Laugardagur 21. september, 2024
8.2 C
Reykjavik

Tónlist, tíska og hjólabretti- hin heilaga þrenning

Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.

Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt.  Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“

Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“

Elsti þátttakandinn 74 ára

Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“

Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“

Tónlist ávallt skipað stóran sess

Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í  online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“

Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt,  má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“

Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í 33.tbl Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Hákon Björnsson

Fimm góðar til að viðhalda sólinni í sálinni

Haustið er komið. Það þýðir ekkert að horfa framhjá því. Jafnvel þótt við fáum ennþá einn og einn sólardag eru kvöldin orðin dimm og köld og þá jafnast fátt á við að hreiðra um sig í sófanum og láta sig dreyma um endalaust sumar með aðstoð góðra kvikmynda.

Bandaríska tímaritið Vogue tók saman lista yfir kvikmyndir sem hrífa áhorfandann með sér í sólríka sumarstemningu á fjarlægum slóðum og við getum ekki annað en verið sammála þeim um valið. Þetta eru svo sannarlega sumarmyndir sem standa undir nafni og ekki spillir fyrir að ljúfsár nostalgía fylgir áhorfi á þær flestar. Verði ykkur að góðu.

Call Me By Your Name

Hin rómaða kvikmynd Luca Guadagnino frá 2017 bauð upp á dásamlegt sýnishorn af tísku fyrri hluta níunda áratugarins, seiðandi sviðsmynd og óviðjafnleg hughrif frá ítölsku sumri. Gerist ekki mikið betra.

Grease

Ah, Sandy og Danny. Hefur eitthvert par hrifið okkur jafn mikið? Sögur af sumarást í upphafi skólaárs á líka vel við á þessum árstíma og ekki spillir dásamleg tónlistin fyrir. Leyfið ykkur bara að verða unglingar aftur. Það kemst enginn að því.

Roman Holiday

Fáar borgir jafnast á við Róm og hún hefur sjaldan notið sín betur í kvikmynd en í þessari fyrstu stórmynd sem Audrey Hepburn lék í. Söguþráðurinn er kannski óttalegt bull en sjarmi Rómar, Audrey og Gregory Peck fær mann fljótt til að gleyma því. Sakbitin sæla eins og þær gerast bestar.

Dirty Dancing

Er þetta ekki ein vinsælasta myndin til að horfa á í náttfatapartíum ungpía á öllum aldri? Allavega fátt sem toppar þessa mynd í að koma manni í dansstuð. Og hver segir að það sé bannað að dansa einn heima í stofu? Látið það bara eftir ykkur. Við skulum engum segja.

The Talented Mr Ripley

Jude Law án pjötlu á kroppnum, meðan hann var enn fagur eins og guð, ítalskt landslag eins og það gerist best, óhugnanlegur undirtónn, góð saga og snilldarleikur Matt Damon og Pilips Seymour Hoffman. Það er nú varla hægt að biðja um meira í einni og sömu myndinni. Eini gallinn er að maður verður svo heillaður af ítalska sumrinu að mann langar helst aldrei að koma til Íslands aftur. En það eru til verri hlutir en það. Hjálpar allavega til við að gleyma myrkrinu og rigningunni um stund. Við eigum það skilið.

WOW flýgur til Orlando í fyrsta sinn

|
|

Nýr áfangastaður Wow air í Bandaríkjunum.

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air.

Flugfélagið Wow air lætur ekki deigan síga og tilkynnti í vikunni nýjan áfangastað í vetur. Áætlunarlug til Orlando hefst í desember og verður flogið þangað þrisvar í viku í allan vetur til 30. apríl.

Lent verður á flugvellinum Orlando International og tekur flugið rúmar átta klukkustundir. Lægsta verð á flugfari á þessari leið er tæpar 20.000 krónur aðra leið.

Í fréttatilkynningu frá Wow air er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow air að Orlando sé skemmtilegur staður sem lengi hafi notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum. „Með því að bjóða upp á flug á hagstæðum kjörum gerum við fleirum kleift að ferðast og njóta lífsins í sólinni,“ segir Skúli.

Sala á flugferðum til Orlando hófst í gær á heimasíðu Wow air.

Heiðruðu minningu Freddies

Flugvallarstarfsmenn á Heathrow sýna ótrúleg tilþrif.

Söngvarinn dáði Freddie Mercury hefði orðið 72 ára í gær ef hann hefði lifað. Af því tilefni tóku starfsmenn í farangurshleðslu á Heathrow flugvelli sig saman og æfðu dans við eitt af þekktustu lögum söngvarans I want to break free. Afraksturinn má sjá í meðfylgjandi myndbandi og það verður að segjast að starfsmennirnir leggja líf og sál í performansinn, farþegum á flugvellinum til ómældrar gleði.

Ástæðan fyrir þessu uppátæki starfsmannanna er sú að áður en frægðin barði á dyr hjá Freddy í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar vann hann um tíma við að hlaða farangri í flugvélar á Heathrow. Starfsmennirnir vildu minnast þess tímabils í lífi hans og lögðu hart að sér við að undirbúa uppákomuna, fengu meðal annars dansara úr bresku sjónvarpsþáttunum Strictly come dancing til að kenna sér sporin.

Starfsmennirnir í farangurshleðslunni eru ekki þeir einu sem heiðra minningu söngavans á Heathrow því þar hljóma eingöngu lög með Queen úr hátalarakerfinu auk þess sem flugfélagið British Airways býður öllum sem heita Freddie, Frederick eða Farrokh, sem var raunverulegt nafn söngvarans, að dvelja í biðsal fyrsta farrýmisfarþega án endurgjalds. Auk þess er á flugvellinum seldur ýmis varningur sem tengist Mercury.

Og fyrir þá sem aldrei fá nóg af Freddie Mercury má nefna að kvikmyndin Bohemian Rhapsody, sem byggir á ævi hans verður frumsýnd í kvikmyndahúsum þann 24. október. Við getum ekki beðið en það má stytta sér biðina með því að horfa á þetta bráðskemmtilega myndband og dást að tilþrifum núverandi starfsmanna Heathrow.

Nicki Minaj vill kynlíf þrisvar á nóttu

Nicki Minjaj skóf ekkert af yfirlýsingunum í spjallþætti Ellenar, einu karlmenn sem hún lítur við eru þeir sem geta stundað kynlíf þrisvar á nóttu.

Rapparinn Nicki Minjaj var gestur Ellener í fyrsta þætti haustsins sem sýndur var 4. september, og hélt ekki aftur af sér í lýsingum á því hvernig kynlíf hún vildi. „Ef maður hittir einhvern einu sinni eða tvisvar í viku, þá er það þrisvar á nóttu,“ lýsti hún yfir. „Og ef þú getur það ekki, bless. Ég sóa ekki tíma mínum.“

Kröfur dívunnar eru fleiri þegar kemur að kynlífinu. „Það má ekki líða meira en hálftími á milli skipta,“ sagði hún Ellen. „Ég þoli ekki knús eftir samfarir. Þegar ég er búin að fá mitt, ef mér líður virkilega, virkilega vel, láttu mig þá í friði. Farðu. Farðu og eldaðu eitthvað handa mér eða smyrðu samloku eða eitthvað.“

Spurð hvort hún vildi ekki hafa aðdraganda að kynlífinu var Minaj snögg að svara: „Mér finnst mjög gott að kyssa, en það er bara svona la la, drífðu þig í þetta,“ útskýrði hún. „Sýndu forleikstaktana þína, gerðu það sem þú þarft að gera og flýttu þér. Ég hef ekki tíma fyrir það allt saman.“

Opna bar með Bowie-þema

||
||

Hið sögufræga hótel Café Royal í London mun opna nýjan bar til heiðurs David Bowie seinna í þessum mánuði. Barinn ber hið viðeigandi nafn Ziggy’s í höfuðið á einu frægasta alteregói Bowies, Ziggy Stardust.

Þetta virðulega hótel ætlar að opna bar í minningu rokkstjörnurnar og þar verða framreiddir drykkir sem bera nöfn úr textum Bowies á plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars sem kom út árið 1972.

Það var árið 1973 sem David Bowie hélt síðustu tónleika sína sem Ziggy Stardust og staðurinn sem hann valdi til þess var einmitt Hotel Café Royal. Nú ætlar hótelið að opna bar í minningu rokkstjörnurnar og þar verða framreiddir drykkir sem bera nöfn úr textum Bowies á plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars sem kom út árið 1972. Á kokteilaseðlinum verður meðal annars að finna kokteilana Myrkur og Smán en þau heiti eru sótt í texta lagsins Lady Stardust af fyrrnefndri plötu.

Lokatónleikar Ziggy Stardust eru goðsögn í rokksögunni og ekki minni stjörnur en Lou Reed og Mick Jagger tóku þátt í þeim. Tónleikarnir báru hið háleita nafn Síðasta kvöldmáltíðin, enda Bowie ekki þekktur fyrir lítilæti á þeim árum.

Barinn verður skreyttur með sjaldséðum myndum Micks Rock af goðinu, en hann var hirðljósmyndari Bowies árið 1973. Þar verður einnig að finna djúkbox með tónlist rokkstjörnurnar.

Stefnt er að formlegri opnun barsins þann 20. september og geta aðdáendur rokkgoðsins frá og með þeim tíma heiðrað minningu hans með því að súpa á Smán, skoða myndir og hlusta á tónlist hans. Leggið staðinn á minnið fyrir næstu ferð til London.

Ziggys-bar.

Fljótlegur eftirréttur í miðri viku

Eftirréttir

Hér fá bláberin að njóta sín í bland við kardimommur og hnausþykka gríska jógúrt. Kardimommubragðið kemur virkilega á óvart og á vel við berin. Þessi eftirréttur getur líka verið sparilegur morgunmatur.

Bláberjasæla með grískri jógúrt og múslí
fyrir 4

300 g bláber
2 msk. hrásykur
1 msk. sítrónusafi
3 heilar kardimommur, steyttar, fræ notuð
1 tsk. sítrónubörkur
400 g grísk jógúrt
2 dl múslíblanda að eigin vali

Setjið bláber og hrásykur í pott ásamt sítrónusafa og fræjunum úr kardimommunum. Sjóðið við vægan hita í nokkrar mínútur. Látið berjablönduna kólna alveg. Blandið sítrónuberki saman við grísku jógúrtina. Setjið síðan berjablöndu, múslí og gríska jógúrt til skiptist í há glös og endið á því að skreyta með sítrónuberki. Gott er að kæla réttinn aðeins áður en hann er borinn fram.

Umsjón/ Bergþóra Jónsdóttir

Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Stílisti/ Kristín Dröfn Einarsdóttir

Barnaloppan – komin til að vera

Tæpt ár er nú liðið frá því að Guðríður Gunnlaugsdóttir fluttist heim frá Danmörku, þar sem hún hafði búið undanfarin ár ásamt fjölskyldu sinni. Guðríður hefur ekki setið auðum höndum eftir heimkomuna en í maí síðastliðnum opnaði hún Barnaloppuna, markað þar sem fólk getur komið með notaðar barnavörur og látið selja þær fyrir sig. Guðríður heillaðist af „loppu“-menningu Dana en hún vonast til að Barnaloppan verði skref í átt að breyttri kauphegðun Íslendinga og umhverfisverndar.

Eftir útskrift úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2011 fluttist Guðríður til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni. Við tók áframhaldandi nám og varð meistaranám í þjónustustjórnun fyrir valinu. „Ég var mjög ánægð með það nám, enda hef ég unnið í allskyns þjónustustörfum í gegnum tíðina og haft mikinn áhuga á hvernig fyrirtæki geta byggt upp sterk tengsl við viðskipavini sína og aukið gæði þjónustunnar,“ segir Guðríður. „Ég hef alltaf haft sterk tengsl við Danmörku því ég fæddist þar og bjó þar fyrstu árin í mínu lífi með foreldrum mínum sem voru í námi og á því marga góða að þar.“

Á þeim árum sem Guðríður bjó í Danmörku var hún að eigin sögn dyggur aðdáandi dönsku Loppumarkaðanna, eða flóamarkaðanna á réttri íslensku, en slíka markaði er að finna víðsvegar um borgina allan ársins hring. „Danir eru meira að segja með sérstakt loppudagatal, þar sem hægt er að sjá hvar og hvenær loppumarkaðirnir fara fram. Ég gerði oft frábær kaup á þessum mörkuðum og eftir nokkur ár í Kaupmannahöfn var þetta bara orðið þannig að ég keypti nánast ekkert nýtt. Ég keypti fatnað, húsgögn, skrautvöru og fleira notað, hvort sem það var á mörkuðum eða á Netinu. Mér fannst frábært að gera góð kaup á fallegum vörum, hvort sem það voru merkjavörur eða ekki,“ segir hún.

