Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

Íslenskir þjálfarar eiga sviðið

Guðmundur Guðmundsson

Íslenskir handboltaþjálfarar eru greinilega í miklum metum á alþjóðavettvangi og á HM í ár verður sú einstaka staða uppi að fimm íslenskir þjálfarar munu leiða lið sín út á völlinn í Danmörku og Þýskalandi.

Guðmundur Þór Guðmundsson mun að sjálfsögðu stýra íslenska liðinu en hann náði einnig því afreki að koma liði Barein á HM með því að ná öðru sæti á Asíuleikunum. Hann hætti með Barein til að taka við íslenska liðinu en forsvarsmenn handboltasambandsins þar í landi voru greinilega hæstánægðir með íslensku áhrifin og réðu Aron Kristjánsson til að koma í hans stað. Aron þjálfaði áður lið Álaborgar í dönsku úrvalsdeildinni.

Dagur Sigurðsson verður í eldlínunni með japanska liðið sem hann tók við árið 2017 og Patrekur Jóhannesson með það austurríska sem hann hefur þjálfað frá árinu 2011. Hann er nú þjálfari Selfoss en mun í sumar taka við danska stórliðinu Skjern. Loks mun Kristján Andrésson, nýkjörinn þjálfari ársins, stýra landsliði Svíþjóðar. Hann hefur náð virkilega góðum árangri með Svíana og komst óvænt í úrslitaleikinn á EM í Króatíu þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Spáni í úrslitaleik.

Árið 2015 voru íslensku þjálfararnir fjórir talsins. Aron þjálfaði þá íslenska liðið, Dagur stýrði þýska liðinu, Guðmundur því danska og Patrekur sem fyrr með Austurríki.

Hjálpartæki og félagi

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Blindrafélagið framleiðir þetta árið dagatal félagsins eins og undanfarin ár með myndum af leiðsöguhundum. Ágóðanum er varið til kaupa á leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta hér á landi. Sigþór U. Hallfreðsson, formaður félagsins, segir að kaupa þyrfti um tvo hunda á ári. Einungis átta leiðsöguhundar eru á landinu í dag.

„Lítil hefð var fyrir leiðsöguhundum á Íslandi fyrir rúmum áratug en árið 2008 safnaði Blindrafélagið ásamt Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir fjórum hundum sem voru keyptir frá Noregi,“ segir Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins. „Það markaði upphafið að því sem við höfum síðan kallað „leiðsöguhundaverkefnið“ sem félagið stendur að í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.“

Sigþór segir að fljótlega hafi félagið séð fram á að þörfin var meiri auk þess sem það styttist í endurnýjun á hundunum. Var farið aftur af stað með að útvega hunda í samvinnu við Blindravinafélagið og Lionshreyfinguna sem tileinkaði leiðsöguhundaverkefninu landssöfnun Rauðu fjarðarinnar, árið 2015.

Fæst núna líka í verslunum

Árið 2012 var fyrsta leiðsöguhundadagatal Blindrafélagsins gefið út í þeim tilgangi að fjármagna kaup á leiðsöguhundum og síðan hefur dagatalið verið gefið út árlega í þessum tilgangi. „Við létum að þessu sinni framleiða 18.000 dagatöl. Hingað til hefur salan farið meira og minna þannig fram að við höfum sent dagatölin á valinn hóp velunnara og gíróseðil með en eitthvað af því skilar sér náttúrlega ekki. Við höfum líka selt dagatölin í gegnum vefverslun Blindrafélagsins og núna erum við í fyrsta sinn að selja dagatölin m.a. í völdum verslunum Bónus og A4 og verið er að vinna í að koma þeim í sölu víðar en þau eru í standi við kassana. Við erum að reyna að stækka hópinn sem kaupir dagatölin.“

Dagatalið kostar 1939 krónur og segir Sigþór að það tengist ártalinu 1939 þegar Blindrafélagið var stofnað.

Ættu að vera fleiri

Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum þetta verkefni undanfarinn áratug og eru núna starfandi átta leiðsöguhundar á landinu. „Hundarnir mættu og ættu að vera fleiri. Þeir eru yfirleitt tilbúnir til notkunar tveggja til tveggja og hálfs árs gamlir og má gera ráð fyrir að þeir endist þar til þeir verða um 10 ára. Það fer reyndar eftir tegundinni en við höfum eingöngu verið með labrador-hunda en önnur hundakyn geta líka hentað ágætlega.“

Sigþór segir að þeir sem hafa áhuga á að komast á biðlista eftir leiðsöguhundi þurfi að fara á námskeið þar sem metið er hvort leiðsöguhundur henti aðstæðum hvers og eins. „Viðkomandi áttar sig þá líka á því hvort leiðsöguhundur myndi nýtast honum. Það eru ekki allir sem sjá fyrir sér að nota hundinn nógu mikið eða líst ekki á að halda hund en því fylgir mikil ábyrgð. Það liggja núna fyrir fjórar umsóknir frá fólki sem hefur farið á námskeið og við höfum líka spurst fyrir á meðal félagsmanna og hafa um 30 manns sýnt áhuga á að fá leiðsöguhund og þar af 15 mikinn áhuga. Það ættu að vera fleiri hundar í vinnu hér á landi miðað við fjölda þeirra sem eru blindir eða sjónskertir. Við horfum til þess að reyna að fá tvo nýja hunda á ári að jafnaði til þess að endurnýja þá sem þegar eru fyrir og fjölga í hópnum.“

Aukið sjálfstæði

Sigþór segir að það geti skipt miklu máli fyrir blindan eða sjónskertan einstakling að hafa leiðsöguhund. „Leiðsöguhundurinn er skilgreindur sem hjálpartæki og sem slíkur er hann eins og hvíti stafurinn og önnur hjálpartæki, stuðningur til sjálfstæðis. Tilgangurinn er að aðstoða notandann við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Notandi leiðsöguhunds er frjálsari ferða sinna og á auðveldara með að komast á milli staða. Notandinn ákveður hvaða leið er farin og stýrir hundinum sem forðar viðkomandi frá hindrunum en  hundurinn stoppar til dæmis við gangbrautir og kemur í veg fyrir að viðkomandi gangi í veg fyrir bíla. Þessu fylgir aukið frelsi og öryggi. En leiðsöguhundur er líka félagi og vinur sem kalla má notalega aukaverkun.“

Bandaríkin föst í spennitreyju Trumps

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál eru í spennitreyju þar sem ekkert bólar á samkomulagi á milli demókrata og repúblikana um fjárlög. Trump stendur fastur á kröfu sinni um að fá 5,7 milljarða dollara inn á fjárlög til að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó en demókratar segja það ekki koma til greina. Á sama tíma sitja um 800 þúsund ríkisstarfsmenn heima þar sem loka hefur þurft fjölda ríkisstofnana vegna skorts á fjárframlögum.

Trump ávarpaði bandarísku þjóðina á þriðjudagskvöld þar sem hann freistaði þess að afla kröfu sinni um múrinn stuðnings. Jafnvel var búist við að hann myndi lýsa yfir neyðarástandi sem myndi gera honum kleift að sneiða fram hjá þinginu og útdeila fjármunum varnarmálaráðuneytisisins beint til múrsins. Það gerði hann þó ekki, heldur dró hann upp svarta mynd af ástandinu á landamærunum og sagði að þar ætti mannúðarkrísa sér stað. Þess vegna væri brýn þörf á að reisa múr á landamærunum. Forsetinn hefur reyndar dregið í land til að reyna að þóknast demókrötum og talar nú um að reisa stálþil í stað steinveggs en það virðist engu breyta. Fjölmiðlar vestanhafs segja að ekkert nýtt hafi komið fram í máli Trumps, heldur hafi hann einfaldlega endurtekið fjölmargar rangfærslur sem hann hefur áður haft uppi um málið. Trump virtist sjálfur hafa litla sannfæringu fyrir ávarpinu því New York Times segir að Trump hafi sagt sjónvarpsmönnum fyrir útsendingu að hann teldi  ávarpið, sem og heimsókn að landamærunum í gær, engu skila en að ráðgjafar hans hafi þrýst mjög á hann.

Fjárveitingar til fjölda ríkisstofnana runnu út þann 21. desember og samkvæmt bandarískum lögum fá þær ekki fjármagn til að starfa fyrr en þingið hefur veitt til þeirra meira fé á fjárlögum. Um 800 þúsund ríkisstarfsmenn sitja því heima án þess að fá greidd laun. Það munu þeir gera þangað til samkomulag á milli flokkanna næst. Ekkert miðar á þá átt. Donald Trump hefur sagst tilbúinn að hafa stofnanirnar lokaðar í mánuði, jafnvel ár. Demókratar sem um áramótin tóku völdin í fulltrúadeildinni, hafa samþykkt frumvörp sem tryggir stofnununum fjárveitingu en til þess að þau nái í gegn að ganga þarf samþykki öldungadeildarinnar. Þar stjórna repúblikanar og hefur leiðtogi þeirra, Mitch McConnell, hafnað því að taka frumvörpin til meðferðar.

Tíminn vinnur með demókrötum í þessu máli. Kannanir sýna að meirihluti kjósenda telur Trump ábyrgan fyrir lokuninni og þingmenn innan raða repúblikana eru farnir að ókyrrast og tala jafnvel um að kjósa með frumvörpum demókrata. En óvíst er að þeir fái tækifæri til þess. Trump hefur lagt allt undir í þessari deilu og það yrði þess vegna mikill persónulegur ósigur fyrir hann ef hann fær ekki málið í gegn. Eða eins og öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham orðaði það: „Ef við förum á bak við forsetann í þessu máli yrðu það endalok forsetatíðar hans og endalok [Repúblíkana]flokksins.“

Lokunin gæti orðið sú lengsta í sögunni

Lokun ríkisstofnana hefur nú staðið yfir í 20 daga og teygi hún sig fram yfir helgi verður hún sú lengsta í sögu Bandaríkjanna. Flokkarnir höfðu náð samkomulagi á þingi fyrir áramót en Trump kom í veg fyrir að það næði í gegn að ganga þar sem það hefði ekki tryggt fjármagn til byggingu múrsins, hans helsta kosningaloforðs. Lokunin hefur ekki bara áhrif á þá 800 ríkisstarfsmenn sem annaðhvort eru sendir í leyfi eða látnir vinna án þess að fá greitt. Þannig er óvíst hvort skatturinn geti endurgreitt þeim milljónum manna sem eiga von á endurgreiðslu, þjóðgarðar eru víða lokaðir og þeir sem reiða sig á mataraðstoð frá hinu opinbera gætu setið uppi með ekki neitt innan fárra vikna. Þá sitja fjölmörg önnur mikilvæg verkefni á hakanum enda aðeins allra nauðsynlegustu verkefni innt af hendi.

Múrinn leysir ekki öll vandamál

Bygging múrsins, eða stálþilsins eins og Trump hefur talað um undanfarið, snýst orðið að stórum hluta um egó forsetans fremur en raunverulegt notagildi enda morgunljóst að engin „mannúðarkrísa“ á sér stað á landamærunum líkt og Trump heldur fram. Þeim sem fara ólöglega yfir landamærin hefur fækkað jafnt og þétt undanfarna tvo áratugi, meirihluti þess heróíns sem streymir yfir landamærin kemur í gegnum landamærastöðvar og utanríkisráðuneytið segir engar trúverðugar vísbendingar um að grunaðir hryðjuverkamenn hafi farið ólöglega yfir landamærin, þrátt fyrir fullyrðingar forsetans um annað. Þá eru aðrar hindranir í veginum, náttúrulegar, lagalegar og efnahagslegar. Kostnaðurinn er gríðarlegur og mun lenda á bandarískum skattgreiðendum en ekki Mexíkó eins og Trump fullyrti, ríkið þarf að kaupa gríðarlegt magn lands undir múrinn og lög einstakra ríkja, svo sem Kaliforníu, flækja einnig framkvæmdina.

Íhugar að lýsa yfir neyðarástandi

Trump gæti farið þá leið að lýsa yfir neyðarástandi til að tryggja fjármögnun múrsins. Slíkt myndi tryggja honum aukin völd umfram þau sem hann hefur dagsdaglega, meðal annars til að beina fjármunum í byggingu hernaðarmannvirkja. Múr á landamærunum gæti flokkast undir slíkt mannvirki. Slíkt er í sjálfu sér einfalt og eru allnokkur fordæmi þess að forsetar hafi lýst yfir neyðarástandi, en það hefur þá iðulega verið gert í tengslum við raunverulegar krísur og í sátt við þingið. Þótt forsetanum sé í sjálfsvald sett að lýsa yfir neyðarástandi, eitthvað sem hann hefur lýst yfir að komi vel til greina, þá hefur hann verið varaður við því þar sem andstæðingar Trumps myndu án efa láta reyna á lögmæti ákvörðunarinnar fyrir dómstólum. Þingið hefur einnig völd til að afturkalla yfirlýsingu forsetans, en til þess þyrfti samþykki beggja deilda og ólíklegt að repúblikanar í öldungadeildinni tækju afstöðu gegn forseta sínum.

Almenningsálitið gegn Trump

Sem stendur er fátt sem bendir til þess að flokkarnir og forsetinn komist að samkomulagi um að binda enda á lokunina. Demókratar hafa efni á að bíða enda sýna kannanir að meirihluti kjósenda, 51 prósent, kennir Trump um lokunina og hefur sú tala hækkað eftir því sem liðið hefur á krísuna. 32 prósent kjósenda kennir demókrötum um. Einungis þriðjungur segist styðja kröfu Trumps um að 5,7 milljörðum verði varið í byggingu múrsins þótt tillagan njóti mikils stuðnings á meðal kjósenda repúblikana. Sömuleiðis hafa vinsældir forsetans dalað frá því lokunin hófst. Demókratar hafa því engan hag af því að láta undan kröfum Trumps, rétt eins og Trump hefur engan áhuga á því að fara inn í kosningarnar 2020 án þess að hafa reist svo mikið sem einn metra af 1.600 kílómetra múrnum sem hann lofaði kjósendum sínum.

Kominn tími á að Aron rísi upp

Sigurður Sveinsson.

Íslenska liðinu á eftir að ganga vel á HM, að mati Sigurðar Sveinssonar, fyrrum landsliðsmanns í handbolta. Hann telur að HM 2019 komi til með að verða mikil reynsluferð fyrir yngstu leikmennina í liðinu.

„Það er gott að við erum með svona marga unga góða leikmenn sem eru að fá sína vígslu á stórmóti, það hjálpar okkur í framtíðinni. Þetta verður mikil reynsluferð fyrir þá,“ bendir Sigurður á. „Reyndar vantar aðeins upp á hæðina hjá sumum leikmönnum. Ekki að það skipti öllu, þeir munu pluma sig vel þarna úti.“

Spurður út í vonarstjörnur liðsins segir Sigurður að það sé orðið tímabært fyrir Aron Pálmarsson fyrirliða að rísa og sýna hvað í honum býr. „Hann er algjör lykilmaður og verður að draga vagninn. Þarf að vera leiðtogi, sýna þor og áræði og leikgleði, sem hefur vantað aðeins upp á hjá honum og rífa liðið með sér.“

Um aðrar vonarstjörnur liðsins segir hann að Gísli Þorgeir sé líklega eitt mesta efni Íslands í handbolta. Líkt og faðir hans, Kristján Arason, státi hann af miklum hæfileikum, búi yfir sprengikrafti og hafi góðan lesskilning í leiknum. Hann megi hins vegar skjóta meira á markið þar sem hann sé hörkuskytta. Nú sé bara spurning hvort Guðmundur Guðmundsson þjálfari þori að nota Gísla Þorgeir almennilega á mótinu.
Þá þurfi Ólafur Guðmundsson að hafa trú á sjálfum sér enda einn besti leikmaður Íslands bæði í sókn og vörn á góðum degi.

En hvað með t.d. Teit Örn? „Hann er úr þessari Selfossfjölskyldu sem hefur alið flottan hóp af leikmönnum. Þetta er feykilega efnilegur strákur, með mikinn sprengikraft og ágætur varnamaður. Vantar kannski aðeins upp á leikskilninginn. Guðmundur notar hann eflaust ekki fyrr en líður á og segir honum þá að bomba á markið.“

En Elvar Örn? „Góður varnarmaður sem hefur góðan skilning á ferlinu. Einn af skemmtilegustu alhliða handboltamönnum landsins. Minnir á Aron Pálmarsson þegar hann var yngri og gæti jafnvel orðið betri. Hann á örugglega eftir að verða einn af okkar betri leikmönnum þegar fram líða stundir.“

Haukur Þrastar: „Það er skemmtilegt hvað Haukur og þessir drengir eru ófeimnir við að taka af skarið og taka þátt. Ég spái því að hann komi inn á þegar við spilum á móti slakari liðum, eins og Japan og Bahrain til að hvíla lykilmenn.“

Daníel: „Daníel er sterkur og með þyngdina í þetta. Hann er kominn með fína reynslu eftir að hafa spilað með Haukum og er bæði góður varnarmaður og skytta. Ég held að Guðmundur hugsi hann sem varnarmann.“

Sigvaldi: „Sigvaldi er búinn að sýna það í Noregi að hann er ekkert síðri en hinir. Hann er einn af þeim sem hefur sannað að hann er bæði góður hraðaupphlaupsmaður og hornamaður. Fljótur og nýtir færin vel. Við þurfum ekkert að óttast hans stöðu.“

Ýmir: „Valið á honum kom mér kannski mest á óvart. Mögulega hugsar Guðmundur hann í vörn, ég veit það ekki. Okkar línumenn vantar kannski að geta spila bæði vörn og sókn. Hann getur það hins vegar, en er svo ungur og óreyndur. Í ljósi þess hef ég áhyggjur af því að hann brjóti illa af sér og verði mikið á bekknum.“

Ómar Ingi: „Hann hefur sannað í Danmörku að hann hefur bæði gott leikauga og er hörku skytta. Nú verður hann að rísa upp og átta sig á því að hann er einn af okkar lykilmönnum.“

Sigurður segist á heildina lítast vel á liðið, hann hafi kannski einna helst áhyggjur af markvörslunni „Já, Björgin verður að sýna hvað í honum býr,“ segir hann ákveðinn. „Markvarslan þarf að batna. Annars vinnst þetta með því að skora fleiri mörk en andstæðingurinn.“

Tekur dauðann í gegn á skemmtilegan hátt

||
||

Charlotte Bøving, leikritahöfundur og leikkona, samdi einleikinn „Ég dey“ sem sýndur er á Nýja sviði Borgarleikhússins. Charlotte skoðar í sýningunni lífið út frá sjónarhóli dauðans og dauðann út frá frá sjónarhóli lífsins og notar ýmis form í sýningunni svo sem tónlist og dans.

Charlotte Bøving segir að í sýningunni sé hún að viðurkenna eigin dauðleika. „Ég leyfi mér að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður því ég er hvort sem er að fara að deyja.“

Charlotte Bøving segist hafa verið orðin fimmtug þegar hún fór að velta fyrir sér að hún myndi einhvern tímann deyja og segist hafa furðað sig á því hvernig hún gat komist hjá því í svona langan tíma að horfast í augu við dauðann.
„Ég var svo hissa á að ég hafði ekki tekið meira eftir dauðanum. Ég fór að spá í dauðann og hvers vegna ég hafði ekki velt honum fyrir mér. Ég fór meðal annars að spá í hvernig dauðinn birtist. Það getur til dæmis verið eins og að ganga inn í grafhýsi að fara inn í matvöruverslanir. Þar er allt dautt svo sem kjötið í kjötborðinu og grænmetið. Þetta er allt á fyrsta eða öðru stigi rotnunar. Ég var að reyna að setja köttinn í megrun og þá fór hann að koma heim með dauða fugla og allt í einu birtist dauðinn inni á stofugólfinu hjá mér. Svo er svo margt í tungumálinu sem vísar í dauðann svo sem þegar sagt er að eitthvað sé „drepfyndið“. Við tölum hins vegar sjaldan um dauðann, það er eins og hann sé ekki til.“

Charlotte segir að í sýningunni sé hún að viðurkenna eigin dauðleika. „Ég leyfi mér að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður því ég er hvort sem er að fara að deyja,“ heldur hún áfram og bætir við að það sé gott að hugsa um dauðann eins og ákveðna endurfæðingu. „Ég dey en lífið heldur áfram í börnunum. Ég vona að ég deyi á undan þeim.“

Tilgangur lífsins að elska, þroskast og stækka
Charlotte segist í sýningunni skoða lífið út frá sjónarhóli dauðans og dauðann út frá sjónarhóli lífsins. Hver er tilgangur lífsins að hennar mati? „Tilgangurinn er náttúrlega persónubundinn en fyrir mig er hann svo sem að elska en líka að þroskast og stækka. Það er hægt að stækka út á við eða inn á við eða hjálpa öðrum við að stækka. Ég fattaði það fyrir löngu að ég þarf að vera skapandi og fylgja hugmyndum mínum eftir og deila þeim og ég deili þeim í gegnum leiksýningar. Þetta er þriðji einleikurinn minn og ég fjalla alltaf um eitthvað persónulegt og vonandi endurspeglar það annarra manna líf. Fólk fær bara mína sýn eða mínar hugleiðingar og svo getur það búið til sín eigin svör,“ segir hún en hinir einleikir Charlotte eru „Hin smyrjandi jómfrú“ og „Þetta er lífið – og nu er kaffen klar“. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir báðar sýningarnar.

