Fimmtudagur 19. september, 2024
8 C
Reykjavik

Móðir Opruh lést á fimmtudaginn

Móðir Opruh Winfrey lést á fimmtudaginn. Hún varð 83 ára gömul.

Sjónvarpskonan Oprah Winfrey birti í gær færslu á Instagram þar sem hún minntist móður sinnar, Vernitu Lee, sem lést á fimmtudaginn. Oprah birti mynd af stórfjölskyldunni þar sem móðir hennar situr fremst. Hún þakkaði í leiðinni fylgjendum sínum fyrir hlý orð og samúðarkveðjur.

Vernita Lee var 83 ára þegar hún lést. Hún lést á heimili sínu í Milwaukee, Wisconsin, er fram kemur í tilkynningu sem fjölskylda hennar sendi frá sér.

Þess má geta að Vernita var ung þegar hún eignaðist Opruh og amma og afi Opruh sáu um uppeldi hennar fyrstu árin. Vernita eignaðist fjögur börn á lífsleiðinni.

 

Nýja svefnherbergið verður 87 fermetrar

Rappari Drake

Svefnherbergið í endurnýjuðu húsi Drake verður ekkert grín.

Kanadíski tónlistarmaðurinn Drake er sagður standa í stórræðum þessa dagana en hann er að láta endurnýja 3.250 fermetra hús fyrir sig í Toronto, Kanada. Húsið keypti hann fyrir nokkrum árum á upphæð sem nemur um 500 milljónum króna og hefur síðan þá verið að láta gera það upp.

Samkvæmt heimildum TMZ verður nýja svefnherbergi hússins miðpunktur fasteignarinnar, heilir 87 fermetrar. Samkvæmt teikningum af húsinu mun svefnherbergið innihalda meðal annars eldhúskrók, stórt baðherbergi og tvö fataherbergi. Það verður á annarri hæð hússins og útgengt verður á tvær svalir, á svölunum verður heitur pottur og gufubað.

Fyrir utan þetta stórfenglega svefnherbergi verða einnig fjögur gestaherbergi að finna í endurnýjaða húsinu. Einnig gufubað, nuddstofa, bílskúr sem rúmar tíu bíla, líkamsræktarstöð og á lóðinni verður körfuboltavöllur svo eitthvað sé nefnt.

Örlög Wow air ráðast á föstudag

||
||

Í gær voru viðskipti með hlutabréf í Icelandair stöðvuð í annað skiptið í nóvember. Rétt fyrir hádegi kom síðan tilkynning frá Icelandair um að ólíklegt væri að öll skilyrði myndu nást varðandi kaupi félagsins á Wow air fyrir hluthafafund sem haldin verður á föstudag, 30. nóvember. Einnig voru viðskipti með bréf félagsins stöðvuð þann 5. nóvember þegar tilkynnt var um kaup Icelandair á Wow air.

Um helgina bárust fréttir af því að dótturfélag Icelandair hygðist kaupa 51% hlut í ríkisfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Ætlunin væri að nota staðsetningu þess svipað og Keflavík og tengja eyjarnar fyrir flugumferð um Atlantshaf. Reyndar er komið meira en ár síðan Icelandair hóf samstarf á Grænhöfðaeyjum.

Aðilar á markaði höfðu þó ekki trú á að þessi frétt um kaup á félagi á Grænhöfðaeyjum væru ástæður þess að lokað var fyrir viðskipti með bréf Icelandair. Líkt og kom svo í ljós.

Ný tilkynning Icelandair til Kaupahallar í morgun

Í morgun kom svo önnur tilkynning frá Icelandair þar sem það tilkynnti um að viðræður væru hafnar við skuldabréfaútgefendur um breytingar á skilmálum skuldabréfa félagsins og að markmiðið sé að styrkja stöðu þess. Icelandair fékk tímabundna undanþágu frá fjárhagslegum skilmálum til föstudags en þá er haldinn hluthafafundur í félaginu. Umræddir skilmálar tengdust lágmarksafkomu félagsins.

Alvarlegur lausafjárvandi WOW air

Eins og áður hefur komið fram var lausafjárstaða Wow air um síðustu mánaðamót líklega ein helsta ástæða þess að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi flugfélagsins ákvað að leita á náðir Icelandair. Lausafé hafi verið nær uppurið þegar búið var að greiða laun og aðra reikninga. Nú er útlit fyrir að næstkomandi mánaðamót verði félaginu jafnvel enn erfiðari en þau síðustu. Segja má að þetta minni um margt á stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja síðustu mánuðina fyrir hrun. Þar var það yfirleitt lausafjárstaða sem var að skapa þeim vandræði. Í fjárfestakynningu sem kynnt var vegna skuldabréfaútboðs Wow air kom fram að handbært fé frá rekstri hafi einungis numið sex milljónum dollara í júní á þessu ári.

Í gær sendi Skúli Mogensen svo tölvupóst á starfsmenn Wow air þar sem hann fullyrti að fleiri aðilar en Icelandair hefðu sýnt flugfélaginu áhuga. Wow air væri því í viðræðum við fleiri en Icelandair um yfirtöku á félaginu. Morgunblaðið sagði svo frá því í morgun að þessi tölvupóstur Skúla hefði valdið titringi og forsvarsmönnum Icelandair hafi ekki verið kunnugt um þær.

Víkurfréttir fullyrtu svo á föstudag að verulega verði fækkað í flugþota Wowair. Leggja þurfi átta af tuttugu þotum félagsins. Icelandair og Wow air myndu samnýta leiðarkerfi á marga áfangastaði og þannig væri hægt að fækka vélum Wow air um þriðjung.

Hvar liggur vandi Wow air?

Margir samhangandi þættir eru að valda Wow air vanda þetta haustið. Áhugi á skuldabréfaútboði Wow air í haust var minni en vonast var til. Síhækkandi olíuverð. Þá er Skúli Mogensen mikill markaðsmaður en töluvert virðist vanta í aðrar deildir eins og td. fjárstýringu. Þannig gerir Icelandair framvirka samninga á olíukaupum sem Wow air gerir ekki. Tímasetning á að hefja flug til Bandaríkjanna árið 2015 hefði líklega ekki getað verið betri. Almennt góðæri vestan og austanhafs og eldsneytisverð lágt. Yfirbygging Wow air í samanburði við Icelandair er þó enn í dag allt önnur. Það sést vel í úttekt sem hagfræðideild Landsbankans gerði á félögunum tveimur. Þar kom fram að launakostnaður sem hlutfall af tekjum væri 19% hjá Wow air en 33% hjá Icelandair. Hjá Wow air starfa um 1.500 starfsmenn en 3.500 hjá Icelandair.

Hjá Wow air starfa um 1.500 starfsmenn en 3.500 hjá Icelandair.

Þann 10. nóvember sagði Morgunblaðið svo frá því að vegna forgangsréttarákvæðis í samningum Icelandair gætu félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) átt forgang á flug í flugvélum Wow air. Með þessu móti myndi launakostnaður auðvitað hækka hjá Wow air. Þannig hafi samningur FÍA komið í veg fyrir að Icelandair Group gæti stofnað lággjaldaflugfélag þar sem önnur launakjör myndi gilda en hjá móðurfélaginu. Má i framhaldinu velta fyrir sér stöðu á kjarasamningum hjá flugfreyjum.

Siglir Icelandair lygnan sjó?

Segja má að staða Icelandair sé allt önnur en Wow air. Má þar fyrst nefna að í síðustu fjárfestakynningu félagsins kom fram að eiginfjárhlutfall þess var 36% í lok september á þessu ári eða rúmir 70 milljarðar króna. Til samanburðar nam eiginfjárhlutfall Wow air einungis 4,5% í júní á þessu ári. Því verður að teljast ólíklegt að Icelandair lendi í sambærilegum vandræðum og Wow air.

Þegar Icelandair var yfirtekið vorið 2009 glímdi félagið við allt aðrar aðstæður en í dag. Þá fólst vandinn einmitt líka í lausafjárvanda eins og hjá Wow air í dag auk þess sem félög helstu hluthafa voru komin með neikvætt eigið fé vegna mikillar lækkunar íslensku krónunnar. Þá voru helstu eigendur Icelandair Finnur Ingólfsson, Steingrímur- og Karl Wernerssynir og Einar Sveinsson svo nokkrir séu nefndir. Þá var Gunnlaugur Sigmundsson stjórnarformaður Icelandair.

Ómar Benediktsson.

Í dag eru stærstu hluthafar Icelandair íslenskir lífeyrissjóðir. Flestir þeirra keyptu hlutabréf sín í flugfélaginu þegar hlutabréfin voru mjög lág árið 2010 og hafa fyrir löngu fengið til baka sína fjárfestingu. Þó má segja að það vanti fólk með alþjóðlega reynslu af flugrekstri í stjórn Icelandair eftir að Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Icelandair lét af stjórnarformennsku árið 2017. Þó má nefna að Ómar Benediktsson kom inn í stjórn eftir að Sigurður hætti. Hann hefur áður komið að rekstri hjá Íslandsflugi, Air Atlanta og SmartLynx airlines. Þá sat Ómar einnig í stjórn Icelandair og var stór hluthafi áður en félagið var yfirtekið vorið 2009.

Brotthvarf Björgólfs Jóhannssonar úr stóli forstjóra Icelandair í lok ágúst hefur skapað tímabundin titring. Við starfi hans tók Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair sem mun sinna því þar til nýr forstjóri verður ráðin. Líklega myndi það skapa mesta tiltrú ef ráðinn yrði erlendur forstjóri með alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Fyrir slíku er þó lítil hefð á Íslandi.

Áhugavert verður að fylgjast með fréttum næsta föstudag þegar Icelandair heldur hluthafafund sinn á síðasta degi mánaðarins. Verður að teljast afar líklegt að örlög Wow air gætu ráðist nú í lok vikunnar. Ef allt færi á versta veg gæti félagið jafnvel þurft að óska eftir nauðasamningum. Því liggur mikið undir að farsæl lausn finnist varðandi framtíð Wow air.

Fólk hvatt til að taka með sér eigin ílát

Þeim sem vilja draga úr plastnotkun er bent á að taka með sér eigin ílát í innkaupaferðir.

Í tilkynningu sem birtist á vef Matvælastofnunar er fólk hvatt til þess að taka með sér eigin ílát og umbúðir í innkaupaferðir til að draga úr plastnotkun.

„Mikil vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi þess að draga úr plastnotkun, ekki síst hvað varðar umbúðaplast. Hægt er að draga úr notkun einnota umbúða m.a. með sölu á matvörum án umbúða og með því að neytendur komi með eigin ílát í verslun undir þau matvæli sem ekki eru þegar innpökkuð,“ segir meðal annars á vef MAST.

Þá er vísað í skýrslu MAST, sem gefin var út 20. nóvember. Í skýrslunni er að finna góð ráð fyrir neytendur sem vilja draga út plastnotkun með því að nota eigin ílát í innkaupaferðum.

Þar segir: „Ílátið skal vera ætlað undir matvæli. Það skal vera úr efni sem auðvelt er að þrífa (plasti, gleri, leir eða málmi). Auðvelt skal vera að loka því og ef á að kaupa hráar kjötvörur eða fisk er sérstaklega mikilvægt að lokið sé þétt. Ílátið skal vera hreint og þurrt að utan sem innan og það lokað við komuna í verslunina. Einnig má nota poka að heiman undir grænmeti, ávexti og brauð sem selt er í lausu.“

Safnaði heimildum í 26 ár

|
|

Eftir að hafa safnað heimildum í um 26 ár mun kvikmyndagerðakonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir loksins frumsýna kvikmyndina Svona fólk í kvöld. Svona fólk samanstendur af bíómynd og fimm þáttum sem verða sýndir á RÚV í vetur.

Svona fólk er ný heimildamynd og sjónvarpsþættir sem kvikmyndagerðakonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir hefur undanfarin 26 ár unnið að með heimildasöfnun og rannsóknarvinnu. Fyrri hluti Svona fólks mun loksins líta dagsins ljós í kvöld.

Svona fólk samanstendur af bíómynd og fimm sjónvarpsþáttum.

Svona fólk fjallar um líf og reynslu homma og lesbía á Íslandi og spannar frásögnin fjóra áratugi. Myndin og þættirnir byggja á 400 klukkustundum af viðtölum sem Hrafnhildur hefur safnað í öll þessi ár.

„Í kvöld frumsýnum við í Bíó Paradís og svo fer myndin í almennar sýningar. Hæstvirtur menningar- og menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir mætir og opnar nýjan vef, svonafolk.is, þar sem öll viðtölin verða gerð aðgengileg til framtíðar, bæði fyrir fræðimenn og áhugafólk um réttindabaráttu homma og lesbía,“ segir Hrafnhildur um frumsýninguna í kvöld. „Páll Óskar, verndari myndarinnar, mætir á svæðið og tekur lagið og silfurrefurinn Andrea Jónsdóttir þeytir skífum af sinni alkunnu snilld,“ bætir hún við.

Til viðbótar við heimildarmyndina sem sýnd verður í Bíó Paradís samanstendur Svona fólk einnig af fimm sjónvarpsþáttum sem sýndir verða á RÚV í vetur.

Mynd / Sigurþór Gunnlaugsson

Sami reykkofi og pabbi og afi notuðu

|
|

Aðalsteinn Sigurðarson og Eyrún Harpa Eyfells Eyjólfsdóttir búa á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal á Fljótsdalshéraði með tíu mánaða gömlum syni sínum. Þau eru með stórt fjárbú, 420 kindur, og allt þeirra hangikjöt um jólin er af heimaslátruðu, taðreykt í gömlum reykkofa. Þau borða þó ekki hangikjöt á aðfangadagskvöld heldur svínakjöt sem þau keyra 90 kílómetra niður á Egilsstaði til að kaupa.

„Ég er fjórði ættliðurinn sem býr hérna á Vaðbrekku,“ segir Aðalsteinn spurður hvers vegna þau hafi ákveðið að setjast að fyrir austan. „Eyrún er af Reykjavíkursvæðinu en hún kann vel við þennan lífsstíl og okkur líður mjög vel hér. Við erum í 400 metra hæð yfir sjávarmáli, 75 kílómetra akstur í skóla og leikskóla, en það þykir nú bara eðlilegt í sveitinni svo við kvörtum ekki yfir því, enda ekki komið að því að senda drenginn þangað.“

„Að reykja sitt eigið kjöt er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum.“

Aðalsteinn reykir allt sitt hangikjöt sjálfur, eins og bændur á Vaðbrekku hafa gert mann fram af manni, meira að segja í sama reykkofa og fyrri kynslóðir nýttu til reykinganna.„Þetta er sami kofinn og afi og pabbi reyktu í,“ segir Aðalsteinn.

„Ég veit ekki hvort langafi reykti sitt kjöt þar líka, þetta var nefnilega upphaflega hesthús. Að reykja sitt eigið kjöt er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum, en við erum bara að þessu fyrir okkur sjálf og nánustu ættingja og vini. Þetta er bara hluti af því að vera sjálfbær.“

Ekkert jólastess

Jólahaldið á Vaðbrekku er fjörugt, systir Aðalsteins, faðir hans og jafnvel fleiri ættingjar og vinir halda jólin með litlu fjölskyldunni og dvelja þá gjarnan í nokkra daga á heimilinu.

„Fólki finnst gott að vera hérna um jólin,“ útskýrir Aðalsteinn. „Hér er ekkert stress og algjör rólegheit. Við borðum góðan mat, lesum og spjöllum og grípum gjarnan í spil. Þegar maður er kominn 400 metra yfir sjávarlínu gilda engar reglur um það hvað má gera á jólunum, við spilum þetta bara af fingrum fram.“

Hér er ekkert stress og algjör rólegheit.

Þrátt fyrir að reykingin á hangikjötinu sé snar þáttur í jólaundirbúningnum er það þó ekki á borðum á sjálft aðfangadagskvöld.

„Það hefur aldrei verið siður á mínu heimili að borða hangikjöt á aðfangadagskvöld,“ segir Aðalsteinn. „Þá er alltaf borðað svínakjöt. Það er reyndar aðkeypt ennþá en við erum svona að velta því fyrir okkur að fá okkur svín til að ala upp og reykja sjálf, sjáum til hvort það kemst í framkvæmd. Hangikjötið er borðað yfir allan veturinn, þótt það sé auðvitað mest yfir jólin. Á jóladag borðum við til dæmis alltaf kalt hangikjöt.“

Kaupstaðarlyktin heyrir sögunni til

Vaðbrekka er í 90 kílómetra fjarlægð frá næsta kaupstað sem er Egilsstaðir og það þýðir auðvitað að fara þarf í kaupstaðarferð til að kaupa inn fyrir jólin, það er ekki hægt að stökkva út í búð í hasti ef eitthvað gleymist.

