Eiríkur Brynjólfsson kom með mislingasmit til Íslands. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan. Hann sagði sögu sína í viðtali við Mannlíf.
„Það er auðvitað mjög leiðinlegt að heyra um smitaða einstaklinga, sérstaklega börn, en ég get ekki áfellst sjálfan mig fyrir það þar sem ég var viss um að ég væri bólusettur fyrir mislingum.“
Hann bendir á að hann hafi áður farið í ferðalög og þá fengið bólusetningar fyrir lifrarbólgu og fleiri sjúkdómum en minnist þess ekki að þetta hafi komið til umræðu. „Það getur vel verið að ég hafi verið spurður, sem ég minnist ekki, en þá hefði ég örugglega sagst vera bólusettur, því ég stóð í þeirri trú. En þegar maður býr í svona litlu landi og fámennu samfélagi þá kannski gerir maður ráð fyrir því að við séum öll á sama stað hvað þetta varðar og er ekkert að velta þessu fyrir sér. Lifir svona í smásjálfsblekkingu með þetta sem er auðvitað ekki gott,“ segir Eiríkur í viðtali við Mannlíf sem kom út á föstudaginn.
Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir einhverjum mestu áskorunum síðan á árunum eftir hrun.
Nagandi óvissa í flugrekstri
Framtíð WOW air hefur hangið á bláþræði í allan vetur. Samningaviðræður um yfirtöku Indigo Partners hafa staðið yfir í mánuði en gangi þær ekki upp og enginn kemur félaginu til bjargar er einungis tímaspursmál hvenær WOW leggur upp laupana. Félagið flutti 160 þúsund farþega í fyrra en ljóst er að þeir verða færri í ár vegna minnkandi umsvifa félagsins. Icelandair skilaði sömuleiðis miklu tapi í fyrra og til að bæta gráu ofan á svart neyddist félagið til að kyrrsetja þrjár Boeing 737 MAX-vélar sem áttu að spila stórt hlutverk í leiðakerfi félagsins í framtíðinni.
Þrengir að ferðaþjónustunni
Minna sætaframboð til landsins er ávísun á enn frekari fækkun ferðamanna en nú er í kortunum. Í janúar komu 5,8 prósent færri ferðamenn til landsins en á sama tíma í fyrra og nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu var 7 prósentustigum minni. Fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa verið tíðar að undanförnu, hvort sem um ræðir hótel, bílaleigur eða hópferðafyrirtæki. Þar spilar sterkt gengi krónunnar hlutverk en hún hefur, þrátt fyrir allt mótlætið í atvinnulífinu, verið að styrkjast fremur en hitt.
Verkfallshrina að hefjast
Flest af stóru verkalýðsfélögum landsins hafa slitið kjaraviðræðum og bættust iðnaðarmenn og Starfsgreinasambandið í hópinn um helgina. VR og Efling hafa boðað verkfallshrinu næstu vikur og hafa þau kosið að beina spjótum sínum að ferðaþjónustunni fyrst um sinn. Hafa félögin boðað tímabundin verkföll í mars og apríl og svo ótímabundna vinnustöðvun frá 1. maí verði ekki samið fyrir þann tíma. Ekkert þokast í viðræðum á milli deiluaðila og átökin hafa farið harðnandi ef eitthvað er.
Loðnan hverfur
Eins og vandræðin í þjóðarbúinu hafi ekki verið næg fyrir tók loðnan, einn mikilvægasti nytjafiskur þjóðarinnar, upp á því að láta sig hverfa þannig að Hafrannsóknarstofnun sér ekki tilefni til að gefa út loðnukvóta í ár. Útflutningsverðmæti loðnu í fyrra námu 17,8 milljörðum króna sem jafngildir 0,6 prósent af landsframleiðslu. Aflabresturinn mun koma sérstaklega illa við bæjarfélög á landsbyggðinni, einkum á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.
Krafan er að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þá hafa yfir 4 milljón manna ritað nafn sitt í undirskriftasöfnun sem biðla til forsætisráðherrans, Theresu May, um að hætt verði við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þessi mynd frá Reuters um fólk á götum London borgar segir meira en þúsund orð um stöðuna í Bretlandi.
Undanfarna daga hefur algjör óreiða ríkt í breskum stjórnmálum líkt og síðustu misseri. May biðlaði til ESB um að Bretar fengju frest til að ganga formlega út til 1. júní. Samkvæmt áætlun átti útganga að fara fram næsta föstudag 29. mars. ESB samþykkti að frest til 22. maí en þar sem kosningar fara fram í Evrópusambandinu í lok maí var ekki vilji til þess að gefa lengri frest.
Stefna May er að leggja samning sinn við ESB um útgöngu í þriðja sinn fyrir breska þingið og fá samþykkt nauðsynleg lög vegna útgöngunnar, en margar lagalegar flækjur hafa skapast. Mun þessi órói valda því að May boðar aðra þjóðaratkvæðagreiðslu? Að minnsta kosti virðist pólitíkin ekki geta leyst úr málinu, en ólíklegt er að þingið samþykki samninginn nú nema að örvænting hafi gripið um sig enda hefur hann nú þegar tvisvar hefur verið felldur. Því er erfitt að sjá aðra lausn fyrir May en að gefa eftir kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu, nema þá að ganga út án samnings. Í öllu falli eru mótmælin í dag til marks um þann óróa sem ríkir hjá bresku þjóðinni og athyglisvert verður að fylgjast með framvindunni.
Í umfjöllun sinni um erlend málefni, einkum málefni er tengjast innflytjendum og Evrópusambandinu, vísar Útvarp Saga ítrekað til miðla sem hafa orð á sér fyrir að birta falsfréttir eða gefa mjög brenglaða mynd af raunveruleikanum. Sumir þessara miðla hafa bein sambönd við öfgahreyfingar eða stjórnmálaflokka sem reka harða innflytjendastefnu. Hér á eftir má finna lýsingu á nokkrum af þeim miðlum sem Útvarp Saga hefur vísað til.
Voice of Europe er lýst sem öfgahægrisinnuðum miðli, áróðurskenndum, fjandsamlegum í garð múslima og uppfullum af samsæriskenningum. Eignarhaldið er óljóst en vefurinn miðlar fréttum úr evrópskum fjölmiðlum og afvegaleiðir og setur þær þannig fram að „þær koma alltaf illa út fyrir innflytjendur og Evrópusambandið“, að því er segir á mediabiasfactcheck.com.
Neonnettle.com er bresk vefsíða af sama meiði. Ritstjórar mediabiasfactcheck.com mæla með að netnotendur síðunnar setji upp álhatta áður en þeir skoða síðuna enda uppfull af samsæriskenningum, falsfréttum og gervivísindum.
Breitbart.com var áður stýrt af Steve Bannon, einum helsta fylgismanni Donald Trump, og hefur verið eitt helsta flaggskip öfgahægrihreyfingarinnar (e. alt right movement) undanfarin ár. Síðan er sögð öfgafull og „fréttir“ hennar hafa margoft verið hraktar.
Sputnik er þekktur rússneskur áróðursvefur sem, auk þess að þjóna tilgangi rússneskra stjórnvalda, ýtir undir hvers kyns samsæriskenningar sem kasta eiga rýrð á pólitíska andstæðinga sína sem eru frjálslynd öfl í Bandaríkjunum og Evrópu.
24nyt.dk er dönsk fréttasíða sem tekur fréttir hefðbundinna fjölmiðla og skrumskælir í þeim tilgangi að sýna innflytjendur í neikvæðu ljósi. Miðillinn hefur margoft orðið uppvís að því að birta falskar fréttir. Samkvæmt dönskum fjölmiðlum var 24nyt fyrsti miðillinn sem gerði út á falsfréttir.
Samhällsnytt, Fridatider og Nyheter Idag eru þeir þrír miðlar sem reglulega eru kenndir við falskar fréttir í Svíþjóð. Samkvæmt rannsókn Oxford Internet Institute voru þessir þrír miðlar leiðandi í framleiðslu „ruslfrétta“ í aðdraganda þingkosninganna í fyrra. Síðurnar eiga það sammerkt að ala á ótta gagnvart innflytjendum og draga taum Svíþjóðardemókrata.
Frá því að mislingafaraldur hófst hér á landi í febrúar hefur margt fólk velt því fyrir sér hvort að það hafi verið bólusett á sínum tíma. Hér áður fyrr voru bólusetningar skráðar á bólusetningarskírteini sem fólk þurfti að passa upp á. En í dag eru bólusetningar skráðar rafrænt og á undanförnum mánuðum hefur mikil vinna verið lögð í að bæta rafrænt skráningarkerfi heilsugæslunnar.
„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk er í góðri trú um að hlutirnir séu í lagi þegar þeir eru það ekki,“ svarar Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir aðspurður hvernig það gerist að fólk haldi að það sé bólusett þegar það er það ekki.
„Fyrir árið 2000 þá voru allar bólusetningar skráðar í ónæmiskort, svona bólusetningarskírteini. Og það var mælt með að fólk myndi geyma það. En fólk týnir þessu og heldur bara að það hafi farið í allar bólusetningar,“ segir hann.
„Og þegar skírteinið er týnt þá getur verið erfitt að nálgast þessar upplýsingar. Hér áður fyrr var þetta bara geymt á pappír á heilsugæslustöðvum og læknastofum og svo sett í geymslu sem erfitt getur reynst að nálgast. Það var engin miðlæg skráning.
Hér áður fyrr var þetta bara geymt á pappír á heilsugæslustöðvum og læknastofum og svo sett í geymslu sem erfitt getur reynst að nálgast. Það var engin miðlæg skráning.
Upp úr aldamótunum var farið í að skrá upplýsingar um bólusetningar rafrænt. En þeir sem fóru í bólusetningar fyrir þann tíma eru ekki í þessum gagnagrunni, nema í undantekningartilfellum. Við höfum verið að hvetja heilbrigðisstarfsfólk til að færa eldri bólusetningar inn í kerfið en það er seinlegt og það vantar mannafla.“
Þegar Þórólfur er spurður út í hvað fólk ætti að gera vilji það ganga úr skugga um að það sé bólusett án þess að hafa aðgang að upplýsingum um bólusetningar segir hann: „Ef fólk er efins þá eru tveir möguleikar í stöðunni. Það er hægt að mótefnamæla fólk til að sjá hvort það sé með mótefnið í blóðinu. Og svo er hægt að bólusetja það aftur, það er einfaldari, fljótlegri og ódýrari kostur.“
Þórólfur tekur þó fram að það séu takmörk fyrir því hvað sé hægt að bólusetja marga hverju sinni. „Það getur gerst, líkt og á stundum eins og núna, að það sé hreinlega ekki til nógu mikið bóluefni í þessum flokki til að bólusetja stóran hóp fólks,“ útskýrir Þórólfur.
„En langflestir sem eru fæddir eftir 1970 eru bólusettir. Þannig að eins og staðan er núna er óþarfi að stökkva til læknis og láta bólusetja sig ef maður er óviss. En þeir sem eru sannarlega vissir um að þeir hafi ekki fengið bólusetningu á sínum tíma ættu að láta bólusetja sig. Sömuleiðis má fullyrða að flestir sem fæddir eru fyrir 1970 hafi fengið mislinga þó að þeir muni ekki eftir því. Mislingar eru gríðarlega smitandi og fáir sluppu á þessum tíma.“
Vandamálið tæknilegs eðlis
Sjö tilfelli mislinga hafa greinst frá því að mislingafaraldur hófst hér á landi í febrúar. Einungis einn af þessum sjö hefði átt að vera bólusettur samkvæmt því fyrirkomulagi bólusetninga sem hér ríkir. Þórólfur segir vandamálið því ekki snúast um það að fólk vilji ekki láta bólusetja börnin sín heldur frekar vera tæknilegs eðlis.
Það er ekki hægt að skella skuldinni alfarið á heilbrigðiskerfið ef það gleymist að bólusetja einhvern.
„Það þarf að bæta skráningarnar og innköllunarkerfi heilsugæslunnar. Hingað til hefur innköllunarkerfið á heilsugæslunni ekki verið nægilega gott og það hefur verið erfitt að nálgast upplýsingar um þá sem hafa ekki mætt í bólusetningu. En auðvitað þarf fólk líka að bera ábyrgð á sínum bólusetningum. Það er ekki hægt að skella skuldinni alfarið á heilbrigðiskerfið ef það gleymist að bólusetja einhvern.“
Bætt skráningarkerfi
Aðspurður hvort hann telji þörf á að gera almennar bólusetningar að skyldu segir Þórólfur: „Ég hef auðvitað samúð með þeim sem vilja skylda alla í bólusetningar. En það er bara spurning um þessa nálgun, hvernig á að útfæra þetta? Hver á að fara í einhvern lögguleik og sjá til þess að allir séu bólusettir?“
Þórólfur er hræddur um að bólusetningarskylda gæti haft öfug áhrif og stuðað fólk. „Ég held að við ættum fyrst að bæta skráningar á bólusetningum og innköllunarkerfi heilsugæslunnar. Ef það ber ekki árangur þá er kannski hægt að skoða bólusetningarskyldu. En ég held að það sé betra að gera þetta á jákvæðum nótum með fólki. Þess ber að geta að á undanförnum mánuðum hefur mikil vinna verið lögð í að bæta skráningar- og innköllunarkerfi heilsugæslunnar og er þess vænst að árangurinn muni sjást á næstu misserum.“
Þórólfur tekur fram að þeir einstaklingar sem hafa smitast af mislingum undanfarið tilheyri ekki þeim hóp sem er á móti bólusetningum. „Rannsóknir sýna að um 2% almennings er í raun á móti bólusetningum. Þannig að þegar fólk er ekki bólusett þá er það yfirleitt ekki vegna andstöðu heldur vegna þess að það hefur gleymst að bólusetja það af einhverjum ástæðum eða þá að þetta eru börn sem eru of ung til að fá bólusetningu. Þannig að í þessum tilfellum hefði bólusetningarskylda ekki breytt neinu.“
Bandaríska tónlistartvíeykið Golden State, þ.e. Brantley Gutieemez og Harrisson Kipner, hafa sent frá sér nýtt lag, Kiss it, en það er engin önnur en Þórunn Antonía sem ljær því rödd sína.
„Ég hitti Brantley þegar ég spilaði í fyrsta skipti á tónlistarhátíðinni Coachella í Bandaríkjunum með þáverandi hljómsveitinni minni Fields. Hann stoppaði mig til að mynda mig og við höfum verið vinir í meira en áratug,“ segir Þórunn Antonía þegar hún er spurð hvernig samstarfið hafi komið til en þess má geta að Will Butler sem margir þekkja úr hljómsveitinni Arcade Fire spilar á hljómborð í laginu.
Golden State er nýtt tónlistarverkefni Bandaríkjamannanna Brantley Gutieemez og Harrisson Kipner. Þeir félagar hafa komið víða við en Brantley er einnig ljósmyndari og leikstjóri og hefur unnið með fólki eins og Diplo, Paul McCartney og Emmu Stone. Harrisson sendi hins vegar nýlega frá sér plötuna Rackets sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Þetta nýja lag þeirra, Kiss it þykir vera töff, hresst og grípandi og söngur Þórunnar til fyrirmyndar. Hægt er að hlusta á það á Albumm.is.
Hvernig má vera að íslensk manneskja fædd árið 1983 komist á fertugsaldur án þess að í hana hafi verið hnippt og henni bent á að hún sé ekki bólusett fyrir mislingum? Eiríkur Brynjólfsson sem er í forsíðuviðtali í þessu tölublaði, vissi ekki betur en að hann hefði fengið allar bólusetningar sem barn enda er hann fylgjandi þeim og hefur, eins og svo margir aðrir, hvatt fólk til að sýna ábyrgð í þessum efnum.
