Laugardagur 21. september, 2024
10.7 C
Reykjavik

„Ég tek þetta á þrjóskunni“

|
|

Hákon Atli Bjarkason ætlar heilt maraþon, 42 kílómetra, í Reykjavíkurmaraþoninu í hjólastól.

Óhætt er að segja að Hákon Atli Bjarkason, rekstrastjóri Pizzunnar, sé sannkallaður orkubolti, en fyrir utan að ætla að fara heilt maraþon, 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, þá æfir hann borðtennis og er Íslandsmeistari fatlaðra í borðtennis.

Hákon Atli Bjarkason lenti í alvarlegu bílveltu árið 2009 þegar hann sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan mænuskaða. Hákon segist þó aldrei hafa látið mænuskaðann stöðva sig, þvert á móti og á morgun ætlar hann að gera sér lítið fyrir og fara heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu, 42 kílómetra hvorki meira né minna, sem er það mesta sem hann hefur farið.

„Ég hef tekið þátt síðustu 4 ár, tvisvar tíu kílómetra og tvisvar 21 kílómetra. Fyrst tók ég 10 kílómetrana til að sjá hvort ég gæti það, svo tókst mér að fara hálft maraþon og eftir það hef ég alltaf verið með það á plani að fara 42 kílómetra, en ég hef ekki lagt í það fyrr en nú. Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“ segir hann ákveðinn.

Hann viðurkennir þó að hafa ekki æft sig mikið, í raun hafi hann bara tekið tvær æfingar. „Í þeirri fyrstu tók ég 28 kílómetra. Hún var ógeðslega erfið en miðað við tempóið sem ég náði þá ætti ég að ná markmiðinu sem er undir fjórum tímum. Seinni æfingin gekk ekki síður vel þannig að ég er bjartýnn á að mér gangi vel á morgun.“

Lætur lítið stoppa sig

Talið berst að slysinu örlagaríka og Hákon segir að það sé nokkuð sem líði sér seint úr minni. „Ég sofnaði undir stýri og velti bílnum. Rétt hjá Skálafellsafleggjara í Mosfellsdalnum, á leiðinni til Reykjavikur. Stoppaði hjá afleggjaranum þar sem ég fann fyrir þreytu, lagði mig i kortér og þegar ég fer af stað er ég greinilega hálfsofnadi því kílómeter seinna vakna ég upp það við að bíllinn er að velta,“ lýsir hann alvarlegur.

Í kjölfar slyssins var Hákon fluttur með hraði á bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi og var í viku á gjörgæslu. Við tók ströng endurhæfing á Grensás þar sem hann var á legudeild frá júlí til desember. Hann viðurkennir að þetta hafi verið erfiður tími. Slysið hafi haft þau áhrif að aðstæður hans gjörbreyttust og það hafi tekið tíma að byggja upp þrek og styrk og komast á þann stað sem hann er í dag.

„Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“

„En maður aðlagast bara breyttum aðstæðum og ég er mjög sáttur við líf mitt í dag. Ég er í góðri vinnu og á kafi í íþróttum, hef líkleg aldrei verið duglegri að hreyfa mig,“ segir hann og nefnir í því samhengi að árið 2012 hafi hann endurvakið hjólastólakörfuboltann sem hafði þá legið í dvala síðan 1997. Þess utan æfi hann svo borðtennis og sé, sem stendur, Íslandsmeistari fatlaðra í íþróttinni.

„Ég læt voðalega lítið stoppa mig,“ segir hann og hlær þegar blaðamaður spyr hvar hann fái alla þessa orku. „Og mér finnst mikilvægt að ýta undir þann hugsunarhátt hjá öðrum,“ flýtir hann sér að bæta við. „Þess vegna hef ég til dæmis haldið námskeið um notkun hjólastóla í daglegu lífi bæði hér heima og úti, núna síðast á endurhæfingarnámskeiði í Svíþjóði. Þannig að kannski má segja að ég sé frekar orkumikill. Ég hef alla vega nóg að gera. Og ef eitthvað er finnst mér bara vanta fleiri tíma í sólarhringinn.“

Ætlar að ná takmarkinu

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ná takmarkinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, að fara það á undir fjórum klukkustundum, segist Hákon vera það. Svo framarlega sem veðurspáin bregðist ekki og það fari að rigna. „Ef það gerist, ef það verður grenjandi rigning þá verður gripið ekki mikið á dekkjunum,“ útskýrir hann, „sem þýðir að það verður þrefalt erfiðara að ýta sér áfram og ná góðu tempói. Við þannig aðstæður fær maður fljótt sár á hendurnar ætli maður að ná almennilegri keyrsl-u.“

Hann segist vita að þetta séu háleit markmið en það vinni með honum að vera drífandi að eðlisfari og í góðu formi. Auk þess sé hann búinn að fá góða hvatningu frá vinum og vandamönnum og öllum þeim sem hafa þegar heitið á hann í maraþoninu en eins og áður sagði, ætlar hann að taka þátt til styrktar SEM, Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra á Íslandi. „Það er frábært að fá þessa góðu hvatningu,“ segir hann glaður bragði. „Ég er mjög ánægður með hana, þetta á eftir að gefa manni aukinn styrk á morgun.“

Tímalaus hönnun og umhverfisvæn framleiðsla

Happie er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sérsmíði á húsgögnum fyrir heimili, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Sérhæfnin felst ekki síst í járnsmíði og smíði með gegnheilum við. Hjónin Hafsteinn Helgi Halldórsson og Guðrún Agla Egilsdóttir eiga og reka fyrirtækið Happie og hafa ótrúlega gaman af nýjum hugmyndum og sjá hvað ímyndunaraflið getur framkallað.

Einstakur lífsstíll sem heillar, fjölskyldan við Hafravatn kann að lifa lífinu til fulls og láta drauma sína rætast.

Hver sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar? „Fæðing fyrirtækisins átti sér stað snemma árið 2015 þar sem við vorum að smíða húsgögn inn í litla kjallaraíbúð í Vesturbæ Reykjavíkur sem við bjuggum í þá. Myndir af mununum rötuðu á Internetið og í kjölfarið var fólk byrjað að banka á dyrnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag erum við búin að koma okkur upp einbýlishúsi við Hafravatn ásamt því að vera með tvö verkstæði í Kópavoginum.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar hönnun, getur þú sagt okkur nánar frá ykkar áherslu í hönnuninni og framleiðslu? „Við erum svo ótrúlega heppin með það að þeir sem finna okkur og koma í heimsókn á verkstæðið eru yfirleitt fólk með ákveðnar hugmyndir og hafa sama brennandi áhuga og við, skapa eitthvað einstakt sem gleður augað ásamt því að hafa gott notagildi. Svo virðist einnig sem rísandi sameiginlegur andi í samfélaginu sé fyrir því að efla íslenskt atvinnulíf og framleiðslu, enda eru ótrúlega margir aðilar sem koma að okkar fyrirtæki í heildarmyndinni. Ég tel, á okkar sviði, af minni reynslu í framleiðslu, að við séum framar mörgum nágrannalöndum okkar hvað varðar getu og hæfileika. Orðin íslensk hönnun og framleiðsla megum við klárlega hampa bein í baki,“ segir Hafsteinn og er bjartsýnn á framtíðina.

,,Við sérhæfum okkur mikið í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu.“

Hvernig myndir þú lýsa hönnunarstílnum ykkar? „Varðandi hönnunina þá er það samstarfsverkefni hverju sinni allra á verkstæðinu, Agla hefur verið augað í fyrirtækinu en við tökum flestar ákvarðanir í sameiningu og besta hugmyndin framleidd. Við erum líka það heppin að oft eru kúnnar okkar mjög skapandi og flestar ákvarðanir teknar í samstarfi við þá. Happie-stíllinn á að koma með hlýleikann frá náttúrunni inn á heimilið og blanda saman lífrænum línum náttúrunnar við einföld form. Takmarkið með hönnun okkar er alltaf að borðið sé jafnfallegt og það er gott að sitja við það. Það er hin gyllta blanda í hönnun – þægindi og fegurð.“

Eru nýungar á döfinni? ,,Hingað til höfum við einungis verið með verkstæði og erum við nýbúin að stækka við okkur og ráða nýjan starfsmann sem kemur ferskur inn með mikla reynslu frá meginlandinu. Þetta er mikil sérhæfing og hef ég leitað mikið erlendis eftir svörum við spurningum sem kunna að vakna og er því dásamlegt að fá ferskan blæ frá Evrópu á verkstæðið.“

Íbúð Hafsteins og Guðrúnar Öglu er Björt og falleg.

Hafsteinn og Agla horfa björtum augum til framtíðarinnar og ætla að halda áfram að vaxa og dafna. „Á dögunum auglýstum við eftir áhugasömum fjárfestum í Happie, og settum þau skilyrði að brennandi áhugi á íslenskri hönnun og handverki væri til staðar og hefur ekki staðið á fyrirspurnum. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir hafa fylgst með okkur vaxa og hafa trú á okkur hjá Happie. Við höfum ekki náð að svara öllum en erum komin í viðræður við ótrúlega spennandi og skemmtilegt fólk með stórkostlegar hugmyndir. Þetta er samt skref sem við erum að skoða vel og það þarf að vera góður andi til staðar svo svona gangi upp.“

„Annars höfum við sjálf verið að fara í stækkunarframkvæmdir til að anna eftirspurn og bættum við okkur öðru verkstæði í Kópavoginum og erum að vinna að sýningarsal. Hingað til hefur fólk bara haft samband og kíkt við á verkstæðið, það er alltaf gaman, en ég tel að það sé margt fólk sem langar til að geta komið og séð fullkláraða vöru. En það kostar sitt að framleiða hvert húsgagn og höfum við sjálf ekki efni á að kaupa sýningareintök af okkar fallegustu vörum og hafa til sýnis, það var einn af hvötunum á bak við það að skoða það að fá fjárfesta inn og er ég viss um að út úr því komi einhver snilld.“

Hafsteinn og Guðrún Agla hafa komið sér vel fyrir í húsi síni við Hafravatn.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framleiðslu? „Við sérhæfum okkur í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu. Staðlar eru orðnir það strangir í dag á skógrækt og er efniviðurinn okkar merktur þeim staðli sem vottar að framleiðsla þess efnis er að framleiða fleiri tré en hún fellur. Timbur er eitt það umhverfisvænsta byggingarefni sem um getur. Við höfum líka verið dugleg að planta uppi í landi. Við notum einungis efni sem eru ekki eitruð fyrir húð eða við innöndun, við viljum hafa ferskan blæ öllum stundum á verkstæðinu hjá okkur. Olían okkar er til dæmis unnin úr plöntum en ekki jarðolíu.“

Stílhrein hönnun einkennir hús hjónanna.

Fallega húsið ykkar við Hafravatn heillar og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Fyrir algjöra tilviljun skoðuðum við fasteignavefinn árið 2015 rétt áður en allt fór af stað þar og þar var þessi lóð búin að hanga inni. Við fórum og skoðuðum og gersamlega urðum heilluð við fyrstu sýn. Allt í bláberjum, lækur og ótrúlegt útsýni. Þetta er líka skammt frá bænum og er ég til að mynda sneggri heim í bláberjabrekkurnar heldur en í Vesturbæinn frá verkstæðinu. Hugmyndin með húsinu var alla tíð fjölskylduandi og njóta með fuglunum og dýrunum í náttúrunni. Pælingin var einnig allan tímann að gera þetta að stað þar sem fólk getur komið, slakað á og hlaðið sig áður en það heldur aftur inn í borgarlífið. Það hefur sko sannarlega virkað.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Forréttindi að vera í draumastarfinu

Þórey Ólafsdóttir er viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali, framkvæmdastjóri og einn af eigendum LANDMARK fasteignasölu. Þórey býr í notalegu raðhúsi í Garðabænum ásamt börnum sínum þremur, Andra Má, 18 ára, Arnari Má, 16 ára og Thelmu Lind, 13 ára, ásamt schnauzer-hundinum Skugga.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Það má kannski segja að það sem heilli mig mest við starfið séu þessi mannlegu samskipti, ánægjuleg upplifun viðskiptavina, gleði og einlægt þakklæti í lok fasteignaviðskipta. Það eru forréttindi að vera í draumastarfinu og hlakka til þess að mæta til vinnu á hverjum degi. Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki þau stærstu sem fólk ræðst í og fáar fjárfestingar sem standa fólki nær.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Dagarnir eru nú mjög fjölbreyttir og því kannski enginn hefðbundinn vinnudagur sem slíkur. Ég byrja flesta daga í ræktinni, fer út að hlaupa eða hjóla til að næla mér í orku fyrir daginn. Skipulag dagsins ræðst svo af þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni, hvort sem það er daglegur rekstur stofunnar, móttaka viðskiptavina, tölvupóstsamskipti, verðmat, sölusýningar eða tilboðsgerð. Hjá LANDMARK starfar mjög öflugur og þéttur hópur sem í sameiningu gerir vinnudaginn með eindæmum skemmtilegan og litríkan.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Heimilið er griðastaður fjölskyldunnar og á að endurspegla þá sem þar búa. Heimilið tekur breytingum eftir tímabilum, aldri fjölskyldumeðlima og þarfa þeirra hverju sinni en þar á alltaf að ríkja gagnkvæmt traust og einlæg vinátta.“

Getur lýst þínum stíl?

„Ég veit ekki hvort ég fylgi ákveðnum stíl en mér finnst gaman að blanda saman gömlu og nýju, klassíku og módern hvort sem það er í umgjörð heimilisins eða fatavali. Ég er þó fremur minimalísk og vil frekar eiga fáa og vandaða muni eða flíkur sem ég vel af kostgæfni.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?

„Ég held að Sigvaldi Thordarson sé nú efstur á blaði hjá mér en hann var sannkallaður listamaður á sínu sviði. Stílhreinar línur, fallegir litir og frábært skipulag einkennir öll hans verk.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður?

„Ég er alltaf mjög hrifin af allri skandinavískri hönnun, Design by us og HAY sem dæmi en þegar kemur að innanhússhönnun þá er það klárlega æskuvinkona mín og innanhússarkitektinn hún Thelma Björk Friðriksdóttir.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast?

„Ég er mjög ánægð og þakklát með allt mitt og mína, frekar nægjusöm og vil hafa fáa en vandaða hluti í kringum mig. En það er kannski helst pottur á pallinn og útisturta sem kemur upp í hugann þar sem það er efst á óskalista barnanna um þessar mundir.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Ég er frekar stílhrein, vel gjarnan ljósa tóna og held að það endurspegli bæði litapallettu heimilisins og fataskápsins.“

Hvar líður þér best?

„Þegar ég þarf að hreinsa hugann og sækja mér orku fer ég yfirleitt eitthvað út að hreyfa mig og líður einstaklega vel á hlaupum, hjóli eða uppi á fjalli. Annars líður mér klárlega best í stofunni heima, helst umkringd börnunum mínum og vinum. Samverustundir fjölskyldunnar mættu þó vera fleiri en eftir því sem krakkarnir eldast virðist vera minni tími með mömmu þar sem dagskrá þeirra er þéttskipuð íþróttaæfingum, vinnu og tíma með vinunum.“

Er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?

„Mér finnst alltaf gaman að stússast úti við og setja niður sumarblómin en að teknu tilliti til fjölda sólarstunda þetta sumarið þá væri það helst ein risamarkísa, öflugur hitalampi og spurning um heita pottinn fyrir krakkana.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Við erum ótrúlega lánsöm að búa í borg þar sem fjölbreytni og úrval framúrskarandi veitingastaða er jafnmikið og raun ber vitni. Ég er mjög dugleg að fara út að borða og mínir uppáhaldsstaðir í dag eru Rok, Sumac og Apótekið en auk þess heimsæki ég Mathús Garðabæjar auðvitað mjög reglulega.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?

„Ég held að hver stíll hafi sinn sjarma en það er kannski helst módernisminn sem heillar mig perónulega.“

Að lifa lífinu lifandi er að …

„… setja sjálfa sig í forgang og gefa sér tíma til að rækta sjálfa sig. Verja góðum gæðastundum með börnum, fjölskyldu og vinum sem laða fram það besta í okkar fari því það gerir lífið svo skemmtilegt.“

Mynd / Hallur Karlsson

 

LED-húsnúmer eru falleg lýsing í myrkrinu

Glæsileg og nýstárleg sérsmíðuð LED-húsnúmer hönnuð og framleidd af Böðvari Sigurðssyni.

Ljósin komu fyrst á markað í nóvember á síðasta ári og Böðvar er mjög ánægður með viðbrögðin við ljósunum. Hann sérsmíðar á hús eftir pöntunum húseiganda um land allt. „Þegar sumri tekur að halla og haustið brestur á er það oft svo að fólk sér ekki númerin á húsum. LED-húsnúmerin henta einstaklega vel fyrir íslenskar aðstæður þar sem við búum við myrkrið yfirleitt níu mánuði ársins,“ segir Böðvar. Svo er það ekki bara notagildið heldur líka fagurfræðin, LED-húsnúmerin eru falleg og birtan sem þau gefa skemmtileg og lýsa upp húsin.

Ýmis litablæbrigði að óskum hvers og eins
Ledlýsing endist vel og eyðir sáralitlu rafmagni og er því einstaklega hagstæð í notkun. Hægt er að fá ljósin í lituðu og ryðfríu stáli og áli. Böðvar hannar þau bæði með tölustaf eða bókstöfum eftir óskum þeirra sem panta. „Einnig er hægt að fá litað gler yfir til að fá ýmis litablæbrigði á ljósið. Hvítt LED- ljós er bak við öll ljósin og kemur það með öllum tengingum,“ segir Böðvar. Ljósin eru til í tveimur stærðum, 29×29 cm og 29×40 cm stærð. Nú er lag að fá sér LED-húsnúmer og lýsa upp skammdegið, það gerir gæfumuninn.

Áhugasamir getað skoða fésbókarsíðuna LED húsnúmer

Nánari upplýsingar einnig í síma 789-3010 og á netfangið: [email protected]

 

Leyndardómurinn á bak við hönnunina – MIAMI BAR

|||||||
|||||||

Á fallegum góðviðrisdegi heimsóttum við nýjan lífsstílsstað í hjarta miðborgarinnar, Miami Bar við Hverfisgötu 33, sem mun verða opnaður von bráðar. Einstök sjón blasti við þegar inn kom, alveg nýtt útlit á stað sem á sér engan líkan. Hönnunin, stíllinn, munirnir, allt nýtt fyrir augað og upplifunin sömuleiðis. Okkur lék forvitni að vita allt um hönnunina, innanstokksmuni og hvaðeina sem fyrir augum bar. Við hittum þá Daníel Frey Atlason og Ivan Svan Corvasce og spjölluðum um tilurð staðarins og hugmyndafræðina sem liggur að baki.

Þeir félagarnir, Ivan Svanur, Gunnsteinn Helgi, einn af eigendum Miami Bar, og Martin Cabejšek, yfirþjónn á Miami Bar, eru afar ánægðir með útkomuna á staðnum og hlakka til að taka á móti gestum.

Daníel Freyr hönnuður er annar stofnenda og eigandi að hönnunarfyrirtækinu Döðlur, sem hannar allt milli himins og jarðar; frá ljósmyndum, myndböndum, auglýsingum, innsetningum á listaverkum, fatnaði, húsgögnum, hönnun á hótelum, hostelum og eru núna að klára að hanna sitt fyrsta verksmiðjuframleidda hús. Nafnið Döðlur kemur frá nöfnunum Daníel og Hörður. Bakgrunnur Daníels og meðeiganda hans Harðar kemur úr auglýsingageiranum. Það sem þeir gera að er að búa til hugmyndir, útfæra þær og hanna og koma þeim í framleiðslu. Starfsfólkið hjá Döðlum er þekkt fyrir að vera duglegt að framkvæma hina ótrúlegustu hluti og koma frjóum og stórum hugmyndum á blað og fara alla leið, það er ekkert sem stoppar þau. Starfsmennirnir hjá Döðlum eru sex talsins.

Hönnunin á Miami Bar er nýjasta afurð Daníels og félaga hjá Döðlum og vel hefur tekist til. Miami Bar, lífsstílsbar, mun verða opnaður á næstunni og lofar góðu. Staðurinn er á tveimur hæðum, fyrsta hæð og kjallari og einkenni staðarins er stíllinn en hann er með sérhönnuðum og sérsmíðuðum húsgögnum. Staðurinn er mjög framúrstefnulegur í módernískum stíl, lögun og stíll húsgagnanna vekur athygli, litirnir, formið, eins konar þrívíddarhönnun, fangar augað. Einnig er þar að finna marga athyglisverða muni og ljósin vekja eftirtekt.

Getur þú, Daníel, sagt okkur frá hönnuninni og hvaðan þið fenguð innblásturinn?

„Í fyrsta lagi þurftum við að taka mið af húsinu, en húsið er í svona póstmódernískum stíl og er frekar umdeilt hús. Í kringum húsið eru byggingar eins og Þjóðleikhúsið, danska sendiráðið, Þjóðmenningarhúsið og ýmsar aðrar opinberar byggingar. Eina húsið sem er skylt þessu húsi er bílastæðahúsið ská á móti sem mér finnst líka fallegt.Við þurftum svolítið að leggja höfuð í bleyti og það passaði ekki að hafa hvað sem er þegar inn er gengið gegnum dyrnar eins og skipulag rýmisins er. Við hefðum aldrei getað gert þarna svona týpískan bar, viðarklæddan með hipster-stemningu eins og margir barir eru. Þá kviknaði sú hugmynd að láta eins og það hafi alltaf verið staður þarna frá svona 1980, 80´s- tímabilið og fylgja því tímabili. Það var sú nálgun sem við tókum í upphafi. Kjallarinn hafði sterkan svip frá Memphis Milanó-tímabilinu sem einnig hafði sterk áhrif á Miami Vice-þættina sem gerðir voru í Bandaríkjunum á sínum tíma. Eigendur staðarins höfðu mikinn áhuga á að horfa til þess að hafa staðinn í Miami Vice anda og 80´s-tímabilið í forgrunni og við unnum út frá því. Við drukkum í okkur Miam Vice-þættina og horfðum á þá til að fá innblástur fyrir hönnunina,“ segir Daníel og brosir.

Hugguleg stemning.

Miami Vice- og Memphis Mílanó-stíllinn í forgrunni

„Þegar Miami Vice-þættirnir voru gerðir urðu ákveðin straumhvörf í amerískri þáttagerð varðandi hönnun og útlit því framleiðendur þeirra tóku þá ákvörðun að gera flottasta sjónvarpsþátt sem gerður hafði verið í Bandaríkjunum og lögðu mikið undir. Yfirhönnuðir þáttanna fóru til Mílanó til að ná sér í hugmyndir. Þar voru ungir hönnuðir að stiga sín fyrstu skref eins og Armani. Þess vegna eru til dæmis aðalleikarnir ekki í sokkum, það kemur fram hönnun frá Armani á þessu tímabili. Tískan þá var að ganga berfættur í skónum, mokkasíurnar voru móðins, tvíhnepptir jakkar og uppbrettar ermar, axlapúðar í tísku og pastellitirnir áberandi. Þetta blandast við Memphis Mílanó-tímabilið, en húsgagnahönnuðir þáttanna tóku inn þennan stíl í þættina með stórkostlegri útkomu. Miami Vice- þættirnir eru innblásnir af Memphis Mílanó-stílnum og kemur það sterkt inn í hönnunina á Miami Bar. Eins og áður sagði þá koma pastellitirnir sterkir inn, formin eru í anda Memphis Mílanó og allur fatnaður starfsfólks á staðnum er í anda Miami Vice-þáttanna og hannaður af okkur. Starfsmenn staðarins ganga í tvíhnepptum blazer-jökkum með axlapúðum, með uppbrettar ermar, brot í buxum og svo má lengi telja.

Brjóstlamparnir eru hannaðir af Studio Job og Venini, sérstaklega fyrir Miami Bar. Studio Job er einn virtasti glerframleiðandi í heiminum.

Sæbláir hlýrabolir koma sterkir inn sem og bleikir stuttermabolir, allt í anda Miami Vice. Gaman er að segja frá því að Don Johnson einn af aðalleikurunum í Miami Vice ætlaði ekki í fyrstu að taka að sér aðalhlutverk vegna þess að honum fannst fötin svo hallærisleg, tveimur árum eftir að þættirnir fóru í loftið þóttist hann hafa fundið upp þennan fatastíl og mæti ávallt klæddur í Miami Vice-stílnum í viðtöl, lét ekki sjá sig í sokkum og bar sig vel í jökkunum með axlapúðunum góðu,“ segir Daníel og hlær.

Daníel og félagar hjá Döðlum sáum um alla hönnun og útfærslu á húsnæðinu, litaval, lýsingu, húsbúnað, fatnað sem og útlit á grafískri hönnun lógó staðarins og vín- og kokteilseðlum hans í samráði við eigendur. Hugmyndafræðin og nálgunin kemur frá eigendum staðarins. Blaðamanni finnst útkoman vægast sagt hin glæsilegasta og telur líklegt að þessi staður eigi engan sér líkan. Daníel segir að staðurinn eigi sér enga fyrirmynd úti í heimi. Hönnunin er þeirra hugarfóstur þar sem óskir eigenda eru hafðar í forgrunni, en þeir vildu hafa staðinn í anda Miami Vice og vilja endurvekja þessa stemningu sem var á 80´s-tímabilinu. „Ætlunin er að koma aftur með kokteilana sem voru á þessum árum og endurvekja upplifunina sem var á 80´s-tímabilinu í nútímaformi,“ segir Daníel.

