Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
2.7 C
Reykjavik

Málning er töfraefni

||
||

Hægt er að innrétta heimilið með skilvirkum og ódýrum hætti – þótt vissulega finnst einhverjum það vera dýrt sem öðrum finnst vera ódýrt. Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum, gefur nokkur góð ráð hvað þetta varðar.

Það þarf oft ekki að gera mikið til að breyta ásýnd heimilisins örlítið en það sem passar einum passar kannski ekki öðrum. „Það sem er ódýrt fyrir einn er dýrt fyrir annan og svo fer þetta líka eftir því hvort um er að ræða nýtt eða gamalt húsnæði,“ segir Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum. Fólk ætti að byrja á því að taka saman hvað það langar til að gera, hvað það gæti kostað og velja svo og hafna. Það er gott að vita áður út í hvað er verið að fara og sjá hvað er brýnt að gera.“

Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum. Mynd úr einkasafni.

Hún segir að ef verið sé að tala um venjulegt heimili og fólk vilji breyta með ódýrum og á sem hagkvæmasta hátt, þá myndi hún segja að málning væri töfraorðið. „Það breytir miklu að skipta um lit á veggjum. Það eru svo margir fallegir litir í tísku í dag svo sem bláir, grænir og bleikir tónar en gráu tónarnir eru enn mjög vinsælir og flestir kjósa þá. Það er fólk sem þorir að mála í fyrrnefndu litunum eins og bleikum og grænum en ef það er ekki til miklir peningar þá vill fólk gera eitthvað sem endist og það yrði frekar leitt á slíkum litum.“

Það eru svo margir fallegir litir í tísku í dag svo sem bláir, grænir og bleikir tónar en gráu tónarnir eru enn mjög vinsælir og flestir kjósa þá.

Mála eða bæsa húsgögn

Thelma talar líka um liti á sófasettum og stólum. „Það er best að kaupa sófa og stóla í skotheldum litum svo sem í gráum eða dökkum litum.“ Hún bendir á að ef fólk er leitt á sófanum þá sé tilvalið að kaupa í hann púða eða fallegt teppi til að setja á endann og þá sé hann kominn með nýtt útlit.

Hún bendir á að uppröðun húsgagna skipti máli. „Það skiptir máli hvað tekur á móti manni þegar maður kemur inn; hvað er það fyrsta sem maður sér. Og einnig er líka skemmtilegt að breyta til stundum.“

Thelma segir að eigi fólk húsgögn eða innréttingar sem eru farin að láta á sjá sé tilvalið að lakka þau og setja nýjar höldur á skápahurðar. „Svoleiðis breytir oft öllu,“ segir hún. „Þannig er hægt að breyta innréttingu á frekar ódýran hátt miðað við að kaupa nýja. Tískan í dag er að lakka með svörtu. Það er líka hægt að skipta um flísar á milli efri og neðri skápana í eldhúsinnréttingu sem draga athyglina að sér, en það er svo mikið úrval til af skemmtilegum flísum í dag, og fá nýja borðplötu.“

Falleg lýsing breytir miklu

Thelma segir lýsingu líka skipta miklu máli á heimilum. „Mér finnst íbúðir oft vera undirlýstar, fáar dósir í loftunum og erfitt að finna ljós sem hentar rýminu. Besta lausnin er að nota brautir sem til eru bæði í svörtu og hvítu sem leysir þessi mál. Mikið úrval kastara er til í þessar brautir þar sem þeim er smellt í brautina og auðvelt er að auka við lýsingu eða breyta henni. Með nýmáluðum veggjum og uppfærðri lýsingu er strax búið að breyta umgjörðinni. Ég vil líka minna á gólf- og vegglampa sem gleymast oft en þeir skapa svo skemmtilega stemningu.“

Mér finnst íbúðir oft vera undirlýstar, fáar dósir í loftunum og erfitt að finna ljós sem hentar rýminu.

Púðar, ný gluggatjöld og mottur

Uppgerð hilla sem fékk nýtt líf með svörtu lakki. Í dag notuð sem skóhilla í forstofu. Mynd úr einkasafni.

Thelma nefnir líka gluggatjöld þegar kemur að því að breyta til á heimilinu. „Taugluggatjöld eru í tísku núna sem hanga í brautum og niður á gólf. Rúllugluggatjöld, eða „screen“, eru enn vinsæl en taugluggatjöld gera rýmið svo hlýlegt.“

Hvað gólfið varðar segir Thelma að mottur, sem eru mikið í tísku, geti breytti miklu. „Auðvitað má kaupa sérstakar mottur en það er líka hægt að fara í teppabúðir og láta skera mottur í ákveðnar stærðir en þar fæst svo mikið úrval af litum og mynstrum. Mottur eru góðar í að fela þreytt og lúin gólfefni.“

Thelma nefnir líka plöntur. „Þær lífga einhvern veginn svolítið upp á rýmið,“ segir hún.

Hvað varðar skrautmuni segir hún að það geti verið sniðugt að færa hluti til, setja jafnvel eitthvað í geymslu í einhvern tíma og skipta svo út. „Það er sniðugt að safna þessu í grúppur og láta vera andrými inn á milli.“

Hún segir að annars sé auðvitað misjafnt hvernig umhverfi fólki líði best í. „Heimili þarf yfirleitt að henta nokkrum aðilum og ekki skal gleyma að það þarf líka að virka sem heimili, til dæmis vera praktískt en hlýlegt. Heimilið á að vera griðastaður þeirra sem þar búa og samkomustaður fjölskyldunnar.“

Texti / Svava Jónsdóttir

Hin ósnertanlegu

SÍÐAST EN EKKI SÍST

Bjarni Ben er orðinn hundleiður á Klaustursmálinu. Svo sagði hann í það minnsta í Kryddsíldinni á Stöð tvö á gamlársdag og bætti við að hann teldi að venjulegt fólk fengi ekki neitt út úr umræðum um þetta mál og að á meðan við værum föst í að tala um mál eins og Klaustursmálið þá gerðist ekkert í þeim málum sem máli skiptir.

Bjarna finnst það sem sagt ekki skipta máli, eða að minnsta kosti ekki verulegu máli, að sex þingmenn setjist að sumbli á bar meðan fundur stendur í löggjafarsamkomunni sem þeir eru kjörnir til setu á og sitji þar klukkutímum saman og raði út úr sér ummælum um fólk, fyrst og fremst um konur, fatlað fólk og samkynhneigt, sem bera vitni um djúpa mannfyrirlitningu. Auk þess sem lagt er á ráðin um plott sem eru í besta falli siðlaus.

Og Sigmundur Davíð, höfðinginn á samkomunni á barnum, sagði í sama sjónvarpsþætti að það sem honum þætti standa upp úr varðandi Klausturmálið væri skinhelgi og tvískinnungsháttur. Hann hefur enda hafnað því að takast á við innihald samtalsins á Klaustri og leitast við að beina umræðunni að því hvernig þessar samræður komust fyrir augu og eyru almennings. Hann lítur á sig og sitt fólk sem ósnertanlegt meðan konan sem tók þau upp á barnum er það sannarlega ekki í hans huga.

En hvers vegna er ekki bara hægt að verða leiður á Klaustursmálinu? Það er vegna þess að samtalið á Klaustri var ekki bara drykkjuraus sem engu máli skiptir. Það hlýtur að skoðast í stærra samhengi. Orðræðan sem þarna átti sér stað tengist með beinum hætti orðræðu valdamikilla karla um allan heim og er Donald Trump þeirra þekktastur og valdamestur.

Þá hefur Klaustursmálið ekki enn farið í formlegan farveg innan Alþingis og afsökunarbeiðnir sexmenninganna hafa ekki einkennst af iðrun heldur verið með fyrirvörum. Í raun má nota orð Sigmundar sjálfs og segja að viðbrögð þeirra hafi einkennst af skinhelgi og tvískinnungshætti þeirra sem líta á sig sem ósnertanleg.

Það er þess vegna sem Klaustursmálið er eitt af þeim málum sem einmitt skipta máli fyrir almenning. Hatursorðræða valdafólks er alvarleg og má aldrei verða ósnertanleg. Eitt af stóru verkefnum ársins 2019 er að svo verði ekki.

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

Sjarmi í Vesturbænum

Blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu fallegt heimili í Vesturbæ Reykjavíkur á köldum degi í október. Þar búa þau Íris Ósk, flugfreyja og Fannar, íþróttastjóri Víkings. Húsið var byggt 1945, teiknað af Einari Sveinssyni arkitekt og hafa þau Íris og Fannar tekið íbúðina í gegn að miklu leyti.

Íbúðin er á þriðju hæð með útsýni til allra átta; að Esjunni, Keili og Bessastöðum og það er þetta fallega útsýni sem fangar athyglina samstundis þegar inn er komið. Hún er um 90 fermetrar að stærð og Íris og Fannar fengu hana afhenta í júnímánuði árið 2017. Þau segjast hafa byrjað á því að rífa allt út nema gólfefni í stofu og fataskápa í svefnherbergi. „Íbúðin varð nánast fokheld,“ segir Íris og bætir við: „Við tókum niður vegg sem var milli eldhúss og gangs og annan sem var á milli stofu og borðstofu því við vildum hafa íbúðina bjarta og opna.“

Þegar þau fluttu inn var strax hafist handa og öll fjölskyldan lagðist á eitt við að hjálpa. „Pabbi er þúsundþjalasmiður, hann getur allt!“ segir Íris. „Við áttum ótrúlega góðar stundir saman og þarna bættust við margar góðar minningar í minningabankann. Þolinmóðari maður en pabbi minn er vandfundinn, held ég,“ segir Íris og hlær. „Við ætluðum ekki að gera of mikið til að byrja með, heldur gera þetta smátt og smátt þar sem við vorum ekki búin að ákveða hvað við vildum. Baðherbergið tók lengstan tíma, mig langaði að hafa það öðruvísi en ekki þannig að ég yrði leið á því.

Pabbi er þúsundþjalasmiður, hann getur allt!

Ég sá gólfflísar sem heilluðu mig mikið og sendi hinum ýmsu fyrirtækjum mynd af þeim til að reyna að fá eins, og þeir hjá Agli Árnasyni fundu loksins það sem við leituðum að,“ segir Íris ánægð og þegar hún er spurð hvar hún sæki sér innblástur fyrir heimilið segist hún hafa legið yfir tímaritum og Instagram til að fá hugmyndir þegar þau stóðu í þessum miklu framkvæmdum.

Er framkvæmdum þá lokið? „Nei, ekki alveg, næst á dagskrá er að skipta út gólfefnum á stofu og svefnherbergi, lakka gereft og hurðir og hengja upp ljós. Annað er nokkuð tilbúið,“ segir Íris sátt.

Blaðamaður heillaðist af fallegum glugga á baðherberginu sem er hringlaga og setur skemmtilegan svip á rýmið.

Sjarminn sem fylgir erfðagripum

Fagurfræðin er Írisi ofarlega í huga þegar kemur að því að innrétta heimilið. Hún segir að sér finnist skemmtilegast að blanda saman gömlu og nýju og að hlutir sem hún hafi fengið gefins séu þýðingarmeiri fyrir hana. „Það gerðist þegar ég bjó í Noregi, mér finnst gaman að nýta gamalt og blanda því við nýtt. Borðstofuborðið okkar og stólarnir eru frá ömmu og afa Fannars.

Við gerðum borðstofusettið upp, afi minn sprautulakkaði borðið svart og amma hjálpaði okkur að pússa og mála stólana. Afi er afar hjálpsamur og handlaginn, hann hjálpaði mér meðal annars að búa til ljós í eldhúsið ásamt því að gera sófaborð eftir mínum hugmyndum þar sem við fundum ekki hið eina rétta í verslunum,“ segir hún.

Mér finnst gaman að nýta gamalt og blanda því við nýtt

Hansahillan í stofunni hafði verið á verkstæði hjá ömmu og afa Írisar ansi lengi áður en hún fékk nýtt hlutverk heima hjá unga parinu, ásamt gömlum skálum og vösum sem eru í miklu uppáhaldi hjá Írisi. „Ég er líka ansi stólasjúk, eins og sést, ég elska þessa gömlu stóla og finnst þeir hafa svo mikinn sjarma,“ segir hún.

Uppáhaldshönnuðir Írisar eru Louis Poulsen, Georg Jensen og Arne Jacobsen en hver ætli sé uppáhaldshluturinn á heimilinu? „Ætli það sé ekki spegillinn sem afi smíðaði fyrir mig ásamt Georg Jensen-kertastjakanum og vasanum í stofunni sem ég fékk í afmælisgjöf,“ segir Íris. Henni þyki skemmtilegt að blanda þessu saman, ekki halda sér í einum stíl.

„Ég er ein af þeim sem geymi alltaf eitthvað af dóti í kassa og skipti svo út annað slagið.“

Texti / Svava Marín Óskarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Landamæraveggur Trump einangrar hann

Donald Trump heldur áfram að hrista upp í bandarískum stjórnmálum og stunda fordæmalausa pólitík.

Í desember hótaði Donald Trump á fundi með demókrötum að stöðva starfsemi ríkisstofnana fengi hann ekki fjármagn til að byggja vegg við landamæri Mexíkó. Með veggnum stendur Trump við kosningaloforð sitt og loka landamærum suðvestan megin en verðmiði veggsins eru litlar 5,6 billjónir dollara. Veggurinn var hornsteinn í innflytjendapólitík Trumps og nú virðist hann vera að byggja þennan vegg utan um sjálfan sig.

Þingið þarf að samþykkja fjármagnið, en það mætir harðri andstöðu, einkum þar sem demókratar eru nú í meirihluta eftir að repúblikanar töpuðu honum í kosningunum í nóvember. Trump framfylgdi hótun sinni og í gær var fimmtándi dagur þar sem starfsemi einhverra ríkisstofnanna var lögð niður. Á blaðamannafundi á föstudaginn lýsti hann því yfir að þetta ástand gæti staðið í mánuði eða ár þess vegna fái hann ekki peningana í framkvæmdina.

Lokunin getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér á starfsemi ýmissa ríkisstofnanna sem munu lenda í fjárskorti fljótlega. Stofnunin sem greiðir út matarmiða til um 38 milljóna tekjulágra bandarískra fjölskyldna lendir í fjárþurrð í mars og vandséð er að endurgreiðsla skatts sem telur tugi milljarða geti farið fram í apríl, ef þetta heldur áfram. Að sama skapi eru margir sem verða af launum sínum sem vinna hjá þeim ríkisstofnunum sem í hlut eiga.

Trump virðist hreint ekki viljugur í samningaviðræður við demókrata sem hafa lagt fram hugmyndir um auknar fjárveitingar við landamæraeftirlit. Mótframboð demókrata í efri deild þingsins var fyrir rúmu ári 1,6 billjónir, en sú tillaga þótti umdeild meðal demókrata. Ekki er ljóst hvort að demókratar hafi nú teflt fram einhverri málamiðlun.

Gæti lýst yfir neyðarástandi

Hvort Trump vilji taka slaginn, slagsins vegna eða til að halda fylgistölum sínum virðist hann ekki ætla að bakka með kröfu um vegginn. Meðal annars sagði Trump að hann gæti lýst yfir neyðarástandi og byggt vegginn án samþykkt þingsins og í óþökk þess. Tæknilega getur hann það á grundvelli stjórnarskrárinnar, en það vekur upp lögfræðilegar vangaveltur um hvað þýðir neyðarástand í skilningi stjórnarskrárinnar.

Tilgangur veggsins að sögn Trump er að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda og flæði fíkniefna inn í landið en jafnframt hryðjuverk. Engin gögn eða upplýsingar hafa stutt síðustu fullyrðingu Trumps og sérfræðingar telja að veggurinn muni ekki þjóna þeim tilgangi sem að er stefnt. Trump hélt því jafnframt fram í kosningabaráttunni að Mexíkó myndi borga fyrir vegginn en ekkert slíkt er í farvatninu. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í þinginu, hefur sagt vegginn siðlausan og demókratar eru á móti framkvæmdinni.

En störukeppni stendur yfir og óvissa um hversu lengi hún mun vara. Trump sýnir með þessu að hann hræðist ekki að misbeita valdi til að fá sínu framgengt, enda er þessi aðgerð ekkert nema valdníðsla. Með þessu reynir Trump að fram hjá leikreglum sem eru settar til þess að knýja á um aukið samráð, hluti af samspili löggjafar- og framkvæmdarvalds. Hvort hann byggi nýja veggi í kringum sig með kröfunni um vegginn verður að koma í ljós.

Að auka vellíðan í eigin lífi

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, lauk nýverið meistaranámi í jákvæðri sálfræði og er með nokkur ráð fyrir fólk til að auka vellíðan í eigin lífi sem er tilvalið í upphafi nýs árs.

„Jákvæð sálfræði sameinar í einn vettvang það sem rannsóknir á jákvæðum og heilbrigðum einstaklingum hafa leitt í ljós,“ segir Ingrid Kuhlman. „Með heitinu er ekki gefið í skyn að aðrar greinar sálfræðinnar séu neikvæðar, síður en svo. Munurinn felst í því að jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi en það sem er í ólagi; leggur áherslu á að fjölga plúsum í stað þess að fækka mínusum.“

Hún segir að jákvæð sálfræði byggi á vísindalegum rannsóknum og færi okkur hagnýtar upplýsingar og gagnreyndar aðferðir til að auka vellíðan. „Það hafa verið þróaðar ýmsar æfingar sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum og mig langar að nefna fimm mjög góðar aðferðir til að auka vellíðan í eigin lífi og fara inn í nýtt ár með jákvæðni að vopni. Þetta eru æfingar sem fólk getur gert á hverjum degi.

Ein slík æfing heitir „þrír góðir hlutir“. Æfingin felst í því að skrifa niður daglega, í lok dags til dæmis, þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver þáttur viðkomandi var í þeim. Þessi æfing hefur þau áhrif að breyta hugsunum manns þannig að í stað þess að einblína á það sem fór úrskeiðis einblínum við á það sem gekk vel. Það er mikilvægt að skrifa niður hlutdeild manns í því sem gekk vel af því að þar með beinum við athyglinni að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar, jákvæðar upplifanir.

„Jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi en það sem er í ólagi; leggur áherslu á að fjölga plúsum í stað þess að fækka mínusum.“

Í öðru lagi eru það „þakklætisæfingar“ en þá skrifar maður niður í lok dags þrennt sem hefur vakið hjá manni þakklæti. Reglubundnar og meðvitaðar þakklætishugsanir geta aukið vellíðan. Þakklæti stuðlar að því að við dveljum við og njótum jákvæðra upplifana og aðstæðna. Það að taka frá tíma til að þakka fyrir það sem maður er ánægður með eykur almenna ánægju með lífið.“

Þrír fyndnir hlutir
Ingrid segir æfinguna „þrír fyndnir hlutir“ henti sér vel, en hún felst í því að skrifa niður daglega þrjá fyndna hluti sem áttu sér stað yfir daginn. „Rannsóknir hafa sýnt að það eru sterk tengsl á milli húmors og lífsánægju. Hugsunin á bak við þetta er að húmor kallar fram gleði og gleði er mikilvægur þáttur í jákvæðum tilfinningum. Við vitum það líka að gleði getur jafnframt veitt vörn gegn neikvæðum tilfinningum og upplifunum. Bros léttir lundina og hefur jákvæð áhrif á líkama og sál.“

Ingrid segir að fjórða æfingin sem hún mæli með og veiti vellíðan sé að gera góðverk; að rétta öðrum hjálparhönd óumbeðið og gefa af sér. „Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta þarf ekki að vera stórvægilegt. Það er hugurinn sem skiptir öllu. Það þarf oft lítið til að skapa ómælda gleði, til dæmis að gera tvöfaldan skammt af smákökum og gefa vinum, moka snjó fyrir nágrannann eða bjóða þeim sem er fyrir aftan í röðinni með fáa hluti í innkaupakerrunni að vera á undan. Það að gera góðverk leiðir til þess að við upplifum fleiri jákvæðar tilfinningar eins og hamingju, gleði og ánægju. Með því að gera góðverk getum við gert heiminn örlítið betri.“

Fimmta æfingin snýst um að sýna góðvild í eigin garð. „Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að neikvæð innri gagnrýni getur dregið úr frammistöðu og að það er mikilvægt að mæta neikvæðum tilfinningum með mildi, hlýju og vinsemd. Góðvild í eigin garð samanstendur af þremur þáttum: Í fyrsta lagi að sýna sjálfum sér mildi og skilning og skipta sjálfsgagnrýni út fyrir mildari og jákvæðari orð, í öðru lagi að viðurkenna að þjáning og það að líða illa er sammannleg reynsla og í þriðja lagi að fylgjast með neikvæðum tilfinningum sem vakna hjá manni án þess að ýkja þær, dæma, eða bæla. Þetta snýst í stuttu máli um það að standa með sér í blíðu og stríðu og koma fram við okkur sjálf eins og við myndum koma fram til dæmis við góðan vin.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Mynd / Úr einkasafni

„Hlaupin gefa mér orku“

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, fylgir sannarlega heilbrigðum lífsstíl. Hún hefur ekki drukkið áfengi um árabil og hreyfing er fyrirferðarmikill hluti af lífi hennar. Hlaupin skipa þar stóran sess og markmið komandi árs spennandi.

„Ég er líklega full bjartsýn fyrir árið en ég er skráð í Boston-maraþon í apríl, langt og strangt utanvegahlaup í Sviss í júní og svo loks skemmtilegt utanvegahlaup á Ítalíu í október með Hlaupahópi FH sem verður vonandi toppurinn á árinu. Ég mæti þangað hvort sem ég kemst á startlínu eða ekki, enda frábær félagsskapur,“ segir Valgerður sem reynir að mæta á æfingar með hlaupahópnum tvisvar til fjórum sinnum í viku og taka þátt í ýmsum götuhlaupum þegar hún hefur heilsu og tíma til. „Ég mun fylgja þeim plönum sem lögð eru fyrir mig, þakklát fyrir hvert skiptið sem ég get hlaupið.“

Hleypur 2000 km á ári
Árið 2018 var gott hlaupaár hjá Valgerði og hún náði oft í verðlaunasæti í keppnishlaupum fyrir aldursflokk, m.a. í Gamlárshlaupinu, vetrarseríunni Powerade og hlaupaseríu Bose-HHFH og heilu maraþoni í Reykjavíkumaraþoni. „Ég hljóp líka Hvítasunnuhlaup Hauka, hálft maraþon í Miðnæturhlaupinu, Laugaveginn (54 km) í þriðja sinn, Dyrfjallahlaupið (24 km) með systrum mínum, Adidas-Boost hlaupið, Hjartadagshlaupið og heilt maraþon í Haustmaraþoninu í þriðja sinn,“ segir Valgerður sem hefur hlaupið um 2000 km á ári síðustu þrjú árin.

„Hlaupin gefa mér orku, sérstaklega þegar ég er þreytt og „streitt“ sem oft er, þá geri ég allt til að komast á æfingu og endurnærist. Það er vegna hreyfingarinnar en ekki síður frábærs félagsskapar með hlaupavinum mínum í Hlaupahópi FH. Hlaupin gefa mér líka gleði og ánægju, frið og spennu. Ég er viðkvæm í baki og er þakklát þegar það stoppar mig ekki af, hreyfingin er mér nauðsynleg einmitt vegna þess. Mér finnst gaman að reyna á mig og gera mitt besta þann daginn, það er alltaf nóg. Fjölbreytnin er skemmtileg og utanvegahlaup eða fjallahlaup eru allra skemmtilegust,“ segir Valgerður fer inn í nýja árið full tilhlökkunar.

