Föstudagur 20. september, 2024
2.8 C
Reykjavik

Stefnulaus stækkun Keflavíkurflugvallar

|
Mynd/Isavia|

Skipulagstjóri segir stækkun Keflavíkurflugvallar fyrir 90 milljarða á forsendum flugfélaga en ekki íslensks samfélags og að greiningarvinnuna vanti alveg. Stækkunin sé á „sjálfsstýringu“.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segir stækkunina á Keflavíkurflugvelli þurfa vera á hendi stjórnvalda þar sem hún varði landið allt. Hins vegar eru ákvarðanir teknar að mestu hjá skipulagsyfirvöldum á Keflavíkurflugvelli sem gangi ekki þótt ekki megi skella skuldinni á þá aðila sem fara með þetta gríðarstóra verkefni. Samfélagsleg áhrif stækkunarinnar séu ekki skoðuð og setja þurfi hana inn í samgönguáætlun.

Fram undan er um 90 milljarða uppbygging Keflavíkurflugvallar til ársins 2020. Uppbyggingin hefur verið mikil og hröð og sú þróun heldur áfram að óbreyttu.

Stækkun á sjálfstýringu

„Það hafa bara verið staðbundin stjórnvöld skipulagsmála á Keflavíkurflugvelli sem hafa metið það á hverjum tíma hvernig bregðast eigi við þeirri eftirspurn sem er á hverjum tíma frá flugfélögunum og öðrum, stækkunaráformin og framtíðarsýnin er er út frá því og flugvellinum sjálfum,“ segir Ásdís Hlökk. Íslensk stjórnvöld hafi ekki mótað stefnuna. „Hvað viljum við að þetta vaxi mikið,“ spyr Ásdís Hlökk og segir að stjórnvöld hafi ekki lagt það niður fyrir sér enn þá, stækkunin sé á sjálfstýringu.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir.

24 milljónir gesta árið 2040

Síðast þegar mótuð var samgönguáætlun komu tvær og hálf milljón ferðamanna til landsins á ári, það stefni í tíu milljónir í ár og í spám fyrir Keflavíkurflugvöll er gert ráð fyrir 24 milljónum ferðamanna árið 2040. Þetta kemur fram í máli Ásdísar. Þannig ræður stöðugt vaxandi straumur til landsins stækkun vallarins en ekki sjálf stjórn landsins.

Mikil áhrif á alla innviði

„Mikilvægi þess að fjölga gáttum inn í landið er ekki sinnt,“ segir Ásdís Hlökk enn fremur og stækkunin hafi margvísleg áhrif á alla þjónustu um landið allt, ekki bara á flugvöllinn. Hugsunin um stækkunina sé of staðbundin, þar sé bara hugsað um einn punkt sem er svæði flugvallarins sjálfs, þegar stækkunin hefur aftur á móti áhrif á ferðaþjónustuna, stærstu atvinnugreinina um allt land og alla aðra innviði, s.s. löggæslu, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og margt fleira.

„Mikilvægi þess að fjölga gáttum inn í landið er ekki sinnt.“

„Við höfum verið að benda á það að samgönguáætlun sem núna er til umfjöllunar í þinginu sé eðlilegur og sjálfsagður vettvangur til að taka þessa strategísku stóru umræðu, til að velta upp þessum sviðsmyndum, skoða áhrifin og móta sýn sem er þá til grundvallar því þegar yfirvöld á Keflavíkurflugvelli vinna svo áfram með þróun flugvallarins.“

Í dag sé í samgönguáætlun „hógvær og lítil umfjöllun um Keflavíkurflugvöll,“ segir Ásdís.

„Welcome to politics“

„Sá sem hef­ur skorað sjálfs­mark hef­ur mest­an hvata til að bæta sig og það er sterk­ur hvati sem við höf­um núna til að bæta okk­ur.“  Það er vonandi að sá sem mælti þessi orð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, taki þau til sín þótt vissulega sé léttvægt að nota hugtakið „sjálfsmark“ yfir það sem fram fór á Klaustursbarnum. Réttara væri að tala um fjölda sjálfsmarka, grófar tveggja fóta tæklingar út um allan völl og ítrekaðar tilraunir til að hagræða úrslitum leiksins. Hatrið og þörf­in fyr­ir að smána aðra til upp­hefja sjálfan sig voru með hreinum ólíkindum.

En ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá eru þetta orðin tóm hjá hinum „óskeikula leiðtoga“. Hans viðhorf til stjórnmála kristallast nefnilega í þeim orðum sem hann notaði þegar hann skólaði nýliða sinn til á barnum. „Welcome to politics, Bergþór Ólason.“ Burtséð frá þeim rætnu og fordómafullu samræðum sem þarna fóru fram þá má ekki horfa fram hjá því hvert tilefni fundarins var. Það var að narra þá Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason yfir í Miðflokkinn og þannig auka eigin völd á þinginu og um leið fjárframlög frá ríkinu. Til þess skjölluðu þeir þingmennina fram úr hófi og smættuðu konuna sem er ástæða þess að þeir eru yfirhöfuð á þingi. Sem sagt hrein og klár valdapólitík. Inn á milli mátti heyra glefsur af því hvernig þeir stunda þessa valdapólitík sína, svo sem með skipun sendiherra.

Svo eru það viðbrögð „hins óskeikula“. Fyrst var hrópað á samsæri, því næst var Gunnar Bragi Sveinsson sendur út af örkinni til að „fronta“ almenning og þá sem höfðu orðið fyrir barðinu á dónatalinu og loks sameiginleg yfirlýsing þar sem lýst var iðrun en í engu beðist afsökunar. En um leið var tækifærið nýtt til að smætta alla aðra sem á Alþingi sitja með því að segja að svona töluðu allir. Það er lítilmannlegt. Þó ekki eins lítilmannlegt og að hringja í Freyju Haraldsdóttur og reyna að telja henni trú um að þeir félagar hafi bara alls ekki gert grín að fötlun hennar, að uppnefnið Freyja Eyja hafi verið sett fram af góðum hug og að selshljóðin sem þeir ráku upp hafi verið frá stól. Og síðar reiðhjóli að bremsa. Kannski æxlaðist símtalið á þennan veg vegna þess að Freyja er kona og „spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann“.

En þessi viðbrögð „hins óskeikula“ – það er algjör skortur á auðmýkt, iðrun og aumar tilraunir til að draga aðra með sér í svaðið – eru mynstur fremur en einstakt tilvik. Ef einhver skyldi hafa gleymt því þá varð Sigmundur Davíð uppvís að því að ljúga til um aflandsfélagið sitt sem upp komst í Panamaskjölunum. Þegar það gekk ekki reyndi hann að rjúfa þing án þess að láta aðra í ríkisstjórninni vita en var hent öfugum út af þáverandi forseta. Hann hrökklaðist frá en kenndi öllum öðrum um nema sjálfum sér, sá eitt risastórt alheimssamsæri. Hann skreið ofan í holu þegar borgarstjórnarframbjóðandi spilaði út rasistatrompinu og stormaði út úr húsi þegar hann hafði tapað formannskosningu í Framsóknarflokknum. Talaði um samsæri og sást varla í Alþingishúsinu lengi vel á eftir.

Hér verður ekki gerð krafa um afsagnir. Þingmennirnir þurfa sjálfir að horfast í augu við þá niðurlægingu sem þeir bökuðu sér. Þeir þurfa að mæta í vinnuna næstu þrjú árin með því fólki sem þeir rökkuðu niður í svaðið og standa skil á orðum sínum gagnvart kjósendum. Það er hins vegar mikilvægt að kjósendur viti að upptökurnar fjalla ekki bara um eitthvert tilfallandi karlagrobb á bar. Þær leiddu nefnilega í ljós fyrir hvað Miðflokkurinn, og hinn óskeikuli leiðtogi hans, stendur fyrir.

Ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á samstarf við þetta fólk

|||
|Helga Vala Helgadóttir. Mynd / Skjáskot Hringbraut||

Andrúmsloft á Alþingi er lævi blandið þessa dagana eftir birtingar á ýmsum miður fögrum ummælum þingmannanna sex í Klausturshópnum um samstarfsfólk sitt. Mannlífi lék forvitni á að vita hvað öðrum þingmönnum fyndist um háttsemi þeirra og hvort þeir gætu hugsað sér að þurfa að vinna með þessu fólki daglega.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er ómyrk í máli þegar hún er spurð hvort hún treysti sér til að vinna með Klaustursfólki.

„Eina spurningin sem ég set fram er hvort þetta fólk sé fært um að sinna starfi sínu,“ segir Helga Vala. „Þau eiga til dæmis að veita ráðherrum aðhald með fyrirspurnum, þau eiga að sitja nefndarfundi og þingfundi en þau komu fram með þeim hætti, bæði með orðum sínum og athafnaleysi, að það er ekki hægt að bjóða ákveðnum ráðherrum og ákveðnum þingmönnum upp á það að eiga í nokkrum einustu samskiptum við þetta fólk. Og það er heldur ekki hægt að bjóða gestum, sem starfs síns vegna koma á nefndarfundi, upp á að þurfa að vinna með þeim vegna þess að þeir eru ýmist málsvarar þeirra sem níðst var á eða urðu persónulega fyrir barðinu á þeim.“

Viltu þá meina að Alþingi verði óstarfhæft ef þessir þingmenn sitja áfram?

„Það er allt hálflamað hérna nú þegar,“ segir Helga Vala. „Við vöknum með þetta í höfðinu á morgnana og sofnum með þetta á kvöldin á sama tíma og maður er að reyna að styðja góða félaga sína og koma í veg fyrir að þeir fari í leyfi. Réttlætiskennd minni er mjög misboðið og ég sé ekki að hægt sé að starfa með fólki sem kemur svona fram.“

Mjög óþægileg tilhugsun að deila vinnustað með þeim

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er ekki eins afdráttarlaus í svörum og spurð hvort hún taki mark á því þegar þingmennirnir sem um ræðir segjast skammast sín og að þeir muni læra af þessum mistökum verður hún hálfpartinn véfréttarleg.

„Ég efast ekki um að þeir þingmenn sem hafa getu til að skammast sín skammist sín og mun sú skömm vissulega fela í sér lærdóm,“ segir hún.

Varðandi það hvort hún persónulega treysti sér til að vinna með viðkomandi þingmönnum segir hún að það sé vissulega óþægileg tilhugsun.

„Mér finnst tilhugsunin um að þurfa að deila vinnustað með þessum þingmönnum mjög óþægileg,“ segir Halldóra en vill ekki fara nánar út í það.

Ekki stætt á að sitja áfram

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segist trúa því að þingmennirnir margumræddu skammist sín, en hvert framhaldið verður treystir hún sér ekki til að spá um.

„Ég á erfitt með að ímynda mér annað en að umræddir þingmenn skammist sín duglega,“ segir hún. „Ég treysti mér hins vegar ekki til að fullyrða neitt um önnur viðbrögð þeirra. Tíminn mun leiða þau í ljós.“

Spurð hvort hún geti hugsað sér að halda áfram að starfa með þessu fólki, segist hún hafa lýst þeirri skoðun sinni að sér þyki sá blettur sem þau hafa sett á sig sjálf, ruddaskapurinn sem þau hafa sýnt tilteknum samþingmönnum og sú mynd sem þau hafa að ósekju gefið af starfinu á Alþingi sé svo alvarleg að þeim sé ekki stætt á því að sitja áfram. „Jafnframt geri ég mér grein fyrir því að enginn tekur þá ákvörðun nema þingmennirnir sjálfir, og þannig vil ég hafa það.

Ég mun ekki láta þetta ljóta mál aftra mér frá því að sinna starfi mínu.“

Uppljóstrarinn af Klaustri stígur fram

|
|

„Ég er þessi Marvin sem ruggaði bátnum.“ Þetta segir uppljóstrarinn í Klaustursmálinu sem hefur nú stigið fram undir nafni.

Bára Halldórsdóttir, fötluð hinsegin kona, er Marvin, uppljóstrarinn í Klaustursmálinu.

Bára Halldórsdóttir, fötluð hinsegin kona, var stödd á Klaustri þann 20. nóvember og varð þar vitni að miður geðslegum samræðum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem snérust um samstarfsfólk þeirra á þingi. Hún segist hafa orðið sár og varla trúað því sem hún heyrði. „Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi.

„Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði.“

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hæddust umræddir þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins sérstaklega að konum, hinsegin fólki og fötluðu fólki á Klaustur Bar, en Bára tilheyrir öllum þremur hópunum, hún er með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm og er í sambandi með konu. „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði,“ segir hún um samtölin sem hún varð vitni að umrætt kvöld.

Bára segist vilja óska þess að samtal þingmannanna hefði verið einkasamtal, en þau glumdu um staðinn og hún hafi setið undir þessu. Hún segist ekki vera í nokkrum vafa um réttmæti þess að hafa hljóðritað samtal þingmannanna og komið þeim til fjölmiðla. „Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því.“

Þetta og fleira kemur fram í ítarlegu viðtali við Báru í Stundinni.

 

Fagmennska og framúrskarandi þjónusta í fyrirrúmi

Hreint og aðlaðandi umhverfi skapar vellíðan og ánægju allra og hefur það færst í vöxt að húsfélög, fyrirtæki og stofnanir kaupi sér þjónustu utanaðkomandi aðila til að sjá um almenn þrif og fleira í sameignum og stærri rýmum.

Við hjá Mannlífi fórum á stúfana og heimsóttum fyrirtækið Ræstingar.is og hittum eigandann Kristján S. Þórðarson sem kynnti fyrir okkur þá þjónustu sem þar er í boði en markmiðið þeirra er að veita persónulega, trausta og umfram allt faglega þjónustu.

Bjóðið þið ræstingaþjónustu jafnt til húsfélaga, fyrirtækja, stofnana sem og einstaklinga? „Já, við þjónustum nokkuð mikið af fyrirtækjum og einstaklingum í hverjum mánuði og virðist eftirspurn eftir slíkri þjónustu fara stöðugt vaxandi.“

Þið bjóðið upp á ýmiss konar þjónustu og sérhæfið ykkur í margvíslegum þrifum. Hvað bjóðið þið upp á auk almennra ræstinga?  „Við bjóðum upp á mjög fjölbreytt úrval þegar kemur að ræstingarþjónustu hjá okkur.  Sú þjónusta sem við bjóðum meðal annars upp á er, ræstingar sameigna, fyrirtækja og stofnana, nýbyggingarþrif, iðnaðarþrif, djúphreinsun teppa, gluggaþvottur að utan fyrir sameignir, fyrirtæki og stofnanir, einnig háþrýstiþvott á rennum, tunnum og ruslageymslum. Við bjóðum líka upp á flutningsþrif sem eru mjög vinsæl.“

Hugið þið að umhverfisvænum efnum og umhverfisvænni starfsemi almennt? „Já, öll okkar efni eru svansmerkt og við leggjum mikið upp úr því að vera með umhverfisvæna starfsemi og sýna samfélagsábyrgð í verki,“ segir Kristján.

Leggið þið mikið upp úr góðri þjónustu og samskiptum við viðskiptavini ykkar? „Góð þjónusta og góð samskipti við okkar viðskiptavini skiptir okkur öllu máli og er eitt að okkar aðalsmerkjum.“

Öll okkar efni eru svansmerkt.

Eru þið með marga fasta viðskiptavini? „Við erum með töluvert af föstum viðskiptavinum, okkar stærsti kúnnahópur eru húsfélög, þar sem við bjóðum mjög víðtæka þjónustu allt frá ræstingu til garðsláttar. Það hefur færst mjög í vöxt að húsfélög sækir sér þjónustu sem þessa sem léttir mjög á íbúum og þrifin á sameignum verða í föstum skorðum.“

Er mikið um að pantanir sem koma fyrirvaralaust hjá nýjum viðskiptavinum? „Já, við fáum þónokkuð af pöntunum á hverjum mánuði fyrirvaralaust sem við reynum alltaf að leysa hratt og vel.“

Er meira álag fyrir hátíðir eins og jólin í þrifum fyrir stofnanir og heimili? Já, það er ávallt meira álag. Það felst þó aðallega í þjónustu fyrir húsfélögin þar sem djúphreinsun á teppum er mjög vinsæl rétt fyrir jólin.“

Okkar stærsti kúnnahópur eru húsfélög

Hvert er ykkar aðalsmerki hjá fyrirtækinu? „Við sérhæfum okkur í húsfélagsþjónustu sem hefur gefist vel. Húsfélög sem eru hjá okkur geta nýtt sér mjög víðtæka þjónustu. Við bjóðum upp á ræstingu á sameign, djúphreinsun teppa, gluggaþvott, háþrýstiþvott á tunnum, rennum og sorpgeymslu svo erum við einnig með garðslátt þannig að húsfélagið getur haft allan pakkann á einum stað og nýtt sér afsláttarkjör sem við bjóðum þegar allur pakkinn er tekinn,“ segir Kristján.  „Ræstingar.is er tólf ára ræstingafyrirtæki sem hefur stækkað jafnt og þétt í gegnum árin.  Við viljum þakka öllum okkar viðskiptavinum í gegnum árin fyrir gott samstarf því án ykkar værum við ekki þar sem við erum í dag,“ segir Kristján að lokum.

Í samstarfi við Ræstingar.is
Myndir/  Aldís Pálsdóttir og úr myndasafni Ræstingu

 

 

Góðar hagtölur í viðkvæmu árferði

Mynd/Isavia

Það er ekki margt sem bendir til þess að íslenskt hagkerfi standi nú á tímamótum og sé í viðkvæmri stöðu.

Ísland hefur sjaldan eða aldrei verið í betri stöðu hvað varðar eignir og skuldir við útlönd, og afgangur af utanríkisviðskiptum er viðvarandi.

Þrátt fyrir það hefur gengi krónunnar veikst og verðbólga aukist. Hvers vegna? Áhyggjur af því að WOW air nái ekki að bjarga sér og að kjaraviðræður muni leiða til mikilla deilna og jafnvel verkfalla, eru helstu ástæðurnar fyrir því.

Versta sviðsmynd stjórnvalda gerir ráð fyrir samdrætti í efnahagslífinu sem myndi leiða til uppsagna og erfiðleika í atvinnulífinu.

Rýnt er í stöðu efnahagsmála í Mannlífi í dag og á vef Kjarnans.

Tilbúinn að fara að djöflast

|
|

Gunnar Nelson bardagaíþróttamaður berst á laugardaginn í Toronto í Kanada við Brasilíumanninn Alex Oliveira. Gunnar segir bardagann leggjast vel í sig en hann er vel undirbúinn bæði andlega og líkamlega. Alex sé hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl en margir sem hann hefur keppt við og frekar villtur miðað við marga á þessu stigi.

„Bardaginn leggst vel í mig,“ segir Gunnar. „Æfingabúðirnar hafa gengið vel, ég er tilbúinn í þetta og ánægður með andstæðinginn sem ég fékk. Ég er spenntur og tilbúinn að fara að djöflast á laugardaginn.“

Gunnar tapaði í júlí í fyrra gegn Santiago Ponzinibbio og hefur ekki barist síðan þá. Andstæðingur hans að þessu sinni, Brasilíumaðurinn Alex Oliveira, er númer 13 á heimslistanum í veltivigt eða einu sæti fyrir ofan Gunnar.

