Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.7 C
Reykjavik

Twitter-vináttan varð að fyrirtæki

cof

Vinátta þeirra Ragnheiðar Axel Eyjólfsdóttur og Liljars Más Þorbjörnssonar kviknaði á Twitter en þróaðist þannig að tveimur árum síðar höfðu þau stofnuðu þau fyrirtækið Og natura.

„Við kynntumst á Twitter. Þannig urðum við fyrst vinir og komumst fljótlega að því að við vorum nágrannar og höfðum svipuð áhugamál, svo sem pizzur, bjór og hunda,“ segir Ragnheiður, einn eigandi Og natura.

Einn daginn bráðvantaði Ragnheiði pössun fyrir hundinn sinn og óskaði eftir slíkri á Twitter, það endaði með því að Liljar bauð fram aðstoð sína. „Þá höfðum við þekkst örugglega í ár en aldrei hist. Við hittumst sem sagt fyrst í raunheimi þegar ég fór með Atari hundinn minn í  viku pössun til Liljars. Eftir það erum við búin að vera perluvinir.“

Umhverfisvænt brugghús

Seinna meir, í spjalli yfir pítsu og bjór, spratt upp sú hugmynd hjá Ragnheiði og Liljari að búa til áfenga drykki.

„Fjölskyldan mín á fyrirtækið Íslensk hollusta og við erum með gríðarlegt magn af villtum jurtum, þangi og berjum. Mikið magn berja er vannýtt á Íslandi og okkur langaði að skapa verðmæti úr þeim, þannig að okkur Liljari langaði að búa til bjór sem dansar á línunni við að vera náttúruvín. Þá fór þetta allt saman að rúlla og við fórum í kjölfarið að framleiða íslenskt vín. Krækiber hafa lengi verið nýtt til að gera vín hérlendis og í raun eina hefðin í íslenskri víngerð,“ segir Ragnheiður.

Mikið magn berja er vannýtt á Íslandi og okkur langaði að skapa verðmæti úr þeim.

Í dag hafa þau Liljar ásamt fjölskyldu Ragnheiðar stofnað fyrirtækið Og natura sem sérhæfir sig í framleiðslu áfengra drykkja úr íslensku hráefni. „Við leggjum áherslu á að nota náttúrlegt hráefni og sem minnst af kemískum efnum, einnig er brugghúsið okkar er heitavatnsknúið og umhverfisvænt.“

Ragnheiður segir fólk hafa mikinn áhuga á náttúruvíninu sem þau Liljar framleiða. „Til dæmis hefur krækiberjavínið okkar vakið lukku og er fyrsti árgangur nánast uppseldur,“ segir hún kát.

Mynd / Frikkx

Er ekkert rosalega hrifin af reglum

Margrét Seema Takyar er einn efnilegasti leikstjóri landsins. Hún hefur búið í New York síðustu 15 ár, og 4 ár þar undan í London en hefur nú verið með annan fótinn á Íslandi síðustu ár og unnið að ýmsum spennandi verkefnum. Meðal annars leikstýrði hún þáttaröðinni Trúnó, en sería tvö fer í loftið í lok janúar.

Margrét Seema, sem er hálfindversk, hefur búið erlendis meirihluta ævi sinnar en hefur að eigin sögn ávallt verið mjög stolt af því að vera íslensk. Hún er nú komin með fast heimilisfang hér á landi sem hún segir hafa verið stórt skref.

„Það voru í raun örlögin sem réðu því að ég ákvað að vera meira heima. Ég ætlaði bara koma í stutt stopp til að endurnýja bandaríska atvinnuleyfið mitt og fá einn einfaldan stimpil í passann. En í miðju því ferli var Trump valinn forseti og allt kerfið fór á haus. Ég í raun festist hérna á Íslandi í næstum níu mánuði. Þá gripu örlögin í taumana, ég varð ástfangin af manni og ég ákvað að taka séns á því ævintýri og sé ekki eftir neinu. Finnst hann enn þá jafnmikið æði og mér fannst þegar ég hitti hann fyrst. En New York er í raun enn þá heima að mörgu leyti.

En í miðju því ferli var Trump valinn forseti og allt kerfið fór á haus.

Ég er enn þá þar um 40% af árinu, enda bæði með sterkt tengslanet og vináttu sem heldur manni þar. Síðustu ár hef ég unnið við kvikmyndatöku, ljósmyndun, skriftir og leikstjórn á Íslandi, í Bandaríkjunum og verið mikið í Asíu, Afríku og eitthvað í Japan líka. Ég er mikil flökkusál þannig að þessi vinna og lífsstíll sem fylgir henni hefur átt mjög vel við mig. New York er borg þar sem mér hefur alltaf liðið vel enda tekur hún mjög vel á móti flökkusálum eins og mér, þannig að það að kveðja hana fyrir fullt og allt er ekkert á döfinni.“

Mydn / Hallur Karlsson

Get ekki hugsað mér að gera neitt annað

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún leiddist út í leikstjórn segist Margrét Seema alltaf hafa viljað segja sögur og verið heilluð af hegðun fólks, að setja fólk í aðstæður þar sem raunveruleiki og fantasía blandast saman.

„Ég sé oft heiminn í gegnum auga ljósmyndarans þar sem lýsing, hreyfing, litir og skrýtnar aðstæður eru í aðalhlutverki í bland við sögu sem mig langar að segja. Þessi samsetning leiddi mig einhvern veginn í starfið mitt í dag. Auðvitað er þetta stundum kæfandi raunveruleiki en líka oft ótrúlega gefandi og þessu fylgir í raun jafnmikil leikgleði sem og hugarangur, en mér finnst það þess virði enda get ég eiginlega ekki hugsað mér að gera neitt annað.

Ég fór hins vegar alls kyns krókaleiðir áður en ég fann mig í kvikmyndaforminu og prófaði mig áfram með ýmis listform í gegnum árin, dans, ljósmyndun, skrif, leikhús og lýsingu. Það hefur algjörlega mótað mig og haft áhrif bæði á minn stíl, vinnu og hvernig ég nálgast leikstjórn og kvikmyndatöku.“

Ég hef stundum heyrt að ég búi yfir ákveðnum sjarma sem getur bæði komið að notum en líka komið mér í vandræði.

Viðtalið við Margréti Seemu má finna í 2. tölublaði Vikunnar.

Aðspurð hvort henni finnist kvikmyndaiðnaðurinn karllægur bransi, svarar Margrét Seema að heimurinn sé almennt karllægur alveg sama hvaða bransa eða starfi maður gegni.

„Mér hefur hins vegar alltaf fundist þeir listamenn sem búa til sjónvarpsseríur, kvikmyndir og bækur hafi frábær tækifæri að búa einmitt til sögur og persónur sem hrista upp þessari tölfræði og búa til nýtt samtal.  Og auðvitað eru margir, bæði konur og menn í kvikmyndabransanum sem markvisst vinna að því að bæði bæta jafnréttið bak við vélina og fyrir framan hana. Ég hef líka oftast reynt að sjá þetta einmitt sem tækifæri að hugsa út fyrir ákveðinn ramma til að verða betri í mínu.

Ég er ekkert rosalega hrifin af reglum, sérstaklega reglum sem eru gerðar til að halda óbreyttu ástandi. Ég hef stundum heyrt að ég búi yfir ákveðnum sjarma sem getur bæði komið að notum en líka komið mér í vandræði, en þetta tvennt eru örugglega stórar ástæður fyrir því að ég geri það sem ég geri í dag,“ segir Margrét Seema Takyar.

Viðtalið við Margréti má lesa í heild sinni í 2. tölublaði Vikunnar.

Myndir / Hallur Karlsson

Buxur á röngunni nýjasta tíska

|
|

Tískuverslanir reyna nú að koma gallabuxum sem líta út fyrir að vera á röngunni í tísku. En hinn almenni neytandi virðist ekki vera spenntur.

Nýjar buxur frá breska merkinu Boohoo hafa vakið mikla athygli síðan þær voru settar á sölu. Um gallabuxur er að ræða en það sem er óvenjulegt við buxurnar er að þær eru hannaðar þannig að þær líta út fyrir að vera á röngunni. Buxurnar sem um ræðir fást á vef Boohoo og kosta 22 pund sem gerir um 3.500 krónur.

Buxurnar virðast ekki vera að höfða til hins hefðbundna neytenda eins og sjá má í athugasemdakerfum á samfélagsmiðlum Boohoo.

Þetta er svo heimskulegt.

„Borgaðir þú fyrir að klæðast buxum á röngunni þegar þú hefðir getað gert það ókeypis,“ skrifaði einn tískuunnandi við mynd á Instagram-síðu Boohoo. „Ég mun aldrei kaupa svona hræðilegar gallabuxur,“ skrifaði annar. „Þetta er svo heimskulegt,“ sagði enn annar.

Annar Instagram-notandi benti á að þeir sem klæðast þessum buxum líta út fyrir að hafa klætt sig í myrkri.

En tískuverslunin Boohoo er ekki eina verslunin sem selur gallabuxur á „röngunni“ um þessar mundir því á vefnum Farfetch er hægt að kaupa gallabuxur sem virðast vera á röngunni frá merkinu Unravel Project. Þær buxur eru töluvert dýrari og kosta um 40.000 krónur á útsölu.

Fjárfesti í 188.000 króna kremi úr eigin blóði

|
|

Victoria Beckham keypti sér óvenjulegt húðkrem á dögunum sem húðlæknir bjó sérstaklega til fyrir hana.

Hönnuðurinn Victoria Beckham splæsti í húðkrem á dögunum. Það væri ekki frásögu færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að kremið inniheldur frumur úr hennar eigin blóði og ein krukka af kreminu kostar 1.200 pund sem gerir um 188 þúsund krónur.

Það er Dr. Barbara Sturm sem bjó kremið til fyrir Victoriu en hún er þekkt fyrir að framkvæmda svokallaðar „vampíru“ andlitsmeðferðir. Það sem felst í þeirri andlitsmeðferð er að blóð fólks er borið með ákveðnum aðferðum á andlitið og á þetta að hafa yngjandi áhrif á húðina.

Victoria greindi sjálf frá þessu á Instagram. Þar sagðist hún nota kremið bæði kvölds og morgna og að það hefði bólgueyðandi og frískandi áhrif á húðina.

Victoria mun hafa kynnst þessum óvenjulegu húðvörum þegar hún fór með sjö ára dóttir sína í andlitsbað fyrir börn til Dr. Sturm í Þýskalandi. Þessu er sagt frá á vef Hello! Magazine.

Victoria Beckham sagði frá húðvörum Dr. Sturm á Instagram.

Miðflokksmenn sniðganga nefndarfund og fordæma upptökur af Klaustur bar

Þingmenn Miðflokksins, formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson mættu ekki á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem nú stendur yfir.

Til fundarins var boðað vegna upptaka af Klaustur bar þar sem m.a. mátti heyra Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugson tala frjálslega um skipanir í sendiherrastöður. Auk þess sem þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi, samflokkskona þeirra og tveir fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins hæddust þar að konum, minnihlutahópum og samstarfsfólki sínu á Alþingi.

Þingmennirnir sendu báðir frá sér harðorðar yfirlýsingar sem Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, las upp í byrjun fundar, en í yfirlýsingu Gunnars Braga kemur m.a. fram að hann ætli ekki að taka þátt í sýningu sem sé haldinn til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Tekur Sigmundur Davíð í svipaðan streng. „Ég tel óforsvaranlegt að formaður nefndarinnar ætli að halda fund til að ræða ályktanir sem að hún vill sýnilega draga af illa sundurklipptum hlljóðklippum af veitingahúsaspjalli sem aflað var með refsiverðum hætti.“ Í yfirlýsingu sinni segir Sigmundur jafnframt ómögulegt að segja til um hvað hafi verið klippt úr og hvað hafi verið soðið saman á upptökunum.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, eru viðstaddir fundinn þar sem verið er að ræða skipan í sendiherrastöður.

Neytendastofa bannar villandi auglýsingu um húðvöru

Neytendastofa hefur bannað auglýsingar frá fyrirtækinu Törutrix ehf. þar sem fullyrt er meðal annars að húðvaran Golden Goddess andlits serum „vinni gegn bólum, roða, þrota og óþægindum í húð“. Einnig er fullyrt að húðvaran minnki dökka bletti í húð og dragi úr „hrukkulínum.“

Neytendastofu barst ábending í haust vegna fullyrðinga fyrirtækisins Törutrix ehf. um virkni húðvöru á þeirra vegum. Um var að ræða fullyrðingar í auglýsingum á vörunni Golden Goddess andlits serum.

Í auglýsingum á samfélagsmiðlum var húðvaran látin hljóma sem undrakrem með fullyrðingu sem hljómar svona: „Fullt af góðum náttúrulegum efnum. Gefur húðinni raka og næringu. Vinnur gegn bólum, roða, þrota og óþægindum í húð. Heldur húðinni ferskri, minnkar fínar hrukkulínur og styrkir húðina. Hreinsandi eiginleikar, minnkar svitaholur og endurnýjar húðina. 24karata gullagnir sem gefur húðinni ljóma. Lagar roða. Minnkar dökka bletti í húð.“

Neytendastofa óskaði þá eftir að eigandi fyrirtækisins sýndi fram á að fullyrðingarnar væru réttar en fékk ekki svar. Eftir ítrekun barst Neytendastofu þá bréf frá Törutrix ehf. þar sem fram komu upplýsingar um öryggisatriði vörunnar frá framleiðanda í Kína. En það dugði ekki til og þóttu þær upplýsingar ekki sanna að fullyrðingarnar um virkni undrakremsins væru sannar

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að fullyrðingar um að vöruna væru ósannaðar og veittu rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar. Þá bannaði Neytendastofa auglýsingu og fyrirtækinu var gert að fjarlægja þær auglýsingar sem innihalda umrædda fullyrðingu af samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Ákvörðun Neytendastofu má lesa hérna í heild sinni.

Sjálfbær hönnun sem stenst tímans tönn

Danska hönnunarfyrirtækið Gejst var stofnað í Óðinsvéum í Danmörku árið 2013 af hönnuðunum Søren Nielsen og Niels Grubak Iversen. Ástríða fyrir endingargóðri hönnun var kveikjan að stofnun fyrirtækisins en fyrirtækið einsetur sér að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Markmiðið var að skora á hefðbundna nálgun og hönnunaraðferðir og skapa vörur sem stæðust tímans tönn bæði hvað varðar hönnunina sjálfa og efnisval.

Orðið gejst merkir eldmóður og er það grundvöllur fyrirtækisins sem endurspeglast í hönnuninni á metnaðarfullan hátt. Hönnun fyrirtækisins er innblásin af skandinavískum lífsstíl og samanstendur af alls kyns heimilisvörum sem fjölgar ár hvert.

Árið 2017 urðu breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins en þá gekk Thomas Heunicke til liðs við Gejst en hann hafði áður starfað fyrir By Lassen sem flestir þekkja. Á sama tíma seldi Niels Grubak Iversen hlut sinn í fyrirtækinu og leitaði á önnur mið. Snemma árs 2018 bættust svo Nadia Lassen og Peter Østerberg í hópinn en þau voru bæði hluthafar í By Lassen til ársins 2016. Gejst hefur einnig fengið til samstarfs við sig þekkta hönnuði á borð við Michael Rem og hönnunarteymið Böttcher & Kayser.

Vegglistaverk og segulmagnaður verðlaunastjaki

Ein fyrsta varan sem Gejst setti á markað er Underground-snaginn. Eins og nafn snagans gefur til kynna er hann innblásinn af neðanjarðarlestarkerfi Lundúna og sést það glögglega á lögun hans. Að sögn Gejst er ekki um neinn venjulegan snaga að ræða heldur þjónar hann tilgangi vegglistaverks á sama tíma og notagildið er ótvírætt. Snagarnir koma í mattri áferð, ýmist hvítir eða svartir og með eikarhnúðum.

Á undanförnum árum hefur Gejst verið hvað þekktast fyrir hönnun Michael Rem á Molekyl-kertastjakanum sem samanstendur af 40 stálkúlum í tveimur stærðum. Kúlurnar eru segulmagnaðar og er hægt að raða þeim saman á marga vegu. Hugmyndaflugið eitt ræður för og verða því engir tveir stjakar eins en einnig er hægt að raða fjórum stjökum saman og mynda prýðilegan aðventukrans. Stjakarnir koma í þremur litum; svörtu, króm og brass. Michael hlaut hönnunarverðlaunin German Design Award árið 2017 fyrir Molekyl-stjakann.

