Laugardagur 21. september, 2024
8.2 C
Reykjavik

Metþátttaka í utanvegahlaupi um helgina

|
|
Benoit Branger frá Frakklandi varð hlutskarpastur í 100 kílómetra hlaupinu.

Keppendur frá fjórum heimsálfum í Hengill Ultra Trail.

Metþátttaka var í utanvegahlaupinu Hengill Ultra Trail sem haldið var í sjöunda skiptið í Hveragerði um helgina, en keppendur voru 372 talsins. Fyrir utan metfjölda þátttakenda þá voru keppendur frá 17 þjóðlöndum skráðir til leiks. Þeir komu frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi, Danmörku, Kólumbíu, Póllandi, Frakklandi, Spáni, Sviss, Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Austurríki, Katalóníu, Tékklandi, Færeyjum og auðvitað Íslandi. Eins og sjá má þá komu þeir frá fjórum heimsálfum.

Hlaupnar voru tvær vegalengdir, 100 kílómetrar og 50 kílómetrar, og hófst keppnin klukkan 22 á föstudagskvöldið. Benoit Branger frá Frakklandi varð hlutskarpastur í 100 kílómetra hlaupinu en hann hljóp vegalengdina á 14 klukkutímum, 20 mínútum og 24 sekúndum sem er brautarmet. Það var Bretinn Matt O’Keefe sem var annar í mark og Birgir Már Vigfússon frá Íslandi varð í þriðja sæti.

Ingvar Hjartarsson átti besta tímann í 50 kílómetra hlaupinu, Daníel Reynisson varð í öðru sæti og Kanadamaðurinn Jason Wright í þriðja sæti.

Flugbílar á markað á næstu tíu árum?

Sumir sérfræðingar spá því að flugbílar komi til með að draga úr vandamálum eins og umferðarhnútum og mengun.

Stjórnvöld í Japan hafa fengið til liðs við sig 21 fyrirtæki, innlend fyrirtæki og eins stór, alþjóðleg fyrirtæki á borð við Boeing, Airbus til að þróa hugmyndir að flugbílum og hefur hópurinn gefið út að hann komi til með að leggja fram tillögur sínar nú í vikunni.

Talið er að flugbílar, auk sjálfkeyrandi bíla, eigi eftir að valda straumhvörfum í tækni, en sumir sérfræðingar eru á því að þeir muni draga úr óteljandi vandamálum, þar með talið umferðarhnútum og mengun. Undanfarin ár hafa ýmis einkarekin fyriræki sett fram hugmyndir að slíkum bílum, þar á meðal Rolls-Royce og Alphabet sem er með tvær gerðir flugbíla á teikniborðinu. Með aðkomu japanskra stjórnvalda eru yfirvöld hins vegar í fyrsta sinn að blanda sér með beinum hætti í málið, en talið er að afskipti þeirra geti flýtt töluvert fyrir framgangi flugbíla þar sem reglugerðir hafa hingað til verið ein helsta hindrunin fyrir því að þeir verði að veruleika.

Mynd / Uber vill prófa fljúgandi leigubíla í Japan.

Baðherbergið innréttað – hvernig nýturðu rýmið best?

||||
||||

Margt ber að hafa í huga þegar baðherbergi er innréttað, hvort sem verið er að gera upp gamalt baðherbergi eða innrétta í nýju húsnæði. Við viljum nýta rýmið sem best og um leið hafa það fallegt fyrir augað og gera að okkar. Við fórum á stúfana og fengum góð ráð hjá Berglindi Berndsen innanhússarkitekt en hún býr á Seltjarnarnesi og rekur sína eigin stofu á Fiskislóð 31 í Reykjavík.

Hvað hefur þú í huga þegar þú innréttar baðherbergi með nýtingu í huga?
„Rétt og gott skipulag á baðherbergi skiptir gríðarlega miklu máli upp á nýtingu rýmisins. Opnar sturtur eða svokallaðar ,,walk in“ sturtur geta látið minnstu baðherbergi líta stærri út en raun ber vitni. Innréttingar með góðu og miklu skúffuplássi búa einnig til mikla nýtingu og innfelldir speglaskápar geta látið rýmið virka stærra en það raunverulega er.“

 Skiptir máli að hugsa um notagildið fyrst og fremst eða er það útlitið?
„Mikilvægt er að leggja áherslu á þægindi og notagildi svo rýmið njóti sín til hins ýtrasta en þetta helst allt í hendur. Það er ekkert gaman að hanna fallegt baðherbergi ef notagildið er ekki til staðar og öfugt.“

 Hvernig hugsar þú efnisval fyrir baðherbergi?
„Ég leitast yfirleitt við að hafa samræmi í lita- og efnisvali við það sem fyrir er í húsinu svo fallegt flæði skapist á milli rýma og sérstaklega ef ég sé um heildarhönnun heimilis. Ég huga alltaf að því hanna tímalaus og einföld baðherbergi þar sem að mjúk og náttúrleg paletta er ráðandi til að skapa notalega og hlýlega stemningu.“

Ertu með ákveðinn gátlista sem vert væri fyrir fólk að fara yfir þegar það ákveður að endurnýja baðherbergi eða er að hanna/skipuleggja nýtt?  
„Aðallega þarf að huga vel að þægindum og notagildi rýmisins. Stærð sturtu spilar þar stórt hlutverk, skápapláss og góð vinnu- og stemningslýsing. Hafa ber einnig í huga að þessar framkvæmdir taka mikinn tíma, yfirleitt mun meiri en áætlað er í upphafi og þetta er dýr framkvæmd. Það þarf því að undirbúa svona verk vel. Ég er á því að við arkitektar getum sparað fólki mikinn tíma og mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu.“

Berglind nefnir einnig að vinnu- og stemninglýsing skipti máli
„Góð vinnu- og stemningslýsing skiptir einnig gríðarlega miklu máli við hönnun baðherbergja til að skapa réttu stemninguna. Einnig skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við verkkaupa og alla þá sem að verkinu koma og að algjört traust ríki á milli allra aðila svo lokaniðurstaðan verði sem jákvæðust.“

Æðisleg íbúð við Lækinn í Hafnarfirði

Karitas Möller arkitekt.

Karitas Möller arkitekt og Kristinn Már Reynisson lögfræðingur fluttu á sérhæð við Lækinn í Hafnarfirði fyrir tæpum tveimur árum og hafa gert hana upp á einstaklega fallegan og sjarmerandi hátt.

Þegar Hús og híbýli kíkti í heimsókn var Karitas ein heima og búin að vera á haus að gera fínt. „Ég er búin að gera jólahreingerninguna í júlí,“ sagði hún og hló smitandi hlátri. Karitas segist hafa einstaklega mikla unun af því að dekra við sitt nærumhverfi og íbúðin ber þess merki því hver einasti fermetri er fallegur á heimilinu.

Upprunalega eldhúsið gullfallegt eftir yfirhalningu

,,Þetta eldhús er til að mynda upprunalegt og er um 70 ára gamalt en það kom aldrei til greina að taka það niður heldur bara að gera það eins fallegt og hægt væri. Við héldum innréttingunni en breyttum aðeins uppröðuninni á því; færðum til skápa og smíðuðum nýja skápa í sama stíl og innréttingin er í. Við settum svo marmaraplötu á eldhúsbekkina sem breytti miklu fyrir útlitið. Höldurnar eru líka upprunalegar en þær voru illa farnar og ég lét pólýhúða þær sem

Ljósið yfir eldhúsborðinu heitir IC og er frá Flos. Karitas keypti það í París og hafði mikið fyrir því að ferja það heim í handfarangri.

bjargaði þeim, þetta lítur vel út og kostaði alls ekki mikið. Við settum svo hvítar veggflísar og völdum svört blöndunartæki á móti gamla stálvaskinum sem hefur staðið vaktina í öll þessi ár, mér finnst hann sjarmerandi,“ segir hún brosandi. Koparljós hanga yfir gamla vaskinum en þau keypti Karitas í Kaupmannahöfn þegar hún var þar í arkitektanámi.

 

Á eldhúsgólfinu er vínylmotta úr versluninni KAIA sem er í Listhúsinu við Engjateig. Gólfið er í raun hálfklárað því þetta eru bara krossviðarplötur úr Bauhaus sem átti að setja annað efni ofan á en Karitas var svo ánægð með útlitið á þeim og ákvað að leyfa þeim að vera í bili.

Meiri samkeppni í Danmörku

„Ég bjó úti í örugglega 12 ár, lærði í Kaupmannahöfn og flutti svo til Svíþjóðar og síðar Árósa með kærastanum þar sem hann var í námi. Ég vann á arkitektastofum úti í Danmörku sem var mjög lærdómsríkt og krefjandi, en ég finn að það er á einhvern hátt þægilegra að vinna

Karitas og Kristinn tóku baðherbergið í gegn og stækkuðu það aðeins; rýmið þar sem sturtan er núna var áður partur af hjónaherberginu.

hér heima, þar sem maður er meira á heimavelli. Það er líka töluvert meiri samkeppni í þessu umhverfi í Danmörku og erfiðara að komast að kannski vegna þess líka að Danir eru þekktir fyrir góða hönnun og margt hæfileikafólk kemur úr öllum áttum. En þetta var mjög lærdómsríkur og æðislegur tími.“

Það voru tvær stofur í íbúðinni en ákveðið var að loka á milli þeirra. Til að nýta rýmið í gamla hurðaopinu, teiknaði Karitas skrifstofuskáp sem kærastinn og pabbi hans smíðuðu. Inni í þessari mublu er bæði heimaskrifstofa og hirslur. Stofan er sérlega kósí, þar er blár sófi úr ILVA.

Karitas á mikið af fallegum hlutum og less is more á sannarlega ekki við um þetta persónulega og hlýja heimili í Hafnarfirði.

Fallegt barnaherbergi.

Meira af sérhæðinni við Lækinn í septemberblaði Húsa og híbýla sem er fáanlegt á sölustöðum til 20. september þegar nýtt blað kemur út.

 

Myndir / Hallur Karlsson

Stór bílaframleiðandi í samstarf við íslenska aðila

|
|

Nissan hefur hafið framleiðslu og sölu á bifreiðum með breytingum frá Arctic Trucks í öllum löndum Evrópu. Þetta er fyrsta sinn sem bílaframleiðandi tekur inn í framleiðsluferli sitt breytingar frá íslensku fyrirtæki fyrir jafnstóran markað.

Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu Arctic Trucks.

„Hingað til höfum við verið í samstarfi við erlenda bílaframleiðendur um breytingar á bifreiðum í einstaka löndum en þetta í fyrsta sinn sem bílaframleiðandi notar okkar merki og lausnir og selur í heilli heimsálfu. Það að jafn virtur aðili skuli vilja okkar merki á sína vöru til að auka sölugildi hennar og styrkja sína ímynd eru stór tíðindi og sýnir einfaldlega í hvaða stöðu við erum,“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks (sjá mynd að ofan), en einn risanna í bílaiðnaðinum, japanski bílaframleiðandinn Nissan, ætlar að hefja sölu á Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu í öllum löndum Evrópu.

Að sögn Emils fela umræddar breytingar í sér öflugri, lengri og stífari fjöðrun, nýja brettakanta og nýjar felgur og stærri dekk, sem gera Nissan Navara meðal annars sportlegri útlits og bæta eiginleika bílsins til að keyra í torfæru og erfiða vegi. Þá verður hægt að velja um sérstaka aukahluti eins og læsingar, „snorkel“ og fleira, sem gerir Nissan Navara enn hæfari til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann segir að þessi útgáfa bílsins, sem kallast Off-Roader AT32 (Arctic Trucks 32 tommu dekk), verði í boði hjá söluumboðum Nissan um alla Evrópu, með sömu ábyrgðarskilmálum og þjónustu sem fylgja Nissan Navara almennt. En innan bæði Arctic Trucks og Nissan ríki mikil eftirvænting vegna verkefnisins. „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og Nissan er það auðheyrilega líka,“ segir hann.

„… þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“

Spurður hvernig samstarfið hafi komið til segir Emil að þar hafi ýmislegt haft áhrif, svo sem góð samvinna við Nissan á Íslandi, merki Arctic Trucks og þekking og reynsla stjórnunarteymis Arctic Trucks í Bretlandi af umsjón viðamikilla verkefna. Það séu helstu ástæður þess að samningar hafi náðst.

En nákvæmlega hvaða þýðingu hefur samstarfið fyrir Arctic Trucks? „Þetta sýnir bara að stórir framleiðendur eru í auknum mæli farnir að leita til okkar eftir lausnum. Og ekki bara það heldur eru þeir að leitast eftir því að fá okkar merki á sína vöru þar sem Arctic Trucks hefur skapað sér trúverðugleika á alþjóðavísu,“ svarar hann. „Nissan í enn stærri heimsálfum, Asíu og í Mið-Austurlöndum, eru til dæmis í þessum töluðum orðum að skoða þann möguleika að taka til sölu þessa útgáfu af Nissan Navara sem við gerðum fyrir Nissan í Evrópu og fleiri framleiðendur hafa áhuga á samstarfi. Þannig að þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“

Fyllt lambalæri með kryddjurtum og parmesanosti

Það er fátt notalegra um haustlegar helgar en að bjóða upp á gott íslenskt lambakjöt ásamt krydduðum kartöflum. Lambið má fylla og binda deginum áður og geyma í kæli. Látið kjötið ná stofuhita áður en því er stungið inn í ofn.

Fyllt lambalæri með hvítlauk, furuhnetum, ólífum og kryddjurtum
fyrir 4-6

2 kg úrbeinað lambalæri
1 msk. salt
1 msk. pipar
7 hvítlauksgeirar, 3 afhýddir og 4 með hýðinu á
50 g furuhnetur
60 g svartar steinlausar ólífur
fínt rifinn börkur af 1 sítrónu
100 g rifinn parmesanostur
20 g steinselja, söxuð
20 g óreganólauf
1 dl ólífuolía
50 g panko eða brauðmylsna
2 rósmaríngreinar

Hitið ofninn í 220°C. Saltið lambalærið og krydið með pipar. Setjið 3 afhýdda hvítlauksgeira, furuhnetur, ólífur, sítrönubörk, parmesanost og kryddjurtir í matvinnsluvél og saxið. Hafið vélina í gangi og hellið 1 dl af ólífuolíu saman við þar til allt hefur blandast vel saman. Bragðbætið fyllinguna með salti og pipar ef þarf. Dreifið fyllingunni yfir lambalærið og rúllið því síðan upp. Bindið lærið saman með matargarni með 3 cm millibili þversum og svo einu sinni langsum. Setjið lærið í eldfast mót og setjið 4 hvítlauksgeira og rósmaríngreinar í botninn. Eldið í 30 mín. eða þar til kjötið fer að brúnast, lækkið þá ofnhitann niður í 160°C og eldið þar til kjarnhitinn mælist 60°C, u.þ.b. 30-40 mín. til viðbótar. Passið að stinga ofnhitamælinum ekki í fyllinguna. Takið kjötið úr ofninum, setjið á bretti og hyljið með álpappír. Látið standa í 15-20 mín. áður en kjötið er skorið niður í sneiðar. Búið til sósu úr soðinu í mótinu.

Sósa
2 msk. hveiti
1 dl marsala-vín eða rauðvín
500 ml lamba- eða kjúklingasoð
20 g smjör

Fleytið mestu fitunni ofan af safanum sem myndast hefur í eldfasta mótinu. Þrýstið hvítlauknum úr hýðinu og hendið hýðinu. Hitið eldfasta mótið yfir lágum hita (eining má flytja soðið úr mótinu yfir í pott en þá þarf að passa vel að skrapa botninn á mótinu til að ná öllu góðgætinu í pottinn). Notið písk og hrærið hveitið kröftulega saman við. Hellið víninu út í og náið upp suðu og eldið í 2-3 mínútur. Hellið lambasoðinu saman við og náið aftur upp suðu og skrapið botninn með flötu áhaldi. Lækkið hitann og látið malla í 10-15 mín. eða þar til sósan er orðin þykk. Bætið smjörinu saman við og hrærið í á meðan smjörið bráðnar. Smakkið soðið og athugið hvort bæta þurfi við salti eða pipar. Hellið sósunni í gegnum síu, hendið hratinu og berið fram með lambakjötinu.

Kartöflur með rósmaríni
fyrir 4-6

Kartöflurnar má setja inn með kjötinu þegar hitinn er lækkaður niður í 160°C. Þegar kjötið er tekið út þá er ofnhitinn hækkaður í 190°C og kartöflurnar eldaðar þar til þær verða gylltar og stökkar.

2 kg litlar kartöflur, skrældar
3 msk. ólífuolía
2 msk. saxað ferskt rósmarín
2 tsk. salt
1 tsk. pipar

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í vatni í 10 mín., hellið þeim síðan í sigti og látið standa svo þær þorni í gufunni. Blandið saman ólífuolíu, rósmaríni, salti og pipar í eldföstu móti. Hristið kartöflurnar í sigtinu til að ýfa ytra yfirborð þeirra. Veltið þeim upp úr olíunni og kryddinu og eldið í miðjum ofni í u.þ.b. 1 klst. eða þar til þær eru orðnar gylltar og stökkar.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Aðdáun stelpnanna réði úrslitum

|||
|||

Helgi Björnsson, sjálfur Holy B, er orðinn sextugur og hefur verið í sviðsljósinu, bæði sem söngvari og leikari, í 45 ár. Hann segist hafa ákveðið það strax í æsku að verða annaðhvort poppstjarna eða atvinnumaður í fótbolta og valið hafi verið auðvelt eftir að hann sá hvað stelpurnar hrifust miklu meira af gítarleik hans og söng heldur en sprikli á fótboltavellinum.

Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.

Þegar ég hringi í Helga og falast eftir að fá að hitta hann á kaffihúsi og spjalla segist hann helst ekki vilja að viðtalið fari fram á kaffihúsi, þar verði hann fyrir of miklu áreiti. Er erfitt að vera frægur á Íslandi?
„Ég meinti nú ekki áreiti í neikvæðum skilningi,“ flýtir Helgi sér að útskýra. „En, jú, jú, það eru alltaf margir sem maður þarf að heilsa og spjalla aðeins við. Reykjavík er náttúrlega bara lítið þorp þar sem allir þekkjast og fólk vill vita hvað er að frétta af mömmu og hvað ég ætli að fara að gera og svo framvegis. Maður fær ekkert áreiti eins og maður sér hjá heimsfrægum stjörnum úti í heimi en það er forvitni og það er verið að fylgjast með manni. Ég er reyndar löngu hættur að pæla í því en þetta er samt alltaf þrýstingur. Þótt þú reynir að slökkva á þessu og taka ekki eftir því þá er það til staðar og það hefur áhrif á mann.“

Fermingardrengir miðað við bankamenn
Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.
„Ég man eftir því að þegar ég var sirka tíu ára gamall var ég alveg ákveðinn í því að annaðhvort ætlaði ég að verða atvinnumaður í fótbolta eða poppstjarna. Ég spilaði með yngri flokkunum á Ísafirði en þegar þeir fóru að hlaupa úti í snjónum alla daga en ég gat setið inni í æfingahúsnæði með gítarinn og stelpurnar hópuðust fyrir utan til að hlusta en litu ekki við þeim, var alveg ljóst hvað ég vildi frekar leggja fyrir mig.“
Var það sem sagt aðdáun stelpnanna sem leiddi þig út í tónlistarferilinn? „Að sjálfsögðu!“ segir Helgi og skellihlær. „Á þessum aldri, 13 til 16 ára, þá var það engin spurning, það var aðdáunin sem maður sóttist eftir.“
Talandi um það leiðist talið að því orðspori um sukklíferni sem fer af poppbransanum, hefur það tekið sinn toll í lífi Helga? „Nei, það held ég nú ekki,“ segir hann. „Það er glaumur og gleði oft og tíðum, en ég hef sem betur fer borið gæfu til þess að sigla fram hjá stærstu skerjunum og stranda ekki í þeim ólgusjó. Svo er þetta líka orðum aukið. Ég held til dæmis að það sé meiri glaumur og gleði hjá bankamönnum í dag heldur en nokkurn tímann hjá poppurum. Við erum algjörir fermingardrengir í samanburði við þá.“

Sér ekki eftir neinu
Spurður hvort poppstjörnulífið hafi verið eins skemmtilegt og hann ímyndaði sér sem unglingur þegir Helgi um stund og hugsar málið. „Að hafa fengið tækifæri til að fást við tónlist er náttúrlega algjör gjöf,“ segir hann svo. „Það er engin spurning. Tónlistin er frumafl og tengist auðvitað frumöskrinu og þessi tjáning í gegnum tóna, röddina og síðan hljóðfærin, gefur þér alltaf eitthvað. Ekkert skrýtið að tónlistin sé notuð bæði á sorglegustu og gleðilegustu stundum lífsins. Að hafa fengið tækifæri bæði til að tjá sig í tónlist og vera í kringum tónlistarmenn er bara alveg yndislegt. Þannig að ég þakka fyrir það.“
Og sérð ekki eftir neinu?„Nei, ég get ekki sagt það. Auðvitað vill maður alltaf gera eitthvað betur, en það felst þá meira í einhverjum smáatriðum og ég sé ekki eftir neinu í stóru dráttunum. Alls ekki.“
Hvað er eftirminnilegast, hverju ertu stoltastur af?„Ég bara veit það ekki,“ segir Helgi hugsi. „Ég reyni að horfa meira fram á við heldur en að gleyma mér í fyrri verkum. Ég er mjög stoltur af sólóplötunum mínum tveimur, þar sem ég flyt frumsamið efni. Það er nær manni og maður er kannski á einlægari nótum á þeim.“

Fór út fyrir þægindarammann
Tónlistarferill Helga er ansi víðfeðmur og spannar alls konar tónlistargreinar, var ekkert erfitt fyrir rokkgoðið og kyntáknið Helga Björns að skella sér í hvítan dinner-jakka og fara að syngja lög Hauks Morthens, til dæmis? „Nei, nei, alls ekki. Maður er náttúrlega líka leikari og getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Og þegar maður er farinn að þykkna aðeins um miðjuna færist aðeins meiri ró og æðruleysi yfir mann og maður er ekki eins hégómagjarn og þegar maður var ungur. Ég hafði sungið frumsamin lög í tíu, tuttugu ár þegar ég fór að gera „cover“ af lögum annarra og þá fannst mér ástæða til að leyfa söngvaranum að takast á við smááskoranir. Þar fór ég út fyrir minn þægindaramma og fór að gera alls konar hluti sem síðan reyndust bara rosalega skemmtilegir.“
Skiptir poppstjörnuhlutverkið þá ekki öllu máli þegar upp er staðið? „Sko,“ segir Helgi og dregur djúpt andann. „Ef maður er í þessu starfi á annað borð, vill maður auðvitað að fólk hlusti á mann og hafi áhuga á því sem maður er að gera. En ég gengst ekki upp í því að vera eitthvað ædol. Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni. Ég held að allir listamenn þekki það.“

„Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni.“

Helgi Björns hefur engu gleymt.

