Það var listmálarinn Pétur Guðmundsson sem málaði myndina af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram sem hékk lengi í matsal í Menntaskólanum á Ísafirði. Myndina málaði hann eftir nokkrum ljósmyndum, sumar komu frá Jóni og Bryndísi.
Málverk af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram sem hékk áratugum saman á vegg í Menntaskólanum á Ísafirði var tekið niður í vikunni eftir að nemandi skólans óskaði eftir að málverkið yrði fjarlægt.
Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari MÍ, staðfesti þetta í samtali við RÚV.
Jón var skólameistari MÍ á árunum 1970-1979 og Bryndís gegndi einnig stöðu skólameistara á tímabili og var kennari við skólann. Málverkið umrædda af þeim hjónum fékk skólinn að gjöf í maí árið 1984. Verkið var gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans.
Það er listmálarinn Pétur Guðmundsson sem málaði verkið á sínum tíma eftir að nokkrir útskrifaðir nemendur skólans óskuðu eftir að hann tæki verkefnið að sér.
„Málun þessarar myndar var eiginlega farin í þoku minninganna. Tíu ára útskriftarnemendur báðu mig um þetta á sínum tíma,“ segir Pétur í samtali við Mannlíf þegar hann er beðinn um að rifja upp hvernig það kom til að hann málaði myndina.
„Þau hjón voru þá farin héðan og málaði ég því myndina eftir nokkrum ljósmyndum sem ég fékk, sumar frá þeim Bryndísi og Jóni sjálfum,“ útskýrir Pétur sem býr og starfar á Ísafirði.
Litagleðin heldur áfram að ráða ríkjum innan heimilisins og munum við sjá bæði dekkri og dýpri tóna og á hinn bóginn koma hlýlegir og friðsælir jarðlitir til með að ná töluverðum vinsældum. Á árinu sem leið var fólk ansi duglegt að glæða heimili sín nýju lífi með hjálp málningarrúllunnar og þar verður svo sannarlega ekkert lát á! Við spáum því að fólk fari í meiri mæli að mála loftin í hressandi litum þegar líður á árið, en þetta mun breyta ásýnd og stemningu heimilanna umtalsvert – hvítt er svo sannarlega ekki heitasti veggliturinn lengur!
Listaverk
Undanfarið hafa stór og vígaleg listaverk verið að færast í auknum mæli inn í stofur og opin rými heimilanna. Ekkert lát verður á stórum áberandi verkum þetta árið og við hvetjum lesendur til að vera duglega að kynna sér íslenska listamenn, enda er listamannaflóran hér á landi til fyrirmyndar.
Kúrvur og lífræn form
Mjúkar línur og ávöl form hafa líklega ekki sést í jafnmiklu mæli síðan seventís-tískan leið undir lok. Þessi áratugur er svo sannarlega búinn að ryðja sér til rúms á nýjan leik og kemur til með að koma sterkt inn árið 2019. Sófar með fallegum sveigjum, rúnnuð hliðarborð og meiri mýkt er það sem koma skal.
Sérsmíði
Við hjá ritstjórninni höfum veitt því athygli að sífellt fleiri láta sérsmíða innréttingar, hillur og skápa svo það sé sniðið akkúrat inn í rýmið sem því er ætlað. Okkur þykir sérsmíðin oft gefa rýminu aukna dýpt og annað útlit og spáum við því að þetta muni færast enn í aukana á næstu misserum.
Vistvænt
Allt sem snýr að því að hugsa betur um jörðina okkar er sem betur fer komið í tísku, enda vel tímabært! Meira mun bera á vistvænni hönnun sem er framleidd í smærra upplagi og er jafnvel handgerð. Fólk fer að spá meira í að fjárfesta í gæðahúsgögnum sem endast frekar en einhverju sem kastað er til hliðar eftir stuttan tíma.
Fjölnota húsgögn
Sérfræðingarnir í heimi innanhússhönnunar spá því að húsgögn með fjölbreytta notkunarmöguleika muni verða áberandi þetta árið. Slík húsgögn hafa þann kost að notandinn getur aðlagað þau því rými sem hann vill nýta húsgagnið í þá stundina, svo þau henta breytingaglöðum einstaklingum eða þeim sem leigja eða breyta ört um húsnæði einkar vel.
Fínlegur iðnaðarstíll
Iðnaðarstíllinn hefur verið áberandi síðustu ár en nú förum við að sjá stílinn í töluvert fíngerðari og fágaðri útfærslu, hreinar og nútímalegar línur í bland við hrá og efni með grófri áferð.
Þægindi, lúxus og mýkt
Að líða vel í eigin skinni og á eigin heimili verður gegnumgangandi þema ársins 2019, þægindin verða í fyrirrúmi og áherslan verður á vellíðan. Ímyndið ykkur letidaga undir þykku teppi með góða bók og rjúkandi tebolla við höndina eða göngutúra um hverfið í kósí fötunum. Mjúk og notaleg efni með fallegri áferð sjást innanhúss og töffaralegir flatbotna skór, kjólar sem maður vefur utan um sig og bindur í mittið og kápur og notalegar peysur.
Bast, reyr og bambus
Náttúrulegur efniviður, ofin handverk og áferð halda velli og kemur bambus og reyr enn sterkar inn. Allt frá húsgögnum yfir í smærri muni; stólar, bekkir, hillur, hliðarborð, körfur og ljós. Við munum sjá meira af vörum í þessum stíl með sjálfbærari framleiðslu húsgagna og hluta sem hefur jákvæð áhrif á heimili okkar og umhverfi. Hlýleg efni sem eru að miklu leyti viðhaldsfrí og létt, sem hægt að nota bæði inni og úti. Fjölnota og feiknaflott!
Hvað dettur út?
Heimili í einföldum litum eins alhliða gráum litatónum þar sem bæði grá húsgögn og veggir eru ríkjandi gerir rými og heimili nokkuð einsleit að okkar mati. Svarthvítur stíll hefur að mati sérfræðinganna einnig sungið sitt síðasta í bili, við hjá ritstjórninni erum sammála þessum fregnum og tökum litagleðinni fagnandi. Það eru skiptar skoðanir á því hvort terrazzo muni halda velli eða ekki. Sumir virðast búnir að fá nóg af því á meðan aðrir spá áframhaldandi hylli efnisins.
Á hverju ári verðum við vör við aukna vitundarvakningu og miklar framfarir er varðar efni og notkun þess. Umræðan um plast hefur verið ofarlega á baugi lengi og alltaf er hægt að gera betur. Hönnuðir og framleiðendur eru í auknum mæli farnir að huga að því hvernig vörur eru búnar til, við hvaða aðstæður og úr hvaða efni; er það endurnýtanlegt eða fjölnota, býr það yfir gæðum, endist það kynslóða á milli?
Það virðist allt vera leyfilegt í dag hvað varðar innanhússhönnun. Fólk fylgir eigin innsæi fremur en að eltast við tískustrauma sem er jákvæð þróun að okkar mati. Er „tískan“ í innanhússhönnun jafnhröð og í fatatískunni?
Eftir okkar bestu vitund, þekkingu og rannsóknarvinnu breytist hún ekki endilega mikið ár frá ári, en að sjálfsögðu detta hægt og rólega inn nýir straumar og stefnur meðan aðrir fjara út. Bæði hvað varðar innanhússhönnun og fatatísku hefur verið að færast sífellt meira í aukana að fólk festi fremur kaup á vandaðri vörum og fatnaði, sem hefur betri líftíma og endist betur.
Meira um málið í janúarblaði Húsa og híbýla en febrúarblaðið kemur út í 15. febrúar. Áskrifendur fá blaðið inn um lúguna degi fyrr!
Allmargir hafa eflaust heyrt um mínimalískan lífsstíl, en vita kannski ekki hvar er best að byrja á stórri lífsstílsbreytingu eins og þessari. Við náðum tali af Sigurlaugu Elínu Þórhallsdóttur en fjölskylda hennar hefur tileinkað sér lífsstílinn í sjö ár og fengum við að forvitnast örlítið um hvað málið snýst.
Hvað er mínimalismi og lítur hann eins út fyrir alla?
„Margir kannast við mínimalisma sem liststefnu en þá sér fólk fyrir sér fáa, hreina liti, einföld geómetrísk form og notkun lýsingar og tómra rýma til áhersluauka. Mínimalisma sem lífsstíl er hins vegar öllu erfiðara að sjá fyrir sér því þar er um að ræða ótal birtingarmyndir. Í grunninn má segja að mínimalískur lífsstíll snúist um að losa sig við hvers kyns óþarfa í lífinu með það að markmiði að geta einbeitt sér að því sem raunverulega skiptir máli og veitir hamingju.
Þetta getur verið allt frá smáhlutum í skúffu til samskipta við vandamenn. Þar sem skoðanir fólks á hvað er óþarfi og hvað skiptir máli eru misjafnar, lítur mínimalískur lífsstíll alls ekki eins út fyrir öllum. Það er samt gott að muna að þetta snýst ekki aðeins um að losa sig við drasl heldur að draga úr neyslu með það að markmiði að geta notið þess betur sem maður á.“
Ég hugsa líka stundum til þess að börnin mín munu þurfa að fara í gegnum alla búslóðina þegar ég verð farin af þessari plánetu.
Hversu lengi hefur þú tileinkað þér mínimalisma og hvað varð til þess að þú gerðir það?
„Það eru um það bil sjö ár síðan ég fór fyrst markvisst að grisja úr skápum og skúffum og losa mig við hluti sem ég hafði verið að geyma „af því bara“. Það var hins vegar fyrir þremur árum sem ég áttaði mig á að það væri ekki nóg að losa sig við hluti heldur þyrfti lífsstíllinn að breytast svo allt myndi ekki bara fyllast aftur. Við fjölskyldan höfðum þá flutt úr lítilli íbúð í töluvert stærri og ég áttaði mig á því mjög fljótlega að það virðist ekki skipta máli hversu mikið skápapláss ég hafði, það fylltist alltaf um leið.
Þá sökkti ég mér í allskyns pælingar um hvernig væri best að draga úr neyslu og setja sér einhverjar skorður í þessum efnum. Ég hugsa líka stundum til þess að börnin mín munu þurfa að fara í gegnum alla búslóðina þegar ég verð farin af þessari plánetu. Mér finnst ekki góð tilhugsunum að skilja þau eftir með marga áratugi af óþarfa sem hefur safnast upp.“
Jessi Kingan ólst upp í útborg í Chicago, lærði samskipti við háskóla í Colorado en ákvað að breyta um stefnu í lífinu og verða köfunarkennari. Hún fór til Taílands til að læra að kenna köfun og þar biðu örlögin hennar í líki ungs Íslendings, Jóhanns Jónssonar.
Eftir flakk um heiminn í nokkur ár ákváðu Jessi og Jóhann að flytja til Íslands þar sem þau búa nú á Eyrarbakka ásamt tveimur börnum sínum og reka veitingahús og gistiheimili. Jessi er auk þess ákafur ljósmyndari og hafa myndir hennar oftar en einu sinni unnið til verðlauna á vef National Geographic.
„Ég vissi ekkert um Ísland þegar við ákváðum að flytja hingað,“ segir Jessi og hlær. „Það eina sem ég lærði um landið í skóla var að Ísland væri grænt en Grænland hvítt. En Jóhann var alltaf að segja mér að þetta væri besta land í heimi og eftir að hafa búið í ferðatösku í fimm ár ákvað ég að gefa landinu séns. Við keyptum íbúð í Kópavogi áður en ég hafði komið til landsins og eftir það varð ekki aftur snúið.“
Viðbrigðin við að koma til Íslands eftir flakk um heit lönd voru mikil að sögn Jessi. „Ég þurfti að kaupa mér ný föt frá A til Ö,“ segir hún hlæjandi. „Ekkert sem ég átti fyrir var nothæft á Íslandi. Ég var vön að vera bara á stuttbuxum og sandölum eða í kjólum og bikiníi, en það var ekki alveg að gera sig í íslenskum vetri.“
Spurð hvort hún hafi aldrei heimþrá kemur Jessi af fjöllum. „Nei, alls ekki,“ segir hún hálfhneyksluð. „Ísland er heima núna og ég gæti ekki ímyndað mér að búa annars staðar eins og er.“
Viðtalið við Jessi má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni Förðun / Karen Hauksdóttir
Fjölmiðlamaðurinn Kjartan Guðmundsson segist ekki lesa sérstaklega margar bækur en frekar eiga það til að að taka ástfóstri við ákveðin rit og graðga þeim ítrekað í sig þangað til hann kann hvert einasta orð utanbókar. Spurður hvaða bækur hafi haft mest áhrif á hann um ævina er hann ekki lengi að hugsa sig um.