„Við erum nú vön því að versla fyrir heila viku í einu, þar sem við búum svona afskekkt,“ segir Aðalsteinn og þykir ekki mikið til spurningarinnar koma. „Það er hins vegar liðin tíð að það sé kaupstaðarlykt af fólki þegar það kemur úr slíkum ferðum. Ég hef til dæmis aldrei drukkið áfengi og þetta er almennt að breytast í sveitunum. Það er bara hluti af lífinu að skreppa í bæinn einu sinni í viku til að kaupa inn.“

Það er oft líka margt um manninn á Vaðbrekku á gamlárskvöld, enda auðveldara fyrir þau Aðalstein og Eyrúnu að bjóða fólki til sín en að fara eitthvert.

„Það þarf að gefa kindunum alla daga, hvort sem það eru jól, áramót, laugardagur eða sunnudagur,“ segir Aðalsteinn og hlær. „Þannig að okkur finnst gott að bjóða fólki í heimsókn og leyfa því að upplifa rólegheitin á jólunum hjá okkur. Maður nýtur jólanna svo miklu betur í friðsældinni.“

Það þarf að gefa kindunum alla daga, hvort sem það eru jól, áramót, laugardagur eða sunnudagur.

Myndir / Aðalsteinn Sigurðarson

Klassískir og hátíðlegir forréttir

||
||

Hátíðlegt er að bjóða upp á forrétti áður en jólasteikin er borin á borðið. Hér höfum við uppskriftir að þremur klassískum forréttum úr tilraunaeldhúsi Gestgjafans.

Laxatartar með eplaskífum
fyrir 4-6

300 g reyktur lax, skorinn í litla bita

200 g grafinn lax, skorinn í litla bita

2 skalotlaukar, fínt saxaðir

½ msk. ferskt dill, saxað

salt og pipar eftir smekk

1 grænt epli

2 msk. laxa- eða silungahrogn (má líka nota kavíar)

Blandið báðum tegundum af laxi, lauk og dilli saman, blandið 2 msk. af sósunni út í. Látið bíða í eina klukkustund. Sneiðið nokkrar mjög þunnar skífur af eplinu, gott er að nota mandólín. Setjið svolítið af tartarblöndunni á 4-6 diska og raðið eplaskífum, u.þ.b. 3 á hvern disk, ofan á hann. Skiptið því sem eftir er af tartarnum á milli diskanna, ofan á eplin. Hellið sósu yfir tartarinn og örlítið yfir eplin og í kring á diskinn. Skreytið með laxahrognum og fersku dilli.

Sósa

¾ dl góð olía

2 msk. sítrónusafi

örlítill sykur

salt og pipar

Hrærið allt saman í skál.

Hvítlaukssteiktir humarhalar
fyrir 4-6

Humar klikkar ekki.

Humar er afar einfalt að elda og hann er nánast alltaf góður. Það eina sem þarf að gera er að klippa hann að framan og hreinsa görnina úr. Á jólunum er skemmtilegast að nota stóran gæðahumar og þá má áætla 2-4 á mann í forrétt en fleiri ef þeir eru litlir, ef humarinn er lítill verður að elda hann skemur.

8 stórir humarhalar

4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir

2-3 msk. smjör

1 dl steinselja, söxuð

hvítur nýmalaður pipar

sjávarsalt

2 sítrónur

Bræðið smjörið á pönnu, bætið hvítlauknum saman við og látið malla í u.þ.b. 30-40 sekúndur. Bætið humarhölunum út í og steikið í 2-3 mínútur eða þar til halarnir verða hvítir að lit. Sáldrið steinseljunni saman við og kryddið með pipar og salti og blandið öllu vel saman á pönnunni. Setjið á diska og berið fram með sítrónubátum og góðu snittubrauði.

Aspassúpa
fyrir 6

Aspassúpa er fullkominn forréttur.

30 g smjör

3 msk. hveiti

12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð

2 aspasdósir (u.þ.b. 600 g samtals)

salt eftir smekk

pipar eftir smekk

2 dl rjómi, þeyttur

2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)

Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með soðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki, bætið soðinu af aspasnum út í í restina. Sjóðið súpuna í 3-5 mín., bætið þá aspas út í og látið allt sjóða saman við vægan hita í 4-5 mín. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á með steinselju.

Nota má ferskan aspas í súpuna í staðinn fyrir aspas úr dós. Þá er neðsti hlutinn af stönglinum flysjaður létt, aspasinn skorinn í bita og soðin

Texti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ljósmyndarar Birtíngs

Gefur ekkert eftir í húðumhirðu þótt hún komist varla í sturtu á daginn

|
|

Samfélagsmiðlastjarnan, flugfreyjan og nýbakaða móðirin Þórunn Ívarsdóttir er annálaður snyrtivöruunnandi, þá sérstaklega þegar kemur að öllu sem tengist húðumhirðu. Fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum vita að henni finnst fátt betra en gott dekur og hún lumar á dágóðu safni af kremum, möskum og öllu sem til þarf til að gera vel við sig.

Þórunn hefur, að eigin sögn, hugsað vel um húð sína frá því að hún var unglingur. „Áhugi minn á húðumhirðu spratt upp í kringum þrettán ára aldurinn. Þó finnst mér vera mikill munur á að hugsa mikið eða vel um húðina. Það er nefnilega hægt að hugsa allt of mikið um hana og oförva hana og gera henni illt. Því er allt gott í hófi, eins og með svo margt annað í lífinu,“ segir hún. „Hreinsun er númer 1, 2 og 3. Þú getur alveg sleppt því að gera eitthvað annað ef þú tryggir ekki að yfirborð húðarinnar sé hreint áður en þú notar krem, serum eða maska. Fólki finnst þetta skref oft ekkert skemmtilegt og trassar það. Sem gerir það að verkum að það eyðir morðfjár í krem, serum eða maska sem fá aldrei tækifæri til að sýna sína sönnu virkni. Sömuleiðis finnst mér svo ótrúlega mikilvægt að vera meðvituð um hvað er keypt og notað. Síðastliðin ár hefur þekking okkar á innihaldsefnum breyst til hins betra og í dag þurfa snyrtivöruframleiðendur að vera á tánum. Sorglegast finnst mér þegar stærstu merkin taka ekki þátt í þróuninni og halda áfram að nota óæskileg innihaldsefni. Þetta gerist samt ekki á einni nóttu en maður getur haft það að leiðarljósi að reyna með tímanum að minnka notkun á vörum sem að innihalda til dæmis mineral-olíu, sílíkon eða petroleum.“

Notar helst engin krem á lítinn kropp

Eins og þeir sem fylgjast með Þórunni vita, þá eignaðist hún nýlega sitt fyrsta barn, stúlku sem fékk nafnið Erika Anna. Aðspurð hvort hún hafi fundið mun á húðinni meðan á meðgöngu stóð og eftir hana, svarar Þórunn að svo hafi ekki verið. „Kannski er ég mjög heppin en ég hef hef engan mun fundið. Ég hugsaði nákvæmlega eins um húðina og ég geri alltaf og hún hafði sjaldan verið jafngóð. Það eina sem ég passaði mig á var að nota ekki retinol og of sterkar ávaxtasýrur,“ segir hún. Þá segist hún hafa verið dugleg að taka inn olíur á meðgöngu sem hún trúir að hafi gert húð Eriku gott. „Ég vil helst ekki nota nein krem á svona fullkominn lítinn kropp sem er örugglega með fallegustu húð sem ég hef séð. Það eina sem ég nota er örlítið af bossakremi frá Weleda úr Calendula-línunni sem mæður um allan heim mæla með. Ég nota það til að fyrirbyggja bleiuútbrot. Ég forðast petroleum, mineral-olíu og parrafín eins og heitan eldinn og mun alltaf lesa mér til um innihaldsefni á þeim vörum sem ég mun nota á hana.“

Drunk Elephant í uppáhaldi

Þórunn segist ekki breyta miklu í sinni húðrútínu nú þegar kólna fer í veðri, þar sem hún haldist í jafnvægi allan ársins hring. „Mér finnst þó gott að næra húðina vel á köldum vetrardögum, sem er mjög mikilvægt fyrir þá sem finna mikið fyrir veðurbreytingum. Ég nota kannski ögn meira af rakakremi eða rakamaska aðeins oftar en vanalega yfir vetrartímann. Í allra, allra mesta uppáhaldi hjá mér eru vörurnar frá Drunk Elephant en ég held ég noti allar vörurnar frá merkinu. Ég nota þær því það skiptir mig mjög miklu máli að velja vörur með hreinum innihaldsefnum og að þær séu framleiddar án óæskilegra aukefna en ég hef kafað djúpt ofan í fræðin. Þær vörur nota ég síðan í bland við aðrar frábærar vörur eins og frá t.d. Origins, Glamglow, Clinique, Kiehls, Oskia, the Ordinary og fleiri. Í augnablikinu er nú eiginlega bara ekkert á óskalistanum mínum en ég gæti alveg skroppið eins og eina ferð í Sephora og fyllt á rakamaskabirgðirnar mínar en ég elska að nota svona tissjúmaska. Annars var mamma mín að koma erlendis frá með smápakka handa nýbakaðri móður en ég gef ekkert eftir í húðumhirðu þótt ég komist varla í sturtu á daginn.“

Dekur að hætti Þórunnar

Þórunn Ívarsdóttir er annálaður snyrtivöruunnandi.

„Þegar ég vil gera sérstaklega vel við mig, um það bil einu sinni í viku, fer ég í sturtu, er lengi og dekra extra vel við húðina. Þá byrja ég á þvi að hreinsa hana eins og vanalega en sá hluti húðumhirðunnar fer yfirleitt fram í sturtunni á kvöldin. Næst myndi ég nota ávaxtasýrumaska sem sléttir yfirborð húðarinnar, skrúbbar hana án korna og hreinsar hana. Þá myndi ég næra hana með extragóðum nærandi rakamaska og olíu. Ég nota mikið marula-olíu og það líður varla sá dagur að ég löðri henni ekki á mig. Hún hefur mikinn lækningamátt og er einstaklega rík af omega-fitusýrum. Dagsdaglega byrja ég alltaf á hreinsun og hefur það komist í vana minn að nota C-vítamín-serum og gott rakakrem á morgnana. Mér finnst það eiginlega ómissandi og sé hvað húðin mín er ljómandi og fín þegar ég geri það.

Mynd af Þórunni / Hákon Björnsson

Smakka íslenskt nammi: „Bragðast eins og súkkulaði og gúmmí“

Krakkar láta ekki bjóða sér upp hvað sem er eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Stjórnendur YouTube-síðunnar HiHo Kids fengu á dögunum nokkra bandaríska krakka til að smakka íslenskt nammi. Eins og sjá má voru krakkarnir óhræddir við að segja álit sitt á því sem þeim var gefið að smakka.

Meðal þess sem þau fengu að smakka var Nóa Kropp, Skyr, harðfiskur og Draumur frá Freyju. „Bragðast eins og súkkulaði og gúmmí,“ sagði eitt barnið um Draum. „Nokkuð gott,“ sagði annað.

Skyrið virðist fá þá nokkuð góða einkunn, sérstaklega frá yngsta gagnrýnandanum.

Lifað á brúninni

|
|

Síðast en ekki síst

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

Steinunn Stefánsdóttir.

Flestum er orðið ljóst að þær lífsvenjur sem við höfum tileinkað okkur í forréttindahluta heimsins munu ekki standast tímans tönn. Þær eru ekki sjálfbærar í þeim skilningi að þær ganga stöðugt á gæði jarðar og þar með talið loftslags.

Það verður því að skera upp bæði neyslu og framleiðsluhætti til þess að snúa við þróuninni. Og það er erfitt að láta af þægilegum venjum og breyta daglegum lífsháttum á þann hátt að manni finnst maður vera að láta á móti sér. En nú verða allir að leggjast á eitt; stjórnvöld, atvinnulíf og einstaklingar og þá fyrst og fremst sá hluti fólks sem nýtur forréttindanna í forréttindaheiminum.

Endurheimtum votlendi, setjum kraft í orkuskiptin, keyrum minna, fljúgum minna, borðum minna kjöt, sneiðum hjá umfangsmiklum plastumbúðum og plastpokum líka (þótt forstjóra Sorpu finnist það óþarfi) flokkum ruslið og áfram mætti telja. Í fáum orðum sagt: neytum í alla staði minna.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, grænna lausna, orðaði stöðuna skýrt í ágætri loftslagsumfjöllun Kveiks á RÚV í vikunni: „Maður á svo erfitt með að skilja mannskeppnuna. Við eigum öll börn. Okkur þykir vænt um börnin okkar og við myndum ganga í sjóinn fyrir börnin okkar eða hoppa fram af hömrum en við erum einmitt á brúninni með þessa spurningu: Ætlum við að fara fram af hamrinum, ekki bara við sjálf, heldur með börnin okkar? Af hverju fórnum við ekki einhverju núna, af okkar lífsgæðum, til að þau geti lifað?“

Og þetta er einmitt málið. Það er enn hægt að spyrna við fótum og snúa við þróuninni en það verður ekki gert nema með hugarfarsbyltingu þar sem allir leggjast á árar. Auðvitað verður að horfast í augu við að máttur hvers og eins er ekki mikill en þeim mun mikilvægara er að leggja kraftana saman. Neytandi sem breytir lífsvenjum sínum lagar ekki bara sitt eigið kolefnisspor, hann hefur áhrif á aðra neytendur, hann hefur áhrif á atvinnulífið með vali sínu á vörum og stjórnvöld með atkvæði sínu. Síðast en ekki síst er hann þátttakandi í þeirri hugarfarsbyltingu sem verður að eiga sér stað til þess að komandi kynslóðir geti haldið áfram að byggja þessa jörð.

 

Aðventan á næsta leiti

Fyrsti í aðventu verður 2. desember nk. og margir fylgja þeirri hefð að gera aðventukransa og kveikja á hverju kertinu af öðru eftir því sem líður á aðventuna. Hér eru nokkrir fallegir kransar úr smiðju Þórunnar Högnu sem hún gerði fyrir Hús og híbýli í fyrra.

Kubus-skál: Epal. Mosi og könglar: Garðheimar. Aðventukerti: Fakó. Stjarna: Söstrene Grene.
Fallegt er að setja skreytingu í stóra skál. Mosi, tuju-greni, könglar og kerti fæst í Garðheimum. Svört stjarna og koparlitaður borði var keypt í Magnoliu.
Svartur kökudiskur: Pottery Barn (var spreyjaður svartur). Grár krans og tölustafur: Magnolia. Tuju-greni og könglar: Garðheimar. Svartar stjörnur: Heimili og hugmyndir.
Smart er að setja köngla og euctalyptus-greinar saman í skál með kerti.

Umsjón / Þórunn Högna
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Rokkuð og án mikillar dramatíkur

Hljómsveitin Dúkkulísurnar sem hefur starfað í yfir 30 ár sendir nú frá sér jólaplötu og fylgir henni eftir með tónleikum. Gréta Jóna Sigurjónsdóttir gítarleikari segist persónuleg í textagerð á plötunni enda hafi hún verið á erfiðum stað í lífinu við gerð hans.

„Þetta verður vínyll og diskur, frekar gamaldags að stússast í svoleiðis útgáfu, en platan kemur líka út á Spotify. Í fyrra héldum við nokkra jólatónleika og tókum upp tvö lög í aðdraganda þeirra. Þegar við hittumst svo á æfingum á nýju ári kom í ljós að við áttum fleiri jólalög í handraðanum og þá var ekki aftur snúið,“ segir Gréta sem býr á Fljótsdalshéraði og rekur Bókakaffi Hlöðum í Fellabæ. Jólaplata Dúkkulísanna ber heitið Jól sko!

„Hugmyndina má rekja til 2008 þegar við sömdum jólalag fyrir þýðingarfyrirtækið Islingua sem var jólakveðja í nafni þess fyrirtækis. Ég held að Gugga trommari hafi á þeim tímapunkti slegið fram þessari hugmynd sem við hlógum að og grínuðumst með en það hefur líklega verið til þess að okkur fannst þetta ekki svo fjarlægt þegar við fórum að ræða þetta í alvöru.“

Á plötunni eru sex lög, þrjár ábreiður sem þær settu íslenskan texta við með dyggri aðstoð Kristjáns Hreinssonar og Magnúsar Þorkelssonar og þrjú frumsamin lög. „Áðurnefnd Jólakveðja sem við sömdum við texta eftir Börk Vígþórsson, lag eftir Hörpu hljómborðsleikara með texta eftir Hörpu, Erlu söngkonu og mig og lag eftir Erlu söngkonu með texta eftir mig. Ég held að lagið hennar Hörpu sé mjög persónulegt fyrir hana og textinn við Frostnótt er mjög persónulegur fyrir mig en aðallega vegna þess að ég var á erfiðum stað í lífinu þegar hann varð til,“ segir Gréta og bætir við að meiningin hafi samt fyrst og fremst verið að gera dálítið rokkaða og skemmtilega plötu án mikillar dramatíkur.