Áttu ekki að verða eldri en þrítugir
Hvort sem Helga líkar það betur eða verr þá er hann ædol í rokkbransanum, finnst honum ekkert erfitt að eldast í bransanum? „Ég veit ekki hvort ég er eitthvert ædol,“ segir Helgi, hálfpirraður á þessari spurningu. „Mér finnst enn gaman að koma fram og gera nýja rokktónlist en auðvitað er erfitt að eldast í þessum bransa. Það er engin spurning. Þessi listgrein verður upphaflega til hjá ungu fólki og á fyrstu árum rokksins átti helst enginn að verða eldri en þrítugur, helst ekki eldri en 27. Þá áttu menn bara að stimpla sig út. Þannig að það er ekkert endilega gert ráð fyrir að menn eldist í þessu. Hins vegar eru Stones og fleiri búnir að gefa okkur alls konar dæmi um það að þetta er alveg hægt. Það sem er skrýtið hér í okkar litla samfélagi er að fámennið gerir það að verkum að ef einhver hefur verið fyrir augunum á þér í þrjátíu ár ertu eiginlega búinn að fá alveg nóg af honum, sem er ósköp eðlilegt. Það er alltaf þessi krafa um að fá nýtt fólk inn, nýjar persónur og leikendur til að fylgjast með í fjölmiðlunum. Á móti kemur að þegar þú verður eldri öðlastu meiri virðingu fyrir lífsstarfið, eða þannig er það erlendis, en hér eru allir bara einhvern veginn búnir að fá nóg af þér; kemur hann einu sinni enn … Þetta er stundum svolítið pirrandi en maður skilur forsendurnar á bak við þetta og tekur það ekki nærri sér.“
Það eru greinilega ekki allir búnir að fá nóg af Helga Björns, eins og miðasala á tónleikana á laugardaginn sýnir best. Datt honum í hug þegar hann var 16 ára með poppstjörnudrauma að hann myndi fylla Laugardalshöllina á sextugsafmælinu? „Nei, maður var nú ekkert að spá í það,“ segir Helgi og glottir. „Ég var meira að hugsa um Wembley á þeim tíma. Þannig að ég hef kannski ekki alveg náð takmarkinu.“

Myndir / Hallur Karlsson

Bannað innan 18

|
|
Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Mynd / Lilja Draumland.

Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Þar sýna þau einstaklingsatriði sem spanna allt frá erótík yfir í tragík, fjalla um stafsetningu, latínu, daður og líffræði og einnig verður tæpt á kynfræðslu og undrum mannslíkamans. Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn. Er þetta einhver bölvaður dónaskapur? „Stutta svarið er já,“ segir Ísabella Leifsdóttir, ein úr hópnum, og skellir upp úr. „Þetta er alveg klárlega fullorðinssýning. Aðallega er þetta samt bara ótrúlega hresst og skemmtilegt. Sumt er fyndið, annað rómantískt eða erótískt og jafnvel tragískt. Þetta spannar allan skalann.“

„Við hittumst fyrst á sex vikna burlesque-námskeiði hjá Margréti Maack,“ segir Ísabella. „Eftir það ákváðum við að stofna sýningagrúbbu og fórum að halda sýningar sem í vetur verða einu sinni í mánuði á mismunandi stöðum í borginni svo fólk verður bara að fylgja okkur á Facebook og Instagram ef það vill hafa dag- og staðsetningar á hreinu.“

Að þessu sinni verða eingöngu einstaklingsatriði á sýningunni og Ísabella segir atriðin mjög ólík, auk þess sem þær sem koma fram séu á öllum aldri og hafi mjög misjafna sviðsreynslu. Sumar séu reynsluboltar en aðrar hafi aldrei komið fram opinberlega áður. Sjálf er hún óperusöngkona að mennt, er hún að hugsa að skipta um listform?
„Ég lærði auðvitað leiklist í náminu sem óperusöngkona,“ segir Ísabella. „Burlesqueið er bara svona partur af því að koma fram og hafa gaman, en aðallega er þetta nú áhugamál. Ég held varla að þetta sé framtíðarstarfsgrein hjá mér. Þetta er svo skemmtilegur hópur og við erum ekki að sýna í einhverjum gróðatilgangi heldur að safna okkur fyrir burlesque-ferð til New York til þess að skemmta okkur saman.“

Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn.

Auk hópsins koma fram þau Gógó Starr dragdrottning og Margrét Maack burlesque-drottning Íslands, og svo koma tveir erlendir listamenn við sögu, þær Gal Friday og Cheekie Lane. „Og svo kemur einn leynigestur frá Berlín,“ segir Ísabella leyndardómsfull en neitar að gefa nánari upplýsingar um gestinn. „Gógó er með boy burlesque, mjög flott,“ segir Ísabella. „Og Magga er svona mamman okkar, heldur utan um hópinn og leiðir okkur áfram.“

Sýningin á Hard Rock Café hefst klukkan 21 og miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.

„Við erum enn í sárum“

|
|

Kvikmyndin Utoya 22. juli, sem byggir á frásögnum eftirlifenda voðaverkanna í Útey, verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Aðalleikkonan vonar að myndin verði til þess að atburðirnir gleymist aldrei.

Andrea Berntzen fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld. Mynd / Agnete Brun

Í ár eru sjö ár liðin frá voðaverkunum í Ósló og Útey þegar 77 manns féllu fyrir hendi fjöldamorðingjans og hægri öfgamannsins Anders Breivik, átta í sprengjuárás í stjórnarráðs-hverfinu í Ósló og 69 í skotárás í Útey, þar sem aðalskotmark Breiviks voru sumarbúðir ungra jafnaðarmanna. Í kvikmyndinni Utoya 22. juli eru þessir skelfilegu atburðir rifjaðir upp með augum unglingsstúlkunnar Kaju sem berst fyrir lífi sínu á eynni um leið og hún reynir að bjarga yngri systur sinni. Mannlíf spjallaði við Andreu Berntzen sem fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld.

Utoya 22. juli er fyrsta kvikmyndin sem þú leikur í, hvernig var að taka að sér svona krefjandi fyrsta verkefni? „Sko, þetta er svolítið flókin spurning, því þar sem þetta er einmitt fyrsta myndin sem ég leik í þá fannst mér það spennandi. En út af umfjöllunarefninu var þetta mjög erfitt líka og óhugnanlegt að átta sig á því að ég er núna á svipuðum aldri og krakkarnir voru sem urðu fyrir árásinni. Ég var auðvitað svo ung þegar atburðurnir áttu sér stað, bara 12 eða 13 ára.“

„Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk.“

Manstu vel eftir þeim? „Já, við fjölskyldan vorum að keyra heim úr sumarhúsinu okkar þegar greint var frá sprengjuárásinni í útvarpsfréttum. Ég lagði vel við hlustir þar sem ég kannaðist við staðinn þar sem sprengingin varð. Næsta dag kom í ljós að sami maður bar ábyrgð á morðunum í Útey. Ég var mjög hrædd lengi vel eftir þetta, til dæmis við að vera ein á ferli. Samt er skrítið að segja frá því að þótt ég væri nógu gömul til að átta mig á hvað hafði gerst var það eiginlega ekki fyrr en ég lék í myndinni sem ég virkilega skildi hvað þessir atburðir eru skelfilegir. Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk. Við erum enn í sárum.“

Var tvístígandi við að leika í myndinni
Kvikmyndin byggir á frásögnum eftirlifenda í Útey og Andrea viðurkennir að vegna umfjöllunarefnisins hafi hún verið tvístígandi gagnvart því að taka að sér hlutverkið. Meðal annars af ótta við hvernig unnið yrði úr því og hvaða áhrif það hefði á eftirlifendur og aðstandendur. „Þegar ég fór í áheyrnarprufur vissi ég reyndar ekki um hvað verkefnið snerist. Það var ekki fyrr en í þriðju prufunni sem ég fékk að vita það og þá varð ég smeyk; verulega efins um að ég vildi leika í mynd sem snerist um voðaverkin í Útey. En þegar leikstjórinn sendi mér skilaboð þar sem hann útskýrði að hún kæmi til með að einblína á fórnarlömbin en ekki ódæðismanninn þá snerist mér hugur. Mér fannst sú nálgun einhvern veginn vera rétt til að segja þessa sögu.“

Myndin var að mestu leyti tekin í einni töku og að sögn Andreu voru flestir leikararnir tiltölulega óreyndir. Við komum því aftur að spurningunni í byrjun, það er að segja hvort verkefnið hafi ekki reynt á? „Jú, við vorum heila tvo mánuði að æfa og þar sem ég er ekki menntuð leikkona gat ég til dæmis ekki beitt þeirri tækni sem lærður leikari býr yfir og hefði getað nýtt sér til að nálgast hlutverk Kaju. Þess í stað reyndi ég að setja mig í hennar spor og ímynda mér hvernig ég brygðist við ef alvöruárás yrði gerð. Sumt í tökunum var reyndar óhugnanlega raunverulegt, þótt það sé auðvitað ekkert í líkingu við það sem gerðist í alvörunni.“

Andrea segist einmitt vona að myndin eigi eftir að fá áhorfendur til að skilja betur hvaða helvíti raunverulegu fórnarlömbin upplifðu á Útey og sýni þeim í kjölfarið meiri skilning og samúð en hefur verið gert síðustu ár. „Það eru fórnarlömb sem eru enn að díla við áfallastreituröskun eftir þetta. Krakkar sem er verið að segja við að þau verði að fara að herða sig og lifa eðlilegu lífi, sem er ótrúlega grimmdarlegt að segja. Ég vona að myndin breyti því. Að hún opni augu fólks og verði komandi kynslóðum áminning um það sem gerðist, rétt eins og seinniheimstyrjaldarmyndir veita okkur innsýn í hroðalega hluti. Atburðirnir í Útey mega alls ekki gleymast.“

Mynd / Ole Garbo

Haustlínan blanda af mjúkum og skörpum línum

Starfsfólkið í versluninni Hjá Hrafnhildi leggur metnað sinn í því að veita viðskiptavinum sínum toppþjónustu og fjölbreytt úrval af vandaðri hágæða vöru á sanngjörnu verði. Við heimsóttum verslunina á dögunum og spjölluðum við Ásu Björk Antoníusdóttur, eiganda verslunarinna, um nýjar vörur í tilefni þess að haustið er mætt í fullum skrúða.

 

Margrét Káradóttir verslunarstjóri og Ása Björk Antoníusdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi.

Hvaða vörur eru meðal þeirra vinsælustu þessa dagana hjá ykkur? „Dönsku vörurnar hafa verið sérlega vinsælar undanfarið ekki síst MOS MOSH, PBO og svo BITTE KAI RAND en verslunin Hjá Hrafnhildi hóf að bjóða upp á vörur frá Bitte Kai Rand fyrir tveimur árum við mjög góðar undirtektir og þær vekja mikla hrifningu viðskiptavina okkar.“

Getur þú sagt okkur hver er hönnuður þessa vörumerkis og tilurðina? „BITTE KAI RAND er danskur hönnuður og hefur fatnaður hennar sterka skírskotun í skandinavíska hönnun. Hún stofnaði fyrirtækið 1982 og eru vörur hennar nú seldar í yfir 400 verslunum víðsvegar um heiminn. BITTE KAI RAND byrjaði upphaflega sem prjónafyrirtæki og eru peysur hennar aðalsmerki, úr efnum á borð við merino- eða kasmírull og silki. Síðan þá hefur fyrirtækið þróast og nú samanstendur línan af öllu því helsta sem nútímakonan þarf.“

Verslunin Hjá Hrafnhildi var öll endurnýjuð fyrir rúmlega ári og stækkuð um helming.

Hvers konar fatnaður er þetta helst? ,,Hér er frá undirkjólum til yfirhafna. Hönnunin er þekkt fyrir að vera afslöppuð og elegant. Sniðin eru einföld en oft með smátvisti og ávallt úr vönduðum efnum. Einnig má finna skemmtilega aukahluti; slæður, belti, hanska og hatta sem hjálpa til við að ná þessari skemmtilegu stemningu sem BITTE er þekkt fyrir. BITTE-konur, eins og við köllum þær, eru konur með stíl og sterkan karakter. Þeim líður vel í eigin skinni og eru óhræddar við að klæðast því sem hugurinn girnist. Þær vita hvað þær vilja og velja oft að kaupa sér færri en vandaðri flíkur sem eldast vel. BITTE KAI RAND er með sex fatalínur á ári sem samanstanda alltaf af vönduðum, tímalausum grunnflíkum og einhverju spennandi sem fangar augað. Það geta verið skemmtilegir litir, framúrstefnuleg snið eða áhugaverð og skemmtileg mynstur á flíkunum. Öll mynstur eru sköpuð innanhúss og því engar líkur á að finna sambærilegar flíkur frá öðrum framleiðendum.“

„BITTE-konur, eins og við köllum þær, eru konur með stíl og sterkan karakter.“

Haustlínan er að detta í hús hjá ykkur, getur þú sagt okkur aðeins frá henni? „Haustlínan frá BITTE KAI RAND er undir áhrifum frá jörðinni sjálfri og litadýrð náttúrunnar. Haustlínan er blanda af mjúkum og skörpum línum og blandast saman stífar skyrtur og stílhreinir jakkar, jafnvel í sterkum litum við létta og rómantíska kjóla og blússur úr silki og mjúkum litum. Það er gaman að segja frá því að ein af haustlínunum þeirra heitir Iceland og er Ísland notað sem innblástur í þeirri línu. Litaþemað er blanda af mjallahvítu, gráu og skærbláu sem eru einmitt litir sem íslenskar konur hafa jafnan hrifist af. Glitrið í peysunum tákna snjótoppana á annars nöktum fjallstindum.“
Verslunin Hjá Hrafnhildi var öll endurnýjuð fyrir rúmlega ári og stækkuð um helming. „Það er því sérstaklega gaman núna að stilla út nýja fatnaðinum því hann er algjört augnakonfekt,“ segir Ása Björk og er alsæl með útkomuna.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Hjá Hrafnhildi. 

Myndir / Unnur Magna

 

Fallegt bros og einstök upplifun í Búdapest

Valþór Sverrisson býður upp á tannlæknaferðir til Búdapest í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical.

Valþór Sverrisson sem meðal annars rekur verslunina 24iceland við Laugaveg 51 ætlar að bjóða upp á nýjung í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical, ferðir til Búdapest sem ekki hafa áður sést á markaðinum hér heima. Búdapest er afar sjarmerandi borg sem iðar af lífi auk þess sem menningarlífið er með fjörugasta móti. Hún hefur gjarnan verið nefnd matarkista Evrópu og stendur á himneskum stað. Einnig er borgin þekkt fyrir að vera mjög spennandi verslunarborg og verðið mjög hagstætt. En það er fleira sem borgin hefur upp á að bjóða. Viðfórum því á stúfana og hittum Valþór og spurðum hann spjörunum úr.

Segðu okkur aðeins frá ferðunum sem fram undan eru til Búdapest? „Í undirbúningi er að bjóða upp á hópferðir til tannlæknis í Búdapest. Um er að ræða vikuferðir þar sem gist verður á fjögurra stjörnu hóteli í hjarta borgarinnar. Þetta er gert í samvinnu við tannlæknastofu í Búdapest sem býður upp á fyrsta flokks þjónustu. Stofan hefur margra ára reynslu og þar er mikið fagfólk að störfum. Væntanlegir viðskiptavinir munu byrja á því að fara í skoðun og í framhaldi fær það áætlun frá tannlækni sem inniheldur tímaplan viðgerða og kostnað.“ Valþór vill endilega að viðskiptavinir nýti ferðina í menningarlegum tilgangi og fái tækifæri til að upplifa hvað borgin hefur upp á að bjóða. „Búdapest er stórkostleg borg og mikið að sjá og gera. Hún er stundum kölluð París austursins. Á milli þess sem fólk er í tannlæknastólnum, ætlum við að bjóða upp á skoðunarferðir, þar sem fólk getur kynnt sér hina magnþrungnu sögu borgarinnar. Við heimsækjum einhver af hinum heimsfrægu baðhúsum borgarinnar. Svo er auðvitað ungversk matar- og víngerð kapítuli út af fyrir sig. Þetta verður því nokkurs konar blanda af fallegu brosi og skemmtilegri upplifun. Þess má líka geta að í fyrstu tveimur ferðunum verður hinn rómaði jólamarkaður opinn og þá er tilvalið að klára jólagjafainnkaup ársins þar sem allt er töluvert ódýrara þar en heima.

Hvernig verður fyrirkomulagið og ferðatilhögun á ferðunum?„Innifalið er beint flug, gisting á fjögurra stjörnu hóteli og rúta á milli flugvallar og hótels. Auk þess verður Petra Dögg Þórðardóttir, fararstjóri hjá Tripical, til halds og trausts. Hún mun ásamt ungverskum tengilið sjá um skoðunarferðir og utanumhald. Fyrsta ferðin verður farinn 24. nóvember til 1. desember og önnur ferðin er fyrirhuguð 4. desember til 11. desember. Þá gefst fólki tækifæri á að lengja ferðina, ef áætlun frá tannlækni er til dæmis tíu dagar. Miðvikudaginn 12. september næstkomandi verður haldinn kynningarfundur í Tripical í Borgartúni klukkan 20. Þá munu starfsmenn Tripical fara yfir ferðina og ég mun segja frá minni upplifun af ferðinni minni þangað. Einnig er hægt að fara inn á Tripical.is og bóka ferð. Færri komast að en vilja.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Tripical.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Bláber munu vaxa á þökum

Gríðarleg uppbygging hefur verið í Dalskóla í Úlfarsárdal og umhverfi hans. Skólinn blómstrar þessa dagana og nemendur vaxa og dafna þar sem fjölbreyttir starfshættir eru hafðir að leiðarljósi. Við hittum á dögunum Hildi Jóhannesdóttur skólastjóra og fengum innsýn í skólastarfið og umhverfi hans í þessu einstaka umhverfi Úlfarársdals.

Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri með nemendum við skólann.

Segðu okkur örlítið frá skólastarfinu í Dalskóla. „Dalskóli leggur áherslu á að öllum líði þar vel, að börnin okkar fái að dafna, nema og blómstra. Skólinn er samrekinn leik-, grunn og frístundaskóli sem byggir á fjölbreyttum starfsháttum í hverri stoð hans. Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Lögð er áhersla á þemabundna smiðjuvinnu þar sem samþætting námsgreina og námssviða á sér stað innan árganga og á milli árganga í hluta starfsins. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði. List er kennd listarinnar vegna og aðferðum listgreina er beitt í smiðjustarfi samofið bóknámsgreinum. Skólinn ræktar lærdómsmenningu meðal starfsmanna og við erum að innleiða leiðsagnarnám í kennslustundum í grunnskólahluta skólans. Í leikskólahluta skólans er börnum gefið tækifæri til þess að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi og er leikurinn og uppgötvunarnámið það sem gengið er út frá. Í frístundahluta skólans er barnalýðræði gert hátt undir höfði ásamt samtakamætti og gleði.“

Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði.“

Nú er mikil uppbygging í kringum skólann, getur þú aðeins sagt okkur frá uppbyggingunni sem fram undan er? „Það er mikið starf í gangi til þess að búa hverfinu góðan kjarna. Í þessum kjarna fyrir botni dalsins rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir. Aðstaða fyrir tónlistarnám verður góð og  hátíðarsalur verður staðsettur miðja vegu í húsinu. Samtengt kjarnanum austan megin mun rísa íþróttahús en Fram er hverfisfélagið okkar og verður aðstaðan þar til mikillar fyrirmyndar. Nú þegar eru komnir góðir sparkvellir sem eru vel nýttir alla daga.  Haustið 2010 tókum við í notkun fyrsta áfangann í þessari miklu uppbyggingu en það er mjög vel heppnað leikskólahúsnæði, þar starfa í dag 100 börn á aldrinum tveggja  til fimm ára.“

Haustið 2016 var tekinn í notkun fyrsti áfangi nýja skólahúsnæðisins og á næstu dögum verður næsti áfangi þess húsnæðis afhentur. „Þennan veturinn munu nemendur í 4. bekk og upp úr starfa í Móanum okkar en nýja húsnæðið fékk það gælunafn á sínum tíma. Í Hlíðinni, sem er gælunafn fyrir lausu kennslustofurnar okkar, verða nemendur í 1.-3. bekk í vetur, auk list- og verkgreina. Næsta haust mun langþráður draumur rætast þegar skólahúsnæðið verður afhent og skólinn kemst undir eitt þak, undir eitt fallegt þak þar sem birta mun flæða niður í húsnæðið okkar og bláber vaxa á þökum.“

Fyrir botni Úlfarsárdals rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir.

Hvað laðar fjölskyldufólk að Úlfarsárdal? „Þetta eru síðustu hlíðarnar innan borgarmarkanna sem snúa í suður, ef Esjuhlíðar eru frátaldar. Maður sér fyrir sér afskaplega hlýlegt og fallegt hverfi þegar gróðurinn nær að potast upp. Þessar hlíðar eru í útjaðri borgarinnar, stutt í náttúruna, stutt í góða þjónustukjarna. Á Höfðanum og hér í kring eru mjög mikilvæg þjónustufyrirtæki og fólk þarf ekki að fara niður í bæ nema til hátíðarbrigða. Það er líka jákvætt að það er mjög stutt að fara út úr bænum, en hér í dalnum okkar er margar útivistar-, sumarbústaða- og fjallgöngufjölskyldur. Það að taka þátt í að byggja upp nýtt hverfi er forréttindaverkefni fyrir alla sem í dalnum búa. Fólkið á hverfið og fólkið hér stendur mjög vel saman. Vinarþel ríkir á milli manna og ég held að leitun sé að jafngóðu stuðningsliði við skólastarf eins og hér. Við höfum verið án húsnæðis í mörg ár og hvernig foreldrar hafa með ráðum og dáð verið okkar bakhjarlar er ómetanlegt,“ segir Hildur og er full tilhlökkunar.