Þegar fréttir um að mislingasmitandi einstaklingur hefði verið um borð í flugvélum Icelandair og Air Iceland Connect um miðjan febrúar síðastliðinn greip um sig skelfing. Börn undir 18 mánaða aldri sem sannarlega voru enn ekki bólusett fyrir mislingum voru í mestum áhættuhópi enda kom á daginn að nokkur börn á þessum aldri fengu mislinga. Umræðan sem fór af stað meðal fullorðins fólks er þó öllu athyglisverðari. Margir höfðu ekki hugmynd um hvort þeir hefðu verið bólusettir og upplýsingar um það lágu ekki á lausu. Það rann upp fyrir fólki sem ávallt hefur verið fylgjandi öllum bólusetningum að mögulega væri það ekki bólusett. Farið var í mikla leit að bólusetningaskírteinum og haft samband við heilsugæslur og starfsfólk þeirra fengið til að grafa upp gamlar sjúkraskýrslur. Sumir fengu svör, voru fullbólusettir, höfðu fengið eina bólusetningu en áttu eftir að fá aðra og sumir voru bara alls ekki bólusettir meðan upplýsingar um enn aðra fundust ekki.
Mikið er lagt upp úr bólusetningum í ungbarnavernd og foreldrar hvattir til að láta bólusetja börnin sín, sem flestir og gera. Þar sem flestir sjúkdómanna sem bólusett er fyrir eru okkur víðsfjarri þá vill gleymast að sprautur fyrir sumum þeirra þarf að endurnýja reglulega og fólk stundum fyrst meðvitað um þetta þegar það ætlar að ferðast til fjarlægra landa og þarf að fá svokallaðar ferðamannabólusetningar. Þar fær fólk meðal annars búst gegn mænusótt, stífkrampa, kíghósta og barnaveiki, sprautur gegn lifrarbólgu A og B, taugaveiki, berklum og hundaæði, svo eitthvað sé nefnt. Við þessar aðstæður, af hverju ætli fólki sé ekki boðið að vera bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt ef hvergi finnast upplýsingar um að viðkomandi hafi fengið þessar sprautur?
Þeir sem hafna bólusetningum eru svo sérkapítuli út af fyrir sig og umhugsunarvert hvort setja ætti slíkt í lög líkt eins og gert er sums staðar í heiminum. En það er áhyggjuefni að þeir sem sannarlega vilja bólusetningar, hafi þær ekki vegna, að því er virðist, ónægrar eftirfylgni og eftirlits yfirvalda.
Verklok vegna viðbyggingar Klettaskóla tefjast fram á sumar.
Á vordögum á síðasta ári var ný sundlaug tekin í notkun í Klettaskóla (áður Öskjuhlíðarskóla). Skömmu síðar fóru loftplötur að falla niður í laugina. Atvikin gerðust á kvöldin og um helgar og voru rakin til galla í loftræstikerfi sem slökkti á sér. Við það steig mikill raki til lofts sem loftplöturnar drukku í sig. Við nánari athugun kom í ljós að plöturnar sem notaðar voru stóðust ekki kröfur og hefur þeim nú verið skipt út. Þeim viðgerðum lauk í síðasta mánuði.
Aðspurður um hvers vegna úrbætur á lofti sundlaugarinnar hafi tekið svo langan tíma svarar Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, skriflega til Mannlífs að upphaflega hafi verið talið að vandamálið stafaði eingöngu af bilun í loftræstikerfi sem átti það til að stöðvast.
Síðan versnaði ástandið eftir því sem loftræstikerfið datt oftar út. Það má e.t.v. segja að það hafi verið lán í óláni að loftræstikerfið bilaði því annars hefði ekki komið í ljós svona fljótlega að loftklæðningin var óhentug fyrir rýmið.
„Því var reynt að lagfæra það fyrst en það reyndist vera snúið. Síðan kom í ljós að klæðning í lofti (loftplötur) hentaði einfaldlega ekki í sundlaugarrými þar sem plöturnar voru of rakadrægar. Það fór að bera á vandamálinu fljótlega eftir að sundlaugin var tekin í notkun í byrjun apríl á síðasta ári. Síðan versnaði ástandið eftir því sem loftræstikerfið datt oftar út. Það má e.t.v. segja að það hafi verið lán í óláni að loftræstikerfið bilaði því annars hefði ekki komið í ljós svona fljótlega að loftklæðningin var óhentug fyrir rýmið. Skipt var um klæðningu nú í febrúar og loftræstikerfið lagað,“ segir hann. Verktakinn Ístak og söluaðili loftplatnanna taka ábyrgð á gallanum og greiða kostnaðinn við viðgerðirnar.
Kostnaður liggur ekki fyrir
Sundlaugin er þjálfunar- og kennslulaug og er hluti af framkvæmdum við þriðja áfanga skólans. Klettaskóli hét áður Öskjuhlíðarskóli og er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu. Hann var byggður í tveimur áföngum árin 1974 og 1985 en framkvæmdir við nýju viðbygginguna hófust á vormánuðum 2015. Samhliða þeim hafa verið gerðar umfangsmiklar endurbætur á gamla skólanum. Með nýju viðbyggingunni má gera ráð fyrir umtalsverðum breytingum á starfsemi skólans þar sem áhersla er lögð á bætt aðgengi og þjónustu við fatlaða nemendur en í skólanum er aðstaða fyrir 80-100 nemendur.
Í nýju viðbyggingunni norðvestan við núverandi skóla eru einnig hátíðar- og matsalur, íþróttasalur og félagsmiðstöð. Þá er leiksvæði á lóð endurgert með það fyrir augum að það henti fötluðum nemendum. Um er að ræða aldursskipt leiksvæði með láréttum flötum í mismunandi hæð og góðum tengingum á milli. Framkvæmdum er enn ekki lokið en áætluð verklok voru í ágúst á síðasta ári og heildarkostnaður var áætlaður 2.600 milljónir kr.
Það geta alltaf komið upp viðbótarframkvæmdir eða eitthvað óvænt þar sem verið er að gera upp.
Bjarni segir að heildarkostnaður við framkvæmdirnar liggi ekki fyrir að svo stöddu enda sé frágangi ekki lokið og kostnaður muni því ekki endanlega koma í ljós fyrr en í sumar. Hann segist ekki geta sagt til um það hvort um framúrkeyrslu sé að ræða „enda liggja tölurnar ekki fyrir vegna þess að verkinu er ekki lokið. Það geta alltaf komið upp viðbótarframkvæmdir eða eitthvað óvænt þar sem verið er að gera upp. Og þá er gerð grein fyrir því og einfaldlega bætt við fjármagni til að dekka það með samþykktum.“
Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Aron Einar Gunnarsson og Ólafur Ísleifsson sem eru hinir útnefndu.
Góð vika
Aron Einar Gunnarsson
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson tilkynnti í vikunni að hann væri búinn að skrifa undir samning við Al-Arabi í Katar, lið Heimis Hallgrímssonar. Vissulega munu aðdáendur enska boltans sakna þess að sjá Aron Einar spila á meðal þeirra bestu en fyrir Aron er þetta rökrétt skref. Ekki bara gefa samningar í Mið-Austurlöndum vel í aðra hönd heldur mun álagið léttast til muna. Aron hefur sjálfur sagt að löng vera í ensku B-deildinni hafi tekið mikið á skrokkinn og með þessum vistaskiptum ætti hann að geta framlengt landsliðsferilinn. Svo er bara að vona að Aron toppi góða viku með stórleikjum gegn Andorra og Frakklandi.
Slæm vika
Ólafur Ísleifsson
Í Klaustursupptökunum frægu mátti heyra Ólaf Ísleifsson segja að það væri „augljós markaður“ fyrir rasísk sjónarmið á Suðurlandi og ef marka má málflutning Ólafs í vikunni hefur þessi nýjasti liðsmaður Miðflokksins augastað á forystusæti í því kjördæmi. Ólafur fór ekki leynt með vandlætingu sína á mótmælum hælisleitenda á Austurvelli og sagði að það ætti að „senda þetta fólk úr landi med det samme“. Hann tók þessa stemningu með sér inn á Alþingi þar sem hann fann mótmælendum, þjóðkirkjunni og Reykjavíkurborg allt til foráttu en fékk einungis fuss og svei til baka frá kollegum sínum á þingi.
„Sýningin er fjölbreytt og gefur góða mynd af fréttaatburðum síðastliðins árs sem og þeim margbreytilegu verkefnum sem íslenskir blaðaljósmyndarar fást við,“ segir Kristinn Magnússon, ljósmyndari á Morgunblaðinu, og formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands.
Sýningin er fjölbreytt og gefur góða mynd af fréttaatburðum síðastliðins árs.
Á sýningunni verða 106 myndir frá liðnu ári sem valdar voru af óháðri dómnefnd úr 840 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara en það voru 26 ljósmyndarar sem sendu inn myndir. Myndunum er skipt í sjö flokka sem eru fréttamyndir, myndir úr daglegu lífi, íþróttamyndir, portrettmyndir, umhverfismyndir, tímaritamyndir og myndraðir. Í hverjum flokki valdi dómnefndin bestu myndina eða myndröðina og ein mynd úr fyrrnefndum flokkum var svo valin sem mynd ársins. Yfirmaður dómnefndar var að þessu sinni Mads Greve, kennari við Danmarks Medie- og Journalisthøjskole.
„Um leið og verðlaunin hafa verið veitt verður opnuð glæsileg ný heimasíða Mynda ársins. Þar verða allar myndir sem voru valdar fyrir árið 2018 auk mynda frá fyrri árum. Sýningin stendur til 4. apríl og ég hvet alla að leggja leið sína í Smáralind til þess að skoða þessar flottu ljósmyndir.“
Sífellt fleiri hönnuðir og framleiðendur eru farnir að leggja áherslu á vistvænar og sjálfbærar lausnir.
Egaleo frá USEE STUDIO
Nýjasta lína hönnunarstofunnar USEE STUDIO hefur litið dagsins ljós og er eins og fyrri verk þeirra unnin út frá róttækum og sjálfbærum sjónarmiðum. Línan ber nafnið Egaleo og samanstendur af prentverkum, flíkum, skartgripum og sundfatnaði. Flíkurnar eru unnar úr rekjanlegri lífrænni bómull og efnum nýttum úr gömlum efnalagerum. Hugmyndin að línunni kviknaði í vinnuferð stofunnar til Aþenu síðastliðið vor en þar uppgötvuðu þær að borgin hefði að geyma töluvert af efna- og fatalagerum sem hafa staðið óhreyfðir til fjölda ára. USEE STUDIO leggur mikla áherslu á að framleiða vörur á eins umhverfisvænan og mannúðlegan máta og mögulegt er. Stofan setur sér engin takmörk og er hugmyndasköpun látin ráða för og nýjum tækifærum ávallt tekið opnum örmum.
Mottur úr pálmaleðri
Hollenski hönnuðurinn Tjeerd Veenhoven hefur kynnt til leiks skemmtilegar mottur unnar úr pálmalaufum sem ættu að höfða til allra, enda bæði vegan og vistvænn kostur. Þunnum efnisræmum er raðað saman upp á rönd og gefur það mottunum skemmtilega áferð og mynstur og þær eru mjúkar að ganga á. Hönnuðurinn varði miklum tíma í efnisrannsóknir og leitaðist við að auka sveigjanleika pálmalaufanna sem honum tókst með aðstoð glýseríns og vatns. Motturnar eru framleiddar í verksmiðju í Dóminíska lýðveldinu sem hefur stranga gæðastaðla og græna hugsun að leiðarljósi.
Fjölnota kaffihylki úr ryðfríu stáli
Vitundarvakningin er alltaf að verða meiri og meiri og það ætti líka að eiga við kaffidrykkju en meginþorri þjóðarinnar drekkur kaffi og ófáir hafa fjárfest í kaffivélum sem notast við hylki. Hylkin eru lengi að brotna niður í náttúrunni þó að vissulega séu komnir umhverfisvænni kostir á markað. Áfyllanleg og margnota kaffihylki ættu notendur slíkra kaffivéla þó að kynna sér! Þau eru úr ryðfríu stáli og því hægt að nota aftur og aftur um ókomna tíð. Umhverfisvæn kaffihylki og þú ert laus við öll tómu plasthylkin. Þú sparar bæði tíma, peninga og hugsar betur um náttúruna í leiðinni og ekki skemmir fyrir að þú velur þitt eftirlætiskaffi í uppáhellinguna. Fjölnota kaffihylkin fást meðal annars í vefversluninni Mistur og henta í margar gerðir kaffivéla, svo sem Nespresso og Sjöstrand.
Burt með plastbrúsana
Sápustykki eru inn! Nú eru verslanir á Íslandi í auknum mæli farnar að bjóða upp á fjölbreytt úrval af sápustykkjum í allskonar stærðum og gerðum. Fólk er eflaust mistilbúið að segja skilið við sjampó- og sápubrúsana en fallegar sápur og ekki síður vel ilmandi geta verið prýði.
Ódýr og góð leið til þess að færa sig örlítið nær umhverfisvænni lífsstíl. Sápustykki er hægt að nota fyrir hendur, andlit og líkama og innihalda þær iðulega góðar olíur eins og ólífuolíu og ilmkjarnaolíur og fleiri náttúruleg efni sem kemur jafnvægi á húðina. Við á ritstjórninni höfum prófað sjampóstykki og höfum góða reynslu af og svo duga þær líka lengi. Lykilatriði er að leyfa sápunni að þorna inn á milli og hægt er að fá smart sápudiska sem sjá til þess. Fersk og endurnærandi leið sem hreinsar vel og gefur raka og næringu!
Hugleikur Dagsson er um þessar mundir að undirbúa sig fyrir sinn stærsta uppistandatúr til þessa, Son of the Day sem verður brot af því besta sem hann hefur verið að gera síðustu fimm ár. Í tilefni af túrnum heldur hann eina sýningu hér heima, á Kex þann 5. apríl næstkomandi.
Líkamsvessar, Tinder, Star Wars og fegurðardrottningar eru á meðal þess sem grínistinn Hugleikur Dagsson ætlar að taka fyrir í uppistandstúr um heiminn. „Við byrjum í Búdapest og tökum restina af Austur-Evrópu. Síðan förum við til Berlínar, Brussel, Amsterdam og Vínar. Við ljúkum ferðinni á Norðurlöndunum með hápunkti í Helsinki þar sem ég verð með þrjár sýningar sem ég mun láta taka upp. Ætlunin er að klippa saman svokallaðan „stand-up special“ og selja hann á einhverja streymisveitur, verða heimsfrægur og deyja ríkur,“ segir Hugleikur um túrinn.