Smáhlutahillur og dulúðleg gróðurhús

Nýjustu vörurnar úr smiðju Gejst eru meðal annars Nivo-vegghillur, Nebl-gróðurhús og nýir litir og aukahlutir fyrir Flex-skipulagshillurnar. Allar þessar vörur eru nýkomnar á markaðinn eða væntanlegar á næstu vikum.

Nivo-vegghillurnar eru fyrsta hönnun þýska teymisins Böttcher & Kayser fyrir Gejst.

Nivo-vegghillurnar eru hannaðar af þýska teyminu Böttcher & Kayser fyrir Gejst.

Hreinar línur einkenna hönnunina og eru þær án alls óþarfaskrauts. Festingar eru úthugsaðar og hvergi sjáanlegar sem gefur hillunum fágaðra og stílhreinna yfirbragð.

Nebl er nokkurs konar gróðurhús hannað af Michael Rem. Nafnið er dregið af þýska orðinu Nebel sem merkir þoka og er hún aðalinnblástur hönnunarinnar. Gróðurhúsið samanstendur af keramikbotni sem plantan stendur á og kúpli úr möttu gleri og koma gróðurhúsin í tveimur stærðum og litum, svörtu og gráu. Gróðurhúsin hafa yfir sér dulúðlegt yfirbragð og verða fáanleg frá og með nóvember næstkomandi.

Flex-skipulagshillurnar koma nú í fleiri litum og til þess að svara eftirspurninni hafa fleiri aukahlutir litið dagsins ljós. Hillurnar eru segulmagnaðar og því auðvelt að festa hluti við þær en einnig er hægt að raða ofan á þær. Megintilgangurinn er að finna smáhlutum heimilisins pláss svo þeir fái að njóta sín hvað best á smekklegan hátt. Hillurnar henta vel í hvaða rými sem er, eldhúsið, skrifstofuna eða svefnherbergið svo eitthvað sé nefnt.

Gejst er ungt og upprennandi fyrirtæki sem vert er að fylgjast með en nú þegar hefur það skapað sér stóran sess í hönnunarheiminum og hlotið mikið lof fyrir vörur sínar.

Flex-skipulagshillurnar eru segulmagnaðar og því auðvelt að koma skikk á hlutina.
Underground-snaginn vísar í neðanjarðarlestarkerfi Lundúna.

 

Texti / Stefanía Albertsdóttir
Myndir / Frá framleiðendum

„Nokkrum númerum of flippaður“

Ásthildur Gunnarsdóttir starfar sem verkefnastjóri á stafrænu auglýsingastofunni SAHARA. Hún segir líf sitt einkennast af fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum en að fatastíllinn sé nokkuð stílhreinn.

„Ég er frekar gömul sál en bý yfir óbilandi áhuga á íþróttum. Ég er með sterka réttlætiskennd, mikla matarást, elska að syngja og hafa gaman en í mér blundar jafnframt nett fullkomnunarárátta,“ segir Ásthildur þegar hún er beðin um að lýsa sjálfri sér.

„Ég hrífst oftast af einföldum flíkum og er helst til of hrifin af svörtu þó að ég sé að vinna í að lífga upp á fataskápinn og velja bjartari liti. Ég nota oft yfirhafnir og kápur til þess að brjóta upp dökku litina en svo á ég reyndar líka mikið af líflegum kjólum sem ég tóna niður með einlitum jökkum.

Efst á óskalistanum er fallegt veski þar sem ég er sjálf ótrúlega léleg við að kaupa mér fylgihluti. Svo myndi ég ekki slá hendinni við öðrum fallegum kjól frá Yeoman. Ég á einmitt afmæli á næstunni og hver veit nema mér verði að ósk minni.“

Svo kaupi ég furðulega mikið af naglalakki miðað við hvað ég er löt við að nota það.

Aðspurð um furðulegustu kaupin nefnir Ásthildur svartan og gulan silkikjól. „Þetta voru jafnframt ein skemmtilegustu kaupin en kjólinn keypti mamma fyrir mig í versluninni Júníform en tilefnið var útskriftin mín úr BA-náminu. Ég horfði á kjólinn og hugsaði með mér að þessi væri nú nokkrum númerum of flippaður fyrir mig. Hvernig í ósköpunum myndi ég „púlla“ þessa liti. Hann reyndist svo eins og sérsniðinn á mig og kenndi mér að þora að vera smávegis öðruvísi. Að því sögðu finnst mér allra skemmtilegast að kaupa kjóla og aftur kjóla. Þar fyrir utan hef ég gaman af skókaupum og svo kaupi ég furðulega mikið af naglalakki miðað við hvað ég er löt við að nota það.“

„Flíkin sem hefur mesta tilfinningalega gildið fyrir mig er pels frá ömmu Ástu. Hún var kona með fallegan stíl og toppaði það með líflegum persónuleika. Pelsinn nota ég nánast bara við sérstök tilefni og þegar ég er í honum líður mér eins og hún sé aðeins nær mér.“
„Rauðu skórnir frá ömmu eru án efa minn eftirlætis fylgihluturinn.“
„Uppáhaldsflíkin mín er fjólublái Yeoman-kjóllinn sem ég fékk í jólagjöf frá Arnóri mínum um síðustu jól. Hann plataði mig í mátunarferð á aðventunni til að finna eitthvað sem mig langaði í. Ég mátaði örugglega hálfa búðina á meðan starfsfólkið bar í mig hvítvín og hrósaði dressinu og mér í bak og fyrir. Frábær upplifun!“
„Ég keypti mér á dögunum fallega kápu í Company‘s og kjól í H&M. Kjólar og kápur eru í miklu uppáhaldi og því var það borðleggjandi að bæta við í kápuflóruna svo ég ofnoti nú ekki þær yfirhafnir sem ég á, þá sérstaklega Birger et Mikkelsen-kápuna góðu. Svo langaði mig til að kanna hvernig ökklasíðir kjólar færu mér, en það er mikið um þá þessa dagana og þessi reyndist virka vel fyrir mig.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Góð kaup á útsölum

Nú eru útsölurnar í fullum gangi og hér eru nokkur góð ráð til að gera örugglega sem best kaup.

Mættu snemma

Algengustu stærðirnar og nýjustu vörurnar eru það sem fer fyrst á útsölunum. Ekki bíða of lengi svo þú eigir ekki á hættu að missa af því sem þú hefur hug á.

Vertu undirbúin/n

Hvað er það sem vantar í fataskápinn þinn? Ef þú veist að hverju þú leitar er líklegra að finna það inn á milli á troðnum fataslám eða í hillum búðanna. Leitaðu uppi klassískar, endingargóðar flíkur í góðum sniðum en forðastu kassana þar sem allt kostar fáeina hundraðkalla.

Ekki kaupa bara eitthvað

Hefurðu haft auga á tiltekinni flík eða skópari lengi? Kannaðu hvort hún sé komin á útsölu, þá ætti að vera auðvelt að réttlæta kaupin fyrir sér. Forðastu þau mistök að kaupa flíkina einungis vegna þess að hún er á afslætti. Ef þú myndir ekki kaupa hana á fullu verði áttu líklegast ekki eftir að nota hana mikið hvort sem er.

Kauptu aðeins það sem passar á þig

Ekki kaupa buxur sem þú „ætlar að passa í“ í sumar. Ef kápan er allt of þröng, ekki kaupa hana með það að markmiði að missa nokkur kíló til að passa í hana. Verðlaunaðu þig frekar með nýrri flík þegar markmiðum þínum hefur verið náð.

Kauptu sumarvörur í vetur – og öfugt

Á útsölum er oft hægt að gera frábær kaup á árstíðabundnum vörum. Við höfum orðið varar við góð tilboð á sumarvörum, á öllu frá strigaskóm upp í reiðhjól. Ef þú ætlar hvort sem er að fjárfesta í slíkum hlutum með hækkandi sól er ekki úr vegi að gera það núna. Í staðinn gætir þú notað sumarútsölurnar til að kaupa kuldagalla á börnin. Alltaf skrefi á undan, ha?

100% afsláttur – já, takk

Mundu að mesti sparnaðurinn er fólginn í því að kaupa ekki neitt. Eggjasuðuvél á 50% afslætti er á 100% afslætti ef þú sleppir því að kaupa hana. Það er fátt leiðinlegra en að eyða peningunum sínum í eitthvað sem fer beint upp í skáp og er bara fyrir. Sleppum því frekar.

Skoðaðu netverslanir

Troðnar verslunarmiðstöðvar og biðraðir eru ekki spennandi tilhugsun í augum margra. Oftast er hægt að gera jafngóð ef ekki betri kaup í netverslunum, bæði innlendum og erlendum. Komdu þér vel fyrir uppi í sófa með rauðvínsglas og kreditkortið að vopni og gerðu góð kaup.

Bestu augnablikin og sárustu vonbrigðin

||
||

Mannlíf rifjar upp nokkur af ánægjulegustu sigrunum og sárgrætilegustu vonbrigðunum sem íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur fært okkur áhorfendum í gegnum árin.

Ánægjulegustu augnablikin:

ÓL 2008: 2. sæti

Silfurdrengirnir okkar

Framganga strákanna okkar á Ólympíuleikunum í Peking haustið 2008 vakti víða mikla athygli, enda fátítt að svo fámenn þjóð komist á verðlaunapall í hópíþrótt og hvað þá í sjálfan úrslitaleikinn. Liðið spilaði líklega betur en nokkru sinni fyrr og síðar með Ólaf Stefánsson fremstan meðal jafningja, en fyrirliðinn lét sér ekki nægja að leika listir sínar á vellinum heldur kom hann með einkar sérstök og ástríðuþrungin tilsvör í viðtölum eftir leiki þar sem hvert orðskrípið og súrrealíska tilvísunin rak aðra. Enginn skildi neitt, nema þá kannski helst leikmaðurinn sjálfur, en öllum var sama. #takkoli.

Eftir því sem leið á leikana og fleiri stórþjóðir lutu í gras fyrir íslensku víkingunum stigmagnaðist stemningin heima fyrir og óhjákvæmilega fjölgaði í hópi frægðarfangara. Þeirra mest áberandi var forsetafrúin þáverandi Dorrit, sem lýsti því yfir í beinni útsendingu frá Kína að Ísland væri „stórasta land í heimi“ og bjó þannig til frasa sem þótti hnyttinn, varð vinsæll og skömmu síðar þreyttur. Úrslitaleikurinn fór fram eldsnemma á sunnudagsmorgni og þótt þeir fjölmörgu sem rifu sig á lappir (eða héldu sér vakandi) hafi vissulega orðið fyrir vonbrigðum með tap gegn firnasterku liði Frakka var þjóðarstoltið með 2. sætið ríkjandi tilfinning meðal landsmanna, eins og merkja mátti á málshættinum illskiljanlega „Gott silfur gulli betra“.

Þegar hetjurnar sneru heim frá Peking árið 2008 voru fálkaorður hengdar á leikmenn og þjálfara.

Þegar hetjurnar sneru heim að leikunum loknum voru fálkaorður hengdar á leikmenn og þjálfara, tugþúsundir fögnuðu í miðbæ Reykjavíkur og allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar með tölu tróðu sér upp á svið til að baða sig í sviðsljósinu með silfurdrengjunum, Valgeiri Guðjónssyni og Ladda. Hugsanlega hefðu ráðamennirnir betur eytt tímanum í annað, því mánuði síðar hrundi íslenska efnahagskerfið eins og það lagði sig.

Landvinningar handknattleikslandsliðsins standa þó upp úr frá þessum dimma tíma í sögu lands og þjóðar og er að margra áliti stærsta stund í íþróttasögu Íslands, í það minnsta fram að glæsilegum árangri karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM 2016.

B-keppnin 1989: 1. sæti

Gott gull silfri betra

Það var eitthvað sérlega krúttlegt við þann innilega fögnuð og einlægu gleði sem braust út á Íslandi þegar handknattleikslandsliðið sigraði Pólverja í úrslitaleik B-keppni heimsmeistaramótsins sem haldið var í Frakklandi í febrúar 1989. Engu skipti þótt liðið hefði í raun neyðst til að taka þátt í keppni þeirra næstbestu til að tryggja sér sæti á HM 1990 eftir slakan árangur á Ólympíuleikunum í Suður-Kóreu sumarið áður, við fögnuðum eins og um alvörusigur á HM hefði verið ræða enda var þetta í fyrsta sinn sem Ísland vann til gullverðlauna á alþjóðlegu móti og þjóðin fylkti sér að baki Bogdans þjálfara og Alfreðs Gíslasonar sem var valinn besti leikmaður keppninnar.

ÓL 1992: 4. sæti

Ævintýri líkast

Engin ánægja er eins ánægjuleg og óvænt ánægja, segir í ævafornu máltæki. Það átti sannarlega við um gengi íslenska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, þegar það tryggði sér 4. sæti þvert á afar hófsamar væntingar. Íslendingar komust bakdyramegin inn á leikana þegar þeim var boðið að hlaupa í skarðið fyrir Júgóslavíu, sem var meinuð þátttaka einungis þremur dögum fyrir mót vegna stríðsátaka í landinu. Flestum að óvörum náði liðið alla leið í undanúrslit, sem var þá besti árangur sem Ísland hafði náð.

Sárustu vonbrigðin:

HM 1995: 14. sæti

Í bláum skugga

Hið litla og stórhuga Ísland sótti um að fá að halda HM í handbolta árið 1993 en fékk þess í stað úthlutað keppninni 1995. Eftir á að hyggja má velta því fyrir sér hvernig farið hefði ef íslenska liðið hefði keppt á heimavelli tveimur árum fyrr, áður en öflugir burðarásar í liðinu lögðu skóna á hilluna. Í öllu falli er ljóst að það var ansi margt sem fór úrskeiðis í HM á Íslandi 1995. Miðasala sem var langt undir væntingum, langdregið karp um bjórsölu og tæknimál og óþolandi lukkudýr, álfurinn Mókollur, voru meðal atriða sem bliknuðu þó í samanburði við slælega frammistöðu íslenska liðsins. Eftir niðurlægjandi ósigur gegn Rússum í 16-liða úrslitum, 12-25, sem var stærsta tap Íslands á HM nokkru sinni, lauk liðið leik í 14. sæti sem var langt undir væntingum.

HM 1974: 14. sæti

Árið 1974 skellti liðið sér í hljóðver og söng inn á stuðningslagið Áfram Ísland! ásamt höfundinum Ómari Ragnarssyni og hljómsveitinni Hljómum.

Ómar og Hljómar

Það var hugur í Íslendingum í aðdraganda HM í handbolta sem haldið var í Austur-Þýskalandi í mars 1974 og stefnan leynt og ljóst sett á verðlaunapall. Liðið hafði marga gæðaleikmenn innanborðs, lék afbragðsvel í æfingaleikjum fyrir mót og leikjaprógrammið á HM þótti lofa góðu. Til að fanga bjartsýnina skellti liðið sér í hljóðver og söng inn á stuðningslagið Áfram Ísland! ásamt höfundinum Ómari Ragnarssyni og hljómsveitinni Hljómum frá Keflavík en þetta var í fyrsta sinn sem ráðist var í slíkt verkefni hérlendis.

Platan seldist vel og allt virtist í lukkunnar velstandi, en strax eftir lendingu í Þýskalandi kom upp flensufaraldur meðal leikmanna. Reynt var að fá fyrsta leik við Tékka frestað en það tókst ekki og eftir það gekk allt á afturfótunum. Íslenska liðið tapaði öllum leikjum sínum og 14. sæti á HM varð niðurstaðan sem þótti mikill skellur.

ÓL 2012: 5. sæti

Vítavert gáleysi

Ísland spilaði frábærlega í riðlakeppninni á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012 og vann alla leikina. Í 8-liða úrslitum vorum við einu marki yfir gegn Ungverjum og fengum vítakast þegar einungis tíu sekúndur lifðu leiks. Tíu stuttar sekúndur. Snorri Steinn Guðjónsson steig á punktinn til að freista þess að gulltryggja sætið í undanúrslitum en lét verja frá sér, Ungverjar brunuðu í sókn og jöfnuðu leikinn nánast á sömu stundu og lokaflautið gall. Ungverjar stóðu svo uppi sem sigurvegarar að loknum tvöfaldari framlengingu í einni mest pirrandi viðureign og sárasta ósigri Íslands frá því elstu menn muna.

Texti / Kjartan Guðmundsson

Stærsta óskin að hafa heilsuna í lagi

Söngkonuna Siggu Beinteins þekkja allflestir Íslendingar og hefur hún heillað okkur með smellum eins og Eitt lag enn, Vertu ekki að plata mig og Allt eða ekkert. Við forvitnuðumst um hvað er að óskalista söngkonunnar.