Vakti heila nótt án þess að loka bókinni

Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, leikhús- og kvikmyndaframleiðandi og meistaranemi við Columbia-háskóla segir að áhrifaríkar bækur séu þær bækur sem ná bæði að víkka út sjóndeildarhringinn og skilja eftir það skýrar myndir í huganum að maður geti heimsótt sögupersónurnar árum og jafnvel áratugum síðar. Hér segir hún lesendum Mannlífs frá þeim bókum sem hafa haft mest áhrif á hana.

Ögraði sjálfri sér ellefu ára
„Þegar ég var ellefu ára vildi ég ögra sjálfri mér og fór á bókasafnið í leit að erfiðustu bók sem ég gæti lesið. Salka Valka eftir Halldór Laxness varð fyrir valinu og virkaði sem tímavél, en ég ferðaðist bæði aftur í tímann með sögunni, og eltist alveg um tíu ár, að eigin mati.“

Sá leikhúsið í nýju ljósi
„Leikhúsfræðibókin sem hefur haft einna mest áhrif á mig er Tóma rýmið eftir leikstjórann Peter Brook. Ég las bókina fyrst tvítug og man hvernig hún fékk mig til að hugsa um leikhús á nýjan hátt. Hugmyndir Brooks um samband leikara og áhorfenda hafa fylgt mér, og fengið mig til þess vinna að sýningum sem endurhugsa þetta samband og bjóða jafnvel áhorfendum að stíga inn í sviðsljósið.“

Illilega blekkt
„Þriðja bókin er Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur, sem segir frá fyrrum fimleikastjörnunni og verðandi geimfaranum Jennu. Í gegnum rússíbanareið bókarinnar, frá Texas til Reykjavíkur, var ég algjörlega blekkt af aðalpersónunni, sem og höfundinum. Samfélagsgagnrýni bókarinnar er hnífbeitt og beinist að staðalímyndum kvenna, kynbundnu ofbeldi og því hvernig fólk reynir að fegra eigið líf. Öllu er þessu komið til skila í gegnum ótrúlegt tímaflakk og meistaralega spunninn lygavef, sem fær mann til að efast um allt og ekkert, og vaka heila nótt án þess að loka bókinni.“

Mynd / Kári Björn Þorleifsson

Shaker-hönnun í nútímalegum búningi

The Shakers eins og þeir eru yfirleitt kallaðir hafa löngum verið skilgreindir sem fyrstu mínimalistarnir og hafa hönnuðir ósjaldan litið til þeirra í leit að innblæstri. Áherslur Shaker-trúarinnar voru einfaldleiki, skírlífi, heiðarleiki og vinna og var flokkurinn þekktur víðsvegar fyrir einstaklega mikla vandvirkni og fallegt handbragð í allri sinni smíði. Verkefnið Furnishing Utopia var sett á laggirnar árið 2017 og er einskonar óður til þessara fyrstu mínimalista.

Það var unnið í nánu samstarfi við tvö vel varðveitt Shaker-samfélög í Bandaríkjunum, Mt. Lebanon Shaker Museum í uppsveitum New York ríkis og Hancock Shaker Village í Berkshires-hálendinu í Massachusetts. Þeir hönnuðir og hönnnunarteymi sem valin voru til þátttöku í verkefninu hófu ferlið á vikulangri vinnustofu á svæðum fyrrnefndra Shaker-samfélaga. Þar höfðu hönnuðir ótakmarkaðan aðgang að gagnagrunni sem inniheldur alla skrásetta hluti smíðaða af Shakerunum, og gátu þeir jafnframt átt mikilsverðar samræður við sýningarstjóra safnanna sem búa yfir mikilli þekkingu um sögu og menningu trúflokksins.


Í framhaldi vinnustofunnar bjuggu hönnuðurnir til hversdagslega hluti, allt frá kústum og körfum yfir stærri muni eins og stóla, borð og bekki. Leitast var svara við því hvernig Shakerarnir þróuðu svo tímalausa, afturhaldssama og nútímalega hönnun á blómatíma sínum og reyndu hönnuðir að túlka hugvitsemi og siðfræði Shaker-stílsins í hlutum sem myndu passa inn í daglegt líf í nútímanum.


Þrjár sýningar undir formerkjum Furnishing Utopia hafa verið haldnar nú þegar og hefur markmið verkefnisins verið að skapa nútímalega innanstokksmuni innblásna af hinum upprunalegu Shaker-munum, sem og að varpa ljósi á þau áhrif sem Shaker-trúflokkurinn hefur haft á samtímahönnun. Hver sýning hefur haft sitt þema eða ramma sem hönnuðir vinna út frá og í þeirru nýjustu, „Furnishing Utopia 3.0: Hands to work“, var unnið með húsverk og þá muni sem þeim tengjast.


Verkefnið hefur vakið gríðarmikla athygli og verið sýnt á Stockholm Furniture & Light Fair, Sight Unseen Offsite á tískuvikunni í New York og í Hancock Shaker Village í Massachusetts í samhengi við hina upprunalegu Shaker-hluti. Meðal þeirra hönnuða sem tekið hafa þátt í Furnishing Utopia má nefna; Andersen & Voll, Hallgeir Homstvedt, Ladies & Gentlemen Studio, Studio Gorm, Norm Architects, Pat Kim, Bertjan Pot, Earnest Studio og svo lengi mætti telja. Hver einasti hlutur sem sýndur hefur verið á Furnishing Utopia varpar ljósi á þau áhrif sem Shaker-trúflokkurinn hefur haft á samtímahönnun.

Shaker-trúin náði hápunkti á árunum 1820-1860
Shaker-trúflokkurinn var fyrst um sinn þekktur undir nafninu „Shaking Quakers“ og var það tilkomið vegna tryllingslegs dans sem stundaður var við athafnir þeirra. Saga flokksins hófst snemma á 18. öld og á rætur sínar að rekja til Englands. Stuttu fyrir aldamótin 1800 flutti hann og settist að í efri byggðum New York-ríkis. Shaker-trúflokkurinn breiddi úr sér og árið 1826 var vitað um 18 Shaker-samfélög í átta ríkjum Bandaríkjanna en í dag er aðeins vitað um tvo eftirlifandi meðlimi trúarinnar. Shaker-trúin náði hápunkti sínum á árunum 1820-1860 og var það þá sem húsgagnahönnun þeirra og -smíði fór að vekja athygli. Húsgögnin áttu það sameiginlegt að vera meðfærileg og látlaus, þá helst úr ljósum og léttum við eins og hlyn eða furu. Fúnksjónalisminn var í hávegum hafður og var ávallt leitað sniðugra lausna til að sníða húsgögnin eftir þörfum hverju sinni. Mikilvægt var að sem flestir innanstokksmunir gætu verið hengdir upp á einskonar snagabretti sem lágu um veggina endilanga og voru einkennandi í híbýlum þeirra, en það að hengja hlutina upp á þennan hátt sparaði bæði pláss og auðveldaði þrif. Fjölmargar uppfinningar hafa verið kenndar við Shakerana, m.a. fyrsta þvottavélin, hringsög, flatur kústur og þvottaklemman. Stólarnir þeirra voru þekktastir og vinsælastir en þeir eru tiltölulega auðþekkjanlegir; setan ofin og bakið svipar til stiga enda kallaðir „ladderback chairs“. Áhrif Shaker-stílsins má greina víða, t.d. í skandínavískum viðarhúsgögnum eftirstríðsáranna. Það má með sanni segja að þessi litli trúflokkur hafi haft veruleg og langvarandi áhrif á hönnunarsöguna.

Fjölgar í hópi manna sem hata lýðræði

Ein af fyrstu Twitter-færslum Donalds Trump á nýju ári voru hamingjuóskir til Jair Bolsonaro sem skömmu áður hafði verið svarinn í embætti forseta Brasilíu. Það var engin hending því á milli þeirra er gagnkvæm aðdáun og hefur Bolsonaro verið nefndur „brasilíski Trump“.

Í honum sér Trump náinn bandamann og skoðanabróður og var utanríkisráðherrann Mike Pompeo sendur til að vera viðstaddur innsetningarathöfnina. Á meðal annarra þjóðarleiðtoga sem voru viðstaddir athöfnina voru Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Gestalistinn gefur ákveðna innsýn í hugmyndafræði Bolsonaros sem andstæðingar hans óttast að muni binda enda á lýðræði í Brasilíu.
Hugmyndafræði Bolsonaros er af sama meiði og annarra þjóðarleiðtoga sem hafa sprottið upp víða um heim að undanförnu. Þetta eru, auk þeirra Trump, Netanyahu og Orban, (karl)menn eins og Erdogan í Tyrklandi og Duterte á Filippseyjum – þjóðernissinnaðir popúlistar sem reka fleyg í þjóðir sínar og ala á sundrungu og ótta gagnvart raunverulegum og ímynduðum óvinum, nær undatekningarlaust útlendingum, minnihlutahópum og óskilgreindri elítu. Þrátt fyrir að vera nær alltaf hluti, eða dyggilega studdir, af hinni raunverulegu elítu.
Bolsonaro er þar engin undantekning. Hann hefur málað fjölmiðla, menntamenn og grasrótarsamtök sem óvini ríkisins og hótað þeim jafnt sem pólitískum andstæðingum fangelsisrefsingum þegar hann kemst til valda. Hann talar fyrir íhaldssömum kristilegum gildum, fer ekki leynt með andúð sína á samkynhneigðum og trans fólki, er harður andstæðingur fóstureyðinga og hefur lýst yfir stríði gegn pólitískri rétthugsun sem hann telur ógna grunngildum Brasilíu. Umhverfissinnar og mannréttindasamtök óttast líka stefnu hans því hann hefur heitið því að slaka verulega á löggjöf í því skyni að fjölga leyfum til hvers konar námuvinnslu, meðal annars á hinu viðkvæma Amazon-svæði. Þar er að finna fjölda frumbyggja sem hafa lifað í einangrun en Bolsonaro hefur talað um að „aðlaga þá samfélaginu“ sem margir óttast að þýði einfaldlega útrýmingu þessara hópa.
Þrátt fyrir allt ofantalið nýtur Bolsonaro hylli meðal flestra þjóðfélagshópa. Almenningur í Brasilíu er orðinn langþreyttur á getuleysi og spillingu hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka sem og gegndarlausum glæpum. Í þeim efnum hefur Bolsonaro heitið að taka til óspilltra málanna.

Spilling og glæpir
Brasilía er fimmta fjölmennasta land heims og áttunda stærsta hagkerfi veraldar, það langstærsta í Suður-Ameríku. Þróun mála þar hefur þess vegna gríðarlega mikil áhrif á alþjóðamálin. Blómaskeið Brasilíu var í upphafi aldarinnar undir stjórn Fernando Henrique Cardoso og Lula da Silva, hagvöxtur var mikill og milljónum tókst að brjótast úr fátækt. En síðan hann lét af embætti hefur leiðin legið þráðbeint niður á við. Fjármálakreppan skall á Brasilíu af fullu afli árið 2013, misskipting auðs er æpandi og spilling hefur grasserað í stjórnmálum og viðskiptalífi. Lula sjálfur var dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir spillingu og peningaþvætti og eftirmaður hans, Dilma Rousseff var hrakin úr embætti árið 2016. Samhliða því hefur glæpatíðni aukist hratt og á Brasilía 17 af þeim 50 borgum í heiminum þar sem morðtíðni er hæst.

Árásin og bakgrunnur, elítan
Það er upp úr þessum jarðvegi sem Jair Bolsonaro skýst upp á stjörnuhimininn. Hann hefur setið á þingi síðan 1990 með lítt eftirtektarverðum árangri og helstu afrek hans voru að hafa setið á þingi fyrir átta mismunandi flokka. Hann varð hins vegar óvænt stjarna kosningabaráttunnar í fyrra með óheflaðri framkomu, stóryrtum yfirlýsingum og snjallri kosningabaráttu á samfélagsmiðlum. Um leið aflaði hann sér óvina og í september lifði hann naumlega af banatilræði þegar hann var stunginn á kvið eftir kosningafund í borginni Juiz de Fora. Rétt eins og Donald Trump fór hann fram undir þeim merkjum að ráðast gegn spillingu og brjóta elítuna á bak aftur (sbr. „drain the swamp“) en tilheyrir henni engu að síður sjálfur. Þannig fór stuðningur við Bolsonaro vaxandi upp eftir tekjustiganum og fjölskyldumeðlimir hans hafa verið bendlaðir við spillingu.

Stefnan
Hugmyndafræði Bolsonaros er að mörgu leyti keimlík hugmyndafræði Donalds Trump, bæði í efnahagsmálum og utanríkismálum. Hann geldur varhug við auknum umsvifum Kínverja í Brasilíu og er, rétt eins og Trump, tíðrætt um viðskiptahalla og þörfina á betri samningum við Kína. Þá er Bolsonaro jafnframt einarður andstæðingur stjórnvalda í Venesúela sem gerir hann að enn álitlegri bandamanni í augum Trump-stjórnarinnar. Hann talar fjálglega um að hann sé fulltrúi hinna fátæku stétta þótt það sé fátt í stefnu hans sem bendir til þess. Þvert á móti er líklegt að aðgerðir hans komi verst niður á þeim fátækustu, einkum og sér í lagi þeldökkra í fátækrahverfum, eins og vikið er að síðar. Forsetinn hefur sömuleiðis ítrekað viðhaft neikvæð orð í garð kvenna, samkynhneigðra og trans fólks. Þrátt fyrir allt þetta mældist hann með meiri stuðning en mótframbjóðandi hans í forsetakosningunum á meðal kvenna og þeldökkra.

Glæpagengi og herforingjar
Yfirlýsingar Bolsonaros í gegnum tíðina hafa fengið marga til að óttast að lýðræði í Brasilíu muni senn líða undir lok. Hann hefur ítrekað dásamað herforingjastjórnina sem stjórnaði með harðri hendi á árunum 1964 til 1985 og í ríkisstjórn hans sitja fleiri hershöfðingjar en hafa gert síðan sú stjórn leið undir lok. Búist er við að hann gefi lögregluliði landsins, sem verður sífellt hervæddara, frítt spil í baráttunni gegn glæpagengjum með sömu afleiðingum og á Filippseyjum Dutartes þar sem þúsundir hafa verið teknar af lífi án dóms og laga. Fórnarlömb lögreglunnar, sem nú þegar er ábyrg fyrir 1 af hverjum 5 dauðsföllum af völdum skotvopna, verða líklega að miklu leyti blökkumenn í fátækrahverfunum. Þá vílar hann ekki fyrir sér að hóta pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og öðrum sem gagnrýna hann refsingum. Ekki ósvipað Donald Trump nema að munurinn er sá að bandarískar lýðræðisstofnanir eru mun sterkari en þær brasilísku og hafa náð að vega upp á móti einræðistilburðum Trumps en allóvíst er að það verði raunin í tilfelli Bolsonaro.

Gleðilegt ár?

Leiðari

Upphaf nýs árs kallar á uppgjör við árið sem kvaddi og við bregðum ekki út af þeirri venju hér á Mannlífi. Árið 2018 var fyrsta heila starfsár blaðsins í nýrri mynd og óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið vonum framar. Í könnun Gallup kom fram að 30 prósent Íslendinga lesa Mannlíf reglulega sem væntanlega þýðir að þið, lesendur góðir, kunnið að meta blaðið og það sem við bjóðum ykkur upp á. Þakka ykkur fyrir það.

Í Áramótaskaupinu fékk árið 2018 nafnbótina Ár perrans og sé flett í gegnum tölublöð Mannlífs á árinu kemur í ljós að sú nafngift er ekki fjarri lagi. Forsíðuviðtöl okkar hafa tekið á ýmsu því sem miður fer í þjóðfélaginu; áralangri misnotkun á börnum, hvernig kerfið bregst þeim sem þurfa aðstoð þess til að fá réttlætinu fullnægt, ofbeldi gegn konum, samkynhneigðum og trans fólki, þrátt fyrir endalausar yfirlýsingar um hvað Ísland sé framarlega í mannréttinda- og jafnréttismálum á heimsvísu og svona mætti lengi telja. Við fjölluðum um bakslag í #metoo-baráttunni, sviptingarnar hjá íslensku flugfélögunum, skortinn á úrræðum fyrir fólk með fíknisjúkdóma, skiptar skoðanir femínista á vændi og kynlífsiðnaðinum, pólitísk áhrif Klaustursmálsins og svo ótalmargar aðrar meinsemdir í samfélagi okkar sem of langt mál yrði að telja upp.

„Baráttunni er hvergi nærri lokið og við hér á Mannlífi munum halda áfram að fylgjast með, draga meinsemdir samfélagsins fram í dagsljósið og leita skýringa.“

Að sjálfsögðu fjölluðum við líka um alls kyns góð og gleðileg tíðindi, nema hvað? Sem betur fer var árið 2018 ekki alslæmt, fólk gerði góða hluti, fann nýjar leiðir í baráttunni gegn óréttlætinu, braut ýmsa veggi og hélt, merkilegt nokk, ótrautt áfram að berjast fyrir betri og réttlátari heimi. Þannig að þótt hin skuggalegu mál sem komu upp á yfirborðið á liðnu ári hafi stundum yfirskyggt það góða voru einnig unnir margir sigrar og þegar upp er staðið var fleira til að gleðjast yfir en harma. Við mjökumst í rétta átt þótt enn sé löng og torfær leið fram undan. Við megum ekki láta skuggana af ofbeldisverkunum og yfirganginum skyggja á þann árangur sem náðst hefur, þrátt fyrir allt.

Við megum heldur ekki einblína á hvað allt sé nú gott og allir hafi það gott á Íslandi, eins og ráðamenn hamast við að reyna að telja okkur trú um. Það er fjarri öllum sannleika. Fram undan eru hörð átök á vinnumarkaði, barátta til að reyna að minnka bilið milli þeirra sem hafa það alltof gott og hinna sem hafa það skítt. Brotalamir eru í heilbrigðiskerfinu, húsnæðismarkaðurinn hreinræktuð martröð, launamunurinn himinhrópandi, konur eru enn fyrirlitnar og svívirtar, börn og unglingar misnotuð, samkynhneigðir og trans fólk barið á götum úti og fólk með fíknisjúkdóma sett út á Guð og gaddinn, svo nokkur dæmi séu tekin. Baráttunni er hvergi nærri lokið og við hér á Mannlífi munum halda áfram að fylgjast með, draga meinsemdir samfélagsins fram í dagsljósið og leita skýringa. Auðvitað munum við einnig flytja ykkur gleðitíðindi og skemmtun.

Takk fyrir samfylgdina á liðna árinu. Gleðilegt ár.

Óvissuský í augsýn

Hvernig getur það farið saman, að vera með nær fordæmalausa jákvæða stöðu hagkerfisins, en á sama tíma að finna fyrir óvissu og titringi í efnahagslífinu?

Þannig er staðan um þessa mundir; snúin staða sem margir óttast. Mikill munur er á kröfum aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekenda og stéttarfélaga.

Erfitt er að sjá fyrir sér að sátt náist á vinnumarkaði, nema að allir sameinist um að taka sér málamiðlunarvopnið í hönd, slá af kröfum sínum og skapa nýja þjóðarsátt.

Fjármálakerfið íslenska er í miklu betri stöðu en fjármálakerfi nær allra ríkja heimsins, eftir hreinsun hrunsins, sem byggði á beitingu neyðarlaga og fjármagnshafta.

Ítarleg umfjöllun um málið er í Mannlífi sem kom út í dag og á vef Kjarnans.

Gaman að syngja með fjölskyldunni

||
||

Hinir árlegu Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða haldnir 10.-12. janúar undir stjórn danska hljómsveitarstjórans Christian Kluxen. Tveir einsöngvarar koma fram og flytja tvær aríur hvor í sínu lagi og tvo dúetta. Það eru þau Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópransöngkona og Sveinn Dúa Hjörleifsson tenór. Eins og venja er má búast við glitrandi kjólum, að hljómsveitarmeðlimir setji á sig hatta og dansarar munu skreyta rýmið.

Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa verið vinsælustu tónleik ar hljómsveitar ­innar árum saman og í ár verða haldnir fjórir slíkir tónleikar dagana 10.­12. janúar. Efnisskráin er fjölbreytt og má þar nefna valsa eftir Johann Strauss en tónleikarnir hefjast að venju á forleiknum að Leðurblök unni.

Áheyrendur fá að njóta vinsælla óperettuaría og dúetta og má þar nefna „Heut’nacht hab’ich geträumt von dir“ eftir Kálman en flestir Íslendingar ættu að þekkja það lag undir heitinu „Ég er kominn heim“.

Einnig má nefna Kampavíns­ galott og tónleikun um lýkur svo að venju á Dónárvalsinum. Tveir einsöngvarar koma fram og flytja tvær aríur hvor í sínu lagi og tvo dúetta. Það eru þau Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran­söngkona og Sveinn Dúa Hjörleifs­son tenór.

Þau munu syngja saman annars vegar dúett úr „Der Graf von Luxemburg“ eftir F. Lehár og dúett úr „Der Opernball“ eftir R. Heuberger. Dansarar munu sýna listir sínar meðan á tónleikunum stendur.

Frá Vínartónleikunum í fyrra.

Eins og hátíð Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópransöngkona er annar tveggja einsöngvara sem koma fram á tónleikun um. Hún er sjálfstætt starfandi söngkona og mun á næsta ári taka við stjórnartaumun um hjá kvennakórn um Vox feminae.

„Það sem ég kem til með að syngja á tónleikun ­ um eru aríurnar  „Klänge der Heimat“ úr Leður­blökunni eftir J. Strauss og „Meine Lippen sie Küssen so heiss“ úr óper ettunni Giuditta eftir F. Lehár,“ segir Hrafnhildur.

Margir sækja Vínartónleika á hverju ári og það er hátíðleg stund að fara á tónleikana.

„Þetta er virkilega gott tækifæri fyrir mig til þess að koma fram í íslensku tónlistarlífi en ásamt Ís­lensku óperunni er Sinfóníuhljóm­sveit Íslands flottasti vettvangurinn fyrir íslenska söngvara til þess að koma fram. Móðir mín, Ólöf Sesselja Óskarsdóttir, er sellóleik­ari í hljómsveitinni og systir mín, Arngunnur, spilar á klarínett með henni. Það er því ekki bara frábært fyrir söngferil minn að koma fram með þessari hljómsveit heldur verður líka gaman að fá að syngja með hljómsveit sem fjölskyldu meðlimir spila í.

Margir sækja Vínartónleika á hverju ári og það er hátíðleg stund að fara á tónleikana. Ég hef mætt á Vínartónleika síðan ég var lítil og það hefur alltaf verið svo spennandi og skemmtilegt – ekki bara af því að tónlistin er svo létt og leikandi heldur líka af því að það eru allir í hátíðarskapi, söngkonur eru í glitrandi kjólum, hljómsveita meðlimir setja upp hatta og dansarar koma fram. Þetta er eins og hátíð. Ég veit að það eru margir sem mæta á Vínartónleika sem fara annars ekki almennt á sígilda tónleika.“

Þetta er hressandi

Sveinn Dúa Hjörleifsson tenórsöngvari er fastráðinn við Óperuna í Leipzig. „Það er frábært að fá að koma fram á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands,“ segir hann. „Það er unaður að syngja þessi lög. Ég hef aldrei áður sungið óperettutónlist heima með þessum hætti. Ég lærði og bjó lengi í Vín og annars staðar í Austurríki og liggur því óperettuformið vel fyrir mér. Þetta er virkilega skemmtilegt og verður bara gaman. Dagskráin er vel uppsett og góð. Það er oft talað um óperettur sem léttara efni en óperur en það er ekki alveg svo einfalt.