„Það getur til dæmis verið eins og að ganga inn í grafhýsi að fara inn í matvöruverslanir. Þar er allt dautt svo sem kjötið í kjötborðinu og grænmetið. Þetta er allt á fyrsta eða öðru stigi rotnunar.“

Dauðinn syngur
Þrátt fyrir að dauðinn sé alvarlegt umfjöllunarefni þá getur fólk haft gaman af sýningunni og hlegið en Charlotte notar gjarnan kímnigáfuna í verkum sínum. „Ég syng nokkur lög,“ segir hún og tekur sem dæmi að eitt laganna sé kabarettlag þar sem dauðinn er að sprella. „Þetta er geggjað „show“. Þetta er alls konar – ég leyfi mér að leika mér með alls konar form í sýningunni. Það er líka dans í sýningunni og þar kemur beinagrind við sögu. Ég skoða dauðann í alls konar myndum. Ég segi meðal annars litlar sögur um mína eigin upplifun á dauðanum. Við upplifum öll sömu hluti í lífinu hvort sem það er gleði eða sorg.“

Charlotte segir að með þessari sýningu vilji hún hafa áhrif á fólk. „Ég er engin gúrú en ég vona alltaf að sýningarnar mínar geti haft áhrif á einhvern hátt. Ég held að þetta sé skemmtileg sýning en um leið líka djúp. Ég er ekki að gera grín að dauðanum þannig en það er hægt að segja að ég taki dauðann í gegn á skemmtilegan hátt. Fólk ætti að fara á sýninguna áður en það deyr.“

Myndir / Saga Sig

Ef þú lækar ekki neitt af því?

Pawel Bartoszek hafði rétt fyrir sér

Í vikunni spurði samfélagsmiðlastjarnan Manuela Ósk Harðardóttir fólk hinnar sígildu spurningar: „Því ertu að horfa svona alltaf á mig ef þú lækar ekki neitt af því?“ Viðbrögðin sem hún fékk kannast margir listamenn við. Þeir eiga að lækka í sér sjálfumgleðina. Þeirra laun eiga bara að vera gleði í hjörtum aðdáenda sinna. Það er hroki að biðja neytendurna um eitthvað meira en það.

Þetta þekkja allir sem vinna með hugverk: frá rithöfundum til skopmyndateiknara, frá tónlistarmönnum til tölvuleikjasmiða. Samfélagsmiðlahark er frekar ný tegund listar en þeir sem hana stunda þurfa að ganga í gegnum sömu áskoranir og aðrir listamenn á undan: Að sitja undir þeim viðhorfum að það sem þeir geri sé ekki alvöruvinna. Að lenda í því að landslög geri ekki ráð fyrir tilvist þeirra.

Oft er ekki mikill glamúr yfir glamúrlífi. Það þarf mjög reglulegar, stöðugar og áhugaverðar uppfærslur til að fólk nenni að fylgjast með manni. Maður er lengi að byggja upp fylgjendahóp. Tekjumöguleikarnir eru ekki endalausir. Það er hægt að selja einhvern varning en fólk vill sjaldnast kaupa hluti. Hérlendis er erfitt að kassa inn á auglýsingum. Þær beinu skila litlu vegna fámennis. Þær óbeinu eru ólöglegar. Þótt Neytendastofa láti bandarískar kvikmyndir í friði er hún til í átök við íslenska þrifasnappara.

Að halda sér uppi á samfélagsmiðlum er vinna. Sú vinna verður auðveldari eftir því sem fleiri fylgja manni og fleiri læka við það sem maður gerir. Að biðja um læk er ekki að biðja um mikið. Ekki fremur en götulistamaður biður um mikið með því að biðja fólk sem sannarlega staldrar við til að hlusta á hann að setja örlítið klink í hattinn. Manúela Ósk er í raun verkalýðshetja, fyrir ört vaxandi starfsstétt 21. aldarinnar.

Ætlar að standa undir væntingum

|||
|||

Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn í landsliðshóp A-landsliðsins í handbolta sem hefur keppni á HM í dag og er því að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu. Hann er að vonum spenntur og fullur tilhlökkunar. Hann hefur spilað með Kiel undanfarna mánuði og segir töluvert mikinn mun á þýsku deildinni og þeirri íslensku, en Kiel hafi alltaf verið draumaliðið hans og hann gæti því tæpast verið ánægðari. Hann hefur fulla trú á að A-landsliðið muni ná árangri á HM og komast í milliriðilinn.

„Ég hef spilað með A-landsliðinu í mörgum æfingaleikjum, spilaði meðal annars með á Gjensidige Cup-æfingamótinu í Noregi á dögunum, en þetta er fyrsta stórmótið mitt, þannig að ég er mjög spenntur,“ segir Gísli Þorgeir. „Ég er auðvitað langt frá því að vera einhver reynslubolti með liðinu, það er langt í það, en það bætist hægt og hægt í reynslubankann.“
Spurður hvernig stemningin sé í liðinu í undanfara HM segir Gísli Þorgeir að hún sé afar góð.
„Liðið er mjög vel stemmt og okkur líður öllum mjög vel með þetta,“ segir hann. „Æfingar hafa gengið afar vel og við höfum unnið hörðum höndum að þessu. Nú er lokahnykkurinn að skella á og við erum allir tilbúnir í þennan slag.“

Gísli Þorgeir hefur spilað með Kiel undanfarna mánuði og segir töluvert mikinn mun á þýsku deildinni og þeirri íslensku. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Kiel var alltaf draumaliðið
Gísli Þorgeir gerði samning við þýska stórliðið Kiel í fyrra og fetar þar í fótspor félaga sinna í A-landsliðinu, Guðjóns Vals Sigurðssonar og Arons Pálmasonar. Hann hefur spilað með Kiel við góðan orðstír undanfarna mánuði. Meiðsli í öxl settu reyndar strik í reikninginn, en hann segist vera búinn að ná sér að fullu. Hann segir tímabilið með Kiel hafa gengið mjög vel, en þangað fór hann eftir frækna frammistöðu með FH. Spurður hvort það sé ekki mikill munur á því að spila í Þýskalandi eða hér heima viðurkennir hann að það hafi verið viðbrigði að byrja að spila í Þýskalandi. „Þetta er allt miklu stærra í sniðum en maður hélt en þetta hefur verið ótrúlega gaman, þetta er algjör draumur að rætast. Kiel hefur alltaf verið draumaliðið mitt, svo ég gæti ekki verið ánægðari.“
Faðir Gísla Þorgeirs, Kristján Arason, spilaði lengi í Þýskalandi, lengst með stórliðinu Gummersbach, en það var áður en Gísli Þorgeir fæddist, enda er hann ekki nema nítján ára og man lítið eftir handboltaferli föður síns. Kristján hefur þó væntanlega lumað á ýmsum góðum ráðum fyrir soninn þegar hann byrjaði að spila í Þýskalandi, eða hvað?
„Já, heldur betur,“ segir hann. „Hann hefur gefið mér mikið af góðum ráðum og hann hefur alltaf reynst mér mjög traustur bakhjarl þegar kemur að boltanum, og reyndar öllu öðru líka. Mamma og aðrir fjölskyldumeðlimir standa að sjálfsögðu þétt við bakið á mér líka og hafa hjálpað mér mikið. Það er ómetanlegt að eiga svona góða að.“

Vita hvenær komið er nóg
Kærasta Gísla Þorgeirs, Rannveig Bjarnadóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur líka stutt hann með ráðum og dáð. Hún hefur búið með honum í Kiel undanfarna mánuði sem hann segir hafa skipt hann miklu máli. „Það hefur verið algjör „lifesaver“ að hafa hana með mér,“ játar hann.
Aginn í liðinu er mikill og vinnan erfið en Gísli Þorgeir segist þó hafa haft tíma til að skoða sig um í Þýskalandi og njóta lífsins. „Ég hef haft tíma til að slaka á með kærustunni eða strákunum,“ segir hann. „Kiel er ágætlega stór borg, hér búa 300.000 manns, og það er nóg um að vera hérna. Aginn er auðvitað mikill í liðinu en þeir vita líka alveg hvenær er komið nóg og maður þarf smá slökun, sem er mjög fínt.“

Gísli Þorgeir Kristjánsson er spenntur og fullur tilhlökkunar vegna HM. Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

Handboltinn heillaði mest
Þegar hann var yngri spilaði Gísli Þorgeir bæði fótbolta og golf, auk handboltans, og þótti mjög efnilegur í báðum greinum, hafði hann aldrei áhuga á að gerast atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
„Ekki í golfinu, það var bara áhugamál,“ segir hann. „Mér fannst það samt alveg ótrúlega gaman, en ekki sem ferill. En mest snerist lífið um fótbolta á sumrin og handbolta á veturna, ég skipti því þannig og var alveg jafnáhugasamur um hvort tveggja. Þegar líða fór á fannst mér samt handboltinn og það sem hann hafði upp á að bjóða meira heillandi og auk þess fann ég mig betur í handboltanum, þótt fótboltinn væri ótrúlega skemmtilegur. Og, jú, ég hafði alveg hugsað út í það að gerast atvinnumaður í fótbolta, en handboltinn hafði yfirhöndina á endanum.“
Auk þess sem Kristján, faðir Gísla Þorgeirs, gat sér góðan orðstír í handbolta þá á móðir hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, farsælan feril að baki í handbolta. Spurður hvort foreldrar hans hafi þrýst á hann að velja handboltann harðneitar Gísli Þorgeir því. „Nei, alls ekki,“ segir hann ákveðinn. „Foreldrar mínir standa með mér í einu og öllu sem ég vil, þau hafa aldrei reynt að hafa áhrif á mitt val.“

Gummi flottur þjálfari og manneskja
Gísli Þorgeir á að baki feril sem landsliðsmaður í öllum yngri landsliðunum, finnst honum mikill munur á því að æfa með A-landsliðinu eða þeim?
„Já, það er mjög mikill munur,“ fullyrðir hann. „Þótt maður sé auðvitað að spila fullorðinsbolta með flestum yngri landsliðunum, þá er A-landsliðið á allt öðru „leveli“. Þá er maður kominn efst í pýramídann sem krefst mikillar einbeitingar og fagmennsku – alltaf. Það eru gerðar miklu meiri kröfur til leikmanna á efsta „leveli“.“
Kristján faðir Gísla Þorgeirs og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari A-landsliðsins, spiluðu saman í íslenska landsliðinu á sínum tíma en Gísli Þorgeir segist samt ekki hafa þekkt Guðmund neitt persónulega þegar hann byrjaði að æfa með A-landsliðinu. Hann harðneitar því að Guðmundur, sem auðvitað er goðsögn í íslenskum handbolta, sé á nokkurn hátt ógnvekjandi eða að menn óttist hann.
„Gummi er flottur!“ segir hann. „Það er ekkert ógnvekjandi við hann, hann vill vinna þetta í samstarfi við okkur strákana og hann er mjög skilningsríkur og frábær þjálfari og manneskja. Ég virði hann mjög mikið.“

„Við stöndum nokkuð vel að vígi, held ég,“ segir Gísli Þorgeir. „Þetta verður auðvitað erfitt, það verða engir auðveldir leikir á þessu móti, þetta er HM og við þurfum að vinna ótrúlega vel.“ Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hefur mikla trú á liðinu
Landsliðshópurinn hélt til Þýskalands á miðvikudaginn og spilar fyrsta leikinn gegn Króatíu í München í dag. Gísli Þorgeir segir mikinn hug í liðinu og að hans áliti stendur liðið vel að vígi miðað við hin liðin í riðlinum.
„Við stöndum nokkuð vel að vígi, held ég,“ segir hann. „Þetta verður auðvitað erfitt, það verða engir auðveldir leikir á þessu móti, þetta er HM og við þurfum að vinna ótrúlega vel. Markmiðið er auðvitað að komast í milliriðil og ég tel að við eigum góða möguleika á því. Strákarnir eru mjög bjartsýnir um það sem koma skal en við gerum okkur allir grein fyrir því að þetta verður ekki auðveld brekka að klífa.“
Sjálfur segist Gísli Þorgeir hafa trú á liðinu og að hann eigi von á góðum árangri þess í mótinu.
„Ég hef mikla trú á liðinu og vel það,“ segir hann ákveðinn.
Eftir að kepnninni á HM lýkur mun Gísli Þorgeir halda aftur til Kiel og spila með þeim í þýsku deildinni í vetur. Óttast hann að meiðslin í öxlinni muni halda aftur af honum þar? „Nei, ég tel mig vera orðinn flottan í öxlinni,“ segir hann og hlær. „Þannig að það ætti ekki að verða neitt vesen með hana í vetur. Ég hlakka bara óskaplega til að spila á HM og síðan í þýsku deildinni og ætla mér að standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar á báðum stöðum.“

Allra augu á genginu

Það er erfitt að spá fyrir um gengisþróun íslensku krónunnar. Það er gömul saga og ný.

Að undanförnu hefur verið töluverður skjálfti á mörkuðum, og hefur Seðlabankinn ítrekað gripið inn í viðskipti á markaði, og unnið gegn veikingu krónunnar. Erlendir aðilar hafa verið að losa um eignir á Íslandi og flytja fé úr landi, og það hefur sett þrýsting á krónuna til veikingar.

Enn fremur er óvissa um hvaða áhrif erfiðleikar WOW air munu hafa á markaði, ef þeir versna frá því sem nú er, og kjaraviðræðurnar eru einnig áhyggjuefni.

Nánar um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Hreyfing – eitt besta gleðilyf sem til er

Á nýju ári fara margir af stað með fögur fyrirheit, langar að bæta heilsuna, létta sig og verða sterkari og stæltari. Farið er af stað af stað með látum og oft er meiningin að bylta mataræðinu og mæta daglega í ræktina en margir gefast fljótt upp og allt sækir í sama far og áður. Ágústa Johnson, eigandi Hreyfingar, segir þó einfaldara en fólk heldur að breyta lífsstílnum.

„Það er aldrei of seint að taka heilsumálin föstum tökum og þú finnur fljótt muninn,“ segir hún. „Það þarf alls ekki að vera stórmál að gera litlar jákvæðar breytingar á lífsstílnum til að uppskera betri heilsu, meiri orku og bætta líðan.“

Ágústa segir langöruggast til að ná árangri að fá aðstoð fagmanna eða skrá sig á heilsuræktarnámskeið.

„Í Hreyfingu bjóðum við upp á fjölbreyttar lausnir og umfram allt frábært fagfólk sem er afar fært í að aðstoða fólk á allan hátt við að koma sér af stað á heilsubrautina til frambúðar. Hvort sem fólki hentar að koma og æfa í hópi á skemmtilegu námskeiði, þjálfa með einkaþjálfara eða, sem fjölmargir nýta sér núna, að koma til okkar í Bestu aðild þar sem þjálfari er til taks í salnum, mælir líkamsástandið með reglulegu millibili, útbýr æfingakerfi og veitir reglulegan stuðning og aðhald. Reynslan sýnir að þeir sem æfa með einhvers konar aðhaldi frá þjálfara eru líklegastir til að ná sínum markmiðum. Besta aðildin er frábær leið því þar hefurðu aðgang að þjálfaranum hvenær sem þú þarft og hann er alltaf á kantinum til að vísa þér veginn, fylgjast með framförum og endurstilla æfingakerfið reglulega. Auk þess eru ótal hugguleg og spennandi fríðindi sem fylgja Bestu aðildinni.“

Ágústa segir heilsurækt vera lífstíðarverkefni sem krefjist stöðugrar vitundar og aðhalds. Hún vitnar í Nike: JUST DO IT! og gefur fjögur heillaráð fyrir þá sem vilja ná árangri.

  1. Hreyfing

„Hreyfing er líkamanum nauðsynleg, svo einfalt er það. Ef þú ert ekki nú þegar með daglega hreyfingu í þínu lífi þarftu að breyta því. Í fyrsta lagi ættirðu að sporna við langri kyrrsetu með því að standa upp ekki sjaldnar en á 30 mínútna fresti. Þó ekki væri nema í 1 til 2 mínútur til að teygja úr þér og sækja þér vatn að drekka. Auk þess ættir þú að styrkja vöðvana með reglulegum lyftingum og þjálfa mikilvægasta vöðvann, hjartað, með kraftmiklum þolæfingum. Liðleika- og jafnvægisæfingar eru einnig afar mikilvægar. Í stuttu máli; stefndu að því að stunda fjölbreyttar líkamsæfingar ekki sjaldnar en þrisvar sinnum í viku í 30 til 60 mín og vendu þig á að standa oft og iðulega upp úr stólnum alla daga.“

  1. Næring

„Allt of margir grípa mat á hlaupum og oftar en ekki er það lélegt, næringarsnautt fæði sem fljótlegast er að grípa til. En það er hverrar mínútu virði að skipuleggja mataræðið vel og taka jafnvel á sig krók til að vanda til fæðunnar. Í stuttu máli er skynsamlegt að sneiða að mestu hjá sætindum og sykurríkri fæðu. Mikilvægt er að fá nægar trefjar daglega og sneiða sem mest hjá unnum matvælum og hertri fitu. Niður með ruslfæðið og upp með grænmetið. Þegar farið er í að breyta mataræðinu er skynsamlegt að kollvarpa ekki öllu í einu. Byrjaðu á að gera áætlun, til dæmis 1 til 2 litlar breytingar á mánuði fyrir allt árið. Eftir árið hefurðu kannski fest í sessi helming breytinganna eða meira og yrði það frábær árangur.“

Niður með ruslfæðið og upp með grænmetið.

  1. Slökun

„Eftir jól og áramót glíma margir við rugl í svefnmynstrinu og sumir hafa gengið svo langt að snúa nánast sólarhringnum við. Þá þarf að kippa því í lag hið fyrsta. Svefn, hvíld og slökun eru hverjum manni nauðsyn. Í raun má segja að eitt besta fegrunarráð sem til er sé reglulegur 8 tíma svefn. Um leið og við töpum hvíld nokkra daga í röð fer allt á verri veg. Reyndu af fremsta megni að koma rútínu á svefnvenjur þínar. Fara að sofa á svipuðum tíma, helst fyrir miðnætti og ná að sofa í 7 til 8 klukkustundir á hverri nóttu. Það verður bara allt auðveldara og betra þegar það gengur eftir.“

  1. Skapið og gleðin

„Góð heilsa, gæðastundir með ástvinum, að vera í góðu jafnvægi, vel hvíldur, nærast á góðum mat, gefa sér tíma til að sinna áhugamálum, hafa næga orku til að takast á við krefjandi verkefni, ná árangri í lífinu og njóta þess að safna skemmtilegum minningum er það sem við flest óskum okkur til að njóta lífsins eins og kostur er.

Hvað sem dynur á okkur í lífinu þá gerir það okkur öllum gott að átta okkur á því hvað kemur okkur í gott skap og veitir ánægju, hamingju og lífsfyllingu. Að horfa á jákvæðu hliðarnar frekar en þær neikvæðu breytir miklu fyrir andlega líðan.

Bjartsýni og jákvætt viðhorf gerir virkilega gæfumuninn og það er margsannað að regluleg þjálfun er eitt besta gleðilyf sem til er.“

Í samstarfi við Hreyfingu.

 

Sá sem hefur heppnina með sér fær bókunina endurgreidda

Utan um nýjasta tölublað Mannlífs, sem kom út í morgun, er kápa frá flugfélaginu WOW air þar sem skemmtilegur leikur er kynntur sem vert er að segja frá.

Til mikils er að vinna í leik WOW air því einn heppinn þátttakandi í leiknum fær heildarbókunina sína að fullu endurgreidda, sama hversu margir eru í bókuninni eða hvert er flogið. Ekki amaleg byrjun á árinu það!

Til að taka þátt þarf að nota kóðann WOWLUKKA við bókun sem veitir 20% afslátt af flugverði á fjölmörgum flugdagsetningum. Þann 16. janúar verður svo dregið úr þeim bókunum sem gerðar voru með kóðanum.

Allir sem slá inn kóðann við bókun frá 10.-14. janúar fara í lukkupottinn. Afsláttarkóðinn WOWLUKKA er í gildi til miðnættis 14. janúar 2019 eða á meðan birgðir endast.

Lukkupotturinn er opinn öllum þeim sem slá inn kóðann WOWLUKKA við bókun, hvort sem afsláttur er veittur af bókuðu flugi eða ekki.

Íslenskur humar hverfur úr fiskbúðum landsins

||
||

Eitthvað mikið virðist hrjá humarstofn­inn­ um­hverf­is Ísland en veiði hefur verið sögulega léleg undanfarin ár. Minnk­un veiðiheim­ilda hefur engan árangur borið og nú hafa fisksalar á höfuðborgarsvæðinu séð sig tilneydda að bjóða kúnnum sínum upp á innfluttan humar frá Maine í Bandaríkjunum þar sem íslenski leturhumarinn var fljótur að seljast upp.

Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un.

Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un, seg­ir í samtali við Mannlíf að nýliðunarbrestur í humarstofninum hafi verið viðvarandi síðan 2005. Engin veiðiráðgjöf var gefin út í haust vegna þess að Hafrannsóknastofnun hefur verið að innleiða nýjar aðferðir við að meta ástand stofnsins. Verið er að leggja lokahönd á túlkun gagna og er von á ráðgjöfinni eftir hálfan mánuð. Jónas Páll vildi ekki segja til um hvort veiðar yrðu bannaðar og bendir á að það komi í ljós eftir tvær vikur.

„Við höfum verið að sjá viðvarandi nýliðunarskort, þ.e. skort á smáum dýrum. Það er ekki gott að segja hver skýringin er nákvæmlega en við höfum séð þetta hjá öðrum tegundum fyrir sunnan land svo þetta er ekki bara bundið við humarinn,“ segir hann og bendir á að það hafi orðið ákveðnar breytingar á ástandi sjávar djúpt suður af landinu upp á síðkastið.

„Maður á frekar von á því að það hjarni eitthvað við eftir þær breytingar. Það er orðið kaldara og seltir minna. Að því slepptu þá kemur humarinn ekki fyrr en 5-6 ára inn í veiði þannig að allar breytingar sjást frekar seint.“

Aðspurður segist Jónas Páll ekki telja ofveiði ástæðu dræmrar veiði heldur breytingar á ástandi sjávar og vöntun á smáum humri. „Ráðgjöf hefur verið fylgt undanfarin 10 ár og það er verið að veiða dýr sem eru 10 til 20 ára gömul, þannig að það er ekki því um að kenna,“ segir hann.

Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár.

Ólafur Björn Þorbjörnsson, skipstjóri frá Höfn í Hornafirði sem gerir út humarbátinn Sigurð Ólafsson SF, er á öndverðum meiði. „Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en þetta er mín kenning og það eru ekki allir sáttir við hana,“ segir Ólafur en hann hefur stundað humarveiði í tæplega hálfa öld.

Þrátt fyrir að stofnstærð hafi sveiflast áður man Ólafur ekki eftir öðru eins og hann hefur ekki mikla trú á Hafrannsóknastofnun. „Þeir hjá Hafró vilja ekkert við okkur tala, held ég, þeir hafa aldrei tekið mark okkur, litlu aumingjunum sem erum í þessu. Það eru stóru útgerðirnar sem ráða þessu,“ segir hann og bendir á að það séu ekki nema um 10-12 bátar á humarveiðum í dag.

Eitthvað mikið virðist hrjá humarstofn­inn­ um­hverf­is Ísland en veiði hefur verið sögulega léleg undanfarin ár.

Ólafur segist telja að samhengi sé á milli hruns stofnsins og þess að stærri útgerðir hafi fyrir um 10 árum síðan breytt veiðiaðferðum sínum. „Þá fóru þeir að koma á miklu öflugri skipum og þyngdu veiðarfærin og hlerana. Við hinir gátum aldrei verið nálægt þeim, við vorum alltaf fastir í drullu og þurftum að forða okkur frá þeim,“ segir hann og bætir við að orsökina fyrir hnignun stofnsins megi rekja til þess að verið sé að eyðileggja sjávarbotninn þar sem humarinn hefst við.

Ólafur kveðst ekki geta svarað því hvernig best sé að bregðast við ástandinu en útgerð hans hefur ekki náð kvóta undanfarin fjögur sumur. „Þessu er náttúrlega sjálfhætt, ég hef ekki efni á að gera út á þetta í dag, það er bara svoleiðis. Það er alveg skelfilegt að eyðileggja þetta svona fyrir sjálfum sér,“ segir hann en viðurkennir að hann muni eflaust reyna eitthvað áfram.

Mögulega besti þjálfari í heimi

Logi Geirsson handboltamaður segist lítast vel á nýja karlalandsliðið í handbolta sem keppir á HM. Hann segir að styrkur liðins felist mikið í að Aron Pálmason sé þar með stórt hlutverk, enda lykilleikmaður, auk þess sem þjálfari liðsins, Guðmundur Þórður Guðmundsson, sé mögulega besti þjálfari í heimi.

„Mér líst mjög vel á íslenska karlalandsliðið í handbolta,“ segir Logi Geirsson. „Það er ákveðið uppbyggingartímabil í gangi núna, það eru margir ungir og reynslulausir leikmenn sem eru að koma og fá stærra hlutverk og við erum kannski búnir að vera á ákveðnu breytingaskeiði í handboltanum. Ég veit að það eru rosalega miklir hæfileikar í liðinu og það getur tekið svolítinn tíma að láta þetta smella alveg en þetta er lið sem gæti á góðum degi unnið hvaða lið sem er. Það er mjög bjart fram undan. Það er allt hægt á svona stórmótum eins og á HM og riðillinn sem slíkur býður upp á það. Það eru gríðarlegir möguleikar fyrir liðið að komast inn í milliriðla og valda usla þar.“

Ég veit að það eru rosalega miklir hæfileikar í liðinu og það getur tekið svolítinn tíma að láta þetta smella alveg en þetta er lið sem gæti á góðum degi unnið hvaða lið sem er.

Aron lykilleikmaður

Þegar Logi er spurður hvernig honum lítist á einstaka leikmenn í liðinu segir hann að Aron Pálmason sé einn besti leikmaður í heimi og að það sama megi segja um Guðjón Val. „Svo erum við með heilt yfir nokkuð þéttan hóp en margir sem eru ekki búnir að ná hátindi á ferli sínum, eiga það eftir þannig að við erum með ungt lið sem á bara eftir að bæta sig.

Styrkur liðsins liggur mikið í að Aron er með risastórt hlutverk í þessu; þetta stendur mikið og fellur með honum. Hann er lykilleikmaður að mínu mati. Styrkur liðsins liggur líka mikið í hvað Guðmundur þjálfari er frábær. Hann er mögulega besti þjálfari í heimi, það er ekki hægt að óska sér betri þjálfara fyrir þetta lið.“

Logi bendir á að Guðmundur hafi verið þjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta á sínum tíma og undir hans stjórn urðu Danir Ólympíumeistarar í Ríó árið 2016. „Og hann fór með íslenska landsliðið á verðlaunapall árið 2008. Guðmundur veit hvernig á að vinna og hann þarf bara að búa til sigurhefð á meðal nýrra leikmanna.“

Logi er jafnframt spurður um helstu veikleika liðsins. „Liðið er ungt og óreynt og því fylgja breytingar og það er ókosturinn við þetta. Það eru margir nýir leikmenn í liðinu og það tekur tíma að púsla saman liði og ná árangri í íþróttum.“

Þriðja besta í riðlinum

Logi segist búast við að liðinu muni vegna vel á HM í ár. „Ég held að það muni örugglega komast upp úr riðlinum. Ég held að liðið muni komast upp í milliriðil. Það er náttúrlega lykilatriði að við erum að spila við mjög sterkar þjóðir; spænska og króatíska liðið eru þau bestu í heimi en íslenska liðið ætti að geta unnið þau á góðum degi, ég held að það verði erfiðustu andstæðingarnir. Ég myndi þó segja að makedónska liðið væri sterkast? Svo erum við með Barein og Japan. Þetta eru allt lið sem við verðum að stefna að að vera fyrir ofan. Við vorum mjög heppin með riðil og íslenska liðið er styrkleikalega séð þriðja besta liðið í þessum riðli þannig að það verða þessi tvö lið fyrir ofan okkur – Spánn og Króatía – sem ég held að sé ómögulegt að lenda fyrir ofan eins og staðan er í dag.“

Við erum að spila við mjög sterkar þjóðir; spænska og króatíska liðið eru þau bestu í heimi en íslenska liðið ætti að geta unnið þau á góðum degi.

Þegar Logi er spurður hvernig nýja liðið sé samanborið við síðasta lið segir hann að í raun og veru sé það einu stórmóti eldra. „Menn eru búnir að spila sig aðeins lengur saman og fleiri farnir i atvinnumennsku frá Íslandi. Hérna er áhugamennska. Svo er kominn nýr þjálfari sem er með aðrar áherslur. Við erum komnir með reynslumikinn þjálfara sem hefur náð árangri.

Ég spái því að við munum eftir örfá ár fara að sjá frábæra hluti gerast aftur hjá íslenska liðinu. Þetta lið er með gríðarlega hæfileika. Framtíðin er fáránlega björt og ég spái því að við getum orðið á meðal átta efstu liða í heiminum og vel það innan þriggja ára.“

Mynd / Myriam Marti

Keppt í tveimur löndum í fyrsta sinn

Heimsmeistaramótið í ár verður sögulegt fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti sem keppnin er haldin í tveimur löndum, Danmörku og Þýskalandi. Þetta verður í sjöunda skipti sem Þýskaland hýsir HM en Danmörk hefur einu sinni áður verið gestgjafi.

Ákvörðun um að halda keppnina í tveimur löndum var tekin í október 2013 en önnur lönd sem sóttust eftir að fá að halda keppnina voru Pólland og Slóvakía/Ungverjaland. Þetta verður í sjöunda skipti sem Þýskaland (þ.m.t. Austur- og Vestur-Þýskaland) hýsir HM en Danmörk hefur einu sinni áður verið gestgjafi. HM 2021 verður haldið í Egyptalandi og Pólland og Svíþjóð verða sameiginlegir gestgjafar árið 2023. Íslendingar hafa einu sinni brugðið sér í hlutverk gestgjafa, árið 1995 sælla minninga.

Keppnisstaðirnir verða sex talsins og verða fjórir þeirra í Þýskalandi – Berlín, Köln, München og Hamborg. Í Danmörku verður keppt í Kaupmannahöfn og Herning og fer úrslitaleikurinn fram í Jyske Box í Herning. Lanxess Arena í Þýskalandi rúmar flesta áhorfendur, alls 19.250, en Ólympíuhöllin í München fæsta, 12.000 áhorfendur.

Sex sinnum hefur það gerst að gestgjafar fari með sigur af hólmi á HM, nú síðast í Frakklandi árið 2017. Frakkar eru reyndar sigursælasta lið keppninnar frá upphafi því þeir hafa sex sinnum orðið heimsmeistarar. Svíþjóð og Rúmenía hafa fjórum sinnum hampað sigri og Þýskaland þrisvar. Ekkert lið utan Evrópu hefur orðið heimsmeistari. Katar komst næst því árið 2015 en liðið tapaði þá í úrslitaleik fyrir Frakklandi, í Katar.

Sannleikurinn hefur margar hliðar

||||
||||

Valdimar Örn Flygenring hvarf að mestu úr sviðsljósinu fyrir rúmum áratug eftir að hafa verið einn vinsælasti leikari þjóðarinnar í áraraðir. Nú er hann kominn aftur inn á sviðið sem Ólafur í Ófærð 2 og talað er um magnaða endurkomu. En hvers vegna hætti hann að leika og hvað hefur hann verið að gera í millitíðinni?

„Ég er aðallega að vinna sem leiðsögumaður,“ segir Valdimar þegar hann er spurður hvað hann hafi verið að gera undanfarin ár. „Ég er jeppaleiðsögumaður fyrir minni hópa, bæði með eigið fyrirtæki og vinn fyrir aðra þess á milli. Ég er svona týpískur Íslendingur, vinn við það sem til fellur og þarf að gera hverju sinni.“

Eitt af því sem til féll á nýliðnu ári var hlutverk Ólafs í Ófærð 2. Hvernig samdi Valdimar, sem er kunnur náttúruverndarsinni, við þann karakter? Er hann sammála skoðunum hans á virkjunarmálum til dæmis?

„Ég held að svona kallar sem hafa búið lengi þar sem lítið hefur verið að gerast í atvinnumálum eigi erfitt með að vera andvígir framkvæmdum,“ segir Valdimar. „Þeir þurfa að finna leiðir til að lifa af í sínu umhverfi þó svo að við sem búum við ákveðið öryggi getum haft alls konar skoðanir á því. En þegar maður setur sig í spor fólks sem býr við allt aðrar aðstæður skilur maður afstöðu þess að einhverju leyti þótt maður sé algjörlega andvígur þeim í hjarta sér.“

Valdimar Örn Flygenring dró sig út úr leiklistinni fyrir rúmum áratug en á nú magnaða endurkomu í Ófærð 2. Mynd / Hallur Karlsson

Spurður hversu langt sé síðan hann lék í sjónvarpsþáttaröð eða bíómynd segist Valdimar reyndar hafa verið viðriðinn þann geira alltaf öðru hvoru í gegnum í árin, hann hafi aldrei lagt leiklistina algjörlega á hilluna.

„Ég hef alltaf verið pínulítið að grípa í þetta,“ segir hann og hlær. „Í fyrra var ég til dæmis að leika í þýskri bíómynd eftir að fólkið sem var að gera hana hafði séð mig í myndinni Hvalfjörður sem ég lék í fyrir nokkrum árum.“

Hætti á erfiðu tímabili í einkalífinu

Þannig að þetta tal um endurkomu í leiklistina á ekki alveg við rök að styðjast, þú hefur verið viðloðandi bransann allan tímann?

„Ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum 1986 og var alveg á fullu í tuttugu og þrjú ár eftir það,“ útskýrir Valdimar. „Þá var maður stanslaust að daga, kvöld og helgar í leikhúsinu og svo kom sumarið og þá var maður á kafi í bíómyndum. Eftir að hafa unnið þannig í tuttugu og þrjú ár fór ég aðeins að hugsa minn gang, auk þess sem ég var að ganga í gegnum erfitt tímabil í lífi mínu á þeim tíma, var að fara í gegnum skilnað og var að leika í erfiðu verki, Pabbastrák eftir Hávar Sigurjónsson sem var frábært verk en hlutverkið gekk nærri mér. Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.

Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“.

Ég lenti mikið í því að leika leiðinlega kallinn og það má maður ekki gera alltof lengi, sérstaklega ekki þegar maður er sjálfur að ganga í gegnum erfiðleika í einkalífinu. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort maður eigi kannski bara að fara að gera eitthvað allt annað, opna nýja glugga. Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef aldrei getað verið í einhverju ákveðnu fari, gæti til dæmis aldrei unnið frá níu til fimm, ég er bara ekki þannig gerður. Kannski er það ómeðhöndlaður athyglisbrestur en ég þarf alltaf að vera að takast á við eitthvað nýtt.“

Valdimar hætti að drekka árið 1989 og hann segir það líka hafa haft áhrif á ferilinn. Þegar leikarar hætti að drekka hætti þeir að mæta á barina og detti þar af leiðandi svolítið út úr klíkunni.

„Það bara gerist, eðlilega,“ segir hann. „En það er líka mjög gott, allavega var það þannig í mínu tilfelli. Ég hef líka stundum sagt þegar maður er með heimsbókmenntirnar í höfðinu alla daga og er að velta sér upp úr dýpstu hugsunum mannsandans árum saman þá væri það nú skrýtið ef maður þroskaðist ekki pínulítið og færi að velta fyrir sér nýjum leiðum í lífinu.“

„Geri þetta skást af því sem ég geri“

Valdimar hefur sjálfur fengist við það í gegnum tíðina að setja eigin hugsanir á blað, bæði í formi ljóða og annars texta, er hann hættur því?

„Nei, nei, ég hef alltaf haldið því áfram,“ segir hann ákveðinn. „Svo er ég líka í hljómsveit sem kemur fram alltaf öðru hvoru og það er alveg óskaplega skemmtilegt. Hljómsveitin heitir Hráefni, Þungt flauel eða Mellur & brennivín eftir því hvar við erum að spila. En kjarninn í sveitinni er ég, Þorleifur Guðjóns og Þórdís Claessen. Ég sem bæði lög og texta og hef mjög gaman af því. Sem betur fer erum við ekkert að reyna að verða fræg eða rík, gerum þetta bara ánægjunnar vegna og manni líður alltaf eins og maður hafi verið í löngum jógatíma eftir æfingar. Ég gaf út plötu í gamla daga og hljómsveitin gaf út pínulítinn disk fyrir tveimur árum og við erum alltaf á leiðinni að gera eitthvað meira en það verður að viðurkennast að það er ekkert sérstaklega mikil eftirspurn eftir tónlist frá sextugu fólki, þannig að við erum voðalega róleg í sambandi við plötugerð.“

Valdimar segir að fyrst eftir að hann dró sig að mestu út úr leiklistinni hafi hann aðallega fundið fyrir létti og verið spenntur fyrir nýjum verkefnum, en menningin togi þó alltaf í hann.

„Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera svolítið á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.“

„Það sem ég hef komist að í gegnum tónlistariðkunina er í fyrsta lagi hvað menning er mikilvæg fyrir mig sem manneskju. Maður þarf að gera eitthvað fleira en vinna, éta og sofa, það veitir manni tilgang. Ég hef líka komist að því, til dæmis með því að taka þátt í Ófærð 2 með Balta og hans fólki, að ég hef leiklistina enn þá í mér og hún skiptir mig máli. Þegar maður var stanslaust að vinna við þetta fékk maður svo lítinn tíma til þess að melta það sem maður var að gera og láta það opna sér nýja sýn á hlutina.

Auðvitað gerði maður það að einhverju leyti en ég finn það núna að þessi ár sem ég hef verið frá leiklistinni hafa gefið mér tíma til að melta og ég kem að þessu á annan hátt núna. Leiklistin er auðvitað ein af þeim listgreinum sem byggir hvað mest á samvinnu og mér fannst alveg óskaplega gaman að vinna með þessu teymi að þessu verkefni. Mér fannst líka gott að finna að þrátt fyrir allt þá get ég enn þá leikið og það bara þokkalega. Sennilega geri ég þetta skást af því sem ég hef reynt að gera í lífinu.“

„Auðvitað lék ég götustrákinn“

Valdimar byrjaði að leika tólf ára gamall, í skólasýningu á verki sem bekkjarsystir hans hafði skrifað fyrir árshátíð skólans. Það opnaði honum nýja sýn á sjálfan sig að hans sögn.

„Auðvitað var ég látinn leika götustrákinn,“ segir hann glottandi. „Leikritið átti að gerast í skólastofu og ég var uppreisnarseggurinn í bekknum. Ég hafði aldrei fengið sérstakt hrós frá einum eða neinum í skólanum en eftir þessa sýningu kom yfirkennarinn til mín og hrósaði mér sérstaklega fyrir þetta. Ég man alltaf eftir því og ég á það kannski honum að þakka að ég lagði leiklistina fyrir mig.“

Eftir þessa sýningu kom yfirkennarinn til mín og hrósaði mér sérstaklega fyrir þetta.

Hlutverk uppreisnarseggsins fylgdi Valdimar fyrstu árin í leiklistinni en hann segist þó ekki almennilega vita af hverju hann var svona oft látinn leika þannig hlutverk.

„Kannski af því ég var töluvert uppreisnargjarn og vonandi með einhverja réttlætiskennd,“ segir hann hugsi. „Kannski átti fyrsta sýning mín í Nemendaleikhúsinu líka þátt í þessu. Þá lékum við Rauðhærða riddarann og ég lék þar einhvern svona brjálæðing. Það þótti eftirminnilegt, allavega nóg til þess að tuttugu og fimm árum seinna þegar ég stóð úti í Laxá í Aðaldal að veiða silung kallaði til mín maður á næsta veiðisvæði og spurði hvort ég væri ekki Valdimar Örn Flygenring. Þegar ég játaði því þakkaði hann mér fyrir Rauðhærða riddarann. Það þótti mér skemmtilegt.“

Leiðinlegt að vera settur í steríótýpur

Í upphafi ferilsins var Valdimar líka oftar en ekki í hlutverki kyntröllsins, bæði innan og utan sviðs. „Maður ræður auðvitað ekki við það hvernig fólk sér mann,“ segir hann hálfvandræðalegur þegar þetta berst í tal.

„Ég veit ekkert úr hverju það kom og get ekki um það dæmt. Það hafði samt auðvitað áhrif. Ég held það sé alltaf leiðinleg staða að vera settur í einhverjar steríótýpur. Það getur verið dálítið takmarkandi og sorglegt ef ferill bæði byrjar og endar þar. Og án þess að ég sé á nokkurn hátt bitur þá var þetta kannski líka á vissan hátt hluti af einhverri ófullnægju sem gerði það að verkum að maður fór á endanum að horfa í aðrar áttir. Auðvitað á maður að fá að þroskast í starfinu ef maður hefur hæfileika, ekki vera settur í eitthvert hjólfar. Í svona mikilli samvinnu eins og leikhús er þá er ákvörðunin um hvert þinn ferill þróast ekki bara þín heldur einhverrar yfirstjórnar og maður hefur ekki alltaf mikið um það segja.“

Ég held það sé alltaf leiðinleg staða að vera settur í einhverjar steríótýpur.

Valdimar segir það líka hafa haft áhrif á hann og hans kynslóð leikara að á þeim árum sem þau komu til starfa hafi leikhús á Íslandi verið í mikilli endurnýjun.

Hlutverk uppreisnarseggsins fylgdi Valdimar fyrstu árin í leiklistinni en hann segist þó ekki almennilega vita af hverju hann var svona oft látinn leika þannig hlutverk.

„Í kringum 1990, þegar Stefán Baldursson tekur við Þjóðleikhúsinu er enn þá verið að reka Borgarleikhúsið eftir lögum um áhugaleikhús. Þótt leikhúsið sjálft væri svona stórt og fínt og flott var enn þá lítill hópur af fólki sem tilheyrði Leikfélagi Reykjavíkur. Stefán byrjaði strax svolítið að taka til í Þjóðleikhúsinu, með fullri virðingu fyrir því sem áður hafði verið gert. Hann hristi svolítið rykið af stöðluðum hugmyndum um leikhús og réði inn hóp ungs fólks sem hefur síðan orðið kjarninn í íslensku leikhúsi. Svo getur fólk auðvitað haft sínar skoðanir á því hvort það sé rétt að það séu alltaf sömu aðilarnir meira og minna í sömu hlutverkunum. Það eru margar hliðar á sannleikanum.

Ég hef stundum sagt að sannleikurinn sé eins og fjall.

Ég hef stundum sagt að sannleikurinn sé eins og fjall. Maður hefur kannski verið að horfa á það úr fjarlægð alla sína ævi og gert sér einhverjar hugmyndir um það hvernig það er. Svo þegar maður fer að ganga á fjallið lítur það allt öðruvísi út og er allt annað en maður hélt. Eftir langa baráttu kemst maður svo kannski á toppinn og þá breytist fjallið enn og aftur. Á niðurleiðinni fær maður svo fjórðu upplifunina af fjallinu, þannig að þetta getur verið heillangt og erfitt ferðalag upp og niður en þegar maður er kominn til baka horfir maður aldrei á fjallið með sömu augum og áður en maður lagði af stað. Það er líka þannig með sannleikann, hann er ekki einn og samur heldur hefur margar hliðar.“

Eins og sést greinilega í þessu spjalli okkar hefur Valdimar mikinn áhuga á því að velta fyrir sér stóru spurningum tilverunnar í leit að dýpri merkingu og sá áhugi varð til þess að hann hóf nám í guðfræði við Háskólann fyrir nokkrum árum.

„Já, ég fór í guðfræði í eitt ár, var jafnvel að velta því fyrir mér hvort ég gæti orðið prestur,“ útskýrir hann. „Mér fannst það spennandi og eftir að hafa farið í gegnum meðferðarbatteríið og pælt mikið í mannfólkinu fór ég að skilja hvað trú getur verið mikilvæg í lífi manneskjunnar. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvaðan sú þörf kemur. Eins þessi leit manneskjunnar að guði, hvað veldur henni? Þannig að ég skráði mig í guðfræðina til að leita svara við þessum spurningum.