„Áhrifamestu bækurnar eru því líklega þær sem ég hef lesið hvað oftast og þar gæti ég trúað að Dagbókin hans Dadda, eða The Secret Diary of Adrian Mole, Aged 13¾ eftir Sue Townsend heitna tróni á toppnum. Þessi bók er hreint fáránlega fyndin lýsing á snemmtáningsárum misskilda ljóðskáldsins Dadda, en um leið glúrin ádeila á eyðileggingarstarf Thatcher-stjórnarinnar á verkalýðsstéttinni. Ég var svo hrifinn af Dadda að ég las líka allar framhaldsbækurnar um hann um leið og þær komu út, sjö talsins, og leið eins og ég væri persónulega ábyrgur fyrir því að Daddi tapaði aleigunni í kjölfar íslenska bankahrunsins á fullorðinsárum.“
Glettin lýsing á rótum enska pönksins
„Kannski átti Adrian Mole einhvern þátt í því að ég var kornungur orðinn forfallinn anglófíll með óþrjótandi áhuga á Bretlandi og öllu bresku. Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig sem ungling er No Irish, No Blacks, No Dogs eftir Johnny Rotten, söngvara pönksveitarinnar Sex Pistols. Af öllum þeim tónlistarævisögum sem ég hef lesið, og þær eru þónokkrar, finnst mér þessi einna best því hún er glettin, mjög áhugaverð og lýsir vel frá fyrstu hendi pólitískum og menningarlegum rótum enska pönksins. Rotten er klár náungi og það skín í gegn í bókinni.“
Hryllilegur heimur skoskra heróínista
„Að síðustu verð ég svo að nefna Trainspotting eftir skoska höfundinn Irvine Welsh. Bíómyndin sem var gerð eftir bókinni er góð, en sagan er miklu víðtækari og hryllingur heróínistanna í Edinborg áþreifanlegri í meðförum höfundarins sjálfs. Bókin er skrifuð á skosku, sem er áskorun í fyrstu köflunum, en það venst fljótt og örugglega. Illu heilli eru framhaldsbækurnar fjórar ekki nærri eins magnaðar, en samt hef ég lesið þær allar og mun halda áfram að lesa um þessa karaktera þar til Welsh hættir að skrifa um þá.“
Orðið sýra er í hugum margra eitthvað sem er hættulegt og ætti alls ekki að vera borið á húðina. Það er mesti misskilningur því sýrur geta verið gagnlegar í húðumhirðunni, en hér eru nokkrar góðar sem hreinsa, næra og fleira.
Glycolic-sýra
Margir þekkja glycolic-sýru sem ávaxtasýru, enda er hún mestmegnis unnin úr ávöxtum og er ein af svokölluðu alpha hydroxy-sýrum. Um er að ræða vatnsleysanlega sýru sem vinnur á yfirborði húðar við að leysa upp dauðar húðfrumur. Hún gagnast vel í baráttunni gegn öldrun því hún dregur úr fínum línum, eykur þéttni og ljóma og gerir áferð húðar fallegri. Glycolic-sýra hentar sérstaklega þeim sem eru með þurra húð því hún fjarlægir sjáanleg ummerki þurrksins, svo sem stökka og dauða húð, án þess þó að þurrka húðina enn frekar. Þvert á móti hjálpar hún húðinni að binda betur raka með því að fjarlægja dauðu húðfrumurnar af yfirborðinu.
Salisylic-sýra
Fleiri sýrur hafa djúphreinsandi áhrif, þar á meðal salisylic-sýra sem er einnig þekkt sem BHA, eða beta hydroxy acid. Það sem hún hefur fram yfir glycolic-sýru er að hún er fituleysanleg og vinnur því dýpra en bara á yfirborðinu. Hún hentar vel þeim sem eru með feita húð eða bóluhúð því hún kemst í gegnum olíuna og hreinsar dauðar húðfrumur eða stíflur sem sitja fastar í svitaholunum. Þannig dregur hún úr myndun fílapensla og svo hefur hún einnig bólgueyðandi og bakteríudrepandi eiginleika sem nýtast vel ef bólur eru til staðar.
Retinoic-sýra
Til eru ýmsar afleiður A-vítamíns sem allar gera nokkurn veginn það sama og ein sú öflugasta er retinoic-sýra. Hana er þó ekki hægt að fá nema í lyfseðilskyldum húðlyfjum. Retinól er önnur afleiða sem breytist í retinoic-sýru þegar það er tekið upp í húðinni. Það er algengt innihaldsefni í snyrtivörum sem eiga að sporna gegn öldrun húðarinnar því það er mjög áhrifaríkt andoxunarefni og hvetur húðina til þess að endurnýja sig hraðar og framleiða meira kollagen. Þannig eykur það þéttni húðarinnar og dregur úr hrukkum og öðrum öldrunarmerkjum. Retinól getur líka gagnast þeim sem eiga í vandræðum með bólur eða óhreina húð því hraðari endurnýjun dregur fyrr fram hreina og heilbrigða húð.
Hyaluronic-sýra
Ekki allar sýrur hafa eyðandi áhrif, en hyaluronic-sýra er til dæmis ein rakadrægasta sameind náttúrunnar og getur haldið allt að þúsundfaldri þyngd sinni af vatni. Þess vegna er hún náttúrulegur rakagjafi og heldur húðinni vel nærðri og þéttri. Magn hyaluronic-sýru í húðinni minnkar með aldrinum og þannig næringarupptöku húðarinnar. Það er ein af ástæðum þess að við eldumst, fáum hrukkur, ellibletti og slappa húð. Vörur sem innihalda hyaluronic-sýru geta því spornað gegn þessari þróun og einnig veitt yngri húð smáskot af raka þegar hún þarf á því að halda.
Nýjasti pistill Annasar Jóns Sigmundssonar fjallar um þær ýmsu rekstraráskoranir sem flugfélög glíma nú við.
„Af hverju eru fjárfestar að setja fjármagn í flugfélög?“ Þetta skrifar Annas í sinn nýjasta pistil áður en hann telur upp þá ýmsu áhættuþætti sem gera það að verkum að rekstur flugfélaga í alþjóðlegri samkeppni er erfiður. Þar nefnir hann til að mynda gjaldmiðlaáhættu, olíuverðsáhættu og lausafjáráhættu.
Þá vísar hann í orð auðjöfursins og fjárfestisins Warren Buffets en hann sagði: „Aldrei, aldrei, aldrei fjárfesta í flugfélögum.“
Annas líkir þá fjárfestingum í flugfélögum við fjárfestingu í fjölmiðlarekstri. „Fjárfestingar í flugfélögum virðast einhvern veginn sambærilegar við fjölmiðlarekstur. Þannig hafa margir áhuga á því að setja peninga í fjölmiðlarekstur án þess að vænta ávöxtunar,“ skrifar hann.
„Hér verður ekki reynt að spá fyrir um hvernig flugfélögum muni ganga að aðlaga rekstur sinn að sífellt harðandi umhverfi á árinu 2019. Þar spila áhættuþættir inn í sem margir hverjir hafa þegar verið nefndir. Þó má að lokum nefna að yfirleitt vilja félögin alls ekki hækka miðaverð á sínum harða markaði. Þannig er helsta vandamál flugfélaganna í dag einmitt það að þau eru að lenda í vanda vegna lækkandi miðaverðs. Flugfélögin eru einfaldlega of mörg og því eru samrunar líklega af hinu góða.“
Eva H. Baldursdóttir skrifar um afl gamla hvíta mannsins í pólitík í sínum nýjasta pistli.
„Ætlar tími gamla hvíta mannsins sem ráðandi afls í pólítík aldrei að taka enda?“ hugsaði ég og japlaði á kanilsnúð, horfandi á ríkissjónvarpið á internetinu hinum megin við Atlantshafið þegar ég sá að Jón Baldvin var orðinn aðal ráðgjafi þjóðarinnar í málum tengdum þriðja orkupakkanum,“ skrifar Eva í sinn nýjasta pistil.
Pistilinn skrifar hún meðal annars í tilefni umræðunnar í kringum Jón Baldvin Hannibalson.
„[Ég] fann fyrir pirringi vegna þeirra upplifunar minnar að þeir sem stýra ýmis konar óttablöndnum pólitískum áróðri á Íslandi eru gamlir – nota bene ekki einu sinni miðaldra – menn sem sinntu einhvers konar hlutverki er tengist íslenskri pólitík fyrir áratugum síðan. Þessi pistill var til dæmis skrifaður áður en Jón Baldvin fékk sinn tíma í Silfrinu um helgina, en aðallega vegna þess að fyrir nokkrum mánuðum hafði hann fengið drottningarviðtal í sama þætti um þriðja orkupakkann og fengið að fabúlera frjálst þar. Mikið var um fullyrðingar sem hann var ekki beðinn um að færa sönnur eða rök fyrir,“ skrifar Eva sem steig sín fyrstu skref í pólitík árið 2010. Eva rifjar upp hvernig nokkrir fyrrverandi stjórnmálamenn hafi þá verið fyrirferðamiklir í ýmsum umræðum. „Níu árum seinna eru þessi nöfn það enn.“
„Haldið þið að Jón Baldvin eða gamli maðurinn í Valhöll búi yfir mestu efnislegu þekkingunni á hvað felist raunverulega í þriðja orkupakkanum?,“ skrifar Eva.
Er það testósterón sem veldur því að það er svona erfitt að stimpla sig út og sleppa tökunum?
„Þá hefur maður á tilfinningunni að gamli maðurinn ráði býsna miklu bak við tjöldin, þó höfundur átti sig ekki á því hvort það séu getgátur eður ei. Því hefur oft verið fleytt að Steingrímur J. og Svavar Gestsson séu t.d. hugmyndasmiðir nýrrar ríkistjórnar. Það kann að vera en á sama tíma gera slíkar getgátur lítið úr formanni Vinstri Grænna, sem er jú fremur ung kona en reynslumikil. Að sama skapi virðist gamla konan ekki vera eins fyrirferðarmikil, hvar eru þær? Lögmálið virðist að mestu eiga við um karlmenn þegar horft er yfir pólitíska landslagið. Er það testósterón sem veldur því að það er svona erfitt að stimpla sig út og sleppa tökunum? Er egóið einfaldlega sterkara í karlmönnum eða viljinn til að halda í mikilvægi sitt? Sjálfsmyndina sem mörkuð af því að þeir hafi tilgang og vettvang,“ spyr Eva.
Í dag var tilkynnt um fyrstu listamennina sem munu spila á Iceland Airwaves 2019.
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin fer fram í 21. sinn dagana 6.-9. nóvember. Í dag voru 30 listamenn tilkynntir sem munu koma fram á hátíðinni. „Í þessari fyrstu tilkynningu eru 30 tónlistaratriði og á eftir að bætast í á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningunni.
Þetta eru listamennirnir sem um ræðir:
Alexandra Stréliski CA) Amanda Tenfjord (NO) Anna of the North Aron Can Auðn Auður Berndsen Between Mountains Boy Azooga (UK) CeaseTone Elín Sif GDRN Georgia (UK) Grísalappalísa Hatari Hildur IamHelgi Mac DeMarco (CA) Matthildur Moses Hightower Murkage Dave (UK) Pavvla (ES) Shame (UK) SONS (BE) The Garrys (US) The Howl & The Hum (UK) Une Misère Vök Warmland Whitney (US)
Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, segir kynferðislegt ofbeldi hafa nokkuð svipaðar afleiðingar fyrir karla og konur sem verða fyrir því. Hlutfall þeirra sem íhuga sjálfsvíg eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi sé þó hærra hjá körlum heldur en konum.
Þrír karlmenn sem eiga það sameiginlegt að hafa verið nauðgað sögðu sögur sínar í nýjasta tölublaði Mannlífs, sem kom út á föstudaginn. Þeir voru allir sammála um að umræðan um karlmenn sem fórnarlömb nauðgana væri enn í molum sem ylli því að karlar óttist að stíga fram og segja frá reynslu sinni.
Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, vísar í ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2017 þegar hann er spurður út í hversu hátt hlutfall þeirra sem leita til Stígamóta séu karlmenn. Í skýrslunni kemur fram að 361 einstaklingur hafi leitað til Stígamóta árið 2017, þar af voru 52 karlar. Skýrslan leiðir í ljós að kynferðislegt ofbeldi hafi nokkuð svipaðar afleyðingar fyrir konur og karla.
„Í skýrslunni kemur fram að karlar og konur nefna svipaðar afleiðingar, um eða yfir 80% kvenna og karla nefna skömm, kvíða og depurð. Einnig var athyglisvert að hærra hlutfall karla nefnir reiði borið saman við konur eða 70,6% karla samanborið við 66,8% kvenna. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður ársskýrslu ársins 2016.
Þar kom fram að karlar og konur glíma við svipaðar afleiðingar í kjölfar ofbeldis.
Þessar niðurstöður eru einnig í samræmi við rannsókn sem Særún Ómarsdóttir gerði á gögnum Stígamóta frá árunum 2011 til 2013. Þar kom fram að karlar og konur glíma við svipaðar afleiðingar í kjölfar ofbeldis. Í rannsókn Særúnar Ómarsdóttur (2014) kom fram að um eða yfir 80% kvenna og karla nefndu depurð, skömm og lélega sjálfsmynd. Einnig kom fram í rannsókn hennar að karlar nefndu reiði oftar borið saman við konur,“ segir Hjálmar.
Hann vísar þá í töflu sem finna má í skýrslunni þar sem afleiðingar kynferðisofbeldis eru skoðaðar nánar.
Sjálfsvígshugleiðingar algengari hjá körlum
„Athyglisvert er að samkvæmt töflunni nefndi hærra hlutfall karla sjálfsvígshugleiðingar heldur en konur eða 51% þeirra karla sem svöruðu og 40,3% þeirra kvenna sem svöruðu. Hærra hlutfall karla nefndu skömm, ótta, sjálfsvígshugleiðingar og hegðunarerfiðleika borið saman við konur,“ segir Hjálmar og bendir á meðfylgjandi töflu.
