Laugardagur 21. september, 2024
8.2 C
Reykjavik

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin“

Matthildur Sunna Þorláksdóttir er löggiltur fasteignasali á Stakfelli fasteignasölu og var að skila inn lokaritgerð í viðskiptalögfræði á Bifröst. Hún er einhleyp og býr í yndislegri íbúð á besta stað í Vesturbænum.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Þegar maður er alltaf í vinnunni eða við símann er að mínu mati nauðsynlegt að hafa fjölbreytileika, og það er það sem heillar mig mest við þetta starf.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Tölvupóstur, símtöl og flakk. Hitta og tala við alls konar fólk og skoða mismunandi íbúðir og hús.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Það er að sjálfsögðu persónulegt hvað gerir heimili að heimili og fólk er jafnmisjafnt og það er margt. Í mínu tilviki er það hlýleiki. Ég er mikil plöntu- og kertamanneskja því að mér finnst það gera heimilið hlýlegra.“

Getur þú lýst þínum stíl?

„Myndi lýsa honum sem út og suður. Ég fer ekki endilega mikið eftir neinum sérstökum reglum, hvorki í fatavali né á heimilinu, heldur eftir því sem mér finnst fallegt.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Ég er hrifin af Alvar Aalto og Arne Jacobsen, bæði í hönnun og arkitektúr. Mér finnst frekar gaman að því hvað þeir hafa hannað skemmtilega öðruvísi byggingar og tímalausa hönnun í húsgögnum og fylgihlutum.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Ekkert sem ég man eftir, er mjög sátt við það sem ég á.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Þeir eru þónokkrir. Er mjög hrifin af grænum og karrígulum og hrafnagráum. Jarðlitir og pastellitir eru einnig í miklu uppáhaldi.“

Hvar líður þér best?

„Heima hjá mér, ég er mjög heimakær. Mér líður best einni að bralla eitthvað þar eða með fullt hús af fólki.“

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin. Það verður allt svo miklu meira kósí. Stórar peysur og treflar verða staðalbúnaður og rauðvínsglas og kertaljós á Kaffi Vest verður extra rómó.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég er mjög hrifin af Mathöllinni á Hlemmi, þar eru nokkrir veitingastaðir sem standa upp úr hjá mér. Skál og Jómfrúin eru í algjöru uppáhaldi, sem og Kröst. Finnst þetta skemmtilegt „concept“, það finna allir eitthvað við sitt hæfi.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar?

„Ég er algjör sökker fyrir nýmóðins spænskum stíl. Ég hef verið að skoða og sýna eignir á Alicante-svæðinu og mér finnst það sem verið er að byggja núna vera einstaklega fallegt.“

Að lifa lífinu lifandi er að…

… anda með nefinu og njóta líðandi stundar.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Svart stál og gróf viðaráferð koma sterk inn

Þessa dagana hjá Vogue fyrir heimilið er verið að taka upp einstaklega fallegar og vandaðar gjafavörur frá nýrri vörulínu. Þvílíkt augnakonfekt til að njóta og fegra heimilið. Við hittum Kolbrúnu Birnu Halldórsdóttur, verslunar- og rekstrarstjóra, og fengum smáinnsýn í það sem koma skal.

Þessar vörur sem voru að koma í hús eru einstaklega fallegar og grípa augað. Getur þú aðeins sagt okkur frá þessari nýju vörulínu?

„Boltze er þýsk vörulína sem inniheldur mikið af fallegri gjafavöru, borðum, hillum og fleira skemmtilegu sem auðvelt er að breyta með eða bæta á heimilinu með litlum tilkostnaði.“

Vogue fyrir heimilið er ávallt að stækka og auka vöruúrvalið, er ekki einstaklega skemmtilegt og gefandi að geta raða hinu ýmsu vörum saman?

„Ó, jú. Það er alveg ótrúlega gaman, þetta hefur verið ævintýri líkast síðastliðin fjögur ár eftir að við fluttum hingað í Síðumúlann. Ég nærist sjálf á því að fegra umhverfið, svo er ég náttúrlega með svo frábært fólk hérna með mér í verslunni.“

Hvað er það nýjasta sem koma skal í vetur?

„Við höfum tekið mikið inn af litlum borðum sem skemmtilegt er að raða saman við sófann eða nota sem innskotsborð, hillum, glervösum, bökkum sem hafa haldið velli í nokkur ár og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram, alltaf gaman að dekúreta með bökkum, vösum og fleira.“

Eru einhverjir litir eða áferð sem eru vinsælli en annað þessa stundina?

„Mildir gamaldags litir eru móðins í dag. Varðandi áferðina þá er stálið alltaf vinsælt og grófur viður sem er meðal annars flottur við svart stál. Tvinna saman stáli og við er flott kombó.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Byggbuff með papriku- og hnetusósu

Bygg hefur mjög lágan sykurstuðul og inniheldur flókin kolvetni. Einnig er það mjög trefjaríkt og því sérlega gott fyrir meltinguna. Bygg er líka saðsamt og bragðgott og ekki skemmir fyrir að það er ræktað hér á landi.

 

Byggbuff með papriku- og hnetusósu

fyrir 4

1 laukur                                                                                               4 hvítlauksgeirar
1 lítið spergilkáls(brokkólí)höfuð
250 g sætar kartöflur, eldaðar
3 dl bankabygg, eldað skv. leiðbeiningum á umbúðum
½ ferskt chili-aldin, fræhreinsað
1 tsk. garaam masala
1 tsk. engifer
1 tsk. karrí
1 tsk. sjávarsalt
½ tsk. túrmerik
2 tsk. paprika
smakkið til með nýmöluðum svörtum pipar
3-4 msk. olía, til steikingar

Skerið lauk, hvítlauk og spergilkál í grófa bita og setjið í matvinnsluvél og látið ganga í stutta stund. Setjið elduðu sætkartöflurnar og bankabyggið út í ásamt kryddinu og látið ganga áfram þar til allt samlagast vel. Blandan á að vera nokkuð stíf. Kælið í 30-60 mínútur í ísskáp. Þá er betra að móta buffin. Búið til 6-8 buff úr deiginu og steikið í nokkrar mínútur á pönnu þar til þau verða gullinbrún.

Hnetu- og paprikusósa
2 kúfaðar msk. gróft hnetusmjör
safi úr einni límónu
½ dl vatn
1 appelsínugul paprika
2 hvítlauksrif
1 tsk. salt
1 ½ tsk pipar

Setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og látið ganga þar til það er vel samlagað. Best er að nota appelsíngula papriku því þá verður sósan svo falleg á litinn.

 

Umsjón/ Bergþóra Jónsdóttir

Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

 

Öruggur sigur eða ekki?

||
||

Mannlíf fékk tvo sérfræðinga, Kristjönu Arnarsdóttur, íþróttafréttakonu á RÚV, og Elvar Geir Magnússon, ritstjóra Fótbolti.net, til að spá fyrir um úrslit leiks Íslenska kvennalandsliðsins gegn Þýskalandi á morgun.

Dáist að íslensku stelpunum

Kristjana Arnarsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir.

„Ég spái því að við vinnum þetta 2-1 og að Sara Björk Gunnarsdóttir og Elín Metta Jensen skori mörkin. Ég er bjartsýn á að stelpurnar spili vel og ég veit hreinlega að þær eru alveg ofboðslega tilbúnar í þetta verkefni. Það sést á þeim langar leiðir,“segir Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV.

Kristjana var ein þeirra sem sá um umfjöllun um HM karla í Rússlandi í sumar og er nú nýbyrjuð í síðbúnu og langþráðu sumarfríi. Hún verður því erlendis og fjarri góðu gamni á morgun þegar flautað verður til leiksins mikilvæga gegn Þjóðverjum klukkan 15 á Laugardalsvelli.

„Það kemur hins vegar ekkert annað til greina en að sjá þennan leik og ég mun finna leiðir til þess, löglegar eða ólöglegar,“segir hún og skellir upp úr. Hún er ánægð með að miðarnir á leikinn hafi rokið út. „Að mínu mati er það sjálfsögð krafa að við fyllum Laugardalsvöllinn í fyrsta sinn á kvennalandsleik og í raun fáránlegt að þurfa að biðja fólk um að mæta. Það gerist varla stærra, að spila á móti stórliði Þýskalands í leik sem gæti tryggt okkur inn á HM í Frakklandi. Það er mikið rætt um karlaknattspyrnu annars vegar og kvennaknattspyrnu hins vegar og muninn á þessu tvennu varðandi umgjörð og fleira og við verðum bara að sýna það í verki að við styðjum stelpurnar og mæta á völlinn.“

Kristjana sér fyrir sér að það fari mikil orka hjá íslenska liðinu í stórleikinn gegn Þýskalandi og býst fastlega við breytingum á byrjunarliðinu milli hans og viðureignarinnar gegn Tékkum sem fram fer á þriðjudaginn. „Ég held að við komum til með að leika varfærnislega gegn Þjóðverjum og treysta á skyndisóknir og föst leikatriði, enda hafa föstu leikatriðin verið að skila sér í leik liðsins síðustu misseri. Ef þær eru þéttar aftast á vellinum og halda skipulagi hef ég trú á því að þetta falli með okkur,“segir hún og bætir við að fjarvera lykilleikmanna á borð við Hörpu Þorsteinsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur sé vissulega áhyggjuefni en eigi þó líklega ekki eftir að ráða úrslitum.

„Þær hafa lagt svo mikið á sig og eiga svo innilega skilið að vera komnar í þessa stöðu sem þær eru í núna.“

„Auðvitað er alltaf slæmt að missa leikmenn úr hópnum, hvort sem þeir eru í byrjunarliðinu eða ekki, því það hefur áhrif á hópinn í heild sinni og getur hróflað við jafnvægi. Ég fékk bara í magann þegar ég sá að Harpa hafði slitið krossband, það var svo hræðilegt. En við erum með breiðan og góðan hóp og margar ungar stelpur sem hafa komið inn af miklum krafti svo ég hef litlar áhyggjur af þessu.“Íþróttafréttakonan lék lengi knattspyrnu sjálf, meðal annars í yngri flokkum með nokkrum af núverandi landsliðshetjunum. „Ég æfði til dæmis með Söru Björk Gunnarsdóttur, Fanndísi Friðriksdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í Breiðabliki og hef fylgst með þessum gömlu liðsfélögum af aðdáun æ síðan. Ég er rosalega stolt af þeim. Þær hafa lagt svo mikið á sig og eiga svo innilega skilið að vera komnar í þessa stöðu sem þær eru í núna. Ég dáist að þessum stelpum,“ segir Kristjana.

Grjótharðir töffarar

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, lengsti til vinstri.

„Það er nú þannig með mig að ég er nánast alltaf svartsýnn þegar liðin mín eru að spila, svo ég segi að Þýskaland vinni þennan leik 0-2. Ég vona hins vegar innilega að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net.

Elvar hefur fylgst vel með íslenska kvennalandsliðinu í gegnum árin og fylgdi liðinu meðal annars eftir á tvö síðustu stórmót þess, EM í Svíþjóð árið 2013 og EM í Hollandi árið 2017, þar sem hann vann að umfjöllun um liðið og var því í nokkru návígi við leikmenn, þjálfara og starfslið.

„Þegar maður fylgist svona vel með liðinu meðtekur maður betur móralinn í hópnum, hvernig leikmennirnir eru utan vallar og fleira í þeim dúr,“ segir Elvar Geir og hikar ekki þegar hann er spurður að því hvort eitthvert eitt atriði einkenni kvennalandsliðið öðrum fremur. „Það sem er mest einkennandi við íslenska kvennalandsliðið er hvað þetta eru hrikalega miklir töffarar. Þetta eru upp til hópa grjótharðar stelpur sem geisla af sjálfsöryggi og koma hreint fram. Mjög flottar fyrirmyndir sem eru ekkert að „feika það“. Þær eru einfaldlega náttúrulegir töffarar,“segir hann og tekur undir það að slíkir eiginleikar séu nánast lífsnauðsynlegir í fari knattspyrnukvenna þar sem þær hafi heldur betur þurft að hafa fyrir hlutunum í gegnum tíðina. „Það er enn langt í land hvað varðar muninn á umgjörð og fleira hjá körlum og konum í knattspyrnu, eins og ég hef séð á þessum stórmótum. Þróunin í kvennaknattspyrnunni hefur verið ör á undanförnum árum og gengið hratt, en nú finnst mér eins og aðeins sé farið að hægjast á því ferli aftur. En bilið fer þó minnkandi og þetta stefnir í rétta átt, sem er jákvætt.“

„Þetta eru upp til hópa grjótharðar stelpur sem geisla af sjálfsöryggi og koma hreint fram. Mjög flottar fyrirmyndir sem eru ekkert að „feika það“. Þær eru einfaldlega náttúrulegir töffarar.“

Eins og áður sagði var Elvar Geir staddur á EM í Frakklandi sumarið 2017 þar sem flest gekk á afturfótunum hjá íslenska liðinu og því mistókst að ná í stig. Bjóst hann við því þá að liðið yrði í þeirri stöðu að geta tryggt sig inn á HM einungis rúmu ári síðar?„Nei, ég get ekki sagt það, og ég bjóst alls ekki við því að þær myndu vinna Þýskaland á útivelli í fyrri leiknum í undankeppninni. En stelpurnar spila jafnan vel gegn erfiðum andstæðingum, eins og sýndi sig á EM þar sem besta frammistaðan kom gegn Frökkum. Sá leikur tapaðist í raun á einstaklingsmistökum en heildarframmistaðan var góð og uppleggið gekk fullkomlega upp.“

Ritstjórinn segir ekkert launungarmál að íslenska liðið eigi eftir að liggja í skotgröfunum í stórleiknum á morgun. „Freyr þjálfari hefur sjálfur talað um að jafntefli yrðu góð úrslit. Sóknarleikurinn hefur verið akkilesarhæll liðsins að undanförnu og ég gæti trúað því að Telma Hjaltalín Þrastardóttir úr Stjörnunni sem er nýliði í íslenska hópnum, gæti orðið óvænt vopn í þessum leik. Ég myndi ekki gapa þótt hún kæmi beint inn í byrjunarliðið, en ég get líka séð hana í stóru hlutverki af bekknum. Þær þýsku eru með bakið upp við vegg og þær eru meðvitaðar um að það yrði stórslys ef þær kæmust ekki á HM. Vonandi vinnur sú pressa með okkur,“ segir Elvar Geir.

Sigrar og ósigrar Björgólfs

Það þóttu heldur betur tíðindi þegar Björgólfur Jóhannesson hætti í vikunni sem forstjóri Icelandair Group eftir áratug í starfi.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir honum að ákvarðanir sem teknar hafi verið á hans vakt hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni og beri hann ábyrgð á því gagnvart stjórn og hluthöfum. Við gerð síðustu afkomuspár hafi enn verið gert ráð fyrir því að meðalfargjöld á seinustu mánuðum ársins myndu hækka, m.a. í samræmi við kostnaðarhækkanir flugfélaga. Nú sé talið að þessar hækkanir muni ekki skila sér ekki fyrr en á næsta ári. Þá hafi breytingar á sölu- og markaðsstarfi félagsins sem voru innleiddar í upphafi sumars 2017 ekki gengið sem skyldi og breytingar á leiðakerfi félagsins í byrjun árs valdið misvægi á milli framboðs flugs til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.

„Áhrif þessarar ákvörðunar munu vafalaust ná víðar en til fyrirtækja, sem skráð eru á markaði.“

Bæði Björgólfur og stjórnarformaður Icelandair, Úlfar Steindórsson, segja reyndar að aðgerðir í sölu- og markaðsmálum hafi verið vel úthugsaðar og góðar en ekki verið fylgt nógu vel eftir. Hins vegar hefur hvorugur þeirra gert ítarlega grein fyrir því að hvaða leyti þær hafi verið vel úthugsaðar, með hvaða hætti eftirfylgnin hafi klikkað og hvað hefði betur mátt gera.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála félagsins, mun gegna stöðu forstjóra tímabundið, þar til ráðið hefur verið í stöðuna. Verður Björgólfur félaginu innan handar að beiðni stjórnar.

Ferill Björgólfs: „Ég er stoltur af þeirri stöðu sem félagið er í núna.“

1 Björgólfur er ráðinn forstjóri Icelandair Group árið 2008. Áður hafði hann einkum starfað í sjávarútvegi. Fjórum árum síðar er Björgólfur valin viðskiptamaður ársins af Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu. Í Fréttablaðinu er m.a. tekið fram að „hryggjarstykki félagsins“, Icelandair, hafi aukið sætaframboð og flutt tvær milljónir farþega á árinu sem sé met. Það ráði m.a. valinu. Í viðtali við blaðið segist Björgólfur líta á þetta sem „viðurkenningu fyrir starfsfólkið“. Í sama viðtali hnýtir hann í ferðaþjónustuna á Íslandi með því segja hana skorta stefnumótun.

2 Icelandair færist undir Icelandair Group og Björgólfur tekur við stöðu forstjóra Icelandair í nóvember 2017. Í tilkynningu frá stjórn eru boðaðar breytingar á stjórnunarháttum samstæðunnar sem lúta að rekstri og fjármálum. Talsverðar breytingar verða á stjórnendateymi Icelandair þar sem nýir menn leysa reynslubolta af hólmi. Birkir Hólm Guðnason sem hafði verið framkvæmdastjóri Icelandair frá árinu 2008, lætur þannig af störfum í nóvember 2017.

3 Á síðasta ári sendir félagið frá sér tvær afkomuviðvaranir þar sem fram kemur að rekstrarniðurstaða þess verði lakari en búist hafði verið við. Í júlí á þessu ári er birt uppfærð afkomuspá þar sem hún er lækkuð um 30 prósent. Björgólfur segir tölurnar vera „talsverð vonbrigði“. Í kjölfar þess lækkar hlutabréfaverð félagsins um fjórðung á einum degi. Þótt gengi bréfanna hríðfalli heyrist lítið opinberlega í forsvarsmönnum íslensku lífeyrissjóðanna, sem eru meirihlutaeigendur hlutafjár Icelandair. Sögusagnir fara á kreik um að Björgólfur íhugi uppsögn.

4 Björgólfur lætur af störfum sem forstjóri á mánudag og daginn eftir hrynur virði Icelandair enn einu sinni. Markaðsvirði félagsins hefur því fallið skarpt undanfarna mánuði og afkoma þess er talsvert slakari en spár gerðu ráð fyrir. Því vekur athygli að í Kastljóssviðtali á þriðjudag lét Björgólfur eftirfarandi ummæli falla í lok þáttar: „Ég er stoltur af þeirri stöðu sem félagið er í núna.“

Markaðsvirði Icelandair hrunið

2016 Markaðsvirði Icelandair náði hæstu hæðum í apríl 2016, þegar það var 189 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.