Alex er hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl heldur en margir sem ég hef keppt við.

„Alex er hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl heldur en margir sem ég hef keppt við og er frekar villtur miðað við marga á þessu stigi. Hann er árásargjarn og sækir svolítið mikið inn með höggum. Hann er með frekar miklar sveiflur og er yfirhöfuð mjög fær bardagamaður – fínn á jörðinni og fínn standandi. Hann er toppandstæðingur en vill örugglega helst halda bardaganum standandi. Það vilja fæstir fara í jörðina með mér þannig að menn vilja halda þessu standandi og nota högg og spörk þannig að maður þarf að vera vakandi fyrir svoleiðis hlutum og setja niður góðar gildrur.“

Gunnar segir að hver bardagi sé sá mikilvægasti hverju sinni og skipti öllu máli upp á framhaldið. „Það er ekkert annað en full einbeiting á það sem er næst og svona bardagi skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar maður kemur eftir tap – ekki það að ég spái mikið í það en þessi bardagi skiptir bara öllu máli.“

Hálfpartinn núllstillir sig

Gunnar segist hafa æft stíft undanfarna mánuði. „Ég hef undanfarna tvo mánuði æft svona 10-12 sinnum í viku. Þrjár af þeim æfingum eru hreinar þrekæfingar og lyftingar en hvað aðrar æfingar varðar þá hef ég verið að æfa mig í ákveðnum aðstæðum sem tengjast íþróttinni – ég er þá kannski að glíma eða æfa kickbox og síðan blanda ég þessu öllu saman. Þetta er misjafnt; sumar æfingar eru meira tækniæfingar en aðrar eru meira viðbragðsæfingar og þrek í leiðinni þar sem ég tek vel á því. Þetta hef ég sem sagt gert síðastliðna tvo mánuði og er nú kominn til Kanada og er tilbúinn.“

„Ég er spenntur og tilbúinn að fara að djöflast á laugardaginn,“ segir Gunnar.

Gunnar segir andlegan undirbúning líka skipta máli. „Ég þekki sjálfan mig og ég veit hvernig mér finnst best að haga mér dagsdaglega þegar ég er að æfa og síðan í hvaða hugarástandi ég vil vera þegar fer að nálgast bardagann og náttúrlega þegar að honum kemur. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að vera tiltölulega rólegur og afslappaður en þá finnst mér ég bregðast langbest við og vera með bestu viðbrögðin í rauninni, til dæmis þegar maður þarf að taka snöggar ákvarðanir og hreyfa sig hratt og örugglega.

Maður hálfpartinn núllstillir sig þegar maður er að fara þarna inn og ég spái ekki sérstaklega í neitt.

Andlegur undirbúningur kemur með reynslunni, maður lærir á sjálfan sig og hvernig manni finnst vera best að haga sér þegar nær dregur bardaganum. Það hjálpar gríðarlega mikið upp á allar æfingar ef manni líður vel, er með gott fólk í kringum sig og ef góð stemning er í æfingabúðunum. Þegar nær dregur bardaganum þá spái ég lítið í hann; ég dreifi huganum. Ég er núna að bíða eftir bardaganum og þegar kemur að því að fara inn í búrið snýst þetta fyrst og fremst, í mínu tilfelli, um að vera afslappaður, rólegur og treysta á sjálfan mig og hornamennina mína og ef ég er afslappaður og einbeittur þá tek ég réttar ákvarðanir og bregst hratt og örugglega við. Maður hálfpartinn núllstillir sig þegar maður er að fara þarna inn og ég spái ekki sérstaklega í neitt nema ef maður þarf snögglega að breyta um leikáætlun eða setja eitthvað upp öðruvísi.“

Bruce Lee og Jackie Chan

Gunnar segir að hann hafi haft áhuga á bardagaíþróttum frá því hann man eftir sér. Þess má geta að Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, er framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Mjölnis sem hefur þann tilgang að efla ástundun og keppni lifandi bardagaíþrótta. „Ég hafði gaman af því að horfa á bíómyndir með Bruce Lee og Jackie Chan og síðan byrjaði ég í karate þegar ég var 13 ára og fór aðeins að fá að tuskast. Ég fann strax að þetta höfðaði mikið til mín.“

Gunnar segir að það að æfa og keppa í bardagaíþróttum sé það sem hann elski að gera og að honum líði vel meðan á æfingum og keppnum stendur.

„Þetta er eitthvað sem ég hef gríðarlegan áhuga á og mér finnst vera gaman að finna út úr alls konar aðstæðum og vandamálum sem tengjast bardagaíþróttum og sem tengist því að þjálfa skrokkinn á mér til þess að takast á við þessar aðstæður. Þetta gefur mér einhverja ástæðu. Það er ekkert annað sem lætur mér líða svona. Þetta á svo hrikalega stóran part í mér.“

Gunnar segir að langtímamarkmiðið sé fyrst og fremst að bæta sig og auðvitað að halda áfram að vinna bardaga. „Ég einbeiti mér að því að bæta mig, verða sífellt betri og skilja í rauninni íþróttina betur og bæta á mig einhverjum vopnum. Það sem mér finnst vera skemmtilegast er þegar ég finn að ég er að öðlast einhvern skilning og tilfinningu fyrir einhverju sem ég hafði kannski ekki áður.“

Sársaukinn venst

Gunnar segir að sársaukinn sem getur fylgt íþróttinni sé eitthvað sem venjist þegar tekist er á. „Það er hægt að meiða sig í hvaða íþrótt sem er og kannski ekki síst þessari íþrótt þar sem eru mikil átök. Það er ekki eitthvað sem stoppar mann þótt eitthvað sé smásárt. Þetta venst og húðin þykknar og maður herðist af því að vera að djöflast svona dagsdaglega og takast á en sársauki er, held ég, ekki eitthvað sem margir spá í sem stunda þessa íþrótt. Ég held að það séu frekar þeir sem hafa ekki verið í þessari íþrótt og eru að horfa á þetta utan frá sem halda að þetta hljóti að vera rosalega vont. En þegar á hólminn er komið og maður þekkir til og er kominn með smáreynslu þá er sársaukinn ekkert sérstakt atriði.“

Þar sem ég var meiddur á tímabili og þurfti að taka mér hlé, hefur þetta ár svolítið snúist um að ná sér góðum.

Gunnar segir að sársaukinn sé þess virði. „Þótt maður meiði sig eitthvað smá … Þetta er eitthvað sem er inngróið í okkur frá örófi alda því maðurinn hefur alltaf tekist á. Þetta er í eðli okkar.“

Talið berst þá aftur að bardaganum sem er fram undan, viðureigninni við Alex Oliveira. „Þar sem ég var meiddur á tímabili og þurfti að taka mér hlé, hefur þetta ár svolítið snúist um að ná sér góðum og fara inn í þennan bardaga. Annars er ég bara spenntur fyrir þessu og tilbúinn í slaginn.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Barnadagur UNICEF haldinn á morgun í Lindex

||
||

Á morgun, laugardaginn 8. desember, verður UNICEF dagurinn haldinn í verslun Lindex í Smáralind frá kl 13:00-16:00. Dagurinn var í fyrsta sinn haldinn í fyrra og heppnaðist vel þannig að ákveðið var að endurtaka leikinn í ár.

Það verður líf og fjör í verslun Lindex í Smáralind á morgun en jólasveinninn mætir á svæðið og geta gestir og gangandi fengið mynd af sér með honum. Hægt verður að lita jólakort í föndurhorninu og krakka-karíókí verður í boði með þeim Þórunni Antóníu og Dóru Júlíu. Einnig mun starfsfólk UNICEF bjóða börnum og fullorðnum upp á skemmtilega fræðslu og sýna hvernig hjálpargögn keypt á Íslandi geta nýst börnum í neyð.

UNICEF á Íslandi og Lindex hafa verið samstarfsaðilar til fjölda ára og amstarfið hefur í heildinna skilað 25 milljónum fyrir börn um allan heim, meðal annars í gegnum sölu á Sönnum gjöfum í öllum verslunum Lindex fyrir jólin.

Viðskiptavinir Lindex hafa tekið mjög vel í jólaátakið síðustu ár og hafa yfir 6.000 Sannar gjafir selst hjá Lindex frá upphafi sem UNICEF hefur notað í þágu barna þar sem þörfin er mest.

Öll börn eiga rétt á menntun

Sannar gjafir eru hjálpargögn sem bæta líf barna um allan heim. Í verslunum Lindex eru hjálpargögn á borð við hlý teppi, vatnshreinsitöflur, vítamínbætt jarðhnetumauk og ormalyf til sölu sem falleg jólakort. Íslensku jólasveinarnir prýða kortin, en þeir stilltu sér allir upp með sín uppáhalds hjálpargögn og Brian Pilkington teiknaði þá. UNICEF mun síðan sjá til þess að koma hjálpargögnunum til þeirra barna sem á þurfa að halda.

Okkur þykir mjög vænt um þetta samstarf og erum viðskiptavinum og starfsfólki Lindex ævinlega þákklát.

„Það var mikil gleði og gaman á UNICEF deginum í fyrra og við vonumst til þess að fólk sem á leið í Smáralind kíki við og fræðist um það hvernig hægt er að hjálpa börnum í neyð nú um jólin,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastýra hjá UNICEF á Íslandi. „Okkur þykir mjög vænt um þetta samstarf og erum viðskiptavinum og starfsfólki Lindex ævinlega þákklát fyrir að hjálpa okkur að útvega hjálpargögn fyrir börn sem búa nú við erfiðar aðstæður,“ bætir Ingibjörg við.

Jólakortin verða til sölu á morgun í Lindex.

Yfir 6 þúsund Sannar gjafir selst hjá Lindex

Viðskiptavinir Lindex hafa tekið mjög vel í jólaátakið síðustu ár og hafa yfir 6.000 Sannar gjafir selst hjá Lindex frá upphafi sem UNICEF hefur notað í þágu barna þar sem þörfin er mest. Jafngildir það um 1,5 milljón skammta ormalyfjum eða 400 skólar í kassa til þess að börn sem búa í flóttamannabúðum geti haldið áfram námi að sögn Lóu Dagbjartar Kristjánsdóttur, umboðsaðila Lindex á Íslandi.

„Samstarf okkar við UNICEF hefur verið mikilvægur þáttur í samfélagsverkefnum sem við látum okkur varða hjá Lindex og við erum sérlega stolt og ánægð að þessi jól munum við munum í krafti okkar frábæru viðskiptavina sækja fast að 30 milljóna króna markinu í baráttunni fyrir bættum hag barna í heiminum,” segir Lóa.

Jólakortin verða til sölu á laugardaginn en einnig er hægt að versla Sannar gjafir í vefverslun UNICEF og vefveslun lindex.is.

Klausturshópur á ögrandi olíumálverki

|
|

Listmálarinn Þrándur Þórarinsson hefur fengið góð viðbrögð við nokkuð ögrandi olíumálverki þar sem hann túlkar Klausturmálið.

Listmálarinn Þrándur Þórarinsson afhjúpaði í dag stórt málverk þar sem hann túlkar Klausturmálið svokallaða. Frá því á sunnudaginn seinasta hefur hann málað dag og nótt en verkið kláraði hann í nótt. „Ég hef lítið annað gert en að mála síðan ég byrjaði.“

Verkið sem um ræðir er 125 x 100 cm. á stærð. Það er málað í olíu.

Ég hef lítið annað gert en að mála síðan ég byrjaði.

Síðan hann afhjúpaði verkið fyrr í dag hefur hann fengið mikil viðbrögð, öll jákvæð. Spurður út í hvort hann hafi orðið var við að einhverjum þyki verkið of gróft segir hann: „nei, ég hef ekki orðið var við það.“ Þess má geta að verkið sýnir m.a. Sigmund Davíð beran að neðan, en á lim hans má sjá minni útgáfu af andliti hans.

„Það verður samt spennandi að sjá hvort Facebook taki þetta út. Það væri áhugavert að vera fluga á vegg á fundi Facebook,“ segir hann og hlær.

Spurður út í hvort verkið, sem er til sýnis í Gallery Port, sé til sölu segir hann: „Já, það er til sölu. Ég er reyndar ekki búinn að gera upp við mig hvað það á að kosta.“

Verkið sem um ræðir er 125 x 100 cm. á stærð. Það er mála í olíu.

Pólitísk líf Sigmundar búin

„Eins og kötturinn í tunnunni sem allir vilja berja á,“ segir fyrrverandi þingmaður um þingmenn Miðflokksins í Klaustursupptökunum.

Fyrrverandi þingmennirnir, Karl Garðarsson ritstjóri og fréttastjóri, og Róbert Marshall fjölmiðlamaður telja Sigmund Davíð búinn með sín pólitísku líf eftir Klausturshneykslið.

Þetta sögðu þeir m.a. í Ritstjórunum á Hringbraut. Karl telur að Gunnar Bragi og Bergþór Ólason geti haldið áfram á þingi en þeir séu rúnir trausti, eins og Sigmundur Davíð. Engir úr öðrum flokkum munu hafa áhuga á að vinna meira með þeim. Útskúfunin bíði þeirra.

„Þessir menn eru orðnir eins og kötturinn í tunnunni sem allir vilja berja,“ segir Róbert og telur Miðflokkinn og Flokk fólksins fjara út sama hvað.

Karl telur þó að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, muni á endanum græða á því að hafa rekið Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason úr flokknum, fólk muni muna það við næstu kosningar að hún hafi hreinsað til og gengið rösklega fram.

Höfundur / Linda Blöndal

Frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði varhugaverð

|
Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta seldi Björn Ingi alla fjölmiðla félagsins út úr félaginu|

Þegar samþjöppun er mikil í eignarhaldi fjölmiðla eða fákeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði er hættan sú að umfjöllun verði einsleit og heilindi fjölmiðla sé stofnað í hættu. Kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf., á Póstmiðstöðinni ehf. gefur tilefni til að velta fyrir sér stöðu fjölmiðla hér á landi.

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í upplýstu lýðræðissamfélagi. Þeir veita valdhöfum og stórfyrirtækjum landsins aðhald og þjóna almannahagsmunum með að stuðla að upplýstri, vandaðri umræðu. Þess vegna hafa fjölmiðlar verið nefndir fjórða valdið. Þegar samþjöppun er mikil í eignarhaldi eða fákeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði er hættan sú að umfjöllun verði einsleit og heilindi fjölmiðla sé stofnað í hættu, einkum ef sterk tengsl eru á milli eiganda fjölmiðlafyrirtækja og ráðandi stjórnmálaafla- eða afla, þeirra sem styðja tiltekna stefnu umfram aðra.

Slík staða ýtir undir að fjölmiðlar séu nýttir til að reka stjórnmálaáróður í þágu eiganda. Það er því afar mikilvægt að samfélagið styðji við fjölbreytni fjölmiðla, líkt og er eitt af markmiðum fjölmiðlalaga, og að opinberir aðilar átti sig á að fjölmiðlar eru að þessu leyti ólíkir venjulegum fyrirtækjum. Þannig sé stutt við að þeim sé kleift að sinna sínu hlutverki án áhrifa frá fyrirtækjum, stofnunum eða tengsla við tiltekna stjórnmálaflokka.

Umfjöllunin átti erindi við almenning

Nýlegt dæmi af afar umdeildu lögbanni Stundarinnar af fréttaflutningi um viðskipti þáverandi þingmanns, og núverandi fjármálaráðherra, í aðdraganda efnahagshrunsins upp úr Glitnisgögnunum svokölluðu hafa vakið upp spurningar um stöðu fjölmiðla hér á landi. Lögbanninu var hafnað í héraðsdómi meðal annars með vísan til þess að umfjöllunin hafi átt erindi við almenning.

Sú niðurstaða var samþykkt af Landsrétti í byrjun október, rúmu ári eftir að lögbannið tók gildi. Tímapunktur lögbannsins einn og sér gefur tilefni til vangaveltna um hvort þöggun ætti sér stað í aðdraganda kosninga en lögbann er viðurhlutamikil íhlutun í tjáningarfrelsið. Líklegt er að þessi aðgerð hafi jafnframt haft fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir Stundina. Spurning er hvort þetta ferli gefi tilefni til þess að leitað verði til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar, með þeim fyrirvara þó að höfundi er ekki ljóst hvort skilyrði fyrir málshöfðun séu uppfyllt.

Gætu misbeitt stöðu sinni

Annað mál gefur tilefni til að velta fyrir sér stöðu fjölmiðla hér á landi varðandi samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Fyrir nokkrum dögum samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf., á Póstmiðstöðinni ehf. með tilteknum skilyrðum. Þessi tvö félög gefa út Fréttablaðið og Morgunblaðið og með kaupum á Póstmiðstöðinni sameina blöðin dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst en áður voru dreifikerfi þeirra aðskilin.

Eftir kaupin er aðeins einn annar dreifiaðili í boði, Íslandspóstur, en ef blað á að koma út viku- eða daglega er erfitt að nýta sér þjónustu hans. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á þessum kaupum leiddi í ljós augljósa hættu á þessari tilhögun: nú gætu þessi tvö blöð misbeitt stöðu sinni gagnvart keppinautum sem eru m.a. Mannlíf og Stundin t.d. með að hefta aðgang þeirra að dreifikerfi Póstmiðstöðvarinnar, með verðlagningu eða öðrum leiðum.

Í stað þess að hafna kaupunum vegna þessarar hættu eru þau heimiluð með skilyrðum á grundvelli þess fjárhagslega hagræðis sem næst í dreifingu, en Póstmiðstöðinni verður m.a. óheimilt að útiloka aðila frá viðskiptum og er gert skylt að setja upp almenna verðskrá.

Engin fyrirmæli eru um hvert innihald slíkrar verðskrá á að vera, en ef eigandinn er sá sami skiptir að endingu ekki máli fyrir þessa tvo aðila hvert verðið er. Aðeins er um að ræða tilfærslu fjármuna úr einum vasanum í annan.

Dýrt að dreifa

Dreifing er iðulega einn dýrasti kostnaðarliður prentmiðils, mögulega fyrir utan launakostnað. Ef verð hækkar getur það þrengt rekstrarskilyrði fjölmiðils, þannig að honum sé ekki lengur kleift að starfa og það getur einnig haft áhrif á gæði og efni upplýsinga. Samkvæmt sáttinni ef brotið er á skilyrðum Samkeppniseftirlitsins, t.d. við samtvinnun á prenti og dreifingu, eiga viðurlög að fara samkvæmt samkeppnislögum. Málarekstur fyrir Samkeppniseftirlitinu er iðulega tímafrekur og ekkert sem útilokar að prentmiðill hrökklist af markaði á meðan.

Dreifing er iðulega einn dýrasti kostnaðarliður prentmiðils.

