Laugardagur 21. september, 2024
10.1 C
Reykjavik

Fleiri ungir án atvinnu

Í nýbirtum upplýsingum Hagstofunnar um atvinnuþátttöku kemur fram að 2.500 manns á aldrinum 16-24 ára voru atvinnulaus í júlí síðastliðnum samanborið við 1.400 manns fyrir áratug.

Í júlí í fyrra voru aðeins 600 á þessum aldri án atvinnu og er tekið sérstaklega fram í umfjöllun Hagstofunnar að það hafi verið óvenju fáir.

Til samanburðar voru 1.200 manns á aldrinum 16-24 ára án atvinnu árið 2003. Þá vann fólkið í 45,6 klukkustundir að meðaltali, samkvæmt gögnum Hagstofunnar.

Á þessu ári vann ungt fólk á aldrinum 16-24 ára með vinnu að meðaltali í 39,1 klukkustund í júlí. Þetta er tæpur þremur klukkustundum minna en í júlí árið 2017. Fyrir áratug vann fólk á þessum aldri að meðaltali í 45,5 klukkustundir, að því er fram kemur í upplýsingunum Hagstofunnar.

Töfraseyði og ætileg blóm á nýjum bar

Hjónin Íris Ann Sigurðardóttir og Lucas Keller létu drauma sína rætast þegar þau ákváðu að opna veitinga- og sælkerastaðinn Coocoo´s Nest út á Granda og bráðum munu þau einnig opna spennandi og sérstæðan bar. Hjónin kynntust á Ítalíu á sínum tíma. Lucas er frá Kaliforníu og var að læra matreiðslu og Íris Ann var að læra ljósmyndun og sjónlist. Saman eiga þau tvo dásamlega stráka, Indigo, þriggja ára og Sky, fimm ára.

Íris Ann Sigurðarsdóttir og Lucas Keller, eigendur Coocoo´s Nest, ásamt sonum sínum Indigo, þriggja ára og Sky, fimm ára.

Hver er sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar og vali á staðsetningunni? „Við vorum með svipaða drauma um að opna svona „konsept“ sem við sameinuðum. Einn af draumum Lucasar var meðal annars að taka þátt í uppbyggingu á nýju hverfi og því gat þessi staðsetning ekki verið betri.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar framreiðslu á Coocoo´s Nest og vakið athygli fyrir, hver eru ykkar áherslur og markmið? „Það skiptir okkur miklu máli að vera samkvæm sjálfum okkur og svo erum við mjög meðvituð um að vera eins vistvæn og hægt er. Lucas er mjög ástríðufullur kokkur og sleppur engum skrefum í sinni framleiðslu. Gæðahráefni og að vinna hráefni frá grunni er okkar sérstaða á The Coocoo’s Nest.

Hvernig myndir þú lýsa staðnum og framtíðarsýn ykkar? „Við myndum lýsa staðnum sem samastað þar sem allir eru velkomnir og allir eru jafnir. Við elskum að láta okkur dreyma enda var það byrjunin á þessu ævintýri að lofa okkur að dreyma, meira segja þegar maður vissi ekki hvernig maður myndi framkvæma þá drauma, það er partur af galdrinum.“

Á þessum bar verða seld blóm, plöntur og önnur fallega smávara eins og kristallar og annað úr kuklheiminum.

Við höfum heyrt að þið hafið hug á því að stækka? „Það er langþráður draumur að rætast en við erum að fara opna bar í blóma sem heitir Luna Flórens – þar munu ýmis persónuleg áhugamál mín fá að blómstra. Á þessum bar verða seld blóm, plöntur og önnur fallega smávara eins og kristallar og annað úr kuklheiminum. Við verðum með holla spírusafa og ætileg blóm – við munum svo túlka í kokteilana okkar þegar líða fer að kveldi. Vinkona okkar, matarstílisti með meiru, hún Áslaug Snorra mun koma til með að aðstoða okkur við að undirbúa töfraseyðin sem verða í boði. Þessi staður verður tengdur núverandi rekstri og mun því styðja við hann og bjóða upp á ýmsa möguleika. Svo erum við með nokkrar aðrar hugmyndir sem okkur langar að framkvæma en þá er alltaf spurning um stað og stund.“

Coocoo´s Nest er hlýlegur veitingastaður úti á Granda.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framreiðslu? „Takk fyrir þessa spurningu. Við erum mjög meðvituð um okkar kolefnisspor og þá ábyrgð sem fylgir því að eiga fyrirtæki. Við erum sífellt að læra eitthvað nýtt hvað það varðar og reyna taka fleiri skref í rétta átt. Við flokkum flestallt plast og pappír og erum með lífræna tunnu fyrir matarafganga og fyrir lífrænu servíetturnar okkar. Við flokkum einnig sprittkerti, málmtappana sem fylgja gosinu, allt gler og erum með maís rör í staðinn fyrir plast. Öll þessi litlu skref telja. Einnig lærði Lucas ýmislegt þegar hann vann um tíma á Michelin-stjörnu grænmetisstað á Ítalíu þar sem var lítil sem engin matarsóun og lögð áhersla á að nýta alla matarafganga á frumlegan og bragðgóðan hátt.“

Flest starfsfólk þeirra Írisar Ann og Lucasar hefur verið með þeim meira og minna frá upphafi.

Staðurinn ykkar heillar, er afar sjarmerandi og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Okkar hugsjón og lífsstíll er bara að lifa í núinu og njóta augnabliksins.“

Vinsælasti rétturinn? „Það fer alveg eftir því hvern þú spyrð. Brunchinn okkar er sívinsæll en svo eru súrdeigs-pizzurnar okkar, Deli hádegiseðillinn okkar eða Taco Tuesday ekki síðri. Einnig bjóðum við upp á skemmtilegt Happy Hour sem kallast Aperitivo og virkar þannig að þú færð smásmakk með drykknum þínum. Þeir sem þekkja vel til Ítalíu finnst mjög gaman að finna þessa hefð líka hér á landi.“

Framtíðarsýn ykkar? „Á meðan við látum draumana rætast í vinnuheiminum þá er framtíðarsýn okkar að skapa einnig þannig umhverfi að maður geti notið þess að lifa þessu lífi. Mikið er rætt um kulnun þessa dagana og við teljum það mikilvægt að jarðtengja okkur og eyða meiri tíma saman og í náttúrunni. Það er því í framtíðarplaninu að eignast smávegis land þar sem við getum komist meira í kyrrðina og jafnvel þróað sjálfbæran lífsstíl á þeim stað. Við Lucas erum bæði listamenn og myndum vilja hafa svigrúm til að sinna því meira.“

Það er gaman að nefna það að flest starfsfólk þeirra Írisar Ann og Lucasar hefur verið með þeim meira og minna frá upphafi. „Við erum ótrúlega þakklát það. Svo vil ég gjarnan senda kærleikskveðju á fastakúnna okkar og bestu nágranna sem hægt er að hugsa sér. The Coocoo’s Nest er miklu meira en bara rekstur, við erum ein stór fjölskylda,“ segir Íris Ann með bros á vör.

Myndir/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Stórfenglegt útsýni yfir sundin blá

Í Skugganum, í afar vönduðu fjölbýlishúsi við Vatnsstíg 15 í Reykjavík er að finna þessa stórglæsilegu penthouse- og útsýnisíbúð.

Þessi stórbrotna penthouse-íbúð er á tveimur efstu hæðum hússins. Útsýnið er hið glæsilegasta yfir sundin blá, innsiglinguna við Reykjavíkurhöfn, Akrafjall, Skarðsheiði, Esjuna, Þjóðleikhúsið, Hallgrímskirkju og víðar. Þetta útsýni lætur engan ósnortinn.

Arinn í borðstofu og útsýni til austurs, suðurs og vesturs
Eignin er einstaklega vel skipulögð og innréttuð á vandaðan og smekk-legan máta í alla staði. Hún er á tveimur hæðum og með fernum svölum sem veita mikil lífsgæði og möguleikarnir eru óþrjótandi þegar kemur að því að njóta útsýnis til allra átta.

Hvítt og dimmrautt gleður augað
Eignin er ein og sér á hæðinni, sem er mikill kostur fyrir eigendur. Hún er björt og stílhrein, með mikilli lofthæð og flottir horngluggar gefa eigninni skemmtilegt yfirbragð. Þegar inn er komið á neðri hæðina er gengið inn í flísalagt hol beint úr forstofu inn í eldhúsrýmið sem er fallegt og bjart með vönduðum Miele-tækjum. Hvíti liturinn er í forgrunni í innréttingum á móti dimmrauðum skápum sem tóna vel saman. Borðplatan er úr hvítum steini og gefur rýminu fallega áferð. Plankaparketið á gólfinu er gott mótvægi á móti háglans innréttingunum og heildarútlitið er hið glæsilegasta. Áfram er haldið í stórt og opið rými þar sem stofa og borðstofa prýða rýmið. Fallegur arinn, þar sem hvíti og svarti liturinn mætast, er í borðstofu og mikil lofthæð gerir borðstofuna hina glæsilegustu. Úr borðstofunni er stórfenglegt útsýni til þriggja átta, austur, suður og vesturs. Úr stofunni eru rúmgóðar svalir sem snúa til suðvesturs með tveimur útgöngum og plássið gefur mikla möguleika fyrir huggulegheit. Á neðri hæðinni er einnig stórt og rúmgott herbergi með vönduðum skápum auk þess er annað minna herbergi.

Hjónasvítan á toppnum
Á efri hæð eignarinnar er að finna griðastað eigenda, glæsilega hjónasvítu með stórum gluggum og stórum svölum til austurs og einnig er fataherbergi staðsett inn af hjónaherbergi. Auk þess er á hæðinni baðherbergi, þvottahús og rúmgott hol. Baðherbergið er hið vandaðasta með fallegum viðarinnréttingum þar sem rýmið er vel nýtt. Hvítt og grátt eru litirnir sem spila stórt hlutverk þar og birtan er góð.

Frábær kaup á einstakri eign
Þessi einstaka eign er 217,5 fermetrar, þar af er íbúðin 192,2 fermetrar að stærð og í sameign er geymsla sem fylgir eigninni 25,3 fermetrar að stærð. Jafnframt fylgja tvö bílastæði í lokaðri og upphitaðri bílageymslu. Verðið á þessari eign er mjög gott 150 milljónir og er hún til sölu á fasteignasölunni Eignamiðlun. Opið hús verður laugardaginn 25. ágúst næstkomandi frá klukkan 12.00 til 13.00 og eru áhugasamir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar veitir Guðlaugur Ingi Guðlaugsson löggiltur fasteignasali í síma 864-5464 eða á netfanginu [email protected]

 

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Íslensk stjórnvöld í viðbragðsstöðu vegna stöðu flugfélagana.

Íslensku flugfélögin tvö, WOW air og Icelandair, eru of stór til að falla. Stjórnvöld hafa fylgst náið með stöðu þeirra, sérstaklega WOW air mánuðum saman, þótt það hafi ekki farið hátt. WOW air reynir nú að fá allt að 12 milljarða króna að láni til að koma sér fyrir vind. Gangi það ekki gætu stjórnvöld, með einhverjum hætti, gripið inn í.

Icelandair hefur ekki farið varhluta af þrengingum í fluggeiranum. Markaðsvirði félagins var um 189 milljarðar króna fimmtudaginn 28. apríl 2016, þegar það var sem mest. Nú er það um 42 milljarðar króna. Tæplega 150 milljarðar króna af markaðsgenginu hefur þurrkast út á rúmum tveimur árum. Markaðsvirði Icelandair er nú umtalsvert lægra en eigið fé félagsins, sem var um 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.

Undir lok ársins 2017 hófu stjórnvöld  vinnu við að undirbúa viðbragðsáætlun vegna flugfélaganna, en þó þannig að lítið bar á. Fjögur ráðuneyti (samgöngu-, fjármála- og efnahagsmála-, forsætis- og iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti) komu að verkefninu..

Ítarlega er fjallað um málið í Mannlífi dagsins og á vef Kjarnans.

Samstarfsfúsi borgarfulltrúinn

Samstarfið í borginni hefur verið ansi stormasamt síðan borgarfulltrúar mættu til starfa fyrr í sumar. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, hefur vakið athygli síðustu daga fyrir þð umdeilda atvik þegar hún ullaði á Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Líf bað Mörtu afsökunar og sagði á Facebook-síðu sinni að tungutaktarnir hefðu einungis verið góðlátlegt grín.

„Hvað gerir maður þegar einhver starir á mann í lengri tíma af miklu yfirlæti og vanþóknun í þrúgandi og kúgandi aðstæðum eftir að maður hefur verið málefnalegur og sanngjarn í sínum málflutningi en fær ómálefnaleg viðbrögð á móti? Jú, maður reynir að slá þessu öllu upp í grín og létta andrúmsloftið og losa sig úr störukeppninni með því að ulla bara á viðkomandi, lyfta brúnum og brosa,“ skrifaði Líf.

Þetta fræga ull kom í kjölfar ásakana Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, og Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, um að Líf legði Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokks Íslands, í einelti.

„Meira samtal, minna þras!“

Spurning er hvort stutt sé í að kallaður verði til vinnustaðasálfræðingur í Ráðhúsi Reykjavíkur, líkt og var gert í lok árs 2015 þegar Sóley Tómasdóttir, þáverandi oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, ýtti Líf til hliðar og tók formannssæti hennar í mannréttindaráði Reykjavíkur. Vinstri græn skiptust í tvær fylkingar út af þessu bragði Sóleyjar, sem kom Líf í opna skjöldu. Í frétt Eyjunnar um málið kom fram að ekki hafi verið full eining um að Sóley tæki sæti Lífar og að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, hefði verið andvíg ákvörðuninni og reynt að tala Sóleyju ofan af henni án árangurs. Ári síðar hætti Sóley og flutti til Hollands og tók Líf hennar sæti sem forseti borgarstjórnar.

Hvað gerist næst í borgarstjórn Reykjavíkur er óvíst, en er ekki ágætt að hin umdeilda Líf eigi lokaorðin sem hún lét falla á Twitter í fyrra:

„Gott samtal. Meira samtal, minna þras!“

Kynlífsvinna og vændi – val eða áþján?

||
||

Heitar umræður um vændi og kynlífsvinnu hafa undanfarið átt sér stað meðal íslenskra femínista.

Skiptar skoðanir á eðli og skilgreiningu þessara hugtaka hafa orðið til þess að fólk hefur skipað sér í tvær fylkingar sem takast harkalega á. Eru kynlífsvinna og vændi normalísering nauðgunarmenningar eða frjálst val einstaklinga? Sólveig Anna Bóasdóttir og Elísabet Ýr Atladóttir eru forsvarsmenn ólíkra viðhorfa í deilunni og við fengum þær til að gera grein fyrir sínum viðhorfum.

______________________________________________________________

Vændisfólki ber að búa við grundvallarmannréttindi

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðileg siðfræði við HÍ, er ein þeirra sem vill gera greinarmun á kynlífsvinnu og vændi og virða frjálsan rétt einstaklinga til að stunda þá vinnu ef þeir kjósa það. Hver er hennar skýring á þeim ágreiningi sem upp er kominn innan femínistahreyfingarinnar í umræðu um þessi mál?

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við HÍ. Mynd / Hallur Karlsson

„Kynlíf hefur verið spennuvaldur í femínískri umræðu frá upphafi. Segja má að umræða um kynlíf meðal femínista hafi spennst milli tveggja andstæðra póla þar sem annars vegar hefur verið lögð áhersla á hættu á drottnun og ofbeldi karla og hlutgervingu kvenna og hins vegar á kynlífsánægju kvenna, atbeina og valfrelsi. Önnur bylgja kvennahreyfingarinnar í Bandaríkjunum klofnaði á sínum tíma vegna andstæðra skoðana á kynlífi, klámi og vændi. Heitin kynlífsvinna (e. sex work) og vændi (e. prostitution) eru yfirleitt skilgreind á sams konar hátt, þ.e. sem samþykkt kynlífsviðskipti milli tveggja fullorðinna einstaklinga. Ákveðinn hópur femínista leggur að jöfnu kynlífsvinnu/vændi a.v. og mansal h.v. og gerir þar með ráð fyrir því að allt vændisfólk vinni undir nauðung og þrælkun. Þar stendur hnífurinn í kúnni.“

Er einhver munur á kynlífsvinnu og vændi?
„Eins og ég segi er „sex work“ og vændi yfirleitt skilgreint á svipaðan hátt. Munurinn á heitunum er sá að vændisfólk, þ.e. er fólkið sem vinnur kynlífsvinnu er yfirleitt sátt við heitið „sex work“ vegna þess að það hefur sjálft átt þátt í að móta það. Það leggur áherslu á að „sex work“ sé vinna eins og hver önnur vinna. Því sama er ekki að heilsa með vændishugtakið, það er gildishlaðið og felur í sér neikvæða, brennimerkjandi merkingu.“

Þú hefur fjallað um kynlífsvinnu sem frjálst val einstaklinga og rétt kvenna til kynlífs á eigin forsendum, hvernig rökstyðurðu það?
„Í þau skipti sem ég hef tjáð mig um kynlífsvinnu (e. sex work) þá hef ég byggt á rannsóknum og skýrslum ýmissa frjálsra félagasamtaka sem byggjast á viðtölum við vændisfólk í ýmsum löndum um félagslegar aðstæður þeirra, reynslu, þarfir og vilja. Femínískt og siðfræðilegt sjónarhorn mitt felst í að byggja á reynslu hinna kúguðu og útskúfuðu og leggja trúnað á það sem þau segja. Þá tala ég um þetta mál fyrst og fremst í hnattrænu samhengi því umhverfið hér á landi eða á Norðurlöndunum endurspeglar ekki gjörvallan heiminn.

