Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
8.6 C
Reykjavik

Bam Margera aftur í meðferð

Bam Margera er farinn í áfengismeðferð. Þetta er í þriðja sinn sem hann fer í meðferð.

Íslandsvinurinn og hjólabrettakappinn Bam Margera, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt með Jackass-hópnum, er farinn í áfengismeðferð í þriðja sinn. Margera ætti að vera mörgum landsmönnum kunnugur eftir heimsókn hans til landsins árið 2015. Þá rataði hann í fjölmiðla eftir að hafa lent í slagsmálum við rapparann Gísla Pálma á Secret Solstice hátíðinni.

Margera, sem hefur í gegnum tíðina talað opinskátt um baráttu sína við alkóhólisma, greindi frá því á Instagram að hann væri á leið í meðferð. Þess má geta að hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur í byrjun árs 2018 og fór þá í meðferð í kjölfarið.

Í færslu sinni á Instagram birtir hann mynd af sér með son sinn í fanginu sem er rúmlega eins árs. Í annarri færslu á Instagram þakkar hann meðal annars vinum sínum úr Jackass, þeim Steve-O og Johnny Knoxwille fyrir hjálpina við að koma honum í meðferð.

Batakveðjum og góðum ráðum hefur rignt yfir hann í gegnum Instagram síðan hann greindi frá því að hann væri á leið í meðferð.

Hlaut mikið hrós fyrir myndbirtinguna

Enska söngkonan Bessie Turner vill vekja athygli á andlegri heilsu og skaðlegum áhrifum samfélagsmiðla.

Söngkonan Bessie Turner hefur hlotið mikið lof fyrir að birta sjálfsmynd af sér grátandi á Instagram. Myndina birti hún í október en síðan þá hefur verið fjallað um myndbirtinguna í fjölmiðlum, svo sem á vef BBC og Telegraph.

Með myndinni vill hún vekja athygli á geðheilbrigði og þeim áhrifum sem glansmyndir á samfélagsmiðlum hafa gjarnan á líðan fólks. Myndina tók hún þann dag sem hún byrjaði aftur á þunglyndislyfjum eftir hlé.

Í myndatexta með myndinni hvetur hún fólk til að taka opinskátt um andlega líðan sína og leita sér hjálpar sé þess þörf. „Ég er heppin að hafa frábært stuðningsnet,“ skrifaði hún meðal annars.

Hún tók þá fram að þessi tiltekna mynd af henni grátandi á alveg eins heima á samfélagsmiðlum líkt og ljósmyndir af henni brosandi.

Í viðtali við BBC greindi hún frá að viðbrögðin við myndbirtingunni hafi verið góð og að hún hafði fengið ótal skilaboð frá fólki hvaðanæva úr heiminum. „Ég fékk skilaboð frá einum pabba sem sagði að dóttir sín hefði haft gott að því að sjá [myndina]. Það hreyfði við mér.“

Þá bendir hún á að samfélagsmiðlar gera mörgum unglingum lífið leitt og því sé mikilvægt að vekja athygli á að það sem fólk sér á samfélagsmiðlum gefur ekki endilega skýra mynd af raunveruleikanum.

View this post on Instagram

"Why do you have a selfie of you crying?" 🤔 -Because it's just as relevant as all the others of me smiling and singing and feeling like a hot mama that rules the world. I took this photograph a few weeks back -the day I started taking antidepressants again- as a marker for me to look back on with pride or sadness or whatever comes to mind. Like so many others I've had my battles and some days they just wipe me right out. I feel crazed and unwell and like I need my brain to be drained and it's so 100% totally okay to have those feelings. Reach out to your loved ones and friends because they'll always understand 🖤 I'm lucky enough to have a great support network, a wonderful life and the makings of a career that people would kill for… it's very hard to take it all in sometimes…. Big love to all that beam positivity and kindness, it really is a joy to have people's support throughout this (very self indulgent) journey. Big hugs, don't forget to be lovely. X #worldmentalhealthday #nofilter

A post shared by Bessie Turner (@bessieturner_) on

Góð ráð gegn timburmönnum frá fræga fólkinu

Hvað er best að gera í baráttunni við þynnkuna? Meðfylgjandi eru nokkur góð ráð frá fræga fólkinu.

Nigella Lawson mælir með að fá sér rétt sem kallast „prairie oyster“ í þynkunni. Sá réttur samanstendur af eggjarauðu, Worcestershire-sósu, Tabasco-sósu, ediki og salti og pipar.

Cameron Diaz fær sér Egg McMuffin á McDonalds og bjór.

Kate Hudson fær sér tómatsafa og ferska ávexti ásamt því að taka vítamín og segir það svínvirka.

Kate Winslet fær sér pylsur og beikon eins og sannur breti. Svo fær hún sér appelsínusafa og te. Þessu sagði hún frá í viðtali við The Mirror.

Renee Zellweger fær sér gjarnan baunir á ristuðu brauði.

Zoe Saldana fer í bað með Epsom salti áður en hún fer að sofa. Hún liggur í baðinu í um korter og segist þá vakna fersk daginn eftir.

Söngkonan Pink mælir með að fá sér bjór í þynnkunni.

Gwyneth Paltrow lætur renna í heitt bað og setur Epsom salt og matarsóda í baðvatnið. Þessu sagði hún frá á vef sínum Goop. Hún mælir með að liggja í baðinu í um 20 mínútur, fara svo í ískalda sturtu og svo aftur í baðið.

Khloé Kardashian hefur vanið sig á að stunda jóga í þynnkunni.

Julia Roberts sagði frá því árið 2009 að sambland af kampavíni og gulrótarsafa væri málið þegar hún er með timburmenn.

Sagan segir að Harry prins fá sér mjólkurhristing með jarðaberjabragði þegar hann er þunnur.

Leikarinn Hugh Grant sagði frá því í viðtali við Herald Sun að hann fær sér spaghetti bolognese í þynnku.

Paris Hilton heldur sig við klassíkina og fær sér stóran hamborgara með osti og franskar.

Lítill vinur sem gott er að hafa með í farteskinu

|
|
De Profundis, eða Úr djúpunum, er eftir Oscar Wilde.

Anna Gyða Sigurgísladóttir, listakona og dagskrágerðakona, kann að meta ljóðabækur, „non-fiction“, fræðibækur og endurminningar en hún segir að þær bækur sem hafi haft mest áhrif á sig séu flestar óskáldaðs efnis.

Fyrst nefnir Anna til sögunnar bók Oscars Wilde, De Profundis, eða Úr djúpunum, sem er eitt langt bréf sem hann skrifaði undir lok vistar í Reading-fangelsinu árið 1897. „Bréfið skrifar hann til fyrrum elskhuga síns, Lord Alfreds Douglas, sem átti stóran þátt í fangelsuninni en Wilde sat inni fyrir siðferðisbrot þar sem samkynhneigð var ólögleg í Englandi á þeim tíma.
„Á bak við gleði og hlátur getur falist ruddalegt, hart og tilfinningasnautt lundarfar. En á bak við sorgina er alltaf sorg. Þjáningin ber ekki grímu eins og gleðin,“ skrifar hann. Wilde hefur þarna misst nær allt; fjölskyldu, elskhuga, vini, mannorð og fé. Á næstu hundrað blaðsíðum lýsir hann sorg sinni, sálarkvölum og einlægri samúð með samföngum. Leitinni að heilun fléttar hann síðan við trúar- og menningarsögu mannsins, af viðkvæmni en einskærri hnyttni. Wilde lítur yfir farinn veg, setur spurningarmerki við höfundarverkið og spyr sig hvernig hann vilji halda áfram héðan af. Burtséð frá efninu þá get ég lesið De Profundis jafnoft og ég get hoft á Friends – hver lestrarstund er breytileg en alltaf er bréfið eins og lítill vinur sem gott er að ferðast með í farteskinu.“

Þá segir Anna dagbók franska skáldsins George Sand hafa snortið sig djúpt. „Ég fann hana fyrir tilviljun í gefins-kassa fyrir nokkrum mánuðum í París. Ég vissi lítið um Sand en fann strax á mér að þessi eldgamla sundurtætta bók ætti eftir að hafa áhrif á næstu vikurnar. Og hún gerði það. Hugleiðingar Sand um mannsandann, ástina, barneignir, persónulegar játningar og ýmislegt annað heillaði mig upp úr skónum. Svo mikið að bakgrunnsmyndin í tölvunni minni hefur síðan verið portrettmynd sem Felix Nadar tók af Sand sextugri, árið 1864.“

Loks nefnir Anna bókina Chroma: A Book of Colours – June ´93 eftir kvikmyndagerðarmanninn Derek Jarman. „Þetta er óður til lita þar sem Jarman skoðar birtingarmyndir þeirra og setur í samhengi við ýmis listaverk. Undirtónn skrifanna er þó veikindi, og endalok, enda skrifar hann bókina stuttu áður en hann lést af völdum alnæmis. „Blái liturinn er sýnilegt myrkur,“ skrifar hann. „Gátama Buddah leiðbeinir mér að ganga frá lasleika mínum. En hann er ekki fastur við vökvadælu.“ Ritstíllinn er ljóðrænn, frjálslegur og kaótískur í anda við hverfulleika veikinda.“

Mynd: Jón Þorgeir Kristjánsson

Menntun í takt við tímann

|
|

Höfundur / Sigurður Hannesson

Þau ánægjulegu tíðindi bárust nýlega að forritun verður almennt kennd í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Það er vonandi til marks um að fulltrúar sveitarstjórna út um allt land horfi til þeirra miklu breytinga sem fram undan eru í atvinnulífinu og þeirrar nýju færni sem mannauðurinn þarf að búa yfir.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins.

Menntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og menntakerfið er ein helsta undirstaða þess að samkeppnishæfni Íslands verði efld. Það standa mörg spjót á íslenska menntakerfinu og úrlausnarefnin eru margvísleg. Því er mikilvægt að fyrir liggi stefnumið varðandi menntun íslensku þjóðarinnar til framtíðar þannig að mannauðurinn standist samanburð við það sem best gerist. Framtíðarsýnin þarf að markast af þeirri breyttu heimsmynd sem við blasir því staðreyndin er að menntunarstig hvers samfélags hefur veruleg áhrif á hagsæld þess og getu til nýsköpunar. Það er því til mikils að vinna að ungar kynslóðir fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma.

Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á störfum og tækni. Nú þegar er orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Það sést meðal annars á því að erfitt hefur reynst að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og blasir við að fjölga verði þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Það er gjarnan nefnt þegar fjórðu iðnbyltinguna ber á góma að um 60% þeirra starfa sem grunnskólabörn munu vinna við í framtíðinni þekkist ekki í dag. Það er því nauðsynlegt að tækni- og forritunarnám verði eflt til mikilla muna til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. En slíkum breytingum verður ekki mætt nema með umbótum í íslensku menntakerfi.

Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og RÚV tóku fyrir nokkru höndum saman um átaksverkefni með það að markmiði að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum. Í verkefninu fólst að nemendur fengu að gjöf forritanlegar smátölvur en með því var vakin athygli á mikilvægi forritunar og því að forritunarvinna reynir ekki aðeins á rökhugsun heldur virkjar einnig hugmyndaauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun sem allt fylgir færni framtíðarinnar.

Hlutverk menntakerfisins er að rækta þekkingu, leikni og hæfni einstaklinga og styðja þannig við efnahagslega velmegun. Öflugt menntakerfi tengir saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þær breytingar sem fylgja stafrænni byltingu fela í sér heilmiklar áskoranir. Ör þróunin gerir kröfur til þess að breytingar verði gerðar á íslensku menntakerfi. Það er í höndum þeirra sem stýra menntakerfinu að veita nemendum á Íslandi menntun í takt við tímann.

„Skandall að hafa ekki komið í Fjörður“

Aldís Pálsdóttir

Leikkonan María Pálsdóttir frá Reykhúsum í Eyjafjarðarsveit kallar sig HÆLIS-veitanda eftir að hún opnaði kaffihús á gamla berklahælinu á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit og stofnaði setur um sögu berklanna á Kristnesi. Að auki leikur hún brjálaða mömmu í Gallsteinunum hans afa Gissa hjá LA og stjórnar Föstudagsþættinum á N4. Mannlíf fékk Maríu í yfirheyrslu.

Hvar líður þér best? „Mér líður geggjað vel á HÆLINU – huggulega kaffihúsinu sem ég opnaði í sumar og er opið allar helgar frá 14-18. En svo bara hvar sem er með góðu fólki.“

Hvaða hæfileika myndir þú vilja búa yfir? „Eigum við að segja að vera almáttug? Þá myndi ég spóla til baka og koma í veg fyrir hlýnun jarðar og losa heiminn við allt þetta plast.“

Stundarðu íþróttir? „Vildi að ég gæti sagt já … jú, ég geri jóga með Adriene á Netinu á nánast hverjum morgni og geng úti með hundinn.“

Hver var fyrsta vinnan þín? „Að gefa kálfum, þvo spena og raka dreifar heima í Reykhúsum, æskuheimili mínu í Eyjafjarðarsveit.“

Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? „Ákveða hvað á að vera í matinn, kaupa matinn og elda matinn.“

Hvaða stað á Íslandi langar þig að heimsækja? „Fjörður – skandall að hafa ekki komið þangað og Flatey á Skjálfanda … og Lofthelli. Það eru svo margir staðir sem ég á eftir.“

Hvaða þætti ertu að horfa á? „Enga, en spændí mig Venjulegt fólk um daginn og hló upphátt vel og lengi.“

Hvaða sögufrægu manneskju myndir þú vilja hitta? „Sigríði frá Brattholti – biðja hana að hjálpa okkur í náttúruvernd nútímans og loftslagsmálunum.“

Hvaða bók ertu að lesa? „Var sko að klára frábæra bók í gærkvöldi um Heiðu fjallabónda eftir Steinunni Sigurðardóttur.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Hjálpar foreldrum að halda hollustu að börnum

|
|

Í Stóru Disney matreiðslubókinni sem kom út fyrir jólin velur Tobba Marinósdóttir fjölmiðlafræðingur vinsælustu og bestu uppskriftirnar úr eldri bókunum í þessum bókaflokki og lét að auki fylgja nokkrar af hennar uppáhaldsuppskriftum.

Í bókinni er að finna allt frá plokkfiski upp í hátíðarrétti og bakstur.

„Þessi bók er fyrir alla,“ segir Tobba ákveðin en þarna má finna allt frá plokkfiski upp í hátíðarrétti og bakstur. „Hugmyndin er að vekja áhuga barna á eldamennsku en allar uppskriftir eru merktar með erfiðleikastuðli og vinsælum Disney-persónum. Disney setti nýlega ný heilsuviðmið svo leitast er við að hafa uppskriftirnar að hollum og næringarríkum réttum. Meðal höfunda eru gourmet-grallarar og eldhúsmeistarar á borð við Sollu Eiríks, Sigga á Gott, Sigga Hall og Ebbu Guðnýju.“

Allar uppskriftir eru merktar með erfiðleikastuðli og vinsælum Disney-persónum.

Sjálf er Tobba tveggja barna móðir og hefur reynslu af matreiðslu fyrir börn.

„Fiskur að hætti Frozen-systra er mun vinsælli en annar fiskur. Dóttur minni finnst gaman að fá að velja uppskriftir úr bókinni. Hún heldur sérstaklega upp á fiskbollurnar og hnetusmjörskúlurnar. Í bókinni eru einnig nokkur góð leyniráð. Til dæmis má setja smávegis rauðrófusafa eða náttúrulegan matarlit út í pottinn þegar verið er að sjóða fisk. Bleik ýsa er mun meira spennandi.“

Hún segir að flestir foreldrar kannist við að erfitt geti reynst að koma hollum mat ofan í börnin sín.

„Enda svo með morgunkorn í kvöldmat eftir öskur og drama. Við erum öll að reyna að gera okkar besta. Þessi bók er liður í að reyna að gera hollt spennandi. Til dæmis hjálpar að skera grænmetið út með piparkökumótum og mauka spergilkál í bústið.“

„Veðrið að morgni nýársdags skiptir máli“

Ýmis hjátrú fylgir komu nýja ársins auk þess sem margir ætla sér að bæta sig á hinum og þessum sviðum á árinu sem fer að ganga í garð.

Sums staðar trúir fólk því að það sem þú gerir eða borðar fyrsta dag ársins geti haft áhrif á lukku þína út árið. Þess vegna er sá siður algengur að fagna nýju ári í hópi fjölskyldu og vina. Veisluhöld standa oft fram á nótt, eftir að nýtt ár hefur gengið í garð.