Markmið með skilyrðum er að gæta jafnræðis og koma í veg fyrir að þrengt sé að keppinautum. Það er góðra gjalda vert. En þessi skilyrði gera það ekki, ef raunverulegur vilji er til staðar að hindra útgáfu annarra blaða eða gera þeim það erfiðara fyrir. Það verður því aðeins að treysta að svo verði ekki. Þá ber að nefna að ef kaupin eru byggð á hagkvæmnisrökum, ætti dreifing að verða ódýrari fyrir alla aðra viðskiptavini ef jafnræði og hlutleysi er gætt.  Það verður líka að koma í ljós hvort það verði raunin.

Forsvarsmenn 365 hf. sagðir vilja kaupa Ísafold

Loks ber að nefna að í dag eru tveir aðilar á markaði sem hafa burði til að prenta dagblöð, Árvakur og Ísafold. Samkvæmt heimildum Mannlífs hafa forsvarsmenn 365 hf. einnig gert tilraun til að kaupa síðarnefndu prentsmiðjuna. Með sameiningu á dreifikerfi ásamt þeim kaupum væri því allt prent- og dreifikerfi íslenskra fjölmiðla í höndum ráðandi aðila á markaði. Það gefur augaleið að sú staða er afar varhugaverð.

Á undanförnum misserum hafa smærri fjölmiðlar líkt og Stundin verið að setja mál á dagskrá sem varða mikilvæga almannahagsmuni sem aðrir stærri miðlar hafa ekki gert, líkt og lögbannsmálið ber vitni um sem og nýlegar Klausturupptökur. Vegna þess mikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna fyrir opna lýðræðislega umræðu og að uppræta spillingu hlítur að vega mjög þungt að samfélagið styðji við fjölbreytni fjölmiðla nú sem áður og opinberar stofnanir fari varlega við að heimila frekari samþjöppun hjá aðilum sem nú þegar eru markaðsráðandi.

Málið getur haft margvíslegar pólitískar afleiðingar

Í kjölfar Klaustursfundarins margumrædda hafa verið uppi háværar kröfur um opinbera rannsókn málsins og hugsanlegar játningar þingmanna á lögbrotum. Eiga þær kröfur við rök að styðjast?

„Ég sé ekki fyrir mér beinar lagalegar afleiðingar fyrir störf þingsins eða þingmennina en hins vegar vekur þetta upp alvarlegar siðferðilegar spurningar um viðhorf og dómgreind þeirra sem tóku þátt í umræðunni. Um leið varpar málið rýrð á Alþingi og grefur undan trausti almennings á stjórnmálamönnum almennt. Því getur málið haft margvíslegar pólitískar afleiðingar,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, spurð út í þetta.

„Þingmenn njóta sérstöðu um upphaf og lok starfa. Aðeins kjósendur taka ákvörðun í þeim efnum. Jafnvel þótt þingmenn hafi fengið dóm fyrir alvarleg refsiverð brot þá getur enginn vikið þeim úr þingmannsstarfinu. Háttsemi þessara þingmanna er siðferðislega ámælisverð en ekki verður séð að nein lög hafi verið brotin. Nú er beðið eftir niðurstöðu siðanefndar. Hún getur þó ekki ákveðið nein viðurlög í starfi þótt siðareglur hafi verið brotnar. Í framhaldinu er það algerlega komið undir þingmönnunum sjálfum hvort þeir telja sér siðferðislega stætt á að sitja lengur eða hvort þeir segja af sér. Hins vegar verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir búi yfir góðu siðgæði og hafi siðferðilegan styrk, meiri en gerist og gengur.“

Eins og ég sagði eru þingmenn mjög sjálfstæðir í starfi og ekki háðir fyrirmælum frá neinum yfirboðara.

Er hugsanlegt að breyta þurfi þingsköpum til að setja fastmótaðri reglur um leyfi þingmanna?

„Eins og ég sagði eru þingmenn mjög sjálfstæðir í starfi og ekki háðir fyrirmælum frá neinum yfirboðara. Auk þess eru reglur sem tryggja að varamenn komi inn fyrir þá ef þeir eru forfallaðir frá störfum. Þannig á það ekki að koma niður á störfum þingsins, hvorki málefnalega né heldur í kostnaði fyrir þingið eða almannafé, ef þeir taka sér launalaust leyfi af hvaða ástæðum sem er, persónulegum eða öðrum. Ég er ekki viss um að þetta mál eitt eigi að leiða til endurskoðunar á þeim reglum sem eru til staðar sem veita ákveðinn sveigjanleika í þessum efnum.“

Hafi Gunnar Bragi brotið af sér eru brotin fyrnd

Er hugsanlegt að einn þingmannanna hafi játað á sig brot á hegningarlögum með ummælum um hrossakaup í sendiherraskipunum?

„Eins og lýsingin er á umræðu um sendiherraskipanir áttu þessir atburðir sér stað í ráðherratíð Gunnars Braga á árinu 2014. Hér er því álitamál hvort um brot ráðherra í starfi sé að ræða, einkum 128. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um háttsemi sem felur í sér mútur og spillingu. Burtséð frá efni ummælanna verður að hafa í huga að mál vegna embættisbrota ráðherra falla undir sérreglur um ráðherraábyrgð og landsdóm og verða aðeins höfðuð samkvæmt ákvörðun Alþingis. Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð frá árinu 1963 verður Alþingi að höfða mál gegn ráðherra innan þriggja ára frá því brot var framið, eða innan sex mánaða frá því næstu alþingiskosningar eftir brot var framið. Mér sýnist því ljóst að meint brot í ráðherratíð Gunnars Braga séu fyrnd. Hitt er svo annað mál að þessi ummæli ein og sér eru ólíkleg til sakfellis fyrir embættisbrot. Þau eru ekki af þeim styrkleika og sett fram í því samhengi að erfitt yrði að sanna ásetning manna til að fremja brot.“

Spurð hvort það sem sagt var á þessari samkomu gefi tilefni til opinberrar rannsóknar, svarar Björg að það verði ekki séð að það sem þingmenn sögðu almennt í umræðunni feli í sér lögbrot.

„Þótt ummælin sem slík séu ærumeiðandi fyrir þá sem fjallað var um verður að hafa í huga að þau komu fram í einkasamtölum milli manna sem ekki var ásetningur til að birta eða dreifa opinberlega. Birting ummælanna, sem tekin voru upp með leynd og komu fram í einkasamtali, er því ótvírætt inngrip í friðhelgi einkalífs þingmannanna.

Það er erfitt að líða þjóðkjörnum fulltrúum slíka framkomu.

Ummælin fela fyrst og fremst í sér áfellisdóm yfir þeim mönnum sem eiga í hlut, aðallega alvarlegan siðferðisbrest. Það er erfitt að líða þjóðkjörnum fulltrúum slíka framkomu. En eins og ég sagði áðan þá eru þau takmörk sett í lögum, einmitt til að vernda sjálfstæði þingmanna gagnvart ólögmætum afskiptum, að þeim verður ekki vikið úr starfi. Aðeins kjósendur geta ákveðið að hafna þeim þegar kemur að næstu kosningum.“

Þú átt sem sagt ekki von á því að þessi fundur og þau ummæli sem þar féllu hafi neinar afleiðingar til lengri tíma litið?

„Ekki beinar lagalegar afleiðingar eins og ég nefndi fyrr. En vonandi mun þetta hafa á áhrif á að þingmenn átti sig á stöðu sinni og mikilvægi þess að persónuleg breytni þeirra skiptir miklu máli fyrir ímynd Alþingis og traust almennings til þess. Það hefur komið fram í umræðunni að það sé alkunna að þingmenn tali svona sín í milli, sem ég trúi nú ekki að sé rétt. Sé eitthvað til í því verður að draga þann lærdóm af þessu máli að menn þurfa að endurskoða viðhorf sín, háttsemi og ummæli, sýna dómgreind og veita sjálfum sér aðhald.“

Aðsend mynd/ Kristinn Ingvarsson

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Villtist inn í leiklistina

|
|

Lára Jóhanna Jónsdóttir er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann, enda segist hún hafa verið raungreinanörd á yngri árum og ekkert sérstaklega gefin fyrir það að draga að sér athyglina.

Þrátt fyrir að hafa verið að leika í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu nánast stöðugt síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 er Lára tiltölulega óþekkt stærð í augum íslensku þjóðarinnar og eftir að við höfum komið okkur þægilega fyrir, pantað te og kaffi og viðhaft eitthvað innihaldslítið snakk um daginn og veginn liggur beinast við að að fyrsta spurningin sé einfaldlega: Hver er Lára Jóhanna Jónsdóttir?

Það kemur pínulítið á Láru, hún átti greinilega ekki von á þessari spurningu, en hún gerir samt sem áður sitt besta til að svara. „Ég er 34 ára gömul leikkona og hef verið að stússast í hinu og þessu í gegnum tíðina,“ segir hún hugsi.

„Ég ólst upp í Breiðholtinu nánast alla mína bernsku. Alveg frá því að ég var þriggja ára og fram á fullorðinsár. Reyndar fluttum við til London og bjuggum þar í tvö ár þegar ég var níu og tíu ára, en svo bara fórum við aftur í Breiðholtið. Núna bý ég reyndar í Vesturbænum með kærustunni minni og sex ára dóttur minni og er á föstum samningi við Þjóðleikhúsið.“

Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit.

Þrátt fyrir að hafa verið leika heilmikið í stóru leikhúsunum árum saman hefur Lára lítið leikið í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en hún nánast helltist yfir þjóðina í hlutverki Magneu í kvikmyndinni Lof mér að falla og Jóhönnu í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátu. Hvernig er að vera allt í einu orðin þekkt andlit?

„Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit,“ segir Lára og fer hjá sér. „Mér fannst mjög gaman að vera með í báðum þessum verkum og það er dýrmæt reynsla. Það var svolítið erfitt að leika í Lof mér að falla því handritið er unnið út frá sögum raunverulegs fólks, bæði sögum kvenna sem eru eða hafa verið í neyslu og sögu Kristínar Gerðar sem svipti sig lífi eftir hrikalega reynslu sem tengdist neyslu hennar. Það gefur myndinni meira vægi í mínum huga og það er líka auðveldara fyrir mann sem leikara að gera það sem maður þarf alltaf að gera, að trúa sögunni þegar maður veit að hún er byggð á reynslu raunverulegs fólks.“

Lára þekkti ekki fíkniefnaheiminn af eigin reynslu áður en hún byrjaði að vinna við myndina. „Ég hef alveg kynnst fólki sem hefur verið í neyslu, en ekki þannig að það hafi verið nálægt mér persónulega og ég hafi þurft að takast á við neyslu þess. Ég hef bara horft á þetta úr fjarlægð.“

Varst þú sem sagt algjör fyrirmyndarunglingur í Breiðholtinu? „Jaaaaá,“ segir Lára og hugsar sig um. „Við í mínum hópi vorum voða róleg. Ég var enginn rosa djammari og prófaði aldrei nein efni eða neitt í þá áttina. Ég er sennilega bara frekar róleg týpa. Var eiginlega hálfgert nörd sem barn og unglingur. Alltaf í einhverjum pælingum sem flestar tengdust raungreinum sem mér fundust skemmtilegastar af öllu í skólanum.“

Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla.

Æskudraumar hennar tengdust því ekki að verða leikkona. „Nei, nei, nei,“ segir Lára ákveðin.

„Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla. Ég tók alltaf þátt í einhverjum leikatriðum með krökkunum í blokkinni á vorhátíðum, en ég var ekki týpan sem tróð upp í matarboðum. Áhugi minn á leiklist kviknaði eiginlega meira út frá félagsskapnum sem var í leikfélaginu í M.S. Þar byrjaði ég líka að hafa áhuga á að standa á sviði. Það var alltaf svo gaman í kringum allar leiksýningar. Krakkarnir í leikfélaginu urðu hópurinn minn og út frá því fór ég að hafa áhuga á að búa eitthvað til. Ég hafði alltaf lifað mig rosalega inn í það að horfa á leikhús, en áhuginn á því að vera með í að búa til leiksýningu kom eftir á. Þannig að ég slysaðist eiginlega inn á þessa braut.“

Lára byrjaði í læknisfræði við Háskóla Íslands en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana.

Leikarar tala gjarnan um brennandi leiklistarbakteríu og Lára slapp ekki við hana. „Ég fékk hana alveg eftir að ég datt inn í þennan heim og þá fyrst varð þetta virkilega æðislegt,“ segir hún og hlær. „En ekki einu sinni á menntaskólaárunum ætlaði ég mér að verða leikkona. Ég sá mig alltaf fyrir mér sem einhvers konar vísindamann. Ég var á eðlisfræðibraut í M.S. og var þar alveg í kjöraðstæðum. Hitt var meira svona hliðaráhugasvið.“

Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar.

Spurð nánar út í árin sem Lára bjó í London sem barn, hvort það hafi verið erfitt fyrir níu ára gamla stúlku að flytja í framandi umhverfi og tala ekki einu sinni tungumálið segir Lára: „Jú, það var erfitt,“ segir hún hreinskilnislega.

„Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar. Ég bara þagði þangað til ég kunni málið og þá fór ég að tala. Ég er samt mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa reynslu. Það var dálítið mikið öðruvísi að vera barn á Englandi en á Íslandi, allavega á þessum tíma. Ég fór bara í skólann í hverfinu sem var pínulítill og krúttlegur, og fílaði mig mjög vel þar á endanum. Var með dásamlegan kennara og andrúmsloftið var mjög fallegt.“

Fékk ársfrí frá læknisfræðinni

Foreldrar Láru eru bæði kennarar en hún segist aldrei hafa haft áhuga á því að leggja kennslu fyrir sig. Hún er yngst fjögurra systkina en hún segist samt ekki vera neitt dekurbarn, enda sé stutt á milli þeirra. Í samræmi við raungreinaáhugann byrjaði Lára í læknisfræði við Háskóla Íslands, en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana og hún fór tvisvar í inntökupróf við sviðslistadeild Listaháskólans.

Hún segist heldur ekki hafa orðið fyrir þrýstingi frá foreldrum sínum um það að leggja eitthvað sérstakt starf fyrir sig, það hafi alfarið verið hennar ákvörðun að skrá sig í læknisfræði í Háskólanum. „Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir því að velja leiklistina fram yfir læknisfræðina. „Nei, aldrei,“ segir hún af sannfæringu og hristir höfuðið ákaft. „Það getur vel verið að einhverjar aðrar leiðir hefðu verið praktískari og góðar líka, en ég hugsaði ekkert um það. Hér er ég og það er fínt. Ég myndi ekki vilja vera annars staðar.“

Tveimur árum eftir útskrift úr Listaháskólanum eignaðist Lára dóttur sína með þáverandi kærasta. Þá var hún á samningi hjá Borgarleikhúsinu og þegar hún komst að því að hún væri ófrísk var hún byrjuð að sýna í hlutverki Dóróteu í Galdrakarlinum í Oz.

Hún segir það hafa verið heilmikið mál að fela óléttubumbuna á síðustu sýningunum enda var hún komin sjö mánuði á leið þegar þar var komið sögu. „Ég get svo svarið það að óléttubumban varð ekki áberandi fyrr en eftir síðustu hneigingu,“ segir hún og skellihlær. „En mér þykir dálítið vænt um að dóttir mín skuli hafa verið með mér á sviðinu heilan vetur.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Ert þú ekki stelpan í íslensku peysunni?

Lára Jóhanna Jónsdóttir

Þótt leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir hafi ekki verið áberandi í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en núna undanfarið varð andlit hennar þó heimsþekkt í auglýsingu sem gerð var af Inspired by Iceland til að trekkja að ferðamenn eftir gosið í Eyjafjallajökli.

Það hlýtur að hafa verið skrítin tilfinning að vera stoppuð af túristum út á götu eins og kvikmyndastjarna. „Það var nú kannski ekki alveg þannig,“ segir Lára og brosir.

„Þetta var eitthvað sem ég datt bara inn í. Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt. Þetta kom reyndar til fyrir algjöra slysni. Það þurfti að seinka tökum og stelpan sem átti að gera þetta var farin til útlanda þegar að því kom að taka myndbandið upp. Þá var hringt í mig vegna þess að ég hafði búið í Bretlandi og er með breskan hreim. Ég var alveg til í það, enda var mér sagt að þetta yrði bara eitthvað lítið vídeó sem yrði ekki einu sinni sýnt í sjónvarpinu heldur bara á YouTube, svo ég stressaði mig voða lítið á þessu. Þetta var tekið upp 2010, árið sem ég útskrifaðist, svo það má segja að þetta hafi verið fyrsta verkefnið mitt sem útskrifuð leikkona. Svo bara fór myndbandið ansi víða og það er ekkert langt síðan túristarnir hættu að stoppa mig og spyrja hvort ég væri ekki stelpan þarna í íslensku peysunni. Það var mjög skemmtilegt verkefni.“

Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt.

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Tók mér aldrei tíma til að vera góð við mig

Þótt leiklistin eigi hug leikkonunnar Láru Jóhönnu Jónsdóttur nánast allan hefur hún þó fleiri áhugamál, hún er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. Svo notar hún tónlist til að kjarna sig.

Lára Jóhanna hefur undanfarið fengið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Í Flateyjargátu leikur Lára einstæðu móðurina Jóhönnu og eflaust ekki einfalt að setja sig inn í tíðaranda þess tíma sem þættirnir gerast á. „Ég var náttúrlega ekki fædd á þessum tíma og get ekki sett mig inn í hvernig fólk hugsaði þá,“ segir hún.

„Nema auðvitað út frá handritinu, eins og maður gerir alltaf. Það er nefnilega á endanum þannig að allt sem maður er að fjalla um er í handritinu þannig að ég reyni bara að tengja við söguna sem við erum að segja. Hún inniheldur allt sem þetta samfélag var að takast á við. Ég lagðist ekki mikið í einhverjar sögulegar pælingar, nema hvað ég kynnti mér sögu femínista á þessum tíma  og hlustaði á franska tónlist frá tímabilinu, þar sem karakterinn er að flytja heim frá París þegar þættirnir byrja. Ég er mjög mikið með tónlist í eyrunum á tökustað til að kjarna mig, annars stekkur hugurinn bara út um allt og það er erfitt að einbeita sér.“

Þegar Lára er spurð hvort hún hafi lesið bókina Flateyjargátan, fer hún pínulítið hjá sér og segist ekki vita hvort hún eigi að vera að uppljóstra því, en nei hún hafi aldrei lesið hana.

Ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið.

„Ég byrjaði reyndar að lesa hana og var komin vel á veg þegar ég áttaði mig á því að karakterarnir í bókinni og karakterarnir í þáttunum eru mjög ólíkir. Þannig að ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið. Ég er mjög spennt fyrir að lesa hana samt og geri það kannski núna þegar ég hef tíma. Þetta er svo stórt hlutverk og ég þurfti að nýta tímann vel til að setja mig inn í þetta þannig að ég vildi ekki sóa tíma í eitthvað sem kæmi ekki að gagni, mér fannst það bara rugla mig hvað þessir karakterar eru ólíkir.“

Lára fer með lítið hlutverk í annarri seríu af Ófærð sem verður frumsýnd um jólin en annað er ekki væntanlegt á skjáinn frá henni. Hún er nú á fullu að æfa í sýningunni Þitt eigið leikrit eftir bekkjarbróður hennar úr Listháskólanum, Ævar Þór Benediktsson.

