Föstudagur 15. nóvember, 2024
0.3 C
Reykjavik

Þorrablót með öllu tilheyrandi

Bryggjan brugghús heldur heljarinnar þorrablót með öllu tilheyrandi.

Á þorrablóti Bryggjunnar brugghúss verður boðið upp á glæsilegt hlaðborð með súrmeti, lambalæri, hangikjöti, síld og gómsætu meðlæti. Glæsileg skemmtidagsdagskrá setur punktinn yfir i-ið.

Það er hin bráðfyndna Saga Garðarsdóttir sem fer með veislustjórn á þorrablótinu þann 26. janúar en Anna Svava Knútsdóttir verður svo veislustjóri þann 8. og 9. febrúar. Þá er það Helgi Björnsson sem heldur uppi stuðinu ásamt hljómsveit.

Þeir sem halda hátíðlega upp á bóndadaginn geta svo skellt sér í nýja matar- og bjórskóla Bryggjunnar brugghúss sem haldinn er alla fimmtudaga. Hægt er að kaupa gjafabréf í skólann og þeir bændur sem fá slíkt gjafabréf fá að auki bjórglas merkt Bryggjunni brugghús. Tilvalin bóndadagsgjöf í upphafi þorranns.

Nytjamarkaðir að fyllast vegna Marie Kondo?

|
|

Tiltektarþættirnir Tydying Up With Marie Kondo njóta mikilla vinsælda víða um heim en Kondo hvetur fólk til að losa sig við það dót sem ekki veitir því gleði.

Netflix-þættir japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo), hafa notið mikilla vinsælda undanfarið víða um heim. Svo mikilla vinsælda að margt fólk er að losa sig við dót og drasl eins og enginn sé morgundagurinn að sögn nokkurra starfsmanna nytjamarkaða í Bretlandi.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilinu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki Marie Kondo.

Marie Kondo hefur gefið út fjórar bækur um tiltekt og skipulag.

Í frétt BBC kemur fram að margir nytjamarkaðir í Bretlandi hafa verið að fyllast í janúarmánuði. „Við sjáum venjulega aukningu á framlögum í janúar, en þetta árið hefur þetta verið ótrúlegt,“ segir Sue Ryder sem rekur nytjamarkað í Camden í Lundúnum.

Að hennar sögn hafa um 30 stórir pokar verið að skila sér á nytjamarkaðinn á dag. Það er helmingi meira en búist var við að sögn Ryder. Hún vill meina að þetta séu afleiðingar þess að speki Kondo nýtur mikilla vinsælda núna.

Hvað með Íslendinga?

Gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti.

Hvað með nytjamarkaði á Íslandi? Starfsmaður Nytjamarkaðar ABC barnahjálpar segir janúarmánuð hafa verið annasaman og að mjög margt fólk sé augljóslega að taka til á heimilinu þessa stundina. Það er þó ómögulegt að segja til um hvort tiltektarþættir Marie Kondo hafi eitthvað með málið að gera.

„Það er allt alveg stútfullt hjá okkur og það gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti. En að vísu er fólk líka að versla mikið hjá okkur og fólk vill kaupa notað í staðin fyrir nýtt. Þar koma umhverfissjónarmiðin inn í,“ segir starfsmaður nytjamarkaðar ABC.

Starfsmaður nytjamarkaðar Hertex í Garðastræti hafði einnig svipaða sögu að segja en tók fram að erfitt væri að segja til um hvort þættir Marie Kondo væru að ýta undir tiltektardugnað landsmanna.

Sjá einnig: Misbýður boðskapur Marie Kondo

Brot úr bíl Filippusar til sölu á ebay

|
|

Bútar og brot úr jeppa Filippusar, hertogans af Edinborg, eru nú til sölu á ebay.

Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar, slapp ómeiddur frá árekstri í síðustu viku en Land Rover-jeppi hans skemmdist töluvert. Þó nokkuð af brotnum bútum og glerbroti varð eftir á vettvangi þar sem áreksturinn átti sér stað, nálægt Sandringham-höll drottningarinnar.

Einhver hefur þá brugðið á það ráð að safna saman bútunum af vettvangi til að selja á uppboðsvefnum ebay.

Það er seljandinn morbius777 sem selur hlutina. Á söluvef hans kemur fram að upphæðin muni renna til góðgerðasamtakanna Cancer Research UK.

„Gæti meira að segja haft DNA úr Filippusi, ef þú villt klóna hann eða álíka,“ segir seljandinn meðal annars í lýsingunni.

Núna hljóðar hæsta tilboðið upp á 65.900 pund sem gerir rúmar 10 milljónir króna. Fimm dagar eru eftir af uppboðinu.

Þess má geta að samkvæmt tilkynningu frá konungsfjölskyldunni slapp Filippus ómeiddur en tvær konur sem voru í hinum bílnum voru fluttar á sjúkrahús með minniháttar meiðsl. Samkvæmt frétt Sky News úlnliðsbrotnaði ökumaður hins bílsins og er hún undrandi á að hafa ekki fengið símtal frá Filippusi sjálfum eftir slysið.

Margrét fékk loksins afsökunarbeiðni frá Icelandair

Undanfarið hafa fjölmargar konur tjáð sig undir myllumerkinu #vinnufriður eftir að félagið Ungar athafnakonur hélt fund í síðustu viku um kynferðislega áreitni á vinnustað. „Ungar athafnakonur blása til samstöðufundar um rétt fólks til að sinna starfi sínu í friði,“ segir á Facebook um fundinn.

Margrét Erla Maack, skemmtikraftur, er ein þeirra sem deilt hefur reynslusögum með myllumerkinu #vinnufriður.

„Í helming skipta sem ég DJa er ég áreitt kynferðislega. Þetta er verst í vinnustaðapartýum. Á tímabili setti ég upp verð og sagði „svo er 90.000 króna áreitnigjald.“ Þá allavega var fólk til í að passa upp á mig,“ segir Margrét í einni færslu á Twitter.

Þá segir hún frá áreitni sem hún varð fyrir þegar hún ráðin sem plötusnúður í veislu á vegum Icelandair en það mál var þaggað niður á sínum tíma líkt og hún sagði frá í viðtali við Mannlíf í september.

En nýverið fékk Margrét símtal frá núverandi mannauðsstjóra Icelandair og fékk afökunarbeiðni, um 12 árum síðar, eins og fram kemur á Twitter-síðu Margrétar.

Undanfarin ár hefur Margrét Erla talað opinskátt um þá kynferðislegu áreitni sem viðgengst í skemmtanabransanum, meðal annars í ítarlega viðtali við Mannlíf.

„Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“

Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.

„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist,“ útskýrði hún.

Sjá einnig: Gerendur hafa tvíeflst við #metoo

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Merkingarfælinn listamaður

Nýhafið ár er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Fyrir utan sýningu allt árið á verkum Ásmundar Sveinssonar verða settar upp einkasýningar fimm listamanna sem eiga verk í borginni. Sigurður Guðmundsson er einn þeirra og var sýning hans opnuð á laugardaginn, 19. janúar.

 

„Það sem ég sýni eru módel úr raunverulega efninu og hliðstæð verk,“ segir Sigurður Guðmundsson en um er að ræða um 20 verk – skúlptúra, grafíkverk og vídeóverk og eiga verkin það sameiginlegt að vera tengd útilistaverkum Sigurðar á einn eða annan hátt.

„Útilistaverk eða listaverk í opinberu rými verða að standa af sér veður og vind og verða að geta staðist tímans tönn þannig að þau úreldist ekki fljótt – ég vil helst að barnabörnin mín mín þurfi ekki að skammast sín fyrir listaverkin hans afa.“

Ég vil helst að barnabörnin mín mín þurfi ekki að skammast sín fyrir listaverkin hans afa.

Sigurður segir að ef verk sín séu ekki ljóðræn og ef þau búi ekki yfir heimspekilegri póesíu þá hafi honum mistekist og þá sendi hann þau ekki frá sér. „Ég þarf eiginlega að upplifa þau sem ljóðlist sem maður sér með augunum. Ég er afskaplega merkingarfælinn listamaður og ég lít á öll verk sem ég geri sem miðlun á upplifun frekar en útskýringu á hvað listamaðurinn er að fara. Verkin mín eru ekki eftirlíking á einhverju sem hefur skeð. Þau eru nýr veruleiki.“

Sigurður býr í borginni Xiamen í Kína og nú stendur yfir sýning hans í Shanghai. Hann sýnir víða um heim og er að undirbúa stóra yfirlitssýningu sem verður sett upp í Listasafni Reykjavíkur, sennilega árið 2021 og mun ferðast til annarra landa.

Verk hans voru til sýnis í Pompidou-listamiðstöðinni í París þegar hún var opnuð 1977, hann hefur meðal annars tvisvar sýnt á Feneyjartvíæringnum, hlotið verðlaun og viðurkenningar og eru verk hans í eigu helstu safna í Evrópu.

Mynd / Einar Falur og i8

„Fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis“

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ítarlegu forsíðuviðtali Mannlífs sem kom út á föstudaginn.

Í viðtalinu segir Logi frá því að hann eygði tækifæri til að koma Samfylkingunni í ríkisstjórn því fljótlega eftir kosningar hóf hann stjórnarmyndunarviðræður við VG, Pírata og Framóknarflokk um ríkisstjórnarsamstarf. Þeim viðræðum var hins vegar slitið eftir þriggja daga viðræður og fór svo að VG fór í sæng með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Logi segir þá niðurstöðu vonbrigði enda ekkert sem benti til annars á þeim tímapunkti en að flokkarnir væru samhuga.

Logi segir vonbrigðin að hafa ekki náð að mynda ríkisstjórn frá miðju og til vinstri sárari en ella í ljósi kjaraviðræðna sem nú standa yfir. Þar skipti aðkoma ríkisvaldsins miklu máli. „Það er auðvitað það sem skorti strax í stjórnarsáttmálanum fyrir ári síðan. Þá lá alveg fyrir að þessi vetur kæmi með þessum kröfum en ríkisstjórnin hefur ekki lagt neitt haldfast á borðið. Alvörufélagshyggjustjórn hefði forgangsraðað öðruvísi, svo sem með tekjuskiptu skattkerfi sem hlífir lágtekju- og meðaltekjufólki.“

Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda.

„Ég hélt í sakleysi mínu og einfeldni að þetta væri nákvæmlega sama skattapólitík og Vinstri græn töluðu um fyrir kosningar. Ég hélt að það væri formsatriði að þessir flokkar tveir næðu að minnsta kosti saman um þetta. En kannski snýst þetta ríkisstjórnarsamstarf svo um eitthvað allt annað en hægri og vinstri. Kannski snýst það einmitt um íhaldssemi, um að viðhalda gömlum kerfum sérhagsmunahópa. Kannski snýst það um að viðhalda rétti útgerðarinnar til þess að sitja á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og nýta hana fyrir litla peninga. Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda. Kannski snýst þetta um það að afneita því að stór og örugg mynt geti skilað ávinningi fyrir launafólk. Kannski skilur meira á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en ég í einfeldni minni hélt. Kannski eru þessir flokkar eðlisólíkir.“

Þetta aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálunum telur Logi vera einkennandi fyrir ríkisstjórnina. „Þau tala um að þau hafi siglt lygnan sjó og komið mörgum málum í gegn. Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis. Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt. Það er eitt ár rúmlega síðan þessi ríkisstjórn var stofnuð og það lá alveg fyrir að það þyrfti að fara í húsnæðisátak. Þess vegna fór Samfylkingin strax í að búa þær tillögur til en við vöknum upp við það árið 2019 að ríkisstjórnin er að ákveða einhvern starfshóp. Ég veit ekki af hverju. Mér finnst vera drollaraháttur á þeim, þau eru sein til verka og fyrst og fremst finnst mér þau vera vinna töluvert á forsendum stærsta flokksins í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokksins.“

Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt.

Hvað væruð þið að gera öðruvísi ef þið sætuð í ríkisstjórn?

„Við hefðum að sjálfsögðu ráðist í breytingar á skattkerfinu sem hefðu hlíft meðaltekju- og lágtekjufólki og lagt aðeins meiri álögur okkur betur stæðu. Við hefðum ráðist í meiri stórsókn í menntamálum, að sjálfsögðu hafið vinnu með öðrum flokkum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem leiddu til þess að þjóðin fengi meiri og sanngjarnari arð af sameiginlegri auðlind. Við sjáum núna að veiðigjöldin eru lækkuð um um 3-4 milljarða en það er líka verið að lækka fé til hafrannsókna sem er undirstaða ekki bara efnhags okkar heldur lífríkis líka. Við hefðum útvíkkað gjaldmiðlanefndina og látið hana líka skoða hvaða hagsmunir gætu falist í því að  vera með aðra mynt en krónuna í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn eins og strútur og segja „krónan skal það vera“. Það er svo margt sem við hefðum gert öðruvísi.“

Viðtalið við Loga má lesa í heild sinni hérna.

Mynd / Hallur Karlsson

Umhverfismálin eiga að vera í fararbroddi

Batteríið Arkitektar er með stærstu arkitektastofum á Íslandi með vel menntaða og reynslumikla starfsmenn sem hafa tekið þátt í stórum og fjölbreyttum hönnunarverkefnum bæði innanlands og utan. Við báðum Sigurð Einarsson arkitekt, sem stofnaði fyrritækið árið 1988 ásamt Jóni Ólafi Ólafssyni og hefur starfað þar óslitið síðan, um að veita okkur innsýn inn í arkitektúr á Íslandi í dag og gefa okkur sýnishorn af verkum sem Batteríið arkitektar hafa hannað.

Harpa – hönnuð í samstarfi við Henning Larsen Architects og Studio Olafur Eliasson tekin í notkun 2011. Ljósmynd: Nic Lehoux.

Hvaða straumar og stefnur eru mest áberandi í dag? „Allt og ekkert. Það sem ég á við með því er að það er erfitt að segja að ein stefna sé meira áberandi en önnur því í dag eru arkitektar víða að vinna út fyrir þægindarammann – í allar áttir. Arkitektúr á að vera leitandi og núna þegar nánast allt er tæknilega mögulegt sjáum við fjölbreytileikann blómstra sem aldrei fyrr.“

Hvar standa Íslendingar á heimsvísu er varðar arkitektúr og samkeppnishæfni? „Margt af því sem íslenskir arkitektar eru að gera stenst allan samanburð við það sem best gerist í heiminum. Arkitektasamkeppnir hér heima eru alþjóðlegar og þar standa íslenskir arkitektar sig með ágætum og það sama má segja erlendis – við hjá Batteríinu Arkitektum höfum t.d. bæði unnið arkitektasamkeppnir og alútboð í Noregi.“

Hvaða bygging á Íslandi finnst þér skara fram úr varðandi hönnun og gæði? „Það fyrsta sem kemur upp í hugann er einbýlishús eftir Högnu Sigurðardóttur í Garðabæ. Þar hefur ekki bara verið á ferðinni góður arkitekt heldur líka frábær verkkaupi sem hafði skilning og metnað til að halda í þessa ferð út fyrir þægindarammann með Högnu. Húsið er í senn með sterkar form- og efnislegar tengingar við Ísland, hefur umhverfisvænt yfirbragð löngu áður en slíkt varð móðins, rýmismyndun er frábær, lýsingin þjónar arkitektúrnum í hvívetna og húsið virðist „funkera“ vel með sveigjanlegum opnunum milli rýma svo það helsta sé nefnt.“

Hver er þín framtíðarsýn fyrir Reykjavík og þróun borgarinnar? „Ég er í stórum dráttum sáttur við stefnuna eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Umhverfismálin eiga að vera í fararbroddi. Eitt af mikilvægu markmiðunum í því samhengi eru skjólmyndun sem allt of oft er meira í orði en á borði. Ég tel rétt að leggja ríkari áherslur á veðurfarslega þætti við skipulag og ekki síst útfærslur í uppbyggingu borgarinnar. Þessi atriði fara vel saman við þéttingu byggðarinnar.“

Hvernig verkefni finnst þér sjálfum skemmtilegast að fást við? „Mér finnst skemmtilegast að fást við flókin og krefjandi verkefni. Slík verkefni kalla á meiri tíma og yfirlegu og eru í eðli sínu stanslaus endurmenntun. Oft þarfnast þau mikilla samskipta við verkkaupann í sameiginlegri leit að hinni réttu lausn. Þetta geta allt eins verið lítil verkefni eins og stórar byggingar og skipulagsverkefni en eiga það sameiginlegt að stuðla að framþróun í hugsun, þróun og lausnum.“

Hvað er mikilvægast þegar kemur að góðri hönnun? „Forsendur fyrir góðri hönnun er góður verkkaupi. Það er sama hvað arkitektinn er góður, ef verkkaupinn hefur ekki skilning á því að fylgja honum og bakka upp hans hugmyndir verður útkoman oft eitthvert miðjumoð. Góð hönnun er vel útfært samhengi hlutanna og því ber að varast að steypa mörgum ólíkum óskum og hugmyndum í einn graut. Þar aftur spilar skilningur og samvinna verkkaupans stórt hlutverk.“

Active living center í Winnipeg, Kanada.

Hvaða ráð vilt þú gefa arkitektum og hönnuðum framtíðarinnar? „Arkitektúr snýst fyrst og fremst um að búa til rými fyrir fólk til að lifa og starfa í. Ný og göfugri viðmið birtast okkur reglulega í mannvirkjum þar sem best tekst til að horfa á umhverfið okkar og þarfir í sífellt nýju ljósi. Arkitektar þurfa að vera trúir sjálfum sér og sinni sannfæringu og tilbúnir til að vera leiðandi í þessari endalausu vegferð.“

Skáli Alþingis – tekinn í notkun 2002. Ljósmynd: Bragi Þór Jósefsson

Á myndunum má sjá sýnishorn af þeim verkum sem Batteríið Arkitektar hafa hannað.

Langar að ganga Jakobsveginn

||
||

Sólveig Baldursdóttir er myndlistamaður sem stundaði nám við skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1980-82. Ásamt því stundaði hún nám við myndhöggvaradeild Det Fynske Kunstakademi á árunum 1983-1988. Einnig starfaði hún í stúdíó Nicoli í Carrara frá 1990-1994 þar sem hún vann að eigin verkum. Í dag starfar Sólveig í DAM-teymi Hvítabandsins á geðsviði Landspítalans og sér þar um skapandi starf m.a. á leirverkstæði og í sköpun og tjáningu. Við spurðum Sólveigu hvað væri helst á óskalistanum hennar.

