Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
4.4 C
Reykjavik

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu“

Eftirminnileg ummæli í vikunni.

„Það virkar ekki þannig, svo ég segi það við háttvirtan þingmann og allan þingheim, að hið opinbera dragi upp ný flugfélög úr skúffunni þegar eitt flugfélag fer á hausinn.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki gefa mikið fyrir þann tón í fyrirspurnum þingmanna á Alþingi á þá vegu að stjórnvöld hafi ekki verið búin að búa sig undir gjaldþrot WOW air.

„Ég kem sterkari út úr þessu.“
Kolbeinn Sigþórsson, eftir að hafa skrifa undir tveggja og hálfs árs samning við AIK í Svíþjóð, en samningi hans við franska liðið Nantes var rift í síðasta mánuði.

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu.“
Bára Halldórsdóttir um samsæriskenningar Miðflokksmanna.

„PLEASE! Ertu að djóka Sigmar? Farðu með þetta yfir á Facebook. Ertu ekki hvort sem er að fjalla um Sóleyju þar?“
Fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson blandar sér í deilur Sigmars Vilhjálmssonar og Sóleyjar Tómasdóttur á Twitter, sem hafa staðið yfir frá því að Sóley ýjaði að því að gjaldþrot WOW væri ofvöxnu egói Skúla Mogensen að kenna. Sigmar og Sóley hafa tekist hart á um innihald færslunnar og femínisma.

„Nú reynir á þá forystumenn í verkalýðshreyfingunni sem hafa bæði vit og ábyrgð að afstýra verkföllum og stórtjóni og semja. Allir tapa á verkföllum, það er löngu sannað. Það er alveg ótrúlegt að þetta sé að gerast á árinu 2019.“
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.

„Það er bjart fram undan hjá okkur.“
Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV, þvertekur fyrir að innanhússdeilur geisi á miðlinum eftir að aðalritstjórinn Kristjón Kormákur Guðjónsson sagði upp.

„Viljum við geta talað við þurrkarann okkar og brauðristina á íslensku eða ætlum við að gera það á ensku eða þýsku? Það er erfitt að rífast við brauðrist á þýsku því hún hefur ákveðna yfirburði.“
Bragi Valdimar Skúlason segir mikilvægt að við hugum vel að íslenskunni.

„Ég verð bara að halda mig á mottunni.“
Jón Steinar Gunnlaugsson hét því að raka af sér yfirvararskeggið ef meira en milljón safnaðist til styrktar Mottumars. Það tókst ekki og er mottan því á sínum stað.

„Hverjum dettur í hug að selja pizzu á 3.490 kr.! Það eru 25 evrur! Fyrir pizzu!“
Gunnari Smára Egilssyni blöskrar verðlagið á íslenskum Dominos-pitsum.

Hvernig fara tölvuþrjótar að?

Óprúttnir aðilar beita sífellt flóknari og trúverðugri blekkingum til að svíkja fé út úr fyrirtækjum á Íslandi. Þeir verða sífellt þolinmóðari og verja miklum tíma í undirbúning.

Þeir reyna að komast yfir nöfn og netföng starfsfólks og brjótast jafnvel inn í tölvupóstkerfi, kortleggja pósthegðun, orðaval og setningaskipan sem eru dæmigerð fyrir þá starfsmenn sem þeir ætla að líkja eftir. Sérstaklega er leitað að tölvupóstum sem innihalda orð á borð við erlend millifærsla, swift, símgreiðsla, wire transfer, invoice, reikningur, deposit og þess háttar. Tímasetning slíkra pósta er greind nákvæmlega þ.e. hvaða daga þeir eru sendir, klukkan hvað, frá hverjum og til hverra.

Fleiri mál rata á borð lögreglu
Lögreglan á samstarf við erlend lögreglulið um tölvu- og nettengd brot á vettvangi Norðurlandanna, Evrópulögreglunnar (Europol) og Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI).

Ábendingar í gegnum Facebook-síðu lögreglu eru mjög gagnlegar þar sem lögregla fær án tafar upplýsingar um netglæpi í rauntíma. Að sama skapi nýtast samfélagsmiðlar lögreglu vel til að miðla upplýsingum, forvarnarfræðslu og viðvörunum um yfirstandandi netafbrot til almennings.

Gíslataka gagna er vel þekkt erlendis og dæmi eru um að Íslendingar og íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir slíkum árásum. „Business E-mail Compromise“ eru svik eins og lýst er hér fyrir ofan. Þar er oftast tilgreint í tölvupóstinum „sent from my iPhone”.

Með samvinnu lögreglu og fjármálaeftirlits (FME) hefur tekist að stöðva greiðslur sem hafa átt að fara á reikninga erlendis.

Kortanúmeraveiðar (e. Phishing) eru ein útbreiddasta tegund tölvu- og netglæpa sem berast lögreglu. Einstaklingar gefa upp kortaupplýsingar á vefsíðu í von um endurgreiðslu á þjónustu sem viðkomandi hefur verið tilkynnt í tölvupósti að hafi verið ofgreidd. Fjöldi Íslendinga hefur fallið í þá gildru síðustu ár. Dæmi er um tölvupóst af þessu tagi þar sem stofnað hefur verið falskt lén til að láta líta út fyrir að sendandi sé fyrirtæki eða lögaðili. Árásir af þessu tagi hafa valdið miklu tjóni.

Úr skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi frá 2017.

„Hælisleitendur eru bara fólk eins og við“

|
Agnes M. Sigurðardóttir biskup.

„Hælisleitendur eru bara fólk eins og við,“ segir Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, í viðtali við Mannlíf. Hún fór niður á Austurvöll til að sýna samstöðu með hælisleitendum sem mótmæltu þar um miðjan marsmánuð.

Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli um miðjan marsmánuð vöktu mikla athygli en þau voru líka umdeild. Til ryskinga kom á milli mótmælenda og lögreglu og á samfélagsmiðlum mátti greina talsverða vandlætingu á framferði hælisleitenda. En þeir voru líka margir sem tóku undir málstað þeirra, meðal annars um slæman aðbúnað þeirra og afskiptaleysi stjórnvalda. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, tilheyrir þeim hópi.

„Ég lít þannig á náungann að ég elska náungann,“ sagði Agnes í viðtali við Mannlíf á föstudaginn.

„Hælisleitendur eru bara fólk eins og við en flestir þeirra hafa upplifað miklu erfiðari lífsreynslu en við flest hér á Íslandi vegna þess að þau hafa þurft að flýja sitt land, flýja frá ófriði. Þau eru að sækjast eftir friði og þau eru að sækjast eftir mannréttindum. Þetta vil ég styðja.“

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala.“

Agnes bætir við að hluti þess fólks sem hafi verið á Austurvelli hafi nýtt sér þjónustu kirkjunnar.

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja. Maður verður að lifa í samræmi við boðun sína. Það er ég að reyna að gera, meðal annars með því að vera nærverandi í eigin skinni á Austurvelli til að sýna að mér er ekki sama um þau og hjálpa þeim að ná áheyrn. Af því að þau langar til að tala við þau sem hér ráða og búa til lögin fyrir okkur.“

Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni hérna: „Við eigum að vera í góða liðinu“

Segir Trump ekki tala í nafni Guðs

Víðs vegar um heiminn hafa risið upp stjórnmálamenn sem hafa komist til valda með því að ala á ótta gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Fremstur þar í flokki fer Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist hafa áhyggjur af þessari þróun.

„Óttinn er stjórntæki og Bandaríkjaforseti virðist nota hann sem slíkt. Að gera fólk óttaslegið og hrætt þannig að það þori ekki annað en að fara eftir því sem hann segir. Ótti, og reyndar fýla líka, eru að mínum dómi bestu stjórntæki veraldar,“ sagði Agnes í viðtali við Mannlíf sem kom út á föstudaginn.

„Þetta eru samt neikvæð stjórntæki, ekki jákvæð, og þau búa til verri heim og meiri vanlíðan hjá fólki. Auðvitað breiðist þetta út því þetta er svo öflugt stjórntæki. Þetta er stórhættulegt og leiðir bara til eins. Þetta leiðir bara til vanlíðunar, ófriðar, þetta leiðir til vanvirðingar við allt líf á jörðinni og þarna er Guð ekki með í verki. Það er ekki verið að hlusta á hvað Guð vill.“

Hún bætir við: „Fyrir mér er Guð kærleiksríkur guð sem elskar allar manneskjur eins og þær eru og sáir ekki neinum illvilja í brjóst nokkurs manns. En það eru önnur öfl í heiminum sem eru að því og við berjumst gegn þeim af öllu afli. Við eigum að vera í góða liðinu en ekki hinu vonda.“

Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni hérna: „Við eigum að vera í góða liðinu“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme á Íslandi

Seiðandi súkkulaði

|
Mynd / Karl Petersson|Mynd /Karl Petersson

Reglulega berast fréttir af hinum ýmsu rannsóknum sem benda til hollustu súkkulaðis og súkkulaðigrísir um allan heim gleðjast um leið og þeir teygja sig í eldhússkápinn og ná sér í einn bita með kaffinu. Það er löngu sannað að allt er gott í hófi og það á auðvitað við um súkkulaði eins og annað. Hér er uppskrift að afar girnilegri og gómsætri köku sem súkkulaðiunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Súkkulaðiterta með viskírjóma og marenstoppi

Súkkulaðibotn
smjör til að smyrja form
200 g súkkulaði
2 dl sykur
80 g smjör
salt á hnífsoddi
3 egg
1 dl möndluflögur

Smyrjið lausbotna form, u.þ.b. 24 cm, og sníðið smjörpappír í botninn. Setjið súkkulaði, sykur, smjör og salt í skál og bræðið vel saman yfir heitu vatnsbaði. Þeytið egg og möndluflögur saman í hrærivélarskál þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið eggjablöndunni smátt og smátt saman við súkkulaðibráðina með sleikju og hrærið varlega þar til blandan fer aðeins að stífna. Setjið deigið í formið og bakið við 175°C í 40-50 mín.
Smyrjið súkkulaðikreminu á kaldan súkkulaðibotninn og setjið viskírjómann ofan á kremið. Brjótið marensinn ofan á rjómann og skreytið gjarnan með því að dreypa örlitlu kaffisírópi yfir marensinn.

Súkkulaðiterta með viskírjóma og marenstoppi. Mynd /Karl Petersson

Súkkulaðimarens
3 eggjahvítur, geymið rauðurnar
½ tsk. lyftiduft
1 ½ dl sykur
¾ dl flórsykur
1 ½ msk. kakó

Hitið ofninn í 90°C. Þeytið eggjahvítur og bætið lyftidufti út í. Bætið sykri smátt og smátt saman við þegar eggjahvíturnar eru farnar að stífna og þeytið þar til blandan er stífþeytt. Sigtið flórsykur og kakó yfir blönduna og hrærið varlega saman við með sleikju. Teiknið hring af svipaðri stærð og súkkulaðibotninn og dreifið úr marensblöndunni innan hringsins, bakið í 1 klst. og 30 mín. Leyfið marensinum að kólna í ofninum. Þessi marens á að vera þurr að utan en svolítið blautur og klessulegur að innan.

Súkkulaðikrem
3 eggjarauður
5-6 msk. flórsykur
50 g smjör
100 g súkkulaði

Bræðið smjör og súkkulaði saman í skál yfir heitu vatnsbaði og látið síðan kólna aðeins. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í hrærivélarskál. Bætið súkkulaðibráðinni varlega saman við eggjarauðublönduna og hrærið vel.

Viskírjómi
250 ml rjómi
½-1 msk. sykur, má sleppa
1 msk. viskí

Setjið rjóma og sykur saman í skál og þeytið aðeins saman. Bætið viskíi út í og þeytið að fullu.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Sjálfstætt framhald af sýningu sem mistókst

|
Mynd / Sunna Axels|Ástrós og Alma

Vorblót Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival er í gangi þessa dagana. Þar munu sjálfstæðu listakonurnar Ástrós Guðjónsdóttir og Alma Mjöll Ólafsdóttir meðal annars stíga á svið með verkið I want to dance like you part 2.

„Vorblótið er spennandi vettvangur fyrir sviðslistamenn til að deila verkum sínum. Þetta er fjögurra daga sviðslistahátíð þar sem hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og gefur gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika íslensku sviðslistanna á einu bretti en vert er að geta þess að listamenn á Vorblóti þessa árs eru nær eingöngu konur,“ segja Ástrós og Alma.

Þær eru báðar útskrifaðar úr Listaháskóla Íslands, Alma af sviðshöfundabraut og Ástrós af samtímadansbraut. Þessa stundina er Alma blaðamaður hjá Stundinni auk þess að sinna fjölbreyttum listrænum verkefnum hér og þar á borð við útvarpsgerð og leikstjórn. Ástrós er danslistarkennari hjá Danlistarskóla JSB, meðlimur hjá Hatara ásamt því að vera nýbúin að setja upp Rent í Gamla Bíó.

„Við erum báðar hamingjusamari að þessu sinni en lífið samt stærra og flóknara. Allar þessar breytingar hafa haft áhrif á útkomu verksins.“

Verkið sem þær sýna er sjálfstætt framhald I want to dance like you, útskriftarverki Ástrósar. „Það verk var unnið út frá löngun okkar til að læra að dansa út frá forsendum hvor annarrar. Vinnsla verksins gekk vel framan af en endaði svo með ósköpum þegar perónulegt líf okkar tróð sér með offorsi inn í æfingaferlið með þeim afleiðingum að sýningin mistókst.Okkur mistókst svo rosalega að gera sýningu að hún tókst óvart, akkúrat af því að hún mistókst. Sýningin fjallaði á endanum um mistök. Nú, ári síðar, höfum við tekið höndum saman á ný. Margt hefur breyst á þessu ári, við erum báðar útskrifaðar með BA-gráðu í sviðslistum, Alma er orðin rannsóknarblaðamaður og Ástrós er á leiðinni í Eurovision. Við erum báðar hamingjusamari að þessu sinni en lífið samt stærra og flóknara. Allar þessar breytingar hafa haft áhrif á útkomu verksins I want to dance like you part 2,“ segja þær.

