Föstudagur 20. september, 2024
4.8 C
Reykjavik

Eitt umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar

Kafarinn Þorgeir Jónsson rifjar upp daginn sem hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað. Bíómynd byggð á málinu verður frumsýnd í næstu viku.

Í Mannlífi sem kemur út á morgun ræðir kafarinn Þorgeir Jónsson þann örlagaríka dag 11. febrúar árið 2004 þegar hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum.

„Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn, skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna,“ rifjar Þorgeir upp.

Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku. Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir myndinni.

„Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.

Mynd / Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

„Ekkert hræddur um að móðga fólk“

Halldór Halldórsson, sem flestir þekkja einfaldlega sem Dóra DNA, er einn af landsins bestu grínistum. Dóri hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann er nýlega kominn aftur til starfa eftir að hafa verið heima með Flosa, yngsta son sinn, í 18 mánuði.

„Þegar maður á þrjú börn þá er tíminn sem þau eru á sínum menntastofnunum ómetanlegur og það hefur kennt mér að nýta og skipuleggja hann vel. Síðan Flosi byrjaði á leikskóla hef ég notið þess að vinna skipulagðan vinnudag,“ segir Dóri. „Venjulegur dagur hjá mér hefst á því að ég fer á kaffihúsið Bismút klukkan níu, kjafta við gesti og gangandi í um hálftíma. Þaðan fer ég svo á skrifstofuna og skrifa en ég er með margvísleg verkefni í gangi. Ég er að vinna að gerð ýmissa handrita og verkefna með Hafsteini Gunnari, skrifa uppistandsefni, skáldsögu og fleira. Það að skrifa er uppáhaldið mitt. Mér líður aldrei betur, ekkert finnst mér auðveldara og ekkert liggur jafnvel fyrir mér. Svo reyni ég að enda alla daga á einhverri hreyfingu, hlaupum, lyftingum eða hnefaleikum. Síðustu ár hef ég notað september og október til að gera tilraunir á mataræði. Núna er ég á ketó-mataræðinu í þriðja sinn og ætla að skipta yfir í 20/4 í október.“

Ekkert bannað og ekkert mun verða bannað

Eins og margir vita er Dóri hluti af Mið-Íslandi hópnum, teymi sem samanstendur af nokkrum bestu grínistum landsins. „Mið-Ísland er alltaf jafn vel sótt. Við tökum þetta ár frá ári og sýnum þar til fólk hættir að mæta. Við hefjum haustin á því að halda prufusýningar þar sem við prófum efni sem við höfum párað hjá okkur. Svo mótum við það betur og frumsýnum í janúar. Við eigum tíu ára starfsafmæli í ár, sem er nettur skellur.“

Síðustu misseri hefur átt sér stað ákveðin umræða varðandi grín og að „ekkert megi“ lengur. Sjálfur segist Dóri ekki finna mikinn mun á viðhorfi fólks varðandi þetta.
„Ég get ekki sagt það. Það er ekki endilega það að fólk sé orðið viðkvæmara, það er bara ekki móttækilegt fyrir ákveðnu gríni. Sérstaklega gríni sem er á kostnað minnihlutahópa eða gríni sem fer nálægt eða yfir landamæri kynbundins ofbeldis. En það er ekkert vandamál hjá okkur, við höfum alltaf verið smekklegir, að mér finnst. Aldrei stuðað neinn svo harkalega að honum hefur fundist það tilefni til að segja það upphátt. Þannig erum við bara, sumt grín er bara best í lokuðum hópi. Það er einhver bylgja núna af sérstaklega karlmönnum sem finnst allt bannað. Það er ekkert bannað og ekkert mun verða bannað. Fólk er bara duglegra við að láta heyra í sér, þegar því finnst eitthvað ekki í lagi. Þegar einhver segir að eitthvert grín sé ófyndið eða óviðeigandi eru það ekki ritskoðunartilburðir, alls ekki. Að vera ósáttur við eitthvað er ekki að banna það eða krefjast þess að það sé bannfært. Ég segi oft brandara sem eru á mörkum þess að vera ósmekklegir, í húmor þá elska ég þessi landamæri. Og ef þeir ganga fram af fólki, þá hætti ég að segja þá og biðst afsökunar er þess þarf. Það er hressandi að hafa rangt fyrir sér og svo má ekki gleyma að brandarar eru bara brandarar.“

Dóri segir þá félaga í Mið-Íslandi ekki vitund hrædda við að móðga fólk. „Það væri heldur takmarkaður grínisti sem lifir við þann ótta. Við leyfum okkur að grínast með hvað sem er, sérstaklega okkar á milli. En enginn okkar hefur áhuga á því að vera ósmekklegur eða ógeðslegur. Sjálfum leiðist mér þessi tilhneiging í ákveðnum grínistum að reyna ganga fram af fólki. Sumir elska þannig grín og gjöri þeim svo vel – það er eitthvað fyrir alla og það er æðislegt. En eins og staðan er núna er enginn okkar og enginn af þeim grínistum sem eru í okkar mengi á þeim skónum.“

Leiklistarbaktería á háu stigi

Dóri verður að eigin sögn aldrei stressaður fyrir sýningar. „Ekki ef ég veit að efnið sem ég er að flytja er gott. Að koma fram hefur aldrei vafist fyrir mér, oft líður mér best þannig, ótrúlegt en satt. En það er mjög stressandi að fara fram með nýtt efni sem þú veist ekkert hvernig verður tekið, en það er líka uppáhaldið mitt. Maður hefur stundum dottið í gír, þar sem allt verður fyndið og heilinn á manni fer á milljón. Ég hef samið heilu brandarana af fingrum fram, flókna brandara með „call-backs“ á sviði, það er ótrúleg tilfinning. Ég hef einnig yfirgefið sviðið í vígahug til þess að gera út um áhorfanda sem var með frammíköll og dónaskap. Hræðilegt. En þú manst alltaf best eftir því þegar þú hefur skitið á þig. Og ég hef skitið vel á mig í uppistandi. Man eftir sérstaklega einu giggi á árshátíð kvikmyndagerðarfólks fyrir löngu. Það var ömurlegt. Fyrsta skiptið sem ég bombaði – mun aldrei gleyma því.“

Dóri hefur ekki aðeins látið til sín taka í uppistöndum og grín-sketchum, heldur einnig á hvíta tjaldinu. Hann lék nokkuð stórt hlutverk í vinsælustu kvikmynd landsins þessa dagana, Lof mér að falla. Hann er að eigin sögn kominn með leiklistarbakteríu á háu stigi, seint og löngu eftir listaháskólaárin. „Mig langar mikið til að leika meira, bæði grín, drama og hvað sem er. Mér fannst ótrúlega gaman að leika í Lof mér að falla. Leika persónu af húð og hári og pæla í því hvernig hún er og hvað hefur mótað hana. Vonandi fæ ég fleiri svoleiðis verkefni upp í hendurnar,“ segir Dóri DNA að lokum.

 

Viðtalið birtist upphaflega í Vikunni.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Hallur Karlsson

Taylor Swift með opnunaratriðið á AMA

Taylor Swift mun opna American Music Awards hátíðina og er tilnefnd til fjögurra verðlauna.

Söngkonan Taylor Swift mun verða með opnunaratriðið á American Music Awards (AMA) í ár. Swift er einnig tilnefnd til fjögurra verðlauna á hátíðinni sem fer fram þann 9. október í Los Angeles.

Swift tilkynnti þetta sjálf á Instgram í gær og fékk köttinn sinn, Meredith, með sér í lið en hann virtist ekkert of spenntur.

Swift kom  seinast fram á AMA hátíðinni árið 2014 og hreppti þá verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði tónlistar. Hún hefur í gegnum tíðina hlotið 19 verðlaun á AMA.

Þeir listamenn sem munu einnig koma fram á hátíðinni eru Carrie Underwood, Imagine Dragons, Cardi B, Post Malone og Ty Dolla $ign svo eitthvað sé nefnt.

Tracee Ellis Ross mun verða kynnir hátíðarinnar.

https://www.instagram.com/p/BobkTlxHo51/?utm_source=ig_web_copy_link

Ætla að mótmæla þeim sem mótmæla

Nú hefur verið boðað til mótmæla þar sem mótmælendum verður mótmælt.

Samtökin Reykjavík Animal Save hafa boðað til friðsamlegrar samstöðuvöku á föstudaginn fyrir utan Sláturhús Suðurlands. Dýravinir eru hvattir til að koma og „dreifa eins mikilli samúð og ást“ og þeir geta á meðan lömbin eru sendar til slátrunar.

„Með því að mæta þarna fyrir utan sláturhúsið sendum við sterk skilaboð um að þessir einstaklingar eiga rétt á umhyggju, frelsi og réttlæti, og að þeirra dauði sé ekki falinn umheiminum,“ segir á Facebook. Þá er tekið fram að um friðsamlegan viðburð sé að ræða og því sé óvild gagnvart starfsfólki SS ekki liðin.

En nú hefur verið boðað til mótmæla vegna samstöðufundarins og virðast einhverjar kjötætur ætla að mæta fyrir utan SS á föstudaginn og grilla kjöt.

Samtökin Reykjavík Animal Save svara í sömu mynt og ætla að mótmæla mótmælunum.

„Á föstudaginn ætla veganar Íslands að mótmæla fyrir utan SS Selfossi. Nokkrir grashræddir ætla að mótmæla mótmælunum. Kjötætur og grasætur, mætum og mótmælum mótmælendum mótmælenda. Sýnum samstöðu með því að aðeins að pæla í hlutunum og þeim sem vilja smá umræðu í stað þess að fara að væla þegar einhver ætlar að taka af þér sviðakjammann þinn,“ segir í Facebook-færslu þar sem boðað er til mótmæla gegn mótmælum samstöðufundarins.

Samstöðufundurinn og mótmælin verða fyrir utan Sláturhús Suðurness á föstudaginn klukkan 14.00.

Varði kvöldinu í að telja seðla á Íslandi

Bardagakappinn Floyd Mayweather nýtur lífsins á Íslandi. Kvöldið hans fór í að telja seðla.

Bardagakappinn Floyd Mayweather er staddur á Íslandi en hann sagði frá því á Instagram í gær að förinni væri heitið til Íslands. Í dag naut hann lífsins í Bláa Lóninu og varði svo kvöldinu í að telja seðla.

„Lífið snýst um að upplifa mismunandi hluti. Svo ég ákvað að fara að skoða Ísland,“ skrifaði Mayweather m.a. við myndband sem hann deildi á Instagram í morgun. Hann sagði landið vera þekkt fyrir heita hveri og þess vegna væri tilvalið að byrja Íslandsheimsóknina á að fara í Bláa Lónið. Svo birti hann mynd af sér í lóninu með kísilmaska í andlitinu.

Kvöldinu virðist hann svo hafa varið í að telja seðla en Mayweather hefur það gott fjárhagslega og er metinn á um 700 milljónir dollara. Hann birti mynd af sér á Instagram í kvöld sem tekin er á hóteli Bláa Lónsins, á myndinni stillir hann sér upp umvafinn seðlabúntum.

View this post on Instagram

#BlueLagoon #Iceland

A post shared by Floyd Mayweather (@floydmayweather) on

Embla gerir til ótrúleg listaverk á andlit sitt

Embla Gabríela Wigum notar andlit sitt sem striga til að skapa mögnuð listaverk.

Hin 19 ára Embla Gabríela Wigum býr til ótrúleg listaverk á andlit sitt og deilir myndum með fylgjendum sínum á Instagram. Embla fer óhefðbundnar leiðir í förðun eins og sjá má á myndunum sem hún deilir.

Spurð út í hvenær hún byrjaði að fikta með snyrtivörur og förðun segir Embla áhugann alltaf hafa verið til staðar. „Ég hef haft áhuga á förðun síðan ég man eftir mér. En áhuginn byrjaði fyrir alvöru þegar ég eignaðist mína fyrstu augnskuggapallettu 15 ára gömul. Þá ákvað ég að stefna á förðunarnám og ég fór í Reykjavík Makeup School í september í fyrra, samhliða því að vera í menntaskóla. Eftir það hefur áhuginn bara aukist.“

Embla segir innblásturinn koma úr öllum áttum. „Oft fæ ég innblástur frá öðrum förðunarfræðingum á Instagram en innblásturinn getur líka komið úr umhverfinu. Til dæmis hef ég gert mörg „lúkk“ sem eru innblásin af náttúrunni,“ segir Embla sem vinnur þá ýmist með litasamsetningar úr náttúrunni eða teiknar hreinlega landslag á andlit sitt svo dæmi séu tekin.

Þegar Embla er spurð út í hvort hún eigi sér uppáhalds förðun sem hún sjálf hefur gert á hún erfitt með að svara. „Ein af þeim förðunum sem ég er ánægðust er förðunin þar sem ég málaði himinn og ský á bringuna á mér. Það tók mig langan tíma og ég var alveg að gefast upp. En ég var mjög ánægð með útkomuna þannig það var alveg þess virði.“

Embla hefur lagt það í vana sinn að mynda þá förðun sem hún gerir og deila myndunum á Instagram. Svo þrífur hún förðunina yfirleitt fljótlega af. „Það getur verið leiðinlegt að þrífa förðun af sem ég er búin að eyða kannski mörgum klukkustundum í. En það er líka það skemmtilega við förðun, maður getur gert hvað sem manni dettur í hug og svo fer það alltaf af í lok dagsins.“

„Það getur verið leiðinlegt að þrífa förðun af sem ég er búin að eyða kannski mörgum klukkustundum í.“

Spurð út í hennar uppáhaldsförðunarfræðinga nefnir Embla þau James Charles, Abby Roberts, Keilidh mua og Sarina Nepstad sem dæmi. „Það eru svo miklu fleiri sem ég fylgist með en þessi eru í mestu uppáhaldi.“

Dásamlegur bleikjubrauðréttur

Flestir eru alveg vitlausir í brauðrétti og klárast þeir yfirleitt alltaf fyrst í veislum. Það er líka tilvalið að hafa slíka rétti í matinn fyrir fjölskylduna. Hér bjóðum við upp á brauðrétt með fiski sem aldeilis hentar vel sem kvöldmatur.  Hér er á ferðinni dásamlegu brauðréttur sem kom sérstaklega vel út í tilraunaeldhúsi Gestgjafans. Það þarf smá undirbúning og fyrirhöfn til að útbúa hann en er alveg þess virði. Tilvalið er að nota afganga af bleikju eða laxi frá kvöldinu áður í réttinn.

