Fimmtudagur 19. september, 2024
6.6 C
Reykjavik

Heillandi hátíðarförðun

|||||||||
|||||||||

Nú, þegar jólahlaðborðin og árshátíðirnar eru allsráðandi, er gaman að vita hvað ber hæst í förðun. Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur hjá Yves Saint Laurent, deilir hér með okkur sínum uppáhaldsvörum en þar sem veturinn er kominn og minna af sólargeislum, leitar hún í meira þekjandi vörur og dimmari liti með góðri endingu.

„Top Secrets ULTRA MOISTURE frá YSL gefur einstaka og djúpa næringu þegar húðin þarfnast hennar hvað mest. Kremið vinnur einnig eins og farðagrunnur og gefur því ekki einungis raka og næringu heldur jafnar og þéttir yfirborð húðarinnar fyrir farða.“

„Teint Idole Ultra Wear-farðinn frá Lancôme er endingargóður og vel þekjandi. Ráð: Til að létta farðann og fá meiri næringu er gott að blanda Ultra Moisture-kreminu út í hann.“

„Naked Skin-hyljarinn frá Urban Decay er mjúkur með miðlungsþekju, hann gefur næringu, róar húðina og dregur úr þrota yfir daginn. Ráð: Notaðu hyljarann til að ramma inn augabrúnir og skerpa varalínu.“

„Couture Blush-kinnalitirnir frá YSL gefa frískan og fallegan lit til að lífga upp á förðunina. Ráð: Bleyttu aðeins upp í kinnalitnum þínum til þess að fá enn dýpri og skarpari lit, hann má einnig nota á augun.“

„Powder to Cream-augabrúnavaran frá Lancôme fyllir upp í og þéttir augabrúnirnar og endist frá morgni til kvölds.“

„Naked CHERRY-augnskuggapallettan frá Urban Decay er ein af mín uppáhalds núna. Tólf nýir rauðtóna litir, allt frá saneruðum bleikum tónum til mattra burgundy-lita.“

„Feline Black EXTRAVAGANZA-maskarinn frá Helena Rubinstein gefur mikla þykkt og mjög svartan lit. Fullkominn fyrir heillandi og dramatíska hátíðarförðun.“

„L’Absolu Rouge Drama Matte-varalitirnir frá Lancôme eru mattir, mjúkir og endingargóðir. Annað þarf ekki til að toppa lúkkið.“

„All Nighter Setting Sprey frá Urban Decay er svo alltaf nauðsyn, að mínu mati, til að festa förðunina og gefa henni yfir 16 klukkustunda endingu.“

 

Mynd af Björgu / Aldís Pálsdóttir

Mansalshringir herja á Airbnb-eigendur

Gistihúsaeigandi sem rekur Airbnb-þjónustu á höfuðborgarsvæðinu óttast að mansalshringir notfæri sér þjónustu hans til að gera út konur í vændi. Óvenju tíðar ferðir og grunsamleg hegðun gesta, vandamál við greiðslur og óvenjulegar matarvenjur vöktu grunsemdir eigandans sem gerði lögreglu viðvart. Sökum manneklu getur lögreglan hins vegar lítið gert nema hún grípi viðkomandi glóðvolga.

Nota stolin kreditkort til að kaupa gistingu

Gistihúsaeigandinn, sem vildi ekki koma fram undir nafni af ótta við að það hafi neikvæð áhrif á orðspor fyrirtækisins, lýsir upplifun sinni í samtali við Mannlíf. Eins og algengt er með gistihús eins og hér um ræðir eru íbúðirnar bókaðar á Netinu í gegnum bókunarsíður og greitt fyrir með kreditkorti. Kaupandinn fær síðan staðfestingu í tölvupósti ásamt upplýsingum um staðsetningu og sérstakan talnalykil til að komast inn í íbúðina. Gesturinn sér því alfarið um að innrita sig sjálfur. Þetta hafa óprúttnir aðilar notfært sér í auknum mæli. „Það er að færast í aukana að greiðslur falla til baka 2-3 vikum eftir að fæslan hefur farið í gegn, þegar maður fær tilkynningu frá innheimtuaðilanum að greiðslan sé afturkölluð. Búið að greiða og allt gengur í gegn en þá kemur í ljós að eigandi kortsins kannast ekki við færsluna og tilkynnir það kortafyrirtækinu. Greiðslan er þá afturkölluð og tjónið lendir á mér,“ segir gistihúsaeigandinn og bætir við að hann hafi sömu aðila grunaða um að stunda vændisstarfsemi í íbúðunum.

Keyrðar fram og til baka og nærast á dósamat

Gistihúsaeigandinn segir að hann hafi orðið var við óeðlilega mikla umferð um íbúðirnar  og því verið á varðbergi. Gestirnir, kúbanskar konur, hafi stundum staðið fyrir utan og reykt sem hann gerði athugasemd við. „Ég sé hvenær lásarnir á íbúðunum eru opnaðir, það er skráð í gagnagrunn. Í þessum tilfellum hafa lásarnir verið opnaðir á klukkutíma fresti, sem er mjög óeðlilegt,“ útskýrir hann og segist í kjölfarið hafa leitað til lögreglu sem mætti á staðinn. Þá voru konurnar ekki inni og lítið sem lögregla gat aðhafst. Maðurinn telur einnig að konurnar séu fórnarlömb mansals.

„Íbúðirnar eru vanalega bókaðar í 4-5 daga yfir helgi. Konurnar koma stundum á réttum degi, en fara gjarna á sunnudegi eða mánudegi þótt íbúðin sé bókuð fram á fimmtudag. Ég get ekki verið viss um annað en að þær standi sjálfar á bak við bókanirnar. Ástæðan fyrir því að ég tel svo ekki vera er aðbúnaður kvennanna. Koma þeirra er greinilega undirbúin, sami leigubílstjórinn hefur komið með þær á staðinn og þær fara ekkert nema vera sóttar og borða aðeins það ódýrasta sem hægt er að fá, hakkaða tómata og aðrar niðursuðuvörur. Maður sér það þegar maður tæmir ruslið, ekkert nema niðursuðudósir. Ódýrasta íbúðin er alltaf valin og hún bókuð deginum áður jafnvel,“ segir hann og bætir við: „Það er einfaldlega ekki þannig að fólk sem kemur til að heimsækja Ísland bóki deginum áður en það kemur. Ef ég reyni að spyrjast fyrir og leita upplýsinga, þá er fólkið búið að pakka og farið.“

Fljótir að hverfa ef grunsemdir vakna

Síðastliðinn laugardag hringdi karlmaður á gistiheimilið, hann hafði bókað sex gistinætur daginn áður, úr leyninúmeri. „Hann spurði hvernig hann kæmist inn en allir sem bóka fá strax sendan tölvupóst með slíkum upplýsingum. Hann segist ekki hafa fengið póstinn svo ég lét hann gefa mér upp netfang og sendi aftur. Þá sá ég að nafnið á netfanginu passaði ekki við greiðanda. Þegar ekki var svarað í símanúmerinu sem hann gaf upp, fletti ég því upp og komst að því að þetta var falskt númer fyrir Bretland, en nafnið á netfanginu var austur-evrópskt. Eftir að maðurinn játaði því að hann væri að koma sjálfur, minnti ég hann á að taka með sér vegabréf og kreditkortið sem greitt var með. Maðurinn kom aldrei svo ég læsti lásunum að íbúðinni, viðkomandi hefði því þurft að hringja í mig til að komast inn,“ útskýrði gistihúsaeigandinn og bætti við að ljóst mætti vera að þessir aðilar létu sig hverfa um leið og grennslast væri fyrir um þá.

Sprenging í vændi

Lýsing gistihúsaeigandans kemur heim og saman við það sem lýst er í árlegri skýrslu Ríkslögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Þar er „sprenging“ í vændi sett í samhengi við mikla fjölgun ferðamanna og uppgang í efnahagslífinu. Í skýrslunni segir að sumar þær erlendu kvenna sem stunda vændi séu sendar um lengri eða skemmri tíma til landsins og að baki búi nauðung. Telur lögreglan að hluti starfseminnar tengist skipulögðum glæpasamtökum. Í einhverjum tilvikum fylgi erlendir karlmenn konunum og hafi eftirlit með þeim á meðan þvær dveljast hér. Konunrnar fá við komuna íslensk símanúmer og hafi aðstöðu í leigugistingu. Sökum manneklu og „afleiddrar nauðsynlegrar forgangsröðunar“ hefur lögreglan ekki haft tök á að rannsaka þetta frekar.

Ljóst er að misnotkun vændishringja á leigugistingu er ekki bundin við Ísland. Fyrr á árinu tilkynnti Airbnb að fyrirtækið hyggðist grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að vændishringir breyti leiguíbúðum í „skyndi-vændishús“ (e. pop-up brothels). Er Airbnb í samstarfi við grasrótarsamtökin Polaris sem berjast gegn mannsali þar sem starfsmenn verða þjálfaðir sérstaklega í að koma auga á mögulegt mansal.

„Það kemur enginn betri út af Hólmsheiðinni“

Fangelsi á Hólmsheiði - Myndin tengist fréttinni ekki beint

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, varar við því að túlka samanburð við önnur Norðurlönd Íslandi í hag eins og gert hefur verið, en ný samnorræn fangelsisskýrsla kom nýlega út. Hér sé refsivörslukerfið allt öðruvísi, biðtími lengri eftir afplánun og dómar birtast til dæmis seinna en annars staðar á Norðurlöndum.

Hann segir nýtt fangelsi á Hólmsheiði síður en svo bæta þetta. „Persónulega held ég að þetta sé eitt mesta slys sem hefur orðið, þetta er illa hannað og undirmannað. Það er ekki hægt að reka þetta, það eru bara ekki til peningar fyrir því. Það er engin skólaaðstaða fyrir verknám, erfiðar vinnuaðstæður, þetta er ofboðslega stofnanalegt. Það er ekki einu sinni búið að semja um heilbrigðisþjónustu í þessu fangelsi, það er ekki búið að semja um menntamál á Hólmsheiði. Það vantar allt. Þetta er bara steypukassinn,“ segir Guðmundur Ingi og líkir deginum þar inni við að standa fyrir framan lyftu sem aldrei komi. „Þetta er í raun hræðilegt fangelsi þótt aðstaðan sé fín en hún skiptir minna máli en innihald fangavistarinnar. Verknám og starfsþjálfun er það sem skiptir mestu máli.“

Hann segir gott starfsfólk þarna sem reyni að bjarga hlutunum en það sé ekki nóg. „Það kemur enginn betri út af Hólmsheiðinni, ég get alveg sagt það.“

„Að hafa eitthvað við að vera skiptir mestu máli, og vinna eða nám,“ segir Þráinn Farestveit sem hefur verið framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar undanfarin 18 ár. Á Hólmsheiði sé nánast ekkert í boði og það gangi illa að koma því í farsælan farveg að fá verkefni t.d. utan fangelsisins fyrir fanga og það komi ekkert annað í staðinn. „Það er í raun og veru ekkert að hafa,“ ítrekar hann.

Þráinn segir að hópurinn sem núna sé inni í fangelsunum sé mun erfiðari heldur hann var fyrir örfáum árum síðan. Fangahópurinn sé samsettur af mjög erfiðum einstaklingum og því hlutfallslega færri hæfir til að koma inn á áfangaheimilið Vernd en dvöl þar minnkar möguleikana á endurkomu.

Endurkomutíðni hjá kvenföngum hærri

Staðan hjá konunum er verri en karlanna eða sambærileg verstu tilvikunum meðal þeirra. „Þær koma veikari inn í fyrsta skipti. Ég held að það sé verið að gera þeim einhvern greiða í dómskerfinu, þær fara seinna inn og hafa því lengri tíma að skemma sig,“ segir Guðmundur Ingi.

Endurkomutíðnin hjá konum er að sama skapi hærri. „Hún er það hjá okkur klárlega. Aðeins um 30 prósent kvenfanga standast kröfur um að koma til okkar sem er miklu lægri tala en meðal karlanna,“ segir Þráinn.

Þráinn bendir þó á að mjög erfitt sé að henda reiður á nákvæmum tölur um endurkomutíðni. Frestun afplánunar, fyrning dóma, rafrænt eftirlit og samfélagsþjónusta hefur áhrif á talningu og svo sé einnig óljóst hvaða áhrif erlendir fangar sem fara úr landi hafi á töluleg gögn. Þráinn segir stærsta vandann vera veikt fólk. „Það er svo margt veikt fólk inni í þessu kerfi sem þarf á mikilli aðstoð að halda og ég vil fullyrða að vel yfir 90 prósent af þeim sem eru í fangelsi eigi við mjög alvarlegan fíknivanda að stríða og menn eru farnir að þróa með sér ýmist geðræn vandamál samhliða því auk þess að allt of margir eru á lyfjum sem þeir fá innan fangelsisins.“

Eftir Lindu Blöndal

Varpar ljósi á fæðingarþunglyndi

Rejúníon er nýtt íslenskt leikrit eftir Sóleyju Ómarsdóttur í framleiðslu Lakehouse. Verkið gerist í íslenskum samtíma og varpar ljósi á fæðingarþunglyndi, barneignir, sambönd og samfélagspressu.

„Ég byrjaði að skrifa leikritið þegar ég var ólétt af mínu öðru barni og var mikið hugsað til erfiðs tímabils þegar ég var ólétt í fyrsta sinn. Hugmyndin var að skrifa verk um konur sem væru á einhvern hátt aftengdar umhverfinu og fólkinu í kringum sig, og lifðu í einhverri ósýnilegri einangrun. Þetta hefur verið mjög langt þróunarferli og verkið hefur tekið miklum breytingum. Það er í rauninni enn þá í þróun núna á æfingaferlinu þar sem allur þessi fjöldi listamanna sem kemur að sýningunni kemur með nýja sýn og hugmyndir,“ segir Sóley.

Leikritið fjallar um íslensku ofurkonuna og ferlafræðinginn Júlíu, sem í staðinn fyrir að horfast í augu við þá erfiðleika sem hún upplifði við að verða móðir, sekkur sér í vinnu, bollakökubakstur og Snapchat-frægð. Hún tekur einnig að sér að sjá um 20 ára grunnskóla-rejúníon í leyndri von um að endurnýja tengslin við æskuvinkonu sína og lífið áður en allt varð svona flókið.

„Kveikjan að hugmyndinni kom frá því tímabili þegar ég flutti ólétt heim til Íslands og var að vinna fjarvinnu heiman frá mér. Ég upplifði mikla einangrun og var alveg úr tengslum við lífið hérna heima. Ég datt fljótt í þunglyndi og hafði einnig yfirþyrmandi áhyggjur af því hvernig ég myndi standa mig í móðurhlutverkinu. Eftir fæðinguna var ég einnig með mikinn kvíða sem tengdist því að vera ein heima með ungbarn og bera ábyrgð á lífi þess en slíkur kvíði tengist einnig fæðingarþunglyndi. Ég leitaði mér aldrei aðstoðar en ég sé það eftir á að ég hefði átt að gera það,“ segir Sóley.

Fordómarnir gagnvart þeim sjálfum

Sóley segir að umræðan um fæðingarþunglyndi hafi opnast mikið á síðastliðnum árum en hún heldur að enn þá sé ákveðið tabú í kringum það. „Eins og Sæunn Kjartansdóttir sálfræðingur orðaði svo vel á málþinginu sem Lakehouse hélt í Tjarnarbíói um daginn, þá eru konur með fordóma gagnvart sjálfum sér að upplifa þessar tilfinningar því það að líða svona er ekki eitthvað sem þær lögðu upp með í byrjun. Ég held að við séum yfirleitt umburðarlyndari gagnvart öðrum og þeirra erfiðleikum, en þegar við upplifum erfiðleika sjálf þá finnst okkur við vera svo misheppnuð,“ segir Sóley og heldur áfram. „Svo er annað, að fólk heldur oft að hugtakið fæðingarþunglyndi eigi bara við um konur sem elska ekki barnið sitt. En konur geta að sjálfsögðu upplifað fæðingartengt þunglyndi þó að þær elski barnið sitt. Þetta var allavega misskilningur hjá mér og kom að einhverju leyti í veg fyrir að ég leitaði mér aðstoðar. Það er því gott að opna meira á þessa umræðu því þunglyndi og kvíði í kringum barneignir er alveg ótrúlega algengt. Ég komst að því þegar ég var að skrifa að flestir sem ég talaði við um verkið tengdu eitthvað við málefnið.“

Krafa um ofurkonu ímyndun

Hún telur að klárlega sé pressa frá samfélaginu um að konur eignist bæði börn og glæstan starfsferil. „Það eru næstum því fordómar í íslensku samfélagi gagnvart konum sem velja bara annað hvort. Margar konur eiga hins vegar ekkert val um að vera ofurkonur, eins og til dæmis einstæðar mæður sem kannski neyðast til að vinna í tvö störf. En þessi týpíska ofurkona sem við hugsum frekar um þegar við tölum um ofurkonur er frekar týpa sem er í flottu starfi en á samt nokkur börn, rekur fallegt heimili, sinnir félagsstörfum, fer í fjallgöngur og póstar chia-grautnum sínum á Instagram. Einhver krafa um slíkar ofurkonur er eitthvað sem ég held að sé bara ímyndun. Fólki er yfirhöfuð alveg sama hvað aðrir eru að gera.“

Verkið er frumsýnt 30. nóvember í Tjarnarbíó. Á bak við sýninguna stendur leikfélagið Lakehouse, en leikstjóri er Árni Kristjánsson. Leikarar eru Sólveig Guðmundsdóttir, Sara Martí Guðmundsdóttir og Orri Huginn Ágústsson. Framkvæmdastjórn, tónlist og hljóðheimur er í höndum Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur. Fiona Rigel sér um leikmynd og búninga, með aðstoð Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur. Vala Ómarsdóttir sér um hreyfileikstjórn, Ingi Bekk um vídeó og Halldór Örn Óskarsson um ljós.

Enn einn bletturinn á hina fögru íþrótt

Mynd/Pixabay

Það hefur löngum verið vitað að spilling grasserar í knattspyrnuhreyfingunni. Spillingin holdgervist meðal annars í þeirri ákvörðun að næsta heimsmeistarakeppni fer fram í Katar, landi þar sem ógerningur er að spila fótbolta á þeim tíma sem mótið fer alla jafna fram. Þýska blaðið Spiegel hefur á undanförnum vikum opinberað kerfisbundna spillingu í æðstu lögum knattspyrnuhreyfingarinnar. Umfjöllunin á rætur að rekja til grasrótarhreyfingarinnar Football Leaks og byggir á stærsta gagnaleka sögunnar. Blaðamenn Spiegel, ásamt 80 manna teymi frá 15 af helstu fjölmiðlum heims, hafa undanfarna mánuði farið yfir um 70 milljónir skjala sem sýna hvernig stærstu og ríkustu félög heims, í krafti gríðarlegs fjármagns, svínbeygja reglur og gildi íþróttarinnar til þess að moka enn meiri fjármunum undir sig. Lykilmenn innan hreyfingarinnar eru ýmist virkir þátttakendur eða líta undan. Umfjöllunin varpar meðal annars ljósi á leynilegar fyrirætlanir stærstu liða Evrópu um stofnun ofurdeildar og hvernig olíufurstar í Persaflóa svifust einskis til að gera algjört miðlungslið í Bretlandi að einu besta liði í heimi á aðeins nokkrum árum.

Framlenging af Sepp Blatter

Einhverjir hafa eflaust talið að þegar Sepp Blatter hrökklaðist úr forsetastól FIFA vegna yfirgengilegrar og lítt duldinnar spillingar að betri tímar væru í vændum. Eftirmaðurinn, Gianni Infantino frá Sviss, boðaði enda nýja og bjartari tíma en gögn Spiegel sýna að Infantino er lítið annað en framlenging á forvera sínum, jafnvel ívið óforskammaðri. Eitt hans fyrsta verk var að reka þá aðila sem voru að rannsaka innri mál FIFA, þar með talið hans eigin, og skipta þeim út fyrir manneskju sem hreinsaði nafn hans áður en hún tók til starfa. Hann skipaði svo aðalritara sem hafði aldrei komið nálægt fótbolta. Undir hans stjórn hefur FIFA dælt út milljónum dollara til aðildarsambandanna að því er virðist án nokkurrar ábyrgðar eða eftirfylgni. Lúxusbifreiðar, einkaþotur og dekurferðir til vilhollra koma oftar en ekki við sögu.