Mættust á milli bæja með pakka

Aðspurð segist Gréta ekki mikið jólabarn hún líti frekar á jólin sem afslöppunartíma með góða bók og konfekt. „Ég tapa mér alls ekki í undirbúningi enda fæ ég þann skammt dálítið í vinnunni. Á ákveðnum tímapunkti eða við ákveðnar aðstæður hellist yfir mig söknuður eftir þeim sem eru farnir en um leið get ég glaðst yfir stjörnuprýddum himni á köldu vetrarkvöldi, og dáðst að fegurð náttúrunnar og alheimsins. Það er lítið um hefðir á mínu heimili, ég á 11 ára strák, Sigurjón Torfa, og ég reyni að búa til notalega jólastemningu fyrir okkur tvö. Ég vinn mikið þannig að mér finnst tíminn sem ég á með honum afskaplega dýrmætur og reyni að gera hann innihaldsríkan og kósí. Oft förum við út á lóð, leikum okkur í snjónum, komum inn, kveikjum í kamínunni og fáum okkur kakó. Stundum fáum við okkur göngutúr um grafreitinn hér í Fellabæ með kerti og ræðum þá jafnvel hverfulleika lífsins. Svo má ekki gleyma að mér finnst bók algjörlega nauðsynleg um jól og þreytist ekki á að ýta bókum að Sigurjóni Torfa.  Ég reikna með að þessi jól verði í sama dúr.“

Á ákveðnum tímapunkti eða við ákveðnar aðstæður hellist yfir mig söknuður eftir þeim sem eru farnir en um leið get ég glaðst yfir stjörnuprýddum himni á köldu vetrarkvöldi, og dáðst að fegurð náttúrunnar og alheimsins.

Áttu einhverja eftirminnilega jólahefð úr æsku? „Ein af ljúfustu minningum úr bernskunni í Jökulsárhlíðinni var að yfirleitt á Þorláksmessu eða daginn fyrir Þorláksmessu fórum við Jóna Torfhildur, uppeldissystir mín á Skriðufelli þar sem ég ólst upp, með jólapakka í poka áleiðis í Torfastaði þar sem faðir minn bjó. Um fimm kílómetrar eru á milli bæjanna og á móti komu Svandís og Heiða systur mínar líka með pakka. Við mættumst á miðri leið og skiptumst á pökkum við stóran stein sem við kölluðum alltaf Eplasteininn. Ef vont var veður þá var keyrt með jólapakkana á snjósleða og þá misstum við af þessum Eplasteinshittingi, sem var afleitt en ekkert við að gera.“

Pálmi fyrsti kostur

Fram undan er annasamur tími en það er alltaf eitthvað spennandi að gerast á Bókakaffi Hlöðum. Dúkkulísurnar verða með þrenna tónleika, þá fyrstu 1. desember í Valaskjálf á Egilsstöðum. Næstu verða svo í Bæjarbíói Hafnarfirði þann 5. desember og þeir síðustu á Græna hattinum Akureyri 6. desember. „Pálmi Gunnarsson var með okkur í fyrra og var alveg til í að koma aftur. Þegar við vorum að velta fyrir okkur í fyrra að fá gest með okkur þá gerðum við óskalista og þegar við vorum búnar að ræða allt niður í kjölinn vorum við allar sammála um að hann væri okkar fyrsti kostur. Hann hefur gefið út og sungið svo falleg jólalög að öllum hlýnar þegar hann syngur þau og fyrir okkur sem hljóðfæraleikara er ómetanlegt og algjör forréttindi að fá að spila með honum,“ segir Gréta að lokum.

Myndir / Ólöf Erla Einarsdóttir

 

 

 

Allir verða að eiga sinn sokk

||||
||||

Jólasokkar eru algeng sjón yfir jólahátíðina og fer útfærslum þeirra fjölgandi. Við heimsóttum Kolbrúnu Karlsdóttur hannyrðakonu og fengum að mynda nokkra af þeim jólasokkum sem hún hefur hannað og saumað en óhætt er að segja að Kolbrún vandi vel til verka.

Víða um heim er hefð fyrir jólasokkum sem hengdir eru yfir arin og bíða barna á jóladagsmorgun, fullir af góðgæti í boði jólasveinsins. Margir hengja smærri útfærslur þeirra á jólatréð á meðan aðrir geyma jólakortin í sokknum, flestir nýta jólasokkana þó sem almennt skraut, hvort sem þeir eru hengdir á hurðir eða út í glugga. Jólasokkana má kaupa tilbúna eða föndra sjálfur og skreyta á ýmsa vegu. Kolbrún er ein þeirra sem gefur barnabörnum sínum jólasokka þegar þau hefja búskap en sérhver sokkur er einstakur enda fer Kolbrún ekki eftir uppskriftum þegar kemur að hannyrðum. Kolbrún er sjálflærð í föndurgerð og býr yfir ótal sniðugum lausnum og deilir hér nokkrum með lesendum. Á hverju ári handmálar hún jólakort til styrktar góðgerðarfélaginu Bergmáli, eins og sjá má á heimasíðu félagsins.

„Ég sauma þetta ekki í, heldur er þráðurinn lagður laus yfir og svo saumað yfir með aftursting svo það tolli og þoli þvott. Sömu aðferð nota ég við Jól-merkinguna efst á öllum sokkunum mínum.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Hárið á konunni er saumað og bakgrunnurinn er ekki köflóttur heldur handsaumaður. Það var heilmikið mál að mæla út svo allar stjörnurnar yrðu jafnar. Margir héldu að þetta græna hefði verið fast á efninu en þetta er lykkjuspor. Mistilteinninn er laus, hvert einasta blað og svuntan hennar líka.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Hér setti ég sogrör inn í kústskaftið því annars verður það svo skakkt. Endann gerði ég úr basti en ekki garni svo þetta sé sem fallegast og eðlilegast. Annaðhvort ertu með snjókarl með alvörukústskaft eða ekki.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Þessi sokkur var seinlegastur allra því hver múrsteinn er upphleyptur og hvert einasta snjókorn og pallíetta einnig upphleypt. Bæði kúlan og múrsteinninn eru vatteruð og síðan kappmelluð, svo vel að það sjáist ekki því ef það sést er ekki lengur gaman að því.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Vegan-kaka í glæsilegu kökublaði Vikunnar

||
||

Kökublað Vikunnar sem margir bíða spenntir eftir ár hvert er komið í verslanir. Sigríður Björk Bragadóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Salt eldhúss, er ein þeirra sem deilir uppskrift í blaðinu en hún er að eigin sögn forfallin smákökubakari. Hér bakar hún ljúffenga vegan-köku.

Myndir / Hallur Karlsson

Uppskriftin sem Sirrý deilir með lesendum er að hennar sögn bæði yndisleg, óvenjuleg og vegan. „Ég keypti kökubók í London í haust sem er tileinkuð börnum í Sýrlandi og er þáttur í fjáröflun til styrktar börnum þar. Margir þekktir bakarar koma að bókinni og gefa vinnu sína. Þeir fengu fyrirmæli um að velja hráefni frá þessu svæði, löndum fyrir botni Miðjarðarhafs, nota döðlur, möndlur, kardimommur, hunang, rósavatn og fleira. Fyrsta kakan sem ég bakaði úr bókinni sló í gegn hjá fjölskyldunni og vinahópnum. Mig langar að gefa uppskrift að minni útgáfu af þessari yndislegu og óvenjulegu köku. Kakan getur verið vegan ef notað er eggjalíki í stað eggja og vegan-súkkulaði í súkkulaðibráðina og þá er auðvitað ekki borin jógúrt með.“

Möndlukaka með súkkulaði og kardimommum

200 g möndlur með hýði
100 g kókosmjöl
100 g ferskar döðlur, steinhreinsaðar, vigt án steina
3 egg (eggjalíki fyrir vegan)
140 g kókossykur
1 ½ dl olía
¾ dl kókosmjólk
6-8 kardimommuhylki, nota fræin innan í, möluð í mortéli eða kryddkvörn
börkur af 1 lífrænni sítrónu eða lítilli appelsínu
1 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. rósavatn (má sleppa)

Hitið ofninn í 180°C eða 165°C á blástur. Setjið möndlur og kókosmjöl í matvinnsluvél og malið fínt, setjið í skál og geymið. Setjið döðlur og egg í matvinnsluvélina og vinnið vel saman. Bætið möndlublöndunni út í ásamt öllu öðru sem fer í kökuna og vinnið saman í deig. Setjið bökunarpappír í botn á 22 cm breiðu formi, má hvort heldur vera kringlótt eða ferkantað. Berið olíu á innri hliðar á forminu. Hellið deiginu í formið og bakið þetta í miðjum ofni í 40-45 mínútur. Látið kökuna kólna í 10 mín. og færið síðan úr forminu og setjið á fallegan disk. Setjið súkkulaðibráð ofan á kökuna þegar hún er orðin köld. Skreytið með grófum kókosflögum eða þurrkuðum rósablöðum. Berið fram með „labneh“ með rósavatni þ.e. þykkri bragðbættri jógúrt.

Súkkulaðibráð
80 g súkkulaði, 70%
4 msk. kókosmjólk

Bræðið saman við vægan hita í vatnsbaði.

Labneh með rósavatni
3 dósir lífræn jógúrt
2 msk. hlynsíróp (mable syrup), eða annað sem hentar ykkur að sæta með
1 tsk. sítrónubörkur, eða eftir smekk
½ tsk. rósavatn, eða eftir smekk

Síið vatnið úr jógúrtinni með því að setja jógúrtina í trekt með kaffifilter yfir skál eða könnu og látið standa yfir nótt. Með því fáið þið „labneh“, dásamlega kremaða jógúrt sem passar að bera fram með eftirrétti t.d. í staðinn fyrir þeyttan rjóma (nota má mysuna sem verður eftir t.d. í brauðdeig). Blandið sírópi, sítrónuberki og rósavatni í þykku jógúrtina. Smakkið síðan til.
Rósavatn fæst í Melabúðinni og í Krydd- og tehúsinu. Þurrkaðar rósir hafa stundum fengist í Tiger, annars á Netinu.

Kökublað Vikunnar er glæsilegt sem aldrei fyrr og þar er að finna fjölda flottra kökuuppskrifta. Forsíðumynd blaðsins tók Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Jólaförðunin: Falleg augnhár, varalitur og glimmer

Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir, betur þekkt sem Silla, er ávallt með puttann á púlsinum þegar kemur að því sem hæst ber í förðunarheiminum. Silla er kennari og önnur af eigendum förðunarskólans Reykjavík Makeup School en auk þess er hún alltaf með fleiri járn í eldinum. Þessa dagana vinnur hún ásamt Söru Dögg Johansen, meðeiganda sínum í skólanum, að stóru og spennandi samstarfi.

„Vörumerkið sem um ræðir er mjög þekkt en ég og Sara munum verða andlit merkisins hér á Íslandi,“ segir Silla um samstarfið. „Við erum á fullu að undirbúa og skipuleggja útgáfupartí og þetta verður allt mjög stórt og flott. Við erum ótrúlega spenntar yfir þessu öllu og því að fá loks að uppljóstra hvaða merki þetta er.“
Aðspurð um það helsta og nýjasta í förðunarheiminum í dag, segir Silla í raun allt leyfilegt. „Það eru rosalega margt í gangi, allt frá „no makeup“ upp í „full glam“ og ættu allir að geta fundið eitthvað sem hentar. Þessi árstími kallar samt að mínu mati á aðeins meira en aðrir. Mér finnst alltaf jafnflott að vera með fallega augnförðun og poppa hana upp með fullkomnun gerviaugnhárum og fallegum varalit, svo má jafnvel bæta við smávegis glimmeri fyrir áramótin. En falleg húð er eitthvað sem fer aldrei úr tísku.“

Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir er önnur af eigendum förðunarskólans Reykjavík Makeup School. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Uppáhaldsförðunarvörur Sillu: „Listinn er nánast endalaus en það sem er akkúrat núna í uppáhaldi er NYX professional makeup gloss sem heitir Duo Chromatic í litnum SPRING IT ON, nýjasta augnskugga-pallettan frá Urban Decay sem heitir NAKED CHERRY, kinnalitur frá Becca sem heitir Blushed Copper og líka annar kinnalitur frá MAC sem heitir Peaches. Ég blanda oft kinnalitum saman en mér finnst þeir algjörlega nauðsynlegir þegar kemur að förðun. Eins verð ég að nefna Eylure-augnhár númer 117 og 105, þau eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa stundina.“

„Must have“ fyrir jól og áramót? „Ég myndi segja falleg augnhár, varalitur og svo jafnvel glimmer eða glimmer eyeliner til að skreyta aðeins áramótaförðunina. NYX professional makeup eru með rosalega mikið úrval af allskyns glimmeri og eins nola.is. Einnig er Urban Decay með rosalega flotta glimmer eyeliner-a.“

Hvað er á óskalistanum þínum? „Það er CC-krem frá It Cosmetics. Svo dreymir mig um eina ákveðna tösku líka.“

Eitthvert leynitrix fyrir lesendur? „Ég er með gott trix fyrir þá sem eru með olíumikið T-svæði. Það er að setja örlítið af lausu, mjög fínu púðri og bera það á svæðið ÁÐUR en farðinn er settur á. Púðrið stoppar olíuna frá því að blandast við farðann og brjótast í gegn og með þessari aðferð eru líklegra að T-svæðið haldist matt. Hljómar kannski flókið en virkar mjög vel.“

 

Mun taka nokkur ár til viðbótar að endurvinna traust

|
Páll Harðarson var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar í þættinum 21 á Hringbraut.|

Hlutabréfamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum þótt hann sé enn að jafna sig eftir bankahrunið.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir góðan mælikvarða á endurreisn íslenska hlutbréfamarkaðarins vera nýlega úttekt FTSE á markaðnum. Núverandi staða hleypir íslenska markaðnum inn í vísitölukerfi FTSE, bresku hlutabréfavísitöluna þar sem yfir 100 stærstu fyrirtækin eru skráð í Kauphöllinni í London.

Eigum að stefna á fyrsta flokks
Í flokkunarkerfi FTSE eru fjórir gæðaflokkar. „Við lendum í fyrsta kastinu í þeim neðsta en uppfyllum jafnmörg skilyrði og markaðir sem eru í næstefsta flokki,“ segir Páll og bætir við að við séum í seilingarfjarlægð frá því að komast í næstefsta flokk. Páll segir að við eigum að stefna á að komast í fyrsta flokk á næstu fimm til tíu árum.

Dómstólar leiðbeina
Varðandi umbætur á markaðnum eftir hrun bendir Páll á að gerðar hafi verið umbætur á lagaumhverfinu og dómstólar spili líka þar inn í, „… svo hafa fallið dómar sem segja okkur með óyggjandi hætti hvað má og hvað ekki og hverjar afleiðingarnar eru af því að fara út fyrir þá línu,“ segir hann en það kosti þolinmæði að byggja aftur upp traust og það muni líklega taka einhver ár í viðbót að endurheima það.

Páll Harðarson var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar í þættinum 21 á Hringbraut.

Gjörbreyting frá því sem áður var
Breytingar eru að verða núna. „Síðustu tólf til átján mánuði höfum við verið að sjá ákveðnar breytingar eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin. Á þessum tíma höfum við séð fimm fyrirtæki afla sér 30 milljarða króna á markaði til kaupa á öðrum fyrirtækjum. Þetta er gjörbreyting frá því sem áður var.“

Páll horfir nú meðal annars til ferðaþjónustufyrirtækja, orkufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja og, síðast en alls ekki síst, bankanna. Páll vonast til þess að Íslandsbanki og Landsbankinn muni fyrr eða síðar verða skráðir á markaðinn og sömuleiðis segist hann spenntur fyrir því að sjá orkufyrirtæki á aðallista.
– lb/þsj

„Mamma er brjálæðislega góður sögumaður“

Drottningin á Júpíter er fyrsta skáldsaga Júlíu Margrétar Einarsdóttur en hún segist alltaf hafa vitað að hún myndi leggja skriftir fyrir sig, enda skáldablóðið sterkt í fjölskyldunni.

