Föstudagur 20. september, 2024
5.3 C
Reykjavik

Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030

|||
|||

Á ráðstefnunni „Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030“ var það haft að leiðarljósi að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að hætta að nota jarðefnaeldsneyti.

Í gær fór fram ráðstefnan „Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030“ sem haldin var í Háskólabíó en um hundrað ráðstefnugestir sóttu ráðstefnuna. Á ráðstefnunni var það haft að leiðarljósi að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að hætta að nota jarðefniseldsneyti.

Markmið ráðstefnunnar var að ræða ýmsar áskoranir og möguleika er fylgdu slíku frumkvæði. Sænsk-íslenska viðskiptaráðið ákvað því að halda hana til að vekja aukinn áhuga málefninu og stuðla að því að Íslandi hætti að nota jarðefniseldsneyti og ýta undir hröð skipti yfir í lágkolefnasamfélag. Jafnframt er markmiðið að efla samstarfið enn frekar á milli Svíþjóðar og Íslands á sviði verslunar og menningar til að auðvelda Íslendingum að ná árangri hvað þetta frumkvöðlastarf varðar.

Að búa til jarðefniseldsneytislausar samgöngur á Íslandi eykur viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem og önnur fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari metnaðarfullu uppbyggingu.

Fram komu margir áhugaverðir fyrirlesarar, bæði frá Íslandi og Svíþjóð sem vert var að hlýða á.

Ríkisstjórn Íslands setti fram metnaðarfullan áætlun um baráttu gegn loftslagsbreytingum í haust. Áætlunin felur í sér 34 stór skref sem ætlað er að takmarka losun koltvísýrings með það að markmiði að gera Ísland að fullu kolefnishlutlaust árið 2040.

Til að mynda er þar miðað að því að banna skráningu nýrra olíu- eða dísilvéla árið 2030. Ríkið mun gera ráðstafanir til að auka fjölda rafknúinna ökutækja á næstu árum.  Áætlunin kallar einnig á bindingu kolefnis með endurheimt votlendis og skógræktar. Til þess að þessi áætlun sé raunhæf þurfum við að gera ráðstafanir og bregðast við með nýjum leiðum. Við höfum orkuna, innviðina og smæðina en okkur vantar tæknina.

Sofia Lundberg frá Arlanda flugvelli hélt erindi á ráðstefnunni.

Fram komu margir áhugaverðir fyrirlesarar, bæði frá Íslandi og Svíþjóð sem vert var að hlýða á rekja þær leiðir sem í boði eru. Meðal fyrirlesara voru, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Sofia Lundberg frá Arlanda flugvelli, Jonas North frá Scania, Rikard Agmarken frá Volvo og Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbanka Íslands svo dæmi séu tekin.

Voru erindin hvert öðru áhugaverðari og niðurstaða ráðstefnunnar var sú að Ísland hefur fjölmörg tækifæri til vera fremst í flokki og leiðandi í þessu verkefni.

Sigurður Ingi Jóhannsson lét sig ekki vanta.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fjölbreytileiki í sveitinni

Fjögur systkini reka fyrirtækið Efstadal í uppsveitum Árnessýslu. Þar er til staðar myndarlegt kúa- og nautgripabú, ísbúð, veitingastaður, hótel og hestaleiga. Býlið hefur verið í eigu sömu ættarinnar í meira en þrjár aldir. Gestgjafinn var þar á ferð í sumar og hitti fyrir systkinin og kynnti sér þá starfsemi sem þar fer fram.

Gott er að koma inn í hlýjuna í Efstadal og notalegt andrúmsloft í hlöðunni sem nú er móttaka og ísbúð. Á meðan við bíðum eftir Höllu Rós, elstu systurinni, lítum við í kringum okkur á staðnum. Fólk streymir inn og stendur í röðum eftir ís, svo eru það kýr og kálfar sem fanga athygli okkar en inni í ísbúðinni er stór gluggi þar sem gestir geta horft inn í fjósið.

Við njótum þess að horfa á og fylgjast með þessum kunnuglegu skepnum og ekki annað en hægt að dást að þessum stað sem þau systkini hafa skapað. Það er einstakt að geta séð með berum augum hvaðan rjóminn sem er í ísnum kemur, sem keyptur er á sama stað. Hjónin Björg Ingvarsdóttir og Snæbjörn Sigurðsson hafa búið á jörðinni Efstadal frá því árið 1991 en nú hafa börnin þeirra fjögur, Halla Rós, Sölvi, Guðrún Karitas og Linda Dögg og makar þeirra (Björgvin Jóhannesson, Kristín Ingunn Haraldsdóttir, Árni Benónýsson og Héðinn Hauksson) tekið við öllum rekstrinum.

Þau eru fjórða kynslóð sinnar fjölskyldu sem búið hefur á jörðinni. Þar hefur fyrst og fremst verið stundaður búskapur en ýmislegt hefur bæst við á undanförnum árum. Fjölskyldan rekur hestaleigu, veitingastaðinn Hlöðuloftið, ísbúðina Íshlöðuna og svo er það hótel- og ferðaþjónustan. Einnig framleiðir hún vörur sem eru til sölu á staðnum, þá einna helst nautakjöt, fetaost, skyr, mysu og ís.

Þau vildu nota eins mikið upprunarlegt og hægt var, eins og veggi úr hlöðunni og fjárhúsagrindur.

Næstyngsta systirin, Guðrún Karitas, gengur brosandi í átt að okkur en hún stendur vaktina í móttökunni þennan dag. Við förum upp á aðra hæð, en þar er veitingastaðurinn Hlöðuloftið sem er afar vinalegur og heimilislegur og fagurlega skreyttur með skemmtilegum hlutum úr sveitinni. Fróðleikur um fjölskylduna hangir á veggjunum á mjög svo fallegum, hringlaga skiltum. Vinaleg umgjörð þar sem gestkomandi fær á tilfinninguna að vera boðinn inn í stofu fjölskyldunnar.

Breyttu hlöðunni í veitingastað

Halla Rós kemur hlaupandi upp stigann, sest hjá okkur og segir okkur í stórum dráttum söguna. „Foreldrar okkar byrjuðu með hestaleiguna árið 1994 og árið 2002 var heimagistingunni bætt við, svo var ráðist í byggingu á húsi með tíu herbergjum sem hefur verið í rekstri frá 2005. Þegar heyskapurinn breyttist og hlaðan varð tóm fengu foreldrar okkar þá hugmynd að breyta henni í veitingastað. Sölvi bróðir okkar hafði verið mikið með mömmu í eldhúsinu og er afbragðskokkur svo þau byrjuðu að byggja þetta upp saman,“ segir Halla Rós.

Þegar heyskapurinn breyttist og hlaðan varð tóm fengu foreldrar okkar þá hugmynd að breyta henni í veitingastað.

Sólbjörg Lind, dóttir Höllu, og Brynjar Logi, sonur Sölva, standa vaktina í ísbúðinni.

Hún segir að þau hafi rekið sig á ýmislegt til að byrja með og fáir hafi lagt leið sína til þeirra í fyrstu. „Það þurfti að bæta við hlöðuna og vinna ýmis verk en árið 2012 var svo hafist handa við að breyta hluta hlöðunnar í ísbúð og veitingastað ásamt því að byggja viðbyggingu fyrir ísvinnslu, eldhús, móttöku, bar og starfsmannaaðstöðu og svo hefur þetta bara verið upp á við. Foreldrar okkar stigu til hliðar fyrir um ári síðan og við tókum við öllu saman.

Það var smávegis sjokk að taka alla ábyrgðina. Bróðir minn og mágur sjá að mestu um búskapinn og við stelpurnar berum ábyrgðina hér inni. Við erum með frábæra fagmenn á veitingastaðnum og fullt af góðu fólki í vinnu hjá okkur. Þetta er flókið fyrirtæki að reka en með góðu skipulagi gengur það. Hér áður fyrr var aðalstressið í kringum heyskapinn en núna er það meira stress þegar allt í einu kemur stór hópur af ferðamönnum í mat og allt þarf að ganga upp,“ segir Halla Rós.

Viljum fá fólkið til okkar

Halla er mjög mikil áhugamanneskja um flokkun og segist vera kölluð Rympa á ruslahaugunum af systkinum sínum. „Það þarf að vera gríðarlega agaður til að flokka vel en flokkun er framtíðin. Ég reyni að forðast plast sem er oft mjög erfitt en það fer allt í endurvinnslu. Mér finnst líka mikilvægt að minnka matarsóun með því að nýta matinn betur. Við skiptum við fyrirtæki hér í nágrenninu og viljum allt það ferskasta. Við kaupum jarðarber frá bóndanum á Silfurtúni, blómin fáum við frá Espiflöt, sveppina frá Flúðasveppum, kartöflur, gulrætur og rófur frá Grafarbakka og Auðsholti og allt salat, gúrkur, tómata og paprikur frá Böðmannsstöðum.

Við tölum við bændur og fáum það sem þeir eiga mikið af og breytum stundum matseðlinum út frá því. Sumt er árstíðabundið og finnst mér að við Íslendingar ættum að gera meira af því að borða það sem er ferskast hverju sinni eins og gert er í nágrannalöndunum. Við viljum líka að fólk kynnist sveitinni og sjái hvað við erum að gera hér, þannig tengist viðskiptavinurinn vörunni miklu betur og verður meðvitaðri um hvað hann setur ofan í sig,“ segir Halla Rós að lokum.

Ég reyni að forðast plast sem er oft mjög erfitt en það fer allt í endurvinnslu.

Vel var gert við okkur í Efstadal og við smökkuðum ýmsa gómsæta rétti og frábæran ís. Við mælum að sjálfsögðu með ferð í Efstadal sem á svo sannarlega vel við fyrir alla fjölskylduna og þökkum þeim systkinum kærlega fyrir gestrisnina.

Myndir / Unnur Magna

 

Skemmtilegar staðreyndir um jólatré

Sumir geta ekki hugsað sér að vera með annað en lifandi jólatré á meðan aðrir eru alsælir með gervitré. Svo er til fólk sem sættir sig alveg við lítið jólatré úr vírherðatrjám með jólaseríu, keramikjólatré, eða jafnvel ekkert tré. Hér eru nokkrar staðreyndir um jólatré.

  • Notkun á sígrænu tré til að halda upp á vetrarsólstöður var við lýði löngu áður en talið er að Jesús hafi fæðst.
  • Jólatré eyða ryki og ögnum úr loftinu.
  • Það tekur jólatré að meðaltali 7-10 ár að vaxa í rétta stærð.
  • Fyrstu heimildir um skreytt jólatréð eru frá Ríga í Lettlandi árið 1510.
  • Árið 2002 voru 21% Bandaríkjamanna með alvörujólatré, 48% með gervitré og 32% með ekkert jólatré.
  • Jólatré hafa verið seld í Bandaríkjunum síðan um 1850. Þar til nýlega komu öll jólatré úr skógum en nú eru yfir 21 þúsund aðilar sem rækta jólatré. Hálfur milljarður trjáa er í ræktun.
  • Aðstoðarmaður Edisons, Edward Johnson, átti hugmyndina að því að setja rafmagnsljós á jólatréð. Átta árum síðar, eða 1882, komu þau á markað fyrir almenning. Lítil kertaljós á greinar jólatrés voru almenn strax í kringum miðja 17. öld.
  • Franklin Pierce, 14. forseti Bandaríkjanna, var fyrsti forsetinn til að láta setja upp jólatré í Hvíta húsinu (1856). Þegar Teddy Roosevelt var í forsetastól mátti jólatré ekki koma inn fyrir dyr Hvíta hússins af umhverfisástæðum.
  • Fyrsta prentaða heimildin um jólatré birtist í Þýskalandi árið 1531.

Til Íslands um 1850

Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld. En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774. Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799. Nokkrum árum síðar, árið 1807, eru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, meðal annars skreytt gylltum ávöxtum og kertum. Greinilegt er, að siðurinn var þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800.

Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880-1890.

Heimildir / Vísindavefurinn
Umsjón / Guðríður Haraldsdóttir

 

 

Icelandair kaupir ekki WOW air

Icelandair Group hefur hætt við kaup á WOW air.

Icelandair Group hefur hætt við kaup á WOW air. Frá þessu er sagt frá í til­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands. Þar seg­ir: „Fallið hefur verið frá kaupum Icelandair Group á WOW air en kaup­samn­ingur var und­ir­rit­aður þann 5. nóv­em­ber sl. Þetta er sam­eig­in­leg nið­ur­staða beggja aðila.“

Sjá einnig: Icelandair Group kaupir WOW air

Skúli Mo­gensen, for­stjóri og stofn­andi Wow air, seg­ir í til­kynn­ingu: „Það var ljóst strax í upp­hafi að það var metnaðarfullt verk­efni að klára alla fyr­ir­vara við kaup­samn­ing­inn á þetta skömm­um tíma. Við þökk­um stjórn­end­um Icelanda­ir Group fyr­ir sam­starfið í þessu krefj­andi verk­efni og ósk­um sömu­leiðis stjórn­end­um og starfs­fólki Icelanda­ir Group alls hins besta.“

Sjá einnig: Örlög Wow air ráðast á föstudag

Starfsfólk WOW air hefur verið boðað til starfsmannafundar klukkan 10:00.

Batakveðjum rignir yfir Annie Mist

Íþróttakonan Annie Mist Þórisdóttir gekkst undir hjartaaðgerð á mánudaginn. Þessu greindi hún frá á Instagram í nótt. Batakveðjum frá aðdáendum hefur rignt yfir hana síðan.

Góðum kveðjum rignir yfir crossfit-meistarann Annie Mist á samfélagsmiðlum eftir að hún greindi frá því á Instagram að hún gekkst undir hjartaaðgerð á mánudaginn. Annie hefur glímt við hjartsláttartruflanir undanfarin sex ár. Hún leitaði sér læknishjálpar vegna þess fyrr á árinu og ákvörðun var tekin um að senda hana í hjartaþræðingu.

Annie segir í færslu á Instagram að henni þyki læknavísindin ótrúleg. „Þarna lá ég á skurðarborðinu með fullri meðvitund, með þrjá víra sem leiddu í hjartað,“ skrifaði hún meðal annars.

Aðgerðin gekk vel að sögn Annie. Hún stefnir á að hvíla sig í fimm daga til viðbótar áður en hún fer á fullt í æfingar aftur.

Eins og áður sagði rigna góðum kveðjum yfir Annie en hún er með 973 þúsund fylgjendur á Instagram.

View this post on Instagram

I have had a heart arrhythmia for the past 6 years or so. It has not bothered me that much in daily life, as it only happens every 2-3 months or so. This year it happened for the first time during competition – the caos event- so I decided to have someone take a look at it. This is something I have dreaded to do for a long time now so it was a big step for me to take. I went for a “surgery” this Monday. It’s crazy to think and experience what is possible with modern medicine. There I was lying on the table fully awake with 3 wires inside my heart getting pumped with Adrenaline – stress hormone and electro stimulation to get my heart beating fast enough. It was such a strange and honestly funny feeling to be there feeling like I was in a hard core training session while lying flat in a hospital bed. We did find out where my extra beats are likely getting produced but it is in a spot where I am not sure if I’m willing to take the risk to get it fixed. Everything went really well and we found out I have extremely strong heart ♥️ I am so incredibly grateful for the doctors and the nurses how sweet they were and safe they all made me feel. Now it’s back to full training in only 5 more days!!! This won’t slow me down 🔥👊 got my eye on the 🥇

A post shared by Annie Thorisdottir (@anniethorisdottir) on

Fimm starfsmönnum Fréttablaðsins sagt upp

Fimm starfsmönnum Fréttablaðsins var sagt upp síðdegis í dag.

 

Fimm starfsmönnum var sagt upp á Fréttablaðinu í dag. Samkvæmt heimildum Mannlífs var starfsfólki úr minnst þremur deildum blaðsins sagt upp, það er íþrótta-, dægurmála-, og kynningardeild.

Klukkan 18:00 fengu starfsmenn Fréttablaðsins tölvupóst frá útgefanda blaðsins, Kristínu Þorsteinsdóttur. Þar kemur fram að fimm hafi verið sagt upp í „hagræðingaskyni“ meðal annars vegna flutninga.