2018 Markaðsvirði Icelandair hefur hrunið undanfarna mánuði og er nú um 40 milljarðar. Það þýðir að á tveimur árum hafa tæplega 150 milljarðar króna af markaðsgenginu þurrkast út.

Fleyg orð um ákvörðun Björgólfs að hætta

„Hann leiddi fjárhagslega endurskipulagningu þess og hefur alla tíð lagt áherslu á ábyrgan rekstur og að vöxtur félagssins sé arðbær til lengri tíma litið. Hann skilur við fjárhagslega sterkt félag, Icelandair Group var með 251 milljón USD í handbæru fé við lok annars ársfjórðungs og 530 milljónir USD í eigin fé.“– Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.

„Allt í einu fékk frasinn „Þeir fá svona há laun af því að þeir bera svo mikla ábyrgð“–skyndilega fékk hann innihald og merkingu.“– Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar.

„Áhrif þessarar ákvörðunar munu vafalaust ná víðar en til fyrirtækja, sem skráð eru á markaði. Líklegt er að þau muni líka ná til stærri óskráðra fyrirtækja og t.d lífeyrissjóða, þegar árangur af rekstri þeirra stenzt ekki væntingar. Allt stuðlar þetta að heilbrigðara viðskiptalífi. Raunar mættu áhrifin verða víðtækari, þ.e. að ný viðmið af þessu tagi nái líka til annarra þátta samfélagsins svo sem til stjórnmála. Þar er siðvenjan sú að menn hamist við að axla ekki ábyrgð.“– Styrmir Gunnarsson á styrmir.is.

Mynd: Skjáskot af RÚV

Konur minna virði en karlar?

LEIÐARI Í fyrsta skipti í sögu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta lítur út fyrir að uppselt verði á heimaleik þeirra á Laugardalsvelli, leik gegn Þýskalandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Vinni íslensku stelpurnar leikinn eru þær búnar að tryggja sér þátttökurétt á HM sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Þegar íslenska karlalandsliðið var í sömu stöðu á síðasta ári og gat tryggt sér þátttökurétt á HM í leik á Laugardalsvelli gegn Kósóvó þá seldist upp á örfáum mínútum. Fyrir þann leik var þrenns konar miðaverð í boði eftir staðsetningu sætanna; 3000, 5000 og 7000 krónur og fimmtíu prósent afsláttur fyrir börn. Miðinn á leik kvennalandsliðsins og Þýskalands kostar 2000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn, sama hvar setið er.

Þrátt fyrir að miðar á þennan mikilvæga og einn stærsta leik kvennalandsliðsins séu á gjafverði sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 á þriðjudagsmorgun að fólk hefði í miklum mæli samband til að fá ókeypis miða, eða orðrétt: „Það verður að segjast eins og er, því miður, að fólk sækist meira í frímiða af því að þetta er kvennaleikur og ætlast til að fá frímiða. Við höfum fengið margar beiðnir um afslætti af barnaverði, fólk telur sig ekki eiga að borga inn á þennan leik því þetta er kvennaleikur.“

Hvernig gengur þessi jafna hins vegar upp í samfélagi þar sem fólk trú ir enn að konur séu minna virði en karlar?

Margir telja að á Íslandi ríki orðið fullkomið jafnrétti milli kynjanna, konur hafi öll sömu tækifæri og karlmenn, og sömu laun – sækist þær eftir þeim. Konur þurfa nefnilega bara að vera duglegri að biðja um kauphækkun, sækja um stjórnunarstöður og hætta að láta beita sig kynbundnu ofbeldi, svo dæmi séu tekin. Hvernig gengur þessi jafna hins vegar upp í samfélagi þar sem fólk trúir enn að konur séu minna virði en karlar? Að konur eigi að fá lægri laun en karlar eða jafnvel engin? Af hverju erum við tilbúin að láta konur spila fótbolta ókeypis meðan við borgum karlmönnum háar fjárhæðir fyrir það sama? Í fyrirlestri sem Þóra Helgadóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, hélt á ráðstefnunni „Kyn og íþróttir“ lýsti hún muninum á aðbúnaði karla- og kvennalandsliðanna með skýrum hætti þegar hún sagði meðal annars: „Munurinn á kvennalandsliðinu og karlalandsliðinu var rosalegur. Þeir fengu að spila vináttuleiki og fengu dagpeninga. En það sem skipti mestu máli var að þeir fengu virðingu.“ Virðing. Er það kannski lykilorðið? Burtséð frá öllum launagreiðslum og peningamálum, erum við fær um að sýna konum þá virðingu að þær séu til jafns á við karla í þessu samfélagi? Getum við borgað þeim fullt verð fyrir þeirra vinnu? Getum við gert ráð fyrir þeim í stjórnunarstöðum? Getum við borið virðingu fyrir þeirra viðhorfum og vilja? Getum við hætt að beita þær ofbeldi? Getum við hætt að hlutgera þær? Getum við fyllt völlinn á landsleik kvennalandsliðsins í fótbolta og borgað uppsett verð?

Neistinn kviknaði í lyftuferð

|
|

Aðalheiður E. Ásmundsdóttir og Rúnar Gregory Muccio sem hafa fengist við áhugaljósmyndun um árabil opnuðu ljósmyndasýningu með blakmyndum í Smáralind 30. ágúst.

Á þeim degi voru nákvæmlega fjögur ár síðan þau hittust fyrir tilviljun í lyftunni í Perlunni. „Við vorum, hvort í sínu lagi, á leiðinni í kaffihitting á vegum Fókus, félags áhugaljósmyndara, þegar við lentum saman í lyftunni. Þar kviknaði strax einhver neisti á milli okkar sem hefur ekki slokknað síðan,“ segir þau og fagna þessum tímamótum með ljósmyndasýningunni HK blak – Gleði.

„Ljósmyndasýningin er einstök sinnar tegundar þar sem þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem haldin er sérstök ljósmyndasýning þar sem eingöngu eru myndir af íþróttafólki sem spilar blak. Blakíþróttin á sér ekki langa sögu á Íslandi og hefur verið stunduð hér í nokkra áratugi. Tilgangur sýningarinar er meðal annars að sýna hvernig hægt er að tvinna saman menningu og íþróttir í hinu listræna formi ljósmyndar, að kynna þá gleði sem ríkir í blakíþróttinni og jafnframt að sýna bæjarbúum, gestum og gangandi hversu magnað íþróttafólkið er sem stundar blak í HK,“ segja þau en ljósmyndasýningin samanstendur af myndum af leikmönnum HK í meistaraflokki karla og kvenna í blaki. Litirnir rauður og hvítur eru allsráðandi í myndunum ásamt bæði brosandi og einbeittu íþróttafólki.

Ljósmyndasýningin er á fyrstu hæð í Smáralindinni fyrir framan Lyfju og Zöru og stendur til 4. september.

„Við forðumst okkur sjálf og deyfum með mörgum leiðum“

|
|

Kamilla Ingibergsdóttir jógakennari hefur í tæp tvö ár boðið upp á hugleiðslu- og slökunarstundir með hreinu kakói frá Gvatemala. Þar býður hún fólki upp á að tengja sig inn á við, minnka áreitið í kringum sig og hávaðann frá hugsunum til að hlusta betur á það sem það virkilega vill og þarf.

„Ég hef farið mjög mikið til Gvatemala undanfarin ár og varið tíma við Atitlan-vatnið en þar hefur myndast samfélag jógaiðkenda og andlega þenkjandi fólks alls staðar að.

„Þessar stundir hafa reynst fólki vel til að hvílast, losa um streitu og þreytu og gera eitthvað bara fyrir sig. Stundum gleymum við að hlúa að okkur sjálfum í amstri dagsins og þá sérstaklega andlegu hliðinni,“ segir Kamilla. „Innri vinna er einhver sú mesta erfiðisvinna sem til er og í mörgum tilfellum erum við frekar til í forðast hana til að þurfa ekki að mæta okkur sjálfum, horfa inn á við og gera eitthvað í því sem við sjáum eða finnum. Við forðumst okkur sjálf og deyfum með svo mörgum leiðum, til dæmis með áfengi, vímuefnum, kynlífi, símunum okkar, sjónvarpinu, mat, verslunarferðum og svo framvegis.“

Stundaránægja og blekking

Sjálf hefur hún verið að gera tilraunir á sjálfri sér síðustu ár og skoða hvað hún setur orkuna sína í og hvernig hún velur að verja tíma sínum. „Ég áttaði mig til dæmis á því fyrir rúmum tveimur árum að áfengi gerði ekki neitt fyrir mig heldur dró frekar úr mér þrótt, kjark og gleði og fékk mig til að efast um sjálfa mig. Þá þurfti ég að spyrja mig af hverju ég væri að þessu og þegar ég fann ekki gild svör ákvað ég að hætta að drekka.

„Ég áttaði mig til dæmis á því fyrir rúmum tveimur árum að áfengi gerði ekki neitt fyrir mig heldur dró frekar úr mér þrótt, kjark og gleði og fékk mig til að efast um sjálfa mig.“

Oft gerum við eitthvað bara vegna þess að allir aðrir gera það þrátt fyrir að það gefi okkur ekki neitt. Þá er gott að taka stöðuna. Það gerði ég og hef síðan yfirfært þetta á nánast öll svið lífs míns. Mér finnst mikilvægt að skoða reglulega hvað það er sem nærir mig og hvað dregur úr mér,“ segir hún og bætir við að það sem við gerum til að deyfa okkur eða fjarlægjast okkur sjálf veiti okkur oft stundaránægju. „En eins og orðið gefur til kynna varir hún stutt. Þetta er kannski leið til að láta okkur líða betur en svo virkar hún ekki, er bara blekking, og hvað þá? Þurfum við þá kannski meira eða þurfum við að skoða aðrar og varanlegri leiðir til að líða betur? Fyrir mig hefur það verið hugleiðsla, hollari lífsvenjur og gagnrýnin skoðun á það sem ég geri, bæði út á við og inn á við.“

Andleg hreinsun, hvíld og uppgötvun

Kamilla segir að kakóhugleiðslurnar hafi fljótlega undið upp á sig og núna býður hún upp á fjölbreytta tíma eins og kakó nidra- og kakó vinyasa-jógatíma. „Ég flyt líka inn kakó frá Gvatemala og skipulegg jóga- og kakóferðir þangað. Ég hef farið mjög mikið til Gvatemala undanfarin ár og varið tíma við Atitlan-vatnið en þar hefur myndast samfélag jógaiðkenda og andlega þenkjandi fólks alls staðar að. Ég fór með fyrsta hópinn í janúar og nú er ég farin að kynna næstu ferðir en síðast komust færri að en vildu. Ferðinar sem farnar verða í janúar og febrúar á næsta ári bjóða upp á jóga, hugleiðslu, andlega og líkamlega hreinsun með rými fyrir hvíld og uppgötvun. Þetta er ferð fyrir ævintýragjarnar manneskjur sem vilja líka líta inn á við og vinna í sér. Svo skemmir ekki að þetta er einn fallegasti staður sem ég hef komið á yfir ævina og ég hef ferðast mikið. Það er eitthvað svo töfrandi við Gvatemala og þess vegna fer ég þangað oft en þar hef ég líka gert miklar uppgötvanir um sjálfa mig sem hafa hjálpað mér að gera stærri breytingar í lífinu í hvert skipti sem ég kem aftur heim.“

Allar upplýsingar um Kamillu, viðburði og ferðina til Gvatemala má finna á kako.is.

Hágæða og vandaðar danskar innréttingar frá JKE

Á dögunum kíktum við í Hólf og gólf, BYKO Breiddinni og hittum Ólaf Guðjón Haraldsson svæðisstjóra og kynntum okkur það sem í boði er fyrir þá sem eru í byggingar- eða endurnýjunarhugleiðingum á eldhús- og baðrýmum. Ólafur gat svo sannarlega aðstoðað okkur og vel það.

„Við erum með fjölmargar vörutegundir hjá Hólf og gólf, BYKO Breiddinni og einstaklega stolt af fjölbreyttu vöruúrvali. Við erum þó mjög stolt af innréttingunum okkar frá JKE. JKE er danskt vörumerki sem býður upp á mjög breiða línu í innréttingum í hæsta gæðaflokki. JKE-innréttingarnar hafa verið mjög vinsælar allt frá því að þær komu fyrst á markaðinn árið 1970.“ Gaman er að geta þess að sértu að leita að draumalitnum er ágætt að vita að JKE getur sprautulakkað í 2500 mismunandi NCS-litum, bæði hálfmatt og háglans.

Bjóðið þið upp á ráðgjöf fyrir viðskiptavini sem vilja fá aðstoð við hönnun á eldhús- og baðrými?

„Við erum með flott teymi hönnuða og stílista og bjóðum upp á ráðgjöf og teiknivinnu gegn vægu gjaldi. Yfirleitt förum við í gegnum ákveðið greiningarferli með viðskiptavinum og gerum tvær til þrjár útfærslur. Við aðstoðum einnig við val á litum, flísum og gólfefnum sé þess óskað. Hægt er að panta tíma hjá starfsfólki okkar.“

Hvað tegundir innréttinga eru vinsælastar í dag?

„Sprautulakkaðar, hvítt er alltaf klassískt og fólk fellur mikið fyrir svörtum eikarspóni. Viðaráferðin gerir hann hlýlegan og það sér ekki mikið á honum. Að sama skapi er höldulaust mjög vinsælt í bæði hvítu og svörtu. Það hefur aukist að til okkar komi fólk sem leitar að öðruvísi en vönduðum innréttingum, JKE býður meðal annars upp á linoleum fronta sem eru 100% náttúrulegt efni og auðvelt að viðhalda. Það er hægt að velja úr 2500 litum í sprautulökkuðum frontum og fólk kann að meta þessa fjölbreytni.“

Hvaða litir koma heitastir inn í vetur?

„Blár, antrazit-grænn og gráir tónar koma sterkir inn. Efni og áferð skiptir fólk ekki síður máli en litir. Náttúruleg og endingargóð efni eins og linoleum koma líka sterk inn. Harðplastið er einnig gífurlega sterkt og endingargott efni með retro-yfirbragð sem margir sækjast eftir.“

Þið bjóðið upp á fjölbreytt úrval blöndunartækja, er eitthvað nýtt í deiglunni þar? Einhver tegund vinsælli en önnur?

„Við bjóðum fjölbreytt úrval blöndunartækja og þar eru Grohe fremst í flokki, bæði hvað varðar gæði og útlit. Nýjast frá Grohe eru Essence Spa colours fyrir eldhús og bað og Essence Flexx fyrir eldhús.“

Mynd / Unnur Magna

 

Fjölbreyttar æfingar og mismunandi álag með gleðina í för er leið til árangurs

Þegar hausta tekur og hið daglega líf kemst í fastar skorður, börnin í skólann eftir sumarfrí og vinnan verður aftur að daglegri rútínu byrjar gjarnan þorri landsmanna í ræktinni og setur sér það markmið að ná árangri. Oftar en ekki gefast margir hverjir upp og ná ekki að klára markmið sín. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, þekkir þetta vel en hún hefur rekið heilsurækt í áratugi. Hún hefur áralanga reynslu af því að hvetja fólk til dáða og veit um árangursríkar leiðir til að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl.

Margir byrja í ræktinni á haustin og gefast fljótt upp, hvað er best að gera til að koma veg fyrir það?

„Já, það er rétt. Margir kannast við að byrja og hætta í ræktinni, ná einhvern veginn ekki að koma reglulegri þjálfun inn sem föstum lífsstíl. En þannig þarf það að vera. Rétt eins og að þú þrífur þig ekki bara í smáskorpum í fimm til sex vikur og tekur þér svo hlé frá sturtunni í nokkra mánuði. Líkamsþjálfun er á sama hátt eitthvað sem við getum ekki birgt okkur upp af, heldur ættum að stunda allan ársins hring, alla ævi svo fremi sem við höfum heilsu til. Til að svo megi verða er hugarfarið númer eitt, sem þarf að stilla af. Þú þarft að taka ákvörðun um að byrja að stunda heilsurækt og finna pláss fyrir það í þinni dagskrá og standa við það. Ég mæli alltaf með því að fólk komi sér í eitthvað prógram, námskeið, einkaþjálfun eða æfi með félaga. Í Hreyfingu bjóðum við upp á geysilega fjölbreytt og vel skipulögð námskeið fyrir konur og karla á öllum aldri og þau hafa verið gríðarlega vinsæl því fólk kann því vel að hafa sitt pláss á föstum tímum og hitta sama hópinn. Það verður til mikil orka þegar æft er saman í hóp og mikil hvatning og gleði. Fyrir þá sem hentar ekki að æfa í hóp er tilvalið að prófa einka- eða paraþjálfun og einnig bjóðum við í Hreyfingu upp á frábæra nýja leið sem er Besta aðild. Meðlimir í Bestu aðild hafa ávallt aðgang að þjálfara, fá æfingaáætlanir og ástandsmælingar eftir þörfum og hvatningu og eftirlit. Besta aðild er í raun hagstæðasti kosturinn, svo mikið er innifalið í mánaðargjaldinu.“

Margir finna einnig fyrir stöðnun árum saman og ná ekki árangri þrátt fyrir að stunda ræktina. Hvað er þá til ráða?

„Líkaminn er svo ótrúlega magnaður, hann aðlagar sig að því álagi sem við bjóðum honum upp á. Því er hann fljótur að venjast nýjum æfingum og það þarf stöðugt að vera að koma honum á óvart með fjölbreyttum æfingum og mismunandi álagi. Það er nauðsynlegt að stokka reglulega upp æfingakerfið, breyta til og aðlaga. Ég mæli einnig með því að nota púlsmæli til að setja sér markmið, til dæmis Myzone, Fitbit eða annað slíkt. Við í Hreyfingu erum búin að Myzone-væða stöðina og það er gríðarlega hvetjandi að nota Myzone og hafa alltaf mælikvarða á öllum æfingum og samanburð við aðra.

Munum að ef við gerum alltaf það sama er líklegt og næstum öruggt að við fáum alltaf sömu niðurstöðu.“

Hverjar eru helstu áherslurnar hjá ykkur núna?

„Það má segja að aðaláherslan sé á fjölbreytni. Þarfir fólks eru æði misjafnar og einnig finnum við á okkar gestum í Hreyfingu að fólk vill fjölbreytni. Eitt af okkar gildum er fagmennska sem er rauði þráðurinn í öllu því sem við gerum. Þjálfarar okkar viða sífellt að sér þekkingu samkvæmt nýjustu vísindum og þeim fleygir fram í heilsuræktinni eins og öðru. Nýjustu námskeiðin okkar eru til dæmis Hörkuform þar sem unnið er markvisst að því að gefa vöðvunum nýjar áskoranir með afar krefjandi æfingakerfi. Barre-námskeiðin okkar bjóðum við í nokkrum ólíkum útfærslum, Hot Barre Fit, Barre & Buttlift og Barre Burn. Barre-námskeiðin byggjast á þrautreyndu og afar áhrifaríku æfingakerfi dansara, æfingarnar unnar að miklu leyti við ballettstöng. Ekki er um að ræða ballett, langt frá því, en mikið er unnið með að styrkja líkamann frá miðjunni, kjarnanum, sem hefur mikil og góð áhrif á líkamsstöðuna. Líkaminn er svo tónaður til á allan hátt með verulega góðum alhliða styrktaræfingum við stöngina. Konur sem prófa þessa tíma verða alveg heillaðar og koma á námskeið eftir námskeið.