Ég geri sterkan greinarmun á mannsali og kynlífsvinnu. Mansal slær siðfræðilega umræðu út af borðinu. Mansal er glæpur. Ef samþykki milli fullorðinna aðila er fengið með þvingunum, ógn, blekkingum eða svikum eða ef barn er aðili að máli er ekki verið að tala um kynlífsvinnu heldur glæp. Vændisfólk víðast hvar á það sameiginlegt að lifa við mikla fátækt. Reynsla fólks sem vinnur kynlífsvinnu á mismunandi stöðum í heiminum er sú að vinnumarkaðurinn sem þeim býðst sé ýmist enginn eða verri en kynlífsvinnan. Fátækt, brennimerking – einkum trans fólks – og aðstöðuleysi er yfirleitt orsök þess að fólk leiðist út í kynlífsvinnu. Það er að reyna að lifa og komast af. Í Kambódíu, svo dæmi sé tekið, kusu vændiskonur frekar að vinna kynlífvinnu en starfa í verksmiðjunum. Það var betur borgað og þægilegri vinna! Val þeirra stóð á milli tveggja slæmra kosta en slíkar valaðstæður eru ekki einsdæmi. Í mörgum löndum er kynlífsvinna eina lífsviðurværið trans fólks.“

„Það sem ég hef lagt fram í samhengi umræðu um kynlífsvinnu er að vændisfólki, sem öðrum, beri grundvallarmannréttindi eins og líf, virðing og mannhelgi.“

Er það ekki  andstætt femínískri hugmyndafræði að normalísera þá skoðun að líkamar fólks séu verslunarvara?
„Ég kannast ekki við neina femíníska hugmyndafræði sem talar fyrir þessu! Líkamar okkar og limir eru hins vegar til sölu á hverjum degi, með ýmsu móti. Immanuel Kant hélt því fram að það væri ekki siðferðilegt vandamál að maðurinn léti nota sig sem tæki, t.d. með því að lána hendur sínar, fætur og jafnvel allan kraft sinn til einhvers verks, svo lengi sem hann samþykkti þá notkun. Orð hans má túlka þannig að lögmálið um virðingu fyrir persónunni gefi fólki möguleika á að leyfa viss afnot af sjálfu sér, að því gefnu að fólk sé ekki samtímis beitt blekkingum, stjórnsemi eða valdbeitingu af einhverju tagi.“

Andstæðingar normalíseringar þeirrar skoðunar tala um að með því sé verið að réttlæta nauðgunarmenningu, hverju svararðu því?
„Þessi spurning er þannig að við henni á ég ekkert svar. Hér eru settir upp tveir andstæðir hópar. Meðmælendur og andstæðinga hvers? Hins hugmyndafræðilega rétta? Hverjir tala fyrir nauðgunarmenningu meðal femínista? Mín skoðun er sú að femínistar séu að langmestu leyti sammála um hvað einkenni gott samfélag og leggi áherslu á að jöfnuður og mannréttindi séu grundvöllur þess. Það sem ég hef lagt fram í samhengi umræðu um kynlífsvinnu er að vændisfólki, sem öðrum, beri grundvallarmannréttindi eins og líf, virðing og mannhelgi. Vændisfólki beri sjálfræði og við sem viljum ekkert heitar en að skapa gott og fullkomið samfélag skyldum fara varlega í forsjárhyggju gagnvart því. Öryggi, velferð og heilsa eru gæði sem vændisfólk fer að mestu leyti á mis við og því þarf samfélagið að breyta.“

Er bara pláss fyrir eina gerð af skoðunum innan íslensku femínistahreyfingarinnar?
„Það er undir þeim komið sem taka þátt í umræðunni. Femínísk umræða hefur aldrei verið einradda kór og verður vonandi aldrei. Margar virkar raddir eru til þess gerðar að styðja við lýðræðið.“

______________________________________________________________

Normalísering á nauðgunarmenningu

Elísabet Ýr Atladóttir, heldur úti bloggsíðunni kvenfrelsi.wordpress.com og er ein af stofnendum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, hópsins á Facebook. Henni var í vikunni hent út af femínistaspjallinu á Facebook vegna skoðana sinna. Hvaða skoðanir eru það sem ekki hljóta náð fyrir augum stjórnenda spjallsins? Um hvað snýst ágreiningurinn?

Elísabet Ýr Atladóttir, stofnandi kvenfrelsi.wordpress.com og ein af stofnendum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, hópsins á Facebook. Mynd / Hildur María Valgarðsdóttir.

„Ágreiningurinn snýst að mörgu leyti um hvernig vændi er skilgreint og hvernig það „má“ tala um vændi. Það hefur verið vaxandi bylgja frjálshyggju um allan heim og einn af fylgifiskum þess er sterk einstaklingshyggja – ef ég „vel“ eitthvað þá á ekki að mega hreyfa við því af ríki eða lögum, sama hversu skaðlegt það getur verið. Þetta snýst í raun um að fólk vill sjaldan tala um hvernig vændi tengist kerfisbundnu ofbeldi og hlutgervingu, heldur vill það frekar sjá þetta sem val einstaklinga sem hægt er að horfa fram hjá og hafa engar áhyggjur af. Með því að láta allt snúast um einstaklingsupplifanir verður það að persónulegri árás að gagnrýna vændi, sem gerir rökræður um efnið erfiðar. Og með því að snúa öllum rökræðum um vændi upp í árás á persónulegar upplifanir er umræðan fljótt afvegaleidd.“

Það er sem sagt þín skoðun að vændi feli alltaf í sér nauðung?
„Það þarf ekki að fela í sér nauðung nei, ekki alltaf. Það er samt sjaldgæft að einhvers konar neyð sé ekki til staðar, sama hvort sú neyð er af efnahagslegum ástæðum, ofbeldi, fíkn eða að einhver annar þrýstir á að fara í vændi, neyðin getur verið margs konar og oft jafnvel ekki vel greinanleg. Það er mín skoðun að vændi sé alltaf hlutgerving og að normalísering á vændi sé normalísering á nauðgunarmenningu.“

Er það ekki andstætt femínískri hugmyndafræði að normalísera þá skoðun að líkamar fólks séu verslunarvara?
„Jú, það er nákvæmlega það. Þróunin seinustu ár virðist hafa haft þau áhrif að þessi einstaklingshyggja hefur náð að festa rætur í ýmsum femínískum rýmum og það kemur fram í svona hugmyndum um að val einstaklinga trompi hag meirihlutans og að það megi allt í einu ekki ræða það hvað val einstaklinga getur verið skaðlegt bæði fyrir þá og aðra. Að normalísera vændi væri mikið högg fyrir réttindi kvenna, enda höfum við barist lengi fyrir því að vera ekki bara kjötskrokkur til sölu í einkaeigu eða almannaeign.“

Sumir verja vændi á þeim forsendum að það snúist um rétt kvenna til kynlífs, hvað finnst þér um það?
„Mér finnst það alls ekki eðlilegt að kalla vændi kynlíf kvenna, því ekkert í vændi snýst um nautn eða kynfrelsi kvenna. Vændi hefur alltaf snúist um það að „þjónusta“ þann sem kaupir – honum gæti ekki verið meira sama hvort líkaminn sem hann kaupir nýtur þess eða ekki, enda bara tól fyrir hann til að fá sínu framgengt. Margir kúnnar vændis hafa meira að segja sagt að þeir fíli það betur þegar konurnar sem þeir kaupa fíla það ekki, því þeir voru að borga fyrir sig, en ekki hana. Réttur kvenna til kynfrelsis og kynlífs snýst ekki um hversu auðvelt er fyrir okkur að vera keyptar af karlmönnum sem það vilja. Að skilgreina vændi sem kynlíf kvenna myndi ég telja hreint út sagt öskrandi nauðgunarmenningu.“

„Mér finnst það alls ekki eðlilegt að kalla vændi kynlíf kvenna, því ekkert í vændi snýst um nautn eða kynfrelsi kvenna.“

Er bara pláss fyrir eina gerð af skoðunum innan íslensku femínistahreyfingarinnar?
„Nei, alls ekki, það er alltaf pláss fyrir alls konar skoðanir. Það er mikilvægt að eiga gagnrýnar umræður til þess einmitt að sjá aðra vinkla og geta tengt saman púsluspilið, skipt um skoðanir, byggt upp almennilega mynd af því sem við erum að berjast við. En mér hefur alltaf fundist mikilvægt að hamra á því að þetta snýst ekki um skoðanir. Þetta snýst um staðreyndir og lausnir, ekki persónulegar upplifanir einstaklinga, sem eru með aðrar skoðanir en meirihlutinn, eða heimsspekileg fræði. Oft týnist femínísk umræða um alls konar mál í einhvers konar hugmyndafræðilegum pælingum sem hafa lítið sem ekkert að gera með raunveruleikann og hafa engar praktískar áherslur. Það er mikilvægt að eiga svoleiðis umræður en þegar við erum að tala um raunveruleikann og hvað er að gerast, staðreyndir lífs kvenna og hvað þær eru að upplifa dagsdaglega, þá getum við ekki einblínt á skoðanir og pælingar einstaklinga. Við þurfum að horfa á vandann sem kerfisbundinn, ekki persónubundinn, og þá gagnast skoðanir oft lítið.

Það sem skiptir öllu máli er að það sé hægt að ræða þessi málefni gagnrýnið og vernda þær sem eru þolendur vændis, gera þeim lífið auðveldara, kenna þeim aldrei um aðstæður þeirra. Normalísering á vændi er ákveðin týpa af victim blaming – því ef hún „valdi“ þetta þá hlýtur hún að geta dílað við afleiðingarnar – þannig virðist pælingin vera. Að konur þurfi bara að vera ákveðið sterkar ef þær ætla út í þennan bisness og þær sem koma út úr honum traumatíseraðar hafi bara ekki verið nógu klárar, nógu sterkar, nógu harðar á því að setja mörk. Það þarf að gera það skýrt að ábyrgðin liggur ekki hjá þeim sem eru í vændi heldur hjá þeim sem kaupa og nýta sér þeirra aðstæður, sama hvaða aðstæður það geta verið. Sama af hvaða ástæðu fólk fer í vændi, þá er það ekki þeirra að bera ábyrgðina á þessum iðnaði og það er á ábyrgð okkar allra að koma til móts við þau og gera þeim auðveldara að finna aðrar leiðir. Enginn ætti að þurfa að fara í vændi – aldrei.“

 

Sofandi að feigðarósi

Staða íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, er viðfangsefni forsíðugreinar Mannlífs að þessu sinni. Þrátt fyrir „góðærið“ margumtalaða og ferðamannastrauminn sem það byggir á er staða þeirra viðkvæm og nokkuð ljóst að til þess að bjarga þeim verða stjórnvöld að grípa inn í, þau eru einfaldlega of stór til að hægt sé að leyfa þeim að falla.

Hlutdeild þeirra í flutningi ferðamanna til landsins er 80-85% og það gefur augaleið að með falli þeirra væri stoðunum kippt undan ferðaiðnaðinum á Íslandi í einu vetfangi. Hið margumtalaða „góðæri“ stendur og fellur með áframhaldandi rekstri þeirra.

Í greininni kemur einnig fram að stjórnvöld séu í viðbragðsstöðu og óformlegt samkomulag sé um það að grípa inn í ef ekki tekst að tryggja rekstrargrundvöll flugfélaganna, einkum WOW air. Það vekur hins vegar furðu og óþægileg hugrenningatengsl hversu seint stjórnvöld koma að borðinu. Það hefur verið ljóst lengi í hvað stefndi en að gömlum og góðum íslenskum sið hefur verið horft fram hjá því og gripið til hins sígilda „þetta reddast“ hugsunarháttar, að því er virðist. Viðvaranir hagfræðideildar Landsbankans fyrir ári síðan virðast hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá stjórnvöldum og það var ekki fyrr en nú á vordögum, þegar í óefni var komið, sem þau tóku við sér. Hljómar óhugnanlega kunnuglega. Við höfum greinilega ekkert lært á tíu árum.

„ … ef hér á einhvern tíma að verða stöðugleiki og raunverulegt góðæri verða Íslendingar að læra af mistökum sínum og temja sér aðra siði í stjórnum fjármálakerfisins.“

Sofandahátturinn gagnvart viðvörunarmerkjum í aðdraganda hrunsins 2008 hefur verið gagnrýndur harðlega og íslensk stjórnvöld þess tíma hlotið mikið ámæli fyrir að leyfa hlutunum að þróast eins langt út í kviksyndið og þeir gerðu þá. Það virðist gleymt og grafið. Íslendingar berja sér á brjóst og gorta af ótrúlegum viðsnúningi efnahagslífsins eftir hrun en virðast horfa fram hjá þeirri staðreynd að sá viðsnúningur byggðist að stærstum hluta á aukningu ferðamannastraumsins til landsins. „Sjáið þið ekki veisluna“, er enn leiðarstef Íslendinga í fjármálum og það virðist engum detta í hug að til þess að tryggja áframhaldandi veislu þarf að huga að því á hverju sú veisla byggir. Það þarf að fjármagna veisluföngin og koma þeim í hús annars verða þau fljótlega á þrotum.

Erum við þá á leiðinni í annað hrun? Og vegna nákvæmlega sama andvaraleysis og síðast? Nei, sem betur fer virðist slíkt ekki í uppsiglingu í þetta sinn. Flugfélögin eru einfaldlega of mikilvæg til að þeim verði leyft að rúlla en lærdómurinn sem draga má af því hversu langt þrengingum þeirra hefur verið leyft að ganga er engu að síður skýr: ef hér á einhvern tíma að verða stöðugleiki og raunverulegt góðæri verða Íslendingar að læra af mistökum sínum og temja sér aðra siði í stjórnum fjármálakerfisins. Þetta reddast nefnilega ekki af sjálfu sér.

Munaðarleysingjar og morðóður trúður

||
Ævar Þór Benediktsson.

Leikarinn og rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson hefur sent frá sér fjölda barnabóka, nú síðast bókina Ofurhetjuvíddin sem kom út í maí og léttlestrarbækurnar Þín eigin saga: Búkolla, og Þín eigin saga: Börn Loka. Það er því áhugavert að sjá hvaða bækur hafa haft áhrif á Ævar.

 

IT eftir Stephen King


„Þegar ég var 14 ára gamall bað frændi minn, Þórarinn Hjörtur Ævarsson, mig um að geyma bókasafnið hans. Meðal bókanna leyndust ótalmargar bækur eftir Stephen King á frummálinu, en á þessum tíma var ég einmitt við það að klára allar íslensku þýðingarnar á verkum hans. Þegar ég hugsa til baka er þó ein bók umfram aðrar sem situr mest í mér; IT. Ekki bara vegna þess að hér er á ferðinni æðisleg hrollvekja (ég las hana aftur í fyrrasumar, bara til að vera viss), heldur er Aumingja-klúbburinn meðal nokkurra af bestu persónum Kings. Þetta er bókin sem kenndi mér að ef þú ætlar að láta eitthvað hræðilegt koma fyrir persónurnar þínar, má okkur lesendunum ekki standa á sama um þær.“

Lemony Snicket’s a Series of Unfortunate Events – eftir Lemony Snicket

„Hér er ég að svindla með því að nefna 13 bóka flokk, en ekki bara eina bók. Fáar bækur hafa haft jafnmikil áhrif á skrifstíl minn og bækurnar í þessum merka bókaflokki. Bókaflokkur er orð sem hér þýðir: ,,Þrettán bækur sem fjalla um þrjú munaðarlaus systkini sem lenda í ömurlegum aðstæðum sem verða svo bara verri, sérstaklega vegna þess að afar myndarlegur greifi er að reyna að hafa hendur í hári þeirra.“ Fyrstu bækurnar voru meistaralega þýddar á íslensku og kallaðar ,,Úr bálki hrakfalla“, en þegar hætt var að gefa þær út hér heima varð ég að finna þær á ensku. Því miður er vandamálið um hálfþýdda bókaflokka enn við líði í dag.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hollt pasta á 15 mínútum

|||||
|||||

Heilsumarkþjálfinn Júlía Magnúsdóttir hjá Lifðu til fulls býður upp á ókeypis fyrirlestur í kvöld, miðvikudaginn 22. ágúst, klukkan 20.30. Fyrirlesturinn fer fram á netinu og því getur hver sem er hlýtt á. Júlía fer yfir víðan völl á fyrirlestrinum.

„Á fyrirlestrinum lærir þú ómissandi ráð til að hefja breyttan lífsstíl, auka orkuna og losna við sykurlöngun. Allir sem mæta í beinni fá ókeypis uppskriftir og sérstakt hreinsunarpróf. Í lokin verður opnað fyrir spurningar á línunni svo þú getur spurt mig að því sem þú hefur verið að velta fyrir þér varðandi heilsuna,“ segir Júlía og bætir við að mikilvægt sé að skrá sig á fyrirlesturinn þó hann sé ókeypis á netinu.

