Föstudagur 20. september, 2024
4.8 C
Reykjavik

Besta lausnin á Brexit vandanum

||
||

Grein þessi var skrifuð rétt upp úr kvöldmat í gær bandarískum tíma. Lítið grunaði höfund að óvænt útspil gæti valdið meiri titring í bresku stjórnmálum en nokkrum klukkustundum síðar var lögð fram vantrausttillaga á hendur Theresu May, frá hennar eigin flokksmönnum í breska íhaldsflokknum.

Þetta er varla það sem breska þjóðin þarf á að halda á þessum tímapunkti þegar umrót og óvissan er mikil vegna Brexit. Innanflokksátök og valdabarátta fárra einstaklinga. Það er ekki til þess fallið að leysa úr þeim hnút sem þegar er uppi vegna Brexit. Hvort May heldur velli eður ei, standa Bretar enn frammi fyrir því að leysa þurfi vandann – samning, ekki samning, nýjan samning eða nýja þjóðaratkvæðagreiðslu.

May tók ákvörðun í vikunni að kippa áætlaðri atkvæðagreiðslu um Brexit samninginn út af breska þinggólfinu. Sennilega hleypti það framkominni vantrauststillögu af stað. Það tók bresku ríkisstjórnina um eitt og hálft ár að semja við Evrópusambandið. Niðurstaðan er samningur sem fáir styðja, hvorki þeir sem vilja Brexit eða þeir vilja vera áfram í ESB. Andstæða við samninginn í þinginu kemur því frá báðum áttum, hægri og vinstri, á mismunandi forsendum. Sumir vilja vera áfram í Evrópusambandinu, og eru enn að berjast fyrir því með að vera á móti samningnum. Harðlínu Brexit hópurinn telur samninginn miðjumoð og hugnast frekar að ganga úr út sambandinu með engan samninginn.

Staðan er snúin, bæði fyrir Breta og Theresu May.

Pólitískt er staðan snúin. Bæði fyrir Breta og Theresu May sem hefur stýrt þessu fíaskói, ef svo má að orði komast. Vantrauststillagan er gott dæmi um það. Þjóðaratkvæðagreiðslan árið 2016 um útgöngu er ekki lagalega bindandi, í þröngri lagalegri merkingu mætti sniðganga hana og samninginn.

Útlit er ekki fyrir þær lyktir málsins enda er pólitísk vigt atkvæðagreiðslunnar mikil. Margir hafa talað fyrir því að þingmenn eigi að loka fyrir vitin og kjósa blint með samningnum að virðingu við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sjálfsagt veltur það á því hvað þýðingu Brexit hefur fyrir viðkomandi þingmann, en eins og komið hefur í ljósi virðast margar ólíkar skoðanir hafa verið uppi um Brexit og afleiðingar útgöngu fyrir breskt samfélag.

Í samningaviðræðum við ESB var áhersla May að stýra landamærum Breta – frjáls för fólks væri úti, líkt og eitt af fjórfrelsum innri markaðarins kveður á um. Ákvörðun ber vott um pópúlisma og er að mati höfundar óskynsamleg enda felur hún í sér að hverfa af innri markaðnum – veigamikill missir fyrir Breta.

Að öðru leyti snýst samningurinn um að halda eins nánu efnahags- og viðskiptasambandi við Breta og hægt er. Í samanburði við þann samning sem Bretar hafa nú þegar, að vera í ESB, er Brexit mun verri samningur. Bretar eru nú hluti af innri markaðnum en ekki hluti af evrunni, þeir ráða yfir sínu eigin landamæraeftirliti og fá talsvert endurgreitt af þeim fjármunum sem þeir leggja inn í sambandið. Betri díll en mörg önnur ESB lönd hafa.

Samhengisins vegna ber að geta þess að Ísland er aðili að innri markaðnum í gegnum EES-samninginn og tekur því upp þann hluta löggjafar Evrópusambandsins sem lítur að frjálsri för fólks, svo gott sem sjálfkrafa. Í sumar hitti ég Breta sem var spenntur að heyra um EES-samninginn, eða það sem Bretar kalla norsku leiðina í pólitískri umræðu. Margir þar í landi sem tala fyrir útgöngu hafa séð okkar samning rósrauðum augum – en útskýringar þeirra eiga lítið skylt við raunveruleikann. Á Bretann runnu tvær grímur þegar ég útskýrði að það þýddi jú, aðgang að innri markaðnum en þeir myndu ekki eiga sæti við löggjafarborðið. Minn maður var fljótur að skipta um skoðun um ágæti EES samningsins. Almenn vanþekking virðist ríkja í Bretlandi um hvað EES samningurinn er í raun og veru.

Flókin ákvörðun

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Bretar standa frammi fyrir flókinni ákvörðun. Nýjustu skoðanakannanir sýna að meirihluti vill ekki þennan samning. Sá  meirihluti er tæpur og því ríkir enn talsverður klofningur hjá þjóðinni. En hverjir eru valmöguleikarnir? Ein leið er að hafna samningnum og fara út með engan samninginn. Flestir eru andvígir því og telja það verulega skaðlegt fyrir breskt samfélag. Aðrir telja að það sé hægt að semja aftur, en Angela Merkel útilokaði það í byrjun vikunnar. Ekki er ljóst hvort það yrði enn staðan ESB megin yrði ef samningnum yrði hafnað í þinginu. En í því felst mikil áhætta og Bretar stæðu uppi með engan samning.

Önnur leið er að samþykkja samninginn eins og hann stendur, en hverfandi líkur eru fyrir því að meirihluti náist um samþykkt hans. Þess vegna frestaði May atkvæðagreiðslu í þinginu. Þriðja leiðin er að fara í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skynsamlegast leiðin til að leysa þann Brexit vandann. sem pólitíkin virðist ekki geta gert. Sú leið er ekki án hindrana. Fyrsta spurningin er: um hvað yrði spurt? Um þennan samning einangrað eða yrði spurningum bætt við um að vera áfram í ESB? Pólitík mun eflaust flækjast fyrir við gerð spurninga. Ef samningnum yrði hafnað stórt í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það líka leitt til afhroðs fyrir breska íhaldsflokkinn og til þess að almennar þingkosningar yrðu haldnar með öllu því sem fylgir, möguleg uppboð á kosningaloforðum eru fyrirséð. Umrót kann að skapist meðal þeirra sem kusu með Brexit árið 2016. Fólk kann að upplifa að lýðræðið væri sniðgengið. Margir sem kusu í Brexit kusu gegn kerfinu, önnur atkvæðagreiðsla kann að vera móðgandi fyrir þann hóp. En er það svo?

Vonandi kennir þetta samfélögum sem eru að taka fyrstu skref í þjóðaratkvæðagreiðslum að það þarf að vita hvað felst í pakkanum áður en kosið er um hann.

Er hægt að kjósa um eitthvað án þess að hafa fullnægjandi upplýsingar um hvað það þýðir? Vonandi kennir þetta samfélögum sem eru að taka fyrstu skref í þjóðaratkvæðagreiðslum að það þarf að vita hvað felst í pakkanum áður en kosið er um hann. Eðli málsins samkvæmt hefði líka verið erfitt að ná góðum samning ef kosið hefði verið um að „kíkja í pakkann“ – þannig að samningaviðræður færu fram fyrst áður en ákvörðun um útgöngu yrði lögð fyrir þjóðina. Allskonar yfirlýsingar voru hins vegar gefnar um þýðingu Brexit sem hafa reynst ósannar og margir eru brjálaðir út af.

Mislukkað óvissuferðalag

Þó óvissuferðir geti verið spennandi, er mál af þessari stærðargráðu afar óheppilegt tilraunaverkefni.  Útkoman er sú að Brexit óvissuferðalagið er mislukkað. Nú þegar kjósendur vita hvað Brexit þýðir þá er heiðarlegra að kjósa aftur sem leysir úr þessum pólitíska hnút. Persónulegt og pólitískt stolt þeirra sem leiddu málið má ekki ráða lyktum, alltof miklir hagsmunir eru í húfi. Þó Bretar töpuðu pólitísku andliti um stund væri það betra en að fara með þjóðina á verri stað en hún er þegar á. Ný forysta í breska Íhaldsflokknum breytir engu þar um, nema að tíminn tifar á meðan þeir eyða orkunni í innanflokksátökin.

Loks ber að nefna að það er þýðingarmikið að Evrópusambandið standi sterkt, ekki bara í efnahagslegu tillit Breta heldur fyrir heimsstjórnmálin og þróun þeirra. Evrópusambandið hefur verið eitt af þeim öflum sem enn heldur sönsum í alþjóðastjórnmálum. Útganga Breta hlítur að veikja sambandið. Óljóst er hvaða pólitíska stefna yrði ofan á í Bretlandi ef þeir fara, en ris stjórnmálaafla sem byggja á óttahugmyndafræði, popúlisma og þjóðernishyggju, er vond þróun. Ef Bretar enda með að vera verður það jákvætt skref fyrir alþjóðasamvinnu.

Sjá einnig: Vantrausttillaga gegn Theresu May

„Undirbúningur og einbeiting mikilvæg svo allt smelli“

|||
|||

Jólablað Gestgjafans er komið í verslanir og er glæsilegra en nokkru sinni fyrr. Það inniheldur 119 hátíðaruppskriftir auk góðra ráða, hugmynda að matarjólagjöfum, viðtala við sælkera og margt fleira. Blaðamenn Gestgjafans stóðu í ströngu við undirbúning blaðsins en allar uppskriftir þess eru útbúnar í tilraunaeldhúsi Gestgjafans og útkoman síðan mynduð af ljósmyndurum blaðsins. Nanna Teitsdóttir eldaði marga af þessum réttum.

„Vinnan á bak við eitt svona blað er gríðarlega mikil og við leggjum mikið upp úr því að hafa það veglegt og fallegt,“ segir Nanna þegar hún er spurð út í vinnsluna. „Einn matarþáttur getur tekið marga daga í vinnslu. Það þarf að þróa mataruppskrifir, elda matinn og smakka hann til og breyta þá uppskriftunum ef þar. Síðan tekur stílisti við og skapar umgjörðina í kringum myndatökuna og ljósmyndarinn fangar lokaútkomuna.“

Einn matarþáttur getur tekið marga daga í vinnslu.

Forsíðuna á þessu blaði prýðir mynd af súkkulaði-triffli sem Nanna gerði og inni í blaðinu eru uppskriftir að þremur slíkum eftirréttum. Það tók Nönnu tvo daga að þróa uppskriftirnar, þá tvo daga í eldhúsinu að búa til matinn og síðan fór einn dagur til viðbótar í að mynda þáttinn.

Jólablað Gestgjafans er troðfullt af spennandi og fjölbreyttu efni. Forsíðumyndina tók Hallur Karlsson og Hanna Ingibjörg, ritstjóri blaðsins, stíliseraði.

„Hugmyndin að þessum þætti var að búa til eftirrétti fyrir stór matarboð en triffli henta vel fyrir slíkt þar sem hægt er að undirbúa það að mestu tveimur dögum fyrir veisluna. Síðan má setja það saman samdægurs og niðurstaðan er tilkomumikill og flottur eftirréttur sem gaman er að bera á borð.“

Skammdegið áskorun

Í jólablaði Gestgjafans eru fjölbreyttir matarþættir sem spanna forrétti, aðalrétti, meðlæti og eftirrétti, líka fyrir grænmetisætur. Í þessu blaði gerði Nanna meðal annars þátt um hátíðarsteikur með Bergþóru Jónsdóttur, samstarfskonu sinni, þar sem þær elduðu fjóra kjötrétti auk meðlætis.

Önd með ylliblóma- og appelsínusósu sem Bergþóra Jónsdóttir eldaði fyrir jólablaðið í matarþætti með fjórum sparilegum kjötréttum auk meðlætis. Myndirnar tók Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Hanna Ingibjörg stíliseraði.

„Þessi þáttur tók svipaðan tíma og eftirréttirnir en kjötþættir eru mun þyngri í vinnslu þar sem minna er hægt að vinna sér í haginn, það þarf að elda kjötið sama dag og myndatakan fer fram og því má lítið út af bregða. Við þurfum því að undirbúa okkur vel og hafa einbeitinguna í lagi. Við notumst aðallega við dagsljós við myndatökur og því er ein aðaláskorunin við vinnslu jólablaðsins skammdegið þar sem dagsbirtan er til staðar stuttan hluta úr degi. Það þarf því allt að smella saman á réttum tíma. Þetta er ótrúlega skemmtilegt en ég viðurkenni að þetta getur tekið á taugarnar,“ segir Nanna og hlær.

Erlend matarmenning

Uppáhaldsþáttur Nönnu í þessu blaði heitir jólakrásir frá fjórum löndum sem hún vann einnig með Bergþóru. „Ég hef ofboðslega gaman af að kynnast menningu annarra landa í gegnum mat. Við gerum uppskriftir frá fjórum ólíkum löndum Evrópu og erum auk þess með skemmtilegan fróðleik um hvern rétt og sögu hans. Við Bergþóra höfum báðar búið erlendis og ferðast mikið sem gagnaðist okkur vel við vinnsluna.“

Þetta er ótrúlega skemmtilegt en ég viðurkenni að þetta getur tekið á taugarnar.

Eftir allan jólamatinn og kökurnar sem einkennt hefur vinnu starfsfólks Gestgjafans í haust er búið að skipta aðeins um gír og hollustan tekin við. „Já, við erum alltaf skrefi á undan, nú eru jólin búin hjá okkur og hollusta janúarmánuðar tekin við,“ segir Nanna hress í bragði að lokum.

Í Jólablaði Gestgjafans er flottur þáttur með einföldum og hátíðarlegum forréttum sem Nanna eldaði. Um stíliseringu sá Hanna Ingibjörg Arnarsdóttur og myndirnar tók Hákon Davíð Björnsson. Uppskrift að þessum kartöfluklöttum með reyktum laxi og piparrótarsósu er að finna í blaðinu.

Rígheldur í jólakortahefðina

Margrét Eir Hönnudóttir, söngkona, leikkona og kennari, segir mikilvægt að slaka aðeins á og njóta aðventunnar og jólanna. Hún heldur í ýmsar gamlar hefðir á þessum tíma og síðustu þrjú ár hefur tónleikahald bæst við. Tónleikar hennar verða í Fríkirkjunni í Hafnarfirði þann 14. desember klukkan 20.

„Ég hef haldið þessa tónleika síðustu þrjú árin og við höfum verið að móta prógrammið í vissan stíl, ég og samstarfsmenn mínir, Daði Birgisson og Börkur Hrafn Birgisson,“ segir Margrét Eir. „Lögin koma mörg frá Írlandi og Bretlandi, gömul þjóðlög. Báðar þjóðir hafa mikla sönghefð eins og við á Íslandi og við höfum svipaðan húmor. Þetta eru lög sem fáir hafa heyrt en ég bæti svo líka þekktari lögum við.“

Nokkur laganna eru með nýjum íslenskum textum og eiginmaður Margrétar, Jökull Jörgensen, á nokkra þeirra. „Ég á einn texta við færeyskt lag sem ég samdi fyrir mömmu sem komst ekki á tónleikana mína í fyrra vegna veikinda en hún mætir alltaf. Hún er orðin hressari í dag og mætir og syngur með.“

Margrét segist vera hátíðleg um jólin, hún fari í sparifötin á tónleika og í kirkju og beri mikla virðingu fyrir hefðum.

„Kannski er það gamaldags. Að fara í kirkju á aðfangadag hefur verið mikil hefð alla mína tíð. Ég fór alltaf með afa og söng Heims um ból á meðan mamma eldaði. Síðustu 7-8 árin hef ég alltaf sungið á aðfangadag upp í Grafarvogi og það er engin undantekning í ár. Að hitta vini yfir góðu rauðvíni og góðum mat er mikilvægt á aðventunni. Svo rígheld ég í þann sið að senda jólakort og ég vil endilega minna þá vini mína sem senda kort að ég er flutt í Hafnarfjörðinn, athugið breytt heimilisfang,“ segir hún kímin.

Að fara í kirkju á aðfangadag hefur verið mikil hefð alla mína tíð. Ég fór alltaf með afa og söng Heims um ból á meðan mamma eldaði.

„Jólin eru dásamlegur tími sem ég vil verja sem mest með mínum nánustu. Ég tek mér góðan tíma í að velja gjafir – ég skoða, hugsa um og vel að mikilli natni fyrir hvern og einn. Ég geri mér grein fyrir að jólin eru stresstími en það er líka tími til að staldra við og hugsa svolítið inn á við. Þetta er líka erfiður tími fyrir marga sem hafa misst einhvern nákomin – ég sakna oft afa og ömmu á þessum tíma.“

Mynd / Ólafur Þórisson

Breskir ellilífeyrisþegar í haldi vegna smygls

Tveir breskir ellilífeyrisþegar eru í haldi lögreglu eftir að mikið magn kókaíns fannst í ferðatöskum þeirra.

