Fimmtudagur 19. september, 2024
9 C
Reykjavik

Vanstillt umvöndun sendiherra ekki úr heiðskíru lofti

Sendiherra Póllands á Íslandi sendi á dögunum ritstjórn Stundarinnar harðorða athugasemd og kröfu um afsökunarbeiðni vegna fréttar sem birtist á vef miðilsins. Fréttin, sem byggði á umfjöllun stærstu fjölmiðla heims, fjallaði um fjöldagöngu í Póllandi þar sem leiðtogar landsins gengu saman með hópum sem hafa kennt sig við fasisma. Athugasemd sendiherrans rataði einnig á skrifstofur forseta Íslands og forsætisráðherra.

Það að sendiherra erlends ríkis skuli kvarta við æðstu ráðamenn landsins vegna þess sem birtist í frjálsum fjölmiðlum er fordæmalaust. Síst af öllu sendiherra ríkis sem kennir sig við lýðræði og er aðili að Evrópusambandinu, enda sú hugmynd að íslenskir ráðamenn skipti sér af efnistökum fjölmiðla fjarstæðukennd. En fyrir þá sem fylgst hafa með þróun mála í Póllandi þarf þessi umvöndun sendiherrans ekki að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Undir stjórn Laga- og réttlætisflokksins hefur markvisst verið grafið undan lýðræðislegum stofnunum í landinu, einkum og sér í lagi dómstólum og fjölmiðlum. Á sama tíma hefur daður við hvers konar nýfasísk öfl færst í aukana. Ekki er langt síðan Pólland var skólabókardæmi um vel heppnaða aðlögun fyrrum austantjaldsríkja að vestrænum lýðræðisstofnunum en framferði pólskra ráðamanna á undanförnum árum hefur reynt mjög  á kollega þeirra vestar í álfunni.

Popúlískir þjóðernissinnar ná völdum

Lög og réttlæti (PiS) hefur ráðið lögum og lofum í pólskum stjórnmálum frá 2015 þegar flokkurinn vann hreinan meirihluta á þingi. Forsetinn, Andrzej Duda, kemur einnig úr röðum flokksins. Þessi þjóðernissinnaði og popúlíski flokkur sækir fylgi sitt mikið í strjálbýlli og eystri byggðir landsins og leggur mikla rækt við kristileg gildi og kaþólsku kirkjuna. Það hefur meðal annars endurspeglast í mjög íhaldssömum frumvörpum um bann og takmarkanir við fóstureyðingum sem í tvígang hefur orðið tilefni til fjöldamótmæla. Líkt og svo víðar í Evrópu og heiminum eru pólsk stjórnmál að verða sífellt pólaríseraðri þar sem gjáin á milli frjálslyndra og íhaldssamra breikkar með tilheyrandi árekstrum.

Hreinsanir í dómskerfinu

Laga- og réttlætisflokkurinn hefur verið sakaður um að standa að baki pólitískum hreinsunum í dómskerfinu og afmá þannig skilin á milli dóms- og framkvæmdavalds, undirstöðu réttarríkisins. Um 13 lagafrumvörp sem flokkurinn hefur lagt fram eru sögð vinna að því markmiði en með þeim eru pólitísk afskipti af dómskerfinu, einkum hæstarétti og stjórnlagadómstólnum, stóraukin. Fullyrðingum pólskra ráðamanna um að tilgangurinn sé þvert á móti að draga úr spillingu og auka sjálfstæði dómstólanna hefur verið fálega tekið. Fjöldi opinberra starfsmanna og hershöfðingja í hernum hafa sömuleiðis verið rekin. Þá tóku stjórnarflokkarnir yfir ríkisfjölmiðlana með lagasetningu árið 2016 og þrengt hefur verið að rekstri hinna einkareknu.

Ítrekaðir árekstrar við ESB

Pólland hefur allt frá inngöngu 2004 fengið gríðarlega fjármuni frá ESB til innviðauppbyggingar sem hefur reynst landinu afar farsæl. Þrátt fyrir það keyrir PiS á andófi gegn sambandinu og undanfarið hefur ítrekað komið til árekstra á milli Varsjár og Brussel. Þannig börðust Pólverjar mjög gegn því að Donald Tusk yrði endurkjörinn forseti ráðherraráðs ESB, þrátt fyrir að hann sé pólskur. Í fyrra virkjaði framkvæmdastjórn ESB í fyrsta skipti 7. greinina svokölluðu, en hún felur í sér refsiaaðgerðir gegn ríkjum sem brjóta gegn grunngildum sambandsins, í þessu tilviki alvarleg aðför gegn sjálfstæði dómstóla. Það gæti leitt til þess að Pólland verði svipt atkvæðarétti sínum innan stofnana sambandsins en til þess þarf samþykki allra aðildarríkjanna. Ólíklegt er að það gangi í gegn þar sem Ungverjaland, þar sem einnig stjórna menn með andlýðræðislegar hneigðir, hefur heitið Pólverjum stuðningi.

Daðrað við nýfasista

PiS hefur verið sakað um daður við nýfasistahreyfingar eða í það minnsta horft viljandi fram hjá uppgangi þjóðernissinnaðra hreyfinga sem boða kynþáttahatur. Slíkir hópar voru áberandi í fjöldagöngunni sem var tilefni umfjöllunar Stundarinnar. Borgaryfirvöld í Varsjá höfðu lagt blátt bann við göngunni í ljósi reynslunnar í fyrra þar sem hvítir þjóðernissinnar voru áberandi og var lýst sem stærstu samkomu þjóðernissinna og öfgahægrimanna í heiminum á okkar tímum. Dómstólar hliðhollir stjórnvöldum úrskurðuðu bannið ólögmætt og niðurstaðan var að 200 þúsund manns fylktu liði og gengu um götur Varsjár. Vissulega voru almennir borgarar þar á meðal en það voru öfgahópar og valdamenn – og samkrull þeirra – sem stálu athyglinni.

„Ekkert skraut, bara kraftur“

||
||

Nú, þegar farið er að dimma og kólna, er ekki úr vegi að hægja á, kveikja á kertum og reykelsum, hita engiferte og hlusta á angurværa tónlist, að mati Báru Huldar Beck, blaðakonu á Kjarnanum. Hér mælir Bára Huld með þremur plötum sem hún segir fullkomna helgina.

Bára mælir með Rainbows á föstudegi.

„Á föstudagskvöldi er fullkomið að skella In Rainbows frá árinu 2007 með Radiohead á fóninn eftir að börnin eru sofnuð, draga fram góða bók og hlusta á draumkennda rödd Thom Yorke. Áreynslulausi tónninn kemur mér alltaf á annan stað í góðum skilningi. Það er misskilningur að lög af þeirri plötu – eins og Nude – séu þunglyndisleg. Þau eru þvert á móti heillandi og skilja eitthvað órætt og ljúft eftir sig í hjartanu.

Til þess að halda sömu línu yfir helgina en poppa samt sem áður laugardagskvöldið upp er hægt að hlusta á PJ Harvey. Hún kemur mér alltaf í fíling þannig að mig langar að drekka heimabruggað rauðvín og dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi fara beint í gamla „stöffið“ og skella plötunni Dry frá árinu 1992 á fóninn. Nafnið á plötunni lýsir henni vel – það er ekkert skraut, bara kraftur!

CocoRosie, fullkomið á sunnudegi að mati Báru.

Á sunnudegi er gott að slaka aftur á og grípa til drottninga angurværðarinnar … systranna í CocoRosie. Ég varð ástfangin þegar ég heyrði Noah’s Ark árið 2005 þegar ég leigði með þremur vinum mínum í lítilli kommúnu á Laugaveginum. Ef eitthvað er töfrandi í þessum heimi þá eru það raddir þeirra systra. Fullkomnara sunnudagskvöld verður það ekki!“

 

 

 

Slímugur orðasnákur

Leikritið Tvískinnungur er sýnt um þessar mundir á Litla sviði Borgarleikhússins. Verkið er skrifað af Jóni Magnúsi Arnarssyni og lýsir persónulegri reynslu hans af heimi fíkniefna og eitraðra kynna.

Í upphafi sýningar hittast ungmenni í búningapartíi og fella hugi saman. Margir þekkja tilfinninguna að heillast af annarri manneskju og finna gagnkvæma hrifningu, maður verður ósigrandi. Það er því táknrænt að bæði klæðist ofurhetjubúningum en Járnmaðurinn og Svarta ekkjan eru erkifjendur og elskendur í senn. Sú tenging setur tóninn því verkið hverfist í kringum eitruð kynni elskendanna en bæði starfa sem sviðsmenn í leikhúsinu milli þess sem þau stíga sjálf á svið og segja sögu sína. Persónurnar leika með öðrum orðum sjálfa sig.

Rétt eins og titillinn gefur til kynna er textinn í mótsögn við sjálfan sig því tvær hliðar má ávallt finna á sama peningnum. Tvískinnungurinn á þó ekki aðeins við um handritið sem er bæði háfleygt og hversdagslegt heldur líka um ólíkar upplifanir parsins af sömu atburðarrás.

Handritið er afrek út af fyrir sig en verkið er að hluta til í bundu máli sem er sjaldséð form í íslensku leikhúsi. Jón Magnús Arnarsson, ljóðskáld og leikritahöfundur, gerir hér upp fortíð sína með óvenjulegum hætti. Þó að umfjöllunarefnið sé þungt í vöfum er textinn framreiddur af mikilli kómík. Spunakenndir orðaleikir sviðsmannanna marka jafnframt einn af hápunktum sýningarinnar þar sem þau ræddu hugsanlegar ástæður örlaga Rómeó og Júlíu forðum daga með nýstárlegum hætti.

Lýsing Þórðar Orra Péturssonar endurvarpaði innri líðan þeirra persóna sem stigu á svið hverju sinni. Hún er beinskeytt í senum sviðsmannanna og ágeng og óþægileg í leik ofurhetjanna. Óhætt er að segja leikstjóra verksins, Ólaf Egilsson, nýta Litla sviðið til fulls í uppsetningunni. Á miðju leiksviðinu sveiflast kaðall sem nýtist vel á margan hátt þar sem parið háir margsinnis sitt reiptog milli tælingar og tortímingar en kaðallinn minnir líka á köngulóarvef þar sem elskhugarnir ná sínum hæðstu hæðum með ótraust haldreipið að vopni.

Tvíræðni var því ekki aðeins að finna en í textanum heldur verkinu öllu. Marglaga flétta sem hefur persónurnar upp til skýja en steypir þeim svo niður aftur. Í hlutverkum sínum sem ofurhetjur virðast þau geta lagt heiminn að fótum sér, klædd litríkum pelsum og groddalegum grímubúningum en þegar víman er liðin hjá blasir raunveruleikinn við og leiðir þeirra verða að skilja. Sigríður Sunna Reynisdóttir á heiður af bæði leikmynd og búningum.

Eðlilega mæðir mest á leikurunum tveimur sem bera sýninguna uppi. Einlæg, sterk og textanum er komið skilmerkilega til skila sem og þörfinni fyrir að vera þráður, á þessum mælikvarða. Aflið til eyðileggingar kollvarpar hins vegar tilveru elskendanna tveggja sem ekkert vildu meira en að elska og eyðileggja, vera vondir en láta á sama tíma elska sig af öllu afli. Að vera hetja og heigull á sama tíma. Það er óhætt að mæla með Tvískinnungi fyrir alla þá sem sem hafa verið á valdi ástarinnar og kunna að meta orðasnilld íslenskrar tungu.

Umfjöllunina má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Grímur Bjarnason.

Orkupakkinn skekur stjórnmálin

Líklegt verður að teljast að umræðan um þriðja orkupakkann eigi eftir að vinda enn meira upp á sig eftir því sem líður á þennan þingvetur og komandi ár.

Nokkuð óvænt varð þriðji orkupakki Evrópusambandsins að miklum pólitískum bastarði á Íslandi. Titringurinn varð ljós í Valhöll þar sem kom saman hópur Sjálfstæðismanna, aðallega eldri karla, og ályktaði á þann veg að það væri óskynsamlegt að taka upp orkupakkann í íslensk lög. „Unga fólkið“ í flokknum fékk viðvörun. En hvað er það sem er svona umdeilt við málið? Er það stormur í vatnsglasi? Hvað segir það okkur um stjórnmálin?

Afar skiptar skoðanir eru um þriðja orkupakkann. Annars eru það þeir sem hafa efasemdir um EES-samninginn, og það sem tekið er upp í íslensk lög á grundvelli hans, og síðan þeir sem telja samninginn vera afar mikilvægan efnahag landsins. Og sé þannig í raun til þess fallinn að styrkja fullveldi og sjálfstæði landsins frekar en hitt.

Nánar um málið á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Hátíðlegt sem aldrei fyrr

Yfir hátíðarnar þeysist mannskapurinn á milli jólaboða og nýtur þess að gæða sér á kræsingum með vinum og vandamönnum. Fátt er þó skemmtilegra en að njóta samverunnar við fallega dekkað borð. Þegar lagt er á veisluborð er gaman að leyfa hugmyndafluginu að ráða, nota það sem til er í skápunum og vinna svo í kringum það. Bríet Ósk stílisti lagði á einfalt en hátíðlegt veisluborð. Könglar og grænar greinar fá að njóta sín og jólakúlurnar gefa hlýja og notalega stemningu.

Allur borðbúnarður er frá Kúnígúnd.

Litlar silfurlitaðar jólakúlur fá að njóta sín með svolitlu greni í hverri skál.
Glösin á fæti og súpuskálarnar koma frá Villeroy & Boch.
Grenið, könglarnir og rauðu berin gefa borðinu jólalegt yfirbragð.
Þessi silfurlituðu jólatré passa vel á borðið og njóta sín með jólakúlunum og fallegu hnífapörunum frá Georg Jensen.
Jólin eru hátíð ljóssins. Kertaljós eru nauðsyn í skammdeginu en það er fátt sem skapar eins notalega stemningu og þau.

Í samstarfi við Kúnígúnd
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Róandi að hnýta eftir amstur dagsins

||
||

Mágkonurnar Ninna Stefánsdóttir og Íris Dögg Einarsdóttir sameinuðu krafta sína og gáfu út bók um hnýtingu macramé. Bókin er ekki aðeins handavinnubók heldur einnig falleg ljósmyndabók sem gaman er að hafa á sófaborðinu.

Bókin Macramé, hnútar og hengi eftir Ninnu Stefánsdóttur og Írisi Dögg Einarsdóttur er nýkomin í verslanir. Í þeirri bók er farið yfir undirstöðuhnúta í macramé og sýnt skref fyrir skref hvernig hægt er að hnýta glæsileg vegghengi og dásamleg blómahengi. Í bókinni er einnig hugmyndakafli sem veitir innblástur.

Ninna er stofnandi MARR. Hún hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir handgerðar macramé-vörur sem hún gerir og vinsæl námskeið sem hún heldur í Litlu Hönnunar Búðinni.

Í bókinni er að finna skýrar leiðbeiningar, teikningarnar eru eftir Rakeli Tómasdóttur.

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað hún og mágkona hennar, ljósmyndarinn Íris, að sameina krafta sína og gefa út bók. „Okkur langaði til að búa til bók sem væri ekki bara handavinnubók heldur líka falleg ljósmyndabók sem kæmi vel út á sófaborðinu.“ Þess má geta að til viðbótar við fallegar ljósmyndir eftir Írisi má einnig finna útskýringateikningar eftir Rakel Tómasdóttur í bókinni.

Skemmtilegast að gera tilraunir

„Með bókinni kennum við fólki grunnhnútana og svo gefum við fjórar uppskriftir til viðbótar við hugmyndakafla. Að mínu mati er mikilvægt að veita fólki innblástur líka því það er óþarfi að fara nákvæmlega eftir uppskrift, það er nefnilega skemmtilegast að gera tilraunir og prófa sig áfram. Fólk getur alltaf aðeins meira en það heldur,“ útskýrir Ninna sem hefur kennt fólki á öllum aldri að hnýta macramé. Hún segir alla geta náð tökum á macramé.

Að mínu mati er mikilvægt að veita fólki innblástur líka því það er óþarfi að fara nákvæmlega eftir uppskrift.

„Fólk er kannski svolítið vantrúað í upphafi en svo fer það af stað, nær tökum á grunnhnútunum og þá kviknar á hugmyndafluginu. Það er gaman að sjá það. Ég hef allavega aldrei hitt manneskju sem ekki getur hnýtt. Og þegar ég hef verið að kenna á námskeiðum þá er skemmtilegast að sjá að í lok námskeiðsins er enginn einn nemandi með eins stykki.“

Áhugamál sem vatt upp á sig

Í bókinni er að finna fallegar ljósmyndir eftir Írisi.

Aðspurð hvernig hún sjálf byrjaði að stunda hnýtingu macramé segir Ninna: „Fyrir um tveimur árum byrjaði þetta sem lítið áhugamál hjá mér. Mér þykir þetta róandi og það er gott að dunda sér við macramé eftir amstur dagsins. En þetta litla áhugamál vatt upp á sig,“ segir Ninna. Hún bætir við að hún hafi ekki stundað mikla handavinnu í gegnum tíðina.

„Þetta byrjaði í raun þannig að mig langaði í fallegt vegghengi fyrir ofan rúmið. Ég fór þá á YouTube og horfði á kennslumyndbönd og prófaði mig svo áfram. Þá var ekki aftur snúið og ég er enn þá að læra nýjar aðferðir og hnúta,“ segir Ninna sem er himinlifandi með að vera komin með bók í hendurnar, aðeins tveimur árum eftir að hún byrjaði að fikra sig áfram með macramé.

Ég fór þá á YouTube og horfði á kennslumyndbönd og prófaði mig svo áfram. Þá var ekki aftur snúið.

„Það er svolítið skrýtið að fara frá því að sitja ein uppi í sófa að hnýta yfir í það að vera búin að gefa út bók, tveimur árum síðar. Það er skrýtið en alveg rosalega gaman. Og með Írisi með mér í þessu þá vissi ég að þetta gæti ekki klikkað,“ segir Ninna glöð.

Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir

Heiðurstengt ofbeldi þrífst á Íslandi

|||
|||

Dæmi um að fólk af ólíkum erlendum uppruna haldi uppi heiðri fjölskyldunnar með ofbeldi.

Höfundur / Linda Blöndal

„Hún bjó við mikið ofbeldi á heimili sínu, bæði af hendi föður og bróður síns. Allt frá því að hún var ung stúlka hafi hún og systkini hennar ekki mátt eiga íslenska vini heldur þurftu alltaf að koma beint heim eftir skóla og leika við krakka af sama uppruna. Hún var í vinnu og pabbi hennar tók af henni peningana hennar. Hún klæddi sig ekki og hagaði sér ekki eins og fjölskyldan vildi og það stóð til að gifta hana manni af sama uppruna.“

Heiðurstengd átök hjá fjölskyldum af erlendum uppruna eiga sér stað hér á landi. Ýktasta birtingamynd heiðurstengdra átaka eru svonefnd heiðursmorð sem af fréttist frá öðrum Norðurlöndum og víðar um heim. „Tími er kominn til að bera kennsl á þetta hér á landi,“ segir Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, „þar sem þetta er íslenskur veruleiki. Það sem gerist annars staðar kemur líka hingað til lands, bara aðeins seinna,“ segir hún. Ráðstefna var haldin í vikunni þar sem tveir norskir sérfræðingar sögðu frá því hvernig bera má kennsl á slíkt ofbeldi og hvernig vinna megi gegn því.

Tími er kominn til að bera kennsl á þetta hér á landi.

Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Um er að ræða mannréttindabrot þegar heiður fjölskyldunnar er hærra settur en frelsi einstaklingsins. Edda segir að þarna sé stórfjölskyldan og heiður hennar allsráðandi og jafnvel þótt hún sé ekki á Íslandi, heldur bara hluti hennar.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir þessi dæmi oftar koma upp nú en kannski af því að starfskonur athvarfsins hafa augun betur opin fyrir þeim.

„Eins og þetta birtist okkur, fáum við konur til okkar sem hafa ekki haft neitt um það að segja hverjum þær giftast eða hvort þær gangi í hjónaband heldur er það fjölskyldan sem ákveður það. Ekki síður sjáum við konur sem hafa ekki val hvort þær fari úr hjónabandinu. Þær koma ekki bara vegna ofbeldis maka síns eða fyrrverandi maka, heldur vegna þess að upprunafjölskyldan eða tengdafjölskyldan þrýsti mjög á að konan haldi áfram í sambandinu og geri þeim ekki þá skömm að verða fráskilin kona,“ segir Sigþrúður.

Sigþrúður Guðmundsdóttir.

„Þetta tengist þjóðarmenningu en minnst af öllu trú, þetta getur komið upp í öllum mögulegum trúarbrögðum. Þetta tengist þessu feðraveldi, styrk karla og styrk þeirra eldri.“

Þannig getur fjölskyldan verið upprunnin frá Miðausturlöndum jafnt sem Asíulöndum eða Austur-Evrópuríkjum.

Ásta Kristín Benediktsdóttir.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals- og Háaleitis, segir dæmi um þetta koma inn á borð til sín: „Við sjáum þetta oft hjá fjölskyldum af erlendum uppruna. Eitt dæmið er af ungri stúlku sem leitaði til bráðamóttökunnar vegna sjálfsvígshættu. Þegar við fórum að ræða við hana kom í ljós að hún bjó við mikið ofbeldi á heimili sínu, bæði af hendi föður og bróður síns. Hún sagði frá því að allt frá því að hún var ung stúlka hafi hún og systkini hennar ekki mátt eiga íslenska vini heldur þurftu alltaf að koma beint heim eftir skóla og leika við krakka af sama uppruna. Hún var í vinnu og pabbi hennar tók af henni peningana hennar. Hún klæddi sig ekki og hagaði sér ekki eins og fjölskyldan vildi og það stóð til að gifta hana manni af sama uppruna.“

Eitt dæmið er af ungri stúlku sem leitaði til bráðamóttökunnar vegna sjálfsvígshættu.

Annað dæmi er ung kona af erlendum uppruna sem hafði verið með fjölskyldu sinni í fríi erlendis. „Hún leitaði til Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli með barnið sitt. Hún hafði verið gift hingað til lands manni sem var samt af erlendum uppruna og hún talaði hvorki íslensku né ensku, hafði engin fjárráð og átti ekki samskipti við neinn nema fjölskylduna og var beitt ofbeldi.“

Hættur að láta kvíðann og sjálfsniðurrifið stjórna sér

||||
Jónas Sig Mynd / Hákon Davíð

Ný plata Jónasar Sigurðssonar, Milda hjartað, kemur út í dag. Á henni er hann á hugljúfari nótum en oft áður, enda segist hann viss um að tími mildi og manngæsku sé að renna upp. Hann hefur þó ekki alltaf verið á þeirri línu, glímdi ártugum saman við afleiðingar ADHD, Tourette-heilkennis, vanmetakenndar og kvíða og hætti á tímabili allri tónlistarsköpun. Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi hann á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum.