Stóll eftir danska hönnuðinn Hans Wegner.

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast? „Mig hefur alltaf dreymt um að eignast vinnustofu með stórum gluggum, með útsýni yfir haf og fjöll.“

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? „Það væri stóll eftir danska hönnuðinn Hans Wegner.“

Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? „Ég væri alveg til í að eignast góðan, síðan leðurfrakka.“

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? „Ég myndi fara í mánaðarferðalag til Tíbet og síðan myndi ég ganga allan Jakobsveginn.“

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? „Já, ég hefði ekkert á móti því að hafa grænmetiskokk í eldhúsinu hjá mér alla daga.“

Stærsta óskin væri? „Að geta skilið eftir mig nokkur viskukorn sem barnabörnin geta leitað í þegar ég er farin.“

Hallgrímskirkja.

Uppáhaldsborg? „London trúlega, hún er mjög nútímaleg en geymir einnig mikla sögu fyrri tíma. Þessir þættir blandast saman á mjög spennandi og skemmtilegan hátt í menningu, tónlist og myndlist t.d.“

Besta kaffihúsið? „Mokka stendur alltaf fyrir sínu.“

Fallegasti litur? „Akkúrat núna er það fölblár.“

Fallegasti staðurinn á Íslandi? „Ætli ég segi bara ekki Skagafjörðurinn og Mývatnssveitin.“

Fallegasta bygging á Íslandi? „Það eru margar fallegar byggingar á Íslandi en ég er alltaf einstaklega hrifin af Hallgrímskirkju, hún er sterk, öðruvísi, ekki alltaf falleg en kemur manni sífellt á óvart í alla vega veðrum og vindum. Það er gott að sitja í kyrrðinni innandyra og njóta byggingarstrúktúrsins og gráu skugganna í mismunandi dýptum.“

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? „Það væri málverk eftir Agnesi Martin.“

Logi um Gunnar Braga: Líklega hefur hann séð mig í pilsi

Logi Einarsson telur að ekki muni fenna yfir Klausturmálið.

Þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfi í næstu viku. Síðustu þingfundirnir í fyrra voru þingmönnum þungbærir enda fóru þeir fram í skugga Klaustursmálsins þar sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins fóru ófögrum orðum um tiltekna kollega sína á þingi. Forsætisnefnd þingsins hugðist vísa málinu til siðanefndar Alþingis en þangað komst málið aldrei þar sem allir nefndarmenn lýstu sig vanhæfa, að kröfu Miðflokksins. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kveðst ekki geta sagt til um hvert framhald málsins verði.

„Það bíða okkar mjög mörg mál sem tengjast kjarasamningum, veggjöldum, þriðja orkupakkanum og ýmislegt annað og við verðum að vera starfhæft þing. Ég mun auðvitað bara mæta í vinnuna og vinna að þeim málum sem ég er kjörinn til að gera. En umræðan um hvernig okkur miði áfram í átt að betra samfélagi, meira jafnrétti, þar sem minnihlutahópar og fatlaðir eru virtir, sú umræða og sú vinna verður að halda áfram á öllum sviðum samfélagsins. Ég held að það fenni ekki yfir þetta. Á endanum er starfið sérstakt vegna þess að þú ert kjörinn af þjóðinni til þess að gegna því í tiltekinn tíma og það er þjóðin sem getur hafnað þér. Ég er sannfærður um að þetta mál er ekki búið. Við eigum öll eftir að fara í kosningar þar sem við erum dæmd af okkar verkum og orðum.“

„Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Sjálfur var Logi á meðal þeirra sem komu við sögu í Klaustursupptökunum er Gunnar Bragi Sveinsson vitnaði til Loga sem mannsins í strápilsinu „sem dansaði nánast á typpinu með Skriðjöklum“. Logi segist ekki taka slíkar blammeringar nærri sér. „Eitt er hvort þú fellir einhverja pólitíska sleggjudóma um andstæðinga þína sem meiða ekkert. Svo eru aðrir hlutir sem voru grófari og niðrandi um kyn og jafnvel hópa sem eru veikir fyrir. Það er greinamunur þar á. Ég tók því frekar léttvægt að vera kallaður trúður sem dansar á strápilsum næstum því á typpinu, það truflar mig ekki neitt. Ég hef talað við Gunnar Braga um þau orð sem hann lét falla í minn garð. Ég tek þeim ummælum ekkert alvarlega. Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Logi var meðlimur í hinni goðsagnakenndu gleðihljómsveit Skriðjöklum á 9. áratugnum og fékk það hlutverki að vera dansari en það er einmitt þar sem Gunnar Bragi sótti umrædda tilvitnun á Klaustursbarnum. „Við vorum náttúrlega fjörugur félagsskapur ungra manna og virkilega í baldnari kantinum í árgangnum og höfðum vit á að virkja það í hljómsveitarbras í staðinn fyrir eitthvað verra. Við vorum átta eða níu saman og þessi hljómsveit var stofnuð þótt þetta hafi meira verið eins og ungmennafélag. Það var ekkert inni í myndinni að það yrðu bara teknir fjórir bestu hljóðfæraleikararnir og hinir skildir út undan. Þannig að það var fyllt upp í hlutverk eftir getu hvers og eins og af því að ég var ekki bestur og ekki næst bestur á gítar, þá þurfti að finna annað hlutverk fyrir mig og ég var bara dansari.“

Varstu látinn dansa í strápilsi?
„Til að krydda sjóvið gekk ekkert upp að koma fram í venjulegum fötum heldur þurftum við að klæða okkur upp á og ég man að ég var töluvert oft í pilsum og einhverjum gærum. Líklega hefur Gunnar Bragi einhvern tíma komið í Miðgarð og ég þá verið í pilsi. Ég efast samt um að það hafi verið það stutt að það hafi verið ósiðlegt. Þessu fylgdi auðvitað töluvert fjör og kannski ekki allt sem borgar sig að segja. Þetta var töluverð útgerð og hljómsveitin átti töluvert af vinsælum lögum en það er gallinn að dansinn sést ekki á hljómplötunum.“

Logi er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hér er hægt að lesa það í heild sinni.

Útrunnar kennitölur

LEIÐARI Kröftugar auglýsingar Gráa hersins svokallaða hafa vakið athygli og umræður á samfélagsmiðlunum undanfarið. Þar er sjónum beint að þeim aldursfordómum sem virðast ríkja meðal íslenskra atvinnurekanda og þeirri staðreynd að fjöldi fólks yfir sextugu missir vinnuna vegna aldurs og fær ekki nýja vinnu vegna þess að kennitalan er það eina sem atvinnurekandinn skoðar á ferilskýrslum þess. Þetta fólk er með útrunnar kennitölur. Það er komið fram yfir síðasta söludag á vinnumarkaðnum og kemur í mörgum tilfellum ekki til álita við nýráðningar.

Á Íslandi búa um fimmtíu þúsund manns yfir sextugu, samkvæmt Þjóðskrá. Þetta fólk á flest að baki langan og farsælan feril í hinum ýmsu atvinnugreinum, hefur öðlast reynslu, þroska, þekkingu og yfirsýn sem unga fólkið hefur enn ekki tileinkað sér. Það virðist ekki skipta máli. Sú æskudýrkun sem heltekið hefur þjóðfélagið síðustu áratugi – sem 68-kynslóðin sem nú er á sjötugsaldrinum átti stærstan þátt í því að skapa, svo kaldhæðnislegt sem það nú er – hefur orðið þess valdandi að enginn vill ráða gamalt fólk í vinnu. Hversu sprækt það er, vinnusamt, samviskusamt og reynt á sínu sviði er aukaatriði í samanburði við aldur þess. Fjölmörg dæmi eru um að ráðningarskrifstofur ýti umsóknum fólks yfir sextugu út af borðinu og sendi þær ekki einu sinni til atvinnurekandans sem er að leita að starfsfólki. Það er gengið út frá því sem gefnu að hann/hún kæri sig ekki um einhverja gamlingja í sinn starfsmannahóp. Það þarf ekki einu sinni að skoða það.

„Fjölmörg dæmi eru um að ráðningarskrifstofur ýti umsóknum fólks yfir sextugu út af borðinu og sendi þær ekki einu sinni til atvinnurekandans sem er að leita að starfsfólki.“

Nú er í tísku að fegra eftirlaunaárin og alls kyns fyrirtæki hafa sprottið upp til að gera eftirlaunaþegum alls kyns gylliboð um skemmtun á efri árunum. Allt gott um það að segja en eftirlaunaaldur á íslandi er sextíu og sjö ár, ekki sextíu, og því vandséð hvernig það er hugsað að hafa fólk atvinnulaust í sjö ár áður en þeim aldri er náð. Á hverju á það að lifa? Eiga allir að hafa safnað gildum sjóðum yfir starfsævina og geta sest í helgan stein eftirlaunalaust? Þeir sem þannig hugsa þekkja greinilega illa íslenskt launaumhverfi. Það er minnihluti vinnandi stétta sem hefur tök á því. Eigum við þá bara að setja alla milli sextugs og sextíu og sjö ára á atvinnuleysisbætur? Hefur þjóðfélagið efni á því?

Auðvitað eru fleiri en ein hlið á þessu máli, eins og öllum öðrum. Fólk með langa starfsreynslu í sínu fagi er eðlilega komið í hærri launaflokka en þeir sem eru að byrja í starfinu og ekki ólíklegt að atvinnurekendur horfi til þess við ráðningar. En það kostar líka að sóa mannauði sem hefur verið byggður upp á heilli starfsævi. Það kostar að þjálfa upp nýtt fólk. Og hver á að kenna þessu nýja fólki ef þeir sem reynsluna hafa eru horfnir af vinnumarkaðnum? Á það bara að læra af sjálfu sér? Þetta þarf að endurhugsa. Skammtíma gróðasjónarmið geta nefnilega verið varasöm þegar til lengri tíma er litið. Þau koma okkur í koll síðar eins og dæmin sanna. Höfum við ekkert lært?

Afleit vika Jóns Baldvins

Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Kristján Loftsson og Jón Baldvin Hannibalsson sem eru hinir útnefndu.

Góð vika

Kristján Loftsson

Lífið á það til að leika við Kristján Loftsson, útgerðarmann og sérlegan áhugamann um hvalveiðar. Hann fékk himnasendingu í vikunni þegar hagfræðistofnun HÍ gaf út skýrslu sem unnin var fyrir atvinnuvegaráðuneytið þar sem niðurstaðan er sú að hvalveiðar eru þjóðhagslega arðbærar jafnvel þótt tekjur af veiðunum hafi verið hverfandi. Er lagt til í skýrslunni að bæta í hóp þeirra tegunda hvala sem eru veiddar við Íslandsstrendur á sama tíma og setja þurfi skorður við hvalaskoðun, enda hafi hún áhrif á hegðun hvala og trufli þá við fæðuleit. Loks er ýjað að því að setja þurfi sérstök lög til að vinna gegn uppgangi hryðjuverkasamtaka á Íslandi. Ekki má vinna vera til að vernda Kristján við uppáhaldsiðju sína.

Slæm vika

Jón Baldvin Hannibalsson

Fyrirlesarinn Alda Karen Hjaltalín átti erfitt uppdráttar í vikunni eftir röð óheppilegra ummæla um peningakossaflens og forvarnir gegn sjálfsvígum sem varð til þess að fræðimenn settu ofan í við hana. En það hefði þurft djöfullega viku til að slá út Jón Baldvin Hannibalsson. Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað hann um kynferðislega áreitni og spanna þessar ásakanir langt tímabil, eða allt frá því hann var skólameistari á Ísafirði. Sérstakur #metoo-hópur hefur verið tileinkaður honum á Facebook. Loks var fyrirhugaðri útgáfu bókar Jóns Baldvins, sem gefa átti út í tilefni áttræðisafmælis hans og inniheldur ræður, rit og greinar eftir hann, frestað. Út af svolitlu.

Kýs hollan og góðan mat frekar en öfgakúra og Keto

Greta Salóme

Greta Salóme Stefánsdóttir kemur fram á djangotónleikum í Iðnó laugardaginn 19. janúar. Nýtt lag eftir hana, Mess it up, kemur svo út 1. febrúar. Greta Salóme ætlar að vera meira heima þetta árið til að spila og semja en í fyrra var hún að spila erlendis um hálft árið. Hún var farin að sakna þess að vera heima á Íslandi þar sem hún getur stundað eitt helsta áhugamál sitt sem er eldamennska.

„Django er einn angi af djasstónlist,“ segir Greta Salóme Stefánsdóttir. „Það skemmtilega við django er að það geta allir hlustað á django og fundist það skemmtilegt. Maður verður svo glaður þegar maður hlustar á þessa tónlist,“ segir hún en Greta salome kemur fram á djangótónleikum í Iðnó í kvöld, laugardaginn 19. janúar. Um er að ræða nýja tónlistarhátíð, Djangodaga í Reykjavík þar sem heiðri belgíska gítarfrumkvöðulsins Django Reinhardt verður haldið á lofti.

Gítarleikararnir Gunnar Hilmarsson og Jóhann Guðmundsson ásamt Leifi Gunnarssyni bassaleikara eru á meðal annarra flytjenda á laugardagskvöldinu. „Þetta eru strákar sem ég hef spilað með lengi og ég myndi segja að það væri svolítið þeim Gunnari, Leifi og Jóhanni að þakka að ég kynntist djangóinu. Ég og Gunni kynnumst í MR og byrjuðum að spila saman fljótlega eftir að námi lauk og ég fann þá hvað ég fílaði djangótónlistina vel.“

Mess it up

Greta Salóme hefur haft í nógu að snúast í tónlistinni síðustu ár og var nýliðið ár sérstaklega annasamt. Hún var erlendis um hálft árið og kom heim á milli tónleika og sýninga auk þess sem hún var hluta ársins hjá Disney þar sem hún kom fram eins og hún hefur gert undanfarin ár.

„Ég er búin að vera á endalausu flakki og spila út um allt. Ég ákvað í lok síðasta árs að vera meira á Íslandi þetta árið og æfa mig og semja. Það er svo merkilegt þegar maður er búinn að vera svona mikið á flakki eins og ég hef gert síðustu ár – og sérstaklega síðasta ár – hvað maður fer að sakna Íslands mikið. Þá er svo gott að vera heima og virkilega einbeita sér að því að vera heima. Ég reyni að nýta tímann vel núna á meðan ég er á Íslandi og er að æfa og taka upp. Ég er að fara að gefa út lagið Mess it up 1. febrúar og svo gef ég út EP-plötu í kjölfarið á því þannig að ég er á fullu við að taka upp og undirbúa það allt.“

Engir öfgakúrar

Það að vera heima gerir það líka að verkum að Greta Salóme getur sinnt einu af sínum helstu áhugamálum meira en ella en það er eldamennska. „Það er alltaf best að vera heima. Það er alveg magnað. Ég var farin að hlakka til að gera hluti eins og að elda matinn minn heima, setja í þvottavél, ryksuga og að keyra Toyota-bílinn minn þegar ég vil.“

Ég byrjaði að elda þegar ég var mjög ung en mér fannst alltaf best að vera heima hjá mömmu og pabba

Greta Salóme segist því miður ekki hafa haft mikinn tíma fyrir áhugamál í gegnum árin en eldamennska er þó áhugamál. Hún hefur stundað íþróttir og líkamsrækt í langan tíma og leggur almennt áherslu á hollan mat.

„Ég byrjaði að elda þegar ég var mjög ung en mér fannst alltaf best að vera heima hjá mömmu og pabba og reyna að finna einhverja uppskrift eða búa til rétt frá grunni og dunda mér við það. Svo held ég að þetta komi líka til af því að ég ólst upp á heimili þar sem var mikill gestagangur. Ég hef það frá mömmu og pabba að allir séu velkomnir hvenær sem er og út frá því spinnst að elda fyrir fólk.“

Greta Salóme segist leggja áherslu á hollan mat og leggur mikla áherslu á grænmeti. „Ég borða frekar kolvetnissnauðan mat. Ég hef verið á keto og prófað alls konar kúra en ég er ekki á neinum öfgakúr núna. Ég reyni að elda matinn þannig að hann sé ekki bara hollur heldur verður mig að langa virkilega í hann.“

Hver er uppáhaldsmaturinn? „Það er án efa Nóa Síríus-súkkulaði með sjávarsalti. Ég reyni að sýna hvað ég er að elda og borða á Snapchat og Instagram og fólk virðist hafa ótrúlega mikinn áhuga á því og er alltaf að senda mér spurningar. Ef fólk vill fylgjast með því þá er notendanafnið gretasalome bæði á Snapchat og Instagram.“

69 dagar til stefnu

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur 69 daga til að komast að einhverri niðurstöðu varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem tekur gildi þann 29. mars. May er í svo gott sem vonlausri stöðu. Heimafyrir er hún löskuð eftir stærsta ósigur sem nokkur ríkisstjórn hefur beðið í atkvæðagreiðslu á þingi. Flokkur hennar er klofinn á milli þeirra sem vilja tafarlausa útgöngu án samnings og þeirra sem vilja reyna til þrautar að ná ásættanlegum samningi við Evrópusambandið sem aftur á móti er ólíklegt til að fallast á frekari tilslakanir.

May hafði frestað atkvæðagreiðslu um útgöngusamninginn í breska þinginu fram yfir áramót til að reyna að afla fylgis við hann. Það þótti allan tímann langsótt. Engan óraði þó fyrir því að May myndi bíða jafnstóran ósigur í þinginu og raun bar vitni – 432 greiddu atkvæði gegn samningnum en einungis 202 með. Að öllu jöfnu hefði forsætisráðherra sagt af sér eftir slíkan ósigur en May gaf það strax út að hún ætlaði að sitja sem fastast.

May stóð þó af sér vantrauststillögu Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, í fyrradag sem hefði þýtt nýjar kosningar. Það má í raun teljast guðsgjöf fyrir May hversu ofboðslega veikur leiðtogi Jeremy Corbyn er. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti Verkamannaflokkurinn að eiga auðveldan sigur í vændum í þingkosningum. Ekki bara hafa May og Íhaldsflokkurinn haldið afleitlega utan um Brexit-ferlið, heldur er allt í uppnámi innan flokksins. En skoðanakannanir sýna flokkana nánast með jafnt fylgi.

