Laugardagur 21. september, 2024
9 C
Reykjavik

Þessi einkaþjálfari afsannar haug af kenningum um heilbrigðan lífsstíl

||||||||||||
||||||||||||

Einkaþjálfarinn og næringarfræðingurinn Graeme Tomlinson heldur úti bráðskemmtilegri Instagram-síðu þar sem helsta viðfangsefnið er að afsanna ýmsar kenningar um heilbrigðan lífsstíl.

Graeme er þeirrar skoðunar að það sem þurfi til að grenna sig og lifa heilbrigðum lífsstíl sé að borða fjölbreyttan mat – ekki að fara á djúskúra og borða eingöngu það sem okkur er sagt að sé hollt. Þá segir hann að fæðunni sé ekki um að kenna að mannkynið glími við offituvanda, heldur sé það okkur sjálfum að kenna.

Við skulum líta á nokkrar myndir af Instagram-síðunni hans. Það kemur eflaust margt ykkur á óvart.

Matur sem hægt er að borða er betri en drykkur með fullt af sykri:

Jahá, vissuð þið að það eru svona margar kaloríur í möndlum?

Þetta er sláandi:

Grænkálsflögur eða venjulegar flögur?

Enginn munur á kaloríufjölda:

Keto kaffið er ansi hitaeiningaríkt:

Best að fá sér bara alvöru súkkulaði:

Graeme trúir ekki á djúskúra:

Ávöxtur er ekki það sama og ávöxtur:

Pælið í þessu næst þegar þið farið út að borða:

Offitufaraldurinn svokallaður er okkur að kenna:

Engin samviskubit, takk:

Hlýr staður með gott hjarta

Þær Gígja Björnsson og Ragnheiður Birgisdóttir opnuðu fyrir skömmu fyrsta kattakaffihús landsins en hugmyndina höfðu þær brætt með sér lengi.

Þær segja kaffihús af þessu tagi njóta sívaxandi vinsælda um heim allan en kattakaffihúsið er staðsett við Bergstaðastræti 10a í Reykjavík.

Ragnheiður hefur unnið lengi í markaðsstjórnun og Gígja á kaffihúsum en hún er menntaður sviðshöfundur. Þær segjast báðar vera miklir kattavinir og kettirnir hafi í raun dregið þær saman. „Við tengjumst mikið í gegnum ketti en Ragnheiður hefur til dæmis passað kisuna mína í langan tíma,“ segir Gígja og bætir við:

„Svo vill svo vel til að Helga Björnsson sem hannaði plakötin, púðana og málaði veggmyndirnar er mamma mín, og líka mikil kisuvinkona.“

Ragnheiður segir Íslendinga almennt mikla kattavinir. „Það er svo skemmtilegt að sjá hvað fólk var spennt fyrir þessu verkefni strax í upphafi. Við stofnuðum Karolina Fund-síðu og þar sáum við strax hvað það var mikill spenningur fyrir þessu. Það eru til svo skemmtilegar Facebook-síður eins og Cats of Reykjavik og Spottaði kött. Þá sér maður hvað áhuginn er mikill, sumir myndu jafnvel kalla þetta einhvers konar dellu fyrir kisum.”

„Viðtökurnar hafa í það minnsta verið góðar og okkur gengið býsna vel. Við erum mjög sáttar og þakklátar fyrir þær móttökur sem við höfum fengið og erum strax komnar með frábæran hóp af fastagestum.”

„Fólk alls staðar að úr heiminum hefur meira að segja breytt ferðalagi sínu til þess að kíkja við hjá okkur á kattakaffihúsið. En það er ekki bara kattafólk sem kemur til okkar, það er líka hundafólk og allskonar fólk sem er kannski ekki að pæla það mikið í kisunum. Það má. Það sem skiptir máli er að öllum líði vel og að kisunum líði vel.“

Viðtalið í heild má lesa í 29. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.

Tökur hafnar á Bloodshot

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson við tökur á stórri ofurhetjumynd.

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson greindi frá því á Twitter-síðu sinni að hann væri staddur í Suður-Afríku (sjá mynd) þar sem tökur eru að fara að hefjast á næstu mynd hans, ofurhetjumyndinni Bloodshot. Í myndinni fer Jóhannes Haukur með hlutverk illmennisins Nick Barris, en það er enginn annar en stórstjarnan Vin Diesel sem fer með aðalhlutverkið.

Upphaflega stóð til að Jared Leto færi með hlutverk þorparans en ekki varð af því og var Jóhannes Haukur ráðinn í hans stað. Komi myndin til með að ganga vel í miðasölunni má fastlega búast við að ráðist verði í gerð fleiri mynda upp úr myndasögunni Bloodshoot sem myndin byggir á en Valiant, útgefandi hennar, og Sony hafa gert samning um gerð fimm slíkra mynda.

Kaffikaka með hlynsírópskremi

03. tbl. 2018
|

Þessi kaka er ein af mínum uppáhalds og ég reyni iðulega að finna tækifæri til að bera hana fram. Hún er sérstaklega tíguleg þegar notað er hringlaga og mynstrað formkökuform en þó má nota hringlaga form, tvö hefðbundin formkökuform eða 33x 23 cm kassalaga form.

Kaffikaka með hlynsírópskremi
16-20 sneiðar

Í þessa uppskrift var notað 25 cm hringlaga mynstrað formkökuform, þau fást í sérverslunum. Ef slíkt form er ekki til má nota einfaldan hring. Einnig má nota tvö hefðbundin formkökuform eða 13×9 cm kassalaga form.

380 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
½ tsk. matarsódi
½ tsk. salt
250 g ósaltað smjör, við stofuhita
330 g sykur
3 egg
2 tsk. vanilludropar
300 g sýrður rjómi

Smyrjið formið með olíu og sáldrið hveiti ofan í og bankið svo hveitið aðeins úr. Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og setjið til hliðar. Þeytið smjör og egg í hrærivél þar til það verður létt og loftkennt, u.þ.b. 4-5 mín. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið vanilludropum saman við og hrærið vel. Bætið sýrða rjómanum saman við og þeytið saman. Stoppið vélina og klárið að blanda allt saman með sleikju. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið á lægstu stillingu þar til allt hefur blandast saman. Klárið að blanda saman með sleikju svo engir þurrir hveitiblettir verði eftir. Setjið helminginn af deiginu í formið með skeið. Sáldrið ⅔ af pekanhnetublöndunni yfir, setjið restina af deiginu yfir og sáldrið síðan afganginum af hnetublöndunni yfir. Dragið hnífsblað fram og aftur um deigið til að fá marmaraáferð í kökuna. Bakið í miðjum ofni í 45-55 mín. eða þar til kökuprjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn út. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í 10 mín. á grind, snúið síðan forminu við og látið kólna í 5 mín. Athugið hvort kakan hafi losnað úr forminu ef ekki þá skal juða og tosa létt sundur formið, þetta þarf að gera mjög varlega svo kakan detti ekki í sundur en þetta á mest við ef notað er hringlaga skrautform. Látið kökuna kólna alveg áður en kremið er sett á hana. Kökuna má geyma vandlega innpakkaða í plastfilmu í ísskáp í 2 daga eða í frysti í u.þ.b. 1 mánuð.

Pekanhnetumulningur:
100 g púðursykur
50 g hveiti
2 tsk. kanill
1 msk. kakó
½ tsk. salt
50 g smjör, skorið í litla bita
50 g fínsaxaðar pekanhnetur

Hrærið saman púðursykur, hveiti, kanil, kakó og salt. Bætið smjörinu saman við og myljið niður með fingrunum og nuddið því saman við blönduna. Bætið pekanhnetunum út í og nuddið saman þar til allt hefur blandast vel og líkist grófkenndu mjöli. Setjið til hliðar.

Hlynsírópskrem:
120 g flórsykur
1 dl hlynsíróp

Hrærið saman með gaffli þar til blandan er kekkjalaus og seigfljótandi. Hellið yfir kökuna og sáldrið litlu hnefafylli af söxuðum pekanhnetum yfir.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

„Væli úr mér augun, hlæ og fagna“

|
|

Leikkonan og uppistandarinn Þuríður Elín Sigurðardóttir eða Ebba Sig eins og hún er kölluð er forfallinn sjónvarpsfíkill og horfir á fjölbreytt efni sem hún viðurkennir að sé misgott. Hún er með uppistand á Kaffi Laugalæk einu sinni í mánuði og er að skrifa sjónvarpsþætti sem heita Næstum fullorðnar.

Leikkonan og uppistandarinn Þuríður Elín Sigurðardóttir.

Nashville (2012-2018)
Þættir sem ég er ekkert mikið að segja fólki frá því að ég horfi á heita Nashville og eru um country-stjörnur í Nashville Tennesse sem ganga í gegnum hæðir og lægðir. Ég hef eytt mörgum kvöldum, já og heilum frídögum í að horfa á þættina vælandi úr mér augun, hlæjandi og fagnandi þegar eitthvert par byrjar loksins að vera saman, á milli þess sem ég finn karaoke-útgáfur af lögunum sem eru samin sérstaklega fyrir þáttinn og syng hástöfum ein heima hjá mér og ímynda mér að ég sé að leika í þáttunum. Ég er alveg miður mín yfir því að þættirnir séu að hætta eftir þessa seríu.

S Club 7 The greatest hits (2003)
Ég hef alltaf verið mjög hrifin af breskum söngsveitum og byrjaði það allt saman með Spice Girls. En bandið sem náði mér alveg voru S Club 7 sem var band sem byrjaði upp úr 2000. Ég kann hvert einasta lag og gott ef ég kann ekki meirihlutinn af danssporunum þeirra líka. Enn þann dag í dag þegar ég er að gera mig til fyrir djammið hendi ég stundum S club 7 Greatest hits í gang og syng af innlifun með hverju einasta lagi. Ég var líka ofboðslega hrifin af þáttunum þeirra sem voru sýndir á Stöð tvö áður fyrr. Þeir fjölluðu um leið þeirra að heimsfrægð og hef ég leitað lengi af þeim því ég þrái að horfa á alla þættina aftur. Ég bíð spennt eftir reunioni.

Hressandi hjólaferð um San Francisco

San Francisco er heillandi borg sem hefur upp á margt að bjóða.

Vegna vinda sem blása frá Kyrrahafinu er veðrið milt allt árið um kring með svölum, nær úrkomulausum sumrum og hlýjum vetrum. Þrátt fyrir hæðótt landslag borgarinnar er tilvalið að skoða hana á hjóli. Mannlíf fór nýlega í slíka ferð og sá stóran hluta borgarinnar á tólf tímum.

Í Alamo Square Park

Hjólaleigur eru víðsvegar um borgina og við völdum leigu við hliðina hótelinu okkar í miðborg San Francisco, skammt frá Union Square, mekka verslunar í borginni, sem heitir Blazing Saddles Bike Rentals and Tours. Þar var vel tekið á móti okkur, farið yfir helstu öryggisatriði og hjólabúnað. Hægt var að velja ferð með leiðsögn eða fara á eigin vegum. Við ætluðum á eigin vegum en vorum með nokkuð mótaðar skoðanir á hvað við vildum sjá. Í ljós kom að þau voru með merkt kort sem hentaði okkur algerlega, enda voru langanir okkar ekki mjög exótískar, bara allt þetta vinsælasta í borginni. Einnig fengum við skrifaðar upplýsingar um leiðina. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er ætlast til að hjólað sé á gangstéttum, hjóla þarf á götunni. Á mörgum stöðum eru hins vegar sérhjólaakreinar, grænmerktar.

Litríkar lafðir
Við byrjuðum á að hjóla áleiðis í Golden Gate Park og okkar fyrsti viðkomustaður var Alamo Square Park sem er fallegt grænt svæði sem liggur hátt uppi og þaðan er gott útsýni til dæmis yfir háhýsi miðborgarinnar. Við eina hlið garðsins eru hin frægu hús Painted Ladies, röð viktorískra húsa við Steiner Street í fallegum mismunandi litum. Það er dásamlegt að setjast niður í þessum garði, virða fyrir sér útsýnið og jafnvel fá sér smávegis nesti.

Andi hippamenningarinnar svífur yfir hverfinu Haight-Ashbury.

Hippalífið
Næst lá leiðin í gegnum hippahverfið Haight-Ashbury sem er nefnt eftir gatnamótum strætanna Haight og Ashbury. Andi hippamenningarinnar frá því á sjöunda áratugnum svífur yfir og þarna eru margar skemmtilegar smáverslanir, veitingastaðir, grúví kaffihús og skrautleg vegglistaverk. Nauðsynlegt er að taka sjálfsmynd við götuskiltið á gatnamótum Haight og Ashbury. Ég veit ekkert út af hverju, allir hinir krakkarnir eru bara að gera það.

Garður gullna hliðsins
Þá komum við í Golden Gate Park sem er risastór almenningsgarður og nær frá hippahverfinu út að strönd Kyrrahafsins. Vel er hægt að verja heilum degi þarna, svo margt er hægt að skoða. Við hjóluðum hægt í gegn og nutum þess sem varð á vegi okkar. Það má alveg mæla með Japanska tegarðinum, göngu á Strawberry Hill og að skoða Stow Lake svo eitthvað sé nefnt. Einnig höfum við heyrt góða hluti um söfnin deYoung og California Academy of Sciences þó að við höfum ekki gefið okkur tíma til að stoppa þar í þessari ferð.

Seal Rocks-eyjaklasinn séður frá Cliff House.

