Biskup Íslands hefur áhyggjur af upprisu afla sem ala á ótta gagnvart innflytjendum og minnihlutahópum. Sjálf hefur hún skipað sér og kirkjunni í það lið sem berst gegn slíkum málflutningi með því að breiða út kærleik og virðingu.
Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, heimsótti á dögunum mosku múslíma í Skógarhlíð. Heimsóknin var söguleg því þetta var í fyrsta skipti sem biskup heimsækir mosku á íslenskri grundu. Skömmu áður hafði sést til hennar á Austurvelli þar sem hælisleitendur höfðu safnast saman í von um að fá áheyrn ráðamanna.
Þótt framgöngu Agnesar hafi almennt verið vel tekið mátti þó heyra gagnrýnisraddir, meðal annars úr sölum Alþingis. Agnes gefur lítið fyrir slíkar úrtöluraddir og segir samtal einu leiðina til að byggja brú á milli ólíkra menningarhópa. Þetta samtal, þar sem kirkjan er virkur þátttakandi, sé sérstaklega mikilvægt nú þegar upp rísa öfl sem nota óttann til að reka fleyg á milli ólíkra þjóðfélagshópa.
Múslimar vilja vera góðir samfélagsþegnar
„Það var gaman að koma þarna og einstaklega vel tekið á móti okkur og ýmislegt sem kom mér kannski á óvart. Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt, til dæmis fengum við te og arabískar kökur sem maður fær ekki á hverjum degi,“ segir Agnes um móttökurnar sem hún fékk í Skógarhlíð.
Maður upplifði að maður væri komin inn í veröld sem væri manni ekki mjög þekkt.
Tilefnið var heimsókn forseta vettvangs múslima í Evrópu, Abdul-Vakhed Niyzov, þar sem meðal annars var rætt um mikilvægi friðar og aðgerða í kjölfar atburðanna hræðilegu í Christchurch í Nýja-Sjálandi þann 15. mars þegar vopnaður maður réðst á tvær moskur og myrti 50 saklausa borgara. Agnes segir að það hafi verið hennar val að fundurinn fór fram í moskunni.
„Mér var boðið að koma í moskuna en þeir sögðust líka geta komið til mín eða hitt mig annars staðar í bænum. Karim [Askari, forstöðumaður moskunnar í Skógarhlíð] hafði áður boðið mér í heimsókn og ég vildi bara þiggja boð hans um að koma á hans heimastöðvar.“
Þar var Agnesi tekið með virktum og hjó hún sérstaklega eftir því að henni var heilsað með handabandi við komuna, eitthvað sem hún hefur ekki alltaf upplifað í samskiptum hennar við múslima. Og það voru fleiri minnisstæð atriði í heimsókninni.
„Þarna var ein kona með slæðu sem sat við hliðina á mér. Maður hefur svo sem hitt múslimakonur áður en mér fannst svo gaman að fá að sitja með henni í skjóli vináttunnar. Hún fæddist í Sýrlandi og ég á Íslandi og þess vegna er ég eins og ég er og hún eins og hún er. Svo fannst mér svo gaman að sjá þegar ég fór út, að þegar þessi kona og hennar maður voru að fara af bílastæðinu á sínum bíl og hver keyrði? Það var konan sem sat undir stýri. Þetta er einhvern veginn ekki sú mynd sem birtist manni í fjölmiðlum en þetta segir manni að hvort sem fólk er múslimar, kristið, hindúar, búddistar eða hvað sem er, við erum öll fólk sem lifum í því samfélagi sem við erum í og göngum fram sem slík.“
Agnes leggur áherslu á að samtal sé besta tækið til að rjúfa múra og eyða fordómum. Þess vegna sé samráðsvettvangur trúarbragðanna, sem starfræktur hefur verið síðan 2006, svo mikilvægur. Þar sameinast ólíkir fulltrúar trúarbragðanna um það sem sameinar en ekki það sem sundrar.