Breskt par er í haldi í Lissabon í Portúgal eftir að mikið magn kókaíns fannst í ferðatöskum þeirra í skemmtiferðaskipi. Fólkið er 70 ára og 72 ára.

Yfirvöldum barst ábending um smyglið og við leit í töskum þeirra fannst mikið magn kókaíns. Parið er sagt hafa falið kókaínið í fjórum ferðatöskum. Um 10 kíló af kókaíni fundust. Andvirði kókaínsins er sagt vera tvær milljónir punda.

Parið var handtekið 4. desember þegar skipið var í höfn í Lissabon og rannsókn á málinu stendur nú yfir. Parið er sagt vera samvinnuþýtt.

Parið var að koma úr siglingu í Karabíska hafinu þegar þau voru handtekin. Þessu er greint frá á vef Telegraph. Í fréttinni kemur fram að parið hafi farið reglulega í siglingar með skemmtiferðaskipum í gegnum tíðina.

Bára Huld lýsir samskiptum sínum við Ágúst Ólaf: „Ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing“

Ágúst Ólafur.

Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, greinir frá samskiptum sínum við Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar. Hún segir yfirlýsingu hans, þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að taka sér 2 mánaða frí frá þingstörfum vegna kynferðislegrar áreitni, hafa gert mjög lítið úr því sem fram fór umrætt kvöld.

Trúnaðarráð Samfylkingarinnar áminnti Ágúst Ólaf eftir að Bára Huld tilkynnti málið til þess. Í kjölfarið sendi Ágúst Ólafur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist miður sín vegna málsins og hann hyggðist taka sér 2 mánaða frí frá þingstörfum á meðan hann skoðaði sín mál. Í yfirlýsingunni sagðist Ágúst Ólafur hafa í tvígang reynt að kyssa Báru og látið ljót orð falla þegar hún neitaði.

Bára Huld stígur í fyrsta skipti fram í tengslum við málið í yfirlýsingu sem hún birtist á vef Kjarnans. Ágúst Ólafur var áður hluthafi í Kjarnanum. Segist hún í yfirlýsingunni ekki hafa ætlað að stíga fram en í ljósi þess hversu lítið henni þótti Ágúst Ólafur gera úr umræddum atburði hafi hún kosið að tjá sína hlið á málinu.

Forsaga málsins er sú að þau Ágúst Ólafur og Bára Huld tóku saman tal á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur snemma sumars þar sem þau voru ásamt hópi fólks. Þaðan fóru þau á skrifstofu Kjarnans neðst á Laugavegi. Stóð Bára Huld í þeirri trú að þar myndu þau halda áfram samræðum en Ágúst Ólafur hafi misskilið aðstæður.

„Ágúst Ólafur reyndi ekki að kyssa mig tví­vegis heldur ítrek­að. Hann reyndi það aftur og aftur þrátt fyrir að ég hefði neitað honum og sett skýr mörk. Í hvert sinn sem ég neit­aði honum þá nið­ur­lægði hann mig með ýmsum hætti. Ágúst Ólafur yfir­gaf ekki skrif­stof­una þegar ég bað hann um það. Ég fylgdi honum á end­anum ákveðin út með þeim orðum að ég treysti mér ekki til að vera í sama rými og hann. Hann lét samt ekki segj­ast og hélt þving­andi áreitni sinni áfram í lyft­unni á leið­inni út.“

Segist Bára Huld hafa upplifað algjört varnarleysi vegna þessa. Lýsir hún upplifinu sinni þannig að hún hafi verið „algjörlega niðurlægð og gjörsamlega misboðið vegna ítrekaðra ummæla hans“ um vitsmuni hennar og útlit.

„Næstu dagar voru mér erf­ið­ir. Ég fann fyrir kvíða og van­líðan og ég ótt­að­ist áfram að atvikið gæti haft áhrif á starfs­ör­yggi mitt. Meðal ann­ars fyllt­ist ég mik­illi van­líðan þegar ég sá hann í fjöl­miðlum eða mynd af honum á net­inu. Eins kveið ég fyrir því að rekast á hann á förnum vegi eða að þurfa starfa minna vegna að sjá eða hitta hann á þing­inu. Þetta átti eftir að vara næstu mán­uði og gerir í raun enn að vissu leyti.“

Yfirlýsing þingmannsins skrumskæld

Henni hafi fundist að hún þyrfti að skila afleiðingunum til gerandans og í því skyni sent Ágústi Ólafi tölvupóst þar sem hún lýsti upplifun sinni af samskiptum þeirra. Níu dögum síðar, eftir ítrekanir, hafi hann hringt og beðist afsökunar. Síðsumars hafi þau enn fremur hist í vitna viðurvist þar sem hann rengdi ekki frá sögn Báru Huldar og aftur beðið hana afsökunar. Hins vegar hafi henni orðið ljóst að hann ætlaði ekki að segja öðrum frá því hvað gerst hefði og þess vegna hafi hún leitað til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, sem hafi bent henni á að tilkynna málið til trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, sem og hún gerði. Trúnaðarráðið veitti Ágústi Ólafi áminningu þann 27. nóvember. Hún hafi ætlað að láta þar við sitja en yfirlýsing Ágústs Ólafs um málið hafi verið þess eðlis að hún hafi orðið að stíga fram.

„Það er ábyrgð­ar­hlutur að senda frá sér yfir­lýs­ingu um mál sem þessi, eins og Ágúst Ólafur gerði. En ef slík yfir­lýs­ing er skrum­skæld á ein­hvern hátt er hætt við að röng og jafn­vel var­huga­verð skila­boð séu send út í sam­fé­lag­ið. Yfir­lýs­ing Ágústar Ólafs er ekki í sam­ræmi við mála­vexti. Hún gerir mun minna úr því sem átti sér stað en til­efni var til. Þetta var ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing.“

Yfirlýsingu Báru Huldar í heild má lesa hér.

Uppfært 12:21:

Stjórn og stjórnendur Kjarnans hafa lýst yfir fullum stuðningi við Báru Huld. Í yfirlýsingu segir að hegðun Ágústs Ólafs hafi verið niðrandi, óboðleg og hafi haft víðtækar afleiðingar fyrir Báru Huld, bæði persónulegar of faglegar.

„Stjórn og stjórn­endur Kjarn­ans gerðu þol­anda ljóst frá upp­hafi að hann réði ferð­inni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi rétt­ast að grípa. Eftir að fyrir lá við­ur­kenn­ing ger­anda á því sem átti sér stað, en eng­inn sýni­legur vilji til að bregð­ast við hegðun sinni með öðrum hætti, þá ákvað þol­andi að koma vit­neskju um áreitn­ina á fram­færi við stjórn­mála­flokk­inn sem ger­and­inn situr á þingi fyr­ir. Þar var mál­inu beint í far­veg nýstofn­aðrar trún­að­ar­nefnd­ar.“

Loks segir í yfirlýsingunni, sem stjórnarformaðurinn Hjálmar Gíslason undirritar, að þolandinn í málinu hafi fullan rétt á því hvort, hvenær og hvernig hann tjáir sig um umrætt atvik.

Ágúst Ólafur: Misræmið byggir á ólíkri upplifun

Ágúst Ólafur.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að misræmi í frásögn hans og Báru Huld Beck megi rekja til ólíkra upplifana þeirra af atburðunum sem leiddi til þess að Bára Huld sakaði hann um kynferðilsega áreitni.

Ágúst Ólafur var áminntur af trúnaðarráði Samfylkingarinnar eftir að kona kvartaði undan kynferðislegri áreitni af hans hálfu.  Þingmaðurinn sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann gekkst við brotinu og tilkynnti um leið að hann færi í 2 mánaða leyfi á meðan hann leitaði sér aðstoðar.

Konan, Bára Huld, steig fram í morgun og sagði Ágúst Ólaf hafa gert lítið úr áreitninni í yfirlýsingu sinni. Hann hafi ítrekað reynt að kyssa hana og niðurlægt þegar hún varð ekki við umleitunum hans.

Ágúst Ólafur hefur sent frá sér aðra yfirlýsingu þar sem hann ítrekar afsökunarbeiðni sína. Orðrétt segir í yfirlýsingunni:

„Ætlun mín var aldrei sú að rengja hennar frásögn eða draga úr mínum hlut. Misræmið sem hún rekur í svari sínu byggir á ólíkri upplifun. Ég lagði mikla áherslu á í okkar samtölum og í framburði mínum hjá trúnaðarnefndinni að gangast við minni hegðun. Hennar upplifun er auðvitað aðalatriðið í þessu máli.

Ég er í dag að leita mér faglegrar aðstoðar vegna hegðunar minnar og róta hennar. Ég bið Báru Huld enn og aftur innilegrar afsökunar á framkomu minni og þeirri vanlíðan sem ég hef valdið henni.“

„Alltaf einhverjir sem gleyma að ganga frá trampólínum“

Nótt hinna fljúgandi tampólína að baki.

Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að alltaf séu einhverjir sem gleymi að ganga frá trampólínum þrátt fyrir áminningu frá Veðurstofu um að ganga frá lausum munum vegna veðurs.

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í Eyjum, Suðurnesjum, Akranesi og höfuðborgarsvæðinu í dag og í gær vegna veðurs. Um 50 – 60 manns eru að störfum og sinna útköllum og hafa verkefnin verið um 40 talsins að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörg. Spurður út í hvers konar verkefnum björgunarsveitir hafa verið að sinna segir hann: „Þetta eru hefðbundin verkefni. Sem sagt þakplötur, trampólín og slíkt er að fjúka.“

Veðurstofa varaði við veðrinu í gær og gaf út gula viðvörun. Þá var fólki bent á að ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Þrátt fyrir viðvörun Veðurstofu hafa björgunarsveitir þurft að eltast við fjúkandi trampólín í rokinu. „Það eru alltaf einhverjir sem gleyma að ganga frá trampólínum virðist vera,“ segir Jónas.

Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu verður allhvöss suðlæg átt í dag, en stormur suðvestan- og vestanlands þangað til síðdegis.

Þrotabú DV riftir greiðslum til ríkisins

|
|

Þrotabú DV ehf. hefur stefnt íslenska ríkinu vegna greiðslna sem runnu til Tollstjóra undir lok líftíma félagsins fyrir svokölluðum rimlagjöldum.

DV, sem áður var m.a. í eigu Björns Inga Hrafnssonar, sem var einnig stjórnarformaður og útgefandi DV, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. mars sl. Samkvæmt heimildum Mannlífs nemur beiðni um riftun um eða yfir 100 milljónum króna.

Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta seldi Björn Ingi alla fjölmiðla félagsins út úr félaginu og talið er að hann hafi notað þá fjármuni sem fengust fyrir, til þess að greiða niður skuldir félagsins við Tollstjóra, til þess að forða sér frá fangelsisrefsingu. Þá greiddi hann niður ýmsar aðrar skuldir sem hann var í persónulegum ábyrgðum á, þar með talið skuld við Íslandsbanka samkvæmt heimildum Mannlífs. Skiptastjóri félagsins hefur farið fram á riftun þessara gjörninga og hefur Tollstjóri þegar fallist á riftun hluta greiðslnanna og afhent þrotabúinu töluvert fé.

Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta seldi Björn Ingi alla fjölmiðla félagsins út úr félaginu

Fallist dómstólar á riftunina er ljóst að mikið af þeim greiðslum sem Björn Ingi greiddi til þess að koma sjálfum sér í var verða skráðar ógreiddar í bókum ríkisins. Í kjölfarið má vænta að málið verði frekar skoðað af skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda kunna þeir stjórnendur félaga sem lenda í vanskilum með rimlagjölda að baka sér refsiábyrgð.

Þegar kröfur um gjaldþrotaskipti DV ehf. komu fyrst fram var talið að skuldir félagsins vegna virðisaukaskatts og annarra opinberra gjalda næmu alls 120 milljónum króna. Þar af voru rimlagjöldin upp á rúmar 60 milljónir. Til viðbótar við framangreindar skuldir skuldaði félagið um 40 milljónir í launatengd gjöld til lífeyrissjóða og stéttarfélaga.

Ef ofangreind riftun verður staðfest má ætla að ógreidd rimlagjöld DV ehf. nema um eða yfir 200 milljónum króna. Er þá ekki tekið tillit til ógreiddra rimlagjalda annarra fyrirtækja sem Björn Ingi Hrafnsson er ábyrgðarmaður fyrir og tengjast DV og Pressunni.

Björn Ingi Hrafnsson stýrir í dag nýjum vefmiðli, Viljanum, sem skráður er á föður hans.

Þetta hefur fólk að segja um þrumuveðrið á Twitter

Margt fólk virðist spennt yfir þrumuveðrinu eins og sjá má á Twitter.

Það er ekki oft sem fólk upplifir þrumuveður hér á landi en í kvöld hefur verið nokkuð mikið um þrumur og eldingar á höfuðborgarsvæðinu. Í frétt Vísis kemur fram að samkvæmt Veðurstofu Íslands voru eldingarnar á höfuðborgarsvæðinu vel á annan tug. Þar kemur einnig fram að fólk geti átt von á að sjá eldingar áfram í kvöld og í nótt.

Fólk virðist þá almennt vera spennt yfir að sjá eldingar hér á landi. Jafnvel svo spennt að það hefur tjáð gleði sína á Twitter. Þetta hefur fólk að segja um þrumuveðrið á Twitter.

https://twitter.com/Kisumamma/status/1072565525006426112

Mynd / Pixabay

Saksóknari hefur rannsókn í plastbarkamálinu

Saksóknari í Svíþjóð hefur ákveðið að hefja rannsókn á máli Paolo Macchiarini, skurðlæknisins sem fyrstur framkvæmdi plastbarkaaðgerðir á mönnum. Rannsóknin teygir anga sína hingað til lands þar sem fyrsti plastbarkaþeginn, Andemariam Beyene, kom frá Íslandi. Málið verður rannsakað sem sakamál.

Rannsóknin á hendur Macchiarini mun snúa að tveimur sjúklingum sem fóru í plastbarkaaðgerð á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, Andemariam Beyene og konu frá Tyrklandi og verður rannsakað hvort Macchiarini hafi a.m.k. í öðru tilfellinu valdið dauða sjúklingsins. Saksóknarinn sem opnaði málið aftur ætlar að yfirheyra ný vitni, en talið er að rannsóknin geti leitt til þess að Macchiarini verði ákærður – og jafnvel fleiri.

Saksóknari í Svíþjóð úrskurðaði í máli Macchiarinis 12. október í fyrra þar sem hann var ekki ákærður fyrir manndráp af gáleysi en hefði sýnt vanrækslu og var sú niðurstaða töluvert gagnrýnd í Svíþjóð. Ekki þótti sýnt að nægar sannanir hefðu verið til að ákæra skurðlækninn og jafnvel talið að aðgerðirnar hefðu lengt líf þeirra þriggja sjúklinga sem um ræddi og gerðar voru á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu. Aðgerðirnar voru seinna sagðar tilraunir á mönnum og í íslensku Rannsóknarskýrslunni segir: „Með uppbyggingu miðstöðvar fyrir háþróaðar öndunarvegarannsóknir, með áherslu á framsæknar aðgerðir, var lífi þriggja sjúklinga á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu stofnað í mikla hættu á kerfisbundinn hátt og eru þeir nú allir látnir.“

Ekkja Andemariams Beyene hefur engar bætur fengið vegna málsins og hefur talsmaður Karolinska-háskólasjúkrahússins lýst því yfir að hún fái ekki bætur frá sjúkrahúsinu.

Vísindagrein sem birtist í Lancet og byggð var m.a. á aðgerðinni á Andemariam Beyene hefur verið afturkölluð vegna vísindamisferlis en mál þetta sem tengist plastbarkaígræðslum í fólk er talið vera eitt mesta vísindahneykslismál sem komið hefur upp í heimi læknavísindanna í langan tíma.
Hér má sjá yfirlýsingu saksóknara í Svíþjóð.

Mynd / Árni Torfason

Námskeið fyrir extróverta

Síðast en ekki síst

Höfundur / Pawel Bartoszek

Það er hægt að flokka fólk í extróverta og intróverta. Það er ekki endilega vísindalegt en það er hægt. Flokkunin gengur út á það að extróvertar eru fólkið sem er á útopnu í partíum meðan intróvertar glápa á eigin skó.