Cyclothon er annað virkilega spennandi námskeið fyrir konur og karla sem hafa áhuga á útihjólreiðum og vilja þjálfa sig markvisst með þjálfara sem þekkir hjólreiðar út og inn, enda tvöfaldur Íslandsmeistari í götuhjólreiðum.
Önnur nýjung hjá okkur er námskeiðið Sterkar konur sem er einfaldlega verulega markvisst lyftinganámskeið sérstaklega samansett fyrir konur sem vilja verða stæltar og sterkar. Það eru ekki allir sem átta sig á því að með því að stunda styrktarþjálfun með skipulögðum hætti byggir þú upp líkama sem er ekki aðeins sterkur og stæltur, heldur einnig eykur þú verulega grunnbrennslu líkamans svo mun auðveldara er að halda sér í kjörþyngd. Þú gerir líkama þinn að sjálfvirkri brennsluvél ef þú stundar lyftingar.“

Hjá Hreyfingu bjóðið þið einnig upp á ýmiskonar dekur sem er kærkomið í bland við æfingarnar. Er ekki galdurinn einmitt sá, að vera með hörkupúl og verðlauna sig síðan með dekri og lúxus þegar vel gengur? „Það er engin spurning að hluti af heilsuræktinni er slökun og vellíðan. Slaka á í heitu pottunum, fara í nuddmeðferð og gefa sér einfaldlega tíma fyrir vellíðan.“

Lykilþættir heilsuræktar byggjast á eftirfarandi þáttum:

  • Regluleg hreyfing – alhliða þol, styrktar- og liðleikaþjálfun.
  • Hollar neysluvenjur – fjölbreytt mataræði með áherslu á óunnin matvæli og að sneiða sem mest hjá sætindum, reykja ekki og neyta áfengis í hófi.
  • Góður svefn, hvíld og slökun – forðast streitu.

Myndir / Unnur Magna

 

Erfiður vetur framundan

Vonir standa til þess að WOW air ljúki fjármögnun í dag eða á allra næstu dögum. Icelandair glímir við erfiðan grunnrekstur og íþyngjandi fjárhagsskilyrði í lánasamningum. Útlit er fyrir áframhaldandi krefjandi aðstæður.

Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, og aðrir þeir sem hafa tekið þátt í fjárfestakynningum félagsins, eru vongóðir um að fjármögnun félagsins muni ganga eftir, en tilboðsbók fyrir fjárfesta, til að taka þátt í fjármögnuninni, mun loka í dag samkvæmt áætlunum. Bókin var opnuð á miðvikudag.

Á undanförnum vikum hefur félagið verið kynnt fyrir fjárfestum – íslenskum lífeyrissjóðum og bönkum þar á meðal – og vonast er til þess að fjárfestar bíti á agnið, og komi fram með sex til tólf milljarða króna til að bjarga félaginu. Líklegt þykir að WOW nái því markmiði með fjármagni frá erlendum fjárfestum, sem munu þó vera með belti og axlabönd í viðskiptunum. Litlar sem engar líkur eru á því að íslenskir lífeyrissjóðir kaupi.

Staðan hjá hinu stóra íslenska flugfélaginu, Icelandair, er ekki síður varhugaverð. Þrátt fyrir sterka fjárhagsstöðu er félagið í miklum vandræðum með sinn grunnrekstur og versnandi grunnafkoma hefur þegar leitt til þess að Icelandair mun brjóta lánaskilmála.

Full útgáfa af fréttaskýringunni er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Eftir: Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson

Hjólreiðaslysum fjölgar

Hjólreiðaslysum hefur fjölgað á seinni árum. Mest er um minni háttar áverka að ræða þegar fólk dettur. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða alvarleg slys sem geta þarfnast skurðaðgerðar og slys sem í stöku tilvikum leiða til varanlegs heilsutjóns.

Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir og staðgengill yfirlæknis á slysadeild .

Hjólreiðaslysum hefur heldur fjölgað á seinni árum. Slysin eru hins vegar færri en sem nemur hlutfallslegri fjölgun hjólafólks á sama tíma. „Það er tilfinning okkar sem störfum við bráðalækningar og er studd af þeim tölum sem við höfum,“ segir Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir og staðgengill yfirlæknis á slysadeild Landspítalans. Spítalinn hefur ekki upplýsingar um tíðni reiðhjólaslysa en stefnt er að því að taka slíkt saman.
Hjalti segir reiðhjólafólk leita til lækna vegna allra tegunda slysa. Mest sé um minni háttar áverka að ræða þegar fólk dettur. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða alvarleg slys sem geta þarfnast skurðaðgerðar og slys sem í stöku tilvikum leiða til varanlegs heilsutjóns.
Hjalti leggur áherslu á að mun fleiri nota nú reiðhjól sem samgöngutæki en fyrir um áratug. Fjölbreytni hefur líka aukist mikið. Fólk keppi á hjólum, stundar fjallahjólreiðar og tekur þátt í hraðakeppnum af ýmsu tagi auk þess að hjóla til og frá vinnu á hjólastígum í þéttbýli.
„Slysatíðni verður að skoða í því samhengi hversu margir eru að hjóla. Síðan, eins og má búast við, þegar fólk er í hraðakeppnum á mjög léttum og stundum mjög veikbyggðum hjólum, þá fylgir því meiri hætta en ef fólk er að hjóla á milli staða á hjólastígum,“ segi Hjalti og tekur sem dæmi fjallabrun á reiðhjólum sem margir eru farnir að stunda. Í fjallabruni er farið niður ótroðnar slóðir á eins miklum hraða og viðkomandi kemst. Því fylgir aukin slysahætta og notar fólk sem það stundar því meiri öryggisbúnað.

„Varnarbúnaður er ekki sá mikilvægasti til að draga úr reiðhjólaslysum. Betra er að byggja upp rétta umferðarmenningu, bæði hjá ökumönnum og reiðhjólafólki. Fólk á hjólum þarf líka að taka tillit til gangandi fólks.“

Hreyfingarleysið er hættulegt
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í byrjun mánaðar að mikið hafi verið kvartað yfir reiðhjólafólki í sumar og tilkynnt um trassaskap þess í umferðinni á hverjum degi. Hjólafólk virði allar umferðarreglur að vettugi og skeyti í engu um aðra í umferðinni. Lögreglan biðlaði til reiðhjólafólks um að geta betur í umferðinni, virða reglur og sýna öðrum vegfarendum kurteisi.
Hjalti segir tillitssemi í umferðinni mikilvægasta öryggistækið. „Varnarbúnaður er ekki sá mikilvægasti til að draga úr reiðhjólaslysum. Betra er að byggja upp rétta umferðarmenningu, bæði hjá ökumönnum og reiðhjólafólki. Fólk á hjólum þarf líka að taka tillit til gangandi fólks,“ segir hann.

En hvað með hjálmanotkun?
Hjalti segir ljóst að notkun hjálma dragi úr tíðni höfuðáverka hjá reiðhjólafólki. Hann vill þó ekki skylda fólk til að bera hjálm. Hægt sé að grípa til annarra ráða til að bæta öryggi hjólafólks.
„Í Bandaríkjunum þar sem bílar eru allsráðandi og hjólafólk fátt er slysatíðni á hjólafólki mjög há. Í Danmörku er hjálmanotkun almennt lítil en höfuðáverkar fátíðir. Í Ástralíu er reynslan svo sú að þegar fólk var skyldað að nota hjálm þá fækkaði fólki sem hjólar. Ég ráðlegg fólki að hjóla með hjálm og geri það sjálfur en það eru ekki höfuðáverkarnir sem stytta ævilíkur Íslendinga heldur hreyfingarleysið. Það hefur sýnt sig að það hefur gífurlega mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks ef það hreyfir sig og hjólar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að vegna bílaumferðar er mengun það mikil á höfuðborgarsvæðinu að hún veldur heilsutjóni og sennilega ótímabærum dauðsföllum hjá mörgum á Íslandi á hverju ári,“ segir Hjalti og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólki noti ýmis konar vistvænar samgöngur í stað þess að valda heilsutjóni með mengun. Liður í því sé að hvetja fólk til að hjóla, jafnvel án hjálms.
„Þetta fer eftir því hvernig er hjólað. Ef maður hjólar rólega á hjólastíg og fer rólega þá er gagnsemi hjálma hverfandi. Þegar fólk keppir eða hjólar hratt þá hjólar enginn hjálmlaus. Ég get alveg ímyndað mér þær aðstæður að ég sé að hjóla niðri í miðbæ í leikhús að ég vilji ekki hafa hjálminn. Þá er nóg að hjóla rólega. Þá fylgir því lítil sem engin hætta,“ segir Hjalti læknir sem hefur sjálfur hjólað til og frá vinnu um áraraðir.

„Við viljum banna minna og leyfa meira“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að bólusetningar verði gerðar að skilyrði við inntöku í leikskóla Reykjavíkur. Ástæða þess er að mislingatilfellum hefur fjölgað í Evrópu á árinu, en 37 manns létust af völdum sjúkdómsins fyrstu sex mánuði ársins. Samkvæmt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni er bólusetning á Íslandi ófullnægjandi, en hann leggst þó gegn þessari hugmynd Hildar.

Hildur vill sem sagt banna börnum sem ekki eru bólusett að fá inngöngu í leikskóla í höfuðborginni, nema um sérstakar undanþágur sé að ræða. Í viðtali við Stundina vegna málsins segist hún þó ekki vera hlynnt því að banna hluti. „Ég er almennt ekki fylgjandi boðum og bönnum, en ég tel ástæðu til að bregðast við hættunni,“ segir hún.

Í raun var eitt helsta stef Hildar í aðdraganda kosninga, og stuttu eftir þær, að Reykjavík ætti að vera frjálslynd borg þar sem íbúar hefðu val. Degi fyrir kosningar, þann 25. maí, skrifaði hún meðal annars í pistli í Fréttablaðinu: „Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er skýr valkostur fyrir þá sem vilja breytingar. Skýr valkostur fyrir þá sem vilja höfuðborg í forystu – samkeppnishæfa borg á innlenda sem alþjóðlega vísu. Leiðandi borg um grænar og vistvænar lausnir. Reykjavík í samkeppni um fólk og atgervi. Höfuðborg sem setur fólk og fjölskyldur í forgang. Borg sem tryggir frelsi og val. Umhverfi þar sem fólki líður vel. Reykjavík sem vinnur fyrir þig.“

Í júní skrifaði hún síðan í pistli í Fréttablaðinu: „Hvort heldur sem er – í stjórnarandstöðu eða meirihluta – stendur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf fyrir frelsi og val. Einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi. Við viljum banna minna og leyfa meira.“

Þess má geta að Karen E. Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, hefur áður lagt fram svipaða hugmynd og Hildur, en þá var niðurstaða lögfræðideildar Kópavogsbæjar að bærinn mætti ekki upplýsa foreldra um þau börn á leikskólum sem ekki höfðu verið bólusett, með vísan í persónuverndarlög og þagnarskyldu á heilbrigðisstarfsfólk.

 

Ekkert bólar á ársskýrslu

Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) hefur ekki enn gefið út ársskýrslu fyrir árið 2017, en nefndin tók til starfa 1. janúar árið 2017.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurðist fyrir um skýrsluna þann 10. apríl síðastliðinn og fékk þau svör að hún væri væntanleg í lok apríl eða byrjun maí. Blaðamaður Mannlífs spurðist fyrir um skýrsluna þegar hún var enn ekki birt í byrjun sumars. Þann 19. júní fengust þau svör frá Drífu Kristínu Sigurðardóttur, lögfræðingi NEL, að skýrslan væri væntanleg á næstu vikum. Þann 28. ágúst, rúmum tveimur mánuðum síðar, spurði blaðamaður Mannlífs aftur um skýrsluna. Tveimur dögum síðar bárust þau svör frá Drífu að skýrslan væri væntanleg á næstu vikum. Ástæðan fyrir þessari töf segir Drífa vera annir við vinnu annarra verkefna. Helga Hrafni finnst leiðinlegt hve málið hefur tafist. Píratar höfðu lagt fram tillögu um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu sem hefði mjög víðfemt rannsóknarhlutverk. Píratar gagnrýndu nefndina á sínum tíma og töldu að slík nefnd þyrfti víðara verksvið en það sem NEL hefur, en nefndin fer ekki með ákæruvald í kærumálum.

„Nefndin hefur verið að störfum síðan í janúar 2017 og á þeim tíma höfum við þurft að halda að okkur höndum. Eina ástæðan fyrir því að við höfum ekki lagt aftur fram tillögu okkar er að við teljum mikilvægt að hún verði byggð á sem mestum og bestum gögnum og að fyrsta ársskýrsla nefndarinnar sé mjög mikilvægt gagn.“

Helgi Hrafn telur ólíklegt að NEL tryggi innra eftirlit með lögreglunni. „Ég vona auðvitað að hún komi mér algjörlega á óvart, en það er erfitt að fullyrða alveg blákalt um störf nefndar þegar engin gögn liggja enn þá fyrir um reynsluna af henni. Þó get ég sagt að ég skynja mjög litla trú á núverandi fyrirkomulagi af hálfu þeirra borgara sem ég hef talað við og telja á sér brotið af lögreglu, vegna þess einmitt að nefndin sinnir hvorki rannsóknar- né ákæruhlutverki. Fólk sem ég ræði þetta við sér ekki neina sérstaka von í því að kvartanir og kærur séu flokkaðar og áframsendar, væntanlega oftast til lögreglunnar sjálfrar. En eins og ég segi, ég vona auðvitað að vantrú mín og viðmælenda minna reynist tilefnislaus.“

Ekki í kortunum að flugfélög hætti með Netgíró

||
||

Íslenskir ferðalangar hafa haft þann möguleika að greiða fyrir flugfargjöld hjá WOW air síðan árið 2015 og hjá Icelandair síðan snemma á þessu ári með Netgíró. Í ljósi frétta síðustu vikna um bága stöðu flugfélaganna hefur þeirri spurningu verið velt upp hver réttindi viðskiptavina eru sem greiða fyrir flugfargjöld með Netgíró ef allt fer á versta veg og flugfélögin fara í þrot.

Erfiður vetur framundan

Helgi Björn.

Netgíró sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem kom fram að allar vörur og þjónusta sem greiddar eru með Netgíró falli undir lög um neytendavernd, sem þýðir að viðskiptavinir Netgíró fái endurgreitt ef flug falla niður, til dæmis vegna gjaldþrots flugfélags.

„Við vildum vera sannfærð og tryggja rétt okkar viðskiptavina og eyða öllum vafa um lagalega óvissu sem hefur ríkt í þessu máli. Við hjá Netgíró óskuðum því eftir fleiri en einu lögfræðiáliti og á meðan þessi álit lágu ekki fyrir vildum við ekki fullyrða neitt sem við gætum ekki staðið við, en nú hefur þessari óvissu verið eytt. Réttur neytenda er fullkomnlega tryggður með greiðslum með Netgíró,“ er haft eftir Helga Birni Kristinssyni, framkvæmdastjóra Netgíró, í fréttatilkynningunni.

Engin ferðatrygging fylgir

Mannlíf hafði samband við Guðjón Elmar Guðjónsson, þjónustustjóra Netgíró, og spurði hvort einhvers konar viðbragðsáætlun væri fyrir hendi hjá fyrirtækinu ef svo færi að flugfélögin færu í þrot.

Guðjón Elmar.

„Við teljum ekki rétt að upplýsa um hvort og þá á hvaða sviði sérstakar viðbragðsáætlanir eru eða yrðu gerðar en Netgíró er að sjálfsögðu í stakk búið að bregðast við mismunandi aðstæðum á markaði,“ segir Guðjón og bætir við að engar fyrirætlanir séu uppi hjá Netgíró að hætta að bjóða ferðalöngum uppá að greiða fyrir flugfargjöld með Netgíró.

Guðjón gefur ekki upp hve margir hafa nýtt sér þennan möguleika síðan WOW air byrjaði að bjóða uppá hann árið 2015. Þá segir hann að þeir sem nýti sér þennan valkost þurfi að sjá sjálfir um að kaupa ferðatryggingu.

„Viðskiptavinir Netgíró greiða ekki nein árgjöld fyrir þjónustu fyrirtækisins og þar af leiðandi fylgir ekki ferðatrygging þegar keypt er flug.“

Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

„Við munum berjast eins og ljónynjur“

||||||
|Sara Björk Gunnarsdóttir var íþróttamaður ársins 2018.|||||

Íslenska A-landsliðið í kvennaknattspyrnunni leikur einn mikilvægasta leik sinn nokkru sinni á morgun þegar þær mæta þýska landsliðinu í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvelli. Íslensku stelpurnar unnu fyrri leik liðanna í undankeppninni 3-2 og Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði liðsins, er hörð á því að þær eigi alla möguleika á að sigra þær aftur, þrátt fyrir að þýska liðið sé eitt það besta í heimi.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins sem mætir Þýskalandi á morgun, er baráttuglöð og vongóð og segir liðið mæta til leiks með því hugarfari að vinna og tryggja sér þar með sæti á HM á næsta ári. Liðið hafi sýnt það með sigri á þýska liðinu síðastliðið haust að það sé fullfært um að sigra í leiknum og í huga liðskvenna komi ekki annað til greina. Þær muni leggja allt undir.