Framhaldið er að mörgu leyti óráðið. Hvort ESB opni dyrnar að nýju fyrir May eða gefi út einhverja fullvissu um framtíðarsamband um landamæri Írlands og Norður-Írlands, sem var einn helsti ásteytingarsteinninn í samkomulagi May, verður að koma í ljós. Yfirlýsingar ráðamanna ESB voru ekki uppörvandi fyrir May en í þeim fólust fyrst og fremst tilmæli til Breta að ákveða hvað þeir raunverulega vilja áður en þeir banka aftur á dyrnar. Einn möguleiki er að May óski eftir því að útgöngu verði frestað um tiltekinn tíma á meðan reynt er að ná samningum. Hinir kostirnir eru svo raktir hér til hliðar. Annars vegar útganga án samnings og hins vegar önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Báðar leiðirnar eru þyrnum stráðar.

Ófyrirséðar afleiðingar án samnings

Ef enginn samningur næst mun Bretland ganga úr Evrópusambandinu 29. janúar klukkan 11.00. Það þýðir að lög og reglur sambandins ná ekki yfir Bretland en samningur May sem var felldur fól í sér 18 mánaða aðlögunarfrest. Slíkt hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar, sumir ganga svo langt að lýsa því sem neyðarástandi. Umrædd lög og reglugerðir spanna öll svið mannlífsins – tollamál, viðskipti, ferðalög og réttindi borgaranna. Fylgjendur Brexit hafa sagt að varnaðarorð séu einkum hræðsluáróður. Við útgöngu verði Bretland frjálst og fullvalda ríki og það eina sem til þurfi sé undirbúningur af hálfu stjórnvalda. Þá muni gengisfall pundsins, sem mjög líklegt er að verði skarpt, fela í sér tækifæri fremur en eitthvað annað enda bæti það samkeppnisstöðuna við Evrópu. Andstæðingar Brexit óttast hins vegar að allt geti farið á versta veg. Pundið hríðfalli með tilheyrandi verðbólgu, ringulreið muni skapast á landamærum Bretlands og vöruskortur gæti orðið viðvarandi.

Búa sig undir matvæla- og lyfjaskort

Við útgöngu án samnings myndu viðskipti við ríki ESB falla undir skilmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem þýðir að vörur þaðan þurfa að undirgangast sömu tollmeðferð og bera sömu tolla og vörur annars staðar frá í heiminum. Það mun ekki bara hafa í för með sér hærra vöruverð heldur einnig margfaldan tollafgreiðslutíma. Í leynilegri skýrslu breskra stjórnvalda sem lekið var í fjölmiðla kom fram að líklegar afleiðingar verði matvæla- og lyfjaskortur og í því skyni tóku stjórnvöld upp á því að hamstra mat og lyf ef allt færi á versta veg. Milljónir íbúa ESB-ríkja sem búsettir eru í Bretlandi munu verða í algjörri óvissu um framtíð sína og það sama gildir um milljónir Breta sem búsettir eru í Evrópu, þeir munu dvelja þar upp á náð og miskunn viðkomandi ríkja, semjist ekki um annað.

Búið að tryggja rétt Íslendinga í Bretlandi

Brexit mun að sjálfsögðu hafa áhrif á Ísland, enda viðskipti milli landanna farið fram í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), svæði sem Bretland mun yfirgefa eftir 70 daga. Í lok síðasta árs náðu EFTA-ríkin (Ísland, Noregur og Lichtenstein) samkomulagi við Bretland sem fól í sér sömu aðlögun og gilti um önnur ríki ESB eftir útgöngu. Samkomulagið var þó háð því að breska þingið samþykkti útgöngusamninginn við ESB. Viðskipti við Bretland gætu þess vegna raskast verulega ef íslenskum stjórnvöldum tekst ekki að semja um annað fyrir útgöngu. Aftur á móti lá fyrir pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt enginn Brexit-samningur næðist. Íslendingar búsettir í Bretlandi þurfa þess vegna ekki að óttast um stöðu sína, frekar en Bretar búsettir á Íslandi.

Vandasöm önnur þjóðaratkvæðagreiðsla

Þrýst hefur verið mjög á um að efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Það er heldur ekki jafnaugljós kostur og margir vilja vera láta. Í fyrsta lagi yrði deilt um hvað ætti að kjósa; ætti að kjósa um útgöngusamning May eða hætta alfarið við útgöngu eða jafnvel allir þrír kostirnir í boði? Um það er ekkert samkomulag. Brexit var samþykkt með einungis 4 prósenta meirihluta og þótt skoðanakannanir nú bendi til þess að niðurstaðan í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sú að Bretar skipti um skoðun og hætti við útgöngu, þá er munurinn engan veginn afgerandi þrátt fyrir alla ringulreiðina og að yfirgnæfandi fjöldi kjósenda telji ríkisstjórnina hafa haldið illa á málum. Enda sýna kannanir að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ekki til þess að lægja öldurnar.

Býst við Ágústi Ólafi í febrúar

Logi Einarsson. Mynd/Hallur Karlsson.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerir ráð fyrir að Ágúst Ólafur Ágústsson snúi aftur til þingstarfa í febrúar. Ágúst hafi verið að leita sér hjálpar og endurkoma hans alfarið í hans höndum.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Loga í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Ágúst Ólafur fór í tveggja mánaða leyfi eftir að trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar áminnti fyrir kynferðislega áreitni gegn Báru Huld Beck, blaðamanni á Kjarnanum. Logi gerir ráð fyrir að Ágúst Ólafur snúi til baka í febrúar. En nýtur hann trausts innan flokksins? „Ég get ekki talað fyrir hvern einasta félagsmann í Samfylkingunni en ég að minnsta kosti trúi því að fólk, þó að því verði jafnalvarlega á og geti hrasað sem er nú einu sinni saga mannsins frá örófi alda, eigi að geta fengið fyrirgefningu ef það raunverulega iðrast og leitar leiða til að bæta ráð sitt. Það hefur hann verið að gera þannig að þetta er í höndunum á honum.“

Ágúst Ólafur gerði erfitt mál verra þegar Bára Huld steig fram og sagði þingmanninn hafa gert lítið úr hegðun sinni, í yfirlýsingu þar sem hann greindi frá málinu. „Ég ætla ekki að fara út í hans viðbrögð við þessu eða hvernig hann gerði það, hann verður að svara fyrir það sjálfur. Samfylkingin kom ekki að þeirri yfirlýsingu, við sáum ekki innihaldið. Mér fannst hins vegar akkúrat þetta mál sýna hvað það skiptir miklu máli að flokkar hafi hlutlausar siðanefndir og úrskurðarnefndir sem í situr fagfólk þannig að þú getir boðið þeim sem kvarta yfir óásættanlegri hegðun upp á hlutlausa meðferð sem hægt er að treysta

En eiga mál sem þessi heima á borði flokksstofnana, er ekki hreinlegast að vísa þeim til þar til bærra yfirvalda?

„Samkvæmt 4. grein siðareglna okkar þá er það þannig að ef mál eru líkleg til að varða við refsilöggjöfina þá eru þolendur hvattir til og fá hjálp frá úrskurðarnefndinni til að leita með málið til lögreglu. Ef kæmi upp mál er varðar börn eru þau send beint til barnaverndaryfirvalda. Þannig að Samfylkingin er ekkert að halda inni hjá sér neinum málum er varða lögbrot. Það er einungis fjallað um mál sem eru ósæmileg, ósiðleg. Í Samfylkingunni eru 16-17 þúsund manns, þar er hvorki verra né betra fólk en annars staðar í samfélaginu. Það segir sig sjálft að í svona stórum félagsskap þá koma upp erfið mál. Fólki verður á, fólk gerir mistök. Það er mjög mikilvægt að við getum búið til samfélag, boðið upp á fundi, aðstöðu og umhverfi þar sem konum, ungu fólki og öllum líður vel í og eru öruggir vissir um að ef eitthvað svona kemur upp, þá fer það ekki inn á skrifstofu til formanns og undir teppi.“

Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, hefur sömuleiðis verið sakaður um áreitni gagnvart konum. Aðspurður út í það mál segir Logi að það hafi aldrei komið inn á hans borð enda hafi Helgi ekki verið kjörinn þingmaður eða gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eftir að hann var kjörinn formaður. „Ég hef kynnt mér það mál eins og hægt er. Þar lá það fyrir að það var enginn sem stóð á bak við kvörtunina – enginn sem kom fram undir nafni. Þess vegna bjuggum við þessa trúnaðarnefnd til, til þess að sá sem kvartar geti verið öruggur um að njóta nafnleyndar en geti samt staðið á bakvið kvörtunina.“

Misbýður boðskapur Marie Kondo

||
||

Netflix-þættir tiltektargúrusins Marie Kondo hafa notið mikilla vinsælda hérlendis, en ekki eru þó allir sáttir. Þeirra á meðal er leikkonan Maríanna Clara Lúthersdóttir sem finnst Kondo fara gjörsamlega yfir strikið.

Maríönnu Clöru Lúthersdóttur er nóg boðið.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilnu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo sem hefur á síðustu árum farið sannkallaða sigurför um heiminn, m.a. með bók sinni „The Life Changing Magic of Tidying Up“ og svo í nýlegum Netflix-þætti, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo) þar sem Maire beitir þessari töfraformúlu, svokallaðri KonMarie-aðferð til að hjálpa dröslurum úr ógöngum. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum vinsældum, hér hefur bæði verið gott áhorf á þátt Kondo og bók hennar, Taktu til í lífinu selst vel.

„Listir og bækur ganga eftir öðrum lögmálum. Þær eiga ekki aðeins að veita manni gleði.“

Þó eru ekki allir jafn yfir sig hrifnir. Ein þeirra, leikkonan og bókmenntafræðingurinn Maríanna Clara Lúthersdóttir, segir að sér hafi hreinlega orðið illt í hjartanu þegar hún heyrði hvernig Kondo ráðleggur fólki að fara í gegnum bækurnar sínar. „Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja og gráta,“ segir hún. „Það að maður eigi að halda bókunum upp brjóstinu, slá á þær með fingrinum og spyrja sig hvort þær veiti manni gleði eða ekki og nota það sem einhvern mælikvarða á mikilvægi bókmennta er algjörlega út í hött. Þessi pæling að maður eigi að losa sig við allt sem veitir manni ekki gleði eða gagn eða vinnur ekki að því að koma manni áfram í lífinu á kannski við um sokka en ekki listir. Það er af og frá. Listir og bækur ganga eftir öðrum lögmálum. Þær eiga ekki aðeins að veita manni gleði, heldur vekja upp sorg, ótta og bara alls konar tilfinningar, gera mann ringlaðan, opna fyrir manni nýjar víddir og setja mann í spor annarra og það er ekki hægt að smætta það allt niður í tvær kröfur,“ segir hún ákveðin. „Það er bara sorglegt og rangt.“

Gerir umhverfinu engan greiða

Metsöluhöfundurinn og sjónvarpsstjarnan Marie Kondo er ekki allra.

Þess utan segir Maríanna að það sé út í hött að halda því fram að bókakosturinn á heimilinu eigi að endurspegla þá manneskju sem húsráðandi hefur að geyma, eins og Kondo boðar af miklum eldmóð. „Ég veit þá eiginlega ekki hvaða ályktanir væri hægt að draga af mínum bókum. Vissulega er hægt að sjá að ég hef áhuga á garðyrkju og matreiðslu en það segir alls ekki alla söguna og í sannleika sagt er ég sátt við það. Ég vil nefnilega ekkert endilega að fólk sjái á bókunum hvers konar manneskja ég er nákvæmlega og hvaða skoðanir ég aðhyllist. Svo er það nú önnur saga að það væri frekar sorglegt ef ég ætti bara bækur eftir fólk sem ég er sammála. Það myndi heldur betur smætta minn veruleika.“ Fyrir utan það segir hún ákveðna þversögn fólgna í þessu öllu. Sem dæmi eigi hún handbók um hvernig eigi að kenna öðrum að keyra þótt hún sé sjálf ekki með bílpróf og viti ekki einu sinni hvernig hún eignaðist bókina. Bókin endurspegli því engan veginn hennar persónuleika en veki alltaf með henni gleði. „Og hvað á ég þá að gera, henda bókinni eða eiga hana?“

Maríanna viðurkennir að eflaust gangi Kondo gott til og jú, eflaust sé eitthvað fallegt við minimalískar skoðanir hennar – svo langt sem þær nái. „Já, já. Þær eru alveg góðar og gildar til að draga neysluhyggju. En, eins og mér hefur stundum sýnst, t.d. af lífsstílsblöðum, þá hendir fólk dótinu sínu eingöngu til þess að kaupa sér nýtt, mínimalískt dót og þá get ég ekki séð að við gerum umhverfinu greiða. Sjálf er ég miklu frekar fyrir að geyma og endurnýta, breyta og bæta. Og jú, því fylgir vissulega einhver óreiða en ætli megi þá ekki bara segja að óreiðan á heimilinu endurspegli mína innri manneskju.“

Önnur og betri ráð

Hún bendir á það séu líka til ýmsar aðrar góðar og gildar aðferðir við að halda heimilinu, þ.m.t. bókunum í röð og reglu. „Mitt ráð er einfalt: Tvöfaldar hilluráðir. Maður felur þá bara þær bækur, sem komast ekki fyrir, á bak við hinar. Marie yrði eflaust mjög ósátt við það en mér finnst sú lausn betri en að losa mig við allar bækur sem endurspegla ekki minn innri mann eða færa mér ekki hamingu,“ segir hún og bætir ákveðin við: „Á mínu heimili verða bækurnar a.m.k. það síðasta sem fer.”

Framtíðin með tækninni – iPad og forritun í kennslu

Forritun er stór hluti af okkar daglega lífi, hvort sem við erum að senda tölvupósta, taka ljósmynd á snjallsíma, borga með korti, horfa á Netflix eða taka strætó, þá eru þetta allt athafnir sem krefjast forritunar á einhvern hátt. Margir telja að störf framtíðarinnar komi til með að byggja í meira mæli á stafrænu læsi og forritunarþekkingu.

Jafnframt er því haldið fram af World Economic Forum að 65% starfa framtíðar séu ekki enn þá til og að flest þeirra komi til með að tengist tækni á einhvern hátt. Því er mikilvægt að skólar séu samferða þessari þróun með markvissri forritunarkennslu fyrir nemendur. Ávinningurinn af forritunarkennslu er mikill. Að þekkja og nota forritunartungumál er ákveðið læsi á stafrænni öld. Nemendur færast þannig úr því að vera neytendur tækninnar eða notaðir af henni, yfir í að vera notendur og nýta sér tæknina til sköpunar. Við spjölluðum við Álfhildur Leifsdóttir, sem er grunnskólakennari í Árskóla Sauðárkróki og með APL vottun frá Apple, um hvernig hægt er að nýta sér tæknina í kennslu og vekja áhuga kennara og nemenda um leið.

Forritunarkennsla

„Með því að læra forritun geta nemendur skapað sín eigin hugarfóstur, gert hugsanir sínar að gagnvirkum raunveruleika og er það í rauninni einungis þeirra eigið ímyndunarafl sem er hindrun í þeirri sköpun. Þegar unnið er með forritun þjálfast bæði rökhugsun og lausnarmiðuð hugsun á annan hátt en með stærðfræði. Það er vegna þess að nemendur sjá afraksturinn á gagnvirkan hátt um leið og þeir forrita og eitthvað sýnilegt verður til. Nemendur þjálfast í samvinnu og þolinmæði því það að leita lausna saman og sýna þrautseigju lærist vel með forritun. Nemendur læra að hugsa leiðina að takmarkinu í litlum skrefum, brjóta vandamálin í minni einingar og finna lausnir á hverri þraut með gagnrýnni hugsun. Leikni á þessu sviði gefur nemendum færni sem getur orðið þeim mikilvæg í framtíðinni,“ segir Álfhildur.

„Forritun er góð leið til að læra af mistökum, því leiðir að markmiðinu geta verið margar og alls ekki sjálfgefið að ná réttri leið í fyrstu tilraun. Þá þarf að greina mistökin, læra af þeim og gera betur. Oft ná þeir nemendur sem ekki finna sig eins vel í öðrum bóklegum námsgreinum góðum tökum á forritun og þannig getur hún aukið sjálfstraust og almennan áhuga á námi hjá þeim einstaklingum. Markmiðið með forritunarkennslu er ekki að allir verði forritarar, heldur að allir fái tækifæri til að kynnast forritun. Þannig er verið að þjálfa margþætta færni sem nýtist nemendum okkar í framtíðinni. Alveg eins og allir þurfa að kynnast heimilisfræði, smíðum og fleiri greinum í grunnskóla.“

Hún segir að sumir gætu talið það óraunhæft að hinn almenni kennari, sem ekki hefur forritunarmenntun geti kennt forritun í grunnskólum. En með þjálfun, aðgengi að góðu kennsluefni og réttu hugarfari geti allir kennarar kennt fyrstu skref í forritun. „Það er einfaldlega vegna þess að kennarar eru upp til hópa mjög góðir í að tileinka sér nýja þekkingu og deila henni áfram. Hægt er að samþætta forritun við önnur fög, hvort sem það er stærðfræði, tónlist eða tungumálakennsla og að auki gæti forritun verið áhugavert val í skapandi skilum á verkefnum.“

Mikil vakning er varðandi forritunarkennslu bæði erlendis og hérlendis og er margt í boði sem hægt er að nýta sér í kennslu, bæði öpp og ýmis tækjabúnaður.
Apple hefur gefið út ókeypis forritunar-app fyrir IOS-tæki, sem kallast Swift Playgrounds, en það nýtur mikilla vinsælda bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Swift Playgrounds er eins og rafræn bók með mismunandi verkefnum sem þarf að leysa. Það er hannað til að vera byrjendavænt og það krefst engrar forritunarþekkingar af nemendum.  Þannig er það frábær leið til að byrja að læra forritun. Verkefnin í appinu eru auðveld til að byrja með en þyngjast með góðum stíganda. Appið er gagnvirkt þannig að nemendur sjá eitthvað gerast á skjánum um leið og þeir keyra kóðann sinn sem gerir verkefnin lifandi. Swift Playgrou

nds er hægt að tengja gagnauknum veruleika og ýmsum aukahlutum sem margir skólar hafa nú aðgang að. Til dæmis Sphero-kúlum, drónum og forritanlegum vélmennum.