Módernískur skúlptúr

Listaverkið, myndin, með flamengófuglunum og kvenlíkamanum er einnig nýtt verk hannað fyrir Miami Bar í samstarfi við Döðlur og nýtur sín mjög vel á staðnum.

Módernískur skúlptúr kemur sterkur inn við hönnun staðarins. Barinn vekur strax eftirtekt þegar inn er komið á efri hæðina, sjónhverfing sem verður í kubbunum sem setur sterkan svip á staðinn. Staðurinn er teppalagður með skærgrænu teppi sem mjúkt er að ganga á og sófarnir eru í Memphis Mílanó-stíl, áklæðin mjúk og þægileg og öll form fanga augað.

Gestir geta eignast hluti sem þeir hafa áhuga á

Í kjallaranum er borðtennisstofa sem ber nafnið Ping Pong og er búið að hanna sérspaða og kúlur sem fólk mun geta keypt sér á heimasíðu staðarins. Einnig munu gestir geta keypt það sem þeim líst vel á, á heimasíðu staðarins hvort sem það er húsgagn eða fatnaður. Telja eigendur að staðurinn sé fyrsti sinni tegundar til að vera með sína eigin húsgagna- og fatalínu.

Barinn uppi og barinn niðri ásamt snyrtiborðunum eru smíðuð hérlendis en húsgögnin í Póllandi. Daníel efast að það séu til margir staðir sem innihalda jafnmarga hluti sem hannaðir hafa verið sérstaklega fyrir þá eins og Miami Bar.

Ein sú besta vinnuaðstaða á landinu – Barinn á Miami Bar

Ivan Svan Corvasce er einn af eigendum Miami Bars en Ivan Svanur hefur verið áberandi í veitinga- og næturlífinu í Reykjavík síðustu árin en hann hefur verið barþjónn á mörgum veitingahúsum sem bjóða upp á hágæða kokteila í bland við góðan mat, unninn af ástúð úr hágæða hráefni. Einnig hefur hann tekið þátt í og unnið til verðlauna í keppnum í faginu bæði innanlands sem utan. Hann tók við hinum svokölluðu Eagle Award sem er gefið á hverju ári til ungs barþjóns í Evrópu sem er talinn hafa skarað fram úr hjá Alþjóðasambandi barþjóna.

Vinnuaðstaðan á Miami bar er ein sú besta á landinu að sögn Ivans Svans og hönnuð af honum sjálfum. Ivan Svanur segir að markmið hönnunarinnar sé það að barþjónninn á ekki að þurfa að hreyfa sig mikið og því er allt sem hann notar við höndina. Barinn inniheldur tvær stöðvar með möguleika á þeirri þriðju.

Ping Pong Club.

„Ef tveir til þrír barþjónar eiga að geta gert yfir fimm hundruð kokteila á dag þarf skipulagið og samstarfið á milli þeirra að vera eins nálægt því að vera fullkomið og mögulegt er,“ segir Ivan Svanur. En barþjónar staðarins hafa unnið saman í mörg ár og þekkja stíl og hreyfingar hverra annarra í þaula.

Segðu okkur aðeins frá því sem í boði verður, kokteilunum og öðru skemmtilegu?

„Þegar fyrsta hugmyndin að Miami kom var það strax ljóst hver stefnan í drykkjaframboði staðarins yrði, að gera kokteila sem samsvara þema staðarins, drykki sem allir þekkja og voru á öllum helstu kokteilbörum Miami á níunda áratugnum. Drykkirnir urðu að klassík, gleymdust svo með tímanum og urðu seinna taldir hallærislegir. Við á Miami ákváðum að endurlífga þessa drykki á okkar eigin hátt úr hráefni í hæsta gæðaflokki. Við kynnum því með stolti, klassíska kokteilseðilinn okkar,“ segir Ivan Svanur og brosir breitt.

Sköpunargáfan fær að njóta sín í botn

„Barþjónarnir okkar bjóða einnig upp á „signature“-seðil þar sem sköpunargáfa þeirra fær að njóta sín í botn. Sá seðill breytist þrisvar til fjórum sinnum á ári og breytist þá einnig þema matseðilsins. Ekkert er til sparað í framsetningu á drykkjunum og eru þeir bragðmiklir og krefjandi. Skoða má seðilinn okkar á www.miamihverfisgata.com.

Hvert er leyndarmálið bak við kokteilana ykkar?

„Hráefnið og vinnubrögðin eru leyndarmálið. Það auðveldar manni lífið rosalega mikið að nota hráefni í hæsta gæðaflokki. Hvort sem við erum að tala um ferskt hráefni eins og ávexti, blóm og jurtir, áfeng hráefni eða blöndu af þessu öllu. Allt það hráefni sem við notum er sérvalið af yfirbarþjóninum Martin sem vinnur svo úr þeim þau innihaldsefni sem fara í drykkina. Við stoppum aldrei. Alla daga lítum við yfir lagerinn, líkjörana, safana og sírópin og hugsum hvernig við getum gert betur,“ segir Ivan Svanur og leggur mikla áherslu á hversu miklu máli hráefnið skiptir.

„Vinnubrögð, skipta öllu máli. Þegar góður barþjónn býr til drykk er hann með alla einbeitingu sína á því sem hann er að skapa. Ástríða fyrir sköpun drykkjarins finnst í áferð, bragði og lykt, þó svo að við tökum ekki alltaf eftir því.“

Ivan Svanur er einbeittur, vandar til verka og blandar kokteilana af hjartans list.

Hvaða kokteill er líklegastur til að verða vinsælastur?

„Ég bind miklar vonir við Sex on the Beach. Enda einn hallærislegasti drykkur allra tíma og er það því gott markmið. Að taka eitthvað svo hrikalega hallærislegt og gera það það vel að fólk panti drykkinn sama hvað nafnið á honum er. Svo er hann líka gott dæmi um það hver stefnan okkar er.“

Venjulegur Sex on the Beach inniheldur:

vodka
ferskjulíkjör
appelsínusafa
trönuberjasafa

Í okkar Sex on the Beach á Miami bar er:

vodka
Martini Bianco sem legið hefur með appelsínuberki og rósablöðum
ferskjupúrra
ferskur límónusafi
ferskur ananassafi
húsgert trönuberjasíróp
fersk ferskja
rósavatn

Hver er markhópurinn sem þið eruð að höfða til á Miami Bar?

„Allir eru velkomnir, markmið staðarins er að gleðja fólk. Ein ástæða þess að staðurinn er svona rosalega litríkur er sú að á meðan að fólk er hjá okkur viljum við að það gleymi öllu öðru, lifi algjörlega í núinu og gleðjist með okkur.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara. Sakarefni ákærunnar, sem er dagsett 28. júní, er peningaþvætti.

Júl­­íus Vífil var einn þeirra stjórn­­­mála­­manna sem voru opin­beraðir í Pana­ma­skjöl­unum og greint var frá í sér­­­stökum Kast­­ljós­þætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í árs­­byrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félags­­ins að nafn Júl­í­usar Víf­ils kæmi hvergi fram í tengslum við félag­ið, samkvæmt umfjölluninni.

Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”

Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að þátturinn var sýndur.

Þann 5. jan­úar 2017 kærði skatt­rann­­sókn­­ar­­stjóri Júl­íus Vífil til emb­ætti hér­­aðs­sak­­sókn­­ara vegna meintra brota á skatta­lögum og vegna gruns um pen­inga­þvætti. Við síð­­­ara brot­inu getur legið allt að sex ára fang­els­is­­dóm­­ur. Í kærunni kom fram að Júl­­íus Víf­ill hafi átt fjár­­muni á erlendum banka­­reikn­ingum að minnsta kosti frá árinu 2005.

Ítarlega er fjallað um málið í Mannlífi dagsins og á vef Kjarnans.

„Fólk getur ekki meir“

|
|

Sífellt fleira ungt fólk og fólk á miðj­um aldri leitar til Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) í Hveragerði vegna kulnunar í starfi.

Haraldur Erlends­son, forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni.

Áður voru eldri borgarar og fólk sem glímdi við ofþyngd í meirihluta þeirra sem þangað leituðu. Fyrir um sex árum tók meðalaldurinn að lækka hratt og er nú svo komið að eldra fólk er um þriðjungur þeirra sem dvelja á Heilsustofnunni. Nýjasta breytingin á sam­setningu sjúklinga á stofnuninni er fólk á miðjum aldri sem er útbrunnið í starfi.

„Við sjáum mikið um kulnun í starfi hjá fólki á miðjum aldri, á milli fertugs og upp í sextugt. Það eru íslensku vinnuhestarnir, góðborgarar sem hafa afrekað tvö lífsverk á hálfri starfsævi. Þegar þeir eru komnir á miðj­an aldur þá kannski lenda þeir í samskipta­erf­iðleikum eða áföllum. Og þá geta þeir bara ekki meir og kulna,“ segir Haraldur Erlends­son, forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni, og leggur áherslu á að skoðað sé hvaða undirliggjandi þættir valdi því að einstaklingarnir eru komnir í þessa stöðu. „Stundum er þetta áfallastreita, kvíði eða samskiptavandi.“

„Stundum er þetta áfallastreita, kvíði eða samskiptavandi.“

Hann getur þess að yngstu sjúklingarnir, sem eru 18 ára, glími við kvíða og þunglyndi og fleiri sjúkdóma. „Ástæðan fyrir því að svo ungt fólk er farið að leita til stofnunarinnar er sú að Sjúkratryggingar eru ekki með samning við neinn geðlækni á Suðurlandi og því er enginn starfandi geðlæknir í landshlutanum. Heimilislæknar þar vísa ungu fólki með andleg heilsufarsvandamál til okkar. Til viðbótar erum við í samstarfi við Virk starfsendur­hæfingu á Suðurlandi.“

Þá segir Haraldur æ algengara að þeir sem leiti til Heilsustofnunar­innar séu greindir með athyglis­brest með ofvirkni (ADHD). „Þetta er yfirleitt frekar duglegt fólk, vinnuhestar sem fleyta kerlingar í lífinu og þurfa að hafa nóg fyrir stafni, vinnur á við 2­3, og sefur kannski í aðeins fimm til sex klukkustundir. Á meðan þeir eru ungir og hraustir þá gengur allt vel. En þegar heilsan er aðeins farin að gefa sig þá geta þeir ekki hreyft sig eins mikið. Vinnuhestarnir lenda frekar í áföllum, þeir taka áföllin frekar nærri sér en aðrir, lenda þess vegna út á kanti og líður illa. Það skýrir kulnun í starfi. Við greinum mikið af fólki um miðjan aldur með þennan vanda og er það lykillinn að því að viðkomandi kemst aftur til vinnu,“ segir hann. Í kjölfar greiningar er mælt með mikilli hreyfingu, kennslu og iðkun núvitundar og fólki kennt að vinna úr áföllum sínum.

Haraldur segir hins vegar enn mikla fordóma gagnvart ADHD á Íslandi. Það skýrist af því að tiltölulega stutt sé síðan farið var að greina sjúkdóminn og vinna með hann. Aðeins um 25­30 ár séu síðan farið var að meðhöndla börn með ADHD að ráði og aðeins 5­10 ár síðan meðferð fyrir fullorðna bættist við. „Við eigum þess vegna langt í land með að sinna þessum hópi,“ segir hann og bætir við að miðað við það sem hann sjái sé hópurinn stærri á Íslandi með athyglisbrest en talið hafi verið.

„Tíu til fimmtán prósent þjóðarinnar gætu verið með athyglisbrest. Það jafngildir 30.000­50.000 manns á Íslandi.“

„Landlæknir hefur lýst yfir áhyggjum af því að athyglisbrestur er greindur í meiri mæli hér en í öðrum löndum og allt að 1% fólks sé á meðferð. Það er vanmeðferð. Tíu til fimmtán prósent þjóðarinnar gætu verið með athyglisbrest. Það jafngildir 30.000­50.000 manns á Íslandi. Nýjustu rannsóknir benda til að þetta sé að verða algengasti sjúkdóm­ur sem geðlæknar sinna og sá dýrasti fyrir mannkynið. Þeir sem eru með athyglisbrest klára ekki nám sitt, lenda oftar í slysum en aðrir, skilnaði, eru oftar frá vinnu og fara oftar til læknis. Þetta á við um margt ungt fólk hjá okkur. Það kemst ekki í vinnu á morgnana, heldur ekki út vinnudaginn og líður illa út af því seinni­part dags,“ segir Haraldur og vill aukna vit­und um athyglisbrest og meðferð við honum.

Fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið

|||
|||

Dugnaðarforkurinn, fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson greindist með MND-sjúkdóminn fyrir tæpu ári síðan. Þessu verkefni hefur hann tekið af æðruleysi og heldur fast í jákvæðnina. Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni Ágústs í Reykjavíkurmaraþoninu og segir hann ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi.

Ágúst og Guðrún eiginkona hans.

Ágúst H. Guðmundsson var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með hreyfitaugahrörnun, sem í daglegu tali er þekkt sem MND-sjúkdómurinn. Þessi glæsilegi maður sem alla tíð hafði verið heilsuhraustur segist fljótt hafa valið að fara leið jákvæðninnar þegar greiningin lá fyrir, þótt sjúkdómurinn væri ólæknandi. „Ég held að ég hafi undanfarið ár hlegið meira en nokkru sinni, langt yfir landsmeðaltali og nýt þannig dagsins. Maður hefur val um að vera jákvæður eða ekki,“ segir Ágúst.

Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni Ágústs í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina og kemur það þeim sem þekkja hann ekki á óvart. Þegar hefur þessi rúmlega 300 manna hlaupahópur safnað yfir fimm milljónum króna fyrir MND-félagið sem er hæsta upphæðin sem hefur safnast með þessum hætti fyrir félagið. „Það er ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi. Vonandi er einhver tenging á milli þessa fjölda fólks við framkomu mína við það í gegnum árin. Ég tel að við öll eigum að leggja inn eins mikið af náungakærleik og frekast er kostur á okkar lífsleið því að við fáum það svo margfalt til baka þegar eitthvað bjátar á,“ bætir Ágúst við.

Gardínurnar dregnar frá

Aðeins voru þrír dagar liðnir frá fimmtugsafmæli Akureyringsins Ágústs þegar hann var greindur með MND-sjúkdóminn á Landspítalanum. Guðrún Gísladóttir, eiginkona hans, var þá stödd úti í Bandaríkjunum hjá Ásgerði Jönu, dóttur þeirra, en hún dvaldi þar við nám. „Ég var því einn í Reykjavík á Landspítalanum þegar ég fékk þessa greiningu. Það voru þung skref að stíga frá byggingunni út í bíl þar sem ég sat í dágóða stund og hreinlega grét einn með sjálfum mér. Ég hringdi svo í vin minn, Axel Björnsson, sem kom og studdi mig þessa fyrstu tíma eftir greiningu. Þetta var erfitt,“ segir Ágúst.

En Ágúst ákvað að nýta veganestið sem hann hafði í gegnum árin gefið drengjum sem hann hefur þjálfað í körfubolta á Akureyri; hann fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið. „Þótt vissulega sé þetta ekki auðvelt þá hjálpar það ekki mér og mínum aðstandendum að hafa allt á hornum sér. Því miður er það þannig að allt of margir sem greinast með MND fara þá leið að leggjast upp í rúm og draga gardínurnar fyrir og þá með skelfilegum afleiðingum.“

„Ég tel að við öll eigum að leggja inn eins mikið af náungakærleik og frekast er kostur á okkar lífsleið því að við fáum það svo margfalt til baka þegar eitthvað bjátar á.“

Hefur notið lífsins

Ágúst er fjölskyldumaður mikill og hefur ávallt varið miklum tíma með Guðrúnu eiginkonu sinni og börnunum þremur, Ásgerði Jönu, 21 árs, Júlíusi Orra, 16 ára, og Berglindi Evu sem verður níu ára í haust. Frá því að Ágúst var greindur með MND-sjúkdóminn hefur hann ferðast mikið. „Í dag get ég ekki verið annað en þakklátur enda nýt ég lífsins á alla kanta með samferðafólki mínu.“

Ágúst nýtur nú góðs af sterku sambandi sem hann hefur ræktað við marga í kringum sig. „Í mínum heimabæ, Akureyri, vita flestallir af þessum sjúkdómi sem er mikill léttir fyrir mig. Þá sérstaklega af því ég er orðinn illskiljanlegur en einnig vegna þess að ég get allt í einu farið að hágráta ef fólk sýnir mér velvild eða t.d. ég hitti einhvern í fyrsta skipti eftir greiningu. Það eru ein einkennin sem mér þykja hvað óþægilegust. Fólk sýnir þessu skilning og kippir sér ekki upp við þetta og af því að ég hef reynt að halda þessu á lofti.“

Frá því að Ágúst var greindur með MND-sjúkdóminn hefur hann ferðast mikið. Hér er hann á ferðalagi með Guðrúnu eiginkonu sinni og börnunum þremur, Ásgerði Jönu, 21 árs, Júlíusi Orra, 16 ára, og Berglindi Evu sem verður níu ára í haust.

Tvö meistaralið
Ágúst hefur haft áhrif á marga í gegnum körfuboltann þar sem hann hefur náð framúrskarandi árangri sem þjálfari hjá Þór Akureyri. Eftir að hafa þjálfað í afleysingum til að byrja með, tók hann við fyrsta flokknum sínum árið 1993. „Ég valdi mér flokk sem hafði verið frekar baldinn en fjölmennur.  Virkir strákar en afskaplega lélegir í körfubolta, það verður að segjast. Þeir voru með lélegustu liðum landsins í svokölluðum D-riðli. Ég sá tækifærið í krafti og fjölda drengjanna. Ætlaði að hrista duglega upp í þeim og átti von á að margir myndu hætta en það þveröfuga gerðist, það stórfjölgaði í hópnum,“ rifjar Ágúst upp.

Flokkurinn tók stórstígum framförum og varð á endanum Íslandsmeistari. Síðar urðu þessir drengir að kjölfestu meistaraflokks Þórs undir stjórn Ágústs og unnu meðal annars sjö leiki í röð í efstu deild.
Ágúst hætti þjálfun um skeið en ákvað að taka þjálfaraspjaldið af hillunni þegar Júlíus Orri, sonur hans, fékk áhuga á íþróttinni. Júlíus þótti efnilegur knattspyrnumaður og segist Ágúst hafa vonað að hann yrði áfram í fótboltanum í KA. „Líklega hefur áhugi minn smitað guttann en ég ýtti körfunni aldrei að honum. Þegar hann var svo staðráðinn í því að æfa körfu fór ég, liggur við tilneyddur, að þjálfa aftur. Mér fannst erfitt að horfa upp á starfið líkt og það var.“

Aftur byggði Ágúst upp meistaralið. Júlíus Orri og jafnaldrar hans sem fæddir eru árið 2001, hafa bæði orðið Íslands- og bikarmeistarar hér á landi, auk þess að vinna Scania Cup; sterkasta mót Norðurlandanna.

Ágúst H. Guðmundsson hefur haft áhrif á marga í gegnum körfuboltann og náð framúrskarandi árangri sem þjálfari hjá Þór Akureyri. Hér er hann með Tryggva Hlinasyni körfuboltamanni úr Bárðardal.

Hugsanlega með NBA-leikmann í höndunum

Meðal þess sem Ágúst hefur gert undanfarið var að fara til New York, að fylgja Bárðdælingnum Tryggva Hlinasyni, sem var boðið að taka þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar. Ágúst var hluti af teyminu sem tók á móti Tryggva hjá Þórsurum, en þessi tröllvaxni ungi maður úr Bárðardal er tæplega 220 sentimetrar á hæð og sterklega byggður. Hjá Þór æfði Tryggvi undir stjórn Bjarka Oddssonar og fóru þeir félagar strax í að hafa samband við forsvarsmenn Körfuknattleikssambandsins, enda ekki oft sem svona skrokkar sjást hér á parkettum íslenskra íþróttahúsa. Tryggvi samdi tvítugur við Spánarmeistarana Valencia og mun á næsta ári leika með öðru liði í spænsku úrvalsdeildinni.

Stuðningurinn mikilvægur

Margir fyrrum lærisveinar Ágústs úr körfuboltanum ætla sér að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu, auk fleiri samferðamanna sem þessi duglegi maður sem fæddist á Patreksfirði hefur haft áhrif á í gegnum tíðina. Hópurinn í kringum Ágúst safnar fyrir MND-félagið og segir Ágúst fjármunina fara á góðan stað. „Þetta skiptir hreinlega öllu máli. Þegar fólk greinist með MND þá ekki bara dettur sjúklingurinn af launaskrá heldur er viðbúið að maki viðkomandi þurfi að hætta vinnu líka þar sem þörf til aðstoðar verður mikil. Hlutfallslega fáir greinast með þennan illvíga sjúkdóm og því verður að segjast að heilbrigðisyfirvöld leggja lítið í málaflokkinn. MND-félagið greiðir því fyrir lækna og hjúkrunarfólk á ráðstefnur erlendis svo heilbrigðiskerfið sé með á nótunum og nái að létta undir með sjúklingum. Einnig niðurgreiðir félagið hjálpartæki og sýnir fjölskyldum stuðning þar sem við á. MND-félagið hefur gefið mér mikinn andlegan og félagslegan stuðning undir forystu Guðjóns Sigurðssonar,“ segir Ágúst.

Enn er hægt að heita á þá sem hlaupa í nafni Ágústs á vefsíðunni Hlaupastyrkur.is.

 

„Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna“

||||||
||||||

Rapparinn Herra Hnetusmjör hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á Íslandi. Hann er 21 árs gamall og stjórnar nú fjöllistahópnum KBE, eða Kóp Bois Entertainment, sem hann stofnaði og ætlar að gera að stórveldi. Hópurinn telur meðal annars tónlistarmennina Hugin og Birni, og er hugmyndafræðin á bak við KBE að gefa ungum og efnilegum tónlistarmönnum tækifæri til að láta ljós sitt skína. Herra Hnetusmjör hugsar í peningum, selur sig dýrt og trúir því að hann sé besti rappari á Íslandi.

„Ég held að þú getir ekki verið bestur í neinu ef þú trúir því ekki að þú getir verið bestur. Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna,“ segir Herra Hnetusmjör. Hann er mjög öruggur í fasi, eiginlega það öruggur að mann grunar að það sé bara uppgerð. Gríma til að fela óöryggið innra.

„Já, ég er rosalega hrokafullur,“ segir rapparinn hispurslaust og heldur áfram. „Það er minn brestur. Ég get verið algjör hrokabolti og það er mikill galli en líka kostur. Hrokinn fer misvel í fólk og sumir einfaldlega þola mig ekki. Halda að ég sé pínulítill inni í mér og að hrokinn sé bara frontur. En ég virkilega trúi á sjálfan mig. Það gerist mjög sjaldan að ég efist um sjálfan mig. Ég trúi og treysti að það fari allt eins og það eigi að fara.“

Herra Hnetusmjör er vel flúraður og er til dæmis með Kóp Boi flúrað yfir magann sinn, sem er vísan í Thug Life sem Tupac var með flúrað yfir maga sinn.

Andleg vakning yfir Akon

Rapparinn segir hann hafa verið með sjálfstraustið í botni síðan hann var ungur snáði að alast upp í Hveragerði.

„Mamma hefur alltaf sagt að ég sé bestur,“ segir hann og hlær. „Ég er rosalega mikill mömmustrákur,“ bætir hann við. Hann er yngstur af fimm systkinum og eru sextán ár á milli hans og elsta bróður hans. Foreldrar hans eru Árni Magnússon, fyrrverandi ráðherra, og Edda Björg Björgvinsdóttir, fyrrverandi verslunarkona, en þau eru ekki saman í dag. Herra Hnetusmjör segist vera afar náinn foreldrum sínum og systkinum, þó að hann muni lítið eftir þeim þremur elstu á æskuheimilinu sem var að Lyngheiði 12 í Hveragerði.

„Ég á eina systur sem er tveimur árum eldri en ég og ég man mest eftir henni á heimilinu. Hin voru orðnir unglingar og ég man lítið eftir þeim heima. Tíminn í Hveragerði var mjög næs. Mamma og pabbi eru upprunalega úr Kópavogi en ég held að þau hafi flutt austur því þar var gott að vera og ódýrt húsnæði. Það var líka mjög gott að ala þar upp börn. Ég var alltaf úti að hjóla og allir þekktust þar sem þetta var lítið samfélag,“ segir Herra Hnetusmjör. Fjölskyldan flutti á Bifröst í hálft ár þegar rapparinn byrjaði í 4. bekk og hann kláraði bekkinn svo í Hveragerði. Síðan flutti fjölskyldan búferlum í Grafarvog í eitt ár og svo kallaði 203 Kópavogur.

„Ég kenni mig mikið við Kópavoginn. Ég var bara barn í Hveragerði og ekki byrjaður að mótast þar sem persóna,“ segir rapparinn en þeir sem hlusta á hann finna sterkt fyrir tengingunni við Kópavog. Til dæmis er auðvelt að þekkja lög Herrans á því að hann byrjar þau á sínum einkennisorðum, eða taggi, Kóp Bois. Það var nú samt í Hveragerði sem rappáhuginn kviknaði og hefur ekki slokknað síðan.

Rapparinn segist vera meiri tónlistarmaður en bisnessmaður, en hann er klókur í viðskiptum og ætlar sér að græða mikla peninga.