Velgengni í skjóli olíuauðs

Stór hluti uppljóstranna snýr að enska stórliðinu Manchester City, enda hefur uppgangur þess liðs á síðustu árum verið ævintýralegur. Manchester City var í besta falli miðlungsklúbbur þegar hann var keyptur af fjárfestingasjóði í eigu konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi árið 2008. Peningarnir flæddu inn í klúbbinn og sýna gögn Spiegel hvernig stjórnendur félagsins fóru kerfisbundið á svig við fjárhaldsreglur FIFA til að fegra bókhaldið. Manchester City spilaði eftir eigin leikreglum og gátu þannig, ólíkt keppinautum þeirra, gert ævintýralega styrktarsamninga við tengda aðila sem síðan tryggðu þeim aðgang að bestu knattspyrnumönnum og -stjórum heims. Þegar UEFA tók sig til og ætlaði að refsa Manchester City og franska liðinu PSG, sem einnig er í eigu moldríkra olíufursta, beitti títtnefndur Infantino, þá aðalritari UEFA, sér persónulega fyrir því að refsingarnar yrðu einungis til málamynda.

Sýna deildum og landsliðum fingurinn

Í tölvupóstum Football Leaks er að finna leynileg plön stærstu klúbba Evrópu um að koma á fót svokallaðri ofurdeild sem myndi gjörbreyta landslagi fótboltans til langframa. Planið er að 20 bestu (og ríkustu) lið álfunnar kljúfi sig frá eigin knattspyrnusamböndum og stofni eigin deild. Þessi lið myndu svo skipta með sér gríðarlegum tekjum sem fengjust í formi sjónvarpsréttarsamninga, sölu aðgöngumiða og styrktarsamninga. Þetta eru lið eins og Bayern München, Real Madrid, Barcelona, Manchester United, Liverpool, Juventus, PSG og fleiri. Gögnin sýna einnig að forráðamenn þessara liða hafa leitað leiða til að tryggja að leikmenn þessara liða þyrftu ekki að spila leiki með sínum eigin landsliðum.

Stórgræða á afrískum vonarstjörnum

Gögnin gefa sömuleiðis innsýn inn í hvernig stærstu lið heims notfæra sér unga leikmenn frá fátækari löndum sér til hagsbóta. Þannig hefur Manchester City starfrækt knattspyrnuakademíur í nokkrum Afríkulöndum um árabil. Þar fá ungir leikmenn aðgang að þjálfun og menntun sem þeir ættu alla jafna ekki völ á, sem vissulega er jákvætt, en framtíð þeirra er þó ekki eins glæst og ætla mætti. Félagið lítur á þessa drengi eins og hvern annan varning og samningarnir sýna að Manchester City hefur fullan yfirráðarétt yfir þeim. Ef þeir eru ekki nægilega góðir fyrir félagið eru þeir lánaðir, stundum þvert gegn eigin vilja, til smærri liða í Evrópu. Manchester City veit að fæstir þeirra muni nokkurn tíma spila leik fyrir félagið en akademían þarf ekki að skila nema einni stjörnu svo að fjárfestingin borgi sig, samanber þegar City seldi Kelechi Iheanacho til Leicester á 28 milljónir evra.

Heimavellir ruddu brautina fyrir þróunina á leigumarkaðinum

Leigufélögin svara þörf sem sprottin er af þjóðfélagsbreytingum sem hér hafa orðið. Við hjá Fasteignablaði Mannlífs hittum Guðbrand Sigurðsson, framkvæmdastjóra Heimavalla, og spurðum hann spjörunum úr um markmið og starfsemi Heimavalla sem hefur vaxið á markaðinum síðastliðin ár.

Hvað eru Heimavellir með margar íbúðir í rekstri og hvar eru þær staðsettar? „Í dag eru Heimavellir með um tvö þúsund íbúðir í rekstri á höfuðborgarsvæðinu, einnig á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Borgarnesi, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.“

Getur þú sagt okkur hvað kostar að meðaltali að leigja íbúð hjá Heimavöllum? „Mánaðarleiga hjá Heimavöllum liggur á víðu bili eða frá tæplega 100 þúsund krónum til ríflega 300 þúsund krónur á mánuði. Þannig var meðalíbúð Heimavalla í júní síðastliðnum, þriggja herbergja íbúð sem er rúmlega 90 fermetrar og meðalleiguverðið 160 þúsund krónur á mánuði. Af þeim leigutekjum eru vextir um 85 þúsund krónur á mánuði og því ljóst að lækka mætti leiguna umtalsvert með lækkun vaxtakostnaðar. Veruleiki vaxtakostnaðarins blasir einnig við leigufélögum sem rekin eru á félagslegum forsendum.“

Er reksturinn á leiguíbúðunum hagkvæmur fyrir ykkur sem leigufélag og fyrir leigjendur í senn? „Heimavellir hafa náð verulegum árangri í að auka hagkvæmni í rekstri leiguíbúða og þjónustu við leigjendur, meðal annars með uppstokkun í eignasafni sínu. Heimavellir vinna nú að þeirri nýjung með Reykjavíkurborg að undirbúa byggingu 100 stúdíóíbúða fyrir ungt fólk á Veðurstofureit sem væntanlega verða tilbúnar 2021. Það er dæmi um að leigufélög geta unnið með stjórnvöldum að þróun hagkvæmra lausna á húsnæðismarkaðinum. Jafnframt byggja Heimavellir nú 165 íbúðir í hjarta borgarinnar sem er tilraun til þess að bjóða upp á öruggt leiguhúsnæði miðsvæðis.“

Heimavellir vinna nú að þeirri nýjung með Reykjavíkurborg að undirbúa byggingu 100 stúdíóíbúða fyrir ungt fólk.

Hvernig getum við byggt upp öflugan og skilvirkan húsnæðismarkað? „Til þess að byggja upp öflugan og skilvirkan húsnæðismarkað hér á landi þarf að auka framboð á hagkvæmum íbúðum í hóflegri stærð, tryggja hagstæða langtímafjármögnun, halda fasteignagjöldum í skefjum og fjölga valkostum sem eru á markaðinum,“ segir Guðbrandur.  „Uppbygging öflugra leigufélaga sem geta boðið leigjendum örugga langtímaleigu og flutning innan eignasafns síns eftir þróun fjölskyldustærðar er mikilvægur þáttur í að byggja upp virkan húsnæðismarkað. Vert er í þessu sambandi að vekja athygli á þeirri niðurstöðu Ásgeirs Jónssonar hagfræðings og samstarfsfólks hans við Háskóla Íslands að leigumarkaður með öruggri leigu sé áhættuminni fyrir fólk en fjárfesting í eigin húsnæði.“

Nú hefur það heyrst að almennu leigufélögin ráði verði á leiguhúsnæði, er ekki eitthvað til í því? „Það er mikill misskilningur að almennu leigufélögin ráði verði á leiguhúsnæði. Aðeins 16 % leigjenda eru hjá einkareknu leigufélögunum. Það er fyrst og fremst skortur á íbúðarhúsnæði, mikill vaxtakostnaður af lánum og hár byggingarkostnaður sem stjórnar leiguverði. Mistekist hefur að byggja í takt við fólksfjölgun síðustu árin og það hefur sett þrýsting á leigumarkaðinn.“

Það er mikill misskilningur að almennu leigufélögin ráði verði á leiguhúsnæði.

Er sterk þörf fyrir leigufélög á leigumarkaðinum að þínu mati? „Almenni leigumarkaðurinn er valkostur fyrir allan þorra almennings. Á þeim markaði eru starfandi leigufélög eins og Heimavellir sem ruddu brautina fyrir þá þróun íbúðaleigufélaga sem hafin er. Færa má rök að því að á næstu árum þurfi íbúðum á leigumarkaði að fjölga um 10 þúsund. Fram undan er veruleg fólksfjölgun, breytingar eru orðnar á viðhorfum fólks til að eiga húsnæði og farartæki, húsnæðisþörfin er síbreytileg og óútreiknanleg og nýjar aðstæður eru í þjóðfélaginu meðal annars vegna innflutts vinnuafls og fjölda ferðamanna. Samanlagt mun þetta gera leigu, tímabundna eða varanlega, að eftirsóknarverðu búsetuformi á þróuðum og sveigjanlegum leigumarkaði,“ segir Guðbrandur að lokum.

Í samstarfi við Heimavelli
Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Yfir þrjátíu ára reynsla – velja rétta rúmið fyrir þig

 

 

 

 

 

Rekkjan hefur verið starfandi í sölu heilsurúma yfir þrjátíu ár. Frá upphafi hefur Rekkjan lagt áherslu á að vera með framúrskarandi þjónustu og gæðavörur. Við litum inn til Kristjáns Þórs Jónssonar, starfsmanns hjá Rekkjunni, og fengum innsýn í vöruúrvalið á heilsurúmum og þjónustuna sem þar er í boði.

Eru þið með ákveðnar tegundir af rúmum sem skara framúr hvað varðar gæði og notagildi?

Rekkjan hefur verið starfandi í sölu heilsurúma yfir þrjátíu ár.

„King Koil-rúmin er gríðarlega þekkt vörumerki í Bandaríkjunum enda hafa þeir verið að framleiða rúm í 120 ár við góðan orðstír og eru alltaf að koma með einhverjar nýjungar. Svo eru það stillanlegu rúmin frá Ergomotion sem er einnig amerískt fyrirtæki. Í þeim eru sterkir botnar og mótorar sem endast vel.  Svo má ekki gleyma náttúrulegu rúmunum frá Natura, þar sem er notast við latex, plöntusvamp og vottaða bómull og loks erum við með rúm frá sænska rúmframleiðandanum Carpe Diem. En þar eru rúmin sérpöntuð eftir þörfum og smekk viðskiptavinarins.“

Getur þú sagt okkur nánar frá King Koil-rúmunum sem eru ykkar aðalsmerki og hvaða kostum þau eru gædd?

„Þau eru til bæði einföld, góð og sterk heilsurúm sem og rúm sem bjóða upp á nýjungar eins og gel sem passar að dýnan elti ekki hitastig líkamans. Eitthvað sem sumum þykir æðislegt en það eru ekki allir að leita að slíku og vilja bara venjulegt gott heilsurúm.“

Bjóðið þið upp á margar tegundir frá fyrirtækinu King Koil?

„Við erum yfirleitt með fimm til sex gerðir af rúmum frá King Koil en það er stöðug þróun hjá King Koil og því koma nýjar týpur á um tveggja ára fresti. Allar tegundirnar eru með millistífu gormakerfi sem hentar fólki á bilinu 40 til 120 kíló. Í efsta lagi dýnunnar eru mismunandi stífleikar í mýkingunni sem fólk getur valið um, mjúkt, millistíft eða stíft. Þá kemur smekkur hvers og eins í spilið og þá svo lengi sem að mýkingin skiptir sér ekki af líkamsstöðunni.“

Þið leggið mikla áherslu á að viðskiptavinir ykkar velji rétta rúmið, bjóðið þið viðskiptavininum upp á þjónustu til að velja rétta rúmið sem hentar hans líkama og svefnvenjum best?

„Allt starfsfólk Rekkjunnar hefur fengið leiðbeiningar frá kírópraktor og sjúkraþjálfurum hvernig maður getur mælt út legstöðu hjá einstaklingum. Við viljum að fólk leggist í rúmin og við leiðbeinum því hvaða rúm myndi henta. Dýrasta rúmið í búðinni er ekki alltaf það besta,“ segir Kristján og brosir.

Í samstarfi við Rekkjuna
Myndir/ Hallur Karlsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Falleg og vönduð eign í skjólríku og grónu hverfi

Eign vikunnar. Við endann á götunni við Ljárskóga stendur þetta vandaða og fallega einbýlishús á tveimur hæðum. Húsið er einstaklega vel staðsett í skjólríku og grónu hverfi. Lágreist, heilsteypt byggð mótar Seljahverfið og er þéttleiki byggðarinnar mun minni en í öðrum hverfum í Breiðholtinu.

Lágreist, heilsteypt byggð mótar Seljahverfið og er þéttleiki byggðarinnar mun minni en í öðrum hverfum í Breiðholtinu

Áberandi fyrir hverfið er hversu skjólsælt það er og tilheyrir miðsvæði stofnana, verslana og útivistarsvæða sem liggja um mitt hverfið og tengist svæði ÍR í suðurhluta Mjóddar sem er í miklum uppbyggingarfasa. Í nálægð eru leik-, grunn- og fjölbrautaskóli. Eignin er í nálægð við alla helstu þjónustu Seljahverfisins eins og verslunarkjarnann í Mjóddinni, kvikmyndahús og læknaþjónustu svo dæmi séu tekin. Seljahverfið er eftirsóknarverður staður að búa á, stutt er í Elliðaárdalinn sem er rómað útivistarsvæði og samgönguæðar eru til allra átta höfuðborgarsvæðisins. Seljahverfið er gróið og fallegt hverfi. Íbúar eiga kost á að njóta útverunnar og eru meðal annars göngu- og hjólastígar til allra átta. Nálægðin við iðandi mannlíf setur Seljahverfið í flokk eftirsóttra hverfa borgarinnar. Frá Seljahverfinu er jafnframt stutt í öfluga þjónustukjarna samanber Smáralind og nærliggjandi hverfi.

Útsýnið er fallegt út um gluggana á efri hæðinni.

Innréttuð á vandaðan og smekklegan máta

Á efri hæðinni eru stórar og bjartar stofur, með mikilli lofthæð í opnu rými sem nýtist mjög vel. Útsýnið er fallegt út um gluggana á efri hæðinni og býður upp á lifandi málverk alla daga. Hlýlegur arinn er í annarri stofunni sem gefur henni hlýjan blæ. Einnig er sólskáli sem stækkar rýmið enn frekari og býður upp á margbreytilega möguleika á nýtingu. Útgengi er úr stofum og sólskála út á stórar vinkilssvalir. Sjónvarpsstofan er einnig með útgengi út í rúmgóðan sólskála og er gengið úr sólskálanum út á sólpall með heitum potti sem er himneskt að njóta allan ársins hring. Einnig er eldhúsið á efri hæðinni með nýlegri og stílhreinni innréttingu sem sem sameinar fagurfræði og notagildi með góðri útkomu. Parket og viður spila aðalhlutverkið á gólfum og í loftum á efri hæðinni og blandast vel. Á efri hæðinni er líka stórt og vandað baðherbergi, með flísum og fínum innréttingum. Á hæðinni eru þrjú rúmgóð svefnherbergi.

Húsinu hefur vel verið viðhaldið að utan og er í mjög góðu ástandi.

Fjölbreytilegir möguleikar á nýtingu

Á neðri hæðinni er rými sem býður upp á fjölbreytta möguleika á nýtingu en þar væri hægt að vera með aukaíbúð. Þar er opið rými þegar inn er komið í forstofuna  og rúmgott þvottahús með góðri vinnuaðstöðu. Einnig eru þar tvö herbergi til viðbótar ásamt góðum geymslum.

Fallegt og gróðusælt svæði

Lóðin afar snyrtileg og mjög stór, hún er um það bil 1.100 fermetrar að stærð með rúmgóðu og hellulögðu bílaplani. Fallegt og gróðursælt svæði þar sem engin byggð er, er við húsið sem gefur því rómantískan blæ.  Húsinu hefur vel verið viðhaldið að utan og er í mjög góðu ástandi. Eigninni fylgir einnig tvöfaldur innbyggður bílskúr.

Lóðin er um það bil 1.100 fermetrar.

Þessi eftirsóknarverða eign er til sölu á fasteignasölunni Kjöreign. Nánari upplýsingar um eignina gefa sölumenn Kjöreignar í síma 533-4040 eða gegnum netfangið [email protected]

Myndir / Úr einkasafni Kjöreignar
Í samstarfi við Kjöreign

 

 

 

 

 

 

 

 

Fagurfræði og notalegur lífsstíll

Línan býður upp á vörur frá Cozy Living Copenhagen. Cozy Living er ungt og framsækið fyrirtæki í stöðugum vexti. Vöruúrval þess samanstendur af vörum sem gera heimilið hlýlegt og notalegt. Fagurfræði og notalegur lífsstíll eru einkunnarorðin sem þau hafa að leiðarljósi.

Djúpir litir og falleg munstur

Litapallettan þeirra fyrir veturinn 2018 – 2019 einkennist af djúpum litum og fallegum munstrum. Púðaúrvalið er einstakt og skemmtilegt að blanda saman púðum í mismunandi stærðum með ólíkri áferð.

Djúpir litir einkenna litapallettu vetursins.

Glersnagar með brasshring

Ein vinsælasta varan sem Línan hefur boðið upp á til þessa eru flauelssnagarnir. Nýjung í flóruna þennan veturinn eru glersnagar með brasshring sem eiga án efa einnig eftir að njóta vinsælda.

OPNUNARTÍMI

Um þessar mundir streyma inn nýjar vörur og alltaf eitthvað nýtt og spennandi á boðstólnum.

Mánudaga – föstudaga 11 – 18
Laugardaga 11 – 16
Bæjarlind 16
201 Kópavogi
Sími: 553 7100

Í samstarfi við Línuna
Myndir / Úr einkasafni Línunnar

 

„Þessi banki á sig sjálfur“

Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að helstu stjórnendur Kaupþings hafi framið fordæmalausa efnahagsglæpi á meðan að bankinn var á lífi.

Kaupþing var allra banka stærstur á Íslandi fyrir bankahrun. Og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að helstu stjórnendur hans hafi framið fordæmalausa efnahagsglæpi á meðan að bankinn var á lífi. Það sem skilgreindi bankann voru há lán til lítils hóps eigenda og vildarviðskiptavina og áður óþekkt fjármögnun á kaupum á eigin bréfum. Í nýrri bók, Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, er saga hans rakin.

„Ég hef kannað þetta ítarlega og komist að því að þetta tengdist ekkert fjármálakreppu, þetta voru alger Ponzi-svik og útilokað að það hefði haldið velli. Það hefði bara þurft einn mann innan bankans til að taka upp símann og segja „Þessi banki á sig sjálfur“ og þá hefði hann hrunið. Merkilegt að það gerðist ekki.“

Þetta sagði Kevin Stanford, einn stærsti viðskiptavinur Kaupþings banka fyrir hrun í yfirheyrslum hjá embætti sérstaks saksóknara. Þar sagðist hann líka hafa haft einstakan aðgang að stjórnendum Kaupþings. Aðgang sem hann hefði ekki fengið hjá öðrum alþjóðlegum bönkum. „Ég gat hringt í forstjóra bankans. […] Okkur fannst gaman að stunda viðskipti og hafa aðgang að peningum.“ Stanford kallaði enn fremur hin svokölluðu CLN-viðskipti sem hann tók þátt í að undirlagi Kaupþings  „kjarnorkusprengju í fjármálum“. Aðspurður af hverju hann hefði verið „valinn“ til að vera eigandi eins félagsins sem notað var í þau viðskipti sagði Kevin að hann héldi að það hefði verið vegna þess að hann „var eini hvíti maðurinn í þorpinu“. Það hafi verið mikilvægt að hann væri útlendingur, ekki Íslendingur, svo að það liti út fyrir að alþjóðlegur fjárfestir væri að kaupa.

Yfirheyrslurnar eru hluti af tugþúsundum skjala sem fjallað er um í bókinni.

Nánar á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Tækifæri til að komast í nálægð við glæpasagnahöfunda

Glæpasagnahátíðin Iceland Noir hófst í gær í IÐNÓ en á henni koma yfir 60 höfundar saman í fjölbreyttri dagskrá sem stendur til sunnudags. Hátíðin er fyrir alla sem hafa áhuga á glæpasögum, að sögn rithöfundarins Óskars Guðmundssonar, formanns skipulagsnefndar Iceland Noir. Ásamt honum sjá rithöfundarnir Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir um skipulag hátíðarinnar.