Meðan á náminu stóð velti Guðríður því mikið fyrir sér hvað hana langaði að gera eftir útskrift, og var alltaf með þá hugmynd í höfðinu að opna einhverskonar „second hand“ verslun, hvort sem það væri hérna heima eða úti. Hún segist fljótt hafa áttað sig á að hana langaði að gera eitthvað tengt börnum, þar sem henni hafi alltaf þótt langskemmtilegast þegar hún sjálf fann eitthvað fallegt á mörkuðum fyrir stelpurnar sínar tvær. „Ég elskaði ekkert meira en að kaupa fallegar vörur sem voru vel með farnar fyrir lítinn pening. En það er einmitt málið með barnavörurnar, þær eru margar hverjar notaðar svo rosalega stutt og því tilvalið að gefa þeim nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu. Þó svo að það sjáist að varan hafi verið notuð þá finnst mér það satt að segja bara sjarmerandi og gott að vita til þess að varan eigi sér framhaldslíf. Ég er engan veginn snobbuð á svona hluti, heldur finnst mér frábært að það sé hægt að endurnýta hlutina og nota þá aftur og aftur. Gott fyrir umhverfið sem og budduna! Jörðin okkar er að fyllast af drasli og það er lífsnauðsynlegt að íhuga afleiðingarnar af því. Við þurfum ekki alltaf að vera að kaupa allt nýtt, við eigum að nota og nýta það sem til er. Það skiptir akkúrat engu máli þó svo að það sé ein saumspretta í úlpunni sem þú kaupir eða þó svo að það sé ein rispa á String-hillunni þinni. Svo las ég líka einhvers staðar að magnið af vatni og eiturefnum sem fer í að búa til eitt par af bláum gallabuxum sé gríðarlegt og að það þurfi nú alveg nokkra þvotta til þess að ná öllum þeim efnum úr flíkunum sem við kaupum.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Guðríði. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Die Hard VI heitir einfaldlega McClane

Sjötta Die Hard myndin er bæði forleikur og framhald fyrri myndanna.

Enginn endir virðist ætla að verða á framleiðslu Die Hard kvikmyndanna um John McClane, sem Bruce Willis leikur af snilld. Staðfest hefur verið að sjötta myndin er þegar í undirbúningi og í einkaviðtali við Empire Magazine staðfestir framleiðandinn Lorenzo di Bonaventura að hún muni bera nafn söguhetjunnar og kallast stutt og laggott McClane.

Samkvæmt di Bonaventura er myndin bæði forleikur og framhald fyrri myndanna og mun sjónarhornið flakka á milli McClane í nútímann og á unga aldri þar sem málið sem hann er að fást við í myndinni á upptök sín í fyrndinni þegar hann var nýliði í lögreglunni.

Leikstjórinn Len Wiseman, sem leikstýrði Live Free or Die Hard, hefur verið ráðinn sem leikstjóri nýju myndarinnar og Bruce Willis mun sem fyrr túlka hinn harðsnúna John McClane, en ekki hefur enn verið ráðið í hlutverk hans á unga aldri.

Di Bonaventura fullyrðir þó að Willis muni fá að minnsta kosti jafn mikið pláss í myndinni og sá sem leikur yngri útgáfu hans. „Ég veit ekki hvernig hægt væri að gera Die Hard mynd án Bruce,“ sagði framleiðandinn í fyrrnefndu samtali við Empire og bætti við að öllu skipti að vel tækist til við val leikara til að túlka McClane ungan. „Það eru mjög stórir skór sem berir fætur þess leikara þurfa að fylla út í.“

Fyrsta Die Hard myndin fagnaði 30 ára afmæli í ár, en ekkert bendir til þess að aðdáendur McClane séu búnir að fá nándar nærri nóg af hetjunni sinni og geta þeir farið að hlakka til að kynnast honum ungum.

„Rokkbransinn er svo karllægur“

|
|

Af fingrum fram í tíu ár.

Jón segist alltaf hafa reynt að hafa kynjahlutföllin í lagi í þættinum, þótt eðli rokkbransans geri honum erfitt um vik með það.

Tónleikaröð Jóns Ólafssonar Af fingrum fram verður á dagskrá í Salnum í Kópavogi í vetur tíunda árið í röð. Þar fær Jón til sín þekkta íslenska tónlistarmenn, spjallar við þá um feril þeirra og þeir flytja nokkur lög. Í vetur verða þrjár söngdívur í sviðsljósinu auk sjö karla, en Jón segist alltaf hafa reynt að hafa kynjahlutföllin í lagi, þótt eðli rokkbransans geri honum erfitt um vik með það.

„Rokkbransinn er svo karllægur,“ segir hann afsakandi. „Eða var það sérstaklega á árum áður og þar sem tónleikarnir ganga í flestum tilfellum út það að rifja upp langan feril í bransanum er valið enn þrengra. Ég hef reynt í gegnum árin að hafa hlutföllin sem jöfnust og stundum hafa konurnar verið fjórar til fimm af tíu viðmælendum. Það er ekki alveg svo gott hlutfall í ár en þessar þrjár dívur, Selma Björns, Ragga Gísla og Emiliana Torrini, hafa ekki verið hjá mér í Salnum áður þannig að ég er mjög ánægður að hafa náð í þær allar.“

Eins og allir vita byrjaði prógrammið Af fingrum fram sem sjónvarpsþáttur á RÚV en síðan 2008 hefur það verið í formi tónleika í Salnum. Jón segir það form gefa miklu meira svigrúm, bæði meiri tíma og meira frelsi til að kafa dýpra í sögu viðmælenda. Í flestum tilfellum standi prógrammið yfir í tvo tíma, en lendi hann á flugi með viðmælandanum geti teygst úr því.

„Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum“

„Þetta getur farið upp í allt að þriggja tíma prógramm með góðum viðmælanda,“ útskýrir hann. „Þegar Magnús Þór Sigmundsson var hjá mér vorum við að frá hálf níu til nærri tólf um kvöldið, það var bara svo margt sem þurfti að taka fyrir. Svo það eru ekki ströng tímamörk á þessu öfugt við í sjónvarpinu þar sem allt þarf að vera niðurnjörvað, klippt og skorið. Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum.“

Meðal viðmælenda í vetur eru kanónur eins og Magnús Eiríksson, KK, Páll Óskar og Stefán Hilmarsson en það er Þórhallur Sigurðsson, sjálfur Laddi, sem ríður á vaðið og verður viðmælandi Jóns á fyrstu tónleikunum þann 13. september.

„Laddi er ekki þekktastur fyrir tónlistina sína,“ segir Jón. „En hann hefur samið ótrúlega mikið af lögum og textum og það eru þau sem verða í kastljósinu hjá okkur þann 13. Áherslan verður á tónlistarmanninn Þórhall Sigurðsson, ekki skemmtikraftinn Ladda, þótt auðvitað komi við sögu sumir karakterarnir hans eins og Eiríkur Fjalar til dæmis sem mun flytja einhver lög.“

Dagskrá tónleikaraðarinnar má kynna sér á salurinn.is og þar er einnig hægt að kaupa miða.

Fimm ára drengur fann amfetamín á leikskólalóð

|
|

Fimm ára drengur í Kópavogi fann á mánudag poka með hvítu dufti á lóð leikskólans Fögrubrekku og setti hluta af því upp í sig. Farið var með drenginn á Barnaspítala Hringsins þar sem hann var skoðaður og efni pokans greint. Efnið í pokanum reyndist vera amfetamín.

„Það var hringt í okkur frá leikskólanum um hálf fjögur leytið á mánudag og okkur sagt að sonur okkur hefði fundið poka með hvítu dufti á leikskólalóðinni og sett eitthvað af því upp í sig.“

„Það var hringt í okkur frá leikskólanum um hálf fjögur leytið á mánudag og okkur sagt að sonur okkur hefði fundið poka með hvítu dufti á leikskólalóðinni og sett eitthvað af því upp í sig,“ segir Kristinn Ólafur Smárason, faðir drengsins. „Það uppgötvaðist þegar hann kom með pokann til kennarans og bað um vatnsglas því honum fannst innihaldið svo bragðvont. Starfsfólk leikskólans hringdi í lögregluna og síðan í okkur foreldrana í kjölfarið. Þau ítrekuðu að það væri allt í lagi með drenginn en engu að síður brá mér og ég hljóp út á leikskóla, en ég bý mjög stutt frá.“

Kristinn segist strax hafa séð að það virtist ekkert ama að drengnum en hann hafi samt hringt í Eiturefnamiðstöð Landspítalans til að leita upplýsinga um hvað hann ætti að gera. Þar fékk hann þær upplýsingar að hann skyldi fara með barnið á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og taka pokann með sér svo hægt væri að greina innihald hans. Á bráðamóttökunni var drengurinn grandskoðaður en allar niðurstöður prófa sýndu að engin eituráhrif væru í líkama hans. „Sem betur fer hafði svo lítið farið upp í hann að það hafði engin mælanleg áhrif,“ segir Kristinn.

„Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla. En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“

Tvær lögreglukonur mættu á bráðamóttökuna og tóku pokann með sér til greiningar innihaldsins. Klukkutíma síðar lá sú niðurstaða fyrir að í pokanum væri amfetamín.

Kristinn segir að lóð leikskólans sé vinsæll samkomustaður unglinga á kvöldin, en honum hafi aldrei dottið í hug að amast við því þótt hann búi við hlið leikskólans. „Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla,“ segir hann. „En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“

Kristinn segist ekki vita hvert framhald málsins verður en hann muni allavega í framtíðinni láta lögregluna vita sjái hann unglinga á lóðinni. „Ég geri það í samráði við leikskólastjórann sem að sjálfsögðu harmar atvikið mikið. En ég tek fram að ég sakast ekkert við leikskólann út af þessu máli. Ég veit að þau leggja sig fram um að hindra svona uppákomur og fara yfir lóðina á hverjum á morgni, en það er auðvitað erfitt að fylgjast með öllu.“

Í framhaldinu hefur fengist leyfi hjá byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til að porti á lóð leikskólans verði framvegis lokað á kvöldin, en Kristinn segist ekki búast við að aðrir eftirmálar verði af málinu.

Svanurinn á flugi

Óhætt er að segja að kvikmyndinni Svanurinn hafi verið vel tekið vestanhafs.

Á vefsíðunni Rotten Tomatoes, sem tekur saman kvikmyndagagnrýni frá viðurkenndum gagnrýnendum auk viðbragða almennra áhorfenda, fær myndin jákvæðar umsagnir frá stórum miðlum á borð RogerEbert.com og Hollywood Reporter og er hún í þessum rituðu orðum komin með 87 prósent í einkunn.

Aðalleikkonan, hin unga Gríma Valsdóttir, fær lofsamlega dóma og er leikstjóranum og handritshöfundinum Ásu Helgu Hjörleifsdóttur meðal annars hrósað af gagnrýnanda Los Angeles Times fyrir að takast að feta hina fínu línu á milli draumkennds veruleika og raunsæis í myndinni.

Svanurinn er byggð á samnefndri skáldsöguGuðbergs Bergssonar sem kom út árið 1991. Hún segir af níu ára stúlku sem er send í sveit til að bæta fyrir brot sín og verður þar lykilþátttakandi í atburðum sem hún á erfitt með að skilja.

Ólafur Arnalds fær fína dóma

Re:member, nýjasta plata tónlistarmannsins Ólafs Arnalds, fær fína dóma í hinu virta tímariti Rolling Stone.