„Það eru takmörkuð pláss í boði og því um að gera að skrá sig strax. Við höfum haldið þessa fyrirlestra tvisvar til þrisvar síðustu ár og það er alltaf fullt á þá. Í fyrra til að mynda skráðu sig um það bil átta hundruð manns.“ Hægt er að skrá sig á fyrirlesturinn með því að smella hér.

Galdraefni í léttu pasta

Í tilefni fyrirlesturins ákváðum við hjá Mannlífi að fá eina holla og næringarríka uppskrift hjá Júlíu, sem deilir hér með lesendum fljótlegum pastarétt.

„Það kemur flestum á óvart að það sé hægt að finna gott „ostabragð“ án þess að það innihaldi mjólkurafurðir eða sykur. Sósan og rétturinn sem ég deili hér er vegan og léttari í maga en hefðbundið ostapasta,“ segir Júlía. Í uppskriftinni notar hún til dæmis næringarger, sem hægt er að fá meðal annars í Bónus, Hagkaupum og Heilsuhúsinu, og er talið algjört undraefni.

„Næringarger er óvirkt ger sem er ekkert líkt hefðbundu bakstursgeri. Það er gríðarlega ríkt af B-vítamínum og B-12 sérstaklega. B-vítamín getað aukið orkuna yfir daginn en engin hætta er þó á því að þú borðir næringarger að kvöldi til og verðir vakandi frameftir. Hægt er að nota það yfir popp, salöt eða allt sem þú vilt fá gott ostabragð á á næringarríkan hátt.“

15 mínútna fettucine „osta“ pasta með stökku blómkáli

Vegan „osta“ sósa:

1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli rifinn vegan parmesan eða parmesan
1 msk næringarger
1 hvítlauksrif (ég notaði einn perlulauk)
chilli á hnífsoddi
1 tsk dijon
klípa af salti
nokkrir dropar stevia eða kókospálmanektar

Grænmetið:

1 msk olífuolía
2 hvítlauksrif (ég notaði tvo perlulauka)
1/2 blómkálshaus
1/2 kúrbútur
handfylli ferskt rósmarín

Borið fram með:

spínati
valhnetum/furuhnetum
ferskri steinselju
sítrónusneiðum
rifnum vegan parmesan eða parmesan

Aðferð:

Setjið öll hráefni sósunnar í blandara og vinnið þar til silkimjúkt. Sjóðið vatn í potti og leyfið suðu að koma upp. Bætið pasta út í vatnið, lækkið undir og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka, sirka 6 til 8 mínútur.

Hitið pönnu. Steikið hvítlauk, blómkál, kúrbít og kryddjurtir á pönnu og hrærið í 5 til 7 mínútur. Hellið sósunni í pönnuna ásamt pastanu og hrærið örlítið. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.

Berið fram með því sem þið kjósið og njótið!

Hollráð

Ef þú vilt hafa blómkálið enn stökkara má setja það í ofninn við 180°C með örlítið af olíu og salti og pipar í 25 mínútur. Þá er gott að snúa við blómkálinu eftir sirka 15 mínútur. Til að flýta fyrir má gera vegan „osta“ sósuna yfir helgi eða kvöldið áður og geyma í kæli. Einnig má frysta sósuna sem ég tel þó ólíklegt að gerist þar sem sósan er svo bragðgóð að hún klárast yfirleitt strax.

Fötin skapa manninn: Fangar og fíklar fá yfirhalningu

|||||||||||||
|||||||||||||

Góðgerðarsamtökin Sharp Dressed Man voru stofnuð í Baltimore í Bandaríkjunum árið 2011 af feðgunum Christopher og Seth Schafer. Markmið samtakanna er að veita karlmönnum stuðning þegar þeir snúa aftur út á vinnumarkaðinn úr fangelsi eða meðferð.

Christopher er klæðskeri sem sérsaumar háklassa jakkaföt, en hugmyndin að Sharp Dressed Man kom til hans þegar hann var að leita leiða til að nýta þau jakkaföt sem ekki seldust. Nú hagar hann góðgerðarvinnunni þannig að hann leitar að framlögum frá fyrirtækjum og viðskiptavinum sínum og á hverjum miðvikudegi koma til hans karlmenn til að fá frí föt, klippingu og heita máltíð.

Christopher glímdi sjálfur við fíknivanda og finnst mikilvægt að hjálpa karlmönnum að fóta sig aftur í lífinu.

Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að koma vel fyrir í atvinnuviðtölum, en síðan góðgerðarsamtökin voru stofnuð hafa þau skapað tengsl við fullt af ráðningarskrifstofum og breytt lífi fjölmargra karlmanna.

Hér fyrir neðan má sjá yfirhalningu nokkurra karlmanna sem hafa notið stuðnings frá Sharp Dressed Man:

Stefán Karl er látinn

Stefán Karl Stefánsson

Leikarinn ástsæli, Stefán Karl Stefánsson, er látinn aðeins 43 ára að aldri eftir baráttu við gallgangakrabbamein. Hann lætur eftir sig eiginkonu, leikkonuna og ritstýruna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, og fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

Eftirlifandi eiginkona hans tilkynnti andlát Stefáns Karls á Facebook-síðu sinni.

„Yndið mitt, Stefán Karl Stefánsson, er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Stefán var fæddur 10. júlí 1975 og varð því 43 ára gamall. Að ósk hins látna verður engin jarðarför og jarðneskum leifum dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Fjölskyldan þakkar auðsýndan stuðning og hlýhug á undangengnum árum og sendir hinum fjölmörgu vinum og aðdáendum Stefáns Karls sínar innilegustu samúðarkveðjur,“ skrifar Steinunn Ólína.

Hinn íslenski Jim Carrey

Stefán Karl útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1999 og er hvað þekktastur fyrir túlkun sína á persónunni Glanna Glæp í Latabæ, túlkun sem vakti heimsathygli. Var hann oft kallaður hinn íslenski Jim Carrey, enda var Stefán Karl afar lunkinn í að bregða sér í ýmis líki. Þá aflaði Stefán Karl sér einnig margra erlenda aðdáenda þegar hann lék Trölla í leiksýningunni How the Grinch Stole Christmas í Bandaríkjunum og Kanada. Hann lék þessa skrautlegu persónu um það bil sex hundruð sinnum fyrir um tvær milljónir aðdáenda.

Hann lék í fjölmörgum verkum á sviði, og stendur þar einna hæst leikritið Með fulla vasa af grjóti þar sem hann lék aragrúa af persónum á móti Hilmi Snæ Guðnasyni. Verkið var fyrst sett á svið árið 2000, síðan árið 2012 og svo aftur í fyrra við mikinn fögnuð leikhúsgesta.

Sæmdur riddarakrossi

Þá var leikarinn einnig mikill baráttumaður gegn einelti og rak góðgerðarsamtökin Regnbogabörn um árabil. Hann ferðaðist um landið með fyrirlestra sína og stóð fyrir mikilli vitundarvakningu í þessum efnum.

Stefán Karl var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Við sendum aðstandendum Stefáns Karls innilegar samúðarkveðjur.

Saga og Snorri orðin hjón

Leikkonan Saga Garðarsdóttir og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason giftu sig á Suðureyri um helgina, en það má með sanni segja að brúðkaupið hafi verið stjörnum prýtt.

Það var leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir sem gaf turtildúfurnar saman en meðal gesta í brúðkaupinu voru grínararnir Steindi Jr., Sóli Hólm og Björn Bragi, sem og tónlistarmaðurinn Valdimar og fjölmiðlakonan Berglind festival.

Saga og Snorri❤️#algjörgifting

A post shared by Anna Sigrún Auðunsdóttir (@annasigrunauduns) on

Snorri og Saga byrjuðu saman árið 2014 og eignuðust dóttur fyrr á þessu ári, nánar tiltekið þann 28. febrúar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir og myndbönd af Instagram frá þessum fallega degi, en Mannlíf óskar parinu innilega til hamingju með ástina.

Svo gott brúðkaupshelg! #algjörgifting

A post shared by Guðrún Sóley (@gudrun_soley) on

#algjörgifting #snorriogsaga #brúðkaupaldarinnar

A post shared by Petur Ben (@peturben) on

Tvær kynslóðir grínara. Saga og Snorri #algjörgifting

A post shared by Pálmi Gestsson (@pgests) on

fullkomin hjón og lítill svangur grís ? #algjörgifting

A post shared by Glódís Guðgeirsdóttir (@glodisgud) on

Ég að kyssa geggjaða gellu ? #algjörgifting

A post shared by Steindi jR (@steindijr) on

Ég er í brúðkaupsveislu og það er rosa gaman. #algjörgifting

A post shared by Valdimar Gudmundsson (@valdimar85) on

#ALGJÖRGIFTING Snorri & Saga 18. ágúst 2018 – Suðureyri

A post shared by Baldur Kristjáns (@baldurkristjans) on

„Níu af hverjum tíu sem fremja sjálfsmorð eru karlar“

Atli Óskar Fjalarsson og Viktor Sigurjónsson vinna að nýrri mynd um stöðu stráka í samfélaginu. Myndin kallast Lífið á eyjunni og er markmið hennar að vekja athygli á geðheilsu drengja.

„Við Viktor kynntumst á kvikmyndasetti í fyrra. Þá var ég nýbúinn að stofna hóp sem heitir Strákahittingur í kjölfar #metoo-byltingarinnar þar sem karlar geta rætt tilfinningar og hluti sem yfirleitt er ekki leyfilegt að tala um ef maður er strákur og ég var eiginlega í sjokki yfir því hvað margir viðurkenndu að þeir ættu erfitt með að tjá tilfinningar sínar og opna sig um erfiða hluti eins og til dæmis kynferðisofbeldi. Við Viktor fórum að ræða þetta og þá kom í ljós að hann var búinn að skrifa uppkast að stuttmynd um einmitt svipaða hluti. Við vorum sammála um svo margt og það varð til þess að hann bauð mér að vera með sér í gerð myndarinnar. Í framhaldinu skrifuðum við saman handritið,“ lýsir Atli, þegar hann er spurður að því hvernig hugmyndin að myndinni hafi kviknað.

Að hans sögn fjallar hún um 12 ára strák úti á landi, Braga, sem er frjór og skemmtilegur en á erfitt með nám og er félagslega einangraður. Hann tekur upp á því að stofna hljómsveit með strák sem er nýfluttur í bæinn og uppgötvar við það kraft tónlistar og vináttu. Atli segir myndina endurspegla stöðu margra í dag þar sem sífellt erfiðara sé fyrir stráka og karlmenn að fóta sig í samfélaginu.

„Leiðin sem við förum til að segja söguna á eftir að vekja þörf til að tala um hlutina og það er það sem við viljum. Við viljum skapa umræðu.“

„Staðan er verri. Sjáðu bara menntakerfið, hvað mikið brotfall er hjá strákum í menntaskóla og hvað miklu færri strákar en stelpur eru skráðir í háskóla og sem ljúka háskólanámi. Þá sýna rannsóknir að einn af hverjum fimm körlum á ekki náinn vin, sem segir okkur að ef viðkomandi á engan að sem hann getur leitað til þegar eitthvað bjátar á þá eru auknar líkur á að hann leiti „annarra lausna“. En þegar ég tala um aðrar lausnir þá meina ég sjálfsvíg en níu af hverjum tíu sem fremja sjálfsmorð eru karlar.“

Gat ekki tjáð sig um eigin líðan

Sjálfur segist Atli hafa upplifað það að koma að luktum dyrum í menntakerfinu og ekki fundist hann getað tjáð sig opinskátt um eigin líðan. „En sem betur fer á ég góða vini og fjölskyldu sem hafa stutt við bakið á mér ef lífið hefur verið erfitt. Því miður eru ekki allir strákar svo heppnir og að mínu mati verðum við að brúa bilið á milli þessara eyja sem þeir búa á. Þess vegna heitir myndin okkar Lífið á eyjunni.“

Hann segir að markmiðið með gerð hennar sé að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál. Hann og Viktor stefni að því að sýna hana í skólum landsins og fylgja því eftir með fyrirlestrum eða málþingum. „Leiðin sem við förum til að segja söguna á eftir að vekja þörf til að tala um hlutina og það er það sem við viljum. Við viljum skapa umræðu. Að fólk ræði þessi mál opinskátt. Þá er markmiðinu náð.“

Tökur á myndinni standa nú yfir á Seyðisfirði þar sem hún kemur til með að verða frumsýnd í nýuppgerðu kvikmyndahúsi bæjarins seinna á árinu en alls er myndin búin að vera átta mánuði í vinnslu. Að sögn Atla hefur sá tími m.a. farið í handritaskrif, fjármögnun og framleiðslu. Töluverð vinna hafi líka farið í viðræður við ýmis ráðuneyti um aðkomu þeirra að verkefninu og miðað við góðar viðtökur Velferðarráðuneytisins segist hann vona að fleiri ráðuneyti komi til að með styrkja það. „Stuðningurinn skiptir bara svo miklu máli, því þetta er mynd og umræða sem á erindi við alla,“ segir hann og getur þess að þeir Viktor séu líka með söfnun í gangi vegna myndarinnar á Karolina Fund.

Mynd að ofan: Atli Óskar Fjalarsson, annar handritshöfunda og framleiðandi stuttmyndarinnar Lífið á eyjunni, segist vona að myndin muni skapa umræður um báglega stöðu drengja á Íslandi.

 

Lilja Alfreðsdóttir kallar eftir breiðu samráði

Hafin  er  vinna  við  að  móta  nýja  menntastefnu  á  Íslandi  til  ársins  2030.

Lilja  Alfreðsdóttir  mennta-  og  menningarmálaráðherra  segir  að  gæðamenntun  fyrir  alla  á  öllum  skólastigum  verði  höfð  að  leiðarljósi  í  þeirri  vinnu  sem  fram undan  er.  Eitt  af  helstu  markmiðum  nýju  menntastefnunnar  er  að  tryggja  að  allir  í  skólasamfélaginu  líti  á  skólastarf  án  aðgreiningar  sem  grundvöll  gæðamenntunar  fyrir  alla  nemendur  í  takt  við  alþjóðlegar  skuldbindingar  um  jafnrétti  til  náms.  Lilja  kallar  eftir  breiðu  samráði  og  að  sem  flestir  er  málið  varða  komi  að  borðinu  við  stefnumótunarstarfið.

Texti / Egill Páll Egilsson
Mynd / Skjáskot af YouTube

Úr gjá í kamar

MÓTSÖGNIN: Það vakti mikla athygli í síðasta mánuði þegar fregnir bárust af því að lokað hefði verið fyrir Kvennagjá í hellinum Grjótagjá í Mývatnssveit. Hellirinn hefur verið vinsæll baðstaður í gegnum tíðina, ekki síst sökum þess að frægt atriði í Game of Thrones var tekið upp þar, nánar tiltekið kynlífssena Jon Snow og Yrgitte í seríu þrjú.

Ólöf Hallgrímsdóttir, einn landeigenda, sagði í viðtali við Morgunblaðið að hellinum væri lokað vegna slæmrar umgengni. Var gripið til tímabundinnar lokunar til að vernda svæðið. „Virðing­ar­leysið er al­gjört. Það er ekk­ert farið eft­ir skilt­un­um. Þarna er fólk að hafa hægðir, þvo skóna sína, þvo leirtauið, bursta tenn­urn­ar og einnig hafa sum­ir sofið þarna í gjánni,“ sagði Ólöf í viðtali sem birtist þann 11. júlí síðastliðinn.

Þann 20. júlí birtist síðan frétt á mbl.is þar sem kom fram að Skútustaðahreppur hefði fengið samþykkta beiðni um undanþágu frá ákvæðum um grannsvæði vatnsverndarsvæða til þess að hægt yrði að heimila landeigendum að koma upp salernisaðstöðu við Grjótagjá. Mikið fagnaðarefni sem myndi þá gera ferðalöngum kleift að gera þarfir sínar í kamri en ekki spilla þeirri miklu náttúruperlu sem gjáin er. „Ég er mjög ánægður með þessa niður­stöðu en það hef­ur bara tekið allt of lang­an tíma að fá niður­stöðu í málið. Við höf­um beðið síðan í apríl,“ sagði Þor­steinn Gunn­ars­son, sveit­ar­stjóri Skútustaðahrepps, í fréttinni.

Svo var það í vikunni sem dv.is birti frétt um téða salernisaðstöðu við gjána og birti fremur ógeðfellda mynd með eftir ljósmyndarann Guðmund Ingólfsson. Á myndinni sést almenningssalerni sem er yfirfullt af mannasaur og klósettpappír – salerni sem þarf að greiða fyrir afnot af. Nú virðist því sem fólk hafi hægðir í kamrinum, ekki í gjánni, en fyrrnefndum Guðmundi blöskrar aðstaðan sem hann greiddi fyrir. „Ef við viljum að gestir okkar gangi sómasamlega um þá verðum við að bjóða upp á almennilega þjónustu til slíks,“ sagði hann í samtali við dv.is.

„Ég varð algjörlega agndofa“

Steinþór Helgi Arnsteinsson, viðburðastjóri hjá CCP, segist ekki horfa nærri eins mikið á sjónvarp og hann myndi vilja því hann vinni allt of mikið. Þar af leiðandi vandi hann nokkuð valið sem áhorfandi og hafi sérstakt dálæti á „kitch“-kvikmyndum.