Það er ansi erfitt hlutverk, þar sem áhorfendur fá að velja framvindu verksins. „Ég er ekki hundrað prósent viss um töluna en ég held það séu 36 útgáfur af leikritinu sem við þurfum að læra,“ útskýrir hún. „Það verður frumsýnt í lok janúar og ég er rosalega spennt að taka þátt í þessu. Síðan fer ég að æfa í uppfærslu Stefans Metz á Loddaranum, Tartuffe, sem verður frumsýnd í vor. Annað er ekki komið á dagskrána hjá mér ennþá, enda er þetta feykinóg til að takast á við í bili.“

Jóga kennir manni hvað skiptir máli

Þótt leiklistin eigi hug hennar nánast allan hefur Lára þó fleiri áhugamál, er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. „Ég kenni reyndar ekkert núna,“ segir hún.

„Ég kenndi svolítið á tímabili en það fer bara ekki vel saman við vinnuna mína. Það byrjaði með því að ég fór í kundalini-jógatíma og bara heillaðist algjörlega af því. Það var í fyrsta sinn sem ég kynntist því að veita sjálfri mér nokkurs konar helgistundir í daglega lífinu. Ég hafði aldrei tekið mér tíma til að vera bara í núinu og vera góð við sjálfa mig. Mér fannst jógakennaranámið eiginlega bara rökrétt framhald. Ég hafði aldrei verið í neinum andlegum pælingum, ég var svo mikill nörd og jógað setti hlutina í samhengi fyrir mér.“

Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga

„En ég stunda alls konar jóga og allan þann lífsstíl sem tengist því; fer í jógatíma og hugleiði, mæti á möntrukvöld og svo framvegis. Eitt af því sem heillar mig við jógað er að þar kynnist maður félagslífi sem er dálítið ólíkt því sem maður er vanur, til dæmis syngjum við mikið saman sem er eitthvað sem maður gerir yfirleitt ekki nema vera í kór. Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga en ég borða rosa sjaldan kjöt, kannski fimm sinnum á ári, og er mjög meðvituð um að borða sem minnst af því, en auðvitað breytir jógað lífsstílnum heilmikið. Ég held að það hafi haft mjög djúpstæð áhrif á mig að læra jóga, ekki bara á lífsstílinn heldur líka á lífssýnina, á það hvernig maður tæklar hlutina og hvernig maður metur hvað það er sem skiptir máli. Mér finnst það eiginlega stærsta gjöfin sem jógað hefur gefið mér. Ekki það að vera í súperformi eða vera ótrúlega liðug, heldur meira bara slaki gagnvart lífinu almennt.“

Þrátt fyrir að jógaiðkun geti kennt fólki hvað skiptir máli í lífinu, segir Lára erfitt að svara því hvað skipti hana máli. „Það er erfitt að svara því þannig að það meiki sens,“ segir Lára hikandi.

„En ég er til dæmis mjög lítið fyrir það að setja mér markmið eða að ætla að ná eitthvert eða sjá fyrir mér hvar ég verð eftir einhvern ákveðinn tíma. Það er auðvitað frábært ef maður hefur virkilega drauma um að komast eitthvert ákveðið, en mér finnst jógað hafa kennt mér að ekkert skiptir í raun og veru máli – og ég meina það í jákvæðum skilningi. Engin ein ákvörðun skiptir máli heldur eru það allar 170 ákvarðanirnar sem þú tekur á hverjum degi sem móta líf þitt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli þegar upp er staðið. Það virkar alla vega fyrir mig að vera ekki á þönum við að fylla upp í einhverja mynd af því hvernig maður heldur að lífið eigi að vera, heldur bara að leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru og muna að það sem maður er að gera í dag er nóg. Að bara vanda sig við hvert einasta verkefni, það nægir. Að vera bara hér og nú í góðum samskiptum við fólk og vera ekki alltaf að reyna að hafa allt frábært. Það þarf ekkert alltaf allt að vera eitthvað ótrúlega æðislegt, heldur er æðislegast þegar hlutirnir eru venjulegir. Stundum gef ég hlutum of mikið vægi og verð stressuð yfir þeim en ef ég tek aðeins úr sambandi og skoða stóra samhengið þá eru hlutir sjaldnast eins mikilvægir og maður heldur.“

Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi.

Lára segist ekki hafa drauma um að komast á samning í Hollywood og slá í gegn á heimsmælikvarða. „Nei, alls ekki,“ segir hún og hristir höfuðið. „Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi. En ef það gerist ekki þá verð ég náttúrlega bara að búa mér til eitthvað annað að gera. Það nægir mér alveg. Frægð og frami heilla mig ekki. Aðalatriðið er að vera sátt í deginum, hvað sem hann býður mér upp á. Njóta þess að vera með dóttur minni og kærustunni að gera hversdagslega hluti saman. Það er alveg nóg.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

Fagurkerar landsins og áhugafólk um matargerð kannast eflaust margt hvert við Maríu Gomez, snillingin á bakvið heimasíðuna Paz.is. Heimilis-og uppskriftavefurinn hefur vaxið ört á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hún tók af skarið og opnaði hann, eftir að hafa gengið með hugmyndina lengi í maganum.

Vefurinn og vinnan á bakvið Paz.is sameinar mörg af helstu áhugamálum Maríu en hún leggur áherslu á einfaldleika bæði í eldamennsku og þegar kemur að skreytingum á heimilinu. Sjálf hefur María gengið í gegnum margt í lífinu, en tilvera hennar hefur tekið stakkaskiptum þónokkrum sinnum í gegnum tíðina.

Mynd / Unnur Magna

María á ættir að rekja til Spánar og bjó þar fyrstu árin en faðir hennar er spænskur og móðir hennar íslensk. Fimm ára gömul fór hún til Íslands í jólafrí með móður sinni en dvölin lengdist og fór það svo að þær snéru ekki til baka og hófu nýtt líf á Íslandi.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið upphaflegt plan hjá henni að snúa aldrei aftur,“ segir María um ákvörðun móður hennar.

„Það varð úr að hún hringdi í pabba og skildi við hann í gegnum símann. Þá voru tímarnir aðrir, dýrt að fljúga milli landa, langlínusímtöl rosalega dýr og heimurinnn svo miklu stærri og fjarlægðin meiri en er í dag þar sem hægt er að ferðast ódýrt milli landa og spjalla tímunum saman gegnum snjallsímaforrit án þess að það kosti krónu.“

María segir þetta hafa haft bæði góð og slæm áhrif á sig. „Ég var auðvitað búin að tengjast spænsku fjölskyldunni minni sterkum böndum og kunni bara spænsku. Ég var því alveg mállaus þegar við fluttum til landsins en skildi íslenskuna vel og var því fljót að ná henni.

 

Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

María Gomez prýðir forsíðu Vikunnar

Íslenska fjölskyldan mín var mér alveg ókunn nema afi minn sem við fluttum til, ég hugsa að það hafi bjargað mér alveg að hafa búið hjá honum fyrst um sinn með mömmu. Hann var yndislegur og hafði mikla ást á mér, við vorum mjög náin þar til hann dó þegar ég var níu ára. Á þessum tíma var erfitt að vera hálfur útlendingur, Ísland var ekki þetta fjölmenningarsamfélag sem við þekkjum í dag. Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

Ég var líka mjög dökk miðað við íslensk börn. Ég tók þetta afar nærri mér, vildi ekki vera öðruvísi og hætti því alveg að tala spænsku og kenndi mig á tímabili við þáverandi stjúpa minn. Það entist þó ekki lengi því ég er og verð alltaf Gomez.  Ég hef alltaf fundið til mikils söknuðar til spænsku fjölskyldunnar, menningarinnar og matarins en ég er miklu líkari spænska fólkinu mínu og hef alltaf haldið góðum samskiptum við það. Ég hef aldrei tengst íslensku móðurfjölskyldu minni og er í ekki í sambandi við neinn nema móðurömmu og hálfsystur móður minnar, sem ég hef mikið dálæti á.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Maríu, en í nýjasta tölublaði Vikunnar má lesa það í heild sinni. Þar má að auki finna uppskriftir frá Maríu af jólamat fjölskyldunnar og myndir af glæsilegu jólaboði sem hún hélt fyrir Vikuna. 

Myndir / Unnur Magna

Ljótur sannleikurinn á bak við vinsælt leikfang frá Disney

|
|

Breski miðilinn The Guardian hefur nú birt ítarlega umfjöllun um aðbúnað starfsfólks í leikfangaverksmiðjunni Wah Tung í Heyuan í Kína. Úttektina vann The Guardain í samvinnu við samtökin Solidar Suisse og vinnueftirlit Kína.

Eitt af því sem kemur fram í grein The Guardian um málið er að fyrir þessi jól rjúka Aríel-dúkkur frá Disney úr hillum leikfangabúða. Disney-dúkkurnar eru framleiddar í Wah Tung-verksmiðjunni. Samkvæmt grein The Guardian framleiðir verksmiðjan einnig Fisher Price leikföng og önnur vinsæl leikfangamerki.

Aríel-dúkkan kostar 35 pund í breskum leikfangabúðum sem gerir um 5.500 krónur. En samkvæmt reiknidæmi The Guardian fær starfsmaður í verksmiðjunni ekki nema eitt penní, sem gerir tæpar tvær krónur, í sinn vasa fyrir vinnu sína á hverja dúkku. Þetta er niðurstaðan ef miðað er við það tímakaup sem starfsfólk verksmiðjunnar er með og þann tíma sem fer í að vinna hverja og eina dúkku.

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig The Guardian áætlar hvernig gróðanum er skipt.

Skjáskot af vef The Guardian.

Rannsakandi á vegum The Guardian heimsótti verksmiðjuna fyrr á þessu ári og þá kom ýmislegt upp úr krafsinu. Meðal annars að starfsfólk verksmiðjunnar vinnur afar langa vinnudaga á algjörum lágmarkslaunum, um 133 krónum á dag. Launin eru svo lág að starfsfólk neyðist til að vinna mikla yfirvinnu.

Starfsfólk á ekki rétt á veikindadögum og vinnuaðstæður eru almennt slæmar. Starfsmaður greindi þá frá því að starfsfólk ætti á hættu að vera sektað eða rekið ef það tekur sér meira en þrjá veikindadaga á mánuðu.

Stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær.

Dauðþreytt vegna langra vinnudaga nýtir starfsfólk sér matar- og kaffihlé til að leggja sig eins og sjá má á myndum sem birtust með umfjöllun The Guardian.

Í dagbók eins rannsakandans kemur fram að margir starfsmenn verksmiðjunnar eru  ómenntaðar eldri konur. „Þær vinna vandlega og hratt en stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær,“ segir í dagbókarfærslunni.

Disney er hluti af alþjóðlegu Ethical Toy Program-samtökunum (ETP) en markmið þess er meðal annars að tryggja gott vinnuumhverfi þeirra sem starfa í leikfangaverksmiðjum.

Í grein The Guardian kemur fram að ETP hafi nú hafið sína eign rannsókn á aðbúnaði og launum starfsfólks Wah Tung-verksmiðjunnar.

Umfjöllunina og myndir úr verksmiðjunni má sjá í heild sinni á vef The Guardian.

Hætti í læknisfræði fyrir leiklistina

Sem barn átti Lára Jóhanna Jónsdóttir sér þann draum að verða vísindamaður þegar hún yrði stór en villtist fyrir slysni inn í leiklistina. Frægð og frami heilla hana þó ekki og hún er alsæl með að lifa bara í hversdeginum.

Leikkonan Lára Jóhanna er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann.

Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni.

„Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Lára Jóhanna prýðir forsíðu nýjast tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun. Lestu viðtalið við Láru í heild sinni í Mannlífi.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar um 2.419

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar á meðan þeim sem skráðir eru utan trúfélaga fjölgar.

Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 2.419 manns síðastliðna tólf mánuði samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Á vef Hagstofunnar kemur fram að þann 1. desember voru 232.672 einstaklingar skráðir í  Þjóðkirkjuna miðað við 235.091 fyrir ári. Þetta er fækkun upp á 1,0%.

Á sama tímabili hefur fjölgað um 512 manns í kaþólska söfnuðinum og um 536 manns í Siðmennt. Nokkur aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu en um 400 manna aukning varð í félaginu á þessu ári.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar varð þá mest hlutfallsleg aukning í Stofnun múslima á Íslandi eða um 122,1%  sem er fjölgun um 105 meðlimi. Í dag er 191 félagi í trúfélaginu.

Zúistum fækkar

Félagsmönnum fækkaði hlutfallslega mest í trúfélaginu Zuism eða um 306 manns sem er 15,8% fækkun. Einnig fækkaði í trúfélögunum Íslensk kristin þjóð og Bænahúsinu.

Þá vekur athygli að þeim sem eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga fjölgar um 9,9% á einu ári. Núna eru alls 24.763 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Botninum náð í stjórnmálum?

||
||

Eftir frekar tíðindalítið haust í íslenskum stjórnmálum má segja að Klaustursmálið hafi sett allt á annan endann í íslensku samfélagi í síðustu viku. Mögulega fagna stjórnarflokkarnir málinu að einhverju leyti. Sem dæmi birti Fréttablaðið könnun í gær sem sýndi fylgishrun Miðflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að koma sér undan erfiðum málum eftir að núverandi ríkisstjórn þeirra með Vinstri grænum komst til valda fyrir rúmu ári síðan. Má þar nefna mál Sigríðar Andersen, kjaraviðræður ljósmæðra og umræðu um veiðigjöld en þessi þrjú mál hafa hvílt meira á herðum Vinstri grænna.

Guðlaugur Þór. Mynd / Alþingi

Nú standa spjót á Guðlaugi Þór Þórðarssyni, utanríkisráðherra og áhugavert þykir að sjá hvernig hann tekst á við ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, um að hann eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Washington. Guðlaugur Þór þykir fimur í erfiðri umræðu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti í gær að kalla Bjarna, Guðlaug Þór, Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir nefndina vegna ummæla Gunnars Braga um sendiherraskipun er hann gegndi starfi utanríkisráðherra.  Enn sem komið er hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið tiltölulega litla athygli eftir að upptökur frá Klaustursfundi fóru að birtast í fjölmiðlum í síðustu viku.

Þó umrætt mál kunni að vera heppilegt fyrir núverandi stjórnarflokka dregur það hins vegar enn frekar úr tiltrú almennings á þingmönnum Alþingis. Gert er ráð fyrir þinglokum þann 5. júní á næsta ári. Klaustursmálið hefur vissulega náð að skyggja á önnur mikilvæg mál eins og fjárlög, kjaraviðræður, erfiða stöðu á húsnæðismarkaði og umræðu um veiðigjöld svo nokkur séu nefnd.

En ef haldið er áfram að velta fyrir sér Klaustursmálinu þá er það samdóma álit viðmælanda að viðbrögðin frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni hafa verið afleit. Sigmundur Davíð hefur vissulega lengi átt í deilum við fjölmiðla en álit almennings  í hans garð hefur hugsanlega sjaldan verið minna.

Þó Gunnar Bragi hafi þótt auðmjúkur í viðtölum daginn sem málið kom upp hefur almenningi þótt litla iðrun að sjá frá honum og Sigmundi. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og fyrrum aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, virðist hafa náð að koma sér betur undan slæmri umfjöllun. Þá telja margir að ólíklegt að Gunnar Bragi og Bergþór snúi aftur til starfa á Alþingi.

Mun virðing kvenna aukast?

Eftir að málið kom upp hefur verið vakin athygli á hversu lítill flokkur Miðflokkurinn er. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjölda almannatengla á sínum snærum virðist forysta Miðflokksins vera fámennur hópur í kringum Sigmund Davíð. Í umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið rætt um þá veiku tilfinningu sem fámennur hópurinn hefur fyrir því hvernig bregðast á við neikvæðri umfjöllun.

Sú mikla kvenfyrirlitning sem þingmennirnir hafa sýnt á meðan samtal þeirra átti sér stað á Klaustur hefur skapað mikla reiði hjá almenningi. Má telja líklegt að þó þetta mál sé ekki hefðbundið þingmál séu þetta tímamót þar sem virðing fyrir konum muni aukast í stjórnmálum.

Skýr skilaboð Lilju

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra þótti mjög ákveðin í viðtali hjá Kastljósi í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir. Mynd / Alþingi

„Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því. Þannig að það eru önnur vonbrigði. Svona gera menn ekki,“ var eitt af því sem Lilja sagði. Lítur hún á ummæli þeirra um sig sem ofbeldi og líkt og áður kom fram gæti orðið mjög erfitt fyrir Gunnar Braga og Bergþór að mæta þingkonum ef þeir snúa aftur til baka frá leyfi.

Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt

Margt fólk vonar nú að þetta mál verða til þess að vinnubrögð batni hjá þeim þingflokkum sem nú sitja á Alþingi. Vantraust almennings hefur líklega sjaldan verið meira. Er ekki að sjá að tiltrú á stjórnmálamönnum hafi batnað undanfarið ár þó núverandi ríkisstjórn hafi lifað af sitt fyrsta starfsár. Áhugavert verður að sjá hver örlög þingmannanna sem komu saman á Klaustri verða á endanum.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Stefnulaus stækkun Keflavíkurflugvallar

|
Mynd/Isavia|

Skipulagstjóri segir stækkun Keflavíkurflugvallar fyrir 90 milljarða á forsendum flugfélaga en ekki íslensks samfélags og að greiningarvinnuna vanti alveg. Stækkunin sé á „sjálfsstýringu“.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, segir stækkunina á Keflavíkurflugvelli þurfa vera á hendi stjórnvalda þar sem hún varði landið allt. Hins vegar eru ákvarðanir teknar að mestu hjá skipulagsyfirvöldum á Keflavíkurflugvelli sem gangi ekki þótt ekki megi skella skuldinni á þá aðila sem fara með þetta gríðarstóra verkefni. Samfélagsleg áhrif stækkunarinnar séu ekki skoðuð og setja þurfi hana inn í samgönguáætlun.

Fram undan er um 90 milljarða uppbygging Keflavíkurflugvallar til ársins 2020. Uppbyggingin hefur verið mikil og hröð og sú þróun heldur áfram að óbreyttu.

Stækkun á sjálfstýringu

„Það hafa bara verið staðbundin stjórnvöld skipulagsmála á Keflavíkurflugvelli sem hafa metið það á hverjum tíma hvernig bregðast eigi við þeirri eftirspurn sem er á hverjum tíma frá flugfélögunum og öðrum, stækkunaráformin og framtíðarsýnin er er út frá því og flugvellinum sjálfum,“ segir Ásdís Hlökk. Íslensk stjórnvöld hafi ekki mótað stefnuna. „Hvað viljum við að þetta vaxi mikið,“ spyr Ásdís Hlökk og segir að stjórnvöld hafi ekki lagt það niður fyrir sér enn þá, stækkunin sé á sjálfstýringu.