„Þú fyrirgefur hvað ég er rámur,“ er það fyrsta sem Jónas segir þegar við hittumst á kaffihúsi í miðbænum á grámyglulegum morgni í vikunni. Hann hefur verið á þeysireið vítt og breitt um landið undanfarið að kynna nýju plötuna þótt flensan herji á hann og fram undan eru hverjir tónleikarnir á fætur öðrum, alveg fram á Þorláksmessu. Það er enginn tími til að láta það eftir sér að leggjast í rúmið. „Sjóvið verður að halda áfram,“ eins og hann segir hlæjandi um leið og hann reynir að kæfa hósta. Ég tek undir það og eftir að við höfum bæði fengið okkur kaffi set ég segulbandið í gang og spyr hinnar hefðbundnu íslensku spurningar hvaðan hann sé og hvernig hann hafi byrjað í tónlistinni.

„Ég ólst upp í Þorlákshöfn þar sem pabbi var útgerðarmaður og ég byrjaði tólf, þrettán ára að vinna í fiskverkun hjá honum,“ segir Jónas. „Tónlistin var samt rosalegur drifkraftur í lífi mínu alveg frá því að ég var pínulítill strákur. Þegar ég var tólf ára byrjaði vinur minn að læra á gítar og ég hermdi eftir honum. Svo fór ég í sveit þegar ég var þrettán ára og þar var strákur sem átti trommusett sem mér fannst svo flott að ég var alveg friðlaus þangað til ég gat keypt það af honum, vann í saltfiski, önglaði saman peningum og gerði alls kyns víla og díla þangað ég var kominn með trommusettið heim í stofu. Þannig byrjaði þetta.“

Dæmigerður ADHD-strákur

Jónas segir þessa þráhyggju hafa verið mjög lýsandi fyrir hann sem krakka, hann hafi verið dæmigerður ADHD-strákur, átt ótrúlega auðvelt með að læra en verið afskaplega fljótur að missa áhugann á skólanum.

Jónas ólst upp í Þorlákshöfn og byrjaði snemma að vinna í fiskverkun. Mynd / Hákon Davíð

„Strax á öðru ári í barnaskóla grét ég á hverjum morgni yfir því að þurfa að fara í skólann,“ útskýrir hann. „Þá byrjaði þetta mynstur sem síðan varð sterkasta aflið í lífi mínu áratugum saman. Mamma og pabbi þurftu nánast að draga mig fram úr rúminu og koma mér í skólann og það að sitja í skólanum fannst mér alveg ofboðslega leiðinlegt, þótt mér gengi vel, kennararnir væru góðir og ekkert út á neitt að setja. Skólakerfið bara virkaði ekki fyrir mig. Það var samt eiginlega ekki fyrr en ég var sjálfur orðinn foreldri og upplifði sömu einkenni hjá syni mínum sem ég áttaði mig á samhenginu. Þá bjuggum við í Danmörku og krakkarnir mínir voru í Waldorf-skóla þar sem þeir fengu miklu meira svigrúm heldur en í hefðbundnu skólakerfi, fengu að vera úti, klifra í trjám og tálga spýtur í staðinn fyrir að hanga inni í skólastofum allan daginn. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði gengið í þannig skóla, það var bara ekki í boði. Mín útrás var öll í gegnum tónlistina. Hún bjargaði mér algjörlega.“

Þegar Jónas var tólf ára bættust ýmis einkenni Tourette-heilkennisins ofan á ADHD-ið og honum fannst hann verða enn ömurlegri.

„Þá byrjaði ég að þróa með mér alls konar kæki,“ segir hann. „Var alltaf að blikka augunum og geifla mig í framan, alveg klassískt Tourette, þótt ég væri auðvitað aldrei greindur, það tíðkaðist ekkert í þá daga að senda börn í greiningarferli. Það var svo sem ekki gert neitt veður út af þessu, allir ypptu bara öxlum og litu á það sem sjálfsagðan hlut að hann Jónas væri nú bara svona. Mér var aldrei strítt á þessu eða neitt en mér fannst þetta auðvitað óskaplega leiðinlegt. Mér fannst ég vera alveg rosalega misheppnaður, sú tilfinning var alltaf sterk í mér. ADHD-inu fylgdi líka mikil hvatvísi, ég var alltaf að gera einhverja hluti sem voru algjörlega fáránlegir. Eftir á hugsaði maður oft hvers vegna maður hefði gert þetta, hvort það væri ekki allt í lagi með mig, en ég gat samt ekki hætt þessu. Stundum var ég að meiða aðra krakka eða skemma dótið þeirra og allt eiginlega bara óvart, allavega í minningunni. Maður bara hugsaði aldrei áður en maður framkvæmdi. Ég átti alveg rosalega góða vini og félaga í skólanum en innra með mér ríkti alltaf tilfinningin að vera ekki nógu góður og passa ekki alveg inn í heiminn. Það var bara í tónlistinni sem mér fannst ég passa inn í. Svo eignaðist ég tölvu og fór að forrita og þá kom inn annað element sem ég var góður í, það var talsverður léttir.“

Mér fannst ég vera alveg rosalega misheppnaður, sú tilfinning var alltaf sterk í mér.

Andinn í samfélaginu kallaði á karlmennsku

Tónlistin var samt áfram sterkasta aflið í lífi Jónasar og þegar tveir vinir hans fluttu austur á land og byrjuðu þar í hljómsveitum leið ekki á löngu þangað til hann hélt á eftir þeim austur að Eiðum, aðeins fimmtán ára gamall. Hann segist halda að foreldrar sínir hafi orðið ánægðir með að hann tæki þá ákvörðun, þótt það hafi auðvitað verið erfitt fyrir þau. Þau hafi þó alltaf stutt hann og þessi tilfinning hans að vera ómögulegur og passa ekki inn hafi ekki haft neitt með uppeldið að gera.

Nýjasta plata Jónasar kemur út í dag.

„Pabbi var gamall sjómaður og hefði samkvæmt steríótýpunni átt að gera kröfur til mín um að sýna af mér karlmennsku en það gerði hann aldrei. Pabbi minn er í rauninni blíður maður þótt hann birtist oft sem grjótharður út á við. Hann má ekkert aumt sjá og var til dæmis oft að koma heim með illa farna flækingsketti til að gefa þeim að borða og hlúa að þeim. Pressan um að sýna af sér karlmennsku kom ekki frá foreldrum mínum. Hún var bara innbyggð í samfélagið. Ég man þegar ég var ungur að vinna í fiski eða fara út á sjó að þá sýndu karlmenn yfirleitt ekki tilfinningar sínar. Það var bara þagað nema ef þú gerðir eitthvað vitlaust, þá var öskrað á þig. Samskiptin voru bara þannig í þá daga. Ég hef oft hugsað um það núna á seinni árum, eftir að farið var að tala svona mikið um eitraða karlmennsku og áhrif hennar, að ég hafi í rauninni að mörgu leyti verið mjög heppinn að fá að alast upp í gamla tímanum í fiskiþorpi. Andinn í samfélaginu var auðvitað þannig að maður ætti að sýna karlmennsku og harka af sér og það ýtti kannski undir þá tilfinningu að ég passaði ekki inn í samfélagið en þar kom tónlistin aftur til bjargar. Það er leyfilegt að nota femínísku orkuna í sköpun, og ég er dálítið femínin þótt ég virki kannski ekki þannig, en á svona stöðum er ekkert pláss fyrir mýktina sem því fylgir nema í listsköpun.“

Andinn í samfélaginu var auðvitað þannig að maður ætti að sýna karlmennsku og harka af sér og það ýtti kannski undir þá tilfinningu að ég passaði ekki inn í samfélagið en þar kom tónlistin aftur til bjargar.

Mættu í partí makaðir út í sósulit

Eftir að Jónas flutti á Austurlandið og settist á skólabekk í Alþýðuskólanum á Eiðum blómstraði hann sem tónlistarmaður og naut sín sem aldrei fyrr.

„Þar var tónlistin hátt skrifuð og þar naut ég mín vel,“ segir Jónas og brosir við minninguna. „Í Þorlákshöfn býr gott fólk en samfélagið var á þessum tíma dálítið harðneskjulegt enda flestir að vinna harðneskjulega vinnu. Á Eiðum, sem var alþýðuskóli fyrir sveitakrakka, var miklu meiri mýkt. Þar var ég strax kosinn í skemmtinefnd og við vorum með skemmtiprógramm á hverju kvöldi. Það var svona míni-þorrablót alla daga. Mér fannst það alveg svakalega skemmtilegt.“

Við hötuðum alla tónlist sem var vinsæl, fannst hún alveg ömurleg og fórum að gera grín að svoleiðis hljómsveitum okkar á mill.

Upp úr dvölinni á Eiðum fór Jónas aftur suður og byrjaði að læra trommuleik í FÍH, en fann sig ekki fyrir sunnan, fór aftur austur og settist í Menntaskólann á Egilsstöðum. Það reyndist afdrifarík ákvörðun því þar var lagður grunnur að frama hans sem tónlistarmanns, reyndar alveg óvart og í algjöru flippi.

„Í Menntaskólanum á Egilsstöðum kynntist ég vini mínum Unnsteini Guðjónssyni og við byrjuðum á smáflippi sem seinna þróaðist út í hljómsveitina Sólstrandargæjana. Við vorum báðir í rokkhljómsveitum á þessum tíma og rosalegir pönkarar, berir að ofan með hakakrossa og allt heila dæmið,“ segir Jónas og glottir. „Við hötuðum alla tónlist sem var vinsæl, fannst hún alveg ömurleg og fórum að gera grín að svoleiðis hljómsveitum okkar á milli, byrjuðum að maka okkur út í sósulit, mæta í partí og kynna okkur sem sólstrandargæja, alveg eins og hálfvitar. Í fáránlegasta „twisti“ ævi minnar verður það svo svona óskaplega vinsælt, þótt það væri reyndar ekki fyrr en nokkrum árum seinna.“

Orðinn faðir um tvítugt

Trúr sínu ADHD-eðli hætti Jónas í ME, fór suður og reyndi að halda náminu áfram í ýmsum framhaldsskólum, með misjöfnum árangri. Hann lauk loks stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Selfossi en þá höfðu enn ein skilin orðið í lífi hans. Hann hafði kynnst stúlku, sem er eiginkona hans enn í dag, hún fljótlega orðið barnshafandi og þau farið að búa í Hveragerði. Á þessum tíma vann Jónas á næturvöktum í frystihúsinu í Þorlákshöfn og var alveg viss um að þannig yrði það ævina á enda.

Upp úr þurru var ég orðinn það sem ég þoldi ekki. Eftir á að hyggja sé ég að þetta var sjúklega hollt fyrir mig. Lífið var að kenna mér hvað hroki og dómharka er heimskuleg.

„Ég var tvítugur, hún tuttugu og tveggja og við héldum að við værum bara orðin fullorðin og svona yrði líf okkar framvegis. Nú væri allt flipp búið. Allt í einu hringir svo Unnsteinn vinur minn í mig og segir mér að fólk sé enn að syngja lögin sem við höfðum samið sem Sólstrandargæjarnir í partíum fyrir austan og hvort við ættum ekki bara að taka þau upp og gera disk til að selja þeim sem voru með okkur í menntaskólanum. Mér fannst þetta alveg fáránleg hugmynd, ég hafði aldrei leyft neinum að heyra þessi lög einu sinni, fyrir mér var þetta bara grín. Ég lét samt tilleiðast og við fórum í stúdíó, tókum upp disk, gáfum út og kynntum á útvarpsstöðvunum og allt í einu vorum við orðnir geysivinsælir og diskurinn algjört hitt. Upp úr þurru var ég orðinn það sem ég þoldi ekki. Eftir á að hyggja sé ég að þetta var sjúklega hollt fyrir mig. Lífið var að kenna mér hvað hroki og dómharka er heimskuleg.“

Lífið orðið óviðráðanleg steik

Vinsældum Sólstrandargæjanna fylgdi endalaus spilamennska um allt land í eitt og hálft ár en Jónas var aldrei sáttur í þessu hlutverki og smátt og smátt tók gamli kvíðinn yfirhöndina í lífi hans. Sjálfsniðurrifið blossaði upp sem aldrei fyrr og honum fannst þetta allt saman ömurlegt.

„ADHD veldur því að maður er alltaf að gera eitthvað í hvatvísi sem maður veit að er rangt en gerir samt,“ útskýrir Jónas.

„ADHD veldur því að maður er alltaf að gera eitthvað í hvatvísi sem maður veit að er rangt en gerir samt og það veldur svo miklu vantrausti á sjálfum sér,“ útskýrir Jónas. „Svo bætist kvíðinn ofan á og það verður til einhver spírall sem maður hefur enga stjórn á. Staðalímyndin af kvíðasjúklingi er að hann liggi bara í hnipri og fari helst ekki úr húsi en ég var ekki þannig, alltaf rosahress. Ég var hins vegar óskaplega ör og aftengdur sjálfum mér og umhverfi mínu í stanslausri innri togstreitu. Vandamálin hrúguðust upp, við vorum stjórnlaus í fjármálunum og söfnuðum gígantískum skuldum, það var bara allur pakkinn. Mér fannst líf mitt vera orðið óviðráðanleg steik. Að vera frægur fyrir eitthvað sem mér fannst alveg glatað og ekki einu sinni töff, þetta var bara engan veginn að gera sig. Kvíðinn hefur líka þau áhrif að maður hættir að taka ábyrgð á nokkrum hlut og verður eiginlega bara „lásí“ karakter. Á endanum gafst ég upp á þessu, hætti í hljómsveitinni, hætti alfarið í tónlist, seldi næstum öll hljóðfærin mín, réði mig í vinnu við að líma saman húsgögn í lokuðu herbergi frá níu til fimm alla virka daga og fannst það bara mjög gott líf. Ég var alinn upp við það að vinna sem er unnin með höndunum væri eina alvöruvinnan og fannst ég loksins vera að gera eitthvað af viti.“

Eftir að seinna barnið fæddist flutti fjölskyldan í Þorlákshöfn, Jónas vann á daginn og sótti á kvöldin forritunarnámskeið sem olli enn einum straumhvörfunum í lífi hans. Þar var hann kominn á sína réttu hillu og hvattur áfram af kennurunum á námskeiðinu sótti hann um nám í kerfisfræði við HR, komst að og sat á skólabekk í tvö ár.

Ég var alinn upp við það að vinna sem er unnin með höndunum væri eina alvöruvinnan og fannst ég loksins vera að gera eitthvað af viti.

„Þarna var ég allt í einu kominn á nýja braut í einhverju sem ég var flinkur í,“ segir hann og hljómar enn undrandi á því öllum þessum árum síðar. „Ég ákvað að nú væri þessi fokking músík bara horfin úr lífi mínu, nú skyldi ég bara einbeita mér að því að verða góður að forrita, fá mér góða vinnu og verða loksins alvörumaður í samfélaginu. Námið gekk vel og ég fékk góða vinnu en gleðin yfir því entist stutt. Um leið og ég var búinn að ná tökum á þessu þá hætti mér að finnast þetta merkilegt. Þetta gætu nú allir. Ég fór fljótlega í sama gamla kvíða- og vanmáttarfarið og fannst allt ómögulegt.“

Sat uppi með sjálfan sig og hugsanir sínar

Hvatvísinni trú ákváðu Jónas og eiginkona hans að leysa öll þessi vandamál með því að flytja til Danmerkur og hefja algjörlega nýtt líf. Fyrstu vikurnar segist hann hafa verið rosalega jákvæður og fullur bjartsýni og viss um að allir draumar hans myndu rætast. Sú varð þó ekki raunin og þótt hann fengi góða vinnu hjá Microsoft og fjölskyldunni liði vel í litlu húsi við skóg í nágrenni Kaupmannahafnar hélt kvíðinn og sjálfsniðurrifið áfram að brjóta niður jafnóðum það sem hafði áunnist.

Skuldirnar voru orðnar óviðráðanlegar og streitan sem því fylgdi var gríðarleg.

„Eftir að við fluttum út hvarf allt utanaðkomandi áreitið sem fylgdi lífinu á Íslandi, ég gat ekki lengur dreift huganum með því að vera alltaf á kafi í verkefnum og sat uppi með mig og mínar hugsanir,“ útskýrir hann. „Það varð á endanum algjörlega yfirþyrmandi og ég ákvað að nú væri tími til kominn að taka á þessum málum. Skuldirnar voru orðnar óviðráðanlegar og streitan sem því fylgdi var gríðarleg. Ég var alltaf að láta mér detta í hug einhverjar patentlausnir á vandamálunum eins og til dæmis að fara í Smuguna í tvö ár og redda fjármálunum en auðvitað var það ekki raunhæft. Þarna var mér farið að líða svo illa að mig langaði eiginlega ekki að lifa lengur. Ég naut þess engan veginn hvað við áttum mörg falleg móment þarna í skóginum, ég var alltaf upptekinn af öllu sem var að. Svo gerðist bara eitthvað sem ég get ekki kallað annað en andlega vakningu, ég kynntist fólki sem var á kafi í sjálfsvinnu og kveikti á því að það geti kannski hjálpað. Í hvatvísikasti sópa ég öllum forritunarbókunum úr hillunum og panta tvo kassa af sjálfshjálparbókum og bókum um andleg málefni á Amazon. Svo lagðist ég í lestur og lærði um mátt hugleiðslu og bæna, sem ég átti reyndar dálítið erfitt með því ég hafði aldrei tengt við kristnina. Ég ákvað að ég myndi hugsa mér að eldri bróðir minn, sem hafði dáið áður en ég fæddist, væri þarna einhvers staðar í kosmósinu og ég gæti beint bænum mínum til hans og það hef ég gert síðan með góðum árangri. Ég fór að skrifa niður hugsanir mínar í tuttugu mínútur á dag, hugleiða og biðja og smátt og smátt fór það að skila sér. Ég komst út úr kvíðanum og fór að ná tökum á lífi mínu.“

Hættur að vera kallinn á kassanum

Eitt af því sem Jónas bað um í bænum sínum var að fá eitthvert merki frá æðri mætti um hvað hann ætti að gera við líf sitt. Það merki kom í líki Ísraela, Adam að nafni, sem var með honum á dönskunámskeiði og var einnig tónlistarmaður. Eftir að þeir voru farnir að hittast reglulega og spila saman bauð Adam Jónasi lán til þess að hann gæti gert sólóplötu. Eftir mikla umhugsun ákvað hann að þiggja það boð og platan Þar sem malbikið svífur mun ég dansa, varð til. Hún sló í gegn og síðan hefur Jónas verið eitt af stóru nöfnunum á íslensku tónlistarsenunni, einkum í samstarfi við hóp ólíkra tónlistarmanna sem hann hefur kosið að kalla Ritvélar framtíðarinnar. Þar hafa ýmsir af bestu tónlistarmönnum þjóðarinnar haft viðkomu en á nýju plötunni, Milda hjartað, eru Ritvélarnar þó ekki með sem slíkar þótt ýmsir af þeim sem með þeim hafa spilað séu þátttakendur, heldur er hér um að ræða sólóplötu með mun mildari boðskap en Jónas hefur boðað undanfarin ár.

Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi Jónas á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum. Mynd / Hákon Davíð

„Ég hef verið voðalega pólitískur á síðustu plötum,“ viðurkennir hann. „Magnús Þór Sigmundsson, vinur minn, var meira að segja farinn að kalla mig Kallinn á kassanum, alltaf að predika yfir fólki. Á plötunni Milda hjartað er ég miklu persónulegri og mildari, enda held ég að við séum að upplifa nýja hreyfingu í átt að meiri mildi og mannkærleik. Þessi plata er mitt innlegg í þá baráttu. Það mun taka einhver ár að breyta áherslunum í þjóðfélaginu en ég er alveg sannfærður um að við erum komin á brautina sem liggur þangað. Karlmenn eru meira að segja farnir að tala hver við annan um tilfinningar sínar, það er alveg óskaplega mikilvægt skref.“

Jónas viðurkennir að hann glími enn við kvíðann og vanmáttartilfinninguna en með hugleiðslu og bæn sé hann orðinn stjórnandi í eigin lífi og hættur að láta púkann á öxlinni hafa yfirhöndina.

„Ég hef kallað hann litla Satan,“ segir hann og hlær. „Þennan sem situr á öxlinni á manni og hvíslar að manni öllu sem maður hefur gert rangt á lífsleiðinni. Hann er þarna enn þá, fer örugglega aldrei, en ég er búinn að læra að þagga niður í honum. Hann stjórnar ekki lífi mínu lengur.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Um hvað mega skáldsagnahöfundar skrifa?

|
|

Hinn almenni samfélagsmiðlanotandi virðist álíta það sitt hlutverk að segja skáldsagnahöfundum til syndanna og reyna að stýra því hvað þeir skrifa um.

Í bókinni Lára fer til læknis eftir Birgittu Haukdal er hjúkrunarfræðingur kallaður hjúkrunarkona.

Stóra hjúkrunarkonumálið hefur verið eitt aðalumræðuefni fólks á samfélagsmiðlum undanfarna viku og mikið um andköf og upphrópanir. Í stuttu máli snýst upphlaupið um að í barnabók eftir Birgittu Haukdal er hjúkrunarfræðingur kallaður hjúkrunarkona og teikningin sem frásögninni fylgir þykir sýna viðkomandi hjúkrunarkonu í ansi kynferðislegu ljósi. Hjúkrunarfræðingum þykir að sér vegið og starfsstéttinni sýnd óvirðing og æstir í athugasemdum frussa yfir lyklaborðin af hneykslun yfir því að skáldsagnahöfundur skuli leyfa sér slíka ósvinnu árið 2018. Það bara má alls ekki láta höfunda komast upp með slíkt.

Svona umræða er reyndar ekki nýtilkomin. Oft á ári rís fólk upp og andskotast út í þennan eða hinn höfundinn fyrir að stunda rasisma, kvenfyrirlitningu, menningarnám og annan óskunda í bókum sínum. Hinn almenni samfélagsmiðlanotandi virðist álíta það sitt hlutverk að segja skáldsagnahöfundum til syndanna og reyna að stýra því hvað þeir skrifa um. Hugsanalögreglan er stöðugt í viðbragðsstöðu og fáir virðast stoppa við og velta því fyrir sér hvað orðið skáldskapur þýði. Skáldverk eru nefnilega ekki fræðibækur, það er ekki hlutverk þeirra sem skrifa skáldaðar sögur að passa upp á að allar staðreyndir séu réttar. Staðreyndir eru andstæða skáldskapar og það er gríðarlega hættuleg þróun ef fara á að setja höfundum mörk um það hvað þeir mega og mega ekki segja í verkum sínum. Bókmenntasagan er full af dæmum um slæmar afleiðingar þess að yfirvöld eða hugsanalögregla ritskoði skáldverk og ákveði hvað sé leyfilegt og hvað ekki og slík ritskoðun er yfirleitt eitt fyrsta dæmið um fasíska stjórnarhætti. Það er því óneitanlega stórundarlegt að það fólk sem harðast berst á móti fasisma og uppgangi hans í samtímanum skuli vera fremst í flokki í rétttrúnaðarlögreglunni sem vill stýra því hvað má og má ekki segja í skáldskap. Sér virkilega enginn mótsögnina í því?