Swift Playground-app í boði Apple

„Það koma reglulega inn ný og spennandi verkefni í Swift-appið svo áhugasamir nemendur verða ekki verkefnalausir,“ segir Álfhildur. „Apple leggur mikla áherslu á að vinna með þann raunveruleika sem nemendur tengja við þannig að verkefnin séu áhugaverð. Þegar nemendur hafa náð góðri færni í kóðun geta þeir sjálfir hannað sín verkefni frá grunni í  appinu. Í Swift Playgrounds geta nemendur valið forritunarskipanir með því að smella á þær. Þannig er komið í veg fyrir innsláttarvillur sem hindra að kóðinn virki og getur tekið langan tíma að laga. Þetta er frábær eiginleiki þegar byrjað er í forritun en jafnframt er hægt að slá inn kóða sjálfur þegar leikninni hefur verið náð.

Forritunarmál er eins og tungumál með mörgum mállýskum, um leið og nemandi hefur fengið þjálfun í einu forritunarmáli þá er hann fljótur að ná tileinka sér önnur. Mörg vinsæl öpp eru skrifuð í Swift-kóða frá Apple þó að það sé ekki gamalt forritunarmál. Þannig að Swift er fullkomlega samkeppnishæft forritunarmál sem er öllum aðgengilegt og býr nemendur undir þeirra framtíð.“

Myndir: / Úr safni Epli
Í samstarfi við Epli

 

Í himnesku umhverfi við sjávarsíðuna

Þetta glæsilega fjölbýlishús stendur við Strikið 1 á fallegum stað í Sjálandshverfi í Garðabæ. Sjálandið liggur við Arnarnesvoginn í Garðabæ í friðsælu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna. Sjáland hefur sérstakt yfirbragð, það er að segja að skipulag hverfisins tekur mið af nálægð þess við sjóinn, en hverfið stendur á ströndinni við Arnarnesvog og eitt aðaleinkenni þess er gott útsýni yfir voginn allt til Snæfellsjökuls og til Esju. Umhverfið laðar að og býður upp á fjölbreyttar leiðir til útivistariðkunar fyrir alla aldurshópa.

Í húsinu eru til sölu glæsilegar og vandaðar íbúðir fyrir sextíu ára og eldri og alls eru fjörutíu og tvær íbúðir í húsinu. Íbúðirnar eru allt frá 84 fermetrum til 180 fermetra að stærð. Húsið er vel einangrað að utan og álklætt með endingargóðri, smekklegri og viðhaldslítilli álklæðningu. Íbúðunum fylgja ýmist góðar svalir, þakgarðar eða timburverandir með skjólgirðingum á jarðhæð. Öllum íbúðum fylgir stæði í upphitaðri og lokaðri bílgeymslu þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að hlaða rafmagns- eða tengitvinnbíla.

Öryggið í fyrirrúmi

Íbúðirnar eru afar vandaðar og afhendast fullbúnar án gólfefna að undanskildum baðherbergjum og þvottahúsum sem verða flísalögð. Skipulagið er hið besta og stílhreint yfirbragð er yfir eigninni. Mikið er lagt upp úr öryggi og íbúðunum fylgir mynddyrasími. Jafnframt fylgja íbúðunum reykskynjarar sem og í sameign sem verða vaktaðir af stjórnstöð öryggisfyrirtækis. Í hverju stigahúsi verður sameign fullfrágengin með lyftu. Sameign og lóð að utan verður fullfrágengin á smekklegan máta og stéttar við húsið verða hellulagðar upphitaðar með snjóbræðslukerfi.

Örstutt í þjónustu í Jónshúsi og samgöngurleiðir góðar

Vel er hugað að lífsgæðum íbúanna og má nefna að innan hússins verður sameiginlegur salur fyrir íbúa þar sem hægt er að halda fundi eða mannfagnaði. Ekki er þó um eiginlega félagsaðstöðu eða skipulagt félagsstarf að ræða. Hins vegar er handan götunnar Þjónustusel Garðabæjar staðsett í Jónshúsi fyrir eldri borgara Garðabæjar. Ökuleiðir til og frá hverfinu eru greiðfarnar. Skammt frá eru tveir þjónustukjarnar sem tilheyra miðbæ Garðabæjar en það er verslunarkjarninn við Litlatún 3, á mótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar en hann hefur reynst afar vinsæll og er vel sóttur af Garðbæingum og nærsveitungum. Jafnframt við Garðartorg er öflugt verslunar- og þjónusturými, stjórnsýsla og menning. Við Arnarnesvoginn er náttúruleg fjara og í framhaldi af henni er sjóbaðsströnd sem snýr í sólarátt. Strandlengjan er opin öllum íbúum og almenningi og gangstígur tengir hana og hverfið við miðbæ Garðabæjar ásamt öflugu göngustíganeti bæjarins sem er mikill kostur.

Ylströndin er steinsnar frá en mögulegt er að njóta sólar og sands þar. Það er ekki eingöngu í Nauthólsvík sem íslenskir sóldýrkendur geta komist í tæri við strandstemningu. Í Sjálandshverfinu er ylströnd sem jafnan nýtur mikilla vinsælda á góðviðrisdögum.

Til framtíðar

Hjúkrunarheimilið Ísafold sem er rekið af Hrafnistu er staðsett á næstu lóð, sem mætti hugsa sem ákveðið öryggi í framtíðinni en um þetta þarf að semja. Ísafold er fremur nýlegt og glæsilegt hjúkrunarheimili ásamt þjónustumiðstöð. Þjónustumiðstöðin fyrir eldri bogara er staðsett á jarðhæðinni og þar er boðið upp ýmsa þjónustu.

Fjárfesting fasteignasalan er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin mikil, enda um að ræða vandaðar eignir og einstaka staðsetningu. Sjón eru sögu ríkari. Nánari upplýsingar veita Óskar Þór Hilmarsson, löggiltur fasteignasali, í síma: 822-8750, Guðjón Sigurjónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 846-1511, Smári Jónsson, löggiltur fasteignasali, í 864-1362 og Edda Svavarsdóttir, löggiltur fasteignasali, í síma 845-0425. Einnig er hægt að hafa samband við Fjárfestingu fasteignasölu í síma: 562-4250.

Myndir / Úr myndasafni Fjárfestingar fasteignafélags

 

Reynt að bjarga íslensku fjölmiðlalandslagi frá algjörri einsleitni

Fyrir mánaðamót er von á frumvarpi sem ætlað er að stuðla að bættu rekstrarumhverfi ritstýrðra íslenskra fjölmiðla sem miðla fréttum, fréttatengdu efni og mikilvægu samfélagslegu hlutverki í samráðsgátt stjórnvalda.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, hefur undanfarna mánuði unnið að því að reikna út kostnað við mismunandi sviðsmyndir þessu tengdu. Heimildir Kjarnans herma að þeir útreikningar hafi meðal annars snúist um hvort næði tilgangi frumvarpsins betur, að greiða einkareknum fjölmiðlum styrki úr ríkissjóði eða gera þeim kleift að fá hluta ritstjórnarkostnaðar endurgreiddan. Niðurstaðan er sú að dreifing þeirrar upphæðar sem til stendur að greiða til fjölmiðla sem frumvinna fréttir er mjög sambærileg í báðum leiðum. Því er líklegt að endurgreiðsluleiðin verði ofan á.

Það munu ekki allir fjölmiðlar geta fengið endurgreiðslur vegna ritstjórnarkostnaðar, verði frumvarpið að lögum óbreytt. Í því verða ströng skilyrði um t.d. rekstrarsögu til að koma í veg fyrir að nýir aðilar geti stofnað fjölmiðil og farið samstundis fram á greiðslur úr ríkissjóði, um gegnsæi eignarhalds og að öll opinber gjöld séu í skilum, svo fátt eitt sé nefnt.

Drög að frumvarpinu liggja fyrir og næsta skref er að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynni það í ríkisstjórn og fái þar staðfestingu á boðuðum stuðningi við það. Í kjölfarið verður frumvarpið að öllum líkindum lagt fram til samráðs.

Tilgangurinn er að bjarga fjölbreytni í íslensku fjölmiðlalandslagi.

Nánar á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Akureyringar stjórna nú bæði Eimskip og Samskip

|
|

Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri Eimskips. Hann hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 1999 og nú síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta. Vilhelm er sonur Þosteins Vilhelmssonar, fyrrum eiganda Samherja sem átti einnig fjárfestingafélagið Atorku.

Mannlíf fjallaði nýlega um möguleg forstjóraskipti eftir að tilkynnt var um að Gylfi Sigfússon myndi flytja sig til Bandaríkjanna og taka við starfsemi Eimskips þar og í Kanada ásamt því að stýra Eimskip logistics. Þau nöfn sem Mannlíf nefndi þá sem væru líklegir til að taka við Eimskip voru Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair, Baldvin Þorsteinsson núverandi stjórnarformaður Eimskips og Jón Björnsson, fyrrum forstjóri Festar.

Nú er ljóst að það verður hins vegar Vilhelm Már Þorteinsson sem tekur við hjá þessu gamalgróna fyrirtæki. Vilhelm er frá Akureyri og er fæddur árið 1971. Er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með MBA gráðu frá Pace University í New York. Hefur hann starfað hjá Íslandsbanka í 18 ár og forverum hans. Hann var einn af fremstu skíðamönnum landsins á yngri árum og var í skíðalandsliðinu á sama tíma og Kristinn Björnsson sem margir muna eftir.

Mynd af Facebook-síðu Eimskips.

Segja má að mikil tengsl séu á milli Vilhelms og Samherja sem nú er stærsti hluthafi Eimskips. Þorsteinn Vilhelmsson, faðir Vilhelms er bróðir Kristjáns Vilhelmssonar, eins af eigendum Samherja. Þorsteinn stofnaði Samherja með Kristjáni bróður sínum og Þorsteini Má Baldvinssyni, frænda þeirra árið 1983. Árið 1999 seldi Þorsteinn Vilhelmsson hins vegar hlut sinn í Samherja. Fyrir bankahrunið átti Þorsteinn síðan Atorku Group sem fór í greiðslustöðvun eftir bankahrunið. Það var einmitt Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja sem keypti hluta af eignum Atorku árið 2012 þegar félagið fjárfesti í Jarðborunum.

Akureyringar stjórna Eimskip og Samskip

Vilhelm hefur hins vegar ekki tekið þátt í fjárfestingum með föður sínum heldur hefur hann unnið hjá Íslandsbanka í 18 ár líkt og áður kom fram. Hann var einn þeirra sem settist í framkvæmdastjórn Glitnis í maí árið 2008 og fékk á sama tíma 800 milljóna kúlulán í gegnum félag sitt AB 154 ehf. til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Á þeim tíma var Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Glitnis.

Áhugavert þykir að nú stýra tveir Akureyringar báðum helstu flutningafyrirtækjum landsins. Í haust var Birkir Hólm Guðnason ráðinn forstjóri Samskipa en hann hafði um árabil starfað hjá Icelandair. Birkir er þremur árum yngri en Vilhelm.

Frekari breytingar framundan hjá Eimskip?

Þeir aðilar á markaði sem Mannlíf ræddi við í desember þegar vangaveltur voru um nýjan forstjórara töldu líkleg tækifæri í því að skipta út stjórnendum hjá Eimskip, nýta fé þess betur, þróa vöruhótel þess enn frekar svo nokkuð sé nefnt. Hér þarf auðvitað líka að hafa í huga að starfsemi Eimskips í dag er allt önnur en fyrir áratug síðan. Má í því samhengi nefna að árið 2007 námu heildareignir þess um 200 milljörðum króna en nema í dag 65 milljörðum króna. Veltan í dag er þó einungis um 10% minni en þegar best var eða rúmlega 90 milljarðar króna.

Því verður áhugavert að sjá hvaða breytingar verða með tilkomu þess að Vilhelm Már Þorsteinsson tekur við sem forstjóri Eimskips og hvaða breytingar frændur hans hjá Samherja ætli sér að gera varðandi rekstur fyrirtækisins á komandi misserum. En líklegt má telja að frekari breytingar séu framundan á meðal lykilstjórnenda Eimskip og að Vilhelm komi með menn sem hann treystir og þekkir inn í lykilstöður í fyrirtækinu, sem mun á sama tíma endurspegla áherslur stærsta eiganda fyrirtækins.

Flugmiðinn gæti lækkað um allt að helming

|
|

Áætla að niðurgreiðslur innanlandsflugs fyrir íbúa landsbyggðarinnar kosti um milljarð kóna.

Til skoðunar er að ríkið niðurgreiði flugfargjöld fyrir íbúa á afskekktum svæðum landsins, þar með talið Akureyri og öðrum dreifbýliskjörnum. Allt að 60 þúsund manns myndu njóta slíkra niðurgreiðslna. Verði þessi leið, sem gjarnan er nefnd skoska leiðin, niðurstaðan og farið verði eftir tillögum starfshóps um nauðsynlegar framkvæmdir á flugvöllum landsbyggðarinnar gæti kostnaðurinn farið upp í þrjá og hálfan milljarð.

Njáll Trausti Friðbertsson og Reinhard Reynisson.

Starfshópur undir formennsku NjálsTrausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, skilaði á dögunum af sér skýrslu undir heitinu „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Helstu úrlausnarefni starfshópsins voru annars vegar að efla innanlandsflug með þeim hætti að bæta aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu höfuðborgarinnar. Hins vegar var fjallað um hvernig best væri að standa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins.

„Það er mat forráðamanna Icelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flugs til og frá Íslandi.“

Þessi niðurgreiðsluleið eða skoska leiðin eins og hún er kölluð er það verkefni sem atvinnuþróunarfélögin í kringum landið tóku upp á sína arma fyrir um tveimur árum síðan.

„Við kynntum þetta í framhaldinu fyrir þingmönnum og formanni samgöngunefndar og héldum svo ráðstefnu í Reykjavík fyrir rúmu ári síðan. Markmiðið var að koma þessum hugmyndum á framfæri við pólitíkina. Því má segja að þessi vinna komi að því leyti frá þróunarfélögunum,“ segir Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, í samtali við Mannlíf. Hann var fundarstjóri á kynningarfundi um skýrslu starfshópsins á Húsavík á dögunum en Njáll Trausti var framsögumaður.

Telur breiða samstöðu á þingi

Njáll Trausti sagðist eftir fundinn vera bjartsýnn á að skoska leiðin verði farin og hann skynjaði samstöðu um málið í þinginu. Hann benti jafnframt á mikilvægi þess að frá og með 1. janúar 2020 verði millilandaflugvellirnir, Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og að Isavia ohf. verði falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra; og að fjórum árum verði millilandaflugvellirnir og aðrir flugvellir í grunnneti hluti af sama flugvallakerfi. Þessar hugmyndir byggja á hugmyndafræði sem norsk stjórnvöld hafa tileinkað sér með sína flugvelli í gegnum Avinor, félag sem er eigu norska ríkisins. Avinor rekur 45 flugvelli í Noregi og eru tekjur af stærri flugvöllunum notaðar í rekstur á minni völlum.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf vegna niðurskurðar

Njáll Trausti hefur vakið sérstaka athygli á því að á sama tíma og umferð um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast frá árinu 2010 hefur uppbygging á varaflugvöllum í Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum ekki fylgt þeirri þróun.

Í skýrslu starfshópsins er minnst á vaxandi þörf fyrir nýframkvæmdir á varaflugvöllunum svo sem við gerð aksturbrauta meðfram flugbrautum og að flugvélastæðum verði fjölgað á Akureyri og Egilsstöðum. Einnig er bent á nauðsyn þess að byggðar séu upp nýjar flugstöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Njáll Trausti segir að það hafi leitt til þess að uppsöfnuð viðhaldsþörf á flugvöllum landsins utan Keflavíkurflugvallar er talin vera um 2 milljarðar.

Umsögn Icelandair við samgönguáætlun skefur ekki utan af því í þessu samhengi: „Það er mat forráðamanna Icelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flugs til og frá Íslandi,“ segir í umsögninni.

Skoska leiðin í hnotskurn

Heimilt verði að niðurgreiða fargjöld íbúa og nemenda frá afskekktum svæðum til að jafna aðgengi þeirra að þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð og til að gera þeim kleift að taka þátt í samfélaginu sem fyrirfinnst á þéttbýlli svæðum. Hægt er að niðurgreiða hvern farmiða hvort heldur sem er um fasta upphæð eða fast hlutfall af fargjaldinu. Í Skotlandi var hlutfallið hækkað 1. janúar 2016 úr 40 í 50%.

Niðurgreiðslan nær aðeins til einstaklinga sem búa á svæðinu, ekki til fyrirtækja eða einstaklinga sem vilja sækja svæðið heim. Jafnframt er hægt að setja krónutöluþak á hvern einstakling eða hámarksfjölda ferða sem eru niðurgreiddar. Þannig er til dæmis hægt að ákveða að hver einstaklingur fái að hámarki niðurgreiddar fjórar ferðir til að byrja með.

Ef fylgt yrði fordæmi Skota og niðurgreiðslan miðuð við 50 prósent yrði meðalverð farmiða í kringum 12.500 krónur. Miðað við forsendur starfshópsins sem byggir á reynslu Skota munu um 41 þúsund einstaklingar nýta sér þessa þjónustu á ári hverju sem þýðir að árlegur kostnaður yrði rétt rúmur milljarður. Ef allir 60 þúsund íbúarnir sem úrræðið nær til nýta sér það yrði kostnaðurinn einn og hálfur milljarður.

Útfærsla á leiðinni, það er til hvaða landsvæða niðurgreiðslan muni ná, hefur ekki verið kynnt en líklega verður miðað við ákveðna vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu og hefur verið talað um 200 eða 300 kílómetra með sérstökum undantekningum, svo sem Vestmannaeyjum.

Texti / Egill Páll Egilsson og Magnús Geir Eyjólfsson
Mynd / Isavia

Þorrablót með öllu tilheyrandi

Bryggjan brugghús heldur heljarinnar þorrablót með öllu tilheyrandi.

Á þorrablóti Bryggjunnar brugghúss verður boðið upp á glæsilegt hlaðborð með súrmeti, lambalæri, hangikjöti, síld og gómsætu meðlæti. Glæsileg skemmtidagsdagskrá setur punktinn yfir i-ið.

Það er hin bráðfyndna Saga Garðarsdóttir sem fer með veislustjórn á þorrablótinu þann 26. janúar en Anna Svava Knútsdóttir verður svo veislustjóri þann 8. og 9. febrúar. Þá er það Helgi Björnsson sem heldur uppi stuðinu ásamt hljómsveit.

Þeir sem halda hátíðlega upp á bóndadaginn geta svo skellt sér í nýja matar- og bjórskóla Bryggjunnar brugghúss sem haldinn er alla fimmtudaga. Hægt er að kaupa gjafabréf í skólann og þeir bændur sem fá slíkt gjafabréf fá að auki bjórglas merkt Bryggjunni brugghús. Tilvalin bóndadagsgjöf í upphafi þorranns.