„Ég kynntist rappi í gegnum besta vin minn, hann Bjössa,“ segir Herra Hnetusmjör en myndin sem prýðir fyrsta plötuumslag rapparans, Flottur skrákur, sem kom út árið 2015, er einmitt af þeim Bjössa þegar þeir voru litlir snáðar. „Bróðir hans, Sammi, var með 50 Cent-plaköt uppi á vegg í herberginu sínu og við stálumst oft þangað inn til að máta föt af honum. Við hlustuðum mikið á diskana hans en fyrsta lagið sem kveikti áhugann hjá mér var Go To Church með Ice Cube, Snoop Dogg og Lil Jon. Ég hugsaði bara: Vó, hvað þetta er fokking klikkað. Fyrsta platan sem ég keypti mér var síðan Trouble með Akon, þegar við bjuggum á Bifröst. Þá var ég að horfa á Popptíví, sá myndbandið við Lonely og fékk andlega vakningu. Þannig að ég gerði mér ferð í bæinn í Skífuna, keypti plötuna og hlustaði á hana í vasadiskóinu mínu. Ég var gríðarlegur Akon-aðdáandi og er það enn í dag,“ segir rapparinn.

Ekki kominn í mútur að rappa um peninga

Þegar hann flutti í Kópavoginn magnaðist rappáhuginn. Hann gekk í Vatnsendaskóla sem þá var tiltölulega nýr og kynntist fljótt strák, Sindra, með svipuð áhugamál.

„Þegar ég var í frímínútum í 6. bekk sá ég strák með durag, sem er klútur sem svart fólk notar til að móta afróið sitt, en 50 Cent var alltaf með svona. Þetta var tískan árið 2004 í rappinu. Ég gekk upp að honum og sagði: „Blessaður. Ertu með durag? Ég á líka durag.“ Síðan kynntum við okkur og urðum bestu vinir út frá duraginu,“ segir Herrann. Fljótlega byrjuðu þeir Sindri að fikra sig áfram í tónlist.

„Við stálum kameru frá pabba og byrjuðum að búa til myndbönd. Svo keyptu mamma og pabbi Apple-tölvu, sem í minningunni var eins og geimskip, og allt í einu var hægt að klippa myndbönd og búa til lög. Við vorum mikið í því, ég og Sindri. Við byrjuðum að fikta ógeðslega mikið og í 7. bekk fórum við að rappa. Við erum báðir miklir aðdáendur bandarísks rapps og mér fannst íslenska rappsenan mjög asnaleg. Þannig að við byrjuðum að rappa í djóki,“ segir hann en þá fyrst fæddist nafnið Herra Hnetusmjör.

„Ég pikkaði upp nafnið Herra Hnetusmjör og Sindri flakkaði á milli nafna en varð loks Sir Sulta. Saman mynduðum við tvíeykið Nautalundir. Við vorum alltaf að prakkarast, spreia á veggi og reyna að fullorðnast. Í 10. bekk keypti ég síðan míkrófón á Netinu,“ segir Herra Hnetusmjör og bendir á umtalaðan hljóðnema sem er enn í dag í góðu gildi í stúdíóinu hans. „Við tengdum míkrófóninn við Makkann hans pabba, byrjuðum að stela töktum á YouTube og gera lög sem Nautalundir. Ég á þetta einhvers staðar í gömlu tölvunni hans pabba. Lög þar sem við erum ekki komnir í mútur og erum að rappa um peninga,“ segir hann og hlær.

Uppreisnarseggur í skóla

Eftir 10. bekkinn lá leið Sindra í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en Herra Hnetusmjör fór í Menntaskólann í Kópavogi.

„Ég ætlaði að elta Sindra í FB en komst ekki inn,“ segir hann.
„Varstu svona afleitur námsmaður?“ spyr blaðamaður.

„Tja, ég féll í dönsku og stærðfræði. Ég er þannig gerður að ég geri ekki það sem ég vil ekki gera. Ég fór í mótþróa gegn dönsku. Ég prófaði að læra hana fyrst um sinn en síðan fannst mér hún svo leiðinleg að ég ákvað að ég ætlaði ekki að læra hana. Ég var mjög erfiður í tímum og mótmælti mikið. Með stærðfræðina, þá sá ég engan tilgang að læra hana. Það eru allir með iPhone og þú þarft ekkert að kunna stærðfræði nema þegar þú þarft að hjálpa börnunum þínum með heimalærdóminn. Það eru einu tilvikin þar sem þú þarft á stærðfræði að halda. Ég var smávandræðabarn en samt rosalega góður strákur. En ég var uppreisnarseggur þegar kom að því sem ég vildi ekki gera – þá var ekki séns að fá mig til að gera það. Ég vil bara gera það sem mér finnst skemmtilegt. Mér fannst skemmtilegt í sögu og íslensku en hafði lítinn metnað fyrir því sem mér fannst ekki skemmtilegt.“

Herra Hnetusmjör er edrú í dag eftir erfiða tíma árið 2016.

Partí í kjallaranum hjá Elíasi

Í Menntaskólanum í Kópavogi byrjaði Herra Hnetusmjör að umgangast krakka af Kársnesinu í Kópavogi. Þá fór hann að einbeita sér enn frekar að rappinu.

„Við byrjuðum að drekka og unglingast eitthvað og ég sýndi þeim þessi gömlu rapplög. Þá datt þeim í hug að við ættum að gera lag saman. Þannig að í einhverju bríaríi sendi ég skilaboð til Erps á Facebook,“ segir Herra Hnetusmjör og vísar þar í rapparann Erp Eyvindarson. „Ég sagði honum að við værum krakkar úr Kópavogi, værum að gera lag og spurði hvort hann vildi taka þátt í því. Ég sendi honum textann en síðan datt þetta lag upp fyrir. En ég hélt áfram að taka upp eitthvert fokkerí og sendi á hann. Við byrjuðum að spjalla og þá fyrst tók ég ákvörðun að verða rappari. Ég ákvað að halda áfram undir nafninu Herra Hnetusmjör og Erpur fór að draga mig, sextán ára guttann, með sér á gigg. Ég man eftir mér að spila á börum úti á landi með Erpi og það var ógeðslega gaman. Mikið ævintýri,“ segir hann. Árið 2014 gaf hann síðan út sitt fyrsta lag, Elías, sem vakti mikla athygli.

„Það varð að einhverri költ-klassík meðal unglinga. Í laginu rappa ég um Kársneskrakkana og að við höfum alltaf verið að drekka og halda partí í kjallaranum hjá strák sem heitir Elías. Algjört unglingadót.“

5000 kall fyrir fyrsta giggið

Í framhaldinu gaf Herra Hnetusmjör út fleiri lög og sumarið 2014 var hann farinn að troða upp hér og þar.

„Fyrsta giggið sem ég fékk borgað fyrir var í Hörðuvallaskóla, á balli fyrir 8. til 10. bekk. Ég átti heima rétt hjá þannig að ég rölti bara yfir og tók giggið. Ég fékk 5000 kall borgaðan og mér fannst það geðveikt,“ segir rapparinn en Erpur var búinn að kenna honum margt á stuttum tíma. „Hann var minn lærifaðir og setti mér alls konar siðareglur sem ég fór eftir, til dæmis að drekka aldrei fyrir grunnskóla- eða menntaskólagigg.“

„Ég ólst upp á hip hop-i og rappi og rappið sem ég hlustaði á snerist um að maður yrði að vera bestur. Menn röppuðu um milljón dollara bílana sína, að þeir væru bestir og allir aðrir ömurlegir. Ég mótaðist af þessu. Ég rappa um að ég sé bestur.“

Eftir þetta sumar eyddi Herra Hnetusmjör miklum tíma með Erpi, en meðleigjandi hans á þeim tíma var maður að nafni Arnór Gíslason. Einn daginn hringdi téður Arnór í Herra Hnetusmjör og vildi gerast umboðsmaðurinn hans.

„Hann pikkaði mig upp í MK og við fórum á Taco Bell að ræða málin. Mér fannst þetta kúl. Það var mikið statement að vera með umboðsmann og hann fílaði greinilega tónlistina mína. Við byrjuðum okkar samstarf í október árið 2014. Í framhaldinu fór ég að tala við strák sem kallaði sig Joe Frazier og við sameinuðum krafta okkar. Við gerðum fyrst lag sem var ekkert sérstakt en síðan fórum við í stúdíó og gerðum lagið Hvítur bolur gullkeðja sem var „breakout“ fyrir mig. Upp frá því vorum við alltaf uppi í stúdíói og bjuggum til fyrstu hittarana mína, eins og Selfie,“ segir rapparinn.

Fyrsta plata rapparans, Flottur skrákur, kom út á afmælisdegi Herra Hnetusmjörs, þann 31. ágúst árið 2015. Stuttu síðar gáfu þeir Joe Frazier út svokallað mix tape sem heitir Bomber Bois. Þá er KBE, eða Kóp Bois Entertainment, byrjað að taka á sig mynd og síðar gekk plötusnúðurinn DJ Spegill í hópinn. Þá var kjarninn kominn – Herra Hnetusmjör rappaði, Joe Frazier bjó til takta, DJ Spegill þeytti skífum og Arnór Gíslason var í hlutverki umboðsmannsins. Rétt er að taka fram að Joe Frazier hætti í KBE fyrir stuttu vegna gruns um stolinn takt í laginu Labbilabb á plötunni Kópboi. Í hópnum í dag er einnig pródúserinn Þormóður.

Mikill léttir að fara í meðferð á Vogi

Á þessum tíma var Herra Hnetusmjör hættur í MK, en árið 2016 átti eftir að reynast honum erfitt.

„Ég var með fullt af lögum í spilun í útvarpi og var til dæmis bókaður á stórt svið á Secret Solstice. En ég missti mig. Ég fór út af brautinni og hætti að gera tónlist. Ég var bara að djamma og spila,“ segir Herra Hnetusmjör og heldur áfram. „Ég var farinn að missa tökin meira og meira og sumarið 2016 missti ég þau endanlega. Þá var ég í max rugli og á öllu sem hægt er að hugsa sér. Ég týndist bara í sósunni. Sumarið 2016 var mjög dimmur tími.“ Þetta ár gaf Herra Hnetusmjör bara út eitt lag sem hann segir mjög lýsandi fyrir þetta tímabil í sínu lífi.

„Ég gerði tvö lög árið 2016 og gaf annað af þeim út – 203 stjórinn. Þegar ég horfi á ferilinn minn eru tímamótin, tónlistarlega séð, þegar ég gaf út fyrsta lagið mitt Elías, Hvítur bolur gullkeðja, fyrsta lagið sem ég vann 100% með Joe Frazier sem var miklu meira professional, og síðan 203 stjórinn. Þá var ég kominn með sólgleraugu og byrjaður að öskra Kóp Bois. Herra Hnetusmjör í dag er mjög mótaður af 203 stjórinn. Ég tók meðvitaða ákvörðun að ég ætlaði alltaf að vera með sólgleraugu og nota Kóp Bois sem tagg í öllum lögum. Það var max neysla í gangi þegar ég gaf út 203 stjórinn og myndbandið er heimildarmynd um síðasta djammið mitt. Ein af fyrstu línunum í laginu er: Sólgleraugu inni því ég er dópaður á’því,“ segir Herra Hnetusmjör, en lagið kom út þegar hann var kominn inn á Vog í meðferð.

„Ég bjó hjá foreldrum mínum og fór leynt með þetta. En ég þurfti að taka þessa ákvörðun sjálfur að fara inn á Vog og ég gat ekki tekið þessa ákvörðun fyrr en mér leið nógu illa. Það var mikill léttir að koma inn á Vog. Eins og þetta væri allt búið. Ég er alkóhólisti og sama hvað ég var með skýr markmið á öllum sviðum og vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera þá tók alkóhólistinn alltaf yfir. Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér. Eftir Vog fór ég í mánuð í eftirmeðferð á Staðarfelli og þá kom 203 Stjórinn út á Spotify. Ég fór mjög leynt með hvar ég væri og það vissi það í raun enginn,“ segir rapparinn. Áður en hann varð edrú bauðst honum að semja lagið Þetta má með Emmsjé Gauta, sem var stórt tækifæri fyrir hann, og lagið átti eftir að slá í gegn. Hann samdi textann við lagið áður en hann fór í meðferð og tók upp myndbandið þegar henni var lokið.

„Textinn í laginu mín megin er bara neysla. Ég segi mikið í hraða partinum sem fólk kannski heyrir ekki, en ég vitna til dæmis í seríur 3 til 7 af Friends þegar Matthew Perry, sem lék Chandler, var í hvað mesta rugli. Lagið kom út í byrjun árs 2017 og það var að skríða yfir milljón spilanir á Spotify. við tók aðeins heilbrigðara líferni. Allt varð mun þægilegra þegar ég hætti í rugli.“

Kúplaði sig út úr djamminu

Herra Hnetusmjör segist hafa fundið sína leið til að halda sér á beinu brautinni, þó að suma daga sé það ekki auðvelt.

„Ég þarf að vinna fyrir því að vera edrú og ég legg inn mikla vinnu. Ég spái ekki í það að fá mér allan daginn, en ég tók leiðsögn og fór leið sem hjálpar mér að vera edrú. Ég þarf ekki að fá mér svo lengi sem ég held mér á þessari leið. Ég kúplaði mig út úr þeim hliðum bransans sem ég þarf ekki að vera í – partíunum og djamminu. Ég mæti bara þegar ég á að spila og er farinn í uppklappinu. Ég hangi ekki niðri í bæ. Ég vakna og vinn í stúdíóinu. Síðan fer ég heim til kærustunnar minnar og horfi á Netflix og tjilla. Ég er ekkert að tónlistast heima. Ég þvæ þvott, horfi á Netflix og segi kærustunni minni að ég elski hana. Svo á ég kannski gigg um miðja nótt þannig að ég keyri á staðinn, tek giggið og fer svo aftur heim. Auðvitað er erfitt að halda rútínu í þessum bransa en ég reyni eins og ég get. Ég er mjög stoltur af því að vera edrú,“ segir hann.

Sú eina rétta

Herra Hnetusmjör gaf út plötuna Kópboi í fyrra, en nokkrum mánuðum áður en hún kom út hætti hann að vinna vinnu sem tengdist ekki tónlist og lifir nú algjörlega af músíkinni. Það var fleira sem gerðist árið 2017 en þá kynntist hann líka kærustu sinni, Söru, og búa þau skötuhjúin saman í dag.

„Hún er edrú líka. Ég er mjög þakklátur að ég kynntist henni ekki þegar ég var í neyslu. Við kynntumst í gegnum sameiginlega vinkonu og hún er sú eina rétta. Það er enginn vafi,“ segir rapparinn. En fílar kærastan rapp?

„Hún fílar mig,“ segir hann og hlær. En hvað með að stofna til fjölskyldu, er það eitthvað í kortunum hjá tónlistarmanninum?

„Ég myndi ekkert fríka út ef ég myndi verða pabbi í dag. Ég er á svo allt öðrum stað en ég var á fyrir tveimur árum. Í dag bý ég með kærustunni minni og rek mitt eigið fyrirtæki. Ég held að ég myndi ekki fríka út þótt það sé ekkert á dagskrá. Það gerist bara það sem gerist.“

Herra Hnetusmjör gengur ávallt með sólgleraugu.

„Mig langar í mikið af peningum“

Herra Hnetusmjör segist vera meiri tónlistarmaður en bisnessmaður, þótt viðskiptalega hliðin á tónlistarheiminum sé honum mjög hugleikin. Í heimi áhrifavalda segist hann ekki vilja leggja nafn sitt við vörur sem eru honum ekki að skapi, en þegar ónefnd fyrirtæki voru farin að nota nafnið hans til að selja varning varð honum nóg um og fékk sér einkaleyfi á bæði nafnið Herra Hnetusmjör og KBE í mörgum flokkum hjá Einkaleyfastofu.

„Það hefur komið fyrir að menn hafa notað nafnið mitt til að selja vörur sem ég er ekkert tengdur. Ónefnd ísbúð notaði til dæmis nafnið mitt og svo var líka drykkur sem var kallaður eftir mér á Reykjavík Cocktail Weekend. Ég var alls ekki sáttur við það. Nú er þetta á pappírum og ef þú ætlar að nota nafnið mitt án leyfis þá mætir lögfræðingur á skrifstofuna þína. Það er ekki næs þegar einhver er að græða peninga sem ég sé ekkert af,“ segir Herra Hnetusmjör. Honum er einmitt tíðrætt um peninga og eins og kom fram hér á undan fjallaði fyrsta rapplagið hans, sem samið var í gríni af ungum snáða, um peninga.

„Mig hefur alltaf langað í peninga. Mig langar í mikið af peningum. Bandaríski rapparinn 21 Savage sagði einu sinni í viðtali að honum væri drullusama hver besti rapparinn væri. Hann vildi ekkert vera með í þeim samanburði. Hann var að reyna að vera ríkasti rapparinn. Ég tengi við það, þó að ég sé mjög stoltur af rappinu. Ég trúi því að ég sé langbesti rapparinn á Íslandi en ég vil líka græða,“ segir hann. En er hann orðinn ríkur af rappinu?

„Ég hef það fínt,“ segir hann og glottir.

Gucci og Louis með gulltennur og seðlabúnt

Hann hlýtur að hafa það ansi fínt ef marka má lífsstílinn. Hann keyrir um á skjannahvítri eðalkerru með drapplituðu leðuráklæði, á fleiri Gucci-sólgleraugu en góðu hófi gegnir og gengur um með rándýra Louis Vuitton-handtösku. Burberry er líka áberandi í fataskápnum, en hann á heilt fataherbergi sem er stútfullt af merkjavöru. Svo má ekki gleyma sérsmíðaða gómnum sem hann smellir upp í sig við sérstök tilefni, en gómurinn er úr fjórtán karata gulli. Hann segir að klæðaburðinn hafi mótast af bandarísku hetjunum í rappheiminum.

Takið eftir Gucci gleraugunum.

„Ég ólst upp við að horfa á myndbönd hjá Rick Ross og þessum gaurum. Þeir keyrðu um á Bentleyum, voru með gulltennur og risastórar keðjur um hálsinn. Þeir voru fyrirmyndirnar mínar. Ég fylgdist ekkert með fótbolta – ég horfði á rappmyndbönd. Mig langaði að vera svona – Gucci og Louis, með gulltennur og seðlabúnt,“ segir Herra Hnetusmjör. Hann var bara tíu ára gamall þegar hann keypti sér fyrstu rappflíkurnar í fataskápinn.

„Ég fór til Flórída með fjölskyldunni minni og fór inn í verslun sem heitir Echo Unlimited. Ég gekk þarna inn og það var verið að blasta rapptónlist og gullkeðjur með spinner-felgum út um allt. Ég keypti mér til dæmis jakka í XXL sem náði niður fyrir hné. Ég á jakkann enn og hann passar á mig í dag. Svo keypti ég gallastuttbuxur sem pössuðu á mig sem síðbuxur. Ég keypti líka gullkeðjur með spinner-felgum og speglasólgleraugu. Ég hafði aldrei séð neitt svona á Íslandi og ég varð að fá þetta,“ segir hann. En hver er dýrasta flíkin sem hann á?

„Það er örugglega Gucci-úlpan mín. Hún kostaði 240 þúsund kall. Ég á líka Gucci-íþróttagalla sem kostaði 200.000 kall. Flíkurnar mínar kosta ekki allar svona mikið en þegar þær eru settar saman er þetta mikill peningur. Ég fæ að leyfa mér þetta rugl því ég eyði ekki lengur peningum í fíkniefni.“

Skattrannsókn og kaldur sviti

Mér leikur forvitni á að vita meira um KBE ehf., fyrirtækið sem Herra Hnetusmjör rekur og virðist vera í miklum blóma.

„Umboðsmaðurinn minn sé mikið um bisnesshliðina þótt ég komi líka að henni. Hann er tíu árum eldri en ég og var með sitt fyrirtæki áður. Ég gæti ekki gert þetta einn. Hann sér mikið um virðisaukaskattskil og símtöl við endurskoðandann og þess háttar, á meðan ég kem með hugmyndir, framkvæmi og geri tónlist,“ segir rapparinn. Það vakti einmitt athygli á dögunum þegar leikkonan Steiney Skúladóttir lýsti áhyggjum sínum á Twitter yfir því hve mikið Herra Hnetusmjör rappar um að vinna svart, til dæmis í laginu Labbilabb af Kópboi.

„Já, Skatturinn er alveg búinn að koma,“ segir rapparinn og brosir. „En við erum með allt okkar á hreinu. Við borgum í lífeyrissjóð og skilum skattaframtölum eins og öll önnur fyrirtæki. Ég viðurkenni samt alveg að ég fékk kaldan svita þegar Arnór, umboðsmaðurinn minn, hringdi og sagðist hafa fengið bréf frá Skattinum. En þetta blessaðist allt. Við höfum ekkert að fela.“

Vondi karlinn i Disney-mynd

Undir merkjum KBE ehf. gefur Herra Hnetusmjör út sína eigin tónlist og annarra, stendur fyrir tónleikum og ýmislegt fleira. Nýjasta verkefnið er hnetusmjörið Herra Hnetusmjör sem framleitt er af H-Berg og er komið í verslanir.

„Það eru engin geimvísindi að Herra Hnetusmjör búi til Herra Hnetusmjör. Ég er mjög stoltur af þessari vöru. Þetta er besta hnetusmjörið sem til er,“ segir hann og stefnir greinilega að frekari landvinningum í viðskiptum.

„Ef mér dettur eitthvað skemmtilegt í hug þá geri ég það. Rick Ross er til dæmis með sinn eigin vængjastað í Bandaríkjunum. Mig langar að fara út í það. Mig langar að stækka við mig og gera alls konar kjaftæði. Mig langar til að fara í sjónvarp. Ég væri til í að leika handrukkara eða glæpamann. Mig langar að tala inn á auglýsingar og teiknimyndir – vera vondi karlinn í Disney-teiknimynd.“ segi rapparinn og líkir einmitt hrokaboltanum sjálfum sér við fyrrnefnd illmenni.

Stór fiskur í lítilli tjörn

Sumarið er fljótt á enda og hefur Herra Hnetusmjör verið uppbókaður á hinum ýmsu bæjarhátíðum. Núna um helgina treður hann síðan upp á einum stærstu tónleikum ársins, tónleikum Rásar 2 á Menningarnótt sem sýndir eru í beinni útsendingu á RÚV og útvarpað beint á Rás 2. Hann er samt sem áður pollrólegur yfir þessu öllu saman.

„Ég er ekkert stressaður. Ég verð voðalega sjaldan stressaður fyrir gigg. Ég hef tvisvar verið stressaður og í bæði skiptin hef ég verið að syngja, ekki rappa, í beinni útsendingu. Ég er ekki vanur því. Það er út fyrir minn þægindaramma. Yfirleitt dett ég í gír fyrir beina útsendingu, fer upp á svið með hrokann á milljón og er með snáðalæti,“ segir rapparinn. Snáði er einmitt orð sem hann notar mikið til að lýsa prakkaraskap, en stúdíóið sem hann leigir nálægt miðborg Reykjavíkur með vonarstjörnunum JóaPé og Króla er einmitt kallað Snáðastúdíó. Hann segist vera vinnualki en nú semur hann mikið um lífsstílinn sinn og vinnuna.

https://www.youtube.com/watch?v=ZdG5dGEvsEU

„Ég get ekki rappað um dóp og ég get ekki rappað um stelpur þannig að ég verð að rappa um eitthvað annað,“ segir hann. en hann fagnar um þessar mundir nýjum tímamótum í tónlistinni.

„Nýjasta lagið mitt, Upp Til Hópa, pródúserað af Inga Bauer, er vinsælasta lagið á landinu á Spotify og búið að vera það í rúmar þrjár vikur, eða síðan það kom út.“

Aðspurður hvort Ísland sé of lítið fyrir hann stendur ekki á svörunum.

„Mér finnst gaman að vera stór fiskur í lítilli tjörn. Það væri líka gaman að vera stór fiskur í stærri tjörn og það er alveg pæling að fara út fyrir landsteinana. Ég ætla samt bara að leyfa því að gerast. Ég vil ekki rappa á ensku og ég myndi ekki gera það til að stækka aðdáendahópinn minn.“

„Þetta er bara ég á móti öllum hinum“

Áður en ég kveð Herra Hnetusmjör verð ég að spyrja, fyrst hann er besti rapparinn Íslands að eigin sögn, hver sé þá næstbestur?

„Þetta snýst ekki um það. Ég er ekki að hugsa hver er í öðru, þriðja eða fjórða sæti. Þetta er bara ég á móti öllum hinum.“

Myndir / Hallur Karlsson

„Það kom á óvart og eru mér vonbrigði“

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, segir ákæru vegna peningaþvættis, sem honum var kynnt fyrir stuttu, hafi komið sér á óvart, en í nýjasta tölublaði Mannlífs er sagt frá ákærunni.

Borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti

Júlíus Vífill tjáir sig stuttlega um málið á Facebook-síðu sinni í dag.

„Undanfarin tvö ár finnst mér eins og ég hafi staðið í veðurbáli. Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum,“ skrifar hann og heldur áfram.

„Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum. Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi.“

Júlíus Vífill segir að þó málið hafi tekið á hann persónulega sé annað sem er mikilvægara í lífinu og endar pistilinn á hugljúfum nótum.

„Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.“

Færslu Júlíusar Vífils má sjá hér fyrir neðan:

Hlaupa til minningar um átján ára dreng sem lést úr ofneyslu

||||
||||

Saga Einars Darra Óskarssonar, átján ára drengs sem varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 25. maí eftir ofneyslu lyfsins OxyContin, hefur vakið mikla athygli síðustu vikur. Í kjölfarið var stofnaður minningarstjóður í hans nafni, sem stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif, sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.