Verk Ástrósar og Ölmu, I want to dance like you part 2, verður sýnt þann 7. apríl klukkan 19 í Tjarnarbíói.

Listakonurnar Ástrós Guðjónsdóttir og Alma Mjöll Ólafsdóttir sýna nýtt verk á gömlum grunni á Vorblótinu.

Hataraævintýrið lærdómsrík áskorun
Ástrós og Alma hafa haft nóg að gera síðan þær útskrifuðust og segja að hvert verkefni hafi gefið þeim mikið og verið lærdómsríkt. „Við erum enn þá að finna út úr því hverskonar listamenn við erum eða viljum vera en það er kannski eitthvað sem maður ver ævinni í. Að vera sjálfstæður listamaður er ótrúlega lifandi og skemmtilegt en líka stórhættulegt. Maður þarf í sífellu að takast á við sjálfan sig og samfélagið.“

Eins og fram hefur komið er Ástrós í dansatriði Hatara fyrir Eurovision og okkur lék forvitni á að heyra aðeins um reynslu hennar af því. „Hataraævintýrið mikla er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir Ástrós. „Ég vissi ekkert hvað ég væri að koma mér út í þegar að ég var spurð hvort ég vildi taka þátt í Söngvakeppninni með Hatara. Ég sagði bara já og amen, mætti á fyrstu æfinguna með krökkunum og fann á mér að þetta yrði skemmtilegt samstarf. Nú, nokkrum mánuðum seinna, erum við á leið í Eurovision.

„Auðvitað er það líka mikil áskorun að keppa fyrir Íslands hönd í þessum tilteknu aðstæðum. Ég lendi endalaust í aðstæðum þar sem ég spyr mig spurninga og velti hlutum fyrir mér.“

Þetta ferli í heildina hefur verið mjög frábrugðið öllu öðru sem ég hef upplifað áður. Ég hef tekist á við nýjar áskoranir og lært nýja hluti, eins og að mæta í söngtíma til Heru Bjarkar eða reyna að setja þessar risastóru linsur í augun á mér. Auðvitað er það líka mikil áskorun að keppa fyrir Íslands hönd í þessum tilteknu aðstæðum. Ég lendi endalaust í aðstæðum þar sem ég spyr mig spurninga og velti hlutum fyrir mér. Eurovision hefur svo sannarlega opnað á margt sem ég hefði annars ekki tekist á við. Þetta eru allt nýjar áskoranir fyrir mér. Á sama tíma og þetta ferli hefur verið göfult tekur það mikla vinnu og orku. Ég er því fegin að hafa haft öðrum verkefnum að sinna samhliða Hatara til að dreifa huganum og þar hefur verkið hjá mér og Ölmu spilað stóran part.“

Úrslitakvöld Músíktilrauna 2019

Úrslitakvöldið fer fram í Hörpu annað kvöld, laugardaginn 6. apríl. Um tíu hljómsveitir keppa í úrslitunum og hljóta efstu þrjár glæsileg verðlaun.

Efnilegustu hljóðfæraleikararnir verða einnig valdir af dómnefnd en áhorfendur velja vinsælustu hljómsveitina með símakosningu. Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt af Rás 2 og árið 2016 hóf Ríkissjónvarpið að streyma úrslitakvöldinu í beinni útsendingu á www.ruv.is. Þess má geta að Músíktilraunirnar eiga sér yfir 30 ára sögu en fyrstu tilraunirnar fóru fram árið 1982. Á meðal hljómsveita sem hafa á borið sigur úr bítum undanfarin ár má nefna Of Monsters and Men, Samaris, Vök og Between Mountains. Hátíðin í í Hörpu í kvöld hefst klukkan 17.00. Aðgangseyrir er 2.000 krónur.

Mun hatrið sigra?

Á Vesturlöndum stigmagnast nú áhyggjur af uppgangi öfgahópa sem kynda undir hatursorðræðu og hvetja til ofbeldis einkum gegn minnihlutahópum. Bandaríska alríkislögreglan hefur lýst yfir áhyggjum af ástandinu. Evrópulögreglan líka. Og eftir voðaverknaðinn í Christchurch á Nýja-Sjálandi, þar sem öfgaþjóðernissinni myrti 50 múslima með köldu blóði og særði aðra 50, hafa stjórnvöld í Ástralíu í hyggju að setja á lög sem gera samfélagsmiðla ábyrga fyrir efni sem birtist frá öfgasamtökum á miðlum þeirra. Með setningu laganna vonast þau til að koma í veg fyrir að hægt sé að beita samfélagsmiðlum til að hvetja fólk til ódæðisverka.

Í ljósi þessa skýtur það skökku við að nú skuli liggja fyrir Alþingi Íslands frumvarp sem miðar að því að þrengja ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu. Breyting sem hefur þær afleiðingar að erfiðara verður að dæma menn fyrir hatursorðræðu í garð annarra nema slík tjáning þyki beinlínis „til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“. Sem m.ö.o. hefur þær afleiðingar að ekki verður lengur refsivert að lítillækka og níða minnihlutahópa á Íslandi.

Í því umróti og þeirri óvissu sem hefur umlukið Ísland og helstu atvinnugreinar þjóðarinnar síðustu vikur og mánuði má segja að þetta mál hafi ekki farið sérstaklega hátt í almennri umræðu, nánast fallið undir radarinn, ef svo má að orði komast. Ýmis mannréttindasamtök hafa þó sett sig upp á móti frumvarpinu og bent á hvernig breytingin á umræddum lögum muni verða til þess að vega að öryggi þeirra hópa sem ákvæði laganna er einmitt ætlað að vernda. Að með þessari breytingu sé í raun verið að gefa veiðileyfi á hópa sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu.

Þá klóra sér ýmsir í hausnum yfir því að frumvarp sem leyfir aukna haturstjáningu skuli dúkka upp í kjölfar þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft fjölda hatursglæpa til rannsóknar.

„Í ljósi þessa skýtur það skökku við að nú skuli liggja fyrir Alþingi Íslands frumvarp sem miðar að því að þrengja ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu.“

En furðulegast þykir þó sumum sú staðreynd að þetta frumvarp skuli koma úr ranni núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem segist ekki aðeins hafa mannréttindi í hávegum heldur tekur fram í eigin stjórnarsáttmála að hún ætli að setja Ísland í fararbrodd þegar kemur að réttindum ýmissa minnihlutahópa. Hvernig þrenging ákvæðis um hatursorðræðu kemur heim og saman við þetta markmið hennar er nefnilega ekki bara erfitt að sjá, það er með öllu óskiljanlegt. Enda gefur augaleið að mannréttindi og svigrúm til hatursorðræðu eiga enga samleið.

Það verður því áhugavert að sjá hvernig Allsherjar- og menntamálanefnd, sem hefur frumvarpið nú til skoðunar, bregst við. Hvort hún komi til með hallast að þeim tvískinnungshætti sem því miður virðist hafa loðað við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli, eða hafni frumvarpinu og sýni þar með að vilji íslenskra stjórnmálamanna til að virða mannréttindi er annað og meira en orðin tóm.

„Millifærðu 45 milljónir í hvelli“

|
|Guðný Hjaltadóttir

Tölvuþrjótar svíkja út tugi milljóna í stökum millifærslum.

Tölvuglæpir og nettengd afbrot af margvíslegu tagi hafa færst mjög í aukana undanfarin ár og verða tölvuþrjótar sífellt betri í því að blekkja fórnarlömb sín. Falsanir á greiðslufyrirmælum er ein tegund tölvuglæpa sem hefur valdið fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi tjóni. Dæmi eru um að starfsfólk fyrirtækja hafi verið blekkt til að millifæra tugi milljóna króna í þeirri trú að um viðskiptamann sé að ræða.

Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur Félags atvinnurekenda (FA), segir ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af þróuninni, en næstkomandi þriðjudag efnir félagið til morgunverðarfundar undir yfirskriftinni Hvernig geta fyrirtæki varist netglæpum?
„Það hafa komið inn á okkar borð dæmi um félagsmenn sem hafa lent í þessu og við þekkjum einnig mörg dæmi utan félagsins. Við viljum vekja athygli á þessari þróun áður en dæmunum fjölgar,“ segir Guðný í samtali við Mannlíf.

Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur Félags atvinnurekenda (FA).

Hún segist telja að fyrst og fremst sé um að ræða erlenda tölvuþrjóta en útilokar ekki samstarf við íslenska aðila og bendir á að tölvuþrjótarnir séu farnir að nota mun vandaðra málfar en áður hefur þekkst og því sé sífellt auðveldara að láta blekkjast. „Þeim tekst að taka yfir netföng og fara yfir tölvupóstsamskipti. Þannig ná þeir að kynna sér samskiptasögu aðila og orðfæri þess aðila sem á að líkja eftir.“

Spurð að því hvernig þessir glæpir lýsi sér í dag segir hún að algengast sé að sjá svokallaðar greiðslufyrirmælafalsanir. „Það koma tölvupóstar frá viðskiptamönnum fyrirtækja, t.d. erlendum birgjum, þar sem verið er að biðja um að fyrirtækið leggi inn á nýjan reikning og viðkomandi reikningar virðast tengdir við nafn raunverulega kröfuhafans.

Einnig eru dæmi um að gefinn sé út nýr reikningur sem lítur út eins og hefðbundinn reikningur en þar er búið að breyta greiðslufyrirmælum. Reikningurinn er þá greiddur til rangra aðila en eftir stendur hinn upphaflegi reikningur sem er ógreiddur,“ útskýrir Guðný og bætir við að önnur tegund þessara svika séu svokölluð stjórnendasvik (e. CEO Fraud).

„Það eru svik þar sem yfirmaður virðist senda beiðni á undirmann og biður hann um að millifæra sem snöggvast. Í báðum tilvikum er verið að senda þessa pósta úr raunverulegum netföngum yfirmanna. Þrjótunum tekst s.s. að taka yfir tölvupóstana, þannig að falspósturinn kemur beint frá yfirmanni, jafnvel í framhaldi af eldri samskiptum.

Í öðrum tilfellum er búið að gera einhverjar smávægilegar breytingar á netfangi, eins og t.d. að setja inn tölustafinn 1 í staðinn fyrir lítið l eða bæta við staf eða kommu. Þannig að þetta eru keimlík netföng og sá sem gengur í gildruna tekur ekki eftir muninum. Þá eru til svokallaðir spoof-tölvupóstar þar sem unnt er að láta tölvupósta líta út fyrir að koma úr öðru netfangi en þeir koma raunverulega. Greiðendur falla þá í þessa gryfju þar sem þeir telja sig vera í samskiptum við fólk sem þeir treysta.“

„Ég hef heyrt dæmi um allt frá 500 þúsundum og upp í 45 milljónir sem sviknar eru út úr fyrirtækjum í stökum færslum.“

Guðný segir að um mjög háar upphæðir sé að ræða. „Ég hef heyrt dæmi um allt frá 500 þúsundum og upp í 45 milljónir sem sviknar eru út úr fyrirtækjum í stökum færslum hér á Íslandi,“ segir hún og bætir við að þegar millifærsla hefur verið framkvæmd sé skaðinn skeður. Hún þekki ekki dæmi um fórnarlömb slíkra glæpa sem hafi endurheimt fjármuni sína. Oft á tíðum sé þetta tap fyrir greiðandann en í þeim tilvikum sem greiðandi hafi talið sig vera að greiða kröfu sem er enn til staðar eftir greiðsluna skipti m.a. máli hvernig netöryggismálum viðkomandi aðila var háttað og úr hvaða netfangi fyrirmælin bárust.

„Eitthvað er ekki eins og það á að vera“

Sveinn Andri Sveinsson er á lausu

Lögmenn eru sumir hverjir enn æfir vegna aðkomu Sveins Andra Sveinssonar að þrotabúi flugfélagsins WOW air. Heimildamaður Mannlífs, lögmaður til margra ára, furðar sig á því að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur en ekki héraðsdómari skuli hafa skipað Svein Andra skiptastjóra.

Ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dóm­stjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra Sveinssonar hefur valdið titringi innan lögmannastéttarinnar. Hver lögmaðurinn á fætur öðrum hefur komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt skipanina. Þung orð hafa fallið um ógagnsæi og spillingu innan Héraðsdóms Reykjavíkur. Heimildamaður Mannlífs segir óvenjulegt að dómstjóri skuli hafa úthlutað þrotabúinu. Reglan sé sú að héraðsdómari beri ábyrgð á málaflokknum, en sterk tengsl séu á milli hans og Sveins Andra.

Heimildamaður Mannlífs er lögmaður sem hefur langa reynslu af gjaldþrotamálum og hann bendir á að enginn virðist hafa spurt að því hvers vegna dómstjóri, Símon Sigvaldason, hafi undirritað úrskurðinn og úthlutað þrotabúinu. „Það er mjög sérstakt að dómsstjóri hafi skrifað undir gjaldþrotaúrskurð, það hefur held ég bara aldrei gerst áður. Venjulega reglan er sú að héraðsdómari sem ber ábyrgð á málaflokknum sem sér um þessi gjaldþrotamál eða aðstoðarmenn í umboði hans,“ segir lögmaðurinn sem kýs að láta ekki nafn síns getið.