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Veistu, ég held að það sé ekkert sem mig dreymir um að eignast, draumurinn sem mig dreymdi alltaf var að eignast börn og sá draumur rættist fyrir sjö árum síðan – það var enginn draumur stærri og hann rættist.“

Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? „Ég held að ég myndi vilja 365 dress í skápinn, að eiga til að spila í, það er alltaf stærsti höfuðverkurinn í hverju á að vera þegar maður kemur fram.“

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? „Ég held að draumaferðin væri til Ástralíu, eða Parísar en þangað hef ég aldrei komið – það gæti alveg verið að Ástralíudraumurinn rætist á þessu ári.“

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? „Í eldhúsið myndi ég helst óska mér að hafa kokk allan ársins hring, þá þyrfti ég aldrei að hugsa um hvað ég ætla að hafa í matinn, það væri mjög þægilegt.“

Stærsta óskin væri? „Stærsta óskin mín í lífinu er að fá að hafa heilsuna í lagi sem allra lengst.“

„Draumastóllinn minn væri Eggið,“ segir Sigga.

Áhrifaríkasta bók? „Ég er nú ekki mikill lestrarhestur, en mér fannst rosalega gaman og mjög áhugavert að lesa bókina um Ellyju Vilhjálms, þar sem farið er í gegnum ævi hennar. Enda hefur Elly verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan ég man eftir mér.“

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? „Draumastóllinn minn væri Eggið, hann er alltaf svo töff og tímalaus.“

Besta kaffihúsið? „Te og kaffi í Borgartúni, yndislegt að sitja þar og slaka á.“

Besti veitingastaðurinn? „Ég held ég verði að segja Sumac á Laugaveginum, bæði flottur staður og æðislegur matur.“

Fallegasti liturinn? „Hann er svartur, og ég kaupi iðulega svarta bíla.“

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? „Það væri gaman að eiga flott verk eftir Tolla, æðislegur listamaður.“

Fallegasta bygging á Íslandi? „Það er mikið til af fallegum byggingum á Íslandi og ég verð að nefna þrjár; Hallgrímskirkju, Hörpu og Akureyrarkirkju.“

Hvaða bíll er á óskalistanum og hvers vegna? „Að eiga geggjaðan jeppa, eins og til dæmis Toyota Landcruiser, en ég er mikil jeppakona, fer samt aldrei á fjöll en finn bara svo mikið öryggi á stórum bílum.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Brexit samningurinn felldur – hvað nú?

|
|

Breska þingið felldi Brexit samninginn áðan með miklum meirihluta atkvæða sem er stærsti ósigur forsætisráðherra í þinginu um langt skeið. Nei sögðu 432 – já sögðu 202.

Spurningin sem blasir við er: Hvað nú? Jeremy Corbyn formaður Verkamannaflokksins lýsti því yfir strax eftir kosninguna að hann myndi leggja fram vantrauststillögu á hendur Teresu May. Þingið þarf að kjósa um þá tillögu, verði hún lögð fram. Ef vantrauststillagan er samþykkt verður boðað til nýrra kosninga. Hins vegar standa líkur til þess að May standist vantraust. Ef svo ólíklega vildi að hún yrði samþykkt og nýjar kosningar færu fram myndu Bretar geta sótt um framlengingu á útgöngu skv. 50. gr. sáttmála Evrópusambandsins. Sem og ef boðað verður til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ný ríkisstjórn væri líkleg til að koma fram með ný samningsmarkmið sem leiðir til þess að efni Brexit samningsins yrði annað, það er að segja ef Evrópusambandið er viljugt til að semja upp á nýtt. En ný samningsmarkmið er hægt að móta án þess að fara í kosningu það er ef May velur að starfa með Verkamannaflokknum að nýjum samning. Erfitt er að segja hvað kæmi nákvæmlega út úr því og ólíklegt að það næðist málamiðlun milli aðila.

Verkamannaflokkurinn hefur viljað tollabandalag við ESB sem Íhaldsflokkurinn hefur að stofni til verið á móti. Að minnsta kosti er ólíklegt að sátt um ný samningsmarkmið næðist innan þess tímafrest sem liggur fyrir.

Bretar klofnir í afstöðu sinni

Ríkisstjórnin er í öllu falli veik og nú liggur málið hjá þinginu. Þingið hefur einnig þann valmöguleika að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu og breska þjóðin kosið að nýju. Sú lausn nýtur fylgist flokka til vinstri og hægri. Í slíkri kosningu gætu Bretar komist að þeirri niðurstöðu að vera áfram í Evrópusambandinu. Kannanir sýna að aðeins naumur meirihluti sé með því að vera áfram. Bretar eru því enn klofnir í afstöðu sinni til málsins þrátt fyrir þá ringulreið sem ríkir vegna málsins.

Enginn samningur er annar möguleiki. Það eru einkum fylgjendur harðlínu Brexit sem virðast vilja „No deal Brexit“ ef marka má umræðuna, þingið og þjóðina en það er ekki útilokað að það verði niðurstaða málsins enda ekki meirihluti fyrir annarri lausn hjá þinginu. Það kann þó að breytast eftir að samningurinn var felldur í dag.

Þá hefur verið rætt að fá nefnd lögfræðinga til að taka yfir og ráðleggja ríkisstjórninni en það er óljóst hvert umboð slíkrar nefndar væri.

Engin afgerandi lausn er því í sjónmáli á Brexit ringulreiðinni. Í öllu falli er engin lausn sem liggur á borðinu pólitískt góð fyrir framtíð Theresu May og núverandi ríkisstjórn.

Sjá einnig: Besta lausnin á Brexit vandanum

Ákveðin list að geta haldið mönnum gangandi

|
|

Brynjólfur Jónsson bæklunarsérfræðingur hefur verið læknir íslenska karlalandsliðsins í handbolta í tæp 30 ár og fylgir nú liðinu á fyrri hluta HM í Þýskalandi. Hann hefur staðið í ýmsu í gegnum árin þegar eitthvað hefur út af borið.

„Það er náttúrlega ákveðin list að geta haldið mönnum gangandi. Það er ekki hægt að senda þessa menn heim og segja þeim að fara í frí. Það gengi náttúrlega aldrei,“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur Jónsson bæklunarsérfræðingur er farinn til Þýskalands á HM og er tilbúinn ef eitthvað kemur upp á. „Það eru tveir leikmenn meiddir en það var tilkynnt daginn áður en við héldum út fyrr í vikunni að Aron Rafn og Guðjón Valur færu ekki með. Þetta er vissulega áfall,“ segir Brynjólfur.

Það hefur ýmislegt komið upp á á þeim tæplega 30 árum sem Brynjólfur hefur verið læknir íslenska karlalandsliðsins í handbolta. „Menn hafa slasað sig og það hefur oft þurft að fara með menn á sjúkrahús. Á einu mótinu var svo mikið að gera að ég gat aldrei borðað kvöldmat með liðinu. Ég hef þurft að taka þátt í ýmsu, bæði lækningum á staðnum og deyfingum og hef haldið mönnum gangandi með aðstoð sjúkraþjálfara en þetta er náttúrlega teymi og sjúkraþjálfarar verða alltaf betri og betri. Ég get ekki bjargað allt of miklu einn. Það var þó til dæmis enginn sjúkraþjálfari með liðinu á Ólympíuleikunum árið 1992 og ég bjargaði þessu öllu sjálfur.“

Brynjólfur segir að alvarlegasta atvikið á hans ferli hafi átt sér stað í Sviss árið 2006 þegar leikmaður steinrotaðist á vellinum. „Við þurftum að koma honum strax á sjúkrahús og hann rankaði ekki við sér fyrr en eftir eina til tvær klukkustundir. Svo hafa verið brjóstkassaáverkar sem hafa ekki litið of vel út sem og tilfærð rifbrot. Það er þó mest um liðbanda-, högg- og sinaáverka. Það er náttúrlega ákveðin list að geta haldið mönnum gangandi. Það er ekki hægt að senda þessa menn heim og segja þeim að fara í frí. Það gengi náttúrlega aldrei.“

Mynd / www.handball19.com

 

Af hverju eru Íslendingar svona góðir í handbolta?

Er einhver skýring á því að jafnfámenn þjóð og Ísland hefur náð svo góðum árangri í handbolta og átt svo marga heimsklassa leikmenn?

Þeir eru eflaust margir sem hafa velt þessum spurningum fyrir sér í gegnum tíðina án þess þó endilega að komast að niðurstöðu. Þetta hefur hins vegar verið rannsakað, í lokaritgerð í íþróttafræði sem þeir Ásbjörn Friðriksson og Grétar Þór Eyþórsson skrifuðu árið 2011 og byggir á viðtölum við fjölda einstaklinga sem koma að handbolta á einn eða annan hátt.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru ástæðurnar fyrst og fremst þrjár: hefð, fyrirmyndir og nálægð. Hefðin fyrir handbolta á Íslandi er sterk enda var lengi vel talað um handbolta sem þjóðaríþrótt Íslendinga. Hefðin og áhuginn fyrir íslenska landsliðinu gerir það vafalaust að verkum að margir ungir krakkar velja að æfa handbolta Fyrirmyndir skipta gríðarlegu máli og allt frá því að Geir Hallsteinsson samdi við þýska stórliðið Göppingen á áttunda áratug síðustu aldar hefur Ísland átt að minnsta kosti einn leikmann í fremstu röð í heiminum. Hér heima er svo nálægðin við fyrirmyndirnar meiri en víðast hvar annars staðar, ungum leikmönnum gefst oft kostur á að berja þær augum og jafnvel spjalla við þær.

Þá segir í rannsókninni að hér áður fyrr hafi það meira verið háð tilviljun hvort Ísland næði árangri á stórmótum, en á árunum áður en rannsóknin var gerð árið 2011 hafi komið ákveðinn stöðugleiki í árangur liðsins. Niðurstöðurnar sýndu einnig fram á að árangur liðsins er yfirleitt betri þegar fleiri atvinnumenn eru í hópnum heldur en færri.

„Fólk vildi innilega gefa réttu gjöfina“

Fyrir jól setti Kringlan þjónustu á laggirnar sem heitir Neyðarpakkatakkinn. Tilgangurinn með þjónustunni var að aðstoða fólk við að finna fullkomnar jólagjafir.

„Við settum upp rafrænan þjónustuhnapp, „Neyðarpakkatakkinn“ , sem var kynntur á Facebook rétt fyrir jól og buðum fram aðstoð til þeirra sem voru á síðustu stundu með jólagjafakaupin og voru í vandræðum með hugmyndir,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, þegar hún er beðin um að segja frá hnappinum. „Hægt var að smella á takkann og annað hvort óska eftir að hitta ráðgjafa á þjónustuborði Kringlunnar eða fá hugmyndir sendar rafrænt.“

Spurð út í hvernig hugmyndin um þjónustuna kviknaði segir Baldvina: „Hugmyndin hafði verið að gerjast hjá okkur sem störfum í Kringlunni. Á hverju ári fyrir jólin fáum við  fjöldann allan af beiðnum um aðstoð frá fjölskyldumeðlimum og vinum. Eitthvað á borð við: „Þú vinnur nú í Kringlunni – hvað ætti ég að gefa mömmu, ömmu, pabba eða litla bróður?“.  Þá datt okkur þessi þjónusturáðgjöf í hug.“

Að sögn Baldvinu kom þjónustan sér afar vel fyrir margt fólk. „Með þessu vildum við einnig stuðla að notalegum síðustu dögum fyrir jól, draga úr stressi og gefa fólki tækifæri til að njóta. Það virtist svo sannarlega vera þörf fyrir þjónustuna. Yfir 1000 manns fengu hjá okkur ráðgjöf og við þurftum að kalla út aukamannskap til aðstoðar og viðskiptavinir kunnu greinilega vel að meta hjálpina.“

Fólk vildi vanda valið og kaupa gjafir sem sannarlega er þörf fyrir og nýtast.

Baldvina kveðst þá verða vör við að fólk sé orðið meira meðvitað um sóun og vilji þess vegna ekki gefa eitthvað sem endar bara inni í geymslu eða jafnvel í ruslinu. „Það er alveg greinilegt. Fólk vildi innilega gefa réttu gjöfina og hitta í mark hjá sínu fólki. Það vildi ekki gefa bara eitthvað. Fólk vildi vanda valið og kaupa gjafir sem sannarlega er þörf fyrir og nýtast. Fólk er líka meðvitaðra um kostnað og vill hagkvæmni í innkaupum.“

Samningur við kölska

Margt fólk kaupir sér árskort í líkamsrækt í upphafi árs og setur sér háleit heilsumarkmið. Um þetta skrifar Annas Jón Sigmundsson í nýjum pistli þar sem hann líkir árskorti í líkamsrækt við samning við kölska.

„Eru ekki örugglega allir búnir að setja sér áramótaheit sem hafa alltaf klikkað hingað til? Hvaða rugl er þetta alltaf í okkur að telja okkur trú um að við séum eitthvað að fara að breytast af því að búið er að hækka ártalið um einn staf. Og hvernig stendur á því að okkur gengur svona illa að ná þessum markmiðum okkar,“ skrifar Annas Jón Sigmundsson í pistil um áramótaheit og háleit markmið.

„Þegar ég var barn og unglingur var maður alltaf á fullu í allskonar íþróttum þar sem yfirleitt var um að ræða hópstarf með jafnöldrum sínum. Þá var ógeðslega gaman að stunda íþróttir og sérstaklega þegar maður var jafnvel að keppa með bestu vinum sínum,“ heldur hann áfram og undrar sig á því að fólk hættir gjarnan að stunda hópíþróttir þegar það verður fullorðið. Í staðin kaupir fólk sér líkamsræktarkort.

Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina.

„Og hvernig stendur á því að við hættum að æfa hópíþróttir með vinum okkar og veljum í staðinn að gera samning við kölska sjálfan því erfitt er að finna aðra samlíkingu yfir það helvíti sem árskort í líkamstækt eru. Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina. Svona skömm sem bitnar á þér andlega, líkamlega og fjárhagslega og gerir ekkert annað en að brjóta okkur niður,“ bætir hann við.

„Eftir að hafa sjálfur margoft lent á þessum stað með honum kölska vini mínum verð ég að segja að það eina sem hefur virkað fyrir mig undanfarin ár eru einhvers konar hópar sem hittast nokkrum sinnum í viku og stunda saman íþróttir. Þá er maður með fyrir fram ákveðin tíma sem á að hittast á og þegar þú mætir ekki hringir einhver í þig eða skilur eftir skammarorð á veggnum hjá þér á Facebook. Undanfarin áratug hef ég náð að festa mig í þremur mismunandi hópum.“

Pistil Annasar, sem má lesa í heild sinni hérna. Galdurinn að hans mati er að stunda hreyfingu með góðum hóp. „Farið og finnið ykkur einhvern hóp. Hringið í vini og vinkonur ykkar og fáið þau til að slást í för með ykkur. Hættið að reyna að gera þetta ein. Hópstarfið virkar miklu betur og er auk þess miklu skemmtilegra.“

Jón Ásgeir hyggur á stórfellda endurkomu

|
Jón Ásgeir Jóhannesson

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum forstjóri og eigandi Baugs, óskaði á dögunum eftir stjórnarsæti hjá Högum hf. sem hann missti eftir að Baugur Group var lýst gjaldþrota í mars árið 2009.

Eins og kunnugt er tók Arion banki Haga hf. yfir eftir bankahrunið í óþökk fyrrum eiganda þess. Í dag ráða íslenskir lífeyrissjóðir yfir um 40% hlutafjár Haga hf. og samkvæmt heimildum Mannlífs leggjast þeir gegn því að Jón Ásgeir fái að setjast í stjórn fyrirtækisins. Stærstu eigendur Haga hf. eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) með 13,75% hlut og lífeyrissjóðurinn Gild með 12,50% hlut.

Árið 2013 var Jón Ásgeir dæmdur fyrir skattalagabrot er snéri að rekstri Baugs og Gaums og hlaut 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og var gert að greiða 62 milljón króna sekt. Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti síðan þann dóm á síðasta ári og þurfti Jón Ásgeir því ekki að greiða sektina og var jafnframt dæmdar tvær milljónir króna í bætur.

Árið 2008 dæmdi Hæstiréttur Jón Ásgeir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna brots á bókhaldslögum. Það þýddi að honum var óheimilt að sitja í stjórn fyrirtækja á Íslandi í þrjú ár, sbr. 66. grein laga um hlutafélög.

