Föstudagur 15. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

„Við eigum að vera í góða liðinu“

||
||

Biskup Íslands hefur áhyggjur af upprisu afla sem ala á ótta gagnvart innflytjendum og minnihlutahópum. Sjálf hefur hún skipað sér og kirkjunni í það lið sem berst gegn slíkum málflutningi með því að breiða út kærleik og virðingu.

Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, heimsótti á dögunum mosku múslíma í Skógarhlíð. Heimsóknin var söguleg því þetta var í fyrsta skipti sem biskup heimsækir mosku á íslenskri grundu. Skömmu áður hafði sést til hennar á Austurvelli þar sem hælisleitendur höfðu safnast saman í von um að fá áheyrn ráðamanna.

Þótt framgöngu Agnesar hafi almennt verið vel tekið mátti þó heyra gagnrýnisraddir, meðal annars úr sölum Alþingis. Agnes gefur lítið fyrir slíkar úrtöluraddir og segir samtal einu leiðina til að byggja brú á milli ólíkra menningarhópa. Þetta samtal, þar sem kirkjan er virkur þátttakandi, sé sérstaklega mikilvægt nú þegar upp rísa öfl sem nota óttann til að reka fleyg á milli ólíkra þjóðfélagshópa.

Múslimar vilja vera góðir samfélagsþegnar

„Það var gaman að koma þarna og einstaklega vel tekið á móti okkur og ýmislegt sem kom mér kannski á óvart. Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt, til dæmis fengum við te og arabískar kökur sem maður fær ekki á hverjum degi,“ segir Agnes um móttökurnar sem hún fékk í Skógarhlíð.

Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt.

Tilefnið var heimsókn forseta vettvangs múslima í Evrópu, Abdul-Vakhed Niyzov, þar sem meðal annars var rætt um mikilvægi friðar og aðgerða í kjölfar atburðanna hræðilegu í Christchurch í Nýja-Sjálandi þann 15. mars þegar vopnaður maður réðst á tvær moskur og myrti 50 saklausa borgara. Agnes segir að það hafi verið hennar val að fundurinn fór fram í moskunni.

„Mér var boðið að koma í moskuna en þeir sögðust líka geta komið til mín eða hitt mig annars staðar í bænum. Karim [Askari, forstöðumaður moskunnar í Skógarhlíð] hafði áður boðið mér í heimsókn og ég vildi bara þiggja boð hans um að koma á hans heimastöðvar.“

„Virðing, kærleikur og traust. Þetta eru grunnstoðir í mannlífinu. Þetta eru orðin sem vígslumaðurinn í kirkjunni notar þegar fólk giftir sig, þetta eru þrjár undirstöður sem eru samofnar,“ segir Agnes.

Þar var Agnesi tekið með virktum og hjó hún sérstaklega eftir því að henni var heilsað með handabandi við komuna, eitthvað sem hún hefur ekki alltaf upplifað í samskiptum hennar við múslima. Og það voru fleiri minnisstæð atriði í heimsókninni.

„Þarna var ein kona með slæðu sem sat við hliðina á mér. Maður hefur svo sem hitt múslimakonur áður en mér fannst svo gaman að fá að sitja með henni í skjóli vináttunnar. Hún fæddist í Sýrlandi og ég á Íslandi og þess vegna er ég eins og ég er og hún eins og hún er. Svo fannst mér svo gaman að sjá þegar ég fór út, að þegar þessi kona og hennar maður voru að fara af bílastæðinu á sínum bíl og hver keyrði? Það var konan sem sat undir stýri. Þetta er einhvern veginn ekki sú mynd sem birtist manni í fjölmiðlum en þetta segir manni að hvort sem fólk er múslimar, kristið, hindúar, búddistar eða hvað sem er, við erum öll fólk sem lifum í því samfélagi sem við erum í og göngum fram sem slík.“

Agnes leggur áherslu á að samtal sé besta tækið til að rjúfa múra og eyða fordómum. Þess vegna sé samráðsvettvangur trúarbragðanna, sem starfræktur hefur verið síðan 2006, svo mikilvægur. Þar sameinast ólíkir fulltrúar trúarbragðanna um það sem sameinar en ekki það sem sundrar.

„Ég upplifði það mjög sterkt í moskunni að múslimar hafa einlægan vilja til þess að vera góðir samfélagsþegnar í því samfélagi þar sem þeir búa hverju sinni. Þeir sem búa á Íslandi vilja verða Íslendingar og lifa hér sem slíkir, ala börnin sín upp sem Íslendinga og eru ekki að reyna að breyta neinu. En auðvitað er það þannig í öllum samfélögum að breytingar eiga sér stað með hverri kynslóð og allar manneskjur hafa einhver áhrif einhvers staðar á einhvern, þess vegna verður þessi þróun.“

Það er ekki nóg að tala

Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli um miðjan marsmánuð vöktu mikla athygli en þau voru líka umdeild. Til ryskinga kom á milli mótmælenda og lögreglu og á samfélagsmiðlum mátti greina talsverða vandlætingu á framferði hælisleitenda. En þeir voru líka margir sem tóku undir málstað þeirra, meðal annars um slæman aðbúnað þeirra og afskiptaleysi stjórnvalda. Agnes tilheyrir þeim hópi.

„Ég lít þannig á náungann að ég elska náungann. Ég elska Guð, náungann og sjálfa mig í þessari röð. Náungi minn eru allar manneskjur og sérstaklega þær manneskjur sem þarfnast hjálpar. Þjóðkirkjan hefur, eins og aðrar kirkjur á Vesturlöndum, látið til sín taka varðandi þessi málefni hælisleitenda vegna þess að við lítum ekki á hælisleitendur sem hælisleitendur, við lítum á þá sem fólk. Hælisleitendur eru bara fólk eins og við en flestir þeirra hafa upplifað miklu erfiðari lífsreynslu en við flest hér á Íslandi vegna þess að þau hafa þurft að flýja sitt land, flýja frá ófriði. Þau eru að sækjast eftir friði og þau eru að sækjast eftir mannréttindum. Þetta vil ég styðja.“

Agnes bætir við að hluti þess fólks sem hafi verið á Austurvelli hafi nýtt sér þjónustu kirkjunnar.

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja. Maður verður að lifa í samræmi við boðun sína. Það er ég að reyna að gera, meðal annars með því að vera nærverandi í eigin skinni á Austurvelli til að sýna að mér er ekki sama um þau og hjálpa þeim að ná áheyrn. Af því að þau langar til að tala við þau sem hér ráða og búa til lögin fyrir okkur. Það er nú bara þannig að eftir sem heyrist hærra í manni er meiri von til að á mann sé hlustað. Það að opna Dómkirkjuna fyrir öllu fólki, líka fyrir hælisleitendum, er bara í anda frelsarans.“

Ósmekkleg ummæli á þingi

Það voru ekki allir sáttir við að kirkjan hafi verið opin hælisleitendum og slíka vandlætingu mátti meðal annars greina í sölum Alþingis. Þingmaður Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson, fór þar fremstur í flokki. Talaði hann um „tjaldbúðir“ hælisleitenda á Austurvelli og að æðstu menn þjóðkirkjunnar hafi staðið fyrir því að breyta Dómkirkjunni í „almenningsnáðhús“ um leið og hann furðaði sig á nærveru æðstu manna þjóðkirkjunnar á Austurvelli.

Agnes hefur ekki miklar áhyggjur af slíkum gagnrýnisröddum. „Það er nú þannig að engin manneskja getur stjórnað annarri og maður á nú nóg með að stjórna sjálfum sér þannig að ég ræð svo sem ekki viðbrögðum fólks eða hugsunum og því síður skoðunum. Við búum í frjálsu landi, sem betur fer, og það er öllum frjálst að hafa sína skoðun svo framarlega sem hún meiðir ekki annað fólk,“ segir hún og bætir við: „Menn hafa sínar skoðanir og ef það má láta allar skoðanir í ljós á þingi þá hljóta þingmenn að hafa leyfi til þess. En mér finnst þetta frekar ósmekklegt. Það er hægt að nálgast öll mál á mismunandi máta, maður getur verið jákvæður og neikvæður og alls konar en mér fannst þessi umræða frekar í neikvæðari kantinum. Við opnum kirkjurnar fyrir fólkinu okkar og hjálpum hælisleitendum vegna þess að við erum kristin, ekki vegna þess að þau eru kristin.“

Að mati Agnesar mótast umræðan um innflytjendur og hælisleitendur að miklu leyti af ótta, hræðslu gagnvart hinu óþekkta.

Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt.

„Við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki. Hvað getur hjálpað okkur í þeirri stöðu ef við þekkjum ekki hlutina? Við þurfum að kynnast þeim til þess að verða ekki hrædd. Við megum ekki láta óttann stjórna okkur. Óttinn getur haft þau áhrif á okkur að við önum ekki áfram í einhverjum glannaskap en hann má ekki stjórna lífi okkar. Hvernig er það með fólk sem er alltaf hrætt? Því líður ekki vel. Þannig að ég held að eina og besta leiðin sé samtal. Þess vegna fór ég í moskuna og þess vegna reyndi ég með nærveru minni á Austurvelli að sýna að ég vil að þeir sem fara með lögin og reglurnar, fólkið á þinginu, að það komi út úr húsinu og tali saman. Að það heyri frá fyrstu hendi sögur þeirra og hvað þau eru að biðja um. Múslimar vilja, eins og ég sagði áðan, vera góðir samfélagsþegnar og ég sé ekki betur en að þetta sé bara fólk eins og ég og þú. Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt, þar sem er borin virðing fyrir manneskjunni eins og hún er, alveg sama af hvaða kyni hún er, hver kynhneigð hennar er, hverrar trúar hún er og svo framvegis.“

Trump og hans líkar tala ekki í nafni Guðs

En óttinn er víðar en á Íslandi. Víðs vegar um heiminn hafa risið upp stjórnmálamenn sem hafa komist til valda með því að ala á ótta gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Fremstur þar í flokki fer Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, en einnig má nefna menn eins og Viktor Orban í Ungverjalandi, Erdogan í Tyrklandi, Jair Bolsonaro í Brasilíu og svo mætti áfram telja. Agnes segist vissulega hafa áhyggjur af þessari þróun.

„Óttinn er stjórntæki og Bandaríkjaforseti virðist nota hann sem slíkt. Að gera fólk óttaslegið og hrætt þannig að það þori ekki annað en að fara eftir því sem hann segir. Ótti, og reyndar fýla líka, eru að mínum dómi bestu stjórntæki veraldar. Þetta eru samt neikvæð stjórntæki, ekki jákvæð, og þau búa til verri heim og meiri vanlíðan hjá fólki. Auðvitað breiðist þetta út því þetta er svo öflugt stjórntæki. Þetta er stórhættulegt og leiðir bara til eins. Þetta leiðir bara til vanlíðunar, ófriðar, þetta leiðir til vanvirðingar við allt líf á jörðinni og þarna er Guð ekki með í verki. Það er ekki verið að hlusta á hvað Guð vill.“

En það er nú samt þannig að margir þessara leiðtoga segjast einmitt tala í nafni Guðs.

„Ég trúi því ekki,“ segir Agnes ákveðin. „Fyrir mér er Guð kærleiksríkur guð sem elskar allar manneskjur eins og þær eru og sáir ekki neinum illvilja í brjóst nokkurs manns. En það eru önnur öfl í heiminum sem eru að því og við berjumst gegn þeim af öllu afli. Við eigum að vera í góða liðinu en ekki hinu vonda.“

„Ég skil ekki svona reglur“

Á dögunum greindu fjölmiðlar frá máli sýrlenskrar konu sem hafði flúið stríðsátök í Sýrlandi og komist í öruggt skjól undir verndarvæng KFUM og KFUK. Hún missti eiginmann sinn í stríðinu og neyddist til að skilja börnin eftir í Sýrlandi og hafði gengið í gegnum miklar raunir bæði á flóttanum og í Grikklandi þar sem hún steig fyrst á land í Evrópu. Hafði henni meðal annars verið hótað lífláti vegna þess að hún hafði tekið upp kristna trú. Konunni vegnaði afar vel á Íslandi, hún hafði starfað um skeið á leikskólanum Vinagarði þar sem hún var afar vel liðin af börnum, foreldrum og samstarfsfólki. En skyndilega var fótunum kippt undan henni þegar íslensk stjórnvöld höfnuðu því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Konunni var vísað úr landi á grundvelli Dyflingnarreglulegarðinnar og hún send til Grikklands sem stjórnvöld álíta öruggt ríki fyrir flóttamenn.

Biskupi er sjáanlega mikið niðri fyrir þegar hún er spurð út í þetta mál. „Ég auðvitað virði það að menn vinni vinnuna sína. Ef menn eru að fara eftir lögum og reglum, þá verður svo að vera. En ég held hins vegar að þetta sé óásættanleg staða, að það sé verið að vísa fólki úr okkar stóra landi þar sem við höfum nóg pláss fyrir alla til að lifa góðu lífi.

Það er hræðilegt þegar er verið að senda fólk úr landi út í einhverja óvissu.

Ég skil ekki svona reglur, af hverju það þurfi að vísa í burtu góðu fólki sem hefur ekkert gert nema gott. Það er ekki svo að þessi kona hafi verið einhver glæpamaður, hryðjuverkamaður eða eitthvað slíkt. Þetta er bara góð manneskja sem vann með börnum og öllum líkar vel við – börnnum, samstarfsfólki og foreldrum. Af hverju má hún ekki vera hérna? Ég hef ekki skilning á því. Mér finnst þetta ekki gott og ég myndi vilja að reglurnar yrðu rýmkaðar þannig að fleiri ættu þess kost að vera hérna. Það er hræðilegt þegar er verið að senda fólk úr landi út í einhverja óvissu,“ segir Agnes sem óttast um velferð konunnar úti í Grikklandi.

„Hvað getur hún gert þar? Það er ekkert fyrir hana að hafa þar. Vonandi býr hún þar við frið en hún fær ekki vinnu og verður einhvers staðar að finna húsaskjól. Þetta hafði hún allt hér – hún hafði vinnu, húsaskjól og hún hafði allt sem hún þurfti.“

Ísland þarf að leggja meira af mörkum

Biskup segir þetta mál vekja upp spurningar um siðferðislega afstöðu gagnvart flóttafólki almennt.

„Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann? Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við? Það er talað um í sambandi við loftlagsmálin að það gæti komið til þess að það verði óbyggilegt í sumum löndum og þá fer fólkið meira hingað norður. Hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við bara að segja: „Nei, nei, við tökum ekki á móti ykkur, við höfum það svo gott hérna og við viljum ekki bæta við. Við eigum nóg með að sinna þeim sem eru hér.“

Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann?

Um leið og hlúa þarf betur að flóttafólki á Íslandi segir biskup að brýn þörf sé að standa vörð um réttindi kristinna úti í heimi. Víða um heim, meðal annars í Sýrlandi og nálægum ríkjum, sé kristið fólk ofsótt vegna trúar sinnar.

„Það er óásættanlegt að vita af því að kristið fólk sé ofsótt fyrir trú sína árið 2019. Við vitum hvernig þetta var í upphafi, við getum lesið um það í postulasögunni og kirkjusögunni, að kristnir menn voru ofsóttir og enn er fólk ofsótt fyrir trú sína, til dæmis í Sýrlandi og fleiri löndum. Það er líka eitthvað sem við verðum að vita af og leggja okkur fram um að breyta því. Það gerist bara með samtali og engu öðru.“

Ætla aldrei að hætta að predika

Talið berst að stöðu Þjóðkirkjunnar sem óhætt er að segja að hafi þurft að berjast á mörgum vígstöðvum undanfarin ár. Kallað hefur verið eftir aðskilnaði ríkis og kirkju, fjármál kirkjunnar eru jafnan undir smásjá fjölmiðla og almennings og það er staðreynd að hlutfall þeirra Íslendinga sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna hefur farið ört minnkandi.

Þannig eru nú 60 prósent Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjuna samanborið við 90 prósent undir lok síðustu aldar. Margir hafa líka efast um erindi Þjóðkirkjunnar í nútíma veraldlegu samfélagi. Eitt slíkt dæmi er þegar Alþingi kallaði eftir umsögn kirkjunnar um frumvarp heilbrigðisráðherra um fóstureyðingar en þá var gagnrýnt að kirkjan hafi verið yfirhöfuð spurð álits. Agnes kannast við þessa umræðu.

„En málið er að kirkjunni kemur allt við sem við kemur mannlífinu. Það er bara þannig. Hver á að segja til um hvað öðrum kemur við eða ekki. Kirkjunni kemur bara allt við sem við kemur mannlífinu. Ég frekar en aðrar manneskjur ræð því ekki hvernig fólk hugsar eða ber ábyrgð á því sem hver og einn segir. Við ráðum ekki yfir skoðunum annarra og hver er ég að ætla að fara að segja öðrum hvaða skoðanir það á að hafa.

Kirkjunni kemur bara allt við sem við kemur mannlífinu.

En ég ætla samt aldrei að hætta að predika, segja frá því góða erindi sem kirkjan flytur um kærleika og guð sem elskar okkur og við eigum að elska og hvert annað. Í elskunni felst líka virðingin og að við séum traustsins verð. Þjóðkirkjan á, að mínum dómi, fyrst og fremst að halda áfram að boða orðið, að vera glöð með að flytja fagnaðarerindið og minna sig á það á hverjum degi að því fylgir ábyrgð og það er krafa um að vanda sig og vera fagleg.“

En það er vissulega búið að setja kirkjunni skorður til að breiða út þetta fagnaðarerindi. Það eru til dæmis sveitarfélög sem hafa tilkynnt henni að nærveru hennar í skólum sé ekki óskað og skólabörnum hefur verið meinað að fara í kirkjuheimsóknir.