Júlía er nýkomin heim eftir tveggja ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem hún lærði handritaskrif, fyrst í New York og síðan í Los Angeles. Skáldsagan sem hún hafði skrifað sem mastersverkefni í ritlist við Háskóla Íslands lét hana þó ekki í friði og á endanum gafst hún upp fyrir ásókninni og ákvað að gefa bókina út til að losna við hana úr heilabúinu. Söguhetjan Elenóra Margrét Lísudóttir er þó engan veginn byggð á reynslu höfundarins, að sögn Júlíu, þótt vissulega eigi þær ýmislegt sameiginlegt, til dæmis það að stunda næturlífið með bækistöðvar á Bravó við Laugaveg og Júlía hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að sirkusinn, sem leikur stórt hlutverk í sögunni, sé að vissu leyti tákn fyrir næturlífið í Reykjavík.

Ýtarlegra viðtal við Júlíu Margréti má lesa í kökublaði Vikunnar.

„Það er reyndar dálítið mikil einföldun,“ segir Júlía. „En það er einn vinkillinn á söguna. Ég var óskaplega lengi með þessa bók í vinnslu og alltaf að auka flækjustigið. Upprunalega hugmyndin var að vinna með sirkus, því mér finnst það svo heillandi heimur, en eftir því sem ég vann söguna meira víkkaði sjónarhornið og áherslurnar breyttust.“

Júlía segir upplifanir af næturlífinu hafa verið henni hugleiknar lengi og vakið hana til umhugsunar um það hvað sé í rauninni veruleiki.

„Þegar maður situr á skemmtistað eftir klukkan þrjú á nóttunni fer einhver sturlun í gang og maður verður algjörlega samdauna henni,“ segir hún. „Allir verða ógeðslega klikkaðir og það gilda einhver allt önnur lögmál heldur en annars staðar á öðrum tíma. Nóttin og myrkrið hafa líka ótrúlega mikil áhrif á alla skynjun og upplifun manns af heiminum. Daginn eftir ertu svo liggjandi inni í herberginu þínu á þriðjudegi og það er einhver að steikja fiskibollur í eldhúsinu og þú hugsar bara um að borga reikningana þína. Þú ert ennþá í sama heimi en samt eru þessar tvær upplifanir algjörlega hvor úr sinni áttinni. Það finnst mér ótrúlega áhugavert aspekt af tilverunni og það er það sem ég er að reyna að koma til skila í sögunni.“

Júlía er dóttir Einars Kárasonar rithöfundar, sem einnig er með skáldsögu á jólamarkaðnum, og ekki nóg með það heldur er Kamilla systir hennar líka að senda frá sér skáldsögu þessa dagana. Lá það alltaf fyrir að þær systur myndu feta í fótspor föður síns og verða rithöfundar?

„Neeeei,“ segir Júlía hugsi. „En það kom mér ekkert á óvart að Kamilla væri að skrifa bók og það kæmi mér heldur ekkert á óvart ef mamma eða hinar systur mínar færu að skrifa líka. Mamma er til dæmis brjálæðislega góður sögumaður og gæti svo sannarlega skrifað góða bók.“

Ritlistarnámið ýtti Júlíu endanlega út á rithöfundabrautina og hún er komin heim til að skrifa og hér ætlar hún að vera eitthvað áfram, nema eitthvað óvænt gerist.

„Í augnablikinu leyfi ég mér ekki að taka neinar drastískar ákvarðanir,“ segir hún. „En í bili er það planið að vera hér heima allavega í vetur. Bókin gekk miklu betur en ég hafði leyft mér að vona og svakalega mikil vinna í kringum kynningar og upplestra úr henni fram að jólum. Eftir áramótin get ég svo bara leyft mér að fara í fæðingarþunglyndið sem alltaf fylgir fæðingu bókar og ég hlakka mikið til þess. Eftir það er óskaplega margt sem mig langar til að gera hérna heima. Ég finn allavega að hér á ég eitthvað ógert. Ég er ekki búin með Íslandskaflann enn þá, en um leið og ég finn að honum er lokið fer ég eitthvað annað. Ég er byrjuð á næstu skáldsögu, mjög spennt fyrir að kynnast nýjum karakterum og nýjum heimum og leyfa þeim að leiða mig þangað sem þeir vilja. Svo kemur framhaldið bara í ljós í fyllingu tímans.“

Ýtarlegra viðtal við Júlíu Margréti má lesa í kökublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna

 

 

Fólk verslar eins og kjarnorkustyrjöld sé í uppsiglingu

|
Rakel leggur sig fram um að halda umhverfisvæn jól. Mynd / Unnur Magna|

Rakel Garðarsdóttir hefur undanfarin fimm ár lagt sig fram um að halda jól á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Færri, gjafir, minna prjál, aðhald í matarinnkaupum og endurnýting pappírs er meðal þess sem hún og hennar fjölskylda leggja kapp á í jólahaldinu.

„Umhverfisvæn jól snúast meðal annars um það að kaupa færri gjafir, kaupa ekki óþarfa, gefa gjafir sem nýtast viðtakandanum og enda ekki bara uppi í skáp,“ segir Rakel spurð hvernig hún geri jólahald fjölskyldunnar umhverfisvænna. „Það er til dæmis mjög sniðugt að gefa miða í leikhús eða á tónleika og gjafakort í nudd eða á eitthvert námskeið. Eitthvað sem fólk hefur ánægju af.“

Spurð hvað það sé langt síðan hún fór að reyna að gera jólin umhverfisvæn á sínu heimili, dregur Rakel við sig svarið. „Sko, ég er ekkert hundrað prósent umhverfisvæn,“ segir hún. „En við bætum einhverju nýju við á hverju ári eftir því sem við verðum meðvitaðri um umhverfisvána. Þetta byrjaði fyrir svona fimm árum. Þá minnkuðum við gjafir, hættum að borða svínakjöt og borðum í staðinn fuglakjöt eða einhverja grænmetisrétti. Við erum ekki með jólatré og notum brúnan kraftpappír til að pakka inn gjöfunum, það er svo erfitt að endurvinna svona glanspappír, og svo söfnum við líka jólapappír utan af þeim gjöfum sem við fáum og endurnýtum til að pakka inn gjöfum næstu jóla. Við notum ekki mikið af skrauti, helst ekki annað en það sem hefur fylgt með öðrum gjöfum eða eitthvað sem við eigum.“

„Í mörg ár hafa aðventan og jólin snúist um það hjá okkur að gera eitthvað saman, hitta vini og njóta. Ég var heldur ekki alin upp við að jólin væru neysluhátíð og það hjálpar auðvitað líka.“

Fjölskylda Rakelar samanstendur af henni sjálfri, eiginmanni og þremur börnum á aldrinum tveggja til sautján ára. Hvernig hafa þau tekið í þessar breytingar á jólahaldinu? Fá þau til dæmis í skóinn?
„Þau eru voðalega nægjusöm,“ segir Rakel og brosir. „Einhverra hluta vegna hafa þau náð því. Yfirleitt fá þau eitthvað í jólagjöf sem þau vantar, eða þá að fjölskyldan fær sameiginlega gjöf. Í fyrra var það Soda stream-tæki sem allir í fjölskyldunni nota. Eldri krakkarnir fengu í skóinn á tímabili en þau eru orðin of gömul fyrir það núna og ég varð mjög glöð þegar það hætti. Ég átti mjög erfitt með það, því mér finnst eins og gæði skógjafa hafi dalað hjá jólasveinunum eftir því sem börnum í heiminum hefur fjölgað og ég er ekki hlynt því einnota dóti sem vill oft dúkka upp í skónum.“

Rakel leggur sig fram um að halda umhverfisvæn jól. Mynd / Unnur Magna

Rakel segir fjölskylduna reyndar alla þannig stemmda að jólin séu ekkert sérstak mál. Séu eiginlega bara eitt gott matarboð. Neysluæðið í desember fái ekki hljómgrunn hjá neinum á heimilinu. „Í mörg ár hafa aðventan og jólin snúist um það hjá okkur að gera eitthvað saman, hitta vini og njóta. Ég var heldur ekki alin upp við að jólin væru neysluhátíð og það hjálpar auðvitað líka. Jólin fyrir mér eru bara að vera saman og kveikja á kerti. Fá sér svo kannski einn Jule Tuborg eftir að maður er kominn á þennan aldur. Við stútfyllum heldur ekki ísskápinn fyrir jólin, heldur nýtum alla afganga vel. Flestir kaupa inn eins og þeir séu að undirbúa sig undir kjarnorkustyrjöld þegar jólin eru að koma. Það hefur aldrei höfðað til mín enda veitir það enga hamingju að sitja uppi með feitan Visa-reikning í janúar.“

Svona eru þeir?

Kári Stefánsson Mynd / Íslensk erfðagreining

Kári Stefánsson skrifar,

Álagspróf eru meðal tækja læknisfræðinnar sem geta reynst mjög gagnleg við að leita að veikleika manns sem finnst ekki við einfalda skoðun. Áreynsluprófið er eitt þeirra. Sú sem prófið tekur er látin hjóla eða ganga rösklega meðan hún er tengd við alls konar mæla eins og hjartalínurit, öndunarmæli, mæli sem nemur súrefnismettun og svo mætti lengi telja. Síðan er fylgst með því hvernig mælingarniðurstöður breytast við það álag á allan líkamann sem skapast við hreyfinguna. Ef þær eru af ákveðnum toga geta breytingarnar meðal annars bent til kransæðasjúkdóms.

Sykurþolsprófið er annars konar álagspróf þar sem álagið er eingöngu lagt á eina frumutegund í einu líffæri. Þátttakandanum er gefið mikið magn af sykri sem þröngvar beta-frumur í Langerhanseyjum brissins til þess að senda frá sér insúlín út í blóðið. Breytingar á styrk glúkósa og insúlíns í blóði geta gefið vísbendingu um það hvort þátttakandinn sé með sykursýki eða sé í hættu á að þróa hana.

Síðan eru auðvitað til alls konar aðrar tegundir álagsprófa utan læknisfræðinnar sem segja okkur ýmislegt um mannlegt eðli. Eitt af þeim heitir fjárlagafrumvarp sem er sett saman einu sinni á ári og lagt fyrir Alþingi. Hegðun alþingismanna við umræður um frumvarpið er álagspróf sem laðar fram ýmislegt hjá stjórnmálamönnum sem finnst ekki við einfalda skoðun frambjóðanda fyrir kosningar. Sumt af því er ekki bara athyglisvert heldur líka ótrúlegt.

Tökum sem dæmi hvernig alþingismenn sýna örlæti með því að veita sjálfum sér  sautján (fjöldi jólasveina x 2-1) nýja aðstoðarmenn á sama tíma og þeir draga til baka stóran hluta hækkunar á framlögum til öryrkja og skera niður víðast hvar annars staðar í velferðarkerfinu. Þessir sautján hjálparkokkar alþingismanna bætast við tuttugu og fimm aðstoðarmenn ráðherra. Frá því 2012 hefur kostnaður skattgreiðenda af aðstoðarmönnum ráðherra vaxið um tvö hundruð og átta milljónir króna og bætast nú við aðrar tvö hundruð milljónir í nýju aðstoðarmennina. Ein skoðun á þessu er að það endurspegli óásættanlega, sjálfhverfa forgangsröðun alþingismanna, önnur að sú staðreynd að þeir haldi að það sé ásættanlegt að veita sjálfum sér sautján aðstoðarmenn meðan þeir skera niður annars staðar bendi til þess að þeir þurfi á aðstoð að halda og þess vegna aðstoðarmönnum. Sem sagt að eina réttlætingin fyrir því að þeir fái aðstoðarmennina sé sú staðreynd að það sé óréttlætanlegt að þeir veiti sér þá.

Svarið við seinni skoðuninni er að það eina sem hlytist af aðstoð sautjánmenninganna væri að alþingismenn yrðu afkastameiri við að hlúa að sjálfum sér. Einn myndi sjálfsagt keyra fyrir Ásmund Friðriksson af því hann þarf alltaf að ferðast svo langt. Að þessu sögðu þá reynist fjárlagafrumvarpið það álagspróf sem á ári hverju laðar fram smæðina í eðli alþingismanna sem þeir fela svo vel rétt fyrir kosningar.

„Þetta er eins mikið kjaftæði og hugsast getur“

Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands, hefur á undanförnum árum keypt upp fjölda jarða og lóða á Norðausturlandi, m.a. í Vopnafirði, Þistilfirði og á Grímstöðum á Fjöllum. Í vikunni greindi Fréttablaðið frá því að Ratcliffe hafi keypt eignarhaldfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni fjárfesti og eignast þannig 86,67 prósenta hlut í veiðifélaginu Streng ehf. Félagið er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu en Ratcliffe hefur áður lýst því yfir að tilgangur jarðakaupa hans sé að vernda laxveiðiár. Strengur á í sex jörðum í Vopnafirði en fyrir á Ratcliffe um 30 jarðir á Norðausturlandi.

Mannlíf heyrði hljóðið í Vopnfirðingum og hafði einn á orði að heimamenn væru á varðbergi gagnvart Ratcliffe og fyrirætlunum hans.

„Djöfulsins þöngulsháttur gagnvart fjármagninu“

„Mér finnst þetta vera birtingarmynd þess sem við höfum verið að vara við. Að allt þetta land sé komið í hendurnar á mönnum sem hafa engra annarra hagsmuna að gæta en fjárhagslegra,“ segir Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda. Hann hefur áður gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hefta ekki jarðakaup útlendinga. „Eftir að felldur var úr gildi forkaupsréttur sveitarfélaga þá er líka horfinn sá möguleiki að svona gjörningar komi upp á yfirborðið fyrr og komið þannig af stað umræðu sem mögulega hefði áhrif á það hvernig svona hlutir fara. Menn geta bara selt og keypt eins og þeim sýnist enda geta sveitarfélögin ekki keppt við svona menn í verði. Mér finnst það vera aumingjaskapur hjá stjórnmálamönnum að hafa ekki tekið á þessu frekar en að blaðra í kringum hlutina. Þetta er djöfulsins þöngulsháttur gagnvart fjármagninu.“

Björn gefur ekki mikið út á yfirlýst markmið auðmannsins breska um að vernda laxveiðiár. „Þetta er eins mikið kjaftæði og hugsast getur að mínu viti. Það er ekki nóg að segja svona, það verður að sýna með einhverjum rökum hvernig og hvað á að gera. Eftir því sem ég best veit og tel mig vita talsvert um það, þá eru laxárnar í Vopnafirði og á Norðausturlandi mjög vel vaktaðar. Kannski telur hann sig vera að gera eitthvað sniðugt en þá hefur hann bara ekki kynnt sér stöðuna eins og hún er. Þetta er léleg framkoma og stælar; að horfa niður á okkur heimamenn og segja að hann sé kominn til að redda laxinum hérna. Þetta fer illa í okkur sem erum búnir að vera brasa í þessu í 50 ár,“ útskýrir Björn.

Vill að fjárfestar skili meiru til samfélagsins

Ratcliffe hefur nýverið átt í viðræðum í gegnum efnavinnslufyrirtækið Ineos sem hann á meirihluta í, um kaup á eignum bandaríska olíufélagsins ConcoPhilips í Norðursjó. Það finnst Birni áhugavert. „Hann virðist vera að fjárfesta í framtíðarauðlindum – í vatni og landi og aðstöðu til orkuframleiðslu. Svo getur verið að þessi maður sé að horfa til þeirra fjárfestinga sem margir aðilar í fjórðungnum eru að horfa til í Finnafirði,“ segir hann og vísar þarna til möguleika þess að alþjóðleg stórskipahöfn verði byggð í Finnafirði við Langanes. Björn segist vilja sjá að menn á borð við Ratcliffe fjárfesti meira í samfélaginu sjálfu og að tryggt verði í lögum að samfélagið njóti fyrst og síðast góðs af landinu. „Það eiga ekki að vera dauðlegar manneskjur sem skrapa til sín öllu sem þeim sýnist og þar af leiðandi ganga á möguleika viðkomandi samfélags að nýta þessi gæði.“

Vegna hnattrænnar hlýnunar og bráðnunar hafíss á norðurslóðum styttist siglingaleiðin á milli Asíu og Evrópu umtalsvert. Á því byggja þessar hugmyndir um stórskipahöfn í Finnafirði; að stór gámaskip sigli norðurskautsleiðina til Íslands þar sem farminum yrði umskipað og fluttur áfram til Evrópu og Norður-Ameríku.

Þýskt hafnafélag hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og varið hundruðum milljóna í rannsóknir því tengdu. Þá hafa kínverskir aðilar einnig verið áhugasamir um höfnina.

Móðir Opruh lést á fimmtudaginn

Móðir Opruh Winfrey lést á fimmtudaginn. Hún varð 83 ára gömul.

Sjónvarpskonan Oprah Winfrey birti í gær færslu á Instagram þar sem hún minntist móður sinnar, Vernitu Lee, sem lést á fimmtudaginn. Oprah birti mynd af stórfjölskyldunni þar sem móðir hennar situr fremst. Hún þakkaði í leiðinni fylgjendum sínum fyrir hlý orð og samúðarkveðjur.