„Ég upplifði það mjög sterkt í moskunni að múslimar hafa einlægan vilja til þess að vera góðir samfélagsþegnar í því samfélagi þar sem þeir búa hverju sinni. Þeir sem búa á Íslandi vilja verða Íslendingar og lifa hér sem slíkir, ala börnin sín upp sem Íslendinga og eru ekki að reyna að breyta neinu. En auðvitað er það þannig í öllum samfélögum að breytingar eiga sér stað með hverri kynslóð og allar manneskjur hafa einhver áhrif einhvers staðar á einhvern, þess vegna verður þessi þróun.“
Það er ekki nóg að tala
Mótmæli hælisleitenda á Austurvelli um miðjan marsmánuð vöktu mikla athygli en þau voru líka umdeild. Til ryskinga kom á milli mótmælenda og lögreglu og á samfélagsmiðlum mátti greina talsverða vandlætingu á framferði hælisleitenda. En þeir voru líka margir sem tóku undir málstað þeirra, meðal annars um slæman aðbúnað þeirra og afskiptaleysi stjórnvalda. Agnes tilheyrir þeim hópi.
„Ég lít þannig á náungann að ég elska náungann. Ég elska Guð, náungann og sjálfa mig í þessari röð. Náungi minn eru allar manneskjur og sérstaklega þær manneskjur sem þarfnast hjálpar. Þjóðkirkjan hefur, eins og aðrar kirkjur á Vesturlöndum, látið til sín taka varðandi þessi málefni hælisleitenda vegna þess að við lítum ekki á hælisleitendur sem hælisleitendur, við lítum á þá sem fólk. Hælisleitendur eru bara fólk eins og við en flestir þeirra hafa upplifað miklu erfiðari lífsreynslu en við flest hér á Íslandi vegna þess að þau hafa þurft að flýja sitt land, flýja frá ófriði. Þau eru að sækjast eftir friði og þau eru að sækjast eftir mannréttindum. Þetta vil ég styðja.“
Agnes bætir við að hluti þess fólks sem hafi verið á Austurvelli hafi nýtt sér þjónustu kirkjunnar.
„Ég fór niður á Austurvöll því það er ekki nóg að tala, það verður líka að fylgja því eftir sem maður er að segja. Maður verður að lifa í samræmi við boðun sína. Það er ég að reyna að gera, meðal annars með því að vera nærverandi í eigin skinni á Austurvelli til að sýna að mér er ekki sama um þau og hjálpa þeim að ná áheyrn. Af því að þau langar til að tala við þau sem hér ráða og búa til lögin fyrir okkur. Það er nú bara þannig að eftir sem heyrist hærra í manni er meiri von til að á mann sé hlustað. Það að opna Dómkirkjuna fyrir öllu fólki, líka fyrir hælisleitendum, er bara í anda frelsarans.“
Ósmekkleg ummæli á þingi
Það voru ekki allir sáttir við að kirkjan hafi verið opin hælisleitendum og slíka vandlætingu mátti meðal annars greina í sölum Alþingis. Þingmaður Miðflokksins, Ólafur Ísleifsson, fór þar fremstur í flokki. Talaði hann um „tjaldbúðir“ hælisleitenda á Austurvelli og að æðstu menn þjóðkirkjunnar hafi staðið fyrir því að breyta Dómkirkjunni í „almenningsnáðhús“ um leið og hann furðaði sig á nærveru æðstu manna þjóðkirkjunnar á Austurvelli.
Agnes hefur ekki miklar áhyggjur af slíkum gagnrýnisröddum. „Það er nú þannig að engin manneskja getur stjórnað annarri og maður á nú nóg með að stjórna sjálfum sér þannig að ég ræð svo sem ekki viðbrögðum fólks eða hugsunum og því síður skoðunum. Við búum í frjálsu landi, sem betur fer, og það er öllum frjálst að hafa sína skoðun svo framarlega sem hún meiðir ekki annað fólk,“ segir hún og bætir við: „Menn hafa sínar skoðanir og ef það má láta allar skoðanir í ljós á þingi þá hljóta þingmenn að hafa leyfi til þess. En mér finnst þetta frekar ósmekklegt. Það er hægt að nálgast öll mál á mismunandi máta, maður getur verið jákvæður og neikvæður og alls konar en mér fannst þessi umræða frekar í neikvæðari kantinum. Við opnum kirkjurnar fyrir fólkinu okkar og hjálpum hælisleitendum vegna þess að við erum kristin, ekki vegna þess að þau eru kristin.“
Að mati Agnesar mótast umræðan um innflytjendur og hælisleitendur að miklu leyti af ótta, hræðslu gagnvart hinu óþekkta.
Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt.
„Við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki. Hvað getur hjálpað okkur í þeirri stöðu ef við þekkjum ekki hlutina? Við þurfum að kynnast þeim til þess að verða ekki hrædd. Við megum ekki láta óttann stjórna okkur. Óttinn getur haft þau áhrif á okkur að við önum ekki áfram í einhverjum glannaskap en hann má ekki stjórna lífi okkar. Hvernig er það með fólk sem er alltaf hrætt? Því líður ekki vel. Þannig að ég held að eina og besta leiðin sé samtal. Þess vegna fór ég í moskuna og þess vegna reyndi ég með nærveru minni á Austurvelli að sýna að ég vil að þeir sem fara með lögin og reglurnar, fólkið á þinginu, að það komi út úr húsinu og tali saman. Að það heyri frá fyrstu hendi sögur þeirra og hvað þau eru að biðja um. Múslimar vilja, eins og ég sagði áðan, vera góðir samfélagsþegnar og ég sé ekki betur en að þetta sé bara fólk eins og ég og þú. Þetta er bara fólk sem þráir að lifa í friðsömu landi þar sem mannréttindi eru virt, þar sem er borin virðing fyrir manneskjunni eins og hún er, alveg sama af hvaða kyni hún er, hver kynhneigð hennar er, hverrar trúar hún er og svo framvegis.“
Trump og hans líkar tala ekki í nafni Guðs
En óttinn er víðar en á Íslandi. Víðs vegar um heiminn hafa risið upp stjórnmálamenn sem hafa komist til valda með því að ala á ótta gagnvart tilteknum þjóðfélagshópum. Fremstur þar í flokki fer Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, en einnig má nefna menn eins og Viktor Orban í Ungverjalandi, Erdogan í Tyrklandi, Jair Bolsonaro í Brasilíu og svo mætti áfram telja. Agnes segist vissulega hafa áhyggjur af þessari þróun.
„Óttinn er stjórntæki og Bandaríkjaforseti virðist nota hann sem slíkt. Að gera fólk óttaslegið og hrætt þannig að það þori ekki annað en að fara eftir því sem hann segir. Ótti, og reyndar fýla líka, eru að mínum dómi bestu stjórntæki veraldar. Þetta eru samt neikvæð stjórntæki, ekki jákvæð, og þau búa til verri heim og meiri vanlíðan hjá fólki. Auðvitað breiðist þetta út því þetta er svo öflugt stjórntæki. Þetta er stórhættulegt og leiðir bara til eins. Þetta leiðir bara til vanlíðunar, ófriðar, þetta leiðir til vanvirðingar við allt líf á jörðinni og þarna er Guð ekki með í verki. Það er ekki verið að hlusta á hvað Guð vill.“
En það er nú samt þannig að margir þessara leiðtoga segjast einmitt tala í nafni Guðs.
„Ég trúi því ekki,“ segir Agnes ákveðin. „Fyrir mér er Guð kærleiksríkur guð sem elskar allar manneskjur eins og þær eru og sáir ekki neinum illvilja í brjóst nokkurs manns. En það eru önnur öfl í heiminum sem eru að því og við berjumst gegn þeim af öllu afli. Við eigum að vera í góða liðinu en ekki hinu vonda.“
„Ég skil ekki svona reglur“
Á dögunum greindu fjölmiðlar frá máli sýrlenskrar konu sem hafði flúið stríðsátök í Sýrlandi og komist í öruggt skjól undir verndarvæng KFUM og KFUK. Hún missti eiginmann sinn í stríðinu og neyddist til að skilja börnin eftir í Sýrlandi og hafði gengið í gegnum miklar raunir bæði á flóttanum og í Grikklandi þar sem hún steig fyrst á land í Evrópu. Hafði henni meðal annars verið hótað lífláti vegna þess að hún hafði tekið upp kristna trú. Konunni vegnaði afar vel á Íslandi, hún hafði starfað um skeið á leikskólanum Vinagarði þar sem hún var afar vel liðin af börnum, foreldrum og samstarfsfólki. En skyndilega var fótunum kippt undan henni þegar íslensk stjórnvöld höfnuðu því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Konunni var vísað úr landi á grundvelli Dyflingnarreglulegarðinnar og hún send til Grikklands sem stjórnvöld álíta öruggt ríki fyrir flóttamenn.