„Það er einmitt þessi hræðsla sem fylgir því. Ekki eru það múslimarnir sem segja að börnin megi ekki fara í kirkjuna. Nei, það eru ekki þeir. Ekki er það þjóðkirkjufólkið, hvítasunnumennirnir eða kaþólikkarnir. Ég veit ekki með hindúa, búddista og gyðinga, ég held ekki. Það eru þeir sem skilgreina sig með enga trú sem hafa á móti því að börnin fari í kirkjuna.

Þetta byggist á þeirra skoðun á trú væntanlega og það ber að virða. En á grundvelli einhvers ótta eða hræðslu, eins og mér finnst þetta vera, þá á ekki að byggja á boðum og bönnum. Og það finnst mér að þeir sem ráða til dæmis hér í borginni hafa gert. Úti á landi þar sem allir þekkja alla er minni hræðsla af því að hér í Reykjavík, nú talar landsbyggðarkonan, fáum við svo mikið fréttirnar í gegnum fjölmiðlana. Fjölmiðlarnir fjalla um allt annað en almenningur talar um sín á milli um það hvað gerist í daglegu lífi. Þar er oft og tíðum alið á hræðslunni, að mínum dómi.“

Þjóðkirkjan er framsækin stofnun

Íslenskt samfélag hefur tekið örum breytingum á undanförnum árum og hefur kirkjan þurft að aðlagast þeim. Ekki eingöngu hefur hlutfall innflytjenda aukist umtalsvert samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna, heldur hefur einnig verið opnað á umræðu um annars konar samfélagsmál. Rétt eins og með málefni flóttamanna segir Agnes að lykillinn að opnu og kærleiksríku samfélagi sé samtalið.

„Nú eru ekki kynin bara karl og kona, það eru fleiri kyn komin og maður er settur í það að þurfa að fara að kynna sér þetta til að skilja þetta. Af því að við lítum á allar manneskjur jafnt þurfum við að skilja þessa breytingu sem er orðin.“

Að mati Agnesar hefur íslenska Þjóðkirkjan, þrátt fyrir að hún hafi yfir sér það yfirbragð að hún sé gamaldags og svifasein stofnun, verið mjög framsækin. Það sýni til dæmis afstaðan til hjónabanda samkynkynhneigðra.

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja,“ segir biskup.

„Íslenska kirkjan var fyrsta kirkjan sem viðurkenndi hjónaband samkynhneigðra. Það gleymist mjög oft. Kirkjan ákvað, fyrir minn tíma reyndar, að rannsaka ritningarnar og kanna hvað bókin segir um þetta málefni og að því loknu var samþykkt að prestar væru vígslumenn samkvæmt hjúskaparlögunum. Þegar ég var unglingur vissi maður nánast ekki hvað þetta var. En þegar börnin mín voru unglingar var talað um þetta eins og að þetta væri svo sjálfsagður hlutur, sem það er. Þetta bara var og er svona. Alla vega núna er það þannig að ég spyr ekki fólk þegar ég vígi það til prests hver kynhneigð þess er. Dettur það ekki í hug. Þetta eru bara manneskjur fyrir mér sem Guð elskar og þá ber mér líka að gera það.“

Við megum ekki hrynja

Agnes hefur setið á biskupsstóli frá árinu 2012. Aðspurð hvort hún segist vera farin að velta því fyrir sér hvenær hún stígur af stóli svarar hún: „Já, ég hef velt því fyrir mér. Þar til ég er búin að ljúka því sem ég ætla mér að gera. Ég er 64 ára dag og má sitja sex ár í viðbót og ég vona að mér takist að klára þetta innan sex ára.“

Eitt af því sem Agnes vill sjá ganga í gegn er sameining prestakalla sem á að skila sér í öflugra og faglegra kirkjustarfi. Nefnir hún sem dæmi sameiningu prestakalla á Austfjörðum úr fimm í eitt. „Þetta er mikið framfaraskref fyrir kirkjuna, að mínum dómi. Prestarnir verða áfram fimm en munu allir vinna saman, fólk getur valið prest til athafna og það verður hægt að velja inn í hópinn presta með mismunandi styrkleika og þekkingu. Fagmennskan verður þar af leiðandi meiri. Þetta verður að klárast áður en ég hætti, til dæmis.“

Þess á milli segist Agnes munu halda áfram að breiða út fagnaðarerindið þar sem þrjú lykilhugtök eru höfð að leiðarljósi. „Virðing, kærleikur og traust. Þetta eru grunnstoðir í mannlífinu. Þetta eru orðin sem vígslumaðurinn í kirkjunni notar þegar fólk giftir sig, þetta eru þrjár undirstöður sem eru samofnar. Ef við hættum að bera virðingu þá erum við búin að minnka traustið og komum ekki fram á kærleiksríkan hátt. Ef við komum ekki fram á kærleiksríkan hátt sýnum við vanvirðingu og þá er ekki hægt að treysta manni, og svo framvegis.

Það er líka annað í þessum samtíma að það er svo margt að gerast, það eru svo mörg tilboðin í gangi að við missum sjónar á því sem mestu skiptir. Á hverju ætlum við að byggja líf okkar? Þetta er bara eins og að byggja hús, við verðum að byggja á traustum grunni svo að húsið geti risið. Það er eins og með þetta hús hér, það er verið að sprengja við Landspítalann og húsið hristist stundum. En húsið stendur. Þannig er lífið líka, það er ýmislegt sem skekur líf okkar eins og til dæmis þegar verið er að breiða út óttann. Það er verið að skekja líf okkar, hrista það til. En ef við stöndum á þessum fasta grunni hrynjum við ekki. Við megum ekki hrynja.“ 

Texti / Magnús Geir Eyjólfsson
Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme á Íslandi

Sveinn Andri í óþökk Arion Banka

|
Sveinn Andri Sveinsson.

Arion banki hefur farið fram á að Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air vegna vanhæfis.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, staðfestir í samtali við Mannlíf að bankinn hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, verði settur af vegna vanhæfis. Hann staðfestir einnig að það tengist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

„Ég vil að öðru leyti ekki tjá mig um þetta. Málið er bara í farvegi og við ætlum ekki að reka það í fjölmiðlum,“ segir Haraldur í samtali við Mannlíf en Arion banki er, eins og kunnugt er, einn af stærstu kröfuhöfunum í þrotabú flugfélagsins WOW air. Þegar WOW air varð gjaldþrota skuldaði félagið bankanum á annan milljarð króna.

Þótt Arion banki hafi farið fram á að Sveinn Andri verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air, gæti það orðið snúið. Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, segir að mikið þurfi til að skiptastjóri þrotabús sé settur af eftir að hafa verið skipaður.

Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi.

„Það þarf mikið til. Það eru ákvæði í lögum um gjaldþrotaskipti sem segja að viðkomandi þurfi að brjóta af sér í starfi eða vera með stórkostlega slælega framgöngu. Undanfari er yfirleitt á þá leið að sett hafi verið fram aðfinnsla við héraðsdóm á störfum viðkomandi og að Héraðsdómur hafi fallist á réttmæti aðfinnslanna. Ef Héraðsdómur telur að þessar aðfinnslur séu nægilega miklar getur dómari sett viðkomandi af. Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi,“ segir Arnar.

Umdeild ákvörðun

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra og Þorsteins Einarssonar einnig valdið titringi innan lögmannastéttarinnar síðustu daga. Hver lögmaðurinn á fætur öðrum hefur komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt skipanina. Þung orð hafa fallið um ógagnsæi og spillingu innan Héraðsdóms Reykjavíkur.

Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í Fréttablaðinu að skipan hans væri undarleg í ljósi þess að hann væri umdeildur vegna fyrri embættisgjörða sem skiptastjóri yfir öðrum stórum búum. Þar vísa þær til þess að fjögur félög kærðu hann nýlega, m.a. Mjólkursamsalan og Sláturfélag Suðurlands, vegna þrotabús EK1923.

Áslaug Björg­vins­dótt­ir, lögmaður og fyrr­ver­andi héraðsdóm­ari, sagði í viðtali á mbl.is að ógagn­sæi ríki hjá dóm­stól­um um skip­an skipta­stjóra og eft­ir­lit dóm­stóla með þeim. Kvartanir vegna starfa skiptastjóra berist reglulega en ekkert sé birt opinberlega um það ef dóm­ur­inn finni að störf­um skipta­stjóra eða víki þeim úr starfi, ólíkt því sem gild­ir um önn­ur mál fyr­ir dóm­stól­um.

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gengur lengra í færslu á Facebook og sakar Héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum eftir hentisemi.

„Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki. Hvers vegna það er þori ég ekki að segja til um. Það verða aðrir að geta í eyðurnar með það,“ segir Þórður m.a. í færslunni og í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði hann: „Það er ekkert gagnsæi sem er haft að leiðarljósi við þessar úthlutanir og skipanir.“

Símon Sigvaldason hefur vísað ásökunum Þórðar á bug í samtali við Vísi og sór jafnframt af sér nokkur tengsl við Svein Andra sem gæfi honum tilefni til þess að hygla honum sérstaklega.

Mynd / Kristinn Magnússon

Hentistefnuflokkur íslenskra stjórnmála

Miðflokkurinn er að marka sérstöðu í íslenskum stjórnmálum með getu sinni til að taka flókin mál, smætta þau niður í einfaldar lausnir og stilla sér upp sem varðmanni fullveldis og almennings í þeim.

Leiðtogi flokksins hefur náð góðum tökum á skynhyggjustjórnmálum og virðist geta staðið af sér ótrúlegustu hneykslismál. Það síðasta, Klausturmálið, hefur flýtt för flokksins á jaðar stjórnmálanna. Þar virðist hann kunna vel við sig.

Á vetrarfundi Miðflokksins um síðustu helgi var svo samþykkt stjórnmálaályktun sem gaf mjög skýrt til kynna hvert flokkurinn ætlar að stefna í sinni pólitík.

Þar kom fram að flokk­ur­inn vilji þjóð­legar áhersl­ur, og að hann hafni með öllu þriðja orku­pakk­an­um. Að horfið verði frá innflutningi á ófrosnu kjöti og eggjum, sem dómstólar hafa þegar sagt að sé brot á alþjóðasamningum. Að afnema eigi verðtryggingu húsnæðislána án þess að tilgreint sé hvernig eigi að gera það. „Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar,“ stóð neðst í ályktuninni.

Sig­mundur Davíð sagði í ræðu sinni á fundinum að þriðji orku­pakkinn væri „stór­hættu­leg­ur“ og hann sé eitt „tann­hjól kerf­is­ins“ sem Mið­flokk­ur­inn vilji berj­ast gegn. Flokk­ur­inn hafi þá stefnu að ráða eigin örlögum en ekki láta það í hendur and­lits­lausra stofn­anna út í heim­i.

Fyrir liggur að þessi stefna á sér stuðningsmenn hérlendis. Þrátt fyrir Panamaskjölin, allar samsæriskenningarnar og Klausturmálið þá er Miðflokkurinn að ná vopnum sínum að nýju samkvæmt könnunum. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist fylgi hans níu prósent, eða jafn mikið og fylgi Framsóknarflokksins.

Lestu fréttaskýringuna í heild sinni á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

„Allt eftir óskum hvers og eins“

Fyrirtækið Fanntófell hefur síðan 1987 framleitt borðplötur, sólbekki, veggklæðningar og skilrúm auk annarrar sérsmíði. Nýlega hóf það einnig innflutning á lerki og gluggum og því er af nógu að taka fyrir þá sem eru að byggja, bæta og breyta.

Fanntófell flutti nýlega í glæ nýtt húsnæði á Gylfaflöt 6­8 í Reykjavík og þar starfa 12 manns. Fyrirtækið var stofnað í Reykholti í Borgarfirði árið 1987 í 100 fermetra húnæði af þeim Þóri Jónssyni og Sigurði Braga Sigurðssyni sem nú er eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Veggklæðning og borðplata úr Arpa-harðplasti.

„Ég tók algerlega við fyrirtækinu þegar það flutti til höfuðborgarinnar árið 1990 og síðan hefur það stækk að jafnt og þétt en núverandi hús næði er um 1.700 fermetrar,“ segir Sigurður.

Einu á landinu í formbeygingu

Sérsvið Fanntófells er svokölluð form beyging á harðplasti en jafn framt eru framleiddar plötur úr lím tré, Fenix og akrýlsteini. „Form beyg ing plasts yfir brúnir hefur verið sérstaða okkar frá upp hafi og við erum þau einu á land inu sem gerum þetta. Okkar aðal við skiptavinir í gegnum tíðina hafa verið verktakar og inn réttinga salar en sala til ein stakl inga hafa aukist jafnt og þétt. Við hófum svo innflutning á lerki og gluggum í fyrra og verið er að skoða fleiri möguleika í innflutningi á byggingavörum,“ segir Sigurður.

Sérsmíði, undirlímdir stálvaskar.

Gæðaefni í framleiðslu

Sigurður segir að gæðaefni sé notað í allri framleiðslu. „Má þar nefna harð plast HPL, high press ure l ami n at es, sem er slit sterkt og hitaþolið, akrýl stein frá
REHAU, Fenix NTM og besta fáan lega límtré sem boðið er upp á hverju sinni. Eins og áður sagði fram leiðum við fyrir verk taka, inn rétt ingaframleiðendur og ein stak linga, allt eftir óskum hvers og eins.“

Í samstarfi við Fanntófell
Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðunni fanntofell.is.

Borðplata úr akrýlsteini og Crystal-hurðafrontar.

 

„Við megum ekki láta óttann stjórna okkur“

Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, varð á dögunum fyrst íslenskra biskupa til að heimsækja mosku á Íslandi. Hún segir andúð gegn innflytjendum og hælisleitendum byggjast á hræðslu og að Ísland þurfi að leggja meira af mörkum í málefnum flóttamanna. Meðal annars þurfi stjórnvöld að hætta að senda fólk út í óvissuna.

„Það var gaman að koma þarna og einstaklega vel tekið á móti okkur og ýmislegt sem kom mér kannski á óvart. Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt, til dæmis fengum við te og arabískar kökur sem maður fær ekki á hverjum degi,“ segir Agnes um móttökurnar sem hún fékk í Skógarhlíð í forsíðuviðtali við Mannlíf sem kemur út á morgun.

Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við

Í viðtalinu ræðir Agnes þá stöðu flóttafólks á Íslandi. „Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann? Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við?“

Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni í Mannlífi sem kemur út á morgun.

Mynd / Hallur Karlsson

Fjölbreytileikanum loksins fagnað á síðum Vogue

Tískuheimurinn, með tískubiblíuna Vogue fremsta í flokki, hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir að fagna fjölbreytileikanum. Hvítar og horaðar fyrirsætur, og seinna leikkonur, eru það sem við höfum mátt venjast á forsíðum tímaritsins síðan það var stofnað fyrir rúmri öld.

Í því ljósi hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með fyrstu skrefum nýs ritstjóra breska Vogue, Edwards Enninful, en fyrsta konan til þess að prýða forsíðuna undir hans stjórn var engin önnur en feminíski aktívistinn og fyrirsæta af blönduðum uppruna, Adwoa Aboah. Með þeirri ákvörðun gaf hann til kynna það sem koma skal – hann mun ekki veigra sér við að taka pólitíska afstöðu.

Adwoa hefur verið ein vinsælasta fyrirsætan síðustu misserin en hún er einnig stofnandi samtakanna Gurls Talk, sem hvetja ungar konur til þess að tala opinskátt um málefni sem brenna á þeim, hvort sem það er andleg heilsa, líkamsímynd, fíkn eða kynvitund.

Stærstu fyrirsagnir þessa fyrsta tölublaðs nýja ritstjórans minnast ekki á trendin, vinsælustu töskurnar eða nýja maskara, heldur listar upp nöfn þeirra sem eru hvað stærstir á sviði pólitíkur og lista og eru einnig af ólíkum uppruna og á breiðu aldursbili.

Fráfarandi ritstýra, Alexandra Shulman, hefur mátt sæta gagnrýni fyrir fjölbreytileikaskort en engin svört fyrirsæta prýddi forsíðuna ein á báti frá því Naomi Campbell gerði það árið 2002 þangað til Jourdan Dunn sat fyrir á forsíðu tískutímaritsins árið 2014.

Nýi ritstjórinn segist staðráðinn í því að sýna konur af fjölbreyttum uppruna, með mismunandi vaxtarlag og bakgrunn.

Jane Fonda er nýjasta forsíðufyrirsæta breska Vogue, hún er 81 árs.

Edward er fyrsti svarti og jafnframt fyrsti karlkynsritstjóri tímaritsins í rúmlega 100 ára sögu þess og segist vilja að Vogue verði eins og búð sem konur hræðast ekki að ganga inn í.

Þið munuð sjá allar stærðir og gerðir, aldur, kyn og ólík trúarbrögð í blaðinu, ég er mjög spenntur fyrir því.

„Áður en ég fékk starfið talaði ég við margar konur sem fannst þær ekki geta samsamað við þær sem voru hvað mest á síðum tímaritsins. Þess vegna langaði mig til þess að hafa blaðið opið og vinalegt. Þið munuð sjá allar stærðir og gerðir, aldur, kyn og ólík trúarbrögð í blaðinu, ég er mjög spenntur fyrir því. Og mun minna af fyrirsætum sem eru með óheilbrigt útlit,“ lét hinn nýi ritstjóri hafa eftir sér.

Edward bætti því við að hann myndi berjast gegn „stærð núll“-kúltúrnum í tískuheiminum með því að sýna konur með allskonar vaxtarlag og ræða opinskátt við hönnuði um þessi mál.

„Þegar ég byrjaði í bransanum á tíunda áratug síðustu aldar voru prufustærðirnar númer 4 og 6. Í dag eru prufustærðirnar tvöfalt núll. Mér finnst að tískubransinn, eins og hann leggur sig, verði að taka þátt í samræðum um þessi mál.“

Segir að börnum ætti að vera bannað að spila Fortnite

Harry Bretaprins hefur sterkar skoðanir á tölvuleiknum Fortnite.