Í umsögn gagnrýnandans, sem gefur plötunni þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum, segir að á henni megi greina mildari útfærslur af aðalsmerki Ólafs, hina fallega melankólíu sem hafi bæði hljómað á plötu hans For Now I Am Winter frá 2013 og í tónlistinni við bresku verðlaunaþættina Broadchurch. Við indie-takta, póst-minimalískar endurtekningar og kvikmyndalega tónlist, sem Ólafursé þekktur fyrir, bætist við skemmtileg sjálfspilandi píanó. Platan sjálf sé allt í senn, sterk, sorgleg og sefjandi.

Mynd / Heiða Helgadóttir

Heilræði fyrir fasteignakaupendur

Fasteignamarkaðurinn er síbreytilegur og brýnt að fylgjast vel með og leita til ráðgjafa ef á þarf að halda. Við hittum Lindu Guðmundsdóttur Lyngmo, vörustjóra einstaklingslána hjá Íslandsbanka, sem hefur ýmis góð ráð fyrir fasteignakaupendur.

„Fólk sem er með lán á húsnæðinu sínu á alltaf að vera meðvitað um stöðu lánanna og helst að vita hversu hátt hlutfall þau eru af fasteignamati eignarinnar á hverjum tíma. Þetta getur skipt máli þegar kemur að lækkun kostnaðar, t.d. þegar heildarfjármögnun eignar fer undir 70% af fasteignamati, er hægt að óska eftir lækkun vaxta á viðbótarláni, sé það til staðar.

Einnig mælum við með að fólk yfirfari reglulega vexti og afborganir lána því markaðsaðstæður breytast, vextir geta breyst og það getur komið sá tímapunktur að það borgi sig fyrir fólk að endurfjármagna lánin sín, sem leiðir til lægri kostnaðar. Mörg lán eru með uppgreiðslugjaldi en vegna þess hvað vextir á húsnæðislánum hafa lækkað mikið undanfarin ár getur samt borgað sig að endurfjármagna. Mjög fljótlegt er að fara yfir þá möguleika með ráðgjafa bankans í húsnæðisþjónustu,“ segir Linda.

„Síðast en ekki síst er sá möguleiki til staðar að greiða aukalega inn á lánin, það er í raun ekkert annað en langtímasparnaður. Við hvetjum alla til að kynna sér úrræði ríkisins um notkun á séreignarsparnaði hvað þetta varðar og athuga hvort það sé eitthvað sem henti þeim, hafi þeir ekki nýtt sér þetta úrræði nú þegar. Ef fólk er í einhverjum vafa um sín mál,hvetjum við það eindregið til þess að hafa samband við ráðgjafa í húsnæðisþjónustu bankanna og fá frekari aðstoð og útskýringar.“

Linda segir jafnframt að varðandi íbúðaverð séu greinendur sammála um að hækkunartaktur undanfarinna mánaða sé að ná ákveðnu jafnvægi. Verð á sérbýlum hækkar meira en verð á eignum í fjölbýli og verð á eignum úti á landi hækkar meira en verð á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig þessi þróun komi til með að verða er erfitt að spá fyrir um. Það verði tíminn að leiða í ljós.

Kjör við kaup á fyrstu eign

Er hagstætt að kaupa fyrstu eign í dag? „Síðastliðin þrjú ár hefur verið mikill uppgangur á íslenskum húsnæðismarkaði,“ segir Linda. „Eftirspurn eftir húsnæði hefur verið mikil sem hefur orðið til þess að verð hefur hækkað umtalsvert á eignum um allt land. Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands og Þjóðskrá Íslands hefur aðeins dregið úr þessum hækkunum, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Það er erfitt að svara þessari spurningu með fullri vissu þar sem ómögulegt er að spá fyrir um hvernig markaðurinn muni þróast á komandi mánuðum eða árum.

Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs um húsnæðismarkaðinn kemur fram að fyrstu kaup hafa ekki verið fleiri innan ársfjórðungs síðan 2008, eða svo langt aftur sem tölur Þjóðskrár Íslands ná. Fyrstu íbúðakaupum hefur almennt fjölgað meira en annars konar íbúðakaupum síðan árið 2010. Mögulega á vaxtaumhverfið stóran þátt í þessari þróun en vextir á íbúðalánum hafa haldist lágir undanfarin ár í sögulegu samhengi. Verð á íbúðum hefur ekki hækkað jafnmikið í ár og í fyrra sem gæti haft sitt að segja. Einnig bjóða bankarnir, sem og hið opinbera, upp á sérstök úrræði fyrir fyrstu kaupendur.

Þegar þetta er allt tekið saman þá verður það vonandi til þess að fyrstu kaupendur eigi greiðari aðgang inn á fasteignamarkaðinn heldur en ella.“

Hvernig eru horfurnar í dag fyrir fasteignaeigendur varðanda kaup og kjör? „Líkt og fram hefur komið hafa vextir verið frekar lágir í sögulegu samhengi, fasteignamat hefur hækkað umtalsvert undanfarin ár og hefur kostnaður við endurfjármögnun lækkað umtalsvert miðað við það sem áður þekktist. Þessi atriði, ásamt öðrum, gera það að verkum að það er tiltölulega hagstætt fyrir fólk að hreyfa við lánunum sínum, endurfjármagna, lækka vexti á lánunum sínum og svo framvegis.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Að missa en fatta að það er í lagi“

Óttar M. Norðfjörð rithöfundur á erfitt með gera upp við sig hvaða bækur hann heldur mest upp á. Honum finnst eiginlega ómögulegt að svara því. Hins vegar segist hann vera alveg tilbúinn að nefna fyrstu bókina sem hreyfði verulega við honum og eins þá síðustu.

„Ég átti fyrstu alvörulestrarreynsluna mína þegar ég var tíu ára og las bókina Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren,“ segir hann. „Hún var einfaldlega svo ólík öllum öðrum barnabókum sem ég hafði lesið, bæði svo óhemju sorgleg og hlífði manni engan veginn, sem maður kunni að meta, því barnabækur áttu það til. Og síðan er sagan auðvitað bara svo skemmtileg og litrík, fallegt ævintýri í undraveröld með öllu tilheyrandi. Eftir á að hyggja hefur það væntanlega spilað inn í að ég átti og á eldri bróður þegar ég las hana og sá okkur í bræðrum bókarinnar.“

Hann segir að síðasta bókin sem hann hafi lesið sem hafði áhrif á hann sé Call Me By Your Name eftir André Aciman. „Eftir að ég sá myndina í fyrra las ég bókina loksins og vá! Hún er ótrúleg, ekki löng, en tekst einhvern veginn að fanga svo margt; hin erfiðu unglingsár þegar maður vissi varla í hvorn fótinn átti að stíga, fyrstu sterku ástina í lífi manns, ógleymanlegu æskusumrin sem virtust svo löng og þar sem allt gat gerst, að læra að sjá foreldra sína sem manneskjur með sína eigin drauma og þrár, að missa en fatta að það er í lagi, svo ég nefni nokkur atriði. Ekki spillir fyrir að sagan er vel skrifuð, heimspekileg og gerist á Ítalíu, með allri sinni menningu og sjarma.“

Gæði eru algjört aukaatriði

Aðalsteini Jörundssyni, auglýsingastjóra hjá tímaritinu Grapevine, finnst fátt skemmtilegra en að sökkva sér ofan í sjónvarpsþætti og kvikmyndabálka sem hverfast um skemmtilegar, litríkar persónur og spennandi söguheima. Hann viðurkennir blákalt að gæðin þurfi ekkert að vera til að hrópa húrra fyrir svo framarlega sem skemmtanagildið er gott. Þess vegna hafi það verið eins og að detta í lukkupottinn að uppgötva Star Trek á gamals aldri.

„Auðvitað hef ég alltaf vitað af tilvist Star Trek en það var ekki fyrr en fyrir svona tveimur eða þremur árum að sonur minn setti fyrsta þátt af Star Trek: The Next Generation í gang á Netflix að ég ákvað að þarna væri eitthvað sem mig langaði til að skoða betur. Mér er alveg sama þótt gæði myndanna og þáttanna séu jafnmismunandi og sögurnar eru margar. Þarna fann ég heim sem ég gat sökkt tönnunum í. Spennu í bland við heimssýn sem vekur með manni von um betri heim, heim þar sem kynin eru jöfn, kynþáttahatur þekkist ekki og enginn stéttaskipting ríkir, þar sem hvorki peningar né ríkidæmi eru til.“

Deep Space Nine og Star Trek: Enterprise

Hann segist þegar vera búinn að spæna í sig Deep Space Nine og Star Trek: Enterprise. „Deep Space Nine. Ok, leikur flestra leikara í þessum þáttum er kannski vandræðalega lélegur en það er samt alveg hægt að láta sig hafa það að horfa á þá. Sama má segja um Star Trek: Enterprise-þættina þótt flestir trekkarar geti ekki talað um þá án þess að hrækja á gólfið.“

Star Trek: Original Series

Um þessar mundir segist Aðalsteinn þó mest vera að horfa á upprunalegu seríurnar með Kirk, Spock og félögum. „Reyndar finnst mér stíllinn ekki eins skemmtilegur eins og í ýmsu öðru Star Trek-efni og gagnstætt mörgum Star Trek-lúðum fyllist ég engri sérstakri gleði yfir því að horfa á Kirk stara valdsmannslega í myndavélina eða berjast við illa gerð geimskrímsli. En, ég hef einsett mér að horfa á þetta allt og kosturinn er að geta slökkt á sjónvarpinu alsæll eftir hverja atlögu og hlakkað til næsta kafla.“

Skildi betur pabba sinn

Erna Kanema Mashinkila ferðaðist á síðasta ári til Sambíu í leit að sjálfri sér. Í heimildamyndinni Söngur Kanemu, sem fer í almennar sýningar í Bíó Paradís 6. september, er þessari örlagaríku ferð gerð skil.

„Ég fór af stað út í þetta þar sem mig langaði til að kynnast betur föðurfjölskyldunni minni og mynda í leiðinni sterkari tengsl við heimaland pabba. Það er nefnilega svo skrítið að þótt Sambía hafi alltaf verið stór hluti af mínu lífi vissi ég voðalega lítið um þetta Afríkuríki, hvað þá Afríku yfirleitt, maður lærir ekki mikið um hana í skólanum,“ lýsir Erna Kanema, 18 ára gömul menntaskólamær sem hefur alist upp í Reykjavík ásamt yngri systur, íslenskri mömmu og pabba frá Sambíu.

Pabbi hennar, Harry, hefur búið á Íslandi í 20 ár og fyrir utan tvær heimsóknir til Sambíu í barnæsku segir Erna Kanema að reynsla hennar af sambíski menningu sé að mestu leyti verið fengin í gegnum hann. Henni fannst hún því ekki þekkja uppruna sinn nógu vel og til að kynna sér hann betur ákváðu hún og fjölskylda hennar að heimsækja Sambíu á síðasta ári, en mamma hennar, Anna Þóra Steinþórsdóttir kvikmyndagerðarkona, fékk að mynda ferðalagið og útkoman varð að heimildamynd, Söngur Kanemu.

„Þetta var rosaleg upplifun,“ segir Erna Kanema um ferðina og brosir, „því ég öðlaðist allt annan skilning á hlutunum en þegar ég heimsótti Sambíu sem barn. Til dæmis vissi ég ekki mikið um bakgrunn pabba og skildi hann stundum ekki. Fannst hann geta verið ógeðslega strangur þegar ég var yngri en núna skil ég af hverju því í Sambíu er það þannig að þú ferð úr því að vera barn yfir í það að vera fullorðinn. Það er ekkert sem heitir að vera unglingur. Það hugtak er ekki til. Að átta sig á þessu eina atriði, að pabbi hafi komið úr svona umhverfi til Íslands hefur verið hjálplegt fyrir okkar samband.“

„Til dæmis vissi ég ekki mikið um bakgrunn pabba og skildi hann stundum ekki. Fannst hann geta verið ógeðslega strangur þegar ég var yngri en núna skil ég af hverju því í Sambíu er það þannig að þú ferð úr því að vera barn yfir í það að vera fullorðinn.“

Eins hafi verið gaman að kynnast tónlistarmenningu og -hefðum Sambíu sem séu talsvert ólíkt því sem þekkist á Íslandi. „Ég er á kafi í tónlist hér, syng í kórum og er að læra söng í djassdeild FÍH og fyrir mig var einstakt að fá að kynnast allt annarri tónlistarmenningu og bera hana saman við það sem ég hef verið að gera. Ég var eiginlega alltaf með upptökutækið í gangi, að taka upp kirkjukóra, messur og meira að segja hljóð í náttúrunni. Mig langaði til að geyma allar minningar sem ég gat,“ segir hún glöð, en þess má geta að tónlist myndarinnar, sem er samin af Árna Rúnari Hlöðverssyni, er meðal annars byggð á þessum upptökum Kanemu Ernu.