Ég fór í guðfræði í eitt ár, var jafnvel að velta því fyrir mér hvort ég gæti orðið prestur.

Ég var reyndar ekkert viss um það að ég gæti nokkurn tímann verið í námi út af athyglisbrestinum en ég stóð mig bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Þannig að ég komst að því að ég gæti allavega lært en svo þegar átti að fara að kenna manni að ganga um í kufli og syngja sálma þá hætti ég, enda kominn á kaf í túrismann á þeim tíma og hafði varla tíma til að líta upp frá vinnu. Sprengingin í túrismanum kom svolítið aftan að manni enda hefur ferðamannafjöldinn margfaldast á þessum tíu árum sem ég hef verið í þessu og það er lítill tími til að sinna öðru.“

Valdimar hefur mikinn áhuga á því að velta fyrir sér stóru spurningum tilverunnar í leit að dýpri merkingu og sá áhugi varð til þess að hann hóf nám í guðfræði við Háskólann fyrir nokkrum árum.

Skíðaleiðsögumaður á Ítalíu

Valdimar lætur sér þó ekki nægja að sinna túristum á Íslandi því þegar þetta viðtal birtist verður hann kominn til Ítalíu til að vera fararstjóri fyrir íslenska skíðaiðkendur.

„Ég er mikill skíðakall,“ útskýrir hann. „Hef verið á skíðum síðan ég var pínulítill og hef óskaplega gaman af því. Einu sinni var ég spurður að því af ungum strákum í lyftunni í Bláfjöllum hvað ég væri búinn að vera lengi á skíðum og þegar ég sagði að það væru um fimmtíu ár urðu þeir alveg steinhissa, horfðu á mig stórum augum og spurðu hvort ég væri fyrsti kallinn? Ég hef meðal annars verið töluvert að fara á skíði erlendis og þegar í ljós kom að það vantaði einhvern til að taka á móti Íslendingum í ítölsku Ölpunum og leiðsegja þeim um svæðið stökk ég strax á það, alveg himinlifandi. Ég hlakka mikið til að takast á við það.“

Það er greinilegt að Valdimar hefur meira en nóg að gera utan leiklistarbransans en saknar hann aldrei leikhússins og heimsins í kringum það?

„Jú, jú, ég geri það í sjálfu sér stundum,“ viðurkennir hann dræmt. „Þegar maður fer að vinna svona vinnu eins og ég vinn í dag þá finnur maður hvað menningin skiptir mann miklu máli. Maður skynjaði það ekki eins vel þegar maður var alltaf á kafi í þessu, en ég finn vel að lífið snýst um fleira en að vinna, éta og sofa og það er menningin og leikhúsið og auðvitað saknar maður þess. Það var oft alveg frábært að vera í leikhúsinu þegar gaman var en það var náttúrlega ekki alltaf þannig.

Þegar maður fer að vinna svona vinnu eins og ég vinn í dag þá finnur maður hvað menningin skiptir mann miklu máli.

En það var líka gott að fara frá því og eiginlega alveg nauðsynlegt fyrir mig á þeim tíma. Svo finnst mér líka, þótt það hljómi eins og klisja, að það gefi manni langmest að vera bara þakklátur og auðmjúkur fyrir það sem maður hefur. Auðvitað langar mann alltaf í meira og meira en það sem skiptir máli er að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur fengið að gera og hefur getað gert. Það þýðir ekkert annað.“

En kveikti hlutverkið í Ófærð 2 ekkert í þér, aftur eru einhver verkefni í leikhúsi eða kvikmyndum á dagskránni á næstunni?

„Nei, það er ekkert ákveðið komið á dagskrá. Það er alltaf hringt í mig öðru hverju frá Kvikmyndaskólanum og ég beðinn um að leika í myndum sem nemendurnir eru að gera þar og það finnst mér alltaf sjálfsagt að gera ef ég get. Ég er líka opinn fyrir fleiri verkefnum ef mér finnst þau vera eitthvað sem henta mér og passa við mig. Það er alveg ljóst að maður er ekki í leiklistinni peninganna vegna og mér finnst að mörgu leyti gott að vera kominn á það stig að vera í þessu á réttum forsendum. En ég veit ekki hvort einhver sér eitthvað nothæft í manni sem leikara. Það kemur bara í ljós. Það eru svo margar leiðir að því að stunda menninguna.

Það hefur enginn áhuga á list sem rekin er út frá excel-skjali, hún deyr.

Það er hins vegar sorgleg staðreynd að í svona örsamfélagi eins og Ísland er, þá geta í raun bara örfáir einstaklingar í hverri listgrein lifað og þroskast af list sinni, sem er náttúrlega ávísun á einhæfni og stöðnun. Hafi menningin einhvern raunverulegan tilgang í framþróun samfélags sjá allir hvert slík þróun getur leitt okkur. Við eigum að fagna fjölbreytni hún gerir okkur sterkari. Það hefur enginn áhuga á list sem rekin er út frá excel-skjali, hún deyr. Ég hef alltaf hugsað þetta þannig að menningin eigi að bera í sér boðskap um betra mannlíf og það sem brýnast er að taka á núna eru umhverfismálin. Menningin nefnilega skiptir engu máli ef jörðin er að farast. Fjöllin hafa alltaf átt hjarta mitt og núna ætla ég að fara að horfa í sólina á Ítalíu og skíða um fjöllin sem eru einn fallegasti staður á jarðríki. Svo heldur maður bara áfram þaðan.

Ég eignaðist hús norður í Hrísey í fyrra og kannski get ég eitthvað sinnt því í sumar. Svo fer maður kannski líka að einbeita sér að einhverjum skrifum. Það eru endalausir möguleikar sem lífið býður manni upp á. Maður þarf bara að vera opinn fyrir þeim og óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.“

Myndir / Hallur Karlsson

„Þjáning getur verið dásamleg á margan hátt“

Valdís Sylvía Sigurþórsdóttir hefur starfað sem einkaþjálfari í næstum tvo áratugi en hún er stofnandi Jump fit og Foam flex á Íslandi. Hún segir mikilvægt að tala fallega til sjálfs sín og burðast ekki um með hugarfarsleg aukakíló. Valdís prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar.

Undanfarin ár hefur Valdís ferðast mikið ásamt eiginmanni sínum til Asíu, fjórum sinnum til Taílands og þrisvar til Balí. Þegar viðtalið fór fram var Valdís einmitt á leiðinni til Balí. „Fyrsta ferðin mín var árið 2010 en þá heimsótti ég Taíland. Það urðu algjör þáttaskil í mínu andlega ferli. Ég heillaðist af einhverju sem ég get ekki komið orði að. Þar er fátækt en líka mikil gleði. Mér líður alltaf best innan um heimamenn en ekki túristann. Ég vil upplifa þeirra menningu og ég er ekki þessi kona að nennir að gera sig sætari á hverju kvöldi.“

Mynd: Unnur Magna

Í kjölfar ferðarinnar fór Valdís að lesa sér til um búddisma og hindúatrú þar sem allt snýst um karma.

„Ég held í hjarta mér að ég muni fá það sem ég á skilið og það sem ég gef frá mér skipti miklu máli. Ef það kemur eitthvað upp á held ég alltaf ró minni því ég veit að karma sér um sitt. Og ef einhver svíkur mig þá nota ég þessa hugsun, karmað sér um þetta og málið er farið. Ég las nýverið bók í Taílandi sem fjallar um það hvernig þjáningin getur reynst fólki sem gjöf, þá hugsun hef ég tileinkað mér. Við lærum svo margt í þjáningu og nú er ég alls ekki að tala um þjáningu við missi fólks eða annað álíka áfall eins og sjúkdóma eða slys.

Ég tala um raunhæf markmið en samt þarf þessa góðu þjáningu í bland.

Ég er að tala um tilfinningalegan þroska að markmiðum. Hvað þjáning er dásamleg á margan hátt. Manneskja sem reykir ætti að vilja að þjást aðeins, ekki að óttast sársaukann. Það þarf að þjást til að fá þessa vellíðan að vera reyklaus. Manneskja sem ætlar sér markmið í ræktinni ætti einnig að vilja þjást aðeins, að læra að skilja að þjáning er hjálpleg og maður ætti ekki alltaf að bugast undan löngunum.

Ég tala um raunhæf markmið en samt þarf þessa góðu þjáningu í bland. Við þjáumst alveg í prófatörn í skóla en við lærðum það kornung að þetta þurfum við að gera til að útskrifast. Það er eitthvað sem við kunnum. Alveg sama þjáning og ég er að tala um, bara nota hana á öllum öðrum sviðum líka. Það mætti alveg kenna þetta í skólum og ég meina það ekki á dramatískan hátt.

Ég nota þjáninguna til að ganga aðeins lengra, þegar ég er alveg að springa á hlaupabrettinu.

Mér líður ekkert alltaf vel á meðan en hugsunin leitar alltaf í líðanina eftir á. Ég nota líka þjáningu þegar ég þori ekki, að þá hugsa ég fram á við. Þetta er það sem ég kalla að spjalla við sjálfið á uppbyggjandi hátt. Að elska þjáninguna er virkilega þroskandi og róandi.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Valdísi. Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar sem nú er komið á sölustaði. 

Viðtalið við Valdísi Sylvíu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir

Íhugar tilboð upp á 15,2 milljónir

Eigandi bílskúrs sem listamaðurinn Banksy skreytti nýverið með listaverki hefur fengið nokkur tilboð í verkið. Hann er sagður vera að íhuga að taka tilboði upp á 15,2 milljónir.

Ian Lewis, eigandi bílskúrsins sem listamaðurinn Banksy prýddi með stóru listaverki rétt fyrir jól, hefur fengið tilboð í verkið upp á 100.000 pund. Það gerir um 15,2 milljónir króna miðað við núverandi gengi.

Í frétt BBC kemur fram að bílskúrseigandinn hafi fengið nokkur tilboð í verkið en að hann íhugi nú að taka þessu tilboði, upp á rúmar 15 milljónir. Listaverkasafnari, sem á nú þegar nokkur verk eftir Banksy, mun hafa gert tilboð í verkið.

Lewis ætlar þó að funda með yfirvöldum bæjarins sem hann býr í, Port Talbot í Wales, til að ræða fleiri möguleika áður en hann tekur endanlega ákvörðun.

Eins og fjallað var um fyrr í vikunni er Lewis að bugast vegna álags sem fylgir því að eiga bílskúr sem skreyttur er með listaverki eftir Banksy. „Þetta hefur verið mjög, mjög stressandi og mjög súrrealískt. Þetta hefur bara verið of mikið fyrir mig,“ sagði Lewis í viðtali við BBC en honum finnst hann bera ákveðna ábyrgð á verkinu og þurfa að vernda það fyrir skemmdarvörgum. Hann sagði þá að fólk flykkist nú að bílskúrnum á öllum tímum sólarhringsins til að virða verkið fyrir sér.

Yfirvöld í Wales hafa boðist til að útvega Lewis öryggisgæslu um tíma, á meðan hann ákveður hver næstu skref verða.

Mynd / Skjáskot af Youtube

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Banksy (@banksy) on

Gína í hjólastól vekur lukku

|
|

Gluggauppstilling brúðarkjólabúðarinnar The White Collection Bridal Boutique hefur vakið mikla athygli.

Eigendur brúðarkjólabúðarinnar The White Collection Bridal Boutique í Bristol í Englandi hafa fengið mikið hrós fyrir gluggauppstillingu sem sjá má í einum glugga verslunarinnar. Þar er gína höfð í hjólastól.

Það var Beth Wilson sem vakti athygli á gluggauppstillingunni á Twitter en Wilson hefur þurft að nota hjólastól undanfarin fimm ár. Í Twitter-færslunni greindi hún frá að þetta í fyrsta sinn sem hún sér gínu hafða í hjólastól. Færsla Wilson hefur vakið mikla athygli og lukku.

Í viðtali við The Independent segir Wilson að þessu gluggauppstilling hafi hreyft við henni.

„Ég held að flest fólk sem notar hjólastól upplifi slæmt aðgengi þegar það fer út, ég veit að ég upplifi það nánast alltaf þegar ég fer eitthvað. Heimurinn er ekki hannaður fyrir okkur,“ sagði hún.

Í grein The Independent kemur fram að 13,9 milljónir manna í Bretlandi noti hjólastól. En að sögn Wilson er þessi hópur oftar en ekki hunsaður. „Oft líður fólki í hjólastól eins og það sé ósýnilegt,“ sagði Wilson. Hún tók þá fram að hún var sérstaklega glöð að sjá að hjólastóllinn sjálfur hafði verið skreyttur með grænum laufum.

Þegar annar eigandi verslunarinnar, Laura Allen, var spurð út í þessa ákvörðun eigendanna um að hafa gínuna í hjólastól sagðist hún ekki hafa hugsað mikið út í þetta, að henni hafi einfaldlega fundist þetta sjálfsagt.

Myndir / Beth Wilson / The White Collection Bridal Boutique

„Sorglegt að fjárhagur fólks sé farinn að skipta ennþá meira máli“

Björn Þór Ingason birti í gær færslu á Facebook í tilefni þess að breytingar voru gerðar á reglugerð um greiðsluþátttöku hins opinbera við tæknifrjóvganir. Hann vonar að stjórnvöld endurskoði breytinguna.

Umdeildar breytingar voru gerðar á reglugerð um greiðsluþátttöku hins opinbera við tæknifrjóvganir og tóku breytingarnar gildi um áramótin. Málið hefur verið töluvert í umræðunni enda setur breytingin stórt strik í reikninginn hjá mörgum.

Fyrir breytingu á reglugerð var greiðsluþátttaka ríkisins engin í fyrstu tæknifrjóvgun en var 50% ef framkvæma þurfti aðgerðina í annað, þriðja og fjórða sinn. Eftir beyginguna er greiðsluþátttaka ríkisins 5% í fyrsta skipti og 30% í annað sinn. Greiðsluþátttakan er engin er farið er í þriðja eða fjórða sinn í tæknifrjóvgun. Nánar á vef Livio. Síðan breytingin tók gildi hefur margt fólk líst yfir óánægju sinni með hana.

Björn Þór Ingason er einn af þeim sem er óánægður með breytinguna á reglugerðinni og skorar á stjórnvöld að endurskoða málið. Hann og kona hans eignuðust barn árið 2015 með hjálp tæknifrjóvgunar.

„Nú neyðist ég til að stíga aðeins út fyrir þægindarammann,“ skrifar Björn Þór meðal annars á Facebook þar sem hann tjáir sig um málið.

„Í þessari og síðustu viku hafa fjölmiðlar fjallað um ákvörðun stjórnvalda að draga úr greiðsluþátttöku við tæknifrjóvgunarmeðferðir. Þetta málefni stendur mér mjög nærri þar sem ég og Fríða fengum þær fréttir síðla árs 2013 að líkurnar væru ekki með okkur ef okkur langaði að búa til barn upp á eigin spýtur. Við nýttum okkur því þau úrræði sem voru í boði á þeim tíma og eftir tvær meðferðir og fimm uppsetningar var biðin og óvissan loks á enda þegar kraftaverkið okkar kom í heiminn í október 2015 með hjálp tæknifrjóvgunar. Þessar meðferðir kostuðu auðvitað sitt en ég get lofað ykkur því að ég hefði sett hverja einustu krónu sem ég hef unnið mér inn yfir ævina í þetta ferli ef ég vissi hvað beið mín þegar ég fékk hann Ara okkar í hendurnar,“ skrifar Björn meðal annars.

Eftir tvær meðferðir og fimm uppsetningar var biðin og óvissan loks á enda.

Hann heldur áfram og lýsir því hvernig meðferðirnar settu strik í reikninginn fjárhagslega, þrátt fyrir að tekjur hans og Fríðu hafi verið ágætar.

„Það er hins vegar alls ekki raunin fyrir alla og mér finnst það gríðarlega sorglegt að fjárhagur fólks sé farinn að skipta ennþá meira máli eftir þessar breytingar hafi það löngun til þess að stofna fjölskyldu.“

Facebook-færslu Björns má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. Meðfylgjandi er þá myndbandið sem Björn birti en í því má sjá hann syngja lag sem hann samdi á því tímabili sem hann og Fríða reyndu að eignast barn með hjálp tæknifrjóvgunar.

Björn vonar þá að frásögn hans opni augu fólks og að stjórnvöld endurskoði breytingu reglugerðarinnar.

Guðni Már nýtur lífsins í sólinni

Guðni Már Henningsson er fluttur til Tenerife, þar sem kaffið kólnar ekki í bollanum þótt það standi nokkrar mínútur á borði og hann segir að sér hafi ekki liðið betur í fjörutiu ár.

Það vakti töluverða athygli þegar útvarpsmaðurinn ástsæli, Guðni Már Henningsson, kvaddi hlustendur sína fyrir tæpu ári síðan og kom sér fyrir á Tenerife. Þar nýtur hann þess að drekka kaffið sitt í sólinni, sinnir kalli listagyðjunnar og spjallar við heimamenn af sinni einstöku snilld. Snæfríður Ingadóttir hitti Guðna á uppáhaldskaffihúsinu hans og forvitnaðist um líf hans í dag.

„Jú það voru margir hissa þegar ég sagði upp á Rás 2 en ég var bara búinn að fá nóg. Aldurinn var farinn að segja til sín og eftir 24 ára starf var þetta bara orðið gott,“ segir Guðni þar sem hann situr á uppáhaldskaffihúsinu sínu, La Paz við Römbluna í Santa Cruz de Tenerife. Þetta er útikaffihús og hingað mætir hann daglega og stundum oft á dag ef þannig liggur á honum.

Dvölin á Tenerife hefur greinilega gert honum gott því hann er nær óþekkjanlegur þar sem hann situr mörgum kílóum léttari, sólbrúnn á stuttermabol undir sígrænum krónum Römblutrjánna.

Aldurinn var farinn að segja til sín og eftir 24 ára starf var þetta bara orðið gott.

„Ég er mjög sáttur við þessa ákvörðun. Ég hef flutt hátt í 50 sinnum á ævinni, bjó til að mynda tvö ár í Svíþjóð, svo ég er ekki hræddur við breytingar. Hér er yndislegt mannlíf og veðrátta, og alltaf eitthvað nýtt að uppgötva á hverjum degi. Svo er líka ótrúlega gott að þurfa ekki lengur að fylgjast með þessu þunglyndi, svindli og svínarí heima á Íslandi.“

Að flytja á sólríkari slóðir var hins vegar enginn langþráður draumur hjá Guðna heldur segist hann hafa verið tilneyddur. „Það kom ekkert annað til greina en að flytja. Eftir að ég skildi við seinni eiginkonu mína árið 2017 þá hafði ég einfaldlega ekki efni á því að búa á Íslandi á örorkubótum. Bæturnar dugðu ekki fyrir leigu og lífsnauðsynjum.“

Viðtalið við Guðna Má er að finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Guðni segist fyrst hafa verið á leiðinni til Torrevieja en góðvinur hans benti honum á að loftslagið á Tenerife væri betra og ráðlagði honum að fara frekar þangað. Og Guðni hlýddi þrátt fyrir að vita lítið sem ekkert um borgina Santa Cruz, eða Tenerife yfirhöfuð. En hann segir nánar frá þessu nýja lífi í sólinni og mörgu er hann fékk að reyna í starfi sínu í útvarpinu, meðal annars heimboðum frá einmana konum, í 2. tbl. Vikunnar.

Texti / Snæfríður Ingadóttir

 

 

 

 

Hætti á erfiðu tímabili í einkalífinu

Valdimar Örn Flygenring dró sig út úr leiklistinni fyrir rúmum áratug en á nú óvænta endurkomu í Ófærð 2. Í viðtali í Mannlífi sem kemur út í fyrramálið getir hann upp aðskilnaðinn við leikhúsið, námið í guðfræðinni, starfið í túrismanum og þann þroska sem þessi ár hafa fært honum.

„Ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum 1986 og var alveg á fullu í tuttugu og þrjú ár eftir það,“ útskýrir Valdimar. „Þá var maður stanslaust að daga, kvöld og helgar í leikhúsinu og svo kom sumarið og þá var maður á kafi í bíómyndum. Eftir að hafa unnið þannig í tuttugu og þrjú ár fór ég aðeins að hugsa minn gang, auk þess sem ég var að ganga í gegnum erfitt tímabil í lífi mínu á þeim tíma, var að fara í gegnum skilnað og var að leika í erfiðu verki, Pabbastrák eftir Hávar Sigurjónsson sem var frábært verk en hlutverkið gekk nærri mér. Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.

Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í.

Ég lenti mikið í því að leika leiðinlega kallinn og það má maður ekki gera alltof lengi, sérstaklega ekki þegar maður er sjálfur að ganga í gegnum erfiðleika í einkalífinu. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort maður eigi kannski bara að fara að gera eitthvað allt annað, opna nýja glugga. Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef aldrei getað verið í einhverju ákveðnu fari, gæti til dæmis aldrei unnið frá níu til fimm, ég er bara ekki þannig gerður. Kannski er það ómeðhöndlaður athyglisbrestur en ég þarf alltaf að vera að takast á við eitthvað nýtt.“

Viðtalið verður birt í heild sinni í Mannlífi í fyrramálið.

Mynd / Hallur Karlsson

Íslenskir þjálfarar eiga sviðið

Guðmundur Guðmundsson

Íslenskir handboltaþjálfarar eru greinilega í miklum metum á alþjóðavettvangi og á HM í ár verður sú einstaka staða uppi að fimm íslenskir þjálfarar munu leiða lið sín út á völlinn í Danmörku og Þýskalandi.