„Einnig er athyglisvert að hærra hlutfall karla nefnir að áfengi, önnur vímuefni, fjárhættuspil, tölvuleiki, kynlíf og klám sem afleyðingar kynferðisofbeldis sem hafi skert lífsgæði þeirra borið saman við konur. Þessar niðurstöður eru svipaðar og fram komu í ársskýrslu áranna 2014 til 2016.“
Hjálmar bendir á að undanfarin ár hafa Stígamót unnið markvisst að því að gera þjónustu fyrir karlkyns brotaþola sýnilegri og hjálpa fleirum að leita sér hjálpar. Á heimasíðu Stígamóta er hægt að finna nánari upplýsingar um hvað er í boði, ásamt alls konar fræðsluefni. Einnig er hægt að hringja í síma 562 6868 til að panta tíma hjá Stígamótum. Auk þess er netspjall á heimasíðu Stígamóta, þar sem hægt er að koma fram undir dulnefni.
Samfélagsmiðlastjarnan og lífsráðgjafi Alda Karen fer stundum í silkináttfötum út á lífið.
Alda Karen Hjaltalín hefur verið áberandi undanfarin ár og vakið athygli fyrir fyrirlestra sína um markmiðasetningu og lífsráðgjöf. Í dag starfar hún sjálfstætt í New York, auk þess að ferðast mikið um heiminn og leiðbeinir hún fólki um allt frá sölu og markaðssetningu yfir í persónulega lífsráðgjöf. Alda Karen hefur látlausan en jafnframt töffaralegan fatasmekk og við vorum ákaflega spennt að kíkja í skápinn hennar.
Alda Karen er að eigin sögn með einfaldan stíl og að hennar mati eru hvítur bolur og hvít skyrta skyldueign í fataskápinn. „Daglegi vinnustílinn er „dress pants“ og hvítur bolur eða skyrta ef ég er að fara á marga fundi. Svo í frítíma mínum eða þegar ég er að fara út á lífið þá finnst mér gaman að silkijakkafötum eða samfestingum. Ég versla mest í Zara, Macy’s og Scotch&soda. Mér finnst mikilvægast að líða vel í því sem ég er og fell oftast fyrir mjúkum flíkum.“
Aðspurð hvaðan hún sæki sér innblástur segir Alda Karen að leikkonan Blake Lively sé átrúnaðargoðið sitt þegar kemur að tísku. „Svo sá ég Söruh Jessicu Parker einu sinni í New York og hún er algjör gyðja í eigin persónu svo ég lít reglulega á Instgramm-ið hennar eftir innblæstri.“ Hún segir furðulegustu fatakaupin sín vera náttföt úr silki en þau notar hún stundum þegar hún fer út á lífið. „Gildir það sem furðulegt? Sarah Jessica Parker gerði það samt fyrst svo ég kenni henni um. Þetta er bara svo þægilegt. Maður dressar náttfötin bara upp með hælum og fallegu skarti og skellir sér út.“
Fyrirsætan NaomiCampbell og tónlistarmaðurinn LiamPayne eru sögð vera nýtt par.
Breskir fjölmiðlar keppast nú við að segja fréttir af því að fyrirsætan NaomiCampbell og tónlistarmaðurinn LiamPayne eigi í ástarsambandi.
Parið hefur ekki staðfest opinberlega að þau séu saman en þau hafa undanfarið verið óhrædd við að birta skilaboð til hvors annars á samfélagsmiðlum. Þá hafa þau einnig sést nokkrum sinnum saman opinberlega á því sem virðast vera rómantísk stefnumót.
Fregnir herma að leiðir þeirra hafi legið saman snemma á síðasta ári en þá voru þau bæði í sambandi.
En það var í júní 2018 sem Payne staðfesti að hann og barnsmóðir hans, CherylTweedy, hefðu slitið sambandi sínu. Um svipað leyti mun Campbell hafa hætt með kærasta sínum, tónlistarmanninum Skepta.
Í janúar á þessu ári fóru Campbell og Payne þá að sjást opinberlega saman, fyrst á tónleikum með nígeríska tónlistarmanninum Davido.
Síðan þá hafa þau verið virk á samfélagsmiðlum og birt nokkur rómantísk skilaboð til hvors annars.
Þess má geta að Campbell er 48 ára og hefur starfað sem fyrirsæta frá 15 ára aldri. LiamPayne er 25 ára og þekktastur fyrir hlutverk sitt í hljómsveitinni OneDirection.
Bandarísk kona að nafni Maddie þurfti á aðstoð lögreglu að halda um helgina þegar hún kom að innbrotsþjóf í fataskáp sínum. Innbrotsþjófurinn hafði klætt sig í föt konunnar.
Maðurinn í skápnum er 30 ára gamall og heitir AndrewClydeSwofford. Lögregla handtók hann á vettvangi en Maddie kveðst ekki hafa hugmynd um hvernig maðurinn komst inn í íbúð hennar þar sem útidyrahurðin er aldrei ólæst.
Maddie sagði í samtali við Fox 8 að hún hafði nokkrum dögum fyrir atvikið tekið eftir að nokkrar flíkur hennar höfðu horfið úr fataskáp hennar. Hana og meðleigjendur hennar grunuðu að draugur bæri ábyrgð á týndu flíkunum.
En það var á laugardaginn þegar Maddie heyrði hljóð sem barst út fataskáp hennar. „Ég sagði: „Hver er þar?“ og hann svaraði mér: „Ég heiti Drew,“ og ég opnaði hurðina og þá er hann þarna inni, klæddur í fötin mín. Og hann heldur á poka sem er fullur af fötum af mér,“ sagði hún í samtali við Fox 8.
Á meðan Maddie beið eftir lögreglunni talaði hún við innbrotsþjófinn og hélt honum uppteknum, svo hann myndi ekki flýja vettvang. „Hann mátaði hatt. Hann fór inn á baðherbergi og kíkti í spegil og sagði svo: „Þú er mjög falleg, má ég faðma þig?“. En hann snerti mig aldrei,“ útskýrði hún.
Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta ekki í fyrsta sinn sem Maddie og meðleigjendur hennar koma að ókunnugu fólki í íbúðinni því þann 19. desember komu þær að tveimur mönnum í stofunni og þær hafa ekki hugmynd um hvernig þeir komust inn.
Swofford situr nú í fangelsinu í Guilford í Connecticut með möguleika á að verða látinn laus gegn 26.000 dollara tryggingu.
Rapparinn Emmsjé Gauti og kærasta hans, Jovana Schally, eiga von á barni saman en fyrir eiga þau sitthvora dótturina úr fyrri samböndum.
Emmsjé Gauti greinir frá barnaláninu á Instagram fyrr í kvöld. Þar skrifar hann: „Það verður fullur bíll og jafnara kynjahlutfall þegar þessi litli boy mætir í sumar,“ og lætur lítið hjarta fylgja með og auðvitað mynd af fjölskyldunni sem stækkar í sumar.
Hamingjuóskum hefur ringt yfir parið á Instagram síðan myndin var sett inn.
Þess má geta að Emmsjé Gauti og Jovana hafa verið par frá því um sumarið 2017.
Fjórir þingmenn Miðflokksins telja að Bára hafi dulbúist sem erlendur ferðamaður og þannig náð samtali þeirra á upptöku á Klaustur.
Þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, Þingmenn Miðflokksins, náðust öll á upptöku á Klaustri þann 20. nóvember. Þau vilja meina að Bára Halldórsdóttir, konan sem ber ábyrgð á upptökunni, hafi dulbúist sem erlendur ferðamaður til að ná upptökunni.
Þetta kemur fram í frétt á vef Vísis en fréttastofan mun hafa bréf undir höndum sem Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna, sendi Persónuvernd.
Í bréfinu kemur einnig fram að þingmennirnir séu vissir um að Bára hafi haft mikið fyrir því að vekja ekki athygli þingmannanna og að það sé engin tilviljun að hún hafi náð meiðandi ummælum þeirra á upptöku. Þau telja að hún hafi jafnvel ekki verið ein að verki.
Í bréfi Reimars til Persónuverndar kemur einnig fram að þingmennirnir óska nú eftir að Persónuvernd afli myndefnis úr eftirlitsmyndavélum fyrir utan Klaustur.
SKOÐUN eftir Kolbrúnu Baldursdottir Nýlega kom út skýrsla átakshóps um aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði og leiðir til að auka framboð á íbúðum í Reykjavík. Í skýrslunni eru fjölmargar góðar tillögur og margt gagnlegt kemur þar fram. Í skýrslunni er þó ekki sérstaklega fjallað um félagslega blöndun og mikilvægi þess að í hverfum séu fjölbreyttar gerðir húsnæðis á ólíku verðbili.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að hverfin í borginni eigi að vera félagslega blönduð. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar og má í því sambandi nefna Fellahverfið. Þar hefur fjöldi fólks einangrast félagslega og menningarlega. Að vinda ofan af þeim mistökum gæti reynst þrautin þyngri fyrir borgarmeirihlutann. Í svari við fyrirspurnum um leiðir til að rjúfa einangrun íbúa Fellahverfis kemur fram að eitt og annað sé verið að reyna í þeim efnum. Meðal annars er verið að auka samstarf skólanna í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti til að freista þess að efla félagslegan jöfnuð.
Mikilvægt er að gera ekki sömu mistökin aftur. Um það geta allir verið sammála. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur stóraukist. Hópur þeirra sem skilgreindir eru undir fátæktarviðmiði velferðarráðuneytisins hefur stækkað og mun fara stækkandi nema gripið verði til róttækra aðgerða til að spyrna við fótum. Þetta er átakanleg staðreynd í borg þar sem allir ættu að hafa nóg ef rétt væri haldið á spilunum. Þegar talað er um að halda vel á spilunum felur það í sér kröfu um að fjármagni sé forgangsraðað í þágu grunnþarfa. Allir þurfa fæði, klæði og húsnæði til að geta lifað með reisn og sinnt börnum sínum á sómasamlegan hátt.
Einn liður í baráttunni gegn stéttaskiptingu er að hanna hverfi með þeim hætti að innan þess séu margar gerðir húsnæðis, misstórt og misdýrt hvort heldur um sé að ræða eign eða leiguhúsnæði. Verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra en einnig landgerðinni, gerð húsnæðis og hvort hægt sé að beita afkastamiklum vinnubrögðum við byggingu húsnæðisins.
Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Hafa má í huga að oft eru fleiri en einn skóli í skilgreindu hverfi. Skólinn ætti að vera staðsettur þannig að nemendur komi bæði úr einbýlishúsakjarna og blokkakjarna. Mikilvægt er fyrir börn að fá staðfestingu á því að allir séu jafnir og eiga aldrei að líða fyrir efnahag foreldra sinna hvernig sem hann kann að vera. Liður í því er að gera alla aukaþjónustu grunnskóla ókeypis svo sem frístundastarf og mat. Einfalt ætti að vera að skipuleggja byggð út frá skóla þar sem horft er á hann sem félagslega grunneiningu. Staðsetningu skóla ráða skipulagsyfirvöld í borginni svo hæg ættu því heimatökin að vera.
Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Í leikrtinu Þitt eigið leikrit – Goðsaga, eftir Ævar Þór Benediktsson, sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu er söguheimurinn norræna goðafræðin sem er full af hrikalegum hetjum og stórhættulegum skrímslum. Áhorfendur ráða því sem gerist í hverri sýningu.
„Þetta leikrit er byggt á bók eftir Ævar Þór Benediktsson sem heitir Þín eigin goðsaga og heitir því Þitt eigið leikrit – Goðsaga,“ segir Baldur Trausti Hreinsson, einn leikara í sýningunni en hann leikur meðal annars Snorra Edduson Miðgarðsbarn, Óðin alföður, tröllskessuna Angurboðu og önnur hlutverk. „Leikritið er byggt á goðsögunum sem Ævar Þór skrifaði um Þór, Óðin, Sif og Loka og inn í þetta fléttast manneskjur, eða Miðgarðsbörn sem svo eru kölluð í goðheimum.“
Baldur Trausti segir að í rauninni sé um að ræða þrjár útgáfur eða þrjár leiðir sem áhorfendur geta valið. „Þetta er í raun og veru byggt upp eins og sjónvarpsþáttur sem Loki Laufeyjarson stýrir. Áhorfendur hafa um þrjár leiðir að velja – það er að fylgja Snorra Eddusyni Miðgarðsbarni, Urði Sturludóttur eða Eddu Harðarsdóttur. Við þurfum í raun að hafa þessar þrjár leiðir á hreinu. Leiðirnar eða leikritin þrjú eru ekki eins en hvort sem valin er leið Snorra, Urðar eða Eddu er þó alltaf farið í hættulega leiðangra. Áhorfendur velja um fleira, svo sem hvernig persónurnar eru klæddar, hvaða vopn þær fá og hvernig leiðirnar enda – vel eða illa. Þetta er spennandi, hættulegt og skemmtilegt.“
Baldur Trausti segir að hann hafi í gegnum tíðina oft þurft að leika fleiri en eina persónu í sama leikritinu en hann hafi aldrei leikið í leikriti þar sem hann veit ekki fyrir sýningar hvaða leið eða leikrit hann er að fara að leika í það skiptið. „Ég þarf að vera tilbúinn í alls konar karaktera.“
Eitt af umdeildari málum vorþings er frumvarp heilbrigðisráðherra um þungunarrof, eða fóstureyðingar eins og talað hefur verið um fram til þessa. Verði frumvarpið samþykkt yrði fóstureyðingarlöggjöfin á Íslandi ein af þeim frjálslyndustu í heiminum. Af þeim umsögnum sem borist hafa þinginu má greina tvö meginþemu. Annars vegar eru þeir sem styðja frumvarpið og gera það í nafni kvenfrelsis og hins vegar þeir sem eru á móti frumvarpinu af siðferðislegum eða trúarlegum ástæðum.