„Það er auðvitað bara í gegnum vin hans. Þetta eru hans tengsl.“

Héraðsdómarinn sem ber ábyrgð á málaflokki gjaldþrotamála er Lárentsínus Kristjánsson, fyrrum hæstaréttarlögmaður en hann var skipaður í embættið árið 2015. Heimildamaður Mannlífs segir að sterk tengsl séu á milli hans og Sveins Andra. „Tengslin eru nokkuð vel kunn, í það minnsta mörgum lögmönnum og nokkrum dómurum. Þeir eru vinir til margra ára og voru samstarfsmenn í gegnum Lögfræðistofu Reykjavíkur og þekktust áður í gegnum SUS og háskólapólitík. Lárentsínus ræður þessum málaflokki og ber ábyrgð á honum, þannig að það skal engan undra að Sveinn Andri Sveinsson er farinn að fá mjög reglulega mál í gegnum þrotabú. Það er auðvitað bara í gegnum vin hans. Þetta eru hans tengsl.“

Farið eftir reglum

Mannlíf bar þetta undir þá Lárentínus Kristjánsson héraðsdómara og Símon Sigvaldasson dómstjóra og sendi sá síðarnefndi blaðamanni eftirfarandi skriflegt svar: „Löglærðir aðstoðarmenn dómara sjá um uppkvaðningar gjaldþrotaúrskurða í öllum málum hér hjá okkur. Það var einnig svo í þessu tilviki. Fyrirsvarsmenn Wow air snéru sér beint til mín á mánudagsmorgninum síðasta til að unnt yrði að koma málinu strax í réttan farveg til að úrskurður yrði kveðinn upp svo fljótt sem verða mætti. Gríðarlegir hagsmunir voru í húfi og mikilvægt að málið gengi greiðlega fyrir sig. Ég ákvað í framhaldinu hverjir yrðu skipaðir skiptastjórar og fór aðstoðarmaðurinn eftir því,“ segir m.a. í skriflegu svari Símonar, sem getur þess að þrotabúum sé úthlutað eftir lista sem liggi fyrir. Á honum séu lögmenn sem áhuga hafa á því að taka að sér skiptastjórn, bæði reynslumiklir lögmenn sem starfað hafa að skiptastjórn í mörg ár, sem og yngri og nýútskrifaða lögmenn, sem takmarkaða reynslu hafa af þessum störfum. Þrotabúum sé úthlutað í réttri röð eftir listanum. Þegar um allra stærstu búin er að ræða sé þeim úthlutað sérstaklega. Þar sé farið eftir viðmiðum, sem stuðst hefur verið við í mörg ár, um að lögmenn hafi víðtæka og farsæla reynslu af skiptum stórra og flókinna búa og hafi yfir að ráða starfsemi sem ræður við slíkt starf.

„Ég kem ekki að þessum málum nema þegar um allra stærstu búin er að ræða, og þau eru tiltölulega sjaldgæf. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem það gerist. Ekkert slíkt bú kom inn á árinu 2018, en ég kom til starfa sem dómstjóri í lok árs 2017,“ segir jafnframt í svari Símonar.

Vilja Svein Andra burt

Greint var frá því í nýjasta tölublaði Mannlífs að Arion banki hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, yrði settur af vegna vanhæfis, en bankinn er stór kröfuhafi í búið. Þetta staðfesti Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka í samtali við Mannlíf. Hann staðfesti einnig að þetta tengdist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

Fyrrnefndur Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir hins vegar að Sveinn Andri muni verða áfram skiptastjóri yfir búinu. Þetta kemur fram í dag í skriflegu svari Símonar við fyrirspurn fréttastofu RÚV um málið. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir svo Símon að krefjist bankinn formlega úrskurðar, sem ekki hafi komi til hingað til, verði erindið að sérstöku máli. Málið fari síðan í venjulegan farveg sem endi með úrskurði.

Skrítin skipan í ljósi fyrri embættisgjörða

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra reitt marga lögmenn til reiði. Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í Fréttablaðinu að skipan hans væri skrítin í ljósi þess að hann væri umdeildur vegna fyrri embættisgjörða sem skiptastjóri yfir öðrum stórum búum. Þar vísa þær til þess að fjögur félög kærðu hann nýlega, m.a. Mjólkursamsalan og Sláturfélag Suðurlands, vegna þrotabús EK1923.

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gengur lengra í færslu á Facebook og sakar Héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum eftir hentisemi. „Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki …,“ segir Þórður m.a. í færslunni. Símon Sigvaldason hefur hins vegar vísað ásökunum Þórðar á bug í samtali við Vísi og sór jafnframt af sér nokkur tengsl við Svein Andra sem gæfi honum tilefni til þess að hygla honum sérstaklega.

Mynd / Kristinn Magnússon

 

„Íslensk tónlist kemur mér alltaf í stuð“

Erla Bjarney Árnadóttir ráðgjafi segir að frá því hún muni eftir sér hafi tónlist spilað stórt hlutverk í lífi hennar. Oft sé hreinlega eins og tónlist stýri tilfinningaskalanum, þannig gefi hress lög henni orku á meðan rólegri lög veiti slökun. Helgarlisti Erlu tekur mið af þessu.

Föstudagur

„Við mæðginin fluttum til Windsor árið 2011 svo nú heyri ég sjaldnar íslensk lög í útvarpi. Þegar hugurinn leitar heim og þegar mig skortir orku finnst mér fátt betra en að leyfa íslenskum tónum að fljóta. Þá eru það lög eins og Hvar er draumurinn, Nína, Fjöllin hafa vakað, Gaggó Vest, Traustur vinur, Sigurjón digri, þjóðhátíðarlögin okkar og fleiri í þessum dúr sem koma með orkuna frá Íslandi. Íslensku lögin koma mér alltaf í gott föstudagsstuð.“

Laugardagur

„Á laugardegi er tilvalið að leyfa tónlist Bryan Adams hljóma. Frá því að ég heyrði plötuna hans Reclelss árið 1995 hef ég verið forfallin aðdáandi Bryan Adams og verð aldrei leið á honum. Þessi kanadíski tónlistarmaður verður bara betri og er ótrúlegur „performer“ á tónleikum. Summer of 69, Heaven og It´s only love eru sígild lög.“

Sunnudagur

„Mér finnst gott að eiga rólegan dag á sunnudegi. Tracy Chapman veitir fullkomna afslöppun á meðan maður fær sér morgunkaffi og fer yfir fréttirnar á Netinu. Fast Car, Talkin’ ’bout a Revolution og Baby can I hold you af plötunni Tracy Chapman eru kærkomin blanda á sunnudegi. Plata sem hljómaði oft á heima á Reyðarfirði. Eina sem vantar til að fullkomna mómentið eru kleinur frá Gurru frænku.“

 

Allt liðið fór á taugum

Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er sigurvegari vikunnar sem senn er á enda en Israel Martin, þjálfari Tindastóls í körfubolta, hefur átt betri vikur.

Góð vika
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Þeir eru blessunarlega fleiri kandídatarnir í þennan dálk þessa vikuna en þá síðustu sem einkenndist af gjaldþroti og hópuppsögnum. Forráðamenn Icelandair fengu loks meðvind þegar bandarískur fjárfestingarsjóður keypti hlut í félaginu fyrir 5,6 milljarða króna. Flugfélagið fékk sömuleiðis tvær breiðþotur á leigu og afgreiddi sænskan flugdólg afar snyrtilega.

En stóra málið er að sjálfsögðu kjarasamningarnir og þótt allir sem hlut áttu að máli eigi hrós skilið er niðurstaðan rós í hnappagat Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Það sýndi mikla stjórnvisku hvernig hún afgreiddi mál Sigríðar Andersen og henni hefur nú tekist að afstýra ófriði á vinnumarkaði á versta mögulega tíma.

Slæm vika
Israel Martin, þjálfari Tindastóls í körfubolta

Við sækjum í heim íþróttanna því körfuboltalið Tindastóls frá Sauðárkróki bauð upp á eitt ævintýralegasta klúður íslenskrar íþróttasögu þegar það var slegið út úr úrslitakeppni Dominos-deildarinnar af Þór frá Þorlákshöfn.

Eftir að hafa komist í 2:0 í seríunni fór liðið gjörsamlega á taugum. Næstu tveir leikir töpuðust en liðið virtist hafa rankað við sér í hreinum úrslitaleik á Króknum, náði mest 23 stiga forystu og því aðeins formsatriði að klára dæmið.

En allt liðið eins og það lagði sig fór á taugum og gerði röð mistaka á lokamínútum leiksins sem tapaðist með einu stigi. Við tökum að sjálfsögðu ekkert af mögnuðum Þórsurum en það var hreinlega pínlegt að horfa upp á Stólana bráðna.

Skálmöld í sínu náttúrulega umhverfi

Eftir taumlausa spilamennsku erlendis til að fylgja eftir nýjustu plötu sinni koma Skálmaldarliðar loksins heim og spila ferna tónleika, tvenna í Reykjavík og tvenna á Akureyri.

Síðan fimmta plata þeirra, Sorgir, kom út á haustmánuðum hafa þeir varla staldrað við en ætla að loka vetrartúrnum hér á landi. Hér munu ný lög hljóma í bland við eldri á alvöruþungarokkstónleikum, fjarri öllum sinfóníuhljómsveitum og stórum tónleikasölum, hér er Skálmöld í sínu náttúrulega umhverfi.

Áhugasömum skal bent á að fleiri Skálmaldartónleikar eru ekki á planinu hér á landi á árinu og eins verður ekki hægt að bæta við fleiri tónleikum í þessari atrennu.

Tónleikarnir á Hard Rock Café fara fram 5. og 6. apríl og hefjast klukkan 21.00. Hægt er að nálgast miða á Midi.is.

Kökuhlaðborðið aðalsmerki hlaupsins

|||
|||

Flóahlaupið verður haldið í fertugasta sinn um helgina en það er meðal annars þekkt fyrir kökuhlaðborðið sem boðið er upp á að hlaupi loknu.

Guðmunda Ólafsdóttir, formaður Umf. Þjótanda og skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga. Mynd / Gunnhildur Lind

Ungmennafélaið Þjótandi sér nú um utanumhaldið og við fengum formann þess, Guðmundu Ólafsdóttur, til að segja okkur aðeins frá þessum skemmtilega viðburði.

Hlaupið er frá félagsheimilinu Félagslundi og boðið upp á þrjár vegalengdir; þrjá kílómetra, fimm og tíu. Brautin er nær marflöt, styttri vegalengdirnar á malbiki en tíu kílómetra hlaupið að stærstum hluta á malarvegi.

„Hlaupararnir eru í miklu návígi við náttúruna og jafnvel búpeninginn á nærliggjandi bæjum. Eitt árið kom það meira að segja fyrir að hrossahópur slapp út úr girðingu við hlaupaleiðina og hlupu samferða hlaupurunum hluta af leiðinni, flestum til ánægju,“ segir Guðmunda, formaður Umf. Þjótanda og skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga.

„Hlaupið var fyrst haldið árið 1979 svo nú er 40 ára afmæli þess. Forvígismaður hlaupsins er Markús Ívarsson á Vorsabæjarhóli og í upphafi hófst hlaupið á hlaðinu í Vorsabæ, næsta bæ við Vorsabæjarhól, og hlaupinn var tíu kílómetra hringur sem kallast Vorsabæjarhringurinn. Keppendur voru tíu talsins og að hlaupi loknu bauð Markús þeim heim í kaffi að Vorsabæjarhól.

Forvígismaður hlaupsins, Markús Ívarsson á Vorsabæjarhóli, les upp nöfn vinningshafa í aldursflokkum.

Þegar fram liðu stundir og hlaupið varð vinsælla var upphafsstaður þess færður að Félagslundi til þess að hægt væri að koma öllum í kaffi. Frá byrjun hefur þó verið hlaupinn sami hringur. Markús er enn í dag aðalskipuleggjandi hlaupsins, enda þekkir það enginn eins vel og hann.“

Heimilislegt og „sveitó“

Kökuhlaðborðið er fyrir löngu orðið aðalsmerki hlaupsins og er að sögn Guðmundu upprunnið í klassískri íslenskri gestrisni.

„Því aðalsmerki viljum við halda á lofti. Kaffiveitingarnar gera það að verkum að Flóahlaupið er ekki bara íþróttaviðburður heldur einnig menningarviðburður fyrir þá sem mæta. Þarna fær hlaupafólk víðsvegar að tækifæri til að setjast niður og eiga notalega stund að hlaupi loknu og spjalla saman. Kökurnar sem boðið er upp á eru allar bakaðar af húsmæðrum úr hreppnum en flestum íbúum sveitarinnar þykir sjálfsagt mál að rétta ungmennafélaginu hjálparhönd þegar eftir því er kallað með því til dæmis að gefa félaginu eina köku. Venjan er svo að fá hóp ungmenna til að koma og smyrja brauðið og baka vöfflurnar. Það myndast alltaf ágætisstemning í eldhúsinu við þessa vinnu,“ segir Guðmunda og mikil ánægja hefur verið meðal keppenda með þennan viðburð.

Kökurnar sem boðið er upp á eru allar bakaðar af húsmæðrum úr hreppnum.

„Enda er andrúmsloftið afskaplega heimilislegt og „sveitó“, eins og sumir vilja orða það. Sumir hafa jafnvel komið og tekið þátt áratugum saman. Kökuhlaðborðið hefur, eins og ég sagði, verið frá upphafi og á svo sannarlega sinn þátt í vinsældum hlaupsins. Keppendur hafa flestir verið á annað hundrað en fjöldi þátttakenda fer mikið eftir veðri eins og oft vill verða. Hlaupið fer alltaf fram byrjun apríl svo það er allra veðra von.“

Heimilislegt og „sveitó“. Kökuhlaðborðið er fyrir löngu orðið aðalsmerki hlaupsins og er að sögn Guðmundu upprunnið í klassískri íslenskri gestrisni.

Guðmunda sjálf er með bakgrunn í frjálsum íþróttum og hefur reynt að halda sér við síðan. „Ég hef þó ekki gerst svo fræg að keppa í öðrum hlaupum en Kvennahlaupinu. Ég hef aldrei keppt í Flóahlaupinu sjálf, enda alltaf nóg að gera við framkvæmd hlaupsins. En ég er ákveðin í að taka þátt þegar ég verð hætt stjórnarsetu í Þjótanda og get farið að mæta sem óbreyttur borgari.“

Byggt á 100 ára gömlum rótum

Ungmennafélagið Þjótandi var stofnað haustið 2015 sem arftaki þriggja gamalgróinna ungmennafélaga sem störfuðu í Flóahreppi.