Ég byrja á að spyrja Söru Björk hvort liðið sé vel undirbúið fyrir leikinn. „Já, ég held það,“ svarar hún. „Við spilum margar erlendis, í Evrópu eða Bandaríkjunum, og höfum verið með hugann við að spila með okkar liðum þar í sumar, en það kemur í ljós á æfingunni á eftir hvernig liðið hristist saman. Ég á ekki von á öðru en að það gangi vel.“

Eruð þið stressaðar fyrir þessum leik?
„Nei, en spenntar,“ svarar Sara Björk hress. „Þetta verður einn stærsti leikur sem við höfum spilað, gegn einu besta liði í heimi, barátta um sæti á HM næsta sumar og væntanlega fyrir fullsetnum áhorfendastúkum þannig að þetta er mjög spennandi leikur fyrir okkur og við teljum okkur eiga góða möguleika á sigri, þannig að við erum ekkert stressaðar, bara einbeittar.“

Heldurðu að fjarvera lykilleikmanna, eins og Hörpu Þorsteinsdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttur, geti sett strik í reikninginn?
„Auðvitað er mikið högg fyrir liðið að missa svona reynslumikla leikmenn og það verður erfitt að vera án þeirra en það koma aðrir leikmenn í staðinn, ég vona að fjarvera þeirra geri ekki gæfumuninn. Við verðum bara að berjast aðeins harðar.“

„ … við munum gefa allt í hann og berjast eins og ljónynjur, þú mátt treysta því. Það verður ekkert gefið eftir.“

Liðinu gekk ekki vel á Evrópumeistaramótinu síðastliðið sumar, er það betur í stakk búið núna til að sigra jafnerfiða andstæðinga og Þýskaland?
„Nei, það lagðist ekkert með okkur á EM í fyrra, það er rétt,“ segir Sara Björk og það þykknar í henni við spurninguna. „En það var nú í þriðja sinn sem við tókum þátt í Evrópumeistaramóti, svo við erum vanar því að keppa við erfiða andstæðinga. Ég veit ekki hvort liðið núna er betra en þá, en við unnum þýska liðið síðastliðið haust svo ég held við séum búnar að sýna að við eigum alveg erindi í keppni með þeim bestu. Við erum ekki einhverjir byrjendur.“

Eins og kunnugt er, spilar þú með Wolfsburg í Þýskalandi og barst fyrirliðaband Wolfsburg þegar liðið vann 5-0 stórsigur á Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni fyrr á árinu. Heldurðu að reynsla þín í Þýskalandi eigi eftir að koma að góðum notum í leiknum á laugardaginn?
„Ég veit það nú ekki,“ segir hún og hugsar sig um. „Ég get auðvitað lagt til einhverja punkta um ýmsa leikmenn og við höfum spilað við þetta lið áður og þekkjum þær býsna vel. Ég held samt að reynsla mín úr þýsku úrvalsdeildinni hjálpi heilmikið til.“

Þið eruð með marga unga leikmenn, heldurðu að það komi til með að nýtast vel?
„Já, ég held það. Líka mikilvægt upp á framtíðina að ungu stelpurnar stígi upp og öðlist reynslu í svona stórum leikjum. Þær bæta það sem vantar upp á reynsluna með leikgleði og baráttuvilja og eru mikill styrkur fyrir liðið. Ég held að það sé bara jákvætt að yngja liðið upp.“

Ertu sátt við hópinn?
„Já, ég er það,“ segir Sara Björk ákveðin. „Þetta er gott lið, með marga sterka leikmenn og góðan liðsanda. Og við höfum sýnt það á undanförnum árum að við eigum erindi í hóp þeirra bestu í heiminum.“

Þú segir að þið þekkið þýska liðið vel, hverjir eru helstu styrkleikar þess?
„Þetta er eitt besta lið í heimi, eins og ég sagði áðan,“ segir hún. „Þær eru með marga rosalega sterka leikmenn, spila vel saman og eru mjög skipulagðar og agaðar. Það er alltaf erfitt að mæta þeim, en við erum ekkert hræddar við þær og, eins og ég sagði líka áðan, þá unnum við þær 3-2 í fyrri leiknum í undankeppninni í október í fyrra, og það á útivelli, þannig að ég tel okkur eiga góða möguleika á að sigra í þessum leik.“

Miðarnir á leikinn hafa rokið út og allt bendir til að uppselt verði á leikinn á laugardaginn, hvernig er að finna fyrir þessum áhuga?
„Það er bara frábært og við höfum stefnt að því lengi. Það skiptir máli að hafa sterkan hóp stuðningsmanna á bak við okkur og mjög hvetjandi að finna fyrir auknum áhuga á liðinu og leikjum þess. Við höfum líka sýnt það og sannað að við erum gott lið og það er gleðilegt að áhorfendur séu farnir að sjá það og meta okkur að verðleikum.“

Með hvaða hugarfari farið þið inn í þennan mikilvæga leik?
„Auðvitað með því hugarfari að vinna. Við förum í alla leiki með því hugarfari. Og það er enn meira undir í þessum leik en nokkurn tímann áður þannig að við munum gefa allt í hann og berjast eins og ljónynjur, þú mátt treysta því. Það verður ekkert gefið eftir.“

________________________________________________________________________

Agla María Albertsdóttir.

„Þetta gerist ekki stærra“
„Stemningin fyrir leiknum er mjög góð og maður finnur hvað allir í kringum mann eru spenntir. Það eru mjög margir á leiðinni á völlinn og ég býst við því að stemningin verði frábær,“ segir Agla María Albertsdóttir, spurð að því hvernig leikurinn leggist í hana. „Það væri auðvitað ótrúlegt afrek fyrir okkur að komast á HM og kvennafótboltann í heild sinni þar sem íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist á HM. Það væri frábært að komast á stærsta sviðið í fótboltanum. Þetta gerist ekki stærra.“

Glódís Perla Viggósdóttir

Reynslunni ríkari eftir EM
„Á EM fengum við tækifæri til að spila þrjá stórleiki á stórum völlum fyrir framan fullt af fólki og sú reynsla hefur nýst okkur,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, innt eftir því hvort hún telji að liðið komi til með að geta nýtt sér reynsluna af EM í leiknum á morgun. „Til dæmis kunnum við betur að undirbúa okkur fyrir leiki, aðallega andlega og líka að stýra betur fókusnum og orkunni. Núna erum við bara spenntar að fara út á völlinn okkar og gefa allt í þessa tvo seinustu leiki í riðlinum!“

Svava Rós Guðmundsdóttir.

Hlakkar til að berjast við Þjóðverja
„Það að komast á HM hefði gríðarlega þýðingu fyrir mig og fyrir kvennaboltann á Íslandi. Það myndi klárlega styrkja stöðu kvenna í knattspyrnu á Íslandi og hvetja yngri stelpur til að æfa fótbolta. Sjálfar erum við gríðarlega vel „mótiveraðar”, samheldnin er mjög góð og hópurinn góð blanda af reyndari leikmönnum sem hafa tekið vel á móti þeim yngri og óreyndari. Stemningin í hópnum er mjög góð. Við erum allar mjög spenntar fyrir komandi verkefni og hlökkum til að berjast fyrir sæti á HM,” segir Svava Rós Guðmundsdóttir.

Sigríður Lára Garðarsdóttir

Góður liðsandi
„Mórallinn í liðinu er góður. Við stefnum allar í sömu átt,” segir Sigríður Lára Garðarsdóttir þegar blaðamaður spyr að því hvernig mórallinn sé innan liðsins í aðdraganda leiksins. „Það er kominn spenningur í okkur og við hlökkum til. Við erum reynslunni ríkari eftir EM. Lærðum margt þar sem gæti nýst okkur á HM á næsta ári. Það væri því algjör draumur að komast þangað. Það væri stórt afrek fyrir íslenskan kvennabolta.“

Ingibjörg Sigurðardóttir.

Draumur að komast á HM
Ingibjörgu Sigurðardóttur hefur dreymt um að spila á HM frá því að hún var krakki. „Það hefur alltaf verið stór draumur. Ég hef unnið hörðum höndum að því að komast þangað síðan ég var lítil,“ segir hún og finnst alveg ótrúlegt að hugsa til þess hversu ótrúlega nálægt liðið er að ná takmarkinu. „Sem hvetur maður enn meira til að gera þetta með stæl.“ Hún telur að þátttökuréttur liðsins á HM hefði mikla þýðingu fyrir kvennaboltann á Íslandi. „Ég hugsa að það yrði ungum stelpum hvatning til að æfa vel og fengi fólk almennt til að að sýna kvennaboltanum meiri áhuga.“

 

Faðir Katrínar Leu var skotinn til bana

Katrín Lea Elenudóttir hlaut nýverið titilinn Miss Universe Iceland en keppnin var haldin fyrr í mánuðinum.

Tíu ár eru síðan Katrín Lea fluttist hingað til lands en hún fæddist í Síberíu. Hún segir úrslitin síður en svo hafa komið sér á óvart en hún hafi stefnt að þátttöku síðastliðin tvö ár og loks öðlast þátttökurétt í ár en hún er yngsti keppandinn sem borið hefur sigur úr bítum.

Eftir flutningana frá Rússlandi tóku við miklar áskoranir þar sem Katrín Lea talaði enga íslensku og litla ensku. Hún hélt þó fast í móðurmálið og mætti í tungumálatíma hvern laugardag þar sem innflytjendabörn bæði frá Rússlandi og Lettlandi hittust og báru saman bækur sínar. „Þetta reyndist mér mjög erfitt því í Rússlandi átti ég marga vini en hér á Íslandi vildi enginn vera með mér en ég vildi bara fylgja mömmu minni hingað til lands.“

„Mér leið á köflum eins og ég væri eitthvað fötluð því börnin höguðu sér stundum þannig, eins og það væri eitthvað að mér af því ég kunni ekki tungumálið.“

„Þau vildu ekki tala við mig og um tíma þurfti ég að byggja öll samskipti á handahreyfingum. Ég vissi samt strax að hér væri betra líf þrátt fyrir að enginn hafi beinlínis sagt mér það. Einhvern veginn fékk ég það á tilfinninguna.“

Þremur árum eftir komuna til Íslands sáu Katrín Lea og móðir hennar fréttir í rússneska sjónvarpinu þar sem greint var frá andláti föður hennar. Hann hafði verið skotinn til bana.

„Ég þekkti pabba minn aldrei neitt en mamma sagði skilið við hann fljótlega eftir að ég kom í heiminn. Hann reyndi aldrei að hafa samband en hann var um tíma tengdur inn í rússnesku mafíuna sem við teljum að sé ástæða þess að honum var síðar ráðinn bani.“

„Fjölskylda hans hafði aldrei neitt samband við mig heldur en það voru miklir átakatímar í Rússlandi á þessum tímum, eftir fall Sovétríkjanna.”

Ástæða þess að Katrín ákvað að taka þátt er vegna þess að hún vissi hversu stór vettvangur fegurðarsamkeppni gæti verið fyrir stelpur til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Mig langar að stofna samtök hér á landi fyrir innflytjendabörn og hjálpa þeim enda stendur málefnið mér nærri.“

„Ég myndi jafnframt vilja að íslensk börn gætu tekið þátt því aðstoð þeirra er svo mikilvæg í tungumálakunnáttunni. Sjálf eyddi ég óteljandi laugardögum í einkakennslu til þess að viðhalda rússneskunni minni enda tala ættingjar mínir í Síberíu bara rússnesku. Ég hefði aldrei viljað gleyma rússneskunni en þrír klukkutímar í viku utan skólatíma er langur tími fyrir barn. Ég myndi vilja sjá þeim tíma eytt innan hefðbundinnar skólakennslu.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Sara Dögg Johansen.

Gerði mynd í miðri #metoo byltingu

Kvikmyndin Lof mér að falla eftir þá Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson verður frumsýnd innan skamms en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum.

Baldvin segir gerð myndarinnar hafa verið fróðlega en um leið erfiða, enda umfjöllunarefnið vandmeðfarið. Eðli málsins samkvæmt reyndust hlutverkin bæði líkamlega og andlega krefjandi og viðurkennir Baldvin að mörk þess að vera leikstjóri og sálfræðingur hafi á köflum verið óljós.

„Það komu alveg dagar þar sem ég var eitthvað allt annað en leikstjóri og það komu líka dagar þar sem þetta reyndist stelpunum of erfitt.“

„En maður verður að velja krakka sem maður treystir og ég vissi að þær hefðu bæði þroskann og kunnáttuna. Ég bað þær frá fyrsta degi að segja mér ef ég væri að keyra þær út og þær voru því alltaf meðvitaðar um að þær hefðu stjórnina. Mestu máli skiptir að hafa opið og gott samband svo allir geti sagt það sem þeir vilja segja.“
Myndin er tekin upp í miðri #metoo-sprengju og segir Baldvin byltinguna hafa varpað nýju ljósi á alla hans vinnu. „Ég hef unnið svo margar erfiðar senur og velti því alvarlega fyrir mér hvort ég hefði á einhverjum tímapunkti farið fram úr eða skaðað einhvern.“

„Eftir myndina hringdi ég í alla kven- og karlleikara sem hafa tekið þátt í svona senum og spurði hvort ég hefði ofboðið þeim, en sem betur fer voru viðbrögðin bara jákvæð.“

„Það var engu að síður gott að taka öll þess símtöl og taka út hvernig maður er, því þegar ég gerði Óróa, sem dæmi, var ég ekki meðvitaður um þetta. Ég held að í eðli mínu hafi ég alltaf reynt að gera rétt án þess að ofbjóða neinum en þetta er vandmeðfarið starf.“

„Það er, sem dæmi, sena í Vonarstræti þar sem ég gekk hrikalega langt og leikkonan endaði á sjúkrahúsi. Við vorum öll miður okkar, en ég stoppaði ekki tökuna. Það er það sem ég sé mest eftir núna, en við erum bestu vinir í dag.“

Í kjölfarið hélt Baldvin tvær prufusýningar á myndinni Lof mér að falla, annars vegar fyrir konur sem höfðu staðið framarlega í baráttunni og hins vegar fyrir karla. „Þetta er vandmeðfarið, kvikmynd um gróft ofbeldi gegn konum, skrifuð og leikstýrt af karlmönnum.“

„Við Biggi erum báðir femínistar og teljum okkur meðvitaða um hvað við erum að gera en ég vildi fá tilfinningu fyrir því hvaða punkta ég fengi frá konum og hvaða punkta frá körlum.“

„Viðbrögðin voru rosalega sterk og góð en punktarnir voru svo áhugaverðir því konurnar virtust ná því betur sem við vorum að reyna að segja meðan karlarnir horfðu öðruvísi á myndina.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

|||||
|||||
Björgólfur Jóhannsson.

Björgólfur Jóhannsson tilkynnti það í vikunni að hann væri hættur sem forstjóri Icelandair. Kom tilkynningin í kjölfar nýrrar afkomuspár félagsins, en hún lækkaði frá því sem áður var. Í tilkynningunni sagði Björgólfur að ákvarðanir sem hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni hafi verið teknar á hans vakt, þar með talið breytingar á leiðarkerfi Icelandair. Því hafi hann tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu.

Mikið hefur verið fjallað um erfiðleika íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, síðustu vikur, en gengi bréfa í Icelandair Group hríðféllu eftir að ný afkomuspá var birt og Björgólfur tilkynnti uppsögn sína.

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Bogi Nils Bogason.

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, hefur tekið við forstjórastarfinu tímabundið, en miklar vangaveltur eru innan viðskiptalífsins og ferðaþjónustunnar, hver taki við af Björgólfi og reyni að snúa gengi fyrirtækisins við. Álitsgjafar Mannlífs telja ólíklegt að Bogi verði ráðinn forstjóri til langstíma, enda hefur hver svört afkomuviðvörunin á fætur annarri verið birt á vakt hans sem fjármálastjóra. Þó reynslumikill sé telja álitsgjafar hann mögulega skorta djúpa þekkingu á rekstrinum til að taka við af Björgólfi.

Sagði upp í byrjun ágúst

Jón Karl Ólafsson.

Eitt nafn sem kemur upp sí og æ hjá álitsgjöfum Mannlífs er Jón Karl Ólafsson, sem varð forstjóri Icelandair árið 2004 og síðan forstjóri Icelandair Group á árunum 2005 til ársloka 2007. Ku hann vera ansi líklegur í starfið, sérstaklega í ljósi þess að fyrir stuttu var sagt frá uppsögn hans sem framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia. Sú tilkynning barst í byrjun ágúst, en ljóst er að það hafi verið aðdragandi að uppsögn Björgólfs hjá Icelandair. Jón Karl er mikill reynslubolti, en hann var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands á árunum 1999 til 2004 og tók við sem forstjóri JetX/Primera Air árið 2008. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðal annars Útflutningsráðs Íslands og Samtaka ativnnulífsins.

Helgi Már Björgvinsson.

Reynslumikill og vel menntaður

Helgi Már Björgvinsson hefur einnig verið nefndur í sömu andrá og forstjórastóllinn, en hann er í stjórnandastöðu hjá Icelandair Group og sinnir meðal annars verkefnum sem koma að stefnumótun hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið lengi hjá Icelandair, allt frá árinu 1999, og hefur unnið út um allan heim fyrir fyrirtækið, til dæmis sem sölu- og markaðsstjóri og svæðisstjóri. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að ef ákveðið verði að ráða innanbúðarmann í forstjórastarfið sé Helgi Már einn vænsti kosturinn. Mjög reynslumikill og vel mentnaður, með BS í markaðs- og stjórnunarfræði frá háskólanum í Suður-Karólínu og meistarapróf í viðskiptafræði frá SCP-EAP European School of Management í París.

Erfitt að finna forstjóra úr ferðaþjónustunni

Halldór Benjamín Þorbergsson.

Álitsgjafar vefsins telja Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, einnig góðan kost en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group. Halldór er menntaður hagfræðingur og reyndur stjórnandi, en sumir álitsgjafar Mannlífs efast þó um að hann verði fyrir valinu sökum lítillar reynslu í ferðaþjónustu.

Í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, var síðan sagt frá því að nafn Jóns Björnssonar, forstjóra smásölukeðjunnar Festar, væri ofarlega á blaði þar sem hann hefði töluverða reynslu af því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að Jón sé sterkur kandídat í starfið.

Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að erfitt verði fyrir Icelandair Group að finna íslenskan forstjóra með mikla reynslu úr ferðaþjónustu og því gæti farið svo að leitað verði út fyrir landsteinana, þó álitsgjöfum finnist það ólíklegt. Einhverjir sem Mannlíf ræddi við telja líklegt að næsti forstjóri verði einhvers konar frontur fyrir fyrirtækið, sem myndi þá þýða að styrkja þyrfti framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Frikki Dór og Lísa orðin hjón

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson gekk að eiga sína heittelskuðu, Lísu Hafliðadóttur, við fallega athöfn í Toskana-héraðinu á Ítalíu í dag.

Fjölmargir vinir og vandamenn voru viðstaddir brúðkaupið, og hafa raunar notið veðurblíðunnar á Ítalíu síðustu daga. Meðal gesta eru að sjálfsögðu bróðir Friðriks, tónlistarmaðurinn Jón Jónsson, tónlistargúrúinn Ásgeir Orri, leikkonan Júlíana Sara Gunnarsdóttir og tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason.

Gestir hafa verið duglegir að birta myndir úr ævintýrinu á Instagram undir myllumerkinu #friðlísing, og má sjá nokkrar þeirra hér fyrir neðan.

Mannlíf óskar brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn.

