Föstudagur 20. september, 2024
4.8 C
Reykjavik

Þau urðu stjörnur í hruninu

Þegar íslenska efnahagsundrið varð að íslenska efnahagshruninu spruttu fram á sjónvarsviðið fjölmargir einstaklingar sem létu til sín taka í þjóðfélagsumræðunni sem var með frjóasta móti á þessum tíma. Mannlíf rifjar upp nokkra af þeim einstaklingum sem urðu þjóðþekktir í tenglsum við atburði í kringum hrunið. Sumir hurfu af sjónvarsviðinu jafnhratt og þeir stigu fram á meðan aðrir standa enn á vígvellinum.

 

Ragnar Þór Ingólfsson

Margir þeirra sem hér eru nefndir eiga það sammerkt að hafa komið fram í Silfri Egils sem eftir hrun varð einn helsti vettvangur hrunumræðunnar. Einn þeirra er Ragnar Þór sem hóf herferð gegn lífeyrissjóðakerfinu og verðtryggingunni. Hann var einn stofnenda Hagsmunasamtaka heimilanna sem á tímabili varð einn öflugasti þrýstihópur landsins þótt heldur hafi fjarað undan samtökunum. Ragnar hefur síðan bæst í hóp aðsópsmestu verkalýðsleiðtoga landsins eftir að hann stóð fyrir hallarbyltingu í VR þar sem hann gegnir nú formennsku.

 

Eva Hauksdóttir

Eva er vafalaust þekktasti aðgerðasinni landsins og líklega eina manneskjan á Íslandi sem er sjálftitluð norn. Hún rak litla nornabúð fyrir hrun og hefur um árabil haldið úti blogginu norn.is. Eva lét mikið til sín taka í búsáhaldabyltingunni. Frægust er ræða hennar fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hún var í hópi fólk sem gerði áhlaup á stöðina eftir að sonur hennar, Haukur Hilmarsson, var handtekinn fyrir að flagga Bónus fána á þaki alþingishússins. Eva heldur áfram að berjast fyrir bættum heimi og stundar nú nám í alþjóðlegri mannréttindalögfræði í Glasgow. Á sama tíma berst hún við kerfið þar sem hún hefur ítrekað reynt að upplýsa um afdrif Hauks sem sagður er hafa fallið í bardaga í Sýrlandi.

 

Katrín Oddsdóttir

Þann 22. nóvember steig ungur laganemi upp á svið á Austurvelli og hélt þrumuræðu yfir lýðnum þar sem hún hótaði að bera ríkisstjórnina út úr opinberum byggingum ef ekki yrði boðað til kosninga innan viku. Ræðan var svo eldfim að hópur samnemenda hennar við Háskólann í Reykjavík sagði hana hafa hótað ofbeldi og valdaráni og krafðist þess að frétt á vef háskólans, þar sem vísað var í ræðuna, yrði fjarlægð. Katrín hefur æ síðan verið áberandi í þjóðmálaumræðunni, sat meðal annars stjórnlagaráði og starfar nú sem lögmaður.

 

Hörður Torfason

Þegar þjóðin var á botninum fann Hörður Torfason henni farveg fyrir reiðina þegar hann, ásamt Röddum fólksins, skipulagði fjöldafundi á Austurvelli sem síðan þróuðust út í búsáhaldabyltinguna. Þar fékk hann alls konar fólk til að messa yfir lýðnum og eru sumir þeirra nefndir hér á nafn. Hörður dró sig þó í hlé eftir óviðurkvæmileg ummæli í garð Geirs H. Haarde sem þá hafði nýlokið við að tilkynna þjóðinni að hann glímdi við alvarleg veikindi.

 

Borgarahreyfingin

Borgarahreyfingin var það andspyrnuframboð sem náði mestum árangri í þingkosningunum 2009. Þar söfnuðust saman þeir sem höfðu haft sig hvað mest frammi í búsáhaldabyltingunni og komust þau Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari og Þráinn Bertelsson á þing. Flokkurinn lifði þó ekki lengi því hann splundraðist á miðju kjörtímabili þar sem þau þrjú fyrstnefndu stofnuðu Hreyfinguna á meðan Þráinn sat utan flokka. Birgitta fór síðan fyrir Pírötum, Margrét gekk í Samfylkinguna á meðan Þór hefur bæði gengið í og sagt sig úr Dögun og Pírataflokknum.

 

Ragna Árnadóttir

Fæstir landsmenn höfðu heyrt Rögnu Árnadóttur getið þegar vinstri stjórn VG og Samfylkingar var kynnt til leiks í ársbyrjun 2009. Hún hafði gegnt embætti skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu og var settur ráðuneytisstjóri þegar hún var óvænt skipuð dómsmálaráðherra utan þings. Með þessi vildi vinstri stjórnin auka faglegt yfirbragð ríkisstjórnarinnar enda voru hlutabréf stjórnmálamanna nær verðlaus á þessum tíma. Svo vel þótti Rögnu takast vel upp að hún var sterklega orðuð við forsetaframboð árið 2016. Hún lét ekki freistast og hefur starfað hjá Landsvirkjun síðan hún fór úr ráðuneytinu, fyrst sem skrifstofustjóri og nú aðstoðarforstjóri.

 

Eva Joly

Traust á íslenskum stofnunum var í lágmarki eftir hrunið og margir töldu að best væri að fá erlendan sérfræðing til að stýra rannsókninni á falli bankanna. Um svipað leyti hafði Egill Helgason boðið Evu Joly til sín í Silfrið, en hún hafði áður stýrt rannsókn á umfangsmiklu fjársvikamáli í Frakklandi. Málflutningur frú Joly heillaði þjóðina og var hún á endanum fengin til að vera sérstakur ráðgjafi við rannsóknina. Hún fór mikinn í fjölmiðlum en eignaðist um leið óvildarmenn í röðum þeirra sem gættu hagsmuna þeirra sem rannsóknin beindist að. Hún er í dag þingkona á Evrópuþinginu og flytur einmitt fyrirlestur um hrunið í Háskóla Íslands í dag.

 

Björn Bragi Mikkaelsson

Verktakinn Björn Bragi Mikkaelsson varð alþýðuhetja í skamma stund þegar hann eyðilagði hús sitt á Álftaneis auk þess að urða bíl sín. Kenndi hann óbilgirni bankastofnana um enda hafði hann skömmu áður misst húsið í hendur Frjálsa fjárfestingabankans. En hetjuljóminn hvarf fljótt þegar í ljós kom að Björn Bragi hafði svikið allnokkurn fjölda fólks um háar fjárhæðir í starfi sínu sem verktaki. Árið 2012 var hann svo dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa ekki staðið skil á skattgreiðslum, fjársvik og brot á bókhaldslögum og ári síðar var hann úrskurðaður gjaldþrota. Engar eignir voru í búinu til að mæta 114 milljóna króna kröfum í það.

 

Lilja Mósesdóttir

Ný kynslóð álitsgjafa spratt fram eftir hrunið enda höfðu hinir klassísku álitsgjafar fallið töluvert í verði, af augljósum ástæðum. Lilja mósesdóttir var ein þeirra og kom hún vel fyrir, enda bæði með góða menntun og starfsreynslu. Það fleytti henni á þing fyrir VG í kosningunum 2009 og naut hún þar talsverðrar hylli. Hún tilheyrði hins vegar hópi villikatta innan VG, eins og Jóhanna Sigurðardóttir komst að orði, og fór svo að hún var einn af fjórum þingmönnum VG sem yfirgaf flokkinn á miðju kjörtímabili. Hún hugði á sérframboð undir merkjum Samstöðum og nokkrum mánuðum fyrir kosningar mældist framboðið með yfir 20 prósenta fylgi, en sökum skorts á samstöðu leysist framboðið upp áður en til kosninga kom.

 

Ólafur Þór Hauksson

Ekki var hlaupið að því að ráða í stöðu sérstaks saksóknara, þess er stýra átti rannsóknum gegn stjórnendum föllnu bankanna. Enda um mjög vanþakklátt starf að ræða. Í fyrstu lotu sótti enginn um stöðuna en þegar umsóknarfrestur var framlengdur bárust tvær umsóknir. Þar af uppfyllti annar aðilinn ekki skilyrði. Eftir sat Ólafur Þór Hauksson, lítt þekktur sýslumaður af Akranesi. Í kjölfarið fylgdu húsleitir, handtökur, ákærur svo og fræg störukeppni við Sigurð Einarsson sem neitaði að snúa aftur til Íslands frá London og var á tíma eftirlýstur af Interpol. Embætti sérstaks saksóknara reyndist vegtylla fyrir Ólaf sem nú gegnir embætti héraðssaksóknara.

 

Orð eins legókubbar tungunnar

Þann út 21. nóvember árið 1938 kom fyrsta tölublaðið af Vikunni út og blaðið fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Vikan hélt hins vegar upp á afmælið í gær með veglegu partíi og útgáfu afmælisblaðs. Við tókum ritstjóra Vikunnar, Steingerði Steinarsdóttur, tali í tilefni af þessum merkilegu tímamótum.

„Afmælisblaðið er áttatíu síður að sjálfsögðu og þar lítum við um öxl en njótum líka augnabliksins,“ segir Steingerður glöð í bragði. Á forsíðu afmælisblaðsins er Birgitta Haukdal sem átti eftirminnilega endurkomu með hljómsveit sinni Írafári í sumar. „Okkur fannst hún skemmtilegur fulltrúi þeirra kvenna sem hafa í gegnum tíðina skreytt forsíðuna en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Birgitta er á forsíðu Vikunnar. Sigríður Beinteinsdóttir söngkona er líka í stóru viðtali um það sem er efst á baugi hjá henni. Hljómsveit hennar Stjórnin átti líka stórafmæli í ár og svo heyrum við í Svövu Johansen um sveiflurnar í tískunni og hvernig hún fer alltaf í hringi. Báðar þessar konur hafa líka oft áður verið í blaðinu. Við töluðum við alla fyrrrennara mína sem voru enn ofar moldu og fengum þeirra sýn á blaðið. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Talað var við Pál Helgason í Vestmannaeyjum, jafnaldra Vikunnar og hennar tryggasta áskrifanda. Við lögðumst svo yfir gamalt efni og drógum fram það sem einkennt hefur Vikuna í gegnum tíðina, gert hana leiðandi og sífellt markverða. Það er gaman að vera hluti af einhverju sem á sér mikla sögu en er alltaf síungt.“

Steingerður segir að ýmislegt hafi breyst í blaðinni í áranna rás. „Helst hefur breyst hvað viðtöl eru miklu stærri hluti blaðsins. Efnistökin eru líka breytt en núna er fólk óhræddara við að tala um tilfinningar en áður var og opna sig um erfiða hluti. Margt lá áður falið í þögninni en við höfum til allrar lukku lært að það gerir manneskjum ekkert gott að byrgja allt inni. Þegar þú stígur fram og talar eins og þér býr í brjósti og ert þú sjálfur sýna aðrir þér oftast meiri skilning en þú áttir von á. Ég finn oft fyrir mikilli gleði þegar fólk segir mér að í kjölfari viðtals hjá okkur hafi verið hægt að byggja aftur brýr sem höfðu brotnað og bera smyrsl á gömul sár.“

Oft sker í hjartað að sjá sársaukann

Steingerður tók við ritstjórn Vikunnar í maí 2013. Hún skrifaði hins vegar fyrst í blaðið í lausamennsku 1994 og sumarið 1998 fékk hún fastráðningu sem blaðamaður. „Ég vann svo á Vikunni til ársins 2006 en þá bauðst mér starf sem ritstjóri á tímaritinu hann/hún sem var nýstofnað og mér fannst það tækifæri of spennandi til að sleppa því. Svo sneri ég aftur á Vikuna fyrir fimm árum,“ segir Steingerður og aðspurð segist hún gegna besta starfi í heimi. „Flestir dagar fljúga hjá og oft finnst mér ég ekki einu sinni hafa verið í vinnunni svo gaman var. Sérstaðan felst í því að við erum alltaf að fara með sögur fólks og mér finnst mikilvægt að gera það af trúmennsku og virðingu við viðmælandann.

Áhugaverðast við starfið er allt fólkið sem við hittum og skemmtilegast að sjá verða til fallegt blað með góðum texta og lifandi myndum. Ég hef alltaf verið heilluð af blaðamannsstarfinu. Bæði hef ég yndi af að vinna með orð og fólk hefur alltaf vakið áhuga minn. Fyrir mér eru orð eins legókubbar sem hægt er að raða saman á ótal vegu til að skapa andrúmsloft, draga upp mynd af manneskju og ná fram tilfinningaviðbrögðum. Fátt er skemmtilegra nema ef vera skyldi að heyra fólk segja frá, upplifunum sínum, tilfinningum og lífi. Lifandi sögur sem fá enn meira gildi af því að þær eru sannar. Af þessu er svo hægt að draga margvíslegan lærdóm um hvað rekur fólk áfram, hvernig tilfinningalíf okkar er ólíkt en samt svo ótrúlega líkt. En það getur líka verið erfitt að hlusta á manneskju segja frá átakanlegri lífsreynslu. Oft sker það í hjartað að horfa upp á sársaukann og skynja hve stutt er enn inn í opna kviku þótt hrúður hafi sest á sárið,“ segir Steingerður.

Törn framundan

Þrátt fyrir mikla mikla vinnu að undanförnu og allt húllumhæið sem fylgdi afmælisveislu fimmtudagsins slá blaðamenn Vikunnar hvergi slöku við enda stærstu blöð ársins framundan. „Kökublað, jólablað og völvublaðið sívinsæla. Völva Vikunnar varð til á áttunda áratug síðustu aldar og hefur síðan verið ómissandi hluti af áramótunum hjá mörgum,“ segir Steingerður að lokum.

Auðmönnum blöskrar verðlagið á Íslandi

|||||
|||||
Verðmætir fyrir hagkerfið
Ætla má að ferðamenn sem fari í lúxusferðir hafi lagt a.m.k. 10-12 milljarða til efnahagslífsins hér í fyrra. Þetta kom fram í samtali Ninnu Hafliðadóttur, markaðsstjóra Iceland luxury, við ViðskiptaMoggann í apríl. Ninna sagðist telja að 10-12 þúsund slíkir ferðamenn hafi komið til landsins í fyrra. Að meðaltali eyði þeir um einni milljón króna í fimm daga ferð til Íslands. Til samanburðar eyði venjulegur ferðamaður um 240 þúsundum í sjö daga ferð. Lúxusferðir gætu skilað tugum milljarða og viðskiptavinirnir því verðmætir fyrir hagkerfið.

Þótt Samdráttur hafi orðið í ferðaþjónustu hér á landi milli ára segja ferðaþjónustufyrirtæki og aðilar sem sérhæfa sig í ýmis konar sérferðum að ekki hafi dregið úr eftirspurn eftir svokölluðum lúxusferðum. Þvert á móti. Sumum viðskiptavinunum blöskri hins vegar hátt verðlag á Íslandi.

„Það hefur enginn samdráttur orðið í dýrari ferðum. Ég finn ekki fyrir því. Ef eitthvað er þá er meira að gera hjá mér núna heldur en í fyrra,“ segir Teitur Úlfarsson sem hefur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi undanfarin þrjú ár og er hjá einu þeirra fyrirtækja sem býður m.a. upp á sérsniðnar ferðir fyrir efnaða viðskiptavini.

Þau lúxusferðaþjónustufyrirtæki sem Mannlíf ræddi við eru á einu máli um þetta. Ekkert lát sé á aðsókn í slíkar ferðir. Að sögn fyrirtækjanna koma flestir viðskiptavinanna frá Bandaríkjunum, sumir frá Asíu og Evrópu og í sumar þegar WOW air bauð upp á áætlunarflug til Tel Aviv var þónokkuð um Ísraela líka. Stundum sé þetta fólk sem kemur aftur eftir að hafa átt hér stutt stopp og er ýmist um að ræða fjölskyldur, vinahópa, aðila í viðskiptaerindum eða stórstjörnur sem eru reiðubúnar að greiða háar fjárupphæðir fyrir góða þjónustu. Kröfurnar séu þ.a.l. miklar. Fólk sætti sig ekki við hvað sem er þegar kemur að mat og þjónustu. Líki því t.d. ekki gististaður heimti það umsvifalaust gistingu annars staðar.

Með skakka mynd af Íslandi
Ferðaþjónustuaðilarnir sem Mannlíf ræddi við segja að ferðamenn sem koma hingað séu ansi misvel upplýstir um land og þjóð. Sumir séu ágætlega að sér. Aðrir ekki. „Ég hef verið spurð alls kyns asnalegra spurninga. Eins og hvort við búum í snjóhúsum og hvernig við ferðumst um á veturna. Hvort við förum á milli húsa á snjósleðum,“ segir ein sem vill ekki láta nafns síns getið. Annar nefnir að fáviska sumra geti hreinlega verið hættuleg. Eins og þegar fólk sem er vant gönguleiðum á stígum heima hjá sér ætli að rjúka á fjöll. „Fólk ætlar stundum að fara upp á jökul á strigaskóm. Þá þarf maður að grípa inn í og stoppa það.“

Þegar spurt er hvað dragi þessa ferðamenn helst til landins er svarið ávallt það sama: íslensk náttúra. Fjölsóttir staðir eins og Gullfoss og Geysir séu þó ekki efstir á óskalista því fólkið vilji njóta næðis, oft með sínum nánustu. Sem dæmi kaupi sumir „upp öll slottin í skoðunarferðum þar sem þeir vilja vera prívat með fjölskyldum eða vinum,“ eins og einn viðmælandi Mannlífs orðar það. Jafnvel þótt borgað sé talsvert meira fyrir þjónustuna.

Láta ekki bjóða sér hvað sem er
Að sögn viðmælenda Mannlífs eru umræddir ferðamenn flestir kröfuharðir en sanngjarnir, eðlilega þar sem margir greiði háar fjárupphæðir fyrir þjónustuna. Sumir geri þó veður út af minnsta hlut og láti jafnvel eins og frekir krakkar fái þeir ekki allar óskir sínar uppfylltar. Sum vandamál sem koma upp séu hreinræktuð lúxusvandamál. „Eins og þegar viðkomandi finnst herbergið sitt snúa í ranga hátt, að aukavask vanti á baðherberginu eða baðherbergin ekki vera nógu mörg,” segir einn.

Ofbýður verðlag á mat
Viðmælendur Mannlífs segja flesta ferðamennina fara héðan sáttir enda sé kappkostað að gera dvöl þeirra sem ánægjulegasta. Ýmsir hafa þó orðið varir við breytta kauphegðun hjá viðskiptavinum sínum. Fólk sé t.d. farið að bóka styttri ferðir en áður. „Það fer frekar í dagsferðir og því verða sum landsvæði svolítið útundan,“ segir Teitur Þorkelsson hjá Iceland Unlpugged. „Í sumar tók maður t.d. eftir því að færri fóru austur fyrir Jökulsárlón og austur fyrir Húsavík. Jafnvel bara nokkrar hræður á geggjuðum stað eins og Ásbyrgi. Það styttir kannski upphaflega áætlun um 5 eða 7 daga ferð um 1-3 daga þegar það sér kostnaðinn. Hann hefur náttúrlega aukist vegna styrkingar krónunnar.“

Koma með eigin kokka
Meirihluti viðskiptavina er ánægður með íslenska matseld og mörgum kemur hreinlega á óvart hvað hún er góð, segja viðmælendur. Þó séu alltaf einhverjir með sérþarfir þegar kemur að mat. Hótelin séu yfirleitt reiðubúin að koma til móts við þessar þarfir en veitingastaðir geti átt erfiðara með það. „Svo hafa sumir engan áhuga á að bragða á innlendri matseld og koma þá með eigin matreiðslumenn til landsins. Ég veit um fólk sem hefur jafnvel burðast hingað með ferðatöskur fullar af hráefni, sannfært um að hér væri allt óætt.”

Þá segja ferðaþjónustuaðilar að sumum blöskri hátt verðlag, einkum á mat. „Kúnnar sem hafa komið hingað áður tala um hvað verðið hefur hækkað mikið á fáum árum,“ segir Teitur Úlfarsson. „Bandaríkjamaður missti andlitið þegar hann sá hamborgara seldan á 4.900 krónur á hóteli á Suðausturlandi. Honum datt ekki í hug að borga það. Ég veit líka um hjón sem borðuðu frekar samlokur á herberginu sínu en að snæða á veitingastað hótelsins sem þau dvöldu á. Þeim ofbauð svo verðlagið á matnum. Því enda þótt fólk sé vel stætt þá hvarflar ekki að því að eyða peningunum í vitleysu.“

Milljón í þjórfé
Nokkuð misjafnt er hvort viðskiptavinir gefi þjórfé eða ekki, að sögn viðmælenda Mannlífs. „Sumir tipsa ekkert þótt þeir eigi nóg af fé,“ segir einn. Aðrir gera það ekki af því að þeir hafa lesið að slíkt tíðkist ekki á Íslandi. Gefi viðkomandi þjórfé þá er algengasta upphæðin á bilinu 30-60 þúsund, allt upp í 100 þúsund krónur, eftir því sem Mannlíf kemst næst. Sumir eru örlátari. „Ég veit t.d. um einn leiðsögumann sem fór með bandarískan liðsforingja á eftirlaunum hringinn í kringum landið í fyrra, hann fékk milljón í þjórfé.“

Óttast gullgrafaræði
Sumir sem Mannlíf ræddi við óttast hins vegar að þessi almenna ánægja ferðamannanna með dvölina muni ekki vara lengi, m.a. þar sem sífellt fleiri aðilar séu nú farnir að bjóða upp á lúxusferðir og því miður standist þjónustan ekki alltaf þær gæðakröfur sem viðskiptavinirnir geri. Það sé að grípa um sig hálfgert gullgrafaræði, svipað og í hinni almennu ferðaþjónustu á Íslandi. Sumir fari of geyst í von um skjótfenginn gróða. Með sama áframhaldi sé hætta á að samdráttur verði í þessum kima ferðaþjónustunnar líka.