„Eftir að allir krakkar í Flóanum fóru að sækja nám í sama skóla, Flóaskóla, og sveitarfélögin þrjú í Flóanum voru sameinuð í Flóahrepp fundum við vaxandi þörf á því að allir krakkar í hreppnum væru í sama ungmennafélagi. Því varð raunin að leggja niður þrjú félög, Umf. Baldur, Umf. Samhygð og Umf. Vöku, og stofna Umf. Þjótanda. Umf. Þjótandi er því ungt félag byggt á rúmlega 100 ára gömlum rótum.

Starfssvæðið er sem sagt Flóahreppur í Árnessýslu. Helsta starfsemi félagsins er að halda úti íþróttaæfingum fyrir krakkana í sveitinni auk þess að skipuleggja hverskyns félagsstarf; halda þrettándagleði fyrir sveitungana, fara í skemmtiferðir til Reykjavíkur, halda íþróttamót, aðstoða jólasveinana við að komast á milli staða, halda dansnámskeið og fleira. Þetta þarf svo allt að fjármagna og er það gert með ýmsum fjáröflunum eins og skötuveislu, haustballi, páskabingói og svo Flóahlaupinu.“

Í þriggja kílómetra hlaupinu eru veitt verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í flokki pilta og stúlkna 14 ára og yngri, og eins í fimm kílómetra hlaupinu nema þar er aldursflokkurinn opinn. Í tíu kílómetra hlaupinu eru veitt aldursflokkaverðlaun fyrir þrjá fyrstu í hverjum flokki hjá bæði körlum og konum. Að auki fá allir verðlaun fyrir þátttöku.

Hægt er að skrá sig í hlaupið á hlaup.is eða með því að mæta tímanlega á svæðið á keppnisdag. Hlaupið hefst klukkan 13 þann 6. apríl 2019.

Þarf mikið til að koma skiptastjóra frá

|
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður. Mynd/ Rakel Ósk Sigurðardóttir

Sveinn Andri Sveinsson ekkert á förum segir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir að Sveinn Andri Sveinsson komi til með að verða áfram skiptastjóri flugfélagsins WOW air.

Greint var frá því í nýjasta tölublaði Mannlífs að Arion banki hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, yrði settur af vegna vanhæfis, en bankinn er stór kröfuhafi í búið. Þetta staðfesti Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka í samtali við Mannlíf. Hann staðfesti einnig að þetta tengdist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sem skipaði Svein Andra í stöðu skiptastjóra þrotabús WOW air segir hins vegar að Sveinn Andri muni verða áfram skiptastjóri yfir búinu. Þetta kemur fram í dag í skriflegu svari Símonar við fyrirspurn fréttastofu RÚV um málið. Símon segir að krafa Arion banka hafi verið tekin fyrir á aðfinnslufundi í gær þar sem „reynt var að miðla málum.“ Það hafi ekki gengið eftir og hafi fundinum þannig að Sveinn Andri verði áfram skiptastjóri. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir svo Símon að krefjist bankinn formlega úrskurðar, sem ekki hafi komi til hingað til, verði erindið að sérstöku máli. Málið fari síðan í venjulegan farveg sem endi með úrskurði.

Eins og greint var frá í Mannlíf í morgun var talið að það gæti orðið snúið fyrir Arion Banka að fá Svein Andri settan af sem skiptastjóri þrotabús WOW air. Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, sagði í samtali við Mannlíf að mikið þyrfti til að skiptastjóri þrotabús væri settur af eftir að hafa verið skipaður.

„Það þarf mikið til. Það eru ákvæði í lögum um gjaldþrotaskipti sem segja að viðkomandi þurfi að brjóta af sér í starfi eða vera með stórkostlega slælega framgöngu. Undanfari er yfirleitt á þá leið að sett hafi verið fram aðfinnsla við héraðsdóm á störfum viðkomandi og að Héraðsdómur hafi fallist á réttmæti aðfinnslanna. Ef Héraðsdómur telur að þessar aðfinnslur séu nægilega miklar getur dómari sett viðkomandi af. Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi,“ sagði Arnar.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka hefur sem minnst viljað tjá sig um málið.

„Málið er bara í farvegi og við ætlum ekki að reka það í fjölmiðlum,“ sagði Haraldur við Mannlíf, en hann hefur nú bætt við að bankinn muni fara fram á úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um stöðu Sveins Andra.

Enn sem komið er hefur Sveinn Andri ekki tjáð sig opinberlega um málið.

 

Færeyingar stíga varlega til jarðar á meðan Íslendingar eru djarfari

Færeyski raftónlistarmaðurinn Janus Rasmussen var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu, Vín. Platan inniheldur fallega og melódíska raftónlist en er með broddi.

„Platan var í vinnslu í eitt og hálft ár á milli þess sem ég var að spila úti með Kiasmos og að plötusnúðast. Það var ofboðslega krefjandi ferli,“ segir Janus og bætir við að hann hafi fengið mikinn stuðning frá æskuvini sínum tónlistarmanninum Sakaris sem býr einnig á Ísland. Janus segir að vinirnir hafi byrjað að grúska í tónlist þegar þeir voru krakkar en faðir Sakaris hafi átt upptökuver.

„Við fengum að prófa okkur áfram og leika okkur með hljóðfæri og græjur sem smástrákar. Þannig byrjaði það og var ekki aftur snúið. Við stofnuðum síðan hverja hljómsveitina á fætur annarri og erum báðir starfandi tónlistarmenn í dag.“

Janus kemur frá Þórshöfn í Færeyjum en flutti til Íslands árið 2004 með færeyskri hljómsveit sem hét Speaker. Hljómsveitin ferðaðist um allt land og spilaði meðal annars á listahátíðinni Lunga þar sem Janus kynntist meðlimum Bloodgroup og gekk í kjölfarið til liðs við sveitina. „Þá var ég með annan fótinn á Íslandi og hinn í Færeyjum í nokkur ár þar til ég flutti endanlega til Íslands árið 2008 og hef búið hér síðan,“ segir hann.

Var næstum því hent af Hróarskeldu

Janus segir að margt skemmtilegt hafi komið upp á ferlinum og nefnir atvik með umræddri hljómsveit Bloodgroup þegar hún kom fram á Hróarskeldu fyrir nokkrum árum. „Ég man að umgjörðin var öll mjög alvarleg og Hallur, forsprakki Bloodgroup, þurfti að skrifa undir allskonar skilmála áður en við fengum að spila,“ rifjar hann upp.

Okkur var næstum því hent af hátíðinni en ég baðst fallega afsökunar og við fengum að vera áfram.

„Einn af skilmálunum var sá að við máttum ekki stökkva inn í þvöguna af sviðinu. En einhvern veginn fór það alveg fram hjá mér að það væri bannað. Tónleikarnir gengu eins og í sögu, við öll í stuði og ég tók upp á því í hita leiksins að stökkva fram af og „crowdsurfa.“ Restin af hljómsveitinni horfir síðan á mig fljóta um í áhorfendaskaranum og var í hálfgerðu sjokki. Skipuleggjendur Hróarskeldu brjáluðust. Okkur var næstum því hent af hátíðinni en ég baðst fallega afsökunar og við fengum að vera áfram.“

Auðveldara að vera tónlistarmaður á Íslandi

Þrátt fyrir að hafa komið að mörgum tónlistarverkefnum á Íslandi segist Janus þó ekki hafa gleymt því hversu mikið er af hæfileikaríku tónlistarfólki í Færeyjum. Þannig hafi hann og færeyska tónlistarkonan Guðrið Hansdóttir, úr popp-hljómsveitinni Byrta, unnið að einu tónlistarverkefni saman og það hafi verið með því skemmtilegasta sem hann hafi gert hingað til. „Að fá að vinna aftur á færeysku eftir að hafa búið á Íslandi svona lengi var frábært. Gaman að búa til færeyskt popp fyrir færeyskan markað.“

Færeyski tónlistarmaðurinn Janus Rasmussen hefur búið á íslandi í 15 ár og unnið að ýmsum tónlistarverkefnum með þekktum nöfnum bæði hér heima og erlendis.

Að sögn Janusar er listasenan í Færeyjum í sífeldum blóma. Þar sé margt virkilega hæfileikaríkt og flott tónlistarfólk. Hins vegar sé töluvert erfiðara að starfa eingöngu sem tónlistarmaður í Færeyjum en á Íslandi. Það sé ein ástæða þess að sumt færeyskt tónlistarfólk sest að á Íslandi, líkt og hann sjálfur.

„Þar er mun smærri markaður og erfitt að takmarka sig við eina ákveðna tónlistarstefnu,“ útskýrir hann og bætir við að þjóðirnar tvær séu að mörgu leyti svipaðar en Færeyingar stígi þó örlítið varlega til jarðar á meðan Íslendingar séu djarfari. „Hér er síðan líka stútfullt af skapandi fólki. Ísland er nógu stórt til þess að rýma allt þetta hæfileikaríka fólk en nógu lítið til þess að auðvelt sé að sækja í það fólk sem maður vill vinna með.“

Þess má geta að fram undan hjá Janusi er tónleikaferðalag með Christian Löffler.

Þráinn Árni treður upp í Hljóðfærahúsinu

|||
|||

Gítarsnillingurinn Þráinn Árni Baldvinsson úr Skálmöld kemur fram í horni Hljóðfærahússins í dag.

Þráinn þykir einn af færari gítarleikurum landsins, hefur spilað og túrað með Skálmöld heiminn þveran og endilangan, spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tvígang og hlotið margvísleg verðlaun.

Á daginn vinnur Þráinn fyrir sér sem gítarkennari en á kvöldin borðar hann súrmat upp úr tunnu. Í kvöld gefst gestum og viðskiptavinum Hljóðfærahússins færi á að hlýða á hann spila og eins spyrja hann um spilamennskuna, tækin og hljóðfærin – allt sem þeim dettur í hug.

Ókeypis verður inn og allt sýnt í beinni útsendingu á Facebook! Herlegheitin byrja stundvíslega klukkan 17.

Klassískar kvikmyndir fyrir alla fjölskylduna

||
||

Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð stendur nú yfir í Bíó Paradís. Að sögn Arons Víglundssonar dagskrárstjóra kennir ýmissa grasa á hátíðinni en í forgrunni verða sígildar perlur sem öll fjölskyldan getur haft gaman af.

 

Aron Víglundsson.

„Það má segja að nostalgía einkenni hátíðina í ár, bæði hvað varðar innlendar og erlendar myndir, þar sem við ætlum að sýna myndir sem eru fyrir löngu orðnar sígildar. Foreldrar geta því farið með börnunum sínum í bíó og endurupplifað myndir sem þeir höfðu gaman af í æsku. Það verður eitthvað fyrir alla,“ segir Aron, en í bíóinu verður fjölbreytt úrval kvikmynda í fullri lengd ásamt vel völdum stutt- og heimildamyndum.

Þetta er í sjötta sinn sem Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð er haldin en hún var opnuð í gærkvöldi með sýningu á hinni sígildu Benjamín dúfu frá árinu 1995.

„Helstu aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir, leikarar og höfundurinn Friðrik Erlingsson en þeir hafa ekki komið saman í nokkra áratugi. Auk þess hefur myndin sjálf ekki sést sést í bíó í tugi ára en þetta er endurbætt stafræn útgáfa sem hefur lengi verið í burðarliðnum og því má kannski segja að þetta sé seinni frumsýning myndarinnar á Íslandi,“ segir Aron kíminn.

Alls kyns skemmtilegir viðburðir

Fjöldi annarra áhugaverðra mynda verður til sýnis eins og áður sagði. Glæný stafræna útgáfa af Ronju ræningjadóttur með íslensku tali, The NeverEnding Story, Ghostbusters og Dark Crystal úr smiðju Jims Henson, skapara Prúðuleikaranna. Auk þess sem boðið verður upp á alls konar viðburði tengda myndunum.

„Til dæmis verður námskeið í slímgerð fyrir sýninguna á Ghostbusters núna á sunnudag, af því að í myndinni kemur slím talsvert við sögu. Borgarleikhúsið verður með leiklistarspjall í tilefni af sýningu á myndinni Matthildi en leikrit byggt á sama verki er sýnt í leikhúsinu. Og svo verður skrautskriftarnámskeið í tengslum við sýningar á japönskum fjölskyldumyndum. Sem sagt alls konar skemmtilegheit,“ segir Aron.

Til dæmis verður námskeið í slímgerð fyrir sýninguna á Ghostbusters núna á sunnudag

Hann bætir við að mikið sé lagt upp úr því að hafa dagskránna á hátíðinni sem veglegasta enda sé mikilvægt að glæða áhuga barna á kvikmyndum og menningu.

„Já, það skiptir ótrúlegu máli að auka framboðið af góðum myndum fyrir börn og færa þeim bæði fjölbreytt og áhugavert efni víðsvegar að úr heiminum. Þessi hátíð er frábært tækifæri til þess og fyrir kynslóðirnar til að koma saman og eiga góða stund,“ segir hann og getur þess að aðeins 1.000 krónur kosti inn á hátíðin sem stendur yfir til 14. apríl.

Brönshlaðborð er nýjung á Bryggjunni brugghúsi

Bryggjan brugghús er að byrja með brönshlaðborð um helgar. Til að halda upp á þessa nýjung verður boðið upp á sannkallaða fjölskylduskemmtun um helgina.

JóiPjé og Króli mæta eldhressir og taka nokkur lög, Lalli töframaður verður með sýningu og blaðrarinn sér til þess að allir krakkar fari kátir heim blöðrudýr.

Brönsinn byrjar klukkan 11:30 en skemmtidagskráin hefst um klukkan 13:00.

Bröns fyrir einn kostar 3.690 krónur en með hverjum keyptum „fullorðinsbröns“ fá börn undir tíu ára frítt að borða. Börn yngri en 12 ára fá 50% afslátt með hverjum keyptum bröns. Djúsar og kaffi er innifalið í verðinu.

Borðapantanir í síma 456-4040 & [email protected].

 

Aftur forsætisráðherra

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu“

Eftirminnileg ummæli í vikunni.

„Það virkar ekki þannig, svo ég segi það við háttvirtan þingmann og allan þingheim, að hið opinbera dragi upp ný flugfélög úr skúffunni þegar eitt flugfélag fer á hausinn.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki gefa mikið fyrir þann tón í fyrirspurnum þingmanna á Alþingi á þá vegu að stjórnvöld hafi ekki verið búin að búa sig undir gjaldþrot WOW air.