Hugmyndin að hátíðinni kviknaði árið 2013. „Hugmyndin fæddist hjá Ragnari, Quentin Bates og Yrsu fyrir fimm árum og fyrsta hátíðin var svo haldin ári síðar, 2014, þar sem Lilja kom einnig að skipulagningunni. Síðan þá hefur hún verið haldin hér á landi annað hvert ár en þess á milli hefur einhver annar haldið hana í okkar nafni erlendis.“

Óskar segir hátíðina fara stækkandi ár frá ári en þetta árið halda um 60 glæpasagnahöfundar erindi á henni í formi pallborðsumræðna og hátt í 150 íslenskir sem og erlendir gestir munu heimsækja hátíðina. „Í ár eru mörg stór og þekkt nöfn sem taka þátt, það hefur nefnilega verið eftirsótt að komast að á hátíðina og við stóðum fljótlega frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að setja rithöfunda á biðlista því hátíðin hefur spurst út víða og orðið eftirsótt. Enda hefur hún alltaf heppnast gríðarlega vel og við lagt mjög mikinn metnað í alla umgjörð og dagskrá.“

Við stóðum fljótlega frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að setja rithöfunda á biðlista.

Beðinn um að nefna dæmi um nokkra spennandi viðburði á hátíðinni segir Óskar: „Þegar stórt er spurt. Dagskráin sjálf er auðvitað hrikalega spennandi og þá eru heiðursgestirnir okkar til dæmis ekki af verri endanum, þar má nefna forsetafrúna okkar, Elísu Reid, forsætisráðherrann okkar, Katrínu og stórskáldið Sjón. Þau taka þátt í pallborði með okkur en einnig má nefna kanadíska höfundinn Shari Lapena og Mark Billingham, þau halda hvort sitt erindið í dag.“

Spennandi stökkpallur

Óskar kom fram á sjónarsviðið árið 2015 með glæpasöguna Hilma. Hann segir Iceland Noir hafa reynst sér vel eftir útgáfu hans fyrstu bókar. „Þetta er frábær vettvangur fyrir nýja íslenska höfunda og ég fékk að kynnast því árið 2016. Hátíðin getur verið spennandi stökkpallur fyrir nýja höfunda og ekki síst til að kynnast þessu samfélagi rithöfunda. Við erum með pallborðsumræður sérstaklega fyrir nýja glæpasagnahöfunda,“ segir Óskar sem mælir eindregið með hátíðinni fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundar.

Óskar mælir einnig með hátíðinni fyrir alla þá sem hafa áhuga á glæpasögum. „Það er hreint út sagt frábært að kynnast öllu þessu fólki og fá innsýn inn í heim rithöfunda, líf þeirra og hvernig þeir vinna. Á hátíðinni gefst öllum tækifæri til að komast í nálægð við höfunda og spjalla við þá. Það hefur verið á brattann að sækja að fá Íslendinga til að mæta á hátíðina en við erum þó með sérstakt átak í þeim efnum núna þar sem þeir geta keypt sig inn á staka viðburði á TIX.is. Aðspurður hverju það sæti segir Óskar að það sé sennilega vegna þess að landinn þekkir þetta ekki. „Ég held að fólk átti sig ekki á því að þetta er fyrir alla og allir velkomnir. Þarna er bara líf og fjör í tuskunum.“

Það er hreint út sagt frábært að kynnast öllu þessu fólki og fá innsýn inn í heim rithöfunda.

Hljómsveit skipuð rithöfundum

Óskar segir að um heljarinnar prógramm sé að ræða. „Hátíðin byrjaði síðdegis í gær og svo eru haldnir viðburðir frá morgni til kvölds þar til á sunnudag. Svo er auðvitað ball á morgun, laugardag, í IÐNÓ. Þar spilar hljómsveitin Fun Lovin’ Crime Writers fyrir dansi en sú hljómsveit er skipuð sex breskum glæpasagnahöfundum. Þau syngja eingöngu lög þar sem einhver er myrtur,“ segir Óskar og hlær. „Þetta er ekki bara gríðarlega áhugaverð hljómsveit, heldur einnig mjög góð.“

Áhugasamir geta nálgast upplýsingar um hátíðina á vefsíðunni www.icelandnoir.is.

Már hefur ítrekað sagt okkur sek

Seðlabankinn haft „ótrúlegt“ hugmyndaflug í að búa til glæpi, segir forstjóri Samherja.

 

Atburðarás sem hófst 27. mars 2012 lauk í síðustu viku með sýknudómi Samherja í Hæstarétti. Seðlabanki Íslands skipulagði og framkvæmdi húsleit á starfsstöðvum Samherja árið 2012 og í kjölfarið lýsti bankastjóri SÍ því yfir að grunur léki á tugmilljarða undanskotum á gjaldeyri á vegum fyrirtækisins, en á þessum tíma voru gjaldeyrishöft á Íslandi og skilaskylda á gjaldeyri. Á þeim tæplega sjö árum sem liðin eru hefur komið í ljós að ekkert var hæft í ásökunum bankans og smám saman hefur málarekstur bankans rýrnað í roðinu, þar til nú, að Samherji hefur verið sýknaður af öllum ákærum.

„Ég bjóst ekki við neinu öðru,“ segir Þorsteinn Már Baldursson um niðurstöðu Hæstaréttar.

Um upphaf málsins segir hann að fréttastofu RÚV hafi verið gert aðvart um húsleitina áður en hún fór fram. „Fjölmiðlar eru boðaðir á staðinn áður en húsleitarmenn koma til. Þarna eru mættir sjónvarpsmenn frá RÚV bæði í Reykjavík og Akureyri, þeir hafa þurft að taka kvöldvélina, þá send tilkynning um húsleitina um allan heim bæði á íslensku og ensku. Þá var send fréttatilkynning um kæru áður en kæran var send Sérstökum saksóknara.“

Þorsteinn Már undrast þrákelkni stjórnenda Seðlabankans í málinu. „Manni leið alltaf [eins og] að [Seðlabankann] vantaði bara eitthvað til að málinu lyki ekki.“ Kæruefnin fengu öll efnislega meðferð hjá Sérstökum saksóknara. Ekkert kom fram við skoðun Sérstaks saksóknara sem benti til vísvitandi undanskota Samherja.

„Við höfðum rekið sölufyrirtæki á Íslandi til fjölda ára. Við höfðum selt afurðir fyrir erlend fyrirtæki, en þegar gjaldeyrislögin komu urðum við að taka peningana heim, við vorum til dæmis að selja grálúðu fyrir þýskan togara, en auðvitað á þýska fyrirtækið aflaverðmætið, en við vorum að taka fast hlutfall fyrir að selja fiskinn. Þá urðum við að taka peningana heim, en svo að sjálfsögðu að skila honum til Þýskalands.[…] Sérstakur saksóknari fjallaði um fiskverð, gjaldmiðlaskil og svo framvegis og komst að þeirri niðurstöðu að allt væri í standi, þá fann [Már] upp á þessu,“ segir Þorsteinn Már um tilraunir Seðlabankans til að halda lífi í málinu, þrátt fyrir að saksóknari sæi ekki ástæðu til ákæru.

„Már er búinn að segja ítrekað í fjölmiðlum að við séum sek,“ segir Þorsteinn Már og telur að það sé lögbrot af hálfu valdamikils embættismanns að fella þennan dóm gagnvart saklausu fólki.

Bankinn hefur ótakmarkaða peninga til að verja sig og hefur haft ótrúlegt hugmyndaflug í að búa til á okkur glæpi.

Hann álítur Seðlabankann hafa hrakist vígi úr vígi á þessum árum sem liðin eru frá húsleitinni. „Það er svo oft sem kemur fram skýr ásetningur hjá Seðlabankanum. Eins og þegar þeir segjast hafa fundið gögn sem staðfesti undirverðlagningu. Málið snerist um fjórtán sölur á sjófrystum flökum, fjórar til Póllands og tíu til tengds aðila í Bretlandi. Það vill svo til að allar sölurnar til Englands eru á hærra verði en til Póllands. Það eina sem þú sérð út úr þessu er að þeir blönduðu saman pundum og evrum.“

Hann segist ekki vera einn í Samherja. „Það vinna mörg hundruð manns hjá fyrirtækinu. Það er búið að kæra þónokkra einstaklinga, fólk verður að skilja að það að vera með stöðu sakbornings í mörg ár, með bankastjórann gapandi hægri vinstri – það er mjög þungbært.“

Spurður að því hvort málinu sé lokið segir Þorsteinn Már: „Bankinn hefur ótakmarkaða peninga til að verja sig og hefur haft ótrúlegt hugmyndaflug í að búa til á okkur glæpi. Fyrir mér þá verður þessu máli að ljúka. Því verður aldrei lokið nema að Már Guðmundsson víki. Hann er búinn að brjóta svo illa af sér í opinberu starfi.“

Texti / Sigmundur Ernir Rúnarsson

Rosknir menn að berjast við vindmyllur

Engin sérstök stemning ríkir fyrir ESB-aðild í dag.

Umræða um mögulega ESB-aðild hefur legið í dvala allt frá því Gunnar Bragi Sveinsson stakk málinu ofan í skúffu fyrir þremur árum. Enda ríkir engin sérstök stemning fyrir ESB-aðild í dag. Þetta stemningsleysi hefur þó farið illa í hóp ákveðinna manna sem upplifa ákveðið tilgangsleysi í lífi sínu. Rosknir fullveldissinnaðir menn sitja uppi án strámanna og áheyrenda og í reiðileysi sínu leita þeir að einhverju hálmstrái til að gera sig gildandi að nýju.

Þetta skýrir tilgangslausasta og óskiljanlegasta upphlaup síðari ára, þar sem þessi hópur manna hefur haft uppi stór orð um innleiðingu þriðja orkupakka ESB – að Íslendingar munu missa forræði yfir orkuauðlindum sínum og að raforkuverð muni hækka upp úr öllu valdi. Vissulega væru þessi varnaðarorð áhyggjuefni ef ekki væri fyrir þær sakir að beinlínis öll fyrirliggjandi gögn sýna að það er engin innistæða fyrir þeim.

Í greinargerð lögmannsins Birgis Tjörva Péturssonar fyrir stjórnvöld stendur skýrum orðum að orkupakkinn varði „ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi“. Aukinheldur kalli málið ekki á endurskoðun EES-samningsins enda gildi ýmsar mikilvægar reglur hans ekki um viðskipti með raforku af þeirri einföldu ástæðu að Ísland er ekki tengt Evrópu um sæstreng. Er þá vert að benda á að einu fyrirætlanirnar um sæstreng eru til Bretlands sem gengur úr ESB á næsta ári. Þannig að áhrifin yrðu samt sem áður engin. Niðurstaða Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, er á sömu leið og orkumálastjóri sér nákvæmlega enga hættu.

Sendiherra ESB á Íslandi hefur sömuleiðis fullyrt að orkupakkinn sé ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenskrar orkustefnu. „Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helstu skyldum sem fylgja nýju löggjöfinni.“
Þær reglur sem snúa að Íslandi lúta að neytendavernd, auknu gagnsæi samninga og réttinum til að skipta um orkuveitu.

Þetta eru augljósar og skýrar staðreyndir málsins og það þarf þess vegna einbeittan ásetning til að komast að annarri niðurstöðu. Sá ásetningur er ekki settur fram af góðum vilja. Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, afhjúpaði á dögunum hræsni forystumanna Miðflokksins sem hafa haft sig mikið í frammi í málinu með því að benda á að þeir hafi báðir unnið að framgangi málsins þegar þeir voru í ríkisstjórn.

Bændablaðið og Morgunblaðið hafa haldið uppi miklum áróðri gegn orkupakkanum og ítrekað vitnað í norskan lagaprófessor sem kom hingað til lands til að vara Íslendinga við innleiðingu hans. Í engu var þess getið að umræddur fræðimaður er virkur meðlimur í samtökum norskra ESB-andstæðinga, Nei til EU, og fyrrum þingmaður systurflokks Miðflokksins. Enda hafði enginn gefið málinu gaum fyrr en norska þingið samþykkti innleiðingu orkupakkans og norskir andstæðingar ESB, sem höfðu orðið undir, fóru að biðla til íslenskra skoðanabræðra sinna að reyna að stöðva málið.

Það er vonandi að ríkisstjórnin og Alþingi verji þeim tíma sem fram undan er í að tækla alvöru og brýn úrlausnarefni, en láti vera að eyða tíma í þetta mál sem snýst í raun ekki um neitt en er keyrt áfram af blekkingum og heimatilbúnum þjóðernisrembingi. Það kristallaðist þegar formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur var fenginn í beina útsendingu til að útskýra hvers vegna félagið ályktaði gegn orkupakkanum. Hann hafði ekki minnstu hugmynd um það, en þeir voru samt á móti.

„Kemst þangað sem ég ætla mér“

||
|Ragga Ragnars

Ragnheiður Ragnarsdóttir varð landsþekkt á Íslandi fyrir sundafrek sín, tók meðal annars í tvígang þátt í í keppni á Ólympíuleikum, en hún söðlaði um og undanfarin ár lærði hún leiklist í Los Angeles og setti sér það markmið að fá hlutverk í sjónvarpsþáttunum Vikings þegar náminu lyki. Það tók fjögur ár en eins og þeir vita sem séð hafa stikluna fyrir fimmtu seríu þáttanna leikur hún þar stórt hlutverk. Auk þess leikur hún í fleiri þáttum, sem hún má alls ekki tjá sig um strax, er einstæð móðir fimm ára sonar og tekur enn þátt í sundkeppnum. Við spyrjum hana hvert leyndarmálið er á bak við þennan árangur.

Ragnheiður, eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð, ólst upp í Garðabænum og Danmörku, byrjaði að æfa sund sex ára gömul og var komin í unglingalandsliðið tólf ára og landsliðið fjórtán ára. Hún keppti fyrst á Ólympíuleikum árið 2004 í Aþenu og svo aftur í Bejing 2008. Hún var á fullu að æfa fyrir leikana í London 2012 þegar örlögin gripu í taumana.

„Ég held bara áfram að vinna að mínu og komast þangað sem ég ætla mér. Það er svo gaman að vera til!” Mynd / Hallur Karlsson

„Þá var ég orðin ólétt, komin fjóra mánuði á leið, þannig að það fór ekki alveg eins og stefnt var að,“ segir hún hlæjandi. „En það var raunar kærkomin hvíld . Ég hafði fengið lungnabólgu fyrr um veturinn og var lengi þreytt og veik og mér fannst þetta ágætis tími til að taka góða pásu frá sundinu.“

Sonur Röggu, Breki, verður sex ára í febrúar en hann gengur í Ísaksskóla og fylgir móður sinni oft á upptökustaði þáttanna og kvikmyndanna sem hún leikur í. Hún segir vel hafa gengið að samræma hlutverk einstæðrar móður því flökkulífi sem fylgir leikarabransanum.

„Þetta er púsl,“ viðurkennir Ragga. „En mér finnst þetta gaman. Á meðan ég var í sundinu varð ég auðvitað vön því að vera alltaf að ferðast, var að æfa og keppa út um allan heim, þannig að ég vandist því að búa hálfpartinn í ferðatösku og hann er að venjast því líka. Stundum kemur hann með mér, stundum er hann heima en hér hef ég góða hjálp frá öllum í kringum mig, enda þarf þorp til að ala upp barn. Síðan hann byrjaði í skólanum er orðið aðeins erfiðara að fara með hann í burtu en ég tek hann stundum með mér í viku hér og viku þar. Hann var líka með mér í Dublin í allt sumar þar sem þættirnir Vikings eru teknir upp.“

Ólympíuleikarnir og Óskarsverðlaunin efst á óskalistanum

Ragga býr yfir mikilli þolinmæði og vissi að allt tæki sinn tíma. „Fyrst eftir að ég hætti að synda sinnti ég bara móðurhlutverkinu til að byrja með,“ segir Ragga. „Ég tók mér hlé alveg í tvö ár en þegar sonur minn var rúmlega eins árs flutti ég til L.A til að fara í nám í leiklist. Ég lærði þar í um það bil eitt og hálft ár, tók enga gráðu samt, og fékk síðan atvinnuleyfi í Bandaríkjunum í eitt ár.

Ég ákvað þegar ég var sjö eða átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, svo það var alltaf það sem ég stefndi að þegar ég kláraði sundið. Ég sagði einmitt við pabba þegar ég var sjö ára að þegar ég yrði stór ætlaði ég á Ólympíuleikana og á Óskarsverðlaunaafhendingu. Hann sagði bara flott, gaman, gerðu það! Ég er mjög þolinmóð manneskja og ég veit að hlutirnir taka tíma, það tekur ekki korter að undirbúa sig fyrir Ólympíuleika og ekki heldur fyrir frama í leiklist.“

Ég ákvað þegar ég var sjö eða átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, svo það var alltaf það sem ég stefndi að þegar ég kláraði sundið.

Leiklistaráhuginn er greinilega landlægur í fjölskyldunni því leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, sem hefur meðal annars leikið í sjónvapsþáttunum um Stellu Blómkvist og bresku þáttunum Poldark, og Ragga eru til dæmis bræðrabörn. Svo virðist sem áhuginn sé í ættinni.

„Amma mín var mikill „performer“,“ segir Ragga hlæjandi. „Ekki kannski endilega leikkona en hún var alltaf að spila á gítar og koma fram og vera veislustjóri hér og þar. Bróðir mömmu er Valgeir Guðjónsson Stuðmaður svo maður vandist því að fólk í fjölskyldunni væri í sviðsljósinu. Guðjón bróðir minn er svo kvikmyndagerðarmaður, fór með mér til L.A til að læra leiklist en er núna kominn alveg á fullt í kvikmyndagerðinni.“

Aldrei spurning að hún kæmist inn í Vikings

Eins og fyrr segir var Ragga lengi harðákveðin í því að landa hlutverki í Vikings. „Ég hreifst svo af þáttunum þegar ég byrjaði að horfa á þá þegar sonur minn var nokkurra vikna gamall,“ útskýrir hún. „Það að vilja verða leikkona er eitt, en að vita hvert maður ætlar er annað. Ég hugsaði aldrei: kannski fæ ég eitthvað að gera, heldur var ég harðákveðin í því að ég ætlaði að leika í þessum þáttum. Ég veit að ég er ekki týpan sem fær hlutverkin sem sæta stelpan í næsta húsi, ég er 188 sentimetrar á hæð, mjög sterk og vel á mig komin og maður þarf að vita það sjálfur hvaða hlutverk henta manni. Ég hætti aldrei að trúa því að ég fengi hlutverk í Vikings, það var ekki bara að ég vildi það heldur ætlaði ég þangað. Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings. Það var ekki neitt sem ég þurfti að sanna að ég gæti, ég hef aldrei hugsað þannig, ég fer bara þangað sem ég vil og ætla mér og mér finnst skipta máli. Hingað til hef ég gert allt sem ég hef sett mér markmið um og ætla að halda því áfram. Þannig að það var aldrei spurning í mínum huga að ég kæmist inn í þættina. Það tók langan tíma, nærri fjögur ár, en ég komst þangað að lokum.

Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings.

Margir halda að maður geti bara fengið hlutina á einn hátt, hvort sem það eru peningar eða vinna eða barn eða hvað sem það er,“ segir Ragga. „Ég hef bara aldrei hugsað þannig. Ég hef alltaf hugsað að maður fái bara allt sem maður vill og það komi þegar það á að koma og eins og það á að koma. Ég var ekki með umboðsmann sem fann hlutverkið fyrir mig, ég bara skóflaði mig áfram og hitti fólk á leiðinni sem gat ekki hjálpað mér en líka fólk sem gat hjálpað mér. Ég í rauninni bara spurði alla í bransanum hvort þeir þekktu einhvern sem væri að vinna í Vikings og loksins eftir þrjú ár datt ég inn á einhverja línu og fékk að tala við fólk hér og þar. Var kynnt fyrir manni sem þekkti einhvern sem þekkti einhvern og svo kom þetta bara smám saman. Á endanum komst ég í samband við Michael Hirst, aðalhandritshöfund þáttanna, og hann fékk að sjá mig og heyra hver ég var og nokkrum vikum seinna var hlutverk komið inn á borð til mín.“

Ragga verður vandræðaleg á svip þegar hún er spurð hvort Hirst hafi skrifað hlutverkið sérstaklega fyrir hana. „Hann hefur örugglega verið með þetta tilbúið,“ segir hún fljótt. „En kannski séð að þetta hlutverk hentaði mér vegna þess að hann er mjög góður mannþekkjari. Þegar ég las hlutverkið fannst mér eins og það hefði verið skrifað fyrir mig en auðvitað var málið að það passaði mér bara svo vel. Hann náði mér algjörlega og ég þurfti mjög lítið að undirbúa mig fyrir hlutverkið, þetta var bara ég. En ég fór svo auðvitað í prufu, það er bara ferlið. Ég fór í „screen test“, var sett í búning og lék eitt atriði og nokkrum vikum seinna var ég komin til Dublin og byrjuð að vinna, eiginlega áður en ég vissi af. Ég missti mig aldrei eitthvað yfir að hafa fengið hlutverkið, þetta var bara planið og það gekk upp.“

Þegar ég las hlutverkið fannst mér eins og það hefði verið skrifað fyrir mig en auðvitað var málið að það passaði mér bara svo vel.