Last Action Hero
Ég horfði á Last Action Hero um daginn, í fyrsta sinn bara síðan hún kom út, og ég fullyrði að þetta er ein vanmetnasta kvikmynd síðustu 30 ára. Og ég er ekki einu sinni að tala um vanmetnustu hasarmyndina eða eitthvað, heldur bara vanmetnustu KVIKMYND seinni ára. Myndin er post-módernískt meistaraverk, unaðsleg satíra á klisjur hasarmynda og fullkomin skemmtun frá upphafi til enda. Leikstjórinn er John McTiernan, sem gerði Die Hard og Predator, og honum tekst einhvern veginn að skapa marglaga snilld sem ég held að allir hafi misskilið.

The Human Centipede 1 & 2
Ég veit að ég er fullkomlega galinn að finnast þetta en mér finnst The Human Centipede-myndirnar geggjaðar (tek reyndar ekki fram að ég hef ekki séð númer 3). Þær eru það náttúrlega bókstaflega en þetta gígantíska óhóf sem blasir við manni í þessum myndum er algjörlega á öðru leveli en maður hefur áður séð eða bara skilið. Ég varð algjörlega agndofa eftir fyrstu myndina en svo gekk númer tvö algjörlega fram af mér. Viðbjóðurinn er keyrður úr öllu hófi en samt á einhvern fagurfræðilegan hátt. Þetta er kannski ekki sakbitin „sæla“, en þetta er sannarlega sakbitið eitthvað.

 

 

„Verður gaman að fá sína fimm mínútna frægð“

||
||

Drónaskot eftir Sigurð Þór Helgason verða notuð í Netflix-þáttunum The Dark Crystal: Age of Restistance.

Sigurður Þór Helgason, framkvæmdastjóri verslunarinnar DJI Store Reykjavík, á drónaskot í þáttunum The Dark Crystal: Age of Resistance, en fleiri erlendar aðilar hafa keypt af honum myndefni í gegnum tíðina. Hér er hann ásamt syni sínum, Alvari Óskarai ellefu ára.

„Umboðmaður sem vinnur við að finna efni fyrir Netflix sá drónaskot eftir mig, vinsælt vídeó á Netinu sem heitir Mystic Iceland og honum fannst það alveg smellpassa við fantasíuheim þáttanna. Þannig að hann sýndi framleiðendum þáttanna það og þeir kolféllu fyrir því,“ segir Sigurður Þór Helgason um aðdraganda þess að drónaskot eftir hann enduðu í nýjum Netflix-þáttum, The Dark Crystal: Age of Resistance.

Þættirnir eiga að gerast á undan klassísku kvikmyndinni The Dark Crystal sem kom úr smiðju Jims Henson sáluga, skapara Prúðuleikaranna, árið 1982 og fjallar um baráttu góðra og illra afla vera á fjarlægri plánetu. Sigurður segist ekki vita nákvæmlega hvernig skotið eftir hann kemur til með að verða notað í þáttunum en hann hafi verið svo heppinn að ná því á Stokksnesi í ágúst í fyrra.

„Í sannleika sagt var ég ekkert á leiðinni þangað, var með allt önnur plön en einhver rödd í höfðinu á mér sagði mér að fara og mynda þar sólarupprás. Ég ákvað að hlýða og keyrði heila 500 kílómetra um nóttina, alveg þar til ég kom á leiðarenda klukkan fjögur um morguninn og varð þá vitni að því hvernig sólargeislarnir brutust fram og skinu í gegnum þoku í fjöruborðinu þannig að þokan virtist glóa. Þetta var svo stórkostlegt sjónarspil að ég náði varla andanum. Algjört milljón dollara skot sem ég náði með drónanum.“

„…það er ótrúlega gaman að skot eftir mig skuli vera notað í verkefni sem tengist hugarheimi þessa mikla snillings.“

Sigurður segist hlakka mikið til að sjá útkomuna í þáttunum enda hafi honum þótt The Dark Crystal góð á sínum tíma. „Hún var mjög sérstök og dökk, eins og heitið gefur til kynna. Sem krakki elskaði maður auðvitað allt sem kom úr smiðju Henson, prúðuleikarana og fleira, þannig að það er ótrúlega gaman að skot eftir mig skuli vera notað í verkefni sem tengist hugarheimi þessa mikla snillings.“

Umrætt „milljón dollara“ skot sem notað verður í þáttunum.

Hann bætir við að framleiðendur þáttanna séu svo ánægðir með myndefnið að þeir hafi þegar falast eftir fleiri skotum. „Við höfum verið í sambandi í gegnum umboðsmanninn og ég er að leita að meira efni fyrir þá,“ segir hann glaðlega. „Það verður gaman að fá sína fimm mínútna frægð.“

Heimsmet í fallhlífarstökki

Íslensk kona sett nýtt heimsmet í fallhlífarstökki.

Íslensk kona, Þórhildur Valsdóttir er ein 60 kvenna úr liðinu „Women on Wings, (e. Konur á vængjum) sem settu nýtt heimsmet í hópfallhlífarstökki í Úkraínu á dögunum.

Þær stukku samtímis úr tveimur flugvélum í 18.000 feta hæð og mynduðu þrenns konar mynstur í frjálsu falli. Aldrei áður hefur svo stór kvennahópur afrekað slíkt stökk.

Þórhildur hefur stundað fallhlífarstökk síðan 1993 og var um tíma hluti af norska kvennalandsliðinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún á þátt í að setja heimsmet. „Ég var valin í „open class“-liðið 2003 og hoppaði þá með strákunum. Árið 2006 tók það lið þátt í heimsmeti í Taílandi, alls 400 stökkvarar,“ segir hún.

Grein eftir Egil Pál Egilsson.

„Ég tek þetta á þrjóskunni“

|
|

Hákon Atli Bjarkason ætlar heilt maraþon, 42 kílómetra, í Reykjavíkurmaraþoninu í hjólastól.

Óhætt er að segja að Hákon Atli Bjarkason, rekstrastjóri Pizzunnar, sé sannkallaður orkubolti, en fyrir utan að ætla að fara heilt maraþon, 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, þá æfir hann borðtennis og er Íslandsmeistari fatlaðra í borðtennis.

Hákon Atli Bjarkason lenti í alvarlegu bílveltu árið 2009 þegar hann sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan mænuskaða. Hákon segist þó aldrei hafa látið mænuskaðann stöðva sig, þvert á móti og á morgun ætlar hann að gera sér lítið fyrir og fara heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu, 42 kílómetra hvorki meira né minna, sem er það mesta sem hann hefur farið.

„Ég hef tekið þátt síðustu 4 ár, tvisvar tíu kílómetra og tvisvar 21 kílómetra. Fyrst tók ég 10 kílómetrana til að sjá hvort ég gæti það, svo tókst mér að fara hálft maraþon og eftir það hef ég alltaf verið með það á plani að fara 42 kílómetra, en ég hef ekki lagt í það fyrr en nú. Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“ segir hann ákveðinn.

Hann viðurkennir þó að hafa ekki æft sig mikið, í raun hafi hann bara tekið tvær æfingar. „Í þeirri fyrstu tók ég 28 kílómetra. Hún var ógeðslega erfið en miðað við tempóið sem ég náði þá ætti ég að ná markmiðinu sem er undir fjórum tímum. Seinni æfingin gekk ekki síður vel þannig að ég er bjartýnn á að mér gangi vel á morgun.“

Lætur lítið stoppa sig

Talið berst að slysinu örlagaríka og Hákon segir að það sé nokkuð sem líði sér seint úr minni. „Ég sofnaði undir stýri og velti bílnum. Rétt hjá Skálafellsafleggjara í Mosfellsdalnum, á leiðinni til Reykjavikur. Stoppaði hjá afleggjaranum þar sem ég fann fyrir þreytu, lagði mig i kortér og þegar ég fer af stað er ég greinilega hálfsofnadi því kílómeter seinna vakna ég upp það við að bíllinn er að velta,“ lýsir hann alvarlegur.

Í kjölfar slyssins var Hákon fluttur með hraði á bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi og var í viku á gjörgæslu. Við tók ströng endurhæfing á Grensás þar sem hann var á legudeild frá júlí til desember. Hann viðurkennir að þetta hafi verið erfiður tími. Slysið hafi haft þau áhrif að aðstæður hans gjörbreyttust og það hafi tekið tíma að byggja upp þrek og styrk og komast á þann stað sem hann er í dag.

„Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“

„En maður aðlagast bara breyttum aðstæðum og ég er mjög sáttur við líf mitt í dag. Ég er í góðri vinnu og á kafi í íþróttum, hef líkleg aldrei verið duglegri að hreyfa mig,“ segir hann og nefnir í því samhengi að árið 2012 hafi hann endurvakið hjólastólakörfuboltann sem hafði þá legið í dvala síðan 1997. Þess utan æfi hann svo borðtennis og sé, sem stendur, Íslandsmeistari fatlaðra í íþróttinni.

„Ég læt voðalega lítið stoppa mig,“ segir hann og hlær þegar blaðamaður spyr hvar hann fái alla þessa orku. „Og mér finnst mikilvægt að ýta undir þann hugsunarhátt hjá öðrum,“ flýtir hann sér að bæta við. „Þess vegna hef ég til dæmis haldið námskeið um notkun hjólastóla í daglegu lífi bæði hér heima og úti, núna síðast á endurhæfingarnámskeiði í Svíþjóði. Þannig að kannski má segja að ég sé frekar orkumikill. Ég hef alla vega nóg að gera. Og ef eitthvað er finnst mér bara vanta fleiri tíma í sólarhringinn.“

Ætlar að ná takmarkinu

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ná takmarkinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, að fara það á undir fjórum klukkustundum, segist Hákon vera það. Svo framarlega sem veðurspáin bregðist ekki og það fari að rigna. „Ef það gerist, ef það verður grenjandi rigning þá verður gripið ekki mikið á dekkjunum,“ útskýrir hann, „sem þýðir að það verður þrefalt erfiðara að ýta sér áfram og ná góðu tempói. Við þannig aðstæður fær maður fljótt sár á hendurnar ætli maður að ná almennilegri keyrsl-u.“

Hann segist vita að þetta séu háleit markmið en það vinni með honum að vera drífandi að eðlisfari og í góðu formi. Auk þess sé hann búinn að fá góða hvatningu frá vinum og vandamönnum og öllum þeim sem hafa þegar heitið á hann í maraþoninu en eins og áður sagði, ætlar hann að taka þátt til styrktar SEM, Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra á Íslandi. „Það er frábært að fá þessa góðu hvatningu,“ segir hann glaður bragði. „Ég er mjög ánægður með hana, þetta á eftir að gefa manni aukinn styrk á morgun.“

Tímalaus hönnun og umhverfisvæn framleiðsla

Happie er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sérsmíði á húsgögnum fyrir heimili, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Sérhæfnin felst ekki síst í járnsmíði og smíði með gegnheilum við. Hjónin Hafsteinn Helgi Halldórsson og Guðrún Agla Egilsdóttir eiga og reka fyrirtækið Happie og hafa ótrúlega gaman af nýjum hugmyndum og sjá hvað ímyndunaraflið getur framkallað.

Einstakur lífsstíll sem heillar, fjölskyldan við Hafravatn kann að lifa lífinu til fulls og láta drauma sína rætast.

Hver sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar? „Fæðing fyrirtækisins átti sér stað snemma árið 2015 þar sem við vorum að smíða húsgögn inn í litla kjallaraíbúð í Vesturbæ Reykjavíkur sem við bjuggum í þá. Myndir af mununum rötuðu á Internetið og í kjölfarið var fólk byrjað að banka á dyrnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag erum við búin að koma okkur upp einbýlishúsi við Hafravatn ásamt því að vera með tvö verkstæði í Kópavoginum.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar hönnun, getur þú sagt okkur nánar frá ykkar áherslu í hönnuninni og framleiðslu? „Við erum svo ótrúlega heppin með það að þeir sem finna okkur og koma í heimsókn á verkstæðið eru yfirleitt fólk með ákveðnar hugmyndir og hafa sama brennandi áhuga og við, skapa eitthvað einstakt sem gleður augað ásamt því að hafa gott notagildi. Svo virðist einnig sem rísandi sameiginlegur andi í samfélaginu sé fyrir því að efla íslenskt atvinnulíf og framleiðslu, enda eru ótrúlega margir aðilar sem koma að okkar fyrirtæki í heildarmyndinni. Ég tel, á okkar sviði, af minni reynslu í framleiðslu, að við séum framar mörgum nágrannalöndum okkar hvað varðar getu og hæfileika. Orðin íslensk hönnun og framleiðsla megum við klárlega hampa bein í baki,“ segir Hafsteinn og er bjartsýnn á framtíðina.

,,Við sérhæfum okkur mikið í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu.“

Hvernig myndir þú lýsa hönnunarstílnum ykkar? „Varðandi hönnunina þá er það samstarfsverkefni hverju sinni allra á verkstæðinu, Agla hefur verið augað í fyrirtækinu en við tökum flestar ákvarðanir í sameiningu og besta hugmyndin framleidd. Við erum líka það heppin að oft eru kúnnar okkar mjög skapandi og flestar ákvarðanir teknar í samstarfi við þá. Happie-stíllinn á að koma með hlýleikann frá náttúrunni inn á heimilið og blanda saman lífrænum línum náttúrunnar við einföld form. Takmarkið með hönnun okkar er alltaf að borðið sé jafnfallegt og það er gott að sitja við það. Það er hin gyllta blanda í hönnun – þægindi og fegurð.“

Eru nýungar á döfinni? ,,Hingað til höfum við einungis verið með verkstæði og erum við nýbúin að stækka við okkur og ráða nýjan starfsmann sem kemur ferskur inn með mikla reynslu frá meginlandinu. Þetta er mikil sérhæfing og hef ég leitað mikið erlendis eftir svörum við spurningum sem kunna að vakna og er því dásamlegt að fá ferskan blæ frá Evrópu á verkstæðið.“

Íbúð Hafsteins og Guðrúnar Öglu er Björt og falleg.

Hafsteinn og Agla horfa björtum augum til framtíðarinnar og ætla að halda áfram að vaxa og dafna. „Á dögunum auglýstum við eftir áhugasömum fjárfestum í Happie, og settum þau skilyrði að brennandi áhugi á íslenskri hönnun og handverki væri til staðar og hefur ekki staðið á fyrirspurnum. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir hafa fylgst með okkur vaxa og hafa trú á okkur hjá Happie. Við höfum ekki náð að svara öllum en erum komin í viðræður við ótrúlega spennandi og skemmtilegt fólk með stórkostlegar hugmyndir. Þetta er samt skref sem við erum að skoða vel og það þarf að vera góður andi til staðar svo svona gangi upp.“

„Annars höfum við sjálf verið að fara í stækkunarframkvæmdir til að anna eftirspurn og bættum við okkur öðru verkstæði í Kópavoginum og erum að vinna að sýningarsal. Hingað til hefur fólk bara haft samband og kíkt við á verkstæðið, það er alltaf gaman, en ég tel að það sé margt fólk sem langar til að geta komið og séð fullkláraða vöru. En það kostar sitt að framleiða hvert húsgagn og höfum við sjálf ekki efni á að kaupa sýningareintök af okkar fallegustu vörum og hafa til sýnis, það var einn af hvötunum á bak við það að skoða það að fá fjárfesta inn og er ég viss um að út úr því komi einhver snilld.“

Hafsteinn og Guðrún Agla hafa komið sér vel fyrir í húsi síni við Hafravatn.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framleiðslu? „Við sérhæfum okkur í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu. Staðlar eru orðnir það strangir í dag á skógrækt og er efniviðurinn okkar merktur þeim staðli sem vottar að framleiðsla þess efnis er að framleiða fleiri tré en hún fellur. Timbur er eitt það umhverfisvænsta byggingarefni sem um getur. Við höfum líka verið dugleg að planta uppi í landi. Við notum einungis efni sem eru ekki eitruð fyrir húð eða við innöndun, við viljum hafa ferskan blæ öllum stundum á verkstæðinu hjá okkur. Olían okkar er til dæmis unnin úr plöntum en ekki jarðolíu.“

Stílhrein hönnun einkennir hús hjónanna.

Fallega húsið ykkar við Hafravatn heillar og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Fyrir algjöra tilviljun skoðuðum við fasteignavefinn árið 2015 rétt áður en allt fór af stað þar og þar var þessi lóð búin að hanga inni. Við fórum og skoðuðum og gersamlega urðum heilluð við fyrstu sýn. Allt í bláberjum, lækur og ótrúlegt útsýni. Þetta er líka skammt frá bænum og er ég til að mynda sneggri heim í bláberjabrekkurnar heldur en í Vesturbæinn frá verkstæðinu. Hugmyndin með húsinu var alla tíð fjölskylduandi og njóta með fuglunum og dýrunum í náttúrunni. Pælingin var einnig allan tímann að gera þetta að stað þar sem fólk getur komið, slakað á og hlaðið sig áður en það heldur aftur inn í borgarlífið. Það hefur sko sannarlega virkað.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Fleiri ungir án atvinnu

Í nýbirtum upplýsingum Hagstofunnar um atvinnuþátttöku kemur fram að 2.500 manns á aldrinum 16-24 ára voru atvinnulaus í júlí síðastliðnum samanborið við 1.400 manns fyrir áratug.