Í hjúkrunarfræðingstilfellinu er vissulega um að ræða rangt starfsheiti starfsstéttar sem verið hefur í harðri baráttu fyrir að fá störf sín metin að verðleikum og skiljanlegt að þeim sárni. En meirihluti fólks talar nú samt enn um hjúkrunarkonur og barnið í sögunni greinir varla þar á milli. Teikningin er augljóslega út úr öllu korti, á henni líta bæði barnið og hjúkrunarfræðingurinn út fyrir að vera frá sjötta áratug síðustu aldar, en þar er við teiknarann og útgefandann að sakast, ekki höfundinn.

Að sjálfsögðu er baráttan gegn rasisma, kynjahyggju, menningarnámi, hómó- og transfóbíu og svo framvegis göfug og nauðsynleg en hún má ekki snúast um það hvað leyfilegt er að birta í skáldverkum. Rithöfundar eru ekki fræðarar, það er ekki þeirra hlutverk að berjast gegn óréttlæti heimsins og það er ekki okkar hlutverk að hefta listrænt frelsi þeirra, hversu vel sem við meinum með því. Við verðum að geta gert þá kröfu til okkar sem lesanda að við kunnum að skilja á milli skáldaðs veruleika og þess veruleika sem við hrærumst í alla daga. Til hvers ættum við annars að lesa skáldskap?

Þykir vænt um gallana sem enginn sér nema ég

Anna Jia á framtíðina fyrir sér þegar kemur að listilegum kökum og öðrum kræsingum en hún nemur rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún segir námið hafa ýtt sér út í bakstur en draumurinn sé diplómagráða í kökugerðarlist.

„Fyrir mér eru kökur eitthvað sem gleðja bæði augað, hjartað og bragðlaukana. Þær eru eitthvað fallegt og gómsætt sem kætir fólkið í kringum mig, og gerir lífið aðeins sætara. Það að skapa og búa til kökur veitir mér líka hugarró. Fyrir suma er það jóga, langar gönguferðir eða hugleiðsla en í mínu tilfelli er það að verja tímunum saman, án þess að finna fyrir tímanum líða. Að móta lítil raunveruleg blóm úr smjörkremi, para saman hina og þessa liti og búa til alla litlu hlutina sem eiga eftir að smella saman og búa til fallega heild. Ég tekst á við allar litlu áskoranirnar sem geta poppað upp þegar eitthvað fer úrskeiðis og þá reynir á að vera úrræðagóð. Á sama tíma þykir mér alltaf sérstaklega vænt um litlu gallana sem enginn sér nema ég.”

Samhliða námi hefur Anna Jia starfað sem fyrirsæta en hún segir ferilinn hafa hafist fyrir tilviljun þegar hún var stödd á kaffihúsi fjórtán ára. „Þar gekk að mér kona, Marie að nafni, og spurði hvort ég hefði áhuga á fyrirsætustörfum. Eftir það fór ég í mína fyrstu myndatöku og í beinu framhaldi á skrá hjá casting-fyrirtæki fyrir auglýsingar. Stuttu síðar tók ég þátt í ELITE-keppninni og stóð uppi sem sigurvegari. Í kjölfarið fór ég út í aðalkeppnina sem haldin var í Shanghai. Það var mjög skemmtileg reynsla þar sem ég kynnist stelpum alls staðar að úr heiminum.“

„Ég fann samt strax að þetta var ekki heimur sem hentaði mér því það er mikil harka og strangar reglur um ákveðin mál sem stelpur þurfa að passa í. Ég vildi frekar taka að mér einstaka verkefni hér heima og passa upp á andlega og líkamlega heilsu. Það getur nefnilega enginn bannað mér að borða kökur þegar ég vil.“

„Annars finnst mér þessi reynsla hafa kennt mér mikið hvað varðar framkomu og samvinnu með fjölbreytilegu fólki frá allskonar löndum. Hvort sem það er verið að skjóta indverska sápuauglýsingu á sundbol uppi á Langjökli eða í notalegheitum fyrir Bláa lónið.“

Þegar talið berst að jólahátíðinni segist hún halda fast í hefðir þó að tilraunastarfsemin sé heldur aldrei langt undan. „Eitt af því sem er alveg ómissandi um jólin er ananasfrómasinn hennar ömmu Rannveigar. Þetta er sítrónufrómas með ananasbitum ofan á og rjóma. Mjög gamaldags og klassískur. Það ríkir enn í dag jafnmikil samkeppni milli okkar systkinanna um hver fái möndluna. Ég verð líka alltaf að baka sörur fyrir jólin en undanfarin ár hef ég verið í tilraunastarfsemi með þær. Fyrir utan þessar klassísku hef ég prófað að gera kökurnar úr hvítsúkkulaði, sítrónu og kókos sem heppnuðust alveg æðislega vel. Fyrir þessi jól langar mig að prófa að gera lakkrís- og hindberjasörur svo það eru spennandi tímar fram undan.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðs.

Umræðan um þriðja orkupakkann er stormur í vatnsglasi

Höfundur / Eva H. Baldursdóttir 

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni um þriðja orkupakkann. Á samfélagsmiðlum hefur umræðan hreinlega verið út um allt. Efasemdakórinn syngur sinni tærru röddu og sópraninn ómar að í þriðja orkupakkanum felist einhvers konar framsal á auðlindum Íslendinga. Yfirráð liggi í höndum Evrópusambandsins. Skynsemisraddir virðast þó vera að kveða niður kórinn og sefa ótta almennings, sem er vel. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gaf svo út lista yfir helstu spurningar og svör í gær. Hræðsluáróður stjórnmálamanna og falsyfirlýsingar eru enda orðnar þreytt einkenni á íslenskri pólitík og áróður þessi virðist fremur eiga sér upptök í andstöðu við EES-samninginn en að farið sé með rétt mál um innihald pakkans.

Þriðji orkupakkinn varðar ekki eignarrétt yfir orkuauðlindum Íslendinga. Þetta er svipað og að segja að Ísland hafi framselt eignarhald bankakerfisins undir yfirráð og ákvarðanatöku ESB við að taka upp regluverk um evrópskar eftirlitsstofnanir í íslensk lög.  Það er ekki svo. Regluverkið er eitt – eignarhald er annað – og hér ekki samofið. Umræðan um stefnumótun um orkumál Íslendinga til framtíðar er önnur umræða og mætti gjarnan taka t.d. hvernig fara eigi með orkuauðlindir sem ábyrgur eigandi, arðinn og svo framvegis.

Með EES samningum hefur Ísland hins vegar undirgengist ákveðið reglusetningarvald Evrópusambandsins t.d. vegna orkumála og bankamála. Það er ekkert nýtt að reglur EEB gildi um raforkumarkaðinn, heldur hefur það verið um langt skeið. Í gegnum EES samninginn fær Ísland löggjöf á því sviði sem EES samningur tekur til, á sviði fjórfrelsins og er skylt að taka hana upp. Ísland hefur fengið undanþágur frá regluverkinu vegna ýmissa þátta er lúta að orkumálum t.d. við rekstur Landsnets. Ísland fékk undanþágu vegna nýmælis þriðja orkupakkans um fullan aðskilnað flutningsfyrirtækja, sem hér er Landsnet, frá framleiðslu- og sölufyrirtækjum rafmagns.

Í raforkulögum frá árunum 2003 og 2008 voru innleiddir fyrstu tveir orkupakkarnir sem snúa að markaðsvæðingu á framleiðslu og sölu á raforku. Þriðji orkupakkinn er framhald á þeirri vegferð sem leiðir af sér af sér að hér ríkir frjáls samkeppni um rafmagn og neytendur ráða af hverjum þeir kaupa orku. Fyrir árið 2003 gátu neytendur ekki valið um af hverjum þeir keyptu rafmagn. Það er spurning hvort efasemdafólk vilji fara aftur í algjöran ríkisrekstur en það er erfitt að átta sig á málflutningi  hvað þeir vilja nákvæmlega. Er það þeirra pólitíska skoðun að ríkið eigi að sjá um rekstur og þjónustu á grunninnviðum samfélagsins? Einhvers konar kommúnismi. Eða á það að vera alveg frjálst?  Það er ekkert sérstaklega rómantísk tilhugsun að hverfa aftur til daga eins og þegar símaþjónusta var keypt af ríkinu í gegnum Póst og Síma, ríkið stýrði bankaþjónustu þar sem hver flokkur átti sinn flokk og viðskiptavinir fóru í sínu fínasta pússi, með flokksskírteinið upp á ermina í bankann til að taka víxil. Sú skipan er ekki til þess fallin að minnka spillingu eins og sagan hefur sýnt. Fókusinn á að vera að setja mörkuðum reglur til að starfa eftir sem vernda umfram allt almannahagsmuni.

Ísland áfram frjálst

Þriðji orkupakkinn felur þó í sér afmarkað framsal framkvæmdarvalds, en það er vel innan þeirra lausna á sviði EES-samningsins sem við Íslendingar þekkjum þegar innan tveggja stoða kerfisins EES samningsins. Framsalið er vel afmarkað og fyrirsjáanlegt. Ákvarðanavald er fengið hjá Eftirlitsstofnun EFTA og verður ekki hjá Evrópusambandinu. Þá mun aldrei reyna á það nema millilandatengingar verði til staðar þ.e. sæstrengur.

Sá lýðræðishalli sem EES samningurinn felur í sér er umræða sem fer alltof sjaldan fram á Íslandi. Í aðdraganda aðildarviðræðna við Evrópusambandið hér á landi fór hún aldrei með himinskautum, en það er staðreynd að við eigum ekki sæti við borðið þegar löggjöf er ákveðin sem á að binda hendur Íslendinga. Það er hreinlega vond staða. En hún er samt miklu betri en hinn möguleikinn – að vera ekki í EES samstarfinu. Þannig virðist ríkja þegjandi samþykki meðal skynsemisfólks að vekja ekki upp umræðu um þetta. EES samningurinn hefur nefnilega haft gríðarleg jákvæð áhrif fyrir Ísland á svo marga vegu – bæði fyrir viðskiptalífið og neytendur. Það er óumdeilt. Um kosti samstarfsins má vísa til myndbands sem Viðskiptaráð gerði.

Ísland verður áfram frjálst að taka stefnumótandi ákvarðanir um auðlindir landsins þrátt fyrir samþykkt orkupakkans. Ísland hefur ekki staðið sig vel við að verðleggja grænar orkuauðlindir landsins og við megum áfram sóa þeim að vild, þó mikilvægt sé að gera mun betur en sagan sýnir. Að selja rafmagn með afslætti til erlendra stóriðjufyrirtækja, sumra hverja sem að borga ekki almennilega fyrirtækjaskatta hér á landi með skattabrellum er ekki farsælt. Ísland má áfram virkja að vild, innan þess sem löggjafinn ákveður. Okkur hefur alltaf verið frjálst að leggja sæstreng til Evrópu eða hvert sem við viljum. Þessi löggjöf er ekki að hindra það en setur því ákveðnar skorður. Ríki og sveitarfélögum, sem og félögum í þeirra eigu, verður áfram óheimilt að selja orkuauðlindir samkvæmt lögum.  Gott væri að sjá umræðuna þróast yfir í almenna umræðu um stöðu auðlindamála á Íslandi almennt, meðferð þeirra og eignarhald, til framtíðar, sem og nauðsyn þess að vernda auðlindir Íslands í stjórnarskránni. Grýlurnar liggja annars staðar en í þriðja orkupakkanum.

Mynd / Jóhanna Þorkelsdóttir

Veiðigjöldin á herðum VG

|
|

Atvinnuveganefnd Alþingis lagði á þriðjudag fram tillögu um að frítekjumark er snýr að veiðigjöldum verði hækkað. Í dag fá fyrirtæki 20% afslátt af fyrstu 4,5 milljónum króna af álögðu veiðigjaldi og 15% af næstu 4,5 milljónum króna. Atvinnuveganefnd leggur nú til að frítekjumark hækki í 40% af fyrstu 6 milljónum króna álagðs veiðigjalds.

„Með þessu leitast nefndin við að koma sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar útgerðir vítt og breitt um landið,“ lét Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnunefndar og þingmaður VG hafa eftir sér.

Skiptar skoðanir eru um hversu mikil áhrif þetta muni hafa. Litlar og meðalstórar útgerðir standa margar hverjar illa og samþjöppun í greininni hefur verið mikil síðustu ár. Þar eru það oft á tíðum allra stærstu fyrirtækin sem hafa aukið við aflaheimildir sínar. Hér má einnig geta þess að 30 stærstu fyrirtækin greiða um 80% af veiðigjaldinu.

Því er líklegt að þau stærri ráðist í enn frekari uppkaup á minni fyrirtækjum. Má spyrja sig hvort það sé það sem almenningur vill sjá. Um fátt hefur verið meira rifist undanfarin áratug en veiðigjöld. Allir virðast þó enn vera óánægðir. Bæði fyrirtæki í útgerð, almenningur sem og sveitastjórnir sem vilja ekki missa þennan tekjustofn frá sér.

VG tekur slaginn

Lilj Rafney. Mynd / Alþingi

Óhætt er að segja að umræðan um veiðigjöld á þessu ári hafi bitnað meira á VG en Sjálfstæðisflokknum. Þannig hefur Lilja Rafney komið mun oftar í fjölmiðla að ræða veiðigjöldin heldur en Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Reyndar er þetta ekki eina sem hefur snert VG verr en Sjálfstæðisflokkkinn. Þar má telja að reynsluleysi Lilju Rafneyjar spili inn í. Umræðan hefur þó langt í frá verið jafn hatrömm og td. þegar Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og lög nr. 74/2012 um veiðigjöld voru sett. Þá kom gagnrýnin þó harðast frá LÍÚ, forvera SFS, sem þá var stýrt af Friðriki Jóni Arngrímssyni.

Frekari uppkaup á aflaheimildum væntanleg?

Segja má að þau fyrirtæki sem eru með blandaða útgerð uppsjávar- og bolfisksveiða standi sterkast. Fyrir þau var mikil búbót þegar makríll fór að veiðast í auknu mæli árið 2009. Þessi fyrirtæki eru betur í stakk búinn til þess að greiða veiðigjöld en þau minni. Þar er um að ræða Samherja, Síldarvinnsluna, Skinney, Þinganes, Ísfélag Vestmannaeyja, Gjögur, Vinnslustöðina og Loðnuvinnsluna. Þessi fyrirtæki standa gríðarlega vel og eiginfjárhlutfall þessarra fyrirtækja er á bilinu 40-70%, sem gerir þeim auðveldara að standa af sér sterka krónu. Þessi fyrirtæki hafa einnig betra aðgengi að lánsfé til að endurnýja skipastól sinn og vinnslur til að hagræða í rekstri. Slíkar aðgerðir þýða oft á tíðum fækkun starfa. Önnur sterk fyrirtæki sem þó eru að mestu í bolfiski eru Brim hf. og Fisk-Seafood á Sauðárkróki. Þessi tvö fyrirtæki hafa verið að auka við sig bolfisksheimildir á undanförnum árum.

Aðili sem rætt var við á fjármálamarkaði taldi líklegt að stærri fyrirtækin færu í enn frekari uppkaup á aflaheimildum á næstunni til þess að bæta samkeppnisstöðu sína. Margir myndu td. hafa áhuga á að kaupa fyrirtæki eins og Ögurvík sem HB Grandi keypti af Brim hf. nýlega eftir að Guðmundur Kristjánsson keypti sig inn í HB Granda.

Vandasamt að meta milliverðlagningu

Lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld var ætlað að gilda í fimm ár. Því komst Alþingi ekki hjá því að endurskoða veiðigjöld. Fyrir utan breytingu á frítekjumarki má einnig nefna að nú verður veiðigjaldsnefnd lögð niður og verða verkefni hennar færð til embættis ríkisskattstjóra.

Eitt af því sem nefnt er greinargerð frá atvinnuveganefnd Alþingis er svokölluð milliverðlagning (e. transfer pricing). Þar er oft um að ræða flókin samanburð sem kom vel í ljós þegar Seðlabankinn höfðaði mál á hendur Samherja. Má telja líklegt að orðspor Seðlabankans muni skaðast enn frekar þar sem Samherji hyggst höfða skaðabótamál á hendur bankanum. Því  verður að efast um að embætti Ríkisskattstjóra myndi treysta í annað mál af svipuðum toga.

Um er að ræða alþjóðlegt vandamál sem flest lönd glíma við varðandi útflutningsfyrirtæki sín og hafa gert í áratugi. Með frumvarpinu er embætti ríkisskattstjóra heimilað að taka til sérstakrar athugunar ef vísbending er um óeðlilega milliverðlagningu. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur eftirlit með fiskverði og ákvarðar lágmarksverð sem greitt skal til sjómanna.

Stærri útgerðarfyrirtæki reka mörg hver sín eigin sölufyrirtæki erlendis og stjórna því allri virðiskeðjunni frá veiðum og vinnslu til helstu markaðslanda sinna. Slík staða veitir þeim líka mikla yfirburði fram yfir lítil og meðalstór fyrirtæki. Undanfarin ár hafa sjávarútvegsfyrirtæki þó oft á tíðum verið gagnrýnd fyrir að komast ekki nær kaupendum sínum erlendis með aukinni markaðssetningu.

Meðan fyrirtækin hafa verið óspar að fjárfesta í tækninýjungum frá fyrirtækjum eins og Marel, Skaginn3x og Völku svo nokkur séu nefnd hefur minna verið fjárfest í auglýsinga- og markaðsmálum. Líklega horfa fyrirtækin oft á tíðum frekar á að halda háu ebitdu-hlutfalli í stað þess að reyna að auka veltu sína. Þá er framþróun í tækninýjungum yfirleitt fljótari að skila sér í bættri rekstrarafkomu en lengri tíma getur tekið að hækka verð á sjávarafurðum með auglýsinga- og markaðsherferð.

Eru sjávarútvegsfyrirtæki góður fjárfestingakostur?

Markaðurinn, viðskiptahluti Fréttablaðsins, birti á miðvikudag umfjöllun um að sjávarútvegsfyrirtæki ættu erindi á íslenskan hlutabréfamarkað. Einnig væru tækifæri fyrir þau að nýta sér meira skuldabréfafjármögnun á innlendum markaði. Var rætt við Ásmund Gíslason, sérfræðing í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Skiptar skoðanir eru hins vegar um það hversu góður fjárfestingakostur sjávarútvegsfyrirtæki séu fyrir almenna fjárfesta á hlutabréfamarkaði sem eru ekki ráðandi innan fyrirtækjanna. Hér ná nefna nokkra hluti til sögunnar.

Í grein Markaðarins kom fram að upp úr 1990 hafi sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgað mikið í Kauphöllinni. Um áratug seinna fór þeim síðan að fækka. Segja má að þegar framsal á kvóta var leyft með lögum nr. 38/1990 og tóku gildi 1991 hafi verið mikil tækifæri fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að vaxa. Þá voru þau má segja undirverðlögð. Í því samhengi má nefna að þegar Samherji gerði sín frægu kaup á Guðbjörgu á Ísafirði árið 1996 hafi þeir verið að kaupa á 3-4 ebitdu. Líklega var verið að kaupa fyrirtæki eins og Ögurvík og Stálskip á undanförnum árum á 10-12 ebitdu. Það liggur því í augum uppi að í dag eru miklu minni vaxtamöguleikar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Þá er 12% hámarksþak á því sem fyrirtækin mega eiga af aflaheimildum.

Fyrirtæki eins og HB Grandi eiga því lítla möguleika á að stækka hérlendis. Eilífðarvöxtur sem oft er horft til í fjármálum er því lítill. Þó má nefna Samherja sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum 20 árum með uppkaupum á fyrirtækjum erlendis. Eigið fé Samherja nemur í dag 90 milljörðum króna og einnig hefur fyrirtækið verið öflugt í uppkaupum á fyrirtækjum í öðrum rekstri eins og Olís og nú síðast Eimskip.

Tækifæri í hærra þorskverði

Tækifæri kunna þó að skapast hjá fyrirtækjum að auka enn frekar virði á td. þorski sem hefur stað í stað undanfarin áratug en þá var td. svipað verð á norskum laxi sem hefur undanfarið farið langt fram úr þorskinum. Þá mun aukin framþróun í skipakosti og vinnslum vissulega bæta samkeppnisstöðu þeirra á hörðum alþjóðlegum markaði. Þar er helst verið að keppa við Færeyjar, Noreg, Rússland, fisk frá Alaska svo ekki minnst á eldistegundir frá Asíu eins og tilapíu og pangasíus sem keppa við þorskinn, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu .

Púkinn á öxlinni hefur ekki lengur yfirhöndina

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson segist enn glíma við kvíða og vanmáttartilfinningu en með hugleiðslu og bæn sé hann orðinn stjórnandi í eigin lífi og hættur að láta púkann á öxlinni hafa yfirhöndina.

Jónas Sigurðsson er viss um að tími mildi og manngæsku sé að renna upp en hann hefur þó ekki alltaf verið á þeirri línu. Hann glímdi áratugum saman við afleiðingar ADHD, Tourette-heilkennis og vanmetakenndar og hætti á tímabili allri tónlistarsköpun. Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi hann á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum.

Jónas fer yfir sögu sína í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál

Matgæðingurinn Guðrún Sóley Gestsdóttir sýnir og sannar hversu gómætur vegan matur getur verið með nýju uppskriftarbókinni sinni.

Sælkerinn og fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir var að gefa út matreiðslubók sem hefur að geyma dásamlegan vegan-uppskriftir. Bókin heitir Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar: vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt. Guðrún Sóley segir bókina vera fyrir alla þá sem elska góðan mat.

Spurð út í hvernig það kom til að hún hellti sér út í bókaskrif segir Guðrún Sóley: „Ég á minnst í þeirri hugmynd – þær Dögg og Anna Lea hjá Sölku útgáfuhúsi tóku eftir að ég deildi vegan uppskriftum út um allar trissur, grillaði veganborgara út um allan bæ og bauð linnulaust í vegan matarboð. Þær stungu að mér þeirri tillögu að ég tæki allt brasið saman í bók og ég stökk á það tækifæri því mér finnst mikilvægt að sýna fólki hvað vegan matreiðsla er auðveld, gómsæt og skemmtileg.“

Ég er sökker fyrir frönskum í öllum myndum og ég gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál.

Þegar Guðrún Sóley er beðin um að nefna uppáhaldsuppskriftina sína úr bókinni á hún erfitt með að svara. „Úff, það er erfitt að segja! Ég er sökker fyrir frönskum í öllum myndum og ég gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál. En annars á réttur sem ég kalla GSG-special heimtingu á þessum titli. Það eru hnetusmjörs-sesam-núðlur með fersku grænmeti og lime. Bragðlaukarnir tjúllast yfir þessum rétti og hann hæfir við öll tilefni,“ segir Guðrún Sóley. Hún lýsir GSG-special sem litríkum og næringarríkum rétti sem er auðvelt að útbúa. „Rétturinn er góður kaldur og heitur. Kostir hans eru eiginlega óteljandi og ég hef enn ekki hitt manneskju sem þykir hann vondur.“

Missir sig í pizza-gleði

Guðrún Sóley er mikið fyrir pítsur.