Veigamestu og umdeildustu breytingarnar snúa að tímamörkum til fóstureyðingar. Samkvæmt núgildandi lögum skal fóstureyðing aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema að það séu ótvíræðilegar læknisfræðilegar ástæður fyrir hendi. Undanþága frá þessu eru ef miklar líkur eru á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Með nýja frumvarpinu er lagt til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða aðstæður liggja að baki þeim vilja konunnar. Með öðrum orðum verður ákvörðun um fóstureyðingu alfarið ákvörðun barnshafandi konu fram að lokum 22. viku og þarf ekkert samþykki utanaðkomandi aðila til.
Tveir skólar
Það er til marks um hversu umdeilt málið er að það var gagnrýnt þegar velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögnum um málið að leitað hafi verið til trúar- og lífsskoðunarfélaga. Formaður nefndarinnar, Halldóra Mogensen, var því mótfallin þar sem hún telur slík félög ekki sem fagaðila en nokkrir nefndarmenn fóru fram á að það yrði gert og var það niðurstaðan. Sé litið til þeirra umsagna sem borist hafa velferðarnefnd, sem nú eru orðnar á sjötta tug talsins, kemur í ljós að umsagnaraðilar skiptast í tvo hópa.
Annars vegar eru það sérfræðingar á heilbrigðisvísindasviði og talsmenn kvenfrelsis sem eru fylgjandi frumvarpinu. Segir í umsögnum þeirra að frumvarpið feli í sér gríðarlega réttarbót fyrir konur, bæði hvað varðar tímamörkin og þá staðreynd að ekki þurfi leyfi heilbrigðisstarfsmanna til að gangast undir aðgerðina. Segir í einni umsögninni að um sé að ræða stærsta framfaramálið fyrir konur síðan feðraorlof var tekið upp.
Hins vegar eru það svo trúar- og lífsskoðunarfélög sem leggjast gegn breytingunum, þótt missterkt sé tekið til orða. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist til að mynda styðja þann hluta frumvarpsins um að konur taki sjálfar „hina erfiðu ákvörðun“ um fóstureyðingu. Hins vegar gerir biskup athugasemd við tímarammann. Bendir hún á að dæmi séu um að börn hafi fæðst eftir 22 vikna meðgöngu, braggast og lifað. Hinar nýju tillögur raski því jafnvægi sem ríkt hafi um málið og veki upp grundvallarspurningar um mannhelgi og framgang lífs. Aðrir trúarhópar taka sterkar til orða og sumir þeirra leggjast alfarið gegn fóstureyðingum. Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir tímarammann þó á öðrum forsendum, það er að þau telja að með því að lengja tímarammann upp í 22 vikur sé verið að gefa fólki rými til að bregðast við komi upp frávik – til að mynda fötlun – í 20 vikna skoðun.
Lögin breyti ekki landslaginu
Í umsögn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) kemur fram að lífvænleiki fóstra miðist við 22 vikur en í umsögn Landlæknis er hins vegar talað um 23 og hálfa viku. Hins vegar eru dæmi um fyrirbura sem hafa fæðst fyrir þann tíma og lifað og fæddist yngsti fyrirburinn eftir 21 viku og 4 daga. Þótt frumvarpið verði að lögum er ljóst að hvorki löggjafinn né heilbrigðisyfirvöld búast við að fóstureyðingum komi til með að fjölga. Þannig bendir FÍFK á að 94,4% fóstureyðinga á Íslandi fari fram fyrir 12 vikur, en 4,1% á tímbilinu 13-16 vikur. Á síðarnefnda tímabilinu voru flestar aðgerðirnar í kjölfar skimunar. Áfram er búist við að langstærsti hluti fóstureyðinga muni eftir sem áður fara fram í upphafi meðgöngu verði frumvarpið að lögum. Er bæði litið til þróunarinnar hérlendis undanfarin ár sem og reynslunnar frá öðrum löndum.
Fóstureyðing eða þungunarrof?
Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að í stað fóstureyðinga, eins og ferlið hefur verið kallað fram til þessa og notast er við í núgildandi lögum, skuli talað um þungunarrof. Segir í greinargerð frumvarpsins að hugtakið fóstureyðing sé gildishlaðið og samsvarandi orð sé ekki að finna í nágrannalöndum okkar. Ætlunin með þessu sé að færa áhersluna yfir á konuna en ekki fóstrið. Um þetta er einnig deilt, samanber umsögn biskups þar sem segir að orðið þungunarrof vísi „á engan hátt til þess lífs sem sannarlega er undir belti og er vísir að nýrri mannveru“. Orðið þungunarrof sé þess vegna misvísandi.
Fleiri með leg en konur og stúlkur
Í öðrum umsögnum, svo sem frá Þóru Kristínu Þórsdóttur sem titluð er forynja Kvennahreyfingarinnar og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, eru gerðar athugasemdir við að eingöngu sé fjallað um rétt kvenna og stúlkna til þungunarrofs. Hins vegar sé ákveðinn hópur fólks sem er með leg en kýs að skilgreina sig ekki sem konur. Það að eingöngu sé fjallað um réttindi kvenna og stúlkna er því takmarkandi. Leggur Þóra Kristín til að í stað stúlkna og kvenna verði notuð hugtök eins og manneskjur, fólk og einstaklingar, svo lengi sem tekið er sérstaklega fram að rétturinn til þungunarrofs nái ekki til þess aðila sem sæðið framleiddi, það er föður. Einnig mætti nota nýyrði á borð við legbera eða barnsbera.
Ummæli þeirra sem eru fylgjandi
„Þetta frumvarp er stórt skref í að tryggja kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk.“ Kvenréttindafélag Íslands
„Það er skoðun landlæknis að ákvörðun um rof þungunar svo seint á meðgöngu sé gríðarlega erfið og þungbær ákvörðun sem kona taki einungis að vandlega athuguðu máli og af illri nauðsyn. Mikilvægt er að skilja og virða að aðstæður kvenna geta verið margvíslegar og á stundum erfiðari og flóknari en hægt er að gera sér í hugarlund. Um þær aðstæður er enginn hæfari til að dæma og taka ákvörðun en konan sjálf.“ Landlæknisembættið
„Engar rannsóknir benda til þess að konur iðrist þess til lengri tíma að binda endi á þungun. Þvert á móti lýsa konur, í okkar rannsókn á Íslandi og í sambærilegum rannsóknum erlendis, létti og fullvissu um að hafa tekið rétta ákvörðun.“ Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir
„Frumvarpið er mikilvægt skref til að tryggja öllum konum rétt yfir líkama sínum enda er sá réttur grundvallarmannréttindi og núgildandi lög tryggja hann. Rétturinn yfir eigin líkama er ekki síst mikilvægt þeim konum sem höllum fæti standa í samfélaginu, eiga við vímuefna- og/eða geðrænan vanda að etja …“ Rótin, félag um málefni kvenna
„Sjálfsákvörðunarréttur kvenna er grundvallarmannréttindi og því rökrétt breyting að þess sé ekki krafist, skv. frumvarpinu, að utanaðkomandi aðilar þurfi að samþykkja þungunarrof.“ Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar
Ummæli þeirra sem eru andvíg
„Er ekki kominn tími tími til að stöðva þennan heimsfaraldur sem hefur á síðustu 20 árum eytt um það bil jafnmörgum á Íslandi og þeim sem búa á Akureyri og nærsveitum?“ David B. Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar
„Ég legg til að heiti frumvarpsins og inntak taki verulegum breytingum og verði þannig: Frumvarp til laga um algjört bann við drápum barna í móðurkviði.“ Guðmundur Ragnarsson, forstöðumaður Samfélags trúaðra
„Réttindabarátta kvenna heldur áfram og vil ég taka þátt í henni og leggja henni lið, enn eigum við konur langt í land. Ég efast stórlega um að þetta frumvarp hafi eitthvert vægi í þeirri baráttu.“ Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
„Ef þetta frumvarp um fóstureyðingar verður að lögum, sem ég ætla að vona að ekki verði, þá er verið að lögleiða morð.“ Hvítasunnukirkjan í Keflavík
„Þær tillögur að rýmka heimildir til þungunarrofs fram yfir 20 vikna fósturskimun eru augljóslega ætlaðar til þess að hægt sé að bregðast við þeim frávikum sem þar kynnu að greinast og eru aðför að rétti fatlaðs fólks til lífs.“ Öryrkjabandalag Íslands
„Ef móðirin er ekki reiðubúin að eiga barnið (sem er auðvitað hennar eign þótt ófætt sé) fær hún blessun heilbrigðisyfirvalda til að ýta á Ctrl+Alt+Del, og skorast þannig snyrtilega undan því stórkostlega hlutverki sem bíður hennar. Mér þykir reyndar hálfkaldhæðnislegt að yfirvöld sem kenna sig við heilbrigði skuli deyða líf, í stað þess að gera allt sem á þeirra valdi stendur til að varðveita heilbrigði þess.“ Ívar Halldórsson
Lög í öðrum löndum
Danmörk
Fram að 12. viku án skýringa. Eftir það þarf til sérstök félagsleg og læknisfræðileg skilyrði og er leyfi háð samþykki úrskurðarnefndar.
Noregur
Fram að 12. viku án skýringa. Eftir það þarf til félagsleg og læknisfræðileg skilyrði og er leyfi háð samþykki úrskurðarnefndar. Óheimilt eftir 18. viku nema veigamiklar ástæður eru fyrir hendi.
Svíþjóð
Fram að 18. viku án skýringa nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því. Eftir það þarf ríkar ástæður og leyfi heilbrigðis- og félagsmálastofnunar. Leyfilegt á öllum stigum ef líf eða heilsa konu er í hættu.
Finnland
Einungis eftir lok 12. viku ef lífi og heilsu konu er stefnt í hættu. Heilbrigðisráðuneytið má, ef kona er ekki orðin 17 ára þegar hún verður þunguð, veita heimild til þungunarrofs fram að lokum 20. viku meðgöngu og þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Þá er heimilt allt undir lok 24. viku að rjúfa þungun ef fóstur er haldið alvarlegum sjúkdómi eða er líkamlega fatlað.
Bretland
Engin tímalengd er tiltekin en þungunarrof er refsilaust þegar þungun er ekki komin lengra en 24 vikur og ákveðin læknisfræðileg og félagsleg skilyrði eru uppfyllt.
Holland
Heimilt fram að því tímamarki þegar fóstur telst hafa náð lífvænlegum þroska, eða fram að 24. viku. Skilyrði er sett um fimm daga umþóttunartíma eftir að beiðni er lögð fram um þungunarrof.
Belgía
Heimilt að beiðni konu fram að 12. viku þungunar. Eftir það einungins ef þungun stofnar heilsu konu í hættu eða ef fóstur telst með mjög alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm.
Frakkland
Fram að 12. viku þungunar en eftir það einungis ef heilsu konu er stefnt í hættu með áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst haldið alvarlegum ólæknandi sjúkdómi.
Kanada
Engin takmarkandi löggjöf er í gildi um þungunarrof eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að slík lög brytu í bága við stjórnarskrá landsins.
Hver man ekki eftir djúpsteiktum camembert? Þessi réttur var mjög vinsæll á áttunda áratugnum og var þá gjarnan borinn fram sem eftirréttur en hann er líka tilvalinn sem forréttur eða smáréttur og á sérlega vel við á notalegum vetrarkvöldum. Hér kennum við ykkur hvernig á að gera hann en það er auðveldara en margan grunar.
Djúpsteiktur camembert – skref fyrir skref
2 camembert-ostar
100 g hveiti
100 g brauðrasp
3 egg
½ -1 lítri grænmetisolía
Skerið hvorn camembert-ost í 6 bita. Setjið hveiti í plastpoka og ostinn í og hristið pokann svo osturinn hjúpist vel með hveiti. Sláið eggin saman í skál. Setjið brauðrasp í aðra skál. Dýfið ostinum í egg svo allar hliðar verði þaktar og veltið síðan upp úr raspi. Gerið þetta aftur, fyrst í egg og svo í rasp. Mikilvægt er að osturinn sé vel þakinn og engin göt á hjúpnum svo osturinn leki ekki út í olíuna þegar hann er djúpsteiktur. Hitið olíuna. Gott er að nota lítinn stálpott og olían þarf að vera 5-6 cm djúp. Óþarfi er að nota meiri olíu. Steikið ostinn og veltið honum varlega svo hann steikist á báðum hliðum, tíminn fer svolítið eftir því hvað olían er heit en hann á að verða gullinbrúnn. Berið fram með góðri rifsberjasultu.
Texti / Sigríður Björk Bragadóttir
Mynd / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Nú er sá tími runninn upp að margir landsmenn hafa strengt þess heit að huga betur að heilsunni og ætla að taka mataræðið föstum tökum. Þeytingar eru bráðsniðug og einföld leið til að auka neyslu ávaxta og grænmetis og eru tilvalin sem morgunmatur eða til að grípa í yfir daginn.
Auðvelt er að útbúa vegan-væna þeytinga og um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða för. Við tókum saman nokkrar hugmyndir til að koma þér af stað.
Það var listmálarinn Pétur Guðmundsson sem málaði myndina af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram sem hékk lengi í matsal í Menntaskólanum á Ísafirði. Myndina málaði hann eftir nokkrum ljósmyndum, sumar komu frá Jóni og Bryndísi.