Sveinn Dúa Hjörleifsson tenórsöngvari.

Þetta er fyrst og fremst allt öðruvísi tónlist. Oft er söguþráðurinn ekki eins hádramatískur, óperettur tengjast oft ástarsögum, bröndur­um og þjóðfélagsádeilum með leiknum talsenum inn á milli; margt sem óperur hafa yfirleitt ekki. Þær er oft tæknilega erfitt að syngja; meira swing, krefjandi á ýmsan hátt og maður þarf að vera mjög sveigjanlegur og vakandi.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Myndir / Aðsendar

Nýtum tækifærin með samstöðu

Höfundur / Katrín Jakobsdóttir, forsætisráð­herra Íslands

Við minntumst hundrað ára afmæl­is Íslands sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis á árinu sem var að líða. Saga fullveldisins er þroskasaga samfélags þar sem innviðir byggðust upp í stökk­um. Ísland umbreyttist úr hefðbundnu bændasamfélagi í þroskað nútíma samfélag í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.

Eins tóku Íslendingar stökkið frá því að vera hefðbundið veiðimanna­ samfélag sem fiskaði á meðan fisk var að fá og eyddi öllum skógum í landinu leifturhratt yfir í að vera sam­félag sem æ meir byggir á hugviti, vísindum og rannsóknum og þar sem grundvöllur lífsgæðanna er að stýra auðlindum í sátt við umhverfi og samfélag.

Íslenskt samfélag stendur á ákveðn­um tímamótum þegar kemur að uppbyggingu efnahagslífs og er að sumu leyti fyrirmynd á alþjóðavísu. Þegar kemur að mælikvörðum sem mæla hagsæld skipar Ísland sér yfirleitt í fremstu röð þjóða; hvort sem sjónum er beint að lýðheilsu, friði, aðgengi að menntun, þátttöku kvenna á atvinnumarkaði, umhverfis gæð um, aðgengi að fjarskiptum, tekjujöfnuði og fleiri þáttum sem snúa að jafnvægi efnahags, samfélags og umhverfis.

Okkar góða staða breytir því ekki að áskoranir íslensks samfélags á nýrri öld eru miklar. Fyrstu aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar af manna völdum voru kynntar í loftslagsáætlun stjórnvalda í haust. Orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis eru megináherslurnar í þessari fyrstu loftslagsáætlun stjórnvalda.

Tæknibreytingar eru einnig risavaxin áskorun þar sem við stöndum frammi fyrir gerbreytingum á vinnumarkaði, menntakerfi, samfélagi og stjórn­málum. Stjórnvöld fólu sérfræðinga­hópi að vinna greiningu á þessum áskorunum en sú greining verður kynnt snemma á nýju ári. Í fram­haldinu verður ráðist í vinnu á vegum Vísinda­ og tækniráðs, framtíðarnefndar Alþingis og með aðilum vinnumarkaðarins til að íslenskt samfélag verði sem best undirbúið fyrir nýjan veruleika. Það felast líka miklar áskoranir og tækifæri í því að skapa varanlega sátt á vinnumarkaði.

Þannig hafa stjórnvöld til að mynda sjaldan átt jafn reglulegt samráð með aðilum vinnu­markaðarins sem hefur nú þegar skilað raunverulegum breytingum. Áhersla verkalýðshreyfingarinnar á öflugra barnabótakerfi hefur skilað sér í því að á nýju ári munu ríflega 2.200 fleiri einstaklingar njóta barnabóta en gerðu á síðasta ári og barnabætur hækka þannig að tekjulágt einstætt foreldri fær sem dæmi rúmlega hundrað þúsund krónum meira í barnabætur á næsta ári.

Þá hefur virk barátta verkalýðshreyfingarin ar leitt af sér sterkari ábyrgðarsjóð launa og atvinnuleysistryggingasjóð og breytt launafyrirkomulag æðstu embættismanna. Einnig hefur samtal stjórn­valda og atvinnurekenda skilað sér í lækkun tryggingagjalds sem gagnast ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við eigum að halda áfram að byggja upp öflugt velferðar­samfélag og atvinnulíf í sátt við umhverfið. Við eigum að vinna áfram saman að samfélagslegum umbótum sem miða að því að bæta lífskjör allra landsmanna en þó mest þeirra sem lakast standa. Það gerist þó aðeins ef við erum reiðubúin að berjast fyrir okkar málum en líka að tala saman, miðla málum og ná þannig raunverulegum árangri.

Við höfum öll tækifæri til þess á nýju ári með hækkandi sól.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Slysaðist á heimsmeistaramót

|||
Mynd / Heiðdís Guðbjörg|||

Ólafía Kvaran byrjaði að hlaupa hindrunarhlaup fyrir rúmu ári og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum keppnum í Spartan-hlaupi í Bandaríkjunum. Hún er komin í fremstu röð, varð fjórða í sínum aldursflokki á heimsmeistaramótinu í sumar, en hún er rétt að byrja.

 

„Ég hef alltaf verið í íþróttum,“ segir Ólafía. „Ég held ég sé búin að prófa allt. Lengst var ég í handbolta, fyrst með Aftureldingu og svo með Fram. Ég spilaði líka með landsliðinu um tíma, held ég hafi náð að spila fjóra A-landsleiki, en ég hætti þegar ég var 25 ára. Ég eignaðist elsta strákinn minn 1994 og byrjaði eitthvað að spila eftir það en hætti svo alveg.“

Ólafía er 48 ára gömul, á þrjá syni og er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún segist reyndar alltaf nota titilinn hjúkrunarkona þegar hún kynnir sig, henni finnist það miklu hlýlegra. Hún útskrifaðist 1996 og vann lengst af á slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi en eftir nokkurra ára dvöl erlendis hóf hún störf í Læknahúsinu árið 2008 og starfar þar enn.

„Þar er ég bara í dagvinnu,“ útskýrir hún. „Það æxlaðist nefnilega þannig að á meðan við bjuggum í Bretlandi, í rúm þrjú ár, var ég ekkert að vinna úti, var að sinna heimilinu og börnunum. Maðurinn minn, Friðleifur Friðleifsson, var að vinna þar fyrir Iceland Seafood og ferðaðist mjög mikið og þegar maður býr erlendis hefur maður náttúrlega engan til að passa og hjálpa sér þannig að það var eiginlega ekki um annað að ræða. Svo æxluðust málin þannig að ég og strákarnir fluttum heim einu og hálfu ári á undan honum og þá var auðvitað ekki um það að ræða að ráða sig í vaktavinnu, ein með þrjú börn, þannig að ég sem sagt réði mig í dagvinnu í Læknahúsinu.“

Æfir fimm til sex sinnum í viku

Spurð hvort hún hafi ekki kunnað við sig í Bretlandi segir Ólafía að það hafi verið mjög þroskandi að búa erlendis og hún hafi haft mjög gott af því en hún og synirnir hafi öll verið sammála um að hafa dvölina ekki lengri. Í Bretlandi hafði Ólafía byrjað að hlaupa til að halda sér í formi og hún hélt því áfram eftir að heim var komið og þá byrjaði hún að sækja æfingar í Boot Camp.

„Þar er ég búin að æfa núna síðustu tíu árin,“ segir hún. „Og ég held ég hafi bara aldrei verið í eins góðu formi og ég er núna. Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa ekki þekkt Boot Camp fyrr.“

Félagsskapurinn og vináttan í Bootcamp er frábær sem er algjörlega ómetanlegt.

Beðin um að útskýra hvað þjálfunin í Boot Camp gengur út á er Ólafía snögg til svars. „Boot Camp er náttúrlega bara nafnið á líkamsræktarstöðinni,“ útskýrir hún. „En æfingakerfið sem þau vinna með gengur mikið út á að vinna með eigin líkamsþyngd, létta sandpoka eða ketilbjöllur og þetta eru alltaf góðir keyrslutímar í klukkutíma í senn. Ofsalega fjölbreytt og skemmtilegt æfingakerfi þar sem við æfum styrk, þrek, þol og úthald allt í bland. Enginn tími er eins og alltaf eitthvert óvænt „twist“ í boði, þetta og andinn og stemmingin er það sem ég sæki í. Ég fer þangað tvisvar til þrisvar í viku en þar fyrir utan hleyp ég tvisvar í viku, fer í teygjutíma og reyni að blanda öllu saman. Félagsskapurinn og vináttan í Bootcamp er frábær sem er algjörlega ómetanlegt.“

Ég viðra þá skoðun mína að svona ströng æfingaprógrömm virðast vera ávanabindandi og Ólafía samþykkir það með semingi. En hvað er það sem fólk verður svona heltekið af?

„Ég er ekki heltekin af þessu,“ segir hún og hlær. „Ég er það heppin að ég hef aldrei þurft að glíma við aukakíló og slíkt þannig að ég er ekki að stunda líkamsrækt til þess að vera mjó. Ég fæ stundum þá spurningu frá fólki sem þekkir mig ekki hvort þetta sé ekki bara megrunaraðferð en ég er meira að stunda líkamsrækt til að vera í góðu formi og geta tekist á við allt sem mig langar til. Ef mig langar að prófa að kafa eða fara á kajak eða eitthvað slíkt þá veit ég að ég get það og mér finnst það mikið frelsi að hafa burði til að prófa allt.“

Ég hef aldrei þurft að glíma við aukakíló og slíkt þannig að ég er ekki að stunda líkamsrækt til þess að vera mjó.

Aldrei litið á sig sem hlaupara

Ólafía hefur keppt í þrekmótaröðinni í gegnum árin og fyrir nokkrum árum byrjaði hún að hlaupa maraþon og taka þátt í utanvega- og hindrunarhlaupum um allan heim. Hvernig gerðist það?

„Eins og ég sagði þá byrjaði ég að hlaupa meðan ég bjó í Bretlandi en ég hef aldrei litið á mig sem hlaupara þótt ég sé búin að hlaupa fimm maraþon síðan 2011. Það byrjaði í rauninni, eins og allt sem ég byrja á, sem einhvers konar áskorun. Þá fór hópur úr Boot Camp og maðurinn minn, sem er rosalega mikill hlaupari, í maraþon í Berlín og ég ákvað að fara bara líka. Í maraþonheiminum eru sex stór hlaup, sem kallast „the big six“, og um leið og við vorum búin með eitt maraþon vorum við ákveðin í að fara í þau öll sex. Þá var áskorunin hafin. Ég hef í rauninni haldið mér í hlaupaformi með því að taka svona eitt maraþon á ári. Þá fylgi ég hlaupaprógrammi í átta til tíu vikur fyrir hlaup en þess á milli æfi ég bara eins og ég er vön.“

Ég spyr hvort þau hjónin hlaupi þá ekki mikið saman og það þykir Ólafíu óbærilega fyndin spurning.

„Það halda það margir en það er mikill misskilningur,“ segir hún. „Við æfum aldrei saman. Hann er miklu betri hlaupari en ég og ég á bara ekki séns á að hlaupa með honum. Við deilum auðvitað áhuganum á hlaupum og tölum heilmikið um æfingarnar og hvert við ætlum að hlaupa næst. En mér dettur ekki í hug að hlaupa með honum. Ég verð bara fúl yfir því hvað hann er miklu fljótari en ég ef ég geri það.“

Við deilum auðvitað áhuganum á hlaupum og tölum heilmikið um æfingarnar og hvert við ætlum að hlaupa næst.

Er þetta lífsstíll sem öll fjölskyldan hefur tileinkað sér? Hugsiði mikið um það hvað þið borðið og hversu mikið þið hvílið ykkur og svo framvegis?

„Jaaa, við gerum það nú ekkert meðvitað,“ segir Ólafía. „Þegar maður var yngri gat maður bara borðað hvað sem var án þess að finna fyrir því, en með aldrinum hef ég ómeðvitað sneitt fram hjá alls konar mat sem ég veit að mér líður illa af. En að því sögðu þá borða ég sjúklega mikið og borða í rauninni allt, en vissulega hefur mataræðið breyst. Ég held það gerist bara ómeðvitað þegar maður lærir á það hvað fer vel í mann og hvað ekki. Ég neita mér samt aldrei um neinn mat sem mig langar í.“

Ólafía er 48 ára gömul, móðir þriggja sona og hjúkrunarfræðingur að mennt. Undanfarin ár hefur hún ratað í fréttir vegna frábærrar frammistöðu í hindrunarhlaupum á alþjóðlegum vettvang.

Þannig að þessi íþróttaiðkun og heilbrigði lífsstíll eru ekki trúarbrögð fyrir þér?

„Nei, þetta snýst eiginlega bara um það hvað manni líður vel af þessu,“ segir Ólafía ákveðin. „Maður er kannski extra stilltur tveimur til þremur vikum fyrir stórar keppnir, en þetta eru alls ekki trúarbrögð. Manni verður að finnast þetta gaman.“

Hún viðurkennir þó að allt heimilislífið sé meira og minna undirlagt af íþróttaiðkun fjölskyldunnar, synirnir stunda allir íþróttir og Ólafía segir löngu orðið vonlaust mál að safna fjölskyldunni saman á matmálstímum og borða saman, það sé alltaf eitthvert þeirra á æfingu einhvers staðar og mjög sjaldgæft að þau séu öll heima á sama tíma.

Þetta eru alls ekki trúarbrögð. Manni verður að finnast þetta gaman.

„Allar reglur um fasta kvöldmatartíma hafa hliðrast til eftir að strákarnir urðu stærri,“ segir hún og hlær. „En við erum öll að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, svo það er ekki mikið mál.“

Krabbameinsgreiningin áskorun sem varð að taka

Árið 2015 komst Friðleifur, eiginmaður Ólafíu, í fréttir eftir að hafa lent í óútskýrðu hjartastoppi í tvígang. Það stóð ekki á fólki að kenna hlaupunum um, en enn hefur engin skýring fundist. Fyrra hjartastoppið átti sér stað á heimili hjónanna og Ólafía, sem er alvön aðstæðum sem þessum í sínu starfi, náði að bjarga honum með hjartahnoði.

„Hann er auðvitað últrahlaupari og þetta sumar, 2015, hafði hann verið að hlaupa mjög mikið,“ segir Ólafía.

„Við tókum meðal annars þátt í áheitaverkefni fyrir Útmeða nokkrum vikum fyrr þar sem hlaupið var hringinn í um landið. Við vorum tíu manns í rútu og skiptumst á um að hlaupa, en hann hljóp eðlilega mjög mikið þá. Hafði líka hlaupið ellefu ferðir í einu í Esjuhlaupinu þetta sumar og eðlilega héldu allir að hann hefði bara „hlaupið yfir sig“, það væri sko ekkert hollt og svo framvegis. En þrátt fyrir að vera rannsakaður í bak og fyrir fannst aldrei nein skýring á þessu, þetta var bara eitt af þessum óútskýrðu hjartastoppum. Það var strax settur í hann bjargráður og þetta hefur aldrei gerst aftur.“

Þótt hjartað hafi ekki stoppað aftur var veikindasögu Friðleifs ekki þar með lokið. Í ársbyrjun 2018 greindist hann með illkynja krabbamein sem hann hefur glímt við síðan.

Þrátt fyrir að vera rannsakaður í bak og fyrir fannst aldrei nein skýring á þessu, þetta var bara eitt af þessum óútskýrðu hjartastoppum.

„Hann hafði fundið hnúð á hálsinum í einhvern tíma en frestaði því að láta taka hann, enda var búið að stinga á þessu og úrskurða að það væri ekki hættulegt en hann skyldi samt láta fjarlægja það,“ útskýrir Ólafía.

„Í byrjun janúar fór hann svo í aðgerð og allt leit vel út, en svo þegar hann mætti í saumatöku viku seinna var honum sagt að þetta væri illkynja krabbamein og þá fór hið týpíska ferli í gang. Hann var sendur erlendis í jáeindaskanna og það fannst einhver pínulítill blettur í kokinu og þá byrjaði hann strax í „intensívri“ geislameðferð sem hann kláraði í vor og í eftirliti núna í haust var hann úrskurðaður krabbameinslaus.“

Ólafía segir að vissulega hafi greining eiginmannsins verið áskorun sem þurfti að takast á við en hún hafi engu að síður ákveðið að halda sínu striki og æfa fyrir Spartan-hlaup í Bandaríkjunum.

Lenti fyrir tilviljun á heimsmeistaramóti

Ólafía segir að vissulega hafi greining eiginmannsins verið áskorun sem þurfti að takast á við en hún hafi engu að síður ákveðið að halda sínu striki og æfa fyrir Spartan-hlaup í Bandaríkjunum síðasta sumar. Það ævintýri byrjaði reyndar hálfpartinn óvart eins og hún fullyrðir að sé frekar regla en undantekning í hennar lífi.

„Árið 2017 bauðst mér og tveimur vinum mínum sem ég hef æft með í mörg ár að koma og keppa á heimsmeistaramóti í Spartan-hlaupi í Lake Tahoe í Bandaríkjunum. Ég held að við höfum verið valin af því að sú sem forsvarsmenn Spartan töluðu við til að fá íslenska þátttakendur þekkti okkur öll og hafði æft með okkur, þannig að þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap. En allavega mættum við þarna til Lake Tahoe alveg blaut á bak við eyrun. Höfðum aldrei farið í Spartan-hlaup og höfðum ekki einu sinni vitað af þessu hlaupi fyrr en fjórum til fimm vikum áður en mótið hófst. Þetta var samt sjúklega spennandi og gaman og við kepptum í tvo daga.

Þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap.

Annan daginn hlupum við sem einstaklingar einhverja 29 kílómetra í fjöllunum þarna og yfir fullt af hindrunum. Seinni daginn kepptum við fyrir hönd Íslands í liðakeppni. Svo kom maður í mark, hafði aldrei gert þetta áður, en var samt samkeppnishæfur við hitt fólkið sem hafði gert þetta árum saman og var búið að vinna sér inn rétt til þátttöku á heimsmeistaramóti. Þarna kviknaði einhver neisti og ég fann að ég vildi gera meira af þessu þannig að fljótlega eftir þetta fór ég að tala um að fara að æfa Spartan-hlaup og reyna að komast á fleiri mót. Þetta var svo skemmtilegt.“

Ólafía skráði sig í Spartan-hlaup í Boston í mars og gekk svo vel að hún fann að ekki varð aftur snúið.

„Ég endaði þarna í þriðja sæti í mínum aldursflokki og vann mér þar með inn rétt til að taka þátt í meistarakeppni Norður-Ameríku í ágúst. Þannig að ég var strax komin með annað hlaup til þess að stefna að. Frá því í mars og fram í ágúst heyrði ég í ýmsum vinum mínum um það hvort þeir vildu kannski prófa að koma með og það voru allir mjög spenntir.

Við maðurinn minn vorum búin að bóka ferð til Dallas í október til að fara á tónleika og ég ætlaði náttúrlega að fara í eitt Spartan-hlaup í leiðinni. Þegar ég fór að segja fólki frá því heyrði ég strax að það var gríðarlegur áhugi á að prófa þetta. Það vatt svo upp á sig þannig að ég fór og talaði við Vita-ferðir um hvort þeir gætu sett saman pakka fyrir mig fyrir þá sem hefðu áhuga á að koma. Ég setti svo auglýsingu í bundnu máli inn á Facebook-síðu Boot Camp á fimmtudegi og ferðin var uppseld strax eftir helgina. Það endaði með því að við vorum fimmtíu og fimm manns frá Íslandi sem mættum í þetta hlaup. Það var rosalega gaman.“

Engin leið að hætta

Eftir að hafa fundið fyrir þessum gríðarlega áhuga á Spartan-hlaupum hjá Íslendingum ákvað Ólafía að fara á þjálfaranámskeið hjá Spartan í New York í lok apríl og er sem sagt komin með Spartan-þjálfararéttindi, sú eina á Íslandi sem ber þann þjálfaratitil. Ekki nóg með það heldur skellti hún sér á framhaldsnámskeið í byrjun ágúst og lauk því með glæsibrag. En ævintýrið var rétt að byrja.

„Þarna var loksins komið að meistaramóti Norður-Ameríku sem ég hafði áunnið mér rétt til að taka þátt í,“ segir hún og það er auðheyrt að þessi hlaup eiga hug hennar allan.

„Það var í lok ágúst í West-Virginia og ég var eiginlega ákveðin í því að það yrði líklega síðasta hlaupið sem ég tæki þátt í enda mjög sátt við árangurinn minn að ná inn á þetta mót. Svo gekk mér bara svo rosalega vel á þessu móti, lenti í fimmta sæti í mínum aldursflokki og með því var ég komin með þátttökurétt á heimsmeistaramótinu, svo það kom auðvitað ekki til greina að hætta þarna,“ segir hún og skellihlær.

„Heimsmeistaramótið var svo haldið í Lake Tahoe mánuði seinna, í lok september, og þar lenti ég í fjórða sæti í mínum aldursflokki. Þannig að ég er hrikalega ánægð með hvað þetta eina hlaup sem ég ætlaði að prófa þarna í mars hefur leitt mig út í. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi og engin leið að hætta.“

Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi.

Ólafía lætur sér þó ekki nægja að hlaupa sjálf. Eftir móttökurnar sem hópferðin til Dallas fékk dreif hún í því að koma á fót námskeiðum í Spartan-hlaupum þar sem hún er með Spartan-þjálfararéttindi og þó nokkur fjöldi Íslendinga tók þátt í Spartan-hlaupinu sem haldið var hérlendis í desember. Ólafía gengst við því að það sé kannski aðallega hennar áhugi sem hafi komið þessari hreyfingu af stað, hún sé búin að smita ansi marga af Spartan-bakteríunni enda valin af Spartan til að vera fulltrúi þeirra á Íslandi. En hvað er það helsta sem uppgötvun Spartan-hlaupanna hefur kennt henni sjálfri?

„Það er svo margt,“ segir hún hugsi. „Þetta hefur verið óskaplega lærdómsríkt og þroskandi. Ég var ekki vön að ferðast svona mikið ein og alls ekki vön að standa fyrir framan fólk, stjórna æfingum og tjá mig. Þannig að ég hef haft mjög gott af þessu og þetta hefur styrkt mig í þeirri trú að maður geti það sem maður ætlar sér ef mann virkilega langar til þess og leggur hart að sér.“

Árið 2019 undirlagt af Spartan

Svona í upphafi árs er við hæfi að enda viðtalið á hinni hefðbundnu spurningu um hvort Ólafía hafi strengt áramótaheit og í hverju það felist þá.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Ég strengi aldrei áramótaheit,“ segir hún ákveðin. „En það þýðir ekki að það sé ekki ýmislegt fram undan á nýja árinu. Ég er núna að skipuleggja næstu ferðir á Spartan-hlaup og stefnan er að fara bæði vor- og haustferð. Þátttakendur koma auðvitað aðallega úr Boot Camp-hópnum en það eru svo sannarlega allir velkomnir. Fólk heldur kannski að það þurfi að vera í einhverju ofurformi til að geta tekið þátt í svona hlaupum en ég held því fram að það geti þetta allir, með því að gera það á eigin forsendum. Það þurfa ekkert allir að keppa eins og ég hef verið að gera.

Meirihlutinn af iðkendum Spartan-hlaupa gerir þetta bara sér til gamans og heilsubótar og ég er sem sagt að vinna í því núna að setja saman þessar ferðir. Svo ætla ég persónulega að sjálfsögðu líka að hlaupa eitthvað og keppa. Ég þarf til dæmis auðvitað að keppa aftur á heimsmeistaramótinu næsta sumar. Spartan-hlaupadagatalið fyrir árið er reyndar nýkomið út þannig að ég er ekki búin að negla niður ákveðin hlaup en ég mun svo sannarlega hlaupa á nýja árinu. Stefnan er að árið 2019 verði algjörlega undirlagt af Spartan!“

Þú hljómar mjög ákveðin í að ná árangri, ertu sem sagt mikil keppnismanneskja?