Guðmundur Þór Guðmundsson mun að sjálfsögðu stýra íslenska liðinu en hann náði einnig því afreki að koma liði Barein á HM með því að ná öðru sæti á Asíuleikunum. Hann hætti með Barein til að taka við íslenska liðinu en forsvarsmenn handboltasambandsins þar í landi voru greinilega hæstánægðir með íslensku áhrifin og réðu Aron Kristjánsson til að koma í hans stað. Aron þjálfaði áður lið Álaborgar í dönsku úrvalsdeildinni.

Dagur Sigurðsson verður í eldlínunni með japanska liðið sem hann tók við árið 2017 og Patrekur Jóhannesson með það austurríska sem hann hefur þjálfað frá árinu 2011. Hann er nú þjálfari Selfoss en mun í sumar taka við danska stórliðinu Skjern. Loks mun Kristján Andrésson, nýkjörinn þjálfari ársins, stýra landsliði Svíþjóðar. Hann hefur náð virkilega góðum árangri með Svíana og komst óvænt í úrslitaleikinn á EM í Króatíu þar sem liðið beið lægri hlut fyrir Spáni í úrslitaleik.

Árið 2015 voru íslensku þjálfararnir fjórir talsins. Aron þjálfaði þá íslenska liðið, Dagur stýrði þýska liðinu, Guðmundur því danska og Patrekur sem fyrr með Austurríki.

Hjálpartæki og félagi

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Blindrafélagið framleiðir þetta árið dagatal félagsins eins og undanfarin ár með myndum af leiðsöguhundum. Ágóðanum er varið til kaupa á leiðsöguhundum fyrir blinda og sjónskerta hér á landi. Sigþór U. Hallfreðsson, formaður félagsins, segir að kaupa þyrfti um tvo hunda á ári. Einungis átta leiðsöguhundar eru á landinu í dag.

„Lítil hefð var fyrir leiðsöguhundum á Íslandi fyrir rúmum áratug en árið 2008 safnaði Blindrafélagið ásamt Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir fjórum hundum sem voru keyptir frá Noregi,“ segir Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins. „Það markaði upphafið að því sem við höfum síðan kallað „leiðsöguhundaverkefnið“ sem félagið stendur að í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.“

Sigþór segir að fljótlega hafi félagið séð fram á að þörfin var meiri auk þess sem það styttist í endurnýjun á hundunum. Var farið aftur af stað með að útvega hunda í samvinnu við Blindravinafélagið og Lionshreyfinguna sem tileinkaði leiðsöguhundaverkefninu landssöfnun Rauðu fjarðarinnar, árið 2015.

Fæst núna líka í verslunum

Árið 2012 var fyrsta leiðsöguhundadagatal Blindrafélagsins gefið út í þeim tilgangi að fjármagna kaup á leiðsöguhundum og síðan hefur dagatalið verið gefið út árlega í þessum tilgangi. „Við létum að þessu sinni framleiða 18.000 dagatöl. Hingað til hefur salan farið meira og minna þannig fram að við höfum sent dagatölin á valinn hóp velunnara og gíróseðil með en eitthvað af því skilar sér náttúrlega ekki. Við höfum líka selt dagatölin í gegnum vefverslun Blindrafélagsins og núna erum við í fyrsta sinn að selja dagatölin m.a. í völdum verslunum Bónus og A4 og verið er að vinna í að koma þeim í sölu víðar en þau eru í standi við kassana. Við erum að reyna að stækka hópinn sem kaupir dagatölin.“

Dagatalið kostar 1939 krónur og segir Sigþór að það tengist ártalinu 1939 þegar Blindrafélagið var stofnað.

Ættu að vera fleiri

Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum þetta verkefni undanfarinn áratug og eru núna starfandi átta leiðsöguhundar á landinu. „Hundarnir mættu og ættu að vera fleiri. Þeir eru yfirleitt tilbúnir til notkunar tveggja til tveggja og hálfs árs gamlir og má gera ráð fyrir að þeir endist þar til þeir verða um 10 ára. Það fer reyndar eftir tegundinni en við höfum eingöngu verið með labrador-hunda en önnur hundakyn geta líka hentað ágætlega.“

Sigþór segir að þeir sem hafa áhuga á að komast á biðlista eftir leiðsöguhundi þurfi að fara á námskeið þar sem metið er hvort leiðsöguhundur henti aðstæðum hvers og eins. „Viðkomandi áttar sig þá líka á því hvort leiðsöguhundur myndi nýtast honum. Það eru ekki allir sem sjá fyrir sér að nota hundinn nógu mikið eða líst ekki á að halda hund en því fylgir mikil ábyrgð. Það liggja núna fyrir fjórar umsóknir frá fólki sem hefur farið á námskeið og við höfum líka spurst fyrir á meðal félagsmanna og hafa um 30 manns sýnt áhuga á að fá leiðsöguhund og þar af 15 mikinn áhuga. Það ættu að vera fleiri hundar í vinnu hér á landi miðað við fjölda þeirra sem eru blindir eða sjónskertir. Við horfum til þess að reyna að fá tvo nýja hunda á ári að jafnaði til þess að endurnýja þá sem þegar eru fyrir og fjölga í hópnum.“

Aukið sjálfstæði

Sigþór segir að það geti skipt miklu máli fyrir blindan eða sjónskertan einstakling að hafa leiðsöguhund. „Leiðsöguhundurinn er skilgreindur sem hjálpartæki og sem slíkur er hann eins og hvíti stafurinn og önnur hjálpartæki, stuðningur til sjálfstæðis. Tilgangurinn er að aðstoða notandann við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Notandi leiðsöguhunds er frjálsari ferða sinna og á auðveldara með að komast á milli staða. Notandinn ákveður hvaða leið er farin og stýrir hundinum sem forðar viðkomandi frá hindrunum en  hundurinn stoppar til dæmis við gangbrautir og kemur í veg fyrir að viðkomandi gangi í veg fyrir bíla. Þessu fylgir aukið frelsi og öryggi. En leiðsöguhundur er líka félagi og vinur sem kalla má notalega aukaverkun.“

Bandaríkin föst í spennitreyju Trumps

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál eru í spennitreyju þar sem ekkert bólar á samkomulagi á milli demókrata og repúblikana um fjárlög. Trump stendur fastur á kröfu sinni um að fá 5,7 milljarða dollara inn á fjárlög til að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó en demókratar segja það ekki koma til greina. Á sama tíma sitja um 800 þúsund ríkisstarfsmenn heima þar sem loka hefur þurft fjölda ríkisstofnana vegna skorts á fjárframlögum.

Trump ávarpaði bandarísku þjóðina á þriðjudagskvöld þar sem hann freistaði þess að afla kröfu sinni um múrinn stuðnings. Jafnvel var búist við að hann myndi lýsa yfir neyðarástandi sem myndi gera honum kleift að sneiða fram hjá þinginu og útdeila fjármunum varnarmálaráðuneytisisins beint til múrsins. Það gerði hann þó ekki, heldur dró hann upp svarta mynd af ástandinu á landamærunum og sagði að þar ætti mannúðarkrísa sér stað. Þess vegna væri brýn þörf á að reisa múr á landamærunum. Forsetinn hefur reyndar dregið í land til að reyna að þóknast demókrötum og talar nú um að reisa stálþil í stað steinveggs en það virðist engu breyta. Fjölmiðlar vestanhafs segja að ekkert nýtt hafi komið fram í máli Trumps, heldur hafi hann einfaldlega endurtekið fjölmargar rangfærslur sem hann hefur áður haft uppi um málið. Trump virtist sjálfur hafa litla sannfæringu fyrir ávarpinu því New York Times segir að Trump hafi sagt sjónvarpsmönnum fyrir útsendingu að hann teldi  ávarpið, sem og heimsókn að landamærunum í gær, engu skila en að ráðgjafar hans hafi þrýst mjög á hann.

Fjárveitingar til fjölda ríkisstofnana runnu út þann 21. desember og samkvæmt bandarískum lögum fá þær ekki fjármagn til að starfa fyrr en þingið hefur veitt til þeirra meira fé á fjárlögum. Um 800 þúsund ríkisstarfsmenn sitja því heima án þess að fá greidd laun. Það munu þeir gera þangað til samkomulag á milli flokkanna næst. Ekkert miðar á þá átt. Donald Trump hefur sagst tilbúinn að hafa stofnanirnar lokaðar í mánuði, jafnvel ár. Demókratar sem um áramótin tóku völdin í fulltrúadeildinni, hafa samþykkt frumvörp sem tryggir stofnununum fjárveitingu en til þess að þau nái í gegn að ganga þarf samþykki öldungadeildarinnar. Þar stjórna repúblikanar og hefur leiðtogi þeirra, Mitch McConnell, hafnað því að taka frumvörpin til meðferðar.

Tíminn vinnur með demókrötum í þessu máli. Kannanir sýna að meirihluti kjósenda telur Trump ábyrgan fyrir lokuninni og þingmenn innan raða repúblikana eru farnir að ókyrrast og tala jafnvel um að kjósa með frumvörpum demókrata. En óvíst er að þeir fái tækifæri til þess. Trump hefur lagt allt undir í þessari deilu og það yrði þess vegna mikill persónulegur ósigur fyrir hann ef hann fær ekki málið í gegn. Eða eins og öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham orðaði það: „Ef við förum á bak við forsetann í þessu máli yrðu það endalok forsetatíðar hans og endalok [Repúblíkana]flokksins.“

Lokunin gæti orðið sú lengsta í sögunni

Lokun ríkisstofnana hefur nú staðið yfir í 20 daga og teygi hún sig fram yfir helgi verður hún sú lengsta í sögu Bandaríkjanna. Flokkarnir höfðu náð samkomulagi á þingi fyrir áramót en Trump kom í veg fyrir að það næði í gegn að ganga þar sem það hefði ekki tryggt fjármagn til byggingu múrsins, hans helsta kosningaloforðs. Lokunin hefur ekki bara áhrif á þá 800 ríkisstarfsmenn sem annaðhvort eru sendir í leyfi eða látnir vinna án þess að fá greitt. Þannig er óvíst hvort skatturinn geti endurgreitt þeim milljónum manna sem eiga von á endurgreiðslu, þjóðgarðar eru víða lokaðir og þeir sem reiða sig á mataraðstoð frá hinu opinbera gætu setið uppi með ekki neitt innan fárra vikna. Þá sitja fjölmörg önnur mikilvæg verkefni á hakanum enda aðeins allra nauðsynlegustu verkefni innt af hendi.

Múrinn leysir ekki öll vandamál

Bygging múrsins, eða stálþilsins eins og Trump hefur talað um undanfarið, snýst orðið að stórum hluta um egó forsetans fremur en raunverulegt notagildi enda morgunljóst að engin „mannúðarkrísa“ á sér stað á landamærunum líkt og Trump heldur fram. Þeim sem fara ólöglega yfir landamærin hefur fækkað jafnt og þétt undanfarna tvo áratugi, meirihluti þess heróíns sem streymir yfir landamærin kemur í gegnum landamærastöðvar og utanríkisráðuneytið segir engar trúverðugar vísbendingar um að grunaðir hryðjuverkamenn hafi farið ólöglega yfir landamærin, þrátt fyrir fullyrðingar forsetans um annað. Þá eru aðrar hindranir í veginum, náttúrulegar, lagalegar og efnahagslegar. Kostnaðurinn er gríðarlegur og mun lenda á bandarískum skattgreiðendum en ekki Mexíkó eins og Trump fullyrti, ríkið þarf að kaupa gríðarlegt magn lands undir múrinn og lög einstakra ríkja, svo sem Kaliforníu, flækja einnig framkvæmdina.

Íhugar að lýsa yfir neyðarástandi

Trump gæti farið þá leið að lýsa yfir neyðarástandi til að tryggja fjármögnun múrsins. Slíkt myndi tryggja honum aukin völd umfram þau sem hann hefur dagsdaglega, meðal annars til að beina fjármunum í byggingu hernaðarmannvirkja. Múr á landamærunum gæti flokkast undir slíkt mannvirki. Slíkt er í sjálfu sér einfalt og eru allnokkur fordæmi þess að forsetar hafi lýst yfir neyðarástandi, en það hefur þá iðulega verið gert í tengslum við raunverulegar krísur og í sátt við þingið. Þótt forsetanum sé í sjálfsvald sett að lýsa yfir neyðarástandi, eitthvað sem hann hefur lýst yfir að komi vel til greina, þá hefur hann verið varaður við því þar sem andstæðingar Trumps myndu án efa láta reyna á lögmæti ákvörðunarinnar fyrir dómstólum. Þingið hefur einnig völd til að afturkalla yfirlýsingu forsetans, en til þess þyrfti samþykki beggja deilda og ólíklegt að repúblikanar í öldungadeildinni tækju afstöðu gegn forseta sínum.

Almenningsálitið gegn Trump

Sem stendur er fátt sem bendir til þess að flokkarnir og forsetinn komist að samkomulagi um að binda enda á lokunina. Demókratar hafa efni á að bíða enda sýna kannanir að meirihluti kjósenda, 51 prósent, kennir Trump um lokunina og hefur sú tala hækkað eftir því sem liðið hefur á krísuna. 32 prósent kjósenda kennir demókrötum um. Einungis þriðjungur segist styðja kröfu Trumps um að 5,7 milljörðum verði varið í byggingu múrsins þótt tillagan njóti mikils stuðnings á meðal kjósenda repúblikana. Sömuleiðis hafa vinsældir forsetans dalað frá því lokunin hófst. Demókratar hafa því engan hag af því að láta undan kröfum Trumps, rétt eins og Trump hefur engan áhuga á því að fara inn í kosningarnar 2020 án þess að hafa reist svo mikið sem einn metra af 1.600 kílómetra múrnum sem hann lofaði kjósendum sínum.

Kominn tími á að Aron rísi upp

Sigurður Sveinsson.

Íslenska liðinu á eftir að ganga vel á HM, að mati Sigurðar Sveinssonar, fyrrum landsliðsmanns í handbolta. Hann telur að HM 2019 komi til með að verða mikil reynsluferð fyrir yngstu leikmennina í liðinu.

„Það er gott að við erum með svona marga unga góða leikmenn sem eru að fá sína vígslu á stórmóti, það hjálpar okkur í framtíðinni. Þetta verður mikil reynsluferð fyrir þá,“ bendir Sigurður á. „Reyndar vantar aðeins upp á hæðina hjá sumum leikmönnum. Ekki að það skipti öllu, þeir munu pluma sig vel þarna úti.“

Spurður út í vonarstjörnur liðsins segir Sigurður að það sé orðið tímabært fyrir Aron Pálmarsson fyrirliða að rísa og sýna hvað í honum býr. „Hann er algjör lykilmaður og verður að draga vagninn. Þarf að vera leiðtogi, sýna þor og áræði og leikgleði, sem hefur vantað aðeins upp á hjá honum og rífa liðið með sér.“

Um aðrar vonarstjörnur liðsins segir hann að Gísli Þorgeir sé líklega eitt mesta efni Íslands í handbolta. Líkt og faðir hans, Kristján Arason, státi hann af miklum hæfileikum, búi yfir sprengikrafti og hafi góðan lesskilning í leiknum. Hann megi hins vegar skjóta meira á markið þar sem hann sé hörkuskytta. Nú sé bara spurning hvort Guðmundur Guðmundsson þjálfari þori að nota Gísla Þorgeir almennilega á mótinu.
Þá þurfi Ólafur Guðmundsson að hafa trú á sjálfum sér enda einn besti leikmaður Íslands bæði í sókn og vörn á góðum degi.

En hvað með t.d. Teit Örn? „Hann er úr þessari Selfossfjölskyldu sem hefur alið flottan hóp af leikmönnum. Þetta er feykilega efnilegur strákur, með mikinn sprengikraft og ágætur varnamaður. Vantar kannski aðeins upp á leikskilninginn. Guðmundur notar hann eflaust ekki fyrr en líður á og segir honum þá að bomba á markið.“

En Elvar Örn? „Góður varnarmaður sem hefur góðan skilning á ferlinu. Einn af skemmtilegustu alhliða handboltamönnum landsins. Minnir á Aron Pálmarsson þegar hann var yngri og gæti jafnvel orðið betri. Hann á örugglega eftir að verða einn af okkar betri leikmönnum þegar fram líða stundir.“

Haukur Þrastar: „Það er skemmtilegt hvað Haukur og þessir drengir eru ófeimnir við að taka af skarið og taka þátt. Ég spái því að hann komi inn á þegar við spilum á móti slakari liðum, eins og Japan og Bahrain til að hvíla lykilmenn.“

Daníel: „Daníel er sterkur og með þyngdina í þetta. Hann er kominn með fína reynslu eftir að hafa spilað með Haukum og er bæði góður varnarmaður og skytta. Ég held að Guðmundur hugsi hann sem varnarmann.“

Sigvaldi: „Sigvaldi er búinn að sýna það í Noregi að hann er ekkert síðri en hinir. Hann er einn af þeim sem hefur sannað að hann er bæði góður hraðaupphlaupsmaður og hornamaður. Fljótur og nýtir færin vel. Við þurfum ekkert að óttast hans stöðu.“

Ýmir: „Valið á honum kom mér kannski mest á óvart. Mögulega hugsar Guðmundur hann í vörn, ég veit það ekki. Okkar línumenn vantar kannski að geta spila bæði vörn og sókn. Hann getur það hins vegar, en er svo ungur og óreyndur. Í ljósi þess hef ég áhyggjur af því að hann brjóti illa af sér og verði mikið á bekknum.“

Ómar Ingi: „Hann hefur sannað í Danmörku að hann hefur bæði gott leikauga og er hörku skytta. Nú verður hann að rísa upp og átta sig á því að hann er einn af okkar lykilmönnum.“

Sigurður segist á heildina lítast vel á liðið, hann hafi kannski einna helst áhyggjur af markvörslunni „Já, Björgin verður að sýna hvað í honum býr,“ segir hann ákveðinn. „Markvarslan þarf að batna. Annars vinnst þetta með því að skora fleiri mörk en andstæðingurinn.“

Tekur dauðann í gegn á skemmtilegan hátt

||
||

Charlotte Bøving, leikritahöfundur og leikkona, samdi einleikinn „Ég dey“ sem sýndur er á Nýja sviði Borgarleikhússins. Charlotte skoðar í sýningunni lífið út frá sjónarhóli dauðans og dauðann út frá frá sjónarhóli lífsins og notar ýmis form í sýningunni svo sem tónlist og dans.

Charlotte Bøving segir að í sýningunni sé hún að viðurkenna eigin dauðleika. „Ég leyfi mér að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður því ég er hvort sem er að fara að deyja.“

Charlotte Bøving segist hafa verið orðin fimmtug þegar hún fór að velta fyrir sér að hún myndi einhvern tímann deyja og segist hafa furðað sig á því hvernig hún gat komist hjá því í svona langan tíma að horfast í augu við dauðann.
„Ég var svo hissa á að ég hafði ekki tekið meira eftir dauðanum. Ég fór að spá í dauðann og hvers vegna ég hafði ekki velt honum fyrir mér. Ég fór meðal annars að spá í hvernig dauðinn birtist. Það getur til dæmis verið eins og að ganga inn í grafhýsi að fara inn í matvöruverslanir. Þar er allt dautt svo sem kjötið í kjötborðinu og grænmetið. Þetta er allt á fyrsta eða öðru stigi rotnunar. Ég var að reyna að setja köttinn í megrun og þá fór hann að koma heim með dauða fugla og allt í einu birtist dauðinn inni á stofugólfinu hjá mér. Svo er svo margt í tungumálinu sem vísar í dauðann svo sem þegar sagt er að eitthvað sé „drepfyndið“. Við tölum hins vegar sjaldan um dauðann, það er eins og hann sé ekki til.“

Charlotte segir að í sýningunni sé hún að viðurkenna eigin dauðleika. „Ég leyfi mér að gera hluti sem ég hef aldrei gert áður því ég er hvort sem er að fara að deyja,“ heldur hún áfram og bætir við að það sé gott að hugsa um dauðann eins og ákveðna endurfæðingu. „Ég dey en lífið heldur áfram í börnunum. Ég vona að ég deyi á undan þeim.“

Tilgangur lífsins að elska, þroskast og stækka
Charlotte segist í sýningunni skoða lífið út frá sjónarhóli dauðans og dauðann út frá sjónarhóli lífsins. Hver er tilgangur lífsins að hennar mati? „Tilgangurinn er náttúrlega persónubundinn en fyrir mig er hann svo sem að elska en líka að þroskast og stækka. Það er hægt að stækka út á við eða inn á við eða hjálpa öðrum við að stækka. Ég fattaði það fyrir löngu að ég þarf að vera skapandi og fylgja hugmyndum mínum eftir og deila þeim og ég deili þeim í gegnum leiksýningar. Þetta er þriðji einleikurinn minn og ég fjalla alltaf um eitthvað persónulegt og vonandi endurspeglar það annarra manna líf. Fólk fær bara mína sýn eða mínar hugleiðingar og svo getur það búið til sín eigin svör,“ segir hún en hinir einleikir Charlotte eru „Hin smyrjandi jómfrú“ og „Þetta er lífið – og nu er kaffen klar“. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir báðar sýningarnar.

„Það getur til dæmis verið eins og að ganga inn í grafhýsi að fara inn í matvöruverslanir. Þar er allt dautt svo sem kjötið í kjötborðinu og grænmetið. Þetta er allt á fyrsta eða öðru stigi rotnunar.“

Dauðinn syngur
Þrátt fyrir að dauðinn sé alvarlegt umfjöllunarefni þá getur fólk haft gaman af sýningunni og hlegið en Charlotte notar gjarnan kímnigáfuna í verkum sínum. „Ég syng nokkur lög,“ segir hún og tekur sem dæmi að eitt laganna sé kabarettlag þar sem dauðinn er að sprella. „Þetta er geggjað „show“. Þetta er alls konar – ég leyfi mér að leika mér með alls konar form í sýningunni. Það er líka dans í sýningunni og þar kemur beinagrind við sögu. Ég skoða dauðann í alls konar myndum. Ég segi meðal annars litlar sögur um mína eigin upplifun á dauðanum. Við upplifum öll sömu hluti í lífinu hvort sem það er gleði eða sorg.“

Charlotte segir að með þessari sýningu vilji hún hafa áhrif á fólk. „Ég er engin gúrú en ég vona alltaf að sýningarnar mínar geti haft áhrif á einhvern hátt. Ég held að þetta sé skemmtileg sýning en um leið líka djúp. Ég er ekki að gera grín að dauðanum þannig en það er hægt að segja að ég taki dauðann í gegn á skemmtilegan hátt. Fólk ætti að fara á sýninguna áður en það deyr.“

Myndir / Saga Sig

Ef þú lækar ekki neitt af því?