Fjölmargir ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun til styrktar sjóðnum, þar á meðal fimm ættliðir í kvenlegg. Það eru þær Pálína Bjarnadóttir, 92 ára. Sigrún Anna Einarsdóttir, 69 ára. Bára Tómasdóttir, 48 ára. Andrea Ýr Arnarsdóttir, 27 ára og Ísabella Rós Pétursdóttir, 5 ára. Fjölskylda Einars Darra heitins vill með þessu varpa ljósi á það að við Íslendingar, þurfum öll að standa saman ungir sem aldnir og í sameiningu getum við snúið við þessari þróun í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum. Áheit sem berast þeim og öðrum sem hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Einars Darra mun vera vel nýtt í þeim forvarnar verkefnum sem framundan eru hjá baráttunni #egabaraeittlif.

Hér sjást hlaupararnir fimm sem um ræðir.

Unnin með fagmennsku og kærleika í fyrirrúmi

Að sögn Steinþórs Þórarinssonar, verkefnastjóra #egabaraeittlif, eru markmið baráttunar fjölþætt; til dæmis að sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á lyf og opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi. Þá eru markmiðin líka að auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja og opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum.

„Til að ná fram ofangreindum markmiðum verður unnið í ýmsum verkefnum sem nú þegar er byrjað að vinna að. Verkefnin eru að mestu leiti skipulögð af forsvarsmönnum Minningarsjóðs Einars Darra, einnig tekur skipulagshópur þátt með ýmsu móti. Skipulagshópurinn hefur að geyma meðlimi frá ýmsum starfstéttum í samfélaginu, er breiður aldurshópur en eigum við það sameiginlegt að vilja öll láta gott af okkur leiða. Öll verkefnin eru og verða unnin með fagmennsku og kærleika í fyrirúmi,“ segir Steinþór og heldur áfram.

„Fengist hefur verulegur stuðningur og aðstoð úr öllum áttum úr samfélaginu frá gríðamörgum einstaklingum sem vilja leggja verkefnunum lið. Þar á meðal er stórfjölskyldan, vinir, þekktir einstaklingar, fyrirtæki, félög og fleiri.“

Við eigum bara eitt líf

Þau verkefni sem eru yfirstandandi hjá sjóðnum eru sérstök armbönd og auglýsingar fyrir téð armbönd.

Bleiku armböndin eru víða.

„Armböndin eru kærleiksgjöf frá Minningarsjóði Einars Darra. Stöndum saman og minnum okkur á að við eigum bara eitt líf. Að bera armbandið er tákn um samstöðu en einnig er það ætlað til að fá fólk, sér í lagi ungmenni til að horfa á armbandið og fá þau til að hugsa sig tvisvar um áður en þau misnota lyf eða önnur fíkniefni,“ segir Steinþór og bætir við að myndböndin séu í raun vitundarvakning.

„Ætlað til að fá umræðuna af stað í samfélaginu. Kynnir verkefnið og varpar ljósi á þann hræðilega atburð þegar Einar Darri lést. Sýnir hversu margir einstaklingar eru á bak við hvert dauðsfall og bendir á algengi misnotkunar á lyfjum hér á landi sem og dauðsföll tengd því.“

Þá segir hann að ýmis önnur verkefni séu í vinnslu hjá sjóðnum, bæði í formi forvarna og fræðslu.

Fjölmargar stjörnur hafa nælt sér í armband, þar á meðal stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson.

Hér fyrir neðan eru bankaupplýsingar fyrir þá sem vilja styrkja málefnið:

Kennitala: 510718-1510
Reikningsnúmer: 552-14-405040

Heldur fast í jákvæðnina

|
|

Fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson tekst af æðruleysi á við ólæknandi sjúkdóm.

Fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með hreyfitaugahrörnun, sem í daglegu tali er þekkt sem MND-sjúkdómurinn. Þessi glæsilegi maður sem alla tíð hafði verið heilsuhraustur segist fljótt hafa ákveðið að nýta veganestið sem hann hafði í gegnum árin gefið drengjum sem hann hefur þjálfað í körfubolta á Akureyri; hann fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið. Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni hans  í Reykjavíkurmaraþoninu og segir hann ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi.
Ágúst er í einlægu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Heiðarleiki er lykillinn að mínum árangri

Elísabet Gunnarsdóttir er tískuáhugafólki vel kunn en hún stofnaði fyrstu íslensku blogg-veröldina þar sem fjölbreyttur hópur bloggara kom saman undir einum hatti.

Níu árum síðar hefur Elísabet skapað sér heimili víðs vegar um Evrópu en flakkið skrifast á atvinnu æskuástarinnar sem Elísabet giftist nú fyrr í sumar. Þrátt fyrir fjölbreytta búsetu er Elísabet óhrædd við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd enda segir hún tækifærin ótæmandi.

„Ef maður tileinkar sér að skrifa heiðarlega og vera ekkert að þykjast vera annar en maður er gengur allt vel. Ég tel að það hafi verið lykillinn að mínum árangri.”

„Ég held mínu striki óháð því hvað öðrum finnst. Ég hef að sjálfsögðu fengið gagnrýni sem fer fyrir brjóstið á manni, sérstaklega þegar fólk skrifar eitthvað á Netinu en getur síðan ekki staðið á bak við skrif sín í persónu. Það er alltaf óheillandi. En ég finn fyrir miklum meðbyr sem er margfalt meira jákvætt en neikvætt og það hvetur mig áfram.”

„Ég lít á samstörf sem hluta af launum, en það er ekki alltaf auðvelt að fá greitt í peningum. Þannig fæ ég kannski föt á börnin mín sem hluta af greiðslu fyrir eitthvað verkefni sem aðrir eyða hluta af launum í. Launin berast á annan máta til mín.”

„En það er erfitt að sjá framtíðina fyrir sér í þessum málum. Margir telja að samskiptamiðlar muni færast yfir í minni hópa og miðla. Þannig verðir þú kannski á einum miðli einungis með fólki sem þú þekkir eða átt eitthvað sameiginlegt með. Þá minnkar aðeins þetta áreiti sem nú er á miðlunum í formi auglýsinga og pósta frá fyrirtækjum. Það er mikið talað um hópa (e. tribals) í þessum efnum, að fólk fari að skiptast meira niður í svona flokka og hangi meira með sínum líkum inn á samskiptamiðlum. Það er ein kenning sem mér finnst hljóma nokkuð líkleg þar sem samskiptamiðlar tapa sjarma sínum að einhverju leiti þegar þeir stækka of mikið.

Á vissan hátt er ég heppin að búa erlendis í mínu starfi. Ég á mér einkalíf og pæli lítið í því hvernig ég er til fara þegar ég fer út úr húsi. Eflaust væri ég ekki jafn frjálsleg ef ég byggi á Íslandi.”

„Í sjálfu sér er ég ekki viss um að ég hefði haldið svona lengi út sem bloggari ef ég byggi á Íslandi því ég hleypi fólki nálægt mér á samfélagsmiðlum.”

„Það hafa ekki allir sömu skoðun á því, sérstaklega þegar börnin fylgja með. Þau eru bara svo stór hluti af mínu lífi að ég myndi ekki geta útilokað þau frá bloggi og samskiptamiðlum. Eftir að Instagram story kom hef ég gefið fylgjendum mun persónulegri nálgun og ég held að fólk kunni vel að meta það. Þetta er viss kafli í mínu lífi sem mun ljúka einhvern daginn og ég mun bara njóta á meðan á honum stendur. Ég elska að geta veitt einhverjum innblástur og það drífur mig áfram í mínu.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðs.

„Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér“

||
||

Rapparinn Herra Hnetusmjör prýðir forsíðu Mannlífs sem kemur út á morgun. Hann hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á Íslandi. Hann er 21 árs gamall og keyrir um á lúxuskerru, í Gucci-úlpu með gulltennur – alveg eins og bandarísku rapphetjurnar. Hann telur sig besta rappara á Íslandi og ætlar að búa til stórveldi úr tónlistinni.

„Ég held að þú getir ekki verið bestur í neinu ef þú trúir því ekki að þú getir verið bestur. Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna,“ segir Herra Hnetusmjör.

Herra Hnetusmjör byrjaði ungur að fikra sig áfram í rappheiminum og gaf út sitt fyrsta lag árið 2014 – smellinn Elías sem vakti mikla athygli.

„Það varð að einhverri költ-klassík meðal unglinga. Í laginu rappa ég um Kársneskrakkana og að við höfum alltaf verið að drekka og halda partí í kjallaranum hjá strák sem heitir Elías. Algjört unglingadót.“

Herra Hnetusmjör gengur ávallt með sólgleraugu.

Sumarið 2016 var mjög dimmur tími

Í framhaldinu fékk hann sér umboðsmann og kom fyrsta plata rapparans, Flottur skrákur, út á afmælisdegi Herra Hnetusmjörs, þann 31. ágúst árið 2015. Við tóku miklar annir, en árið 2016 reyndist honum erfitt.

„Ég var með fullt af lögum í spilun í útvarpi og var til dæmis bókaður á stórt svið á Secret Solstice. En ég missti mig. Ég fór út af brautinni og hætti að gera tónlist. Ég var bara að djamma og spila,“ segir Herra Hnetusmjör og heldur áfram. „Ég var farinn að missa tökin meira og meira og sumarið 2016 missti ég þau endanlega. Þá var ég í max rugli og á öllu sem hægt er að hugsa sér. Ég týndist bara í sósunni. Sumarið 2016 var mjög dimmur tími,“ segir Herra Hnetusmjör. Í framhaldinu fór hann í meðferð á Vogi

„Ég er alkóhólisti og sama hvað ég var með skýr markmið á öllum sviðum og vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera þá tók alkóhólistinn alltaf yfir. Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér.“

„Mig langar í mikið af peningum“

Í dag er rapparinn edrú og eyðir peningum sínum í merkjavöru í staðinn fyrir fíkniefni. Peningar eru honum einmitt mjög hugleiknir.

„Mig hefur alltaf langað í peninga. Mig langar í mikið af peningum. Bandaríski rapparinn 21 Savage sagði einu sinni í viðtali að honum væri drullusama hver besti rapparinn væri. Hann vildi ekkert vera með í þeim samanburði. Hann var að reyna að vera ríkasti rapparinn. Ég tengi við það, þó að ég sé mjög stoltur af rappinu. Ég trúi því að ég sé langbesti rapparinn á Íslandi en ég vil líka græða,“ segir hann.

Takið eftir Gucci gleraugunum.

Viðtalið við Herra Hnetusmjör, ásamt fullt af öðru vönduðu efni, má lesa í Mannlífi sem kemur út á morgun, föstudaginn 17. ágúst.

Myndir / Hallur Karlsson

Halle Berry er 52 ára og ljóstrar upp leyndarmálunum á bak við andlegt og líkamlegt hreysti

||||||||||
||||||||||

Leikkonan Halle Berry fagnaði nýverið 52ja ára afmæli sínu, en hún leggur mikið upp úr því að vera í góðu andlegu og líkamlegu jafnvægi. Hún er með um þrjár milljónir fylgjenda á Instagram og deilir góðum ráðum og sinni persónulegu reynslu á síðunni.

Hún segist æfa bæði huga og líkama með jóga og hugleiðslu, en leikkonan hugleiðir á hverjum einasta degi.

„Hreysti snýst ekki bara um að hlaupa, lyfta og kýla,“ skrifar Halle og bætir við:

„Að vera í góðu formi fyrir mér snýst líka um að vera kyrr, teygja og anda.“

Þá segir Halle að fleiri ættu að hugleiða þar sem það hefur haft gríðarlega góð áhrif á hennar eigið líf.

„Treystið mér, það mun breyta hugsunarhætti ykkar og breyta lífi ykkar. Þegar ég er búin er ég mjög skýr og finn fyrir frið.“

Halle stundar líka box og lyftir lóðum og segir mikilvægt að æfingar séu skemmtilegar og hressandi.

„Ég veit að það er erfitt að koma sér af stað stundum, en þegar æfingin er skemmtileg er hún miklu einfaldari!“ skrifar hún á Instagram.

Leikkonan er með þjálfara og segir að það sé margfalt auðveldara að æfa með einhverjum en einn. Þá skiptir mataræðið hana miklu máli.

„Mig langar líka að deila einu leynivopni með ykkur sem ég held að hafi hjálpað mér að bjóða aldrinum birginn og líta út fyrir og líða eins og ég sé yngri. Leyndarmálið er beinaseiði. Það er búið til úr beinum sem eru soðin niður í að minnsta kosti átta klukkustundir,“ skrifar hún.

Halle segir jafnframt að útlitið skipti hana ekki öllu máli.

„Að vera með geggjaðan strandlíkama er miklu meira en að líta vel út í bikiníi. Þetta snýst um að líða vel í eigin skinni. Sjálfstraustið mitt hefur alltaf aukist þegar ég elska sjálfa mig nógu mikið til að setja heilsu og vellíðan í fyrsta sæti.“

Allt frá 18 fermetra íbúð að umhverfisvænu húsnæði

||||||||||
||||||||||

Nýi vörulistinn frá IKEA á Íslandi kemur út síðar í þessum mánuðinu, en við á Mannlíf sögðum frá bandaríska vörulistanum fyrir stuttu. Sá íslenski er frábrugðin þeim bandaríska þar sem öll þau lönd þar sem IKEA hefur fest rætur setja ekki eins vörur á markað.

Í íslenska vörulistanum er til dæmis lögð áhersla á að koma skipulagi á smáhlutina.

Í íslenska vörulistanum er sýnt frá sjö mismunandi heimilum með mismunandi áherslum. Þetta er allt frá átján fermetra íbúð að einstaklega umhverfisvænu húsnæði, þannig að flestir ættu að geta fundið eitthvað sem heillar í listanum.

Sniðugar geymslulausnir er að finna í listanum.

Forsvarsmenn IKEA leggja sérstaka áherslu á lífið heima fyrir og við vinnslu bæklingsins var stuðst við rannsóknir fyrirtækisins á heimilislífi fólks og það sem veldur fólki mestu hugarangri.

Í rannsóknum IKEA kemur fram að um heim allan telja 27% manna að samfélagið leggi of mikla pressu á okkur að búa með færri hlutum. Um 49% segja að helsta orsök rifrilda á heimilinu sé óreiða og á mörgum heimilum er fólk ósammála um hvað eigi að vera inni á heimilinu.

Í nýja vörulistanum eru tvö heimili sem taka á þessum atriðum. Annað heimilið snýst um smáhluti og hvernig sé best að skipuleggja þá. Á hinu er kyrrð og samhljómur, með áherslu á sniðugar geymslulausnir.

Blár er áberandi í unglingaherberginu.

Nýi vörulistinn er ólíkur fyrri listum þar sem í þetta sinn eru sýnd heimili, ekki herbergi. IKEA vörurnar eru sýndar eftir samræmi og eftir stíl eða litaþema til að auðvelda lesendum að innrétta með IKEA vörum. Að auki er að finna leiðbeiningar í listanum til að skapa ákveðið útlit á viðráðanlegu verði.

Kyrrð og samhljómur.

IKEA vörulistinn er prentaður á FSC-vottaðan pappír, og er í raun öll framleiðsla listans vottuð frá skógi til prentara, til að tryggja sjálfbærari uppruna á viðartrefjum. Listinn er tæplega þrjú hundruð blaðsíður og kemur, eins og áður segir, út síðar í þessum mánuði. Þangað til getum við skoðað nokkrar myndir úr listanum sem Mannlíf fékk sendar frá IKEA á Íslandi:

pönnukökuterta í matinn

Við bjóðum upp á bragðmikla túrmerik-pönnukökutertu sem er þess virði að prófa. Hún er hveiti og eggjalaus og ef ostinum er skipt út fyrir vegan-ost er hún orðin að vegan-rétti. Það er kókosmjólk í deiginu og túrmerik kryddið gefur skemmtilegan lit á pönnukökurnar. Það er alls ekki mikil fyrirhöfn að útbúa tertuna og hentar hún því vel sem matur í miðri viku.

 

Pönnukökuterta með bragðmikilli kjúklingabaunafyllingu
fyrir 4

pönnukökudeigið:
400 ml kókosmjólk (1 dós)
400 ml vatn
220 g hrísgrjónamjöl (rice flour)          
2 tsk. túrmerik
½ tsk. salt
1 msk. olía til steikingar

fyllingin:
2 msk.olía
1 ½ rauðlaukur
3 hvítlauksgeirar
2 tsk. harissa-mauk
3 tsk. kummin
1 tsk. paprika
½ rautt chili-aldin
800 g kirsuberjatómatar (2 dósir)
400 g kjúklingabaunir (1 dós)
1 msk. sykur
hnefafylli kóríander, saxaður
120 g mozzarella-ostur (einn poki)
sjávarsalt og nýmöluðum pipar
rifinn ostur eftir smekk
steinselja og kóríander til skrauts (má sleppa)

Blandið öllum innihaldsefnunum sem eiga að fara í pönnukökurnar í skál og hrærið vel saman með handpísk. Gott er að láta deigið standa aðeins áður en bakað er úr því. Setjið smávegis olíu á pönnukökupönnu og bakið kökurnar á báðum hliðum. Þær eiga að vera þykkar en ekki alveg eins þykkar og skonsur. Úr deiginu ættu að fást 5-6 kökur en það fer vissulega eftir þykkt. Fyllingin er miðuð við u.þ.b. 5 stykki.
Hitið olíu á pönnu og steikið lauk og hvítlauk í nokkrar mínútur. Bætið harissa-mauki, paprikukryddi, karrí, kummin og fersku chili-aldini saman við. Hellið vatninu frá kjúklingabaununum og setjið þær út á pönnuna ásamt tómötunum, sykrinum og söxuðum kóríander. Látið malla í u.þ.b. 10 mínútur. Látið mozzarella-ostinn út á pönnuna í lokin. Bragðbætið með salti og pipar. Setjið fyllinguna á milli pönnukakanna og endið á því að setja lag af fyllingu efst og stráið rifnum osti yfir. Bakið í ofni við 180°C í 20 mínútur. Gott að bera fram ferskt salat með tertunni.

 

Myndir/ Aldís Pálsdóttir

Stílisti: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Girnilegt og gott í nestið

Það er góður siður að venja sig á að taka nesti með í vinnu eða skóla. Það sparar tíma og peninga, og getur komið í veg fyrir að þú endir oftar en góðu hófi gegnir í bakaríinu að velja milli snúða með glassúr eða annars sætmetis. Við tókum saman nokkrar góðar nestishugmyndir.

 

Salatbar í krukku

Hollt, einfalt og girnilegt. Það er upplagt að útbúa sinn eigin salatbar til að taka með í nesti. Það er sérstaklega þægilegt að útbúa þennan rétt út frá afgöngum eða því sem til er í skápnum hverju sinni.

Hugmyndir að innihaldi: túnfiskur, egg, maís, kotasæla, ýmiskonar baunir, grænmeti, pasta og kjúklingur.

 

Meal-prepp

Fyrir þá sem vilja huga að hollustunni er stórsniðugt að gefa sér tíma, til dæmis á sunnudögum og undirbúa nesti fyrir komandi viku. Með góðu skipulagi og tilbúnum réttum minnka líkurnar á því að fara út af sporinu til muna. Séu leitarorðin slegið inn  „Meal prep“ á Instagram eða Pinterest má finna fjölmargar hugmyndir að skipulagi og girnilegum réttum.

 

Nýbakað úr frystinum

Fátt er betra en nýbakað bakkelsi. Pizzasnúðar og skinkuhorn skora hátt á listanum yfir vinsælar nestishugmyndir á mörgum barnaheimilum. Við mælum með að baka stóra uppskrift og frysta, þá er alltaf hægt að grípa með sér gott nesti án nokkurrar fyrirhafnar.

 

Afgangar

Klassískt – og ekki að ástæðulausu. Eldaðu örlítið umfram venjulegan skammt af kvöldmatnum og taktu frá fyrir nestið daginn eftir. Lasagna, pastaréttir, salöt, súpur; allt eru þetta réttir sem jafnvel smakkast betur daginn eftir.

 

Millimál

Yfir daginn gerir nartþörfin oft skyndilega vart við sig og þá er gott að vera tilbúinn með millimál í hollari kantinum. Nokkrar hugmyndir að slíku nesti gætu verið; hafraklattar, flatkökur, þeytingar, hnetumix, hrískökur, ávextir, skyr, harðsoðin egg.

 

 

 

 

 

Greinin birtist upphaflega í Vikunni

Þessi einkaþjálfari afsannar haug af kenningum um heilbrigðan lífsstíl

||||||||||||
||||||||||||

Einkaþjálfarinn og næringarfræðingurinn Graeme Tomlinson heldur úti bráðskemmtilegri Instagram-síðu þar sem helsta viðfangsefnið er að afsanna ýmsar kenningar um heilbrigðan lífsstíl.

Graeme er þeirrar skoðunar að það sem þurfi til að grenna sig og lifa heilbrigðum lífsstíl sé að borða fjölbreyttan mat – ekki að fara á djúskúra og borða eingöngu það sem okkur er sagt að sé hollt. Þá segir hann að fæðunni sé ekki um að kenna að mannkynið glími við offituvanda, heldur sé það okkur sjálfum að kenna.

Við skulum líta á nokkrar myndir af Instagram-síðunni hans. Það kemur eflaust margt ykkur á óvart.

Matur sem hægt er að borða er betri en drykkur með fullt af sykri:

Jahá, vissuð þið að það eru svona margar kaloríur í möndlum?

Þetta er sláandi:

Grænkálsflögur eða venjulegar flögur?

Enginn munur á kaloríufjölda:

Keto kaffið er ansi hitaeiningaríkt:

Best að fá sér bara alvöru súkkulaði:

Graeme trúir ekki á djúskúra:

Ávöxtur er ekki það sama og ávöxtur:

Pælið í þessu næst þegar þið farið út að borða:

Offitufaraldurinn svokallaður er okkur að kenna:

Engin samviskubit, takk:

Hlýr staður með gott hjarta

Þær Gígja Björnsson og Ragnheiður Birgisdóttir opnuðu fyrir skömmu fyrsta kattakaffihús landsins en hugmyndina höfðu þær brætt með sér lengi.

Þær segja kaffihús af þessu tagi njóta sívaxandi vinsælda um heim allan en kattakaffihúsið er staðsett við Bergstaðastræti 10a í Reykjavík.

Ragnheiður hefur unnið lengi í markaðsstjórnun og Gígja á kaffihúsum en hún er menntaður sviðshöfundur. Þær segjast báðar vera miklir kattavinir og kettirnir hafi í raun dregið þær saman. „Við tengjumst mikið í gegnum ketti en Ragnheiður hefur til dæmis passað kisuna mína í langan tíma,“ segir Gígja og bætir við:

„Svo vill svo vel til að Helga Björnsson sem hannaði plakötin, púðana og málaði veggmyndirnar er mamma mín, og líka mikil kisuvinkona.“

Ragnheiður segir Íslendinga almennt mikla kattavinir. „Það er svo skemmtilegt að sjá hvað fólk var spennt fyrir þessu verkefni strax í upphafi. Við stofnuðum Karolina Fund-síðu og þar sáum við strax hvað það var mikill spenningur fyrir þessu. Það eru til svo skemmtilegar Facebook-síður eins og Cats of Reykjavik og Spottaði kött. Þá sér maður hvað áhuginn er mikill, sumir myndu jafnvel kalla þetta einhvers konar dellu fyrir kisum.”

„Viðtökurnar hafa í það minnsta verið góðar og okkur gengið býsna vel. Við erum mjög sáttar og þakklátar fyrir þær móttökur sem við höfum fengið og erum strax komnar með frábæran hóp af fastagestum.”

„Fólk alls staðar að úr heiminum hefur meira að segja breytt ferðalagi sínu til þess að kíkja við hjá okkur á kattakaffihúsið. En það er ekki bara kattafólk sem kemur til okkar, það er líka hundafólk og allskonar fólk sem er kannski ekki að pæla það mikið í kisunum. Það má. Það sem skiptir máli er að öllum líði vel og að kisunum líði vel.“

Viðtalið í heild má lesa í 29. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.

„Ég tek þetta á þrjóskunni“

|
|

Hákon Atli Bjarkason ætlar heilt maraþon, 42 kílómetra, í Reykjavíkurmaraþoninu í hjólastól.

Óhætt er að segja að Hákon Atli Bjarkason, rekstrastjóri Pizzunnar, sé sannkallaður orkubolti, en fyrir utan að ætla að fara heilt maraþon, 42 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, þá æfir hann borðtennis og er Íslandsmeistari fatlaðra í borðtennis.

Hákon Atli Bjarkason lenti í alvarlegu bílveltu árið 2009 þegar hann sofnaði undir stýri með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlegan mænuskaða. Hákon segist þó aldrei hafa látið mænuskaðann stöðva sig, þvert á móti og á morgun ætlar hann að gera sér lítið fyrir og fara heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu, 42 kílómetra hvorki meira né minna, sem er það mesta sem hann hefur farið.

„Ég hef tekið þátt síðustu 4 ár, tvisvar tíu kílómetra og tvisvar 21 kílómetra. Fyrst tók ég 10 kílómetrana til að sjá hvort ég gæti það, svo tókst mér að fara hálft maraþon og eftir það hef ég alltaf verið með það á plani að fara 42 kílómetra, en ég hef ekki lagt í það fyrr en nú. Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“ segir hann ákveðinn.