Brauðréttur með bleikju með kasjúhnetupestói, grillaðri papriku og döðlum

Fyrir 4-6

500 g bleikja (u.þ.b. 2 lítil flök)
3 tsk. kryddblanda að eigin vali t.d. krydd lífsins frá pottagöldrum
1 msk olía til steikingar
5 brauðsneiðarað
1 rauðlaukur
4 msk sýrður rjómi (18%)
safi úr einni sítrónu
2 dl niðurskornar döðlur
1 krukka grilluð paprika
fræ úr einu granatepli, má sleppa

Skerið flökinn í hæfilega bita, kryddið og steikið með roðinu í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Passið að ofelda þau ekki, látið kólna. Skerið skorpuna af brauðinu og geymið. Setjið brauðsneiðarnar í litlum bitum í skál. Skerið lauk og blandið saman við ásamt sýrðum rjóma, sítrónusafa og niðurskonrum döðlum. Setjið blönduna í eldfastmót og raðið grillaðri papriku og bleikjunni í bitum yfir. Á þessu stigi er ágætt að leyfa réttinum að bíða í litla stund og búa til pestóið og brauðteningana.

Kasjúhnetupestó
1 askja konfekt- eða kirsuberjatómatar
10 döðlur
8 svartar ólífur
hnefafylli fersk basilíka
hnefafylli kasjúhnetur
1 dl góð ólífuolía
1 tsk. sjávarsalt
2 hvítlauksgeirar
nýmalaður pipar eftir smekk

Skerið tómatana til helminga og skafið innan úr þeim. Setjið tómatana og allt sem á að fara í kasjúhnetupestóið í matvinnsluvél og látið vélina ganga í smástund þar til allt hefur samlagast.

Ristaðir brauðteningar
skorpa af 5 brauðsneiðum
2 msk. fínt söxuð basilíka, smá sleppa
1 tsk. paprikuduft
3 tsk. olía

Skerið skorpuna sem skorin var af brauðinu í teninga og setjið í skál. Hellið olíunni yfir og kryddið. Blandið vel saman. Steikið við frekar háan hita í stuttan tíma eða þar til teningarnir eru orðnir gullinbrúnir og stökkir. Kælið.

Setjið svolítið af kasjúhnetupestóinu yfir bleikjuréttinn, dreifið ristuðu brauðteningunum yfir og skreytið að lokum með granateplafræjum ef vill. Berið afganginn af pestóinu fram með brauðréttinum

Ristaða brauðteninga má búa til úr hvaða brauðtegund sem er,bæði úr grófu og fínu brauði. Tilvalið er að frysta afgangsbrauð og afskorna skorpu sem er að renna út á tíma og nota í brauðteningagerðina. Bæði er hægt að steikja þá á pönnu í nokkrar mínútur eða raða þeim á ofnplötu og baka í ofni í u.þ.b. 10 mínútur við 180°C. Upplagt er að nota ristaða brauðteninga út á salöt eða í súpur.

Twitter logar vegna gjaldþrots Primera Air

Óánægðir viðskiptavinir Primera Air láta í sér heyra á Twitter.

Flugfélagið Primera Air er gjaldþrota og hefur öllum ferðum félagsins verið aflýst. Mikil óvissa hefur ríkt meðal viðskiptavina félagsins síðan tilkynnt var um gjaldþrotið á vefsíðu félagsins.

Twitter hefur logað síðan og spurningarnar hlaðast upp á Twitter-síðu Primera Air. Óánægðir viðskiptavinir vilja vita hvort þeir fái endurgreiðslu og farþegar sem eru strandaglópar vegna gjaldþrotsins leita svara.

Meðfylgjandi eru nokkur tvít óánægðra netverja.


Þess má geta að á vef Samgöngustofu kemur fram að farþegar kunna að eiga kröfu á hendur Primera Air, m.a. á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega.

Arion banki tapar háum fjárhæðum á falli Primera Air

Arion banki hefur tilkynnt að „vegna ófyrirséðra atburða“ verði afkoma bankans allt að 1,8 milljörðum króna lakari á þriðja ársfjórðungi.

Umræddir atburðir eru gjaldþrot flugfélagsins Primera Air sem tilkynnti í gær að félagið hefði hætt rekstri. Í afkomuviðvörun frá Arion banka segir að bankinn muni niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem hafi neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankans á þriðja ársfjórðungi. Áhrifin mun i nema á bilinu 1,3 – 1,8 millörðum króna, að teknu tilliti til skatta.

Uppgjör fyrir þriðja ársfjörðung verður birt í lok október. Í afkomuviðvöruninni segir að um einstakt tilvik sé að ræða sem hafi ekki áhrif á reglulegar tekjur bankans og almennan rekstrarkostnað.

Primera Air er gjaldþrota

 

Jón Gnarr segist ætla í framboð í Barselóna

Spænski miðillinn El Periodico segir frá framboði Jóns Gnarrs.

„Það er mér heiður að tilkynna að ég ætla að bjóða mig fram sem borgarstjóra Barselóna 2019,“ skrifar Jón Gnarr meðal annars á Twitter. Hann tekur þá fram að þeir sem kjósi hann fái ókeypis penna.

Spænski miðillinn El Periodico fjallar um málið. Þar kemur fram að nú sé grínistinn Jón Gnarr kominn fram á sjónarsviðið og sé í framboði til borgarstjóra Barselóna. Þar segir einnig að grín Jón Gnarrs hafi farið úr böndunum á sínum tíma sem endaði með því að hann varð borgarstjóri Reykjavíkur.

Í frétt El Periodico segir að Jón sé orðinn þreyttur á pólitík heimalands síns og ætli því að sjá hvað setur í Barselóna.

 

42.000 króna sundbolurinn sem ekki þolir sundlaugarvatn

Hinn klassíski sundbolur er hannaður til að þola sundlaugarvatn og allt sem því fylgir, svo sem klór. En tískuhús Gucci fer aðrar leiðir og setti nýverið í sölu sundbol sem ekki þolir sundlaugarvatn.

„Vegna eðlis þessa efnis ættu þessi sundföt ekki að komast í snertingu við klór,“ segir á vef Gucci. Þar kemur einnig fram að sundbolurinn er gerður úr 80% nylon og 20% teygjuefni.

Netverjar hafa verið að undra sig á þessari flík og þeim galla að sundfötin þoli ekki sundlaugarvatn á samfélagsmiðlum. En ekkert virðist stoppa tískuhús Gucci því sundbolurinn er uppseldur alls staðar.

Sundbolurinn umdeildi kostar 320 evrur sem gerir um 42.000 krónur. Á vef Gucci er lagt til að honum sé klæðst við gallabuxur og leðurjakka, sem eins konar bol í staðin fyrir sem sundfatnaði.

Mynd / Af vef Gucci

Trúður með tár

SÍÐAST EN EKKI SÍST Það var auðvitað ákveðinn léttir að finna að ekkert lát er á eftirspurninni eftir skoðunum hvítra, gagnkynhneigðra, miðaldra karlmanna í íslensku samfélagi. Þessa ályktun dró ég einfaldlega út frá því að vera beðinn um að láta mínar upptendruðu skoðanir í ljós á þessum vettvangi sem ég auðvitað þáði, ykkur öllum til heilla og farsældar.

Eins og nánast allir vita þá höfum við, þessi hugumprúði meirihlutahópur, búið yfir einstakri færni til þess að leiðbeina öðrum um refilstigu lífsins. Alvöruþrungnir á svip stjórnum við samfélögum, hagkerfum, heiminum og frímúrarareglunni. Að auki höfum tekið að okkur úrlausn vandamála fyrir konur og fjölmarga minnihlutahópa á borð við innflytjendur og hinsegin fólk og bara alla sem hafa vit á því að hlusta þegar við látum viskuna streyma frá okkur. Og ef svo ólíklega vill til að okkur verði á í messunni, þá kunnum við þá list öllum betur að þegja, stinga undir stól og bíða af okkur storminn.

Í seinni tíð hefur reyndar örlað á neikvæni og vantrú í okkar garð. Það er illskiljanlegt í ljósi þess að orð okkar eru upphaf alls og að sjálf sólin skín út um hinn endann. Þetta hljóta allir að sjá og reyndar mætti fólk gera meira af því að þakka okkur fyrir að vera svona æðislegir.

Í því ljósi sem frá okkur stafar var það okkur því mikið áfall fyrir skömmu að komast að því að einn af okkar bröttustu samfélagsrýnum, Halldór Jónsson, reyndist vera að grínast þegar hann var að leiðbeina veröldinni í samskiptum kynjanna. Enn sárara var svo að enginn skyldi skilja grínið góða og það bara vegna þess að það var hlaðið kven- og mannfyrirlitningu eins og gerist fyndnast. En allt kom fyrir ekki og okkar manns biðu þau skelfilegu örlög að vera misskilinn grínari. Bara trúður með tár, eins og titrandi lauf í vindi.

Framandi og ferskur hönnuður

Norðmaðurinn Hallgeir Homstvedt er óhræddur við að fara nýjar leiðir í hönnun sinni.

Hinn norski Hallgeir Homstvedt lærði upphaflega margmiðlun í Ósló en lét draum sinn rætast ári síðar þegar hann söðlaði um og fluttist til Ástralíu til þess að stunda nám við Univeristy of Newcastle. Árið 2006 útskrifaðist hann sem iðnhönnuður með afbragðs árangri og hóf strax störf hjá norska frumkvöðlafyrirtækinu, Norway Says. Það var síðan þremur árum seinna eða árið 2009 sem Norðmaðurinn opnaði sína eigin hönnunarstofu, Hallgeir Homstvedt Design, sem sérhæfir sig í verkefnum á sviði innanhúss-, húsgagna- og vöruhönnunar.

Verkefni hönnuðarins eru fjölbreytt en með sköpun sinni vill Hallgeir Homstvedt ávallt ná fram áþreifanleika og gagnvirkni á sama tíma og hann skapar forvitni hjá áhorfandanum. Í gegnum tíðina hefur Norðmaðurinn tekið þátt í stórum hönnunarsýningum víðs vegar um heiminn en hann hefur meðal annars vakið verðskuldaða athygli á sýningum í stórborgunum London, Mílanó, New York og Tókýó.

„… með sköpun sinni vill Hallgeir Homstvedt ávallt ná fram áþreifanleika og gagnvirkni á sama tíma og hann skapar forvitni hjá áhorfandanum.“

MUUTO OG MEIRA

Hallgeir Homstvedt er óhræddur við að prófa nýja hluti. Hann hefur bæði starfað fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Muuto, Hem, L.K. Hjella og Established & Sons en er þó óhræddur við að starfa með lítt þekktari hönnuðum. Það virðist engu skipta hvert verkefnið er, hugur Hallgeir Homstvedt virðist alltaf hafa ótal hugmyndir og í hvert sinn sem hann byrjar kemur eitthvað allt öðruvísi en hann hefur áður gert. Með fjölbreytni og hugmyndauðgi sinni hefur hann unnið til fjölda verðlauna á sviði hönnunar og hvergi nærri hættur.

Hjólabrettakappi, hefðardama og hippi

Sóley Kristjánsdóttir er þekkt fyrir flottan fatastíl.

Sóley Kristjánsdóttir þeytir skífum í hjáverkum en hún starfar sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni. Sóley hefur lengi vakið eftirtekt fyrir frumlegt og skemmtilegt fataval en hún segist alltaf hafa haft gaman af tísku. Svo er hún líka með hænur í bakgarðinum.

„Mér finnst mjög skemmtilegt að klæða mig en stíllinn minn er afar fjölbreyttur, vinnufélagarnir hafa haft orð á því. Stundum er maður klæddur þannig að það vantar bara hjólabrettið, stundum er ég eins og hefðarfrú og stundum tekur hippinn völdin. Það fer allt eftir veðri og vindum en það er sem betur fer frjálslegur klæðnaður leyfður í Ölgerðinni. Efst á óskalistanum þessa stundina eru skór en ég er ekki mikil skókona og er eiginlega alltaf í sömu skónum. Lágbotna að sjálfsögðu þar sem ég lít á mig sem 180 cm risa.

Sóley segir hettupeysu klárlega vera skyldueign.

Aðspurð hvað allar konur verði að eiga í fataskápnum segir Sóley flotta og þægilega hettupeysu klárlega vera skyldueign enda séu þær klassík. „Ég er hætt að gera stórinnkaup í lágvöruverðsverslunum. Ég vil hugsa um umhverfið og kjör fólksins sem framleiðir þessi ódýru föt. Svo á ég mjög mikið af fötum og reyni frekar að finna nýjar samsetningar. Ég versla helst í Aftur en þar er mikil fegurð í framleiðslunni og allir fá greitt fyrir sína vinnu. Aftur hefur verið með endurvinnslustefnu alveg frá upphafi, í sennilega 20 ár, og endurvinnur efni úr eldri fötum. Mjög flott föt sem eldast ótrúlega vel,“ segir Sóley.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tóku víkingaklappið á Ryder-bikarnum

Stemmningin var mikil á Ryder-bikarnum í Frakklandi.

Áhorfendur á Ryder-bikarnum í Frakklandi tóku víkingaklappið svokallaða. Golfmótið var haldið um helgina þar sem 12 bestu leikmenn Evrópu og 12 bestu leikmanna Bandaríkjanna kepptu um Ryder-bikarinn. Stemmningin var greinilega mikil á mótinu ef marka má myndbandið sem birtist á vef Daily Mail en þar má sjá áhorfendur taka víkingaklappið í fagnaðarlátum.

Meðfylgjandi er myndbandið sem birtist á vef Daily Mail.

Þess má geta að þetta er í 42 sinn sem Ryder-bikarinn fer fram og evrópska liðið hreppti bikarinn.

Primera Air er gjaldþrota

Flugfélagið Primera Air er gjaldþrota og hefur öllum ferðum félagsins frá og með morgundeginum verið aflýst. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu flugfélagsins.

„Fyrir hönd Primera Air viljum við þakka ykkur fyrir hollustuna. Við kveðjum ykkur á þessum sorgardegi,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Farþegum sem áttu bókað flug með félaginu er ráðlagt að fylgjast með fréttum á heimasíðu félagsins næstu daga sem og að hafa samband við söluaðila. Jafnframt er tekið fram að hvorki símtölum né skriflegum fyrirspurnum verður svarað.

Primera Air hefur átt undir högg að sækja undanfarið. Félagið hefur komið illa út úr þjónustukönnunum og á dögnum samþykkti Flugfreyjufélag Íslands vinnustöðvun um borð í vélum félagsins vegna deilna um kjara flugliða.

Á vefnum aviation24.be segir að Airbus A321 flugvél félagsins hafi verið kyrrsett á Stanstead flugvelli í London vegna ógreiddra gjalda.

Elísabet nálgast markið í 400 kílómetra hlaupi

Hlauparinn Elísabet Margeirsdóttir er að nálgast markið í Ultra Gobi-hlaupinu en um 400 kílómetra hlaup í Gobi-eyðimörkinni er að ræða þar sem þátttakendur hafa 150 klukkustundur til að ljúka við vegalengdina. Elísabet á 20 kílómetra eftir.