Svalur Kyrrahafsblær
Magnað er að koma út úr garðinum og fá Kyrrahafið í fangið, vindurinn og kælingin sem tók á móti okkur minnti stórlega á íslenska veðráttu. Það hefur sennilega oft verið meira líf á ströndinni en þennan dag enda gera íbúar borgarinnar sennilega aðeins meiri kröfur en við Íslendingar þegar kemur að hitatölum á ströndinni. Okkur fannst hins vegar gott að finna fyrir svölu sjávarloftinu og hjóluðum með fram sjónum í átt að Cliff House. Þar er vinsælt veitingahús og flottur útsýnispallur yfir Seal Rocks-eyjaklasann og Sutro Baths, rústir stórrar almenningssundlaugar með saltvatni, sem opnuð var 1896 en brann árið 1966.

Strekkingsvindur er oftast þvert á Golden Gate-brúnna.

Brúin ógurlega
Þegar þangað var komið byrjaði gleðin upp í móti fyrir alvöru. Til að komast að Golden Gate-brúnni sem var okkar næsti áfangastaður þurftum við að hjóla upp og niður nokkrar hæðir og lærin fengu sannarlega að finna fyrir því. Frá China beach er glæsilegt útsýni yfir brúna frægu og farið að styttast í að við kæmum að þessari heimsfrægu smíð. Við brúna er heljarinnar þjónustumiðstöð og vel haldið utan um ferðamenn. Við stoppuðum þar í stutta stund áður en við héldum yfir brúna og tókum auðvitað nokkrar myndir. Þar sem klukkan var orðin 16 þurftum við að hjóla á vestari hluta brúarinnar og þá er austari hlutinn aðeins opinn göngufólki. Fyrri part dagsins er austari hlutinn opinn bæði gangandi og hjólandi vegfarendum. Strekkingsvindur var á brúnni og á stundum alls ekki auðvelt að hjóla en mikið var þetta skemmtileg upplifun. Við stoppuðum nokkrum sinnum til að taka myndir við lítinn fögnuð atvinnuhjólreiðafólks sem skammaði okkur fyrir að stoppa á „hræðilegum stöðum“. Við reyndum því að láta lítið fyrir okkur fara.

Alcatraz séð frá Piar 39.

Strandbær og veðurblíða
Hinum megin við flóann var eins og að koma inn í nýtt loftslag, við komumst fljótlega í var fyrir vindinum og nutum blíðunnar á norðurbakkanum. Ferðinni var heitið í bæinn Sausalito sem er afar fallegur og þaðan er gott útsýni yfir að San Francisco. Við fengum okkur að borða á frábærum litlum pizzastað við ströndina, stað sem heitir Venice Gourmet Delicatessen & Pizzeria. Hjólaleigan hafði í upphafi látið okkur hafa miða í ferju sem tók okkur aftur til San Francisco sem rukkað er fyrir í lok ferðar ef miðarnir eru notaðir. Við ákváðum að nýta okkur miðana og tókum ferjuna aftur á austurbakkann.

Sæljón flatmaga við Piar 39.

Ferjuferð og fallegar bryggjur
Á leiðinni fórum við fram hjá hinni frægu Alcatraz-eyju og komum í land við bryggjuna við Ferry Building Marketplace. Þarna var klukkan orðin 19 en við ákváðum samt að skoða höfnina. Við hjóluðum að hinni frægu Pier 39 þar sem mikið er um að vera og við sáum meðal annars sæljónin flatmaga. Við enduðum bryggjurúntinn í Fishermans Wharf og sáum í hendi okkar að þaðan er frekar stutt að kræklóttu götunni á Lombard Street. Á kortinu sást hins vegar ekki hversu miklar hæðir við þurftum að klífa til að komast þangað en við létum okkur samt hafa það og hjóluðum sigri hrósandi niður þessa frægu götu í ljósaskiptunum. Klukkan 22 vorum við komnar aftur að hótelinu og skiluðum hjólunum eftir tólf tíma vel heppnaða reisu og áttum skilið að enda þennan dag á Cheesecake Factory sem er við Union Square.

WOW air flýgur til San Francisco allt árið um kring. Verð frá 14.499 kr. aðra leið með sköttum.

Texti og myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Evrópurtúr og stuttskífusería

Hljómsveitin Fufanu gerir það gott.

Íslenska hljómsveitin Fufanu sem skipuð er þeim Kaktusi Einarssyni, Guðlaugi Einarssyni og Erling Bang hefur verið að gera það gott að undanförnu; sendi frá sér fjögur ný lög í vor og hefur verið á tónleikaferð um Evrópu í sumar.

Stuttskífan (EP) með lögunum fjórum heitir Dialogue I og er sú fyrsta í þriggja stuttskífa seríu frá sveitinni; Dialogue I-II-III. Þessi fyrsta hefur að geyma lögin My new trigger, Listen to me, Hourglass og Ninetwelve.

Áður hefur hljómsveitin sent frá sér plöturnar, Few More Days To Go, Adust To The Light EP og nú síðast Sports sem kom út í byrjun árs 2017 og fylgt var eftir með langri tónleikaferð.

Á heimasíðu Fufanu segja meðlimir sveitarinnar að þegar þeir hafi snúið aftur Íslands eftir ferðina hafi þeir verið með fullt af lögum í bakpokanum sem þeir sömdu í ferðinni án þess að vera með einhverja ákveðna stefnu í huga. Hver Dialogue-stuttskífa sé tilraun til að tjá mismunandi tónlistarlegar hliðar, meðal annars post-punk, alt-teknó og tilraunakennda raftónlist. Næstu tónleikar Fufanu verða í Berlín þann 16. ágúst og í Austurríki þann 18. ágúst.

Suðræn veisla fyrir augu og eyru

Reynir Hauksson setur upp fjórar flamenco-sýningar á Íslandi í ágúst.

„Þetta verður hefðbundin flamenco-sýning, söngur, dans og gítarleikur að hætti Andalúsíubúa, en þó með ákveðnu nútímatvisti til að sýna það sem er í gangi í flamenco um þessar mundir og hvert þetta listform er að stefna,“ segir tónlistarmaðurinn Reynir Hauksson, sem setur upp fjórar flamenco-sýningar á Íslandi í ágúst.

Reynir, sem er lærður gítarleikari og hefur fengist við flamenco-gítarleik í Andalúsíu þar sem hann er búsettur, segir að viðlíka sýning hafi ekki verið sett upp hérlendis lengi eða síðan spænski flamenco-dansarinn Joaquin Cortés tryllti landann ásamt stórsveit sinni í Laugardalshöll árið 2004. Sjálfur hefur Reynir fengið til liðs við sig glæsilegt lið listamanna, spænska söngvarinn og flamenco-listamanninn Jacób de Carmen, dansarann Jade Alejandra sem er af mexíkóskum uppruna og hefur kennt flamenco-dans í Kramhúsinu og spænska gítarleikarann Julian Fernández sem kemur fram með dansflokkum víða á Spáni.

Fyrsta sýningin verður sett upp í Tjarnabíói 15. ágúst, önnur í Gamla kaupfélaginu á Akranesi 16. ágúst, sú þriðja í Hofi á Akureyri 17. ágúst og fjórða og síðasta í Hjálmakletti í Borgarnesi 18. ágúst og er Reynir bjartsýnn á að viðtökur verði góðar. „Ég hef verið með flamenco- gítareinleik víðsvegar um landið í sumar og undirtektirnar hafa verið vonum framar þannig að ég vona það. Annars er aðalmálið að setja saman flotta dagskrá með þessum frábæru listamönnum svo útkoman verði góð,“ segir hann og bendir á að allar frekari upplýsingar séu á www.tix.is

Birgitta Líf Björnsdóttir eignast sína fyrstu íbúð

Í skuggahverfinu í 101 Reykjavík býr Birgitta Líf Björnsdóttir, samfélgsmiðlari og stöðvarstjóri hjá World Class, í Hafnarfirði. Birgitta er nýflutt að heiman og er þetta hennar fyrsta íbúð. Hún hefur fágaðan smekk og heimilið ber þess merki að þarna býr ung kona með einstaklega gott auga fyrir hönnun.

Hvað var það við þessa íbúð sem heillaði þig? Vinkona mín flutti í Skuggahverfið fyrir nokkrum árum og ég fann hvað mér leið alltaf vel þegar ég heimsótti hana. Ég hafði aldrei hugsað neitt sérstaklega um að búa í miðbænum en eftir að ég kynntist þessari staðsetningu og húsnæði varð ég alveg heilluð. Svo var það sjávarútsýnið sem heillaði mig algjörlega upp úr skónum. Staðsetningin er líka frábær, ég er svo nálægt öllu. Miðbærinn heillar mig mjög en á sama tíma er stutt og auðvelt að komast allt því héðan er stutt í Sæbrautina.

Hvernig hönnun heillast þú af? Fallegri, stílhreinni og kósí hönnun. Ég komst að því þegar ég keypti íbúðina og fór að pæla í húsgögnum og öðru fyrir heimilið að ég er minna fyrir skandinavíska hönnun og heillast meira að dökkum, grófum og kósí hlutum þó svo að hitt leynist líka með inn á milli.

Hvar kaupir þú helst hluti fyrir heimilið? Ég held að ég hafi keypt um 80% af húsgögnunum í Heimili og hugmyndum sem er mín uppáhaldshúsgagnaverslun. Ég á erfitt með mig þar inni og langar í allt en stíllinn hjá þeim er nákvæmlega sá sami og ég heillast mikið af. Eldhúsvörur, diskastell, handklæði og fleira í þeim dúr keypti ég svo að mestu í Bast í Kringlunni.

Hvað finnst þér skipta mestu máli varðandi heimilið? Þetta spilar allt saman en litasamsetning skiptir mig, held ég, mestu máli. Ég vil ekki hafa neitt hvítt en á sama tíma ekki of litríkt og verður þetta allt að tóna fallega saman. Ef það gerir það skiptir uppröðunin ekkert allt of miklu máli en falleg lýsing setur svo punktinn yfir i-ið.

Áttu uppáhaldslistamann? Ég pantaði mér málverk hjá Tiago Forte eftir að hafa séð verk eftir hann á Instagram sem vildi svo skemmtilega til að var hjá nágranna mínum hér í næstu byggingu. Ég fór að skoða það og fékk það síðan lánað til að máta það en það heillar mig hvað verkin hans eru öðruvísi og mér fannst það passa vel inn í minn stíl. Síðan er ég virkilega hrifin af unga listamanninum Sigurði Sævari og langar næst í verk eftir hann.

Lumar þú á einföldum eða ódýrum lausnum sem hafa reynst þér vel? Meira er minna. Maður þarf ekki að eiga allt eða kaupa allt strax.

Umsjón / Þórunn Högna

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fíkju- og geitaostabaka

|
|

Þessa böku er mjög auðvelt að útbúa fyrir utan hvað hún bragðast dásamlega. Furuhnetur í bland við bragðmikinn ost og sætan frá ávöxtunum gera þennan rétt ómótstæðilegan. Tilvalinn smáréttur þegar von er á gestum og ekki mikill tími fyrir flókna eldamennsku.

Geitaosturinn sem notaður var í réttinn heitir Chavroux en einnig má nota bragðminni osta eins og camembert eða brie. Gott er að bera fram sætt hvítvín með þessum rétti.

1 rúlla smjördeig                     
2 egg
1 eggjarauða
150 ml rjómi
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
5-6 ferskar fíkjur eða ferskjur, skornar í báta
100 g geitaostur t.d Chavroux
2 msk. furuhnetur, ristaðar
2 stangir tímían
kaldpressuð ólífuolía eftir smekk til að dreypa yfir í réttinn þegar hann kemur út úr ofninum.

Hitið ofninn í 200°C. Bökuformið sem notað var í þessari uppskrift er 35cm x 11cm bökuform en að sjálfsögðu má nota meðalstórt hringlaga form, ílanga bökuformið fæst í Þorsteini Bergmann í Hraunbæ. Byrjið á því að setja smjördeigið í formið og vel upp á brúnirnar, gott er að pikka botninn á deiginu með gaffli, frystið í 30 mín. Hrærið egg, eggjarauðu og rjóma saman í skál og kryddið með salti og pipar. Skerið fíkjurnar (ferskjurnar) í tvennt. Takið formið úr frystinum og hellið rjómaeggjablöndunni í botninn og dreifið osti, hnetum og timíani yfir. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn gullinbrúnn. Dreypið kaldpressaðri ólífuolíu yfir réttinn þegar hann kemur út.

 

 

Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Myndir/ Aldís Pálsdóttir

Tæplega milljón farþegar

Fleiri flugu með WOW í júlí í ár heldur en í fyrra.

Alls flugu 409 þúsund flugfarþegar með Wow air í júlí. Þetta er 29% aukning frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er ári hafa tvær milljónir manna flogið með vélum flugfélagsins.

Talsvert fleiri flugu hins vegar með Icelandair í júlí, eða 519 þúsund manns. Þetta er 5% færri farþegar en í júlí í fyrra.

Sætanýting var talsvert betri hjá Wow air en Icelandair í júlí, eða 92% á móti 85% hjá Icelandair.

Trassaskapur á sjó

Rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa tjáir sig um slys.

„Ég man ekki eftir öðru tilviki og held að þetta sé undantekning,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður um lélegt eftirlit með ástandi skipa eftir að þau hafi verið seld.

Í júní í fyrra varð slys um borð í Barða NK 120 sem var á togveiðum á Halamiðum. Skipverji ætlaði að taka öryggiskrók úr bakborðshlera. Við það slitnaði togvírinn við svokallað auga með þeim afleiðingum að keðja slóst til og lenti í hægri öxl skipsverjans sem féll við. Mildi var að ekki fór verr því við fallið fór öryggishjálmurinn af skipverjanum. Andartaki síðar slóst keðjuendinn í þilfarið rétt við höfuð hans. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nýverið kom út er haft eftir skipstjóranum að skipt hafi verið reglulega um togvíra en því verið frestað eftir að skipið var selt.

„Tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu“

|
|

Tryggvi Snær Hlinason er á fljúgandi ferð upp á stjörnuhimin alþjóðlega körfuboltans.

Ferill Tryggva:
Janúar 2014 mætir á sína fyrstu körfuboltaæfingu hjá Þór Akureyri
2014. Spilar sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2015
2015. Valinn í landsliðsúrtök: U-18 og A-landslið karla
2015. Spilaði með U-18 ára landsliðinu bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu
2016. Fyrsti leikur með A-landsliðinu
Valinn í lokahóp A-landsliðsins fyrir undankeppni EM
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2016 og Körfuboltamaður Þórs 2016
Júní 2017. Skrifar undir samning við Valencia á Spáni, ríkjandi meistara.
Júní 2017. Spilar með A-landsliði Íslands á smáþjóðaleikunum
Júlí 2017. Valinn í lið mótsins í A-deild U-20 ára eftir frábæran árangur á mótinu
Ágúst 2017. Valinn í 15 manna æfingahóp fyrir EuroBasket 2017
September 2017. Leikur á EM í Finnlandi, EuroBasket 2017 með landsliði karla
Sumar 2018. Fer í nýliðaval NBA, en er ekki valinn. Tekur þátt í sumardeild NBA með Toronto Raptors.
Tímablilið 2018-2019. Er lánaður tili Monbus Obradoiro í efstu deild til að fá fleiri leikmínútur.
Mynd/ KKI

Tryggvi Snær Hlinason skaust upp á stjörnuhimin alþjóðlegs körfubolta með ógnarhraða og erlendir miðlar halda vart vatni yfir ótrúlegri sögu hans. Bóndasonurinn úr Bárðardal er samningsbundinn körfuboltaliði Valencia á Spáni til fjögurra ára, tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum fyrr í sumar og er undanfarnar vikur búinn að vera heima í sveitinni eftir að hafa leikið með liði Toronto Raptors í sumardeild NBA í Las Vegas og allt þetta aðeins fjórum árum eftir að hann byrjaði að æfa körfubolta norður á Akureyri.

Tryggvi Snær er ekki maður margra orða og lætur sér, að því er virðist, fátt um eigin frama finnast. Hann segir reynsluna af því að spila í sumardeildinni aðallega hafa veitt sér innsýn í hvernig körfuboltinn gengur fyrir sig í Bandaríkjunum.
„Það er í sjálfu sér ekki hægt að bera saman hvernig þetta gengur fyrir sig í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir hann. „En það var gaman að kynnast þessu og ég er spenntur fyrir framhaldinu.“

Spurður hvort hann viti eitthvað hvert það framhald verður segir Tryggvi Snær svo ekki vera, en hann stefni að því að komast inn í NBA-deildina. Hvernig það þróist verði bara að koma í ljós. Honum líði vel í Valencia og liggi ekkert á.
„Valencia er með gott lið, borgin er mjög falleg og veðrið er gott svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar,“ segir hann og hlær.

Ekki hægt að segja nei
Tryggvi Snær hefur oft talað um það í viðtölum að körfuboltaferillinn hafi alls ekki verið það sem hann stefndi að í framtíðinni þegar hann byrjaði að æfa með Þór á Akureyri eftir að hafa byrjað nám í Verkmenntaskólanum þar.
„Ég ætlaði aldrei svona langt inn í þetta,“ segir hann. „Planið var bara að byrja að æfa körfubolta til að halda mér í formi, en það plan breyttist mjög hratt og þetta varð mun stærra í sniðum en ég hafði reiknað með.“

„… það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga.“

Var hann aldrei efins um að halda út á þessa braut?
„Það var ekki hægt að segja nei,“ segir hann ákveðinn. „Þetta var svo spennandi og opnaði svo marga glugga að það kom ekki annað til greina en að kýla á það.“

Kærasta Tryggva Snæs, Sunneva Dögg Robertson, er afrekskona í sundi og er á leið í háskólanám í Bandaríkjunum í haust eftir að hafa dvalið með honum í Valencia síðastliðið ár. Það er væntanlega enn einn hvatinn til þess að reyna að komast á samning í Bandaríkjunum, eða hvað?
„Já, ég neita því ekki,“ segir hann. „Það væri allavega ekki verra.“

Reynir að gera sitt besta
Tryggvi Snær vill ekki gera mikið úr þeim breytingum sem orðið hafa á lífi hans síðustu árin, þótt þær hafi vissulega verið róttækar. „Þetta er bara svo skemmtilegt,“ segir hann brosandi. „Ég veit að þetta er tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu og ég reyni bara að gera mitt besta og standa mig.“

Tryggvi Snær er ekki beint að falla á tíma með að komast áfram í körfuboltaheiminum, hann er ekki nema tvítugur og hann segir að það geti þess vegna verið allt að tuttugu ár eftir hjá honum í þeim heimi. „Það er reyndar mjög bjartsýn spá,“ segir hann og hlær. „En það er alltaf séns.“

Tryggvi Snær er búinn að njóta sumarsins heima í Bárðardal en spurður hvort hann sé ekki nokkurs konar þjóðhetja í dalnum vill hann sem minnst úr því gera. „Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir hann yfirvegaður. „Auðvitað er maður vel þekktur, en þegar maður kemur heim fer maður bara í gamla gírinn og er fljótur að falla inn í mynstrið sem var manni eðlilegt. Ég hjálpa pabba og mömmu við bústörfin og hitti fólk sem ég þekki og svona. Allt voða rólegt. Það er mjög gott að vera kominn heim aftur og ég ætla mér að njóta þess.“

Stefnir enn að NBA-deildinni
Áður en körfuboltinn tók völdin í lífi hans stefndi Tryggvi Snær að því að verða bóndi og taka við búinu af foreldrum sínum þegar þar að kæmi. Eru þau sátt við að þau plön hafi breyst?
„Þau hafa ekkert endilega breyst,“ fullyrðir hann. „Það er bara ekki tímabært að slá neinu föstu um framtíðina. Ég veit það af eigin reynslu að viðmið manns geta breyst mjög hratt. Það er ekki eins og það sé tímabært að afskrifa foreldra mína strax, þetta er ekkert sem þarf að taka ákvörðun um hér og nú.“

Næstu skref Tryggva Snæs, nú eftir að sumarfríinu í sveitinni lýkur, eru að fara aftur til Valencia og halda áfram að spila í Evrópu, en draumurinn er að komast á samning við bandarískt lið sem leikur í NBA-deildinni og hann segist munu halda áfram að reyna að koma sér á framfæri þar.

„Það er harður heimur, mikil samkeppni og margir sem vilja komast þangað,“ segir hann. „En það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga. Það kemur allt í ljós. Eins og er tek ég bara einn dag í einu.“

Aðalmynd / Anton Brink

Skrifar um gróft einelti

Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð hefur lokið við nýja skáldsögu. Sagan kallast Dimmuborgir og er innblásin af óhugnanlegum sannsögulegum atburðum.

 

„Hún fjallar um strák sem er drepinn í eineltisárás árið 1997 og besta vin hans árið 2018 sem reynir að komast að sannleikanum um hvað gerðist í raun og veru,“ lýsir hann. „Þannig að bókin gerist á þessum tveimur tímasviðum, árið ’96-’97 þegar strákarnir eru að kynnast í 10. bekk og svo árið 2018 þegar nýjar vísbendingar koma fram um dauða annars þeirra sem sýnir að ekki var allt alveg eins og það sýndist.“

Dimmuborgir er fyrsta skálsaga Óttars í fimm ár og segir hann hana að ýmsu leyti frábrugðna fyrri verkum sínum.

„Hún er til dæmis persónulegri því ég staðset strákana í sama grunnskóla og ég var í og á sama tíma og kveikjan er sannsögulegur atburður sem tengist eineltismáli í skólanum. Svo hef ég síðustu ár fengist við skrif kvikmyndahandrit sem kennir manni aðra hugsun, til dæmis þegar kemur að plotti og stíl og það laumaði sér inn í skáldsöguna.“

Að sögn Óttars hófst vinnsla á sögunni fyrir fimm árum. „Já ég byrjaði á henni þá en kláraði aldrei, það var ekki fyrr en nú í feðraorlofinu mínu sem ég gerði það og eiginlega bara alveg óvart,“ segir hann og kveðst vera mjög feginn með að hafa loksins klárað verkið.
En hvenær reiknar hann með að bókin komi út? „Líklegast verður hún ekki með í jólabókaflóðinu í ár. Ég býst frekar við að hún komi út á næsta ári,“ segir hann og því verða aðdáendur höfundarins að bíða þolinmóðir að sinni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hinsegin dagar tímaskekkja?

Hinsegin dagar, sem hófust með pomp og prakt í vikunni, hafa fyrir löngu stimplað sig inn sem ein vinsælustu hátíðahöld á Íslandi, ekki síst Gleðigangan sem fer fram á morgun. Að margra áliti er gangan hápunktur hátíðahaldanna en síðustu ár er talið að á bilinu 70-90 þúsund manns hafi lagt leið sína í miðborgina til að taka þátt eða fylgjast með henni, sem gerir gönguna að einum fjölmennasta viðburði í Reykjavík.

Ánægjulegt er að nánast þriðjungur þjóðarinnar skuli taka þátt í hátíðahöldum sem ganga út á að fagna fjölbreytileika mannlífsins, efla samstöðu hinsegin fólks og gleðjast yfir áföngum sem náðst hafa í réttindabaráttu þess á Íslandi síðustu áratugi því þátttakan sýnir ekki aðeins að stór hluti Íslendinga kýs að búa í samfélagi sem er bæði fjölbreytt og réttlátt heldur líka í samfélagi þar sem mannréttindi eru virt.

Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekningarlaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð. Skilur ekki tilganginn með henni þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki séu á undanhaldi í samfélaginu. Hátíðin sé í raun og veru bara tímaskekkja.

Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekninglaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð.

Vissulega er rétt að réttindabarátta hinsegin fólks hérlendis síðustu áratugi hefur skilað árangri, eins og sést meðal annars á því hvernig viðhorfið í garð þess hefur almennt batnað og sömuleiðis lagaleg staða vissra hópa undir hinni svokölluðu regnhlíf. Forsíðuviðtal Mannlífs í dag sýnir hins vegar rækilega svart á hvítu að enn er langt í land að hinsegin fólk njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi.

„Ég var að labba heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyra alveg upp að mér og reyna að sparka mig niður.“ Þannig lýsir annar viðmælandinn Sæborg Ninja Guðmundsdóttir óhugnanlegu atviki sem átti sér stað í hverfinu sem hún býr í, en umræddir strákar veittust að henni eingöngu vegna þess að hún er trans kona.

Hinn viðmælandinn, Úlfar Viktor Björnsson, hefur upplifað sinn skerf af ofbeldi en í vetur greindi Úlfar frá því á Facebook hvernig ókunnugur maður kýldi hann í miðbæ Reykjavíkur fyrir það eitt að vera hommi. Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi en andlegt ofbeldi og áreiti hefur verið nánast daglegt brauð og Sæborg Ninja hefur jafnhrikalega sögu að segja.

Úlfar og Sæborg vona að með því að stíga fram opni þau á nauðsynlega umræðu um fordómana og ofbeldið sem hinsegin fólk verður enn fyrir á Íslandi þrátt fyrir bætta stöðu. Bæði telja þau Hinsegin daga og Gleðigönguna vera nauðsynlega í því samhengi, því hátíðin sé ekki aðeins haldin til að fagna þeim sigrum sem hafa áunnist í réttindabaráttu hinsegin fólks heldur líka til að vekja athygli á því misrétti og aðkasti sem það verður enn fyrir á Íslandi. Nokkuð sem vert er að hafa í huga, bæði þegar tekið er þátt í fagnaðarlátunum og eins þegar farið er að efast um tilverurétt þessarar hátíðar.

Spennt að byrja ferilinn

|
|

Ungur íslenskur dansari, Kristín Marja Ómarsdóttir, hefur verið ráðin að ballettflokknum við Óperuhúsið í Graz. Hún segir mikinn heiður að vinna með flokknum enda hafi margir af fremstu dönsurum heims sýnt með honum í gegnum tíðina.

Kristín Marja Ómardóttir komst inn í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz. Hún segir það hafa verið ólýsanlega tilfinningu. „Stjórnandinn þurfti að segja mér það tvisvar svo ég tryði því.“

„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref. Svo er þetta auðvitað heilmikill heiður líka því eftir því sem ég best veit þá er ég ekki bara sú eina úr minni kynslóð af dönsurum á Íslandi sem hafa dansað með þessum ballettflokki, heldur líka ein fárra á Íslandi sem hafa á síðustu árum fengið tækifæri til að gerast atvinnudansari hjá klassískum ballettdansflokki,“ segir Kristín Marja glöð í bragði.

Fyrsta verkefni Kristínar Marju með ballettflokknum verður uppsetning hans á dansverkinu Sandman eftir Andreas Heise í október. „Verkið byggir á hinni frægu sögu „Der Sandmann“ eftir ETA Hoffmann og er neó-klassískt. En neó-klassík er form sem mér finnst vera mjög heillandi af því að það er mitt á milli þess að vera klassík og nútímadans og ég æfði klassík lengi og langaði prófa eitthvað nýtt án þess þó að vilja víkja alveg frá henni,“ útskýrir hún.

Hefur gengið vel erlendis
Kristín Marja er einungis tvítug að aldri en á engu að síður „langan“ feril að baki sem dansari. Fjögurra ára byrjaði hún að æfa ballett í Ballettskóla Eddu Scheving og fimm árum síðar lá leiðin í Listdansskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist átján ára af klassískri framhaldsbraut. Meðan á náminu í skólanum stóð keppti hún í þrígang fyrir Íslands hönd í ballettkeppni í Svíþjóð og sótti námskeið hjá Konunglega danska ballettinum og í Palluca-dansháskólanum í Dresden í Þýskalandi. Þá var hún í fámennum hópi sem komst inn í Konuglega sænska ballettskólann og hefur eftir nám meðal annars dansað í Óperudraugnum, Rauðu myllunni og á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.