Hann viðurkennir þó að hafa ekki æft sig mikið, í raun hafi hann bara tekið tvær æfingar. „Í þeirri fyrstu tók ég 28 kílómetra. Hún var ógeðslega erfið en miðað við tempóið sem ég náði þá ætti ég að ná markmiðinu sem er undir fjórum tímum. Seinni æfingin gekk ekki síður vel þannig að ég er bjartýnn á að mér gangi vel á morgun.“

Lætur lítið stoppa sig

Talið berst að slysinu örlagaríka og Hákon segir að það sé nokkuð sem líði sér seint úr minni. „Ég sofnaði undir stýri og velti bílnum. Rétt hjá Skálafellsafleggjara í Mosfellsdalnum, á leiðinni til Reykjavikur. Stoppaði hjá afleggjaranum þar sem ég fann fyrir þreytu, lagði mig i kortér og þegar ég fer af stað er ég greinilega hálfsofnadi því kílómeter seinna vakna ég upp það við að bíllinn er að velta,“ lýsir hann alvarlegur.

Í kjölfar slyssins var Hákon fluttur með hraði á bráðamóttökuna á Landspítalanum í Fossvogi og var í viku á gjörgæslu. Við tók ströng endurhæfing á Grensás þar sem hann var á legudeild frá júlí til desember. Hann viðurkennir að þetta hafi verið erfiður tími. Slysið hafi haft þau áhrif að aðstæður hans gjörbreyttust og það hafi tekið tíma að byggja upp þrek og styrk og komast á þann stað sem hann er í dag.

„Ég vill bara sanna fyrir sjálfum mér að ég geti þetta og ef þess þarf þá tek ég þetta á þrjóskunni,“

„En maður aðlagast bara breyttum aðstæðum og ég er mjög sáttur við líf mitt í dag. Ég er í góðri vinnu og á kafi í íþróttum, hef líkleg aldrei verið duglegri að hreyfa mig,“ segir hann og nefnir í því samhengi að árið 2012 hafi hann endurvakið hjólastólakörfuboltann sem hafði þá legið í dvala síðan 1997. Þess utan æfi hann svo borðtennis og sé, sem stendur, Íslandsmeistari fatlaðra í íþróttinni.

„Ég læt voðalega lítið stoppa mig,“ segir hann og hlær þegar blaðamaður spyr hvar hann fái alla þessa orku. „Og mér finnst mikilvægt að ýta undir þann hugsunarhátt hjá öðrum,“ flýtir hann sér að bæta við. „Þess vegna hef ég til dæmis haldið námskeið um notkun hjólastóla í daglegu lífi bæði hér heima og úti, núna síðast á endurhæfingarnámskeiði í Svíþjóði. Þannig að kannski má segja að ég sé frekar orkumikill. Ég hef alla vega nóg að gera. Og ef eitthvað er finnst mér bara vanta fleiri tíma í sólarhringinn.“

Ætlar að ná takmarkinu

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að ná takmarkinu í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun, að fara það á undir fjórum klukkustundum, segist Hákon vera það. Svo framarlega sem veðurspáin bregðist ekki og það fari að rigna. „Ef það gerist, ef það verður grenjandi rigning þá verður gripið ekki mikið á dekkjunum,“ útskýrir hann, „sem þýðir að það verður þrefalt erfiðara að ýta sér áfram og ná góðu tempói. Við þannig aðstæður fær maður fljótt sár á hendurnar ætli maður að ná almennilegri keyrsl-u.“

Hann segist vita að þetta séu háleit markmið en það vinni með honum að vera drífandi að eðlisfari og í góðu formi. Auk þess sé hann búinn að fá góða hvatningu frá vinum og vandamönnum og öllum þeim sem hafa þegar heitið á hann í maraþoninu en eins og áður sagði, ætlar hann að taka þátt til styrktar SEM, Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra á Íslandi. „Það er frábært að fá þessa góðu hvatningu,“ segir hann glaður bragði. „Ég er mjög ánægður með hana, þetta á eftir að gefa manni aukinn styrk á morgun.“

Tímalaus hönnun og umhverfisvæn framleiðsla

Happie er fyrirtæki sem sérhæfir sig í sérsmíði á húsgögnum fyrir heimili, hótel, veitingastaði og önnur fyrirtæki. Sérhæfnin felst ekki síst í járnsmíði og smíði með gegnheilum við. Hjónin Hafsteinn Helgi Halldórsson og Guðrún Agla Egilsdóttir eiga og reka fyrirtækið Happie og hafa ótrúlega gaman af nýjum hugmyndum og sjá hvað ímyndunaraflið getur framkallað.

Einstakur lífsstíll sem heillar, fjölskyldan við Hafravatn kann að lifa lífinu til fulls og láta drauma sína rætast.

Hver sagan að bak við tilurð fyrirtækisins ykkar? „Fæðing fyrirtækisins átti sér stað snemma árið 2015 þar sem við vorum að smíða húsgögn inn í litla kjallaraíbúð í Vesturbæ Reykjavíkur sem við bjuggum í þá. Myndir af mununum rötuðu á Internetið og í kjölfarið var fólk byrjað að banka á dyrnar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag erum við búin að koma okkur upp einbýlishúsi við Hafravatn ásamt því að vera með tvö verkstæði í Kópavoginum.“

Þið hafið skapað ykkur ákveðna sérstöðu með ykkar hönnun, getur þú sagt okkur nánar frá ykkar áherslu í hönnuninni og framleiðslu? „Við erum svo ótrúlega heppin með það að þeir sem finna okkur og koma í heimsókn á verkstæðið eru yfirleitt fólk með ákveðnar hugmyndir og hafa sama brennandi áhuga og við, skapa eitthvað einstakt sem gleður augað ásamt því að hafa gott notagildi. Svo virðist einnig sem rísandi sameiginlegur andi í samfélaginu sé fyrir því að efla íslenskt atvinnulíf og framleiðslu, enda eru ótrúlega margir aðilar sem koma að okkar fyrirtæki í heildarmyndinni. Ég tel, á okkar sviði, af minni reynslu í framleiðslu, að við séum framar mörgum nágrannalöndum okkar hvað varðar getu og hæfileika. Orðin íslensk hönnun og framleiðsla megum við klárlega hampa bein í baki,“ segir Hafsteinn og er bjartsýnn á framtíðina.

,,Við sérhæfum okkur mikið í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu.“

Hvernig myndir þú lýsa hönnunarstílnum ykkar? „Varðandi hönnunina þá er það samstarfsverkefni hverju sinni allra á verkstæðinu, Agla hefur verið augað í fyrirtækinu en við tökum flestar ákvarðanir í sameiningu og besta hugmyndin framleidd. Við erum líka það heppin að oft eru kúnnar okkar mjög skapandi og flestar ákvarðanir teknar í samstarfi við þá. Happie-stíllinn á að koma með hlýleikann frá náttúrunni inn á heimilið og blanda saman lífrænum línum náttúrunnar við einföld form. Takmarkið með hönnun okkar er alltaf að borðið sé jafnfallegt og það er gott að sitja við það. Það er hin gyllta blanda í hönnun – þægindi og fegurð.“

Eru nýungar á döfinni? ,,Hingað til höfum við einungis verið með verkstæði og erum við nýbúin að stækka við okkur og ráða nýjan starfsmann sem kemur ferskur inn með mikla reynslu frá meginlandinu. Þetta er mikil sérhæfing og hef ég leitað mikið erlendis eftir svörum við spurningum sem kunna að vakna og er því dásamlegt að fá ferskan blæ frá Evrópu á verkstæðið.“

Íbúð Hafsteins og Guðrúnar Öglu er Björt og falleg.

Hafsteinn og Agla horfa björtum augum til framtíðarinnar og ætla að halda áfram að vaxa og dafna. „Á dögunum auglýstum við eftir áhugasömum fjárfestum í Happie, og settum þau skilyrði að brennandi áhugi á íslenskri hönnun og handverki væri til staðar og hefur ekki staðið á fyrirspurnum. Það er ótrúlega gaman að sjá hversu margir hafa fylgst með okkur vaxa og hafa trú á okkur hjá Happie. Við höfum ekki náð að svara öllum en erum komin í viðræður við ótrúlega spennandi og skemmtilegt fólk með stórkostlegar hugmyndir. Þetta er samt skref sem við erum að skoða vel og það þarf að vera góður andi til staðar svo svona gangi upp.“

„Annars höfum við sjálf verið að fara í stækkunarframkvæmdir til að anna eftirspurn og bættum við okkur öðru verkstæði í Kópavoginum og erum að vinna að sýningarsal. Hingað til hefur fólk bara haft samband og kíkt við á verkstæðið, það er alltaf gaman, en ég tel að það sé margt fólk sem langar til að geta komið og séð fullkláraða vöru. En það kostar sitt að framleiða hvert húsgagn og höfum við sjálf ekki efni á að kaupa sýningareintök af okkar fallegustu vörum og hafa til sýnis, það var einn af hvötunum á bak við það að skoða það að fá fjárfesta inn og er ég viss um að út úr því komi einhver snilld.“

Hafsteinn og Guðrún Agla hafa komið sér vel fyrir í húsi síni við Hafravatn.

Leggið þið sérstaka áherslu á umhverfisvæna framleiðslu? „Við sérhæfum okkur í harðvið og vinnslu á harðvið. Smíðum borðin hér heima alveg frá grunni með járnsmiðnum okkar, gerum í raun allt nema að sjá um vöxt trjánna sem kemur að mestu frá Evrópu. Staðlar eru orðnir það strangir í dag á skógrækt og er efniviðurinn okkar merktur þeim staðli sem vottar að framleiðsla þess efnis er að framleiða fleiri tré en hún fellur. Timbur er eitt það umhverfisvænsta byggingarefni sem um getur. Við höfum líka verið dugleg að planta uppi í landi. Við notum einungis efni sem eru ekki eitruð fyrir húð eða við innöndun, við viljum hafa ferskan blæ öllum stundum á verkstæðinu hjá okkur. Olían okkar er til dæmis unnin úr plöntum en ekki jarðolíu.“

Stílhrein hönnun einkennir hús hjónanna.

Fallega húsið ykkar við Hafravatn heillar og fangar augað. Getur þú sagt okkur aðeins frá hugsjónum ykkar og lífsstíl? „Fyrir algjöra tilviljun skoðuðum við fasteignavefinn árið 2015 rétt áður en allt fór af stað þar og þar var þessi lóð búin að hanga inni. Við fórum og skoðuðum og gersamlega urðum heilluð við fyrstu sýn. Allt í bláberjum, lækur og ótrúlegt útsýni. Þetta er líka skammt frá bænum og er ég til að mynda sneggri heim í bláberjabrekkurnar heldur en í Vesturbæinn frá verkstæðinu. Hugmyndin með húsinu var alla tíð fjölskylduandi og njóta með fuglunum og dýrunum í náttúrunni. Pælingin var einnig allan tímann að gera þetta að stað þar sem fólk getur komið, slakað á og hlaðið sig áður en það heldur aftur inn í borgarlífið. Það hefur sko sannarlega virkað.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Forréttindi að vera í draumastarfinu

Þórey Ólafsdóttir er viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali, framkvæmdastjóri og einn af eigendum LANDMARK fasteignasölu. Þórey býr í notalegu raðhúsi í Garðabænum ásamt börnum sínum þremur, Andra Má, 18 ára, Arnari Má, 16 ára og Thelmu Lind, 13 ára, ásamt schnauzer-hundinum Skugga.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Það má kannski segja að það sem heilli mig mest við starfið séu þessi mannlegu samskipti, ánægjuleg upplifun viðskiptavina, gleði og einlægt þakklæti í lok fasteignaviðskipta. Það eru forréttindi að vera í draumastarfinu og hlakka til þess að mæta til vinnu á hverjum degi. Fasteignaviðskipti eru oftar en ekki þau stærstu sem fólk ræðst í og fáar fjárfestingar sem standa fólki nær.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Dagarnir eru nú mjög fjölbreyttir og því kannski enginn hefðbundinn vinnudagur sem slíkur. Ég byrja flesta daga í ræktinni, fer út að hlaupa eða hjóla til að næla mér í orku fyrir daginn. Skipulag dagsins ræðst svo af þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni, hvort sem það er daglegur rekstur stofunnar, móttaka viðskiptavina, tölvupóstsamskipti, verðmat, sölusýningar eða tilboðsgerð. Hjá LANDMARK starfar mjög öflugur og þéttur hópur sem í sameiningu gerir vinnudaginn með eindæmum skemmtilegan og litríkan.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Heimilið er griðastaður fjölskyldunnar og á að endurspegla þá sem þar búa. Heimilið tekur breytingum eftir tímabilum, aldri fjölskyldumeðlima og þarfa þeirra hverju sinni en þar á alltaf að ríkja gagnkvæmt traust og einlæg vinátta.“

Getur lýst þínum stíl?

„Ég veit ekki hvort ég fylgi ákveðnum stíl en mér finnst gaman að blanda saman gömlu og nýju, klassíku og módern hvort sem það er í umgjörð heimilisins eða fatavali. Ég er þó fremur minimalísk og vil frekar eiga fáa og vandaða muni eða flíkur sem ég vel af kostgæfni.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?

„Ég held að Sigvaldi Thordarson sé nú efstur á blaði hjá mér en hann var sannkallaður listamaður á sínu sviði. Stílhreinar línur, fallegir litir og frábært skipulag einkennir öll hans verk.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður?

„Ég er alltaf mjög hrifin af allri skandinavískri hönnun, Design by us og HAY sem dæmi en þegar kemur að innanhússhönnun þá er það klárlega æskuvinkona mín og innanhússarkitektinn hún Thelma Björk Friðriksdóttir.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast?

„Ég er mjög ánægð og þakklát með allt mitt og mína, frekar nægjusöm og vil hafa fáa en vandaða hluti í kringum mig. En það er kannski helst pottur á pallinn og útisturta sem kemur upp í hugann þar sem það er efst á óskalista barnanna um þessar mundir.“

Uppáhaldsliturinn þinn?

„Ég er frekar stílhrein, vel gjarnan ljósa tóna og held að það endurspegli bæði litapallettu heimilisins og fataskápsins.“

Hvar líður þér best?

„Þegar ég þarf að hreinsa hugann og sækja mér orku fer ég yfirleitt eitthvað út að hreyfa mig og líður einstaklega vel á hlaupum, hjóli eða uppi á fjalli. Annars líður mér klárlega best í stofunni heima, helst umkringd börnunum mínum og vinum. Samverustundir fjölskyldunnar mættu þó vera fleiri en eftir því sem krakkarnir eldast virðist vera minni tími með mömmu þar sem dagskrá þeirra er þéttskipuð íþróttaæfingum, vinnu og tíma með vinunum.“

Er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn?

„Mér finnst alltaf gaman að stússast úti við og setja niður sumarblómin en að teknu tilliti til fjölda sólarstunda þetta sumarið þá væri það helst ein risamarkísa, öflugur hitalampi og spurning um heita pottinn fyrir krakkana.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Við erum ótrúlega lánsöm að búa í borg þar sem fjölbreytni og úrval framúrskarandi veitingastaða er jafnmikið og raun ber vitni. Ég er mjög dugleg að fara út að borða og mínir uppáhaldsstaðir í dag eru Rok, Sumac og Apótekið en auk þess heimsæki ég Mathús Garðabæjar auðvitað mjög reglulega.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?

„Ég held að hver stíll hafi sinn sjarma en það er kannski helst módernisminn sem heillar mig perónulega.“

Að lifa lífinu lifandi er að …

„… setja sjálfa sig í forgang og gefa sér tíma til að rækta sjálfa sig. Verja góðum gæðastundum með börnum, fjölskyldu og vinum sem laða fram það besta í okkar fari því það gerir lífið svo skemmtilegt.“

Mynd / Hallur Karlsson

 

LED-húsnúmer eru falleg lýsing í myrkrinu

Glæsileg og nýstárleg sérsmíðuð LED-húsnúmer hönnuð og framleidd af Böðvari Sigurðssyni.

Ljósin komu fyrst á markað í nóvember á síðasta ári og Böðvar er mjög ánægður með viðbrögðin við ljósunum. Hann sérsmíðar á hús eftir pöntunum húseiganda um land allt. „Þegar sumri tekur að halla og haustið brestur á er það oft svo að fólk sér ekki númerin á húsum. LED-húsnúmerin henta einstaklega vel fyrir íslenskar aðstæður þar sem við búum við myrkrið yfirleitt níu mánuði ársins,“ segir Böðvar. Svo er það ekki bara notagildið heldur líka fagurfræðin, LED-húsnúmerin eru falleg og birtan sem þau gefa skemmtileg og lýsa upp húsin.

Ýmis litablæbrigði að óskum hvers og eins
Ledlýsing endist vel og eyðir sáralitlu rafmagni og er því einstaklega hagstæð í notkun. Hægt er að fá ljósin í lituðu og ryðfríu stáli og áli. Böðvar hannar þau bæði með tölustaf eða bókstöfum eftir óskum þeirra sem panta. „Einnig er hægt að fá litað gler yfir til að fá ýmis litablæbrigði á ljósið. Hvítt LED- ljós er bak við öll ljósin og kemur það með öllum tengingum,“ segir Böðvar. Ljósin eru til í tveimur stærðum, 29×29 cm og 29×40 cm stærð. Nú er lag að fá sér LED-húsnúmer og lýsa upp skammdegið, það gerir gæfumuninn.

Áhugasamir getað skoða fésbókarsíðuna LED húsnúmer

Nánari upplýsingar einnig í síma 789-3010 og á netfangið: [email protected]

 

Leyndardómurinn á bak við hönnunina – MIAMI BAR

|||||||
|||||||

Á fallegum góðviðrisdegi heimsóttum við nýjan lífsstílsstað í hjarta miðborgarinnar, Miami Bar við Hverfisgötu 33, sem mun verða opnaður von bráðar. Einstök sjón blasti við þegar inn kom, alveg nýtt útlit á stað sem á sér engan líkan. Hönnunin, stíllinn, munirnir, allt nýtt fyrir augað og upplifunin sömuleiðis. Okkur lék forvitni að vita allt um hönnunina, innanstokksmuni og hvaðeina sem fyrir augum bar. Við hittum þá Daníel Frey Atlason og Ivan Svan Corvasce og spjölluðum um tilurð staðarins og hugmyndafræðina sem liggur að baki.

Þeir félagarnir, Ivan Svanur, Gunnsteinn Helgi, einn af eigendum Miami Bar, og Martin Cabejšek, yfirþjónn á Miami Bar, eru afar ánægðir með útkomuna á staðnum og hlakka til að taka á móti gestum.

Daníel Freyr hönnuður er annar stofnenda og eigandi að hönnunarfyrirtækinu Döðlur, sem hannar allt milli himins og jarðar; frá ljósmyndum, myndböndum, auglýsingum, innsetningum á listaverkum, fatnaði, húsgögnum, hönnun á hótelum, hostelum og eru núna að klára að hanna sitt fyrsta verksmiðjuframleidda hús. Nafnið Döðlur kemur frá nöfnunum Daníel og Hörður. Bakgrunnur Daníels og meðeiganda hans Harðar kemur úr auglýsingageiranum. Það sem þeir gera að er að búa til hugmyndir, útfæra þær og hanna og koma þeim í framleiðslu. Starfsfólkið hjá Döðlum er þekkt fyrir að vera duglegt að framkvæma hina ótrúlegustu hluti og koma frjóum og stórum hugmyndum á blað og fara alla leið, það er ekkert sem stoppar þau. Starfsmennirnir hjá Döðlum eru sex talsins.

Hönnunin á Miami Bar er nýjasta afurð Daníels og félaga hjá Döðlum og vel hefur tekist til. Miami Bar, lífsstílsbar, mun verða opnaður á næstunni og lofar góðu. Staðurinn er á tveimur hæðum, fyrsta hæð og kjallari og einkenni staðarins er stíllinn en hann er með sérhönnuðum og sérsmíðuðum húsgögnum. Staðurinn er mjög framúrstefnulegur í módernískum stíl, lögun og stíll húsgagnanna vekur athygli, litirnir, formið, eins konar þrívíddarhönnun, fangar augað. Einnig er þar að finna marga athyglisverða muni og ljósin vekja eftirtekt.

Getur þú, Daníel, sagt okkur frá hönnuninni og hvaðan þið fenguð innblásturinn?

„Í fyrsta lagi þurftum við að taka mið af húsinu, en húsið er í svona póstmódernískum stíl og er frekar umdeilt hús. Í kringum húsið eru byggingar eins og Þjóðleikhúsið, danska sendiráðið, Þjóðmenningarhúsið og ýmsar aðrar opinberar byggingar. Eina húsið sem er skylt þessu húsi er bílastæðahúsið ská á móti sem mér finnst líka fallegt.Við þurftum svolítið að leggja höfuð í bleyti og það passaði ekki að hafa hvað sem er þegar inn er gengið gegnum dyrnar eins og skipulag rýmisins er. Við hefðum aldrei getað gert þarna svona týpískan bar, viðarklæddan með hipster-stemningu eins og margir barir eru. Þá kviknaði sú hugmynd að láta eins og það hafi alltaf verið staður þarna frá svona 1980, 80´s- tímabilið og fylgja því tímabili. Það var sú nálgun sem við tókum í upphafi. Kjallarinn hafði sterkan svip frá Memphis Milanó-tímabilinu sem einnig hafði sterk áhrif á Miami Vice-þættina sem gerðir voru í Bandaríkjunum á sínum tíma. Eigendur staðarins höfðu mikinn áhuga á að horfa til þess að hafa staðinn í Miami Vice anda og 80´s-tímabilið í forgrunni og við unnum út frá því. Við drukkum í okkur Miam Vice-þættina og horfðum á þá til að fá innblástur fyrir hönnunina,“ segir Daníel og brosir.

Hugguleg stemning.

Miami Vice- og Memphis Mílanó-stíllinn í forgrunni

„Þegar Miami Vice-þættirnir voru gerðir urðu ákveðin straumhvörf í amerískri þáttagerð varðandi hönnun og útlit því framleiðendur þeirra tóku þá ákvörðun að gera flottasta sjónvarpsþátt sem gerður hafði verið í Bandaríkjunum og lögðu mikið undir. Yfirhönnuðir þáttanna fóru til Mílanó til að ná sér í hugmyndir. Þar voru ungir hönnuðir að stiga sín fyrstu skref eins og Armani. Þess vegna eru til dæmis aðalleikarnir ekki í sokkum, það kemur fram hönnun frá Armani á þessu tímabili. Tískan þá var að ganga berfættur í skónum, mokkasíurnar voru móðins, tvíhnepptir jakkar og uppbrettar ermar, axlapúðar í tísku og pastellitirnir áberandi. Þetta blandast við Memphis Mílanó-tímabilið, en húsgagnahönnuðir þáttanna tóku inn þennan stíl í þættina með stórkostlegri útkomu. Miami Vice- þættirnir eru innblásnir af Memphis Mílanó-stílnum og kemur það sterkt inn í hönnunina á Miami Bar. Eins og áður sagði þá koma pastellitirnir sterkir inn, formin eru í anda Memphis Mílanó og allur fatnaður starfsfólks á staðnum er í anda Miami Vice-þáttanna og hannaður af okkur. Starfsmenn staðarins ganga í tvíhnepptum blazer-jökkum með axlapúðum, með uppbrettar ermar, brot í buxum og svo má lengi telja.

Brjóstlamparnir eru hannaðir af Studio Job og Venini, sérstaklega fyrir Miami Bar. Studio Job er einn virtasti glerframleiðandi í heiminum.

Sæbláir hlýrabolir koma sterkir inn sem og bleikir stuttermabolir, allt í anda Miami Vice. Gaman er að segja frá því að Don Johnson einn af aðalleikurunum í Miami Vice ætlaði ekki í fyrstu að taka að sér aðalhlutverk vegna þess að honum fannst fötin svo hallærisleg, tveimur árum eftir að þættirnir fóru í loftið þóttist hann hafa fundið upp þennan fatastíl og mæti ávallt klæddur í Miami Vice-stílnum í viðtöl, lét ekki sjá sig í sokkum og bar sig vel í jökkunum með axlapúðunum góðu,“ segir Daníel og hlær.

Daníel og félagar hjá Döðlum sáum um alla hönnun og útfærslu á húsnæðinu, litaval, lýsingu, húsbúnað, fatnað sem og útlit á grafískri hönnun lógó staðarins og vín- og kokteilseðlum hans í samráði við eigendur. Hugmyndafræðin og nálgunin kemur frá eigendum staðarins. Blaðamanni finnst útkoman vægast sagt hin glæsilegasta og telur líklegt að þessi staður eigi engan sér líkan. Daníel segir að staðurinn eigi sér enga fyrirmynd úti í heimi. Hönnunin er þeirra hugarfóstur þar sem óskir eigenda eru hafðar í forgrunni, en þeir vildu hafa staðinn í anda Miami Vice og vilja endurvekja þessa stemningu sem var á 80´s-tímabilinu. „Ætlunin er að koma aftur með kokteilana sem voru á þessum árum og endurvekja upplifunina sem var á 80´s-tímabilinu í nútímaformi,“ segir Daníel.

Módernískur skúlptúr

Listaverkið, myndin, með flamengófuglunum og kvenlíkamanum er einnig nýtt verk hannað fyrir Miami Bar í samstarfi við Döðlur og nýtur sín mjög vel á staðnum.

Módernískur skúlptúr kemur sterkur inn við hönnun staðarins. Barinn vekur strax eftirtekt þegar inn er komið á efri hæðina, sjónhverfing sem verður í kubbunum sem setur sterkan svip á staðinn. Staðurinn er teppalagður með skærgrænu teppi sem mjúkt er að ganga á og sófarnir eru í Memphis Mílanó-stíl, áklæðin mjúk og þægileg og öll form fanga augað.