Aðspurð hvaða matur henni sjálfri þykir ómissandi segir Guðrún Sóley: „Ég er svo einföld sál að ég segi pizzur. Einhverjir gætu haldið að það væri lítið fútt í vegan pizzum en það er á misskilningi byggt – þær eru nákvæmlega jafn djúsí og skemmtilegar. Nú er hægt að fá skrilljón tegundir af vegan ostum og rjómaostum úti í búð, auk þess sem hægt er að útbúa þá heima með lítilli fyrirhöfn. Svo er bara að missa sig í gleðinni; blanda til dæmis chili, ferskum fíkjum, steiktum sveppum, fennel eða hverju því sem okkur finnst best. Ég vil líka meina að góð pizza þurfi alltaf svokallað „krönsj-element“ – eitthvað stökkt og gott á toppinn, til dæmis saxaðar salthnetur eða mulið nachos. Ég fæ vatn í munninn!“

Ég vil líka meina að góð pizza þurfi alltaf svokallað „krönsj-element“.

Ekki eintómt brokkólí

Það er augljóst að í bókinni er að finna afar fjölbreyttar uppskriftir, allt frá djúpsteiktum avókadófrönskum og hummus yfir í gómsæta súkkulaðiköku og pavlovur. „Þær eru nauðsynlegur hluti af mataræði hverrar manneskju og bjóða upp á endalausa möguleika.“

Guðrún Sóley segir uppskriftirnar í bókinni vera fyrir alla sælkera. „Ég lagði þunga áherslu á að hver einasti réttur væri bragðgóður, djúsí og mettandi. Vegan matur er alls ekkert megrunarfæði eða eintómt hrátt brokkolí. Hún er líka fyrir þá sem vilja auka hlutfall grænmetis í mataræðinu sínu og læra að fara með hráefni sem okkur er kannski ekki tamt að nota.“

Krabbameinið kom ekki á óvart

Hrefna Eyþórsdóttir er 34 ára tveggja barna móðir er greindist með brjóstakrabbamein í fyrra. Nú hafa bæði brjóstin verið fjarlægð, hún hefur lokið lyfja- og geislameðferð og er bjartsýn á að vera laus við meinið.

Hrefna er alveg hissa á beiðni um viðtal. Henni finnst hún ekki vera viðtalsefni, hún hafi bara fengið sjúkdóm og tekist á við hann eins og svo margir aðrir. Eftir smávegis eftirgangsmuni lætur hún samt undan og samþykkir að segja Vikunni sögu sína. Fyrsta spurningin er hvort það hafi ekki verið mikið áfall að greinast með krabbamein svona ung.

„Nei, eiginlega ekki,“ segir hún. „Ég fékk að vita það árið 2015 að ég væri með BRCA-genið en þá var ég ólétt þannig að ég gat ekki byrjað í eftirliti strax. Mér var sagt að hafa samband þremur mánuðum eftir að ég hætti með dóttur mína á brjósti, sem ég gerði. Sama dag og ég hringdi til að tilkynna að ég væri tilbúin að byrja í eftirliti fann ég hnút í brjóstinu. Ég hafði svo sem reiknað með því að ég ætti eftir að fá krabbamein alveg frá því að ég fékk upplýsingarnar um genið, kannski ekki svona snemma reyndar en einhvern veginn kom þetta mér samt ekkert á óvart.“

Ýtarlegra viðtal er að finna við Hrefnu í kökublaði Vikunnar.

Mánuði eftir að Hrefna fann hnútinn í brjóstinu lá greiningin fyrir: þriðja stigs brjóstakrabbamein sem komið var í eitla í holhendinni. Hún segist samt hafa hugsað sem svo að þetta yrði nú lítið mál fyrst ekki voru komin meinvörp annars staðar í líkamanum. Þetta væri bara verkefni sem hún þyrfti að tækla. Hrefna býr á Fáskrúðsfirði og aðgerðir og meðferðir kostuðu auðvitað endalausar ferðir milli landshluta, en hún segist hafa reynt að hafa fjarveruna sem allra stysta í hvert sinn.

„Ég þurfti reyndar að byrja á því að fara í brennsluaðgerð í gegnum hjartaþræðingu á milli jóla og nýárs í fyrra, þar sem ég hafði verið með hjartsláttaróreglu,“ útskýrir hún. „Í byrjun janúar fór ég svo til Reykjavíkur og fór í aðgerð þar sem bæði brjóstin voru fjarlægð, auk eitlanna í holhöndinni. Þá var ég í Reykjavík í tólf daga og það var lengsti tíminn sem ég var að heiman í öllu þessu ferli. Eftir það fór ég suður einu sinni í viku í brjóstauppbyggingu og síðan í lyfjameðferð en þá flaug ég bara um morguninn og svo heim aftur með kaffivélinni. Mér fannst það miklu betra heldur en að þurfa að vera í burtu frá krökkunum í langan tíma. Þegar ég var í geislameðferðinni þurfti ég reyndar að vera fyrir sunnan alla vikuna, en fór alltaf heim um helgar.“

„Í byrjun janúar fór ég svo til Reykjavíkur og fór í aðgerð þar sem bæði brjóstin voru fjarlægð, auk eitlanna í holhöndinni.“

Hrefna er fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði og foreldrar hennar búa þar svo hún segist hafa haft mikinn stuðning í gegnum meðferðarferlið. Reyndar hafi allir í þessu 700 manna samfélagi verið boðnir og búnir að hjálpa henni, svona bæir séu eins og ein stór fjölskylda. Ýtarlegra viðtal er að finna við Hrefnu í kökublaði Vikunnar.

Myndir / Úr einkasafni

Kanntu að sjóða egg?

Margir hafa sterkar skoðanir á því hvernig þeir vilja hafa eggin sín soðin en vita ekki alveg hvaða suðutími er bestur.

Flestum þykir ekkert tiltökumál að sjóða eitt lítið egg og í raun er það ekkert mál, bara vatn í pott og sjóða í nokkrar mínútur. Margir hafa sterkar skoðanir á því hvernig þeir vilja hafa eggin sín soðin en vita ekki alveg hvaða suðutími er bestur. Við hér á Gestgjafanum ákváðum því að sjóða nokkur egg og skoða eldun þeirra á nokkurra mínútna millibili og mynda útkomuna svo þið lesendur góðir getið notið góðs af og soðið ykkur fullkomið egg.

Eggjasuða

Setjið vatn í lítinn pott og saltið aðeins vatnið, það herðir skurnina og kemur í veg fyrir að eggin springi. Látið suðuna koma upp og setjið eggin varlega út í með skeið og lækkið aðeins hitann. Stillið strax klukku til að fylgjast með tímanum.

Þegar eggið hefur soðið í þann tíma sem hentar ykkar smekk takið það þá upp úr og setjið í skál með ísköldu vatni þannig að suðan á egginu hætti. Ef egg springur á meðan á suðu stendur má setja edik út í vatnið það hjálpar til við að binda saman skurnina þannig að sem minnstur skaði verði. Mælingarnar hér að neðan eru miðaðar við meðalstærða á eggjum og því þarf ýmist að bæta við tímann eða minnka allt eftir stærð eggjanna, 30 sekúndur til 1 mínúta ætti að duga.

 

Vinsælasti ballett sögunar á svið

Balletthópurinn: St. Petersburg Festival Ballet mun flytja Hnotubrjótinn í Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hnotubrjóturinn er einn vinsælasti ballett sögunnar. Hrífandi tónlist Tchaikovskys skapar töfrandi jólastemningu þar sem allt getur gerst. Ballettinn er ómissandi hluti af jóladagskrá margra tónleikahúsa erlendis og börn jafnt sem fullorðnir hlakka árlega til þess að njóta uppfærslunnar.

Á aðfangadagskvöld fær María fallegan hnotubrjót að gjöf frá hinum dularfulla Drosselmeyer. Atburðarásin tekur óvænta stefnu þegar leikföngin undir jólatrénu lifna við og inn koma mýs í einkennisbúningum. Hnotubrjóturinn breytist í prins og leiðir Maríu inn í ævintýraland þar sem ýmislegt óvænt gerist.

Rússneski balletthópurinn: St. Petersburg Festival Ballet mun í þriðja sinn færa þennan fallega ballett á svið í Eldborgarsal Hörpu en Sinfóníuhljómsveit Íslands spilar með danshópnum dagana 22. til 24. nóvember næstkomandi.

Smákökur sem bráðna í munni

Jólin verða seint fullkomnuð ef ekki eru smákökur í húsinu, bökunarlyktin ein og sér er til þess fallin að koma flestum í jólaskap í myrkasta skammdeginu. Meðfylgjandi er uppskrift að gómsætum Alfajores-smákökum sem bráðna í munni.

Sumir baka ótalmargar sortir fyrir jólin og keppast við að fylla allar áldollur af margvíslegu bökuðu góðgæti á meðan aðrir eiga eina til tvær uppáhaldsuppskriftir sem þykja ómissandi. Hvort sem kökurnar eru bornar fram með stöku mjólkurglasi fyrir börnin eða á fallegum bökkum í kaffiboðinu er eitt víst, jólin væru fátæklegri án þessara ljúfu bita.

Alfajores
u.þ.b. 12 smákökur

Þessar smákökur eru vinsælar í Mið- og Suður-Ameríku þar sem þær eru oft seldar á kaffihúsum ásamt bolla af rótsterku kaffi. Aðaluppistaðan í smákökunum er maísmjöl og smjör sem fá þær til að bráðna í munninum. Í okkar útfærslu dýfum við þeim að hluta til ofan í súkkulaði og sáldrum rifnu kókosmjöli yfir. Öðruvísi smákökur fyrir ævintýragjarna sælkera.

200 g smjör, saltað
80 g flórsykur
½ tsk. vanilludropar
1 tsk. rifinn sítrónubörkur
150 g maísmjöl
150 g hveiti
1½ dl Dulce de leche (hægt að kaupa tilbúið, t.d. frá Stonewall)
100 g dökkt súkkulaði
3 msk. kókosmjöl

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til blandan verður létt og kremkennd, bætið vanilludropum og sítrónuberki saman við. Sigtið saman maísmjöl og hveiti. Hrærið það saman við smjörblönduna á lágri stillingu. Hvolfið deiginu úr skálinni á hveitistráðan flöt og hnoðið létt til. Fletjið út í disk og vefjið plastfilmu utan um. Geymið í kæli í hálftíma.

Hitið ofninn í 170°C og leggið bökunarpappír ofan á ofnplötu. Takið deigið úr ísskápnum og látið standa í 5 mínútur til að mýkja deigið aðeins. Fletjið út þar til það verður u.þ.b. 4 mm að þykkt. Notið kökuskera til að skera út form í deigið, ákjósanlegast er að nota form sem er 5 cm að þvermáli. Raðið smákökunum á ofnplötuna og setjið inn í kæli í 10-15 mínútur.

Bakið í 10-12 mínútur eða þar til þær fara að gyllast við endana. Látið kólna á grind og smyrjið með dulce de leche. Setjið u.þ.b. 1 tsk. af karamellunni ofan á botninn á helming kakanna. Leggið síðan ósmurða smáköku ofan á og snúið botnunum í sitthvora áttina til að dreifa jafnt út karamellunni. Endurtakið við restina af smákökunum og raðið á grind.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og takið af hitanum. Dýfið smákökunum ofan í til þriðjungs eða hálfs og leggið síðan aftur á grindina. Sáldrið kókosmjöli yfir súkkulaðið áður en það storknar.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmyndari / Hákon Davíð Björnsson

„Ef þú ert manneskja sem hefur áhuga á því að vaxa og líða betur, ert þú markhópurinn okkar“

Vinkonurnar Eva María Mattadóttir og Sylvía Briem Friðjónsdóttir stofnuðu hljóðvarpið Normið þar sem þær leitast við að svara spurningum eins og af hverju mannfólkið er eins og það er. Hvers vegna hegðum við okkur á ákveðinn máta og hvernig getum við öll rifið okkur upp á hærra plan?

Stöllurnar kynntust fyrst árið 2014 þegar Eva hóf þjálfaranám hjá Dale Carnegie, þar sem Sylvía var þjálfari. Þær segja að um leið og þær hittust fyrst hafi þær fundið hversu óhugnanlega líkar þær væru á marga vegu, en það var ekki fyrr en sameiginleg vinkona þeirra gekk í gegnum erfiða tíma að þær fóru að kynnast betur. „Við hjálpuðum henni báðar og hvöttum áfram, þó hvor í sínu horninu,“ rifjar Eva upp. „Við sáum frábæra breytingu á henni og fundum að vinnan okkar bar árangur. Þá ákvað ég að senda Sylvíu skilaboð sem voru orðrétt: „Hei, ættum við ekki að fara að hittast og kynnast betur?“ Eftir það byrjaði boltinn að rúlla og við fórum að hittast oftar og oftar. Uppáhaldsstaðurinn okkar varð Te & kaffi í Kringlunni og þar höfum við varið ófáum klukkutímum í spjall um tilveruna. Það er ómetanlegt að eiga vinkonusamband þar sem einlægni, plebbahúmor og skilningur er í fyrirrúmi. Og auðvitað hlátursköst á fimm mínútna fresti!“

Mynd / Unnur Magna

Stöðugt að leita leiða til að efla sjálfa sig

Eva og Sylvía eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á mannlegri hegðun og sjálfsvinnu. Sylvía hefur, að eigin sögn, allt frá barnæsku pælt mikið í fólki og því hvernig hægt sé að verða besta útgáfan af sjálfri sér. „Í því felst stöðug vinna í að leita leiða til að efla sjálfa mig og taka toppstykkið í hærri hæðir. Það mætti segja að ég sé með þráhyggju fyrir mannlegri hegðun og fólki,“ segir hún, og Eva tekur undir. „Áhugi minn liggur helst í því að efla mig. Í sannleika sagt held ég að sá áhugi hafi bjargað lífi mínu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég hef farið í gegnum alls konar hóla og hæðir eins og allir aðrir og lært mest af stærstu mistökunum.“

Ég reyni að hugsa með hjartanu, því heilinn í mér er stundum eins og þeytivinda þegar ég leyfi honum að ráða ferðinni.“

Vinkonurnar hafa fjölbreyttar ferilskrár að baki og er margt til lista lagt. Eva segir börnin sín tvö og fimm ára edrúmennsku vera á toppnum yfir sín helstu afrek. „Ég er óvirkur alkóhólisti og það er eitthvað sem ég er virkilega stolt af. Tónlist er líka stór partur af mér og ég get alveg gleymt mér í textagerð og melódíum. Svalasta áhugamálið mitt er samt snjóbretti. Mér finnst ég mjög svöl að kunna á snjóbretti og elska að renna mér með góða tóna í eyrunum, það er fyrirtaks hugleiðsla. Þegar ég var 19 ára flutti ég til Kaliforníu þar sem ég er fædd og lagði stund á leiklist, ég gjörsamlega elska að lifa mig inn í hlutina og fékk aldeilis útrás í því námi. Ég starfa núna sem Dale Carnegie-þjálfari og þjálfa þar ungt fólk í átt að betra sjálfstrausti, svo tek ég sálfræðinám jafnt og þétt með. Ég var reyndar að klára fæðingarorlof í sumar en ég átti strákinn minn í janúar. Nú tekur Normið við og önnur spennandi ævintýri,“ segir hún.

Þegar Sylvía er beðin um að lýsa sjálfri sér nefnir hún fyrst að hún sé forfallinn Beyonce-aðdáandi, ADHD-mamma, með áráttu fyrir fólki og mannlegri hegðun. „Ég er með þessi týpísku áhugamál; það allra fyrsta er að njóta og vera með fjölskyldunni, ferðast, elda góðan mat, sjá fólk blómstra í kringum mig og fá að vera partur af því, svo eitthvað sé nefnt. Ég starfa sem Dale Carnegie-þjálfari og vinn hjá Ölgerðinni. Ég hef lokið námi í Neuro Linguistic Programming, heilsumarkþjálfanámi frá New York og ljósmyndun og er núna í sálfræðinámi. Svo á ég von á öðrum strák núna í febrúar þannig að það mætti segja að það sé nóg að gera.“

Þráhyggja fyrir mannlegri hegðun

Fyrir skömmu bárust þær fréttir að vinkonurnar hygðust gefa út hlaðvarp, sem fengið hefur nafnið Normið. „Við fundum að þessi samtöl okkar um lífið, sjálfstraust, kvíða, samskipti og allt þar á milli höfðu mikil áhrif og hjálpuðu okkur verulega. Við lærum margt hvor af annarri því við erum einnig mjög ólíkar á margan hátt. Við áttuðum okkur á því að þessi samtöl og fróðleiksmolar gætu hjálpað öðrum til að líða betur og þannig spratt hugmyndin fram um Normið síðasta sumar,“ segja þær.

Eins og nafnið gefur til kynna er áherslan lögð á að ræða þetta svokallaða norm. „Hvað er normið? Hvað er samfélagslega ásættanlegt? Erum við sáttar við það? Hvernig getur okkur liðið betur? Hvernig komumst við á staðinn sem okkur langar að komast á í lífinu? Markmið okkar er að koma til skila öllum þeim fróðleik og „life-hacks“ sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina svo það geti mögulega gagnast öðrum og lyft fólki upp á hærra plan. Við höfum mikla reynslu af því að vinna með fólki og endalausri sjálfsvinnu. Til dæmis höfum við lært Neuro Linguistic Programming, leiklist, markþjálfun og heilsumarkþjálfun. Við erum báðar í sálfræðinámi, báðar þjálfarar hjá Dale Carnegie og með þessa þráhyggju fyrir mannlegri hegðun og því hvernig hægt er að finna alvörulausnir á vandamálum og vanlíðan. Allt þetta myndar skemmtilega og kraftmikla reynslusúpu sem okkur langar til að aðrir drekki í sig. Við viljum tala um hluti sem eru erfiðir og finna lausnir en líka slá sumu upp í grín því við mannfólkið getum verið skemmtilega dramatískt inn á milli, og þar erum við tvær alls ekki undanskildar.“

Við höfum mikla reynslu af því að vinna með fólki og endalausri sjálfsvinnu.

Mynd / Unnur Magna

Yfirþyrmandi framboð af snilld í hlaðvarpsheiminum

Fyrsti þátturinn fór í loftið 8. nóvember síðastliðinn og hefur hlotið frábærar viðtökur. Að sögn Sylvíu allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Við eigum það öll sameiginlegt að vera mannleg en stundum eigum við það flest til að gleyma því og þrjóskast við að reyna að vera óaðfinnanleg og fullkomin. Normið snýst um hluti eins og að þora að vera við sjálf, hræðslu við að gera mistök, sjálfstraust, kvíða, álit annarra og allt þar á milli. Ef þú ert manneskja sem hefur áhuga á því að vaxa og líða betur, ert þú markhópurinn okkar.“

Þær munu fá til sín áhugaverða gesti og hvetja fólk til að hafa samband við sig sem langar að láta í sér heyra. „Gestirnir okkar verða fyrst og fremst fólk sem nær árangri, skarar fram úr og kemst yfir hindranir með einstöku hugarfari,“ segir Eva. „Tilgangurinn með því að fá gesti er í raun að útvarpa visku fólks svo við getum öll lært af því. Mögulega geta hlustendur nýtt sér viskuna og yfirfært á sitt líf. Ástæðan fyrir því að við tvær höfum náð langt hvað sjálfstraust og hugarfar varðar er sú að við fylgjumst með fólki sem treystir á sjálft sig og er óstöðvandi. Við tileinkum okkur eiginleika þessa fólks og tileinkum okkur það sem virkar. Það er enginn að finna upp hjólið hérna, maður þarf bara að finna sér sterkar fyrirmyndir.“

Aðspurðar segjast þær að vissu leyti halda að hlaðvörp séu að taka við af bókum og lestri. „Okkur finnst hlaðvörp frábær viðbót við fróðleiksflóruna sem til er, en bækur eru ódauðlegar. En það er heill hellingur til af hlaðvörpum! Íslensk og erlend. Það er endalaust af upplýsingum til hvort sem þær er að finna í bókum, á Netinu, í hlaðvörpum eða annars staðar  – og það skemmtilega er að allir geta fundið hvað hentar þeim best. Sjálfar hlustum við mikið á hljóðvörp, af íslenskum mætti helst nefna Snorra Björns og Þarf alltaf að vera grín? Eva hlustar mikið á the GaryVee Audio Experience og How I Built This with Guy Raz. Svo elskum við báðar Opruh Winfrey og hlustum á SuperSoul Conversations. Það er óteljandi margt fólk í heiminum sem hægt er að læra af og stundum er yfirþyrmandi hvað það er mikið framboð af snilld í hlaðvarpsheiminum.“

Viðtalið birtist fyrst í Vikunni.

Lét „fótósjoppa“ látinn unnustann inn á myndirnar

Hin bandaríska Debbie Gerlach vildi minnast látins unnusta síns með því að fara í myndatöku skömmu fyrir daginn sem átti að verða brúðkaupsdagurinn þeirra. Hún lét svo „fótósjoppa“ unnustann inn á myndirnar.

Þann 11. nóvember ætluðu þau Debbie Gerlach og Randy Zimmerman að ganga í hjónaband. En í febrúar á þessu ári breyttist tilvera Debbie þegar Randy lést í mótorhjólaslysi.

En þrátt fyrir fráfall unnusta hennar ákvað Debbie að fara í myndatöku í brúðarkjólnum rétt fyrir daginn sem átti að verða stóri dagurinn þeirra. Debbie fékk ljósmyndarann Kristie Fonseca með sér í lið sem myndaði hana líkt og að um brúðkaupsmyndatöku væri að ræða. Svo tók hún gamlar myndir af Randy og „fótósjoppaði“ hann inn á myndirnar.

Fonseca sagði í viðtali við Yahoo Lifestyle að Debbie hefði staðið sig vel fyrir framan myndavélina og hafi ekki átt í neinum vandræðum með að setja sig í stellingar sem auðvelt var að vinna með.

Myndirnar hafa vakið mikla athygli síðan Fonseca birti þær á vef sínum. Þá birti Debbie þær einnig á Facebook ásamt hjartnæmri kveðju. „Dagurinn í dag átti að verða dagurinn sem mig hefur dreymt um síðan ég var lítil stelpa. En í dag vaknaði ég ein, eins og ég geri á hverju degi,“ skrifaði hún meðal annars.

Vanstillt umvöndun sendiherra ekki úr heiðskíru lofti

Sendiherra Póllands á Íslandi sendi á dögunum ritstjórn Stundarinnar harðorða athugasemd og kröfu um afsökunarbeiðni vegna fréttar sem birtist á vef miðilsins. Fréttin, sem byggði á umfjöllun stærstu fjölmiðla heims, fjallaði um fjöldagöngu í Póllandi þar sem leiðtogar landsins gengu saman með hópum sem hafa kennt sig við fasisma. Athugasemd sendiherrans rataði einnig á skrifstofur forseta Íslands og forsætisráðherra.