„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref.“

Spurð hvað sé ólíkt með dansheiminum hér heima og erlendis segir hún að stærðin sé án efa einn helsti munurinn. „Dansheimurinn er miklu minni á Íslandi. Við erum með einn dansflokk sem leggur áherslu á nútímadans en úti eru alls konar flokkar með ólíkar áherslur. Það sorglega er að danslistin gæti verið miklu stærri á Íslandi ef við settum bara meira fjármagn í hana, því við eigum góða kennara og efnilega dansara sem myndu gjarnan vilja dansa á Íslandi ef aðstæður væru ekki þannig þeir þyrftu að fara út. Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því Íslendingar hafa greinilega áhuga á danslist eins og sést bara af því hvað selst vel á sýningar erlendra dansflokka á Íslandi.“

Harður heimur
En dansheimurinn úti, er hann ekki harður líka? „Jú, rosalega,“ játar hún. „Til dæmis vorum við rúmlega 100 krakkar sem sóttum um að komast í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz og dansprufan tók tæpa átta tíma. Þegar upp var staðið vorum við ellefu. Þannig að kröfurnar eru strangar og samkeppnin mikil. Maður er alltaf að berjast um besta hlutverkið og stöðuna. Til dæmis veit ég ekkert hvernig hópurinn í Óperuhúsinu í Graz verður, hvort hann verður samheldinn eða ekki. Ég kynntist nokkrum krökkum í prufunni og þau virtust öll vera indæl, en annars á bara eftir að koma í ljós hvernig mórallinn verður. Auðvitað vonar maður samt að hann verði góður.“

Þú virðist ekkert stressuð. „Nei, alls ekki. Það þýðir ekki neitt. Þá skemmir maður bara fyrir sjálfum sér. Ég er búin að fara í svo margar prufur að ég veit núna að eina sem virkar er að reyna að hafa gaman og það ætla ég að reyna að gera eftir fremsta megni í Austurríki og er með góðan stuðning frá vinum og vandamönnum. Svo minni ég mig líka á hvað mig hefur lengi dreymt um að komast inn í dansflokk af þessu tagi og fá að prófa mörg og ólík verk og vonandi dansa út um allan heim. Þannig að núna ég er bara spennt fyrir þessu og að byrja þennan feril,“ segir hún glöð.

Hægt er að fylgjast með ævintýrun Kristínar á Instagram, hún er með notendanafnið kristinmarja

Spennandi efni í nýjum Gestgjafa

Ágústblað Gestgjafans er nú að finna í helstu verslunum landsins og er sneisafullt af skemmtilegu og safaríku efni.

Uppskeran er farin að láta á sér kræla og við bjóðum upp á ýmsa kræsilega rétti úr henni, finna má uppskriftir að grænmetisréttum, safaríkum salötum, sultum, sveitabökum og hvernig best má nýta nýtínd bláber. Einnig má finna nýstárlegra efni en við ræddum við Vilmund Hansen garðyrkjufræðing sem fræðir lesendur um ætar plöntur og blóm og Guðríður Ragnarsdóttir segir frá reynslu sinni við að tína og nota íslenskar jurtir í matargerð.

Vínsíður Dominique eru á sínum stað þar sem hún segir lesendum frá helstu fréttum úr vínheiminum og mælir með spennandi vínum. Hrefna Sætran bauð í japanska matarveislu og deilir uppskriftum með lesendum og barþjónninn Daníel Michaelsson spjallaði við okkur um kokteila og barmenningu á Íslandi. Þetta og margt margt fleira í nýjasta eintaki Gestgjafans!

Mynd á forsíðu / Aldís Pálsdóttir
Mynd af smákökum / Hallur Karlsson

 

Aukin eftirspurn eftir vönduðu handverki og tímalausri hönnun

Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson kyntust í Danmörku þar sem þau stofnuðu fyrirtæki sitt AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Frá Danmörku fluttu þau til Ítalíu þar sem fyrirtækið blómstraði en þegar börnunum fór að fjölga fluttu þau heim til Íslands, héldu áfram að þróa framleiðslu sína og stefna nú ótrauð að Bandaríkjamarkaði.

„Við stofnuðum fyrirtækið 2011 í Danmörku, fluttum það svo milli landa og komum heim 2014,“ útskýrir Ágústa. „Gústav er húsgagnasmiður og saman hönnum við öll húsgögn AGUSTAV.
Ég vinn svo að markaðshliðinni á meðan Gústav sér um verkstæðið.“

Húsgögn AGUSTAV hafa töluverða sérstöðu einkum hvað varðar áhersluna á umhverfisvæna framleiðslu, um hvað snýst það?

„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist,“ segir Ágústa. „Við eigum svolítið erfitt með þá þróun að húsgögn séu að miklu leyti til orðin einnota og að þeim sé skipt út þegar næsti bæklingur kemur út, þannig að við reynum að framleiða húsgögn sem endast og hafa hátt endursölugildi, vilji maður losa sig við þau. Þar að auki nýtum við allan efnivið sem við fáum inn á verkstæðið alveg í þaula og erum komin með línu sem er bara byggð á afgöngum sem falla til á verkstæðinu. Svo gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum, ýmist í regnskógum Brasilíu eða hér á Íslandi.“

„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist.“

„Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar.“

Ágústa og Gústav sérsmíða líka húsgögn eftir óskum viðskiptavina, ýmist í samstarfi við innanhússarkitekta og arkitekta, eða í beinu samstarfi við viðskiptavinina, en þau einskorða sig þó ekki við það.

„Í vor opnuðum við sýningarrými á Funahöfða 3 í Reykjavík þannig að nú er loksins hægt að koma til okkar og skoða húsgögn, fá að prófa þau eða fá lánuð heim til að sjá hvernig þau passa inn í rýmið á heimilinu. Það er innangengt úr sýningarrýminu inn á verkstæðið svo fólk getur líka kynnt sér hvernig varan er búin til og hvaðan efniviðurinn kemur.“

Sérsmíðuðu allt í fyrstu íbúðina
Ágústa og Gústav kynntust þegar þau bjuggu bæði í Danmörku og eiga nú tvö börn, þriggja og sex ára, og það þriðja er á leiðinni. Ágústa segir að augljóslega séu þau of ung til að taka þátt í vinnunni enn sem komið er, en það standi vonandi til bóta. En hvaðan kom hugmyndin að fyrirtækinu?

„Strax og við kynntumst byrjuðum við að innrétta heimilið okkar og þar sem íbúðin sem við bjuggum í á þeim tíma var dálítið undarlega löguð enduðum við á því að sérsmíða allt inn í hana,“ segir Ágústa og hlær. „Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar þannig að þetta vatt mjög hratt upp á sig og varð að þessu fyrirtæki sem það er í dag.“

Ísland opnaði ný tækifæri

Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson

Árið 2013 ákváðu þau Gústav og Ágústa að hætta að vinna annars staðar, flytja til Ítalíu og beina öllum sínum kröftum að uppbyggingu fyrirtækisins. Það var kominn tími til að víkka sjóndeildarhringinn og Ítalía hentaði vel því sem þau voru að gera á þeim tíma, að sögn Ágústu, og þau leigðu sér hús uppi í fjöllum á Norður-Ítalíu þar sem pláss var fyrir verkstæðið í kjallaranum og fyrirtækið hélt áfram að blómstra. Þar komust þau líka í beina tenginu við viðinn og komust nær uppruna efniviðarins sem þau nota. En hvernig datt þeim í hug að flytja aftur heim til Íslands?

„Það kom til af því að ég átti von á barni númer tvö og á Ítalíu, alla vega þarna sem við vorum, var litla aðstoð að fá við barnapössun,“ útskýrir Ágústa. „Elsta barnið var þá tveggja og hálfs og við höfðum engin önnur úrræði en að hafa hana með okkur við vinnuna. Ég sá fyrir mér að hafa lítinn tíma til að sinna vinnunni þegar komið væri annað barn og við ákváðum að koma heim þar sem tengslanetið okkar er, ömmur og afar og ættingjar, dagheimilispláss og svo framvegis. Það var algjört lán í óláni að við skyldum enda hér aftur því hér hafa opnast mörg tækifæri sem voru okkur lokuð áður.“

Eru einhverjar nýjungar fram undan hjá fyrirtækinu?

„Það er alltaf eitthvað,“ segir Ágústa leyndardómsfull. „Við erum alltaf með einhverjar nýjar vörur í kollinum sem líta dagsins ljós þegar þeirra tími kemur. Svo fórum við núna í maí á sýningu í New York þar sem við sýndum vörurnar okkar og það gekk alveg rosalega vel. Við hlutum svo styrk úr Hönnunarsjóði til markaðssetningar í Bandaríkjunum sem hjálpar virkilega til við að halda fókus á þann markað það sem eftir er árs. Við fengum mjög góð viðbrögð og mikinn áhuga og erum núna að vinna í því að greiða okkur leið inn á þann markað. Við erum bara mjög spennt fyrir því og höldum ótrauð áfram okkar stefnu.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir og úr safni AGUSTAV

 

Viltu taka þátt í Mannlífinu?

Mannlíf leitar að öflugum blaðamanni til að taka þátt í mótun og frekari uppbyggingu vikublaðs sem kemur frítt inn á 80.000 heimili í hverri viku.

Mannlíf hefur á skömmum tíma skipað sér í hóp mest lesnu helgarblaða landsins, með vönduðum viðtölum, greinaskrifum og fréttaskýringum. Í nýlegri könnun mældist blaðið með 23,5% lestur sem sýnir að lesendur kunna að meta þessa nýlegu viðbót við íslenska fjölmiðlaflóru.

Blaðamaður Mannlífs verður hluti af öflugu ritstjórnarteymi Birtíngs og í lykilhlutverki við áframhaldandi uppbyggingu blaðsins. Viðkomandi þarf að hafa frumkvæði og vera sjálfstæður í sínu starfi, vera með góða þekkingu á samfélagsmiðlum og viðtæka reynslu af blaðamennsku. Vandvirkni, geta til að vinna undir tímapressu og góð samskiptahæfni eru einnig mikilvægir eiginleikar.

Við tökum líka við umsóknum frá lausapennum sem hafa brennandi áhuga á Mannlífinu.

Endilega hafðu samband ef þig langar til að bætast í hópinn.

Umsóknir og ferilskrá sendist á framkvæmdastjóra Birtíngs, Sigríði Dagnýju Sigurbjörnsdóttur,[email protected]

Umsóknarfrestur er til 24. ágúst.

Áreitt og lamin

|||
|||

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson segja enn langt í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi þótt staðan hafi batnað síðustu ár. Sjálf upplifa þau áreiti nánast alla daga ársins og hafa lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera hinsegin.

Sæborg segir transfóbíu grasserandi í samfélaginu og að svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými transfólks.

Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram? Svarið við því er blákalt nei samkvæmt viðmælendum Mannlífs, Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni. Sem hinsegin fólk upplifa þau niðrun og áreiti nánast alla daga ársins, bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf og þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.

Persónuhelgi fólks sem er „öðruvísi“ ekki virt
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir kom út sem trans kona fyrir einu og hálfu ári og hefur síðan upplifað hótanir um ofbeldi, ágengar spurningar frá fólki sem hún þekkir ekki neitt, óumbeðnar athugasemdir um útlit sitt, óviðeigandi snertingar og það hefur verið hrópað á eftir henni út á götu. Hún segir trans fóbíu grasserandi í samfélaginu og svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými trans fólks. Ofbeldið hófst um leið og hún fór að tala um það við þáverandi vin sinn að henni fyndist henni ekki hafa verið úthlutað réttum líkama.
„Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum í samræðum við mann sem er ekki lengur vinur minn,“ útskýrir Sæborg. „Við vorum í svona transhúmanískum pælingum og ég lét í ljós þá ósk að fá nýjan líkama sem mér fyndist passa mér. Hann spurði þá strax hvað ég myndi gera ef hann gæfi mér þennan nýja líkama og myndi síðan binda mig niðri í kjallara og nauðga mér? Ég reyndi að komast út úr þessum samræðum, fannst þetta ógeðslegt, en hann hélt áfram að suða og spyrja hvað ég myndi gera í því? Ég var mjög sjokkeruð en þegar ég sleit þessum vinskap og sagði örfáum öðrum vinum frá þessu þá trúðu þeir mér ekki. Þetta varð til þess að ég dró það í ár að koma út úr skápnum.“
Sæborg segist lengi hafa vitað að hún væri ekki í réttu hlutverki en það hafi tekið hana langan tíma að fá leyfi hjá sjálfri sér til að sættast við það og koma út. Það gerði hún loks þegar hún var þrítug og viðbrögð umhverfisins voru ekki jákvæð.

„Ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér.“

„Foreldrar mínir hættu eiginlega bara að tala við mig,“ segir hún. „Ég hef ekki farið í heimsókn til þeirra í meira en ár og ekkert heyrt í mömmu en pabbi lætur í sér heyra af og til. Yngri systir mín var hins vegar alveg sátt við þetta og sömuleiðis sonur minn sem er fjórtán ára. Ég var mest stressuð að tala um þetta við hann en hann kippti sér ekkert upp við það, spurði bara hvort við ættum ekki að fara að horfa á DVD.“

Hrædd við að fara út
Sæborg er ekki á því að umræðan um það hvað allt sé æðislegt í málefnum hinsegin fólks á Íslandi eigi við rök að styðjast. Stuttu eftir að hún kom út varð hún til dæmis fyrir tilraun til niðurkeyrslu skammt frá heimili sínu í Breiðholtinu.
„Ég var að ganga heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyrðu alveg upp að mér og reyndu að sparka mig niður. Sem betur fer hittu þeir ekki almennilega en ég átti mjög erfitt með að fara út á kvöldin lengi eftir þetta. Það er svo erfitt að eiga von á svona árásum frá tilfallandi fólki í nánasta umhverfi manns.“
Sæborg segist líka löngu vera hætt að fara niður í bæ á kvöldin, hvað þá á djammið.
„Meira að segja á skemmtistöðum sem gefa sig út fyrir að vera vinsamlegir hinsegin fólki verður maður fyrir alls kyns óviðeigandi framkomu. Fólk sem kemur upp að manni á barnum og tilkynnir manni að maður sé fáránlegur, eða eitthvað þaðan af verra, upp úr þurru. En það er ekki bara bundið við skemmtistaðina, ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér. Það virðir ekki persónuhelgina þegar transfólk á í hlut. Ég var alltaf opin og til í að spjalla við fólk þótt ég þekkti það ekki en núna fer ég ekki út án þess að vera með sólgleraugu og heyrnartól og gefa rækilega til kynna að ég vilji engin samskipti.“

„Fólk vill bara tala um kynfærin á mér“
Stuðningsnetið í kringum Samtökin ’78 hefur reynst Sæborgu vel og hún segist ekki vita hvar hún væri stödd andlega án þess. En vantar ekki meiri fræðslu um málefni trans fólks úti í samfélaginu?
„Ég held að fræðsla eins og í kynjafræði í grunnskólum sé svakalega gott fyrsta skref,“ segir Sæborg. „En því miður finnst mér miðað við mín samskipti við fólk að það bara vilji ekki læra. Það myndi skemma þá afmennskandi umræðu sem er í gangi að kynna sér málið. Það er til dæmis endalaust ergjandi að fyrir stóran hóp fólks virðist það að vera trans eingöngu snúast um kynfæri. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið spurninguna hvað ég ætli að gera við typpið, eins og það sé það eina sem skiptir máli. Fólk spyr mig ekki hvernig mér líði, hvernig hafi gengið, hverju það að koma út hafi breytt fyrir mig, það vill bara tala um kynfærin á mér. Það er svakalega ergjandi og ótrúlega mikil tilfinningaleg orka fer í það eitt að reyna að útskýra hvers vegna þetta er óviðeigandi spurning. Fólk fer í vörn og segist bara vera forvitið, en leiðir ekki hugann að því að það myndi aldrei spyrja sískynja ókunnuga manneskju um kynfærin á henni [innskot blaðamanns: sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu, heimild www.otila.is]. Af því að ég er „öðruvísi“ virðast almennar umgengnisvenjur ekki gilda um mig.“

Margir gefast hreinlega upp
Spurð hvernig henni finnist heilbrigðiskerfið standa sig gagnvart transfólki dregur Sæborg við sig svarið.
„Fólkið í trans teymi Landspítalans gerir sitt besta og þar er margt gott fólk, en löggjöfin er enn þá fáránleg. Það er náttúrlega ótrúlegt að það skuli enn þá þurfa að fara í geðmat hjá geðlækni áður en okkur er leyft að hefja meðferð. Það er löngu búið að fjarlægja það úr öllum viðurkenndum læknatímaritum að það að vera trans sé geðsjúkdómur, en það er enn stefnan hérlendis. Það væri mikill munur ef þeim lögum væri breytt. Ég hitti yfirlækninn í trans teyminu tvisvar og spurningarnar sem ég fékk snerust aðallega um nærfötin mín og kynlíf mitt, á meðan hann strauk á sér lærin. Það er engan veginn efst í mínum huga en ég held að þetta sé einhver arfur frá transsexúalismanum sem er auðvitað löngu úrelt viðmið. Ég get auðvitað ekki talað út frá reynslu annars fólks en ég hef heyrt svipaðar sögur frá öðrum. Og til þess að gera þetta enn erfiðara þá þarf þessi sami geðlæknir að gefa sitt samþykki fyrir öllu sem ég fer í gegnum í meðferðinni. Hann er enn hliðvörður kerfisins og getur neitað fólki um meðferð eftir því sem honum sýnist. Það er ógnvekjandi og ég held að þeir sem eru ekki nógu duglegir að berjast fyrir því að fá að halda áfram í ferlinu lendi oft í því að gefast hreinlega upp. Ég hef til dæmis þurft að hringja mörgum sinnum til að ítreka beiðnir um næstu skref í meðferðinni, ef ég hefði ekki gert það væri ég enn á byrjunarreit.“

„Ég ætla ekki að móðga þig en …“
Úlfar Viktor Björnsson hefur, líkt og Sæborg, verið beittur ofbeldi en hann komst í fréttirnar í vetur þegar alls ókunnugur maður barði hann úti á götu fyrir það eitt að vera hommi. Hann var á gangi yfir gangbrautina í Lækjargötu þegar maður sem hann hafði aldrei séð vatt sér að honum og spurði hvort hann væri hommi. Þegar Úlfar svaraði játandi gerði maðurinn sér lítið fyrir og kýldi hann með krepptum hnefa í andliti. Úlfar ákvað að kæra ekki, þessi maður ætti greinilega bágt, en hvernig hefur honum liðið síðan og hver voru viðbrögð umhverfisins við umfjölluninni um ofbeldið? Hafði atburðurinn einhver langvarandi áhrif?

„Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018,“ segir Úlfar.

„Nei, ég get ekki sagt það,“ svarar Úlfar, en hugsar sig svo um. „Í svona tvo mánuði eftir á var ég dálítið á varðbergi þegar ég var einn úti að ganga í miðbænum, en það er búið. Ég fékk aðallega góð viðbrögð við umfjölluninni, þótt auðvitað væru alltaf einhverjir inn á milli sem spurðu hvers vegna ég hefði ekki bara mannað mig upp og kýlt hann til baka og að ég væri bara að væla í fjölmiðlum sem væri engin ástæða til af því við værum komin svo langt í réttindamálum hinsegin fólks.“
Úlfar segir ástæðu þess að hann sagði frá þessu í fjömiðlum vera þá að hann hafi langað til að fólk gæti dregið lærdóm af atvikinu.
„Ég hélt sjálfur að svona gerðist ekki í dag og var alls ekki viðbúinn því að lenda í einhverju svona,“ segir hann. „Ég ákvað að kæra manninn ekki, þar sem hann er greinilega á vondum stað í lífinu en ég vildi vekja athygli á því að þetta er veruleiki sem samkynhneigðir á Íslandi búa við enn í dag.“

Alltaf orðið fyrir skítkasti
Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi, en andlegt ofbeldi og áreiti hafi alltaf verið nánast daglegt brauð.
„Maður er alltaf að fá eitthvað skítkast frá fólki sem samþykkir mann ekki eins og maður er,“ útskýrir hann rólegur. „Það hefur alltaf verið þannig. Í grunnskóla þurfti maður alltaf að vera með brynju, þótt ég væri ekki kominn út á þeim tíma var engin miskunn gefin. Þar er maður kallaður öllum illum nöfnum fyrir að vera „stelpustrákur“.
Úlfar kom ekki út úr skápnum fyrr en hann var nítján ára, en ástæða þess var meðal annars sú að hann var sem skiptinemi í kaþólskum drengjaskóla í Argentínu og þar var ekkert svigrúm gefið fyrir samkynhneigða.
„Það hefði ekki verið tekið vel í það í því umhverfi,“ segir hann og hlær. „Þannig að ég kom ekki út fyrr en eftir að ég kom aftur heim árið 2012.“

Fékk þau komment að hann ætti ekki skilið að vera til
Spurður hvað honum finnist um frasann vinsæla að Ísland sé komið svo langt í réttindamálum hinsegin fólks að engin ástæða sé fyrir það að kvarta, hristir Úlfar höfuðið.
„Við erum svo föst í því að við séum komin svo langt miðað við aðrar þjóðir að fólk sem er ekki mikið að pæla í þessu sér ekki fordómana sem eru til staðar. Þeir eru svo lúmskir og birtast á stöðum sem almenningur sér ekki. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum akkúrat núna og ég held að það sé meðal annars vegna þess að við erum svo gjörn á að leiða hluti hjá okkur. Það eru meira að segja fordómar innan hommasamfélagsins sjálfs. Þegar maður fær þessi endalausu komment um það hvað maður er lítils virði fer maður að trúa því sjálfur og efast um sjálfan sig. Ég get nefnt þér nýlegt dæmi. Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum og er alveg opinn með það en fékk endalaust af niðrandi kommentum og skilaboðum. Hann kannski póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig, hann ætti ekki skilið að vera til og svo framvegis. Hann sagði við mig að þegar hann fór lengst niður hafi hann verið farinn að trúa því sjálfur að þetta væri satt og hann ætti ekkert erindi í þessum heimi. Hann er þrettán ára gamall og þú getur ímyndað þér hvernig svona komment fara með hann. Þetta er það sem almenningur sér ekki. Við erum vissulega komin langt miðað við hvar við vorum fyrir tíu til tuttugu árum en það eru bara komnir aðrir tímar og fordómarnir birtast á öðrum stöðum en þá. Það er hægt að fela þá í gegnum tölvuna og fólk virðist halda að það geti sagt hvað sem er á meðan tölvuskjárinn skýlir því. Þetta er alls ekkert einsdæmi, þetta er að gerast alls staðar í kringum okkur í dag. Því miður.“

Af hverju er móðgun að vera ég?
Sjálfur segist Úlfar enn verða fyrir niðrandi athugasemdum við öll möguleg tækifæri og allir sem hann þekki í hinsegin samfélaginu hafi sömu sögu að segja.
„Jafnvel velviljaðasta fólk opinberar fordóma sína þegar það setur fyrirvara á spurninguna um það hvort maður sé samkynhneigður. „Ég ætla ekki að móðga þig, en ertu hommi?“ Af hverju ætti þessi spurning að vera móðgandi? Af hverju er það móðgun að vera það sem ég er? Það er þessi fyrirvari sem er móðgandi. Ég fékk þessa spurningu oft áður en ég kom út, en neitaði alltaf, og kannski var þetta viðhorf partur af því hvað ég dró það lengi að koma út úr skápnum. Ég var hræddur við þessa fordæmingu umhverfisins.“

„Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum … Hann póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig.“

Úlfar vinnur sem þjónn, er í sálfræðinámi í HR, er á leið í nám í förðunarfræðum auk þess að vinna annað slagið á félagsmiðstöðvum fyrir unglinga, bæði í Samtökunum ’78 og annars staðar. Hann segist alltaf vera mjög opinn um samkynhneigð sína og honum finnist eiginlega vanta fleira fólk sem sem vill fræða umheiminum um veröld hinsegin fólks.
„Já, ég held við þurfum miklu meiri fræðslu um þessi mál,“ segir hann ákveðinn. „Ég er alltaf tilbúinn að svara spurningum og deila minni reynslu ef fólk hefur áhuga og ég held við þurfum að vera vakandi fyrir því að umræðan deyi ekki út í þessum draumi um hvað allt sé gott fyrir hinsegin fólk á Íslandi. Það er hættulegast.“

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson.

Vonandi staðnar umræðan ekki

Gleðigangan er í augum margra fyrst og fremst fjölskylduhátíð og fögnuður, sem Úlfar segir vera stórkostlegt, en hann er á því að hún þurfi líka að standa fyrir annað og meira.
„Fólk sem ekki er tengt hinsegin samfélaginu áttar sig kannski ekki á því hversu stutt við erum komin í baráttunni, þannig að Hinsegin dagar og Gleðigangan skipta gríðarlegu máli. Við erum að berjast fyrir mannréttindum okkar, að fá þau virt eins og allir aðrir samfélagsþegnar. Það er ekki þannig í raun. Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018. Þess vegna er full ástæða til að halda þessa göngu. Við erum ekki bara að fagna því að vera komin þetta langt, við erum líka að vekja athygli á ástæðunum fyrir því að við þurfum þessa göngu. Ég vona að ég lifi þann dag sem við þurfum ekki á þessari göngu að halda og ég er bjartsýnn á það. Vonandi bara staðnar umræðan ekki það mikið að við drögumst enn meira aftur úr, vonandi höldum við áfram að vinda upp á þessa jákvæðu þróun. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.“

Sæborg er virk í baráttumálum transfólks, er gjaldkeri TransÍslands, og hún ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í Gleðigöngunni. En finnst henni þessi ganga enn þá þjóna tilgangi sínum?
„Ég held það, já,“ segir hún hugsi. „Þessar göngur byrjuðu auðvitað sem mótmæli gegn misrétti sem hinsegin fólk er beitt og það er enn í gangi. Mér finnst líka gott að geta fagnað þeim árangri sem hefur náðst, þrátt fyrir allt. Það er mikilvægt vegna þess að það er svo auðvelt að missa dampinn þegar maður einblínir bara á það sem eftir er að sigrast á, en ég held það sé líka mikilvægt að göngurnar haldi áfram að vera mótmæli og hjálpi til við að vekja athygli á því misrétti sem við verðum enn fyrir. Kerfið á Íslandi er transfóbískt í eðli sínu og við þurfum að gera allt sem við getum til að vekja athygli á því og berjast gegn því.“

________________________________________________________________
Raunveruleg staða Íslands í réttindum hinsegin fólks
Goðsögnin um Ísland sem hinsegin útópíu er lífseig en á hún við rök að styðjast? Á regnbogakorti ársins er Ísland í 18. sæti yfir þau lönd sem best standa sig í að þoka réttindamálum hinsegin fólks áfram og hefur ekki haldið í við nágrannalöndin, ekki síst hvað varðar réttindi transfólks og intersex-fólks.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

Þessi einkaþjálfari afsannar haug af kenningum um heilbrigðan lífsstíl

||||||||||||
||||||||||||

Einkaþjálfarinn og næringarfræðingurinn Graeme Tomlinson heldur úti bráðskemmtilegri Instagram-síðu þar sem helsta viðfangsefnið er að afsanna ýmsar kenningar um heilbrigðan lífsstíl.