Gestir geta eignast hluti sem þeir hafa áhuga á

Í kjallaranum er borðtennisstofa sem ber nafnið Ping Pong og er búið að hanna sérspaða og kúlur sem fólk mun geta keypt sér á heimasíðu staðarins. Einnig munu gestir geta keypt það sem þeim líst vel á, á heimasíðu staðarins hvort sem það er húsgagn eða fatnaður. Telja eigendur að staðurinn sé fyrsti sinni tegundar til að vera með sína eigin húsgagna- og fatalínu.

Barinn uppi og barinn niðri ásamt snyrtiborðunum eru smíðuð hérlendis en húsgögnin í Póllandi. Daníel efast að það séu til margir staðir sem innihalda jafnmarga hluti sem hannaðir hafa verið sérstaklega fyrir þá eins og Miami Bar.

Ein sú besta vinnuaðstaða á landinu – Barinn á Miami Bar

Ivan Svan Corvasce er einn af eigendum Miami Bars en Ivan Svanur hefur verið áberandi í veitinga- og næturlífinu í Reykjavík síðustu árin en hann hefur verið barþjónn á mörgum veitingahúsum sem bjóða upp á hágæða kokteila í bland við góðan mat, unninn af ástúð úr hágæða hráefni. Einnig hefur hann tekið þátt í og unnið til verðlauna í keppnum í faginu bæði innanlands sem utan. Hann tók við hinum svokölluðu Eagle Award sem er gefið á hverju ári til ungs barþjóns í Evrópu sem er talinn hafa skarað fram úr hjá Alþjóðasambandi barþjóna.

Vinnuaðstaðan á Miami bar er ein sú besta á landinu að sögn Ivans Svans og hönnuð af honum sjálfum. Ivan Svanur segir að markmið hönnunarinnar sé það að barþjónninn á ekki að þurfa að hreyfa sig mikið og því er allt sem hann notar við höndina. Barinn inniheldur tvær stöðvar með möguleika á þeirri þriðju.

Ping Pong Club.

„Ef tveir til þrír barþjónar eiga að geta gert yfir fimm hundruð kokteila á dag þarf skipulagið og samstarfið á milli þeirra að vera eins nálægt því að vera fullkomið og mögulegt er,“ segir Ivan Svanur. En barþjónar staðarins hafa unnið saman í mörg ár og þekkja stíl og hreyfingar hverra annarra í þaula.

Segðu okkur aðeins frá því sem í boði verður, kokteilunum og öðru skemmtilegu?

„Þegar fyrsta hugmyndin að Miami kom var það strax ljóst hver stefnan í drykkjaframboði staðarins yrði, að gera kokteila sem samsvara þema staðarins, drykki sem allir þekkja og voru á öllum helstu kokteilbörum Miami á níunda áratugnum. Drykkirnir urðu að klassík, gleymdust svo með tímanum og urðu seinna taldir hallærislegir. Við á Miami ákváðum að endurlífga þessa drykki á okkar eigin hátt úr hráefni í hæsta gæðaflokki. Við kynnum því með stolti, klassíska kokteilseðilinn okkar,“ segir Ivan Svanur og brosir breitt.

Sköpunargáfan fær að njóta sín í botn

„Barþjónarnir okkar bjóða einnig upp á „signature“-seðil þar sem sköpunargáfa þeirra fær að njóta sín í botn. Sá seðill breytist þrisvar til fjórum sinnum á ári og breytist þá einnig þema matseðilsins. Ekkert er til sparað í framsetningu á drykkjunum og eru þeir bragðmiklir og krefjandi. Skoða má seðilinn okkar á www.miamihverfisgata.com.

Hvert er leyndarmálið bak við kokteilana ykkar?

„Hráefnið og vinnubrögðin eru leyndarmálið. Það auðveldar manni lífið rosalega mikið að nota hráefni í hæsta gæðaflokki. Hvort sem við erum að tala um ferskt hráefni eins og ávexti, blóm og jurtir, áfeng hráefni eða blöndu af þessu öllu. Allt það hráefni sem við notum er sérvalið af yfirbarþjóninum Martin sem vinnur svo úr þeim þau innihaldsefni sem fara í drykkina. Við stoppum aldrei. Alla daga lítum við yfir lagerinn, líkjörana, safana og sírópin og hugsum hvernig við getum gert betur,“ segir Ivan Svanur og leggur mikla áherslu á hversu miklu máli hráefnið skiptir.

„Vinnubrögð, skipta öllu máli. Þegar góður barþjónn býr til drykk er hann með alla einbeitingu sína á því sem hann er að skapa. Ástríða fyrir sköpun drykkjarins finnst í áferð, bragði og lykt, þó svo að við tökum ekki alltaf eftir því.“

Ivan Svanur er einbeittur, vandar til verka og blandar kokteilana af hjartans list.

Hvaða kokteill er líklegastur til að verða vinsælastur?

„Ég bind miklar vonir við Sex on the Beach. Enda einn hallærislegasti drykkur allra tíma og er það því gott markmið. Að taka eitthvað svo hrikalega hallærislegt og gera það það vel að fólk panti drykkinn sama hvað nafnið á honum er. Svo er hann líka gott dæmi um það hver stefnan okkar er.“

Venjulegur Sex on the Beach inniheldur:

vodka
ferskjulíkjör
appelsínusafa
trönuberjasafa

Í okkar Sex on the Beach á Miami bar er:

vodka
Martini Bianco sem legið hefur með appelsínuberki og rósablöðum
ferskjupúrra
ferskur límónusafi
ferskur ananassafi
húsgert trönuberjasíróp
fersk ferskja
rósavatn

Hver er markhópurinn sem þið eruð að höfða til á Miami Bar?

„Allir eru velkomnir, markmið staðarins er að gleðja fólk. Ein ástæða þess að staðurinn er svona rosalega litríkur er sú að á meðan að fólk er hjá okkur viljum við að það gleymi öllu öðru, lifi algjörlega í núinu og gleðjist með okkur.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara. Sakarefni ákærunnar, sem er dagsett 28. júní, er peningaþvætti.

Júl­­íus Vífil var einn þeirra stjórn­­­mála­­manna sem voru opin­beraðir í Pana­ma­skjöl­unum og greint var frá í sér­­­stökum Kast­­ljós­þætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í árs­­byrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félags­­ins að nafn Júl­í­usar Víf­ils kæmi hvergi fram í tengslum við félag­ið, samkvæmt umfjölluninni.

Tveimur dögum áður en að Kastljósþátturinn var sýndur sendi Júlíus Vífill frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að tilgangurinn með stofnun aflandsfélagsins væri að stofna eftirlaunasjóð í Sviss. „Allt sem við kemur þessum sjóði er í samræmi við íslensk lög og reglur, enda naut ég sérfræðiráðgjafar til að tryggja að réttilega og löglega væri að málum staðið. Mér var ráðlagt að skrá stofnun sjóðsins í Panama. Ég hef hvorki fengið neitt greitt úr sjóðnum né haft af honum annars konar tekjur og hef ekki heimild til að ráðstafa fjármunum úr honum.”

Júlíus Vífill sagði af sér sem borgarfulltrúi 5. apríl 2016, tveimur dögum eftir að þátturinn var sýndur.

Þann 5. jan­úar 2017 kærði skatt­rann­­sókn­­ar­­stjóri Júl­íus Vífil til emb­ætti hér­­aðs­sak­­sókn­­ara vegna meintra brota á skatta­lögum og vegna gruns um pen­inga­þvætti. Við síð­­­ara brot­inu getur legið allt að sex ára fang­els­is­­dóm­­ur. Í kærunni kom fram að Júl­­íus Víf­ill hafi átt fjár­­muni á erlendum banka­­reikn­ingum að minnsta kosti frá árinu 2005.

Ítarlega er fjallað um málið í Mannlífi dagsins og á vef Kjarnans.

„Fólk getur ekki meir“

|
|

Sífellt fleira ungt fólk og fólk á miðj­um aldri leitar til Heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) í Hveragerði vegna kulnunar í starfi.

Haraldur Erlends­son, forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni.

Áður voru eldri borgarar og fólk sem glímdi við ofþyngd í meirihluta þeirra sem þangað leituðu. Fyrir um sex árum tók meðalaldurinn að lækka hratt og er nú svo komið að eldra fólk er um þriðjungur þeirra sem dvelja á Heilsustofnunni. Nýjasta breytingin á sam­setningu sjúklinga á stofnuninni er fólk á miðjum aldri sem er útbrunnið í starfi.

„Við sjáum mikið um kulnun í starfi hjá fólki á miðjum aldri, á milli fertugs og upp í sextugt. Það eru íslensku vinnuhestarnir, góðborgarar sem hafa afrekað tvö lífsverk á hálfri starfsævi. Þegar þeir eru komnir á miðj­an aldur þá kannski lenda þeir í samskipta­erf­iðleikum eða áföllum. Og þá geta þeir bara ekki meir og kulna,“ segir Haraldur Erlends­son, forstjóri og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni, og leggur áherslu á að skoðað sé hvaða undirliggjandi þættir valdi því að einstaklingarnir eru komnir í þessa stöðu. „Stundum er þetta áfallastreita, kvíði eða samskiptavandi.“

„Stundum er þetta áfallastreita, kvíði eða samskiptavandi.“

Hann getur þess að yngstu sjúklingarnir, sem eru 18 ára, glími við kvíða og þunglyndi og fleiri sjúkdóma. „Ástæðan fyrir því að svo ungt fólk er farið að leita til stofnunarinnar er sú að Sjúkratryggingar eru ekki með samning við neinn geðlækni á Suðurlandi og því er enginn starfandi geðlæknir í landshlutanum. Heimilislæknar þar vísa ungu fólki með andleg heilsufarsvandamál til okkar. Til viðbótar erum við í samstarfi við Virk starfsendur­hæfingu á Suðurlandi.“

Þá segir Haraldur æ algengara að þeir sem leiti til Heilsustofnunar­innar séu greindir með athyglis­brest með ofvirkni (ADHD). „Þetta er yfirleitt frekar duglegt fólk, vinnuhestar sem fleyta kerlingar í lífinu og þurfa að hafa nóg fyrir stafni, vinnur á við 2­3, og sefur kannski í aðeins fimm til sex klukkustundir. Á meðan þeir eru ungir og hraustir þá gengur allt vel. En þegar heilsan er aðeins farin að gefa sig þá geta þeir ekki hreyft sig eins mikið. Vinnuhestarnir lenda frekar í áföllum, þeir taka áföllin frekar nærri sér en aðrir, lenda þess vegna út á kanti og líður illa. Það skýrir kulnun í starfi. Við greinum mikið af fólki um miðjan aldur með þennan vanda og er það lykillinn að því að viðkomandi kemst aftur til vinnu,“ segir hann. Í kjölfar greiningar er mælt með mikilli hreyfingu, kennslu og iðkun núvitundar og fólki kennt að vinna úr áföllum sínum.

Haraldur segir hins vegar enn mikla fordóma gagnvart ADHD á Íslandi. Það skýrist af því að tiltölulega stutt sé síðan farið var að greina sjúkdóminn og vinna með hann. Aðeins um 25­30 ár séu síðan farið var að meðhöndla börn með ADHD að ráði og aðeins 5­10 ár síðan meðferð fyrir fullorðna bættist við. „Við eigum þess vegna langt í land með að sinna þessum hópi,“ segir hann og bætir við að miðað við það sem hann sjái sé hópurinn stærri á Íslandi með athyglisbrest en talið hafi verið.

„Tíu til fimmtán prósent þjóðarinnar gætu verið með athyglisbrest. Það jafngildir 30.000­50.000 manns á Íslandi.“

„Landlæknir hefur lýst yfir áhyggjum af því að athyglisbrestur er greindur í meiri mæli hér en í öðrum löndum og allt að 1% fólks sé á meðferð. Það er vanmeðferð. Tíu til fimmtán prósent þjóðarinnar gætu verið með athyglisbrest. Það jafngildir 30.000­50.000 manns á Íslandi. Nýjustu rannsóknir benda til að þetta sé að verða algengasti sjúkdóm­ur sem geðlæknar sinna og sá dýrasti fyrir mannkynið. Þeir sem eru með athyglisbrest klára ekki nám sitt, lenda oftar í slysum en aðrir, skilnaði, eru oftar frá vinnu og fara oftar til læknis. Þetta á við um margt ungt fólk hjá okkur. Það kemst ekki í vinnu á morgnana, heldur ekki út vinnudaginn og líður illa út af því seinni­part dags,“ segir Haraldur og vill aukna vit­und um athyglisbrest og meðferð við honum.

Fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið

|||
|||

Dugnaðarforkurinn, fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson greindist með MND-sjúkdóminn fyrir tæpu ári síðan. Þessu verkefni hefur hann tekið af æðruleysi og heldur fast í jákvæðnina. Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni Ágústs í Reykjavíkurmaraþoninu og segir hann ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi.

Ágúst og Guðrún eiginkona hans.

Ágúst H. Guðmundsson var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með hreyfitaugahrörnun, sem í daglegu tali er þekkt sem MND-sjúkdómurinn. Þessi glæsilegi maður sem alla tíð hafði verið heilsuhraustur segist fljótt hafa valið að fara leið jákvæðninnar þegar greiningin lá fyrir, þótt sjúkdómurinn væri ólæknandi. „Ég held að ég hafi undanfarið ár hlegið meira en nokkru sinni, langt yfir landsmeðaltali og nýt þannig dagsins. Maður hefur val um að vera jákvæður eða ekki,“ segir Ágúst.

Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni Ágústs í Reykjavíkurmaraþoninu um helgina og kemur það þeim sem þekkja hann ekki á óvart. Þegar hefur þessi rúmlega 300 manna hlaupahópur safnað yfir fimm milljónum króna fyrir MND-félagið sem er hæsta upphæðin sem hefur safnast með þessum hætti fyrir félagið. „Það er ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi. Vonandi er einhver tenging á milli þessa fjölda fólks við framkomu mína við það í gegnum árin. Ég tel að við öll eigum að leggja inn eins mikið af náungakærleik og frekast er kostur á okkar lífsleið því að við fáum það svo margfalt til baka þegar eitthvað bjátar á,“ bætir Ágúst við.

Gardínurnar dregnar frá

Aðeins voru þrír dagar liðnir frá fimmtugsafmæli Akureyringsins Ágústs þegar hann var greindur með MND-sjúkdóminn á Landspítalanum. Guðrún Gísladóttir, eiginkona hans, var þá stödd úti í Bandaríkjunum hjá Ásgerði Jönu, dóttur þeirra, en hún dvaldi þar við nám. „Ég var því einn í Reykjavík á Landspítalanum þegar ég fékk þessa greiningu. Það voru þung skref að stíga frá byggingunni út í bíl þar sem ég sat í dágóða stund og hreinlega grét einn með sjálfum mér. Ég hringdi svo í vin minn, Axel Björnsson, sem kom og studdi mig þessa fyrstu tíma eftir greiningu. Þetta var erfitt,“ segir Ágúst.

En Ágúst ákvað að nýta veganestið sem hann hafði í gegnum árin gefið drengjum sem hann hefur þjálfað í körfubolta á Akureyri; hann fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið. „Þótt vissulega sé þetta ekki auðvelt þá hjálpar það ekki mér og mínum aðstandendum að hafa allt á hornum sér. Því miður er það þannig að allt of margir sem greinast með MND fara þá leið að leggjast upp í rúm og draga gardínurnar fyrir og þá með skelfilegum afleiðingum.“

„Ég tel að við öll eigum að leggja inn eins mikið af náungakærleik og frekast er kostur á okkar lífsleið því að við fáum það svo margfalt til baka þegar eitthvað bjátar á.“

Hefur notið lífsins

Ágúst er fjölskyldumaður mikill og hefur ávallt varið miklum tíma með Guðrúnu eiginkonu sinni og börnunum þremur, Ásgerði Jönu, 21 árs, Júlíusi Orra, 16 ára, og Berglindi Evu sem verður níu ára í haust. Frá því að Ágúst var greindur með MND-sjúkdóminn hefur hann ferðast mikið. „Í dag get ég ekki verið annað en þakklátur enda nýt ég lífsins á alla kanta með samferðafólki mínu.“

Ágúst nýtur nú góðs af sterku sambandi sem hann hefur ræktað við marga í kringum sig. „Í mínum heimabæ, Akureyri, vita flestallir af þessum sjúkdómi sem er mikill léttir fyrir mig. Þá sérstaklega af því ég er orðinn illskiljanlegur en einnig vegna þess að ég get allt í einu farið að hágráta ef fólk sýnir mér velvild eða t.d. ég hitti einhvern í fyrsta skipti eftir greiningu. Það eru ein einkennin sem mér þykja hvað óþægilegust. Fólk sýnir þessu skilning og kippir sér ekki upp við þetta og af því að ég hef reynt að halda þessu á lofti.“

Frá því að Ágúst var greindur með MND-sjúkdóminn hefur hann ferðast mikið. Hér er hann á ferðalagi með Guðrúnu eiginkonu sinni og börnunum þremur, Ásgerði Jönu, 21 árs, Júlíusi Orra, 16 ára, og Berglindi Evu sem verður níu ára í haust.

Tvö meistaralið
Ágúst hefur haft áhrif á marga í gegnum körfuboltann þar sem hann hefur náð framúrskarandi árangri sem þjálfari hjá Þór Akureyri. Eftir að hafa þjálfað í afleysingum til að byrja með, tók hann við fyrsta flokknum sínum árið 1993. „Ég valdi mér flokk sem hafði verið frekar baldinn en fjölmennur.  Virkir strákar en afskaplega lélegir í körfubolta, það verður að segjast. Þeir voru með lélegustu liðum landsins í svokölluðum D-riðli. Ég sá tækifærið í krafti og fjölda drengjanna. Ætlaði að hrista duglega upp í þeim og átti von á að margir myndu hætta en það þveröfuga gerðist, það stórfjölgaði í hópnum,“ rifjar Ágúst upp.

Flokkurinn tók stórstígum framförum og varð á endanum Íslandsmeistari. Síðar urðu þessir drengir að kjölfestu meistaraflokks Þórs undir stjórn Ágústs og unnu meðal annars sjö leiki í röð í efstu deild.
Ágúst hætti þjálfun um skeið en ákvað að taka þjálfaraspjaldið af hillunni þegar Júlíus Orri, sonur hans, fékk áhuga á íþróttinni. Júlíus þótti efnilegur knattspyrnumaður og segist Ágúst hafa vonað að hann yrði áfram í fótboltanum í KA. „Líklega hefur áhugi minn smitað guttann en ég ýtti körfunni aldrei að honum. Þegar hann var svo staðráðinn í því að æfa körfu fór ég, liggur við tilneyddur, að þjálfa aftur. Mér fannst erfitt að horfa upp á starfið líkt og það var.“

Aftur byggði Ágúst upp meistaralið. Júlíus Orri og jafnaldrar hans sem fæddir eru árið 2001, hafa bæði orðið Íslands- og bikarmeistarar hér á landi, auk þess að vinna Scania Cup; sterkasta mót Norðurlandanna.

Ágúst H. Guðmundsson hefur haft áhrif á marga í gegnum körfuboltann og náð framúrskarandi árangri sem þjálfari hjá Þór Akureyri. Hér er hann með Tryggva Hlinasyni körfuboltamanni úr Bárðardal.

Hugsanlega með NBA-leikmann í höndunum

Meðal þess sem Ágúst hefur gert undanfarið var að fara til New York, að fylgja Bárðdælingnum Tryggva Hlinasyni, sem var boðið að taka þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar. Ágúst var hluti af teyminu sem tók á móti Tryggva hjá Þórsurum, en þessi tröllvaxni ungi maður úr Bárðardal er tæplega 220 sentimetrar á hæð og sterklega byggður. Hjá Þór æfði Tryggvi undir stjórn Bjarka Oddssonar og fóru þeir félagar strax í að hafa samband við forsvarsmenn Körfuknattleikssambandsins, enda ekki oft sem svona skrokkar sjást hér á parkettum íslenskra íþróttahúsa. Tryggvi samdi tvítugur við Spánarmeistarana Valencia og mun á næsta ári leika með öðru liði í spænsku úrvalsdeildinni.

Stuðningurinn mikilvægur

Margir fyrrum lærisveinar Ágústs úr körfuboltanum ætla sér að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu, auk fleiri samferðamanna sem þessi duglegi maður sem fæddist á Patreksfirði hefur haft áhrif á í gegnum tíðina. Hópurinn í kringum Ágúst safnar fyrir MND-félagið og segir Ágúst fjármunina fara á góðan stað. „Þetta skiptir hreinlega öllu máli. Þegar fólk greinist með MND þá ekki bara dettur sjúklingurinn af launaskrá heldur er viðbúið að maki viðkomandi þurfi að hætta vinnu líka þar sem þörf til aðstoðar verður mikil. Hlutfallslega fáir greinast með þennan illvíga sjúkdóm og því verður að segjast að heilbrigðisyfirvöld leggja lítið í málaflokkinn. MND-félagið greiðir því fyrir lækna og hjúkrunarfólk á ráðstefnur erlendis svo heilbrigðiskerfið sé með á nótunum og nái að létta undir með sjúklingum. Einnig niðurgreiðir félagið hjálpartæki og sýnir fjölskyldum stuðning þar sem við á. MND-félagið hefur gefið mér mikinn andlegan og félagslegan stuðning undir forystu Guðjóns Sigurðssonar,“ segir Ágúst.

Enn er hægt að heita á þá sem hlaupa í nafni Ágústs á vefsíðunni Hlaupastyrkur.is.

 

„Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna“

||||||
||||||

Rapparinn Herra Hnetusmjör hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á Íslandi. Hann er 21 árs gamall og stjórnar nú fjöllistahópnum KBE, eða Kóp Bois Entertainment, sem hann stofnaði og ætlar að gera að stórveldi. Hópurinn telur meðal annars tónlistarmennina Hugin og Birni, og er hugmyndafræðin á bak við KBE að gefa ungum og efnilegum tónlistarmönnum tækifæri til að láta ljós sitt skína. Herra Hnetusmjör hugsar í peningum, selur sig dýrt og trúir því að hann sé besti rappari á Íslandi.

„Ég held að þú getir ekki verið bestur í neinu ef þú trúir því ekki að þú getir verið bestur. Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna,“ segir Herra Hnetusmjör. Hann er mjög öruggur í fasi, eiginlega það öruggur að mann grunar að það sé bara uppgerð. Gríma til að fela óöryggið innra.

„Já, ég er rosalega hrokafullur,“ segir rapparinn hispurslaust og heldur áfram. „Það er minn brestur. Ég get verið algjör hrokabolti og það er mikill galli en líka kostur. Hrokinn fer misvel í fólk og sumir einfaldlega þola mig ekki. Halda að ég sé pínulítill inni í mér og að hrokinn sé bara frontur. En ég virkilega trúi á sjálfan mig. Það gerist mjög sjaldan að ég efist um sjálfan mig. Ég trúi og treysti að það fari allt eins og það eigi að fara.“

Herra Hnetusmjör er vel flúraður og er til dæmis með Kóp Boi flúrað yfir magann sinn, sem er vísan í Thug Life sem Tupac var með flúrað yfir maga sinn.

Andleg vakning yfir Akon

Rapparinn segir hann hafa verið með sjálfstraustið í botni síðan hann var ungur snáði að alast upp í Hveragerði.

„Mamma hefur alltaf sagt að ég sé bestur,“ segir hann og hlær. „Ég er rosalega mikill mömmustrákur,“ bætir hann við. Hann er yngstur af fimm systkinum og eru sextán ár á milli hans og elsta bróður hans. Foreldrar hans eru Árni Magnússon, fyrrverandi ráðherra, og Edda Björg Björgvinsdóttir, fyrrverandi verslunarkona, en þau eru ekki saman í dag. Herra Hnetusmjör segist vera afar náinn foreldrum sínum og systkinum, þó að hann muni lítið eftir þeim þremur elstu á æskuheimilinu sem var að Lyngheiði 12 í Hveragerði.

„Ég á eina systur sem er tveimur árum eldri en ég og ég man mest eftir henni á heimilinu. Hin voru orðnir unglingar og ég man lítið eftir þeim heima. Tíminn í Hveragerði var mjög næs. Mamma og pabbi eru upprunalega úr Kópavogi en ég held að þau hafi flutt austur því þar var gott að vera og ódýrt húsnæði. Það var líka mjög gott að ala þar upp börn. Ég var alltaf úti að hjóla og allir þekktust þar sem þetta var lítið samfélag,“ segir Herra Hnetusmjör. Fjölskyldan flutti á Bifröst í hálft ár þegar rapparinn byrjaði í 4. bekk og hann kláraði bekkinn svo í Hveragerði. Síðan flutti fjölskyldan búferlum í Grafarvog í eitt ár og svo kallaði 203 Kópavogur.

„Ég kenni mig mikið við Kópavoginn. Ég var bara barn í Hveragerði og ekki byrjaður að mótast þar sem persóna,“ segir rapparinn en þeir sem hlusta á hann finna sterkt fyrir tengingunni við Kópavog. Til dæmis er auðvelt að þekkja lög Herrans á því að hann byrjar þau á sínum einkennisorðum, eða taggi, Kóp Bois. Það var nú samt í Hveragerði sem rappáhuginn kviknaði og hefur ekki slokknað síðan.

Rapparinn segist vera meiri tónlistarmaður en bisnessmaður, en hann er klókur í viðskiptum og ætlar sér að græða mikla peninga.