„Ég kem sterkari út úr þessu.“
Kolbeinn Sigþórsson, eftir að hafa skrifa undir tveggja og hálfs árs samning við AIK í Svíþjóð, en samningi hans við franska liðið Nantes var rift í síðasta mánuði.

„Ég er bara orðin þreytt á þessari vitleysu.“
Bára Halldórsdóttir um samsæriskenningar Miðflokksmanna.

„PLEASE! Ertu að djóka Sigmar? Farðu með þetta yfir á Facebook. Ertu ekki hvort sem er að fjalla um Sóleyju þar?“
Fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson blandar sér í deilur Sigmars Vilhjálmssonar og Sóleyjar Tómasdóttur á Twitter, sem hafa staðið yfir frá því að Sóley ýjaði að því að gjaldþrot WOW væri ofvöxnu egói Skúla Mogensen að kenna. Sigmar og Sóley hafa tekist hart á um innihald færslunnar og femínisma.

„Nú reynir á þá forystumenn í verkalýðshreyfingunni sem hafa bæði vit og ábyrgð að afstýra verkföllum og stórtjóni og semja. Allir tapa á verkföllum, það er löngu sannað. Það er alveg ótrúlegt að þetta sé að gerast á árinu 2019.“
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar.

„Það er bjart fram undan hjá okkur.“
Karl Garðarsson, framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar, útgáfufélags DV, þvertekur fyrir að innanhússdeilur geisi á miðlinum eftir að aðalritstjórinn Kristjón Kormákur Guðjónsson sagði upp.

„Viljum við geta talað við þurrkarann okkar og brauðristina á íslensku eða ætlum við að gera það á ensku eða þýsku? Það er erfitt að rífast við brauðrist á þýsku því hún hefur ákveðna yfirburði.“
Bragi Valdimar Skúlason segir mikilvægt að við hugum vel að íslenskunni.

„Ég verð bara að halda mig á mottunni.“
Jón Steinar Gunnlaugsson hét því að raka af sér yfirvararskeggið ef meira en milljón safnaðist til styrktar Mottumars. Það tókst ekki og er mottan því á sínum stað.

„Hverjum dettur í hug að selja pizzu á 3.490 kr.! Það eru 25 evrur! Fyrir pizzu!“
Gunnari Smára Egilssyni blöskrar verðlagið á íslenskum Dominos-pitsum.

Hvernig fara tölvuþrjótar að?

Óprúttnir aðilar beita sífellt flóknari og trúverðugri blekkingum til að svíkja fé út úr fyrirtækjum á Íslandi. Þeir verða sífellt þolinmóðari og verja miklum tíma í undirbúning.

Þeir reyna að komast yfir nöfn og netföng starfsfólks og brjótast jafnvel inn í tölvupóstkerfi, kortleggja pósthegðun, orðaval og setningaskipan sem eru dæmigerð fyrir þá starfsmenn sem þeir ætla að líkja eftir. Sérstaklega er leitað að tölvupóstum sem innihalda orð á borð við erlend millifærsla, swift, símgreiðsla, wire transfer, invoice, reikningur, deposit og þess háttar. Tímasetning slíkra pósta er greind nákvæmlega þ.e. hvaða daga þeir eru sendir, klukkan hvað, frá hverjum og til hverra.

Fleiri mál rata á borð lögreglu
Lögreglan á samstarf við erlend lögreglulið um tölvu- og nettengd brot á vettvangi Norðurlandanna, Evrópulögreglunnar (Europol) og Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI).

Ábendingar í gegnum Facebook-síðu lögreglu eru mjög gagnlegar þar sem lögregla fær án tafar upplýsingar um netglæpi í rauntíma. Að sama skapi nýtast samfélagsmiðlar lögreglu vel til að miðla upplýsingum, forvarnarfræðslu og viðvörunum um yfirstandandi netafbrot til almennings.

Gíslataka gagna er vel þekkt erlendis og dæmi eru um að Íslendingar og íslensk fyrirtæki hafi orðið fyrir slíkum árásum. „Business E-mail Compromise“ eru svik eins og lýst er hér fyrir ofan. Þar er oftast tilgreint í tölvupóstinum „sent from my iPhone”.

Með samvinnu lögreglu og fjármálaeftirlits (FME) hefur tekist að stöðva greiðslur sem hafa átt að fara á reikninga erlendis.

Kortanúmeraveiðar (e. Phishing) eru ein útbreiddasta tegund tölvu- og netglæpa sem berast lögreglu. Einstaklingar gefa upp kortaupplýsingar á vefsíðu í von um endurgreiðslu á þjónustu sem viðkomandi hefur verið tilkynnt í tölvupósti að hafi verið ofgreidd. Fjöldi Íslendinga hefur fallið í þá gildru síðustu ár. Dæmi er um tölvupóst af þessu tagi þar sem stofnað hefur verið falskt lén til að láta líta út fyrir að sendandi sé fyrirtæki eða lögaðili. Árásir af þessu tagi hafa valdið miklu tjóni.

Úr skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi frá 2017.

„Hælisleitendur eru bara fólk eins og við“

|
Agnes M. Sigurðardóttir biskup.

„Hælisleitendur eru bara fólk eins og við,“ segir Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, í viðtali við Mannlíf. Hún fór niður á Austurvöll til að sýna samstöðu með hælisleitendum sem mótmæltu þar um miðjan marsmánuð.

Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli um miðjan marsmánuð vöktu mikla athygli en þau voru líka umdeild. Til ryskinga kom á milli mótmælenda og lögreglu og á samfélagsmiðlum mátti greina talsverða vandlætingu á framferði hælisleitenda. En þeir voru líka margir sem tóku undir málstað þeirra, meðal annars um slæman aðbúnað þeirra og afskiptaleysi stjórnvalda. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, tilheyrir þeim hópi.

„Ég lít þannig á náungann að ég elska náungann,“ sagði Agnes í viðtali við Mannlíf á föstudaginn.

„Hælisleitendur eru bara fólk eins og við en flestir þeirra hafa upplifað miklu erfiðari lífsreynslu en við flest hér á Íslandi vegna þess að þau hafa þurft að flýja sitt land, flýja frá ófriði. Þau eru að sækjast eftir friði og þau eru að sækjast eftir mannréttindum. Þetta vil ég styðja.“

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala.“

Agnes bætir við að hluti þess fólks sem hafi verið á Austurvelli hafi nýtt sér þjónustu kirkjunnar.

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja. Maður verður að lifa í samræmi við boðun sína. Það er ég að reyna að gera, meðal annars með því að vera nærverandi í eigin skinni á Austurvelli til að sýna að mér er ekki sama um þau og hjálpa þeim að ná áheyrn. Af því að þau langar til að tala við þau sem hér ráða og búa til lögin fyrir okkur.“

Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni hérna: „Við eigum að vera í góða liðinu“

Segir Trump ekki tala í nafni Guðs

Víðs vegar um heiminn hafa risið upp stjórnmálamenn sem hafa komist til valda með því að ala á ótta gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Fremstur þar í flokki fer Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist hafa áhyggjur af þessari þróun.

„Óttinn er stjórntæki og Bandaríkjaforseti virðist nota hann sem slíkt. Að gera fólk óttaslegið og hrætt þannig að það þori ekki annað en að fara eftir því sem hann segir. Ótti, og reyndar fýla líka, eru að mínum dómi bestu stjórntæki veraldar,“ sagði Agnes í viðtali við Mannlíf sem kom út á föstudaginn.

„Þetta eru samt neikvæð stjórntæki, ekki jákvæð, og þau búa til verri heim og meiri vanlíðan hjá fólki. Auðvitað breiðist þetta út því þetta er svo öflugt stjórntæki. Þetta er stórhættulegt og leiðir bara til eins. Þetta leiðir bara til vanlíðunar, ófriðar, þetta leiðir til vanvirðingar við allt líf á jörðinni og þarna er Guð ekki með í verki. Það er ekki verið að hlusta á hvað Guð vill.“

Hún bætir við: „Fyrir mér er Guð kærleiksríkur guð sem elskar allar manneskjur eins og þær eru og sáir ekki neinum illvilja í brjóst nokkurs manns. En það eru önnur öfl í heiminum sem eru að því og við berjumst gegn þeim af öllu afli. Við eigum að vera í góða liðinu en ekki hinu vonda.“

Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni hérna: „Við eigum að vera í góða liðinu“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme á Íslandi

Seiðandi súkkulaði

|
Mynd / Karl Petersson|Mynd /Karl Petersson

Reglulega berast fréttir af hinum ýmsu rannsóknum sem benda til hollustu súkkulaðis og súkkulaðigrísir um allan heim gleðjast um leið og þeir teygja sig í eldhússkápinn og ná sér í einn bita með kaffinu. Það er löngu sannað að allt er gott í hófi og það á auðvitað við um súkkulaði eins og annað. Hér er uppskrift að afar girnilegri og gómsætri köku sem súkkulaðiunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Súkkulaðiterta með viskírjóma og marenstoppi

Súkkulaðibotn
smjör til að smyrja form
200 g súkkulaði
2 dl sykur
80 g smjör
salt á hnífsoddi
3 egg
1 dl möndluflögur

Smyrjið lausbotna form, u.þ.b. 24 cm, og sníðið smjörpappír í botninn. Setjið súkkulaði, sykur, smjör og salt í skál og bræðið vel saman yfir heitu vatnsbaði. Þeytið egg og möndluflögur saman í hrærivélarskál þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið eggjablöndunni smátt og smátt saman við súkkulaðibráðina með sleikju og hrærið varlega þar til blandan fer aðeins að stífna. Setjið deigið í formið og bakið við 175°C í 40-50 mín.
Smyrjið súkkulaðikreminu á kaldan súkkulaðibotninn og setjið viskírjómann ofan á kremið. Brjótið marensinn ofan á rjómann og skreytið gjarnan með því að dreypa örlitlu kaffisírópi yfir marensinn.

Súkkulaðiterta með viskírjóma og marenstoppi. Mynd /Karl Petersson

Súkkulaðimarens
3 eggjahvítur, geymið rauðurnar
½ tsk. lyftiduft
1 ½ dl sykur
¾ dl flórsykur
1 ½ msk. kakó

Hitið ofninn í 90°C. Þeytið eggjahvítur og bætið lyftidufti út í. Bætið sykri smátt og smátt saman við þegar eggjahvíturnar eru farnar að stífna og þeytið þar til blandan er stífþeytt. Sigtið flórsykur og kakó yfir blönduna og hrærið varlega saman við með sleikju. Teiknið hring af svipaðri stærð og súkkulaðibotninn og dreifið úr marensblöndunni innan hringsins, bakið í 1 klst. og 30 mín. Leyfið marensinum að kólna í ofninum. Þessi marens á að vera þurr að utan en svolítið blautur og klessulegur að innan.

Súkkulaðikrem
3 eggjarauður
5-6 msk. flórsykur
50 g smjör
100 g súkkulaði

Bræðið smjör og súkkulaði saman í skál yfir heitu vatnsbaði og látið síðan kólna aðeins. Þeytið eggjarauður og flórsykur saman í hrærivélarskál. Bætið súkkulaðibráðinni varlega saman við eggjarauðublönduna og hrærið vel.

Viskírjómi
250 ml rjómi
½-1 msk. sykur, má sleppa
1 msk. viskí

Setjið rjóma og sykur saman í skál og þeytið aðeins saman. Bætið viskíi út í og þeytið að fullu.

Texti / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Karl Petersson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Sjálfstætt framhald af sýningu sem mistókst

|
Mynd / Sunna Axels|Ástrós og Alma

Vorblót Tjarnarbíós og Reykjavík Dance Festival er í gangi þessa dagana. Þar munu sjálfstæðu listakonurnar Ástrós Guðjónsdóttir og Alma Mjöll Ólafsdóttir meðal annars stíga á svið með verkið I want to dance like you part 2.

„Vorblótið er spennandi vettvangur fyrir sviðslistamenn til að deila verkum sínum. Þetta er fjögurra daga sviðslistahátíð þar sem hátíðin kannar mörkin milli dans, leiklistar og tónlistar og gefur gestum tækifæri til að upplifa fjölbreytileika íslensku sviðslistanna á einu bretti en vert er að geta þess að listamenn á Vorblóti þessa árs eru nær eingöngu konur,“ segja Ástrós og Alma.

Þær eru báðar útskrifaðar úr Listaháskóla Íslands, Alma af sviðshöfundabraut og Ástrós af samtímadansbraut. Þessa stundina er Alma blaðamaður hjá Stundinni auk þess að sinna fjölbreyttum listrænum verkefnum hér og þar á borð við útvarpsgerð og leikstjórn. Ástrós er danslistarkennari hjá Danlistarskóla JSB, meðlimur hjá Hatara ásamt því að vera nýbúin að setja upp Rent í Gamla Bíó.

„Við erum báðar hamingjusamari að þessu sinni en lífið samt stærra og flóknara. Allar þessar breytingar hafa haft áhrif á útkomu verksins.“

Verkið sem þær sýna er sjálfstætt framhald I want to dance like you, útskriftarverki Ástrósar. „Það verk var unnið út frá löngun okkar til að læra að dansa út frá forsendum hvor annarrar. Vinnsla verksins gekk vel framan af en endaði svo með ósköpum þegar perónulegt líf okkar tróð sér með offorsi inn í æfingaferlið með þeim afleiðingum að sýningin mistókst.Okkur mistókst svo rosalega að gera sýningu að hún tókst óvart, akkúrat af því að hún mistókst. Sýningin fjallaði á endanum um mistök. Nú, ári síðar, höfum við tekið höndum saman á ný. Margt hefur breyst á þessu ári, við erum báðar útskrifaðar með BA-gráðu í sviðslistum, Alma er orðin rannsóknarblaðamaður og Ástrós er á leiðinni í Eurovision. Við erum báðar hamingjusamari að þessu sinni en lífið samt stærra og flóknara. Allar þessar breytingar hafa haft áhrif á útkomu verksins I want to dance like you part 2,“ segja þær.