„Já, ég er keppnismanneskja,“ segir Ólafía og glottir. „Ég þarf ekkert endilega að vinna en ég þrífst svolítið á því að keppa við aðra og standa mig vel. Ég allavega geri alltaf mitt besta og það dugar mér að vita það sjálf.“

Það er nokkuð ljóst að við höfum ekki heyrt það síðasta frá Ólafíu sem keppnismanneskju í Spartan og það verður spennandi að fylgjast með afrekum hennar á nýja árinu.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme

Fann ástina á ný

Kolbrún Pálína Helgadóttir fór úr fegurðarbransanum yfir í harðan heim fjölmiðlanna. Kaflaskil urðu hjá Kollu, eins og hún er jafnan kölluð, fyrir þremur árum þegar hún og barnsfaðir hennar skildu. Í einlægu viðtali við Vikuna lýsir hún því hvernig hún vann sig upp úr fósturstellingunni yfir í látlausara og hamingjuríkara líf.

Kolla nýtir nú reynslu sína og annarra og hefur hafið framleiðslu á sjónvarpsþáttum um skilnaði í samstarfi við Saga Film og Sjónvap Símans en auk hennar mun Kristborg Bóel Steindórsdóttir stýra þáttunum. Kolla getur ekki neitað því að hún eigi margt að áhugavert að vinna úr í reynslubankanum, samanber þáttöku hennar í fegurðarsamkeppni árið 2001.

Fyrir röð tilviljana leiddi lífið Kollu inn í fjölmiðlaheiminn en síðan hún uppgötvaði mátt pennans hefur hún byggt upp farsælan feril og unnið á mörgum stærstu fjölmiðlum landsins.

„Það er eitthvað svo merkilegt hvernig örlögin teyma mann áfram og einmitt þess vegna hef ég tamið mér að treysta svolítið lífinu. Ég vann í tískuvöruverslun þegar sú ágæta keppni, Ungfrú Ísland.is, var haldin í annað sinn. Ég ætlaði mér aldrei að taka þátt í fegurðarsamkeppni en þáttakendurnir í keppninni komu til mín í verslunina og ég aðstoðaði þær konur við að finna föt fyrir fyrstu myndatökuna í undirbúningnum.

Ég ætlaði mér aldrei að taka þátt í fegurðarsamkeppni.

Þá kom upp sú staða að ein stelpnanna sagði sig úr keppni og mér var boðið að taka þátt,“ byrjar Kolbrún Pálína og heldur áfram: „Mér fannst í fyrstu alls ekki málið að taka þátt en ég er nú svolítill uppreisnarseggur þannig að ég ákvað að lokum að slá til. Þessi keppni hafði líka meiri tískustimpil en áður hafði þekkst og lagði meira upp úr framkomu keppenda sem mér fannst svolítið spennandi.“

Til að gera langa sögu stutta bar Kolla sigur úr býtum. Titlinum fylgdi sú ábyrgð að skrifa vikulega pistla um lífið og tilveruna á strik.is, vef sem þá var og hét og í fyrsta skipti þurfti hún að tjá sig með lyklaborðið að vopni.

Eftir fréttaskrif á DV í mjög karllægu umhverfi var Kolla beðin um að ritstýra tímaritinu Nýju lífi.

„Það er gaman að segja frá því að þegar ég var rúmlega tvítug var ég spurð að því hvað væri draumastarfið mitt. Ég lét hafa það eftir mér að það væri að ritstýra tískutímariti á borð við Nýtt líf. Þeim áfanga náði ég nokkrum dögum eftir þrítugsafmælið mitt. Á þessum tíma var ég enn þá að sanka að mér reynslu og í dag hefði ég gert margt öðruvísi. Þegar ég skoða tölublöð frá þessum tíma fær maður hressilega áminningu um það hvað þetta umhverfi er hart en við vorum ansi fámennar um að skapa allt blaðið upp úr nánast engu. Ég skrifaði stóran hluta þess ein og fann ekki fyrr en eftir að starfi mínu þar lauk hvað þetta hafði tekið mikinn toll. En reynslan skapar manninn, svo mikið er víst.“

Þegar ég skoða tölublöð frá þessum tíma fær maður hressilega áminningu um það hvað þetta umhverfi er hart.

Kolla segir að þetta val sitt á starfvettvangi sé í raun svolítið merkilegt fyrir þær sakir að henni hafi aldrei verið vel við það að vera í sviðsljósinu og að í grunninn hafi hún verið mjög feimin þegar hún var yngri. Hrædd við gagnrýni og skoðanir annarra á henni, svona eins og ungar konur fara oft og tíðum í gegnum. Ferillinn hafi hins vegar einkennst af því að hún hafi alltaf verið tilbúin að ögra sjálfri sér og tilbúin fara út fyrir þægindarammann.

„Ég lít á þetta sem mína lífsins skólagöngu, ég fer alltaf með opnum hug í næsta áfanga en á sama tíma með smávegis kitl í maganum,“ segir Kolla bjartsýn en ítarlegt og spennandi viðtal við hana er í 1. tbl Vikunnar árið 2019.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun og hár / Helga Kristjáns
Fatnaður / Baum und Pferdgarten, Kultur og AndreA.
Skart / Made By Me/ Helga Sæunn

Óþarfi að gerast „ýktur mínimalisti“

|
|

Höfundurinn Sally Walforder segir nauðsynlegt að losa sig við óþarfa dót og drasl til að geta einbeitt sér að eigin vellíðan. Hún mælir því með að fólk taki sig reglulega til og hendi hlutum og fötum sem það er hætt að nota. Það getur verið hægara sagt en gert en hún gaf lesendum  lesendum The Guardian meðfylgjandi tiltektarráð.

Að sögn Sally er erfitt að hætta um leið og maður kemst upp á lagið með að henda óþarfa dóti.

„Ekki búast við að koma reiðu á heimilið á einum degi. Það tekur fólk langan tíma að sanka að sér dóti og það er ómögulegt að losa sig við allt samstundis,“ segir Sally sem mælir með að fólk byrji á að gefa sér tíu mínútur á dag í að taka til og henda dóti sem það er hætt að nota.

„Settu hluti í þrjár hrúgur. Ein er fyrir það sem þú ert viss um að vilja eiga, annað er það sem þú villt kannski eiga og sú þriðja er fyrir þá hluti sem þú ætlar að losa þig við.“

Sally mælir þó gegn því að henda hlutum í fljótfærni og bendir á að það geti verið gott að taka nokkrar vikur í að taka ákvörðun um hvort þú viljir henda eða halda hlutum ef einhver óvissa er fyrir hendi.

Sally segir mikilvægt að halda sig við efnið þegar hafist er handa við að taka til og henda gömlu dóti. „Fólk á það til að gleyma sér þegar það er að reyna að koma reiðu á heimilið. Það byrjar að máta gömul föt eða skoða gamlar myndir. Haltu þig við efnið. Önnur algeng mistök sem fólk gerir eru þau að það fer að færa hluti til, í stað þess að losa sig við hluti.“

Sally mælir þá með að fólk einbeiti sér að því að velta sér ekki upp úr mistökum sem það hefur gert með því að kaupa hluti sem það keypti en notaði aldrei.

Sally lumar á góðu ráði fyrir þá einstaklinga sem kaupa mikið af fötum: að losa sig við eina flík fyrir hverja flík sem bætist við fataskápinn. Eins mælir hún með að fólk losi sig við þær flíkur sem það hefur ekki notað í meira en sex mánuði.

Ágætt er að venja sig á að gefa flík fyrir hverja nýja flík sem maður kaupir sér.

Hvað leikföng barna varðar þá mælir Sally með að fá börnin til að taka þátt í tiltektinni. „Segðu: „Við ætlum að taka til í leikföngunum og gef nokkur til barna sem eiga minna.“ Börn bregðast vel við þessu,“ segir Sally.

Hún bætir við að það sé óþarfi að gerast „ýktur mínimalisti“ til að koma skipulagi á heimilið. Að hennar sögn snýst þetta um að vanda valið þegar kemur að eigum.

 

 

Herjaði á hús þeirra ríku í Hollywood

Innbrotsþjófur sem hefur gert fólki í Hollywood lífið leitt undanfarið hefur verið handtekinn. Um 2000 stolnir munir fundust á heimili hans og í geymslu.

Innbrotsþjófur sem hefur herjað á hús þeirra frægu og ríku í Hollywood hefur verið handtekinn. Þessu var greint frá á Twitter-síðu lögreglunnar í Los Angeles þar sem nokkrar myndir af þýfinu og þjófnum voru birtar.

Þjófurinn er 32 ára maður að nafni Benjamin Ackerman. Undanfarið hefur hann brotist inn í fjölda húsa í Hollywood og stolið skarti, listaverkum, töskum og öðrum dýrum munum. Meðal þess sem sjá má á myndum sem lögreglan birti eru handtöskur frá Hermés og demantsúr.

Ackerman er sagður hafa látist vera áhugasamur fasteignasali og fengið að skoða þær eignir sem hann braust svo síðar inn í, þannig gat hann undirbúið innbrotin vel áður en hann lét til skara skríða. Þá mun hann í sumum tilfellum hafa átt við öryggismyndavélar í kringum heimilin. Þessu er sagt frá á vef BBC.

Samkvæmt lögreglunni í Los Angeles braust Ackerman meðal annars inn til söngvaranna Ushers og Adams Lambert.

Eftir handtöku Ackerman fannst þýfið á heimili hans en einnig í geymslu sem hann hafði á leigu. Um 2000 stolnir munir hafa fundist. Lögreglan vinnur nú að því að koma stolnu mununum í réttar hendur.

„Megrunarskilaboðin eru bara ekki að virka“

Margt fólk setur sér markmið um áramótin og ætlar sér að verða betri útgáfa af sjálfum sér á nýju ári. Markmið sem snúa að heilsunni, mataræði og hreyfingu eru algeng en Gréta Jakobsdóttir, næringarfræðingur í Heilsuborg, mælir með að fólk fari ekki of geyst af stað.

Gréta lauk meistaraprófi í næringar- og matvælafræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 2008 og doktorsprófi í næringarfræði frá sama skóla 2013.

Gréta hefur reynslu af því að aðstoða fólk við að eiga í betra og heilbrigðu sambandi við mat. Hún mælir gegn því að ætla sér að sleppa alfarið ákveðnum fæðutegundum því það verður gjarnan til þess að fólk myndar slæmt samband við mat sem jafnvel geti þróast í ofát eða ofátsköst að sögn Grétu.

„Fólk er oft rosalega týnt í þessum málum enda eru alltaf að koma upp einhverjar nýjar „reglur“ sem rugla fólk,“ segir Gréta sem tekur fram að hún er alls ekki hrifin af skyndilausnum, megrunartöflum og dufti.

„Það er algengt að fólk vilji breyta miklu um áramótin og setur sér því óraunhæf markmið. Það ætlar að taka allt í gegn bara vegna þess að það er komið nýtt ár. En í raun er ártalið það eina sem hefur breyst,“ segir Gréta.

Þyngdin segir ekki allt. Fólk á frekar að hreyfa sig til að líða vel í stað þess að fókusera á til dæmis magavöðvana.

„Ég hvet fólk frekar til að spyrja sig af hverju það vill breyta einhverju og hvernig. Ekki hugsa bara út í að breyta útlitinu drastískt. Og ekki einblína á einhverja tölu á vigtinni. Sú tala gefur alls ekki skýra mynd af hvernig heilsufarslegu ástandi við erum í,“ útskýrir Gréta sem mælir eindregið gegn því að fólk setji sér þyngdartengd markmið.

„Þyngdin segir ekki allt. Fólk á frekar að hreyfa sig til að líða vel í stað þess að fókusera á til dæmis magavöðvana. Megrunarskilaboðin eru bara ekki að virka.“

Heimurinn hrynur ekki ef þú missir af æfingu

„Annað sem er gott að hugsa út í eru þau atriði sem geta staðið í vegi fyrir manni. Til dæmis hvað ætlar þú að gera ef að barnið þitt veikist eða þú þarft að skila skýrslu í vinnunni eða læra fyrir próf í skólanum? Hvað gerir þú þegar hið fullkomna plan er ekki til staðar, eins og er nú sjaldnast. Getur þú þá kannski gert eitthvað annað í staðinn? Heimurinn hrynur ekkert þó að þú missir af einni æfingu, en auðvitað villt þú ekkert að það endurtaki sig oft,“ segir Gréta.

Þegar maður ætlar sér að hætta algjörlega í einhverju ákveðnu þá er líklegt að mann langi enn meira í það.

„Hvað mataræðið varðar þá mæli ég einnig gegn því að fólk sökkvi sér í of miklar breytingar þar. Það kemur líklega í andlitið á manni seinna. Við erum vanaverur og það þarf að bera virðingu fyrir því og fara hægt og rólega í breytingar. Til dæmis er hægt að auka magn grænmetis í hádeginu og á kvöldin og stefna á að eitt millimál yfir daginn sé ávöxtur. Jafnframt drekka vatn með matnum frekar en aðra drykki,“ útskýrir Gréta.

Að hennar mati er ekki skynsamlegt að ætla sér að taka út allan sykur eða hveiti sem dæmi. „Þegar maður ætlar sér að hætta algjörlega í einhverju ákveðnu þá er líklegt að mann langi enn meira í það,“ segir Gréta. Að lokum minnir hún á að lykillinn að góðri heilsu er góður svefn. „Ef maður ætlar út í einhverjar breytingar þá er mikilvægt að sofa vel.“

Njóta áhrifavaldar trausts neytenda?

Andrea Guðmundsdóttir, doktorsnemi í alþjóðasamskipta- og fjölmiðlafræði við City University of Hong Kong, mun halda fyrirlestur á morgun þar sem hún fjallar um rannsókn sína á áhrifavöldum.

Andrea mun meðal annars varpa fram spurningum um hvað liggi að baki vinsældum áhrifavalda, hvernig hinn almenni neytandi upplifir meðmæli áhrifavalda og hvort áhrifavaldar njóti trausts neytenda. Fyrirlesturinn er haldinn undir yfirskriftinni Áhrifavaldar! Trúverðugir neytendur eða auglýsendur?

Spurð út í hvað kemur til að hún sé að rannsaka áhrifavalda segir Andrea: „Vegna þess að það er svo margt áhugavert við það hvernig venjulegt fólk, almennir neytendur, sem byrja að blogga geta öðlast svona miklar vinsældir eins og raun ber vitni. Þeir byrja kannski með nokkur hundrað fylgjendur en eru svo á skömmum tíma komnir með þúsundir fylgjenda. Og þá er áhugavert að skoða hvernig almennir neytendur upplifi meðmæli þeirra.“

Getur reynst erfitt að sjá mun á auglýsingu og meðmælum

Svokallaðir áhrifavaldar hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, sérstaklega eftir að Neytendastofa hefur þurft að minna á að duldar auglýsingar eru bannaðar og að bloggarar þurfa að fylgja ákveðnum reglum þegar kemur að því að birta umfjöllun sem fyrirtæki hafa greitt fyrir.

 Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að bloggarar séu að fá greitt fyrir vinnu sína, en vandamálið er að þetta er stundum ekki nógu skýrt.

„Sumir bloggarar eru að fá greitt fyrir færslur og það hefur verið að færast í aukana með árunum,“ segir Andrea og bendir á að stundum geti verið erfitt fyrir neytendur að gera greinarmun á keyptri umfjöllun og einlægu meðmæli bloggara.

„Samkeppnin er að aukast og auðvitað tekur mikinn tíma að blogga. Þannig að í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að bloggarar séu að fá greitt fyrir vinnu sína, en vandamálið er að þetta er stundum ekki nógu skýrt.“

Andrea bendir á að umræðan í kringum áhrifavalda hafi þróast mikið undanfarið. Aðspurð hvort það sé hennar upplifun að fólk sé almennt orðið meðvitað um viðskiptin sem eiga sér oft stað í kringum færslur bloggara segir Andrea: „Já, það virðist vera að neytendur hafi skilning á bloggarar fái gjarnan greitt fyrir umfjöllun.“

Skoðar hvernig áhrifavaldar bregðast við

Andrea byggir rannsóknarverkefni sitt á upplifun neytenda á áhrifavöldum og hefur til þess búið til mælikvarða þar sem ýmsir þættir eru skoðaðir, svo sem traust og áreiðanleiki. „Með þessum mælikvarða skoða ég hversu trúverðugir áhrifavaldar eru í augum neytenda.“

Til viðbótar við það að rannsaka hvernig neytendur upplifa áhrifavalda er Andrea einnig að rannsaka hvernig áhrifavaldar eru að bregðast við breyttri umræðu. „Áhrifavaldar vilja auðvitað halda sínum trúverðugleika þó að þeir séu að fá borgað. Trúverðugleikinn er þeim mikilvægur. Þess vegna er áhugavert að sjá hvernig þeir bregðast við. Í ljósi þessarar umræðu um „sponsaðar“ færslur þá eru áhrifavaldar gjarnan farnir að leggja meiri áherslu á að það sem þeir eru að skrifa um sé eitthvað sem þeir virkilega mæla með og nota sjálfir.“

Þetta er venjulegt fólk og við viljum gjarnan skoða fólk sem lifir svipuðum lífsstíl og við sjálf.

Að lokum, spurð út í hvort hún hafi komist að einhverri niðurstöðu um af hverju margir áhrifavaldar ná eins miklum vinsældum og raun ber vitni segist Andrea telja hluta ástæðunnar vera þá að neytendur geta frekar samsamað sig við áhrifavalda, miðað við t.d. stórstjörnur. „Þetta er venjulegt fólk og við viljum gjarnan skoða fólk sem lifir svipuðum lífsstíl og við sjálf.“ Hún bendir þó á að í þessu geti falist ákveðin mótsögn því um leið og áhrifavaldar verða mjög vinsælir fá þeir gjafir frá fyrirtækjum og greitt fyrir færslur, ólíkt hinum almenna neytanda.

Áhugasömum er bent á fyrirlestur Andreu sem haldinn verður á morgun klukkan 12.00 í stofu VHV 023 í Háskóla Íslands, fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við MBA námið sem kennt er við HÍ.

„Fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu“

Þær Erla Björnsdóttir og Þóra Hrund munu á miðvikudaginn halda opinn fyrirlestur um markmiðasetningu, tímastjórnun og jákvæða sálfræði í Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti 10.

„Þarna munum við að fara yfir mikilvæg skref til þess að hámarka árangur í markmiðasetningu,“ segir Erla en hún og Þóra eru konurnar á bak við MUNUM dagbækurnar.

Við fengum Erlu og Þóru til að gefa lesendum ráðleggingar hvað varðar markmiðasetningu en þær mæla eindregið með að fólk setji sér markmið reglulega.

„Rannsóknir hafa sýnt það að fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu. Þeir sem ná langt á sínu sviði eru sjaldnast komnir þangað fyrir einskæra tilviljun, oftast liggur þrotlaus vinna og mjög skýr markmiðasetning þar að baki. Ef við höfum skýr markmið þá erum við búin að marka okkur stefnu sem við vinnum eftir. Ef við höfum engin markmið er hætt við því að við villumst af leið og vitum ef til vill ekki hvert okkur langar að stefna,“ segir Erla. „Þess vegna er mikilvægt að fylgja ákveðnum skrefum í markmiðasetningu til þess að auka líkur á árangri.“

Gerðu „bucket“ lista

Áður en við byrjum að skrifa niður markmið okkar getur verið gott að  gefa sér góðan tíma til að hugsa um það hvað það er sem maður virkilega vill gera í lífinu, áfangar sem maður vill ná og hlutir sem manni langar að framkvæma. Til dæmis getur verið góð leið að byrja að skrifa svokallaðan „bucket“ lista sem inniheldur 100 atriði sem manni langar að upplifa og framkvæma yfir ævina. Í amstri dagsins gefum við okkur sjaldan rými til þess að hugsa á þennan hátt og margir eru sífellt að fresta draumum sínum þar til hið fullkomna augnablik kemur, en svo bara kemur það ekki og þess vegna verðum við að búa það til. Þegar við erum komin með svona lista þá höfum við góðan leiðarvísi sem við getum síðan unnið áfram með og byrjað að forgangsraða og setja markmiðin upp í rétt skref.

Sértæk og nákvæm markmið

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er að markmið séu sértæk og nákvæm. Til dæmis er markmiðið: „ég ætla að sinna vinum mínum betur“ frekar óljóst markmið sem erfitt getur verið að árangursmæla. Hins vegar ef við tökum markmiðið lengra og gerum það mælanlegt og nákvæmt er mun auðveldara að fylgja því eftir. Til dæmis mætti umorða þetta markmið og segja: „Ég ætla að sinna vinum mínum betur með því að hringja allavega einu sinni í viku í þá, hitta þá að minnsta kosti tvisvar sinnum í mánuði og bjóða í mat fjórum sinnum á árinu“. Þarna erum við komin með mun skýrara markmið sem auðveldara er að fylgja eftir.

Skrifaðu niður á blað

Þegar við skrifum niður markmiðin okkar er líklegra að við náum þeim. Þau verða raunverulegri fyrir okkur og það verður einhver mögnuð tenging sem á sér stað þegar við skrifum markmið, hugsanir og drauma niður á blað. Það er ekki sama tenging sem á sér stað þegar við skrifum eitthvað inn í tölvuna. Það sem við handskrifum festist betur í minni okkar.

Mikilvægt að búta markmiðin niður

Ef þú setur þér stór markmiðið getur verið gott að skipta því niður í nokkur minni markmið sem eru viðráðanlegri. Með þessu móti er líklegra að þú gefist ekki upp. Ef þú villt hlaupa maraþon næsta sumar getur markmið fyrir janúarmánuð til dæmis verið að ná að hlaupa 10 kílómetra í febrúar, svo 20 kílómetra í mars og koll af kolli.

Líttu til baka og endurskoðaðu

Ein ástæða þess að mörg markmið renna í sandinn er líklega sú að markmiðin eru of víðtæk og jafnvel óraunhæf. Einnig er líklegt að hluti ástæðunnar liggi í því að fólk er ekki að endurskoða markmiðin sín reglubundið og fylgjast með árangri. Markmiðin eru gjarnan sett á áramótum en eru svo ekki skoðuð aftur fyrr en um næstu áramót. Við leggjum til að endurskoða markmiðin að minnsta kosti ársfjórðungslega

Ekki gleyma að verðlauna þig

Og það sem er mögulega það allra mikilvægast: að verðlauna sjálfan sig fyrir góðan árangur. Við eigum það flest til að vilja alltaf ná aðeins lengra, gera aðeins meira og gleymum þá að staldra við og klappa okkur á bakið og njóta þess árangurs sem við höfum náð. Það getur verið sniðugt að ákveða fyrirfram hvernig við ætlum að verðlauna okkur þegar við náum markmiði. Slík gulrót getur verið hvetjandi í ferðalaginu sjálfu.

Mynd / Anni Viskus 

Málning er töfraefni

||
||

Hægt er að innrétta heimilið með skilvirkum og ódýrum hætti – þótt vissulega finnst einhverjum það vera dýrt sem öðrum finnst vera ódýrt. Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum, gefur nokkur góð ráð hvað þetta varðar.