Skuggi fellur á stjörnu Ronaldos

Frá nóttinni örlagaríku í Las Vegas.

Þýska blaðið Der Spiegel birti á dögunum viðtal við bandaríska konu að nafni Kathryn Mayorga sem lýsti í smáatriðum hvernig portúgalska knattspyrnustjarnan mun hafa nauðgað henni á hótelherbergi í Las Vegas sumarið 2009. Sama blað greindi frá því í fyrra að Ronaldo hafi borgað Mayorga, sem þá var ekki nefnd á nafn, 375 þúsund dollara fyrir að þegja um málið. Sú upphæð jafngilti vikulaunum Ronaldos á meðan hann spilaði með Real Madrid.

Innblásin af MeToo-byltingunni og nýjum lögfræðingi ákvað Mayorga að stíga fram með sögu sína í þeirri von að aðrar konur sem kunna að hafa verið áreittar af knattspyrnustjörnunni stígi fram. Lögregluyfirvöld í Las Vegas hafa ákveðið að opna rannsókn málsins á ný eftir að Mayorga höfðaði einkamál á hendur Ronaldo. Sjálfur hefur Ronaldo og lögfræðiteymi hans harðneitað ásökununum og hótað Der Spiegel málsókn en þýska blaðið stendur við allt sem þar stendur.

 

Alla jafna „góður gæi“

Umrætt atvik á að hafa átt sér stað í júní 2009. Mayorga hitti Ronaldo á næturklúbbi í Las Vegas og bauð hann henni og vinkonu hennar í samkvæmi á hótelherbergi hans á Palms Casino-lúxushótelinu. Segir Mayorga að fyrst hafi Ronaldo leitað á hana á baðherberginu og síðan hafi hann þröngvað henni inn í svefnherbergi þar sem hann nauðgaði henni í endaþarm. Eftir á mun Ronaldo hafa sagt að hann væri alla jafna „góður gæi“ nema í eitt prósent tilvika.

 

Greitt fyrir þögnina

Mayorga leitaði á náðir lögreglu en var ekki tilbúin að leggja fram kæru gegn einni skærustu íþróttastjörnu heims. Nokkrum mánuðum síðar var gengið frá 375 þúsund króna greiðslu þar sem Mayorga féllst á að tala aldrei opinberlega um málið. Der Spiegel komst á snoðir um samkomulagið og greindi frá því í fyrra en málið lognaðist út af og virtist það engin áhrif hafa á hann, enda skrifaði Ronaldo undir samning við Juventus í sumar sem tryggir honum 30 milljónir evra á ári.

 

Ronaldo bregst reiður við

Ronaldo brást ókvæða við viðtalinu við Mayorga í myndbandi sem hann birti á Instagram-síðu sinni þar sem hann á 147 milljónir fylgjenda. Hann sagði Mayorga notfæra sér nafn hans til að öðlast frægð og sakaði Der Spiegel um að flytja „falsfréttir“. Christoph Winterbach, íþróttaritstjóri Der Spiegel, svaraði Ronaldo fullum hálsi og sagði fréttaflutninginn standast allar kröfur um vandaða blaðamennsku. Blaðið hefði undir höndum hundruð gagna sem styðja við fréttaflutninginn og birti hann hluta þeirra á Twitter-síðu sinni. Ronaldo undirritaði hluta þessara gagna.

 

Engin lausn í augsýn

Óvíst er hvaða stefnu málið tekur. Forráðamenn Juventus hafa ekkert tjáð sig um málið og ólíklegt að þeir muni gera nokkuð til að skaða sína verðmætustu eign. Stærstu fjölmiðlar heims hafa heldur ekki fjallað um málið að nokkru ráði. Ronaldo er með her snjallra lögmanna að baki sér og búast má við því að málsóknin á hendur honum taki langan tíma. Á meðan mun Ronaldo halda áfram að láta ljós sitt skína á knattspyrnuvellinum fyrir himinháar fjárhæðir.

„Lygin er alvarlegur hlutur“

|||||
|||||

Þann 11. febrúar 2004 fann kafarinn Þorgeir Jónsson lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum. Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku.

„Nokkrum dögum fyrr hafði skip sem lá við bryggjuna losnað frá, skollið illa í horn hennar og hugsanlega brotið stólpa. Gísli Sigurbergur Gíslason, hafnarstjóri í Neskaupstað, bað mig um að líta á skemmdirnar þegar ég hefði tíma,“ segir Þorgeir þegar hann rifjar þennan atburð upp – ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti. Hann er yfirvegaður í fasi og gerir ekki mikið úr sínum hluta málsins þrátt fyrir að hér sé um að ræða upphafið á einu stærsta sakamáli Íslandssögunnar. Þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð er ólíklegt að maðurinn hefði nokkru sinni fundist ef Þorgeir hefði ekki verið beðinn um að kafa við bryggjuna á þessum tíma. Viðgerðir á bryggjunni voru ekki áætlaðar fyrr en seinna á árinu, jafnvel ekki fyrr en á því næsta.

„Veðrið var gott þennan morgun, ég var í fríi og ákvað að drífa þetta af. Ég mætti með búnaðinn á netagerðarbryggjuna þar sem ég hitti Gísla við annan mann og þeir sýndu mér hvað þurfti að skoða. Ég fór út í sjóinn og beint að horninu sem hafði orðið fyrir tjóni og myndaði skemmdirnar. Að því loknu báðu þeir mig um að sækja nokkur dekk sem höfðu slitnað frá bryggjunni og lágu á botninum aðeins utar. Ég festi spotta í dekkin og synti svo til baka eftir botninum að bryggjunni. Þá kom ég auga á líkið. Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna. Ég kafaði síðan niður aftur til að taka myndir og kom með þær upp um svipað leyti og lögreglan mætti á svæðið. Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“ segir Þorgeir.

Þorgeir gerði sér strax grein fyrir að það var manneskja sem hann sá á botninum við bryggjuna, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum.

Hann fór síðan aftur niður að beiðni lögreglunnar til að taka fleiri myndir og var síðan beðinn um að losa líkið og koma því upp á yfirborðið. Fleiri lögreglumenn bar fljótt að garði, sjúkrabíl og lækni auk þess sem fólk frá rannsóknarlögreglunni lagði strax af stað úr höfuðborginni.

„Ég var sá eini sem fór niður og sá aðstæður með berum augum og það hefur sennilega liðið um það bil klukkustund frá því að ég fann líkið þar til það var komið upp á bryggjuna. Ég sá hins vegar aldrei í andlit mannsins og hafði því ekki hugmynd um hvort þetta væri einhver sem ég jafnvel þekkti héðan úr bænum.“

„Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“

Fjölmiðlar ágengir

Næstu klukkutímar og dagur voru um margt óvenjulegir hjá Þorgeiri. Hann var orðinn aðalvitni í sakamáli, fjölmiðlar kepptust við að ná af honum tali og kjaftasögurnar grasseruðu í hverju horni.

„Mér datt aldrei í hug að málið hefði þróast með þeim hætti sem síðar kom í ljós og hélt að þetta væri einhver héðan af svæðinu – eitthvað partí hefði farið úr böndunum. Ég fór í skýrslutöku og afhenti lögreglu allar myndirnar sem ég hafði tekið. Mér var boðin einhvers konar áfallahjálp og hitti hjúkrunarfræðing sem rabbaði við mig. Málið var mjög fljótt að spyrjast út, strax um hádegi byrjaði síminn að hringja og þegar leið á daginn voru sennilega allir fjölmiðlar búnir að hafa samband við mig. Ég vísaði þeim öllum á lögreglu,“ segir Þorgeir. Hann vann á þessum tíma á Vélaverkstæði G. Skúlasonar en var í fríi sem var ástæða þess að hann hafði tíma til að kafa þennan dag. Hann segir að næstu dagar hafi einkennst af eltingaleik fjölmiðla við að ná af honum tali.

„Ég sá hins vegar aldrei í andlit mannsins og hafði því ekki hugmynd um hvort þetta væri einhver sem ég jafnvel þekkti héðan úr bænum.“

„Síminn byrjaði fyrir klukkan sjö á morgnana þegar stjórnendur morgunútvarpsþátta höfðu samband en ég vísaði áfram öllu frá og svaraði engu um málið sjálft. Ég viðurkenni að mér fannst verulega óþægilegt að vera miðpunktur í fjölmiðlaumfjöllun og sannarlega ekki það sem ég bjóst við þegar ég vaknaði morguninn sem ég fann líkið. Ágangurinn hélt áfram en fjaraði svo út á nokkrum vikum. Andrúmsloftið í bænum var þungt og menn voru slegnir yfir atburðinum. Kjaftasögurnar voru margar og mismunandi, meðal annars um hver þetta gæti verið. Aðkomuskip sem var hér nokkrum dögum fyrr, verkamenn við Kárahnjúkavirkjun og á svæðinu við álverið á Reyðarfirði var áberandi í umræðunni. Þegar hið sanna kom svo í ljós var leitt að heyra að maður úr bæjarfélaginu hefði tengst málinu en þegar menn eru komnir í rugl þá getur ýmislegt gerst.“

Þorgeir segist hafa unnið úr áfallinu og atburðurinn hafi lítið truflað hann, ef svo má að orði komast. „Mesta áreitið var ágangur fjölmiðla dagana á eftir og er sá þáttur sem mér þótti óþægilegastur við þetta mál. Annars hef ég bara haldið áfram að lifa mínu lífi en ég er enn spurður reglulega út í þetta, fólk er forvitið um málið.“

Áður fundið lík við köfun

Segja má að líf þessa hægláta manns hafi umturnast við líkfundinn og óvenjulegt að vera allt í einu miðpunkturinn í kastljósi fjölmiðlanna. Þorgeir fæddist árið 1971 í Neskaupstað og hefur búið þar alla tíð. Hann er vélvirki og vinnur hjá Alcoa Fjarðaáli. Hann er í sambúð og á einn son auk þess sem sambýliskona hans á son fyrir. Þorgeir segist hafa verið smákrakki þegar hann fékk áhuga á köfun.

„Sem polli fylgdist ég með mönnum sem voru hér að kafa við bryggjurnar, voru að vinna við síldarflotann og þessi skip sem voru hérna. Ég byrjaði sjálfur í kringum 17 ára aldurinn. Æskilegt er að menn læri sportköfun áður en byrjað er að kafa en á þessum tíma var mjög algengt að græjurnar væru keyptar og svo prófuðu menn sig bara áfram. Ég var byrjaður að starfa með björgunarsveitinni og datt inn á björgunarköfunarnámskeið þar sem ég fékk lánaðan búnað en eignaðist fljótlega minn eigin búnað eftir það. Það gerði mér gott. Í framhaldinu var ég innvinklaður í slökkviliðið og var orðinn reykkafari hjá því 18 ára gamall.“

Þorgeir hefur stundað köfun frá því hann var 17 ára gamall, bæði sem sport- og atvinnukafari.

Þorgeir var virkur í björgunarsveitarstarfinu um árabil, er enn á útkallslista þar og hjá slökkviliðinu og reynir að taka þátt í því sem tilfellur. Hann hefur nokkrum sinnum farið í leit sem kafari og í eitt skiptið var það Þorgeir sem fann þann sem leitað var að. Þetta er því ekki í eina skiptið sem Þorgeir hefur fundið lík í vatni. „Þær leitir í vatni sem ég hef tekið þátt í hafa allar borið árangur. Það er vissulega léttir að finna fólk sem er týnt en á móti kemur að einstaklingarnir eru látnir. Þetta eru því blendnar tilfinningar. Þetta getur tekið á sálina en við getum alltaf rætt við hjúkrunarfræðinga og svo er hópurinn duglegur að spjalla saman um málin. Það er gefandi og lærdómsríkt að starfa með björgunarsveit og í slökkviliðinu. Útköllum hefur þó fækkað í gegnum árin, sérstaklega hjá slökkviliðinu, sem betur fer,“ segir Þorgeir en hann hefur ekki enn þurft að nota þekkingu sína í reykköfun til að bjarga manneskju úr brennandi húsi. „Fólk hefur sem betur fer alltaf sloppið út.“

„Það er vissulega léttir að finna fólk sem er týnt en á móti kemur að einstaklingarnir eru látnir. Þetta eru því blendnar tilfinningar.“

Köfun er eitt af áhugamálum Þorgeirs auk þess að ganga á fjöll og fara á skíði. Hann stundar sportköfun af og til auk þess að vinna við að skoða skip og hafnir undir yfirborðinu. „Oft þarf til dæmis að losa veiðarfæri úr skrúfum og þetta geri ég meðfram vinnunni minni í álverinu. Undirdjúpin eru heillandi – allt lífríkið sem við sjáum venjulega ekki og skipsflökin, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef kafað víða, bæði hér heima og erlendis. Það sem hefur verið einna mest spennandi hér heima eru Strýturnar í Eyjafirði, flak af skútu sem sökk á pollinum á Akureyri 1917, gjáin Silfra á Þingvöllum, flak El Grillo á botni Seyðisfjarðar og lítið skipsflak í Hellisfirði,“ segir Þorgeir.

Reyfarakennd atburðarrás

Líkfundarmálið í Neskaupstað var svo reyfarakennt að mörgum varð að orði að það væri eins og skáldskapur, lyginni líkast – bíómynd frekar en raunveruleiki. Fyrir tveimur árum var ráðist í gerð bíómyndar sem byggð er á málinu en fyrstu drög að handritinu voru skrifuð fyrir fjórtán árum. Myndin heitir Undir halastjörnu og verður frumsýnd hér á landi 12. október næstkomandi. Leikstjóri og handritshöfundur er Ari Alexander Ergis Magnússon og myndin er fyrsta leikna bíómyndin hans í fullri lengd en hann hefur áður gert fjölda heimildamynda og stuttmynda.

Ari Alexander Ergis Magnússon er handritshöfundur og leikstjóri kvikmyndarinnar Undir halastjörnu sem byggir á líkfundarmálinu. Mynd / Jónatan Grétarsson

„Upphaflega ætlaði ég að gera heimildamynd um málið en sú hugmynd kviknaði árið 2004 í kjölfarið á líkfundarmálinu. Þá vildi þannig til að ég og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi vorum í viðtali í þættinum Ísland í dag vegna heimildamyndarinnar Gargandi snilld sem við vorum að kynna. Í sama þætti var einn sakborningur líkfundarmálsins í viðtali á eftir okkur. Hann neitaði öllu staðfastlega. Þetta fannst mér áhugavert þar sem ég hef ávallt verið áhugamaður um lífið, lygina og það sem við köllum sannleika, hvernig fólk upplifir atburði mismunandi og er fylgið sér í eigin hugarheimi, þetta verður trúarsannfæring, hver sagði og gerði. Annað sem kveikti áhuga minn voru viðbrögð hins Íslendingsins í málinu, en þegar allt var komið í óefni flúði hann heim til mömmu sinnar, það fannst mér athyglisvert. Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.

„Lygin er alvarlegur hlutur“

Handrit myndarinnar er byggt á líkfundarmálinu en Ari tekur sér skáldaleyfi í persónusköpun, samtölum og aðstæðum persónanna. Nöfnum er breytt og í myndinni eru Litháarnir tveir frá Eistlandi og heita Mihkel og Igor. Myndin snýst um aðdragandann að málinu, ekki um lögreglurannsóknina.

„Myndin hefst í Eistlandi árið 1991 þegar þeir eru börn og Ísland fyrst þjóða viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna. Þeir upplifa hetjudáð lítils lands sem þorir að standa uppi í hárinu á Rússlandi. Landinu sem síðar verður land hinna stóru tækifæra. Ég þekki Austur-Evrópu vel, sjálfur er ég ættaður frá Síberíu og hef gert þrjár heimildamyndir í Rússlandi. Ég þekki því hugsun þessarar kynslóðar, hvernig leit að betra lífi er driffjöðurin í þessu. Atburðarásin er rétt en samskiptin skálduð.“

Stilla úr kvikmyndinni Undir halastjörnu.

Ari hefur lengi haft áhuga á fíkniefnaheiminum, hvernig væri hægt að taka á honum því okkur beri samfélagsleg skylda til að hjálpa fólki í neyð. „Þar er alltaf verið að handtaka rangt fólk – fíkniefnaneytendur sem eru handbendi fólksins sem fjármagnar kaupin. Það ætlar sér enginn að verða glæpamaður, þetta er ekki það sem foreldra dreymir um fyrir börnin sín og ekkert barn dreymir um að verða dópisti. Það er alltaf þessi von um að þetta fari allt vel að lokum. Það ætlar sér enginn að sitja uppi með látinn mann. Myndin fjallar um bræðrasvik, lygina, rangar ákvarðanir, alvarlegar afleiðingar og spilaborg sem fellur. Á leiðinni vona menn að allt verði í lagi og þá komum við að sjálfsblekkingunni. Þessi tilhögun á sannleikanum, þetta sé bara pínu vandamál sem þurfi að redda. Lygin er alvarlegur hlutur.“
Ari segist ekki skilja af hverju er ekki tekið betur á málefnum barna sem verða fíkn að bráð á fyrri stigum málsins, í grunnskólum og menntaskólum.

„Sjálfur hef ég enga lausn á takteinum en það þarf að huga alvarlega að þessum málum. Svo verða allir voðalega hissa að fólk sé skemmt og ekkert gert í málum þessara einstaklinga fyrr en allt er farið til helvítis.“

„Þetta er karma“

Myndin verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Busan International Film Festival sem fer fram 4.-13. október í Suður-Kóreu. Í framhaldinu mun myndin taka þátt í kvikmyndakeppni í Varsjá í Póllandi. Myndin verður frumsýnd á Íslandi þann 11. október og hún fer í almennar sýningar daginn eftir. „Hljóðsetningu er nýlega lokið og ég er ánægður með heildarútkomuna. Myndin verður svo á öllum stærstu komandi kvikmyndahátíðum þannig að það er nóg fram undan,“ segir Ari.

Fyrir framvindu málsins var lykilatriði að kafarinn, Þorgeir Jónsson, í Neskaupsstað fann líkið fyrir algera tilviljun. Annars hefði hinn látni mögulega aldrei fundist og fjölskylda hans því verið í óvissu um afdrif hans um aldur og ævi. „Tilviljun, ég er ekki viss um það. Ég held að þegar þú kemur svona illa fram við annað fólk þá bítur það mjög fast í rassinn á þér, örlögin sjá um þig. Óheppni að kafarinn hafi verið beðinn um að skoða bryggju, sem löngu var hætt að nota á þessum tímapunkti? Ég held ekki. Þetta er karma, mín reynsla segir það,“ segir Ari að lokum.

Myndir /Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

Ekki nóg að fjölmiðlar séu á vaktinni

Þessa dagana keppast fjölmiðlar við að rifja upp hrunið sem var fyrir tíu árum. Þeim rennur blóðið til skyldunnar. Fjölmiðlar sátu nefnilega undir ámæli eftir að hrunið skall á fyrir að hafa ekki staðið vaktina nógu vel í aðdraganda þess, að hafa verið meðvirkir með útrásarvíkingunum og slegnir sömu gróðablindunni og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir voru húðskammaðir fyrir að hafa ekki veitt stjórnvöldum nægt aðhald og að hluta til gerðir ábyrgir fyrir því að hlutirnir gengu eins langt og þeir gerðu. Allt hefði farið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu staðið sína plikt skilst manni jafnvel.

En breytir það miklu fyrir þróun mála að fjölmiðlar standi sína plikt? Nýjasta hneykslismál þjóðarinnar er meðferðin á erlendu vinnuafli sem tekin var fyrir í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV á þriðjudaginn. Þar var vel að verki staðið og uppljóstrað um fjölmörg grafalvarleg brot á mannréttindum og vinnusamningum þegar erlendir verkamenn eiga í hlut. Þjóðin saup hveljur og fylltist réttlátri reiði og vandlætingu. Samfélagsmiðlar loguðu, svo gripið sé til útþvældrar klisju. Fólk var hissa og hneykslað á því að þetta skuli viðgangast í velferðarríkinu Íslandi. Alveg steinhissa. Eins og þetta væru glænýjar uppljóstranir.

Það er gott og sjálfsagt að bregðast hart við þegar fjölmiðlar varpa ljósi á það sem aflaga fer í samfélaginu, en hvers vegna var fólk svona hissa? Allt frá því að fjölmiðlar fjölluðu um aðbúnað verkamanna við Kárahnjúkavirkjun árið 2005 hafa reglulega birst fréttir og úttektir á þeim viðbjóði sem viðgengst gagnvart erlendu starfsfólki hjá íslenskum fyrirtækjum. Hvert málið hefur rekið annað alveg síðan fyrir hrun og alltaf verður fólk jafnreitt og hissa en svo tekur næsta hneykslismál við, fréttin um misnotkun á útlendingum á íslenskum vinnumarkaði gleymist og ekkert breytist. Fyrirtæki og stofnanir halda áfram að níðast á útlendingum óáreitt af stjórnvöldum og almenningi. Árum saman. Aftur og aftur. Og alltaf er almenningur jafnhissa.