Málverk af Jóni Baldvin Hannibalssyni og Bryndísi Schram sem hékk áratugum saman á vegg í Menntaskólanum á Ísafirði var tekið niður í vikunni eftir að nemandi skólans óskaði eftir að málverkið yrði fjarlægt.
Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari MÍ, staðfesti þetta í samtali við RÚV.
Jón var skólameistari MÍ á árunum 1970-1979 og Bryndís gegndi einnig stöðu skólameistara á tímabili og var kennari við skólann. Málverkið umrædda af þeim hjónum fékk skólinn að gjöf í maí árið 1984. Verkið var gjöf frá fyrsta útskriftarárgangi skólans.
Það er listmálarinn Pétur Guðmundsson sem málaði verkið á sínum tíma eftir að nokkrir útskrifaðir nemendur skólans óskuðu eftir að hann tæki verkefnið að sér.
„Málun þessarar myndar var eiginlega farin í þoku minninganna. Tíu ára útskriftarnemendur báðu mig um þetta á sínum tíma,“ segir Pétur í samtali við Mannlíf þegar hann er beðinn um að rifja upp hvernig það kom til að hann málaði myndina.
„Þau hjón voru þá farin héðan og málaði ég því myndina eftir nokkrum ljósmyndum sem ég fékk, sumar frá þeim Bryndísi og Jóni sjálfum,“ útskýrir Pétur sem býr og starfar á Ísafirði.
Litagleðin heldur áfram að ráða ríkjum innan heimilisins og munum við sjá bæði dekkri og dýpri tóna og á hinn bóginn koma hlýlegir og friðsælir jarðlitir til með að ná töluverðum vinsældum. Á árinu sem leið var fólk ansi duglegt að glæða heimili sín nýju lífi með hjálp málningarrúllunnar og þar verður svo sannarlega ekkert lát á! Við spáum því að fólk fari í meiri mæli að mála loftin í hressandi litum þegar líður á árið, en þetta mun breyta ásýnd og stemningu heimilanna umtalsvert – hvítt er svo sannarlega ekki heitasti veggliturinn lengur!
Listaverk
Undanfarið hafa stór og vígaleg listaverk verið að færast í auknum mæli inn í stofur og opin rými heimilanna. Ekkert lát verður á stórum áberandi verkum þetta árið og við hvetjum lesendur til að vera duglega að kynna sér íslenska listamenn, enda er listamannaflóran hér á landi til fyrirmyndar.
Kúrvur og lífræn form
Mjúkar línur og ávöl form hafa líklega ekki sést í jafnmiklu mæli síðan seventís-tískan leið undir lok. Þessi áratugur er svo sannarlega búinn að ryðja sér til rúms á nýjan leik og kemur til með að koma sterkt inn árið 2019. Sófar með fallegum sveigjum, rúnnuð hliðarborð og meiri mýkt er það sem koma skal.
Sérsmíði
Við hjá ritstjórninni höfum veitt því athygli að sífellt fleiri láta sérsmíða innréttingar, hillur og skápa svo það sé sniðið akkúrat inn í rýmið sem því er ætlað. Okkur þykir sérsmíðin oft gefa rýminu aukna dýpt og annað útlit og spáum við því að þetta muni færast enn í aukana á næstu misserum.
Vistvænt
Allt sem snýr að því að hugsa betur um jörðina okkar er sem betur fer komið í tísku, enda vel tímabært! Meira mun bera á vistvænni hönnun sem er framleidd í smærra upplagi og er jafnvel handgerð. Fólk fer að spá meira í að fjárfesta í gæðahúsgögnum sem endast frekar en einhverju sem kastað er til hliðar eftir stuttan tíma.
Fjölnota húsgögn
Sérfræðingarnir í heimi innanhússhönnunar spá því að húsgögn með fjölbreytta notkunarmöguleika muni verða áberandi þetta árið. Slík húsgögn hafa þann kost að notandinn getur aðlagað þau því rými sem hann vill nýta húsgagnið í þá stundina, svo þau henta breytingaglöðum einstaklingum eða þeim sem leigja eða breyta ört um húsnæði einkar vel.
Fínlegur iðnaðarstíll
Iðnaðarstíllinn hefur verið áberandi síðustu ár en nú förum við að sjá stílinn í töluvert fíngerðari og fágaðri útfærslu, hreinar og nútímalegar línur í bland við hrá og efni með grófri áferð.
Þægindi, lúxus og mýkt
Að líða vel í eigin skinni og á eigin heimili verður gegnumgangandi þema ársins 2019, þægindin verða í fyrirrúmi og áherslan verður á vellíðan. Ímyndið ykkur letidaga undir þykku teppi með góða bók og rjúkandi tebolla við höndina eða göngutúra um hverfið í kósí fötunum. Mjúk og notaleg efni með fallegri áferð sjást innanhúss og töffaralegir flatbotna skór, kjólar sem maður vefur utan um sig og bindur í mittið og kápur og notalegar peysur.
Bast, reyr og bambus
Náttúrulegur efniviður, ofin handverk og áferð halda velli og kemur bambus og reyr enn sterkar inn. Allt frá húsgögnum yfir í smærri muni; stólar, bekkir, hillur, hliðarborð, körfur og ljós. Við munum sjá meira af vörum í þessum stíl með sjálfbærari framleiðslu húsgagna og hluta sem hefur jákvæð áhrif á heimili okkar og umhverfi. Hlýleg efni sem eru að miklu leyti viðhaldsfrí og létt, sem hægt að nota bæði inni og úti. Fjölnota og feiknaflott!
Hvað dettur út?
Heimili í einföldum litum eins alhliða gráum litatónum þar sem bæði grá húsgögn og veggir eru ríkjandi gerir rými og heimili nokkuð einsleit að okkar mati. Svarthvítur stíll hefur að mati sérfræðinganna einnig sungið sitt síðasta í bili, við hjá ritstjórninni erum sammála þessum fregnum og tökum litagleðinni fagnandi. Það eru skiptar skoðanir á því hvort terrazzo muni halda velli eða ekki. Sumir virðast búnir að fá nóg af því á meðan aðrir spá áframhaldandi hylli efnisins.
Á hverju ári verðum við vör við aukna vitundarvakningu og miklar framfarir er varðar efni og notkun þess. Umræðan um plast hefur verið ofarlega á baugi lengi og alltaf er hægt að gera betur. Hönnuðir og framleiðendur eru í auknum mæli farnir að huga að því hvernig vörur eru búnar til, við hvaða aðstæður og úr hvaða efni; er það endurnýtanlegt eða fjölnota, býr það yfir gæðum, endist það kynslóða á milli?
Það virðist allt vera leyfilegt í dag hvað varðar innanhússhönnun. Fólk fylgir eigin innsæi fremur en að eltast við tískustrauma sem er jákvæð þróun að okkar mati. Er „tískan“ í innanhússhönnun jafnhröð og í fatatískunni?
Eftir okkar bestu vitund, þekkingu og rannsóknarvinnu breytist hún ekki endilega mikið ár frá ári, en að sjálfsögðu detta hægt og rólega inn nýir straumar og stefnur meðan aðrir fjara út. Bæði hvað varðar innanhússhönnun og fatatísku hefur verið að færast sífellt meira í aukana að fólk festi fremur kaup á vandaðri vörum og fatnaði, sem hefur betri líftíma og endist betur.
Meira um málið í janúarblaði Húsa og híbýla en febrúarblaðið kemur út í 15. febrúar. Áskrifendur fá blaðið inn um lúguna degi fyrr!
Allmargir hafa eflaust heyrt um mínimalískan lífsstíl, en vita kannski ekki hvar er best að byrja á stórri lífsstílsbreytingu eins og þessari. Við náðum tali af Sigurlaugu Elínu Þórhallsdóttur en fjölskylda hennar hefur tileinkað sér lífsstílinn í sjö ár og fengum við að forvitnast örlítið um hvað málið snýst.
Hvað er mínimalismi og lítur hann eins út fyrir alla?
„Margir kannast við mínimalisma sem liststefnu en þá sér fólk fyrir sér fáa, hreina liti, einföld geómetrísk form og notkun lýsingar og tómra rýma til áhersluauka. Mínimalisma sem lífsstíl er hins vegar öllu erfiðara að sjá fyrir sér því þar er um að ræða ótal birtingarmyndir. Í grunninn má segja að mínimalískur lífsstíll snúist um að losa sig við hvers kyns óþarfa í lífinu með það að markmiði að geta einbeitt sér að því sem raunverulega skiptir máli og veitir hamingju.
Þetta getur verið allt frá smáhlutum í skúffu til samskipta við vandamenn. Þar sem skoðanir fólks á hvað er óþarfi og hvað skiptir máli eru misjafnar, lítur mínimalískur lífsstíll alls ekki eins út fyrir öllum. Það er samt gott að muna að þetta snýst ekki aðeins um að losa sig við drasl heldur að draga úr neyslu með það að markmiði að geta notið þess betur sem maður á.“
Ég hugsa líka stundum til þess að börnin mín munu þurfa að fara í gegnum alla búslóðina þegar ég verð farin af þessari plánetu.
Hversu lengi hefur þú tileinkað þér mínimalisma og hvað varð til þess að þú gerðir það?
„Það eru um það bil sjö ár síðan ég fór fyrst markvisst að grisja úr skápum og skúffum og losa mig við hluti sem ég hafði verið að geyma „af því bara“. Það var hins vegar fyrir þremur árum sem ég áttaði mig á að það væri ekki nóg að losa sig við hluti heldur þyrfti lífsstíllinn að breytast svo allt myndi ekki bara fyllast aftur. Við fjölskyldan höfðum þá flutt úr lítilli íbúð í töluvert stærri og ég áttaði mig á því mjög fljótlega að það virðist ekki skipta máli hversu mikið skápapláss ég hafði, það fylltist alltaf um leið.
Þá sökkti ég mér í allskyns pælingar um hvernig væri best að draga úr neyslu og setja sér einhverjar skorður í þessum efnum. Ég hugsa líka stundum til þess að börnin mín munu þurfa að fara í gegnum alla búslóðina þegar ég verð farin af þessari plánetu. Mér finnst ekki góð tilhugsunum að skilja þau eftir með marga áratugi af óþarfa sem hefur safnast upp.“
Jessi Kingan ólst upp í útborg í Chicago, lærði samskipti við háskóla í Colorado en ákvað að breyta um stefnu í lífinu og verða köfunarkennari. Hún fór til Taílands til að læra að kenna köfun og þar biðu örlögin hennar í líki ungs Íslendings, Jóhanns Jónssonar.
Eftir flakk um heiminn í nokkur ár ákváðu Jessi og Jóhann að flytja til Íslands þar sem þau búa nú á Eyrarbakka ásamt tveimur börnum sínum og reka veitingahús og gistiheimili. Jessi er auk þess ákafur ljósmyndari og hafa myndir hennar oftar en einu sinni unnið til verðlauna á vef National Geographic.
„Ég vissi ekkert um Ísland þegar við ákváðum að flytja hingað,“ segir Jessi og hlær. „Það eina sem ég lærði um landið í skóla var að Ísland væri grænt en Grænland hvítt. En Jóhann var alltaf að segja mér að þetta væri besta land í heimi og eftir að hafa búið í ferðatösku í fimm ár ákvað ég að gefa landinu séns. Við keyptum íbúð í Kópavogi áður en ég hafði komið til landsins og eftir það varð ekki aftur snúið.“
Viðbrigðin við að koma til Íslands eftir flakk um heit lönd voru mikil að sögn Jessi. „Ég þurfti að kaupa mér ný föt frá A til Ö,“ segir hún hlæjandi. „Ekkert sem ég átti fyrir var nothæft á Íslandi. Ég var vön að vera bara á stuttbuxum og sandölum eða í kjólum og bikiníi, en það var ekki alveg að gera sig í íslenskum vetri.“
Spurð hvort hún hafi aldrei heimþrá kemur Jessi af fjöllum. „Nei, alls ekki,“ segir hún hálfhneyksluð. „Ísland er heima núna og ég gæti ekki ímyndað mér að búa annars staðar eins og er.“
Viðtalið við Jessi má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni Förðun / Karen Hauksdóttir
Fjölmiðlamaðurinn Kjartan Guðmundsson segist ekki lesa sérstaklega margar bækur en frekar eiga það til að að taka ástfóstri við ákveðin rit og graðga þeim ítrekað í sig þangað til hann kann hvert einasta orð utanbókar. Spurður hvaða bækur hafi haft mest áhrif á hann um ævina er hann ekki lengi að hugsa sig um.