„Það er leitt að sjá eftir góðu fólki og við óskum þeim velfarnaðar,“ segir meðal annars í bréfi Kristínar.

Þess má geta að Fréttablaðið fluttist fyrir skömmu úr Skaftahlíð yfir í nýtt húsnæði á Hafnartorgi.

Samkvæmt heimildarmanni Mannlífs hefur vinnuandinn á Fréttablaðinu ekki verið upp á sitt besta síðan blaðið fluttist í nýtt húsnæði. Þá aðallega þar sem nýja húsnæðið er óklárað og ryk og mikill hávaði gerir vinnuaðstæður slæmar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Útilokar ekki uppsagnir

„Það má vera,“ sagði Skúli þegar hann var spurður út í mögulegar uppsagnir.

Skúli Mo­gensen, for­stjóri og stofn­andi Wow air, boðaði starfsfólk sitt á fund klukkan 10:00 í dag vegna frétta um að ekki verður af kaupum Icelandair Group á WOW air. Á fundinum kom fram að hann geti ekki útilokað að til uppsagna komi. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Þar kemur fram að Skúli hafi svarað: „Það má vera,“ þegar hann var spurður út í hvort til uppsagna gæti komið.

Þess má geta að Stefán Sigurðsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, fullvissaði starfsfólk WOW air um að þau fái laun greidd um mánaðarmótin í tölvupósti sem hann sendi í gær.

Sjá nánar: Icelandair kaupir ekki WOW air

Mynd / WOW air

Upplifir sig hvorki umdeilda né róttæka

|
Mynd/Aldís Páls

Sigríður Á. Andersen opnar sig í viðtali við Mannlíf.

Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda. Þetta kemur fram í viðtali við Sigríði sem hægt verður að lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur inn um lúguna í fyrramálið.

„Ég upplifi mig ekki umdeilda. Það eru hins vegar margir sem hrósa mér en bæta svo við: „En ég er ekki alltaf sammála öllu sem þú segir.“ Þá spyr ég oft á móti: „Hvað er það helst sem þú ert ekki sammála mér um, getur þú nefnt mér eitthvert eitt atriði?“ Stundum geta menn það ekki en ef þeir geta nefnt eitthvað þá er ég alltaf tilbúin að ræða það og þá endar það oftast þannig að við endum sammála um það atriði. Auðvitað er fólk aldrei sammála um allt en ég hef þó ekki greint annað en mikinn velvilja í minn garð sem stjórnmálamann,“ segir hún.

Ekki missa af Mannlífi á morgun.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Búið að loka Tekjur.is

Stjórn Persónuverndar hefur tekið ákvörðun um að birting opinberra upplýsing úr skattskrá sé óheimil.

Vefsíðunni Tekjur.is hefur verið lokað. Vefurinn opnaði 12. október en þar var hægt að fletta upp tekjum allra Íslendinga árið 2016.  Persónuvernd tók síðuna til skoðunnar skömmu eftir að hún opnaði. Stjórn Persónuverndar hefur nú tekið ákvörðun um að birting opinberra upplýsing úr skattskrá sé óheimil. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefnum.

Tilkynninguna má lesa í heils sinni hér fyrir neðan:

Síðdegis í gær barst lögmanni upplýsingasíðunnar Tekjur.is tilkynning frá stjórn Persónuverndar sem hefur haft starfsemi síðunnar til skoðunar. Stjórn Persónuverndar hefur nú tekið þá ákvörðun að birting opinberra upplýsinga úr skattskrá á vefsíðunni sé óheimil og gert þá kröfu að síðunni verði lokað. Þá er gerð sú krafa að rekstraraðili síðunnar eyði öllum tengdum gögnum. Tekjur.is mun tafarlaust fara að ákvörðun Persónuverndar og því hefur síðunni verið lokað.

Ákvörðun stjórnar Persónuverndar kom verulega á óvart, enda eru á upplýsingasíðunni eingöngu birtar upplýsingar sem þegar eru opinberar samkvæmt lögum og hver sem er getur nálgast hjá ríkisskattstjóra. Í ákvörðuninni er algjörlega skautað framhjá þeirri staðreynd, sem og þeim lagaákvæðum sem tilgreina að útgáfa upplýsinga úr skattskrá sé heimil, í heild eða að hluta til. Stjórn Persónuverndar túlkar skattalög þannig, að eingöngu sé heimilt að gefa skattskrána út á pappír en ekki rafrænt. Þess má geta, að skattskráin telur um 6.700 síður og því er prentuð útgáfa tæpast raunhæf.

Tekjur.is þakkar almenningi fyrir góðar viðtökur og gagnlega umræðu um tekjuskiptingu og skattlagningu í samfélaginu. Tekjur.is telur ákvörðun stjórnar Persónuverndar í andstöðu við lög og mun skoða réttarstöðu sína, enda er ljóst að ákvörðunin veldur umtalsverðu fjártjóni.

Virðingarfyllst,

Tekjur.is

Þess má geta að fyrirtækið Viskubrunnur ehf. heldur utan um tekjur.is. Fyrirtækið var stofnað í mars á þessu ári.

„Allt í einu var ég ekki lengur ein í þessu öllu“

||
||

Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin Ljósið var Sólveigu Kolbrúnu Pálsdóttur ómissandi þegar hún greindist með krabbamein árið 2017. Hún hvetur fólk til að mæta á Ljósafoss félagsins sem er táknrænn viðburður sem haldinn er til að minna fólk á starfsemi Ljóssins.

Hinn árlegi Ljósafoss niður hlíðar Esjunnar mun eiga sér stað á laugardaginn. Þar mun stór hópur göngufólks hittast við Esjustofu klukkan 15:00, halda upp að Steini klukkan 16:00 og ganga svo niður Esjuna með höfuðljós svo úr verður fallegur „ljósafoss“. Þetta er í níunda sinn sem Ljósafossinn er haldinn

Ljósafossinn er gerðir til að minna á starfsemi Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins, er spennt fyrir laugardeginum. Hún hvetur fólk til að mæta. „Þetta er táknrænn viðburður þar sem fólk mun lýsa upp myrkrið með ljósi. Í raun geta allir sem eru til í smá vetrarútivist tekið þátt.“

Á laugardaginn verður Ljósafoss Ljóssins haldinn í níunda sinn.

Kynntist Ljósinu þegar hún greindist með brjóstakrabbamein

Áður en Sólveig tók við starfi markaðs- og kynningarstjóra Ljóssins fékk hún að kynnast starfinu sem unnið er í Ljósinu þegar hún greindist sjálf með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún nýtti sér þá þjónustu Ljóssins.

„Ljósið er einn af þessum stöðum sem þú veist ekki hvað býður upp á eða hvað skiptir miklu máli fyrr en þú eða einhver sem er þér nákominn greinist með krabbamein. Þegar ég greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017 var ég svo upptekin að því að hugsa um hvernig ég myndi lifa af. Ég spáði lítið í því hvað lyfjameðferð, stór aðgerð, það að vera kippt út úr vinnu og fleira myndi hafa á líkama og sál,“ útskýrir Sólveig.

Sólveig segir að fljótt eftir fyrstu lyfjameðferðina sem hún gekkst undir hafi hún raunverulega áttað sig á hversu stórt verkefni biði hennar „Þá var staðan orðin þannig að hvorki ég né maðurinn minn vissum hvernig við ættum að tækla vanlíðanina sem meðferðin hafði skapað. Ég sendi því póst í Ljósið.“

Sólveig greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún nýtti sér þá þjónustu Ljóssins.

Sólveig kveðst hafa fengið svar frá Ljósinu nokkrum mínútum eftir að hún sendi póstinn. Hún var boðuð á kynningarfund. „Þá allt í einu var ég ekki lengur ein í þessu öllu. Það er nefnilega svo skrýtið hvernig maður getur einangrast við að bera þessa byrgði sem krabbameinið er. Maður reynir að hlífa fólkinu sínu sem mest en maður þarf stuðning. Og þar kemur Ljósið inn.“

Þegar Sólveig mætti fyrst á fund hjá Ljósinu var skrefið yfir þröskuldinn þungt að hennar sögn. „Það skref fól í sér viðurkenningu á hvað væri í gangi. En þegar ég var komin yfir hann þá varð allt létt,“ útskýrir Sólveig.

„Í Ljósinu fékk ég strax iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, sálfræðing og áætlun um hvernig þau ætluðu að fylgja mér í gegnum þetta ferli. Og allt þetta án tilkostnaðar. Þau sáu líka til þess að ég myndi ekki einangrast og hjálpuðu mér í öðlast nýja og spennandi færni. Þannig gat ég í raun notað tímann til að skoða hver ég er og hvernig lífi ég vill lifa,“ segir Sólveig.

Maður reynir að hlífa fólkinu sínu sem mest en maður þarf stuðning.

Hún tekur fram að í gegnum Ljósið hafi fjölskylda hennar einnig fengið góða þjónustu. „Til dæmis fóru börnin mín þrjú á sérsniðið námskeið fyrir börn þeirra sem greinast með krabbamein. Þannig náðu þau betur áttum. Og svo fórum við maðurinn minn einnig saman á námskeið sérsniðið fyrir pör,“ segir Sólveig. Hún bendir á að það reyni vissulega mikið á sambönd og hjónabönd þegar annar aðilinn greinist með krabbamein.

Hætti í ferðaþjónustu og fór til Ljóssins

„Ég gæti í raun setið og talað endalaust um Ljósið og hversu magnað starfið er sem þar er unnið. En það er skemmst frá því að segja að eftir að ég sneri aftur til vinnu tók ég ákvörðun um að breyta til, ég sagði upp starfi mínu í ferðaþjónustu og réði mig til Ljóssins.“

Ég gæti í raun setið og talað endalaust um Ljósið.

Aftur hvetur Sólveig fólk til að mæta á laugardaginn og taka þátt í Ljósafossinum. „Við hjá Ljósinu vonumst auðvitað til að sjá sem flesta á laugardaginn. En helst viljum við að fólk muni eftir Ljósinu og öllu því góða sem félagið gerir fyrir krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra, og þannig fyrir íslenskt samfélag.“

Mynd / Úr einkasafni

„Mér fannst ég aldrei nógu góð“

Þrátt fyrir að hafa verið eitt virtasta og vinsælasta ljóðskáld þjóðarinnar glímdi Linda Vilhjálmsdóttir við vanmetakennd. Það endaði í djúpu þunglyndi sem hún var lengi að vinna sig út úr. Nú er hún komin á beinu brautina og gerir upp við líf sitt, sögu formæðra sinna og stöðu kvenna í samfélaginu í glænýrri ljóðabók sinni Smáa letrið.

„Mér finnst vera kominn nýr tónn í umræðuna í þjóðfélaginu,“ segir Linda spurð hvað hafi valdið því að hún tók þennan pól í hæðina í Smáa letrinu. „Fólk er að endurskoða líf sitt og tilveru og er tilbúið að rýna í það á nýjan hátt. Þótt það hafi komið smávegis bakslag í #MeToo-umræðuna, þar sem karlarnir eru að rísa upp og reyna að þagga niður í okkur á nýja leik, þá finnst mér við konur ekkert vera að missa dampinn og í rauninni er ég hissa á því hversu vel þessi umræða helst vakandi í þessu Facebook-samfélagi þar sem ekkert umræðuefni endist nema í mesta lagi út vikuna, sama hversu heitar umræður það vekur í upphafi.“

Í mögnuðu forsíðuviðtali við Vikuna gerir Linda upp þessa erfiðu tíma.

Aðspurð um þá tilfinningu að þurfa að passa inn í einhvern ramma eða fyrirfram gefnar hugmyndir um konur svaraði Linda:  „Ég var næstum því búin að drepa niður alla mína sköpunargáfu með því að vera stöðugt að þvinga mig í stellingar sem ég vissi inn við beinið að hentuðu mér ekki. Ég var til dæmis mjög ósátt við það þegar ég hafði gefið út nokkrar bækur að vera alltaf að skrifa út frá persónulegri reynslu. Að vera alltaf að dúlla mér við eitthvað sem ég á þeim tíma var farin að skilgreina sem kvenleg blúnduljóð, sem væru lítils metin í bókmenntaheiminum og af lesendum. Ég væri þar af leiðandi hálfgert skúffuskáld.“

Eins og fram kemur í Smáa letrinu öðlaðist Linda smám saman nægjanlegt sjálftraust til að geta verið sátt við sjálfa sig eins og hún er, með kostum og göllum. En leiðin þangað var löng og krókótt.

Ég var næstum því búin að drepa niður alla mína sköpunargáfu með því að vera stöðugt að þvinga mig í stellingar sem ég vissi inn við beinið að hentuðu mér ekki.

„Ég fór í rosalegur dýfur áður en til þess kom,“ viðurkennir hún.

„Það liðu níu ár á milli Frostfiðrildanna sem ég skrifaði 2006 og Frelsis sem kom út 2015. Á þeim tíma lenti ég í algjörri ritteppu sem endaði í djúpu þunglyndi. Auðvitað spilaði margt fleira inn í, það var ekki bara það að ég gæti ekki skrifað,“ segir hún.

„Mamma og pabbi voru bæði að eldast og mjög veik og svo hætti ég að reykja sem tók rosalega á mig enda hafði sígarettan verið meðal við öllu, alveg frá pirringi yfir í hóstaköst. Ég hafði reykt frá því ég var þrettán ára gömul og fór endanlega yfir þunglyndisstrikið eftir að ég hætti að taka lyfið sem hjálpaði mér að hætta að reykja. Ég áttaði mig reyndar ekki á því sjálf að ég væri lasin, hélt alltaf að ég myndi taka eftir því ef ég lenti í sjúklegu þunglyndi. Ég var að passa mig á að gera allt sem ég átti að gera; fór í ræktina þrisvar í viku, mætti á mína sjálfshjálparfundi tvisvar í viku, fór út að ganga þá daga sem ég var ekki í ræktinni og var að reyna að skrifa. En einbeitingin var engin, ég gat ekki einu sinni lesið, það hlóðust upp bækur á náttborðinu því ég komst ekkert áfram,“ útskýrir Linda.

Ég áttaði mig reyndar ekki á því sjálf að ég væri lasin, hélt alltaf að ég myndi taka eftir því ef ég lenti í sjúklegu þunglyndi.

„Ég hélt að þetta væru bara svona leiðinlegar bækur en svo fór ég loks til sálfræðings til þess að vinna mig út úr ritteppunni, hélt að ef ég myndi vinna úr þeim áföllum sem ég hafði orðið fyrir í æsku gengi mér betur að skrifa. Sálfræðingurinn var búin að hafa orð á því þrjár vikur í röð að ég væri ansi þunglynd og döpur þegar ég kveikti loksins á perunni og spurði hvort henni fyndist að ég þyrfti að gera eitthvað í því. Ég hélt ég væri bara svolítið sorgmædd og leið. Mamma hafði dáið árið áður og allt hafði verið frekar erfitt.“

Í mögnuðu forsíðuviðtali við Vikuna gerir Linda upp þessa erfiðu tíma, drykkjuna, barnleysið og hið erfiða sjálfsniðurrif er aldrei leiðir til nokkurs góðs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Elín Reynis

 

Vandaðar bækur fyrir vandláta lesendur

|||
|||

Áhugaverðar bækur af ýmsu tagi er að finna í jólabókaflóðinu í ár. Þetta eru nokkrar þeirra.

Stærsta perla jólabókaflóðsins

Jón Baldur Hlíðberg gerir teikningarnar í bókinni.

Enginn vafi er á því að bókin Flóra Íslands er stórvirki í útgáfu hér á landi. Hér eru teknar saman helstu blómplöntur og byrkningar í íslenskri náttúru. Þessi bók er ítarlegri en þær handbækur sem áður hafa komið út um jurtirnar og sannkallað listaverk.