Eitt sinn var því haldið fram að fyrsti gestur nýja ársins gæti fært bæði lukku og ólukku. Sérstaklega þótti það heillvænlegt ef fyrsti gestur var hávaxinn dökkhærður maður. En ljóshærðir og rauðhærðir færðu ekki gæfu og ekki konur heldur.

Ekki fara með neitt út af heimilinu. Ef þú þarft að gefa gjöf á nýársdag skaltu geyma hana í bílnum yfir nóttina. Ekki fara út með ruslið eða dusta af mottunni. Með því gætirðu kallað yfir þig ógæfu.

Hollendingar trúa því að með því að borða kleinuhringi á nýársdag verði þeir gæfu aðhljótandi.

Hefðbundinn nýársmatur er einnig oft talinn færa gæfu og í mörgum löndum er talið að hringlaga matur sé sérstaklega vel til þess fallinn og merki að nú sé eitthvað komið heilan hring. Einmitt þess vegna trúa Hollendingar því að með því að borða kleinuhringi á nýársdag verði þeir gæfu aðhljótandi.

Klæðstu nýjum fötum á nýársdag. Þannig áttu að geta aukið líkurnar á því að þú eignist fleiri nýjar flíkur á árinu.

Á miðnætti er mikilvægt að opna allar dyr hússins til að hleypa gamla árinu út og því nýja inn. Gott getur verið að sveifla hurðunum til þess að hjálpa til við þetta.

Hafðu hátt á miðnætti því þannig hræðirðu í burtu illa anda.

Veðrið að morgni nýársdags skiptir máli. Ef það er sunnanvindur þá mun viðra vel á árinu og það verða heilladrjúgt. Ef það er norðanvindur þá verður slæmt veður á árinu. Austanvindur færir hungur á nýju ári en vestanvindur er merki um að á árinu verði nóg til af mjólk og fiski en auk þess mun einhver mikilvægur falla frá á árinu. Ef það er logn er það tákn um gleðilegt og hamingjuríkt ár.

Hvenær byrjuðu brennur á Íslandi?

Áramótabrennur hafa þekkst á Íslandi frá því að skólapiltar úr Hólavallaskóla söfnuðu saman tunnum og öðru timburrusli árið 1791 og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan (eldfjall) en þar er sennilega átt við Landakotshæð. Fram að þeim tíma þótti timbur og annar eldiviður einfaldlega of dýrmætur til að sóa í slíkt.

Rúmlega hálfri öld síðar voru brennur orðnar nokkuð algengar og hefð fyrir því að dansa álfadans kringum þær. Sá siður á reyndar rætur að rekja til ársins 1871 þegar skólapiltar við Lærða skólann frumsýndu leikritið Nýársnótt en í því koma álfar við sögu. Piltarnir tóku sig síðan til á gamlárskvöld, ásamt stúdentum þaðan og frá Kaupmannahöfn, og klæddu sig upp sem álfa, gengu niður að Tjörninni í Reykjavík með blys í hendi, dönsuðu og sungu álfasöngva.

Þess má geta að í um þessi áramót verða áramótabrennur á tíu stöðum í Reykjavík, eins og verið hefur undanfarin ár. Upplýsingar um staðsetningu þeirra er að finna á vef Reykjavíkurborgar. Eldur er borinn að köstunum kl. 20.30 á gamlárskvöld á flestum brennum.

Skemmtilegar partíkvikmyndir

Nú eru áramótin á næsta leiti og þá fara flestir í einhvers konar veislu eða partí. Það er því við hæfi að skoða nokkrar bestu og frægustu partímyndir allra tíma.

Á æskuslóðum

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar kvikmyndin Sisters um systurnar Kate og Mauru Ellis. Þegar þær komast á snoðir um áform foreldra sinna um að selja æskuheimili þeirra ákveða þær að halda kveðjuhóf á meðan foreldrarnir bregða sér frá. Þetta partí skal toppa öll partí sem áður hafa verið haldin í þessu húsi. Félögum þeirra úr gagnfræðiskóla er öllum boðið. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sé nú orðinn ráðsettur og með börn kunna þeir enn að djamma. Tina Fey og Amy Poehler, sem leika systurnar, eru kómískir snillingar. Í myndinni fylgjumst við með kostulegum undirbúningi og auðvitað veislunni sjálfri sem eins og flestir ættu að geta giskað á fer heldur betur úrskeiðis með verulega skondnum afleiðingum.

Sögulegt partí

Í Project X á Thomas afmæli og eins og alla unga menn dreymir hann um að halda besta og flottasta afmælispartí sem haldið hefur verið. Til allrar lukku verða foreldrar hans ekki heima svo Thomas lætur slag standa og fær félaga sína, J.B. og Costa, í lið með sér. Hann lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar. Allir mæta og upphefst einhver svakalegasta veisla sem sögur fara af. Það skemmir auðvitað ekki fyrir að Thomas á ríka foreldra sem búa í stóru húsi með sundlaug og alls konar fíneríi. Auðvitað reynast nágrannarnir ekki alveg sáttir við lætin en það bíttar engu.

Tryllt tógapartí

Animal House gerist árið 1962 í Faber-framhaldsskólanum. Delta Tau Chi-bræðralagið er illa þokkað og hver sem er getur fengið inngöngu á meðan Omega Theta Pi-bræðralagið er ekki opið hverjum sem er og í raun stútfullt af ríkum, hvítum strákum sem enginn þolir nema skólastjórinn. Skólastjórinn leitar til þeirra til að hrekja fyrrnefnda bræðralagið úr skólanum. Alls kyns bellibrögðum er beitt og skólastjórinn nær vilja sínum næstum fram. Delturnar halda risastórt tóga-partí með hljómsveit og öllu klabbinu. Ýmistlegt skrautlegt gerist í partíinu, meðal annars sefur einn bræðranna hjá eiginkonu skólastjórans.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Sjálfboðaliði í Hlaðgerðarkoti á gamlársdag

Theódór Gunnar Smith matreiðslumaður mun vinna sem sjálfboðaliði á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti á gamlársdag og fram á gamlárskvöld en það gerði hann einnig á aðfangadag.

Theódór Gunnar er vanur að vinna sjálfboðaliðastörf fyrir Hlaðgerðarkot og hjá Mæðrastyrksnefnd og þetta árið eldaði hann einnig jólamatinn fyrir Konukot. Theodór, sem fékk hjálp á Hlaðgerðarkoti fyrir rúmu ári síðan, segist trúa á karma og að hann upplifi þá eitthvað gott í staðinn.

Hann fór fyrst fyrir tveimur árum og aftur fyrir rúmu ári í meðferð á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti þar sem fólk fer í áfengis- og vímuefnameðferð á vegum Samhjálpar og segist hann því hafa mikla og góða tengingu við staðinn. Hann er hættur allri neyslu og varð trúaðri í gegnum þessa reynslu og gekk í Fíladelfíu í kjölfarið. Sjálfboðaliðastörf og það að láta gott af sér leiða hefur verið hluti af lífi hans síðan.

Síðastliðin ár hefur hann unnið sem kokkur í grunnskóla. Eitt árið fékk hann til dæmis þá hugmynd að fá nemendur í skólanum þar sem hann vinnur til að elda meðal annars indverskan pottrétt og fiskrétt í desember og seldu þeir foreldrum nemenda í skólanum sem „take away“ og rann peningurinn til Mæðrastyrksnefndar.

„Ég hef eldað matinn á aðfangadag í Hlaðgerðarkoti tvenn jól áður en í ár matreiddi ég einnig fyrir dömurnar á Konukoti á aðfangadag. Í ár verð ég núna einnig á Hlaðgerðarkoti á gamlársdag í fyrsta skipti,“ segir Theodór en þeir verða tveir í eldhúsinu í sjálfboðaliðastörfum þennan dag og elda fyrir rúmlega 30 manns.

Humar og hamborgarhryggur

Theódór segir að hann muni á gamlársdagsmorgun undirbúa kvöldmatinn fyrir fjölskylduna. „Ég fer upp í Hlaðgerðarkot um ellefuleytið og græja allt þar. Fólkið þar borðar kvöldmatinn snemma, eða um fimm- til sexleytið, og verður hamborgarhryggur og pörusteik í matinn og ætla ég að vera með humarsúpu; fólkið þar er búið að biðja um humarsúpu í forrétt. Við Ívar Guðjóns, sem aðstoðar mig, verðum örugglega þar til um átta en við ætlum svo að fá flugeldasölu til að styrkja okkur um nokkra flugelda og skjótum upp áður en við förum. Fólkið sem dvelur á staðnum verður svo með nokkra flugelda sem það mun skjóta upp á miðnætti.

Birgjarnir sem ég versla við í vinnunnu hafa alltaf styrkt mig um hráefni þegar ég hef leitað til þeirra þegar ég er að sinna sjálfboðaeldamennsku sem er algjör snilld.“

Theódór, sem á konu og börn, segir að hann verði svo kominn heim um hálfníu og þá borði hann með fjölskyldunni sem bíður eftir honum. „Ég verð enga stund að græja matinn en konan setur allt í gang.“

Trúir á karma

Theódór segir að sér finnist mikilvægt að vera til staðar fyrir skjólstæðingana í Hlaðgerðarkoti eins og aðrir voru þar til staðar fyrir hann þegar hann dvaldi þar á sínum tíma. Hann segir líka vera mikilvægt að starfsmenn í eldhúsi Hlaðgerðarkots fái frí yfir hátíðirnar.

„Það þarf einhver að gera þetta,“ segir hann og á við eldamennskuna. „Ég trúi á karma. Það er eiginlega bara gott karma að gefa af sér og þá fær maður þetta til baka; ég trúi því að ef ég geri eitthvað gott þá fæ ég góða orku í staðinn – sama hvort það tengist umferðinni eða fólki í kringum mig. Þetta helst allt í hendur.“

Mér líður vel af því að láta gott af mér leiða, þá fer ég ekki pirraður inn í daginn. Ég verð glaðari.

Theódór segir að sér finnist vera gott að vera hinum megin við borðið þegar kemur að Hlaðgerðarkoti.

„Mér líður vel af því að láta gott af mér leiða, þá fer ég ekki pirraður inn í daginn. Ég verð glaðari. Það er ekki annað hægt en að vera í góðu skapi þegar maður gefur af sér. Það skiptir máli að vera góð hvert við annað og vera jákvæður; það er lykillinn. Þegar ég geri eitthvað gott fyrir aðra líður mér vel og langar að gera meira af því. Það skiptir líka máli að bera virðingu fyrir öllum í okkar samfélagi, sama hvar þeir eru staddir hverju sinni. Svo kem ég bara heim á gamlaárskvöld í súpergóðu skapi og tek fagnandi á móti nýju ári í faðmi fjölskyldunnar.“

Texti / Svava Jónsdóttir

Allt leyfilegt í áramótaförðunum

||||||||
||||||||

Áramótafarðanir eru í uppáhaldi hjá Helgu Sæunni Þorkelsdóttur, alþjóðlegum förðunarfræðingi Lancôme á Íslandi, vegna þess að þá má, að hennar mati, allt. Dökk smokey-förðun með glimmeri, dökkar varir og ljómandi húð gefa dramatískt og flott útlit.

1. „Teint Miracle-farðinn frá Lancôme er þekjandi ljómafarði og gefur einstaklega fallega áferð á móti möttum og dökkum vörum og augum.“

Bronzing Stones.

2. „Til að fá hreyfingu í förðunina nota ég Bronzing Stones-sólarpúðrið frá YSL sem gefur fallega og jafna áferð. Ég set sólarpúðrið alltaf á kinnbein, enni og niður á háls, aðeins yfir nef og höku til að fá fallegan lit og enn meiri ljóma.“

Liquid Light.

3. „Liquid Light frá HR er kremaður highlighter sem bæði má nota undir og yfir farðann. Mér finnst gott að dúmpa honum efst á kinnbein, á nefbrúnina og örlítið í cupids bow yfir vörum.“

Cut Crease.

4. „Cut Crease-augnskuggapallettan frá Lancôme er ný viðbót sem er ótrúlega auðveld í hvaða áramótalúkk sem er. Hún inniheldur góða blöndu af náttúrulegum og dökkum litum.“

Heavy Metals-glimmer.

5. „Heavy Metals-glimmerin frá Urban Decay eru næstum nauðsyn með öllum áramótaförðunum. Það er sniðugt að setja þau á mitt augnlokið eða í innri augnkrók til að gefa opnara og bjartara augnsvæði.“

Monsieur BIG-maskarinn.

6. „Monsieur BIG-maskarinn gefur dramatísk, smoky augnhár sem henta vel með dramatískri áramótaförðun.“

KAJAL.

7. „Ég nota svo svartan Kajal-blýant frá Lancôme til að toppa augnförðunina. Það er hægt að nota Kajal-blýantinn sem grunn undir augnskugga til að fá enn meiri dýpt í augnförðunina, sem smudgy-augnblýant eða til að sverta vatnslínuna.

8. „Rouge Drama Matte-varalitirinir frá Lancôme eru í algjöru uppáhaldi hjá mér núna. Þeir gefa mjúka flauelsáferð og matta áferð sem endist allan daginn. Mér finnst litur nr. 508 fullkominn til að innisigla glamúrinn og dramatíkina þessi áramót.

Fix It Forget It setting-spreyið frá Lancôme.

9. „Síðast en ekki síst nota ég alltaf Fix It Forget It setting-spreyið frá Lancôme til að festa förðunina og gefa henni enn betri endingu svo það þarf að hugsa sem minnst um touch-upp og lagfæringu.“

GLEÐILEGT NÝTT ÁR.

Þegar góðir menn gera ekkert

LEIÐARI Árið 2018 sem nú er að renna sitt skeið verður að teljast eftirminnilegt fyrir ýmsar sakir, hvort sem það er fyrir óvissuna í kringum stöðu íslensku flugfélaganna, þá hörðu og oft óábyrgu orðræðu sem einkennt hefur umræðu tengda kjaraviðræðum, eða skandalana sem skekið hafa íslenskt samfélag undanfarna mánuði, hver á fætur öðrum. Já, þau eru svo sannarlega mörg hneykslismálin sem hafa komið upp á árinu, Orkuveitumálið, framúrkeyrsla hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum í tilefni af hundrað ára fullveldisafmælinu og endurgerð braggans í Nauthólsvík þar sem svívirðilega hefur verið bruðlað með almannafé, svo dæmi séu tekin. Að ógleymdu auðvitað hinu alræmda Klaustursmáli, þar sem á frægri upptöku sem lekið var í fjölmiðla má heyra hvernig þingmenn tveggja stjórnmálaflokka stæra sig af pólitískum hrossakaupum auk þess að níða skóinn af konum, minnihlutahópum og samstarfsfólki sínu á þingi.

Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem upp koma hneykslismál sem tengjast stjórnmálum á Íslandi og nú sem endranær virðast íslenskir stjórnmálamenn seint ætla að læra að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir gera mistök. Hvort sem það er í Braggamálinu, Klaustursmálinu eða öðrum miður skemmtilegum málum sem hafa komið upp á árinu þá virðist viðkvæðið alltaf vera það sama: Menn ætla að læra af reynslunni að eigin sögn en það er eins og engum detti hreinlega í hug að segja af sér. Það virðist ekki einu sinni koma til greina. Tilhugsunin algjörlega fjarstæðukennd. Og er það þá skrítið að kannanir skuli sýna að almenningur í landinu treysti ekki stjórnmálamönnum þegar stjórnmálamenn hafa hvað eftir annað sýnt að þeir eru ekki traustsins verðir. Þegar viðbrögðin við gagnrýni á störf þeirra virðast oft einkennast af skilningsleysi, lítilli auðmýkt, hvað þá iðrun og stundum, því er miður og verr, hroka og yfirlæti.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem upp koma hneykslismál sem tengjast stjórnmálum á Íslandi og nú sem endranær virðast íslenskir stjórnmálamenn seint ætla að læra að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir gera mistök.“

Ábyrgðaleysi af þessu tagi er eins og fyrr segir ekki nýtt af nálinni og einskorðast auðvitað ekki við stjórnmál. Ef eitthvað er þá virðist það vera orðið einskonar þjóðaríþrótt á Íslandi að taka ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er því kannski ekki undarlegt að einhverjir hugsi með sér að það séu fá tilefni til að vera bjartsýn á að hlutirnir muni eitthvað breytast héðan af. Að svona verði þetta bara áfram.