Það þarf oft ekki að gera mikið til að breyta ásýnd heimilisins örlítið en það sem passar einum passar kannski ekki öðrum. „Það sem er ódýrt fyrir einn er dýrt fyrir annan og svo fer þetta líka eftir því hvort um er að ræða nýtt eða gamalt húsnæði,“ segir Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum. Fólk ætti að byrja á því að taka saman hvað það langar til að gera, hvað það gæti kostað og velja svo og hafna. Það er gott að vita áður út í hvað er verið að fara og sjá hvað er brýnt að gera.“

Thelma Guðmundsdóttir, innanhússarkitekt hjá Arkís arkitektum. Mynd úr einkasafni.

Hún segir að ef verið sé að tala um venjulegt heimili og fólk vilji breyta með ódýrum og á sem hagkvæmasta hátt, þá myndi hún segja að málning væri töfraorðið. „Það breytir miklu að skipta um lit á veggjum. Það eru svo margir fallegir litir í tísku í dag svo sem bláir, grænir og bleikir tónar en gráu tónarnir eru enn mjög vinsælir og flestir kjósa þá. Það er fólk sem þorir að mála í fyrrnefndu litunum eins og bleikum og grænum en ef það er ekki til miklir peningar þá vill fólk gera eitthvað sem endist og það yrði frekar leitt á slíkum litum.“

Það eru svo margir fallegir litir í tísku í dag svo sem bláir, grænir og bleikir tónar en gráu tónarnir eru enn mjög vinsælir og flestir kjósa þá.

Mála eða bæsa húsgögn

Thelma talar líka um liti á sófasettum og stólum. „Það er best að kaupa sófa og stóla í skotheldum litum svo sem í gráum eða dökkum litum.“ Hún bendir á að ef fólk er leitt á sófanum þá sé tilvalið að kaupa í hann púða eða fallegt teppi til að setja á endann og þá sé hann kominn með nýtt útlit.

Hún bendir á að uppröðun húsgagna skipti máli. „Það skiptir máli hvað tekur á móti manni þegar maður kemur inn; hvað er það fyrsta sem maður sér. Og einnig er líka skemmtilegt að breyta til stundum.“

Thelma segir að eigi fólk húsgögn eða innréttingar sem eru farin að láta á sjá sé tilvalið að lakka þau og setja nýjar höldur á skápahurðar. „Svoleiðis breytir oft öllu,“ segir hún. „Þannig er hægt að breyta innréttingu á frekar ódýran hátt miðað við að kaupa nýja. Tískan í dag er að lakka með svörtu. Það er líka hægt að skipta um flísar á milli efri og neðri skápana í eldhúsinnréttingu sem draga athyglina að sér, en það er svo mikið úrval til af skemmtilegum flísum í dag, og fá nýja borðplötu.“

Falleg lýsing breytir miklu

Thelma segir lýsingu líka skipta miklu máli á heimilum. „Mér finnst íbúðir oft vera undirlýstar, fáar dósir í loftunum og erfitt að finna ljós sem hentar rýminu. Besta lausnin er að nota brautir sem til eru bæði í svörtu og hvítu sem leysir þessi mál. Mikið úrval kastara er til í þessar brautir þar sem þeim er smellt í brautina og auðvelt er að auka við lýsingu eða breyta henni. Með nýmáluðum veggjum og uppfærðri lýsingu er strax búið að breyta umgjörðinni. Ég vil líka minna á gólf- og vegglampa sem gleymast oft en þeir skapa svo skemmtilega stemningu.“

Mér finnst íbúðir oft vera undirlýstar, fáar dósir í loftunum og erfitt að finna ljós sem hentar rýminu.

Púðar, ný gluggatjöld og mottur

Uppgerð hilla sem fékk nýtt líf með svörtu lakki. Í dag notuð sem skóhilla í forstofu. Mynd úr einkasafni.

Thelma nefnir líka gluggatjöld þegar kemur að því að breyta til á heimilinu. „Taugluggatjöld eru í tísku núna sem hanga í brautum og niður á gólf. Rúllugluggatjöld, eða „screen“, eru enn vinsæl en taugluggatjöld gera rýmið svo hlýlegt.“

Hvað gólfið varðar segir Thelma að mottur, sem eru mikið í tísku, geti breytti miklu. „Auðvitað má kaupa sérstakar mottur en það er líka hægt að fara í teppabúðir og láta skera mottur í ákveðnar stærðir en þar fæst svo mikið úrval af litum og mynstrum. Mottur eru góðar í að fela þreytt og lúin gólfefni.“

Thelma nefnir líka plöntur. „Þær lífga einhvern veginn svolítið upp á rýmið,“ segir hún.

Hvað varðar skrautmuni segir hún að það geti verið sniðugt að færa hluti til, setja jafnvel eitthvað í geymslu í einhvern tíma og skipta svo út. „Það er sniðugt að safna þessu í grúppur og láta vera andrými inn á milli.“

Hún segir að annars sé auðvitað misjafnt hvernig umhverfi fólki líði best í. „Heimili þarf yfirleitt að henta nokkrum aðilum og ekki skal gleyma að það þarf líka að virka sem heimili, til dæmis vera praktískt en hlýlegt. Heimilið á að vera griðastaður þeirra sem þar búa og samkomustaður fjölskyldunnar.“

Texti / Svava Jónsdóttir

Hin ósnertanlegu

SÍÐAST EN EKKI SÍST

Bjarni Ben er orðinn hundleiður á Klaustursmálinu. Svo sagði hann í það minnsta í Kryddsíldinni á Stöð tvö á gamlársdag og bætti við að hann teldi að venjulegt fólk fengi ekki neitt út úr umræðum um þetta mál og að á meðan við værum föst í að tala um mál eins og Klaustursmálið þá gerðist ekkert í þeim málum sem máli skiptir.

Bjarna finnst það sem sagt ekki skipta máli, eða að minnsta kosti ekki verulegu máli, að sex þingmenn setjist að sumbli á bar meðan fundur stendur í löggjafarsamkomunni sem þeir eru kjörnir til setu á og sitji þar klukkutímum saman og raði út úr sér ummælum um fólk, fyrst og fremst um konur, fatlað fólk og samkynhneigt, sem bera vitni um djúpa mannfyrirlitningu. Auk þess sem lagt er á ráðin um plott sem eru í besta falli siðlaus.

Og Sigmundur Davíð, höfðinginn á samkomunni á barnum, sagði í sama sjónvarpsþætti að það sem honum þætti standa upp úr varðandi Klausturmálið væri skinhelgi og tvískinnungsháttur. Hann hefur enda hafnað því að takast á við innihald samtalsins á Klaustri og leitast við að beina umræðunni að því hvernig þessar samræður komust fyrir augu og eyru almennings. Hann lítur á sig og sitt fólk sem ósnertanlegt meðan konan sem tók þau upp á barnum er það sannarlega ekki í hans huga.

En hvers vegna er ekki bara hægt að verða leiður á Klaustursmálinu? Það er vegna þess að samtalið á Klaustri var ekki bara drykkjuraus sem engu máli skiptir. Það hlýtur að skoðast í stærra samhengi. Orðræðan sem þarna átti sér stað tengist með beinum hætti orðræðu valdamikilla karla um allan heim og er Donald Trump þeirra þekktastur og valdamestur.

Þá hefur Klaustursmálið ekki enn farið í formlegan farveg innan Alþingis og afsökunarbeiðnir sexmenninganna hafa ekki einkennst af iðrun heldur verið með fyrirvörum. Í raun má nota orð Sigmundar sjálfs og segja að viðbrögð þeirra hafi einkennst af skinhelgi og tvískinnungshætti þeirra sem líta á sig sem ósnertanleg.

Það er þess vegna sem Klaustursmálið er eitt af þeim málum sem einmitt skipta máli fyrir almenning. Hatursorðræða valdafólks er alvarleg og má aldrei verða ósnertanleg. Eitt af stóru verkefnum ársins 2019 er að svo verði ekki.

Höfundur / Steinunn Stefánsdóttir

Sjarmi í Vesturbænum

Blaðamaður og ljósmyndari heimsóttu fallegt heimili í Vesturbæ Reykjavíkur á köldum degi í október. Þar búa þau Íris Ósk, flugfreyja og Fannar, íþróttastjóri Víkings. Húsið var byggt 1945, teiknað af Einari Sveinssyni arkitekt og hafa þau Íris og Fannar tekið íbúðina í gegn að miklu leyti.

Íbúðin er á þriðju hæð með útsýni til allra átta; að Esjunni, Keili og Bessastöðum og það er þetta fallega útsýni sem fangar athyglina samstundis þegar inn er komið. Hún er um 90 fermetrar að stærð og Íris og Fannar fengu hana afhenta í júnímánuði árið 2017. Þau segjast hafa byrjað á því að rífa allt út nema gólfefni í stofu og fataskápa í svefnherbergi. „Íbúðin varð nánast fokheld,“ segir Íris og bætir við: „Við tókum niður vegg sem var milli eldhúss og gangs og annan sem var á milli stofu og borðstofu því við vildum hafa íbúðina bjarta og opna.“

Þegar þau fluttu inn var strax hafist handa og öll fjölskyldan lagðist á eitt við að hjálpa. „Pabbi er þúsundþjalasmiður, hann getur allt!“ segir Íris. „Við áttum ótrúlega góðar stundir saman og þarna bættust við margar góðar minningar í minningabankann. Þolinmóðari maður en pabbi minn er vandfundinn, held ég,“ segir Íris og hlær. „Við ætluðum ekki að gera of mikið til að byrja með, heldur gera þetta smátt og smátt þar sem við vorum ekki búin að ákveða hvað við vildum. Baðherbergið tók lengstan tíma, mig langaði að hafa það öðruvísi en ekki þannig að ég yrði leið á því.

Pabbi er þúsundþjalasmiður, hann getur allt!

Ég sá gólfflísar sem heilluðu mig mikið og sendi hinum ýmsu fyrirtækjum mynd af þeim til að reyna að fá eins, og þeir hjá Agli Árnasyni fundu loksins það sem við leituðum að,“ segir Íris ánægð og þegar hún er spurð hvar hún sæki sér innblástur fyrir heimilið segist hún hafa legið yfir tímaritum og Instagram til að fá hugmyndir þegar þau stóðu í þessum miklu framkvæmdum.

Er framkvæmdum þá lokið? „Nei, ekki alveg, næst á dagskrá er að skipta út gólfefnum á stofu og svefnherbergi, lakka gereft og hurðir og hengja upp ljós. Annað er nokkuð tilbúið,“ segir Íris sátt.

Blaðamaður heillaðist af fallegum glugga á baðherberginu sem er hringlaga og setur skemmtilegan svip á rýmið.

Sjarminn sem fylgir erfðagripum

Fagurfræðin er Írisi ofarlega í huga þegar kemur að því að innrétta heimilið. Hún segir að sér finnist skemmtilegast að blanda saman gömlu og nýju og að hlutir sem hún hafi fengið gefins séu þýðingarmeiri fyrir hana. „Það gerðist þegar ég bjó í Noregi, mér finnst gaman að nýta gamalt og blanda því við nýtt. Borðstofuborðið okkar og stólarnir eru frá ömmu og afa Fannars.

Við gerðum borðstofusettið upp, afi minn sprautulakkaði borðið svart og amma hjálpaði okkur að pússa og mála stólana. Afi er afar hjálpsamur og handlaginn, hann hjálpaði mér meðal annars að búa til ljós í eldhúsið ásamt því að gera sófaborð eftir mínum hugmyndum þar sem við fundum ekki hið eina rétta í verslunum,“ segir hún.

Mér finnst gaman að nýta gamalt og blanda því við nýtt

Hansahillan í stofunni hafði verið á verkstæði hjá ömmu og afa Írisar ansi lengi áður en hún fékk nýtt hlutverk heima hjá unga parinu, ásamt gömlum skálum og vösum sem eru í miklu uppáhaldi hjá Írisi. „Ég er líka ansi stólasjúk, eins og sést, ég elska þessa gömlu stóla og finnst þeir hafa svo mikinn sjarma,“ segir hún.

Uppáhaldshönnuðir Írisar eru Louis Poulsen, Georg Jensen og Arne Jacobsen en hver ætli sé uppáhaldshluturinn á heimilinu? „Ætli það sé ekki spegillinn sem afi smíðaði fyrir mig ásamt Georg Jensen-kertastjakanum og vasanum í stofunni sem ég fékk í afmælisgjöf,“ segir Íris. Henni þyki skemmtilegt að blanda þessu saman, ekki halda sér í einum stíl.

„Ég er ein af þeim sem geymi alltaf eitthvað af dóti í kassa og skipti svo út annað slagið.“

Texti / Svava Marín Óskarsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Landamæraveggur Trump einangrar hann

Donald Trump heldur áfram að hrista upp í bandarískum stjórnmálum og stunda fordæmalausa pólitík.

Í desember hótaði Donald Trump á fundi með demókrötum að stöðva starfsemi ríkisstofnana fengi hann ekki fjármagn til að byggja vegg við landamæri Mexíkó. Með veggnum stendur Trump við kosningaloforð sitt og loka landamærum suðvestan megin en verðmiði veggsins eru litlar 5,6 billjónir dollara. Veggurinn var hornsteinn í innflytjendapólitík Trumps og nú virðist hann vera að byggja þennan vegg utan um sjálfan sig.

Þingið þarf að samþykkja fjármagnið, en það mætir harðri andstöðu, einkum þar sem demókratar eru nú í meirihluta eftir að repúblikanar töpuðu honum í kosningunum í nóvember. Trump framfylgdi hótun sinni og í gær var fimmtándi dagur þar sem starfsemi einhverra ríkisstofnanna var lögð niður. Á blaðamannafundi á föstudaginn lýsti hann því yfir að þetta ástand gæti staðið í mánuði eða ár þess vegna fái hann ekki peningana í framkvæmdina.

Lokunin getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér á starfsemi ýmissa ríkisstofnanna sem munu lenda í fjárskorti fljótlega. Stofnunin sem greiðir út matarmiða til um 38 milljóna tekjulágra bandarískra fjölskyldna lendir í fjárþurrð í mars og vandséð er að endurgreiðsla skatts sem telur tugi milljarða geti farið fram í apríl, ef þetta heldur áfram. Að sama skapi eru margir sem verða af launum sínum sem vinna hjá þeim ríkisstofnunum sem í hlut eiga.

Trump virðist hreint ekki viljugur í samningaviðræður við demókrata sem hafa lagt fram hugmyndir um auknar fjárveitingar við landamæraeftirlit. Mótframboð demókrata í efri deild þingsins var fyrir rúmu ári 1,6 billjónir, en sú tillaga þótti umdeild meðal demókrata. Ekki er ljóst hvort að demókratar hafi nú teflt fram einhverri málamiðlun.

Gæti lýst yfir neyðarástandi

Hvort Trump vilji taka slaginn, slagsins vegna eða til að halda fylgistölum sínum virðist hann ekki ætla að bakka með kröfu um vegginn. Meðal annars sagði Trump að hann gæti lýst yfir neyðarástandi og byggt vegginn án samþykkt þingsins og í óþökk þess. Tæknilega getur hann það á grundvelli stjórnarskrárinnar, en það vekur upp lögfræðilegar vangaveltur um hvað þýðir neyðarástand í skilningi stjórnarskrárinnar.

Tilgangur veggsins að sögn Trump er að stöðva flæði ólöglegra innflytjenda og flæði fíkniefna inn í landið en jafnframt hryðjuverk. Engin gögn eða upplýsingar hafa stutt síðustu fullyrðingu Trumps og sérfræðingar telja að veggurinn muni ekki þjóna þeim tilgangi sem að er stefnt. Trump hélt því jafnframt fram í kosningabaráttunni að Mexíkó myndi borga fyrir vegginn en ekkert slíkt er í farvatninu. Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í þinginu, hefur sagt vegginn siðlausan og demókratar eru á móti framkvæmdinni.

En störukeppni stendur yfir og óvissa um hversu lengi hún mun vara. Trump sýnir með þessu að hann hræðist ekki að misbeita valdi til að fá sínu framgengt, enda er þessi aðgerð ekkert nema valdníðsla. Með þessu reynir Trump að fram hjá leikreglum sem eru settar til þess að knýja á um aukið samráð, hluti af samspili löggjafar- og framkvæmdarvalds. Hvort hann byggi nýja veggi í kringum sig með kröfunni um vegginn verður að koma í ljós.

Að auka vellíðan í eigin lífi

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, lauk nýverið meistaranámi í jákvæðri sálfræði og er með nokkur ráð fyrir fólk til að auka vellíðan í eigin lífi sem er tilvalið í upphafi nýs árs.

„Jákvæð sálfræði sameinar í einn vettvang það sem rannsóknir á jákvæðum og heilbrigðum einstaklingum hafa leitt í ljós,“ segir Ingrid Kuhlman. „Með heitinu er ekki gefið í skyn að aðrar greinar sálfræðinnar séu neikvæðar, síður en svo. Munurinn felst í því að jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi en það sem er í ólagi; leggur áherslu á að fjölga plúsum í stað þess að fækka mínusum.“

Hún segir að jákvæð sálfræði byggi á vísindalegum rannsóknum og færi okkur hagnýtar upplýsingar og gagnreyndar aðferðir til að auka vellíðan. „Það hafa verið þróaðar ýmsar æfingar sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum og mig langar að nefna fimm mjög góðar aðferðir til að auka vellíðan í eigin lífi og fara inn í nýtt ár með jákvæðni að vopni. Þetta eru æfingar sem fólk getur gert á hverjum degi.

Ein slík æfing heitir „þrír góðir hlutir“. Æfingin felst í því að skrifa niður daglega, í lok dags til dæmis, þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver þáttur viðkomandi var í þeim. Þessi æfing hefur þau áhrif að breyta hugsunum manns þannig að í stað þess að einblína á það sem fór úrskeiðis einblínum við á það sem gekk vel. Það er mikilvægt að skrifa niður hlutdeild manns í því sem gekk vel af því að þar með beinum við athyglinni að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar, jákvæðar upplifanir.

„Jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi en það sem er í ólagi; leggur áherslu á að fjölga plúsum í stað þess að fækka mínusum.“

Í öðru lagi eru það „þakklætisæfingar“ en þá skrifar maður niður í lok dags þrennt sem hefur vakið hjá manni þakklæti. Reglubundnar og meðvitaðar þakklætishugsanir geta aukið vellíðan. Þakklæti stuðlar að því að við dveljum við og njótum jákvæðra upplifana og aðstæðna. Það að taka frá tíma til að þakka fyrir það sem maður er ánægður með eykur almenna ánægju með lífið.“

Þrír fyndnir hlutir
Ingrid segir æfinguna „þrír fyndnir hlutir“ henti sér vel, en hún felst í því að skrifa niður daglega þrjá fyndna hluti sem áttu sér stað yfir daginn. „Rannsóknir hafa sýnt að það eru sterk tengsl á milli húmors og lífsánægju. Hugsunin á bak við þetta er að húmor kallar fram gleði og gleði er mikilvægur þáttur í jákvæðum tilfinningum. Við vitum það líka að gleði getur jafnframt veitt vörn gegn neikvæðum tilfinningum og upplifunum. Bros léttir lundina og hefur jákvæð áhrif á líkama og sál.“

Ingrid segir að fjórða æfingin sem hún mæli með og veiti vellíðan sé að gera góðverk; að rétta öðrum hjálparhönd óumbeðið og gefa af sér. „Það er mikilvægt að hafa í huga að þetta þarf ekki að vera stórvægilegt. Það er hugurinn sem skiptir öllu. Það þarf oft lítið til að skapa ómælda gleði, til dæmis að gera tvöfaldan skammt af smákökum og gefa vinum, moka snjó fyrir nágrannann eða bjóða þeim sem er fyrir aftan í röðinni með fáa hluti í innkaupakerrunni að vera á undan. Það að gera góðverk leiðir til þess að við upplifum fleiri jákvæðar tilfinningar eins og hamingju, gleði og ánægju. Með því að gera góðverk getum við gert heiminn örlítið betri.“

Fimmta æfingin snýst um að sýna góðvild í eigin garð. „Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að neikvæð innri gagnrýni getur dregið úr frammistöðu og að það er mikilvægt að mæta neikvæðum tilfinningum með mildi, hlýju og vinsemd. Góðvild í eigin garð samanstendur af þremur þáttum: Í fyrsta lagi að sýna sjálfum sér mildi og skilning og skipta sjálfsgagnrýni út fyrir mildari og jákvæðari orð, í öðru lagi að viðurkenna að þjáning og það að líða illa er sammannleg reynsla og í þriðja lagi að fylgjast með neikvæðum tilfinningum sem vakna hjá manni án þess að ýkja þær, dæma, eða bæla. Þetta snýst í stuttu máli um það að standa með sér í blíðu og stríðu og koma fram við okkur sjálf eins og við myndum koma fram til dæmis við góðan vin.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Mynd / Úr einkasafni

„Hlaupin gefa mér orku“

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, fylgir sannarlega heilbrigðum lífsstíl. Hún hefur ekki drukkið áfengi um árabil og hreyfing er fyrirferðarmikill hluti af lífi hennar. Hlaupin skipa þar stóran sess og markmið komandi árs spennandi.

„Ég er líklega full bjartsýn fyrir árið en ég er skráð í Boston-maraþon í apríl, langt og strangt utanvegahlaup í Sviss í júní og svo loks skemmtilegt utanvegahlaup á Ítalíu í október með Hlaupahópi FH sem verður vonandi toppurinn á árinu. Ég mæti þangað hvort sem ég kemst á startlínu eða ekki, enda frábær félagsskapur,“ segir Valgerður sem reynir að mæta á æfingar með hlaupahópnum tvisvar til fjórum sinnum í viku og taka þátt í ýmsum götuhlaupum þegar hún hefur heilsu og tíma til. „Ég mun fylgja þeim plönum sem lögð eru fyrir mig, þakklát fyrir hvert skiptið sem ég get hlaupið.“

Hleypur 2000 km á ári
Árið 2018 var gott hlaupaár hjá Valgerði og hún náði oft í verðlaunasæti í keppnishlaupum fyrir aldursflokk, m.a. í Gamlárshlaupinu, vetrarseríunni Powerade og hlaupaseríu Bose-HHFH og heilu maraþoni í Reykjavíkumaraþoni. „Ég hljóp líka Hvítasunnuhlaup Hauka, hálft maraþon í Miðnæturhlaupinu, Laugaveginn (54 km) í þriðja sinn, Dyrfjallahlaupið (24 km) með systrum mínum, Adidas-Boost hlaupið, Hjartadagshlaupið og heilt maraþon í Haustmaraþoninu í þriðja sinn,“ segir Valgerður sem hefur hlaupið um 2000 km á ári síðustu þrjú árin.

„Hlaupin gefa mér orku, sérstaklega þegar ég er þreytt og „streitt“ sem oft er, þá geri ég allt til að komast á æfingu og endurnærist. Það er vegna hreyfingarinnar en ekki síður frábærs félagsskapar með hlaupavinum mínum í Hlaupahópi FH. Hlaupin gefa mér líka gleði og ánægju, frið og spennu. Ég er viðkvæm í baki og er þakklát þegar það stoppar mig ekki af, hreyfingin er mér nauðsynleg einmitt vegna þess. Mér finnst gaman að reyna á mig og gera mitt besta þann daginn, það er alltaf nóg. Fjölbreytnin er skemmtileg og utanvegahlaup eða fjallahlaup eru allra skemmtilegust,“ segir Valgerður fer inn í nýja árið full tilhlökkunar.

Vakti heila nótt án þess að loka bókinni

Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, leikhús- og kvikmyndaframleiðandi og meistaranemi við Columbia-háskóla segir að áhrifaríkar bækur séu þær bækur sem ná bæði að víkka út sjóndeildarhringinn og skilja eftir það skýrar myndir í huganum að maður geti heimsótt sögupersónurnar árum og jafnvel áratugum síðar. Hér segir hún lesendum Mannlífs frá þeim bókum sem hafa haft mest áhrif á hana.