Vildi ekki leika í Game of Thrones

Eins og gefur að skilja er karakter Röggu nýr í þáttunum en hún harðlokast þegar spurt er nánar út í hann. Þáttaröðin fer í sýningu þann 28. nóvember og það er harðbannað að spilla fyrir væntanlegum áhorfendum, sem eru milljónir um allan heim. Hún viðurkennir þó að þetta sé stórt hlutverk og persóna sem skipti máli í sögunni.

„Ég kem fyrir í stiklunni og ofuraðdéndur þáttanna hafa hamast við að púsla saman hlutunum og reyna að komast að einhverju um þennan karakter sem samkvæmt stiklunni er greinilega í víglínunni, en meira get ég ekki sagt þér,“ segir hún ákveðin.

Ragnheiður segist alltaf ná markmiðum sínum, en það kosti vinnu, aga og endalausa þolinmæði. Mynd / Hallur Karlsson

Eins og dyggir áhorfendur Vikings vita byggja þættirnir á Íslendingasögunum og norrænum goðsögum, aðalhetjan er Ragnar loðbrók, þannig að fólk kannast við persónurnar, þótt ýmsum sé auðvitað bætt við til að breikka söguna. Ragga segir að þetta séu hennar uppáhaldsþættir og hafi verið lengi, hún hafi alltaf vitað að þetta væri málið fyrir hana.

„Ég horfði líka á Game of Thrones en þá hugsaði ég ekki að ég ætlaði að leika í þeim. Alveg góðir þættir, en ekki fyrir mig. Eftir að ég fékk atvinnuleyfið í Bandaríkjunum vann ég rosamikið í heilt ár, fékk engin stór hlutverk samt, var með umboðsmann sem ég síðan hætti hjá því mér fannst hann ekki gera nóg fyrir mig. En hann sendi mig í alls konar prufur fyrir hitt og þetta, ég fékk vinnu við nokkrar auglýsingar, var aukaleikari í sumum stærstu þáttunum í heiminum, eins og Scandal og West World, og sömuleiðis í nokkrum bíómyndum með frægum leikurum. Ég vann líka í tvo mánuði sem „stand in“ fyrir eina af leikkonunum í stórri bíómynd og kynntist öllum sem unnu við myndina. Það var mjög gaman. Svo rann atvinnuleyfið út og ég flutti heim, fékk mér vinnu og byrjaði að skófla mig enn þá meira í átt að Vikings.“

Þættirnir eru að stærstum hluta teknir upp á Írlandi og Ragga hefur verið í Dublin meiripartinn af síðustu tveimur árum að vinna við þá. Hún er samt ekki uppnumin yfir frægðarlífinu, segir vinnuna við þættina voða svipaða því að vera sundkona.

„Það er mikið af ferðalögum, ég vakna klukkan fjögur, fimm á morgnana og mæti í stólinn fyrir hár og meiköpp, fer svo í búninginn og fyrir klukkan átta er ég mætt á sett og byrjuð að vinna. Eins og í sundinu þarf ég að vera vel undirbúin, andlega og líkamlega, þarf að kunna allar senur og allar línur, þetta er mikil vinna og mjög krefjandi fyrir bæði líkama, sál og huga. Það er oft mjög kalt, maður er kannski fáklæddur úti í marga klukkutíma í snjó og frosti en samt er rigningarvél með ísköldu vatni beint að manni á meðan maður er að berjast. Þetta er rosalega skemmtilegt líf en mjög krefjandi og ég er alveg búin á því þegar ég kem heim eftir daginn og þarf að fara að læra línur fyrir næsta dag, sinna barninu og elda mat. Þannig að þetta er heilmikið púsl allt saman, en skemmtilegt.“

Þetta er rosalega skemmtilegt líf en mjög krefjandi og ég er alveg búin á því þegar ég kem heim eftir daginn.

Tökur á sjöttu seríu hafnar

Ragga er greinilega svakalegt hörkutól. „Ég veit það nú ekki,“ segir hún hógvær. „Ég hef bara alist upp við það að synda mjög mikið og vera alltaf undirbúin og tilbúin til þess að gefa allt alla daga. Ég hef alltaf gefið allt í allar æfingar í sundinu en þar lærði ég auðvitað líka að það þarf að hvíla sig á milli og hugsa vel um mataræðið, líkamann og andlegu heilsuna. Ég hugleiði og passa upp á að sofa vel, ólíkt mörgum leikurum sem eru ekki með þennan bakgrunn, fara kannski rosamikið á djammið, sofa lítið og gleyma því að drekka vatn. Það kemur niður á þeim og fólk bara springur úr þreytu. Það hefur auðvitað alveg komið fyrir mig líka að springa úr þreytu, en ég hef allavega þennan grunn að kunna að hugsa vel um mig og allt sem ég þarf til þess að geta „performað“. Það er alveg sama hvort það er sund eða leiklist þá er þetta „performans“ sem maður er búinn að vera að æfa sig fyrir í marga daga, vikur og ár. Ég labbaði ekkert inn á settið og kunni allt, sko. Ég var sett í alls konar æfingar og kenndir alls konar hlutir sem ég kunni ekki en kann núna.“

Ragga viðurkennir að flestir sem hún hitti séu mjög forvitnir um hlutverkið og reyni að fiska upp úr henni hver þetta sé, en hún loki bara munninum og þegi sem fastast. Hún geti þó lofað því að það sé margt skemmtilegt fram undan í þáttunum og aðdáendur muni fá sitt svikalaust.

Tökur á sjöttu seríu eru hafnar en Ragga verst allra frétta um það hvort hún taki líka þátt í þeim, hvort hennar karakter lifi fimmtu seríuna af. Það kom þó fram fyrr í samtali okkar að hún þarf enn mjög oft að fljúga til Dublin, svo það ætti að vera óhætt að treysta því að hlutverki hennar í þáttaröðinni sé ekki lokið. Það hefur líka kvisast út að meðleikarar hennar í þáttunum leiti mikið til hennar með framburð forníslenskra orða í textanum.

Ég hugleiði og passa upp á að sofa vel, ólíkt mörgum leikurum sem eru ekki með þennan bakgrunn, fara kannski rosamikið á djammið, sofa lítið og gleyma því að drekka vatn.

„Það var nú ekki eitthvert opinbert hlutverk mitt að kenna þeim íslensku,“ segir Ragga og hlær. „Ég var bara oft spurð hvernig ætti að bera þetta eða hitt orðið fram þegar voru línur, eða frasar eða jafnvel heilu ræðurnar á íslensku, sem þeir kalla náttúrlega „old norse“ en er auðvitað bara íslenskan eins og hún er skrifuð í Íslendingasögunum og maður skilur alveg þótt það tali náttúrlega enginn svona lengur. Ég passaði mig samt mjög vel á því að stíga ekki á neinar tær á settinu, því það er auðvitað ekki mitt verk að kenna fólki framburð, ég hjálpaði bara ef ég gat.“

Ragga hefur greinilega nóg að gera, þótt allt sé það meira og minna leyndarmál, þurfti til dæmis að fljúga til Dublin, London og Los Angeles í síðustu viku. Hún segir mér líka að hún sé í sambandi með bandarískum tattúlistamanni sem heitir Mike, en vill ekkert upplýsa um á hvaða stigi það samband er. Hún vill lítið tala um hvað er fram undan.

„Nei, ekki neitt,“ segir hún og glottir. „Ég held bara áfram að vinna að mínu og komast þangað sem ég ætla mér. Það er svo gaman að vera til! Ég er oft spurð að því hvernig mér takist að gera stóra hluti og það er bara vegna þess að ég hef áhuga á því sem ég er að gera og hef mjög gaman að því. Ég hefði til dæmis aldrei farið á Ólympíuleikana ef ég hefði verið að rembast við að gera eitthvað sem mér fyndist leiðinlegt eða eitthvað sem einhver annar hefði ákveðið fyrir mig. Það drepur niður alla ánægju en ef maður ákveður sjálfur hvað maður vill, setur sér markmið og nýtur ferðalagsins þolinmóður þá kemst maður þangað sem maður vill. Þolinmæðin er lykilatriði, það gerast engir stórir hlutir á einni nóttu. Svo þarf líka að muna að njóta þess sem maður uppsker. Ég þarf ekkert að vera komin með næsta verkefni í hendurnar, það er allt í lagi að leyfa sér að njóta í smástund áður en maður ræðst í næsta markmið. Þetta kemur allt þegar það á að koma.“

Myndir / Hallur Karlsson

Hið fullkomna „al dente“ pasta

Veist þú hvað al dente þýðir? Hugtakið kemur úr ítölsku og er oftast notað fyrir eldun á pasta. Bein þýðing á íslensku væri „undir tönn“. Fyrsta þekkta notkun orðsins er í kringum 1920, og er því þekkt hugtak í eldhúsi fagmannsins. Al dente áferðinni væri best lýst þannig að pastað er soðið en ennþá með smá bit undir tönn. Það getur verið þunn lína á milli þess að vera með hrátt eða ofeldað pasta. Ágætis þumalputtaregla til að ná al dente suðu á pasta er að taka um 20% af eldunartímanum sem stendur á pakkanum. Eins þá tekur ferskt pasta aldrei lengur en 1-3 mínútur í suðu.

Góð pastaráð:

Þegar þú klárar að elda pastað í sósunni fær það meira bragð og betri áferð.

Notaðu alltaf stóran víðan pott þegar þú sýður pasta, þá hefur pastað meira rými til að eldast og minnkar hættuna á því að vera með miseldað pasta.

Ekki vera hrædd/ur við að salta pastavatnið það gefur pastanu bragð. Á Ítalíu er talað um að vatn sem er notað til að sjóða pasta ætti að bragðast eins og sjórinn!

Ekki setja olíu í pastavatnið. Margir halda að það hjálpi pastanu að festast ekki saman, en það getur komið í veg fyrir að sósan festist við pastað.

Gott er að hræra reglulega í pastanu þegar það er í suðu, það kemur í veg fyrir að pastað festist saman.

Reyndu að koma í veg fyrir að láta kalt vatn renna á pastað eftir að það er soðið svo það festist ekki saman, settu frekar smá ólífuolíu út á pastað ef það þarf að bíða í smá stund áður en það fær á sig sósu.

Ef þú ert með grófa sósu eins og Bolognese er gott að velja pasta með grófri áferð eins og rigatoni og farfalle. Áferðin á pastanu hjálpar til við að grípa sósuna.

Veldu slétt pasta eins og spagettí og penne ef þú ert með kremaða sósu eða ostasósu.

 

Hver dagur er barátta

Ár er nú síðan Ólafía Kristín Norðfjörð kom fram fyrir alþjóð í þáttunum Biggest loser en margir tengdu við þessa tveggja barna móður sem þráði að ná tökum á heilbrigðari lífsháttum.

Tildrög þess að Ólafía tók þátt var alvarlegt fæðingarþunglyndi og kvíði sem hafði háð henni verulega. „Mér líður stundum eins og fólk sé að bíða eftir því að ég missi tökin til þess eins að geta sagt: „Ég vissi að þetta myndi gerast”. En ég reyni að hugsa sem minnst um það. Ég vill fyrst og fremst vinna í sjálfri mér og veit manna best hvað er rétt og hvað er rangt, öðrum kemur hreinlega ekkert við hvort ég sé að viðhalda árangri eða ekki. Auðvitað er öllum velkomið að fylgjast með en ekki ef markmiðið er að dæma mig fyrir það hver ég er eða hvernig ég kýs að takast á við hlutina.“

„Í gegnum þetta ferli ég hef tekið umtali talsvert inn á mig og fundist fólk vera að dæma mig persónulega en sem betur fer hafa neikvæðu raddirnar verið á undanhaldi.“

„En ég lagði mig líka fram við að hlusta betur á það jákvæða sem fólk vildi segja. Flestir voru almennt ánægðir með keppnina og fannst gaman að fylgjast með þessu öllu saman. Að mínu mati er þetta frábær leið til þess að öðlast betri lífsgæði en fólk verður að ganga inn í ferlið með það hugarfar að það ætli að breyta lífi sínu til langtíma.“

„Ég reyndi að hugsa sem minnst um þetta sem sjónvarpsþátt og mæli með að sem flestir tileinki sér þá hugsun.“

„Það eru nefnilega margir sem eru ekki þarna á réttum forsendum eða með það að leiðarljósi að ætla sér alla leið inn á við. Þetta er í grunninn spurning um það. Þetta snýst ekki bara um að missa ákveðinn fjölda kílóa heldur líka að skoða inn á við sem reynist oft og tíðum erfiðara en líkamlega breytingin. Ég á hins vegar erfitt með að svara því hvort ég myndi gera þetta aftur því ég vona svo innilega að ég muni aldrei þurfa á því að halda. Að mínu mati snýst þetta allt um hugarfar því ég hef líka barist við matarfíkn, það að geta hreinlega ekki staðist mat og verða að fá mér eitthvað en þar kemur hugarfarið svo sterkt inn.“

„Ég hef sýnt það og sannað að þú getur sigrast á matarfíkn með hugarfarsbreytingu þó það geti oft verið þeim mun erfiðara enda getur hausinn oft verið svo vondur viðureignar.“

„Með viljann að vopni og rétta hugsun getur þú samt allt sem þú ætlar þér. Sjálf var ég lengi vel í afneitun hvað þessa hluti varðar. Eftir að ég mætti til leiks í keppnina brotnaði ég algjörlega niður. Ég þakka Gurrý fyrir alla þá áherslu sem hún lagði á andlegu hliðina. Ég þurfti að kyssa botninn til þess að geta spyrnt mér almennilega upp aftur. Þetta er búið að vera virkilega erfitt ferli sem ég er enn að vinna í en nú í lok sumars þurfti ég aftur að kyngja stoltinu og byrja aftur á lyfjunum. Kvíðinn var búinn að taka algjörlega yfir og ég hætt að ráða við andlegu hliðina, aftur. Í dag er hver dagur barátta. Bara það að mæta í vinnu, sinna stelpunum sem ég elska meira en allt og rækta sambandið við Þröst, mæta á æfingar og í raun hvað sem er, allt er erfitt en ég leyfi erfiðu dögunum að koma því þeir eru líka góðir og ég veit að ég kemst í gegnum þá. Ég leyfi mér líka að gráta því það hjálpar. Ég hef sigrað kvíðann einu sinni og ætla að gera það aftur. ”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Björg Alfreðs.

Hársaga Bandaríkjaforseta rakin

|
|

Hársaga Donalds Trump er rakin í máli og myndum á vef Vanity Fair en hár hans er algjörlega einstakt.

Það er óhætt að segja að hár Donalds Trump Bandaríkjaforseta sé sér á báti. Hár hans hefur vakið mikla athygli í gegnum tíðina og hefur verið eilíf uppspretta brandara.

Trump hefur skartað svokallaðir „comb over“-hárgreiðslu í nokkra áratugi og í dag leggur hann mikla áherslu á að halda fast í síðustu lokkana.

Á vef Vanity Fair er hársaga Trump rekin í máli og myndum en óhætt er að segja að Trump hafi alltaf farið eigin leiðir þegar kemur að hártískunni. Í kringum níunda áratuginn var hárið í dekkri kanntinum en eftir að það tók að grána hefur Trump litað það ýmist brúnt, appelsínugult eða gult. Í dag leyfir hann gráa litnum að njóta sín en gulur blær setur þó sinn svip a hárið.

Í samantekt Vanity Fair kemur fram að Trump hafi oftast greitt hárið frá vinstri til hægri, líkt og hann gerir í dag.

Í dag er hár Trump grátt með gulum blæ.

Sjóða dömubindi til að komast í vímu

Lögreglan í Jakarta hefur verið að handtaka ungmenni sem hafa reynt að komast í vímu með því að sjóða dömubindi og drekka vökvann.

Lögregluyfirvöld í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, hafa komist að því að ungmenni borgarinnar hafi tekið upp á nýstárlegum leiðum til að komast í vímu. Ein þeirra er að sjóða dömubindi.

Í umfjöllun Straits Times segir að ungmennin taki dömubindi, notuð jafnt sem ónotuð, og sjóði í klukkutíma eða þar um bil. Vökvinn er síðan kældur og drukkinn. Áhrifin munu vera ofskynjanir og tilfinningin að fljúga. Segir að lögreglan í Jakarta sem og víðar á vesturhluta eyjarinnar Jövu hafi handtekið ungmenni sem reynt hafi að komast í vímu með þessum hætti. Hins vegar liggja engin viðurlög við neyslu dömubindasafa.

Vice fjallar einnig um málið og segir að heilbrigðisyfirvöld í Indónesíu rannsaki hvaða efni í dömubindunum það er sem valdi eitrunaráhrifunum. Þetta sé þó ekki nýtt af nálinni, áður fyrr sniffuðu ungmennin lím og önnur spilliefni en fyrst hafi borið á þessu fyrir tveimur árum.

Beyoncé hætt í viðskiptum við Philip Green vegna ásakana um einelti

Söngkonan Beyoncé hefur slitið viðskiptasambandi við eiganda Topshop. Fyrrverandi starfsmenn fyrirtækis hans saka hann um einelti og áreiti.

Söngkonan Beyoncé hefur slitið samstarfi við viðskiptajöfurinn Sir Philip Green, eiganda Topshop, eftir að nokkrir fyrrverandi starfsmenn hans hafa stigið fram og sakað hann um einelti og áreiti.

Fyrirtæki Beyoncé, Parkwood, hefur verið í samstarfi við fyrirtæki Green, Arcadia Group undanfarin fjögur ár vegna fatamerkisins Ivy Park. En nú hefur Parkwood keypt Green út úr samstarfinu, hann átti 50% hluta í Ivy Park.  Greint var frá þessu í yfirlýsingu frá Ivy Park.

Ivy Park sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin tvö ár en merkið var selt í verslunum Topshop sem er dótturfyrirtæki Arcadia Group.

Í síðasta mánuði bárust fregnir af því að Green hefði farið fram á tímabundið lögbann á umfjöllun Daily Telegraph. Í umfjölluninni sögðu fimm starfsmenn Green frá meintu kynferðislegu áreiti, rasískum ummælum og einelti Green. Hann hefur neitað öllum ásökunum.

Var harðákveðin í að fá hlutverk í Vikings

Ragga Ragnars

Ragnheiður Ragnarsdóttir prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Mannlífs sem kemur inn um lúguna á morgun.

Sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir lærði leiklist í Los Angeles. Hún setti sér það markmið að fá hlutverk í sjónvarpsþáttunum Vikings þegar náminu lyki. Það tók fjögur ár en eins og þeir vita sem séð hafa stikluna fyrir fimmtu seríu þáttanna leikur hún þar stórt hlutverk.

„Ég hreifst svo af þáttunum þegar ég byrjaði að horfa á þá þegar sonur minn var nokkurra vikna gamall,“ segir hún meðal annars í viðtali sem finna má í nýjasta tölublaði Mannlífs. „Það að vilja verða leikkona er eitt, en að vita hvert maður ætlar er annað. Ég hugsaði aldrei: kannski fæ ég eitthvað að gera, heldur var ég harðákveðin í því að ég ætlaði að leika í þessum þáttum. Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings.“

Mynd / Hallur Karlsson

Heillandi hátíðarförðun

|||||||||
|||||||||

Nú, þegar jólahlaðborðin og árshátíðirnar eru allsráðandi, er gaman að vita hvað ber hæst í förðun. Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur hjá Yves Saint Laurent, deilir hér með okkur sínum uppáhaldsvörum en þar sem veturinn er kominn og minna af sólargeislum, leitar hún í meira þekjandi vörur og dimmari liti með góðri endingu.