Slíkur hugsunarháttur er hins vegar engum til góðs og þess vegna er mikilvægt að hann fái aldrei að skjóta rótum í samfélaginu. Að við leyfum ekki einhverju óæskilegu ástandi að grassera og verðum samdauna því. Á mörgum sviðum standa Íslendingar ágætlega í alþjóðlegum samanburði en það hefur svo sannarlega ekki gerst af sjálfu sér og ef við ætlum að halda áfram á sömu braut er meðal annars brýnt, kannski brýnna nú en nokkru sinni fyrr í ljósi undangenginna atburða að gefa sér tíma til að velta málunum fyrir sér, vera vakandi, gagnrýnin og síðast en ekki síst ábyrg sjálf. Láta bölmóðinn ekki bera bjartsýnina ofurliði þegar við kveðjum árið sem er að líða heldur ganga inn í það nýja með þá hugsun að leiðarljósi að við getum öll haft áhrif í samfélaginu og lagt okkar af mörkum til að gera það betra. Hafa hugföst orð stjórnmálamannsins Edmunds Burke sem sagði að eina sem þyrfti til að hið illa sigraði væri að góðir menn gerðu ekkert.

Til gamans gert um áramót

Margir telja nauðsynlegt að gera eitthvað alveg sérstakt til hátíðabrigða um áramót. Sumir dusta rykið af dansskónum sínum og fagna nýju ári með gleði og gamni, aðrir kjósa að safna um sig vinum og ættingjum og gleðjast saman og sumir vilja helst taka það rólega. Hvað sem þú kýst eru hér nokkrar skemmtilegar leiðir til að gera áramótin eftirminnileg.

Mjög margir taka upp kampavínsflösku klukkan tólf að miðnætti og skála fyrir nýju ári. Ef þið viljið reyna eitthvað nýtt má nudda barm glassins með appelsínu- eða sítrónusafa og þrýsta glasinu síðan ofan í sykurkarið. Sykurinn situr þá eftir á barminum og gefur skemmtilegt yfirbragð svo má skreyta glasið með appelsínu- eða sítrónusneið. Kampavín blandað ýmsum líkjörum er einnig mjög gott. Kirsuberjalíkjör og kampavín er kokkteillinn Kír en eins má blanda ferskjubrandíi, perulíkjör eða yfirleitt hvaða ávaxtalíkjör sem er saman við freyðivínið til að gera það bragðsterkara og til að fá á það nýjan lit. Hlutföllin eru 1 hluti af líkjör á móti 2 hlutum af kampavíni.

Ef þið ætlið að halda samkvæmi er kjörið að létta lund gestanna með því að fara í alls konar samkvæmisleiki. Þeir eru margir til og flestir kunna nokkra. Einn er ákaflega vel til fundinn um áramót en hann er þannig að ljósin eru slökkt þegar klukkan byrjar að slá á miðnætti og áður en tólfta slagið heyrist verða allir að vera búnir að grípa í einhvern og sá hinn sami verður sá fyrsti sem þú óskar gleðilegs árs með kossi að sjálfsögðu.

Breytið á einhvern hátt út af venjunni og gerið eitthvað sem þið eruð alls ekki vön. Fyrir þá sem nota andlitsfarða er gaman að gera eitthvað nýtt. Notið gylltan eða silfurlitan glitrandi augnskugga, eldrauðan varalit eða glimmermaskara.

Safnið saman þeim lögum sem þið teljið að hafi sett svip á árið sem er að líða og haft áhrif á líf ykkar. Reynið að komast yfir að spila þau öll áður en klukkan slær tólf.

Leitið ráðlegginga að handan. Spyrjið rúnir hvað muni gerast á nýja árinu, leitið til spákonu, farið í andaglas eða inn á vefinn facade.com/Occult/tarot og látið spá fyrir ykkur. Sumir nota tækifærið einmitt nú og ráðgast við miðil um líf sitt. Tímamót sem þessi eru líka til þess að gera upp fortíðina og losa sig við öll gömul leiðindi úr fortíðinni og líta bjartari augum til framtíðar. Ef fólk er hjátrúarfullt má benda á að ýmsir litir eru líklegri til að bera með sér gæfu en aðrir. Kínverjar segja að rautt sé gæfulitur og í Kína klæðist brúður rauðu á heiðursdegi sínum. Ef lukkan sem fylgir litnum er látin liggja milli hluta eru rauðklæddar konur yfirleitt glæsilegar og draga að sér augu allra nálægra karlmanna.

Takið upp þann sið að halda dagbók og byrjið á gamlárskvöld. Gerið það í þeim tilgangi að muna betur það góða sem gerist í lífi ykkar og til að festa ykkur betur í minni ýmsar lexíur sem þið lærið á hverjum degi.

Íslendingar sem vöktu athygli á árinu 2018

|||||
|||||

Ritstjórn Mannlífs tók saman lista yfir nokkra Íslendinga sem hafa vakið athygli fyrir framgöngu sína á árinu sem er að líða.

Elísabet Margeirsdóttir.

Elísabet Margeirsdóttir

Næringarfræðingurinn og hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir vann hug og hjörtu þjóðarinnar þegar hún kláraði 409 kílómetra hlaup í gegnum Góbí eyðimörkina í Kína. Ekki nóg með að hún kláraði hlaupið heldur varð hún í 9. sæti af 60 og langfyrst kvenna. Hún hljóp kílómetrana 409 á 96 klukkustundum og 54 mínútum og varð fyrsti Íslendingurinn til að ljúka þessari þolraun.

Sigurður Kjartan Hilmarsson

Sigurður Kjartan Hilmarsson seldi fyrirtæki sitt, The Icelandic Milk and Skyr Corporation, til franska matvælarisans Lactalis fyrir um 30 milljarða króna í byrjun ársins. Það var 14 árum eftir að hann hóf að gera tilraunir með skyrframleiðslu í eldhúsinu heima hjá sér en á þeim tíma byggði hann upp vörumerkið Siggi´s Skyr af mikilli elju.

Helga Elín Herleifsdóttir.

Þær rufu þögnina

Helga Elín Herleifsdóttir, Kiana Sif Limehouse og Lovísa Sól Sveinsdóttir sýndu einstakt hugrekki á árinu þegar þær stigu fram í fjölmiðlum og lýstu meintu kynferðisofbeldi sem þær urðu fyrir af hendi sama mannsins, lögreglumanns sem þær höfðu báðar kært en málunum var vísað frá og maðurinn hélt starfi sínu. Helga Elín og Kiana Sif, prýddu báðar forsíður Mannlífs sem greindi fyrst frá málinu, en með því að rjúfa þögnina vildu þær m.a. vekja athygli á brotalömum á rannsókninni og kerfi sem brást.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Sjá einnig: „Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

Benedikt Erlingsson

Benedikt Erlingsson hefur á undanförnum árum skipað sér í hóp athyglisverðustu leikstjóra Evrópu og 2018 var honum einkar gjöfult. Kvikmynd hans Kona fer í stríð hefur farið mikinn á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlaut meðal annars Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Á dögunum var svo greint frá því að stórleikkonan Jodie Foster muni leikstýra og leika aðalhlutverkið í enskri útgáfu myndarinnar.

Bára Tómasdóttir.

Bára Tómasdóttir

Einar Darri Óskarsson lést í maí á þessu ári eftir neyslu róandi lyfja, 18 ára gamall. Bára Tómasdóttir, móðir Einars Darra, stofnaði í kjölfarið minningarsjóð um son sinn og setti forvarnarátakið Ég á bara eitt líf á laggirnar með það að markmiði að varpa ljósi á fíkniefnavandann á Íslandi.

Bára Halldórsdóttir

Bára Halldórsdóttir setti íslenskt stjórnmálalíf á annan endann þegar hún tók upp samræður þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins á Klausturbar í nóvember. Málinu er þó ekki lokið fyrir Báru því þingmenn Miðflokksins stefndu henni fyrir dóm til að gera frekari grein fyrir upptökunum. Málið mun koma til kasta Landsréttar auk þess sem Persónuvernd skoðar málið.

Ísold Uggadóttir

Ísold Uggadóttir vakti heimsathygli þegar hún var fyrst Íslendinga valin besti alþjóðlegi leikstjórinn í flokki alþjóðlegrar kvikmyndagerðar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Utah í Bandaríkjunum snemma á árinu. Mynd hennar „Andið eðlilega“ hefur hlotið lof gagnrýnenda um allan heim og sópað til sín verðlaunum og svo virðist sem ekki sjái enn fyrir endann á þeirri sigurgöngu.

Arnór Sigurðsson.

Arnór Sigurðsson

Arnór Sigurðsson vakti athygli stórliða í Evrópu fyrir góða frammistöðu með sænska liðinu Norrköping í byrjun ársins og það var rússneska stórliðið CSKA Moskva sem bauð best og þangað fór hann í sumar. Þrátt fyrir það vissu ekki margir deili á þessum 19 ára Skagamanni fyrr en hann sló í gegn í Meistaradeild Evrópu þar sem hann skoraði meðal annars laglegt mark gegn Evrópumeisturum Real Madrid á Bernabeu.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna Magdalena Mörtudóttir hefur sannarlega vakið athygli fyrir skelegga framgöngu sem oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík og þykir trúverðugur málsvari hinna verst settu. Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4% atkvæða í Reykjavík í síðustu borgarstjórnarkosningum eða meira en tvöfalt meira fylgi en allir nýju flokkarnir til samans og vilja sumir meina að þetta góða gengi flokksins sé að miklu leyti Sönnu að þakka.

Jón Þór Birgisson

Jón Þór Birgisson, betur þekktur sem Jónsi úr Sigur Rós, er tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir besta lag. Um er að ræða lagið Revelation sem er að finna í kvikmyndinni Boy Erased. Nicole Kidman og Russel Crowe eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í myndinni. Lagið samdi Jónsi ásamt Brett McLaughlin og Troye Sivan. Golden Globe hátíðin fer fram 7. janúar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hjördís Svan Aðalheiðardóttir

Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar höfðu búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið.

Sjá einnig: „Stolt af fangavistinni“

Áramótapartíréttir

||||||
||||||

Vinsælt er að bjóða upp á smárétti og kokteila þegar nýja árið er boðið velkomið. Hér eru nokkrir ljúffengir smáréttir úr smiðju Valdísar Sigurlaugar Bragadóttur matreiðslumanns og unaðslegir áramótakokteilar sem Valtýr Bergmann blandaði fyrir okkur.

Tandoori-kjúklingaspjót með jógúrt-raita
10 kjúklingalundir
3 msk. tandoori paste
7 msk. skyr
2 hvítlauksrif
2 tsk. sítrónusafi
salt og pipar

Hrærið tandoori paste og skyr saman og bætið við það rifnum hvítlauk, sítrónusafa, salti og pipar eftir smekk. Setjið kjúklingalundirnar í tandoori-blönduna og látið marinerast í 1 sólarhring. Setjið í ofn við 200°C í 12-15 mín.

Jógúrt-raita
340 g hrein jógúrt
½ gúrka
2 rauðir chili
2 tsk. hunang
salt og pipar
8 myntulauf

Kjarnhreinsið gúrkuna og skerið í litla bita, fræhreinsið chili-inn og skerið smátt. Blandið gúrku og chili saman við jógúrtina og bætið hunangi út í. Skerið myntulaufin þunnt og bætið við, saltið og piprið eftir smekk.

Tómatar og mozzarella
1 pk. kirsuberjatómatar
1pk. mozzarella-ostur, litlar kúlur
½ búnt basil
ólífuolía
salt og pipar

Skerið kirsuberjatómatana í tvennt og setjið annan helminginn á spjót. Setjið síðan mozzarella-kúlu á spjótið ásamt basillaufi og að lokum hinn helminginn af kirsuberjatómatinum. Látið ólífuolíuna leka yfir og saltið og piprið.

Blackeraður lax á baguette
1 laxaflak
snittubrauð (baguette)
teriyaki-sósa (blue dragon)
mangó-chutney (hot spot)

Kryddblanda á lax
2 msk. paprikuduft
1 tsk. karrí
3 tsk. cayenne-pipar
3 tsk. hvítlaukspipar
4 msk. flórsykur
2 msk. salt

Blandið kryddi og flórsykri saman og stráið yfir laxinn og steikið síðan á pönnu í 3 mín. á roðlausu hliðinni og 1 mín. á roðhliðinni. Skerið snittubrauðið þunnt og grillið á pönnu. Setjið laxinn á brauðið og teriyaki-sósu og mangó-chutney yfir.

Grand King
Höfundur: Valtýr Bergmann

3 cl Grand Marnier
1,5 cl Absolut Mandarin
1,5 cl jarðarberjalíkjör
9 cl ananassafi

Allt hrist saman, hellt í longdrink-glas með klökum. Skreyttur með límónubáti, kirsuberi og myntu.

Misty Moss
Höfundur: Leó Icebreaker

3 cl ljóst romm
2 cl Björk líkjör
1 cl sítrónusýra
1 cl fjallagrasasíróp
7cl kolsýrt vatn

Allt hrist saman nema kolsýrða vatnið, drykkurinn er fylltur upp með því.
Borinn fram í kampavínsglasi. Skreyttur með sítrónuberki og timjan.

Piscoteka
Höfundur: Dominic Kocon

4 cl Pisco
2 cl Chambord-líkjör
3 cl límónusafi
3 cl grenadine
2 cl eggjahvíta
3 dropar Cranberry-bitter

Hristur með klaka og hellt í viskíglas. Skreyttur með myntu og sítrónuberki.

„Mikil vinna liggur í flestum þessara drykkja en eins og vitað er hefur kokteilmenningu farið mikið fram bæði hér heima og úti í heimi á síðastliðnum árum.“

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir og Íris Hauksdóttir
Myndir / Kristinn Magnússon og Aldís Pálsdóttir

Árið 2019 ætla ég að …

Rannsóknir hafa sýnt að ríflega þriðjungur fólks strengir áramótaheit á hverju ári. Lykillinn að því að standa við áramótaheit er að ætla sér ekki um of, velja sér aðeins eitt eða tvö, og vera búinn að ákveða þau með fyrirvara. Hér eru nokkur góð áramótaheit tengd heilsu til að veita innblástur og vekja til umhugsunar.

Lífsstílsbreytingar

Algengasta áramótaheitið er án efa það að léttast, breyta mataræðinu eða hreyfa sig meira. Það kannski sýnir einna best hversu erfitt er að snúa við blaðinu og lifa heilbrigðara lífi. Vandinn er að fólki hættir til að vilja sjá árangurinn strax og þegar það gerist ekki þá missir það móðinn. Best er að forðast allar skyndilausnir og setja sér hófleg markmið.

Hætta að reykja

Flestir reykingamenn hafa reynt að hætta allavega einu sinni og jafnvel oftar. Margir verða hræddir við að reyna að hætta því þeir óttast það að mistakast enn einu sinni. Staðreyndin er sú að það tekur suma margar tilraunir en það er betra að reyna aftur og mistakast en að reyna ekki. Þú þarft að finna út hver birtingarmynd fíknarinnar er hjá þér og hvaða lausn hentar þér best. Það verður án efa erfitt en verður þess virði til langs tíma litið.

Draga úr streitu

Það er alls ekkert slæmt að vera undir dálitlu aukaálagi öðru hverju, þvert á móti getur það gert okkur afkastameiri og gefið okkur aukna orku. Langtímastreita og álag hefur hins vegar þveröfug áhrif og auka meira að segja líkur á svefnleysi, hjartasjúkdómum, þunglyndi, ofþyngd og fleiru. Langir vinnudagar, ónógur svefn, lítil hreyfing, lélegt mataræði og skortur á samverustundum með fjölskyldu og vinum getur leitt til streituaukningar. Til að snúa niður af vítahringnum sem oft myndast þarf að laga þessi atriði. Gott er að taka eitt skref í einu og stundum þarf hjálp sérfræðinga í lið með sér.

Drekka minna áfengi

Neysla áfengis í miklu magni er heilsuspillandi, hvort sem það er mikið í einu eða lítið og oft. Áfengi hefur áhrif á boðefni í heilanum og getur aukið líkur á minnistapi, þunglyndi og fleiru. Það hefur líka áhrif á aðra starfsemi líkamans eins og hjarta- og æðakerfið og lifrina og svo hafa rannsóknir sýnt tengsl milli ofneyslu áfengis og ýmissa krabbameina; þar á meðal í munni, hálsi, lifur og brjóstum. Það er ekki endilega þörf á að hætta alveg að drekka, nema þú eigir við flóknari vanda að stríða en þú getur ákveðið að drekka aðeins um helgar og þá í hófi eða taka áfengislausan mánuð öðru hverju.