Erna Kanema segir að síðast en ekki síst hafi verið dýrmætt að fá að kynnast betur föðurfjölskyldunni. Fram að heimsókninni hafi hún verið svolítið fjarlæg en þarna hafi hún náð að mynda sterkari tengsl við ættingjana og sé nú í reglulegum samskiptum við suma þeirra á Facebook. „Já, áður fyrr voru það þau sem voru meira í sambandi við mig en nú er ég alltaf að senda þeim skilaboð,“ segir hún og hlær.

Sjálf hafi hún öðlast sterkari sjálfsmynd og töluvert dýpri skilning á sjálfri sér eftir heimsóknina til Sambíu. Henni finnst því mikilvægt að börn sem eiga foreldra hvort frá sínum menningarheiminum fái að kynnast uppruna sínum. „Í því samhengi finnst mér að skólar og frístunda- og félagsmiðstöðvar á Íslandi mættu taka meira tillit til annarra menningarheima og gera þeim betri skil. Við eigum að vera miklu opnari fyrir því að læra um aðra menningarheima og af þeim. Ef ég eignast börn vil ég til dæmis að þau séu meðvituð um sinn sambíska bakgrunn. Það er svo mikilvægt að þekkja uppruna sinn.“

Spurð hvort þetta hafi aldrei verið erfitt ferli viðurkennir hún að stundum hafi verið lýjandi að vera með tökulið á hælunum alla daga. Eins hafi henni brugðið svolítið við að sjá lokaútgáfu myndarinnar. „Aðallega vegna þess að þar sem mamma var á bak við vélina var ég ekkert feimin og áttaði mig kannski ekki á því hversu berskjölduð ég yrði. Að því leytinu til er pínkuskrítið að myndin verði sýnd stórum hópi fólks í bíó. Annars gekk þetta vel og ef eitthvað erurðum við mamma bara nánari.“

Gluggarnir síbreytileg listaverk

Sumarhús við Þingvallavatn.

Við Þingvallavatn er sumarhúsaþyrping sem á sér langa sögu. Húsin eru fjölbreytt og bera þess merki að hafa vaxið með eigendum sínum og breyst í tímans rás, allt eftir þörfum íbúanna. Við kíktum í heimsókn í sumarhús við vatnið og hittum þar fyrir tvær hressar systur sem saman hafa innréttað húsið með góðum árangri en húsið er í eigu annarrar þeirra og eiginmanns hennar.

Stofan heillaði mest

Eigendurnir heilluðust strax af aðalrýminu, stofunni sjálfri og þar sem afar gestkvæmt er hjá þeim og fannst þeim mikilvægt að eignast sumarhús með stórri stofu og var það útgangspunkturinn hjá þeim þegar þau hófu leitina að sumarhúsinu. Kamínan í stofunni þótti þeim einnig mikið aðdráttarafl. Húsið er dæmigert sumarhús fyrir þetta svæði að því leytinu til að byggingarhlutarnir eru misgamlir. Eldri byggingin hýsir svefnherbergið, forstofu og snyrtingu en stofan og eldhúsið er viðbygging sem byggð var árið 2002. Hjónin keyptu húsið í lok sumars árið 2015 og hófust þá framkvæmdir sem stóðu yfir alla veturinn. Klæðningarnar að innan voru ýmist standandi panell eða lágréttur og ákváðu þau að taka hann af og setja upp nýjan til þess að rýmin myndu verða sterkari heild. Einnig settu þau upp vegg til þess að skilja að ganginn aðbaðherberginu svo það blasir ekki lengur við í stofunni. Með tilkomu veggsins myndaðist rými sem var tilvalið sem lítið sjónvarpsrými og eru þau þar með sjónvarp og svefnsófa. Gömlu bygginguna þurftu þau að laga töluvert en lokað hafði verið fyrir glugga í öðru svefnherberginu sem þau ákváðu að opna fyrir aftur. Veggirnir voru einnig málaðir en höfðu verið ómeðhöndlaðir áður og það sama á við mig um alla glugga.

Gamlir munir gefa persónulegt yfirbragð

Systurnar hafa hjálpast að við að innrétta húsið og segjast hafa átt margar gæðastundir þar saman. Hlutirnir koma úr ólíkum áttum og segist húsmóðirin hafa safnað þeim yfir heilt ár en sumt hafi líka komið frá búi foreldra þeirra sem gefur bústaðnum persónulegra yfirbragð. Bækurnar í skápnum í stofunni eru gamlar bækur frá foreldrunum.

„Þegar við vorum að taka þetta í gegn þá flutti pabbi okkar og var að stokka upp sínar eigur. Margt af hlutunum hér inni eru hlutir sem mamma og pabbi áttu þegar þau voru yngri. Húsbóndastóllinn er til dæmis gjöf sem mamma gaf pabba þegar hann var þrítugur,“ segir önnur systirin.

„Það var svo gaman fyrir okkur hinar systurnar þegar við vissum að hlutirnir myndu rata hingað því hér fáum við allar njóta þeirra,“ bætir hin systirin við. Hrærivélin í eldhúsinu, kökukeflið, bastkarfan og potturinn á eldavélinni eru hlutir sem minna systurnar mikið á móður þeirra enda var hún alltaf í eldhúsinu að þeirra sögn. Sykurkarið í eldhúsinu minnir þær líka á æskuna en þá tíðkaðist gjarnan á heimilum að hafa sykurkör á eldhúsborðinu.

Aðspurðar að því hvar þær sóttu innblástur áður en þær hófust handa svara þær að sumarhús Rutar Káradóttur hafi veitt þeim innblástur og gefið margar góðar hugmyndir. Eldhúsið tóku þær í gegn og settu upp nýjar innréttingar. Hillurnar eru borðplötur sem sagaðar voru til í réttar stærðir. „Mig langaði að hafa opnar hillur og kaupa fallegt leirtau og leyfa því að sjást í stað þess að hafa lokaða skápa,“segir eigandinn og þurfti að setja stoðir á bak við veggklæðninguna til þess að halda hillunum uppi. Þær nutu sín vel systurnar tvær einar í bústaðnum og að innrétta hann saman. Einnig tóku þær í gegn gestahús sem var á lóðinni þar sem svefnpláss er fyrir fjóra.

„Okkur finnst æðislegt að koma hérna tvær einar og mála og stilla upp. Svo fórum við og keyptum allt inn saman,“ segir önnur þeirra og hefur þeim tekist sérstaklega vel til.

Fögur og síbreytileg listaverk

Áður höfðu eigendurnir átt sumarhús við Búrfell en heilluðust meira af náttúrunni við Þingvallavatn. Úr stofunni er útsýni út á vatnið og fjallgarðinn í kring. Gluggarnir eru því fögur listaverk sem eru síbreytileg eftir veðri og árstíðum. Systurnar sögðu einnig að það væri afar heillandi og njóta þær þess mjög að sitja og horfa út um gluggana. Aðspurðar hvað sé næsta mál á dagskrá hjá þeim svara þær að það sé að taka húsið í gegn að utan og ætla þær að taka til hendinni þar nú í sumar. Við kveðjum þessar skemmtilegu systur og þökkum fyrir skemmtilega stund með þeim.

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin“

Matthildur Sunna Þorláksdóttir er löggiltur fasteignasali á Stakfelli fasteignasölu og var að skila inn lokaritgerð í viðskiptalögfræði á Bifröst. Hún er einhleyp og býr í yndislegri íbúð á besta stað í Vesturbænum.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Þegar maður er alltaf í vinnunni eða við símann er að mínu mati nauðsynlegt að hafa fjölbreytileika, og það er það sem heillar mig mest við þetta starf.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Tölvupóstur, símtöl og flakk. Hitta og tala við alls konar fólk og skoða mismunandi íbúðir og hús.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Það er að sjálfsögðu persónulegt hvað gerir heimili að heimili og fólk er jafnmisjafnt og það er margt. Í mínu tilviki er það hlýleiki. Ég er mikil plöntu- og kertamanneskja því að mér finnst það gera heimilið hlýlegra.“

Getur þú lýst þínum stíl?

„Myndi lýsa honum sem út og suður. Ég fer ekki endilega mikið eftir neinum sérstökum reglum, hvorki í fatavali né á heimilinu, heldur eftir því sem mér finnst fallegt.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Ég er hrifin af Alvar Aalto og Arne Jacobsen, bæði í hönnun og arkitektúr. Mér finnst frekar gaman að því hvað þeir hafa hannað skemmtilega öðruvísi byggingar og tímalausa hönnun í húsgögnum og fylgihlutum.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Ekkert sem ég man eftir, er mjög sátt við það sem ég á.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Þeir eru þónokkrir. Er mjög hrifin af grænum og karrígulum og hrafnagráum. Jarðlitir og pastellitir eru einnig í miklu uppáhaldi.“

Hvar líður þér best?

„Heima hjá mér, ég er mjög heimakær. Mér líður best einni að bralla eitthvað þar eða með fullt hús af fólki.“

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin. Það verður allt svo miklu meira kósí. Stórar peysur og treflar verða staðalbúnaður og rauðvínsglas og kertaljós á Kaffi Vest verður extra rómó.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég er mjög hrifin af Mathöllinni á Hlemmi, þar eru nokkrir veitingastaðir sem standa upp úr hjá mér. Skál og Jómfrúin eru í algjöru uppáhaldi, sem og Kröst. Finnst þetta skemmtilegt „concept“, það finna allir eitthvað við sitt hæfi.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar?

„Ég er algjör sökker fyrir nýmóðins spænskum stíl. Ég hef verið að skoða og sýna eignir á Alicante-svæðinu og mér finnst það sem verið er að byggja núna vera einstaklega fallegt.“

Að lifa lífinu lifandi er að…

… anda með nefinu og njóta líðandi stundar.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Svart stál og gróf viðaráferð koma sterk inn

Þessa dagana hjá Vogue fyrir heimilið er verið að taka upp einstaklega fallegar og vandaðar gjafavörur frá nýrri vörulínu. Þvílíkt augnakonfekt til að njóta og fegra heimilið. Við hittum Kolbrúnu Birnu Halldórsdóttur, verslunar- og rekstrarstjóra, og fengum smáinnsýn í það sem koma skal.

Þessar vörur sem voru að koma í hús eru einstaklega fallegar og grípa augað. Getur þú aðeins sagt okkur frá þessari nýju vörulínu?

„Boltze er þýsk vörulína sem inniheldur mikið af fallegri gjafavöru, borðum, hillum og fleira skemmtilegu sem auðvelt er að breyta með eða bæta á heimilinu með litlum tilkostnaði.“

Vogue fyrir heimilið er ávallt að stækka og auka vöruúrvalið, er ekki einstaklega skemmtilegt og gefandi að geta raða hinu ýmsu vörum saman?

„Ó, jú. Það er alveg ótrúlega gaman, þetta hefur verið ævintýri líkast síðastliðin fjögur ár eftir að við fluttum hingað í Síðumúlann. Ég nærist sjálf á því að fegra umhverfið, svo er ég náttúrlega með svo frábært fólk hérna með mér í verslunni.“

Hvað er það nýjasta sem koma skal í vetur?

„Við höfum tekið mikið inn af litlum borðum sem skemmtilegt er að raða saman við sófann eða nota sem innskotsborð, hillum, glervösum, bökkum sem hafa haldið velli í nokkur ár og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram, alltaf gaman að dekúreta með bökkum, vösum og fleira.“

Eru einhverjir litir eða áferð sem eru vinsælli en annað þessa stundina?

„Mildir gamaldags litir eru móðins í dag. Varðandi áferðina þá er stálið alltaf vinsælt og grófur viður sem er meðal annars flottur við svart stál. Tvinna saman stáli og við er flott kombó.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Tónlist, tíska og hjólabretti- hin heilaga þrenning

Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.

Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt.  Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“

Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“

Elsti þátttakandinn 74 ára

Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“

Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“

Tónlist ávallt skipað stóran sess

Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í  online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“

Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt,  má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“

Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.

Viðtalið birtist fyrst í 33.tbl Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Hákon Björnsson

Fimm góðar til að viðhalda sólinni í sálinni

Haustið er komið. Það þýðir ekkert að horfa framhjá því. Jafnvel þótt við fáum ennþá einn og einn sólardag eru kvöldin orðin dimm og köld og þá jafnast fátt á við að hreiðra um sig í sófanum og láta sig dreyma um endalaust sumar með aðstoð góðra kvikmynda.

Bandaríska tímaritið Vogue tók saman lista yfir kvikmyndir sem hrífa áhorfandann með sér í sólríka sumarstemningu á fjarlægum slóðum og við getum ekki annað en verið sammála þeim um valið. Þetta eru svo sannarlega sumarmyndir sem standa undir nafni og ekki spillir fyrir að ljúfsár nostalgía fylgir áhorfi á þær flestar. Verði ykkur að góðu.

Call Me By Your Name

Hin rómaða kvikmynd Luca Guadagnino frá 2017 bauð upp á dásamlegt sýnishorn af tísku fyrri hluta níunda áratugarins, seiðandi sviðsmynd og óviðjafnleg hughrif frá ítölsku sumri. Gerist ekki mikið betra.

Grease

Ah, Sandy og Danny. Hefur eitthvert par hrifið okkur jafn mikið? Sögur af sumarást í upphafi skólaárs á líka vel við á þessum árstíma og ekki spillir dásamleg tónlistin fyrir. Leyfið ykkur bara að verða unglingar aftur. Það kemst enginn að því.

Roman Holiday

Fáar borgir jafnast á við Róm og hún hefur sjaldan notið sín betur í kvikmynd en í þessari fyrstu stórmynd sem Audrey Hepburn lék í. Söguþráðurinn er kannski óttalegt bull en sjarmi Rómar, Audrey og Gregory Peck fær mann fljótt til að gleyma því. Sakbitin sæla eins og þær gerast bestar.

Dirty Dancing

Er þetta ekki ein vinsælasta myndin til að horfa á í náttfatapartíum ungpía á öllum aldri? Allavega fátt sem toppar þessa mynd í að koma manni í dansstuð. Og hver segir að það sé bannað að dansa einn heima í stofu? Látið það bara eftir ykkur. Við skulum engum segja.

The Talented Mr Ripley

Jude Law án pjötlu á kroppnum, meðan hann var enn fagur eins og guð, ítalskt landslag eins og það gerist best, óhugnanlegur undirtónn, góð saga og snilldarleikur Matt Damon og Pilips Seymour Hoffman. Það er nú varla hægt að biðja um meira í einni og sömu myndinni. Eini gallinn er að maður verður svo heillaður af ítalska sumrinu að mann langar helst aldrei að koma til Íslands aftur. En það eru til verri hlutir en það. Hjálpar allavega til við að gleyma myrkrinu og rigningunni um stund. Við eigum það skilið.

WOW flýgur til Orlando í fyrsta sinn

|
|

Nýr áfangastaður Wow air í Bandaríkjunum.

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air.

Flugfélagið Wow air lætur ekki deigan síga og tilkynnti í vikunni nýjan áfangastað í vetur. Áætlunarlug til Orlando hefst í desember og verður flogið þangað þrisvar í viku í allan vetur til 30. apríl.

Lent verður á flugvellinum Orlando International og tekur flugið rúmar átta klukkustundir. Lægsta verð á flugfari á þessari leið er tæpar 20.000 krónur aðra leið.

Í fréttatilkynningu frá Wow air er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow air að Orlando sé skemmtilegur staður sem lengi hafi notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum. „Með því að bjóða upp á flug á hagstæðum kjörum gerum við fleirum kleift að ferðast og njóta lífsins í sólinni,“ segir Skúli.

Sala á flugferðum til Orlando hófst í gær á heimasíðu Wow air.

Heiðruðu minningu Freddies

Flugvallarstarfsmenn á Heathrow sýna ótrúleg tilþrif.

Söngvarinn dáði Freddie Mercury hefði orðið 72 ára í gær ef hann hefði lifað. Af því tilefni tóku starfsmenn í farangurshleðslu á Heathrow flugvelli sig saman og æfðu dans við eitt af þekktustu lögum söngvarans I want to break free. Afraksturinn má sjá í meðfylgjandi myndbandi og það verður að segjast að starfsmennirnir leggja líf og sál í performansinn, farþegum á flugvellinum til ómældrar gleði.

Ástæðan fyrir þessu uppátæki starfsmannanna er sú að áður en frægðin barði á dyr hjá Freddy í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar vann hann um tíma við að hlaða farangri í flugvélar á Heathrow. Starfsmennirnir vildu minnast þess tímabils í lífi hans og lögðu hart að sér við að undirbúa uppákomuna, fengu meðal annars dansara úr bresku sjónvarpsþáttunum Strictly come dancing til að kenna sér sporin.

Starfsmennirnir í farangurshleðslunni eru ekki þeir einu sem heiðra minningu söngavans á Heathrow því þar hljóma eingöngu lög með Queen úr hátalarakerfinu auk þess sem flugfélagið British Airways býður öllum sem heita Freddie, Frederick eða Farrokh, sem var raunverulegt nafn söngvarans, að dvelja í biðsal fyrsta farrýmisfarþega án endurgjalds. Auk þess er á flugvellinum seldur ýmis varningur sem tengist Mercury.

Og fyrir þá sem aldrei fá nóg af Freddie Mercury má nefna að kvikmyndin Bohemian Rhapsody, sem byggir á ævi hans verður frumsýnd í kvikmyndahúsum þann 24. október. Við getum ekki beðið en það má stytta sér biðina með því að horfa á þetta bráðskemmtilega myndband og dást að tilþrifum núverandi starfsmanna Heathrow.

Nicki Minaj vill kynlíf þrisvar á nóttu

Nicki Minjaj skóf ekkert af yfirlýsingunum í spjallþætti Ellenar, einu karlmenn sem hún lítur við eru þeir sem geta stundað kynlíf þrisvar á nóttu.

Rapparinn Nicki Minjaj var gestur Ellener í fyrsta þætti haustsins sem sýndur var 4. september, og hélt ekki aftur af sér í lýsingum á því hvernig kynlíf hún vildi. „Ef maður hittir einhvern einu sinni eða tvisvar í viku, þá er það þrisvar á nóttu,“ lýsti hún yfir. „Og ef þú getur það ekki, bless. Ég sóa ekki tíma mínum.“

Kröfur dívunnar eru fleiri þegar kemur að kynlífinu. „Það má ekki líða meira en hálftími á milli skipta,“ sagði hún Ellen. „Ég þoli ekki knús eftir samfarir. Þegar ég er búin að fá mitt, ef mér líður virkilega, virkilega vel, láttu mig þá í friði. Farðu. Farðu og eldaðu eitthvað handa mér eða smyrðu samloku eða eitthvað.“

Spurð hvort hún vildi ekki hafa aðdraganda að kynlífinu var Minaj snögg að svara: „Mér finnst mjög gott að kyssa, en það er bara svona la la, drífðu þig í þetta,“ útskýrði hún. „Sýndu forleikstaktana þína, gerðu það sem þú þarft að gera og flýttu þér. Ég hef ekki tíma fyrir það allt saman.“

Opna bar með Bowie-þema

||
||

Hið sögufræga hótel Café Royal í London mun opna nýjan bar til heiðurs David Bowie seinna í þessum mánuði. Barinn ber hið viðeigandi nafn Ziggy’s í höfuðið á einu frægasta alteregói Bowies, Ziggy Stardust.

Þetta virðulega hótel ætlar að opna bar í minningu rokkstjörnurnar og þar verða framreiddir drykkir sem bera nöfn úr textum Bowies á plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars sem kom út árið 1972.

Það var árið 1973 sem David Bowie hélt síðustu tónleika sína sem Ziggy Stardust og staðurinn sem hann valdi til þess var einmitt Hotel Café Royal. Nú ætlar hótelið að opna bar í minningu rokkstjörnurnar og þar verða framreiddir drykkir sem bera nöfn úr textum Bowies á plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars sem kom út árið 1972. Á kokteilaseðlinum verður meðal annars að finna kokteilana Myrkur og Smán en þau heiti eru sótt í texta lagsins Lady Stardust af fyrrnefndri plötu.

Lokatónleikar Ziggy Stardust eru goðsögn í rokksögunni og ekki minni stjörnur en Lou Reed og Mick Jagger tóku þátt í þeim. Tónleikarnir báru hið háleita nafn Síðasta kvöldmáltíðin, enda Bowie ekki þekktur fyrir lítilæti á þeim árum.

Barinn verður skreyttur með sjaldséðum myndum Micks Rock af goðinu, en hann var hirðljósmyndari Bowies árið 1973. Þar verður einnig að finna djúkbox með tónlist rokkstjörnurnar.

Stefnt er að formlegri opnun barsins þann 20. september og geta aðdáendur rokkgoðsins frá og með þeim tíma heiðrað minningu hans með því að súpa á Smán, skoða myndir og hlusta á tónlist hans. Leggið staðinn á minnið fyrir næstu ferð til London.

Ziggys-bar.

Fljótlegur eftirréttur í miðri viku

Eftirréttir

Hér fá bláberin að njóta sín í bland við kardimommur og hnausþykka gríska jógúrt. Kardimommubragðið kemur virkilega á óvart og á vel við berin. Þessi eftirréttur getur líka verið sparilegur morgunmatur.

Bláberjasæla með grískri jógúrt og múslí
fyrir 4

300 g bláber
2 msk. hrásykur
1 msk. sítrónusafi
3 heilar kardimommur, steyttar, fræ notuð
1 tsk. sítrónubörkur
400 g grísk jógúrt
2 dl múslíblanda að eigin vali

Setjið bláber og hrásykur í pott ásamt sítrónusafa og fræjunum úr kardimommunum. Sjóðið við vægan hita í nokkrar mínútur. Látið berjablönduna kólna alveg. Blandið sítrónuberki saman við grísku jógúrtina. Setjið síðan berjablöndu, múslí og gríska jógúrt til skiptist í há glös og endið á því að skreyta með sítrónuberki. Gott er að kæla réttinn aðeins áður en hann er borinn fram.

Umsjón/ Bergþóra Jónsdóttir

Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Stílisti/ Kristín Dröfn Einarsdóttir

Barnaloppan – komin til að vera

Tæpt ár er nú liðið frá því að Guðríður Gunnlaugsdóttir fluttist heim frá Danmörku, þar sem hún hafði búið undanfarin ár ásamt fjölskyldu sinni. Guðríður hefur ekki setið auðum höndum eftir heimkomuna en í maí síðastliðnum opnaði hún Barnaloppuna, markað þar sem fólk getur komið með notaðar barnavörur og látið selja þær fyrir sig. Guðríður heillaðist af „loppu“-menningu Dana en hún vonast til að Barnaloppan verði skref í átt að breyttri kauphegðun Íslendinga og umhverfisverndar.

Eftir útskrift úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2011 fluttist Guðríður til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni. Við tók áframhaldandi nám og varð meistaranám í þjónustustjórnun fyrir valinu. „Ég var mjög ánægð með það nám, enda hef ég unnið í allskyns þjónustustörfum í gegnum tíðina og haft mikinn áhuga á hvernig fyrirtæki geta byggt upp sterk tengsl við viðskipavini sína og aukið gæði þjónustunnar,“ segir Guðríður. „Ég hef alltaf haft sterk tengsl við Danmörku því ég fæddist þar og bjó þar fyrstu árin í mínu lífi með foreldrum mínum sem voru í námi og á því marga góða að þar.“

Á þeim árum sem Guðríður bjó í Danmörku var hún að eigin sögn dyggur aðdáandi dönsku Loppumarkaðanna, eða flóamarkaðanna á réttri íslensku, en slíka markaði er að finna víðsvegar um borgina allan ársins hring. „Danir eru meira að segja með sérstakt loppudagatal, þar sem hægt er að sjá hvar og hvenær loppumarkaðirnir fara fram. Ég gerði oft frábær kaup á þessum mörkuðum og eftir nokkur ár í Kaupmannahöfn var þetta bara orðið þannig að ég keypti nánast ekkert nýtt. Ég keypti fatnað, húsgögn, skrautvöru og fleira notað, hvort sem það var á mörkuðum eða á Netinu. Mér fannst frábært að gera góð kaup á fallegum vörum, hvort sem það voru merkjavörur eða ekki,“ segir hún.