Graeme er þeirrar skoðunar að það sem þurfi til að grenna sig og lifa heilbrigðum lífsstíl sé að borða fjölbreyttan mat – ekki að fara á djúskúra og borða eingöngu það sem okkur er sagt að sé hollt. Þá segir hann að fæðunni sé ekki um að kenna að mannkynið glími við offituvanda, heldur sé það okkur sjálfum að kenna.

Við skulum líta á nokkrar myndir af Instagram-síðunni hans. Það kemur eflaust margt ykkur á óvart.

Matur sem hægt er að borða er betri en drykkur með fullt af sykri:

Jahá, vissuð þið að það eru svona margar kaloríur í möndlum?

Þetta er sláandi:

Grænkálsflögur eða venjulegar flögur?

Enginn munur á kaloríufjölda:

Keto kaffið er ansi hitaeiningaríkt:

Best að fá sér bara alvöru súkkulaði:

Graeme trúir ekki á djúskúra:

Ávöxtur er ekki það sama og ávöxtur:

Pælið í þessu næst þegar þið farið út að borða:

Offitufaraldurinn svokallaður er okkur að kenna:

Engin samviskubit, takk:

Hlýr staður með gott hjarta

Þær Gígja Björnsson og Ragnheiður Birgisdóttir opnuðu fyrir skömmu fyrsta kattakaffihús landsins en hugmyndina höfðu þær brætt með sér lengi.

Þær segja kaffihús af þessu tagi njóta sívaxandi vinsælda um heim allan en kattakaffihúsið er staðsett við Bergstaðastræti 10a í Reykjavík.

Ragnheiður hefur unnið lengi í markaðsstjórnun og Gígja á kaffihúsum en hún er menntaður sviðshöfundur. Þær segjast báðar vera miklir kattavinir og kettirnir hafi í raun dregið þær saman. „Við tengjumst mikið í gegnum ketti en Ragnheiður hefur til dæmis passað kisuna mína í langan tíma,“ segir Gígja og bætir við:

„Svo vill svo vel til að Helga Björnsson sem hannaði plakötin, púðana og málaði veggmyndirnar er mamma mín, og líka mikil kisuvinkona.“

Ragnheiður segir Íslendinga almennt mikla kattavinir. „Það er svo skemmtilegt að sjá hvað fólk var spennt fyrir þessu verkefni strax í upphafi. Við stofnuðum Karolina Fund-síðu og þar sáum við strax hvað það var mikill spenningur fyrir þessu. Það eru til svo skemmtilegar Facebook-síður eins og Cats of Reykjavik og Spottaði kött. Þá sér maður hvað áhuginn er mikill, sumir myndu jafnvel kalla þetta einhvers konar dellu fyrir kisum.”

„Viðtökurnar hafa í það minnsta verið góðar og okkur gengið býsna vel. Við erum mjög sáttar og þakklátar fyrir þær móttökur sem við höfum fengið og erum strax komnar með frábæran hóp af fastagestum.”

„Fólk alls staðar að úr heiminum hefur meira að segja breytt ferðalagi sínu til þess að kíkja við hjá okkur á kattakaffihúsið. En það er ekki bara kattafólk sem kemur til okkar, það er líka hundafólk og allskonar fólk sem er kannski ekki að pæla það mikið í kisunum. Það má. Það sem skiptir máli er að öllum líði vel og að kisunum líði vel.“

Viðtalið í heild má lesa í 29. tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Aldís Pálsdóttir.

Tökur hafnar á Bloodshot

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson við tökur á stórri ofurhetjumynd.

Leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson greindi frá því á Twitter-síðu sinni að hann væri staddur í Suður-Afríku (sjá mynd) þar sem tökur eru að fara að hefjast á næstu mynd hans, ofurhetjumyndinni Bloodshot. Í myndinni fer Jóhannes Haukur með hlutverk illmennisins Nick Barris, en það er enginn annar en stórstjarnan Vin Diesel sem fer með aðalhlutverkið.

Upphaflega stóð til að Jared Leto færi með hlutverk þorparans en ekki varð af því og var Jóhannes Haukur ráðinn í hans stað. Komi myndin til með að ganga vel í miðasölunni má fastlega búast við að ráðist verði í gerð fleiri mynda upp úr myndasögunni Bloodshoot sem myndin byggir á en Valiant, útgefandi hennar, og Sony hafa gert samning um gerð fimm slíkra mynda.

Kaffikaka með hlynsírópskremi

03. tbl. 2018
|

Þessi kaka er ein af mínum uppáhalds og ég reyni iðulega að finna tækifæri til að bera hana fram. Hún er sérstaklega tíguleg þegar notað er hringlaga og mynstrað formkökuform en þó má nota hringlaga form, tvö hefðbundin formkökuform eða 33x 23 cm kassalaga form.

Kaffikaka með hlynsírópskremi
16-20 sneiðar

Í þessa uppskrift var notað 25 cm hringlaga mynstrað formkökuform, þau fást í sérverslunum. Ef slíkt form er ekki til má nota einfaldan hring. Einnig má nota tvö hefðbundin formkökuform eða 13×9 cm kassalaga form.

380 g hveiti
2 tsk. lyftiduft
½ tsk. matarsódi
½ tsk. salt
250 g ósaltað smjör, við stofuhita
330 g sykur
3 egg
2 tsk. vanilludropar
300 g sýrður rjómi

Smyrjið formið með olíu og sáldrið hveiti ofan í og bankið svo hveitið aðeins úr. Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og setjið til hliðar. Þeytið smjör og egg í hrærivél þar til það verður létt og loftkennt, u.þ.b. 4-5 mín. Bætið eggjunum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið vanilludropum saman við og hrærið vel. Bætið sýrða rjómanum saman við og þeytið saman. Stoppið vélina og klárið að blanda allt saman með sleikju. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið á lægstu stillingu þar til allt hefur blandast saman. Klárið að blanda saman með sleikju svo engir þurrir hveitiblettir verði eftir. Setjið helminginn af deiginu í formið með skeið. Sáldrið ⅔ af pekanhnetublöndunni yfir, setjið restina af deiginu yfir og sáldrið síðan afganginum af hnetublöndunni yfir. Dragið hnífsblað fram og aftur um deigið til að fá marmaraáferð í kökuna. Bakið í miðjum ofni í 45-55 mín. eða þar til kökuprjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn út. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í 10 mín. á grind, snúið síðan forminu við og látið kólna í 5 mín. Athugið hvort kakan hafi losnað úr forminu ef ekki þá skal juða og tosa létt sundur formið, þetta þarf að gera mjög varlega svo kakan detti ekki í sundur en þetta á mest við ef notað er hringlaga skrautform. Látið kökuna kólna alveg áður en kremið er sett á hana. Kökuna má geyma vandlega innpakkaða í plastfilmu í ísskáp í 2 daga eða í frysti í u.þ.b. 1 mánuð.

Pekanhnetumulningur:
100 g púðursykur
50 g hveiti
2 tsk. kanill
1 msk. kakó
½ tsk. salt
50 g smjör, skorið í litla bita
50 g fínsaxaðar pekanhnetur

Hrærið saman púðursykur, hveiti, kanil, kakó og salt. Bætið smjörinu saman við og myljið niður með fingrunum og nuddið því saman við blönduna. Bætið pekanhnetunum út í og nuddið saman þar til allt hefur blandast vel og líkist grófkenndu mjöli. Setjið til hliðar.

Hlynsírópskrem:
120 g flórsykur
1 dl hlynsíróp

Hrærið saman með gaffli þar til blandan er kekkjalaus og seigfljótandi. Hellið yfir kökuna og sáldrið litlu hnefafylli af söxuðum pekanhnetum yfir.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

„Væli úr mér augun, hlæ og fagna“

|
|

Leikkonan og uppistandarinn Þuríður Elín Sigurðardóttir eða Ebba Sig eins og hún er kölluð er forfallinn sjónvarpsfíkill og horfir á fjölbreytt efni sem hún viðurkennir að sé misgott. Hún er með uppistand á Kaffi Laugalæk einu sinni í mánuði og er að skrifa sjónvarpsþætti sem heita Næstum fullorðnar.

Leikkonan og uppistandarinn Þuríður Elín Sigurðardóttir.

Nashville (2012-2018)
Þættir sem ég er ekkert mikið að segja fólki frá því að ég horfi á heita Nashville og eru um country-stjörnur í Nashville Tennesse sem ganga í gegnum hæðir og lægðir. Ég hef eytt mörgum kvöldum, já og heilum frídögum í að horfa á þættina vælandi úr mér augun, hlæjandi og fagnandi þegar eitthvert par byrjar loksins að vera saman, á milli þess sem ég finn karaoke-útgáfur af lögunum sem eru samin sérstaklega fyrir þáttinn og syng hástöfum ein heima hjá mér og ímynda mér að ég sé að leika í þáttunum. Ég er alveg miður mín yfir því að þættirnir séu að hætta eftir þessa seríu.

S Club 7 The greatest hits (2003)
Ég hef alltaf verið mjög hrifin af breskum söngsveitum og byrjaði það allt saman með Spice Girls. En bandið sem náði mér alveg voru S Club 7 sem var band sem byrjaði upp úr 2000. Ég kann hvert einasta lag og gott ef ég kann ekki meirihlutinn af danssporunum þeirra líka. Enn þann dag í dag þegar ég er að gera mig til fyrir djammið hendi ég stundum S club 7 Greatest hits í gang og syng af innlifun með hverju einasta lagi. Ég var líka ofboðslega hrifin af þáttunum þeirra sem voru sýndir á Stöð tvö áður fyrr. Þeir fjölluðu um leið þeirra að heimsfrægð og hef ég leitað lengi af þeim því ég þrái að horfa á alla þættina aftur. Ég bíð spennt eftir reunioni.

Hressandi hjólaferð um San Francisco

San Francisco er heillandi borg sem hefur upp á margt að bjóða.

Vegna vinda sem blása frá Kyrrahafinu er veðrið milt allt árið um kring með svölum, nær úrkomulausum sumrum og hlýjum vetrum. Þrátt fyrir hæðótt landslag borgarinnar er tilvalið að skoða hana á hjóli. Mannlíf fór nýlega í slíka ferð og sá stóran hluta borgarinnar á tólf tímum.

Í Alamo Square Park

Hjólaleigur eru víðsvegar um borgina og við völdum leigu við hliðina hótelinu okkar í miðborg San Francisco, skammt frá Union Square, mekka verslunar í borginni, sem heitir Blazing Saddles Bike Rentals and Tours. Þar var vel tekið á móti okkur, farið yfir helstu öryggisatriði og hjólabúnað. Hægt var að velja ferð með leiðsögn eða fara á eigin vegum. Við ætluðum á eigin vegum en vorum með nokkuð mótaðar skoðanir á hvað við vildum sjá. Í ljós kom að þau voru með merkt kort sem hentaði okkur algerlega, enda voru langanir okkar ekki mjög exótískar, bara allt þetta vinsælasta í borginni. Einnig fengum við skrifaðar upplýsingar um leiðina. Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er ætlast til að hjólað sé á gangstéttum, hjóla þarf á götunni. Á mörgum stöðum eru hins vegar sérhjólaakreinar, grænmerktar.

Litríkar lafðir
Við byrjuðum á að hjóla áleiðis í Golden Gate Park og okkar fyrsti viðkomustaður var Alamo Square Park sem er fallegt grænt svæði sem liggur hátt uppi og þaðan er gott útsýni til dæmis yfir háhýsi miðborgarinnar. Við eina hlið garðsins eru hin frægu hús Painted Ladies, röð viktorískra húsa við Steiner Street í fallegum mismunandi litum. Það er dásamlegt að setjast niður í þessum garði, virða fyrir sér útsýnið og jafnvel fá sér smávegis nesti.

Andi hippamenningarinnar svífur yfir hverfinu Haight-Ashbury.

Hippalífið
Næst lá leiðin í gegnum hippahverfið Haight-Ashbury sem er nefnt eftir gatnamótum strætanna Haight og Ashbury. Andi hippamenningarinnar frá því á sjöunda áratugnum svífur yfir og þarna eru margar skemmtilegar smáverslanir, veitingastaðir, grúví kaffihús og skrautleg vegglistaverk. Nauðsynlegt er að taka sjálfsmynd við götuskiltið á gatnamótum Haight og Ashbury. Ég veit ekkert út af hverju, allir hinir krakkarnir eru bara að gera það.

Garður gullna hliðsins
Þá komum við í Golden Gate Park sem er risastór almenningsgarður og nær frá hippahverfinu út að strönd Kyrrahafsins. Vel er hægt að verja heilum degi þarna, svo margt er hægt að skoða. Við hjóluðum hægt í gegn og nutum þess sem varð á vegi okkar. Það má alveg mæla með Japanska tegarðinum, göngu á Strawberry Hill og að skoða Stow Lake svo eitthvað sé nefnt. Einnig höfum við heyrt góða hluti um söfnin deYoung og California Academy of Sciences þó að við höfum ekki gefið okkur tíma til að stoppa þar í þessari ferð.

Seal Rocks-eyjaklasinn séður frá Cliff House.