Sofa meira

Flestir vita að góður og endurnærandi svefn er mjög mikilvægur. Á meðan við sofum er gríðarlega margt að gerast í líkama okkar, til dæmis fer fram nauðsynleg endurnýjun og -uppbygging í frumum líkamans. Færri gera sér grein fyrir að ónógur svefn getur aukið líkurnar á lífsstílssjúkdómum á borð við yfirþyngd og sykursýki 2. Svefn er líka mikilvægur þegar kemur að því að öðlast minningar og styrkja minnið því það á sér stað svokölluð þjöppun í minni okkar á meðan við sofum. Þannig að við ættum öll að fara snemma upp í endrum og sinnum á næsta ári.

Gert á skoplegan og ýktan Chaplin-ískan hátt

|
|

Þjóðleikhúsið frumsýndi á annan í jólum Einræðisherrann eftir Charlie Chaplin. Sigurður Sigurjónsson verður í aðalhlutverkunum – annars vegar í hlutverki flækingsins og hins vegar í hlutverki Hinkels (Hitlers) en flækingurinn verður einræðisherra fyrir röð mistaka þar sem þeir Hinkel eru svo líkir. Sigurður segir að þótt viðfangsefnið sé um þá skelfilegu hluti sem tengjast síðari heimsstyrjöldinni þá sé þetta gert á skoplegan hátt eins og búast má við í verki eftir Chaplin.

„Þetta er dönsk leikgerð af þessari bíómynd Chaplins, Einræðisherranum, og bárust okkur spurnir af henni en hún var sett upp í Kaupmannahöfn og lukkaðist vel,“ segir Sigurður Sigurjónsson. Um er að ræða leikgerð Nikolajs Cederholms en hún sló í gegn á síðasta leikári hjá Nørrebro-leikhúsinu. Hingað til lands komu þeir sem stóðu að þeirri uppfærslu og er Nikolaj einnig leikstjóri uppfærslunnar í Þjóðleikhúsinu.

„Kvikmyndin, Einræðisherrann, er mjög merkileg. Hún varð gerð árið 1939 og fjallar um síðari heimsstyrjöldina; Hitler, gyðingaofsóknir og alla þessa skelfilegu hluti. Þetta er í rauninni háalvarleg saga sem fjallar um þessa skelfilegu atburði og uppgang nasismans í Þýskalandi en Chaplin gerði það auðvitað á sinn hátt – á skoplegan hátt til að niðurlægja þessi illmenni og eins og búast má við í verki eftir Chaplin. Þetta er gert á skoplegan og ýktan Chaplin-ískan hátt. Það er undirliggjandi dramatík og það gengur mikið á.“

Sigurður verður í aðalhlutverkunum – annars vegar í hlutverki flækingsins og hins vegar í hlutverki Hinkels (Hitlers) en flækingurinn verður einræðisherra fyrir röð mistaka þar sem þeir Hinkel eru svo líkir. „Þeir líta alveg eins út nema að Hinkel er vondur maður á meðan flækingurinn er gegnumgóður.“

Aðrir leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjáns, Pálmi Gests, Ólafía Hrönn, Gói, Þröstur Leó, Hallgrímur Ólafsson, Sigurður Þór og Oddur Júlíusson.

„Við gerum þetta að leikhúsverki með stórum staf. Þetta er mjög sýnilegt leikhús ef ég má orða það þannig og það er margt gert fyrir opnum tjöldum þannig að leikhúsið er svolítið að sýna bakdyramegin. Það finnst mér vera mjög skemmtilegt leikhús. Allir leikarar eru á sviðinu allan tímann þannig að þetta er mjög skemmtilegt að því leytinu til. Þetta er mjög frjálsleg sýning og það er allt leyfilegt. Leikarar framkvæma öll leikhljóð fyrir augum áhorfenda og það er ekkert spilað af segulbandi heldur verður þarna píanóleikari. Tónlistin er í Chaplin-stíl; þetta er þöglumyndar-tónlist.“

Djúpur og réttsýnn

Sigurður segir að fyrstu kynni sín af kvikmyndum Chaplins tengist því þegar hann fór í sal grunnskólans sem hann var í þar sem sýnd var stuttmynd eftir meistarann. „Það voru frjálsir tímar og þá var farið á sal og maður fékk að sjá stuttar Chaplin-myndir. Það er mín fyrsta minning um Chaplin.“

Sigurður viðurkennir að hann líti nú Chaplin öðrum augum en áður. „Maður hefur núna stúderað hann að vissu leyti en ég svo sem vissi ýmislegt um ævi hans og allt það. Þegar ég kynntist þessari sögu þá finnst mér hann hafa verið svo merkilegur vegna þess hvað hann hefur verið djúpvitur og réttsýnn maður. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því núna. Hann var stór listamaður,“ segir Sigurður með áherslu. „Ég held að það hljóti að vera draumur allra leikara að prufa að leika hlutverk Chaplins. Það er þó alltaf erfitt að feta í fótspor snillings en maður reynir.“ Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Sigurður leikur Hitler. „Ég lék hann í sýningu Þjóðleikhússins sem hét „Svejk í seinni heimsstyrjöld“ þannig að ég hef smáreynslu af honum. Það er bara að herma eftir Hitler á ýktan hátt. Það er stíllinn okkar.“

Sigurður segist halda að með þessu verki hafi Chaplin verið að leggja áherslu á að fólk eigi að vera gott hvert við annað. „Það kemur í ljós aftur og aftur að við erum það ekki. Þess vegna þurfum við að hamra svolítið á þessu við okkur sjálf og við hvert annað.“

 

Nýárskvíði

Mynd/Pixabay

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“ eða því sem næst og þar með runninn upp tími endurskoðunar, sjálfsskoðunar og heitstrenginga. Hið síðastnefnda kallast reyndar markmiðasetning sem er ákaflega viðeigandi í lífsgæðakapphlaupi samtímans sem hefur íþróttir og líkamlegt atgervi í hávegum.

Undirritaður er að spá í að taka þátt í heitstengingunum, enda fullur sjálfsfyrirlitningar í ljósi endurlits ársins, og setja sér það markmið að losa sig við líkamsþyngd sem samsvarar að minnsta kosti einum fermingardreng með skólatösku. Það var reyndar líka markmið síðustu og þar síðustu og þar á undan áramóta og þannig má áfram telja, en þegar líður að jólum kemst ég þó alla jafna að þeirri niðurstöðu að auðvitað sé aldrei nóg af mér. Um þá niðurstöðu má eflaust deila eins og annað.

En magnið af mér er auðvitað aðeins brot af mínum áunnum ágöllum sem rekja má til veiklundaðs geðs og marghátta fíknar. Af því leiðir að niðurstaða sjálfsskoðunarinnar er að ég er ekkert annað en miðaldra vindbelgur, um það vitna vindgangur og hrotur á víxl, sem samanstendur af blöndu af sjálfsfyrirlitningu og kvíða. Hinu eina og sanna andlega malti og appelsíni nútímamannsins.

Því blæs ég nú þungan og hugsa sem svo að ég hefði betur látið þessa vegferð sjálfsskoðunar ófarna. Betur gefið skít í allt nýársuppgjör og allar vangaveltur um hvað hefði getað farið betur á árinu sem er að líða. Það skilar nefnilega sjaldnast í öðru en óumræðanlegum nýárskvíða yfir því hversu linnulaust ég á eftir að bregðast sjálfum mér og öðrum á árinu sem senn gengur í garð.

Að vandlega athuguðu máli hef ég því komist að þeirri niðurstöðu að best fari á því að strengja engin heit. Treysta fremur á orð Valdimars Briem í sálminum um árið sem líður í aldanna skaut þar sem einnig segir svo fallega: „Allt breyttist í blessun um síðir“, eða með orðum undirritaðs einfeldnings: Jess, þetta reddaðist.

Svona verður heimurinn 2019

|||||||
Mynd/Pixabay|||||||

Rétt eins og árið sem nú er á enda mun árið 2019 einkennast af spennu og óvissu á alþjóðavettvangi. Átökin í Miðausturlöndum virðast engan endi ætla að taka og óútreiknanleg utanríkisstefna Donalds Trump getur gert ótryggt ástand enn eldfimara. Evrópusambandið mun taka miklum breytingum, bæði að innan og utan þar sem Brexit verður að veruleika. Mannlíf fer yfir það helsta sem mun gerast á árinu 2019.

Stefnir í sársaukafullt Brexit

Bretland mun að öllu óbreyttu ganga úr Evrópusambandinu þann 29. mars. Það á hins vegar enn eftir að koma í ljós á hvaða forsendum það verður. Breska þingið mun kjósa um óvinsælan samning Theresu May í byrjun ársins og verði hann samþykktur hefst aðlögunarferli við útgöngu.

Ríkisstjórn May er hins vegar þegar farin að undirbúa sig fyrir útgöngu án samnings og sviðsmyndin sem við blasir er allt annað en falleg. Bresk stjórnmál voru farsakennd í ár og ekkert bendir til annars en að það sama verði uppi á teningnum árið 2019. Pólitískt líf Theresu May og ríkisstjórnar hefur hangið á bláþræði í marga mánuði og mun gera það áfram.

Miklar breytingar innan ESB

Miklar breytingar verða á ásjónu Evrópusambandsins. Kosningar til Evrópuþings verða í maí þar sem kosið verður um 705 sæti í stað 751 sætis áður vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu. Líkt og í fyrri kosningum verður kosningaþátttaka lág og popúlistar og jaðarflokkar stela athylginni. Ný andlit munu skipa forystu ráðherraráðsins, þingsins og framkvæmdastjórnarinnar. Evran fagnar sömuleiðis 20 ára afmæli sínu árinu sem jafnframt verður síðasta ár Marios Draghi í embætti seðlabankastjóra.

Nýr seðlabankastjóri tekur við evrunni í mun betra standi en Draghi sem þurfti að leiða gjaldmiðilinn í gegnum krísur í Grikklandi, Portúgal og á Spáni. Þó er viðbúið að efnahagsstefnan harðni er líða tekur á árið. Innspýtingaraðgerðir seðlabankans renna sitt skeið á enda næsta haust og viðbúið er að eitt síðasta verk Draghis verði að hækka stýrivexti. Augu áhyggjufullra fjárfesta beinast nú að Ítalíu þar sem popúlistar eru við völd. Ný fjárlög þar í landi munu auka enn á skuldsetningu í trássi við reglur evrusvæðisins og var hún næg fyrir. Á pólitíska sviðinu munu ólýðræðislegu popúlistarnir í Ungverjalandi og Póllandi halda áfram að reyna á þolinmæði kollega sinna með umdeildum og allt að því fasískum tilburðum.

Trump forherðist

Donald Trump mun glíma við nýjan veruleika þegar demókratar taka völdin í fulltrúadeild þingsins. Þeir munu vafalaust gera forsetanum lífið leitt og efna til hinna ýmsu rannsókna gegn Trump, til að mynda freista þess að fá umdeilda skattaskýrslu hans fram í sviðsljósið. Á sama tíma fer leitin að forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins á fullt. Fleiri ákærur munu birtast í tengslum við rannsókn Roberts Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 en Trump mun sitja sem fastast og forherðast enn frekar eftir því sem sótt verður harðar að honum.

Bandaríska hagkerfið hægir á sér eftir óvenju langt hagsældarskeið sem mun ergja Trump enn frekar. Gjáin milli íhaldsmanna og frjálslyndra breikkar með tilheyrandi sjónarspili og lágkúru. Það verður þó ekkert í líkingu við 2020. Norðan landamæranna þarf algjör andstaða Trump, Justin Trudeau, að sækjast eftir endurkjöri. Vinsældir hans hafa dalað nokkuð og sækir Íhaldsflokkurinn hart að honum.

Hvað gerir veikur Pútín?

Vladimir Pútín er í vandræðum heimafyrir. Hagkerfið hefur glímt við áralanga stöðnun og ekki er útlit fyrir að viðskiptaþvingunum, sem þrátt fyrir fjálglegar fullyrðingar um annað hafa skaðað Rússland, verði aflétt í bráð. Vinsældir Pútíns, sem fóru í hæstu hæðir eftir innlimun Krímskaga, fara dvínandi. Almenningur er orðinn þreyttur á kostnaðarsömum stríðsrekstri í Sýrlandi og hækkun á ellilífeyrisaldri varð uppspretta mótmæla.

Þetta er hættuleg blanda. Pútín gæti reynt að afla sér aukinna vinsælda með stríðsátökum þar sem Úkraína er augljósasta skotmarkið. Heimafyrir herðir hann tökin á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum enn frekar og má nú þegar sjá þess merki, samanber aðför hans gegn rapptónlist.

Hræringar á Norðurlöndum

Bæði Danir og Finnar ganga til kosninga á árinu. Í Danmörku er það bláa blokkin, sem samanstendur af hægri flokkunum, sem stjórnar með minnsta mögulega meirihluta og fátt bendir til annars en að kosningarnar í ár verði hnífjafnar. Sem stendur er rauða blokkin með nauman meirihluta í könnunum.

Í Finnlandi mælast Sósíaldemókratar stærstir og útlit er fyrir stjórnarskipti. Munar þar mestu um að hinn þjóðernissinnaði popúlistaflokkur Sannir Finnar klofnaði á kjörtímabilinu. Þá gæti farið svo að kjósi þurfi á ný í Svíþjóð þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 9. september.

Flokkurinn herðir tökin

Hugmyndafræði forsetans Xi Jinping hefur nú verið greypt í stjórnarskrá Kína um leið og tryggt var að hann getur setið í embætti til æviloka. Þrátt fyrir það er Kommúnistaflokkurinn enn óöruggur um stöðu sína sem mun endurspeglast í enn ágengari ritskoðunartilburðum og áframhaldandi ofsóknum gegn minnihlutahópum, ekki síst gegn Úígúrum.

Á næsta ári verða 30 ár liðin frá hinni blóðugu stúdentauppreisn á Torgi hins himneska friðar og má búast við grimmri ritskoðun af hálfu kínverskra yfirvalda í kringum þann viðburð. Efnahagurinn verður fyrir hnjaski, meðal annars vegna harðandi viðskiptastríðs gegn Donald Trump.

Stríðandi stórveldi glíma við innanmein

Vonir standa til að hægt verði að hefja uppbyggingu í Sýrlandi eftir áralangar hörmungar þótt Bashar al-Assad reyni að leggja stein í götu uppbyggingarinnar. Lítið lát er á hörmungunum í Jemen þótt stórveldin sem þar tefla – Íran og Sádí Arabía – glími við mikil innanmein.

Ákvörðun Trumps um að draga herlið Bandaríkjahers frá Sýrlandi gæti hins vegar raskað öllu valdajafnvægi á svæðinu og leitt til enn frekari hörmunga. Klerkastjórnin í Íran stendur á veikari fótum en áður, meðal annars fyrir tilstilli viðskiptaþvingana Bandaríkjastjórnar. Önnur bylting kann að vera í aðsigi. Í krafti olíuauðsins hefur Sádí Arabía komist upp með alls kyns óhæfuverk en krónprinsinn Mohammed bin Salman gekk of langt þegar hann lét myrða blaðamanninn Jamal Kashoggi. Hann á eftir að finna fyrir aukinni einangrun, bæði heimafyrir og frá Vesturlöndum.

Í Ísrael freistar Benjamin Netanyahu að verða sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið á stóli, það er takist honum að sitja fram í júlí. Það er alls óvíst því spillingarmálin gegn Netanyahu og eiginkonu hans hrannast upp og valdaskipti á næsta ári eru því ekki útilokuð.

Bam Margera aftur í meðferð

Bam Margera er farinn í áfengismeðferð. Þetta er í þriðja sinn sem hann fer í meðferð.

Íslandsvinurinn og hjólabrettakappinn Bam Margera, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt með Jackass-hópnum, er farinn í áfengismeðferð í þriðja sinn. Margera ætti að vera mörgum landsmönnum kunnugur eftir heimsókn hans til landsins árið 2015. Þá rataði hann í fjölmiðla eftir að hafa lent í slagsmálum við rapparann Gísla Pálma á Secret Solstice hátíðinni.