Uppistandinu má lýsa sem broti af því besta sem Hugleikur hefur gert síðastliðin fimm ár, en hann hefur nú fengist við uppstand í tíu ár og segir að upphaflega hafi hann ekki getað hugsað sér að fara út í það. „Fyrir svona tíu árum sagði ég: „Uppistand er eitthvað sem ég mun aldrei prófa! Enda er ekkert óhugnanlegra en að standa á sviði og reyna að vera fyndinn. Hvað ef það misheppnast? Það væri mannleg eymd í sinni hreinustu mynd.“ En svo krafðist Ari Eldjárn þess að ég prófaði, sem ég gerði og það tókst. Síðan þá hef ég verið háður þessu frásagnarformi.“
Fyrir svona tíu árum sagði ég: „Uppistand er eitthvað sem ég mun aldrei prófa!“
Hann segir að ekkert sé betra en að vera á sviði og drekka í sig viðbrögðin. Að í raun sé það eini tíminn sem honum finnist hann hafa einhverja stjórn, en að sama skapi kvíði hann fyrir hverju „giggi“. „Mannssálin er bara ekki byggð fyrir þetta kjaftæði. Samt gerir maður þetta út af einhverri viðurkenningarfíkn, því um leið og maður nær fyrsta hlátrinum þá hverfur kvíðinn og maður sörfar hláturinn eins og brimbrettakappi. Þetta er spurning um að halda dampi og trúa á efnið sitt.“
Öfundar engan
Spurður út í eftirminnilegt uppistand, segir hann svolítið erfitt að svara því þar sem hann fari oft hreinlega í blakkát á sviði. „Ég er byrjaður að hljóðrita giggin mín svo ég geti hlustað á það sem ég sagði. Margir góðir brandarar fæðast nefnilega á sviði og það er glatað að muna þá ekki eftir á.“
Við nánari umhugsun segist Hugleikur reyndar muna eftir nokkrum sérkennilegum „giggum“. „Já, ég lenti til dæmis í því á skemmtun úti á landi að það fór einn að tuða og ég svaraði honum svo svakalega að hann bara lét sig hverfa. Bæjarbúar voru afar ánægðir enda höfðu þeir í nokkur ár hugsað honum þegjandi þörfina.“ Hugleikur segir að uppákomur af þessu tagi tengist oftast árshátíðum þar sem einhver drukkinn karl í salnum fari að reyna að skjóta á hann. „En viðkomandi gleymir þá alveg að ég er bæði atvinnugrínisti og með míkrófón,“ bætir hann við kíminn.
En hvaða eiginleikum þarf góður uppistandari að búa yfir?
„Góður uppistandari þarf að tileinka sér góða vinnusiðfræði,“ svarar hann og segist í því samhengi fara eftir þeirri reglu Conans O’Brien að vera duglegur og góður.
„Ég hef tamið mér að láta aðra grínista ekki fara í taugarnar á mér, það skiptir máli. Og öfundaðu engan. Notaðu velgengni annarra sem fyrirmynd og vertu þú sjálfur. Það sést langar leiðir þegar grínisti er að reyna að vera eins og einhver annar. Samband grínista við sal skiptir öllu máli. Aldrei fara í vörn ef fólk fattar ekki eitthvað, það er ekki því að kenna heldur þér. Ef maður temur sér ákveðna blöndu af hógværð og kæruleysi verður maður ósigrandi.“
Notaðu velgengni annarra sem fyrirmynd og vertu þú sjálfur.
22 gigg í 18 borgum
Eins og áður sagði fer Hugleikur bráðlega í einn stærsta uppistandstúr sem Íslendingur hefur farið í. Túrinn ber heitið Son of the Day sem er þýðing á eftirnafni Hugleiks, Dagsson eða sonur Dags, og hefst 11. apríl. „Réttara hefði verið að segja Son of Day en Son of „the“ Day er einhvern veginn tilgerðarlegra og þess vegna valdi ég það. Var í smástund að spá í að kalla sýninguna Mindgame en það hljómar eins og ég sé að reyna að vera kúl. Og það er ekkert minna kúl en að reyna að vera kúl. Það er hins vegar mjög ótilgerðarlegt að reyna að vera tilgerðarlegur.“
Með í för verða vinur hans, ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem hitar upp og Rakel Sævarsdóttir, umboðsmaður Hugleiks. „Ég tilkynnti einfaldlega fylgjendum mínum á Netinu að ég væri ekki bara teiknari heldur uppistandari líka og ef einhver vildi bóka mig mætti endilega hafa samband. Fyrr en varði vorum við búin að bóka 22 gigg í 18 borgum,“ segir hann glaðlega.
Vefur Útvarps Sögu hefur margoft endurbirt efni af síðum sem birta falskar og skrumskældar fréttir sem ætlað er að kasta rýrð á innflytjendur. Sænskur sérfræðingur segir umræddar síður grafa undan stofnunum lýðræðisins og kynda undir fordómum.
Uppgangur öfgasinnaðra afla í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar hefur haldist í hendur við útbreiðslu fjölmiðla á Netinu sem dreifa hatursfullum boðskap, setja á flot samsæriskenningar og falsa eða skrumskæla fréttir í þeim tilgangi að kynda undir hatri gagnvart minnihlutahópum.
Í sumum Evrópulöndum hafa þessi fyrirbæri, sem oft eru tengd nánum böndum, náð fótfestu og þó nokkurri útbreiðslu, ekki síst með stóraukinni notkun samfélagsmiðla og á síðustu árum hefur hugtakið „falsfréttir“ bæði orðið að raunverulegu vandamáli og er ofnotaður frasi stjórnmálamanna og fylgitungla þeirra.
Ísland hefur fram til þessa verið að mestu laust við þessi fyrirbæri. Þeim flokkum sem hafa boðið sig fram undir merkjum útlendingahaturs hefur verið fálega tekið og íslenskir fjölmiðlar hafa sniðgengið fréttamiðla sem þessa. Undantekningin er þó vefur Útvarps Sögu þar sem ítrekað eru birtar fréttir sem vísa í umfjöllun öfgasinnaðra miðla sem breiða út kynþáttahyggju og samsæriskenningar.
Þetta eru miðlar eins og Friatider, Samhällsnytt, Nya Tider og Nyheter Idag í Svíþjóð. Þannig hefur á vef útvarpsstöðvarnnar birst fjöldi greina þar sem ýjað er að því að Svíþjóð sé í heljargreipum innflytjenda og að þar ríki viðvarandi neyðarástand. Annars staðar er sótt í smiðju öfgahægrisins í Evrópu með hefðbundnum samsæriskenningum um George Soros, Evrópusambandið og afneitun vísindalegra niðurstaðna, einkum er varðar loftslagsmál. Vefurinn fer heldur ekki leynt með aðdáun sína á stjórnmálamönnum á borð við Donald Trump og Viktor Orban.
Leiðandi í framleiðslu „ruslfrétta“
Rannsókn sem gerð var fyrir þingkosningarnar í Svíþjóð í fyrra sýndi að ein af hverjum þremur fréttum sem dreift var á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninganna hafi verið svokallaðar „ruslfréttir“ (e. junk news). 86 prósent þessara frétta komu frá Samhällsnytt, Fria Tider og Nyheter Idag.
Til að bregðast við fréttaflutningi af þessu tagi hafa fjölmiðlar og önnur samtök tekið að sér það verkefni að staðreyna sannleiksgildi frétta. Þar eru umræddir jaðarmiðlar fyrirferðarmiklir. Åsa Larsson, blaðamaður Metro sem staðreynir fréttir undir merkjum Viralgranskaren, kannast vel við málefni Friatider.
„Þetta er hægri síða sem skrifar mikið um innflytjendur. Þeir eru hluti af róttæku hægri hreyfingunni og hafa tengsl við jaðarhóp sem kallar sig Granskning Sverige og hefur ráðið fólk til að áreita blaðamenn, stjórnmálamenn og fleiri. Þeir eru ónákvæmir, við höfum margoft farið yfir fréttir þeirra og sýnt fram á að þeir snúa út úr frásögnum hefðbundinna miðla. Það er hins vegar ekki hægt að afskrifa allt sem þau skrifa byggt á því hver þau eru, það þarf að sannreyna allar fullyrðingar.“
Aðgerðasinnar með tilgang
Jonathan Leman, sérfræðingur hjá Expo sem eru samtök sem berjast gegn kynþáttahatri, segir umrædda miðla þjóna tvennum tilgangi. „Annars vegar að sýna innflytjendur í neikvæðu ljósi og kenna þeim um allt sem aflaga fer í samfélaginu. Hins vegar að útmála pólitíska andstæðinga sem svikara og hluta af spilltri elítu. Þetta eru aðgerðasinnar með tilgang.“
Leman segir að þótt tilgangur þessara miðla sé iðulega sá sami, þá sé ekki hægt að setja þá alla undir sama hatt. Sumir miðlanna séu dyggir stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata, sem er sá flokkur sem rekur hvað harðasta innflytjendastefnu, á meðan aðrir miðlar séu jafnvel enn lengra til hægri og tengdir Norrænu andspyrnuhreyfingunni sem eru hreinræktuð nýnasistasamtök. Þá séu efnistök miðlanna ólík.
Samhällsnytt keyri til að mynda meira á eigin fréttum sem settar séu fram undir orðræðu hægri popúlisma á meðan NyaTider sé mjög langt til hægri og geri til að mynda mikið úr ætluðu gyðingasamsæri. „Það sem er kannski sérstakt í þessu öllu saman að flestir þessir miðlar gefa sig út fyrir að vera að segja fréttir sem hinir hefðbundnu miðlar þagga niður, samt gera þeir lítið annað en að endursegja fréttir hefðbundnu miðlanna en skrumskæla þær þannig að þær láta innflytjendur líta illa út.“
Þessir miðlar hafa áhrif. Þeir grafa undan trausti á pólitískum stofnunum og hafa kynt undir róttækni og útlendingahatri í samfélaginu.
Auk þess að hafa tengsl við stjórnmála- og öfgahreyfingar í heimalandinu þá hafa þessir fréttamiðlar sambönd við sams konar hópa í Evrópu og víðar. Til að mynda eru margir þessara miðla hallir undir stjórnvöld í Rússlandi og bendir Leman á að útgefandi Nya Tider hafi náin tengsl við Alexandr Dugin, þekktan rússneskan fasista. „Þessir miðlar hafa áhrif. Þeir grafa undan trausti á pólitískum stofnunum og hafa kynt undir róttækni og útlendingahatri í samfélaginu,“ segir Leman.
Örlög WOW air kunna að skýrast á mánudaginn en það er sá tímarammi sem Icelandair og WOW gefa sér til að ljúka viðræðum um aðkomu fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda. Á sama tíma og Indigo Partners gekk frá borði var tilkynnt um að Wizz air, sem er í eigu Indigo, hafi fjölgað flugleiðum til Íslands.
Það dró til tíðinda í lífsbaráttu WOW air í gærkvöldi þegar þriggja mánaða samningaviðræðum um kaup Indigo Partners á WOW air var slitið. Þrjár tilkynningar voru sendar út samtímis í gærkvöldi vegna málsins.
Icelandair sendi tilkynningu til kauphallarinnar um að stjórnin hafi samþykkt að hefja viðræður við WOW um aðkomu að rekstri félagsins. Á sama tíma birti WOW tilkynningu um að viðræðum við Indigo hafi verið slitið um leið og á vef stjórnarráðsins var tilkynnt um viðræður Icelandair og WOW. Segir að félögin stefni á að ljúka samningaviðræðum fyrir mánudag.
Athygli vekur að í tilkynningu Icelandair segir að viðræðurnar fari fram „í samráði við stjórnvöld“ en í vef stjórnarráðsins segir einungis að stjórnvöld muni áfram „fylgjast grannt með framvindunni“. Á þessu er eðlismunur eins og Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, benti á í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar vildu lítið tjá sig um málið fyrir ríkisstjórnarfund í morgun en mbl.is hefur eftir Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að málið sé í höndum flugfélaganna.
Barátta Skúla Mogensen hefur verið samfelld rússíbanareið. Hann byrjaði á því að leita til Icelandair og sama dag og þær viðræður fóru út í sandinn kom Indigo að borðinu. Það ferli hófst um miðjan desember og átti að ljúka í lok febrúar en var framlengt um þrjár vikur þegar samkomulag var ekki í höfn.
Á þessum tíma gjörbreyttist staða Icelandair. Félagið tilkynnti um stækkað leiðakerfi og lykillinn af því voru glænýjar Boeing 737 MAX þotur. Hafði félagið þegar fengið þrjár slíkar þotur afhentar og sex til viðbótar voru á leiðinni á næstu viku. Mannskæð flugslys í Indónesíu og Eþíópíu urðu hins vegar til þess að allar vélar af þessari tegund hafa verið kyrrsettar og alls óvíst er hvenær þær fara í loftið aftur. Icelandair bráðvantar þess vegna flugvélar til að halda áætlun sinni.
Það vakti svo athygli í gær að sama dag og Indigo gekk frá samningaborðinu var tilkynnt um að Wizz air, sem er að stærstum hluta í eigu Indigo, ætli að hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Kraká í Póllandi. Þar með verða áfangastaðir Wizz air frá Keflavík orðnir 10 talsins. Trausti velti því upp í Morgunútvarpinu í morgun hvort samningaviðræðurnar hafi aðeins verið yfirskin af hálfu Indigo.
„Bill Franke [eigandi Indigo] er núna með allan íslenska flugheiminn kortlagðan. Hann er búinn að skoða allar bækur. Hann er í kjöraðstöðu. Ef maður ætti að fara út í einhverjar samsæriskenningar þá er hann búinn að draga WOW á asnaeyrunum í fjóra mánuði og endar með að slíta viðræðunum og endar með að fjölga ferðum hjá sínu flugfélagi til Íslands.“
Eiríkur Brynjólfsson var í fríi á Filippseyjum þegar hann smitaðist af mislingum. Óafvitandi um smitið flaug hann heim, kom til landsins með vél Icelandair þann 14. febrúar og fór til Egilsstaða með Air Iceland Connect daginn eftir. Nokkrir af samfarþegum hans smituðust. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan og veltir fyrir sér hvað hafi misfarist þegar hann átti með réttu að fá þessar sprautur.
„Ég var í fríi á Filippseyjum í tæpan mánuð, fór þangað til þess að hitta nýja fjölskyldu, dvaldi einkum í Manila en fór í þónokkrar ferðir út frá borginni,“ segir Eiríkur Brynjólfsson en hann veiktist af mislingum í ferðinni. Eins og fram kemur í inngangi ferðaðist Eiríkur heim til Egilsstaða með Icelandair og síðan Air Iceland Connect um miðjan síðasta mánuð og í kjölfarið smituðust fleiri einstaklingar af þessum stórvarasama sjúkdómi. Heilbrigðisyfirvöld hafa brugðist við meðal annars með því að auka til muna aðgengi að bólusetningum og hvetja fólk til þess að kanna hvort það sé bólusett eða ekki.
Máttlaus með blússandi hita
Eiríkur segir að hann hafi ekki kennt sér nokkurs meins þann tíma sem hann dvaldi á Filippseyjum og hann hafi því ótvírætt ekki smitast fyrr en rétt áður en hann fór heim.
„Það var ekki fyrr en ég var á leiðinni heim sem ég fór að finna fyrir slappleika, en það er mikilvægt fyrir fólk að hafa í huga að maður finnur ekki fyrir einkennum á meðan maður er smitberi, en þá byrjar þetta sem svona frekar meinleysislegir vindverkir. Það var reyndar svona öllu meira en maður á venjast, en ég fann að ég var ekkert voðalega hress, án þess þó að vera eitthvað óskaplega veikur. Daginn eftir að ég kom til Íslands var ég þó orðinn enn slappari en grunaði ekki annað en að ég hefði náð mér í einhverja smáflensu, enda hafði ég heyrt að það væri ein slík í umferð.“
Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast.