„Top Secrets ULTRA MOISTURE frá YSL gefur einstaka og djúpa næringu þegar húðin þarfnast hennar hvað mest. Kremið vinnur einnig eins og farðagrunnur og gefur því ekki einungis raka og næringu heldur jafnar og þéttir yfirborð húðarinnar fyrir farða.“

„Teint Idole Ultra Wear-farðinn frá Lancôme er endingargóður og vel þekjandi. Ráð: Til að létta farðann og fá meiri næringu er gott að blanda Ultra Moisture-kreminu út í hann.“

„Naked Skin-hyljarinn frá Urban Decay er mjúkur með miðlungsþekju, hann gefur næringu, róar húðina og dregur úr þrota yfir daginn. Ráð: Notaðu hyljarann til að ramma inn augabrúnir og skerpa varalínu.“

„Couture Blush-kinnalitirnir frá YSL gefa frískan og fallegan lit til að lífga upp á förðunina. Ráð: Bleyttu aðeins upp í kinnalitnum þínum til þess að fá enn dýpri og skarpari lit, hann má einnig nota á augun.“

„Powder to Cream-augabrúnavaran frá Lancôme fyllir upp í og þéttir augabrúnirnar og endist frá morgni til kvölds.“

„Naked CHERRY-augnskuggapallettan frá Urban Decay er ein af mín uppáhalds núna. Tólf nýir rauðtóna litir, allt frá saneruðum bleikum tónum til mattra burgundy-lita.“

„Feline Black EXTRAVAGANZA-maskarinn frá Helena Rubinstein gefur mikla þykkt og mjög svartan lit. Fullkominn fyrir heillandi og dramatíska hátíðarförðun.“

„L’Absolu Rouge Drama Matte-varalitirnir frá Lancôme eru mattir, mjúkir og endingargóðir. Annað þarf ekki til að toppa lúkkið.“

„All Nighter Setting Sprey frá Urban Decay er svo alltaf nauðsyn, að mínu mati, til að festa förðunina og gefa henni yfir 16 klukkustunda endingu.“

 

Mynd af Björgu / Aldís Pálsdóttir

Mansalshringir herja á Airbnb-eigendur

Gistihúsaeigandi sem rekur Airbnb-þjónustu á höfuðborgarsvæðinu óttast að mansalshringir notfæri sér þjónustu hans til að gera út konur í vændi. Óvenju tíðar ferðir og grunsamleg hegðun gesta, vandamál við greiðslur og óvenjulegar matarvenjur vöktu grunsemdir eigandans sem gerði lögreglu viðvart. Sökum manneklu getur lögreglan hins vegar lítið gert nema hún grípi viðkomandi glóðvolga.

Nota stolin kreditkort til að kaupa gistingu

Gistihúsaeigandinn, sem vildi ekki koma fram undir nafni af ótta við að það hafi neikvæð áhrif á orðspor fyrirtækisins, lýsir upplifun sinni í samtali við Mannlíf. Eins og algengt er með gistihús eins og hér um ræðir eru íbúðirnar bókaðar á Netinu í gegnum bókunarsíður og greitt fyrir með kreditkorti. Kaupandinn fær síðan staðfestingu í tölvupósti ásamt upplýsingum um staðsetningu og sérstakan talnalykil til að komast inn í íbúðina. Gesturinn sér því alfarið um að innrita sig sjálfur. Þetta hafa óprúttnir aðilar notfært sér í auknum mæli. „Það er að færast í aukana að greiðslur falla til baka 2-3 vikum eftir að fæslan hefur farið í gegn, þegar maður fær tilkynningu frá innheimtuaðilanum að greiðslan sé afturkölluð. Búið að greiða og allt gengur í gegn en þá kemur í ljós að eigandi kortsins kannast ekki við færsluna og tilkynnir það kortafyrirtækinu. Greiðslan er þá afturkölluð og tjónið lendir á mér,“ segir gistihúsaeigandinn og bætir við að hann hafi sömu aðila grunaða um að stunda vændisstarfsemi í íbúðunum.

Keyrðar fram og til baka og nærast á dósamat

Gistihúsaeigandinn segir að hann hafi orðið var við óeðlilega mikla umferð um íbúðirnar  og því verið á varðbergi. Gestirnir, kúbanskar konur, hafi stundum staðið fyrir utan og reykt sem hann gerði athugasemd við. „Ég sé hvenær lásarnir á íbúðunum eru opnaðir, það er skráð í gagnagrunn. Í þessum tilfellum hafa lásarnir verið opnaðir á klukkutíma fresti, sem er mjög óeðlilegt,“ útskýrir hann og segist í kjölfarið hafa leitað til lögreglu sem mætti á staðinn. Þá voru konurnar ekki inni og lítið sem lögregla gat aðhafst. Maðurinn telur einnig að konurnar séu fórnarlömb mansals.

„Íbúðirnar eru vanalega bókaðar í 4-5 daga yfir helgi. Konurnar koma stundum á réttum degi, en fara gjarna á sunnudegi eða mánudegi þótt íbúðin sé bókuð fram á fimmtudag. Ég get ekki verið viss um annað en að þær standi sjálfar á bak við bókanirnar. Ástæðan fyrir því að ég tel svo ekki vera er aðbúnaður kvennanna. Koma þeirra er greinilega undirbúin, sami leigubílstjórinn hefur komið með þær á staðinn og þær fara ekkert nema vera sóttar og borða aðeins það ódýrasta sem hægt er að fá, hakkaða tómata og aðrar niðursuðuvörur. Maður sér það þegar maður tæmir ruslið, ekkert nema niðursuðudósir. Ódýrasta íbúðin er alltaf valin og hún bókuð deginum áður jafnvel,“ segir hann og bætir við: „Það er einfaldlega ekki þannig að fólk sem kemur til að heimsækja Ísland bóki deginum áður en það kemur. Ef ég reyni að spyrjast fyrir og leita upplýsinga, þá er fólkið búið að pakka og farið.“

Fljótir að hverfa ef grunsemdir vakna

Síðastliðinn laugardag hringdi karlmaður á gistiheimilið, hann hafði bókað sex gistinætur daginn áður, úr leyninúmeri. „Hann spurði hvernig hann kæmist inn en allir sem bóka fá strax sendan tölvupóst með slíkum upplýsingum. Hann segist ekki hafa fengið póstinn svo ég lét hann gefa mér upp netfang og sendi aftur. Þá sá ég að nafnið á netfanginu passaði ekki við greiðanda. Þegar ekki var svarað í símanúmerinu sem hann gaf upp, fletti ég því upp og komst að því að þetta var falskt númer fyrir Bretland, en nafnið á netfanginu var austur-evrópskt. Eftir að maðurinn játaði því að hann væri að koma sjálfur, minnti ég hann á að taka með sér vegabréf og kreditkortið sem greitt var með. Maðurinn kom aldrei svo ég læsti lásunum að íbúðinni, viðkomandi hefði því þurft að hringja í mig til að komast inn,“ útskýrði gistihúsaeigandinn og bætti við að ljóst mætti vera að þessir aðilar létu sig hverfa um leið og grennslast væri fyrir um þá.

Sprenging í vændi

Lýsing gistihúsaeigandans kemur heim og saman við það sem lýst er í árlegri skýrslu Ríkslögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Þar er „sprenging“ í vændi sett í samhengi við mikla fjölgun ferðamanna og uppgang í efnahagslífinu. Í skýrslunni segir að sumar þær erlendu kvenna sem stunda vændi séu sendar um lengri eða skemmri tíma til landsins og að baki búi nauðung. Telur lögreglan að hluti starfseminnar tengist skipulögðum glæpasamtökum. Í einhverjum tilvikum fylgi erlendir karlmenn konunum og hafi eftirlit með þeim á meðan þvær dveljast hér. Konunrnar fá við komuna íslensk símanúmer og hafi aðstöðu í leigugistingu. Sökum manneklu og „afleiddrar nauðsynlegrar forgangsröðunar“ hefur lögreglan ekki haft tök á að rannsaka þetta frekar.

Ljóst er að misnotkun vændishringja á leigugistingu er ekki bundin við Ísland. Fyrr á árinu tilkynnti Airbnb að fyrirtækið hyggðist grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að vændishringir breyti leiguíbúðum í „skyndi-vændishús“ (e. pop-up brothels). Er Airbnb í samstarfi við grasrótarsamtökin Polaris sem berjast gegn mannsali þar sem starfsmenn verða þjálfaðir sérstaklega í að koma auga á mögulegt mansal.

„Það kemur enginn betri út af Hólmsheiðinni“

Fangelsi á Hólmsheiði - Myndin tengist fréttinni ekki beint

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, varar við því að túlka samanburð við önnur Norðurlönd Íslandi í hag eins og gert hefur verið, en ný samnorræn fangelsisskýrsla kom nýlega út. Hér sé refsivörslukerfið allt öðruvísi, biðtími lengri eftir afplánun og dómar birtast til dæmis seinna en annars staðar á Norðurlöndum.

Hann segir nýtt fangelsi á Hólmsheiði síður en svo bæta þetta. „Persónulega held ég að þetta sé eitt mesta slys sem hefur orðið, þetta er illa hannað og undirmannað. Það er ekki hægt að reka þetta, það eru bara ekki til peningar fyrir því. Það er engin skólaaðstaða fyrir verknám, erfiðar vinnuaðstæður, þetta er ofboðslega stofnanalegt. Það er ekki einu sinni búið að semja um heilbrigðisþjónustu í þessu fangelsi, það er ekki búið að semja um menntamál á Hólmsheiði. Það vantar allt. Þetta er bara steypukassinn,“ segir Guðmundur Ingi og líkir deginum þar inni við að standa fyrir framan lyftu sem aldrei komi. „Þetta er í raun hræðilegt fangelsi þótt aðstaðan sé fín en hún skiptir minna máli en innihald fangavistarinnar. Verknám og starfsþjálfun er það sem skiptir mestu máli.“

Hann segir gott starfsfólk þarna sem reyni að bjarga hlutunum en það sé ekki nóg. „Það kemur enginn betri út af Hólmsheiðinni, ég get alveg sagt það.“

„Að hafa eitthvað við að vera skiptir mestu máli, og vinna eða nám,“ segir Þráinn Farestveit sem hefur verið framkvæmdastjóri áfangaheimilisins Verndar undanfarin 18 ár. Á Hólmsheiði sé nánast ekkert í boði og það gangi illa að koma því í farsælan farveg að fá verkefni t.d. utan fangelsisins fyrir fanga og það komi ekkert annað í staðinn. „Það er í raun og veru ekkert að hafa,“ ítrekar hann.

Þráinn segir að hópurinn sem núna sé inni í fangelsunum sé mun erfiðari heldur hann var fyrir örfáum árum síðan. Fangahópurinn sé samsettur af mjög erfiðum einstaklingum og því hlutfallslega færri hæfir til að koma inn á áfangaheimilið Vernd en dvöl þar minnkar möguleikana á endurkomu.

Endurkomutíðni hjá kvenföngum hærri

Staðan hjá konunum er verri en karlanna eða sambærileg verstu tilvikunum meðal þeirra. „Þær koma veikari inn í fyrsta skipti. Ég held að það sé verið að gera þeim einhvern greiða í dómskerfinu, þær fara seinna inn og hafa því lengri tíma að skemma sig,“ segir Guðmundur Ingi.

Endurkomutíðnin hjá konum er að sama skapi hærri. „Hún er það hjá okkur klárlega. Aðeins um 30 prósent kvenfanga standast kröfur um að koma til okkar sem er miklu lægri tala en meðal karlanna,“ segir Þráinn.

Þráinn bendir þó á að mjög erfitt sé að henda reiður á nákvæmum tölur um endurkomutíðni. Frestun afplánunar, fyrning dóma, rafrænt eftirlit og samfélagsþjónusta hefur áhrif á talningu og svo sé einnig óljóst hvaða áhrif erlendir fangar sem fara úr landi hafi á töluleg gögn. Þráinn segir stærsta vandann vera veikt fólk. „Það er svo margt veikt fólk inni í þessu kerfi sem þarf á mikilli aðstoð að halda og ég vil fullyrða að vel yfir 90 prósent af þeim sem eru í fangelsi eigi við mjög alvarlegan fíknivanda að stríða og menn eru farnir að þróa með sér ýmist geðræn vandamál samhliða því auk þess að allt of margir eru á lyfjum sem þeir fá innan fangelsisins.“

Eftir Lindu Blöndal

Varpar ljósi á fæðingarþunglyndi

Rejúníon er nýtt íslenskt leikrit eftir Sóleyju Ómarsdóttur í framleiðslu Lakehouse. Verkið gerist í íslenskum samtíma og varpar ljósi á fæðingarþunglyndi, barneignir, sambönd og samfélagspressu.

„Ég byrjaði að skrifa leikritið þegar ég var ólétt af mínu öðru barni og var mikið hugsað til erfiðs tímabils þegar ég var ólétt í fyrsta sinn. Hugmyndin var að skrifa verk um konur sem væru á einhvern hátt aftengdar umhverfinu og fólkinu í kringum sig, og lifðu í einhverri ósýnilegri einangrun. Þetta hefur verið mjög langt þróunarferli og verkið hefur tekið miklum breytingum. Það er í rauninni enn þá í þróun núna á æfingaferlinu þar sem allur þessi fjöldi listamanna sem kemur að sýningunni kemur með nýja sýn og hugmyndir,“ segir Sóley.

Leikritið fjallar um íslensku ofurkonuna og ferlafræðinginn Júlíu, sem í staðinn fyrir að horfast í augu við þá erfiðleika sem hún upplifði við að verða móðir, sekkur sér í vinnu, bollakökubakstur og Snapchat-frægð. Hún tekur einnig að sér að sjá um 20 ára grunnskóla-rejúníon í leyndri von um að endurnýja tengslin við æskuvinkonu sína og lífið áður en allt varð svona flókið.

„Kveikjan að hugmyndinni kom frá því tímabili þegar ég flutti ólétt heim til Íslands og var að vinna fjarvinnu heiman frá mér. Ég upplifði mikla einangrun og var alveg úr tengslum við lífið hérna heima. Ég datt fljótt í þunglyndi og hafði einnig yfirþyrmandi áhyggjur af því hvernig ég myndi standa mig í móðurhlutverkinu. Eftir fæðinguna var ég einnig með mikinn kvíða sem tengdist því að vera ein heima með ungbarn og bera ábyrgð á lífi þess en slíkur kvíði tengist einnig fæðingarþunglyndi. Ég leitaði mér aldrei aðstoðar en ég sé það eftir á að ég hefði átt að gera það,“ segir Sóley.

Fordómarnir gagnvart þeim sjálfum

Sóley segir að umræðan um fæðingarþunglyndi hafi opnast mikið á síðastliðnum árum en hún heldur að enn þá sé ákveðið tabú í kringum það. „Eins og Sæunn Kjartansdóttir sálfræðingur orðaði svo vel á málþinginu sem Lakehouse hélt í Tjarnarbíói um daginn, þá eru konur með fordóma gagnvart sjálfum sér að upplifa þessar tilfinningar því það að líða svona er ekki eitthvað sem þær lögðu upp með í byrjun. Ég held að við séum yfirleitt umburðarlyndari gagnvart öðrum og þeirra erfiðleikum, en þegar við upplifum erfiðleika sjálf þá finnst okkur við vera svo misheppnuð,“ segir Sóley og heldur áfram. „Svo er annað, að fólk heldur oft að hugtakið fæðingarþunglyndi eigi bara við um konur sem elska ekki barnið sitt. En konur geta að sjálfsögðu upplifað fæðingartengt þunglyndi þó að þær elski barnið sitt. Þetta var allavega misskilningur hjá mér og kom að einhverju leyti í veg fyrir að ég leitaði mér aðstoðar. Það er því gott að opna meira á þessa umræðu því þunglyndi og kvíði í kringum barneignir er alveg ótrúlega algengt. Ég komst að því þegar ég var að skrifa að flestir sem ég talaði við um verkið tengdu eitthvað við málefnið.“

Krafa um ofurkonu ímyndun

Hún telur að klárlega sé pressa frá samfélaginu um að konur eignist bæði börn og glæstan starfsferil. „Það eru næstum því fordómar í íslensku samfélagi gagnvart konum sem velja bara annað hvort. Margar konur eiga hins vegar ekkert val um að vera ofurkonur, eins og til dæmis einstæðar mæður sem kannski neyðast til að vinna í tvö störf. En þessi týpíska ofurkona sem við hugsum frekar um þegar við tölum um ofurkonur er frekar týpa sem er í flottu starfi en á samt nokkur börn, rekur fallegt heimili, sinnir félagsstörfum, fer í fjallgöngur og póstar chia-grautnum sínum á Instagram. Einhver krafa um slíkar ofurkonur er eitthvað sem ég held að sé bara ímyndun. Fólki er yfirhöfuð alveg sama hvað aðrir eru að gera.“

Verkið er frumsýnt 30. nóvember í Tjarnarbíó. Á bak við sýninguna stendur leikfélagið Lakehouse, en leikstjóri er Árni Kristjánsson. Leikarar eru Sólveig Guðmundsdóttir, Sara Martí Guðmundsdóttir og Orri Huginn Ágústsson. Framkvæmdastjórn, tónlist og hljóðheimur er í höndum Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur. Fiona Rigel sér um leikmynd og búninga, með aðstoð Bryndísar Óskar Þ. Ingvarsdóttur. Vala Ómarsdóttir sér um hreyfileikstjórn, Ingi Bekk um vídeó og Halldór Örn Óskarsson um ljós.

Enn einn bletturinn á hina fögru íþrótt

Mynd/Pixabay

Það hefur löngum verið vitað að spilling grasserar í knattspyrnuhreyfingunni. Spillingin holdgervist meðal annars í þeirri ákvörðun að næsta heimsmeistarakeppni fer fram í Katar, landi þar sem ógerningur er að spila fótbolta á þeim tíma sem mótið fer alla jafna fram. Þýska blaðið Spiegel hefur á undanförnum vikum opinberað kerfisbundna spillingu í æðstu lögum knattspyrnuhreyfingarinnar. Umfjöllunin á rætur að rekja til grasrótarhreyfingarinnar Football Leaks og byggir á stærsta gagnaleka sögunnar. Blaðamenn Spiegel, ásamt 80 manna teymi frá 15 af helstu fjölmiðlum heims, hafa undanfarna mánuði farið yfir um 70 milljónir skjala sem sýna hvernig stærstu og ríkustu félög heims, í krafti gríðarlegs fjármagns, svínbeygja reglur og gildi íþróttarinnar til þess að moka enn meiri fjármunum undir sig. Lykilmenn innan hreyfingarinnar eru ýmist virkir þátttakendur eða líta undan. Umfjöllunin varpar meðal annars ljósi á leynilegar fyrirætlanir stærstu liða Evrópu um stofnun ofurdeildar og hvernig olíufurstar í Persaflóa svifust einskis til að gera algjört miðlungslið í Bretlandi að einu besta liði í heimi á aðeins nokkrum árum.

Framlenging af Sepp Blatter

Einhverjir hafa eflaust talið að þegar Sepp Blatter hrökklaðist úr forsetastól FIFA vegna yfirgengilegrar og lítt duldinnar spillingar að betri tímar væru í vændum. Eftirmaðurinn, Gianni Infantino frá Sviss, boðaði enda nýja og bjartari tíma en gögn Spiegel sýna að Infantino er lítið annað en framlenging á forvera sínum, jafnvel ívið óforskammaðri. Eitt hans fyrsta verk var að reka þá aðila sem voru að rannsaka innri mál FIFA, þar með talið hans eigin, og skipta þeim út fyrir manneskju sem hreinsaði nafn hans áður en hún tók til starfa. Hann skipaði svo aðalritara sem hafði aldrei komið nálægt fótbolta. Undir hans stjórn hefur FIFA dælt út milljónum dollara til aðildarsambandanna að því er virðist án nokkurrar ábyrgðar eða eftirfylgni. Lúxusbifreiðar, einkaþotur og dekurferðir til vilhollra koma oftar en ekki við sögu.