Hörður Kristinsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir eru höfundar textans. Þau rekja þróunarsögu flóru landsins, lífsferla plantna, greiningaraðferðir og setja upp lykla að réttri greiningu. Jón Baldur Hlíðberg hefur gert einstaklega heillandi myndir af öllum jurtunum í bókinni. Þær eru svo lifandi og nákvæmar en Jón Baldur hefur einnig teiknað plöntuhluta fólki til aðstoðar við plöntugreininguna og frekari fróðleiks. Hann sagði frá því í útgáfuhófi bókarinnar að hann hafi lagt mikið upp úr því að finna eintak af hverri einustu jurt og teikna eftir þeim. Stundum þurfti fleiri en eitt og vinna hratt meðan eintökin héldu enn lífi og lit. Það kostaði mörg ferðalög og leit eftir sjaldgæfum tegundum. Þessi perla er mikill fengur fyrir alla þá sem hafa áhuga á íslenskum jurtum en heilmikið er í bókinni að finna um jurtanytjar líka. Vaka Helgafell gefur út.

Næstum óþægilega hreinskilin

Höfundur er Ásdís Halla Bragadóttir.

Hornauga er sjálfstætt framhald af Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. Hér rekur hún hvernig það er kynnast helmingi gena sinna fyrst á fullorðinsaldri og hvernig raða má púslunum saman svo úr verði heilstæð mynd. Ásdís Halla sýnir mikið hugrekki með því að skrifa af svo blygðunarlausri hreinskilni um upplifanir sínar. Hún er sömuleiðis ótrúlega dugleg að afla sér upplýsinga og vinna úr þeim. Auðvitað er hluti bókarinnar hennar túlkun á tilfinningum og upplifunum forfeðra sinna en hún skrifar af miklu næmi og færni. Þetta er umhugsunarverð og góð bók. Veröld gefur út.

Mögnuð persónusköpun og spenna

Arnaldur Indriðason er snillingur í persónusköpun.

Í nýjustu bók sinni Stúlkan hjá brúnni er Arnaldur Indriðason í sínu allra besta formi. Hann er snillingur í að skapa andrúmsloft, endurspegla mismunandi tíðaranda og skapa trúverðugar og áhugaverðar persónur. Allt þetta er til staðar í þessari bók. Fyrrverandi lögreglumaðurinn Konráð er beðinn að hafa uppi á ungum fíkniefnaneytanda en á sama tíma er athygli hans vakin á máli tólf ára stúlku sem drukknaði í Tjörninni. Hann er enn þá upptekinn af örlögum föður síns og er í sambandi við Eygló, dóttur Engilberts miðils. Allir þessir þræðir fléttast síðan saman og úr verður einstaklega flott gáta. Vaka Helgafell gefur út.

Farðaði Katy Perry og kastaði vatnsblöðru í Cate Blanchett

Ísak Freyr Helgason förðunarfræðingur hefur á undanförnum árum ferðast heimshorna á milli til að farða margar fegurstu konur heims. Hann er nýkominn frá Frakklandi þar sem hann farðaði Katy Perry og kastaði (óvart) vatnsblöðru í augað á Cate Blanchett.

Ísak var sautján ára gamall þegar hann ákvað að verða förðunarfræðingur. „Ég var algjör gelgja á myndlistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og mér fannst svo ómerkilegt að teikna myndir af eplum og könnum og læra að skyggja kassa. Ég hætti þess vegna og fór beint á þriggja mánaða námskeið í förðunarskóla sem hét EMM School of Make Up. Eftir það var ekki aftur snúið.“

Hann segir sína helstu áskorun hingað til hafa verið að halda geði á tímum þegar dagskráin er þétt. Ísak er vanur að fljúga út um víða veröld til þess að farða margar fegurstu konur heims. Frægar leikkonur, söngkonur og fyrirsætur. Hann hefur verið á mjög miklu flakki upp á síðkastið. „Ég flaug nýlega á ponsulitla eyju við Palermo á Ítalíu sem heitir Panarea en þar lenti ég í einu mesta ævintýri sem ég hef á ævi minni upplifað. Ég fékk að kynnast hlutum þar sem ég vissi ekki að væru til og henti óvart vatnsblöðru í augað á Cate Blanchett! Þaðan fór ég til L.A í viku til að farða fyrir herferð og eftir það strax til Frakklands til að farða Katy Perry. Þetta hefur verið heilmikið stuð,“ viðurkennir Ísak.

Ég fékk að kynnast hlutum þar sem ég vissi ekki að væru til og henti óvart vatnsblöðru í augað á Cate Blanchett!

Nýlega lenti hann í ógöngum þegar hann var í tökum í skógi rétt fyrir utan Los Angeles. Þar var allt morandi í höggormum og stór skilti út um allt til þess að vara fólk við þeim. „Ég heyrði í alvörunni í höggormunum þarna allt í kring en þurfti að standa kyrr með förðunarburstana og reyna mitt besta að pissa ekki í mig úr hræðslu,“ segir Ísak og skellir upp úr.

Ég heyrði í alvörunni í höggormunum þarna allt í kring en þurfti að standa kyrr með förðunarburstana og reyna mitt besta að pissa ekki í mig úr hræðslu.

Ísak býr í London með kærastanum sínum en er með annan fótinn hér heima á Íslandi. Hann segist reglulega koma til landsins til að kúpla sig út og slappa af. „Það skiptir mig svo miklu máli að finna innri ró og slappa af í íslenskri náttúru.“

Það er margt spennandi fram undan hjá Ísaki en hann hlakkar mest til að fara til Oman í byrjun nýja ársins.

Aðspurður hvaða stjörnu honum hafi þótt skemmtilegast að farða segir hann: „Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að mála Katy Perry. Hún er algert gull og sjúklega fyndin en á sama tíma með svakalega góða orku í kringum sig.“

Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að mála Katy Perry. Hún er algert gull og sjúklega fyndin en á sama tíma með svakalega góða orku í kringum sig.

Óskalistinn

Hvaða föt og fylgihlutir eru á óskalista hjá þér?

Mig langar í geggjaða, prjónaða lopapeysu. Flottan klút eftir Hildi Yeoman, Balenciaga-stígvél, næs kasmírpeysu og par af trylltum Tom Ford-gleraugum.

Hver er þín helsta tískufyrirmynd?

Í rauninni hef ég enga tískufyrirmynd. Ég var alltaf rosalega mikið fyrir Grace Jones þegar ég var yngri en það hefur breyst. Ég hef alltaf verið frekar mikill hippi í mér og vil helst hafa allt þremur númerum of stórt. Ég elska hreyfingar í efnum og skrítin mynstur. Elsku Jame, kærasti minn, er alltaf svo hissa á því sem ég kaupi en segir alltaf að ég líti vel út, elsku kallinn. Ef eitthvað er að angra mig þá klæði ég mig í svart og mikið dökkt. Þá verð ég pínulítið eins og skríðandi skjaldbaka.

Ef eitthvað er að angra mig þá klæði ég mig í svart og mikið dökkt. Þá verð ég pínulítið eins og skríðandi skjaldbaka.

Hvað er möst að eiga fyrir veturinn?

Góða úlpu. Ég elska Drangajökul-úlpuna mína frá 66°Norður. Hún heldur á mér hita allan veturinn og er einstaklega góð í útitökum. Hún er tveimur númerum of stór svo það komast fleiri en ég fyrir í henni.

Hvaða nude-varalitur er bestur?

Sá sem ég nota mest núna er pottþétt liturinn Spanish Pink frá Tom Ford.

TOPP 5 hjá Ísaki

Ísak segir topplistann sífellt breytast hjá sér, enda fær hann mikið af snyrtivörum sendar til sín. Hér er það sem er í uppáhaldi hjá honum í augnablikinu.

Sensai Bronzing Gel frá Kanebo er í uppáhaldi.

1. Eitt af því sem er ómissandi og hefur verið í fyrsta sæti hjá mér í mörg ár er Sensai Bronzing Gel frá Kanebo. Kremið er með geláferð sem gefur húðinni fallegan ljóma í stað þess að þekja. Algjört töfraefni. Ég, mamma, amma, systir mömmu og allt heila ættartréð notar þetta.

2. Just Skin, litaða rakakremið frá Chaintecaille, er eina rakakremið með þekju í sem bræðir sig inn í húðina og þó að þú færir yfir andlitið með stækkunargleri myndirðu ekki taka eftir því að manneskjan væri með eitthvað á húðinni.

3. Syncro Skin Lasting Liquid Foundation frá Shiseido er farði sem ég lifi fyrir. Hann rennur yfir húðina eins og silki, þekur miðlungs og gefur ótrúlega fallega áferð. Það er ótrúlega auðvelt að vinna með hann og allir sem kynnast honum falla fyrir honum. Ég notaði alltaf Luminous Silk-farðann frá Armani en Shiseido hefur hressilega tekið fram úr.

4. Skin Food frá Weleda er þykkt rakakrem sem er í rauninni fyrir þurra bletti en ég elska að nota það yfir allt andlitið áður en ég ber farða á. Mér finnst húðin fá svo ótrúlega fallegan ljóma en þá púðra ég rétt yfir þá staði sem ég vil hafa matta ef mér finnst húðin of glansandi.

5. Eye defining liner frá Tom Ford er fljótandi eyeliner sem er með ofurmjóum oddi framan á og þess vegan er hægt að gera mjög fína línu. Ég elska líka hvað hann er extra svartur.

Mynd / Saga Sigurðardóttir

Kínverski ljósmyndarinn Lu Guang týndur

Ljósmyndarinn Lu Guang hefur verið týndur síðan 3. nóvember. Eiginkona hans fékk þær upplýsingar að hann hefði verið numinn á brott.

Kínverski verðlaunaljósmyndarinn Lu Guang er týndur samkvæmt eiginkonu hans, Xu Xiaoli. Xu Xiaoli segir eiginmann sinn hafa verið numinn á brott fyrir rúmum þremur vikum af öryggisvörðum á vegum Xinjiang-héraðsins í norðvesturhluta Kína. Þessu sagði hún frá í viðtali við The Associated Press.

Xu sagði eiginmann sinn hafa verið á ferðalagi um Xinjiang-héraðið þann 3, nóvember. Hann átti þá að mæta á fund annars ljósmyndara þann 5. nóvember en mætti aldrei á fundinn.

Xu hefur síðan þá gert tilraunir til að hafa uppi á eiginmanni sínum en fékk þær upplýsingar að öryggisverðir Xinjiang-héraðs hefðu numið hann á brott. Þetta kemur fram í frétt á vef Time. Xu hefur ekki fengið nánari upplýsingar um hvarf Lu.

„Ég veit að hann myndi ekki gera neitt ólöglegt,“ sagði Xu.

Þess má geta að ljósmyndarinn Lu Guang hefur unnið til verðlauna fyrir ljósmyndir sínar sem hafa varpað ljósi á líf og tilveru m.a. kolanámumanna, eiturlyfjafíkla og alnæmissjúklinga.

Hver verður persóna ársins hjá TIME?

Hvern mun tímaritið TIME velja sem persónu ársins 2018? Christine Blasey Ford og Brett Brett Kavanaugh virðast vera meðal þeirra sem koma til greina.

Árlega frá árinu 1927 hefur tímaritið TIME valið mann ársins eða persónu ársins. Í desember verður tilkynnt hver hreppir titilinn í ár en þessa stundina stendur yfir kosning á vef TIME. Með kosningunni vill ritstjórn fá álit almennings þrátt fyrir að endanlegt val sé í höndum ritstjórnar TIME.

Í síðustu viku birtist samantekt á vef TIME yfir fólk sem gæti komið til greina sem persóna ársins 2018. Þar er fjallað um Christine Blasey Ford, konuna sem steig fram og sakaði Brett Kavanaugh um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 15 ára. Hæstaréttardómarinn Brett Kavanaugh er einnig nefndur. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild á Bandaríkjaþingi, og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eru einnig nefndar svo nokkur dæmi séu tekin.

Þess má geta að í fyrra var það fólkið sem tók þátt í #meetoo-byltingunni og töluðu opinskátt um kynferðisofbeldi sem var valið „persóna ársins.“ Árið áður var það Donald Trump.

Almenningur getur gefið sitt álit í kosningu á vef Time.

Mynd / Af vef TIME

Tveggja mánaða fangelsi fyrir kartöfluflögur

Írsk kona hefur verið dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir „skemmdir“ á Pringles-umbúðum.

Írsk kona hefur verið dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir að opna stauk af kartöfluflögum í Tesco-verslun áður en hún greiddi fyrir flögurnar.

Konan sem um ræðir heitir Kathleen McDonagh og er 25 ára gömul. Hún opnaði stauk af Pringles-flögum í Tesco-verslun í Cork í desember árið 2016.

Konan hafði áður verið bönnuð í þessari tilteknu verslun, ekki kemur fram af hverju. Hún sagði fyrir dómi að hún hefði brugðið á það ráð að fara inn í verslunina og opna umbúðirnar og þannig yrði hún neydd til að greiða fyrir flögurnar. Þannig ætlaði hún að halda áfram að versla í búðinni þrátt fyrir bannið. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

Áætlun hennar misheppnaðist þó hrapallega því Tesco höfðaði mál gegn henni og hún var dæmd fyrir „skemmdir“. Þess má geta að flögurnar kostuðu upphæð sem nemur um 240 krónum.

Judy tekjuhæst með 18,4 milljarða

Judy Sheindlin stýrir þættinum Judge Judy með 18,4 milljarða í árslaun.

Viðskiptatímaritið Forbes hefur nú birt lista yfir tekjuhæstu þáttastjórnendur ársins.

Judy Sheindlin, sem stýrir þættinum Judge Judy, trónir á toppi nýjasta lista Forbes yfir tekjuhæstu þáttastjórnendurnar. Hún var með upphæð sem nemur 18,4 milljörðum króna í laun fyrir skatt miðað við núverandi gengi. Þættirnir Judge Judy eru sýndir á CBS. Núna er verið að sýna tólftu seríu.

Meðylgjandi er svo listi yfir þá þáttastjórnendur sem verma fimm efstu sæti lista Forbes.

5. Grínistinn Steve Harvey er í fimmta sæti með 5,5 milljarða. Hann er þekktastur fyrir að vera kynnir spurningaþáttarins Family Feud.

4. Ryan Seacrest er í fjórða sætinu með 9,3 milljarða. Hann náði miklum vinsældum þegar hann var kynnir American Idol. Í dag er hann framleiðandi Keeping Up with the Kardashians og annar kynnirinn í morgunþættinum Live with Kelly and Ryan.

3. Dr. Phil McGraw er í þriðja sætinu með 9,7 milljarða í laun á ári.

2. Spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres er í öðru sæti með tæpa 11 milljarða í árslaun.

1. Judy Sheindlin trónir á toppnum með 18,4 milljarða.

Tekið skal fram að listinn tekur mið af þeim tekjum sem þénaðar voru frá júní 2017 til júní 2018. Um laun fyrir skatt og launatengd gjöld er að ræða.

Snjórinn, jólaljósin og samveran best

Laura Elena Cervera Magallanes, kennari hjá Hjallastefnunni og túlkur, flutti til Íslands frá Mexíkó ásamt eiginmanni og tveimur sonum sumarið 2011. Hún segir fyrstu jólin á Íslandi hafa verið ógleymanleg og þar hafi snjórinn átt stærstan þátt.

„Upphaflega ætluðum við bara að vera á Íslandi í eitt og hálft ár svo við gerðum ráð fyrir því að jólin 2011 yrðu einu íslensku jólin okkar og vildum gera þau sem eftirminnilegust,“ útskýrir Laura. „Synir okkar, sem voru þá fjögurra og fimm ára, voru yfir sig spenntir yfir því að fá gjafir frá jólasveinunum í skóinn og vöknuðu fyrir allar aldir til að gá hvað væri í skónum. Stundum vöknuðu þeir klukkan tvö á nóttunni og ég var að verða örmagna af því að passa að koma gjöfunum í skóinn áður en þeir vöknuðu. Þetta var allt svo nýtt og framandi. Meira að segja myrkrið var spennandi fyrir okkur þessi fyrstu jól. Við bjuggum áður í Cuernavaca, Morelos sem er stundum kölluð borg hins eilífa vors svo þú getur ímyndað þér viðbrigðin! En snjórinn, jólaljósin og myrkrið, auk samveru við fjölskyldu eiginmanns míns sem er hálfíslenskur, gerðu þessi jól einhver þau eftirminnilegustu sem við höfum átt.“

Meira að segja myrkrið var spennandi fyrir okkur þessi fyrstu jól.