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

A post shared by Rósa María (@rosamariaa) on

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin“

Matthildur Sunna Þorláksdóttir er löggiltur fasteignasali á Stakfelli fasteignasölu og var að skila inn lokaritgerð í viðskiptalögfræði á Bifröst. Hún er einhleyp og býr í yndislegri íbúð á besta stað í Vesturbænum.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Þegar maður er alltaf í vinnunni eða við símann er að mínu mati nauðsynlegt að hafa fjölbreytileika, og það er það sem heillar mig mest við þetta starf.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Tölvupóstur, símtöl og flakk. Hitta og tala við alls konar fólk og skoða mismunandi íbúðir og hús.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Það er að sjálfsögðu persónulegt hvað gerir heimili að heimili og fólk er jafnmisjafnt og það er margt. Í mínu tilviki er það hlýleiki. Ég er mikil plöntu- og kertamanneskja því að mér finnst það gera heimilið hlýlegra.“

Getur þú lýst þínum stíl?

„Myndi lýsa honum sem út og suður. Ég fer ekki endilega mikið eftir neinum sérstökum reglum, hvorki í fatavali né á heimilinu, heldur eftir því sem mér finnst fallegt.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? Áttu þinn uppáhaldshönnuð?

„Ég er hrifin af Alvar Aalto og Arne Jacobsen, bæði í hönnun og arkitektúr. Mér finnst frekar gaman að því hvað þeir hafa hannað skemmtilega öðruvísi byggingar og tímalausa hönnun í húsgögnum og fylgihlutum.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Ekkert sem ég man eftir, er mjög sátt við það sem ég á.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Þeir eru þónokkrir. Er mjög hrifin af grænum og karrígulum og hrafnagráum. Jarðlitir og pastellitir eru einnig í miklu uppáhaldi.“

Hvar líður þér best?

„Heima hjá mér, ég er mjög heimakær. Mér líður best einni að bralla eitthvað þar eða með fullt hús af fólki.“

Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?

„Myrkrið og kertaljósin heilla mig mest við haustin. Það verður allt svo miklu meira kósí. Stórar peysur og treflar verða staðalbúnaður og rauðvínsglas og kertaljós á Kaffi Vest verður extra rómó.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég er mjög hrifin af Mathöllinni á Hlemmi, þar eru nokkrir veitingastaðir sem standa upp úr hjá mér. Skál og Jómfrúin eru í algjöru uppáhaldi, sem og Kröst. Finnst þetta skemmtilegt „concept“, það finna allir eitthvað við sitt hæfi.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar?

„Ég er algjör sökker fyrir nýmóðins spænskum stíl. Ég hef verið að skoða og sýna eignir á Alicante-svæðinu og mér finnst það sem verið er að byggja núna vera einstaklega fallegt.“

Að lifa lífinu lifandi er að…

… anda með nefinu og njóta líðandi stundar.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Svart stál og gróf viðaráferð koma sterk inn

Þessa dagana hjá Vogue fyrir heimilið er verið að taka upp einstaklega fallegar og vandaðar gjafavörur frá nýrri vörulínu. Þvílíkt augnakonfekt til að njóta og fegra heimilið. Við hittum Kolbrúnu Birnu Halldórsdóttur, verslunar- og rekstrarstjóra, og fengum smáinnsýn í það sem koma skal.

Þessar vörur sem voru að koma í hús eru einstaklega fallegar og grípa augað. Getur þú aðeins sagt okkur frá þessari nýju vörulínu?

„Boltze er þýsk vörulína sem inniheldur mikið af fallegri gjafavöru, borðum, hillum og fleira skemmtilegu sem auðvelt er að breyta með eða bæta á heimilinu með litlum tilkostnaði.“

Vogue fyrir heimilið er ávallt að stækka og auka vöruúrvalið, er ekki einstaklega skemmtilegt og gefandi að geta raða hinu ýmsu vörum saman?

„Ó, jú. Það er alveg ótrúlega gaman, þetta hefur verið ævintýri líkast síðastliðin fjögur ár eftir að við fluttum hingað í Síðumúlann. Ég nærist sjálf á því að fegra umhverfið, svo er ég náttúrlega með svo frábært fólk hérna með mér í verslunni.“

Hvað er það nýjasta sem koma skal í vetur?

„Við höfum tekið mikið inn af litlum borðum sem skemmtilegt er að raða saman við sófann eða nota sem innskotsborð, hillum, glervösum, bökkum sem hafa haldið velli í nokkur ár og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram, alltaf gaman að dekúreta með bökkum, vösum og fleira.“

Eru einhverjir litir eða áferð sem eru vinsælli en annað þessa stundina?

„Mildir gamaldags litir eru móðins í dag. Varðandi áferðina þá er stálið alltaf vinsælt og grófur viður sem er meðal annars flottur við svart stál. Tvinna saman stáli og við er flott kombó.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Byggbuff með papriku- og hnetusósu

Bygg hefur mjög lágan sykurstuðul og inniheldur flókin kolvetni. Einnig er það mjög trefjaríkt og því sérlega gott fyrir meltinguna. Bygg er líka saðsamt og bragðgott og ekki skemmir fyrir að það er ræktað hér á landi.

 

Byggbuff með papriku- og hnetusósu

fyrir 4

1 laukur                                                                                               4 hvítlauksgeirar
1 lítið spergilkáls(brokkólí)höfuð
250 g sætar kartöflur, eldaðar
3 dl bankabygg, eldað skv. leiðbeiningum á umbúðum
½ ferskt chili-aldin, fræhreinsað
1 tsk. garaam masala
1 tsk. engifer
1 tsk. karrí
1 tsk. sjávarsalt
½ tsk. túrmerik
2 tsk. paprika
smakkið til með nýmöluðum svörtum pipar
3-4 msk. olía, til steikingar

Skerið lauk, hvítlauk og spergilkál í grófa bita og setjið í matvinnsluvél og látið ganga í stutta stund. Setjið elduðu sætkartöflurnar og bankabyggið út í ásamt kryddinu og látið ganga áfram þar til allt samlagast vel. Blandan á að vera nokkuð stíf. Kælið í 30-60 mínútur í ísskáp. Þá er betra að móta buffin. Búið til 6-8 buff úr deiginu og steikið í nokkrar mínútur á pönnu þar til þau verða gullinbrún.

Hnetu- og paprikusósa
2 kúfaðar msk. gróft hnetusmjör
safi úr einni límónu
½ dl vatn
1 appelsínugul paprika
2 hvítlauksrif
1 tsk. salt
1 ½ tsk pipar

Setjið allt í blandara eða matvinnsluvél og látið ganga þar til það er vel samlagað. Best er að nota appelsíngula papriku því þá verður sósan svo falleg á litinn.

 

Umsjón/ Bergþóra Jónsdóttir

Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

 

Öruggur sigur eða ekki?

||
||

Mannlíf fékk tvo sérfræðinga, Kristjönu Arnarsdóttur, íþróttafréttakonu á RÚV, og Elvar Geir Magnússon, ritstjóra Fótbolti.net, til að spá fyrir um úrslit leiks Íslenska kvennalandsliðsins gegn Þýskalandi á morgun.

Dáist að íslensku stelpunum

Kristjana Arnarsdóttir. Mynd / Aldís Pálsdóttir.

„Ég spái því að við vinnum þetta 2-1 og að Sara Björk Gunnarsdóttir og Elín Metta Jensen skori mörkin. Ég er bjartsýn á að stelpurnar spili vel og ég veit hreinlega að þær eru alveg ofboðslega tilbúnar í þetta verkefni. Það sést á þeim langar leiðir,“segir Kristjana Arnarsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV.

Kristjana var ein þeirra sem sá um umfjöllun um HM karla í Rússlandi í sumar og er nú nýbyrjuð í síðbúnu og langþráðu sumarfríi. Hún verður því erlendis og fjarri góðu gamni á morgun þegar flautað verður til leiksins mikilvæga gegn Þjóðverjum klukkan 15 á Laugardalsvelli.

„Það kemur hins vegar ekkert annað til greina en að sjá þennan leik og ég mun finna leiðir til þess, löglegar eða ólöglegar,“segir hún og skellir upp úr. Hún er ánægð með að miðarnir á leikinn hafi rokið út. „Að mínu mati er það sjálfsögð krafa að við fyllum Laugardalsvöllinn í fyrsta sinn á kvennalandsleik og í raun fáránlegt að þurfa að biðja fólk um að mæta. Það gerist varla stærra, að spila á móti stórliði Þýskalands í leik sem gæti tryggt okkur inn á HM í Frakklandi. Það er mikið rætt um karlaknattspyrnu annars vegar og kvennaknattspyrnu hins vegar og muninn á þessu tvennu varðandi umgjörð og fleira og við verðum bara að sýna það í verki að við styðjum stelpurnar og mæta á völlinn.“

Kristjana sér fyrir sér að það fari mikil orka hjá íslenska liðinu í stórleikinn gegn Þýskalandi og býst fastlega við breytingum á byrjunarliðinu milli hans og viðureignarinnar gegn Tékkum sem fram fer á þriðjudaginn. „Ég held að við komum til með að leika varfærnislega gegn Þjóðverjum og treysta á skyndisóknir og föst leikatriði, enda hafa föstu leikatriðin verið að skila sér í leik liðsins síðustu misseri. Ef þær eru þéttar aftast á vellinum og halda skipulagi hef ég trú á því að þetta falli með okkur,“segir hún og bætir við að fjarvera lykilleikmanna á borð við Hörpu Þorsteinsdóttur og Dagnýju Brynjarsdóttur sé vissulega áhyggjuefni en eigi þó líklega ekki eftir að ráða úrslitum.

„Þær hafa lagt svo mikið á sig og eiga svo innilega skilið að vera komnar í þessa stöðu sem þær eru í núna.“

„Auðvitað er alltaf slæmt að missa leikmenn úr hópnum, hvort sem þeir eru í byrjunarliðinu eða ekki, því það hefur áhrif á hópinn í heild sinni og getur hróflað við jafnvægi. Ég fékk bara í magann þegar ég sá að Harpa hafði slitið krossband, það var svo hræðilegt. En við erum með breiðan og góðan hóp og margar ungar stelpur sem hafa komið inn af miklum krafti svo ég hef litlar áhyggjur af þessu.“Íþróttafréttakonan lék lengi knattspyrnu sjálf, meðal annars í yngri flokkum með nokkrum af núverandi landsliðshetjunum. „Ég æfði til dæmis með Söru Björk Gunnarsdóttur, Fanndísi Friðriksdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í Breiðabliki og hef fylgst með þessum gömlu liðsfélögum af aðdáun æ síðan. Ég er rosalega stolt af þeim. Þær hafa lagt svo mikið á sig og eiga svo innilega skilið að vera komnar í þessa stöðu sem þær eru í núna. Ég dáist að þessum stelpum,“ segir Kristjana.

Grjótharðir töffarar

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, lengsti til vinstri.

„Það er nú þannig með mig að ég er nánast alltaf svartsýnn þegar liðin mín eru að spila, svo ég segi að Þýskaland vinni þennan leik 0-2. Ég vona hins vegar innilega að ég hafi rangt fyrir mér,“ segir Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net.

Elvar hefur fylgst vel með íslenska kvennalandsliðinu í gegnum árin og fylgdi liðinu meðal annars eftir á tvö síðustu stórmót þess, EM í Svíþjóð árið 2013 og EM í Hollandi árið 2017, þar sem hann vann að umfjöllun um liðið og var því í nokkru návígi við leikmenn, þjálfara og starfslið.

„Þegar maður fylgist svona vel með liðinu meðtekur maður betur móralinn í hópnum, hvernig leikmennirnir eru utan vallar og fleira í þeim dúr,“ segir Elvar Geir og hikar ekki þegar hann er spurður að því hvort eitthvert eitt atriði einkenni kvennalandsliðið öðrum fremur. „Það sem er mest einkennandi við íslenska kvennalandsliðið er hvað þetta eru hrikalega miklir töffarar. Þetta eru upp til hópa grjótharðar stelpur sem geisla af sjálfsöryggi og koma hreint fram. Mjög flottar fyrirmyndir sem eru ekkert að „feika það“. Þær eru einfaldlega náttúrulegir töffarar,“segir hann og tekur undir það að slíkir eiginleikar séu nánast lífsnauðsynlegir í fari knattspyrnukvenna þar sem þær hafi heldur betur þurft að hafa fyrir hlutunum í gegnum tíðina. „Það er enn langt í land hvað varðar muninn á umgjörð og fleira hjá körlum og konum í knattspyrnu, eins og ég hef séð á þessum stórmótum. Þróunin í kvennaknattspyrnunni hefur verið ör á undanförnum árum og gengið hratt, en nú finnst mér eins og aðeins sé farið að hægjast á því ferli aftur. En bilið fer þó minnkandi og þetta stefnir í rétta átt, sem er jákvætt.“

„Þetta eru upp til hópa grjótharðar stelpur sem geisla af sjálfsöryggi og koma hreint fram. Mjög flottar fyrirmyndir sem eru ekkert að „feika það“. Þær eru einfaldlega náttúrulegir töffarar.“

Eins og áður sagði var Elvar Geir staddur á EM í Frakklandi sumarið 2017 þar sem flest gekk á afturfótunum hjá íslenska liðinu og því mistókst að ná í stig. Bjóst hann við því þá að liðið yrði í þeirri stöðu að geta tryggt sig inn á HM einungis rúmu ári síðar?„Nei, ég get ekki sagt það, og ég bjóst alls ekki við því að þær myndu vinna Þýskaland á útivelli í fyrri leiknum í undankeppninni. En stelpurnar spila jafnan vel gegn erfiðum andstæðingum, eins og sýndi sig á EM þar sem besta frammistaðan kom gegn Frökkum. Sá leikur tapaðist í raun á einstaklingsmistökum en heildarframmistaðan var góð og uppleggið gekk fullkomlega upp.“

Ritstjórinn segir ekkert launungarmál að íslenska liðið eigi eftir að liggja í skotgröfunum í stórleiknum á morgun. „Freyr þjálfari hefur sjálfur talað um að jafntefli yrðu góð úrslit. Sóknarleikurinn hefur verið akkilesarhæll liðsins að undanförnu og ég gæti trúað því að Telma Hjaltalín Þrastardóttir úr Stjörnunni sem er nýliði í íslenska hópnum, gæti orðið óvænt vopn í þessum leik. Ég myndi ekki gapa þótt hún kæmi beint inn í byrjunarliðið, en ég get líka séð hana í stóru hlutverki af bekknum. Þær þýsku eru með bakið upp við vegg og þær eru meðvitaðar um að það yrði stórslys ef þær kæmust ekki á HM. Vonandi vinnur sú pressa með okkur,“ segir Elvar Geir.

Sigrar og ósigrar Björgólfs

Það þóttu heldur betur tíðindi þegar Björgólfur Jóhannesson hætti í vikunni sem forstjóri Icelandair Group eftir áratug í starfi.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar er haft eftir honum að ákvarðanir sem teknar hafi verið á hans vakt hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni og beri hann ábyrgð á því gagnvart stjórn og hluthöfum. Við gerð síðustu afkomuspár hafi enn verið gert ráð fyrir því að meðalfargjöld á seinustu mánuðum ársins myndu hækka, m.a. í samræmi við kostnaðarhækkanir flugfélaga. Nú sé talið að þessar hækkanir muni ekki skila sér ekki fyrr en á næsta ári. Þá hafi breytingar á sölu- og markaðsstarfi félagsins sem voru innleiddar í upphafi sumars 2017 ekki gengið sem skyldi og breytingar á leiðakerfi félagsins í byrjun árs valdið misvægi á milli framboðs flugs til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar.

„Áhrif þessarar ákvörðunar munu vafalaust ná víðar en til fyrirtækja, sem skráð eru á markaði.“

Bæði Björgólfur og stjórnarformaður Icelandair, Úlfar Steindórsson, segja reyndar að aðgerðir í sölu- og markaðsmálum hafi verið vel úthugsaðar og góðar en ekki verið fylgt nógu vel eftir. Hins vegar hefur hvorugur þeirra gert ítarlega grein fyrir því að hvaða leyti þær hafi verið vel úthugsaðar, með hvaða hætti eftirfylgnin hafi klikkað og hvað hefði betur mátt gera.

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála félagsins, mun gegna stöðu forstjóra tímabundið, þar til ráðið hefur verið í stöðuna. Verður Björgólfur félaginu innan handar að beiðni stjórnar.

Ferill Björgólfs: „Ég er stoltur af þeirri stöðu sem félagið er í núna.“

1 Björgólfur er ráðinn forstjóri Icelandair Group árið 2008. Áður hafði hann einkum starfað í sjávarútvegi. Fjórum árum síðar er Björgólfur valin viðskiptamaður ársins af Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu. Í Fréttablaðinu er m.a. tekið fram að „hryggjarstykki félagsins“, Icelandair, hafi aukið sætaframboð og flutt tvær milljónir farþega á árinu sem sé met. Það ráði m.a. valinu. Í viðtali við blaðið segist Björgólfur líta á þetta sem „viðurkenningu fyrir starfsfólkið“. Í sama viðtali hnýtir hann í ferðaþjónustuna á Íslandi með því segja hana skorta stefnumótun.

2 Icelandair færist undir Icelandair Group og Björgólfur tekur við stöðu forstjóra Icelandair í nóvember 2017. Í tilkynningu frá stjórn eru boðaðar breytingar á stjórnunarháttum samstæðunnar sem lúta að rekstri og fjármálum. Talsverðar breytingar verða á stjórnendateymi Icelandair þar sem nýir menn leysa reynslubolta af hólmi. Birkir Hólm Guðnason sem hafði verið framkvæmdastjóri Icelandair frá árinu 2008, lætur þannig af störfum í nóvember 2017.

3 Á síðasta ári sendir félagið frá sér tvær afkomuviðvaranir þar sem fram kemur að rekstrarniðurstaða þess verði lakari en búist hafði verið við. Í júlí á þessu ári er birt uppfærð afkomuspá þar sem hún er lækkuð um 30 prósent. Björgólfur segir tölurnar vera „talsverð vonbrigði“. Í kjölfar þess lækkar hlutabréfaverð félagsins um fjórðung á einum degi. Þótt gengi bréfanna hríðfalli heyrist lítið opinberlega í forsvarsmönnum íslensku lífeyrissjóðanna, sem eru meirihlutaeigendur hlutafjár Icelandair. Sögusagnir fara á kreik um að Björgólfur íhugi uppsögn.

4 Björgólfur lætur af störfum sem forstjóri á mánudag og daginn eftir hrynur virði Icelandair enn einu sinni. Markaðsvirði félagsins hefur því fallið skarpt undanfarna mánuði og afkoma þess er talsvert slakari en spár gerðu ráð fyrir. Því vekur athygli að í Kastljóssviðtali á þriðjudag lét Björgólfur eftirfarandi ummæli falla í lok þáttar: „Ég er stoltur af þeirri stöðu sem félagið er í núna.“

Markaðsvirði Icelandair hrunið

2016 Markaðsvirði Icelandair náði hæstu hæðum í apríl 2016, þegar það var 189 milljarðar króna. Eigið fé félagsins var 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.