„Hún er á svakalegri siglingu. Hún er í eyðimerkurlandslagi, sandur og rok. Það bítur ekkert á hana. Hún er þó komin með blöðru sem er að valda sársauka. En hún lætur það ekki á sig fá. Er ótrúlega einbeitt og er komin á tímastöð CP29/369km. Það styttist í markið en það getur margt gerst á næstu 30km. Hún þarf á öllum góðum straumum að halda og allar kveðjur hjálpa henni með hvert skref í átt að markinu. Klukkan í Gobi er 18:00 og það fer að koma myrkur. Hún var spurð hvaða lag ætti að spila í markinu. Einhverjar tillögur?“ segir í stöðuuppfærslu sem birtist á Facebook-síðu hennar.

Elísabet komst í símasamband fyrr í dag og birti nokkrar myndir á Facebook. Þar kom fram að henni líður vel og náði að hvílast vel fyrir lokasprettinn.

Mynd / Af Facebook-síðu Elísabetar

„Gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu“

|
|

Telma Rut Einarsdóttir segir þátttökuna í björgunarsveitum hafa kennt sér mikið og gefið sér aukið sjálfstæði.

Flugneminn Telma Rut Einarsdóttir hefur starfað með Björgunarsveit Hafnarfjarðar í níu ár eða frá því hún byrjaði á nýliðanámskeiði aðeins 17 ára gömul. Hún mælir með þátttöku í björgunarsveitum fyrir alla sem hafa áhuga á útivist og góðum félagsskap.

„Þegar ég var yngri voru foreldrar mínir duglegir að fara með mig í útilegur og fjallaferðir. Það má næstum segja að ég hafi alist upp í útilegum og á fjöllum, ég er ekki nema sex vikna gömul á fyrstu myndinni sem var tekin af mér uppi á jökli. Þannig að þetta blundaði alltaf óbeint í mér,“ svarar Telma þegar hún er spurð hvers vegna hún ákvað að fara í björgunarsveitastarf.

„Mér var svakalega vel tekið þegar ég byrjaði en það er eitt af því sem mér finnst best við björgunarsveitirnar, öllum er tekið eins og þeir eru. Það er mjög breiður hópur af fólki sem starfar í björgunarsveitunum og allir geta unnið saman sem er alveg ótrúlega flott að sjá. Þetta bara virkar einhvern veginn þegar á reynir.

Nýliðanámskeiðið var að meðaltali aðra hverja helgi auk nýliðakvölda á miðvikudögum þar sem voru ýmis stutt námskeið, fjallgöngur, spottakvöld, klifur eða annað sem okkur datt í hug.“

Ómetanlegur félagsskapur

Telma segist á þessum tíma hafa lært mikið um útivist, hvernig eigi að haga sér á fjöllum, hvernig eigi að bjarga sér og öðrum og gera hlutina með lágmarksáhættu. „Þetta hefur einnig gefið mér aukið sjálfstæði, getu til að fara lengra og gera meira en ég hefði annars gert. Og svo ég verði nú aðeins væmin þá er félagsskapurinn ómetanlegur og ég hef kynnst mínum bestu og traustustu vinum í björgunarsveitinni. Fólkið þarna er alltaf til staðar, alltaf til í að hjálpa þegar eitthvað bjátar á og ég hef fundið mjög sterkt hvað allir standa þétt við bakið á manni. Þessi andlegi stuðningur og eining þurfa að vera til staðar til að skapa góða björgunarsveit, en eru alls ekki sjálfgefin.“

Félagsstarfið í björgunarsveitunum er fjölbreytt. Til dæmis eru björgunarleikarnir haldnir annað hvert ár samhliða landsþingi. „Þar er keppt í ýmsum greinum, eins og böruburði í gegnum þrautabraut, sigi, rústabjörgun, rötun, tappa í dekk og draga bíla, ökuleikni, pönnukökubakstri, björgunarsundi og fleira í þeim dúr. Í fyrra skiptið sem ég keppti settum við stelpurnar saman lið sem við kölluðum Team Barbie, svona upp á grínið, en svo vantaði okkur einn upp á til að fylla liðið og enduðum á að fá „Ken“ með okkur í lið. Svo tók ég síðast þátt með öðru liði sem endaði í þriðja sæti á leikunum, en það eru yfir tuttugu lið alls staðar af landinu sem keppa sín á milli. Mæli sérstaklega með þessu fyrir nýliða, að setja saman lið og sjá hvað þið getið,“ segir Telma.

Enginn fer í útkall nema treysta sér til

Verkefnin sem farið er í eru mismunandi og miserfið. „Við förum í hvert verkefni fyrir sig og leysum eins vel og við getum. Ef við gerum rétta hluti líður okkur yfirleitt vel þótt útkallið geti verið erfitt. Ég á vini í sveitinni sem hafa lent í erfiðum útköllum, til dæmis að sækja látið fólk og það tekur auðvitað á. En þar kemur liðsheildin inn og við pössum okkar fólk og höfum aðgang að sálfræðingi ef á þarf að halda til að vinna úr svona málum. Svo er líka vert að taka fram að við erum sjálfboðaliðar og þar af leiðandi ákveðum við sjálf hvort við förum í útkall eða ekki. Það er enginn settur í útkall nema hann treysti sér til og telji sig hafa getu og kunnáttu til að takast á við það. Í hvert skipti sem við fáum útkall með SMS-skilaboðum þarf fyrst að hugsa: Treysti ég mér í þetta verkefni og hef ég kunnáttu til að hjálpa í þessum aðstæðum? Ef svarið er já, er hægt að hlaupa af stað.“

„Ef við gerum rétta hluti líður okkur yfirleitt vel þótt útkallið geti verið erfitt.“

Björgunarsveitirnar um land allt hafa verið að halda kynningarfundi fyrir nýliða þar sem hægt er að fá frekari upplýsingar. „Ég mæli hiklaust með því að mæta og sjá hvort þetta sé eitthvað sem þú hefur áhuga á. Þetta er allavega eitthvað það gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu.“

Myndir / Úr einkasafni

Hélt að það yrði meira átak að fara frá Eyjum

Elliði Vignisson. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég hef aldrei upplifað þetta áður og þetta var mjög áhugaverður tími fyrir mig persónulega. Vissulega svolítið flókinn því ég hélt alltaf að ræturnar væru orðnar það djúpar að það yrði mikið átak að fara frá Vestmannaeyjum, það hefur ekki orðið enn þá,“ segir Elliði Vignisson sem nýverið tók við stöðu bæjarstjóra í Ölfusi eftir að hafa verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í 12 ár. Elliði segir að vissulega hafi hann verið farinn að huga að breytingum enda kominn niður í fimmta sæti á lista eftir að hafa leitt hann til stærsta sigurs flokksins í bæjarfélögum af þessari stærð í sögu flokksins.   Flokkurinn fékk 73 prósent atkvæða og fimm af sjö bæjarfulltrúum í kosningunum 2014 og ekkert benti til annars en að Vestmannaeyjar yrðu áfram slíkt vígi Sjálfstæðisflokksins.

En háværar deilur innan flokksins um röðun á framboðslista urðu til þess að flokkurinn klofnaði. H-listinn spratt fram og náði ásamt E-listanum að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, þótt ekki hafi munað nema fimm atkvæðum. Skyndilega stóð Elliði á krossgötum. Bæjarstjórastóllinn var farinn og í fyrsta skipti í 14 ár var hann ekki lengur bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum. Elliði var horfinn úr forystu Vestmannaeyjabæjar og fram undan voru stórar persónulegar ákvarðanir.

 

Uppsöfnuð óánægja finnur sér farveg

Þótt deilurnar innan flokksins hafi opinberlega snúist um hvaða leið ætti að fara við röðun á framboðslista telur Elliði að dýpri ástæður hafi legið þar að baki. „Það var enginn málefnalegur ágreiningur en á móti kemur að við vorum búin að vera við stjórnvölinn í tólf ár og höfðum gengið þannig fram að auðvitað höfum við valdið truflunum í viðtækjum einhverra á þessum tíma. Við fundum það mjög að ákveðnir hópar voru að leita sér að farvegi fyrir persónulega óánægju frekar en eitthvað annað. Það var kannski byggt hús of nálægt einum, aðrir töldu sig ekki hafa fengið nægileg verkefni í útboðum á vegum Vestmannaeyjabæjar, fólk hafði ekki fengið vinnu sem það sótti um hjá bænum eða jafnvel misst vinnuna og taldi sig þess vegna eiga eitthvað sökótt við bæjarfélagið og svo framvegis. Þessi óánægja fann sér farveg í þessum svokallaða H-lista sem náði því sem til þurfti. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé eftir sem áður með eitt mesta fylgi á landinu í Eyjum þá dugði fylgi H-listans til að fella meirihlutann og það verður ekki af þeim tekið.“

Elliði segir að einmitt sá hópur sem talaði um að það skorti upp á lýðræðisleg vinnubrögð innan flokksins hafi sjálfur átt erfitt með að sætta sig við lýðræðislega niðurstöðu. Kosið hafi verið um þrjár mismunandi leiðir og fékk tillagan um uppstillingu meirihluta en féll eigi að síður þar sem tvo þriðju hluta þurfti til. Þá hafi verið kosið um prófkjör, sem þeir sem síðar stofnuðu H-listann studdu, og fékk sú tillaga minnihluta atkvæða. „Þá voru greidd atkvæði um svokallaða röðun og hún fékk langmesta fylgið. Þetta var bara lýðræðisleg niðurstaða og þessi hópur fór þá að gera því skóna að það hefði eitthvað verið að hræra með atkvæði og beita fólk þvingunum, það var alltaf fráleit umræða. En niðurstaðan var þessi, að innan fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins sem stjórnar framboðsmálum flokksins, var ekki vilji fyrir prófkjöri. Ekki einu sinni einfaldur meirihluti. Á því féll sú hugmynd. Sjálfur talaði ég fyrir leiðtogaprófkjöri. Það fékk eitt atkvæði, bara mitt atkvæði. Þannig að ekki var vilji til að fara í það og svo greiddi fólk bara atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu og það varð niðurstaðan.“

 

Talar ekki um Pál Magnússon

Deilurnar mögnuðust enn frekar eftir að niðurstaða kosninganna varð ljós og beindist reiði sjálfstæðismanna fyrst og fremst að Páli Magnússyni, þingmanni flokksins í kjördæminu. Hann var sakaður um að hafa stutt framboð H-listans á bakvið tjöldin og þannig unnið markvisst gegn eigin flokki í bænum. Fór svo að Páll var rekinn úr fulltrúaráði flokksins í Vestmanneyjum vegna „fordæmalausrar framgöngu“ hans í kosningunum, eins og það var orðað í ályktun. Elliði er fljótur til svara þegar hann er spurður út í framgöngu Páls. „Ég ætla ekki að tjá mig um Pál Magnússon í þessu viðtali. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að ræða þetta út frá einstökum persónum. Það er til sálfræðihugtak sem heitir stóra eignunarvillan og hún er kölluð það af því að hún er svo algeng. Hún felst í því að ætla persónum of stórt hlutverk. Oftast nær liggur skýringin í einhverju öðru en einstökum persónum. Við eignum einstökum persónum árangur og eignum einstökum persónum líka árangursleysi þegar allt aðrir þættir geta legið að baki. Þannig að mér finnst það hvorki sanngjarnt gagnvart mér né Páli Magnússyni að ég fari að ræða um meintar persónulegar deilur á milli okkar.“

Elliði bætir við: „Svo er það annað hvernig þingmenn ganga fram. Það er annað en persóna þingmannsins. Þetta er í eina skiptið, þótt ég sé búinn að vera á hátt í á annan áratug í pólitík og fylgst vel með þá man ég aldrei eftir því áður, að það léki vafi á því hvort að þingmaður myndi styðja framboð síns flokks. Það er ekkert óeðlilegt að fólk hafi velt vöngum yfir því.“

 

Var staðráðinn í að hætta í pólitík

Elliði er keppnismaður mikill og segist hann fyrst og fremst hafa orðið tapsár þegar niðurstaðan lá fyrir. „Alveg sama í hverju maður er, þá er maður í hlutunum til þess að vinna.“ Engu að síður var hann kominn í þá stöðu að vera atvinnulaus og þurfti, eftir 12 ár á bæjarstjórastóli, að taka ákvörðun um framtíðina. „Það kom mér svolítið á óvart að ég upplifði svona … mér liggur nærri að kalla það frelsi. Allt í einu fannst mér ég standa frammi fyrir gríðarlegum tækifærum. Fyrstu vikurnar var ég mjög einbeittur að skipta úr pólitíkinni, úr stjórnmálum, yfir í einkageirann. Hann togaði fast í mig.“

Elliði átti í ýmiskonar samtölum við fólk um starf og stöður í einkageiranum og var hann kominn að því að stökkva á áhugavert tækifæri þegar pólitíkin togaði aftur í hann. „Ég fór að fá áhugaverð símtöl frá fulltrúum víða um land um hvort ég hefði áhuga á að taka að mér bæjar- og sveitarstjórastöður. Þau voru af öllum stærðum og gerðum. Það varð til þess að ég fór að skoða þennan möguleika. Þrátt fyrir að vera hálfpartinn búinn að lofa mér að verða ekki fimmtugur án þess að hafa unnið að marki í einkageiranum, þá stend ég núna frammi fyrir því að verða fimmtugur á næsta ári og vera búinn að vera opinber starfsmaður nánast alla ævi. Það var ekki það sem ég ætlaði mér.“ Elliði er því, rétt eins og margir af helstu málsvörum einkaframtaksins á Íslandi, á mála hjá hinu opinbera. „Það vill nú oft verða að sumum okkar er fórnað handan víglínu til þess að reyna að hafa áhrif,“ segir hann og hlær.