Umfjöllun fjölmiðla, sem passa sig á að standa nú vaktina vel í þetta sinn, breytir engu þegar upp er staðið. Það er nefnilega ekki nóg að flytja fréttir af ástandinu með reglulegu millibili þegar hin heilaga reiði almennings endist ekki nema í þrjá til fjóra daga. Þjóðfélög breytast ekki nema fyrir tilstilli fólksins sem myndar þau. Hrunstjórnin hefði ekki sagt af sér ef ekki hefði verið fyrir elju og þrautseigju almennings sem mætti á Austurvöll viku eftir viku, berjandi potta og látandi illúðlega. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefði ekki hrökklast frá völdum haustið 2017 í kjölfar krafna #höfum hátt hreyfingarinnar ef fólkið sem að þeirri hreyfingu stóð hefði ekki verið óþreytandi að minna á ranglætið og krefjast réttlætis fyrir fórnarlömb barnaníðings. Alveg sama hversu oft fjölmiðlar hefðu flutt fréttir af því óhugnanlega máli þá hefði ekkert gerst nema fyrir tilstilli samstöðumáttar almennings. Fjölmiðlar bylta ekki samfélögum, það gera þegnarnir. Þetta er undir okkur komið.

„Aðdáendurnir verða ekki sviknir“

|
|

Hollywood Reporter greindi fyrir skemmstu frá því að íslenska hrollvekjan Rökkur yrði endurgerð fyrir bandarískan markað. Mannlíf náði tali af leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar, Erlingi Óttari Thoroddsen, sem er alveg í skýjunum með þetta, en Erlingur mun skrifa handrit endurgerðarinnar.

Leikstjórinn Erlingur Óttar Thoroddsen.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá kom þetta svolítið flatt upp á mig því ég bjóst einhvern veginn aldrei við að Rökkur yrði endurgerð. En ég er afskaplega spenntur fyrir þessu því Orion Pictures framleiddi margar af bestu Hollywood-myndum 9. og 10. áratugarins, t.d. Silence of the Lambs, Amadeus, The Terminator og fleiri. Fólkið sem vinnur þar er frábært þannig að ég hlakka mikið til samstarfsins og það verður æðislegt að fá að taka svona stóran þátt í sköpunarferlinu,“ segir Erlingur glaður.

Spurður hvernig hafi komið til að Orion Pictures keypti réttinn að myndinni svarar Erlingur að þetta hafi byrjað með því að framleiðendur sem sáu hana á kvikmyndahátíð erlendis, haft samband og spurt hvort endurgerðarrétturinn væri laus. „Ég sagði þeim að svo væri og við vorum í sambandi í nokkra mánuði en ekkert gerðist í raun og veru þar til þeir létu mig vita að þeir hefðu átt fund með Orion. Fólkið þar hefði horft á myndina, elskað hana og vildi endurgera hana fyrir amerískan markað. Í kjölfarið fóru hjólin að snúast hratt.“

„ … það verður æðislegt að fá að taka svona stóran þátt í sköpunarferlinu.“

Að sögn Erlings eru virtir aðilar innan bandaríska kvikmyndabransans að vinna með honum á bak við tjöldin að endurgerðinni. „Þetta eru framleiðendur sem hafa gert alls konar myndir, alveg frá The Kids Are Alright með Annette Bening og Julianne Moore í aðalhlutverkum yfir í Piranha 3D. Þannig að teymið sem er í kringum myndina er afskaplega sterkt og spennandi og ég er alveg í skýjunum með það.“

Hvað var það við myndina sem heillaði þá? „Það var nú ýmislegt en ég held að aðalatriðið hafi verið hvers raunsætt sambandið milli persónanna Gunnars og Einars er og hvernig það helst sterkt gegnum alla myndina. Þeir voru spenntur fyrir því að gera hrollvekju með hinsegin aðalpersónum. Það er mikill skortur á þannig verkefnum í Hollywood og þeir telja að stór áhorfendahópur muni tengja við söguna.“

Spurður hvort sögunni verði eitthvað breytt verður Erlingur leyndardómsfullur og segist ekki geta talað mikið um það að svo stöddu. „Eina sem ég get sagt er að það verða ýmsar nýjungar þótt sjálfur kjarni sögunnar haldi sér og hinsegin elementin verða áfram til staðar. Aðdáendur íslensku myndarinnar verða ekki sviknir.“

Persónuleg og góð þjónusta í fyrirrúmi

Megináhersla Granítsteina er persónuleg þjónusta í öllum þeim ólíku verkefnum sem viðskiptavinir biðja um að sögn Sigurðar Hjalta Magnússonar hjá Granítsteinum ehf.

Granítsteinar er steinsmiðja sem hóf rekstur sinn árið 2008. Fyrirtækið framleiðir borðplötur, sólbekki, vatnsbretti og steinklæðningar ásamt ýmiskonar sérsmíði, annars vegar legsteinaframleiðslu og uppsetningu á þeim og hins vegar þjónustu kringum legsteina. Við litum inn hjá Granítsteinum og hittum Sigurð Hjalta Magnússon þar á bæ og fengum nánari upplýsingar um hvað er í boði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

„Megináhersla Granítsteina ehf. er persónuleg og góð þjónusta við viðskiptavini okkar, og aðstoða þá við útfærslu á öllum þeim ólíku verkefnum sem þeir biðja um, og höfum við hingað til getað orðið við óskum allra,“ segir Sigurður.
„Við framleiðum úr efnum hvaðanæva úr heiminum, til að mynda, graníti, marmara, kvars frá Ítalíu, Suður-Ameríku, Belgíu og Kína og að auki höfum við unnið úr íslenskum efnum eins og blágrýti og grágrýti.

Við erum einnig í nánu samstarfi við aðila á Ítalíu sem gera okkur kleift að útvega efni, hluti og vörur úr námum þaðan, úr áður óþekktum stærðum. Granítsteinar hafa einnig sinnt sérpöntunum á flísum og veggklæðningum úr steini.“
Sigurður hvetur fólk til að heimsækja þau í Helluhraun 2, fá ráðgjöf og skoða úrvalið. „Skoða öll efnin úr steini, ásamt legsteinum og fylgihlutum. Við reynum að verða við óskum allra eins og kostar er og njótum þess að þjóna viðskiptavinum okkar, í stóru sem smáu,“ segir Sigurður Hjalti glaður í bragði.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Granítsteina

Myndir / Úr einkasafni Granítsteina

 

Líður best í sveitinni sinni – Hvítársíðu í Borgarfirði

Anna Laufey Sigurðardóttir er löggiltur fasteigna- og skipasali hjá Fasteignasölunni Nýtt heimili. Hún er ekkja, þriggja barna móðir, amma og hundaeigandi og er búsett í Skerjafirði.

„Ég hef fengið að vera hluti af þessu yndislega samfélagi frá árinu 1995. Hér er gott að vera, stutt í göngustíginn við sjávarsíðuna með Nauthólsvík til austurs og Ægisíðuna til vesturs. Ég þarf þó að fara að minnka við mig en er ekki enn þá viss um það hvert mig langar að flytja því það verður erfitt að hverfa frá þessum dásamlega stað,“ segir Anna Laufey brosandi en hún er fædd og uppalin í Vesturbænum. „Þar hef ég alltaf notið mín vel. Íþróttir og útivist eru stór þáttur í lífi mínu en ég stundaði hlaup og fjallgöngur af krafti áður fyrr. Í seinni tíð hafa skíði og sund veitt mér útrás fyrir hreyfiþörfina. Einnig hef ég verið að stílisera og hef mjög gaman að því. Tvö eldri börnin mín stunda framhaldsnám og eru búsett erlendis sem stendur en yngsta barnið er enn í heimahúsum og stundar nám við Háskólann í Reykjavík.“

Hvað heillar þig mest við starfið? „Starf fasteignasala er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á arkitektúr og hönnun og því er alltaf jafngaman að koma í ný hús og kynnast sögu þeirra. Það er yfirleitt stórt skref í lífi fólks að breyta til og skipta um samastað. Þess vegna hef ég mikla ánægju af því að hjálpa þeim sem þurfa að finna nýtt og gott heimili þar sem því  líður vel, því ég veit hversu miklu máli það skiptir.“

Getur þú lýst þínum stíl? „Ég er hrifin að jarðlitum, gömlum hlutum til dæmis erfðagripum í bland við nýja hluti. Náttúrulegum efnum og fallegri myndlist. Það skiptir mestu máli að heimilið passi lífsmáta fjölskyldunnar, sé notalegt og praktískt. Ég á mér nokkra uppáhaldsarkitekta en held að hjónin Margrét Harðardóttir og Steve Christer hjá Stúdíó Granda standi upp úr.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Hans Wegner, Arne Jacobsen og Gunther Lambert eru í uppáhaldi, falleg og tímalaus hönnun þeirra. Auk þess er ég líka hrifin af mörgu sem Heimili og Hugmyndir selja, til dæmis frá Eddy Versmissen, Flamant og Chehoma.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast? „Ég hefði ekkert á móti því að eiga myndir eftir Georg Guðna og Kristján Davíðsson.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn í fatavali er blár en í húsgögnum og málningu höfða til mín jarðlitir, gráir tónar, svartur og brúnir tónar í bland við ljósa liti.“

Hvar líður þér best? „Mér líður best í sveitinni minni, Hvítársíðu í Borgarfirði. Hér heima er uppáhaldsstaðurinn minn heiti potturinn á pallinum.“

Hvað heillar þig mest við haustin? „Haustlitirnir eru yndislegir.  Ég fór á hverju hausti með mömmu til Þingvalla til að njóta þeirra. Ég kaupi erikur á haustin og set í alla potta á pallinum og fyrir utan húsið. Innandyra eru kertin ómissandi.  Ekkert er eins róandi og gott eins og að kveikja á kertum á kvöldin.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Svalasti veitingastaðurinn er að sjálfsögðu Krauma við Deildatunguhver í Borgarfirði. Eftir að hafa slakað á í pottunum og gufu og gert sig fína er fátt sem toppar það að setjast að snæðingi hjá þeim. Hreint og gott hráefni, salatið ræktað á staðnum og það bragðbesta sem ég hef smakkað. Yndisleg upplifun.“

Að lifa lífinu lifandi er að … stunda útivist og njóta náttúrunnar í gleði með fjölskyldu og góðum vinum.

Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Heillandi og glæsileg hæð á eftirsóknaverðum stað

||||
||||

Við Klapparstíg 29 á eftirsóttum stað í 101 Reykjavík er þessi glæsilega hæð, staðsett í húsi sem tilheyrir gamla tímanum.

Valdimar Poulsen, danskur járnsteypumeistari, lét byggja húsið árið 1928 og er það hið virðulegasta. Hönnuður hússins var Guðmundur H. Þorláksson byggingameistari. Húsið er steinsteypt þriggja hæða hús með risi og fallegum bogadregnum svölum og gluggum í miðjunni. Klapparstígur er blönduð gata. Þar hefur lengi ægt saman alls konar iðnaði og verslun í bland við íbúabyggð. Við Klapparstíginn hófu starfsemi sína á fyrri hluta aldarinnar margir af brautryðjendum íslensks iðnaðar.

Iðandi mannlíf og menning
Eignin er staðsett við Klapparstíg á milli Hverfisgötu og Laugavegar, sem hafa verið í mikilli enduruppbyggingu síðustu ár, til móts við Hljómalindarreitinn sem hefur tekið stórkostlegum breytingum og laðar að fólk. Endurbæturnar styðja betur við verslun og þjónustu sem veitt er á svæðinu, auk þess að krydda mannlífið. Laugavegurinn er ein helsta verslunargata Reykjavíkur og við nærliggjandi götur er fjöldi verslana, kaffihúsa, veitingastaða, gallería og önnur starfsemi sem hvetur til iðandi mannlífs og menningar.

Hvítlakkaðar fulningahurðir og gluggaumgjörðir upprunalegar
Hæðin hefur fengið að halda upprunalegu skipulagi og útliti sem gerir hana virðulegri og rýmið er opið og skemmtilegt. Hvítlakkaðar fulningahurðir og gluggaumgjörðir eru allar upprunalegar og gefa ákveðna upplifun til fortíðar. Gipslistar og rósettur prýða loftin og sveipa hæðina rómantík. Hæðin er einkar rúmgóð og vel skipulögð. Stórt hol tengir saman rými hæðarinnar sem er vel skipulagt. Á hæðinni eru þrjár, stórar og bjartar samliggjandi stofur. Stofurnar eru í sinni upprunalegu mynd og hurðirnar fegra rýmið enn frekar. Óhætt er að segja að stofurnar séu djásn eignarinnar og bjóða upp á fjölmarga möguleika. Rósettur og gipslistar setja fallegan svip á rýmið og undirstrika glæsileika stofanna. Miðjustofan er með bogadregnum gluggum sem eru sérstaklega fallegir, bæði innan sem utan og gera rýmið að innanverðu skemmtilegra. Gengið er inn í allar stofurnar frá holi.

Rómantískt frá gamla tímanum
Eldhúsið er gamaldags með rómantísku ívafi, hvítar innréttingar eru í forgrunni á móti ljósbláum lit á veggjum og inn af eldhúsi er geymsla sem áður var stigi á efri hæð og þaðan er útgengt á snotrar svalir. Svarti og hvíti liturinn er í forgrunni á baðherberginu sem er vandað. Fallegar hvítar og svartar flísar með hreyfingu prýða baðherbergið sem tóna vel saman.

Hæðinni fylgja þrjú rúmgóð, björt og hugguleg svefnherbergi, sem öll liggja saman á hæðinni. Einfaldleikinn ræður þar ríkjum og notagildið til staðar. Það má með sanni segja að eignin bjóði upp á fjölbreytta möguleika hvort sem það fyrir heimili eða atvinnutengda starfsemi því að staðsetningin er frábær fyrir þá sem eru heillaðir að 101 Reykjavík.

Eignin er til sölu á Híbýli fasteignasölu á 93 milljónir og hún er 189,7 fermetrar að stærð. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Híbýla í síma 585-8800 eða gegnum netfangið: [email protected]. Einnig veita Ólafur Már Ólafsson, löggiltur fasteignasali s. 865-8515, netfang: [email protected] og Ingibjörg Þórðardóttir, löggiltur fasteignasali s. 864-8800, netfang: [email protected]. Sjón er sannarlega sögu ríkari.

Olíuverð stýrir Íslandi

Mynd/Pixabay

Heimsmarkaðsverð á olíu er ráðandi þáttur í efnahagslegum uppgangi og erfiðleikum Íslendinga. Það hefur áhrif á heimilin í landinu, sjávarútvegsfyrirtæki, flutningsfyrirtæki og sérstaklega flugfélög. Það hefur áhrif á verðbólguþróun og þar af leiðandi kaupmátt og vaxtakjör.

Ísland hefur um margt notið góðs af rússíbanareið olíuverðsins á heimsmarkaði á undanförnum árum. Verðið var í 130 Bandaríkjadölum á tunnuna árið 2011 og hélst hátt alveg fram til ársins 2014.  Þá hrundi það á skömmum tíma og var komið niður í 25 Bandaríkjadali í byrjun árs 2016.

Á sama tíma var ferðaþjónustan að vaxa hratt, fjármagnshöft voru enn fyrir hendi, hagvöxtur var gríðarlegur ár eftir ár og staða þjóðarbússins batnaði verulega.

En nú eru blikur á lofti. Á einu ári hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað um rúmlega 50 prósent. Það hefur sett ferðaþjónustugeirann í uppnám, sérstaklega vegna versnandi rekstrarskilyrða íslensku flugfélaganna, sem þurfa að kaupa mikið af eldsneyti á vélar sínar. Það hefur hækkað rekstrarkostnað heimila, sem flest þurfa að treysta á bíla til að koma sér á milli staða í daglegu amstri. Og það hefur ýtt við verðbólgudraugnum, sem hefur sofið værum blundi árum saman. Hann er ekki vaknaður, en hann er að rumska.

Af hverju er heimsmarkaðsverðið á olíu að hækka svona mikið á svona skömmum tíma? Ein helsta ástæðan eru þær viðskiptaþvinganir sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti á Íran.

Fjallað er ítarlega um áhrif heimsmarkaðsverðs á olíu á íslenskt efnahagskerfi og samfélag í Mannlífi dagsins. Hægt er að lesa þá umfjöllun í heild sinni á vef Kjarnans hér.

Fljótlegir eftirréttir

|
|

Sumum vex í augum að búa til eftirrétti en það þarf alls ekki að vera flókið eða tímafrekt. Hér eru einfaldar uppskriftir þar sem ávextir og ber eru í aðalhlutverki. Gott er að bera fram svolítinn rjóma eða ís á eftirréttina og þá er kominn fullkominn endir á góðri máltíð.

Súkkulaðisæla á pönnu (20 mín.)
fyrir 2-3
Þessi réttur er fyrir sælkera sem vantar eitthvað sætt og gott helst strax. Þegar rétturinn kemur út úr ofninum eru ískúlur settar ofan á hann, skeiðum dreift á gesti eða heimilismenn og einfaldlega ráðist á súkkulaðibombuna. En auðvitað má setja sæluna á diska fyrir hvern og einn.

50 g smjör
40 g hrásykur
50 g hveiti
3 tsk. kakó
25 g dökkt súkkulaði í bitum
25 g hvítt súkkulaði í bitum
¼ tsk. sjávarsalt

Hitið ofninn í 200°C. Gott er að nota litla pönnu sem má fara í ofn en ef hún er ekki til staðar notið þá lítið eldfast mót. Bræðið smjörið annaðhvort á pönnunni eða í skál í örbylgjuofni. Ef þið notið pönnuna gerið þið allt á henni. Bræðið smjörið og takið síðan pönnuna af hitanum. Blandið sykri, hveiti og kakói saman í skál. Hrærið því saman við smjörið á pönnunni. Bætið vanilludropum út í ásamt súkkulaðinu. Stráið að síðustu smávegis salti yfir og bakið í ofni í 8-10 mínútur. Berið strax fram, til dæmis með ís.

Bakaðar plómur með kókosflögum (45 mín.)
fyrir 6-8
Þetta er einstaklega bragðgóður réttur og einfaldur í gerð. Hráefnið fær að njóta sín en ekkert jafnast á við litla eða stóra rjómaslettu til að fullkomna allt saman. Fyrirhafnarlítill réttur sem er fljótlegt að skella í þó svo að bökunartíminn sé í lengri kantinum.

8 plómur
3 tsk. sykur
1 tsk. vanilluduft eða 1 vanillustöng
1 kanilstöng
handfylli kókosflögur

Hitið ofninn í 180°C. Skerið plómurnar til helminga og raðið í eldfast mót. Ef þið náið steinunum ekki auðveldlega úr, bakið þá með og takið úr þegar plómurnar eru tilbúnar. Blandið sykri og vanilludufti saman og stráið yfir plómurnar. Ef vanillustöng er notuð, skerið hana eftir endilöngu og skafið fræin úr og dreifið um mótið. Setjið kanilstöngina líka í mótið. Setjið kókósflögurnar á þurra heita pönnu og ristið þar til þær fá á sig brúnan lit. Hrærið í á meðan og fylgist vel með því þær brenna auðveldlega. Bakið plómurnar í 30 til 40 mínútur. Stráið kókosflögunum yfir plómurnar þegar þær koma út úr ofninum. Gott er að bera þeyttan rjóma fram með þessum rétti.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir Stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir

Veikir flugliðar mæta þögninni

Gagnrýna viðbrögð Icelandair og stéttarfélags.

Fjórir flugliðar Icelandair leituðu á sjúkrahús eftir að hafa fundið fyrir veikindum í flugi frá Edmonton á laugardag. Mannlíf fjallaði í síðasta tölublaði um fjölda flugatvika frá árinu 2016 þar sem starfsfólk flugfélagsins hefur jafnvel verið óvinnufært í lengri tíma eftir að hafa fundið fyrir svipuðum einkennum á flugi.

Blaðamaður hafði samband við starfsmenn sem leituðu á sjúkrahús eftir flugið frá Edmonton en þeir vildu ekki tjá sig um atvikið, lýsa einkennum eða hvort þeir væru á batavegi og bentu blaðamanni á að ræða við Icelandair.

Mannlíf hefur staðfestar heimildir fyrir því að í a.m.k. einu tilfelli hafi fundist eiturefnið TCP í hársýni flugliða sem veiktist í flugi.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, vildi ekki tjá sig sérstaklega um málefni einstakra starfsmanna. „Það virðist vera sem flestir séu að jafna sig, ég veit ekki betur,“ sagði hann í samtali við Mannlíf. Hann sagði jafnframt að ekkert væri hægt að útiloka um orsakir slíkra atvika og benti á að þau komi reglulega upp hjá flestum flugfélögum og megi yfirleitt rekja til lélegs loftflæðis vegna stífla í loftræstikerfi.

Mannlíf hefur staðfestar heimildir fyrir því að í a.m.k. einu tilfelli hafi fundist eiturefnið TCP í hársýni flugliða sem veiktist í flugi.