2018 Markaðsvirði Icelandair hefur hrunið undanfarna mánuði og er nú um 40 milljarðar. Það þýðir að á tveimur árum hafa tæplega 150 milljarðar króna af markaðsgenginu þurrkast út.

Fleyg orð um ákvörðun Björgólfs að hætta

„Hann leiddi fjárhagslega endurskipulagningu þess og hefur alla tíð lagt áherslu á ábyrgan rekstur og að vöxtur félagssins sé arðbær til lengri tíma litið. Hann skilur við fjárhagslega sterkt félag, Icelandair Group var með 251 milljón USD í handbæru fé við lok annars ársfjórðungs og 530 milljónir USD í eigin fé.“– Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair.

„Allt í einu fékk frasinn „Þeir fá svona há laun af því að þeir bera svo mikla ábyrgð“–skyndilega fékk hann innihald og merkingu.“– Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar.

„Áhrif þessarar ákvörðunar munu vafalaust ná víðar en til fyrirtækja, sem skráð eru á markaði. Líklegt er að þau muni líka ná til stærri óskráðra fyrirtækja og t.d lífeyrissjóða, þegar árangur af rekstri þeirra stenzt ekki væntingar. Allt stuðlar þetta að heilbrigðara viðskiptalífi. Raunar mættu áhrifin verða víðtækari, þ.e. að ný viðmið af þessu tagi nái líka til annarra þátta samfélagsins svo sem til stjórnmála. Þar er siðvenjan sú að menn hamist við að axla ekki ábyrgð.“– Styrmir Gunnarsson á styrmir.is.

Mynd: Skjáskot af RÚV

Konur minna virði en karlar?

LEIÐARI Í fyrsta skipti í sögu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta lítur út fyrir að uppselt verði á heimaleik þeirra á Laugardalsvelli, leik gegn Þýskalandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Vinni íslensku stelpurnar leikinn eru þær búnar að tryggja sér þátttökurétt á HM sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Þegar íslenska karlalandsliðið var í sömu stöðu á síðasta ári og gat tryggt sér þátttökurétt á HM í leik á Laugardalsvelli gegn Kósóvó þá seldist upp á örfáum mínútum. Fyrir þann leik var þrenns konar miðaverð í boði eftir staðsetningu sætanna; 3000, 5000 og 7000 krónur og fimmtíu prósent afsláttur fyrir börn. Miðinn á leik kvennalandsliðsins og Þýskalands kostar 2000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn, sama hvar setið er.

Þrátt fyrir að miðar á þennan mikilvæga og einn stærsta leik kvennalandsliðsins séu á gjafverði sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 á þriðjudagsmorgun að fólk hefði í miklum mæli samband til að fá ókeypis miða, eða orðrétt: „Það verður að segjast eins og er, því miður, að fólk sækist meira í frímiða af því að þetta er kvennaleikur og ætlast til að fá frímiða. Við höfum fengið margar beiðnir um afslætti af barnaverði, fólk telur sig ekki eiga að borga inn á þennan leik því þetta er kvennaleikur.“

Hvernig gengur þessi jafna hins vegar upp í samfélagi þar sem fólk trú ir enn að konur séu minna virði en karlar?

Margir telja að á Íslandi ríki orðið fullkomið jafnrétti milli kynjanna, konur hafi öll sömu tækifæri og karlmenn, og sömu laun – sækist þær eftir þeim. Konur þurfa nefnilega bara að vera duglegri að biðja um kauphækkun, sækja um stjórnunarstöður og hætta að láta beita sig kynbundnu ofbeldi, svo dæmi séu tekin. Hvernig gengur þessi jafna hins vegar upp í samfélagi þar sem fólk trúir enn að konur séu minna virði en karlar? Að konur eigi að fá lægri laun en karlar eða jafnvel engin? Af hverju erum við tilbúin að láta konur spila fótbolta ókeypis meðan við borgum karlmönnum háar fjárhæðir fyrir það sama? Í fyrirlestri sem Þóra Helgadóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, hélt á ráðstefnunni „Kyn og íþróttir“ lýsti hún muninum á aðbúnaði karla- og kvennalandsliðanna með skýrum hætti þegar hún sagði meðal annars: „Munurinn á kvennalandsliðinu og karlalandsliðinu var rosalegur. Þeir fengu að spila vináttuleiki og fengu dagpeninga. En það sem skipti mestu máli var að þeir fengu virðingu.“ Virðing. Er það kannski lykilorðið? Burtséð frá öllum launagreiðslum og peningamálum, erum við fær um að sýna konum þá virðingu að þær séu til jafns á við karla í þessu samfélagi? Getum við borgað þeim fullt verð fyrir þeirra vinnu? Getum við gert ráð fyrir þeim í stjórnunarstöðum? Getum við borið virðingu fyrir þeirra viðhorfum og vilja? Getum við hætt að beita þær ofbeldi? Getum við hætt að hlutgera þær? Getum við fyllt völlinn á landsleik kvennalandsliðsins í fótbolta og borgað uppsett verð?

Neistinn kviknaði í lyftuferð

|
|

Aðalheiður E. Ásmundsdóttir og Rúnar Gregory Muccio sem hafa fengist við áhugaljósmyndun um árabil opnuðu ljósmyndasýningu með blakmyndum í Smáralind 30. ágúst.

Á þeim degi voru nákvæmlega fjögur ár síðan þau hittust fyrir tilviljun í lyftunni í Perlunni. „Við vorum, hvort í sínu lagi, á leiðinni í kaffihitting á vegum Fókus, félags áhugaljósmyndara, þegar við lentum saman í lyftunni. Þar kviknaði strax einhver neisti á milli okkar sem hefur ekki slokknað síðan,“ segir þau og fagna þessum tímamótum með ljósmyndasýningunni HK blak – Gleði.

„Ljósmyndasýningin er einstök sinnar tegundar þar sem þetta er í fyrsta sinn á Íslandi sem haldin er sérstök ljósmyndasýning þar sem eingöngu eru myndir af íþróttafólki sem spilar blak. Blakíþróttin á sér ekki langa sögu á Íslandi og hefur verið stunduð hér í nokkra áratugi. Tilgangur sýningarinar er meðal annars að sýna hvernig hægt er að tvinna saman menningu og íþróttir í hinu listræna formi ljósmyndar, að kynna þá gleði sem ríkir í blakíþróttinni og jafnframt að sýna bæjarbúum, gestum og gangandi hversu magnað íþróttafólkið er sem stundar blak í HK,“ segja þau en ljósmyndasýningin samanstendur af myndum af leikmönnum HK í meistaraflokki karla og kvenna í blaki. Litirnir rauður og hvítur eru allsráðandi í myndunum ásamt bæði brosandi og einbeittu íþróttafólki.

Ljósmyndasýningin er á fyrstu hæð í Smáralindinni fyrir framan Lyfju og Zöru og stendur til 4. september.

„Við forðumst okkur sjálf og deyfum með mörgum leiðum“

|
|

Kamilla Ingibergsdóttir jógakennari hefur í tæp tvö ár boðið upp á hugleiðslu- og slökunarstundir með hreinu kakói frá Gvatemala. Þar býður hún fólki upp á að tengja sig inn á við, minnka áreitið í kringum sig og hávaðann frá hugsunum til að hlusta betur á það sem það virkilega vill og þarf.

„Ég hef farið mjög mikið til Gvatemala undanfarin ár og varið tíma við Atitlan-vatnið en þar hefur myndast samfélag jógaiðkenda og andlega þenkjandi fólks alls staðar að.

„Þessar stundir hafa reynst fólki vel til að hvílast, losa um streitu og þreytu og gera eitthvað bara fyrir sig. Stundum gleymum við að hlúa að okkur sjálfum í amstri dagsins og þá sérstaklega andlegu hliðinni,“ segir Kamilla. „Innri vinna er einhver sú mesta erfiðisvinna sem til er og í mörgum tilfellum erum við frekar til í forðast hana til að þurfa ekki að mæta okkur sjálfum, horfa inn á við og gera eitthvað í því sem við sjáum eða finnum. Við forðumst okkur sjálf og deyfum með svo mörgum leiðum, til dæmis með áfengi, vímuefnum, kynlífi, símunum okkar, sjónvarpinu, mat, verslunarferðum og svo framvegis.“

Stundaránægja og blekking

Sjálf hefur hún verið að gera tilraunir á sjálfri sér síðustu ár og skoða hvað hún setur orkuna sína í og hvernig hún velur að verja tíma sínum. „Ég áttaði mig til dæmis á því fyrir rúmum tveimur árum að áfengi gerði ekki neitt fyrir mig heldur dró frekar úr mér þrótt, kjark og gleði og fékk mig til að efast um sjálfa mig. Þá þurfti ég að spyrja mig af hverju ég væri að þessu og þegar ég fann ekki gild svör ákvað ég að hætta að drekka.

„Ég áttaði mig til dæmis á því fyrir rúmum tveimur árum að áfengi gerði ekki neitt fyrir mig heldur dró frekar úr mér þrótt, kjark og gleði og fékk mig til að efast um sjálfa mig.“

Oft gerum við eitthvað bara vegna þess að allir aðrir gera það þrátt fyrir að það gefi okkur ekki neitt. Þá er gott að taka stöðuna. Það gerði ég og hef síðan yfirfært þetta á nánast öll svið lífs míns. Mér finnst mikilvægt að skoða reglulega hvað það er sem nærir mig og hvað dregur úr mér,“ segir hún og bætir við að það sem við gerum til að deyfa okkur eða fjarlægjast okkur sjálf veiti okkur oft stundaránægju. „En eins og orðið gefur til kynna varir hún stutt. Þetta er kannski leið til að láta okkur líða betur en svo virkar hún ekki, er bara blekking, og hvað þá? Þurfum við þá kannski meira eða þurfum við að skoða aðrar og varanlegri leiðir til að líða betur? Fyrir mig hefur það verið hugleiðsla, hollari lífsvenjur og gagnrýnin skoðun á það sem ég geri, bæði út á við og inn á við.“

Andleg hreinsun, hvíld og uppgötvun

Kamilla segir að kakóhugleiðslurnar hafi fljótlega undið upp á sig og núna býður hún upp á fjölbreytta tíma eins og kakó nidra- og kakó vinyasa-jógatíma. „Ég flyt líka inn kakó frá Gvatemala og skipulegg jóga- og kakóferðir þangað. Ég hef farið mjög mikið til Gvatemala undanfarin ár og varið tíma við Atitlan-vatnið en þar hefur myndast samfélag jógaiðkenda og andlega þenkjandi fólks alls staðar að. Ég fór með fyrsta hópinn í janúar og nú er ég farin að kynna næstu ferðir en síðast komust færri að en vildu. Ferðinar sem farnar verða í janúar og febrúar á næsta ári bjóða upp á jóga, hugleiðslu, andlega og líkamlega hreinsun með rými fyrir hvíld og uppgötvun. Þetta er ferð fyrir ævintýragjarnar manneskjur sem vilja líka líta inn á við og vinna í sér. Svo skemmir ekki að þetta er einn fallegasti staður sem ég hef komið á yfir ævina og ég hef ferðast mikið. Það er eitthvað svo töfrandi við Gvatemala og þess vegna fer ég þangað oft en þar hef ég líka gert miklar uppgötvanir um sjálfa mig sem hafa hjálpað mér að gera stærri breytingar í lífinu í hvert skipti sem ég kem aftur heim.“

Allar upplýsingar um Kamillu, viðburði og ferðina til Gvatemala má finna á kako.is.

Hágæða og vandaðar danskar innréttingar frá JKE

Á dögunum kíktum við í Hólf og gólf, BYKO Breiddinni og hittum Ólaf Guðjón Haraldsson svæðisstjóra og kynntum okkur það sem í boði er fyrir þá sem eru í byggingar- eða endurnýjunarhugleiðingum á eldhús- og baðrýmum. Ólafur gat svo sannarlega aðstoðað okkur og vel það.

„Við erum með fjölmargar vörutegundir hjá Hólf og gólf, BYKO Breiddinni og einstaklega stolt af fjölbreyttu vöruúrvali. Við erum þó mjög stolt af innréttingunum okkar frá JKE. JKE er danskt vörumerki sem býður upp á mjög breiða línu í innréttingum í hæsta gæðaflokki. JKE-innréttingarnar hafa verið mjög vinsælar allt frá því að þær komu fyrst á markaðinn árið 1970.“ Gaman er að geta þess að sértu að leita að draumalitnum er ágætt að vita að JKE getur sprautulakkað í 2500 mismunandi NCS-litum, bæði hálfmatt og háglans.

Bjóðið þið upp á ráðgjöf fyrir viðskiptavini sem vilja fá aðstoð við hönnun á eldhús- og baðrými?

„Við erum með flott teymi hönnuða og stílista og bjóðum upp á ráðgjöf og teiknivinnu gegn vægu gjaldi. Yfirleitt förum við í gegnum ákveðið greiningarferli með viðskiptavinum og gerum tvær til þrjár útfærslur. Við aðstoðum einnig við val á litum, flísum og gólfefnum sé þess óskað. Hægt er að panta tíma hjá starfsfólki okkar.“

Hvað tegundir innréttinga eru vinsælastar í dag?

„Sprautulakkaðar, hvítt er alltaf klassískt og fólk fellur mikið fyrir svörtum eikarspóni. Viðaráferðin gerir hann hlýlegan og það sér ekki mikið á honum. Að sama skapi er höldulaust mjög vinsælt í bæði hvítu og svörtu. Það hefur aukist að til okkar komi fólk sem leitar að öðruvísi en vönduðum innréttingum, JKE býður meðal annars upp á linoleum fronta sem eru 100% náttúrulegt efni og auðvelt að viðhalda. Það er hægt að velja úr 2500 litum í sprautulökkuðum frontum og fólk kann að meta þessa fjölbreytni.“

Hvaða litir koma heitastir inn í vetur?

„Blár, antrazit-grænn og gráir tónar koma sterkir inn. Efni og áferð skiptir fólk ekki síður máli en litir. Náttúruleg og endingargóð efni eins og linoleum koma líka sterk inn. Harðplastið er einnig gífurlega sterkt og endingargott efni með retro-yfirbragð sem margir sækjast eftir.“

Þið bjóðið upp á fjölbreytt úrval blöndunartækja, er eitthvað nýtt í deiglunni þar? Einhver tegund vinsælli en önnur?

„Við bjóðum fjölbreytt úrval blöndunartækja og þar eru Grohe fremst í flokki, bæði hvað varðar gæði og útlit. Nýjast frá Grohe eru Essence Spa colours fyrir eldhús og bað og Essence Flexx fyrir eldhús.“

Mynd / Unnur Magna

 

Fjölbreyttar æfingar og mismunandi álag með gleðina í för er leið til árangurs

Þegar hausta tekur og hið daglega líf kemst í fastar skorður, börnin í skólann eftir sumarfrí og vinnan verður aftur að daglegri rútínu byrjar gjarnan þorri landsmanna í ræktinni og setur sér það markmið að ná árangri. Oftar en ekki gefast margir hverjir upp og ná ekki að klára markmið sín. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, þekkir þetta vel en hún hefur rekið heilsurækt í áratugi. Hún hefur áralanga reynslu af því að hvetja fólk til dáða og veit um árangursríkar leiðir til að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl.

Margir byrja í ræktinni á haustin og gefast fljótt upp, hvað er best að gera til að koma veg fyrir það?

„Já, það er rétt. Margir kannast við að byrja og hætta í ræktinni, ná einhvern veginn ekki að koma reglulegri þjálfun inn sem föstum lífsstíl. En þannig þarf það að vera. Rétt eins og að þú þrífur þig ekki bara í smáskorpum í fimm til sex vikur og tekur þér svo hlé frá sturtunni í nokkra mánuði. Líkamsþjálfun er á sama hátt eitthvað sem við getum ekki birgt okkur upp af, heldur ættum að stunda allan ársins hring, alla ævi svo fremi sem við höfum heilsu til. Til að svo megi verða er hugarfarið númer eitt, sem þarf að stilla af. Þú þarft að taka ákvörðun um að byrja að stunda heilsurækt og finna pláss fyrir það í þinni dagskrá og standa við það. Ég mæli alltaf með því að fólk komi sér í eitthvað prógram, námskeið, einkaþjálfun eða æfi með félaga. Í Hreyfingu bjóðum við upp á geysilega fjölbreytt og vel skipulögð námskeið fyrir konur og karla á öllum aldri og þau hafa verið gríðarlega vinsæl því fólk kann því vel að hafa sitt pláss á föstum tímum og hitta sama hópinn. Það verður til mikil orka þegar æft er saman í hóp og mikil hvatning og gleði. Fyrir þá sem hentar ekki að æfa í hóp er tilvalið að prófa einka- eða paraþjálfun og einnig bjóðum við í Hreyfingu upp á frábæra nýja leið sem er Besta aðild. Meðlimir í Bestu aðild hafa ávallt aðgang að þjálfara, fá æfingaáætlanir og ástandsmælingar eftir þörfum og hvatningu og eftirlit. Besta aðild er í raun hagstæðasti kosturinn, svo mikið er innifalið í mánaðargjaldinu.“

Margir finna einnig fyrir stöðnun árum saman og ná ekki árangri þrátt fyrir að stunda ræktina. Hvað er þá til ráða?

„Líkaminn er svo ótrúlega magnaður, hann aðlagar sig að því álagi sem við bjóðum honum upp á. Því er hann fljótur að venjast nýjum æfingum og það þarf stöðugt að vera að koma honum á óvart með fjölbreyttum æfingum og mismunandi álagi. Það er nauðsynlegt að stokka reglulega upp æfingakerfið, breyta til og aðlaga. Ég mæli einnig með því að nota púlsmæli til að setja sér markmið, til dæmis Myzone, Fitbit eða annað slíkt. Við í Hreyfingu erum búin að Myzone-væða stöðina og það er gríðarlega hvetjandi að nota Myzone og hafa alltaf mælikvarða á öllum æfingum og samanburð við aðra.

Munum að ef við gerum alltaf það sama er líklegt og næstum öruggt að við fáum alltaf sömu niðurstöðu.“

Hverjar eru helstu áherslurnar hjá ykkur núna?

„Það má segja að aðaláherslan sé á fjölbreytni. Þarfir fólks eru æði misjafnar og einnig finnum við á okkar gestum í Hreyfingu að fólk vill fjölbreytni. Eitt af okkar gildum er fagmennska sem er rauði þráðurinn í öllu því sem við gerum. Þjálfarar okkar viða sífellt að sér þekkingu samkvæmt nýjustu vísindum og þeim fleygir fram í heilsuræktinni eins og öðru. Nýjustu námskeiðin okkar eru til dæmis Hörkuform þar sem unnið er markvisst að því að gefa vöðvunum nýjar áskoranir með afar krefjandi æfingakerfi. Barre-námskeiðin okkar bjóðum við í nokkrum ólíkum útfærslum, Hot Barre Fit, Barre & Buttlift og Barre Burn. Barre-námskeiðin byggjast á þrautreyndu og afar áhrifaríku æfingakerfi dansara, æfingarnar unnar að miklu leyti við ballettstöng. Ekki er um að ræða ballett, langt frá því, en mikið er unnið með að styrkja líkamann frá miðjunni, kjarnanum, sem hefur mikil og góð áhrif á líkamsstöðuna. Líkaminn er svo tónaður til á allan hátt með verulega góðum alhliða styrktaræfingum við stöngina. Konur sem prófa þessa tíma verða alveg heillaðar og koma á námskeið eftir námskeið.