Eru samgönguleiðir góðar og öruggar? „Skólinn er í botni dalsins og má segja að allar ár renni til skólans. Úlfarsbrautin sem liggur hér samsíða skólanum er hugsanlega hættulegasta braut dalsins að því leyti að til hennar liggja allar götur og allir stígar. Yfir hana liggja gangbrautir og dalbúar fara hér ofur varlega en brautin er hægakstursbraut. Það er ljóst að umferð mun vaxa við hana í framtíðinni þegar allt er fullbyggt og Fram verður komið með sína íþróttaaðstöðu í gagnið. Auðvitað munum við, í samvinnu við borgina, halda áfram að gera þetta hverfi öruggt og tryggt hvað öll ferlimál snertir. Þannig er það hannað.“

 

Margrét Stefánsdóttir lét draum rætast

Leið blaða­manns og ljósmyndara lá á Álftanes einn fallegan föstudag og þar sem við vorum að bera ljósmyndagræjurnar úr bílskottinu stálu nokkur hross sem virtust vera í bakgarði hússins athygli okkar og einnig dásamlegt útsýni sem náði eins langt og augað eygði. Þetta lofaði góðu; nýmóðins hús í sveitaumhverfi. Við hringdum bjöllunni og Margrét Stefánsdóttir mætti léttfætt til dyra og bauð okkur í bæinn.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar
Margrét bauð okkur kaffi en hún er kunnuglegt andlit úr mörgum áttum, hún var til að -mynda fréttakona á Stöð 2 um árið, svo var hún upplýsingafulltrúi hjá Símanum og nú síðast markaðsstjóri hjá Bláa lóninu til loka árs 2016. Margrét segir okkur að nú sé nýtt tímabil runnið upp, síðustu misserin hafi hún verið að end-ur-meta hvað hún vilji gera.

MyName My-Story verk.

,,Mér finnst hafa verið kærkomið að taka tíma í að sinna fjölskyldunni og áhugamálum og bara aðeins að anda og -hugsa mig um,“ segir Margrét. Svo virðist það alltaf vera þannig að þegar einar dyr lokast gal-opnast aðrar og Margrét er farin inn um þær því hún hefur nú stofnað fyrirtæki. MyName My-Story heitir það og gengur út á að gleðja fólk hvar sem er í heiminum með persónulegum verkum en undirstaða þeirra verka er nafn og mikilvægt skjal; fæðingarvottorð, -sónarmynd, giftingar-vottorð, samningur eða annað. Hugmyndin hjá -Marg-réti er að með þessum persónulegu verkum sem hún hannar sé þessum merkilegu pappírum, sem oft eru geymdir í lokuðum skúffum eða í kössum í geymslunni, haldið í heiðri. Hugmyndin er falleg og Margrét sækir sýnishorn; verk sem hún er búin að vera að vinna, það er sónarmynd með bókstöfum barnsins sem raðað grafískt á myndina með fínlegu letri. Hún sýnir okkur líka fæðingarvott-orð tveggja dætra sinna sem eru komin á glæra ramma í herbergjum þeirra.

Stríðinn bróðir upphafið
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig það kom til að Margrét fór út í þetta? ,,Sem krakki skrifaði ég oft nafnið mitt svona; með því að skrifa hvern staf ofan á næsta. Svo á ég bróður sem fannst ekkert leiðinlegt að stríða mér og ef ég var skotin í einhverjum strák skrifaði ég nafnið hans sakleysislega með þessum hætti því þá gat enginn lesið það. Mörgum árum seinna fór ég svo á nokkur myndlistarnámskeið og var þá að leika mér bæði með olíu- og akrýlliti og þessa hugmynd og það er eiginlega upphafið að þessu. Þá vann ég með mismunandi liti fyrir hvern bókstaf og útkoman var skemmtileg. Ég málaði á striga eða pappír og hver litur þurfti alltaf að þorna á milli en svo kom þessi hugmynd að nota hvítan, hreinan bakgrunn, svart letur og hafa verkin meira grafísk. Mig langaði líka að hafa þessa dýrmætu pappíra eins og fæðingarvottorð dætranna uppi við og fannst of hefðbundið að setja þau bara beint í ramma.“

Fluttu inn í draumahúsið í hruninu
Og þá að húsinu og þessu notalega heimili. Margrét segir að þau hjónin hafi keypt húsið árið 2008 og flutt inn þetta eftirminnilega haust þegar þjóðin varð fyrir efnahagshruni. ,,Við bjuggum áður í Kópavogi og okkur langaði í eign á einni hæð með útsýni, það var draum-urinn. Við vorum heillengi að skoða í kringum okkur og vorum ekki endilega á leiðinni á Álftanes en við eigum vini sem búa hérna og þau hvöttu okkur eindregið að flytja hingað sem varð úr og við sjáum ekki eftir því,“ svarar hún sæl í ,,sveitinni“ sinni. Hún segist samt ekki endilega vilja búa þarna þegar dæturnar verða farnar að heiman, hvenær svo sem það verður: ,,Þá flytjum við örugglega bara í miðbæinn,“ segir hún brosandi.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Sá sem skuldar ríkisbönkunum mest

Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, oftast kenndur við Brim, er sá einstaklingur sem er með mest undir, þegar kemur að skuldum við íslensku ríkisbankana, Landsbankann og Íslandsbanka.

Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur hafi verið rússíbanareið hjá Guðmundi en hann stýrir nú stórveldi í íslenskum sjávarútvegi. Titringur hefur þó verið innanhúss hjá HB Granda síðan hann tók við stjórnartaumunum og deilur við meðhluthafa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum viðvarandi. Frekari vöxtur og hagræðing er í kortunum hjá HB Granda.

Viðskiptaveldi Guðmundar er eitt þeirra sem stóð höllum fæti eftir hrunið, svo ekki sé meira sagt. Skuldir voru langt umfram eignir.

Óhætt er að segja tiltektin á fjárhag þeirra félaga hafa dregið dilk á eftir sér, þar sem hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti 25. júní síðastliðinn að leggja fram rannsóknarbeiðni á næsta hluthafafundi Landsbankans, sem beinist að því hvernig á því stendur að Guðmundur og félög hans hafi fengið milljarða afskrifaða hjá bankanum – og fengið að kaupa útgerðarfélagið Brim á 205 milljónir króna út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu.

Á sama tíma hafa lánveitingar til hans aukist um tugi milljarða og umsvifin sömuleiðis. Guðmundur stendur nú eftir með fulla vasa fjár – og miklar skuldir – og við stýrið hjá HB Granda eftir að hafa keypt stóran hlut í félaginu fyrir háar upphæðir fyrr á þessu ári, en í tilkynningu til kauphallar hefur verið boðaður frekari vöxtur félagsins.

Ítarleg fréttaskýring birtist í Mannlífi dagsins og á Kjarnanum.

Íslenskar konur bíða enn eftir skaðabótum vegna PIP-brjóstapúða

|
|

Rúmlega tvö hundruð íslenskar konur unnu hópmálssókn á hendur þýsku fyrirtæki í PIP-brjóstapúðamálinu í fyrra. Aðeins hluti skaðabóta hefur skilað sér. Lögmaður kvennanna segir allt að tvö ár í málalyktir.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.

Um 200 íslenskar konur sem höfðu betur í skaðabótamáli fyrir frönskum dómsstólum gegn þýska eftirlitsfyrirtækinu TÜV Rheinland í PIP-sílikonpúðamálinu svokallaða bíða enn eftir að fá megnið af þeim bótum sem þeim voru dæmdar í fyrra. Hluti bótanna var greiddur í fyrrahaust. Lögmaður TÜV Rheinland áfrýjaði málinu og er útlit fyrir að endanleg niðurstaða í málinu geti dregist í eitt til tvö ár til viðbótar við þau ár sem málið hefur tekið.

„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár. Ef endanleg niðurstaða kemur fyrr, er það auðvitað frábært en aðalatriðið er að hún verði íslenskum konum í hag,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.

Aðeins fengið brot af bótum
Talið er að um 300.000 konur í 65 lönd¬um um allan heim hafi fengið gallaða brjósta¬púða frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prosthése (PIP). Þar á meðal voru um 400 íslenskar konur sem fengu púðana á árunum 2000 til 2010. Sextán þúsund konur létu fjarlægja púðana eftir að upp komst að iðnaðarsílikon var notað við gerð þeirra og hafði þá þegar valdið hluta þeirra heilsutjóni.
Um mitt ár 2015 hófst aðalmeðferð í máli um 9.000 kvenna og 204 frá Íslandi gegn TÜV Rhein¬land en fyrirtækið veitti PIP vottun um að púðarnir stæðust evrópskar kröfur. Í dómi gegn fyrirtækinu kom fram að fyrirtækið hafi vanrækt skyldur sínar um eftirlit og árverkni. Þetta er stærsta dómsmál í franskri réttarsögu og er því hvergi nærri lokið.
Meðalbætur sem hver kona átti að fá nam um tveimur milljónum króna. Konurnar fengu einungis brot af dæmdum bótum í fyrra eða um 3.000 evrur, jafnvirði 386 þúsund íslenskra króna. Frá innborguninni voru dregnar 500 evrur í málskostnað og stærsti hluti íslenskra kvenna lét að auki draga 500 evrur í matskostnað. Fengu konurnar því til sín milli 2.000 og 2.500 evrur eða 250.000 – 313.000 krónur hver.

„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár.“

Biðin orsakast af umfangi málsins
Saga segir biðina skýrast af umfangi málsins en vekur athygli á því hversu frábrugðnir franskir dómstólar eru þeim íslensku. „Réttarkerfið í Frakklandi er mjög ólíkt því sem maður þekkir hér og maður verður að aðlaga sig að því. En það verður einnig að hafa hugfast að ferlið í þessu máli er án efa frábrugðið hefðbundinni málsmeðferð í Frakklandi vegna umfangs þess. Þetta getur reynt á þolinmæðina hjá íslenskum konum sem eru aðilar að málinu, eðlilega, og auðvitað hjá okkur lögmönnunum,“ segir hún og bætir við að málinu hafi verið frestað mjög oft hjá frönskum dómstólum. Lögfræðingar hafi ítrekað farið í dómshúsið til að vera viðstaddir dómsuppsögu en fengið þær upplýsingar að málinu hafi verið frestað. Alveg þar til dómur var á endanum kveðinn upp.

PIP-brjóstpúðamálið í hnotskurn

2010

Mars: Frönsk stofnun sem hefur eftirlit með lækningatækjum bannar markaðssetningu, dreifingu, útflutning og notkun á sílikonbrjóstapúðum sem franska fyrirtækið Poly Implant Prosthése framleiðir. Ástæðan eru ýmis frávik, svo sem leki úr púðunum.

Apríl: Tilkynnt að framleiðandi brjóstapúðanna hafi notað iðnaðarsílikon, annað en vottað hefur verið við framleiðsluferlið.

2011

Desember: Franska eftirlitsstofnunin segir grun leika á að PIP-púðarnir tengist auknum líkum á krabbameini. Það er dregið til baka nokkrum dögum síðar. Lyfjastofnun á Íslandi greinir frá því að hún fylgist með málinu. Frönsk heilbrigðisyfirvöld gefa út tilmæli um að konur með PIP-brjóstapúða láti fjarlægja þá í forvarnarskyni.

2012

Febrúar: Vísindanefnd Evrópuráðsins segir PIP-púðana innihalda iðnaðarsílikon og vísbendingar um að þeir rofni frekar en brjóstapúðar annarra framleiðenda. Velferðarráðuneyti og Embætti landlæknis mæla með því að öllum konum með PIP-brjóstapúða verði boðið að láta fjarlægja þá, hvort sem þeir væru rofnir eða heilir.

2013

Nóvember: Úrskurðað að TUV Rhein­land hafi vanrækt skyldur sínar. Dreifingarfyrirtæki víða um heim fara í mál við TUV og krefjast milljarða í bætur.

Desember: Jean-Clau­de Mas, stofn­andi og eig­andi PIP-brjósta­búðafram­leiðand­ans, dæmdur í fjögurra ára fang­elsi fyr­ir svik og til greiðslu sektar. Fjórir framkvæmdastjórar PIP eru líka fundnir sekir um svik og hljóta dóma.

2015

Júlí: Aðalmeðferð hefst í undirrétti í Frakklandi í máli um 9.000 kvenna gegn TÜV Rhein­land.

 2017

Janúar: Undirréttur dæmir konunum bætur.

September: Konurnar fá innborgun bóta upp á 3.000 evrur.

Reykjavík Meat, nýtt og spennandi veitingahús

Reykjavík Meat er glænýr og áhugaverður staður á Frakkastíg 8 en þar er, eins og nafnið gefur til kynna, aðaláherslan á góðar og verulega safaríkar steikur.

Rekstraraðilarnir eru þeir sömu og eiga Mathús Garðabæjar en það er Víðir Erlingsson yfirkokkurinn sem heldur um taumana í eldhúsinu. Maturinn er eldaður og grillaður á kolum sem gefur matnum einstaklega gott bragð. Hráefnið er líka fyrsta flokks en megnið af kjötinu er frá Kjöt Company og úrvalið af nautakjöti er gott og svo er boðið upp á lamb.

Einnig er boðið upp á svokallað „sashi”-kjöt eða marmarakjöt sem er sérstaklega innflutt frá Danmörku og Reykjavík Meat er með einkaleyfi á. Þeir sem ekki eru fyrir kjöt geta andað léttar því hægt er að fá góða fisk- og grænmetisrétti sem líka eru eldaðir á kolum og gæla við bragðlaukana.

Um síðustu helgi bauð Reykjavík Meat í smökkunarpartí þar sem boðsgestum var boðið að koma og smakka gómsæta rétti á matseðlinum, lyfta glasi og hlusta á skemmtilega tónlist. Mannlíf var á staðnum og myndaði stemninguna og veislugesti. Við óskum Reykjavík Meat innilega til hamingju með þennan nýja og áhugaverða stað sem óhætt er að segja að sé kærkomin og skemmtileg viðbót við veitingahúsaflóruna á Íslandi.

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritstjóri Gestgjafans og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, aðstoðarútgáfustjóri Mannlífs skemmtu sér konunlega.

 

„Stolt af fangavistinni“

||||
||||

Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar hafa búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið. Þótt Hjördís sé ánægð með þennan mikilvæga áfanga finnst henni erfitt að fagna, því eftir sitji að svo margir hafi brugðist börnunum hennar. Kerfið og regluverkið standi ekki með börnum og margir glími við svipuð mál og þau máttu þola.

Þegar Hjördís flúði með dætur sínar til Íslands, með leiguflugi í skjóli nætur, hafði danskur dómstóll dæmt að hún og danski maðurinn, sem hún var í forsjárdeilu við, hefðu sameiginlega forsjá yfir dætrunum og búsetu hjá honum. Hjördísi hafði gengið illa að fá umgengni við stúlkurnar þar sem maðurinn hindraði samskipti. Hjördís kærði og fékk að hitta dæturnar í kjölfarið. Fyrir lá að tekið yrði fyrir dönskum dómstólum mál þar sem maðurinn sótti um fullt forræði yfir dætrunum. Þrátt fyrir að hafa undir höndum áverkavottorð um meint ofbeldi gegn dætrunum og tilkynningu frá leikskóla í Danmörku til félagsmálayfirvalda og lögreglu um meint ofbeldi vissi Hjördís að hún ætti litla möguleika í málinu. Hún var þegar orðin sakamaður í augun danskra stjórnvalda þar sem hún hafði tvisvar áður farið með dæturnar án leyfis mannsins til Íslands. Í fyrra skiptið hlýddi hún úrskurði íslenskra dómstóla og fór sjálfviljug með dæturnar til Danmerkur eftir að maðurinn kærði brottnámið. Í seinna skiptið neitaði hún og dæturnar voru teknar af henni með valdi þann 29. júní 2012 þar sem meðal annars víkingasveitin var tilkvödd. Þá var búið að lofa að taka þær ekki ef maðurinn kæmi ekki á staðinn. Maðurinn mætti ekki en stúlkurnar voru samt teknar og vistaðar hjá vandalausum í tvo sólarhringa. Ári síðar viðurkenndi Innanríkisráðuneytið að börnin hefðu verið tekin með ólögmætum hætti.
Hjördís ákvað því að taka örlög dætra sinna í eigin hendur haustið 2013 og flúði með börnin frá Danmörku en flóttanum og málinu öllu voru gerð ítarleg skil í íslenskum fjölmiðlum. Hjördís keyrði í 20 klukkustundir áður en hún kom á stað í Skandinavíu þar sem hún fór huldu höfði í fimm vikur. Hún var ekki með síma, sendi ekki tölvupósta og notaði ekki samfélagmiðla. Með hjálp föður síns og fleiri sem söfnuðu fé til að sækja þær með leiguflugvél komust mæðgurnar til Íslands. Stuttu seinna var manninum dæmt fullt forræði yfir stúlkunum og þær því algerlega í dönsku kerfi auk þess sem hann var með vegabréf þeirra. Maðurinn kærði brottnámið og sótti um að stúlkurnar yrðu tafalaust fluttar aftur til Danmerkur í beinni aðfarargerð. Héraðsdómur dæmdi honum í vil og Hjördís áfrýjaði til Hæstaréttar. Hæstiréttur sneri dómnum hins vegar og börnin urðu því áfram á Íslandi, að því er virðist vegna formgalla á kæru mannsins. Þegar úrskurður Hæstaréttar féll var búið að handtaka Hjördísi og hún sat í dönsku fangelsi. Dæturnar voru í umsjá móður hennar og systkina á Íslandi.

„Þessi dómur Hæstaréttar var mikill léttir en yfir vofði að maðurinn færi í annað mál og krefðist þess að fá börnin afhent,“ segir Hjördís blátt áfram og vílar ekki fyrir sér að rifja málið upp. „Eftir að ég lauk afplánun lét ég lítið fyrir mér fara, naut hvers dags sem við vorum saman og við lifðum eins eðlilegu lífi og unnt var. Þar sem dæturnar voru með lögheimili í Danmörku voru þær ekki með sömu réttindi og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Þær voru ekki tryggðar og þurftu til dæmis að greiða fullt verð fyrir alla læknisþjónustu, þær fengu ekki frístundastyrk og ég fékk engar barnabætur, svo eitthvað sé nefnt. Elsta dóttir mín gat ekki farið með körfuboltaliðinu sínu til útlanda þar sem stúlkurnar voru ekki með vegabréf. Eins og í svo mörgu var verið að brjóta á rétti þeirra með því að leyfa þeim ekki að njóta sömu réttinda, en við gerðum allt til að láta hlutina ganga upp. Þetta voru smámunir í samanburði við það sem á undan hafði gengið og engin ástæða til að rugga bátnum með því að sækja rétt þeirra. Þannig að svona var þetta þangað til að ég fékk forræðið og búsetuna til mín í maí síðastliðnum.“

„Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki.“

Hjördís Svan segist ekki hafa hikað við að brjóta lögin til að bjarga börnunum sínum úr ömurlegum aðstæðum. Hún myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti.

Samþykkti að biðja aldrei um peninga
Í byrjun þessa árs voru tæplega fimm ár liðin og lögmaður Hjördísar, Kristín Ólafsdóttir, ráðlagði henni að prófa að sækja um forræði. „Ég fór hefðbundna leið og mætti hjá Sýslumanni í svokallaða sáttameðferð. Maðurinn mætti ekki og sýslumannsembættið gaf þá út sáttavottorð sem gefur mér leyfi til að leita til dómstóla. Lögmaður minn útbjó stefnu þar sem ég sóttist eftir forræðinu og ég þurfti að láta þýða stefnuna yfir á dönsku. Taka átti málið fyrir í byrjun maí en maðurinn svaraði stefnunni með samningi þess efnis að ég fengi forræðið og búseturéttinn og að ég gæti aldrei krafist peninga af hans hálfu ef dæturnar vanhagaði um eitthvað. Ég samþykkti þennan samning. Þetta var auðvitað mjög stór stund í lífi okkar, eitthvað sem við höfðum beðið lengi eftir en á sama tíma voru þetta ljúfsár tíðindi þar sem sömu mistökin eru gerð trekk í trekk og af sama fólki. Það hefur ekkert breyst í barnaverndarmálum, börn eru neydd í umgengni við ofbeldisfulla feður, Danir og fleiri lönd í Evrópu halda áfram að dæma mæður eins og mig í fangelsi fyrir að verja börn sín fyrir ofbeldi,“ segir Hjördís.
Hún gagnrýnir að konur sem búið hafi við ofbeldi neyðist til að sitja sáttafundi með ofbeldismanninum hjá sýslumanni án þess að mega hafa lögmann eða annan stuðningsaðila viðstaddan. „Það verður að hugsa til þess að konur sem yfirgefa ofbeldi eru oft að niðurlotum komnar andlega og líkamlega, hafa kannski búið við ofbeldi í mörg ár og hafa ekkert sjálfstraust. Ofbeldismenn eiga það til að viðhalda ofbeldinu árum saman þrátt fyrir að konan hafi yfirgefið þá en það geta þeir meðal annars gert í gegnum kerfið. Það krefst mikils styrks að yfirgefa ofbeldismann og ekki sjálfgefið að niðurbrotnar konur hreinlega geti það. Konur sem reyna að verja börn sín fyrir ofbeldi eru dæmdar til að greiða dagsektir. Þeim er alveg sama þótt þær verði gjaldþrota því þegar velferð barna þeirra er í fyrirrúmi skipta peningar engu máli. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki. Þá hefði ég ekki verið úthrópuð í fjölmiðlum og kommentakerfum. Þá hefði ég ekki þurft að heyra fólk segja að þar sem maðurinn er ekki dæmdur hljóti ég að vera að ljúga og þá hefði ég ekki verið kölluð hin alræmda tálmunarmóðir, orð sem einstaklingar nota til að gera lítið úr konum sem tjá sig um ofbeldi. Konur hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveða að fara, réttarkerfið er ekki fyrir þolendann heldur fær gerandinn allt of oft að njóta vafans. Ég veit um börn sem eiga eftir að leita réttar síns þegar þau hafa aldur til og ætla í mál við íslenska ríkið fyrir að neyða þau í samvistir með einhverjum sem beitti þau ofbeldi, þrátt fyrir að til væru gögn sem sönnuðu það.“

„Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk.“

Fékk eitt símtal eins og í bíómyndunum
En hverfum aftur að atburðarásinni eftir flóttann 2013, athæfinu sem Hjördís var handtekin fyrir og fangelsuð. „Fljótlega eftir heimkomuna byrjuðu stelpurnar í skóla þar sem þeim var vel tekið af kennurum og nemendum, þær fóru að æfa körfubolta eins og stóri bróðir þeirra og fundu sig vel í þeirri íþrótt. Þó að við reyndum að lifa venjulegu lífi vorum við oft hræddar. Stelpurnar fylltust hræðslu þegar þær sáu lögreglubíl sem er ekki skrítið miðað við aðgerðirnar þegar þær voru teknar með valdi af einkennisklæddum lögregluþjónum. Einu sinni fékk ég símtal frá dóttur minni þar sem hún sagðist hafa séð konuna sem var svo reið þennan dag þegar þær voru teknar, hún var þá að tala um fulltrúa sýslumanns Kópavogs,“ segir Hjördís.
Fljótlega sendu dönsk yfirvöld norræna handtökuskipan á hendur Hjördísi og fóru fram á framsal. Að sögn Hjördísar var lögð mikil harka í að beiðninni yrði framfylgt. „Lögmaður minn varðist mjög vel og náði að fresta afhendingu minni í marga mánuði en ég var alltaf dæmd í farbann. Lögmaður minn sýndi fram á að hægt væri að neita afhendingu vegna mannúðarsjónarmiða en yrði ég send til Danmerkur væru börnin mín foreldralaus,“ segir Hjördís.
Meðan Hjördís var í farbanni þurfti hún að tilkynna sig á lögreglustöðinni alla virka daga og gerði það samviskusamlega. „Einu sinni þegar við fjölskyldan vorum að borða kvöldmat mundi ég að ég hafði gleymt að tilkynna mig. Ég brunaði á lögreglustöðina við Grensásveg en hurðin var læst svo ég bankaði. Sem betur fer sá mig einhver og hleypti mér inn. Ég lagði mig fram við að leyna áhyggjum mínum og kvíða fyrir börnunum. Þeim leið vel og dætur mínar blómstruðu í skóla og íþróttum. Við voru einstaklega heppin með kennarana þeirra sem vissu um málið og héldu sérstaklega vel utan um þær. Ég á líka einstaka fjölskyldu og vini sem gengu með mér í gegnum eld og brennistein sem og frábæra lögmenn þau Kristínu Ólafsdóttur og Hrein Loftsson frá Lögmönnum Höfðabakka og Thomas Michael Berg sem var lögmaður minn í Danmörku. Þessu fólki fæ ég seint fullþakkað. Einnig voru margir sem ég þekkti ekki neitt sem buðu fram hjálp sína, ómetanlegt.“
Í febrúar 2014 var hins vegar ákveðið að verða við óskum danskra yfirvalda og Hjördís var framseld til Danmerkur. „Eftir að barnaverndarstofa fór að skipta sér af málunum breytti ríkissaksóknari ákvörðun sinni á einni nóttu,“ fullyrðir Hjördís. „Haldinn var fundur með lögreglu og barnaverndarstofu, fundur sem lögmenn mínir fengu ekki að vita af. Íslensk yfirvöld hafa sjaldan framselt íslenska ríkisborgara, ég held að ég hafi verið númer þrjú,“ segir Hjördís.
Hún mætti á lögreglustöðina við Grensásveg og var ekið út á Keflavíkurflugvöll af alþjóðadeild lögreglunnar. Þar var hún vistuð í fangaklefa og danskir lögreglumenn fylgdu henni í flugið til Danmerkur. „Þegar við lentum á Kastrup var sagt við mig: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ eða „Hjördís Svan, þú ert handtekin.“ Við tók þriggja klukkustunda akstur til ríkisfangelsisins í Horsens en þar var ég sett í lítinn og ógeðslegan klefa með litlum bedda. Daginn eftir var ég leidd fyrir dómara sem dæmdi mig í farbann og ég ætti að tilkynna mig daglega á lögreglustöðina. Ég var svo heppinn að eiga góða frænku og mann hennar að í Horsens sem ég gat verið hjá. Daginn eftir vaknaði ég frekar kvíðin en ákvað að drífa mig að tilkynna mig á lögreglustöðinni. Afgreiðslumaðurinn svaraði mér ekki þegar ég tilkynnti mig heldur gekk á bak við og kom til baka ásamt tveimur lögreglumönnum sem sögðu aftur: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ en þá hafði ákvörðuninni um farbannið verið áfrýjað. Eins og í bíómyndunum mátti ég fá eitt símtal, ég hringdi í pabba til þess að biðja hann um að hafa samband við danska lögmanninn minn.
Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk. Ég fékk ekki að láta frænku mína og mann hennar vita að ég hefði verið handtekin og fékk ekki að fara heim til þeirra til að sækja fötin mín. Ég var í íslensku lopapeysunni minni og í rauðum gúmmístígvélum, man það vegna þess að meðfangar mínir sögðu mér seinna hvað þeim fannst skrítið þegar ég birtist í þessum klæðnaði, alls ekki með útlit hins hefðbundna fanga,“ rifjar Hjördís upp.

„Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis.“

Lærði að komast af í fangelsinu
„Mér var ekið í ríkisfangelsið í Horsens sem er hámarksöryggisfangelsi. Á leiðinni sendi ég skilaboð til barnanna minna og sagði þeim hve heitt ég elskaði þau og þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér en ég vildi að þau vissu að þau gætu ekki hringt í mig. Það var mér mikils virði að hafa náð að gera þetta áður en síminn var tekinn af mér. Lögreglubílnum var svo ekið inn í bygginguna og hurðinni lokað áður en ég var tekin út úr bílnum. Mér leið eins og ég væri í amerískri bíómynd; teknar voru ljósmyndir af mér frá öllum hliðum, tekin fingraför og allt sem ég var með tekið af mér. Þvínæst þurfti ég að afklæðast. Kvenkynsfangavörður fylgdi mér inn á gang með fimm klefum. Ég vissi seinna að hún var kölluð Angry Bird þar sem hún var alltaf frekar reið og með eldrautt litað hár. Ég þurfti að byrja á því að þrífa klefann þar sem hann var ekki mjög huggulegur. Áður en ég var læst inni heyrði ég hina fangana banka á hurðarnar því þeir heyðu að einhver nýr væri að koma. Þá fyrst áttaði ég mig á því að karlmenn væru líka í þessu fangelsi og seinna kom í ljós að ég var eini kvenmaðurinn. Það eina sem ég fékk var handklæði, lítill tannbursti og tannkrem. Ég fékk ekkert af dótinu mínu né föt fyrstu fjóra dagana því verið var að fara yfir allt, meðal annars með hjálp fíkniefnahunda,“ segir Hjördís.
Þau voru fimm sem bjuggu saman á gangi og voru með sameiginlega eldunaraðstöðu. Fangarnir þurftu að vera innandyra allan daginn fyrir utan eina klukkustund á morgnana og aðra á kvöldin en þá fengu þeir að fara út í garð og ganga í hringi. Hjördís mátti ekki hringja strax því það þurfti að fara vel yfir þá aðila sem hún mátti hringja í. „Ég mátti þó tala við lögmenn mína, bæði íslenska og danska, og það var virkilega gott að heyra frá þeim. Það tók mig nokkra daga að aðlagast, eða réttara sagt að læra að komast af. Það var annaðhvort að liggja öllum stundum inni í klefanum eins og ég gerði fyrstu dagana og hefði í raun geta valið að gera, eða að rífa mig á lappir og takast á við þessa undarlegu og hræðilegu lífsreynslu. Ég ákvað að líta á þetta sem verkefni sem ég þyrfti að leysa. Ég fór að vinna í verksmiðju í fangelsinu en fyrir það fékk ég laun og ég þurfti peninga til að borga fyrir mat. Ég byrjaði einnig í fótbolta, badminton og blaki og viðurkenni að það var sérstakt í byrjun að spila fótbolta við meðlimi glæpagengis. Harkan var ekkert minni þótt ég væri með og ég var stundum ansi marin eftir leikina. Ég skráði mig í skólann og lærði dönsku, stærðfræði og ensku. Ég var virt af samföngum mínum því þeim fannst gott hjá mér að bjarga dætrum mínum frá ofbeldi,“ segir Hjördís en hún er þeim eiginleikum gædd að geta samlagast allskonar fólki og það gerði hún þarna og eignaðist góða vini. „Auðvitað óttaðist ég samt suma en þarna voru alls konar menn með óhugnanlega fortíð en líka strákar sem lífið hafði farið hrjúfum höndum um. Bestu stundirnar voru þegar ég fékk fimm mínútur til þess að hringja í börnin mín, tvisvar í viku.“

„Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið.“

Ákvað strax að áfrýja ekki
Hjördís var í gæsluvarðhaldi í ríkisfangelsinu í fimm mánuði og bjó með alls tuttugu og sex karlmönnum á tímabilinu en þarna var mikið rennerí af mönnum sem biðu dóma.
„Þarna beið ég eftir að sakamálið á hendur mér yrði tekið fyrir. Heima á Íslandi var líka í gangi afhendingarmál sem danski maðurinn sótti. Ég man ekki hve lengi ég hafði setið inni þegar ég fékk fréttir þess efnis að Héraðsdómur hefði dæmt honum í hag og að dómarinn hefði sagt að það ætti að hjálpa stelpunum að vera ekki hræddar við pabba sinn vegna þess að þær ættu að vera hjá honum. Heimurinn hrundi og ég gat ekkert gert. Eins og alltaf þegar ég fékk neikvæðar fréttir tók ég nokkra daga í að liggja og gráta en svo reis ég upp aftur með nýja von í brjósti, eins og alltaf. Á svipuðum tíma var réttað yfir mér í Kolding. Ég þurfti að mæta þrisvar vegna þess hve umfangsmikið málið var og mikið af gögnum og var í kjölfarið dæmd í 18 mánaða fangelsi. Danski lögmaðurinn minn vildi strax áfrýja, sagði þetta fáránlegan dóm miðað við gögn. En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Samfangar Hjördísar lásu margir bókina Leyndarmálið, The Secret, sem fjallar um að hægt sé að breyta mörgu með góðum hugsunum, með því að sjá óskirnar fyrir sér. „Ég tileinkaði mér þetta og byrjaði að skrifa niður á blað aftur og aftur „stelpurnar verða óhultar“ og „þetta fer allt vel“ og „ég get allt“. Ég sagði börnunum mínum að gera það sama. Ég reyndi að sjá fyrir mér lögmann minn hringja í mig og segja mér góðar fréttir sem var erfitt þar sem ég var vön að ímynda mér alltaf það versta. Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis. Ég var svo heppin að það var föstudagur en ég hringdi alltaf í börnin á föstudögum. Þau brotnuðu niður og við grétum í símann, léttirinn og gleðin voru mikil,“ segir Hjördís.

Fékk flutning í íslenskt fangelsi
Í júlí 2014 fékk Hjördís að vita að hún mætti ljúka afplánun sinni á Íslandi. „Á sama tíma og það var gott að kveðja fangelsið í Danmörku var líka erfitt að kveðja suma sem mér þótti orðið vænt um. Sérstök vinátta myndast þar sem einstaklingar þurfa að hjálpast að og treysta hver á annan. Þetta er pínulítið samfélag þar sem fara verður eftir reglum sem aðrir búa til og þú ræður engu. Ég gekk út með tárin í augunum, full af gleði og stolti. Núna var ég að fara heim að hitta börnin mín og fjölskyldu,“ segir hún brosandi.
Sömu lögreglumenn og fylgdu henni til Danmerkur fóru með henni heim líka. Hún var sótt út á flugvöll af íslenskum fangelsisyfirvöldum og færð í Kvennafangelsið í Kópavogi. „Það var skrítið að koma þangað, ég gat hringt þegar ég vildi. Mér fannst lífið í kvennafangelsinu ágætt en það svipar mikið til þáttaraðarinnar Fangar sem sýnd var á RÚV. Eftir tvær vikur í Kópavogi tóku við þrír mánuðir á Vernd. Þá þurfti ég að vera í vinnu eða taka að mér sjálfboðavinnu. Ég byrjaði hjá Samhjálp en fékk svo vinnu á skrifstofu sem gerði mikið fyrir mig – ég hitti dásamlega vinnufélaga og það að komast út á meðal fólks var mikils virði. Lögreglan keyrði daglega fram hjá vinnustaðnum til að athuga hvort ég væri ekki örugglega í vinnunni og ég veifaði þeim út um gluggann. Eftir komuna á Vernd hitti ég dætur mínar fyrst en þær máttu ekki heimsækja mig í fangelsið,“ segir Hjördís.
Á Vernd á fólk að mæta milli klukkan 18 og 19 í mat en að sögn Hjördísar er það gert til að fylgst með hvort einhver sé í rugli. Á virkum dögum þarf að koma í hús fyrir klukkan 23 og fyrir 21 um helgar. „Ég var ekki ein í herbergi sem voru auðvitað viðbrigði en ég var heppin með herbergisfélaga þannig að allt gekk vel. Mér fannst reyndar erfitt að vita af því seinna að þarna byggju menn sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum.
Ég var neydd á AA-fund þótt ég tæki skýrt fram að ég hefði aldrei átt við áfengis- eða vímuefnavanda að etja. Allir áttu að fara á þennan fund.
Eftir dvölina á Vernd var ég svo með ökklaband í viku. Þá þurfti ég að vera komin heim á vissum tíma á kvöldin og mátti að sjálfsögðu hvorki neyta áfengis né annara vímuefna, líkt og annarsstaðar í fangelsum. Í fangelsinu í Danmörku birtust fangaverðir reglulega og horfðu á mig pissa í glas til að fullvissa sig um að ég væri ekki að neyta eiturlyfja sem allt var morandi af. Í byrjun nóvember 2014 mátti ég klippa ökklabandið af mér og við fjölskyldan gerðum það við hátíðlega athöfn. Þá var ég búin að afplána níu mánuði eða helming dómsins.“

„En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“

„Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís

Myndi gera þetta aftur
Mikið var fjallað um mál Hjördísar í fjölmiðlum, bæði hérlendis og í Danmörku, og almenningur kepptist við að hafa skoðanir á málinu. „Sumir töldu að ég hefði fengið hjálp frá yfirvöldum en mín upplifun var þvert á móti, flest vann gegn mér. Ég var í miklum mæli gagnrýnd á samfélagsmiðlum, í sumum fjölmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Ég hef lítið um það að segja, niðrandi ummæli dæma sig sjálf. Ég er stolt af fangavistinni, hikaði ekki við að brjóta lögin til að bjarga börnunum mínum úr ömurlegum aðstæðum. Ég myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti,“ segir Hjördís ákveðin. „Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið. Þegar ég ákvað að fara úr þessum aðstæðum var ég algjörlega niðurbrotin, þreytt andlega og líkamlega. Mér fannst ég ekki gera neitt rétt, efaðist um allt sem ég gerði. Ég hafði verið í því hlutverki í mörg ár að reyna að gera alla glaða í kringum mig, reyna að hafa allt gott. Á þeim tíma er ég ekki viss um að ég hefði lifað fangelsisvist af, en þar þurfti ég að trúa á sjálfa mig, ég þurfti að lifa af fyrir börnin mín. Ég fór svo oft út fyrir minn litla þægindaramma, eins og til dæmis með því að mæta á fótboltaæfingar með 20 karlföngum, lesa danskt ljóð fyrir framan þá í dönskutíma eða rífa kjaft við fangaverði vegna ósanngjarnar meðferðar á sumum föngunum. Ég var auðvitað mikið ein og þurfti gjörsamlega að breyta hugsunarhætti mínum, reyna að sjá það góða í öllu og vera þakklát. Ég held að það hafi líka létt fangelsisvistina að ég vissi alltaf að ég var að gera rétt, efaðist aldrei um það. Ég var örugglega eini fanginn þarna sem var stolt af glæpnum,“ segir Hjördís.
Framtíðin er björt hjá Hjördísi og fjölskyldu hennar. Dætur hennar hlakka til að komast aftur í körfuboltann en þær mæðgur verja öllum frítíma sínum í íþróttahúsum á veturna. „Svo höldum við áfram að rækta sál og líkama, njóta þess að vera saman. Ég held áfram að berjast með konum sem eru í svipaðri stöðu og ég var. Ég hætti ekki fyrr en kerfinu verður breytt og ýmsir aðilar stíga til hliðar. Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís að lokum.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL

Margrét hannaði 3.600 búninga fyrir kvikmyndina 22. júlí

|
|

Netflixmynd um fjöldamorðin í Útey frumsýnd í Feneyjum.

Kvikmynd Pauls Greengrass 22. júlí, sem fjallar um fjöldamorð Anders Behring Breivik í Útey, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum og hlaut afar jákvæðar móttökur. Íslenski búningahönnuðurinn Margrét Einarsdóttir var búningahönnuður myndarinnar og hún segir vinnuna við myndina hafa haft djúp áhrif á sig.

„Þetta er rosalega áhrifarík mynd og ég get ekki hætt að hugsa um hana,“ segir Margrét sem stödd er í Feneyjum til að vera viðstödd frumsýninguna á kvikmyndahátíðinni. „Myndin var unnin í nánu samstarfi við aðstandendur fórnarlamba fjöldamorðanna í Útey 22. júlí 2011 og það tók töluvert á að fara í gegnum þennan hrylling með þeim. En þótt þetta sé erfitt viðfangsefni og stutt síðan þetta gerðist þá er mikilvægt að fjalla um þetta og mér finnst þessi mynd gera það mjög vel.“

Paul Greengrass er einn virtasti leikstjóri samtímans og hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn, fyrir Green Zone árið 2010 og Captain Phillips árið 2013. Hvernig kom það til að Margrét fór að vinna með honum, hafði hún unnið með honum áður?

„Þetta var svolítið mikið. En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“

„Nei, ég hafði aldrei unnið með honum áður,“ segir hún. „En ég hafði unnið með einum framleiðanda myndarinnar og þannig kom það til að ég var beðin um að taka þetta að mér.“

Paul Greengrass er einn virtasti leikstjóri samtímans og hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn, fyrir Green Zone árið 2010 og Captain Phillips árið 2013.

Verkefnið var risavaxið þar sem níutíu leikarar fara með hlutverk í myndinni auk 3.500 statista og Margrét þurfti að hanna búninga á allan skarann. „Þetta var svolítið mikið,“ viðurkennir hún. „En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“

22. júlí er ekki eina kvikmyndin um hryllinginn í Útey sem verið er að sýna þessa dagana önnur mynd um sama efni, Útey, er nú í sýningum í Bíó Paradís. Margrét segir myndirnar nálgast atburðina á mjög ólíkan hátt en svo skemmtilega vill til að hún var líka beðin um að hanna búningana fyrir Útey en valdi 22. júlí frekar. Hún segir handritið hafa hrifið sig mikið og hin nána samvinna við fjölskyldur fórnarlambanna geri hana einstaka. Myndin byggir á bók Åsne Seierstad, Einn af okkur sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2016, og Greengrass skrifaði handritið í samstarfi við hana.

Myndin keppir í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum um Gullna ljónið og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Til að mynda gaf kvikmyndagagnrýnandi The Guardian henni 5 stjörnur í dómi sem birtist 5. september.

„Ekkert til í okkar orðabók sem heitir stöðnun.“

Íslenskt áhugafólk um förðun ætti að kannast vel við Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur og Söru Dögg Johansen, en þær hafa skipað sér í raðir okkar fremstu förðunarfræðinga. Ungar að árum stofnuðu þær fyrirtækið sitt Reykjavík Makeup School sem nýtur mikilla vinsælda, en á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun skólans hafa tæplega 600 nemendur útskrifast þaðan. Velgengni þeirra má þakka metnaði og óbilandi áhuga á því sem þær gera, en þær leggja mikla áherslu á að auka sífellt þekkingu sína og færni í faginu.

Leiðir vinkvennanna lágu upphaflega saman árið 2010 þegar þær kynntust í Airbrush & Makeupschool. Á þessum tíma var Sara nýútskrifuð úr listnámi en hún segir hönnun og list alltaf hafa heillað sig. „Ég tók grunn í arkitektúr áður en ég lærði förðun, en draumur minn frá því að ég man eftir mér var að verða arkitekt,“ segir hún, en eftir útskrift úr förðunarnáminu var ekki aftur snúið. „Upphaflega ætlaði ég aðeins að læra förðun fyrir sjálfa mig, en eftir námið bauðst mér starf í förðunarverslun og sem förðunarkennari, síðan þá hefur þessi heimur átt hug minn allan.“

Silla starfaði í Íslandsbanka og ætlaði sér, líkt og Sara, eingöngu að læra förðun fyrir sjálfa sig. Hún fann fljótt að þetta lægi vel fyrir sér, en hélt áfram að vinna í bankanum næstu tvö árin. „Einn daginn fékk ég svo símtal þar sem mér bauðst að gerast kennari við skólann þar sem ég lærði, og mér fannst það mjög spennandi. Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fór ég samt sem áður að hugsa, „af hverju geri ég þetta ekki bara sjálf, af hverju ekki að opna nýjan skóla?“ og þar með kviknaði hugmyndin. Ég ræddi þetta fram og til baka við manninn minn sem leist vel á hugmyndina og hvatti mig áfram, en mig vantaði viðskiptafélaga, einhvern sem var tilbúinn til að gera þetta með mér. Ég þekkti Söru ekki mikið á þessum tíma en fann einhvern veginn á mér að hún væri rétta manneskjan í þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég bað hana þess vegna að koma með mér í hádegismat á Hamborgarafabrikkunni einn daginn, og spurði hana hvernig henni litist á að stofna eitt stykki skóla með mér. Ótrúlegt en satt, hún var búin að vera hugsa nákvæmlega það sama, og allar hugmyndirnar sem hún hafði voru svipaðar því sem ég var með í huga. Ég þurfti því ekkert að hafa fyrir því að sannfæra hana, og við ákváðum þarna að bara kýla á þetta.“

Eftir að hugmyndin var komin í loftið var ekki aftur snúið og hlutirnir gerðust hratt. Aðeins mánuði eftir fundinn á Hamborgarafabrikkunni var komin kennitala fyrir fyrirtækið, nafn og leit hafin að rétta húsnæðinu. Hvorug þeirra var í vafa um að þetta væri rétt skref. „Auðvitað var þetta einhver áhætta, að stofna fyrirtæki og henda okkur í djúpu laugina, sérstaklega þar sem við þekktumst varla. En við vorum bara svo vissar frá upphafi að þetta myndi ganga,“ segir Sara, og Silla tekur undir. „Það er líka kannski það sem hefur komið sér svona vel, að vera ekkert að ofhugsa hlutina. Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis. Ég er alveg viss um að ef við hefðum fengið þessa hugmynd og ætlað að hugsa um þetta í einhvern tíma, mánuði eða ár, hefði bara einhver annar verið á undan.“

 

Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Sillu og Söru. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir

Tónlist, tíska og hjólabretti- hin heilaga þrenning

Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.

Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt.  Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“

Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“

Elsti þátttakandinn 74 ára

Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“

Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“

Tónlist ávallt skipað stóran sess

Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í  online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“

Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt,  má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“

Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í 33.tbl Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Hákon Björnsson

Metþátttaka í utanvegahlaupi um helgina

|
|
Benoit Branger frá Frakklandi varð hlutskarpastur í 100 kílómetra hlaupinu.