Svalur Kyrrahafsblær
Magnað er að koma út úr garðinum og fá Kyrrahafið í fangið, vindurinn og kælingin sem tók á móti okkur minnti stórlega á íslenska veðráttu. Það hefur sennilega oft verið meira líf á ströndinni en þennan dag enda gera íbúar borgarinnar sennilega aðeins meiri kröfur en við Íslendingar þegar kemur að hitatölum á ströndinni. Okkur fannst hins vegar gott að finna fyrir svölu sjávarloftinu og hjóluðum með fram sjónum í átt að Cliff House. Þar er vinsælt veitingahús og flottur útsýnispallur yfir Seal Rocks-eyjaklasann og Sutro Baths, rústir stórrar almenningssundlaugar með saltvatni, sem opnuð var 1896 en brann árið 1966.

Strekkingsvindur er oftast þvert á Golden Gate-brúnna.

Brúin ógurlega
Þegar þangað var komið byrjaði gleðin upp í móti fyrir alvöru. Til að komast að Golden Gate-brúnni sem var okkar næsti áfangastaður þurftum við að hjóla upp og niður nokkrar hæðir og lærin fengu sannarlega að finna fyrir því. Frá China beach er glæsilegt útsýni yfir brúna frægu og farið að styttast í að við kæmum að þessari heimsfrægu smíð. Við brúna er heljarinnar þjónustumiðstöð og vel haldið utan um ferðamenn. Við stoppuðum þar í stutta stund áður en við héldum yfir brúna og tókum auðvitað nokkrar myndir. Þar sem klukkan var orðin 16 þurftum við að hjóla á vestari hluta brúarinnar og þá er austari hlutinn aðeins opinn göngufólki. Fyrri part dagsins er austari hlutinn opinn bæði gangandi og hjólandi vegfarendum. Strekkingsvindur var á brúnni og á stundum alls ekki auðvelt að hjóla en mikið var þetta skemmtileg upplifun. Við stoppuðum nokkrum sinnum til að taka myndir við lítinn fögnuð atvinnuhjólreiðafólks sem skammaði okkur fyrir að stoppa á „hræðilegum stöðum“. Við reyndum því að láta lítið fyrir okkur fara.

Alcatraz séð frá Piar 39.

Strandbær og veðurblíða
Hinum megin við flóann var eins og að koma inn í nýtt loftslag, við komumst fljótlega í var fyrir vindinum og nutum blíðunnar á norðurbakkanum. Ferðinni var heitið í bæinn Sausalito sem er afar fallegur og þaðan er gott útsýni yfir að San Francisco. Við fengum okkur að borða á frábærum litlum pizzastað við ströndina, stað sem heitir Venice Gourmet Delicatessen & Pizzeria. Hjólaleigan hafði í upphafi látið okkur hafa miða í ferju sem tók okkur aftur til San Francisco sem rukkað er fyrir í lok ferðar ef miðarnir eru notaðir. Við ákváðum að nýta okkur miðana og tókum ferjuna aftur á austurbakkann.

Sæljón flatmaga við Piar 39.

Ferjuferð og fallegar bryggjur
Á leiðinni fórum við fram hjá hinni frægu Alcatraz-eyju og komum í land við bryggjuna við Ferry Building Marketplace. Þarna var klukkan orðin 19 en við ákváðum samt að skoða höfnina. Við hjóluðum að hinni frægu Pier 39 þar sem mikið er um að vera og við sáum meðal annars sæljónin flatmaga. Við enduðum bryggjurúntinn í Fishermans Wharf og sáum í hendi okkar að þaðan er frekar stutt að kræklóttu götunni á Lombard Street. Á kortinu sást hins vegar ekki hversu miklar hæðir við þurftum að klífa til að komast þangað en við létum okkur samt hafa það og hjóluðum sigri hrósandi niður þessa frægu götu í ljósaskiptunum. Klukkan 22 vorum við komnar aftur að hótelinu og skiluðum hjólunum eftir tólf tíma vel heppnaða reisu og áttum skilið að enda þennan dag á Cheesecake Factory sem er við Union Square.

WOW air flýgur til San Francisco allt árið um kring. Verð frá 14.499 kr. aðra leið með sköttum.

Texti og myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

 

Evrópurtúr og stuttskífusería

Hljómsveitin Fufanu gerir það gott.

Íslenska hljómsveitin Fufanu sem skipuð er þeim Kaktusi Einarssyni, Guðlaugi Einarssyni og Erling Bang hefur verið að gera það gott að undanförnu; sendi frá sér fjögur ný lög í vor og hefur verið á tónleikaferð um Evrópu í sumar.

Stuttskífan (EP) með lögunum fjórum heitir Dialogue I og er sú fyrsta í þriggja stuttskífa seríu frá sveitinni; Dialogue I-II-III. Þessi fyrsta hefur að geyma lögin My new trigger, Listen to me, Hourglass og Ninetwelve.

Áður hefur hljómsveitin sent frá sér plöturnar, Few More Days To Go, Adust To The Light EP og nú síðast Sports sem kom út í byrjun árs 2017 og fylgt var eftir með langri tónleikaferð.

Á heimasíðu Fufanu segja meðlimir sveitarinnar að þegar þeir hafi snúið aftur Íslands eftir ferðina hafi þeir verið með fullt af lögum í bakpokanum sem þeir sömdu í ferðinni án þess að vera með einhverja ákveðna stefnu í huga. Hver Dialogue-stuttskífa sé tilraun til að tjá mismunandi tónlistarlegar hliðar, meðal annars post-punk, alt-teknó og tilraunakennda raftónlist. Næstu tónleikar Fufanu verða í Berlín þann 16. ágúst og í Austurríki þann 18. ágúst.

Suðræn veisla fyrir augu og eyru

Reynir Hauksson setur upp fjórar flamenco-sýningar á Íslandi í ágúst.

„Þetta verður hefðbundin flamenco-sýning, söngur, dans og gítarleikur að hætti Andalúsíubúa, en þó með ákveðnu nútímatvisti til að sýna það sem er í gangi í flamenco um þessar mundir og hvert þetta listform er að stefna,“ segir tónlistarmaðurinn Reynir Hauksson, sem setur upp fjórar flamenco-sýningar á Íslandi í ágúst.

Reynir, sem er lærður gítarleikari og hefur fengist við flamenco-gítarleik í Andalúsíu þar sem hann er búsettur, segir að viðlíka sýning hafi ekki verið sett upp hérlendis lengi eða síðan spænski flamenco-dansarinn Joaquin Cortés tryllti landann ásamt stórsveit sinni í Laugardalshöll árið 2004. Sjálfur hefur Reynir fengið til liðs við sig glæsilegt lið listamanna, spænska söngvarinn og flamenco-listamanninn Jacób de Carmen, dansarann Jade Alejandra sem er af mexíkóskum uppruna og hefur kennt flamenco-dans í Kramhúsinu og spænska gítarleikarann Julian Fernández sem kemur fram með dansflokkum víða á Spáni.

Fyrsta sýningin verður sett upp í Tjarnabíói 15. ágúst, önnur í Gamla kaupfélaginu á Akranesi 16. ágúst, sú þriðja í Hofi á Akureyri 17. ágúst og fjórða og síðasta í Hjálmakletti í Borgarnesi 18. ágúst og er Reynir bjartsýnn á að viðtökur verði góðar. „Ég hef verið með flamenco- gítareinleik víðsvegar um landið í sumar og undirtektirnar hafa verið vonum framar þannig að ég vona það. Annars er aðalmálið að setja saman flotta dagskrá með þessum frábæru listamönnum svo útkoman verði góð,“ segir hann og bendir á að allar frekari upplýsingar séu á www.tix.is

Birgitta Líf Björnsdóttir eignast sína fyrstu íbúð

Í skuggahverfinu í 101 Reykjavík býr Birgitta Líf Björnsdóttir, samfélgsmiðlari og stöðvarstjóri hjá World Class, í Hafnarfirði. Birgitta er nýflutt að heiman og er þetta hennar fyrsta íbúð. Hún hefur fágaðan smekk og heimilið ber þess merki að þarna býr ung kona með einstaklega gott auga fyrir hönnun.

Hvað var það við þessa íbúð sem heillaði þig? Vinkona mín flutti í Skuggahverfið fyrir nokkrum árum og ég fann hvað mér leið alltaf vel þegar ég heimsótti hana. Ég hafði aldrei hugsað neitt sérstaklega um að búa í miðbænum en eftir að ég kynntist þessari staðsetningu og húsnæði varð ég alveg heilluð. Svo var það sjávarútsýnið sem heillaði mig algjörlega upp úr skónum. Staðsetningin er líka frábær, ég er svo nálægt öllu. Miðbærinn heillar mig mjög en á sama tíma er stutt og auðvelt að komast allt því héðan er stutt í Sæbrautina.

Hvernig hönnun heillast þú af? Fallegri, stílhreinni og kósí hönnun. Ég komst að því þegar ég keypti íbúðina og fór að pæla í húsgögnum og öðru fyrir heimilið að ég er minna fyrir skandinavíska hönnun og heillast meira að dökkum, grófum og kósí hlutum þó svo að hitt leynist líka með inn á milli.

Hvar kaupir þú helst hluti fyrir heimilið? Ég held að ég hafi keypt um 80% af húsgögnunum í Heimili og hugmyndum sem er mín uppáhaldshúsgagnaverslun. Ég á erfitt með mig þar inni og langar í allt en stíllinn hjá þeim er nákvæmlega sá sami og ég heillast mikið af. Eldhúsvörur, diskastell, handklæði og fleira í þeim dúr keypti ég svo að mestu í Bast í Kringlunni.

Hvað finnst þér skipta mestu máli varðandi heimilið? Þetta spilar allt saman en litasamsetning skiptir mig, held ég, mestu máli. Ég vil ekki hafa neitt hvítt en á sama tíma ekki of litríkt og verður þetta allt að tóna fallega saman. Ef það gerir það skiptir uppröðunin ekkert allt of miklu máli en falleg lýsing setur svo punktinn yfir i-ið.

Áttu uppáhaldslistamann? Ég pantaði mér málverk hjá Tiago Forte eftir að hafa séð verk eftir hann á Instagram sem vildi svo skemmtilega til að var hjá nágranna mínum hér í næstu byggingu. Ég fór að skoða það og fékk það síðan lánað til að máta það en það heillar mig hvað verkin hans eru öðruvísi og mér fannst það passa vel inn í minn stíl. Síðan er ég virkilega hrifin af unga listamanninum Sigurði Sævari og langar næst í verk eftir hann.

Lumar þú á einföldum eða ódýrum lausnum sem hafa reynst þér vel? Meira er minna. Maður þarf ekki að eiga allt eða kaupa allt strax.

Umsjón / Þórunn Högna

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fíkju- og geitaostabaka

|
|

Þessa böku er mjög auðvelt að útbúa fyrir utan hvað hún bragðast dásamlega. Furuhnetur í bland við bragðmikinn ost og sætan frá ávöxtunum gera þennan rétt ómótstæðilegan. Tilvalinn smáréttur þegar von er á gestum og ekki mikill tími fyrir flókna eldamennsku.

Geitaosturinn sem notaður var í réttinn heitir Chavroux en einnig má nota bragðminni osta eins og camembert eða brie. Gott er að bera fram sætt hvítvín með þessum rétti.

1 rúlla smjördeig                     
2 egg
1 eggjarauða
150 ml rjómi
sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
5-6 ferskar fíkjur eða ferskjur, skornar í báta
100 g geitaostur t.d Chavroux
2 msk. furuhnetur, ristaðar
2 stangir tímían
kaldpressuð ólífuolía eftir smekk til að dreypa yfir í réttinn þegar hann kemur út úr ofninum.

Hitið ofninn í 200°C. Bökuformið sem notað var í þessari uppskrift er 35cm x 11cm bökuform en að sjálfsögðu má nota meðalstórt hringlaga form, ílanga bökuformið fæst í Þorsteini Bergmann í Hraunbæ. Byrjið á því að setja smjördeigið í formið og vel upp á brúnirnar, gott er að pikka botninn á deiginu með gaffli, frystið í 30 mín. Hrærið egg, eggjarauðu og rjóma saman í skál og kryddið með salti og pipar. Skerið fíkjurnar (ferskjurnar) í tvennt. Takið formið úr frystinum og hellið rjómaeggjablöndunni í botninn og dreifið osti, hnetum og timíani yfir. Bakið í 15-20 mínútur eða þar til rétturinn er orðinn gullinbrúnn. Dreypið kaldpressaðri ólífuolíu yfir réttinn þegar hann kemur út.

 

 

Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Myndir/ Aldís Pálsdóttir

Tæplega milljón farþegar

Fleiri flugu með WOW í júlí í ár heldur en í fyrra.

Alls flugu 409 þúsund flugfarþegar með Wow air í júlí. Þetta er 29% aukning frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er ári hafa tvær milljónir manna flogið með vélum flugfélagsins.

Talsvert fleiri flugu hins vegar með Icelandair í júlí, eða 519 þúsund manns. Þetta er 5% færri farþegar en í júlí í fyrra.

Sætanýting var talsvert betri hjá Wow air en Icelandair í júlí, eða 92% á móti 85% hjá Icelandair.

Trassaskapur á sjó

Rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa tjáir sig um slys.

„Ég man ekki eftir öðru tilviki og held að þetta sé undantekning,“ segir Jón Arilíus Ingólfsson, rannsóknarstjóri sjóslysa hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, spurður um lélegt eftirlit með ástandi skipa eftir að þau hafi verið seld.