Eiríkur rifjar upp að það hafi svo ekki verið fyrr en daginn eftir að hann kom heim til Egilsstaða sem hafi farið að bera aðeins á útbrotum. „Ég tók fyrst eftir þessu á höndunum á mér, fann að ég var orðinn ansi veikur, enda treysti ég mér ekki lengur til þess að fara út úr húsi. Daginn eftir var ég svo orðinn enn veikari og útbrotin farin að færast í aukana og þá hætti mér nú aðeins að lítast á blikuna. Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast, var mjög slæmur í maganum og staulaðist á salernið, en lenti svo bölvuðu basli með að komast aftur til baka inn í rúm. Þannig að ég var orðinn mjög máttlaus og með blússandi hita enda mældist ég með fjörutíu og eins stigs hita sem er víst ansi mikið fyrir fullorðinn mann.“
Súrefnisgjöf og einangrun
Eiríkur segir að hann hafi í þessu eymdarlega ástandi haft samband við sína fyrrverandi, enda séu þau góðir vinir, og beðið hana um að kaupa inn fyrir sig þar sem hann treysti sér ekki út úr húsi og allt tómt á heimilinu eftir langa fjarveru.
„Þegar hún kom vorum við svo sammála um að það væri best að ég færi til læknis sem ég og gerði. Læknirinn hlustaði mig og setti mig svo strax í súrefni, enda var ég farinn að anda asnalega, því súrefnisupptakan var lítil og ég farinn að líta út eins og lík. Læknirinn var fyrst viss um að ég væri með lungnabólgu og sendi mig með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Neskaupstað en greiningin var þá ekki komin á hreint. Þegar komið var í Neskaupstað voru læknarnir greinilega aðeins farnir að átta sig á stöðunni og þar var ég strax settur í einangrun.
Fljótlega vað þeim ljóst að þetta væru mögulega mislingar og þá var strax ákveðið að senda mig suður á sjúkrahús, því einangrunaraðstaðan er ekki nægilega góð fyrir austan. Þannig að mér var skutlað aftur út í sjúkrabíl sem brunaði með mig upp á Egilsstaði þar sem mér var komið í sjúkraflug suður. Þetta var bölvað vesen, maður var búinn að vera á þessu mikla ferðalagi og þurfti svo að halda áfram að ferðast og það alveg fárveikur,“ segir Eiríkur og hlær nú aðeins við tilhugsunina þar sem þetta er um garð gengið.
Var ekki bólusettur
Eiríkur lá á sjúkrahúsi í Reykjavík í tæpa viku og hann segir að sjúkdómsgreiningin hafi óneitanlega komið honum á óvart.
„Ég bjóst satt best að segja við því að vera bólusettur fyrir þessu eins og flestir Íslendingar. En þegar ég kannaði þetta kom í ljós að ég var ekki bólusettur. Ástæðan er sú að þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi. Við það var eins og þetta hefði misfarist. En svo veit ég satt best að segja ekki hvort ég var bólusettur þegar ég var tólf ára eða ekki. Eitthvað virðist þetta í hið minnsta hafa verið aðeins laust í reipnunum á þessum tíma því sumir jafnaldrar mínir hafa verið bólusettir við tólf ára aldurinn en ekki allir.“
….þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi.
Aðspurður um hvernig hann horfi til þessara mála í dag segir Eiríkur að það græði enginn á því að reyna að finna einhvern sökudólg. „Það kemur engum að gagni. Það er enginn betur settur eftir það, heldur verðum við fyrst og fremst að reyna að gera betur.“
Eiríkur segir að sumir þeirra sem standa honum nærri hafi þurft að bregðast við og þá einkum þeir sem eiga ung börn. „Það voru nokkrir sem þurftu að fara í sjálfskipaða einangrun til þess að vera vissir um að vera ekki smitberar. En málið er líka að þetta er sjúkdómur sem fæst okkar þekkja í dag og því er fólki eðlilega brugðið þegar þetta kemur upp.“
Sá allt í móðu
Eins og Eiríkur bendir á þá er ekki til nein lækning við mislingum og bólusetningin því þeim mun mikilvægari. „Þar sem það er ekki til nein lækning þá fékk ég engin lyf á sjúkrahúsinu en ég var með vökva í æð vegna þess að líkaminn var gjörsamlega uppþornaður. Það voru alveg einhverjir lítrar sem þurfti að dæla í mig og svo þurfti ég reglulega að væta munninn því annars lá tungan þarna skrælnuð við góminn á mér. Þetta var mjög skrítin reynsla.“
Eftir að Eiríkur hafði dvalið á sjúkrahúsi í tæpa viku og var kominn aftur heim til Egilsstaða voru veikindi hans þó enn ekki öll að baki. „Málið er að það er fjöldi eftirkvilla sem getur fylgt því að fá mislinga og þeir geta verið alvarlegir. Mér var því sagt að ég yrði að hringja suður ef ég færi að finna fyrir ákveðnum einkennum. Þar er einkum verið að horfa til þess að það geta myndast slæmar bólgur í heilanum.
Þegar ég var kominn austur var ég enn hálfslappur eftir öll þessi veikindi en hélst þó þokkalegur fram á annan dag heima en þá fór ég að sjá allt í móðu. Ég er nærsýnn, þannig að alla jafna sé ég vel það sem er nálægt mér, en á þessum tímapunkti var hreinlega allt í móðu. Það var mjög skrítið að upplifa það.
Þannig að ég hringdi og var þá skipað að koma strax suður sem ég og gerði að sjálfsögðu. En sem betur fer reyndist þetta ekki alvarlegt heldur heldur einhvers konar skemmd sem getur komið á hornhimnuna í kjölfar mislinga. Þannig að ég var sendur aftur heim með augndropa og krem og þetta jafnaði sig á nokkrum dögum.“
Hættan er til staðar
Það leynir sér ekki að Eiríkur er rólegur að eðlisfari og viðurkennir að hafa í raun lítið kippt sér upp við þetta.
„Nei, ég var nú ósköp rólegur yfir þessu. Var heldur ekki að velta fyrir mér hvað fólk hefur verið að segja á samfélagsmiðlum, það er bara eins og það er. Það verður alltaf til fólk sem er tilbúið til þess að kenna öðrum um allt og ekkert og það er ekki til neins að vera að fara á hliðina yfir þannig umræðu. Mér finnst nær að reyna bara að vera frambærileg manneskja og gera sitt besta.“
Aðspurður segist hann ekki finna fyrir samviskubiti yfir því að hafa smitað aðra. „Það er auðvitað mjög leiðinlegt að heyra um smitaða einstaklinga, sérstaklega börn, en ég get ekki áfellst sjálfan mig fyrir það þar sem ég var viss um að ég væri bólusettur fyrir mislingum.“
Hann bendir á að hann hafi áður farið í ferðalög og þá fengið bólusetningar fyrir lifrarbólgu og fleiri sjúkdómum en minnist þess ekki að þetta hafi komið til umræðu. „Það getur vel verið að ég hafi verið spurður, sem ég minnist ekki, en þá hefði ég örugglega sagst vera bólusettur, því ég stóð í þeirri trú. En þegar maður býr í svona litlu landi og fámennu samfélagi þá kannski gerir maður ráð fyrir því að við séum öll á sama stað hvað þetta varðar og er ekkert að velta þessu fyrir sér. Lifir svona í smásjálfsblekkingu með þetta sem er auðvitað ekki gott.
En svo eru auðvitað fleiri sjúkdómar en mislingar sem við verðum að hafa í huga. Eins þurfum við að auka vitund um þessi mál út frá því að hingað sækja sífellt fleiri ferðamenn og það geta auðvitað borist með þeim sjúkdómar. Það segir sig sjálft að það hlýtur að auka hættuna.
En fyrst og fremst finnst mér þó mikilvægt að foreldrar sýni þá ábyrgð að láta bólusetja börnin sín.
Þessi veikindi mín eru vissulega góð áminning til minnar kynslóðar og einnig þeirra sem eldri eru um að fylgjast betur með okkur og vera viss um að hafa þessa hluti í lagi. Það eru auðvitað fleiri en ég sem lifa í þeirri trú að þeir séu bólusettir en eru það svo í raun ekki. En fyrst og fremst finnst mér þó mikilvægt að foreldrar sýni þá ábyrgð að láta bólusetja börnin sín því það er eina raunverulega leiðin til þess að stöðva útbreiðslu þessara sjúkdóma.“
Garðlist býður upp á alla garðþjónustu auk þess að sinna til dæmis mokstri og sópun. Margir viðskiptavinir eru í áskrift hjá fyrirtækinu allt árið um kring.
Fyrirtækið Garðlist er alhliða garðþjónusta og fagnar 30 ára afmæli á árinu. „Ég byrjaði með þetta þegar ég var 12 ára og bauð upp á ýmsa garðþjónustu næstu árin en síðustu 20 árin hefur þetta verið heilsársfyrirtæki,“ segir Brynjar Kjærnested, skrúðgarðyrkjumeistari, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
„Fyrirtækið hefur þróast hægt og rólega en viðskiptavinurinn hefur þróað fyrirtækið eftir því hverju hann kallar eftir í þjónustu. Við byrjuðum á að slá, svo bað einhver okkur um að klippa og við byrjuðum að klippa og hægt og rólega vorum við komin með mjög breiða línu af þjónustu; það skemmtilega við þjónustu okkar er að þetta er þjónusta sem fólk þarf aftur og aftur. Flestir eru með hana í áskrift og við sinnum henni allt árið.
….viðskiptavinurinn hefur þróað fyrirtækið eftir því hverju hann kallar eftir í þjónustu.
Þetta er allt frá því að slá, hreinsa beð, klippa, gróðursetja sumarplöntur í potta, sjá um þökulagnir og plöntun, trjáfellingar, bera áburð á grasið og sópa planið. Við erum með götusóp, ryðjum snjó á veturna, berum sand og salt á plön og stéttar og setjum upp og tökum niður jólaskreytingar en við sjáum um að geyma þær og leigjum jafnvel skreytingar til fyrirtækja. Það er alltaf eitthvað í gangi allt árið um kring.“
Klippa fyrir vorið
Vorið er á næsta leiti og þá er að ýmsu að hyggja, að sögn Brynjars. „Það er mikilvægt að átta sig á því að maður er með garð allt árið; margir hugsa bara um að hreinsa garðinn sinn á vorin en við leggjum áherslu á að fólk hugsi um garðinn allt árið og sinni honum. Það þarf að vera búið að klippa áður en vorið gengur í garð en það er mikilægt að flestallur gróður sé klipptur einu sinni á ári. Að tré fari ekki inn í sumarið með vöxt síðasta sumars en það gerir hekk óþétt og það skemmir grunnstoðirnar í hekkinu að sleppa því að klippa.
Margir hafa heldur ekki sinnt beðunum allt sumarið eða allan veturinn en það þarf að hreinsa þau og fríska upp á stéttir og taka mosann. Við erum með stéttavél sem burstar allan gróður og mosa á milli stétta og ofan á og frískar allar stéttina upp.“
Brynjar segir að hvað mosann varðar sé ekki þörf á að skipta um gras eins og sumir haldi. „Það er einfalt að ná grasi góðu með réttri áburðargjöf en við erum með áburðargjöf í áskrift.“
Eitrað fyrir birkikembu og maðki
Brynjar segir að huga þurfi að óværu, svo sem birkikembu og maðki, en ein leiðin sé að nota eitur. „Það þarf til dæmis að eitra fyrir birkikembu áður en skaðinn er skeður en það þarf að úða birki frá um það bil miðjum apríl. Fólk þarf svo að vera vakandi fyrir maðki upp úr miðjum maí og fram í lok júní en hann getur verið skaðvaldur í trjám. Þessa þjónustu erum við með í áskrift eins og aðra þjónustu en þá sendum við fólki tölvupóst áður en við mætum. Ef eitthvað breytist er hægt að afpanta hana.“
Skilvirkni og gæðakerfi
Starfsmenn Garðlistar eru meðal annars menntaðir í skrúðgarðyrkju og reglulega eru haldin námskeið í faginu fyrir starfsmenn til að viðhalda góðum vinnubrögðum og þekkingu. Brynjar segir að hjá Garðlist sé lögð áhersla á skilvirkni og að starfsfólk sé skipulagt og reyni að standa við áætlanir. „Breiddin á þjónustunni er einkennandi fyrir fyrirtækið og með því að versla við okkur er oft hægt að fá marga hluti á einum stað. Við erum með gæðakerfi sem við fylgjum stíft eftir og reynum að vera nokkrum skrefum framar en samkeppnisaðilar okkar.“
Öfgahópar, sem ala á hatri gagnvart minnihlutahópum, hafa fengið byr í segl á undanförnum árum og hefur skelfileg hryðjuverkaárás á Nýja-Sjálandi, þar sem 51 lét lífið og yfir 40 særðust, minnt okkur á að hatrið getur fest rætur í friðsælum litlum samfélögum.
Í skýrslum lögregluyfirvalda í bæði Evrópu og Bandaríkjunum hefur verið greint frá mikilli aukningu hatursglæpa og árása á minnihlutahópa. Gyðingahatur hefur farið vaxandi í Bandaríkjunum og einnig árásir á ýmsa minnihlutahópa og fólk af tilteknum kynþáttum, til dæmis svarta.
Eitt af af því sem áróðurinn víða á sameiginlegt, er að í honum birtast efasemdir um fjölmenningarsamfélagið og alþjóðavæðingu. Sumir virðast fyllast hatri og hræðslu við það eitt, að innflytjendur flytji inn í samfélög sem lengst af hafa verið fremur einsleit.
Ítarleg er fjallað um málið á Kjarninn.is og í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Í kvöld, föstudaginn 22. mars, verður sannkölluð rokkveisla á Gauknum, þar sem boðið verður upp á skothelda blöndu af harðkjarnarokki, dauðarokki, grænd og grúvi.
Þannig má búast við „tudda“, „pung“ og beittum húmor þegar sveitin Gamli treður upp. Sveitirnar Moronic, Devine Defilement og Camino stíga einnig á svið svo vænta má mikils fjörs.
Í nýjasta tölublaði Mannlífs er rætt við manninn sem greindist fyrstur Íslendinga með mislinga í febrúar.
Eiríkur Brynjólfsson var í fríi á Filippseyjum þegar hann smitaðist af mislingum. Óafvitandi um smitið flaug hann heim, kom til landsins með vél Icelandair þann 14. febrúar og fór til Egilsstaða með Air Iceland Connect daginn eftir. Nokkrir af samfarþegum hans smituðust. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan og veltir fyrir sér hvað hafi misfarist þegar hann átti með réttu að fá þessar sprautur.
„Ég tók fyrst eftir þessu á höndunum á mér, fann að ég var orðinn ansi veikur, enda treysti ég mér ekki lengur til þess að fara út úr húsi. Daginn eftir var ég svo orðinn enn veikari og útbrotin farin að færast í aukana og þá hætti mér nú aðeins að lítast á blikuna. Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast, var mjög slæmur í maganum og staulaðist á salernið, en lenti svo bölvuðu basli með að komast aftur til baka inn í rúm,“ segir Eiríkur.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens var að senda frá sér nýtt lag sem ber heitið „Velkomin”.
„Lagið fjallar um kærleik og að við þurfum ekki að óttast flóttafólk,“ segir Bubbi sem vinnur nú hörðum höndum að nýrri plötu. Platan hefur fengið nafnið Regnbogans stræti og mun lagið Velkomin vera á þeirri plötu.
Platan er væntanleg í júní eða júlí og bíða margir spenntir eftir henni.
Eiríkur Brynjólfsson kom með mislingasmit til Íslands. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan. Hann sagði sögu sína í viðtali við Mannlíf.