Margera, sem hefur í gegnum tíðina talað opinskátt um baráttu sína við alkóhólisma, greindi frá því á Instagram að hann væri á leið í meðferð. Þess má geta að hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur í byrjun árs 2018 og fór þá í meðferð í kjölfarið.

Í færslu sinni á Instagram birtir hann mynd af sér með son sinn í fanginu sem er rúmlega eins árs. Í annarri færslu á Instagram þakkar hann meðal annars vinum sínum úr Jackass, þeim Steve-O og Johnny Knoxwille fyrir hjálpina við að koma honum í meðferð.

Batakveðjum og góðum ráðum hefur rignt yfir hann í gegnum Instagram síðan hann greindi frá því að hann væri á leið í meðferð.

Hlaut mikið hrós fyrir myndbirtinguna

Enska söngkonan Bessie Turner vill vekja athygli á andlegri heilsu og skaðlegum áhrifum samfélagsmiðla.

Söngkonan Bessie Turner hefur hlotið mikið lof fyrir að birta sjálfsmynd af sér grátandi á Instagram. Myndina birti hún í október en síðan þá hefur verið fjallað um myndbirtinguna í fjölmiðlum, svo sem á vef BBC og Telegraph.

Með myndinni vill hún vekja athygli á geðheilbrigði og þeim áhrifum sem glansmyndir á samfélagsmiðlum hafa gjarnan á líðan fólks. Myndina tók hún þann dag sem hún byrjaði aftur á þunglyndislyfjum eftir hlé.

Í myndatexta með myndinni hvetur hún fólk til að taka opinskátt um andlega líðan sína og leita sér hjálpar sé þess þörf. „Ég er heppin að hafa frábært stuðningsnet,“ skrifaði hún meðal annars.

Hún tók þá fram að þessi tiltekna mynd af henni grátandi á alveg eins heima á samfélagsmiðlum líkt og ljósmyndir af henni brosandi.

Í viðtali við BBC greindi hún frá að viðbrögðin við myndbirtingunni hafi verið góð og að hún hafði fengið ótal skilaboð frá fólki hvaðanæva úr heiminum. „Ég fékk skilaboð frá einum pabba sem sagði að dóttir sín hefði haft gott að því að sjá [myndina]. Það hreyfði við mér.“

Þá bendir hún á að samfélagsmiðlar gera mörgum unglingum lífið leitt og því sé mikilvægt að vekja athygli á að það sem fólk sér á samfélagsmiðlum gefur ekki endilega skýra mynd af raunveruleikanum.

View this post on Instagram

"Why do you have a selfie of you crying?" 🤔 -Because it's just as relevant as all the others of me smiling and singing and feeling like a hot mama that rules the world. I took this photograph a few weeks back -the day I started taking antidepressants again- as a marker for me to look back on with pride or sadness or whatever comes to mind. Like so many others I've had my battles and some days they just wipe me right out. I feel crazed and unwell and like I need my brain to be drained and it's so 100% totally okay to have those feelings. Reach out to your loved ones and friends because they'll always understand 🖤 I'm lucky enough to have a great support network, a wonderful life and the makings of a career that people would kill for… it's very hard to take it all in sometimes…. Big love to all that beam positivity and kindness, it really is a joy to have people's support throughout this (very self indulgent) journey. Big hugs, don't forget to be lovely. X #worldmentalhealthday #nofilter

A post shared by Bessie Turner (@bessieturner_) on

Góð ráð gegn timburmönnum frá fræga fólkinu

Hvað er best að gera í baráttunni við þynnkuna? Meðfylgjandi eru nokkur góð ráð frá fræga fólkinu.

Nigella Lawson mælir með að fá sér rétt sem kallast „prairie oyster“ í þynkunni. Sá réttur samanstendur af eggjarauðu, Worcestershire-sósu, Tabasco-sósu, ediki og salti og pipar.

Cameron Diaz fær sér Egg McMuffin á McDonalds og bjór.

Kate Hudson fær sér tómatsafa og ferska ávexti ásamt því að taka vítamín og segir það svínvirka.

Kate Winslet fær sér pylsur og beikon eins og sannur breti. Svo fær hún sér appelsínusafa og te. Þessu sagði hún frá í viðtali við The Mirror.

Renee Zellweger fær sér gjarnan baunir á ristuðu brauði.

Zoe Saldana fer í bað með Epsom salti áður en hún fer að sofa. Hún liggur í baðinu í um korter og segist þá vakna fersk daginn eftir.

Söngkonan Pink mælir með að fá sér bjór í þynnkunni.

Gwyneth Paltrow lætur renna í heitt bað og setur Epsom salt og matarsóda í baðvatnið. Þessu sagði hún frá á vef sínum Goop. Hún mælir með að liggja í baðinu í um 20 mínútur, fara svo í ískalda sturtu og svo aftur í baðið.

Khloé Kardashian hefur vanið sig á að stunda jóga í þynnkunni.

Julia Roberts sagði frá því árið 2009 að sambland af kampavíni og gulrótarsafa væri málið þegar hún er með timburmenn.

Sagan segir að Harry prins fá sér mjólkurhristing með jarðaberjabragði þegar hann er þunnur.

Leikarinn Hugh Grant sagði frá því í viðtali við Herald Sun að hann fær sér spaghetti bolognese í þynnku.

Paris Hilton heldur sig við klassíkina og fær sér stóran hamborgara með osti og franskar.

Lítill vinur sem gott er að hafa með í farteskinu

|
|
De Profundis, eða Úr djúpunum, er eftir Oscar Wilde.

Anna Gyða Sigurgísladóttir, listakona og dagskrágerðakona, kann að meta ljóðabækur, „non-fiction“, fræðibækur og endurminningar en hún segir að þær bækur sem hafi haft mest áhrif á sig séu flestar óskáldaðs efnis.

Fyrst nefnir Anna til sögunnar bók Oscars Wilde, De Profundis, eða Úr djúpunum, sem er eitt langt bréf sem hann skrifaði undir lok vistar í Reading-fangelsinu árið 1897. „Bréfið skrifar hann til fyrrum elskhuga síns, Lord Alfreds Douglas, sem átti stóran þátt í fangelsuninni en Wilde sat inni fyrir siðferðisbrot þar sem samkynhneigð var ólögleg í Englandi á þeim tíma.
„Á bak við gleði og hlátur getur falist ruddalegt, hart og tilfinningasnautt lundarfar. En á bak við sorgina er alltaf sorg. Þjáningin ber ekki grímu eins og gleðin,“ skrifar hann. Wilde hefur þarna misst nær allt; fjölskyldu, elskhuga, vini, mannorð og fé. Á næstu hundrað blaðsíðum lýsir hann sorg sinni, sálarkvölum og einlægri samúð með samföngum. Leitinni að heilun fléttar hann síðan við trúar- og menningarsögu mannsins, af viðkvæmni en einskærri hnyttni. Wilde lítur yfir farinn veg, setur spurningarmerki við höfundarverkið og spyr sig hvernig hann vilji halda áfram héðan af. Burtséð frá efninu þá get ég lesið De Profundis jafnoft og ég get hoft á Friends – hver lestrarstund er breytileg en alltaf er bréfið eins og lítill vinur sem gott er að ferðast með í farteskinu.“

Þá segir Anna dagbók franska skáldsins George Sand hafa snortið sig djúpt. „Ég fann hana fyrir tilviljun í gefins-kassa fyrir nokkrum mánuðum í París. Ég vissi lítið um Sand en fann strax á mér að þessi eldgamla sundurtætta bók ætti eftir að hafa áhrif á næstu vikurnar. Og hún gerði það. Hugleiðingar Sand um mannsandann, ástina, barneignir, persónulegar játningar og ýmislegt annað heillaði mig upp úr skónum. Svo mikið að bakgrunnsmyndin í tölvunni minni hefur síðan verið portrettmynd sem Felix Nadar tók af Sand sextugri, árið 1864.“

Loks nefnir Anna bókina Chroma: A Book of Colours – June ´93 eftir kvikmyndagerðarmanninn Derek Jarman. „Þetta er óður til lita þar sem Jarman skoðar birtingarmyndir þeirra og setur í samhengi við ýmis listaverk. Undirtónn skrifanna er þó veikindi, og endalok, enda skrifar hann bókina stuttu áður en hann lést af völdum alnæmis. „Blái liturinn er sýnilegt myrkur,“ skrifar hann. „Gátama Buddah leiðbeinir mér að ganga frá lasleika mínum. En hann er ekki fastur við vökvadælu.“ Ritstíllinn er ljóðrænn, frjálslegur og kaótískur í anda við hverfulleika veikinda.“

Mynd: Jón Þorgeir Kristjánsson

Menntun í takt við tímann

|
|

Höfundur / Sigurður Hannesson

Þau ánægjulegu tíðindi bárust nýlega að forritun verður almennt kennd í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Það er vonandi til marks um að fulltrúar sveitarstjórna út um allt land horfi til þeirra miklu breytinga sem fram undan eru í atvinnulífinu og þeirrar nýju færni sem mannauðurinn þarf að búa yfir.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins.

Menntun og mannauður eru mikilvægar forsendur góðra lífskjara og menntakerfið er ein helsta undirstaða þess að samkeppnishæfni Íslands verði efld. Það standa mörg spjót á íslenska menntakerfinu og úrlausnarefnin eru margvísleg. Því er mikilvægt að fyrir liggi stefnumið varðandi menntun íslensku þjóðarinnar til framtíðar þannig að mannauðurinn standist samanburð við það sem best gerist. Framtíðarsýnin þarf að markast af þeirri breyttu heimsmynd sem við blasir því staðreyndin er að menntunarstig hvers samfélags hefur veruleg áhrif á hagsæld þess og getu til nýsköpunar. Það er því til mikils að vinna að ungar kynslóðir fái þá menntun sem þörf er fyrir á hverjum tíma.

Fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin fylgja miklar breytingar á störfum og tækni. Nú þegar er orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulífið sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Það sést meðal annars á því að erfitt hefur reynst að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og blasir við að fjölga verði þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Það er gjarnan nefnt þegar fjórðu iðnbyltinguna ber á góma að um 60% þeirra starfa sem grunnskólabörn munu vinna við í framtíðinni þekkist ekki í dag. Það er því nauðsynlegt að tækni- og forritunarnám verði eflt til mikilla muna til að mæta þeirri öru þróun sem þegar sjást merki um í atvinnulífinu og samfélaginu öllu. En slíkum breytingum verður ekki mætt nema með umbótum í íslensku menntakerfi.

Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menntamálastofnun og RÚV tóku fyrir nokkru höndum saman um átaksverkefni með það að markmiði að efla forritunarkunnáttu íslenskra barna, auka vitund um mikilvægi forritunar í daglegum störfum, efla rökhugsun og stuðla að auknum áhuga á tækni- og iðngreinum. Í verkefninu fólst að nemendur fengu að gjöf forritanlegar smátölvur en með því var vakin athygli á mikilvægi forritunar og því að forritunarvinna reynir ekki aðeins á rökhugsun heldur virkjar einnig hugmyndaauðgi, skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun sem allt fylgir færni framtíðarinnar.

Hlutverk menntakerfisins er að rækta þekkingu, leikni og hæfni einstaklinga og styðja þannig við efnahagslega velmegun. Öflugt menntakerfi tengir saman færni mannauðsins og þarfir atvinnulífsins með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Þær breytingar sem fylgja stafrænni byltingu fela í sér heilmiklar áskoranir. Ör þróunin gerir kröfur til þess að breytingar verði gerðar á íslensku menntakerfi. Það er í höndum þeirra sem stýra menntakerfinu að veita nemendum á Íslandi menntun í takt við tímann.

„Skandall að hafa ekki komið í Fjörður“

Aldís Pálsdóttir

Leikkonan María Pálsdóttir frá Reykhúsum í Eyjafjarðarsveit kallar sig HÆLIS-veitanda eftir að hún opnaði kaffihús á gamla berklahælinu á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit og stofnaði setur um sögu berklanna á Kristnesi. Að auki leikur hún brjálaða mömmu í Gallsteinunum hans afa Gissa hjá LA og stjórnar Föstudagsþættinum á N4. Mannlíf fékk Maríu í yfirheyrslu.

Hvar líður þér best? „Mér líður geggjað vel á HÆLINU – huggulega kaffihúsinu sem ég opnaði í sumar og er opið allar helgar frá 14-18. En svo bara hvar sem er með góðu fólki.“

Hvaða hæfileika myndir þú vilja búa yfir? „Eigum við að segja að vera almáttug? Þá myndi ég spóla til baka og koma í veg fyrir hlýnun jarðar og losa heiminn við allt þetta plast.“

Stundarðu íþróttir? „Vildi að ég gæti sagt já … jú, ég geri jóga með Adriene á Netinu á nánast hverjum morgni og geng úti með hundinn.“

Hver var fyrsta vinnan þín? „Að gefa kálfum, þvo spena og raka dreifar heima í Reykhúsum, æskuheimili mínu í Eyjafjarðarsveit.“

Hvað er það leiðinlegasta sem þú gerir? „Ákveða hvað á að vera í matinn, kaupa matinn og elda matinn.“

Hvaða stað á Íslandi langar þig að heimsækja? „Fjörður – skandall að hafa ekki komið þangað og Flatey á Skjálfanda … og Lofthelli. Það eru svo margir staðir sem ég á eftir.“

Hvaða þætti ertu að horfa á? „Enga, en spændí mig Venjulegt fólk um daginn og hló upphátt vel og lengi.“

Hvaða sögufrægu manneskju myndir þú vilja hitta? „Sigríði frá Brattholti – biðja hana að hjálpa okkur í náttúruvernd nútímans og loftslagsmálunum.“

Hvaða bók ertu að lesa? „Var sko að klára frábæra bók í gærkvöldi um Heiðu fjallabónda eftir Steinunni Sigurðardóttur.“

Mynd / Aldís Pálsdóttir

 

Hjálpar foreldrum að halda hollustu að börnum

|
|

Í Stóru Disney matreiðslubókinni sem kom út fyrir jólin velur Tobba Marinósdóttir fjölmiðlafræðingur vinsælustu og bestu uppskriftirnar úr eldri bókunum í þessum bókaflokki og lét að auki fylgja nokkrar af hennar uppáhaldsuppskriftum.

Í bókinni er að finna allt frá plokkfiski upp í hátíðarrétti og bakstur.

„Þessi bók er fyrir alla,“ segir Tobba ákveðin en þarna má finna allt frá plokkfiski upp í hátíðarrétti og bakstur. „Hugmyndin er að vekja áhuga barna á eldamennsku en allar uppskriftir eru merktar með erfiðleikastuðli og vinsælum Disney-persónum. Disney setti nýlega ný heilsuviðmið svo leitast er við að hafa uppskriftirnar að hollum og næringarríkum réttum. Meðal höfunda eru gourmet-grallarar og eldhúsmeistarar á borð við Sollu Eiríks, Sigga á Gott, Sigga Hall og Ebbu Guðnýju.“

Allar uppskriftir eru merktar með erfiðleikastuðli og vinsælum Disney-persónum.

Sjálf er Tobba tveggja barna móðir og hefur reynslu af matreiðslu fyrir börn.

„Fiskur að hætti Frozen-systra er mun vinsælli en annar fiskur. Dóttur minni finnst gaman að fá að velja uppskriftir úr bókinni. Hún heldur sérstaklega upp á fiskbollurnar og hnetusmjörskúlurnar. Í bókinni eru einnig nokkur góð leyniráð. Til dæmis má setja smávegis rauðrófusafa eða náttúrulegan matarlit út í pottinn þegar verið er að sjóða fisk. Bleik ýsa er mun meira spennandi.“

Hún segir að flestir foreldrar kannist við að erfitt geti reynst að koma hollum mat ofan í börnin sín.

„Enda svo með morgunkorn í kvöldmat eftir öskur og drama. Við erum öll að reyna að gera okkar besta. Þessi bók er liður í að reyna að gera hollt spennandi. Til dæmis hjálpar að skera grænmetið út með piparkökumótum og mauka spergilkál í bústið.“

„Veðrið að morgni nýársdags skiptir máli“

Ýmis hjátrú fylgir komu nýja ársins auk þess sem margir ætla sér að bæta sig á hinum og þessum sviðum á árinu sem fer að ganga í garð.

Sums staðar trúir fólk því að það sem þú gerir eða borðar fyrsta dag ársins geti haft áhrif á lukku þína út árið. Þess vegna er sá siður algengur að fagna nýju ári í hópi fjölskyldu og vina. Veisluhöld standa oft fram á nótt, eftir að nýtt ár hefur gengið í garð.