Harry Bretaprins er þeirrar skoðunar að börn ættu aldrei að spila tölvuleikinn Fortnite. Harry flutti erindi um málið á ráðstefnu um geðheilbrigði í gær. Hann sagði að það væri óábyrgt að leyfa börnum að spila leikinn og að það ætti að banna það. Þetta kemur fram á vef Business Insider.

„Hver er ávinningur þess að leyfa þennan leik á heimilinu? Þetta er eins og að bíða eftir að skaðinn er skeður,“ sagði hann meðal annars.

Leikurinn Fortnite hefur náð miklum vinsældum síðan hann kom á markað árið 2017 og skráðir notendur eru um 250 milljónir, þar á meðal eru fjölmörg börn.

Harry hélt áfram og talaði um að tölvuleikir á borð við Fortnite ýttu undir tölvufíkn. „Fíkn sem heldur þér fyrir framan tölvuskjáinn. Þetta er óábyrgt.“

Þess má geta að sam­kvæmt Video Game Revolution VGR og fréttastofu ABC get­ur Fortnite verið jafn ávana­bind­andi og heróín og hafa margir sérfræðingar tjáð sig um málið og varað við leiknum.

Þar á meðal er banda­rísk­i tauga­sk­urðlækn­irinn Dr. Jack Kruse. Hér fyrir neðan má sjá Facebook-færslu sem hann birti fyrir nokkrum mánuðum.

„Ég hef aldrei tekið sopa af áfengi“

Manuela Ósk

Manuela Ósk Harðardóttir hefur aldrei smakkað vín og er reglulega spurð að því hver ástæðan sé. Hún segir enga sérstaka ástæðu vera fyrir því, hana hefur einfaldlega aldrei langað til að drekka áfengi.

„Ég fæ þessa spurningu svo oft,“ sagði segir Manuela Ósk Harðardóttir í viðtali við Stefán Árna Pálsson í þættinum Einkalífið, þegar hún var spurð út í ástæðuna fyrir því að hún hafi aldrei drukkið vín.

„Þegar ég segi að ég hafi aldrei drukkið eða drekki ekki og þá halda rosalega margir að ég hafi átt við áfengisvandamál að stríða en það hefur aldrei verið. Ég hef aldrei tekið sopa af áfengi. Það var ekki meðvituð ákvörðun beint, ég eiginlega bara byrjaði aldrei, ég var alltaf hálf hrædd við það,“ útskýrði Manuela.

…þá halda rosalega margir að ég hafi átt við áfengisvandamál að stríða.

Hún segist einfaldlega ekki hafa haft áhuga á því að smakka vín. „Ef mig myndi langa það í dag þá myndi ég bara prófa það.“

Manuela var einnig spurð út í Ungfrú Ísland keppnina og hvort hún hefði einhvern tíman séð eftir því að hafa tekið þátt. „Ungfrú ísland var góð reynsla fyrir mig.“

Í þættinum talar hún einnig um holdafar sitt og samfélagsmiðla svo dæmi séu tekin.

„Ég er búin að stúdera samfélagsmiðla. Mér finnst þeir svo áhugaverðir, ég tók eftir þessu við þessa einu mynd og ákvað að spyrja að þessu, og þetta endaði svona,“ sagði Manuela og vísaði þar í spurningu sem hún varpaði fram í janúar. Þá spurði hún fylgjendur sína á Instagram hvernig stæði á því að um 51 þúsund manns fylgja henni á Instagram en hún fær gjarnan um 300-700 „like“ við hverja mynd. Sú tölfræði þótti henni undarleg. „Fylgjendur ættu ekki bara að vera fylgjendur, þeir ættu að vera stuðningsmenn,“ skrifaði hún þá meðal annars.

Sjá einnig: Undrandi á litlum viðbrögðum miðað við fjölda fylgjenda

Viðtalið við Manuelu má sjá á vef Vísis.

Mynd / Styrmir Kári

Skúli hyggst endurvekja rekstur WOW air

Skúli Mogensen hyggjast endurvekja rekstur flugfélagsins WOW air. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.

Þar segir að nú leiti hann fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, til þess að standa straum af rekstrinum fyrstu misserin.

Þá segir að stefnt verði að því að reka lággjaldastefnu í líkingu við þá sem WOW air hafi rekið.

Í fjárfestakynningu sem Markaðurinn vísar í segir að nýja félagið muni til að byrja með, eftir að hafa sótt sér flugrekstrarleyfi, reka fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo. „Fyrstu tólf vikurnar stefni nýja félagið að því að sinna leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag en í lok næsta júnímánaðar sé gert ráð fyrir að vélar NewCo fljúgi frá Keflavíkurflugvelli til þrettán áfangastaða víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku, nánar tiltekið til Lundúna, Parísar, Amsterdam, Berlínar, Kaupmannahafnar, Dublinar, Tenerife, Alicante, Frankfurt og Barcelona í Evrópu og New York, Baltimore og Boston í Bandaríkjunum,“ segir í frétt um málið á vef Fréttablaðsins.

Samkvæmt fréttinni munu Skúli og aðrir sem koma að stofnun nýja félagsins eiga 51 prósents hlut í nýja félaginu á meðan þeir fjárfestar sem leggja félaginu til 40 milljónir dala munu eiga 49 prósenta hlut.

Sjá einnig: WOW air hætt

Fyrrverandi starfsmenn WOW air halda fatamarkað

Hópur fyrrverandi starfsmanna WOW air tekur til í fataskápnum og skipuleggur fatamarkað.

Um 70 fyrrverandi starfsmenn flugfélagsins WOW air hafa nú tekið höndum saman og skipuleggja fatamarkað.

Fatamarkaður fyrrverandi starfsmanna WOW air verður haldinn á laugardeginum, 13. apríl, í húsnæði sem er við hliðina á Bónus í Holtagörðum.

Á Facebook segir að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á markaðinum því fatnaður af öllum stærðum og gerðum verður til sölu.

Margt fólk virðist hafa áhuga á að gera góð kaup á markaðinum og nokkur hundruð manns boða komu sína á markaðinn.

Sjá einnig: WOW air hætt

Tilfinningahlaðið og taktdrifið popprokk

16.maí 2019 kl:20:00 í Hörpunni.

 

Tónlistarmaðurinn Hjörvar Hjörleifsson mun fagna Þann 16. maí útkomu nýrrar sólóplötu sinnar, 52 fjöll. En plata kom út í september á síðasta ári.

Hjörvar spilar tilfinningahlaðið og taktdrifið popprokk þar sem greina má áhrif frá nýrómantík nýbylgjunnar, ekki síst á nýju plötunni.

„Það er drama og knýjandi ástríða í lögunum … maður fær illt í karmað vitandi að tónlist Hjörvars er ekki að flæða um hvert heimili hérlendis, sem erlendis.“ – Arnar Eggert Thoroddsen

„Ein af 10 bestu plötum ársins 2018.“ – Björn Jónsson

52 fjöll er þriðja plata Hjörvars en áður hafa komið út plöturnar Paint Peace (2004) og A Copy of Me (2008). Platan verður til sölu á staðnum auk eldri geisladiska, en auk þess er hægt að panta eintök með því að senda honum skilaboð.

Með Hjörvari koma fram Arnar Þór Gíslason (trommur), Guðni Finnsson (bassi), Birkir Rafn Gíslason (gítar), Þorbjörn Sigurðsson (gítar og hljómborð), Hrafn Thoroddsen (gítar og hljómborð) og Friðborg Jónsdóttir (raddir).

Þann 1. júní heldur Hjörvar lágstemmdari útgáfutónleika í Hannesarholti, en hægt er að kaupa miða á Tix.is

„Alveg hægt að mynda í öllum veðrum“

||||||||||
||||||Heiða Helgadóttir.||||

Heiða Helgadóttir ljósmyndari, sem hlotið hefur fjölda verðlauna fyrir verk sín, hefur myndað mörg brúðhjónin. Heiða leggur áherslu á heimildaljósmyndun en hún fylgir þá brúðhjónunum eftir allan brúðkaupsdaginn.

Heiða Helgadóttir.

Heiða fer oft með brúðhjónum út á land og myndar þau í náttúrunni þannig að öll athyglin þann daginn fer í myndatökuna. Oft er myndað í hvaða veðri sem er enda myndir Heiðu eins og listaverk.

„Mér finnst skemmtilegast að gera heimildaljósmyndun – að fylgja fólki eftir allan daginn. Fólk fær þá sæta myndasögu af deginum sem er gaman að eiga,“ segir Heiða sem hefur myndað fjöldann allan af brúðhjónum, bæði daginn sem brúkaupið fer fram og eins fyrir og eftir hann. Hún segir að í síðara tilvikinu fari myndatökur oft fram úti á landi – Seljalandsfoss, Skógafoss og Reynisfjara séu t.d. vinsælustu staðirnir og þá taki tökur heilan dag.

„Íslendingar eru ekki búnir að fatta að myndatakan þarf ekki endilega að fara fram á brúðkaupsdaginn sjálfan því að þá er svo mikið stress. Það er gaman að taka annan dag í þetta og hafa þá góðan tíma.“

Íslendingar eru ekki búnir að fatta að myndatakan þarf ekki endilega að fara fram á brúðkaupsdaginn sjálfan.

Heiða segir að þegar hún taki myndir af brúðhjónum á brúðkaupsdeginum leggi hún áherslu á að brúðhjónin séu þau sjálf, á meðan hún reyni að gera sig ósýnilega og finna skemmtileg sjónarhorn. „Ég reyni að ná tengingu við fólkið svo það geti slakað á og haft gaman. Ég vil ekki að það standi eins og frostpinnar og brosi. Það á bara að vera það sjálft. Ég legg áherslu á lifandi og eðlilegar myndir og reyni að fanga persónuleg augnablik, gleði í augum og bara eitthvað sætt.“

Dýrmætar minningar

Eins og alkunna er getur íslenskt veðurfar verið fjölbreytt og hefur Heiða myndað brúðhjón í alls konar veðri. „Ég tók t.d. myndir í klikkuðustu rigningu og roki sem ég hef lent í. Brúðhjónin höfðu reyndar gaman af því og ég líka. Þau voru rennblaut í gegn en myndirnar voru svolítið skemmtilegar. Þannig að það er alveg hægt að mynda í öllum veðrum.“

Spurð um stílinn á myndunum sem hún tekur segist Heiða hafa gaman af dökkum myndum og dramatísku yfirbragði „Mér finnst dökkt yfirbragð vera fallegra; finnst gaman að taka myndir þar sem lítið ljós er í boði. Það er heillandi og áskorun að ná fallegum myndum í litlu ljósi. Fólk þarf því að velja hvað það vill áður en það pantar brúðkaupsljósmyndara. Það þarf að vanda valið.“

Hún segir að það sé dýrmætt fyrir hjón að eiga fallegar brúðkaupsmyndir upp á framtíðina að gera og þá líka með börn þeirra og barnabörn í huga. „Þetta eru svo dýrmætar minningar.“

Myndir / Heiða Helgadóttir

Tímamót fyrir láglaunafólk

Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins við félög innan Starfsgreinasambandsins, VR og önnur félög innan Landssambands verslunarmanna í höfn. Lífskjarasamningur tryggir launafólki frekari kjarabætur.

Fulltrúar VR, Eflingar, Starfsgreinasambandsins og annarra stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins undirrituðu í gærkvöldi kjarasamninga til þriggja ára og átta mánaða, eða frá 1. apríl til 1. nóvember 2022 . Reiknað var með því að undirritun hæfist um klukkan þrjú í húsakynnum Ríkissáttasemjara við Borgartún, en hún dróst a langinn. Um kvöldið var einnig kynntur lífskjarasamningur aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar sem á að tryggja launafólki frekari kjarabætur en kveðið er á um í sjálfum kjarasamningnum.

Í lífskjarasamningnum boðar ríkisstjórnin ýmsar aðgerðir. M.a. eru þar fyrirheit um þriggja þrepa skattkerfi sem tryggja á 10.000 króna skattalækkun til hinna lægst launuðu á mánuði og vaxtalækkanir í kjölfar lækkunar stýrivaxta Seðlabankans, 12 mánaða fæðingarorlof og hærri barnabætur. Að sama skapi eru gefin fyrirheit um umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum og uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins, sem eiga m.a. að lækka leiguverð á húsnæði og gera fólk auðveldara um vik með að leigja. Aðgerðirnar eru metnar á um það bil áttatíu milljarða króna á samningstímabilinu,

„Leiða má líkum að því að enginn kjarasamningur á Íslandi hvorki fyrr né síðar hafi tryggt jafn vel að kjarabætur beinist sérstaklega að lágtekjufólki. Allar launahækkanir samningsins til félagsmanna samflotsfélaganna eru krónutöluhækkanir og við þær bætast sérstakar krónutöluhækkanir á taxta,“ segir í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í framhaldinu.

Í gærkvöld virtist almenn sátt ríkja með útkomuna en hún er talin koma sér vel einkum fyrir barnafjölskyldur og þá sem eru lægst launaðir.

Notar hráefni sem annars myndi enda í ruslinu

Dýravinurinn Melkorka Gunnlaugsdóttir tók sig til árið 2017 og fór að framleiða hundanammi úr íslenskum afurðum undir vörumerkinu Myrrubakarí. Melkorka hefur það að markmiði að sporna gegn matarsóun og notar því afurðir sem myndi vanalega enda í ruslinu.

Hugmyndin kviknaði þegar hún og fjölskylda hennar biðu eftir því að nýr fjölskyldumeðlimur, hundurinn Baltasar, kæmi heim í fyrsta sinn. Hún fór að gera tilraunir með matvæli úr ísskápnum og úr varð hundanammi.

Melkorka segir hundinn sinn hafa borðað hundanammið með bestu lyst.  „Vinkona mín gaf mér svo kökujárn, sérstaklega gert til að baka hundanammi. Svo varð ég mér úti um þurrkofn sem gerði mér kleift að þurrka nammið þannig að úr varð hálfgert kex, það gerir það að verkum að nammið endist lengur. En ég nota engin auka- eða rotvarnarefni í nammið.“

Spurð út í hverskonar hundanammi hún framleiði segir hún: „Núna bjóðum við upp á kjötsagsbita, úr hreinu lambakjötsagi og eggjum, bakað í járninu góða og þurrkað, svo úr verður hálfgert kex. Svo fékk ég þá hugmynd að nýta það sem brotnar af bitunum eftir þurrkun í hálfgert krydd. Ég tek alla mylsnu og mala í duft og það er ætlað sem bragðbætir út á þurrmatinn því margir hundar eru oft tregir við að borða þurrmatinn,“ segir Melkorka sem finnst mikilvægt að nýta allt hráefni vel og sporna þannig gegn matarsóun.

Eggin sem ég kaupi eru svo annars flokks egg, vegna útlitsgalla, og myndi því ekki fara í verslanir en gæðin eru alveg þau sömu.

Þess má geta að Melkorka er í samstarfi við sláturhús og kjötvinnslur á norðurlandi og þaðan kemur hráefnið. „Þær afurðir sem ég nota er allt eitthvað sem myndi annars enda í ruslinu,“ útskýrir hún.

„Eggin sem ég kaupi eru svo annars flokks egg, vegna útlitsgalla, og myndi því ekki fara í verslanir en gæðin eru alveg þau sömu. Þannig að þar erum við líka að sporna gegn matarsóun.“

Þegar Melkorka er spurð nánar út í vöruþróunina segir hún: „Ég gerði ótal tilraunir, sumar virkuðu betur en aðrar. Ég er svo heppin að hafa fullt af hundum í kringum mig til þess að nota sem „tilraunadýr“. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar enda hefur sárvantað íslenska framleiðslu á markaðinn.“

Melkorku dreymir svo um að opna alvöru bakarí. „Mig dreymir um að opna kaffihús eða bakarí þar sem hundar geta komið með eigendum sínum og geta fengið gotterí,“ segir Melkorka kát.

Nánari upplýsingar um Myrrubakarí má nálgast á vef fyrirtækisins.

Villtur viður

Húsgögn og stofustáss úr við gefur heimilinu hlýlegan svip. Hér kemur smá innblástur.

 

Bambuskertalugt sem gefur frá sér hlýja birtu og skemmtilega skugga, ILVA, 12.995 kr.
Grow er dökkbæsað sófaborð úr eik í dönskum shaker-stíl, framleitt af Normann Copenhagen, 70×120 cm. Epal 118.900 kr.
Stand Alone III-stólinn úr smiðju AgustaV er í miklu uppáhaldi, enda einkar glæsileg smíði úr hvítum aski.
Einstakt skurðarbretti úr acacia-við, 50×21 cm. Fakó, 5.100 kr.

 

Töff armstóll úr mangóvið og leðri. Heimili og hugmyndir, 116.900 kr.

 

Skemmtilegur eikarbekkur með tveimur geymsluhólfum. Reykjavík Design, 49.900 kr.

 

Dásamlegur skápur úr aski, 102×210 cm. Seimei, 380.000 kr.

 

Vígalegur og feikifallegur hægindastóll. Heimili og hugmyndir, 157.000 kr.

 

Grófur og töff viðarbekkur. Heimili og hugmyndir, 39.800 kr.

 

Loftljós úr spanskreyr frá Habitat. Tekk Company, 22.500 kr.

Með fyrirvara um að verð gætu hafa breyst.

Myndir / Frá framleiðendum

 

 

„Frelsi internetsins er því miður blekking“

Í sinn nýjasta pistil skrifar Eva H. Baldursdóttir um tækni, internetið og þær „ósýnileg hendur“ sem stýra því sem við sjáum þar.

„Um daginn las ég að símar væru hleraðir í auglýsingatilgangi. Internetinu ber raunar ekki saman um hvort að síminn er hleraður eða hvort hann er að fylgjast með. En þegar við erum í dægrastyttingu á samfélagsmiðlum að gera kannanir á borð við: hvaða bítlalag ert þú, erum við oft að veita aðilum aðgang að upplýsingum okkar á samfélagsmiðlum sem þeir geta svo eftir atvikum nýtt og jafnvel selt þriðja aðila,“ skrifar hún meðal annars.