Fékk engar upplýsingar
Mannlíf hefur rætt við fjölda starfsmanna Icelandair í tengslum við málið m.a. flugliða sem ekki hafa getað snúið aftur til vinnu eftir að hafa fundið fyrir svipuðum einkennum í flugi. Einn starfsmaður gagnrýnir flugfélagið fyrir léleg viðbrögð í hans tilfelli. Hann hafi ekki fengið neina aðstoð eða upplýsingar frá vinnuveitanda sínum um hvert ætti að leita með sín mál. Þá segist viðkomandi hafa mætt háði og m.a. verið spurður hvort mögulega væri um þynnku að ræða.

„Það er ekki sagt eitt aukatekið orð, það eru allt of miklir hagsmunir,“

Starfsmaðurinn kallar eftir vitundarvakningu meðal almennings og Icelandair um veikindi flugáhafna vegna mengaðs lofts í rýmum flugvéla sem tekið er í gegnum hreyfla. Fyrirbærið hafi verið þekkt í flugheiminum áratugum saman og sé kallað Airotoxic-heilkennið.

Vill að Flugfreyjufélagið stígi fram
Flugliði sem Mannlíf ræddi við er harðorður í garð Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og vill að stéttarfélagið sé leiðandi í umræðunni um þessi mál þannig að bæði almenningur og flugáhafnir séu upplýst um hættuna sem getur stafað af lélegum loftgæðum um borð í flugvélum. „Það er ekki sagt eitt aukatekið orð, það eru allt of miklir hagsmunir,“ segir starfsmaðurinn og bendir á að stjórnendur stéttarfélagsins séu einnig starfsmenn flugfélaganna.Fyrir tveimur vikum sagðist Berglind Hafsteinsdóttir, formaður FFÍ, ekki vilja tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Síðan þá hefur hvorki ítrekuðum símtölum né tölvupósti verið svarað.

Nýr tölvupóstur sendur á starfsfólk
Eftir að Mannlíf ræddi við Icelandair í tengslum við dularfull veikindi flugliða sendi félagið starfsmönnum sínum tilkynningu í tölvupósti.
Farið er yfir aðgerðir flugfélagsins til að tryggja öryggi starfsmanna og tekið fram að atvikin séu misjöfn og tengist ekki einstökum flugvélum. Skoðanir hafi ekki sýnt fram á skert loftgæði.
Staðfest er eitt tilfelli þar sem sýni úr áhafnarmeðlimi var jákvætt fyrir TCP (rokgjarnt lífrænt efnasamband) sem má finna í mörgum tegundum smurolíu. Upptök efnisins í sýninu hefur ekki verið staðfest. Tekið er fram að ekki hefur mælst TCP um borð í vélum félagsins sem nota slíkar tegundir olíu.

„Vikan er heiðarlegasta tímarit landsins”

Sigga Beinteins hefur fyrir löngu skipað sér sess sem ein af okkar ástsælustu söngkonum en hún er um þessar mundir í óða önn að skipurleggja sína níundu jólatónleika. Sigga hefur margoft verið viðmælandi Vikunnar en blaðinu lýsir hún sem því heiðarlegasta hér á landi.

„Ég hef aldrei neitað Vikunni um viðtal,” segir Sigga þegar blaðakona biður hana að rifja upp kynni sín af blaðinu. „Það er alltaf gaman að vera í viðtali á Vikunni enda tel ég blaðið það heiðarlegasta á íslenskum markaði hvort sem um er að ræða blöð sem koma út viku- eða mánaðarlega. Ég veit ekki hversu oft ég hef lent í því að fjölmiðlafólk skrifi eða hafi eftir manni hluti sem ég hefði síður viljað að séu skrifaðir eða birtir en blöðin ekki virt þær óskir að vettvangi. Að mínu mati er Vikan ekki eitt þeirra tímarita enda hefur mín upplifun alltaf verið mjög góð þegar kemur að Vikunni og því fjölmiðlafólki sem þar starfar.”

Það er óhætt að segja nóg sé um að vera hjá Siggu þessa stundina því örfáum dögum fyrir útgáfu afmælisblaðsins stóð hljómsveitin Stjórnin fyrir stórtónleikum sem haldnir voru í Háskólabíói.

„Já það var öllu tjaldað til en tilefni tónleikanna er 30 ára afmæli Stjórnarinnar.“

„Við fengum til liðs við okkur fjölbreyttan hóp af frábæru listafólki en sérstakir gestir voru þau Svala Björgvins, Daði Freyr, Friðrik Ómar, Regína Ósk og Erna Hrönn. Ásamt þeim fengum við til liðs við okkur brass sveit sem gerðu lögin okkar enn veglegri og ég get sagt þér að það var alveg frábært að heyra lögin lifna við eftir að búið var að útsetja þau fyrir blásara. Í undirbúningsvinnu fyrir tónleikana týndum við jafnframt til gömul plagöt af bandinu í gegnum tíðina ásamt búningum sem við höfðum til sýnis í andyrinu, þetta var algjör veisla.”

Stjórnin var stofnuð árið 1988 af Grétari Örvarssyni en seinna sama ár gekk Sigga til liðs við sveitina. „Ég tók við af þáverandi söngkonu henni Öldu Björk Ólafsdóttur sem að ákvað að hefja sólóferil í Bretlandi. Ég var á þessum tíma að syngja í sýningu á Hótel Íslandi og Stjórnin sá um að spila á böllunum sem haldin voru á eftir þessum sýningunni. Á einhverjum tímapunkti barst til tals að Alda ætli að flytja út og í kjölfarið var mér boðin hennar staða í bandinu. Boðið þáði ég nánast á staðnum og hef verið söngkona bandsins alla tíð síðan.”

Þrátt fyrir að vera hokin af reynslu viðurkennir Sigga að óhjákvæmilega geri alltaf nokkur fiðrildi vart við sig rétt áður en stigið er á svið.

„Ég er alltaf stressuð fyrir tónleika og þá sérstaklega svona stórtónleika eins og við héldum núna síðast, ég held það muni aldrei fara frá mér.“

„Maður vill reyna að gera allt alveg upp á hundrað og rúmlega það. Við bjuggum þó að því að hafa spilað lögin mikið í sumar og höfðum því rifjað lagalistann vel upp áður en til kastanna kom. Það var því ekkert nema ánægjulegt að skapa skemmtilega tónleika fyrir gestina sem mættu.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta eintaki Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Birgitta um Írafárs-ævintýrið: „Ég gekk oft fram af mér“

Birgitta Haukdal er óneitanlega í uppáhaldi hjá Íslendingum á öllum aldri, enda erfitt að falla ekki fyrir útgeislun hennar og einlægni. Birgitta sló eftirminnilega í gegn í kringum aldamótin og gerði allt vitlaust með hljómsveitinni Írafári. Eftir mikla keyrslu og tímabil sem hún lýsir sem rússíbanareið tóku þau þá ákvörðun um að hætta á toppnum. Síðustu ár hefur Birgitta einbeitt sér að öðru en á þessum tíma hefur hún stofnað fjölskyldu, búið erlendis og flutt til baka, skrifað barnabækur og unnið að fjölbreyttum verkefnum. Fyrr á árinu kom Írafár saman aftur og óhætt að fullyrða að um endurkomu aldarinnar hafi verið að ræða.

Stórtónleikar Írafárs fóru fram 2. júní síðastliðinn þar sem gestum varð ljóst að meðlimir sveitarinnar hefðu engu gleymt. Birgitta segir það ólýsanlega tilfinningu að standa frammi fyrir fullum Eldborgarsal og fá að flytja tónlistina sína, ekki síst þar sem ættingjar og vinir voru á staðnum. Meðal gesta var níu ára sonur Birgittu, Víkingur Brynjar. „Hann var algjörlega stjarfur að sögn pabba síns allan tímann en þetta var í fyrsta sinn sem hann sá mig á heilum tónleikum en ekki bara að flytja eitt og eitt lag. Eftir tónleikana spurði ég hvernig honum hefði fundist og hann var í skýjunum með þetta. Hann viðurkenndi þó að hafa verið mjög stressaður fyrir mína hönd og þegar ég spurði hann nánar út í það var svarið, „ég var svo hræddur um að þú myndir ruglast, mamma“,“ segir Birgitta og hlær.

Meðlimir Írafárs ákváðu að koma einnig fram á Þjóðhátíð og kveðja svo á Menningarnótt. „Við komum þar fram, til þess að segja svo að við værum farin aftur. Við vitum ekki hvort við erum að kveðja í ár eða í 10 ár. En okkur fannst þetta flott, koma fram með eitthvað geggjað og bakka svo út aftur þar til næst.“

Mynd: Aldís Pálsdóttir

Birgitta segist finna mikinn mun á því að koma fram núna og á þeim árum sem þau voru á toppnum. „Þá var þetta atvinna mín númer eitt, tvö og þrjú og alltaf svo ótrúlega mikið að gera. Þetta var algjör rússíbanareið, enda varð svo mikil sprenging í kringum okkur. Ég var út um allt, dag eftir dag, og náði í raun ekki að njóta. Hausinn var stilltur á vinnustillingu og þetta var bara keyrsla. Inn á milli þegar ég fékk frí var ég bara í bómull að reyna halda viti og passa upp á röddina. En í dag er ég að gera þetta frekar mér til skemmtunar en atvinnu. Það er svo mikill munur að geta staðið og andað augnablikinu að sér og notið þess. Það spilar að sjálfsögðu inn í að ég er orðin eldri og þroskaðri og farin að átta mig á þessum forréttindum.“

Rússíbanareið er orðið sem Birgitta notar yfir árin sem Írafár var upp á sitt besta og ekki af ástæðulausu. Hún tekur fram að árin 2002 og 2003 hafi verið sérstaklega þétt. „Þetta ár var ég bara í ruglinu. Ég var að spila út um allt með Írafári, var í öllum viðtölum, og í raun bara í alls staðar þar sem hægt var að vera. Ég lék í Grease á þessum tíma og fór oft beint eftir sýningar til að syngja á böllum. Á daginn var ég svo að æfa fyrir Eurovision og fór í þá ferð. Inn á milli reyndi ég semja tónlist. Þetta var algjör bilun og mjög erfiður tími í minningunni en rosalega skemmtilegur líka. Mjög dýrmæt reynsla sem ég myndi aldrei vilja skipta út fyrir eitthvað annað. Ég gekk hins vegar oft fram af mér og hélt að ég gæti tekið meira að mér en raun var og þá lenti ég á vegg. Þótt það sé gaman að hugsa til baka sæki ég ekki í svona læti aftur.“

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Birgittu Haukdal, en hún prýðir forsíðu sérstakrar afmælisútgáfu Vikunnar sem væntanleg er í verslanir í dag.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir

Árshátíð í upplausn eftir að í ljós kom að flugið er á næsta ári

Starfsmenn Coca-Cola á Íslandi héldu að þeir væru á leið erlendis í árshátíðarferð í dag þar til í ljós kom að flugið er ekki fyrr en á næsta ári.

Hópur starfsmanna Cola-Cola á Íslandi situr nú fastur á Leifsstöð eftir að í ljós kom að flug sem hópurinn á bókað vegna árshátíðarferðar til Berlín er ekki fyrr en á næsta ári. Hópurinn hélt að hann ætti að fljúga út í dag, 4. október 2018 en þegar hópurinn kom upp á Leifsstöð kom í ljós að flugið hafði verið bókað 4. október 2019.

Einn starfsmaður Coca-Cola á Íslandi segir í samtali við DV að um 30 starfsmenn hafi mætt um klukkan 4:00 í morgun upp á flugvöll og sagði stemmninguna slæma í hópnum eftir að upp komst um klúðrið.

Hluti hópsins bíður nú á Joe and the Juice á neðri hæð Leifsstöðvar á meðan reynt er að leysa málin á meðan sumir eru farnir heim.

Á vef Coca-Cola á Íslandi kemur fram að þjónusta fyrirtækisins verði skert í dag og á morgun vegna árshátíðarferðarinnar. „Við höfum gert okkar besta til að undirbúa þennan dag þannig að þú, viðskiptavinur góður, finnir sem minnst fyrir þessari skerðingu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Fékk ekki inngöngu í eftirpartýið

Breska leikkonan Claire Foy fékk ekki inngöngu í eftirpartý eftir Emmy-hátíðina þrátt fyrir að halda á Emmy-verðlaunagrip sínum.

Leikkonunni Claire Foy var meinaður aðgangur í eftirpartý eftir Emmy-verðlaunahátíðina í síðasta mánuði. Fyrr um kvöldið hlaut Foy Emmy-verðlaun fyrir leik sinn í Netflix-seríunni the Crown þar sem hún leikur Elísabet Englandsdrottningu. En þrátt fyrir að hafa verið áberandi á verðlaunahátíðinni sjálfri fékk hún ekki inngöngu í eftirpartýið því hún gleymdi boðskortinu sínu.

Þessu greindi hún frá í The Tonight Show með Jimmy Fallon í gær. Hún sagði þetta hafa verið afar vandræðalegt, sérstaklega í ljósi þess að hún hélt á Emmy-verðlaunagripnum.

Hárgreiðslumaðurinn og sjónvarpsmaðurinn Jonathan Van Ness kom Foy þó til aðstoðar á endanum og sannfærði dyraverði um að Foy ætti svo sannarlega heima í eftirpartýinu.

 

Eitt umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar

Kafarinn Þorgeir Jónsson rifjar upp daginn sem hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað. Bíómynd byggð á málinu verður frumsýnd í næstu viku.

Í Mannlífi sem kemur út á morgun ræðir kafarinn Þorgeir Jónsson þann örlagaríka dag 11. febrúar árið 2004 þegar hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum.

„Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn, skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna,“ rifjar Þorgeir upp.

Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku. Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir myndinni.

„Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.

Mynd / Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

„Ekkert hræddur um að móðga fólk“

Halldór Halldórsson, sem flestir þekkja einfaldlega sem Dóra DNA, er einn af landsins bestu grínistum. Dóri hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann er nýlega kominn aftur til starfa eftir að hafa verið heima með Flosa, yngsta son sinn, í 18 mánuði.

„Þegar maður á þrjú börn þá er tíminn sem þau eru á sínum menntastofnunum ómetanlegur og það hefur kennt mér að nýta og skipuleggja hann vel. Síðan Flosi byrjaði á leikskóla hef ég notið þess að vinna skipulagðan vinnudag,“ segir Dóri. „Venjulegur dagur hjá mér hefst á því að ég fer á kaffihúsið Bismút klukkan níu, kjafta við gesti og gangandi í um hálftíma. Þaðan fer ég svo á skrifstofuna og skrifa en ég er með margvísleg verkefni í gangi. Ég er að vinna að gerð ýmissa handrita og verkefna með Hafsteini Gunnari, skrifa uppistandsefni, skáldsögu og fleira. Það að skrifa er uppáhaldið mitt. Mér líður aldrei betur, ekkert finnst mér auðveldara og ekkert liggur jafnvel fyrir mér. Svo reyni ég að enda alla daga á einhverri hreyfingu, hlaupum, lyftingum eða hnefaleikum. Síðustu ár hef ég notað september og október til að gera tilraunir á mataræði. Núna er ég á ketó-mataræðinu í þriðja sinn og ætla að skipta yfir í 20/4 í október.“

Ekkert bannað og ekkert mun verða bannað

Eins og margir vita er Dóri hluti af Mið-Íslandi hópnum, teymi sem samanstendur af nokkrum bestu grínistum landsins. „Mið-Ísland er alltaf jafn vel sótt. Við tökum þetta ár frá ári og sýnum þar til fólk hættir að mæta. Við hefjum haustin á því að halda prufusýningar þar sem við prófum efni sem við höfum párað hjá okkur. Svo mótum við það betur og frumsýnum í janúar. Við eigum tíu ára starfsafmæli í ár, sem er nettur skellur.“

Síðustu misseri hefur átt sér stað ákveðin umræða varðandi grín og að „ekkert megi“ lengur. Sjálfur segist Dóri ekki finna mikinn mun á viðhorfi fólks varðandi þetta.
„Ég get ekki sagt það. Það er ekki endilega það að fólk sé orðið viðkvæmara, það er bara ekki móttækilegt fyrir ákveðnu gríni. Sérstaklega gríni sem er á kostnað minnihlutahópa eða gríni sem fer nálægt eða yfir landamæri kynbundins ofbeldis. En það er ekkert vandamál hjá okkur, við höfum alltaf verið smekklegir, að mér finnst. Aldrei stuðað neinn svo harkalega að honum hefur fundist það tilefni til að segja það upphátt. Þannig erum við bara, sumt grín er bara best í lokuðum hópi. Það er einhver bylgja núna af sérstaklega karlmönnum sem finnst allt bannað. Það er ekkert bannað og ekkert mun verða bannað. Fólk er bara duglegra við að láta heyra í sér, þegar því finnst eitthvað ekki í lagi. Þegar einhver segir að eitthvert grín sé ófyndið eða óviðeigandi eru það ekki ritskoðunartilburðir, alls ekki. Að vera ósáttur við eitthvað er ekki að banna það eða krefjast þess að það sé bannfært. Ég segi oft brandara sem eru á mörkum þess að vera ósmekklegir, í húmor þá elska ég þessi landamæri. Og ef þeir ganga fram af fólki, þá hætti ég að segja þá og biðst afsökunar er þess þarf. Það er hressandi að hafa rangt fyrir sér og svo má ekki gleyma að brandarar eru bara brandarar.“

Dóri segir þá félaga í Mið-Íslandi ekki vitund hrædda við að móðga fólk. „Það væri heldur takmarkaður grínisti sem lifir við þann ótta. Við leyfum okkur að grínast með hvað sem er, sérstaklega okkar á milli. En enginn okkar hefur áhuga á því að vera ósmekklegur eða ógeðslegur. Sjálfum leiðist mér þessi tilhneiging í ákveðnum grínistum að reyna ganga fram af fólki. Sumir elska þannig grín og gjöri þeim svo vel – það er eitthvað fyrir alla og það er æðislegt. En eins og staðan er núna er enginn okkar og enginn af þeim grínistum sem eru í okkar mengi á þeim skónum.“

Leiklistarbaktería á háu stigi

Dóri verður að eigin sögn aldrei stressaður fyrir sýningar. „Ekki ef ég veit að efnið sem ég er að flytja er gott. Að koma fram hefur aldrei vafist fyrir mér, oft líður mér best þannig, ótrúlegt en satt. En það er mjög stressandi að fara fram með nýtt efni sem þú veist ekkert hvernig verður tekið, en það er líka uppáhaldið mitt. Maður hefur stundum dottið í gír, þar sem allt verður fyndið og heilinn á manni fer á milljón. Ég hef samið heilu brandarana af fingrum fram, flókna brandara með „call-backs“ á sviði, það er ótrúleg tilfinning. Ég hef einnig yfirgefið sviðið í vígahug til þess að gera út um áhorfanda sem var með frammíköll og dónaskap. Hræðilegt. En þú manst alltaf best eftir því þegar þú hefur skitið á þig. Og ég hef skitið vel á mig í uppistandi. Man eftir sérstaklega einu giggi á árshátíð kvikmyndagerðarfólks fyrir löngu. Það var ömurlegt. Fyrsta skiptið sem ég bombaði – mun aldrei gleyma því.“

Dóri hefur ekki aðeins látið til sín taka í uppistöndum og grín-sketchum, heldur einnig á hvíta tjaldinu. Hann lék nokkuð stórt hlutverk í vinsælustu kvikmynd landsins þessa dagana, Lof mér að falla. Hann er að eigin sögn kominn með leiklistarbakteríu á háu stigi, seint og löngu eftir listaháskólaárin. „Mig langar mikið til að leika meira, bæði grín, drama og hvað sem er. Mér fannst ótrúlega gaman að leika í Lof mér að falla. Leika persónu af húð og hári og pæla í því hvernig hún er og hvað hefur mótað hana. Vonandi fæ ég fleiri svoleiðis verkefni upp í hendurnar,“ segir Dóri DNA að lokum.

 

Viðtalið birtist upphaflega í Vikunni.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Hallur Karlsson

Taylor Swift með opnunaratriðið á AMA

Taylor Swift mun opna American Music Awards hátíðina og er tilnefnd til fjögurra verðlauna.

Söngkonan Taylor Swift mun verða með opnunaratriðið á American Music Awards (AMA) í ár. Swift er einnig tilnefnd til fjögurra verðlauna á hátíðinni sem fer fram þann 9. október í Los Angeles.

Swift tilkynnti þetta sjálf á Instgram í gær og fékk köttinn sinn, Meredith, með sér í lið en hann virtist ekkert of spenntur.

Swift kom  seinast fram á AMA hátíðinni árið 2014 og hreppti þá verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði tónlistar. Hún hefur í gegnum tíðina hlotið 19 verðlaun á AMA.

Þeir listamenn sem munu einnig koma fram á hátíðinni eru Carrie Underwood, Imagine Dragons, Cardi B, Post Malone og Ty Dolla $ign svo eitthvað sé nefnt.