Ögraði sjálfri sér ellefu ára
„Þegar ég var ellefu ára vildi ég ögra sjálfri mér og fór á bókasafnið í leit að erfiðustu bók sem ég gæti lesið. Salka Valka eftir Halldór Laxness varð fyrir valinu og virkaði sem tímavél, en ég ferðaðist bæði aftur í tímann með sögunni, og eltist alveg um tíu ár, að eigin mati.“

Sá leikhúsið í nýju ljósi
„Leikhúsfræðibókin sem hefur haft einna mest áhrif á mig er Tóma rýmið eftir leikstjórann Peter Brook. Ég las bókina fyrst tvítug og man hvernig hún fékk mig til að hugsa um leikhús á nýjan hátt. Hugmyndir Brooks um samband leikara og áhorfenda hafa fylgt mér, og fengið mig til þess vinna að sýningum sem endurhugsa þetta samband og bjóða jafnvel áhorfendum að stíga inn í sviðsljósið.“

Illilega blekkt
„Þriðja bókin er Hvítfeld – fjölskyldusaga eftir Kristínu Eiríksdóttur, sem segir frá fyrrum fimleikastjörnunni og verðandi geimfaranum Jennu. Í gegnum rússíbanareið bókarinnar, frá Texas til Reykjavíkur, var ég algjörlega blekkt af aðalpersónunni, sem og höfundinum. Samfélagsgagnrýni bókarinnar er hnífbeitt og beinist að staðalímyndum kvenna, kynbundnu ofbeldi og því hvernig fólk reynir að fegra eigið líf. Öllu er þessu komið til skila í gegnum ótrúlegt tímaflakk og meistaralega spunninn lygavef, sem fær mann til að efast um allt og ekkert, og vaka heila nótt án þess að loka bókinni.“

Mynd / Kári Björn Þorleifsson

Shaker-hönnun í nútímalegum búningi

The Shakers eins og þeir eru yfirleitt kallaðir hafa löngum verið skilgreindir sem fyrstu mínimalistarnir og hafa hönnuðir ósjaldan litið til þeirra í leit að innblæstri. Áherslur Shaker-trúarinnar voru einfaldleiki, skírlífi, heiðarleiki og vinna og var flokkurinn þekktur víðsvegar fyrir einstaklega mikla vandvirkni og fallegt handbragð í allri sinni smíði. Verkefnið Furnishing Utopia var sett á laggirnar árið 2017 og er einskonar óður til þessara fyrstu mínimalista.

Það var unnið í nánu samstarfi við tvö vel varðveitt Shaker-samfélög í Bandaríkjunum, Mt. Lebanon Shaker Museum í uppsveitum New York ríkis og Hancock Shaker Village í Berkshires-hálendinu í Massachusetts. Þeir hönnuðir og hönnnunarteymi sem valin voru til þátttöku í verkefninu hófu ferlið á vikulangri vinnustofu á svæðum fyrrnefndra Shaker-samfélaga. Þar höfðu hönnuðir ótakmarkaðan aðgang að gagnagrunni sem inniheldur alla skrásetta hluti smíðaða af Shakerunum, og gátu þeir jafnframt átt mikilsverðar samræður við sýningarstjóra safnanna sem búa yfir mikilli þekkingu um sögu og menningu trúflokksins.


Í framhaldi vinnustofunnar bjuggu hönnuðurnir til hversdagslega hluti, allt frá kústum og körfum yfir stærri muni eins og stóla, borð og bekki. Leitast var svara við því hvernig Shakerarnir þróuðu svo tímalausa, afturhaldssama og nútímalega hönnun á blómatíma sínum og reyndu hönnuðir að túlka hugvitsemi og siðfræði Shaker-stílsins í hlutum sem myndu passa inn í daglegt líf í nútímanum.


Þrjár sýningar undir formerkjum Furnishing Utopia hafa verið haldnar nú þegar og hefur markmið verkefnisins verið að skapa nútímalega innanstokksmuni innblásna af hinum upprunalegu Shaker-munum, sem og að varpa ljósi á þau áhrif sem Shaker-trúflokkurinn hefur haft á samtímahönnun. Hver sýning hefur haft sitt þema eða ramma sem hönnuðir vinna út frá og í þeirru nýjustu, „Furnishing Utopia 3.0: Hands to work“, var unnið með húsverk og þá muni sem þeim tengjast.


Verkefnið hefur vakið gríðarmikla athygli og verið sýnt á Stockholm Furniture & Light Fair, Sight Unseen Offsite á tískuvikunni í New York og í Hancock Shaker Village í Massachusetts í samhengi við hina upprunalegu Shaker-hluti. Meðal þeirra hönnuða sem tekið hafa þátt í Furnishing Utopia má nefna; Andersen & Voll, Hallgeir Homstvedt, Ladies & Gentlemen Studio, Studio Gorm, Norm Architects, Pat Kim, Bertjan Pot, Earnest Studio og svo lengi mætti telja. Hver einasti hlutur sem sýndur hefur verið á Furnishing Utopia varpar ljósi á þau áhrif sem Shaker-trúflokkurinn hefur haft á samtímahönnun.

Shaker-trúin náði hápunkti á árunum 1820-1860
Shaker-trúflokkurinn var fyrst um sinn þekktur undir nafninu „Shaking Quakers“ og var það tilkomið vegna tryllingslegs dans sem stundaður var við athafnir þeirra. Saga flokksins hófst snemma á 18. öld og á rætur sínar að rekja til Englands. Stuttu fyrir aldamótin 1800 flutti hann og settist að í efri byggðum New York-ríkis. Shaker-trúflokkurinn breiddi úr sér og árið 1826 var vitað um 18 Shaker-samfélög í átta ríkjum Bandaríkjanna en í dag er aðeins vitað um tvo eftirlifandi meðlimi trúarinnar. Shaker-trúin náði hápunkti sínum á árunum 1820-1860 og var það þá sem húsgagnahönnun þeirra og -smíði fór að vekja athygli. Húsgögnin áttu það sameiginlegt að vera meðfærileg og látlaus, þá helst úr ljósum og léttum við eins og hlyn eða furu. Fúnksjónalisminn var í hávegum hafður og var ávallt leitað sniðugra lausna til að sníða húsgögnin eftir þörfum hverju sinni. Mikilvægt var að sem flestir innanstokksmunir gætu verið hengdir upp á einskonar snagabretti sem lágu um veggina endilanga og voru einkennandi í híbýlum þeirra, en það að hengja hlutina upp á þennan hátt sparaði bæði pláss og auðveldaði þrif. Fjölmargar uppfinningar hafa verið kenndar við Shakerana, m.a. fyrsta þvottavélin, hringsög, flatur kústur og þvottaklemman. Stólarnir þeirra voru þekktastir og vinsælastir en þeir eru tiltölulega auðþekkjanlegir; setan ofin og bakið svipar til stiga enda kallaðir „ladderback chairs“. Áhrif Shaker-stílsins má greina víða, t.d. í skandínavískum viðarhúsgögnum eftirstríðsáranna. Það má með sanni segja að þessi litli trúflokkur hafi haft veruleg og langvarandi áhrif á hönnunarsöguna.

Fjölgar í hópi manna sem hata lýðræði

Ein af fyrstu Twitter-færslum Donalds Trump á nýju ári voru hamingjuóskir til Jair Bolsonaro sem skömmu áður hafði verið svarinn í embætti forseta Brasilíu. Það var engin hending því á milli þeirra er gagnkvæm aðdáun og hefur Bolsonaro verið nefndur „brasilíski Trump“.

Í honum sér Trump náinn bandamann og skoðanabróður og var utanríkisráðherrann Mike Pompeo sendur til að vera viðstaddur innsetningarathöfnina. Á meðal annarra þjóðarleiðtoga sem voru viðstaddir athöfnina voru Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. Gestalistinn gefur ákveðna innsýn í hugmyndafræði Bolsonaros sem andstæðingar hans óttast að muni binda enda á lýðræði í Brasilíu.
Hugmyndafræði Bolsonaros er af sama meiði og annarra þjóðarleiðtoga sem hafa sprottið upp víða um heim að undanförnu. Þetta eru, auk þeirra Trump, Netanyahu og Orban, (karl)menn eins og Erdogan í Tyrklandi og Duterte á Filippseyjum – þjóðernissinnaðir popúlistar sem reka fleyg í þjóðir sínar og ala á sundrungu og ótta gagnvart raunverulegum og ímynduðum óvinum, nær undatekningarlaust útlendingum, minnihlutahópum og óskilgreindri elítu. Þrátt fyrir að vera nær alltaf hluti, eða dyggilega studdir, af hinni raunverulegu elítu.
Bolsonaro er þar engin undantekning. Hann hefur málað fjölmiðla, menntamenn og grasrótarsamtök sem óvini ríkisins og hótað þeim jafnt sem pólitískum andstæðingum fangelsisrefsingum þegar hann kemst til valda. Hann talar fyrir íhaldssömum kristilegum gildum, fer ekki leynt með andúð sína á samkynhneigðum og trans fólki, er harður andstæðingur fóstureyðinga og hefur lýst yfir stríði gegn pólitískri rétthugsun sem hann telur ógna grunngildum Brasilíu. Umhverfissinnar og mannréttindasamtök óttast líka stefnu hans því hann hefur heitið því að slaka verulega á löggjöf í því skyni að fjölga leyfum til hvers konar námuvinnslu, meðal annars á hinu viðkvæma Amazon-svæði. Þar er að finna fjölda frumbyggja sem hafa lifað í einangrun en Bolsonaro hefur talað um að „aðlaga þá samfélaginu“ sem margir óttast að þýði einfaldlega útrýmingu þessara hópa.
Þrátt fyrir allt ofantalið nýtur Bolsonaro hylli meðal flestra þjóðfélagshópa. Almenningur í Brasilíu er orðinn langþreyttur á getuleysi og spillingu hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka sem og gegndarlausum glæpum. Í þeim efnum hefur Bolsonaro heitið að taka til óspilltra málanna.

Spilling og glæpir
Brasilía er fimmta fjölmennasta land heims og áttunda stærsta hagkerfi veraldar, það langstærsta í Suður-Ameríku. Þróun mála þar hefur þess vegna gríðarlega mikil áhrif á alþjóðamálin. Blómaskeið Brasilíu var í upphafi aldarinnar undir stjórn Fernando Henrique Cardoso og Lula da Silva, hagvöxtur var mikill og milljónum tókst að brjótast úr fátækt. En síðan hann lét af embætti hefur leiðin legið þráðbeint niður á við. Fjármálakreppan skall á Brasilíu af fullu afli árið 2013, misskipting auðs er æpandi og spilling hefur grasserað í stjórnmálum og viðskiptalífi. Lula sjálfur var dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir spillingu og peningaþvætti og eftirmaður hans, Dilma Rousseff var hrakin úr embætti árið 2016. Samhliða því hefur glæpatíðni aukist hratt og á Brasilía 17 af þeim 50 borgum í heiminum þar sem morðtíðni er hæst.

Árásin og bakgrunnur, elítan
Það er upp úr þessum jarðvegi sem Jair Bolsonaro skýst upp á stjörnuhimininn. Hann hefur setið á þingi síðan 1990 með lítt eftirtektarverðum árangri og helstu afrek hans voru að hafa setið á þingi fyrir átta mismunandi flokka. Hann varð hins vegar óvænt stjarna kosningabaráttunnar í fyrra með óheflaðri framkomu, stóryrtum yfirlýsingum og snjallri kosningabaráttu á samfélagsmiðlum. Um leið aflaði hann sér óvina og í september lifði hann naumlega af banatilræði þegar hann var stunginn á kvið eftir kosningafund í borginni Juiz de Fora. Rétt eins og Donald Trump fór hann fram undir þeim merkjum að ráðast gegn spillingu og brjóta elítuna á bak aftur (sbr. „drain the swamp“) en tilheyrir henni engu að síður sjálfur. Þannig fór stuðningur við Bolsonaro vaxandi upp eftir tekjustiganum og fjölskyldumeðlimir hans hafa verið bendlaðir við spillingu.

Stefnan
Hugmyndafræði Bolsonaros er að mörgu leyti keimlík hugmyndafræði Donalds Trump, bæði í efnahagsmálum og utanríkismálum. Hann geldur varhug við auknum umsvifum Kínverja í Brasilíu og er, rétt eins og Trump, tíðrætt um viðskiptahalla og þörfina á betri samningum við Kína. Þá er Bolsonaro jafnframt einarður andstæðingur stjórnvalda í Venesúela sem gerir hann að enn álitlegri bandamanni í augum Trump-stjórnarinnar. Hann talar fjálglega um að hann sé fulltrúi hinna fátæku stétta þótt það sé fátt í stefnu hans sem bendir til þess. Þvert á móti er líklegt að aðgerðir hans komi verst niður á þeim fátækustu, einkum og sér í lagi þeldökkra í fátækrahverfum, eins og vikið er að síðar. Forsetinn hefur sömuleiðis ítrekað viðhaft neikvæð orð í garð kvenna, samkynhneigðra og trans fólks. Þrátt fyrir allt þetta mældist hann með meiri stuðning en mótframbjóðandi hans í forsetakosningunum á meðal kvenna og þeldökkra.

Glæpagengi og herforingjar
Yfirlýsingar Bolsonaros í gegnum tíðina hafa fengið marga til að óttast að lýðræði í Brasilíu muni senn líða undir lok. Hann hefur ítrekað dásamað herforingjastjórnina sem stjórnaði með harðri hendi á árunum 1964 til 1985 og í ríkisstjórn hans sitja fleiri hershöfðingjar en hafa gert síðan sú stjórn leið undir lok. Búist er við að hann gefi lögregluliði landsins, sem verður sífellt hervæddara, frítt spil í baráttunni gegn glæpagengjum með sömu afleiðingum og á Filippseyjum Dutartes þar sem þúsundir hafa verið teknar af lífi án dóms og laga. Fórnarlömb lögreglunnar, sem nú þegar er ábyrg fyrir 1 af hverjum 5 dauðsföllum af völdum skotvopna, verða líklega að miklu leyti blökkumenn í fátækrahverfunum. Þá vílar hann ekki fyrir sér að hóta pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og öðrum sem gagnrýna hann refsingum. Ekki ósvipað Donald Trump nema að munurinn er sá að bandarískar lýðræðisstofnanir eru mun sterkari en þær brasilísku og hafa náð að vega upp á móti einræðistilburðum Trumps en allóvíst er að það verði raunin í tilfelli Bolsonaro.

Gleðilegt ár?

Leiðari

Upphaf nýs árs kallar á uppgjör við árið sem kvaddi og við bregðum ekki út af þeirri venju hér á Mannlífi. Árið 2018 var fyrsta heila starfsár blaðsins í nýrri mynd og óhætt að segja að viðtökurnar hafi verið vonum framar. Í könnun Gallup kom fram að 30 prósent Íslendinga lesa Mannlíf reglulega sem væntanlega þýðir að þið, lesendur góðir, kunnið að meta blaðið og það sem við bjóðum ykkur upp á. Þakka ykkur fyrir það.

Í Áramótaskaupinu fékk árið 2018 nafnbótina Ár perrans og sé flett í gegnum tölublöð Mannlífs á árinu kemur í ljós að sú nafngift er ekki fjarri lagi. Forsíðuviðtöl okkar hafa tekið á ýmsu því sem miður fer í þjóðfélaginu; áralangri misnotkun á börnum, hvernig kerfið bregst þeim sem þurfa aðstoð þess til að fá réttlætinu fullnægt, ofbeldi gegn konum, samkynhneigðum og trans fólki, þrátt fyrir endalausar yfirlýsingar um hvað Ísland sé framarlega í mannréttinda- og jafnréttismálum á heimsvísu og svona mætti lengi telja. Við fjölluðum um bakslag í #metoo-baráttunni, sviptingarnar hjá íslensku flugfélögunum, skortinn á úrræðum fyrir fólk með fíknisjúkdóma, skiptar skoðanir femínista á vændi og kynlífsiðnaðinum, pólitísk áhrif Klaustursmálsins og svo ótalmargar aðrar meinsemdir í samfélagi okkar sem of langt mál yrði að telja upp.

„Baráttunni er hvergi nærri lokið og við hér á Mannlífi munum halda áfram að fylgjast með, draga meinsemdir samfélagsins fram í dagsljósið og leita skýringa.“

Að sjálfsögðu fjölluðum við líka um alls kyns góð og gleðileg tíðindi, nema hvað? Sem betur fer var árið 2018 ekki alslæmt, fólk gerði góða hluti, fann nýjar leiðir í baráttunni gegn óréttlætinu, braut ýmsa veggi og hélt, merkilegt nokk, ótrautt áfram að berjast fyrir betri og réttlátari heimi. Þannig að þótt hin skuggalegu mál sem komu upp á yfirborðið á liðnu ári hafi stundum yfirskyggt það góða voru einnig unnir margir sigrar og þegar upp er staðið var fleira til að gleðjast yfir en harma. Við mjökumst í rétta átt þótt enn sé löng og torfær leið fram undan. Við megum ekki láta skuggana af ofbeldisverkunum og yfirganginum skyggja á þann árangur sem náðst hefur, þrátt fyrir allt.

Við megum heldur ekki einblína á hvað allt sé nú gott og allir hafi það gott á Íslandi, eins og ráðamenn hamast við að reyna að telja okkur trú um. Það er fjarri öllum sannleika. Fram undan eru hörð átök á vinnumarkaði, barátta til að reyna að minnka bilið milli þeirra sem hafa það alltof gott og hinna sem hafa það skítt. Brotalamir eru í heilbrigðiskerfinu, húsnæðismarkaðurinn hreinræktuð martröð, launamunurinn himinhrópandi, konur eru enn fyrirlitnar og svívirtar, börn og unglingar misnotuð, samkynhneigðir og trans fólk barið á götum úti og fólk með fíknisjúkdóma sett út á Guð og gaddinn, svo nokkur dæmi séu tekin. Baráttunni er hvergi nærri lokið og við hér á Mannlífi munum halda áfram að fylgjast með, draga meinsemdir samfélagsins fram í dagsljósið og leita skýringa. Auðvitað munum við einnig flytja ykkur gleðitíðindi og skemmtun.

Takk fyrir samfylgdina á liðna árinu. Gleðilegt ár.

Óvissuský í augsýn

Hvernig getur það farið saman, að vera með nær fordæmalausa jákvæða stöðu hagkerfisins, en á sama tíma að finna fyrir óvissu og titringi í efnahagslífinu?

Þannig er staðan um þessa mundir; snúin staða sem margir óttast. Mikill munur er á kröfum aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekenda og stéttarfélaga.

Erfitt er að sjá fyrir sér að sátt náist á vinnumarkaði, nema að allir sameinist um að taka sér málamiðlunarvopnið í hönd, slá af kröfum sínum og skapa nýja þjóðarsátt.

Fjármálakerfið íslenska er í miklu betri stöðu en fjármálakerfi nær allra ríkja heimsins, eftir hreinsun hrunsins, sem byggði á beitingu neyðarlaga og fjármagnshafta.

Ítarleg umfjöllun um málið er í Mannlífi sem kom út í dag og á vef Kjarnans.

Gaman að syngja með fjölskyldunni

||
||

Hinir árlegu Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða haldnir 10.-12. janúar undir stjórn danska hljómsveitarstjórans Christian Kluxen. Tveir einsöngvarar koma fram og flytja tvær aríur hvor í sínu lagi og tvo dúetta. Það eru þau Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópransöngkona og Sveinn Dúa Hjörleifsson tenór. Eins og venja er má búast við glitrandi kjólum, að hljómsveitarmeðlimir setji á sig hatta og dansarar munu skreyta rýmið.

Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa verið vinsælustu tónleik ar hljómsveitar ­innar árum saman og í ár verða haldnir fjórir slíkir tónleikar dagana 10.­12. janúar. Efnisskráin er fjölbreytt og má þar nefna valsa eftir Johann Strauss en tónleikarnir hefjast að venju á forleiknum að Leðurblök unni.

Áheyrendur fá að njóta vinsælla óperettuaría og dúetta og má þar nefna „Heut’nacht hab’ich geträumt von dir“ eftir Kálman en flestir Íslendingar ættu að þekkja það lag undir heitinu „Ég er kominn heim“.

Einnig má nefna Kampavíns­ galott og tónleikun um lýkur svo að venju á Dónárvalsinum. Tveir einsöngvarar koma fram og flytja tvær aríur hvor í sínu lagi og tvo dúetta. Það eru þau Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran­söngkona og Sveinn Dúa Hjörleifs­son tenór.

Þau munu syngja saman annars vegar dúett úr „Der Graf von Luxemburg“ eftir F. Lehár og dúett úr „Der Opernball“ eftir R. Heuberger. Dansarar munu sýna listir sínar meðan á tónleikunum stendur.

Frá Vínartónleikunum í fyrra.

Eins og hátíð Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópransöngkona er annar tveggja einsöngvara sem koma fram á tónleikun um. Hún er sjálfstætt starfandi söngkona og mun á næsta ári taka við stjórnartaumun um hjá kvennakórn um Vox feminae.

„Það sem ég kem til með að syngja á tónleikun ­ um eru aríurnar  „Klänge der Heimat“ úr Leður­blökunni eftir J. Strauss og „Meine Lippen sie Küssen so heiss“ úr óper ettunni Giuditta eftir F. Lehár,“ segir Hrafnhildur.

Margir sækja Vínartónleika á hverju ári og það er hátíðleg stund að fara á tónleikana.

„Þetta er virkilega gott tækifæri fyrir mig til þess að koma fram í íslensku tónlistarlífi en ásamt Ís­lensku óperunni er Sinfóníuhljóm­sveit Íslands flottasti vettvangurinn fyrir íslenska söngvara til þess að koma fram. Móðir mín, Ólöf Sesselja Óskarsdóttir, er sellóleik­ari í hljómsveitinni og systir mín, Arngunnur, spilar á klarínett með henni. Það er því ekki bara frábært fyrir söngferil minn að koma fram með þessari hljómsveit heldur verður líka gaman að fá að syngja með hljómsveit sem fjölskyldu meðlimir spila í.

Margir sækja Vínartónleika á hverju ári og það er hátíðleg stund að fara á tónleikana. Ég hef mætt á Vínartónleika síðan ég var lítil og það hefur alltaf verið svo spennandi og skemmtilegt – ekki bara af því að tónlistin er svo létt og leikandi heldur líka af því að það eru allir í hátíðarskapi, söngkonur eru í glitrandi kjólum, hljómsveita meðlimir setja upp hatta og dansarar koma fram. Þetta er eins og hátíð. Ég veit að það eru margir sem mæta á Vínartónleika sem fara annars ekki almennt á sígilda tónleika.“

Þetta er hressandi

Sveinn Dúa Hjörleifsson tenórsöngvari er fastráðinn við Óperuna í Leipzig. „Það er frábært að fá að koma fram á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands,“ segir hann. „Það er unaður að syngja þessi lög. Ég hef aldrei áður sungið óperettutónlist heima með þessum hætti. Ég lærði og bjó lengi í Vín og annars staðar í Austurríki og liggur því óperettuformið vel fyrir mér. Þetta er virkilega skemmtilegt og verður bara gaman. Dagskráin er vel uppsett og góð. Það er oft talað um óperettur sem léttara efni en óperur en það er ekki alveg svo einfalt.

Sveinn Dúa Hjörleifsson tenórsöngvari.