Cyclothon er annað virkilega spennandi námskeið fyrir konur og karla sem hafa áhuga á útihjólreiðum og vilja þjálfa sig markvisst með þjálfara sem þekkir hjólreiðar út og inn, enda tvöfaldur Íslandsmeistari í götuhjólreiðum.
Önnur nýjung hjá okkur er námskeiðið Sterkar konur sem er einfaldlega verulega markvisst lyftinganámskeið sérstaklega samansett fyrir konur sem vilja verða stæltar og sterkar. Það eru ekki allir sem átta sig á því að með því að stunda styrktarþjálfun með skipulögðum hætti byggir þú upp líkama sem er ekki aðeins sterkur og stæltur, heldur einnig eykur þú verulega grunnbrennslu líkamans svo mun auðveldara er að halda sér í kjörþyngd. Þú gerir líkama þinn að sjálfvirkri brennsluvél ef þú stundar lyftingar.“

Hjá Hreyfingu bjóðið þið einnig upp á ýmiskonar dekur sem er kærkomið í bland við æfingarnar. Er ekki galdurinn einmitt sá, að vera með hörkupúl og verðlauna sig síðan með dekri og lúxus þegar vel gengur? „Það er engin spurning að hluti af heilsuræktinni er slökun og vellíðan. Slaka á í heitu pottunum, fara í nuddmeðferð og gefa sér einfaldlega tíma fyrir vellíðan.“

Lykilþættir heilsuræktar byggjast á eftirfarandi þáttum:

  • Regluleg hreyfing – alhliða þol, styrktar- og liðleikaþjálfun.
  • Hollar neysluvenjur – fjölbreytt mataræði með áherslu á óunnin matvæli og að sneiða sem mest hjá sætindum, reykja ekki og neyta áfengis í hófi.
  • Góður svefn, hvíld og slökun – forðast streitu.

Myndir / Unnur Magna

 

Erfiður vetur framundan

Vonir standa til þess að WOW air ljúki fjármögnun í dag eða á allra næstu dögum. Icelandair glímir við erfiðan grunnrekstur og íþyngjandi fjárhagsskilyrði í lánasamningum. Útlit er fyrir áframhaldandi krefjandi aðstæður.

Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, og aðrir þeir sem hafa tekið þátt í fjárfestakynningum félagsins, eru vongóðir um að fjármögnun félagsins muni ganga eftir, en tilboðsbók fyrir fjárfesta, til að taka þátt í fjármögnuninni, mun loka í dag samkvæmt áætlunum. Bókin var opnuð á miðvikudag.

Á undanförnum vikum hefur félagið verið kynnt fyrir fjárfestum – íslenskum lífeyrissjóðum og bönkum þar á meðal – og vonast er til þess að fjárfestar bíti á agnið, og komi fram með sex til tólf milljarða króna til að bjarga félaginu. Líklegt þykir að WOW nái því markmiði með fjármagni frá erlendum fjárfestum, sem munu þó vera með belti og axlabönd í viðskiptunum. Litlar sem engar líkur eru á því að íslenskir lífeyrissjóðir kaupi.

Staðan hjá hinu stóra íslenska flugfélaginu, Icelandair, er ekki síður varhugaverð. Þrátt fyrir sterka fjárhagsstöðu er félagið í miklum vandræðum með sinn grunnrekstur og versnandi grunnafkoma hefur þegar leitt til þess að Icelandair mun brjóta lánaskilmála.

Full útgáfa af fréttaskýringunni er að finna í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Eftir: Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson

Hjólreiðaslysum fjölgar

Hjólreiðaslysum hefur fjölgað á seinni árum. Mest er um minni háttar áverka að ræða þegar fólk dettur. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða alvarleg slys sem geta þarfnast skurðaðgerðar og slys sem í stöku tilvikum leiða til varanlegs heilsutjóns.

Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir og staðgengill yfirlæknis á slysadeild .

Hjólreiðaslysum hefur heldur fjölgað á seinni árum. Slysin eru hins vegar færri en sem nemur hlutfallslegri fjölgun hjólafólks á sama tíma. „Það er tilfinning okkar sem störfum við bráðalækningar og er studd af þeim tölum sem við höfum,“ segir Hjalti Már Björnsson, bráðalæknir og staðgengill yfirlæknis á slysadeild Landspítalans. Spítalinn hefur ekki upplýsingar um tíðni reiðhjólaslysa en stefnt er að því að taka slíkt saman.
Hjalti segir reiðhjólafólk leita til lækna vegna allra tegunda slysa. Mest sé um minni háttar áverka að ræða þegar fólk dettur. Í einstaka tilfellum er þó um að ræða alvarleg slys sem geta þarfnast skurðaðgerðar og slys sem í stöku tilvikum leiða til varanlegs heilsutjóns.
Hjalti leggur áherslu á að mun fleiri nota nú reiðhjól sem samgöngutæki en fyrir um áratug. Fjölbreytni hefur líka aukist mikið. Fólk keppi á hjólum, stundar fjallahjólreiðar og tekur þátt í hraðakeppnum af ýmsu tagi auk þess að hjóla til og frá vinnu á hjólastígum í þéttbýli.
„Slysatíðni verður að skoða í því samhengi hversu margir eru að hjóla. Síðan, eins og má búast við, þegar fólk er í hraðakeppnum á mjög léttum og stundum mjög veikbyggðum hjólum, þá fylgir því meiri hætta en ef fólk er að hjóla á milli staða á hjólastígum,“ segi Hjalti og tekur sem dæmi fjallabrun á reiðhjólum sem margir eru farnir að stunda. Í fjallabruni er farið niður ótroðnar slóðir á eins miklum hraða og viðkomandi kemst. Því fylgir aukin slysahætta og notar fólk sem það stundar því meiri öryggisbúnað.

„Varnarbúnaður er ekki sá mikilvægasti til að draga úr reiðhjólaslysum. Betra er að byggja upp rétta umferðarmenningu, bæði hjá ökumönnum og reiðhjólafólki. Fólk á hjólum þarf líka að taka tillit til gangandi fólks.“

Hreyfingarleysið er hættulegt
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greindi frá því í byrjun mánaðar að mikið hafi verið kvartað yfir reiðhjólafólki í sumar og tilkynnt um trassaskap þess í umferðinni á hverjum degi. Hjólafólk virði allar umferðarreglur að vettugi og skeyti í engu um aðra í umferðinni. Lögreglan biðlaði til reiðhjólafólks um að geta betur í umferðinni, virða reglur og sýna öðrum vegfarendum kurteisi.
Hjalti segir tillitssemi í umferðinni mikilvægasta öryggistækið. „Varnarbúnaður er ekki sá mikilvægasti til að draga úr reiðhjólaslysum. Betra er að byggja upp rétta umferðarmenningu, bæði hjá ökumönnum og reiðhjólafólki. Fólk á hjólum þarf líka að taka tillit til gangandi fólks,“ segir hann.

En hvað með hjálmanotkun?
Hjalti segir ljóst að notkun hjálma dragi úr tíðni höfuðáverka hjá reiðhjólafólki. Hann vill þó ekki skylda fólk til að bera hjálm. Hægt sé að grípa til annarra ráða til að bæta öryggi hjólafólks.
„Í Bandaríkjunum þar sem bílar eru allsráðandi og hjólafólk fátt er slysatíðni á hjólafólki mjög há. Í Danmörku er hjálmanotkun almennt lítil en höfuðáverkar fátíðir. Í Ástralíu er reynslan svo sú að þegar fólk var skyldað að nota hjálm þá fækkaði fólki sem hjólar. Ég ráðlegg fólki að hjóla með hjálm og geri það sjálfur en það eru ekki höfuðáverkarnir sem stytta ævilíkur Íslendinga heldur hreyfingarleysið. Það hefur sýnt sig að það hefur gífurlega mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks ef það hreyfir sig og hjólar. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að vegna bílaumferðar er mengun það mikil á höfuðborgarsvæðinu að hún veldur heilsutjóni og sennilega ótímabærum dauðsföllum hjá mörgum á Íslandi á hverju ári,“ segir Hjalti og leggur áherslu á mikilvægi þess að fólki noti ýmis konar vistvænar samgöngur í stað þess að valda heilsutjóni með mengun. Liður í því sé að hvetja fólk til að hjóla, jafnvel án hjálms.
„Þetta fer eftir því hvernig er hjólað. Ef maður hjólar rólega á hjólastíg og fer rólega þá er gagnsemi hjálma hverfandi. Þegar fólk keppir eða hjólar hratt þá hjólar enginn hjálmlaus. Ég get alveg ímyndað mér þær aðstæður að ég sé að hjóla niðri í miðbæ í leikhús að ég vilji ekki hafa hjálminn. Þá er nóg að hjóla rólega. Þá fylgir því lítil sem engin hætta,“ segir Hjalti læknir sem hefur sjálfur hjólað til og frá vinnu um áraraðir.

„Við viljum banna minna og leyfa meira“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill að bólusetningar verði gerðar að skilyrði við inntöku í leikskóla Reykjavíkur. Ástæða þess er að mislingatilfellum hefur fjölgað í Evrópu á árinu, en 37 manns létust af völdum sjúkdómsins fyrstu sex mánuði ársins. Samkvæmt Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni er bólusetning á Íslandi ófullnægjandi, en hann leggst þó gegn þessari hugmynd Hildar.

Hildur vill sem sagt banna börnum sem ekki eru bólusett að fá inngöngu í leikskóla í höfuðborginni, nema um sérstakar undanþágur sé að ræða. Í viðtali við Stundina vegna málsins segist hún þó ekki vera hlynnt því að banna hluti. „Ég er almennt ekki fylgjandi boðum og bönnum, en ég tel ástæðu til að bregðast við hættunni,“ segir hún.

Í raun var eitt helsta stef Hildar í aðdraganda kosninga, og stuttu eftir þær, að Reykjavík ætti að vera frjálslynd borg þar sem íbúar hefðu val. Degi fyrir kosningar, þann 25. maí, skrifaði hún meðal annars í pistli í Fréttablaðinu: „Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er skýr valkostur fyrir þá sem vilja breytingar. Skýr valkostur fyrir þá sem vilja höfuðborg í forystu – samkeppnishæfa borg á innlenda sem alþjóðlega vísu. Leiðandi borg um grænar og vistvænar lausnir. Reykjavík í samkeppni um fólk og atgervi. Höfuðborg sem setur fólk og fjölskyldur í forgang. Borg sem tryggir frelsi og val. Umhverfi þar sem fólki líður vel. Reykjavík sem vinnur fyrir þig.“

Í júní skrifaði hún síðan í pistli í Fréttablaðinu: „Hvort heldur sem er – í stjórnarandstöðu eða meirihluta – stendur Sjálfstæðisflokkurinn alltaf fyrir frelsi og val. Einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi. Við viljum banna minna og leyfa meira.“

Þess má geta að Karen E. Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, hefur áður lagt fram svipaða hugmynd og Hildur, en þá var niðurstaða lögfræðideildar Kópavogsbæjar að bærinn mætti ekki upplýsa foreldra um þau börn á leikskólum sem ekki höfðu verið bólusett, með vísan í persónuverndarlög og þagnarskyldu á heilbrigðisstarfsfólk.

 

Ekkert bólar á ársskýrslu

Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) hefur ekki enn gefið út ársskýrslu fyrir árið 2017, en nefndin tók til starfa 1. janúar árið 2017.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurðist fyrir um skýrsluna þann 10. apríl síðastliðinn og fékk þau svör að hún væri væntanleg í lok apríl eða byrjun maí. Blaðamaður Mannlífs spurðist fyrir um skýrsluna þegar hún var enn ekki birt í byrjun sumars. Þann 19. júní fengust þau svör frá Drífu Kristínu Sigurðardóttur, lögfræðingi NEL, að skýrslan væri væntanleg á næstu vikum. Þann 28. ágúst, rúmum tveimur mánuðum síðar, spurði blaðamaður Mannlífs aftur um skýrsluna. Tveimur dögum síðar bárust þau svör frá Drífu að skýrslan væri væntanleg á næstu vikum. Ástæðan fyrir þessari töf segir Drífa vera annir við vinnu annarra verkefna. Helga Hrafni finnst leiðinlegt hve málið hefur tafist. Píratar höfðu lagt fram tillögu um sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu sem hefði mjög víðfemt rannsóknarhlutverk. Píratar gagnrýndu nefndina á sínum tíma og töldu að slík nefnd þyrfti víðara verksvið en það sem NEL hefur, en nefndin fer ekki með ákæruvald í kærumálum.

„Nefndin hefur verið að störfum síðan í janúar 2017 og á þeim tíma höfum við þurft að halda að okkur höndum. Eina ástæðan fyrir því að við höfum ekki lagt aftur fram tillögu okkar er að við teljum mikilvægt að hún verði byggð á sem mestum og bestum gögnum og að fyrsta ársskýrsla nefndarinnar sé mjög mikilvægt gagn.“

Helgi Hrafn telur ólíklegt að NEL tryggi innra eftirlit með lögreglunni. „Ég vona auðvitað að hún komi mér algjörlega á óvart, en það er erfitt að fullyrða alveg blákalt um störf nefndar þegar engin gögn liggja enn þá fyrir um reynsluna af henni. Þó get ég sagt að ég skynja mjög litla trú á núverandi fyrirkomulagi af hálfu þeirra borgara sem ég hef talað við og telja á sér brotið af lögreglu, vegna þess einmitt að nefndin sinnir hvorki rannsóknar- né ákæruhlutverki. Fólk sem ég ræði þetta við sér ekki neina sérstaka von í því að kvartanir og kærur séu flokkaðar og áframsendar, væntanlega oftast til lögreglunnar sjálfrar. En eins og ég segi, ég vona auðvitað að vantrú mín og viðmælenda minna reynist tilefnislaus.“

Ekki í kortunum að flugfélög hætti með Netgíró

||
||

Íslenskir ferðalangar hafa haft þann möguleika að greiða fyrir flugfargjöld hjá WOW air síðan árið 2015 og hjá Icelandair síðan snemma á þessu ári með Netgíró. Í ljósi frétta síðustu vikna um bága stöðu flugfélaganna hefur þeirri spurningu verið velt upp hver réttindi viðskiptavina eru sem greiða fyrir flugfargjöld með Netgíró ef allt fer á versta veg og flugfélögin fara í þrot.

Erfiður vetur framundan

Helgi Björn.

Netgíró sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem kom fram að allar vörur og þjónusta sem greiddar eru með Netgíró falli undir lög um neytendavernd, sem þýðir að viðskiptavinir Netgíró fái endurgreitt ef flug falla niður, til dæmis vegna gjaldþrots flugfélags.

„Við vildum vera sannfærð og tryggja rétt okkar viðskiptavina og eyða öllum vafa um lagalega óvissu sem hefur ríkt í þessu máli. Við hjá Netgíró óskuðum því eftir fleiri en einu lögfræðiáliti og á meðan þessi álit lágu ekki fyrir vildum við ekki fullyrða neitt sem við gætum ekki staðið við, en nú hefur þessari óvissu verið eytt. Réttur neytenda er fullkomnlega tryggður með greiðslum með Netgíró,“ er haft eftir Helga Birni Kristinssyni, framkvæmdastjóra Netgíró, í fréttatilkynningunni.

Engin ferðatrygging fylgir

Mannlíf hafði samband við Guðjón Elmar Guðjónsson, þjónustustjóra Netgíró, og spurði hvort einhvers konar viðbragðsáætlun væri fyrir hendi hjá fyrirtækinu ef svo færi að flugfélögin færu í þrot.

Guðjón Elmar.

„Við teljum ekki rétt að upplýsa um hvort og þá á hvaða sviði sérstakar viðbragðsáætlanir eru eða yrðu gerðar en Netgíró er að sjálfsögðu í stakk búið að bregðast við mismunandi aðstæðum á markaði,“ segir Guðjón og bætir við að engar fyrirætlanir séu uppi hjá Netgíró að hætta að bjóða ferðalöngum uppá að greiða fyrir flugfargjöld með Netgíró.

Guðjón gefur ekki upp hve margir hafa nýtt sér þennan möguleika síðan WOW air byrjaði að bjóða uppá hann árið 2015. Þá segir hann að þeir sem nýti sér þennan valkost þurfi að sjá sjálfir um að kaupa ferðatryggingu.

„Viðskiptavinir Netgíró greiða ekki nein árgjöld fyrir þjónustu fyrirtækisins og þar af leiðandi fylgir ekki ferðatrygging þegar keypt er flug.“

Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

„Við munum berjast eins og ljónynjur“

||||||
|Sara Björk Gunnarsdóttir var íþróttamaður ársins 2018.|||||

Íslenska A-landsliðið í kvennaknattspyrnunni leikur einn mikilvægasta leik sinn nokkru sinni á morgun þegar þær mæta þýska landsliðinu í undankeppni HM 2019 á Laugardalsvelli. Íslensku stelpurnar unnu fyrri leik liðanna í undankeppninni 3-2 og Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði liðsins, er hörð á því að þær eigi alla möguleika á að sigra þær aftur, þrátt fyrir að þýska liðið sé eitt það besta í heimi.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins sem mætir Þýskalandi á morgun, er baráttuglöð og vongóð og segir liðið mæta til leiks með því hugarfari að vinna og tryggja sér þar með sæti á HM á næsta ári. Liðið hafi sýnt það með sigri á þýska liðinu síðastliðið haust að það sé fullfært um að sigra í leiknum og í huga liðskvenna komi ekki annað til greina. Þær muni leggja allt undir.