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir.

24 milljónir gesta árið 2040

Síðast þegar mótuð var samgönguáætlun komu tvær og hálf milljón ferðamanna til landsins á ári, það stefni í tíu milljónir í ár og í spám fyrir Keflavíkurflugvöll er gert ráð fyrir 24 milljónum ferðamanna árið 2040. Þetta kemur fram í máli Ásdísar. Þannig ræður stöðugt vaxandi straumur til landsins stækkun vallarins en ekki sjálf stjórn landsins.

Mikil áhrif á alla innviði

„Mikilvægi þess að fjölga gáttum inn í landið er ekki sinnt,“ segir Ásdís Hlökk enn fremur og stækkunin hafi margvísleg áhrif á alla þjónustu um landið allt, ekki bara á flugvöllinn. Hugsunin um stækkunina sé of staðbundin, þar sé bara hugsað um einn punkt sem er svæði flugvallarins sjálfs, þegar stækkunin hefur aftur á móti áhrif á ferðaþjónustuna, stærstu atvinnugreinina um allt land og alla aðra innviði, s.s. löggæslu, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og margt fleira.

„Mikilvægi þess að fjölga gáttum inn í landið er ekki sinnt.“

„Við höfum verið að benda á það að samgönguáætlun sem núna er til umfjöllunar í þinginu sé eðlilegur og sjálfsagður vettvangur til að taka þessa strategísku stóru umræðu, til að velta upp þessum sviðsmyndum, skoða áhrifin og móta sýn sem er þá til grundvallar því þegar yfirvöld á Keflavíkurflugvelli vinna svo áfram með þróun flugvallarins.“

Í dag sé í samgönguáætlun „hógvær og lítil umfjöllun um Keflavíkurflugvöll,“ segir Ásdís.

„Welcome to politics“

„Sá sem hef­ur skorað sjálfs­mark hef­ur mest­an hvata til að bæta sig og það er sterk­ur hvati sem við höf­um núna til að bæta okk­ur.“  Það er vonandi að sá sem mælti þessi orð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, taki þau til sín þótt vissulega sé léttvægt að nota hugtakið „sjálfsmark“ yfir það sem fram fór á Klaustursbarnum. Réttara væri að tala um fjölda sjálfsmarka, grófar tveggja fóta tæklingar út um allan völl og ítrekaðar tilraunir til að hagræða úrslitum leiksins. Hatrið og þörf­in fyr­ir að smána aðra til upp­hefja sjálfan sig voru með hreinum ólíkindum.

En ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá eru þetta orðin tóm hjá hinum „óskeikula leiðtoga“. Hans viðhorf til stjórnmála kristallast nefnilega í þeim orðum sem hann notaði þegar hann skólaði nýliða sinn til á barnum. „Welcome to politics, Bergþór Ólason.“ Burtséð frá þeim rætnu og fordómafullu samræðum sem þarna fóru fram þá má ekki horfa fram hjá því hvert tilefni fundarins var. Það var að narra þá Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason yfir í Miðflokkinn og þannig auka eigin völd á þinginu og um leið fjárframlög frá ríkinu. Til þess skjölluðu þeir þingmennina fram úr hófi og smættuðu konuna sem er ástæða þess að þeir eru yfirhöfuð á þingi. Sem sagt hrein og klár valdapólitík. Inn á milli mátti heyra glefsur af því hvernig þeir stunda þessa valdapólitík sína, svo sem með skipun sendiherra.

Svo eru það viðbrögð „hins óskeikula“. Fyrst var hrópað á samsæri, því næst var Gunnar Bragi Sveinsson sendur út af örkinni til að „fronta“ almenning og þá sem höfðu orðið fyrir barðinu á dónatalinu og loks sameiginleg yfirlýsing þar sem lýst var iðrun en í engu beðist afsökunar. En um leið var tækifærið nýtt til að smætta alla aðra sem á Alþingi sitja með því að segja að svona töluðu allir. Það er lítilmannlegt. Þó ekki eins lítilmannlegt og að hringja í Freyju Haraldsdóttur og reyna að telja henni trú um að þeir félagar hafi bara alls ekki gert grín að fötlun hennar, að uppnefnið Freyja Eyja hafi verið sett fram af góðum hug og að selshljóðin sem þeir ráku upp hafi verið frá stól. Og síðar reiðhjóli að bremsa. Kannski æxlaðist símtalið á þennan veg vegna þess að Freyja er kona og „spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann“.

En þessi viðbrögð „hins óskeikula“ – það er algjör skortur á auðmýkt, iðrun og aumar tilraunir til að draga aðra með sér í svaðið – eru mynstur fremur en einstakt tilvik. Ef einhver skyldi hafa gleymt því þá varð Sigmundur Davíð uppvís að því að ljúga til um aflandsfélagið sitt sem upp komst í Panamaskjölunum. Þegar það gekk ekki reyndi hann að rjúfa þing án þess að láta aðra í ríkisstjórninni vita en var hent öfugum út af þáverandi forseta. Hann hrökklaðist frá en kenndi öllum öðrum um nema sjálfum sér, sá eitt risastórt alheimssamsæri. Hann skreið ofan í holu þegar borgarstjórnarframbjóðandi spilaði út rasistatrompinu og stormaði út úr húsi þegar hann hafði tapað formannskosningu í Framsóknarflokknum. Talaði um samsæri og sást varla í Alþingishúsinu lengi vel á eftir.

Hér verður ekki gerð krafa um afsagnir. Þingmennirnir þurfa sjálfir að horfast í augu við þá niðurlægingu sem þeir bökuðu sér. Þeir þurfa að mæta í vinnuna næstu þrjú árin með því fólki sem þeir rökkuðu niður í svaðið og standa skil á orðum sínum gagnvart kjósendum. Það er hins vegar mikilvægt að kjósendur viti að upptökurnar fjalla ekki bara um eitthvert tilfallandi karlagrobb á bar. Þær leiddu nefnilega í ljós fyrir hvað Miðflokkurinn, og hinn óskeikuli leiðtogi hans, stendur fyrir.

Ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á samstarf við þetta fólk

|||
|Helga Vala Helgadóttir. Mynd / Skjáskot Hringbraut||

Andrúmsloft á Alþingi er lævi blandið þessa dagana eftir birtingar á ýmsum miður fögrum ummælum þingmannanna sex í Klausturshópnum um samstarfsfólk sitt. Mannlífi lék forvitni á að vita hvað öðrum þingmönnum fyndist um háttsemi þeirra og hvort þeir gætu hugsað sér að þurfa að vinna með þessu fólki daglega.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er ómyrk í máli þegar hún er spurð hvort hún treysti sér til að vinna með Klaustursfólki.

„Eina spurningin sem ég set fram er hvort þetta fólk sé fært um að sinna starfi sínu,“ segir Helga Vala. „Þau eiga til dæmis að veita ráðherrum aðhald með fyrirspurnum, þau eiga að sitja nefndarfundi og þingfundi en þau komu fram með þeim hætti, bæði með orðum sínum og athafnaleysi, að það er ekki hægt að bjóða ákveðnum ráðherrum og ákveðnum þingmönnum upp á það að eiga í nokkrum einustu samskiptum við þetta fólk. Og það er heldur ekki hægt að bjóða gestum, sem starfs síns vegna koma á nefndarfundi, upp á að þurfa að vinna með þeim vegna þess að þeir eru ýmist málsvarar þeirra sem níðst var á eða urðu persónulega fyrir barðinu á þeim.“

Viltu þá meina að Alþingi verði óstarfhæft ef þessir þingmenn sitja áfram?

„Það er allt hálflamað hérna nú þegar,“ segir Helga Vala. „Við vöknum með þetta í höfðinu á morgnana og sofnum með þetta á kvöldin á sama tíma og maður er að reyna að styðja góða félaga sína og koma í veg fyrir að þeir fari í leyfi. Réttlætiskennd minni er mjög misboðið og ég sé ekki að hægt sé að starfa með fólki sem kemur svona fram.“

Mjög óþægileg tilhugsun að deila vinnustað með þeim

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er ekki eins afdráttarlaus í svörum og spurð hvort hún taki mark á því þegar þingmennirnir sem um ræðir segjast skammast sín og að þeir muni læra af þessum mistökum verður hún hálfpartinn véfréttarleg.

„Ég efast ekki um að þeir þingmenn sem hafa getu til að skammast sín skammist sín og mun sú skömm vissulega fela í sér lærdóm,“ segir hún.

Varðandi það hvort hún persónulega treysti sér til að vinna með viðkomandi þingmönnum segir hún að það sé vissulega óþægileg tilhugsun.

„Mér finnst tilhugsunin um að þurfa að deila vinnustað með þessum þingmönnum mjög óþægileg,“ segir Halldóra en vill ekki fara nánar út í það.

Ekki stætt á að sitja áfram

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, segist trúa því að þingmennirnir margumræddu skammist sín, en hvert framhaldið verður treystir hún sér ekki til að spá um.

„Ég á erfitt með að ímynda mér annað en að umræddir þingmenn skammist sín duglega,“ segir hún. „Ég treysti mér hins vegar ekki til að fullyrða neitt um önnur viðbrögð þeirra. Tíminn mun leiða þau í ljós.“

Spurð hvort hún geti hugsað sér að halda áfram að starfa með þessu fólki, segist hún hafa lýst þeirri skoðun sinni að sér þyki sá blettur sem þau hafa sett á sig sjálf, ruddaskapurinn sem þau hafa sýnt tilteknum samþingmönnum og sú mynd sem þau hafa að ósekju gefið af starfinu á Alþingi sé svo alvarleg að þeim sé ekki stætt á því að sitja áfram. „Jafnframt geri ég mér grein fyrir því að enginn tekur þá ákvörðun nema þingmennirnir sjálfir, og þannig vil ég hafa það.

Ég mun ekki láta þetta ljóta mál aftra mér frá því að sinna starfi mínu.“

Uppljóstrarinn af Klaustri stígur fram

|
|

„Ég er þessi Marvin sem ruggaði bátnum.“ Þetta segir uppljóstrarinn í Klaustursmálinu sem hefur nú stigið fram undir nafni.

Bára Halldórsdóttir, fötluð hinsegin kona, er Marvin, uppljóstrarinn í Klaustursmálinu.

Bára Halldórsdóttir, fötluð hinsegin kona, var stödd á Klaustri þann 20. nóvember og varð þar vitni að miður geðslegum samræðum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem snérust um samstarfsfólk þeirra á þingi. Hún segist hafa orðið sár og varla trúað því sem hún heyrði. „Mér bara brá svo þegar ég heyrði hvernig þingmennirnir töluðu. Satt best að segja trúði ég ekki mínum eigin skilningarvitum. Svo ég byrjaði bara að taka upp, án þess að hugsa það neitt lengra. En því meira sem ég hlustaði, því reiðari varð ég, því þarna voru saman komnir valdamiklir menn að spúa hatri yfir minnihlutahópa á almannavettvangi.

„Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði.“

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hæddust umræddir þingmenn Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokknum, og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins sérstaklega að konum, hinsegin fólki og fötluðu fólki á Klaustur Bar, en Bára tilheyrir öllum þremur hópunum, hún er með sjaldgæfan gigtarsjúkdóm og er í sambandi með konu. „Ég er fötluð hinsegin kona og mér blöskraði,“ segir hún um samtölin sem hún varð vitni að umrætt kvöld.

Bára segist vilja óska þess að samtal þingmannanna hefði verið einkasamtal, en þau glumdu um staðinn og hún hafi setið undir þessu. Hún segist ekki vera í nokkrum vafa um réttmæti þess að hafa hljóðritað samtal þingmannanna og komið þeim til fjölmiðla. „Ég held að það hafi verið rétt að upplýsa almenning um það sem þarna fór fram og eftir á að hyggja er ég stolt af því.“

Þetta og fleira kemur fram í ítarlegu viðtali við Báru í Stundinni.

 

Fagmennska og framúrskarandi þjónusta í fyrirrúmi

Hreint og aðlaðandi umhverfi skapar vellíðan og ánægju allra og hefur það færst í vöxt að húsfélög, fyrirtæki og stofnanir kaupi sér þjónustu utanaðkomandi aðila til að sjá um almenn þrif og fleira í sameignum og stærri rýmum.

Við hjá Mannlífi fórum á stúfana og heimsóttum fyrirtækið Ræstingar.is og hittum eigandann Kristján S. Þórðarson sem kynnti fyrir okkur þá þjónustu sem þar er í boði en markmiðið þeirra er að veita persónulega, trausta og umfram allt faglega þjónustu.

Bjóðið þið ræstingaþjónustu jafnt til húsfélaga, fyrirtækja, stofnana sem og einstaklinga? „Já, við þjónustum nokkuð mikið af fyrirtækjum og einstaklingum í hverjum mánuði og virðist eftirspurn eftir slíkri þjónustu fara stöðugt vaxandi.“

Þið bjóðið upp á ýmiss konar þjónustu og sérhæfið ykkur í margvíslegum þrifum. Hvað bjóðið þið upp á auk almennra ræstinga?  „Við bjóðum upp á mjög fjölbreytt úrval þegar kemur að ræstingarþjónustu hjá okkur.  Sú þjónusta sem við bjóðum meðal annars upp á er, ræstingar sameigna, fyrirtækja og stofnana, nýbyggingarþrif, iðnaðarþrif, djúphreinsun teppa, gluggaþvottur að utan fyrir sameignir, fyrirtæki og stofnanir, einnig háþrýstiþvott á rennum, tunnum og ruslageymslum. Við bjóðum líka upp á flutningsþrif sem eru mjög vinsæl.“

Hugið þið að umhverfisvænum efnum og umhverfisvænni starfsemi almennt? „Já, öll okkar efni eru svansmerkt og við leggjum mikið upp úr því að vera með umhverfisvæna starfsemi og sýna samfélagsábyrgð í verki,“ segir Kristján.

Leggið þið mikið upp úr góðri þjónustu og samskiptum við viðskiptavini ykkar? „Góð þjónusta og góð samskipti við okkar viðskiptavini skiptir okkur öllu máli og er eitt að okkar aðalsmerkjum.“

Öll okkar efni eru svansmerkt.

Eru þið með marga fasta viðskiptavini? „Við erum með töluvert af föstum viðskiptavinum, okkar stærsti kúnnahópur eru húsfélög, þar sem við bjóðum mjög víðtæka þjónustu allt frá ræstingu til garðsláttar. Það hefur færst mjög í vöxt að húsfélög sækir sér þjónustu sem þessa sem léttir mjög á íbúum og þrifin á sameignum verða í föstum skorðum.“

Er mikið um að pantanir sem koma fyrirvaralaust hjá nýjum viðskiptavinum? „Já, við fáum þónokkuð af pöntunum á hverjum mánuði fyrirvaralaust sem við reynum alltaf að leysa hratt og vel.“

Er meira álag fyrir hátíðir eins og jólin í þrifum fyrir stofnanir og heimili? Já, það er ávallt meira álag. Það felst þó aðallega í þjónustu fyrir húsfélögin þar sem djúphreinsun á teppum er mjög vinsæl rétt fyrir jólin.“

Okkar stærsti kúnnahópur eru húsfélög

Hvert er ykkar aðalsmerki hjá fyrirtækinu? „Við sérhæfum okkur í húsfélagsþjónustu sem hefur gefist vel. Húsfélög sem eru hjá okkur geta nýtt sér mjög víðtæka þjónustu. Við bjóðum upp á ræstingu á sameign, djúphreinsun teppa, gluggaþvott, háþrýstiþvott á tunnum, rennum og sorpgeymslu svo erum við einnig með garðslátt þannig að húsfélagið getur haft allan pakkann á einum stað og nýtt sér afsláttarkjör sem við bjóðum þegar allur pakkinn er tekinn,“ segir Kristján.  „Ræstingar.is er tólf ára ræstingafyrirtæki sem hefur stækkað jafnt og þétt í gegnum árin.  Við viljum þakka öllum okkar viðskiptavinum í gegnum árin fyrir gott samstarf því án ykkar værum við ekki þar sem við erum í dag,“ segir Kristján að lokum.

Í samstarfi við Ræstingar.is
Myndir/  Aldís Pálsdóttir og úr myndasafni Ræstingu

 

 

Góðar hagtölur í viðkvæmu árferði

Mynd/Isavia

Það er ekki margt sem bendir til þess að íslenskt hagkerfi standi nú á tímamótum og sé í viðkvæmri stöðu.

Ísland hefur sjaldan eða aldrei verið í betri stöðu hvað varðar eignir og skuldir við útlönd, og afgangur af utanríkisviðskiptum er viðvarandi.

Þrátt fyrir það hefur gengi krónunnar veikst og verðbólga aukist. Hvers vegna? Áhyggjur af því að WOW air nái ekki að bjarga sér og að kjaraviðræður muni leiða til mikilla deilna og jafnvel verkfalla, eru helstu ástæðurnar fyrir því.

Versta sviðsmynd stjórnvalda gerir ráð fyrir samdrætti í efnahagslífinu sem myndi leiða til uppsagna og erfiðleika í atvinnulífinu.

Rýnt er í stöðu efnahagsmála í Mannlífi í dag og á vef Kjarnans.

Tilbúinn að fara að djöflast

|
|

Gunnar Nelson bardagaíþróttamaður berst á laugardaginn í Toronto í Kanada við Brasilíumanninn Alex Oliveira. Gunnar segir bardagann leggjast vel í sig en hann er vel undirbúinn bæði andlega og líkamlega. Alex sé hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl en margir sem hann hefur keppt við og frekar villtur miðað við marga á þessu stigi.

„Bardaginn leggst vel í mig,“ segir Gunnar. „Æfingabúðirnar hafa gengið vel, ég er tilbúinn í þetta og ánægður með andstæðinginn sem ég fékk. Ég er spenntur og tilbúinn að fara að djöflast á laugardaginn.“

Gunnar tapaði í júlí í fyrra gegn Santiago Ponzinibbio og hefur ekki barist síðan þá. Andstæðingur hans að þessu sinni, Brasilíumaðurinn Alex Oliveira, er númer 13 á heimslistanum í veltivigt eða einu sæti fyrir ofan Gunnar.

Alex er hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl heldur en margir sem ég hef keppt við.