„Áhrifamestu bækurnar eru því líklega þær sem ég hef lesið hvað oftast og þar gæti ég trúað að Dagbókin hans Dadda, eða The Secret Diary of Adrian Mole, Aged 13¾ eftir Sue Townsend heitna tróni á toppnum. Þessi bók er hreint fáránlega fyndin lýsing á snemmtáningsárum misskilda ljóðskáldsins Dadda, en um leið glúrin ádeila á eyðileggingarstarf Thatcher-stjórnarinnar á verkalýðsstéttinni. Ég var svo hrifinn af Dadda að ég las líka allar framhaldsbækurnar um hann um leið og þær komu út, sjö talsins, og leið eins og ég væri persónulega ábyrgur fyrir því að Daddi tapaði aleigunni í kjölfar íslenska bankahrunsins á fullorðinsárum.“
Glettin lýsing á rótum enska pönksins
„Kannski átti Adrian Mole einhvern þátt í því að ég var kornungur orðinn forfallinn anglófíll með óþrjótandi áhuga á Bretlandi og öllu bresku. Önnur bók sem hafði mikil áhrif á mig sem ungling er No Irish, No Blacks, No Dogs eftir Johnny Rotten, söngvara pönksveitarinnar Sex Pistols. Af öllum þeim tónlistarævisögum sem ég hef lesið, og þær eru þónokkrar, finnst mér þessi einna best því hún er glettin, mjög áhugaverð og lýsir vel frá fyrstu hendi pólitískum og menningarlegum rótum enska pönksins. Rotten er klár náungi og það skín í gegn í bókinni.“
Hryllilegur heimur skoskra heróínista
„Að síðustu verð ég svo að nefna Trainspotting eftir skoska höfundinn Irvine Welsh. Bíómyndin sem var gerð eftir bókinni er góð, en sagan er miklu víðtækari og hryllingur heróínistanna í Edinborg áþreifanlegri í meðförum höfundarins sjálfs. Bókin er skrifuð á skosku, sem er áskorun í fyrstu köflunum, en það venst fljótt og örugglega. Illu heilli eru framhaldsbækurnar fjórar ekki nærri eins magnaðar, en samt hef ég lesið þær allar og mun halda áfram að lesa um þessa karaktera þar til Welsh hættir að skrifa um þá.“
Orðið sýra er í hugum margra eitthvað sem er hættulegt og ætti alls ekki að vera borið á húðina. Það er mesti misskilningur því sýrur geta verið gagnlegar í húðumhirðunni, en hér eru nokkrar góðar sem hreinsa, næra og fleira.
Glycolic-sýra
Margir þekkja glycolic-sýru sem ávaxtasýru, enda er hún mestmegnis unnin úr ávöxtum og er ein af svokölluðu alpha hydroxy-sýrum. Um er að ræða vatnsleysanlega sýru sem vinnur á yfirborði húðar við að leysa upp dauðar húðfrumur. Hún gagnast vel í baráttunni gegn öldrun því hún dregur úr fínum línum, eykur þéttni og ljóma og gerir áferð húðar fallegri. Glycolic-sýra hentar sérstaklega þeim sem eru með þurra húð því hún fjarlægir sjáanleg ummerki þurrksins, svo sem stökka og dauða húð, án þess þó að þurrka húðina enn frekar. Þvert á móti hjálpar hún húðinni að binda betur raka með því að fjarlægja dauðu húðfrumurnar af yfirborðinu.
Salisylic-sýra
Fleiri sýrur hafa djúphreinsandi áhrif, þar á meðal salisylic-sýra sem er einnig þekkt sem BHA, eða beta hydroxy acid. Það sem hún hefur fram yfir glycolic-sýru er að hún er fituleysanleg og vinnur því dýpra en bara á yfirborðinu. Hún hentar vel þeim sem eru með feita húð eða bóluhúð því hún kemst í gegnum olíuna og hreinsar dauðar húðfrumur eða stíflur sem sitja fastar í svitaholunum. Þannig dregur hún úr myndun fílapensla og svo hefur hún einnig bólgueyðandi og bakteríudrepandi eiginleika sem nýtast vel ef bólur eru til staðar.
Retinoic-sýra
Til eru ýmsar afleiður A-vítamíns sem allar gera nokkurn veginn það sama og ein sú öflugasta er retinoic-sýra. Hana er þó ekki hægt að fá nema í lyfseðilskyldum húðlyfjum. Retinól er önnur afleiða sem breytist í retinoic-sýru þegar það er tekið upp í húðinni. Það er algengt innihaldsefni í snyrtivörum sem eiga að sporna gegn öldrun húðarinnar því það er mjög áhrifaríkt andoxunarefni og hvetur húðina til þess að endurnýja sig hraðar og framleiða meira kollagen. Þannig eykur það þéttni húðarinnar og dregur úr hrukkum og öðrum öldrunarmerkjum. Retinól getur líka gagnast þeim sem eiga í vandræðum með bólur eða óhreina húð því hraðari endurnýjun dregur fyrr fram hreina og heilbrigða húð.
Hyaluronic-sýra
Ekki allar sýrur hafa eyðandi áhrif, en hyaluronic-sýra er til dæmis ein rakadrægasta sameind náttúrunnar og getur haldið allt að þúsundfaldri þyngd sinni af vatni. Þess vegna er hún náttúrulegur rakagjafi og heldur húðinni vel nærðri og þéttri. Magn hyaluronic-sýru í húðinni minnkar með aldrinum og þannig næringarupptöku húðarinnar. Það er ein af ástæðum þess að við eldumst, fáum hrukkur, ellibletti og slappa húð. Vörur sem innihalda hyaluronic-sýru geta því spornað gegn þessari þróun og einnig veitt yngri húð smáskot af raka þegar hún þarf á því að halda.
Nýjasti pistill Annasar Jóns Sigmundssonar fjallar um þær ýmsu rekstraráskoranir sem flugfélög glíma nú við.
„Af hverju eru fjárfestar að setja fjármagn í flugfélög?“ Þetta skrifar Annas í sinn nýjasta pistil áður en hann telur upp þá ýmsu áhættuþætti sem gera það að verkum að rekstur flugfélaga í alþjóðlegri samkeppni er erfiður. Þar nefnir hann til að mynda gjaldmiðlaáhættu, olíuverðsáhættu og lausafjáráhættu.
Þá vísar hann í orð auðjöfursins og fjárfestisins Warren Buffets en hann sagði: „Aldrei, aldrei, aldrei fjárfesta í flugfélögum.“
Annas líkir þá fjárfestingum í flugfélögum við fjárfestingu í fjölmiðlarekstri. „Fjárfestingar í flugfélögum virðast einhvern veginn sambærilegar við fjölmiðlarekstur. Þannig hafa margir áhuga á því að setja peninga í fjölmiðlarekstur án þess að vænta ávöxtunar,“ skrifar hann.
„Hér verður ekki reynt að spá fyrir um hvernig flugfélögum muni ganga að aðlaga rekstur sinn að sífellt harðandi umhverfi á árinu 2019. Þar spila áhættuþættir inn í sem margir hverjir hafa þegar verið nefndir. Þó má að lokum nefna að yfirleitt vilja félögin alls ekki hækka miðaverð á sínum harða markaði. Þannig er helsta vandamál flugfélaganna í dag einmitt það að þau eru að lenda í vanda vegna lækkandi miðaverðs. Flugfélögin eru einfaldlega of mörg og því eru samrunar líklega af hinu góða.“
Eva H. Baldursdóttir skrifar um afl gamla hvíta mannsins í pólitík í sínum nýjasta pistli.
„Ætlar tími gamla hvíta mannsins sem ráðandi afls í pólítík aldrei að taka enda?“ hugsaði ég og japlaði á kanilsnúð, horfandi á ríkissjónvarpið á internetinu hinum megin við Atlantshafið þegar ég sá að Jón Baldvin var orðinn aðal ráðgjafi þjóðarinnar í málum tengdum þriðja orkupakkanum,“ skrifar Eva í sinn nýjasta pistil.
Pistilinn skrifar hún meðal annars í tilefni umræðunnar í kringum Jón Baldvin Hannibalson.
„[Ég] fann fyrir pirringi vegna þeirra upplifunar minnar að þeir sem stýra ýmis konar óttablöndnum pólitískum áróðri á Íslandi eru gamlir – nota bene ekki einu sinni miðaldra – menn sem sinntu einhvers konar hlutverki er tengist íslenskri pólitík fyrir áratugum síðan. Þessi pistill var til dæmis skrifaður áður en Jón Baldvin fékk sinn tíma í Silfrinu um helgina, en aðallega vegna þess að fyrir nokkrum mánuðum hafði hann fengið drottningarviðtal í sama þætti um þriðja orkupakkann og fengið að fabúlera frjálst þar. Mikið var um fullyrðingar sem hann var ekki beðinn um að færa sönnur eða rök fyrir,“ skrifar Eva sem steig sín fyrstu skref í pólitík árið 2010. Eva rifjar upp hvernig nokkrir fyrrverandi stjórnmálamenn hafi þá verið fyrirferðamiklir í ýmsum umræðum. „Níu árum seinna eru þessi nöfn það enn.“
„Haldið þið að Jón Baldvin eða gamli maðurinn í Valhöll búi yfir mestu efnislegu þekkingunni á hvað felist raunverulega í þriðja orkupakkanum?,“ skrifar Eva.
Er það testósterón sem veldur því að það er svona erfitt að stimpla sig út og sleppa tökunum?
„Þá hefur maður á tilfinningunni að gamli maðurinn ráði býsna miklu bak við tjöldin, þó höfundur átti sig ekki á því hvort það séu getgátur eður ei. Því hefur oft verið fleytt að Steingrímur J. og Svavar Gestsson séu t.d. hugmyndasmiðir nýrrar ríkistjórnar. Það kann að vera en á sama tíma gera slíkar getgátur lítið úr formanni Vinstri Grænna, sem er jú fremur ung kona en reynslumikil. Að sama skapi virðist gamla konan ekki vera eins fyrirferðarmikil, hvar eru þær? Lögmálið virðist að mestu eiga við um karlmenn þegar horft er yfir pólitíska landslagið. Er það testósterón sem veldur því að það er svona erfitt að stimpla sig út og sleppa tökunum? Er egóið einfaldlega sterkara í karlmönnum eða viljinn til að halda í mikilvægi sitt? Sjálfsmyndina sem mörkuð af því að þeir hafi tilgang og vettvang,“ spyr Eva.
Í dag var tilkynnt um fyrstu listamennina sem munu spila á Iceland Airwaves 2019.
Iceland Airwaves tónlistarhátíðin fer fram í 21. sinn dagana 6.-9. nóvember. Í dag voru 30 listamenn tilkynntir sem munu koma fram á hátíðinni. „Í þessari fyrstu tilkynningu eru 30 tónlistaratriði og á eftir að bætast í á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningunni.
Þetta eru listamennirnir sem um ræðir:
Alexandra Stréliski CA) Amanda Tenfjord (NO) Anna of the North Aron Can Auðn Auður Berndsen Between Mountains Boy Azooga (UK) CeaseTone Elín Sif GDRN Georgia (UK) Grísalappalísa Hatari Hildur IamHelgi Mac DeMarco (CA) Matthildur Moses Hightower Murkage Dave (UK) Pavvla (ES) Shame (UK) SONS (BE) The Garrys (US) The Howl & The Hum (UK) Une Misère Vök Warmland Whitney (US)
Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, segir kynferðislegt ofbeldi hafa nokkuð svipaðar afleiðingar fyrir karla og konur sem verða fyrir því. Hlutfall þeirra sem íhuga sjálfsvíg eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi sé þó hærra hjá körlum heldur en konum.
Þrír karlmenn sem eiga það sameiginlegt að hafa verið nauðgað sögðu sögur sínar í nýjasta tölublaði Mannlífs, sem kom út á föstudaginn. Þeir voru allir sammála um að umræðan um karlmenn sem fórnarlömb nauðgana væri enn í molum sem ylli því að karlar óttist að stíga fram og segja frá reynslu sinni.
Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, vísar í ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2017 þegar hann er spurður út í hversu hátt hlutfall þeirra sem leita til Stígamóta séu karlmenn. Í skýrslunni kemur fram að 361 einstaklingur hafi leitað til Stígamóta árið 2017, þar af voru 52 karlar. Skýrslan leiðir í ljós að kynferðislegt ofbeldi hafi nokkuð svipaðar afleyðingar fyrir konur og karla.
„Í skýrslunni kemur fram að karlar og konur nefna svipaðar afleiðingar, um eða yfir 80% kvenna og karla nefna skömm, kvíða og depurð. Einnig var athyglisvert að hærra hlutfall karla nefnir reiði borið saman við konur eða 70,6% karla samanborið við 66,8% kvenna. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður ársskýrslu ársins 2016.
Þar kom fram að karlar og konur glíma við svipaðar afleiðingar í kjölfar ofbeldis.
Þessar niðurstöður eru einnig í samræmi við rannsókn sem Særún Ómarsdóttir gerði á gögnum Stígamóta frá árunum 2011 til 2013. Þar kom fram að karlar og konur glíma við svipaðar afleiðingar í kjölfar ofbeldis. Í rannsókn Særúnar Ómarsdóttur (2014) kom fram að um eða yfir 80% kvenna og karla nefndu depurð, skömm og lélega sjálfsmynd. Einnig kom fram í rannsókn hennar að karlar nefndu reiði oftar borið saman við konur,“ segir Hjálmar.
Hann vísar þá í töflu sem finna má í skýrslunni þar sem afleiðingar kynferðisofbeldis eru skoðaðar nánar.
Sjálfsvígshugleiðingar algengari hjá körlum
„Athyglisvert er að samkvæmt töflunni nefndi hærra hlutfall karla sjálfsvígshugleiðingar heldur en konur eða 51% þeirra karla sem svöruðu og 40,3% þeirra kvenna sem svöruðu. Hærra hlutfall karla nefndu skömm, ótta, sjálfsvígshugleiðingar og hegðunarerfiðleika borið saman við konur,“ segir Hjálmar og bendir á meðfylgjandi töflu.