„Það er auðvitað mjög leiðinlegt að heyra um smitaða einstaklinga, sérstaklega börn, en ég get ekki áfellst sjálfan mig fyrir það þar sem ég var viss um að ég væri bólusettur fyrir mislingum.“
Hann bendir á að hann hafi áður farið í ferðalög og þá fengið bólusetningar fyrir lifrarbólgu og fleiri sjúkdómum en minnist þess ekki að þetta hafi komið til umræðu. „Það getur vel verið að ég hafi verið spurður, sem ég minnist ekki, en þá hefði ég örugglega sagst vera bólusettur, því ég stóð í þeirri trú. En þegar maður býr í svona litlu landi og fámennu samfélagi þá kannski gerir maður ráð fyrir því að við séum öll á sama stað hvað þetta varðar og er ekkert að velta þessu fyrir sér. Lifir svona í smásjálfsblekkingu með þetta sem er auðvitað ekki gott,“ segir Eiríkur í viðtali við Mannlíf sem kom út á föstudaginn.
Íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir einhverjum mestu áskorunum síðan á árunum eftir hrun.
Nagandi óvissa í flugrekstri
Framtíð WOW air hefur hangið á bláþræði í allan vetur. Samningaviðræður um yfirtöku Indigo Partners hafa staðið yfir í mánuði en gangi þær ekki upp og enginn kemur félaginu til bjargar er einungis tímaspursmál hvenær WOW leggur upp laupana. Félagið flutti 160 þúsund farþega í fyrra en ljóst er að þeir verða færri í ár vegna minnkandi umsvifa félagsins. Icelandair skilaði sömuleiðis miklu tapi í fyrra og til að bæta gráu ofan á svart neyddist félagið til að kyrrsetja þrjár Boeing 737 MAX-vélar sem áttu að spila stórt hlutverk í leiðakerfi félagsins í framtíðinni.
Þrengir að ferðaþjónustunni
Minna sætaframboð til landsins er ávísun á enn frekari fækkun ferðamanna en nú er í kortunum. Í janúar komu 5,8 prósent færri ferðamenn til landsins en á sama tíma í fyrra og nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu var 7 prósentustigum minni. Fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu hafa verið tíðar að undanförnu, hvort sem um ræðir hótel, bílaleigur eða hópferðafyrirtæki. Þar spilar sterkt gengi krónunnar hlutverk en hún hefur, þrátt fyrir allt mótlætið í atvinnulífinu, verið að styrkjast fremur en hitt.
Verkfallshrina að hefjast
Flest af stóru verkalýðsfélögum landsins hafa slitið kjaraviðræðum og bættust iðnaðarmenn og Starfsgreinasambandið í hópinn um helgina. VR og Efling hafa boðað verkfallshrinu næstu vikur og hafa þau kosið að beina spjótum sínum að ferðaþjónustunni fyrst um sinn. Hafa félögin boðað tímabundin verkföll í mars og apríl og svo ótímabundna vinnustöðvun frá 1. maí verði ekki samið fyrir þann tíma. Ekkert þokast í viðræðum á milli deiluaðila og átökin hafa farið harðnandi ef eitthvað er.
Loðnan hverfur
Eins og vandræðin í þjóðarbúinu hafi ekki verið næg fyrir tók loðnan, einn mikilvægasti nytjafiskur þjóðarinnar, upp á því að láta sig hverfa þannig að Hafrannsóknarstofnun sér ekki tilefni til að gefa út loðnukvóta í ár. Útflutningsverðmæti loðnu í fyrra námu 17,8 milljörðum króna sem jafngildir 0,6 prósent af landsframleiðslu. Aflabresturinn mun koma sérstaklega illa við bæjarfélög á landsbyggðinni, einkum á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum.
Krafan er að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þá hafa yfir 4 milljón manna ritað nafn sitt í undirskriftasöfnun sem biðla til forsætisráðherrans, Theresu May, um að hætt verði við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þessi mynd frá Reuters um fólk á götum London borgar segir meira en þúsund orð um stöðuna í Bretlandi.
Undanfarna daga hefur algjör óreiða ríkt í breskum stjórnmálum líkt og síðustu misseri. May biðlaði til ESB um að Bretar fengju frest til að ganga formlega út til 1. júní. Samkvæmt áætlun átti útganga að fara fram næsta föstudag 29. mars. ESB samþykkti að frest til 22. maí en þar sem kosningar fara fram í Evrópusambandinu í lok maí var ekki vilji til þess að gefa lengri frest.
Stefna May er að leggja samning sinn við ESB um útgöngu í þriðja sinn fyrir breska þingið og fá samþykkt nauðsynleg lög vegna útgöngunnar, en margar lagalegar flækjur hafa skapast. Mun þessi órói valda því að May boðar aðra þjóðaratkvæðagreiðslu? Að minnsta kosti virðist pólitíkin ekki geta leyst úr málinu, en ólíklegt er að þingið samþykki samninginn nú nema að örvænting hafi gripið um sig enda hefur hann nú þegar tvisvar hefur verið felldur. Því er erfitt að sjá aðra lausn fyrir May en að gefa eftir kröfuna um þjóðaratkvæðagreiðslu, nema þá að ganga út án samnings. Í öllu falli eru mótmælin í dag til marks um þann óróa sem ríkir hjá bresku þjóðinni og athyglisvert verður að fylgjast með framvindunni.
Í umfjöllun sinni um erlend málefni, einkum málefni er tengjast innflytjendum og Evrópusambandinu, vísar Útvarp Saga ítrekað til miðla sem hafa orð á sér fyrir að birta falsfréttir eða gefa mjög brenglaða mynd af raunveruleikanum. Sumir þessara miðla hafa bein sambönd við öfgahreyfingar eða stjórnmálaflokka sem reka harða innflytjendastefnu. Hér á eftir má finna lýsingu á nokkrum af þeim miðlum sem Útvarp Saga hefur vísað til.
Voice of Europe er lýst sem öfgahægrisinnuðum miðli, áróðurskenndum, fjandsamlegum í garð múslima og uppfullum af samsæriskenningum. Eignarhaldið er óljóst en vefurinn miðlar fréttum úr evrópskum fjölmiðlum og afvegaleiðir og setur þær þannig fram að „þær koma alltaf illa út fyrir innflytjendur og Evrópusambandið“, að því er segir á mediabiasfactcheck.com.
Neonnettle.com er bresk vefsíða af sama meiði. Ritstjórar mediabiasfactcheck.com mæla með að netnotendur síðunnar setji upp álhatta áður en þeir skoða síðuna enda uppfull af samsæriskenningum, falsfréttum og gervivísindum.
Breitbart.com var áður stýrt af Steve Bannon, einum helsta fylgismanni Donald Trump, og hefur verið eitt helsta flaggskip öfgahægrihreyfingarinnar (e. alt right movement) undanfarin ár. Síðan er sögð öfgafull og „fréttir“ hennar hafa margoft verið hraktar.
Sputnik er þekktur rússneskur áróðursvefur sem, auk þess að þjóna tilgangi rússneskra stjórnvalda, ýtir undir hvers kyns samsæriskenningar sem kasta eiga rýrð á pólitíska andstæðinga sína sem eru frjálslynd öfl í Bandaríkjunum og Evrópu.
24nyt.dk er dönsk fréttasíða sem tekur fréttir hefðbundinna fjölmiðla og skrumskælir í þeim tilgangi að sýna innflytjendur í neikvæðu ljósi. Miðillinn hefur margoft orðið uppvís að því að birta falskar fréttir. Samkvæmt dönskum fjölmiðlum var 24nyt fyrsti miðillinn sem gerði út á falsfréttir.
Samhällsnytt, Fridatider og Nyheter Idag eru þeir þrír miðlar sem reglulega eru kenndir við falskar fréttir í Svíþjóð. Samkvæmt rannsókn Oxford Internet Institute voru þessir þrír miðlar leiðandi í framleiðslu „ruslfrétta“ í aðdraganda þingkosninganna í fyrra. Síðurnar eiga það sammerkt að ala á ótta gagnvart innflytjendum og draga taum Svíþjóðardemókrata.
Frá því að mislingafaraldur hófst hér á landi í febrúar hefur margt fólk velt því fyrir sér hvort að það hafi verið bólusett á sínum tíma. Hér áður fyrr voru bólusetningar skráðar á bólusetningarskírteini sem fólk þurfti að passa upp á. En í dag eru bólusetningar skráðar rafrænt og á undanförnum mánuðum hefur mikil vinna verið lögð í að bæta rafrænt skráningarkerfi heilsugæslunnar.
„Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að fólk er í góðri trú um að hlutirnir séu í lagi þegar þeir eru það ekki,“ svarar Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir aðspurður hvernig það gerist að fólk haldi að það sé bólusett þegar það er það ekki.
„Fyrir árið 2000 þá voru allar bólusetningar skráðar í ónæmiskort, svona bólusetningarskírteini. Og það var mælt með að fólk myndi geyma það. En fólk týnir þessu og heldur bara að það hafi farið í allar bólusetningar,“ segir hann.
„Og þegar skírteinið er týnt þá getur verið erfitt að nálgast þessar upplýsingar. Hér áður fyrr var þetta bara geymt á pappír á heilsugæslustöðvum og læknastofum og svo sett í geymslu sem erfitt getur reynst að nálgast. Það var engin miðlæg skráning.
Hér áður fyrr var þetta bara geymt á pappír á heilsugæslustöðvum og læknastofum og svo sett í geymslu sem erfitt getur reynst að nálgast. Það var engin miðlæg skráning.
Upp úr aldamótunum var farið í að skrá upplýsingar um bólusetningar rafrænt. En þeir sem fóru í bólusetningar fyrir þann tíma eru ekki í þessum gagnagrunni, nema í undantekningartilfellum. Við höfum verið að hvetja heilbrigðisstarfsfólk til að færa eldri bólusetningar inn í kerfið en það er seinlegt og það vantar mannafla.“
Þegar Þórólfur er spurður út í hvað fólk ætti að gera vilji það ganga úr skugga um að það sé bólusett án þess að hafa aðgang að upplýsingum um bólusetningar segir hann: „Ef fólk er efins þá eru tveir möguleikar í stöðunni. Það er hægt að mótefnamæla fólk til að sjá hvort það sé með mótefnið í blóðinu. Og svo er hægt að bólusetja það aftur, það er einfaldari, fljótlegri og ódýrari kostur.“
Þórólfur tekur þó fram að það séu takmörk fyrir því hvað sé hægt að bólusetja marga hverju sinni. „Það getur gerst, líkt og á stundum eins og núna, að það sé hreinlega ekki til nógu mikið bóluefni í þessum flokki til að bólusetja stóran hóp fólks,“ útskýrir Þórólfur.
„En langflestir sem eru fæddir eftir 1970 eru bólusettir. Þannig að eins og staðan er núna er óþarfi að stökkva til læknis og láta bólusetja sig ef maður er óviss. En þeir sem eru sannarlega vissir um að þeir hafi ekki fengið bólusetningu á sínum tíma ættu að láta bólusetja sig. Sömuleiðis má fullyrða að flestir sem fæddir eru fyrir 1970 hafi fengið mislinga þó að þeir muni ekki eftir því. Mislingar eru gríðarlega smitandi og fáir sluppu á þessum tíma.“
Vandamálið tæknilegs eðlis
Sjö tilfelli mislinga hafa greinst frá því að mislingafaraldur hófst hér á landi í febrúar. Einungis einn af þessum sjö hefði átt að vera bólusettur samkvæmt því fyrirkomulagi bólusetninga sem hér ríkir. Þórólfur segir vandamálið því ekki snúast um það að fólk vilji ekki láta bólusetja börnin sín heldur frekar vera tæknilegs eðlis.
Það er ekki hægt að skella skuldinni alfarið á heilbrigðiskerfið ef það gleymist að bólusetja einhvern.
„Það þarf að bæta skráningarnar og innköllunarkerfi heilsugæslunnar. Hingað til hefur innköllunarkerfið á heilsugæslunni ekki verið nægilega gott og það hefur verið erfitt að nálgast upplýsingar um þá sem hafa ekki mætt í bólusetningu. En auðvitað þarf fólk líka að bera ábyrgð á sínum bólusetningum. Það er ekki hægt að skella skuldinni alfarið á heilbrigðiskerfið ef það gleymist að bólusetja einhvern.“
Bætt skráningarkerfi
Aðspurður hvort hann telji þörf á að gera almennar bólusetningar að skyldu segir Þórólfur: „Ég hef auðvitað samúð með þeim sem vilja skylda alla í bólusetningar. En það er bara spurning um þessa nálgun, hvernig á að útfæra þetta? Hver á að fara í einhvern lögguleik og sjá til þess að allir séu bólusettir?“
Þórólfur er hræddur um að bólusetningarskylda gæti haft öfug áhrif og stuðað fólk. „Ég held að við ættum fyrst að bæta skráningar á bólusetningum og innköllunarkerfi heilsugæslunnar. Ef það ber ekki árangur þá er kannski hægt að skoða bólusetningarskyldu. En ég held að það sé betra að gera þetta á jákvæðum nótum með fólki. Þess ber að geta að á undanförnum mánuðum hefur mikil vinna verið lögð í að bæta skráningar- og innköllunarkerfi heilsugæslunnar og er þess vænst að árangurinn muni sjást á næstu misserum.“
Þórólfur tekur fram að þeir einstaklingar sem hafa smitast af mislingum undanfarið tilheyri ekki þeim hóp sem er á móti bólusetningum. „Rannsóknir sýna að um 2% almennings er í raun á móti bólusetningum. Þannig að þegar fólk er ekki bólusett þá er það yfirleitt ekki vegna andstöðu heldur vegna þess að það hefur gleymst að bólusetja það af einhverjum ástæðum eða þá að þetta eru börn sem eru of ung til að fá bólusetningu. Þannig að í þessum tilfellum hefði bólusetningarskylda ekki breytt neinu.“
Bandaríska tónlistartvíeykið Golden State, þ.e. Brantley Gutieemez og Harrisson Kipner, hafa sent frá sér nýtt lag, Kiss it, en það er engin önnur en Þórunn Antonía sem ljær því rödd sína.
„Ég hitti Brantley þegar ég spilaði í fyrsta skipti á tónlistarhátíðinni Coachella í Bandaríkjunum með þáverandi hljómsveitinni minni Fields. Hann stoppaði mig til að mynda mig og við höfum verið vinir í meira en áratug,“ segir Þórunn Antonía þegar hún er spurð hvernig samstarfið hafi komið til en þess má geta að Will Butler sem margir þekkja úr hljómsveitinni Arcade Fire spilar á hljómborð í laginu.
Golden State er nýtt tónlistarverkefni Bandaríkjamannanna Brantley Gutieemez og Harrisson Kipner. Þeir félagar hafa komið víða við en Brantley er einnig ljósmyndari og leikstjóri og hefur unnið með fólki eins og Diplo, Paul McCartney og Emmu Stone. Harrisson sendi hins vegar nýlega frá sér plötuna Rackets sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Þetta nýja lag þeirra, Kiss it þykir vera töff, hresst og grípandi og söngur Þórunnar til fyrirmyndar. Hægt er að hlusta á það á Albumm.is.
Hvernig má vera að íslensk manneskja fædd árið 1983 komist á fertugsaldur án þess að í hana hafi verið hnippt og henni bent á að hún sé ekki bólusett fyrir mislingum? Eiríkur Brynjólfsson sem er í forsíðuviðtali í þessu tölublaði, vissi ekki betur en að hann hefði fengið allar bólusetningar sem barn enda er hann fylgjandi þeim og hefur, eins og svo margir aðrir, hvatt fólk til að sýna ábyrgð í þessum efnum.