Það að sendiherra erlends ríkis skuli kvarta við æðstu ráðamenn landsins vegna þess sem birtist í frjálsum fjölmiðlum er fordæmalaust. Síst af öllu sendiherra ríkis sem kennir sig við lýðræði og er aðili að Evrópusambandinu, enda sú hugmynd að íslenskir ráðamenn skipti sér af efnistökum fjölmiðla fjarstæðukennd. En fyrir þá sem fylgst hafa með þróun mála í Póllandi þarf þessi umvöndun sendiherrans ekki að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Undir stjórn Laga- og réttlætisflokksins hefur markvisst verið grafið undan lýðræðislegum stofnunum í landinu, einkum og sér í lagi dómstólum og fjölmiðlum. Á sama tíma hefur daður við hvers konar nýfasísk öfl færst í aukana. Ekki er langt síðan Pólland var skólabókardæmi um vel heppnaða aðlögun fyrrum austantjaldsríkja að vestrænum lýðræðisstofnunum en framferði pólskra ráðamanna á undanförnum árum hefur reynt mjög  á kollega þeirra vestar í álfunni.

Popúlískir þjóðernissinnar ná völdum

Lög og réttlæti (PiS) hefur ráðið lögum og lofum í pólskum stjórnmálum frá 2015 þegar flokkurinn vann hreinan meirihluta á þingi. Forsetinn, Andrzej Duda, kemur einnig úr röðum flokksins. Þessi þjóðernissinnaði og popúlíski flokkur sækir fylgi sitt mikið í strjálbýlli og eystri byggðir landsins og leggur mikla rækt við kristileg gildi og kaþólsku kirkjuna. Það hefur meðal annars endurspeglast í mjög íhaldssömum frumvörpum um bann og takmarkanir við fóstureyðingum sem í tvígang hefur orðið tilefni til fjöldamótmæla. Líkt og svo víðar í Evrópu og heiminum eru pólsk stjórnmál að verða sífellt pólaríseraðri þar sem gjáin á milli frjálslyndra og íhaldssamra breikkar með tilheyrandi árekstrum.

Hreinsanir í dómskerfinu

Laga- og réttlætisflokkurinn hefur verið sakaður um að standa að baki pólitískum hreinsunum í dómskerfinu og afmá þannig skilin á milli dóms- og framkvæmdavalds, undirstöðu réttarríkisins. Um 13 lagafrumvörp sem flokkurinn hefur lagt fram eru sögð vinna að því markmiði en með þeim eru pólitísk afskipti af dómskerfinu, einkum hæstarétti og stjórnlagadómstólnum, stóraukin. Fullyrðingum pólskra ráðamanna um að tilgangurinn sé þvert á móti að draga úr spillingu og auka sjálfstæði dómstólanna hefur verið fálega tekið. Fjöldi opinberra starfsmanna og hershöfðingja í hernum hafa sömuleiðis verið rekin. Þá tóku stjórnarflokkarnir yfir ríkisfjölmiðlana með lagasetningu árið 2016 og þrengt hefur verið að rekstri hinna einkareknu.

Ítrekaðir árekstrar við ESB

Pólland hefur allt frá inngöngu 2004 fengið gríðarlega fjármuni frá ESB til innviðauppbyggingar sem hefur reynst landinu afar farsæl. Þrátt fyrir það keyrir PiS á andófi gegn sambandinu og undanfarið hefur ítrekað komið til árekstra á milli Varsjár og Brussel. Þannig börðust Pólverjar mjög gegn því að Donald Tusk yrði endurkjörinn forseti ráðherraráðs ESB, þrátt fyrir að hann sé pólskur. Í fyrra virkjaði framkvæmdastjórn ESB í fyrsta skipti 7. greinina svokölluðu, en hún felur í sér refsiaaðgerðir gegn ríkjum sem brjóta gegn grunngildum sambandsins, í þessu tilviki alvarleg aðför gegn sjálfstæði dómstóla. Það gæti leitt til þess að Pólland verði svipt atkvæðarétti sínum innan stofnana sambandsins en til þess þarf samþykki allra aðildarríkjanna. Ólíklegt er að það gangi í gegn þar sem Ungverjaland, þar sem einnig stjórna menn með andlýðræðislegar hneigðir, hefur heitið Pólverjum stuðningi.

Daðrað við nýfasista

PiS hefur verið sakað um daður við nýfasistahreyfingar eða í það minnsta horft viljandi fram hjá uppgangi þjóðernissinnaðra hreyfinga sem boða kynþáttahatur. Slíkir hópar voru áberandi í fjöldagöngunni sem var tilefni umfjöllunar Stundarinnar. Borgaryfirvöld í Varsjá höfðu lagt blátt bann við göngunni í ljósi reynslunnar í fyrra þar sem hvítir þjóðernissinnar voru áberandi og var lýst sem stærstu samkomu þjóðernissinna og öfgahægrimanna í heiminum á okkar tímum. Dómstólar hliðhollir stjórnvöldum úrskurðuðu bannið ólögmætt og niðurstaðan var að 200 þúsund manns fylktu liði og gengu um götur Varsjár. Vissulega voru almennir borgarar þar á meðal en það voru öfgahópar og valdamenn – og samkrull þeirra – sem stálu athyglinni.

„Ekkert skraut, bara kraftur“

||
||

Nú, þegar farið er að dimma og kólna, er ekki úr vegi að hægja á, kveikja á kertum og reykelsum, hita engiferte og hlusta á angurværa tónlist, að mati Báru Huldar Beck, blaðakonu á Kjarnanum. Hér mælir Bára Huld með þremur plötum sem hún segir fullkomna helgina.

Bára mælir með Rainbows á föstudegi.

„Á föstudagskvöldi er fullkomið að skella In Rainbows frá árinu 2007 með Radiohead á fóninn eftir að börnin eru sofnuð, draga fram góða bók og hlusta á draumkennda rödd Thom Yorke. Áreynslulausi tónninn kemur mér alltaf á annan stað í góðum skilningi. Það er misskilningur að lög af þeirri plötu – eins og Nude – séu þunglyndisleg. Þau eru þvert á móti heillandi og skilja eitthvað órætt og ljúft eftir sig í hjartanu.

Til þess að halda sömu línu yfir helgina en poppa samt sem áður laugardagskvöldið upp er hægt að hlusta á PJ Harvey. Hún kemur mér alltaf í fíling þannig að mig langar að drekka heimabruggað rauðvín og dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi fara beint í gamla „stöffið“ og skella plötunni Dry frá árinu 1992 á fóninn. Nafnið á plötunni lýsir henni vel – það er ekkert skraut, bara kraftur!

CocoRosie, fullkomið á sunnudegi að mati Báru.

Á sunnudegi er gott að slaka aftur á og grípa til drottninga angurværðarinnar … systranna í CocoRosie. Ég varð ástfangin þegar ég heyrði Noah’s Ark árið 2005 þegar ég leigði með þremur vinum mínum í lítilli kommúnu á Laugaveginum. Ef eitthvað er töfrandi í þessum heimi þá eru það raddir þeirra systra. Fullkomnara sunnudagskvöld verður það ekki!“

 

 

 

Slímugur orðasnákur

Leikritið Tvískinnungur er sýnt um þessar mundir á Litla sviði Borgarleikhússins. Verkið er skrifað af Jóni Magnúsi Arnarssyni og lýsir persónulegri reynslu hans af heimi fíkniefna og eitraðra kynna.

Í upphafi sýningar hittast ungmenni í búningapartíi og fella hugi saman. Margir þekkja tilfinninguna að heillast af annarri manneskju og finna gagnkvæma hrifningu, maður verður ósigrandi. Það er því táknrænt að bæði klæðist ofurhetjubúningum en Járnmaðurinn og Svarta ekkjan eru erkifjendur og elskendur í senn. Sú tenging setur tóninn því verkið hverfist í kringum eitruð kynni elskendanna en bæði starfa sem sviðsmenn í leikhúsinu milli þess sem þau stíga sjálf á svið og segja sögu sína. Persónurnar leika með öðrum orðum sjálfa sig.

Rétt eins og titillinn gefur til kynna er textinn í mótsögn við sjálfan sig því tvær hliðar má ávallt finna á sama peningnum. Tvískinnungurinn á þó ekki aðeins við um handritið sem er bæði háfleygt og hversdagslegt heldur líka um ólíkar upplifanir parsins af sömu atburðarrás.

Handritið er afrek út af fyrir sig en verkið er að hluta til í bundu máli sem er sjaldséð form í íslensku leikhúsi. Jón Magnús Arnarsson, ljóðskáld og leikritahöfundur, gerir hér upp fortíð sína með óvenjulegum hætti. Þó að umfjöllunarefnið sé þungt í vöfum er textinn framreiddur af mikilli kómík. Spunakenndir orðaleikir sviðsmannanna marka jafnframt einn af hápunktum sýningarinnar þar sem þau ræddu hugsanlegar ástæður örlaga Rómeó og Júlíu forðum daga með nýstárlegum hætti.

Lýsing Þórðar Orra Péturssonar endurvarpaði innri líðan þeirra persóna sem stigu á svið hverju sinni. Hún er beinskeytt í senum sviðsmannanna og ágeng og óþægileg í leik ofurhetjanna. Óhætt er að segja leikstjóra verksins, Ólaf Egilsson, nýta Litla sviðið til fulls í uppsetningunni. Á miðju leiksviðinu sveiflast kaðall sem nýtist vel á margan hátt þar sem parið háir margsinnis sitt reiptog milli tælingar og tortímingar en kaðallinn minnir líka á köngulóarvef þar sem elskhugarnir ná sínum hæðstu hæðum með ótraust haldreipið að vopni.

Tvíræðni var því ekki aðeins að finna en í textanum heldur verkinu öllu. Marglaga flétta sem hefur persónurnar upp til skýja en steypir þeim svo niður aftur. Í hlutverkum sínum sem ofurhetjur virðast þau geta lagt heiminn að fótum sér, klædd litríkum pelsum og groddalegum grímubúningum en þegar víman er liðin hjá blasir raunveruleikinn við og leiðir þeirra verða að skilja. Sigríður Sunna Reynisdóttir á heiður af bæði leikmynd og búningum.

Eðlilega mæðir mest á leikurunum tveimur sem bera sýninguna uppi. Einlæg, sterk og textanum er komið skilmerkilega til skila sem og þörfinni fyrir að vera þráður, á þessum mælikvarða. Aflið til eyðileggingar kollvarpar hins vegar tilveru elskendanna tveggja sem ekkert vildu meira en að elska og eyðileggja, vera vondir en láta á sama tíma elska sig af öllu afli. Að vera hetja og heigull á sama tíma. Það er óhætt að mæla með Tvískinnungi fyrir alla þá sem sem hafa verið á valdi ástarinnar og kunna að meta orðasnilld íslenskrar tungu.

Umfjöllunina má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Grímur Bjarnason.

Orkupakkinn skekur stjórnmálin

Líklegt verður að teljast að umræðan um þriðja orkupakkann eigi eftir að vinda enn meira upp á sig eftir því sem líður á þennan þingvetur og komandi ár.

Nokkuð óvænt varð þriðji orkupakki Evrópusambandsins að miklum pólitískum bastarði á Íslandi. Titringurinn varð ljós í Valhöll þar sem kom saman hópur Sjálfstæðismanna, aðallega eldri karla, og ályktaði á þann veg að það væri óskynsamlegt að taka upp orkupakkann í íslensk lög. „Unga fólkið“ í flokknum fékk viðvörun. En hvað er það sem er svona umdeilt við málið? Er það stormur í vatnsglasi? Hvað segir það okkur um stjórnmálin?

Afar skiptar skoðanir eru um þriðja orkupakkann. Annars eru það þeir sem hafa efasemdir um EES-samninginn, og það sem tekið er upp í íslensk lög á grundvelli hans, og síðan þeir sem telja samninginn vera afar mikilvægan efnahag landsins. Og sé þannig í raun til þess fallinn að styrkja fullveldi og sjálfstæði landsins frekar en hitt.

Nánar um málið á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Hátíðlegt sem aldrei fyrr

Yfir hátíðarnar þeysist mannskapurinn á milli jólaboða og nýtur þess að gæða sér á kræsingum með vinum og vandamönnum. Fátt er þó skemmtilegra en að njóta samverunnar við fallega dekkað borð. Þegar lagt er á veisluborð er gaman að leyfa hugmyndafluginu að ráða, nota það sem til er í skápunum og vinna svo í kringum það. Bríet Ósk stílisti lagði á einfalt en hátíðlegt veisluborð. Könglar og grænar greinar fá að njóta sín og jólakúlurnar gefa hlýja og notalega stemningu.

Allur borðbúnarður er frá Kúnígúnd.

Litlar silfurlitaðar jólakúlur fá að njóta sín með svolitlu greni í hverri skál.
Glösin á fæti og súpuskálarnar koma frá Villeroy & Boch.
Grenið, könglarnir og rauðu berin gefa borðinu jólalegt yfirbragð.
Þessi silfurlituðu jólatré passa vel á borðið og njóta sín með jólakúlunum og fallegu hnífapörunum frá Georg Jensen.
Jólin eru hátíð ljóssins. Kertaljós eru nauðsyn í skammdeginu en það er fátt sem skapar eins notalega stemningu og þau.

Í samstarfi við Kúnígúnd
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Róandi að hnýta eftir amstur dagsins

||
||

Mágkonurnar Ninna Stefánsdóttir og Íris Dögg Einarsdóttir sameinuðu krafta sína og gáfu út bók um hnýtingu macramé. Bókin er ekki aðeins handavinnubók heldur einnig falleg ljósmyndabók sem gaman er að hafa á sófaborðinu.

Bókin Macramé, hnútar og hengi eftir Ninnu Stefánsdóttur og Írisi Dögg Einarsdóttur er nýkomin í verslanir. Í þeirri bók er farið yfir undirstöðuhnúta í macramé og sýnt skref fyrir skref hvernig hægt er að hnýta glæsileg vegghengi og dásamleg blómahengi. Í bókinni er einnig hugmyndakafli sem veitir innblástur.

Ninna er stofnandi MARR. Hún hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir handgerðar macramé-vörur sem hún gerir og vinsæl námskeið sem hún heldur í Litlu Hönnunar Búðinni.

Í bókinni er að finna skýrar leiðbeiningar, teikningarnar eru eftir Rakeli Tómasdóttur.

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað hún og mágkona hennar, ljósmyndarinn Íris, að sameina krafta sína og gefa út bók. „Okkur langaði til að búa til bók sem væri ekki bara handavinnubók heldur líka falleg ljósmyndabók sem kæmi vel út á sófaborðinu.“ Þess má geta að til viðbótar við fallegar ljósmyndir eftir Írisi má einnig finna útskýringateikningar eftir Rakel Tómasdóttur í bókinni.

Skemmtilegast að gera tilraunir

„Með bókinni kennum við fólki grunnhnútana og svo gefum við fjórar uppskriftir til viðbótar við hugmyndakafla. Að mínu mati er mikilvægt að veita fólki innblástur líka því það er óþarfi að fara nákvæmlega eftir uppskrift, það er nefnilega skemmtilegast að gera tilraunir og prófa sig áfram. Fólk getur alltaf aðeins meira en það heldur,“ útskýrir Ninna sem hefur kennt fólki á öllum aldri að hnýta macramé. Hún segir alla geta náð tökum á macramé.

Að mínu mati er mikilvægt að veita fólki innblástur líka því það er óþarfi að fara nákvæmlega eftir uppskrift.

„Fólk er kannski svolítið vantrúað í upphafi en svo fer það af stað, nær tökum á grunnhnútunum og þá kviknar á hugmyndafluginu. Það er gaman að sjá það. Ég hef allavega aldrei hitt manneskju sem ekki getur hnýtt. Og þegar ég hef verið að kenna á námskeiðum þá er skemmtilegast að sjá að í lok námskeiðsins er enginn einn nemandi með eins stykki.“

Áhugamál sem vatt upp á sig

Í bókinni er að finna fallegar ljósmyndir eftir Írisi.

Aðspurð hvernig hún sjálf byrjaði að stunda hnýtingu macramé segir Ninna: „Fyrir um tveimur árum byrjaði þetta sem lítið áhugamál hjá mér. Mér þykir þetta róandi og það er gott að dunda sér við macramé eftir amstur dagsins. En þetta litla áhugamál vatt upp á sig,“ segir Ninna. Hún bætir við að hún hafi ekki stundað mikla handavinnu í gegnum tíðina.

„Þetta byrjaði í raun þannig að mig langaði í fallegt vegghengi fyrir ofan rúmið. Ég fór þá á YouTube og horfði á kennslumyndbönd og prófaði mig svo áfram. Þá var ekki aftur snúið og ég er enn þá að læra nýjar aðferðir og hnúta,“ segir Ninna sem er himinlifandi með að vera komin með bók í hendurnar, aðeins tveimur árum eftir að hún byrjaði að fikra sig áfram með macramé.

Ég fór þá á YouTube og horfði á kennslumyndbönd og prófaði mig svo áfram. Þá var ekki aftur snúið.

„Það er svolítið skrýtið að fara frá því að sitja ein uppi í sófa að hnýta yfir í það að vera búin að gefa út bók, tveimur árum síðar. Það er skrýtið en alveg rosalega gaman. Og með Írisi með mér í þessu þá vissi ég að þetta gæti ekki klikkað,“ segir Ninna glöð.

Myndir / Íris Dögg Einarsdóttir

Heiðurstengt ofbeldi þrífst á Íslandi

|||
|||

Dæmi um að fólk af ólíkum erlendum uppruna haldi uppi heiðri fjölskyldunnar með ofbeldi.

Höfundur / Linda Blöndal

„Hún bjó við mikið ofbeldi á heimili sínu, bæði af hendi föður og bróður síns. Allt frá því að hún var ung stúlka hafi hún og systkini hennar ekki mátt eiga íslenska vini heldur þurftu alltaf að koma beint heim eftir skóla og leika við krakka af sama uppruna. Hún var í vinnu og pabbi hennar tók af henni peningana hennar. Hún klæddi sig ekki og hagaði sér ekki eins og fjölskyldan vildi og það stóð til að gifta hana manni af sama uppruna.“

Heiðurstengd átök hjá fjölskyldum af erlendum uppruna eiga sér stað hér á landi. Ýktasta birtingamynd heiðurstengdra átaka eru svonefnd heiðursmorð sem af fréttist frá öðrum Norðurlöndum og víðar um heim. „Tími er kominn til að bera kennsl á þetta hér á landi,“ segir Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, „þar sem þetta er íslenskur veruleiki. Það sem gerist annars staðar kemur líka hingað til lands, bara aðeins seinna,“ segir hún. Ráðstefna var haldin í vikunni þar sem tveir norskir sérfræðingar sögðu frá því hvernig bera má kennsl á slíkt ofbeldi og hvernig vinna megi gegn því.

Tími er kominn til að bera kennsl á þetta hér á landi.

Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Um er að ræða mannréttindabrot þegar heiður fjölskyldunnar er hærra settur en frelsi einstaklingsins. Edda segir að þarna sé stórfjölskyldan og heiður hennar allsráðandi og jafnvel þótt hún sé ekki á Íslandi, heldur bara hluti hennar.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir þessi dæmi oftar koma upp nú en kannski af því að starfskonur athvarfsins hafa augun betur opin fyrir þeim.

„Eins og þetta birtist okkur, fáum við konur til okkar sem hafa ekki haft neitt um það að segja hverjum þær giftast eða hvort þær gangi í hjónaband heldur er það fjölskyldan sem ákveður það. Ekki síður sjáum við konur sem hafa ekki val hvort þær fari úr hjónabandinu. Þær koma ekki bara vegna ofbeldis maka síns eða fyrrverandi maka, heldur vegna þess að upprunafjölskyldan eða tengdafjölskyldan þrýsti mjög á að konan haldi áfram í sambandinu og geri þeim ekki þá skömm að verða fráskilin kona,“ segir Sigþrúður.

Sigþrúður Guðmundsdóttir.

„Þetta tengist þjóðarmenningu en minnst af öllu trú, þetta getur komið upp í öllum mögulegum trúarbrögðum. Þetta tengist þessu feðraveldi, styrk karla og styrk þeirra eldri.“

Þannig getur fjölskyldan verið upprunnin frá Miðausturlöndum jafnt sem Asíulöndum eða Austur-Evrópuríkjum.

Ásta Kristín Benediktsdóttir.

Ásta Kristín Benediktsdóttir, félagsráðgjafi og deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals- og Háaleitis, segir dæmi um þetta koma inn á borð til sín: „Við sjáum þetta oft hjá fjölskyldum af erlendum uppruna. Eitt dæmið er af ungri stúlku sem leitaði til bráðamóttökunnar vegna sjálfsvígshættu. Þegar við fórum að ræða við hana kom í ljós að hún bjó við mikið ofbeldi á heimili sínu, bæði af hendi föður og bróður síns. Hún sagði frá því að allt frá því að hún var ung stúlka hafi hún og systkini hennar ekki mátt eiga íslenska vini heldur þurftu alltaf að koma beint heim eftir skóla og leika við krakka af sama uppruna. Hún var í vinnu og pabbi hennar tók af henni peningana hennar. Hún klæddi sig ekki og hagaði sér ekki eins og fjölskyldan vildi og það stóð til að gifta hana manni af sama uppruna.“

Eitt dæmið er af ungri stúlku sem leitaði til bráðamóttökunnar vegna sjálfsvígshættu.

Annað dæmi er ung kona af erlendum uppruna sem hafði verið með fjölskyldu sinni í fríi erlendis. „Hún leitaði til Tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli með barnið sitt. Hún hafði verið gift hingað til lands manni sem var samt af erlendum uppruna og hún talaði hvorki íslensku né ensku, hafði engin fjárráð og átti ekki samskipti við neinn nema fjölskylduna og var beitt ofbeldi.“

Hættur að láta kvíðann og sjálfsniðurrifið stjórna sér

||||
Jónas Sig Mynd / Hákon Davíð

Ný plata Jónasar Sigurðssonar, Milda hjartað, kemur út í dag. Á henni er hann á hugljúfari nótum en oft áður, enda segist hann viss um að tími mildi og manngæsku sé að renna upp. Hann hefur þó ekki alltaf verið á þeirri línu, glímdi ártugum saman við afleiðingar ADHD, Tourette-heilkennis, vanmetakenndar og kvíða og hætti á tímabili allri tónlistarsköpun. Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi hann á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum.