Í júlí í fyrra voru aðeins 600 á þessum aldri án atvinnu og er tekið sérstaklega fram í umfjöllun Hagstofunnar að það hafi verið óvenju fáir.

Til samanburðar voru 1.200 manns á aldrinum 16-24 ára án atvinnu árið 2003. Þá vann fólkið í 45,6 klukkustundir að meðaltali, samkvæmt gögnum Hagstofunnar.

Á þessu ári vann ungt fólk á aldrinum 16-24 ára með vinnu að meðaltali í 39,1 klukkustund í júlí. Þetta er tæpur þremur klukkustundum minna en í júlí árið 2017. Fyrir áratug vann fólk á þessum aldri að meðaltali í 45,5 klukkustundir, að því er fram kemur í upplýsingunum Hagstofunnar.

Töfraseyði og ætileg blóm á nýjum bar

Hjónin Íris Ann Sigurðardóttir og Lucas Keller létu drauma sína rætast þegar þau ákváðu að opna veitinga- og sælkerastaðinn Coocoo´s Nest út á Granda og bráðum munu þau einnig opna spennandi og sérstæðan bar. Hjónin kynntust á Ítalíu á sínum tíma. Lucas er frá Kaliforníu og var að læra matreiðslu og Íris Ann var að læra ljósmyndun og sjónlist. Saman eiga þau tvo dásamlega stráka, Indigo, þriggja ára og Sky, fimm ára.

Íris Ann Sigurðarsdóttir og Lucas Keller, eigendur Coocoo´s Nest, ásamt sonum sínum Indigo, þriggja ára og Sky, fimm ára.

Hver er sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar og vali á staðsetningunni? „Við vorum með svipaða drauma um að opna svona „konsept“ sem við sameinuðum. Einn af draumum Lucasar var meðal annars að taka þátt í uppbyggingu á nýju hverfi og því gat þessi staðsetning ekki verið betri.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar framreiðslu á Coocoo´s Nest og vakið athygli fyrir, hver eru ykkar áherslur og markmið? „Það skiptir okkur miklu máli að vera samkvæm sjálfum okkur og svo erum við mjög meðvituð um að vera eins vistvæn og hægt er. Lucas er mjög ástríðufullur kokkur og sleppur engum skrefum í sinni framleiðslu. Gæðahráefni og að vinna hráefni frá grunni er okkar sérstaða á The Coocoo’s Nest.

Hvernig myndir þú lýsa staðnum og framtíðarsýn ykkar? „Við myndum lýsa staðnum sem samastað þar sem allir eru velkomnir og allir eru jafnir. Við elskum að láta okkur dreyma enda var það byrjunin á þessu ævintýri að lofa okkur að dreyma, meira segja þegar maður vissi ekki hvernig maður myndi framkvæma þá drauma, það er partur af galdrinum.“

Á þessum bar verða seld blóm, plöntur og önnur fallega smávara eins og kristallar og annað úr kuklheiminum.

Við höfum heyrt að þið hafið hug á því að stækka? „Það er langþráður draumur að rætast en við erum að fara opna bar í blóma sem heitir Luna Flórens – þar munu ýmis persónuleg áhugamál mín fá að blómstra. Á þessum bar verða seld blóm, plöntur og önnur fallega smávara eins og kristallar og annað úr kuklheiminum. Við verðum með holla spírusafa og ætileg blóm – við munum svo túlka í kokteilana okkar þegar líða fer að kveldi. Vinkona okkar, matarstílisti með meiru, hún Áslaug Snorra mun koma til með að aðstoða okkur við að undirbúa töfraseyðin sem verða í boði. Þessi staður verður tengdur núverandi rekstri og mun því styðja við hann og bjóða upp á ýmsa möguleika. Svo erum við með nokkrar aðrar hugmyndir sem okkur langar að framkvæma en þá er alltaf spurning um stað og stund.“

Coocoo´s Nest er hlýlegur veitingastaður úti á Granda.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framreiðslu? „Takk fyrir þessa spurningu. Við erum mjög meðvituð um okkar kolefnisspor og þá ábyrgð sem fylgir því að eiga fyrirtæki. Við erum sífellt að læra eitthvað nýtt hvað það varðar og reyna taka fleiri skref í rétta átt. Við flokkum flestallt plast og pappír og erum með lífræna tunnu fyrir matarafganga og fyrir lífrænu servíetturnar okkar. Við flokkum einnig sprittkerti, málmtappana sem fylgja gosinu, allt gler og erum með maís rör í staðinn fyrir plast. Öll þessi litlu skref telja. Einnig lærði Lucas ýmislegt þegar hann vann um tíma á Michelin-stjörnu grænmetisstað á Ítalíu þar sem var lítil sem engin matarsóun og lögð áhersla á að nýta alla matarafganga á frumlegan og bragðgóðan hátt.“

Flest starfsfólk þeirra Írisar Ann og Lucasar hefur verið með þeim meira og minna frá upphafi.

Staðurinn ykkar heillar, er afar sjarmerandi og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Okkar hugsjón og lífsstíll er bara að lifa í núinu og njóta augnabliksins.“

Vinsælasti rétturinn? „Það fer alveg eftir því hvern þú spyrð. Brunchinn okkar er sívinsæll en svo eru súrdeigs-pizzurnar okkar, Deli hádegiseðillinn okkar eða Taco Tuesday ekki síðri. Einnig bjóðum við upp á skemmtilegt Happy Hour sem kallast Aperitivo og virkar þannig að þú færð smásmakk með drykknum þínum. Þeir sem þekkja vel til Ítalíu finnst mjög gaman að finna þessa hefð líka hér á landi.“

Framtíðarsýn ykkar? „Á meðan við látum draumana rætast í vinnuheiminum þá er framtíðarsýn okkar að skapa einnig þannig umhverfi að maður geti notið þess að lifa þessu lífi. Mikið er rætt um kulnun þessa dagana og við teljum það mikilvægt að jarðtengja okkur og eyða meiri tíma saman og í náttúrunni. Það er því í framtíðarplaninu að eignast smávegis land þar sem við getum komist meira í kyrrðina og jafnvel þróað sjálfbæran lífsstíl á þeim stað. Við Lucas erum bæði listamenn og myndum vilja hafa svigrúm til að sinna því meira.“

Það er gaman að nefna það að flest starfsfólk þeirra Írisar Ann og Lucasar hefur verið með þeim meira og minna frá upphafi. „Við erum ótrúlega þakklát það. Svo vil ég gjarnan senda kærleikskveðju á fastakúnna okkar og bestu nágranna sem hægt er að hugsa sér. The Coocoo’s Nest er miklu meira en bara rekstur, við erum ein stór fjölskylda,“ segir Íris Ann með bros á vör.

Myndir/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Stórfenglegt útsýni yfir sundin blá

Í Skugganum, í afar vönduðu fjölbýlishúsi við Vatnsstíg 15 í Reykjavík er að finna þessa stórglæsilegu penthouse- og útsýnisíbúð.

Þessi stórbrotna penthouse-íbúð er á tveimur efstu hæðum hússins. Útsýnið er hið glæsilegasta yfir sundin blá, innsiglinguna við Reykjavíkurhöfn, Akrafjall, Skarðsheiði, Esjuna, Þjóðleikhúsið, Hallgrímskirkju og víðar. Þetta útsýni lætur engan ósnortinn.

Arinn í borðstofu og útsýni til austurs, suðurs og vesturs
Eignin er einstaklega vel skipulögð og innréttuð á vandaðan og smekk-legan máta í alla staði. Hún er á tveimur hæðum og með fernum svölum sem veita mikil lífsgæði og möguleikarnir eru óþrjótandi þegar kemur að því að njóta útsýnis til allra átta.

Hvítt og dimmrautt gleður augað
Eignin er ein og sér á hæðinni, sem er mikill kostur fyrir eigendur. Hún er björt og stílhrein, með mikilli lofthæð og flottir horngluggar gefa eigninni skemmtilegt yfirbragð. Þegar inn er komið á neðri hæðina er gengið inn í flísalagt hol beint úr forstofu inn í eldhúsrýmið sem er fallegt og bjart með vönduðum Miele-tækjum. Hvíti liturinn er í forgrunni í innréttingum á móti dimmrauðum skápum sem tóna vel saman. Borðplatan er úr hvítum steini og gefur rýminu fallega áferð. Plankaparketið á gólfinu er gott mótvægi á móti háglans innréttingunum og heildarútlitið er hið glæsilegasta. Áfram er haldið í stórt og opið rými þar sem stofa og borðstofa prýða rýmið. Fallegur arinn, þar sem hvíti og svarti liturinn mætast, er í borðstofu og mikil lofthæð gerir borðstofuna hina glæsilegustu. Úr borðstofunni er stórfenglegt útsýni til þriggja átta, austur, suður og vesturs. Úr stofunni eru rúmgóðar svalir sem snúa til suðvesturs með tveimur útgöngum og plássið gefur mikla möguleika fyrir huggulegheit. Á neðri hæðinni er einnig stórt og rúmgott herbergi með vönduðum skápum auk þess er annað minna herbergi.

Hjónasvítan á toppnum
Á efri hæð eignarinnar er að finna griðastað eigenda, glæsilega hjónasvítu með stórum gluggum og stórum svölum til austurs og einnig er fataherbergi staðsett inn af hjónaherbergi. Auk þess er á hæðinni baðherbergi, þvottahús og rúmgott hol. Baðherbergið er hið vandaðasta með fallegum viðarinnréttingum þar sem rýmið er vel nýtt. Hvítt og grátt eru litirnir sem spila stórt hlutverk þar og birtan er góð.

Frábær kaup á einstakri eign
Þessi einstaka eign er 217,5 fermetrar, þar af er íbúðin 192,2 fermetrar að stærð og í sameign er geymsla sem fylgir eigninni 25,3 fermetrar að stærð. Jafnframt fylgja tvö bílastæði í lokaðri og upphitaðri bílageymslu. Verðið á þessari eign er mjög gott 150 milljónir og er hún til sölu á fasteignasölunni Eignamiðlun. Opið hús verður laugardaginn 25. ágúst næstkomandi frá klukkan 12.00 til 13.00 og eru áhugasamir hjartanlega velkomnir.

Nánari upplýsingar veitir Guðlaugur Ingi Guðlaugsson löggiltur fasteignasali í síma 864-5464 eða á netfanginu [email protected]

 

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Íslensk stjórnvöld í viðbragðsstöðu vegna stöðu flugfélagana.

Íslensku flugfélögin tvö, WOW air og Icelandair, eru of stór til að falla. Stjórnvöld hafa fylgst náið með stöðu þeirra, sérstaklega WOW air mánuðum saman, þótt það hafi ekki farið hátt. WOW air reynir nú að fá allt að 12 milljarða króna að láni til að koma sér fyrir vind. Gangi það ekki gætu stjórnvöld, með einhverjum hætti, gripið inn í.

Icelandair hefur ekki farið varhluta af þrengingum í fluggeiranum. Markaðsvirði félagins var um 189 milljarðar króna fimmtudaginn 28. apríl 2016, þegar það var sem mest. Nú er það um 42 milljarðar króna. Tæplega 150 milljarðar króna af markaðsgenginu hefur þurrkast út á rúmum tveimur árum. Markaðsvirði Icelandair er nú umtalsvert lægra en eigið fé félagsins, sem var um 57 milljarðar króna um mitt þetta ár.

Undir lok ársins 2017 hófu stjórnvöld  vinnu við að undirbúa viðbragðsáætlun vegna flugfélaganna, en þó þannig að lítið bar á. Fjögur ráðuneyti (samgöngu-, fjármála- og efnahagsmála-, forsætis- og iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti) komu að verkefninu..

Ítarlega er fjallað um málið í Mannlífi dagsins og á vef Kjarnans.

Samstarfsfúsi borgarfulltrúinn

Samstarfið í borginni hefur verið ansi stormasamt síðan borgarfulltrúar mættu til starfa fyrr í sumar. Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, hefur vakið athygli síðustu daga fyrir þð umdeilda atvik þegar hún ullaði á Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Líf bað Mörtu afsökunar og sagði á Facebook-síðu sinni að tungutaktarnir hefðu einungis verið góðlátlegt grín.

„Hvað gerir maður þegar einhver starir á mann í lengri tíma af miklu yfirlæti og vanþóknun í þrúgandi og kúgandi aðstæðum eftir að maður hefur verið málefnalegur og sanngjarn í sínum málflutningi en fær ómálefnaleg viðbrögð á móti? Jú, maður reynir að slá þessu öllu upp í grín og létta andrúmsloftið og losa sig úr störukeppninni með því að ulla bara á viðkomandi, lyfta brúnum og brosa,“ skrifaði Líf.

Þetta fræga ull kom í kjölfar ásakana Vigdísar Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins, og Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins, um að Líf legði Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalistaflokks Íslands, í einelti.

„Meira samtal, minna þras!“

Spurning er hvort stutt sé í að kallaður verði til vinnustaðasálfræðingur í Ráðhúsi Reykjavíkur, líkt og var gert í lok árs 2015 þegar Sóley Tómasdóttir, þáverandi oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, ýtti Líf til hliðar og tók formannssæti hennar í mannréttindaráði Reykjavíkur. Vinstri græn skiptust í tvær fylkingar út af þessu bragði Sóleyjar, sem kom Líf í opna skjöldu. Í frétt Eyjunnar um málið kom fram að ekki hafi verið full eining um að Sóley tæki sæti Lífar og að Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, hefði verið andvíg ákvörðuninni og reynt að tala Sóleyju ofan af henni án árangurs. Ári síðar hætti Sóley og flutti til Hollands og tók Líf hennar sæti sem forseti borgarstjórnar.

Hvað gerist næst í borgarstjórn Reykjavíkur er óvíst, en er ekki ágætt að hin umdeilda Líf eigi lokaorðin sem hún lét falla á Twitter í fyrra:

„Gott samtal. Meira samtal, minna þras!“

Kynlífsvinna og vændi – val eða áþján?

||
||

Heitar umræður um vændi og kynlífsvinnu hafa undanfarið átt sér stað meðal íslenskra femínista.

Skiptar skoðanir á eðli og skilgreiningu þessara hugtaka hafa orðið til þess að fólk hefur skipað sér í tvær fylkingar sem takast harkalega á. Eru kynlífsvinna og vændi normalísering nauðgunarmenningar eða frjálst val einstaklinga? Sólveig Anna Bóasdóttir og Elísabet Ýr Atladóttir eru forsvarsmenn ólíkra viðhorfa í deilunni og við fengum þær til að gera grein fyrir sínum viðhorfum.

______________________________________________________________

Vændisfólki ber að búa við grundvallarmannréttindi

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðileg siðfræði við HÍ, er ein þeirra sem vill gera greinarmun á kynlífsvinnu og vændi og virða frjálsan rétt einstaklinga til að stunda þá vinnu ef þeir kjósa það. Hver er hennar skýring á þeim ágreiningi sem upp er kominn innan femínistahreyfingarinnar í umræðu um þessi mál?

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við HÍ. Mynd / Hallur Karlsson

„Kynlíf hefur verið spennuvaldur í femínískri umræðu frá upphafi. Segja má að umræða um kynlíf meðal femínista hafi spennst milli tveggja andstæðra póla þar sem annars vegar hefur verið lögð áhersla á hættu á drottnun og ofbeldi karla og hlutgervingu kvenna og hins vegar á kynlífsánægju kvenna, atbeina og valfrelsi. Önnur bylgja kvennahreyfingarinnar í Bandaríkjunum klofnaði á sínum tíma vegna andstæðra skoðana á kynlífi, klámi og vændi. Heitin kynlífsvinna (e. sex work) og vændi (e. prostitution) eru yfirleitt skilgreind á sams konar hátt, þ.e. sem samþykkt kynlífsviðskipti milli tveggja fullorðinna einstaklinga. Ákveðinn hópur femínista leggur að jöfnu kynlífsvinnu/vændi a.v. og mansal h.v. og gerir þar með ráð fyrir því að allt vændisfólk vinni undir nauðung og þrælkun. Þar stendur hnífurinn í kúnni.“

Er einhver munur á kynlífsvinnu og vændi?
„Eins og ég segi er „sex work“ og vændi yfirleitt skilgreint á svipaðan hátt. Munurinn á heitunum er sá að vændisfólk, þ.e. er fólkið sem vinnur kynlífsvinnu er yfirleitt sátt við heitið „sex work“ vegna þess að það hefur sjálft átt þátt í að móta það. Það leggur áherslu á að „sex work“ sé vinna eins og hver önnur vinna. Því sama er ekki að heilsa með vændishugtakið, það er gildishlaðið og felur í sér neikvæða, brennimerkjandi merkingu.“

Þú hefur fjallað um kynlífsvinnu sem frjálst val einstaklinga og rétt kvenna til kynlífs á eigin forsendum, hvernig rökstyðurðu það?
„Í þau skipti sem ég hef tjáð mig um kynlífsvinnu (e. sex work) þá hef ég byggt á rannsóknum og skýrslum ýmissa frjálsra félagasamtaka sem byggjast á viðtölum við vændisfólk í ýmsum löndum um félagslegar aðstæður þeirra, reynslu, þarfir og vilja. Femínískt og siðfræðilegt sjónarhorn mitt felst í að byggja á reynslu hinna kúguðu og útskúfuðu og leggja trúnað á það sem þau segja. Þá tala ég um þetta mál fyrst og fremst í hnattrænu samhengi því umhverfið hér á landi eða á Norðurlöndunum endurspeglar ekki gjörvallan heiminn.