Þegar fréttir um að mislingasmitandi einstaklingur hefði verið um borð í flugvélum Icelandair og Air Iceland Connect um miðjan febrúar síðastliðinn greip um sig skelfing. Börn undir 18 mánaða aldri sem sannarlega voru enn ekki bólusett fyrir mislingum voru í mestum áhættuhópi enda kom á daginn að nokkur börn á þessum aldri fengu mislinga. Umræðan sem fór af stað meðal fullorðins fólks er þó öllu athyglisverðari. Margir höfðu ekki hugmynd um hvort þeir hefðu verið bólusettir og upplýsingar um það lágu ekki á lausu. Það rann upp fyrir fólki sem ávallt hefur verið fylgjandi öllum bólusetningum að mögulega væri það ekki bólusett. Farið var í mikla leit að bólusetningaskírteinum og haft samband við heilsugæslur og starfsfólk þeirra fengið til að grafa upp gamlar sjúkraskýrslur. Sumir fengu svör, voru fullbólusettir, höfðu fengið eina bólusetningu en áttu eftir að fá aðra og sumir voru bara alls ekki bólusettir meðan upplýsingar um enn aðra fundust ekki.
Mikið er lagt upp úr bólusetningum í ungbarnavernd og foreldrar hvattir til að láta bólusetja börnin sín, sem flestir og gera. Þar sem flestir sjúkdómanna sem bólusett er fyrir eru okkur víðsfjarri þá vill gleymast að sprautur fyrir sumum þeirra þarf að endurnýja reglulega og fólk stundum fyrst meðvitað um þetta þegar það ætlar að ferðast til fjarlægra landa og þarf að fá svokallaðar ferðamannabólusetningar. Þar fær fólk meðal annars búst gegn mænusótt, stífkrampa, kíghósta og barnaveiki, sprautur gegn lifrarbólgu A og B, taugaveiki, berklum og hundaæði, svo eitthvað sé nefnt. Við þessar aðstæður, af hverju ætli fólki sé ekki boðið að vera bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt ef hvergi finnast upplýsingar um að viðkomandi hafi fengið þessar sprautur?
Þeir sem hafna bólusetningum eru svo sérkapítuli út af fyrir sig og umhugsunarvert hvort setja ætti slíkt í lög líkt eins og gert er sums staðar í heiminum. En það er áhyggjuefni að þeir sem sannarlega vilja bólusetningar, hafi þær ekki vegna, að því er virðist, ónægrar eftirfylgni og eftirlits yfirvalda.
Verklok vegna viðbyggingar Klettaskóla tefjast fram á sumar.
Á vordögum á síðasta ári var ný sundlaug tekin í notkun í Klettaskóla (áður Öskjuhlíðarskóla). Skömmu síðar fóru loftplötur að falla niður í laugina. Atvikin gerðust á kvöldin og um helgar og voru rakin til galla í loftræstikerfi sem slökkti á sér. Við það steig mikill raki til lofts sem loftplöturnar drukku í sig. Við nánari athugun kom í ljós að plöturnar sem notaðar voru stóðust ekki kröfur og hefur þeim nú verið skipt út. Þeim viðgerðum lauk í síðasta mánuði.
Aðspurður um hvers vegna úrbætur á lofti sundlaugarinnar hafi tekið svo langan tíma svarar Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar, skriflega til Mannlífs að upphaflega hafi verið talið að vandamálið stafaði eingöngu af bilun í loftræstikerfi sem átti það til að stöðvast.
Síðan versnaði ástandið eftir því sem loftræstikerfið datt oftar út. Það má e.t.v. segja að það hafi verið lán í óláni að loftræstikerfið bilaði því annars hefði ekki komið í ljós svona fljótlega að loftklæðningin var óhentug fyrir rýmið.
„Því var reynt að lagfæra það fyrst en það reyndist vera snúið. Síðan kom í ljós að klæðning í lofti (loftplötur) hentaði einfaldlega ekki í sundlaugarrými þar sem plöturnar voru of rakadrægar. Það fór að bera á vandamálinu fljótlega eftir að sundlaugin var tekin í notkun í byrjun apríl á síðasta ári. Síðan versnaði ástandið eftir því sem loftræstikerfið datt oftar út. Það má e.t.v. segja að það hafi verið lán í óláni að loftræstikerfið bilaði því annars hefði ekki komið í ljós svona fljótlega að loftklæðningin var óhentug fyrir rýmið. Skipt var um klæðningu nú í febrúar og loftræstikerfið lagað,“ segir hann. Verktakinn Ístak og söluaðili loftplatnanna taka ábyrgð á gallanum og greiða kostnaðinn við viðgerðirnar.
Kostnaður liggur ekki fyrir
Sundlaugin er þjálfunar- og kennslulaug og er hluti af framkvæmdum við þriðja áfanga skólans. Klettaskóli hét áður Öskjuhlíðarskóli og er sérskóli á grunnskólastigi sem þjónar öllu landinu. Hann var byggður í tveimur áföngum árin 1974 og 1985 en framkvæmdir við nýju viðbygginguna hófust á vormánuðum 2015. Samhliða þeim hafa verið gerðar umfangsmiklar endurbætur á gamla skólanum. Með nýju viðbyggingunni má gera ráð fyrir umtalsverðum breytingum á starfsemi skólans þar sem áhersla er lögð á bætt aðgengi og þjónustu við fatlaða nemendur en í skólanum er aðstaða fyrir 80-100 nemendur.
Í nýju viðbyggingunni norðvestan við núverandi skóla eru einnig hátíðar- og matsalur, íþróttasalur og félagsmiðstöð. Þá er leiksvæði á lóð endurgert með það fyrir augum að það henti fötluðum nemendum. Um er að ræða aldursskipt leiksvæði með láréttum flötum í mismunandi hæð og góðum tengingum á milli. Framkvæmdum er enn ekki lokið en áætluð verklok voru í ágúst á síðasta ári og heildarkostnaður var áætlaður 2.600 milljónir kr.
Það geta alltaf komið upp viðbótarframkvæmdir eða eitthvað óvænt þar sem verið er að gera upp.
Bjarni segir að heildarkostnaður við framkvæmdirnar liggi ekki fyrir að svo stöddu enda sé frágangi ekki lokið og kostnaður muni því ekki endanlega koma í ljós fyrr en í sumar. Hann segist ekki geta sagt til um það hvort um framúrkeyrslu sé að ræða „enda liggja tölurnar ekki fyrir vegna þess að verkinu er ekki lokið. Það geta alltaf komið upp viðbótarframkvæmdir eða eitthvað óvænt þar sem verið er að gera upp. Og þá er gerð grein fyrir því og einfaldlega bætt við fjármagni til að dekka það með samþykktum.“
Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Aron Einar Gunnarsson og Ólafur Ísleifsson sem eru hinir útnefndu.
Góð vika
Aron Einar Gunnarsson
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson tilkynnti í vikunni að hann væri búinn að skrifa undir samning við Al-Arabi í Katar, lið Heimis Hallgrímssonar. Vissulega munu aðdáendur enska boltans sakna þess að sjá Aron Einar spila á meðal þeirra bestu en fyrir Aron er þetta rökrétt skref. Ekki bara gefa samningar í Mið-Austurlöndum vel í aðra hönd heldur mun álagið léttast til muna. Aron hefur sjálfur sagt að löng vera í ensku B-deildinni hafi tekið mikið á skrokkinn og með þessum vistaskiptum ætti hann að geta framlengt landsliðsferilinn. Svo er bara að vona að Aron toppi góða viku með stórleikjum gegn Andorra og Frakklandi.
Slæm vika
Ólafur Ísleifsson
Í Klaustursupptökunum frægu mátti heyra Ólaf Ísleifsson segja að það væri „augljós markaður“ fyrir rasísk sjónarmið á Suðurlandi og ef marka má málflutning Ólafs í vikunni hefur þessi nýjasti liðsmaður Miðflokksins augastað á forystusæti í því kjördæmi. Ólafur fór ekki leynt með vandlætingu sína á mótmælum hælisleitenda á Austurvelli og sagði að það ætti að „senda þetta fólk úr landi med det samme“. Hann tók þessa stemningu með sér inn á Alþingi þar sem hann fann mótmælendum, þjóðkirkjunni og Reykjavíkurborg allt til foráttu en fékk einungis fuss og svei til baka frá kollegum sínum á þingi.
„Sýningin er fjölbreytt og gefur góða mynd af fréttaatburðum síðastliðins árs sem og þeim margbreytilegu verkefnum sem íslenskir blaðaljósmyndarar fást við,“ segir Kristinn Magnússon, ljósmyndari á Morgunblaðinu, og formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands.
Sýningin er fjölbreytt og gefur góða mynd af fréttaatburðum síðastliðins árs.
Á sýningunni verða 106 myndir frá liðnu ári sem valdar voru af óháðri dómnefnd úr 840 innsendum myndum íslenskra blaðaljósmyndara en það voru 26 ljósmyndarar sem sendu inn myndir. Myndunum er skipt í sjö flokka sem eru fréttamyndir, myndir úr daglegu lífi, íþróttamyndir, portrettmyndir, umhverfismyndir, tímaritamyndir og myndraðir. Í hverjum flokki valdi dómnefndin bestu myndina eða myndröðina og ein mynd úr fyrrnefndum flokkum var svo valin sem mynd ársins. Yfirmaður dómnefndar var að þessu sinni Mads Greve, kennari við Danmarks Medie- og Journalisthøjskole.
„Um leið og verðlaunin hafa verið veitt verður opnuð glæsileg ný heimasíða Mynda ársins. Þar verða allar myndir sem voru valdar fyrir árið 2018 auk mynda frá fyrri árum. Sýningin stendur til 4. apríl og ég hvet alla að leggja leið sína í Smáralind til þess að skoða þessar flottu ljósmyndir.“
Sífellt fleiri hönnuðir og framleiðendur eru farnir að leggja áherslu á vistvænar og sjálfbærar lausnir.
Egaleo frá USEE STUDIO
Nýjasta lína hönnunarstofunnar USEE STUDIO hefur litið dagsins ljós og er eins og fyrri verk þeirra unnin út frá róttækum og sjálfbærum sjónarmiðum. Línan ber nafnið Egaleo og samanstendur af prentverkum, flíkum, skartgripum og sundfatnaði. Flíkurnar eru unnar úr rekjanlegri lífrænni bómull og efnum nýttum úr gömlum efnalagerum. Hugmyndin að línunni kviknaði í vinnuferð stofunnar til Aþenu síðastliðið vor en þar uppgötvuðu þær að borgin hefði að geyma töluvert af efna- og fatalagerum sem hafa staðið óhreyfðir til fjölda ára. USEE STUDIO leggur mikla áherslu á að framleiða vörur á eins umhverfisvænan og mannúðlegan máta og mögulegt er. Stofan setur sér engin takmörk og er hugmyndasköpun látin ráða för og nýjum tækifærum ávallt tekið opnum örmum.
Mottur úr pálmaleðri
Hollenski hönnuðurinn Tjeerd Veenhoven hefur kynnt til leiks skemmtilegar mottur unnar úr pálmalaufum sem ættu að höfða til allra, enda bæði vegan og vistvænn kostur. Þunnum efnisræmum er raðað saman upp á rönd og gefur það mottunum skemmtilega áferð og mynstur og þær eru mjúkar að ganga á. Hönnuðurinn varði miklum tíma í efnisrannsóknir og leitaðist við að auka sveigjanleika pálmalaufanna sem honum tókst með aðstoð glýseríns og vatns. Motturnar eru framleiddar í verksmiðju í Dóminíska lýðveldinu sem hefur stranga gæðastaðla og græna hugsun að leiðarljósi.
Fjölnota kaffihylki úr ryðfríu stáli
Vitundarvakningin er alltaf að verða meiri og meiri og það ætti líka að eiga við kaffidrykkju en meginþorri þjóðarinnar drekkur kaffi og ófáir hafa fjárfest í kaffivélum sem notast við hylki. Hylkin eru lengi að brotna niður í náttúrunni þó að vissulega séu komnir umhverfisvænni kostir á markað. Áfyllanleg og margnota kaffihylki ættu notendur slíkra kaffivéla þó að kynna sér! Þau eru úr ryðfríu stáli og því hægt að nota aftur og aftur um ókomna tíð. Umhverfisvæn kaffihylki og þú ert laus við öll tómu plasthylkin. Þú sparar bæði tíma, peninga og hugsar betur um náttúruna í leiðinni og ekki skemmir fyrir að þú velur þitt eftirlætiskaffi í uppáhellinguna. Fjölnota kaffihylkin fást meðal annars í vefversluninni Mistur og henta í margar gerðir kaffivéla, svo sem Nespresso og Sjöstrand.
Burt með plastbrúsana
Sápustykki eru inn! Nú eru verslanir á Íslandi í auknum mæli farnar að bjóða upp á fjölbreytt úrval af sápustykkjum í allskonar stærðum og gerðum. Fólk er eflaust mistilbúið að segja skilið við sjampó- og sápubrúsana en fallegar sápur og ekki síður vel ilmandi geta verið prýði.
Ódýr og góð leið til þess að færa sig örlítið nær umhverfisvænni lífsstíl. Sápustykki er hægt að nota fyrir hendur, andlit og líkama og innihalda þær iðulega góðar olíur eins og ólífuolíu og ilmkjarnaolíur og fleiri náttúruleg efni sem kemur jafnvægi á húðina. Við á ritstjórninni höfum prófað sjampóstykki og höfum góða reynslu af og svo duga þær líka lengi. Lykilatriði er að leyfa sápunni að þorna inn á milli og hægt er að fá smart sápudiska sem sjá til þess. Fersk og endurnærandi leið sem hreinsar vel og gefur raka og næringu!
Hugleikur Dagsson er um þessar mundir að undirbúa sig fyrir sinn stærsta uppistandatúr til þessa, Son of the Day sem verður brot af því besta sem hann hefur verið að gera síðustu fimm ár. Í tilefni af túrnum heldur hann eina sýningu hér heima, á Kex þann 5. apríl næstkomandi.
Líkamsvessar, Tinder, Star Wars og fegurðardrottningar eru á meðal þess sem grínistinn Hugleikur Dagsson ætlar að taka fyrir í uppistandstúr um heiminn. „Við byrjum í Búdapest og tökum restina af Austur-Evrópu. Síðan förum við til Berlínar, Brussel, Amsterdam og Vínar. Við ljúkum ferðinni á Norðurlöndunum með hápunkti í Helsinki þar sem ég verð með þrjár sýningar sem ég mun láta taka upp. Ætlunin er að klippa saman svokallaðan „stand-up special“ og selja hann á einhverja streymisveitur, verða heimsfrægur og deyja ríkur,“ segir Hugleikur um túrinn.