Ég byrja á að spyrja Söru Björk hvort liðið sé vel undirbúið fyrir leikinn. „Já, ég held það,“ svarar hún. „Við spilum margar erlendis, í Evrópu eða Bandaríkjunum, og höfum verið með hugann við að spila með okkar liðum þar í sumar, en það kemur í ljós á æfingunni á eftir hvernig liðið hristist saman. Ég á ekki von á öðru en að það gangi vel.“

Eruð þið stressaðar fyrir þessum leik?
„Nei, en spenntar,“ svarar Sara Björk hress. „Þetta verður einn stærsti leikur sem við höfum spilað, gegn einu besta liði í heimi, barátta um sæti á HM næsta sumar og væntanlega fyrir fullsetnum áhorfendastúkum þannig að þetta er mjög spennandi leikur fyrir okkur og við teljum okkur eiga góða möguleika á sigri, þannig að við erum ekkert stressaðar, bara einbeittar.“

Heldurðu að fjarvera lykilleikmanna, eins og Hörpu Þorsteinsdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttur, geti sett strik í reikninginn?
„Auðvitað er mikið högg fyrir liðið að missa svona reynslumikla leikmenn og það verður erfitt að vera án þeirra en það koma aðrir leikmenn í staðinn, ég vona að fjarvera þeirra geri ekki gæfumuninn. Við verðum bara að berjast aðeins harðar.“

„ … við munum gefa allt í hann og berjast eins og ljónynjur, þú mátt treysta því. Það verður ekkert gefið eftir.“

Liðinu gekk ekki vel á Evrópumeistaramótinu síðastliðið sumar, er það betur í stakk búið núna til að sigra jafnerfiða andstæðinga og Þýskaland?
„Nei, það lagðist ekkert með okkur á EM í fyrra, það er rétt,“ segir Sara Björk og það þykknar í henni við spurninguna. „En það var nú í þriðja sinn sem við tókum þátt í Evrópumeistaramóti, svo við erum vanar því að keppa við erfiða andstæðinga. Ég veit ekki hvort liðið núna er betra en þá, en við unnum þýska liðið síðastliðið haust svo ég held við séum búnar að sýna að við eigum alveg erindi í keppni með þeim bestu. Við erum ekki einhverjir byrjendur.“

Eins og kunnugt er, spilar þú með Wolfsburg í Þýskalandi og barst fyrirliðaband Wolfsburg þegar liðið vann 5-0 stórsigur á Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni fyrr á árinu. Heldurðu að reynsla þín í Þýskalandi eigi eftir að koma að góðum notum í leiknum á laugardaginn?
„Ég veit það nú ekki,“ segir hún og hugsar sig um. „Ég get auðvitað lagt til einhverja punkta um ýmsa leikmenn og við höfum spilað við þetta lið áður og þekkjum þær býsna vel. Ég held samt að reynsla mín úr þýsku úrvalsdeildinni hjálpi heilmikið til.“

Þið eruð með marga unga leikmenn, heldurðu að það komi til með að nýtast vel?
„Já, ég held það. Líka mikilvægt upp á framtíðina að ungu stelpurnar stígi upp og öðlist reynslu í svona stórum leikjum. Þær bæta það sem vantar upp á reynsluna með leikgleði og baráttuvilja og eru mikill styrkur fyrir liðið. Ég held að það sé bara jákvætt að yngja liðið upp.“

Ertu sátt við hópinn?
„Já, ég er það,“ segir Sara Björk ákveðin. „Þetta er gott lið, með marga sterka leikmenn og góðan liðsanda. Og við höfum sýnt það á undanförnum árum að við eigum erindi í hóp þeirra bestu í heiminum.“

Þú segir að þið þekkið þýska liðið vel, hverjir eru helstu styrkleikar þess?
„Þetta er eitt besta lið í heimi, eins og ég sagði áðan,“ segir hún. „Þær eru með marga rosalega sterka leikmenn, spila vel saman og eru mjög skipulagðar og agaðar. Það er alltaf erfitt að mæta þeim, en við erum ekkert hræddar við þær og, eins og ég sagði líka áðan, þá unnum við þær 3-2 í fyrri leiknum í undankeppninni í október í fyrra, og það á útivelli, þannig að ég tel okkur eiga góða möguleika á að sigra í þessum leik.“

Miðarnir á leikinn hafa rokið út og allt bendir til að uppselt verði á leikinn á laugardaginn, hvernig er að finna fyrir þessum áhuga?
„Það er bara frábært og við höfum stefnt að því lengi. Það skiptir máli að hafa sterkan hóp stuðningsmanna á bak við okkur og mjög hvetjandi að finna fyrir auknum áhuga á liðinu og leikjum þess. Við höfum líka sýnt það og sannað að við erum gott lið og það er gleðilegt að áhorfendur séu farnir að sjá það og meta okkur að verðleikum.“

Með hvaða hugarfari farið þið inn í þennan mikilvæga leik?
„Auðvitað með því hugarfari að vinna. Við förum í alla leiki með því hugarfari. Og það er enn meira undir í þessum leik en nokkurn tímann áður þannig að við munum gefa allt í hann og berjast eins og ljónynjur, þú mátt treysta því. Það verður ekkert gefið eftir.“

________________________________________________________________________

Agla María Albertsdóttir.

„Þetta gerist ekki stærra“
„Stemningin fyrir leiknum er mjög góð og maður finnur hvað allir í kringum mann eru spenntir. Það eru mjög margir á leiðinni á völlinn og ég býst við því að stemningin verði frábær,“ segir Agla María Albertsdóttir, spurð að því hvernig leikurinn leggist í hana. „Það væri auðvitað ótrúlegt afrek fyrir okkur að komast á HM og kvennafótboltann í heild sinni þar sem íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei komist á HM. Það væri frábært að komast á stærsta sviðið í fótboltanum. Þetta gerist ekki stærra.“

Glódís Perla Viggósdóttir

Reynslunni ríkari eftir EM
„Á EM fengum við tækifæri til að spila þrjá stórleiki á stórum völlum fyrir framan fullt af fólki og sú reynsla hefur nýst okkur,“ segir Glódís Perla Viggósdóttir, innt eftir því hvort hún telji að liðið komi til með að geta nýtt sér reynsluna af EM í leiknum á morgun. „Til dæmis kunnum við betur að undirbúa okkur fyrir leiki, aðallega andlega og líka að stýra betur fókusnum og orkunni. Núna erum við bara spenntar að fara út á völlinn okkar og gefa allt í þessa tvo seinustu leiki í riðlinum!“

Svava Rós Guðmundsdóttir.

Hlakkar til að berjast við Þjóðverja
„Það að komast á HM hefði gríðarlega þýðingu fyrir mig og fyrir kvennaboltann á Íslandi. Það myndi klárlega styrkja stöðu kvenna í knattspyrnu á Íslandi og hvetja yngri stelpur til að æfa fótbolta. Sjálfar erum við gríðarlega vel „mótiveraðar”, samheldnin er mjög góð og hópurinn góð blanda af reyndari leikmönnum sem hafa tekið vel á móti þeim yngri og óreyndari. Stemningin í hópnum er mjög góð. Við erum allar mjög spenntar fyrir komandi verkefni og hlökkum til að berjast fyrir sæti á HM,” segir Svava Rós Guðmundsdóttir.

Sigríður Lára Garðarsdóttir

Góður liðsandi
„Mórallinn í liðinu er góður. Við stefnum allar í sömu átt,” segir Sigríður Lára Garðarsdóttir þegar blaðamaður spyr að því hvernig mórallinn sé innan liðsins í aðdraganda leiksins. „Það er kominn spenningur í okkur og við hlökkum til. Við erum reynslunni ríkari eftir EM. Lærðum margt þar sem gæti nýst okkur á HM á næsta ári. Það væri því algjör draumur að komast þangað. Það væri stórt afrek fyrir íslenskan kvennabolta.“

Ingibjörg Sigurðardóttir.

Draumur að komast á HM
Ingibjörgu Sigurðardóttur hefur dreymt um að spila á HM frá því að hún var krakki. „Það hefur alltaf verið stór draumur. Ég hef unnið hörðum höndum að því að komast þangað síðan ég var lítil,“ segir hún og finnst alveg ótrúlegt að hugsa til þess hversu ótrúlega nálægt liðið er að ná takmarkinu. „Sem hvetur maður enn meira til að gera þetta með stæl.“ Hún telur að þátttökuréttur liðsins á HM hefði mikla þýðingu fyrir kvennaboltann á Íslandi. „Ég hugsa að það yrði ungum stelpum hvatning til að æfa vel og fengi fólk almennt til að að sýna kvennaboltanum meiri áhuga.“

 

Faðir Katrínar Leu var skotinn til bana

Katrín Lea Elenudóttir hlaut nýverið titilinn Miss Universe Iceland en keppnin var haldin fyrr í mánuðinum.

Tíu ár eru síðan Katrín Lea fluttist hingað til lands en hún fæddist í Síberíu. Hún segir úrslitin síður en svo hafa komið sér á óvart en hún hafi stefnt að þátttöku síðastliðin tvö ár og loks öðlast þátttökurétt í ár en hún er yngsti keppandinn sem borið hefur sigur úr bítum.

Eftir flutningana frá Rússlandi tóku við miklar áskoranir þar sem Katrín Lea talaði enga íslensku og litla ensku. Hún hélt þó fast í móðurmálið og mætti í tungumálatíma hvern laugardag þar sem innflytjendabörn bæði frá Rússlandi og Lettlandi hittust og báru saman bækur sínar. „Þetta reyndist mér mjög erfitt því í Rússlandi átti ég marga vini en hér á Íslandi vildi enginn vera með mér en ég vildi bara fylgja mömmu minni hingað til lands.“

„Mér leið á köflum eins og ég væri eitthvað fötluð því börnin höguðu sér stundum þannig, eins og það væri eitthvað að mér af því ég kunni ekki tungumálið.“

„Þau vildu ekki tala við mig og um tíma þurfti ég að byggja öll samskipti á handahreyfingum. Ég vissi samt strax að hér væri betra líf þrátt fyrir að enginn hafi beinlínis sagt mér það. Einhvern veginn fékk ég það á tilfinninguna.“

Þremur árum eftir komuna til Íslands sáu Katrín Lea og móðir hennar fréttir í rússneska sjónvarpinu þar sem greint var frá andláti föður hennar. Hann hafði verið skotinn til bana.

„Ég þekkti pabba minn aldrei neitt en mamma sagði skilið við hann fljótlega eftir að ég kom í heiminn. Hann reyndi aldrei að hafa samband en hann var um tíma tengdur inn í rússnesku mafíuna sem við teljum að sé ástæða þess að honum var síðar ráðinn bani.“

„Fjölskylda hans hafði aldrei neitt samband við mig heldur en það voru miklir átakatímar í Rússlandi á þessum tímum, eftir fall Sovétríkjanna.”

Ástæða þess að Katrín ákvað að taka þátt er vegna þess að hún vissi hversu stór vettvangur fegurðarsamkeppni gæti verið fyrir stelpur til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Mig langar að stofna samtök hér á landi fyrir innflytjendabörn og hjálpa þeim enda stendur málefnið mér nærri.“

„Ég myndi jafnframt vilja að íslensk börn gætu tekið þátt því aðstoð þeirra er svo mikilvæg í tungumálakunnáttunni. Sjálf eyddi ég óteljandi laugardögum í einkakennslu til þess að viðhalda rússneskunni minni enda tala ættingjar mínir í Síberíu bara rússnesku. Ég hefði aldrei viljað gleyma rússneskunni en þrír klukkutímar í viku utan skólatíma er langur tími fyrir barn. Ég myndi vilja sjá þeim tíma eytt innan hefðbundinnar skólakennslu.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Sara Dögg Johansen.

Gerði mynd í miðri #metoo byltingu

Kvikmyndin Lof mér að falla eftir þá Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson verður frumsýnd innan skamms en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum.

Baldvin segir gerð myndarinnar hafa verið fróðlega en um leið erfiða, enda umfjöllunarefnið vandmeðfarið. Eðli málsins samkvæmt reyndust hlutverkin bæði líkamlega og andlega krefjandi og viðurkennir Baldvin að mörk þess að vera leikstjóri og sálfræðingur hafi á köflum verið óljós.

„Það komu alveg dagar þar sem ég var eitthvað allt annað en leikstjóri og það komu líka dagar þar sem þetta reyndist stelpunum of erfitt.“

„En maður verður að velja krakka sem maður treystir og ég vissi að þær hefðu bæði þroskann og kunnáttuna. Ég bað þær frá fyrsta degi að segja mér ef ég væri að keyra þær út og þær voru því alltaf meðvitaðar um að þær hefðu stjórnina. Mestu máli skiptir að hafa opið og gott samband svo allir geti sagt það sem þeir vilja segja.“
Myndin er tekin upp í miðri #metoo-sprengju og segir Baldvin byltinguna hafa varpað nýju ljósi á alla hans vinnu. „Ég hef unnið svo margar erfiðar senur og velti því alvarlega fyrir mér hvort ég hefði á einhverjum tímapunkti farið fram úr eða skaðað einhvern.“

„Eftir myndina hringdi ég í alla kven- og karlleikara sem hafa tekið þátt í svona senum og spurði hvort ég hefði ofboðið þeim, en sem betur fer voru viðbrögðin bara jákvæð.“

„Það var engu að síður gott að taka öll þess símtöl og taka út hvernig maður er, því þegar ég gerði Óróa, sem dæmi, var ég ekki meðvitaður um þetta. Ég held að í eðli mínu hafi ég alltaf reynt að gera rétt án þess að ofbjóða neinum en þetta er vandmeðfarið starf.“

„Það er, sem dæmi, sena í Vonarstræti þar sem ég gekk hrikalega langt og leikkonan endaði á sjúkrahúsi. Við vorum öll miður okkar, en ég stoppaði ekki tökuna. Það er það sem ég sé mest eftir núna, en við erum bestu vinir í dag.“

Í kjölfarið hélt Baldvin tvær prufusýningar á myndinni Lof mér að falla, annars vegar fyrir konur sem höfðu staðið framarlega í baráttunni og hins vegar fyrir karla. „Þetta er vandmeðfarið, kvikmynd um gróft ofbeldi gegn konum, skrifuð og leikstýrt af karlmönnum.“

„Við Biggi erum báðir femínistar og teljum okkur meðvitaða um hvað við erum að gera en ég vildi fá tilfinningu fyrir því hvaða punkta ég fengi frá konum og hvaða punkta frá körlum.“

„Viðbrögðin voru rosalega sterk og góð en punktarnir voru svo áhugaverðir því konurnar virtust ná því betur sem við vorum að reyna að segja meðan karlarnir horfðu öðruvísi á myndina.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

|||||
|||||
Björgólfur Jóhannsson.

Björgólfur Jóhannsson tilkynnti það í vikunni að hann væri hættur sem forstjóri Icelandair. Kom tilkynningin í kjölfar nýrrar afkomuspár félagsins, en hún lækkaði frá því sem áður var. Í tilkynningunni sagði Björgólfur að ákvarðanir sem hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni hafi verið teknar á hans vakt, þar með talið breytingar á leiðarkerfi Icelandair. Því hafi hann tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu.

Mikið hefur verið fjallað um erfiðleika íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, síðustu vikur, en gengi bréfa í Icelandair Group hríðféllu eftir að ný afkomuspá var birt og Björgólfur tilkynnti uppsögn sína.

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Bogi Nils Bogason.

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, hefur tekið við forstjórastarfinu tímabundið, en miklar vangaveltur eru innan viðskiptalífsins og ferðaþjónustunnar, hver taki við af Björgólfi og reyni að snúa gengi fyrirtækisins við. Álitsgjafar Mannlífs telja ólíklegt að Bogi verði ráðinn forstjóri til langstíma, enda hefur hver svört afkomuviðvörunin á fætur annarri verið birt á vakt hans sem fjármálastjóra. Þó reynslumikill sé telja álitsgjafar hann mögulega skorta djúpa þekkingu á rekstrinum til að taka við af Björgólfi.

Sagði upp í byrjun ágúst

Jón Karl Ólafsson.

Eitt nafn sem kemur upp sí og æ hjá álitsgjöfum Mannlífs er Jón Karl Ólafsson, sem varð forstjóri Icelandair árið 2004 og síðan forstjóri Icelandair Group á árunum 2005 til ársloka 2007. Ku hann vera ansi líklegur í starfið, sérstaklega í ljósi þess að fyrir stuttu var sagt frá uppsögn hans sem framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia. Sú tilkynning barst í byrjun ágúst, en ljóst er að það hafi verið aðdragandi að uppsögn Björgólfs hjá Icelandair. Jón Karl er mikill reynslubolti, en hann var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands á árunum 1999 til 2004 og tók við sem forstjóri JetX/Primera Air árið 2008. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðal annars Útflutningsráðs Íslands og Samtaka ativnnulífsins.

Helgi Már Björgvinsson.

Reynslumikill og vel menntaður

Helgi Már Björgvinsson hefur einnig verið nefndur í sömu andrá og forstjórastóllinn, en hann er í stjórnandastöðu hjá Icelandair Group og sinnir meðal annars verkefnum sem koma að stefnumótun hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið lengi hjá Icelandair, allt frá árinu 1999, og hefur unnið út um allan heim fyrir fyrirtækið, til dæmis sem sölu- og markaðsstjóri og svæðisstjóri. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að ef ákveðið verði að ráða innanbúðarmann í forstjórastarfið sé Helgi Már einn vænsti kosturinn. Mjög reynslumikill og vel mentnaður, með BS í markaðs- og stjórnunarfræði frá háskólanum í Suður-Karólínu og meistarapróf í viðskiptafræði frá SCP-EAP European School of Management í París.

Erfitt að finna forstjóra úr ferðaþjónustunni

Halldór Benjamín Þorbergsson.

Álitsgjafar vefsins telja Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, einnig góðan kost en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group. Halldór er menntaður hagfræðingur og reyndur stjórnandi, en sumir álitsgjafar Mannlífs efast þó um að hann verði fyrir valinu sökum lítillar reynslu í ferðaþjónustu.

Í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, var síðan sagt frá því að nafn Jóns Björnssonar, forstjóra smásölukeðjunnar Festar, væri ofarlega á blaði þar sem hann hefði töluverða reynslu af því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að Jón sé sterkur kandídat í starfið.

Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að erfitt verði fyrir Icelandair Group að finna íslenskan forstjóra með mikla reynslu úr ferðaþjónustu og því gæti farið svo að leitað verði út fyrir landsteinana, þó álitsgjöfum finnist það ólíklegt. Einhverjir sem Mannlíf ræddi við telja líklegt að næsti forstjóri verði einhvers konar frontur fyrir fyrirtækið, sem myndi þá þýða að styrkja þyrfti framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Frikki Dór og Lísa orðin hjón

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson gekk að eiga sína heittelskuðu, Lísu Hafliðadóttur, við fallega athöfn í Toskana-héraðinu á Ítalíu í dag.

Fjölmargir vinir og vandamenn voru viðstaddir brúðkaupið, og hafa raunar notið veðurblíðunnar á Ítalíu síðustu daga. Meðal gesta eru að sjálfsögðu bróðir Friðriks, tónlistarmaðurinn Jón Jónsson, tónlistargúrúinn Ásgeir Orri, leikkonan Júlíana Sara Gunnarsdóttir og tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason.

Gestir hafa verið duglegir að birta myndir úr ævintýrinu á Instagram undir myllumerkinu #friðlísing, og má sjá nokkrar þeirra hér fyrir neðan.

Mannlíf óskar brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn.

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

A post shared by Rósa María (@rosamariaa) on

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

Raddir