Eðli málsins samkvæmt eru extróvertarnir heldur algengari í hópi pólitíkusa og stjórnenda. Þeir sem eru intróvertar geta farið á námskeið þar sem þeir læra að kalla fólk með nafni, snerta aðra að óþörfu og brosa af ástæðulausu. Læra að vera extróvertar.

En hvernig væri að snúa þessu við og kenna þessu extróvertaliði að vera til friðs á sérstöku námskeiði? Þar væri hægt að kenna eftirfarandi:

Eitt: Þú mætir í vinnuna. Dagga er þegar mætt og byrjuð að vinna. Ekki bjóða Döggu góðan daginn, eða spyrja hvernig hún hafi það. Dagga er að vinna. Ef Dagga vill spjalla þá fer hún fram og hangir hjá vatnsvélinni.

Tvö: Þú ert að taka leigubíl. Sestu aftast og farðu beint í símann. Bílstjórinn fær borgað fyrir að keyra, ekki fyrir að skemmta þér.

Þrjú: Þú kemur í partí þar sem þú þekkir bara gestgjafann, Tómas. Talaðu bara við Tómas. Kannski mun hann kynna þig fyrir einhverjum sem hann heldur að þú hafir gaman af að tala við. Ef það gerist skaltu tala við sömu manneskjuna eins lengi og það er gaman. Þú þarft ekki að tala við alla.

Fjögur: Þig langar að fá upplýsingar hjá veisluþjónustu Völu. Ekki hringja eða mæta á staðinn. Það er ofbeldi. Sendu Völu póst sem hún getur svarað rólega í næði næst þegar hún hefur tíma.

Fimm: Þú ert í brúðkaupi, þú undirbjóst ekki ræðu en langar samt að tala. Slepptu því.

 

Hvers vegna að viðhalda helvíti á jörðu?

Á næsta ári opnar neyslurými fyrir fólk sem er illt í hjartanu og taldi kvalastillandi lyf í æð á einhverjum tímapunkti sinn besta kost.

Þar verður örugg aðstaða til inntöku slíkra efna með aðgengi að hreinum sprautubúnaði og grunnheilbrigðisþjónustu. Til þessa verks hefur ríkisstjórnin tekið frá fjármuni á fjárlögum, og leggur heilbrigðisráðherra fram frumvarp eftir áramót um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni til að tryggja þjónustunni lagastoð. Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar tekið að sér umsjón þjónustunnar.

Sú ímynd sem segja má að ríkt hafi af „sprautufíklinum“ sem hálfgerðri goðsagnaveru, manneskju varla af holdi og blóði sem tilheyrir einhverjum öðrum veruleika, heyrir vonandi sögunni til. Þessi hópur og aðstæður þessara einstaklinga hafa fengið mikla umfjöllun á árinu, og hlýtur hálf þjóðin að hafa séð heimildarþættina Lof mér að lifa, umfjöllun Ísland í dag um Frú Ragnheiði og kvikmyndina Lof mér að falla, svo eitthvað sé nefnt.

Þar standa mikil áfallasaga og andleg veikindi augljóslega upp úr sem sameinandi þáttur þessa hóps, en undirliggjandi hjartahlýja og manngæska er einnig meiri en margir hefðu e.t.v. gert sér í hugarlund. Það sem allir viðmælendur eiga þó sameiginlegt er helvítið sem lýst er meðan á neyslu stendur, í formi ofbeldis og sorgar, sem herðir svo enn tak fíknarinnar.

Hvatinn hlýtur að vera kærleikur

Hvatinn að baki opnunar þessa neyslurýmis hlýtur að vera kærleikur og manngæska, viljinn til að hjálpa þessum hópi til betra lífs. Þess vegna þykir mér miður að þetta hænuskref sé látið duga, og að lyfin sem þessir einstaklingar eru líkamlega háðir verði ekki einfaldlega afhent á staðnum.

Fyrir þeirri tilhögun mætti skrifa langa rökfærslu og draga fram skýrslur og gögn um ávinning og árangur erlendis, en í kjarna sínum er það nákvæmlega með þessum hætti sem samfélagið getur bætt hag þessara einstaklinga stórkostlega — með því að rjúfa tilbúinn og ónauðsynlegan veruleika þess að fárveikir einstaklingar neyðist til að verða sér úti um háar fjárhæðir daglega til að fjármagna líkamlega fíkn, og eiga að auki ekki annan kost en að eiga viðskipti við aðila í undirheimum. Þarna ætti auðvitað líka að vera skilyrðis- og tafarlaus aðstoð í boði fyrir þá sem eru tilbúnir að hefja heilbrigðara líf.

Frumvarp heilbrigðisráðherra er enn ekki komið fram. Enn er tími til að haga framkvæmdinni með þessum hætti. Tilefni er til að rifja upp orð aðstandenda kvikmyndarinnar Lof mér að falla þess efnis að myndin byggi nær einvörðungu á raunverulegum atburðum, og eingöngu hafi verið vikið frá raunveruleikanum þegar ástæða þótti til að draga úr atvikum.

Stanslaus peningaþörf veikra einstaklinga og viðskipti við andstyggilegar persónur eru undirstaða þess frumskógar sem birtist í þeirri mynd. Hann skulum við ryðja með öllu.

Litríkur bóhemstíll hjá eiganda Akkúrat

Sigrún Guðný Markúsdóttir er eigandi hönnunarverslunarinnar Akkúrat en hún hefur verið viðloðandi verslunarbransann í mörg herrans ár. Við heyrðum í Sigrúnu og fengum að kíkja til hennar í morgunkaffi á Kvisthagann þar sem hún býr í skemmtilegri risíbúð ásamt dætrum sínum tveimur; Aniku og Salvöru.

Ljósmyndin af stúlkunni með rettuna er frægt plötuumslag plötunnar Greeen Mind og heldur Sigrún mikið upp á hana. Jólatréð er úr Garðheimum.

Sigrún var með jólalög á fóninum þegar við mættum og litlar jólakúlur lágu á borðstofuborðinu tilbúnar að skreyta jólatréð sem stóð nett og pent í stofunni, örugglega minnsta jólahrísla sem við höfum myndað fyrir Hús og híbýli en samt svo ógurlega sjarmerandi hrísla.

Sigrún hlær þegar við játum að hafa aldrei séð svona smátt jólatré og segist bara vera mjög nægjusöm í lífinu. Hún játar að vera svolítill hippi í sér og kaupir sér sjaldan eitthvað nýtt nema það heilli hana alveg upp úr skónum. Hún á því hluti og húsgögn sem hafa fylgt henni lengi.

„Ég er til dæmis alltaf á leiðinni að fá mér nýtt sófaborð en svo þykir mér svo ógurlega vænt um þetta að ég læt ekki verða af því. Þetta borð er frá Filippseyjum og allt einhvern veginn snúið og skakkt en það er bara svo mikil sál í því.“

En hvar kaupir hún þá helst húsgögn og annað fyrir heimilið? „Ég keypti mikið af því sem ég á á flóamörkuðum í Danmörku. Við bjuggum fyrst á Nørrebro í Kaupmannahöfn og þar í kring er svo mikið af alls konar mörkuðum og við gátum bara gengið heim með húsgögnin. Einu sinni keyptum við meira að segja sófa og roguðumst heim með hann fótgangandi,“ segir hún hlæjandi.

Ég er til dæmis alltaf á leiðinni að fá mér nýtt sófaborð en svo þykir mér svo ógurlega vænt um þetta að ég læt ekki verða af því.

Styttuna af stráknum og hundinum keypti Sigrún í Rauðakrossbúðinni á sínum tíma.

Vesturbærinn að verða nafli alheimsins

„Ég er úr Mosó en ég fór tiltölulega ung að heiman og fór þá að leigja á Bergstaðastræti og svo á Lokastíg og bjó alltaf í miðbænum á þessum árum. Svo fluttum við, ég og minn fyrrverandi, til Danmerkur í nokkur ár og þegar við vorum að flytja heim til Íslands aftur þurftum við að taka ákvörðun um hvar við vildum búa. Þar sem margt af okkar fólki bjó hér í Vesturbænum lá beinast við að flytja hingað. Foreldrar mínir búa að vísu enn þá í Mosó og mér finnst æðislegt að koma þangað; dalurinn er yndislegur og bærinn líka. Okkur langaði samt meira að búa hérna.“

Hvað finnst þér best við Vesturbæinn?

„Þetta er svolítið eins og lítill bær inni í borg, eins og til dæmis Fredriksberg í Danmörku, þar sem ég bjó en þar er sérborgarstjóri og bærinn svolítið bara eins og kommúna inni í borginni. Hér er allt sem ég þarfnast; ég fer mjög mikið í sund í Vesturbæjarlaugina og ræktina út á Nesi, stelpurnar mínar eru í KR í íþróttum og svo er örstutt að ganga í miðbæinn. Brauð og co er svo við hliðina á Kaffi Vest þannig að Vesturbærinn er bara að verða nafli alheimsins,“ segir hún og hlær.

Tinnamyndin litríka var keypt í barnadeildinni í Hagkaup fyrir aldamótin en hún er sérlega skemmtileg og litrík.

Ferðamennirnir hrifnir af íslenskri hönnun

Sigrún hefur verið viðloðandi verslunarbransann í mörg ár, hún byrjaði sem innkaupa- og verslunarstjóri hjá NTC fyrir 27 árum. Hún var seinna vörumerkja- og útflutningsstjóri hjá Cintamani og í framhaldinu framkvæmdastjóri Schintilla.

Mynd / Hákon Davíð

En hvað varð til þess að hún ákvað að opna eigin verslun?

„Ég átti fyrir mörgum árum verslunina Flauel á Laugavegi með Báru í Aftur og það blundaði í mér að fara út í eitthvað sjálf aftur. Svo kom tækifærið þegar Hönnunarmiðstöð bauð út plássið í Aðalstræti 2, þá ákvað ég að hella mér út í þetta, búa til „concept“ og fá strákana í hönnunarstúdíóinu Döðlum til liðs við mig og úr þeirri samvinnu og hugmyndavinnu varð hönnunarverslunin Akkúrat til.

Hugmyndin er að bjóða upp á rjómann af íslenskri hönnun og íslenskri list. Svo erum við með um það bil 30% norræn merki sem passa inn í „conceptið“ Akkúrat,“ útskýrir hún.

En hvernig gengur að reka hönnunarverslun í miðbænum, staðsetningin hlýtur að trekkja að ferðamenn? „Við erum frábærlega staðsett og það er mikil traffík af ferðamönnum en Íslendingunum fer fjölgandi með mánuði hverjum. Ferðamennirnir eru mjög hrifnir af fatalínunni frá Döðlum sem heitir By Döðlur, kertin frá íslensku hönnuðunum eru líka mjög vinsæl og eiginlega allt bara.

Það er mikil traffík af ferðamönnum en Íslendingunum fer fjölgandi með mánuði hverjum.

Svo er danska merkið Nomess Copenhagen mjög vinsælt. Íslendingar eru mjög hrifnir af því og við ætlum að bæta við stærri vörum frá þeim en Nomess setti fyrstu vörunar á markað fyrir tíu árum og vörulínan er nú orðin mjög breið og spennandi.“

Litríkur bóhemstíll

Borðstofuborðið fékk Sigrún upphaflega lánað hjá vinafólki sínu, Sigga Hall og Svölu. Sigrúnu grunar að borðið sé eftir sama hönnuð og þann sem hannaði gamla sjúskaða stólinn í stofunni. Brúna verkið á veggnum er eftir Unni Guðnýju Gunnarsdóttur.

Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl?

„Ég myndi ekki segja að hann væri mjög skandinavískur, kannski örlítið, ég myndi frekar segja bóhemstíll og mikið af litum, ég hef alltaf verið mjög litrík þegar kemur að heimilinu. Ég er svolítið „fiftís“ og list frá þeim tíma heillar mig; Art Deco finnst mér rosalega flott. Ég held að ég verði að segja að uppáhaldsliturinn minn sé bleikur, í bland við hermannagrænan í fatavali. Þessir tveir litir eru mín uppáhaldslitasamsetning,“ segir hún og við verðum líka að forvitnast hvaða íslensku hönnuðir séu í uppáhaldi hjá henni.

Ég er svolítið „fiftís“ og list frá þeim tíma heillar mig.

„Döðlur, bara í öllu sem þeir eru að hanna og gera. Þeir Daníel og Hörður sem eru Döðlu-teymið eru báðir ótrúlega færir í sínu fagi,“ svarar hún án umhugsunar.

Langar í Lítið, sætt sixtíshús við sjóinn

Bakkinn undir aðventuskreytingunni er eftir Dögg design.

Þú hefur búið í miðbænum, Mosó, Danmörku og núna ertu í Vesturbænum, hvar og hvernig væri draumahúsið þitt? „Það væri lítið, flott, sixtíshús við sjóinn í Reykjavík og litli sumarbústaðurinn sem ég ætla að byggja sem verður úr endurnýttum efnum,“ segir hún hugsi.

Í risherberginu er motta frá Area Art. Rúmteppið fallega er frá U SEE STUDIO og fæst í hönnunarversluninni Yppsilon sem er staðsett beint fyrir ofan Akkúrat

En hvað með áramótaheit?

„Ég strengi oft áramótaheit og skrifa þá niður markmið mín fyrir nýtt ár, en ég geri það líka stundum á afmælisdaginn minn og set svo miðann í krukku eða eitthvað sem ég geymi og ekki má opna fyrr en að ári liðnu. Þá sér maður svo vel hvar maður er staddur í lífinu og þar sem ég man aldrei hvað ég skrifaði er ég alltaf mjög spennt að skoða það. Mér finnst gott að gera þetta stundum,“ svarar hún hress og fær sér kaffibolla.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fær innblástur frá tengdó

|||
|||

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir segir fatastíl sinn mjög blandaðan þó að rokkaður og rómantískur klæðnaður verði oftast fyrir valinu.

Uppáhaldsflíkin mín er þessi níðþröngi svarti pallíettusamfestingur frá 1970 en hann keypti ég í New York.“

„Mér finnst fátt leiðinlegra en að fara í búðir en ef ég neyðist til verða second hand-verslanir helst fyrir valinu. Sem betur fer er maðurinn minn góður í að kaupa á mig föt,“ segir Alexía aðspurð um í hvaða búðum hún kaupi helst föt en bætir við að tengdamóðir sín, Edda Guðmundsdóttir, veiti sér hvað mestan innblástur.

„Edda er mikil smekkkona og alltaf glæsilega til fara. Ég hef verið svo heppin að fá gamla kjóla frá henni í gegnum tíðina.“

Mér finnst fátt leiðinlegra en að fara í búðir en ef ég neyðist til verða second hand-verslanir helst fyrir valinu.

„Brúðarkjóllinn sem ég keypti í second hand-búð í San Fransisco hefur án efa mesta tilfinningalega gildið en ég fékk klæðskerann á Hringbraut til að taka ermarnar af honum, þá varð hann fullkominn.“

Þegar talið berst að skyldueign allra kvenna segir Alexía það vera falleg undirföt en efst á óskalistanum hennar sé þó leðursamfestingur.

„Nýjustu kaupin í fataskápnum mínum eru rauðappelsínugulur kjóll en tilefnið var afmæli hjá vini mínum þar sem þema veislunnar var Rajneesh og Bhagwan úr þáttunum Wild Wild Country.

Það var frábær litapalletta í því partíi. Annars myndi ég klárlega segja stílinn minn mjög blandaðan, hann er rokkaður og rómantískur en á sama tíma klassískur.“

Alexía sýndi einleik á Act Alone á Suðureyri í sumar og hún leikur reglulega með leikhópnum Pörupiltar auk þess að kenna leiklist og tjáningu í Hringsjá sem er náms- og starfsendurhæfing fyrir fullorðna.

„Inn á milli fer ég svo með ferðamenn ofan í Þríhnúkagíg og skrifa greinar fyrir vertuuti.is.“

„Kúluhálsmenið sem mamma mín býr til úr þangkúlum úr fjörunni hennar í Selárdal í Arnarfirði á stóran stað í hjarta mínu.“

Myndir / Unnur Magna

 

Tvær nunnur játa stórfelldan fjárdrátt

Tvær nunnur sem kenndu við kaþólskan heimavistarskóla í Kaliforníu hafa játað fjárdrátt. Stolna féð fór meðal annars í ferðalög og í fjárhættuspil.

Tvær rómversk-kaþólskar nunnur, Mary Margaret Kreuper og Lana Chang, hafa játað að hafa dregið að sér fé frá kaþólska heimavistarskólanum St. James School í Kaliforníu sem þær kenndu við. Upphæðin sem þær stálu nemur um 60 milljónum króna. Þetta kemur fram á vef Huffington Post.