Vernita Lee var 83 ára þegar hún lést. Hún lést á heimili sínu í Milwaukee, Wisconsin, er fram kemur í tilkynningu sem fjölskylda hennar sendi frá sér.

Þess má geta að Vernita var ung þegar hún eignaðist Opruh og amma og afi Opruh sáu um uppeldi hennar fyrstu árin. Vernita eignaðist fjögur börn á lífsleiðinni.

 

Nýja svefnherbergið verður 87 fermetrar

Rappari Drake

Svefnherbergið í endurnýjuðu húsi Drake verður ekkert grín.

Kanadíski tónlistarmaðurinn Drake er sagður standa í stórræðum þessa dagana en hann er að láta endurnýja 3.250 fermetra hús fyrir sig í Toronto, Kanada. Húsið keypti hann fyrir nokkrum árum á upphæð sem nemur um 500 milljónum króna og hefur síðan þá verið að láta gera það upp.

Samkvæmt heimildum TMZ verður nýja svefnherbergi hússins miðpunktur fasteignarinnar, heilir 87 fermetrar. Samkvæmt teikningum af húsinu mun svefnherbergið innihalda meðal annars eldhúskrók, stórt baðherbergi og tvö fataherbergi. Það verður á annarri hæð hússins og útgengt verður á tvær svalir, á svölunum verður heitur pottur og gufubað.

Fyrir utan þetta stórfenglega svefnherbergi verða einnig fjögur gestaherbergi að finna í endurnýjaða húsinu. Einnig gufubað, nuddstofa, bílskúr sem rúmar tíu bíla, líkamsræktarstöð og á lóðinni verður körfuboltavöllur svo eitthvað sé nefnt.

Örlög Wow air ráðast á föstudag

||
||

Í gær voru viðskipti með hlutabréf í Icelandair stöðvuð í annað skiptið í nóvember. Rétt fyrir hádegi kom síðan tilkynning frá Icelandair um að ólíklegt væri að öll skilyrði myndu nást varðandi kaupi félagsins á Wow air fyrir hluthafafund sem haldin verður á föstudag, 30. nóvember. Einnig voru viðskipti með bréf félagsins stöðvuð þann 5. nóvember þegar tilkynnt var um kaup Icelandair á Wow air.

Um helgina bárust fréttir af því að dótturfélag Icelandair hygðist kaupa 51% hlut í ríkisfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. Ætlunin væri að nota staðsetningu þess svipað og Keflavík og tengja eyjarnar fyrir flugumferð um Atlantshaf. Reyndar er komið meira en ár síðan Icelandair hóf samstarf á Grænhöfðaeyjum.

Aðilar á markaði höfðu þó ekki trú á að þessi frétt um kaup á félagi á Grænhöfðaeyjum væru ástæður þess að lokað var fyrir viðskipti með bréf Icelandair. Líkt og kom svo í ljós.

Ný tilkynning Icelandair til Kaupahallar í morgun

Í morgun kom svo önnur tilkynning frá Icelandair þar sem það tilkynnti um að viðræður væru hafnar við skuldabréfaútgefendur um breytingar á skilmálum skuldabréfa félagsins og að markmiðið sé að styrkja stöðu þess. Icelandair fékk tímabundna undanþágu frá fjárhagslegum skilmálum til föstudags en þá er haldinn hluthafafundur í félaginu. Umræddir skilmálar tengdust lágmarksafkomu félagsins.

Alvarlegur lausafjárvandi WOW air

Eins og áður hefur komið fram var lausafjárstaða Wow air um síðustu mánaðamót líklega ein helsta ástæða þess að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi flugfélagsins ákvað að leita á náðir Icelandair. Lausafé hafi verið nær uppurið þegar búið var að greiða laun og aðra reikninga. Nú er útlit fyrir að næstkomandi mánaðamót verði félaginu jafnvel enn erfiðari en þau síðustu. Segja má að þetta minni um margt á stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja síðustu mánuðina fyrir hrun. Þar var það yfirleitt lausafjárstaða sem var að skapa þeim vandræði. Í fjárfestakynningu sem kynnt var vegna skuldabréfaútboðs Wow air kom fram að handbært fé frá rekstri hafi einungis numið sex milljónum dollara í júní á þessu ári.

Í gær sendi Skúli Mogensen svo tölvupóst á starfsmenn Wow air þar sem hann fullyrti að fleiri aðilar en Icelandair hefðu sýnt flugfélaginu áhuga. Wow air væri því í viðræðum við fleiri en Icelandair um yfirtöku á félaginu. Morgunblaðið sagði svo frá því í morgun að þessi tölvupóstur Skúla hefði valdið titringi og forsvarsmönnum Icelandair hafi ekki verið kunnugt um þær.

Víkurfréttir fullyrtu svo á föstudag að verulega verði fækkað í flugþota Wowair. Leggja þurfi átta af tuttugu þotum félagsins. Icelandair og Wow air myndu samnýta leiðarkerfi á marga áfangastaði og þannig væri hægt að fækka vélum Wow air um þriðjung.

Hvar liggur vandi Wow air?

Margir samhangandi þættir eru að valda Wow air vanda þetta haustið. Áhugi á skuldabréfaútboði Wow air í haust var minni en vonast var til. Síhækkandi olíuverð. Þá er Skúli Mogensen mikill markaðsmaður en töluvert virðist vanta í aðrar deildir eins og td. fjárstýringu. Þannig gerir Icelandair framvirka samninga á olíukaupum sem Wow air gerir ekki. Tímasetning á að hefja flug til Bandaríkjanna árið 2015 hefði líklega ekki getað verið betri. Almennt góðæri vestan og austanhafs og eldsneytisverð lágt. Yfirbygging Wow air í samanburði við Icelandair er þó enn í dag allt önnur. Það sést vel í úttekt sem hagfræðideild Landsbankans gerði á félögunum tveimur. Þar kom fram að launakostnaður sem hlutfall af tekjum væri 19% hjá Wow air en 33% hjá Icelandair. Hjá Wow air starfa um 1.500 starfsmenn en 3.500 hjá Icelandair.

Hjá Wow air starfa um 1.500 starfsmenn en 3.500 hjá Icelandair.

Þann 10. nóvember sagði Morgunblaðið svo frá því að vegna forgangsréttarákvæðis í samningum Icelandair gætu félagsmenn í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) átt forgang á flug í flugvélum Wow air. Með þessu móti myndi launakostnaður auðvitað hækka hjá Wow air. Þannig hafi samningur FÍA komið í veg fyrir að Icelandair Group gæti stofnað lággjaldaflugfélag þar sem önnur launakjör myndi gilda en hjá móðurfélaginu. Má i framhaldinu velta fyrir sér stöðu á kjarasamningum hjá flugfreyjum.

Siglir Icelandair lygnan sjó?

Segja má að staða Icelandair sé allt önnur en Wow air. Má þar fyrst nefna að í síðustu fjárfestakynningu félagsins kom fram að eiginfjárhlutfall þess var 36% í lok september á þessu ári eða rúmir 70 milljarðar króna. Til samanburðar nam eiginfjárhlutfall Wow air einungis 4,5% í júní á þessu ári. Því verður að teljast ólíklegt að Icelandair lendi í sambærilegum vandræðum og Wow air.

Þegar Icelandair var yfirtekið vorið 2009 glímdi félagið við allt aðrar aðstæður en í dag. Þá fólst vandinn einmitt líka í lausafjárvanda eins og hjá Wow air í dag auk þess sem félög helstu hluthafa voru komin með neikvætt eigið fé vegna mikillar lækkunar íslensku krónunnar. Þá voru helstu eigendur Icelandair Finnur Ingólfsson, Steingrímur- og Karl Wernerssynir og Einar Sveinsson svo nokkrir séu nefndir. Þá var Gunnlaugur Sigmundsson stjórnarformaður Icelandair.

Ómar Benediktsson.

Í dag eru stærstu hluthafar Icelandair íslenskir lífeyrissjóðir. Flestir þeirra keyptu hlutabréf sín í flugfélaginu þegar hlutabréfin voru mjög lág árið 2010 og hafa fyrir löngu fengið til baka sína fjárfestingu. Þó má segja að það vanti fólk með alþjóðlega reynslu af flugrekstri í stjórn Icelandair eftir að Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Icelandair lét af stjórnarformennsku árið 2017. Þó má nefna að Ómar Benediktsson kom inn í stjórn eftir að Sigurður hætti. Hann hefur áður komið að rekstri hjá Íslandsflugi, Air Atlanta og SmartLynx airlines. Þá sat Ómar einnig í stjórn Icelandair og var stór hluthafi áður en félagið var yfirtekið vorið 2009.

Brotthvarf Björgólfs Jóhannssonar úr stóli forstjóra Icelandair í lok ágúst hefur skapað tímabundin titring. Við starfi hans tók Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair sem mun sinna því þar til nýr forstjóri verður ráðin. Líklega myndi það skapa mesta tiltrú ef ráðinn yrði erlendur forstjóri með alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Fyrir slíku er þó lítil hefð á Íslandi.

Áhugavert verður að fylgjast með fréttum næsta föstudag þegar Icelandair heldur hluthafafund sinn á síðasta degi mánaðarins. Verður að teljast afar líklegt að örlög Wow air gætu ráðist nú í lok vikunnar. Ef allt færi á versta veg gæti félagið jafnvel þurft að óska eftir nauðasamningum. Því liggur mikið undir að farsæl lausn finnist varðandi framtíð Wow air.

Fólk hvatt til að taka með sér eigin ílát

Þeim sem vilja draga úr plastnotkun er bent á að taka með sér eigin ílát í innkaupaferðir.

Í tilkynningu sem birtist á vef Matvælastofnunar er fólk hvatt til þess að taka með sér eigin ílát og umbúðir í innkaupaferðir til að draga úr plastnotkun.

„Mikil vitundarvakning hefur orðið um mikilvægi þess að draga úr plastnotkun, ekki síst hvað varðar umbúðaplast. Hægt er að draga úr notkun einnota umbúða m.a. með sölu á matvörum án umbúða og með því að neytendur komi með eigin ílát í verslun undir þau matvæli sem ekki eru þegar innpökkuð,“ segir meðal annars á vef MAST.

Þá er vísað í skýrslu MAST, sem gefin var út 20. nóvember. Í skýrslunni er að finna góð ráð fyrir neytendur sem vilja draga út plastnotkun með því að nota eigin ílát í innkaupaferðum.

Þar segir: „Ílátið skal vera ætlað undir matvæli. Það skal vera úr efni sem auðvelt er að þrífa (plasti, gleri, leir eða málmi). Auðvelt skal vera að loka því og ef á að kaupa hráar kjötvörur eða fisk er sérstaklega mikilvægt að lokið sé þétt. Ílátið skal vera hreint og þurrt að utan sem innan og það lokað við komuna í verslunina. Einnig má nota poka að heiman undir grænmeti, ávexti og brauð sem selt er í lausu.“

Safnaði heimildum í 26 ár

|
|

Eftir að hafa safnað heimildum í um 26 ár mun kvikmyndagerðakonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir loksins frumsýna kvikmyndina Svona fólk í kvöld. Svona fólk samanstendur af bíómynd og fimm þáttum sem verða sýndir á RÚV í vetur.

Svona fólk er ný heimildamynd og sjónvarpsþættir sem kvikmyndagerðakonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir hefur undanfarin 26 ár unnið að með heimildasöfnun og rannsóknarvinnu. Fyrri hluti Svona fólks mun loksins líta dagsins ljós í kvöld.

Svona fólk samanstendur af bíómynd og fimm sjónvarpsþáttum.

Svona fólk fjallar um líf og reynslu homma og lesbía á Íslandi og spannar frásögnin fjóra áratugi. Myndin og þættirnir byggja á 400 klukkustundum af viðtölum sem Hrafnhildur hefur safnað í öll þessi ár.

„Í kvöld frumsýnum við í Bíó Paradís og svo fer myndin í almennar sýningar. Hæstvirtur menningar- og menntamálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir mætir og opnar nýjan vef, svonafolk.is, þar sem öll viðtölin verða gerð aðgengileg til framtíðar, bæði fyrir fræðimenn og áhugafólk um réttindabaráttu homma og lesbía,“ segir Hrafnhildur um frumsýninguna í kvöld. „Páll Óskar, verndari myndarinnar, mætir á svæðið og tekur lagið og silfurrefurinn Andrea Jónsdóttir þeytir skífum af sinni alkunnu snilld,“ bætir hún við.

Til viðbótar við heimildarmyndina sem sýnd verður í Bíó Paradís samanstendur Svona fólk einnig af fimm sjónvarpsþáttum sem sýndir verða á RÚV í vetur.

Mynd / Sigurþór Gunnlaugsson

Sami reykkofi og pabbi og afi notuðu

|
|

Aðalsteinn Sigurðarson og Eyrún Harpa Eyfells Eyjólfsdóttir búa á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal á Fljótsdalshéraði með tíu mánaða gömlum syni sínum. Þau eru með stórt fjárbú, 420 kindur, og allt þeirra hangikjöt um jólin er af heimaslátruðu, taðreykt í gömlum reykkofa. Þau borða þó ekki hangikjöt á aðfangadagskvöld heldur svínakjöt sem þau keyra 90 kílómetra niður á Egilsstaði til að kaupa.

„Ég er fjórði ættliðurinn sem býr hérna á Vaðbrekku,“ segir Aðalsteinn spurður hvers vegna þau hafi ákveðið að setjast að fyrir austan. „Eyrún er af Reykjavíkursvæðinu en hún kann vel við þennan lífsstíl og okkur líður mjög vel hér. Við erum í 400 metra hæð yfir sjávarmáli, 75 kílómetra akstur í skóla og leikskóla, en það þykir nú bara eðlilegt í sveitinni svo við kvörtum ekki yfir því, enda ekki komið að því að senda drenginn þangað.“

„Að reykja sitt eigið kjöt er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum.“

Aðalsteinn reykir allt sitt hangikjöt sjálfur, eins og bændur á Vaðbrekku hafa gert mann fram af manni, meira að segja í sama reykkofa og fyrri kynslóðir nýttu til reykinganna.„Þetta er sami kofinn og afi og pabbi reyktu í,“ segir Aðalsteinn.

„Ég veit ekki hvort langafi reykti sitt kjöt þar líka, þetta var nefnilega upphaflega hesthús. Að reykja sitt eigið kjöt er ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum, en við erum bara að þessu fyrir okkur sjálf og nánustu ættingja og vini. Þetta er bara hluti af því að vera sjálfbær.“

Ekkert jólastess

Jólahaldið á Vaðbrekku er fjörugt, systir Aðalsteins, faðir hans og jafnvel fleiri ættingjar og vinir halda jólin með litlu fjölskyldunni og dvelja þá gjarnan í nokkra daga á heimilinu.

„Fólki finnst gott að vera hérna um jólin,“ útskýrir Aðalsteinn. „Hér er ekkert stress og algjör rólegheit. Við borðum góðan mat, lesum og spjöllum og grípum gjarnan í spil. Þegar maður er kominn 400 metra yfir sjávarlínu gilda engar reglur um það hvað má gera á jólunum, við spilum þetta bara af fingrum fram.“

Hér er ekkert stress og algjör rólegheit.

Þrátt fyrir að reykingin á hangikjötinu sé snar þáttur í jólaundirbúningnum er það þó ekki á borðum á sjálft aðfangadagskvöld.

„Það hefur aldrei verið siður á mínu heimili að borða hangikjöt á aðfangadagskvöld,“ segir Aðalsteinn. „Þá er alltaf borðað svínakjöt. Það er reyndar aðkeypt ennþá en við erum svona að velta því fyrir okkur að fá okkur svín til að ala upp og reykja sjálf, sjáum til hvort það kemst í framkvæmd. Hangikjötið er borðað yfir allan veturinn, þótt það sé auðvitað mest yfir jólin. Á jóladag borðum við til dæmis alltaf kalt hangikjöt.“

Kaupstaðarlyktin heyrir sögunni til

Vaðbrekka er í 90 kílómetra fjarlægð frá næsta kaupstað sem er Egilsstaðir og það þýðir auðvitað að fara þarf í kaupstaðarferð til að kaupa inn fyrir jólin, það er ekki hægt að stökkva út í búð í hasti ef eitthvað gleymist.

„Við erum nú vön því að versla fyrir heila viku í einu, þar sem við búum svona afskekkt,“ segir Aðalsteinn og þykir ekki mikið til spurningarinnar koma. „Það er hins vegar liðin tíð að það sé kaupstaðarlykt af fólki þegar það kemur úr slíkum ferðum. Ég hef til dæmis aldrei drukkið áfengi og þetta er almennt að breytast í sveitunum. Það er bara hluti af lífinu að skreppa í bæinn einu sinni í viku til að kaupa inn.“

Það er oft líka margt um manninn á Vaðbrekku á gamlárskvöld, enda auðveldara fyrir þau Aðalstein og Eyrúnu að bjóða fólki til sín en að fara eitthvert.