Eva tekur svo Google og Facebook sem dæmi.

Einn af hverjum 20 í Evrópu notar Google til að leita að upplýsingum. Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins. Samkvæmt tölum hefur Facebook um 1,5 billjón neytendur í heiminum þar af 307 milljónir daglega neytendur í Evrópu. Facebook er orðin aðalauglýsingavélin – internetið sjálft. Instagram er svo í eigu Facebook er með um 100 milljónir notenda til samanburðar.“ Hún bætir við: „Ímyndið ykkur gagnasöfnin sem Google og Facebook eiga.“

Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins.

„Ég hef alltaf upplifað internetið sem ákveðið frelsi apparat og aðhaldsbatterí gagnvart ofríki og spillingu. Þar flæða upplýsingar og leyndarhyggju er gert erfiðara fyrir. Frelsi internetsins er því miður blekking þar sem ósýnilegar hendur stýra því sem við fáum að sjá – að mörgu til þess að gera okkur háð, kaupa eða neyta.“

Pistil Evu má lesa í heild sinni hérna.

„Mikilvægast að brúðarkjóllinn endurspegli persónuleika viðkomandi“

||||||||
||||||||

Eyrún Birna Jónsdóttir kjólaklæðskeri rekur fyrirtækið Brúðarkjólar – Eyrún Birna en hún hannar, oft í samvinnu við tilvonandi brúðir og sérsaumar brúðarkjóla sem eru rómantískir og í bóhemstíl. Eyrún Birna, sem segist leggja áherslu á hreyfingu og flæði í kjólunum, er alltaf með augun opin fyrir fallegum efnum og blúndum sem hún notar í kjólana.

Eyrún Birna Jónsdóttir, brúðarkjólahönnuður og kjólaklæðskeri.

Eyrún Birna Jónsdóttir, brúðarkjólahönnuður og kjólaklæðskeri, rekur fyrirtækið Brúðarkjólar – Eyrún Birna og er með vinnustofu við Nýbýlaveg 6. Hún stofnaði fyrirtækið í fyrra og þeim fjölgar sífellt tilvonandi íslensku brúðunum sem vilja sérsaumaðan brúðarkjól.

„Ég hef alla tíð heillast af brúðarkjólum. Það er eitthvað svo sérstakt við brúðarkjólinn manns, enda sá kjóll sem konan klæðist á einum mikilvægasta degi lífsins. Kjóllinn á að draga fram það besta í hverri brúður og passa fullkomlega. Ég sérsauma hvern og einn kjól og hanna þá í samráði við kúnnann. Ég býð upp á aðeins látlausari kjóla sem eru ólíkir stífum og hefðbundnum brúðarkjólum; kjólarnir mínir eru klæðilegir, úr þægilegum efnum og líkjast kannski meira þeim flíkum sem við klæðumst dags daglega.“

Eyrún Birna saumar oft óhefðbundna brúðarkjóla og hefur hún saumað brúðarkjóla í ýmsum litum. „Ég sauma ekki bara hvíta brúðarkjóla; þeir geta verið í hvaða lit sem er, jafnvel svörtum. Mér finnst mikilvægast að brúðarkjóllinn endurspegli persónuleika viðkomandi brúður og að hún geti fengið að tjá sig á sinn hátt. Það er engin ein uppskrift að hinum fullkomna brúðarkjól.“

Það er engin ein uppskrift að hinum fullkomna brúðarkjól.

Hún segir að oft séu tilvonandi brúðir með ákveðnar hugmyndir og þá vinni hún út frá þeim. Eftir það taka við nokkrar mátanir. „Það er mjög skemmtilegt, eftirminnilegt og persónulegt ferli að láta sérsauma á sig kjól. Þetta samspil fagmannsins og kúnnans er svo mikilvægt.“

Eyrún Birna segist alltaf vera með augun opin fyrir fallegum efnum og blúndum. „Mér finnst mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytt efnisvali, því við búum á litlu landi og viljum helst ekki allar vera í eins brúðarkjólunum. Ég hef í gegnum tíðina heillast af fallegum blúndum og hekli. Ég hef oft notað gamla dúka eða gardínur í kjóla. Þá er hægt að sauma einstakan kjól sem á engan sér líkan.“

Eyrún er á Facebook undir Brúðarkjólar – Eyrún Birna.

 Myndir / Ruth Ásgeirsdóttir

 

Að skanna andlitið fyrir kaffibolla

Á miðri háskólalóðinni í Miami er vatn þar sem ýmis dýr eiga híbýli m.a. stórar iguana-eðlur, skjaldbökur og fljúgandi fiskar. Fátt er betra en tilveran við vatnið í heitri golunni. Eins og svo oft áður sat ég þar með bók, langt komin með sushi dagsins þegar ungur maður vatt sér upp að mér, sagðist vera frá Google – og spurði: „Má ég skanna á þér andlitið?“ Það tók mig smá tíma í hitanum að átta mig. Þegar hann nam að ég væri hugsi yfir þessari bón tók hann fram söluræðuna, benti á símann minn og sagði að Apple væri hvort eða er farið að gera þetta.  „Í staðinn færðu líka ókeypis kaffibolla á Starbucks.“

Um daginn las ég að símar væru hleraðir í auglýsingatilgangi. Internetinu ber raunar ekki saman um hvort að síminn er hleraður eða hvort hann er að fylgjast með. En þegar við erum í dægrastyttingu á samfélagsmiðlum að gera kannanir á borð við: hvaða bítlalag ert þú, erum við oft að veita aðilum aðgang að upplýsingum okkar á samfélagsmiðlum sem þeir geta svo eftir atvikum nýtt og jafnvel selt þriðja aðila. Við vinirnir ræddum kíminn skapandi leiðir til að fara í mál vegna notkunar á gögnum sem safnað er með þessum hætti. Gögn – eru jú orðin það verðmætasta sem til er á internetöldinni.

Mig rámar ekki í að hafa veitt Apple leyfi til að nota hljóðnema símans til að hlera mig eða að skanna á mér andlitið við kaup á símtæki frá þeim. Rökhugsunin segir að heimildin hafi verið grafin í skilmálum sem ég samþykkti þegar ég opnaði símann eða t.d. í skilmálum frá forriti þriðja aðila, appi, sem ég hlóð inn á símann. Hvenær varð það samfélagslega viðurkennt að fela slíka háttsemi í smá letrinu í skilmálum? Hvenær gáfumst við upp fyrir tækninni og léttum okkur í léttu rúmi liggja að veita forritinu sem segir þér hvernig þú myndir líta út sem miðaldra maður óheftan aðgang að ýmiskonar persónuupplýsingum?

Er það raunveruleiki sem við samþykktum að síminn sé eftir atvikum að hlusta á samræður og leitarvélin safni gögnum um athafnir mínar á netinu til að vita hvaða auglýsingu eigi að skjóta að mér næst? Hvenær varð það partur af tilverunni að einhver vildi skanna á mér andlitið. Ekkert mál – fyrir 5 dollara inneign á Starbucks. Ríkir villta vestrið þegar kemur að internetinu?

Neytendum er safnað á bás og svo er otað að okkur allskonar efni eftir algóritmum – gögnin eru seld á nokkuð óheftum markaði í ýmsum tilgangi. Lausnin við þessari frelsisskerðingu innan Evrópu er eftirlit, strangari meðferð persónuupplýsinga þar sem undirliggjandi er reglan samkvæmt persónuverndarreglugerðinni að einstaklingar geti valið hvernig upplýsingar um þá er notaðar. En allt er svo sem leyft. Ég get ekki skilið persónuverndarreglurnar öðruvísi. Auðvitað gegn því að þú samþykkir skilmálana – sem allir lesa – sagði enginn aldrei. Stóru einkafyrirtækin í netgeiranum eru risar.

Tæknirisinn Google, móðurfélagið heitir Alphabet, er með stærstu markaðshlutdeild allra leitarvéla í heiminum eða um 90%. Einn af hverjum 20 í Evrópu notar Google til að leita að upplýsingum. Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins. Samkvæmt tölum hefur Facebook um 1,5 billjón neytendur í heiminum þar af 307 milljónir daglega neytendur í Evrópu. Facebook er orðin aðalauglýsingavélin – internetið sjálft. Instagram er svo í eigu Facebook er með um 100 milljónir notenda til samanburðar.

Google, Facebook og Apple. Þessi fyrirtæki hafa hannað fínar vörur sem hafa breytt lífi okkar en eru hagnaðardrifin eins og önnur. Kenningin um frjálsan markað með sterku aðhaldi á við þar eins og annars staðar. Það á við beggja vegna Atlantshafsins, þó að Evrópa sé komin lengra í reglusetningu en Bandaríkin. Þá er samkeppni á tæknimarkaðnum afar takmörkuð enda meira og minna einokunarfyrirtæki.

Google var t.d. sektað um 1,5 billjón dollara um daginn fyrir að brjóta eigin reglur í tengslum við auglýsingar og aðgang að gögnum í Bandaríkjunum. Frá árinu 2017 hefur Google aukinheldur fengið því sem nemur 8,2 milljóna evra sektir fyrir að taka eigin þjónustu umfram aðra inn í leitarvélinni og ýta samkeppni í burtu. Ímyndið ykkur gagnasöfnin sem Google og Facebook eiga. Eðli málsins samkvæmt þarf að takmarka notkun þessara gagnasafna og skikka fyrirtækin til að veita aðgang að þessum gögnum ef það á að verða til heilbrigð samkeppni á markaðnum. Þá hefur persónuverndarreglugerðin leitt til lagalegs ágreining innan Evrópu en dómstólar munu leiða í ljós hver áhrif regluverksins er á geirann.

Þegar ungi maðurinn fékk neitun um andlitskönnun fyrir ókeypis kaffibolla komst ég ekki hjá þeirri tilfinningu að líða eins og í George Orwell bók og finna sterka tengingu við myndina Matrix – þar sem vélarnar tóku yfir að lokum. Ég hef alltaf upplifað internetið sem ákveðið frelsi apparat og aðhaldsbatterí gagnvart ofríki og spillingu. Þar flæða upplýsingar og leyndarhyggju er gert erfiðara fyrir. Frelsi internetsins er því miður blekking þar sem ósýnilegar hendur stýra því sem við fáum að sjá – að mörgu til þess að gera okkur háð, kaupa eða neyta. Að segja nei við kaffibollanum var því ákveðin valdefling en sýndi mér um leið hversu háð tækninni við erum orðin. Við teljum okkur vera að taka sjálfstæðar ákvarðanir en hversu mikið er þeim stýrt? Netið verður því ekki lengur táknmynd frelsis heldur fangelsis.

Flatbrauð með steiktum lauk, chili-sveppum og sesamsmjörssósu

Hér kemur uppskrift að dásamlegri pizzu sem er fljótlegt að gera og því hentar hún vel þegar tíminn er naumur og allir svangir eftir annasaman dag. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir að pizzan sé bökuð á grilli en hana er auðvitað líka hægt að baka í ofni.

Flatbökudeig:
12 tommu flatbrauð

6 dl hveiti
2 ¾ tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
1 msk. ólífuolía
2.5 dl vatn

Álegg:

6 msk. olía
4 stk. laukur, sneiddur
1 tsk. sjávarsalt
3 portobello-sveppir, sneiddir
1 askja flúðasveppir, sneiddir
1 msk. hrísgrjónaedik
1 msk. sojasósa
1 msk. sambal oelek chili-mauk
3 dl gouda-ostur, eða annar ostur, rifinn
1 dl parmesanostur,rifinn
hnefafylli klettakál
2 msk. kaldpressuð ólífuolía

Setjið þurrefnin í hrærivélarskál með hnoðara. Setjið olíu og vatn saman við í skömmtum. Hrærið þar til deigið hættir að festast við hrærivélarskálina. Þetta tekur u.þ.b. 3-5 mín. Það má líka gera þetta í höndum. Setjið til hliðar. Hitið olíu á pönnu við meðalhita og setjið laukinn út á, steikið í 3-4 mín. án þess að hreyfa mikið við honum.

Snúið honum einu sinni til tvisvar og steikið áfram í um 5 mín. eða þar til hann hefur brúnast vel, saltið og takið af hitanum og setjið til hliðar. Hitið 2 msk. olíu á pönnu og steikið sveppina í 5 mín. með smávegis af salti. Bætið ediki, sojasósu og chili-mauki út á pönnuna og hrærið vel saman við sveppina, bragðbætið með salti og pipar, takið af hitanum. Fletjið deigið út.

Hitið grillið á meðalhita og penslið grillgrindina með olíu. Passið að hafa hana hreina áður en þið byrjið. Gott er hafa áleggið við höndina svo ekki þurfi að fara frá grillinu á meðan að botninn grillast. Setjið botninn á grillið og eldið báðum megin í 2-3 mín. á hvorri hlið eða þar til góðar grillrendur hafa myndast.

Snúið botninum með töng. Takið botninn af grillinu og penslið með olíu, dreifið hluta af ostinum yfir, dreifið lauknum og sveppunum yfir ostinn og svo að síðustu afganginum af ostinum. Setjið aftur á grillið með lokið á þar til osturinn bráðnar eða í um 3-5 mín.  Takið af grillinu. Stráið t.d. klettakáli yfir og berið fram með sósunni.

Athugið að ef þið ætlið að baka pizzuna í ofni þá er gott að baka hana í 220° heitum ofni í um 10 mínútur eða þar til pizzan hefur fengið gylltan lit.

Græn sesamsmjörsósa:

2 dl tahini-sesamsmjör
hnefafylli steinselja
safi úr einni sítrónu
1 dl ólífuolía
1 skalotlaukur
hnefafylli ferskt dill
2 hvítlauksgeirar
salt og pipar eftir smekk

Setjið öll innihaldsefni í blandara og látið vélina ganga í um eina mín. eða þar til sósan er orðin silkimjúk og græn. Bragðbætið með salti og pipar.

Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir og Nanna Teitsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Bergþóra Jónsdóttir

„Búnar að upplifa mörg gæsahúðaraugnablik“

||||
||||

Þær Kolbrún Pálína Helgadóttir og Kristborg Bóel Steindórsdóttir eru önnum kafnar þessa dagana í tökum á sjónvarpsþáttum um skilnaði.

 

Þættirnir, sem eru framleiddir af Saga Film og Sjónvarpi Símans, verða sjö talsins og fjalla um ást, ástarsambönd, skilnaði og allt þar á milli.

Kolbrún og Kristborg hafa verið önnum kafnar í tökum og eru langt komnar í ferlinu. „Eftir gríðarlegan undirbúning síðustu mánaða með frábæru teymi Saga Film hófust tökur formlega í síðustu viku en við eigum enn nokkra tökudaga eftir. Þá treystum við á hugrakka einstaklinga sem eru til í að deila reynslu sinni með okkur í von um að geta hjálpað öðrum þarna úti,“ segir Kolbrún.

Þá treystum við á hugrakka einstaklinga sem eru til í að deila reynslu sinni með okkur.

„Tökudagarnir voru eðlilega langir og strangir en ganga framar vonum. Viðmælendur okkar hafa verið frábærir og við erum búnar að upplifa mörg gæsahúðaraugnablik yfir því hvað fólk er opið og tilbúið að gefa af sér,“ útskýrir Kolbrún. Hún segir að það hafi gengið vel að finna viðmælendur sem eru tilbúnir að opna sig og deila sinni reynslu.

Krist­borg Bóel skrifaði bók um sinn eig­in skilnað, bók­in 261 dag­ur kom út í fyrra.

„Það hefur gengið vonum framan að fá viðmælendur þó svo að þeirri vinnu sé ekki lokið enn. Við upplifum að það séu allir tilbúnir að aðstoða okkur og fólki finnst greinilega mikilvægt að tala um þetta málefni. Fólk virðist vera sammála um að það þurfi að breyta viðhorfi fólks til ástarsambanda og mögulega minnka kröfurnar aðeins, eyða minni tíma á samfélagsmiðlum og leggja meiri áherslu á sjálfsrækt til þess að vera hæfur til að vera í góðu sambandi. Við erum að fá góð ráð sem vonandi gagnast öllum þarna úti, bæði einstaklingum, fólki í sambandi og fráskildum.“

Flest höfum við erfiða reynslu í bakpokanum.

Kolbrún segir vinnuna í kringum þættina hafa verið gefandi en líka krefjandi enda er auðvelt að tengja við margt sem hefur komið fram í tökum. „Öll getum við tengt við eitthvað sem kemur fram í þessum viðtölum, flest höfum við erfiða reynslu í bakpokanum. En allt þetta upplýsingaflæði er búið að vera svakalega lærdómsríkt og mannbætandi.“

Sigga Dögg kynfræðingur kemur fram í þáttunum.

Þess má geta að þættirnir verða sýndir í haust á Sjónvarpi Símans.

Sjá einnig: „Skilnaður skorar mjög ofarlega á streituskalanum“

Áhugasamir geta fengið smá innsýn inn í tökuferlið í gegnum Instagram hjá Kristborgu og Kolbrúnu.

„Við eigum að vera í góða liðinu“

||
||

Biskup Íslands hefur áhyggjur af upprisu afla sem ala á ótta gagnvart innflytjendum og minnihlutahópum. Sjálf hefur hún skipað sér og kirkjunni í það lið sem berst gegn slíkum málflutningi með því að breiða út kærleik og virðingu.

Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, heimsótti á dögunum mosku múslíma í Skógarhlíð. Heimsóknin var söguleg því þetta var í fyrsta skipti sem biskup heimsækir mosku á íslenskri grundu. Skömmu áður hafði sést til hennar á Austurvelli þar sem hælisleitendur höfðu safnast saman í von um að fá áheyrn ráðamanna.