Tracee Ellis Ross mun verða kynnir hátíðarinnar.

https://www.instagram.com/p/BobkTlxHo51/?utm_source=ig_web_copy_link

Þau urðu stjörnur í hruninu

Þegar íslenska efnahagsundrið varð að íslenska efnahagshruninu spruttu fram á sjónvarsviðið fjölmargir einstaklingar sem létu til sín taka í þjóðfélagsumræðunni sem var með frjóasta móti á þessum tíma. Mannlíf rifjar upp nokkra af þeim einstaklingum sem urðu þjóðþekktir í tenglsum við atburði í kringum hrunið. Sumir hurfu af sjónvarsviðinu jafnhratt og þeir stigu fram á meðan aðrir standa enn á vígvellinum.

 

Ragnar Þór Ingólfsson

Margir þeirra sem hér eru nefndir eiga það sammerkt að hafa komið fram í Silfri Egils sem eftir hrun varð einn helsti vettvangur hrunumræðunnar. Einn þeirra er Ragnar Þór sem hóf herferð gegn lífeyrissjóðakerfinu og verðtryggingunni. Hann var einn stofnenda Hagsmunasamtaka heimilanna sem á tímabili varð einn öflugasti þrýstihópur landsins þótt heldur hafi fjarað undan samtökunum. Ragnar hefur síðan bæst í hóp aðsópsmestu verkalýðsleiðtoga landsins eftir að hann stóð fyrir hallarbyltingu í VR þar sem hann gegnir nú formennsku.

 

Eva Hauksdóttir

Eva er vafalaust þekktasti aðgerðasinni landsins og líklega eina manneskjan á Íslandi sem er sjálftitluð norn. Hún rak litla nornabúð fyrir hrun og hefur um árabil haldið úti blogginu norn.is. Eva lét mikið til sín taka í búsáhaldabyltingunni. Frægust er ræða hennar fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hún var í hópi fólk sem gerði áhlaup á stöðina eftir að sonur hennar, Haukur Hilmarsson, var handtekinn fyrir að flagga Bónus fána á þaki alþingishússins. Eva heldur áfram að berjast fyrir bættum heimi og stundar nú nám í alþjóðlegri mannréttindalögfræði í Glasgow. Á sama tíma berst hún við kerfið þar sem hún hefur ítrekað reynt að upplýsa um afdrif Hauks sem sagður er hafa fallið í bardaga í Sýrlandi.

 

Katrín Oddsdóttir

Þann 22. nóvember steig ungur laganemi upp á svið á Austurvelli og hélt þrumuræðu yfir lýðnum þar sem hún hótaði að bera ríkisstjórnina út úr opinberum byggingum ef ekki yrði boðað til kosninga innan viku. Ræðan var svo eldfim að hópur samnemenda hennar við Háskólann í Reykjavík sagði hana hafa hótað ofbeldi og valdaráni og krafðist þess að frétt á vef háskólans, þar sem vísað var í ræðuna, yrði fjarlægð. Katrín hefur æ síðan verið áberandi í þjóðmálaumræðunni, sat meðal annars stjórnlagaráði og starfar nú sem lögmaður.

 

Hörður Torfason

Þegar þjóðin var á botninum fann Hörður Torfason henni farveg fyrir reiðina þegar hann, ásamt Röddum fólksins, skipulagði fjöldafundi á Austurvelli sem síðan þróuðust út í búsáhaldabyltinguna. Þar fékk hann alls konar fólk til að messa yfir lýðnum og eru sumir þeirra nefndir hér á nafn. Hörður dró sig þó í hlé eftir óviðurkvæmileg ummæli í garð Geirs H. Haarde sem þá hafði nýlokið við að tilkynna þjóðinni að hann glímdi við alvarleg veikindi.

 

Borgarahreyfingin

Borgarahreyfingin var það andspyrnuframboð sem náði mestum árangri í þingkosningunum 2009. Þar söfnuðust saman þeir sem höfðu haft sig hvað mest frammi í búsáhaldabyltingunni og komust þau Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari og Þráinn Bertelsson á þing. Flokkurinn lifði þó ekki lengi því hann splundraðist á miðju kjörtímabili þar sem þau þrjú fyrstnefndu stofnuðu Hreyfinguna á meðan Þráinn sat utan flokka. Birgitta fór síðan fyrir Pírötum, Margrét gekk í Samfylkinguna á meðan Þór hefur bæði gengið í og sagt sig úr Dögun og Pírataflokknum.

 

Ragna Árnadóttir

Fæstir landsmenn höfðu heyrt Rögnu Árnadóttur getið þegar vinstri stjórn VG og Samfylkingar var kynnt til leiks í ársbyrjun 2009. Hún hafði gegnt embætti skrifstofustjóra í dómsmálaráðuneytinu og var settur ráðuneytisstjóri þegar hún var óvænt skipuð dómsmálaráðherra utan þings. Með þessi vildi vinstri stjórnin auka faglegt yfirbragð ríkisstjórnarinnar enda voru hlutabréf stjórnmálamanna nær verðlaus á þessum tíma. Svo vel þótti Rögnu takast vel upp að hún var sterklega orðuð við forsetaframboð árið 2016. Hún lét ekki freistast og hefur starfað hjá Landsvirkjun síðan hún fór úr ráðuneytinu, fyrst sem skrifstofustjóri og nú aðstoðarforstjóri.

 

Eva Joly

Traust á íslenskum stofnunum var í lágmarki eftir hrunið og margir töldu að best væri að fá erlendan sérfræðing til að stýra rannsókninni á falli bankanna. Um svipað leyti hafði Egill Helgason boðið Evu Joly til sín í Silfrið, en hún hafði áður stýrt rannsókn á umfangsmiklu fjársvikamáli í Frakklandi. Málflutningur frú Joly heillaði þjóðina og var hún á endanum fengin til að vera sérstakur ráðgjafi við rannsóknina. Hún fór mikinn í fjölmiðlum en eignaðist um leið óvildarmenn í röðum þeirra sem gættu hagsmuna þeirra sem rannsóknin beindist að. Hún er í dag þingkona á Evrópuþinginu og flytur einmitt fyrirlestur um hrunið í Háskóla Íslands í dag.

 

Björn Bragi Mikkaelsson

Verktakinn Björn Bragi Mikkaelsson varð alþýðuhetja í skamma stund þegar hann eyðilagði hús sitt á Álftaneis auk þess að urða bíl sín. Kenndi hann óbilgirni bankastofnana um enda hafði hann skömmu áður misst húsið í hendur Frjálsa fjárfestingabankans. En hetjuljóminn hvarf fljótt þegar í ljós kom að Björn Bragi hafði svikið allnokkurn fjölda fólks um háar fjárhæðir í starfi sínu sem verktaki. Árið 2012 var hann svo dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir að hafa ekki staðið skil á skattgreiðslum, fjársvik og brot á bókhaldslögum og ári síðar var hann úrskurðaður gjaldþrota. Engar eignir voru í búinu til að mæta 114 milljóna króna kröfum í það.

 

Lilja Mósesdóttir

Ný kynslóð álitsgjafa spratt fram eftir hrunið enda höfðu hinir klassísku álitsgjafar fallið töluvert í verði, af augljósum ástæðum. Lilja mósesdóttir var ein þeirra og kom hún vel fyrir, enda bæði með góða menntun og starfsreynslu. Það fleytti henni á þing fyrir VG í kosningunum 2009 og naut hún þar talsverðrar hylli. Hún tilheyrði hins vegar hópi villikatta innan VG, eins og Jóhanna Sigurðardóttir komst að orði, og fór svo að hún var einn af fjórum þingmönnum VG sem yfirgaf flokkinn á miðju kjörtímabili. Hún hugði á sérframboð undir merkjum Samstöðum og nokkrum mánuðum fyrir kosningar mældist framboðið með yfir 20 prósenta fylgi, en sökum skorts á samstöðu leysist framboðið upp áður en til kosninga kom.

 

Ólafur Þór Hauksson

Ekki var hlaupið að því að ráða í stöðu sérstaks saksóknara, þess er stýra átti rannsóknum gegn stjórnendum föllnu bankanna. Enda um mjög vanþakklátt starf að ræða. Í fyrstu lotu sótti enginn um stöðuna en þegar umsóknarfrestur var framlengdur bárust tvær umsóknir. Þar af uppfyllti annar aðilinn ekki skilyrði. Eftir sat Ólafur Þór Hauksson, lítt þekktur sýslumaður af Akranesi. Í kjölfarið fylgdu húsleitir, handtökur, ákærur svo og fræg störukeppni við Sigurð Einarsson sem neitaði að snúa aftur til Íslands frá London og var á tíma eftirlýstur af Interpol. Embætti sérstaks saksóknara reyndist vegtylla fyrir Ólaf sem nú gegnir embætti héraðssaksóknara.

 

Orð eins legókubbar tungunnar

Þann út 21. nóvember árið 1938 kom fyrsta tölublaðið af Vikunni út og blaðið fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Vikan hélt hins vegar upp á afmælið í gær með veglegu partíi og útgáfu afmælisblaðs. Við tókum ritstjóra Vikunnar, Steingerði Steinarsdóttur, tali í tilefni af þessum merkilegu tímamótum.

„Afmælisblaðið er áttatíu síður að sjálfsögðu og þar lítum við um öxl en njótum líka augnabliksins,“ segir Steingerður glöð í bragði. Á forsíðu afmælisblaðsins er Birgitta Haukdal sem átti eftirminnilega endurkomu með hljómsveit sinni Írafári í sumar. „Okkur fannst hún skemmtilegur fulltrúi þeirra kvenna sem hafa í gegnum tíðina skreytt forsíðuna en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Birgitta er á forsíðu Vikunnar. Sigríður Beinteinsdóttir söngkona er líka í stóru viðtali um það sem er efst á baugi hjá henni. Hljómsveit hennar Stjórnin átti líka stórafmæli í ár og svo heyrum við í Svövu Johansen um sveiflurnar í tískunni og hvernig hún fer alltaf í hringi. Báðar þessar konur hafa líka oft áður verið í blaðinu. Við töluðum við alla fyrrrennara mína sem voru enn ofar moldu og fengum þeirra sýn á blaðið. Það var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Talað var við Pál Helgason í Vestmannaeyjum, jafnaldra Vikunnar og hennar tryggasta áskrifanda. Við lögðumst svo yfir gamalt efni og drógum fram það sem einkennt hefur Vikuna í gegnum tíðina, gert hana leiðandi og sífellt markverða. Það er gaman að vera hluti af einhverju sem á sér mikla sögu en er alltaf síungt.“

Steingerður segir að ýmislegt hafi breyst í blaðinni í áranna rás. „Helst hefur breyst hvað viðtöl eru miklu stærri hluti blaðsins. Efnistökin eru líka breytt en núna er fólk óhræddara við að tala um tilfinningar en áður var og opna sig um erfiða hluti. Margt lá áður falið í þögninni en við höfum til allrar lukku lært að það gerir manneskjum ekkert gott að byrgja allt inni. Þegar þú stígur fram og talar eins og þér býr í brjósti og ert þú sjálfur sýna aðrir þér oftast meiri skilning en þú áttir von á. Ég finn oft fyrir mikilli gleði þegar fólk segir mér að í kjölfari viðtals hjá okkur hafi verið hægt að byggja aftur brýr sem höfðu brotnað og bera smyrsl á gömul sár.“

Oft sker í hjartað að sjá sársaukann

Steingerður tók við ritstjórn Vikunnar í maí 2013. Hún skrifaði hins vegar fyrst í blaðið í lausamennsku 1994 og sumarið 1998 fékk hún fastráðningu sem blaðamaður. „Ég vann svo á Vikunni til ársins 2006 en þá bauðst mér starf sem ritstjóri á tímaritinu hann/hún sem var nýstofnað og mér fannst það tækifæri of spennandi til að sleppa því. Svo sneri ég aftur á Vikuna fyrir fimm árum,“ segir Steingerður og aðspurð segist hún gegna besta starfi í heimi. „Flestir dagar fljúga hjá og oft finnst mér ég ekki einu sinni hafa verið í vinnunni svo gaman var. Sérstaðan felst í því að við erum alltaf að fara með sögur fólks og mér finnst mikilvægt að gera það af trúmennsku og virðingu við viðmælandann.

Áhugaverðast við starfið er allt fólkið sem við hittum og skemmtilegast að sjá verða til fallegt blað með góðum texta og lifandi myndum. Ég hef alltaf verið heilluð af blaðamannsstarfinu. Bæði hef ég yndi af að vinna með orð og fólk hefur alltaf vakið áhuga minn. Fyrir mér eru orð eins legókubbar sem hægt er að raða saman á ótal vegu til að skapa andrúmsloft, draga upp mynd af manneskju og ná fram tilfinningaviðbrögðum. Fátt er skemmtilegra nema ef vera skyldi að heyra fólk segja frá, upplifunum sínum, tilfinningum og lífi. Lifandi sögur sem fá enn meira gildi af því að þær eru sannar. Af þessu er svo hægt að draga margvíslegan lærdóm um hvað rekur fólk áfram, hvernig tilfinningalíf okkar er ólíkt en samt svo ótrúlega líkt. En það getur líka verið erfitt að hlusta á manneskju segja frá átakanlegri lífsreynslu. Oft sker það í hjartað að horfa upp á sársaukann og skynja hve stutt er enn inn í opna kviku þótt hrúður hafi sest á sárið,“ segir Steingerður.

Törn framundan

Þrátt fyrir mikla mikla vinnu að undanförnu og allt húllumhæið sem fylgdi afmælisveislu fimmtudagsins slá blaðamenn Vikunnar hvergi slöku við enda stærstu blöð ársins framundan. „Kökublað, jólablað og völvublaðið sívinsæla. Völva Vikunnar varð til á áttunda áratug síðustu aldar og hefur síðan verið ómissandi hluti af áramótunum hjá mörgum,“ segir Steingerður að lokum.

Auðmönnum blöskrar verðlagið á Íslandi

|||||
|||||
Verðmætir fyrir hagkerfið
Ætla má að ferðamenn sem fari í lúxusferðir hafi lagt a.m.k. 10-12 milljarða til efnahagslífsins hér í fyrra. Þetta kom fram í samtali Ninnu Hafliðadóttur, markaðsstjóra Iceland luxury, við ViðskiptaMoggann í apríl. Ninna sagðist telja að 10-12 þúsund slíkir ferðamenn hafi komið til landsins í fyrra. Að meðaltali eyði þeir um einni milljón króna í fimm daga ferð til Íslands. Til samanburðar eyði venjulegur ferðamaður um 240 þúsundum í sjö daga ferð. Lúxusferðir gætu skilað tugum milljarða og viðskiptavinirnir því verðmætir fyrir hagkerfið.

Þótt Samdráttur hafi orðið í ferðaþjónustu hér á landi milli ára segja ferðaþjónustufyrirtæki og aðilar sem sérhæfa sig í ýmis konar sérferðum að ekki hafi dregið úr eftirspurn eftir svokölluðum lúxusferðum. Þvert á móti. Sumum viðskiptavinunum blöskri hins vegar hátt verðlag á Íslandi.

„Það hefur enginn samdráttur orðið í dýrari ferðum. Ég finn ekki fyrir því. Ef eitthvað er þá er meira að gera hjá mér núna heldur en í fyrra,“ segir Teitur Úlfarsson sem hefur starfað sem leiðsögumaður á Íslandi undanfarin þrjú ár og er hjá einu þeirra fyrirtækja sem býður m.a. upp á sérsniðnar ferðir fyrir efnaða viðskiptavini.

Þau lúxusferðaþjónustufyrirtæki sem Mannlíf ræddi við eru á einu máli um þetta. Ekkert lát sé á aðsókn í slíkar ferðir. Að sögn fyrirtækjanna koma flestir viðskiptavinanna frá Bandaríkjunum, sumir frá Asíu og Evrópu og í sumar þegar WOW air bauð upp á áætlunarflug til Tel Aviv var þónokkuð um Ísraela líka. Stundum sé þetta fólk sem kemur aftur eftir að hafa átt hér stutt stopp og er ýmist um að ræða fjölskyldur, vinahópa, aðila í viðskiptaerindum eða stórstjörnur sem eru reiðubúnar að greiða háar fjárupphæðir fyrir góða þjónustu. Kröfurnar séu þ.a.l. miklar. Fólk sætti sig ekki við hvað sem er þegar kemur að mat og þjónustu. Líki því t.d. ekki gististaður heimti það umsvifalaust gistingu annars staðar.

Með skakka mynd af Íslandi
Ferðaþjónustuaðilarnir sem Mannlíf ræddi við segja að ferðamenn sem koma hingað séu ansi misvel upplýstir um land og þjóð. Sumir séu ágætlega að sér. Aðrir ekki. „Ég hef verið spurð alls kyns asnalegra spurninga. Eins og hvort við búum í snjóhúsum og hvernig við ferðumst um á veturna. Hvort við förum á milli húsa á snjósleðum,“ segir ein sem vill ekki láta nafns síns getið. Annar nefnir að fáviska sumra geti hreinlega verið hættuleg. Eins og þegar fólk sem er vant gönguleiðum á stígum heima hjá sér ætli að rjúka á fjöll. „Fólk ætlar stundum að fara upp á jökul á strigaskóm. Þá þarf maður að grípa inn í og stoppa það.“

Þegar spurt er hvað dragi þessa ferðamenn helst til landins er svarið ávallt það sama: íslensk náttúra. Fjölsóttir staðir eins og Gullfoss og Geysir séu þó ekki efstir á óskalista því fólkið vilji njóta næðis, oft með sínum nánustu. Sem dæmi kaupi sumir „upp öll slottin í skoðunarferðum þar sem þeir vilja vera prívat með fjölskyldum eða vinum,“ eins og einn viðmælandi Mannlífs orðar það. Jafnvel þótt borgað sé talsvert meira fyrir þjónustuna.

Láta ekki bjóða sér hvað sem er
Að sögn viðmælenda Mannlífs eru umræddir ferðamenn flestir kröfuharðir en sanngjarnir, eðlilega þar sem margir greiði háar fjárupphæðir fyrir þjónustuna. Sumir geri þó veður út af minnsta hlut og láti jafnvel eins og frekir krakkar fái þeir ekki allar óskir sínar uppfylltar. Sum vandamál sem koma upp séu hreinræktuð lúxusvandamál. „Eins og þegar viðkomandi finnst herbergið sitt snúa í ranga hátt, að aukavask vanti á baðherberginu eða baðherbergin ekki vera nógu mörg,” segir einn.

Ofbýður verðlag á mat
Viðmælendur Mannlífs segja flesta ferðamennina fara héðan sáttir enda sé kappkostað að gera dvöl þeirra sem ánægjulegasta. Ýmsir hafa þó orðið varir við breytta kauphegðun hjá viðskiptavinum sínum. Fólk sé t.d. farið að bóka styttri ferðir en áður. „Það fer frekar í dagsferðir og því verða sum landsvæði svolítið útundan,“ segir Teitur Þorkelsson hjá Iceland Unlpugged. „Í sumar tók maður t.d. eftir því að færri fóru austur fyrir Jökulsárlón og austur fyrir Húsavík. Jafnvel bara nokkrar hræður á geggjuðum stað eins og Ásbyrgi. Það styttir kannski upphaflega áætlun um 5 eða 7 daga ferð um 1-3 daga þegar það sér kostnaðinn. Hann hefur náttúrlega aukist vegna styrkingar krónunnar.“

Koma með eigin kokka
Meirihluti viðskiptavina er ánægður með íslenska matseld og mörgum kemur hreinlega á óvart hvað hún er góð, segja viðmælendur. Þó séu alltaf einhverjir með sérþarfir þegar kemur að mat. Hótelin séu yfirleitt reiðubúin að koma til móts við þessar þarfir en veitingastaðir geti átt erfiðara með það. „Svo hafa sumir engan áhuga á að bragða á innlendri matseld og koma þá með eigin matreiðslumenn til landsins. Ég veit um fólk sem hefur jafnvel burðast hingað með ferðatöskur fullar af hráefni, sannfært um að hér væri allt óætt.”

Þá segja ferðaþjónustuaðilar að sumum blöskri hátt verðlag, einkum á mat. „Kúnnar sem hafa komið hingað áður tala um hvað verðið hefur hækkað mikið á fáum árum,“ segir Teitur Úlfarsson. „Bandaríkjamaður missti andlitið þegar hann sá hamborgara seldan á 4.900 krónur á hóteli á Suðausturlandi. Honum datt ekki í hug að borga það. Ég veit líka um hjón sem borðuðu frekar samlokur á herberginu sínu en að snæða á veitingastað hótelsins sem þau dvöldu á. Þeim ofbauð svo verðlagið á matnum. Því enda þótt fólk sé vel stætt þá hvarflar ekki að því að eyða peningunum í vitleysu.“

Milljón í þjórfé
Nokkuð misjafnt er hvort viðskiptavinir gefi þjórfé eða ekki, að sögn viðmælenda Mannlífs. „Sumir tipsa ekkert þótt þeir eigi nóg af fé,“ segir einn. Aðrir gera það ekki af því að þeir hafa lesið að slíkt tíðkist ekki á Íslandi. Gefi viðkomandi þjórfé þá er algengasta upphæðin á bilinu 30-60 þúsund, allt upp í 100 þúsund krónur, eftir því sem Mannlíf kemst næst. Sumir eru örlátari. „Ég veit t.d. um einn leiðsögumann sem fór með bandarískan liðsforingja á eftirlaunum hringinn í kringum landið í fyrra, hann fékk milljón í þjórfé.“

Óttast gullgrafaræði
Sumir sem Mannlíf ræddi við óttast hins vegar að þessi almenna ánægja ferðamannanna með dvölina muni ekki vara lengi, m.a. þar sem sífellt fleiri aðilar séu nú farnir að bjóða upp á lúxusferðir og því miður standist þjónustan ekki alltaf þær gæðakröfur sem viðskiptavinirnir geri. Það sé að grípa um sig hálfgert gullgrafaræði, svipað og í hinni almennu ferðaþjónustu á Íslandi. Sumir fari of geyst í von um skjótfenginn gróða. Með sama áframhaldi sé hætta á að samdráttur verði í þessum kima ferðaþjónustunnar líka.