Ég geri sterkan greinarmun á mannsali og kynlífsvinnu. Mansal slær siðfræðilega umræðu út af borðinu. Mansal er glæpur. Ef samþykki milli fullorðinna aðila er fengið með þvingunum, ógn, blekkingum eða svikum eða ef barn er aðili að máli er ekki verið að tala um kynlífsvinnu heldur glæp. Vændisfólk víðast hvar á það sameiginlegt að lifa við mikla fátækt. Reynsla fólks sem vinnur kynlífsvinnu á mismunandi stöðum í heiminum er sú að vinnumarkaðurinn sem þeim býðst sé ýmist enginn eða verri en kynlífsvinnan. Fátækt, brennimerking – einkum trans fólks – og aðstöðuleysi er yfirleitt orsök þess að fólk leiðist út í kynlífsvinnu. Það er að reyna að lifa og komast af. Í Kambódíu, svo dæmi sé tekið, kusu vændiskonur frekar að vinna kynlífvinnu en starfa í verksmiðjunum. Það var betur borgað og þægilegri vinna! Val þeirra stóð á milli tveggja slæmra kosta en slíkar valaðstæður eru ekki einsdæmi. Í mörgum löndum er kynlífsvinna eina lífsviðurværið trans fólks.“

„Það sem ég hef lagt fram í samhengi umræðu um kynlífsvinnu er að vændisfólki, sem öðrum, beri grundvallarmannréttindi eins og líf, virðing og mannhelgi.“

Er það ekki  andstætt femínískri hugmyndafræði að normalísera þá skoðun að líkamar fólks séu verslunarvara?
„Ég kannast ekki við neina femíníska hugmyndafræði sem talar fyrir þessu! Líkamar okkar og limir eru hins vegar til sölu á hverjum degi, með ýmsu móti. Immanuel Kant hélt því fram að það væri ekki siðferðilegt vandamál að maðurinn léti nota sig sem tæki, t.d. með því að lána hendur sínar, fætur og jafnvel allan kraft sinn til einhvers verks, svo lengi sem hann samþykkti þá notkun. Orð hans má túlka þannig að lögmálið um virðingu fyrir persónunni gefi fólki möguleika á að leyfa viss afnot af sjálfu sér, að því gefnu að fólk sé ekki samtímis beitt blekkingum, stjórnsemi eða valdbeitingu af einhverju tagi.“

Andstæðingar normalíseringar þeirrar skoðunar tala um að með því sé verið að réttlæta nauðgunarmenningu, hverju svararðu því?
„Þessi spurning er þannig að við henni á ég ekkert svar. Hér eru settir upp tveir andstæðir hópar. Meðmælendur og andstæðinga hvers? Hins hugmyndafræðilega rétta? Hverjir tala fyrir nauðgunarmenningu meðal femínista? Mín skoðun er sú að femínistar séu að langmestu leyti sammála um hvað einkenni gott samfélag og leggi áherslu á að jöfnuður og mannréttindi séu grundvöllur þess. Það sem ég hef lagt fram í samhengi umræðu um kynlífsvinnu er að vændisfólki, sem öðrum, beri grundvallarmannréttindi eins og líf, virðing og mannhelgi. Vændisfólki beri sjálfræði og við sem viljum ekkert heitar en að skapa gott og fullkomið samfélag skyldum fara varlega í forsjárhyggju gagnvart því. Öryggi, velferð og heilsa eru gæði sem vændisfólk fer að mestu leyti á mis við og því þarf samfélagið að breyta.“

Er bara pláss fyrir eina gerð af skoðunum innan íslensku femínistahreyfingarinnar?
„Það er undir þeim komið sem taka þátt í umræðunni. Femínísk umræða hefur aldrei verið einradda kór og verður vonandi aldrei. Margar virkar raddir eru til þess gerðar að styðja við lýðræðið.“

______________________________________________________________

Normalísering á nauðgunarmenningu

Elísabet Ýr Atladóttir, heldur úti bloggsíðunni kvenfrelsi.wordpress.com og er ein af stofnendum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, hópsins á Facebook. Henni var í vikunni hent út af femínistaspjallinu á Facebook vegna skoðana sinna. Hvaða skoðanir eru það sem ekki hljóta náð fyrir augum stjórnenda spjallsins? Um hvað snýst ágreiningurinn?

Elísabet Ýr Atladóttir, stofnandi kvenfrelsi.wordpress.com og ein af stofnendum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, hópsins á Facebook. Mynd / Hildur María Valgarðsdóttir.

„Ágreiningurinn snýst að mörgu leyti um hvernig vændi er skilgreint og hvernig það „má“ tala um vændi. Það hefur verið vaxandi bylgja frjálshyggju um allan heim og einn af fylgifiskum þess er sterk einstaklingshyggja – ef ég „vel“ eitthvað þá á ekki að mega hreyfa við því af ríki eða lögum, sama hversu skaðlegt það getur verið. Þetta snýst í raun um að fólk vill sjaldan tala um hvernig vændi tengist kerfisbundnu ofbeldi og hlutgervingu, heldur vill það frekar sjá þetta sem val einstaklinga sem hægt er að horfa fram hjá og hafa engar áhyggjur af. Með því að láta allt snúast um einstaklingsupplifanir verður það að persónulegri árás að gagnrýna vændi, sem gerir rökræður um efnið erfiðar. Og með því að snúa öllum rökræðum um vændi upp í árás á persónulegar upplifanir er umræðan fljótt afvegaleidd.“

Það er sem sagt þín skoðun að vændi feli alltaf í sér nauðung?
„Það þarf ekki að fela í sér nauðung nei, ekki alltaf. Það er samt sjaldgæft að einhvers konar neyð sé ekki til staðar, sama hvort sú neyð er af efnahagslegum ástæðum, ofbeldi, fíkn eða að einhver annar þrýstir á að fara í vændi, neyðin getur verið margs konar og oft jafnvel ekki vel greinanleg. Það er mín skoðun að vændi sé alltaf hlutgerving og að normalísering á vændi sé normalísering á nauðgunarmenningu.“

Er það ekki andstætt femínískri hugmyndafræði að normalísera þá skoðun að líkamar fólks séu verslunarvara?
„Jú, það er nákvæmlega það. Þróunin seinustu ár virðist hafa haft þau áhrif að þessi einstaklingshyggja hefur náð að festa rætur í ýmsum femínískum rýmum og það kemur fram í svona hugmyndum um að val einstaklinga trompi hag meirihlutans og að það megi allt í einu ekki ræða það hvað val einstaklinga getur verið skaðlegt bæði fyrir þá og aðra. Að normalísera vændi væri mikið högg fyrir réttindi kvenna, enda höfum við barist lengi fyrir því að vera ekki bara kjötskrokkur til sölu í einkaeigu eða almannaeign.“

Sumir verja vændi á þeim forsendum að það snúist um rétt kvenna til kynlífs, hvað finnst þér um það?
„Mér finnst það alls ekki eðlilegt að kalla vændi kynlíf kvenna, því ekkert í vændi snýst um nautn eða kynfrelsi kvenna. Vændi hefur alltaf snúist um það að „þjónusta“ þann sem kaupir – honum gæti ekki verið meira sama hvort líkaminn sem hann kaupir nýtur þess eða ekki, enda bara tól fyrir hann til að fá sínu framgengt. Margir kúnnar vændis hafa meira að segja sagt að þeir fíli það betur þegar konurnar sem þeir kaupa fíla það ekki, því þeir voru að borga fyrir sig, en ekki hana. Réttur kvenna til kynfrelsis og kynlífs snýst ekki um hversu auðvelt er fyrir okkur að vera keyptar af karlmönnum sem það vilja. Að skilgreina vændi sem kynlíf kvenna myndi ég telja hreint út sagt öskrandi nauðgunarmenningu.“

„Mér finnst það alls ekki eðlilegt að kalla vændi kynlíf kvenna, því ekkert í vændi snýst um nautn eða kynfrelsi kvenna.“

Er bara pláss fyrir eina gerð af skoðunum innan íslensku femínistahreyfingarinnar?
„Nei, alls ekki, það er alltaf pláss fyrir alls konar skoðanir. Það er mikilvægt að eiga gagnrýnar umræður til þess einmitt að sjá aðra vinkla og geta tengt saman púsluspilið, skipt um skoðanir, byggt upp almennilega mynd af því sem við erum að berjast við. En mér hefur alltaf fundist mikilvægt að hamra á því að þetta snýst ekki um skoðanir. Þetta snýst um staðreyndir og lausnir, ekki persónulegar upplifanir einstaklinga, sem eru með aðrar skoðanir en meirihlutinn, eða heimsspekileg fræði. Oft týnist femínísk umræða um alls konar mál í einhvers konar hugmyndafræðilegum pælingum sem hafa lítið sem ekkert að gera með raunveruleikann og hafa engar praktískar áherslur. Það er mikilvægt að eiga svoleiðis umræður en þegar við erum að tala um raunveruleikann og hvað er að gerast, staðreyndir lífs kvenna og hvað þær eru að upplifa dagsdaglega, þá getum við ekki einblínt á skoðanir og pælingar einstaklinga. Við þurfum að horfa á vandann sem kerfisbundinn, ekki persónubundinn, og þá gagnast skoðanir oft lítið.

Það sem skiptir öllu máli er að það sé hægt að ræða þessi málefni gagnrýnið og vernda þær sem eru þolendur vændis, gera þeim lífið auðveldara, kenna þeim aldrei um aðstæður þeirra. Normalísering á vændi er ákveðin týpa af victim blaming – því ef hún „valdi“ þetta þá hlýtur hún að geta dílað við afleiðingarnar – þannig virðist pælingin vera. Að konur þurfi bara að vera ákveðið sterkar ef þær ætla út í þennan bisness og þær sem koma út úr honum traumatíseraðar hafi bara ekki verið nógu klárar, nógu sterkar, nógu harðar á því að setja mörk. Það þarf að gera það skýrt að ábyrgðin liggur ekki hjá þeim sem eru í vændi heldur hjá þeim sem kaupa og nýta sér þeirra aðstæður, sama hvaða aðstæður það geta verið. Sama af hvaða ástæðu fólk fer í vændi, þá er það ekki þeirra að bera ábyrgðina á þessum iðnaði og það er á ábyrgð okkar allra að koma til móts við þau og gera þeim auðveldara að finna aðrar leiðir. Enginn ætti að þurfa að fara í vændi – aldrei.“

 

Sofandi að feigðarósi

Staða íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, er viðfangsefni forsíðugreinar Mannlífs að þessu sinni. Þrátt fyrir „góðærið“ margumtalaða og ferðamannastrauminn sem það byggir á er staða þeirra viðkvæm og nokkuð ljóst að til þess að bjarga þeim verða stjórnvöld að grípa inn í, þau eru einfaldlega of stór til að hægt sé að leyfa þeim að falla.

Hlutdeild þeirra í flutningi ferðamanna til landsins er 80-85% og það gefur augaleið að með falli þeirra væri stoðunum kippt undan ferðaiðnaðinum á Íslandi í einu vetfangi. Hið margumtalaða „góðæri“ stendur og fellur með áframhaldandi rekstri þeirra.

Í greininni kemur einnig fram að stjórnvöld séu í viðbragðsstöðu og óformlegt samkomulag sé um það að grípa inn í ef ekki tekst að tryggja rekstrargrundvöll flugfélaganna, einkum WOW air. Það vekur hins vegar furðu og óþægileg hugrenningatengsl hversu seint stjórnvöld koma að borðinu. Það hefur verið ljóst lengi í hvað stefndi en að gömlum og góðum íslenskum sið hefur verið horft fram hjá því og gripið til hins sígilda „þetta reddast“ hugsunarháttar, að því er virðist. Viðvaranir hagfræðideildar Landsbankans fyrir ári síðan virðast hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá stjórnvöldum og það var ekki fyrr en nú á vordögum, þegar í óefni var komið, sem þau tóku við sér. Hljómar óhugnanlega kunnuglega. Við höfum greinilega ekkert lært á tíu árum.

„ … ef hér á einhvern tíma að verða stöðugleiki og raunverulegt góðæri verða Íslendingar að læra af mistökum sínum og temja sér aðra siði í stjórnum fjármálakerfisins.“

Sofandahátturinn gagnvart viðvörunarmerkjum í aðdraganda hrunsins 2008 hefur verið gagnrýndur harðlega og íslensk stjórnvöld þess tíma hlotið mikið ámæli fyrir að leyfa hlutunum að þróast eins langt út í kviksyndið og þeir gerðu þá. Það virðist gleymt og grafið. Íslendingar berja sér á brjóst og gorta af ótrúlegum viðsnúningi efnahagslífsins eftir hrun en virðast horfa fram hjá þeirri staðreynd að sá viðsnúningur byggðist að stærstum hluta á aukningu ferðamannastraumsins til landsins. „Sjáið þið ekki veisluna“, er enn leiðarstef Íslendinga í fjármálum og það virðist engum detta í hug að til þess að tryggja áframhaldandi veislu þarf að huga að því á hverju sú veisla byggir. Það þarf að fjármagna veisluföngin og koma þeim í hús annars verða þau fljótlega á þrotum.

Erum við þá á leiðinni í annað hrun? Og vegna nákvæmlega sama andvaraleysis og síðast? Nei, sem betur fer virðist slíkt ekki í uppsiglingu í þetta sinn. Flugfélögin eru einfaldlega of mikilvæg til að þeim verði leyft að rúlla en lærdómurinn sem draga má af því hversu langt þrengingum þeirra hefur verið leyft að ganga er engu að síður skýr: ef hér á einhvern tíma að verða stöðugleiki og raunverulegt góðæri verða Íslendingar að læra af mistökum sínum og temja sér aðra siði í stjórnum fjármálakerfisins. Þetta reddast nefnilega ekki af sjálfu sér.

Munaðarleysingjar og morðóður trúður

||
Ævar Þór Benediktsson.

Leikarinn og rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson hefur sent frá sér fjölda barnabóka, nú síðast bókina Ofurhetjuvíddin sem kom út í maí og léttlestrarbækurnar Þín eigin saga: Búkolla, og Þín eigin saga: Börn Loka. Það er því áhugavert að sjá hvaða bækur hafa haft áhrif á Ævar.

 

IT eftir Stephen King


„Þegar ég var 14 ára gamall bað frændi minn, Þórarinn Hjörtur Ævarsson, mig um að geyma bókasafnið hans. Meðal bókanna leyndust ótalmargar bækur eftir Stephen King á frummálinu, en á þessum tíma var ég einmitt við það að klára allar íslensku þýðingarnar á verkum hans. Þegar ég hugsa til baka er þó ein bók umfram aðrar sem situr mest í mér; IT. Ekki bara vegna þess að hér er á ferðinni æðisleg hrollvekja (ég las hana aftur í fyrrasumar, bara til að vera viss), heldur er Aumingja-klúbburinn meðal nokkurra af bestu persónum Kings. Þetta er bókin sem kenndi mér að ef þú ætlar að láta eitthvað hræðilegt koma fyrir persónurnar þínar, má okkur lesendunum ekki standa á sama um þær.“

Lemony Snicket’s a Series of Unfortunate Events – eftir Lemony Snicket

„Hér er ég að svindla með því að nefna 13 bóka flokk, en ekki bara eina bók. Fáar bækur hafa haft jafnmikil áhrif á skrifstíl minn og bækurnar í þessum merka bókaflokki. Bókaflokkur er orð sem hér þýðir: ,,Þrettán bækur sem fjalla um þrjú munaðarlaus systkini sem lenda í ömurlegum aðstæðum sem verða svo bara verri, sérstaklega vegna þess að afar myndarlegur greifi er að reyna að hafa hendur í hári þeirra.“ Fyrstu bækurnar voru meistaralega þýddar á íslensku og kallaðar ,,Úr bálki hrakfalla“, en þegar hætt var að gefa þær út hér heima varð ég að finna þær á ensku. Því miður er vandamálið um hálfþýdda bókaflokka enn við líði í dag.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hollt pasta á 15 mínútum

|||||
|||||

Heilsumarkþjálfinn Júlía Magnúsdóttir hjá Lifðu til fulls býður upp á ókeypis fyrirlestur í kvöld, miðvikudaginn 22. ágúst, klukkan 20.30. Fyrirlesturinn fer fram á netinu og því getur hver sem er hlýtt á. Júlía fer yfir víðan völl á fyrirlestrinum.

„Á fyrirlestrinum lærir þú ómissandi ráð til að hefja breyttan lífsstíl, auka orkuna og losna við sykurlöngun. Allir sem mæta í beinni fá ókeypis uppskriftir og sérstakt hreinsunarpróf. Í lokin verður opnað fyrir spurningar á línunni svo þú getur spurt mig að því sem þú hefur verið að velta fyrir þér varðandi heilsuna,“ segir Júlía og bætir við að mikilvægt sé að skrá sig á fyrirlesturinn þó hann sé ókeypis á netinu.