Nytjamarkaðir að fyllast vegna Marie Kondo?

|
|

Tiltektarþættirnir Tydying Up With Marie Kondo njóta mikilla vinsælda víða um heim en Kondo hvetur fólk til að losa sig við það dót sem ekki veitir því gleði.

Netflix-þættir japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo), hafa notið mikilla vinsælda undanfarið víða um heim. Svo mikilla vinsælda að margt fólk er að losa sig við dót og drasl eins og enginn sé morgundagurinn að sögn nokkurra starfsmanna nytjamarkaða í Bretlandi.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilinu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki Marie Kondo.

Marie Kondo hefur gefið út fjórar bækur um tiltekt og skipulag.

Í frétt BBC kemur fram að margir nytjamarkaðir í Bretlandi hafa verið að fyllast í janúarmánuði. „Við sjáum venjulega aukningu á framlögum í janúar, en þetta árið hefur þetta verið ótrúlegt,“ segir Sue Ryder sem rekur nytjamarkað í Camden í Lundúnum.

Að hennar sögn hafa um 30 stórir pokar verið að skila sér á nytjamarkaðinn á dag. Það er helmingi meira en búist var við að sögn Ryder. Hún vill meina að þetta séu afleiðingar þess að speki Kondo nýtur mikilla vinsælda núna.

Hvað með Íslendinga?

Gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti.

Hvað með nytjamarkaði á Íslandi? Starfsmaður Nytjamarkaðar ABC barnahjálpar segir janúarmánuð hafa verið annasaman og að mjög margt fólk sé augljóslega að taka til á heimilinu þessa stundina. Það er þó ómögulegt að segja til um hvort tiltektarþættir Marie Kondo hafi eitthvað með málið að gera.

„Það er allt alveg stútfullt hjá okkur og það gæti verið einhver tenging við þessa tiltektarþætti. En að vísu er fólk líka að versla mikið hjá okkur og fólk vill kaupa notað í staðin fyrir nýtt. Þar koma umhverfissjónarmiðin inn í,“ segir starfsmaður nytjamarkaðar ABC.

Starfsmaður nytjamarkaðar Hertex í Garðastræti hafði einnig svipaða sögu að segja en tók fram að erfitt væri að segja til um hvort þættir Marie Kondo væru að ýta undir tiltektardugnað landsmanna.

Sjá einnig: Misbýður boðskapur Marie Kondo

Brot úr bíl Filippusar til sölu á ebay

|
|

Bútar og brot úr jeppa Filippusar, hertogans af Edinborg, eru nú til sölu á ebay.

Filippus prins, eiginmaður Elísabetar Englandsdrottningar, slapp ómeiddur frá árekstri í síðustu viku en Land Rover-jeppi hans skemmdist töluvert. Þó nokkuð af brotnum bútum og glerbroti varð eftir á vettvangi þar sem áreksturinn átti sér stað, nálægt Sandringham-höll drottningarinnar.

Einhver hefur þá brugðið á það ráð að safna saman bútunum af vettvangi til að selja á uppboðsvefnum ebay.

Það er seljandinn morbius777 sem selur hlutina. Á söluvef hans kemur fram að upphæðin muni renna til góðgerðasamtakanna Cancer Research UK.

„Gæti meira að segja haft DNA úr Filippusi, ef þú villt klóna hann eða álíka,“ segir seljandinn meðal annars í lýsingunni.

Núna hljóðar hæsta tilboðið upp á 65.900 pund sem gerir rúmar 10 milljónir króna. Fimm dagar eru eftir af uppboðinu.

Þess má geta að samkvæmt tilkynningu frá konungsfjölskyldunni slapp Filippus ómeiddur en tvær konur sem voru í hinum bílnum voru fluttar á sjúkrahús með minniháttar meiðsl. Samkvæmt frétt Sky News úlnliðsbrotnaði ökumaður hins bílsins og er hún undrandi á að hafa ekki fengið símtal frá Filippusi sjálfum eftir slysið.

Margrét fékk loksins afsökunarbeiðni frá Icelandair

Undanfarið hafa fjölmargar konur tjáð sig undir myllumerkinu #vinnufriður eftir að félagið Ungar athafnakonur hélt fund í síðustu viku um kynferðislega áreitni á vinnustað. „Ungar athafnakonur blása til samstöðufundar um rétt fólks til að sinna starfi sínu í friði,“ segir á Facebook um fundinn.

Margrét Erla Maack, skemmtikraftur, er ein þeirra sem deilt hefur reynslusögum með myllumerkinu #vinnufriður.

„Í helming skipta sem ég DJa er ég áreitt kynferðislega. Þetta er verst í vinnustaðapartýum. Á tímabili setti ég upp verð og sagði „svo er 90.000 króna áreitnigjald.“ Þá allavega var fólk til í að passa upp á mig,“ segir Margrét í einni færslu á Twitter.

Þá segir hún frá áreitni sem hún varð fyrir þegar hún ráðin sem plötusnúður í veislu á vegum Icelandair en það mál var þaggað niður á sínum tíma líkt og hún sagði frá í viðtali við Mannlíf í september.

En nýverið fékk Margrét símtal frá núverandi mannauðsstjóra Icelandair og fékk afökunarbeiðni, um 12 árum síðar, eins og fram kemur á Twitter-síðu Margrétar.

Undanfarin ár hefur Margrét Erla talað opinskátt um þá kynferðislegu áreitni sem viðgengst í skemmtanabransanum, meðal annars í ítarlega viðtali við Mannlíf.

„Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“

Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.

„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist,“ útskýrði hún.

Sjá einnig: Gerendur hafa tvíeflst við #metoo

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Merkingarfælinn listamaður

Nýhafið ár er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Reykjavíkur. Fyrir utan sýningu allt árið á verkum Ásmundar Sveinssonar verða settar upp einkasýningar fimm listamanna sem eiga verk í borginni. Sigurður Guðmundsson er einn þeirra og var sýning hans opnuð á laugardaginn, 19. janúar.

 

„Það sem ég sýni eru módel úr raunverulega efninu og hliðstæð verk,“ segir Sigurður Guðmundsson en um er að ræða um 20 verk – skúlptúra, grafíkverk og vídeóverk og eiga verkin það sameiginlegt að vera tengd útilistaverkum Sigurðar á einn eða annan hátt.

„Útilistaverk eða listaverk í opinberu rými verða að standa af sér veður og vind og verða að geta staðist tímans tönn þannig að þau úreldist ekki fljótt – ég vil helst að barnabörnin mín mín þurfi ekki að skammast sín fyrir listaverkin hans afa.“

Ég vil helst að barnabörnin mín mín þurfi ekki að skammast sín fyrir listaverkin hans afa.

Sigurður segir að ef verk sín séu ekki ljóðræn og ef þau búi ekki yfir heimspekilegri póesíu þá hafi honum mistekist og þá sendi hann þau ekki frá sér. „Ég þarf eiginlega að upplifa þau sem ljóðlist sem maður sér með augunum. Ég er afskaplega merkingarfælinn listamaður og ég lít á öll verk sem ég geri sem miðlun á upplifun frekar en útskýringu á hvað listamaðurinn er að fara. Verkin mín eru ekki eftirlíking á einhverju sem hefur skeð. Þau eru nýr veruleiki.“

Sigurður býr í borginni Xiamen í Kína og nú stendur yfir sýning hans í Shanghai. Hann sýnir víða um heim og er að undirbúa stóra yfirlitssýningu sem verður sett upp í Listasafni Reykjavíkur, sennilega árið 2021 og mun ferðast til annarra landa.

Verk hans voru til sýnis í Pompidou-listamiðstöðinni í París þegar hún var opnuð 1977, hann hefur meðal annars tvisvar sýnt á Feneyjartvíæringnum, hlotið verðlaun og viðurkenningar og eru verk hans í eigu helstu safna í Evrópu.

Mynd / Einar Falur og i8

„Fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis“

„Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í ítarlegu forsíðuviðtali Mannlífs sem kom út á föstudaginn.

Í viðtalinu segir Logi frá því að hann eygði tækifæri til að koma Samfylkingunni í ríkisstjórn því fljótlega eftir kosningar hóf hann stjórnarmyndunarviðræður við VG, Pírata og Framóknarflokk um ríkisstjórnarsamstarf. Þeim viðræðum var hins vegar slitið eftir þriggja daga viðræður og fór svo að VG fór í sæng með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.

Logi segir þá niðurstöðu vonbrigði enda ekkert sem benti til annars á þeim tímapunkti en að flokkarnir væru samhuga.

Logi segir vonbrigðin að hafa ekki náð að mynda ríkisstjórn frá miðju og til vinstri sárari en ella í ljósi kjaraviðræðna sem nú standa yfir. Þar skipti aðkoma ríkisvaldsins miklu máli. „Það er auðvitað það sem skorti strax í stjórnarsáttmálanum fyrir ári síðan. Þá lá alveg fyrir að þessi vetur kæmi með þessum kröfum en ríkisstjórnin hefur ekki lagt neitt haldfast á borðið. Alvörufélagshyggjustjórn hefði forgangsraðað öðruvísi, svo sem með tekjuskiptu skattkerfi sem hlífir lágtekju- og meðaltekjufólki.“

Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda.

„Ég hélt í sakleysi mínu og einfeldni að þetta væri nákvæmlega sama skattapólitík og Vinstri græn töluðu um fyrir kosningar. Ég hélt að það væri formsatriði að þessir flokkar tveir næðu að minnsta kosti saman um þetta. En kannski snýst þetta ríkisstjórnarsamstarf svo um eitthvað allt annað en hægri og vinstri. Kannski snýst það einmitt um íhaldssemi, um að viðhalda gömlum kerfum sérhagsmunahópa. Kannski snýst það um að viðhalda rétti útgerðarinnar til þess að sitja á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og nýta hana fyrir litla peninga. Kannski snýst þetta um hagsmuni landbúnaðarins eingöngu en ekki hagsmuni neytenda. Kannski snýst þetta um það að afneita því að stór og örugg mynt geti skilað ávinningi fyrir launafólk. Kannski skilur meira á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en ég í einfeldni minni hélt. Kannski eru þessir flokkar eðlisólíkir.“

Þetta aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í kjaramálunum telur Logi vera einkennandi fyrir ríkisstjórnina. „Þau tala um að þau hafi siglt lygnan sjó og komið mörgum málum í gegn. Ég held að þetta sé fyrst og fremst ríkisstjórn aðgerðaleysis. Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt. Það er eitt ár rúmlega síðan þessi ríkisstjórn var stofnuð og það lá alveg fyrir að það þyrfti að fara í húsnæðisátak. Þess vegna fór Samfylkingin strax í að búa þær tillögur til en við vöknum upp við það árið 2019 að ríkisstjórnin er að ákveða einhvern starfshóp. Ég veit ekki af hverju. Mér finnst vera drollaraháttur á þeim, þau eru sein til verka og fyrst og fremst finnst mér þau vera vinna töluvert á forsendum stærsta flokksins í ríkisstjórninni, Sjálfstæðisflokksins.“

Hún er ekki að taka á neinum málum, hún er að viðhalda kerfum en hún er ekki að gera neitt.

Hvað væruð þið að gera öðruvísi ef þið sætuð í ríkisstjórn?

„Við hefðum að sjálfsögðu ráðist í breytingar á skattkerfinu sem hefðu hlíft meðaltekju- og lágtekjufólki og lagt aðeins meiri álögur okkur betur stæðu. Við hefðum ráðist í meiri stórsókn í menntamálum, að sjálfsögðu hafið vinnu með öðrum flokkum um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem leiddu til þess að þjóðin fengi meiri og sanngjarnari arð af sameiginlegri auðlind. Við sjáum núna að veiðigjöldin eru lækkuð um um 3-4 milljarða en það er líka verið að lækka fé til hafrannsókna sem er undirstaða ekki bara efnhags okkar heldur lífríkis líka. Við hefðum útvíkkað gjaldmiðlanefndina og látið hana líka skoða hvaða hagsmunir gætu falist í því að  vera með aðra mynt en krónuna í staðinn fyrir að stinga hausnum í sandinn eins og strútur og segja „krónan skal það vera“. Það er svo margt sem við hefðum gert öðruvísi.“

Viðtalið við Loga má lesa í heild sinni hérna.

Mynd / Hallur Karlsson

Umhverfismálin eiga að vera í fararbroddi

Batteríið Arkitektar er með stærstu arkitektastofum á Íslandi með vel menntaða og reynslumikla starfsmenn sem hafa tekið þátt í stórum og fjölbreyttum hönnunarverkefnum bæði innanlands og utan. Við báðum Sigurð Einarsson arkitekt, sem stofnaði fyrritækið árið 1988 ásamt Jóni Ólafi Ólafssyni og hefur starfað þar óslitið síðan, um að veita okkur innsýn inn í arkitektúr á Íslandi í dag og gefa okkur sýnishorn af verkum sem Batteríið arkitektar hafa hannað.

Harpa – hönnuð í samstarfi við Henning Larsen Architects og Studio Olafur Eliasson tekin í notkun 2011. Ljósmynd: Nic Lehoux.

Hvaða straumar og stefnur eru mest áberandi í dag? „Allt og ekkert. Það sem ég á við með því er að það er erfitt að segja að ein stefna sé meira áberandi en önnur því í dag eru arkitektar víða að vinna út fyrir þægindarammann – í allar áttir. Arkitektúr á að vera leitandi og núna þegar nánast allt er tæknilega mögulegt sjáum við fjölbreytileikann blómstra sem aldrei fyrr.“

Hvar standa Íslendingar á heimsvísu er varðar arkitektúr og samkeppnishæfni? „Margt af því sem íslenskir arkitektar eru að gera stenst allan samanburð við það sem best gerist í heiminum. Arkitektasamkeppnir hér heima eru alþjóðlegar og þar standa íslenskir arkitektar sig með ágætum og það sama má segja erlendis – við hjá Batteríinu Arkitektum höfum t.d. bæði unnið arkitektasamkeppnir og alútboð í Noregi.“

Hvaða bygging á Íslandi finnst þér skara fram úr varðandi hönnun og gæði? „Það fyrsta sem kemur upp í hugann er einbýlishús eftir Högnu Sigurðardóttur í Garðabæ. Þar hefur ekki bara verið á ferðinni góður arkitekt heldur líka frábær verkkaupi sem hafði skilning og metnað til að halda í þessa ferð út fyrir þægindarammann með Högnu. Húsið er í senn með sterkar form- og efnislegar tengingar við Ísland, hefur umhverfisvænt yfirbragð löngu áður en slíkt varð móðins, rýmismyndun er frábær, lýsingin þjónar arkitektúrnum í hvívetna og húsið virðist „funkera“ vel með sveigjanlegum opnunum milli rýma svo það helsta sé nefnt.“

Hver er þín framtíðarsýn fyrir Reykjavík og þróun borgarinnar? „Ég er í stórum dráttum sáttur við stefnuna eins og hún birtist í Aðalskipulagi Reykjavíkur. Umhverfismálin eiga að vera í fararbroddi. Eitt af mikilvægu markmiðunum í því samhengi eru skjólmyndun sem allt of oft er meira í orði en á borði. Ég tel rétt að leggja ríkari áherslur á veðurfarslega þætti við skipulag og ekki síst útfærslur í uppbyggingu borgarinnar. Þessi atriði fara vel saman við þéttingu byggðarinnar.“

Hvernig verkefni finnst þér sjálfum skemmtilegast að fást við? „Mér finnst skemmtilegast að fást við flókin og krefjandi verkefni. Slík verkefni kalla á meiri tíma og yfirlegu og eru í eðli sínu stanslaus endurmenntun. Oft þarfnast þau mikilla samskipta við verkkaupann í sameiginlegri leit að hinni réttu lausn. Þetta geta allt eins verið lítil verkefni eins og stórar byggingar og skipulagsverkefni en eiga það sameiginlegt að stuðla að framþróun í hugsun, þróun og lausnum.“

Hvað er mikilvægast þegar kemur að góðri hönnun? „Forsendur fyrir góðri hönnun er góður verkkaupi. Það er sama hvað arkitektinn er góður, ef verkkaupinn hefur ekki skilning á því að fylgja honum og bakka upp hans hugmyndir verður útkoman oft eitthvert miðjumoð. Góð hönnun er vel útfært samhengi hlutanna og því ber að varast að steypa mörgum ólíkum óskum og hugmyndum í einn graut. Þar aftur spilar skilningur og samvinna verkkaupans stórt hlutverk.“

Active living center í Winnipeg, Kanada.

Hvaða ráð vilt þú gefa arkitektum og hönnuðum framtíðarinnar? „Arkitektúr snýst fyrst og fremst um að búa til rými fyrir fólk til að lifa og starfa í. Ný og göfugri viðmið birtast okkur reglulega í mannvirkjum þar sem best tekst til að horfa á umhverfið okkar og þarfir í sífellt nýju ljósi. Arkitektar þurfa að vera trúir sjálfum sér og sinni sannfæringu og tilbúnir til að vera leiðandi í þessari endalausu vegferð.“

Skáli Alþingis – tekinn í notkun 2002. Ljósmynd: Bragi Þór Jósefsson

Á myndunum má sjá sýnishorn af þeim verkum sem Batteríið Arkitektar hafa hannað.

Langar að ganga Jakobsveginn

||
||

Sólveig Baldursdóttir er myndlistamaður sem stundaði nám við skúlptúrdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1980-82. Ásamt því stundaði hún nám við myndhöggvaradeild Det Fynske Kunstakademi á árunum 1983-1988. Einnig starfaði hún í stúdíó Nicoli í Carrara frá 1990-1994 þar sem hún vann að eigin verkum. Í dag starfar Sólveig í DAM-teymi Hvítabandsins á geðsviði Landspítalans og sér þar um skapandi starf m.a. á leirverkstæði og í sköpun og tjáningu. Við spurðum Sólveigu hvað væri helst á óskalistanum hennar.

Stóll eftir danska hönnuðinn Hans Wegner.

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast? „Mig hefur alltaf dreymt um að eignast vinnustofu með stórum gluggum, með útsýni yfir haf og fjöll.“

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? „Það væri stóll eftir danska hönnuðinn Hans Wegner.“

Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? „Ég væri alveg til í að eignast góðan, síðan leðurfrakka.“

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? „Ég myndi fara í mánaðarferðalag til Tíbet og síðan myndi ég ganga allan Jakobsveginn.“

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? „Já, ég hefði ekkert á móti því að hafa grænmetiskokk í eldhúsinu hjá mér alla daga.“

Stærsta óskin væri? „Að geta skilið eftir mig nokkur viskukorn sem barnabörnin geta leitað í þegar ég er farin.“

Hallgrímskirkja.