Þótt framgöngu Agnesar hafi almennt verið vel tekið mátti þó heyra gagnrýnisraddir, meðal annars úr sölum Alþingis. Agnes gefur lítið fyrir slíkar úrtöluraddir og segir samtal einu leiðina til að byggja brú á milli ólíkra menningarhópa. Þetta samtal, þar sem kirkjan er virkur þátttakandi, sé sérstaklega mikilvægt nú þegar upp rísa öfl sem nota óttann til að reka fleyg á milli ólíkra þjóðfélagshópa.

Múslimar vilja vera góðir samfélagsþegnar

„Það var gaman að koma þarna og einstaklega vel tekið á móti okkur og ýmislegt sem kom mér kannski á óvart. Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt, til dæmis fengum við te og arabískar kökur sem maður fær ekki á hverjum degi,“ segir Agnes um móttökurnar sem hún fékk í Skógarhlíð.

Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt.

Tilefnið var heimsókn forseta vettvangs múslima í Evrópu, Abdul-Vakhed Niyzov, þar sem meðal annars var rætt um mikilvægi friðar og aðgerða í kjölfar atburðanna hræðilegu í Christchurch í Nýja-Sjálandi þann 15. mars þegar vopnaður maður réðst á tvær moskur og myrti 50 saklausa borgara. Agnes segir að það hafi verið hennar val að fundurinn fór fram í moskunni.

„Mér var boðið að koma í moskuna en þeir sögðust líka geta komið til mín eða hitt mig annars staðar í bænum. Karim [Askari, forstöðumaður moskunnar í Skógarhlíð] hafði áður boðið mér í heimsókn og ég vildi bara þiggja boð hans um að koma á hans heimastöðvar.“

„Virðing, kærleikur og traust. Þetta eru grunnstoðir í mannlífinu. Þetta eru orðin sem vígslumaðurinn í kirkjunni notar þegar fólk giftir sig, þetta eru þrjár undirstöður sem eru samofnar,“ segir Agnes.

Þar var Agnesi tekið með virktum og hjó hún sérstaklega eftir því að henni var heilsað með handabandi við komuna, eitthvað sem hún hefur ekki alltaf upplifað í samskiptum hennar við múslima. Og það voru fleiri minnisstæð atriði í heimsókninni.

„Þarna var ein kona með slæðu sem sat við hliðina á mér. Maður hefur svo sem hitt múslimakonur áður en mér fannst svo gaman að fá að sitja með henni í skjóli vináttunnar. Hún fæddist í Sýrlandi og ég á Íslandi og þess vegna er ég eins og ég er og hún eins og hún er. Svo fannst mér svo gaman að sjá þegar ég fór út, að þegar þessi kona og hennar maður voru að fara af bílastæðinu á sínum bíl og hver keyrði? Það var konan sem sat undir stýri. Þetta er einhvern veginn ekki sú mynd sem birtist manni í fjölmiðlum en þetta segir manni að hvort sem fólk er múslimar, kristið, hindúar, búddistar eða hvað sem er, við erum öll fólk sem lifum í því samfélagi sem við erum í og göngum fram sem slík.“

Agnes leggur áherslu á að samtal sé besta tækið til að rjúfa múra og eyða fordómum. Þess vegna sé samráðsvettvangur trúarbragðanna, sem starfræktur hefur verið síðan 2006, svo mikilvægur. Þar sameinast ólíkir fulltrúar trúarbragðanna um það sem sameinar en ekki það sem sundrar.

„Ég upplifði það mjög sterkt í moskunni að múslimar hafa einlægan vilja til þess að vera góðir samfélagsþegnar í því samfélagi þar sem þeir búa hverju sinni. Þeir sem búa á Íslandi vilja verða Íslendingar og lifa hér sem slíkir, ala börnin sín upp sem Íslendinga og eru ekki að reyna að breyta neinu. En auðvitað er það þannig í öllum samfélögum að breytingar eiga sér stað með hverri kynslóð og allar manneskjur hafa einhver áhrif einhvers staðar á einhvern, þess vegna verður þessi þróun.“

Það er ekki nóg að tala

Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli um miðjan marsmánuð vöktu mikla athygli en þau voru líka umdeild. Til ryskinga kom á milli mótmælenda og lögreglu og á samfélagsmiðlum mátti greina talsverða vandlætingu á framferði hælisleitenda. En þeir voru líka margir sem tóku undir málstað þeirra, meðal annars um slæman aðbúnað þeirra og afskiptaleysi stjórnvalda. Agnes tilheyrir þeim hópi.

„Ég lít þannig á náungann að ég elska náungann. Ég elska Guð, náungann og sjálfa mig í þessari röð. Náungi minn eru allar manneskjur og sérstaklega þær manneskjur sem þarfnast hjálpar. Þjóðkirkjan hefur, eins og aðrar kirkjur á Vesturlöndum, látið til sín taka varðandi þessi málefni hælisleitenda vegna þess að við lítum ekki á hælisleitendur sem hælisleitendur, við lítum á þá sem fólk. Hælisleitendur eru bara fólk eins og við en flestir þeirra hafa upplifað miklu erfiðari lífsreynslu en við flest hér á Íslandi vegna þess að þau hafa þurft að flýja sitt land, flýja frá ófriði. Þau eru að sækjast eftir friði og þau eru að sækjast eftir mannréttindum. Þetta vil ég styðja.“

Agnes bætir við að hluti þess fólks sem hafi verið á Austurvelli hafi nýtt sér þjónustu kirkjunnar.

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja. Maður verður að lifa í samræmi við boðun sína. Það er ég að reyna að gera, meðal annars með því að vera nærverandi í eigin skinni á Austurvelli til að sýna að mér er ekki sama um þau og hjálpa þeim að ná áheyrn. Af því að þau langar til að tala við þau sem hér ráða og búa til lögin fyrir okkur. Það er nú bara þannig að eftir sem heyrist hærra í manni er meiri von til að á mann sé hlustað. Það að opna Dómkirkjuna fyrir öllu fólki, líka fyrir hælisleitendum, er bara í anda frelsarans.“

Ósmekkleg ummæli á þingi

Það voru ekki allir sáttir við að kirkjan hafi verið opin hælisleitendum og slíka vandlætingu mátti meðal annars greina í sölum Alþingis. Þingmaður Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson, fór þar fremstur í flokki. Talaði hann um „tjaldbúðir“ hælisleitenda á Austurvelli og að æðstu menn þjóðkirkjunnar hafi staðið fyrir því að breyta Dómkirkjunni í „almenningsnáðhús“ um leið og hann furðaði sig á nærveru æðstu manna þjóðkirkjunnar á Austurvelli.

Agnes hefur ekki miklar áhyggjur af slíkum gagnrýnisröddum. „Það er nú þannig að engin manneskja getur stjórnað annarri og maður á nú nóg með að stjórna sjálfum sér þannig að ég ræð svo sem ekki viðbrögðum fólks eða hugsunum og því síður skoðunum. Við búum í frjálsu landi, sem betur fer, og það er öllum frjálst að hafa sína skoðun svo framarlega sem hún meiðir ekki annað fólk,“ segir hún og bætir við: „Menn hafa sínar skoðanir og ef það má láta allar skoðanir í ljós á þingi þá hljóta þingmenn að hafa leyfi til þess. En mér finnst þetta frekar ósmekklegt. Það er hægt að nálgast öll mál á mismunandi máta, maður getur verið jákvæður og neikvæður og alls konar en mér fannst þessi umræða frekar í neikvæðari kantinum. Við opnum kirkjurnar fyrir fólkinu okkar og hjálpum hælisleitendum vegna þess að við erum kristin, ekki vegna þess að þau eru kristin.“

Að mati Agnesar mótast umræðan um innflytjendur og hælisleitendur að miklu leyti af ótta, hræðslu gagnvart hinu óþekkta.

Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt.

„Við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki. Hvað getur hjálpað okkur í þeirri stöðu ef við þekkjum ekki hlutina? Við þurfum að kynnast þeim til þess að verða ekki hrædd. Við megum ekki láta óttann stjórna okkur. Óttinn getur haft þau áhrif á okkur að við önum ekki áfram í einhverjum glannaskap en hann má ekki stjórna lífi okkar. Hvernig er það með fólk sem er alltaf hrætt? Því líður ekki vel. Þannig að ég held að eina og besta leiðin sé samtal. Þess vegna fór ég í moskuna og þess vegna reyndi ég með nærveru minni á Austurvelli að sýna að ég vil að þeir sem fara með lögin og reglurnar, fólkið á þinginu, að það komi út úr húsinu og tali saman. Að það heyri frá fyrstu hendi sögur þeirra og hvað þau eru að biðja um. Múslimar vilja, eins og ég sagði áðan, vera góðir samfélagsþegnar og ég sé ekki betur en að þetta sé bara fólk eins og ég og þú. Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt, þar sem er borin virðing fyrir manneskjunni eins og hún er, alveg sama af hvaða kyni hún er, hver kynhneigð hennar er, hverrar trúar hún er og svo framvegis.“

Trump og hans líkar tala ekki í nafni Guðs

En óttinn er víðar en á Íslandi. Víðs vegar um heiminn hafa risið upp stjórnmálamenn sem hafa komist til valda með því að ala á ótta gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Fremstur þar í flokki fer Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, en einnig má nefna menn eins og Viktor Orban í Ungverjalandi, Erdogan í Tyrklandi, Jair Bolsonaro í Brasilíu og svo mætti áfram telja. Agnes segist vissulega hafa áhyggjur af þessari þróun.

„Óttinn er stjórntæki og Bandaríkjaforseti virðist nota hann sem slíkt. Að gera fólk óttaslegið og hrætt þannig að það þori ekki annað en að fara eftir því sem hann segir. Ótti, og reyndar fýla líka, eru að mínum dómi bestu stjórntæki veraldar. Þetta eru samt neikvæð stjórntæki, ekki jákvæð, og þau búa til verri heim og meiri vanlíðan hjá fólki. Auðvitað breiðist þetta út því þetta er svo öflugt stjórntæki. Þetta er stórhættulegt og leiðir bara til eins. Þetta leiðir bara til vanlíðunar, ófriðar, þetta leiðir til vanvirðingar við allt líf á jörðinni og þarna er Guð ekki með í verki. Það er ekki verið að hlusta á hvað Guð vill.“

En það er nú samt þannig að margir þessara leiðtoga segjast einmitt tala í nafni Guðs.

„Ég trúi því ekki,“ segir Agnes ákveðin. „Fyrir mér er Guð kærleiksríkur guð sem elskar allar manneskjur eins og þær eru og sáir ekki neinum illvilja í brjóst nokkurs manns. En það eru önnur öfl í heiminum sem eru að því og við berjumst gegn þeim af öllu afli. Við eigum að vera í góða liðinu en ekki hinu vonda.“

„Ég skil ekki svona reglur“

Á dögunum greindu fjölmiðlar frá máli sýrlenskrar konu sem hafði flúið stríðsátök í Sýrlandi og komist í öruggt skjól undir verndarvæng KFUM og KFUK. Hún missti eiginmann sinn í stríðinu og neyddist til að skilja börnin eftir í Sýrlandi og hafði gengið í gegnum miklar raunir bæði á flóttanum og í Grikklandi þar sem hún steig fyrst á land í Evrópu. Hafði henni meðal annars verið hótað lífláti vegna þess að hún hafði tekið upp kristna trú. Konunni vegnaði afar vel á Íslandi, hún hafði starfað um skeið á leikskólanum Vinagarði þar sem hún var afar vel liðin af börnum, foreldrum og samstarfsfólki. En skyndilega var fótunum kippt undan henni þegar íslensk stjórnvöld höfnuðu því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Konunni var vísað úr landi á grundvelli Dyflingnarreglulegarðinnar og hún send til Grikklands sem stjórnvöld álíta öruggt ríki fyrir flóttamenn.

Biskupi er sjáanlega mikið niðri fyrir þegar hún er spurð út í þetta mál. „Ég auðvitað virði það að menn vinni vinnuna sína. Ef menn eru að fara eftir lögum og reglum, þá verður svo að vera. En ég held hins vegar að þetta sé óásættanleg staða, að það sé verið að vísa fólki úr okkar stóra landi þar sem við höfum nóg pláss fyrir alla til að lifa góðu lífi.

Það er hræðilegt þegar er verið að senda fólk úr landi út í einhverja óvissu.

Ég skil ekki svona reglur, af hverju það þurfi að vísa í burtu góðu fólki sem hefur ekkert gert nema gott. Það er ekki svo að þessi kona hafi verið einhver glæpamaður, hryðjuverkamaður eða eitthvað slíkt. Þetta er bara góð manneskja sem vann með börnum og öllum líkar vel við – börnnum, samstarfsfólki og foreldrum. Af hverju má hún ekki vera hérna? Ég hef ekki skilning á því. Mér finnst þetta ekki gott og ég myndi vilja að reglurnar yrðu rýmkaðar þannig að fleiri ættu þess kost að vera hérna. Það er hræðilegt þegar er verið að senda fólk úr landi út í einhverja óvissu,“ segir Agnes sem óttast um velferð konunnar úti í Grikklandi.

„Hvað getur hún gert þar? Það er ekkert fyrir hana að hafa þar. Vonandi býr hún þar við frið en hún fær ekki vinnu og verður einhvers staðar að finna húsaskjól. Þetta hafði hún allt hér – hún hafði vinnu, húsaskjól og hún hafði allt sem hún þurfti.“

Ísland þarf að leggja meira af mörkum

Biskup segir þetta mál vekja upp spurningar um siðferðislega afstöðu gagnvart flóttafólki almennt.

„Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann? Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við? Það er talað um í sambandi við loftlagsmálin að það gæti komið til þess að það verði óbyggilegt í sumum löndum og þá fer fólkið meira hingað norður. Hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við bara að segja: „Nei, nei, við tökum ekki á móti ykkur, við höfum það svo gott hérna og við viljum ekki bæta við. Við eigum nóg með að sinna þeim sem eru hér.“

Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann?

Um leið og hlúa þarf betur að flóttafólki á Íslandi segir biskup að brýn þörf sé að standa vörð um réttindi kristinna úti í heimi. Víða um heim, meðal annars í Sýrlandi og nálægum ríkjum, sé kristið fólk ofsótt vegna trúar sinnar.

„Það er óásættanlegt að vita af því að kristið fólk sé ofsótt fyrir trú sína árið 2019. Við vitum hvernig þetta var í upphafi, við getum lesið um það í postulasögunni og kirkjusögunni, að kristnir menn voru ofsóttir og enn er fólk ofsótt fyrir trú sína, til dæmis í Sýrlandi og fleiri löndum. Það er líka eitthvað sem við verðum að vita af og leggja okkur fram um að breyta því. Það gerist bara með samtali og engu öðru.“

Ætla aldrei að hætta að predika

Talið berst að stöðu Þjóðkirkjunnar sem óhætt er að segja að hafi þurft að berjast á mörgum vígstöðvum undanfarin ár. Kallað hefur verið eftir aðskilnaði ríkis og kirkju, fjármál kirkjunnar eru jafnan undir smásjá fjölmiðla og almennings og það er staðreynd að hlutfall þeirra Íslendinga sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna hefur farið ört minnkandi.

Þannig eru nú 60 prósent Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjuna samanborið við 90 prósent undir lok síðustu aldar. Margir hafa líka efast um erindi Þjóðkirkjunnar í nútíma veraldlegu samfélagi. Eitt slíkt dæmi er þegar Alþingi kallaði eftir umsögn kirkjunnar um frumvarp heilbrigðisráðherra um fóstureyðingar en þá var gagnrýnt að kirkjan hafi verið yfirhöfuð spurð álits. Agnes kannast við þessa umræðu.

„En málið er að kirkjunni kemur allt við sem við kemur mannlífinu. Það er bara þannig. Hver á að segja til um hvað öðrum kemur við eða ekki. Kirkjunni kemur bara allt við sem við kemur mannlífinu. Ég frekar en aðrar manneskjur ræð því ekki hvernig fólk hugsar eða ber ábyrgð á því sem hver og einn segir. Við ráðum ekki yfir skoðunum annarra og hver er ég að ætla að fara að segja öðrum hvaða skoðanir það á að hafa.

Kirkjunni kemur bara allt við sem við kemur mannlífinu.

En ég ætla samt aldrei að hætta að predika, segja frá því góða erindi sem kirkjan flytur um kærleika og guð sem elskar okkur og við eigum að elska og hvert annað. Í elskunni felst líka virðingin og að við séum traustsins verð. Þjóðkirkjan á, að mínum dómi, fyrst og fremst að halda áfram að boða orðið, að vera glöð með að flytja fagnaðarerindið og minna sig á það á hverjum degi að því fylgir ábyrgð og það er krafa um að vanda sig og vera fagleg.“

En það er vissulega búið að setja kirkjunni skorður til að breiða út þetta fagnaðarerindi. Það eru til dæmis sveitarfélög sem hafa tilkynnt henni að nærveru hennar í skólum sé ekki óskað og skólabörnum hefur verið meinað að fara í kirkjuheimsóknir.

„Það er einmitt þessi hræðsla sem fylgir því. Ekki eru það múslimarnir sem segja að börnin megi ekki fara í kirkjuna. Nei, það eru ekki þeir. Ekki er það þjóðkirkjufólkið, hvítasunnumennirnir eða kaþólikkarnir. Ég veit ekki með hindúa, búddista og gyðinga, ég held ekki. Það eru þeir sem skilgreina sig með enga trú sem hafa á móti því að börnin fari í kirkjuna.