„Þú fyrirgefur hvað ég er rámur,“ er það fyrsta sem Jónas segir þegar við hittumst á kaffihúsi í miðbænum á grámyglulegum morgni í vikunni. Hann hefur verið á þeysireið vítt og breitt um landið undanfarið að kynna nýju plötuna þótt flensan herji á hann og fram undan eru hverjir tónleikarnir á fætur öðrum, alveg fram á Þorláksmessu. Það er enginn tími til að láta það eftir sér að leggjast í rúmið. „Sjóvið verður að halda áfram,“ eins og hann segir hlæjandi um leið og hann reynir að kæfa hósta. Ég tek undir það og eftir að við höfum bæði fengið okkur kaffi set ég segulbandið í gang og spyr hinnar hefðbundnu íslensku spurningar hvaðan hann sé og hvernig hann hafi byrjað í tónlistinni.

„Ég ólst upp í Þorlákshöfn þar sem pabbi var útgerðarmaður og ég byrjaði tólf, þrettán ára að vinna í fiskverkun hjá honum,“ segir Jónas. „Tónlistin var samt rosalegur drifkraftur í lífi mínu alveg frá því að ég var pínulítill strákur. Þegar ég var tólf ára byrjaði vinur minn að læra á gítar og ég hermdi eftir honum. Svo fór ég í sveit þegar ég var þrettán ára og þar var strákur sem átti trommusett sem mér fannst svo flott að ég var alveg friðlaus þangað til ég gat keypt það af honum, vann í saltfiski, önglaði saman peningum og gerði alls kyns víla og díla þangað ég var kominn með trommusettið heim í stofu. Þannig byrjaði þetta.“

Dæmigerður ADHD-strákur

Jónas segir þessa þráhyggju hafa verið mjög lýsandi fyrir hann sem krakka, hann hafi verið dæmigerður ADHD-strákur, átt ótrúlega auðvelt með að læra en verið afskaplega fljótur að missa áhugann á skólanum.

Jónas ólst upp í Þorlákshöfn og byrjaði snemma að vinna í fiskverkun. Mynd / Hákon Davíð

„Strax á öðru ári í barnaskóla grét ég á hverjum morgni yfir því að þurfa að fara í skólann,“ útskýrir hann. „Þá byrjaði þetta mynstur sem síðan varð sterkasta aflið í lífi mínu áratugum saman. Mamma og pabbi þurftu nánast að draga mig fram úr rúminu og koma mér í skólann og það að sitja í skólanum fannst mér alveg ofboðslega leiðinlegt, þótt mér gengi vel, kennararnir væru góðir og ekkert út á neitt að setja. Skólakerfið bara virkaði ekki fyrir mig. Það var samt eiginlega ekki fyrr en ég var sjálfur orðinn foreldri og upplifði sömu einkenni hjá syni mínum sem ég áttaði mig á samhenginu. Þá bjuggum við í Danmörku og krakkarnir mínir voru í Waldorf-skóla þar sem þeir fengu miklu meira svigrúm heldur en í hefðbundnu skólakerfi, fengu að vera úti, klifra í trjám og tálga spýtur í staðinn fyrir að hanga inni í skólastofum allan daginn. Þá fór ég að velta því fyrir mér hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði gengið í þannig skóla, það var bara ekki í boði. Mín útrás var öll í gegnum tónlistina. Hún bjargaði mér algjörlega.“

Þegar Jónas var tólf ára bættust ýmis einkenni Tourette-heilkennisins ofan á ADHD-ið og honum fannst hann verða enn ömurlegri.

„Þá byrjaði ég að þróa með mér alls konar kæki,“ segir hann. „Var alltaf að blikka augunum og geifla mig í framan, alveg klassískt Tourette, þótt ég væri auðvitað aldrei greindur, það tíðkaðist ekkert í þá daga að senda börn í greiningarferli. Það var svo sem ekki gert neitt veður út af þessu, allir ypptu bara öxlum og litu á það sem sjálfsagðan hlut að hann Jónas væri nú bara svona. Mér var aldrei strítt á þessu eða neitt en mér fannst þetta auðvitað óskaplega leiðinlegt. Mér fannst ég vera alveg rosalega misheppnaður, sú tilfinning var alltaf sterk í mér. ADHD-inu fylgdi líka mikil hvatvísi, ég var alltaf að gera einhverja hluti sem voru algjörlega fáránlegir. Eftir á hugsaði maður oft hvers vegna maður hefði gert þetta, hvort það væri ekki allt í lagi með mig, en ég gat samt ekki hætt þessu. Stundum var ég að meiða aðra krakka eða skemma dótið þeirra og allt eiginlega bara óvart, allavega í minningunni. Maður bara hugsaði aldrei áður en maður framkvæmdi. Ég átti alveg rosalega góða vini og félaga í skólanum en innra með mér ríkti alltaf tilfinningin að vera ekki nógu góður og passa ekki alveg inn í heiminn. Það var bara í tónlistinni sem mér fannst ég passa inn í. Svo eignaðist ég tölvu og fór að forrita og þá kom inn annað element sem ég var góður í, það var talsverður léttir.“

Mér fannst ég vera alveg rosalega misheppnaður, sú tilfinning var alltaf sterk í mér.

Andinn í samfélaginu kallaði á karlmennsku

Tónlistin var samt áfram sterkasta aflið í lífi Jónasar og þegar tveir vinir hans fluttu austur á land og byrjuðu þar í hljómsveitum leið ekki á löngu þangað til hann hélt á eftir þeim austur að Eiðum, aðeins fimmtán ára gamall. Hann segist halda að foreldrar sínir hafi orðið ánægðir með að hann tæki þá ákvörðun, þótt það hafi auðvitað verið erfitt fyrir þau. Þau hafi þó alltaf stutt hann og þessi tilfinning hans að vera ómögulegur og passa ekki inn hafi ekki haft neitt með uppeldið að gera.

Nýjasta plata Jónasar kemur út í dag.

„Pabbi var gamall sjómaður og hefði samkvæmt steríótýpunni átt að gera kröfur til mín um að sýna af mér karlmennsku en það gerði hann aldrei. Pabbi minn er í rauninni blíður maður þótt hann birtist oft sem grjótharður út á við. Hann má ekkert aumt sjá og var til dæmis oft að koma heim með illa farna flækingsketti til að gefa þeim að borða og hlúa að þeim. Pressan um að sýna af sér karlmennsku kom ekki frá foreldrum mínum. Hún var bara innbyggð í samfélagið. Ég man þegar ég var ungur að vinna í fiski eða fara út á sjó að þá sýndu karlmenn yfirleitt ekki tilfinningar sínar. Það var bara þagað nema ef þú gerðir eitthvað vitlaust, þá var öskrað á þig. Samskiptin voru bara þannig í þá daga. Ég hef oft hugsað um það núna á seinni árum, eftir að farið var að tala svona mikið um eitraða karlmennsku og áhrif hennar, að ég hafi í rauninni að mörgu leyti verið mjög heppinn að fá að alast upp í gamla tímanum í fiskiþorpi. Andinn í samfélaginu var auðvitað þannig að maður ætti að sýna karlmennsku og harka af sér og það ýtti kannski undir þá tilfinningu að ég passaði ekki inn í samfélagið en þar kom tónlistin aftur til bjargar. Það er leyfilegt að nota femínísku orkuna í sköpun, og ég er dálítið femínin þótt ég virki kannski ekki þannig, en á svona stöðum er ekkert pláss fyrir mýktina sem því fylgir nema í listsköpun.“

Andinn í samfélaginu var auðvitað þannig að maður ætti að sýna karlmennsku og harka af sér og það ýtti kannski undir þá tilfinningu að ég passaði ekki inn í samfélagið en þar kom tónlistin aftur til bjargar.

Mættu í partí makaðir út í sósulit

Eftir að Jónas flutti á Austurlandið og settist á skólabekk í Alþýðuskólanum á Eiðum blómstraði hann sem tónlistarmaður og naut sín sem aldrei fyrr.

„Þar var tónlistin hátt skrifuð og þar naut ég mín vel,“ segir Jónas og brosir við minninguna. „Í Þorlákshöfn býr gott fólk en samfélagið var á þessum tíma dálítið harðneskjulegt enda flestir að vinna harðneskjulega vinnu. Á Eiðum, sem var alþýðuskóli fyrir sveitakrakka, var miklu meiri mýkt. Þar var ég strax kosinn í skemmtinefnd og við vorum með skemmtiprógramm á hverju kvöldi. Það var svona míni-þorrablót alla daga. Mér fannst það alveg svakalega skemmtilegt.“

Við hötuðum alla tónlist sem var vinsæl, fannst hún alveg ömurleg og fórum að gera grín að svoleiðis hljómsveitum okkar á mill.

Upp úr dvölinni á Eiðum fór Jónas aftur suður og byrjaði að læra trommuleik í FÍH, en fann sig ekki fyrir sunnan, fór aftur austur og settist í Menntaskólann á Egilsstöðum. Það reyndist afdrifarík ákvörðun því þar var lagður grunnur að frama hans sem tónlistarmanns, reyndar alveg óvart og í algjöru flippi.

„Í Menntaskólanum á Egilsstöðum kynntist ég vini mínum Unnsteini Guðjónssyni og við byrjuðum á smáflippi sem seinna þróaðist út í hljómsveitina Sólstrandargæjana. Við vorum báðir í rokkhljómsveitum á þessum tíma og rosalegir pönkarar, berir að ofan með hakakrossa og allt heila dæmið,“ segir Jónas og glottir. „Við hötuðum alla tónlist sem var vinsæl, fannst hún alveg ömurleg og fórum að gera grín að svoleiðis hljómsveitum okkar á milli, byrjuðum að maka okkur út í sósulit, mæta í partí og kynna okkur sem sólstrandargæja, alveg eins og hálfvitar. Í fáránlegasta „twisti“ ævi minnar verður það svo svona óskaplega vinsælt, þótt það væri reyndar ekki fyrr en nokkrum árum seinna.“

Orðinn faðir um tvítugt

Trúr sínu ADHD-eðli hætti Jónas í ME, fór suður og reyndi að halda náminu áfram í ýmsum framhaldsskólum, með misjöfnum árangri. Hann lauk loks stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Selfossi en þá höfðu enn ein skilin orðið í lífi hans. Hann hafði kynnst stúlku, sem er eiginkona hans enn í dag, hún fljótlega orðið barnshafandi og þau farið að búa í Hveragerði. Á þessum tíma vann Jónas á næturvöktum í frystihúsinu í Þorlákshöfn og var alveg viss um að þannig yrði það ævina á enda.

Upp úr þurru var ég orðinn það sem ég þoldi ekki. Eftir á að hyggja sé ég að þetta var sjúklega hollt fyrir mig. Lífið var að kenna mér hvað hroki og dómharka er heimskuleg.

„Ég var tvítugur, hún tuttugu og tveggja og við héldum að við værum bara orðin fullorðin og svona yrði líf okkar framvegis. Nú væri allt flipp búið. Allt í einu hringir svo Unnsteinn vinur minn í mig og segir mér að fólk sé enn að syngja lögin sem við höfðum samið sem Sólstrandargæjarnir í partíum fyrir austan og hvort við ættum ekki bara að taka þau upp og gera disk til að selja þeim sem voru með okkur í menntaskólanum. Mér fannst þetta alveg fáránleg hugmynd, ég hafði aldrei leyft neinum að heyra þessi lög einu sinni, fyrir mér var þetta bara grín. Ég lét samt tilleiðast og við fórum í stúdíó, tókum upp disk, gáfum út og kynntum á útvarpsstöðvunum og allt í einu vorum við orðnir geysivinsælir og diskurinn algjört hitt. Upp úr þurru var ég orðinn það sem ég þoldi ekki. Eftir á að hyggja sé ég að þetta var sjúklega hollt fyrir mig. Lífið var að kenna mér hvað hroki og dómharka er heimskuleg.“

Lífið orðið óviðráðanleg steik

Vinsældum Sólstrandargæjanna fylgdi endalaus spilamennska um allt land í eitt og hálft ár en Jónas var aldrei sáttur í þessu hlutverki og smátt og smátt tók gamli kvíðinn yfirhöndina í lífi hans. Sjálfsniðurrifið blossaði upp sem aldrei fyrr og honum fannst þetta allt saman ömurlegt.

„ADHD veldur því að maður er alltaf að gera eitthvað í hvatvísi sem maður veit að er rangt en gerir samt,“ útskýrir Jónas.

„ADHD veldur því að maður er alltaf að gera eitthvað í hvatvísi sem maður veit að er rangt en gerir samt og það veldur svo miklu vantrausti á sjálfum sér,“ útskýrir Jónas. „Svo bætist kvíðinn ofan á og það verður til einhver spírall sem maður hefur enga stjórn á. Staðalímyndin af kvíðasjúklingi er að hann liggi bara í hnipri og fari helst ekki úr húsi en ég var ekki þannig, alltaf rosahress. Ég var hins vegar óskaplega ör og aftengdur sjálfum mér og umhverfi mínu í stanslausri innri togstreitu. Vandamálin hrúguðust upp, við vorum stjórnlaus í fjármálunum og söfnuðum gígantískum skuldum, það var bara allur pakkinn. Mér fannst líf mitt vera orðið óviðráðanleg steik. Að vera frægur fyrir eitthvað sem mér fannst alveg glatað og ekki einu sinni töff, þetta var bara engan veginn að gera sig. Kvíðinn hefur líka þau áhrif að maður hættir að taka ábyrgð á nokkrum hlut og verður eiginlega bara „lásí“ karakter. Á endanum gafst ég upp á þessu, hætti í hljómsveitinni, hætti alfarið í tónlist, seldi næstum öll hljóðfærin mín, réði mig í vinnu við að líma saman húsgögn í lokuðu herbergi frá níu til fimm alla virka daga og fannst það bara mjög gott líf. Ég var alinn upp við það að vinna sem er unnin með höndunum væri eina alvöruvinnan og fannst ég loksins vera að gera eitthvað af viti.“

Eftir að seinna barnið fæddist flutti fjölskyldan í Þorlákshöfn, Jónas vann á daginn og sótti á kvöldin forritunarnámskeið sem olli enn einum straumhvörfunum í lífi hans. Þar var hann kominn á sína réttu hillu og hvattur áfram af kennurunum á námskeiðinu sótti hann um nám í kerfisfræði við HR, komst að og sat á skólabekk í tvö ár.

Ég var alinn upp við það að vinna sem er unnin með höndunum væri eina alvöruvinnan og fannst ég loksins vera að gera eitthvað af viti.

„Þarna var ég allt í einu kominn á nýja braut í einhverju sem ég var flinkur í,“ segir hann og hljómar enn undrandi á því öllum þessum árum síðar. „Ég ákvað að nú væri þessi fokking músík bara horfin úr lífi mínu, nú skyldi ég bara einbeita mér að því að verða góður að forrita, fá mér góða vinnu og verða loksins alvörumaður í samfélaginu. Námið gekk vel og ég fékk góða vinnu en gleðin yfir því entist stutt. Um leið og ég var búinn að ná tökum á þessu þá hætti mér að finnast þetta merkilegt. Þetta gætu nú allir. Ég fór fljótlega í sama gamla kvíða- og vanmáttarfarið og fannst allt ómögulegt.“

Sat uppi með sjálfan sig og hugsanir sínar

Hvatvísinni trú ákváðu Jónas og eiginkona hans að leysa öll þessi vandamál með því að flytja til Danmerkur og hefja algjörlega nýtt líf. Fyrstu vikurnar segist hann hafa verið rosalega jákvæður og fullur bjartsýni og viss um að allir draumar hans myndu rætast. Sú varð þó ekki raunin og þótt hann fengi góða vinnu hjá Microsoft og fjölskyldunni liði vel í litlu húsi við skóg í nágrenni Kaupmannahafnar hélt kvíðinn og sjálfsniðurrifið áfram að brjóta niður jafnóðum það sem hafði áunnist.

Skuldirnar voru orðnar óviðráðanlegar og streitan sem því fylgdi var gríðarleg.

„Eftir að við fluttum út hvarf allt utanaðkomandi áreitið sem fylgdi lífinu á Íslandi, ég gat ekki lengur dreift huganum með því að vera alltaf á kafi í verkefnum og sat uppi með mig og mínar hugsanir,“ útskýrir hann. „Það varð á endanum algjörlega yfirþyrmandi og ég ákvað að nú væri tími til kominn að taka á þessum málum. Skuldirnar voru orðnar óviðráðanlegar og streitan sem því fylgdi var gríðarleg. Ég var alltaf að láta mér detta í hug einhverjar patentlausnir á vandamálunum eins og til dæmis að fara í Smuguna í tvö ár og redda fjármálunum en auðvitað var það ekki raunhæft. Þarna var mér farið að líða svo illa að mig langaði eiginlega ekki að lifa lengur. Ég naut þess engan veginn hvað við áttum mörg falleg móment þarna í skóginum, ég var alltaf upptekinn af öllu sem var að. Svo gerðist bara eitthvað sem ég get ekki kallað annað en andlega vakningu, ég kynntist fólki sem var á kafi í sjálfsvinnu og kveikti á því að það geti kannski hjálpað. Í hvatvísikasti sópa ég öllum forritunarbókunum úr hillunum og panta tvo kassa af sjálfshjálparbókum og bókum um andleg málefni á Amazon. Svo lagðist ég í lestur og lærði um mátt hugleiðslu og bæna, sem ég átti reyndar dálítið erfitt með því ég hafði aldrei tengt við kristnina. Ég ákvað að ég myndi hugsa mér að eldri bróðir minn, sem hafði dáið áður en ég fæddist, væri þarna einhvers staðar í kosmósinu og ég gæti beint bænum mínum til hans og það hef ég gert síðan með góðum árangri. Ég fór að skrifa niður hugsanir mínar í tuttugu mínútur á dag, hugleiða og biðja og smátt og smátt fór það að skila sér. Ég komst út úr kvíðanum og fór að ná tökum á lífi mínu.“

Hættur að vera kallinn á kassanum

Eitt af því sem Jónas bað um í bænum sínum var að fá eitthvert merki frá æðri mætti um hvað hann ætti að gera við líf sitt. Það merki kom í líki Ísraela, Adam að nafni, sem var með honum á dönskunámskeiði og var einnig tónlistarmaður. Eftir að þeir voru farnir að hittast reglulega og spila saman bauð Adam Jónasi lán til þess að hann gæti gert sólóplötu. Eftir mikla umhugsun ákvað hann að þiggja það boð og platan Þar sem malbikið svífur mun ég dansa, varð til. Hún sló í gegn og síðan hefur Jónas verið eitt af stóru nöfnunum á íslensku tónlistarsenunni, einkum í samstarfi við hóp ólíkra tónlistarmanna sem hann hefur kosið að kalla Ritvélar framtíðarinnar. Þar hafa ýmsir af bestu tónlistarmönnum þjóðarinnar haft viðkomu en á nýju plötunni, Milda hjartað, eru Ritvélarnar þó ekki með sem slíkar þótt ýmsir af þeim sem með þeim hafa spilað séu þátttakendur, heldur er hér um að ræða sólóplötu með mun mildari boðskap en Jónas hefur boðað undanfarin ár.

Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi Jónas á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum. Mynd / Hákon Davíð

„Ég hef verið voðalega pólitískur á síðustu plötum,“ viðurkennir hann. „Magnús Þór Sigmundsson, vinur minn, var meira að segja farinn að kalla mig Kallinn á kassanum, alltaf að predika yfir fólki. Á plötunni Milda hjartað er ég miklu persónulegri og mildari, enda held ég að við séum að upplifa nýja hreyfingu í átt að meiri mildi og mannkærleik. Þessi plata er mitt innlegg í þá baráttu. Það mun taka einhver ár að breyta áherslunum í þjóðfélaginu en ég er alveg sannfærður um að við erum komin á brautina sem liggur þangað. Karlmenn eru meira að segja farnir að tala hver við annan um tilfinningar sínar, það er alveg óskaplega mikilvægt skref.“

Jónas viðurkennir að hann glími enn við kvíðann og vanmáttartilfinninguna en með hugleiðslu og bæn sé hann orðinn stjórnandi í eigin lífi og hættur að láta púkann á öxlinni hafa yfirhöndina.

„Ég hef kallað hann litla Satan,“ segir hann og hlær. „Þennan sem situr á öxlinni á manni og hvíslar að manni öllu sem maður hefur gert rangt á lífsleiðinni. Hann er þarna enn þá, fer örugglega aldrei, en ég er búinn að læra að þagga niður í honum. Hann stjórnar ekki lífi mínu lengur.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

Um hvað mega skáldsagnahöfundar skrifa?

|
|

Hinn almenni samfélagsmiðlanotandi virðist álíta það sitt hlutverk að segja skáldsagnahöfundum til syndanna og reyna að stýra því hvað þeir skrifa um.

Í bókinni Lára fer til læknis eftir Birgittu Haukdal er hjúkrunarfræðingur kallaður hjúkrunarkona.

Stóra hjúkrunarkonumálið hefur verið eitt aðalumræðuefni fólks á samfélagsmiðlum undanfarna viku og mikið um andköf og upphrópanir. Í stuttu máli snýst upphlaupið um að í barnabók eftir Birgittu Haukdal er hjúkrunarfræðingur kallaður hjúkrunarkona og teikningin sem frásögninni fylgir þykir sýna viðkomandi hjúkrunarkonu í ansi kynferðislegu ljósi. Hjúkrunarfræðingum þykir að sér vegið og starfsstéttinni sýnd óvirðing og æstir í athugasemdum frussa yfir lyklaborðin af hneykslun yfir því að skáldsagnahöfundur skuli leyfa sér slíka ósvinnu árið 2018. Það bara má alls ekki láta höfunda komast upp með slíkt.

Svona umræða er reyndar ekki nýtilkomin. Oft á ári rís fólk upp og andskotast út í þennan eða hinn höfundinn fyrir að stunda rasisma, kvenfyrirlitningu, menningarnám og annan óskunda í bókum sínum. Hinn almenni samfélagsmiðlanotandi virðist álíta það sitt hlutverk að segja skáldsagnahöfundum til syndanna og reyna að stýra því hvað þeir skrifa um. Hugsanalögreglan er stöðugt í viðbragðsstöðu og fáir virðast stoppa við og velta því fyrir sér hvað orðið skáldskapur þýði. Skáldverk eru nefnilega ekki fræðibækur, það er ekki hlutverk þeirra sem skrifa skáldaðar sögur að passa upp á að allar staðreyndir séu réttar. Staðreyndir eru andstæða skáldskapar og það er gríðarlega hættuleg þróun ef fara á að setja höfundum mörk um það hvað þeir mega og mega ekki segja í verkum sínum. Bókmenntasagan er full af dæmum um slæmar afleiðingar þess að yfirvöld eða hugsanalögregla ritskoði skáldverk og ákveði hvað sé leyfilegt og hvað ekki og slík ritskoðun er yfirleitt eitt fyrsta dæmið um fasíska stjórnarhætti. Það er því óneitanlega stórundarlegt að það fólk sem harðast berst á móti fasisma og uppgangi hans í samtímanum skuli vera fremst í flokki í rétttrúnaðarlögreglunni sem vill stýra því hvað má og má ekki segja í skáldskap. Sér virkilega enginn mótsögnina í því?