„Ég kynntist rappi í gegnum besta vin minn, hann Bjössa,“ segir Herra Hnetusmjör en myndin sem prýðir fyrsta plötuumslag rapparans, Flottur skrákur, sem kom út árið 2015, er einmitt af þeim Bjössa þegar þeir voru litlir snáðar. „Bróðir hans, Sammi, var með 50 Cent-plaköt uppi á vegg í herberginu sínu og við stálumst oft þangað inn til að máta föt af honum. Við hlustuðum mikið á diskana hans en fyrsta lagið sem kveikti áhugann hjá mér var Go To Church með Ice Cube, Snoop Dogg og Lil Jon. Ég hugsaði bara: Vó, hvað þetta er fokking klikkað. Fyrsta platan sem ég keypti mér var síðan Trouble með Akon, þegar við bjuggum á Bifröst. Þá var ég að horfa á Popptíví, sá myndbandið við Lonely og fékk andlega vakningu. Þannig að ég gerði mér ferð í bæinn í Skífuna, keypti plötuna og hlustaði á hana í vasadiskóinu mínu. Ég var gríðarlegur Akon-aðdáandi og er það enn í dag,“ segir rapparinn.

Ekki kominn í mútur að rappa um peninga

Þegar hann flutti í Kópavoginn magnaðist rappáhuginn. Hann gekk í Vatnsendaskóla sem þá var tiltölulega nýr og kynntist fljótt strák, Sindra, með svipuð áhugamál.

„Þegar ég var í frímínútum í 6. bekk sá ég strák með durag, sem er klútur sem svart fólk notar til að móta afróið sitt, en 50 Cent var alltaf með svona. Þetta var tískan árið 2004 í rappinu. Ég gekk upp að honum og sagði: „Blessaður. Ertu með durag? Ég á líka durag.“ Síðan kynntum við okkur og urðum bestu vinir út frá duraginu,“ segir Herrann. Fljótlega byrjuðu þeir Sindri að fikra sig áfram í tónlist.

„Við stálum kameru frá pabba og byrjuðum að búa til myndbönd. Svo keyptu mamma og pabbi Apple-tölvu, sem í minningunni var eins og geimskip, og allt í einu var hægt að klippa myndbönd og búa til lög. Við vorum mikið í því, ég og Sindri. Við byrjuðum að fikta ógeðslega mikið og í 7. bekk fórum við að rappa. Við erum báðir miklir aðdáendur bandarísks rapps og mér fannst íslenska rappsenan mjög asnaleg. Þannig að við byrjuðum að rappa í djóki,“ segir hann en þá fyrst fæddist nafnið Herra Hnetusmjör.

„Ég pikkaði upp nafnið Herra Hnetusmjör og Sindri flakkaði á milli nafna en varð loks Sir Sulta. Saman mynduðum við tvíeykið Nautalundir. Við vorum alltaf að prakkarast, spreia á veggi og reyna að fullorðnast. Í 10. bekk keypti ég síðan míkrófón á Netinu,“ segir Herra Hnetusmjör og bendir á umtalaðan hljóðnema sem er enn í dag í góðu gildi í stúdíóinu hans. „Við tengdum míkrófóninn við Makkann hans pabba, byrjuðum að stela töktum á YouTube og gera lög sem Nautalundir. Ég á þetta einhvers staðar í gömlu tölvunni hans pabba. Lög þar sem við erum ekki komnir í mútur og erum að rappa um peninga,“ segir hann og hlær.

Uppreisnarseggur í skóla

Eftir 10. bekkinn lá leið Sindra í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en Herra Hnetusmjör fór í Menntaskólann í Kópavogi.

„Ég ætlaði að elta Sindra í FB en komst ekki inn,“ segir hann.
„Varstu svona afleitur námsmaður?“ spyr blaðamaður.

„Tja, ég féll í dönsku og stærðfræði. Ég er þannig gerður að ég geri ekki það sem ég vil ekki gera. Ég fór í mótþróa gegn dönsku. Ég prófaði að læra hana fyrst um sinn en síðan fannst mér hún svo leiðinleg að ég ákvað að ég ætlaði ekki að læra hana. Ég var mjög erfiður í tímum og mótmælti mikið. Með stærðfræðina, þá sá ég engan tilgang að læra hana. Það eru allir með iPhone og þú þarft ekkert að kunna stærðfræði nema þegar þú þarft að hjálpa börnunum þínum með heimalærdóminn. Það eru einu tilvikin þar sem þú þarft á stærðfræði að halda. Ég var smávandræðabarn en samt rosalega góður strákur. En ég var uppreisnarseggur þegar kom að því sem ég vildi ekki gera – þá var ekki séns að fá mig til að gera það. Ég vil bara gera það sem mér finnst skemmtilegt. Mér fannst skemmtilegt í sögu og íslensku en hafði lítinn metnað fyrir því sem mér fannst ekki skemmtilegt.“

Herra Hnetusmjör er edrú í dag eftir erfiða tíma árið 2016.

Partí í kjallaranum hjá Elíasi

Í Menntaskólanum í Kópavogi byrjaði Herra Hnetusmjör að umgangast krakka af Kársnesinu í Kópavogi. Þá fór hann að einbeita sér enn frekar að rappinu.

„Við byrjuðum að drekka og unglingast eitthvað og ég sýndi þeim þessi gömlu rapplög. Þá datt þeim í hug að við ættum að gera lag saman. Þannig að í einhverju bríaríi sendi ég skilaboð til Erps á Facebook,“ segir Herra Hnetusmjör og vísar þar í rapparann Erp Eyvindarson. „Ég sagði honum að við værum krakkar úr Kópavogi, værum að gera lag og spurði hvort hann vildi taka þátt í því. Ég sendi honum textann en síðan datt þetta lag upp fyrir. En ég hélt áfram að taka upp eitthvert fokkerí og sendi á hann. Við byrjuðum að spjalla og þá fyrst tók ég ákvörðun að verða rappari. Ég ákvað að halda áfram undir nafninu Herra Hnetusmjör og Erpur fór að draga mig, sextán ára guttann, með sér á gigg. Ég man eftir mér að spila á börum úti á landi með Erpi og það var ógeðslega gaman. Mikið ævintýri,“ segir hann. Árið 2014 gaf hann síðan út sitt fyrsta lag, Elías, sem vakti mikla athygli.

„Það varð að einhverri költ-klassík meðal unglinga. Í laginu rappa ég um Kársneskrakkana og að við höfum alltaf verið að drekka og halda partí í kjallaranum hjá strák sem heitir Elías. Algjört unglingadót.“

5000 kall fyrir fyrsta giggið

Í framhaldinu gaf Herra Hnetusmjör út fleiri lög og sumarið 2014 var hann farinn að troða upp hér og þar.

„Fyrsta giggið sem ég fékk borgað fyrir var í Hörðuvallaskóla, á balli fyrir 8. til 10. bekk. Ég átti heima rétt hjá þannig að ég rölti bara yfir og tók giggið. Ég fékk 5000 kall borgaðan og mér fannst það geðveikt,“ segir rapparinn en Erpur var búinn að kenna honum margt á stuttum tíma. „Hann var minn lærifaðir og setti mér alls konar siðareglur sem ég fór eftir, til dæmis að drekka aldrei fyrir grunnskóla- eða menntaskólagigg.“

„Ég ólst upp á hip hop-i og rappi og rappið sem ég hlustaði á snerist um að maður yrði að vera bestur. Menn röppuðu um milljón dollara bílana sína, að þeir væru bestir og allir aðrir ömurlegir. Ég mótaðist af þessu. Ég rappa um að ég sé bestur.“

Eftir þetta sumar eyddi Herra Hnetusmjör miklum tíma með Erpi, en meðleigjandi hans á þeim tíma var maður að nafni Arnór Gíslason. Einn daginn hringdi téður Arnór í Herra Hnetusmjör og vildi gerast umboðsmaðurinn hans.

„Hann pikkaði mig upp í MK og við fórum á Taco Bell að ræða málin. Mér fannst þetta kúl. Það var mikið statement að vera með umboðsmann og hann fílaði greinilega tónlistina mína. Við byrjuðum okkar samstarf í október árið 2014. Í framhaldinu fór ég að tala við strák sem kallaði sig Joe Frazier og við sameinuðum krafta okkar. Við gerðum fyrst lag sem var ekkert sérstakt en síðan fórum við í stúdíó og gerðum lagið Hvítur bolur gullkeðja sem var „breakout“ fyrir mig. Upp frá því vorum við alltaf uppi í stúdíói og bjuggum til fyrstu hittarana mína, eins og Selfie,“ segir rapparinn.

Fyrsta plata rapparans, Flottur skrákur, kom út á afmælisdegi Herra Hnetusmjörs, þann 31. ágúst árið 2015. Stuttu síðar gáfu þeir Joe Frazier út svokallað mix tape sem heitir Bomber Bois. Þá er KBE, eða Kóp Bois Entertainment, byrjað að taka á sig mynd og síðar gekk plötusnúðurinn DJ Spegill í hópinn. Þá var kjarninn kominn – Herra Hnetusmjör rappaði, Joe Frazier bjó til takta, DJ Spegill þeytti skífum og Arnór Gíslason var í hlutverki umboðsmannsins. Rétt er að taka fram að Joe Frazier hætti í KBE fyrir stuttu vegna gruns um stolinn takt í laginu Labbilabb á plötunni Kópboi. Í hópnum í dag er einnig pródúserinn Þormóður.

Mikill léttir að fara í meðferð á Vogi

Á þessum tíma var Herra Hnetusmjör hættur í MK, en árið 2016 átti eftir að reynast honum erfitt.

„Ég var með fullt af lögum í spilun í útvarpi og var til dæmis bókaður á stórt svið á Secret Solstice. En ég missti mig. Ég fór út af brautinni og hætti að gera tónlist. Ég var bara að djamma og spila,“ segir Herra Hnetusmjör og heldur áfram. „Ég var farinn að missa tökin meira og meira og sumarið 2016 missti ég þau endanlega. Þá var ég í max rugli og á öllu sem hægt er að hugsa sér. Ég týndist bara í sósunni. Sumarið 2016 var mjög dimmur tími.“ Þetta ár gaf Herra Hnetusmjör bara út eitt lag sem hann segir mjög lýsandi fyrir þetta tímabil í sínu lífi.

„Ég gerði tvö lög árið 2016 og gaf annað af þeim út – 203 stjórinn. Þegar ég horfi á ferilinn minn eru tímamótin, tónlistarlega séð, þegar ég gaf út fyrsta lagið mitt Elías, Hvítur bolur gullkeðja, fyrsta lagið sem ég vann 100% með Joe Frazier sem var miklu meira professional, og síðan 203 stjórinn. Þá var ég kominn með sólgleraugu og byrjaður að öskra Kóp Bois. Herra Hnetusmjör í dag er mjög mótaður af 203 stjórinn. Ég tók meðvitaða ákvörðun að ég ætlaði alltaf að vera með sólgleraugu og nota Kóp Bois sem tagg í öllum lögum. Það var max neysla í gangi þegar ég gaf út 203 stjórinn og myndbandið er heimildarmynd um síðasta djammið mitt. Ein af fyrstu línunum í laginu er: Sólgleraugu inni því ég er dópaður á’því,“ segir Herra Hnetusmjör, en lagið kom út þegar hann var kominn inn á Vog í meðferð.

„Ég bjó hjá foreldrum mínum og fór leynt með þetta. En ég þurfti að taka þessa ákvörðun sjálfur að fara inn á Vog og ég gat ekki tekið þessa ákvörðun fyrr en mér leið nógu illa. Það var mikill léttir að koma inn á Vog. Eins og þetta væri allt búið. Ég er alkóhólisti og sama hvað ég var með skýr markmið á öllum sviðum og vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera þá tók alkóhólistinn alltaf yfir. Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér. Eftir Vog fór ég í mánuð í eftirmeðferð á Staðarfelli og þá kom 203 Stjórinn út á Spotify. Ég fór mjög leynt með hvar ég væri og það vissi það í raun enginn,“ segir rapparinn. Áður en hann varð edrú bauðst honum að semja lagið Þetta má með Emmsjé Gauta, sem var stórt tækifæri fyrir hann, og lagið átti eftir að slá í gegn. Hann samdi textann við lagið áður en hann fór í meðferð og tók upp myndbandið þegar henni var lokið.

„Textinn í laginu mín megin er bara neysla. Ég segi mikið í hraða partinum sem fólk kannski heyrir ekki, en ég vitna til dæmis í seríur 3 til 7 af Friends þegar Matthew Perry, sem lék Chandler, var í hvað mesta rugli. Lagið kom út í byrjun árs 2017 og það var að skríða yfir milljón spilanir á Spotify. við tók aðeins heilbrigðara líferni. Allt varð mun þægilegra þegar ég hætti í rugli.“

Kúplaði sig út úr djamminu

Herra Hnetusmjör segist hafa fundið sína leið til að halda sér á beinu brautinni, þó að suma daga sé það ekki auðvelt.

„Ég þarf að vinna fyrir því að vera edrú og ég legg inn mikla vinnu. Ég spái ekki í það að fá mér allan daginn, en ég tók leiðsögn og fór leið sem hjálpar mér að vera edrú. Ég þarf ekki að fá mér svo lengi sem ég held mér á þessari leið. Ég kúplaði mig út úr þeim hliðum bransans sem ég þarf ekki að vera í – partíunum og djamminu. Ég mæti bara þegar ég á að spila og er farinn í uppklappinu. Ég hangi ekki niðri í bæ. Ég vakna og vinn í stúdíóinu. Síðan fer ég heim til kærustunnar minnar og horfi á Netflix og tjilla. Ég er ekkert að tónlistast heima. Ég þvæ þvott, horfi á Netflix og segi kærustunni minni að ég elski hana. Svo á ég kannski gigg um miðja nótt þannig að ég keyri á staðinn, tek giggið og fer svo aftur heim. Auðvitað er erfitt að halda rútínu í þessum bransa en ég reyni eins og ég get. Ég er mjög stoltur af því að vera edrú,“ segir hann.

Sú eina rétta

Herra Hnetusmjör gaf út plötuna Kópboi í fyrra, en nokkrum mánuðum áður en hún kom út hætti hann að vinna vinnu sem tengdist ekki tónlist og lifir nú algjörlega af músíkinni. Það var fleira sem gerðist árið 2017 en þá kynntist hann líka kærustu sinni, Söru, og búa þau skötuhjúin saman í dag.

„Hún er edrú líka. Ég er mjög þakklátur að ég kynntist henni ekki þegar ég var í neyslu. Við kynntumst í gegnum sameiginlega vinkonu og hún er sú eina rétta. Það er enginn vafi,“ segir rapparinn. En fílar kærastan rapp?

„Hún fílar mig,“ segir hann og hlær. En hvað með að stofna til fjölskyldu, er það eitthvað í kortunum hjá tónlistarmanninum?

„Ég myndi ekkert fríka út ef ég myndi verða pabbi í dag. Ég er á svo allt öðrum stað en ég var á fyrir tveimur árum. Í dag bý ég með kærustunni minni og rek mitt eigið fyrirtæki. Ég held að ég myndi ekki fríka út þótt það sé ekkert á dagskrá. Það gerist bara það sem gerist.“

Herra Hnetusmjör gengur ávallt með sólgleraugu.

„Mig langar í mikið af peningum“

Herra Hnetusmjör segist vera meiri tónlistarmaður en bisnessmaður, þótt viðskiptalega hliðin á tónlistarheiminum sé honum mjög hugleikin. Í heimi áhrifavalda segist hann ekki vilja leggja nafn sitt við vörur sem eru honum ekki að skapi, en þegar ónefnd fyrirtæki voru farin að nota nafnið hans til að selja varning varð honum nóg um og fékk sér einkaleyfi á bæði nafnið Herra Hnetusmjör og KBE í mörgum flokkum hjá Einkaleyfastofu.

„Það hefur komið fyrir að menn hafa notað nafnið mitt til að selja vörur sem ég er ekkert tengdur. Ónefnd ísbúð notaði til dæmis nafnið mitt og svo var líka drykkur sem var kallaður eftir mér á Reykjavík Cocktail Weekend. Ég var alls ekki sáttur við það. Nú er þetta á pappírum og ef þú ætlar að nota nafnið mitt án leyfis þá mætir lögfræðingur á skrifstofuna þína. Það er ekki næs þegar einhver er að græða peninga sem ég sé ekkert af,“ segir Herra Hnetusmjör. Honum er einmitt tíðrætt um peninga og eins og kom fram hér á undan fjallaði fyrsta rapplagið hans, sem samið var í gríni af ungum snáða, um peninga.

„Mig hefur alltaf langað í peninga. Mig langar í mikið af peningum. Bandaríski rapparinn 21 Savage sagði einu sinni í viðtali að honum væri drullusama hver besti rapparinn væri. Hann vildi ekkert vera með í þeim samanburði. Hann var að reyna að vera ríkasti rapparinn. Ég tengi við það, þó að ég sé mjög stoltur af rappinu. Ég trúi því að ég sé langbesti rapparinn á Íslandi en ég vil líka græða,“ segir hann. En er hann orðinn ríkur af rappinu?

„Ég hef það fínt,“ segir hann og glottir.

Gucci og Louis með gulltennur og seðlabúnt

Hann hlýtur að hafa það ansi fínt ef marka má lífsstílinn. Hann keyrir um á skjannahvítri eðalkerru með drapplituðu leðuráklæði, á fleiri Gucci-sólgleraugu en góðu hófi gegnir og gengur um með rándýra Louis Vuitton-handtösku. Burberry er líka áberandi í fataskápnum, en hann á heilt fataherbergi sem er stútfullt af merkjavöru. Svo má ekki gleyma sérsmíðaða gómnum sem hann smellir upp í sig við sérstök tilefni, en gómurinn er úr fjórtán karata gulli. Hann segir að klæðaburðinn hafi mótast af bandarísku hetjunum í rappheiminum.

Takið eftir Gucci gleraugunum.

„Ég ólst upp við að horfa á myndbönd hjá Rick Ross og þessum gaurum. Þeir keyrðu um á Bentleyum, voru með gulltennur og risastórar keðjur um hálsinn. Þeir voru fyrirmyndirnar mínar. Ég fylgdist ekkert með fótbolta – ég horfði á rappmyndbönd. Mig langaði að vera svona – Gucci og Louis, með gulltennur og seðlabúnt,“ segir Herra Hnetusmjör. Hann var bara tíu ára gamall þegar hann keypti sér fyrstu rappflíkurnar í fataskápinn.

„Ég fór til Flórída með fjölskyldunni minni og fór inn í verslun sem heitir Echo Unlimited. Ég gekk þarna inn og það var verið að blasta rapptónlist og gullkeðjur með spinner-felgum út um allt. Ég keypti mér til dæmis jakka í XXL sem náði niður fyrir hné. Ég á jakkann enn og hann passar á mig í dag. Svo keypti ég gallastuttbuxur sem pössuðu á mig sem síðbuxur. Ég keypti líka gullkeðjur með spinner-felgum og speglasólgleraugu. Ég hafði aldrei séð neitt svona á Íslandi og ég varð að fá þetta,“ segir hann. En hver er dýrasta flíkin sem hann á?

„Það er örugglega Gucci-úlpan mín. Hún kostaði 240 þúsund kall. Ég á líka Gucci-íþróttagalla sem kostaði 200.000 kall. Flíkurnar mínar kosta ekki allar svona mikið en þegar þær eru settar saman er þetta mikill peningur. Ég fæ að leyfa mér þetta rugl því ég eyði ekki lengur peningum í fíkniefni.“

Skattrannsókn og kaldur sviti

Mér leikur forvitni á að vita meira um KBE ehf., fyrirtækið sem Herra Hnetusmjör rekur og virðist vera í miklum blóma.

„Umboðsmaðurinn minn sé mikið um bisnesshliðina þótt ég komi líka að henni. Hann er tíu árum eldri en ég og var með sitt fyrirtæki áður. Ég gæti ekki gert þetta einn. Hann sér mikið um virðisaukaskattskil og símtöl við endurskoðandann og þess háttar, á meðan ég kem með hugmyndir, framkvæmi og geri tónlist,“ segir rapparinn. Það vakti einmitt athygli á dögunum þegar leikkonan Steiney Skúladóttir lýsti áhyggjum sínum á Twitter yfir því hve mikið Herra Hnetusmjör rappar um að vinna svart, til dæmis í laginu Labbilabb af Kópboi.

„Já, Skatturinn er alveg búinn að koma,“ segir rapparinn og brosir. „En við erum með allt okkar á hreinu. Við borgum í lífeyrissjóð og skilum skattaframtölum eins og öll önnur fyrirtæki. Ég viðurkenni samt alveg að ég fékk kaldan svita þegar Arnór, umboðsmaðurinn minn, hringdi og sagðist hafa fengið bréf frá Skattinum. En þetta blessaðist allt. Við höfum ekkert að fela.“

Vondi karlinn i Disney-mynd

Undir merkjum KBE ehf. gefur Herra Hnetusmjör út sína eigin tónlist og annarra, stendur fyrir tónleikum og ýmislegt fleira. Nýjasta verkefnið er hnetusmjörið Herra Hnetusmjör sem framleitt er af H-Berg og er komið í verslanir.

„Það eru engin geimvísindi að Herra Hnetusmjör búi til Herra Hnetusmjör. Ég er mjög stoltur af þessari vöru. Þetta er besta hnetusmjörið sem til er,“ segir hann og stefnir greinilega að frekari landvinningum í viðskiptum.

„Ef mér dettur eitthvað skemmtilegt í hug þá geri ég það. Rick Ross er til dæmis með sinn eigin vængjastað í Bandaríkjunum. Mig langar að fara út í það. Mig langar að stækka við mig og gera alls konar kjaftæði. Mig langar til að fara í sjónvarp. Ég væri til í að leika handrukkara eða glæpamann. Mig langar að tala inn á auglýsingar og teiknimyndir – vera vondi karlinn í Disney-teiknimynd.“ segi rapparinn og líkir einmitt hrokaboltanum sjálfum sér við fyrrnefnd illmenni.

Stór fiskur í lítilli tjörn

Sumarið er fljótt á enda og hefur Herra Hnetusmjör verið uppbókaður á hinum ýmsu bæjarhátíðum. Núna um helgina treður hann síðan upp á einum stærstu tónleikum ársins, tónleikum Rásar 2 á Menningarnótt sem sýndir eru í beinni útsendingu á RÚV og útvarpað beint á Rás 2. Hann er samt sem áður pollrólegur yfir þessu öllu saman.

„Ég er ekkert stressaður. Ég verð voðalega sjaldan stressaður fyrir gigg. Ég hef tvisvar verið stressaður og í bæði skiptin hef ég verið að syngja, ekki rappa, í beinni útsendingu. Ég er ekki vanur því. Það er út fyrir minn þægindaramma. Yfirleitt dett ég í gír fyrir beina útsendingu, fer upp á svið með hrokann á milljón og er með snáðalæti,“ segir rapparinn. Snáði er einmitt orð sem hann notar mikið til að lýsa prakkaraskap, en stúdíóið sem hann leigir nálægt miðborg Reykjavíkur með vonarstjörnunum JóaPé og Króla er einmitt kallað Snáðastúdíó. Hann segist vera vinnualki en nú semur hann mikið um lífsstílinn sinn og vinnuna.

https://www.youtube.com/watch?v=ZdG5dGEvsEU

„Ég get ekki rappað um dóp og ég get ekki rappað um stelpur þannig að ég verð að rappa um eitthvað annað,“ segir hann. en hann fagnar um þessar mundir nýjum tímamótum í tónlistinni.

„Nýjasta lagið mitt, Upp Til Hópa, pródúserað af Inga Bauer, er vinsælasta lagið á landinu á Spotify og búið að vera það í rúmar þrjár vikur, eða síðan það kom út.“

Aðspurður hvort Ísland sé of lítið fyrir hann stendur ekki á svörunum.

„Mér finnst gaman að vera stór fiskur í lítilli tjörn. Það væri líka gaman að vera stór fiskur í stærri tjörn og það er alveg pæling að fara út fyrir landsteinana. Ég ætla samt bara að leyfa því að gerast. Ég vil ekki rappa á ensku og ég myndi ekki gera það til að stækka aðdáendahópinn minn.“

„Þetta er bara ég á móti öllum hinum“

Áður en ég kveð Herra Hnetusmjör verð ég að spyrja, fyrst hann er besti rapparinn Íslands að eigin sögn, hver sé þá næstbestur?

„Þetta snýst ekki um það. Ég er ekki að hugsa hver er í öðru, þriðja eða fjórða sæti. Þetta er bara ég á móti öllum hinum.“

Myndir / Hallur Karlsson

„Það kom á óvart og eru mér vonbrigði“

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi, segir ákæru vegna peningaþvættis, sem honum var kynnt fyrir stuttu, hafi komið sér á óvart, en í nýjasta tölublaði Mannlífs er sagt frá ákærunni.

Borgarfulltrúi ákærður fyrir peningaþvætti

Júlíus Vífill tjáir sig stuttlega um málið á Facebook-síðu sinni í dag.

„Undanfarin tvö ár finnst mér eins og ég hafi staðið í veðurbáli. Á mig voru bornar ótrúlegar og fráleitar sakir í æsifréttastíl um að fjármunir á erlendum bankareikningum væru illa fengnir og ekki mín eign. Héraðssaksóknari hefur nú kannað sannleiksgildi málsins og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé fótur fyrir þeim ásökunum,“ skrifar hann og heldur áfram.

„Hann hefur hins vegar birt mér ákæru sem snýr að skattamálum. Það kom á óvart og eru mér vonbrigði. Ég tel engar lagalegar forsendur vera fyrir ákærunni og mun auðvitað takast á við hana fyrir dómstólum. Það mál verður útkljáð á þeim vettvangi.“

Júlíus Vífill segir að þó málið hafi tekið á hann persónulega sé annað sem er mikilvægara í lífinu og endar pistilinn á hugljúfum nótum.