Þetta byggist á þeirra skoðun á trú væntanlega og það ber að virða. En á grundvelli einhvers ótta eða hræðslu, eins og mér finnst þetta vera, þá á ekki að byggja á boðum og bönnum. Og það finnst mér að þeir sem ráða til dæmis hér í borginni hafa gert. Úti á landi þar sem allir þekkja alla er minni hræðsla af því að hér í Reykjavík, nú talar landsbyggðarkonan, fáum við svo mikið fréttirnar í gegnum fjölmiðlana. Fjölmiðlarnir fjalla um allt annað en almenningur talar um sín á milli um það hvað gerist í daglegu lífi. Þar er oft og tíðum alið á hræðslunni, að mínum dómi.“

Þjóðkirkjan er framsækin stofnun

Íslenskt samfélag hefur tekið örum breytingum á undanförnum árum og hefur kirkjan þurft að aðlagast þeim. Ekki eingöngu hefur hlutfall innflytjenda aukist umtalsvert samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna, heldur hefur einnig verið opnað á umræðu um annars konar samfélagsmál. Rétt eins og með málefni flóttamanna segir Agnes að lykillinn að opnu og kærleiksríku samfélagi sé samtalið.

„Nú eru ekki kynin bara karl og kona, það eru fleiri kyn komin og maður er settur í það að þurfa að fara að kynna sér þetta til að skilja þetta. Af því að við lítum á allar manneskjur jafnt þurfum við að skilja þessa breytingu sem er orðin.“

Að mati Agnesar hefur íslenska Þjóðkirkjan, þrátt fyrir að hún hafi yfir sér það yfirbragð að hún sé gamaldags og svifasein stofnun, verið mjög framsækin. Það sýni til dæmis afstaðan til hjónabanda samkynkynhneigðra.

„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja,“ segir biskup.

„Íslenska kirkjan var fyrsta kirkjan sem viðurkenndi hjónaband samkynhneigðra. Það gleymist mjög oft. Kirkjan ákvað, fyrir minn tíma reyndar, að rannsaka ritningarnar og kanna hvað bókin segir um þetta málefni og að því loknu var samþykkt að prestar væru vígslumenn samkvæmt hjúskaparlögunum. Þegar ég var unglingur vissi maður nánast ekki hvað þetta var. En þegar börnin mín voru unglingar var talað um þetta eins og að þetta væri svo sjálfsagður hlutur, sem það er. Þetta bara var og er svona. Alla vega núna er það þannig að ég spyr ekki fólk þegar ég vígi það til prests hver kynhneigð þess er. Dettur það ekki í hug. Þetta eru bara manneskjur fyrir mér sem Guð elskar og þá ber mér líka að gera það.“

Við megum ekki hrynja

Agnes hefur setið á biskupsstóli frá árinu 2012. Aðspurð hvort hún segist vera farin að velta því fyrir sér hvenær hún stígur af stóli svarar hún: „Já, ég hef velt því fyrir mér. Þar til ég er búin að ljúka því sem ég ætla mér að gera. Ég er 64 ára dag og má sitja sex ár í viðbót og ég vona að mér takist að klára þetta innan sex ára.“

Eitt af því sem Agnes vill sjá ganga í gegn er sameining prestakalla sem á að skila sér í öflugra og faglegra kirkjustarfi. Nefnir hún sem dæmi sameiningu prestakalla á Austfjörðum úr fimm í eitt. „Þetta er mikið framfaraskref fyrir kirkjuna, að mínum dómi. Prestarnir verða áfram fimm en munu allir vinna saman, fólk getur valið prest til athafna og það verður hægt að velja inn í hópinn presta með mismunandi styrkleika og þekkingu. Fagmennskan verður þar af leiðandi meiri. Þetta verður að klárast áður en ég hætti, til dæmis.“

Þess á milli segist Agnes munu halda áfram að breiða út fagnaðarerindið þar sem þrjú lykilhugtök eru höfð að leiðarljósi. „Virðing, kærleikur og traust. Þetta eru grunnstoðir í mannlífinu. Þetta eru orðin sem vígslumaðurinn í kirkjunni notar þegar fólk giftir sig, þetta eru þrjár undirstöður sem eru samofnar. Ef við hættum að bera virðingu þá erum við búin að minnka traustið og komum ekki fram á kærleiksríkan hátt. Ef við komum ekki fram á kærleiksríkan hátt sýnum við vanvirðingu og þá er ekki hægt að treysta manni, og svo framvegis.

Það er líka annað í þessum samtíma að það er svo margt að gerast, það eru svo mörg tilboðin í gangi að við missum sjónar á því sem mestu skiptir. Á hverju ætlum við að byggja líf okkar? Þetta er bara eins og að byggja hús, við verðum að byggja á traustum grunni svo að húsið geti risið. Það er eins og með þetta hús hér, það er verið að sprengja við Landspítalann og húsið hristist stundum. En húsið stendur. Þannig er lífið líka, það er ýmislegt sem skekur líf okkar eins og til dæmis þegar verið er að breiða út óttann. Það er verið að skekja líf okkar, hrista það til. En ef við stöndum á þessum fasta grunni hrynjum við ekki. Við megum ekki hrynja.“ 

Texti / Magnús Geir Eyjólfsson
Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme á Íslandi

Sveinn Andri í óþökk Arion Banka

|
Sveinn Andri Sveinsson.

Arion banki hefur farið fram á að Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air vegna vanhæfis.

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, staðfestir í samtali við Mannlíf að bankinn hafi óskað eftir því að Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og nýskipaður skiptastjóri þrotabús WOW air, verði settur af vegna vanhæfis. Hann staðfestir einnig að það tengist ágreiningi bankans við bústjóra þrotabús tölvufyrirtækisins Data Cell þar sem Arion er stærsti kröfuhafinn. Sveinn Andri er skiptastjóri í því búi.

„Ég vil að öðru leyti ekki tjá mig um þetta. Málið er bara í farvegi og við ætlum ekki að reka það í fjölmiðlum,“ segir Haraldur í samtali við Mannlíf en Arion banki er, eins og kunnugt er, einn af stærstu kröfuhöfunum í þrotabú flugfélagsins WOW air. Þegar WOW air varð gjaldþrota skuldaði félagið bankanum á annan milljarð króna.

Þótt Arion banki hafi farið fram á að Sveinn Andri verði settur af sem skiptastjóri þrotabús WOW air, gæti það orðið snúið. Arnar Þór Stefánsson, lögmaður hjá LEX lögmannsstofu, segir að mikið þurfi til að skiptastjóri þrotabús sé settur af eftir að hafa verið skipaður.

Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi.

„Það þarf mikið til. Það eru ákvæði í lögum um gjaldþrotaskipti sem segja að viðkomandi þurfi að brjóta af sér í starfi eða vera með stórkostlega slælega framgöngu. Undanfari er yfirleitt á þá leið að sett hafi verið fram aðfinnsla við héraðsdóm á störfum viðkomandi og að Héraðsdómur hafi fallist á réttmæti aðfinnslanna. Ef Héraðsdómur telur að þessar aðfinnslur séu nægilega miklar getur dómari sett viðkomandi af. Þannig að það þarf mikið til, einhvers konar klúður í starfi,“ segir Arnar.

Umdeild ákvörðun

Eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum hefur ákvörðun Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, að úthluta þrotabúi WOW air til Sveins Andra og Þorsteins Einarssonar einnig valdið titringi innan lögmannastéttarinnar síðustu daga. Hver lögmaðurinn á fætur öðrum hefur komið fram í fjölmiðlum og gagnrýnt skipanina. Þung orð hafa fallið um ógagnsæi og spillingu innan Héraðsdóms Reykjavíkur.

Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir sögðu í Fréttablaðinu að skipan hans væri undarleg í ljósi þess að hann væri umdeildur vegna fyrri embættisgjörða sem skiptastjóri yfir öðrum stórum búum. Þar vísa þær til þess að fjögur félög kærðu hann nýlega, m.a. Mjólkursamsalan og Sláturfélag Suðurlands, vegna þrotabús EK1923.

Áslaug Björg­vins­dótt­ir, lögmaður og fyrr­ver­andi héraðsdóm­ari, sagði í viðtali á mbl.is að ógagn­sæi ríki hjá dóm­stól­um um skip­an skipta­stjóra og eft­ir­lit dóm­stóla með þeim. Kvartanir vegna starfa skiptastjóra berist reglulega en ekkert sé birt opinberlega um það ef dóm­ur­inn finni að störf­um skipta­stjóra eða víki þeim úr starfi, ólíkt því sem gild­ir um önn­ur mál fyr­ir dóm­stól­um.

Lögmaðurinn Þórður Már Jónsson gengur lengra í færslu á Facebook og sakar Héraðsdóm um að úthluta Sveini bestu bitunum eftir hentisemi.

„Ég veit ekki hvað maður á að halda um þetta, en einhverjir eru farnir að nefna orðið spilling. Ég veit ekki hvað ég á að halda persónulega, en það er ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Bara alls ekki. Hvers vegna það er þori ég ekki að segja til um. Það verða aðrir að geta í eyðurnar með það,“ segir Þórður m.a. í færslunni og í Morgunútvarpi Rásar 2 sagði hann: „Það er ekkert gagnsæi sem er haft að leiðarljósi við þessar úthlutanir og skipanir.“

Símon Sigvaldason hefur vísað ásökunum Þórðar á bug í samtali við Vísi og sór jafnframt af sér nokkur tengsl við Svein Andra sem gæfi honum tilefni til þess að hygla honum sérstaklega.

Mynd / Kristinn Magnússon

Hentistefnuflokkur íslenskra stjórnmála

Miðflokkurinn er að marka sérstöðu í íslenskum stjórnmálum með getu sinni til að taka flókin mál, smætta þau niður í einfaldar lausnir og stilla sér upp sem varðmanni fullveldis og almennings í þeim.

Leiðtogi flokksins hefur náð góðum tökum á skynhyggjustjórnmálum og virðist geta staðið af sér ótrúlegustu hneykslismál. Það síðasta, Klausturmálið, hefur flýtt för flokksins á jaðar stjórnmálanna. Þar virðist hann kunna vel við sig.

Á vetrarfundi Miðflokksins um síðustu helgi var svo samþykkt stjórnmálaályktun sem gaf mjög skýrt til kynna hvert flokkurinn ætlar að stefna í sinni pólitík.

Þar kom fram að flokk­ur­inn vilji þjóð­legar áhersl­ur, og að hann hafni með öllu þriðja orku­pakk­an­um. Að horfið verði frá innflutningi á ófrosnu kjöti og eggjum, sem dómstólar hafa þegar sagt að sé brot á alþjóðasamningum. Að afnema eigi verðtryggingu húsnæðislána án þess að tilgreint sé hvernig eigi að gera það. „Miðflokkurinn vill standa vörð um menningu og arfleifð þjóðarinnar,“ stóð neðst í ályktuninni.

Sig­mundur Davíð sagði í ræðu sinni á fundinum að þriðji orku­pakkinn væri „stór­hættu­leg­ur“ og hann sé eitt „tann­hjól kerf­is­ins“ sem Mið­flokk­ur­inn vilji berj­ast gegn. Flokk­ur­inn hafi þá stefnu að ráða eigin örlögum en ekki láta það í hendur and­lits­lausra stofn­anna út í heim­i.

Fyrir liggur að þessi stefna á sér stuðningsmenn hérlendis. Þrátt fyrir Panamaskjölin, allar samsæriskenningarnar og Klausturmálið þá er Miðflokkurinn að ná vopnum sínum að nýju samkvæmt könnunum. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist fylgi hans níu prósent, eða jafn mikið og fylgi Framsóknarflokksins.

Lestu fréttaskýringuna í heild sinni á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

„Allt eftir óskum hvers og eins“

Fyrirtækið Fanntófell hefur síðan 1987 framleitt borðplötur, sólbekki, veggklæðningar og skilrúm auk annarrar sérsmíði. Nýlega hóf það einnig innflutning á lerki og gluggum og því er af nógu að taka fyrir þá sem eru að byggja, bæta og breyta.

Fanntófell flutti nýlega í glæ nýtt húsnæði á Gylfaflöt 6­8 í Reykjavík og þar starfa 12 manns. Fyrirtækið var stofnað í Reykholti í Borgarfirði árið 1987 í 100 fermetra húnæði af þeim Þóri Jónssyni og Sigurði Braga Sigurðssyni sem nú er eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Veggklæðning og borðplata úr Arpa-harðplasti.

„Ég tók algerlega við fyrirtækinu þegar það flutti til höfuðborgarinnar árið 1990 og síðan hefur það stækk að jafnt og þétt en núverandi hús næði er um 1.700 fermetrar,“ segir Sigurður.

Einu á landinu í formbeygingu

Sérsvið Fanntófells er svokölluð form beyging á harðplasti en jafn framt eru framleiddar plötur úr lím tré, Fenix og akrýlsteini. „Form beyg ing plasts yfir brúnir hefur verið sérstaða okkar frá upp hafi og við erum þau einu á land inu sem gerum þetta. Okkar aðal við skiptavinir í gegnum tíðina hafa verið verktakar og inn réttinga salar en sala til ein stakl inga hafa aukist jafnt og þétt. Við hófum svo innflutning á lerki og gluggum í fyrra og verið er að skoða fleiri möguleika í innflutningi á byggingavörum,“ segir Sigurður.

Sérsmíði, undirlímdir stálvaskar.

Gæðaefni í framleiðslu

Sigurður segir að gæðaefni sé notað í allri framleiðslu. „Má þar nefna harð plast HPL, high press ure l ami n at es, sem er slit sterkt og hitaþolið, akrýl stein frá
REHAU, Fenix NTM og besta fáan lega límtré sem boðið er upp á hverju sinni. Eins og áður sagði fram leiðum við fyrir verk taka, inn rétt ingaframleiðendur og ein stak linga, allt eftir óskum hvers og eins.“

Í samstarfi við Fanntófell
Allar nánari upplýsingar eru á heimasíðunni fanntofell.is.

Borðplata úr akrýlsteini og Crystal-hurðafrontar.

 

„Við megum ekki láta óttann stjórna okkur“

Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, varð á dögunum fyrst íslenskra biskupa til að heimsækja mosku á Íslandi. Hún segir andúð gegn innflytjendum og hælisleitendum byggjast á hræðslu og að Ísland þurfi að leggja meira af mörkum í málefnum flóttamanna. Meðal annars þurfi stjórnvöld að hætta að senda fólk út í óvissuna.

„Það var gaman að koma þarna og einstaklega vel tekið á móti okkur og ýmislegt sem kom mér kannski á óvart. Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt, til dæmis fengum við te og arabískar kökur sem maður fær ekki á hverjum degi,“ segir Agnes um móttökurnar sem hún fékk í Skógarhlíð í forsíðuviðtali við Mannlíf sem kemur út á morgun.

Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við

Í viðtalinu ræðir Agnes þá stöðu flóttafólks á Íslandi. „Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann? Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við?“

Lestu viðtalið við Agnesi í heild sinni í Mannlífi sem kemur út á morgun.

Mynd / Hallur Karlsson

Fjölbreytileikanum loksins fagnað á síðum Vogue

Tískuheimurinn, með tískubiblíuna Vogue fremsta í flokki, hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir að fagna fjölbreytileikanum. Hvítar og horaðar fyrirsætur, og seinna leikkonur, eru það sem við höfum mátt venjast á forsíðum tímaritsins síðan það var stofnað fyrir rúmri öld.

Í því ljósi hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með fyrstu skrefum nýs ritstjóra breska Vogue, Edwards Enninful, en fyrsta konan til þess að prýða forsíðuna undir hans stjórn var engin önnur en feminíski aktívistinn og fyrirsæta af blönduðum uppruna, Adwoa Aboah. Með þeirri ákvörðun gaf hann til kynna það sem koma skal – hann mun ekki veigra sér við að taka pólitíska afstöðu.

Adwoa hefur verið ein vinsælasta fyrirsætan síðustu misserin en hún er einnig stofnandi samtakanna Gurls Talk, sem hvetja ungar konur til þess að tala opinskátt um málefni sem brenna á þeim, hvort sem það er andleg heilsa, líkamsímynd, fíkn eða kynvitund.

Stærstu fyrirsagnir þessa fyrsta tölublaðs nýja ritstjórans minnast ekki á trendin, vinsælustu töskurnar eða nýja maskara, heldur listar upp nöfn þeirra sem eru hvað stærstir á sviði pólitíkur og lista og eru einnig af ólíkum uppruna og á breiðu aldursbili.

Fráfarandi ritstýra, Alexandra Shulman, hefur mátt sæta gagnrýni fyrir fjölbreytileikaskort en engin svört fyrirsæta prýddi forsíðuna ein á báti frá því Naomi Campbell gerði það árið 2002 þangað til Jourdan Dunn sat fyrir á forsíðu tískutímaritsins árið 2014.

Nýi ritstjórinn segist staðráðinn í því að sýna konur af fjölbreyttum uppruna, með mismunandi vaxtarlag og bakgrunn.

Jane Fonda er nýjasta forsíðufyrirsæta breska Vogue, hún er 81 árs.

Edward er fyrsti svarti og jafnframt fyrsti karlkynsritstjóri tímaritsins í rúmlega 100 ára sögu þess og segist vilja að Vogue verði eins og búð sem konur hræðast ekki að ganga inn í.

Þið munuð sjá allar stærðir og gerðir, aldur, kyn og ólík trúarbrögð í blaðinu, ég er mjög spenntur fyrir því.

„Áður en ég fékk starfið talaði ég við margar konur sem fannst þær ekki geta samsamað við þær sem voru hvað mest á síðum tímaritsins. Þess vegna langaði mig til þess að hafa blaðið opið og vinalegt. Þið munuð sjá allar stærðir og gerðir, aldur, kyn og ólík trúarbrögð í blaðinu, ég er mjög spenntur fyrir því. Og mun minna af fyrirsætum sem eru með óheilbrigt útlit,“ lét hinn nýi ritstjóri hafa eftir sér.

Edward bætti því við að hann myndi berjast gegn „stærð núll“-kúltúrnum í tískuheiminum með því að sýna konur með allskonar vaxtarlag og ræða opinskátt við hönnuði um þessi mál.