„Það þarf að gefa kindunum alla daga, hvort sem það eru jól, áramót, laugardagur eða sunnudagur,“ segir Aðalsteinn og hlær. „Þannig að okkur finnst gott að bjóða fólki í heimsókn og leyfa því að upplifa rólegheitin á jólunum hjá okkur. Maður nýtur jólanna svo miklu betur í friðsældinni.“

Það þarf að gefa kindunum alla daga, hvort sem það eru jól, áramót, laugardagur eða sunnudagur.

Myndir / Aðalsteinn Sigurðarson

Klassískir og hátíðlegir forréttir

||
||

Hátíðlegt er að bjóða upp á forrétti áður en jólasteikin er borin á borðið. Hér höfum við uppskriftir að þremur klassískum forréttum úr tilraunaeldhúsi Gestgjafans.

Laxatartar með eplaskífum
fyrir 4-6

300 g reyktur lax, skorinn í litla bita

200 g grafinn lax, skorinn í litla bita

2 skalotlaukar, fínt saxaðir

½ msk. ferskt dill, saxað

salt og pipar eftir smekk

1 grænt epli

2 msk. laxa- eða silungahrogn (má líka nota kavíar)

Blandið báðum tegundum af laxi, lauk og dilli saman, blandið 2 msk. af sósunni út í. Látið bíða í eina klukkustund. Sneiðið nokkrar mjög þunnar skífur af eplinu, gott er að nota mandólín. Setjið svolítið af tartarblöndunni á 4-6 diska og raðið eplaskífum, u.þ.b. 3 á hvern disk, ofan á hann. Skiptið því sem eftir er af tartarnum á milli diskanna, ofan á eplin. Hellið sósu yfir tartarinn og örlítið yfir eplin og í kring á diskinn. Skreytið með laxahrognum og fersku dilli.

Sósa

¾ dl góð olía

2 msk. sítrónusafi

örlítill sykur

salt og pipar

Hrærið allt saman í skál.

Hvítlaukssteiktir humarhalar
fyrir 4-6

Humar klikkar ekki.

Humar er afar einfalt að elda og hann er nánast alltaf góður. Það eina sem þarf að gera er að klippa hann að framan og hreinsa görnina úr. Á jólunum er skemmtilegast að nota stóran gæðahumar og þá má áætla 2-4 á mann í forrétt en fleiri ef þeir eru litlir, ef humarinn er lítill verður að elda hann skemur.

8 stórir humarhalar

4 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir

2-3 msk. smjör

1 dl steinselja, söxuð

hvítur nýmalaður pipar

sjávarsalt

2 sítrónur

Bræðið smjörið á pönnu, bætið hvítlauknum saman við og látið malla í u.þ.b. 30-40 sekúndur. Bætið humarhölunum út í og steikið í 2-3 mínútur eða þar til halarnir verða hvítir að lit. Sáldrið steinseljunni saman við og kryddið með pipar og salti og blandið öllu vel saman á pönnunni. Setjið á diska og berið fram með sítrónubátum og góðu snittubrauði.

Aspassúpa
fyrir 6

Aspassúpa er fullkominn forréttur.

30 g smjör

3 msk. hveiti

12 dl grænmetis- eða kjúklingasoð

2 aspasdósir (u.þ.b. 600 g samtals)

salt eftir smekk

pipar eftir smekk

2 dl rjómi, þeyttur

2 msk. söxuð steinselja (má sleppa)

Bræðið smjör í potti, hrærið hveiti út í þar til úr verður smjörbolla og þynnið síðan út með soðinu. Byrjið að setja 1 dl af soðinu og síðan smátt og smátt svo súpan verði vel samlöguð og fari ekki í kekki, bætið soðinu af aspasnum út í í restina. Sjóðið súpuna í 3-5 mín., bætið þá aspas út í og látið allt sjóða saman við vægan hita í 4-5 mín. Saltið og piprið eftir smekk. Hellið súpunni í diska og setjið rjómatopp á hvern disk. Fallegt er að skreyta ofan á með steinselju.

Nota má ferskan aspas í súpuna í staðinn fyrir aspas úr dós. Þá er neðsti hlutinn af stönglinum flysjaður létt, aspasinn skorinn í bita og soðin

Texti/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir og Sigríður Björk Bragadóttir
Myndir / Ljósmyndarar Birtíngs

Gefur ekkert eftir í húðumhirðu þótt hún komist varla í sturtu á daginn

|
|

Samfélagsmiðlastjarnan, flugfreyjan og nýbakaða móðirin Þórunn Ívarsdóttir er annálaður snyrtivöruunnandi, þá sérstaklega þegar kemur að öllu sem tengist húðumhirðu. Fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum vita að henni finnst fátt betra en gott dekur og hún lumar á dágóðu safni af kremum, möskum og öllu sem til þarf til að gera vel við sig.

Þórunn hefur, að eigin sögn, hugsað vel um húð sína frá því að hún var unglingur. „Áhugi minn á húðumhirðu spratt upp í kringum þrettán ára aldurinn. Þó finnst mér vera mikill munur á að hugsa mikið eða vel um húðina. Það er nefnilega hægt að hugsa allt of mikið um hana og oförva hana og gera henni illt. Því er allt gott í hófi, eins og með svo margt annað í lífinu,“ segir hún. „Hreinsun er númer 1, 2 og 3. Þú getur alveg sleppt því að gera eitthvað annað ef þú tryggir ekki að yfirborð húðarinnar sé hreint áður en þú notar krem, serum eða maska. Fólki finnst þetta skref oft ekkert skemmtilegt og trassar það. Sem gerir það að verkum að það eyðir morðfjár í krem, serum eða maska sem fá aldrei tækifæri til að sýna sína sönnu virkni. Sömuleiðis finnst mér svo ótrúlega mikilvægt að vera meðvituð um hvað er keypt og notað. Síðastliðin ár hefur þekking okkar á innihaldsefnum breyst til hins betra og í dag þurfa snyrtivöruframleiðendur að vera á tánum. Sorglegast finnst mér þegar stærstu merkin taka ekki þátt í þróuninni og halda áfram að nota óæskileg innihaldsefni. Þetta gerist samt ekki á einni nóttu en maður getur haft það að leiðarljósi að reyna með tímanum að minnka notkun á vörum sem að innihalda til dæmis mineral-olíu, sílíkon eða petroleum.“

Notar helst engin krem á lítinn kropp

Eins og þeir sem fylgjast með Þórunni vita, þá eignaðist hún nýlega sitt fyrsta barn, stúlku sem fékk nafnið Erika Anna. Aðspurð hvort hún hafi fundið mun á húðinni meðan á meðgöngu stóð og eftir hana, svarar Þórunn að svo hafi ekki verið. „Kannski er ég mjög heppin en ég hef hef engan mun fundið. Ég hugsaði nákvæmlega eins um húðina og ég geri alltaf og hún hafði sjaldan verið jafngóð. Það eina sem ég passaði mig á var að nota ekki retinol og of sterkar ávaxtasýrur,“ segir hún. Þá segist hún hafa verið dugleg að taka inn olíur á meðgöngu sem hún trúir að hafi gert húð Eriku gott. „Ég vil helst ekki nota nein krem á svona fullkominn lítinn kropp sem er örugglega með fallegustu húð sem ég hef séð. Það eina sem ég nota er örlítið af bossakremi frá Weleda úr Calendula-línunni sem mæður um allan heim mæla með. Ég nota það til að fyrirbyggja bleiuútbrot. Ég forðast petroleum, mineral-olíu og parrafín eins og heitan eldinn og mun alltaf lesa mér til um innihaldsefni á þeim vörum sem ég mun nota á hana.“

Drunk Elephant í uppáhaldi

Þórunn segist ekki breyta miklu í sinni húðrútínu nú þegar kólna fer í veðri, þar sem hún haldist í jafnvægi allan ársins hring. „Mér finnst þó gott að næra húðina vel á köldum vetrardögum, sem er mjög mikilvægt fyrir þá sem finna mikið fyrir veðurbreytingum. Ég nota kannski ögn meira af rakakremi eða rakamaska aðeins oftar en vanalega yfir vetrartímann. Í allra, allra mesta uppáhaldi hjá mér eru vörurnar frá Drunk Elephant en ég held ég noti allar vörurnar frá merkinu. Ég nota þær því það skiptir mig mjög miklu máli að velja vörur með hreinum innihaldsefnum og að þær séu framleiddar án óæskilegra aukefna en ég hef kafað djúpt ofan í fræðin. Þær vörur nota ég síðan í bland við aðrar frábærar vörur eins og frá t.d. Origins, Glamglow, Clinique, Kiehls, Oskia, the Ordinary og fleiri. Í augnablikinu er nú eiginlega bara ekkert á óskalistanum mínum en ég gæti alveg skroppið eins og eina ferð í Sephora og fyllt á rakamaskabirgðirnar mínar en ég elska að nota svona tissjúmaska. Annars var mamma mín að koma erlendis frá með smápakka handa nýbakaðri móður en ég gef ekkert eftir í húðumhirðu þótt ég komist varla í sturtu á daginn.“

Dekur að hætti Þórunnar

Þórunn Ívarsdóttir er annálaður snyrtivöruunnandi.

„Þegar ég vil gera sérstaklega vel við mig, um það bil einu sinni í viku, fer ég í sturtu, er lengi og dekra extra vel við húðina. Þá byrja ég á þvi að hreinsa hana eins og vanalega en sá hluti húðumhirðunnar fer yfirleitt fram í sturtunni á kvöldin. Næst myndi ég nota ávaxtasýrumaska sem sléttir yfirborð húðarinnar, skrúbbar hana án korna og hreinsar hana. Þá myndi ég næra hana með extragóðum nærandi rakamaska og olíu. Ég nota mikið marula-olíu og það líður varla sá dagur að ég löðri henni ekki á mig. Hún hefur mikinn lækningamátt og er einstaklega rík af omega-fitusýrum. Dagsdaglega byrja ég alltaf á hreinsun og hefur það komist í vana minn að nota C-vítamín-serum og gott rakakrem á morgnana. Mér finnst það eiginlega ómissandi og sé hvað húðin mín er ljómandi og fín þegar ég geri það.

Mynd af Þórunni / Hákon Björnsson

Smakka íslenskt nammi: „Bragðast eins og súkkulaði og gúmmí“

Krakkar láta ekki bjóða sér upp hvað sem er eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Stjórnendur YouTube-síðunnar HiHo Kids fengu á dögunum nokkra bandaríska krakka til að smakka íslenskt nammi. Eins og sjá má voru krakkarnir óhræddir við að segja álit sitt á því sem þeim var gefið að smakka.

Meðal þess sem þau fengu að smakka var Nóa Kropp, Skyr, harðfiskur og Draumur frá Freyju. „Bragðast eins og súkkulaði og gúmmí,“ sagði eitt barnið um Draum. „Nokkuð gott,“ sagði annað.

Skyrið virðist fá þá nokkuð góða einkunn, sérstaklega frá yngsta gagnrýnandanum.

Lifað á brúninni

|
|

Síðast en ekki síst

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

Steinunn Stefánsdóttir.

Flestum er orðið ljóst að þær lífsvenjur sem við höfum tileinkað okkur í forréttindahluta heimsins munu ekki standast tímans tönn. Þær eru ekki sjálfbærar í þeim skilningi að þær ganga stöðugt á gæði jarðar og þar með talið loftslags.

Það verður því að skera upp bæði neyslu og framleiðsluhætti til þess að snúa við þróuninni. Og það er erfitt að láta af þægilegum venjum og breyta daglegum lífsháttum á þann hátt að manni finnst maður vera að láta á móti sér. En nú verða allir að leggjast á eitt; stjórnvöld, atvinnulíf og einstaklingar og þá fyrst og fremst sá hluti fólks sem nýtur forréttindanna í forréttindaheiminum.

Endurheimtum votlendi, setjum kraft í orkuskiptin, keyrum minna, fljúgum minna, borðum minna kjöt, sneiðum hjá umfangsmiklum plastumbúðum og plastpokum líka (þótt forstjóra Sorpu finnist það óþarfi) flokkum ruslið og áfram mætti telja. Í fáum orðum sagt: neytum í alla staði minna.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, grænna lausna, orðaði stöðuna skýrt í ágætri loftslagsumfjöllun Kveiks á RÚV í vikunni: „Maður á svo erfitt með að skilja mannskeppnuna. Við eigum öll börn. Okkur þykir vænt um börnin okkar og við myndum ganga í sjóinn fyrir börnin okkar eða hoppa fram af hömrum en við erum einmitt á brúninni með þessa spurningu: Ætlum við að fara fram af hamrinum, ekki bara við sjálf, heldur með börnin okkar? Af hverju fórnum við ekki einhverju núna, af okkar lífsgæðum, til að þau geti lifað?“

Og þetta er einmitt málið. Það er enn hægt að spyrna við fótum og snúa við þróuninni en það verður ekki gert nema með hugarfarsbyltingu þar sem allir leggjast á árar. Auðvitað verður að horfast í augu við að máttur hvers og eins er ekki mikill en þeim mun mikilvægara er að leggja kraftana saman. Neytandi sem breytir lífsvenjum sínum lagar ekki bara sitt eigið kolefnisspor, hann hefur áhrif á aðra neytendur, hann hefur áhrif á atvinnulífið með vali sínu á vörum og stjórnvöld með atkvæði sínu. Síðast en ekki síst er hann þátttakandi í þeirri hugarfarsbyltingu sem verður að eiga sér stað til þess að komandi kynslóðir geti haldið áfram að byggja þessa jörð.

 

Aðventan á næsta leiti

Fyrsti í aðventu verður 2. desember nk. og margir fylgja þeirri hefð að gera aðventukransa og kveikja á hverju kertinu af öðru eftir því sem líður á aðventuna. Hér eru nokkrir fallegir kransar úr smiðju Þórunnar Högnu sem hún gerði fyrir Hús og híbýli í fyrra.

Kubus-skál: Epal. Mosi og könglar: Garðheimar. Aðventukerti: Fakó. Stjarna: Söstrene Grene.
Fallegt er að setja skreytingu í stóra skál. Mosi, tuju-greni, könglar og kerti fæst í Garðheimum. Svört stjarna og koparlitaður borði var keypt í Magnoliu.
Svartur kökudiskur: Pottery Barn (var spreyjaður svartur). Grár krans og tölustafur: Magnolia. Tuju-greni og könglar: Garðheimar. Svartar stjörnur: Heimili og hugmyndir.
Smart er að setja köngla og euctalyptus-greinar saman í skál með kerti.

Umsjón / Þórunn Högna
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Rokkuð og án mikillar dramatíkur

Hljómsveitin Dúkkulísurnar sem hefur starfað í yfir 30 ár sendir nú frá sér jólaplötu og fylgir henni eftir með tónleikum. Gréta Jóna Sigurjónsdóttir gítarleikari segist persónuleg í textagerð á plötunni enda hafi hún verið á erfiðum stað í lífinu við gerð hans.

„Þetta verður vínyll og diskur, frekar gamaldags að stússast í svoleiðis útgáfu, en platan kemur líka út á Spotify. Í fyrra héldum við nokkra jólatónleika og tókum upp tvö lög í aðdraganda þeirra. Þegar við hittumst svo á æfingum á nýju ári kom í ljós að við áttum fleiri jólalög í handraðanum og þá var ekki aftur snúið,“ segir Gréta sem býr á Fljótsdalshéraði og rekur Bókakaffi Hlöðum í Fellabæ. Jólaplata Dúkkulísanna ber heitið Jól sko!

„Hugmyndina má rekja til 2008 þegar við sömdum jólalag fyrir þýðingarfyrirtækið Islingua sem var jólakveðja í nafni þess fyrirtækis. Ég held að Gugga trommari hafi á þeim tímapunkti slegið fram þessari hugmynd sem við hlógum að og grínuðumst með en það hefur líklega verið til þess að okkur fannst þetta ekki svo fjarlægt þegar við fórum að ræða þetta í alvöru.“

Á plötunni eru sex lög, þrjár ábreiður sem þær settu íslenskan texta við með dyggri aðstoð Kristjáns Hreinssonar og Magnúsar Þorkelssonar og þrjú frumsamin lög. „Áðurnefnd Jólakveðja sem við sömdum við texta eftir Börk Vígþórsson, lag eftir Hörpu hljómborðsleikara með texta eftir Hörpu, Erlu söngkonu og mig og lag eftir Erlu söngkonu með texta eftir mig. Ég held að lagið hennar Hörpu sé mjög persónulegt fyrir hana og textinn við Frostnótt er mjög persónulegur fyrir mig en aðallega vegna þess að ég var á erfiðum stað í lífinu þegar hann varð til,“ segir Gréta og bætir við að meiningin hafi samt fyrst og fremst verið að gera dálítið rokkaða og skemmtilega plötu án mikillar dramatíkur.