Pawel Bartoszek hafði rétt fyrir sér

Í vikunni spurði samfélagsmiðlastjarnan Manuela Ósk Harðardóttir fólk hinnar sígildu spurningar: „Því ertu að horfa svona alltaf á mig ef þú lækar ekki neitt af því?“ Viðbrögðin sem hún fékk kannast margir listamenn við. Þeir eiga að lækka í sér sjálfumgleðina. Þeirra laun eiga bara að vera gleði í hjörtum aðdáenda sinna. Það er hroki að biðja neytendurna um eitthvað meira en það.

Þetta þekkja allir sem vinna með hugverk: frá rithöfundum til skopmyndateiknara, frá tónlistarmönnum til tölvuleikjasmiða. Samfélagsmiðlahark er frekar ný tegund listar en þeir sem hana stunda þurfa að ganga í gegnum sömu áskoranir og aðrir listamenn á undan: Að sitja undir þeim viðhorfum að það sem þeir geri sé ekki alvöruvinna. Að lenda í því að landslög geri ekki ráð fyrir tilvist þeirra.

Oft er ekki mikill glamúr yfir glamúrlífi. Það þarf mjög reglulegar, stöðugar og áhugaverðar uppfærslur til að fólk nenni að fylgjast með manni. Maður er lengi að byggja upp fylgjendahóp. Tekjumöguleikarnir eru ekki endalausir. Það er hægt að selja einhvern varning en fólk vill sjaldnast kaupa hluti. Hérlendis er erfitt að kassa inn á auglýsingum. Þær beinu skila litlu vegna fámennis. Þær óbeinu eru ólöglegar. Þótt Neytendastofa láti bandarískar kvikmyndir í friði er hún til í átök við íslenska þrifasnappara.

Að halda sér uppi á samfélagsmiðlum er vinna. Sú vinna verður auðveldari eftir því sem fleiri fylgja manni og fleiri læka við það sem maður gerir. Að biðja um læk er ekki að biðja um mikið. Ekki fremur en götulistamaður biður um mikið með því að biðja fólk sem sannarlega staldrar við til að hlusta á hann að setja örlítið klink í hattinn. Manúela Ósk er í raun verkalýðshetja, fyrir ört vaxandi starfsstétt 21. aldarinnar.

Ætlar að standa undir væntingum

|||
|||

Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn í landsliðshóp A-landsliðsins í handbolta sem hefur keppni á HM í dag og er því að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu. Hann er að vonum spenntur og fullur tilhlökkunar. Hann hefur spilað með Kiel undanfarna mánuði og segir töluvert mikinn mun á þýsku deildinni og þeirri íslensku, en Kiel hafi alltaf verið draumaliðið hans og hann gæti því tæpast verið ánægðari. Hann hefur fulla trú á að A-landsliðið muni ná árangri á HM og komast í milliriðilinn.

„Ég hef spilað með A-landsliðinu í mörgum æfingaleikjum, spilaði meðal annars með á Gjensidige Cup-æfingamótinu í Noregi á dögunum, en þetta er fyrsta stórmótið mitt, þannig að ég er mjög spenntur,“ segir Gísli Þorgeir. „Ég er auðvitað langt frá því að vera einhver reynslubolti með liðinu, það er langt í það, en það bætist hægt og hægt í reynslubankann.“
Spurður hvernig stemningin sé í liðinu í undanfara HM segir Gísli Þorgeir að hún sé afar góð.
„Liðið er mjög vel stemmt og okkur líður öllum mjög vel með þetta,“ segir hann. „Æfingar hafa gengið afar vel og við höfum unnið hörðum höndum að þessu. Nú er lokahnykkurinn að skella á og við erum allir tilbúnir í þennan slag.“

Gísli Þorgeir hefur spilað með Kiel undanfarna mánuði og segir töluvert mikinn mun á þýsku deildinni og þeirri íslensku. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Kiel var alltaf draumaliðið
Gísli Þorgeir gerði samning við þýska stórliðið Kiel í fyrra og fetar þar í fótspor félaga sinna í A-landsliðinu, Guðjóns Vals Sigurðssonar og Arons Pálmasonar. Hann hefur spilað með Kiel við góðan orðstír undanfarna mánuði. Meiðsli í öxl settu reyndar strik í reikninginn, en hann segist vera búinn að ná sér að fullu. Hann segir tímabilið með Kiel hafa gengið mjög vel, en þangað fór hann eftir frækna frammistöðu með FH. Spurður hvort það sé ekki mikill munur á því að spila í Þýskalandi eða hér heima viðurkennir hann að það hafi verið viðbrigði að byrja að spila í Þýskalandi. „Þetta er allt miklu stærra í sniðum en maður hélt en þetta hefur verið ótrúlega gaman, þetta er algjör draumur að rætast. Kiel hefur alltaf verið draumaliðið mitt, svo ég gæti ekki verið ánægðari.“
Faðir Gísla Þorgeirs, Kristján Arason, spilaði lengi í Þýskalandi, lengst með stórliðinu Gummersbach, en það var áður en Gísli Þorgeir fæddist, enda er hann ekki nema nítján ára og man lítið eftir handboltaferli föður síns. Kristján hefur þó væntanlega lumað á ýmsum góðum ráðum fyrir soninn þegar hann byrjaði að spila í Þýskalandi, eða hvað?
„Já, heldur betur,“ segir hann. „Hann hefur gefið mér mikið af góðum ráðum og hann hefur alltaf reynst mér mjög traustur bakhjarl þegar kemur að boltanum, og reyndar öllu öðru líka. Mamma og aðrir fjölskyldumeðlimir standa að sjálfsögðu þétt við bakið á mér líka og hafa hjálpað mér mikið. Það er ómetanlegt að eiga svona góða að.“

Vita hvenær komið er nóg
Kærasta Gísla Þorgeirs, Rannveig Bjarnadóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur líka stutt hann með ráðum og dáð. Hún hefur búið með honum í Kiel undanfarna mánuði sem hann segir hafa skipt hann miklu máli. „Það hefur verið algjör „lifesaver“ að hafa hana með mér,“ játar hann.
Aginn í liðinu er mikill og vinnan erfið en Gísli Þorgeir segist þó hafa haft tíma til að skoða sig um í Þýskalandi og njóta lífsins. „Ég hef haft tíma til að slaka á með kærustunni eða strákunum,“ segir hann. „Kiel er ágætlega stór borg, hér búa 300.000 manns, og það er nóg um að vera hérna. Aginn er auðvitað mikill í liðinu en þeir vita líka alveg hvenær er komið nóg og maður þarf smá slökun, sem er mjög fínt.“

Gísli Þorgeir Kristjánsson er spenntur og fullur tilhlökkunar vegna HM. Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

Handboltinn heillaði mest
Þegar hann var yngri spilaði Gísli Þorgeir bæði fótbolta og golf, auk handboltans, og þótti mjög efnilegur í báðum greinum, hafði hann aldrei áhuga á að gerast atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
„Ekki í golfinu, það var bara áhugamál,“ segir hann. „Mér fannst það samt alveg ótrúlega gaman, en ekki sem ferill. En mest snerist lífið um fótbolta á sumrin og handbolta á veturna, ég skipti því þannig og var alveg jafnáhugasamur um hvort tveggja. Þegar líða fór á fannst mér samt handboltinn og það sem hann hafði upp á að bjóða meira heillandi og auk þess fann ég mig betur í handboltanum, þótt fótboltinn væri ótrúlega skemmtilegur. Og, jú, ég hafði alveg hugsað út í það að gerast atvinnumaður í fótbolta, en handboltinn hafði yfirhöndina á endanum.“
Auk þess sem Kristján, faðir Gísla Þorgeirs, gat sér góðan orðstír í handbolta þá á móðir hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, farsælan feril að baki í handbolta. Spurður hvort foreldrar hans hafi þrýst á hann að velja handboltann harðneitar Gísli Þorgeir því. „Nei, alls ekki,“ segir hann ákveðinn. „Foreldrar mínir standa með mér í einu og öllu sem ég vil, þau hafa aldrei reynt að hafa áhrif á mitt val.“

Gummi flottur þjálfari og manneskja
Gísli Þorgeir á að baki feril sem landsliðsmaður í öllum yngri landsliðunum, finnst honum mikill munur á því að æfa með A-landsliðinu eða þeim?
„Já, það er mjög mikill munur,“ fullyrðir hann. „Þótt maður sé auðvitað að spila fullorðinsbolta með flestum yngri landsliðunum, þá er A-landsliðið á allt öðru „leveli“. Þá er maður kominn efst í pýramídann sem krefst mikillar einbeitingar og fagmennsku – alltaf. Það eru gerðar miklu meiri kröfur til leikmanna á efsta „leveli“.“
Kristján faðir Gísla Þorgeirs og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari A-landsliðsins, spiluðu saman í íslenska landsliðinu á sínum tíma en Gísli Þorgeir segist samt ekki hafa þekkt Guðmund neitt persónulega þegar hann byrjaði að æfa með A-landsliðinu. Hann harðneitar því að Guðmundur, sem auðvitað er goðsögn í íslenskum handbolta, sé á nokkurn hátt ógnvekjandi eða að menn óttist hann.
„Gummi er flottur!“ segir hann. „Það er ekkert ógnvekjandi við hann, hann vill vinna þetta í samstarfi við okkur strákana og hann er mjög skilningsríkur og frábær þjálfari og manneskja. Ég virði hann mjög mikið.“

„Við stöndum nokkuð vel að vígi, held ég,“ segir Gísli Þorgeir. „Þetta verður auðvitað erfitt, það verða engir auðveldir leikir á þessu móti, þetta er HM og við þurfum að vinna ótrúlega vel.“ Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hefur mikla trú á liðinu
Landsliðshópurinn hélt til Þýskalands á miðvikudaginn og spilar fyrsta leikinn gegn Króatíu í München í dag. Gísli Þorgeir segir mikinn hug í liðinu og að hans áliti stendur liðið vel að vígi miðað við hin liðin í riðlinum.
„Við stöndum nokkuð vel að vígi, held ég,“ segir hann. „Þetta verður auðvitað erfitt, það verða engir auðveldir leikir á þessu móti, þetta er HM og við þurfum að vinna ótrúlega vel. Markmiðið er auðvitað að komast í milliriðil og ég tel að við eigum góða möguleika á því. Strákarnir eru mjög bjartsýnir um það sem koma skal en við gerum okkur allir grein fyrir því að þetta verður ekki auðveld brekka að klífa.“
Sjálfur segist Gísli Þorgeir hafa trú á liðinu og að hann eigi von á góðum árangri þess í mótinu.
„Ég hef mikla trú á liðinu og vel það,“ segir hann ákveðinn.
Eftir að kepnninni á HM lýkur mun Gísli Þorgeir halda aftur til Kiel og spila með þeim í þýsku deildinni í vetur. Óttast hann að meiðslin í öxlinni muni halda aftur af honum þar? „Nei, ég tel mig vera orðinn flottan í öxlinni,“ segir hann og hlær. „Þannig að það ætti ekki að verða neitt vesen með hana í vetur. Ég hlakka bara óskaplega til að spila á HM og síðan í þýsku deildinni og ætla mér að standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar á báðum stöðum.“

Allra augu á genginu

Það er erfitt að spá fyrir um gengisþróun íslensku krónunnar. Það er gömul saga og ný.

Að undanförnu hefur verið töluverður skjálfti á mörkuðum, og hefur Seðlabankinn ítrekað gripið inn í viðskipti á markaði, og unnið gegn veikingu krónunnar. Erlendir aðilar hafa verið að losa um eignir á Íslandi og flytja fé úr landi, og það hefur sett þrýsting á krónuna til veikingar.

Enn fremur er óvissa um hvaða áhrif erfiðleikar WOW air munu hafa á markaði, ef þeir versna frá því sem nú er, og kjaraviðræðurnar eru einnig áhyggjuefni.

Nánar um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Hreyfing – eitt besta gleðilyf sem til er

Á nýju ári fara margir af stað með fögur fyrirheit, langar að bæta heilsuna, létta sig og verða sterkari og stæltari. Farið er af stað af stað með látum og oft er meiningin að bylta mataræðinu og mæta daglega í ræktina en margir gefast fljótt upp og allt sækir í sama far og áður. Ágústa Johnson, eigandi Hreyfingar, segir þó einfaldara en fólk heldur að breyta lífsstílnum.

„Það er aldrei of seint að taka heilsumálin föstum tökum og þú finnur fljótt muninn,“ segir hún. „Það þarf alls ekki að vera stórmál að gera litlar jákvæðar breytingar á lífsstílnum til að uppskera betri heilsu, meiri orku og bætta líðan.“

Ágústa segir langöruggast til að ná árangri að fá aðstoð fagmanna eða skrá sig á heilsuræktarnámskeið.

„Í Hreyfingu bjóðum við upp á fjölbreyttar lausnir og umfram allt frábært fagfólk sem er afar fært í að aðstoða fólk á allan hátt við að koma sér af stað á heilsubrautina til frambúðar. Hvort sem fólki hentar að koma og æfa í hópi á skemmtilegu námskeiði, þjálfa með einkaþjálfara eða, sem fjölmargir nýta sér núna, að koma til okkar í Bestu aðild þar sem þjálfari er til taks í salnum, mælir líkamsástandið með reglulegu millibili, útbýr æfingakerfi og veitir reglulegan stuðning og aðhald. Reynslan sýnir að þeir sem æfa með einhvers konar aðhaldi frá þjálfara eru líklegastir til að ná sínum markmiðum. Besta aðildin er frábær leið því þar hefurðu aðgang að þjálfaranum hvenær sem þú þarft og hann er alltaf á kantinum til að vísa þér veginn, fylgjast með framförum og endurstilla æfingakerfið reglulega. Auk þess eru ótal hugguleg og spennandi fríðindi sem fylgja Bestu aðildinni.“

Ágústa segir heilsurækt vera lífstíðarverkefni sem krefjist stöðugrar vitundar og aðhalds. Hún vitnar í Nike: JUST DO IT! og gefur fjögur heillaráð fyrir þá sem vilja ná árangri.

  1. Hreyfing

„Hreyfing er líkamanum nauðsynleg, svo einfalt er það. Ef þú ert ekki nú þegar með daglega hreyfingu í þínu lífi þarftu að breyta því. Í fyrsta lagi ættirðu að sporna við langri kyrrsetu með því að standa upp ekki sjaldnar en á 30 mínútna fresti. Þó ekki væri nema í 1 til 2 mínútur til að teygja úr þér og sækja þér vatn að drekka. Auk þess ættir þú að styrkja vöðvana með reglulegum lyftingum og þjálfa mikilvægasta vöðvann, hjartað, með kraftmiklum þolæfingum. Liðleika- og jafnvægisæfingar eru einnig afar mikilvægar. Í stuttu máli; stefndu að því að stunda fjölbreyttar líkamsæfingar ekki sjaldnar en þrisvar sinnum í viku í 30 til 60 mín og vendu þig á að standa oft og iðulega upp úr stólnum alla daga.“

  1. Næring

„Allt of margir grípa mat á hlaupum og oftar en ekki er það lélegt, næringarsnautt fæði sem fljótlegast er að grípa til. En það er hverrar mínútu virði að skipuleggja mataræðið vel og taka jafnvel á sig krók til að vanda til fæðunnar. Í stuttu máli er skynsamlegt að sneiða að mestu hjá sætindum og sykurríkri fæðu. Mikilvægt er að fá nægar trefjar daglega og sneiða sem mest hjá unnum matvælum og hertri fitu. Niður með ruslfæðið og upp með grænmetið. Þegar farið er í að breyta mataræðinu er skynsamlegt að kollvarpa ekki öllu í einu. Byrjaðu á að gera áætlun, til dæmis 1 til 2 litlar breytingar á mánuði fyrir allt árið. Eftir árið hefurðu kannski fest í sessi helming breytinganna eða meira og yrði það frábær árangur.“

Niður með ruslfæðið og upp með grænmetið.

  1. Slökun

„Eftir jól og áramót glíma margir við rugl í svefnmynstrinu og sumir hafa gengið svo langt að snúa nánast sólarhringnum við. Þá þarf að kippa því í lag hið fyrsta. Svefn, hvíld og slökun eru hverjum manni nauðsyn. Í raun má segja að eitt besta fegrunarráð sem til er sé reglulegur 8 tíma svefn. Um leið og við töpum hvíld nokkra daga í röð fer allt á verri veg. Reyndu af fremsta megni að koma rútínu á svefnvenjur þínar. Fara að sofa á svipuðum tíma, helst fyrir miðnætti og ná að sofa í 7 til 8 klukkustundir á hverri nóttu. Það verður bara allt auðveldara og betra þegar það gengur eftir.“

  1. Skapið og gleðin

„Góð heilsa, gæðastundir með ástvinum, að vera í góðu jafnvægi, vel hvíldur, nærast á góðum mat, gefa sér tíma til að sinna áhugamálum, hafa næga orku til að takast á við krefjandi verkefni, ná árangri í lífinu og njóta þess að safna skemmtilegum minningum er það sem við flest óskum okkur til að njóta lífsins eins og kostur er.

Hvað sem dynur á okkur í lífinu þá gerir það okkur öllum gott að átta okkur á því hvað kemur okkur í gott skap og veitir ánægju, hamingju og lífsfyllingu. Að horfa á jákvæðu hliðarnar frekar en þær neikvæðu breytir miklu fyrir andlega líðan.

Bjartsýni og jákvætt viðhorf gerir virkilega gæfumuninn og það er margsannað að regluleg þjálfun er eitt besta gleðilyf sem til er.“

Í samstarfi við Hreyfingu.

 

Sá sem hefur heppnina með sér fær bókunina endurgreidda

Utan um nýjasta tölublað Mannlífs, sem kom út í morgun, er kápa frá flugfélaginu WOW air þar sem skemmtilegur leikur er kynntur sem vert er að segja frá.

Til mikils er að vinna í leik WOW air því einn heppinn þátttakandi í leiknum fær heildarbókunina sína að fullu endurgreidda, sama hversu margir eru í bókuninni eða hvert er flogið. Ekki amaleg byrjun á árinu það!

Til að taka þátt þarf að nota kóðann WOWLUKKA við bókun sem veitir 20% afslátt af flugverði á fjölmörgum flugdagsetningum. Þann 16. janúar verður svo dregið úr þeim bókunum sem gerðar voru með kóðanum.

Allir sem slá inn kóðann við bókun frá 10.-14. janúar fara í lukkupottinn. Afsláttarkóðinn WOWLUKKA er í gildi til miðnættis 14. janúar 2019 eða á meðan birgðir endast.

Lukkupotturinn er opinn öllum þeim sem slá inn kóðann WOWLUKKA við bókun, hvort sem afsláttur er veittur af bókuðu flugi eða ekki.

Íslenskur humar hverfur úr fiskbúðum landsins

||
||

Eitthvað mikið virðist hrjá humarstofn­inn­ um­hverf­is Ísland en veiði hefur verið sögulega léleg undanfarin ár. Minnk­un veiðiheim­ilda hefur engan árangur borið og nú hafa fisksalar á höfuðborgarsvæðinu séð sig tilneydda að bjóða kúnnum sínum upp á innfluttan humar frá Maine í Bandaríkjunum þar sem íslenski leturhumarinn var fljótur að seljast upp.

Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un.

Jón­as Páll Jónas­son, fiski­fræðing­ur hjá Haf­rann­sókna­stofn­un, seg­ir í samtali við Mannlíf að nýliðunarbrestur í humarstofninum hafi verið viðvarandi síðan 2005. Engin veiðiráðgjöf var gefin út í haust vegna þess að Hafrannsóknastofnun hefur verið að innleiða nýjar aðferðir við að meta ástand stofnsins. Verið er að leggja lokahönd á túlkun gagna og er von á ráðgjöfinni eftir hálfan mánuð. Jónas Páll vildi ekki segja til um hvort veiðar yrðu bannaðar og bendir á að það komi í ljós eftir tvær vikur.

„Við höfum verið að sjá viðvarandi nýliðunarskort, þ.e. skort á smáum dýrum. Það er ekki gott að segja hver skýringin er nákvæmlega en við höfum séð þetta hjá öðrum tegundum fyrir sunnan land svo þetta er ekki bara bundið við humarinn,“ segir hann og bendir á að það hafi orðið ákveðnar breytingar á ástandi sjávar djúpt suður af landinu upp á síðkastið.

„Maður á frekar von á því að það hjarni eitthvað við eftir þær breytingar. Það er orðið kaldara og seltir minna. Að því slepptu þá kemur humarinn ekki fyrr en 5-6 ára inn í veiði þannig að allar breytingar sjást frekar seint.“

Aðspurður segist Jónas Páll ekki telja ofveiði ástæðu dræmrar veiði heldur breytingar á ástandi sjávar og vöntun á smáum humri. „Ráðgjöf hefur verið fylgt undanfarin 10 ár og það er verið að veiða dýr sem eru 10 til 20 ára gömul, þannig að það er ekki því um að kenna,“ segir hann.

Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár.