Uppistandinu má lýsa sem broti af því besta sem Hugleikur hefur gert síðastliðin fimm ár, en hann hefur nú fengist við uppstand í tíu ár og segir að upphaflega hafi hann ekki getað hugsað sér að fara út í það. „Fyrir svona tíu árum sagði ég: „Uppistand er eitthvað sem ég mun aldrei prófa! Enda er ekkert óhugnanlegra en að standa á sviði og reyna að vera fyndinn. Hvað ef það misheppnast? Það væri mannleg eymd í sinni hreinustu mynd.“ En svo krafðist Ari Eldjárn þess að ég prófaði, sem ég gerði og það tókst. Síðan þá hef ég verið háður þessu frásagnarformi.“
Fyrir svona tíu árum sagði ég: „Uppistand er eitthvað sem ég mun aldrei prófa!“
Hann segir að ekkert sé betra en að vera á sviði og drekka í sig viðbrögðin. Að í raun sé það eini tíminn sem honum finnist hann hafa einhverja stjórn, en að sama skapi kvíði hann fyrir hverju „giggi“. „Mannssálin er bara ekki byggð fyrir þetta kjaftæði. Samt gerir maður þetta út af einhverri viðurkenningarfíkn, því um leið og maður nær fyrsta hlátrinum þá hverfur kvíðinn og maður sörfar hláturinn eins og brimbrettakappi. Þetta er spurning um að halda dampi og trúa á efnið sitt.“
Öfundar engan
Spurður út í eftirminnilegt uppistand, segir hann svolítið erfitt að svara því þar sem hann fari oft hreinlega í blakkát á sviði. „Ég er byrjaður að hljóðrita giggin mín svo ég geti hlustað á það sem ég sagði. Margir góðir brandarar fæðast nefnilega á sviði og það er glatað að muna þá ekki eftir á.“
Við nánari umhugsun segist Hugleikur reyndar muna eftir nokkrum sérkennilegum „giggum“. „Já, ég lenti til dæmis í því á skemmtun úti á landi að það fór einn að tuða og ég svaraði honum svo svakalega að hann bara lét sig hverfa. Bæjarbúar voru afar ánægðir enda höfðu þeir í nokkur ár hugsað honum þegjandi þörfina.“ Hugleikur segir að uppákomur af þessu tagi tengist oftast árshátíðum þar sem einhver drukkinn karl í salnum fari að reyna að skjóta á hann. „En viðkomandi gleymir þá alveg að ég er bæði atvinnugrínisti og með míkrófón,“ bætir hann við kíminn.
En hvaða eiginleikum þarf góður uppistandari að búa yfir?
„Góður uppistandari þarf að tileinka sér góða vinnusiðfræði,“ svarar hann og segist í því samhengi fara eftir þeirri reglu Conans O’Brien að vera duglegur og góður.
„Ég hef tamið mér að láta aðra grínista ekki fara í taugarnar á mér, það skiptir máli. Og öfundaðu engan. Notaðu velgengni annarra sem fyrirmynd og vertu þú sjálfur. Það sést langar leiðir þegar grínisti er að reyna að vera eins og einhver annar. Samband grínista við sal skiptir öllu máli. Aldrei fara í vörn ef fólk fattar ekki eitthvað, það er ekki því að kenna heldur þér. Ef maður temur sér ákveðna blöndu af hógværð og kæruleysi verður maður ósigrandi.“
Notaðu velgengni annarra sem fyrirmynd og vertu þú sjálfur.
22 gigg í 18 borgum
Eins og áður sagði fer Hugleikur bráðlega í einn stærsta uppistandstúr sem Íslendingur hefur farið í. Túrinn ber heitið Son of the Day sem er þýðing á eftirnafni Hugleiks, Dagsson eða sonur Dags, og hefst 11. apríl. „Réttara hefði verið að segja Son of Day en Son of „the“ Day er einhvern veginn tilgerðarlegra og þess vegna valdi ég það. Var í smástund að spá í að kalla sýninguna Mindgame en það hljómar eins og ég sé að reyna að vera kúl. Og það er ekkert minna kúl en að reyna að vera kúl. Það er hins vegar mjög ótilgerðarlegt að reyna að vera tilgerðarlegur.“
Með í för verða vinur hans, ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem hitar upp og Rakel Sævarsdóttir, umboðsmaður Hugleiks. „Ég tilkynnti einfaldlega fylgjendum mínum á Netinu að ég væri ekki bara teiknari heldur uppistandari líka og ef einhver vildi bóka mig mætti endilega hafa samband. Fyrr en varði vorum við búin að bóka 22 gigg í 18 borgum,“ segir hann glaðlega.
Vefur Útvarps Sögu hefur margoft endurbirt efni af síðum sem birta falskar og skrumskældar fréttir sem ætlað er að kasta rýrð á innflytjendur. Sænskur sérfræðingur segir umræddar síður grafa undan stofnunum lýðræðisins og kynda undir fordómum.
Uppgangur öfgasinnaðra afla í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar hefur haldist í hendur við útbreiðslu fjölmiðla á Netinu sem dreifa hatursfullum boðskap, setja á flot samsæriskenningar og falsa eða skrumskæla fréttir í þeim tilgangi að kynda undir hatri gagnvart minnihlutahópum.
Í sumum Evrópulöndum hafa þessi fyrirbæri, sem oft eru tengd nánum böndum, náð fótfestu og þó nokkurri útbreiðslu, ekki síst með stóraukinni notkun samfélagsmiðla og á síðustu árum hefur hugtakið „falsfréttir“ bæði orðið að raunverulegu vandamáli og er ofnotaður frasi stjórnmálamanna og fylgitungla þeirra.
Ísland hefur fram til þessa verið að mestu laust við þessi fyrirbæri. Þeim flokkum sem hafa boðið sig fram undir merkjum útlendingahaturs hefur verið fálega tekið og íslenskir fjölmiðlar hafa sniðgengið fréttamiðla sem þessa. Undantekningin er þó vefur Útvarps Sögu þar sem ítrekað eru birtar fréttir sem vísa í umfjöllun öfgasinnaðra miðla sem breiða út kynþáttahyggju og samsæriskenningar.
Þetta eru miðlar eins og Friatider, Samhällsnytt, Nya Tider og Nyheter Idag í Svíþjóð. Þannig hefur á vef útvarpsstöðvarnnar birst fjöldi greina þar sem ýjað er að því að Svíþjóð sé í heljargreipum innflytjenda og að þar ríki viðvarandi neyðarástand. Annars staðar er sótt í smiðju öfgahægrisins í Evrópu með hefðbundnum samsæriskenningum um George Soros, Evrópusambandið og afneitun vísindalegra niðurstaðna, einkum er varðar loftslagsmál. Vefurinn fer heldur ekki leynt með aðdáun sína á stjórnmálamönnum á borð við Donald Trump og Viktor Orban.
Leiðandi í framleiðslu „ruslfrétta“
Rannsókn sem gerð var fyrir þingkosningarnar í Svíþjóð í fyrra sýndi að ein af hverjum þremur fréttum sem dreift var á samfélagsmiðlum í aðdraganda kosninganna hafi verið svokallaðar „ruslfréttir“ (e. junk news). 86 prósent þessara frétta komu frá Samhällsnytt, Fria Tider og Nyheter Idag.
Til að bregðast við fréttaflutningi af þessu tagi hafa fjölmiðlar og önnur samtök tekið að sér það verkefni að staðreyna sannleiksgildi frétta. Þar eru umræddir jaðarmiðlar fyrirferðarmiklir. Åsa Larsson, blaðamaður Metro sem staðreynir fréttir undir merkjum Viralgranskaren, kannast vel við málefni Friatider.
„Þetta er hægri síða sem skrifar mikið um innflytjendur. Þeir eru hluti af róttæku hægri hreyfingunni og hafa tengsl við jaðarhóp sem kallar sig Granskning Sverige og hefur ráðið fólk til að áreita blaðamenn, stjórnmálamenn og fleiri. Þeir eru ónákvæmir, við höfum margoft farið yfir fréttir þeirra og sýnt fram á að þeir snúa út úr frásögnum hefðbundinna miðla. Það er hins vegar ekki hægt að afskrifa allt sem þau skrifa byggt á því hver þau eru, það þarf að sannreyna allar fullyrðingar.“
Aðgerðasinnar með tilgang
Jonathan Leman, sérfræðingur hjá Expo sem eru samtök sem berjast gegn kynþáttahatri, segir umrædda miðla þjóna tvennum tilgangi. „Annars vegar að sýna innflytjendur í neikvæðu ljósi og kenna þeim um allt sem aflaga fer í samfélaginu. Hins vegar að útmála pólitíska andstæðinga sem svikara og hluta af spilltri elítu. Þetta eru aðgerðasinnar með tilgang.“
Leman segir að þótt tilgangur þessara miðla sé iðulega sá sami, þá sé ekki hægt að setja þá alla undir sama hatt. Sumir miðlanna séu dyggir stuðningsmenn Svíþjóðardemókrata, sem er sá flokkur sem rekur hvað harðasta innflytjendastefnu, á meðan aðrir miðlar séu jafnvel enn lengra til hægri og tengdir Norrænu andspyrnuhreyfingunni sem eru hreinræktuð nýnasistasamtök. Þá séu efnistök miðlanna ólík.
Samhällsnytt keyri til að mynda meira á eigin fréttum sem settar séu fram undir orðræðu hægri popúlisma á meðan NyaTider sé mjög langt til hægri og geri til að mynda mikið úr ætluðu gyðingasamsæri. „Það sem er kannski sérstakt í þessu öllu saman að flestir þessir miðlar gefa sig út fyrir að vera að segja fréttir sem hinir hefðbundnu miðlar þagga niður, samt gera þeir lítið annað en að endursegja fréttir hefðbundnu miðlanna en skrumskæla þær þannig að þær láta innflytjendur líta illa út.“
Þessir miðlar hafa áhrif. Þeir grafa undan trausti á pólitískum stofnunum og hafa kynt undir róttækni og útlendingahatri í samfélaginu.
Auk þess að hafa tengsl við stjórnmála- og öfgahreyfingar í heimalandinu þá hafa þessir fréttamiðlar sambönd við sams konar hópa í Evrópu og víðar. Til að mynda eru margir þessara miðla hallir undir stjórnvöld í Rússlandi og bendir Leman á að útgefandi Nya Tider hafi náin tengsl við Alexandr Dugin, þekktan rússneskan fasista. „Þessir miðlar hafa áhrif. Þeir grafa undan trausti á pólitískum stofnunum og hafa kynt undir róttækni og útlendingahatri í samfélaginu,“ segir Leman.
Örlög WOW air kunna að skýrast á mánudaginn en það er sá tímarammi sem Icelandair og WOW gefa sér til að ljúka viðræðum um aðkomu fyrrnefnda félagsins á því síðarnefnda. Á sama tíma og Indigo Partners gekk frá borði var tilkynnt um að Wizz air, sem er í eigu Indigo, hafi fjölgað flugleiðum til Íslands.
Það dró til tíðinda í lífsbaráttu WOW air í gærkvöldi þegar þriggja mánaða samningaviðræðum um kaup Indigo Partners á WOW air var slitið. Þrjár tilkynningar voru sendar út samtímis í gærkvöldi vegna málsins.
Icelandair sendi tilkynningu til kauphallarinnar um að stjórnin hafi samþykkt að hefja viðræður við WOW um aðkomu að rekstri félagsins. Á sama tíma birti WOW tilkynningu um að viðræðum við Indigo hafi verið slitið um leið og á vef stjórnarráðsins var tilkynnt um viðræður Icelandair og WOW. Segir að félögin stefni á að ljúka samningaviðræðum fyrir mánudag.
Athygli vekur að í tilkynningu Icelandair segir að viðræðurnar fari fram „í samráði við stjórnvöld“ en í vef stjórnarráðsins segir einungis að stjórnvöld muni áfram „fylgjast grannt með framvindunni“. Á þessu er eðlismunur eins og Trausti Hafliðason, ritstjóri Viðskiptablaðsins, benti á í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar vildu lítið tjá sig um málið fyrir ríkisstjórnarfund í morgun en mbl.is hefur eftir Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að málið sé í höndum flugfélaganna.
Barátta Skúla Mogensen hefur verið samfelld rússíbanareið. Hann byrjaði á því að leita til Icelandair og sama dag og þær viðræður fóru út í sandinn kom Indigo að borðinu. Það ferli hófst um miðjan desember og átti að ljúka í lok febrúar en var framlengt um þrjár vikur þegar samkomulag var ekki í höfn.
Á þessum tíma gjörbreyttist staða Icelandair. Félagið tilkynnti um stækkað leiðakerfi og lykillinn af því voru glænýjar Boeing 737 MAX þotur. Hafði félagið þegar fengið þrjár slíkar þotur afhentar og sex til viðbótar voru á leiðinni á næstu viku. Mannskæð flugslys í Indónesíu og Eþíópíu urðu hins vegar til þess að allar vélar af þessari tegund hafa verið kyrrsettar og alls óvíst er hvenær þær fara í loftið aftur. Icelandair bráðvantar þess vegna flugvélar til að halda áætlun sinni.
Það vakti svo athygli í gær að sama dag og Indigo gekk frá samningaborðinu var tilkynnt um að Wizz air, sem er að stærstum hluta í eigu Indigo, ætli að hefja áætlunarflug milli Keflavíkur og Kraká í Póllandi. Þar með verða áfangastaðir Wizz air frá Keflavík orðnir 10 talsins. Trausti velti því upp í Morgunútvarpinu í morgun hvort samningaviðræðurnar hafi aðeins verið yfirskin af hálfu Indigo.
„Bill Franke [eigandi Indigo] er núna með allan íslenska flugheiminn kortlagðan. Hann er búinn að skoða allar bækur. Hann er í kjöraðstöðu. Ef maður ætti að fara út í einhverjar samsæriskenningar þá er hann búinn að draga WOW á asnaeyrunum í fjóra mánuði og endar með að slíta viðræðunum og endar með að fjölga ferðum hjá sínu flugfélagi til Íslands.“
Eiríkur Brynjólfsson var í fríi á Filippseyjum þegar hann smitaðist af mislingum. Óafvitandi um smitið flaug hann heim, kom til landsins með vél Icelandair þann 14. febrúar og fór til Egilsstaða með Air Iceland Connect daginn eftir. Nokkrir af samfarþegum hans smituðust. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan og veltir fyrir sér hvað hafi misfarist þegar hann átti með réttu að fá þessar sprautur.
„Ég var í fríi á Filippseyjum í tæpan mánuð, fór þangað til þess að hitta nýja fjölskyldu, dvaldi einkum í Manila en fór í þónokkrar ferðir út frá borginni,“ segir Eiríkur Brynjólfsson en hann veiktist af mislingum í ferðinni. Eins og fram kemur í inngangi ferðaðist Eiríkur heim til Egilsstaða með Icelandair og síðan Air Iceland Connect um miðjan síðasta mánuð og í kjölfarið smituðust fleiri einstaklingar af þessum stórvarasama sjúkdómi. Heilbrigðisyfirvöld hafa brugðist við meðal annars með því að auka til muna aðgengi að bólusetningum og hvetja fólk til þess að kanna hvort það sé bólusett eða ekki.
Máttlaus með blússandi hita
Eiríkur segir að hann hafi ekki kennt sér nokkurs meins þann tíma sem hann dvaldi á Filippseyjum og hann hafi því ótvírætt ekki smitast fyrr en rétt áður en hann fór heim.
„Það var ekki fyrr en ég var á leiðinni heim sem ég fór að finna fyrir slappleika, en það er mikilvægt fyrir fólk að hafa í huga að maður finnur ekki fyrir einkennum á meðan maður er smitberi, en þá byrjar þetta sem svona frekar meinleysislegir vindverkir. Það var reyndar svona öllu meira en maður á venjast, en ég fann að ég var ekkert voðalega hress, án þess þó að vera eitthvað óskaplega veikur. Daginn eftir að ég kom til Íslands var ég þó orðinn enn slappari en grunaði ekki annað en að ég hefði náð mér í einhverja smáflensu, enda hafði ég heyrt að það væri ein slík í umferð.“
Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast.