Biskupi er sjáanlega mikið niðri fyrir þegar hún er spurð út í þetta mál. „Ég auðvitað virði það að menn vinni vinnuna sína. Ef menn eru að fara eftir lögum og reglum, þá verður svo að vera. En ég held hins vegar að þetta sé óásættanleg staða, að það sé verið að vísa fólki úr okkar stóra landi þar sem við höfum nóg pláss fyrir alla til að lifa góðu lífi.
Það er hræðilegt þegar er verið að senda fólk úr landi út í einhverja óvissu.
Ég skil ekki svona reglur, af hverju það þurfi að vísa í burtu góðu fólki sem hefur ekkert gert nema gott. Það er ekki svo að þessi kona hafi verið einhver glæpamaður, hryðjuverkamaður eða eitthvað slíkt. Þetta er bara góð manneskja sem vann með börnum og öllum líkar vel við – börnnum, samstarfsfólki og foreldrum. Af hverju má hún ekki vera hérna? Ég hef ekki skilning á því. Mér finnst þetta ekki gott og ég myndi vilja að reglurnar yrðu rýmkaðar þannig að fleiri ættu þess kost að vera hérna. Það er hræðilegt þegar er verið að senda fólk úr landi út í einhverja óvissu,“ segir Agnes sem óttast um velferð konunnar úti í Grikklandi.
„Hvað getur hún gert þar? Það er ekkert fyrir hana að hafa þar. Vonandi býr hún þar við frið en hún fær ekki vinnu og verður einhvers staðar að finna húsaskjól. Þetta hafði hún allt hér – hún hafði vinnu, húsaskjól og hún hafði allt sem hún þurfti.“
Ísland þarf að leggja meira af mörkum
Biskup segir þetta mál vekja upp spurningar um siðferðislega afstöðu gagnvart flóttafólki almennt.
„Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann? Þurfum við ekki að leggja líka eitthvað af mörkum til að fást við þann vanda sem heimurinn glímir við? Það er talað um í sambandi við loftlagsmálin að það gæti komið til þess að það verði óbyggilegt í sumum löndum og þá fer fólkið meira hingað norður. Hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við bara að segja: „Nei, nei, við tökum ekki á móti ykkur, við höfum það svo gott hérna og við viljum ekki bæta við. Við eigum nóg með að sinna þeim sem eru hér.“
Af hverju ættum við Íslendingar ekki að geta tekið á móti fólki á flótta alveg eins og aðrar þjóðir í Evrópu þurfa að gera. Af hverju eiga alltaf einhverjir aðrir að fást við vandann?
Um leið og hlúa þarf betur að flóttafólki á Íslandi segir biskup að brýn þörf sé að standa vörð um réttindi kristinna úti í heimi. Víða um heim, meðal annars í Sýrlandi og nálægum ríkjum, sé kristið fólk ofsótt vegna trúar sinnar.
„Það er óásættanlegt að vita af því að kristið fólk sé ofsótt fyrir trú sína árið 2019. Við vitum hvernig þetta var í upphafi, við getum lesið um það í postulasögunni og kirkjusögunni, að kristnir menn voru ofsóttir og enn er fólk ofsótt fyrir trú sína, til dæmis í Sýrlandi og fleiri löndum. Það er líka eitthvað sem við verðum að vita af og leggja okkur fram um að breyta því. Það gerist bara með samtali og engu öðru.“
Ætla aldrei að hætta að predika
Talið berst að stöðu Þjóðkirkjunnar sem óhætt er að segja að hafi þurft að berjast á mörgum vígstöðvum undanfarin ár. Kallað hefur verið eftir aðskilnaði ríkis og kirkju, fjármál kirkjunnar eru jafnan undir smásjá fjölmiðla og almennings og það er staðreynd að hlutfall þeirra Íslendinga sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna hefur farið ört minnkandi.