Uppáhaldsborg? „London trúlega, hún er mjög nútímaleg en geymir einnig mikla sögu fyrri tíma. Þessir þættir blandast saman á mjög spennandi og skemmtilegan hátt í menningu, tónlist og myndlist t.d.“

Besta kaffihúsið? „Mokka stendur alltaf fyrir sínu.“

Fallegasti litur? „Akkúrat núna er það fölblár.“

Fallegasti staðurinn á Íslandi? „Ætli ég segi bara ekki Skagafjörðurinn og Mývatnssveitin.“

Fallegasta bygging á Íslandi? „Það eru margar fallegar byggingar á Íslandi en ég er alltaf einstaklega hrifin af Hallgrímskirkju, hún er sterk, öðruvísi, ekki alltaf falleg en kemur manni sífellt á óvart í alla vega veðrum og vindum. Það er gott að sitja í kyrrðinni innandyra og njóta byggingarstrúktúrsins og gráu skugganna í mismunandi dýptum.“

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? „Það væri málverk eftir Agnesi Martin.“

Logi um Gunnar Braga: Líklega hefur hann séð mig í pilsi

Logi Einarsson telur að ekki muni fenna yfir Klausturmálið.

Þing kemur saman að nýju eftir jólaleyfi í næstu viku. Síðustu þingfundirnir í fyrra voru þingmönnum þungbærir enda fóru þeir fram í skugga Klaustursmálsins þar sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins fóru ófögrum orðum um tiltekna kollega sína á þingi. Forsætisnefnd þingsins hugðist vísa málinu til siðanefndar Alþingis en þangað komst málið aldrei þar sem allir nefndarmenn lýstu sig vanhæfa, að kröfu Miðflokksins. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kveðst ekki geta sagt til um hvert framhald málsins verði.

„Það bíða okkar mjög mörg mál sem tengjast kjarasamningum, veggjöldum, þriðja orkupakkanum og ýmislegt annað og við verðum að vera starfhæft þing. Ég mun auðvitað bara mæta í vinnuna og vinna að þeim málum sem ég er kjörinn til að gera. En umræðan um hvernig okkur miði áfram í átt að betra samfélagi, meira jafnrétti, þar sem minnihlutahópar og fatlaðir eru virtir, sú umræða og sú vinna verður að halda áfram á öllum sviðum samfélagsins. Ég held að það fenni ekki yfir þetta. Á endanum er starfið sérstakt vegna þess að þú ert kjörinn af þjóðinni til þess að gegna því í tiltekinn tíma og það er þjóðin sem getur hafnað þér. Ég er sannfærður um að þetta mál er ekki búið. Við eigum öll eftir að fara í kosningar þar sem við erum dæmd af okkar verkum og orðum.“

„Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Sjálfur var Logi á meðal þeirra sem komu við sögu í Klaustursupptökunum er Gunnar Bragi Sveinsson vitnaði til Loga sem mannsins í strápilsinu „sem dansaði nánast á typpinu með Skriðjöklum“. Logi segist ekki taka slíkar blammeringar nærri sér. „Eitt er hvort þú fellir einhverja pólitíska sleggjudóma um andstæðinga þína sem meiða ekkert. Svo eru aðrir hlutir sem voru grófari og niðrandi um kyn og jafnvel hópa sem eru veikir fyrir. Það er greinamunur þar á. Ég tók því frekar léttvægt að vera kallaður trúður sem dansar á strápilsum næstum því á typpinu, það truflar mig ekki neitt. Ég hef talað við Gunnar Braga um þau orð sem hann lét falla í minn garð. Ég tek þeim ummælum ekkert alvarlega. Það voru önnur ummæli sem voru miklu verri, sársaukafyllri, fordómafyllri.“

Logi var meðlimur í hinni goðsagnakenndu gleðihljómsveit Skriðjöklum á 9. áratugnum og fékk það hlutverki að vera dansari en það er einmitt þar sem Gunnar Bragi sótti umrædda tilvitnun á Klaustursbarnum. „Við vorum náttúrlega fjörugur félagsskapur ungra manna og virkilega í baldnari kantinum í árgangnum og höfðum vit á að virkja það í hljómsveitarbras í staðinn fyrir eitthvað verra. Við vorum átta eða níu saman og þessi hljómsveit var stofnuð þótt þetta hafi meira verið eins og ungmennafélag. Það var ekkert inni í myndinni að það yrðu bara teknir fjórir bestu hljóðfæraleikararnir og hinir skildir út undan. Þannig að það var fyllt upp í hlutverk eftir getu hvers og eins og af því að ég var ekki bestur og ekki næst bestur á gítar, þá þurfti að finna annað hlutverk fyrir mig og ég var bara dansari.“

Varstu látinn dansa í strápilsi?
„Til að krydda sjóvið gekk ekkert upp að koma fram í venjulegum fötum heldur þurftum við að klæða okkur upp á og ég man að ég var töluvert oft í pilsum og einhverjum gærum. Líklega hefur Gunnar Bragi einhvern tíma komið í Miðgarð og ég þá verið í pilsi. Ég efast samt um að það hafi verið það stutt að það hafi verið ósiðlegt. Þessu fylgdi auðvitað töluvert fjör og kannski ekki allt sem borgar sig að segja. Þetta var töluverð útgerð og hljómsveitin átti töluvert af vinsælum lögum en það er gallinn að dansinn sést ekki á hljómplötunum.“

Logi er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. Hér er hægt að lesa það í heild sinni.

Útrunnar kennitölur

LEIÐARI Kröftugar auglýsingar Gráa hersins svokallaða hafa vakið athygli og umræður á samfélagsmiðlunum undanfarið. Þar er sjónum beint að þeim aldursfordómum sem virðast ríkja meðal íslenskra atvinnurekanda og þeirri staðreynd að fjöldi fólks yfir sextugu missir vinnuna vegna aldurs og fær ekki nýja vinnu vegna þess að kennitalan er það eina sem atvinnurekandinn skoðar á ferilskýrslum þess. Þetta fólk er með útrunnar kennitölur. Það er komið fram yfir síðasta söludag á vinnumarkaðnum og kemur í mörgum tilfellum ekki til álita við nýráðningar.

Á Íslandi búa um fimmtíu þúsund manns yfir sextugu, samkvæmt Þjóðskrá. Þetta fólk á flest að baki langan og farsælan feril í hinum ýmsu atvinnugreinum, hefur öðlast reynslu, þroska, þekkingu og yfirsýn sem unga fólkið hefur enn ekki tileinkað sér. Það virðist ekki skipta máli. Sú æskudýrkun sem heltekið hefur þjóðfélagið síðustu áratugi – sem 68-kynslóðin sem nú er á sjötugsaldrinum átti stærstan þátt í því að skapa, svo kaldhæðnislegt sem það nú er – hefur orðið þess valdandi að enginn vill ráða gamalt fólk í vinnu. Hversu sprækt það er, vinnusamt, samviskusamt og reynt á sínu sviði er aukaatriði í samanburði við aldur þess. Fjölmörg dæmi eru um að ráðningarskrifstofur ýti umsóknum fólks yfir sextugu út af borðinu og sendi þær ekki einu sinni til atvinnurekandans sem er að leita að starfsfólki. Það er gengið út frá því sem gefnu að hann/hún kæri sig ekki um einhverja gamlingja í sinn starfsmannahóp. Það þarf ekki einu sinni að skoða það.

„Fjölmörg dæmi eru um að ráðningarskrifstofur ýti umsóknum fólks yfir sextugu út af borðinu og sendi þær ekki einu sinni til atvinnurekandans sem er að leita að starfsfólki.“

Nú er í tísku að fegra eftirlaunaárin og alls kyns fyrirtæki hafa sprottið upp til að gera eftirlaunaþegum alls kyns gylliboð um skemmtun á efri árunum. Allt gott um það að segja en eftirlaunaaldur á íslandi er sextíu og sjö ár, ekki sextíu, og því vandséð hvernig það er hugsað að hafa fólk atvinnulaust í sjö ár áður en þeim aldri er náð. Á hverju á það að lifa? Eiga allir að hafa safnað gildum sjóðum yfir starfsævina og geta sest í helgan stein eftirlaunalaust? Þeir sem þannig hugsa þekkja greinilega illa íslenskt launaumhverfi. Það er minnihluti vinnandi stétta sem hefur tök á því. Eigum við þá bara að setja alla milli sextugs og sextíu og sjö ára á atvinnuleysisbætur? Hefur þjóðfélagið efni á því?

Auðvitað eru fleiri en ein hlið á þessu máli, eins og öllum öðrum. Fólk með langa starfsreynslu í sínu fagi er eðlilega komið í hærri launaflokka en þeir sem eru að byrja í starfinu og ekki ólíklegt að atvinnurekendur horfi til þess við ráðningar. En það kostar líka að sóa mannauði sem hefur verið byggður upp á heilli starfsævi. Það kostar að þjálfa upp nýtt fólk. Og hver á að kenna þessu nýja fólki ef þeir sem reynsluna hafa eru horfnir af vinnumarkaðnum? Á það bara að læra af sjálfu sér? Þetta þarf að endurhugsa. Skammtíma gróðasjónarmið geta nefnilega verið varasöm þegar til lengri tíma er litið. Þau koma okkur í koll síðar eins og dæmin sanna. Höfum við ekkert lært?

Afleit vika Jóns Baldvins

Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem átt hafa góða viku og slæma viku. Að þessu sinni eru það Kristján Loftsson og Jón Baldvin Hannibalsson sem eru hinir útnefndu.

Góð vika

Kristján Loftsson

Lífið á það til að leika við Kristján Loftsson, útgerðarmann og sérlegan áhugamann um hvalveiðar. Hann fékk himnasendingu í vikunni þegar hagfræðistofnun HÍ gaf út skýrslu sem unnin var fyrir atvinnuvegaráðuneytið þar sem niðurstaðan er sú að hvalveiðar eru þjóðhagslega arðbærar jafnvel þótt tekjur af veiðunum hafi verið hverfandi. Er lagt til í skýrslunni að bæta í hóp þeirra tegunda hvala sem eru veiddar við Íslandsstrendur á sama tíma og setja þurfi skorður við hvalaskoðun, enda hafi hún áhrif á hegðun hvala og trufli þá við fæðuleit. Loks er ýjað að því að setja þurfi sérstök lög til að vinna gegn uppgangi hryðjuverkasamtaka á Íslandi. Ekki má vinna vera til að vernda Kristján við uppáhaldsiðju sína.

Slæm vika

Jón Baldvin Hannibalsson

Fyrirlesarinn Alda Karen Hjaltalín átti erfitt uppdráttar í vikunni eftir röð óheppilegra ummæla um peningakossaflens og forvarnir gegn sjálfsvígum sem varð til þess að fræðimenn settu ofan í við hana. En það hefði þurft djöfullega viku til að slá út Jón Baldvin Hannibalsson. Fjöldi kvenna hefur stigið fram og sakað hann um kynferðislega áreitni og spanna þessar ásakanir langt tímabil, eða allt frá því hann var skólameistari á Ísafirði. Sérstakur #metoo-hópur hefur verið tileinkaður honum á Facebook. Loks var fyrirhugaðri útgáfu bókar Jóns Baldvins, sem gefa átti út í tilefni áttræðisafmælis hans og inniheldur ræður, rit og greinar eftir hann, frestað. Út af svolitlu.

Kýs hollan og góðan mat frekar en öfgakúra og Keto

Greta Salóme

Greta Salóme Stefánsdóttir kemur fram á djangotónleikum í Iðnó laugardaginn 19. janúar. Nýtt lag eftir hana, Mess it up, kemur svo út 1. febrúar. Greta Salóme ætlar að vera meira heima þetta árið til að spila og semja en í fyrra var hún að spila erlendis um hálft árið. Hún var farin að sakna þess að vera heima á Íslandi þar sem hún getur stundað eitt helsta áhugamál sitt sem er eldamennska.

„Django er einn angi af djasstónlist,“ segir Greta Salóme Stefánsdóttir. „Það skemmtilega við django er að það geta allir hlustað á django og fundist það skemmtilegt. Maður verður svo glaður þegar maður hlustar á þessa tónlist,“ segir hún en Greta salome kemur fram á djangótónleikum í Iðnó í kvöld, laugardaginn 19. janúar. Um er að ræða nýja tónlistarhátíð, Djangodaga í Reykjavík þar sem heiðri belgíska gítarfrumkvöðulsins Django Reinhardt verður haldið á lofti.

Gítarleikararnir Gunnar Hilmarsson og Jóhann Guðmundsson ásamt Leifi Gunnarssyni bassaleikara eru á meðal annarra flytjenda á laugardagskvöldinu. „Þetta eru strákar sem ég hef spilað með lengi og ég myndi segja að það væri svolítið þeim Gunnari, Leifi og Jóhanni að þakka að ég kynntist djangóinu. Ég og Gunni kynnumst í MR og byrjuðum að spila saman fljótlega eftir að námi lauk og ég fann þá hvað ég fílaði djangótónlistina vel.“

Mess it up

Greta Salóme hefur haft í nógu að snúast í tónlistinni síðustu ár og var nýliðið ár sérstaklega annasamt. Hún var erlendis um hálft árið og kom heim á milli tónleika og sýninga auk þess sem hún var hluta ársins hjá Disney þar sem hún kom fram eins og hún hefur gert undanfarin ár.

„Ég er búin að vera á endalausu flakki og spila út um allt. Ég ákvað í lok síðasta árs að vera meira á Íslandi þetta árið og æfa mig og semja. Það er svo merkilegt þegar maður er búinn að vera svona mikið á flakki eins og ég hef gert síðustu ár – og sérstaklega síðasta ár – hvað maður fer að sakna Íslands mikið. Þá er svo gott að vera heima og virkilega einbeita sér að því að vera heima. Ég reyni að nýta tímann vel núna á meðan ég er á Íslandi og er að æfa og taka upp. Ég er að fara að gefa út lagið Mess it up 1. febrúar og svo gef ég út EP-plötu í kjölfarið á því þannig að ég er á fullu við að taka upp og undirbúa það allt.“

Engir öfgakúrar

Það að vera heima gerir það líka að verkum að Greta Salóme getur sinnt einu af sínum helstu áhugamálum meira en ella en það er eldamennska. „Það er alltaf best að vera heima. Það er alveg magnað. Ég var farin að hlakka til að gera hluti eins og að elda matinn minn heima, setja í þvottavél, ryksuga og að keyra Toyota-bílinn minn þegar ég vil.“

Ég byrjaði að elda þegar ég var mjög ung en mér fannst alltaf best að vera heima hjá mömmu og pabba

Greta Salóme segist því miður ekki hafa haft mikinn tíma fyrir áhugamál í gegnum árin en eldamennska er þó áhugamál. Hún hefur stundað íþróttir og líkamsrækt í langan tíma og leggur almennt áherslu á hollan mat.

„Ég byrjaði að elda þegar ég var mjög ung en mér fannst alltaf best að vera heima hjá mömmu og pabba og reyna að finna einhverja uppskrift eða búa til rétt frá grunni og dunda mér við það. Svo held ég að þetta komi líka til af því að ég ólst upp á heimili þar sem var mikill gestagangur. Ég hef það frá mömmu og pabba að allir séu velkomnir hvenær sem er og út frá því spinnst að elda fyrir fólk.“

Greta Salóme segist leggja áherslu á hollan mat og leggur mikla áherslu á grænmeti. „Ég borða frekar kolvetnissnauðan mat. Ég hef verið á keto og prófað alls konar kúra en ég er ekki á neinum öfgakúr núna. Ég reyni að elda matinn þannig að hann sé ekki bara hollur heldur verður mig að langa virkilega í hann.“

Hver er uppáhaldsmaturinn? „Það er án efa Nóa Síríus-súkkulaði með sjávarsalti. Ég reyni að sýna hvað ég er að elda og borða á Snapchat og Instagram og fólk virðist hafa ótrúlega mikinn áhuga á því og er alltaf að senda mér spurningar. Ef fólk vill fylgjast með því þá er notendanafnið gretasalome bæði á Snapchat og Instagram.“

69 dagar til stefnu

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur 69 daga til að komast að einhverri niðurstöðu varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem tekur gildi þann 29. mars. May er í svo gott sem vonlausri stöðu. Heimafyrir er hún löskuð eftir stærsta ósigur sem nokkur ríkisstjórn hefur beðið í atkvæðagreiðslu á þingi. Flokkur hennar er klofinn á milli þeirra sem vilja tafarlausa útgöngu án samnings og þeirra sem vilja reyna til þrautar að ná ásættanlegum samningi við Evrópusambandið sem aftur á móti er ólíklegt til að fallast á frekari tilslakanir.

May hafði frestað atkvæðagreiðslu um útgöngusamninginn í breska þinginu fram yfir áramót til að reyna að afla fylgis við hann. Það þótti allan tímann langsótt. Engan óraði þó fyrir því að May myndi bíða jafnstóran ósigur í þinginu og raun bar vitni – 432 greiddu atkvæði gegn samningnum en einungis 202 með. Að öllu jöfnu hefði forsætisráðherra sagt af sér eftir slíkan ósigur en May gaf það strax út að hún ætlaði að sitja sem fastast.

May stóð þó af sér vantrauststillögu Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, í fyrradag sem hefði þýtt nýjar kosningar. Það má í raun teljast guðsgjöf fyrir May hversu ofboðslega veikur leiðtogi Jeremy Corbyn er. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti Verkamannaflokkurinn að eiga auðveldan sigur í vændum í þingkosningum. Ekki bara hafa May og Íhaldsflokkurinn haldið afleitlega utan um Brexit-ferlið, heldur er allt í uppnámi innan flokksins. En skoðanakannanir sýna flokkana nánast með jafnt fylgi.

Framhaldið er að mörgu leyti óráðið. Hvort ESB opni dyrnar að nýju fyrir May eða gefi út einhverja fullvissu um framtíðarsamband um landamæri Írlands og Norður-Írlands, sem var einn helsti ásteytingarsteinninn í samkomulagi May, verður að koma í ljós. Yfirlýsingar ráðamanna ESB voru ekki uppörvandi fyrir May en í þeim fólust fyrst og fremst tilmæli til Breta að ákveða hvað þeir raunverulega vilja áður en þeir banka aftur á dyrnar. Einn möguleiki er að May óski eftir því að útgöngu verði frestað um tiltekinn tíma á meðan reynt er að ná samningum. Hinir kostirnir eru svo raktir hér til hliðar. Annars vegar útganga án samnings og hins vegar önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Báðar leiðirnar eru þyrnum stráðar.