Það kom Elliða þægilega á óvart hversu auðvelt það reyndist að flytja frá Eyjum. Það hjálpaði til að börnin eru uppkomin og því ekki jafnerfitt að rífa upp ræturnar. En það gætti þó innri togstreitu. „Það helltist yfir mig um tíma ákveðinn valkvíði. Skyndilega varð ég kvíðinn og andstuttur og hugsaði, hvað ef ég vel rangt? Ég er með öll þessi tækifæri fyrir framan mig, ég get farið inn í mjög spennandi tækifæri í einkageiranum, ég get valið um mjög ólík og mismunandi tækifæri innan sveitarfélagageirans. Hver verður líðan mín og hvaða stefnu tekur líf mitt ef ég vel rangt?“

 

Sestur að í Elliðahöfn

Ekki er að heyra á Elliða að hann hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann þekktist boð um að gerast bæjarstjóri í Ölfusi, víðfemu tveggja þúsund manna sveitarfélagi á Suðurlandi þar sem Þorlákshöfn er stærsti þéttbýliskjarninn. Kannski viðeigandi í ljósi þess að Þorlákshöfn hét áður Elliðahöfn og gantast Elliði með að „leiðrétta þau mistök“ í framtíðinni. „Ég er með málfrelsi og tillögufrelsi í bæjarstjórn og aldrei að vita að ég mani mig upp í að flytja þá tillögu á ný.“

Það er margt við Ölfus sem heillar Elliða og nefnir hann sterkt samfélag með hátt þjónustustig og mikil tækifæri til atvinnuuppbyggingar. „Ég er líka landsbyggðarmaður í eðli mínu. Ég er mjög hrifinn af hugmyndum þeirra sem voru að taka hér við og treysti mér vel til að vinna með þeim. Ég treysti þeim líka mjög vel til að vinna með mér sem er oft flóknara heldur en fyrir mig að vinna með öðrum. Ég er orðinn nógu gamall til að vita hvernig ég er. Ég fer hratt yfir og get verið mjög fylginn mér og gengið hart fram.“

Aðlögunin hefur gengið vel. Fjölskyldan hefur komið sér fyrir í Ölfusinu er þó enn sem komið er með annan fótinn í Eyjum þar sem eiginkona hans, Bertha Ingibjörg Johansen, rekur fataverslun og dóttir þeirra, Bjartey Bríet, sækir nám í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Sonur þeirra, Nökkvi Dan, spilar handbolta með norska úrvalsdeildarliðinu Arendal og stundar samhliða því nám í stærðfræði við Háskóla Íslands. „Það tekur einhvern tíma fyrir Berthu og Bjartey að losa sig fullkomlega frá sínum skuldbindingum þannig að þær eru dálítið á víxl hér í Ölfusinu og í Eyjum. Það gengur bara ljómandi vel að sníða þetta saman og þær eru sem betur fer strax orðið mikið hér enda líður okkur alveg ofsalega vel hérna enda þetta er gott samfélag og nóg um að vera. Ég reyni síðan að vera duglegur að heimsækja Eyjar, sérstaklega til þess að að rækta vini og heimsækja fjölskylduna.“

 

Stórhuga Ölfusingar

Elliði fer á flug þegar talið berst að atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Mýgrútur hugmynda er á teikniborðinu og er bæjarstjórinn bjartsýnn fyrir hönd sveitarfélagsins. Fyrst nefnir hann orkuna en innan marka sveitarfélagsins er að finna stærsta jarðorkusvæði landsins sem og einhverjar mestu vatnsbirgðir landsins í jörðu. „Íbúar hér segja gjarnan að ef þú tekur stórt skrúfjárn og rekur ofan í jörðina, þá færðu upp heitt vatn. En ef þú rekur lífið skrúfjárn ofan í jörðina færðu kalt vatn. Það er algjörlega einstakt, jafnvel á heimsvísu, að hafa aðgang að öllu þessu kalda og heita vatni.“ Sér Elliði fyrir sér mikla framþróun í orkubúskap þar sem áhersla verður lögð í fullvinnslu orkunnar. „Ekki bara fullvinnslu orkunnar, heldur fullvinnslu þeirra efna sem fylgja varmanum. Það er til dæmis komnir upp mjög öflugir hátækniiðngarðar á Hellisheiði og þar ætla menn að nota ýmsar lofttegundir, til dæmis til þörungaræktar og ýmsar fleiri hugmyndir. Þar ætlum við okkur stóra hluti.“

En vatnið verður ekki eingöngu notað til orkuöflunar því hvorki fleiri né færri en þrjú baðlón á stærð við Bláa lónið eru á teikniborðinu. Grey line og Heklubyggð ehf. stefna að því að hefja framkvæmdir við eitt slíkt við skíðaskálann í Hveradölum og þá eru tvö önnur baðlón í skipulagsferli hjá sveitarfélaginu en að þeim standa innlendir og erlendir fjárfestar. „Ferðaþjónustan er gríðarlega sterk hérna því nánast hver einasti útlendingur sem hingað kemur fer í gegnum sveitarfélagið í gegnum þjóðveg 1. Reykjadalurinn tekur við 250-300 þúsund ferðamönnum á ári og það eru uppi stórhuga áform um að nýta sérstöðu þessa svæðis.“

 

Hef aldrei minnst á Kínverja

Á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um að byggja upp stórskipahöfn í Þorlákshöfn og hafa þingmenn kjördæmisins reglulega lagt fram tillögur þess efnis. Á dögunum greindi Morgunblaðið svo frá því að forsvarsmenn sveitarfélagsins ættu í viðræðum við kínverska aðila um milljarða fjárfestingu á hafnarsvæðinu. Elliði segir áhuga vissulega fyrir hendi, bæði meðal innlendra og erlendra fjárfesta. „Ég hef aldrei minnst á Kínverja, það hafa blaðamenn gert og þeir gera það á eigin ábyrgð. Við höfum aldrei minnst á neitt þjóðerni í þessu samhengi enda skiptir það ekki öllu. Við finnum bara áhuga einkaaðila til að koma að þessu verkefni með okkur og við byrjum þar, á því að þreifa fyrir okkur hversu víðtækur þessi áhugi er og hverjir eru með hugmyndir sem að samrýmast best þessu samfélagi.“

Elliði telur að stórskipahöfn í Þorlákshöfn komi til með að gjörbreyta landslaginu í vöruflutningum til og frá landinu. Sú þróun sé nú þegar hafin eftir að vöruflutningaskipið Mykines hóf að sigla til hafnarinnar og styttir þar með siglingaleiðina frá höfuðborgarsvæðinu til Evrópu um allt að sólarhring. „Til dæmis fer stór hluti af öllum bílum sem koma inn til landsins í gegnum höfnina hérna, hér er líka mikill ferskflutningur og þetta er bara toppurinn á ísjakanum ef höfnin fær að þróast áfram.“

Elliði sér til dæmis fyrir sér að framkvæmdirnar gætu fylgt svipuðu rekstrarmódeli og Hvalfjarðargöngin, það er að fjárfestarnir standi straum af framkvæmdunum og eftir ákveðinn tíma, þegar fjárfestingin hefur borgað sig, eignast sveitarfélagið höfnina á ný. „Það er ekkert lögmál að sveitarfélög eða hið opinbera reki hafnir. Þetta er bara atvinnutæki. Er það eðlilegt fyrirkomulag að þegar sveitarfélög fara í að nýta atvinnutækifæri og styrkja innviði eins og hafnir, að þá sé í raun og veru verið að leggja rekstur grunnskóla og leikskóla undir? Ef það gengur illa með fjárfestingu við höfnina að þá þurfi að stytta opnunartíma á bókasafni eða hækka gjaldskrárnar í sundlaugunum?“

 

Oft verið hundósáttur við flokkinn

Talið berst nú að Sjálfstæðisflokknum þar sem Elliði hefur alið manninn frá því hann hóf afskipti af stjórnmálum. Hann hefur verið áberandi í starfi flokksins og ekki hikað við að segja sínar skoðanir umbúðalaust þótt þær kunni að stuða fólk, jafnvel eigin flokksmenn. „Ég hef mikinn áhuga á Sjálfstæðisflokknum og ég styð hann en ekki óháð því hvað hann gerir. Ég hef alla tíð haldið með ÍBV, Chelsea og Utah Jazz en það er alveg óháð því hvað þau gera. Þetta eru bara lið sem ég valdi mér að fylgja. Ég get kvartað yfir árangrinum og fundist að það eigi að skipta ákveðnum leikmanni inn á eða út af en ég held alltaf með mínu liði. Skuldbinding mín við Sjálfstæðisflokkinn er ekki þannig. Ég styð Sjálfstæðisflokkinn með ráðum og dáð og vinn fyrir hann á meðan ég hef þá trú að þetta sé það stjórnmálaafl sem er líklegast til að vinna hugsjónum mínum framgang. Að þessu sögðu, þá er ég tilbúinn til að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum eins og ég hef gert síðustu 20 árin og ekki séð eftir einni mínútu sem hefur farið í það. En oft hef ég orðið hundósáttur við flokkinn og finnst hann í sumum þáttum þurfa að fara að hugsa sinn gang.“

Þar horfir Elliði til hinna klassísku frelsismála þar sem honum finnst flokkurinn ekki ganga nægilega vasklega fram. „Það er lykilatriði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dag, að láta af forræðishyggju og ganga fastar fram í innleiðingu á hvers konar frelsi. Og frelsismálin þurfa ekki alltaf að vera stærstu efnahagslegu mál þjóðarinnar.

Eitt grundvallarmál er t.d. að ríkið dragi sig í hlé í af neytendamarkaði. Að það hætti afskiptum á sölu á vörum svo sem ilmvatni, Tobleron og saltpillum í nafni ISAVIA. Svo ekki sé nú minnst á hið sjálfsagða frelsi til að kaupa bjór og vín eins og hverja aðra neytendavöru. Af hverju er frelsi í rekstri fjölmiðla ekki meira? Af hverju þurfa einkareknir fjölmiðlar að glíma á hverjum einasta degi við ríkisbákn? Af hverju hagar ríkið málum sínum þannig að þeir eru búnir að taka sér leyfi að byrja að prenta dagblað og rukka alla sem eru með bréfalúgu, rétt eins og þeir senda út útvarp og rukka alla sem mögulega geta haft viðtæki í gegnum nefskatt. Það er ekkert frelsi í þessu. Ég vil geta valið hvort ég versla við fjölmiðil eða ekki. Á sama hátt þarf ríkið líka að láta sem mest af inngripum í atvinnulífið.  Í hvert skipti sem umræða sem þessi kemur upp þá hljómar alltaf eitthvert bergmál í samfélaginu: „Er þetta nú stærsta málið? Væri ekki nær að ræða fátækt?“ Hugtakið frelsi er svo mikilvægt fyrir okkur öll í okkar daglega lífi og þess vegna eigum við ekki að láta hrekja okkur út í horn í þessari umræðu.“

Elliði vill meina að þetta hafi ekkert að gera með þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í samstarfi við „ófrjálslyndari“ flokka. Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í samstarfi með öllum flokkum og ekkert í þessa átt hafi verið áorkað. „Því miður er það sem gerist að þegar þingmenn verða ráðherrar, þá verða þeir svo miklir embættismenn. Þetta á ekki við um einn flokk umfram aðra. Þeir fara að hugsa eins og framkvæmdastjórar sem er gott og blessað en þeir verða að standa fyrir eitthvað pólitískt. Ég er ekki að tala fyrir útópískri frjálshyggju, heldur þann sjálfsagða rétt að t.d. skíra barnið þitt því nafni sem þú telur best hæfa og eigir það ekki undir einhverri ríkisnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn vill vera trúr þessu en honum hættir eins og öllum öðrum flokkum til þess að fara út úr þessu.“

 

Hefur ekki áhuga á þingmennsku

Fyrir hverjar þingkosningar sprettur nafn Elliða upp í tengslum við mögulegt framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur hins vegar aldrei látið tilleiðast þrátt fyrir góða möguleika, enda Sjálfstæðisflokkurinn gríðarlega sterkur í kjördæminu og sjálfur á Elliði sterkt bakland í Eyjum og víðar í kjördæminu. Elliði segist einfaldlega ekki hafa haft áhuga á þingmennsku. „Ég hef aldrei útilokað það en áhugi minn hefur aldrei legið í þessa átt. Mér hefur fundist mörgum sveitarstjórnarmönnum sem fara inn á þing ekki líða neitt sérlega vel þar. Sérstaklega þegar menn hafa verið bæjar- og sveitarstjórar, að koma inn á þing og sjá hlutina gerast á þeim hraða sem þar er, það er svolítið erfitt fyrir fólk sem er kannski búið að vera í tugi ára í þannig umhverfi að ef þú vilt að eitthvað gerist á morgun, þá hefurðu raunhæfa möguleika á að það gerist á morgun. Þú getur strax byrjað að hafa áhrif.“

Fyrir þingmenn er þetta erfiðara, segir Elliði, og fólk er gjarnt á að gera ósanngjarnar kröfur til þeirra. Sjálfur segist Elliði hafa verið í þeim hópi. „Fólk vill að þingmennirnir reddi málum. Reddi hjúkrunardagheimili fyrir veika ömmu, reddi brú yfir fljót og reddi námsbókum fyrir þá sem hafa ekki efni á þeim og svo framvegis. Þingmenn eru löggjafinn, þeir hafa mjög takmörkuð úrræði þegar að þessu kemur. Við höfum langtum meiri úrræði hvað þetta varðar í sveitarstjórn. Þannig að ég hef hingað til ekki stefnt inn á Alþingi og geri það ekki í dag.

Myndir / Hákon Dagur

„Vakti með mér gleði, sorg og reiði“

Þær bækur sem höfðu mest áhrif á Steinunni Stefánsdóttur.

Steinunn Stefánsdóttir, þýðandi, blaðamaður og einn höfunda bókarinnar Þjáningarfrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla, er mikill fagurkeri og unnandi góðra bókmennta. Mannlíf kom því ekki að tómum kofa þegar það fór þess á leit við Steinunni að hún nefndi bækurnar sem hafa haft mest áhrif á hana.

Sjálfstætt fólk

„Ég nefni þá bók vegna þess að ég hef lesið hana oftast af öllum bókum. Ég er alls ekki týpan sem les uppáhaldsbókina einu sinni á ári, þvert á móti finnst mér ég eiga svo margt ólesið að ég geti alls ekki eytt tíma í svoleiðis. Sjálfstætt fólk las ég oft vegna þess að ég kenndi hana í Kvennaskólanum tvo vetur fyrir mörgum árum og las bókina líklega fimm eða sex sinnum á því tímabili. Sagan vakti með mér gleði, sorg og reiði, til skiptis eða allt í senn, og alltaf átti ég jafnerfitt með að fara í gegnum kennslustundina með sögulokunum ógrátandi.“

Rigning í nóvember

„Auður Ava Ólafsdóttir er einn af mínum uppáhaldshöfundum. Rigning í nóvember og Afleggjarinn eru í mínum huga systurbækur og ég á erfitt með að gera upp á milli þeirra. Í báðum er bæði ytra og innra ferðalag sem fléttast saman og gengur upp í magnaðri lestrarupplifun en einhvern veginn situr Rigning í nóvember enn fastar í mér en Aflegggjarinn.“

de

„Þessi bók er eftir danska rithöfundinn Helle Helle og á það sameiginlegt með Auði Övu í mínu lífi að ég bíð eftir bókum þeirra. Þetta er nýjasta bók hennar og kom út á þessu ári. Helle Helle er afar mínímalískur höfundur, skrifar sögur sem eru hægar og fágaðar á yfirborðinu en undir niðri ólgar svo miklu meiri saga en sú sem sögð er. Bækur Helle Helle sem ég hef lesið fyrir mörgum árum eru enn lifandi hluti af lífi mínu en ég ætla samt að nefna þessa síðustu, de, því ég er ekki frá því að mér finnist að í henni gangi einhvern veginn allt upp.“

Eitt umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar

Kafarinn Þorgeir Jónsson rifjar upp daginn sem hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað. Bíómynd byggð á málinu verður frumsýnd í næstu viku.

Í Mannlífi sem kemur út á morgun ræðir kafarinn Þorgeir Jónsson þann örlagaríka dag 11. febrúar árið 2004 þegar hann fann lík á botninum við bryggjuna í Neskaupstað fyrir hreina tilviljun. Líkfundurinn varð fljótlega að einu umfangsmesta sakamáli hérlendis og leiddi til dóma yfir þremur mönnum.

„Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn, skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna,“ rifjar Þorgeir upp.

Bíómynd sem byggð er á þessum atburðum verður frumsýnd í næstu viku. Ari Alexander Ergis Magnússon leikstýrir myndinni.

„Ég hef áhuga á mannlega þættinum í svona málum, ekki lögreglumálum sem slíkum. Það vill gleymast að gerendur í sakamálum eru líka manneskjur með tilfinningar, eiga maka, börn, foreldra, afa og ömmur,“ segir Ari.

Mynd / Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

„Ekkert hræddur um að móðga fólk“

Halldór Halldórsson, sem flestir þekkja einfaldlega sem Dóra DNA, er einn af landsins bestu grínistum. Dóri hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann er nýlega kominn aftur til starfa eftir að hafa verið heima með Flosa, yngsta son sinn, í 18 mánuði.

„Þegar maður á þrjú börn þá er tíminn sem þau eru á sínum menntastofnunum ómetanlegur og það hefur kennt mér að nýta og skipuleggja hann vel. Síðan Flosi byrjaði á leikskóla hef ég notið þess að vinna skipulagðan vinnudag,“ segir Dóri. „Venjulegur dagur hjá mér hefst á því að ég fer á kaffihúsið Bismút klukkan níu, kjafta við gesti og gangandi í um hálftíma. Þaðan fer ég svo á skrifstofuna og skrifa en ég er með margvísleg verkefni í gangi. Ég er að vinna að gerð ýmissa handrita og verkefna með Hafsteini Gunnari, skrifa uppistandsefni, skáldsögu og fleira. Það að skrifa er uppáhaldið mitt. Mér líður aldrei betur, ekkert finnst mér auðveldara og ekkert liggur jafnvel fyrir mér. Svo reyni ég að enda alla daga á einhverri hreyfingu, hlaupum, lyftingum eða hnefaleikum. Síðustu ár hef ég notað september og október til að gera tilraunir á mataræði. Núna er ég á ketó-mataræðinu í þriðja sinn og ætla að skipta yfir í 20/4 í október.“

Ekkert bannað og ekkert mun verða bannað

Eins og margir vita er Dóri hluti af Mið-Íslandi hópnum, teymi sem samanstendur af nokkrum bestu grínistum landsins. „Mið-Ísland er alltaf jafn vel sótt. Við tökum þetta ár frá ári og sýnum þar til fólk hættir að mæta. Við hefjum haustin á því að halda prufusýningar þar sem við prófum efni sem við höfum párað hjá okkur. Svo mótum við það betur og frumsýnum í janúar. Við eigum tíu ára starfsafmæli í ár, sem er nettur skellur.“

Síðustu misseri hefur átt sér stað ákveðin umræða varðandi grín og að „ekkert megi“ lengur. Sjálfur segist Dóri ekki finna mikinn mun á viðhorfi fólks varðandi þetta.
„Ég get ekki sagt það. Það er ekki endilega það að fólk sé orðið viðkvæmara, það er bara ekki móttækilegt fyrir ákveðnu gríni. Sérstaklega gríni sem er á kostnað minnihlutahópa eða gríni sem fer nálægt eða yfir landamæri kynbundins ofbeldis. En það er ekkert vandamál hjá okkur, við höfum alltaf verið smekklegir, að mér finnst. Aldrei stuðað neinn svo harkalega að honum hefur fundist það tilefni til að segja það upphátt. Þannig erum við bara, sumt grín er bara best í lokuðum hópi. Það er einhver bylgja núna af sérstaklega karlmönnum sem finnst allt bannað. Það er ekkert bannað og ekkert mun verða bannað. Fólk er bara duglegra við að láta heyra í sér, þegar því finnst eitthvað ekki í lagi. Þegar einhver segir að eitthvert grín sé ófyndið eða óviðeigandi eru það ekki ritskoðunartilburðir, alls ekki. Að vera ósáttur við eitthvað er ekki að banna það eða krefjast þess að það sé bannfært. Ég segi oft brandara sem eru á mörkum þess að vera ósmekklegir, í húmor þá elska ég þessi landamæri. Og ef þeir ganga fram af fólki, þá hætti ég að segja þá og biðst afsökunar er þess þarf. Það er hressandi að hafa rangt fyrir sér og svo má ekki gleyma að brandarar eru bara brandarar.“

Dóri segir þá félaga í Mið-Íslandi ekki vitund hrædda við að móðga fólk. „Það væri heldur takmarkaður grínisti sem lifir við þann ótta. Við leyfum okkur að grínast með hvað sem er, sérstaklega okkar á milli. En enginn okkar hefur áhuga á því að vera ósmekklegur eða ógeðslegur. Sjálfum leiðist mér þessi tilhneiging í ákveðnum grínistum að reyna ganga fram af fólki. Sumir elska þannig grín og gjöri þeim svo vel – það er eitthvað fyrir alla og það er æðislegt. En eins og staðan er núna er enginn okkar og enginn af þeim grínistum sem eru í okkar mengi á þeim skónum.“

Leiklistarbaktería á háu stigi

Dóri verður að eigin sögn aldrei stressaður fyrir sýningar. „Ekki ef ég veit að efnið sem ég er að flytja er gott. Að koma fram hefur aldrei vafist fyrir mér, oft líður mér best þannig, ótrúlegt en satt. En það er mjög stressandi að fara fram með nýtt efni sem þú veist ekkert hvernig verður tekið, en það er líka uppáhaldið mitt. Maður hefur stundum dottið í gír, þar sem allt verður fyndið og heilinn á manni fer á milljón. Ég hef samið heilu brandarana af fingrum fram, flókna brandara með „call-backs“ á sviði, það er ótrúleg tilfinning. Ég hef einnig yfirgefið sviðið í vígahug til þess að gera út um áhorfanda sem var með frammíköll og dónaskap. Hræðilegt. En þú manst alltaf best eftir því þegar þú hefur skitið á þig. Og ég hef skitið vel á mig í uppistandi. Man eftir sérstaklega einu giggi á árshátíð kvikmyndagerðarfólks fyrir löngu. Það var ömurlegt. Fyrsta skiptið sem ég bombaði – mun aldrei gleyma því.“

Dóri hefur ekki aðeins látið til sín taka í uppistöndum og grín-sketchum, heldur einnig á hvíta tjaldinu. Hann lék nokkuð stórt hlutverk í vinsælustu kvikmynd landsins þessa dagana, Lof mér að falla. Hann er að eigin sögn kominn með leiklistarbakteríu á háu stigi, seint og löngu eftir listaháskólaárin. „Mig langar mikið til að leika meira, bæði grín, drama og hvað sem er. Mér fannst ótrúlega gaman að leika í Lof mér að falla. Leika persónu af húð og hári og pæla í því hvernig hún er og hvað hefur mótað hana. Vonandi fæ ég fleiri svoleiðis verkefni upp í hendurnar,“ segir Dóri DNA að lokum.

 

Viðtalið birtist upphaflega í Vikunni.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Hallur Karlsson

Taylor Swift með opnunaratriðið á AMA

Taylor Swift mun opna American Music Awards hátíðina og er tilnefnd til fjögurra verðlauna.

Söngkonan Taylor Swift mun verða með opnunaratriðið á American Music Awards (AMA) í ár. Swift er einnig tilnefnd til fjögurra verðlauna á hátíðinni sem fer fram þann 9. október í Los Angeles.

Swift tilkynnti þetta sjálf á Instgram í gær og fékk köttinn sinn, Meredith, með sér í lið en hann virtist ekkert of spenntur.

Swift kom  seinast fram á AMA hátíðinni árið 2014 og hreppti þá verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði tónlistar. Hún hefur í gegnum tíðina hlotið 19 verðlaun á AMA.

Þeir listamenn sem munu einnig koma fram á hátíðinni eru Carrie Underwood, Imagine Dragons, Cardi B, Post Malone og Ty Dolla $ign svo eitthvað sé nefnt.

Tracee Ellis Ross mun verða kynnir hátíðarinnar.

https://www.instagram.com/p/BobkTlxHo51/?utm_source=ig_web_copy_link

Ætla að mótmæla þeim sem mótmæla

Nú hefur verið boðað til mótmæla þar sem mótmælendum verður mótmælt.

Samtökin Reykjavík Animal Save hafa boðað til friðsamlegrar samstöðuvöku á föstudaginn fyrir utan Sláturhús Suðurlands. Dýravinir eru hvattir til að koma og „dreifa eins mikilli samúð og ást“ og þeir geta á meðan lömbin eru sendar til slátrunar.

„Með því að mæta þarna fyrir utan sláturhúsið sendum við sterk skilaboð um að þessir einstaklingar eiga rétt á umhyggju, frelsi og réttlæti, og að þeirra dauði sé ekki falinn umheiminum,“ segir á Facebook. Þá er tekið fram að um friðsamlegan viðburð sé að ræða og því sé óvild gagnvart starfsfólki SS ekki liðin.

En nú hefur verið boðað til mótmæla vegna samstöðufundarins og virðast einhverjar kjötætur ætla að mæta fyrir utan SS á föstudaginn og grilla kjöt.

Samtökin Reykjavík Animal Save svara í sömu mynt og ætla að mótmæla mótmælunum.

„Á föstudaginn ætla veganar Íslands að mótmæla fyrir utan SS Selfossi. Nokkrir grashræddir ætla að mótmæla mótmælunum. Kjötætur og grasætur, mætum og mótmælum mótmælendum mótmælenda. Sýnum samstöðu með því að aðeins að pæla í hlutunum og þeim sem vilja smá umræðu í stað þess að fara að væla þegar einhver ætlar að taka af þér sviðakjammann þinn,“ segir í Facebook-færslu þar sem boðað er til mótmæla gegn mótmælum samstöðufundarins.

Samstöðufundurinn og mótmælin verða fyrir utan Sláturhús Suðurness á föstudaginn klukkan 14.00.

Varði kvöldinu í að telja seðla á Íslandi

Bardagakappinn Floyd Mayweather nýtur lífsins á Íslandi. Kvöldið hans fór í að telja seðla.

Bardagakappinn Floyd Mayweather er staddur á Íslandi en hann sagði frá því á Instagram í gær að förinni væri heitið til Íslands. Í dag naut hann lífsins í Bláa Lóninu og varði svo kvöldinu í að telja seðla.

„Lífið snýst um að upplifa mismunandi hluti. Svo ég ákvað að fara að skoða Ísland,“ skrifaði Mayweather m.a. við myndband sem hann deildi á Instagram í morgun. Hann sagði landið vera þekkt fyrir heita hveri og þess vegna væri tilvalið að byrja Íslandsheimsóknina á að fara í Bláa Lónið. Svo birti hann mynd af sér í lóninu með kísilmaska í andlitinu.

Kvöldinu virðist hann svo hafa varið í að telja seðla en Mayweather hefur það gott fjárhagslega og er metinn á um 700 milljónir dollara. Hann birti mynd af sér á Instagram í kvöld sem tekin er á hóteli Bláa Lónsins, á myndinni stillir hann sér upp umvafinn seðlabúntum.

View this post on Instagram

#BlueLagoon #Iceland

A post shared by Floyd Mayweather (@floydmayweather) on

Embla gerir til ótrúleg listaverk á andlit sitt

Embla Gabríela Wigum notar andlit sitt sem striga til að skapa mögnuð listaverk.

Hin 19 ára Embla Gabríela Wigum býr til ótrúleg listaverk á andlit sitt og deilir myndum með fylgjendum sínum á Instagram. Embla fer óhefðbundnar leiðir í förðun eins og sjá má á myndunum sem hún deilir.

Spurð út í hvenær hún byrjaði að fikta með snyrtivörur og förðun segir Embla áhugann alltaf hafa verið til staðar. „Ég hef haft áhuga á förðun síðan ég man eftir mér. En áhuginn byrjaði fyrir alvöru þegar ég eignaðist mína fyrstu augnskuggapallettu 15 ára gömul. Þá ákvað ég að stefna á förðunarnám og ég fór í Reykjavík Makeup School í september í fyrra, samhliða því að vera í menntaskóla. Eftir það hefur áhuginn bara aukist.“

Embla segir innblásturinn koma úr öllum áttum. „Oft fæ ég innblástur frá öðrum förðunarfræðingum á Instagram en innblásturinn getur líka komið úr umhverfinu. Til dæmis hef ég gert mörg „lúkk“ sem eru innblásin af náttúrunni,“ segir Embla sem vinnur þá ýmist með litasamsetningar úr náttúrunni eða teiknar hreinlega landslag á andlit sitt svo dæmi séu tekin.

Þegar Embla er spurð út í hvort hún eigi sér uppáhalds förðun sem hún sjálf hefur gert á hún erfitt með að svara. „Ein af þeim förðunum sem ég er ánægðust er förðunin þar sem ég málaði himinn og ský á bringuna á mér. Það tók mig langan tíma og ég var alveg að gefast upp. En ég var mjög ánægð með útkomuna þannig það var alveg þess virði.“

Embla hefur lagt það í vana sinn að mynda þá förðun sem hún gerir og deila myndunum á Instagram. Svo þrífur hún förðunina yfirleitt fljótlega af. „Það getur verið leiðinlegt að þrífa förðun af sem ég er búin að eyða kannski mörgum klukkustundum í. En það er líka það skemmtilega við förðun, maður getur gert hvað sem manni dettur í hug og svo fer það alltaf af í lok dagsins.“

„Það getur verið leiðinlegt að þrífa förðun af sem ég er búin að eyða kannski mörgum klukkustundum í.“

Spurð út í hennar uppáhaldsförðunarfræðinga nefnir Embla þau James Charles, Abby Roberts, Keilidh mua og Sarina Nepstad sem dæmi. „Það eru svo miklu fleiri sem ég fylgist með en þessi eru í mestu uppáhaldi.“

Dásamlegur bleikjubrauðréttur

Flestir eru alveg vitlausir í brauðrétti og klárast þeir yfirleitt alltaf fyrst í veislum. Það er líka tilvalið að hafa slíka rétti í matinn fyrir fjölskylduna. Hér bjóðum við upp á brauðrétt með fiski sem aldeilis hentar vel sem kvöldmatur.  Hér er á ferðinni dásamlegu brauðréttur sem kom sérstaklega vel út í tilraunaeldhúsi Gestgjafans. Það þarf smá undirbúning og fyrirhöfn til að útbúa hann en er alveg þess virði. Tilvalið er að nota afganga af bleikju eða laxi frá kvöldinu áður í réttinn.