Skuggi fellur á stjörnu Ronaldos

Frá nóttinni örlagaríku í Las Vegas.

Þýska blaðið Der Spiegel birti á dögunum viðtal við bandaríska konu að nafni Kathryn Mayorga sem lýsti í smáatriðum hvernig portúgalska knattspyrnustjarnan mun hafa nauðgað henni á hótelherbergi í Las Vegas sumarið 2009. Sama blað greindi frá því í fyrra að Ronaldo hafi borgað Mayorga, sem þá var ekki nefnd á nafn, 375 þúsund dollara fyrir að þegja um málið. Sú upphæð jafngilti vikulaunum Ronaldos á meðan hann spilaði með Real Madrid.

Innblásin af MeToo-byltingunni og nýjum lögfræðingi ákvað Mayorga að stíga fram með sögu sína í þeirri von að aðrar konur sem kunna að hafa verið áreittar af knattspyrnustjörnunni stígi fram. Lögregluyfirvöld í Las Vegas hafa ákveðið að opna rannsókn málsins á ný eftir að Mayorga höfðaði einkamál á hendur Ronaldo. Sjálfur hefur Ronaldo og lögfræðiteymi hans harðneitað ásökununum og hótað Der Spiegel málsókn en þýska blaðið stendur við allt sem þar stendur.

 

Alla jafna „góður gæi“

Umrætt atvik á að hafa átt sér stað í júní 2009. Mayorga hitti Ronaldo á næturklúbbi í Las Vegas og bauð hann henni og vinkonu hennar í samkvæmi á hótelherbergi hans á Palms Casino-lúxushótelinu. Segir Mayorga að fyrst hafi Ronaldo leitað á hana á baðherberginu og síðan hafi hann þröngvað henni inn í svefnherbergi þar sem hann nauðgaði henni í endaþarm. Eftir á mun Ronaldo hafa sagt að hann væri alla jafna „góður gæi“ nema í eitt prósent tilvika.

 

Greitt fyrir þögnina

Mayorga leitaði á náðir lögreglu en var ekki tilbúin að leggja fram kæru gegn einni skærustu íþróttastjörnu heims. Nokkrum mánuðum síðar var gengið frá 375 þúsund króna greiðslu þar sem Mayorga féllst á að tala aldrei opinberlega um málið. Der Spiegel komst á snoðir um samkomulagið og greindi frá því í fyrra en málið lognaðist út af og virtist það engin áhrif hafa á hann, enda skrifaði Ronaldo undir samning við Juventus í sumar sem tryggir honum 30 milljónir evra á ári.

 

Ronaldo bregst reiður við

Ronaldo brást ókvæða við viðtalinu við Mayorga í myndbandi sem hann birti á Instagram-síðu sinni þar sem hann á 147 milljónir fylgjenda. Hann sagði Mayorga notfæra sér nafn hans til að öðlast frægð og sakaði Der Spiegel um að flytja „falsfréttir“. Christoph Winterbach, íþróttaritstjóri Der Spiegel, svaraði Ronaldo fullum hálsi og sagði fréttaflutninginn standast allar kröfur um vandaða blaðamennsku. Blaðið hefði undir höndum hundruð gagna sem styðja við fréttaflutninginn og birti hann hluta þeirra á Twitter-síðu sinni. Ronaldo undirritaði hluta þessara gagna.

 

Engin lausn í augsýn

Óvíst er hvaða stefnu málið tekur. Forráðamenn Juventus hafa ekkert tjáð sig um málið og ólíklegt að þeir muni gera nokkuð til að skaða sína verðmætustu eign. Stærstu fjölmiðlar heims hafa heldur ekki fjallað um málið að nokkru ráði. Ronaldo er með her snjallra lögmanna að baki sér og búast má við því að málsóknin á hendur honum taki langan tíma. Á meðan mun Ronaldo halda áfram að láta ljós sitt skína á knattspyrnuvellinum fyrir himinháar fjárhæðir.

„Lygin er alvarlegur hlutur“

|||||
|||||

Þann 11. febrúar 2004 fann kafarinn Þorgeir Jónsson lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum. Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku.

„Nokkrum dögum fyrr hafði skip sem lá við bryggjuna losnað frá, skollið illa í horn hennar og hugsanlega brotið stólpa. Gísli Sigurbergur Gíslason, hafnarstjóri í Neskaupstað, bað mig um að líta á skemmdirnar þegar ég hefði tíma,“ segir Þorgeir þegar hann rifjar þennan atburð upp – ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti. Hann er yfirvegaður í fasi og gerir ekki mikið úr sínum hluta málsins þrátt fyrir að hér sé um að ræða upphafið á einu stærsta sakamáli Íslandssögunnar. Þótt erfitt sé að fullyrða nokkuð er ólíklegt að maðurinn hefði nokkru sinni fundist ef Þorgeir hefði ekki verið beðinn um að kafa við bryggjuna á þessum tíma. Viðgerðir á bryggjunni voru ekki áætlaðar fyrr en seinna á árinu, jafnvel ekki fyrr en á því næsta.

„Veðrið var gott þennan morgun, ég var í fríi og ákvað að drífa þetta af. Ég mætti með búnaðinn á netagerðarbryggjuna þar sem ég hitti Gísla við annan mann og þeir sýndu mér hvað þurfti að skoða. Ég fór út í sjóinn og beint að horninu sem hafði orðið fyrir tjóni og myndaði skemmdirnar. Að því loknu báðu þeir mig um að sækja nokkur dekk sem höfðu slitnað frá bryggjunni og lágu á botninum aðeins utar. Ég festi spotta í dekkin og synti svo til baka eftir botninum að bryggjunni. Þá kom ég auga á líkið. Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna. Ég kafaði síðan niður aftur til að taka myndir og kom með þær upp um svipað leyti og lögreglan mætti á svæðið. Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“ segir Þorgeir.

Þorgeir gerði sér strax grein fyrir að það var manneskja sem hann sá á botninum við bryggjuna, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum.

Hann fór síðan aftur niður að beiðni lögreglunnar til að taka fleiri myndir og var síðan beðinn um að losa líkið og koma því upp á yfirborðið. Fleiri lögreglumenn bar fljótt að garði, sjúkrabíl og lækni auk þess sem fólk frá rannsóknarlögreglunni lagði strax af stað úr höfuðborginni.

„Ég var sá eini sem fór niður og sá aðstæður með berum augum og það hefur sennilega liðið um það bil klukkustund frá því að ég fann líkið þar til það var komið upp á bryggjuna. Ég sá hins vegar aldrei í andlit mannsins og hafði því ekki hugmynd um hvort þetta væri einhver sem ég jafnvel þekkti héðan úr bænum.“

„Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“

Fjölmiðlar ágengir

Næstu klukkutímar og dagur voru um margt óvenjulegir hjá Þorgeiri. Hann var orðinn aðalvitni í sakamáli, fjölmiðlar kepptust við að ná af honum tali og kjaftasögurnar grasseruðu í hverju horni.

„Mér datt aldrei í hug að málið hefði þróast með þeim hætti sem síðar kom í ljós og hélt að þetta væri einhver héðan af svæðinu – eitthvað partí hefði farið úr böndunum. Ég fór í skýrslutöku og afhenti lögreglu allar myndirnar sem ég hafði tekið. Mér var boðin einhvers konar áfallahjálp og hitti hjúkrunarfræðing sem rabbaði við mig. Málið var mjög fljótt að spyrjast út, strax um hádegi byrjaði síminn að hringja og þegar leið á daginn voru sennilega allir fjölmiðlar búnir að hafa samband við mig. Ég vísaði þeim öllum á lögreglu,“ segir Þorgeir. Hann vann á þessum tíma á Vélaverkstæði G. Skúlasonar en var í fríi sem var ástæða þess að hann hafði tíma til að kafa þennan dag. Hann segir að næstu dagar hafi einkennst af eltingaleik fjölmiðla við að ná af honum tali.

„Ég sá hins vegar aldrei í andlit mannsins og hafði því ekki hugmynd um hvort þetta væri einhver sem ég jafnvel þekkti héðan úr bænum.“

„Síminn byrjaði fyrir klukkan sjö á morgnana þegar stjórnendur morgunútvarpsþátta höfðu samband en ég vísaði áfram öllu frá og svaraði engu um málið sjálft. Ég viðurkenni að mér fannst verulega óþægilegt að vera miðpunktur í fjölmiðlaumfjöllun og sannarlega ekki það sem ég bjóst við þegar ég vaknaði morguninn sem ég fann líkið. Ágangurinn hélt áfram en fjaraði svo út á nokkrum vikum. Andrúmsloftið í bænum var þungt og menn voru slegnir yfir atburðinum. Kjaftasögurnar voru margar og mismunandi, meðal annars um hver þetta gæti verið. Aðkomuskip sem var hér nokkrum dögum fyrr, verkamenn við Kárahnjúkavirkjun og á svæðinu við álverið á Reyðarfirði var áberandi í umræðunni. Þegar hið sanna kom svo í ljós var leitt að heyra að maður úr bæjarfélaginu hefði tengst málinu en þegar menn eru komnir í rugl þá getur ýmislegt gerst.“

Þorgeir segist hafa unnið úr áfallinu og atburðurinn hafi lítið truflað hann, ef svo má að orði komast. „Mesta áreitið var ágangur fjölmiðla dagana á eftir og er sá þáttur sem mér þótti óþægilegastur við þetta mál. Annars hef ég bara haldið áfram að lifa mínu lífi en ég er enn spurður reglulega út í þetta, fólk er forvitið um málið.“

Áður fundið lík við köfun

Segja má að líf þessa hægláta manns hafi umturnast við líkfundinn og óvenjulegt að vera allt í einu miðpunkturinn í kastljósi fjölmiðlanna. Þorgeir fæddist árið 1971 í Neskaupstað og hefur búið þar alla tíð. Hann er vélvirki og vinnur hjá Alcoa Fjarðaáli. Hann er í sambúð og á einn son auk þess sem sambýliskona hans á son fyrir. Þorgeir segist hafa verið smákrakki þegar hann fékk áhuga á köfun.

„Sem polli fylgdist ég með mönnum sem voru hér að kafa við bryggjurnar, voru að vinna við síldarflotann og þessi skip sem voru hérna. Ég byrjaði sjálfur í kringum 17 ára aldurinn. Æskilegt er að menn læri sportköfun áður en byrjað er að kafa en á þessum tíma var mjög algengt að græjurnar væru keyptar og svo prófuðu menn sig bara áfram. Ég var byrjaður að starfa með björgunarsveitinni og datt inn á björgunarköfunarnámskeið þar sem ég fékk lánaðan búnað en eignaðist fljótlega minn eigin búnað eftir það. Það gerði mér gott. Í framhaldinu var ég innvinklaður í slökkviliðið og var orðinn reykkafari hjá því 18 ára gamall.“

Þorgeir hefur stundað köfun frá því hann var 17 ára gamall, bæði sem sport- og atvinnukafari.

Þorgeir var virkur í björgunarsveitarstarfinu um árabil, er enn á útkallslista þar og hjá slökkviliðinu og reynir að taka þátt í því sem tilfellur. Hann hefur nokkrum sinnum farið í leit sem kafari og í eitt skiptið var það Þorgeir sem fann þann sem leitað var að. Þetta er því ekki í eina skiptið sem Þorgeir hefur fundið lík í vatni. „Þær leitir í vatni sem ég hef tekið þátt í hafa allar borið árangur. Það er vissulega léttir að finna fólk sem er týnt en á móti kemur að einstaklingarnir eru látnir. Þetta eru því blendnar tilfinningar. Þetta getur tekið á sálina en við getum alltaf rætt við hjúkrunarfræðinga og svo er hópurinn duglegur að spjalla saman um málin. Það er gefandi og lærdómsríkt að starfa með björgunarsveit og í slökkviliðinu. Útköllum hefur þó fækkað í gegnum árin, sérstaklega hjá slökkviliðinu, sem betur fer,“ segir Þorgeir en hann hefur ekki enn þurft að nota þekkingu sína í reykköfun til að bjarga manneskju úr brennandi húsi. „Fólk hefur sem betur fer alltaf sloppið út.“

„Það er vissulega léttir að finna fólk sem er týnt en á móti kemur að einstaklingarnir eru látnir. Þetta eru því blendnar tilfinningar.“

Köfun er eitt af áhugamálum Þorgeirs auk þess að ganga á fjöll og fara á skíði. Hann stundar sportköfun af og til auk þess að vinna við að skoða skip og hafnir undir yfirborðinu. „Oft þarf til dæmis að losa veiðarfæri úr skrúfum og þetta geri ég meðfram vinnunni minni í álverinu. Undirdjúpin eru heillandi – allt lífríkið sem við sjáum venjulega ekki og skipsflökin, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef kafað víða, bæði hér heima og erlendis. Það sem hefur verið einna mest spennandi hér heima eru Strýturnar í Eyjafirði, flak af skútu sem sökk á pollinum á Akureyri 1917, gjáin Silfra á Þingvöllum, flak El Grillo á botni Seyðisfjarðar og lítið skipsflak í Hellisfirði,“ segir Þorgeir.

Reyfarakennd atburðarrás

Líkfundarmálið í Neskaupstað var svo reyfarakennt að mörgum varð að orði að það væri eins og skáldskapur, lyginni líkast – bíómynd frekar en raunveruleiki. Fyrir tveimur árum var ráðist í gerð bíómyndar sem byggð er á málinu en fyrstu drög að handritinu voru skrifuð fyrir fjórtán árum. Myndin heitir Undir halastjörnu og verður frumsýnd hér á landi 12. október næstkomandi. Leikstjóri og handritshöfundur er Ari Alexander Ergis Magnússon og myndin er fyrsta leikna bíómyndin hans í fullri lengd en hann hefur áður gert fjölda heimildamynda og stuttmynda.

Ari Alexander Ergis Magnússon er handritshöfundur og leikstjóri kvikmyndarinnar Undir halastjörnu sem byggir á líkfundarmálinu. Mynd / Jónatan Grétarsson

„Upphaflega ætlaði ég að gera heimildamynd um málið en sú hugmynd kviknaði árið 2004 í kjölfarið á líkfundarmálinu. Þá vildi þannig til að ég og Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi vorum í viðtali í þættinum Ísland í dag vegna heimildamyndarinnar Gargandi snilld sem við vorum að kynna. Í sama þætti var einn sakborningur líkfundarmálsins í viðtali á eftir okkur. Hann neitaði öllu staðfastlega. Þetta fannst mér áhugavert þar sem ég hef ávallt verið áhugamaður um lífið, lygina og það sem við köllum sannleika, hvernig fólk upplifir atburði mismunandi og er fylgið sér í eigin hugarheimi, þetta verður trúarsannfæring, hver sagði og gerði. Annað sem kveikti áhuga minn voru viðbrögð hins Íslendingsins í málinu, en þegar allt var komið í óefni flúði hann heim til mömmu sinnar, það fannst mér athyglisvert. Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.

„Lygin er alvarlegur hlutur“

Handrit myndarinnar er byggt á líkfundarmálinu en Ari tekur sér skáldaleyfi í persónusköpun, samtölum og aðstæðum persónanna. Nöfnum er breytt og í myndinni eru Litháarnir tveir frá Eistlandi og heita Mihkel og Igor. Myndin snýst um aðdragandann að málinu, ekki um lögreglurannsóknina.

„Myndin hefst í Eistlandi árið 1991 þegar þeir eru börn og Ísland fyrst þjóða viðurkennir sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna. Þeir upplifa hetjudáð lítils lands sem þorir að standa uppi í hárinu á Rússlandi. Landinu sem síðar verður land hinna stóru tækifæra. Ég þekki Austur-Evrópu vel, sjálfur er ég ættaður frá Síberíu og hef gert þrjár heimildamyndir í Rússlandi. Ég þekki því hugsun þessarar kynslóðar, hvernig leit að betra lífi er driffjöðurin í þessu. Atburðarásin er rétt en samskiptin skálduð.“

Stilla úr kvikmyndinni Undir halastjörnu.

Ari hefur lengi haft áhuga á fíkniefnaheiminum, hvernig væri hægt að taka á honum því okkur beri samfélagsleg skylda til að hjálpa fólki í neyð. „Þar er alltaf verið að handtaka rangt fólk – fíkniefnaneytendur sem eru handbendi fólksins sem fjármagnar kaupin. Það ætlar sér enginn að verða glæpamaður, þetta er ekki það sem foreldra dreymir um fyrir börnin sín og ekkert barn dreymir um að verða dópisti. Það er alltaf þessi von um að þetta fari allt vel að lokum. Það ætlar sér enginn að sitja uppi með látinn mann. Myndin fjallar um bræðrasvik, lygina, rangar ákvarðanir, alvarlegar afleiðingar og spilaborg sem fellur. Á leiðinni vona menn að allt verði í lagi og þá komum við að sjálfsblekkingunni. Þessi tilhögun á sannleikanum, þetta sé bara pínu vandamál sem þurfi að redda. Lygin er alvarlegur hlutur.“
Ari segist ekki skilja af hverju er ekki tekið betur á málefnum barna sem verða fíkn að bráð á fyrri stigum málsins, í grunnskólum og menntaskólum.

„Sjálfur hef ég enga lausn á takteinum en það þarf að huga alvarlega að þessum málum. Svo verða allir voðalega hissa að fólk sé skemmt og ekkert gert í málum þessara einstaklinga fyrr en allt er farið til helvítis.“

„Þetta er karma“

Myndin verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni Busan International Film Festival sem fer fram 4.-13. október í Suður-Kóreu. Í framhaldinu mun myndin taka þátt í kvikmyndakeppni í Varsjá í Póllandi. Myndin verður frumsýnd á Íslandi þann 11. október og hún fer í almennar sýningar daginn eftir. „Hljóðsetningu er nýlega lokið og ég er ánægður með heildarútkomuna. Myndin verður svo á öllum stærstu komandi kvikmyndahátíðum þannig að það er nóg fram undan,“ segir Ari.

Fyrir framvindu málsins var lykilatriði að kafarinn, Þorgeir Jónsson, í Neskaupsstað fann líkið fyrir algera tilviljun. Annars hefði hinn látni mögulega aldrei fundist og fjölskylda hans því verið í óvissu um afdrif hans um aldur og ævi. „Tilviljun, ég er ekki viss um það. Ég held að þegar þú kemur svona illa fram við annað fólk þá bítur það mjög fast í rassinn á þér, örlögin sjá um þig. Óheppni að kafarinn hafi verið beðinn um að skoða bryggju, sem löngu var hætt að nota á þessum tímapunkti? Ég held ekki. Þetta er karma, mín reynsla segir það,“ segir Ari að lokum.

Myndir /Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

Ekki nóg að fjölmiðlar séu á vaktinni

Þessa dagana keppast fjölmiðlar við að rifja upp hrunið sem var fyrir tíu árum. Þeim rennur blóðið til skyldunnar. Fjölmiðlar sátu nefnilega undir ámæli eftir að hrunið skall á fyrir að hafa ekki staðið vaktina nógu vel í aðdraganda þess, að hafa verið meðvirkir með útrásarvíkingunum og slegnir sömu gróðablindunni og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir voru húðskammaðir fyrir að hafa ekki veitt stjórnvöldum nægt aðhald og að hluta til gerðir ábyrgir fyrir því að hlutirnir gengu eins langt og þeir gerðu. Allt hefði farið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu staðið sína plikt skilst manni jafnvel.

En breytir það miklu fyrir þróun mála að fjölmiðlar standi sína plikt? Nýjasta hneykslismál þjóðarinnar er meðferðin á erlendu vinnuafli sem tekin var fyrir í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV á þriðjudaginn. Þar var vel að verki staðið og uppljóstrað um fjölmörg grafalvarleg brot á mannréttindum og vinnusamningum þegar erlendir verkamenn eiga í hlut. Þjóðin saup hveljur og fylltist réttlátri reiði og vandlætingu. Samfélagsmiðlar loguðu, svo gripið sé til útþvældrar klisju. Fólk var hissa og hneykslað á því að þetta skuli viðgangast í velferðarríkinu Íslandi. Alveg steinhissa. Eins og þetta væru glænýjar uppljóstranir.

Það er gott og sjálfsagt að bregðast hart við þegar fjölmiðlar varpa ljósi á það sem aflaga fer í samfélaginu, en hvers vegna var fólk svona hissa? Allt frá því að fjölmiðlar fjölluðu um aðbúnað verkamanna við Kárahnjúkavirkjun árið 2005 hafa reglulega birst fréttir og úttektir á þeim viðbjóði sem viðgengst gagnvart erlendu starfsfólki hjá íslenskum fyrirtækjum. Hvert málið hefur rekið annað alveg síðan fyrir hrun og alltaf verður fólk jafnreitt og hissa en svo tekur næsta hneykslismál við, fréttin um misnotkun á útlendingum á íslenskum vinnumarkaði gleymist og ekkert breytist. Fyrirtæki og stofnanir halda áfram að níðast á útlendingum óáreitt af stjórnvöldum og almenningi. Árum saman. Aftur og aftur. Og alltaf er almenningur jafnhissa.