Þótt jólahefðir í Mexíkó séu ólíkar þeim íslensku segir Laura jólin þar og hér líka að því leyti að þau snúist fyrst og fremst um samveru með fjölskyldu og vinum og að borða góðan mat saman. Ein tegund af íslenskum jólamat vekur þó ekki hrifningu hennar.

„Þessi siður að borða illa lyktandi skötu á Þorláksmessu hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá mér,“ segir hún og hryllir sig. „Ég get alls ekki borðað hana. En allur annar íslenskur jólamatur finnst mér mjög góður; hangikjöt, rjúpa, laufabrauð, reyktur lax og bara allt. Mjög ólíkur jólamatur frá þeim sem ég er vön frá Mexíkó, en alveg jafngóður.“

Þessi siður að borða illa lyktandi skötu á Þorláksmessu hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá mér.

Laura segir mesta muninn á íslenskum og mexíkóskum jólum felast í jólahefðunum. „Í Mexíkó fögnum við jólunum frá 12. desember til 6. janúar og frá 16. desember fram á aðfangadagskvöld eru skrúðgöngur á hverju kvöldi til að minnast leitar Maríu og Jóseps að gistingu á gistiheimilum. Börnin ganga milli húsa með kerti og syngja söngva sem greina frá þessari leit við hverjar dyr, en er alltaf vísað í burtu. Göngunni lýkur svo á hverju kvöldi með veislu á mismunandi heimilum sem gegna hlutverki fjárhússins þar sem María og Jósep fengu loksins inni, og þar er borðað og drukkið, farið í leiki, flugeldum skotið upp og börnin fá fullt af sælgæti úr leirkrukku sem vanalega hangir niður úr lofti hússins og þau þurfa að brjóta með því að berja í með bundið fyrir augun. Á aðfangadagskvöld er svo settur upp pallur með Maríu og Jósep við jötuna og þegar rétta húsið er fundið er Jesúbarnið sett í jötuna. Svo fara allir í messu til að fagna komu jólanna.“

Laura viðurkennir að hún sakni jólanna í Mexíkó stundum, sakni fjölskyldu sinnar og vina, en sem betur fer eigi fjölskyldan stóra fjölskyldu á Íslandi líka sem komi saman um jólin svo þrátt fyrir allt sé upplifunin ekki svo ólík. Það besta sé þó hve allir séu glaðir á jólunum.

„Það besta við jólin á Íslandi er hvað allir eru í góðu skapi,“ segir hún hlæjandi. „Svo dýrka ég líka öll jólaljósin utan á húsunum. Ég vona virkilega að það verði hvít jól í ár, það er hátíðlegast og við vorum svo ótrúlega heppin að fá jólasnjó fyrstu jólin okkar á Íslandi. Það var ógleymanleg upplifun.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg

 

6 góð ráð við bakstur

Nú nálgast jólin óðfluga og margir eru farnir að huga að jólabakstrinum. Meðfylgjandi eru nokkur góð bakstursráð sem ættu að koma sér vel.

1. Notið alltaf egg við stofuhita. Ef þið eruð í tímahraki er gott að leggja þau í volgt vatn úr krananum í skál í 5 mínútur. Svampbotnar og kökur þar sem egg og sykur eru þeytt saman heppnast miklu betur ef eggin eru ekki köld.

2. Til að koma í veg fyrir að kaka falli er gott ráð að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínútur af bökunartímanum.

3. Ofnar eru misjafnir. Byrjið á að athuga hvernig baksturinn á kökunni gengur 7-8 mínútum áður en baksturstímanum ætti að vera lokið. Kakan ætti að vera tilbúin þegar deig festist ekki á prjóni sem stungið er í miðjuna á kökunni.

4. Mikilvægt er að lesa vel yfir alla uppskriftina áður en byrjað er að baka. Síðan skulið þið taka allt til sem er í uppskriftinni. Sumum finnst gott að raða hráefninu upp í þeirri röð sem á að nota það. Farið síðan yfir tímann sem gefinn er í baksturinn. Það er ekki gaman að lenda í tímaþröng og kakan ekki tilbúin í ofninum.

5. Þegar bræða á súkkulaði verður skálin og það sem hrært er með að vera þurrt. Minnsti dropi af vökva getur orðið til þess að súkkulaðið þornar. Best er að bræða súkkulaðið við vægan hita. Mjólkursúkkulaði er viðkvæmara en það dökka.

6. Þegar blanda á saman bræddu súkkulaði og eggjarauðum er mikið atriði að svipaður hiti sé á öllu, þess vegna er oft talað um að bræða súkkulaði við mjög vægan hita yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðið er of heitt og kaldar rauður settar út í þornar allt saman og verður að klumpi. Gott ráð er að velgja rauðurnar í glasi í vatnsbaði smástund og passa hitann á súkkulaðinu.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir

 

Of föst í vélrænni nálgun á líkamlega heilsu

Tengslin á milli áfalla í æsku og sjúkdóma síðar á lífsleiðinni eru sterk. Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir skrifaði doktorsritgerð sína um málefnið en henni finnst tími til kominn að kafa dýpra og hætta að nálgast líkamlega heilsu á vélrænan hátt.

Áhuginn á umfjöllunarefni ritgerðarinnar vaknaði á síðasta ári Margrétar í læknisfræði, í heimilislæknisfræðikúrsi. „Læknanámið hafði fram að því verið fókuserað á ákveðna líffræði og líffærakerfi og í raun oftast án mikils samhengis við önnur kerfi í líkamanum. Svolítið í stíl við sérgreinalækningar þar sem aðaláherslan er lögð á eitt líffæri. Sumarið fyrir síðasta árið vann ég á Slysa-og bráðadeild og fannst sú reynsla frábær. En það voru ákveðnir hlutir sem mér fundust sláandi. Það voru þeir einstaklingar sem leituðu endurtekið á deildina með óútskýrða verki. Ég velti því oft fyrir mér hvort væri ekki eitthvað meira sem lægi þar að baki. Á síðasta árinu í heimilislæknisfræðikúrsinum lásum við svo grein um samspil streitukerfa líkamans og hvernig þau geta krossverkað og breytt líffræði líkamans til lengri tíma ef við lendum í alvarlegum áföllum eða erfiðleikum þar sem streitan í okkur verður „eitruð“ ef svo má segja.“

Margrét segir það hafa verið púslið sem vantaði inn í myndina í læknanáminu. Að líta á hlutina í stærra samhengi, líkamann í heild sinni og félagslegt umhverfi um leið. „Fyrir mér var svo fullkomlega rétt að hugsa þetta svona. Þegar ég fór að vinna á heilsugæslunni á kandidatsárinu mínu sannfærðist ég enn frekar um þetta. Þar hitti ég margt fólk sem glímdi einmitt við þessi vandamál – sögu um áföll og marga líkamlega sjúkdóma. Svo var það eiginlega þannig að mér bauðst að gera verkefni um þessi mál – ef ég væri til í að fara gegnum doktorsnám. Ég hafði í raun ekki hugsað mér að fara í doktorsnám en þegar ég heyrði af þessu verkefni gat ég eiginlega ekki annað en stokkið til,“ segir Margrét og sér svo sannarlega ekki eftir því í dag.

Á síðasta árinu í heimilislæknisfræðikúrsinum lásum við svo grein um samspil streitukerfa líkamans og hvernig þau geta krossverkað og breytt líffræði líkamans til lengri tíma ef við lendum í alvarlegum áföllum eða erfiðleikum þar sem streitan í okkur verður „eitruð“ ef svo má segja.

Heilastöðvar þroskast minna

En hvað er það nákvæmlega sem gerist í líkamanum við slæmar upplifanir eða áföll í æsku og hvernig hefur það áhrif á heilsu okkar síðar meir? „Ef við hugsum bara um barnæskuna – og þá sérstaklega snemma í barnæsku – þá er í raun tvennt sem gerist. Í fyrsta lagi breytist þroskinn í heilanum, ákveðnar stöðvar heilans þroskast minna en þær ættu að gera. Það gerist í raun til að vernda okkur fyrir því sem er að gerast og breytir aðeins skynjun okkar á hlutunum en verður til vandræða seinna meir. Hitt sem gerist er að öll þau kerfi sem taka þátt í streitukerfi líkamans fara úr skorðum. Streitukerfin eru mjög mörg, svo sem ósjálfráða taugakerfið, hormónakerfið, ónæmiskerfið og heilaboðefnin og þau spila öll í kross hvert á annað. Við áföll eða langvarandi erfiðleika breytist virkni allra þessara kerfa. Það mætti segja að þau fari öll á yfirsnúning og til verður eitruð streita í líkamanum. Mörg kerfana ná svo ekki að jafna sig aftur þegar erfiðleikarnir eru liðnir hjá. Það leiðir svo til þess að við þróum með okkur sjúkdóma síðar.“

Aðspurð um mikilvægustu lexíuna sem hún lærði við það að kynna sér þessi mál til hlítar segir hún það hafa komið mest á óvart hversu lengi hefur verið horft fram hjá áhrifum félagslegs umhverfis á heilsufar. „Áhrif áfalla og erfiðleika á þróun sjúkdóma eru mjög sterk. Þau eru líklega sterkari áhættuþættir en margir þeir áhættuþættir sem við erum vön að einblína á í okkar klínísku vinnu, svo sem háþrýstingur eða of hátt kólesteról. Þrátt fyrir það er erfitt að koma þessum málum að og mögulega er það vegna einhverrar hræðslu við að taka á erfiðum málum en ef til vill vegna þess að við erum enn of föst í vélrænni nálgun á líkamlega heilsu.“

Áhrif áfalla og erfiðleika á þróun sjúkdóma eru mjög sterk. Þau eru líklega sterkari áhættuþættir en margir þeir áhættuþættir sem við erum vön að einblína á í okkar klínísku vinnu, svo sem háþrýstingur eða of hátt kólesteról.

Enginn opnað á ormagryfju barnæskunnar

Margréti finnst mikilvægt að það komi fram að það þurfi ekki endilega einhverja dramatíska nálgun þegar andlegi þátturinn kemur upp í samtali við lækna. „Rannsóknir hafa sýnt að bara það að samþykkja vandann og viðurkenna áhrif áfalla á heilsu hefur heilmikið að segja fyrir skjólstæðinginn og getur jafnvel fækkað heimsóknum til lækna og á bráðamóttökur.“

Margrét segist einnig hafa lært mikilvægi þess að hlusta á fólk. „Ég veit ekki hversu margir hafa komið til mín og opnað sig um að hafa gengið milli lækna endalaust en enginn hafi opnað á ormagryfju barnæskunnar.“

Mikilvægt er fyrir líkamlega heilsu að vinna úr áföllum sem fólk verður fyrir en oft er ekki mögulegt að gera það jafnóðum. „Ákveðnum erfiðleikum getur verið gott að vinna úr strax, svo sem áfalli við að missa foreldri eða náinn vin. En flest þau áföll sem við erum að tala um, ofbeldi, vanræksla og slíkt, stendur yfir í langan tíma og eru oft mjög dulin. Þau eru jafnvel dulin börnunum sjálfum sem átta sig til dæmis ekki strax á að drykkja foreldra sinna sé óeðlileg. Þannig er kannski erfitt að ímynda sér hvernig ætti að vinna úr þeim strax.“

Hún segir þarft að opna á umræðu um þessi mál og kenna fólki hvernig best er að takast á við vandamál. „Það er alltaf mikilvægt að vinna úr erfiðleikunum þegar maður sjálfur áttar sig á að þeir hafi haft slæm áhrif á mann. Og ég held að það sé mjög oft ráð að fá faglega hjálp til að takast á við hlutina, einmitt vegna þess að erfiðleikar úr æsku og óuppbyggileg vinnsla úr þeim, getur smitað út frá sér, til dæmis yfir í sambönd á fullorðinsárum.“

Rannsóknir hafa sýnt að bara það að samþykkja vandann og viðurkenna áhrif áfalla á heilsu hefur heilmikið að segja fyrir skjólstæðinginn og getur jafnvel fækkað heimsóknum til lækna og á bráðamóttökur.

 Hið fullkomna heilbrigðiskerfi

Talið berst að hinu fullkomna heilbrigðiskerfi. Margrét segir mikilvægt að fá sálfræðinga á samning hjá Sjúkratryggingum svo að fólk hefði þá frekar efni á að leita til þeirra. „En það er fleira sem þarf að breytast. Ég held að fólk eigi til að gleyma því hvað heilsugæslan hefur upp á að bjóða og hversu stór partur af geðheilbrigðiskerfinu hún er. Um 20% af heimsóknum til heimilislækna til dæmis eru vegna andlegra vandamála. Þar fer fram mikil þjónusta. En það vantar stærra millistig. Göngudeildarþjónustu og dagdeildarþjónustu, skref á milli þess að mæta til heimilisæknis og að vera lagður inn á bráðageðdeild. Það er reyndar í smíðum að vissu leyti. Svo þarf að minnast á úrræði varðandi þá sem glíma við fíkn. Þar er stórt gat í kerfinu líka, og það er einmitt hópur sem gjarnan hefur lent í miklum áföllum.“

Margrét segir einnig mikilvægt að innleiða sálfræðiaðstoð inn í skólakerfið. „Kennarar og nemendurnir sjálfir þurfa að fræðast um áföll, hver þau eru, mikilvægi þess að segja frá þeim, hvaða áhrif þau geta haft og hvernig megi fá aðstoð við að vinna úr þeim.“

Margrét vann nýverið að kynningarefni og veggspjaldi í samstarfi við Geðhjálp þar sem almenningi er kynntur spurningalisti varðandi áföll í æsku og áhrif þeirra á langvinna sjúkdóma á fullorðinsárum. Í kjölfarið mun fagfólk innan heilsugæslunnar vinna með efnið og vonandi taka geðræna heilsu inn í heildarmyndina í auknum mæli.

Dulin áhrif áfalla í æsku á heilsufar á fullorðinsárum

Rannsóknir hafa sýnt fram á að erfið upplifun í æsku geti haft neikvæð áhrif á heilsu og lífskjör fólks á fullorðinsárum ef ekkert er að gert. Þekktasta rannsóknin á þessu sviði er svokölluð Adverse Childhood Experiences, ACE, rannsókn.

Rannsóknin hefur leitt í ljós að við áfall innan hvers ACE-sviðs eða svokallað ACE-stig eykst hættan á neikvæðum afleiðingum á heilsu og lífskjör fólks á fullorðinsárum.
Þú getur nálgast ACE-spurningarlistann á www. gedhjalp.is. Við hvetjum þig til að svara spurningunum vandlega og ræða niðurstöðurnar við heimilislækninn þinn ef tilefni er til og alveg sérstaklega ef þær fela í sér fjögur ACE-stig eða fleiri.

Sem dæmi má nefna að einstaklingar með fjögur ACE-stig eða fleiri eru talsvert líklegri en einstaklingar með engin ACE-stig til að stríða við fíknisjúkdóma, þunglyndi, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Að sama skapi eru þeir líklegri til að hafa upplifað stjórnleysi, óskipulagða þungun, nauðgun, fósturlát og atvinnumissi. Frekari upplýsingar um ACE-mælikvarðann má m.a. nálgast á eftirfarandi slóð: acestoohigh.com

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030

|||
|||

Á ráðstefnunni „Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030“ var það haft að leiðarljósi að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að hætta að nota jarðefnaeldsneyti.

Í gær fór fram ráðstefnan „Ísland jarðefniseldsneytislaust árið 2030“ sem haldin var í Háskólabíó en um hundrað ráðstefnugestir sóttu ráðstefnuna. Á ráðstefnunni var það haft að leiðarljósi að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að hætta að nota jarðefniseldsneyti.

Markmið ráðstefnunnar var að ræða ýmsar áskoranir og möguleika er fylgdu slíku frumkvæði. Sænsk-íslenska viðskiptaráðið ákvað því að halda hana til að vekja aukinn áhuga málefninu og stuðla að því að Íslandi hætti að nota jarðefniseldsneyti og ýta undir hröð skipti yfir í lágkolefnasamfélag. Jafnframt er markmiðið að efla samstarfið enn frekar á milli Svíþjóðar og Íslands á sviði verslunar og menningar til að auðvelda Íslendingum að ná árangri hvað þetta frumkvöðlastarf varðar.