Mættust á milli bæja með pakka

Aðspurð segist Gréta ekki mikið jólabarn hún líti frekar á jólin sem afslöppunartíma með góða bók og konfekt. „Ég tapa mér alls ekki í undirbúningi enda fæ ég þann skammt dálítið í vinnunni. Á ákveðnum tímapunkti eða við ákveðnar aðstæður hellist yfir mig söknuður eftir þeim sem eru farnir en um leið get ég glaðst yfir stjörnuprýddum himni á köldu vetrarkvöldi, og dáðst að fegurð náttúrunnar og alheimsins. Það er lítið um hefðir á mínu heimili, ég á 11 ára strák, Sigurjón Torfa, og ég reyni að búa til notalega jólastemningu fyrir okkur tvö. Ég vinn mikið þannig að mér finnst tíminn sem ég á með honum afskaplega dýrmætur og reyni að gera hann innihaldsríkan og kósí. Oft förum við út á lóð, leikum okkur í snjónum, komum inn, kveikjum í kamínunni og fáum okkur kakó. Stundum fáum við okkur göngutúr um grafreitinn hér í Fellabæ með kerti og ræðum þá jafnvel hverfulleika lífsins. Svo má ekki gleyma að mér finnst bók algjörlega nauðsynleg um jól og þreytist ekki á að ýta bókum að Sigurjóni Torfa.  Ég reikna með að þessi jól verði í sama dúr.“

Á ákveðnum tímapunkti eða við ákveðnar aðstæður hellist yfir mig söknuður eftir þeim sem eru farnir en um leið get ég glaðst yfir stjörnuprýddum himni á köldu vetrarkvöldi, og dáðst að fegurð náttúrunnar og alheimsins.

Áttu einhverja eftirminnilega jólahefð úr æsku? „Ein af ljúfustu minningum úr bernskunni í Jökulsárhlíðinni var að yfirleitt á Þorláksmessu eða daginn fyrir Þorláksmessu fórum við Jóna Torfhildur, uppeldissystir mín á Skriðufelli þar sem ég ólst upp, með jólapakka í poka áleiðis í Torfastaði þar sem faðir minn bjó. Um fimm kílómetrar eru á milli bæjanna og á móti komu Svandís og Heiða systur mínar líka með pakka. Við mættumst á miðri leið og skiptumst á pökkum við stóran stein sem við kölluðum alltaf Eplasteininn. Ef vont var veður þá var keyrt með jólapakkana á snjósleða og þá misstum við af þessum Eplasteinshittingi, sem var afleitt en ekkert við að gera.“

Pálmi fyrsti kostur

Fram undan er annasamur tími en það er alltaf eitthvað spennandi að gerast á Bókakaffi Hlöðum. Dúkkulísurnar verða með þrenna tónleika, þá fyrstu 1. desember í Valaskjálf á Egilsstöðum. Næstu verða svo í Bæjarbíói Hafnarfirði þann 5. desember og þeir síðustu á Græna hattinum Akureyri 6. desember. „Pálmi Gunnarsson var með okkur í fyrra og var alveg til í að koma aftur. Þegar við vorum að velta fyrir okkur í fyrra að fá gest með okkur þá gerðum við óskalista og þegar við vorum búnar að ræða allt niður í kjölinn vorum við allar sammála um að hann væri okkar fyrsti kostur. Hann hefur gefið út og sungið svo falleg jólalög að öllum hlýnar þegar hann syngur þau og fyrir okkur sem hljóðfæraleikara er ómetanlegt og algjör forréttindi að fá að spila með honum,“ segir Gréta að lokum.

Myndir / Ólöf Erla Einarsdóttir

 

 

 

Allir verða að eiga sinn sokk

||||
||||

Jólasokkar eru algeng sjón yfir jólahátíðina og fer útfærslum þeirra fjölgandi. Við heimsóttum Kolbrúnu Karlsdóttur hannyrðakonu og fengum að mynda nokkra af þeim jólasokkum sem hún hefur hannað og saumað en óhætt er að segja að Kolbrún vandi vel til verka.

Víða um heim er hefð fyrir jólasokkum sem hengdir eru yfir arin og bíða barna á jóladagsmorgun, fullir af góðgæti í boði jólasveinsins. Margir hengja smærri útfærslur þeirra á jólatréð á meðan aðrir geyma jólakortin í sokknum, flestir nýta jólasokkana þó sem almennt skraut, hvort sem þeir eru hengdir á hurðir eða út í glugga. Jólasokkana má kaupa tilbúna eða föndra sjálfur og skreyta á ýmsa vegu. Kolbrún er ein þeirra sem gefur barnabörnum sínum jólasokka þegar þau hefja búskap en sérhver sokkur er einstakur enda fer Kolbrún ekki eftir uppskriftum þegar kemur að hannyrðum. Kolbrún er sjálflærð í föndurgerð og býr yfir ótal sniðugum lausnum og deilir hér nokkrum með lesendum. Á hverju ári handmálar hún jólakort til styrktar góðgerðarfélaginu Bergmáli, eins og sjá má á heimasíðu félagsins.

„Ég sauma þetta ekki í, heldur er þráðurinn lagður laus yfir og svo saumað yfir með aftursting svo það tolli og þoli þvott. Sömu aðferð nota ég við Jól-merkinguna efst á öllum sokkunum mínum.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Hárið á konunni er saumað og bakgrunnurinn er ekki köflóttur heldur handsaumaður. Það var heilmikið mál að mæla út svo allar stjörnurnar yrðu jafnar. Margir héldu að þetta græna hefði verið fast á efninu en þetta er lykkjuspor. Mistilteinninn er laus, hvert einasta blað og svuntan hennar líka.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Hér setti ég sogrör inn í kústskaftið því annars verður það svo skakkt. Endann gerði ég úr basti en ekki garni svo þetta sé sem fallegast og eðlilegast. Annaðhvort ertu með snjókarl með alvörukústskaft eða ekki.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
„Þessi sokkur var seinlegastur allra því hver múrsteinn er upphleyptur og hvert einasta snjókorn og pallíetta einnig upphleypt. Bæði kúlan og múrsteinninn eru vatteruð og síðan kappmelluð, svo vel að það sjáist ekki því ef það sést er ekki lengur gaman að því.“ Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Vegan-kaka í glæsilegu kökublaði Vikunnar

||
||

Kökublað Vikunnar sem margir bíða spenntir eftir ár hvert er komið í verslanir. Sigríður Björk Bragadóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Salt eldhúss, er ein þeirra sem deilir uppskrift í blaðinu en hún er að eigin sögn forfallin smákökubakari. Hér bakar hún ljúffenga vegan-köku.

Myndir / Hallur Karlsson

Uppskriftin sem Sirrý deilir með lesendum er að hennar sögn bæði yndisleg, óvenjuleg og vegan. „Ég keypti kökubók í London í haust sem er tileinkuð börnum í Sýrlandi og er þáttur í fjáröflun til styrktar börnum þar. Margir þekktir bakarar koma að bókinni og gefa vinnu sína. Þeir fengu fyrirmæli um að velja hráefni frá þessu svæði, löndum fyrir botni Miðjarðarhafs, nota döðlur, möndlur, kardimommur, hunang, rósavatn og fleira. Fyrsta kakan sem ég bakaði úr bókinni sló í gegn hjá fjölskyldunni og vinahópnum. Mig langar að gefa uppskrift að minni útgáfu af þessari yndislegu og óvenjulegu köku. Kakan getur verið vegan ef notað er eggjalíki í stað eggja og vegan-súkkulaði í súkkulaðibráðina og þá er auðvitað ekki borin jógúrt með.“

Möndlukaka með súkkulaði og kardimommum

200 g möndlur með hýði
100 g kókosmjöl
100 g ferskar döðlur, steinhreinsaðar, vigt án steina
3 egg (eggjalíki fyrir vegan)
140 g kókossykur
1 ½ dl olía
¾ dl kókosmjólk
6-8 kardimommuhylki, nota fræin innan í, möluð í mortéli eða kryddkvörn
börkur af 1 lífrænni sítrónu eða lítilli appelsínu
1 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. rósavatn (má sleppa)

Hitið ofninn í 180°C eða 165°C á blástur. Setjið möndlur og kókosmjöl í matvinnsluvél og malið fínt, setjið í skál og geymið. Setjið döðlur og egg í matvinnsluvélina og vinnið vel saman. Bætið möndlublöndunni út í ásamt öllu öðru sem fer í kökuna og vinnið saman í deig. Setjið bökunarpappír í botn á 22 cm breiðu formi, má hvort heldur vera kringlótt eða ferkantað. Berið olíu á innri hliðar á forminu. Hellið deiginu í formið og bakið þetta í miðjum ofni í 40-45 mínútur. Látið kökuna kólna í 10 mín. og færið síðan úr forminu og setjið á fallegan disk. Setjið súkkulaðibráð ofan á kökuna þegar hún er orðin köld. Skreytið með grófum kókosflögum eða þurrkuðum rósablöðum. Berið fram með „labneh“ með rósavatni þ.e. þykkri bragðbættri jógúrt.

Súkkulaðibráð
80 g súkkulaði, 70%
4 msk. kókosmjólk

Bræðið saman við vægan hita í vatnsbaði.

Labneh með rósavatni
3 dósir lífræn jógúrt
2 msk. hlynsíróp (mable syrup), eða annað sem hentar ykkur að sæta með
1 tsk. sítrónubörkur, eða eftir smekk
½ tsk. rósavatn, eða eftir smekk

Síið vatnið úr jógúrtinni með því að setja jógúrtina í trekt með kaffifilter yfir skál eða könnu og látið standa yfir nótt. Með því fáið þið „labneh“, dásamlega kremaða jógúrt sem passar að bera fram með eftirrétti t.d. í staðinn fyrir þeyttan rjóma (nota má mysuna sem verður eftir t.d. í brauðdeig). Blandið sírópi, sítrónuberki og rósavatni í þykku jógúrtina. Smakkið síðan til.
Rósavatn fæst í Melabúðinni og í Krydd- og tehúsinu. Þurrkaðar rósir hafa stundum fengist í Tiger, annars á Netinu.

Kökublað Vikunnar er glæsilegt sem aldrei fyrr og þar er að finna fjölda flottra kökuuppskrifta. Forsíðumynd blaðsins tók Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Jólaförðunin: Falleg augnhár, varalitur og glimmer

Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir, betur þekkt sem Silla, er ávallt með puttann á púlsinum þegar kemur að því sem hæst ber í förðunarheiminum. Silla er kennari og önnur af eigendum förðunarskólans Reykjavík Makeup School en auk þess er hún alltaf með fleiri járn í eldinum. Þessa dagana vinnur hún ásamt Söru Dögg Johansen, meðeiganda sínum í skólanum, að stóru og spennandi samstarfi.

„Vörumerkið sem um ræðir er mjög þekkt en ég og Sara munum verða andlit merkisins hér á Íslandi,“ segir Silla um samstarfið. „Við erum á fullu að undirbúa og skipuleggja útgáfupartí og þetta verður allt mjög stórt og flott. Við erum ótrúlega spenntar yfir þessu öllu og því að fá loks að uppljóstra hvaða merki þetta er.“
Aðspurð um það helsta og nýjasta í förðunarheiminum í dag, segir Silla í raun allt leyfilegt. „Það eru rosalega margt í gangi, allt frá „no makeup“ upp í „full glam“ og ættu allir að geta fundið eitthvað sem hentar. Þessi árstími kallar samt að mínu mati á aðeins meira en aðrir. Mér finnst alltaf jafnflott að vera með fallega augnförðun og poppa hana upp með fullkomnun gerviaugnhárum og fallegum varalit, svo má jafnvel bæta við smávegis glimmeri fyrir áramótin. En falleg húð er eitthvað sem fer aldrei úr tísku.“

Sigurlaug Dröfn Bjarnadóttir er önnur af eigendum förðunarskólans Reykjavík Makeup School. Mynd/Aldís Pálsdóttir

Uppáhaldsförðunarvörur Sillu: „Listinn er nánast endalaus en það sem er akkúrat núna í uppáhaldi er NYX professional makeup gloss sem heitir Duo Chromatic í litnum SPRING IT ON, nýjasta augnskugga-pallettan frá Urban Decay sem heitir NAKED CHERRY, kinnalitur frá Becca sem heitir Blushed Copper og líka annar kinnalitur frá MAC sem heitir Peaches. Ég blanda oft kinnalitum saman en mér finnst þeir algjörlega nauðsynlegir þegar kemur að förðun. Eins verð ég að nefna Eylure-augnhár númer 117 og 105, þau eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa stundina.“

„Must have“ fyrir jól og áramót? „Ég myndi segja falleg augnhár, varalitur og svo jafnvel glimmer eða glimmer eyeliner til að skreyta aðeins áramótaförðunina. NYX professional makeup eru með rosalega mikið úrval af allskyns glimmeri og eins nola.is. Einnig er Urban Decay með rosalega flotta glimmer eyeliner-a.“

Hvað er á óskalistanum þínum? „Það er CC-krem frá It Cosmetics. Svo dreymir mig um eina ákveðna tösku líka.“

Eitthvert leynitrix fyrir lesendur? „Ég er með gott trix fyrir þá sem eru með olíumikið T-svæði. Það er að setja örlítið af lausu, mjög fínu púðri og bera það á svæðið ÁÐUR en farðinn er settur á. Púðrið stoppar olíuna frá því að blandast við farðann og brjótast í gegn og með þessari aðferð eru líklegra að T-svæðið haldist matt. Hljómar kannski flókið en virkar mjög vel.“

 

Mun taka nokkur ár til viðbótar að endurvinna traust

|
Páll Harðarson var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar í þættinum 21 á Hringbraut.|

Hlutabréfamarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum þótt hann sé enn að jafna sig eftir bankahrunið.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir góðan mælikvarða á endurreisn íslenska hlutbréfamarkaðarins vera nýlega úttekt FTSE á markaðnum. Núverandi staða hleypir íslenska markaðnum inn í vísitölukerfi FTSE, bresku hlutabréfavísitöluna þar sem yfir 100 stærstu fyrirtækin eru skráð í Kauphöllinni í London.

Eigum að stefna á fyrsta flokks
Í flokkunarkerfi FTSE eru fjórir gæðaflokkar. „Við lendum í fyrsta kastinu í þeim neðsta en uppfyllum jafnmörg skilyrði og markaðir sem eru í næstefsta flokki,“ segir Páll og bætir við að við séum í seilingarfjarlægð frá því að komast í næstefsta flokk. Páll segir að við eigum að stefna á að komast í fyrsta flokk á næstu fimm til tíu árum.

Dómstólar leiðbeina
Varðandi umbætur á markaðnum eftir hrun bendir Páll á að gerðar hafi verið umbætur á lagaumhverfinu og dómstólar spili líka þar inn í, „… svo hafa fallið dómar sem segja okkur með óyggjandi hætti hvað má og hvað ekki og hverjar afleiðingarnar eru af því að fara út fyrir þá línu,“ segir hann en það kosti þolinmæði að byggja aftur upp traust og það muni líklega taka einhver ár í viðbót að endurheima það.

Páll Harðarson var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar í þættinum 21 á Hringbraut.

Gjörbreyting frá því sem áður var
Breytingar eru að verða núna. „Síðustu tólf til átján mánuði höfum við verið að sjá ákveðnar breytingar eftir að gjaldeyrishöftin voru afnumin. Á þessum tíma höfum við séð fimm fyrirtæki afla sér 30 milljarða króna á markaði til kaupa á öðrum fyrirtækjum. Þetta er gjörbreyting frá því sem áður var.“

Páll horfir nú meðal annars til ferðaþjónustufyrirtækja, orkufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja og, síðast en alls ekki síst, bankanna. Páll vonast til þess að Íslandsbanki og Landsbankinn muni fyrr eða síðar verða skráðir á markaðinn og sömuleiðis segist hann spenntur fyrir því að sjá orkufyrirtæki á aðallista.
– lb/þsj

„Mamma er brjálæðislega góður sögumaður“

Drottningin á Júpíter er fyrsta skáldsaga Júlíu Margrétar Einarsdóttur en hún segist alltaf hafa vitað að hún myndi leggja skriftir fyrir sig, enda skáldablóðið sterkt í fjölskyldunni.