Honum er hins vegar heimilt í dag að setjast í stjórn hjá fyrirtækjum hérlendis en hann hefur að mestu haldið sig frá íslensku viðskiptalífi frá bankahruni. Heimildir herma hins vegar að hann ætli sér stóra hluti á íslenskum matvælamarkaði á næstu árum. Þegar hann stofnaði Bónus með föður sínum árið 1989 tókst þeim feðgum að umbylta íslenskum matvælamarkaði. Miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu með tilkomu Costco. Það sést á sameiningu Haga við Olís hf. annars vegar og hins vegar Festa hf. og olíufélagsins N1.

Baugur stærsti viðskiptavinur hinna föllnu banka

Segja má að viðskiptasaga Jóns Ásgeirs hafi hafist árið 1989 þegar hann hætti í Verzlunarskóla Íslands til þess að koma lágvörurversluninni Bónus á laggirnar með föður sínum. Árið 1992 keypti síðan Hagkaup helmingshlut í Bónus og árið eftir varð Baugur Group til.

Í bókinni Ævintýraeyjan segir síðan Ármann Þorvaldsson frá því þegar Jón Ásgeir kom til Kaupþings árið 1998 og keypti afkomendur Pálma Jónssonar út úr Baugi Group. Þá þykir áhugavert að Ármann starfar í dag sem forstjóri Kviku banka sem sumir kalla nýja Kaupþing. Er einmitt talið að Kvika standi að baki Jóni Ásgeiri. Hlutur hans í Högum hf. sé stærri í dag en hluthafalisti félagsins segi til um. 365 miðlar hf. eru skráðir fyrir 2,76% hlut og Kvika banki er skráð fyrir 1,01% hlut.

Kaupþing fjármagnaði einnig mikið af fjárfestingum Baugs Group í Bretlandi í tískufyrirtækjum. Kaupþing og Baugur voru sem dæmi saman hluthafar í félaginu Mosaic Fashion sem átti td. Karen Millen, Warehouse, Oasis, Coast. Mosaic Fashion fór í greiðslustöðvun á sama tíma og Baugur Group.

Ármann Þorvaldsson var einmitt forstjóri Singer & Friedlander í Bretlandi sem Kaupþing stýrði fram að hruni. Við fall íslensku bankanna skuldaði Gaumur ehf. og tengd félög Kaupþingi 103 milljarða króna, Landsbankanum 96 milljarða króna, Glitni 55 milljarða króna, Straumi Burðarás 23 milljarða króna eða tæplega 300 milljarða króna samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þá skuldaði FL Group og tengd félög íslensku bönkunum 165 milljarða króna.

Þá má nefna að félag Baugs sem hét BH Holding skuldaði Landsbankanum 50 milljarða króna við bankahrunið. Verðmætustu eignir BG Holding voru í Bretlandi í verslanakeðjunni Iceland Foods, House of Fraser, Hamleys og fleiri félögum

Árið 2016 greindi Stundin frá því að á grunni hinna svokölluðu Panamaskjala hafi verið hægt að rekja milljarðaslóð Jóns Ásgeir og Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu hans í skattaskjól. Þannig hafi félagið Moon Capital S.A. sem var um tíma helsti hluthafi 365 eftir hrun borgað upp skuldir upp á 2,4 milljarða króna við Glitni. Var greitt með íslenskum ríkistryggðum íbúðabréfum og lagt inn hjá reikning Glitnis í Lúxemborg í júní árið 2010. Þó auðævi Jóns Ásgeirs og Ingibjargar séu töluverð enn í dag verður að telja líklegt að ef Jón Ásgeir ætli sér að koma aftur inn í íslenskt viðskiptalíf verði það að stórum hluta fjármagnað með lánsfé frá íslenskum bönkum. Þar er auðvitað Kvika banki helst nefndur.

Átök um Haga framundan

Fastlega má búast við því að átök verði fram undan um ítök hjá Högum hf. og á það ekki bara við um hluthafafund félagsins sem haldin verður á föstudaginn næstkomandi. Tilnefninganefnd hjá Högum hf. hyggst ekki tilnefna Jón Ásgeir í stjórn. Þeir sem nefndin leggur til eru Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson.

Eiríkur S. Jóhannsson er stjórnarformaður Samherja og líkt og margir þekkja unnu Jón Ásgeir og Þorsteinn Már Baldvinsson, annar af aðaleigendum Samherja náið saman í íslensku viðskiptalífi fyrir bankahrunið. Það hófst þegar þeir stofnuðu Orca hópinn árið 1999 sem fjárfesti í fyrsta bankanum sem íslensk stjórnvöld einkavæddu, Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA). Jón Ásgeir náði yfirtökum á Glitni banka vorið 2007. Í febrúar 2008 vék Þorsteinn M Jónsson sem stjórnarformaður bankans og við tók Þorsteinn Már Baldvinsson.

Samherji hf. fer í dag með 9,26% hlut í Högum hf. og FISK-Seafood ehf. með 4,57% hlut. Þessi félög eignuðust hlut í Högum hf. við sameiningu við Olíuverlzun Íslands (Olís). Samherji og Fisk-Seafood eignuðust 75% hlut í Olís árið 2012 þegar Landsbankinn seldi þeim hlutinn í olíufyrirtækinu.

Heimildir Mannlífs herma að Þorsteinn Már Baldvinsson ætli sér að taka þátt í þeirri innkomu sem Jón Ásgeir hyggur á í íslensku viðskiptalífi á næstunni. Segja má að mannorð þeirra beggja hafi nú verið hreinsað á síðasta ári. Jóns Ásgeirs þegar Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti dóm Hæstaréttar frá árinu 2013 og Þorsteins Más þegar Hæstiréttur ógilti þá stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn hafði lagt á Samherja hf. vegna rannsóknar á meintum gjaldeyrisbrotum sjávarútvegsfyrirtækisins.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hversu góður er góður díll?

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

SKOÐUN Nú í upphafi árs, að loknum stórhátíðum, hefur löngum verið hefð fyrir miklum útsölum. Þó hefur töluverð breyting verið á undanfarin misseri þar sem sífellt fleiri tilboðsdögum er skellt á með reglulegu millibili yfir árið, eins og til dæmis föstudagsfárinu í lok nóvember, sumar-, vetur- vor- og haustútsölum, og kaupæðisköst eru þess á milli. Þá dynja jafnan á okkur auglýsingar um þá félaga Tilboð, Spottprís og Afslátt.

Útsölur eru ávanabindandi, jafnt fyrir framleiðendur, seljendur og kaupendur. Framleiðendur og verslanir þurfa að ná skammtímamarkmiðum um sölutölur og lækka til þess verð, en ganga þannig á langtímavirði varanna sem þær selja. Og neytendur læra að bíða með að versla þar til varan fæst á útsölu. „Og hvað er að því?“ gæti einhver spurt? Hverjum finnst ekki eftirsóknarvert að fá „góðan díl“?

Frá því á steinöld hefur maðurinn hlaupið á eftir „góðum díl“. Hann hljóp á eftir særðum dýrum sem segja má að hafi verið ígildi afsláttar þar sem það útheimti minni orku að ná þeim en þau hraustu og sprettharðari. Síðar beislaði maðurinn náttúruna og fór að ala dýr þar sem það útheimtir enn þá minni vinnu en að elta þau. Það var sem sagt afsláttur af fyrri háttum. Sama má segja um útsölur dagsins í dag – við hlaupum á eftir því sem við teljum okkur geta fengið með minni fyrirhöfn en ella. En stundum hlaupum við á eftir tilboði, án þess að hugsa til enda hvort okkur vanti í raun og veru það sem við getum klófest á góðum kjörum.

Þá þurfum við líka að velta fyrir okkur hvort við þurfum allt sem við kaupum. Sækjumst við hugsanlega meira eftir því að ná góða dílnum, en því sem nemur notagildi hins keypta?

En eru bestu kaupin alltaf best? Neytendasamtökunum berast því miður tilkynningar um að einhverjar verslanir hafi stundað það að hækka vöruverð rétt fyrir útsölur, einungis til bjóða þær á útsöluverði. Slíkt er náttúrlega ekki góðir viðskiptahættir og brjóta í bága við lög. En sannleikurinn er sá, að í þeirri ofgnótt upplýsinga sem við lifum, er oft erfitt að átta sig á því hvað sé „góður díll“.
Fatnaður er gott dæmi um vörur sem reglulega eru seldar í miklu magni á útsölum og á hverju ári eru flutt inn um 12 kíló af textílvörum á hvern Íslending. Á sama tíma hendum við um 10 kílóum á mann af fötum á ári. Með tilliti til sótspors og kostnaðar sem af þessu hlýst fyrir okkur sjálf og umhverfið komumst við ekki hjá því að spyrja okkur sjálf hvort þetta sé ekki ofneysla.

Að eyða til þess að græða, gengur einfaldlega ekki upp og við þurfum ekki að kaupa þá fullyrðingu. Hún er ekki góður díll, hvorki fyrir neytendur né umhverfið.

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.

Mynd: Haraldur Guðjónsson

Mætti á landsleik í grýlubúningi

||
||

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, hefur fylgt landsliðinu í handbolta á fjölmörg stórmót og má með sanni segja að hann sé einn af dyggustu stuðningsmönnum liðsins. Hann verður að sjálfsögðu í stúkunni núna ásamt félögum sínum og þeir eru það bjartsýnir á gengi liðsins að þeir eiga miða á milliriðilinn.

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, er einn dyggasti aðdáandi liðsins.

„Þetta verður besta mót Íslands í nokkurn tíma og 5.-7. sætið verður okkar,“ svarar Guðni Már hress í bragði þegar hann er beðinn um að spá fyrir um gengi Íslands á mótinu. „Geir Sveinsson gaf ungum strákum séns og lagði mikilvægan grunn fyrir Guðmund [Guðmundsson], það er uppgangur núna og gaman að sjá hversu faglega er unnið með unglingalandsliðin, en ég held að Gísli [Þorgeir Kristjánsson] og Elvar [Örn Jónsson] muni eiga gott mót.“

Teigaði lítra af bjór
Guðni Már hefur farið á HM, EM, undankeppni Ólympíuleika og Ólympíuleikanna í London. Þeir fara alltaf nokkrir vinir saman á mótin en ef Ísland kemst á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 er draumurinn að fara fjölskylduferð. Guðni segist ekki fara árlega en eins oft og ráð og tími vinnst til. Hann hefur því orðið vitni að mörgum ævintýralegum augnablikum. „Ég hef tvisvar séð Ísland vinna Frakkland sannfærandi, í Magdeburg 2007 og á Ólympíuleikunum 2012, stemningin á þeim leikjum var engu lík. Viðbrögð frönsku stuðningsmannanna í kringum okkur þegar Björgvin Páll varði með Youtube-markvörslu á Ólympíuleikunum gleymast ekki.“

Í síðari hálfleik var næstum liðið yfir mig vegna ofþornunar og er enn er sagan sögð þegar ég, hrifsaði líters bjórkrús af vini mínum og teygaði í einum sopa. Ég drekk ekki bjór en hefði sennilega teigað lítra af smurolíu á þessum tímapunkti, slíkur var þorstinn,“

Eitt eftirminnilegasta atvikið er frá HM 2007 í Magdeburg. „Mikið var rætt um að Alfreð Gísla hefði í aðdraganda mótsins stútað Svíagrýlunni svokölluðu með því að gersigra Svía. Þar sem ég á forláta grýlubúning mönuðu vinir mínir mig til að mæta í honum á landsleik, ég sagðist til ef ákveðin upphæð safnaðist til góðgerðarmála. Þeir sáu til þess að upphæðin safnaðist fljótt og ég gat ekki skorast undan. Grýlubúningurinn og öll sú múndering er ekki ákjósanleg til að vera í mikilli mannþröng innandyra í 18.000 manna höll. Í síðari hálfleik var næstum liðið yfir mig vegna ofþornunar og er enn er sagan sögð þegar ég, hrifsaði líters bjórkrús af vini mínum og teygaði í einum sopa. Ég drekk ekki bjór en hefði sennilega teigað lítra af smurolíu á þessum tímapunkti, slíkur var þorstinn,“ segir Guðni Már hlæjandi en handboltaáhugi hans kviknaði fyrir alvöru þegar Ísland sigraði B-leikana árið 1989. „Handbolti er skemmtilegasta sjónvarpsíþróttin, hraður leikur og þótt annað liðið sé fimm mörkum yfir og 10 mínútur eftir getur enn allt gerst.“

Eftir sigurleik á Frökkum á Ólympíuleikunum 2012 í London. Frá vinstri: Kjartan Ólafsson Vídó, Ástþór Ágústsson, Guðni Már og Gústaf Kristjánsson.

Unnu bara einn leik
Spurður hvort hann hafi sjálfur æft handbolta játar hann með semingi. „Já, en ég er mun betri í að tala um handbolta en stunda. Ég æfði einn vetur með ÍA á Akranesi með stórkostlegum karakterum. Það væri hægt að gera bíómynd í anda The Mighty Ducks um þetta lið, handritshöfundur yrði þó að fjölga sigurleikjum frá raunveruleikanum, því þó að við elskuðum að spila þá unnum við bara einn leik allan veturinn. Það var þegar hitt liðið var varamannalaust og tveir hjá þeim meiddust í leiknum svo við mörðum sigur eftir að við urðum tveimur fleiri. Svo æfði ég með Fylki í um tvo vetur, var settur á línuna en fyrsti kostur á línunni þar var öðlingurinn Róbert Gunnarsson, besti sóknarlínumaður Íslands fyrr og síðar. Val þjálfarans var einfalt, viltu Súpermann eða Crusty the Clown á línuna?“

Guðna líður því betur í stúkunni og hefur í gegnum tíðina kynnst mörgum sem tengjast liðinu á einn eða annan hátt. „Ísland er lítið og því hafa margir orðið á leið manns í gegnum lífið, þeir eru þó flestir hættir nema skólabróðir úr menntaskóla, Guðjón Valur, sem er náttúruundur og valmenni. Svo hafa leiðir okkar Björgvins Páls legið saman en hann og Karen eiginkona eru mér góðar fyrirmyndir á ýmsan hátt. Að öðrum ólöstuðum er samt uppáhaldshandboltamanneskjan mín Ólafur Stefánsson. Magnaður íþróttamaður og djúpvitur lífskúnstner sem hugsar út fyrir kassann.“

Aðalmynd: Í Magdeburg 2007 þar sem Guðni fór í grýlubúninginn. Frá vinstri: Kjartan Vídó Ólafsson, Guðni Már, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Arnar Ragnarsson og Ólafur Jóhann Borgþórsson.

 

Gekk af sér fæturna yfir hátíðarnar

Drengirnir í hljómsveitinni Dúndurfréttir halda tónleika 18. janúar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Við heyrðum í Pétri Erni Guðmundssyni, tónlistarmanni og söngvara Dúndurfrétta.

„Þetta verða svona bland í poka-tónleikar,“ segir Pétur. „Við verðum með úrval af klassísku rokki á borð við Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple, Kansas, Boston, Queen og jafnvel smávegis Bítlatónlist.“

Hvernig komstu undan hátíðunum? „Ég kom vel undan hátíðunum því ég var í Washington og New York frá Þorláksmessu til þrettánda. Gekk af mér fæturna og skoðaði fjölmörg söfn af ýmsu tagi.“

Hvernig leggst árið í þig? „Það er mikið fram undan hjá okkur í Dúndurfréttum því við erum að fara að flytja Pink Floyd-plötuna The Wall í heild sinni í apríl í Eldborg með öllu tilheyrandi. Svo verður hin hljómsveitin mín, Buff, 20 ára á árinu og við ætlum að koma með nýtt frumsamið efni. Ég kem líka einn fram með kassagítarinn út um allt við allskyns tilefni og er einmitt þessa dagana að bóka mig á fullu. Svo er ég mikið á Snapchat en snappið mitt er gramedlan,“ segir Pétur fullur tilhlökkunar fyrir árinu.

Miða á tónleikana má nálgast á midi.is.

Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Twitter-vináttan varð að fyrirtæki

cof

Vinátta þeirra Ragnheiðar Axel Eyjólfsdóttur og Liljars Más Þorbjörnssonar kviknaði á Twitter en þróaðist þannig að tveimur árum síðar höfðu þau stofnuðu þau fyrirtækið Og natura.

„Við kynntumst á Twitter. Þannig urðum við fyrst vinir og komumst fljótlega að því að við vorum nágrannar og höfðum svipuð áhugamál, svo sem pizzur, bjór og hunda,“ segir Ragnheiður, einn eigandi Og natura.