Velgengni í skjóli olíuauðs

Stór hluti uppljóstranna snýr að enska stórliðinu Manchester City, enda hefur uppgangur þess liðs á síðustu árum verið ævintýralegur. Manchester City var í besta falli miðlungsklúbbur þegar hann var keyptur af fjárfestingasjóði í eigu konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi árið 2008. Peningarnir flæddu inn í klúbbinn og sýna gögn Spiegel hvernig stjórnendur félagsins fóru kerfisbundið á svig við fjárhaldsreglur FIFA til að fegra bókhaldið. Manchester City spilaði eftir eigin leikreglum og gátu þannig, ólíkt keppinautum þeirra, gert ævintýralega styrktarsamninga við tengda aðila sem síðan tryggðu þeim aðgang að bestu knattspyrnumönnum og -stjórum heims. Þegar UEFA tók sig til og ætlaði að refsa Manchester City og franska liðinu PSG, sem einnig er í eigu moldríkra olíufursta, beitti títtnefndur Infantino, þá aðalritari UEFA, sér persónulega fyrir því að refsingarnar yrðu einungis til málamynda.

Sýna deildum og landsliðum fingurinn

Í tölvupóstum Football Leaks er að finna leynileg plön stærstu klúbba Evrópu um að koma á fót svokallaðri ofurdeild sem myndi gjörbreyta landslagi fótboltans til langframa. Planið er að 20 bestu (og ríkustu) lið álfunnar kljúfi sig frá eigin knattspyrnusamböndum og stofni eigin deild. Þessi lið myndu svo skipta með sér gríðarlegum tekjum sem fengjust í formi sjónvarpsréttarsamninga, sölu aðgöngumiða og styrktarsamninga. Þetta eru lið eins og Bayern München, Real Madrid, Barcelona, Manchester United, Liverpool, Juventus, PSG og fleiri. Gögnin sýna einnig að forráðamenn þessara liða hafa leitað leiða til að tryggja að leikmenn þessara liða þyrftu ekki að spila leiki með sínum eigin landsliðum.

Stórgræða á afrískum vonarstjörnum

Gögnin gefa sömuleiðis innsýn inn í hvernig stærstu lið heims notfæra sér unga leikmenn frá fátækari löndum sér til hagsbóta. Þannig hefur Manchester City starfrækt knattspyrnuakademíur í nokkrum Afríkulöndum um árabil. Þar fá ungir leikmenn aðgang að þjálfun og menntun sem þeir ættu alla jafna ekki völ á, sem vissulega er jákvætt, en framtíð þeirra er þó ekki eins glæst og ætla mætti. Félagið lítur á þessa drengi eins og hvern annan varning og samningarnir sýna að Manchester City hefur fullan yfirráðarétt yfir þeim. Ef þeir eru ekki nægilega góðir fyrir félagið eru þeir lánaðir, stundum þvert gegn eigin vilja, til smærri liða í Evrópu. Manchester City veit að fæstir þeirra muni nokkurn tíma spila leik fyrir félagið en akademían þarf ekki að skila nema einni stjörnu svo að fjárfestingin borgi sig, samanber þegar City seldi Kelechi Iheanacho til Leicester á 28 milljónir evra.

Heimavellir ruddu brautina fyrir þróunina á leigumarkaðinum

Leigufélögin svara þörf sem sprottin er af þjóðfélagsbreytingum sem hér hafa orðið. Við hjá Fasteignablaði Mannlífs hittum Guðbrand Sigurðsson, framkvæmdastjóra Heimavalla, og spurðum hann spjörunum úr um markmið og starfsemi Heimavalla sem hefur vaxið á markaðinum síðastliðin ár.

Hvað eru Heimavellir með margar íbúðir í rekstri og hvar eru þær staðsettar? „Í dag eru Heimavellir með um tvö þúsund íbúðir í rekstri á höfuðborgarsvæðinu, einnig á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Borgarnesi, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ.“

Getur þú sagt okkur hvað kostar að meðaltali að leigja íbúð hjá Heimavöllum? „Mánaðarleiga hjá Heimavöllum liggur á víðu bili eða frá tæplega 100 þúsund krónum til ríflega 300 þúsund krónur á mánuði. Þannig var meðalíbúð Heimavalla í júní síðastliðnum, þriggja herbergja íbúð sem er rúmlega 90 fermetrar og meðalleiguverðið 160 þúsund krónur á mánuði. Af þeim leigutekjum eru vextir um 85 þúsund krónur á mánuði og því ljóst að lækka mætti leiguna umtalsvert með lækkun vaxtakostnaðar. Veruleiki vaxtakostnaðarins blasir einnig við leigufélögum sem rekin eru á félagslegum forsendum.“

Er reksturinn á leiguíbúðunum hagkvæmur fyrir ykkur sem leigufélag og fyrir leigjendur í senn? „Heimavellir hafa náð verulegum árangri í að auka hagkvæmni í rekstri leiguíbúða og þjónustu við leigjendur, meðal annars með uppstokkun í eignasafni sínu. Heimavellir vinna nú að þeirri nýjung með Reykjavíkurborg að undirbúa byggingu 100 stúdíóíbúða fyrir ungt fólk á Veðurstofureit sem væntanlega verða tilbúnar 2021. Það er dæmi um að leigufélög geta unnið með stjórnvöldum að þróun hagkvæmra lausna á húsnæðismarkaðinum. Jafnframt byggja Heimavellir nú 165 íbúðir í hjarta borgarinnar sem er tilraun til þess að bjóða upp á öruggt leiguhúsnæði miðsvæðis.“

Heimavellir vinna nú að þeirri nýjung með Reykjavíkurborg að undirbúa byggingu 100 stúdíóíbúða fyrir ungt fólk.

Hvernig getum við byggt upp öflugan og skilvirkan húsnæðismarkað? „Til þess að byggja upp öflugan og skilvirkan húsnæðismarkað hér á landi þarf að auka framboð á hagkvæmum íbúðum í hóflegri stærð, tryggja hagstæða langtímafjármögnun, halda fasteignagjöldum í skefjum og fjölga valkostum sem eru á markaðinum,“ segir Guðbrandur.  „Uppbygging öflugra leigufélaga sem geta boðið leigjendum örugga langtímaleigu og flutning innan eignasafns síns eftir þróun fjölskyldustærðar er mikilvægur þáttur í að byggja upp virkan húsnæðismarkað. Vert er í þessu sambandi að vekja athygli á þeirri niðurstöðu Ásgeirs Jónssonar hagfræðings og samstarfsfólks hans við Háskóla Íslands að leigumarkaður með öruggri leigu sé áhættuminni fyrir fólk en fjárfesting í eigin húsnæði.“

Nú hefur það heyrst að almennu leigufélögin ráði verði á leiguhúsnæði, er ekki eitthvað til í því? „Það er mikill misskilningur að almennu leigufélögin ráði verði á leiguhúsnæði. Aðeins 16 % leigjenda eru hjá einkareknu leigufélögunum. Það er fyrst og fremst skortur á íbúðarhúsnæði, mikill vaxtakostnaður af lánum og hár byggingarkostnaður sem stjórnar leiguverði. Mistekist hefur að byggja í takt við fólksfjölgun síðustu árin og það hefur sett þrýsting á leigumarkaðinn.“

Það er mikill misskilningur að almennu leigufélögin ráði verði á leiguhúsnæði.

Er sterk þörf fyrir leigufélög á leigumarkaðinum að þínu mati? „Almenni leigumarkaðurinn er valkostur fyrir allan þorra almennings. Á þeim markaði eru starfandi leigufélög eins og Heimavellir sem ruddu brautina fyrir þá þróun íbúðaleigufélaga sem hafin er. Færa má rök að því að á næstu árum þurfi íbúðum á leigumarkaði að fjölga um 10 þúsund. Fram undan er veruleg fólksfjölgun, breytingar eru orðnar á viðhorfum fólks til að eiga húsnæði og farartæki, húsnæðisþörfin er síbreytileg og óútreiknanleg og nýjar aðstæður eru í þjóðfélaginu meðal annars vegna innflutts vinnuafls og fjölda ferðamanna. Samanlagt mun þetta gera leigu, tímabundna eða varanlega, að eftirsóknarverðu búsetuformi á þróuðum og sveigjanlegum leigumarkaði,“ segir Guðbrandur að lokum.

Í samstarfi við Heimavelli
Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Yfir þrjátíu ára reynsla – velja rétta rúmið fyrir þig

 

 

 

 

 

Rekkjan hefur verið starfandi í sölu heilsurúma yfir þrjátíu ár. Frá upphafi hefur Rekkjan lagt áherslu á að vera með framúrskarandi þjónustu og gæðavörur. Við litum inn til Kristjáns Þórs Jónssonar, starfsmanns hjá Rekkjunni, og fengum innsýn í vöruúrvalið á heilsurúmum og þjónustuna sem þar er í boði.

Eru þið með ákveðnar tegundir af rúmum sem skara framúr hvað varðar gæði og notagildi?

Rekkjan hefur verið starfandi í sölu heilsurúma yfir þrjátíu ár.

„King Koil-rúmin er gríðarlega þekkt vörumerki í Bandaríkjunum enda hafa þeir verið að framleiða rúm í 120 ár við góðan orðstír og eru alltaf að koma með einhverjar nýjungar. Svo eru það stillanlegu rúmin frá Ergomotion sem er einnig amerískt fyrirtæki. Í þeim eru sterkir botnar og mótorar sem endast vel.  Svo má ekki gleyma náttúrulegu rúmunum frá Natura, þar sem er notast við latex, plöntusvamp og vottaða bómull og loks erum við með rúm frá sænska rúmframleiðandanum Carpe Diem. En þar eru rúmin sérpöntuð eftir þörfum og smekk viðskiptavinarins.“

Getur þú sagt okkur nánar frá King Koil-rúmunum sem eru ykkar aðalsmerki og hvaða kostum þau eru gædd?

„Þau eru til bæði einföld, góð og sterk heilsurúm sem og rúm sem bjóða upp á nýjungar eins og gel sem passar að dýnan elti ekki hitastig líkamans. Eitthvað sem sumum þykir æðislegt en það eru ekki allir að leita að slíku og vilja bara venjulegt gott heilsurúm.“

Bjóðið þið upp á margar tegundir frá fyrirtækinu King Koil?

„Við erum yfirleitt með fimm til sex gerðir af rúmum frá King Koil en það er stöðug þróun hjá King Koil og því koma nýjar týpur á um tveggja ára fresti. Allar tegundirnar eru með millistífu gormakerfi sem hentar fólki á bilinu 40 til 120 kíló. Í efsta lagi dýnunnar eru mismunandi stífleikar í mýkingunni sem fólk getur valið um, mjúkt, millistíft eða stíft. Þá kemur smekkur hvers og eins í spilið og þá svo lengi sem að mýkingin skiptir sér ekki af líkamsstöðunni.“

Þið leggið mikla áherslu á að viðskiptavinir ykkar velji rétta rúmið, bjóðið þið viðskiptavininum upp á þjónustu til að velja rétta rúmið sem hentar hans líkama og svefnvenjum best?

„Allt starfsfólk Rekkjunnar hefur fengið leiðbeiningar frá kírópraktor og sjúkraþjálfurum hvernig maður getur mælt út legstöðu hjá einstaklingum. Við viljum að fólk leggist í rúmin og við leiðbeinum því hvaða rúm myndi henta. Dýrasta rúmið í búðinni er ekki alltaf það besta,“ segir Kristján og brosir.

Í samstarfi við Rekkjuna
Myndir/ Hallur Karlsson

 

 

 

 

 

 

 

 

Falleg og vönduð eign í skjólríku og grónu hverfi

Eign vikunnar. Við endann á götunni við Ljárskóga stendur þetta vandaða og fallega einbýlishús á tveimur hæðum. Húsið er einstaklega vel staðsett í skjólríku og grónu hverfi. Lágreist, heilsteypt byggð mótar Seljahverfið og er þéttleiki byggðarinnar mun minni en í öðrum hverfum í Breiðholtinu.

Lágreist, heilsteypt byggð mótar Seljahverfið og er þéttleiki byggðarinnar mun minni en í öðrum hverfum í Breiðholtinu

Áberandi fyrir hverfið er hversu skjólsælt það er og tilheyrir miðsvæði stofnana, verslana og útivistarsvæða sem liggja um mitt hverfið og tengist svæði ÍR í suðurhluta Mjóddar sem er í miklum uppbyggingarfasa. Í nálægð eru leik-, grunn- og fjölbrautaskóli. Eignin er í nálægð við alla helstu þjónustu Seljahverfisins eins og verslunarkjarnann í Mjóddinni, kvikmyndahús og læknaþjónustu svo dæmi séu tekin. Seljahverfið er eftirsóknarverður staður að búa á, stutt er í Elliðaárdalinn sem er rómað útivistarsvæði og samgönguæðar eru til allra átta höfuðborgarsvæðisins. Seljahverfið er gróið og fallegt hverfi. Íbúar eiga kost á að njóta útverunnar og eru meðal annars göngu- og hjólastígar til allra átta. Nálægðin við iðandi mannlíf setur Seljahverfið í flokk eftirsóttra hverfa borgarinnar. Frá Seljahverfinu er jafnframt stutt í öfluga þjónustukjarna samanber Smáralind og nærliggjandi hverfi.

Útsýnið er fallegt út um gluggana á efri hæðinni.

Innréttuð á vandaðan og smekklegan máta

Á efri hæðinni eru stórar og bjartar stofur, með mikilli lofthæð í opnu rými sem nýtist mjög vel. Útsýnið er fallegt út um gluggana á efri hæðinni og býður upp á lifandi málverk alla daga. Hlýlegur arinn er í annarri stofunni sem gefur henni hlýjan blæ. Einnig er sólskáli sem stækkar rýmið enn frekari og býður upp á margbreytilega möguleika á nýtingu. Útgengi er úr stofum og sólskála út á stórar vinkilssvalir. Sjónvarpsstofan er einnig með útgengi út í rúmgóðan sólskála og er gengið úr sólskálanum út á sólpall með heitum potti sem er himneskt að njóta allan ársins hring. Einnig er eldhúsið á efri hæðinni með nýlegri og stílhreinni innréttingu sem sem sameinar fagurfræði og notagildi með góðri útkomu. Parket og viður spila aðalhlutverkið á gólfum og í loftum á efri hæðinni og blandast vel. Á efri hæðinni er líka stórt og vandað baðherbergi, með flísum og fínum innréttingum. Á hæðinni eru þrjú rúmgóð svefnherbergi.

Húsinu hefur vel verið viðhaldið að utan og er í mjög góðu ástandi.

Fjölbreytilegir möguleikar á nýtingu

Á neðri hæðinni er rými sem býður upp á fjölbreytta möguleika á nýtingu en þar væri hægt að vera með aukaíbúð. Þar er opið rými þegar inn er komið í forstofuna  og rúmgott þvottahús með góðri vinnuaðstöðu. Einnig eru þar tvö herbergi til viðbótar ásamt góðum geymslum.

Fallegt og gróðusælt svæði

Lóðin afar snyrtileg og mjög stór, hún er um það bil 1.100 fermetrar að stærð með rúmgóðu og hellulögðu bílaplani. Fallegt og gróðursælt svæði þar sem engin byggð er, er við húsið sem gefur því rómantískan blæ.  Húsinu hefur vel verið viðhaldið að utan og er í mjög góðu ástandi. Eigninni fylgir einnig tvöfaldur innbyggður bílskúr.

Lóðin er um það bil 1.100 fermetrar.

Þessi eftirsóknarverða eign er til sölu á fasteignasölunni Kjöreign. Nánari upplýsingar um eignina gefa sölumenn Kjöreignar í síma 533-4040 eða gegnum netfangið [email protected]

Myndir / Úr einkasafni Kjöreignar
Í samstarfi við Kjöreign

 

 

 

 

 

 

 

 

Fagurfræði og notalegur lífsstíll

Línan býður upp á vörur frá Cozy Living Copenhagen. Cozy Living er ungt og framsækið fyrirtæki í stöðugum vexti. Vöruúrval þess samanstendur af vörum sem gera heimilið hlýlegt og notalegt. Fagurfræði og notalegur lífsstíll eru einkunnarorðin sem þau hafa að leiðarljósi.

Djúpir litir og falleg munstur

Litapallettan þeirra fyrir veturinn 2018 – 2019 einkennist af djúpum litum og fallegum munstrum. Púðaúrvalið er einstakt og skemmtilegt að blanda saman púðum í mismunandi stærðum með ólíkri áferð.

Djúpir litir einkenna litapallettu vetursins.

Glersnagar með brasshring

Ein vinsælasta varan sem Línan hefur boðið upp á til þessa eru flauelssnagarnir. Nýjung í flóruna þennan veturinn eru glersnagar með brasshring sem eiga án efa einnig eftir að njóta vinsælda.

OPNUNARTÍMI

Um þessar mundir streyma inn nýjar vörur og alltaf eitthvað nýtt og spennandi á boðstólnum.

Mánudaga – föstudaga 11 – 18
Laugardaga 11 – 16
Bæjarlind 16
201 Kópavogi
Sími: 553 7100

Í samstarfi við Línuna
Myndir / Úr einkasafni Línunnar

 

„Þessi banki á sig sjálfur“

Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að helstu stjórnendur Kaupþings hafi framið fordæmalausa efnahagsglæpi á meðan að bankinn var á lífi.

Kaupþing var allra banka stærstur á Íslandi fyrir bankahrun. Og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að helstu stjórnendur hans hafi framið fordæmalausa efnahagsglæpi á meðan að bankinn var á lífi. Það sem skilgreindi bankann voru há lán til lítils hóps eigenda og vildarviðskiptavina og áður óþekkt fjármögnun á kaupum á eigin bréfum. Í nýrri bók, Kaupthinking: Bankinn sem átti sig sjálfur, er saga hans rakin.

„Ég hef kannað þetta ítarlega og komist að því að þetta tengdist ekkert fjármálakreppu, þetta voru alger Ponzi-svik og útilokað að það hefði haldið velli. Það hefði bara þurft einn mann innan bankans til að taka upp símann og segja „Þessi banki á sig sjálfur“ og þá hefði hann hrunið. Merkilegt að það gerðist ekki.“

Þetta sagði Kevin Stanford, einn stærsti viðskiptavinur Kaupþings banka fyrir hrun í yfirheyrslum hjá embætti sérstaks saksóknara. Þar sagðist hann líka hafa haft einstakan aðgang að stjórnendum Kaupþings. Aðgang sem hann hefði ekki fengið hjá öðrum alþjóðlegum bönkum. „Ég gat hringt í forstjóra bankans. […] Okkur fannst gaman að stunda viðskipti og hafa aðgang að peningum.“ Stanford kallaði enn fremur hin svokölluðu CLN-viðskipti sem hann tók þátt í að undirlagi Kaupþings  „kjarnorkusprengju í fjármálum“. Aðspurður af hverju hann hefði verið „valinn“ til að vera eigandi eins félagsins sem notað var í þau viðskipti sagði Kevin að hann héldi að það hefði verið vegna þess að hann „var eini hvíti maðurinn í þorpinu“. Það hafi verið mikilvægt að hann væri útlendingur, ekki Íslendingur, svo að það liti út fyrir að alþjóðlegur fjárfestir væri að kaupa.

Yfirheyrslurnar eru hluti af tugþúsundum skjala sem fjallað er um í bókinni.

Nánar á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Tækifæri til að komast í nálægð við glæpasagnahöfunda

Glæpasagnahátíðin Iceland Noir hófst í gær í IÐNÓ en á henni koma yfir 60 höfundar saman í fjölbreyttri dagskrá sem stendur til sunnudags. Hátíðin er fyrir alla sem hafa áhuga á glæpasögum, að sögn rithöfundarins Óskars Guðmundssonar, formanns skipulagsnefndar Iceland Noir. Ásamt honum sjá rithöfundarnir Lilja Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson og Yrsa Sigurðardóttir um skipulag hátíðarinnar.