Nunnurnar eru sagðar hafa eytt hluta upphæðarinnar sem þær stálu í ferðalög og í spilavíti. Upp komst um fjárdráttinn þegar endurskoðandi var fenginn í að skoða fjármál skólans fyrir skemmstu.

Mary Margaret hafði verið skólastjóri skólans í 28 ár en hún fór á eftirlaun í sumar. Lana kenndi nemendum í áttunda bekk og hafði kennt við skólann í tvo áratugi. Hún fór einnig á eftirlaun fyrr á þessu ári. Í frétt ABC News kemur fram að nunnurnar drógu reglulega að sér fé á meðan þær störfuðu í skólanum.

Foreldrum nemanda var greint frá málinu í bréfi sem þau fengu sent í nok nóvember. Í bréfinu kom fram að nunnurnar sjái verulega eftir gjörðum sínum og að þær biðji um fyrirgefningu.

Í frétt Huffington Post kemur fram að upphaflega ætlaði skólinn ekki að höfða mál gegn nunnunum. En þegar í ljós kom um hversu stórt mál er að ræða var ákveðið að fara í mál við þær.

Góður andi í gamla vesturbænum

Á dögunum heimsóttum við hjón sem búa í fallegu steinhúsi byggðu 1939 í gamla Vesturbænum, rétt við Landskotstún. Þau festu kaup á íbúðinni fyrir tæpum tveimur árum og hafa verið dugleg að gera heimilið fallegt frá flutningunum.

Íbúðin er um 165 fm en þar af eru 35 fm nýttir undir stúdíóíbúð. Það fyrsta sem grípur augað þegar inn er komið eru fallegir gluggarnir í forstofunni, en útsýnið er nánast eins og síbreytilegt málverk þar sem auðvelt er að fylgjast með árstíðunum líða hjá.

Skipulag íbúðarinnar er í takt við byggingartímann, rúmgóð forstofan liggur eins og slagæð í gegnum rýmið, stofurnar stórar og bjartar, eldhúsið örlítið slitið frá og baðherbergin í smærra lagi.

Á hæðinni er einnig stúdíóíbúð sem hjónin hafa lokað af og eru með í útleigu. Á gólfum í stofunum er virkilega fallegt upprunalegt eikarparket lagt í síldarbeinamynstur, sem passar einkar vel við skandinavískan stíl heimilisins.  Litríka málverkið í borðstofunni er eftir listamanninn Jón Þór Gíslason.

„Mér finnst svo gott loft í gömlum húsum, þar er oft góður andi og mér líður vel í þeim.“

Hvað var það sem heillaði við þessa íbúð?
„Það varð ást við fyrstu sýn þegar við skoðuðum hana og við eigum allt eins von á því að búa hér alla ævi,“ segir annar eigandinn og bætir við að fjölskyldan hafi ekki farið í miklar framkvæmdir aðrar en að mála, fjarlægja efri skápa í eldhúsinu og dytta að hinu og þessu sem þurfti viðhald. „Mér finnst svo gott loft í gömlum húsum, þar er oft góður andi og mér líður vel í þeim. Meiri metnaður virðist líka hafa verið lagður í smáatriðin í gamla daga, eins og falleg gerefti, skrautlista og kúrvur og ég nýt þess að horfa á þessa litlu hluti í eldri húsum.“

Léttur norræn stíll
Húsráðendur ólust upp við skandinavískan stíl og bjuggu lengi vel í Noregi, svo þau segja að stílinn sem sé áberandi núna, grænar plöntur og viðarhúsgögn falli vel að þeirra smekk.

Eigið þið ykkur uppáhaldsstað?
„Uppáhaldsstaðurinn er þar sem sólin og fólkið er, til dæmis við gluggana í stofunni eða úti á svölum með kaffibollann – það er svo notalegt að horfa á fólkið fara í vinnuna og koma krökkunum í skólann.“

Vinna með bönkum í 23 löndum

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur náð fótfestu meðal stærstu fyrirtækja Evrópu í fjártækni og meðal stærstu banka heims fjárfesta nú í fyrirtækinu.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga vinnur nú með 40 bönkum í 23 löndum víðs vegar um heiminn, til dæmis í Kanada, Suður-Afríku og Singapúr, svo dæmi séu tekin. Georg Lúðvíksson, stofnandi Meniga og framkvæmdastjóri, segir hefðbundna bankastarfsemi breytast hratt.

Stærsti banki heims fjárfesti í Meniga
Í sumar fjárfesti Unicredit, einn stærsti banki heims, í íslenska fyrirtækinu fyrir rúmlega þrjár milljónir evra, eða um 382 milljónir íslenskra króna. Bankinn hefur hafið innleiðingu á snjallsíma- og netbankalausnum Meniga. Samstarfið var tilkynnt á Money 20/20, stærstu fjártækniráðstefnu Evrópu í sumar og er samningurinn sá stærsti sinnar tegundar sem gerður hefur verið í Evrópu, segja forsvarsmenn Meniga. Þá fjárfesti Íslands¬banki nýlega fyr¬ir 3 millj¬ón¬ir evra eða um 410 millj¬ón¬ir króna í fyrirtækinu.

Rafrænn ráðgjafi í fjármálum
„Netbankar þurfa að vera staðir þar sem hægt er að stunda meira en bara bankaviðskipti og verða meira eins og rafrænn ráðgjafi í fjármálum,“ sagði Georg í samtali við Jón G. Hauksson á Hringbraut. Meniga hefur undanfarið þróast í að vera hjálp fyrir stóra banka í að búa til næstu kynslóð sinna netbanka.
Núna séu bankar að átta sig á því að þeir þurfa ekki að eiga allar vörur á sínum efnahagsreikningi og geta farið í samstarf við fjártæknifyrirtæki og boðið upp á ákveðnar vörur og afslætti.
„Línurnar eru að verða óskýrari á milli hvað er banki og hvað er ekki banki,“ sagði Georg.

Mynd: Georg Lúðvíksson, stofnandi Meniga og framkvæmdastjóri.

Netið hans Inters kemur til bjargar

Margar bækur - myndist tengist fréttinni ekki beint

Höfundur / Teitur Atlason, fulltrúi hjá Neytendastofu

Orðið jól er svolítið merkilegt í samhengi íslenskunar. Það er ekki vitað með vissu hvaðan það kom og hvernig það kom og áhöld eru um það hvert það sé að fara. Það sem er vitað er að orðið er eldgamalt og finnst í tungumálum sem eru af sama meiði og íslenskan. Orðið er svo gamalt að líkur benda til þess að orðið hafi þvælst inn í finnska tungu fyrir langa, langa löngu en þar er að finna orðið juhla.

Við vitum auðvitað hvað orðið þýðir í dag en getum okkur bara til um hvað orðið þýddi fyrndinni. Ein skemmtilegasta tilgátan er sú að orðið jól sé tengt orðinu hjól. Sé sú tilgáta kollgátan smellpassar merkingin við hringrás lífsins sem jólin sannarlega þýða ef við rótum okkur í gegnum nokkur lög af seinni tíma útskýringum.

Jólin eru skurðpunktur endisins og byrjunarinnar. Dauði dauðans og upphaf lífsins. Eftir þennan dramatíska inngang langar mig að loksins að koma að einu máli sem er árvisst og tengist jólunum mjög sterkum böndum en eins og lesendur eru væntanlega búnir að fatta, þá er ég að tala um útsölurnar eftir jól. Þessi pistill er um neytendamál, ef einhver hefur ekki áttað sig á því.

Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á það (alltaf á sama tíma um jólin, hringrásin, þið munið) að þótt allir skilji að það þurfi að klára jólabirgðirnar sem fyrst, þá gengur varla að láta þá sem fá mörg eintök af sömu bókinni gjalda þess með eins freklegum hætti og lýst er að ofan.

Vinsælustu gjafirnar á Íslandi eru bækur. Það er skemmtilegur siður og gagnlegur frá ýmsum sjónarhornum séð. Bókasala í desember er sennilega jafnmögnuð og alla hina mánuði ársins. Þessi mikla sala skiptir sköpum fyrir bókaútgáfuna í landinu, rithöfunda, útgefendur og auðvitað lesendur. Vinsælustu bækurnar seljast í þúsundum eintaka. Þær allra vinsælustu seljast i meira en tíu þúsund eintökum. Eins og gefur að skilja, fá margir sömu bókina þegar ástandið er svona. Allir kannast við að hafa fengið tvö eða fleiri eintök af sömu bókinni. Gárungarnir kalla þetta að fá „Arnald“ en ég tel mig ekki til þeirra og nefni þetta aðeins að gamni.

En hvað gerist svo þegar búðirnar opna eftir jól? Jú, útsölurnar mæta á sviðið með sínar galopnu dyr og flennistóru auglýsingar. Bók sem keypt var á 5000 krónur, kostar nú skyndilega 3000 krónur.

Nú ætti að staldra við og fá sér Tópas. 5000 krónur breytast í 3000 krónur! Hvað varð um mismuninn! Hvert fór hann! „Moneyheaven,“ gæti einhver ósnotur sagt í spurnartón. Nei, góðu lesendur. Mismunurinn fór ekki til himna og dvelur við hásæti englanna til að dæma lifendur og dauða.
Nei, hann varð barasta eftir í búðinni.

Þetta er ósanngjarnt. Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á það (alltaf á sama tíma um jólin, hringrásin, þið munið) að þótt allir skilji að það þurfi að klára jólabirgðirnar sem fyrst, þá gengur varla að láta þá sem fá mörg eintök af sömu bókinni gjalda þess með eins freklegum hætti og lýst er að ofan.

Sá sem kaupir fyrir 5000 krónur og skilar vörunni, á að fá innleggsnótu fyrir sömu upphæð. Best væri auðvitað ef hann fengi peningana til baka en því er ekki fyrir að fara enda eru ekki til lög um skilarétt á Íslandi og aðeins miðast við verklagsreglur sem viðskiptaráðuneytið setti árið 2000. Þetta gildir þó ekki um netsölu því þar er kveðið skýrt á um endurgreiðslu. Sá sem vill tryggja sig gegn svona uppgufun fjármagns, ætti því að nota netverslanir í stað hefðbundinna verslana.

Það eru fleiri fletir á þessu skrýtna máli, rétt eins og með hið eldgamla orð jól sem minnst er á í inngangi þessa pistils. Ef við höldum okkur við dæmið að ofan þar sem bók er keypt á 5000 en kaupandinn fær bara 3000 til baka (í formi innleggsnótu – því er verr og miður) þá verða 2000 krónur eftir í búðinni. Þessar 2000 krónur fær búðareigandinn fyrir að selja EKKI bók. Hann fær 2000 krónur fyrir ekki neitt. Og sé miðað við eðlilega framlegð (það sem búðin græðir á hverri seldri bók) þá eru 2000 krónur mjög ásættanleg framlegð og jafnvel hærri en fyrir selda bók.

Þetta er sérstakt eins og margt annað sem tengist jólunum. Nú væri óskandi að bóksalar tækju sig saman í sönnum jólaanda og gæfu fólki færi á að fá rétt til baka þegar bókum er skilað. Það þarf ekki að setja upp útsöluskiltið alveg um leið og færi gefst. Það má flýta sér hægt.

Heillaðist af rómantískum hugmyndum um ábyrgðarlítið líf

|||
Hafliði Helgason|||

Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, kann sannarlega að meta góðar bókmenntir og Mannlíf kom því ekki að tómum kofanum þegar það bað Hafliða um að nefna þær bækur sem hafa haft einna mest áhrif á hann.

Hafliði segir að maður verði fyrir mestum áhrifum af þeim bókum sem maður les meðan hugur og hjarta eru hvað opnust, yfirleitt fyrir tvítugt. Auðvitað hafi fjölmargar bækur snert hann djúpt en það séu þrjár bækur sem koma fyrst upp í hugann.

„Bjargvættinn í grasinu hafði mikil áhrif á mig.“

„Fyrst ber að nefna Bjargvættinn í grasinu (Catcher in the Rye) eftir J.D. Salinger. Hún hafði mikil áhrif á mig, kannski fyrst og fremst að í Holden Caulfield upplifði ég sterka samsvörun. Rótlaus unglingur, fullur af innri togstreitu og óþreyju eftir að fá fullt vald yfir eigin lífi.

Lífsþorsti eftir Irving Stone.

Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig um svipað leyti og var Lífsþorsti eftir Irving Stone en sú bók fjallar um ævi hollenska málarans Vincent van Gogh. Ég las hana á svipuðum aldri uppfullur af rómantískum hugmyndum um frjálst og ábyrgðarlítið líf þar sem hverjum degi væri látin nægja sín þjáning.

 

„Glæpur og refsing eftir Dostojevskí tilvistarleg, heimspekileg og bókmenntaleg upplifun og orkaði sterkt á mig.“

Þriðja bókin sem ég vildi nefna er Glæpur og refsing eftir Dostojevskí. Áhrifamáttur hennar var kannski ekki jafnpersónulegur og hinna fyrri. Sú bók var tilvistarleg, heimspekileg og bókmenntaleg upplifun og orkaði sterkt á mig. Svo sterkt að ég er ekki viss um að ég þori að lesa hana aftur af ótta við að forherðing reynslunnar hafi svipt mig eiginleikanum til að upplifa bók jafnsterkt og ég upplifði hana á sínum tíma.“

Jólalegt sætabrauð

Mikil hefð er fyrir epla-strudel í Austurríki og Þýskalandi og bjóða flest kaffihús upp á þetta dásamlega sætabrauð. Þunnt stökkt deig með kryddaðri eplafyllingu, borið fram með vanillusósu eða ís, getur ekki klikkað. Margir halda að erfitt sé að búa til strudel en það er mikill miskilningur og tekur ekki langan tíma. Þeir sem elska epli, kanil og vanillusósu ættu því ekki að láta þessa fram hjá sér fara.

Epla-strudel með vanillusósu sem Bergþóra Jónsdóttir bakaði fyrir Gestgjafann. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Epla-strudel með vanillusósu

Deig
80 ml volgt vatn
15 g olía
½ tsk. edik
1/8 tsk. fínt borðsalt eða sjávarsalt
145 g brauðhveiti
½ tsk. olía til að pensla með deigið með

Hitið ofninn í 190°C. Blandið saman vatni, olíu, ediki og salt í stóra skál. Blandið hveitinu saman við og hrærið. Bætið 1-2 msk. af hveiti saman við ef deigið loðir enn við hendurnar. Hnoðið deigið þar til það verður silkimjúkt og glansandi. Búið til kúlu úr deiginu og penslið með olíu og pakkið henni í plast og geymið í klst. við stofuhita.

Fylling
3 msk. ósaltað smjör
80 g brauðrasp
65 g sykur
½ tsk. kanill
4 msk. rúsínur
3 msk. romm eða volgt vatn
4 meðalstór epli
1 msk. sítrónusafi
1 msk. smjör

Bræðið smjör á pönnu og bætið brauðraspi saman við, hrærið vel þar til raspið brúnast . Hrærið í allan tímann og fylgist með svo hann brenni ekki við. Takið af hitanum og kælið. Blandið sykri og kanil saman og setjið saman við brauðraspið, setjið til hliðar. Látið rúsínurnar liggja í rommi eða vatni í u.þ.b. 10 mínútur. Flysjið eplin, fræhreinsið, skerið hvert epli til helminga og svo í þunnar sneiðar. Hellið sítrónusafa yfir svo eplasneiðarnar verði ekki brúnar. Hellið vökvanum af rúsínunum og setjið þær saman við eplin.
Fletjið deigið út á hveitistráð borð. Takið deigið upp með því að fara undir það með höndunum og lyfta því upp og teygja aðeins til, reynið að fá það eins þunnt og mögulegt er, það á að vera um 35 cm á breidd og 45 cm á hæð. Penslið deigið með smjöri og dreifið brauðmylsnunni yfir helminginn af deiginu og setjið eplafyllinguna yfir hana. Rúllið upp og byrjið þar sem fyllingin er. Látið samskeytin snúa niður og bakið í 30 mín.

Vanillusósa
125 ml mjólk
125 g rjómi
25 g sykur
fræ úr ½ vanillustöng
1 egg
1 eggjarauða

Blandið mjólk, rjóma, sykri og fræjum úr vanillustöng saman í pott og hrærið saman við vægan hita. Takið af hellunni. Pískið saman egg og eggjarauðu í skál og hellið síðan vanillurjómablöndunni saman við og hitið yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í blöndunni með písk og takið af hitanum þegar sósan fer að þykkna, þá er hún tilbúin. Þetta tekur u.þ.b 5-7 mín. Berið fram með eplalengjunni.