„Þegar ég byrjaði í bransanum á tíunda áratug síðustu aldar voru prufustærðirnar númer 4 og 6. Í dag eru prufustærðirnar tvöfalt núll. Mér finnst að tískubransinn, eins og hann leggur sig, verði að taka þátt í samræðum um þessi mál.“

Segir að börnum ætti að vera bannað að spila Fortnite

Harry Bretaprins hefur sterkar skoðanir á tölvuleiknum Fortnite.

Harry Bretaprins er þeirrar skoðunar að börn ættu aldrei að spila tölvuleikinn Fortnite. Harry flutti erindi um málið á ráðstefnu um geðheilbrigði í gær. Hann sagði að það væri óábyrgt að leyfa börnum að spila leikinn og að það ætti að banna það. Þetta kemur fram á vef Business Insider.

„Hver er ávinningur þess að leyfa þennan leik á heimilinu? Þetta er eins og að bíða eftir að skaðinn er skeður,“ sagði hann meðal annars.

Leikurinn Fortnite hefur náð miklum vinsældum síðan hann kom á markað árið 2017 og skráðir notendur eru um 250 milljónir, þar á meðal eru fjölmörg börn.

Harry hélt áfram og talaði um að tölvuleikir á borð við Fortnite ýttu undir tölvufíkn. „Fíkn sem heldur þér fyrir framan tölvuskjáinn. Þetta er óábyrgt.“

Þess má geta að sam­kvæmt Video Game Revolution VGR og fréttastofu ABC get­ur Fortnite verið jafn ávana­bind­andi og heróín og hafa margir sérfræðingar tjáð sig um málið og varað við leiknum.

Þar á meðal er banda­rísk­i tauga­sk­urðlækn­irinn Dr. Jack Kruse. Hér fyrir neðan má sjá Facebook-færslu sem hann birti fyrir nokkrum mánuðum.

„Ég hef aldrei tekið sopa af áfengi“

Manuela Ósk

Manuela Ósk Harðardóttir hefur aldrei smakkað vín og er reglulega spurð að því hver ástæðan sé. Hún segir enga sérstaka ástæðu vera fyrir því, hana hefur einfaldlega aldrei langað til að drekka áfengi.

„Ég fæ þessa spurningu svo oft,“ sagði segir Manuela Ósk Harðardóttir í viðtali við Stefán Árna Pálsson í þættinum Einkalífið, þegar hún var spurð út í ástæðuna fyrir því að hún hafi aldrei drukkið vín.

„Þegar ég segi að ég hafi aldrei drukkið eða drekki ekki og þá halda rosalega margir að ég hafi átt við áfengisvandamál að stríða en það hefur aldrei verið. Ég hef aldrei tekið sopa af áfengi. Það var ekki meðvituð ákvörðun beint, ég eiginlega bara byrjaði aldrei, ég var alltaf hálf hrædd við það,“ útskýrði Manuela.

…þá halda rosalega margir að ég hafi átt við áfengisvandamál að stríða.

Hún segist einfaldlega ekki hafa haft áhuga á því að smakka vín. „Ef mig myndi langa það í dag þá myndi ég bara prófa það.“

Manuela var einnig spurð út í Ungfrú Ísland keppnina og hvort hún hefði einhvern tíman séð eftir því að hafa tekið þátt. „Ungfrú ísland var góð reynsla fyrir mig.“

Í þættinum talar hún einnig um holdafar sitt og samfélagsmiðla svo dæmi séu tekin.

„Ég er búin að stúdera samfélagsmiðla. Mér finnst þeir svo áhugaverðir, ég tók eftir þessu við þessa einu mynd og ákvað að spyrja að þessu, og þetta endaði svona,“ sagði Manuela og vísaði þar í spurningu sem hún varpaði fram í janúar. Þá spurði hún fylgjendur sína á Instagram hvernig stæði á því að um 51 þúsund manns fylgja henni á Instagram en hún fær gjarnan um 300-700 „like“ við hverja mynd. Sú tölfræði þótti henni undarleg. „Fylgjendur ættu ekki bara að vera fylgjendur, þeir ættu að vera stuðningsmenn,“ skrifaði hún þá meðal annars.

Sjá einnig: Undrandi á litlum viðbrögðum miðað við fjölda fylgjenda

Viðtalið við Manuelu má sjá á vef Vísis.

Mynd / Styrmir Kári

Skúli hyggst endurvekja rekstur WOW air

Skúli Mogensen hyggjast endurvekja rekstur flugfélagsins WOW air. Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins.

Þar segir að nú leiti hann fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, til þess að standa straum af rekstrinum fyrstu misserin.

Þá segir að stefnt verði að því að reka lággjaldastefnu í líkingu við þá sem WOW air hafi rekið.

Í fjárfestakynningu sem Markaðurinn vísar í segir að nýja félagið muni til að byrja með, eftir að hafa sótt sér flugrekstrarleyfi, reka fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo. „Fyrstu tólf vikurnar stefni nýja félagið að því að sinna leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag en í lok næsta júnímánaðar sé gert ráð fyrir að vélar NewCo fljúgi frá Keflavíkurflugvelli til þrettán áfangastaða víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku, nánar tiltekið til Lundúna, Parísar, Amsterdam, Berlínar, Kaupmannahafnar, Dublinar, Tenerife, Alicante, Frankfurt og Barcelona í Evrópu og New York, Baltimore og Boston í Bandaríkjunum,“ segir í frétt um málið á vef Fréttablaðsins.

Samkvæmt fréttinni munu Skúli og aðrir sem koma að stofnun nýja félagsins eiga 51 prósents hlut í nýja félaginu á meðan þeir fjárfestar sem leggja félaginu til 40 milljónir dala munu eiga 49 prósenta hlut.

Sjá einnig: WOW air hætt

Fyrrverandi starfsmenn WOW air halda fatamarkað

Hópur fyrrverandi starfsmanna WOW air tekur til í fataskápnum og skipuleggur fatamarkað.

Um 70 fyrrverandi starfsmenn flugfélagsins WOW air hafa nú tekið höndum saman og skipuleggja fatamarkað.

Fatamarkaður fyrrverandi starfsmanna WOW air verður haldinn á laugardeginum, 13. apríl, í húsnæði sem er við hliðina á Bónus í Holtagörðum.

Á Facebook segir að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á markaðinum því fatnaður af öllum stærðum og gerðum verður til sölu.

Margt fólk virðist hafa áhuga á að gera góð kaup á markaðinum og nokkur hundruð manns boða komu sína á markaðinn.

Sjá einnig: WOW air hætt

Tilfinningahlaðið og taktdrifið popprokk

16.maí 2019 kl:20:00 í Hörpunni.

 

Tónlistarmaðurinn Hjörvar Hjörleifsson mun fagna Þann 16. maí útkomu nýrrar sólóplötu sinnar, 52 fjöll. En plata kom út í september á síðasta ári.

Hjörvar spilar tilfinningahlaðið og taktdrifið popprokk þar sem greina má áhrif frá nýrómantík nýbylgjunnar, ekki síst á nýju plötunni.

„Það er drama og knýjandi ástríða í lögunum … maður fær illt í karmað vitandi að tónlist Hjörvars er ekki að flæða um hvert heimili hérlendis, sem erlendis.“ – Arnar Eggert Thoroddsen

„Ein af 10 bestu plötum ársins 2018.“ – Björn Jónsson

52 fjöll er þriðja plata Hjörvars en áður hafa komið út plöturnar Paint Peace (2004) og A Copy of Me (2008). Platan verður til sölu á staðnum auk eldri geisladiska, en auk þess er hægt að panta eintök með því að senda honum skilaboð.

Með Hjörvari koma fram Arnar Þór Gíslason (trommur), Guðni Finnsson (bassi), Birkir Rafn Gíslason (gítar), Þorbjörn Sigurðsson (gítar og hljómborð), Hrafn Thoroddsen (gítar og hljómborð) og Friðborg Jónsdóttir (raddir).

Þann 1. júní heldur Hjörvar lágstemmdari útgáfutónleika í Hannesarholti, en hægt er að kaupa miða á Tix.is

„Alveg hægt að mynda í öllum veðrum“

||||||||||
||||||Heiða Helgadóttir.||||

Heiða Helgadóttir ljósmyndari, sem hlotið hefur fjölda verðlauna fyrir verk sín, hefur myndað mörg brúðhjónin. Heiða leggur áherslu á heimildaljósmyndun en hún fylgir þá brúðhjónunum eftir allan brúðkaupsdaginn.

Heiða Helgadóttir.

Heiða fer oft með brúðhjónum út á land og myndar þau í náttúrunni þannig að öll athyglin þann daginn fer í myndatökuna. Oft er myndað í hvaða veðri sem er enda myndir Heiðu eins og listaverk.

„Mér finnst skemmtilegast að gera heimildaljósmyndun – að fylgja fólki eftir allan daginn. Fólk fær þá sæta myndasögu af deginum sem er gaman að eiga,“ segir Heiða sem hefur myndað fjöldann allan af brúðhjónum, bæði daginn sem brúkaupið fer fram og eins fyrir og eftir hann. Hún segir að í síðara tilvikinu fari myndatökur oft fram úti á landi – Seljalandsfoss, Skógafoss og Reynisfjara séu t.d. vinsælustu staðirnir og þá taki tökur heilan dag.

„Íslendingar eru ekki búnir að fatta að myndatakan þarf ekki endilega að fara fram á brúðkaupsdaginn sjálfan því að þá er svo mikið stress. Það er gaman að taka annan dag í þetta og hafa þá góðan tíma.“

Íslendingar eru ekki búnir að fatta að myndatakan þarf ekki endilega að fara fram á brúðkaupsdaginn sjálfan.

Heiða segir að þegar hún taki myndir af brúðhjónum á brúðkaupsdeginum leggi hún áherslu á að brúðhjónin séu þau sjálf, á meðan hún reyni að gera sig ósýnilega og finna skemmtileg sjónarhorn. „Ég reyni að ná tengingu við fólkið svo það geti slakað á og haft gaman. Ég vil ekki að það standi eins og frostpinnar og brosi. Það á bara að vera það sjálft. Ég legg áherslu á lifandi og eðlilegar myndir og reyni að fanga persónuleg augnablik, gleði í augum og bara eitthvað sætt.“

Dýrmætar minningar

Eins og alkunna er getur íslenskt veðurfar verið fjölbreytt og hefur Heiða myndað brúðhjón í alls konar veðri. „Ég tók t.d. myndir í klikkuðustu rigningu og roki sem ég hef lent í. Brúðhjónin höfðu reyndar gaman af því og ég líka. Þau voru rennblaut í gegn en myndirnar voru svolítið skemmtilegar. Þannig að það er alveg hægt að mynda í öllum veðrum.“

Spurð um stílinn á myndunum sem hún tekur segist Heiða hafa gaman af dökkum myndum og dramatísku yfirbragði „Mér finnst dökkt yfirbragð vera fallegra; finnst gaman að taka myndir þar sem lítið ljós er í boði. Það er heillandi og áskorun að ná fallegum myndum í litlu ljósi. Fólk þarf því að velja hvað það vill áður en það pantar brúðkaupsljósmyndara. Það þarf að vanda valið.“

Hún segir að það sé dýrmætt fyrir hjón að eiga fallegar brúðkaupsmyndir upp á framtíðina að gera og þá líka með börn þeirra og barnabörn í huga. „Þetta eru svo dýrmætar minningar.“

Myndir / Heiða Helgadóttir

Tímamót fyrir láglaunafólk

Kjarasamningar Samtaka atvinnulífsins við félög innan Starfsgreinasambandsins, VR og önnur félög innan Landssambands verslunarmanna í höfn. Lífskjarasamningur tryggir launafólki frekari kjarabætur.

Fulltrúar VR, Eflingar, Starfsgreinasambandsins og annarra stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins undirrituðu í gærkvöldi kjarasamninga til þriggja ára og átta mánaða, eða frá 1. apríl til 1. nóvember 2022 . Reiknað var með því að undirritun hæfist um klukkan þrjú í húsakynnum Ríkissáttasemjara við Borgartún, en hún dróst a langinn. Um kvöldið var einnig kynntur lífskjarasamningur aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar sem á að tryggja launafólki frekari kjarabætur en kveðið er á um í sjálfum kjarasamningnum.

Í lífskjarasamningnum boðar ríkisstjórnin ýmsar aðgerðir. M.a. eru þar fyrirheit um þriggja þrepa skattkerfi sem tryggja á 10.000 króna skattalækkun til hinna lægst launuðu á mánuði og vaxtalækkanir í kjölfar lækkunar stýrivaxta Seðlabankans, 12 mánaða fæðingarorlof og hærri barnabætur. Að sama skapi eru gefin fyrirheit um umfangsmiklar aðgerðir í húsnæðismálum og uppbyggingu félagslega húsnæðiskerfisins, sem eiga m.a. að lækka leiguverð á húsnæði og gera fólk auðveldara um vik með að leigja. Aðgerðirnar eru metnar á um það bil áttatíu milljarða króna á samningstímabilinu,

„Leiða má líkum að því að enginn kjarasamningur á Íslandi hvorki fyrr né síðar hafi tryggt jafn vel að kjarabætur beinist sérstaklega að lágtekjufólki. Allar launahækkanir samningsins til félagsmanna samflotsfélaganna eru krónutöluhækkanir og við þær bætast sérstakar krónutöluhækkanir á taxta,“ segir í tilkynningu sem Efling sendi frá sér í framhaldinu.

Í gærkvöld virtist almenn sátt ríkja með útkomuna en hún er talin koma sér vel einkum fyrir barnafjölskyldur og þá sem eru lægst launaðir.

Notar hráefni sem annars myndi enda í ruslinu

Dýravinurinn Melkorka Gunnlaugsdóttir tók sig til árið 2017 og fór að framleiða hundanammi úr íslenskum afurðum undir vörumerkinu Myrrubakarí. Melkorka hefur það að markmiði að sporna gegn matarsóun og notar því afurðir sem myndi vanalega enda í ruslinu.

Hugmyndin kviknaði þegar hún og fjölskylda hennar biðu eftir því að nýr fjölskyldumeðlimur, hundurinn Baltasar, kæmi heim í fyrsta sinn. Hún fór að gera tilraunir með matvæli úr ísskápnum og úr varð hundanammi.

Melkorka segir hundinn sinn hafa borðað hundanammið með bestu lyst.  „Vinkona mín gaf mér svo kökujárn, sérstaklega gert til að baka hundanammi. Svo varð ég mér úti um þurrkofn sem gerði mér kleift að þurrka nammið þannig að úr varð hálfgert kex, það gerir það að verkum að nammið endist lengur. En ég nota engin auka- eða rotvarnarefni í nammið.“

Spurð út í hverskonar hundanammi hún framleiði segir hún: „Núna bjóðum við upp á kjötsagsbita, úr hreinu lambakjötsagi og eggjum, bakað í járninu góða og þurrkað, svo úr verður hálfgert kex. Svo fékk ég þá hugmynd að nýta það sem brotnar af bitunum eftir þurrkun í hálfgert krydd. Ég tek alla mylsnu og mala í duft og það er ætlað sem bragðbætir út á þurrmatinn því margir hundar eru oft tregir við að borða þurrmatinn,“ segir Melkorka sem finnst mikilvægt að nýta allt hráefni vel og sporna þannig gegn matarsóun.

Eggin sem ég kaupi eru svo annars flokks egg, vegna útlitsgalla, og myndi því ekki fara í verslanir en gæðin eru alveg þau sömu.

Þess má geta að Melkorka er í samstarfi við sláturhús og kjötvinnslur á norðurlandi og þaðan kemur hráefnið. „Þær afurðir sem ég nota er allt eitthvað sem myndi annars enda í ruslinu,“ útskýrir hún.

„Eggin sem ég kaupi eru svo annars flokks egg, vegna útlitsgalla, og myndi því ekki fara í verslanir en gæðin eru alveg þau sömu. Þannig að þar erum við líka að sporna gegn matarsóun.“

Þegar Melkorka er spurð nánar út í vöruþróunina segir hún: „Ég gerði ótal tilraunir, sumar virkuðu betur en aðrar. Ég er svo heppin að hafa fullt af hundum í kringum mig til þess að nota sem „tilraunadýr“. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar enda hefur sárvantað íslenska framleiðslu á markaðinn.“

Melkorku dreymir svo um að opna alvöru bakarí. „Mig dreymir um að opna kaffihús eða bakarí þar sem hundar geta komið með eigendum sínum og geta fengið gotterí,“ segir Melkorka kát.

Nánari upplýsingar um Myrrubakarí má nálgast á vef fyrirtækisins.

Villtur viður

Húsgögn og stofustáss úr við gefur heimilinu hlýlegan svip. Hér kemur smá innblástur.

 

Bambuskertalugt sem gefur frá sér hlýja birtu og skemmtilega skugga, ILVA, 12.995 kr.
Grow er dökkbæsað sófaborð úr eik í dönskum shaker-stíl, framleitt af Normann Copenhagen, 70×120 cm. Epal 118.900 kr.
Stand Alone III-stólinn úr smiðju AgustaV er í miklu uppáhaldi, enda einkar glæsileg smíði úr hvítum aski.
Einstakt skurðarbretti úr acacia-við, 50×21 cm. Fakó, 5.100 kr.

 

Töff armstóll úr mangóvið og leðri. Heimili og hugmyndir, 116.900 kr.

 

Skemmtilegur eikarbekkur með tveimur geymsluhólfum. Reykjavík Design, 49.900 kr.

 

Dásamlegur skápur úr aski, 102×210 cm. Seimei, 380.000 kr.

 

Vígalegur og feikifallegur hægindastóll. Heimili og hugmyndir, 157.000 kr.

 

Grófur og töff viðarbekkur. Heimili og hugmyndir, 39.800 kr.

 

Loftljós úr spanskreyr frá Habitat. Tekk Company, 22.500 kr.

Með fyrirvara um að verð gætu hafa breyst.