Meðan á náminu stóð velti Guðríður því mikið fyrir sér hvað hana langaði að gera eftir útskrift, og var alltaf með þá hugmynd í höfðinu að opna einhverskonar „second hand“ verslun, hvort sem það væri hérna heima eða úti. Hún segist fljótt hafa áttað sig á að hana langaði að gera eitthvað tengt börnum, þar sem henni hafi alltaf þótt langskemmtilegast þegar hún sjálf fann eitthvað fallegt á mörkuðum fyrir stelpurnar sínar tvær. „Ég elskaði ekkert meira en að kaupa fallegar vörur sem voru vel með farnar fyrir lítinn pening. En það er einmitt málið með barnavörurnar, þær eru margar hverjar notaðar svo rosalega stutt og því tilvalið að gefa þeim nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu. Þó svo að það sjáist að varan hafi verið notuð þá finnst mér það satt að segja bara sjarmerandi og gott að vita til þess að varan eigi sér framhaldslíf. Ég er engan veginn snobbuð á svona hluti, heldur finnst mér frábært að það sé hægt að endurnýta hlutina og nota þá aftur og aftur. Gott fyrir umhverfið sem og budduna! Jörðin okkar er að fyllast af drasli og það er lífsnauðsynlegt að íhuga afleiðingarnar af því. Við þurfum ekki alltaf að vera að kaupa allt nýtt, við eigum að nota og nýta það sem til er. Það skiptir akkúrat engu máli þó svo að það sé ein saumspretta í úlpunni sem þú kaupir eða þó svo að það sé ein rispa á String-hillunni þinni. Svo las ég líka einhvers staðar að magnið af vatni og eiturefnum sem fer í að búa til eitt par af bláum gallabuxum sé gríðarlegt og að það þurfi nú alveg nokkra þvotta til þess að ná öllum þeim efnum úr flíkunum sem við kaupum.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Guðríði. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Die Hard VI heitir einfaldlega McClane

Sjötta Die Hard myndin er bæði forleikur og framhald fyrri myndanna.

Enginn endir virðist ætla að verða á framleiðslu Die Hard kvikmyndanna um John McClane, sem Bruce Willis leikur af snilld. Staðfest hefur verið að sjötta myndin er þegar í undirbúningi og í einkaviðtali við Empire Magazine staðfestir framleiðandinn Lorenzo di Bonaventura að hún muni bera nafn söguhetjunnar og kallast stutt og laggott McClane.

Samkvæmt di Bonaventura er myndin bæði forleikur og framhald fyrri myndanna og mun sjónarhornið flakka á milli McClane í nútímann og á unga aldri þar sem málið sem hann er að fást við í myndinni á upptök sín í fyrndinni þegar hann var nýliði í lögreglunni.

Leikstjórinn Len Wiseman, sem leikstýrði Live Free or Die Hard, hefur verið ráðinn sem leikstjóri nýju myndarinnar og Bruce Willis mun sem fyrr túlka hinn harðsnúna John McClane, en ekki hefur enn verið ráðið í hlutverk hans á unga aldri.

Di Bonaventura fullyrðir þó að Willis muni fá að minnsta kosti jafn mikið pláss í myndinni og sá sem leikur yngri útgáfu hans. „Ég veit ekki hvernig hægt væri að gera Die Hard mynd án Bruce,“ sagði framleiðandinn í fyrrnefndu samtali við Empire og bætti við að öllu skipti að vel tækist til við val leikara til að túlka McClane ungan. „Það eru mjög stórir skór sem berir fætur þess leikara þurfa að fylla út í.“

Fyrsta Die Hard myndin fagnaði 30 ára afmæli í ár, en ekkert bendir til þess að aðdáendur McClane séu búnir að fá nándar nærri nóg af hetjunni sinni og geta þeir farið að hlakka til að kynnast honum ungum.

„Rokkbransinn er svo karllægur“

|
|

Af fingrum fram í tíu ár.

Jón segist alltaf hafa reynt að hafa kynjahlutföllin í lagi í þættinum, þótt eðli rokkbransans geri honum erfitt um vik með það.

Tónleikaröð Jóns Ólafssonar Af fingrum fram verður á dagskrá í Salnum í Kópavogi í vetur tíunda árið í röð. Þar fær Jón til sín þekkta íslenska tónlistarmenn, spjallar við þá um feril þeirra og þeir flytja nokkur lög. Í vetur verða þrjár söngdívur í sviðsljósinu auk sjö karla, en Jón segist alltaf hafa reynt að hafa kynjahlutföllin í lagi, þótt eðli rokkbransans geri honum erfitt um vik með það.

„Rokkbransinn er svo karllægur,“ segir hann afsakandi. „Eða var það sérstaklega á árum áður og þar sem tónleikarnir ganga í flestum tilfellum út það að rifja upp langan feril í bransanum er valið enn þrengra. Ég hef reynt í gegnum árin að hafa hlutföllin sem jöfnust og stundum hafa konurnar verið fjórar til fimm af tíu viðmælendum. Það er ekki alveg svo gott hlutfall í ár en þessar þrjár dívur, Selma Björns, Ragga Gísla og Emiliana Torrini, hafa ekki verið hjá mér í Salnum áður þannig að ég er mjög ánægður að hafa náð í þær allar.“

Eins og allir vita byrjaði prógrammið Af fingrum fram sem sjónvarpsþáttur á RÚV en síðan 2008 hefur það verið í formi tónleika í Salnum. Jón segir það form gefa miklu meira svigrúm, bæði meiri tíma og meira frelsi til að kafa dýpra í sögu viðmælenda. Í flestum tilfellum standi prógrammið yfir í tvo tíma, en lendi hann á flugi með viðmælandanum geti teygst úr því.

„Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum“

„Þetta getur farið upp í allt að þriggja tíma prógramm með góðum viðmælanda,“ útskýrir hann. „Þegar Magnús Þór Sigmundsson var hjá mér vorum við að frá hálf níu til nærri tólf um kvöldið, það var bara svo margt sem þurfti að taka fyrir. Svo það eru ekki ströng tímamörk á þessu öfugt við í sjónvarpinu þar sem allt þarf að vera niðurnjörvað, klippt og skorið. Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum.“

Meðal viðmælenda í vetur eru kanónur eins og Magnús Eiríksson, KK, Páll Óskar og Stefán Hilmarsson en það er Þórhallur Sigurðsson, sjálfur Laddi, sem ríður á vaðið og verður viðmælandi Jóns á fyrstu tónleikunum þann 13. september.

„Laddi er ekki þekktastur fyrir tónlistina sína,“ segir Jón. „En hann hefur samið ótrúlega mikið af lögum og textum og það eru þau sem verða í kastljósinu hjá okkur þann 13. Áherslan verður á tónlistarmanninn Þórhall Sigurðsson, ekki skemmtikraftinn Ladda, þótt auðvitað komi við sögu sumir karakterarnir hans eins og Eiríkur Fjalar til dæmis sem mun flytja einhver lög.“

Dagskrá tónleikaraðarinnar má kynna sér á salurinn.is og þar er einnig hægt að kaupa miða.

Fimm ára drengur fann amfetamín á leikskólalóð

|
|

Fimm ára drengur í Kópavogi fann á mánudag poka með hvítu dufti á lóð leikskólans Fögrubrekku og setti hluta af því upp í sig. Farið var með drenginn á Barnaspítala Hringsins þar sem hann var skoðaður og efni pokans greint. Efnið í pokanum reyndist vera amfetamín.

„Það var hringt í okkur frá leikskólanum um hálf fjögur leytið á mánudag og okkur sagt að sonur okkur hefði fundið poka með hvítu dufti á leikskólalóðinni og sett eitthvað af því upp í sig.“

„Það var hringt í okkur frá leikskólanum um hálf fjögur leytið á mánudag og okkur sagt að sonur okkur hefði fundið poka með hvítu dufti á leikskólalóðinni og sett eitthvað af því upp í sig,“ segir Kristinn Ólafur Smárason, faðir drengsins. „Það uppgötvaðist þegar hann kom með pokann til kennarans og bað um vatnsglas því honum fannst innihaldið svo bragðvont. Starfsfólk leikskólans hringdi í lögregluna og síðan í okkur foreldrana í kjölfarið. Þau ítrekuðu að það væri allt í lagi með drenginn en engu að síður brá mér og ég hljóp út á leikskóla, en ég bý mjög stutt frá.“

Kristinn segist strax hafa séð að það virtist ekkert ama að drengnum en hann hafi samt hringt í Eiturefnamiðstöð Landspítalans til að leita upplýsinga um hvað hann ætti að gera. Þar fékk hann þær upplýsingar að hann skyldi fara með barnið á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og taka pokann með sér svo hægt væri að greina innihald hans. Á bráðamóttökunni var drengurinn grandskoðaður en allar niðurstöður prófa sýndu að engin eituráhrif væru í líkama hans. „Sem betur fer hafði svo lítið farið upp í hann að það hafði engin mælanleg áhrif,“ segir Kristinn.

„Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla. En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“

Tvær lögreglukonur mættu á bráðamóttökuna og tóku pokann með sér til greiningar innihaldsins. Klukkutíma síðar lá sú niðurstaða fyrir að í pokanum væri amfetamín.

Kristinn segir að lóð leikskólans sé vinsæll samkomustaður unglinga á kvöldin, en honum hafi aldrei dottið í hug að amast við því þótt hann búi við hlið leikskólans. „Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla,“ segir hann. „En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“

Kristinn segist ekki vita hvert framhald málsins verður en hann muni allavega í framtíðinni láta lögregluna vita sjái hann unglinga á lóðinni. „Ég geri það í samráði við leikskólastjórann sem að sjálfsögðu harmar atvikið mikið. En ég tek fram að ég sakast ekkert við leikskólann út af þessu máli. Ég veit að þau leggja sig fram um að hindra svona uppákomur og fara yfir lóðina á hverjum á morgni, en það er auðvitað erfitt að fylgjast með öllu.“

Í framhaldinu hefur fengist leyfi hjá byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til að porti á lóð leikskólans verði framvegis lokað á kvöldin, en Kristinn segist ekki búast við að aðrir eftirmálar verði af málinu.

Svanurinn á flugi

Óhætt er að segja að kvikmyndinni Svanurinn hafi verið vel tekið vestanhafs.

Á vefsíðunni Rotten Tomatoes, sem tekur saman kvikmyndagagnrýni frá viðurkenndum gagnrýnendum auk viðbragða almennra áhorfenda, fær myndin jákvæðar umsagnir frá stórum miðlum á borð RogerEbert.com og Hollywood Reporter og er hún í þessum rituðu orðum komin með 87 prósent í einkunn.

Aðalleikkonan, hin unga Gríma Valsdóttir, fær lofsamlega dóma og er leikstjóranum og handritshöfundinum Ásu Helgu Hjörleifsdóttur meðal annars hrósað af gagnrýnanda Los Angeles Times fyrir að takast að feta hina fínu línu á milli draumkennds veruleika og raunsæis í myndinni.

Svanurinn er byggð á samnefndri skáldsöguGuðbergs Bergssonar sem kom út árið 1991. Hún segir af níu ára stúlku sem er send í sveit til að bæta fyrir brot sín og verður þar lykilþátttakandi í atburðum sem hún á erfitt með að skilja.

Ólafur Arnalds fær fína dóma

Re:member, nýjasta plata tónlistarmannsins Ólafs Arnalds, fær fína dóma í hinu virta tímariti Rolling Stone.