Hugmyndin að hátíðinni kviknaði árið 2013. „Hugmyndin fæddist hjá Ragnari, Quentin Bates og Yrsu fyrir fimm árum og fyrsta hátíðin var svo haldin ári síðar, 2014, þar sem Lilja kom einnig að skipulagningunni. Síðan þá hefur hún verið haldin hér á landi annað hvert ár en þess á milli hefur einhver annar haldið hana í okkar nafni erlendis.“

Óskar segir hátíðina fara stækkandi ár frá ári en þetta árið halda um 60 glæpasagnahöfundar erindi á henni í formi pallborðsumræðna og hátt í 150 íslenskir sem og erlendir gestir munu heimsækja hátíðina. „Í ár eru mörg stór og þekkt nöfn sem taka þátt, það hefur nefnilega verið eftirsótt að komast að á hátíðina og við stóðum fljótlega frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að setja rithöfunda á biðlista því hátíðin hefur spurst út víða og orðið eftirsótt. Enda hefur hún alltaf heppnast gríðarlega vel og við lagt mjög mikinn metnað í alla umgjörð og dagskrá.“

Við stóðum fljótlega frammi fyrir því lúxusvandamáli að þurfa að setja rithöfunda á biðlista.

Beðinn um að nefna dæmi um nokkra spennandi viðburði á hátíðinni segir Óskar: „Þegar stórt er spurt. Dagskráin sjálf er auðvitað hrikalega spennandi og þá eru heiðursgestirnir okkar til dæmis ekki af verri endanum, þar má nefna forsetafrúna okkar, Elísu Reid, forsætisráðherrann okkar, Katrínu og stórskáldið Sjón. Þau taka þátt í pallborði með okkur en einnig má nefna kanadíska höfundinn Shari Lapena og Mark Billingham, þau halda hvort sitt erindið í dag.“

Spennandi stökkpallur

Óskar kom fram á sjónarsviðið árið 2015 með glæpasöguna Hilma. Hann segir Iceland Noir hafa reynst sér vel eftir útgáfu hans fyrstu bókar. „Þetta er frábær vettvangur fyrir nýja íslenska höfunda og ég fékk að kynnast því árið 2016. Hátíðin getur verið spennandi stökkpallur fyrir nýja höfunda og ekki síst til að kynnast þessu samfélagi rithöfunda. Við erum með pallborðsumræður sérstaklega fyrir nýja glæpasagnahöfunda,“ segir Óskar sem mælir eindregið með hátíðinni fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref sem rithöfundar.

Óskar mælir einnig með hátíðinni fyrir alla þá sem hafa áhuga á glæpasögum. „Það er hreint út sagt frábært að kynnast öllu þessu fólki og fá innsýn inn í heim rithöfunda, líf þeirra og hvernig þeir vinna. Á hátíðinni gefst öllum tækifæri til að komast í nálægð við höfunda og spjalla við þá. Það hefur verið á brattann að sækja að fá Íslendinga til að mæta á hátíðina en við erum þó með sérstakt átak í þeim efnum núna þar sem þeir geta keypt sig inn á staka viðburði á TIX.is. Aðspurður hverju það sæti segir Óskar að það sé sennilega vegna þess að landinn þekkir þetta ekki. „Ég held að fólk átti sig ekki á því að þetta er fyrir alla og allir velkomnir. Þarna er bara líf og fjör í tuskunum.“

Það er hreint út sagt frábært að kynnast öllu þessu fólki og fá innsýn inn í heim rithöfunda.

Hljómsveit skipuð rithöfundum

Óskar segir að um heljarinnar prógramm sé að ræða. „Hátíðin byrjaði síðdegis í gær og svo eru haldnir viðburðir frá morgni til kvölds þar til á sunnudag. Svo er auðvitað ball á morgun, laugardag, í IÐNÓ. Þar spilar hljómsveitin Fun Lovin’ Crime Writers fyrir dansi en sú hljómsveit er skipuð sex breskum glæpasagnahöfundum. Þau syngja eingöngu lög þar sem einhver er myrtur,“ segir Óskar og hlær. „Þetta er ekki bara gríðarlega áhugaverð hljómsveit, heldur einnig mjög góð.“

Áhugasamir geta nálgast upplýsingar um hátíðina á vefsíðunni www.icelandnoir.is.

Már hefur ítrekað sagt okkur sek

Seðlabankinn haft „ótrúlegt“ hugmyndaflug í að búa til glæpi, segir forstjóri Samherja.

 

Atburðarás sem hófst 27. mars 2012 lauk í síðustu viku með sýknudómi Samherja í Hæstarétti. Seðlabanki Íslands skipulagði og framkvæmdi húsleit á starfsstöðvum Samherja árið 2012 og í kjölfarið lýsti bankastjóri SÍ því yfir að grunur léki á tugmilljarða undanskotum á gjaldeyri á vegum fyrirtækisins, en á þessum tíma voru gjaldeyrishöft á Íslandi og skilaskylda á gjaldeyri. Á þeim tæplega sjö árum sem liðin eru hefur komið í ljós að ekkert var hæft í ásökunum bankans og smám saman hefur málarekstur bankans rýrnað í roðinu, þar til nú, að Samherji hefur verið sýknaður af öllum ákærum.

„Ég bjóst ekki við neinu öðru,“ segir Þorsteinn Már Baldursson um niðurstöðu Hæstaréttar.

Um upphaf málsins segir hann að fréttastofu RÚV hafi verið gert aðvart um húsleitina áður en hún fór fram. „Fjölmiðlar eru boðaðir á staðinn áður en húsleitarmenn koma til. Þarna eru mættir sjónvarpsmenn frá RÚV bæði í Reykjavík og Akureyri, þeir hafa þurft að taka kvöldvélina, þá send tilkynning um húsleitina um allan heim bæði á íslensku og ensku. Þá var send fréttatilkynning um kæru áður en kæran var send Sérstökum saksóknara.“

Þorsteinn Már undrast þrákelkni stjórnenda Seðlabankans í málinu. „Manni leið alltaf [eins og] að [Seðlabankann] vantaði bara eitthvað til að málinu lyki ekki.“ Kæruefnin fengu öll efnislega meðferð hjá Sérstökum saksóknara. Ekkert kom fram við skoðun Sérstaks saksóknara sem benti til vísvitandi undanskota Samherja.

„Við höfðum rekið sölufyrirtæki á Íslandi til fjölda ára. Við höfðum selt afurðir fyrir erlend fyrirtæki, en þegar gjaldeyrislögin komu urðum við að taka peningana heim, við vorum til dæmis að selja grálúðu fyrir þýskan togara, en auðvitað á þýska fyrirtækið aflaverðmætið, en við vorum að taka fast hlutfall fyrir að selja fiskinn. Þá urðum við að taka peningana heim, en svo að sjálfsögðu að skila honum til Þýskalands.[…] Sérstakur saksóknari fjallaði um fiskverð, gjaldmiðlaskil og svo framvegis og komst að þeirri niðurstöðu að allt væri í standi, þá fann [Már] upp á þessu,“ segir Þorsteinn Már um tilraunir Seðlabankans til að halda lífi í málinu, þrátt fyrir að saksóknari sæi ekki ástæðu til ákæru.

„Már er búinn að segja ítrekað í fjölmiðlum að við séum sek,“ segir Þorsteinn Már og telur að það sé lögbrot af hálfu valdamikils embættismanns að fella þennan dóm gagnvart saklausu fólki.

Bankinn hefur ótakmarkaða peninga til að verja sig og hefur haft ótrúlegt hugmyndaflug í að búa til á okkur glæpi.

Hann álítur Seðlabankann hafa hrakist vígi úr vígi á þessum árum sem liðin eru frá húsleitinni. „Það er svo oft sem kemur fram skýr ásetningur hjá Seðlabankanum. Eins og þegar þeir segjast hafa fundið gögn sem staðfesti undirverðlagningu. Málið snerist um fjórtán sölur á sjófrystum flökum, fjórar til Póllands og tíu til tengds aðila í Bretlandi. Það vill svo til að allar sölurnar til Englands eru á hærra verði en til Póllands. Það eina sem þú sérð út úr þessu er að þeir blönduðu saman pundum og evrum.“

Hann segist ekki vera einn í Samherja. „Það vinna mörg hundruð manns hjá fyrirtækinu. Það er búið að kæra þónokkra einstaklinga, fólk verður að skilja að það að vera með stöðu sakbornings í mörg ár, með bankastjórann gapandi hægri vinstri – það er mjög þungbært.“

Spurður að því hvort málinu sé lokið segir Þorsteinn Már: „Bankinn hefur ótakmarkaða peninga til að verja sig og hefur haft ótrúlegt hugmyndaflug í að búa til á okkur glæpi. Fyrir mér þá verður þessu máli að ljúka. Því verður aldrei lokið nema að Már Guðmundsson víki. Hann er búinn að brjóta svo illa af sér í opinberu starfi.“

Texti / Sigmundur Ernir Rúnarsson

Rosknir menn að berjast við vindmyllur

Engin sérstök stemning ríkir fyrir ESB-aðild í dag.

Umræða um mögulega ESB-aðild hefur legið í dvala allt frá því Gunnar Bragi Sveinsson stakk málinu ofan í skúffu fyrir þremur árum. Enda ríkir engin sérstök stemning fyrir ESB-aðild í dag. Þetta stemningsleysi hefur þó farið illa í hóp ákveðinna manna sem upplifa ákveðið tilgangsleysi í lífi sínu. Rosknir fullveldissinnaðir menn sitja uppi án strámanna og áheyrenda og í reiðileysi sínu leita þeir að einhverju hálmstrái til að gera sig gildandi að nýju.

Þetta skýrir tilgangslausasta og óskiljanlegasta upphlaup síðari ára, þar sem þessi hópur manna hefur haft uppi stór orð um innleiðingu þriðja orkupakka ESB – að Íslendingar munu missa forræði yfir orkuauðlindum sínum og að raforkuverð muni hækka upp úr öllu valdi. Vissulega væru þessi varnaðarorð áhyggjuefni ef ekki væri fyrir þær sakir að beinlínis öll fyrirliggjandi gögn sýna að það er engin innistæða fyrir þeim.

Í greinargerð lögmannsins Birgis Tjörva Péturssonar fyrir stjórnvöld stendur skýrum orðum að orkupakkinn varði „ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi“. Aukinheldur kalli málið ekki á endurskoðun EES-samningsins enda gildi ýmsar mikilvægar reglur hans ekki um viðskipti með raforku af þeirri einföldu ástæðu að Ísland er ekki tengt Evrópu um sæstreng. Er þá vert að benda á að einu fyrirætlanirnar um sæstreng eru til Bretlands sem gengur úr ESB á næsta ári. Þannig að áhrifin yrðu samt sem áður engin. Niðurstaða Rögnu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, er á sömu leið og orkumálastjóri sér nákvæmlega enga hættu.

Sendiherra ESB á Íslandi hefur sömuleiðis fullyrt að orkupakkinn sé ekki nokkur ógn við framkvæmd íslenskrar orkustefnu. „Þar sem Ísland er eyja, einangruð frá öðrum orkumörkuðum, mun landið njóta víðtækra undanþága frá flestum helstu skyldum sem fylgja nýju löggjöfinni.“
Þær reglur sem snúa að Íslandi lúta að neytendavernd, auknu gagnsæi samninga og réttinum til að skipta um orkuveitu.

Þetta eru augljósar og skýrar staðreyndir málsins og það þarf þess vegna einbeittan ásetning til að komast að annarri niðurstöðu. Sá ásetningur er ekki settur fram af góðum vilja. Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, afhjúpaði á dögunum hræsni forystumanna Miðflokksins sem hafa haft sig mikið í frammi í málinu með því að benda á að þeir hafi báðir unnið að framgangi málsins þegar þeir voru í ríkisstjórn.

Bændablaðið og Morgunblaðið hafa haldið uppi miklum áróðri gegn orkupakkanum og ítrekað vitnað í norskan lagaprófessor sem kom hingað til lands til að vara Íslendinga við innleiðingu hans. Í engu var þess getið að umræddur fræðimaður er virkur meðlimur í samtökum norskra ESB-andstæðinga, Nei til EU, og fyrrum þingmaður systurflokks Miðflokksins. Enda hafði enginn gefið málinu gaum fyrr en norska þingið samþykkti innleiðingu orkupakkans og norskir andstæðingar ESB, sem höfðu orðið undir, fóru að biðla til íslenskra skoðanabræðra sinna að reyna að stöðva málið.

Það er vonandi að ríkisstjórnin og Alþingi verji þeim tíma sem fram undan er í að tækla alvöru og brýn úrlausnarefni, en láti vera að eyða tíma í þetta mál sem snýst í raun ekki um neitt en er keyrt áfram af blekkingum og heimatilbúnum þjóðernisrembingi. Það kristallaðist þegar formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur var fenginn í beina útsendingu til að útskýra hvers vegna félagið ályktaði gegn orkupakkanum. Hann hafði ekki minnstu hugmynd um það, en þeir voru samt á móti.

„Kemst þangað sem ég ætla mér“

||
|Ragga Ragnars

Ragnheiður Ragnarsdóttir varð landsþekkt á Íslandi fyrir sundafrek sín, tók meðal annars í tvígang þátt í í keppni á Ólympíuleikum, en hún söðlaði um og undanfarin ár lærði hún leiklist í Los Angeles og setti sér það markmið að fá hlutverk í sjónvarpsþáttunum Vikings þegar náminu lyki. Það tók fjögur ár en eins og þeir vita sem séð hafa stikluna fyrir fimmtu seríu þáttanna leikur hún þar stórt hlutverk. Auk þess leikur hún í fleiri þáttum, sem hún má alls ekki tjá sig um strax, er einstæð móðir fimm ára sonar og tekur enn þátt í sundkeppnum. Við spyrjum hana hvert leyndarmálið er á bak við þennan árangur.

Ragnheiður, eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð, ólst upp í Garðabænum og Danmörku, byrjaði að æfa sund sex ára gömul og var komin í unglingalandsliðið tólf ára og landsliðið fjórtán ára. Hún keppti fyrst á Ólympíuleikum árið 2004 í Aþenu og svo aftur í Bejing 2008. Hún var á fullu að æfa fyrir leikana í London 2012 þegar örlögin gripu í taumana.

„Ég held bara áfram að vinna að mínu og komast þangað sem ég ætla mér. Það er svo gaman að vera til!” Mynd / Hallur Karlsson

„Þá var ég orðin ólétt, komin fjóra mánuði á leið, þannig að það fór ekki alveg eins og stefnt var að,“ segir hún hlæjandi. „En það var raunar kærkomin hvíld . Ég hafði fengið lungnabólgu fyrr um veturinn og var lengi þreytt og veik og mér fannst þetta ágætis tími til að taka góða pásu frá sundinu.“

Sonur Röggu, Breki, verður sex ára í febrúar en hann gengur í Ísaksskóla og fylgir móður sinni oft á upptökustaði þáttanna og kvikmyndanna sem hún leikur í. Hún segir vel hafa gengið að samræma hlutverk einstæðrar móður því flökkulífi sem fylgir leikarabransanum.

„Þetta er púsl,“ viðurkennir Ragga. „En mér finnst þetta gaman. Á meðan ég var í sundinu varð ég auðvitað vön því að vera alltaf að ferðast, var að æfa og keppa út um allan heim, þannig að ég vandist því að búa hálfpartinn í ferðatösku og hann er að venjast því líka. Stundum kemur hann með mér, stundum er hann heima en hér hef ég góða hjálp frá öllum í kringum mig, enda þarf þorp til að ala upp barn. Síðan hann byrjaði í skólanum er orðið aðeins erfiðara að fara með hann í burtu en ég tek hann stundum með mér í viku hér og viku þar. Hann var líka með mér í Dublin í allt sumar þar sem þættirnir Vikings eru teknir upp.“

Ólympíuleikarnir og Óskarsverðlaunin efst á óskalistanum

Ragga býr yfir mikilli þolinmæði og vissi að allt tæki sinn tíma. „Fyrst eftir að ég hætti að synda sinnti ég bara móðurhlutverkinu til að byrja með,“ segir Ragga. „Ég tók mér hlé alveg í tvö ár en þegar sonur minn var rúmlega eins árs flutti ég til L.A til að fara í nám í leiklist. Ég lærði þar í um það bil eitt og hálft ár, tók enga gráðu samt, og fékk síðan atvinnuleyfi í Bandaríkjunum í eitt ár.

Ég ákvað þegar ég var sjö eða átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, svo það var alltaf það sem ég stefndi að þegar ég kláraði sundið. Ég sagði einmitt við pabba þegar ég var sjö ára að þegar ég yrði stór ætlaði ég á Ólympíuleikana og á Óskarsverðlaunaafhendingu. Hann sagði bara flott, gaman, gerðu það! Ég er mjög þolinmóð manneskja og ég veit að hlutirnir taka tíma, það tekur ekki korter að undirbúa sig fyrir Ólympíuleika og ekki heldur fyrir frama í leiklist.“

Ég ákvað þegar ég var sjö eða átta ára að ég ætlaði að verða leikkona, svo það var alltaf það sem ég stefndi að þegar ég kláraði sundið.

Leiklistaráhuginn er greinilega landlægur í fjölskyldunni því leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir, sem hefur meðal annars leikið í sjónvapsþáttunum um Stellu Blómkvist og bresku þáttunum Poldark, og Ragga eru til dæmis bræðrabörn. Svo virðist sem áhuginn sé í ættinni.

„Amma mín var mikill „performer“,“ segir Ragga hlæjandi. „Ekki kannski endilega leikkona en hún var alltaf að spila á gítar og koma fram og vera veislustjóri hér og þar. Bróðir mömmu er Valgeir Guðjónsson Stuðmaður svo maður vandist því að fólk í fjölskyldunni væri í sviðsljósinu. Guðjón bróðir minn er svo kvikmyndagerðarmaður, fór með mér til L.A til að læra leiklist en er núna kominn alveg á fullt í kvikmyndagerðinni.“

Aldrei spurning að hún kæmist inn í Vikings

Eins og fyrr segir var Ragga lengi harðákveðin í því að landa hlutverki í Vikings. „Ég hreifst svo af þáttunum þegar ég byrjaði að horfa á þá þegar sonur minn var nokkurra vikna gamall,“ útskýrir hún. „Það að vilja verða leikkona er eitt, en að vita hvert maður ætlar er annað. Ég hugsaði aldrei: kannski fæ ég eitthvað að gera, heldur var ég harðákveðin í því að ég ætlaði að leika í þessum þáttum. Ég veit að ég er ekki týpan sem fær hlutverkin sem sæta stelpan í næsta húsi, ég er 188 sentimetrar á hæð, mjög sterk og vel á mig komin og maður þarf að vita það sjálfur hvaða hlutverk henta manni. Ég hætti aldrei að trúa því að ég fengi hlutverk í Vikings, það var ekki bara að ég vildi það heldur ætlaði ég þangað. Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings. Það var ekki neitt sem ég þurfti að sanna að ég gæti, ég hef aldrei hugsað þannig, ég fer bara þangað sem ég vil og ætla mér og mér finnst skipta máli. Hingað til hef ég gert allt sem ég hef sett mér markmið um og ætla að halda því áfram. Þannig að það var aldrei spurning í mínum huga að ég kæmist inn í þættina. Það tók langan tíma, nærri fjögur ár, en ég komst þangað að lokum.

Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings.

Margir halda að maður geti bara fengið hlutina á einn hátt, hvort sem það eru peningar eða vinna eða barn eða hvað sem það er,“ segir Ragga. „Ég hef bara aldrei hugsað þannig. Ég hef alltaf hugsað að maður fái bara allt sem maður vill og það komi þegar það á að koma og eins og það á að koma. Ég var ekki með umboðsmann sem fann hlutverkið fyrir mig, ég bara skóflaði mig áfram og hitti fólk á leiðinni sem gat ekki hjálpað mér en líka fólk sem gat hjálpað mér. Ég í rauninni bara spurði alla í bransanum hvort þeir þekktu einhvern sem væri að vinna í Vikings og loksins eftir þrjú ár datt ég inn á einhverja línu og fékk að tala við fólk hér og þar. Var kynnt fyrir manni sem þekkti einhvern sem þekkti einhvern og svo kom þetta bara smám saman. Á endanum komst ég í samband við Michael Hirst, aðalhandritshöfund þáttanna, og hann fékk að sjá mig og heyra hver ég var og nokkrum vikum seinna var hlutverk komið inn á borð til mín.“

Ragga verður vandræðaleg á svip þegar hún er spurð hvort Hirst hafi skrifað hlutverkið sérstaklega fyrir hana. „Hann hefur örugglega verið með þetta tilbúið,“ segir hún fljótt. „En kannski séð að þetta hlutverk hentaði mér vegna þess að hann er mjög góður mannþekkjari. Þegar ég las hlutverkið fannst mér eins og það hefði verið skrifað fyrir mig en auðvitað var málið að það passaði mér bara svo vel. Hann náði mér algjörlega og ég þurfti mjög lítið að undirbúa mig fyrir hlutverkið, þetta var bara ég. En ég fór svo auðvitað í prufu, það er bara ferlið. Ég fór í „screen test“, var sett í búning og lék eitt atriði og nokkrum vikum seinna var ég komin til Dublin og byrjuð að vinna, eiginlega áður en ég vissi af. Ég missti mig aldrei eitthvað yfir að hafa fengið hlutverkið, þetta var bara planið og það gekk upp.“

Þegar ég las hlutverkið fannst mér eins og það hefði verið skrifað fyrir mig en auðvitað var málið að það passaði mér bara svo vel.