 

Besta lausnin á Brexit vandanum

||
||

Grein þessi var skrifuð rétt upp úr kvöldmat í gær bandarískum tíma. Lítið grunaði höfund að óvænt útspil gæti valdið meiri titring í bresku stjórnmálum en nokkrum klukkustundum síðar var lögð fram vantrausttillaga á hendur Theresu May, frá hennar eigin flokksmönnum í breska íhaldsflokknum.

Þetta er varla það sem breska þjóðin þarf á að halda á þessum tímapunkti þegar umrót og óvissan er mikil vegna Brexit. Innanflokksátök og valdabarátta fárra einstaklinga. Það er ekki til þess fallið að leysa úr þeim hnút sem þegar er uppi vegna Brexit. Hvort May heldur velli eður ei, standa Bretar enn frammi fyrir því að leysa þurfi vandann – samning, ekki samning, nýjan samning eða nýja þjóðaratkvæðagreiðslu.

May tók ákvörðun í vikunni að kippa áætlaðri atkvæðagreiðslu um Brexit samninginn út af breska þinggólfinu. Sennilega hleypti það framkominni vantrauststillögu af stað. Það tók bresku ríkisstjórnina um eitt og hálft ár að semja við Evrópusambandið. Niðurstaðan er samningur sem fáir styðja, hvorki þeir sem vilja Brexit eða þeir vilja vera áfram í ESB. Andstæða við samninginn í þinginu kemur því frá báðum áttum, hægri og vinstri, á mismunandi forsendum. Sumir vilja vera áfram í Evrópusambandinu, og eru enn að berjast fyrir því með að vera á móti samningnum. Harðlínu Brexit hópurinn telur samninginn miðjumoð og hugnast frekar að ganga úr út sambandinu með engan samninginn.

Staðan er snúin, bæði fyrir Breta og Theresu May.

Pólitískt er staðan snúin. Bæði fyrir Breta og Theresu May sem hefur stýrt þessu fíaskói, ef svo má að orði komast. Vantrauststillagan er gott dæmi um það. Þjóðaratkvæðagreiðslan árið 2016 um útgöngu er ekki lagalega bindandi, í þröngri lagalegri merkingu mætti sniðganga hana og samninginn.

Útlit er ekki fyrir þær lyktir málsins enda er pólitísk vigt atkvæðagreiðslunnar mikil. Margir hafa talað fyrir því að þingmenn eigi að loka fyrir vitin og kjósa blint með samningnum að virðingu við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sjálfsagt veltur það á því hvað þýðingu Brexit hefur fyrir viðkomandi þingmann, en eins og komið hefur í ljósi virðast margar ólíkar skoðanir hafa verið uppi um Brexit og afleiðingar útgöngu fyrir breskt samfélag.

Í samningaviðræðum við ESB var áhersla May að stýra landamærum Breta – frjáls för fólks væri úti, líkt og eitt af fjórfrelsum innri markaðarins kveður á um. Ákvörðun ber vott um pópúlisma og er að mati höfundar óskynsamleg enda felur hún í sér að hverfa af innri markaðnum – veigamikill missir fyrir Breta.

Að öðru leyti snýst samningurinn um að halda eins nánu efnahags- og viðskiptasambandi við Breta og hægt er. Í samanburði við þann samning sem Bretar hafa nú þegar, að vera í ESB, er Brexit mun verri samningur. Bretar eru nú hluti af innri markaðnum en ekki hluti af evrunni, þeir ráða yfir sínu eigin landamæraeftirliti og fá talsvert endurgreitt af þeim fjármunum sem þeir leggja inn í sambandið. Betri díll en mörg önnur ESB lönd hafa.

Samhengisins vegna ber að geta þess að Ísland er aðili að innri markaðnum í gegnum EES-samninginn og tekur því upp þann hluta löggjafar Evrópusambandsins sem lítur að frjálsri för fólks, svo gott sem sjálfkrafa. Í sumar hitti ég Breta sem var spenntur að heyra um EES-samninginn, eða það sem Bretar kalla norsku leiðina í pólitískri umræðu. Margir þar í landi sem tala fyrir útgöngu hafa séð okkar samning rósrauðum augum – en útskýringar þeirra eiga lítið skylt við raunveruleikann. Á Bretann runnu tvær grímur þegar ég útskýrði að það þýddi jú, aðgang að innri markaðnum en þeir myndu ekki eiga sæti við löggjafarborðið. Minn maður var fljótur að skipta um skoðun um ágæti EES samningsins. Almenn vanþekking virðist ríkja í Bretlandi um hvað EES samningurinn er í raun og veru.

Flókin ákvörðun

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Bretar standa frammi fyrir flókinni ákvörðun. Nýjustu skoðanakannanir sýna að meirihluti vill ekki þennan samning. Sá  meirihluti er tæpur og því ríkir enn talsverður klofningur hjá þjóðinni. En hverjir eru valmöguleikarnir? Ein leið er að hafna samningnum og fara út með engan samninginn. Flestir eru andvígir því og telja það verulega skaðlegt fyrir breskt samfélag. Aðrir telja að það sé hægt að semja aftur, en Angela Merkel útilokaði það í byrjun vikunnar. Ekki er ljóst hvort það yrði enn staðan ESB megin yrði ef samningnum yrði hafnað í þinginu. En í því felst mikil áhætta og Bretar stæðu uppi með engan samning.

Önnur leið er að samþykkja samninginn eins og hann stendur, en hverfandi líkur eru fyrir því að meirihluti náist um samþykkt hans. Þess vegna frestaði May atkvæðagreiðslu í þinginu. Þriðja leiðin er að fara í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er skynsamlegast leiðin til að leysa þann Brexit vandann. sem pólitíkin virðist ekki geta gert. Sú leið er ekki án hindrana. Fyrsta spurningin er: um hvað yrði spurt? Um þennan samning einangrað eða yrði spurningum bætt við um að vera áfram í ESB? Pólitík mun eflaust flækjast fyrir við gerð spurninga. Ef samningnum yrði hafnað stórt í þjóðaratkvæðagreiðslu gæti það líka leitt til afhroðs fyrir breska íhaldsflokkinn og til þess að almennar þingkosningar yrðu haldnar með öllu því sem fylgir, möguleg uppboð á kosningaloforðum eru fyrirséð. Umrót kann að skapist meðal þeirra sem kusu með Brexit árið 2016. Fólk kann að upplifa að lýðræðið væri sniðgengið. Margir sem kusu í Brexit kusu gegn kerfinu, önnur atkvæðagreiðsla kann að vera móðgandi fyrir þann hóp. En er það svo?

Vonandi kennir þetta samfélögum sem eru að taka fyrstu skref í þjóðaratkvæðagreiðslum að það þarf að vita hvað felst í pakkanum áður en kosið er um hann.

Er hægt að kjósa um eitthvað án þess að hafa fullnægjandi upplýsingar um hvað það þýðir? Vonandi kennir þetta samfélögum sem eru að taka fyrstu skref í þjóðaratkvæðagreiðslum að það þarf að vita hvað felst í pakkanum áður en kosið er um hann. Eðli málsins samkvæmt hefði líka verið erfitt að ná góðum samning ef kosið hefði verið um að „kíkja í pakkann“ – þannig að samningaviðræður færu fram fyrst áður en ákvörðun um útgöngu yrði lögð fyrir þjóðina. Allskonar yfirlýsingar voru hins vegar gefnar um þýðingu Brexit sem hafa reynst ósannar og margir eru brjálaðir út af.

Mislukkað óvissuferðalag

Þó óvissuferðir geti verið spennandi, er mál af þessari stærðargráðu afar óheppilegt tilraunaverkefni.  Útkoman er sú að Brexit óvissuferðalagið er mislukkað. Nú þegar kjósendur vita hvað Brexit þýðir þá er heiðarlegra að kjósa aftur sem leysir úr þessum pólitíska hnút. Persónulegt og pólitískt stolt þeirra sem leiddu málið má ekki ráða lyktum, alltof miklir hagsmunir eru í húfi. Þó Bretar töpuðu pólitísku andliti um stund væri það betra en að fara með þjóðina á verri stað en hún er þegar á. Ný forysta í breska Íhaldsflokknum breytir engu þar um, nema að tíminn tifar á meðan þeir eyða orkunni í innanflokksátökin.

Loks ber að nefna að það er þýðingarmikið að Evrópusambandið standi sterkt, ekki bara í efnahagslegu tillit Breta heldur fyrir heimsstjórnmálin og þróun þeirra. Evrópusambandið hefur verið eitt af þeim öflum sem enn heldur sönsum í alþjóðastjórnmálum. Útganga Breta hlítur að veikja sambandið. Óljóst er hvaða pólitíska stefna yrði ofan á í Bretlandi ef þeir fara, en ris stjórnmálaafla sem byggja á óttahugmyndafræði, popúlisma og þjóðernishyggju, er vond þróun. Ef Bretar enda með að vera verður það jákvætt skref fyrir alþjóðasamvinnu.

Sjá einnig: Vantrausttillaga gegn Theresu May

„Undirbúningur og einbeiting mikilvæg svo allt smelli“

|||
|||

Jólablað Gestgjafans er komið í verslanir og er glæsilegra en nokkru sinni fyrr. Það inniheldur 119 hátíðaruppskriftir auk góðra ráða, hugmynda að matarjólagjöfum, viðtala við sælkera og margt fleira. Blaðamenn Gestgjafans stóðu í ströngu við undirbúning blaðsins en allar uppskriftir þess eru útbúnar í tilraunaeldhúsi Gestgjafans og útkoman síðan mynduð af ljósmyndurum blaðsins. Nanna Teitsdóttir eldaði marga af þessum réttum.

„Vinnan á bak við eitt svona blað er gríðarlega mikil og við leggjum mikið upp úr því að hafa það veglegt og fallegt,“ segir Nanna þegar hún er spurð út í vinnsluna. „Einn matarþáttur getur tekið marga daga í vinnslu. Það þarf að þróa mataruppskrifir, elda matinn og smakka hann til og breyta þá uppskriftunum ef þar. Síðan tekur stílisti við og skapar umgjörðina í kringum myndatökuna og ljósmyndarinn fangar lokaútkomuna.“

Einn matarþáttur getur tekið marga daga í vinnslu.

Forsíðuna á þessu blaði prýðir mynd af súkkulaði-triffli sem Nanna gerði og inni í blaðinu eru uppskriftir að þremur slíkum eftirréttum. Það tók Nönnu tvo daga að þróa uppskriftirnar, þá tvo daga í eldhúsinu að búa til matinn og síðan fór einn dagur til viðbótar í að mynda þáttinn.

Jólablað Gestgjafans er troðfullt af spennandi og fjölbreyttu efni. Forsíðumyndina tók Hallur Karlsson og Hanna Ingibjörg, ritstjóri blaðsins, stíliseraði.

„Hugmyndin að þessum þætti var að búa til eftirrétti fyrir stór matarboð en triffli henta vel fyrir slíkt þar sem hægt er að undirbúa það að mestu tveimur dögum fyrir veisluna. Síðan má setja það saman samdægurs og niðurstaðan er tilkomumikill og flottur eftirréttur sem gaman er að bera á borð.“

Skammdegið áskorun

Í jólablaði Gestgjafans eru fjölbreyttir matarþættir sem spanna forrétti, aðalrétti, meðlæti og eftirrétti, líka fyrir grænmetisætur. Í þessu blaði gerði Nanna meðal annars þátt um hátíðarsteikur með Bergþóru Jónsdóttur, samstarfskonu sinni, þar sem þær elduðu fjóra kjötrétti auk meðlætis.

Önd með ylliblóma- og appelsínusósu sem Bergþóra Jónsdóttir eldaði fyrir jólablaðið í matarþætti með fjórum sparilegum kjötréttum auk meðlætis. Myndirnar tók Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir og Hanna Ingibjörg stíliseraði.

„Þessi þáttur tók svipaðan tíma og eftirréttirnir en kjötþættir eru mun þyngri í vinnslu þar sem minna er hægt að vinna sér í haginn, það þarf að elda kjötið sama dag og myndatakan fer fram og því má lítið út af bregða. Við þurfum því að undirbúa okkur vel og hafa einbeitinguna í lagi. Við notumst aðallega við dagsljós við myndatökur og því er ein aðaláskorunin við vinnslu jólablaðsins skammdegið þar sem dagsbirtan er til staðar stuttan hluta úr degi. Það þarf því allt að smella saman á réttum tíma. Þetta er ótrúlega skemmtilegt en ég viðurkenni að þetta getur tekið á taugarnar,“ segir Nanna og hlær.

Erlend matarmenning

Uppáhaldsþáttur Nönnu í þessu blaði heitir jólakrásir frá fjórum löndum sem hún vann einnig með Bergþóru. „Ég hef ofboðslega gaman af að kynnast menningu annarra landa í gegnum mat. Við gerum uppskriftir frá fjórum ólíkum löndum Evrópu og erum auk þess með skemmtilegan fróðleik um hvern rétt og sögu hans. Við Bergþóra höfum báðar búið erlendis og ferðast mikið sem gagnaðist okkur vel við vinnsluna.“

Þetta er ótrúlega skemmtilegt en ég viðurkenni að þetta getur tekið á taugarnar.

Eftir allan jólamatinn og kökurnar sem einkennt hefur vinnu starfsfólks Gestgjafans í haust er búið að skipta aðeins um gír og hollustan tekin við. „Já, við erum alltaf skrefi á undan, nú eru jólin búin hjá okkur og hollusta janúarmánuðar tekin við,“ segir Nanna hress í bragði að lokum.

Í Jólablaði Gestgjafans er flottur þáttur með einföldum og hátíðarlegum forréttum sem Nanna eldaði. Um stíliseringu sá Hanna Ingibjörg Arnarsdóttur og myndirnar tók Hákon Davíð Björnsson. Uppskrift að þessum kartöfluklöttum með reyktum laxi og piparrótarsósu er að finna í blaðinu.

Rígheldur í jólakortahefðina

Margrét Eir Hönnudóttir, söngkona, leikkona og kennari, segir mikilvægt að slaka aðeins á og njóta aðventunnar og jólanna. Hún heldur í ýmsar gamlar hefðir á þessum tíma og síðustu þrjú ár hefur tónleikahald bæst við. Tónleikar hennar verða í Fríkirkjunni í Hafnarfirði þann 14. desember klukkan 20.

„Ég hef haldið þessa tónleika síðustu þrjú árin og við höfum verið að móta prógrammið í vissan stíl, ég og samstarfsmenn mínir, Daði Birgisson og Börkur Hrafn Birgisson,“ segir Margrét Eir. „Lögin koma mörg frá Írlandi og Bretlandi, gömul þjóðlög. Báðar þjóðir hafa mikla sönghefð eins og við á Íslandi og við höfum svipaðan húmor. Þetta eru lög sem fáir hafa heyrt en ég bæti svo líka þekktari lögum við.“

Nokkur laganna eru með nýjum íslenskum textum og eiginmaður Margrétar, Jökull Jörgensen, á nokkra þeirra. „Ég á einn texta við færeyskt lag sem ég samdi fyrir mömmu sem komst ekki á tónleikana mína í fyrra vegna veikinda en hún mætir alltaf. Hún er orðin hressari í dag og mætir og syngur með.“

Margrét segist vera hátíðleg um jólin, hún fari í sparifötin á tónleika og í kirkju og beri mikla virðingu fyrir hefðum.

„Kannski er það gamaldags. Að fara í kirkju á aðfangadag hefur verið mikil hefð alla mína tíð. Ég fór alltaf með afa og söng Heims um ból á meðan mamma eldaði. Síðustu 7-8 árin hef ég alltaf sungið á aðfangadag upp í Grafarvogi og það er engin undantekning í ár. Að hitta vini yfir góðu rauðvíni og góðum mat er mikilvægt á aðventunni. Svo rígheld ég í þann sið að senda jólakort og ég vil endilega minna þá vini mína sem senda kort að ég er flutt í Hafnarfjörðinn, athugið breytt heimilisfang,“ segir hún kímin.

Að fara í kirkju á aðfangadag hefur verið mikil hefð alla mína tíð. Ég fór alltaf með afa og söng Heims um ból á meðan mamma eldaði.

„Jólin eru dásamlegur tími sem ég vil verja sem mest með mínum nánustu. Ég tek mér góðan tíma í að velja gjafir – ég skoða, hugsa um og vel að mikilli natni fyrir hvern og einn. Ég geri mér grein fyrir að jólin eru stresstími en það er líka tími til að staldra við og hugsa svolítið inn á við. Þetta er líka erfiður tími fyrir marga sem hafa misst einhvern nákomin – ég sakna oft afa og ömmu á þessum tíma.“

Mynd / Ólafur Þórisson

Breskir ellilífeyrisþegar í haldi vegna smygls

Tveir breskir ellilífeyrisþegar eru í haldi lögreglu eftir að mikið magn kókaíns fannst í ferðatöskum þeirra.