Í umsögn gagnrýnandans, sem gefur plötunni þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum, segir að á henni megi greina mildari útfærslur af aðalsmerki Ólafs, hina fallega melankólíu sem hafi bæði hljómað á plötu hans For Now I Am Winter frá 2013 og í tónlistinni við bresku verðlaunaþættina Broadchurch. Við indie-takta, póst-minimalískar endurtekningar og kvikmyndalega tónlist, sem Ólafursé þekktur fyrir, bætist við skemmtileg sjálfspilandi píanó. Platan sjálf sé allt í senn, sterk, sorgleg og sefjandi.

Mynd / Heiða Helgadóttir

Heilræði fyrir fasteignakaupendur

Fasteignamarkaðurinn er síbreytilegur og brýnt að fylgjast vel með og leita til ráðgjafa ef á þarf að halda. Við hittum Lindu Guðmundsdóttur Lyngmo, vörustjóra einstaklingslána hjá Íslandsbanka, sem hefur ýmis góð ráð fyrir fasteignakaupendur.

„Fólk sem er með lán á húsnæðinu sínu á alltaf að vera meðvitað um stöðu lánanna og helst að vita hversu hátt hlutfall þau eru af fasteignamati eignarinnar á hverjum tíma. Þetta getur skipt máli þegar kemur að lækkun kostnaðar, t.d. þegar heildarfjármögnun eignar fer undir 70% af fasteignamati, er hægt að óska eftir lækkun vaxta á viðbótarláni, sé það til staðar.

Einnig mælum við með að fólk yfirfari reglulega vexti og afborganir lána því markaðsaðstæður breytast, vextir geta breyst og það getur komið sá tímapunktur að það borgi sig fyrir fólk að endurfjármagna lánin sín, sem leiðir til lægri kostnaðar. Mörg lán eru með uppgreiðslugjaldi en vegna þess hvað vextir á húsnæðislánum hafa lækkað mikið undanfarin ár getur samt borgað sig að endurfjármagna. Mjög fljótlegt er að fara yfir þá möguleika með ráðgjafa bankans í húsnæðisþjónustu,“ segir Linda.

„Síðast en ekki síst er sá möguleiki til staðar að greiða aukalega inn á lánin, það er í raun ekkert annað en langtímasparnaður. Við hvetjum alla til að kynna sér úrræði ríkisins um notkun á séreignarsparnaði hvað þetta varðar og athuga hvort það sé eitthvað sem henti þeim, hafi þeir ekki nýtt sér þetta úrræði nú þegar. Ef fólk er í einhverjum vafa um sín mál,hvetjum við það eindregið til þess að hafa samband við ráðgjafa í húsnæðisþjónustu bankanna og fá frekari aðstoð og útskýringar.“

Linda segir jafnframt að varðandi íbúðaverð séu greinendur sammála um að hækkunartaktur undanfarinna mánaða sé að ná ákveðnu jafnvægi. Verð á sérbýlum hækkar meira en verð á eignum í fjölbýli og verð á eignum úti á landi hækkar meira en verð á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig þessi þróun komi til með að verða er erfitt að spá fyrir um. Það verði tíminn að leiða í ljós.

Kjör við kaup á fyrstu eign

Er hagstætt að kaupa fyrstu eign í dag? „Síðastliðin þrjú ár hefur verið mikill uppgangur á íslenskum húsnæðismarkaði,“ segir Linda. „Eftirspurn eftir húsnæði hefur verið mikil sem hefur orðið til þess að verð hefur hækkað umtalsvert á eignum um allt land. Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands og Þjóðskrá Íslands hefur aðeins dregið úr þessum hækkunum, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Það er erfitt að svara þessari spurningu með fullri vissu þar sem ómögulegt er að spá fyrir um hvernig markaðurinn muni þróast á komandi mánuðum eða árum.

Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs um húsnæðismarkaðinn kemur fram að fyrstu kaup hafa ekki verið fleiri innan ársfjórðungs síðan 2008, eða svo langt aftur sem tölur Þjóðskrár Íslands ná. Fyrstu íbúðakaupum hefur almennt fjölgað meira en annars konar íbúðakaupum síðan árið 2010. Mögulega á vaxtaumhverfið stóran þátt í þessari þróun en vextir á íbúðalánum hafa haldist lágir undanfarin ár í sögulegu samhengi. Verð á íbúðum hefur ekki hækkað jafnmikið í ár og í fyrra sem gæti haft sitt að segja. Einnig bjóða bankarnir, sem og hið opinbera, upp á sérstök úrræði fyrir fyrstu kaupendur.

Þegar þetta er allt tekið saman þá verður það vonandi til þess að fyrstu kaupendur eigi greiðari aðgang inn á fasteignamarkaðinn heldur en ella.“

Hvernig eru horfurnar í dag fyrir fasteignaeigendur varðanda kaup og kjör? „Líkt og fram hefur komið hafa vextir verið frekar lágir í sögulegu samhengi, fasteignamat hefur hækkað umtalsvert undanfarin ár og hefur kostnaður við endurfjármögnun lækkað umtalsvert miðað við það sem áður þekktist. Þessi atriði, ásamt öðrum, gera það að verkum að það er tiltölulega hagstætt fyrir fólk að hreyfa við lánunum sínum, endurfjármagna, lækka vexti á lánunum sínum og svo framvegis.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Að missa en fatta að það er í lagi“

Óttar M. Norðfjörð rithöfundur á erfitt með gera upp við sig hvaða bækur hann heldur mest upp á. Honum finnst eiginlega ómögulegt að svara því. Hins vegar segist hann vera alveg tilbúinn að nefna fyrstu bókina sem hreyfði verulega við honum og eins þá síðustu.

„Ég átti fyrstu alvörulestrarreynsluna mína þegar ég var tíu ára og las bókina Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren,“ segir hann. „Hún var einfaldlega svo ólík öllum öðrum barnabókum sem ég hafði lesið, bæði svo óhemju sorgleg og hlífði manni engan veginn, sem maður kunni að meta, því barnabækur áttu það til. Og síðan er sagan auðvitað bara svo skemmtileg og litrík, fallegt ævintýri í undraveröld með öllu tilheyrandi. Eftir á að hyggja hefur það væntanlega spilað inn í að ég átti og á eldri bróður þegar ég las hana og sá okkur í bræðrum bókarinnar.“

Hann segir að síðasta bókin sem hann hafi lesið sem hafði áhrif á hann sé Call Me By Your Name eftir André Aciman. „Eftir að ég sá myndina í fyrra las ég bókina loksins og vá! Hún er ótrúleg, ekki löng, en tekst einhvern veginn að fanga svo margt; hin erfiðu unglingsár þegar maður vissi varla í hvorn fótinn átti að stíga, fyrstu sterku ástina í lífi manns, ógleymanlegu æskusumrin sem virtust svo löng og þar sem allt gat gerst, að læra að sjá foreldra sína sem manneskjur með sína eigin drauma og þrár, að missa en fatta að það er í lagi, svo ég nefni nokkur atriði. Ekki spillir fyrir að sagan er vel skrifuð, heimspekileg og gerist á Ítalíu, með allri sinni menningu og sjarma.“

Gæði eru algjört aukaatriði

Aðalsteini Jörundssyni, auglýsingastjóra hjá tímaritinu Grapevine, finnst fátt skemmtilegra en að sökkva sér ofan í sjónvarpsþætti og kvikmyndabálka sem hverfast um skemmtilegar, litríkar persónur og spennandi söguheima. Hann viðurkennir blákalt að gæðin þurfi ekkert að vera til að hrópa húrra fyrir svo framarlega sem skemmtanagildið er gott. Þess vegna hafi það verið eins og að detta í lukkupottinn að uppgötva Star Trek á gamals aldri.

„Auðvitað hef ég alltaf vitað af tilvist Star Trek en það var ekki fyrr en fyrir svona tveimur eða þremur árum að sonur minn setti fyrsta þátt af Star Trek: The Next Generation í gang á Netflix að ég ákvað að þarna væri eitthvað sem mig langaði til að skoða betur. Mér er alveg sama þótt gæði myndanna og þáttanna séu jafnmismunandi og sögurnar eru margar. Þarna fann ég heim sem ég gat sökkt tönnunum í. Spennu í bland við heimssýn sem vekur með manni von um betri heim, heim þar sem kynin eru jöfn, kynþáttahatur þekkist ekki og enginn stéttaskipting ríkir, þar sem hvorki peningar né ríkidæmi eru til.“

Deep Space Nine og Star Trek: Enterprise

Hann segist þegar vera búinn að spæna í sig Deep Space Nine og Star Trek: Enterprise. „Deep Space Nine. Ok, leikur flestra leikara í þessum þáttum er kannski vandræðalega lélegur en það er samt alveg hægt að láta sig hafa það að horfa á þá. Sama má segja um Star Trek: Enterprise-þættina þótt flestir trekkarar geti ekki talað um þá án þess að hrækja á gólfið.“

Star Trek: Original Series

Um þessar mundir segist Aðalsteinn þó mest vera að horfa á upprunalegu seríurnar með Kirk, Spock og félögum. „Reyndar finnst mér stíllinn ekki eins skemmtilegur eins og í ýmsu öðru Star Trek-efni og gagnstætt mörgum Star Trek-lúðum fyllist ég engri sérstakri gleði yfir því að horfa á Kirk stara valdsmannslega í myndavélina eða berjast við illa gerð geimskrímsli. En, ég hef einsett mér að horfa á þetta allt og kosturinn er að geta slökkt á sjónvarpinu alsæll eftir hverja atlögu og hlakkað til næsta kafla.“

Skildi betur pabba sinn

Erna Kanema Mashinkila ferðaðist á síðasta ári til Sambíu í leit að sjálfri sér. Í heimildamyndinni Söngur Kanemu, sem fer í almennar sýningar í Bíó Paradís 6. september, er þessari örlagaríku ferð gerð skil.

„Ég fór af stað út í þetta þar sem mig langaði til að kynnast betur föðurfjölskyldunni minni og mynda í leiðinni sterkari tengsl við heimaland pabba. Það er nefnilega svo skrítið að þótt Sambía hafi alltaf verið stór hluti af mínu lífi vissi ég voðalega lítið um þetta Afríkuríki, hvað þá Afríku yfirleitt, maður lærir ekki mikið um hana í skólanum,“ lýsir Erna Kanema, 18 ára gömul menntaskólamær sem hefur alist upp í Reykjavík ásamt yngri systur, íslenskri mömmu og pabba frá Sambíu.

Pabbi hennar, Harry, hefur búið á Íslandi í 20 ár og fyrir utan tvær heimsóknir til Sambíu í barnæsku segir Erna Kanema að reynsla hennar af sambíski menningu sé að mestu leyti verið fengin í gegnum hann. Henni fannst hún því ekki þekkja uppruna sinn nógu vel og til að kynna sér hann betur ákváðu hún og fjölskylda hennar að heimsækja Sambíu á síðasta ári, en mamma hennar, Anna Þóra Steinþórsdóttir kvikmyndagerðarkona, fékk að mynda ferðalagið og útkoman varð að heimildamynd, Söngur Kanemu.

„Þetta var rosaleg upplifun,“ segir Erna Kanema um ferðina og brosir, „því ég öðlaðist allt annan skilning á hlutunum en þegar ég heimsótti Sambíu sem barn. Til dæmis vissi ég ekki mikið um bakgrunn pabba og skildi hann stundum ekki. Fannst hann geta verið ógeðslega strangur þegar ég var yngri en núna skil ég af hverju því í Sambíu er það þannig að þú ferð úr því að vera barn yfir í það að vera fullorðinn. Það er ekkert sem heitir að vera unglingur. Það hugtak er ekki til. Að átta sig á þessu eina atriði, að pabbi hafi komið úr svona umhverfi til Íslands hefur verið hjálplegt fyrir okkar samband.“

„Til dæmis vissi ég ekki mikið um bakgrunn pabba og skildi hann stundum ekki. Fannst hann geta verið ógeðslega strangur þegar ég var yngri en núna skil ég af hverju því í Sambíu er það þannig að þú ferð úr því að vera barn yfir í það að vera fullorðinn.“

Eins hafi verið gaman að kynnast tónlistarmenningu og -hefðum Sambíu sem séu talsvert ólíkt því sem þekkist á Íslandi. „Ég er á kafi í tónlist hér, syng í kórum og er að læra söng í djassdeild FÍH og fyrir mig var einstakt að fá að kynnast allt annarri tónlistarmenningu og bera hana saman við það sem ég hef verið að gera. Ég var eiginlega alltaf með upptökutækið í gangi, að taka upp kirkjukóra, messur og meira að segja hljóð í náttúrunni. Mig langaði til að geyma allar minningar sem ég gat,“ segir hún glöð, en þess má geta að tónlist myndarinnar, sem er samin af Árna Rúnari Hlöðverssyni, er meðal annars byggð á þessum upptökum Kanemu Ernu.