„Alex er hörkubardagamaður, með öðruvísi stíl heldur en margir sem ég hef keppt við og er frekar villtur miðað við marga á þessu stigi. Hann er árásargjarn og sækir svolítið mikið inn með höggum. Hann er með frekar miklar sveiflur og er yfirhöfuð mjög fær bardagamaður – fínn á jörðinni og fínn standandi. Hann er toppandstæðingur en vill örugglega helst halda bardaganum standandi. Það vilja fæstir fara í jörðina með mér þannig að menn vilja halda þessu standandi og nota högg og spörk þannig að maður þarf að vera vakandi fyrir svoleiðis hlutum og setja niður góðar gildrur.“

Gunnar segir að hver bardagi sé sá mikilvægasti hverju sinni og skipti öllu máli upp á framhaldið. „Það er ekkert annað en full einbeiting á það sem er næst og svona bardagi skiptir gríðarlega miklu máli, sérstaklega þegar maður kemur eftir tap – ekki það að ég spái mikið í það en þessi bardagi skiptir bara öllu máli.“

Hálfpartinn núllstillir sig

Gunnar segist hafa æft stíft undanfarna mánuði. „Ég hef undanfarna tvo mánuði æft svona 10-12 sinnum í viku. Þrjár af þeim æfingum eru hreinar þrekæfingar og lyftingar en hvað aðrar æfingar varðar þá hef ég verið að æfa mig í ákveðnum aðstæðum sem tengjast íþróttinni – ég er þá kannski að glíma eða æfa kickbox og síðan blanda ég þessu öllu saman. Þetta er misjafnt; sumar æfingar eru meira tækniæfingar en aðrar eru meira viðbragðsæfingar og þrek í leiðinni þar sem ég tek vel á því. Þetta hef ég sem sagt gert síðastliðna tvo mánuði og er nú kominn til Kanada og er tilbúinn.“

„Ég er spenntur og tilbúinn að fara að djöflast á laugardaginn,“ segir Gunnar.

Gunnar segir andlegan undirbúning líka skipta máli. „Ég þekki sjálfan mig og ég veit hvernig mér finnst best að haga mér dagsdaglega þegar ég er að æfa og síðan í hvaða hugarástandi ég vil vera þegar fer að nálgast bardagann og náttúrlega þegar að honum kemur. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að vera tiltölulega rólegur og afslappaður en þá finnst mér ég bregðast langbest við og vera með bestu viðbrögðin í rauninni, til dæmis þegar maður þarf að taka snöggar ákvarðanir og hreyfa sig hratt og örugglega.

Maður hálfpartinn núllstillir sig þegar maður er að fara þarna inn og ég spái ekki sérstaklega í neitt.

Andlegur undirbúningur kemur með reynslunni, maður lærir á sjálfan sig og hvernig manni finnst vera best að haga sér þegar nær dregur bardaganum. Það hjálpar gríðarlega mikið upp á allar æfingar ef manni líður vel, er með gott fólk í kringum sig og ef góð stemning er í æfingabúðunum. Þegar nær dregur bardaganum þá spái ég lítið í hann; ég dreifi huganum. Ég er núna að bíða eftir bardaganum og þegar kemur að því að fara inn í búrið snýst þetta fyrst og fremst, í mínu tilfelli, um að vera afslappaður, rólegur og treysta á sjálfan mig og hornamennina mína og ef ég er afslappaður og einbeittur þá tek ég réttar ákvarðanir og bregst hratt og örugglega við. Maður hálfpartinn núllstillir sig þegar maður er að fara þarna inn og ég spái ekki sérstaklega í neitt nema ef maður þarf snögglega að breyta um leikáætlun eða setja eitthvað upp öðruvísi.“

Bruce Lee og Jackie Chan

Gunnar segir að hann hafi haft áhuga á bardagaíþróttum frá því hann man eftir sér. Þess má geta að Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars, er framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Mjölnis sem hefur þann tilgang að efla ástundun og keppni lifandi bardagaíþrótta. „Ég hafði gaman af því að horfa á bíómyndir með Bruce Lee og Jackie Chan og síðan byrjaði ég í karate þegar ég var 13 ára og fór aðeins að fá að tuskast. Ég fann strax að þetta höfðaði mikið til mín.“

Gunnar segir að það að æfa og keppa í bardagaíþróttum sé það sem hann elski að gera og að honum líði vel meðan á æfingum og keppnum stendur.

„Þetta er eitthvað sem ég hef gríðarlegan áhuga á og mér finnst vera gaman að finna út úr alls konar aðstæðum og vandamálum sem tengjast bardagaíþróttum og sem tengist því að þjálfa skrokkinn á mér til þess að takast á við þessar aðstæður. Þetta gefur mér einhverja ástæðu. Það er ekkert annað sem lætur mér líða svona. Þetta á svo hrikalega stóran part í mér.“

Gunnar segir að langtímamarkmiðið sé fyrst og fremst að bæta sig og auðvitað að halda áfram að vinna bardaga. „Ég einbeiti mér að því að bæta mig, verða sífellt betri og skilja í rauninni íþróttina betur og bæta á mig einhverjum vopnum. Það sem mér finnst vera skemmtilegast er þegar ég finn að ég er að öðlast einhvern skilning og tilfinningu fyrir einhverju sem ég hafði kannski ekki áður.“

Sársaukinn venst

Gunnar segir að sársaukinn sem getur fylgt íþróttinni sé eitthvað sem venjist þegar tekist er á. „Það er hægt að meiða sig í hvaða íþrótt sem er og kannski ekki síst þessari íþrótt þar sem eru mikil átök. Það er ekki eitthvað sem stoppar mann þótt eitthvað sé smásárt. Þetta venst og húðin þykknar og maður herðist af því að vera að djöflast svona dagsdaglega og takast á en sársauki er, held ég, ekki eitthvað sem margir spá í sem stunda þessa íþrótt. Ég held að það séu frekar þeir sem hafa ekki verið í þessari íþrótt og eru að horfa á þetta utan frá sem halda að þetta hljóti að vera rosalega vont. En þegar á hólminn er komið og maður þekkir til og er kominn með smáreynslu þá er sársaukinn ekkert sérstakt atriði.“

Þar sem ég var meiddur á tímabili og þurfti að taka mér hlé, hefur þetta ár svolítið snúist um að ná sér góðum.

Gunnar segir að sársaukinn sé þess virði. „Þótt maður meiði sig eitthvað smá … Þetta er eitthvað sem er inngróið í okkur frá örófi alda því maðurinn hefur alltaf tekist á. Þetta er í eðli okkar.“

Talið berst þá aftur að bardaganum sem er fram undan, viðureigninni við Alex Oliveira. „Þar sem ég var meiddur á tímabili og þurfti að taka mér hlé, hefur þetta ár svolítið snúist um að ná sér góðum og fara inn í þennan bardaga. Annars er ég bara spenntur fyrir þessu og tilbúinn í slaginn.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Barnadagur UNICEF haldinn á morgun í Lindex

||
||

Á morgun, laugardaginn 8. desember, verður UNICEF dagurinn haldinn í verslun Lindex í Smáralind frá kl 13:00-16:00. Dagurinn var í fyrsta sinn haldinn í fyrra og heppnaðist vel þannig að ákveðið var að endurtaka leikinn í ár.

Það verður líf og fjör í verslun Lindex í Smáralind á morgun en jólasveinninn mætir á svæðið og geta gestir og gangandi fengið mynd af sér með honum. Hægt verður að lita jólakort í föndurhorninu og krakka-karíókí verður í boði með þeim Þórunni Antóníu og Dóru Júlíu. Einnig mun starfsfólk UNICEF bjóða börnum og fullorðnum upp á skemmtilega fræðslu og sýna hvernig hjálpargögn keypt á Íslandi geta nýst börnum í neyð.

UNICEF á Íslandi og Lindex hafa verið samstarfsaðilar til fjölda ára og amstarfið hefur í heildinna skilað 25 milljónum fyrir börn um allan heim, meðal annars í gegnum sölu á Sönnum gjöfum í öllum verslunum Lindex fyrir jólin.

Viðskiptavinir Lindex hafa tekið mjög vel í jólaátakið síðustu ár og hafa yfir 6.000 Sannar gjafir selst hjá Lindex frá upphafi sem UNICEF hefur notað í þágu barna þar sem þörfin er mest.

Öll börn eiga rétt á menntun

Sannar gjafir eru hjálpargögn sem bæta líf barna um allan heim. Í verslunum Lindex eru hjálpargögn á borð við hlý teppi, vatnshreinsitöflur, vítamínbætt jarðhnetumauk og ormalyf til sölu sem falleg jólakort. Íslensku jólasveinarnir prýða kortin, en þeir stilltu sér allir upp með sín uppáhalds hjálpargögn og Brian Pilkington teiknaði þá. UNICEF mun síðan sjá til þess að koma hjálpargögnunum til þeirra barna sem á þurfa að halda.

Okkur þykir mjög vænt um þetta samstarf og erum viðskiptavinum og starfsfólki Lindex ævinlega þákklát.

„Það var mikil gleði og gaman á UNICEF deginum í fyrra og við vonumst til þess að fólk sem á leið í Smáralind kíki við og fræðist um það hvernig hægt er að hjálpa börnum í neyð nú um jólin,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, verkefnastýra hjá UNICEF á Íslandi. „Okkur þykir mjög vænt um þetta samstarf og erum viðskiptavinum og starfsfólki Lindex ævinlega þákklát fyrir að hjálpa okkur að útvega hjálpargögn fyrir börn sem búa nú við erfiðar aðstæður,“ bætir Ingibjörg við.

Jólakortin verða til sölu á morgun í Lindex.

Yfir 6 þúsund Sannar gjafir selst hjá Lindex

Viðskiptavinir Lindex hafa tekið mjög vel í jólaátakið síðustu ár og hafa yfir 6.000 Sannar gjafir selst hjá Lindex frá upphafi sem UNICEF hefur notað í þágu barna þar sem þörfin er mest. Jafngildir það um 1,5 milljón skammta ormalyfjum eða 400 skólar í kassa til þess að börn sem búa í flóttamannabúðum geti haldið áfram námi að sögn Lóu Dagbjartar Kristjánsdóttur, umboðsaðila Lindex á Íslandi.

„Samstarf okkar við UNICEF hefur verið mikilvægur þáttur í samfélagsverkefnum sem við látum okkur varða hjá Lindex og við erum sérlega stolt og ánægð að þessi jól munum við munum í krafti okkar frábæru viðskiptavina sækja fast að 30 milljóna króna markinu í baráttunni fyrir bættum hag barna í heiminum,” segir Lóa.

Jólakortin verða til sölu á laugardaginn en einnig er hægt að versla Sannar gjafir í vefverslun UNICEF og vefveslun lindex.is.

Klausturshópur á ögrandi olíumálverki

|
|

Listmálarinn Þrándur Þórarinsson hefur fengið góð viðbrögð við nokkuð ögrandi olíumálverki þar sem hann túlkar Klausturmálið.

Listmálarinn Þrándur Þórarinsson afhjúpaði í dag stórt málverk þar sem hann túlkar Klausturmálið svokallaða. Frá því á sunnudaginn seinasta hefur hann málað dag og nótt en verkið kláraði hann í nótt. „Ég hef lítið annað gert en að mála síðan ég byrjaði.“

Verkið sem um ræðir er 125 x 100 cm. á stærð. Það er málað í olíu.

Ég hef lítið annað gert en að mála síðan ég byrjaði.

Síðan hann afhjúpaði verkið fyrr í dag hefur hann fengið mikil viðbrögð, öll jákvæð. Spurður út í hvort hann hafi orðið var við að einhverjum þyki verkið of gróft segir hann: „nei, ég hef ekki orðið var við það.“ Þess má geta að verkið sýnir m.a. Sigmund Davíð beran að neðan, en á lim hans má sjá minni útgáfu af andliti hans.

„Það verður samt spennandi að sjá hvort Facebook taki þetta út. Það væri áhugavert að vera fluga á vegg á fundi Facebook,“ segir hann og hlær.

Spurður út í hvort verkið, sem er til sýnis í Gallery Port, sé til sölu segir hann: „Já, það er til sölu. Ég er reyndar ekki búinn að gera upp við mig hvað það á að kosta.“

Verkið sem um ræðir er 125 x 100 cm. á stærð. Það er mála í olíu.

Pólitísk líf Sigmundar búin

„Eins og kötturinn í tunnunni sem allir vilja berja á,“ segir fyrrverandi þingmaður um þingmenn Miðflokksins í Klaustursupptökunum.

Fyrrverandi þingmennirnir, Karl Garðarsson ritstjóri og fréttastjóri, og Róbert Marshall fjölmiðlamaður telja Sigmund Davíð búinn með sín pólitísku líf eftir Klausturshneykslið.

Þetta sögðu þeir m.a. í Ritstjórunum á Hringbraut. Karl telur að Gunnar Bragi og Bergþór Ólason geti haldið áfram á þingi en þeir séu rúnir trausti, eins og Sigmundur Davíð. Engir úr öðrum flokkum munu hafa áhuga á að vinna meira með þeim. Útskúfunin bíði þeirra.

„Þessir menn eru orðnir eins og kötturinn í tunnunni sem allir vilja berja,“ segir Róbert og telur Miðflokkinn og Flokk fólksins fjara út sama hvað.

Karl telur þó að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, muni á endanum græða á því að hafa rekið Ólaf Ísleifsson og Karl Gauta Hjaltason úr flokknum, fólk muni muna það við næstu kosningar að hún hafi hreinsað til og gengið rösklega fram.

Höfundur / Linda Blöndal

Frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði varhugaverð

|
Áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta seldi Björn Ingi alla fjölmiðla félagsins út úr félaginu|

Þegar samþjöppun er mikil í eignarhaldi fjölmiðla eða fákeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði er hættan sú að umfjöllun verði einsleit og heilindi fjölmiðla sé stofnað í hættu. Kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf., á Póstmiðstöðinni ehf. gefur tilefni til að velta fyrir sér stöðu fjölmiðla hér á landi.

Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í upplýstu lýðræðissamfélagi. Þeir veita valdhöfum og stórfyrirtækjum landsins aðhald og þjóna almannahagsmunum með að stuðla að upplýstri, vandaðri umræðu. Þess vegna hafa fjölmiðlar verið nefndir fjórða valdið. Þegar samþjöppun er mikil í eignarhaldi eða fákeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði er hættan sú að umfjöllun verði einsleit og heilindi fjölmiðla sé stofnað í hættu, einkum ef sterk tengsl eru á milli eiganda fjölmiðlafyrirtækja og ráðandi stjórnmálaafla- eða afla, þeirra sem styðja tiltekna stefnu umfram aðra.

Slík staða ýtir undir að fjölmiðlar séu nýttir til að reka stjórnmálaáróður í þágu eiganda. Það er því afar mikilvægt að samfélagið styðji við fjölbreytni fjölmiðla, líkt og er eitt af markmiðum fjölmiðlalaga, og að opinberir aðilar átti sig á að fjölmiðlar eru að þessu leyti ólíkir venjulegum fyrirtækjum. Þannig sé stutt við að þeim sé kleift að sinna sínu hlutverki án áhrifa frá fyrirtækjum, stofnunum eða tengsla við tiltekna stjórnmálaflokka.

Umfjöllunin átti erindi við almenning

Nýlegt dæmi af afar umdeildu lögbanni Stundarinnar af fréttaflutningi um viðskipti þáverandi þingmanns, og núverandi fjármálaráðherra, í aðdraganda efnahagshrunsins upp úr Glitnisgögnunum svokölluðu hafa vakið upp spurningar um stöðu fjölmiðla hér á landi. Lögbanninu var hafnað í héraðsdómi meðal annars með vísan til þess að umfjöllunin hafi átt erindi við almenning.

Sú niðurstaða var samþykkt af Landsrétti í byrjun október, rúmu ári eftir að lögbannið tók gildi. Tímapunktur lögbannsins einn og sér gefur tilefni til vangaveltna um hvort þöggun ætti sér stað í aðdraganda kosninga en lögbann er viðurhlutamikil íhlutun í tjáningarfrelsið. Líklegt er að þessi aðgerð hafi jafnframt haft fjárhagslegt tjón í för með sér fyrir Stundina. Spurning er hvort þetta ferli gefi tilefni til þess að leitað verði til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsmeðferðar, með þeim fyrirvara þó að höfundi er ekki ljóst hvort skilyrði fyrir málshöfðun séu uppfyllt.

Gætu misbeitt stöðu sinni

Annað mál gefur tilefni til að velta fyrir sér stöðu fjölmiðla hér á landi varðandi samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Fyrir nokkrum dögum samþykkti Samkeppniseftirlitið kaup Árvakurs hf. og 365 miðla hf., á Póstmiðstöðinni ehf. með tilteknum skilyrðum. Þessi tvö félög gefa út Fréttablaðið og Morgunblaðið og með kaupum á Póstmiðstöðinni sameina blöðin dreifikerfi sín fyrir dagblöð, tímarit og fjölpóst en áður voru dreifikerfi þeirra aðskilin.

Eftir kaupin er aðeins einn annar dreifiaðili í boði, Íslandspóstur, en ef blað á að koma út viku- eða daglega er erfitt að nýta sér þjónustu hans. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á þessum kaupum leiddi í ljós augljósa hættu á þessari tilhögun: nú gætu þessi tvö blöð misbeitt stöðu sinni gagnvart keppinautum sem eru m.a. Mannlíf og Stundin t.d. með að hefta aðgang þeirra að dreifikerfi Póstmiðstöðvarinnar, með verðlagningu eða öðrum leiðum.

Í stað þess að hafna kaupunum vegna þessarar hættu eru þau heimiluð með skilyrðum á grundvelli þess fjárhagslega hagræðis sem næst í dreifingu, en Póstmiðstöðinni verður m.a. óheimilt að útiloka aðila frá viðskiptum og er gert skylt að setja upp almenna verðskrá.

Engin fyrirmæli eru um hvert innihald slíkrar verðskrá á að vera, en ef eigandinn er sá sami skiptir að endingu ekki máli fyrir þessa tvo aðila hvert verðið er. Aðeins er um að ræða tilfærslu fjármuna úr einum vasanum í annan.

Dýrt að dreifa

Dreifing er iðulega einn dýrasti kostnaðarliður prentmiðils, mögulega fyrir utan launakostnað. Ef verð hækkar getur það þrengt rekstrarskilyrði fjölmiðils, þannig að honum sé ekki lengur kleift að starfa og það getur einnig haft áhrif á gæði og efni upplýsinga. Samkvæmt sáttinni ef brotið er á skilyrðum Samkeppniseftirlitsins, t.d. við samtvinnun á prenti og dreifingu, eiga viðurlög að fara samkvæmt samkeppnislögum. Málarekstur fyrir Samkeppniseftirlitinu er iðulega tímafrekur og ekkert sem útilokar að prentmiðill hrökklist af markaði á meðan.

Dreifing er iðulega einn dýrasti kostnaðarliður prentmiðils.

Markmið með skilyrðum er að gæta jafnræðis og koma í veg fyrir að þrengt sé að keppinautum. Það er góðra gjalda vert. En þessi skilyrði gera það ekki, ef raunverulegur vilji er til staðar að hindra útgáfu annarra blaða eða gera þeim það erfiðara fyrir. Það verður því aðeins að treysta að svo verði ekki. Þá ber að nefna að ef kaupin eru byggð á hagkvæmnisrökum, ætti dreifing að verða ódýrari fyrir alla aðra viðskiptavini ef jafnræði og hlutleysi er gætt.  Það verður líka að koma í ljós hvort það verði raunin.