Breskt par er í haldi í Lissabon í Portúgal eftir að mikið magn kókaíns fannst í ferðatöskum þeirra í skemmtiferðaskipi. Fólkið er 70 ára og 72 ára.

Yfirvöldum barst ábending um smyglið og við leit í töskum þeirra fannst mikið magn kókaíns. Parið er sagt hafa falið kókaínið í fjórum ferðatöskum. Um 10 kíló af kókaíni fundust. Andvirði kókaínsins er sagt vera tvær milljónir punda.

Parið var handtekið 4. desember þegar skipið var í höfn í Lissabon og rannsókn á málinu stendur nú yfir. Parið er sagt vera samvinnuþýtt.

Parið var að koma úr siglingu í Karabíska hafinu þegar þau voru handtekin. Þessu er greint frá á vef Telegraph. Í fréttinni kemur fram að parið hafi farið reglulega í siglingar með skemmtiferðaskipum í gegnum tíðina.

Bára Huld lýsir samskiptum sínum við Ágúst Ólaf: „Ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing“

Ágúst Ólafur.

Bára Huld Beck, blaðamaður á Kjarnanum, greinir frá samskiptum sínum við Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar. Hún segir yfirlýsingu hans, þar sem hann tilkynnti að hann ætlaði að taka sér 2 mánaða frí frá þingstörfum vegna kynferðislegrar áreitni, hafa gert mjög lítið úr því sem fram fór umrætt kvöld.

Trúnaðarráð Samfylkingarinnar áminnti Ágúst Ólaf eftir að Bára Huld tilkynnti málið til þess. Í kjölfarið sendi Ágúst Ólafur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist miður sín vegna málsins og hann hyggðist taka sér 2 mánaða frí frá þingstörfum á meðan hann skoðaði sín mál. Í yfirlýsingunni sagðist Ágúst Ólafur hafa í tvígang reynt að kyssa Báru og látið ljót orð falla þegar hún neitaði.

Bára Huld stígur í fyrsta skipti fram í tengslum við málið í yfirlýsingu sem hún birtist á vef Kjarnans. Ágúst Ólafur var áður hluthafi í Kjarnanum. Segist hún í yfirlýsingunni ekki hafa ætlað að stíga fram en í ljósi þess hversu lítið henni þótti Ágúst Ólafur gera úr umræddum atburði hafi hún kosið að tjá sína hlið á málinu.

Forsaga málsins er sú að þau Ágúst Ólafur og Bára Huld tóku saman tal á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur snemma sumars þar sem þau voru ásamt hópi fólks. Þaðan fóru þau á skrifstofu Kjarnans neðst á Laugavegi. Stóð Bára Huld í þeirri trú að þar myndu þau halda áfram samræðum en Ágúst Ólafur hafi misskilið aðstæður.

„Ágúst Ólafur reyndi ekki að kyssa mig tví­vegis heldur ítrek­að. Hann reyndi það aftur og aftur þrátt fyrir að ég hefði neitað honum og sett skýr mörk. Í hvert sinn sem ég neit­aði honum þá nið­ur­lægði hann mig með ýmsum hætti. Ágúst Ólafur yfir­gaf ekki skrif­stof­una þegar ég bað hann um það. Ég fylgdi honum á end­anum ákveðin út með þeim orðum að ég treysti mér ekki til að vera í sama rými og hann. Hann lét samt ekki segj­ast og hélt þving­andi áreitni sinni áfram í lyft­unni á leið­inni út.“

Segist Bára Huld hafa upplifað algjört varnarleysi vegna þessa. Lýsir hún upplifinu sinni þannig að hún hafi verið „algjörlega niðurlægð og gjörsamlega misboðið vegna ítrekaðra ummæla hans“ um vitsmuni hennar og útlit.

„Næstu dagar voru mér erf­ið­ir. Ég fann fyrir kvíða og van­líðan og ég ótt­að­ist áfram að atvikið gæti haft áhrif á starfs­ör­yggi mitt. Meðal ann­ars fyllt­ist ég mik­illi van­líðan þegar ég sá hann í fjöl­miðlum eða mynd af honum á net­inu. Eins kveið ég fyrir því að rekast á hann á förnum vegi eða að þurfa starfa minna vegna að sjá eða hitta hann á þing­inu. Þetta átti eftir að vara næstu mán­uði og gerir í raun enn að vissu leyti.“

Yfirlýsing þingmannsins skrumskæld

Henni hafi fundist að hún þyrfti að skila afleiðingunum til gerandans og í því skyni sent Ágústi Ólafi tölvupóst þar sem hún lýsti upplifun sinni af samskiptum þeirra. Níu dögum síðar, eftir ítrekanir, hafi hann hringt og beðist afsökunar. Síðsumars hafi þau enn fremur hist í vitna viðurvist þar sem hann rengdi ekki frá sögn Báru Huldar og aftur beðið hana afsökunar. Hins vegar hafi henni orðið ljóst að hann ætlaði ekki að segja öðrum frá því hvað gerst hefði og þess vegna hafi hún leitað til Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, sem hafi bent henni á að tilkynna málið til trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, sem og hún gerði. Trúnaðarráðið veitti Ágústi Ólafi áminningu þann 27. nóvember. Hún hafi ætlað að láta þar við sitja en yfirlýsing Ágústs Ólafs um málið hafi verið þess eðlis að hún hafi orðið að stíga fram.

„Það er ábyrgð­ar­hlutur að senda frá sér yfir­lýs­ingu um mál sem þessi, eins og Ágúst Ólafur gerði. En ef slík yfir­lýs­ing er skrum­skæld á ein­hvern hátt er hætt við að röng og jafn­vel var­huga­verð skila­boð séu send út í sam­fé­lag­ið. Yfir­lýs­ing Ágústar Ólafs er ekki í sam­ræmi við mála­vexti. Hún gerir mun minna úr því sem átti sér stað en til­efni var til. Þetta var ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing.“

Yfirlýsingu Báru Huldar í heild má lesa hér.

Uppfært 12:21:

Stjórn og stjórnendur Kjarnans hafa lýst yfir fullum stuðningi við Báru Huld. Í yfirlýsingu segir að hegðun Ágústs Ólafs hafi verið niðrandi, óboðleg og hafi haft víðtækar afleiðingar fyrir Báru Huld, bæði persónulegar of faglegar.

„Stjórn og stjórn­endur Kjarn­ans gerðu þol­anda ljóst frá upp­hafi að hann réði ferð­inni í þessu máli og til hvaða aðgerða hann taldi rétt­ast að grípa. Eftir að fyrir lá við­ur­kenn­ing ger­anda á því sem átti sér stað, en eng­inn sýni­legur vilji til að bregð­ast við hegðun sinni með öðrum hætti, þá ákvað þol­andi að koma vit­neskju um áreitn­ina á fram­færi við stjórn­mála­flokk­inn sem ger­and­inn situr á þingi fyr­ir. Þar var mál­inu beint í far­veg nýstofn­aðrar trún­að­ar­nefnd­ar.“

Loks segir í yfirlýsingunni, sem stjórnarformaðurinn Hjálmar Gíslason undirritar, að þolandinn í málinu hafi fullan rétt á því hvort, hvenær og hvernig hann tjáir sig um umrætt atvik.

Ágúst Ólafur: Misræmið byggir á ólíkri upplifun

Ágúst Ólafur.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að misræmi í frásögn hans og Báru Huld Beck megi rekja til ólíkra upplifana þeirra af atburðunum sem leiddi til þess að Bára Huld sakaði hann um kynferðilsega áreitni.

Ágúst Ólafur var áminntur af trúnaðarráði Samfylkingarinnar eftir að kona kvartaði undan kynferðislegri áreitni af hans hálfu.  Þingmaðurinn sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann gekkst við brotinu og tilkynnti um leið að hann færi í 2 mánaða leyfi á meðan hann leitaði sér aðstoðar.

Konan, Bára Huld, steig fram í morgun og sagði Ágúst Ólaf hafa gert lítið úr áreitninni í yfirlýsingu sinni. Hann hafi ítrekað reynt að kyssa hana og niðurlægt þegar hún varð ekki við umleitunum hans.

Ágúst Ólafur hefur sent frá sér aðra yfirlýsingu þar sem hann ítrekar afsökunarbeiðni sína. Orðrétt segir í yfirlýsingunni:

„Ætlun mín var aldrei sú að rengja hennar frásögn eða draga úr mínum hlut. Misræmið sem hún rekur í svari sínu byggir á ólíkri upplifun. Ég lagði mikla áherslu á í okkar samtölum og í framburði mínum hjá trúnaðarnefndinni að gangast við minni hegðun. Hennar upplifun er auðvitað aðalatriðið í þessu máli.

Ég er í dag að leita mér faglegrar aðstoðar vegna hegðunar minnar og róta hennar. Ég bið Báru Huld enn og aftur innilegrar afsökunar á framkomu minni og þeirri vanlíðan sem ég hef valdið henni.“

„Alltaf einhverjir sem gleyma að ganga frá trampólínum“

Nótt hinna fljúgandi tampólína að baki.

Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að alltaf séu einhverjir sem gleymi að ganga frá trampólínum þrátt fyrir áminningu frá Veðurstofu um að ganga frá lausum munum vegna veðurs.

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í Eyjum, Suðurnesjum, Akranesi og höfuðborgarsvæðinu í dag og í gær vegna veðurs. Um 50 – 60 manns eru að störfum og sinna útköllum og hafa verkefnin verið um 40 talsins að sögn Jónasar Guðmundssonar hjá Landsbjörg. Spurður út í hvers konar verkefnum björgunarsveitir hafa verið að sinna segir hann: „Þetta eru hefðbundin verkefni. Sem sagt þakplötur, trampólín og slíkt er að fjúka.“

Veðurstofa varaði við veðrinu í gær og gaf út gula viðvörun. Þá var fólki bent á að ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Þrátt fyrir viðvörun Veðurstofu hafa björgunarsveitir þurft að eltast við fjúkandi trampólín í rokinu. „Það eru alltaf einhverjir sem gleyma að ganga frá trampólínum virðist vera,“ segir Jónas.

Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu verður allhvöss suðlæg átt í dag, en stormur suðvestan- og vestanlands þangað til síðdegis.

Þrotabú DV riftir greiðslum til ríkisins

|
|

Þrotabú DV ehf. hefur stefnt íslenska ríkinu vegna greiðslna sem runnu til Tollstjóra undir lok líftíma félagsins fyrir svokölluðum rimlagjöldum.

DV, sem áður var m.a. í eigu Björns Inga Hrafnssonar, sem var einnig stjórnarformaður og útgefandi DV, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. mars sl. Samkvæmt heimildum Mannlífs nemur beiðni um riftun um eða yfir 100 milljónum króna.

Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta seldi Björn Ingi alla fjölmiðla félagsins út úr félaginu og talið er að hann hafi notað þá fjármuni sem fengust fyrir, til þess að greiða niður skuldir félagsins við Tollstjóra, til þess að forða sér frá fangelsisrefsingu. Þá greiddi hann niður ýmsar aðrar skuldir sem hann var í persónulegum ábyrgðum á, þar með talið skuld við Íslandsbanka samkvæmt heimildum Mannlífs. Skiptastjóri félagsins hefur farið fram á riftun þessara gjörninga og hefur Tollstjóri þegar fallist á riftun hluta greiðslnanna og afhent þrotabúinu töluvert fé.

Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta seldi Björn Ingi alla fjölmiðla félagsins út úr félaginu

Fallist dómstólar á riftunina er ljóst að mikið af þeim greiðslum sem Björn Ingi greiddi til þess að koma sjálfum sér í var verða skráðar ógreiddar í bókum ríkisins. Í kjölfarið má vænta að málið verði frekar skoðað af skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda kunna þeir stjórnendur félaga sem lenda í vanskilum með rimlagjölda að baka sér refsiábyrgð.

Þegar kröfur um gjaldþrotaskipti DV ehf. komu fyrst fram var talið að skuldir félagsins vegna virðisaukaskatts og annarra opinberra gjalda næmu alls 120 milljónum króna. Þar af voru rimlagjöldin upp á rúmar 60 milljónir. Til viðbótar við framangreindar skuldir skuldaði félagið um 40 milljónir í launatengd gjöld til lífeyrissjóða og stéttarfélaga.

Ef ofangreind riftun verður staðfest má ætla að ógreidd rimlagjöld DV ehf. nema um eða yfir 200 milljónum króna. Er þá ekki tekið tillit til ógreiddra rimlagjalda annarra fyrirtækja sem Björn Ingi Hrafnsson er ábyrgðarmaður fyrir og tengjast DV og Pressunni.

Björn Ingi Hrafnsson stýrir í dag nýjum vefmiðli, Viljanum, sem skráður er á föður hans.

Þetta hefur fólk að segja um þrumuveðrið á Twitter

Margt fólk virðist spennt yfir þrumuveðrinu eins og sjá má á Twitter.

Það er ekki oft sem fólk upplifir þrumuveður hér á landi en í kvöld hefur verið nokkuð mikið um þrumur og eldingar á höfuðborgarsvæðinu. Í frétt Vísis kemur fram að samkvæmt Veðurstofu Íslands voru eldingarnar á höfuðborgarsvæðinu vel á annan tug. Þar kemur einnig fram að fólk geti átt von á að sjá eldingar áfram í kvöld og í nótt.

Fólk virðist þá almennt vera spennt yfir að sjá eldingar hér á landi. Jafnvel svo spennt að það hefur tjáð gleði sína á Twitter. Þetta hefur fólk að segja um þrumuveðrið á Twitter.

https://twitter.com/Kisumamma/status/1072565525006426112

Mynd / Pixabay

Saksóknari hefur rannsókn í plastbarkamálinu

Saksóknari í Svíþjóð hefur ákveðið að hefja rannsókn á máli Paolo Macchiarini, skurðlæknisins sem fyrstur framkvæmdi plastbarkaaðgerðir á mönnum. Rannsóknin teygir anga sína hingað til lands þar sem fyrsti plastbarkaþeginn, Andemariam Beyene, kom frá Íslandi. Málið verður rannsakað sem sakamál.

Rannsóknin á hendur Macchiarini mun snúa að tveimur sjúklingum sem fóru í plastbarkaaðgerð á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, Andemariam Beyene og konu frá Tyrklandi og verður rannsakað hvort Macchiarini hafi a.m.k. í öðru tilfellinu valdið dauða sjúklingsins. Saksóknarinn sem opnaði málið aftur ætlar að yfirheyra ný vitni, en talið er að rannsóknin geti leitt til þess að Macchiarini verði ákærður – og jafnvel fleiri.

Saksóknari í Svíþjóð úrskurðaði í máli Macchiarinis 12. október í fyrra þar sem hann var ekki ákærður fyrir manndráp af gáleysi en hefði sýnt vanrækslu og var sú niðurstaða töluvert gagnrýnd í Svíþjóð. Ekki þótti sýnt að nægar sannanir hefðu verið til að ákæra skurðlækninn og jafnvel talið að aðgerðirnar hefðu lengt líf þeirra þriggja sjúklinga sem um ræddi og gerðar voru á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu. Aðgerðirnar voru seinna sagðar tilraunir á mönnum og í íslensku Rannsóknarskýrslunni segir: „Með uppbyggingu miðstöðvar fyrir háþróaðar öndunarvegarannsóknir, með áherslu á framsæknar aðgerðir, var lífi þriggja sjúklinga á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu stofnað í mikla hættu á kerfisbundinn hátt og eru þeir nú allir látnir.“

Ekkja Andemariams Beyene hefur engar bætur fengið vegna málsins og hefur talsmaður Karolinska-háskólasjúkrahússins lýst því yfir að hún fái ekki bætur frá sjúkrahúsinu.

Vísindagrein sem birtist í Lancet og byggð var m.a. á aðgerðinni á Andemariam Beyene hefur verið afturkölluð vegna vísindamisferlis en mál þetta sem tengist plastbarkaígræðslum í fólk er talið vera eitt mesta vísindahneykslismál sem komið hefur upp í heimi læknavísindanna í langan tíma.
Hér má sjá yfirlýsingu saksóknara í Svíþjóð.

Mynd / Árni Torfason

Námskeið fyrir extróverta

Síðast en ekki síst

Höfundur / Pawel Bartoszek

Það er hægt að flokka fólk í extróverta og intróverta. Það er ekki endilega vísindalegt en það er hægt. Flokkunin gengur út á það að extróvertar eru fólkið sem er á útopnu í partíum meðan intróvertar glápa á eigin skó.