Erna Kanema segir að síðast en ekki síst hafi verið dýrmætt að fá að kynnast betur föðurfjölskyldunni. Fram að heimsókninni hafi hún verið svolítið fjarlæg en þarna hafi hún náð að mynda sterkari tengsl við ættingjana og sé nú í reglulegum samskiptum við suma þeirra á Facebook. „Já, áður fyrr voru það þau sem voru meira í sambandi við mig en nú er ég alltaf að senda þeim skilaboð,“ segir hún og hlær.

Sjálf hafi hún öðlast sterkari sjálfsmynd og töluvert dýpri skilning á sjálfri sér eftir heimsóknina til Sambíu. Henni finnst því mikilvægt að börn sem eiga foreldra hvort frá sínum menningarheiminum fái að kynnast uppruna sínum. „Í því samhengi finnst mér að skólar og frístunda- og félagsmiðstöðvar á Íslandi mættu taka meira tillit til annarra menningarheima og gera þeim betri skil. Við eigum að vera miklu opnari fyrir því að læra um aðra menningarheima og af þeim. Ef ég eignast börn vil ég til dæmis að þau séu meðvituð um sinn sambíska bakgrunn. Það er svo mikilvægt að þekkja uppruna sinn.“

Spurð hvort þetta hafi aldrei verið erfitt ferli viðurkennir hún að stundum hafi verið lýjandi að vera með tökulið á hælunum alla daga. Eins hafi henni brugðið svolítið við að sjá lokaútgáfu myndarinnar. „Aðallega vegna þess að þar sem mamma var á bak við vélina var ég ekkert feimin og áttaði mig kannski ekki á því hversu berskjölduð ég yrði. Að því leytinu til er pínkuskrítið að myndin verði sýnd stórum hópi fólks í bíó. Annars gekk þetta vel og ef eitthvað erurðum við mamma bara nánari.“

Gluggarnir síbreytileg listaverk

Sumarhús við Þingvallavatn.

Við Þingvallavatn er sumarhúsaþyrping sem á sér langa sögu. Húsin eru fjölbreytt og bera þess merki að hafa vaxið með eigendum sínum og breyst í tímans rás, allt eftir þörfum íbúanna. Við kíktum í heimsókn í sumarhús við vatnið og hittum þar fyrir tvær hressar systur sem saman hafa innréttað húsið með góðum árangri en húsið er í eigu annarrar þeirra og eiginmanns hennar.

Stofan heillaði mest

Eigendurnir heilluðust strax af aðalrýminu, stofunni sjálfri og þar sem afar gestkvæmt er hjá þeim og fannst þeim mikilvægt að eignast sumarhús með stórri stofu og var það útgangspunkturinn hjá þeim þegar þau hófu leitina að sumarhúsinu. Kamínan í stofunni þótti þeim einnig mikið aðdráttarafl. Húsið er dæmigert sumarhús fyrir þetta svæði að því leytinu til að byggingarhlutarnir eru misgamlir. Eldri byggingin hýsir svefnherbergið, forstofu og snyrtingu en stofan og eldhúsið er viðbygging sem byggð var árið 2002. Hjónin keyptu húsið í lok sumars árið 2015 og hófust þá framkvæmdir sem stóðu yfir alla veturinn. Klæðningarnar að innan voru ýmist standandi panell eða lágréttur og ákváðu þau að taka hann af og setja upp nýjan til þess að rýmin myndu verða sterkari heild. Einnig settu þau upp vegg til þess að skilja að ganginn aðbaðherberginu svo það blasir ekki lengur við í stofunni. Með tilkomu veggsins myndaðist rými sem var tilvalið sem lítið sjónvarpsrými og eru þau þar með sjónvarp og svefnsófa. Gömlu bygginguna þurftu þau að laga töluvert en lokað hafði verið fyrir glugga í öðru svefnherberginu sem þau ákváðu að opna fyrir aftur. Veggirnir voru einnig málaðir en höfðu verið ómeðhöndlaðir áður og það sama á við mig um alla glugga.

Gamlir munir gefa persónulegt yfirbragð

Systurnar hafa hjálpast að við að innrétta húsið og segjast hafa átt margar gæðastundir þar saman. Hlutirnir koma úr ólíkum áttum og segist húsmóðirin hafa safnað þeim yfir heilt ár en sumt hafi líka komið frá búi foreldra þeirra sem gefur bústaðnum persónulegra yfirbragð. Bækurnar í skápnum í stofunni eru gamlar bækur frá foreldrunum.

„Þegar við vorum að taka þetta í gegn þá flutti pabbi okkar og var að stokka upp sínar eigur. Margt af hlutunum hér inni eru hlutir sem mamma og pabbi áttu þegar þau voru yngri. Húsbóndastóllinn er til dæmis gjöf sem mamma gaf pabba þegar hann var þrítugur,“ segir önnur systirin.

„Það var svo gaman fyrir okkur hinar systurnar þegar við vissum að hlutirnir myndu rata hingað því hér fáum við allar njóta þeirra,“ bætir hin systirin við. Hrærivélin í eldhúsinu, kökukeflið, bastkarfan og potturinn á eldavélinni eru hlutir sem minna systurnar mikið á móður þeirra enda var hún alltaf í eldhúsinu að þeirra sögn. Sykurkarið í eldhúsinu minnir þær líka á æskuna en þá tíðkaðist gjarnan á heimilum að hafa sykurkör á eldhúsborðinu.

Aðspurðar að því hvar þær sóttu innblástur áður en þær hófust handa svara þær að sumarhús Rutar Káradóttur hafi veitt þeim innblástur og gefið margar góðar hugmyndir. Eldhúsið tóku þær í gegn og settu upp nýjar innréttingar. Hillurnar eru borðplötur sem sagaðar voru til í réttar stærðir. „Mig langaði að hafa opnar hillur og kaupa fallegt leirtau og leyfa því að sjást í stað þess að hafa lokaða skápa,“segir eigandinn og þurfti að setja stoðir á bak við veggklæðninguna til þess að halda hillunum uppi. Þær nutu sín vel systurnar tvær einar í bústaðnum og að innrétta hann saman. Einnig tóku þær í gegn gestahús sem var á lóðinni þar sem svefnpláss er fyrir fjóra.

„Okkur finnst æðislegt að koma hérna tvær einar og mála og stilla upp. Svo fórum við og keyptum allt inn saman,“ segir önnur þeirra og hefur þeim tekist sérstaklega vel til.

Fögur og síbreytileg listaverk

Áður höfðu eigendurnir átt sumarhús við Búrfell en heilluðust meira af náttúrunni við Þingvallavatn. Úr stofunni er útsýni út á vatnið og fjallgarðinn í kring. Gluggarnir eru því fögur listaverk sem eru síbreytileg eftir veðri og árstíðum. Systurnar sögðu einnig að það væri afar heillandi og njóta þær þess mjög að sitja og horfa út um gluggana. Aðspurðar hvað sé næsta mál á dagskrá hjá þeim svara þær að það sé að taka húsið í gegn að utan og ætla þær að taka til hendinni þar nú í sumar. Við kveðjum þessar skemmtilegu systur og þökkum fyrir skemmtilega stund með þeim.

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin“

Matthildur Sunna Þorláksdóttir er löggiltur fasteignasali á Stakfelli fasteignasölu og var að skila inn lokaritgerð í viðskiptalögfræði á Bifröst. Hún er einhleyp og býr í yndislegri íbúð á besta stað í Vesturbænum.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Þegar maður er alltaf í vinnunni eða við símann er að mínu mati nauðsynlegt að hafa fjölbreytileika, og það er það sem heillar mig mest við þetta starf.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Tölvupóstur, símtöl og flakk. Hitta og tala við alls konar fólk og skoða mismunandi íbúðir og hús.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Það er að sjálfsögðu persónulegt hvað gerir heimili að heimili og fólk er jafnmisjafnt og það er margt. Í mínu tilviki er það hlýleiki. Ég er mikil plöntu- og kertamanneskja því að mér finnst það gera heimilið hlýlegra.“

Getur þú lýst þínum stíl?

„Myndi lýsa honum sem út og suður. Ég fer ekki endilega mikið eftir neinum sérstökum reglum, hvorki í fatavali né á heimilinu, heldur eftir því sem mér finnst fallegt.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Ég er hrifin af Alvar Aalto og Arne Jacobsen, bæði í hönnun og arkitektúr. Mér finnst frekar gaman að því hvað þeir hafa hannað skemmtilega öðruvísi byggingar og tímalausa hönnun í húsgögnum og fylgihlutum.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Ekkert sem ég man eftir, er mjög sátt við það sem ég á.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Þeir eru þónokkrir. Er mjög hrifin af grænum og karrígulum og hrafnagráum. Jarðlitir og pastellitir eru einnig í miklu uppáhaldi.“

Hvar líður þér best?

„Heima hjá mér, ég er mjög heimakær. Mér líður best einni að bralla eitthvað þar eða með fullt hús af fólki.“

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin. Það verður allt svo miklu meira kósí. Stórar peysur og treflar verða staðalbúnaður og rauðvínsglas og kertaljós á Kaffi Vest verður extra rómó.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég er mjög hrifin af Mathöllinni á Hlemmi, þar eru nokkrir veitingastaðir sem standa upp úr hjá mér. Skál og Jómfrúin eru í algjöru uppáhaldi, sem og Kröst. Finnst þetta skemmtilegt „concept“, það finna allir eitthvað við sitt hæfi.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar?

„Ég er algjör sökker fyrir nýmóðins spænskum stíl. Ég hef verið að skoða og sýna eignir á Alicante-svæðinu og mér finnst það sem verið er að byggja núna vera einstaklega fallegt.“

Að lifa lífinu lifandi er að…

… anda með nefinu og njóta líðandi stundar.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Svart stál og gróf viðaráferð koma sterk inn

Þessa dagana hjá Vogue fyrir heimilið er verið að taka upp einstaklega fallegar og vandaðar gjafavörur frá nýrri vörulínu. Þvílíkt augnakonfekt til að njóta og fegra heimilið. Við hittum Kolbrúnu Birnu Halldórsdóttur, verslunar- og rekstrarstjóra, og fengum smáinnsýn í það sem koma skal.

Þessar vörur sem voru að koma í hús eru einstaklega fallegar og grípa augað. Getur þú aðeins sagt okkur frá þessari nýju vörulínu?

„Boltze er þýsk vörulína sem inniheldur mikið af fallegri gjafavöru, borðum, hillum og fleira skemmtilegu sem auðvelt er að breyta með eða bæta á heimilinu með litlum tilkostnaði.“

Vogue fyrir heimilið er ávallt að stækka og auka vöruúrvalið, er ekki einstaklega skemmtilegt og gefandi að geta raða hinu ýmsu vörum saman?

„Ó, jú. Það er alveg ótrúlega gaman, þetta hefur verið ævintýri líkast síðastliðin fjögur ár eftir að við fluttum hingað í Síðumúlann. Ég nærist sjálf á því að fegra umhverfið, svo er ég náttúrlega með svo frábært fólk hérna með mér í verslunni.“

Hvað er það nýjasta sem koma skal í vetur?

„Við höfum tekið mikið inn af litlum borðum sem skemmtilegt er að raða saman við sófann eða nota sem innskotsborð, hillum, glervösum, bökkum sem hafa haldið velli í nokkur ár og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram, alltaf gaman að dekúreta með bökkum, vösum og fleira.“

Eru einhverjir litir eða áferð sem eru vinsælli en annað þessa stundina?

„Mildir gamaldags litir eru móðins í dag. Varðandi áferðina þá er stálið alltaf vinsælt og grófur viður sem er meðal annars flottur við svart stál. Tvinna saman stáli og við er flott kombó.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Raddir