„Það eru takmörkuð pláss í boði og því um að gera að skrá sig strax. Við höfum haldið þessa fyrirlestra tvisvar til þrisvar síðustu ár og það er alltaf fullt á þá. Í fyrra til að mynda skráðu sig um það bil átta hundruð manns.“ Hægt er að skrá sig á fyrirlesturinn með því að smella hér.

Galdraefni í léttu pasta

Í tilefni fyrirlesturins ákváðum við hjá Mannlífi að fá eina holla og næringarríka uppskrift hjá Júlíu, sem deilir hér með lesendum fljótlegum pastarétt.

„Það kemur flestum á óvart að það sé hægt að finna gott „ostabragð“ án þess að það innihaldi mjólkurafurðir eða sykur. Sósan og rétturinn sem ég deili hér er vegan og léttari í maga en hefðbundið ostapasta,“ segir Júlía. Í uppskriftinni notar hún til dæmis næringarger, sem hægt er að fá meðal annars í Bónus, Hagkaupum og Heilsuhúsinu, og er talið algjört undraefni.

„Næringarger er óvirkt ger sem er ekkert líkt hefðbundu bakstursgeri. Það er gríðarlega ríkt af B-vítamínum og B-12 sérstaklega. B-vítamín getað aukið orkuna yfir daginn en engin hætta er þó á því að þú borðir næringarger að kvöldi til og verðir vakandi frameftir. Hægt er að nota það yfir popp, salöt eða allt sem þú vilt fá gott ostabragð á á næringarríkan hátt.“

15 mínútna fettucine „osta“ pasta með stökku blómkáli

Vegan „osta“ sósa:

1 bolli kókosmjólk
1/2 bolli rifinn vegan parmesan eða parmesan
1 msk næringarger
1 hvítlauksrif (ég notaði einn perlulauk)
chilli á hnífsoddi
1 tsk dijon
klípa af salti
nokkrir dropar stevia eða kókospálmanektar

Grænmetið:

1 msk olífuolía
2 hvítlauksrif (ég notaði tvo perlulauka)
1/2 blómkálshaus
1/2 kúrbútur
handfylli ferskt rósmarín

Borið fram með:

spínati
valhnetum/furuhnetum
ferskri steinselju
sítrónusneiðum
rifnum vegan parmesan eða parmesan

Aðferð:

Setjið öll hráefni sósunnar í blandara og vinnið þar til silkimjúkt. Sjóðið vatn í potti og leyfið suðu að koma upp. Bætið pasta út í vatnið, lækkið undir og sjóðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka, sirka 6 til 8 mínútur.

Hitið pönnu. Steikið hvítlauk, blómkál, kúrbít og kryddjurtir á pönnu og hrærið í 5 til 7 mínútur. Hellið sósunni í pönnuna ásamt pastanu og hrærið örlítið. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.

Berið fram með því sem þið kjósið og njótið!

Hollráð

Ef þú vilt hafa blómkálið enn stökkara má setja það í ofninn við 180°C með örlítið af olíu og salti og pipar í 25 mínútur. Þá er gott að snúa við blómkálinu eftir sirka 15 mínútur. Til að flýta fyrir má gera vegan „osta“ sósuna yfir helgi eða kvöldið áður og geyma í kæli. Einnig má frysta sósuna sem ég tel þó ólíklegt að gerist þar sem sósan er svo bragðgóð að hún klárast yfirleitt strax.

Fötin skapa manninn: Fangar og fíklar fá yfirhalningu

|||||||||||||
|||||||||||||

Góðgerðarsamtökin Sharp Dressed Man voru stofnuð í Baltimore í Bandaríkjunum árið 2011 af feðgunum Christopher og Seth Schafer. Markmið samtakanna er að veita karlmönnum stuðning þegar þeir snúa aftur út á vinnumarkaðinn úr fangelsi eða meðferð.

Christopher er klæðskeri sem sérsaumar háklassa jakkaföt, en hugmyndin að Sharp Dressed Man kom til hans þegar hann var að leita leiða til að nýta þau jakkaföt sem ekki seldust. Nú hagar hann góðgerðarvinnunni þannig að hann leitar að framlögum frá fyrirtækjum og viðskiptavinum sínum og á hverjum miðvikudegi koma til hans karlmenn til að fá frí föt, klippingu og heita máltíð.

Christopher glímdi sjálfur við fíknivanda og finnst mikilvægt að hjálpa karlmönnum að fóta sig aftur í lífinu.

Rannsóknir hafa sýnt að það skiptir máli að koma vel fyrir í atvinnuviðtölum, en síðan góðgerðarsamtökin voru stofnuð hafa þau skapað tengsl við fullt af ráðningarskrifstofum og breytt lífi fjölmargra karlmanna.

Hér fyrir neðan má sjá yfirhalningu nokkurra karlmanna sem hafa notið stuðnings frá Sharp Dressed Man:

Stefán Karl er látinn

Stefán Karl Stefánsson

Leikarinn ástsæli, Stefán Karl Stefánsson, er látinn aðeins 43 ára að aldri eftir baráttu við gallgangakrabbamein. Hann lætur eftir sig eiginkonu, leikkonuna og ritstýruna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, og fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

Eftirlifandi eiginkona hans tilkynnti andlát Stefáns Karls á Facebook-síðu sinni.

„Yndið mitt, Stefán Karl Stefánsson, er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Stefán var fæddur 10. júlí 1975 og varð því 43 ára gamall. Að ósk hins látna verður engin jarðarför og jarðneskum leifum dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Fjölskyldan þakkar auðsýndan stuðning og hlýhug á undangengnum árum og sendir hinum fjölmörgu vinum og aðdáendum Stefáns Karls sínar innilegustu samúðarkveðjur,“ skrifar Steinunn Ólína.

Hinn íslenski Jim Carrey

Stefán Karl útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands árið 1999 og er hvað þekktastur fyrir túlkun sína á persónunni Glanna Glæp í Latabæ, túlkun sem vakti heimsathygli. Var hann oft kallaður hinn íslenski Jim Carrey, enda var Stefán Karl afar lunkinn í að bregða sér í ýmis líki. Þá aflaði Stefán Karl sér einnig margra erlenda aðdáenda þegar hann lék Trölla í leiksýningunni How the Grinch Stole Christmas í Bandaríkjunum og Kanada. Hann lék þessa skrautlegu persónu um það bil sex hundruð sinnum fyrir um tvær milljónir aðdáenda.

Hann lék í fjölmörgum verkum á sviði, og stendur þar einna hæst leikritið Með fulla vasa af grjóti þar sem hann lék aragrúa af persónum á móti Hilmi Snæ Guðnasyni. Verkið var fyrst sett á svið árið 2000, síðan árið 2012 og svo aftur í fyrra við mikinn fögnuð leikhúsgesta.

Sæmdur riddarakrossi

Þá var leikarinn einnig mikill baráttumaður gegn einelti og rak góðgerðarsamtökin Regnbogabörn um árabil. Hann ferðaðist um landið með fyrirlestra sína og stóð fyrir mikilli vitundarvakningu í þessum efnum.

Stefán Karl var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Við sendum aðstandendum Stefáns Karls innilegar samúðarkveðjur.

Saga og Snorri orðin hjón

Leikkonan Saga Garðarsdóttir og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason giftu sig á Suðureyri um helgina, en það má með sanni segja að brúðkaupið hafi verið stjörnum prýtt.

Það var leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir sem gaf turtildúfurnar saman en meðal gesta í brúðkaupinu voru grínararnir Steindi Jr., Sóli Hólm og Björn Bragi, sem og tónlistarmaðurinn Valdimar og fjölmiðlakonan Berglind festival.

Saga og Snorri❤️#algjörgifting

A post shared by Anna Sigrún Auðunsdóttir (@annasigrunauduns) on

Snorri og Saga byrjuðu saman árið 2014 og eignuðust dóttur fyrr á þessu ári, nánar tiltekið þann 28. febrúar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir og myndbönd af Instagram frá þessum fallega degi, en Mannlíf óskar parinu innilega til hamingju með ástina.

Svo gott brúðkaupshelg! #algjörgifting

A post shared by Guðrún Sóley (@gudrun_soley) on

#algjörgifting #snorriogsaga #brúðkaupaldarinnar

A post shared by Petur Ben (@peturben) on

Tvær kynslóðir grínara. Saga og Snorri #algjörgifting

A post shared by Pálmi Gestsson (@pgests) on

fullkomin hjón og lítill svangur grís ? #algjörgifting

A post shared by Glódís Guðgeirsdóttir (@glodisgud) on

Ég að kyssa geggjaða gellu ? #algjörgifting

A post shared by Steindi jR (@steindijr) on

Ég er í brúðkaupsveislu og það er rosa gaman. #algjörgifting

A post shared by Valdimar Gudmundsson (@valdimar85) on

#ALGJÖRGIFTING Snorri & Saga 18. ágúst 2018 – Suðureyri

A post shared by Baldur Kristjáns (@baldurkristjans) on

„Níu af hverjum tíu sem fremja sjálfsmorð eru karlar“

Atli Óskar Fjalarsson og Viktor Sigurjónsson vinna að nýrri mynd um stöðu stráka í samfélaginu. Myndin kallast Lífið á eyjunni og er markmið hennar að vekja athygli á geðheilsu drengja.

„Við Viktor kynntumst á kvikmyndasetti í fyrra. Þá var ég nýbúinn að stofna hóp sem heitir Strákahittingur í kjölfar #metoo-byltingarinnar þar sem karlar geta rætt tilfinningar og hluti sem yfirleitt er ekki leyfilegt að tala um ef maður er strákur og ég var eiginlega í sjokki yfir því hvað margir viðurkenndu að þeir ættu erfitt með að tjá tilfinningar sínar og opna sig um erfiða hluti eins og til dæmis kynferðisofbeldi. Við Viktor fórum að ræða þetta og þá kom í ljós að hann var búinn að skrifa uppkast að stuttmynd um einmitt svipaða hluti. Við vorum sammála um svo margt og það varð til þess að hann bauð mér að vera með sér í gerð myndarinnar. Í framhaldinu skrifuðum við saman handritið,“ lýsir Atli, þegar hann er spurður að því hvernig hugmyndin að myndinni hafi kviknað.

Að hans sögn fjallar hún um 12 ára strák úti á landi, Braga, sem er frjór og skemmtilegur en á erfitt með nám og er félagslega einangraður. Hann tekur upp á því að stofna hljómsveit með strák sem er nýfluttur í bæinn og uppgötvar við það kraft tónlistar og vináttu. Atli segir myndina endurspegla stöðu margra í dag þar sem sífellt erfiðara sé fyrir stráka og karlmenn að fóta sig í samfélaginu.

„Leiðin sem við förum til að segja söguna á eftir að vekja þörf til að tala um hlutina og það er það sem við viljum. Við viljum skapa umræðu.“

„Staðan er verri. Sjáðu bara menntakerfið, hvað mikið brotfall er hjá strákum í menntaskóla og hvað miklu færri strákar en stelpur eru skráðir í háskóla og sem ljúka háskólanámi. Þá sýna rannsóknir að einn af hverjum fimm körlum á ekki náinn vin, sem segir okkur að ef viðkomandi á engan að sem hann getur leitað til þegar eitthvað bjátar á þá eru auknar líkur á að hann leiti „annarra lausna“. En þegar ég tala um aðrar lausnir þá meina ég sjálfsvíg en níu af hverjum tíu sem fremja sjálfsmorð eru karlar.“

Gat ekki tjáð sig um eigin líðan

Sjálfur segist Atli hafa upplifað það að koma að luktum dyrum í menntakerfinu og ekki fundist hann getað tjáð sig opinskátt um eigin líðan. „En sem betur fer á ég góða vini og fjölskyldu sem hafa stutt við bakið á mér ef lífið hefur verið erfitt. Því miður eru ekki allir strákar svo heppnir og að mínu mati verðum við að brúa bilið á milli þessara eyja sem þeir búa á. Þess vegna heitir myndin okkar Lífið á eyjunni.“

Hann segir að markmiðið með gerð hennar sé að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál. Hann og Viktor stefni að því að sýna hana í skólum landsins og fylgja því eftir með fyrirlestrum eða málþingum. „Leiðin sem við förum til að segja söguna á eftir að vekja þörf til að tala um hlutina og það er það sem við viljum. Við viljum skapa umræðu. Að fólk ræði þessi mál opinskátt. Þá er markmiðinu náð.“

Tökur á myndinni standa nú yfir á Seyðisfirði þar sem hún kemur til með að verða frumsýnd í nýuppgerðu kvikmyndahúsi bæjarins seinna á árinu en alls er myndin búin að vera átta mánuði í vinnslu. Að sögn Atla hefur sá tími m.a. farið í handritaskrif, fjármögnun og framleiðslu. Töluverð vinna hafi líka farið í viðræður við ýmis ráðuneyti um aðkomu þeirra að verkefninu og miðað við góðar viðtökur Velferðarráðuneytisins segist hann vona að fleiri ráðuneyti komi til að með styrkja það. „Stuðningurinn skiptir bara svo miklu máli, því þetta er mynd og umræða sem á erindi við alla,“ segir hann og getur þess að þeir Viktor séu líka með söfnun í gangi vegna myndarinnar á Karolina Fund.

Mynd að ofan: Atli Óskar Fjalarsson, annar handritshöfunda og framleiðandi stuttmyndarinnar Lífið á eyjunni, segist vona að myndin muni skapa umræður um báglega stöðu drengja á Íslandi.

 

Lilja Alfreðsdóttir kallar eftir breiðu samráði

Hafin  er  vinna  við  að  móta  nýja  menntastefnu  á  Íslandi  til  ársins  2030.

Lilja  Alfreðsdóttir  mennta-  og  menningarmálaráðherra  segir  að  gæðamenntun  fyrir  alla  á  öllum  skólastigum  verði  höfð  að  leiðarljósi  í  þeirri  vinnu  sem  fram undan  er.  Eitt  af  helstu  markmiðum  nýju  menntastefnunnar  er  að  tryggja  að  allir  í  skólasamfélaginu  líti  á  skólastarf  án  aðgreiningar  sem  grundvöll  gæðamenntunar  fyrir  alla  nemendur  í  takt  við  alþjóðlegar  skuldbindingar  um  jafnrétti  til  náms.  Lilja  kallar  eftir  breiðu  samráði  og  að  sem  flestir  er  málið  varða  komi  að  borðinu  við  stefnumótunarstarfið.

Texti / Egill Páll Egilsson
Mynd / Skjáskot af YouTube

Úr gjá í kamar

MÓTSÖGNIN: Það vakti mikla athygli í síðasta mánuði þegar fregnir bárust af því að lokað hefði verið fyrir Kvennagjá í hellinum Grjótagjá í Mývatnssveit. Hellirinn hefur verið vinsæll baðstaður í gegnum tíðina, ekki síst sökum þess að frægt atriði í Game of Thrones var tekið upp þar, nánar tiltekið kynlífssena Jon Snow og Yrgitte í seríu þrjú.

Ólöf Hallgrímsdóttir, einn landeigenda, sagði í viðtali við Morgunblaðið að hellinum væri lokað vegna slæmrar umgengni. Var gripið til tímabundinnar lokunar til að vernda svæðið. „Virðing­ar­leysið er al­gjört. Það er ekk­ert farið eft­ir skilt­un­um. Þarna er fólk að hafa hægðir, þvo skóna sína, þvo leirtauið, bursta tenn­urn­ar og einnig hafa sum­ir sofið þarna í gjánni,“ sagði Ólöf í viðtali sem birtist þann 11. júlí síðastliðinn.

Þann 20. júlí birtist síðan frétt á mbl.is þar sem kom fram að Skútustaðahreppur hefði fengið samþykkta beiðni um undanþágu frá ákvæðum um grannsvæði vatnsverndarsvæða til þess að hægt yrði að heimila landeigendum að koma upp salernisaðstöðu við Grjótagjá. Mikið fagnaðarefni sem myndi þá gera ferðalöngum kleift að gera þarfir sínar í kamri en ekki spilla þeirri miklu náttúruperlu sem gjáin er. „Ég er mjög ánægður með þessa niður­stöðu en það hef­ur bara tekið allt of lang­an tíma að fá niður­stöðu í málið. Við höf­um beðið síðan í apríl,“ sagði Þor­steinn Gunn­ars­son, sveit­ar­stjóri Skútustaðahrepps, í fréttinni.

Svo var það í vikunni sem dv.is birti frétt um téða salernisaðstöðu við gjána og birti fremur ógeðfellda mynd með eftir ljósmyndarann Guðmund Ingólfsson. Á myndinni sést almenningssalerni sem er yfirfullt af mannasaur og klósettpappír – salerni sem þarf að greiða fyrir afnot af. Nú virðist því sem fólk hafi hægðir í kamrinum, ekki í gjánni, en fyrrnefndum Guðmundi blöskrar aðstaðan sem hann greiddi fyrir. „Ef við viljum að gestir okkar gangi sómasamlega um þá verðum við að bjóða upp á almennilega þjónustu til slíks,“ sagði hann í samtali við dv.is.