Einn daginn bráðvantaði Ragnheiði pössun fyrir hundinn sinn og óskaði eftir slíkri á Twitter, það endaði með því að Liljar bauð fram aðstoð sína. „Þá höfðum við þekkst örugglega í ár en aldrei hist. Við hittumst sem sagt fyrst í raunheimi þegar ég fór með Atari hundinn minn í  viku pössun til Liljars. Eftir það erum við búin að vera perluvinir.“

Umhverfisvænt brugghús

Seinna meir, í spjalli yfir pítsu og bjór, spratt upp sú hugmynd hjá Ragnheiði og Liljari að búa til áfenga drykki.

„Fjölskyldan mín á fyrirtækið Íslensk hollusta og við erum með gríðarlegt magn af villtum jurtum, þangi og berjum. Mikið magn berja er vannýtt á Íslandi og okkur langaði að skapa verðmæti úr þeim, þannig að okkur Liljari langaði að búa til bjór sem dansar á línunni við að vera náttúruvín. Þá fór þetta allt saman að rúlla og við fórum í kjölfarið að framleiða íslenskt vín. Krækiber hafa lengi verið nýtt til að gera vín hérlendis og í raun eina hefðin í íslenskri víngerð,“ segir Ragnheiður.

Mikið magn berja er vannýtt á Íslandi og okkur langaði að skapa verðmæti úr þeim.

Í dag hafa þau Liljar ásamt fjölskyldu Ragnheiðar stofnað fyrirtækið Og natura sem sérhæfir sig í framleiðslu áfengra drykkja úr íslensku hráefni. „Við leggjum áherslu á að nota náttúrlegt hráefni og sem minnst af kemískum efnum, einnig er brugghúsið okkar er heitavatnsknúið og umhverfisvænt.“

Ragnheiður segir fólk hafa mikinn áhuga á náttúruvíninu sem þau Liljar framleiða. „Til dæmis hefur krækiberjavínið okkar vakið lukku og er fyrsti árgangur nánast uppseldur,“ segir hún kát.

Mynd / Frikkx

Er ekkert rosalega hrifin af reglum

Margrét Seema Takyar er einn efnilegasti leikstjóri landsins. Hún hefur búið í New York síðustu 15 ár, og 4 ár þar undan í London en hefur nú verið með annan fótinn á Íslandi síðustu ár og unnið að ýmsum spennandi verkefnum. Meðal annars leikstýrði hún þáttaröðinni Trúnó, en sería tvö fer í loftið í lok janúar.

Margrét Seema, sem er hálfindversk, hefur búið erlendis meirihluta ævi sinnar en hefur að eigin sögn ávallt verið mjög stolt af því að vera íslensk. Hún er nú komin með fast heimilisfang hér á landi sem hún segir hafa verið stórt skref.

„Það voru í raun örlögin sem réðu því að ég ákvað að vera meira heima. Ég ætlaði bara koma í stutt stopp til að endurnýja bandaríska atvinnuleyfið mitt og fá einn einfaldan stimpil í passann. En í miðju því ferli var Trump valinn forseti og allt kerfið fór á haus. Ég í raun festist hérna á Íslandi í næstum níu mánuði. Þá gripu örlögin í taumana, ég varð ástfangin af manni og ég ákvað að taka séns á því ævintýri og sé ekki eftir neinu. Finnst hann enn þá jafnmikið æði og mér fannst þegar ég hitti hann fyrst. En New York er í raun enn þá heima að mörgu leyti.

En í miðju því ferli var Trump valinn forseti og allt kerfið fór á haus.

Ég er enn þá þar um 40% af árinu, enda bæði með sterkt tengslanet og vináttu sem heldur manni þar. Síðustu ár hef ég unnið við kvikmyndatöku, ljósmyndun, skriftir og leikstjórn á Íslandi, í Bandaríkjunum og verið mikið í Asíu, Afríku og eitthvað í Japan líka. Ég er mikil flökkusál þannig að þessi vinna og lífsstíll sem fylgir henni hefur átt mjög vel við mig. New York er borg þar sem mér hefur alltaf liðið vel enda tekur hún mjög vel á móti flökkusálum eins og mér, þannig að það að kveðja hana fyrir fullt og allt er ekkert á döfinni.“

Mydn / Hallur Karlsson

Get ekki hugsað mér að gera neitt annað

Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún leiddist út í leikstjórn segist Margrét Seema alltaf hafa viljað segja sögur og verið heilluð af hegðun fólks, að setja fólk í aðstæður þar sem raunveruleiki og fantasía blandast saman.

„Ég sé oft heiminn í gegnum auga ljósmyndarans þar sem lýsing, hreyfing, litir og skrýtnar aðstæður eru í aðalhlutverki í bland við sögu sem mig langar að segja. Þessi samsetning leiddi mig einhvern veginn í starfið mitt í dag. Auðvitað er þetta stundum kæfandi raunveruleiki en líka oft ótrúlega gefandi og þessu fylgir í raun jafnmikil leikgleði sem og hugarangur, en mér finnst það þess virði enda get ég eiginlega ekki hugsað mér að gera neitt annað.

Ég fór hins vegar alls kyns krókaleiðir áður en ég fann mig í kvikmyndaforminu og prófaði mig áfram með ýmis listform í gegnum árin, dans, ljósmyndun, skrif, leikhús og lýsingu. Það hefur algjörlega mótað mig og haft áhrif bæði á minn stíl, vinnu og hvernig ég nálgast leikstjórn og kvikmyndatöku.“

Ég hef stundum heyrt að ég búi yfir ákveðnum sjarma sem getur bæði komið að notum en líka komið mér í vandræði.

Viðtalið við Margréti Seemu má finna í 2. tölublaði Vikunnar.

Aðspurð hvort henni finnist kvikmyndaiðnaðurinn karllægur bransi, svarar Margrét Seema að heimurinn sé almennt karllægur alveg sama hvaða bransa eða starfi maður gegni.

„Mér hefur hins vegar alltaf fundist þeir listamenn sem búa til sjónvarpsseríur, kvikmyndir og bækur hafi frábær tækifæri að búa einmitt til sögur og persónur sem hrista upp þessari tölfræði og búa til nýtt samtal.  Og auðvitað eru margir, bæði konur og menn í kvikmyndabransanum sem markvisst vinna að því að bæði bæta jafnréttið bak við vélina og fyrir framan hana. Ég hef líka oftast reynt að sjá þetta einmitt sem tækifæri að hugsa út fyrir ákveðinn ramma til að verða betri í mínu.

Ég er ekkert rosalega hrifin af reglum, sérstaklega reglum sem eru gerðar til að halda óbreyttu ástandi. Ég hef stundum heyrt að ég búi yfir ákveðnum sjarma sem getur bæði komið að notum en líka komið mér í vandræði, en þetta tvennt eru örugglega stórar ástæður fyrir því að ég geri það sem ég geri í dag,“ segir Margrét Seema Takyar.

Viðtalið við Margréti má lesa í heild sinni í 2. tölublaði Vikunnar.

Myndir / Hallur Karlsson

Buxur á röngunni nýjasta tíska

|
|

Tískuverslanir reyna nú að koma gallabuxum sem líta út fyrir að vera á röngunni í tísku. En hinn almenni neytandi virðist ekki vera spenntur.

Nýjar buxur frá breska merkinu Boohoo hafa vakið mikla athygli síðan þær voru settar á sölu. Um gallabuxur er að ræða en það sem er óvenjulegt við buxurnar er að þær eru hannaðar þannig að þær líta út fyrir að vera á röngunni. Buxurnar sem um ræðir fást á vef Boohoo og kosta 22 pund sem gerir um 3.500 krónur.

Buxurnar virðast ekki vera að höfða til hins hefðbundna neytenda eins og sjá má í athugasemdakerfum á samfélagsmiðlum Boohoo.

Þetta er svo heimskulegt.

„Borgaðir þú fyrir að klæðast buxum á röngunni þegar þú hefðir getað gert það ókeypis,“ skrifaði einn tískuunnandi við mynd á Instagram-síðu Boohoo. „Ég mun aldrei kaupa svona hræðilegar gallabuxur,“ skrifaði annar. „Þetta er svo heimskulegt,“ sagði enn annar.

Annar Instagram-notandi benti á að þeir sem klæðast þessum buxum líta út fyrir að hafa klætt sig í myrkri.

En tískuverslunin Boohoo er ekki eina verslunin sem selur gallabuxur á „röngunni“ um þessar mundir því á vefnum Farfetch er hægt að kaupa gallabuxur sem virðast vera á röngunni frá merkinu Unravel Project. Þær buxur eru töluvert dýrari og kosta um 40.000 krónur á útsölu.

Fjárfesti í 188.000 króna kremi úr eigin blóði

|
|

Victoria Beckham keypti sér óvenjulegt húðkrem á dögunum sem húðlæknir bjó sérstaklega til fyrir hana.

Hönnuðurinn Victoria Beckham splæsti í húðkrem á dögunum. Það væri ekki frásögu færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að kremið inniheldur frumur úr hennar eigin blóði og ein krukka af kreminu kostar 1.200 pund sem gerir um 188 þúsund krónur.

Það er Dr. Barbara Sturm sem bjó kremið til fyrir Victoriu en hún er þekkt fyrir að framkvæmda svokallaðar „vampíru“ andlitsmeðferðir. Það sem felst í þeirri andlitsmeðferð er að blóð fólks er borið með ákveðnum aðferðum á andlitið og á þetta að hafa yngjandi áhrif á húðina.

Victoria greindi sjálf frá þessu á Instagram. Þar sagðist hún nota kremið bæði kvölds og morgna og að það hefði bólgueyðandi og frískandi áhrif á húðina.

Victoria mun hafa kynnst þessum óvenjulegu húðvörum þegar hún fór með sjö ára dóttir sína í andlitsbað fyrir börn til Dr. Sturm í Þýskalandi. Þessu er sagt frá á vef Hello! Magazine.

Victoria Beckham sagði frá húðvörum Dr. Sturm á Instagram.

Miðflokksmenn sniðganga nefndarfund og fordæma upptökur af Klaustur bar

Þingmenn Miðflokksins, formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson mættu ekki á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem nú stendur yfir.

Til fundarins var boðað vegna upptaka af Klaustur bar þar sem m.a. mátti heyra Gunnar Braga og Sigmund Davíð Gunnlaugson tala frjálslega um skipanir í sendiherrastöður. Auk þess sem þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi, samflokkskona þeirra og tveir fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins hæddust þar að konum, minnihlutahópum og samstarfsfólki sínu á Alþingi.

Þingmennirnir sendu báðir frá sér harðorðar yfirlýsingar sem Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður nefndarinnar, las upp í byrjun fundar, en í yfirlýsingu Gunnars Braga kemur m.a. fram að hann ætli ekki að taka þátt í sýningu sem sé haldinn til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Tekur Sigmundur Davíð í svipaðan streng. „Ég tel óforsvaranlegt að formaður nefndarinnar ætli að halda fund til að ræða ályktanir sem að hún vill sýnilega draga af illa sundurklipptum hlljóðklippum af veitingahúsaspjalli sem aflað var með refsiverðum hætti.“ Í yfirlýsingu sinni segir Sigmundur jafnframt ómögulegt að segja til um hvað hafi verið klippt úr og hvað hafi verið soðið saman á upptökunum.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, eru viðstaddir fundinn þar sem verið er að ræða skipan í sendiherrastöður.

Neytendastofa bannar villandi auglýsingu um húðvöru

Neytendastofa hefur bannað auglýsingar frá fyrirtækinu Törutrix ehf. þar sem fullyrt er meðal annars að húðvaran Golden Goddess andlits serum „vinni gegn bólum, roða, þrota og óþægindum í húð“. Einnig er fullyrt að húðvaran minnki dökka bletti í húð og dragi úr „hrukkulínum.“

Neytendastofu barst ábending í haust vegna fullyrðinga fyrirtækisins Törutrix ehf. um virkni húðvöru á þeirra vegum. Um var að ræða fullyrðingar í auglýsingum á vörunni Golden Goddess andlits serum.

Í auglýsingum á samfélagsmiðlum var húðvaran látin hljóma sem undrakrem með fullyrðingu sem hljómar svona: „Fullt af góðum náttúrulegum efnum. Gefur húðinni raka og næringu. Vinnur gegn bólum, roða, þrota og óþægindum í húð. Heldur húðinni ferskri, minnkar fínar hrukkulínur og styrkir húðina. Hreinsandi eiginleikar, minnkar svitaholur og endurnýjar húðina. 24karata gullagnir sem gefur húðinni ljóma. Lagar roða. Minnkar dökka bletti í húð.“

Neytendastofa óskaði þá eftir að eigandi fyrirtækisins sýndi fram á að fullyrðingarnar væru réttar en fékk ekki svar. Eftir ítrekun barst Neytendastofu þá bréf frá Törutrix ehf. þar sem fram komu upplýsingar um öryggisatriði vörunnar frá framleiðanda í Kína. En það dugði ekki til og þóttu þær upplýsingar ekki sanna að fullyrðingarnar um virkni undrakremsins væru sannar

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að fullyrðingar um að vöruna væru ósannaðar og veittu rangar upplýsingar um helstu einkenni vörunnar. Þá bannaði Neytendastofa auglýsingu og fyrirtækinu var gert að fjarlægja þær auglýsingar sem innihalda umrædda fullyrðingu af samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Ákvörðun Neytendastofu má lesa hérna í heild sinni.

Sjálfbær hönnun sem stenst tímans tönn

Danska hönnunarfyrirtækið Gejst var stofnað í Óðinsvéum í Danmörku árið 2013 af hönnuðunum Søren Nielsen og Niels Grubak Iversen. Ástríða fyrir endingargóðri hönnun var kveikjan að stofnun fyrirtækisins en fyrirtækið einsetur sér að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Markmiðið var að skora á hefðbundna nálgun og hönnunaraðferðir og skapa vörur sem stæðust tímans tönn bæði hvað varðar hönnunina sjálfa og efnisval.

Orðið gejst merkir eldmóður og er það grundvöllur fyrirtækisins sem endurspeglast í hönnuninni á metnaðarfullan hátt. Hönnun fyrirtækisins er innblásin af skandinavískum lífsstíl og samanstendur af alls kyns heimilisvörum sem fjölgar ár hvert.

Árið 2017 urðu breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins en þá gekk Thomas Heunicke til liðs við Gejst en hann hafði áður starfað fyrir By Lassen sem flestir þekkja. Á sama tíma seldi Niels Grubak Iversen hlut sinn í fyrirtækinu og leitaði á önnur mið. Snemma árs 2018 bættust svo Nadia Lassen og Peter Østerberg í hópinn en þau voru bæði hluthafar í By Lassen til ársins 2016. Gejst hefur einnig fengið til samstarfs við sig þekkta hönnuði á borð við Michael Rem og hönnunarteymið Böttcher & Kayser.

Vegglistaverk og segulmagnaður verðlaunastjaki

Ein fyrsta varan sem Gejst setti á markað er Underground-snaginn. Eins og nafn snagans gefur til kynna er hann innblásinn af neðanjarðarlestarkerfi Lundúna og sést það glögglega á lögun hans. Að sögn Gejst er ekki um neinn venjulegan snaga að ræða heldur þjónar hann tilgangi vegglistaverks á sama tíma og notagildið er ótvírætt. Snagarnir koma í mattri áferð, ýmist hvítir eða svartir og með eikarhnúðum.

Á undanförnum árum hefur Gejst verið hvað þekktast fyrir hönnun Michael Rem á Molekyl-kertastjakanum sem samanstendur af 40 stálkúlum í tveimur stærðum. Kúlurnar eru segulmagnaðar og er hægt að raða þeim saman á marga vegu. Hugmyndaflugið eitt ræður för og verða því engir tveir stjakar eins en einnig er hægt að raða fjórum stjökum saman og mynda prýðilegan aðventukrans. Stjakarnir koma í þremur litum; svörtu, króm og brass. Michael hlaut hönnunarverðlaunin German Design Award árið 2017 fyrir Molekyl-stjakann.

Smáhlutahillur og dulúðleg gróðurhús

Nýjustu vörurnar úr smiðju Gejst eru meðal annars Nivo-vegghillur, Nebl-gróðurhús og nýir litir og aukahlutir fyrir Flex-skipulagshillurnar. Allar þessar vörur eru nýkomnar á markaðinn eða væntanlegar á næstu vikum.