Ófyrirséðar afleiðingar án samnings

Ef enginn samningur næst mun Bretland ganga úr Evrópusambandinu 29. janúar klukkan 11.00. Það þýðir að lög og reglur sambandins ná ekki yfir Bretland en samningur May sem var felldur fól í sér 18 mánaða aðlögunarfrest. Slíkt hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar, sumir ganga svo langt að lýsa því sem neyðarástandi. Umrædd lög og reglugerðir spanna öll svið mannlífsins – tollamál, viðskipti, ferðalög og réttindi borgaranna. Fylgjendur Brexit hafa sagt að varnaðarorð séu einkum hræðsluáróður. Við útgöngu verði Bretland frjálst og fullvalda ríki og það eina sem til þurfi sé undirbúningur af hálfu stjórnvalda. Þá muni gengisfall pundsins, sem mjög líklegt er að verði skarpt, fela í sér tækifæri fremur en eitthvað annað enda bæti það samkeppnisstöðuna við Evrópu. Andstæðingar Brexit óttast hins vegar að allt geti farið á versta veg. Pundið hríðfalli með tilheyrandi verðbólgu, ringulreið muni skapast á landamærum Bretlands og vöruskortur gæti orðið viðvarandi.

Búa sig undir matvæla- og lyfjaskort

Við útgöngu án samnings myndu viðskipti við ríki ESB falla undir skilmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem þýðir að vörur þaðan þurfa að undirgangast sömu tollmeðferð og bera sömu tolla og vörur annars staðar frá í heiminum. Það mun ekki bara hafa í för með sér hærra vöruverð heldur einnig margfaldan tollafgreiðslutíma. Í leynilegri skýrslu breskra stjórnvalda sem lekið var í fjölmiðla kom fram að líklegar afleiðingar verði matvæla- og lyfjaskortur og í því skyni tóku stjórnvöld upp á því að hamstra mat og lyf ef allt færi á versta veg. Milljónir íbúa ESB-ríkja sem búsettir eru í Bretlandi munu verða í algjörri óvissu um framtíð sína og það sama gildir um milljónir Breta sem búsettir eru í Evrópu, þeir munu dvelja þar upp á náð og miskunn viðkomandi ríkja, semjist ekki um annað.

Búið að tryggja rétt Íslendinga í Bretlandi

Brexit mun að sjálfsögðu hafa áhrif á Ísland, enda viðskipti milli landanna farið fram í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), svæði sem Bretland mun yfirgefa eftir 70 daga. Í lok síðasta árs náðu EFTA-ríkin (Ísland, Noregur og Lichtenstein) samkomulagi við Bretland sem fól í sér sömu aðlögun og gilti um önnur ríki ESB eftir útgöngu. Samkomulagið var þó háð því að breska þingið samþykkti útgöngusamninginn við ESB. Viðskipti við Bretland gætu þess vegna raskast verulega ef íslenskum stjórnvöldum tekst ekki að semja um annað fyrir útgöngu. Aftur á móti lá fyrir pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt enginn Brexit-samningur næðist. Íslendingar búsettir í Bretlandi þurfa þess vegna ekki að óttast um stöðu sína, frekar en Bretar búsettir á Íslandi.

Vandasöm önnur þjóðaratkvæðagreiðsla

Þrýst hefur verið mjög á um að efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Það er heldur ekki jafnaugljós kostur og margir vilja vera láta. Í fyrsta lagi yrði deilt um hvað ætti að kjósa; ætti að kjósa um útgöngusamning May eða hætta alfarið við útgöngu eða jafnvel allir þrír kostirnir í boði? Um það er ekkert samkomulag. Brexit var samþykkt með einungis 4 prósenta meirihluta og þótt skoðanakannanir nú bendi til þess að niðurstaðan í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sú að Bretar skipti um skoðun og hætti við útgöngu, þá er munurinn engan veginn afgerandi þrátt fyrir alla ringulreiðina og að yfirgnæfandi fjöldi kjósenda telji ríkisstjórnina hafa haldið illa á málum. Enda sýna kannanir að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ekki til þess að lægja öldurnar.

Býst við Ágústi Ólafi í febrúar

Logi Einarsson. Mynd/Hallur Karlsson.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerir ráð fyrir að Ágúst Ólafur Ágústsson snúi aftur til þingstarfa í febrúar. Ágúst hafi verið að leita sér hjálpar og endurkoma hans alfarið í hans höndum.

Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Loga í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Ágúst Ólafur fór í tveggja mánaða leyfi eftir að trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar áminnti fyrir kynferðislega áreitni gegn Báru Huld Beck, blaðamanni á Kjarnanum. Logi gerir ráð fyrir að Ágúst Ólafur snúi til baka í febrúar. En nýtur hann trausts innan flokksins? „Ég get ekki talað fyrir hvern einasta félagsmann í Samfylkingunni en ég að minnsta kosti trúi því að fólk, þó að því verði jafnalvarlega á og geti hrasað sem er nú einu sinni saga mannsins frá örófi alda, eigi að geta fengið fyrirgefningu ef það raunverulega iðrast og leitar leiða til að bæta ráð sitt. Það hefur hann verið að gera þannig að þetta er í höndunum á honum.“

Ágúst Ólafur gerði erfitt mál verra þegar Bára Huld steig fram og sagði þingmanninn hafa gert lítið úr hegðun sinni, í yfirlýsingu þar sem hann greindi frá málinu. „Ég ætla ekki að fara út í hans viðbrögð við þessu eða hvernig hann gerði það, hann verður að svara fyrir það sjálfur. Samfylkingin kom ekki að þeirri yfirlýsingu, við sáum ekki innihaldið. Mér fannst hins vegar akkúrat þetta mál sýna hvað það skiptir miklu máli að flokkar hafi hlutlausar siðanefndir og úrskurðarnefndir sem í situr fagfólk þannig að þú getir boðið þeim sem kvarta yfir óásættanlegri hegðun upp á hlutlausa meðferð sem hægt er að treysta

En eiga mál sem þessi heima á borði flokksstofnana, er ekki hreinlegast að vísa þeim til þar til bærra yfirvalda?

„Samkvæmt 4. grein siðareglna okkar þá er það þannig að ef mál eru líkleg til að varða við refsilöggjöfina þá eru þolendur hvattir til og fá hjálp frá úrskurðarnefndinni til að leita með málið til lögreglu. Ef kæmi upp mál er varðar börn eru þau send beint til barnaverndaryfirvalda. Þannig að Samfylkingin er ekkert að halda inni hjá sér neinum málum er varða lögbrot. Það er einungis fjallað um mál sem eru ósæmileg, ósiðleg. Í Samfylkingunni eru 16-17 þúsund manns, þar er hvorki verra né betra fólk en annars staðar í samfélaginu. Það segir sig sjálft að í svona stórum félagsskap þá koma upp erfið mál. Fólki verður á, fólk gerir mistök. Það er mjög mikilvægt að við getum búið til samfélag, boðið upp á fundi, aðstöðu og umhverfi þar sem konum, ungu fólki og öllum líður vel í og eru öruggir vissir um að ef eitthvað svona kemur upp, þá fer það ekki inn á skrifstofu til formanns og undir teppi.“

Fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, Helgi Hjörvar, hefur sömuleiðis verið sakaður um áreitni gagnvart konum. Aðspurður út í það mál segir Logi að það hafi aldrei komið inn á hans borð enda hafi Helgi ekki verið kjörinn þingmaður eða gegnt trúnaðarstörfum fyrir flokkinn eftir að hann var kjörinn formaður. „Ég hef kynnt mér það mál eins og hægt er. Þar lá það fyrir að það var enginn sem stóð á bak við kvörtunina – enginn sem kom fram undir nafni. Þess vegna bjuggum við þessa trúnaðarnefnd til, til þess að sá sem kvartar geti verið öruggur um að njóta nafnleyndar en geti samt staðið á bakvið kvörtunina.“

Misbýður boðskapur Marie Kondo

||
||

Netflix-þættir tiltektargúrusins Marie Kondo hafa notið mikilla vinsælda hérlendis, en ekki eru þó allir sáttir. Þeirra á meðal er leikkonan Maríanna Clara Lúthersdóttir sem finnst Kondo fara gjörsamlega yfir strikið.

Maríönnu Clöru Lúthersdóttur er nóg boðið.

„Ertu að urlast yfir óreiðinu á heimilnu? Þá gæti verið orðið tímabært að grisja og ein besta aðferðin til þess að fara í gegnum dótið og losa sig við það sem veitir þér enga gleði.“ Þannig hljómar í stuttu máli heimspeki japanska tiltektargúrúsins Marie Kondo sem hefur á síðustu árum farið sannkallaða sigurför um heiminn, m.a. með bók sinni „The Life Changing Magic of Tidying Up“ og svo í nýlegum Netflix-þætti, Tydying Up With Marie Kondo (Taktu til með Marie Kondo) þar sem Maire beitir þessari töfraformúlu, svokallaðri KonMarie-aðferð til að hjálpa dröslurum úr ógöngum. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum vinsældum, hér hefur bæði verið gott áhorf á þátt Kondo og bók hennar, Taktu til í lífinu selst vel.

„Listir og bækur ganga eftir öðrum lögmálum. Þær eiga ekki aðeins að veita manni gleði.“

Þó eru ekki allir jafn yfir sig hrifnir. Ein þeirra, leikkonan og bókmenntafræðingurinn Maríanna Clara Lúthersdóttir, segir að sér hafi hreinlega orðið illt í hjartanu þegar hún heyrði hvernig Kondo ráðleggur fólki að fara í gegnum bækurnar sínar. „Ég vissi ekki hvort ég átti að hlæja og gráta,“ segir hún. „Það að maður eigi að halda bókunum upp brjóstinu, slá á þær með fingrinum og spyrja sig hvort þær veiti manni gleði eða ekki og nota það sem einhvern mælikvarða á mikilvægi bókmennta er algjörlega út í hött. Þessi pæling að maður eigi að losa sig við allt sem veitir manni ekki gleði eða gagn eða vinnur ekki að því að koma manni áfram í lífinu á kannski við um sokka en ekki listir. Það er af og frá. Listir og bækur ganga eftir öðrum lögmálum. Þær eiga ekki aðeins að veita manni gleði, heldur vekja upp sorg, ótta og bara alls konar tilfinningar, gera mann ringlaðan, opna fyrir manni nýjar víddir og setja mann í spor annarra og það er ekki hægt að smætta það allt niður í tvær kröfur,“ segir hún ákveðin. „Það er bara sorglegt og rangt.“

Gerir umhverfinu engan greiða

Metsöluhöfundurinn og sjónvarpsstjarnan Marie Kondo er ekki allra.

Þess utan segir Maríanna að það sé út í hött að halda því fram að bókakosturinn á heimilinu eigi að endurspegla þá manneskju sem húsráðandi hefur að geyma, eins og Kondo boðar af miklum eldmóð. „Ég veit þá eiginlega ekki hvaða ályktanir væri hægt að draga af mínum bókum. Vissulega er hægt að sjá að ég hef áhuga á garðyrkju og matreiðslu en það segir alls ekki alla söguna og í sannleika sagt er ég sátt við það. Ég vil nefnilega ekkert endilega að fólk sjái á bókunum hvers konar manneskja ég er nákvæmlega og hvaða skoðanir ég aðhyllist. Svo er það nú önnur saga að það væri frekar sorglegt ef ég ætti bara bækur eftir fólk sem ég er sammála. Það myndi heldur betur smætta minn veruleika.“ Fyrir utan það segir hún ákveðna þversögn fólgna í þessu öllu. Sem dæmi eigi hún handbók um hvernig eigi að kenna öðrum að keyra þótt hún sé sjálf ekki með bílpróf og viti ekki einu sinni hvernig hún eignaðist bókina. Bókin endurspegli því engan veginn hennar persónuleika en veki alltaf með henni gleði. „Og hvað á ég þá að gera, henda bókinni eða eiga hana?“

Maríanna viðurkennir að eflaust gangi Kondo gott til og jú, eflaust sé eitthvað fallegt við minimalískar skoðanir hennar – svo langt sem þær nái. „Já, já. Þær eru alveg góðar og gildar til að draga neysluhyggju. En, eins og mér hefur stundum sýnst, t.d. af lífsstílsblöðum, þá hendir fólk dótinu sínu eingöngu til þess að kaupa sér nýtt, mínimalískt dót og þá get ég ekki séð að við gerum umhverfinu greiða. Sjálf er ég miklu frekar fyrir að geyma og endurnýta, breyta og bæta. Og jú, því fylgir vissulega einhver óreiða en ætli megi þá ekki bara segja að óreiðan á heimilinu endurspegli mína innri manneskju.“

Önnur og betri ráð

Hún bendir á það séu líka til ýmsar aðrar góðar og gildar aðferðir við að halda heimilinu, þ.m.t. bókunum í röð og reglu. „Mitt ráð er einfalt: Tvöfaldar hilluráðir. Maður felur þá bara þær bækur, sem komast ekki fyrir, á bak við hinar. Marie yrði eflaust mjög ósátt við það en mér finnst sú lausn betri en að losa mig við allar bækur sem endurspegla ekki minn innri mann eða færa mér ekki hamingu,“ segir hún og bætir ákveðin við: „Á mínu heimili verða bækurnar a.m.k. það síðasta sem fer.”

Framtíðin með tækninni – iPad og forritun í kennslu

Forritun er stór hluti af okkar daglega lífi, hvort sem við erum að senda tölvupósta, taka ljósmynd á snjallsíma, borga með korti, horfa á Netflix eða taka strætó, þá eru þetta allt athafnir sem krefjast forritunar á einhvern hátt. Margir telja að störf framtíðarinnar komi til með að byggja í meira mæli á stafrænu læsi og forritunarþekkingu.

Jafnframt er því haldið fram af World Economic Forum að 65% starfa framtíðar séu ekki enn þá til og að flest þeirra komi til með að tengist tækni á einhvern hátt. Því er mikilvægt að skólar séu samferða þessari þróun með markvissri forritunarkennslu fyrir nemendur. Ávinningurinn af forritunarkennslu er mikill. Að þekkja og nota forritunartungumál er ákveðið læsi á stafrænni öld. Nemendur færast þannig úr því að vera neytendur tækninnar eða notaðir af henni, yfir í að vera notendur og nýta sér tæknina til sköpunar. Við spjölluðum við Álfhildur Leifsdóttir, sem er grunnskólakennari í Árskóla Sauðárkróki og með APL vottun frá Apple, um hvernig hægt er að nýta sér tæknina í kennslu og vekja áhuga kennara og nemenda um leið.

Forritunarkennsla

„Með því að læra forritun geta nemendur skapað sín eigin hugarfóstur, gert hugsanir sínar að gagnvirkum raunveruleika og er það í rauninni einungis þeirra eigið ímyndunarafl sem er hindrun í þeirri sköpun. Þegar unnið er með forritun þjálfast bæði rökhugsun og lausnarmiðuð hugsun á annan hátt en með stærðfræði. Það er vegna þess að nemendur sjá afraksturinn á gagnvirkan hátt um leið og þeir forrita og eitthvað sýnilegt verður til. Nemendur þjálfast í samvinnu og þolinmæði því það að leita lausna saman og sýna þrautseigju lærist vel með forritun. Nemendur læra að hugsa leiðina að takmarkinu í litlum skrefum, brjóta vandamálin í minni einingar og finna lausnir á hverri þraut með gagnrýnni hugsun. Leikni á þessu sviði gefur nemendum færni sem getur orðið þeim mikilvæg í framtíðinni,“ segir Álfhildur.

„Forritun er góð leið til að læra af mistökum, því leiðir að markmiðinu geta verið margar og alls ekki sjálfgefið að ná réttri leið í fyrstu tilraun. Þá þarf að greina mistökin, læra af þeim og gera betur. Oft ná þeir nemendur sem ekki finna sig eins vel í öðrum bóklegum námsgreinum góðum tökum á forritun og þannig getur hún aukið sjálfstraust og almennan áhuga á námi hjá þeim einstaklingum. Markmiðið með forritunarkennslu er ekki að allir verði forritarar, heldur að allir fái tækifæri til að kynnast forritun. Þannig er verið að þjálfa margþætta færni sem nýtist nemendum okkar í framtíðinni. Alveg eins og allir þurfa að kynnast heimilisfræði, smíðum og fleiri greinum í grunnskóla.“

Hún segir að sumir gætu talið það óraunhæft að hinn almenni kennari, sem ekki hefur forritunarmenntun geti kennt forritun í grunnskólum. En með þjálfun, aðgengi að góðu kennsluefni og réttu hugarfari geti allir kennarar kennt fyrstu skref í forritun. „Það er einfaldlega vegna þess að kennarar eru upp til hópa mjög góðir í að tileinka sér nýja þekkingu og deila henni áfram. Hægt er að samþætta forritun við önnur fög, hvort sem það er stærðfræði, tónlist eða tungumálakennsla og að auki gæti forritun verið áhugavert val í skapandi skilum á verkefnum.“

Mikil vakning er varðandi forritunarkennslu bæði erlendis og hérlendis og er margt í boði sem hægt er að nýta sér í kennslu, bæði öpp og ýmis tækjabúnaður.
Apple hefur gefið út ókeypis forritunar-app fyrir IOS-tæki, sem kallast Swift Playgrounds, en það nýtur mikilla vinsælda bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Swift Playgrounds er eins og rafræn bók með mismunandi verkefnum sem þarf að leysa. Það er hannað til að vera byrjendavænt og það krefst engrar forritunarþekkingar af nemendum.  Þannig er það frábær leið til að byrja að læra forritun. Verkefnin í appinu eru auðveld til að byrja með en þyngjast með góðum stíganda. Appið er gagnvirkt þannig að nemendur sjá eitthvað gerast á skjánum um leið og þeir keyra kóðann sinn sem gerir verkefnin lifandi. Swift Playgrou

nds er hægt að tengja gagnauknum veruleika og ýmsum aukahlutum sem margir skólar hafa nú aðgang að. Til dæmis Sphero-kúlum, drónum og forritanlegum vélmennum.