„Einnig er athyglisvert að hærra hlutfall karla nefnir að áfengi, önnur vímuefni, fjárhættuspil, tölvuleiki, kynlíf og klám sem afleyðingar kynferðisofbeldis sem hafi skert lífsgæði þeirra borið saman við konur. Þessar niðurstöður eru svipaðar og fram komu í ársskýrslu áranna 2014 til 2016.“
Hjálmar bendir á að undanfarin ár hafa Stígamót unnið markvisst að því að gera þjónustu fyrir karlkyns brotaþola sýnilegri og hjálpa fleirum að leita sér hjálpar. Á heimasíðu Stígamóta er hægt að finna nánari upplýsingar um hvað er í boði, ásamt alls konar fræðsluefni. Einnig er hægt að hringja í síma 562 6868 til að panta tíma hjá Stígamótum. Auk þess er netspjall á heimasíðu Stígamóta, þar sem hægt er að koma fram undir dulnefni.
Samfélagsmiðlastjarnan og lífsráðgjafi Alda Karen fer stundum í silkináttfötum út á lífið.
Alda Karen Hjaltalín hefur verið áberandi undanfarin ár og vakið athygli fyrir fyrirlestra sína um markmiðasetningu og lífsráðgjöf. Í dag starfar hún sjálfstætt í New York, auk þess að ferðast mikið um heiminn og leiðbeinir hún fólki um allt frá sölu og markaðssetningu yfir í persónulega lífsráðgjöf. Alda Karen hefur látlausan en jafnframt töffaralegan fatasmekk og við vorum ákaflega spennt að kíkja í skápinn hennar.
Alda Karen er að eigin sögn með einfaldan stíl og að hennar mati eru hvítur bolur og hvít skyrta skyldueign í fataskápinn. „Daglegi vinnustílinn er „dress pants“ og hvítur bolur eða skyrta ef ég er að fara á marga fundi. Svo í frítíma mínum eða þegar ég er að fara út á lífið þá finnst mér gaman að silkijakkafötum eða samfestingum. Ég versla mest í Zara, Macy’s og Scotch&soda. Mér finnst mikilvægast að líða vel í því sem ég er og fell oftast fyrir mjúkum flíkum.“
Aðspurð hvaðan hún sæki sér innblástur segir Alda Karen að leikkonan Blake Lively sé átrúnaðargoðið sitt þegar kemur að tísku. „Svo sá ég Söruh Jessicu Parker einu sinni í New York og hún er algjör gyðja í eigin persónu svo ég lít reglulega á Instgramm-ið hennar eftir innblæstri.“ Hún segir furðulegustu fatakaupin sín vera náttföt úr silki en þau notar hún stundum þegar hún fer út á lífið. „Gildir það sem furðulegt? Sarah Jessica Parker gerði það samt fyrst svo ég kenni henni um. Þetta er bara svo þægilegt. Maður dressar náttfötin bara upp með hælum og fallegu skarti og skellir sér út.“
Fyrirsætan NaomiCampbell og tónlistarmaðurinn LiamPayne eru sögð vera nýtt par.
Breskir fjölmiðlar keppast nú við að segja fréttir af því að fyrirsætan NaomiCampbell og tónlistarmaðurinn LiamPayne eigi í ástarsambandi.
Parið hefur ekki staðfest opinberlega að þau séu saman en þau hafa undanfarið verið óhrædd við að birta skilaboð til hvors annars á samfélagsmiðlum. Þá hafa þau einnig sést nokkrum sinnum saman opinberlega á því sem virðast vera rómantísk stefnumót.
Fregnir herma að leiðir þeirra hafi legið saman snemma á síðasta ári en þá voru þau bæði í sambandi.
En það var í júní 2018 sem Payne staðfesti að hann og barnsmóðir hans, CherylTweedy, hefðu slitið sambandi sínu. Um svipað leyti mun Campbell hafa hætt með kærasta sínum, tónlistarmanninum Skepta.
Í janúar á þessu ári fóru Campbell og Payne þá að sjást opinberlega saman, fyrst á tónleikum með nígeríska tónlistarmanninum Davido.
Síðan þá hafa þau verið virk á samfélagsmiðlum og birt nokkur rómantísk skilaboð til hvors annars.
Þess má geta að Campbell er 48 ára og hefur starfað sem fyrirsæta frá 15 ára aldri. LiamPayne er 25 ára og þekktastur fyrir hlutverk sitt í hljómsveitinni OneDirection.
Bandarísk kona að nafni Maddie þurfti á aðstoð lögreglu að halda um helgina þegar hún kom að innbrotsþjóf í fataskáp sínum. Innbrotsþjófurinn hafði klætt sig í föt konunnar.
Maðurinn í skápnum er 30 ára gamall og heitir AndrewClydeSwofford. Lögregla handtók hann á vettvangi en Maddie kveðst ekki hafa hugmynd um hvernig maðurinn komst inn í íbúð hennar þar sem útidyrahurðin er aldrei ólæst.
Maddie sagði í samtali við Fox 8 að hún hafði nokkrum dögum fyrir atvikið tekið eftir að nokkrar flíkur hennar höfðu horfið úr fataskáp hennar. Hana og meðleigjendur hennar grunuðu að draugur bæri ábyrgð á týndu flíkunum.
En það var á laugardaginn þegar Maddie heyrði hljóð sem barst út fataskáp hennar. „Ég sagði: „Hver er þar?“ og hann svaraði mér: „Ég heiti Drew,“ og ég opnaði hurðina og þá er hann þarna inni, klæddur í fötin mín. Og hann heldur á poka sem er fullur af fötum af mér,“ sagði hún í samtali við Fox 8.
Á meðan Maddie beið eftir lögreglunni talaði hún við innbrotsþjófinn og hélt honum uppteknum, svo hann myndi ekki flýja vettvang. „Hann mátaði hatt. Hann fór inn á baðherbergi og kíkti í spegil og sagði svo: „Þú er mjög falleg, má ég faðma þig?“. En hann snerti mig aldrei,“ útskýrði hún.
Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta ekki í fyrsta sinn sem Maddie og meðleigjendur hennar koma að ókunnugu fólki í íbúðinni því þann 19. desember komu þær að tveimur mönnum í stofunni og þær hafa ekki hugmynd um hvernig þeir komust inn.
Swofford situr nú í fangelsinu í Guilford í Connecticut með möguleika á að verða látinn laus gegn 26.000 dollara tryggingu.
Rapparinn Emmsjé Gauti og kærasta hans, Jovana Schally, eiga von á barni saman en fyrir eiga þau sitthvora dótturina úr fyrri samböndum.
Emmsjé Gauti greinir frá barnaláninu á Instagram fyrr í kvöld. Þar skrifar hann: „Það verður fullur bíll og jafnara kynjahlutfall þegar þessi litli boy mætir í sumar,“ og lætur lítið hjarta fylgja með og auðvitað mynd af fjölskyldunni sem stækkar í sumar.
Hamingjuóskum hefur ringt yfir parið á Instagram síðan myndin var sett inn.
Þess má geta að Emmsjé Gauti og Jovana hafa verið par frá því um sumarið 2017.
Fjórir þingmenn Miðflokksins telja að Bára hafi dulbúist sem erlendur ferðamaður og þannig náð samtali þeirra á upptöku á Klaustur.
Þau Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason, Þingmenn Miðflokksins, náðust öll á upptöku á Klaustri þann 20. nóvember. Þau vilja meina að Bára Halldórsdóttir, konan sem ber ábyrgð á upptökunni, hafi dulbúist sem erlendur ferðamaður til að ná upptökunni.
Þetta kemur fram í frétt á vef Vísis en fréttastofan mun hafa bréf undir höndum sem Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna, sendi Persónuvernd.
Í bréfinu kemur einnig fram að þingmennirnir séu vissir um að Bára hafi haft mikið fyrir því að vekja ekki athygli þingmannanna og að það sé engin tilviljun að hún hafi náð meiðandi ummælum þeirra á upptöku. Þau telja að hún hafi jafnvel ekki verið ein að verki.
Í bréfi Reimars til Persónuverndar kemur einnig fram að þingmennirnir óska nú eftir að Persónuvernd afli myndefnis úr eftirlitsmyndavélum fyrir utan Klaustur.
SKOÐUN eftir Kolbrúnu Baldursdottir Nýlega kom út skýrsla átakshóps um aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði og leiðir til að auka framboð á íbúðum í Reykjavík. Í skýrslunni eru fjölmargar góðar tillögur og margt gagnlegt kemur þar fram. Í skýrslunni er þó ekki sérstaklega fjallað um félagslega blöndun og mikilvægi þess að í hverfum séu fjölbreyttar gerðir húsnæðis á ólíku verðbili.
Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að hverfin í borginni eigi að vera félagslega blönduð. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar og má í því sambandi nefna Fellahverfið. Þar hefur fjöldi fólks einangrast félagslega og menningarlega. Að vinda ofan af þeim mistökum gæti reynst þrautin þyngri fyrir borgarmeirihlutann. Í svari við fyrirspurnum um leiðir til að rjúfa einangrun íbúa Fellahverfis kemur fram að eitt og annað sé verið að reyna í þeim efnum. Meðal annars er verið að auka samstarf skólanna í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti til að freista þess að efla félagslegan jöfnuð.
Mikilvægt er að gera ekki sömu mistökin aftur. Um það geta allir verið sammála. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur stóraukist. Hópur þeirra sem skilgreindir eru undir fátæktarviðmiði velferðarráðuneytisins hefur stækkað og mun fara stækkandi nema gripið verði til róttækra aðgerða til að spyrna við fótum. Þetta er átakanleg staðreynd í borg þar sem allir ættu að hafa nóg ef rétt væri haldið á spilunum. Þegar talað er um að halda vel á spilunum felur það í sér kröfu um að fjármagni sé forgangsraðað í þágu grunnþarfa. Allir þurfa fæði, klæði og húsnæði til að geta lifað með reisn og sinnt börnum sínum á sómasamlegan hátt.
Einn liður í baráttunni gegn stéttaskiptingu er að hanna hverfi með þeim hætti að innan þess séu margar gerðir húsnæðis, misstórt og misdýrt hvort heldur um sé að ræða eign eða leiguhúsnæði. Verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra en einnig landgerðinni, gerð húsnæðis og hvort hægt sé að beita afkastamiklum vinnubrögðum við byggingu húsnæðisins.
Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Hafa má í huga að oft eru fleiri en einn skóli í skilgreindu hverfi. Skólinn ætti að vera staðsettur þannig að nemendur komi bæði úr einbýlishúsakjarna og blokkakjarna. Mikilvægt er fyrir börn að fá staðfestingu á því að allir séu jafnir og eiga aldrei að líða fyrir efnahag foreldra sinna hvernig sem hann kann að vera. Liður í því er að gera alla aukaþjónustu grunnskóla ókeypis svo sem frístundastarf og mat. Einfalt ætti að vera að skipuleggja byggð út frá skóla þar sem horft er á hann sem félagslega grunneiningu. Staðsetningu skóla ráða skipulagsyfirvöld í borginni svo hæg ættu því heimatökin að vera.
Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Í leikrtinu Þitt eigið leikrit – Goðsaga, eftir Ævar Þór Benediktsson, sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu er söguheimurinn norræna goðafræðin sem er full af hrikalegum hetjum og stórhættulegum skrímslum. Áhorfendur ráða því sem gerist í hverri sýningu.
„Þetta leikrit er byggt á bók eftir Ævar Þór Benediktsson sem heitir Þín eigin goðsaga og heitir því Þitt eigið leikrit – Goðsaga,“ segir Baldur Trausti Hreinsson, einn leikara í sýningunni en hann leikur meðal annars Snorra Edduson Miðgarðsbarn, Óðin alföður, tröllskessuna Angurboðu og önnur hlutverk. „Leikritið er byggt á goðsögunum sem Ævar Þór skrifaði um Þór, Óðin, Sif og Loka og inn í þetta fléttast manneskjur, eða Miðgarðsbörn sem svo eru kölluð í goðheimum.“
Baldur Trausti segir að í rauninni sé um að ræða þrjár útgáfur eða þrjár leiðir sem áhorfendur geta valið. „Þetta er í raun og veru byggt upp eins og sjónvarpsþáttur sem Loki Laufeyjarson stýrir. Áhorfendur hafa um þrjár leiðir að velja – það er að fylgja Snorra Eddusyni Miðgarðsbarni, Urði Sturludóttur eða Eddu Harðarsdóttur. Við þurfum í raun að hafa þessar þrjár leiðir á hreinu. Leiðirnar eða leikritin þrjú eru ekki eins en hvort sem valin er leið Snorra, Urðar eða Eddu er þó alltaf farið í hættulega leiðangra. Áhorfendur velja um fleira, svo sem hvernig persónurnar eru klæddar, hvaða vopn þær fá og hvernig leiðirnar enda – vel eða illa. Þetta er spennandi, hættulegt og skemmtilegt.“
Baldur Trausti segir að hann hafi í gegnum tíðina oft þurft að leika fleiri en eina persónu í sama leikritinu en hann hafi aldrei leikið í leikriti þar sem hann veit ekki fyrir sýningar hvaða leið eða leikrit hann er að fara að leika í það skiptið. „Ég þarf að vera tilbúinn í alls konar karaktera.“
Eitt af umdeildari málum vorþings er frumvarp heilbrigðisráðherra um þungunarrof, eða fóstureyðingar eins og talað hefur verið um fram til þessa. Verði frumvarpið samþykkt yrði fóstureyðingarlöggjöfin á Íslandi ein af þeim frjálslyndustu í heiminum. Af þeim umsögnum sem borist hafa þinginu má greina tvö meginþemu. Annars vegar eru þeir sem styðja frumvarpið og gera það í nafni kvenfrelsis og hins vegar þeir sem eru á móti frumvarpinu af siðferðislegum eða trúarlegum ástæðum.