Þetta er fyrst og fremst allt öðruvísi tónlist. Oft er söguþráðurinn ekki eins hádramatískur, óperettur tengjast oft ástarsögum, bröndur­um og þjóðfélagsádeilum með leiknum talsenum inn á milli; margt sem óperur hafa yfirleitt ekki. Þær er oft tæknilega erfitt að syngja; meira swing, krefjandi á ýmsan hátt og maður þarf að vera mjög sveigjanlegur og vakandi.“

Texti / Svava Jónsdóttir
Myndir / Aðsendar

Nýtum tækifærin með samstöðu

Höfundur / Katrín Jakobsdóttir, forsætisráð­herra Íslands

Við minntumst hundrað ára afmæl­is Íslands sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis á árinu sem var að líða. Saga fullveldisins er þroskasaga samfélags þar sem innviðir byggðust upp í stökk­um. Ísland umbreyttist úr hefðbundnu bændasamfélagi í þroskað nútíma samfélag í kjölfar seinni heimsstyrjaldar.

Eins tóku Íslendingar stökkið frá því að vera hefðbundið veiðimanna­ samfélag sem fiskaði á meðan fisk var að fá og eyddi öllum skógum í landinu leifturhratt yfir í að vera sam­félag sem æ meir byggir á hugviti, vísindum og rannsóknum og þar sem grundvöllur lífsgæðanna er að stýra auðlindum í sátt við umhverfi og samfélag.

Íslenskt samfélag stendur á ákveðn­um tímamótum þegar kemur að uppbyggingu efnahagslífs og er að sumu leyti fyrirmynd á alþjóðavísu. Þegar kemur að mælikvörðum sem mæla hagsæld skipar Ísland sér yfirleitt í fremstu röð þjóða; hvort sem sjónum er beint að lýðheilsu, friði, aðgengi að menntun, þátttöku kvenna á atvinnumarkaði, umhverfis gæð um, aðgengi að fjarskiptum, tekjujöfnuði og fleiri þáttum sem snúa að jafnvægi efnahags, samfélags og umhverfis.

Okkar góða staða breytir því ekki að áskoranir íslensks samfélags á nýrri öld eru miklar. Fyrstu aðgerðir til að takast á við loftslagsbreytingar af manna völdum voru kynntar í loftslagsáætlun stjórnvalda í haust. Orkuskipti í samgöngum og aukin kolefnisbinding með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis eru megináherslurnar í þessari fyrstu loftslagsáætlun stjórnvalda.

Tæknibreytingar eru einnig risavaxin áskorun þar sem við stöndum frammi fyrir gerbreytingum á vinnumarkaði, menntakerfi, samfélagi og stjórn­málum. Stjórnvöld fólu sérfræðinga­hópi að vinna greiningu á þessum áskorunum en sú greining verður kynnt snemma á nýju ári. Í fram­haldinu verður ráðist í vinnu á vegum Vísinda­ og tækniráðs, framtíðarnefndar Alþingis og með aðilum vinnumarkaðarins til að íslenskt samfélag verði sem best undirbúið fyrir nýjan veruleika. Það felast líka miklar áskoranir og tækifæri í því að skapa varanlega sátt á vinnumarkaði.

Þannig hafa stjórnvöld til að mynda sjaldan átt jafn reglulegt samráð með aðilum vinnu­markaðarins sem hefur nú þegar skilað raunverulegum breytingum. Áhersla verkalýðshreyfingarinnar á öflugra barnabótakerfi hefur skilað sér í því að á nýju ári munu ríflega 2.200 fleiri einstaklingar njóta barnabóta en gerðu á síðasta ári og barnabætur hækka þannig að tekjulágt einstætt foreldri fær sem dæmi rúmlega hundrað þúsund krónum meira í barnabætur á næsta ári.

Þá hefur virk barátta verkalýðshreyfingarin ar leitt af sér sterkari ábyrgðarsjóð launa og atvinnuleysistryggingasjóð og breytt launafyrirkomulag æðstu embættismanna. Einnig hefur samtal stjórn­valda og atvinnurekenda skilað sér í lækkun tryggingagjalds sem gagnast ekki síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Við eigum að halda áfram að byggja upp öflugt velferðar­samfélag og atvinnulíf í sátt við umhverfið. Við eigum að vinna áfram saman að samfélagslegum umbótum sem miða að því að bæta lífskjör allra landsmanna en þó mest þeirra sem lakast standa. Það gerist þó aðeins ef við erum reiðubúin að berjast fyrir okkar málum en líka að tala saman, miðla málum og ná þannig raunverulegum árangri.

Við höfum öll tækifæri til þess á nýju ári með hækkandi sól.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Slysaðist á heimsmeistaramót

|||
Mynd / Heiðdís Guðbjörg|||

Ólafía Kvaran byrjaði að hlaupa hindrunarhlaup fyrir rúmu ári og hefur síðan tekið þátt í fjölmörgum keppnum í Spartan-hlaupi í Bandaríkjunum. Hún er komin í fremstu röð, varð fjórða í sínum aldursflokki á heimsmeistaramótinu í sumar, en hún er rétt að byrja.

 

„Ég hef alltaf verið í íþróttum,“ segir Ólafía. „Ég held ég sé búin að prófa allt. Lengst var ég í handbolta, fyrst með Aftureldingu og svo með Fram. Ég spilaði líka með landsliðinu um tíma, held ég hafi náð að spila fjóra A-landsleiki, en ég hætti þegar ég var 25 ára. Ég eignaðist elsta strákinn minn 1994 og byrjaði eitthvað að spila eftir það en hætti svo alveg.“

Ólafía er 48 ára gömul, á þrjá syni og er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún segist reyndar alltaf nota titilinn hjúkrunarkona þegar hún kynnir sig, henni finnist það miklu hlýlegra. Hún útskrifaðist 1996 og vann lengst af á slysa- og bráðamóttökunni í Fossvogi en eftir nokkurra ára dvöl erlendis hóf hún störf í Læknahúsinu árið 2008 og starfar þar enn.

„Þar er ég bara í dagvinnu,“ útskýrir hún. „Það æxlaðist nefnilega þannig að á meðan við bjuggum í Bretlandi, í rúm þrjú ár, var ég ekkert að vinna úti, var að sinna heimilinu og börnunum. Maðurinn minn, Friðleifur Friðleifsson, var að vinna þar fyrir Iceland Seafood og ferðaðist mjög mikið og þegar maður býr erlendis hefur maður náttúrlega engan til að passa og hjálpa sér þannig að það var eiginlega ekki um annað að ræða. Svo æxluðust málin þannig að ég og strákarnir fluttum heim einu og hálfu ári á undan honum og þá var auðvitað ekki um það að ræða að ráða sig í vaktavinnu, ein með þrjú börn, þannig að ég sem sagt réði mig í dagvinnu í Læknahúsinu.“

Æfir fimm til sex sinnum í viku

Spurð hvort hún hafi ekki kunnað við sig í Bretlandi segir Ólafía að það hafi verið mjög þroskandi að búa erlendis og hún hafi haft mjög gott af því en hún og synirnir hafi öll verið sammála um að hafa dvölina ekki lengri. Í Bretlandi hafði Ólafía byrjað að hlaupa til að halda sér í formi og hún hélt því áfram eftir að heim var komið og þá byrjaði hún að sækja æfingar í Boot Camp.

„Þar er ég búin að æfa núna síðustu tíu árin,“ segir hún. „Og ég held ég hafi bara aldrei verið í eins góðu formi og ég er núna. Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa ekki þekkt Boot Camp fyrr.“

Félagsskapurinn og vináttan í Bootcamp er frábær sem er algjörlega ómetanlegt.

Beðin um að útskýra hvað þjálfunin í Boot Camp gengur út á er Ólafía snögg til svars. „Boot Camp er náttúrlega bara nafnið á líkamsræktarstöðinni,“ útskýrir hún. „En æfingakerfið sem þau vinna með gengur mikið út á að vinna með eigin líkamsþyngd, létta sandpoka eða ketilbjöllur og þetta eru alltaf góðir keyrslutímar í klukkutíma í senn. Ofsalega fjölbreytt og skemmtilegt æfingakerfi þar sem við æfum styrk, þrek, þol og úthald allt í bland. Enginn tími er eins og alltaf eitthvert óvænt „twist“ í boði, þetta og andinn og stemmingin er það sem ég sæki í. Ég fer þangað tvisvar til þrisvar í viku en þar fyrir utan hleyp ég tvisvar í viku, fer í teygjutíma og reyni að blanda öllu saman. Félagsskapurinn og vináttan í Bootcamp er frábær sem er algjörlega ómetanlegt.“

Ég viðra þá skoðun mína að svona ströng æfingaprógrömm virðast vera ávanabindandi og Ólafía samþykkir það með semingi. En hvað er það sem fólk verður svona heltekið af?

„Ég er ekki heltekin af þessu,“ segir hún og hlær. „Ég er það heppin að ég hef aldrei þurft að glíma við aukakíló og slíkt þannig að ég er ekki að stunda líkamsrækt til þess að vera mjó. Ég fæ stundum þá spurningu frá fólki sem þekkir mig ekki hvort þetta sé ekki bara megrunaraðferð en ég er meira að stunda líkamsrækt til að vera í góðu formi og geta tekist á við allt sem mig langar til. Ef mig langar að prófa að kafa eða fara á kajak eða eitthvað slíkt þá veit ég að ég get það og mér finnst það mikið frelsi að hafa burði til að prófa allt.“

Ég hef aldrei þurft að glíma við aukakíló og slíkt þannig að ég er ekki að stunda líkamsrækt til þess að vera mjó.

Aldrei litið á sig sem hlaupara

Ólafía hefur keppt í þrekmótaröðinni í gegnum árin og fyrir nokkrum árum byrjaði hún að hlaupa maraþon og taka þátt í utanvega- og hindrunarhlaupum um allan heim. Hvernig gerðist það?

„Eins og ég sagði þá byrjaði ég að hlaupa meðan ég bjó í Bretlandi en ég hef aldrei litið á mig sem hlaupara þótt ég sé búin að hlaupa fimm maraþon síðan 2011. Það byrjaði í rauninni, eins og allt sem ég byrja á, sem einhvers konar áskorun. Þá fór hópur úr Boot Camp og maðurinn minn, sem er rosalega mikill hlaupari, í maraþon í Berlín og ég ákvað að fara bara líka. Í maraþonheiminum eru sex stór hlaup, sem kallast „the big six“, og um leið og við vorum búin með eitt maraþon vorum við ákveðin í að fara í þau öll sex. Þá var áskorunin hafin. Ég hef í rauninni haldið mér í hlaupaformi með því að taka svona eitt maraþon á ári. Þá fylgi ég hlaupaprógrammi í átta til tíu vikur fyrir hlaup en þess á milli æfi ég bara eins og ég er vön.“

Ég spyr hvort þau hjónin hlaupi þá ekki mikið saman og það þykir Ólafíu óbærilega fyndin spurning.

„Það halda það margir en það er mikill misskilningur,“ segir hún. „Við æfum aldrei saman. Hann er miklu betri hlaupari en ég og ég á bara ekki séns á að hlaupa með honum. Við deilum auðvitað áhuganum á hlaupum og tölum heilmikið um æfingarnar og hvert við ætlum að hlaupa næst. En mér dettur ekki í hug að hlaupa með honum. Ég verð bara fúl yfir því hvað hann er miklu fljótari en ég ef ég geri það.“

Við deilum auðvitað áhuganum á hlaupum og tölum heilmikið um æfingarnar og hvert við ætlum að hlaupa næst.

Er þetta lífsstíll sem öll fjölskyldan hefur tileinkað sér? Hugsiði mikið um það hvað þið borðið og hversu mikið þið hvílið ykkur og svo framvegis?

„Jaaa, við gerum það nú ekkert meðvitað,“ segir Ólafía. „Þegar maður var yngri gat maður bara borðað hvað sem var án þess að finna fyrir því, en með aldrinum hef ég ómeðvitað sneitt fram hjá alls konar mat sem ég veit að mér líður illa af. En að því sögðu þá borða ég sjúklega mikið og borða í rauninni allt, en vissulega hefur mataræðið breyst. Ég held það gerist bara ómeðvitað þegar maður lærir á það hvað fer vel í mann og hvað ekki. Ég neita mér samt aldrei um neinn mat sem mig langar í.“

Ólafía er 48 ára gömul, móðir þriggja sona og hjúkrunarfræðingur að mennt. Undanfarin ár hefur hún ratað í fréttir vegna frábærrar frammistöðu í hindrunarhlaupum á alþjóðlegum vettvang.

Þannig að þessi íþróttaiðkun og heilbrigði lífsstíll eru ekki trúarbrögð fyrir þér?

„Nei, þetta snýst eiginlega bara um það hvað manni líður vel af þessu,“ segir Ólafía ákveðin. „Maður er kannski extra stilltur tveimur til þremur vikum fyrir stórar keppnir, en þetta eru alls ekki trúarbrögð. Manni verður að finnast þetta gaman.“

Hún viðurkennir þó að allt heimilislífið sé meira og minna undirlagt af íþróttaiðkun fjölskyldunnar, synirnir stunda allir íþróttir og Ólafía segir löngu orðið vonlaust mál að safna fjölskyldunni saman á matmálstímum og borða saman, það sé alltaf eitthvert þeirra á æfingu einhvers staðar og mjög sjaldgæft að þau séu öll heima á sama tíma.

Þetta eru alls ekki trúarbrögð. Manni verður að finnast þetta gaman.

„Allar reglur um fasta kvöldmatartíma hafa hliðrast til eftir að strákarnir urðu stærri,“ segir hún og hlær. „En við erum öll að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, svo það er ekki mikið mál.“

Krabbameinsgreiningin áskorun sem varð að taka

Árið 2015 komst Friðleifur, eiginmaður Ólafíu, í fréttir eftir að hafa lent í óútskýrðu hjartastoppi í tvígang. Það stóð ekki á fólki að kenna hlaupunum um, en enn hefur engin skýring fundist. Fyrra hjartastoppið átti sér stað á heimili hjónanna og Ólafía, sem er alvön aðstæðum sem þessum í sínu starfi, náði að bjarga honum með hjartahnoði.

„Hann er auðvitað últrahlaupari og þetta sumar, 2015, hafði hann verið að hlaupa mjög mikið,“ segir Ólafía.

„Við tókum meðal annars þátt í áheitaverkefni fyrir Útmeða nokkrum vikum fyrr þar sem hlaupið var hringinn í um landið. Við vorum tíu manns í rútu og skiptumst á um að hlaupa, en hann hljóp eðlilega mjög mikið þá. Hafði líka hlaupið ellefu ferðir í einu í Esjuhlaupinu þetta sumar og eðlilega héldu allir að hann hefði bara „hlaupið yfir sig“, það væri sko ekkert hollt og svo framvegis. En þrátt fyrir að vera rannsakaður í bak og fyrir fannst aldrei nein skýring á þessu, þetta var bara eitt af þessum óútskýrðu hjartastoppum. Það var strax settur í hann bjargráður og þetta hefur aldrei gerst aftur.“

Þótt hjartað hafi ekki stoppað aftur var veikindasögu Friðleifs ekki þar með lokið. Í ársbyrjun 2018 greindist hann með illkynja krabbamein sem hann hefur glímt við síðan.

Þrátt fyrir að vera rannsakaður í bak og fyrir fannst aldrei nein skýring á þessu, þetta var bara eitt af þessum óútskýrðu hjartastoppum.

„Hann hafði fundið hnúð á hálsinum í einhvern tíma en frestaði því að láta taka hann, enda var búið að stinga á þessu og úrskurða að það væri ekki hættulegt en hann skyldi samt láta fjarlægja það,“ útskýrir Ólafía.

„Í byrjun janúar fór hann svo í aðgerð og allt leit vel út, en svo þegar hann mætti í saumatöku viku seinna var honum sagt að þetta væri illkynja krabbamein og þá fór hið týpíska ferli í gang. Hann var sendur erlendis í jáeindaskanna og það fannst einhver pínulítill blettur í kokinu og þá byrjaði hann strax í „intensívri“ geislameðferð sem hann kláraði í vor og í eftirliti núna í haust var hann úrskurðaður krabbameinslaus.“

Ólafía segir að vissulega hafi greining eiginmannsins verið áskorun sem þurfti að takast á við en hún hafi engu að síður ákveðið að halda sínu striki og æfa fyrir Spartan-hlaup í Bandaríkjunum.

Lenti fyrir tilviljun á heimsmeistaramóti

Ólafía segir að vissulega hafi greining eiginmannsins verið áskorun sem þurfti að takast á við en hún hafi engu að síður ákveðið að halda sínu striki og æfa fyrir Spartan-hlaup í Bandaríkjunum síðasta sumar. Það ævintýri byrjaði reyndar hálfpartinn óvart eins og hún fullyrðir að sé frekar regla en undantekning í hennar lífi.

„Árið 2017 bauðst mér og tveimur vinum mínum sem ég hef æft með í mörg ár að koma og keppa á heimsmeistaramóti í Spartan-hlaupi í Lake Tahoe í Bandaríkjunum. Ég held að við höfum verið valin af því að sú sem forsvarsmenn Spartan töluðu við til að fá íslenska þátttakendur þekkti okkur öll og hafði æft með okkur, þannig að þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap. En allavega mættum við þarna til Lake Tahoe alveg blaut á bak við eyrun. Höfðum aldrei farið í Spartan-hlaup og höfðum ekki einu sinni vitað af þessu hlaupi fyrr en fjórum til fimm vikum áður en mótið hófst. Þetta var samt sjúklega spennandi og gaman og við kepptum í tvo daga.

Þetta kom í rauninni til í gegnum tengslanet og vinskap.

Annan daginn hlupum við sem einstaklingar einhverja 29 kílómetra í fjöllunum þarna og yfir fullt af hindrunum. Seinni daginn kepptum við fyrir hönd Íslands í liðakeppni. Svo kom maður í mark, hafði aldrei gert þetta áður, en var samt samkeppnishæfur við hitt fólkið sem hafði gert þetta árum saman og var búið að vinna sér inn rétt til þátttöku á heimsmeistaramóti. Þarna kviknaði einhver neisti og ég fann að ég vildi gera meira af þessu þannig að fljótlega eftir þetta fór ég að tala um að fara að æfa Spartan-hlaup og reyna að komast á fleiri mót. Þetta var svo skemmtilegt.“

Ólafía skráði sig í Spartan-hlaup í Boston í mars og gekk svo vel að hún fann að ekki varð aftur snúið.

„Ég endaði þarna í þriðja sæti í mínum aldursflokki og vann mér þar með inn rétt til að taka þátt í meistarakeppni Norður-Ameríku í ágúst. Þannig að ég var strax komin með annað hlaup til þess að stefna að. Frá því í mars og fram í ágúst heyrði ég í ýmsum vinum mínum um það hvort þeir vildu kannski prófa að koma með og það voru allir mjög spenntir.

Við maðurinn minn vorum búin að bóka ferð til Dallas í október til að fara á tónleika og ég ætlaði náttúrlega að fara í eitt Spartan-hlaup í leiðinni. Þegar ég fór að segja fólki frá því heyrði ég strax að það var gríðarlegur áhugi á að prófa þetta. Það vatt svo upp á sig þannig að ég fór og talaði við Vita-ferðir um hvort þeir gætu sett saman pakka fyrir mig fyrir þá sem hefðu áhuga á að koma. Ég setti svo auglýsingu í bundnu máli inn á Facebook-síðu Boot Camp á fimmtudegi og ferðin var uppseld strax eftir helgina. Það endaði með því að við vorum fimmtíu og fimm manns frá Íslandi sem mættum í þetta hlaup. Það var rosalega gaman.“

Engin leið að hætta

Eftir að hafa fundið fyrir þessum gríðarlega áhuga á Spartan-hlaupum hjá Íslendingum ákvað Ólafía að fara á þjálfaranámskeið hjá Spartan í New York í lok apríl og er sem sagt komin með Spartan-þjálfararéttindi, sú eina á Íslandi sem ber þann þjálfaratitil. Ekki nóg með það heldur skellti hún sér á framhaldsnámskeið í byrjun ágúst og lauk því með glæsibrag. En ævintýrið var rétt að byrja.

„Þarna var loksins komið að meistaramóti Norður-Ameríku sem ég hafði áunnið mér rétt til að taka þátt í,“ segir hún og það er auðheyrt að þessi hlaup eiga hug hennar allan.

„Það var í lok ágúst í West-Virginia og ég var eiginlega ákveðin í því að það yrði líklega síðasta hlaupið sem ég tæki þátt í enda mjög sátt við árangurinn minn að ná inn á þetta mót. Svo gekk mér bara svo rosalega vel á þessu móti, lenti í fimmta sæti í mínum aldursflokki og með því var ég komin með þátttökurétt á heimsmeistaramótinu, svo það kom auðvitað ekki til greina að hætta þarna,“ segir hún og skellihlær.

„Heimsmeistaramótið var svo haldið í Lake Tahoe mánuði seinna, í lok september, og þar lenti ég í fjórða sæti í mínum aldursflokki. Þannig að ég er hrikalega ánægð með hvað þetta eina hlaup sem ég ætlaði að prófa þarna í mars hefur leitt mig út í. Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi og engin leið að hætta.“

Ég verð að viðurkenna að þótt ég hafi sagt áðan að ég væri ekkert heltekin þá eru þessi hlaup sjúklega ávanabindandi.

Ólafía lætur sér þó ekki nægja að hlaupa sjálf. Eftir móttökurnar sem hópferðin til Dallas fékk dreif hún í því að koma á fót námskeiðum í Spartan-hlaupum þar sem hún er með Spartan-þjálfararéttindi og þó nokkur fjöldi Íslendinga tók þátt í Spartan-hlaupinu sem haldið var hérlendis í desember. Ólafía gengst við því að það sé kannski aðallega hennar áhugi sem hafi komið þessari hreyfingu af stað, hún sé búin að smita ansi marga af Spartan-bakteríunni enda valin af Spartan til að vera fulltrúi þeirra á Íslandi. En hvað er það helsta sem uppgötvun Spartan-hlaupanna hefur kennt henni sjálfri?

„Það er svo margt,“ segir hún hugsi. „Þetta hefur verið óskaplega lærdómsríkt og þroskandi. Ég var ekki vön að ferðast svona mikið ein og alls ekki vön að standa fyrir framan fólk, stjórna æfingum og tjá mig. Þannig að ég hef haft mjög gott af þessu og þetta hefur styrkt mig í þeirri trú að maður geti það sem maður ætlar sér ef mann virkilega langar til þess og leggur hart að sér.“

Árið 2019 undirlagt af Spartan

Svona í upphafi árs er við hæfi að enda viðtalið á hinni hefðbundnu spurningu um hvort Ólafía hafi strengt áramótaheit og í hverju það felist þá.

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Ég strengi aldrei áramótaheit,“ segir hún ákveðin. „En það þýðir ekki að það sé ekki ýmislegt fram undan á nýja árinu. Ég er núna að skipuleggja næstu ferðir á Spartan-hlaup og stefnan er að fara bæði vor- og haustferð. Þátttakendur koma auðvitað aðallega úr Boot Camp-hópnum en það eru svo sannarlega allir velkomnir. Fólk heldur kannski að það þurfi að vera í einhverju ofurformi til að geta tekið þátt í svona hlaupum en ég held því fram að það geti þetta allir, með því að gera það á eigin forsendum. Það þurfa ekkert allir að keppa eins og ég hef verið að gera.