Eitt sinn var því haldið fram að fyrsti gestur nýja ársins gæti fært bæði lukku og ólukku. Sérstaklega þótti það heillvænlegt ef fyrsti gestur var hávaxinn dökkhærður maður. En ljóshærðir og rauðhærðir færðu ekki gæfu og ekki konur heldur.

Ekki fara með neitt út af heimilinu. Ef þú þarft að gefa gjöf á nýársdag skaltu geyma hana í bílnum yfir nóttina. Ekki fara út með ruslið eða dusta af mottunni. Með því gætirðu kallað yfir þig ógæfu.

Hollendingar trúa því að með því að borða kleinuhringi á nýársdag verði þeir gæfu aðhljótandi.

Hefðbundinn nýársmatur er einnig oft talinn færa gæfu og í mörgum löndum er talið að hringlaga matur sé sérstaklega vel til þess fallinn og merki að nú sé eitthvað komið heilan hring. Einmitt þess vegna trúa Hollendingar því að með því að borða kleinuhringi á nýársdag verði þeir gæfu aðhljótandi.

Klæðstu nýjum fötum á nýársdag. Þannig áttu að geta aukið líkurnar á því að þú eignist fleiri nýjar flíkur á árinu.

Á miðnætti er mikilvægt að opna allar dyr hússins til að hleypa gamla árinu út og því nýja inn. Gott getur verið að sveifla hurðunum til þess að hjálpa til við þetta.

Hafðu hátt á miðnætti því þannig hræðirðu í burtu illa anda.

Veðrið að morgni nýársdags skiptir máli. Ef það er sunnanvindur þá mun viðra vel á árinu og það verða heilladrjúgt. Ef það er norðanvindur þá verður slæmt veður á árinu. Austanvindur færir hungur á nýju ári en vestanvindur er merki um að á árinu verði nóg til af mjólk og fiski en auk þess mun einhver mikilvægur falla frá á árinu. Ef það er logn er það tákn um gleðilegt og hamingjuríkt ár.

Hvenær byrjuðu brennur á Íslandi?

Áramótabrennur hafa þekkst á Íslandi frá því að skólapiltar úr Hólavallaskóla söfnuðu saman tunnum og öðru timburrusli árið 1791 og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan (eldfjall) en þar er sennilega átt við Landakotshæð. Fram að þeim tíma þótti timbur og annar eldiviður einfaldlega of dýrmætur til að sóa í slíkt.

Rúmlega hálfri öld síðar voru brennur orðnar nokkuð algengar og hefð fyrir því að dansa álfadans kringum þær. Sá siður á reyndar rætur að rekja til ársins 1871 þegar skólapiltar við Lærða skólann frumsýndu leikritið Nýársnótt en í því koma álfar við sögu. Piltarnir tóku sig síðan til á gamlárskvöld, ásamt stúdentum þaðan og frá Kaupmannahöfn, og klæddu sig upp sem álfa, gengu niður að Tjörninni í Reykjavík með blys í hendi, dönsuðu og sungu álfasöngva.

Þess má geta að í um þessi áramót verða áramótabrennur á tíu stöðum í Reykjavík, eins og verið hefur undanfarin ár. Upplýsingar um staðsetningu þeirra er að finna á vef Reykjavíkurborgar. Eldur er borinn að köstunum kl. 20.30 á gamlárskvöld á flestum brennum.

Skemmtilegar partíkvikmyndir

Nú eru áramótin á næsta leiti og þá fara flestir í einhvers konar veislu eða partí. Það er því við hæfi að skoða nokkrar bestu og frægustu partímyndir allra tíma.

Á æskuslóðum

Eins og nafnið gefur til kynna fjallar kvikmyndin Sisters um systurnar Kate og Mauru Ellis. Þegar þær komast á snoðir um áform foreldra sinna um að selja æskuheimili þeirra ákveða þær að halda kveðjuhóf á meðan foreldrarnir bregða sér frá. Þetta partí skal toppa öll partí sem áður hafa verið haldin í þessu húsi. Félögum þeirra úr gagnfræðiskóla er öllum boðið. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sé nú orðinn ráðsettur og með börn kunna þeir enn að djamma. Tina Fey og Amy Poehler, sem leika systurnar, eru kómískir snillingar. Í myndinni fylgjumst við með kostulegum undirbúningi og auðvitað veislunni sjálfri sem eins og flestir ættu að geta giskað á fer heldur betur úrskeiðis með verulega skondnum afleiðingum.

Sögulegt partí

Í Project X á Thomas afmæli og eins og alla unga menn dreymir hann um að halda besta og flottasta afmælispartí sem haldið hefur verið. Til allrar lukku verða foreldrar hans ekki heima svo Thomas lætur slag standa og fær félaga sína, J.B. og Costa, í lið með sér. Hann lætur orðið ganga að öllum sé boðið heim til hans í partí ársins – og enginn lætur segja sér það tvisvar. Allir mæta og upphefst einhver svakalegasta veisla sem sögur fara af. Það skemmir auðvitað ekki fyrir að Thomas á ríka foreldra sem búa í stóru húsi með sundlaug og alls konar fíneríi. Auðvitað reynast nágrannarnir ekki alveg sáttir við lætin en það bíttar engu.

Tryllt tógapartí

Animal House gerist árið 1962 í Faber-framhaldsskólanum. Delta Tau Chi-bræðralagið er illa þokkað og hver sem er getur fengið inngöngu á meðan Omega Theta Pi-bræðralagið er ekki opið hverjum sem er og í raun stútfullt af ríkum, hvítum strákum sem enginn þolir nema skólastjórinn. Skólastjórinn leitar til þeirra til að hrekja fyrrnefnda bræðralagið úr skólanum. Alls kyns bellibrögðum er beitt og skólastjórinn nær vilja sínum næstum fram. Delturnar halda risastórt tóga-partí með hljómsveit og öllu klabbinu. Ýmistlegt skrautlegt gerist í partíinu, meðal annars sefur einn bræðranna hjá eiginkonu skólastjórans.

Umsjón / Hildur Friðriksdóttir

Sjálfboðaliði í Hlaðgerðarkoti á gamlársdag

Theódór Gunnar Smith matreiðslumaður mun vinna sem sjálfboðaliði á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti á gamlársdag og fram á gamlárskvöld en það gerði hann einnig á aðfangadag.

Theódór Gunnar er vanur að vinna sjálfboðaliðastörf fyrir Hlaðgerðarkot og hjá Mæðrastyrksnefnd og þetta árið eldaði hann einnig jólamatinn fyrir Konukot. Theodór, sem fékk hjálp á Hlaðgerðarkoti fyrir rúmu ári síðan, segist trúa á karma og að hann upplifi þá eitthvað gott í staðinn.

Hann fór fyrst fyrir tveimur árum og aftur fyrir rúmu ári í meðferð á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti þar sem fólk fer í áfengis- og vímuefnameðferð á vegum Samhjálpar og segist hann því hafa mikla og góða tengingu við staðinn. Hann er hættur allri neyslu og varð trúaðri í gegnum þessa reynslu og gekk í Fíladelfíu í kjölfarið. Sjálfboðaliðastörf og það að láta gott af sér leiða hefur verið hluti af lífi hans síðan.

Síðastliðin ár hefur hann unnið sem kokkur í grunnskóla. Eitt árið fékk hann til dæmis þá hugmynd að fá nemendur í skólanum þar sem hann vinnur til að elda meðal annars indverskan pottrétt og fiskrétt í desember og seldu þeir foreldrum nemenda í skólanum sem „take away“ og rann peningurinn til Mæðrastyrksnefndar.

„Ég hef eldað matinn á aðfangadag í Hlaðgerðarkoti tvenn jól áður en í ár matreiddi ég einnig fyrir dömurnar á Konukoti á aðfangadag. Í ár verð ég núna einnig á Hlaðgerðarkoti á gamlársdag í fyrsta skipti,“ segir Theodór en þeir verða tveir í eldhúsinu í sjálfboðaliðastörfum þennan dag og elda fyrir rúmlega 30 manns.

Humar og hamborgarhryggur

Theódór segir að hann muni á gamlársdagsmorgun undirbúa kvöldmatinn fyrir fjölskylduna. „Ég fer upp í Hlaðgerðarkot um ellefuleytið og græja allt þar. Fólkið þar borðar kvöldmatinn snemma, eða um fimm- til sexleytið, og verður hamborgarhryggur og pörusteik í matinn og ætla ég að vera með humarsúpu; fólkið þar er búið að biðja um humarsúpu í forrétt. Við Ívar Guðjóns, sem aðstoðar mig, verðum örugglega þar til um átta en við ætlum svo að fá flugeldasölu til að styrkja okkur um nokkra flugelda og skjótum upp áður en við förum. Fólkið sem dvelur á staðnum verður svo með nokkra flugelda sem það mun skjóta upp á miðnætti.

Birgjarnir sem ég versla við í vinnunnu hafa alltaf styrkt mig um hráefni þegar ég hef leitað til þeirra þegar ég er að sinna sjálfboðaeldamennsku sem er algjör snilld.“

Theódór, sem á konu og börn, segir að hann verði svo kominn heim um hálfníu og þá borði hann með fjölskyldunni sem bíður eftir honum. „Ég verð enga stund að græja matinn en konan setur allt í gang.“

Trúir á karma

Theódór segir að sér finnist mikilvægt að vera til staðar fyrir skjólstæðingana í Hlaðgerðarkoti eins og aðrir voru þar til staðar fyrir hann þegar hann dvaldi þar á sínum tíma. Hann segir líka vera mikilvægt að starfsmenn í eldhúsi Hlaðgerðarkots fái frí yfir hátíðirnar.

„Það þarf einhver að gera þetta,“ segir hann og á við eldamennskuna. „Ég trúi á karma. Það er eiginlega bara gott karma að gefa af sér og þá fær maður þetta til baka; ég trúi því að ef ég geri eitthvað gott þá fæ ég góða orku í staðinn – sama hvort það tengist umferðinni eða fólki í kringum mig. Þetta helst allt í hendur.“

Mér líður vel af því að láta gott af mér leiða, þá fer ég ekki pirraður inn í daginn. Ég verð glaðari.

Theódór segir að sér finnist vera gott að vera hinum megin við borðið þegar kemur að Hlaðgerðarkoti.

„Mér líður vel af því að láta gott af mér leiða, þá fer ég ekki pirraður inn í daginn. Ég verð glaðari. Það er ekki annað hægt en að vera í góðu skapi þegar maður gefur af sér. Það skiptir máli að vera góð hvert við annað og vera jákvæður; það er lykillinn. Þegar ég geri eitthvað gott fyrir aðra líður mér vel og langar að gera meira af því. Það skiptir líka máli að bera virðingu fyrir öllum í okkar samfélagi, sama hvar þeir eru staddir hverju sinni. Svo kem ég bara heim á gamlaárskvöld í súpergóðu skapi og tek fagnandi á móti nýju ári í faðmi fjölskyldunnar.“

Texti / Svava Jónsdóttir

Allt leyfilegt í áramótaförðunum

||||||||
||||||||

Áramótafarðanir eru í uppáhaldi hjá Helgu Sæunni Þorkelsdóttur, alþjóðlegum förðunarfræðingi Lancôme á Íslandi, vegna þess að þá má, að hennar mati, allt. Dökk smokey-förðun með glimmeri, dökkar varir og ljómandi húð gefa dramatískt og flott útlit.

1. „Teint Miracle-farðinn frá Lancôme er þekjandi ljómafarði og gefur einstaklega fallega áferð á móti möttum og dökkum vörum og augum.“

Bronzing Stones.

2. „Til að fá hreyfingu í förðunina nota ég Bronzing Stones-sólarpúðrið frá YSL sem gefur fallega og jafna áferð. Ég set sólarpúðrið alltaf á kinnbein, enni og niður á háls, aðeins yfir nef og höku til að fá fallegan lit og enn meiri ljóma.“

Liquid Light.

3. „Liquid Light frá HR er kremaður highlighter sem bæði má nota undir og yfir farðann. Mér finnst gott að dúmpa honum efst á kinnbein, á nefbrúnina og örlítið í cupids bow yfir vörum.“

Cut Crease.

4. „Cut Crease-augnskuggapallettan frá Lancôme er ný viðbót sem er ótrúlega auðveld í hvaða áramótalúkk sem er. Hún inniheldur góða blöndu af náttúrulegum og dökkum litum.“

Heavy Metals-glimmer.

5. „Heavy Metals-glimmerin frá Urban Decay eru næstum nauðsyn með öllum áramótaförðunum. Það er sniðugt að setja þau á mitt augnlokið eða í innri augnkrók til að gefa opnara og bjartara augnsvæði.“

Monsieur BIG-maskarinn.

6. „Monsieur BIG-maskarinn gefur dramatísk, smoky augnhár sem henta vel með dramatískri áramótaförðun.“

KAJAL.

7. „Ég nota svo svartan Kajal-blýant frá Lancôme til að toppa augnförðunina. Það er hægt að nota Kajal-blýantinn sem grunn undir augnskugga til að fá enn meiri dýpt í augnförðunina, sem smudgy-augnblýant eða til að sverta vatnslínuna.

8. „Rouge Drama Matte-varalitirinir frá Lancôme eru í algjöru uppáhaldi hjá mér núna. Þeir gefa mjúka flauelsáferð og matta áferð sem endist allan daginn. Mér finnst litur nr. 508 fullkominn til að innisigla glamúrinn og dramatíkina þessi áramót.

Fix It Forget It setting-spreyið frá Lancôme.

9. „Síðast en ekki síst nota ég alltaf Fix It Forget It setting-spreyið frá Lancôme til að festa förðunina og gefa henni enn betri endingu svo það þarf að hugsa sem minnst um touch-upp og lagfæringu.“

GLEÐILEGT NÝTT ÁR.

Þegar góðir menn gera ekkert

LEIÐARI Árið 2018 sem nú er að renna sitt skeið verður að teljast eftirminnilegt fyrir ýmsar sakir, hvort sem það er fyrir óvissuna í kringum stöðu íslensku flugfélaganna, þá hörðu og oft óábyrgu orðræðu sem einkennt hefur umræðu tengda kjaraviðræðum, eða skandalana sem skekið hafa íslenskt samfélag undanfarna mánuði, hver á fætur öðrum. Já, þau eru svo sannarlega mörg hneykslismálin sem hafa komið upp á árinu, Orkuveitumálið, framúrkeyrsla hátíðarfundar Alþingis á Þingvöllum í tilefni af hundrað ára fullveldisafmælinu og endurgerð braggans í Nauthólsvík þar sem svívirðilega hefur verið bruðlað með almannafé, svo dæmi séu tekin. Að ógleymdu auðvitað hinu alræmda Klaustursmáli, þar sem á frægri upptöku sem lekið var í fjölmiðla má heyra hvernig þingmenn tveggja stjórnmálaflokka stæra sig af pólitískum hrossakaupum auk þess að níða skóinn af konum, minnihlutahópum og samstarfsfólki sínu á þingi.

Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem upp koma hneykslismál sem tengjast stjórnmálum á Íslandi og nú sem endranær virðast íslenskir stjórnmálamenn seint ætla að læra að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir gera mistök. Hvort sem það er í Braggamálinu, Klaustursmálinu eða öðrum miður skemmtilegum málum sem hafa komið upp á árinu þá virðist viðkvæðið alltaf vera það sama: Menn ætla að læra af reynslunni að eigin sögn en það er eins og engum detti hreinlega í hug að segja af sér. Það virðist ekki einu sinni koma til greina. Tilhugsunin algjörlega fjarstæðukennd. Og er það þá skrítið að kannanir skuli sýna að almenningur í landinu treysti ekki stjórnmálamönnum þegar stjórnmálamenn hafa hvað eftir annað sýnt að þeir eru ekki traustsins verðir. Þegar viðbrögðin við gagnrýni á störf þeirra virðast oft einkennast af skilningsleysi, lítilli auðmýkt, hvað þá iðrun og stundum, því er miður og verr, hroka og yfirlæti.

„Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta sinn sem upp koma hneykslismál sem tengjast stjórnmálum á Íslandi og nú sem endranær virðast íslenskir stjórnmálamenn seint ætla að læra að axla pólitíska ábyrgð þegar þeir gera mistök.“

Ábyrgðaleysi af þessu tagi er eins og fyrr segir ekki nýtt af nálinni og einskorðast auðvitað ekki við stjórnmál. Ef eitthvað er þá virðist það vera orðið einskonar þjóðaríþrótt á Íslandi að taka ekki ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Það er því kannski ekki undarlegt að einhverjir hugsi með sér að það séu fá tilefni til að vera bjartsýn á að hlutirnir muni eitthvað breytast héðan af. Að svona verði þetta bara áfram.