Brauðréttur með bleikju með kasjúhnetupestói, grillaðri papriku og döðlum

Fyrir 4-6

500 g bleikja (u.þ.b. 2 lítil flök)
3 tsk. kryddblanda að eigin vali t.d. krydd lífsins frá pottagöldrum
1 msk olía til steikingar
5 brauðsneiðarað
1 rauðlaukur
4 msk sýrður rjómi (18%)
safi úr einni sítrónu
2 dl niðurskornar döðlur
1 krukka grilluð paprika
fræ úr einu granatepli, má sleppa

Skerið flökinn í hæfilega bita, kryddið og steikið með roðinu í nokkrar mínútur á hvorri hlið. Passið að ofelda þau ekki, látið kólna. Skerið skorpuna af brauðinu og geymið. Setjið brauðsneiðarnar í litlum bitum í skál. Skerið lauk og blandið saman við ásamt sýrðum rjóma, sítrónusafa og niðurskonrum döðlum. Setjið blönduna í eldfastmót og raðið grillaðri papriku og bleikjunni í bitum yfir. Á þessu stigi er ágætt að leyfa réttinum að bíða í litla stund og búa til pestóið og brauðteningana.

Kasjúhnetupestó
1 askja konfekt- eða kirsuberjatómatar
10 döðlur
8 svartar ólífur
hnefafylli fersk basilíka
hnefafylli kasjúhnetur
1 dl góð ólífuolía
1 tsk. sjávarsalt
2 hvítlauksgeirar
nýmalaður pipar eftir smekk

Skerið tómatana til helminga og skafið innan úr þeim. Setjið tómatana og allt sem á að fara í kasjúhnetupestóið í matvinnsluvél og látið vélina ganga í smástund þar til allt hefur samlagast.

Ristaðir brauðteningar
skorpa af 5 brauðsneiðum
2 msk. fínt söxuð basilíka, smá sleppa
1 tsk. paprikuduft
3 tsk. olía

Skerið skorpuna sem skorin var af brauðinu í teninga og setjið í skál. Hellið olíunni yfir og kryddið. Blandið vel saman. Steikið við frekar háan hita í stuttan tíma eða þar til teningarnir eru orðnir gullinbrúnir og stökkir. Kælið.

Setjið svolítið af kasjúhnetupestóinu yfir bleikjuréttinn, dreifið ristuðu brauðteningunum yfir og skreytið að lokum með granateplafræjum ef vill. Berið afganginn af pestóinu fram með brauðréttinum

Ristaða brauðteninga má búa til úr hvaða brauðtegund sem er,bæði úr grófu og fínu brauði. Tilvalið er að frysta afgangsbrauð og afskorna skorpu sem er að renna út á tíma og nota í brauðteningagerðina. Bæði er hægt að steikja þá á pönnu í nokkrar mínútur eða raða þeim á ofnplötu og baka í ofni í u.þ.b. 10 mínútur við 180°C. Upplagt er að nota ristaða brauðteninga út á salöt eða í súpur.

Twitter logar vegna gjaldþrots Primera Air

Óánægðir viðskiptavinir Primera Air láta í sér heyra á Twitter.

Flugfélagið Primera Air er gjaldþrota og hefur öllum ferðum félagsins verið aflýst. Mikil óvissa hefur ríkt meðal viðskiptavina félagsins síðan tilkynnt var um gjaldþrotið á vefsíðu félagsins.

Twitter hefur logað síðan og spurningarnar hlaðast upp á Twitter-síðu Primera Air. Óánægðir viðskiptavinir vilja vita hvort þeir fái endurgreiðslu og farþegar sem eru strandaglópar vegna gjaldþrotsins leita svara.

Meðfylgjandi eru nokkur tvít óánægðra netverja.


Þess má geta að á vef Samgöngustofu kemur fram að farþegar kunna að eiga kröfu á hendur Primera Air, m.a. á grundvelli reglugerðar um réttindi flugfarþega.

Arion banki tapar háum fjárhæðum á falli Primera Air

Arion banki hefur tilkynnt að „vegna ófyrirséðra atburða“ verði afkoma bankans allt að 1,8 milljörðum króna lakari á þriðja ársfjórðungi.

Umræddir atburðir eru gjaldþrot flugfélagsins Primera Air sem tilkynnti í gær að félagið hefði hætt rekstri. Í afkomuviðvörun frá Arion banka segir að bankinn muni niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem hafi neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankans á þriðja ársfjórðungi. Áhrifin mun i nema á bilinu 1,3 – 1,8 millörðum króna, að teknu tilliti til skatta.

Uppgjör fyrir þriðja ársfjörðung verður birt í lok október. Í afkomuviðvöruninni segir að um einstakt tilvik sé að ræða sem hafi ekki áhrif á reglulegar tekjur bankans og almennan rekstrarkostnað.

Primera Air er gjaldþrota

 

Jón Gnarr segist ætla í framboð í Barselóna

Spænski miðillinn El Periodico segir frá framboði Jóns Gnarrs.

„Það er mér heiður að tilkynna að ég ætla að bjóða mig fram sem borgarstjóra Barselóna 2019,“ skrifar Jón Gnarr meðal annars á Twitter. Hann tekur þá fram að þeir sem kjósi hann fái ókeypis penna.

Spænski miðillinn El Periodico fjallar um málið. Þar kemur fram að nú sé grínistinn Jón Gnarr kominn fram á sjónarsviðið og sé í framboði til borgarstjóra Barselóna. Þar segir einnig að grín Jón Gnarrs hafi farið úr böndunum á sínum tíma sem endaði með því að hann varð borgarstjóri Reykjavíkur.

Í frétt El Periodico segir að Jón sé orðinn þreyttur á pólitík heimalands síns og ætli því að sjá hvað setur í Barselóna.

 

42.000 króna sundbolurinn sem ekki þolir sundlaugarvatn

Hinn klassíski sundbolur er hannaður til að þola sundlaugarvatn og allt sem því fylgir, svo sem klór. En tískuhús Gucci fer aðrar leiðir og setti nýverið í sölu sundbol sem ekki þolir sundlaugarvatn.

„Vegna eðlis þessa efnis ættu þessi sundföt ekki að komast í snertingu við klór,“ segir á vef Gucci. Þar kemur einnig fram að sundbolurinn er gerður úr 80% nylon og 20% teygjuefni.

Netverjar hafa verið að undra sig á þessari flík og þeim galla að sundfötin þoli ekki sundlaugarvatn á samfélagsmiðlum. En ekkert virðist stoppa tískuhús Gucci því sundbolurinn er uppseldur alls staðar.

Sundbolurinn umdeildi kostar 320 evrur sem gerir um 42.000 krónur. Á vef Gucci er lagt til að honum sé klæðst við gallabuxur og leðurjakka, sem eins konar bol í staðin fyrir sem sundfatnaði.

Mynd / Af vef Gucci

Trúður með tár

SÍÐAST EN EKKI SÍST Það var auðvitað ákveðinn léttir að finna að ekkert lát er á eftirspurninni eftir skoðunum hvítra, gagnkynhneigðra, miðaldra karlmanna í íslensku samfélagi. Þessa ályktun dró ég einfaldlega út frá því að vera beðinn um að láta mínar upptendruðu skoðanir í ljós á þessum vettvangi sem ég auðvitað þáði, ykkur öllum til heilla og farsældar.

Eins og nánast allir vita þá höfum við, þessi hugumprúði meirihlutahópur, búið yfir einstakri færni til þess að leiðbeina öðrum um refilstigu lífsins. Alvöruþrungnir á svip stjórnum við samfélögum, hagkerfum, heiminum og frímúrarareglunni. Að auki höfum tekið að okkur úrlausn vandamála fyrir konur og fjölmarga minnihlutahópa á borð við innflytjendur og hinsegin fólk og bara alla sem hafa vit á því að hlusta þegar við látum viskuna streyma frá okkur. Og ef svo ólíklega vill til að okkur verði á í messunni, þá kunnum við þá list öllum betur að þegja, stinga undir stól og bíða af okkur storminn.

Í seinni tíð hefur reyndar örlað á neikvæni og vantrú í okkar garð. Það er illskiljanlegt í ljósi þess að orð okkar eru upphaf alls og að sjálf sólin skín út um hinn endann. Þetta hljóta allir að sjá og reyndar mætti fólk gera meira af því að þakka okkur fyrir að vera svona æðislegir.

Í því ljósi sem frá okkur stafar var það okkur því mikið áfall fyrir skömmu að komast að því að einn af okkar bröttustu samfélagsrýnum, Halldór Jónsson, reyndist vera að grínast þegar hann var að leiðbeina veröldinni í samskiptum kynjanna. Enn sárara var svo að enginn skyldi skilja grínið góða og það bara vegna þess að það var hlaðið kven- og mannfyrirlitningu eins og gerist fyndnast. En allt kom fyrir ekki og okkar manns biðu þau skelfilegu örlög að vera misskilinn grínari. Bara trúður með tár, eins og titrandi lauf í vindi.

Framandi og ferskur hönnuður

Norðmaðurinn Hallgeir Homstvedt er óhræddur við að fara nýjar leiðir í hönnun sinni.

Hinn norski Hallgeir Homstvedt lærði upphaflega margmiðlun í Ósló en lét draum sinn rætast ári síðar þegar hann söðlaði um og fluttist til Ástralíu til þess að stunda nám við Univeristy of Newcastle. Árið 2006 útskrifaðist hann sem iðnhönnuður með afbragðs árangri og hóf strax störf hjá norska frumkvöðlafyrirtækinu, Norway Says. Það var síðan þremur árum seinna eða árið 2009 sem Norðmaðurinn opnaði sína eigin hönnunarstofu, Hallgeir Homstvedt Design, sem sérhæfir sig í verkefnum á sviði innanhúss-, húsgagna- og vöruhönnunar.

Verkefni hönnuðarins eru fjölbreytt en með sköpun sinni vill Hallgeir Homstvedt ávallt ná fram áþreifanleika og gagnvirkni á sama tíma og hann skapar forvitni hjá áhorfandanum. Í gegnum tíðina hefur Norðmaðurinn tekið þátt í stórum hönnunarsýningum víðs vegar um heiminn en hann hefur meðal annars vakið verðskuldaða athygli á sýningum í stórborgunum London, Mílanó, New York og Tókýó.

„… með sköpun sinni vill Hallgeir Homstvedt ávallt ná fram áþreifanleika og gagnvirkni á sama tíma og hann skapar forvitni hjá áhorfandanum.“

MUUTO OG MEIRA

Hallgeir Homstvedt er óhræddur við að prófa nýja hluti. Hann hefur bæði starfað fyrir stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Muuto, Hem, L.K. Hjella og Established & Sons en er þó óhræddur við að starfa með lítt þekktari hönnuðum. Það virðist engu skipta hvert verkefnið er, hugur Hallgeir Homstvedt virðist alltaf hafa ótal hugmyndir og í hvert sinn sem hann byrjar kemur eitthvað allt öðruvísi en hann hefur áður gert. Með fjölbreytni og hugmyndauðgi sinni hefur hann unnið til fjölda verðlauna á sviði hönnunar og hvergi nærri hættur.

Hjólabrettakappi, hefðardama og hippi

Sóley Kristjánsdóttir er þekkt fyrir flottan fatastíl.

Sóley Kristjánsdóttir þeytir skífum í hjáverkum en hún starfar sem vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni. Sóley hefur lengi vakið eftirtekt fyrir frumlegt og skemmtilegt fataval en hún segist alltaf hafa haft gaman af tísku. Svo er hún líka með hænur í bakgarðinum.

„Mér finnst mjög skemmtilegt að klæða mig en stíllinn minn er afar fjölbreyttur, vinnufélagarnir hafa haft orð á því. Stundum er maður klæddur þannig að það vantar bara hjólabrettið, stundum er ég eins og hefðarfrú og stundum tekur hippinn völdin. Það fer allt eftir veðri og vindum en það er sem betur fer frjálslegur klæðnaður leyfður í Ölgerðinni. Efst á óskalistanum þessa stundina eru skór en ég er ekki mikil skókona og er eiginlega alltaf í sömu skónum. Lágbotna að sjálfsögðu þar sem ég lít á mig sem 180 cm risa.

Sóley segir hettupeysu klárlega vera skyldueign.

Aðspurð hvað allar konur verði að eiga í fataskápnum segir Sóley flotta og þægilega hettupeysu klárlega vera skyldueign enda séu þær klassík. „Ég er hætt að gera stórinnkaup í lágvöruverðsverslunum. Ég vil hugsa um umhverfið og kjör fólksins sem framleiðir þessi ódýru föt. Svo á ég mjög mikið af fötum og reyni frekar að finna nýjar samsetningar. Ég versla helst í Aftur en þar er mikil fegurð í framleiðslunni og allir fá greitt fyrir sína vinnu. Aftur hefur verið með endurvinnslustefnu alveg frá upphafi, í sennilega 20 ár, og endurvinnur efni úr eldri fötum. Mjög flott föt sem eldast ótrúlega vel,“ segir Sóley.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Tóku víkingaklappið á Ryder-bikarnum

Stemmningin var mikil á Ryder-bikarnum í Frakklandi.

Áhorfendur á Ryder-bikarnum í Frakklandi tóku víkingaklappið svokallaða. Golfmótið var haldið um helgina þar sem 12 bestu leikmenn Evrópu og 12 bestu leikmanna Bandaríkjanna kepptu um Ryder-bikarinn. Stemmningin var greinilega mikil á mótinu ef marka má myndbandið sem birtist á vef Daily Mail en þar má sjá áhorfendur taka víkingaklappið í fagnaðarlátum.

Meðfylgjandi er myndbandið sem birtist á vef Daily Mail.

Þess má geta að þetta er í 42 sinn sem Ryder-bikarinn fer fram og evrópska liðið hreppti bikarinn.

Primera Air er gjaldþrota

Flugfélagið Primera Air er gjaldþrota og hefur öllum ferðum félagsins frá og með morgundeginum verið aflýst. Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu flugfélagsins.

„Fyrir hönd Primera Air viljum við þakka ykkur fyrir hollustuna. Við kveðjum ykkur á þessum sorgardegi,“ segir í yfirlýsingu félagsins.

Farþegum sem áttu bókað flug með félaginu er ráðlagt að fylgjast með fréttum á heimasíðu félagsins næstu daga sem og að hafa samband við söluaðila. Jafnframt er tekið fram að hvorki símtölum né skriflegum fyrirspurnum verður svarað.

Primera Air hefur átt undir högg að sækja undanfarið. Félagið hefur komið illa út úr þjónustukönnunum og á dögnum samþykkti Flugfreyjufélag Íslands vinnustöðvun um borð í vélum félagsins vegna deilna um kjara flugliða.

Á vefnum aviation24.be segir að Airbus A321 flugvél félagsins hafi verið kyrrsett á Stanstead flugvelli í London vegna ógreiddra gjalda.

Elísabet nálgast markið í 400 kílómetra hlaupi

Hlauparinn Elísabet Margeirsdóttir er að nálgast markið í Ultra Gobi-hlaupinu en um 400 kílómetra hlaup í Gobi-eyðimörkinni er að ræða þar sem þátttakendur hafa 150 klukkustundur til að ljúka við vegalengdina. Elísabet á 20 kílómetra eftir.