Að búa til jarðefniseldsneytislausar samgöngur á Íslandi eykur viðskiptatækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem og önnur fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt í þessari metnaðarfullu uppbyggingu.

Fram komu margir áhugaverðir fyrirlesarar, bæði frá Íslandi og Svíþjóð sem vert var að hlýða á.

Ríkisstjórn Íslands setti fram metnaðarfullan áætlun um baráttu gegn loftslagsbreytingum í haust. Áætlunin felur í sér 34 stór skref sem ætlað er að takmarka losun koltvísýrings með það að markmiði að gera Ísland að fullu kolefnishlutlaust árið 2040.

Til að mynda er þar miðað að því að banna skráningu nýrra olíu- eða dísilvéla árið 2030. Ríkið mun gera ráðstafanir til að auka fjölda rafknúinna ökutækja á næstu árum.  Áætlunin kallar einnig á bindingu kolefnis með endurheimt votlendis og skógræktar. Til þess að þessi áætlun sé raunhæf þurfum við að gera ráðstafanir og bregðast við með nýjum leiðum. Við höfum orkuna, innviðina og smæðina en okkur vantar tæknina.

Sofia Lundberg frá Arlanda flugvelli hélt erindi á ráðstefnunni.

Fram komu margir áhugaverðir fyrirlesarar, bæði frá Íslandi og Svíþjóð sem vert var að hlýða á rekja þær leiðir sem í boði eru. Meðal fyrirlesara voru, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Sofia Lundberg frá Arlanda flugvelli, Jonas North frá Scania, Rikard Agmarken frá Volvo og Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbanka Íslands svo dæmi séu tekin.

Voru erindin hvert öðru áhugaverðari og niðurstaða ráðstefnunnar var sú að Ísland hefur fjölmörg tækifæri til vera fremst í flokki og leiðandi í þessu verkefni.

Sigurður Ingi Jóhannsson lét sig ekki vanta.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fjölbreytileiki í sveitinni

Fjögur systkini reka fyrirtækið Efstadal í uppsveitum Árnessýslu. Þar er til staðar myndarlegt kúa- og nautgripabú, ísbúð, veitingastaður, hótel og hestaleiga. Býlið hefur verið í eigu sömu ættarinnar í meira en þrjár aldir. Gestgjafinn var þar á ferð í sumar og hitti fyrir systkinin og kynnti sér þá starfsemi sem þar fer fram.

Gott er að koma inn í hlýjuna í Efstadal og notalegt andrúmsloft í hlöðunni sem nú er móttaka og ísbúð. Á meðan við bíðum eftir Höllu Rós, elstu systurinni, lítum við í kringum okkur á staðnum. Fólk streymir inn og stendur í röðum eftir ís, svo eru það kýr og kálfar sem fanga athygli okkar en inni í ísbúðinni er stór gluggi þar sem gestir geta horft inn í fjósið.

Við njótum þess að horfa á og fylgjast með þessum kunnuglegu skepnum og ekki annað en hægt að dást að þessum stað sem þau systkini hafa skapað. Það er einstakt að geta séð með berum augum hvaðan rjóminn sem er í ísnum kemur, sem keyptur er á sama stað. Hjónin Björg Ingvarsdóttir og Snæbjörn Sigurðsson hafa búið á jörðinni Efstadal frá því árið 1991 en nú hafa börnin þeirra fjögur, Halla Rós, Sölvi, Guðrún Karitas og Linda Dögg og makar þeirra (Björgvin Jóhannesson, Kristín Ingunn Haraldsdóttir, Árni Benónýsson og Héðinn Hauksson) tekið við öllum rekstrinum.

Þau eru fjórða kynslóð sinnar fjölskyldu sem búið hefur á jörðinni. Þar hefur fyrst og fremst verið stundaður búskapur en ýmislegt hefur bæst við á undanförnum árum. Fjölskyldan rekur hestaleigu, veitingastaðinn Hlöðuloftið, ísbúðina Íshlöðuna og svo er það hótel- og ferðaþjónustan. Einnig framleiðir hún vörur sem eru til sölu á staðnum, þá einna helst nautakjöt, fetaost, skyr, mysu og ís.

Þau vildu nota eins mikið upprunarlegt og hægt var, eins og veggi úr hlöðunni og fjárhúsagrindur.

Næstyngsta systirin, Guðrún Karitas, gengur brosandi í átt að okkur en hún stendur vaktina í móttökunni þennan dag. Við förum upp á aðra hæð, en þar er veitingastaðurinn Hlöðuloftið sem er afar vinalegur og heimilislegur og fagurlega skreyttur með skemmtilegum hlutum úr sveitinni. Fróðleikur um fjölskylduna hangir á veggjunum á mjög svo fallegum, hringlaga skiltum. Vinaleg umgjörð þar sem gestkomandi fær á tilfinninguna að vera boðinn inn í stofu fjölskyldunnar.

Breyttu hlöðunni í veitingastað

Halla Rós kemur hlaupandi upp stigann, sest hjá okkur og segir okkur í stórum dráttum söguna. „Foreldrar okkar byrjuðu með hestaleiguna árið 1994 og árið 2002 var heimagistingunni bætt við, svo var ráðist í byggingu á húsi með tíu herbergjum sem hefur verið í rekstri frá 2005. Þegar heyskapurinn breyttist og hlaðan varð tóm fengu foreldrar okkar þá hugmynd að breyta henni í veitingastað. Sölvi bróðir okkar hafði verið mikið með mömmu í eldhúsinu og er afbragðskokkur svo þau byrjuðu að byggja þetta upp saman,“ segir Halla Rós.

Þegar heyskapurinn breyttist og hlaðan varð tóm fengu foreldrar okkar þá hugmynd að breyta henni í veitingastað.

Sólbjörg Lind, dóttir Höllu, og Brynjar Logi, sonur Sölva, standa vaktina í ísbúðinni.

Hún segir að þau hafi rekið sig á ýmislegt til að byrja með og fáir hafi lagt leið sína til þeirra í fyrstu. „Það þurfti að bæta við hlöðuna og vinna ýmis verk en árið 2012 var svo hafist handa við að breyta hluta hlöðunnar í ísbúð og veitingastað ásamt því að byggja viðbyggingu fyrir ísvinnslu, eldhús, móttöku, bar og starfsmannaaðstöðu og svo hefur þetta bara verið upp á við. Foreldrar okkar stigu til hliðar fyrir um ári síðan og við tókum við öllu saman.

Það var smávegis sjokk að taka alla ábyrgðina. Bróðir minn og mágur sjá að mestu um búskapinn og við stelpurnar berum ábyrgðina hér inni. Við erum með frábæra fagmenn á veitingastaðnum og fullt af góðu fólki í vinnu hjá okkur. Þetta er flókið fyrirtæki að reka en með góðu skipulagi gengur það. Hér áður fyrr var aðalstressið í kringum heyskapinn en núna er það meira stress þegar allt í einu kemur stór hópur af ferðamönnum í mat og allt þarf að ganga upp,“ segir Halla Rós.

Viljum fá fólkið til okkar

Halla er mjög mikil áhugamanneskja um flokkun og segist vera kölluð Rympa á ruslahaugunum af systkinum sínum. „Það þarf að vera gríðarlega agaður til að flokka vel en flokkun er framtíðin. Ég reyni að forðast plast sem er oft mjög erfitt en það fer allt í endurvinnslu. Mér finnst líka mikilvægt að minnka matarsóun með því að nýta matinn betur. Við skiptum við fyrirtæki hér í nágrenninu og viljum allt það ferskasta. Við kaupum jarðarber frá bóndanum á Silfurtúni, blómin fáum við frá Espiflöt, sveppina frá Flúðasveppum, kartöflur, gulrætur og rófur frá Grafarbakka og Auðsholti og allt salat, gúrkur, tómata og paprikur frá Böðmannsstöðum.

Við tölum við bændur og fáum það sem þeir eiga mikið af og breytum stundum matseðlinum út frá því. Sumt er árstíðabundið og finnst mér að við Íslendingar ættum að gera meira af því að borða það sem er ferskast hverju sinni eins og gert er í nágrannalöndunum. Við viljum líka að fólk kynnist sveitinni og sjái hvað við erum að gera hér, þannig tengist viðskiptavinurinn vörunni miklu betur og verður meðvitaðri um hvað hann setur ofan í sig,“ segir Halla Rós að lokum.

Ég reyni að forðast plast sem er oft mjög erfitt en það fer allt í endurvinnslu.

Vel var gert við okkur í Efstadal og við smökkuðum ýmsa gómsæta rétti og frábæran ís. Við mælum að sjálfsögðu með ferð í Efstadal sem á svo sannarlega vel við fyrir alla fjölskylduna og þökkum þeim systkinum kærlega fyrir gestrisnina.

Myndir / Unnur Magna

 

Skemmtilegar staðreyndir um jólatré

Sumir geta ekki hugsað sér að vera með annað en lifandi jólatré á meðan aðrir eru alsælir með gervitré. Svo er til fólk sem sættir sig alveg við lítið jólatré úr vírherðatrjám með jólaseríu, keramikjólatré, eða jafnvel ekkert tré. Hér eru nokkrar staðreyndir um jólatré.

  • Notkun á sígrænu tré til að halda upp á vetrarsólstöður var við lýði löngu áður en talið er að Jesús hafi fæðst.
  • Jólatré eyða ryki og ögnum úr loftinu.
  • Það tekur jólatré að meðaltali 7-10 ár að vaxa í rétta stærð.
  • Fyrstu heimildir um skreytt jólatréð eru frá Ríga í Lettlandi árið 1510.
  • Árið 2002 voru 21% Bandaríkjamanna með alvörujólatré, 48% með gervitré og 32% með ekkert jólatré.
  • Jólatré hafa verið seld í Bandaríkjunum síðan um 1850. Þar til nýlega komu öll jólatré úr skógum en nú eru yfir 21 þúsund aðilar sem rækta jólatré. Hálfur milljarður trjáa er í ræktun.
  • Aðstoðarmaður Edisons, Edward Johnson, átti hugmyndina að því að setja rafmagnsljós á jólatréð. Átta árum síðar, eða 1882, komu þau á markað fyrir almenning. Lítil kertaljós á greinar jólatrés voru almenn strax í kringum miðja 17. öld.
  • Franklin Pierce, 14. forseti Bandaríkjanna, var fyrsti forsetinn til að láta setja upp jólatré í Hvíta húsinu (1856). Þegar Teddy Roosevelt var í forsetastól mátti jólatré ekki koma inn fyrir dyr Hvíta hússins af umhverfisástæðum.
  • Fyrsta prentaða heimildin um jólatré birtist í Þýskalandi árið 1531.

Til Íslands um 1850

Fyrstu þekktu heimildir um einskonar jólatré eru frá Strassburg og þar um kring á 16. öld. En hinn fyrsti sem getur um ljósum prýtt jólatré er Goethe, í sögu frá 1774. Fyrsta mynd af jólatré með ljósum er hins vegar frá Zürich árið 1799. Nokkrum árum síðar, árið 1807, eru til sölu á markaði í Dresden í Þýskalandi fullbúin jólatré, meðal annars skreytt gylltum ávöxtum og kertum. Greinilegt er, að siðurinn var þá búinn að ná öruggri fótfestu þar um slóðir. Hann fór svo að berast til Norðurlanda eftir 1800.

Til Íslands munu fyrstu jólatrén hafa komið um 1850, í kaupstaði, aðallega hjá dönskum fjölskyldum. En fæstir landsmenn áttu þess kost að eignast grenijólatré á þeim tíma. Málið var leyst með því að smíða gervijólatré og klæða það með sortulyngi, beitilyngi eða eini. Elstu heimildir um slíkt eru frá 1880-1890.

Heimildir / Vísindavefurinn
Umsjón / Guðríður Haraldsdóttir

 

 

Icelandair kaupir ekki WOW air

Icelandair Group hefur hætt við kaup á WOW air.

Icelandair Group hefur hætt við kaup á WOW air. Frá þessu er sagt frá í til­kynn­ingu til Kaup­hallar Íslands. Þar seg­ir: „Fallið hefur verið frá kaupum Icelandair Group á WOW air en kaup­samn­ingur var und­ir­rit­aður þann 5. nóv­em­ber sl. Þetta er sam­eig­in­leg nið­ur­staða beggja aðila.“

Sjá einnig: Icelandair Group kaupir WOW air

Skúli Mo­gensen, for­stjóri og stofn­andi Wow air, seg­ir í til­kynn­ingu: „Það var ljóst strax í upp­hafi að það var metnaðarfullt verk­efni að klára alla fyr­ir­vara við kaup­samn­ing­inn á þetta skömm­um tíma. Við þökk­um stjórn­end­um Icelanda­ir Group fyr­ir sam­starfið í þessu krefj­andi verk­efni og ósk­um sömu­leiðis stjórn­end­um og starfs­fólki Icelanda­ir Group alls hins besta.“

Sjá einnig: Örlög Wow air ráðast á föstudag

Starfsfólk WOW air hefur verið boðað til starfsmannafundar klukkan 10:00.

Batakveðjum rignir yfir Annie Mist

Íþróttakonan Annie Mist Þórisdóttir gekkst undir hjartaaðgerð á mánudaginn. Þessu greindi hún frá á Instagram í nótt. Batakveðjum frá aðdáendum hefur rignt yfir hana síðan.

Góðum kveðjum rignir yfir crossfit-meistarann Annie Mist á samfélagsmiðlum eftir að hún greindi frá því á Instagram að hún gekkst undir hjartaaðgerð á mánudaginn. Annie hefur glímt við hjartsláttartruflanir undanfarin sex ár. Hún leitaði sér læknishjálpar vegna þess fyrr á árinu og ákvörðun var tekin um að senda hana í hjartaþræðingu.

Annie segir í færslu á Instagram að henni þyki læknavísindin ótrúleg. „Þarna lá ég á skurðarborðinu með fullri meðvitund, með þrjá víra sem leiddu í hjartað,“ skrifaði hún meðal annars.

Aðgerðin gekk vel að sögn Annie. Hún stefnir á að hvíla sig í fimm daga til viðbótar áður en hún fer á fullt í æfingar aftur.

Eins og áður sagði rigna góðum kveðjum yfir Annie en hún er með 973 þúsund fylgjendur á Instagram.

View this post on Instagram

I have had a heart arrhythmia for the past 6 years or so. It has not bothered me that much in daily life, as it only happens every 2-3 months or so. This year it happened for the first time during competition – the caos event- so I decided to have someone take a look at it. This is something I have dreaded to do for a long time now so it was a big step for me to take. I went for a “surgery” this Monday. It’s crazy to think and experience what is possible with modern medicine. There I was lying on the table fully awake with 3 wires inside my heart getting pumped with Adrenaline – stress hormone and electro stimulation to get my heart beating fast enough. It was such a strange and honestly funny feeling to be there feeling like I was in a hard core training session while lying flat in a hospital bed. We did find out where my extra beats are likely getting produced but it is in a spot where I am not sure if I’m willing to take the risk to get it fixed. Everything went really well and we found out I have extremely strong heart ♥️ I am so incredibly grateful for the doctors and the nurses how sweet they were and safe they all made me feel. Now it’s back to full training in only 5 more days!!! This won’t slow me down 🔥👊 got my eye on the 🥇

A post shared by Annie Thorisdottir (@anniethorisdottir) on

Fimm starfsmönnum Fréttablaðsins sagt upp

Fimm starfsmönnum Fréttablaðsins var sagt upp síðdegis í dag.

 

Fimm starfsmönnum var sagt upp á Fréttablaðinu í dag. Samkvæmt heimildum Mannlífs var starfsfólki úr minnst þremur deildum blaðsins sagt upp, það er íþrótta-, dægurmála-, og kynningardeild.

