samningi hans við franska liðið Nantes var rift í síðasta mánuði.

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu.“
Bára Halldórsdóttir um samsæriskenningar Miðflokksmanna.

„PLEASE! Ertu að djóka Sigmar? Farðu með þetta yfir á Facebook. Ertu ekki hvort sem er að fjalla um Sóleyju þar?“
Fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson blandar sér í deilur Sigmars Vilhjálmssonar og Sóleyjar Tómasdóttur á Twitter, sem hafa staðið yfir frá því að Sóley ýjaði að því að gjaldþrot WOW væri ofvöxnu egói Skúla Mogensen að kenna. Sigmar og Sóley hafa tekist hart á um innihald færslunnar og femínisma.

„Nú reynir á þá forystumenn í verkalýðshreyfingunni sem hafa bæði vit og ábyrgð að afstýra verkföllum og stórtjóni og semja. Allir tapa á verkföllum, það er löngu sannað. Það er alveg ótrúlegt að þetta sé að gerast á árinu 2019.“
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.

„Það er bjart fram undan hjá okkur.“
Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV, þvertekur fyrir að innanhússdeilur geisi á miðlinum eftir að aðalritstjórinn Kristjón Kormákur Guðjónsson sagði upp.

„Viljum við geta talað við þurrkarann okkar og brauðristina á íslensku eða ætlum við að gera það á ensku eða þýsku? Það er erfitt að rífast við brauðrist á þýsku því hún hefur ákveðna yfirburði.“
Bragi Valdimar Skúlason segir mikilvægt að við hugum vel að íslenskunni.

„Ég verð bara að halda mig á mottunni.“
Jón Steinar Gunnlaugsson hét því að raka af sér yfirvararskeggið ef meira en milljón safnaðist til styrktar Mottumars. Það tókst ekki og er mottan því á sínum stað.

„Hverjum dettur í hug að selja pizzu á 3.490 kr.! Það eru 25 evrur! Fyrir pizzu!“
Gunnari Smára Egilssyni blöskrar verðlagið á íslenskum Dominos-pitsum.

Raddir