Myndir / Frá framleiðendum

 

 

„Frelsi internetsins er því miður blekking“

Í sinn nýjasta pistil skrifar Eva H. Baldursdóttir um tækni, internetið og þær „ósýnileg hendur“ sem stýra því sem við sjáum þar.

„Um daginn las ég að símar væru hleraðir í auglýsingatilgangi. Internetinu ber raunar ekki saman um hvort að síminn er hleraður eða hvort hann er að fylgjast með. En þegar við erum í dægrastyttingu á samfélagsmiðlum að gera kannanir á borð við: hvaða bítlalag ert þú, erum við oft að veita aðilum aðgang að upplýsingum okkar á samfélagsmiðlum sem þeir geta svo eftir atvikum nýtt og jafnvel selt þriðja aðila,“ skrifar hún meðal annars.

Eva tekur svo Google og Facebook sem dæmi.

Einn af hverjum 20 í Evrópu notar Google til að leita að upplýsingum. Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins. Samkvæmt tölum hefur Facebook um 1,5 billjón neytendur í heiminum þar af 307 milljónir daglega neytendur í Evrópu. Facebook er orðin aðalauglýsingavélin – internetið sjálft. Instagram er svo í eigu Facebook er með um 100 milljónir notenda til samanburðar.“ Hún bætir við: „Ímyndið ykkur gagnasöfnin sem Google og Facebook eiga.“

Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins.

„Ég hef alltaf upplifað internetið sem ákveðið frelsi apparat og aðhaldsbatterí gagnvart ofríki og spillingu. Þar flæða upplýsingar og leyndarhyggju er gert erfiðara fyrir. Frelsi internetsins er því miður blekking þar sem ósýnilegar hendur stýra því sem við fáum að sjá – að mörgu til þess að gera okkur háð, kaupa eða neyta.“

Pistil Evu má lesa í heild sinni hérna.

„Mikilvægast að brúðarkjóllinn endurspegli persónuleika viðkomandi“

||||||||
||||||||

Eyrún Birna Jónsdóttir kjólaklæðskeri rekur fyrirtækið Brúðarkjólar – Eyrún Birna en hún hannar, oft í samvinnu við tilvonandi brúðir og sérsaumar brúðarkjóla sem eru rómantískir og í bóhemstíl. Eyrún Birna, sem segist leggja áherslu á hreyfingu og flæði í kjólunum, er alltaf með augun opin fyrir fallegum efnum og blúndum sem hún notar í kjólana.

Eyrún Birna Jónsdóttir, brúðarkjólahönnuður og kjólaklæðskeri.

Eyrún Birna Jónsdóttir, brúðarkjólahönnuður og kjólaklæðskeri, rekur fyrirtækið Brúðarkjólar – Eyrún Birna og er með vinnustofu við Nýbýlaveg 6. Hún stofnaði fyrirtækið í fyrra og þeim fjölgar sífellt tilvonandi íslensku brúðunum sem vilja sérsaumaðan brúðarkjól.

„Ég hef alla tíð heillast af brúðarkjólum. Það er eitthvað svo sérstakt við brúðarkjólinn manns, enda sá kjóll sem konan klæðist á einum mikilvægasta degi lífsins. Kjóllinn á að draga fram það besta í hverri brúður og passa fullkomlega. Ég sérsauma hvern og einn kjól og hanna þá í samráði við kúnnann. Ég býð upp á aðeins látlausari kjóla sem eru ólíkir stífum og hefðbundnum brúðarkjólum; kjólarnir mínir eru klæðilegir, úr þægilegum efnum og líkjast kannski meira þeim flíkum sem við klæðumst dags daglega.“

Eyrún Birna saumar oft óhefðbundna brúðarkjóla og hefur hún saumað brúðarkjóla í ýmsum litum. „Ég sauma ekki bara hvíta brúðarkjóla; þeir geta verið í hvaða lit sem er, jafnvel svörtum. Mér finnst mikilvægast að brúðarkjóllinn endurspegli persónuleika viðkomandi brúður og að hún geti fengið að tjá sig á sinn hátt. Það er engin ein uppskrift að hinum fullkomna brúðarkjól.“

Það er engin ein uppskrift að hinum fullkomna brúðarkjól.

Hún segir að oft séu tilvonandi brúðir með ákveðnar hugmyndir og þá vinni hún út frá þeim. Eftir það taka við nokkrar mátanir. „Það er mjög skemmtilegt, eftirminnilegt og persónulegt ferli að láta sérsauma á sig kjól. Þetta samspil fagmannsins og kúnnans er svo mikilvægt.“

Eyrún Birna segist alltaf vera með augun opin fyrir fallegum efnum og blúndum. „Mér finnst mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytt efnisvali, því við búum á litlu landi og viljum helst ekki allar vera í eins brúðarkjólunum. Ég hef í gegnum tíðina heillast af fallegum blúndum og hekli. Ég hef oft notað gamla dúka eða gardínur í kjóla. Þá er hægt að sauma einstakan kjól sem á engan sér líkan.“

Eyrún er á Facebook undir Brúðarkjólar – Eyrún Birna.

 Myndir / Ruth Ásgeirsdóttir

 

Að skanna andlitið fyrir kaffibolla

Á miðri háskólalóðinni í Miami er vatn þar sem ýmis dýr eiga híbýli m.a. stórar iguana-eðlur, skjaldbökur og fljúgandi fiskar. Fátt er betra en tilveran við vatnið í heitri golunni. Eins og svo oft áður sat ég þar með bók, langt komin með sushi dagsins þegar ungur maður vatt sér upp að mér, sagðist vera frá Google – og spurði: „Má ég skanna á þér andlitið?“ Það tók mig smá tíma í hitanum að átta mig. Þegar hann nam að ég væri hugsi yfir þessari bón tók hann fram söluræðuna, benti á símann minn og sagði að Apple væri hvort eða er farið að gera þetta.  „Í staðinn færðu líka ókeypis kaffibolla á Starbucks.“

Um daginn las ég að símar væru hleraðir í auglýsingatilgangi. Internetinu ber raunar ekki saman um hvort að síminn er hleraður eða hvort hann er að fylgjast með. En þegar við erum í dægrastyttingu á samfélagsmiðlum að gera kannanir á borð við: hvaða bítlalag ert þú, erum við oft að veita aðilum aðgang að upplýsingum okkar á samfélagsmiðlum sem þeir geta svo eftir atvikum nýtt og jafnvel selt þriðja aðila. Við vinirnir ræddum kíminn skapandi leiðir til að fara í mál vegna notkunar á gögnum sem safnað er með þessum hætti. Gögn – eru jú orðin það verðmætasta sem til er á internetöldinni.

Mig rámar ekki í að hafa veitt Apple leyfi til að nota hljóðnema símans til að hlera mig eða að skanna á mér andlitið við kaup á símtæki frá þeim. Rökhugsunin segir að heimildin hafi verið grafin í skilmálum sem ég samþykkti þegar ég opnaði símann eða t.d. í skilmálum frá forriti þriðja aðila, appi, sem ég hlóð inn á símann. Hvenær varð það samfélagslega viðurkennt að fela slíka háttsemi í smá letrinu í skilmálum? Hvenær gáfumst við upp fyrir tækninni og léttum okkur í léttu rúmi liggja að veita forritinu sem segir þér hvernig þú myndir líta út sem miðaldra maður óheftan aðgang að ýmiskonar persónuupplýsingum?

Er það raunveruleiki sem við samþykktum að síminn sé eftir atvikum að hlusta á samræður og leitarvélin safni gögnum um athafnir mínar á netinu til að vita hvaða auglýsingu eigi að skjóta að mér næst? Hvenær varð það partur af tilverunni að einhver vildi skanna á mér andlitið. Ekkert mál – fyrir 5 dollara inneign á Starbucks. Ríkir villta vestrið þegar kemur að internetinu?

Neytendum er safnað á bás og svo er otað að okkur allskonar efni eftir algóritmum – gögnin eru seld á nokkuð óheftum markaði í ýmsum tilgangi. Lausnin við þessari frelsisskerðingu innan Evrópu er eftirlit, strangari meðferð persónuupplýsinga þar sem undirliggjandi er reglan samkvæmt persónuverndarreglugerðinni að einstaklingar geti valið hvernig upplýsingar um þá er notaðar. En allt er svo sem leyft. Ég get ekki skilið persónuverndarreglurnar öðruvísi. Auðvitað gegn því að þú samþykkir skilmálana – sem allir lesa – sagði enginn aldrei. Stóru einkafyrirtækin í netgeiranum eru risar.

Tæknirisinn Google, móðurfélagið heitir Alphabet, er með stærstu markaðshlutdeild allra leitarvéla í heiminum eða um 90%. Einn af hverjum 20 í Evrópu notar Google til að leita að upplýsingum. Orðið gúgla er nú nýtt sagnorð í mörgum tungumálum heimsins. Samkvæmt tölum hefur Facebook um 1,5 billjón neytendur í heiminum þar af 307 milljónir daglega neytendur í Evrópu. Facebook er orðin aðalauglýsingavélin – internetið sjálft. Instagram er svo í eigu Facebook er með um 100 milljónir notenda til samanburðar.

Google, Facebook og Apple. Þessi fyrirtæki hafa hannað fínar vörur sem hafa breytt lífi okkar en eru hagnaðardrifin eins og önnur. Kenningin um frjálsan markað með sterku aðhaldi á við þar eins og annars staðar. Það á við beggja vegna Atlantshafsins, þó að Evrópa sé komin lengra í reglusetningu en Bandaríkin. Þá er samkeppni á tæknimarkaðnum afar takmörkuð enda meira og minna einokunarfyrirtæki.

Google var t.d. sektað um 1,5 billjón dollara um daginn fyrir að brjóta eigin reglur í tengslum við auglýsingar og aðgang að gögnum í Bandaríkjunum. Frá árinu 2017 hefur Google aukinheldur fengið því sem nemur 8,2 milljóna evra sektir fyrir að taka eigin þjónustu umfram aðra inn í leitarvélinni og ýta samkeppni í burtu. Ímyndið ykkur gagnasöfnin sem Google og Facebook eiga. Eðli málsins samkvæmt þarf að takmarka notkun þessara gagnasafna og skikka fyrirtækin til að veita aðgang að þessum gögnum ef það á að verða til heilbrigð samkeppni á markaðnum. Þá hefur persónuverndarreglugerðin leitt til lagalegs ágreining innan Evrópu en dómstólar munu leiða í ljós hver áhrif regluverksins er á geirann.

Þegar ungi maðurinn fékk neitun um andlitskönnun fyrir ókeypis kaffibolla komst ég ekki hjá þeirri tilfinningu að líða eins og í George Orwell bók og finna sterka tengingu við myndina Matrix – þar sem vélarnar tóku yfir að lokum. Ég hef alltaf upplifað internetið sem ákveðið frelsi apparat og aðhaldsbatterí gagnvart ofríki og spillingu. Þar flæða upplýsingar og leyndarhyggju er gert erfiðara fyrir. Frelsi internetsins er því miður blekking þar sem ósýnilegar hendur stýra því sem við fáum að sjá – að mörgu til þess að gera okkur háð, kaupa eða neyta. Að segja nei við kaffibollanum var því ákveðin valdefling en sýndi mér um leið hversu háð tækninni við erum orðin. Við teljum okkur vera að taka sjálfstæðar ákvarðanir en hversu mikið er þeim stýrt? Netið verður því ekki lengur táknmynd frelsis heldur fangelsis.

Flatbrauð með steiktum lauk, chili-sveppum og sesamsmjörssósu

Hér kemur uppskrift að dásamlegri pizzu sem er fljótlegt að gera og því hentar hún vel þegar tíminn er naumur og allir svangir eftir annasaman dag. Í uppskriftinni er gert ráð fyrir að pizzan sé bökuð á grilli en hana er auðvitað líka hægt að baka í ofni.

Flatbökudeig:
12 tommu flatbrauð

6 dl hveiti
2 ¾ tsk. lyftiduft
1 tsk. salt
1 msk. ólífuolía
2.5 dl vatn

Álegg:

6 msk. olía
4 stk. laukur, sneiddur
1 tsk. sjávarsalt
3 portobello-sveppir, sneiddir
1 askja flúðasveppir, sneiddir
1 msk. hrísgrjónaedik
1 msk. sojasósa
1 msk. sambal oelek chili-mauk
3 dl gouda-ostur, eða annar ostur, rifinn
1 dl parmesanostur,rifinn
hnefafylli klettakál
2 msk. kaldpressuð ólífuolía

Setjið þurrefnin í hrærivélarskál með hnoðara. Setjið olíu og vatn saman við í skömmtum. Hrærið þar til deigið hættir að festast við hrærivélarskálina. Þetta tekur u.þ.b. 3-5 mín. Það má líka gera þetta í höndum. Setjið til hliðar. Hitið olíu á pönnu við meðalhita og setjið laukinn út á, steikið í 3-4 mín. án þess að hreyfa mikið við honum.

Snúið honum einu sinni til tvisvar og steikið áfram í um 5 mín. eða þar til hann hefur brúnast vel, saltið og takið af hitanum og setjið til hliðar. Hitið 2 msk. olíu á pönnu og steikið sveppina í 5 mín. með smávegis af salti. Bætið ediki, sojasósu og chili-mauki út á pönnuna og hrærið vel saman við sveppina, bragðbætið með salti og pipar, takið af hitanum. Fletjið deigið út.

Hitið grillið á meðalhita og penslið grillgrindina með olíu. Passið að hafa hana hreina áður en þið byrjið. Gott er hafa áleggið við höndina svo ekki þurfi að fara frá grillinu á meðan að botninn grillast. Setjið botninn á grillið og eldið báðum megin í 2-3 mín. á hvorri hlið eða þar til góðar grillrendur hafa myndast.

Snúið botninum með töng. Takið botninn af grillinu og penslið með olíu, dreifið hluta af ostinum yfir, dreifið lauknum og sveppunum yfir ostinn og svo að síðustu afganginum af ostinum. Setjið aftur á grillið með lokið á þar til osturinn bráðnar eða í um 3-5 mín.  Takið af grillinu. Stráið t.d. klettakáli yfir og berið fram með sósunni.

Athugið að ef þið ætlið að baka pizzuna í ofni þá er gott að baka hana í 220° heitum ofni í um 10 mínútur eða þar til pizzan hefur fengið gylltan lit.

Græn sesamsmjörsósa:

2 dl tahini-sesamsmjör
hnefafylli steinselja
safi úr einni sítrónu
1 dl ólífuolía
1 skalotlaukur
hnefafylli ferskt dill
2 hvítlauksgeirar
salt og pipar eftir smekk

Setjið öll innihaldsefni í blandara og látið vélina ganga í um eina mín. eða þar til sósan er orðin silkimjúk og græn. Bragðbætið með salti og pipar.

Umsjón / Bergþóra Jónsdóttir og Nanna Teitsdóttir
Mynd / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Bergþóra Jónsdóttir

„Búnar að upplifa mörg gæsahúðaraugnablik“

||||
||||

Þær Kolbrún Pálína Helgadóttir og Kristborg Bóel Steindórsdóttir eru önnum kafnar þessa dagana í tökum á sjónvarpsþáttum um skilnaði.

 

Þættirnir, sem eru framleiddir af Saga Film og Sjónvarpi Símans, verða sjö talsins og fjalla um ást, ástarsambönd, skilnaði og allt þar á milli.

Kolbrún og Kristborg hafa verið önnum kafnar í tökum og eru langt komnar í ferlinu. „Eftir gríðarlegan undirbúning síðustu mánaða með frábæru teymi Saga Film hófust tökur formlega í síðustu viku en við eigum enn nokkra tökudaga eftir. Þá treystum við á hugrakka einstaklinga sem eru til í að deila reynslu sinni með okkur í von um að geta hjálpað öðrum þarna úti,“ segir Kolbrún.

Þá treystum við á hugrakka einstaklinga sem eru til í að deila reynslu sinni með okkur.

„Tökudagarnir voru eðlilega langir og strangir en ganga framar vonum. Viðmælendur okkar hafa verið frábærir og við erum búnar að upplifa mörg gæsahúðaraugnablik yfir því hvað fólk er opið og tilbúið að gefa af sér,“ útskýrir Kolbrún. Hún segir að það hafi gengið vel að finna viðmælendur sem eru tilbúnir að opna sig og deila sinni reynslu.

Krist­borg Bóel skrifaði bók um sinn eig­in skilnað, bók­in 261 dag­ur kom út í fyrra.

„Það hefur gengið vonum framan að fá viðmælendur þó svo að þeirri vinnu sé ekki lokið enn. Við upplifum að það séu allir tilbúnir að aðstoða okkur og fólki finnst greinilega mikilvægt að tala um þetta málefni. Fólk virðist vera sammála um að það þurfi að breyta viðhorfi fólks til ástarsambanda og mögulega minnka kröfurnar aðeins, eyða minni tíma á samfélagsmiðlum og leggja meiri áherslu á sjálfsrækt til þess að vera hæfur til að vera í góðu sambandi. Við erum að fá góð ráð sem vonandi gagnast öllum þarna úti, bæði einstaklingum, fólki í sambandi og fráskildum.“

Flest höfum við erfiða reynslu í bakpokanum.

Kolbrún segir vinnuna í kringum þættina hafa verið gefandi en líka krefjandi enda er auðvelt að tengja við margt sem hefur komið fram í tökum. „Öll getum við tengt við eitthvað sem kemur fram í þessum viðtölum, flest höfum við erfiða reynslu í bakpokanum. En allt þetta upplýsingaflæði er búið að vera svakalega lærdómsríkt og mannbætandi.“

Sigga Dögg kynfræðingur kemur fram í þáttunum.

Þess má geta að þættirnir verða sýndir í haust á Sjónvarpi Símans.

Sjá einnig: „Skilnaður skorar mjög ofarlega á streituskalanum“

Áhugasamir geta fengið smá innsýn inn í tökuferlið í gegnum Instagram hjá Kristborgu og Kolbrúnu.

Raddir