Nivo-vegghillurnar eru fyrsta hönnun þýska teymisins Böttcher & Kayser fyrir Gejst.

Nivo-vegghillurnar eru hannaðar af þýska teyminu Böttcher & Kayser fyrir Gejst.

Hreinar línur einkenna hönnunina og eru þær án alls óþarfaskrauts. Festingar eru úthugsaðar og hvergi sjáanlegar sem gefur hillunum fágaðra og stílhreinna yfirbragð.

Nebl er nokkurs konar gróðurhús hannað af Michael Rem. Nafnið er dregið af þýska orðinu Nebel sem merkir þoka og er hún aðalinnblástur hönnunarinnar. Gróðurhúsið samanstendur af keramikbotni sem plantan stendur á og kúpli úr möttu gleri og koma gróðurhúsin í tveimur stærðum og litum, svörtu og gráu. Gróðurhúsin hafa yfir sér dulúðlegt yfirbragð og verða fáanleg frá og með nóvember næstkomandi.

Flex-skipulagshillurnar koma nú í fleiri litum og til þess að svara eftirspurninni hafa fleiri aukahlutir litið dagsins ljós. Hillurnar eru segulmagnaðar og því auðvelt að festa hluti við þær en einnig er hægt að raða ofan á þær. Megintilgangurinn er að finna smáhlutum heimilisins pláss svo þeir fái að njóta sín hvað best á smekklegan hátt. Hillurnar henta vel í hvaða rými sem er, eldhúsið, skrifstofuna eða svefnherbergið svo eitthvað sé nefnt.

Gejst er ungt og upprennandi fyrirtæki sem vert er að fylgjast með en nú þegar hefur það skapað sér stóran sess í hönnunarheiminum og hlotið mikið lof fyrir vörur sínar.

Flex-skipulagshillurnar eru segulmagnaðar og því auðvelt að koma skikk á hlutina.
Underground-snaginn vísar í neðanjarðarlestarkerfi Lundúna.

 

Texti / Stefanía Albertsdóttir
Myndir / Frá framleiðendum

„Nokkrum númerum of flippaður“

Ásthildur Gunnarsdóttir starfar sem verkefnastjóri á stafrænu auglýsingastofunni SAHARA. Hún segir líf sitt einkennast af fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum en að fatastíllinn sé nokkuð stílhreinn.

„Ég er frekar gömul sál en bý yfir óbilandi áhuga á íþróttum. Ég er með sterka réttlætiskennd, mikla matarást, elska að syngja og hafa gaman en í mér blundar jafnframt nett fullkomnunarárátta,“ segir Ásthildur þegar hún er beðin um að lýsa sjálfri sér.

„Ég hrífst oftast af einföldum flíkum og er helst til of hrifin af svörtu þó að ég sé að vinna í að lífga upp á fataskápinn og velja bjartari liti. Ég nota oft yfirhafnir og kápur til þess að brjóta upp dökku litina en svo á ég reyndar líka mikið af líflegum kjólum sem ég tóna niður með einlitum jökkum.

Efst á óskalistanum er fallegt veski þar sem ég er sjálf ótrúlega léleg við að kaupa mér fylgihluti. Svo myndi ég ekki slá hendinni við öðrum fallegum kjól frá Yeoman. Ég á einmitt afmæli á næstunni og hver veit nema mér verði að ósk minni.“

Svo kaupi ég furðulega mikið af naglalakki miðað við hvað ég er löt við að nota það.

Aðspurð um furðulegustu kaupin nefnir Ásthildur svartan og gulan silkikjól. „Þetta voru jafnframt ein skemmtilegustu kaupin en kjólinn keypti mamma fyrir mig í versluninni Júníform en tilefnið var útskriftin mín úr BA-náminu. Ég horfði á kjólinn og hugsaði með mér að þessi væri nú nokkrum númerum of flippaður fyrir mig. Hvernig í ósköpunum myndi ég „púlla“ þessa liti. Hann reyndist svo eins og sérsniðinn á mig og kenndi mér að þora að vera smávegis öðruvísi. Að því sögðu finnst mér allra skemmtilegast að kaupa kjóla og aftur kjóla. Þar fyrir utan hef ég gaman af skókaupum og svo kaupi ég furðulega mikið af naglalakki miðað við hvað ég er löt við að nota það.“

„Flíkin sem hefur mesta tilfinningalega gildið fyrir mig er pels frá ömmu Ástu. Hún var kona með fallegan stíl og toppaði það með líflegum persónuleika. Pelsinn nota ég nánast bara við sérstök tilefni og þegar ég er í honum líður mér eins og hún sé aðeins nær mér.“
„Rauðu skórnir frá ömmu eru án efa minn eftirlætis fylgihluturinn.“
„Uppáhaldsflíkin mín er fjólublái Yeoman-kjóllinn sem ég fékk í jólagjöf frá Arnóri mínum um síðustu jól. Hann plataði mig í mátunarferð á aðventunni til að finna eitthvað sem mig langaði í. Ég mátaði örugglega hálfa búðina á meðan starfsfólkið bar í mig hvítvín og hrósaði dressinu og mér í bak og fyrir. Frábær upplifun!“
„Ég keypti mér á dögunum fallega kápu í Company‘s og kjól í H&M. Kjólar og kápur eru í miklu uppáhaldi og því var það borðleggjandi að bæta við í kápuflóruna svo ég ofnoti nú ekki þær yfirhafnir sem ég á, þá sérstaklega Birger et Mikkelsen-kápuna góðu. Svo langaði mig til að kanna hvernig ökklasíðir kjólar færu mér, en það er mikið um þá þessa dagana og þessi reyndist virka vel fyrir mig.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Góð kaup á útsölum

Nú eru útsölurnar í fullum gangi og hér eru nokkur góð ráð til að gera örugglega sem best kaup.

Mættu snemma

Algengustu stærðirnar og nýjustu vörurnar eru það sem fer fyrst á útsölunum. Ekki bíða of lengi svo þú eigir ekki á hættu að missa af því sem þú hefur hug á.

Vertu undirbúin/n

Hvað er það sem vantar í fataskápinn þinn? Ef þú veist að hverju þú leitar er líklegra að finna það inn á milli á troðnum fataslám eða í hillum búðanna. Leitaðu uppi klassískar, endingargóðar flíkur í góðum sniðum en forðastu kassana þar sem allt kostar fáeina hundraðkalla.

Ekki kaupa bara eitthvað

Hefurðu haft auga á tiltekinni flík eða skópari lengi? Kannaðu hvort hún sé komin á útsölu, þá ætti að vera auðvelt að réttlæta kaupin fyrir sér. Forðastu þau mistök að kaupa flíkina einungis vegna þess að hún er á afslætti. Ef þú myndir ekki kaupa hana á fullu verði áttu líklegast ekki eftir að nota hana mikið hvort sem er.

Kauptu aðeins það sem passar á þig

Ekki kaupa buxur sem þú „ætlar að passa í“ í sumar. Ef kápan er allt of þröng, ekki kaupa hana með það að markmiði að missa nokkur kíló til að passa í hana. Verðlaunaðu þig frekar með nýrri flík þegar markmiðum þínum hefur verið náð.

Kauptu sumarvörur í vetur – og öfugt

Á útsölum er oft hægt að gera frábær kaup á árstíðabundnum vörum. Við höfum orðið varar við góð tilboð á sumarvörum, á öllu frá strigaskóm upp í reiðhjól. Ef þú ætlar hvort sem er að fjárfesta í slíkum hlutum með hækkandi sól er ekki úr vegi að gera það núna. Í staðinn gætir þú notað sumarútsölurnar til að kaupa kuldagalla á börnin. Alltaf skrefi á undan, ha?

100% afsláttur – já, takk

Mundu að mesti sparnaðurinn er fólginn í því að kaupa ekki neitt. Eggjasuðuvél á 50% afslætti er á 100% afslætti ef þú sleppir því að kaupa hana. Það er fátt leiðinlegra en að eyða peningunum sínum í eitthvað sem fer beint upp í skáp og er bara fyrir. Sleppum því frekar.

Skoðaðu netverslanir

Troðnar verslunarmiðstöðvar og biðraðir eru ekki spennandi tilhugsun í augum margra. Oftast er hægt að gera jafngóð ef ekki betri kaup í netverslunum, bæði innlendum og erlendum. Komdu þér vel fyrir uppi í sófa með rauðvínsglas og kreditkortið að vopni og gerðu góð kaup.

Bestu augnablikin og sárustu vonbrigðin

||
||

Mannlíf rifjar upp nokkur af ánægjulegustu sigrunum og sárgrætilegustu vonbrigðunum sem íslenska karlalandsliðið í handknattleik hefur fært okkur áhorfendum í gegnum árin.

Ánægjulegustu augnablikin:

ÓL 2008: 2. sæti

Silfurdrengirnir okkar

Framganga strákanna okkar á Ólympíuleikunum í Peking haustið 2008 vakti víða mikla athygli, enda fátítt að svo fámenn þjóð komist á verðlaunapall í hópíþrótt og hvað þá í sjálfan úrslitaleikinn. Liðið spilaði líklega betur en nokkru sinni fyrr og síðar með Ólaf Stefánsson fremstan meðal jafningja, en fyrirliðinn lét sér ekki nægja að leika listir sínar á vellinum heldur kom hann með einkar sérstök og ástríðuþrungin tilsvör í viðtölum eftir leiki þar sem hvert orðskrípið og súrrealíska tilvísunin rak aðra. Enginn skildi neitt, nema þá kannski helst leikmaðurinn sjálfur, en öllum var sama. #takkoli.

Eftir því sem leið á leikana og fleiri stórþjóðir lutu í gras fyrir íslensku víkingunum stigmagnaðist stemningin heima fyrir og óhjákvæmilega fjölgaði í hópi frægðarfangara. Þeirra mest áberandi var forsetafrúin þáverandi Dorrit, sem lýsti því yfir í beinni útsendingu frá Kína að Ísland væri „stórasta land í heimi“ og bjó þannig til frasa sem þótti hnyttinn, varð vinsæll og skömmu síðar þreyttur. Úrslitaleikurinn fór fram eldsnemma á sunnudagsmorgni og þótt þeir fjölmörgu sem rifu sig á lappir (eða héldu sér vakandi) hafi vissulega orðið fyrir vonbrigðum með tap gegn firnasterku liði Frakka var þjóðarstoltið með 2. sætið ríkjandi tilfinning meðal landsmanna, eins og merkja mátti á málshættinum illskiljanlega „Gott silfur gulli betra“.

Þegar hetjurnar sneru heim frá Peking árið 2008 voru fálkaorður hengdar á leikmenn og þjálfara.

Þegar hetjurnar sneru heim að leikunum loknum voru fálkaorður hengdar á leikmenn og þjálfara, tugþúsundir fögnuðu í miðbæ Reykjavíkur og allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar með tölu tróðu sér upp á svið til að baða sig í sviðsljósinu með silfurdrengjunum, Valgeiri Guðjónssyni og Ladda. Hugsanlega hefðu ráðamennirnir betur eytt tímanum í annað, því mánuði síðar hrundi íslenska efnahagskerfið eins og það lagði sig.

Landvinningar handknattleikslandsliðsins standa þó upp úr frá þessum dimma tíma í sögu lands og þjóðar og er að margra áliti stærsta stund í íþróttasögu Íslands, í það minnsta fram að glæsilegum árangri karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM 2016.

B-keppnin 1989: 1. sæti

Gott gull silfri betra

Það var eitthvað sérlega krúttlegt við þann innilega fögnuð og einlægu gleði sem braust út á Íslandi þegar handknattleikslandsliðið sigraði Pólverja í úrslitaleik B-keppni heimsmeistaramótsins sem haldið var í Frakklandi í febrúar 1989. Engu skipti þótt liðið hefði í raun neyðst til að taka þátt í keppni þeirra næstbestu til að tryggja sér sæti á HM 1990 eftir slakan árangur á Ólympíuleikunum í Suður-Kóreu sumarið áður, við fögnuðum eins og um alvörusigur á HM hefði verið ræða enda var þetta í fyrsta sinn sem Ísland vann til gullverðlauna á alþjóðlegu móti og þjóðin fylkti sér að baki Bogdans þjálfara og Alfreðs Gíslasonar sem var valinn besti leikmaður keppninnar.

ÓL 1992: 4. sæti

Ævintýri líkast

Engin ánægja er eins ánægjuleg og óvænt ánægja, segir í ævafornu máltæki. Það átti sannarlega við um gengi íslenska landsliðsins á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992, þegar það tryggði sér 4. sæti þvert á afar hófsamar væntingar. Íslendingar komust bakdyramegin inn á leikana þegar þeim var boðið að hlaupa í skarðið fyrir Júgóslavíu, sem var meinuð þátttaka einungis þremur dögum fyrir mót vegna stríðsátaka í landinu. Flestum að óvörum náði liðið alla leið í undanúrslit, sem var þá besti árangur sem Ísland hafði náð.

Sárustu vonbrigðin:

HM 1995: 14. sæti

Í bláum skugga

Hið litla og stórhuga Ísland sótti um að fá að halda HM í handbolta árið 1993 en fékk þess í stað úthlutað keppninni 1995. Eftir á að hyggja má velta því fyrir sér hvernig farið hefði ef íslenska liðið hefði keppt á heimavelli tveimur árum fyrr, áður en öflugir burðarásar í liðinu lögðu skóna á hilluna. Í öllu falli er ljóst að það var ansi margt sem fór úrskeiðis í HM á Íslandi 1995. Miðasala sem var langt undir væntingum, langdregið karp um bjórsölu og tæknimál og óþolandi lukkudýr, álfurinn Mókollur, voru meðal atriða sem bliknuðu þó í samanburði við slælega frammistöðu íslenska liðsins. Eftir niðurlægjandi ósigur gegn Rússum í 16-liða úrslitum, 12-25, sem var stærsta tap Íslands á HM nokkru sinni, lauk liðið leik í 14. sæti sem var langt undir væntingum.

HM 1974: 14. sæti

Árið 1974 skellti liðið sér í hljóðver og söng inn á stuðningslagið Áfram Ísland! ásamt höfundinum Ómari Ragnarssyni og hljómsveitinni Hljómum.

Ómar og Hljómar

Það var hugur í Íslendingum í aðdraganda HM í handbolta sem haldið var í Austur-Þýskalandi í mars 1974 og stefnan leynt og ljóst sett á verðlaunapall. Liðið hafði marga gæðaleikmenn innanborðs, lék afbragðsvel í æfingaleikjum fyrir mót og leikjaprógrammið á HM þótti lofa góðu. Til að fanga bjartsýnina skellti liðið sér í hljóðver og söng inn á stuðningslagið Áfram Ísland! ásamt höfundinum Ómari Ragnarssyni og hljómsveitinni Hljómum frá Keflavík en þetta var í fyrsta sinn sem ráðist var í slíkt verkefni hérlendis.

Platan seldist vel og allt virtist í lukkunnar velstandi, en strax eftir lendingu í Þýskalandi kom upp flensufaraldur meðal leikmanna. Reynt var að fá fyrsta leik við Tékka frestað en það tókst ekki og eftir það gekk allt á afturfótunum. Íslenska liðið tapaði öllum leikjum sínum og 14. sæti á HM varð niðurstaðan sem þótti mikill skellur.

ÓL 2012: 5. sæti

Vítavert gáleysi

Ísland spilaði frábærlega í riðlakeppninni á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012 og vann alla leikina. Í 8-liða úrslitum vorum við einu marki yfir gegn Ungverjum og fengum vítakast þegar einungis tíu sekúndur lifðu leiks. Tíu stuttar sekúndur. Snorri Steinn Guðjónsson steig á punktinn til að freista þess að gulltryggja sætið í undanúrslitum en lét verja frá sér, Ungverjar brunuðu í sókn og jöfnuðu leikinn nánast á sömu stundu og lokaflautið gall. Ungverjar stóðu svo uppi sem sigurvegarar að loknum tvöfaldari framlengingu í einni mest pirrandi viðureign og sárasta ósigri Íslands frá því elstu menn muna.

Texti / Kjartan Guðmundsson

Stærsta óskin að hafa heilsuna í lagi

Söngkonuna Siggu Beinteins þekkja allflestir Íslendingar og hefur hún heillað okkur með smellum eins og Eitt lag enn, Vertu ekki að plata mig og Allt eða ekkert. Við forvitnuðumst um hvað er að óskalista söngkonunnar.