Klukkan 18:00 fengu starfsmenn Fréttablaðsins tölvupóst frá útgefanda blaðsins, Kristínu Þorsteinsdóttur. Þar kemur fram að fimm hafi verið sagt upp í „hagræðingaskyni“ meðal annars vegna flutninga.

„Það er leitt að sjá eftir góðu fólki og við óskum þeim velfarnaðar,“ segir meðal annars í bréfi Kristínar.

Þess má geta að Fréttablaðið fluttist fyrir skömmu úr Skaftahlíð yfir í nýtt húsnæði á Hafnartorgi.

Samkvæmt heimildarmanni Mannlífs hefur vinnuandinn á Fréttablaðinu ekki verið upp á sitt besta síðan blaðið fluttist í nýtt húsnæði. Þá aðallega þar sem nýja húsnæðið er óklárað og ryk og mikill hávaði gerir vinnuaðstæður slæmar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Útilokar ekki uppsagnir

„Það má vera,“ sagði Skúli þegar hann var spurður út í mögulegar uppsagnir.

Skúli Mo­gensen, for­stjóri og stofn­andi Wow air, boðaði starfsfólk sitt á fund klukkan 10:00 í dag vegna frétta um að ekki verður af kaupum Icelandair Group á WOW air. Á fundinum kom fram að hann geti ekki útilokað að til uppsagna komi. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Þar kemur fram að Skúli hafi svarað: „Það má vera,“ þegar hann var spurður út í hvort til uppsagna gæti komið.

Þess má geta að Stefán Sigurðsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, fullvissaði starfsfólk WOW air um að þau fái laun greidd um mánaðarmótin í tölvupósti sem hann sendi í gær.

Sjá nánar: Icelandair kaupir ekki WOW air

Mynd / WOW air

Upplifir sig hvorki umdeilda né róttæka

|
Mynd/Aldís Páls

Sigríður Á. Andersen opnar sig í viðtali við Mannlíf.

Sigríður Á. Andersen er álitin með umdeildari stjórnmálamönnum landsins þótt sjálf upplifi hún sig ekki umdeilda. Þetta kemur fram í viðtali við Sigríði sem hægt verður að lesa í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur inn um lúguna í fyrramálið.

„Ég upplifi mig ekki umdeilda. Það eru hins vegar margir sem hrósa mér en bæta svo við: „En ég er ekki alltaf sammála öllu sem þú segir.“ Þá spyr ég oft á móti: „Hvað er það helst sem þú ert ekki sammála mér um, getur þú nefnt mér eitthvert eitt atriði?“ Stundum geta menn það ekki en ef þeir geta nefnt eitthvað þá er ég alltaf tilbúin að ræða það og þá endar það oftast þannig að við endum sammála um það atriði. Auðvitað er fólk aldrei sammála um allt en ég hef þó ekki greint annað en mikinn velvilja í minn garð sem stjórnmálamann,“ segir hún.

Ekki missa af Mannlífi á morgun.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Búið að loka Tekjur.is

Stjórn Persónuverndar hefur tekið ákvörðun um að birting opinberra upplýsing úr skattskrá sé óheimil.

Vefsíðunni Tekjur.is hefur verið lokað. Vefurinn opnaði 12. október en þar var hægt að fletta upp tekjum allra Íslendinga árið 2016.  Persónuvernd tók síðuna til skoðunnar skömmu eftir að hún opnaði. Stjórn Persónuverndar hefur nú tekið ákvörðun um að birting opinberra upplýsing úr skattskrá sé óheimil. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefnum.

Tilkynninguna má lesa í heils sinni hér fyrir neðan:

Síðdegis í gær barst lögmanni upplýsingasíðunnar Tekjur.is tilkynning frá stjórn Persónuverndar sem hefur haft starfsemi síðunnar til skoðunar. Stjórn Persónuverndar hefur nú tekið þá ákvörðun að birting opinberra upplýsinga úr skattskrá á vefsíðunni sé óheimil og gert þá kröfu að síðunni verði lokað. Þá er gerð sú krafa að rekstraraðili síðunnar eyði öllum tengdum gögnum. Tekjur.is mun tafarlaust fara að ákvörðun Persónuverndar og því hefur síðunni verið lokað.

Ákvörðun stjórnar Persónuverndar kom verulega á óvart, enda eru á upplýsingasíðunni eingöngu birtar upplýsingar sem þegar eru opinberar samkvæmt lögum og hver sem er getur nálgast hjá ríkisskattstjóra. Í ákvörðuninni er algjörlega skautað framhjá þeirri staðreynd, sem og þeim lagaákvæðum sem tilgreina að útgáfa upplýsinga úr skattskrá sé heimil, í heild eða að hluta til. Stjórn Persónuverndar túlkar skattalög þannig, að eingöngu sé heimilt að gefa skattskrána út á pappír en ekki rafrænt. Þess má geta, að skattskráin telur um 6.700 síður og því er prentuð útgáfa tæpast raunhæf.

Tekjur.is þakkar almenningi fyrir góðar viðtökur og gagnlega umræðu um tekjuskiptingu og skattlagningu í samfélaginu. Tekjur.is telur ákvörðun stjórnar Persónuverndar í andstöðu við lög og mun skoða réttarstöðu sína, enda er ljóst að ákvörðunin veldur umtalsverðu fjártjóni.

Virðingarfyllst,

Tekjur.is

Þess má geta að fyrirtækið Viskubrunnur ehf. heldur utan um tekjur.is. Fyrirtækið var stofnað í mars á þessu ári.

„Allt í einu var ég ekki lengur ein í þessu öllu“

||
||

Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin Ljósið var Sólveigu Kolbrúnu Pálsdóttur ómissandi þegar hún greindist með krabbamein árið 2017. Hún hvetur fólk til að mæta á Ljósafoss félagsins sem er táknrænn viðburður sem haldinn er til að minna fólk á starfsemi Ljóssins.

Hinn árlegi Ljósafoss niður hlíðar Esjunnar mun eiga sér stað á laugardaginn. Þar mun stór hópur göngufólks hittast við Esjustofu klukkan 15:00, halda upp að Steini klukkan 16:00 og ganga svo niður Esjuna með höfuðljós svo úr verður fallegur „ljósafoss“. Þetta er í níunda sinn sem Ljósafossinn er haldinn

Ljósafossinn er gerðir til að minna á starfsemi Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.

Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins, er spennt fyrir laugardeginum. Hún hvetur fólk til að mæta. „Þetta er táknrænn viðburður þar sem fólk mun lýsa upp myrkrið með ljósi. Í raun geta allir sem eru til í smá vetrarútivist tekið þátt.“

Á laugardaginn verður Ljósafoss Ljóssins haldinn í níunda sinn.

Kynntist Ljósinu þegar hún greindist með brjóstakrabbamein

Áður en Sólveig tók við starfi markaðs- og kynningarstjóra Ljóssins fékk hún að kynnast starfinu sem unnið er í Ljósinu þegar hún greindist sjálf með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún nýtti sér þá þjónustu Ljóssins.

„Ljósið er einn af þessum stöðum sem þú veist ekki hvað býður upp á eða hvað skiptir miklu máli fyrr en þú eða einhver sem er þér nákominn greinist með krabbamein. Þegar ég greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017 var ég svo upptekin að því að hugsa um hvernig ég myndi lifa af. Ég spáði lítið í því hvað lyfjameðferð, stór aðgerð, það að vera kippt út úr vinnu og fleira myndi hafa á líkama og sál,“ útskýrir Sólveig.

Sólveig segir að fljótt eftir fyrstu lyfjameðferðina sem hún gekkst undir hafi hún raunverulega áttað sig á hversu stórt verkefni biði hennar „Þá var staðan orðin þannig að hvorki ég né maðurinn minn vissum hvernig við ættum að tækla vanlíðanina sem meðferðin hafði skapað. Ég sendi því póst í Ljósið.“

Sólveig greindist með brjóstakrabbamein í byrjun árs 2017. Hún nýtti sér þá þjónustu Ljóssins.

Sólveig kveðst hafa fengið svar frá Ljósinu nokkrum mínútum eftir að hún sendi póstinn. Hún var boðuð á kynningarfund. „Þá allt í einu var ég ekki lengur ein í þessu öllu. Það er nefnilega svo skrýtið hvernig maður getur einangrast við að bera þessa byrgði sem krabbameinið er. Maður reynir að hlífa fólkinu sínu sem mest en maður þarf stuðning. Og þar kemur Ljósið inn.“

Þegar Sólveig mætti fyrst á fund hjá Ljósinu var skrefið yfir þröskuldinn þungt að hennar sögn. „Það skref fól í sér viðurkenningu á hvað væri í gangi. En þegar ég var komin yfir hann þá varð allt létt,“ útskýrir Sólveig.

„Í Ljósinu fékk ég strax iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara, sálfræðing og áætlun um hvernig þau ætluðu að fylgja mér í gegnum þetta ferli. Og allt þetta án tilkostnaðar. Þau sáu líka til þess að ég myndi ekki einangrast og hjálpuðu mér í öðlast nýja og spennandi færni. Þannig gat ég í raun notað tímann til að skoða hver ég er og hvernig lífi ég vill lifa,“ segir Sólveig.

Maður reynir að hlífa fólkinu sínu sem mest en maður þarf stuðning.

Hún tekur fram að í gegnum Ljósið hafi fjölskylda hennar einnig fengið góða þjónustu. „Til dæmis fóru börnin mín þrjú á sérsniðið námskeið fyrir börn þeirra sem greinast með krabbamein. Þannig náðu þau betur áttum. Og svo fórum við maðurinn minn einnig saman á námskeið sérsniðið fyrir pör,“ segir Sólveig. Hún bendir á að það reyni vissulega mikið á sambönd og hjónabönd þegar annar aðilinn greinist með krabbamein.

Hætti í ferðaþjónustu og fór til Ljóssins

„Ég gæti í raun setið og talað endalaust um Ljósið og hversu magnað starfið er sem þar er unnið. En það er skemmst frá því að segja að eftir að ég sneri aftur til vinnu tók ég ákvörðun um að breyta til, ég sagði upp starfi mínu í ferðaþjónustu og réði mig til Ljóssins.“

Ég gæti í raun setið og talað endalaust um Ljósið.

Aftur hvetur Sólveig fólk til að mæta á laugardaginn og taka þátt í Ljósafossinum. „Við hjá Ljósinu vonumst auðvitað til að sjá sem flesta á laugardaginn. En helst viljum við að fólk muni eftir Ljósinu og öllu því góða sem félagið gerir fyrir krabbameinsgreinda og fjölskyldur þeirra, og þannig fyrir íslenskt samfélag.“

Mynd / Úr einkasafni

„Mér fannst ég aldrei nógu góð“

Þrátt fyrir að hafa verið eitt virtasta og vinsælasta ljóðskáld þjóðarinnar glímdi Linda Vilhjálmsdóttir við vanmetakennd. Það endaði í djúpu þunglyndi sem hún var lengi að vinna sig út úr. Nú er hún komin á beinu brautina og gerir upp við líf sitt, sögu formæðra sinna og stöðu kvenna í samfélaginu í glænýrri ljóðabók sinni Smáa letrið.

„Mér finnst vera kominn nýr tónn í umræðuna í þjóðfélaginu,“ segir Linda spurð hvað hafi valdið því að hún tók þennan pól í hæðina í Smáa letrinu. „Fólk er að endurskoða líf sitt og tilveru og er tilbúið að rýna í það á nýjan hátt. Þótt það hafi komið smávegis bakslag í #MeToo-umræðuna, þar sem karlarnir eru að rísa upp og reyna að þagga niður í okkur á nýja leik, þá finnst mér við konur ekkert vera að missa dampinn og í rauninni er ég hissa á því hversu vel þessi umræða helst vakandi í þessu Facebook-samfélagi þar sem ekkert umræðuefni endist nema í mesta lagi út vikuna, sama hversu heitar umræður það vekur í upphafi.“

Í mögnuðu forsíðuviðtali við Vikuna gerir Linda upp þessa erfiðu tíma.

Aðspurð um þá tilfinningu að þurfa að passa inn í einhvern ramma eða fyrirfram gefnar hugmyndir um konur svaraði Linda:  „Ég var næstum því búin að drepa niður alla mína sköpunargáfu með því að vera stöðugt að þvinga mig í stellingar sem ég vissi inn við beinið að hentuðu mér ekki. Ég var til dæmis mjög ósátt við það þegar ég hafði gefið út nokkrar bækur að vera alltaf að skrifa út frá persónulegri reynslu. Að vera alltaf að dúlla mér við eitthvað sem ég á þeim tíma var farin að skilgreina sem kvenleg blúnduljóð, sem væru lítils metin í bókmenntaheiminum og af lesendum. Ég væri þar af leiðandi hálfgert skúffuskáld.“

Eins og fram kemur í Smáa letrinu öðlaðist Linda smám saman nægjanlegt sjálftraust til að geta verið sátt við sjálfa sig eins og hún er, með kostum og göllum. En leiðin þangað var löng og krókótt.

Ég var næstum því búin að drepa niður alla mína sköpunargáfu með því að vera stöðugt að þvinga mig í stellingar sem ég vissi inn við beinið að hentuðu mér ekki.

„Ég fór í rosalegur dýfur áður en til þess kom,“ viðurkennir hún.

„Það liðu níu ár á milli Frostfiðrildanna sem ég skrifaði 2006 og Frelsis sem kom út 2015. Á þeim tíma lenti ég í algjörri ritteppu sem endaði í djúpu þunglyndi. Auðvitað spilaði margt fleira inn í, það var ekki bara það að ég gæti ekki skrifað,“ segir hún.

„Mamma og pabbi voru bæði að eldast og mjög veik og svo hætti ég að reykja sem tók rosalega á mig enda hafði sígarettan verið meðal við öllu, alveg frá pirringi yfir í hóstaköst. Ég hafði reykt frá því ég var þrettán ára gömul og fór endanlega yfir þunglyndisstrikið eftir að ég hætti að taka lyfið sem hjálpaði mér að hætta að reykja. Ég áttaði mig reyndar ekki á því sjálf að ég væri lasin, hélt alltaf að ég myndi taka eftir því ef ég lenti í sjúklegu þunglyndi. Ég var að passa mig á að gera allt sem ég átti að gera; fór í ræktina þrisvar í viku, mætti á mína sjálfshjálparfundi tvisvar í viku, fór út að ganga þá daga sem ég var ekki í ræktinni og var að reyna að skrifa. En einbeitingin var engin, ég gat ekki einu sinni lesið, það hlóðust upp bækur á náttborðinu því ég komst ekkert áfram,“ útskýrir Linda.

Ég áttaði mig reyndar ekki á því sjálf að ég væri lasin, hélt alltaf að ég myndi taka eftir því ef ég lenti í sjúklegu þunglyndi.

„Ég hélt að þetta væru bara svona leiðinlegar bækur en svo fór ég loks til sálfræðings til þess að vinna mig út úr ritteppunni, hélt að ef ég myndi vinna úr þeim áföllum sem ég hafði orðið fyrir í æsku gengi mér betur að skrifa. Sálfræðingurinn var búin að hafa orð á því þrjár vikur í röð að ég væri ansi þunglynd og döpur þegar ég kveikti loksins á perunni og spurði hvort henni fyndist að ég þyrfti að gera eitthvað í því. Ég hélt ég væri bara svolítið sorgmædd og leið. Mamma hafði dáið árið áður og allt hafði verið frekar erfitt.“

Í mögnuðu forsíðuviðtali við Vikuna gerir Linda upp þessa erfiðu tíma, drykkjuna, barnleysið og hið erfiða sjálfsniðurrif er aldrei leiðir til nokkurs góðs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Elín Reynis

 

Vandaðar bækur fyrir vandláta lesendur

|||
|||

Áhugaverðar bækur af ýmsu tagi er að finna í jólabókaflóðinu í ár. Þetta eru nokkrar þeirra.

Stærsta perla jólabókaflóðsins

Jón Baldur Hlíðberg gerir teikningarnar í bókinni.

Enginn vafi er á því að bókin Flóra Íslands er stórvirki í útgáfu hér á landi. Hér eru teknar saman helstu blómplöntur og byrkningar í íslenskri náttúru. Þessi bók er ítarlegri en þær handbækur sem áður hafa komið út um jurtirnar og sannkallað listaverk.