Slíkur hugsunarháttur er hins vegar engum til góðs og þess vegna er mikilvægt að hann fái aldrei að skjóta rótum í samfélaginu. Að við leyfum ekki einhverju óæskilegu ástandi að grassera og verðum samdauna því. Á mörgum sviðum standa Íslendingar ágætlega í alþjóðlegum samanburði en það hefur svo sannarlega ekki gerst af sjálfu sér og ef við ætlum að halda áfram á sömu braut er meðal annars brýnt, kannski brýnna nú en nokkru sinni fyrr í ljósi undangenginna atburða að gefa sér tíma til að velta málunum fyrir sér, vera vakandi, gagnrýnin og síðast en ekki síst ábyrg sjálf. Láta bölmóðinn ekki bera bjartsýnina ofurliði þegar við kveðjum árið sem er að líða heldur ganga inn í það nýja með þá hugsun að leiðarljósi að við getum öll haft áhrif í samfélaginu og lagt okkar af mörkum til að gera það betra. Hafa hugföst orð stjórnmálamannsins Edmunds Burke sem sagði að eina sem þyrfti til að hið illa sigraði væri að góðir menn gerðu ekkert.

Til gamans gert um áramót

Margir telja nauðsynlegt að gera eitthvað alveg sérstakt til hátíðabrigða um áramót. Sumir dusta rykið af dansskónum sínum og fagna nýju ári með gleði og gamni, aðrir kjósa að safna um sig vinum og ættingjum og gleðjast saman og sumir vilja helst taka það rólega. Hvað sem þú kýst eru hér nokkrar skemmtilegar leiðir til að gera áramótin eftirminnileg.

Mjög margir taka upp kampavínsflösku klukkan tólf að miðnætti og skála fyrir nýju ári. Ef þið viljið reyna eitthvað nýtt má nudda barm glassins með appelsínu- eða sítrónusafa og þrýsta glasinu síðan ofan í sykurkarið. Sykurinn situr þá eftir á barminum og gefur skemmtilegt yfirbragð svo má skreyta glasið með appelsínu- eða sítrónusneið. Kampavín blandað ýmsum líkjörum er einnig mjög gott. Kirsuberjalíkjör og kampavín er kokkteillinn Kír en eins má blanda ferskjubrandíi, perulíkjör eða yfirleitt hvaða ávaxtalíkjör sem er saman við freyðivínið til að gera það bragðsterkara og til að fá á það nýjan lit. Hlutföllin eru 1 hluti af líkjör á móti 2 hlutum af kampavíni.

Ef þið ætlið að halda samkvæmi er kjörið að létta lund gestanna með því að fara í alls konar samkvæmisleiki. Þeir eru margir til og flestir kunna nokkra. Einn er ákaflega vel til fundinn um áramót en hann er þannig að ljósin eru slökkt þegar klukkan byrjar að slá á miðnætti og áður en tólfta slagið heyrist verða allir að vera búnir að grípa í einhvern og sá hinn sami verður sá fyrsti sem þú óskar gleðilegs árs með kossi að sjálfsögðu.

Breytið á einhvern hátt út af venjunni og gerið eitthvað sem þið eruð alls ekki vön. Fyrir þá sem nota andlitsfarða er gaman að gera eitthvað nýtt. Notið gylltan eða silfurlitan glitrandi augnskugga, eldrauðan varalit eða glimmermaskara.

Safnið saman þeim lögum sem þið teljið að hafi sett svip á árið sem er að líða og haft áhrif á líf ykkar. Reynið að komast yfir að spila þau öll áður en klukkan slær tólf.

Leitið ráðlegginga að handan. Spyrjið rúnir hvað muni gerast á nýja árinu, leitið til spákonu, farið í andaglas eða inn á vefinn facade.com/Occult/tarot og látið spá fyrir ykkur. Sumir nota tækifærið einmitt nú og ráðgast við miðil um líf sitt. Tímamót sem þessi eru líka til þess að gera upp fortíðina og losa sig við öll gömul leiðindi úr fortíðinni og líta bjartari augum til framtíðar. Ef fólk er hjátrúarfullt má benda á að ýmsir litir eru líklegri til að bera með sér gæfu en aðrir. Kínverjar segja að rautt sé gæfulitur og í Kína klæðist brúður rauðu á heiðursdegi sínum. Ef lukkan sem fylgir litnum er látin liggja milli hluta eru rauðklæddar konur yfirleitt glæsilegar og draga að sér augu allra nálægra karlmanna.

Takið upp þann sið að halda dagbók og byrjið á gamlárskvöld. Gerið það í þeim tilgangi að muna betur það góða sem gerist í lífi ykkar og til að festa ykkur betur í minni ýmsar lexíur sem þið lærið á hverjum degi.

Íslendingar sem vöktu athygli á árinu 2018

|||||
|||||

Ritstjórn Mannlífs tók saman lista yfir nokkra Íslendinga sem hafa vakið athygli fyrir framgöngu sína á árinu sem er að líða.

Elísabet Margeirsdóttir.

Elísabet Margeirsdóttir

Næringarfræðingurinn og hlaupakonan Elísabet Margeirsdóttir vann hug og hjörtu þjóðarinnar þegar hún kláraði 409 kílómetra hlaup í gegnum Góbí eyðimörkina í Kína. Ekki nóg með að hún kláraði hlaupið heldur varð hún í 9. sæti af 60 og langfyrst kvenna. Hún hljóp kílómetrana 409 á 96 klukkustundum og 54 mínútum og varð fyrsti Íslendingurinn til að ljúka þessari þolraun.

Sigurður Kjartan Hilmarsson

Sigurður Kjartan Hilmarsson seldi fyrirtæki sitt, The Icelandic Milk and Skyr Corporation, til franska matvælarisans Lactalis fyrir um 30 milljarða króna í byrjun ársins. Það var 14 árum eftir að hann hóf að gera tilraunir með skyrframleiðslu í eldhúsinu heima hjá sér en á þeim tíma byggði hann upp vörumerkið Siggi´s Skyr af mikilli elju.

Helga Elín Herleifsdóttir.

Þær rufu þögnina

Helga Elín Herleifsdóttir, Kiana Sif Limehouse og Lovísa Sól Sveinsdóttir sýndu einstakt hugrekki á árinu þegar þær stigu fram í fjölmiðlum og lýstu meintu kynferðisofbeldi sem þær urðu fyrir af hendi sama mannsins, lögreglumanns sem þær höfðu báðar kært en málunum var vísað frá og maðurinn hélt starfi sínu. Helga Elín og Kiana Sif, prýddu báðar forsíður Mannlífs sem greindi fyrst frá málinu, en með því að rjúfa þögnina vildu þær m.a. vekja athygli á brotalömum á rannsókninni og kerfi sem brást.

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“

Sjá einnig: „Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

Benedikt Erlingsson

Benedikt Erlingsson hefur á undanförnum árum skipað sér í hóp athyglisverðustu leikstjóra Evrópu og 2018 var honum einkar gjöfult. Kvikmynd hans Kona fer í stríð hefur farið mikinn á kvikmyndahátíðum víða um heim og hlaut meðal annars Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Á dögunum var svo greint frá því að stórleikkonan Jodie Foster muni leikstýra og leika aðalhlutverkið í enskri útgáfu myndarinnar.

Bára Tómasdóttir.

Bára Tómasdóttir

Einar Darri Óskarsson lést í maí á þessu ári eftir neyslu róandi lyfja, 18 ára gamall. Bára Tómasdóttir, móðir Einars Darra, stofnaði í kjölfarið minningarsjóð um son sinn og setti forvarnarátakið Ég á bara eitt líf á laggirnar með það að markmiði að varpa ljósi á fíkniefnavandann á Íslandi.

Bára Halldórsdóttir

Bára Halldórsdóttir setti íslenskt stjórnmálalíf á annan endann þegar hún tók upp samræður þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins á Klausturbar í nóvember. Málinu er þó ekki lokið fyrir Báru því þingmenn Miðflokksins stefndu henni fyrir dóm til að gera frekari grein fyrir upptökunum. Málið mun koma til kasta Landsréttar auk þess sem Persónuvernd skoðar málið.

Ísold Uggadóttir

Ísold Uggadóttir vakti heimsathygli þegar hún var fyrst Íslendinga valin besti alþjóðlegi leikstjórinn í flokki alþjóðlegrar kvikmyndagerðar á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Utah í Bandaríkjunum snemma á árinu. Mynd hennar „Andið eðlilega“ hefur hlotið lof gagnrýnenda um allan heim og sópað til sín verðlaunum og svo virðist sem ekki sjái enn fyrir endann á þeirri sigurgöngu.

Arnór Sigurðsson.

Arnór Sigurðsson

Arnór Sigurðsson vakti athygli stórliða í Evrópu fyrir góða frammistöðu með sænska liðinu Norrköping í byrjun ársins og það var rússneska stórliðið CSKA Moskva sem bauð best og þangað fór hann í sumar. Þrátt fyrir það vissu ekki margir deili á þessum 19 ára Skagamanni fyrr en hann sló í gegn í Meistaradeild Evrópu þar sem hann skoraði meðal annars laglegt mark gegn Evrópumeisturum Real Madrid á Bernabeu.

Sanna Magdalena Mörtudóttir

Sanna Magdalena Mörtudóttir hefur sannarlega vakið athygli fyrir skelegga framgöngu sem oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavík og þykir trúverðugur málsvari hinna verst settu. Sósíalistaflokkurinn fékk 6,4% atkvæða í Reykjavík í síðustu borgarstjórnarkosningum eða meira en tvöfalt meira fylgi en allir nýju flokkarnir til samans og vilja sumir meina að þetta góða gengi flokksins sé að miklu leyti Sönnu að þakka.

Jón Þór Birgisson

Jón Þór Birgisson, betur þekktur sem Jónsi úr Sigur Rós, er tilnefndur til Golden Globe-verðlauna fyrir besta lag. Um er að ræða lagið Revelation sem er að finna í kvikmyndinni Boy Erased. Nicole Kidman og Russel Crowe eru meðal þeirra sem fara með hlutverk í myndinni. Lagið samdi Jónsi ásamt Brett McLaughlin og Troye Sivan. Golden Globe hátíðin fer fram 7. janúar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Hjördís Svan Aðalheiðardóttir

Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar höfðu búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið.

Sjá einnig: „Stolt af fangavistinni“

Áramótapartíréttir

||||||
||||||

Vinsælt er að bjóða upp á smárétti og kokteila þegar nýja árið er boðið velkomið. Hér eru nokkrir ljúffengir smáréttir úr smiðju Valdísar Sigurlaugar Bragadóttur matreiðslumanns og unaðslegir áramótakokteilar sem Valtýr Bergmann blandaði fyrir okkur.

Tandoori-kjúklingaspjót með jógúrt-raita
10 kjúklingalundir
3 msk. tandoori paste
7 msk. skyr
2 hvítlauksrif
2 tsk. sítrónusafi
salt og pipar

Hrærið tandoori paste og skyr saman og bætið við það rifnum hvítlauk, sítrónusafa, salti og pipar eftir smekk. Setjið kjúklingalundirnar í tandoori-blönduna og látið marinerast í 1 sólarhring. Setjið í ofn við 200°C í 12-15 mín.

Jógúrt-raita
340 g hrein jógúrt
½ gúrka
2 rauðir chili
2 tsk. hunang
salt og pipar
8 myntulauf

Kjarnhreinsið gúrkuna og skerið í litla bita, fræhreinsið chili-inn og skerið smátt. Blandið gúrku og chili saman við jógúrtina og bætið hunangi út í. Skerið myntulaufin þunnt og bætið við, saltið og piprið eftir smekk.

Tómatar og mozzarella
1 pk. kirsuberjatómatar
1pk. mozzarella-ostur, litlar kúlur
½ búnt basil
ólífuolía
salt og pipar

Skerið kirsuberjatómatana í tvennt og setjið annan helminginn á spjót. Setjið síðan mozzarella-kúlu á spjótið ásamt basillaufi og að lokum hinn helminginn af kirsuberjatómatinum. Látið ólífuolíuna leka yfir og saltið og piprið.

Blackeraður lax á baguette
1 laxaflak
snittubrauð (baguette)
teriyaki-sósa (blue dragon)
mangó-chutney (hot spot)

Kryddblanda á lax
2 msk. paprikuduft
1 tsk. karrí
3 tsk. cayenne-pipar
3 tsk. hvítlaukspipar
4 msk. flórsykur
2 msk. salt

Blandið kryddi og flórsykri saman og stráið yfir laxinn og steikið síðan á pönnu í 3 mín. á roðlausu hliðinni og 1 mín. á roðhliðinni. Skerið snittubrauðið þunnt og grillið á pönnu. Setjið laxinn á brauðið og teriyaki-sósu og mangó-chutney yfir.

Grand King
Höfundur: Valtýr Bergmann

3 cl Grand Marnier
1,5 cl Absolut Mandarin
1,5 cl jarðarberjalíkjör
9 cl ananassafi

Allt hrist saman, hellt í longdrink-glas með klökum. Skreyttur með límónubáti, kirsuberi og myntu.

Misty Moss
Höfundur: Leó Icebreaker

3 cl ljóst romm
2 cl Björk líkjör
1 cl sítrónusýra
1 cl fjallagrasasíróp
7cl kolsýrt vatn

Allt hrist saman nema kolsýrða vatnið, drykkurinn er fylltur upp með því.
Borinn fram í kampavínsglasi. Skreyttur með sítrónuberki og timjan.

Piscoteka
Höfundur: Dominic Kocon

4 cl Pisco
2 cl Chambord-líkjör
3 cl límónusafi
3 cl grenadine
2 cl eggjahvíta
3 dropar Cranberry-bitter

Hristur með klaka og hellt í viskíglas. Skreyttur með myntu og sítrónuberki.

„Mikil vinna liggur í flestum þessara drykkja en eins og vitað er hefur kokteilmenningu farið mikið fram bæði hér heima og úti í heimi á síðastliðnum árum.“

Umsjón / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir og Íris Hauksdóttir
Myndir / Kristinn Magnússon og Aldís Pálsdóttir

Árið 2019 ætla ég að …

Rannsóknir hafa sýnt að ríflega þriðjungur fólks strengir áramótaheit á hverju ári. Lykillinn að því að standa við áramótaheit er að ætla sér ekki um of, velja sér aðeins eitt eða tvö, og vera búinn að ákveða þau með fyrirvara. Hér eru nokkur góð áramótaheit tengd heilsu til að veita innblástur og vekja til umhugsunar.

Lífsstílsbreytingar

Algengasta áramótaheitið er án efa það að léttast, breyta mataræðinu eða hreyfa sig meira. Það kannski sýnir einna best hversu erfitt er að snúa við blaðinu og lifa heilbrigðara lífi. Vandinn er að fólki hættir til að vilja sjá árangurinn strax og þegar það gerist ekki þá missir það móðinn. Best er að forðast allar skyndilausnir og setja sér hófleg markmið.

Hætta að reykja

Flestir reykingamenn hafa reynt að hætta allavega einu sinni og jafnvel oftar. Margir verða hræddir við að reyna að hætta því þeir óttast það að mistakast enn einu sinni. Staðreyndin er sú að það tekur suma margar tilraunir en það er betra að reyna aftur og mistakast en að reyna ekki. Þú þarft að finna út hver birtingarmynd fíknarinnar er hjá þér og hvaða lausn hentar þér best. Það verður án efa erfitt en verður þess virði til langs tíma litið.

Draga úr streitu

Það er alls ekkert slæmt að vera undir dálitlu aukaálagi öðru hverju, þvert á móti getur það gert okkur afkastameiri og gefið okkur aukna orku. Langtímastreita og álag hefur hins vegar þveröfug áhrif og auka meira að segja líkur á svefnleysi, hjartasjúkdómum, þunglyndi, ofþyngd og fleiru. Langir vinnudagar, ónógur svefn, lítil hreyfing, lélegt mataræði og skortur á samverustundum með fjölskyldu og vinum getur leitt til streituaukningar. Til að snúa niður af vítahringnum sem oft myndast þarf að laga þessi atriði. Gott er að taka eitt skref í einu og stundum þarf hjálp sérfræðinga í lið með sér.