Forsvarsmenn 365 hf. sagðir vilja kaupa Ísafold

Loks ber að nefna að í dag eru tveir aðilar á markaði sem hafa burði til að prenta dagblöð, Árvakur og Ísafold. Samkvæmt heimildum Mannlífs hafa forsvarsmenn 365 hf. einnig gert tilraun til að kaupa síðarnefndu prentsmiðjuna. Með sameiningu á dreifikerfi ásamt þeim kaupum væri því allt prent- og dreifikerfi íslenskra fjölmiðla í höndum ráðandi aðila á markaði. Það gefur augaleið að sú staða er afar varhugaverð.

Á undanförnum misserum hafa smærri fjölmiðlar líkt og Stundin verið að setja mál á dagskrá sem varða mikilvæga almannahagsmuni sem aðrir stærri miðlar hafa ekki gert, líkt og lögbannsmálið ber vitni um sem og nýlegar Klausturupptökur. Vegna þess mikilvæga hlutverks sem fjölmiðlar gegna fyrir opna lýðræðislega umræðu og að uppræta spillingu hlítur að vega mjög þungt að samfélagið styðji við fjölbreytni fjölmiðla nú sem áður og opinberar stofnanir fari varlega við að heimila frekari samþjöppun hjá aðilum sem nú þegar eru markaðsráðandi.

Málið getur haft margvíslegar pólitískar afleiðingar

Í kjölfar Klaustursfundarins margumrædda hafa verið uppi háværar kröfur um opinbera rannsókn málsins og hugsanlegar játningar þingmanna á lögbrotum. Eiga þær kröfur við rök að styðjast?

„Ég sé ekki fyrir mér beinar lagalegar afleiðingar fyrir störf þingsins eða þingmennina en hins vegar vekur þetta upp alvarlegar siðferðilegar spurningar um viðhorf og dómgreind þeirra sem tóku þátt í umræðunni. Um leið varpar málið rýrð á Alþingi og grefur undan trausti almennings á stjórnmálamönnum almennt. Því getur málið haft margvíslegar pólitískar afleiðingar,“ segir Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, spurð út í þetta.

„Þingmenn njóta sérstöðu um upphaf og lok starfa. Aðeins kjósendur taka ákvörðun í þeim efnum. Jafnvel þótt þingmenn hafi fengið dóm fyrir alvarleg refsiverð brot þá getur enginn vikið þeim úr þingmannsstarfinu. Háttsemi þessara þingmanna er siðferðislega ámælisverð en ekki verður séð að nein lög hafi verið brotin. Nú er beðið eftir niðurstöðu siðanefndar. Hún getur þó ekki ákveðið nein viðurlög í starfi þótt siðareglur hafi verið brotnar. Í framhaldinu er það algerlega komið undir þingmönnunum sjálfum hvort þeir telja sér siðferðislega stætt á að sitja lengur eða hvort þeir segja af sér. Hins vegar verður að gera þá kröfu til þingmanna að þeir búi yfir góðu siðgæði og hafi siðferðilegan styrk, meiri en gerist og gengur.“

Eins og ég sagði eru þingmenn mjög sjálfstæðir í starfi og ekki háðir fyrirmælum frá neinum yfirboðara.

Er hugsanlegt að breyta þurfi þingsköpum til að setja fastmótaðri reglur um leyfi þingmanna?

„Eins og ég sagði eru þingmenn mjög sjálfstæðir í starfi og ekki háðir fyrirmælum frá neinum yfirboðara. Auk þess eru reglur sem tryggja að varamenn komi inn fyrir þá ef þeir eru forfallaðir frá störfum. Þannig á það ekki að koma niður á störfum þingsins, hvorki málefnalega né heldur í kostnaði fyrir þingið eða almannafé, ef þeir taka sér launalaust leyfi af hvaða ástæðum sem er, persónulegum eða öðrum. Ég er ekki viss um að þetta mál eitt eigi að leiða til endurskoðunar á þeim reglum sem eru til staðar sem veita ákveðinn sveigjanleika í þessum efnum.“

Hafi Gunnar Bragi brotið af sér eru brotin fyrnd

Er hugsanlegt að einn þingmannanna hafi játað á sig brot á hegningarlögum með ummælum um hrossakaup í sendiherraskipunum?

„Eins og lýsingin er á umræðu um sendiherraskipanir áttu þessir atburðir sér stað í ráðherratíð Gunnars Braga á árinu 2014. Hér er því álitamál hvort um brot ráðherra í starfi sé að ræða, einkum 128. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um háttsemi sem felur í sér mútur og spillingu. Burtséð frá efni ummælanna verður að hafa í huga að mál vegna embættisbrota ráðherra falla undir sérreglur um ráðherraábyrgð og landsdóm og verða aðeins höfðuð samkvæmt ákvörðun Alþingis. Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð frá árinu 1963 verður Alþingi að höfða mál gegn ráðherra innan þriggja ára frá því brot var framið, eða innan sex mánaða frá því næstu alþingiskosningar eftir brot var framið. Mér sýnist því ljóst að meint brot í ráðherratíð Gunnars Braga séu fyrnd. Hitt er svo annað mál að þessi ummæli ein og sér eru ólíkleg til sakfellis fyrir embættisbrot. Þau eru ekki af þeim styrkleika og sett fram í því samhengi að erfitt yrði að sanna ásetning manna til að fremja brot.“

Spurð hvort það sem sagt var á þessari samkomu gefi tilefni til opinberrar rannsóknar, svarar Björg að það verði ekki séð að það sem þingmenn sögðu almennt í umræðunni feli í sér lögbrot.

„Þótt ummælin sem slík séu ærumeiðandi fyrir þá sem fjallað var um verður að hafa í huga að þau komu fram í einkasamtölum milli manna sem ekki var ásetningur til að birta eða dreifa opinberlega. Birting ummælanna, sem tekin voru upp með leynd og komu fram í einkasamtali, er því ótvírætt inngrip í friðhelgi einkalífs þingmannanna.

Það er erfitt að líða þjóðkjörnum fulltrúum slíka framkomu.

Ummælin fela fyrst og fremst í sér áfellisdóm yfir þeim mönnum sem eiga í hlut, aðallega alvarlegan siðferðisbrest. Það er erfitt að líða þjóðkjörnum fulltrúum slíka framkomu. En eins og ég sagði áðan þá eru þau takmörk sett í lögum, einmitt til að vernda sjálfstæði þingmanna gagnvart ólögmætum afskiptum, að þeim verður ekki vikið úr starfi. Aðeins kjósendur geta ákveðið að hafna þeim þegar kemur að næstu kosningum.“

Þú átt sem sagt ekki von á því að þessi fundur og þau ummæli sem þar féllu hafi neinar afleiðingar til lengri tíma litið?

„Ekki beinar lagalegar afleiðingar eins og ég nefndi fyrr. En vonandi mun þetta hafa á áhrif á að þingmenn átti sig á stöðu sinni og mikilvægi þess að persónuleg breytni þeirra skiptir miklu máli fyrir ímynd Alþingis og traust almennings til þess. Það hefur komið fram í umræðunni að það sé alkunna að þingmenn tali svona sín í milli, sem ég trúi nú ekki að sé rétt. Sé eitthvað til í því verður að draga þann lærdóm af þessu máli að menn þurfa að endurskoða viðhorf sín, háttsemi og ummæli, sýna dómgreind og veita sjálfum sér aðhald.“

Aðsend mynd/ Kristinn Ingvarsson

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Villtist inn í leiklistina

|
|

Lára Jóhanna Jónsdóttir er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann, enda segist hún hafa verið raungreinanörd á yngri árum og ekkert sérstaklega gefin fyrir það að draga að sér athyglina.

Þrátt fyrir að hafa verið að leika í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu nánast stöðugt síðan hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 er Lára tiltölulega óþekkt stærð í augum íslensku þjóðarinnar og eftir að við höfum komið okkur þægilega fyrir, pantað te og kaffi og viðhaft eitthvað innihaldslítið snakk um daginn og veginn liggur beinast við að að fyrsta spurningin sé einfaldlega: Hver er Lára Jóhanna Jónsdóttir?

Það kemur pínulítið á Láru, hún átti greinilega ekki von á þessari spurningu, en hún gerir samt sem áður sitt besta til að svara. „Ég er 34 ára gömul leikkona og hef verið að stússast í hinu og þessu í gegnum tíðina,“ segir hún hugsi.

„Ég ólst upp í Breiðholtinu nánast alla mína bernsku. Alveg frá því að ég var þriggja ára og fram á fullorðinsár. Reyndar fluttum við til London og bjuggum þar í tvö ár þegar ég var níu og tíu ára, en svo bara fórum við aftur í Breiðholtið. Núna bý ég reyndar í Vesturbænum með kærustunni minni og sex ára dóttur minni og er á föstum samningi við Þjóðleikhúsið.“

Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit.

Þrátt fyrir að hafa verið leika heilmikið í stóru leikhúsunum árum saman hefur Lára lítið leikið í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en hún nánast helltist yfir þjóðina í hlutverki Magneu í kvikmyndinni Lof mér að falla og Jóhönnu í sjónvarpsþáttunum Flateyjargátu. Hvernig er að vera allt í einu orðin þekkt andlit?

„Ég upplifi reyndar ekki að ég sé þekkt andlit,“ segir Lára og fer hjá sér. „Mér fannst mjög gaman að vera með í báðum þessum verkum og það er dýrmæt reynsla. Það var svolítið erfitt að leika í Lof mér að falla því handritið er unnið út frá sögum raunverulegs fólks, bæði sögum kvenna sem eru eða hafa verið í neyslu og sögu Kristínar Gerðar sem svipti sig lífi eftir hrikalega reynslu sem tengdist neyslu hennar. Það gefur myndinni meira vægi í mínum huga og það er líka auðveldara fyrir mann sem leikara að gera það sem maður þarf alltaf að gera, að trúa sögunni þegar maður veit að hún er byggð á reynslu raunverulegs fólks.“

Lára þekkti ekki fíkniefnaheiminn af eigin reynslu áður en hún byrjaði að vinna við myndina. „Ég hef alveg kynnst fólki sem hefur verið í neyslu, en ekki þannig að það hafi verið nálægt mér persónulega og ég hafi þurft að takast á við neyslu þess. Ég hef bara horft á þetta úr fjarlægð.“

Varst þú sem sagt algjör fyrirmyndarunglingur í Breiðholtinu? „Jaaaaá,“ segir Lára og hugsar sig um. „Við í mínum hópi vorum voða róleg. Ég var enginn rosa djammari og prófaði aldrei nein efni eða neitt í þá áttina. Ég er sennilega bara frekar róleg týpa. Var eiginlega hálfgert nörd sem barn og unglingur. Alltaf í einhverjum pælingum sem flestar tengdust raungreinum sem mér fundust skemmtilegastar af öllu í skólanum.“

Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla.

Æskudraumar hennar tengdust því ekki að verða leikkona. „Nei, nei, nei,“ segir Lára ákveðin.

„Ég bara villtist einhvern veginn inn í leiklistina þegar ég var í menntaskóla. Ég tók alltaf þátt í einhverjum leikatriðum með krökkunum í blokkinni á vorhátíðum, en ég var ekki týpan sem tróð upp í matarboðum. Áhugi minn á leiklist kviknaði eiginlega meira út frá félagsskapnum sem var í leikfélaginu í M.S. Þar byrjaði ég líka að hafa áhuga á að standa á sviði. Það var alltaf svo gaman í kringum allar leiksýningar. Krakkarnir í leikfélaginu urðu hópurinn minn og út frá því fór ég að hafa áhuga á að búa eitthvað til. Ég hafði alltaf lifað mig rosalega inn í það að horfa á leikhús, en áhuginn á því að vera með í að búa til leiksýningu kom eftir á. Þannig að ég slysaðist eiginlega inn á þessa braut.“

Lára byrjaði í læknisfræði við Háskóla Íslands en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana.

Leikarar tala gjarnan um brennandi leiklistarbakteríu og Lára slapp ekki við hana. „Ég fékk hana alveg eftir að ég datt inn í þennan heim og þá fyrst varð þetta virkilega æðislegt,“ segir hún og hlær. „En ekki einu sinni á menntaskólaárunum ætlaði ég mér að verða leikkona. Ég sá mig alltaf fyrir mér sem einhvers konar vísindamann. Ég var á eðlisfræðibraut í M.S. og var þar alveg í kjöraðstæðum. Hitt var meira svona hliðaráhugasvið.“

Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar.

Spurð nánar út í árin sem Lára bjó í London sem barn, hvort það hafi verið erfitt fyrir níu ára gamla stúlku að flytja í framandi umhverfi og tala ekki einu sinni tungumálið segir Lára: „Jú, það var erfitt,“ segir hún hreinskilnislega.

„Mér skilst til dæmis að ég hafi þagað í hálft ár eftir að ég byrjaði í skólanum þar. Ég bara þagði þangað til ég kunni málið og þá fór ég að tala. Ég er samt mjög þakklát fyrir að hafa fengið þessa reynslu. Það var dálítið mikið öðruvísi að vera barn á Englandi en á Íslandi, allavega á þessum tíma. Ég fór bara í skólann í hverfinu sem var pínulítill og krúttlegur, og fílaði mig mjög vel þar á endanum. Var með dásamlegan kennara og andrúmsloftið var mjög fallegt.“

Fékk ársfrí frá læknisfræðinni

Foreldrar Láru eru bæði kennarar en hún segist aldrei hafa haft áhuga á því að leggja kennslu fyrir sig. Hún er yngst fjögurra systkina en hún segist samt ekki vera neitt dekurbarn, enda sé stutt á milli þeirra. Í samræmi við raungreinaáhugann byrjaði Lára í læknisfræði við Háskóla Íslands, en leiklistarbakterían togaði þó alltaf í hana og hún fór tvisvar í inntökupróf við sviðslistadeild Listaháskólans.

Hún segist heldur ekki hafa orðið fyrir þrýstingi frá foreldrum sínum um það að leggja eitthvað sérstakt starf fyrir sig, það hafi alfarið verið hennar ákvörðun að skrá sig í læknisfræði í Háskólanum. „Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Hún segist aldrei hafa séð eftir því að velja leiklistina fram yfir læknisfræðina. „Nei, aldrei,“ segir hún af sannfæringu og hristir höfuðið ákaft. „Það getur vel verið að einhverjar aðrar leiðir hefðu verið praktískari og góðar líka, en ég hugsaði ekkert um það. Hér er ég og það er fínt. Ég myndi ekki vilja vera annars staðar.“

Tveimur árum eftir útskrift úr Listaháskólanum eignaðist Lára dóttur sína með þáverandi kærasta. Þá var hún á samningi hjá Borgarleikhúsinu og þegar hún komst að því að hún væri ófrísk var hún byrjuð að sýna í hlutverki Dóróteu í Galdrakarlinum í Oz.

Hún segir það hafa verið heilmikið mál að fela óléttubumbuna á síðustu sýningunum enda var hún komin sjö mánuði á leið þegar þar var komið sögu. „Ég get svo svarið það að óléttubumban varð ekki áberandi fyrr en eftir síðustu hneigingu,“ segir hún og skellihlær. „En mér þykir dálítið vænt um að dóttir mín skuli hafa verið með mér á sviðinu heilan vetur.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Ert þú ekki stelpan í íslensku peysunni?

Lára Jóhanna Jónsdóttir

Þótt leikkonan Lára Jóhanna Jónsdóttir hafi ekki verið áberandi í kvikmyndum og sjónvarpi fyrr en núna undanfarið varð andlit hennar þó heimsþekkt í auglýsingu sem gerð var af Inspired by Iceland til að trekkja að ferðamenn eftir gosið í Eyjafjallajökli.

Það hlýtur að hafa verið skrítin tilfinning að vera stoppuð af túristum út á götu eins og kvikmyndastjarna. „Það var nú kannski ekki alveg þannig,“ segir Lára og brosir.

„Þetta var eitthvað sem ég datt bara inn í. Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt. Þetta kom reyndar til fyrir algjöra slysni. Það þurfti að seinka tökum og stelpan sem átti að gera þetta var farin til útlanda þegar að því kom að taka myndbandið upp. Þá var hringt í mig vegna þess að ég hafði búið í Bretlandi og er með breskan hreim. Ég var alveg til í það, enda var mér sagt að þetta yrði bara eitthvað lítið vídeó sem yrði ekki einu sinni sýnt í sjónvarpinu heldur bara á YouTube, svo ég stressaði mig voða lítið á þessu. Þetta var tekið upp 2010, árið sem ég útskrifaðist, svo það má segja að þetta hafi verið fyrsta verkefnið mitt sem útskrifuð leikkona. Svo bara fór myndbandið ansi víða og það er ekkert langt síðan túristarnir hættu að stoppa mig og spyrja hvort ég væri ekki stelpan þarna í íslensku peysunni. Það var mjög skemmtilegt verkefni.“

Ég var sem sagt stelpan sem myndbandið byrjaði á og talaði eitthvað um hvað Ísland væri æðislegt.

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Tók mér aldrei tíma til að vera góð við mig

Þótt leiklistin eigi hug leikkonunnar Láru Jóhönnu Jónsdóttur nánast allan hefur hún þó fleiri áhugamál, hún er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. Svo notar hún tónlist til að kjarna sig.

Lára Jóhanna hefur undanfarið fengið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Í Flateyjargátu leikur Lára einstæðu móðurina Jóhönnu og eflaust ekki einfalt að setja sig inn í tíðaranda þess tíma sem þættirnir gerast á. „Ég var náttúrlega ekki fædd á þessum tíma og get ekki sett mig inn í hvernig fólk hugsaði þá,“ segir hún.

„Nema auðvitað út frá handritinu, eins og maður gerir alltaf. Það er nefnilega á endanum þannig að allt sem maður er að fjalla um er í handritinu þannig að ég reyni bara að tengja við söguna sem við erum að segja. Hún inniheldur allt sem þetta samfélag var að takast á við. Ég lagðist ekki mikið í einhverjar sögulegar pælingar, nema hvað ég kynnti mér sögu femínista á þessum tíma  og hlustaði á franska tónlist frá tímabilinu, þar sem karakterinn er að flytja heim frá París þegar þættirnir byrja. Ég er mjög mikið með tónlist í eyrunum á tökustað til að kjarna mig, annars stekkur hugurinn bara út um allt og það er erfitt að einbeita sér.“

Þegar Lára er spurð hvort hún hafi lesið bókina Flateyjargátan, fer hún pínulítið hjá sér og segist ekki vita hvort hún eigi að vera að uppljóstra því, en nei hún hafi aldrei lesið hana.

Ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið.

„Ég byrjaði reyndar að lesa hana og var komin vel á veg þegar ég áttaði mig á því að karakterarnir í bókinni og karakterarnir í þáttunum eru mjög ólíkir. Þannig að ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið. Ég er mjög spennt fyrir að lesa hana samt og geri það kannski núna þegar ég hef tíma. Þetta er svo stórt hlutverk og ég þurfti að nýta tímann vel til að setja mig inn í þetta þannig að ég vildi ekki sóa tíma í eitthvað sem kæmi ekki að gagni, mér fannst það bara rugla mig hvað þessir karakterar eru ólíkir.“

Lára fer með lítið hlutverk í annarri seríu af Ófærð sem verður frumsýnd um jólin en annað er ekki væntanlegt á skjáinn frá henni. Hún er nú á fullu að æfa í sýningunni Þitt eigið leikrit eftir bekkjarbróður hennar úr Listháskólanum, Ævar Þór Benediktsson.