Hörður Kristinsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir eru höfundar textans. Þau rekja þróunarsögu flóru landsins, lífsferla plantna, greiningaraðferðir og setja upp lykla að réttri greiningu. Jón Baldur Hlíðberg hefur gert einstaklega heillandi myndir af öllum jurtunum í bókinni. Þær eru svo lifandi og nákvæmar en Jón Baldur hefur einnig teiknað plöntuhluta fólki til aðstoðar við plöntugreininguna og frekari fróðleiks. Hann sagði frá því í útgáfuhófi bókarinnar að hann hafi lagt mikið upp úr því að finna eintak af hverri einustu jurt og teikna eftir þeim. Stundum þurfti fleiri en eitt og vinna hratt meðan eintökin héldu enn lífi og lit. Það kostaði mörg ferðalög og leit eftir sjaldgæfum tegundum. Þessi perla er mikill fengur fyrir alla þá sem hafa áhuga á íslenskum jurtum en heilmikið er í bókinni að finna um jurtanytjar líka. Vaka Helgafell gefur út.

Næstum óþægilega hreinskilin

Höfundur er Ásdís Halla Bragadóttir.

Hornauga er sjálfstætt framhald af Tvísaga eftir Ásdísi Höllu Bragadóttur. Hér rekur hún hvernig það er kynnast helmingi gena sinna fyrst á fullorðinsaldri og hvernig raða má púslunum saman svo úr verði heilstæð mynd. Ásdís Halla sýnir mikið hugrekki með því að skrifa af svo blygðunarlausri hreinskilni um upplifanir sínar. Hún er sömuleiðis ótrúlega dugleg að afla sér upplýsinga og vinna úr þeim. Auðvitað er hluti bókarinnar hennar túlkun á tilfinningum og upplifunum forfeðra sinna en hún skrifar af miklu næmi og færni. Þetta er umhugsunarverð og góð bók. Veröld gefur út.

Mögnuð persónusköpun og spenna

Arnaldur Indriðason er snillingur í persónusköpun.

Í nýjustu bók sinni Stúlkan hjá brúnni er Arnaldur Indriðason í sínu allra besta formi. Hann er snillingur í að skapa andrúmsloft, endurspegla mismunandi tíðaranda og skapa trúverðugar og áhugaverðar persónur. Allt þetta er til staðar í þessari bók. Fyrrverandi lögreglumaðurinn Konráð er beðinn að hafa uppi á ungum fíkniefnaneytanda en á sama tíma er athygli hans vakin á máli tólf ára stúlku sem drukknaði í Tjörninni. Hann er enn þá upptekinn af örlögum föður síns og er í sambandi við Eygló, dóttur Engilberts miðils. Allir þessir þræðir fléttast síðan saman og úr verður einstaklega flott gáta. Vaka Helgafell gefur út.

Farðaði Katy Perry og kastaði vatnsblöðru í Cate Blanchett

Ísak Freyr Helgason förðunarfræðingur hefur á undanförnum árum ferðast heimshorna á milli til að farða margar fegurstu konur heims. Hann er nýkominn frá Frakklandi þar sem hann farðaði Katy Perry og kastaði (óvart) vatnsblöðru í augað á Cate Blanchett.

Ísak var sautján ára gamall þegar hann ákvað að verða förðunarfræðingur. „Ég var algjör gelgja á myndlistarbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og mér fannst svo ómerkilegt að teikna myndir af eplum og könnum og læra að skyggja kassa. Ég hætti þess vegna og fór beint á þriggja mánaða námskeið í förðunarskóla sem hét EMM School of Make Up. Eftir það var ekki aftur snúið.“

Hann segir sína helstu áskorun hingað til hafa verið að halda geði á tímum þegar dagskráin er þétt. Ísak er vanur að fljúga út um víða veröld til þess að farða margar fegurstu konur heims. Frægar leikkonur, söngkonur og fyrirsætur. Hann hefur verið á mjög miklu flakki upp á síðkastið. „Ég flaug nýlega á ponsulitla eyju við Palermo á Ítalíu sem heitir Panarea en þar lenti ég í einu mesta ævintýri sem ég hef á ævi minni upplifað. Ég fékk að kynnast hlutum þar sem ég vissi ekki að væru til og henti óvart vatnsblöðru í augað á Cate Blanchett! Þaðan fór ég til L.A í viku til að farða fyrir herferð og eftir það strax til Frakklands til að farða Katy Perry. Þetta hefur verið heilmikið stuð,“ viðurkennir Ísak.

Ég fékk að kynnast hlutum þar sem ég vissi ekki að væru til og henti óvart vatnsblöðru í augað á Cate Blanchett!

Nýlega lenti hann í ógöngum þegar hann var í tökum í skógi rétt fyrir utan Los Angeles. Þar var allt morandi í höggormum og stór skilti út um allt til þess að vara fólk við þeim. „Ég heyrði í alvörunni í höggormunum þarna allt í kring en þurfti að standa kyrr með förðunarburstana og reyna mitt besta að pissa ekki í mig úr hræðslu,“ segir Ísak og skellir upp úr.

Ég heyrði í alvörunni í höggormunum þarna allt í kring en þurfti að standa kyrr með förðunarburstana og reyna mitt besta að pissa ekki í mig úr hræðslu.

Ísak býr í London með kærastanum sínum en er með annan fótinn hér heima á Íslandi. Hann segist reglulega koma til landsins til að kúpla sig út og slappa af. „Það skiptir mig svo miklu máli að finna innri ró og slappa af í íslenskri náttúru.“

Það er margt spennandi fram undan hjá Ísaki en hann hlakkar mest til að fara til Oman í byrjun nýja ársins.

Aðspurður hvaða stjörnu honum hafi þótt skemmtilegast að farða segir hann: „Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að mála Katy Perry. Hún er algert gull og sjúklega fyndin en á sama tíma með svakalega góða orku í kringum sig.“

Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að mála Katy Perry. Hún er algert gull og sjúklega fyndin en á sama tíma með svakalega góða orku í kringum sig.

Óskalistinn

Hvaða föt og fylgihlutir eru á óskalista hjá þér?

Mig langar í geggjaða, prjónaða lopapeysu. Flottan klút eftir Hildi Yeoman, Balenciaga-stígvél, næs kasmírpeysu og par af trylltum Tom Ford-gleraugum.

Hver er þín helsta tískufyrirmynd?

Í rauninni hef ég enga tískufyrirmynd. Ég var alltaf rosalega mikið fyrir Grace Jones þegar ég var yngri en það hefur breyst. Ég hef alltaf verið frekar mikill hippi í mér og vil helst hafa allt þremur númerum of stórt. Ég elska hreyfingar í efnum og skrítin mynstur. Elsku Jame, kærasti minn, er alltaf svo hissa á því sem ég kaupi en segir alltaf að ég líti vel út, elsku kallinn. Ef eitthvað er að angra mig þá klæði ég mig í svart og mikið dökkt. Þá verð ég pínulítið eins og skríðandi skjaldbaka.

Ef eitthvað er að angra mig þá klæði ég mig í svart og mikið dökkt. Þá verð ég pínulítið eins og skríðandi skjaldbaka.

Hvað er möst að eiga fyrir veturinn?

Góða úlpu. Ég elska Drangajökul-úlpuna mína frá 66°Norður. Hún heldur á mér hita allan veturinn og er einstaklega góð í útitökum. Hún er tveimur númerum of stór svo það komast fleiri en ég fyrir í henni.

Hvaða nude-varalitur er bestur?

Sá sem ég nota mest núna er pottþétt liturinn Spanish Pink frá Tom Ford.

TOPP 5 hjá Ísaki

Ísak segir topplistann sífellt breytast hjá sér, enda fær hann mikið af snyrtivörum sendar til sín. Hér er það sem er í uppáhaldi hjá honum í augnablikinu.

Sensai Bronzing Gel frá Kanebo er í uppáhaldi.

1. Eitt af því sem er ómissandi og hefur verið í fyrsta sæti hjá mér í mörg ár er Sensai Bronzing Gel frá Kanebo. Kremið er með geláferð sem gefur húðinni fallegan ljóma í stað þess að þekja. Algjört töfraefni. Ég, mamma, amma, systir mömmu og allt heila ættartréð notar þetta.

2. Just Skin, litaða rakakremið frá Chaintecaille, er eina rakakremið með þekju í sem bræðir sig inn í húðina og þó að þú færir yfir andlitið með stækkunargleri myndirðu ekki taka eftir því að manneskjan væri með eitthvað á húðinni.

3. Syncro Skin Lasting Liquid Foundation frá Shiseido er farði sem ég lifi fyrir. Hann rennur yfir húðina eins og silki, þekur miðlungs og gefur ótrúlega fallega áferð. Það er ótrúlega auðvelt að vinna með hann og allir sem kynnast honum falla fyrir honum. Ég notaði alltaf Luminous Silk-farðann frá Armani en Shiseido hefur hressilega tekið fram úr.

4. Skin Food frá Weleda er þykkt rakakrem sem er í rauninni fyrir þurra bletti en ég elska að nota það yfir allt andlitið áður en ég ber farða á. Mér finnst húðin fá svo ótrúlega fallegan ljóma en þá púðra ég rétt yfir þá staði sem ég vil hafa matta ef mér finnst húðin of glansandi.

5. Eye defining liner frá Tom Ford er fljótandi eyeliner sem er með ofurmjóum oddi framan á og þess vegan er hægt að gera mjög fína línu. Ég elska líka hvað hann er extra svartur.

Mynd / Saga Sigurðardóttir

Kínverski ljósmyndarinn Lu Guang týndur

Ljósmyndarinn Lu Guang hefur verið týndur síðan 3. nóvember. Eiginkona hans fékk þær upplýsingar að hann hefði verið numinn á brott.

Kínverski verðlaunaljósmyndarinn Lu Guang er týndur samkvæmt eiginkonu hans, Xu Xiaoli. Xu Xiaoli segir eiginmann sinn hafa verið numinn á brott fyrir rúmum þremur vikum af öryggisvörðum á vegum Xinjiang-héraðsins í norðvesturhluta Kína. Þessu sagði hún frá í viðtali við The Associated Press.

Xu sagði eiginmann sinn hafa verið á ferðalagi um Xinjiang-héraðið þann 3, nóvember. Hann átti þá að mæta á fund annars ljósmyndara þann 5. nóvember en mætti aldrei á fundinn.

Xu hefur síðan þá gert tilraunir til að hafa uppi á eiginmanni sínum en fékk þær upplýsingar að öryggisverðir Xinjiang-héraðs hefðu numið hann á brott. Þetta kemur fram í frétt á vef Time. Xu hefur ekki fengið nánari upplýsingar um hvarf Lu.

„Ég veit að hann myndi ekki gera neitt ólöglegt,“ sagði Xu.

Þess má geta að ljósmyndarinn Lu Guang hefur unnið til verðlauna fyrir ljósmyndir sínar sem hafa varpað ljósi á líf og tilveru m.a. kolanámumanna, eiturlyfjafíkla og alnæmissjúklinga.

Hver verður persóna ársins hjá TIME?

Hvern mun tímaritið TIME velja sem persónu ársins 2018? Christine Blasey Ford og Brett Brett Kavanaugh virðast vera meðal þeirra sem koma til greina.

Árlega frá árinu 1927 hefur tímaritið TIME valið mann ársins eða persónu ársins. Í desember verður tilkynnt hver hreppir titilinn í ár en þessa stundina stendur yfir kosning á vef TIME. Með kosningunni vill ritstjórn fá álit almennings þrátt fyrir að endanlegt val sé í höndum ritstjórnar TIME.

Í síðustu viku birtist samantekt á vef TIME yfir fólk sem gæti komið til greina sem persóna ársins 2018. Þar er fjallað um Christine Blasey Ford, konuna sem steig fram og sakaði Brett Kavanaugh um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi þegar hún var 15 ára. Hæstaréttardómarinn Brett Kavanaugh er einnig nefndur. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeild á Bandaríkjaþingi, og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, eru einnig nefndar svo nokkur dæmi séu tekin.

Þess má geta að í fyrra var það fólkið sem tók þátt í #meetoo-byltingunni og töluðu opinskátt um kynferðisofbeldi sem var valið „persóna ársins.“ Árið áður var það Donald Trump.

Almenningur getur gefið sitt álit í kosningu á vef Time.

Mynd / Af vef TIME

Tveggja mánaða fangelsi fyrir kartöfluflögur

Írsk kona hefur verið dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir „skemmdir“ á Pringles-umbúðum.

Írsk kona hefur verið dæmd í tveggja mánaða fangelsi fyrir að opna stauk af kartöfluflögum í Tesco-verslun áður en hún greiddi fyrir flögurnar.

Konan sem um ræðir heitir Kathleen McDonagh og er 25 ára gömul. Hún opnaði stauk af Pringles-flögum í Tesco-verslun í Cork í desember árið 2016.

Konan hafði áður verið bönnuð í þessari tilteknu verslun, ekki kemur fram af hverju. Hún sagði fyrir dómi að hún hefði brugðið á það ráð að fara inn í verslunina og opna umbúðirnar og þannig yrði hún neydd til að greiða fyrir flögurnar. Þannig ætlaði hún að halda áfram að versla í búðinni þrátt fyrir bannið. Þetta kemur fram í frétt á vef BBC.

Áætlun hennar misheppnaðist þó hrapallega því Tesco höfðaði mál gegn henni og hún var dæmd fyrir „skemmdir“. Þess má geta að flögurnar kostuðu upphæð sem nemur um 240 krónum.

Judy tekjuhæst með 18,4 milljarða

Judy Sheindlin stýrir þættinum Judge Judy með 18,4 milljarða í árslaun.

Viðskiptatímaritið Forbes hefur nú birt lista yfir tekjuhæstu þáttastjórnendur ársins.

Judy Sheindlin, sem stýrir þættinum Judge Judy, trónir á toppi nýjasta lista Forbes yfir tekjuhæstu þáttastjórnendurnar. Hún var með upphæð sem nemur 18,4 milljörðum króna í laun fyrir skatt miðað við núverandi gengi. Þættirnir Judge Judy eru sýndir á CBS. Núna er verið að sýna tólftu seríu.

Meðylgjandi er svo listi yfir þá þáttastjórnendur sem verma fimm efstu sæti lista Forbes.

5. Grínistinn Steve Harvey er í fimmta sæti með 5,5 milljarða. Hann er þekktastur fyrir að vera kynnir spurningaþáttarins Family Feud.

4. Ryan Seacrest er í fjórða sætinu með 9,3 milljarða. Hann náði miklum vinsældum þegar hann var kynnir American Idol. Í dag er hann framleiðandi Keeping Up with the Kardashians og annar kynnirinn í morgunþættinum Live with Kelly and Ryan.

3. Dr. Phil McGraw er í þriðja sætinu með 9,7 milljarða í laun á ári.

2. Spjallþáttastjórnandinn Ellen DeGeneres er í öðru sæti með tæpa 11 milljarða í árslaun.

1. Judy Sheindlin trónir á toppnum með 18,4 milljarða.

Tekið skal fram að listinn tekur mið af þeim tekjum sem þénaðar voru frá júní 2017 til júní 2018. Um laun fyrir skatt og launatengd gjöld er að ræða.

Snjórinn, jólaljósin og samveran best

Laura Elena Cervera Magallanes, kennari hjá Hjallastefnunni og túlkur, flutti til Íslands frá Mexíkó ásamt eiginmanni og tveimur sonum sumarið 2011. Hún segir fyrstu jólin á Íslandi hafa verið ógleymanleg og þar hafi snjórinn átt stærstan þátt.