Keppendur frá fjórum heimsálfum í Hengill Ultra Trail.

Metþátttaka var í utanvegahlaupinu Hengill Ultra Trail sem haldið var í sjöunda skiptið í Hveragerði um helgina, en keppendur voru 372 talsins. Fyrir utan metfjölda þátttakenda þá voru keppendur frá 17 þjóðlöndum skráðir til leiks. Þeir komu frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi, Danmörku, Kólumbíu, Póllandi, Frakklandi, Spáni, Sviss, Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Austurríki, Katalóníu, Tékklandi, Færeyjum og auðvitað Íslandi. Eins og sjá má þá komu þeir frá fjórum heimsálfum.

Hlaupnar voru tvær vegalengdir, 100 kílómetrar og 50 kílómetrar, og hófst keppnin klukkan 22 á föstudagskvöldið. Benoit Branger frá Frakklandi varð hlutskarpastur í 100 kílómetra hlaupinu en hann hljóp vegalengdina á 14 klukkutímum, 20 mínútum og 24 sekúndum sem er brautarmet. Það var Bretinn Matt O’Keefe sem var annar í mark og Birgir Már Vigfússon frá Íslandi varð í þriðja sæti.

Ingvar Hjartarsson átti besta tímann í 50 kílómetra hlaupinu, Daníel Reynisson varð í öðru sæti og Kanadamaðurinn Jason Wright í þriðja sæti.

Flugbílar á markað á næstu tíu árum?

Sumir sérfræðingar spá því að flugbílar komi til með að draga úr vandamálum eins og umferðarhnútum og mengun.

Stjórnvöld í Japan hafa fengið til liðs við sig 21 fyrirtæki, innlend fyrirtæki og eins stór, alþjóðleg fyrirtæki á borð við Boeing, Airbus til að þróa hugmyndir að flugbílum og hefur hópurinn gefið út að hann komi til með að leggja fram tillögur sínar nú í vikunni.

Talið er að flugbílar, auk sjálfkeyrandi bíla, eigi eftir að valda straumhvörfum í tækni, en sumir sérfræðingar eru á því að þeir muni draga úr óteljandi vandamálum, þar með talið umferðarhnútum og mengun. Undanfarin ár hafa ýmis einkarekin fyriræki sett fram hugmyndir að slíkum bílum, þar á meðal Rolls-Royce og Alphabet sem er með tvær gerðir flugbíla á teikniborðinu. Með aðkomu japanskra stjórnvalda eru yfirvöld hins vegar í fyrsta sinn að blanda sér með beinum hætti í málið, en talið er að afskipti þeirra geti flýtt töluvert fyrir framgangi flugbíla þar sem reglugerðir hafa hingað til verið ein helsta hindrunin fyrir því að þeir verði að veruleika.

Mynd / Uber vill prófa fljúgandi leigubíla í Japan.

Baðherbergið innréttað – hvernig nýturðu rýmið best?

||||
||||

Margt ber að hafa í huga þegar baðherbergi er innréttað, hvort sem verið er að gera upp gamalt baðherbergi eða innrétta í nýju húsnæði. Við viljum nýta rýmið sem best og um leið hafa það fallegt fyrir augað og gera að okkar. Við fórum á stúfana og fengum góð ráð hjá Berglindi Berndsen innanhússarkitekt en hún býr á Seltjarnarnesi og rekur sína eigin stofu á Fiskislóð 31 í Reykjavík.

Hvað hefur þú í huga þegar þú innréttar baðherbergi með nýtingu í huga?
„Rétt og gott skipulag á baðherbergi skiptir gríðarlega miklu máli upp á nýtingu rýmisins. Opnar sturtur eða svokallaðar ,,walk in“ sturtur geta látið minnstu baðherbergi líta stærri út en raun ber vitni. Innréttingar með góðu og miklu skúffuplássi búa einnig til mikla nýtingu og innfelldir speglaskápar geta látið rýmið virka stærra en það raunverulega er.“

 Skiptir máli að hugsa um notagildið fyrst og fremst eða er það útlitið?
„Mikilvægt er að leggja áherslu á þægindi og notagildi svo rýmið njóti sín til hins ýtrasta en þetta helst allt í hendur. Það er ekkert gaman að hanna fallegt baðherbergi ef notagildið er ekki til staðar og öfugt.“

 Hvernig hugsar þú efnisval fyrir baðherbergi?
„Ég leitast yfirleitt við að hafa samræmi í lita- og efnisvali við það sem fyrir er í húsinu svo fallegt flæði skapist á milli rýma og sérstaklega ef ég sé um heildarhönnun heimilis. Ég huga alltaf að því hanna tímalaus og einföld baðherbergi þar sem að mjúk og náttúrleg paletta er ráðandi til að skapa notalega og hlýlega stemningu.“

Ertu með ákveðinn gátlista sem vert væri fyrir fólk að fara yfir þegar það ákveður að endurnýja baðherbergi eða er að hanna/skipuleggja nýtt?  
„Aðallega þarf að huga vel að þægindum og notagildi rýmisins. Stærð sturtu spilar þar stórt hlutverk, skápapláss og góð vinnu- og stemningslýsing. Hafa ber einnig í huga að þessar framkvæmdir taka mikinn tíma, yfirleitt mun meiri en áætlað er í upphafi og þetta er dýr framkvæmd. Það þarf því að undirbúa svona verk vel. Ég er á því að við arkitektar getum sparað fólki mikinn tíma og mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu.“

Berglind nefnir einnig að vinnu- og stemninglýsing skipti máli
„Góð vinnu- og stemningslýsing skiptir einnig gríðarlega miklu máli við hönnun baðherbergja til að skapa réttu stemninguna. Einnig skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við verkkaupa og alla þá sem að verkinu koma og að algjört traust ríki á milli allra aðila svo lokaniðurstaðan verði sem jákvæðust.“

Æðisleg íbúð við Lækinn í Hafnarfirði

Karitas Möller arkitekt.

Karitas Möller arkitekt og Kristinn Már Reynisson lögfræðingur fluttu á sérhæð við Lækinn í Hafnarfirði fyrir tæpum tveimur árum og hafa gert hana upp á einstaklega fallegan og sjarmerandi hátt.

Þegar Hús og híbýli kíkti í heimsókn var Karitas ein heima og búin að vera á haus að gera fínt. „Ég er búin að gera jólahreingerninguna í júlí,“ sagði hún og hló smitandi hlátri. Karitas segist hafa einstaklega mikla unun af því að dekra við sitt nærumhverfi og íbúðin ber þess merki því hver einasti fermetri er fallegur á heimilinu.

Upprunalega eldhúsið gullfallegt eftir yfirhalningu

,,Þetta eldhús er til að mynda upprunalegt og er um 70 ára gamalt en það kom aldrei til greina að taka það niður heldur bara að gera það eins fallegt og hægt væri. Við héldum innréttingunni en breyttum aðeins uppröðuninni á því; færðum til skápa og smíðuðum nýja skápa í sama stíl og innréttingin er í. Við settum svo marmaraplötu á eldhúsbekkina sem breytti miklu fyrir útlitið. Höldurnar eru líka upprunalegar en þær voru illa farnar og ég lét pólýhúða þær sem

Ljósið yfir eldhúsborðinu heitir IC og er frá Flos. Karitas keypti það í París og hafði mikið fyrir því að ferja það heim í handfarangri.

bjargaði þeim, þetta lítur vel út og kostaði alls ekki mikið. Við settum svo hvítar veggflísar og völdum svört blöndunartæki á móti gamla stálvaskinum sem hefur staðið vaktina í öll þessi ár, mér finnst hann sjarmerandi,“ segir hún brosandi. Koparljós hanga yfir gamla vaskinum en þau keypti Karitas í Kaupmannahöfn þegar hún var þar í arkitektanámi.

 

Á eldhúsgólfinu er vínylmotta úr versluninni KAIA sem er í Listhúsinu við Engjateig. Gólfið er í raun hálfklárað því þetta eru bara krossviðarplötur úr Bauhaus sem átti að setja annað efni ofan á en Karitas var svo ánægð með útlitið á þeim og ákvað að leyfa þeim að vera í bili.

Meiri samkeppni í Danmörku

„Ég bjó úti í örugglega 12 ár, lærði í Kaupmannahöfn og flutti svo til Svíþjóðar og síðar Árósa með kærastanum þar sem hann var í námi. Ég vann á arkitektastofum úti í Danmörku sem var mjög lærdómsríkt og krefjandi, en ég finn að það er á einhvern hátt þægilegra að vinna

Karitas og Kristinn tóku baðherbergið í gegn og stækkuðu það aðeins; rýmið þar sem sturtan er núna var áður partur af hjónaherberginu.

hér heima, þar sem maður er meira á heimavelli. Það er líka töluvert meiri samkeppni í þessu umhverfi í Danmörku og erfiðara að komast að kannski vegna þess líka að Danir eru þekktir fyrir góða hönnun og margt hæfileikafólk kemur úr öllum áttum. En þetta var mjög lærdómsríkur og æðislegur tími.“

Það voru tvær stofur í íbúðinni en ákveðið var að loka á milli þeirra. Til að nýta rýmið í gamla hurðaopinu, teiknaði Karitas skrifstofuskáp sem kærastinn og pabbi hans smíðuðu. Inni í þessari mublu er bæði heimaskrifstofa og hirslur. Stofan er sérlega kósí, þar er blár sófi úr ILVA.

Karitas á mikið af fallegum hlutum og less is more á sannarlega ekki við um þetta persónulega og hlýja heimili í Hafnarfirði.

Fallegt barnaherbergi.

Meira af sérhæðinni við Lækinn í septemberblaði Húsa og híbýla sem er fáanlegt á sölustöðum til 20. september þegar nýtt blað kemur út.

 

Myndir / Hallur Karlsson

Stór bílaframleiðandi í samstarf við íslenska aðila

|
|

Nissan hefur hafið framleiðslu og sölu á bifreiðum með breytingum frá Arctic Trucks í öllum löndum Evrópu. Þetta er fyrsta sinn sem bílaframleiðandi tekur inn í framleiðsluferli sitt breytingar frá íslensku fyrirtæki fyrir jafnstóran markað.

Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu Arctic Trucks.

„Hingað til höfum við verið í samstarfi við erlenda bílaframleiðendur um breytingar á bifreiðum í einstaka löndum en þetta í fyrsta sinn sem bílaframleiðandi notar okkar merki og lausnir og selur í heilli heimsálfu. Það að jafn virtur aðili skuli vilja okkar merki á sína vöru til að auka sölugildi hennar og styrkja sína ímynd eru stór tíðindi og sýnir einfaldlega í hvaða stöðu við erum,“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks (sjá mynd að ofan), en einn risanna í bílaiðnaðinum, japanski bílaframleiðandinn Nissan, ætlar að hefja sölu á Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu í öllum löndum Evrópu.

Að sögn Emils fela umræddar breytingar í sér öflugri, lengri og stífari fjöðrun, nýja brettakanta og nýjar felgur og stærri dekk, sem gera Nissan Navara meðal annars sportlegri útlits og bæta eiginleika bílsins til að keyra í torfæru og erfiða vegi. Þá verður hægt að velja um sérstaka aukahluti eins og læsingar, „snorkel“ og fleira, sem gerir Nissan Navara enn hæfari til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann segir að þessi útgáfa bílsins, sem kallast Off-Roader AT32 (Arctic Trucks 32 tommu dekk), verði í boði hjá söluumboðum Nissan um alla Evrópu, með sömu ábyrgðarskilmálum og þjónustu sem fylgja Nissan Navara almennt. En innan bæði Arctic Trucks og Nissan ríki mikil eftirvænting vegna verkefnisins. „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og Nissan er það auðheyrilega líka,“ segir hann.

„… þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“

Spurður hvernig samstarfið hafi komið til segir Emil að þar hafi ýmislegt haft áhrif, svo sem góð samvinna við Nissan á Íslandi, merki Arctic Trucks og þekking og reynsla stjórnunarteymis Arctic Trucks í Bretlandi af umsjón viðamikilla verkefna. Það séu helstu ástæður þess að samningar hafi náðst.

En nákvæmlega hvaða þýðingu hefur samstarfið fyrir Arctic Trucks? „Þetta sýnir bara að stórir framleiðendur eru í auknum mæli farnir að leita til okkar eftir lausnum. Og ekki bara það heldur eru þeir að leitast eftir því að fá okkar merki á sína vöru þar sem Arctic Trucks hefur skapað sér trúverðugleika á alþjóðavísu,“ svarar hann. „Nissan í enn stærri heimsálfum, Asíu og í Mið-Austurlöndum, eru til dæmis í þessum töluðum orðum að skoða þann möguleika að taka til sölu þessa útgáfu af Nissan Navara sem við gerðum fyrir Nissan í Evrópu og fleiri framleiðendur hafa áhuga á samstarfi. Þannig að þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“

Fyllt lambalæri með kryddjurtum og parmesanosti

Það er fátt notalegra um haustlegar helgar en að bjóða upp á gott íslenskt lambakjöt ásamt krydduðum kartöflum. Lambið má fylla og binda deginum áður og geyma í kæli. Látið kjötið ná stofuhita áður en því er stungið inn í ofn.

Fyllt lambalæri með hvítlauk, furuhnetum, ólífum og kryddjurtum
fyrir 4-6

2 kg úrbeinað lambalæri
1 msk. salt
1 msk. pipar
7 hvítlauksgeirar, 3 afhýddir og 4 með hýðinu á
50 g furuhnetur
60 g svartar steinlausar ólífur
fínt rifinn börkur af 1 sítrónu
100 g rifinn parmesanostur
20 g steinselja, söxuð
20 g óreganólauf
1 dl ólífuolía
50 g panko eða brauðmylsna
2 rósmaríngreinar

Hitið ofninn í 220°C. Saltið lambalærið og krydið með pipar. Setjið 3 afhýdda hvítlauksgeira, furuhnetur, ólífur, sítrönubörk, parmesanost og kryddjurtir í matvinnsluvél og saxið. Hafið vélina í gangi og hellið 1 dl af ólífuolíu saman við þar til allt hefur blandast vel saman. Bragðbætið fyllinguna með salti og pipar ef þarf. Dreifið fyllingunni yfir lambalærið og rúllið því síðan upp. Bindið lærið saman með matargarni með 3 cm millibili þversum og svo einu sinni langsum. Setjið lærið í eldfast mót og setjið 4 hvítlauksgeira og rósmaríngreinar í botninn. Eldið í 30 mín. eða þar til kjötið fer að brúnast, lækkið þá ofnhitann niður í 160°C og eldið þar til kjarnhitinn mælist 60°C, u.þ.b. 30-40 mín. til viðbótar. Passið að stinga ofnhitamælinum ekki í fyllinguna. Takið kjötið úr ofninum, setjið á bretti og hyljið með álpappír. Látið standa í 15-20 mín. áður en kjötið er skorið niður í sneiðar. Búið til sósu úr soðinu í mótinu.

Sósa
2 msk. hveiti
1 dl marsala-vín eða rauðvín
500 ml lamba- eða kjúklingasoð
20 g smjör

Fleytið mestu fitunni ofan af safanum sem myndast hefur í eldfasta mótinu. Þrýstið hvítlauknum úr hýðinu og hendið hýðinu. Hitið eldfasta mótið yfir lágum hita (eining má flytja soðið úr mótinu yfir í pott en þá þarf að passa vel að skrapa botninn á mótinu til að ná öllu góðgætinu í pottinn). Notið písk og hrærið hveitið kröftulega saman við. Hellið víninu út í og náið upp suðu og eldið í 2-3 mínútur. Hellið lambasoðinu saman við og náið aftur upp suðu og skrapið botninn með flötu áhaldi. Lækkið hitann og látið malla í 10-15 mín. eða þar til sósan er orðin þykk. Bætið smjörinu saman við og hrærið í á meðan smjörið bráðnar. Smakkið soðið og athugið hvort bæta þurfi við salti eða pipar. Hellið sósunni í gegnum síu, hendið hratinu og berið fram með lambakjötinu.

Kartöflur með rósmaríni
fyrir 4-6

Kartöflurnar má setja inn með kjötinu þegar hitinn er lækkaður niður í 160°C. Þegar kjötið er tekið út þá er ofnhitinn hækkaður í 190°C og kartöflurnar eldaðar þar til þær verða gylltar og stökkar.

2 kg litlar kartöflur, skrældar
3 msk. ólífuolía
2 msk. saxað ferskt rósmarín
2 tsk. salt
1 tsk. pipar

Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í vatni í 10 mín., hellið þeim síðan í sigti og látið standa svo þær þorni í gufunni. Blandið saman ólífuolíu, rósmaríni, salti og pipar í eldföstu móti. Hristið kartöflurnar í sigtinu til að ýfa ytra yfirborð þeirra. Veltið þeim upp úr olíunni og kryddinu og eldið í miðjum ofni í u.þ.b. 1 klst. eða þar til þær eru orðnar gylltar og stökkar.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Aðdáun stelpnanna réði úrslitum

|||
|||

Helgi Björnsson, sjálfur Holy B, er orðinn sextugur og hefur verið í sviðsljósinu, bæði sem söngvari og leikari, í 45 ár. Hann segist hafa ákveðið það strax í æsku að verða annaðhvort poppstjarna eða atvinnumaður í fótbolta og valið hafi verið auðvelt eftir að hann sá hvað stelpurnar hrifust miklu meira af gítarleik hans og söng heldur en sprikli á fótboltavellinum.

Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.

Þegar ég hringi í Helga og falast eftir að fá að hitta hann á kaffihúsi og spjalla segist hann helst ekki vilja að viðtalið fari fram á kaffihúsi, þar verði hann fyrir of miklu áreiti. Er erfitt að vera frægur á Íslandi?
„Ég meinti nú ekki áreiti í neikvæðum skilningi,“ flýtir Helgi sér að útskýra. „En, jú, jú, það eru alltaf margir sem maður þarf að heilsa og spjalla aðeins við. Reykjavík er náttúrlega bara lítið þorp þar sem allir þekkjast og fólk vill vita hvað er að frétta af mömmu og hvað ég ætli að fara að gera og svo framvegis. Maður fær ekkert áreiti eins og maður sér hjá heimsfrægum stjörnum úti í heimi en það er forvitni og það er verið að fylgjast með manni. Ég er reyndar löngu hættur að pæla í því en þetta er samt alltaf þrýstingur. Þótt þú reynir að slökkva á þessu og taka ekki eftir því þá er það til staðar og það hefur áhrif á mann.“

Fermingardrengir miðað við bankamenn
Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.
„Ég man eftir því að þegar ég var sirka tíu ára gamall var ég alveg ákveðinn í því að annaðhvort ætlaði ég að verða atvinnumaður í fótbolta eða poppstjarna. Ég spilaði með yngri flokkunum á Ísafirði en þegar þeir fóru að hlaupa úti í snjónum alla daga en ég gat setið inni í æfingahúsnæði með gítarinn og stelpurnar hópuðust fyrir utan til að hlusta en litu ekki við þeim, var alveg ljóst hvað ég vildi frekar leggja fyrir mig.“
Var það sem sagt aðdáun stelpnanna sem leiddi þig út í tónlistarferilinn? „Að sjálfsögðu!“ segir Helgi og skellihlær. „Á þessum aldri, 13 til 16 ára, þá var það engin spurning, það var aðdáunin sem maður sóttist eftir.“
Talandi um það leiðist talið að því orðspori um sukklíferni sem fer af poppbransanum, hefur það tekið sinn toll í lífi Helga? „Nei, það held ég nú ekki,“ segir hann. „Það er glaumur og gleði oft og tíðum, en ég hef sem betur fer borið gæfu til þess að sigla fram hjá stærstu skerjunum og stranda ekki í þeim ólgusjó. Svo er þetta líka orðum aukið. Ég held til dæmis að það sé meiri glaumur og gleði hjá bankamönnum í dag heldur en nokkurn tímann hjá poppurum. Við erum algjörir fermingardrengir í samanburði við þá.“

Sér ekki eftir neinu
Spurður hvort poppstjörnulífið hafi verið eins skemmtilegt og hann ímyndaði sér sem unglingur þegir Helgi um stund og hugsar málið. „Að hafa fengið tækifæri til að fást við tónlist er náttúrlega algjör gjöf,“ segir hann svo. „Það er engin spurning. Tónlistin er frumafl og tengist auðvitað frumöskrinu og þessi tjáning í gegnum tóna, röddina og síðan hljóðfærin, gefur þér alltaf eitthvað. Ekkert skrýtið að tónlistin sé notuð bæði á sorglegustu og gleðilegustu stundum lífsins. Að hafa fengið tækifæri bæði til að tjá sig í tónlist og vera í kringum tónlistarmenn er bara alveg yndislegt. Þannig að ég þakka fyrir það.“
Og sérð ekki eftir neinu?„Nei, ég get ekki sagt það. Auðvitað vill maður alltaf gera eitthvað betur, en það felst þá meira í einhverjum smáatriðum og ég sé ekki eftir neinu í stóru dráttunum. Alls ekki.“
Hvað er eftirminnilegast, hverju ertu stoltastur af?„Ég bara veit það ekki,“ segir Helgi hugsi. „Ég reyni að horfa meira fram á við heldur en að gleyma mér í fyrri verkum. Ég er mjög stoltur af sólóplötunum mínum tveimur, þar sem ég flyt frumsamið efni. Það er nær manni og maður er kannski á einlægari nótum á þeim.“

Fór út fyrir þægindarammann
Tónlistarferill Helga er ansi víðfeðmur og spannar alls konar tónlistargreinar, var ekkert erfitt fyrir rokkgoðið og kyntáknið Helga Björns að skella sér í hvítan dinner-jakka og fara að syngja lög Hauks Morthens, til dæmis? „Nei, nei, alls ekki. Maður er náttúrlega líka leikari og getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Og þegar maður er farinn að þykkna aðeins um miðjuna færist aðeins meiri ró og æðruleysi yfir mann og maður er ekki eins hégómagjarn og þegar maður var ungur. Ég hafði sungið frumsamin lög í tíu, tuttugu ár þegar ég fór að gera „cover“ af lögum annarra og þá fannst mér ástæða til að leyfa söngvaranum að takast á við smááskoranir. Þar fór ég út fyrir minn þægindaramma og fór að gera alls konar hluti sem síðan reyndust bara rosalega skemmtilegir.“
Skiptir poppstjörnuhlutverkið þá ekki öllu máli þegar upp er staðið? „Sko,“ segir Helgi og dregur djúpt andann. „Ef maður er í þessu starfi á annað borð, vill maður auðvitað að fólk hlusti á mann og hafi áhuga á því sem maður er að gera. En ég gengst ekki upp í því að vera eitthvað ædol. Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni. Ég held að allir listamenn þekki það.“

„Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni.“

Helgi Björns hefur engu gleymt.