Júlía er nýkomin heim eftir tveggja ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem hún lærði handritaskrif, fyrst í New York og síðan í Los Angeles. Skáldsagan sem hún hafði skrifað sem mastersverkefni í ritlist við Háskóla Íslands lét hana þó ekki í friði og á endanum gafst hún upp fyrir ásókninni og ákvað að gefa bókina út til að losna við hana úr heilabúinu. Söguhetjan Elenóra Margrét Lísudóttir er þó engan veginn byggð á reynslu höfundarins, að sögn Júlíu, þótt vissulega eigi þær ýmislegt sameiginlegt, til dæmis það að stunda næturlífið með bækistöðvar á Bravó við Laugaveg og Júlía hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að sirkusinn, sem leikur stórt hlutverk í sögunni, sé að vissu leyti tákn fyrir næturlífið í Reykjavík.

Ýtarlegra viðtal við Júlíu Margréti má lesa í kökublaði Vikunnar.

„Það er reyndar dálítið mikil einföldun,“ segir Júlía. „En það er einn vinkillinn á söguna. Ég var óskaplega lengi með þessa bók í vinnslu og alltaf að auka flækjustigið. Upprunalega hugmyndin var að vinna með sirkus, því mér finnst það svo heillandi heimur, en eftir því sem ég vann söguna meira víkkaði sjónarhornið og áherslurnar breyttust.“

Júlía segir upplifanir af næturlífinu hafa verið henni hugleiknar lengi og vakið hana til umhugsunar um það hvað sé í rauninni veruleiki.

„Þegar maður situr á skemmtistað eftir klukkan þrjú á nóttunni fer einhver sturlun í gang og maður verður algjörlega samdauna henni,“ segir hún. „Allir verða ógeðslega klikkaðir og það gilda einhver allt önnur lögmál heldur en annars staðar á öðrum tíma. Nóttin og myrkrið hafa líka ótrúlega mikil áhrif á alla skynjun og upplifun manns af heiminum. Daginn eftir ertu svo liggjandi inni í herberginu þínu á þriðjudegi og það er einhver að steikja fiskibollur í eldhúsinu og þú hugsar bara um að borga reikningana þína. Þú ert ennþá í sama heimi en samt eru þessar tvær upplifanir algjörlega hvor úr sinni áttinni. Það finnst mér ótrúlega áhugavert aspekt af tilverunni og það er það sem ég er að reyna að koma til skila í sögunni.“

Júlía er dóttir Einars Kárasonar rithöfundar, sem einnig er með skáldsögu á jólamarkaðnum, og ekki nóg með það heldur er Kamilla systir hennar líka að senda frá sér skáldsögu þessa dagana. Lá það alltaf fyrir að þær systur myndu feta í fótspor föður síns og verða rithöfundar?

„Neeeei,“ segir Júlía hugsi. „En það kom mér ekkert á óvart að Kamilla væri að skrifa bók og það kæmi mér heldur ekkert á óvart ef mamma eða hinar systur mínar færu að skrifa líka. Mamma er til dæmis brjálæðislega góður sögumaður og gæti svo sannarlega skrifað góða bók.“

Ritlistarnámið ýtti Júlíu endanlega út á rithöfundabrautina og hún er komin heim til að skrifa og hér ætlar hún að vera eitthvað áfram, nema eitthvað óvænt gerist.

„Í augnablikinu leyfi ég mér ekki að taka neinar drastískar ákvarðanir,“ segir hún. „En í bili er það planið að vera hér heima allavega í vetur. Bókin gekk miklu betur en ég hafði leyft mér að vona og svakalega mikil vinna í kringum kynningar og upplestra úr henni fram að jólum. Eftir áramótin get ég svo bara leyft mér að fara í fæðingarþunglyndið sem alltaf fylgir fæðingu bókar og ég hlakka mikið til þess. Eftir það er óskaplega margt sem mig langar til að gera hérna heima. Ég finn allavega að hér á ég eitthvað ógert. Ég er ekki búin með Íslandskaflann enn þá, en um leið og ég finn að honum er lokið fer ég eitthvað annað. Ég er byrjuð á næstu skáldsögu, mjög spennt fyrir að kynnast nýjum karakterum og nýjum heimum og leyfa þeim að leiða mig þangað sem þeir vilja. Svo kemur framhaldið bara í ljós í fyllingu tímans.“

Ýtarlegra viðtal við Júlíu Margréti má lesa í kökublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna

 

 

Fólk verslar eins og kjarnorkustyrjöld sé í uppsiglingu

|
Rakel leggur sig fram um að halda umhverfisvæn jól. Mynd / Unnur Magna|

Rakel Garðarsdóttir hefur undanfarin fimm ár lagt sig fram um að halda jól á eins umhverfisvænan hátt og unnt er. Færri, gjafir, minna prjál, aðhald í matarinnkaupum og endurnýting pappírs er meðal þess sem hún og hennar fjölskylda leggja kapp á í jólahaldinu.

„Umhverfisvæn jól snúast meðal annars um það að kaupa færri gjafir, kaupa ekki óþarfa, gefa gjafir sem nýtast viðtakandanum og enda ekki bara uppi í skáp,“ segir Rakel spurð hvernig hún geri jólahald fjölskyldunnar umhverfisvænna. „Það er til dæmis mjög sniðugt að gefa miða í leikhús eða á tónleika og gjafakort í nudd eða á eitthvert námskeið. Eitthvað sem fólk hefur ánægju af.“

Spurð hvað það sé langt síðan hún fór að reyna að gera jólin umhverfisvæn á sínu heimili, dregur Rakel við sig svarið. „Sko, ég er ekkert hundrað prósent umhverfisvæn,“ segir hún. „En við bætum einhverju nýju við á hverju ári eftir því sem við verðum meðvitaðri um umhverfisvána. Þetta byrjaði fyrir svona fimm árum. Þá minnkuðum við gjafir, hættum að borða svínakjöt og borðum í staðinn fuglakjöt eða einhverja grænmetisrétti. Við erum ekki með jólatré og notum brúnan kraftpappír til að pakka inn gjöfunum, það er svo erfitt að endurvinna svona glanspappír, og svo söfnum við líka jólapappír utan af þeim gjöfum sem við fáum og endurnýtum til að pakka inn gjöfum næstu jóla. Við notum ekki mikið af skrauti, helst ekki annað en það sem hefur fylgt með öðrum gjöfum eða eitthvað sem við eigum.“

„Í mörg ár hafa aðventan og jólin snúist um það hjá okkur að gera eitthvað saman, hitta vini og njóta. Ég var heldur ekki alin upp við að jólin væru neysluhátíð og það hjálpar auðvitað líka.“

Fjölskylda Rakelar samanstendur af henni sjálfri, eiginmanni og þremur börnum á aldrinum tveggja til sautján ára. Hvernig hafa þau tekið í þessar breytingar á jólahaldinu? Fá þau til dæmis í skóinn?
„Þau eru voðalega nægjusöm,“ segir Rakel og brosir. „Einhverra hluta vegna hafa þau náð því. Yfirleitt fá þau eitthvað í jólagjöf sem þau vantar, eða þá að fjölskyldan fær sameiginlega gjöf. Í fyrra var það Soda stream-tæki sem allir í fjölskyldunni nota. Eldri krakkarnir fengu í skóinn á tímabili en þau eru orðin of gömul fyrir það núna og ég varð mjög glöð þegar það hætti. Ég átti mjög erfitt með það, því mér finnst eins og gæði skógjafa hafi dalað hjá jólasveinunum eftir því sem börnum í heiminum hefur fjölgað og ég er ekki hlynt því einnota dóti sem vill oft dúkka upp í skónum.“

Rakel leggur sig fram um að halda umhverfisvæn jól. Mynd / Unnur Magna

Rakel segir fjölskylduna reyndar alla þannig stemmda að jólin séu ekkert sérstak mál. Séu eiginlega bara eitt gott matarboð. Neysluæðið í desember fái ekki hljómgrunn hjá neinum á heimilinu. „Í mörg ár hafa aðventan og jólin snúist um það hjá okkur að gera eitthvað saman, hitta vini og njóta. Ég var heldur ekki alin upp við að jólin væru neysluhátíð og það hjálpar auðvitað líka. Jólin fyrir mér eru bara að vera saman og kveikja á kerti. Fá sér svo kannski einn Jule Tuborg eftir að maður er kominn á þennan aldur. Við stútfyllum heldur ekki ísskápinn fyrir jólin, heldur nýtum alla afganga vel. Flestir kaupa inn eins og þeir séu að undirbúa sig undir kjarnorkustyrjöld þegar jólin eru að koma. Það hefur aldrei höfðað til mín enda veitir það enga hamingju að sitja uppi með feitan Visa-reikning í janúar.“

Svona eru þeir?

Kári Stefánsson Mynd / Íslensk erfðagreining

Kári Stefánsson skrifar,

Álagspróf eru meðal tækja læknisfræðinnar sem geta reynst mjög gagnleg við að leita að veikleika manns sem finnst ekki við einfalda skoðun. Áreynsluprófið er eitt þeirra. Sú sem prófið tekur er látin hjóla eða ganga rösklega meðan hún er tengd við alls konar mæla eins og hjartalínurit, öndunarmæli, mæli sem nemur súrefnismettun og svo mætti lengi telja. Síðan er fylgst með því hvernig mælingarniðurstöður breytast við það álag á allan líkamann sem skapast við hreyfinguna. Ef þær eru af ákveðnum toga geta breytingarnar meðal annars bent til kransæðasjúkdóms.

Sykurþolsprófið er annars konar álagspróf þar sem álagið er eingöngu lagt á eina frumutegund í einu líffæri. Þátttakandanum er gefið mikið magn af sykri sem þröngvar beta-frumur í Langerhanseyjum brissins til þess að senda frá sér insúlín út í blóðið. Breytingar á styrk glúkósa og insúlíns í blóði geta gefið vísbendingu um það hvort þátttakandinn sé með sykursýki eða sé í hættu á að þróa hana.

Síðan eru auðvitað til alls konar aðrar tegundir álagsprófa utan læknisfræðinnar sem segja okkur ýmislegt um mannlegt eðli. Eitt af þeim heitir fjárlagafrumvarp sem er sett saman einu sinni á ári og lagt fyrir Alþingi. Hegðun alþingismanna við umræður um frumvarpið er álagspróf sem laðar fram ýmislegt hjá stjórnmálamönnum sem finnst ekki við einfalda skoðun frambjóðanda fyrir kosningar. Sumt af því er ekki bara athyglisvert heldur líka ótrúlegt.

Tökum sem dæmi hvernig alþingismenn sýna örlæti með því að veita sjálfum sér  sautján (fjöldi jólasveina x 2-1) nýja aðstoðarmenn á sama tíma og þeir draga til baka stóran hluta hækkunar á framlögum til öryrkja og skera niður víðast hvar annars staðar í velferðarkerfinu. Þessir sautján hjálparkokkar alþingismanna bætast við tuttugu og fimm aðstoðarmenn ráðherra. Frá því 2012 hefur kostnaður skattgreiðenda af aðstoðarmönnum ráðherra vaxið um tvö hundruð og átta milljónir króna og bætast nú við aðrar tvö hundruð milljónir í nýju aðstoðarmennina. Ein skoðun á þessu er að það endurspegli óásættanlega, sjálfhverfa forgangsröðun alþingismanna, önnur að sú staðreynd að þeir haldi að það sé ásættanlegt að veita sjálfum sér sautján aðstoðarmenn meðan þeir skera niður annars staðar bendi til þess að þeir þurfi á aðstoð að halda og þess vegna aðstoðarmönnum. Sem sagt að eina réttlætingin fyrir því að þeir fái aðstoðarmennina sé sú staðreynd að það sé óréttlætanlegt að þeir veiti sér þá.

Svarið við seinni skoðuninni er að það eina sem hlytist af aðstoð sautjánmenninganna væri að alþingismenn yrðu afkastameiri við að hlúa að sjálfum sér. Einn myndi sjálfsagt keyra fyrir Ásmund Friðriksson af því hann þarf alltaf að ferðast svo langt. Að þessu sögðu þá reynist fjárlagafrumvarpið það álagspróf sem á ári hverju laðar fram smæðina í eðli alþingismanna sem þeir fela svo vel rétt fyrir kosningar.

„Þetta er eins mikið kjaftæði og hugsast getur“

Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands, hefur á undanförnum árum keypt upp fjölda jarða og lóða á Norðausturlandi, m.a. í Vopnafirði, Þistilfirði og á Grímstöðum á Fjöllum. Í vikunni greindi Fréttablaðið frá því að Ratcliffe hafi keypt eignarhaldfélagið Grænaþing af Jóhannesi Kristinssyni fjárfesti og eignast þannig 86,67 prósenta hlut í veiðifélaginu Streng ehf. Félagið er með Selá og Hofsá í Vopnafirði á leigu en Ratcliffe hefur áður lýst því yfir að tilgangur jarðakaupa hans sé að vernda laxveiðiár. Strengur á í sex jörðum í Vopnafirði en fyrir á Ratcliffe um 30 jarðir á Norðausturlandi.

Mannlíf heyrði hljóðið í Vopnfirðingum og hafði einn á orði að heimamenn væru á varðbergi gagnvart Ratcliffe og fyrirætlunum hans.

„Djöfulsins þöngulsháttur gagnvart fjármagninu“

„Mér finnst þetta vera birtingarmynd þess sem við höfum verið að vara við. Að allt þetta land sé komið í hendurnar á mönnum sem hafa engra annarra hagsmuna að gæta en fjárhagslegra,“ segir Björn Halldórsson, bóndi á Akri í Vopnafirði og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda. Hann hefur áður gagnrýnt stjórnvöld fyrir að hefta ekki jarðakaup útlendinga. „Eftir að felldur var úr gildi forkaupsréttur sveitarfélaga þá er líka horfinn sá möguleiki að svona gjörningar komi upp á yfirborðið fyrr og komið þannig af stað umræðu sem mögulega hefði áhrif á það hvernig svona hlutir fara. Menn geta bara selt og keypt eins og þeim sýnist enda geta sveitarfélögin ekki keppt við svona menn í verði. Mér finnst það vera aumingjaskapur hjá stjórnmálamönnum að hafa ekki tekið á þessu frekar en að blaðra í kringum hlutina. Þetta er djöfulsins þöngulsháttur gagnvart fjármagninu.“

Björn gefur ekki mikið út á yfirlýst markmið auðmannsins breska um að vernda laxveiðiár. „Þetta er eins mikið kjaftæði og hugsast getur að mínu viti. Það er ekki nóg að segja svona, það verður að sýna með einhverjum rökum hvernig og hvað á að gera. Eftir því sem ég best veit og tel mig vita talsvert um það, þá eru laxárnar í Vopnafirði og á Norðausturlandi mjög vel vaktaðar. Kannski telur hann sig vera að gera eitthvað sniðugt en þá hefur hann bara ekki kynnt sér stöðuna eins og hún er. Þetta er léleg framkoma og stælar; að horfa niður á okkur heimamenn og segja að hann sé kominn til að redda laxinum hérna. Þetta fer illa í okkur sem erum búnir að vera brasa í þessu í 50 ár,“ útskýrir Björn.

Vill að fjárfestar skili meiru til samfélagsins

Ratcliffe hefur nýverið átt í viðræðum í gegnum efnavinnslufyrirtækið Ineos sem hann á meirihluta í, um kaup á eignum bandaríska olíufélagsins ConcoPhilips í Norðursjó. Það finnst Birni áhugavert. „Hann virðist vera að fjárfesta í framtíðarauðlindum – í vatni og landi og aðstöðu til orkuframleiðslu. Svo getur verið að þessi maður sé að horfa til þeirra fjárfestinga sem margir aðilar í fjórðungnum eru að horfa til í Finnafirði,“ segir hann og vísar þarna til möguleika þess að alþjóðleg stórskipahöfn verði byggð í Finnafirði við Langanes. Björn segist vilja sjá að menn á borð við Ratcliffe fjárfesti meira í samfélaginu sjálfu og að tryggt verði í lögum að samfélagið njóti fyrst og síðast góðs af landinu. „Það eiga ekki að vera dauðlegar manneskjur sem skrapa til sín öllu sem þeim sýnist og þar af leiðandi ganga á möguleika viðkomandi samfélags að nýta þessi gæði.“

Vegna hnattrænnar hlýnunar og bráðnunar hafíss á norðurslóðum styttist siglingaleiðin á milli Asíu og Evrópu umtalsvert. Á því byggja þessar hugmyndir um stórskipahöfn í Finnafirði; að stór gámaskip sigli norðurskautsleiðina til Íslands þar sem farminum yrði umskipað og fluttur áfram til Evrópu og Norður-Ameríku.

Þýskt hafnafélag hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og varið hundruðum milljóna í rannsóknir því tengdu. Þá hafa kínverskir aðilar einnig verið áhugasamir um höfnina.

Raddir