Vildi ekki leika í Game of Thrones

Eins og gefur að skilja er karakter Röggu nýr í þáttunum en hún harðlokast þegar spurt er nánar út í hann. Þáttaröðin fer í sýningu þann 28. nóvember og það er harðbannað að spilla fyrir væntanlegum áhorfendum, sem eru milljónir um allan heim. Hún viðurkennir þó að þetta sé stórt hlutverk og persóna sem skipti máli í sögunni.

„Ég kem fyrir í stiklunni og ofuraðdéndur þáttanna hafa hamast við að púsla saman hlutunum og reyna að komast að einhverju um þennan karakter sem samkvæmt stiklunni er greinilega í víglínunni, en meira get ég ekki sagt þér,“ segir hún ákveðin.

Ragnheiður segist alltaf ná markmiðum sínum, en það kosti vinnu, aga og endalausa þolinmæði. Mynd / Hallur Karlsson

Eins og dyggir áhorfendur Vikings vita byggja þættirnir á Íslendingasögunum og norrænum goðsögum, aðalhetjan er Ragnar loðbrók, þannig að fólk kannast við persónurnar, þótt ýmsum sé auðvitað bætt við til að breikka söguna. Ragga segir að þetta séu hennar uppáhaldsþættir og hafi verið lengi, hún hafi alltaf vitað að þetta væri málið fyrir hana.

„Ég horfði líka á Game of Thrones en þá hugsaði ég ekki að ég ætlaði að leika í þeim. Alveg góðir þættir, en ekki fyrir mig. Eftir að ég fékk atvinnuleyfið í Bandaríkjunum vann ég rosamikið í heilt ár, fékk engin stór hlutverk samt, var með umboðsmann sem ég síðan hætti hjá því mér fannst hann ekki gera nóg fyrir mig. En hann sendi mig í alls konar prufur fyrir hitt og þetta, ég fékk vinnu við nokkrar auglýsingar, var aukaleikari í sumum stærstu þáttunum í heiminum, eins og Scandal og West World, og sömuleiðis í nokkrum bíómyndum með frægum leikurum. Ég vann líka í tvo mánuði sem „stand in“ fyrir eina af leikkonunum í stórri bíómynd og kynntist öllum sem unnu við myndina. Það var mjög gaman. Svo rann atvinnuleyfið út og ég flutti heim, fékk mér vinnu og byrjaði að skófla mig enn þá meira í átt að Vikings.“

Þættirnir eru að stærstum hluta teknir upp á Írlandi og Ragga hefur verið í Dublin meiripartinn af síðustu tveimur árum að vinna við þá. Hún er samt ekki uppnumin yfir frægðarlífinu, segir vinnuna við þættina voða svipaða því að vera sundkona.

„Það er mikið af ferðalögum, ég vakna klukkan fjögur, fimm á morgnana og mæti í stólinn fyrir hár og meiköpp, fer svo í búninginn og fyrir klukkan átta er ég mætt á sett og byrjuð að vinna. Eins og í sundinu þarf ég að vera vel undirbúin, andlega og líkamlega, þarf að kunna allar senur og allar línur, þetta er mikil vinna og mjög krefjandi fyrir bæði líkama, sál og huga. Það er oft mjög kalt, maður er kannski fáklæddur úti í marga klukkutíma í snjó og frosti en samt er rigningarvél með ísköldu vatni beint að manni á meðan maður er að berjast. Þetta er rosalega skemmtilegt líf en mjög krefjandi og ég er alveg búin á því þegar ég kem heim eftir daginn og þarf að fara að læra línur fyrir næsta dag, sinna barninu og elda mat. Þannig að þetta er heilmikið púsl allt saman, en skemmtilegt.“

Þetta er rosalega skemmtilegt líf en mjög krefjandi og ég er alveg búin á því þegar ég kem heim eftir daginn.

Tökur á sjöttu seríu hafnar

Ragga er greinilega svakalegt hörkutól. „Ég veit það nú ekki,“ segir hún hógvær. „Ég hef bara alist upp við það að synda mjög mikið og vera alltaf undirbúin og tilbúin til þess að gefa allt alla daga. Ég hef alltaf gefið allt í allar æfingar í sundinu en þar lærði ég auðvitað líka að það þarf að hvíla sig á milli og hugsa vel um mataræðið, líkamann og andlegu heilsuna. Ég hugleiði og passa upp á að sofa vel, ólíkt mörgum leikurum sem eru ekki með þennan bakgrunn, fara kannski rosamikið á djammið, sofa lítið og gleyma því að drekka vatn. Það kemur niður á þeim og fólk bara springur úr þreytu. Það hefur auðvitað alveg komið fyrir mig líka að springa úr þreytu, en ég hef allavega þennan grunn að kunna að hugsa vel um mig og allt sem ég þarf til þess að geta „performað“. Það er alveg sama hvort það er sund eða leiklist þá er þetta „performans“ sem maður er búinn að vera að æfa sig fyrir í marga daga, vikur og ár. Ég labbaði ekkert inn á settið og kunni allt, sko. Ég var sett í alls konar æfingar og kenndir alls konar hlutir sem ég kunni ekki en kann núna.“

Ragga viðurkennir að flestir sem hún hitti séu mjög forvitnir um hlutverkið og reyni að fiska upp úr henni hver þetta sé, en hún loki bara munninum og þegi sem fastast. Hún geti þó lofað því að það sé margt skemmtilegt fram undan í þáttunum og aðdáendur muni fá sitt svikalaust.

Tökur á sjöttu seríu eru hafnar en Ragga verst allra frétta um það hvort hún taki líka þátt í þeim, hvort hennar karakter lifi fimmtu seríuna af. Það kom þó fram fyrr í samtali okkar að hún þarf enn mjög oft að fljúga til Dublin, svo það ætti að vera óhætt að treysta því að hlutverki hennar í þáttaröðinni sé ekki lokið. Það hefur líka kvisast út að meðleikarar hennar í þáttunum leiti mikið til hennar með framburð forníslenskra orða í textanum.

Ég hugleiði og passa upp á að sofa vel, ólíkt mörgum leikurum sem eru ekki með þennan bakgrunn, fara kannski rosamikið á djammið, sofa lítið og gleyma því að drekka vatn.

„Það var nú ekki eitthvert opinbert hlutverk mitt að kenna þeim íslensku,“ segir Ragga og hlær. „Ég var bara oft spurð hvernig ætti að bera þetta eða hitt orðið fram þegar voru línur, eða frasar eða jafnvel heilu ræðurnar á íslensku, sem þeir kalla náttúrlega „old norse“ en er auðvitað bara íslenskan eins og hún er skrifuð í Íslendingasögunum og maður skilur alveg þótt það tali náttúrlega enginn svona lengur. Ég passaði mig samt mjög vel á því að stíga ekki á neinar tær á settinu, því það er auðvitað ekki mitt verk að kenna fólki framburð, ég hjálpaði bara ef ég gat.“

Ragga hefur greinilega nóg að gera, þótt allt sé það meira og minna leyndarmál, þurfti til dæmis að fljúga til Dublin, London og Los Angeles í síðustu viku. Hún segir mér líka að hún sé í sambandi með bandarískum tattúlistamanni sem heitir Mike, en vill ekkert upplýsa um á hvaða stigi það samband er. Hún vill lítið tala um hvað er fram undan.

„Nei, ekki neitt,“ segir hún og glottir. „Ég held bara áfram að vinna að mínu og komast þangað sem ég ætla mér. Það er svo gaman að vera til! Ég er oft spurð að því hvernig mér takist að gera stóra hluti og það er bara vegna þess að ég hef áhuga á því sem ég er að gera og hef mjög gaman að því. Ég hefði til dæmis aldrei farið á Ólympíuleikana ef ég hefði verið að rembast við að gera eitthvað sem mér fyndist leiðinlegt eða eitthvað sem einhver annar hefði ákveðið fyrir mig. Það drepur niður alla ánægju en ef maður ákveður sjálfur hvað maður vill, setur sér markmið og nýtur ferðalagsins þolinmóður þá kemst maður þangað sem maður vill. Þolinmæðin er lykilatriði, það gerast engir stórir hlutir á einni nóttu. Svo þarf líka að muna að njóta þess sem maður uppsker. Ég þarf ekkert að vera komin með næsta verkefni í hendurnar, það er allt í lagi að leyfa sér að njóta í smástund áður en maður ræðst í næsta markmið. Þetta kemur allt þegar það á að koma.“

Myndir / Hallur Karlsson

Hið fullkomna „al dente“ pasta

Veist þú hvað al dente þýðir? Hugtakið kemur úr ítölsku og er oftast notað fyrir eldun á pasta. Bein þýðing á íslensku væri „undir tönn“. Fyrsta þekkta notkun orðsins er í kringum 1920, og er því þekkt hugtak í eldhúsi fagmannsins. Al dente áferðinni væri best lýst þannig að pastað er soðið en ennþá með smá bit undir tönn. Það getur verið þunn lína á milli þess að vera með hrátt eða ofeldað pasta. Ágætis þumalputtaregla til að ná al dente suðu á pasta er að taka um 20% af eldunartímanum sem stendur á pakkanum. Eins þá tekur ferskt pasta aldrei lengur en 1-3 mínútur í suðu.

Góð pastaráð:

Þegar þú klárar að elda pastað í sósunni fær það meira bragð og betri áferð.

Notaðu alltaf stóran víðan pott þegar þú sýður pasta, þá hefur pastað meira rými til að eldast og minnkar hættuna á því að vera með miseldað pasta.

Ekki vera hrædd/ur við að salta pastavatnið það gefur pastanu bragð. Á Ítalíu er talað um að vatn sem er notað til að sjóða pasta ætti að bragðast eins og sjórinn!

Ekki setja olíu í pastavatnið. Margir halda að það hjálpi pastanu að festast ekki saman, en það getur komið í veg fyrir að sósan festist við pastað.

Gott er að hræra reglulega í pastanu þegar það er í suðu, það kemur í veg fyrir að pastað festist saman.

Reyndu að koma í veg fyrir að láta kalt vatn renna á pastað eftir að það er soðið svo það festist ekki saman, settu frekar smá ólífuolíu út á pastað ef það þarf að bíða í smá stund áður en það fær á sig sósu.

Ef þú ert með grófa sósu eins og Bolognese er gott að velja pasta með grófri áferð eins og rigatoni og farfalle. Áferðin á pastanu hjálpar til við að grípa sósuna.

Veldu slétt pasta eins og spagettí og penne ef þú ert með kremaða sósu eða ostasósu.

 

Hver dagur er barátta

Ár er nú síðan Ólafía Kristín Norðfjörð kom fram fyrir alþjóð í þáttunum Biggest loser en margir tengdu við þessa tveggja barna móður sem þráði að ná tökum á heilbrigðari lífsháttum.

Tildrög þess að Ólafía tók þátt var alvarlegt fæðingarþunglyndi og kvíði sem hafði háð henni verulega. „Mér líður stundum eins og fólk sé að bíða eftir því að ég missi tökin til þess eins að geta sagt: „Ég vissi að þetta myndi gerast”. En ég reyni að hugsa sem minnst um það. Ég vill fyrst og fremst vinna í sjálfri mér og veit manna best hvað er rétt og hvað er rangt, öðrum kemur hreinlega ekkert við hvort ég sé að viðhalda árangri eða ekki. Auðvitað er öllum velkomið að fylgjast með en ekki ef markmiðið er að dæma mig fyrir það hver ég er eða hvernig ég kýs að takast á við hlutina.“

„Í gegnum þetta ferli ég hef tekið umtali talsvert inn á mig og fundist fólk vera að dæma mig persónulega en sem betur fer hafa neikvæðu raddirnar verið á undanhaldi.“

„En ég lagði mig líka fram við að hlusta betur á það jákvæða sem fólk vildi segja. Flestir voru almennt ánægðir með keppnina og fannst gaman að fylgjast með þessu öllu saman. Að mínu mati er þetta frábær leið til þess að öðlast betri lífsgæði en fólk verður að ganga inn í ferlið með það hugarfar að það ætli að breyta lífi sínu til langtíma.“

„Ég reyndi að hugsa sem minnst um þetta sem sjónvarpsþátt og mæli með að sem flestir tileinki sér þá hugsun.“

„Það eru nefnilega margir sem eru ekki þarna á réttum forsendum eða með það að leiðarljósi að ætla sér alla leið inn á við. Þetta er í grunninn spurning um það. Þetta snýst ekki bara um að missa ákveðinn fjölda kílóa heldur líka að skoða inn á við sem reynist oft og tíðum erfiðara en líkamlega breytingin. Ég á hins vegar erfitt með að svara því hvort ég myndi gera þetta aftur því ég vona svo innilega að ég muni aldrei þurfa á því að halda. Að mínu mati snýst þetta allt um hugarfar því ég hef líka barist við matarfíkn, það að geta hreinlega ekki staðist mat og verða að fá mér eitthvað en þar kemur hugarfarið svo sterkt inn.“

„Ég hef sýnt það og sannað að þú getur sigrast á matarfíkn með hugarfarsbreytingu þó það geti oft verið þeim mun erfiðara enda getur hausinn oft verið svo vondur viðureignar.“

„Með viljann að vopni og rétta hugsun getur þú samt allt sem þú ætlar þér. Sjálf var ég lengi vel í afneitun hvað þessa hluti varðar. Eftir að ég mætti til leiks í keppnina brotnaði ég algjörlega niður. Ég þakka Gurrý fyrir alla þá áherslu sem hún lagði á andlegu hliðina. Ég þurfti að kyssa botninn til þess að geta spyrnt mér almennilega upp aftur. Þetta er búið að vera virkilega erfitt ferli sem ég er enn að vinna í en nú í lok sumars þurfti ég aftur að kyngja stoltinu og byrja aftur á lyfjunum. Kvíðinn var búinn að taka algjörlega yfir og ég hætt að ráða við andlegu hliðina, aftur. Í dag er hver dagur barátta. Bara það að mæta í vinnu, sinna stelpunum sem ég elska meira en allt og rækta sambandið við Þröst, mæta á æfingar og í raun hvað sem er, allt er erfitt en ég leyfi erfiðu dögunum að koma því þeir eru líka góðir og ég veit að ég kemst í gegnum þá. Ég leyfi mér líka að gráta því það hjálpar. Ég hef sigrað kvíðann einu sinni og ætla að gera það aftur. ”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Björg Alfreðs.

Hársaga Bandaríkjaforseta rakin

|
|

Hársaga Donalds Trump er rakin í máli og myndum á vef Vanity Fair en hár hans er algjörlega einstakt.

Það er óhætt að segja að hár Donalds Trump Bandaríkjaforseta sé sér á báti. Hár hans hefur vakið mikla athygli í gegnum tíðina og hefur verið eilíf uppspretta brandara.

Trump hefur skartað svokallaðir „comb over“-hárgreiðslu í nokkra áratugi og í dag leggur hann mikla áherslu á að halda fast í síðustu lokkana.

Á vef Vanity Fair er hársaga Trump rekin í máli og myndum en óhætt er að segja að Trump hafi alltaf farið eigin leiðir þegar kemur að hártískunni. Í kringum níunda áratuginn var hárið í dekkri kanntinum en eftir að það tók að grána hefur Trump litað það ýmist brúnt, appelsínugult eða gult. Í dag leyfir hann gráa litnum að njóta sín en gulur blær setur þó sinn svip a hárið.

Í samantekt Vanity Fair kemur fram að Trump hafi oftast greitt hárið frá vinstri til hægri, líkt og hann gerir í dag.

Í dag er hár Trump grátt með gulum blæ.

Sjóða dömubindi til að komast í vímu

Lögreglan í Jakarta hefur verið að handtaka ungmenni sem hafa reynt að komast í vímu með því að sjóða dömubindi og drekka vökvann.

Lögregluyfirvöld í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, hafa komist að því að ungmenni borgarinnar hafi tekið upp á nýstárlegum leiðum til að komast í vímu. Ein þeirra er að sjóða dömubindi.

Í umfjöllun Straits Times segir að ungmennin taki dömubindi, notuð jafnt sem ónotuð, og sjóði í klukkutíma eða þar um bil. Vökvinn er síðan kældur og drukkinn. Áhrifin munu vera ofskynjanir og tilfinningin að fljúga. Segir að lögreglan í Jakarta sem og víðar á vesturhluta eyjarinnar Jövu hafi handtekið ungmenni sem reynt hafi að komast í vímu með þessum hætti. Hins vegar liggja engin viðurlög við neyslu dömubindasafa.

Vice fjallar einnig um málið og segir að heilbrigðisyfirvöld í Indónesíu rannsaki hvaða efni í dömubindunum það er sem valdi eitrunaráhrifunum. Þetta sé þó ekki nýtt af nálinni, áður fyrr sniffuðu ungmennin lím og önnur spilliefni en fyrst hafi borið á þessu fyrir tveimur árum.

Beyoncé hætt í viðskiptum við Philip Green vegna ásakana um einelti

Söngkonan Beyoncé hefur slitið viðskiptasambandi við eiganda Topshop. Fyrrverandi starfsmenn fyrirtækis hans saka hann um einelti og áreiti.

Söngkonan Beyoncé hefur slitið samstarfi við viðskiptajöfurinn Sir Philip Green, eiganda Topshop, eftir að nokkrir fyrrverandi starfsmenn hans hafa stigið fram og sakað hann um einelti og áreiti.

Fyrirtæki Beyoncé, Parkwood, hefur verið í samstarfi við fyrirtæki Green, Arcadia Group undanfarin fjögur ár vegna fatamerkisins Ivy Park. En nú hefur Parkwood keypt Green út úr samstarfinu, hann átti 50% hluta í Ivy Park.  Greint var frá þessu í yfirlýsingu frá Ivy Park.

Ivy Park sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin tvö ár en merkið var selt í verslunum Topshop sem er dótturfyrirtæki Arcadia Group.

Í síðasta mánuði bárust fregnir af því að Green hefði farið fram á tímabundið lögbann á umfjöllun Daily Telegraph. Í umfjölluninni sögðu fimm starfsmenn Green frá meintu kynferðislegu áreiti, rasískum ummælum og einelti Green. Hann hefur neitað öllum ásökunum.

Var harðákveðin í að fá hlutverk í Vikings

Ragga Ragnars

Ragnheiður Ragnarsdóttir prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Mannlífs sem kemur inn um lúguna á morgun.

Sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir lærði leiklist í Los Angeles. Hún setti sér það markmið að fá hlutverk í sjónvarpsþáttunum Vikings þegar náminu lyki. Það tók fjögur ár en eins og þeir vita sem séð hafa stikluna fyrir fimmtu seríu þáttanna leikur hún þar stórt hlutverk.

„Ég hreifst svo af þáttunum þegar ég byrjaði að horfa á þá þegar sonur minn var nokkurra vikna gamall,“ segir hún meðal annars í viðtali sem finna má í nýjasta tölublaði Mannlífs. „Það að vilja verða leikkona er eitt, en að vita hvert maður ætlar er annað. Ég hugsaði aldrei: kannski fæ ég eitthvað að gera, heldur var ég harðákveðin í því að ég ætlaði að leika í þessum þáttum. Fólk ranghvolfdi augunum þegar ég, nýbyrjuð í skólanum, var spurð hvar ég sæi mig fyrir mér eftir fimm ár og ég svaraði strax að ég myndi vera að leika í Vikings.“

Mynd / Hallur Karlsson

Raddir