Eðli málsins samkvæmt eru extróvertarnir heldur algengari í hópi pólitíkusa og stjórnenda. Þeir sem eru intróvertar geta farið á námskeið þar sem þeir læra að kalla fólk með nafni, snerta aðra að óþörfu og brosa af ástæðulausu. Læra að vera extróvertar.

En hvernig væri að snúa þessu við og kenna þessu extróvertaliði að vera til friðs á sérstöku námskeiði? Þar væri hægt að kenna eftirfarandi:

Eitt: Þú mætir í vinnuna. Dagga er þegar mætt og byrjuð að vinna. Ekki bjóða Döggu góðan daginn, eða spyrja hvernig hún hafi það. Dagga er að vinna. Ef Dagga vill spjalla þá fer hún fram og hangir hjá vatnsvélinni.

Tvö: Þú ert að taka leigubíl. Sestu aftast og farðu beint í símann. Bílstjórinn fær borgað fyrir að keyra, ekki fyrir að skemmta þér.

Þrjú: Þú kemur í partí þar sem þú þekkir bara gestgjafann, Tómas. Talaðu bara við Tómas. Kannski mun hann kynna þig fyrir einhverjum sem hann heldur að þú hafir gaman af að tala við. Ef það gerist skaltu tala við sömu manneskjuna eins lengi og það er gaman. Þú þarft ekki að tala við alla.

Fjögur: Þig langar að fá upplýsingar hjá veisluþjónustu Völu. Ekki hringja eða mæta á staðinn. Það er ofbeldi. Sendu Völu póst sem hún getur svarað rólega í næði næst þegar hún hefur tíma.

Fimm: Þú ert í brúðkaupi, þú undirbjóst ekki ræðu en langar samt að tala. Slepptu því.

 

Hvers vegna að viðhalda helvíti á jörðu?

Á næsta ári opnar neyslurými fyrir fólk sem er illt í hjartanu og taldi kvalastillandi lyf í æð á einhverjum tímapunkti sinn besta kost.

Þar verður örugg aðstaða til inntöku slíkra efna með aðgengi að hreinum sprautubúnaði og grunnheilbrigðisþjónustu. Til þessa verks hefur ríkisstjórnin tekið frá fjármuni á fjárlögum, og leggur heilbrigðisráðherra fram frumvarp eftir áramót um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni til að tryggja þjónustunni lagastoð. Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar tekið að sér umsjón þjónustunnar.

Sú ímynd sem segja má að ríkt hafi af „sprautufíklinum“ sem hálfgerðri goðsagnaveru, manneskju varla af holdi og blóði sem tilheyrir einhverjum öðrum veruleika, heyrir vonandi sögunni til. Þessi hópur og aðstæður þessara einstaklinga hafa fengið mikla umfjöllun á árinu, og hlýtur hálf þjóðin að hafa séð heimildarþættina Lof mér að lifa, umfjöllun Ísland í dag um Frú Ragnheiði og kvikmyndina Lof mér að falla, svo eitthvað sé nefnt.

Þar standa mikil áfallasaga og andleg veikindi augljóslega upp úr sem sameinandi þáttur þessa hóps, en undirliggjandi hjartahlýja og manngæska er einnig meiri en margir hefðu e.t.v. gert sér í hugarlund. Það sem allir viðmælendur eiga þó sameiginlegt er helvítið sem lýst er meðan á neyslu stendur, í formi ofbeldis og sorgar, sem herðir svo enn tak fíknarinnar.

Hvatinn hlýtur að vera kærleikur

Hvatinn að baki opnunar þessa neyslurýmis hlýtur að vera kærleikur og manngæska, viljinn til að hjálpa þessum hópi til betra lífs. Þess vegna þykir mér miður að þetta hænuskref sé látið duga, og að lyfin sem þessir einstaklingar eru líkamlega háðir verði ekki einfaldlega afhent á staðnum.

Fyrir þeirri tilhögun mætti skrifa langa rökfærslu og draga fram skýrslur og gögn um ávinning og árangur erlendis, en í kjarna sínum er það nákvæmlega með þessum hætti sem samfélagið getur bætt hag þessara einstaklinga stórkostlega — með því að rjúfa tilbúinn og ónauðsynlegan veruleika þess að fárveikir einstaklingar neyðist til að verða sér úti um háar fjárhæðir daglega til að fjármagna líkamlega fíkn, og eiga að auki ekki annan kost en að eiga viðskipti við aðila í undirheimum. Þarna ætti auðvitað líka að vera skilyrðis- og tafarlaus aðstoð í boði fyrir þá sem eru tilbúnir að hefja heilbrigðara líf.

Frumvarp heilbrigðisráðherra er enn ekki komið fram. Enn er tími til að haga framkvæmdinni með þessum hætti. Tilefni er til að rifja upp orð aðstandenda kvikmyndarinnar Lof mér að falla þess efnis að myndin byggi nær einvörðungu á raunverulegum atburðum, og eingöngu hafi verið vikið frá raunveruleikanum þegar ástæða þótti til að draga úr atvikum.

Stanslaus peningaþörf veikra einstaklinga og viðskipti við andstyggilegar persónur eru undirstaða þess frumskógar sem birtist í þeirri mynd. Hann skulum við ryðja með öllu.

Litríkur bóhemstíll hjá eiganda Akkúrat

Sigrún Guðný Markúsdóttir er eigandi hönnunarverslunarinnar Akkúrat en hún hefur verið viðloðandi verslunarbransann í mörg herrans ár. Við heyrðum í Sigrúnu og fengum að kíkja til hennar í morgunkaffi á Kvisthagann þar sem hún býr í skemmtilegri risíbúð ásamt dætrum sínum tveimur; Aniku og Salvöru.

Ljósmyndin af stúlkunni með rettuna er frægt plötuumslag plötunnar Greeen Mind og heldur Sigrún mikið upp á hana. Jólatréð er úr Garðheimum.

Sigrún var með jólalög á fóninum þegar við mættum og litlar jólakúlur lágu á borðstofuborðinu tilbúnar að skreyta jólatréð sem stóð nett og pent í stofunni, örugglega minnsta jólahrísla sem við höfum myndað fyrir Hús og híbýli en samt svo ógurlega sjarmerandi hrísla.

Sigrún hlær þegar við játum að hafa aldrei séð svona smátt jólatré og segist bara vera mjög nægjusöm í lífinu. Hún játar að vera svolítill hippi í sér og kaupir sér sjaldan eitthvað nýtt nema það heilli hana alveg upp úr skónum. Hún á því hluti og húsgögn sem hafa fylgt henni lengi.

„Ég er til dæmis alltaf á leiðinni að fá mér nýtt sófaborð en svo þykir mér svo ógurlega vænt um þetta að ég læt ekki verða af því. Þetta borð er frá Filippseyjum og allt einhvern veginn snúið og skakkt en það er bara svo mikil sál í því.“

En hvar kaupir hún þá helst húsgögn og annað fyrir heimilið? „Ég keypti mikið af því sem ég á á flóamörkuðum í Danmörku. Við bjuggum fyrst á Nørrebro í Kaupmannahöfn og þar í kring er svo mikið af alls konar mörkuðum og við gátum bara gengið heim með húsgögnin. Einu sinni keyptum við meira að segja sófa og roguðumst heim með hann fótgangandi,“ segir hún hlæjandi.

Ég er til dæmis alltaf á leiðinni að fá mér nýtt sófaborð en svo þykir mér svo ógurlega vænt um þetta að ég læt ekki verða af því.

Styttuna af stráknum og hundinum keypti Sigrún í Rauðakrossbúðinni á sínum tíma.

Vesturbærinn að verða nafli alheimsins

„Ég er úr Mosó en ég fór tiltölulega ung að heiman og fór þá að leigja á Bergstaðastræti og svo á Lokastíg og bjó alltaf í miðbænum á þessum árum. Svo fluttum við, ég og minn fyrrverandi, til Danmerkur í nokkur ár og þegar við vorum að flytja heim til Íslands aftur þurftum við að taka ákvörðun um hvar við vildum búa. Þar sem margt af okkar fólki bjó hér í Vesturbænum lá beinast við að flytja hingað. Foreldrar mínir búa að vísu enn þá í Mosó og mér finnst æðislegt að koma þangað; dalurinn er yndislegur og bærinn líka. Okkur langaði samt meira að búa hérna.“

Hvað finnst þér best við Vesturbæinn?

„Þetta er svolítið eins og lítill bær inni í borg, eins og til dæmis Fredriksberg í Danmörku, þar sem ég bjó en þar er sérborgarstjóri og bærinn svolítið bara eins og kommúna inni í borginni. Hér er allt sem ég þarfnast; ég fer mjög mikið í sund í Vesturbæjarlaugina og ræktina út á Nesi, stelpurnar mínar eru í KR í íþróttum og svo er örstutt að ganga í miðbæinn. Brauð og co er svo við hliðina á Kaffi Vest þannig að Vesturbærinn er bara að verða nafli alheimsins,“ segir hún og hlær.

Tinnamyndin litríka var keypt í barnadeildinni í Hagkaup fyrir aldamótin en hún er sérlega skemmtileg og litrík.

Ferðamennirnir hrifnir af íslenskri hönnun

Sigrún hefur verið viðloðandi verslunarbransann í mörg ár, hún byrjaði sem innkaupa- og verslunarstjóri hjá NTC fyrir 27 árum. Hún var seinna vörumerkja- og útflutningsstjóri hjá Cintamani og í framhaldinu framkvæmdastjóri Schintilla.

Mynd / Hákon Davíð

En hvað varð til þess að hún ákvað að opna eigin verslun?

„Ég átti fyrir mörgum árum verslunina Flauel á Laugavegi með Báru í Aftur og það blundaði í mér að fara út í eitthvað sjálf aftur. Svo kom tækifærið þegar Hönnunarmiðstöð bauð út plássið í Aðalstræti 2, þá ákvað ég að hella mér út í þetta, búa til „concept“ og fá strákana í hönnunarstúdíóinu Döðlum til liðs við mig og úr þeirri samvinnu og hugmyndavinnu varð hönnunarverslunin Akkúrat til.

Hugmyndin er að bjóða upp á rjómann af íslenskri hönnun og íslenskri list. Svo erum við með um það bil 30% norræn merki sem passa inn í „conceptið“ Akkúrat,“ útskýrir hún.

En hvernig gengur að reka hönnunarverslun í miðbænum, staðsetningin hlýtur að trekkja að ferðamenn? „Við erum frábærlega staðsett og það er mikil traffík af ferðamönnum en Íslendingunum fer fjölgandi með mánuði hverjum. Ferðamennirnir eru mjög hrifnir af fatalínunni frá Döðlum sem heitir By Döðlur, kertin frá íslensku hönnuðunum eru líka mjög vinsæl og eiginlega allt bara.

Það er mikil traffík af ferðamönnum en Íslendingunum fer fjölgandi með mánuði hverjum.

Svo er danska merkið Nomess Copenhagen mjög vinsælt. Íslendingar eru mjög hrifnir af því og við ætlum að bæta við stærri vörum frá þeim en Nomess setti fyrstu vörunar á markað fyrir tíu árum og vörulínan er nú orðin mjög breið og spennandi.“

Litríkur bóhemstíll

Borðstofuborðið fékk Sigrún upphaflega lánað hjá vinafólki sínu, Sigga Hall og Svölu. Sigrúnu grunar að borðið sé eftir sama hönnuð og þann sem hannaði gamla sjúskaða stólinn í stofunni. Brúna verkið á veggnum er eftir Unni Guðnýju Gunnarsdóttur.

Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl?

„Ég myndi ekki segja að hann væri mjög skandinavískur, kannski örlítið, ég myndi frekar segja bóhemstíll og mikið af litum, ég hef alltaf verið mjög litrík þegar kemur að heimilinu. Ég er svolítið „fiftís“ og list frá þeim tíma heillar mig; Art Deco finnst mér rosalega flott. Ég held að ég verði að segja að uppáhaldsliturinn minn sé bleikur, í bland við hermannagrænan í fatavali. Þessir tveir litir eru mín uppáhaldslitasamsetning,“ segir hún og við verðum líka að forvitnast hvaða íslensku hönnuðir séu í uppáhaldi hjá henni.

Ég er svolítið „fiftís“ og list frá þeim tíma heillar mig.

„Döðlur, bara í öllu sem þeir eru að hanna og gera. Þeir Daníel og Hörður sem eru Döðlu-teymið eru báðir ótrúlega færir í sínu fagi,“ svarar hún án umhugsunar.

Langar í Lítið, sætt sixtíshús við sjóinn

Bakkinn undir aðventuskreytingunni er eftir Dögg design.

Þú hefur búið í miðbænum, Mosó, Danmörku og núna ertu í Vesturbænum, hvar og hvernig væri draumahúsið þitt? „Það væri lítið, flott, sixtíshús við sjóinn í Reykjavík og litli sumarbústaðurinn sem ég ætla að byggja sem verður úr endurnýttum efnum,“ segir hún hugsi.

Í risherberginu er motta frá Area Art. Rúmteppið fallega er frá U SEE STUDIO og fæst í hönnunarversluninni Yppsilon sem er staðsett beint fyrir ofan Akkúrat

En hvað með áramótaheit?

„Ég strengi oft áramótaheit og skrifa þá niður markmið mín fyrir nýtt ár, en ég geri það líka stundum á afmælisdaginn minn og set svo miðann í krukku eða eitthvað sem ég geymi og ekki má opna fyrr en að ári liðnu. Þá sér maður svo vel hvar maður er staddur í lífinu og þar sem ég man aldrei hvað ég skrifaði er ég alltaf mjög spennt að skoða það. Mér finnst gott að gera þetta stundum,“ svarar hún hress og fær sér kaffibolla.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fær innblástur frá tengdó

|||
|||

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir segir fatastíl sinn mjög blandaðan þó að rokkaður og rómantískur klæðnaður verði oftast fyrir valinu.

Uppáhaldsflíkin mín er þessi níðþröngi svarti pallíettusamfestingur frá 1970 en hann keypti ég í New York.“

„Mér finnst fátt leiðinlegra en að fara í búðir en ef ég neyðist til verða second hand-verslanir helst fyrir valinu. Sem betur fer er maðurinn minn góður í að kaupa á mig föt,“ segir Alexía aðspurð um í hvaða búðum hún kaupi helst föt en bætir við að tengdamóðir sín, Edda Guðmundsdóttir, veiti sér hvað mestan innblástur.

„Edda er mikil smekkkona og alltaf glæsilega til fara. Ég hef verið svo heppin að fá gamla kjóla frá henni í gegnum tíðina.“

Mér finnst fátt leiðinlegra en að fara í búðir en ef ég neyðist til verða second hand-verslanir helst fyrir valinu.

„Brúðarkjóllinn sem ég keypti í second hand-búð í San Fransisco hefur án efa mesta tilfinningalega gildið en ég fékk klæðskerann á Hringbraut til að taka ermarnar af honum, þá varð hann fullkominn.“

Þegar talið berst að skyldueign allra kvenna segir Alexía það vera falleg undirföt en efst á óskalistanum hennar sé þó leðursamfestingur.

„Nýjustu kaupin í fataskápnum mínum eru rauðappelsínugulur kjóll en tilefnið var afmæli hjá vini mínum þar sem þema veislunnar var Rajneesh og Bhagwan úr þáttunum Wild Wild Country.

Það var frábær litapalletta í því partíi. Annars myndi ég klárlega segja stílinn minn mjög blandaðan, hann er rokkaður og rómantískur en á sama tíma klassískur.“

Alexía sýndi einleik á Act Alone á Suðureyri í sumar og hún leikur reglulega með leikhópnum Pörupiltar auk þess að kenna leiklist og tjáningu í Hringsjá sem er náms- og starfsendurhæfing fyrir fullorðna.

„Inn á milli fer ég svo með ferðamenn ofan í Þríhnúkagíg og skrifa greinar fyrir vertuuti.is.“

„Kúluhálsmenið sem mamma mín býr til úr þangkúlum úr fjörunni hennar í Selárdal í Arnarfirði á stóran stað í hjarta mínu.“

Myndir / Unnur Magna

 

Tvær nunnur játa stórfelldan fjárdrátt

Tvær nunnur sem kenndu við kaþólskan heimavistarskóla í Kaliforníu hafa játað fjárdrátt. Stolna féð fór meðal annars í ferðalög og í fjárhættuspil.

Tvær rómversk-kaþólskar nunnur, Mary Margaret Kreuper og Lana Chang, hafa játað að hafa dregið að sér fé frá kaþólska heimavistarskólanum St. James School í Kaliforníu sem þær kenndu við. Upphæðin sem þær stálu nemur um 60 milljónum króna. Þetta kemur fram á vef Huffington Post.