Verk Ástrósar og Ölmu, I want to dance like you part 2, verður sýnt þann 7. apríl klukkan 19 í Tjarnarbíói.

Listakonurnar Ástrós Guðjónsdóttir og Alma Mjöll Ólafsdóttir sýna nýtt verk á gömlum grunni á Vorblótinu.

Hataraævintýrið lærdómsrík áskorun
Ástrós og Alma hafa haft nóg að gera síðan þær útskrifuðust og segja að hvert verkefni hafi gefið þeim mikið og verið lærdómsríkt. „Við erum enn þá að finna út úr því hverskonar listamenn við erum eða viljum vera en það er kannski eitthvað sem maður ver ævinni í. Að vera sjálfstæður listamaður er ótrúlega lifandi og skemmtilegt en líka stórhættulegt. Maður þarf í sífellu að takast á við sjálfan sig og samfélagið.“

Eins og fram hefur komið er Ástrós í dansatriði Hatara fyrir Eurovision og okkur lék forvitni á að heyra aðeins um reynslu hennar af því. „Hataraævintýrið mikla er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir Ástrós. „Ég vissi ekkert hvað ég væri að koma mér út í þegar að ég var spurð hvort ég vildi taka þátt í Söngvakeppninni með Hatara. Ég sagði bara já og amen, mætti á fyrstu æfinguna með krökkunum og fann á mér að þetta yrði skemmtilegt samstarf. Nú, nokkrum mánuðum seinna, erum við á leið í Eurovision.

„Auðvitað er það líka mikil áskorun að keppa fyrir Íslands hönd í þessum tilteknu aðstæðum. Ég lendi endalaust í aðstæðum þar sem ég spyr mig spurninga og velti hlutum fyrir mér.“

Þetta ferli í heildina hefur verið mjög frábrugðið öllu öðru sem ég hef upplifað áður. Ég hef tekist á við nýjar áskoranir og lært nýja hluti, eins og að mæta í söngtíma til Heru Bjarkar eða reyna að setja þessar risastóru linsur í augun á mér. Auðvitað er það líka mikil áskorun að keppa fyrir Íslands hönd í þessum tilteknu aðstæðum. Ég lendi endalaust í aðstæðum þar sem ég spyr mig spurninga og velti hlutum fyrir mér. Eurovision hefur svo sannarlega opnað á margt sem ég hefði annars ekki tekist á við. Þetta eru allt nýjar áskoranir fyrir mér. Á sama tíma og þetta ferli hefur verið göfult tekur það mikla vinnu og orku. Ég er því fegin að hafa haft öðrum verkefnum að sinna samhliða Hatara til að dreifa huganum og þar hefur verkið hjá mér og Ölmu spilað stóran part.“

Úrslitakvöld Músíktilrauna 2019

Úrslitakvöldið fer fram í Hörpu annað kvöld, laugardaginn 6. apríl. Um tíu hljómsveitir keppa í úrslitunum og hljóta efstu þrjár glæsileg verðlaun.

Efnilegustu hljóðfæraleikararnir verða einnig valdir af dómnefnd en áhorfendur velja vinsælustu hljómsveitina með símakosningu. Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt af Rás 2 og árið 2016 hóf Ríkissjónvarpið að streyma úrslitakvöldinu í beinni útsendingu á www.ruv.is. Þess má geta að Músíktilraunirnar eiga sér yfir 30 ára sögu en fyrstu tilraunirnar fóru fram árið 1982. Á meðal hljómsveita sem hafa á borið sigur úr bítum undanfarin ár má nefna Of Monsters and Men, Samaris, Vök og Between Mountains. Hátíðin í í Hörpu í kvöld hefst klukkan 17.00. Aðgangseyrir er 2.000 krónur.

Mun hatrið sigra?

Á Vesturlöndum stigmagnast nú áhyggjur af uppgangi öfgahópa sem kynda undir hatursorðræðu og hvetja til ofbeldis einkum gegn minnihlutahópum. Bandaríska alríkislögreglan hefur lýst yfir áhyggjum af ástandinu. Evrópulögreglan líka. Og eftir voðaverknaðinn í Christchurch á Nýja-Sjálandi, þar sem öfgaþjóðernissinni myrti 50 múslima með köldu blóði og særði aðra 50, hafa stjórnvöld í Ástralíu í hyggju að setja á lög sem gera samfélagsmiðla ábyrga fyrir efni sem birtist frá öfgasamtökum á miðlum þeirra. Með setningu laganna vonast þau til að koma í veg fyrir að hægt sé að beita samfélagsmiðlum til að hvetja fólk til ódæðisverka.

Í ljósi þessa skýtur það skökku við að nú skuli liggja fyrir Alþingi Íslands frumvarp sem miðar að því að þrengja ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu. Breyting sem hefur þær afleiðingar að erfiðara verður að dæma menn fyrir hatursorðræðu í garð annarra nema slík tjáning þyki beinlínis „til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun“. Sem m.ö.o. hefur þær afleiðingar að ekki verður lengur refsivert að lítillækka og níða minnihlutahópa á Íslandi.

Í því umróti og þeirri óvissu sem hefur umlukið Ísland og helstu atvinnugreinar þjóðarinnar síðustu vikur og mánuði má segja að þetta mál hafi ekki farið sérstaklega hátt í almennri umræðu, nánast fallið undir radarinn, ef svo má að orði komast. Ýmis mannréttindasamtök hafa þó sett sig upp á móti frumvarpinu og bent á hvernig breytingin á umræddum lögum muni verða til þess að vega að öryggi þeirra hópa sem ákvæði laganna er einmitt ætlað að vernda. Að með þessari breytingu sé í raun verið að gefa veiðileyfi á hópa sem eru í viðkvæmri stöðu í samfélaginu.

Þá klóra sér ýmsir í hausnum yfir því að frumvarp sem leyfir aukna haturstjáningu skuli dúkka upp í kjölfar þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft fjölda hatursglæpa til rannsóknar.

„Í ljósi þessa skýtur það skökku við að nú skuli liggja fyrir Alþingi Íslands frumvarp sem miðar að því að þrengja ákvæði í hegningarlögum um hatursorðræðu.“

En furðulegast þykir þó sumum sú staðreynd að þetta frumvarp skuli koma úr ranni núverandi ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem segist ekki aðeins hafa mannréttindi í hávegum heldur tekur fram í eigin stjórnarsáttmála að hún ætli að setja Ísland í fararbrodd þegar kemur að réttindum ýmissa minnihlutahópa. Hvernig þrenging ákvæðis um hatursorðræðu kemur heim og saman við þetta markmið hennar er nefnilega ekki bara erfitt að sjá, það er með öllu óskiljanlegt. Enda gefur augaleið að mannréttindi og svigrúm til hatursorðræðu eiga enga samleið.

Það verður því áhugavert að sjá hvernig Allsherjar- og menntamálanefnd, sem hefur frumvarpið nú til skoðunar, bregst við. Hvort hún komi til með hallast að þeim tvískinnungshætti sem því miður virðist hafa loðað við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli, eða hafni frumvarpinu og sýni þar með að vilji íslenskra stjórnmálamanna til að virða mannréttindi er annað og meira en orðin tóm.

„Millifærðu 45 milljónir í hvelli“

|
|Guðný Hjaltadóttir

Tölvuþrjótar svíkja út tugi milljóna í stökum millifærslum.

Tölvuglæpir og nettengd afbrot af margvíslegu tagi hafa færst mjög í aukana undanfarin ár og verða tölvuþrjótar sífellt betri í því að blekkja fórnarlömb sín. Falsanir á greiðslufyrirmælum er ein tegund tölvuglæpa sem hefur valdið fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi tjóni. Dæmi eru um að starfsfólk fyrirtækja hafi verið blekkt til að millifæra tugi milljóna króna í þeirri trú að um viðskiptamann sé að ræða.

Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur Félags atvinnurekenda (FA), segir ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af þróuninni, en næstkomandi þriðjudag efnir félagið til morgunverðarfundar undir yfirskriftinni Hvernig geta fyrirtæki varist netglæpum?
„Það hafa komið inn á okkar borð dæmi um félagsmenn sem hafa lent í þessu og við þekkjum einnig mörg dæmi utan félagsins. Við viljum vekja athygli á þessari þróun áður en dæmunum fjölgar,“ segir Guðný í samtali við Mannlíf.

Guðný Hjaltadóttir, lögfræðingur Félags atvinnurekenda (FA).

Hún segist telja að fyrst og fremst sé um að ræða erlenda tölvuþrjóta en útilokar ekki samstarf við íslenska aðila og bendir á að tölvuþrjótarnir séu farnir að nota mun vandaðra málfar en áður hefur þekkst og því sé sífellt auðveldara að láta blekkjast. „Þeim tekst að taka yfir netföng og fara yfir tölvupóstsamskipti. Þannig ná þeir að kynna sér samskiptasögu aðila og orðfæri þess aðila sem á að líkja eftir.“

Spurð að því hvernig þessir glæpir lýsi sér í dag segir hún að algengast sé að sjá svokallaðar greiðslufyrirmælafalsanir. „Það koma tölvupóstar frá viðskiptamönnum fyrirtækja, t.d. erlendum birgjum, þar sem verið er að biðja um að fyrirtækið leggi inn á nýjan reikning og viðkomandi reikningar virðast tengdir við nafn raunverulega kröfuhafans.

Einnig eru dæmi um að gefinn sé út nýr reikningur sem lítur út eins og hefðbundinn reikningur en þar er búið að breyta greiðslufyrirmælum. Reikningurinn er þá greiddur til rangra aðila en eftir stendur hinn upphaflegi reikningur sem er ógreiddur,“ útskýrir Guðný og bætir við að önnur tegund þessara svika séu svokölluð stjórnendasvik (e. CEO Fraud).

„Það eru svik þar sem yfirmaður virðist senda beiðni á undirmann og biður hann um að millifæra sem snöggvast. Í báðum tilvikum er verið að senda þessa pósta úr raunverulegum netföngum yfirmanna. Þrjótunum tekst s.s. að taka yfir tölvupóstana, þannig að falspósturinn kemur beint frá yfirmanni, jafnvel í framhaldi af eldri samskiptum.

Í öðrum tilfellum er búið að gera einhverjar smávægilegar breytingar á netfangi, eins og t.d. að setja inn tölustafinn 1 í staðinn fyrir lítið l eða bæta við staf eða kommu. Þannig að þetta eru keimlík netföng og sá sem gengur í gildruna tekur ekki eftir muninum. Þá eru til svokallaðir spoof-tölvupóstar þar sem unnt er að láta tölvupósta líta út fyrir að koma úr öðru netfangi en þeir koma raunverulega. Greiðendur falla þá í þessa gryfju þar sem þeir telja sig vera í samskiptum við fólk sem þeir treysta.“

„Ég hef heyrt dæmi um allt frá 500 þúsundum og upp í 45 milljónir sem sviknar eru út úr fyrirtækjum í stökum færslum.“

Guðný segir að um mjög háar upphæðir sé að ræða. „Ég hef heyrt dæmi um allt frá 500 þúsundum og upp í 45 milljónir sem sviknar eru út úr fyrirtækjum í stökum færslum hér á Íslandi,“ segir hún og bætir við að þegar millifærsla hefur verið framkvæmd sé skaðinn skeður. Hún þekki ekki dæmi um fórnarlömb slíkra glæpa sem hafi endurheimt fjármuni sína. Oft á tíðum sé þetta tap fyrir greiðandann en í þeim tilvikum sem greiðandi hafi talið sig vera að greiða kröfu sem er enn til staðar eftir greiðsluna skipti m.a. máli hvernig netöryggismálum viðkomandi aðila var háttað og úr hvaða netfangi fyrirmælin bárust.

„Eitthvað er ekki eins og það á að vera“

Sveinn Andri Sveinsson er á lausu

Lögmenn eru sumir hverjir enn æfir vegna aðkomu Sveins Andra Sveinssonar að þrotabúi flugfélagsins WOW air. Heimildamaður Mannlífs, lögmaður til margra ára, furðar sig á því að dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur en ekki héraðsdómari skuli hafa skipað Svein Andra skiptastjóra.

Ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dóm­stjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra Sveinssonar hefur valdið titringi innan lögmannastéttarinnar. Hver lögmaðurinn á fætur öðrum hefur komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt skipanina. Þung orð hafa fallið um ógagnsæi og spillingu innan Héraðsdóms Reykjavíkur. Heimildamaður Mannlífs segir óvenjulegt að dómstjóri skuli hafa úthlutað þrotabúinu. Reglan sé sú að héraðsdómari beri ábyrgð á málaflokknum, en sterk tengsl séu á milli hans og Sveins Andra.

Heimildamaður Mannlífs er lögmaður sem hefur langa reynslu af gjaldþrotamálum og hann bendir á að enginn virðist hafa spurt að því hvers vegna dómstjóri, Símon Sigvaldason, hafi undirritað úrskurðinn og úthlutað þrotabúinu. „Það er mjög sérstakt að dómsstjóri hafi skrifað undir gjaldþrotaúrskurð, það hefur held ég bara aldrei gerst áður. Venjulega reglan er sú að héraðsdómari sem ber ábyrgð á málaflokknum sem sér um þessi gjaldþrotamál eða aðstoðarmenn í umboði hans,“ segir lögmaðurinn sem kýs að láta ekki nafn síns getið.