Swift Playground-app í boði Apple

„Það koma reglulega inn ný og spennandi verkefni í Swift-appið svo áhugasamir nemendur verða ekki verkefnalausir,“ segir Álfhildur. „Apple leggur mikla áherslu á að vinna með þann raunveruleika sem nemendur tengja við þannig að verkefnin séu áhugaverð. Þegar nemendur hafa náð góðri færni í kóðun geta þeir sjálfir hannað sín verkefni frá grunni í  appinu. Í Swift Playgrounds geta nemendur valið forritunarskipanir með því að smella á þær. Þannig er komið í veg fyrir innsláttarvillur sem hindra að kóðinn virki og getur tekið langan tíma að laga. Þetta er frábær eiginleiki þegar byrjað er í forritun en jafnframt er hægt að slá inn kóða sjálfur þegar leikninni hefur verið náð.

Forritunarmál er eins og tungumál með mörgum mállýskum, um leið og nemandi hefur fengið þjálfun í einu forritunarmáli þá er hann fljótur að ná tileinka sér önnur. Mörg vinsæl öpp eru skrifuð í Swift-kóða frá Apple þó að það sé ekki gamalt forritunarmál. Þannig að Swift er fullkomlega samkeppnishæft forritunarmál sem er öllum aðgengilegt og býr nemendur undir þeirra framtíð.“

Myndir: / Úr safni Epli
Í samstarfi við Epli

 

Í himnesku umhverfi við sjávarsíðuna

Þetta glæsilega fjölbýlishús stendur við Strikið 1 á fallegum stað í Sjálandshverfi í Garðabæ. Sjálandið liggur við Arnarnesvoginn í Garðabæ í friðsælu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna. Sjáland hefur sérstakt yfirbragð, það er að segja að skipulag hverfisins tekur mið af nálægð þess við sjóinn, en hverfið stendur á ströndinni við Arnarnesvog og eitt aðaleinkenni þess er gott útsýni yfir voginn allt til Snæfellsjökuls og til Esju. Umhverfið laðar að og býður upp á fjölbreyttar leiðir til útivistariðkunar fyrir alla aldurshópa.

Í húsinu eru til sölu glæsilegar og vandaðar íbúðir fyrir sextíu ára og eldri og alls eru fjörutíu og tvær íbúðir í húsinu. Íbúðirnar eru allt frá 84 fermetrum til 180 fermetra að stærð. Húsið er vel einangrað að utan og álklætt með endingargóðri, smekklegri og viðhaldslítilli álklæðningu. Íbúðunum fylgja ýmist góðar svalir, þakgarðar eða timburverandir með skjólgirðingum á jarðhæð. Öllum íbúðum fylgir stæði í upphitaðri og lokaðri bílgeymslu þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að hlaða rafmagns- eða tengitvinnbíla.

Öryggið í fyrirrúmi

Íbúðirnar eru afar vandaðar og afhendast fullbúnar án gólfefna að undanskildum baðherbergjum og þvottahúsum sem verða flísalögð. Skipulagið er hið besta og stílhreint yfirbragð er yfir eigninni. Mikið er lagt upp úr öryggi og íbúðunum fylgir mynddyrasími. Jafnframt fylgja íbúðunum reykskynjarar sem og í sameign sem verða vaktaðir af stjórnstöð öryggisfyrirtækis. Í hverju stigahúsi verður sameign fullfrágengin með lyftu. Sameign og lóð að utan verður fullfrágengin á smekklegan máta og stéttar við húsið verða hellulagðar upphitaðar með snjóbræðslukerfi.

Örstutt í þjónustu í Jónshúsi og samgöngurleiðir góðar

Vel er hugað að lífsgæðum íbúanna og má nefna að innan hússins verður sameiginlegur salur fyrir íbúa þar sem hægt er að halda fundi eða mannfagnaði. Ekki er þó um eiginlega félagsaðstöðu eða skipulagt félagsstarf að ræða. Hins vegar er handan götunnar Þjónustusel Garðabæjar staðsett í Jónshúsi fyrir eldri borgara Garðabæjar. Ökuleiðir til og frá hverfinu eru greiðfarnar. Skammt frá eru tveir þjónustukjarnar sem tilheyra miðbæ Garðabæjar en það er verslunarkjarninn við Litlatún 3, á mótum Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar en hann hefur reynst afar vinsæll og er vel sóttur af Garðbæingum og nærsveitungum. Jafnframt við Garðartorg er öflugt verslunar- og þjónusturými, stjórnsýsla og menning. Við Arnarnesvoginn er náttúruleg fjara og í framhaldi af henni er sjóbaðsströnd sem snýr í sólarátt. Strandlengjan er opin öllum íbúum og almenningi og gangstígur tengir hana og hverfið við miðbæ Garðabæjar ásamt öflugu göngustíganeti bæjarins sem er mikill kostur.

Ylströndin er steinsnar frá en mögulegt er að njóta sólar og sands þar. Það er ekki eingöngu í Nauthólsvík sem íslenskir sóldýrkendur geta komist í tæri við strandstemningu. Í Sjálandshverfinu er ylströnd sem jafnan nýtur mikilla vinsælda á góðviðrisdögum.

Til framtíðar

Hjúkrunarheimilið Ísafold sem er rekið af Hrafnistu er staðsett á næstu lóð, sem mætti hugsa sem ákveðið öryggi í framtíðinni en um þetta þarf að semja. Ísafold er fremur nýlegt og glæsilegt hjúkrunarheimili ásamt þjónustumiðstöð. Þjónustumiðstöðin fyrir eldri bogara er staðsett á jarðhæðinni og þar er boðið upp ýmsa þjónustu.

Fjárfesting fasteignasalan er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin mikil, enda um að ræða vandaðar eignir og einstaka staðsetningu. Sjón eru sögu ríkari. Nánari upplýsingar veita Óskar Þór Hilmarsson, löggiltur fasteignasali, í síma: 822-8750, Guðjón Sigurjónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 846-1511, Smári Jónsson, löggiltur fasteignasali, í 864-1362 og Edda Svavarsdóttir, löggiltur fasteignasali, í síma 845-0425. Einnig er hægt að hafa samband við Fjárfestingu fasteignasölu í síma: 562-4250.

Myndir / Úr myndasafni Fjárfestingar fasteignafélags

 

Reynt að bjarga íslensku fjölmiðlalandslagi frá algjörri einsleitni

Fyrir mánaðamót er von á frumvarpi sem ætlað er að stuðla að bættu rekstrarumhverfi ritstýrðra íslenskra fjölmiðla sem miðla fréttum, fréttatengdu efni og mikilvægu samfélagslegu hlutverki í samráðsgátt stjórnvalda.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, hefur undanfarna mánuði unnið að því að reikna út kostnað við mismunandi sviðsmyndir þessu tengdu. Heimildir Kjarnans herma að þeir útreikningar hafi meðal annars snúist um hvort næði tilgangi frumvarpsins betur, að greiða einkareknum fjölmiðlum styrki úr ríkissjóði eða gera þeim kleift að fá hluta ritstjórnarkostnaðar endurgreiddan. Niðurstaðan er sú að dreifing þeirrar upphæðar sem til stendur að greiða til fjölmiðla sem frumvinna fréttir er mjög sambærileg í báðum leiðum. Því er líklegt að endurgreiðsluleiðin verði ofan á.

Það munu ekki allir fjölmiðlar geta fengið endurgreiðslur vegna ritstjórnarkostnaðar, verði frumvarpið að lögum óbreytt. Í því verða ströng skilyrði um t.d. rekstrarsögu til að koma í veg fyrir að nýir aðilar geti stofnað fjölmiðil og farið samstundis fram á greiðslur úr ríkissjóði, um gegnsæi eignarhalds og að öll opinber gjöld séu í skilum, svo fátt eitt sé nefnt.

Drög að frumvarpinu liggja fyrir og næsta skref er að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynni það í ríkisstjórn og fái þar staðfestingu á boðuðum stuðningi við það. Í kjölfarið verður frumvarpið að öllum líkindum lagt fram til samráðs.

Tilgangurinn er að bjarga fjölbreytni í íslensku fjölmiðlalandslagi.

Nánar á vef Kjarnans og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Akureyringar stjórna nú bæði Eimskip og Samskip

|
|

Vilhelm Már Þorsteinsson hefur verið ráðinn forstjóri Eimskips. Hann hefur starfað hjá Íslandsbanka frá árinu 1999 og nú síðast sem framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta. Vilhelm er sonur Þosteins Vilhelmssonar, fyrrum eiganda Samherja sem átti einnig fjárfestingafélagið Atorku.

Mannlíf fjallaði nýlega um möguleg forstjóraskipti eftir að tilkynnt var um að Gylfi Sigfússon myndi flytja sig til Bandaríkjanna og taka við starfsemi Eimskips þar og í Kanada ásamt því að stýra Eimskip logistics. Þau nöfn sem Mannlíf nefndi þá sem væru líklegir til að taka við Eimskip voru Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair, Baldvin Þorsteinsson núverandi stjórnarformaður Eimskips og Jón Björnsson, fyrrum forstjóri Festar.

Nú er ljóst að það verður hins vegar Vilhelm Már Þorteinsson sem tekur við hjá þessu gamalgróna fyrirtæki. Vilhelm er frá Akureyri og er fæddur árið 1971. Er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með MBA gráðu frá Pace University í New York. Hefur hann starfað hjá Íslandsbanka í 18 ár og forverum hans. Hann var einn af fremstu skíðamönnum landsins á yngri árum og var í skíðalandsliðinu á sama tíma og Kristinn Björnsson sem margir muna eftir.

Mynd af Facebook-síðu Eimskips.

Segja má að mikil tengsl séu á milli Vilhelms og Samherja sem nú er stærsti hluthafi Eimskips. Þorsteinn Vilhelmsson, faðir Vilhelms er bróðir Kristjáns Vilhelmssonar, eins af eigendum Samherja. Þorsteinn stofnaði Samherja með Kristjáni bróður sínum og Þorsteini Má Baldvinssyni, frænda þeirra árið 1983. Árið 1999 seldi Þorsteinn Vilhelmsson hins vegar hlut sinn í Samherja. Fyrir bankahrunið átti Þorsteinn síðan Atorku Group sem fór í greiðslustöðvun eftir bankahrunið. Það var einmitt Kaldbakur, fjárfestingafélag Samherja sem keypti hluta af eignum Atorku árið 2012 þegar félagið fjárfesti í Jarðborunum.

Akureyringar stjórna Eimskip og Samskip

Vilhelm hefur hins vegar ekki tekið þátt í fjárfestingum með föður sínum heldur hefur hann unnið hjá Íslandsbanka í 18 ár líkt og áður kom fram. Hann var einn þeirra sem settist í framkvæmdastjórn Glitnis í maí árið 2008 og fékk á sama tíma 800 milljóna kúlulán í gegnum félag sitt AB 154 ehf. til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Á þeim tíma var Þorsteinn Már Baldvinsson stjórnarformaður Glitnis.

Áhugavert þykir að nú stýra tveir Akureyringar báðum helstu flutningafyrirtækjum landsins. Í haust var Birkir Hólm Guðnason ráðinn forstjóri Samskipa en hann hafði um árabil starfað hjá Icelandair. Birkir er þremur árum yngri en Vilhelm.

Frekari breytingar framundan hjá Eimskip?

Þeir aðilar á markaði sem Mannlíf ræddi við í desember þegar vangaveltur voru um nýjan forstjórara töldu líkleg tækifæri í því að skipta út stjórnendum hjá Eimskip, nýta fé þess betur, þróa vöruhótel þess enn frekar svo nokkuð sé nefnt. Hér þarf auðvitað líka að hafa í huga að starfsemi Eimskips í dag er allt önnur en fyrir áratug síðan. Má í því samhengi nefna að árið 2007 námu heildareignir þess um 200 milljörðum króna en nema í dag 65 milljörðum króna. Veltan í dag er þó einungis um 10% minni en þegar best var eða rúmlega 90 milljarðar króna.

Því verður áhugavert að sjá hvaða breytingar verða með tilkomu þess að Vilhelm Már Þorsteinsson tekur við sem forstjóri Eimskips og hvaða breytingar frændur hans hjá Samherja ætli sér að gera varðandi rekstur fyrirtækisins á komandi misserum. En líklegt má telja að frekari breytingar séu framundan á meðal lykilstjórnenda Eimskip og að Vilhelm komi með menn sem hann treystir og þekkir inn í lykilstöður í fyrirtækinu, sem mun á sama tíma endurspegla áherslur stærsta eiganda fyrirtækins.

Flugmiðinn gæti lækkað um allt að helming

|
|

Áætla að niðurgreiðslur innanlandsflugs fyrir íbúa landsbyggðarinnar kosti um milljarð kóna.

Til skoðunar er að ríkið niðurgreiði flugfargjöld fyrir íbúa á afskekktum svæðum landsins, þar með talið Akureyri og öðrum dreifbýliskjörnum. Allt að 60 þúsund manns myndu njóta slíkra niðurgreiðslna. Verði þessi leið, sem gjarnan er nefnd skoska leiðin, niðurstaðan og farið verði eftir tillögum starfshóps um nauðsynlegar framkvæmdir á flugvöllum landsbyggðarinnar gæti kostnaðurinn farið upp í þrjá og hálfan milljarð.

Njáll Trausti Friðbertsson og Reinhard Reynisson.

Starfshópur undir formennsku NjálsTrausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, skilaði á dögunum af sér skýrslu undir heitinu „Uppbygging flugvallakerfisins og efling innanlandsflugsins sem almenningssamgangna“. Helstu úrlausnarefni starfshópsins voru annars vegar að efla innanlandsflug með þeim hætti að bæta aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að miðlægri þjónustu höfuðborgarinnar. Hins vegar var fjallað um hvernig best væri að standa að viðhaldi og nýframkvæmdum á flugvöllum landsins.

„Það er mat forráðamanna Icelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flugs til og frá Íslandi.“

Þessi niðurgreiðsluleið eða skoska leiðin eins og hún er kölluð er það verkefni sem atvinnuþróunarfélögin í kringum landið tóku upp á sína arma fyrir um tveimur árum síðan.

„Við kynntum þetta í framhaldinu fyrir þingmönnum og formanni samgöngunefndar og héldum svo ráðstefnu í Reykjavík fyrir rúmu ári síðan. Markmiðið var að koma þessum hugmyndum á framfæri við pólitíkina. Því má segja að þessi vinna komi að því leyti frá þróunarfélögunum,“ segir Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, í samtali við Mannlíf. Hann var fundarstjóri á kynningarfundi um skýrslu starfshópsins á Húsavík á dögunum en Njáll Trausti var framsögumaður.

Telur breiða samstöðu á þingi

Njáll Trausti sagðist eftir fundinn vera bjartsýnn á að skoska leiðin verði farin og hann skynjaði samstöðu um málið í þinginu. Hann benti jafnframt á mikilvægi þess að frá og með 1. janúar 2020 verði millilandaflugvellirnir, Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og að Isavia ohf. verði falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra; og að fjórum árum verði millilandaflugvellirnir og aðrir flugvellir í grunnneti hluti af sama flugvallakerfi. Þessar hugmyndir byggja á hugmyndafræði sem norsk stjórnvöld hafa tileinkað sér með sína flugvelli í gegnum Avinor, félag sem er eigu norska ríkisins. Avinor rekur 45 flugvelli í Noregi og eru tekjur af stærri flugvöllunum notaðar í rekstur á minni völlum.

Uppsöfnuð viðhaldsþörf vegna niðurskurðar

Njáll Trausti hefur vakið sérstaka athygli á því að á sama tíma og umferð um Keflavíkurflugvöll hefur margfaldast frá árinu 2010 hefur uppbygging á varaflugvöllum í Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum ekki fylgt þeirri þróun.

Í skýrslu starfshópsins er minnst á vaxandi þörf fyrir nýframkvæmdir á varaflugvöllunum svo sem við gerð aksturbrauta meðfram flugbrautum og að flugvélastæðum verði fjölgað á Akureyri og Egilsstöðum. Einnig er bent á nauðsyn þess að byggðar séu upp nýjar flugstöðvar í Reykjavík og á Akureyri. Njáll Trausti segir að það hafi leitt til þess að uppsöfnuð viðhaldsþörf á flugvöllum landsins utan Keflavíkurflugvallar er talin vera um 2 milljarðar.

Umsögn Icelandair við samgönguáætlun skefur ekki utan af því í þessu samhengi: „Það er mat forráðamanna Icelandair að smæð flughlaða og skortur á flugstæðum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sé stærsta ógn við öryggi flugs til og frá Íslandi,“ segir í umsögninni.

Skoska leiðin í hnotskurn

Heimilt verði að niðurgreiða fargjöld íbúa og nemenda frá afskekktum svæðum til að jafna aðgengi þeirra að þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð og til að gera þeim kleift að taka þátt í samfélaginu sem fyrirfinnst á þéttbýlli svæðum. Hægt er að niðurgreiða hvern farmiða hvort heldur sem er um fasta upphæð eða fast hlutfall af fargjaldinu. Í Skotlandi var hlutfallið hækkað 1. janúar 2016 úr 40 í 50%.

Niðurgreiðslan nær aðeins til einstaklinga sem búa á svæðinu, ekki til fyrirtækja eða einstaklinga sem vilja sækja svæðið heim. Jafnframt er hægt að setja krónutöluþak á hvern einstakling eða hámarksfjölda ferða sem eru niðurgreiddar. Þannig er til dæmis hægt að ákveða að hver einstaklingur fái að hámarki niðurgreiddar fjórar ferðir til að byrja með.

Ef fylgt yrði fordæmi Skota og niðurgreiðslan miðuð við 50 prósent yrði meðalverð farmiða í kringum 12.500 krónur. Miðað við forsendur starfshópsins sem byggir á reynslu Skota munu um 41 þúsund einstaklingar nýta sér þessa þjónustu á ári hverju sem þýðir að árlegur kostnaður yrði rétt rúmur milljarður. Ef allir 60 þúsund íbúarnir sem úrræðið nær til nýta sér það yrði kostnaðurinn einn og hálfur milljarður.

Útfærsla á leiðinni, það er til hvaða landsvæða niðurgreiðslan muni ná, hefur ekki verið kynnt en líklega verður miðað við ákveðna vegalengd frá höfuðborgarsvæðinu og hefur verið talað um 200 eða 300 kílómetra með sérstökum undantekningum, svo sem Vestmannaeyjum.

Texti / Egill Páll Egilsson og Magnús Geir Eyjólfsson
Mynd / Isavia

Raddir