Það er ansi erfitt hlutverk, þar sem áhorfendur fá að velja framvindu verksins. „Ég er ekki hundrað prósent viss um töluna en ég held það séu 36 útgáfur af leikritinu sem við þurfum að læra,“ útskýrir hún. „Það verður frumsýnt í lok janúar og ég er rosalega spennt að taka þátt í þessu. Síðan fer ég að æfa í uppfærslu Stefans Metz á Loddaranum, Tartuffe, sem verður frumsýnd í vor. Annað er ekki komið á dagskrána hjá mér ennþá, enda er þetta feykinóg til að takast á við í bili.“

Jóga kennir manni hvað skiptir máli

Þótt leiklistin eigi hug hennar nánast allan hefur Lára þó fleiri áhugamál, er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. „Ég kenni reyndar ekkert núna,“ segir hún.

„Ég kenndi svolítið á tímabili en það fer bara ekki vel saman við vinnuna mína. Það byrjaði með því að ég fór í kundalini-jógatíma og bara heillaðist algjörlega af því. Það var í fyrsta sinn sem ég kynntist því að veita sjálfri mér nokkurs konar helgistundir í daglega lífinu. Ég hafði aldrei tekið mér tíma til að vera bara í núinu og vera góð við sjálfa mig. Mér fannst jógakennaranámið eiginlega bara rökrétt framhald. Ég hafði aldrei verið í neinum andlegum pælingum, ég var svo mikill nörd og jógað setti hlutina í samhengi fyrir mér.“

Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga

„En ég stunda alls konar jóga og allan þann lífsstíl sem tengist því; fer í jógatíma og hugleiði, mæti á möntrukvöld og svo framvegis. Eitt af því sem heillar mig við jógað er að þar kynnist maður félagslífi sem er dálítið ólíkt því sem maður er vanur, til dæmis syngjum við mikið saman sem er eitthvað sem maður gerir yfirleitt ekki nema vera í kór. Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga en ég borða rosa sjaldan kjöt, kannski fimm sinnum á ári, og er mjög meðvituð um að borða sem minnst af því, en auðvitað breytir jógað lífsstílnum heilmikið. Ég held að það hafi haft mjög djúpstæð áhrif á mig að læra jóga, ekki bara á lífsstílinn heldur líka á lífssýnina, á það hvernig maður tæklar hlutina og hvernig maður metur hvað það er sem skiptir máli. Mér finnst það eiginlega stærsta gjöfin sem jógað hefur gefið mér. Ekki það að vera í súperformi eða vera ótrúlega liðug, heldur meira bara slaki gagnvart lífinu almennt.“

Þrátt fyrir að jógaiðkun geti kennt fólki hvað skiptir máli í lífinu, segir Lára erfitt að svara því hvað skipti hana máli. „Það er erfitt að svara því þannig að það meiki sens,“ segir Lára hikandi.

„En ég er til dæmis mjög lítið fyrir það að setja mér markmið eða að ætla að ná eitthvert eða sjá fyrir mér hvar ég verð eftir einhvern ákveðinn tíma. Það er auðvitað frábært ef maður hefur virkilega drauma um að komast eitthvert ákveðið, en mér finnst jógað hafa kennt mér að ekkert skiptir í raun og veru máli – og ég meina það í jákvæðum skilningi. Engin ein ákvörðun skiptir máli heldur eru það allar 170 ákvarðanirnar sem þú tekur á hverjum degi sem móta líf þitt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli þegar upp er staðið. Það virkar alla vega fyrir mig að vera ekki á þönum við að fylla upp í einhverja mynd af því hvernig maður heldur að lífið eigi að vera, heldur bara að leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru og muna að það sem maður er að gera í dag er nóg. Að bara vanda sig við hvert einasta verkefni, það nægir. Að vera bara hér og nú í góðum samskiptum við fólk og vera ekki alltaf að reyna að hafa allt frábært. Það þarf ekkert alltaf allt að vera eitthvað ótrúlega æðislegt, heldur er æðislegast þegar hlutirnir eru venjulegir. Stundum gef ég hlutum of mikið vægi og verð stressuð yfir þeim en ef ég tek aðeins úr sambandi og skoða stóra samhengið þá eru hlutir sjaldnast eins mikilvægir og maður heldur.“

Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi.

Lára segist ekki hafa drauma um að komast á samning í Hollywood og slá í gegn á heimsmælikvarða. „Nei, alls ekki,“ segir hún og hristir höfuðið. „Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi. En ef það gerist ekki þá verð ég náttúrlega bara að búa mér til eitthvað annað að gera. Það nægir mér alveg. Frægð og frami heilla mig ekki. Aðalatriðið er að vera sátt í deginum, hvað sem hann býður mér upp á. Njóta þess að vera með dóttur minni og kærustunni að gera hversdagslega hluti saman. Það er alveg nóg.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

Fagurkerar landsins og áhugafólk um matargerð kannast eflaust margt hvert við Maríu Gomez, snillingin á bakvið heimasíðuna Paz.is. Heimilis-og uppskriftavefurinn hefur vaxið ört á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að hún tók af skarið og opnaði hann, eftir að hafa gengið með hugmyndina lengi í maganum.

Vefurinn og vinnan á bakvið Paz.is sameinar mörg af helstu áhugamálum Maríu en hún leggur áherslu á einfaldleika bæði í eldamennsku og þegar kemur að skreytingum á heimilinu. Sjálf hefur María gengið í gegnum margt í lífinu, en tilvera hennar hefur tekið stakkaskiptum þónokkrum sinnum í gegnum tíðina.

Mynd / Unnur Magna

María á ættir að rekja til Spánar og bjó þar fyrstu árin en faðir hennar er spænskur og móðir hennar íslensk. Fimm ára gömul fór hún til Íslands í jólafrí með móður sinni en dvölin lengdist og fór það svo að þær snéru ekki til baka og hófu nýtt líf á Íslandi.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið upphaflegt plan hjá henni að snúa aldrei aftur,“ segir María um ákvörðun móður hennar.

„Það varð úr að hún hringdi í pabba og skildi við hann í gegnum símann. Þá voru tímarnir aðrir, dýrt að fljúga milli landa, langlínusímtöl rosalega dýr og heimurinnn svo miklu stærri og fjarlægðin meiri en er í dag þar sem hægt er að ferðast ódýrt milli landa og spjalla tímunum saman gegnum snjallsímaforrit án þess að það kosti krónu.“

María segir þetta hafa haft bæði góð og slæm áhrif á sig. „Ég var auðvitað búin að tengjast spænsku fjölskyldunni minni sterkum böndum og kunni bara spænsku. Ég var því alveg mállaus þegar við fluttum til landsins en skildi íslenskuna vel og var því fljót að ná henni.

 

Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

María Gomez prýðir forsíðu Vikunnar

Íslenska fjölskyldan mín var mér alveg ókunn nema afi minn sem við fluttum til, ég hugsa að það hafi bjargað mér alveg að hafa búið hjá honum fyrst um sinn með mömmu. Hann var yndislegur og hafði mikla ást á mér, við vorum mjög náin þar til hann dó þegar ég var níu ára. Á þessum tíma var erfitt að vera hálfur útlendingur, Ísland var ekki þetta fjölmenningarsamfélag sem við þekkjum í dag. Það að heita Gomez vakti alltaf upp spurninguna hvort ég væri ekki íslensk.

Ég var líka mjög dökk miðað við íslensk börn. Ég tók þetta afar nærri mér, vildi ekki vera öðruvísi og hætti því alveg að tala spænsku og kenndi mig á tímabili við þáverandi stjúpa minn. Það entist þó ekki lengi því ég er og verð alltaf Gomez.  Ég hef alltaf fundið til mikils söknuðar til spænsku fjölskyldunnar, menningarinnar og matarins en ég er miklu líkari spænska fólkinu mínu og hef alltaf haldið góðum samskiptum við það. Ég hef aldrei tengst íslensku móðurfjölskyldu minni og er í ekki í sambandi við neinn nema móðurömmu og hálfsystur móður minnar, sem ég hef mikið dálæti á.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Maríu, en í nýjasta tölublaði Vikunnar má lesa það í heild sinni. Þar má að auki finna uppskriftir frá Maríu af jólamat fjölskyldunnar og myndir af glæsilegu jólaboði sem hún hélt fyrir Vikuna. 

Myndir / Unnur Magna

Ljótur sannleikurinn á bak við vinsælt leikfang frá Disney

|
|

Breski miðilinn The Guardian hefur nú birt ítarlega umfjöllun um aðbúnað starfsfólks í leikfangaverksmiðjunni Wah Tung í Heyuan í Kína. Úttektina vann The Guardain í samvinnu við samtökin Solidar Suisse og vinnueftirlit Kína.

Eitt af því sem kemur fram í grein The Guardian um málið er að fyrir þessi jól rjúka Aríel-dúkkur frá Disney úr hillum leikfangabúða. Disney-dúkkurnar eru framleiddar í Wah Tung-verksmiðjunni. Samkvæmt grein The Guardian framleiðir verksmiðjan einnig Fisher Price leikföng og önnur vinsæl leikfangamerki.

Aríel-dúkkan kostar 35 pund í breskum leikfangabúðum sem gerir um 5.500 krónur. En samkvæmt reiknidæmi The Guardian fær starfsmaður í verksmiðjunni ekki nema eitt penní, sem gerir tæpar tvær krónur, í sinn vasa fyrir vinnu sína á hverja dúkku. Þetta er niðurstaðan ef miðað er við það tímakaup sem starfsfólk verksmiðjunnar er með og þann tíma sem fer í að vinna hverja og eina dúkku.

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig The Guardian áætlar hvernig gróðanum er skipt.

Skjáskot af vef The Guardian.

Rannsakandi á vegum The Guardian heimsótti verksmiðjuna fyrr á þessu ári og þá kom ýmislegt upp úr krafsinu. Meðal annars að starfsfólk verksmiðjunnar vinnur afar langa vinnudaga á algjörum lágmarkslaunum, um 133 krónum á dag. Launin eru svo lág að starfsfólk neyðist til að vinna mikla yfirvinnu.

Starfsfólk á ekki rétt á veikindadögum og vinnuaðstæður eru almennt slæmar. Starfsmaður greindi þá frá því að starfsfólk ætti á hættu að vera sektað eða rekið ef það tekur sér meira en þrjá veikindadaga á mánuðu.

Stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær.

Dauðþreytt vegna langra vinnudaga nýtir starfsfólk sér matar- og kaffihlé til að leggja sig eins og sjá má á myndum sem birtust með umfjöllun The Guardian.

Í dagbók eins rannsakandans kemur fram að margir starfsmenn verksmiðjunnar eru  ómenntaðar eldri konur. „Þær vinna vandlega og hratt en stundum kemur yfirmaður færibandsins og segir þær vinna hægt og öskrar á þær,“ segir í dagbókarfærslunni.

Disney er hluti af alþjóðlegu Ethical Toy Program-samtökunum (ETP) en markmið þess er meðal annars að tryggja gott vinnuumhverfi þeirra sem starfa í leikfangaverksmiðjum.

Í grein The Guardian kemur fram að ETP hafi nú hafið sína eign rannsókn á aðbúnaði og launum starfsfólks Wah Tung-verksmiðjunnar.

Umfjöllunina og myndir úr verksmiðjunni má sjá í heild sinni á vef The Guardian.

Hætti í læknisfræði fyrir leiklistina

Sem barn átti Lára Jóhanna Jónsdóttir sér þann draum að verða vísindamaður þegar hún yrði stór en villtist fyrir slysni inn í leiklistina. Frægð og frami heilla hana þó ekki og hún er alsæl með að lifa bara í hversdeginum.

Leikkonan Lára Jóhanna er skyndilega á allra vörum eftir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Hún segist þó aldrei hafa ætlað sér að verða leikkona, var búin með eitt ár í læknisfræði þegar hún komst inn í Listaháskólann.

Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni.

„Ég var búin með eitt ár þegar ég komst inn í Listaháskólann og hætti,“ útskýrir hún.

„Leiklistin togaði meira í mig, en ég var samt alls ekki viss og fékk upphaflega bara ársleyfi frá læknisfræðinni til að skoða þetta og komast að niðurstöðu um það hvort námið ég vildi. Þegar maður dettur svo inn í leiklistarskólann er það alveg hundrað prósent, það er ekkert pláss fyrir neitt annað. Leiklistin er svo ánetjandi, það er engin leið til baka. Maður var bara allan sólarhringinn að pæla í leiklist og hugsar ekkert um hvort maður vildi kannski gera eitthvað annað.“

Lára Jóhanna prýðir forsíðu nýjast tölublaðs Mannlífs sem kemur út á morgun. Lestu viðtalið við Láru í heild sinni í Mannlífi.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar um 2.419

Skráðum í Þjóðkirkjuna fækkar á meðan þeim sem skráðir eru utan trúfélaga fjölgar.

Alls hefur skráðum í Þjóðkirkjuna fækkað um 2.419 manns síðastliðna tólf mánuði samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Á vef Hagstofunnar kemur fram að þann 1. desember voru 232.672 einstaklingar skráðir í  Þjóðkirkjuna miðað við 235.091 fyrir ári. Þetta er fækkun upp á 1,0%.

Á sama tímabili hefur fjölgað um 512 manns í kaþólska söfnuðinum og um 536 manns í Siðmennt. Nokkur aukning var einnig í Ásatrúarfélaginu en um 400 manna aukning varð í félaginu á þessu ári.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar varð þá mest hlutfallsleg aukning í Stofnun múslima á Íslandi eða um 122,1%  sem er fjölgun um 105 meðlimi. Í dag er 191 félagi í trúfélaginu.

Zúistum fækkar

Félagsmönnum fækkaði hlutfallslega mest í trúfélaginu Zuism eða um 306 manns sem er 15,8% fækkun. Einnig fækkaði í trúfélögunum Íslensk kristin þjóð og Bænahúsinu.

Þá vekur athygli að þeim sem eru skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga fjölgar um 9,9% á einu ári. Núna eru alls 24.763 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga.

Botninum náð í stjórnmálum?

||
||

Eftir frekar tíðindalítið haust í íslenskum stjórnmálum má segja að Klaustursmálið hafi sett allt á annan endann í íslensku samfélagi í síðustu viku. Mögulega fagna stjórnarflokkarnir málinu að einhverju leyti. Sem dæmi birti Fréttablaðið könnun í gær sem sýndi fylgishrun Miðflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að koma sér undan erfiðum málum eftir að núverandi ríkisstjórn þeirra með Vinstri grænum komst til valda fyrir rúmu ári síðan. Má þar nefna mál Sigríðar Andersen, kjaraviðræður ljósmæðra og umræðu um veiðigjöld en þessi þrjú mál hafa hvílt meira á herðum Vinstri grænna.

Guðlaugur Þór. Mynd / Alþingi

Nú standa spjót á Guðlaugi Þór Þórðarssyni, utanríkisráðherra og áhugavert þykir að sjá hvernig hann tekst á við ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins og fyrrum utanríkisráðherra, um að hann eigi inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Washington. Guðlaugur Þór þykir fimur í erfiðri umræðu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis samþykkti í gær að kalla Bjarna, Guðlaug Þór, Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugsson fyrir nefndina vegna ummæla Gunnars Braga um sendiherraskipun er hann gegndi starfi utanríkisráðherra.  Enn sem komið er hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið tiltölulega litla athygli eftir að upptökur frá Klaustursfundi fóru að birtast í fjölmiðlum í síðustu viku.

Þó umrætt mál kunni að vera heppilegt fyrir núverandi stjórnarflokka dregur það hins vegar enn frekar úr tiltrú almennings á þingmönnum Alþingis. Gert er ráð fyrir þinglokum þann 5. júní á næsta ári. Klaustursmálið hefur vissulega náð að skyggja á önnur mikilvæg mál eins og fjárlög, kjaraviðræður, erfiða stöðu á húsnæðismarkaði og umræðu um veiðigjöld svo nokkur séu nefnd.

En ef haldið er áfram að velta fyrir sér Klaustursmálinu þá er það samdóma álit viðmælanda að viðbrögðin frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Gunnari Braga Sveinssyni hafa verið afleit. Sigmundur Davíð hefur vissulega lengi átt í deilum við fjölmiðla en álit almennings  í hans garð hefur hugsanlega sjaldan verið minna.

Þó Gunnar Bragi hafi þótt auðmjúkur í viðtölum daginn sem málið kom upp hefur almenningi þótt litla iðrun að sjá frá honum og Sigmundi. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og fyrrum aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, virðist hafa náð að koma sér betur undan slæmri umfjöllun. Þá telja margir að ólíklegt að Gunnar Bragi og Bergþór snúi aftur til starfa á Alþingi.

Mun virðing kvenna aukast?

Eftir að málið kom upp hefur verið vakin athygli á hversu lítill flokkur Miðflokkurinn er. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjölda almannatengla á sínum snærum virðist forysta Miðflokksins vera fámennur hópur í kringum Sigmund Davíð. Í umræðunni í þjóðfélaginu hefur verið rætt um þá veiku tilfinningu sem fámennur hópurinn hefur fyrir því hvernig bregðast á við neikvæðri umfjöllun.

Sú mikla kvenfyrirlitning sem þingmennirnir hafa sýnt á meðan samtal þeirra átti sér stað á Klaustur hefur skapað mikla reiði hjá almenningi. Má telja líklegt að þó þetta mál sé ekki hefðbundið þingmál séu þetta tímamót þar sem virðing fyrir konum muni aukast í stjórnmálum.

Skýr skilaboð Lilju

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra þótti mjög ákveðin í viðtali hjá Kastljósi í gærkvöldi.

Lilja Alfreðsdóttir. Mynd / Alþingi

„Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt. Og að þeir myndu iðrast og að það væri meiri einlægni í því. Þannig að það eru önnur vonbrigði. Svona gera menn ekki,“ var eitt af því sem Lilja sagði. Lítur hún á ummæli þeirra um sig sem ofbeldi og líkt og áður kom fram gæti orðið mjög erfitt fyrir Gunnar Braga og Bergþór að mæta þingkonum ef þeir snúa aftur til baka frá leyfi.

Ég hefði auðvitað viljað að viðbrögðin hefðu verið önnur og að þeir tækju ábyrgð á því sem þeir hafa sagt

Margt fólk vonar nú að þetta mál verða til þess að vinnubrögð batni hjá þeim þingflokkum sem nú sitja á Alþingi. Vantraust almennings hefur líklega sjaldan verið meira. Er ekki að sjá að tiltrú á stjórnmálamönnum hafi batnað undanfarið ár þó núverandi ríkisstjórn hafi lifað af sitt fyrsta starfsár. Áhugavert verður að sjá hver örlög þingmannanna sem komu saman á Klaustri verða á endanum.

Sjá einnig: Vandræðalegt karlagrobb en kallar ekki á afsagnir

Raddir