Ólafur Björn Þorbjörnsson, skipstjóri frá Höfn í Hornafirði sem gerir út humarbátinn Sigurð Ólafsson SF, er á öndverðum meiði. „Við höfum eyðilagt þetta sjálfir, sjómenn og útgerðarmenn, með ofveiði og allt of stórvirkum veiðarfærum undanfarin 10 ár. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en þetta er mín kenning og það eru ekki allir sáttir við hana,“ segir Ólafur en hann hefur stundað humarveiði í tæplega hálfa öld.

Þrátt fyrir að stofnstærð hafi sveiflast áður man Ólafur ekki eftir öðru eins og hann hefur ekki mikla trú á Hafrannsóknastofnun. „Þeir hjá Hafró vilja ekkert við okkur tala, held ég, þeir hafa aldrei tekið mark okkur, litlu aumingjunum sem erum í þessu. Það eru stóru útgerðirnar sem ráða þessu,“ segir hann og bendir á að það séu ekki nema um 10-12 bátar á humarveiðum í dag.

Eitthvað mikið virðist hrjá humarstofn­inn­ um­hverf­is Ísland en veiði hefur verið sögulega léleg undanfarin ár.

Ólafur segist telja að samhengi sé á milli hruns stofnsins og þess að stærri útgerðir hafi fyrir um 10 árum síðan breytt veiðiaðferðum sínum. „Þá fóru þeir að koma á miklu öflugri skipum og þyngdu veiðarfærin og hlerana. Við hinir gátum aldrei verið nálægt þeim, við vorum alltaf fastir í drullu og þurftum að forða okkur frá þeim,“ segir hann og bætir við að orsökina fyrir hnignun stofnsins megi rekja til þess að verið sé að eyðileggja sjávarbotninn þar sem humarinn hefst við.

Ólafur kveðst ekki geta svarað því hvernig best sé að bregðast við ástandinu en útgerð hans hefur ekki náð kvóta undanfarin fjögur sumur. „Þessu er náttúrlega sjálfhætt, ég hef ekki efni á að gera út á þetta í dag, það er bara svoleiðis. Það er alveg skelfilegt að eyðileggja þetta svona fyrir sjálfum sér,“ segir hann en viðurkennir að hann muni eflaust reyna eitthvað áfram.

Mögulega besti þjálfari í heimi

Logi Geirsson handboltamaður segist lítast vel á nýja karlalandsliðið í handbolta sem keppir á HM. Hann segir að styrkur liðins felist mikið í að Aron Pálmason sé þar með stórt hlutverk, enda lykilleikmaður, auk þess sem þjálfari liðsins, Guðmundur Þórður Guðmundsson, sé mögulega besti þjálfari í heimi.

„Mér líst mjög vel á íslenska karlalandsliðið í handbolta,“ segir Logi Geirsson. „Það er ákveðið uppbyggingartímabil í gangi núna, það eru margir ungir og reynslulausir leikmenn sem eru að koma og fá stærra hlutverk og við erum kannski búnir að vera á ákveðnu breytingaskeiði í handboltanum. Ég veit að það eru rosalega miklir hæfileikar í liðinu og það getur tekið svolítinn tíma að láta þetta smella alveg en þetta er lið sem gæti á góðum degi unnið hvaða lið sem er. Það er mjög bjart fram undan. Það er allt hægt á svona stórmótum eins og á HM og riðillinn sem slíkur býður upp á það. Það eru gríðarlegir möguleikar fyrir liðið að komast inn í milliriðla og valda usla þar.“

Ég veit að það eru rosalega miklir hæfileikar í liðinu og það getur tekið svolítinn tíma að láta þetta smella alveg en þetta er lið sem gæti á góðum degi unnið hvaða lið sem er.

Aron lykilleikmaður

Þegar Logi er spurður hvernig honum lítist á einstaka leikmenn í liðinu segir hann að Aron Pálmason sé einn besti leikmaður í heimi og að það sama megi segja um Guðjón Val. „Svo erum við með heilt yfir nokkuð þéttan hóp en margir sem eru ekki búnir að ná hátindi á ferli sínum, eiga það eftir þannig að við erum með ungt lið sem á bara eftir að bæta sig.

Styrkur liðsins liggur mikið í að Aron er með risastórt hlutverk í þessu; þetta stendur mikið og fellur með honum. Hann er lykilleikmaður að mínu mati. Styrkur liðsins liggur líka mikið í hvað Guðmundur þjálfari er frábær. Hann er mögulega besti þjálfari í heimi, það er ekki hægt að óska sér betri þjálfara fyrir þetta lið.“

Logi bendir á að Guðmundur hafi verið þjálfari danska karlalandsliðsins í handbolta á sínum tíma og undir hans stjórn urðu Danir Ólympíumeistarar í Ríó árið 2016. „Og hann fór með íslenska landsliðið á verðlaunapall árið 2008. Guðmundur veit hvernig á að vinna og hann þarf bara að búa til sigurhefð á meðal nýrra leikmanna.“

Logi er jafnframt spurður um helstu veikleika liðsins. „Liðið er ungt og óreynt og því fylgja breytingar og það er ókosturinn við þetta. Það eru margir nýir leikmenn í liðinu og það tekur tíma að púsla saman liði og ná árangri í íþróttum.“

Þriðja besta í riðlinum

Logi segist búast við að liðinu muni vegna vel á HM í ár. „Ég held að það muni örugglega komast upp úr riðlinum. Ég held að liðið muni komast upp í milliriðil. Það er náttúrlega lykilatriði að við erum að spila við mjög sterkar þjóðir; spænska og króatíska liðið eru þau bestu í heimi en íslenska liðið ætti að geta unnið þau á góðum degi, ég held að það verði erfiðustu andstæðingarnir. Ég myndi þó segja að makedónska liðið væri sterkast? Svo erum við með Barein og Japan. Þetta eru allt lið sem við verðum að stefna að að vera fyrir ofan. Við vorum mjög heppin með riðil og íslenska liðið er styrkleikalega séð þriðja besta liðið í þessum riðli þannig að það verða þessi tvö lið fyrir ofan okkur – Spánn og Króatía – sem ég held að sé ómögulegt að lenda fyrir ofan eins og staðan er í dag.“

Við erum að spila við mjög sterkar þjóðir; spænska og króatíska liðið eru þau bestu í heimi en íslenska liðið ætti að geta unnið þau á góðum degi.

Þegar Logi er spurður hvernig nýja liðið sé samanborið við síðasta lið segir hann að í raun og veru sé það einu stórmóti eldra. „Menn eru búnir að spila sig aðeins lengur saman og fleiri farnir i atvinnumennsku frá Íslandi. Hérna er áhugamennska. Svo er kominn nýr þjálfari sem er með aðrar áherslur. Við erum komnir með reynslumikinn þjálfara sem hefur náð árangri.

Ég spái því að við munum eftir örfá ár fara að sjá frábæra hluti gerast aftur hjá íslenska liðinu. Þetta lið er með gríðarlega hæfileika. Framtíðin er fáránlega björt og ég spái því að við getum orðið á meðal átta efstu liða í heiminum og vel það innan þriggja ára.“

Mynd / Myriam Marti

Keppt í tveimur löndum í fyrsta sinn

Heimsmeistaramótið í ár verður sögulegt fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti sem keppnin er haldin í tveimur löndum, Danmörku og Þýskalandi. Þetta verður í sjöunda skipti sem Þýskaland hýsir HM en Danmörk hefur einu sinni áður verið gestgjafi.

Ákvörðun um að halda keppnina í tveimur löndum var tekin í október 2013 en önnur lönd sem sóttust eftir að fá að halda keppnina voru Pólland og Slóvakía/Ungverjaland. Þetta verður í sjöunda skipti sem Þýskaland (þ.m.t. Austur- og Vestur-Þýskaland) hýsir HM en Danmörk hefur einu sinni áður verið gestgjafi. HM 2021 verður haldið í Egyptalandi og Pólland og Svíþjóð verða sameiginlegir gestgjafar árið 2023. Íslendingar hafa einu sinni brugðið sér í hlutverk gestgjafa, árið 1995 sælla minninga.

Keppnisstaðirnir verða sex talsins og verða fjórir þeirra í Þýskalandi – Berlín, Köln, München og Hamborg. Í Danmörku verður keppt í Kaupmannahöfn og Herning og fer úrslitaleikurinn fram í Jyske Box í Herning. Lanxess Arena í Þýskalandi rúmar flesta áhorfendur, alls 19.250, en Ólympíuhöllin í München fæsta, 12.000 áhorfendur.

Sex sinnum hefur það gerst að gestgjafar fari með sigur af hólmi á HM, nú síðast í Frakklandi árið 2017. Frakkar eru reyndar sigursælasta lið keppninnar frá upphafi því þeir hafa sex sinnum orðið heimsmeistarar. Svíþjóð og Rúmenía hafa fjórum sinnum hampað sigri og Þýskaland þrisvar. Ekkert lið utan Evrópu hefur orðið heimsmeistari. Katar komst næst því árið 2015 en liðið tapaði þá í úrslitaleik fyrir Frakklandi, í Katar.

Sannleikurinn hefur margar hliðar

||||
||||

Valdimar Örn Flygenring hvarf að mestu úr sviðsljósinu fyrir rúmum áratug eftir að hafa verið einn vinsælasti leikari þjóðarinnar í áraraðir. Nú er hann kominn aftur inn á sviðið sem Ólafur í Ófærð 2 og talað er um magnaða endurkomu. En hvers vegna hætti hann að leika og hvað hefur hann verið að gera í millitíðinni?

„Ég er aðallega að vinna sem leiðsögumaður,“ segir Valdimar þegar hann er spurður hvað hann hafi verið að gera undanfarin ár. „Ég er jeppaleiðsögumaður fyrir minni hópa, bæði með eigið fyrirtæki og vinn fyrir aðra þess á milli. Ég er svona týpískur Íslendingur, vinn við það sem til fellur og þarf að gera hverju sinni.“

Eitt af því sem til féll á nýliðnu ári var hlutverk Ólafs í Ófærð 2. Hvernig samdi Valdimar, sem er kunnur náttúruverndarsinni, við þann karakter? Er hann sammála skoðunum hans á virkjunarmálum til dæmis?

„Ég held að svona kallar sem hafa búið lengi þar sem lítið hefur verið að gerast í atvinnumálum eigi erfitt með að vera andvígir framkvæmdum,“ segir Valdimar. „Þeir þurfa að finna leiðir til að lifa af í sínu umhverfi þó svo að við sem búum við ákveðið öryggi getum haft alls konar skoðanir á því. En þegar maður setur sig í spor fólks sem býr við allt aðrar aðstæður skilur maður afstöðu þess að einhverju leyti þótt maður sé algjörlega andvígur þeim í hjarta sér.“

Valdimar Örn Flygenring dró sig út úr leiklistinni fyrir rúmum áratug en á nú magnaða endurkomu í Ófærð 2. Mynd / Hallur Karlsson

Spurður hversu langt sé síðan hann lék í sjónvarpsþáttaröð eða bíómynd segist Valdimar reyndar hafa verið viðriðinn þann geira alltaf öðru hvoru í gegnum í árin, hann hafi aldrei lagt leiklistina algjörlega á hilluna.

„Ég hef alltaf verið pínulítið að grípa í þetta,“ segir hann og hlær. „Í fyrra var ég til dæmis að leika í þýskri bíómynd eftir að fólkið sem var að gera hana hafði séð mig í myndinni Hvalfjörður sem ég lék í fyrir nokkrum árum.“

Hætti á erfiðu tímabili í einkalífinu

Þannig að þetta tal um endurkomu í leiklistina á ekki alveg við rök að styðjast, þú hefur verið viðloðandi bransann allan tímann?

„Ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum 1986 og var alveg á fullu í tuttugu og þrjú ár eftir það,“ útskýrir Valdimar. „Þá var maður stanslaust að daga, kvöld og helgar í leikhúsinu og svo kom sumarið og þá var maður á kafi í bíómyndum. Eftir að hafa unnið þannig í tuttugu og þrjú ár fór ég aðeins að hugsa minn gang, auk þess sem ég var að ganga í gegnum erfitt tímabil í lífi mínu á þeim tíma, var að fara í gegnum skilnað og var að leika í erfiðu verki, Pabbastrák eftir Hávar Sigurjónsson sem var frábært verk en hlutverkið gekk nærri mér. Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.

Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“.

Ég lenti mikið í því að leika leiðinlega kallinn og það má maður ekki gera alltof lengi, sérstaklega ekki þegar maður er sjálfur að ganga í gegnum erfiðleika í einkalífinu. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort maður eigi kannski bara að fara að gera eitthvað allt annað, opna nýja glugga. Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef aldrei getað verið í einhverju ákveðnu fari, gæti til dæmis aldrei unnið frá níu til fimm, ég er bara ekki þannig gerður. Kannski er það ómeðhöndlaður athyglisbrestur en ég þarf alltaf að vera að takast á við eitthvað nýtt.“

Valdimar hætti að drekka árið 1989 og hann segir það líka hafa haft áhrif á ferilinn. Þegar leikarar hætti að drekka hætti þeir að mæta á barina og detti þar af leiðandi svolítið út úr klíkunni.

„Það bara gerist, eðlilega,“ segir hann. „En það er líka mjög gott, allavega var það þannig í mínu tilfelli. Ég hef líka stundum sagt þegar maður er með heimsbókmenntirnar í höfðinu alla daga og er að velta sér upp úr dýpstu hugsunum mannsandans árum saman þá væri það nú skrýtið ef maður þroskaðist ekki pínulítið og færi að velta fyrir sér nýjum leiðum í lífinu.“

„Geri þetta skást af því sem ég geri“

Valdimar hefur sjálfur fengist við það í gegnum tíðina að setja eigin hugsanir á blað, bæði í formi ljóða og annars texta, er hann hættur því?

„Nei, nei, ég hef alltaf haldið því áfram,“ segir hann ákveðinn. „Svo er ég líka í hljómsveit sem kemur fram alltaf öðru hvoru og það er alveg óskaplega skemmtilegt. Hljómsveitin heitir Hráefni, Þungt flauel eða Mellur & brennivín eftir því hvar við erum að spila. En kjarninn í sveitinni er ég, Þorleifur Guðjóns og Þórdís Claessen. Ég sem bæði lög og texta og hef mjög gaman af því. Sem betur fer erum við ekkert að reyna að verða fræg eða rík, gerum þetta bara ánægjunnar vegna og manni líður alltaf eins og maður hafi verið í löngum jógatíma eftir æfingar. Ég gaf út plötu í gamla daga og hljómsveitin gaf út pínulítinn disk fyrir tveimur árum og við erum alltaf á leiðinni að gera eitthvað meira en það verður að viðurkennast að það er ekkert sérstaklega mikil eftirspurn eftir tónlist frá sextugu fólki, þannig að við erum voðalega róleg í sambandi við plötugerð.“

Valdimar segir að fyrst eftir að hann dró sig að mestu út úr leiklistinni hafi hann aðallega fundið fyrir létti og verið spenntur fyrir nýjum verkefnum, en menningin togi þó alltaf í hann.

„Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera svolítið á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.“

„Það sem ég hef komist að í gegnum tónlistariðkunina er í fyrsta lagi hvað menning er mikilvæg fyrir mig sem manneskju. Maður þarf að gera eitthvað fleira en vinna, éta og sofa, það veitir manni tilgang. Ég hef líka komist að því, til dæmis með því að taka þátt í Ófærð 2 með Balta og hans fólki, að ég hef leiklistina enn þá í mér og hún skiptir mig máli. Þegar maður var stanslaust að vinna við þetta fékk maður svo lítinn tíma til þess að melta það sem maður var að gera og láta það opna sér nýja sýn á hlutina.

Auðvitað gerði maður það að einhverju leyti en ég finn það núna að þessi ár sem ég hef verið frá leiklistinni hafa gefið mér tíma til að melta og ég kem að þessu á annan hátt núna. Leiklistin er auðvitað ein af þeim listgreinum sem byggir hvað mest á samvinnu og mér fannst alveg óskaplega gaman að vinna með þessu teymi að þessu verkefni. Mér fannst líka gott að finna að þrátt fyrir allt þá get ég enn þá leikið og það bara þokkalega. Sennilega geri ég þetta skást af því sem ég hef reynt að gera í lífinu.“

„Auðvitað lék ég götustrákinn“

Valdimar byrjaði að leika tólf ára gamall, í skólasýningu á verki sem bekkjarsystir hans hafði skrifað fyrir árshátíð skólans. Það opnaði honum nýja sýn á sjálfan sig að hans sögn.

„Auðvitað var ég látinn leika götustrákinn,“ segir hann glottandi. „Leikritið átti að gerast í skólastofu og ég var uppreisnarseggurinn í bekknum. Ég hafði aldrei fengið sérstakt hrós frá einum eða neinum í skólanum en eftir þessa sýningu kom yfirkennarinn til mín og hrósaði mér sérstaklega fyrir þetta. Ég man alltaf eftir því og ég á það kannski honum að þakka að ég lagði leiklistina fyrir mig.“

Eftir þessa sýningu kom yfirkennarinn til mín og hrósaði mér sérstaklega fyrir þetta.

Hlutverk uppreisnarseggsins fylgdi Valdimar fyrstu árin í leiklistinni en hann segist þó ekki almennilega vita af hverju hann var svona oft látinn leika þannig hlutverk.

„Kannski af því ég var töluvert uppreisnargjarn og vonandi með einhverja réttlætiskennd,“ segir hann hugsi. „Kannski átti fyrsta sýning mín í Nemendaleikhúsinu líka þátt í þessu. Þá lékum við Rauðhærða riddarann og ég lék þar einhvern svona brjálæðing. Það þótti eftirminnilegt, allavega nóg til þess að tuttugu og fimm árum seinna þegar ég stóð úti í Laxá í Aðaldal að veiða silung kallaði til mín maður á næsta veiðisvæði og spurði hvort ég væri ekki Valdimar Örn Flygenring. Þegar ég játaði því þakkaði hann mér fyrir Rauðhærða riddarann. Það þótti mér skemmtilegt.“

Leiðinlegt að vera settur í steríótýpur

Í upphafi ferilsins var Valdimar líka oftar en ekki í hlutverki kyntröllsins, bæði innan og utan sviðs. „Maður ræður auðvitað ekki við það hvernig fólk sér mann,“ segir hann hálfvandræðalegur þegar þetta berst í tal.

„Ég veit ekkert úr hverju það kom og get ekki um það dæmt. Það hafði samt auðvitað áhrif. Ég held það sé alltaf leiðinleg staða að vera settur í einhverjar steríótýpur. Það getur verið dálítið takmarkandi og sorglegt ef ferill bæði byrjar og endar þar. Og án þess að ég sé á nokkurn hátt bitur þá var þetta kannski líka á vissan hátt hluti af einhverri ófullnægju sem gerði það að verkum að maður fór á endanum að horfa í aðrar áttir. Auðvitað á maður að fá að þroskast í starfinu ef maður hefur hæfileika, ekki vera settur í eitthvert hjólfar. Í svona mikilli samvinnu eins og leikhús er þá er ákvörðunin um hvert þinn ferill þróast ekki bara þín heldur einhverrar yfirstjórnar og maður hefur ekki alltaf mikið um það segja.“

Ég held það sé alltaf leiðinleg staða að vera settur í einhverjar steríótýpur.

Valdimar segir það líka hafa haft áhrif á hann og hans kynslóð leikara að á þeim árum sem þau komu til starfa hafi leikhús á Íslandi verið í mikilli endurnýjun.

Hlutverk uppreisnarseggsins fylgdi Valdimar fyrstu árin í leiklistinni en hann segist þó ekki almennilega vita af hverju hann var svona oft látinn leika þannig hlutverk.

„Í kringum 1990, þegar Stefán Baldursson tekur við Þjóðleikhúsinu er enn þá verið að reka Borgarleikhúsið eftir lögum um áhugaleikhús. Þótt leikhúsið sjálft væri svona stórt og fínt og flott var enn þá lítill hópur af fólki sem tilheyrði Leikfélagi Reykjavíkur. Stefán byrjaði strax svolítið að taka til í Þjóðleikhúsinu, með fullri virðingu fyrir því sem áður hafði verið gert. Hann hristi svolítið rykið af stöðluðum hugmyndum um leikhús og réði inn hóp ungs fólks sem hefur síðan orðið kjarninn í íslensku leikhúsi. Svo getur fólk auðvitað haft sínar skoðanir á því hvort það sé rétt að það séu alltaf sömu aðilarnir meira og minna í sömu hlutverkunum. Það eru margar hliðar á sannleikanum.

Ég hef stundum sagt að sannleikurinn sé eins og fjall.

Ég hef stundum sagt að sannleikurinn sé eins og fjall. Maður hefur kannski verið að horfa á það úr fjarlægð alla sína ævi og gert sér einhverjar hugmyndir um það hvernig það er. Svo þegar maður fer að ganga á fjallið lítur það allt öðruvísi út og er allt annað en maður hélt. Eftir langa baráttu kemst maður svo kannski á toppinn og þá breytist fjallið enn og aftur. Á niðurleiðinni fær maður svo fjórðu upplifunina af fjallinu, þannig að þetta getur verið heillangt og erfitt ferðalag upp og niður en þegar maður er kominn til baka horfir maður aldrei á fjallið með sömu augum og áður en maður lagði af stað. Það er líka þannig með sannleikann, hann er ekki einn og samur heldur hefur margar hliðar.“

Eins og sést greinilega í þessu spjalli okkar hefur Valdimar mikinn áhuga á því að velta fyrir sér stóru spurningum tilverunnar í leit að dýpri merkingu og sá áhugi varð til þess að hann hóf nám í guðfræði við Háskólann fyrir nokkrum árum.

„Já, ég fór í guðfræði í eitt ár, var jafnvel að velta því fyrir mér hvort ég gæti orðið prestur,“ útskýrir hann. „Mér fannst það spennandi og eftir að hafa farið í gegnum meðferðarbatteríið og pælt mikið í mannfólkinu fór ég að skilja hvað trú getur verið mikilvæg í lífi manneskjunnar. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvaðan sú þörf kemur. Eins þessi leit manneskjunnar að guði, hvað veldur henni? Þannig að ég skráði mig í guðfræðina til að leita svara við þessum spurningum.