Drekka minna áfengi

Neysla áfengis í miklu magni er heilsuspillandi, hvort sem það er mikið í einu eða lítið og oft. Áfengi hefur áhrif á boðefni í heilanum og getur aukið líkur á minnistapi, þunglyndi og fleiru. Það hefur líka áhrif á aðra starfsemi líkamans eins og hjarta- og æðakerfið og lifrina og svo hafa rannsóknir sýnt tengsl milli ofneyslu áfengis og ýmissa krabbameina; þar á meðal í munni, hálsi, lifur og brjóstum. Það er ekki endilega þörf á að hætta alveg að drekka, nema þú eigir við flóknari vanda að stríða en þú getur ákveðið að drekka aðeins um helgar og þá í hófi eða taka áfengislausan mánuð öðru hverju.

Sofa meira

Flestir vita að góður og endurnærandi svefn er mjög mikilvægur. Á meðan við sofum er gríðarlega margt að gerast í líkama okkar, til dæmis fer fram nauðsynleg endurnýjun og -uppbygging í frumum líkamans. Færri gera sér grein fyrir að ónógur svefn getur aukið líkurnar á lífsstílssjúkdómum á borð við yfirþyngd og sykursýki 2. Svefn er líka mikilvægur þegar kemur að því að öðlast minningar og styrkja minnið því það á sér stað svokölluð þjöppun í minni okkar á meðan við sofum. Þannig að við ættum öll að fara snemma upp í endrum og sinnum á næsta ári.

Gert á skoplegan og ýktan Chaplin-ískan hátt

|
|

Þjóðleikhúsið frumsýndi á annan í jólum Einræðisherrann eftir Charlie Chaplin. Sigurður Sigurjónsson verður í aðalhlutverkunum – annars vegar í hlutverki flækingsins og hins vegar í hlutverki Hinkels (Hitlers) en flækingurinn verður einræðisherra fyrir röð mistaka þar sem þeir Hinkel eru svo líkir. Sigurður segir að þótt viðfangsefnið sé um þá skelfilegu hluti sem tengjast síðari heimsstyrjöldinni þá sé þetta gert á skoplegan hátt eins og búast má við í verki eftir Chaplin.

„Þetta er dönsk leikgerð af þessari bíómynd Chaplins, Einræðisherranum, og bárust okkur spurnir af henni en hún var sett upp í Kaupmannahöfn og lukkaðist vel,“ segir Sigurður Sigurjónsson. Um er að ræða leikgerð Nikolajs Cederholms en hún sló í gegn á síðasta leikári hjá Nørrebro-leikhúsinu. Hingað til lands komu þeir sem stóðu að þeirri uppfærslu og er Nikolaj einnig leikstjóri uppfærslunnar í Þjóðleikhúsinu.

„Kvikmyndin, Einræðisherrann, er mjög merkileg. Hún varð gerð árið 1939 og fjallar um síðari heimsstyrjöldina; Hitler, gyðingaofsóknir og alla þessa skelfilegu hluti. Þetta er í rauninni háalvarleg saga sem fjallar um þessa skelfilegu atburði og uppgang nasismans í Þýskalandi en Chaplin gerði það auðvitað á sinn hátt – á skoplegan hátt til að niðurlægja þessi illmenni og eins og búast má við í verki eftir Chaplin. Þetta er gert á skoplegan og ýktan Chaplin-ískan hátt. Það er undirliggjandi dramatík og það gengur mikið á.“

Sigurður verður í aðalhlutverkunum – annars vegar í hlutverki flækingsins og hins vegar í hlutverki Hinkels (Hitlers) en flækingurinn verður einræðisherra fyrir röð mistaka þar sem þeir Hinkel eru svo líkir. „Þeir líta alveg eins út nema að Hinkel er vondur maður á meðan flækingurinn er gegnumgóður.“

Aðrir leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjáns, Pálmi Gests, Ólafía Hrönn, Gói, Þröstur Leó, Hallgrímur Ólafsson, Sigurður Þór og Oddur Júlíusson.

„Við gerum þetta að leikhúsverki með stórum staf. Þetta er mjög sýnilegt leikhús ef ég má orða það þannig og það er margt gert fyrir opnum tjöldum þannig að leikhúsið er svolítið að sýna bakdyramegin. Það finnst mér vera mjög skemmtilegt leikhús. Allir leikarar eru á sviðinu allan tímann þannig að þetta er mjög skemmtilegt að því leytinu til. Þetta er mjög frjálsleg sýning og það er allt leyfilegt. Leikarar framkvæma öll leikhljóð fyrir augum áhorfenda og það er ekkert spilað af segulbandi heldur verður þarna píanóleikari. Tónlistin er í Chaplin-stíl; þetta er þöglumyndar-tónlist.“

Djúpur og réttsýnn

Sigurður segir að fyrstu kynni sín af kvikmyndum Chaplins tengist því þegar hann fór í sal grunnskólans sem hann var í þar sem sýnd var stuttmynd eftir meistarann. „Það voru frjálsir tímar og þá var farið á sal og maður fékk að sjá stuttar Chaplin-myndir. Það er mín fyrsta minning um Chaplin.“

Sigurður viðurkennir að hann líti nú Chaplin öðrum augum en áður. „Maður hefur núna stúderað hann að vissu leyti en ég svo sem vissi ýmislegt um ævi hans og allt það. Þegar ég kynntist þessari sögu þá finnst mér hann hafa verið svo merkilegur vegna þess hvað hann hefur verið djúpvitur og réttsýnn maður. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því núna. Hann var stór listamaður,“ segir Sigurður með áherslu. „Ég held að það hljóti að vera draumur allra leikara að prufa að leika hlutverk Chaplins. Það er þó alltaf erfitt að feta í fótspor snillings en maður reynir.“ Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem Sigurður leikur Hitler. „Ég lék hann í sýningu Þjóðleikhússins sem hét „Svejk í seinni heimsstyrjöld“ þannig að ég hef smáreynslu af honum. Það er bara að herma eftir Hitler á ýktan hátt. Það er stíllinn okkar.“

Sigurður segist halda að með þessu verki hafi Chaplin verið að leggja áherslu á að fólk eigi að vera gott hvert við annað. „Það kemur í ljós aftur og aftur að við erum það ekki. Þess vegna þurfum við að hamra svolítið á þessu við okkur sjálf og við hvert annað.“

 

Nýárskvíði

Mynd/Pixabay

„Nú árið er liðið í aldanna skaut“ eða því sem næst og þar með runninn upp tími endurskoðunar, sjálfsskoðunar og heitstrenginga. Hið síðastnefnda kallast reyndar markmiðasetning sem er ákaflega viðeigandi í lífsgæðakapphlaupi samtímans sem hefur íþróttir og líkamlegt atgervi í hávegum.

Undirritaður er að spá í að taka þátt í heitstengingunum, enda fullur sjálfsfyrirlitningar í ljósi endurlits ársins, og setja sér það markmið að losa sig við líkamsþyngd sem samsvarar að minnsta kosti einum fermingardreng með skólatösku. Það var reyndar líka markmið síðustu og þar síðustu og þar á undan áramóta og þannig má áfram telja, en þegar líður að jólum kemst ég þó alla jafna að þeirri niðurstöðu að auðvitað sé aldrei nóg af mér. Um þá niðurstöðu má eflaust deila eins og annað.

En magnið af mér er auðvitað aðeins brot af mínum áunnum ágöllum sem rekja má til veiklundaðs geðs og marghátta fíknar. Af því leiðir að niðurstaða sjálfsskoðunarinnar er að ég er ekkert annað en miðaldra vindbelgur, um það vitna vindgangur og hrotur á víxl, sem samanstendur af blöndu af sjálfsfyrirlitningu og kvíða. Hinu eina og sanna andlega malti og appelsíni nútímamannsins.

Því blæs ég nú þungan og hugsa sem svo að ég hefði betur látið þessa vegferð sjálfsskoðunar ófarna. Betur gefið skít í allt nýársuppgjör og allar vangaveltur um hvað hefði getað farið betur á árinu sem er að líða. Það skilar nefnilega sjaldnast í öðru en óumræðanlegum nýárskvíða yfir því hversu linnulaust ég á eftir að bregðast sjálfum mér og öðrum á árinu sem senn gengur í garð.

Að vandlega athuguðu máli hef ég því komist að þeirri niðurstöðu að best fari á því að strengja engin heit. Treysta fremur á orð Valdimars Briem í sálminum um árið sem líður í aldanna skaut þar sem einnig segir svo fallega: „Allt breyttist í blessun um síðir“, eða með orðum undirritaðs einfeldnings: Jess, þetta reddaðist.

Svona verður heimurinn 2019

|||||||
Mynd/Pixabay|||||||

Rétt eins og árið sem nú er á enda mun árið 2019 einkennast af spennu og óvissu á alþjóðavettvangi. Átökin í Miðausturlöndum virðast engan endi ætla að taka og óútreiknanleg utanríkisstefna Donalds Trump getur gert ótryggt ástand enn eldfimara. Evrópusambandið mun taka miklum breytingum, bæði að innan og utan þar sem Brexit verður að veruleika. Mannlíf fer yfir það helsta sem mun gerast á árinu 2019.

Stefnir í sársaukafullt Brexit

Bretland mun að öllu óbreyttu ganga úr Evrópusambandinu þann 29. mars. Það á hins vegar enn eftir að koma í ljós á hvaða forsendum það verður. Breska þingið mun kjósa um óvinsælan samning Theresu May í byrjun ársins og verði hann samþykktur hefst aðlögunarferli við útgöngu.

Ríkisstjórn May er hins vegar þegar farin að undirbúa sig fyrir útgöngu án samnings og sviðsmyndin sem við blasir er allt annað en falleg. Bresk stjórnmál voru farsakennd í ár og ekkert bendir til annars en að það sama verði uppi á teningnum árið 2019. Pólitískt líf Theresu May og ríkisstjórnar hefur hangið á bláþræði í marga mánuði og mun gera það áfram.

Miklar breytingar innan ESB

Miklar breytingar verða á ásjónu Evrópusambandsins. Kosningar til Evrópuþings verða í maí þar sem kosið verður um 705 sæti í stað 751 sætis áður vegna útgöngu Bretlands úr sambandinu. Líkt og í fyrri kosningum verður kosningaþátttaka lág og popúlistar og jaðarflokkar stela athylginni. Ný andlit munu skipa forystu ráðherraráðsins, þingsins og framkvæmdastjórnarinnar. Evran fagnar sömuleiðis 20 ára afmæli sínu árinu sem jafnframt verður síðasta ár Marios Draghi í embætti seðlabankastjóra.

Nýr seðlabankastjóri tekur við evrunni í mun betra standi en Draghi sem þurfti að leiða gjaldmiðilinn í gegnum krísur í Grikklandi, Portúgal og á Spáni. Þó er viðbúið að efnahagsstefnan harðni er líða tekur á árið. Innspýtingaraðgerðir seðlabankans renna sitt skeið á enda næsta haust og viðbúið er að eitt síðasta verk Draghis verði að hækka stýrivexti. Augu áhyggjufullra fjárfesta beinast nú að Ítalíu þar sem popúlistar eru við völd. Ný fjárlög þar í landi munu auka enn á skuldsetningu í trássi við reglur evrusvæðisins og var hún næg fyrir. Á pólitíska sviðinu munu ólýðræðislegu popúlistarnir í Ungverjalandi og Póllandi halda áfram að reyna á þolinmæði kollega sinna með umdeildum og allt að því fasískum tilburðum.

Trump forherðist

Donald Trump mun glíma við nýjan veruleika þegar demókratar taka völdin í fulltrúadeild þingsins. Þeir munu vafalaust gera forsetanum lífið leitt og efna til hinna ýmsu rannsókna gegn Trump, til að mynda freista þess að fá umdeilda skattaskýrslu hans fram í sviðsljósið. Á sama tíma fer leitin að forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins á fullt. Fleiri ákærur munu birtast í tengslum við rannsókn Roberts Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 en Trump mun sitja sem fastast og forherðast enn frekar eftir því sem sótt verður harðar að honum.

Bandaríska hagkerfið hægir á sér eftir óvenju langt hagsældarskeið sem mun ergja Trump enn frekar. Gjáin milli íhaldsmanna og frjálslyndra breikkar með tilheyrandi sjónarspili og lágkúru. Það verður þó ekkert í líkingu við 2020. Norðan landamæranna þarf algjör andstaða Trump, Justin Trudeau, að sækjast eftir endurkjöri. Vinsældir hans hafa dalað nokkuð og sækir Íhaldsflokkurinn hart að honum.

Hvað gerir veikur Pútín?

Vladimir Pútín er í vandræðum heimafyrir. Hagkerfið hefur glímt við áralanga stöðnun og ekki er útlit fyrir að viðskiptaþvingunum, sem þrátt fyrir fjálglegar fullyrðingar um annað hafa skaðað Rússland, verði aflétt í bráð. Vinsældir Pútíns, sem fóru í hæstu hæðir eftir innlimun Krímskaga, fara dvínandi. Almenningur er orðinn þreyttur á kostnaðarsömum stríðsrekstri í Sýrlandi og hækkun á ellilífeyrisaldri varð uppspretta mótmæla.

Þetta er hættuleg blanda. Pútín gæti reynt að afla sér aukinna vinsælda með stríðsátökum þar sem Úkraína er augljósasta skotmarkið. Heimafyrir herðir hann tökin á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum enn frekar og má nú þegar sjá þess merki, samanber aðför hans gegn rapptónlist.

Hræringar á Norðurlöndum

Bæði Danir og Finnar ganga til kosninga á árinu. Í Danmörku er það bláa blokkin, sem samanstendur af hægri flokkunum, sem stjórnar með minnsta mögulega meirihluta og fátt bendir til annars en að kosningarnar í ár verði hnífjafnar. Sem stendur er rauða blokkin með nauman meirihluta í könnunum.

Í Finnlandi mælast Sósíaldemókratar stærstir og útlit er fyrir stjórnarskipti. Munar þar mestu um að hinn þjóðernissinnaði popúlistaflokkur Sannir Finnar klofnaði á kjörtímabilinu. Þá gæti farið svo að kjósi þurfi á ný í Svíþjóð þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn eftir þingkosningarnar 9. september.

Flokkurinn herðir tökin

Hugmyndafræði forsetans Xi Jinping hefur nú verið greypt í stjórnarskrá Kína um leið og tryggt var að hann getur setið í embætti til æviloka. Þrátt fyrir það er Kommúnistaflokkurinn enn óöruggur um stöðu sína sem mun endurspeglast í enn ágengari ritskoðunartilburðum og áframhaldandi ofsóknum gegn minnihlutahópum, ekki síst gegn Úígúrum.

Á næsta ári verða 30 ár liðin frá hinni blóðugu stúdentauppreisn á Torgi hins himneska friðar og má búast við grimmri ritskoðun af hálfu kínverskra yfirvalda í kringum þann viðburð. Efnahagurinn verður fyrir hnjaski, meðal annars vegna harðandi viðskiptastríðs gegn Donald Trump.

Stríðandi stórveldi glíma við innanmein

Vonir standa til að hægt verði að hefja uppbyggingu í Sýrlandi eftir áralangar hörmungar þótt Bashar al-Assad reyni að leggja stein í götu uppbyggingarinnar. Lítið lát er á hörmungunum í Jemen þótt stórveldin sem þar tefla – Íran og Sádí Arabía – glími við mikil innanmein.

Ákvörðun Trumps um að draga herlið Bandaríkjahers frá Sýrlandi gæti hins vegar raskað öllu valdajafnvægi á svæðinu og leitt til enn frekari hörmunga. Klerkastjórnin í Íran stendur á veikari fótum en áður, meðal annars fyrir tilstilli viðskiptaþvingana Bandaríkjastjórnar. Önnur bylting kann að vera í aðsigi. Í krafti olíuauðsins hefur Sádí Arabía komist upp með alls kyns óhæfuverk en krónprinsinn Mohammed bin Salman gekk of langt þegar hann lét myrða blaðamanninn Jamal Kashoggi. Hann á eftir að finna fyrir aukinni einangrun, bæði heimafyrir og frá Vesturlöndum.

Í Ísrael freistar Benjamin Netanyahu að verða sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið á stóli, það er takist honum að sitja fram í júlí. Það er alls óvíst því spillingarmálin gegn Netanyahu og eiginkonu hans hrannast upp og valdaskipti á næsta ári eru því ekki útilokuð.

Raddir