„Það er auðvitað bara í gegnum vin hans. Þetta eru hans tengsl.“

Héraðsdómarinn sem ber ábyrgð á málaflokki gjaldþrotamála er Lárentsínus Kristjánsson, fyrrum hæstaréttarlögmaður en hann var skipaður í embættið árið 2015. Heimildamaður Mannlífs segir að sterk tengsl séu á milli hans og Sveins Andra. „Tengslin eru nokkuð vel kunn, í það minnsta mörgum lögmönnum og nokkrum dómurum. Þeir eru vinir til margra ára og voru samstarfsmenn í gegnum Lögfræðistofu Reykjavíkur og þekktust áður í gegnum SUS og háskólapólitík. Lárentsínus ræður þessum málaflokki og ber ábyrgð á honum, þannig að það skal engan undra að Sveinn Andri Sveinsson er farinn að fá mjög reglulega mál í gegnum þrotabú. Það er auðvitað bara í gegnum vin hans. Þetta eru hans tengsl.“

Farið eftir reglum

Mannlíf bar þetta undir þá Lárentínus Kristjánsson héraðsdómara og Símon Sigvaldasson dómstjóra og sendi sá síðarnefndi blaðamanni eftirfarandi skriflegt svar: „Löglærðir aðstoðarmenn dómara sjá um uppkvaðningar gjaldþrotaúrskurða í öllum málum hér hjá okkur. Það var einnig svo í þessu tilviki. Fyrirsvarsmenn Wow air snéru sér beint til mín á mánudagsmorgninum síðasta til að unnt yrði að koma málinu strax í réttan farveg til að úrskurður yrði kveðinn upp svo fljótt sem verða mætti. Gríðarlegir hagsmunir voru í húfi og mikilvægt að málið gengi greiðlega fyrir sig. Ég ákvað í framhaldinu hverjir yrðu skipaðir skiptastjórar og fór aðstoðarmaðurinn eftir því,“ segir m.a. í skriflegu svari Símonar, sem getur þess að þrotabúum sé úthlutað eftir lista sem liggi fyrir. Á honum séu lögmenn sem áhuga hafa á því að taka að sér skiptastjórn, bæði reynslumiklir lögmenn sem starfað hafa að skiptastjórn í mörg ár, sem og yngri og nýútskrifaða lögmenn, sem takmarkaða reynslu hafa af þessum störfum. Þrotabúum sé úthlutað í réttri röð eftir listanum. Þegar um allra stærstu búin er að ræða sé þeim úthlutað sérstaklega. Þar sé farið eftir viðmiðum, sem stuðst hefur verið við í mörg ár, um að lögmenn hafi víðtæka og farsæla reynslu af skiptum stórra og flókinna búa og hafi yfir að ráða starfsemi sem ræður við slíkt starf.

„Ég kem ekki að þessum málum nema þegar um allra stærstu búin er að ræða, og þau eru tiltölulega sjaldgæf. Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem það gerist. Ekkert slíkt bú kom inn á árinu 2018, en ég kom til starfa sem dómstjóri í lok árs 2017,“ segir jafnframt í svari Símonar.

Vilja Svein Andra burt

Greint var frá því í nýjasta tölublaði Mannlífs að Arion banki hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, yrði settur af vegna vanhæfis, en bankinn er stór kröfuhafi í búið. Þetta staðfesti Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka í samtali við Mannlíf. Hann staðfesti einnig að þetta tengdist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

Fyrrnefndur Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, segir hins vegar að Sveinn Andri muni verða áfram skiptastjóri yfir búinu. Þetta kemur fram í dag í skriflegu svari Símonar við fyrirspurn fréttastofu RÚV um málið. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir svo Símon að krefjist bankinn formlega úrskurðar, sem ekki hafi komi til hingað til, verði erindið að sérstöku máli. Málið fari síðan í venjulegan farveg sem endi með úrskurði.

Skrítin skipan í ljósi fyrri embættisgjörða

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra reitt marga lögmenn til reiði. Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í Fréttablaðinu að skipan hans væri skrítin í ljósi þess að hann væri umdeildur vegna fyrri embættisgjörða sem skiptastjóri yfir öðrum stórum búum. Þar vísa þær til þess að fjögur félög kærðu hann nýlega, m.a. Mjólkursamsalan og Sláturfélag Suðurlands, vegna þrotabús EK1923.

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gengur lengra í færslu á Facebook og sakar Héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum eftir hentisemi. „Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki …,“ segir Þórður m.a. í færslunni. Símon Sigvaldason hefur hins vegar vísað ásökunum Þórðar á bug í samtali við Vísi og sór jafnframt af sér nokkur tengsl við Svein Andra sem gæfi honum tilefni til þess að hygla honum sérstaklega.

Mynd / Kristinn Magnússon

 

„Íslensk tónlist kemur mér alltaf í stuð“

Erla Bjarney Árnadóttir ráðgjafi segir að frá því hún muni eftir sér hafi tónlist spilað stórt hlutverk í lífi hennar. Oft sé hreinlega eins og tónlist stýri tilfinningaskalanum, þannig gefi hress lög henni orku á meðan rólegri lög veiti slökun. Helgarlisti Erlu tekur mið af þessu.

Föstudagur

„Við mæðginin fluttum til Windsor árið 2011 svo nú heyri ég sjaldnar íslensk lög í útvarpi. Þegar hugurinn leitar heim og þegar mig skortir orku finnst mér fátt betra en að leyfa íslenskum tónum að fljóta. Þá eru það lög eins og Hvar er draumurinn, Nína, Fjöllin hafa vakað, Gaggó Vest, Traustur vinur, Sigurjón digri, þjóðhátíðarlögin okkar og fleiri í þessum dúr sem koma með orkuna frá Íslandi. Íslensku lögin koma mér alltaf í gott föstudagsstuð.“

Laugardagur

„Á laugardegi er tilvalið að leyfa tónlist Bryan Adams hljóma. Frá því að ég heyrði plötuna hans Reclelss árið 1995 hef ég verið forfallin aðdáandi Bryan Adams og verð aldrei leið á honum. Þessi kanadíski tónlistarmaður verður bara betri og er ótrúlegur „performer“ á tónleikum. Summer of 69, Heaven og It´s only love eru sígild lög.“

Sunnudagur

„Mér finnst gott að eiga rólegan dag á sunnudegi. Tracy Chapman veitir fullkomna afslöppun á meðan maður fær sér morgunkaffi og fer yfir fréttirnar á Netinu. Fast Car, Talkin’ ’bout a Revolution og Baby can I hold you af plötunni Tracy Chapman eru kærkomin blanda á sunnudegi. Plata sem hljómaði oft á heima á Reyðarfirði. Eina sem vantar til að fullkomna mómentið eru kleinur frá Gurru frænku.“

 

Allt liðið fór á taugum

Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, er sigurvegari vikunnar sem senn er á enda en Israel Martin, þjálfari Tindastóls í körfubolta, hefur átt betri vikur.

Góð vika
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

Þeir eru blessunarlega fleiri kandídatarnir í þennan dálk þessa vikuna en þá síðustu sem einkenndist af gjaldþroti og hópuppsögnum. Forráðamenn Icelandair fengu loks meðvind þegar bandarískur fjárfestingarsjóður keypti hlut í félaginu fyrir 5,6 milljarða króna. Flugfélagið fékk sömuleiðis tvær breiðþotur á leigu og afgreiddi sænskan flugdólg afar snyrtilega.

En stóra málið er að sjálfsögðu kjarasamningarnir og þótt allir sem hlut áttu að máli eigi hrós skilið er niðurstaðan rós í hnappagat Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Það sýndi mikla stjórnvisku hvernig hún afgreiddi mál Sigríðar Andersen og henni hefur nú tekist að afstýra ófriði á vinnumarkaði á versta mögulega tíma.

Slæm vika
Israel Martin, þjálfari Tindastóls í körfubolta

Við sækjum í heim íþróttanna því körfuboltalið Tindastóls frá Sauðárkróki bauð upp á eitt ævintýralegasta klúður íslenskrar íþróttasögu þegar það var slegið út úr úrslitakeppni Dominos-deildarinnar af Þór frá Þorlákshöfn.

Eftir að hafa komist í 2:0 í seríunni fór liðið gjörsamlega á taugum. Næstu tveir leikir töpuðust en liðið virtist hafa rankað við sér í hreinum úrslitaleik á Króknum, náði mest 23 stiga forystu og því aðeins formsatriði að klára dæmið.

En allt liðið eins og það lagði sig fór á taugum og gerði röð mistaka á lokamínútum leiksins sem tapaðist með einu stigi. Við tökum að sjálfsögðu ekkert af mögnuðum Þórsurum en það var hreinlega pínlegt að horfa upp á Stólana bráðna.

Skálmöld í sínu náttúrulega umhverfi

Eftir taumlausa spilamennsku erlendis til að fylgja eftir nýjustu plötu sinni koma Skálmaldarliðar loksins heim og spila ferna tónleika, tvenna í Reykjavík og tvenna á Akureyri.

Síðan fimmta plata þeirra, Sorgir, kom út á haustmánuðum hafa þeir varla staldrað við en ætla að loka vetrartúrnum hér á landi. Hér munu ný lög hljóma í bland við eldri á alvöruþungarokkstónleikum, fjarri öllum sinfóníuhljómsveitum og stórum tónleikasölum, hér er Skálmöld í sínu náttúrulega umhverfi.

Áhugasömum skal bent á að fleiri Skálmaldartónleikar eru ekki á planinu hér á landi á árinu og eins verður ekki hægt að bæta við fleiri tónleikum í þessari atrennu.

Tónleikarnir á Hard Rock Café fara fram 5. og 6. apríl og hefjast klukkan 21.00. Hægt er að nálgast miða á Midi.is.

Kökuhlaðborðið aðalsmerki hlaupsins

|||
|||

Flóahlaupið verður haldið í fertugasta sinn um helgina en það er meðal annars þekkt fyrir kökuhlaðborðið sem boðið er upp á að hlaupi loknu.

Guðmunda Ólafsdóttir, formaður Umf. Þjótanda og skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga. Mynd / Gunnhildur Lind

Ungmennafélaið Þjótandi sér nú um utanumhaldið og við fengum formann þess, Guðmundu Ólafsdóttur, til að segja okkur aðeins frá þessum skemmtilega viðburði.

Hlaupið er frá félagsheimilinu Félagslundi og boðið upp á þrjár vegalengdir; þrjá kílómetra, fimm og tíu. Brautin er nær marflöt, styttri vegalengdirnar á malbiki en tíu kílómetra hlaupið að stærstum hluta á malarvegi.

„Hlaupararnir eru í miklu návígi við náttúruna og jafnvel búpeninginn á nærliggjandi bæjum. Eitt árið kom það meira að segja fyrir að hrossahópur slapp út úr girðingu við hlaupaleiðina og hlupu samferða hlaupurunum hluta af leiðinni, flestum til ánægju,“ segir Guðmunda, formaður Umf. Þjótanda og skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga.

„Hlaupið var fyrst haldið árið 1979 svo nú er 40 ára afmæli þess. Forvígismaður hlaupsins er Markús Ívarsson á Vorsabæjarhóli og í upphafi hófst hlaupið á hlaðinu í Vorsabæ, næsta bæ við Vorsabæjarhól, og hlaupinn var tíu kílómetra hringur sem kallast Vorsabæjarhringurinn. Keppendur voru tíu talsins og að hlaupi loknu bauð Markús þeim heim í kaffi að Vorsabæjarhól.

Forvígismaður hlaupsins, Markús Ívarsson á Vorsabæjarhóli, les upp nöfn vinningshafa í aldursflokkum.

Þegar fram liðu stundir og hlaupið varð vinsælla var upphafsstaður þess færður að Félagslundi til þess að hægt væri að koma öllum í kaffi. Frá byrjun hefur þó verið hlaupinn sami hringur. Markús er enn í dag aðalskipuleggjandi hlaupsins, enda þekkir það enginn eins vel og hann.“

Heimilislegt og „sveitó“

Kökuhlaðborðið er fyrir löngu orðið aðalsmerki hlaupsins og er að sögn Guðmundu upprunnið í klassískri íslenskri gestrisni.

„Því aðalsmerki viljum við halda á lofti. Kaffiveitingarnar gera það að verkum að Flóahlaupið er ekki bara íþróttaviðburður heldur einnig menningarviðburður fyrir þá sem mæta. Þarna fær hlaupafólk víðsvegar að tækifæri til að setjast niður og eiga notalega stund að hlaupi loknu og spjalla saman. Kökurnar sem boðið er upp á eru allar bakaðar af húsmæðrum úr hreppnum en flestum íbúum sveitarinnar þykir sjálfsagt mál að rétta ungmennafélaginu hjálparhönd þegar eftir því er kallað með því til dæmis að gefa félaginu eina köku. Venjan er svo að fá hóp ungmenna til að koma og smyrja brauðið og baka vöfflurnar. Það myndast alltaf ágætisstemning í eldhúsinu við þessa vinnu,“ segir Guðmunda og mikil ánægja hefur verið meðal keppenda með þennan viðburð.

Kökurnar sem boðið er upp á eru allar bakaðar af húsmæðrum úr hreppnum.

„Enda er andrúmsloftið afskaplega heimilislegt og „sveitó“, eins og sumir vilja orða það. Sumir hafa jafnvel komið og tekið þátt áratugum saman. Kökuhlaðborðið hefur, eins og ég sagði, verið frá upphafi og á svo sannarlega sinn þátt í vinsældum hlaupsins. Keppendur hafa flestir verið á annað hundrað en fjöldi þátttakenda fer mikið eftir veðri eins og oft vill verða. Hlaupið fer alltaf fram byrjun apríl svo það er allra veðra von.“

Heimilislegt og „sveitó“. Kökuhlaðborðið er fyrir löngu orðið aðalsmerki hlaupsins og er að sögn Guðmundu upprunnið í klassískri íslenskri gestrisni.

Guðmunda sjálf er með bakgrunn í frjálsum íþróttum og hefur reynt að halda sér við síðan. „Ég hef þó ekki gerst svo fræg að keppa í öðrum hlaupum en Kvennahlaupinu. Ég hef aldrei keppt í Flóahlaupinu sjálf, enda alltaf nóg að gera við framkvæmd hlaupsins. En ég er ákveðin í að taka þátt þegar ég verð hætt stjórnarsetu í Þjótanda og get farið að mæta sem óbreyttur borgari.“

Byggt á 100 ára gömlum rótum

Ungmennafélagið Þjótandi var stofnað haustið 2015 sem arftaki þriggja gamalgróinna ungmennafélaga sem störfuðu í Flóahreppi.