Í hjúkrunarfræðingstilfellinu er vissulega um að ræða rangt starfsheiti starfsstéttar sem verið hefur í harðri baráttu fyrir að fá störf sín metin að verðleikum og skiljanlegt að þeim sárni. En meirihluti fólks talar nú samt enn um hjúkrunarkonur og barnið í sögunni greinir varla þar á milli. Teikningin er augljóslega út úr öllu korti, á henni líta bæði barnið og hjúkrunarfræðingurinn út fyrir að vera frá sjötta áratug síðustu aldar, en þar er við teiknarann og útgefandann að sakast, ekki höfundinn.

Að sjálfsögðu er baráttan gegn rasisma, kynjahyggju, menningarnámi, hómó- og transfóbíu og svo framvegis göfug og nauðsynleg en hún má ekki snúast um það hvað leyfilegt er að birta í skáldverkum. Rithöfundar eru ekki fræðarar, það er ekki þeirra hlutverk að berjast gegn óréttlæti heimsins og það er ekki okkar hlutverk að hefta listrænt frelsi þeirra, hversu vel sem við meinum með því. Við verðum að geta gert þá kröfu til okkar sem lesanda að við kunnum að skilja á milli skáldaðs veruleika og þess veruleika sem við hrærumst í alla daga. Til hvers ættum við annars að lesa skáldskap?

Þykir vænt um gallana sem enginn sér nema ég

Anna Jia á framtíðina fyrir sér þegar kemur að listilegum kökum og öðrum kræsingum en hún nemur rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún segir námið hafa ýtt sér út í bakstur en draumurinn sé diplómagráða í kökugerðarlist.

„Fyrir mér eru kökur eitthvað sem gleðja bæði augað, hjartað og bragðlaukana. Þær eru eitthvað fallegt og gómsætt sem kætir fólkið í kringum mig, og gerir lífið aðeins sætara. Það að skapa og búa til kökur veitir mér líka hugarró. Fyrir suma er það jóga, langar gönguferðir eða hugleiðsla en í mínu tilfelli er það að verja tímunum saman, án þess að finna fyrir tímanum líða. Að móta lítil raunveruleg blóm úr smjörkremi, para saman hina og þessa liti og búa til alla litlu hlutina sem eiga eftir að smella saman og búa til fallega heild. Ég tekst á við allar litlu áskoranirnar sem geta poppað upp þegar eitthvað fer úrskeiðis og þá reynir á að vera úrræðagóð. Á sama tíma þykir mér alltaf sérstaklega vænt um litlu gallana sem enginn sér nema ég.”

Samhliða námi hefur Anna Jia starfað sem fyrirsæta en hún segir ferilinn hafa hafist fyrir tilviljun þegar hún var stödd á kaffihúsi fjórtán ára. „Þar gekk að mér kona, Marie að nafni, og spurði hvort ég hefði áhuga á fyrirsætustörfum. Eftir það fór ég í mína fyrstu myndatöku og í beinu framhaldi á skrá hjá casting-fyrirtæki fyrir auglýsingar. Stuttu síðar tók ég þátt í ELITE-keppninni og stóð uppi sem sigurvegari. Í kjölfarið fór ég út í aðalkeppnina sem haldin var í Shanghai. Það var mjög skemmtileg reynsla þar sem ég kynnist stelpum alls staðar að úr heiminum.“

„Ég fann samt strax að þetta var ekki heimur sem hentaði mér því það er mikil harka og strangar reglur um ákveðin mál sem stelpur þurfa að passa í. Ég vildi frekar taka að mér einstaka verkefni hér heima og passa upp á andlega og líkamlega heilsu. Það getur nefnilega enginn bannað mér að borða kökur þegar ég vil.“

„Annars finnst mér þessi reynsla hafa kennt mér mikið hvað varðar framkomu og samvinnu með fjölbreytilegu fólki frá allskonar löndum. Hvort sem það er verið að skjóta indverska sápuauglýsingu á sundbol uppi á Langjökli eða í notalegheitum fyrir Bláa lónið.“

Þegar talið berst að jólahátíðinni segist hún halda fast í hefðir þó að tilraunastarfsemin sé heldur aldrei langt undan. „Eitt af því sem er alveg ómissandi um jólin er ananasfrómasinn hennar ömmu Rannveigar. Þetta er sítrónufrómas með ananasbitum ofan á og rjóma. Mjög gamaldags og klassískur. Það ríkir enn í dag jafnmikil samkeppni milli okkar systkinanna um hver fái möndluna. Ég verð líka alltaf að baka sörur fyrir jólin en undanfarin ár hef ég verið í tilraunastarfsemi með þær. Fyrir utan þessar klassísku hef ég prófað að gera kökurnar úr hvítsúkkulaði, sítrónu og kókos sem heppnuðust alveg æðislega vel. Fyrir þessi jól langar mig að prófa að gera lakkrís- og hindberjasörur svo það eru spennandi tímar fram undan.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðs.

Umræðan um þriðja orkupakkann er stormur í vatnsglasi

Höfundur / Eva H. Baldursdóttir 

Það er athyglisvert að fylgjast með umræðunni um þriðja orkupakkann. Á samfélagsmiðlum hefur umræðan hreinlega verið út um allt. Efasemdakórinn syngur sinni tærru röddu og sópraninn ómar að í þriðja orkupakkanum felist einhvers konar framsal á auðlindum Íslendinga. Yfirráð liggi í höndum Evrópusambandsins. Skynsemisraddir virðast þó vera að kveða niður kórinn og sefa ótta almennings, sem er vel. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gaf svo út lista yfir helstu spurningar og svör í gær. Hræðsluáróður stjórnmálamanna og falsyfirlýsingar eru enda orðnar þreytt einkenni á íslenskri pólitík og áróður þessi virðist fremur eiga sér upptök í andstöðu við EES-samninginn en að farið sé með rétt mál um innihald pakkans.

Þriðji orkupakkinn varðar ekki eignarrétt yfir orkuauðlindum Íslendinga. Þetta er svipað og að segja að Ísland hafi framselt eignarhald bankakerfisins undir yfirráð og ákvarðanatöku ESB við að taka upp regluverk um evrópskar eftirlitsstofnanir í íslensk lög.  Það er ekki svo. Regluverkið er eitt – eignarhald er annað – og hér ekki samofið. Umræðan um stefnumótun um orkumál Íslendinga til framtíðar er önnur umræða og mætti gjarnan taka t.d. hvernig fara eigi með orkuauðlindir sem ábyrgur eigandi, arðinn og svo framvegis.

Með EES samningum hefur Ísland hins vegar undirgengist ákveðið reglusetningarvald Evrópusambandsins t.d. vegna orkumála og bankamála. Það er ekkert nýtt að reglur EEB gildi um raforkumarkaðinn, heldur hefur það verið um langt skeið. Í gegnum EES samninginn fær Ísland löggjöf á því sviði sem EES samningur tekur til, á sviði fjórfrelsins og er skylt að taka hana upp. Ísland hefur fengið undanþágur frá regluverkinu vegna ýmissa þátta er lúta að orkumálum t.d. við rekstur Landsnets. Ísland fékk undanþágu vegna nýmælis þriðja orkupakkans um fullan aðskilnað flutningsfyrirtækja, sem hér er Landsnet, frá framleiðslu- og sölufyrirtækjum rafmagns.

Í raforkulögum frá árunum 2003 og 2008 voru innleiddir fyrstu tveir orkupakkarnir sem snúa að markaðsvæðingu á framleiðslu og sölu á raforku. Þriðji orkupakkinn er framhald á þeirri vegferð sem leiðir af sér af sér að hér ríkir frjáls samkeppni um rafmagn og neytendur ráða af hverjum þeir kaupa orku. Fyrir árið 2003 gátu neytendur ekki valið um af hverjum þeir keyptu rafmagn. Það er spurning hvort efasemdafólk vilji fara aftur í algjöran ríkisrekstur en það er erfitt að átta sig á málflutningi  hvað þeir vilja nákvæmlega. Er það þeirra pólitíska skoðun að ríkið eigi að sjá um rekstur og þjónustu á grunninnviðum samfélagsins? Einhvers konar kommúnismi. Eða á það að vera alveg frjálst?  Það er ekkert sérstaklega rómantísk tilhugsun að hverfa aftur til daga eins og þegar símaþjónusta var keypt af ríkinu í gegnum Póst og Síma, ríkið stýrði bankaþjónustu þar sem hver flokkur átti sinn flokk og viðskiptavinir fóru í sínu fínasta pússi, með flokksskírteinið upp á ermina í bankann til að taka víxil. Sú skipan er ekki til þess fallin að minnka spillingu eins og sagan hefur sýnt. Fókusinn á að vera að setja mörkuðum reglur til að starfa eftir sem vernda umfram allt almannahagsmuni.

Ísland áfram frjálst

Þriðji orkupakkinn felur þó í sér afmarkað framsal framkvæmdarvalds, en það er vel innan þeirra lausna á sviði EES-samningsins sem við Íslendingar þekkjum þegar innan tveggja stoða kerfisins EES samningsins. Framsalið er vel afmarkað og fyrirsjáanlegt. Ákvarðanavald er fengið hjá Eftirlitsstofnun EFTA og verður ekki hjá Evrópusambandinu. Þá mun aldrei reyna á það nema millilandatengingar verði til staðar þ.e. sæstrengur.

Sá lýðræðishalli sem EES samningurinn felur í sér er umræða sem fer alltof sjaldan fram á Íslandi. Í aðdraganda aðildarviðræðna við Evrópusambandið hér á landi fór hún aldrei með himinskautum, en það er staðreynd að við eigum ekki sæti við borðið þegar löggjöf er ákveðin sem á að binda hendur Íslendinga. Það er hreinlega vond staða. En hún er samt miklu betri en hinn möguleikinn – að vera ekki í EES samstarfinu. Þannig virðist ríkja þegjandi samþykki meðal skynsemisfólks að vekja ekki upp umræðu um þetta. EES samningurinn hefur nefnilega haft gríðarleg jákvæð áhrif fyrir Ísland á svo marga vegu – bæði fyrir viðskiptalífið og neytendur. Það er óumdeilt. Um kosti samstarfsins má vísa til myndbands sem Viðskiptaráð gerði.

Ísland verður áfram frjálst að taka stefnumótandi ákvarðanir um auðlindir landsins þrátt fyrir samþykkt orkupakkans. Ísland hefur ekki staðið sig vel við að verðleggja grænar orkuauðlindir landsins og við megum áfram sóa þeim að vild, þó mikilvægt sé að gera mun betur en sagan sýnir. Að selja rafmagn með afslætti til erlendra stóriðjufyrirtækja, sumra hverja sem að borga ekki almennilega fyrirtækjaskatta hér á landi með skattabrellum er ekki farsælt. Ísland má áfram virkja að vild, innan þess sem löggjafinn ákveður. Okkur hefur alltaf verið frjálst að leggja sæstreng til Evrópu eða hvert sem við viljum. Þessi löggjöf er ekki að hindra það en setur því ákveðnar skorður. Ríki og sveitarfélögum, sem og félögum í þeirra eigu, verður áfram óheimilt að selja orkuauðlindir samkvæmt lögum.  Gott væri að sjá umræðuna þróast yfir í almenna umræðu um stöðu auðlindamála á Íslandi almennt, meðferð þeirra og eignarhald, til framtíðar, sem og nauðsyn þess að vernda auðlindir Íslands í stjórnarskránni. Grýlurnar liggja annars staðar en í þriðja orkupakkanum.

Mynd / Jóhanna Þorkelsdóttir

Veiðigjöldin á herðum VG

|
|

Atvinnuveganefnd Alþingis lagði á þriðjudag fram tillögu um að frítekjumark er snýr að veiðigjöldum verði hækkað. Í dag fá fyrirtæki 20% afslátt af fyrstu 4,5 milljónum króna af álögðu veiðigjaldi og 15% af næstu 4,5 milljónum króna. Atvinnuveganefnd leggur nú til að frítekjumark hækki í 40% af fyrstu 6 milljónum króna álagðs veiðigjalds.

„Með þessu leitast nefndin við að koma sérstaklega til móts við litlar og meðalstórar útgerðir vítt og breitt um landið,“ lét Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnunefndar og þingmaður VG hafa eftir sér.

Skiptar skoðanir eru um hversu mikil áhrif þetta muni hafa. Litlar og meðalstórar útgerðir standa margar hverjar illa og samþjöppun í greininni hefur verið mikil síðustu ár. Þar eru það oft á tíðum allra stærstu fyrirtækin sem hafa aukið við aflaheimildir sínar. Hér má einnig geta þess að 30 stærstu fyrirtækin greiða um 80% af veiðigjaldinu.

Því er líklegt að þau stærri ráðist í enn frekari uppkaup á minni fyrirtækjum. Má spyrja sig hvort það sé það sem almenningur vill sjá. Um fátt hefur verið meira rifist undanfarin áratug en veiðigjöld. Allir virðast þó enn vera óánægðir. Bæði fyrirtæki í útgerð, almenningur sem og sveitastjórnir sem vilja ekki missa þennan tekjustofn frá sér.

VG tekur slaginn

Lilj Rafney. Mynd / Alþingi

Óhætt er að segja að umræðan um veiðigjöld á þessu ári hafi bitnað meira á VG en Sjálfstæðisflokknum. Þannig hefur Lilja Rafney komið mun oftar í fjölmiðla að ræða veiðigjöldin heldur en Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Reyndar er þetta ekki eina sem hefur snert VG verr en Sjálfstæðisflokkkinn. Þar má telja að reynsluleysi Lilju Rafneyjar spili inn í. Umræðan hefur þó langt í frá verið jafn hatrömm og td. þegar Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og lög nr. 74/2012 um veiðigjöld voru sett. Þá kom gagnrýnin þó harðast frá LÍÚ, forvera SFS, sem þá var stýrt af Friðriki Jóni Arngrímssyni.

Frekari uppkaup á aflaheimildum væntanleg?

Segja má að þau fyrirtæki sem eru með blandaða útgerð uppsjávar- og bolfisksveiða standi sterkast. Fyrir þau var mikil búbót þegar makríll fór að veiðast í auknu mæli árið 2009. Þessi fyrirtæki eru betur í stakk búinn til þess að greiða veiðigjöld en þau minni. Þar er um að ræða Samherja, Síldarvinnsluna, Skinney, Þinganes, Ísfélag Vestmannaeyja, Gjögur, Vinnslustöðina og Loðnuvinnsluna. Þessi fyrirtæki standa gríðarlega vel og eiginfjárhlutfall þessarra fyrirtækja er á bilinu 40-70%, sem gerir þeim auðveldara að standa af sér sterka krónu. Þessi fyrirtæki hafa einnig betra aðgengi að lánsfé til að endurnýja skipastól sinn og vinnslur til að hagræða í rekstri. Slíkar aðgerðir þýða oft á tíðum fækkun starfa. Önnur sterk fyrirtæki sem þó eru að mestu í bolfiski eru Brim hf. og Fisk-Seafood á Sauðárkróki. Þessi tvö fyrirtæki hafa verið að auka við sig bolfisksheimildir á undanförnum árum.

Aðili sem rætt var við á fjármálamarkaði taldi líklegt að stærri fyrirtækin færu í enn frekari uppkaup á aflaheimildum á næstunni til þess að bæta samkeppnisstöðu sína. Margir myndu td. hafa áhuga á að kaupa fyrirtæki eins og Ögurvík sem HB Grandi keypti af Brim hf. nýlega eftir að Guðmundur Kristjánsson keypti sig inn í HB Granda.

Vandasamt að meta milliverðlagningu

Lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld var ætlað að gilda í fimm ár. Því komst Alþingi ekki hjá því að endurskoða veiðigjöld. Fyrir utan breytingu á frítekjumarki má einnig nefna að nú verður veiðigjaldsnefnd lögð niður og verða verkefni hennar færð til embættis ríkisskattstjóra.

Eitt af því sem nefnt er greinargerð frá atvinnuveganefnd Alþingis er svokölluð milliverðlagning (e. transfer pricing). Þar er oft um að ræða flókin samanburð sem kom vel í ljós þegar Seðlabankinn höfðaði mál á hendur Samherja. Má telja líklegt að orðspor Seðlabankans muni skaðast enn frekar þar sem Samherji hyggst höfða skaðabótamál á hendur bankanum. Því  verður að efast um að embætti Ríkisskattstjóra myndi treysta í annað mál af svipuðum toga.

Um er að ræða alþjóðlegt vandamál sem flest lönd glíma við varðandi útflutningsfyrirtæki sín og hafa gert í áratugi. Með frumvarpinu er embætti ríkisskattstjóra heimilað að taka til sérstakrar athugunar ef vísbending er um óeðlilega milliverðlagningu. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur eftirlit með fiskverði og ákvarðar lágmarksverð sem greitt skal til sjómanna.

Stærri útgerðarfyrirtæki reka mörg hver sín eigin sölufyrirtæki erlendis og stjórna því allri virðiskeðjunni frá veiðum og vinnslu til helstu markaðslanda sinna. Slík staða veitir þeim líka mikla yfirburði fram yfir lítil og meðalstór fyrirtæki. Undanfarin ár hafa sjávarútvegsfyrirtæki þó oft á tíðum verið gagnrýnd fyrir að komast ekki nær kaupendum sínum erlendis með aukinni markaðssetningu.

Meðan fyrirtækin hafa verið óspar að fjárfesta í tækninýjungum frá fyrirtækjum eins og Marel, Skaginn3x og Völku svo nokkur séu nefnd hefur minna verið fjárfest í auglýsinga- og markaðsmálum. Líklega horfa fyrirtækin oft á tíðum frekar á að halda háu ebitdu-hlutfalli í stað þess að reyna að auka veltu sína. Þá er framþróun í tækninýjungum yfirleitt fljótari að skila sér í bættri rekstrarafkomu en lengri tíma getur tekið að hækka verð á sjávarafurðum með auglýsinga- og markaðsherferð.

Eru sjávarútvegsfyrirtæki góður fjárfestingakostur?

Markaðurinn, viðskiptahluti Fréttablaðsins, birti á miðvikudag umfjöllun um að sjávarútvegsfyrirtæki ættu erindi á íslenskan hlutabréfamarkað. Einnig væru tækifæri fyrir þau að nýta sér meira skuldabréfafjármögnun á innlendum markaði. Var rætt við Ásmund Gíslason, sérfræðing í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka.

Skiptar skoðanir eru hins vegar um það hversu góður fjárfestingakostur sjávarútvegsfyrirtæki séu fyrir almenna fjárfesta á hlutabréfamarkaði sem eru ekki ráðandi innan fyrirtækjanna. Hér ná nefna nokkra hluti til sögunnar.

Í grein Markaðarins kom fram að upp úr 1990 hafi sjávarútvegsfyrirtækjum fjölgað mikið í Kauphöllinni. Um áratug seinna fór þeim síðan að fækka. Segja má að þegar framsal á kvóta var leyft með lögum nr. 38/1990 og tóku gildi 1991 hafi verið mikil tækifæri fyrir sjávarútvegsfyrirtæki að vaxa. Þá voru þau má segja undirverðlögð. Í því samhengi má nefna að þegar Samherji gerði sín frægu kaup á Guðbjörgu á Ísafirði árið 1996 hafi þeir verið að kaupa á 3-4 ebitdu. Líklega var verið að kaupa fyrirtæki eins og Ögurvík og Stálskip á undanförnum árum á 10-12 ebitdu. Það liggur því í augum uppi að í dag eru miklu minni vaxtamöguleikar fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Þá er 12% hámarksþak á því sem fyrirtækin mega eiga af aflaheimildum.

Fyrirtæki eins og HB Grandi eiga því lítla möguleika á að stækka hérlendis. Eilífðarvöxtur sem oft er horft til í fjármálum er því lítill. Þó má nefna Samherja sem hefur vaxið gríðarlega á undanförnum 20 árum með uppkaupum á fyrirtækjum erlendis. Eigið fé Samherja nemur í dag 90 milljörðum króna og einnig hefur fyrirtækið verið öflugt í uppkaupum á fyrirtækjum í öðrum rekstri eins og Olís og nú síðast Eimskip.

Tækifæri í hærra þorskverði

Tækifæri kunna þó að skapast hjá fyrirtækjum að auka enn frekar virði á td. þorski sem hefur stað í stað undanfarin áratug en þá var td. svipað verð á norskum laxi sem hefur undanfarið farið langt fram úr þorskinum. Þá mun aukin framþróun í skipakosti og vinnslum vissulega bæta samkeppnisstöðu þeirra á hörðum alþjóðlegum markaði. Þar er helst verið að keppa við Færeyjar, Noreg, Rússland, fisk frá Alaska svo ekki minnst á eldistegundir frá Asíu eins og tilapíu og pangasíus sem keppa við þorskinn, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu .

Púkinn á öxlinni hefur ekki lengur yfirhöndina

Tónlistarmaðurinn Jónas Sigurðsson segist enn glíma við kvíða og vanmáttartilfinningu en með hugleiðslu og bæn sé hann orðinn stjórnandi í eigin lífi og hættur að láta púkann á öxlinni hafa yfirhöndina.

Jónas Sigurðsson er viss um að tími mildi og manngæsku sé að renna upp en hann hefur þó ekki alltaf verið á þeirri línu. Hann glímdi áratugum saman við afleiðingar ADHD, Tourette-heilkennis og vanmetakenndar og hætti á tímabili allri tónlistarsköpun. Andleg vakning í dönskum skógi fyrir sextán árum leiddi hann á vit hugleiðslu og bæna sem hann notar enn í dag til að halda djöflinum á öxlinni í skefjum.

Jónas fer yfir sögu sína í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál

Matgæðingurinn Guðrún Sóley Gestsdóttir sýnir og sannar hversu gómætur vegan matur getur verið með nýju uppskriftarbókinni sinni.

Sælkerinn og fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir var að gefa út matreiðslubók sem hefur að geyma dásamlegan vegan-uppskriftir. Bókin heitir Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar: vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt. Guðrún Sóley segir bókina vera fyrir alla þá sem elska góðan mat.

Spurð út í hvernig það kom til að hún hellti sér út í bókaskrif segir Guðrún Sóley: „Ég á minnst í þeirri hugmynd – þær Dögg og Anna Lea hjá Sölku útgáfuhúsi tóku eftir að ég deildi vegan uppskriftum út um allar trissur, grillaði veganborgara út um allan bæ og bauð linnulaust í vegan matarboð. Þær stungu að mér þeirri tillögu að ég tæki allt brasið saman í bók og ég stökk á það tækifæri því mér finnst mikilvægt að sýna fólki hvað vegan matreiðsla er auðveld, gómsæt og skemmtileg.“

Ég er sökker fyrir frönskum í öllum myndum og ég gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál.