„Upphaflega ætluðum við bara að vera á Íslandi í eitt og hálft ár svo við gerðum ráð fyrir því að jólin 2011 yrðu einu íslensku jólin okkar og vildum gera þau sem eftirminnilegust,“ útskýrir Laura. „Synir okkar, sem voru þá fjögurra og fimm ára, voru yfir sig spenntir yfir því að fá gjafir frá jólasveinunum í skóinn og vöknuðu fyrir allar aldir til að gá hvað væri í skónum. Stundum vöknuðu þeir klukkan tvö á nóttunni og ég var að verða örmagna af því að passa að koma gjöfunum í skóinn áður en þeir vöknuðu. Þetta var allt svo nýtt og framandi. Meira að segja myrkrið var spennandi fyrir okkur þessi fyrstu jól. Við bjuggum áður í Cuernavaca, Morelos sem er stundum kölluð borg hins eilífa vors svo þú getur ímyndað þér viðbrigðin! En snjórinn, jólaljósin og myrkrið, auk samveru við fjölskyldu eiginmanns míns sem er hálfíslenskur, gerðu þessi jól einhver þau eftirminnilegustu sem við höfum átt.“

Meira að segja myrkrið var spennandi fyrir okkur þessi fyrstu jól.

Þótt jólahefðir í Mexíkó séu ólíkar þeim íslensku segir Laura jólin þar og hér líka að því leyti að þau snúist fyrst og fremst um samveru með fjölskyldu og vinum og að borða góðan mat saman. Ein tegund af íslenskum jólamat vekur þó ekki hrifningu hennar.

„Þessi siður að borða illa lyktandi skötu á Þorláksmessu hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá mér,“ segir hún og hryllir sig. „Ég get alls ekki borðað hana. En allur annar íslenskur jólamatur finnst mér mjög góður; hangikjöt, rjúpa, laufabrauð, reyktur lax og bara allt. Mjög ólíkur jólamatur frá þeim sem ég er vön frá Mexíkó, en alveg jafngóður.“

Þessi siður að borða illa lyktandi skötu á Þorláksmessu hefur ekki fallið í góðan jarðveg hjá mér.

Laura segir mesta muninn á íslenskum og mexíkóskum jólum felast í jólahefðunum. „Í Mexíkó fögnum við jólunum frá 12. desember til 6. janúar og frá 16. desember fram á aðfangadagskvöld eru skrúðgöngur á hverju kvöldi til að minnast leitar Maríu og Jóseps að gistingu á gistiheimilum. Börnin ganga milli húsa með kerti og syngja söngva sem greina frá þessari leit við hverjar dyr, en er alltaf vísað í burtu. Göngunni lýkur svo á hverju kvöldi með veislu á mismunandi heimilum sem gegna hlutverki fjárhússins þar sem María og Jósep fengu loksins inni, og þar er borðað og drukkið, farið í leiki, flugeldum skotið upp og börnin fá fullt af sælgæti úr leirkrukku sem vanalega hangir niður úr lofti hússins og þau þurfa að brjóta með því að berja í með bundið fyrir augun. Á aðfangadagskvöld er svo settur upp pallur með Maríu og Jósep við jötuna og þegar rétta húsið er fundið er Jesúbarnið sett í jötuna. Svo fara allir í messu til að fagna komu jólanna.“

Laura viðurkennir að hún sakni jólanna í Mexíkó stundum, sakni fjölskyldu sinnar og vina, en sem betur fer eigi fjölskyldan stóra fjölskyldu á Íslandi líka sem komi saman um jólin svo þrátt fyrir allt sé upplifunin ekki svo ólík. Það besta sé þó hve allir séu glaðir á jólunum.

„Það besta við jólin á Íslandi er hvað allir eru í góðu skapi,“ segir hún hlæjandi. „Svo dýrka ég líka öll jólaljósin utan á húsunum. Ég vona virkilega að það verði hvít jól í ár, það er hátíðlegast og við vorum svo ótrúlega heppin að fá jólasnjó fyrstu jólin okkar á Íslandi. Það var ógleymanleg upplifun.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg

 

6 góð ráð við bakstur

Nú nálgast jólin óðfluga og margir eru farnir að huga að jólabakstrinum. Meðfylgjandi eru nokkur góð bakstursráð sem ættu að koma sér vel.

1. Notið alltaf egg við stofuhita. Ef þið eruð í tímahraki er gott að leggja þau í volgt vatn úr krananum í skál í 5 mínútur. Svampbotnar og kökur þar sem egg og sykur eru þeytt saman heppnast miklu betur ef eggin eru ekki köld.

2. Til að koma í veg fyrir að kaka falli er gott ráð að opna ekki ofninn fyrstu 15 mínútur af bökunartímanum.

3. Ofnar eru misjafnir. Byrjið á að athuga hvernig baksturinn á kökunni gengur 7-8 mínútum áður en baksturstímanum ætti að vera lokið. Kakan ætti að vera tilbúin þegar deig festist ekki á prjóni sem stungið er í miðjuna á kökunni.

4. Mikilvægt er að lesa vel yfir alla uppskriftina áður en byrjað er að baka. Síðan skulið þið taka allt til sem er í uppskriftinni. Sumum finnst gott að raða hráefninu upp í þeirri röð sem á að nota það. Farið síðan yfir tímann sem gefinn er í baksturinn. Það er ekki gaman að lenda í tímaþröng og kakan ekki tilbúin í ofninum.

5. Þegar bræða á súkkulaði verður skálin og það sem hrært er með að vera þurrt. Minnsti dropi af vökva getur orðið til þess að súkkulaðið þornar. Best er að bræða súkkulaðið við vægan hita. Mjólkursúkkulaði er viðkvæmara en það dökka.

6. Þegar blanda á saman bræddu súkkulaði og eggjarauðum er mikið atriði að svipaður hiti sé á öllu, þess vegna er oft talað um að bræða súkkulaði við mjög vægan hita yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðið er of heitt og kaldar rauður settar út í þornar allt saman og verður að klumpi. Gott ráð er að velgja rauðurnar í glasi í vatnsbaði smástund og passa hitann á súkkulaðinu.

Umsjón / Sigríður Björk Bragadóttir

 

Of föst í vélrænni nálgun á líkamlega heilsu

Tengslin á milli áfalla í æsku og sjúkdóma síðar á lífsleiðinni eru sterk. Margrét Ólafía Tómasdóttir heimilislæknir skrifaði doktorsritgerð sína um málefnið en henni finnst tími til kominn að kafa dýpra og hætta að nálgast líkamlega heilsu á vélrænan hátt.

Áhuginn á umfjöllunarefni ritgerðarinnar vaknaði á síðasta ári Margrétar í læknisfræði, í heimilislæknisfræðikúrsi. „Læknanámið hafði fram að því verið fókuserað á ákveðna líffræði og líffærakerfi og í raun oftast án mikils samhengis við önnur kerfi í líkamanum. Svolítið í stíl við sérgreinalækningar þar sem aðaláherslan er lögð á eitt líffæri. Sumarið fyrir síðasta árið vann ég á Slysa-og bráðadeild og fannst sú reynsla frábær. En það voru ákveðnir hlutir sem mér fundust sláandi. Það voru þeir einstaklingar sem leituðu endurtekið á deildina með óútskýrða verki. Ég velti því oft fyrir mér hvort væri ekki eitthvað meira sem lægi þar að baki. Á síðasta árinu í heimilislæknisfræðikúrsinum lásum við svo grein um samspil streitukerfa líkamans og hvernig þau geta krossverkað og breytt líffræði líkamans til lengri tíma ef við lendum í alvarlegum áföllum eða erfiðleikum þar sem streitan í okkur verður „eitruð“ ef svo má segja.“

Margrét segir það hafa verið púslið sem vantaði inn í myndina í læknanáminu. Að líta á hlutina í stærra samhengi, líkamann í heild sinni og félagslegt umhverfi um leið. „Fyrir mér var svo fullkomlega rétt að hugsa þetta svona. Þegar ég fór að vinna á heilsugæslunni á kandidatsárinu mínu sannfærðist ég enn frekar um þetta. Þar hitti ég margt fólk sem glímdi einmitt við þessi vandamál – sögu um áföll og marga líkamlega sjúkdóma. Svo var það eiginlega þannig að mér bauðst að gera verkefni um þessi mál – ef ég væri til í að fara gegnum doktorsnám. Ég hafði í raun ekki hugsað mér að fara í doktorsnám en þegar ég heyrði af þessu verkefni gat ég eiginlega ekki annað en stokkið til,“ segir Margrét og sér svo sannarlega ekki eftir því í dag.

Á síðasta árinu í heimilislæknisfræðikúrsinum lásum við svo grein um samspil streitukerfa líkamans og hvernig þau geta krossverkað og breytt líffræði líkamans til lengri tíma ef við lendum í alvarlegum áföllum eða erfiðleikum þar sem streitan í okkur verður „eitruð“ ef svo má segja.

Heilastöðvar þroskast minna

En hvað er það nákvæmlega sem gerist í líkamanum við slæmar upplifanir eða áföll í æsku og hvernig hefur það áhrif á heilsu okkar síðar meir? „Ef við hugsum bara um barnæskuna – og þá sérstaklega snemma í barnæsku – þá er í raun tvennt sem gerist. Í fyrsta lagi breytist þroskinn í heilanum, ákveðnar stöðvar heilans þroskast minna en þær ættu að gera. Það gerist í raun til að vernda okkur fyrir því sem er að gerast og breytir aðeins skynjun okkar á hlutunum en verður til vandræða seinna meir. Hitt sem gerist er að öll þau kerfi sem taka þátt í streitukerfi líkamans fara úr skorðum. Streitukerfin eru mjög mörg, svo sem ósjálfráða taugakerfið, hormónakerfið, ónæmiskerfið og heilaboðefnin og þau spila öll í kross hvert á annað. Við áföll eða langvarandi erfiðleika breytist virkni allra þessara kerfa. Það mætti segja að þau fari öll á yfirsnúning og til verður eitruð streita í líkamanum. Mörg kerfana ná svo ekki að jafna sig aftur þegar erfiðleikarnir eru liðnir hjá. Það leiðir svo til þess að við þróum með okkur sjúkdóma síðar.“

Aðspurð um mikilvægustu lexíuna sem hún lærði við það að kynna sér þessi mál til hlítar segir hún það hafa komið mest á óvart hversu lengi hefur verið horft fram hjá áhrifum félagslegs umhverfis á heilsufar. „Áhrif áfalla og erfiðleika á þróun sjúkdóma eru mjög sterk. Þau eru líklega sterkari áhættuþættir en margir þeir áhættuþættir sem við erum vön að einblína á í okkar klínísku vinnu, svo sem háþrýstingur eða of hátt kólesteról. Þrátt fyrir það er erfitt að koma þessum málum að og mögulega er það vegna einhverrar hræðslu við að taka á erfiðum málum en ef til vill vegna þess að við erum enn of föst í vélrænni nálgun á líkamlega heilsu.“

Áhrif áfalla og erfiðleika á þróun sjúkdóma eru mjög sterk. Þau eru líklega sterkari áhættuþættir en margir þeir áhættuþættir sem við erum vön að einblína á í okkar klínísku vinnu, svo sem háþrýstingur eða of hátt kólesteról.

Enginn opnað á ormagryfju barnæskunnar

Margréti finnst mikilvægt að það komi fram að það þurfi ekki endilega einhverja dramatíska nálgun þegar andlegi þátturinn kemur upp í samtali við lækna. „Rannsóknir hafa sýnt að bara það að samþykkja vandann og viðurkenna áhrif áfalla á heilsu hefur heilmikið að segja fyrir skjólstæðinginn og getur jafnvel fækkað heimsóknum til lækna og á bráðamóttökur.“

Margrét segist einnig hafa lært mikilvægi þess að hlusta á fólk. „Ég veit ekki hversu margir hafa komið til mín og opnað sig um að hafa gengið milli lækna endalaust en enginn hafi opnað á ormagryfju barnæskunnar.“

Mikilvægt er fyrir líkamlega heilsu að vinna úr áföllum sem fólk verður fyrir en oft er ekki mögulegt að gera það jafnóðum. „Ákveðnum erfiðleikum getur verið gott að vinna úr strax, svo sem áfalli við að missa foreldri eða náinn vin. En flest þau áföll sem við erum að tala um, ofbeldi, vanræksla og slíkt, stendur yfir í langan tíma og eru oft mjög dulin. Þau eru jafnvel dulin börnunum sjálfum sem átta sig til dæmis ekki strax á að drykkja foreldra sinna sé óeðlileg. Þannig er kannski erfitt að ímynda sér hvernig ætti að vinna úr þeim strax.“

Hún segir þarft að opna á umræðu um þessi mál og kenna fólki hvernig best er að takast á við vandamál. „Það er alltaf mikilvægt að vinna úr erfiðleikunum þegar maður sjálfur áttar sig á að þeir hafi haft slæm áhrif á mann. Og ég held að það sé mjög oft ráð að fá faglega hjálp til að takast á við hlutina, einmitt vegna þess að erfiðleikar úr æsku og óuppbyggileg vinnsla úr þeim, getur smitað út frá sér, til dæmis yfir í sambönd á fullorðinsárum.“

Rannsóknir hafa sýnt að bara það að samþykkja vandann og viðurkenna áhrif áfalla á heilsu hefur heilmikið að segja fyrir skjólstæðinginn og getur jafnvel fækkað heimsóknum til lækna og á bráðamóttökur.

 Hið fullkomna heilbrigðiskerfi

Talið berst að hinu fullkomna heilbrigðiskerfi. Margrét segir mikilvægt að fá sálfræðinga á samning hjá Sjúkratryggingum svo að fólk hefði þá frekar efni á að leita til þeirra. „En það er fleira sem þarf að breytast. Ég held að fólk eigi til að gleyma því hvað heilsugæslan hefur upp á að bjóða og hversu stór partur af geðheilbrigðiskerfinu hún er. Um 20% af heimsóknum til heimilislækna til dæmis eru vegna andlegra vandamála. Þar fer fram mikil þjónusta. En það vantar stærra millistig. Göngudeildarþjónustu og dagdeildarþjónustu, skref á milli þess að mæta til heimilisæknis og að vera lagður inn á bráðageðdeild. Það er reyndar í smíðum að vissu leyti. Svo þarf að minnast á úrræði varðandi þá sem glíma við fíkn. Þar er stórt gat í kerfinu líka, og það er einmitt hópur sem gjarnan hefur lent í miklum áföllum.“

Margrét segir einnig mikilvægt að innleiða sálfræðiaðstoð inn í skólakerfið. „Kennarar og nemendurnir sjálfir þurfa að fræðast um áföll, hver þau eru, mikilvægi þess að segja frá þeim, hvaða áhrif þau geta haft og hvernig megi fá aðstoð við að vinna úr þeim.“

Margrét vann nýverið að kynningarefni og veggspjaldi í samstarfi við Geðhjálp þar sem almenningi er kynntur spurningalisti varðandi áföll í æsku og áhrif þeirra á langvinna sjúkdóma á fullorðinsárum. Í kjölfarið mun fagfólk innan heilsugæslunnar vinna með efnið og vonandi taka geðræna heilsu inn í heildarmyndina í auknum mæli.

Dulin áhrif áfalla í æsku á heilsufar á fullorðinsárum

Rannsóknir hafa sýnt fram á að erfið upplifun í æsku geti haft neikvæð áhrif á heilsu og lífskjör fólks á fullorðinsárum ef ekkert er að gert. Þekktasta rannsóknin á þessu sviði er svokölluð Adverse Childhood Experiences, ACE, rannsókn.

Rannsóknin hefur leitt í ljós að við áfall innan hvers ACE-sviðs eða svokallað ACE-stig eykst hættan á neikvæðum afleiðingum á heilsu og lífskjör fólks á fullorðinsárum.
Þú getur nálgast ACE-spurningarlistann á www. gedhjalp.is. Við hvetjum þig til að svara spurningunum vandlega og ræða niðurstöðurnar við heimilislækninn þinn ef tilefni er til og alveg sérstaklega ef þær fela í sér fjögur ACE-stig eða fleiri.

Sem dæmi má nefna að einstaklingar með fjögur ACE-stig eða fleiri eru talsvert líklegri en einstaklingar með engin ACE-stig til að stríða við fíknisjúkdóma, þunglyndi, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma. Að sama skapi eru þeir líklegri til að hafa upplifað stjórnleysi, óskipulagða þungun, nauðgun, fósturlát og atvinnumissi. Frekari upplýsingar um ACE-mælikvarðann má m.a. nálgast á eftirfarandi slóð: acestoohigh.com

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Raddir