Meirihlutinn af iðkendum Spartan-hlaupa gerir þetta bara sér til gamans og heilsubótar og ég er sem sagt að vinna í því núna að setja saman þessar ferðir. Svo ætla ég persónulega að sjálfsögðu líka að hlaupa eitthvað og keppa. Ég þarf til dæmis auðvitað að keppa aftur á heimsmeistaramótinu næsta sumar. Spartan-hlaupadagatalið fyrir árið er reyndar nýkomið út þannig að ég er ekki búin að negla niður ákveðin hlaup en ég mun svo sannarlega hlaupa á nýja árinu. Stefnan er að árið 2019 verði algjörlega undirlagt af Spartan!“

Þú hljómar mjög ákveðin í að ná árangri, ertu sem sagt mikil keppnismanneskja?

„Já, ég er keppnismanneskja,“ segir Ólafía og glottir. „Ég þarf ekkert endilega að vinna en ég þrífst svolítið á því að keppa við aðra og standa mig vel. Ég allavega geri alltaf mitt besta og það dugar mér að vita það sjálf.“

Það er nokkuð ljóst að við höfum ekki heyrt það síðasta frá Ólafíu sem keppnismanneskju í Spartan og það verður spennandi að fylgjast með afrekum hennar á nýja árinu.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Lancôme

Fann ástina á ný

Kolbrún Pálína Helgadóttir fór úr fegurðarbransanum yfir í harðan heim fjölmiðlanna. Kaflaskil urðu hjá Kollu, eins og hún er jafnan kölluð, fyrir þremur árum þegar hún og barnsfaðir hennar skildu. Í einlægu viðtali við Vikuna lýsir hún því hvernig hún vann sig upp úr fósturstellingunni yfir í látlausara og hamingjuríkara líf.

Kolla nýtir nú reynslu sína og annarra og hefur hafið framleiðslu á sjónvarpsþáttum um skilnaði í samstarfi við Saga Film og Sjónvap Símans en auk hennar mun Kristborg Bóel Steindórsdóttir stýra þáttunum. Kolla getur ekki neitað því að hún eigi margt að áhugavert að vinna úr í reynslubankanum, samanber þáttöku hennar í fegurðarsamkeppni árið 2001.

Fyrir röð tilviljana leiddi lífið Kollu inn í fjölmiðlaheiminn en síðan hún uppgötvaði mátt pennans hefur hún byggt upp farsælan feril og unnið á mörgum stærstu fjölmiðlum landsins.

„Það er eitthvað svo merkilegt hvernig örlögin teyma mann áfram og einmitt þess vegna hef ég tamið mér að treysta svolítið lífinu. Ég vann í tískuvöruverslun þegar sú ágæta keppni, Ungfrú Ísland.is, var haldin í annað sinn. Ég ætlaði mér aldrei að taka þátt í fegurðarsamkeppni en þáttakendurnir í keppninni komu til mín í verslunina og ég aðstoðaði þær konur við að finna föt fyrir fyrstu myndatökuna í undirbúningnum.

Ég ætlaði mér aldrei að taka þátt í fegurðarsamkeppni.

Þá kom upp sú staða að ein stelpnanna sagði sig úr keppni og mér var boðið að taka þátt,“ byrjar Kolbrún Pálína og heldur áfram: „Mér fannst í fyrstu alls ekki málið að taka þátt en ég er nú svolítill uppreisnarseggur þannig að ég ákvað að lokum að slá til. Þessi keppni hafði líka meiri tískustimpil en áður hafði þekkst og lagði meira upp úr framkomu keppenda sem mér fannst svolítið spennandi.“

Til að gera langa sögu stutta bar Kolla sigur úr býtum. Titlinum fylgdi sú ábyrgð að skrifa vikulega pistla um lífið og tilveruna á strik.is, vef sem þá var og hét og í fyrsta skipti þurfti hún að tjá sig með lyklaborðið að vopni.

Eftir fréttaskrif á DV í mjög karllægu umhverfi var Kolla beðin um að ritstýra tímaritinu Nýju lífi.

„Það er gaman að segja frá því að þegar ég var rúmlega tvítug var ég spurð að því hvað væri draumastarfið mitt. Ég lét hafa það eftir mér að það væri að ritstýra tískutímariti á borð við Nýtt líf. Þeim áfanga náði ég nokkrum dögum eftir þrítugsafmælið mitt. Á þessum tíma var ég enn þá að sanka að mér reynslu og í dag hefði ég gert margt öðruvísi. Þegar ég skoða tölublöð frá þessum tíma fær maður hressilega áminningu um það hvað þetta umhverfi er hart en við vorum ansi fámennar um að skapa allt blaðið upp úr nánast engu. Ég skrifaði stóran hluta þess ein og fann ekki fyrr en eftir að starfi mínu þar lauk hvað þetta hafði tekið mikinn toll. En reynslan skapar manninn, svo mikið er víst.“

Þegar ég skoða tölublöð frá þessum tíma fær maður hressilega áminningu um það hvað þetta umhverfi er hart.

Kolla segir að þetta val sitt á starfvettvangi sé í raun svolítið merkilegt fyrir þær sakir að henni hafi aldrei verið vel við það að vera í sviðsljósinu og að í grunninn hafi hún verið mjög feimin þegar hún var yngri. Hrædd við gagnrýni og skoðanir annarra á henni, svona eins og ungar konur fara oft og tíðum í gegnum. Ferillinn hafi hins vegar einkennst af því að hún hafi alltaf verið tilbúin að ögra sjálfri sér og tilbúin fara út fyrir þægindarammann.

„Ég lít á þetta sem mína lífsins skólagöngu, ég fer alltaf með opnum hug í næsta áfanga en á sama tíma með smávegis kitl í maganum,“ segir Kolla bjartsýn en ítarlegt og spennandi viðtal við hana er í 1. tbl Vikunnar árið 2019.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun og hár / Helga Kristjáns
Fatnaður / Baum und Pferdgarten, Kultur og AndreA.
Skart / Made By Me/ Helga Sæunn

Óþarfi að gerast „ýktur mínimalisti“

|
|

Höfundurinn Sally Walforder segir nauðsynlegt að losa sig við óþarfa dót og drasl til að geta einbeitt sér að eigin vellíðan. Hún mælir því með að fólk taki sig reglulega til og hendi hlutum og fötum sem það er hætt að nota. Það getur verið hægara sagt en gert en hún gaf lesendum  lesendum The Guardian meðfylgjandi tiltektarráð.

Að sögn Sally er erfitt að hætta um leið og maður kemst upp á lagið með að henda óþarfa dóti.

„Ekki búast við að koma reiðu á heimilið á einum degi. Það tekur fólk langan tíma að sanka að sér dóti og það er ómögulegt að losa sig við allt samstundis,“ segir Sally sem mælir með að fólk byrji á að gefa sér tíu mínútur á dag í að taka til og henda dóti sem það er hætt að nota.

„Settu hluti í þrjár hrúgur. Ein er fyrir það sem þú ert viss um að vilja eiga, annað er það sem þú villt kannski eiga og sú þriðja er fyrir þá hluti sem þú ætlar að losa þig við.“

Sally mælir þó gegn því að henda hlutum í fljótfærni og bendir á að það geti verið gott að taka nokkrar vikur í að taka ákvörðun um hvort þú viljir henda eða halda hlutum ef einhver óvissa er fyrir hendi.

Sally segir mikilvægt að halda sig við efnið þegar hafist er handa við að taka til og henda gömlu dóti. „Fólk á það til að gleyma sér þegar það er að reyna að koma reiðu á heimilið. Það byrjar að máta gömul föt eða skoða gamlar myndir. Haltu þig við efnið. Önnur algeng mistök sem fólk gerir eru þau að það fer að færa hluti til, í stað þess að losa sig við hluti.“

Sally mælir þá með að fólk einbeiti sér að því að velta sér ekki upp úr mistökum sem það hefur gert með því að kaupa hluti sem það keypti en notaði aldrei.

Sally lumar á góðu ráði fyrir þá einstaklinga sem kaupa mikið af fötum: að losa sig við eina flík fyrir hverja flík sem bætist við fataskápinn. Eins mælir hún með að fólk losi sig við þær flíkur sem það hefur ekki notað í meira en sex mánuði.

Ágætt er að venja sig á að gefa flík fyrir hverja nýja flík sem maður kaupir sér.

Hvað leikföng barna varðar þá mælir Sally með að fá börnin til að taka þátt í tiltektinni. „Segðu: „Við ætlum að taka til í leikföngunum og gef nokkur til barna sem eiga minna.“ Börn bregðast vel við þessu,“ segir Sally.

Hún bætir við að það sé óþarfi að gerast „ýktur mínimalisti“ til að koma skipulagi á heimilið. Að hennar sögn snýst þetta um að vanda valið þegar kemur að eigum.

 

 

Herjaði á hús þeirra ríku í Hollywood

Innbrotsþjófur sem hefur gert fólki í Hollywood lífið leitt undanfarið hefur verið handtekinn. Um 2000 stolnir munir fundust á heimili hans og í geymslu.

Innbrotsþjófur sem hefur herjað á hús þeirra frægu og ríku í Hollywood hefur verið handtekinn. Þessu var greint frá á Twitter-síðu lögreglunnar í Los Angeles þar sem nokkrar myndir af þýfinu og þjófnum voru birtar.

Þjófurinn er 32 ára maður að nafni Benjamin Ackerman. Undanfarið hefur hann brotist inn í fjölda húsa í Hollywood og stolið skarti, listaverkum, töskum og öðrum dýrum munum. Meðal þess sem sjá má á myndum sem lögreglan birti eru handtöskur frá Hermés og demantsúr.

Ackerman er sagður hafa látist vera áhugasamur fasteignasali og fengið að skoða þær eignir sem hann braust svo síðar inn í, þannig gat hann undirbúið innbrotin vel áður en hann lét til skara skríða. Þá mun hann í sumum tilfellum hafa átt við öryggismyndavélar í kringum heimilin. Þessu er sagt frá á vef BBC.

Samkvæmt lögreglunni í Los Angeles braust Ackerman meðal annars inn til söngvaranna Ushers og Adams Lambert.

Eftir handtöku Ackerman fannst þýfið á heimili hans en einnig í geymslu sem hann hafði á leigu. Um 2000 stolnir munir hafa fundist. Lögreglan vinnur nú að því að koma stolnu mununum í réttar hendur.

„Megrunarskilaboðin eru bara ekki að virka“

Margt fólk setur sér markmið um áramótin og ætlar sér að verða betri útgáfa af sjálfum sér á nýju ári. Markmið sem snúa að heilsunni, mataræði og hreyfingu eru algeng en Gréta Jakobsdóttir, næringarfræðingur í Heilsuborg, mælir með að fólk fari ekki of geyst af stað.

Gréta lauk meistaraprófi í næringar- og matvælafræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð 2008 og doktorsprófi í næringarfræði frá sama skóla 2013.

Gréta hefur reynslu af því að aðstoða fólk við að eiga í betra og heilbrigðu sambandi við mat. Hún mælir gegn því að ætla sér að sleppa alfarið ákveðnum fæðutegundum því það verður gjarnan til þess að fólk myndar slæmt samband við mat sem jafnvel geti þróast í ofát eða ofátsköst að sögn Grétu.

„Fólk er oft rosalega týnt í þessum málum enda eru alltaf að koma upp einhverjar nýjar „reglur“ sem rugla fólk,“ segir Gréta sem tekur fram að hún er alls ekki hrifin af skyndilausnum, megrunartöflum og dufti.

„Það er algengt að fólk vilji breyta miklu um áramótin og setur sér því óraunhæf markmið. Það ætlar að taka allt í gegn bara vegna þess að það er komið nýtt ár. En í raun er ártalið það eina sem hefur breyst,“ segir Gréta.

Þyngdin segir ekki allt. Fólk á frekar að hreyfa sig til að líða vel í stað þess að fókusera á til dæmis magavöðvana.

„Ég hvet fólk frekar til að spyrja sig af hverju það vill breyta einhverju og hvernig. Ekki hugsa bara út í að breyta útlitinu drastískt. Og ekki einblína á einhverja tölu á vigtinni. Sú tala gefur alls ekki skýra mynd af hvernig heilsufarslegu ástandi við erum í,“ útskýrir Gréta sem mælir eindregið gegn því að fólk setji sér þyngdartengd markmið.

„Þyngdin segir ekki allt. Fólk á frekar að hreyfa sig til að líða vel í stað þess að fókusera á til dæmis magavöðvana. Megrunarskilaboðin eru bara ekki að virka.“

Heimurinn hrynur ekki ef þú missir af æfingu

„Annað sem er gott að hugsa út í eru þau atriði sem geta staðið í vegi fyrir manni. Til dæmis hvað ætlar þú að gera ef að barnið þitt veikist eða þú þarft að skila skýrslu í vinnunni eða læra fyrir próf í skólanum? Hvað gerir þú þegar hið fullkomna plan er ekki til staðar, eins og er nú sjaldnast. Getur þú þá kannski gert eitthvað annað í staðinn? Heimurinn hrynur ekkert þó að þú missir af einni æfingu, en auðvitað villt þú ekkert að það endurtaki sig oft,“ segir Gréta.

Þegar maður ætlar sér að hætta algjörlega í einhverju ákveðnu þá er líklegt að mann langi enn meira í það.

„Hvað mataræðið varðar þá mæli ég einnig gegn því að fólk sökkvi sér í of miklar breytingar þar. Það kemur líklega í andlitið á manni seinna. Við erum vanaverur og það þarf að bera virðingu fyrir því og fara hægt og rólega í breytingar. Til dæmis er hægt að auka magn grænmetis í hádeginu og á kvöldin og stefna á að eitt millimál yfir daginn sé ávöxtur. Jafnframt drekka vatn með matnum frekar en aðra drykki,“ útskýrir Gréta.

Að hennar mati er ekki skynsamlegt að ætla sér að taka út allan sykur eða hveiti sem dæmi. „Þegar maður ætlar sér að hætta algjörlega í einhverju ákveðnu þá er líklegt að mann langi enn meira í það,“ segir Gréta. Að lokum minnir hún á að lykillinn að góðri heilsu er góður svefn. „Ef maður ætlar út í einhverjar breytingar þá er mikilvægt að sofa vel.“

Njóta áhrifavaldar trausts neytenda?

Andrea Guðmundsdóttir, doktorsnemi í alþjóðasamskipta- og fjölmiðlafræði við City University of Hong Kong, mun halda fyrirlestur á morgun þar sem hún fjallar um rannsókn sína á áhrifavöldum.

Andrea mun meðal annars varpa fram spurningum um hvað liggi að baki vinsældum áhrifavalda, hvernig hinn almenni neytandi upplifir meðmæli áhrifavalda og hvort áhrifavaldar njóti trausts neytenda. Fyrirlesturinn er haldinn undir yfirskriftinni Áhrifavaldar! Trúverðugir neytendur eða auglýsendur?

Spurð út í hvað kemur til að hún sé að rannsaka áhrifavalda segir Andrea: „Vegna þess að það er svo margt áhugavert við það hvernig venjulegt fólk, almennir neytendur, sem byrja að blogga geta öðlast svona miklar vinsældir eins og raun ber vitni. Þeir byrja kannski með nokkur hundrað fylgjendur en eru svo á skömmum tíma komnir með þúsundir fylgjenda. Og þá er áhugavert að skoða hvernig almennir neytendur upplifi meðmæli þeirra.“

Getur reynst erfitt að sjá mun á auglýsingu og meðmælum

Svokallaðir áhrifavaldar hafa verið mikið í umræðunni undanfarið, sérstaklega eftir að Neytendastofa hefur þurft að minna á að duldar auglýsingar eru bannaðar og að bloggarar þurfa að fylgja ákveðnum reglum þegar kemur að því að birta umfjöllun sem fyrirtæki hafa greitt fyrir.

 Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að bloggarar séu að fá greitt fyrir vinnu sína, en vandamálið er að þetta er stundum ekki nógu skýrt.

„Sumir bloggarar eru að fá greitt fyrir færslur og það hefur verið að færast í aukana með árunum,“ segir Andrea og bendir á að stundum geti verið erfitt fyrir neytendur að gera greinarmun á keyptri umfjöllun og einlægu meðmæli bloggara.

„Samkeppnin er að aukast og auðvitað tekur mikinn tíma að blogga. Þannig að í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt að bloggarar séu að fá greitt fyrir vinnu sína, en vandamálið er að þetta er stundum ekki nógu skýrt.“

Andrea bendir á að umræðan í kringum áhrifavalda hafi þróast mikið undanfarið. Aðspurð hvort það sé hennar upplifun að fólk sé almennt orðið meðvitað um viðskiptin sem eiga sér oft stað í kringum færslur bloggara segir Andrea: „Já, það virðist vera að neytendur hafi skilning á bloggarar fái gjarnan greitt fyrir umfjöllun.“

Skoðar hvernig áhrifavaldar bregðast við

Andrea byggir rannsóknarverkefni sitt á upplifun neytenda á áhrifavöldum og hefur til þess búið til mælikvarða þar sem ýmsir þættir eru skoðaðir, svo sem traust og áreiðanleiki. „Með þessum mælikvarða skoða ég hversu trúverðugir áhrifavaldar eru í augum neytenda.“

Til viðbótar við það að rannsaka hvernig neytendur upplifa áhrifavalda er Andrea einnig að rannsaka hvernig áhrifavaldar eru að bregðast við breyttri umræðu. „Áhrifavaldar vilja auðvitað halda sínum trúverðugleika þó að þeir séu að fá borgað. Trúverðugleikinn er þeim mikilvægur. Þess vegna er áhugavert að sjá hvernig þeir bregðast við. Í ljósi þessarar umræðu um „sponsaðar“ færslur þá eru áhrifavaldar gjarnan farnir að leggja meiri áherslu á að það sem þeir eru að skrifa um sé eitthvað sem þeir virkilega mæla með og nota sjálfir.“

Þetta er venjulegt fólk og við viljum gjarnan skoða fólk sem lifir svipuðum lífsstíl og við sjálf.

Að lokum, spurð út í hvort hún hafi komist að einhverri niðurstöðu um af hverju margir áhrifavaldar ná eins miklum vinsældum og raun ber vitni segist Andrea telja hluta ástæðunnar vera þá að neytendur geta frekar samsamað sig við áhrifavalda, miðað við t.d. stórstjörnur. „Þetta er venjulegt fólk og við viljum gjarnan skoða fólk sem lifir svipuðum lífsstíl og við sjálf.“ Hún bendir þó á að í þessu geti falist ákveðin mótsögn því um leið og áhrifavaldar verða mjög vinsælir fá þeir gjafir frá fyrirtækjum og greitt fyrir færslur, ólíkt hinum almenna neytanda.

Áhugasömum er bent á fyrirlestur Andreu sem haldinn verður á morgun klukkan 12.00 í stofu VHV 023 í Háskóla Íslands, fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við MBA námið sem kennt er við HÍ.

„Fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu“

Þær Erla Björnsdóttir og Þóra Hrund munu á miðvikudaginn halda opinn fyrirlestur um markmiðasetningu, tímastjórnun og jákvæða sálfræði í Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti 10.

„Þarna munum við að fara yfir mikilvæg skref til þess að hámarka árangur í markmiðasetningu,“ segir Erla en hún og Þóra eru konurnar á bak við MUNUM dagbækurnar.

Við fengum Erlu og Þóru til að gefa lesendum ráðleggingar hvað varðar markmiðasetningu en þær mæla eindregið með að fólk setji sér markmið reglulega.

„Rannsóknir hafa sýnt það að fólk sem setur sér skýr markmið nær meiri árangri í lífinu. Þeir sem ná langt á sínu sviði eru sjaldnast komnir þangað fyrir einskæra tilviljun, oftast liggur þrotlaus vinna og mjög skýr markmiðasetning þar að baki. Ef við höfum skýr markmið þá erum við búin að marka okkur stefnu sem við vinnum eftir. Ef við höfum engin markmið er hætt við því að við villumst af leið og vitum ef til vill ekki hvert okkur langar að stefna,“ segir Erla. „Þess vegna er mikilvægt að fylgja ákveðnum skrefum í markmiðasetningu til þess að auka líkur á árangri.“

Gerðu „bucket“ lista

Áður en við byrjum að skrifa niður markmið okkar getur verið gott að  gefa sér góðan tíma til að hugsa um það hvað það er sem maður virkilega vill gera í lífinu, áfangar sem maður vill ná og hlutir sem manni langar að framkvæma. Til dæmis getur verið góð leið að byrja að skrifa svokallaðan „bucket“ lista sem inniheldur 100 atriði sem manni langar að upplifa og framkvæma yfir ævina. Í amstri dagsins gefum við okkur sjaldan rými til þess að hugsa á þennan hátt og margir eru sífellt að fresta draumum sínum þar til hið fullkomna augnablik kemur, en svo bara kemur það ekki og þess vegna verðum við að búa það til. Þegar við erum komin með svona lista þá höfum við góðan leiðarvísi sem við getum síðan unnið áfram með og byrjað að forgangsraða og setja markmiðin upp í rétt skref.

Sértæk og nákvæm markmið

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er að markmið séu sértæk og nákvæm. Til dæmis er markmiðið: „ég ætla að sinna vinum mínum betur“ frekar óljóst markmið sem erfitt getur verið að árangursmæla. Hins vegar ef við tökum markmiðið lengra og gerum það mælanlegt og nákvæmt er mun auðveldara að fylgja því eftir. Til dæmis mætti umorða þetta markmið og segja: „Ég ætla að sinna vinum mínum betur með því að hringja allavega einu sinni í viku í þá, hitta þá að minnsta kosti tvisvar sinnum í mánuði og bjóða í mat fjórum sinnum á árinu“. Þarna erum við komin með mun skýrara markmið sem auðveldara er að fylgja eftir.

Skrifaðu niður á blað

Þegar við skrifum niður markmiðin okkar er líklegra að við náum þeim. Þau verða raunverulegri fyrir okkur og það verður einhver mögnuð tenging sem á sér stað þegar við skrifum markmið, hugsanir og drauma niður á blað. Það er ekki sama tenging sem á sér stað þegar við skrifum eitthvað inn í tölvuna. Það sem við handskrifum festist betur í minni okkar.

Mikilvægt að búta markmiðin niður

Ef þú setur þér stór markmiðið getur verið gott að skipta því niður í nokkur minni markmið sem eru viðráðanlegri. Með þessu móti er líklegra að þú gefist ekki upp. Ef þú villt hlaupa maraþon næsta sumar getur markmið fyrir janúarmánuð til dæmis verið að ná að hlaupa 10 kílómetra í febrúar, svo 20 kílómetra í mars og koll af kolli.

Líttu til baka og endurskoðaðu

Ein ástæða þess að mörg markmið renna í sandinn er líklega sú að markmiðin eru of víðtæk og jafnvel óraunhæf. Einnig er líklegt að hluti ástæðunnar liggi í því að fólk er ekki að endurskoða markmiðin sín reglubundið og fylgjast með árangri. Markmiðin eru gjarnan sett á áramótum en eru svo ekki skoðuð aftur fyrr en um næstu áramót. Við leggjum til að endurskoða markmiðin að minnsta kosti ársfjórðungslega

Ekki gleyma að verðlauna þig

Og það sem er mögulega það allra mikilvægast: að verðlauna sjálfan sig fyrir góðan árangur. Við eigum það flest til að vilja alltaf ná aðeins lengra, gera aðeins meira og gleymum þá að staldra við og klappa okkur á bakið og njóta þess árangurs sem við höfum náð. Það getur verið sniðugt að ákveða fyrirfram hvernig við ætlum að verðlauna okkur þegar við náum markmiði. Slík gulrót getur verið hvetjandi í ferðalaginu sjálfu.

Mynd / Anni Viskus 

Raddir