„Ég varð algjörlega agndofa“

Steinþór Helgi Arnsteinsson, viðburðastjóri hjá CCP, segist ekki horfa nærri eins mikið á sjónvarp og hann myndi vilja því hann vinni allt of mikið. Þar af leiðandi vandi hann nokkuð valið sem áhorfandi og hafi sérstakt dálæti á „kitch“-kvikmyndum.

Last Action Hero
Ég horfði á Last Action Hero um daginn, í fyrsta sinn bara síðan hún kom út, og ég fullyrði að þetta er ein vanmetnasta kvikmynd síðustu 30 ára. Og ég er ekki einu sinni að tala um vanmetnustu hasarmyndina eða eitthvað, heldur bara vanmetnustu KVIKMYND seinni ára. Myndin er post-módernískt meistaraverk, unaðsleg satíra á klisjur hasarmynda og fullkomin skemmtun frá upphafi til enda. Leikstjórinn er John McTiernan, sem gerði Die Hard og Predator, og honum tekst einhvern veginn að skapa marglaga snilld sem ég held að allir hafi misskilið.

The Human Centipede 1 & 2
Ég veit að ég er fullkomlega galinn að finnast þetta en mér finnst The Human Centipede-myndirnar geggjaðar (tek reyndar ekki fram að ég hef ekki séð númer 3). Þær eru það náttúrlega bókstaflega en þetta gígantíska óhóf sem blasir við manni í þessum myndum er algjörlega á öðru leveli en maður hefur áður séð eða bara skilið. Ég varð algjörlega agndofa eftir fyrstu myndina en svo gekk númer tvö algjörlega fram af mér. Viðbjóðurinn er keyrður úr öllu hófi en samt á einhvern fagurfræðilegan hátt. Þetta er kannski ekki sakbitin „sæla“, en þetta er sannarlega sakbitið eitthvað.

 

 

„Verður gaman að fá sína fimm mínútna frægð“

||
||

Drónaskot eftir Sigurð Þór Helgason verða notuð í Netflix-þáttunum The Dark Crystal: Age of Restistance.

Sigurður Þór Helgason, framkvæmdastjóri verslunarinnar DJI Store Reykjavík, á drónaskot í þáttunum The Dark Crystal: Age of Resistance, en fleiri erlendar aðilar hafa keypt af honum myndefni í gegnum tíðina. Hér er hann ásamt syni sínum, Alvari Óskarai ellefu ára.

„Umboðmaður sem vinnur við að finna efni fyrir Netflix sá drónaskot eftir mig, vinsælt vídeó á Netinu sem heitir Mystic Iceland og honum fannst það alveg smellpassa við fantasíuheim þáttanna. Þannig að hann sýndi framleiðendum þáttanna það og þeir kolféllu fyrir því,“ segir Sigurður Þór Helgason um aðdraganda þess að drónaskot eftir hann enduðu í nýjum Netflix-þáttum, The Dark Crystal: Age of Resistance.

Þættirnir eiga að gerast á undan klassísku kvikmyndinni The Dark Crystal sem kom úr smiðju Jims Henson sáluga, skapara Prúðuleikaranna, árið 1982 og fjallar um baráttu góðra og illra afla vera á fjarlægri plánetu. Sigurður segist ekki vita nákvæmlega hvernig skotið eftir hann kemur til með að verða notað í þáttunum en hann hafi verið svo heppinn að ná því á Stokksnesi í ágúst í fyrra.

„Í sannleika sagt var ég ekkert á leiðinni þangað, var með allt önnur plön en einhver rödd í höfðinu á mér sagði mér að fara og mynda þar sólarupprás. Ég ákvað að hlýða og keyrði heila 500 kílómetra um nóttina, alveg þar til ég kom á leiðarenda klukkan fjögur um morguninn og varð þá vitni að því hvernig sólargeislarnir brutust fram og skinu í gegnum þoku í fjöruborðinu þannig að þokan virtist glóa. Þetta var svo stórkostlegt sjónarspil að ég náði varla andanum. Algjört milljón dollara skot sem ég náði með drónanum.“

„…það er ótrúlega gaman að skot eftir mig skuli vera notað í verkefni sem tengist hugarheimi þessa mikla snillings.“

Sigurður segist hlakka mikið til að sjá útkomuna í þáttunum enda hafi honum þótt The Dark Crystal góð á sínum tíma. „Hún var mjög sérstök og dökk, eins og heitið gefur til kynna. Sem krakki elskaði maður auðvitað allt sem kom úr smiðju Henson, prúðuleikarana og fleira, þannig að það er ótrúlega gaman að skot eftir mig skuli vera notað í verkefni sem tengist hugarheimi þessa mikla snillings.“

Umrætt „milljón dollara“ skot sem notað verður í þáttunum.

Hann bætir við að framleiðendur þáttanna séu svo ánægðir með myndefnið að þeir hafi þegar falast eftir fleiri skotum. „Við höfum verið í sambandi í gegnum umboðsmanninn og ég er að leita að meira efni fyrir þá,“ segir hann glaðlega. „Það verður gaman að fá sína fimm mínútna frægð.“

Heimsmet í fallhlífarstökki

Íslensk kona sett nýtt heimsmet í fallhlífarstökki.

Íslensk kona, Þórhildur Valsdóttir er ein 60 kvenna úr liðinu „Women on Wings, (e. Konur á vængjum) sem settu nýtt heimsmet í hópfallhlífarstökki í Úkraínu á dögunum.

Þær stukku samtímis úr tveimur flugvélum í 18.000 feta hæð og mynduðu þrenns konar mynstur í frjálsu falli. Aldrei áður hefur svo stór kvennahópur afrekað slíkt stökk.

Þórhildur hefur stundað fallhlífarstökk síðan 1993 og var um tíma hluti af norska kvennalandsliðinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún á þátt í að setja heimsmet. „Ég var valin í „open class“-liðið 2003 og hoppaði þá með strákunum. Árið 2006 tók það lið þátt í heimsmeti í Taílandi, alls 400 stökkvarar,“ segir hún.

Grein eftir Egil Pál Egilsson.

„Ég tek þetta á þrjóskunni“

|
|

Hákon Atli Bjarkason ætlar heilt maraþon, 42 kílómetra, í Reykjavíkurmaraþoninu í hjólastól.

Óhætt er að segja að Hákon Atli Bjarkason, rekstrastjóri Pizzunnar, sé sannkallaður orkubolti, en fyrir utan að ætla að fara heilt maraþon, 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, þá æfir hann borðtennis og er Íslandsmeistari fatlaðra í borðtennis.

Hákon Atli Bjarkason lenti í alvarlegu bílveltu árið 2009 þegar hann sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan mænuskaða. Hákon segist þó aldrei hafa látið mænuskaðann stöðva sig, þvert á móti og á morgun ætlar hann að gera sér lítið fyrir og fara heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu, 42 kílómetra hvorki meira né minna, sem er það mesta sem hann hefur farið.

„Ég hef tekið þátt síðustu 4 ár, tvisvar tíu kílómetra og tvisvar 21 kílómetra. Fyrst tók ég 10 kílómetrana til að sjá hvort ég gæti það, svo tókst mér að fara hálft maraþon og eftir það hef ég alltaf verið með það á plani að fara 42 kílómetra, en ég hef ekki lagt í það fyrr en nú. Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“ segir hann ákveðinn.

Hann viðurkennir þó að hafa ekki æft sig mikið, í raun hafi hann bara tekið tvær æfingar. „Í þeirri fyrstu tók ég 28 kílómetra. Hún var ógeðslega erfið en miðað við tempóið sem ég náði þá ætti ég að ná markmiðinu sem er undir fjórum tímum. Seinni æfingin gekk ekki síður vel þannig að ég er bjartýnn á að mér gangi vel á morgun.“

Lætur lítið stoppa sig

Talið berst að slysinu örlagaríka og Hákon segir að það sé nokkuð sem líði sér seint úr minni. „Ég sofnaði undir stýri og velti bílnum. Rétt hjá Skálafellsafleggjara í Mosfellsdalnum, á leiðinni til Reykjavikur. Stoppaði hjá afleggjaranum þar sem ég fann fyrir þreytu, lagði mig i kortér og þegar ég fer af stað er ég greinilega hálfsofnadi því kílómeter seinna vakna ég upp það við að bíllinn er að velta,“ lýsir hann alvarlegur.

Í kjölfar slyssins var Hákon fluttur með hraði á bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi og var í viku á gjörgæslu. Við tók ströng endurhæfing á Grensás þar sem hann var á legudeild frá júlí til desember. Hann viðurkennir að þetta hafi verið erfiður tími. Slysið hafi haft þau áhrif að aðstæður hans gjörbreyttust og það hafi tekið tíma að byggja upp þrek og styrk og komast á þann stað sem hann er í dag.

„Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“

„En maður aðlagast bara breyttum aðstæðum og ég er mjög sáttur við líf mitt í dag. Ég er í góðri vinnu og á kafi í íþróttum, hef líkleg aldrei verið duglegri að hreyfa mig,“ segir hann og nefnir í því samhengi að árið 2012 hafi hann endurvakið hjólastólakörfuboltann sem hafði þá legið í dvala síðan 1997. Þess utan æfi hann svo borðtennis og sé, sem stendur, Íslandsmeistari fatlaðra í íþróttinni.

„Ég læt voðalega lítið stoppa mig,“ segir hann og hlær þegar blaðamaður spyr hvar hann fái alla þessa orku. „Og mér finnst mikilvægt að ýta undir þann hugsunarhátt hjá öðrum,“ flýtir hann sér að bæta við. „Þess vegna hef ég til dæmis haldið námskeið um notkun hjólastóla í daglegu lífi bæði hér heima og úti, núna síðast á endurhæfingarnámskeiði í Svíþjóði. Þannig að kannski má segja að ég sé frekar orkumikill. Ég hef alla vega nóg að gera. Og ef eitthvað er finnst mér bara vanta fleiri tíma í sólarhringinn.“

Ætlar að ná takmarkinu

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ná takmarkinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, að fara það á undir fjórum klukkustundum, segist Hákon vera það. Svo framarlega sem veðurspáin bregðist ekki og það fari að rigna. „Ef það gerist, ef það verður grenjandi rigning þá verður gripið ekki mikið á dekkjunum,“ útskýrir hann, „sem þýðir að það verður þrefalt erfiðara að ýta sér áfram og ná góðu tempói. Við þannig aðstæður fær maður fljótt sár á hendurnar ætli maður að ná almennilegri keyrsl-u.“

Hann segist vita að þetta séu háleit markmið en það vinni með honum að vera drífandi að eðlisfari og í góðu formi. Auk þess sé hann búinn að fá góða hvatningu frá vinum og vandamönnum og öllum þeim sem hafa þegar heitið á hann í maraþoninu en eins og áður sagði, ætlar hann að taka þátt til styrktar SEM, Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra á Íslandi. „Það er frábært að fá þessa góðu hvatningu,“ segir hann glaður bragði. „Ég er mjög ánægður með hana, þetta á eftir að gefa manni aukinn styrk á morgun.“

Tímalaus hönnun og umhverfisvæn framleiðsla

Happie er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sérsmíði á húsgögnum fyrir heimili, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Sérhæfnin felst ekki síst í járnsmíði og smíði með gegnheilum við. Hjónin Hafsteinn Helgi Halldórsson og Guðrún Agla Egilsdóttir eiga og reka fyrirtækið Happie og hafa ótrúlega gaman af nýjum hugmyndum og sjá hvað ímyndunaraflið getur framkallað.

Einstakur lífsstíll sem heillar, fjölskyldan við Hafravatn kann að lifa lífinu til fulls og láta drauma sína rætast.

Hver sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar? „Fæðing fyrirtækisins átti sér stað snemma árið 2015 þar sem við vorum að smíða húsgögn inn í litla kjallaraíbúð í Vesturbæ Reykjavíkur sem við bjuggum í þá. Myndir af mununum rötuðu á Internetið og í kjölfarið var fólk byrjað að banka á dyrnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag erum við búin að koma okkur upp einbýlishúsi við Hafravatn ásamt því að vera með tvö verkstæði í Kópavoginum.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar hönnun, getur þú sagt okkur nánar frá ykkar áherslu í hönnuninni og framleiðslu? „Við erum svo ótrúlega heppin með það að þeir sem finna okkur og koma í heimsókn á verkstæðið eru yfirleitt fólk með ákveðnar hugmyndir og hafa sama brennandi áhuga og við, skapa eitthvað einstakt sem gleður augað ásamt því að hafa gott notagildi. Svo virðist einnig sem rísandi sameiginlegur andi í samfélaginu sé fyrir því að efla íslenskt atvinnulíf og framleiðslu, enda eru ótrúlega margir aðilar sem koma að okkar fyrirtæki í heildarmyndinni. Ég tel, á okkar sviði, af minni reynslu í framleiðslu, að við séum framar mörgum nágrannalöndum okkar hvað varðar getu og hæfileika. Orðin íslensk hönnun og framleiðsla megum við klárlega hampa bein í baki,“ segir Hafsteinn og er bjartsýnn á framtíðina.

,,Við sérhæfum okkur mikið í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu.“

Hvernig myndir þú lýsa hönnunarstílnum ykkar? „Varðandi hönnunina þá er það samstarfsverkefni hverju sinni allra á verkstæðinu, Agla hefur verið augað í fyrirtækinu en við tökum flestar ákvarðanir í sameiningu og besta hugmyndin framleidd. Við erum líka það heppin að oft eru kúnnar okkar mjög skapandi og flestar ákvarðanir teknar í samstarfi við þá. Happie-stíllinn á að koma með hlýleikann frá náttúrunni inn á heimilið og blanda saman lífrænum línum náttúrunnar við einföld form. Takmarkið með hönnun okkar er alltaf að borðið sé jafnfallegt og það er gott að sitja við það. Það er hin gyllta blanda í hönnun – þægindi og fegurð.“

Eru nýungar á döfinni? ,,Hingað til höfum við einungis verið með verkstæði og erum við nýbúin að stækka við okkur og ráða nýjan starfsmann sem kemur ferskur inn með mikla reynslu frá meginlandinu. Þetta er mikil sérhæfing og hef ég leitað mikið erlendis eftir svörum við spurningum sem kunna að vakna og er því dásamlegt að fá ferskan blæ frá Evrópu á verkstæðið.“

Íbúð Hafsteins og Guðrúnar Öglu er Björt og falleg.

Hafsteinn og Agla horfa björtum augum til framtíðarinnar og ætla að halda áfram að vaxa og dafna. „Á dögunum auglýstum við eftir áhugasömum fjárfestum í Happie, og settum þau skilyrði að brennandi áhugi á íslenskri hönnun og handverki væri til staðar og hefur ekki staðið á fyrirspurnum. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir hafa fylgst með okkur vaxa og hafa trú á okkur hjá Happie. Við höfum ekki náð að svara öllum en erum komin í viðræður við ótrúlega spennandi og skemmtilegt fólk með stórkostlegar hugmyndir. Þetta er samt skref sem við erum að skoða vel og það þarf að vera góður andi til staðar svo svona gangi upp.“

„Annars höfum við sjálf verið að fara í stækkunarframkvæmdir til að anna eftirspurn og bættum við okkur öðru verkstæði í Kópavoginum og erum að vinna að sýningarsal. Hingað til hefur fólk bara haft samband og kíkt við á verkstæðið, það er alltaf gaman, en ég tel að það sé margt fólk sem langar til að geta komið og séð fullkláraða vöru. En það kostar sitt að framleiða hvert húsgagn og höfum við sjálf ekki efni á að kaupa sýningareintök af okkar fallegustu vörum og hafa til sýnis, það var einn af hvötunum á bak við það að skoða það að fá fjárfesta inn og er ég viss um að út úr því komi einhver snilld.“

Hafsteinn og Guðrún Agla hafa komið sér vel fyrir í húsi síni við Hafravatn.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framleiðslu? „Við sérhæfum okkur í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu. Staðlar eru orðnir það strangir í dag á skógrækt og er efniviðurinn okkar merktur þeim staðli sem vottar að framleiðsla þess efnis er að framleiða fleiri tré en hún fellur. Timbur er eitt það umhverfisvænsta byggingarefni sem um getur. Við höfum líka verið dugleg að planta uppi í landi. Við notum einungis efni sem eru ekki eitruð fyrir húð eða við innöndun, við viljum hafa ferskan blæ öllum stundum á verkstæðinu hjá okkur. Olían okkar er til dæmis unnin úr plöntum en ekki jarðolíu.“

Stílhrein hönnun einkennir hús hjónanna.

Fallega húsið ykkar við Hafravatn heillar og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Fyrir algjöra tilviljun skoðuðum við fasteignavefinn árið 2015 rétt áður en allt fór af stað þar og þar var þessi lóð búin að hanga inni. Við fórum og skoðuðum og gersamlega urðum heilluð við fyrstu sýn. Allt í bláberjum, lækur og ótrúlegt útsýni. Þetta er líka skammt frá bænum og er ég til að mynda sneggri heim í bláberjabrekkurnar heldur en í Vesturbæinn frá verkstæðinu. Hugmyndin með húsinu var alla tíð fjölskylduandi og njóta með fuglunum og dýrunum í náttúrunni. Pælingin var einnig allan tímann að gera þetta að stað þar sem fólk getur komið, slakað á og hlaðið sig áður en það heldur aftur inn í borgarlífið. Það hefur sko sannarlega virkað.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Raddir