Þannig eru nú 60 prósent Íslendinga skráðir í Þjóðkirkjuna samanborið við 90 prósent undir lok síðustu aldar. Margir hafa líka efast um erindi Þjóðkirkjunnar í nútíma veraldlegu samfélagi. Eitt slíkt dæmi er þegar Alþingi kallaði eftir umsögn kirkjunnar um frumvarp heilbrigðisráðherra um fóstureyðingar en þá var gagnrýnt að kirkjan hafi verið yfirhöfuð spurð álits. Agnes kannast við þessa umræðu.
„En málið er að kirkjunni kemur allt við sem við kemur mannlífinu. Það er bara þannig. Hver á að segja til um hvað öðrum kemur við eða ekki. Kirkjunni kemur bara allt við sem við kemur mannlífinu. Ég frekar en aðrar manneskjur ræð því ekki hvernig fólk hugsar eða ber ábyrgð á því sem hver og einn segir. Við ráðum ekki yfir skoðunum annarra og hver er ég að ætla að fara að segja öðrum hvaða skoðanir það á að hafa.
Kirkjunni kemur bara allt við sem við kemur mannlífinu.
En ég ætla samt aldrei að hætta að predika, segja frá því góða erindi sem kirkjan flytur um kærleika og guð sem elskar okkur og við eigum að elska og hvert annað. Í elskunni felst líka virðingin og að við séum traustsins verð. Þjóðkirkjan á, að mínum dómi, fyrst og fremst að halda áfram að boða orðið, að vera glöð með að flytja fagnaðarerindið og minna sig á það á hverjum degi að því fylgir ábyrgð og það er krafa um að vanda sig og vera fagleg.“
En það er vissulega búið að setja kirkjunni skorður til að breiða út þetta fagnaðarerindi. Það eru til dæmis sveitarfélög sem hafa tilkynnt henni að nærveru hennar í skólum sé ekki óskað og skólabörnum hefur verið meinað að fara í kirkjuheimsóknir.
„Það er einmitt þessi hræðsla sem fylgir því. Ekki eru það múslimarnir sem segja að börnin megi ekki fara í kirkjuna. Nei, það eru ekki þeir. Ekki er það þjóðkirkjufólkið, hvítasunnumennirnir eða kaþólikkarnir. Ég veit ekki með hindúa, búddista og gyðinga, ég held ekki. Það eru þeir sem skilgreina sig með enga trú sem hafa á móti því að börnin fari í kirkjuna.
Þetta byggist á þeirra skoðun á trú væntanlega og það ber að virða. En á grundvelli einhvers ótta eða hræðslu, eins og mér finnst þetta vera, þá á ekki að byggja á boðum og bönnum. Og það finnst mér að þeir sem ráða til dæmis hér í borginni hafa gert. Úti á landi þar sem allir þekkja alla er minni hræðsla af því að hér í Reykjavík, nú talar landsbyggðarkonan, fáum við svo mikið fréttirnar í gegnum fjölmiðlana. Fjölmiðlarnir fjalla um allt annað en almenningur talar um sín á milli um það hvað gerist í daglegu lífi. Þar er oft og tíðum alið á hræðslunni, að mínum dómi.“
Þjóðkirkjan er framsækin stofnun
Íslenskt samfélag hefur tekið örum breytingum á undanförnum árum og hefur kirkjan þurft að aðlagast þeim. Ekki eingöngu hefur hlutfall innflytjenda aukist umtalsvert samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna, heldur hefur einnig verið opnað á umræðu um annars konar samfélagsmál. Rétt eins og með málefni flóttamanna segir Agnes að lykillinn að opnu og kærleiksríku samfélagi sé samtalið.