„Það kristallast margt í lífinu við mótlæti og átök. Eftir stendur að lokum það sem er mikilvægast: fjölskyldan, vináttan og kærleikurinn.“

Færslu Júlíusar Vífils má sjá hér fyrir neðan:

Hlaupa til minningar um átján ára dreng sem lést úr ofneyslu

||||
||||

Saga Einars Darra Óskarssonar, átján ára drengs sem varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 25. maí eftir ofneyslu lyfsins OxyContin, hefur vakið mikla athygli síðustu vikur. Í kjölfarið var stofnaður minningarstjóður í hans nafni, sem stendur fyrir og styrkir baráttuna #egabaraeittlif, sem berst gegn fíkniefnum, með áherslu á misnotkun lyfja meðal ungmenna á Íslandi.

Fjölmargir ætla að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu á morgun til styrktar sjóðnum, þar á meðal fimm ættliðir í kvenlegg. Það eru þær Pálína Bjarnadóttir, 92 ára. Sigrún Anna Einarsdóttir, 69 ára. Bára Tómasdóttir, 48 ára. Andrea Ýr Arnarsdóttir, 27 ára og Ísabella Rós Pétursdóttir, 5 ára. Fjölskylda Einars Darra heitins vill með þessu varpa ljósi á það að við Íslendingar, þurfum öll að standa saman ungir sem aldnir og í sameiningu getum við snúið við þessari þróun í misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum. Áheit sem berast þeim og öðrum sem hlaupa til styrktar Minningarsjóðs Einars Darra mun vera vel nýtt í þeim forvarnar verkefnum sem framundan eru hjá baráttunni #egabaraeittlif.

Hér sjást hlaupararnir fimm sem um ræðir.

Unnin með fagmennsku og kærleika í fyrirrúmi

Að sögn Steinþórs Þórarinssonar, verkefnastjóra #egabaraeittlif, eru markmið baráttunar fjölþætt; til dæmis að sporna við og draga úr misnotkun fíkniefna, með áherslu á lyf og opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi. Þá eru markmiðin líka að auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja og opna umræðu um vöntun á bættum meðferðarúrræðum.

„Til að ná fram ofangreindum markmiðum verður unnið í ýmsum verkefnum sem nú þegar er byrjað að vinna að. Verkefnin eru að mestu leiti skipulögð af forsvarsmönnum Minningarsjóðs Einars Darra, einnig tekur skipulagshópur þátt með ýmsu móti. Skipulagshópurinn hefur að geyma meðlimi frá ýmsum starfstéttum í samfélaginu, er breiður aldurshópur en eigum við það sameiginlegt að vilja öll láta gott af okkur leiða. Öll verkefnin eru og verða unnin með fagmennsku og kærleika í fyrirúmi,“ segir Steinþór og heldur áfram.

„Fengist hefur verulegur stuðningur og aðstoð úr öllum áttum úr samfélaginu frá gríðamörgum einstaklingum sem vilja leggja verkefnunum lið. Þar á meðal er stórfjölskyldan, vinir, þekktir einstaklingar, fyrirtæki, félög og fleiri.“

Við eigum bara eitt líf

Þau verkefni sem eru yfirstandandi hjá sjóðnum eru sérstök armbönd og auglýsingar fyrir téð armbönd.

Bleiku armböndin eru víða.

„Armböndin eru kærleiksgjöf frá Minningarsjóði Einars Darra. Stöndum saman og minnum okkur á að við eigum bara eitt líf. Að bera armbandið er tákn um samstöðu en einnig er það ætlað til að fá fólk, sér í lagi ungmenni til að horfa á armbandið og fá þau til að hugsa sig tvisvar um áður en þau misnota lyf eða önnur fíkniefni,“ segir Steinþór og bætir við að myndböndin séu í raun vitundarvakning.

„Ætlað til að fá umræðuna af stað í samfélaginu. Kynnir verkefnið og varpar ljósi á þann hræðilega atburð þegar Einar Darri lést. Sýnir hversu margir einstaklingar eru á bak við hvert dauðsfall og bendir á algengi misnotkunar á lyfjum hér á landi sem og dauðsföll tengd því.“

Þá segir hann að ýmis önnur verkefni séu í vinnslu hjá sjóðnum, bæði í formi forvarna og fræðslu.

Fjölmargar stjörnur hafa nælt sér í armband, þar á meðal stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson.

Hér fyrir neðan eru bankaupplýsingar fyrir þá sem vilja styrkja málefnið:

Kennitala: 510718-1510
Reikningsnúmer: 552-14-405040

Heldur fast í jákvæðnina

|
|

Fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson tekst af æðruleysi á við ólæknandi sjúkdóm.

Fjölskyldumaðurinn og fyrrverandi körfuboltaþjálfarinn Ágúst H. Guðmundsson var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með hreyfitaugahrörnun, sem í daglegu tali er þekkt sem MND-sjúkdómurinn. Þessi glæsilegi maður sem alla tíð hafði verið heilsuhraustur segist fljótt hafa ákveðið að nýta veganestið sem hann hafði í gegnum árin gefið drengjum sem hann hefur þjálfað í körfubolta á Akureyri; hann fetaði veg jákvæðninnar til að takast á við áfallið. Yfir 300 manns ætla að hlaupa í nafni hans  í Reykjavíkurmaraþoninu og segir hann ólýsanlegt að vita af þessum stuðningi.
Ágúst er í einlægu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Heiðarleiki er lykillinn að mínum árangri

Elísabet Gunnarsdóttir er tískuáhugafólki vel kunn en hún stofnaði fyrstu íslensku blogg-veröldina þar sem fjölbreyttur hópur bloggara kom saman undir einum hatti.

Níu árum síðar hefur Elísabet skapað sér heimili víðs vegar um Evrópu en flakkið skrifast á atvinnu æskuástarinnar sem Elísabet giftist nú fyrr í sumar. Þrátt fyrir fjölbreytta búsetu er Elísabet óhrædd við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd enda segir hún tækifærin ótæmandi.

„Ef maður tileinkar sér að skrifa heiðarlega og vera ekkert að þykjast vera annar en maður er gengur allt vel. Ég tel að það hafi verið lykillinn að mínum árangri.”

„Ég held mínu striki óháð því hvað öðrum finnst. Ég hef að sjálfsögðu fengið gagnrýni sem fer fyrir brjóstið á manni, sérstaklega þegar fólk skrifar eitthvað á Netinu en getur síðan ekki staðið á bak við skrif sín í persónu. Það er alltaf óheillandi. En ég finn fyrir miklum meðbyr sem er margfalt meira jákvætt en neikvætt og það hvetur mig áfram.”

„Ég lít á samstörf sem hluta af launum, en það er ekki alltaf auðvelt að fá greitt í peningum. Þannig fæ ég kannski föt á börnin mín sem hluta af greiðslu fyrir eitthvað verkefni sem aðrir eyða hluta af launum í. Launin berast á annan máta til mín.”

„En það er erfitt að sjá framtíðina fyrir sér í þessum málum. Margir telja að samskiptamiðlar muni færast yfir í minni hópa og miðla. Þannig verðir þú kannski á einum miðli einungis með fólki sem þú þekkir eða átt eitthvað sameiginlegt með. Þá minnkar aðeins þetta áreiti sem nú er á miðlunum í formi auglýsinga og pósta frá fyrirtækjum. Það er mikið talað um hópa (e. tribals) í þessum efnum, að fólk fari að skiptast meira niður í svona flokka og hangi meira með sínum líkum inn á samskiptamiðlum. Það er ein kenning sem mér finnst hljóma nokkuð líkleg þar sem samskiptamiðlar tapa sjarma sínum að einhverju leiti þegar þeir stækka of mikið.

Á vissan hátt er ég heppin að búa erlendis í mínu starfi. Ég á mér einkalíf og pæli lítið í því hvernig ég er til fara þegar ég fer út úr húsi. Eflaust væri ég ekki jafn frjálsleg ef ég byggi á Íslandi.”

„Í sjálfu sér er ég ekki viss um að ég hefði haldið svona lengi út sem bloggari ef ég byggi á Íslandi því ég hleypi fólki nálægt mér á samfélagsmiðlum.”

„Það hafa ekki allir sömu skoðun á því, sérstaklega þegar börnin fylgja með. Þau eru bara svo stór hluti af mínu lífi að ég myndi ekki geta útilokað þau frá bloggi og samskiptamiðlum. Eftir að Instagram story kom hef ég gefið fylgjendum mun persónulegri nálgun og ég held að fólk kunni vel að meta það. Þetta er viss kafli í mínu lífi sem mun ljúka einhvern daginn og ég mun bara njóta á meðan á honum stendur. Ég elska að geta veitt einhverjum innblástur og það drífur mig áfram í mínu.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðs.

„Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér“

||
||

Rapparinn Herra Hnetusmjör prýðir forsíðu Mannlífs sem kemur út á morgun. Hann hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á Íslandi. Hann er 21 árs gamall og keyrir um á lúxuskerru, í Gucci-úlpu með gulltennur – alveg eins og bandarísku rapphetjurnar. Hann telur sig besta rappara á Íslandi og ætlar að búa til stórveldi úr tónlistinni.

„Ég held að þú getir ekki verið bestur í neinu ef þú trúir því ekki að þú getir verið bestur. Ég er ekki hér til að taka þátt. Ég er hér til að vinna,“ segir Herra Hnetusmjör.

Herra Hnetusmjör byrjaði ungur að fikra sig áfram í rappheiminum og gaf út sitt fyrsta lag árið 2014 – smellinn Elías sem vakti mikla athygli.

„Það varð að einhverri költ-klassík meðal unglinga. Í laginu rappa ég um Kársneskrakkana og að við höfum alltaf verið að drekka og halda partí í kjallaranum hjá strák sem heitir Elías. Algjört unglingadót.“

Herra Hnetusmjör gengur ávallt með sólgleraugu.

Sumarið 2016 var mjög dimmur tími

Í framhaldinu fékk hann sér umboðsmann og kom fyrsta plata rapparans, Flottur skrákur, út á afmælisdegi Herra Hnetusmjörs, þann 31. ágúst árið 2015. Við tóku miklar annir, en árið 2016 reyndist honum erfitt.

„Ég var með fullt af lögum í spilun í útvarpi og var til dæmis bókaður á stórt svið á Secret Solstice. En ég missti mig. Ég fór út af brautinni og hætti að gera tónlist. Ég var bara að djamma og spila,“ segir Herra Hnetusmjör og heldur áfram. „Ég var farinn að missa tökin meira og meira og sumarið 2016 missti ég þau endanlega. Þá var ég í max rugli og á öllu sem hægt er að hugsa sér. Ég týndist bara í sósunni. Sumarið 2016 var mjög dimmur tími,“ segir Herra Hnetusmjör. Í framhaldinu fór hann í meðferð á Vogi

„Ég er alkóhólisti og sama hvað ég var með skýr markmið á öllum sviðum og vissi nákvæmlega hvað ég vildi gera þá tók alkóhólistinn alltaf yfir. Það komst ekkert að því ég var alltaf að fá mér.“

„Mig langar í mikið af peningum“

Í dag er rapparinn edrú og eyðir peningum sínum í merkjavöru í staðinn fyrir fíkniefni. Peningar eru honum einmitt mjög hugleiknir.

„Mig hefur alltaf langað í peninga. Mig langar í mikið af peningum. Bandaríski rapparinn 21 Savage sagði einu sinni í viðtali að honum væri drullusama hver besti rapparinn væri. Hann vildi ekkert vera með í þeim samanburði. Hann var að reyna að vera ríkasti rapparinn. Ég tengi við það, þó að ég sé mjög stoltur af rappinu. Ég trúi því að ég sé langbesti rapparinn á Íslandi en ég vil líka græða,“ segir hann.

Takið eftir Gucci gleraugunum.

Viðtalið við Herra Hnetusmjör, ásamt fullt af öðru vönduðu efni, má lesa í Mannlífi sem kemur út á morgun, föstudaginn 17. ágúst.

Myndir / Hallur Karlsson

Halle Berry er 52 ára og ljóstrar upp leyndarmálunum á bak við andlegt og líkamlegt hreysti

||||||||||
||||||||||

Leikkonan Halle Berry fagnaði nýverið 52ja ára afmæli sínu, en hún leggur mikið upp úr því að vera í góðu andlegu og líkamlegu jafnvægi. Hún er með um þrjár milljónir fylgjenda á Instagram og deilir góðum ráðum og sinni persónulegu reynslu á síðunni.

Hún segist æfa bæði huga og líkama með jóga og hugleiðslu, en leikkonan hugleiðir á hverjum einasta degi.

„Hreysti snýst ekki bara um að hlaupa, lyfta og kýla,“ skrifar Halle og bætir við:

„Að vera í góðu formi fyrir mér snýst líka um að vera kyrr, teygja og anda.“

Þá segir Halle að fleiri ættu að hugleiða þar sem það hefur haft gríðarlega góð áhrif á hennar eigið líf.

„Treystið mér, það mun breyta hugsunarhætti ykkar og breyta lífi ykkar. Þegar ég er búin er ég mjög skýr og finn fyrir frið.“

Halle stundar líka box og lyftir lóðum og segir mikilvægt að æfingar séu skemmtilegar og hressandi.

„Ég veit að það er erfitt að koma sér af stað stundum, en þegar æfingin er skemmtileg er hún miklu einfaldari!“ skrifar hún á Instagram.

Leikkonan er með þjálfara og segir að það sé margfalt auðveldara að æfa með einhverjum en einn. Þá skiptir mataræðið hana miklu máli.

„Mig langar líka að deila einu leynivopni með ykkur sem ég held að hafi hjálpað mér að bjóða aldrinum birginn og líta út fyrir og líða eins og ég sé yngri. Leyndarmálið er beinaseiði. Það er búið til úr beinum sem eru soðin niður í að minnsta kosti átta klukkustundir,“ skrifar hún.

Halle segir jafnframt að útlitið skipti hana ekki öllu máli.

„Að vera með geggjaðan strandlíkama er miklu meira en að líta vel út í bikiníi. Þetta snýst um að líða vel í eigin skinni. Sjálfstraustið mitt hefur alltaf aukist þegar ég elska sjálfa mig nógu mikið til að setja heilsu og vellíðan í fyrsta sæti.“

Allt frá 18 fermetra íbúð að umhverfisvænu húsnæði

||||||||||
||||||||||

Nýi vörulistinn frá IKEA á Íslandi kemur út síðar í þessum mánuðinu, en við á Mannlíf sögðum frá bandaríska vörulistanum fyrir stuttu. Sá íslenski er frábrugðin þeim bandaríska þar sem öll þau lönd þar sem IKEA hefur fest rætur setja ekki eins vörur á markað.

Í íslenska vörulistanum er til dæmis lögð áhersla á að koma skipulagi á smáhlutina.

Í íslenska vörulistanum er sýnt frá sjö mismunandi heimilum með mismunandi áherslum. Þetta er allt frá átján fermetra íbúð að einstaklega umhverfisvænu húsnæði, þannig að flestir ættu að geta fundið eitthvað sem heillar í listanum.

Sniðugar geymslulausnir er að finna í listanum.

Forsvarsmenn IKEA leggja sérstaka áherslu á lífið heima fyrir og við vinnslu bæklingsins var stuðst við rannsóknir fyrirtækisins á heimilislífi fólks og það sem veldur fólki mestu hugarangri.

Í rannsóknum IKEA kemur fram að um heim allan telja 27% manna að samfélagið leggi of mikla pressu á okkur að búa með færri hlutum. Um 49% segja að helsta orsök rifrilda á heimilinu sé óreiða og á mörgum heimilum er fólk ósammála um hvað eigi að vera inni á heimilinu.

Í nýja vörulistanum eru tvö heimili sem taka á þessum atriðum. Annað heimilið snýst um smáhluti og hvernig sé best að skipuleggja þá. Á hinu er kyrrð og samhljómur, með áherslu á sniðugar geymslulausnir.

Blár er áberandi í unglingaherberginu.

Nýi vörulistinn er ólíkur fyrri listum þar sem í þetta sinn eru sýnd heimili, ekki herbergi. IKEA vörurnar eru sýndar eftir samræmi og eftir stíl eða litaþema til að auðvelda lesendum að innrétta með IKEA vörum. Að auki er að finna leiðbeiningar í listanum til að skapa ákveðið útlit á viðráðanlegu verði.

Kyrrð og samhljómur.

IKEA vörulistinn er prentaður á FSC-vottaðan pappír, og er í raun öll framleiðsla listans vottuð frá skógi til prentara, til að tryggja sjálfbærari uppruna á viðartrefjum. Listinn er tæplega þrjú hundruð blaðsíður og kemur, eins og áður segir, út síðar í þessum mánuði. Þangað til getum við skoðað nokkrar myndir úr listanum sem Mannlíf fékk sendar frá IKEA á Íslandi:

pönnukökuterta í matinn

Við bjóðum upp á bragðmikla túrmerik-pönnukökutertu sem er þess virði að prófa. Hún er hveiti og eggjalaus og ef ostinum er skipt út fyrir vegan-ost er hún orðin að vegan-rétti. Það er kókosmjólk í deiginu og túrmerik kryddið gefur skemmtilegan lit á pönnukökurnar. Það er alls ekki mikil fyrirhöfn að útbúa tertuna og hentar hún því vel sem matur í miðri viku.

 

Pönnukökuterta með bragðmikilli kjúklingabaunafyllingu
fyrir 4

pönnukökudeigið:
400 ml kókosmjólk (1 dós)
400 ml vatn
220 g hrísgrjónamjöl (rice flour)          
2 tsk. túrmerik
½ tsk. salt
1 msk. olía til steikingar

fyllingin:
2 msk.olía
1 ½ rauðlaukur
3 hvítlauksgeirar
2 tsk. harissa-mauk
3 tsk. kummin
1 tsk. paprika
½ rautt chili-aldin
800 g kirsuberjatómatar (2 dósir)
400 g kjúklingabaunir (1 dós)
1 msk. sykur
hnefafylli kóríander, saxaður
120 g mozzarella-ostur (einn poki)
sjávarsalt og nýmöluðum pipar
rifinn ostur eftir smekk
steinselja og kóríander til skrauts (má sleppa)

Blandið öllum innihaldsefnunum sem eiga að fara í pönnukökurnar í skál og hrærið vel saman með handpísk. Gott er að láta deigið standa aðeins áður en bakað er úr því. Setjið smávegis olíu á pönnukökupönnu og bakið kökurnar á báðum hliðum. Þær eiga að vera þykkar en ekki alveg eins þykkar og skonsur. Úr deiginu ættu að fást 5-6 kökur en það fer vissulega eftir þykkt. Fyllingin er miðuð við u.þ.b. 5 stykki.
Hitið olíu á pönnu og steikið lauk og hvítlauk í nokkrar mínútur. Bætið harissa-mauki, paprikukryddi, karrí, kummin og fersku chili-aldini saman við. Hellið vatninu frá kjúklingabaununum og setjið þær út á pönnuna ásamt tómötunum, sykrinum og söxuðum kóríander. Látið malla í u.þ.b. 10 mínútur. Látið mozzarella-ostinn út á pönnuna í lokin. Bragðbætið með salti og pipar. Setjið fyllinguna á milli pönnukakanna og endið á því að setja lag af fyllingu efst og stráið rifnum osti yfir. Bakið í ofni við 180°C í 20 mínútur. Gott að bera fram ferskt salat með tertunni.

 

Myndir/ Aldís Pálsdóttir

Stílisti: Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

 

Girnilegt og gott í nestið

Það er góður siður að venja sig á að taka nesti með í vinnu eða skóla. Það sparar tíma og peninga, og getur komið í veg fyrir að þú endir oftar en góðu hófi gegnir í bakaríinu að velja milli snúða með glassúr eða annars sætmetis. Við tókum saman nokkrar góðar nestishugmyndir.

 

Salatbar í krukku

Hollt, einfalt og girnilegt. Það er upplagt að útbúa sinn eigin salatbar til að taka með í nesti. Það er sérstaklega þægilegt að útbúa þennan rétt út frá afgöngum eða því sem til er í skápnum hverju sinni.

Hugmyndir að innihaldi: túnfiskur, egg, maís, kotasæla, ýmiskonar baunir, grænmeti, pasta og kjúklingur.

 

Meal-prepp

Fyrir þá sem vilja huga að hollustunni er stórsniðugt að gefa sér tíma, til dæmis á sunnudögum og undirbúa nesti fyrir komandi viku. Með góðu skipulagi og tilbúnum réttum minnka líkurnar á því að fara út af sporinu til muna. Séu leitarorðin slegið inn  „Meal prep“ á Instagram eða Pinterest má finna fjölmargar hugmyndir að skipulagi og girnilegum réttum.

 

Nýbakað úr frystinum

Fátt er betra en nýbakað bakkelsi. Pizzasnúðar og skinkuhorn skora hátt á listanum yfir vinsælar nestishugmyndir á mörgum barnaheimilum. Við mælum með að baka stóra uppskrift og frysta, þá er alltaf hægt að grípa með sér gott nesti án nokkurrar fyrirhafnar.

 

Afgangar

Klassískt – og ekki að ástæðulausu. Eldaðu örlítið umfram venjulegan skammt af kvöldmatnum og taktu frá fyrir nestið daginn eftir. Lasagna, pastaréttir, salöt, súpur; allt eru þetta réttir sem jafnvel smakkast betur daginn eftir.

 

Millimál

Yfir daginn gerir nartþörfin oft skyndilega vart við sig og þá er gott að vera tilbúinn með millimál í hollari kantinum. Nokkrar hugmyndir að slíku nesti gætu verið; hafraklattar, flatkökur, þeytingar, hnetumix, hrískökur, ávextir, skyr, harðsoðin egg.

 

 

 

 

 

Greinin birtist upphaflega í Vikunni

Þessi einkaþjálfari afsannar haug af kenningum um heilbrigðan lífsstíl

||||||||||||
||||||||||||

Einkaþjálfarinn og næringarfræðingurinn Graeme Tomlinson heldur úti bráðskemmtilegri Instagram-síðu þar sem helsta viðfangsefnið er að afsanna ýmsar kenningar um heilbrigðan lífsstíl.

Graeme er þeirrar skoðunar að það sem þurfi til að grenna sig og lifa heilbrigðum lífsstíl sé að borða fjölbreyttan mat – ekki að fara á djúskúra og borða eingöngu það sem okkur er sagt að sé hollt. Þá segir hann að fæðunni sé ekki um að kenna að mannkynið glími við offituvanda, heldur sé það okkur sjálfum að kenna.

Við skulum líta á nokkrar myndir af Instagram-síðunni hans. Það kemur eflaust margt ykkur á óvart.

Matur sem hægt er að borða er betri en drykkur með fullt af sykri:

Jahá, vissuð þið að það eru svona margar kaloríur í möndlum?

Þetta er sláandi:

Grænkálsflögur eða venjulegar flögur?

Enginn munur á kaloríufjölda:

Keto kaffið er ansi hitaeiningaríkt:

Best að fá sér bara alvöru súkkulaði:

Graeme trúir ekki á djúskúra:

Ávöxtur er ekki það sama og ávöxtur:

Pælið í þessu næst þegar þið farið út að borða:

Offitufaraldurinn svokallaður er okkur að kenna:

Engin samviskubit, takk:

Hlýr staður með gott hjarta

Þær Gígja Björnsson og Ragnheiður Birgisdóttir opnuðu fyrir skömmu fyrsta kattakaffihús landsins en hugmyndina höfðu þær brætt með sér lengi.

Þær segja kaffihús af þessu tagi njóta sívaxandi vinsælda um heim allan en kattakaffihúsið er staðsett við Bergstaðastræti 10a í Reykjavík.

Ragnheiður hefur unnið lengi í markaðsstjórnun og Gígja á kaffihúsum en hún er menntaður sviðshöfundur. Þær segjast báðar vera miklir kattavinir og kettirnir hafi í raun dregið þær saman. „Við tengjumst mikið í gegnum ketti en Ragnheiður hefur til dæmis passað kisuna mína í langan tíma,“ segir Gígja og bætir við:

„Svo vill svo vel til að Helga Björnsson sem hannaði plakötin, púðana og málaði veggmyndirnar er mamma mín, og líka mikil kisuvinkona.“

Ragnheiður segir Íslendinga almennt mikla kattavinir. „Það er svo skemmtilegt að sjá hvað fólk var spennt fyrir þessu verkefni strax í upphafi. Við stofnuðum Karolina Fund-síðu og þar sáum við strax hvað það var mikill spenningur fyrir þessu. Það eru til svo skemmtilegar Facebook-síður eins og Cats of Reykjavik og Spottaði kött. Þá sér maður hvað áhuginn er mikill, sumir myndu jafnvel kalla þetta einhvers konar dellu fyrir kisum.”

„Viðtökurnar hafa í það minnsta verið góðar og okkur gengið býsna vel. Við erum mjög sáttar og þakklátar fyrir þær móttökur sem við höfum fengið og erum strax komnar með frábæran hóp af fastagestum.”

„Fólk alls staðar að úr heiminum hefur meira að segja breytt ferðalagi sínu til þess að kíkja við hjá okkur á kattakaffihúsið. En það er ekki bara kattafólk sem kemur til okkar, það er líka hundafólk og allskonar fólk sem er kannski ekki að pæla það mikið í kisunum. Það má. Það sem skiptir máli er að öllum líði vel og að kisunum líði vel.“

Viðtalið í heild má lesa í 29. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.

Raddir