Ég fór í guðfræði í eitt ár, var jafnvel að velta því fyrir mér hvort ég gæti orðið prestur.

Ég var reyndar ekkert viss um það að ég gæti nokkurn tímann verið í námi út af athyglisbrestinum en ég stóð mig bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Þannig að ég komst að því að ég gæti allavega lært en svo þegar átti að fara að kenna manni að ganga um í kufli og syngja sálma þá hætti ég, enda kominn á kaf í túrismann á þeim tíma og hafði varla tíma til að líta upp frá vinnu. Sprengingin í túrismanum kom svolítið aftan að manni enda hefur ferðamannafjöldinn margfaldast á þessum tíu árum sem ég hef verið í þessu og það er lítill tími til að sinna öðru.“

Valdimar hefur mikinn áhuga á því að velta fyrir sér stóru spurningum tilverunnar í leit að dýpri merkingu og sá áhugi varð til þess að hann hóf nám í guðfræði við Háskólann fyrir nokkrum árum.

Skíðaleiðsögumaður á Ítalíu

Valdimar lætur sér þó ekki nægja að sinna túristum á Íslandi því þegar þetta viðtal birtist verður hann kominn til Ítalíu til að vera fararstjóri fyrir íslenska skíðaiðkendur.

„Ég er mikill skíðakall,“ útskýrir hann. „Hef verið á skíðum síðan ég var pínulítill og hef óskaplega gaman af því. Einu sinni var ég spurður að því af ungum strákum í lyftunni í Bláfjöllum hvað ég væri búinn að vera lengi á skíðum og þegar ég sagði að það væru um fimmtíu ár urðu þeir alveg steinhissa, horfðu á mig stórum augum og spurðu hvort ég væri fyrsti kallinn? Ég hef meðal annars verið töluvert að fara á skíði erlendis og þegar í ljós kom að það vantaði einhvern til að taka á móti Íslendingum í ítölsku Ölpunum og leiðsegja þeim um svæðið stökk ég strax á það, alveg himinlifandi. Ég hlakka mikið til að takast á við það.“

Það er greinilegt að Valdimar hefur meira en nóg að gera utan leiklistarbransans en saknar hann aldrei leikhússins og heimsins í kringum það?

„Jú, jú, ég geri það í sjálfu sér stundum,“ viðurkennir hann dræmt. „Þegar maður fer að vinna svona vinnu eins og ég vinn í dag þá finnur maður hvað menningin skiptir mann miklu máli. Maður skynjaði það ekki eins vel þegar maður var alltaf á kafi í þessu, en ég finn vel að lífið snýst um fleira en að vinna, éta og sofa og það er menningin og leikhúsið og auðvitað saknar maður þess. Það var oft alveg frábært að vera í leikhúsinu þegar gaman var en það var náttúrlega ekki alltaf þannig.

Þegar maður fer að vinna svona vinnu eins og ég vinn í dag þá finnur maður hvað menningin skiptir mann miklu máli.

En það var líka gott að fara frá því og eiginlega alveg nauðsynlegt fyrir mig á þeim tíma. Svo finnst mér líka, þótt það hljómi eins og klisja, að það gefi manni langmest að vera bara þakklátur og auðmjúkur fyrir það sem maður hefur. Auðvitað langar mann alltaf í meira og meira en það sem skiptir máli er að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur fengið að gera og hefur getað gert. Það þýðir ekkert annað.“

En kveikti hlutverkið í Ófærð 2 ekkert í þér, aftur eru einhver verkefni í leikhúsi eða kvikmyndum á dagskránni á næstunni?

„Nei, það er ekkert ákveðið komið á dagskrá. Það er alltaf hringt í mig öðru hverju frá Kvikmyndaskólanum og ég beðinn um að leika í myndum sem nemendurnir eru að gera þar og það finnst mér alltaf sjálfsagt að gera ef ég get. Ég er líka opinn fyrir fleiri verkefnum ef mér finnst þau vera eitthvað sem henta mér og passa við mig. Það er alveg ljóst að maður er ekki í leiklistinni peninganna vegna og mér finnst að mörgu leyti gott að vera kominn á það stig að vera í þessu á réttum forsendum. En ég veit ekki hvort einhver sér eitthvað nothæft í manni sem leikara. Það kemur bara í ljós. Það eru svo margar leiðir að því að stunda menninguna.

Það hefur enginn áhuga á list sem rekin er út frá excel-skjali, hún deyr.

Það er hins vegar sorgleg staðreynd að í svona örsamfélagi eins og Ísland er, þá geta í raun bara örfáir einstaklingar í hverri listgrein lifað og þroskast af list sinni, sem er náttúrlega ávísun á einhæfni og stöðnun. Hafi menningin einhvern raunverulegan tilgang í framþróun samfélags sjá allir hvert slík þróun getur leitt okkur. Við eigum að fagna fjölbreytni hún gerir okkur sterkari. Það hefur enginn áhuga á list sem rekin er út frá excel-skjali, hún deyr. Ég hef alltaf hugsað þetta þannig að menningin eigi að bera í sér boðskap um betra mannlíf og það sem brýnast er að taka á núna eru umhverfismálin. Menningin nefnilega skiptir engu máli ef jörðin er að farast. Fjöllin hafa alltaf átt hjarta mitt og núna ætla ég að fara að horfa í sólina á Ítalíu og skíða um fjöllin sem eru einn fallegasti staður á jarðríki. Svo heldur maður bara áfram þaðan.

Ég eignaðist hús norður í Hrísey í fyrra og kannski get ég eitthvað sinnt því í sumar. Svo fer maður kannski líka að einbeita sér að einhverjum skrifum. Það eru endalausir möguleikar sem lífið býður manni upp á. Maður þarf bara að vera opinn fyrir þeim og óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.“

Myndir / Hallur Karlsson

„Þjáning getur verið dásamleg á margan hátt“

Valdís Sylvía Sigurþórsdóttir hefur starfað sem einkaþjálfari í næstum tvo áratugi en hún er stofnandi Jump fit og Foam flex á Íslandi. Hún segir mikilvægt að tala fallega til sjálfs sín og burðast ekki um með hugarfarsleg aukakíló. Valdís prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar.

Undanfarin ár hefur Valdís ferðast mikið ásamt eiginmanni sínum til Asíu, fjórum sinnum til Taílands og þrisvar til Balí. Þegar viðtalið fór fram var Valdís einmitt á leiðinni til Balí. „Fyrsta ferðin mín var árið 2010 en þá heimsótti ég Taíland. Það urðu algjör þáttaskil í mínu andlega ferli. Ég heillaðist af einhverju sem ég get ekki komið orði að. Þar er fátækt en líka mikil gleði. Mér líður alltaf best innan um heimamenn en ekki túristann. Ég vil upplifa þeirra menningu og ég er ekki þessi kona að nennir að gera sig sætari á hverju kvöldi.“

Mynd: Unnur Magna

Í kjölfar ferðarinnar fór Valdís að lesa sér til um búddisma og hindúatrú þar sem allt snýst um karma.

„Ég held í hjarta mér að ég muni fá það sem ég á skilið og það sem ég gef frá mér skipti miklu máli. Ef það kemur eitthvað upp á held ég alltaf ró minni því ég veit að karma sér um sitt. Og ef einhver svíkur mig þá nota ég þessa hugsun, karmað sér um þetta og málið er farið. Ég las nýverið bók í Taílandi sem fjallar um það hvernig þjáningin getur reynst fólki sem gjöf, þá hugsun hef ég tileinkað mér. Við lærum svo margt í þjáningu og nú er ég alls ekki að tala um þjáningu við missi fólks eða annað álíka áfall eins og sjúkdóma eða slys.

Ég tala um raunhæf markmið en samt þarf þessa góðu þjáningu í bland.

Ég er að tala um tilfinningalegan þroska að markmiðum. Hvað þjáning er dásamleg á margan hátt. Manneskja sem reykir ætti að vilja að þjást aðeins, ekki að óttast sársaukann. Það þarf að þjást til að fá þessa vellíðan að vera reyklaus. Manneskja sem ætlar sér markmið í ræktinni ætti einnig að vilja þjást aðeins, að læra að skilja að þjáning er hjálpleg og maður ætti ekki alltaf að bugast undan löngunum.

Ég tala um raunhæf markmið en samt þarf þessa góðu þjáningu í bland. Við þjáumst alveg í prófatörn í skóla en við lærðum það kornung að þetta þurfum við að gera til að útskrifast. Það er eitthvað sem við kunnum. Alveg sama þjáning og ég er að tala um, bara nota hana á öllum öðrum sviðum líka. Það mætti alveg kenna þetta í skólum og ég meina það ekki á dramatískan hátt.

Ég nota þjáninguna til að ganga aðeins lengra, þegar ég er alveg að springa á hlaupabrettinu.

Mér líður ekkert alltaf vel á meðan en hugsunin leitar alltaf í líðanina eftir á. Ég nota líka þjáningu þegar ég þori ekki, að þá hugsa ég fram á við. Þetta er það sem ég kalla að spjalla við sjálfið á uppbyggjandi hátt. Að elska þjáninguna er virkilega þroskandi og róandi.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Valdísi. Viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar sem nú er komið á sölustaði. 

Viðtalið við Valdísi Sylvíu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir

Íhugar tilboð upp á 15,2 milljónir

Eigandi bílskúrs sem listamaðurinn Banksy skreytti nýverið með listaverki hefur fengið nokkur tilboð í verkið. Hann er sagður vera að íhuga að taka tilboði upp á 15,2 milljónir.

Ian Lewis, eigandi bílskúrsins sem listamaðurinn Banksy prýddi með stóru listaverki rétt fyrir jól, hefur fengið tilboð í verkið upp á 100.000 pund. Það gerir um 15,2 milljónir króna miðað við núverandi gengi.

Í frétt BBC kemur fram að bílskúrseigandinn hafi fengið nokkur tilboð í verkið en að hann íhugi nú að taka þessu tilboði, upp á rúmar 15 milljónir. Listaverkasafnari, sem á nú þegar nokkur verk eftir Banksy, mun hafa gert tilboð í verkið.

Lewis ætlar þó að funda með yfirvöldum bæjarins sem hann býr í, Port Talbot í Wales, til að ræða fleiri möguleika áður en hann tekur endanlega ákvörðun.

Eins og fjallað var um fyrr í vikunni er Lewis að bugast vegna álags sem fylgir því að eiga bílskúr sem skreyttur er með listaverki eftir Banksy. „Þetta hefur verið mjög, mjög stressandi og mjög súrrealískt. Þetta hefur bara verið of mikið fyrir mig,“ sagði Lewis í viðtali við BBC en honum finnst hann bera ákveðna ábyrgð á verkinu og þurfa að vernda það fyrir skemmdarvörgum. Hann sagði þá að fólk flykkist nú að bílskúrnum á öllum tímum sólarhringsins til að virða verkið fyrir sér.

Yfirvöld í Wales hafa boðist til að útvega Lewis öryggisgæslu um tíma, á meðan hann ákveður hver næstu skref verða.

Mynd / Skjáskot af Youtube

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Banksy (@banksy) on

Gína í hjólastól vekur lukku

|
|

Gluggauppstilling brúðarkjólabúðarinnar The White Collection Bridal Boutique hefur vakið mikla athygli.

Eigendur brúðarkjólabúðarinnar The White Collection Bridal Boutique í Bristol í Englandi hafa fengið mikið hrós fyrir gluggauppstillingu sem sjá má í einum glugga verslunarinnar. Þar er gína höfð í hjólastól.

Það var Beth Wilson sem vakti athygli á gluggauppstillingunni á Twitter en Wilson hefur þurft að nota hjólastól undanfarin fimm ár. Í Twitter-færslunni greindi hún frá að þetta í fyrsta sinn sem hún sér gínu hafða í hjólastól. Færsla Wilson hefur vakið mikla athygli og lukku.

Í viðtali við The Independent segir Wilson að þessu gluggauppstilling hafi hreyft við henni.

„Ég held að flest fólk sem notar hjólastól upplifi slæmt aðgengi þegar það fer út, ég veit að ég upplifi það nánast alltaf þegar ég fer eitthvað. Heimurinn er ekki hannaður fyrir okkur,“ sagði hún.

Í grein The Independent kemur fram að 13,9 milljónir manna í Bretlandi noti hjólastól. En að sögn Wilson er þessi hópur oftar en ekki hunsaður. „Oft líður fólki í hjólastól eins og það sé ósýnilegt,“ sagði Wilson. Hún tók þá fram að hún var sérstaklega glöð að sjá að hjólastóllinn sjálfur hafði verið skreyttur með grænum laufum.

Þegar annar eigandi verslunarinnar, Laura Allen, var spurð út í þessa ákvörðun eigendanna um að hafa gínuna í hjólastól sagðist hún ekki hafa hugsað mikið út í þetta, að henni hafi einfaldlega fundist þetta sjálfsagt.

Myndir / Beth Wilson / The White Collection Bridal Boutique

„Sorglegt að fjárhagur fólks sé farinn að skipta ennþá meira máli“

Björn Þór Ingason birti í gær færslu á Facebook í tilefni þess að breytingar voru gerðar á reglugerð um greiðsluþátttöku hins opinbera við tæknifrjóvganir. Hann vonar að stjórnvöld endurskoði breytinguna.

Umdeildar breytingar voru gerðar á reglugerð um greiðsluþátttöku hins opinbera við tæknifrjóvganir og tóku breytingarnar gildi um áramótin. Málið hefur verið töluvert í umræðunni enda setur breytingin stórt strik í reikninginn hjá mörgum.

Fyrir breytingu á reglugerð var greiðsluþátttaka ríkisins engin í fyrstu tæknifrjóvgun en var 50% ef framkvæma þurfti aðgerðina í annað, þriðja og fjórða sinn. Eftir beyginguna er greiðsluþátttaka ríkisins 5% í fyrsta skipti og 30% í annað sinn. Greiðsluþátttakan er engin er farið er í þriðja eða fjórða sinn í tæknifrjóvgun. Nánar á vef Livio. Síðan breytingin tók gildi hefur margt fólk líst yfir óánægju sinni með hana.

Björn Þór Ingason er einn af þeim sem er óánægður með breytinguna á reglugerðinni og skorar á stjórnvöld að endurskoða málið. Hann og kona hans eignuðust barn árið 2015 með hjálp tæknifrjóvgunar.

„Nú neyðist ég til að stíga aðeins út fyrir þægindarammann,“ skrifar Björn Þór meðal annars á Facebook þar sem hann tjáir sig um málið.

„Í þessari og síðustu viku hafa fjölmiðlar fjallað um ákvörðun stjórnvalda að draga úr greiðsluþátttöku við tæknifrjóvgunarmeðferðir. Þetta málefni stendur mér mjög nærri þar sem ég og Fríða fengum þær fréttir síðla árs 2013 að líkurnar væru ekki með okkur ef okkur langaði að búa til barn upp á eigin spýtur. Við nýttum okkur því þau úrræði sem voru í boði á þeim tíma og eftir tvær meðferðir og fimm uppsetningar var biðin og óvissan loks á enda þegar kraftaverkið okkar kom í heiminn í október 2015 með hjálp tæknifrjóvgunar. Þessar meðferðir kostuðu auðvitað sitt en ég get lofað ykkur því að ég hefði sett hverja einustu krónu sem ég hef unnið mér inn yfir ævina í þetta ferli ef ég vissi hvað beið mín þegar ég fékk hann Ara okkar í hendurnar,“ skrifar Björn meðal annars.

Eftir tvær meðferðir og fimm uppsetningar var biðin og óvissan loks á enda.

Hann heldur áfram og lýsir því hvernig meðferðirnar settu strik í reikninginn fjárhagslega, þrátt fyrir að tekjur hans og Fríðu hafi verið ágætar.

„Það er hins vegar alls ekki raunin fyrir alla og mér finnst það gríðarlega sorglegt að fjárhagur fólks sé farinn að skipta ennþá meira máli eftir þessar breytingar hafi það löngun til þess að stofna fjölskyldu.“

Facebook-færslu Björns má lesa í heild sinni hér fyrir neðan. Meðfylgjandi er þá myndbandið sem Björn birti en í því má sjá hann syngja lag sem hann samdi á því tímabili sem hann og Fríða reyndu að eignast barn með hjálp tæknifrjóvgunar.

Björn vonar þá að frásögn hans opni augu fólks og að stjórnvöld endurskoði breytingu reglugerðarinnar.

Guðni Már nýtur lífsins í sólinni

Guðni Már Henningsson er fluttur til Tenerife, þar sem kaffið kólnar ekki í bollanum þótt það standi nokkrar mínútur á borði og hann segir að sér hafi ekki liðið betur í fjörutiu ár.

Það vakti töluverða athygli þegar útvarpsmaðurinn ástsæli, Guðni Már Henningsson, kvaddi hlustendur sína fyrir tæpu ári síðan og kom sér fyrir á Tenerife. Þar nýtur hann þess að drekka kaffið sitt í sólinni, sinnir kalli listagyðjunnar og spjallar við heimamenn af sinni einstöku snilld. Snæfríður Ingadóttir hitti Guðna á uppáhaldskaffihúsinu hans og forvitnaðist um líf hans í dag.

„Jú það voru margir hissa þegar ég sagði upp á Rás 2 en ég var bara búinn að fá nóg. Aldurinn var farinn að segja til sín og eftir 24 ára starf var þetta bara orðið gott,“ segir Guðni þar sem hann situr á uppáhaldskaffihúsinu sínu, La Paz við Römbluna í Santa Cruz de Tenerife. Þetta er útikaffihús og hingað mætir hann daglega og stundum oft á dag ef þannig liggur á honum.

Dvölin á Tenerife hefur greinilega gert honum gott því hann er nær óþekkjanlegur þar sem hann situr mörgum kílóum léttari, sólbrúnn á stuttermabol undir sígrænum krónum Römblutrjánna.

Aldurinn var farinn að segja til sín og eftir 24 ára starf var þetta bara orðið gott.

„Ég er mjög sáttur við þessa ákvörðun. Ég hef flutt hátt í 50 sinnum á ævinni, bjó til að mynda tvö ár í Svíþjóð, svo ég er ekki hræddur við breytingar. Hér er yndislegt mannlíf og veðrátta, og alltaf eitthvað nýtt að uppgötva á hverjum degi. Svo er líka ótrúlega gott að þurfa ekki lengur að fylgjast með þessu þunglyndi, svindli og svínarí heima á Íslandi.“

Að flytja á sólríkari slóðir var hins vegar enginn langþráður draumur hjá Guðna heldur segist hann hafa verið tilneyddur. „Það kom ekkert annað til greina en að flytja. Eftir að ég skildi við seinni eiginkonu mína árið 2017 þá hafði ég einfaldlega ekki efni á því að búa á Íslandi á örorkubótum. Bæturnar dugðu ekki fyrir leigu og lífsnauðsynjum.“

Viðtalið við Guðna Má er að finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Guðni segist fyrst hafa verið á leiðinni til Torrevieja en góðvinur hans benti honum á að loftslagið á Tenerife væri betra og ráðlagði honum að fara frekar þangað. Og Guðni hlýddi þrátt fyrir að vita lítið sem ekkert um borgina Santa Cruz, eða Tenerife yfirhöfuð. En hann segir nánar frá þessu nýja lífi í sólinni og mörgu er hann fékk að reyna í starfi sínu í útvarpinu, meðal annars heimboðum frá einmana konum, í 2. tbl. Vikunnar.

Texti / Snæfríður Ingadóttir

 

 

 

 

Hætti á erfiðu tímabili í einkalífinu

Valdimar Örn Flygenring dró sig út úr leiklistinni fyrir rúmum áratug en á nú óvænta endurkomu í Ófærð 2. Í viðtali í Mannlífi sem kemur út í fyrramálið getir hann upp aðskilnaðinn við leikhúsið, námið í guðfræðinni, starfið í túrismanum og þann þroska sem þessi ár hafa fært honum.

„Ég útskrifaðist úr Leiklistarskólanum 1986 og var alveg á fullu í tuttugu og þrjú ár eftir það,“ útskýrir Valdimar. „Þá var maður stanslaust að daga, kvöld og helgar í leikhúsinu og svo kom sumarið og þá var maður á kafi í bíómyndum. Eftir að hafa unnið þannig í tuttugu og þrjú ár fór ég aðeins að hugsa minn gang, auk þess sem ég var að ganga í gegnum erfitt tímabil í lífi mínu á þeim tíma, var að fara í gegnum skilnað og var að leika í erfiðu verki, Pabbastrák eftir Hávar Sigurjónsson sem var frábært verk en hlutverkið gekk nærri mér. Ég var líka svolítið kominn á það stig að vera aðeins á milli kynslóða í leikhúsinu, var orðinn elstur af þeim „ungu“ og það vissi eiginlega enginn hvað átti að láta mann gera.

Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í.

Ég lenti mikið í því að leika leiðinlega kallinn og það má maður ekki gera alltof lengi, sérstaklega ekki þegar maður er sjálfur að ganga í gegnum erfiðleika í einkalífinu. Þá fer maður að velta því fyrir sér hvort maður eigi kannski bara að fara að gera eitthvað allt annað, opna nýja glugga. Ég sé ekkert eftir því að hafa stigið út úr því fari sem ég var kominn í. Ég hef aldrei getað verið í einhverju ákveðnu fari, gæti til dæmis aldrei unnið frá níu til fimm, ég er bara ekki þannig gerður. Kannski er það ómeðhöndlaður athyglisbrestur en ég þarf alltaf að vera að takast á við eitthvað nýtt.“

Viðtalið verður birt í heild sinni í Mannlífi í fyrramálið.

Mynd / Hallur Karlsson

Raddir