Föstudaginn 5. apríl 2019 kl: 21 í Hörpunni.
Jazzklúbburinn Múlinn heldur áfram með vordagskrá sína á Björtuloftum í Hörpu og á þessum tónleikum, sem að þessu sinni fara fram föstudaginn 5. apríl kemur fram hljómsveitin Salsakommúnan sem mun slá upp sannkallaðri salsa veislu þar sem gestum Múlans verður boðið upp í dans.
Salsakommúnan er ellefu manna hljómsveit sem leikur kröftuga, dansvæna tónlist undir áhrifum frá tónlistarhefðum Suður-Ameríku. Stofnun sveitarinnar átti sér langan aðdraganda en var almennilega hrint af stað haustið 2016. Síðan þá hefur hún gefið út smáskífur, leikið á tónleikum og gaf í vor út sína fyrstu breiðskífu ,,Rok í Reykjavík.“ Allir textar sveitarinnar eru frumsamdir og á íslensku sem færir tónlist af þessu tagi nær íslenskum áheyrendum. Um leið eru textasmíðarnar undir áhrifum töfraraunsæisins, sem einkennir bókmenntir Suður-Ameríku, í bland við íslenskan veruleika og er með þessu móti leitast við að etja saman þessum ólíku menningarheimum á nýstárlegan hátt.
Meðlimir sveitarinnar eru: Símon Karl Sigurðarson Melsteð, söngur Jakob van Oosterhaut, trompet Ólafur Ingi Finsen, trompet Björgvin Ragnar Hjálmarsson, saxófónn Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir, básúna Daníel Helgason, tres Magnús Jóhann Ragnarsson, píanó Snorri Skúlason, bassi Helge Haahr, slagverk Helgi Reyr Auðarson Guðmundsson, percussion og Sölvi Rögnvaldsson, slagverk.
Alls verða 17 tónleikar í tónleikaröðinni en tónleikadagskráin sem að vanda bæði bæði metnaðarfull og fjölbreytt er gott dæmi um þá miklu grósku sem einkennir íslenskt jazzlíf þar sem allir straumar og stefnur eiga heima. Múlinn er að hefja sitt tuttugasta og annað starfsár en hann er samstarfsverkefni Félags Íslenskra Hljómlistarmanna (FÍH) og Jazzvakningar. Klúbburinn heitir í höfuðið á Jóni Múla Árnasyni sem jafnframt var heiðursfélagi og verndari Múlans. Múlinn er styrktur af Reykjavíkurborg, Tónlistarsjóðnum og SUT sjóðnum og er í samstarfi við Hörpu og Heimstónlistarklúbbinn.
Tónleikarnir hefjast kl. 21:00 og fara fram á Björtuloftum, 5. hæð Hörpu og er miðaverð kr. 2500, 1500 kr. fyrir nemendur og eldri borgara, miðar fást í miðasölu Hörpu, harpa.is og tix.is