„Nú eru ekki kynin bara karl og kona, það eru fleiri kyn komin og maður er settur í það að þurfa að fara að kynna sér þetta til að skilja þetta. Af því að við lítum á allar manneskjur jafnt þurfum við að skilja þessa breytingu sem er orðin.“
Að mati Agnesar hefur íslenska Þjóðkirkjan, þrátt fyrir að hún hafi yfir sér það yfirbragð að hún sé gamaldags og svifasein stofnun, verið mjög framsækin. Það sýni til dæmis afstaðan til hjónabanda samkynkynhneigðra.
„Íslenska kirkjan var fyrsta kirkjan sem viðurkenndi hjónaband samkynhneigðra. Það gleymist mjög oft. Kirkjan ákvað, fyrir minn tíma reyndar, að rannsaka ritningarnar og kanna hvað bókin segir um þetta málefni og að því loknu var samþykkt að prestar væru vígslumenn samkvæmt hjúskaparlögunum. Þegar ég var unglingur vissi maður nánast ekki hvað þetta var. En þegar börnin mín voru unglingar var talað um þetta eins og að þetta væri svo sjálfsagður hlutur, sem það er. Þetta bara var og er svona. Alla vega núna er það þannig að ég spyr ekki fólk þegar ég vígi það til prests hver kynhneigð þess er. Dettur það ekki í hug. Þetta eru bara manneskjur fyrir mér sem Guð elskar og þá ber mér líka að gera það.“
Við megum ekki hrynja
Agnes hefur setið á biskupsstóli frá árinu 2012. Aðspurð hvort hún segist vera farin að velta því fyrir sér hvenær hún stígur af stóli svarar hún: „Já, ég hef velt því fyrir mér. Þar til ég er búin að ljúka því sem ég ætla mér að gera. Ég er 64 ára dag og má sitja sex ár í viðbót og ég vona að mér takist að klára þetta innan sex ára.“
Eitt af því sem Agnes vill sjá ganga í gegn er sameining prestakalla sem á að skila sér í öflugra og faglegra kirkjustarfi. Nefnir hún sem dæmi sameiningu prestakalla á Austfjörðum úr fimm í eitt. „Þetta er mikið framfaraskref fyrir kirkjuna, að mínum dómi. Prestarnir verða áfram fimm en munu allir vinna saman, fólk getur valið prest til athafna og það verður hægt að velja inn í hópinn presta með mismunandi styrkleika og þekkingu. Fagmennskan verður þar af leiðandi meiri. Þetta verður að klárast áður en ég hætti, til dæmis.“
Þess á milli segist Agnes munu halda áfram að breiða út fagnaðarerindið þar sem þrjú lykilhugtök eru höfð að leiðarljósi. „Virðing, kærleikur og traust. Þetta eru grunnstoðir í mannlífinu. Þetta eru orðin sem vígslumaðurinn í kirkjunni notar þegar fólk giftir sig, þetta eru þrjár undirstöður sem eru samofnar. Ef við hættum að bera virðingu þá erum við búin að minnka traustið og komum ekki fram á kærleiksríkan hátt. Ef við komum ekki fram á kærleiksríkan hátt sýnum við vanvirðingu og þá er ekki hægt að treysta manni, og svo framvegis.
Það er líka annað í þessum samtíma að það er svo margt að gerast, það eru svo mörg tilboðin í gangi að við missum sjónar á því sem mestu skiptir. Á hverju ætlum við að byggja líf okkar? Þetta er bara eins og að byggja hús, við verðum að byggja á traustum grunni svo að húsið geti risið. Það er eins og með þetta hús hér, það er verið að sprengja við Landspítalann og húsið hristist stundum. En húsið stendur. Þannig er lífið líka, það er ýmislegt sem skekur líf okkar eins og til dæmis þegar verið er að breiða út óttann. Það er verið að skekja líf okkar, hrista það til. En ef við stöndum á þessum fasta grunni hrynjum við ekki. Við megum ekki hrynja.“
Texti / Magnús Geir Eyjólfsson
Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme á Íslandi