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Veistu, ég held að það sé ekkert sem mig dreymir um að eignast, draumurinn sem mig dreymdi alltaf var að eignast börn og sá draumur rættist fyrir sjö árum síðan – það var enginn draumur stærri og hann rættist.“

Ef þú ættir að óska þér einhvers í fataskápinn þinn hvað væri þá efst á óskalistanum? „Ég held að ég myndi vilja 365 dress í skápinn, að eiga til að spila í, það er alltaf stærsti höfuðverkurinn í hverju á að vera þegar maður kemur fram.“

Hvert myndir þú fara í ferðalag ef þú værir að fara í draumaferðina þína? „Ég held að draumaferðin væri til Ástralíu, eða Parísar en þangað hef ég aldrei komið – það gæti alveg verið að Ástralíudraumurinn rætist á þessu ári.“

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? „Í eldhúsið myndi ég helst óska mér að hafa kokk allan ársins hring, þá þyrfti ég aldrei að hugsa um hvað ég ætla að hafa í matinn, það væri mjög þægilegt.“

Stærsta óskin væri? „Stærsta óskin mín í lífinu er að fá að hafa heilsuna í lagi sem allra lengst.“

„Draumastóllinn minn væri Eggið,“ segir Sigga.

Áhrifaríkasta bók? „Ég er nú ekki mikill lestrarhestur, en mér fannst rosalega gaman og mjög áhugavert að lesa bókina um Ellyju Vilhjálms, þar sem farið er í gegnum ævi hennar. Enda hefur Elly verið í miklu uppáhaldi hjá mér síðan ég man eftir mér.“

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? „Draumastóllinn minn væri Eggið, hann er alltaf svo töff og tímalaus.“

Besta kaffihúsið? „Te og kaffi í Borgartúni, yndislegt að sitja þar og slaka á.“

Besti veitingastaðurinn? „Ég held ég verði að segja Sumac á Laugaveginum, bæði flottur staður og æðislegur matur.“

Fallegasti liturinn? „Hann er svartur, og ég kaupi iðulega svarta bíla.“

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? „Það væri gaman að eiga flott verk eftir Tolla, æðislegur listamaður.“

Fallegasta bygging á Íslandi? „Það er mikið til af fallegum byggingum á Íslandi og ég verð að nefna þrjár; Hallgrímskirkju, Hörpu og Akureyrarkirkju.“

Hvaða bíll er á óskalistanum og hvers vegna? „Að eiga geggjaðan jeppa, eins og til dæmis Toyota Landcruiser, en ég er mikil jeppakona, fer samt aldrei á fjöll en finn bara svo mikið öryggi á stórum bílum.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Brexit samningurinn felldur – hvað nú?

|
|

Breska þingið felldi Brexit samninginn áðan með miklum meirihluta atkvæða sem er stærsti ósigur forsætisráðherra í þinginu um langt skeið. Nei sögðu 432 – já sögðu 202.

Spurningin sem blasir við er: Hvað nú? Jeremy Corbyn formaður Verkamannaflokksins lýsti því yfir strax eftir kosninguna að hann myndi leggja fram vantrauststillögu á hendur Teresu May. Þingið þarf að kjósa um þá tillögu, verði hún lögð fram. Ef vantrauststillagan er samþykkt verður boðað til nýrra kosninga. Hins vegar standa líkur til þess að May standist vantraust. Ef svo ólíklega vildi að hún yrði samþykkt og nýjar kosningar færu fram myndu Bretar geta sótt um framlengingu á útgöngu skv. 50. gr. sáttmála Evrópusambandsins. Sem og ef boðað verður til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ný ríkisstjórn væri líkleg til að koma fram með ný samningsmarkmið sem leiðir til þess að efni Brexit samningsins yrði annað, það er að segja ef Evrópusambandið er viljugt til að semja upp á nýtt. En ný samningsmarkmið er hægt að móta án þess að fara í kosningu það er ef May velur að starfa með Verkamannaflokknum að nýjum samning. Erfitt er að segja hvað kæmi nákvæmlega út úr því og ólíklegt að það næðist málamiðlun milli aðila.

Verkamannaflokkurinn hefur viljað tollabandalag við ESB sem Íhaldsflokkurinn hefur að stofni til verið á móti. Að minnsta kosti er ólíklegt að sátt um ný samningsmarkmið næðist innan þess tímafrest sem liggur fyrir.

Bretar klofnir í afstöðu sinni

Ríkisstjórnin er í öllu falli veik og nú liggur málið hjá þinginu. Þingið hefur einnig þann valmöguleika að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu og breska þjóðin kosið að nýju. Sú lausn nýtur fylgist flokka til vinstri og hægri. Í slíkri kosningu gætu Bretar komist að þeirri niðurstöðu að vera áfram í Evrópusambandinu. Kannanir sýna að aðeins naumur meirihluti sé með því að vera áfram. Bretar eru því enn klofnir í afstöðu sinni til málsins þrátt fyrir þá ringulreið sem ríkir vegna málsins.

Enginn samningur er annar möguleiki. Það eru einkum fylgjendur harðlínu Brexit sem virðast vilja „No deal Brexit“ ef marka má umræðuna, þingið og þjóðina en það er ekki útilokað að það verði niðurstaða málsins enda ekki meirihluti fyrir annarri lausn hjá þinginu. Það kann þó að breytast eftir að samningurinn var felldur í dag.

Þá hefur verið rætt að fá nefnd lögfræðinga til að taka yfir og ráðleggja ríkisstjórninni en það er óljóst hvert umboð slíkrar nefndar væri.

Engin afgerandi lausn er því í sjónmáli á Brexit ringulreiðinni. Í öllu falli er engin lausn sem liggur á borðinu pólitískt góð fyrir framtíð Theresu May og núverandi ríkisstjórn.

Sjá einnig: Besta lausnin á Brexit vandanum

Ákveðin list að geta haldið mönnum gangandi

|
|

Brynjólfur Jónsson bæklunarsérfræðingur hefur verið læknir íslenska karlalandsliðsins í handbolta í tæp 30 ár og fylgir nú liðinu á fyrri hluta HM í Þýskalandi. Hann hefur staðið í ýmsu í gegnum árin þegar eitthvað hefur út af borið.

„Það er náttúrlega ákveðin list að geta haldið mönnum gangandi. Það er ekki hægt að senda þessa menn heim og segja þeim að fara í frí. Það gengi náttúrlega aldrei,“ segir Brynjólfur.

Brynjólfur Jónsson bæklunarsérfræðingur er farinn til Þýskalands á HM og er tilbúinn ef eitthvað kemur upp á. „Það eru tveir leikmenn meiddir en það var tilkynnt daginn áður en við héldum út fyrr í vikunni að Aron Rafn og Guðjón Valur færu ekki með. Þetta er vissulega áfall,“ segir Brynjólfur.

Það hefur ýmislegt komið upp á á þeim tæplega 30 árum sem Brynjólfur hefur verið læknir íslenska karlalandsliðsins í handbolta. „Menn hafa slasað sig og það hefur oft þurft að fara með menn á sjúkrahús. Á einu mótinu var svo mikið að gera að ég gat aldrei borðað kvöldmat með liðinu. Ég hef þurft að taka þátt í ýmsu, bæði lækningum á staðnum og deyfingum og hef haldið mönnum gangandi með aðstoð sjúkraþjálfara en þetta er náttúrlega teymi og sjúkraþjálfarar verða alltaf betri og betri. Ég get ekki bjargað allt of miklu einn. Það var þó til dæmis enginn sjúkraþjálfari með liðinu á Ólympíuleikunum árið 1992 og ég bjargaði þessu öllu sjálfur.“

Brynjólfur segir að alvarlegasta atvikið á hans ferli hafi átt sér stað í Sviss árið 2006 þegar leikmaður steinrotaðist á vellinum. „Við þurftum að koma honum strax á sjúkrahús og hann rankaði ekki við sér fyrr en eftir eina til tvær klukkustundir. Svo hafa verið brjóstkassaáverkar sem hafa ekki litið of vel út sem og tilfærð rifbrot. Það er þó mest um liðbanda-, högg- og sinaáverka. Það er náttúrlega ákveðin list að geta haldið mönnum gangandi. Það er ekki hægt að senda þessa menn heim og segja þeim að fara í frí. Það gengi náttúrlega aldrei.“

Mynd / www.handball19.com

 

Af hverju eru Íslendingar svona góðir í handbolta?

Er einhver skýring á því að jafnfámenn þjóð og Ísland hefur náð svo góðum árangri í handbolta og átt svo marga heimsklassa leikmenn?

Þeir eru eflaust margir sem hafa velt þessum spurningum fyrir sér í gegnum tíðina án þess þó endilega að komast að niðurstöðu. Þetta hefur hins vegar verið rannsakað, í lokaritgerð í íþróttafræði sem þeir Ásbjörn Friðriksson og Grétar Þór Eyþórsson skrifuðu árið 2011 og byggir á viðtölum við fjölda einstaklinga sem koma að handbolta á einn eða annan hátt.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru ástæðurnar fyrst og fremst þrjár: hefð, fyrirmyndir og nálægð. Hefðin fyrir handbolta á Íslandi er sterk enda var lengi vel talað um handbolta sem þjóðaríþrótt Íslendinga. Hefðin og áhuginn fyrir íslenska landsliðinu gerir það vafalaust að verkum að margir ungir krakkar velja að æfa handbolta Fyrirmyndir skipta gríðarlegu máli og allt frá því að Geir Hallsteinsson samdi við þýska stórliðið Göppingen á áttunda áratug síðustu aldar hefur Ísland átt að minnsta kosti einn leikmann í fremstu röð í heiminum. Hér heima er svo nálægðin við fyrirmyndirnar meiri en víðast hvar annars staðar, ungum leikmönnum gefst oft kostur á að berja þær augum og jafnvel spjalla við þær.

Þá segir í rannsókninni að hér áður fyrr hafi það meira verið háð tilviljun hvort Ísland næði árangri á stórmótum, en á árunum áður en rannsóknin var gerð árið 2011 hafi komið ákveðinn stöðugleiki í árangur liðsins. Niðurstöðurnar sýndu einnig fram á að árangur liðsins er yfirleitt betri þegar fleiri atvinnumenn eru í hópnum heldur en færri.

„Fólk vildi innilega gefa réttu gjöfina“

Fyrir jól setti Kringlan þjónustu á laggirnar sem heitir Neyðarpakkatakkinn. Tilgangurinn með þjónustunni var að aðstoða fólk við að finna fullkomnar jólagjafir.

„Við settum upp rafrænan þjónustuhnapp, „Neyðarpakkatakkinn“ , sem var kynntur á Facebook rétt fyrir jól og buðum fram aðstoð til þeirra sem voru á síðustu stundu með jólagjafakaupin og voru í vandræðum með hugmyndir,“ segir Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, þegar hún er beðin um að segja frá hnappinum. „Hægt var að smella á takkann og annað hvort óska eftir að hitta ráðgjafa á þjónustuborði Kringlunnar eða fá hugmyndir sendar rafrænt.“

Spurð út í hvernig hugmyndin um þjónustuna kviknaði segir Baldvina: „Hugmyndin hafði verið að gerjast hjá okkur sem störfum í Kringlunni. Á hverju ári fyrir jólin fáum við  fjöldann allan af beiðnum um aðstoð frá fjölskyldumeðlimum og vinum. Eitthvað á borð við: „Þú vinnur nú í Kringlunni – hvað ætti ég að gefa mömmu, ömmu, pabba eða litla bróður?“.  Þá datt okkur þessi þjónusturáðgjöf í hug.“

Að sögn Baldvinu kom þjónustan sér afar vel fyrir margt fólk. „Með þessu vildum við einnig stuðla að notalegum síðustu dögum fyrir jól, draga úr stressi og gefa fólki tækifæri til að njóta. Það virtist svo sannarlega vera þörf fyrir þjónustuna. Yfir 1000 manns fengu hjá okkur ráðgjöf og við þurftum að kalla út aukamannskap til aðstoðar og viðskiptavinir kunnu greinilega vel að meta hjálpina.“

Fólk vildi vanda valið og kaupa gjafir sem sannarlega er þörf fyrir og nýtast.

Baldvina kveðst þá verða vör við að fólk sé orðið meira meðvitað um sóun og vilji þess vegna ekki gefa eitthvað sem endar bara inni í geymslu eða jafnvel í ruslinu. „Það er alveg greinilegt. Fólk vildi innilega gefa réttu gjöfina og hitta í mark hjá sínu fólki. Það vildi ekki gefa bara eitthvað. Fólk vildi vanda valið og kaupa gjafir sem sannarlega er þörf fyrir og nýtast. Fólk er líka meðvitaðra um kostnað og vill hagkvæmni í innkaupum.“

Samningur við kölska

Margt fólk kaupir sér árskort í líkamsrækt í upphafi árs og setur sér háleit heilsumarkmið. Um þetta skrifar Annas Jón Sigmundsson í nýjum pistli þar sem hann líkir árskorti í líkamsrækt við samning við kölska.

„Eru ekki örugglega allir búnir að setja sér áramótaheit sem hafa alltaf klikkað hingað til? Hvaða rugl er þetta alltaf í okkur að telja okkur trú um að við séum eitthvað að fara að breytast af því að búið er að hækka ártalið um einn staf. Og hvernig stendur á því að okkur gengur svona illa að ná þessum markmiðum okkar,“ skrifar Annas Jón Sigmundsson í pistil um áramótaheit og háleit markmið.

„Þegar ég var barn og unglingur var maður alltaf á fullu í allskonar íþróttum þar sem yfirleitt var um að ræða hópstarf með jafnöldrum sínum. Þá var ógeðslega gaman að stunda íþróttir og sérstaklega þegar maður var jafnvel að keppa með bestu vinum sínum,“ heldur hann áfram og undrar sig á því að fólk hættir gjarnan að stunda hópíþróttir þegar það verður fullorðið. Í staðin kaupir fólk sér líkamsræktarkort.

Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina.

„Og hvernig stendur á því að við hættum að æfa hópíþróttir með vinum okkar og veljum í staðinn að gera samning við kölska sjálfan því erfitt er að finna aðra samlíkingu yfir það helvíti sem árskort í líkamstækt eru. Um hver mánaðamót sér fólk á færsluyfirlitinu rukkun fyrir árskortinu og fær enn þá meira samviskubit yfir að vera ekki að mæta í ræktina. Svona skömm sem bitnar á þér andlega, líkamlega og fjárhagslega og gerir ekkert annað en að brjóta okkur niður,“ bætir hann við.

„Eftir að hafa sjálfur margoft lent á þessum stað með honum kölska vini mínum verð ég að segja að það eina sem hefur virkað fyrir mig undanfarin ár eru einhvers konar hópar sem hittast nokkrum sinnum í viku og stunda saman íþróttir. Þá er maður með fyrir fram ákveðin tíma sem á að hittast á og þegar þú mætir ekki hringir einhver í þig eða skilur eftir skammarorð á veggnum hjá þér á Facebook. Undanfarin áratug hef ég náð að festa mig í þremur mismunandi hópum.“

Pistil Annasar, sem má lesa í heild sinni hérna. Galdurinn að hans mati er að stunda hreyfingu með góðum hóp. „Farið og finnið ykkur einhvern hóp. Hringið í vini og vinkonur ykkar og fáið þau til að slást í för með ykkur. Hættið að reyna að gera þetta ein. Hópstarfið virkar miklu betur og er auk þess miklu skemmtilegra.“

Jón Ásgeir hyggur á stórfellda endurkomu

|
Jón Ásgeir Jóhannesson

Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum forstjóri og eigandi Baugs, óskaði á dögunum eftir stjórnarsæti hjá Högum hf. sem hann missti eftir að Baugur Group var lýst gjaldþrota í mars árið 2009.

Eins og kunnugt er tók Arion banki Haga hf. yfir eftir bankahrunið í óþökk fyrrum eiganda þess. Í dag ráða íslenskir lífeyrissjóðir yfir um 40% hlutafjár Haga hf. og samkvæmt heimildum Mannlífs leggjast þeir gegn því að Jón Ásgeir fái að setjast í stjórn fyrirtækisins. Stærstu eigendur Haga hf. eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) með 13,75% hlut og lífeyrissjóðurinn Gild með 12,50% hlut.

Árið 2013 var Jón Ásgeir dæmdur fyrir skattalagabrot er snéri að rekstri Baugs og Gaums og hlaut 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og var gert að greiða 62 milljón króna sekt. Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti síðan þann dóm á síðasta ári og þurfti Jón Ásgeir því ekki að greiða sektina og var jafnframt dæmdar tvær milljónir króna í bætur.