Nunnurnar eru sagðar hafa eytt hluta upphæðarinnar sem þær stálu í ferðalög og í spilavíti. Upp komst um fjárdráttinn þegar endurskoðandi var fenginn í að skoða fjármál skólans fyrir skemmstu.

Mary Margaret hafði verið skólastjóri skólans í 28 ár en hún fór á eftirlaun í sumar. Lana kenndi nemendum í áttunda bekk og hafði kennt við skólann í tvo áratugi. Hún fór einnig á eftirlaun fyrr á þessu ári. Í frétt ABC News kemur fram að nunnurnar drógu reglulega að sér fé á meðan þær störfuðu í skólanum.

Foreldrum nemanda var greint frá málinu í bréfi sem þau fengu sent í nok nóvember. Í bréfinu kom fram að nunnurnar sjái verulega eftir gjörðum sínum og að þær biðji um fyrirgefningu.

Í frétt Huffington Post kemur fram að upphaflega ætlaði skólinn ekki að höfða mál gegn nunnunum. En þegar í ljós kom um hversu stórt mál er að ræða var ákveðið að fara í mál við þær.

Góður andi í gamla vesturbænum

Á dögunum heimsóttum við hjón sem búa í fallegu steinhúsi byggðu 1939 í gamla Vesturbænum, rétt við Landskotstún. Þau festu kaup á íbúðinni fyrir tæpum tveimur árum og hafa verið dugleg að gera heimilið fallegt frá flutningunum.

Íbúðin er um 165 fm en þar af eru 35 fm nýttir undir stúdíóíbúð. Það fyrsta sem grípur augað þegar inn er komið eru fallegir gluggarnir í forstofunni, en útsýnið er nánast eins og síbreytilegt málverk þar sem auðvelt er að fylgjast með árstíðunum líða hjá.

Skipulag íbúðarinnar er í takt við byggingartímann, rúmgóð forstofan liggur eins og slagæð í gegnum rýmið, stofurnar stórar og bjartar, eldhúsið örlítið slitið frá og baðherbergin í smærra lagi.

Á hæðinni er einnig stúdíóíbúð sem hjónin hafa lokað af og eru með í útleigu. Á gólfum í stofunum er virkilega fallegt upprunalegt eikarparket lagt í síldarbeinamynstur, sem passar einkar vel við skandinavískan stíl heimilisins.  Litríka málverkið í borðstofunni er eftir listamanninn Jón Þór Gíslason.

„Mér finnst svo gott loft í gömlum húsum, þar er oft góður andi og mér líður vel í þeim.“

Hvað var það sem heillaði við þessa íbúð?
„Það varð ást við fyrstu sýn þegar við skoðuðum hana og við eigum allt eins von á því að búa hér alla ævi,“ segir annar eigandinn og bætir við að fjölskyldan hafi ekki farið í miklar framkvæmdir aðrar en að mála, fjarlægja efri skápa í eldhúsinu og dytta að hinu og þessu sem þurfti viðhald. „Mér finnst svo gott loft í gömlum húsum, þar er oft góður andi og mér líður vel í þeim. Meiri metnaður virðist líka hafa verið lagður í smáatriðin í gamla daga, eins og falleg gerefti, skrautlista og kúrvur og ég nýt þess að horfa á þessa litlu hluti í eldri húsum.“

Léttur norræn stíll
Húsráðendur ólust upp við skandinavískan stíl og bjuggu lengi vel í Noregi, svo þau segja að stílinn sem sé áberandi núna, grænar plöntur og viðarhúsgögn falli vel að þeirra smekk.

Eigið þið ykkur uppáhaldsstað?
„Uppáhaldsstaðurinn er þar sem sólin og fólkið er, til dæmis við gluggana í stofunni eða úti á svölum með kaffibollann – það er svo notalegt að horfa á fólkið fara í vinnuna og koma krökkunum í skólann.“

Vinna með bönkum í 23 löndum

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur náð fótfestu meðal stærstu fyrirtækja Evrópu í fjártækni og meðal stærstu banka heims fjárfesta nú í fyrirtækinu.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga vinnur nú með 40 bönkum í 23 löndum víðs vegar um heiminn, til dæmis í Kanada, Suður-Afríku og Singapúr, svo dæmi séu tekin. Georg Lúðvíksson, stofnandi Meniga og framkvæmdastjóri, segir hefðbundna bankastarfsemi breytast hratt.

Stærsti banki heims fjárfesti í Meniga
Í sumar fjárfesti Unicredit, einn stærsti banki heims, í íslenska fyrirtækinu fyrir rúmlega þrjár milljónir evra, eða um 382 milljónir íslenskra króna. Bankinn hefur hafið innleiðingu á snjallsíma- og netbankalausnum Meniga. Samstarfið var tilkynnt á Money 20/20, stærstu fjártækniráðstefnu Evrópu í sumar og er samningurinn sá stærsti sinnar tegundar sem gerður hefur verið í Evrópu, segja forsvarsmenn Meniga. Þá fjárfesti Íslands¬banki nýlega fyr¬ir 3 millj¬ón¬ir evra eða um 410 millj¬ón¬ir króna í fyrirtækinu.

Rafrænn ráðgjafi í fjármálum
„Netbankar þurfa að vera staðir þar sem hægt er að stunda meira en bara bankaviðskipti og verða meira eins og rafrænn ráðgjafi í fjármálum,“ sagði Georg í samtali við Jón G. Hauksson á Hringbraut. Meniga hefur undanfarið þróast í að vera hjálp fyrir stóra banka í að búa til næstu kynslóð sinna netbanka.
Núna séu bankar að átta sig á því að þeir þurfa ekki að eiga allar vörur á sínum efnahagsreikningi og geta farið í samstarf við fjártæknifyrirtæki og boðið upp á ákveðnar vörur og afslætti.
„Línurnar eru að verða óskýrari á milli hvað er banki og hvað er ekki banki,“ sagði Georg.

Mynd: Georg Lúðvíksson, stofnandi Meniga og framkvæmdastjóri.

Netið hans Inters kemur til bjargar

Margar bækur - myndist tengist fréttinni ekki beint

Höfundur / Teitur Atlason, fulltrúi hjá Neytendastofu

Orðið jól er svolítið merkilegt í samhengi íslenskunar. Það er ekki vitað með vissu hvaðan það kom og hvernig það kom og áhöld eru um það hvert það sé að fara. Það sem er vitað er að orðið er eldgamalt og finnst í tungumálum sem eru af sama meiði og íslenskan. Orðið er svo gamalt að líkur benda til þess að orðið hafi þvælst inn í finnska tungu fyrir langa, langa löngu en þar er að finna orðið juhla.

Við vitum auðvitað hvað orðið þýðir í dag en getum okkur bara til um hvað orðið þýddi fyrndinni. Ein skemmtilegasta tilgátan er sú að orðið jól sé tengt orðinu hjól. Sé sú tilgáta kollgátan smellpassar merkingin við hringrás lífsins sem jólin sannarlega þýða ef við rótum okkur í gegnum nokkur lög af seinni tíma útskýringum.

Jólin eru skurðpunktur endisins og byrjunarinnar. Dauði dauðans og upphaf lífsins. Eftir þennan dramatíska inngang langar mig að loksins að koma að einu máli sem er árvisst og tengist jólunum mjög sterkum böndum en eins og lesendur eru væntanlega búnir að fatta, þá er ég að tala um útsölurnar eftir jól. Þessi pistill er um neytendamál, ef einhver hefur ekki áttað sig á því.

Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á það (alltaf á sama tíma um jólin, hringrásin, þið munið) að þótt allir skilji að það þurfi að klára jólabirgðirnar sem fyrst, þá gengur varla að láta þá sem fá mörg eintök af sömu bókinni gjalda þess með eins freklegum hætti og lýst er að ofan.

Vinsælustu gjafirnar á Íslandi eru bækur. Það er skemmtilegur siður og gagnlegur frá ýmsum sjónarhornum séð. Bókasala í desember er sennilega jafnmögnuð og alla hina mánuði ársins. Þessi mikla sala skiptir sköpum fyrir bókaútgáfuna í landinu, rithöfunda, útgefendur og auðvitað lesendur. Vinsælustu bækurnar seljast í þúsundum eintaka. Þær allra vinsælustu seljast i meira en tíu þúsund eintökum. Eins og gefur að skilja, fá margir sömu bókina þegar ástandið er svona. Allir kannast við að hafa fengið tvö eða fleiri eintök af sömu bókinni. Gárungarnir kalla þetta að fá „Arnald“ en ég tel mig ekki til þeirra og nefni þetta aðeins að gamni.

En hvað gerist svo þegar búðirnar opna eftir jól? Jú, útsölurnar mæta á sviðið með sínar galopnu dyr og flennistóru auglýsingar. Bók sem keypt var á 5000 krónur, kostar nú skyndilega 3000 krónur.

Nú ætti að staldra við og fá sér Tópas. 5000 krónur breytast í 3000 krónur! Hvað varð um mismuninn! Hvert fór hann! „Moneyheaven,“ gæti einhver ósnotur sagt í spurnartón. Nei, góðu lesendur. Mismunurinn fór ekki til himna og dvelur við hásæti englanna til að dæma lifendur og dauða.
Nei, hann varð barasta eftir í búðinni.

Þetta er ósanngjarnt. Neytendasamtökin hafa ítrekað bent á það (alltaf á sama tíma um jólin, hringrásin, þið munið) að þótt allir skilji að það þurfi að klára jólabirgðirnar sem fyrst, þá gengur varla að láta þá sem fá mörg eintök af sömu bókinni gjalda þess með eins freklegum hætti og lýst er að ofan.

Sá sem kaupir fyrir 5000 krónur og skilar vörunni, á að fá innleggsnótu fyrir sömu upphæð. Best væri auðvitað ef hann fengi peningana til baka en því er ekki fyrir að fara enda eru ekki til lög um skilarétt á Íslandi og aðeins miðast við verklagsreglur sem viðskiptaráðuneytið setti árið 2000. Þetta gildir þó ekki um netsölu því þar er kveðið skýrt á um endurgreiðslu. Sá sem vill tryggja sig gegn svona uppgufun fjármagns, ætti því að nota netverslanir í stað hefðbundinna verslana.

Það eru fleiri fletir á þessu skrýtna máli, rétt eins og með hið eldgamla orð jól sem minnst er á í inngangi þessa pistils. Ef við höldum okkur við dæmið að ofan þar sem bók er keypt á 5000 en kaupandinn fær bara 3000 til baka (í formi innleggsnótu – því er verr og miður) þá verða 2000 krónur eftir í búðinni. Þessar 2000 krónur fær búðareigandinn fyrir að selja EKKI bók. Hann fær 2000 krónur fyrir ekki neitt. Og sé miðað við eðlilega framlegð (það sem búðin græðir á hverri seldri bók) þá eru 2000 krónur mjög ásættanleg framlegð og jafnvel hærri en fyrir selda bók.

Þetta er sérstakt eins og margt annað sem tengist jólunum. Nú væri óskandi að bóksalar tækju sig saman í sönnum jólaanda og gæfu fólki færi á að fá rétt til baka þegar bókum er skilað. Það þarf ekki að setja upp útsöluskiltið alveg um leið og færi gefst. Það má flýta sér hægt.

Heillaðist af rómantískum hugmyndum um ábyrgðarlítið líf

|||
Hafliði Helgason|||

Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins, kann sannarlega að meta góðar bókmenntir og Mannlíf kom því ekki að tómum kofanum þegar það bað Hafliða um að nefna þær bækur sem hafa haft einna mest áhrif á hann.

Hafliði segir að maður verði fyrir mestum áhrifum af þeim bókum sem maður les meðan hugur og hjarta eru hvað opnust, yfirleitt fyrir tvítugt. Auðvitað hafi fjölmargar bækur snert hann djúpt en það séu þrjár bækur sem koma fyrst upp í hugann.

„Bjargvættinn í grasinu hafði mikil áhrif á mig.“

„Fyrst ber að nefna Bjargvættinn í grasinu (Catcher in the Rye) eftir J.D. Salinger. Hún hafði mikil áhrif á mig, kannski fyrst og fremst að í Holden Caulfield upplifði ég sterka samsvörun. Rótlaus unglingur, fullur af innri togstreitu og óþreyju eftir að fá fullt vald yfir eigin lífi.

Lífsþorsti eftir Irving Stone.

Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig um svipað leyti og var Lífsþorsti eftir Irving Stone en sú bók fjallar um ævi hollenska málarans Vincent van Gogh. Ég las hana á svipuðum aldri uppfullur af rómantískum hugmyndum um frjálst og ábyrgðarlítið líf þar sem hverjum degi væri látin nægja sín þjáning.

 

„Glæpur og refsing eftir Dostojevskí tilvistarleg, heimspekileg og bókmenntaleg upplifun og orkaði sterkt á mig.“

Þriðja bókin sem ég vildi nefna er Glæpur og refsing eftir Dostojevskí. Áhrifamáttur hennar var kannski ekki jafnpersónulegur og hinna fyrri. Sú bók var tilvistarleg, heimspekileg og bókmenntaleg upplifun og orkaði sterkt á mig. Svo sterkt að ég er ekki viss um að ég þori að lesa hana aftur af ótta við að forherðing reynslunnar hafi svipt mig eiginleikanum til að upplifa bók jafnsterkt og ég upplifði hana á sínum tíma.“

Jólalegt sætabrauð

Mikil hefð er fyrir epla-strudel í Austurríki og Þýskalandi og bjóða flest kaffihús upp á þetta dásamlega sætabrauð. Þunnt stökkt deig með kryddaðri eplafyllingu, borið fram með vanillusósu eða ís, getur ekki klikkað. Margir halda að erfitt sé að búa til strudel en það er mikill miskilningur og tekur ekki langan tíma. Þeir sem elska epli, kanil og vanillusósu ættu því ekki að láta þessa fram hjá sér fara.

Epla-strudel með vanillusósu sem Bergþóra Jónsdóttir bakaði fyrir Gestgjafann. Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Epla-strudel með vanillusósu

Deig
80 ml volgt vatn
15 g olía
½ tsk. edik
1/8 tsk. fínt borðsalt eða sjávarsalt
145 g brauðhveiti
½ tsk. olía til að pensla með deigið með

Hitið ofninn í 190°C. Blandið saman vatni, olíu, ediki og salt í stóra skál. Blandið hveitinu saman við og hrærið. Bætið 1-2 msk. af hveiti saman við ef deigið loðir enn við hendurnar. Hnoðið deigið þar til það verður silkimjúkt og glansandi. Búið til kúlu úr deiginu og penslið með olíu og pakkið henni í plast og geymið í klst. við stofuhita.

Fylling
3 msk. ósaltað smjör
80 g brauðrasp
65 g sykur
½ tsk. kanill
4 msk. rúsínur
3 msk. romm eða volgt vatn
4 meðalstór epli
1 msk. sítrónusafi
1 msk. smjör

Bræðið smjör á pönnu og bætið brauðraspi saman við, hrærið vel þar til raspið brúnast . Hrærið í allan tímann og fylgist með svo hann brenni ekki við. Takið af hitanum og kælið. Blandið sykri og kanil saman og setjið saman við brauðraspið, setjið til hliðar. Látið rúsínurnar liggja í rommi eða vatni í u.þ.b. 10 mínútur. Flysjið eplin, fræhreinsið, skerið hvert epli til helminga og svo í þunnar sneiðar. Hellið sítrónusafa yfir svo eplasneiðarnar verði ekki brúnar. Hellið vökvanum af rúsínunum og setjið þær saman við eplin.
Fletjið deigið út á hveitistráð borð. Takið deigið upp með því að fara undir það með höndunum og lyfta því upp og teygja aðeins til, reynið að fá það eins þunnt og mögulegt er, það á að vera um 35 cm á breidd og 45 cm á hæð. Penslið deigið með smjöri og dreifið brauðmylsnunni yfir helminginn af deiginu og setjið eplafyllinguna yfir hana. Rúllið upp og byrjið þar sem fyllingin er. Látið samskeytin snúa niður og bakið í 30 mín.

Vanillusósa
125 ml mjólk
125 g rjómi
25 g sykur
fræ úr ½ vanillustöng
1 egg
1 eggjarauða

Blandið mjólk, rjóma, sykri og fræjum úr vanillustöng saman í pott og hrærið saman við vægan hita. Takið af hellunni. Pískið saman egg og eggjarauðu í skál og hellið síðan vanillurjómablöndunni saman við og hitið yfir vatnsbaði. Hrærið stöðugt í blöndunni með písk og takið af hitanum þegar sósan fer að þykkna, þá er hún tilbúin. Þetta tekur u.þ.b 5-7 mín. Berið fram með eplalengjunni.

 

Raddir