Áttu ekki að verða eldri en þrítugir
Hvort sem Helga líkar það betur eða verr þá er hann ædol í rokkbransanum, finnst honum ekkert erfitt að eldast í bransanum? „Ég veit ekki hvort ég er eitthvert ædol,“ segir Helgi, hálfpirraður á þessari spurningu. „Mér finnst enn gaman að koma fram og gera nýja rokktónlist en auðvitað er erfitt að eldast í þessum bransa. Það er engin spurning. Þessi listgrein verður upphaflega til hjá ungu fólki og á fyrstu árum rokksins átti helst enginn að verða eldri en þrítugur, helst ekki eldri en 27. Þá áttu menn bara að stimpla sig út. Þannig að það er ekkert endilega gert ráð fyrir að menn eldist í þessu. Hins vegar eru Stones og fleiri búnir að gefa okkur alls konar dæmi um það að þetta er alveg hægt. Það sem er skrýtið hér í okkar litla samfélagi er að fámennið gerir það að verkum að ef einhver hefur verið fyrir augunum á þér í þrjátíu ár ertu eiginlega búinn að fá alveg nóg af honum, sem er ósköp eðlilegt. Það er alltaf þessi krafa um að fá nýtt fólk inn, nýjar persónur og leikendur til að fylgjast með í fjölmiðlunum. Á móti kemur að þegar þú verður eldri öðlastu meiri virðingu fyrir lífsstarfið, eða þannig er það erlendis, en hér eru allir bara einhvern veginn búnir að fá nóg af þér; kemur hann einu sinni enn … Þetta er stundum svolítið pirrandi en maður skilur forsendurnar á bak við þetta og tekur það ekki nærri sér.“
Það eru greinilega ekki allir búnir að fá nóg af Helga Björns, eins og miðasala á tónleikana á laugardaginn sýnir best. Datt honum í hug þegar hann var 16 ára með poppstjörnudrauma að hann myndi fylla Laugardalshöllina á sextugsafmælinu? „Nei, maður var nú ekkert að spá í það,“ segir Helgi og glottir. „Ég var meira að hugsa um Wembley á þeim tíma. Þannig að ég hef kannski ekki alveg náð takmarkinu.“

Myndir / Hallur Karlsson

Bannað innan 18

|
|
Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Mynd / Lilja Draumland.

Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Þar sýna þau einstaklingsatriði sem spanna allt frá erótík yfir í tragík, fjalla um stafsetningu, latínu, daður og líffræði og einnig verður tæpt á kynfræðslu og undrum mannslíkamans. Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn. Er þetta einhver bölvaður dónaskapur? „Stutta svarið er já,“ segir Ísabella Leifsdóttir, ein úr hópnum, og skellir upp úr. „Þetta er alveg klárlega fullorðinssýning. Aðallega er þetta samt bara ótrúlega hresst og skemmtilegt. Sumt er fyndið, annað rómantískt eða erótískt og jafnvel tragískt. Þetta spannar allan skalann.“

„Við hittumst fyrst á sex vikna burlesque-námskeiði hjá Margréti Maack,“ segir Ísabella. „Eftir það ákváðum við að stofna sýningagrúbbu og fórum að halda sýningar sem í vetur verða einu sinni í mánuði á mismunandi stöðum í borginni svo fólk verður bara að fylgja okkur á Facebook og Instagram ef það vill hafa dag- og staðsetningar á hreinu.“

Að þessu sinni verða eingöngu einstaklingsatriði á sýningunni og Ísabella segir atriðin mjög ólík, auk þess sem þær sem koma fram séu á öllum aldri og hafi mjög misjafna sviðsreynslu. Sumar séu reynsluboltar en aðrar hafi aldrei komið fram opinberlega áður. Sjálf er hún óperusöngkona að mennt, er hún að hugsa að skipta um listform?
„Ég lærði auðvitað leiklist í náminu sem óperusöngkona,“ segir Ísabella. „Burlesqueið er bara svona partur af því að koma fram og hafa gaman, en aðallega er þetta nú áhugamál. Ég held varla að þetta sé framtíðarstarfsgrein hjá mér. Þetta er svo skemmtilegur hópur og við erum ekki að sýna í einhverjum gróðatilgangi heldur að safna okkur fyrir burlesque-ferð til New York til þess að skemmta okkur saman.“

Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn.

Auk hópsins koma fram þau Gógó Starr dragdrottning og Margrét Maack burlesque-drottning Íslands, og svo koma tveir erlendir listamenn við sögu, þær Gal Friday og Cheekie Lane. „Og svo kemur einn leynigestur frá Berlín,“ segir Ísabella leyndardómsfull en neitar að gefa nánari upplýsingar um gestinn. „Gógó er með boy burlesque, mjög flott,“ segir Ísabella. „Og Magga er svona mamman okkar, heldur utan um hópinn og leiðir okkur áfram.“

Sýningin á Hard Rock Café hefst klukkan 21 og miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.

„Við erum enn í sárum“

|
|

Kvikmyndin Utoya 22. juli, sem byggir á frásögnum eftirlifenda voðaverkanna í Útey, verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Aðalleikkonan vonar að myndin verði til þess að atburðirnir gleymist aldrei.

Andrea Berntzen fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld. Mynd / Agnete Brun

Í ár eru sjö ár liðin frá voðaverkunum í Ósló og Útey þegar 77 manns féllu fyrir hendi fjöldamorðingjans og hægri öfgamannsins Anders Breivik, átta í sprengjuárás í stjórnarráðs-hverfinu í Ósló og 69 í skotárás í Útey, þar sem aðalskotmark Breiviks voru sumarbúðir ungra jafnaðarmanna. Í kvikmyndinni Utoya 22. juli eru þessir skelfilegu atburðir rifjaðir upp með augum unglingsstúlkunnar Kaju sem berst fyrir lífi sínu á eynni um leið og hún reynir að bjarga yngri systur sinni. Mannlíf spjallaði við Andreu Berntzen sem fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld.

Utoya 22. juli er fyrsta kvikmyndin sem þú leikur í, hvernig var að taka að sér svona krefjandi fyrsta verkefni? „Sko, þetta er svolítið flókin spurning, því þar sem þetta er einmitt fyrsta myndin sem ég leik í þá fannst mér það spennandi. En út af umfjöllunarefninu var þetta mjög erfitt líka og óhugnanlegt að átta sig á því að ég er núna á svipuðum aldri og krakkarnir voru sem urðu fyrir árásinni. Ég var auðvitað svo ung þegar atburðurnir áttu sér stað, bara 12 eða 13 ára.“

„Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk.“

Manstu vel eftir þeim? „Já, við fjölskyldan vorum að keyra heim úr sumarhúsinu okkar þegar greint var frá sprengjuárásinni í útvarpsfréttum. Ég lagði vel við hlustir þar sem ég kannaðist við staðinn þar sem sprengingin varð. Næsta dag kom í ljós að sami maður bar ábyrgð á morðunum í Útey. Ég var mjög hrædd lengi vel eftir þetta, til dæmis við að vera ein á ferli. Samt er skrítið að segja frá því að þótt ég væri nógu gömul til að átta mig á hvað hafði gerst var það eiginlega ekki fyrr en ég lék í myndinni sem ég virkilega skildi hvað þessir atburðir eru skelfilegir. Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk. Við erum enn í sárum.“

Var tvístígandi við að leika í myndinni
Kvikmyndin byggir á frásögnum eftirlifenda í Útey og Andrea viðurkennir að vegna umfjöllunarefnisins hafi hún verið tvístígandi gagnvart því að taka að sér hlutverkið. Meðal annars af ótta við hvernig unnið yrði úr því og hvaða áhrif það hefði á eftirlifendur og aðstandendur. „Þegar ég fór í áheyrnarprufur vissi ég reyndar ekki um hvað verkefnið snerist. Það var ekki fyrr en í þriðju prufunni sem ég fékk að vita það og þá varð ég smeyk; verulega efins um að ég vildi leika í mynd sem snerist um voðaverkin í Útey. En þegar leikstjórinn sendi mér skilaboð þar sem hann útskýrði að hún kæmi til með að einblína á fórnarlömbin en ekki ódæðismanninn þá snerist mér hugur. Mér fannst sú nálgun einhvern veginn vera rétt til að segja þessa sögu.“

Myndin var að mestu leyti tekin í einni töku og að sögn Andreu voru flestir leikararnir tiltölulega óreyndir. Við komum því aftur að spurningunni í byrjun, það er að segja hvort verkefnið hafi ekki reynt á? „Jú, við vorum heila tvo mánuði að æfa og þar sem ég er ekki menntuð leikkona gat ég til dæmis ekki beitt þeirri tækni sem lærður leikari býr yfir og hefði getað nýtt sér til að nálgast hlutverk Kaju. Þess í stað reyndi ég að setja mig í hennar spor og ímynda mér hvernig ég brygðist við ef alvöruárás yrði gerð. Sumt í tökunum var reyndar óhugnanlega raunverulegt, þótt það sé auðvitað ekkert í líkingu við það sem gerðist í alvörunni.“

Andrea segist einmitt vona að myndin eigi eftir að fá áhorfendur til að skilja betur hvaða helvíti raunverulegu fórnarlömbin upplifðu á Útey og sýni þeim í kjölfarið meiri skilning og samúð en hefur verið gert síðustu ár. „Það eru fórnarlömb sem eru enn að díla við áfallastreituröskun eftir þetta. Krakkar sem er verið að segja við að þau verði að fara að herða sig og lifa eðlilegu lífi, sem er ótrúlega grimmdarlegt að segja. Ég vona að myndin breyti því. Að hún opni augu fólks og verði komandi kynslóðum áminning um það sem gerðist, rétt eins og seinniheimstyrjaldarmyndir veita okkur innsýn í hroðalega hluti. Atburðirnir í Útey mega alls ekki gleymast.“

Mynd / Ole Garbo

Haustlínan blanda af mjúkum og skörpum línum

Starfsfólkið í versluninni Hjá Hrafnhildi leggur metnað sinn í því að veita viðskiptavinum sínum toppþjónustu og fjölbreytt úrval af vandaðri hágæða vöru á sanngjörnu verði. Við heimsóttum verslunina á dögunum og spjölluðum við Ásu Björk Antoníusdóttur, eiganda verslunarinna, um nýjar vörur í tilefni þess að haustið er mætt í fullum skrúða.

 

Margrét Káradóttir verslunarstjóri og Ása Björk Antoníusdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi.

Hvaða vörur eru meðal þeirra vinsælustu þessa dagana hjá ykkur? „Dönsku vörurnar hafa verið sérlega vinsælar undanfarið ekki síst MOS MOSH, PBO og svo BITTE KAI RAND en verslunin Hjá Hrafnhildi hóf að bjóða upp á vörur frá Bitte Kai Rand fyrir tveimur árum við mjög góðar undirtektir og þær vekja mikla hrifningu viðskiptavina okkar.“

Getur þú sagt okkur hver er hönnuður þessa vörumerkis og tilurðina? „BITTE KAI RAND er danskur hönnuður og hefur fatnaður hennar sterka skírskotun í skandinavíska hönnun. Hún stofnaði fyrirtækið 1982 og eru vörur hennar nú seldar í yfir 400 verslunum víðsvegar um heiminn. BITTE KAI RAND byrjaði upphaflega sem prjónafyrirtæki og eru peysur hennar aðalsmerki, úr efnum á borð við merino- eða kasmírull og silki. Síðan þá hefur fyrirtækið þróast og nú samanstendur línan af öllu því helsta sem nútímakonan þarf.“

Verslunin Hjá Hrafnhildi var öll endurnýjuð fyrir rúmlega ári og stækkuð um helming.

Hvers konar fatnaður er þetta helst? ,,Hér er frá undirkjólum til yfirhafna. Hönnunin er þekkt fyrir að vera afslöppuð og elegant. Sniðin eru einföld en oft með smátvisti og ávallt úr vönduðum efnum. Einnig má finna skemmtilega aukahluti; slæður, belti, hanska og hatta sem hjálpa til við að ná þessari skemmtilegu stemningu sem BITTE er þekkt fyrir. BITTE-konur, eins og við köllum þær, eru konur með stíl og sterkan karakter. Þeim líður vel í eigin skinni og eru óhræddar við að klæðast því sem hugurinn girnist. Þær vita hvað þær vilja og velja oft að kaupa sér færri en vandaðri flíkur sem eldast vel. BITTE KAI RAND er með sex fatalínur á ári sem samanstanda alltaf af vönduðum, tímalausum grunnflíkum og einhverju spennandi sem fangar augað. Það geta verið skemmtilegir litir, framúrstefnuleg snið eða áhugaverð og skemmtileg mynstur á flíkunum. Öll mynstur eru sköpuð innanhúss og því engar líkur á að finna sambærilegar flíkur frá öðrum framleiðendum.“

„BITTE-konur, eins og við köllum þær, eru konur með stíl og sterkan karakter.“

Haustlínan er að detta í hús hjá ykkur, getur þú sagt okkur aðeins frá henni? „Haustlínan frá BITTE KAI RAND er undir áhrifum frá jörðinni sjálfri og litadýrð náttúrunnar. Haustlínan er blanda af mjúkum og skörpum línum og blandast saman stífar skyrtur og stílhreinir jakkar, jafnvel í sterkum litum við létta og rómantíska kjóla og blússur úr silki og mjúkum litum. Það er gaman að segja frá því að ein af haustlínunum þeirra heitir Iceland og er Ísland notað sem innblástur í þeirri línu. Litaþemað er blanda af mjallahvítu, gráu og skærbláu sem eru einmitt litir sem íslenskar konur hafa jafnan hrifist af. Glitrið í peysunum tákna snjótoppana á annars nöktum fjallstindum.“
Verslunin Hjá Hrafnhildi var öll endurnýjuð fyrir rúmlega ári og stækkuð um helming. „Það er því sérstaklega gaman núna að stilla út nýja fatnaðinum því hann er algjört augnakonfekt,“ segir Ása Björk og er alsæl með útkomuna.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Hjá Hrafnhildi. 

Myndir / Unnur Magna

 

Fallegt bros og einstök upplifun í Búdapest

Valþór Sverrisson býður upp á tannlæknaferðir til Búdapest í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical.

Valþór Sverrisson sem meðal annars rekur verslunina 24iceland við Laugaveg 51 ætlar að bjóða upp á nýjung í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical, ferðir til Búdapest sem ekki hafa áður sést á markaðinum hér heima. Búdapest er afar sjarmerandi borg sem iðar af lífi auk þess sem menningarlífið er með fjörugasta móti. Hún hefur gjarnan verið nefnd matarkista Evrópu og stendur á himneskum stað. Einnig er borgin þekkt fyrir að vera mjög spennandi verslunarborg og verðið mjög hagstætt. En það er fleira sem borgin hefur upp á að bjóða. Viðfórum því á stúfana og hittum Valþór og spurðum hann spjörunum úr.

Segðu okkur aðeins frá ferðunum sem fram undan eru til Búdapest? „Í undirbúningi er að bjóða upp á hópferðir til tannlæknis í Búdapest. Um er að ræða vikuferðir þar sem gist verður á fjögurra stjörnu hóteli í hjarta borgarinnar. Þetta er gert í samvinnu við tannlæknastofu í Búdapest sem býður upp á fyrsta flokks þjónustu. Stofan hefur margra ára reynslu og þar er mikið fagfólk að störfum. Væntanlegir viðskiptavinir munu byrja á því að fara í skoðun og í framhaldi fær það áætlun frá tannlækni sem inniheldur tímaplan viðgerða og kostnað.“ Valþór vill endilega að viðskiptavinir nýti ferðina í menningarlegum tilgangi og fái tækifæri til að upplifa hvað borgin hefur upp á að bjóða. „Búdapest er stórkostleg borg og mikið að sjá og gera. Hún er stundum kölluð París austursins. Á milli þess sem fólk er í tannlæknastólnum, ætlum við að bjóða upp á skoðunarferðir, þar sem fólk getur kynnt sér hina magnþrungnu sögu borgarinnar. Við heimsækjum einhver af hinum heimsfrægu baðhúsum borgarinnar. Svo er auðvitað ungversk matar- og víngerð kapítuli út af fyrir sig. Þetta verður því nokkurs konar blanda af fallegu brosi og skemmtilegri upplifun. Þess má líka geta að í fyrstu tveimur ferðunum verður hinn rómaði jólamarkaður opinn og þá er tilvalið að klára jólagjafainnkaup ársins þar sem allt er töluvert ódýrara þar en heima.

Hvernig verður fyrirkomulagið og ferðatilhögun á ferðunum?„Innifalið er beint flug, gisting á fjögurra stjörnu hóteli og rúta á milli flugvallar og hótels. Auk þess verður Petra Dögg Þórðardóttir, fararstjóri hjá Tripical, til halds og trausts. Hún mun ásamt ungverskum tengilið sjá um skoðunarferðir og utanumhald. Fyrsta ferðin verður farinn 24. nóvember til 1. desember og önnur ferðin er fyrirhuguð 4. desember til 11. desember. Þá gefst fólki tækifæri á að lengja ferðina, ef áætlun frá tannlækni er til dæmis tíu dagar. Miðvikudaginn 12. september næstkomandi verður haldinn kynningarfundur í Tripical í Borgartúni klukkan 20. Þá munu starfsmenn Tripical fara yfir ferðina og ég mun segja frá minni upplifun af ferðinni minni þangað. Einnig er hægt að fara inn á Tripical.is og bóka ferð. Færri komast að en vilja.“

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Tripical.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Bláber munu vaxa á þökum

Gríðarleg uppbygging hefur verið í Dalskóla í Úlfarsárdal og umhverfi hans. Skólinn blómstrar þessa dagana og nemendur vaxa og dafna þar sem fjölbreyttir starfshættir eru hafðir að leiðarljósi. Við hittum á dögunum Hildi Jóhannesdóttur skólastjóra og fengum innsýn í skólastarfið og umhverfi hans í þessu einstaka umhverfi Úlfarársdals.

Hildur Jóhannesdóttir skólastjóri með nemendum við skólann.

Segðu okkur örlítið frá skólastarfinu í Dalskóla. „Dalskóli leggur áherslu á að öllum líði þar vel, að börnin okkar fái að dafna, nema og blómstra. Skólinn er samrekinn leik-, grunn og frístundaskóli sem byggir á fjölbreyttum starfsháttum í hverri stoð hans. Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Lögð er áhersla á þemabundna smiðjuvinnu þar sem samþætting námsgreina og námssviða á sér stað innan árganga og á milli árganga í hluta starfsins. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði. List er kennd listarinnar vegna og aðferðum listgreina er beitt í smiðjustarfi samofið bóknámsgreinum. Skólinn ræktar lærdómsmenningu meðal starfsmanna og við erum að innleiða leiðsagnarnám í kennslustundum í grunnskólahluta skólans. Í leikskólahluta skólans er börnum gefið tækifæri til þess að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi og er leikurinn og uppgötvunarnámið það sem gengið er út frá. Í frístundahluta skólans er barnalýðræði gert hátt undir höfði ásamt samtakamætti og gleði.“

Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði.“

Nú er mikil uppbygging í kringum skólann, getur þú aðeins sagt okkur frá uppbyggingunni sem fram undan er? „Það er mikið starf í gangi til þess að búa hverfinu góðan kjarna. Í þessum kjarna fyrir botni dalsins rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir. Aðstaða fyrir tónlistarnám verður góð og  hátíðarsalur verður staðsettur miðja vegu í húsinu. Samtengt kjarnanum austan megin mun rísa íþróttahús en Fram er hverfisfélagið okkar og verður aðstaðan þar til mikillar fyrirmyndar. Nú þegar eru komnir góðir sparkvellir sem eru vel nýttir alla daga.  Haustið 2010 tókum við í notkun fyrsta áfangann í þessari miklu uppbyggingu en það er mjög vel heppnað leikskólahúsnæði, þar starfa í dag 100 börn á aldrinum tveggja  til fimm ára.“

Haustið 2016 var tekinn í notkun fyrsti áfangi nýja skólahúsnæðisins og á næstu dögum verður næsti áfangi þess húsnæðis afhentur. „Þennan veturinn munu nemendur í 4. bekk og upp úr starfa í Móanum okkar en nýja húsnæðið fékk það gælunafn á sínum tíma. Í Hlíðinni, sem er gælunafn fyrir lausu kennslustofurnar okkar, verða nemendur í 1.-3. bekk í vetur, auk list- og verkgreina. Næsta haust mun langþráður draumur rætast þegar skólahúsnæðið verður afhent og skólinn kemst undir eitt þak, undir eitt fallegt þak þar sem birta mun flæða niður í húsnæðið okkar og bláber vaxa á þökum.“

Fyrir botni Úlfarsárdals rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir.

Hvað laðar fjölskyldufólk að Úlfarsárdal? „Þetta eru síðustu hlíðarnar innan borgarmarkanna sem snúa í suður, ef Esjuhlíðar eru frátaldar. Maður sér fyrir sér afskaplega hlýlegt og fallegt hverfi þegar gróðurinn nær að potast upp. Þessar hlíðar eru í útjaðri borgarinnar, stutt í náttúruna, stutt í góða þjónustukjarna. Á Höfðanum og hér í kring eru mjög mikilvæg þjónustufyrirtæki og fólk þarf ekki að fara niður í bæ nema til hátíðarbrigða. Það er líka jákvætt að það er mjög stutt að fara út úr bænum, en hér í dalnum okkar er margar útivistar-, sumarbústaða- og fjallgöngufjölskyldur. Það að taka þátt í að byggja upp nýtt hverfi er forréttindaverkefni fyrir alla sem í dalnum búa. Fólkið á hverfið og fólkið hér stendur mjög vel saman. Vinarþel ríkir á milli manna og ég held að leitun sé að jafngóðu stuðningsliði við skólastarf eins og hér. Við höfum verið án húsnæðis í mörg ár og hvernig foreldrar hafa með ráðum og dáð verið okkar bakhjarlar er ómetanlegt,“ segir Hildur og er full tilhlökkunar.