Veigamestu og umdeildustu breytingarnar snúa að tímamörkum til fóstureyðingar. Samkvæmt núgildandi lögum skal fóstureyðing aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema að það séu ótvíræðilegar læknisfræðilegar ástæður fyrir hendi. Undanþága frá þessu eru ef miklar líkur eru á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Með nýja frumvarpinu er lagt til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða aðstæður liggja að baki þeim vilja konunnar. Með öðrum orðum verður ákvörðun um fóstureyðingu alfarið ákvörðun barnshafandi konu fram að lokum 22. viku og þarf ekkert samþykki utanaðkomandi aðila til.
Tveir skólar
Það er til marks um hversu umdeilt málið er að það var gagnrýnt þegar velferðarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögnum um málið að leitað hafi verið til trúar- og lífsskoðunarfélaga. Formaður nefndarinnar, Halldóra Mogensen, var því mótfallin þar sem hún telur slík félög ekki sem fagaðila en nokkrir nefndarmenn fóru fram á að það yrði gert og var það niðurstaðan. Sé litið til þeirra umsagna sem borist hafa velferðarnefnd, sem nú eru orðnar á sjötta tug talsins, kemur í ljós að umsagnaraðilar skiptast í tvo hópa.
Annars vegar eru það sérfræðingar á heilbrigðisvísindasviði og talsmenn kvenfrelsis sem eru fylgjandi frumvarpinu. Segir í umsögnum þeirra að frumvarpið feli í sér gríðarlega réttarbót fyrir konur, bæði hvað varðar tímamörkin og þá staðreynd að ekki þurfi leyfi heilbrigðisstarfsmanna til að gangast undir aðgerðina. Segir í einni umsögninni að um sé að ræða stærsta framfaramálið fyrir konur síðan feðraorlof var tekið upp.
Hins vegar eru það svo trúar- og lífsskoðunarfélög sem leggjast gegn breytingunum, þótt missterkt sé tekið til orða. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segist til að mynda styðja þann hluta frumvarpsins um að konur taki sjálfar „hina erfiðu ákvörðun“ um fóstureyðingu. Hins vegar gerir biskup athugasemd við tímarammann. Bendir hún á að dæmi séu um að börn hafi fæðst eftir 22 vikna meðgöngu, braggast og lifað. Hinar nýju tillögur raski því jafnvægi sem ríkt hafi um málið og veki upp grundvallarspurningar um mannhelgi og framgang lífs. Aðrir trúarhópar taka sterkar til orða og sumir þeirra leggjast alfarið gegn fóstureyðingum. Öryrkjabandalag Íslands gagnrýnir tímarammann þó á öðrum forsendum, það er að þau telja að með því að lengja tímarammann upp í 22 vikur sé verið að gefa fólki rými til að bregðast við komi upp frávik – til að mynda fötlun – í 20 vikna skoðun.
Lögin breyti ekki landslaginu
Í umsögn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna (FÍFK) kemur fram að lífvænleiki fóstra miðist við 22 vikur en í umsögn Landlæknis er hins vegar talað um 23 og hálfa viku. Hins vegar eru dæmi um fyrirbura sem hafa fæðst fyrir þann tíma og lifað og fæddist yngsti fyrirburinn eftir 21 viku og 4 daga. Þótt frumvarpið verði að lögum er ljóst að hvorki löggjafinn né heilbrigðisyfirvöld búast við að fóstureyðingum komi til með að fjölga. Þannig bendir FÍFK á að 94,4% fóstureyðinga á Íslandi fari fram fyrir 12 vikur, en 4,1% á tímbilinu 13-16 vikur. Á síðarnefnda tímabilinu voru flestar aðgerðirnar í kjölfar skimunar. Áfram er búist við að langstærsti hluti fóstureyðinga muni eftir sem áður fara fram í upphafi meðgöngu verði frumvarpið að lögum. Er bæði litið til þróunarinnar hérlendis undanfarin ár sem og reynslunnar frá öðrum löndum.
Fóstureyðing eða þungunarrof?
Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að í stað fóstureyðinga, eins og ferlið hefur verið kallað fram til þessa og notast er við í núgildandi lögum, skuli talað um þungunarrof. Segir í greinargerð frumvarpsins að hugtakið fóstureyðing sé gildishlaðið og samsvarandi orð sé ekki að finna í nágrannalöndum okkar. Ætlunin með þessu sé að færa áhersluna yfir á konuna en ekki fóstrið. Um þetta er einnig deilt, samanber umsögn biskups þar sem segir að orðið þungunarrof vísi „á engan hátt til þess lífs sem sannarlega er undir belti og er vísir að nýrri mannveru“. Orðið þungunarrof sé þess vegna misvísandi.
Fleiri með leg en konur og stúlkur
Í öðrum umsögnum, svo sem frá Þóru Kristínu Þórsdóttur sem titluð er forynja Kvennahreyfingarinnar og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, eru gerðar athugasemdir við að eingöngu sé fjallað um rétt kvenna og stúlkna til þungunarrofs. Hins vegar sé ákveðinn hópur fólks sem er með leg en kýs að skilgreina sig ekki sem konur. Það að eingöngu sé fjallað um réttindi kvenna og stúlkna er því takmarkandi. Leggur Þóra Kristín til að í stað stúlkna og kvenna verði notuð hugtök eins og manneskjur, fólk og einstaklingar, svo lengi sem tekið er sérstaklega fram að rétturinn til þungunarrofs nái ekki til þess aðila sem sæðið framleiddi, það er föður. Einnig mætti nota nýyrði á borð við legbera eða barnsbera.
Ummæli þeirra sem eru fylgjandi
„Þetta frumvarp er stórt skref í að tryggja kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Víðtæk samfélagssátt ríkir á Íslandi um nauðsyn þess að tryggja að konur geti rofið þungun að eigin ósk.“ Kvenréttindafélag Íslands
„Það er skoðun landlæknis að ákvörðun um rof þungunar svo seint á meðgöngu sé gríðarlega erfið og þungbær ákvörðun sem kona taki einungis að vandlega athuguðu máli og af illri nauðsyn. Mikilvægt er að skilja og virða að aðstæður kvenna geta verið margvíslegar og á stundum erfiðari og flóknari en hægt er að gera sér í hugarlund. Um þær aðstæður er enginn hæfari til að dæma og taka ákvörðun en konan sjálf.“ Landlæknisembættið
„Engar rannsóknir benda til þess að konur iðrist þess til lengri tíma að binda endi á þungun. Þvert á móti lýsa konur, í okkar rannsókn á Íslandi og í sambærilegum rannsóknum erlendis, létti og fullvissu um að hafa tekið rétta ákvörðun.“ Silja Bára Ómarsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir
„Frumvarpið er mikilvægt skref til að tryggja öllum konum rétt yfir líkama sínum enda er sá réttur grundvallarmannréttindi og núgildandi lög tryggja hann. Rétturinn yfir eigin líkama er ekki síst mikilvægt þeim konum sem höllum fæti standa í samfélaginu, eiga við vímuefna- og/eða geðrænan vanda að etja …“ Rótin, félag um málefni kvenna
„Sjálfsákvörðunarréttur kvenna er grundvallarmannréttindi og því rökrétt breyting að þess sé ekki krafist, skv. frumvarpinu, að utanaðkomandi aðilar þurfi að samþykkja þungunarrof.“ Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar
Ummæli þeirra sem eru andvíg
„Er ekki kominn tími tími til að stöðva þennan heimsfaraldur sem hefur á síðustu 20 árum eytt um það bil jafnmörgum á Íslandi og þeim sem búa á Akureyri og nærsveitum?“ David B. Tencer, biskup kaþólsku kirkjunnar
„Ég legg til að heiti frumvarpsins og inntak taki verulegum breytingum og verði þannig: Frumvarp til laga um algjört bann við drápum barna í móðurkviði.“ Guðmundur Ragnarsson, forstöðumaður Samfélags trúaðra
„Réttindabarátta kvenna heldur áfram og vil ég taka þátt í henni og leggja henni lið, enn eigum við konur langt í land. Ég efast stórlega um að þetta frumvarp hafi eitthvert vægi í þeirri baráttu.“ Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
„Ef þetta frumvarp um fóstureyðingar verður að lögum, sem ég ætla að vona að ekki verði, þá er verið að lögleiða morð.“ Hvítasunnukirkjan í Keflavík
„Þær tillögur að rýmka heimildir til þungunarrofs fram yfir 20 vikna fósturskimun eru augljóslega ætlaðar til þess að hægt sé að bregðast við þeim frávikum sem þar kynnu að greinast og eru aðför að rétti fatlaðs fólks til lífs.“ Öryrkjabandalag Íslands
„Ef móðirin er ekki reiðubúin að eiga barnið (sem er auðvitað hennar eign þótt ófætt sé) fær hún blessun heilbrigðisyfirvalda til að ýta á Ctrl+Alt+Del, og skorast þannig snyrtilega undan því stórkostlega hlutverki sem bíður hennar. Mér þykir reyndar hálfkaldhæðnislegt að yfirvöld sem kenna sig við heilbrigði skuli deyða líf, í stað þess að gera allt sem á þeirra valdi stendur til að varðveita heilbrigði þess.“ Ívar Halldórsson
Lög í öðrum löndum
Danmörk
Fram að 12. viku án skýringa. Eftir það þarf til sérstök félagsleg og læknisfræðileg skilyrði og er leyfi háð samþykki úrskurðarnefndar.
Noregur
Fram að 12. viku án skýringa. Eftir það þarf til félagsleg og læknisfræðileg skilyrði og er leyfi háð samþykki úrskurðarnefndar. Óheimilt eftir 18. viku nema veigamiklar ástæður eru fyrir hendi.
Svíþjóð
Fram að 18. viku án skýringa nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því. Eftir það þarf ríkar ástæður og leyfi heilbrigðis- og félagsmálastofnunar. Leyfilegt á öllum stigum ef líf eða heilsa konu er í hættu.
Finnland
Einungis eftir lok 12. viku ef lífi og heilsu konu er stefnt í hættu. Heilbrigðisráðuneytið má, ef kona er ekki orðin 17 ára þegar hún verður þunguð, veita heimild til þungunarrofs fram að lokum 20. viku meðgöngu og þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Þá er heimilt allt undir lok 24. viku að rjúfa þungun ef fóstur er haldið alvarlegum sjúkdómi eða er líkamlega fatlað.
Bretland
Engin tímalengd er tiltekin en þungunarrof er refsilaust þegar þungun er ekki komin lengra en 24 vikur og ákveðin læknisfræðileg og félagsleg skilyrði eru uppfyllt.
Holland
Heimilt fram að því tímamarki þegar fóstur telst hafa náð lífvænlegum þroska, eða fram að 24. viku. Skilyrði er sett um fimm daga umþóttunartíma eftir að beiðni er lögð fram um þungunarrof.
Belgía
Heimilt að beiðni konu fram að 12. viku þungunar. Eftir það einungins ef þungun stofnar heilsu konu í hættu eða ef fóstur telst með mjög alvarlegan og ólæknandi sjúkdóm.
Frakkland
Fram að 12. viku þungunar en eftir það einungis ef heilsu konu er stefnt í hættu með áframhaldandi þungun eða ef fóstur telst haldið alvarlegum ólæknandi sjúkdómi.
Kanada
Engin takmarkandi löggjöf er í gildi um þungunarrof eftir að hæstiréttur landsins úrskurðaði að slík lög brytu í bága við stjórnarskrá landsins.
Hver man ekki eftir djúpsteiktum camembert? Þessi réttur var mjög vinsæll á áttunda áratugnum og var þá gjarnan borinn fram sem eftirréttur en hann er líka tilvalinn sem forréttur eða smáréttur og á sérlega vel við á notalegum vetrarkvöldum. Hér kennum við ykkur hvernig á að gera hann en það er auðveldara en margan grunar.
Djúpsteiktur camembert – skref fyrir skref
2 camembert-ostar
100 g hveiti
100 g brauðrasp
3 egg
½ -1 lítri grænmetisolía
Skerið hvorn camembert-ost í 6 bita. Setjið hveiti í plastpoka og ostinn í og hristið pokann svo osturinn hjúpist vel með hveiti. Sláið eggin saman í skál. Setjið brauðrasp í aðra skál. Dýfið ostinum í egg svo allar hliðar verði þaktar og veltið síðan upp úr raspi. Gerið þetta aftur, fyrst í egg og svo í rasp. Mikilvægt er að osturinn sé vel þakinn og engin göt á hjúpnum svo osturinn leki ekki út í olíuna þegar hann er djúpsteiktur. Hitið olíuna. Gott er að nota lítinn stálpott og olían þarf að vera 5-6 cm djúp. Óþarfi er að nota meiri olíu. Steikið ostinn og veltið honum varlega svo hann steikist á báðum hliðum, tíminn fer svolítið eftir því hvað olían er heit en hann á að verða gullinbrúnn. Berið fram með góðri rifsberjasultu.
Texti / Sigríður Björk Bragadóttir
Mynd / Ernir Eyjólfsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Nú er sá tími runninn upp að margir landsmenn hafa strengt þess heit að huga betur að heilsunni og ætla að taka mataræðið föstum tökum. Þeytingar eru bráðsniðug og einföld leið til að auka neyslu ávaxta og grænmetis og eru tilvalin sem morgunmatur eða til að grípa í yfir daginn.
Auðvelt er að útbúa vegan-væna þeytinga og um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða för. Við tókum saman nokkrar hugmyndir til að koma þér af stað.