„Hún er á svakalegri siglingu. Hún er í eyðimerkurlandslagi, sandur og rok. Það bítur ekkert á hana. Hún er þó komin með blöðru sem er að valda sársauka. En hún lætur það ekki á sig fá. Er ótrúlega einbeitt og er komin á tímastöð CP29/369km. Það styttist í markið en það getur margt gerst á næstu 30km. Hún þarf á öllum góðum straumum að halda og allar kveðjur hjálpa henni með hvert skref í átt að markinu. Klukkan í Gobi er 18:00 og það fer að koma myrkur. Hún var spurð hvaða lag ætti að spila í markinu. Einhverjar tillögur?“ segir í stöðuuppfærslu sem birtist á Facebook-síðu hennar.

Elísabet komst í símasamband fyrr í dag og birti nokkrar myndir á Facebook. Þar kom fram að henni líður vel og náði að hvílast vel fyrir lokasprettinn.

Mynd / Af Facebook-síðu Elísabetar

„Gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu“

|
|

Telma Rut Einarsdóttir segir þátttökuna í björgunarsveitum hafa kennt sér mikið og gefið sér aukið sjálfstæði.

Flugneminn Telma Rut Einarsdóttir hefur starfað með Björgunarsveit Hafnarfjarðar í níu ár eða frá því hún byrjaði á nýliðanámskeiði aðeins 17 ára gömul. Hún mælir með þátttöku í björgunarsveitum fyrir alla sem hafa áhuga á útivist og góðum félagsskap.

„Þegar ég var yngri voru foreldrar mínir duglegir að fara með mig í útilegur og fjallaferðir. Það má næstum segja að ég hafi alist upp í útilegum og á fjöllum, ég er ekki nema sex vikna gömul á fyrstu myndinni sem var tekin af mér uppi á jökli. Þannig að þetta blundaði alltaf óbeint í mér,“ svarar Telma þegar hún er spurð hvers vegna hún ákvað að fara í björgunarsveitastarf.

„Mér var svakalega vel tekið þegar ég byrjaði en það er eitt af því sem mér finnst best við björgunarsveitirnar, öllum er tekið eins og þeir eru. Það er mjög breiður hópur af fólki sem starfar í björgunarsveitunum og allir geta unnið saman sem er alveg ótrúlega flott að sjá. Þetta bara virkar einhvern veginn þegar á reynir.

Nýliðanámskeiðið var að meðaltali aðra hverja helgi auk nýliðakvölda á miðvikudögum þar sem voru ýmis stutt námskeið, fjallgöngur, spottakvöld, klifur eða annað sem okkur datt í hug.“

Ómetanlegur félagsskapur

Telma segist á þessum tíma hafa lært mikið um útivist, hvernig eigi að haga sér á fjöllum, hvernig eigi að bjarga sér og öðrum og gera hlutina með lágmarksáhættu. „Þetta hefur einnig gefið mér aukið sjálfstæði, getu til að fara lengra og gera meira en ég hefði annars gert. Og svo ég verði nú aðeins væmin þá er félagsskapurinn ómetanlegur og ég hef kynnst mínum bestu og traustustu vinum í björgunarsveitinni. Fólkið þarna er alltaf til staðar, alltaf til í að hjálpa þegar eitthvað bjátar á og ég hef fundið mjög sterkt hvað allir standa þétt við bakið á manni. Þessi andlegi stuðningur og eining þurfa að vera til staðar til að skapa góða björgunarsveit, en eru alls ekki sjálfgefin.“

Félagsstarfið í björgunarsveitunum er fjölbreytt. Til dæmis eru björgunarleikarnir haldnir annað hvert ár samhliða landsþingi. „Þar er keppt í ýmsum greinum, eins og böruburði í gegnum þrautabraut, sigi, rústabjörgun, rötun, tappa í dekk og draga bíla, ökuleikni, pönnukökubakstri, björgunarsundi og fleira í þeim dúr. Í fyrra skiptið sem ég keppti settum við stelpurnar saman lið sem við kölluðum Team Barbie, svona upp á grínið, en svo vantaði okkur einn upp á til að fylla liðið og enduðum á að fá „Ken“ með okkur í lið. Svo tók ég síðast þátt með öðru liði sem endaði í þriðja sæti á leikunum, en það eru yfir tuttugu lið alls staðar af landinu sem keppa sín á milli. Mæli sérstaklega með þessu fyrir nýliða, að setja saman lið og sjá hvað þið getið,“ segir Telma.

Enginn fer í útkall nema treysta sér til

Verkefnin sem farið er í eru mismunandi og miserfið. „Við förum í hvert verkefni fyrir sig og leysum eins vel og við getum. Ef við gerum rétta hluti líður okkur yfirleitt vel þótt útkallið geti verið erfitt. Ég á vini í sveitinni sem hafa lent í erfiðum útköllum, til dæmis að sækja látið fólk og það tekur auðvitað á. En þar kemur liðsheildin inn og við pössum okkar fólk og höfum aðgang að sálfræðingi ef á þarf að halda til að vinna úr svona málum. Svo er líka vert að taka fram að við erum sjálfboðaliðar og þar af leiðandi ákveðum við sjálf hvort við förum í útkall eða ekki. Það er enginn settur í útkall nema hann treysti sér til og telji sig hafa getu og kunnáttu til að takast á við það. Í hvert skipti sem við fáum útkall með SMS-skilaboðum þarf fyrst að hugsa: Treysti ég mér í þetta verkefni og hef ég kunnáttu til að hjálpa í þessum aðstæðum? Ef svarið er já, er hægt að hlaupa af stað.“

„Ef við gerum rétta hluti líður okkur yfirleitt vel þótt útkallið geti verið erfitt.“

Björgunarsveitirnar um land allt hafa verið að halda kynningarfundi fyrir nýliða þar sem hægt er að fá frekari upplýsingar. „Ég mæli hiklaust með því að mæta og sjá hvort þetta sé eitthvað sem þú hefur áhuga á. Þetta er allavega eitthvað það gáfulegasta sem ég hef gert í lífinu.“

Myndir / Úr einkasafni

Hélt að það yrði meira átak að fara frá Eyjum

Elliði Vignisson. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég hef aldrei upplifað þetta áður og þetta var mjög áhugaverður tími fyrir mig persónulega. Vissulega svolítið flókinn því ég hélt alltaf að ræturnar væru orðnar það djúpar að það yrði mikið átak að fara frá Vestmannaeyjum, það hefur ekki orðið enn þá,“ segir Elliði Vignisson sem nýverið tók við stöðu bæjarstjóra í Ölfusi eftir að hafa verið bæjarstjóri í Vestmannaeyjum í 12 ár. Elliði segir að vissulega hafi hann verið farinn að huga að breytingum enda kominn niður í fimmta sæti á lista eftir að hafa leitt hann til stærsta sigurs flokksins í bæjarfélögum af þessari stærð í sögu flokksins.   Flokkurinn fékk 73 prósent atkvæða og fimm af sjö bæjarfulltrúum í kosningunum 2014 og ekkert benti til annars en að Vestmannaeyjar yrðu áfram slíkt vígi Sjálfstæðisflokksins.

En háværar deilur innan flokksins um röðun á framboðslista urðu til þess að flokkurinn klofnaði. H-listinn spratt fram og náði ásamt E-listanum að fella meirihluta Sjálfstæðisflokksins, þótt ekki hafi munað nema fimm atkvæðum. Skyndilega stóð Elliði á krossgötum. Bæjarstjórastóllinn var farinn og í fyrsta skipti í 14 ár var hann ekki lengur bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum. Elliði var horfinn úr forystu Vestmannaeyjabæjar og fram undan voru stórar persónulegar ákvarðanir.

 

Uppsöfnuð óánægja finnur sér farveg

Þótt deilurnar innan flokksins hafi opinberlega snúist um hvaða leið ætti að fara við röðun á framboðslista telur Elliði að dýpri ástæður hafi legið þar að baki. „Það var enginn málefnalegur ágreiningur en á móti kemur að við vorum búin að vera við stjórnvölinn í tólf ár og höfðum gengið þannig fram að auðvitað höfum við valdið truflunum í viðtækjum einhverra á þessum tíma. Við fundum það mjög að ákveðnir hópar voru að leita sér að farvegi fyrir persónulega óánægju frekar en eitthvað annað. Það var kannski byggt hús of nálægt einum, aðrir töldu sig ekki hafa fengið nægileg verkefni í útboðum á vegum Vestmannaeyjabæjar, fólk hafði ekki fengið vinnu sem það sótti um hjá bænum eða jafnvel misst vinnuna og taldi sig þess vegna eiga eitthvað sökótt við bæjarfélagið og svo framvegis. Þessi óánægja fann sér farveg í þessum svokallaða H-lista sem náði því sem til þurfti. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé eftir sem áður með eitt mesta fylgi á landinu í Eyjum þá dugði fylgi H-listans til að fella meirihlutann og það verður ekki af þeim tekið.“

Elliði segir að einmitt sá hópur sem talaði um að það skorti upp á lýðræðisleg vinnubrögð innan flokksins hafi sjálfur átt erfitt með að sætta sig við lýðræðislega niðurstöðu. Kosið hafi verið um þrjár mismunandi leiðir og fékk tillagan um uppstillingu meirihluta en féll eigi að síður þar sem tvo þriðju hluta þurfti til. Þá hafi verið kosið um prófkjör, sem þeir sem síðar stofnuðu H-listann studdu, og fékk sú tillaga minnihluta atkvæða. „Þá voru greidd atkvæði um svokallaða röðun og hún fékk langmesta fylgið. Þetta var bara lýðræðisleg niðurstaða og þessi hópur fór þá að gera því skóna að það hefði eitthvað verið að hræra með atkvæði og beita fólk þvingunum, það var alltaf fráleit umræða. En niðurstaðan var þessi, að innan fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins sem stjórnar framboðsmálum flokksins, var ekki vilji fyrir prófkjöri. Ekki einu sinni einfaldur meirihluti. Á því féll sú hugmynd. Sjálfur talaði ég fyrir leiðtogaprófkjöri. Það fékk eitt atkvæði, bara mitt atkvæði. Þannig að ekki var vilji til að fara í það og svo greiddi fólk bara atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu og það varð niðurstaðan.“

 

Talar ekki um Pál Magnússon

Deilurnar mögnuðust enn frekar eftir að niðurstaða kosninganna varð ljós og beindist reiði sjálfstæðismanna fyrst og fremst að Páli Magnússyni, þingmanni flokksins í kjördæminu. Hann var sakaður um að hafa stutt framboð H-listans á bakvið tjöldin og þannig unnið markvisst gegn eigin flokki í bænum. Fór svo að Páll var rekinn úr fulltrúaráði flokksins í Vestmanneyjum vegna „fordæmalausrar framgöngu“ hans í kosningunum, eins og það var orðað í ályktun. Elliði er fljótur til svara þegar hann er spurður út í framgöngu Páls. „Ég ætla ekki að tjá mig um Pál Magnússon í þessu viðtali. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju að ræða þetta út frá einstökum persónum. Það er til sálfræðihugtak sem heitir stóra eignunarvillan og hún er kölluð það af því að hún er svo algeng. Hún felst í því að ætla persónum of stórt hlutverk. Oftast nær liggur skýringin í einhverju öðru en einstökum persónum. Við eignum einstökum persónum árangur og eignum einstökum persónum líka árangursleysi þegar allt aðrir þættir geta legið að baki. Þannig að mér finnst það hvorki sanngjarnt gagnvart mér né Páli Magnússyni að ég fari að ræða um meintar persónulegar deilur á milli okkar.“

Elliði bætir við: „Svo er það annað hvernig þingmenn ganga fram. Það er annað en persóna þingmannsins. Þetta er í eina skiptið, þótt ég sé búinn að vera á hátt í á annan áratug í pólitík og fylgst vel með þá man ég aldrei eftir því áður, að það léki vafi á því hvort að þingmaður myndi styðja framboð síns flokks. Það er ekkert óeðlilegt að fólk hafi velt vöngum yfir því.“

 

Var staðráðinn í að hætta í pólitík

Elliði er keppnismaður mikill og segist hann fyrst og fremst hafa orðið tapsár þegar niðurstaðan lá fyrir. „Alveg sama í hverju maður er, þá er maður í hlutunum til þess að vinna.“ Engu að síður var hann kominn í þá stöðu að vera atvinnulaus og þurfti, eftir 12 ár á bæjarstjórastóli, að taka ákvörðun um framtíðina. „Það kom mér svolítið á óvart að ég upplifði svona … mér liggur nærri að kalla það frelsi. Allt í einu fannst mér ég standa frammi fyrir gríðarlegum tækifærum. Fyrstu vikurnar var ég mjög einbeittur að skipta úr pólitíkinni, úr stjórnmálum, yfir í einkageirann. Hann togaði fast í mig.“

Elliði átti í ýmiskonar samtölum við fólk um starf og stöður í einkageiranum og var hann kominn að því að stökkva á áhugavert tækifæri þegar pólitíkin togaði aftur í hann. „Ég fór að fá áhugaverð símtöl frá fulltrúum víða um land um hvort ég hefði áhuga á að taka að mér bæjar- og sveitarstjórastöður. Þau voru af öllum stærðum og gerðum. Það varð til þess að ég fór að skoða þennan möguleika. Þrátt fyrir að vera hálfpartinn búinn að lofa mér að verða ekki fimmtugur án þess að hafa unnið að marki í einkageiranum, þá stend ég núna frammi fyrir því að verða fimmtugur á næsta ári og vera búinn að vera opinber starfsmaður nánast alla ævi. Það var ekki það sem ég ætlaði mér.“ Elliði er því, rétt eins og margir af helstu málsvörum einkaframtaksins á Íslandi, á mála hjá hinu opinbera. „Það vill nú oft verða að sumum okkar er fórnað handan víglínu til þess að reyna að hafa áhrif,“ segir hann og hlær.