Eru samgönguleiðir góðar og öruggar? „Skólinn er í botni dalsins og má segja að allar ár renni til skólans. Úlfarsbrautin sem liggur hér samsíða skólanum er hugsanlega hættulegasta braut dalsins að því leyti að til hennar liggja allar götur og allir stígar. Yfir hana liggja gangbrautir og dalbúar fara hér ofur varlega en brautin er hægakstursbraut. Það er ljóst að umferð mun vaxa við hana í framtíðinni þegar allt er fullbyggt og Fram verður komið með sína íþróttaaðstöðu í gagnið. Auðvitað munum við, í samvinnu við borgina, halda áfram að gera þetta hverfi öruggt og tryggt hvað öll ferlimál snertir. Þannig er það hannað.“

 

Margrét Stefánsdóttir lét draum rætast

Leið blaða­manns og ljósmyndara lá á Álftanes einn fallegan föstudag og þar sem við vorum að bera ljósmyndagræjurnar úr bílskottinu stálu nokkur hross sem virtust vera í bakgarði hússins athygli okkar og einnig dásamlegt útsýni sem náði eins langt og augað eygði. Þetta lofaði góðu; nýmóðins hús í sveitaumhverfi. Við hringdum bjöllunni og Margrét Stefánsdóttir mætti léttfætt til dyra og bauð okkur í bæinn.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar
Margrét bauð okkur kaffi en hún er kunnuglegt andlit úr mörgum áttum, hún var til að -mynda fréttakona á Stöð 2 um árið, svo var hún upplýsingafulltrúi hjá Símanum og nú síðast markaðsstjóri hjá Bláa lóninu til loka árs 2016. Margrét segir okkur að nú sé nýtt tímabil runnið upp, síðustu misserin hafi hún verið að end-ur-meta hvað hún vilji gera.

MyName My-Story verk.

,,Mér finnst hafa verið kærkomið að taka tíma í að sinna fjölskyldunni og áhugamálum og bara aðeins að anda og -hugsa mig um,“ segir Margrét. Svo virðist það alltaf vera þannig að þegar einar dyr lokast gal-opnast aðrar og Margrét er farin inn um þær því hún hefur nú stofnað fyrirtæki. MyName My-Story heitir það og gengur út á að gleðja fólk hvar sem er í heiminum með persónulegum verkum en undirstaða þeirra verka er nafn og mikilvægt skjal; fæðingarvottorð, -sónarmynd, giftingar-vottorð, samningur eða annað. Hugmyndin hjá -Marg-réti er að með þessum persónulegu verkum sem hún hannar sé þessum merkilegu pappírum, sem oft eru geymdir í lokuðum skúffum eða í kössum í geymslunni, haldið í heiðri. Hugmyndin er falleg og Margrét sækir sýnishorn; verk sem hún er búin að vera að vinna, það er sónarmynd með bókstöfum barnsins sem raðað grafískt á myndina með fínlegu letri. Hún sýnir okkur líka fæðingarvott-orð tveggja dætra sinna sem eru komin á glæra ramma í herbergjum þeirra.

Stríðinn bróðir upphafið
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig það kom til að Margrét fór út í þetta? ,,Sem krakki skrifaði ég oft nafnið mitt svona; með því að skrifa hvern staf ofan á næsta. Svo á ég bróður sem fannst ekkert leiðinlegt að stríða mér og ef ég var skotin í einhverjum strák skrifaði ég nafnið hans sakleysislega með þessum hætti því þá gat enginn lesið það. Mörgum árum seinna fór ég svo á nokkur myndlistarnámskeið og var þá að leika mér bæði með olíu- og akrýlliti og þessa hugmynd og það er eiginlega upphafið að þessu. Þá vann ég með mismunandi liti fyrir hvern bókstaf og útkoman var skemmtileg. Ég málaði á striga eða pappír og hver litur þurfti alltaf að þorna á milli en svo kom þessi hugmynd að nota hvítan, hreinan bakgrunn, svart letur og hafa verkin meira grafísk. Mig langaði líka að hafa þessa dýrmætu pappíra eins og fæðingarvottorð dætranna uppi við og fannst of hefðbundið að setja þau bara beint í ramma.“

Fluttu inn í draumahúsið í hruninu
Og þá að húsinu og þessu notalega heimili. Margrét segir að þau hjónin hafi keypt húsið árið 2008 og flutt inn þetta eftirminnilega haust þegar þjóðin varð fyrir efnahagshruni. ,,Við bjuggum áður í Kópavogi og okkur langaði í eign á einni hæð með útsýni, það var draum-urinn. Við vorum heillengi að skoða í kringum okkur og vorum ekki endilega á leiðinni á Álftanes en við eigum vini sem búa hérna og þau hvöttu okkur eindregið að flytja hingað sem varð úr og við sjáum ekki eftir því,“ svarar hún sæl í ,,sveitinni“ sinni. Hún segist samt ekki endilega vilja búa þarna þegar dæturnar verða farnar að heiman, hvenær svo sem það verður: ,,Þá flytjum við örugglega bara í miðbæinn,“ segir hún brosandi.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Sá sem skuldar ríkisbönkunum mest

Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, oftast kenndur við Brim, er sá einstaklingur sem er með mest undir, þegar kemur að skuldum við íslensku ríkisbankana, Landsbankann og Íslandsbanka.

Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur hafi verið rússíbanareið hjá Guðmundi en hann stýrir nú stórveldi í íslenskum sjávarútvegi. Titringur hefur þó verið innanhúss hjá HB Granda síðan hann tók við stjórnartaumunum og deilur við meðhluthafa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum viðvarandi. Frekari vöxtur og hagræðing er í kortunum hjá HB Granda.

Viðskiptaveldi Guðmundar er eitt þeirra sem stóð höllum fæti eftir hrunið, svo ekki sé meira sagt. Skuldir voru langt umfram eignir.

Óhætt er að segja tiltektin á fjárhag þeirra félaga hafa dregið dilk á eftir sér, þar sem hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti 25. júní síðastliðinn að leggja fram rannsóknarbeiðni á næsta hluthafafundi Landsbankans, sem beinist að því hvernig á því stendur að Guðmundur og félög hans hafi fengið milljarða afskrifaða hjá bankanum – og fengið að kaupa útgerðarfélagið Brim á 205 milljónir króna út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu.

Á sama tíma hafa lánveitingar til hans aukist um tugi milljarða og umsvifin sömuleiðis. Guðmundur stendur nú eftir með fulla vasa fjár – og miklar skuldir – og við stýrið hjá HB Granda eftir að hafa keypt stóran hlut í félaginu fyrir háar upphæðir fyrr á þessu ári, en í tilkynningu til kauphallar hefur verið boðaður frekari vöxtur félagsins.

Ítarleg fréttaskýring birtist í Mannlífi dagsins og á Kjarnanum.

Íslenskar konur bíða enn eftir skaðabótum vegna PIP-brjóstapúða

|
|

Rúmlega tvö hundruð íslenskar konur unnu hópmálssókn á hendur þýsku fyrirtæki í PIP-brjóstapúðamálinu í fyrra. Aðeins hluti skaðabóta hefur skilað sér. Lögmaður kvennanna segir allt að tvö ár í málalyktir.

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.

Um 200 íslenskar konur sem höfðu betur í skaðabótamáli fyrir frönskum dómsstólum gegn þýska eftirlitsfyrirtækinu TÜV Rheinland í PIP-sílikonpúðamálinu svokallaða bíða enn eftir að fá megnið af þeim bótum sem þeim voru dæmdar í fyrra. Hluti bótanna var greiddur í fyrrahaust. Lögmaður TÜV Rheinland áfrýjaði málinu og er útlit fyrir að endanleg niðurstaða í málinu geti dregist í eitt til tvö ár til viðbótar við þau ár sem málið hefur tekið.

„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár. Ef endanleg niðurstaða kemur fyrr, er það auðvitað frábært en aðalatriðið er að hún verði íslenskum konum í hag,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.

Aðeins fengið brot af bótum
Talið er að um 300.000 konur í 65 lönd¬um um allan heim hafi fengið gallaða brjósta¬púða frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prosthése (PIP). Þar á meðal voru um 400 íslenskar konur sem fengu púðana á árunum 2000 til 2010. Sextán þúsund konur létu fjarlægja púðana eftir að upp komst að iðnaðarsílikon var notað við gerð þeirra og hafði þá þegar valdið hluta þeirra heilsutjóni.
Um mitt ár 2015 hófst aðalmeðferð í máli um 9.000 kvenna og 204 frá Íslandi gegn TÜV Rhein¬land en fyrirtækið veitti PIP vottun um að púðarnir stæðust evrópskar kröfur. Í dómi gegn fyrirtækinu kom fram að fyrirtækið hafi vanrækt skyldur sínar um eftirlit og árverkni. Þetta er stærsta dómsmál í franskri réttarsögu og er því hvergi nærri lokið.
Meðalbætur sem hver kona átti að fá nam um tveimur milljónum króna. Konurnar fengu einungis brot af dæmdum bótum í fyrra eða um 3.000 evrur, jafnvirði 386 þúsund íslenskra króna. Frá innborguninni voru dregnar 500 evrur í málskostnað og stærsti hluti íslenskra kvenna lét að auki draga 500 evrur í matskostnað. Fengu konurnar því til sín milli 2.000 og 2.500 evrur eða 250.000 – 313.000 krónur hver.

„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár.“

Biðin orsakast af umfangi málsins
Saga segir biðina skýrast af umfangi málsins en vekur athygli á því hversu frábrugðnir franskir dómstólar eru þeim íslensku. „Réttarkerfið í Frakklandi er mjög ólíkt því sem maður þekkir hér og maður verður að aðlaga sig að því. En það verður einnig að hafa hugfast að ferlið í þessu máli er án efa frábrugðið hefðbundinni málsmeðferð í Frakklandi vegna umfangs þess. Þetta getur reynt á þolinmæðina hjá íslenskum konum sem eru aðilar að málinu, eðlilega, og auðvitað hjá okkur lögmönnunum,“ segir hún og bætir við að málinu hafi verið frestað mjög oft hjá frönskum dómstólum. Lögfræðingar hafi ítrekað farið í dómshúsið til að vera viðstaddir dómsuppsögu en fengið þær upplýsingar að málinu hafi verið frestað. Alveg þar til dómur var á endanum kveðinn upp.

PIP-brjóstpúðamálið í hnotskurn

2010

Mars: Frönsk stofnun sem hefur eftirlit með lækningatækjum bannar markaðssetningu, dreifingu, útflutning og notkun á sílikonbrjóstapúðum sem franska fyrirtækið Poly Implant Prosthése framleiðir. Ástæðan eru ýmis frávik, svo sem leki úr púðunum.

Apríl: Tilkynnt að framleiðandi brjóstapúðanna hafi notað iðnaðarsílikon, annað en vottað hefur verið við framleiðsluferlið.

2011

Desember: Franska eftirlitsstofnunin segir grun leika á að PIP-púðarnir tengist auknum líkum á krabbameini. Það er dregið til baka nokkrum dögum síðar. Lyfjastofnun á Íslandi greinir frá því að hún fylgist með málinu. Frönsk heilbrigðisyfirvöld gefa út tilmæli um að konur með PIP-brjóstapúða láti fjarlægja þá í forvarnarskyni.

2012

Febrúar: Vísindanefnd Evrópuráðsins segir PIP-púðana innihalda iðnaðarsílikon og vísbendingar um að þeir rofni frekar en brjóstapúðar annarra framleiðenda. Velferðarráðuneyti og Embætti landlæknis mæla með því að öllum konum með PIP-brjóstapúða verði boðið að láta fjarlægja þá, hvort sem þeir væru rofnir eða heilir.

2013

Nóvember: Úrskurðað að TUV Rhein­land hafi vanrækt skyldur sínar. Dreifingarfyrirtæki víða um heim fara í mál við TUV og krefjast milljarða í bætur.

Desember: Jean-Clau­de Mas, stofn­andi og eig­andi PIP-brjósta­búðafram­leiðand­ans, dæmdur í fjögurra ára fang­elsi fyr­ir svik og til greiðslu sektar. Fjórir framkvæmdastjórar PIP eru líka fundnir sekir um svik og hljóta dóma.

2015

Júlí: Aðalmeðferð hefst í undirrétti í Frakklandi í máli um 9.000 kvenna gegn TÜV Rhein­land.

 2017

Janúar: Undirréttur dæmir konunum bætur.

September: Konurnar fá innborgun bóta upp á 3.000 evrur.

Reykjavík Meat, nýtt og spennandi veitingahús

Reykjavík Meat er glænýr og áhugaverður staður á Frakkastíg 8 en þar er, eins og nafnið gefur til kynna, aðaláherslan á góðar og verulega safaríkar steikur.

Rekstraraðilarnir eru þeir sömu og eiga Mathús Garðabæjar en það er Víðir Erlingsson yfirkokkurinn sem heldur um taumana í eldhúsinu. Maturinn er eldaður og grillaður á kolum sem gefur matnum einstaklega gott bragð. Hráefnið er líka fyrsta flokks en megnið af kjötinu er frá Kjöt Company og úrvalið af nautakjöti er gott og svo er boðið upp á lamb.

Einnig er boðið upp á svokallað „sashi”-kjöt eða marmarakjöt sem er sérstaklega innflutt frá Danmörku og Reykjavík Meat er með einkaleyfi á. Þeir sem ekki eru fyrir kjöt geta andað léttar því hægt er að fá góða fisk- og grænmetisrétti sem líka eru eldaðir á kolum og gæla við bragðlaukana.

Um síðustu helgi bauð Reykjavík Meat í smökkunarpartí þar sem boðsgestum var boðið að koma og smakka gómsæta rétti á matseðlinum, lyfta glasi og hlusta á skemmtilega tónlist. Mannlíf var á staðnum og myndaði stemninguna og veislugesti. Við óskum Reykjavík Meat innilega til hamingju með þennan nýja og áhugaverða stað sem óhætt er að segja að sé kærkomin og skemmtileg viðbót við veitingahúsaflóruna á Íslandi.

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritstjóri Gestgjafans og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, aðstoðarútgáfustjóri Mannlífs skemmtu sér konunlega.

 

„Stolt af fangavistinni“

||||
||||

Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar hafa búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið. Þótt Hjördís sé ánægð með þennan mikilvæga áfanga finnst henni erfitt að fagna, því eftir sitji að svo margir hafi brugðist börnunum hennar. Kerfið og regluverkið standi ekki með börnum og margir glími við svipuð mál og þau máttu þola.

Þegar Hjördís flúði með dætur sínar til Íslands, með leiguflugi í skjóli nætur, hafði danskur dómstóll dæmt að hún og danski maðurinn, sem hún var í forsjárdeilu við, hefðu sameiginlega forsjá yfir dætrunum og búsetu hjá honum. Hjördísi hafði gengið illa að fá umgengni við stúlkurnar þar sem maðurinn hindraði samskipti. Hjördís kærði og fékk að hitta dæturnar í kjölfarið. Fyrir lá að tekið yrði fyrir dönskum dómstólum mál þar sem maðurinn sótti um fullt forræði yfir dætrunum. Þrátt fyrir að hafa undir höndum áverkavottorð um meint ofbeldi gegn dætrunum og tilkynningu frá leikskóla í Danmörku til félagsmálayfirvalda og lögreglu um meint ofbeldi vissi Hjördís að hún ætti litla möguleika í málinu. Hún var þegar orðin sakamaður í augun danskra stjórnvalda þar sem hún hafði tvisvar áður farið með dæturnar án leyfis mannsins til Íslands. Í fyrra skiptið hlýddi hún úrskurði íslenskra dómstóla og fór sjálfviljug með dæturnar til Danmerkur eftir að maðurinn kærði brottnámið. Í seinna skiptið neitaði hún og dæturnar voru teknar af henni með valdi þann 29. júní 2012 þar sem meðal annars víkingasveitin var tilkvödd. Þá var búið að lofa að taka þær ekki ef maðurinn kæmi ekki á staðinn. Maðurinn mætti ekki en stúlkurnar voru samt teknar og vistaðar hjá vandalausum í tvo sólarhringa. Ári síðar viðurkenndi Innanríkisráðuneytið að börnin hefðu verið tekin með ólögmætum hætti.
Hjördís ákvað því að taka örlög dætra sinna í eigin hendur haustið 2013 og flúði með börnin frá Danmörku en flóttanum og málinu öllu voru gerð ítarleg skil í íslenskum fjölmiðlum. Hjördís keyrði í 20 klukkustundir áður en hún kom á stað í Skandinavíu þar sem hún fór huldu höfði í fimm vikur. Hún var ekki með síma, sendi ekki tölvupósta og notaði ekki samfélagmiðla. Með hjálp föður síns og fleiri sem söfnuðu fé til að sækja þær með leiguflugvél komust mæðgurnar til Íslands. Stuttu seinna var manninum dæmt fullt forræði yfir stúlkunum og þær því algerlega í dönsku kerfi auk þess sem hann var með vegabréf þeirra. Maðurinn kærði brottnámið og sótti um að stúlkurnar yrðu tafalaust fluttar aftur til Danmerkur í beinni aðfarargerð. Héraðsdómur dæmdi honum í vil og Hjördís áfrýjaði til Hæstaréttar. Hæstiréttur sneri dómnum hins vegar og börnin urðu því áfram á Íslandi, að því er virðist vegna formgalla á kæru mannsins. Þegar úrskurður Hæstaréttar féll var búið að handtaka Hjördísi og hún sat í dönsku fangelsi. Dæturnar voru í umsjá móður hennar og systkina á Íslandi.

„Þessi dómur Hæstaréttar var mikill léttir en yfir vofði að maðurinn færi í annað mál og krefðist þess að fá börnin afhent,“ segir Hjördís blátt áfram og vílar ekki fyrir sér að rifja málið upp. „Eftir að ég lauk afplánun lét ég lítið fyrir mér fara, naut hvers dags sem við vorum saman og við lifðum eins eðlilegu lífi og unnt var. Þar sem dæturnar voru með lögheimili í Danmörku voru þær ekki með sömu réttindi og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Þær voru ekki tryggðar og þurftu til dæmis að greiða fullt verð fyrir alla læknisþjónustu, þær fengu ekki frístundastyrk og ég fékk engar barnabætur, svo eitthvað sé nefnt. Elsta dóttir mín gat ekki farið með körfuboltaliðinu sínu til útlanda þar sem stúlkurnar voru ekki með vegabréf. Eins og í svo mörgu var verið að brjóta á rétti þeirra með því að leyfa þeim ekki að njóta sömu réttinda, en við gerðum allt til að láta hlutina ganga upp. Þetta voru smámunir í samanburði við það sem á undan hafði gengið og engin ástæða til að rugga bátnum með því að sækja rétt þeirra. Þannig að svona var þetta þangað til að ég fékk forræðið og búsetuna til mín í maí síðastliðnum.“

„Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki.“

Hjördís Svan segist ekki hafa hikað við að brjóta lögin til að bjarga börnunum sínum úr ömurlegum aðstæðum. Hún myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti.

Samþykkti að biðja aldrei um peninga
Í byrjun þessa árs voru tæplega fimm ár liðin og lögmaður Hjördísar, Kristín Ólafsdóttir, ráðlagði henni að prófa að sækja um forræði. „Ég fór hefðbundna leið og mætti hjá Sýslumanni í svokallaða sáttameðferð. Maðurinn mætti ekki og sýslumannsembættið gaf þá út sáttavottorð sem gefur mér leyfi til að leita til dómstóla. Lögmaður minn útbjó stefnu þar sem ég sóttist eftir forræðinu og ég þurfti að láta þýða stefnuna yfir á dönsku. Taka átti málið fyrir í byrjun maí en maðurinn svaraði stefnunni með samningi þess efnis að ég fengi forræðið og búseturéttinn og að ég gæti aldrei krafist peninga af hans hálfu ef dæturnar vanhagaði um eitthvað. Ég samþykkti þennan samning. Þetta var auðvitað mjög stór stund í lífi okkar, eitthvað sem við höfðum beðið lengi eftir en á sama tíma voru þetta ljúfsár tíðindi þar sem sömu mistökin eru gerð trekk í trekk og af sama fólki. Það hefur ekkert breyst í barnaverndarmálum, börn eru neydd í umgengni við ofbeldisfulla feður, Danir og fleiri lönd í Evrópu halda áfram að dæma mæður eins og mig í fangelsi fyrir að verja börn sín fyrir ofbeldi,“ segir Hjördís.
Hún gagnrýnir að konur sem búið hafi við ofbeldi neyðist til að sitja sáttafundi með ofbeldismanninum hjá sýslumanni án þess að mega hafa lögmann eða annan stuðningsaðila viðstaddan. „Það verður að hugsa til þess að konur sem yfirgefa ofbeldi eru oft að niðurlotum komnar andlega og líkamlega, hafa kannski búið við ofbeldi í mörg ár og hafa ekkert sjálfstraust. Ofbeldismenn eiga það til að viðhalda ofbeldinu árum saman þrátt fyrir að konan hafi yfirgefið þá en það geta þeir meðal annars gert í gegnum kerfið. Það krefst mikils styrks að yfirgefa ofbeldismann og ekki sjálfgefið að niðurbrotnar konur hreinlega geti það. Konur sem reyna að verja börn sín fyrir ofbeldi eru dæmdar til að greiða dagsektir. Þeim er alveg sama þótt þær verði gjaldþrota því þegar velferð barna þeirra er í fyrirrúmi skipta peningar engu máli. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki. Þá hefði ég ekki verið úthrópuð í fjölmiðlum og kommentakerfum. Þá hefði ég ekki þurft að heyra fólk segja að þar sem maðurinn er ekki dæmdur hljóti ég að vera að ljúga og þá hefði ég ekki verið kölluð hin alræmda tálmunarmóðir, orð sem einstaklingar nota til að gera lítið úr konum sem tjá sig um ofbeldi. Konur hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveða að fara, réttarkerfið er ekki fyrir þolendann heldur fær gerandinn allt of oft að njóta vafans. Ég veit um börn sem eiga eftir að leita réttar síns þegar þau hafa aldur til og ætla í mál við íslenska ríkið fyrir að neyða þau í samvistir með einhverjum sem beitti þau ofbeldi, þrátt fyrir að til væru gögn sem sönnuðu það.“

„Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk.“

Fékk eitt símtal eins og í bíómyndunum
En hverfum aftur að atburðarásinni eftir flóttann 2013, athæfinu sem Hjördís var handtekin fyrir og fangelsuð. „Fljótlega eftir heimkomuna byrjuðu stelpurnar í skóla þar sem þeim var vel tekið af kennurum og nemendum, þær fóru að æfa körfubolta eins og stóri bróðir þeirra og fundu sig vel í þeirri íþrótt. Þó að við reyndum að lifa venjulegu lífi vorum við oft hræddar. Stelpurnar fylltust hræðslu þegar þær sáu lögreglubíl sem er ekki skrítið miðað við aðgerðirnar þegar þær voru teknar með valdi af einkennisklæddum lögregluþjónum. Einu sinni fékk ég símtal frá dóttur minni þar sem hún sagðist hafa séð konuna sem var svo reið þennan dag þegar þær voru teknar, hún var þá að tala um fulltrúa sýslumanns Kópavogs,“ segir Hjördís.
Fljótlega sendu dönsk yfirvöld norræna handtökuskipan á hendur Hjördísi og fóru fram á framsal. Að sögn Hjördísar var lögð mikil harka í að beiðninni yrði framfylgt. „Lögmaður minn varðist mjög vel og náði að fresta afhendingu minni í marga mánuði en ég var alltaf dæmd í farbann. Lögmaður minn sýndi fram á að hægt væri að neita afhendingu vegna mannúðarsjónarmiða en yrði ég send til Danmerkur væru börnin mín foreldralaus,“ segir Hjördís.
Meðan Hjördís var í farbanni þurfti hún að tilkynna sig á lögreglustöðinni alla virka daga og gerði það samviskusamlega. „Einu sinni þegar við fjölskyldan vorum að borða kvöldmat mundi ég að ég hafði gleymt að tilkynna mig. Ég brunaði á lögreglustöðina við Grensásveg en hurðin var læst svo ég bankaði. Sem betur fer sá mig einhver og hleypti mér inn. Ég lagði mig fram við að leyna áhyggjum mínum og kvíða fyrir börnunum. Þeim leið vel og dætur mínar blómstruðu í skóla og íþróttum. Við voru einstaklega heppin með kennarana þeirra sem vissu um málið og héldu sérstaklega vel utan um þær. Ég á líka einstaka fjölskyldu og vini sem gengu með mér í gegnum eld og brennistein sem og frábæra lögmenn þau Kristínu Ólafsdóttur og Hrein Loftsson frá Lögmönnum Höfðabakka og Thomas Michael Berg sem var lögmaður minn í Danmörku. Þessu fólki fæ ég seint fullþakkað. Einnig voru margir sem ég þekkti ekki neitt sem buðu fram hjálp sína, ómetanlegt.“
Í febrúar 2014 var hins vegar ákveðið að verða við óskum danskra yfirvalda og Hjördís var framseld til Danmerkur. „Eftir að barnaverndarstofa fór að skipta sér af málunum breytti ríkissaksóknari ákvörðun sinni á einni nóttu,“ fullyrðir Hjördís. „Haldinn var fundur með lögreglu og barnaverndarstofu, fundur sem lögmenn mínir fengu ekki að vita af. Íslensk yfirvöld hafa sjaldan framselt íslenska ríkisborgara, ég held að ég hafi verið númer þrjú,“ segir Hjördís.
Hún mætti á lögreglustöðina við Grensásveg og var ekið út á Keflavíkurflugvöll af alþjóðadeild lögreglunnar. Þar var hún vistuð í fangaklefa og danskir lögreglumenn fylgdu henni í flugið til Danmerkur. „Þegar við lentum á Kastrup var sagt við mig: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ eða „Hjördís Svan, þú ert handtekin.“ Við tók þriggja klukkustunda akstur til ríkisfangelsisins í Horsens en þar var ég sett í lítinn og ógeðslegan klefa með litlum bedda. Daginn eftir var ég leidd fyrir dómara sem dæmdi mig í farbann og ég ætti að tilkynna mig daglega á lögreglustöðina. Ég var svo heppinn að eiga góða frænku og mann hennar að í Horsens sem ég gat verið hjá. Daginn eftir vaknaði ég frekar kvíðin en ákvað að drífa mig að tilkynna mig á lögreglustöðinni. Afgreiðslumaðurinn svaraði mér ekki þegar ég tilkynnti mig heldur gekk á bak við og kom til baka ásamt tveimur lögreglumönnum sem sögðu aftur: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ en þá hafði ákvörðuninni um farbannið verið áfrýjað. Eins og í bíómyndunum mátti ég fá eitt símtal, ég hringdi í pabba til þess að biðja hann um að hafa samband við danska lögmanninn minn.
Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk. Ég fékk ekki að láta frænku mína og mann hennar vita að ég hefði verið handtekin og fékk ekki að fara heim til þeirra til að sækja fötin mín. Ég var í íslensku lopapeysunni minni og í rauðum gúmmístígvélum, man það vegna þess að meðfangar mínir sögðu mér seinna hvað þeim fannst skrítið þegar ég birtist í þessum klæðnaði, alls ekki með útlit hins hefðbundna fanga,“ rifjar Hjördís upp.

„Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis.“

Lærði að komast af í fangelsinu
„Mér var ekið í ríkisfangelsið í Horsens sem er hámarksöryggisfangelsi. Á leiðinni sendi ég skilaboð til barnanna minna og sagði þeim hve heitt ég elskaði þau og þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér en ég vildi að þau vissu að þau gætu ekki hringt í mig. Það var mér mikils virði að hafa náð að gera þetta áður en síminn var tekinn af mér. Lögreglubílnum var svo ekið inn í bygginguna og hurðinni lokað áður en ég var tekin út úr bílnum. Mér leið eins og ég væri í amerískri bíómynd; teknar voru ljósmyndir af mér frá öllum hliðum, tekin fingraför og allt sem ég var með tekið af mér. Þvínæst þurfti ég að afklæðast. Kvenkynsfangavörður fylgdi mér inn á gang með fimm klefum. Ég vissi seinna að hún var kölluð Angry Bird þar sem hún var alltaf frekar reið og með eldrautt litað hár. Ég þurfti að byrja á því að þrífa klefann þar sem hann var ekki mjög huggulegur. Áður en ég var læst inni heyrði ég hina fangana banka á hurðarnar því þeir heyðu að einhver nýr væri að koma. Þá fyrst áttaði ég mig á því að karlmenn væru líka í þessu fangelsi og seinna kom í ljós að ég var eini kvenmaðurinn. Það eina sem ég fékk var handklæði, lítill tannbursti og tannkrem. Ég fékk ekkert af dótinu mínu né föt fyrstu fjóra dagana því verið var að fara yfir allt, meðal annars með hjálp fíkniefnahunda,“ segir Hjördís.
Þau voru fimm sem bjuggu saman á gangi og voru með sameiginlega eldunaraðstöðu. Fangarnir þurftu að vera innandyra allan daginn fyrir utan eina klukkustund á morgnana og aðra á kvöldin en þá fengu þeir að fara út í garð og ganga í hringi. Hjördís mátti ekki hringja strax því það þurfti að fara vel yfir þá aðila sem hún mátti hringja í. „Ég mátti þó tala við lögmenn mína, bæði íslenska og danska, og það var virkilega gott að heyra frá þeim. Það tók mig nokkra daga að aðlagast, eða réttara sagt að læra að komast af. Það var annaðhvort að liggja öllum stundum inni í klefanum eins og ég gerði fyrstu dagana og hefði í raun geta valið að gera, eða að rífa mig á lappir og takast á við þessa undarlegu og hræðilegu lífsreynslu. Ég ákvað að líta á þetta sem verkefni sem ég þyrfti að leysa. Ég fór að vinna í verksmiðju í fangelsinu en fyrir það fékk ég laun og ég þurfti peninga til að borga fyrir mat. Ég byrjaði einnig í fótbolta, badminton og blaki og viðurkenni að það var sérstakt í byrjun að spila fótbolta við meðlimi glæpagengis. Harkan var ekkert minni þótt ég væri með og ég var stundum ansi marin eftir leikina. Ég skráði mig í skólann og lærði dönsku, stærðfræði og ensku. Ég var virt af samföngum mínum því þeim fannst gott hjá mér að bjarga dætrum mínum frá ofbeldi,“ segir Hjördís en hún er þeim eiginleikum gædd að geta samlagast allskonar fólki og það gerði hún þarna og eignaðist góða vini. „Auðvitað óttaðist ég samt suma en þarna voru alls konar menn með óhugnanlega fortíð en líka strákar sem lífið hafði farið hrjúfum höndum um. Bestu stundirnar voru þegar ég fékk fimm mínútur til þess að hringja í börnin mín, tvisvar í viku.“

„Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið.“

Ákvað strax að áfrýja ekki
Hjördís var í gæsluvarðhaldi í ríkisfangelsinu í fimm mánuði og bjó með alls tuttugu og sex karlmönnum á tímabilinu en þarna var mikið rennerí af mönnum sem biðu dóma.
„Þarna beið ég eftir að sakamálið á hendur mér yrði tekið fyrir. Heima á Íslandi var líka í gangi afhendingarmál sem danski maðurinn sótti. Ég man ekki hve lengi ég hafði setið inni þegar ég fékk fréttir þess efnis að Héraðsdómur hefði dæmt honum í hag og að dómarinn hefði sagt að það ætti að hjálpa stelpunum að vera ekki hræddar við pabba sinn vegna þess að þær ættu að vera hjá honum. Heimurinn hrundi og ég gat ekkert gert. Eins og alltaf þegar ég fékk neikvæðar fréttir tók ég nokkra daga í að liggja og gráta en svo reis ég upp aftur með nýja von í brjósti, eins og alltaf. Á svipuðum tíma var réttað yfir mér í Kolding. Ég þurfti að mæta þrisvar vegna þess hve umfangsmikið málið var og mikið af gögnum og var í kjölfarið dæmd í 18 mánaða fangelsi. Danski lögmaðurinn minn vildi strax áfrýja, sagði þetta fáránlegan dóm miðað við gögn. En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Samfangar Hjördísar lásu margir bókina Leyndarmálið, The Secret, sem fjallar um að hægt sé að breyta mörgu með góðum hugsunum, með því að sjá óskirnar fyrir sér. „Ég tileinkaði mér þetta og byrjaði að skrifa niður á blað aftur og aftur „stelpurnar verða óhultar“ og „þetta fer allt vel“ og „ég get allt“. Ég sagði börnunum mínum að gera það sama. Ég reyndi að sjá fyrir mér lögmann minn hringja í mig og segja mér góðar fréttir sem var erfitt þar sem ég var vön að ímynda mér alltaf það versta. Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis. Ég var svo heppin að það var föstudagur en ég hringdi alltaf í börnin á föstudögum. Þau brotnuðu niður og við grétum í símann, léttirinn og gleðin voru mikil,“ segir Hjördís.

Fékk flutning í íslenskt fangelsi
Í júlí 2014 fékk Hjördís að vita að hún mætti ljúka afplánun sinni á Íslandi. „Á sama tíma og það var gott að kveðja fangelsið í Danmörku var líka erfitt að kveðja suma sem mér þótti orðið vænt um. Sérstök vinátta myndast þar sem einstaklingar þurfa að hjálpast að og treysta hver á annan. Þetta er pínulítið samfélag þar sem fara verður eftir reglum sem aðrir búa til og þú ræður engu. Ég gekk út með tárin í augunum, full af gleði og stolti. Núna var ég að fara heim að hitta börnin mín og fjölskyldu,“ segir hún brosandi.
Sömu lögreglumenn og fylgdu henni til Danmerkur fóru með henni heim líka. Hún var sótt út á flugvöll af íslenskum fangelsisyfirvöldum og færð í Kvennafangelsið í Kópavogi. „Það var skrítið að koma þangað, ég gat hringt þegar ég vildi. Mér fannst lífið í kvennafangelsinu ágætt en það svipar mikið til þáttaraðarinnar Fangar sem sýnd var á RÚV. Eftir tvær vikur í Kópavogi tóku við þrír mánuðir á Vernd. Þá þurfti ég að vera í vinnu eða taka að mér sjálfboðavinnu. Ég byrjaði hjá Samhjálp en fékk svo vinnu á skrifstofu sem gerði mikið fyrir mig – ég hitti dásamlega vinnufélaga og það að komast út á meðal fólks var mikils virði. Lögreglan keyrði daglega fram hjá vinnustaðnum til að athuga hvort ég væri ekki örugglega í vinnunni og ég veifaði þeim út um gluggann. Eftir komuna á Vernd hitti ég dætur mínar fyrst en þær máttu ekki heimsækja mig í fangelsið,“ segir Hjördís.
Á Vernd á fólk að mæta milli klukkan 18 og 19 í mat en að sögn Hjördísar er það gert til að fylgst með hvort einhver sé í rugli. Á virkum dögum þarf að koma í hús fyrir klukkan 23 og fyrir 21 um helgar. „Ég var ekki ein í herbergi sem voru auðvitað viðbrigði en ég var heppin með herbergisfélaga þannig að allt gekk vel. Mér fannst reyndar erfitt að vita af því seinna að þarna byggju menn sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum.
Ég var neydd á AA-fund þótt ég tæki skýrt fram að ég hefði aldrei átt við áfengis- eða vímuefnavanda að etja. Allir áttu að fara á þennan fund.
Eftir dvölina á Vernd var ég svo með ökklaband í viku. Þá þurfti ég að vera komin heim á vissum tíma á kvöldin og mátti að sjálfsögðu hvorki neyta áfengis né annara vímuefna, líkt og annarsstaðar í fangelsum. Í fangelsinu í Danmörku birtust fangaverðir reglulega og horfðu á mig pissa í glas til að fullvissa sig um að ég væri ekki að neyta eiturlyfja sem allt var morandi af. Í byrjun nóvember 2014 mátti ég klippa ökklabandið af mér og við fjölskyldan gerðum það við hátíðlega athöfn. Þá var ég búin að afplána níu mánuði eða helming dómsins.“

„En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“

„Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís

Myndi gera þetta aftur
Mikið var fjallað um mál Hjördísar í fjölmiðlum, bæði hérlendis og í Danmörku, og almenningur kepptist við að hafa skoðanir á málinu. „Sumir töldu að ég hefði fengið hjálp frá yfirvöldum en mín upplifun var þvert á móti, flest vann gegn mér. Ég var í miklum mæli gagnrýnd á samfélagsmiðlum, í sumum fjölmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Ég hef lítið um það að segja, niðrandi ummæli dæma sig sjálf. Ég er stolt af fangavistinni, hikaði ekki við að brjóta lögin til að bjarga börnunum mínum úr ömurlegum aðstæðum. Ég myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti,“ segir Hjördís ákveðin. „Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið. Þegar ég ákvað að fara úr þessum aðstæðum var ég algjörlega niðurbrotin, þreytt andlega og líkamlega. Mér fannst ég ekki gera neitt rétt, efaðist um allt sem ég gerði. Ég hafði verið í því hlutverki í mörg ár að reyna að gera alla glaða í kringum mig, reyna að hafa allt gott. Á þeim tíma er ég ekki viss um að ég hefði lifað fangelsisvist af, en þar þurfti ég að trúa á sjálfa mig, ég þurfti að lifa af fyrir börnin mín. Ég fór svo oft út fyrir minn litla þægindaramma, eins og til dæmis með því að mæta á fótboltaæfingar með 20 karlföngum, lesa danskt ljóð fyrir framan þá í dönskutíma eða rífa kjaft við fangaverði vegna ósanngjarnar meðferðar á sumum föngunum. Ég var auðvitað mikið ein og þurfti gjörsamlega að breyta hugsunarhætti mínum, reyna að sjá það góða í öllu og vera þakklát. Ég held að það hafi líka létt fangelsisvistina að ég vissi alltaf að ég var að gera rétt, efaðist aldrei um það. Ég var örugglega eini fanginn þarna sem var stolt af glæpnum,“ segir Hjördís.
Framtíðin er björt hjá Hjördísi og fjölskyldu hennar. Dætur hennar hlakka til að komast aftur í körfuboltann en þær mæðgur verja öllum frítíma sínum í íþróttahúsum á veturna. „Svo höldum við áfram að rækta sál og líkama, njóta þess að vera saman. Ég held áfram að berjast með konum sem eru í svipaðri stöðu og ég var. Ég hætti ekki fyrr en kerfinu verður breytt og ýmsir aðilar stíga til hliðar. Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís að lokum.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL

Margrét hannaði 3.600 búninga fyrir kvikmyndina 22. júlí

|
|

Netflixmynd um fjöldamorðin í Útey frumsýnd í Feneyjum.

Kvikmynd Pauls Greengrass 22. júlí, sem fjallar um fjöldamorð Anders Behring Breivik í Útey, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum og hlaut afar jákvæðar móttökur. Íslenski búningahönnuðurinn Margrét Einarsdóttir var búningahönnuður myndarinnar og hún segir vinnuna við myndina hafa haft djúp áhrif á sig.

„Þetta er rosalega áhrifarík mynd og ég get ekki hætt að hugsa um hana,“ segir Margrét sem stödd er í Feneyjum til að vera viðstödd frumsýninguna á kvikmyndahátíðinni. „Myndin var unnin í nánu samstarfi við aðstandendur fórnarlamba fjöldamorðanna í Útey 22. júlí 2011 og það tók töluvert á að fara í gegnum þennan hrylling með þeim. En þótt þetta sé erfitt viðfangsefni og stutt síðan þetta gerðist þá er mikilvægt að fjalla um þetta og mér finnst þessi mynd gera það mjög vel.“

Paul Greengrass er einn virtasti leikstjóri samtímans og hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn, fyrir Green Zone árið 2010 og Captain Phillips árið 2013. Hvernig kom það til að Margrét fór að vinna með honum, hafði hún unnið með honum áður?

„Þetta var svolítið mikið. En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“

„Nei, ég hafði aldrei unnið með honum áður,“ segir hún. „En ég hafði unnið með einum framleiðanda myndarinnar og þannig kom það til að ég var beðin um að taka þetta að mér.“

Paul Greengrass er einn virtasti leikstjóri samtímans og hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn, fyrir Green Zone árið 2010 og Captain Phillips árið 2013.

Verkefnið var risavaxið þar sem níutíu leikarar fara með hlutverk í myndinni auk 3.500 statista og Margrét þurfti að hanna búninga á allan skarann. „Þetta var svolítið mikið,“ viðurkennir hún. „En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“

22. júlí er ekki eina kvikmyndin um hryllinginn í Útey sem verið er að sýna þessa dagana önnur mynd um sama efni, Útey, er nú í sýningum í Bíó Paradís. Margrét segir myndirnar nálgast atburðina á mjög ólíkan hátt en svo skemmtilega vill til að hún var líka beðin um að hanna búningana fyrir Útey en valdi 22. júlí frekar. Hún segir handritið hafa hrifið sig mikið og hin nána samvinna við fjölskyldur fórnarlambanna geri hana einstaka. Myndin byggir á bók Åsne Seierstad, Einn af okkur sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2016, og Greengrass skrifaði handritið í samstarfi við hana.

Myndin keppir í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum um Gullna ljónið og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Til að mynda gaf kvikmyndagagnrýnandi The Guardian henni 5 stjörnur í dómi sem birtist 5. september.

„Ekkert til í okkar orðabók sem heitir stöðnun.“

Íslenskt áhugafólk um förðun ætti að kannast vel við Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur og Söru Dögg Johansen, en þær hafa skipað sér í raðir okkar fremstu förðunarfræðinga. Ungar að árum stofnuðu þær fyrirtækið sitt Reykjavík Makeup School sem nýtur mikilla vinsælda, en á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun skólans hafa tæplega 600 nemendur útskrifast þaðan. Velgengni þeirra má þakka metnaði og óbilandi áhuga á því sem þær gera, en þær leggja mikla áherslu á að auka sífellt þekkingu sína og færni í faginu.

Leiðir vinkvennanna lágu upphaflega saman árið 2010 þegar þær kynntust í Airbrush & Makeupschool. Á þessum tíma var Sara nýútskrifuð úr listnámi en hún segir hönnun og list alltaf hafa heillað sig. „Ég tók grunn í arkitektúr áður en ég lærði förðun, en draumur minn frá því að ég man eftir mér var að verða arkitekt,“ segir hún, en eftir útskrift úr förðunarnáminu var ekki aftur snúið. „Upphaflega ætlaði ég aðeins að læra förðun fyrir sjálfa mig, en eftir námið bauðst mér starf í förðunarverslun og sem förðunarkennari, síðan þá hefur þessi heimur átt hug minn allan.“

Silla starfaði í Íslandsbanka og ætlaði sér, líkt og Sara, eingöngu að læra förðun fyrir sjálfa sig. Hún fann fljótt að þetta lægi vel fyrir sér, en hélt áfram að vinna í bankanum næstu tvö árin. „Einn daginn fékk ég svo símtal þar sem mér bauðst að gerast kennari við skólann þar sem ég lærði, og mér fannst það mjög spennandi. Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fór ég samt sem áður að hugsa, „af hverju geri ég þetta ekki bara sjálf, af hverju ekki að opna nýjan skóla?“ og þar með kviknaði hugmyndin. Ég ræddi þetta fram og til baka við manninn minn sem leist vel á hugmyndina og hvatti mig áfram, en mig vantaði viðskiptafélaga, einhvern sem var tilbúinn til að gera þetta með mér. Ég þekkti Söru ekki mikið á þessum tíma en fann einhvern veginn á mér að hún væri rétta manneskjan í þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég bað hana þess vegna að koma með mér í hádegismat á Hamborgarafabrikkunni einn daginn, og spurði hana hvernig henni litist á að stofna eitt stykki skóla með mér. Ótrúlegt en satt, hún var búin að vera hugsa nákvæmlega það sama, og allar hugmyndirnar sem hún hafði voru svipaðar því sem ég var með í huga. Ég þurfti því ekkert að hafa fyrir því að sannfæra hana, og við ákváðum þarna að bara kýla á þetta.“

Eftir að hugmyndin var komin í loftið var ekki aftur snúið og hlutirnir gerðust hratt. Aðeins mánuði eftir fundinn á Hamborgarafabrikkunni var komin kennitala fyrir fyrirtækið, nafn og leit hafin að rétta húsnæðinu. Hvorug þeirra var í vafa um að þetta væri rétt skref. „Auðvitað var þetta einhver áhætta, að stofna fyrirtæki og henda okkur í djúpu laugina, sérstaklega þar sem við þekktumst varla. En við vorum bara svo vissar frá upphafi að þetta myndi ganga,“ segir Sara, og Silla tekur undir. „Það er líka kannski það sem hefur komið sér svona vel, að vera ekkert að ofhugsa hlutina. Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis. Ég er alveg viss um að ef við hefðum fengið þessa hugmynd og ætlað að hugsa um þetta í einhvern tíma, mánuði eða ár, hefði bara einhver annar verið á undan.“

 

Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Sillu og Söru. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir

Tónlist, tíska og hjólabretti- hin heilaga þrenning

Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.

Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt.  Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“

Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“

Elsti þátttakandinn 74 ára

Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“

Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“

Tónlist ávallt skipað stóran sess

Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í  online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“

Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt,  má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“

Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í 33.tbl Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Hákon Björnsson

Raddir