Árið 2008 dæmdi Hæstiréttur Jón Ásgeir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna brots á bókhaldslögum. Það þýddi að honum var óheimilt að sitja í stjórn fyrirtækja á Íslandi í þrjú ár, sbr. 66. grein laga um hlutafélög.

Honum er hins vegar heimilt í dag að setjast í stjórn hjá fyrirtækjum hérlendis en hann hefur að mestu haldið sig frá íslensku viðskiptalífi frá bankahruni. Heimildir herma hins vegar að hann ætli sér stóra hluti á íslenskum matvælamarkaði á næstu árum. Þegar hann stofnaði Bónus með föður sínum árið 1989 tókst þeim feðgum að umbylta íslenskum matvælamarkaði. Miklar breytingar hafa átt sér stað að undanförnu með tilkomu Costco. Það sést á sameiningu Haga við Olís hf. annars vegar og hins vegar Festa hf. og olíufélagsins N1.

Baugur stærsti viðskiptavinur hinna föllnu banka

Segja má að viðskiptasaga Jóns Ásgeirs hafi hafist árið 1989 þegar hann hætti í Verzlunarskóla Íslands til þess að koma lágvörurversluninni Bónus á laggirnar með föður sínum. Árið 1992 keypti síðan Hagkaup helmingshlut í Bónus og árið eftir varð Baugur Group til.

Í bókinni Ævintýraeyjan segir síðan Ármann Þorvaldsson frá því þegar Jón Ásgeir kom til Kaupþings árið 1998 og keypti afkomendur Pálma Jónssonar út úr Baugi Group. Þá þykir áhugavert að Ármann starfar í dag sem forstjóri Kviku banka sem sumir kalla nýja Kaupþing. Er einmitt talið að Kvika standi að baki Jóni Ásgeiri. Hlutur hans í Högum hf. sé stærri í dag en hluthafalisti félagsins segi til um. 365 miðlar hf. eru skráðir fyrir 2,76% hlut og Kvika banki er skráð fyrir 1,01% hlut.

Kaupþing fjármagnaði einnig mikið af fjárfestingum Baugs Group í Bretlandi í tískufyrirtækjum. Kaupþing og Baugur voru sem dæmi saman hluthafar í félaginu Mosaic Fashion sem átti td. Karen Millen, Warehouse, Oasis, Coast. Mosaic Fashion fór í greiðslustöðvun á sama tíma og Baugur Group.

Ármann Þorvaldsson var einmitt forstjóri Singer & Friedlander í Bretlandi sem Kaupþing stýrði fram að hruni. Við fall íslensku bankanna skuldaði Gaumur ehf. og tengd félög Kaupþingi 103 milljarða króna, Landsbankanum 96 milljarða króna, Glitni 55 milljarða króna, Straumi Burðarás 23 milljarða króna eða tæplega 300 milljarða króna samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þá skuldaði FL Group og tengd félög íslensku bönkunum 165 milljarða króna.

Þá má nefna að félag Baugs sem hét BH Holding skuldaði Landsbankanum 50 milljarða króna við bankahrunið. Verðmætustu eignir BG Holding voru í Bretlandi í verslanakeðjunni Iceland Foods, House of Fraser, Hamleys og fleiri félögum

Árið 2016 greindi Stundin frá því að á grunni hinna svokölluðu Panamaskjala hafi verið hægt að rekja milljarðaslóð Jóns Ásgeir og Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu hans í skattaskjól. Þannig hafi félagið Moon Capital S.A. sem var um tíma helsti hluthafi 365 eftir hrun borgað upp skuldir upp á 2,4 milljarða króna við Glitni. Var greitt með íslenskum ríkistryggðum íbúðabréfum og lagt inn hjá reikning Glitnis í Lúxemborg í júní árið 2010. Þó auðævi Jóns Ásgeirs og Ingibjargar séu töluverð enn í dag verður að telja líklegt að ef Jón Ásgeir ætli sér að koma aftur inn í íslenskt viðskiptalíf verði það að stórum hluta fjármagnað með lánsfé frá íslenskum bönkum. Þar er auðvitað Kvika banki helst nefndur.

Átök um Haga framundan

Fastlega má búast við því að átök verði fram undan um ítök hjá Högum hf. og á það ekki bara við um hluthafafund félagsins sem haldin verður á föstudaginn næstkomandi. Tilnefninganefnd hjá Högum hf. hyggst ekki tilnefna Jón Ásgeir í stjórn. Þeir sem nefndin leggur til eru Davíð Harðarson, Eiríkur S. Jóhannsson, Erna Gísladóttir, Katrín Olga Jóhannesdóttir og Stefán Árni Auðólfsson.

Eiríkur S. Jóhannsson er stjórnarformaður Samherja og líkt og margir þekkja unnu Jón Ásgeir og Þorsteinn Már Baldvinsson, annar af aðaleigendum Samherja náið saman í íslensku viðskiptalífi fyrir bankahrunið. Það hófst þegar þeir stofnuðu Orca hópinn árið 1999 sem fjárfesti í fyrsta bankanum sem íslensk stjórnvöld einkavæddu, Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA). Jón Ásgeir náði yfirtökum á Glitni banka vorið 2007. Í febrúar 2008 vék Þorsteinn M Jónsson sem stjórnarformaður bankans og við tók Þorsteinn Már Baldvinsson.

Samherji hf. fer í dag með 9,26% hlut í Högum hf. og FISK-Seafood ehf. með 4,57% hlut. Þessi félög eignuðust hlut í Högum hf. við sameiningu við Olíuverlzun Íslands (Olís). Samherji og Fisk-Seafood eignuðust 75% hlut í Olís árið 2012 þegar Landsbankinn seldi þeim hlutinn í olíufyrirtækinu.

Heimildir Mannlífs herma að Þorsteinn Már Baldvinsson ætli sér að taka þátt í þeirri innkomu sem Jón Ásgeir hyggur á í íslensku viðskiptalífi á næstunni. Segja má að mannorð þeirra beggja hafi nú verið hreinsað á síðasta ári. Jóns Ásgeirs þegar Mannréttindadómstóll Evrópu ómerkti dóm Hæstaréttar frá árinu 2013 og Þorsteins Más þegar Hæstiréttur ógilti þá stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn hafði lagt á Samherja hf. vegna rannsóknar á meintum gjaldeyrisbrotum sjávarútvegsfyrirtækisins.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hversu góður er góður díll?

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

SKOÐUN Nú í upphafi árs, að loknum stórhátíðum, hefur löngum verið hefð fyrir miklum útsölum. Þó hefur töluverð breyting verið á undanfarin misseri þar sem sífellt fleiri tilboðsdögum er skellt á með reglulegu millibili yfir árið, eins og til dæmis föstudagsfárinu í lok nóvember, sumar-, vetur- vor- og haustútsölum, og kaupæðisköst eru þess á milli. Þá dynja jafnan á okkur auglýsingar um þá félaga Tilboð, Spottprís og Afslátt.

Útsölur eru ávanabindandi, jafnt fyrir framleiðendur, seljendur og kaupendur. Framleiðendur og verslanir þurfa að ná skammtímamarkmiðum um sölutölur og lækka til þess verð, en ganga þannig á langtímavirði varanna sem þær selja. Og neytendur læra að bíða með að versla þar til varan fæst á útsölu. „Og hvað er að því?“ gæti einhver spurt? Hverjum finnst ekki eftirsóknarvert að fá „góðan díl“?

Frá því á steinöld hefur maðurinn hlaupið á eftir „góðum díl“. Hann hljóp á eftir særðum dýrum sem segja má að hafi verið ígildi afsláttar þar sem það útheimti minni orku að ná þeim en þau hraustu og sprettharðari. Síðar beislaði maðurinn náttúruna og fór að ala dýr þar sem það útheimtir enn þá minni vinnu en að elta þau. Það var sem sagt afsláttur af fyrri háttum. Sama má segja um útsölur dagsins í dag – við hlaupum á eftir því sem við teljum okkur geta fengið með minni fyrirhöfn en ella. En stundum hlaupum við á eftir tilboði, án þess að hugsa til enda hvort okkur vanti í raun og veru það sem við getum klófest á góðum kjörum.

Þá þurfum við líka að velta fyrir okkur hvort við þurfum allt sem við kaupum. Sækjumst við hugsanlega meira eftir því að ná góða dílnum, en því sem nemur notagildi hins keypta?

En eru bestu kaupin alltaf best? Neytendasamtökunum berast því miður tilkynningar um að einhverjar verslanir hafi stundað það að hækka vöruverð rétt fyrir útsölur, einungis til bjóða þær á útsöluverði. Slíkt er náttúrlega ekki góðir viðskiptahættir og brjóta í bága við lög. En sannleikurinn er sá, að í þeirri ofgnótt upplýsinga sem við lifum, er oft erfitt að átta sig á því hvað sé „góður díll“.
Fatnaður er gott dæmi um vörur sem reglulega eru seldar í miklu magni á útsölum og á hverju ári eru flutt inn um 12 kíló af textílvörum á hvern Íslending. Á sama tíma hendum við um 10 kílóum á mann af fötum á ári. Með tilliti til sótspors og kostnaðar sem af þessu hlýst fyrir okkur sjálf og umhverfið komumst við ekki hjá því að spyrja okkur sjálf hvort þetta sé ekki ofneysla.

Að eyða til þess að græða, gengur einfaldlega ekki upp og við þurfum ekki að kaupa þá fullyrðingu. Hún er ekki góður díll, hvorki fyrir neytendur né umhverfið.

Höfundur er formaður Neytendasamtakanna.

Mynd: Haraldur Guðjónsson

Mætti á landsleik í grýlubúningi

||
||

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, hefur fylgt landsliðinu í handbolta á fjölmörg stórmót og má með sanni segja að hann sé einn af dyggustu stuðningsmönnum liðsins. Hann verður að sjálfsögðu í stúkunni núna ásamt félögum sínum og þeir eru það bjartsýnir á gengi liðsins að þeir eiga miða á milliriðilinn.

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, er einn dyggasti aðdáandi liðsins.

„Þetta verður besta mót Íslands í nokkurn tíma og 5.-7. sætið verður okkar,“ svarar Guðni Már hress í bragði þegar hann er beðinn um að spá fyrir um gengi Íslands á mótinu. „Geir Sveinsson gaf ungum strákum séns og lagði mikilvægan grunn fyrir Guðmund [Guðmundsson], það er uppgangur núna og gaman að sjá hversu faglega er unnið með unglingalandsliðin, en ég held að Gísli [Þorgeir Kristjánsson] og Elvar [Örn Jónsson] muni eiga gott mót.“

Teigaði lítra af bjór
Guðni Már hefur farið á HM, EM, undankeppni Ólympíuleika og Ólympíuleikanna í London. Þeir fara alltaf nokkrir vinir saman á mótin en ef Ísland kemst á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 er draumurinn að fara fjölskylduferð. Guðni segist ekki fara árlega en eins oft og ráð og tími vinnst til. Hann hefur því orðið vitni að mörgum ævintýralegum augnablikum. „Ég hef tvisvar séð Ísland vinna Frakkland sannfærandi, í Magdeburg 2007 og á Ólympíuleikunum 2012, stemningin á þeim leikjum var engu lík. Viðbrögð frönsku stuðningsmannanna í kringum okkur þegar Björgvin Páll varði með Youtube-markvörslu á Ólympíuleikunum gleymast ekki.“

Í síðari hálfleik var næstum liðið yfir mig vegna ofþornunar og er enn er sagan sögð þegar ég, hrifsaði líters bjórkrús af vini mínum og teygaði í einum sopa. Ég drekk ekki bjór en hefði sennilega teigað lítra af smurolíu á þessum tímapunkti, slíkur var þorstinn,“

Eitt eftirminnilegasta atvikið er frá HM 2007 í Magdeburg. „Mikið var rætt um að Alfreð Gísla hefði í aðdraganda mótsins stútað Svíagrýlunni svokölluðu með því að gersigra Svía. Þar sem ég á forláta grýlubúning mönuðu vinir mínir mig til að mæta í honum á landsleik, ég sagðist til ef ákveðin upphæð safnaðist til góðgerðarmála. Þeir sáu til þess að upphæðin safnaðist fljótt og ég gat ekki skorast undan. Grýlubúningurinn og öll sú múndering er ekki ákjósanleg til að vera í mikilli mannþröng innandyra í 18.000 manna höll. Í síðari hálfleik var næstum liðið yfir mig vegna ofþornunar og er enn er sagan sögð þegar ég, hrifsaði líters bjórkrús af vini mínum og teygaði í einum sopa. Ég drekk ekki bjór en hefði sennilega teigað lítra af smurolíu á þessum tímapunkti, slíkur var þorstinn,“ segir Guðni Már hlæjandi en handboltaáhugi hans kviknaði fyrir alvöru þegar Ísland sigraði B-leikana árið 1989. „Handbolti er skemmtilegasta sjónvarpsíþróttin, hraður leikur og þótt annað liðið sé fimm mörkum yfir og 10 mínútur eftir getur enn allt gerst.“

Eftir sigurleik á Frökkum á Ólympíuleikunum 2012 í London. Frá vinstri: Kjartan Ólafsson Vídó, Ástþór Ágústsson, Guðni Már og Gústaf Kristjánsson.

Unnu bara einn leik
Spurður hvort hann hafi sjálfur æft handbolta játar hann með semingi. „Já, en ég er mun betri í að tala um handbolta en stunda. Ég æfði einn vetur með ÍA á Akranesi með stórkostlegum karakterum. Það væri hægt að gera bíómynd í anda The Mighty Ducks um þetta lið, handritshöfundur yrði þó að fjölga sigurleikjum frá raunveruleikanum, því þó að við elskuðum að spila þá unnum við bara einn leik allan veturinn. Það var þegar hitt liðið var varamannalaust og tveir hjá þeim meiddust í leiknum svo við mörðum sigur eftir að við urðum tveimur fleiri. Svo æfði ég með Fylki í um tvo vetur, var settur á línuna en fyrsti kostur á línunni þar var öðlingurinn Róbert Gunnarsson, besti sóknarlínumaður Íslands fyrr og síðar. Val þjálfarans var einfalt, viltu Súpermann eða Crusty the Clown á línuna?“

Guðna líður því betur í stúkunni og hefur í gegnum tíðina kynnst mörgum sem tengjast liðinu á einn eða annan hátt. „Ísland er lítið og því hafa margir orðið á leið manns í gegnum lífið, þeir eru þó flestir hættir nema skólabróðir úr menntaskóla, Guðjón Valur, sem er náttúruundur og valmenni. Svo hafa leiðir okkar Björgvins Páls legið saman en hann og Karen eiginkona eru mér góðar fyrirmyndir á ýmsan hátt. Að öðrum ólöstuðum er samt uppáhaldshandboltamanneskjan mín Ólafur Stefánsson. Magnaður íþróttamaður og djúpvitur lífskúnstner sem hugsar út fyrir kassann.“

Aðalmynd: Í Magdeburg 2007 þar sem Guðni fór í grýlubúninginn. Frá vinstri: Kjartan Vídó Ólafsson, Guðni Már, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Arnar Ragnarsson og Ólafur Jóhann Borgþórsson.

 

Gekk af sér fæturna yfir hátíðarnar

Drengirnir í hljómsveitinni Dúndurfréttir halda tónleika 18. janúar í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Við heyrðum í Pétri Erni Guðmundssyni, tónlistarmanni og söngvara Dúndurfrétta.

„Þetta verða svona bland í poka-tónleikar,“ segir Pétur. „Við verðum með úrval af klassísku rokki á borð við Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep Purple, Kansas, Boston, Queen og jafnvel smávegis Bítlatónlist.“

Hvernig komstu undan hátíðunum? „Ég kom vel undan hátíðunum því ég var í Washington og New York frá Þorláksmessu til þrettánda. Gekk af mér fæturna og skoðaði fjölmörg söfn af ýmsu tagi.“

Hvernig leggst árið í þig? „Það er mikið fram undan hjá okkur í Dúndurfréttum því við erum að fara að flytja Pink Floyd-plötuna The Wall í heild sinni í apríl í Eldborg með öllu tilheyrandi. Svo verður hin hljómsveitin mín, Buff, 20 ára á árinu og við ætlum að koma með nýtt frumsamið efni. Ég kem líka einn fram með kassagítarinn út um allt við allskyns tilefni og er einmitt þessa dagana að bóka mig á fullu. Svo er ég mikið á Snapchat en snappið mitt er gramedlan,“ segir Pétur fullur tilhlökkunar fyrir árinu.

Miða á tónleikana má nálgast á midi.is.

Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir

Raddir