Það kom Elliða þægilega á óvart hversu auðvelt það reyndist að flytja frá Eyjum. Það hjálpaði til að börnin eru uppkomin og því ekki jafnerfitt að rífa upp ræturnar. En það gætti þó innri togstreitu. „Það helltist yfir mig um tíma ákveðinn valkvíði. Skyndilega varð ég kvíðinn og andstuttur og hugsaði, hvað ef ég vel rangt? Ég er með öll þessi tækifæri fyrir framan mig, ég get farið inn í mjög spennandi tækifæri í einkageiranum, ég get valið um mjög ólík og mismunandi tækifæri innan sveitarfélagageirans. Hver verður líðan mín og hvaða stefnu tekur líf mitt ef ég vel rangt?“

 

Sestur að í Elliðahöfn

Ekki er að heyra á Elliða að hann hafi tekið ranga ákvörðun þegar hann þekktist boð um að gerast bæjarstjóri í Ölfusi, víðfemu tveggja þúsund manna sveitarfélagi á Suðurlandi þar sem Þorlákshöfn er stærsti þéttbýliskjarninn. Kannski viðeigandi í ljósi þess að Þorlákshöfn hét áður Elliðahöfn og gantast Elliði með að „leiðrétta þau mistök“ í framtíðinni. „Ég er með málfrelsi og tillögufrelsi í bæjarstjórn og aldrei að vita að ég mani mig upp í að flytja þá tillögu á ný.“

Það er margt við Ölfus sem heillar Elliða og nefnir hann sterkt samfélag með hátt þjónustustig og mikil tækifæri til atvinnuuppbyggingar. „Ég er líka landsbyggðarmaður í eðli mínu. Ég er mjög hrifinn af hugmyndum þeirra sem voru að taka hér við og treysti mér vel til að vinna með þeim. Ég treysti þeim líka mjög vel til að vinna með mér sem er oft flóknara heldur en fyrir mig að vinna með öðrum. Ég er orðinn nógu gamall til að vita hvernig ég er. Ég fer hratt yfir og get verið mjög fylginn mér og gengið hart fram.“

Aðlögunin hefur gengið vel. Fjölskyldan hefur komið sér fyrir í Ölfusinu er þó enn sem komið er með annan fótinn í Eyjum þar sem eiginkona hans, Bertha Ingibjörg Johansen, rekur fataverslun og dóttir þeirra, Bjartey Bríet, sækir nám í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum. Sonur þeirra, Nökkvi Dan, spilar handbolta með norska úrvalsdeildarliðinu Arendal og stundar samhliða því nám í stærðfræði við Háskóla Íslands. „Það tekur einhvern tíma fyrir Berthu og Bjartey að losa sig fullkomlega frá sínum skuldbindingum þannig að þær eru dálítið á víxl hér í Ölfusinu og í Eyjum. Það gengur bara ljómandi vel að sníða þetta saman og þær eru sem betur fer strax orðið mikið hér enda líður okkur alveg ofsalega vel hérna enda þetta er gott samfélag og nóg um að vera. Ég reyni síðan að vera duglegur að heimsækja Eyjar, sérstaklega til þess að að rækta vini og heimsækja fjölskylduna.“

 

Stórhuga Ölfusingar

Elliði fer á flug þegar talið berst að atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Mýgrútur hugmynda er á teikniborðinu og er bæjarstjórinn bjartsýnn fyrir hönd sveitarfélagsins. Fyrst nefnir hann orkuna en innan marka sveitarfélagsins er að finna stærsta jarðorkusvæði landsins sem og einhverjar mestu vatnsbirgðir landsins í jörðu. „Íbúar hér segja gjarnan að ef þú tekur stórt skrúfjárn og rekur ofan í jörðina, þá færðu upp heitt vatn. En ef þú rekur lífið skrúfjárn ofan í jörðina færðu kalt vatn. Það er algjörlega einstakt, jafnvel á heimsvísu, að hafa aðgang að öllu þessu kalda og heita vatni.“ Sér Elliði fyrir sér mikla framþróun í orkubúskap þar sem áhersla verður lögð í fullvinnslu orkunnar. „Ekki bara fullvinnslu orkunnar, heldur fullvinnslu þeirra efna sem fylgja varmanum. Það er til dæmis komnir upp mjög öflugir hátækniiðngarðar á Hellisheiði og þar ætla menn að nota ýmsar lofttegundir, til dæmis til þörungaræktar og ýmsar fleiri hugmyndir. Þar ætlum við okkur stóra hluti.“

En vatnið verður ekki eingöngu notað til orkuöflunar því hvorki fleiri né færri en þrjú baðlón á stærð við Bláa lónið eru á teikniborðinu. Grey line og Heklubyggð ehf. stefna að því að hefja framkvæmdir við eitt slíkt við skíðaskálann í Hveradölum og þá eru tvö önnur baðlón í skipulagsferli hjá sveitarfélaginu en að þeim standa innlendir og erlendir fjárfestar. „Ferðaþjónustan er gríðarlega sterk hérna því nánast hver einasti útlendingur sem hingað kemur fer í gegnum sveitarfélagið í gegnum þjóðveg 1. Reykjadalurinn tekur við 250-300 þúsund ferðamönnum á ári og það eru uppi stórhuga áform um að nýta sérstöðu þessa svæðis.“

 

Hef aldrei minnst á Kínverja

Á undanförnum árum hafa verið uppi hugmyndir um að byggja upp stórskipahöfn í Þorlákshöfn og hafa þingmenn kjördæmisins reglulega lagt fram tillögur þess efnis. Á dögunum greindi Morgunblaðið svo frá því að forsvarsmenn sveitarfélagsins ættu í viðræðum við kínverska aðila um milljarða fjárfestingu á hafnarsvæðinu. Elliði segir áhuga vissulega fyrir hendi, bæði meðal innlendra og erlendra fjárfesta. „Ég hef aldrei minnst á Kínverja, það hafa blaðamenn gert og þeir gera það á eigin ábyrgð. Við höfum aldrei minnst á neitt þjóðerni í þessu samhengi enda skiptir það ekki öllu. Við finnum bara áhuga einkaaðila til að koma að þessu verkefni með okkur og við byrjum þar, á því að þreifa fyrir okkur hversu víðtækur þessi áhugi er og hverjir eru með hugmyndir sem að samrýmast best þessu samfélagi.“

Elliði telur að stórskipahöfn í Þorlákshöfn komi til með að gjörbreyta landslaginu í vöruflutningum til og frá landinu. Sú þróun sé nú þegar hafin eftir að vöruflutningaskipið Mykines hóf að sigla til hafnarinnar og styttir þar með siglingaleiðina frá höfuðborgarsvæðinu til Evrópu um allt að sólarhring. „Til dæmis fer stór hluti af öllum bílum sem koma inn til landsins í gegnum höfnina hérna, hér er líka mikill ferskflutningur og þetta er bara toppurinn á ísjakanum ef höfnin fær að þróast áfram.“

Elliði sér til dæmis fyrir sér að framkvæmdirnar gætu fylgt svipuðu rekstrarmódeli og Hvalfjarðargöngin, það er að fjárfestarnir standi straum af framkvæmdunum og eftir ákveðinn tíma, þegar fjárfestingin hefur borgað sig, eignast sveitarfélagið höfnina á ný. „Það er ekkert lögmál að sveitarfélög eða hið opinbera reki hafnir. Þetta er bara atvinnutæki. Er það eðlilegt fyrirkomulag að þegar sveitarfélög fara í að nýta atvinnutækifæri og styrkja innviði eins og hafnir, að þá sé í raun og veru verið að leggja rekstur grunnskóla og leikskóla undir? Ef það gengur illa með fjárfestingu við höfnina að þá þurfi að stytta opnunartíma á bókasafni eða hækka gjaldskrárnar í sundlaugunum?“

 

Oft verið hundósáttur við flokkinn

Talið berst nú að Sjálfstæðisflokknum þar sem Elliði hefur alið manninn frá því hann hóf afskipti af stjórnmálum. Hann hefur verið áberandi í starfi flokksins og ekki hikað við að segja sínar skoðanir umbúðalaust þótt þær kunni að stuða fólk, jafnvel eigin flokksmenn. „Ég hef mikinn áhuga á Sjálfstæðisflokknum og ég styð hann en ekki óháð því hvað hann gerir. Ég hef alla tíð haldið með ÍBV, Chelsea og Utah Jazz en það er alveg óháð því hvað þau gera. Þetta eru bara lið sem ég valdi mér að fylgja. Ég get kvartað yfir árangrinum og fundist að það eigi að skipta ákveðnum leikmanni inn á eða út af en ég held alltaf með mínu liði. Skuldbinding mín við Sjálfstæðisflokkinn er ekki þannig. Ég styð Sjálfstæðisflokkinn með ráðum og dáð og vinn fyrir hann á meðan ég hef þá trú að þetta sé það stjórnmálaafl sem er líklegast til að vinna hugsjónum mínum framgang. Að þessu sögðu, þá er ég tilbúinn til að vinna áfram með Sjálfstæðisflokknum eins og ég hef gert síðustu 20 árin og ekki séð eftir einni mínútu sem hefur farið í það. En oft hef ég orðið hundósáttur við flokkinn og finnst hann í sumum þáttum þurfa að fara að hugsa sinn gang.“

Þar horfir Elliði til hinna klassísku frelsismála þar sem honum finnst flokkurinn ekki ganga nægilega vasklega fram. „Það er lykilatriði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í dag, að láta af forræðishyggju og ganga fastar fram í innleiðingu á hvers konar frelsi. Og frelsismálin þurfa ekki alltaf að vera stærstu efnahagslegu mál þjóðarinnar.

Eitt grundvallarmál er t.d. að ríkið dragi sig í hlé í af neytendamarkaði. Að það hætti afskiptum á sölu á vörum svo sem ilmvatni, Tobleron og saltpillum í nafni ISAVIA. Svo ekki sé nú minnst á hið sjálfsagða frelsi til að kaupa bjór og vín eins og hverja aðra neytendavöru. Af hverju er frelsi í rekstri fjölmiðla ekki meira? Af hverju þurfa einkareknir fjölmiðlar að glíma á hverjum einasta degi við ríkisbákn? Af hverju hagar ríkið málum sínum þannig að þeir eru búnir að taka sér leyfi að byrja að prenta dagblað og rukka alla sem eru með bréfalúgu, rétt eins og þeir senda út útvarp og rukka alla sem mögulega geta haft viðtæki í gegnum nefskatt. Það er ekkert frelsi í þessu. Ég vil geta valið hvort ég versla við fjölmiðil eða ekki. Á sama hátt þarf ríkið líka að láta sem mest af inngripum í atvinnulífið.  Í hvert skipti sem umræða sem þessi kemur upp þá hljómar alltaf eitthvert bergmál í samfélaginu: „Er þetta nú stærsta málið? Væri ekki nær að ræða fátækt?“ Hugtakið frelsi er svo mikilvægt fyrir okkur öll í okkar daglega lífi og þess vegna eigum við ekki að láta hrekja okkur út í horn í þessari umræðu.“

Elliði vill meina að þetta hafi ekkert að gera með þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í samstarfi við „ófrjálslyndari“ flokka. Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í samstarfi með öllum flokkum og ekkert í þessa átt hafi verið áorkað. „Því miður er það sem gerist að þegar þingmenn verða ráðherrar, þá verða þeir svo miklir embættismenn. Þetta á ekki við um einn flokk umfram aðra. Þeir fara að hugsa eins og framkvæmdastjórar sem er gott og blessað en þeir verða að standa fyrir eitthvað pólitískt. Ég er ekki að tala fyrir útópískri frjálshyggju, heldur þann sjálfsagða rétt að t.d. skíra barnið þitt því nafni sem þú telur best hæfa og eigir það ekki undir einhverri ríkisnefnd. Sjálfstæðisflokkurinn vill vera trúr þessu en honum hættir eins og öllum öðrum flokkum til þess að fara út úr þessu.“

 

Hefur ekki áhuga á þingmennsku

Fyrir hverjar þingkosningar sprettur nafn Elliða upp í tengslum við mögulegt framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur hins vegar aldrei látið tilleiðast þrátt fyrir góða möguleika, enda Sjálfstæðisflokkurinn gríðarlega sterkur í kjördæminu og sjálfur á Elliði sterkt bakland í Eyjum og víðar í kjördæminu. Elliði segist einfaldlega ekki hafa haft áhuga á þingmennsku. „Ég hef aldrei útilokað það en áhugi minn hefur aldrei legið í þessa átt. Mér hefur fundist mörgum sveitarstjórnarmönnum sem fara inn á þing ekki líða neitt sérlega vel þar. Sérstaklega þegar menn hafa verið bæjar- og sveitarstjórar, að koma inn á þing og sjá hlutina gerast á þeim hraða sem þar er, það er svolítið erfitt fyrir fólk sem er kannski búið að vera í tugi ára í þannig umhverfi að ef þú vilt að eitthvað gerist á morgun, þá hefurðu raunhæfa möguleika á að það gerist á morgun. Þú getur strax byrjað að hafa áhrif.“

Fyrir þingmenn er þetta erfiðara, segir Elliði, og fólk er gjarnt á að gera ósanngjarnar kröfur til þeirra. Sjálfur segist Elliði hafa verið í þeim hópi. „Fólk vill að þingmennirnir reddi málum. Reddi hjúkrunardagheimili fyrir veika ömmu, reddi brú yfir fljót og reddi námsbókum fyrir þá sem hafa ekki efni á þeim og svo framvegis. Þingmenn eru löggjafinn, þeir hafa mjög takmörkuð úrræði þegar að þessu kemur. Við höfum langtum meiri úrræði hvað þetta varðar í sveitarstjórn. Þannig að ég hef hingað til ekki stefnt inn á Alþingi og geri það ekki í dag.

Myndir / Hákon Dagur

„Vakti með mér gleði, sorg og reiði“

Þær bækur sem höfðu mest áhrif á Steinunni Stefánsdóttur.

Steinunn Stefánsdóttir, þýðandi, blaðamaður og einn höfunda bókarinnar Þjáningarfrelsið – Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla, er mikill fagurkeri og unnandi góðra bókmennta. Mannlíf kom því ekki að tómum kofa þegar það fór þess á leit við Steinunni að hún nefndi bækurnar sem hafa haft mest áhrif á hana.

Sjálfstætt fólk

„Ég nefni þá bók vegna þess að ég hef lesið hana oftast af öllum bókum. Ég er alls ekki týpan sem les uppáhaldsbókina einu sinni á ári, þvert á móti finnst mér ég eiga svo margt ólesið að ég geti alls ekki eytt tíma í svoleiðis. Sjálfstætt fólk las ég oft vegna þess að ég kenndi hana í Kvennaskólanum tvo vetur fyrir mörgum árum og las bókina líklega fimm eða sex sinnum á því tímabili. Sagan vakti með mér gleði, sorg og reiði, til skiptis eða allt í senn, og alltaf átti ég jafnerfitt með að fara í gegnum kennslustundina með sögulokunum ógrátandi.“

Rigning í nóvember

„Auður Ava Ólafsdóttir er einn af mínum uppáhaldshöfundum. Rigning í nóvember og Afleggjarinn eru í mínum huga systurbækur og ég á erfitt með að gera upp á milli þeirra. Í báðum er bæði ytra og innra ferðalag sem fléttast saman og gengur upp í magnaðri lestrarupplifun en einhvern veginn situr Rigning í nóvember enn fastar í mér en Aflegggjarinn.“

de

„Þessi bók er eftir danska rithöfundinn Helle Helle og á það sameiginlegt með Auði Övu í mínu lífi að ég bíð eftir bókum þeirra. Þetta er nýjasta bók hennar og kom út á þessu ári. Helle Helle er afar mínímalískur höfundur, skrifar sögur sem eru hægar og fágaðar á yfirborðinu en undir niðri ólgar svo miklu meiri saga en sú sem sögð er. Bækur Helle Helle sem ég hef lesið fyrir mörgum árum eru enn lifandi hluti af lífi mínu en ég ætla samt að nefna þessa síðustu, de, því ég er ekki frá því að mér finnist að í henni gangi einhvern veginn allt upp.“

Raddir