Þegar Guðrún Sóley er beðin um að nefna uppáhaldsuppskriftina sína úr bókinni á hún erfitt með að svara. „Úff, það er erfitt að segja! Ég er sökker fyrir frönskum í öllum myndum og ég gæti borðað avókadófranskarnar með chili-majó í öll mál. En annars á réttur sem ég kalla GSG-special heimtingu á þessum titli. Það eru hnetusmjörs-sesam-núðlur með fersku grænmeti og lime. Bragðlaukarnir tjúllast yfir þessum rétti og hann hæfir við öll tilefni,“ segir Guðrún Sóley. Hún lýsir GSG-special sem litríkum og næringarríkum rétti sem er auðvelt að útbúa. „Rétturinn er góður kaldur og heitur. Kostir hans eru eiginlega óteljandi og ég hef enn ekki hitt manneskju sem þykir hann vondur.“

Missir sig í pizza-gleði

Guðrún Sóley er mikið fyrir pítsur.

Aðspurð hvaða matur henni sjálfri þykir ómissandi segir Guðrún Sóley: „Ég er svo einföld sál að ég segi pizzur. Einhverjir gætu haldið að það væri lítið fútt í vegan pizzum en það er á misskilningi byggt – þær eru nákvæmlega jafn djúsí og skemmtilegar. Nú er hægt að fá skrilljón tegundir af vegan ostum og rjómaostum úti í búð, auk þess sem hægt er að útbúa þá heima með lítilli fyrirhöfn. Svo er bara að missa sig í gleðinni; blanda til dæmis chili, ferskum fíkjum, steiktum sveppum, fennel eða hverju því sem okkur finnst best. Ég vil líka meina að góð pizza þurfi alltaf svokallað „krönsj-element“ – eitthvað stökkt og gott á toppinn, til dæmis saxaðar salthnetur eða mulið nachos. Ég fæ vatn í munninn!“

Ég vil líka meina að góð pizza þurfi alltaf svokallað „krönsj-element“.

Ekki eintómt brokkólí

Það er augljóst að í bókinni er að finna afar fjölbreyttar uppskriftir, allt frá djúpsteiktum avókadófrönskum og hummus yfir í gómsæta súkkulaðiköku og pavlovur. „Þær eru nauðsynlegur hluti af mataræði hverrar manneskju og bjóða upp á endalausa möguleika.“

Guðrún Sóley segir uppskriftirnar í bókinni vera fyrir alla sælkera. „Ég lagði þunga áherslu á að hver einasti réttur væri bragðgóður, djúsí og mettandi. Vegan matur er alls ekkert megrunarfæði eða eintómt hrátt brokkolí. Hún er líka fyrir þá sem vilja auka hlutfall grænmetis í mataræðinu sínu og læra að fara með hráefni sem okkur er kannski ekki tamt að nota.“

Krabbameinið kom ekki á óvart

Hrefna Eyþórsdóttir er 34 ára tveggja barna móðir er greindist með brjóstakrabbamein í fyrra. Nú hafa bæði brjóstin verið fjarlægð, hún hefur lokið lyfja- og geislameðferð og er bjartsýn á að vera laus við meinið.

Hrefna er alveg hissa á beiðni um viðtal. Henni finnst hún ekki vera viðtalsefni, hún hafi bara fengið sjúkdóm og tekist á við hann eins og svo margir aðrir. Eftir smávegis eftirgangsmuni lætur hún samt undan og samþykkir að segja Vikunni sögu sína. Fyrsta spurningin er hvort það hafi ekki verið mikið áfall að greinast með krabbamein svona ung.

„Nei, eiginlega ekki,“ segir hún. „Ég fékk að vita það árið 2015 að ég væri með BRCA-genið en þá var ég ólétt þannig að ég gat ekki byrjað í eftirliti strax. Mér var sagt að hafa samband þremur mánuðum eftir að ég hætti með dóttur mína á brjósti, sem ég gerði. Sama dag og ég hringdi til að tilkynna að ég væri tilbúin að byrja í eftirliti fann ég hnút í brjóstinu. Ég hafði svo sem reiknað með því að ég ætti eftir að fá krabbamein alveg frá því að ég fékk upplýsingarnar um genið, kannski ekki svona snemma reyndar en einhvern veginn kom þetta mér samt ekkert á óvart.“

Ýtarlegra viðtal er að finna við Hrefnu í kökublaði Vikunnar.

Mánuði eftir að Hrefna fann hnútinn í brjóstinu lá greiningin fyrir: þriðja stigs brjóstakrabbamein sem komið var í eitla í holhendinni. Hún segist samt hafa hugsað sem svo að þetta yrði nú lítið mál fyrst ekki voru komin meinvörp annars staðar í líkamanum. Þetta væri bara verkefni sem hún þyrfti að tækla. Hrefna býr á Fáskrúðsfirði og aðgerðir og meðferðir kostuðu auðvitað endalausar ferðir milli landshluta, en hún segist hafa reynt að hafa fjarveruna sem allra stysta í hvert sinn.

„Ég þurfti reyndar að byrja á því að fara í brennsluaðgerð í gegnum hjartaþræðingu á milli jóla og nýárs í fyrra, þar sem ég hafði verið með hjartsláttaróreglu,“ útskýrir hún. „Í byrjun janúar fór ég svo til Reykjavíkur og fór í aðgerð þar sem bæði brjóstin voru fjarlægð, auk eitlanna í holhöndinni. Þá var ég í Reykjavík í tólf daga og það var lengsti tíminn sem ég var að heiman í öllu þessu ferli. Eftir það fór ég suður einu sinni í viku í brjóstauppbyggingu og síðan í lyfjameðferð en þá flaug ég bara um morguninn og svo heim aftur með kaffivélinni. Mér fannst það miklu betra heldur en að þurfa að vera í burtu frá krökkunum í langan tíma. Þegar ég var í geislameðferðinni þurfti ég reyndar að vera fyrir sunnan alla vikuna, en fór alltaf heim um helgar.“

„Í byrjun janúar fór ég svo til Reykjavíkur og fór í aðgerð þar sem bæði brjóstin voru fjarlægð, auk eitlanna í holhöndinni.“

Hrefna er fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði og foreldrar hennar búa þar svo hún segist hafa haft mikinn stuðning í gegnum meðferðarferlið. Reyndar hafi allir í þessu 700 manna samfélagi verið boðnir og búnir að hjálpa henni, svona bæir séu eins og ein stór fjölskylda. Ýtarlegra viðtal er að finna við Hrefnu í kökublaði Vikunnar.

Myndir / Úr einkasafni

Kanntu að sjóða egg?

Margir hafa sterkar skoðanir á því hvernig þeir vilja hafa eggin sín soðin en vita ekki alveg hvaða suðutími er bestur.

Flestum þykir ekkert tiltökumál að sjóða eitt lítið egg og í raun er það ekkert mál, bara vatn í pott og sjóða í nokkrar mínútur. Margir hafa sterkar skoðanir á því hvernig þeir vilja hafa eggin sín soðin en vita ekki alveg hvaða suðutími er bestur. Við hér á Gestgjafanum ákváðum því að sjóða nokkur egg og skoða eldun þeirra á nokkurra mínútna millibili og mynda útkomuna svo þið lesendur góðir getið notið góðs af og soðið ykkur fullkomið egg.

Eggjasuða

Setjið vatn í lítinn pott og saltið aðeins vatnið, það herðir skurnina og kemur í veg fyrir að eggin springi. Látið suðuna koma upp og setjið eggin varlega út í með skeið og lækkið aðeins hitann. Stillið strax klukku til að fylgjast með tímanum.

Þegar eggið hefur soðið í þann tíma sem hentar ykkar smekk takið það þá upp úr og setjið í skál með ísköldu vatni þannig að suðan á egginu hætti. Ef egg springur á meðan á suðu stendur má setja edik út í vatnið það hjálpar til við að binda saman skurnina þannig að sem minnstur skaði verði. Mælingarnar hér að neðan eru miðaðar við meðalstærða á eggjum og því þarf ýmist að bæta við tímann eða minnka allt eftir stærð eggjanna, 30 sekúndur til 1 mínúta ætti að duga.

 

Vinsælasti ballett sögunar á svið

Balletthópurinn: St. Petersburg Festival Ballet mun flytja Hnotubrjótinn í Hörpu ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hnotubrjóturinn er einn vinsælasti ballett sögunnar. Hrífandi tónlist Tchaikovskys skapar töfrandi jólastemningu þar sem allt getur gerst. Ballettinn er ómissandi hluti af jóladagskrá margra tónleikahúsa erlendis og börn jafnt sem fullorðnir hlakka árlega til þess að njóta uppfærslunnar.

Á aðfangadagskvöld fær María fallegan hnotubrjót að gjöf frá hinum dularfulla Drosselmeyer. Atburðarásin tekur óvænta stefnu þegar leikföngin undir jólatrénu lifna við og inn koma mýs í einkennisbúningum. Hnotubrjóturinn breytist í prins og leiðir Maríu inn í ævintýraland þar sem ýmislegt óvænt gerist.

Rússneski balletthópurinn: St. Petersburg Festival Ballet mun í þriðja sinn færa þennan fallega ballett á svið í Eldborgarsal Hörpu en Sinfóníuhljómsveit Íslands spilar með danshópnum dagana 22. til 24. nóvember næstkomandi.

Smákökur sem bráðna í munni

Jólin verða seint fullkomnuð ef ekki eru smákökur í húsinu, bökunarlyktin ein og sér er til þess fallin að koma flestum í jólaskap í myrkasta skammdeginu. Meðfylgjandi er uppskrift að gómsætum Alfajores-smákökum sem bráðna í munni.

Sumir baka ótalmargar sortir fyrir jólin og keppast við að fylla allar áldollur af margvíslegu bökuðu góðgæti á meðan aðrir eiga eina til tvær uppáhaldsuppskriftir sem þykja ómissandi. Hvort sem kökurnar eru bornar fram með stöku mjólkurglasi fyrir börnin eða á fallegum bökkum í kaffiboðinu er eitt víst, jólin væru fátæklegri án þessara ljúfu bita.

Alfajores
u.þ.b. 12 smákökur

Þessar smákökur eru vinsælar í Mið- og Suður-Ameríku þar sem þær eru oft seldar á kaffihúsum ásamt bolla af rótsterku kaffi. Aðaluppistaðan í smákökunum er maísmjöl og smjör sem fá þær til að bráðna í munninum. Í okkar útfærslu dýfum við þeim að hluta til ofan í súkkulaði og sáldrum rifnu kókosmjöli yfir. Öðruvísi smákökur fyrir ævintýragjarna sælkera.

200 g smjör, saltað
80 g flórsykur
½ tsk. vanilludropar
1 tsk. rifinn sítrónubörkur
150 g maísmjöl
150 g hveiti
1½ dl Dulce de leche (hægt að kaupa tilbúið, t.d. frá Stonewall)
100 g dökkt súkkulaði
3 msk. kókosmjöl

Hrærið saman smjör og flórsykur þar til blandan verður létt og kremkennd, bætið vanilludropum og sítrónuberki saman við. Sigtið saman maísmjöl og hveiti. Hrærið það saman við smjörblönduna á lágri stillingu. Hvolfið deiginu úr skálinni á hveitistráðan flöt og hnoðið létt til. Fletjið út í disk og vefjið plastfilmu utan um. Geymið í kæli í hálftíma.

Hitið ofninn í 170°C og leggið bökunarpappír ofan á ofnplötu. Takið deigið úr ísskápnum og látið standa í 5 mínútur til að mýkja deigið aðeins. Fletjið út þar til það verður u.þ.b. 4 mm að þykkt. Notið kökuskera til að skera út form í deigið, ákjósanlegast er að nota form sem er 5 cm að þvermáli. Raðið smákökunum á ofnplötuna og setjið inn í kæli í 10-15 mínútur.

Bakið í 10-12 mínútur eða þar til þær fara að gyllast við endana. Látið kólna á grind og smyrjið með dulce de leche. Setjið u.þ.b. 1 tsk. af karamellunni ofan á botninn á helming kakanna. Leggið síðan ósmurða smáköku ofan á og snúið botnunum í sitthvora áttina til að dreifa jafnt út karamellunni. Endurtakið við restina af smákökunum og raðið á grind.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og takið af hitanum. Dýfið smákökunum ofan í til þriðjungs eða hálfs og leggið síðan aftur á grindina. Sáldrið kókosmjöli yfir súkkulaðið áður en það storknar.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Ljósmyndari / Hákon Davíð Björnsson

„Ef þú ert manneskja sem hefur áhuga á því að vaxa og líða betur, ert þú markhópurinn okkar“

Vinkonurnar Eva María Mattadóttir og Sylvía Briem Friðjónsdóttir stofnuðu hljóðvarpið Normið þar sem þær leitast við að svara spurningum eins og af hverju mannfólkið er eins og það er. Hvers vegna hegðum við okkur á ákveðinn máta og hvernig getum við öll rifið okkur upp á hærra plan?

Stöllurnar kynntust fyrst árið 2014 þegar Eva hóf þjálfaranám hjá Dale Carnegie, þar sem Sylvía var þjálfari. Þær segja að um leið og þær hittust fyrst hafi þær fundið hversu óhugnanlega líkar þær væru á marga vegu, en það var ekki fyrr en sameiginleg vinkona þeirra gekk í gegnum erfiða tíma að þær fóru að kynnast betur. „Við hjálpuðum henni báðar og hvöttum áfram, þó hvor í sínu horninu,“ rifjar Eva upp. „Við sáum frábæra breytingu á henni og fundum að vinnan okkar bar árangur. Þá ákvað ég að senda Sylvíu skilaboð sem voru orðrétt: „Hei, ættum við ekki að fara að hittast og kynnast betur?“ Eftir það byrjaði boltinn að rúlla og við fórum að hittast oftar og oftar. Uppáhaldsstaðurinn okkar varð Te & kaffi í Kringlunni og þar höfum við varið ófáum klukkutímum í spjall um tilveruna. Það er ómetanlegt að eiga vinkonusamband þar sem einlægni, plebbahúmor og skilningur er í fyrirrúmi. Og auðvitað hlátursköst á fimm mínútna fresti!“

Mynd / Unnur Magna

Stöðugt að leita leiða til að efla sjálfa sig

Eva og Sylvía eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á mannlegri hegðun og sjálfsvinnu. Sylvía hefur, að eigin sögn, allt frá barnæsku pælt mikið í fólki og því hvernig hægt sé að verða besta útgáfan af sjálfri sér. „Í því felst stöðug vinna í að leita leiða til að efla sjálfa mig og taka toppstykkið í hærri hæðir. Það mætti segja að ég sé með þráhyggju fyrir mannlegri hegðun og fólki,“ segir hún, og Eva tekur undir. „Áhugi minn liggur helst í því að efla mig. Í sannleika sagt held ég að sá áhugi hafi bjargað lífi mínu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég hef farið í gegnum alls konar hóla og hæðir eins og allir aðrir og lært mest af stærstu mistökunum.“

Ég reyni að hugsa með hjartanu, því heilinn í mér er stundum eins og þeytivinda þegar ég leyfi honum að ráða ferðinni.“

Vinkonurnar hafa fjölbreyttar ferilskrár að baki og er margt til lista lagt. Eva segir börnin sín tvö og fimm ára edrúmennsku vera á toppnum yfir sín helstu afrek. „Ég er óvirkur alkóhólisti og það er eitthvað sem ég er virkilega stolt af. Tónlist er líka stór partur af mér og ég get alveg gleymt mér í textagerð og melódíum. Svalasta áhugamálið mitt er samt snjóbretti. Mér finnst ég mjög svöl að kunna á snjóbretti og elska að renna mér með góða tóna í eyrunum, það er fyrirtaks hugleiðsla. Þegar ég var 19 ára flutti ég til Kaliforníu þar sem ég er fædd og lagði stund á leiklist, ég gjörsamlega elska að lifa mig inn í hlutina og fékk aldeilis útrás í því námi. Ég starfa núna sem Dale Carnegie-þjálfari og þjálfa þar ungt fólk í átt að betra sjálfstrausti, svo tek ég sálfræðinám jafnt og þétt með. Ég var reyndar að klára fæðingarorlof í sumar en ég átti strákinn minn í janúar. Nú tekur Normið við og önnur spennandi ævintýri,“ segir hún.

Þegar Sylvía er beðin um að lýsa sjálfri sér nefnir hún fyrst að hún sé forfallinn Beyonce-aðdáandi, ADHD-mamma, með áráttu fyrir fólki og mannlegri hegðun. „Ég er með þessi týpísku áhugamál; það allra fyrsta er að njóta og vera með fjölskyldunni, ferðast, elda góðan mat, sjá fólk blómstra í kringum mig og fá að vera partur af því, svo eitthvað sé nefnt. Ég starfa sem Dale Carnegie-þjálfari og vinn hjá Ölgerðinni. Ég hef lokið námi í Neuro Linguistic Programming, heilsumarkþjálfanámi frá New York og ljósmyndun og er núna í sálfræðinámi. Svo á ég von á öðrum strák núna í febrúar þannig að það mætti segja að það sé nóg að gera.“

Þráhyggja fyrir mannlegri hegðun

Fyrir skömmu bárust þær fréttir að vinkonurnar hygðust gefa út hlaðvarp, sem fengið hefur nafnið Normið. „Við fundum að þessi samtöl okkar um lífið, sjálfstraust, kvíða, samskipti og allt þar á milli höfðu mikil áhrif og hjálpuðu okkur verulega. Við lærum margt hvor af annarri því við erum einnig mjög ólíkar á margan hátt. Við áttuðum okkur á því að þessi samtöl og fróðleiksmolar gætu hjálpað öðrum til að líða betur og þannig spratt hugmyndin fram um Normið síðasta sumar,“ segja þær.

Eins og nafnið gefur til kynna er áherslan lögð á að ræða þetta svokallaða norm. „Hvað er normið? Hvað er samfélagslega ásættanlegt? Erum við sáttar við það? Hvernig getur okkur liðið betur? Hvernig komumst við á staðinn sem okkur langar að komast á í lífinu? Markmið okkar er að koma til skila öllum þeim fróðleik og „life-hacks“ sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina svo það geti mögulega gagnast öðrum og lyft fólki upp á hærra plan. Við höfum mikla reynslu af því að vinna með fólki og endalausri sjálfsvinnu. Til dæmis höfum við lært Neuro Linguistic Programming, leiklist, markþjálfun og heilsumarkþjálfun. Við erum báðar í sálfræðinámi, báðar þjálfarar hjá Dale Carnegie og með þessa þráhyggju fyrir mannlegri hegðun og því hvernig hægt er að finna alvörulausnir á vandamálum og vanlíðan. Allt þetta myndar skemmtilega og kraftmikla reynslusúpu sem okkur langar til að aðrir drekki í sig. Við viljum tala um hluti sem eru erfiðir og finna lausnir en líka slá sumu upp í grín því við mannfólkið getum verið skemmtilega dramatískt inn á milli, og þar erum við tvær alls ekki undanskildar.“

Við höfum mikla reynslu af því að vinna með fólki og endalausri sjálfsvinnu.

Mynd / Unnur Magna

Yfirþyrmandi framboð af snilld í hlaðvarpsheiminum

Fyrsti þátturinn fór í loftið 8. nóvember síðastliðinn og hefur hlotið frábærar viðtökur. Að sögn Sylvíu allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Við eigum það öll sameiginlegt að vera mannleg en stundum eigum við það flest til að gleyma því og þrjóskast við að reyna að vera óaðfinnanleg og fullkomin. Normið snýst um hluti eins og að þora að vera við sjálf, hræðslu við að gera mistök, sjálfstraust, kvíða, álit annarra og allt þar á milli. Ef þú ert manneskja sem hefur áhuga á því að vaxa og líða betur, ert þú markhópurinn okkar.“

Þær munu fá til sín áhugaverða gesti og hvetja fólk til að hafa samband við sig sem langar að láta í sér heyra. „Gestirnir okkar verða fyrst og fremst fólk sem nær árangri, skarar fram úr og kemst yfir hindranir með einstöku hugarfari,“ segir Eva. „Tilgangurinn með því að fá gesti er í raun að útvarpa visku fólks svo við getum öll lært af því. Mögulega geta hlustendur nýtt sér viskuna og yfirfært á sitt líf. Ástæðan fyrir því að við tvær höfum náð langt hvað sjálfstraust og hugarfar varðar er sú að við fylgjumst með fólki sem treystir á sjálft sig og er óstöðvandi. Við tileinkum okkur eiginleika þessa fólks og tileinkum okkur það sem virkar. Það er enginn að finna upp hjólið hérna, maður þarf bara að finna sér sterkar fyrirmyndir.“

Aðspurðar segjast þær að vissu leyti halda að hlaðvörp séu að taka við af bókum og lestri. „Okkur finnst hlaðvörp frábær viðbót við fróðleiksflóruna sem til er, en bækur eru ódauðlegar. En það er heill hellingur til af hlaðvörpum! Íslensk og erlend. Það er endalaust af upplýsingum til hvort sem þær er að finna í bókum, á Netinu, í hlaðvörpum eða annars staðar  – og það skemmtilega er að allir geta fundið hvað hentar þeim best. Sjálfar hlustum við mikið á hljóðvörp, af íslenskum mætti helst nefna Snorra Björns og Þarf alltaf að vera grín? Eva hlustar mikið á the GaryVee Audio Experience og How I Built This with Guy Raz. Svo elskum við báðar Opruh Winfrey og hlustum á SuperSoul Conversations. Það er óteljandi margt fólk í heiminum sem hægt er að læra af og stundum er yfirþyrmandi hvað það er mikið framboð af snilld í hlaðvarpsheiminum.“

Viðtalið birtist fyrst í Vikunni.

Lét „fótósjoppa“ látinn unnustann inn á myndirnar

Hin bandaríska Debbie Gerlach vildi minnast látins unnusta síns með því að fara í myndatöku skömmu fyrir daginn sem átti að verða brúðkaupsdagurinn þeirra. Hún lét svo „fótósjoppa“ unnustann inn á myndirnar.

Þann 11. nóvember ætluðu þau Debbie Gerlach og Randy Zimmerman að ganga í hjónaband. En í febrúar á þessu ári breyttist tilvera Debbie þegar Randy lést í mótorhjólaslysi.

En þrátt fyrir fráfall unnusta hennar ákvað Debbie að fara í myndatöku í brúðarkjólnum rétt fyrir daginn sem átti að verða stóri dagurinn þeirra. Debbie fékk ljósmyndarann Kristie Fonseca með sér í lið sem myndaði hana líkt og að um brúðkaupsmyndatöku væri að ræða. Svo tók hún gamlar myndir af Randy og „fótósjoppaði“ hann inn á myndirnar.

Fonseca sagði í viðtali við Yahoo Lifestyle að Debbie hefði staðið sig vel fyrir framan myndavélina og hafi ekki átt í neinum vandræðum með að setja sig í stellingar sem auðvelt var að vinna með.

Myndirnar hafa vakið mikla athygli síðan Fonseca birti þær á vef sínum. Þá birti Debbie þær einnig á Facebook ásamt hjartnæmri kveðju. „Dagurinn í dag átti að verða dagurinn sem mig hefur dreymt um síðan ég var lítil stelpa. En í dag vaknaði ég ein, eins og ég geri á hverju degi,“ skrifaði hún meðal annars.

Raddir