Eiríkur rifjar upp að það hafi svo ekki verið fyrr en daginn eftir að hann kom heim til Egilsstaða sem hafi farið að bera aðeins á útbrotum. „Ég tók fyrst eftir þessu á höndunum á mér, fann að ég var orðinn ansi veikur, enda treysti ég mér ekki lengur til þess að fara út úr húsi. Daginn eftir var ég svo orðinn enn veikari og útbrotin farin að færast í aukana og þá hætti mér nú aðeins að lítast á blikuna. Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast, var mjög slæmur í maganum og staulaðist á salernið, en lenti svo bölvuðu basli með að komast aftur til baka inn í rúm. Þannig að ég var orðinn mjög máttlaus og með blússandi hita enda mældist ég með fjörutíu og eins stigs hita sem er víst ansi mikið fyrir fullorðinn mann.“
Súrefnisgjöf og einangrun
Eiríkur segir að hann hafi í þessu eymdarlega ástandi haft samband við sína fyrrverandi, enda séu þau góðir vinir, og beðið hana um að kaupa inn fyrir sig þar sem hann treysti sér ekki út úr húsi og allt tómt á heimilinu eftir langa fjarveru.
„Þegar hún kom vorum við svo sammála um að það væri best að ég færi til læknis sem ég og gerði. Læknirinn hlustaði mig og setti mig svo strax í súrefni, enda var ég farinn að anda asnalega, því súrefnisupptakan var lítil og ég farinn að líta út eins og lík. Læknirinn var fyrst viss um að ég væri með lungnabólgu og sendi mig með sjúkrabíl á sjúkrahúsið í Neskaupstað en greiningin var þá ekki komin á hreint. Þegar komið var í Neskaupstað voru læknarnir greinilega aðeins farnir að átta sig á stöðunni og þar var ég strax settur í einangrun.
Fljótlega vað þeim ljóst að þetta væru mögulega mislingar og þá var strax ákveðið að senda mig suður á sjúkrahús, því einangrunaraðstaðan er ekki nægilega góð fyrir austan. Þannig að mér var skutlað aftur út í sjúkrabíl sem brunaði með mig upp á Egilsstaði þar sem mér var komið í sjúkraflug suður. Þetta var bölvað vesen, maður var búinn að vera á þessu mikla ferðalagi og þurfti svo að halda áfram að ferðast og það alveg fárveikur,“ segir Eiríkur og hlær nú aðeins við tilhugsunina þar sem þetta er um garð gengið.
Var ekki bólusettur
Eiríkur lá á sjúkrahúsi í Reykjavík í tæpa viku og hann segir að sjúkdómsgreiningin hafi óneitanlega komið honum á óvart.
„Ég bjóst satt best að segja við því að vera bólusettur fyrir þessu eins og flestir Íslendingar. En þegar ég kannaði þetta kom í ljós að ég var ekki bólusettur. Ástæðan er sú að þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi. Við það var eins og þetta hefði misfarist. En svo veit ég satt best að segja ekki hvort ég var bólusettur þegar ég var tólf ára eða ekki. Eitthvað virðist þetta í hið minnsta hafa verið aðeins laust í reipnunum á þessum tíma því sumir jafnaldrar mínir hafa verið bólusettir við tólf ára aldurinn en ekki allir.“
….þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi.
Aðspurður um hvernig hann horfi til þessara mála í dag segir Eiríkur að það græði enginn á því að reyna að finna einhvern sökudólg. „Það kemur engum að gagni. Það er enginn betur settur eftir það, heldur verðum við fyrst og fremst að reyna að gera betur.“
Eiríkur segir að sumir þeirra sem standa honum nærri hafi þurft að bregðast við og þá einkum þeir sem eiga ung börn. „Það voru nokkrir sem þurftu að fara í sjálfskipaða einangrun til þess að vera vissir um að vera ekki smitberar. En málið er líka að þetta er sjúkdómur sem fæst okkar þekkja í dag og því er fólki eðlilega brugðið þegar þetta kemur upp.“
Sá allt í móðu
Eins og Eiríkur bendir á þá er ekki til nein lækning við mislingum og bólusetningin því þeim mun mikilvægari. „Þar sem það er ekki til nein lækning þá fékk ég engin lyf á sjúkrahúsinu en ég var með vökva í æð vegna þess að líkaminn var gjörsamlega uppþornaður. Það voru alveg einhverjir lítrar sem þurfti að dæla í mig og svo þurfti ég reglulega að væta munninn því annars lá tungan þarna skrælnuð við góminn á mér. Þetta var mjög skrítin reynsla.“
Eftir að Eiríkur hafði dvalið á sjúkrahúsi í tæpa viku og var kominn aftur heim til Egilsstaða voru veikindi hans þó enn ekki öll að baki. „Málið er að það er fjöldi eftirkvilla sem getur fylgt því að fá mislinga og þeir geta verið alvarlegir. Mér var því sagt að ég yrði að hringja suður ef ég færi að finna fyrir ákveðnum einkennum. Þar er einkum verið að horfa til þess að það geta myndast slæmar bólgur í heilanum.
Þegar ég var kominn austur var ég enn hálfslappur eftir öll þessi veikindi en hélst þó þokkalegur fram á annan dag heima en þá fór ég að sjá allt í móðu. Ég er nærsýnn, þannig að alla jafna sé ég vel það sem er nálægt mér, en á þessum tímapunkti var hreinlega allt í móðu. Það var mjög skrítið að upplifa það.
Þannig að ég hringdi og var þá skipað að koma strax suður sem ég og gerði að sjálfsögðu. En sem betur fer reyndist þetta ekki alvarlegt heldur heldur einhvers konar skemmd sem getur komið á hornhimnuna í kjölfar mislinga. Þannig að ég var sendur aftur heim með augndropa og krem og þetta jafnaði sig á nokkrum dögum.“
Hættan er til staðar
Það leynir sér ekki að Eiríkur er rólegur að eðlisfari og viðurkennir að hafa í raun lítið kippt sér upp við þetta.
„Nei, ég var nú ósköp rólegur yfir þessu. Var heldur ekki að velta fyrir mér hvað fólk hefur verið að segja á samfélagsmiðlum, það er bara eins og það er. Það verður alltaf til fólk sem er tilbúið til þess að kenna öðrum um allt og ekkert og það er ekki til neins að vera að fara á hliðina yfir þannig umræðu. Mér finnst nær að reyna bara að vera frambærileg manneskja og gera sitt besta.“
Aðspurður segist hann ekki finna fyrir samviskubiti yfir því að hafa smitað aðra. „Það er auðvitað mjög leiðinlegt að heyra um smitaða einstaklinga, sérstaklega börn, en ég get ekki áfellst sjálfan mig fyrir það þar sem ég var viss um að ég væri bólusettur fyrir mislingum.“
Hann bendir á að hann hafi áður farið í ferðalög og þá fengið bólusetningar fyrir lifrarbólgu og fleiri sjúkdómum en minnist þess ekki að þetta hafi komið til umræðu. „Það getur vel verið að ég hafi verið spurður, sem ég minnist ekki, en þá hefði ég örugglega sagst vera bólusettur, því ég stóð í þeirri trú. En þegar maður býr í svona litlu landi og fámennu samfélagi þá kannski gerir maður ráð fyrir því að við séum öll á sama stað hvað þetta varðar og er ekkert að velta þessu fyrir sér. Lifir svona í smásjálfsblekkingu með þetta sem er auðvitað ekki gott.
En svo eru auðvitað fleiri sjúkdómar en mislingar sem við verðum að hafa í huga. Eins þurfum við að auka vitund um þessi mál út frá því að hingað sækja sífellt fleiri ferðamenn og það geta auðvitað borist með þeim sjúkdómar. Það segir sig sjálft að það hlýtur að auka hættuna.
En fyrst og fremst finnst mér þó mikilvægt að foreldrar sýni þá ábyrgð að láta bólusetja börnin sín.
Þessi veikindi mín eru vissulega góð áminning til minnar kynslóðar og einnig þeirra sem eldri eru um að fylgjast betur með okkur og vera viss um að hafa þessa hluti í lagi. Það eru auðvitað fleiri en ég sem lifa í þeirri trú að þeir séu bólusettir en eru það svo í raun ekki. En fyrst og fremst finnst mér þó mikilvægt að foreldrar sýni þá ábyrgð að láta bólusetja börnin sín því það er eina raunverulega leiðin til þess að stöðva útbreiðslu þessara sjúkdóma.“
Garðlist býður upp á alla garðþjónustu auk þess að sinna til dæmis mokstri og sópun. Margir viðskiptavinir eru í áskrift hjá fyrirtækinu allt árið um kring.
Fyrirtækið Garðlist er alhliða garðþjónusta og fagnar 30 ára afmæli á árinu. „Ég byrjaði með þetta þegar ég var 12 ára og bauð upp á ýmsa garðþjónustu næstu árin en síðustu 20 árin hefur þetta verið heilsársfyrirtæki,“ segir Brynjar Kjærnested, skrúðgarðyrkjumeistari, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
„Fyrirtækið hefur þróast hægt og rólega en viðskiptavinurinn hefur þróað fyrirtækið eftir því hverju hann kallar eftir í þjónustu. Við byrjuðum á að slá, svo bað einhver okkur um að klippa og við byrjuðum að klippa og hægt og rólega vorum við komin með mjög breiða línu af þjónustu; það skemmtilega við þjónustu okkar er að þetta er þjónusta sem fólk þarf aftur og aftur. Flestir eru með hana í áskrift og við sinnum henni allt árið.
….viðskiptavinurinn hefur þróað fyrirtækið eftir því hverju hann kallar eftir í þjónustu.
Þetta er allt frá því að slá, hreinsa beð, klippa, gróðursetja sumarplöntur í potta, sjá um þökulagnir og plöntun, trjáfellingar, bera áburð á grasið og sópa planið. Við erum með götusóp, ryðjum snjó á veturna, berum sand og salt á plön og stéttar og setjum upp og tökum niður jólaskreytingar en við sjáum um að geyma þær og leigjum jafnvel skreytingar til fyrirtækja. Það er alltaf eitthvað í gangi allt árið um kring.“
Klippa fyrir vorið
Vorið er á næsta leiti og þá er að ýmsu að hyggja, að sögn Brynjars. „Það er mikilvægt að átta sig á því að maður er með garð allt árið; margir hugsa bara um að hreinsa garðinn sinn á vorin en við leggjum áherslu á að fólk hugsi um garðinn allt árið og sinni honum. Það þarf að vera búið að klippa áður en vorið gengur í garð en það er mikilægt að flestallur gróður sé klipptur einu sinni á ári. Að tré fari ekki inn í sumarið með vöxt síðasta sumars en það gerir hekk óþétt og það skemmir grunnstoðirnar í hekkinu að sleppa því að klippa.
Margir hafa heldur ekki sinnt beðunum allt sumarið eða allan veturinn en það þarf að hreinsa þau og fríska upp á stéttir og taka mosann. Við erum með stéttavél sem burstar allan gróður og mosa á milli stétta og ofan á og frískar allar stéttina upp.“
Brynjar segir að hvað mosann varðar sé ekki þörf á að skipta um gras eins og sumir haldi. „Það er einfalt að ná grasi góðu með réttri áburðargjöf en við erum með áburðargjöf í áskrift.“
Eitrað fyrir birkikembu og maðki
Brynjar segir að huga þurfi að óværu, svo sem birkikembu og maðki, en ein leiðin sé að nota eitur. „Það þarf til dæmis að eitra fyrir birkikembu áður en skaðinn er skeður en það þarf að úða birki frá um það bil miðjum apríl. Fólk þarf svo að vera vakandi fyrir maðki upp úr miðjum maí og fram í lok júní en hann getur verið skaðvaldur í trjám. Þessa þjónustu erum við með í áskrift eins og aðra þjónustu en þá sendum við fólki tölvupóst áður en við mætum. Ef eitthvað breytist er hægt að afpanta hana.“
Skilvirkni og gæðakerfi
Starfsmenn Garðlistar eru meðal annars menntaðir í skrúðgarðyrkju og reglulega eru haldin námskeið í faginu fyrir starfsmenn til að viðhalda góðum vinnubrögðum og þekkingu. Brynjar segir að hjá Garðlist sé lögð áhersla á skilvirkni og að starfsfólk sé skipulagt og reyni að standa við áætlanir. „Breiddin á þjónustunni er einkennandi fyrir fyrirtækið og með því að versla við okkur er oft hægt að fá marga hluti á einum stað. Við erum með gæðakerfi sem við fylgjum stíft eftir og reynum að vera nokkrum skrefum framar en samkeppnisaðilar okkar.“
Öfgahópar, sem ala á hatri gagnvart minnihlutahópum, hafa fengið byr í segl á undanförnum árum og hefur skelfileg hryðjuverkaárás á Nýja-Sjálandi, þar sem 51 lét lífið og yfir 40 særðust, minnt okkur á að hatrið getur fest rætur í friðsælum litlum samfélögum.
Í skýrslum lögregluyfirvalda í bæði Evrópu og Bandaríkjunum hefur verið greint frá mikilli aukningu hatursglæpa og árása á minnihlutahópa. Gyðingahatur hefur farið vaxandi í Bandaríkjunum og einnig árásir á ýmsa minnihlutahópa og fólk af tilteknum kynþáttum, til dæmis svarta.
Eitt af af því sem áróðurinn víða á sameiginlegt, er að í honum birtast efasemdir um fjölmenningarsamfélagið og alþjóðavæðingu. Sumir virðast fyllast hatri og hræðslu við það eitt, að innflytjendur flytji inn í samfélög sem lengst af hafa verið fremur einsleit.
Ítarleg er fjallað um málið á Kjarninn.is og í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Í kvöld, föstudaginn 22. mars, verður sannkölluð rokkveisla á Gauknum, þar sem boðið verður upp á skothelda blöndu af harðkjarnarokki, dauðarokki, grænd og grúvi.
Þannig má búast við „tudda“, „pung“ og beittum húmor þegar sveitin Gamli treður upp. Sveitirnar Moronic, Devine Defilement og Camino stíga einnig á svið svo vænta má mikils fjörs.
Í nýjasta tölublaði Mannlífs er rætt við manninn sem greindist fyrstur Íslendinga með mislinga í febrúar.
Eiríkur Brynjólfsson var í fríi á Filippseyjum þegar hann smitaðist af mislingum. Óafvitandi um smitið flaug hann heim, kom til landsins með vél Icelandair þann 14. febrúar og fór til Egilsstaða með Air Iceland Connect daginn eftir. Nokkrir af samfarþegum hans smituðust. Hann segist ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan og veltir fyrir sér hvað hafi misfarist þegar hann átti með réttu að fá þessar sprautur.
„Ég tók fyrst eftir þessu á höndunum á mér, fann að ég var orðinn ansi veikur, enda treysti ég mér ekki lengur til þess að fara út úr húsi. Daginn eftir var ég svo orðinn enn veikari og útbrotin farin að færast í aukana og þá hætti mér nú aðeins að lítast á blikuna. Mér fannst ég satt best að segja vera alveg að drepast, var mjög slæmur í maganum og staulaðist á salernið, en lenti svo bölvuðu basli með að komast aftur til baka inn í rúm,“ segir Eiríkur.
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens var að senda frá sér nýtt lag sem ber heitið „Velkomin”.
„Lagið fjallar um kærleik og að við þurfum ekki að óttast flóttafólk,“ segir Bubbi sem vinnur nú hörðum höndum að nýrri plötu. Platan hefur fengið nafnið Regnbogans stræti og mun lagið Velkomin vera á þeirri plötu.
Platan er væntanleg í júní eða júlí og bíða margir spenntir eftir henni.