Umfjöllun fjölmiðla, sem passa sig á að standa nú vaktina vel í þetta sinn, breytir engu þegar upp er staðið. Það er nefnilega ekki nóg að flytja fréttir af ástandinu með reglulegu millibili þegar hin heilaga reiði almennings endist ekki nema í þrjá til fjóra daga. Þjóðfélög breytast ekki nema fyrir tilstilli fólksins sem myndar þau. Hrunstjórnin hefði ekki sagt af sér ef ekki hefði verið fyrir elju og þrautseigju almennings sem mætti á Austurvöll viku eftir viku, berjandi potta og látandi illúðlega. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hefði ekki hrökklast frá völdum haustið 2017 í kjölfar krafna #höfum hátt hreyfingarinnar ef fólkið sem að þeirri hreyfingu stóð hefði ekki verið óþreytandi að minna á ranglætið og krefjast réttlætis fyrir fórnarlömb barnaníðings. Alveg sama hversu oft fjölmiðlar hefðu flutt fréttir af því óhugnanlega máli þá hefði ekkert gerst nema fyrir tilstilli samstöðumáttar almennings. Fjölmiðlar bylta ekki samfélögum, það gera þegnarnir. Þetta er undir okkur komið.

„Aðdáendurnir verða ekki sviknir“

|
|

Hollywood Reporter greindi fyrir skemmstu frá því að íslenska hrollvekjan Rökkur yrði endurgerð fyrir bandarískan markað. Mannlíf náði tali af leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar, Erlingi Óttari Thoroddsen, sem er alveg í skýjunum með þetta, en Erlingur mun skrifa handrit endurgerðarinnar.

Leikstjórinn Erlingur Óttar Thoroddsen.

„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá kom þetta svolítið flatt upp á mig því ég bjóst einhvern veginn aldrei við að Rökkur yrði endurgerð. En ég er afskaplega spenntur fyrir þessu því Orion Pictures framleiddi margar af bestu Hollywood-myndum 9. og 10. áratugarins, t.d. Silence of the Lambs, Amadeus, The Terminator og fleiri. Fólkið sem vinnur þar er frábært þannig að ég hlakka mikið til samstarfsins og það verður æðislegt að fá að taka svona stóran þátt í sköpunarferlinu,“ segir Erlingur glaður.

Spurður hvernig hafi komið til að Orion Pictures keypti réttinn að myndinni svarar Erlingur að þetta hafi byrjað með því að framleiðendur sem sáu hana á kvikmyndahátíð erlendis, haft samband og spurt hvort endurgerðarrétturinn væri laus. „Ég sagði þeim að svo væri og við vorum í sambandi í nokkra mánuði en ekkert gerðist í raun og veru þar til þeir létu mig vita að þeir hefðu átt fund með Orion. Fólkið þar hefði horft á myndina, elskað hana og vildi endurgera hana fyrir amerískan markað. Í kjölfarið fóru hjólin að snúast hratt.“

„ … það verður æðislegt að fá að taka svona stóran þátt í sköpunarferlinu.“

Að sögn Erlings eru virtir aðilar innan bandaríska kvikmyndabransans að vinna með honum á bak við tjöldin að endurgerðinni. „Þetta eru framleiðendur sem hafa gert alls konar myndir, alveg frá The Kids Are Alright með Annette Bening og Julianne Moore í aðalhlutverkum yfir í Piranha 3D. Þannig að teymið sem er í kringum myndina er afskaplega sterkt og spennandi og ég er alveg í skýjunum með það.“

Hvað var það við myndina sem heillaði þá? „Það var nú ýmislegt en ég held að aðalatriðið hafi verið hvers raunsætt sambandið milli persónanna Gunnars og Einars er og hvernig það helst sterkt gegnum alla myndina. Þeir voru spenntur fyrir því að gera hrollvekju með hinsegin aðalpersónum. Það er mikill skortur á þannig verkefnum í Hollywood og þeir telja að stór áhorfendahópur muni tengja við söguna.“

Spurður hvort sögunni verði eitthvað breytt verður Erlingur leyndardómsfullur og segist ekki geta talað mikið um það að svo stöddu. „Eina sem ég get sagt er að það verða ýmsar nýjungar þótt sjálfur kjarni sögunnar haldi sér og hinsegin elementin verða áfram til staðar. Aðdáendur íslensku myndarinnar verða ekki sviknir.“

Persónuleg og góð þjónusta í fyrirrúmi

Megináhersla Granítsteina er persónuleg þjónusta í öllum þeim ólíku verkefnum sem viðskiptavinir biðja um að sögn Sigurðar Hjalta Magnússonar hjá Granítsteinum ehf.

Granítsteinar er steinsmiðja sem hóf rekstur sinn árið 2008. Fyrirtækið framleiðir borðplötur, sólbekki, vatnsbretti og steinklæðningar ásamt ýmiskonar sérsmíði, annars vegar legsteinaframleiðslu og uppsetningu á þeim og hins vegar þjónustu kringum legsteina. Við litum inn hjá Granítsteinum og hittum Sigurð Hjalta Magnússon þar á bæ og fengum nánari upplýsingar um hvað er í boði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

„Megináhersla Granítsteina ehf. er persónuleg og góð þjónusta við viðskiptavini okkar, og aðstoða þá við útfærslu á öllum þeim ólíku verkefnum sem þeir biðja um, og höfum við hingað til getað orðið við óskum allra,“ segir Sigurður.
„Við framleiðum úr efnum hvaðanæva úr heiminum, til að mynda, graníti, marmara, kvars frá Ítalíu, Suður-Ameríku, Belgíu og Kína og að auki höfum við unnið úr íslenskum efnum eins og blágrýti og grágrýti.

Við erum einnig í nánu samstarfi við aðila á Ítalíu sem gera okkur kleift að útvega efni, hluti og vörur úr námum þaðan, úr áður óþekktum stærðum. Granítsteinar hafa einnig sinnt sérpöntunum á flísum og veggklæðningum úr steini.“
Sigurður hvetur fólk til að heimsækja þau í Helluhraun 2, fá ráðgjöf og skoða úrvalið. „Skoða öll efnin úr steini, ásamt legsteinum og fylgihlutum. Við reynum að verða við óskum allra eins og kostar er og njótum þess að þjóna viðskiptavinum okkar, í stóru sem smáu,“ segir Sigurður Hjalti glaður í bragði.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Granítsteina

Myndir / Úr einkasafni Granítsteina

 

Líður best í sveitinni sinni – Hvítársíðu í Borgarfirði

Anna Laufey Sigurðardóttir er löggiltur fasteigna- og skipasali hjá Fasteignasölunni Nýtt heimili. Hún er ekkja, þriggja barna móðir, amma og hundaeigandi og er búsett í Skerjafirði.

„Ég hef fengið að vera hluti af þessu yndislega samfélagi frá árinu 1995. Hér er gott að vera, stutt í göngustíginn við sjávarsíðuna með Nauthólsvík til austurs og Ægisíðuna til vesturs. Ég þarf þó að fara að minnka við mig en er ekki enn þá viss um það hvert mig langar að flytja því það verður erfitt að hverfa frá þessum dásamlega stað,“ segir Anna Laufey brosandi en hún er fædd og uppalin í Vesturbænum. „Þar hef ég alltaf notið mín vel. Íþróttir og útivist eru stór þáttur í lífi mínu en ég stundaði hlaup og fjallgöngur af krafti áður fyrr. Í seinni tíð hafa skíði og sund veitt mér útrás fyrir hreyfiþörfina. Einnig hef ég verið að stílisera og hef mjög gaman að því. Tvö eldri börnin mín stunda framhaldsnám og eru búsett erlendis sem stendur en yngsta barnið er enn í heimahúsum og stundar nám við Háskólann í Reykjavík.“

Hvað heillar þig mest við starfið? „Starf fasteignasala er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á arkitektúr og hönnun og því er alltaf jafngaman að koma í ný hús og kynnast sögu þeirra. Það er yfirleitt stórt skref í lífi fólks að breyta til og skipta um samastað. Þess vegna hef ég mikla ánægju af því að hjálpa þeim sem þurfa að finna nýtt og gott heimili þar sem því  líður vel, því ég veit hversu miklu máli það skiptir.“

Getur þú lýst þínum stíl? „Ég er hrifin að jarðlitum, gömlum hlutum til dæmis erfðagripum í bland við nýja hluti. Náttúrulegum efnum og fallegri myndlist. Það skiptir mestu máli að heimilið passi lífsmáta fjölskyldunnar, sé notalegt og praktískt. Ég á mér nokkra uppáhaldsarkitekta en held að hjónin Margrét Harðardóttir og Steve Christer hjá Stúdíó Granda standi upp úr.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Hans Wegner, Arne Jacobsen og Gunther Lambert eru í uppáhaldi, falleg og tímalaus hönnun þeirra. Auk þess er ég líka hrifin af mörgu sem Heimili og Hugmyndir selja, til dæmis frá Eddy Versmissen, Flamant og Chehoma.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast? „Ég hefði ekkert á móti því að eiga myndir eftir Georg Guðna og Kristján Davíðsson.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn í fatavali er blár en í húsgögnum og málningu höfða til mín jarðlitir, gráir tónar, svartur og brúnir tónar í bland við ljósa liti.“

Hvar líður þér best? „Mér líður best í sveitinni minni, Hvítársíðu í Borgarfirði. Hér heima er uppáhaldsstaðurinn minn heiti potturinn á pallinum.“

Hvað heillar þig mest við haustin? „Haustlitirnir eru yndislegir.  Ég fór á hverju hausti með mömmu til Þingvalla til að njóta þeirra. Ég kaupi erikur á haustin og set í alla potta á pallinum og fyrir utan húsið. Innandyra eru kertin ómissandi.  Ekkert er eins róandi og gott eins og að kveikja á kertum á kvöldin.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Svalasti veitingastaðurinn er að sjálfsögðu Krauma við Deildatunguhver í Borgarfirði. Eftir að hafa slakað á í pottunum og gufu og gert sig fína er fátt sem toppar það að setjast að snæðingi hjá þeim. Hreint og gott hráefni, salatið ræktað á staðnum og það bragðbesta sem ég hef smakkað. Yndisleg upplifun.“

Að lifa lífinu lifandi er að … stunda útivist og njóta náttúrunnar í gleði með fjölskyldu og góðum vinum.

Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Heillandi og glæsileg hæð á eftirsóknaverðum stað

||||
||||

Við Klapparstíg 29 á eftirsóttum stað í 101 Reykjavík er þessi glæsilega hæð, staðsett í húsi sem tilheyrir gamla tímanum.

Valdimar Poulsen, danskur járnsteypumeistari, lét byggja húsið árið 1928 og er það hið virðulegasta. Hönnuður hússins var Guðmundur H. Þorláksson byggingameistari. Húsið er steinsteypt þriggja hæða hús með risi og fallegum bogadregnum svölum og gluggum í miðjunni. Klapparstígur er blönduð gata. Þar hefur lengi ægt saman alls konar iðnaði og verslun í bland við íbúabyggð. Við Klapparstíginn hófu starfsemi sína á fyrri hluta aldarinnar margir af brautryðjendum íslensks iðnaðar.

Iðandi mannlíf og menning
Eignin er staðsett við Klapparstíg á milli Hverfisgötu og Laugavegar, sem hafa verið í mikilli enduruppbyggingu síðustu ár, til móts við Hljómalindarreitinn sem hefur tekið stórkostlegum breytingum og laðar að fólk. Endurbæturnar styðja betur við verslun og þjónustu sem veitt er á svæðinu, auk þess að krydda mannlífið. Laugavegurinn er ein helsta verslunargata Reykjavíkur og við nærliggjandi götur er fjöldi verslana, kaffihúsa, veitingastaða, gallería og önnur starfsemi sem hvetur til iðandi mannlífs og menningar.

Hvítlakkaðar fulningahurðir og gluggaumgjörðir upprunalegar
Hæðin hefur fengið að halda upprunalegu skipulagi og útliti sem gerir hana virðulegri og rýmið er opið og skemmtilegt. Hvítlakkaðar fulningahurðir og gluggaumgjörðir eru allar upprunalegar og gefa ákveðna upplifun til fortíðar. Gipslistar og rósettur prýða loftin og sveipa hæðina rómantík. Hæðin er einkar rúmgóð og vel skipulögð. Stórt hol tengir saman rými hæðarinnar sem er vel skipulagt. Á hæðinni eru þrjár, stórar og bjartar samliggjandi stofur. Stofurnar eru í sinni upprunalegu mynd og hurðirnar fegra rýmið enn frekar. Óhætt er að segja að stofurnar séu djásn eignarinnar og bjóða upp á fjölmarga möguleika. Rósettur og gipslistar setja fallegan svip á rýmið og undirstrika glæsileika stofanna. Miðjustofan er með bogadregnum gluggum sem eru sérstaklega fallegir, bæði innan sem utan og gera rýmið að innanverðu skemmtilegra. Gengið er inn í allar stofurnar frá holi.

Rómantískt frá gamla tímanum
Eldhúsið er gamaldags með rómantísku ívafi, hvítar innréttingar eru í forgrunni á móti ljósbláum lit á veggjum og inn af eldhúsi er geymsla sem áður var stigi á efri hæð og þaðan er útgengt á snotrar svalir. Svarti og hvíti liturinn er í forgrunni á baðherberginu sem er vandað. Fallegar hvítar og svartar flísar með hreyfingu prýða baðherbergið sem tóna vel saman.

Hæðinni fylgja þrjú rúmgóð, björt og hugguleg svefnherbergi, sem öll liggja saman á hæðinni. Einfaldleikinn ræður þar ríkjum og notagildið til staðar. Það má með sanni segja að eignin bjóði upp á fjölbreytta möguleika hvort sem það fyrir heimili eða atvinnutengda starfsemi því að staðsetningin er frábær fyrir þá sem eru heillaðir að 101 Reykjavík.

Eignin er til sölu á Híbýli fasteignasölu á 93 milljónir og hún er 189,7 fermetrar að stærð. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Híbýla í síma 585-8800 eða gegnum netfangið: [email protected]. Einnig veita Ólafur Már Ólafsson, löggiltur fasteignasali s. 865-8515, netfang: [email protected] og Ingibjörg Þórðardóttir, löggiltur fasteignasali s. 864-8800, netfang: [email protected]. Sjón er sannarlega sögu ríkari.

Olíuverð stýrir Íslandi

Mynd/Pixabay

Heimsmarkaðsverð á olíu er ráðandi þáttur í efnahagslegum uppgangi og erfiðleikum Íslendinga. Það hefur áhrif á heimilin í landinu, sjávarútvegsfyrirtæki, flutningsfyrirtæki og sérstaklega flugfélög. Það hefur áhrif á verðbólguþróun og þar af leiðandi kaupmátt og vaxtakjör.

Ísland hefur um margt notið góðs af rússíbanareið olíuverðsins á heimsmarkaði á undanförnum árum. Verðið var í 130 Bandaríkjadölum á tunnuna árið 2011 og hélst hátt alveg fram til ársins 2014.  Þá hrundi það á skömmum tíma og var komið niður í 25 Bandaríkjadali í byrjun árs 2016.

Á sama tíma var ferðaþjónustan að vaxa hratt, fjármagnshöft voru enn fyrir hendi, hagvöxtur var gríðarlegur ár eftir ár og staða þjóðarbússins batnaði verulega.

En nú eru blikur á lofti. Á einu ári hefur heimsmarkaðsverð á olíu hækkað um rúmlega 50 prósent. Það hefur sett ferðaþjónustugeirann í uppnám, sérstaklega vegna versnandi rekstrarskilyrða íslensku flugfélaganna, sem þurfa að kaupa mikið af eldsneyti á vélar sínar. Það hefur hækkað rekstrarkostnað heimila, sem flest þurfa að treysta á bíla til að koma sér á milli staða í daglegu amstri. Og það hefur ýtt við verðbólgudraugnum, sem hefur sofið værum blundi árum saman. Hann er ekki vaknaður, en hann er að rumska.

Af hverju er heimsmarkaðsverðið á olíu að hækka svona mikið á svona skömmum tíma? Ein helsta ástæðan eru þær viðskiptaþvinganir sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti á Íran.

Fjallað er ítarlega um áhrif heimsmarkaðsverðs á olíu á íslenskt efnahagskerfi og samfélag í Mannlífi dagsins. Hægt er að lesa þá umfjöllun í heild sinni á vef Kjarnans hér.

Fljótlegir eftirréttir

|
|

Sumum vex í augum að búa til eftirrétti en það þarf alls ekki að vera flókið eða tímafrekt. Hér eru einfaldar uppskriftir þar sem ávextir og ber eru í aðalhlutverki. Gott er að bera fram svolítinn rjóma eða ís á eftirréttina og þá er kominn fullkominn endir á góðri máltíð.

Súkkulaðisæla á pönnu (20 mín.)
fyrir 2-3
Þessi réttur er fyrir sælkera sem vantar eitthvað sætt og gott helst strax. Þegar rétturinn kemur út úr ofninum eru ískúlur settar ofan á hann, skeiðum dreift á gesti eða heimilismenn og einfaldlega ráðist á súkkulaðibombuna. En auðvitað má setja sæluna á diska fyrir hvern og einn.

50 g smjör
40 g hrásykur
50 g hveiti
3 tsk. kakó
25 g dökkt súkkulaði í bitum
25 g hvítt súkkulaði í bitum
¼ tsk. sjávarsalt

Hitið ofninn í 200°C. Gott er að nota litla pönnu sem má fara í ofn en ef hún er ekki til staðar notið þá lítið eldfast mót. Bræðið smjörið annaðhvort á pönnunni eða í skál í örbylgjuofni. Ef þið notið pönnuna gerið þið allt á henni. Bræðið smjörið og takið síðan pönnuna af hitanum. Blandið sykri, hveiti og kakói saman í skál. Hrærið því saman við smjörið á pönnunni. Bætið vanilludropum út í ásamt súkkulaðinu. Stráið að síðustu smávegis salti yfir og bakið í ofni í 8-10 mínútur. Berið strax fram, til dæmis með ís.

Bakaðar plómur með kókosflögum (45 mín.)
fyrir 6-8
Þetta er einstaklega bragðgóður réttur og einfaldur í gerð. Hráefnið fær að njóta sín en ekkert jafnast á við litla eða stóra rjómaslettu til að fullkomna allt saman. Fyrirhafnarlítill réttur sem er fljótlegt að skella í þó svo að bökunartíminn sé í lengri kantinum.

8 plómur
3 tsk. sykur
1 tsk. vanilluduft eða 1 vanillustöng
1 kanilstöng
handfylli kókosflögur

Hitið ofninn í 180°C. Skerið plómurnar til helminga og raðið í eldfast mót. Ef þið náið steinunum ekki auðveldlega úr, bakið þá með og takið úr þegar plómurnar eru tilbúnar. Blandið sykri og vanilludufti saman og stráið yfir plómurnar. Ef vanillustöng er notuð, skerið hana eftir endilöngu og skafið fræin úr og dreifið um mótið. Setjið kanilstöngina líka í mótið. Setjið kókósflögurnar á þurra heita pönnu og ristið þar til þær fá á sig brúnan lit. Hrærið í á meðan og fylgist vel með því þær brenna auðveldlega. Bakið plómurnar í 30 til 40 mínútur. Stráið kókosflögunum yfir plómurnar þegar þær koma út úr ofninum. Gott er að bera þeyttan rjóma fram með þessum rétti.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir Stílisti / Kristín Dröfn Einarsdóttir

Veikir flugliðar mæta þögninni

Gagnrýna viðbrögð Icelandair og stéttarfélags.

Fjórir flugliðar Icelandair leituðu á sjúkrahús eftir að hafa fundið fyrir veikindum í flugi frá Edmonton á laugardag. Mannlíf fjallaði í síðasta tölublaði um fjölda flugatvika frá árinu 2016 þar sem starfsfólk flugfélagsins hefur jafnvel verið óvinnufært í lengri tíma eftir að hafa fundið fyrir svipuðum einkennum á flugi.

Blaðamaður hafði samband við starfsmenn sem leituðu á sjúkrahús eftir flugið frá Edmonton en þeir vildu ekki tjá sig um atvikið, lýsa einkennum eða hvort þeir væru á batavegi og bentu blaðamanni á að ræða við Icelandair.

Mannlíf hefur staðfestar heimildir fyrir því að í a.m.k. einu tilfelli hafi fundist eiturefnið TCP í hársýni flugliða sem veiktist í flugi.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, vildi ekki tjá sig sérstaklega um málefni einstakra starfsmanna. „Það virðist vera sem flestir séu að jafna sig, ég veit ekki betur,“ sagði hann í samtali við Mannlíf. Hann sagði jafnframt að ekkert væri hægt að útiloka um orsakir slíkra atvika og benti á að þau komi reglulega upp hjá flestum flugfélögum og megi yfirleitt rekja til lélegs loftflæðis vegna stífla í loftræstikerfi.