„Eftir að allir krakkar í Flóanum fóru að sækja nám í sama skóla, Flóaskóla, og sveitarfélögin þrjú í Flóanum voru sameinuð í Flóahrepp fundum við vaxandi þörf á því að allir krakkar í hreppnum væru í sama ungmennafélagi. Því varð raunin að leggja niður þrjú félög, Umf. Baldur, Umf. Samhygð og Umf. Vöku, og stofna Umf. Þjótanda. Umf. Þjótandi er því ungt félag byggt á rúmlega 100 ára gömlum rótum.

Starfssvæðið er sem sagt Flóahreppur í Árnessýslu. Helsta starfsemi félagsins er að halda úti íþróttaæfingum fyrir krakkana í sveitinni auk þess að skipuleggja hverskyns félagsstarf; halda þrettándagleði fyrir sveitungana, fara í skemmtiferðir til Reykjavíkur, halda íþróttamót, aðstoða jólasveinana við að komast á milli staða, halda dansnámskeið og fleira. Þetta þarf svo allt að fjármagna og er það gert með ýmsum fjáröflunum eins og skötuveislu, haustballi, páskabingói og svo Flóahlaupinu.“

Í þriggja kílómetra hlaupinu eru veitt verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í flokki pilta og stúlkna 14 ára og yngri, og eins í fimm kílómetra hlaupinu nema þar er aldursflokkurinn opinn. Í tíu kílómetra hlaupinu eru veitt aldursflokkaverðlaun fyrir þrjá fyrstu í hverjum flokki hjá bæði körlum og konum. Að auki fá allir verðlaun fyrir þátttöku.

Hægt er að skrá sig í hlaupið á hlaup.is eða með því að mæta tímanlega á svæðið á keppnisdag. Hlaupið hefst klukkan 13 þann 6. apríl 2019.

Þarf mikið til að koma skiptastjóra frá

|
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður. Mynd/ Rakel Ósk Sigurðardóttir

Sveinn Andri Sveinsson ekkert á förum segir dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur segir að Sveinn Andri Sveinsson komi til með að verða áfram skiptastjóri flugfélagsins WOW air.

Greint var frá því í nýjasta tölublaði Mannlífs að Arion banki hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, yrði settur af vegna vanhæfis, en bankinn er stór kröfuhafi í búið. Þetta staðfesti Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka í samtali við Mannlíf. Hann staðfesti einnig að þetta tengdist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, sem skipaði Svein Andra í stöðu skiptastjóra þrotabús WOW air segir hins vegar að Sveinn Andri muni verða áfram skiptastjóri yfir búinu. Þetta kemur fram í dag í skriflegu svari Símonar við fyrirspurn fréttastofu RÚV um málið. Símon segir að krafa Arion banka hafi verið tekin fyrir á aðfinnslufundi í gær þar sem „reynt var að miðla málum.“ Það hafi ekki gengið eftir og hafi fundinum þannig að Sveinn Andri verði áfram skiptastjóri. Í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis segir svo Símon að krefjist bankinn formlega úrskurðar, sem ekki hafi komi til hingað til, verði erindið að sérstöku máli. Málið fari síðan í venjulegan farveg sem endi með úrskurði.

Eins og greint var frá í Mannlíf í morgun var talið að það gæti orðið snúið fyrir Arion Banka að fá Svein Andri settan af sem skiptastjóri þrotabús WOW air. Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, sagði í samtali við Mannlíf að mikið þyrfti til að skiptastjóri þrotabús væri settur af eftir að hafa verið skipaður.

„Það þarf mikið til. Það eru ákvæði í lögum um gjaldþrotaskipti sem segja að viðkomandi þurfi að brjóta af sér í starfi eða vera með stórkostlega slælega framgöngu. Undanfari er yfirleitt á þá leið að sett hafi verið fram aðfinnsla við héraðsdóm á störfum viðkomandi og að Héraðsdómur hafi fallist á réttmæti aðfinnslanna. Ef Héraðsdómur telur að þessar aðfinnslur séu nægilega miklar getur dómari sett viðkomandi af. Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi,“ sagði Arnar.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka hefur sem minnst viljað tjá sig um málið.

„Málið er bara í farvegi og við ætlum ekki að reka það í fjölmiðlum,“ sagði Haraldur við Mannlíf, en hann hefur nú bætt við að bankinn muni fara fram á úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um stöðu Sveins Andra.

Enn sem komið er hefur Sveinn Andri ekki tjáð sig opinberlega um málið.

 

Færeyingar stíga varlega til jarðar á meðan Íslendingar eru djarfari

Færeyski raftónlistarmaðurinn Janus Rasmussen var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu, Vín. Platan inniheldur fallega og melódíska raftónlist en er með broddi.

„Platan var í vinnslu í eitt og hálft ár á milli þess sem ég var að spila úti með Kiasmos og að plötusnúðast. Það var ofboðslega krefjandi ferli,“ segir Janus og bætir við að hann hafi fengið mikinn stuðning frá æskuvini sínum tónlistarmanninum Sakaris sem býr einnig á Ísland. Janus segir að vinirnir hafi byrjað að grúska í tónlist þegar þeir voru krakkar en faðir Sakaris hafi átt upptökuver.

„Við fengum að prófa okkur áfram og leika okkur með hljóðfæri og græjur sem smástrákar. Þannig byrjaði það og var ekki aftur snúið. Við stofnuðum síðan hverja hljómsveitina á fætur annarri og erum báðir starfandi tónlistarmenn í dag.“

Janus kemur frá Þórshöfn í Færeyjum en flutti til Íslands árið 2004 með færeyskri hljómsveit sem hét Speaker. Hljómsveitin ferðaðist um allt land og spilaði meðal annars á listahátíðinni Lunga þar sem Janus kynntist meðlimum Bloodgroup og gekk í kjölfarið til liðs við sveitina. „Þá var ég með annan fótinn á Íslandi og hinn í Færeyjum í nokkur ár þar til ég flutti endanlega til Íslands árið 2008 og hef búið hér síðan,“ segir hann.

Var næstum því hent af Hróarskeldu

Janus segir að margt skemmtilegt hafi komið upp á ferlinum og nefnir atvik með umræddri hljómsveit Bloodgroup þegar hún kom fram á Hróarskeldu fyrir nokkrum árum. „Ég man að umgjörðin var öll mjög alvarleg og Hallur, forsprakki Bloodgroup, þurfti að skrifa undir allskonar skilmála áður en við fengum að spila,“ rifjar hann upp.

Okkur var næstum því hent af hátíðinni en ég baðst fallega afsökunar og við fengum að vera áfram.

„Einn af skilmálunum var sá að við máttum ekki stökkva inn í þvöguna af sviðinu. En einhvern veginn fór það alveg fram hjá mér að það væri bannað. Tónleikarnir gengu eins og í sögu, við öll í stuði og ég tók upp á því í hita leiksins að stökkva fram af og „crowdsurfa.“ Restin af hljómsveitinni horfir síðan á mig fljóta um í áhorfendaskaranum og var í hálfgerðu sjokki. Skipuleggjendur Hróarskeldu brjáluðust. Okkur var næstum því hent af hátíðinni en ég baðst fallega afsökunar og við fengum að vera áfram.“

Auðveldara að vera tónlistarmaður á Íslandi

Þrátt fyrir að hafa komið að mörgum tónlistarverkefnum á Íslandi segist Janus þó ekki hafa gleymt því hversu mikið er af hæfileikaríku tónlistarfólki í Færeyjum. Þannig hafi hann og færeyska tónlistarkonan Guðrið Hansdóttir, úr popp-hljómsveitinni Byrta, unnið að einu tónlistarverkefni saman og það hafi verið með því skemmtilegasta sem hann hafi gert hingað til. „Að fá að vinna aftur á færeysku eftir að hafa búið á Íslandi svona lengi var frábært. Gaman að búa til færeyskt popp fyrir færeyskan markað.“

Færeyski tónlistarmaðurinn Janus Rasmussen hefur búið á íslandi í 15 ár og unnið að ýmsum tónlistarverkefnum með þekktum nöfnum bæði hér heima og erlendis.

Að sögn Janusar er listasenan í Færeyjum í sífeldum blóma. Þar sé margt virkilega hæfileikaríkt og flott tónlistarfólk. Hins vegar sé töluvert erfiðara að starfa eingöngu sem tónlistarmaður í Færeyjum en á Íslandi. Það sé ein ástæða þess að sumt færeyskt tónlistarfólk sest að á Íslandi, líkt og hann sjálfur.

„Þar er mun smærri markaður og erfitt að takmarka sig við eina ákveðna tónlistarstefnu,“ útskýrir hann og bætir við að þjóðirnar tvær séu að mörgu leyti svipaðar en Færeyingar stígi þó örlítið varlega til jarðar á meðan Íslendingar séu djarfari. „Hér er síðan líka stútfullt af skapandi fólki. Ísland er nógu stórt til þess að rýma allt þetta hæfileikaríka fólk en nógu lítið til þess að auðvelt sé að sækja í það fólk sem maður vill vinna með.“

Þess má geta að fram undan hjá Janusi er tónleikaferðalag með Christian Löffler.

Þráinn Árni treður upp í Hljóðfærahúsinu

|||
|||

Gítarsnillingurinn Þráinn Árni Baldvinsson úr Skálmöld kemur fram í horni Hljóðfærahússins í dag.

Þráinn þykir einn af færari gítarleikurum landsins, hefur spilað og túrað með Skálmöld heiminn þveran og endilangan, spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands í tvígang og hlotið margvísleg verðlaun.

Á daginn vinnur Þráinn fyrir sér sem gítarkennari en á kvöldin borðar hann súrmat upp úr tunnu. Í kvöld gefst gestum og viðskiptavinum Hljóðfærahússins færi á að hlýða á hann spila og eins spyrja hann um spilamennskuna, tækin og hljóðfærin – allt sem þeim dettur í hug.

Ókeypis verður inn og allt sýnt í beinni útsendingu á Facebook! Herlegheitin byrja stundvíslega klukkan 17.

Klassískar kvikmyndir fyrir alla fjölskylduna

||
||

Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð stendur nú yfir í Bíó Paradís. Að sögn Arons Víglundssonar dagskrárstjóra kennir ýmissa grasa á hátíðinni en í forgrunni verða sígildar perlur sem öll fjölskyldan getur haft gaman af.

 

Aron Víglundsson.

„Það má segja að nostalgía einkenni hátíðina í ár, bæði hvað varðar innlendar og erlendar myndir, þar sem við ætlum að sýna myndir sem eru fyrir löngu orðnar sígildar. Foreldrar geta því farið með börnunum sínum í bíó og endurupplifað myndir sem þeir höfðu gaman af í æsku. Það verður eitthvað fyrir alla,“ segir Aron, en í bíóinu verður fjölbreytt úrval kvikmynda í fullri lengd ásamt vel völdum stutt- og heimildamyndum.

Þetta er í sjötta sinn sem Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð er haldin en hún var opnuð í gærkvöldi með sýningu á hinni sígildu Benjamín dúfu frá árinu 1995.

„Helstu aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir, leikarar og höfundurinn Friðrik Erlingsson en þeir hafa ekki komið saman í nokkra áratugi. Auk þess hefur myndin sjálf ekki sést sést í bíó í tugi ára en þetta er endurbætt stafræn útgáfa sem hefur lengi verið í burðarliðnum og því má kannski segja að þetta sé seinni frumsýning myndarinnar á Íslandi,“ segir Aron kíminn.

Alls kyns skemmtilegir viðburðir

Fjöldi annarra áhugaverðra mynda verður til sýnis eins og áður sagði. Glæný stafræna útgáfa af Ronju ræningjadóttur með íslensku tali, The NeverEnding Story, Ghostbusters og Dark Crystal úr smiðju Jims Henson, skapara Prúðuleikaranna. Auk þess sem boðið verður upp á alls konar viðburði tengda myndunum.

„Til dæmis verður námskeið í slímgerð fyrir sýninguna á Ghostbusters núna á sunnudag, af því að í myndinni kemur slím talsvert við sögu. Borgarleikhúsið verður með leiklistarspjall í tilefni af sýningu á myndinni Matthildi en leikrit byggt á sama verki er sýnt í leikhúsinu. Og svo verður skrautskriftarnámskeið í tengslum við sýningar á japönskum fjölskyldumyndum. Sem sagt alls konar skemmtilegheit,“ segir Aron.

Til dæmis verður námskeið í slímgerð fyrir sýninguna á Ghostbusters núna á sunnudag

Hann bætir við að mikið sé lagt upp úr því að hafa dagskránna á hátíðinni sem veglegasta enda sé mikilvægt að glæða áhuga barna á kvikmyndum og menningu.

„Já, það skiptir ótrúlegu máli að auka framboðið af góðum myndum fyrir börn og færa þeim bæði fjölbreytt og áhugavert efni víðsvegar að úr heiminum. Þessi hátíð er frábært tækifæri til þess og fyrir kynslóðirnar til að koma saman og eiga góða stund,“ segir hann og getur þess að aðeins 1.000 krónur kosti inn á hátíðin sem stendur yfir til 14. apríl.

Brönshlaðborð er nýjung á Bryggjunni brugghúsi

Bryggjan brugghús er að byrja með brönshlaðborð um helgar. Til að halda upp á þessa nýjung verður boðið upp á sannkallaða fjölskylduskemmtun um helgina.

JóiPjé og Króli mæta eldhressir og taka nokkur lög, Lalli töframaður verður með sýningu og blaðrarinn sér til þess að allir krakkar fari kátir heim blöðrudýr.

Brönsinn byrjar klukkan 11:30 en skemmtidagskráin hefst um klukkan 13:00.

Bröns fyrir einn kostar 3.690 krónur en með hverjum keyptum „fullorðinsbröns“ fá börn undir tíu ára frítt að borða. Börn yngri en 12 ára fá 50% afslátt með hverjum keyptum bröns. Djúsar og kaffi er innifalið í verðinu.

Borðapantanir í síma 456-4040 & [email protected].

 

Aftur forsætisráðherra

Raddir