Mannlíf hefur staðfestar heimildir fyrir því að í a.m.k. einu tilfelli hafi fundist eiturefnið TCP í hársýni flugliða sem veiktist í flugi.

Fékk engar upplýsingar
Mannlíf hefur rætt við fjölda starfsmanna Icelandair í tengslum við málið m.a. flugliða sem ekki hafa getað snúið aftur til vinnu eftir að hafa fundið fyrir svipuðum einkennum í flugi. Einn starfsmaður gagnrýnir flugfélagið fyrir léleg viðbrögð í hans tilfelli. Hann hafi ekki fengið neina aðstoð eða upplýsingar frá vinnuveitanda sínum um hvert ætti að leita með sín mál. Þá segist viðkomandi hafa mætt háði og m.a. verið spurður hvort mögulega væri um þynnku að ræða.

„Það er ekki sagt eitt aukatekið orð, það eru allt of miklir hagsmunir,“

Starfsmaðurinn kallar eftir vitundarvakningu meðal almennings og Icelandair um veikindi flugáhafna vegna mengaðs lofts í rýmum flugvéla sem tekið er í gegnum hreyfla. Fyrirbærið hafi verið þekkt í flugheiminum áratugum saman og sé kallað Airotoxic-heilkennið.

Vill að Flugfreyjufélagið stígi fram
Flugliði sem Mannlíf ræddi við er harðorður í garð Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og vill að stéttarfélagið sé leiðandi í umræðunni um þessi mál þannig að bæði almenningur og flugáhafnir séu upplýst um hættuna sem getur stafað af lélegum loftgæðum um borð í flugvélum. „Það er ekki sagt eitt aukatekið orð, það eru allt of miklir hagsmunir,“ segir starfsmaðurinn og bendir á að stjórnendur stéttarfélagsins séu einnig starfsmenn flugfélaganna.Fyrir tveimur vikum sagðist Berglind Hafsteinsdóttir, formaður FFÍ, ekki vilja tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Síðan þá hefur hvorki ítrekuðum símtölum né tölvupósti verið svarað.

Nýr tölvupóstur sendur á starfsfólk
Eftir að Mannlíf ræddi við Icelandair í tengslum við dularfull veikindi flugliða sendi félagið starfsmönnum sínum tilkynningu í tölvupósti.
Farið er yfir aðgerðir flugfélagsins til að tryggja öryggi starfsmanna og tekið fram að atvikin séu misjöfn og tengist ekki einstökum flugvélum. Skoðanir hafi ekki sýnt fram á skert loftgæði.
Staðfest er eitt tilfelli þar sem sýni úr áhafnarmeðlimi var jákvætt fyrir TCP (rokgjarnt lífrænt efnasamband) sem má finna í mörgum tegundum smurolíu. Upptök efnisins í sýninu hefur ekki verið staðfest. Tekið er fram að ekki hefur mælst TCP um borð í vélum félagsins sem nota slíkar tegundir olíu.

„Vikan er heiðarlegasta tímarit landsins”

Sigga Beinteins hefur fyrir löngu skipað sér sess sem ein af okkar ástsælustu söngkonum en hún er um þessar mundir í óða önn að skipurleggja sína níundu jólatónleika. Sigga hefur margoft verið viðmælandi Vikunnar en blaðinu lýsir hún sem því heiðarlegasta hér á landi.

„Ég hef aldrei neitað Vikunni um viðtal,” segir Sigga þegar blaðakona biður hana að rifja upp kynni sín af blaðinu. „Það er alltaf gaman að vera í viðtali á Vikunni enda tel ég blaðið það heiðarlegasta á íslenskum markaði hvort sem um er að ræða blöð sem koma út viku- eða mánaðarlega. Ég veit ekki hversu oft ég hef lent í því að fjölmiðlafólk skrifi eða hafi eftir manni hluti sem ég hefði síður viljað að séu skrifaðir eða birtir en blöðin ekki virt þær óskir að vettvangi. Að mínu mati er Vikan ekki eitt þeirra tímarita enda hefur mín upplifun alltaf verið mjög góð þegar kemur að Vikunni og því fjölmiðlafólki sem þar starfar.”

Það er óhætt að segja nóg sé um að vera hjá Siggu þessa stundina því örfáum dögum fyrir útgáfu afmælisblaðsins stóð hljómsveitin Stjórnin fyrir stórtónleikum sem haldnir voru í Háskólabíói.

„Já það var öllu tjaldað til en tilefni tónleikanna er 30 ára afmæli Stjórnarinnar.“

„Við fengum til liðs við okkur fjölbreyttan hóp af frábæru listafólki en sérstakir gestir voru þau Svala Björgvins, Daði Freyr, Friðrik Ómar, Regína Ósk og Erna Hrönn. Ásamt þeim fengum við til liðs við okkur brass sveit sem gerðu lögin okkar enn veglegri og ég get sagt þér að það var alveg frábært að heyra lögin lifna við eftir að búið var að útsetja þau fyrir blásara. Í undirbúningsvinnu fyrir tónleikana týndum við jafnframt til gömul plagöt af bandinu í gegnum tíðina ásamt búningum sem við höfðum til sýnis í andyrinu, þetta var algjör veisla.”

Stjórnin var stofnuð árið 1988 af Grétari Örvarssyni en seinna sama ár gekk Sigga til liðs við sveitina. „Ég tók við af þáverandi söngkonu henni Öldu Björk Ólafsdóttur sem að ákvað að hefja sólóferil í Bretlandi. Ég var á þessum tíma að syngja í sýningu á Hótel Íslandi og Stjórnin sá um að spila á böllunum sem haldin voru á eftir þessum sýningunni. Á einhverjum tímapunkti barst til tals að Alda ætli að flytja út og í kjölfarið var mér boðin hennar staða í bandinu. Boðið þáði ég nánast á staðnum og hef verið söngkona bandsins alla tíð síðan.”

Þrátt fyrir að vera hokin af reynslu viðurkennir Sigga að óhjákvæmilega geri alltaf nokkur fiðrildi vart við sig rétt áður en stigið er á svið.

„Ég er alltaf stressuð fyrir tónleika og þá sérstaklega svona stórtónleika eins og við héldum núna síðast, ég held það muni aldrei fara frá mér.“

„Maður vill reyna að gera allt alveg upp á hundrað og rúmlega það. Við bjuggum þó að því að hafa spilað lögin mikið í sumar og höfðum því rifjað lagalistann vel upp áður en til kastanna kom. Það var því ekkert nema ánægjulegt að skapa skemmtilega tónleika fyrir gestina sem mættu.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta eintaki Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Birgitta um Írafárs-ævintýrið: „Ég gekk oft fram af mér“

Birgitta Haukdal er óneitanlega í uppáhaldi hjá Íslendingum á öllum aldri, enda erfitt að falla ekki fyrir útgeislun hennar og einlægni. Birgitta sló eftirminnilega í gegn í kringum aldamótin og gerði allt vitlaust með hljómsveitinni Írafári. Eftir mikla keyrslu og tímabil sem hún lýsir sem rússíbanareið tóku þau þá ákvörðun um að hætta á toppnum. Síðustu ár hefur Birgitta einbeitt sér að öðru en á þessum tíma hefur hún stofnað fjölskyldu, búið erlendis og flutt til baka, skrifað barnabækur og unnið að fjölbreyttum verkefnum. Fyrr á árinu kom Írafár saman aftur og óhætt að fullyrða að um endurkomu aldarinnar hafi verið að ræða.

Stórtónleikar Írafárs fóru fram 2. júní síðastliðinn þar sem gestum varð ljóst að meðlimir sveitarinnar hefðu engu gleymt. Birgitta segir það ólýsanlega tilfinningu að standa frammi fyrir fullum Eldborgarsal og fá að flytja tónlistina sína, ekki síst þar sem ættingjar og vinir voru á staðnum. Meðal gesta var níu ára sonur Birgittu, Víkingur Brynjar. „Hann var algjörlega stjarfur að sögn pabba síns allan tímann en þetta var í fyrsta sinn sem hann sá mig á heilum tónleikum en ekki bara að flytja eitt og eitt lag. Eftir tónleikana spurði ég hvernig honum hefði fundist og hann var í skýjunum með þetta. Hann viðurkenndi þó að hafa verið mjög stressaður fyrir mína hönd og þegar ég spurði hann nánar út í það var svarið, „ég var svo hræddur um að þú myndir ruglast, mamma“,“ segir Birgitta og hlær.

Meðlimir Írafárs ákváðu að koma einnig fram á Þjóðhátíð og kveðja svo á Menningarnótt. „Við komum þar fram, til þess að segja svo að við værum farin aftur. Við vitum ekki hvort við erum að kveðja í ár eða í 10 ár. En okkur fannst þetta flott, koma fram með eitthvað geggjað og bakka svo út aftur þar til næst.“

Mynd: Aldís Pálsdóttir

Birgitta segist finna mikinn mun á því að koma fram núna og á þeim árum sem þau voru á toppnum. „Þá var þetta atvinna mín númer eitt, tvö og þrjú og alltaf svo ótrúlega mikið að gera. Þetta var algjör rússíbanareið, enda varð svo mikil sprenging í kringum okkur. Ég var út um allt, dag eftir dag, og náði í raun ekki að njóta. Hausinn var stilltur á vinnustillingu og þetta var bara keyrsla. Inn á milli þegar ég fékk frí var ég bara í bómull að reyna halda viti og passa upp á röddina. En í dag er ég að gera þetta frekar mér til skemmtunar en atvinnu. Það er svo mikill munur að geta staðið og andað augnablikinu að sér og notið þess. Það spilar að sjálfsögðu inn í að ég er orðin eldri og þroskaðri og farin að átta mig á þessum forréttindum.“

Rússíbanareið er orðið sem Birgitta notar yfir árin sem Írafár var upp á sitt besta og ekki af ástæðulausu. Hún tekur fram að árin 2002 og 2003 hafi verið sérstaklega þétt. „Þetta ár var ég bara í ruglinu. Ég var að spila út um allt með Írafári, var í öllum viðtölum, og í raun bara í alls staðar þar sem hægt var að vera. Ég lék í Grease á þessum tíma og fór oft beint eftir sýningar til að syngja á böllum. Á daginn var ég svo að æfa fyrir Eurovision og fór í þá ferð. Inn á milli reyndi ég semja tónlist. Þetta var algjör bilun og mjög erfiður tími í minningunni en rosalega skemmtilegur líka. Mjög dýrmæt reynsla sem ég myndi aldrei vilja skipta út fyrir eitthvað annað. Ég gekk hins vegar oft fram af mér og hélt að ég gæti tekið meira að mér en raun var og þá lenti ég á vegg. Þótt það sé gaman að hugsa til baka sæki ég ekki í svona læti aftur.“

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Birgittu Haukdal, en hún prýðir forsíðu sérstakrar afmælisútgáfu Vikunnar sem væntanleg er í verslanir í dag.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir

Árshátíð í upplausn eftir að í ljós kom að flugið er á næsta ári

Starfsmenn Coca-Cola á Íslandi héldu að þeir væru á leið erlendis í árshátíðarferð í dag þar til í ljós kom að flugið er ekki fyrr en á næsta ári.

Hópur starfsmanna Cola-Cola á Íslandi situr nú fastur á Leifsstöð eftir að í ljós kom að flug sem hópurinn á bókað vegna árshátíðarferðar til Berlín er ekki fyrr en á næsta ári. Hópurinn hélt að hann ætti að fljúga út í dag, 4. október 2018 en þegar hópurinn kom upp á Leifsstöð kom í ljós að flugið hafði verið bókað 4. október 2019.

Einn starfsmaður Coca-Cola á Íslandi segir í samtali við DV að um 30 starfsmenn hafi mætt um klukkan 4:00 í morgun upp á flugvöll og sagði stemmninguna slæma í hópnum eftir að upp komst um klúðrið.

Hluti hópsins bíður nú á Joe and the Juice á neðri hæð Leifsstöðvar á meðan reynt er að leysa málin á meðan sumir eru farnir heim.

Á vef Coca-Cola á Íslandi kemur fram að þjónusta fyrirtækisins verði skert í dag og á morgun vegna árshátíðarferðarinnar. „Við höfum gert okkar besta til að undirbúa þennan dag þannig að þú, viðskiptavinur góður, finnir sem minnst fyrir þessari skerðingu,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Fékk ekki inngöngu í eftirpartýið

Breska leikkonan Claire Foy fékk ekki inngöngu í eftirpartý eftir Emmy-hátíðina þrátt fyrir að halda á Emmy-verðlaunagrip sínum.

Leikkonunni Claire Foy var meinaður aðgangur í eftirpartý eftir Emmy-verðlaunahátíðina í síðasta mánuði. Fyrr um kvöldið hlaut Foy Emmy-verðlaun fyrir leik sinn í Netflix-seríunni the Crown þar sem hún leikur Elísabet Englandsdrottningu. En þrátt fyrir að hafa verið áberandi á verðlaunahátíðinni sjálfri fékk hún ekki inngöngu í eftirpartýið því hún gleymdi boðskortinu sínu.

Þessu greindi hún frá í The Tonight Show með Jimmy Fallon í gær. Hún sagði þetta hafa verið afar vandræðalegt, sérstaklega í ljósi þess að hún hélt á Emmy-verðlaunagripnum.

Hárgreiðslumaðurinn og sjónvarpsmaðurinn Jonathan Van Ness kom Foy þó til aðstoðar á endanum og sannfærði dyraverði um að Foy ætti svo sannarlega heima í eftirpartýinu.

 

Eitt umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar

Kafarinn Þorgeir Jónsson rifjar upp daginn sem hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað. Bíómynd byggð á málinu verður frumsýnd í næstu viku.

Í Mannlífi sem kemur út á morgun ræðir kafarinn Þorgeir Jónsson þann örlagaríka dag 11. febrúar árið 2004 þegar hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum.

„Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn, skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna,“ rifjar Þorgeir upp.

Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku. Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir myndinni.

„Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.

Mynd / Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

„Ekkert hræddur um að móðga fólk“

Halldór Halldórsson, sem flestir þekkja einfaldlega sem Dóra DNA, er einn af landsins bestu grínistum. Dóri hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann er nýlega kominn aftur til starfa eftir að hafa verið heima með Flosa, yngsta son sinn, í 18 mánuði.

„Þegar maður á þrjú börn þá er tíminn sem þau eru á sínum menntastofnunum ómetanlegur og það hefur kennt mér að nýta og skipuleggja hann vel. Síðan Flosi byrjaði á leikskóla hef ég notið þess að vinna skipulagðan vinnudag,“ segir Dóri. „Venjulegur dagur hjá mér hefst á því að ég fer á kaffihúsið Bismút klukkan níu, kjafta við gesti og gangandi í um hálftíma. Þaðan fer ég svo á skrifstofuna og skrifa en ég er með margvísleg verkefni í gangi. Ég er að vinna að gerð ýmissa handrita og verkefna með Hafsteini Gunnari, skrifa uppistandsefni, skáldsögu og fleira. Það að skrifa er uppáhaldið mitt. Mér líður aldrei betur, ekkert finnst mér auðveldara og ekkert liggur jafnvel fyrir mér. Svo reyni ég að enda alla daga á einhverri hreyfingu, hlaupum, lyftingum eða hnefaleikum. Síðustu ár hef ég notað september og október til að gera tilraunir á mataræði. Núna er ég á ketó-mataræðinu í þriðja sinn og ætla að skipta yfir í 20/4 í október.“

Ekkert bannað og ekkert mun verða bannað

Eins og margir vita er Dóri hluti af Mið-Íslandi hópnum, teymi sem samanstendur af nokkrum bestu grínistum landsins. „Mið-Ísland er alltaf jafn vel sótt. Við tökum þetta ár frá ári og sýnum þar til fólk hættir að mæta. Við hefjum haustin á því að halda prufusýningar þar sem við prófum efni sem við höfum párað hjá okkur. Svo mótum við það betur og frumsýnum í janúar. Við eigum tíu ára starfsafmæli í ár, sem er nettur skellur.“

Síðustu misseri hefur átt sér stað ákveðin umræða varðandi grín og að „ekkert megi“ lengur. Sjálfur segist Dóri ekki finna mikinn mun á viðhorfi fólks varðandi þetta.
„Ég get ekki sagt það. Það er ekki endilega það að fólk sé orðið viðkvæmara, það er bara ekki móttækilegt fyrir ákveðnu gríni. Sérstaklega gríni sem er á kostnað minnihlutahópa eða gríni sem fer nálægt eða yfir landamæri kynbundins ofbeldis. En það er ekkert vandamál hjá okkur, við höfum alltaf verið smekklegir, að mér finnst. Aldrei stuðað neinn svo harkalega að honum hefur fundist það tilefni til að segja það upphátt. Þannig erum við bara, sumt grín er bara best í lokuðum hópi. Það er einhver bylgja núna af sérstaklega karlmönnum sem finnst allt bannað. Það er ekkert bannað og ekkert mun verða bannað. Fólk er bara duglegra við að láta heyra í sér, þegar því finnst eitthvað ekki í lagi. Þegar einhver segir að eitthvert grín sé ófyndið eða óviðeigandi eru það ekki ritskoðunartilburðir, alls ekki. Að vera ósáttur við eitthvað er ekki að banna það eða krefjast þess að það sé bannfært. Ég segi oft brandara sem eru á mörkum þess að vera ósmekklegir, í húmor þá elska ég þessi landamæri. Og ef þeir ganga fram af fólki, þá hætti ég að segja þá og biðst afsökunar er þess þarf. Það er hressandi að hafa rangt fyrir sér og svo má ekki gleyma að brandarar eru bara brandarar.“

Dóri segir þá félaga í Mið-Íslandi ekki vitund hrædda við að móðga fólk. „Það væri heldur takmarkaður grínisti sem lifir við þann ótta. Við leyfum okkur að grínast með hvað sem er, sérstaklega okkar á milli. En enginn okkar hefur áhuga á því að vera ósmekklegur eða ógeðslegur. Sjálfum leiðist mér þessi tilhneiging í ákveðnum grínistum að reyna ganga fram af fólki. Sumir elska þannig grín og gjöri þeim svo vel – það er eitthvað fyrir alla og það er æðislegt. En eins og staðan er núna er enginn okkar og enginn af þeim grínistum sem eru í okkar mengi á þeim skónum.“

Leiklistarbaktería á háu stigi

Dóri verður að eigin sögn aldrei stressaður fyrir sýningar. „Ekki ef ég veit að efnið sem ég er að flytja er gott. Að koma fram hefur aldrei vafist fyrir mér, oft líður mér best þannig, ótrúlegt en satt. En það er mjög stressandi að fara fram með nýtt efni sem þú veist ekkert hvernig verður tekið, en það er líka uppáhaldið mitt. Maður hefur stundum dottið í gír, þar sem allt verður fyndið og heilinn á manni fer á milljón. Ég hef samið heilu brandarana af fingrum fram, flókna brandara með „call-backs“ á sviði, það er ótrúleg tilfinning. Ég hef einnig yfirgefið sviðið í vígahug til þess að gera út um áhorfanda sem var með frammíköll og dónaskap. Hræðilegt. En þú manst alltaf best eftir því þegar þú hefur skitið á þig. Og ég hef skitið vel á mig í uppistandi. Man eftir sérstaklega einu giggi á árshátíð kvikmyndagerðarfólks fyrir löngu. Það var ömurlegt. Fyrsta skiptið sem ég bombaði – mun aldrei gleyma því.“

Dóri hefur ekki aðeins látið til sín taka í uppistöndum og grín-sketchum, heldur einnig á hvíta tjaldinu. Hann lék nokkuð stórt hlutverk í vinsælustu kvikmynd landsins þessa dagana, Lof mér að falla. Hann er að eigin sögn kominn með leiklistarbakteríu á háu stigi, seint og löngu eftir listaháskólaárin. „Mig langar mikið til að leika meira, bæði grín, drama og hvað sem er. Mér fannst ótrúlega gaman að leika í Lof mér að falla. Leika persónu af húð og hári og pæla í því hvernig hún er og hvað hefur mótað hana. Vonandi fæ ég fleiri svoleiðis verkefni upp í hendurnar,“ segir Dóri DNA að lokum.

 

Viðtalið birtist upphaflega í Vikunni.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Hallur Karlsson

Taylor Swift með opnunaratriðið á AMA

Taylor Swift mun opna American Music Awards hátíðina og er tilnefnd til fjögurra verðlauna.

Söngkonan Taylor Swift mun verða með opnunaratriðið á American Music Awards (AMA) í ár. Swift er einnig tilnefnd til fjögurra verðlauna á hátíðinni sem fer fram þann 9. október í Los Angeles.

Swift tilkynnti þetta sjálf á Instgram í gær og fékk köttinn sinn, Meredith, með sér í lið en hann virtist ekkert of spenntur.

Swift kom  seinast fram á AMA hátíðinni árið 2014 og hreppti þá verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði tónlistar. Hún hefur í gegnum tíðina hlotið 19 verðlaun á AMA.

Þeir listamenn sem munu einnig koma fram á hátíðinni eru Carrie Underwood, Imagine Dragons, Cardi B, Post Malone og Ty Dolla $ign svo eitthvað sé nefnt.

Tracee Ellis Ross mun verða kynnir hátíðarinnar.

https://www.instagram.com/p/BobkTlxHo51/?utm_source=ig_web_copy_link

Raddir