Í júní í fyrra varð slys um borð í Barða NK 120 sem var á togveiðum á Halamiðum. Skipverji ætlaði að taka öryggiskrók úr bakborðshlera. Við það slitnaði togvírinn við svokallað auga með þeim afleiðingum að keðja slóst til og lenti í hægri öxl skipsverjans sem féll við. Mildi var að ekki fór verr því við fallið fór öryggishjálmurinn af skipverjanum. Andartaki síðar slóst keðjuendinn í þilfarið rétt við höfuð hans. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem nýverið kom út er haft eftir skipstjóranum að skipt hafi verið reglulega um togvíra en því verið frestað eftir að skipið var selt.

„Tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu“

|
|

Tryggvi Snær Hlinason er á fljúgandi ferð upp á stjörnuhimin alþjóðlega körfuboltans.

Ferill Tryggva:
Janúar 2014 mætir á sína fyrstu körfuboltaæfingu hjá Þór Akureyri
2014. Spilar sinn fyrsta meistaraflokksleik með Þór
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2015
2015. Valinn í landsliðsúrtök: U-18 og A-landslið karla
2015. Spilaði með U-18 ára landsliðinu bæði Norðurlandamótinu og Evrópumótinu
2016. Fyrsti leikur með A-landsliðinu
Valinn í lokahóp A-landsliðsins fyrir undankeppni EM
Íþróttamaður Þórs á Akureyri 2016 og Körfuboltamaður Þórs 2016
Júní 2017. Skrifar undir samning við Valencia á Spáni, ríkjandi meistara.
Júní 2017. Spilar með A-landsliði Íslands á smáþjóðaleikunum
Júlí 2017. Valinn í lið mótsins í A-deild U-20 ára eftir frábæran árangur á mótinu
Ágúst 2017. Valinn í 15 manna æfingahóp fyrir EuroBasket 2017
September 2017. Leikur á EM í Finnlandi, EuroBasket 2017 með landsliði karla
Sumar 2018. Fer í nýliðaval NBA, en er ekki valinn. Tekur þátt í sumardeild NBA með Toronto Raptors.
Tímablilið 2018-2019. Er lánaður tili Monbus Obradoiro í efstu deild til að fá fleiri leikmínútur.
Mynd/ KKI

Tryggvi Snær Hlinason skaust upp á stjörnuhimin alþjóðlegs körfubolta með ógnarhraða og erlendir miðlar halda vart vatni yfir ótrúlegri sögu hans. Bóndasonurinn úr Bárðardal er samningsbundinn körfuboltaliði Valencia á Spáni til fjögurra ára, tók þátt í nýliðavali NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum fyrr í sumar og er undanfarnar vikur búinn að vera heima í sveitinni eftir að hafa leikið með liði Toronto Raptors í sumardeild NBA í Las Vegas og allt þetta aðeins fjórum árum eftir að hann byrjaði að æfa körfubolta norður á Akureyri.

Tryggvi Snær er ekki maður margra orða og lætur sér, að því er virðist, fátt um eigin frama finnast. Hann segir reynsluna af því að spila í sumardeildinni aðallega hafa veitt sér innsýn í hvernig körfuboltinn gengur fyrir sig í Bandaríkjunum.
„Það er í sjálfu sér ekki hægt að bera saman hvernig þetta gengur fyrir sig í Bandaríkjunum og Evrópu,“ segir hann. „En það var gaman að kynnast þessu og ég er spenntur fyrir framhaldinu.“

Spurður hvort hann viti eitthvað hvert það framhald verður segir Tryggvi Snær svo ekki vera, en hann stefni að því að komast inn í NBA-deildina. Hvernig það þróist verði bara að koma í ljós. Honum líði vel í Valencia og liggi ekkert á.
„Valencia er með gott lið, borgin er mjög falleg og veðrið er gott svo ég hef ekki undan neinu að kvarta þar,“ segir hann og hlær.

Ekki hægt að segja nei
Tryggvi Snær hefur oft talað um það í viðtölum að körfuboltaferillinn hafi alls ekki verið það sem hann stefndi að í framtíðinni þegar hann byrjaði að æfa með Þór á Akureyri eftir að hafa byrjað nám í Verkmenntaskólanum þar.
„Ég ætlaði aldrei svona langt inn í þetta,“ segir hann. „Planið var bara að byrja að æfa körfubolta til að halda mér í formi, en það plan breyttist mjög hratt og þetta varð mun stærra í sniðum en ég hafði reiknað með.“

„… það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga.“

Var hann aldrei efins um að halda út á þessa braut?
„Það var ekki hægt að segja nei,“ segir hann ákveðinn. „Þetta var svo spennandi og opnaði svo marga glugga að það kom ekki annað til greina en að kýla á það.“

Kærasta Tryggva Snæs, Sunneva Dögg Robertson, er afrekskona í sundi og er á leið í háskólanám í Bandaríkjunum í haust eftir að hafa dvalið með honum í Valencia síðastliðið ár. Það er væntanlega enn einn hvatinn til þess að reyna að komast á samning í Bandaríkjunum, eða hvað?
„Já, ég neita því ekki,“ segir hann. „Það væri allavega ekki verra.“

Reynir að gera sitt besta
Tryggvi Snær vill ekki gera mikið úr þeim breytingum sem orðið hafa á lífi hans síðustu árin, þótt þær hafi vissulega verið róttækar. „Þetta er bara svo skemmtilegt,“ segir hann brosandi. „Ég veit að þetta er tækifæri sem fæst bara einu sinni í lífinu og ég reyni bara að gera mitt besta og standa mig.“

Tryggvi Snær er ekki beint að falla á tíma með að komast áfram í körfuboltaheiminum, hann er ekki nema tvítugur og hann segir að það geti þess vegna verið allt að tuttugu ár eftir hjá honum í þeim heimi. „Það er reyndar mjög bjartsýn spá,“ segir hann og hlær. „En það er alltaf séns.“

Tryggvi Snær er búinn að njóta sumarsins heima í Bárðardal en spurður hvort hann sé ekki nokkurs konar þjóðhetja í dalnum vill hann sem minnst úr því gera. „Nei, ég myndi nú ekki segja það,“ segir hann yfirvegaður. „Auðvitað er maður vel þekktur, en þegar maður kemur heim fer maður bara í gamla gírinn og er fljótur að falla inn í mynstrið sem var manni eðlilegt. Ég hjálpa pabba og mömmu við bústörfin og hitti fólk sem ég þekki og svona. Allt voða rólegt. Það er mjög gott að vera kominn heim aftur og ég ætla mér að njóta þess.“

Stefnir enn að NBA-deildinni
Áður en körfuboltinn tók völdin í lífi hans stefndi Tryggvi Snær að því að verða bóndi og taka við búinu af foreldrum sínum þegar þar að kæmi. Eru þau sátt við að þau plön hafi breyst?
„Þau hafa ekkert endilega breyst,“ fullyrðir hann. „Það er bara ekki tímabært að slá neinu föstu um framtíðina. Ég veit það af eigin reynslu að viðmið manns geta breyst mjög hratt. Það er ekki eins og það sé tímabært að afskrifa foreldra mína strax, þetta er ekkert sem þarf að taka ákvörðun um hér og nú.“

Næstu skref Tryggva Snæs, nú eftir að sumarfríinu í sveitinni lýkur, eru að fara aftur til Valencia og halda áfram að spila í Evrópu, en draumurinn er að komast á samning við bandarískt lið sem leikur í NBA-deildinni og hann segist munu halda áfram að reyna að koma sér á framfæri þar.

„Það er harður heimur, mikil samkeppni og margir sem vilja komast þangað,“ segir hann. „En það að hafa tekið þátt í nýliðavalinu og spilað í sumardeildinni eru ákveðin þrep á leiðinni upp í deildina og síðan taka bara við samningaviðræður við þau lið sem sýna manni áhuga. Það kemur allt í ljós. Eins og er tek ég bara einn dag í einu.“

Aðalmynd / Anton Brink

Skrifar um gróft einelti

Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð hefur lokið við nýja skáldsögu. Sagan kallast Dimmuborgir og er innblásin af óhugnanlegum sannsögulegum atburðum.

 

„Hún fjallar um strák sem er drepinn í eineltisárás árið 1997 og besta vin hans árið 2018 sem reynir að komast að sannleikanum um hvað gerðist í raun og veru,“ lýsir hann. „Þannig að bókin gerist á þessum tveimur tímasviðum, árið ’96-’97 þegar strákarnir eru að kynnast í 10. bekk og svo árið 2018 þegar nýjar vísbendingar koma fram um dauða annars þeirra sem sýnir að ekki var allt alveg eins og það sýndist.“

Dimmuborgir er fyrsta skálsaga Óttars í fimm ár og segir hann hana að ýmsu leyti frábrugðna fyrri verkum sínum.

„Hún er til dæmis persónulegri því ég staðset strákana í sama grunnskóla og ég var í og á sama tíma og kveikjan er sannsögulegur atburður sem tengist eineltismáli í skólanum. Svo hef ég síðustu ár fengist við skrif kvikmyndahandrit sem kennir manni aðra hugsun, til dæmis þegar kemur að plotti og stíl og það laumaði sér inn í skáldsöguna.“

Að sögn Óttars hófst vinnsla á sögunni fyrir fimm árum. „Já ég byrjaði á henni þá en kláraði aldrei, það var ekki fyrr en nú í feðraorlofinu mínu sem ég gerði það og eiginlega bara alveg óvart,“ segir hann og kveðst vera mjög feginn með að hafa loksins klárað verkið.
En hvenær reiknar hann með að bókin komi út? „Líklegast verður hún ekki með í jólabókaflóðinu í ár. Ég býst frekar við að hún komi út á næsta ári,“ segir hann og því verða aðdáendur höfundarins að bíða þolinmóðir að sinni.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hinsegin dagar tímaskekkja?

Hinsegin dagar, sem hófust með pomp og prakt í vikunni, hafa fyrir löngu stimplað sig inn sem ein vinsælustu hátíðahöld á Íslandi, ekki síst Gleðigangan sem fer fram á morgun. Að margra áliti er gangan hápunktur hátíðahaldanna en síðustu ár er talið að á bilinu 70-90 þúsund manns hafi lagt leið sína í miðborgina til að taka þátt eða fylgjast með henni, sem gerir gönguna að einum fjölmennasta viðburði í Reykjavík.

Ánægjulegt er að nánast þriðjungur þjóðarinnar skuli taka þátt í hátíðahöldum sem ganga út á að fagna fjölbreytileika mannlífsins, efla samstöðu hinsegin fólks og gleðjast yfir áföngum sem náðst hafa í réttindabaráttu þess á Íslandi síðustu áratugi því þátttakan sýnir ekki aðeins að stór hluti Íslendinga kýs að búa í samfélagi sem er bæði fjölbreytt og réttlátt heldur líka í samfélagi þar sem mannréttindi eru virt.

Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekningarlaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð. Skilur ekki tilganginn með henni þar sem fordómar gagnvart hinsegin fólki séu á undanhaldi í samfélaginu. Hátíðin sé í raun og veru bara tímaskekkja.

Á meðan stór hluti þjóðarinnar fagnar gerist það hins vegar nánast undantekninglaust á hverju ári að fámennur hópur fólks sér ástæðu til agnúast út í þessa hátíð.

Vissulega er rétt að réttindabarátta hinsegin fólks hérlendis síðustu áratugi hefur skilað árangri, eins og sést meðal annars á því hvernig viðhorfið í garð þess hefur almennt batnað og sömuleiðis lagaleg staða vissra hópa undir hinni svokölluðu regnhlíf. Forsíðuviðtal Mannlífs í dag sýnir hins vegar rækilega svart á hvítu að enn er langt í land að hinsegin fólk njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi.

„Ég var að labba heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyra alveg upp að mér og reyna að sparka mig niður.“ Þannig lýsir annar viðmælandinn Sæborg Ninja Guðmundsdóttir óhugnanlegu atviki sem átti sér stað í hverfinu sem hún býr í, en umræddir strákar veittust að henni eingöngu vegna þess að hún er trans kona.

Hinn viðmælandinn, Úlfar Viktor Björnsson, hefur upplifað sinn skerf af ofbeldi en í vetur greindi Úlfar frá því á Facebook hvernig ókunnugur maður kýldi hann í miðbæ Reykjavíkur fyrir það eitt að vera hommi. Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi en andlegt ofbeldi og áreiti hefur verið nánast daglegt brauð og Sæborg Ninja hefur jafnhrikalega sögu að segja.

Úlfar og Sæborg vona að með því að stíga fram opni þau á nauðsynlega umræðu um fordómana og ofbeldið sem hinsegin fólk verður enn fyrir á Íslandi þrátt fyrir bætta stöðu. Bæði telja þau Hinsegin daga og Gleðigönguna vera nauðsynlega í því samhengi, því hátíðin sé ekki aðeins haldin til að fagna þeim sigrum sem hafa áunnist í réttindabaráttu hinsegin fólks heldur líka til að vekja athygli á því misrétti og aðkasti sem það verður enn fyrir á Íslandi. Nokkuð sem vert er að hafa í huga, bæði þegar tekið er þátt í fagnaðarlátunum og eins þegar farið er að efast um tilverurétt þessarar hátíðar.

Spennt að byrja ferilinn

|
|

Ungur íslenskur dansari, Kristín Marja Ómarsdóttir, hefur verið ráðin að ballettflokknum við Óperuhúsið í Graz. Hún segir mikinn heiður að vinna með flokknum enda hafi margir af fremstu dönsurum heims sýnt með honum í gegnum tíðina.

Kristín Marja Ómardóttir komst inn í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz. Hún segir það hafa verið ólýsanlega tilfinningu. „Stjórnandinn þurfti að segja mér það tvisvar svo ég tryði því.“

„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref. Svo er þetta auðvitað heilmikill heiður líka því eftir því sem ég best veit þá er ég ekki bara sú eina úr minni kynslóð af dönsurum á Íslandi sem hafa dansað með þessum ballettflokki, heldur líka ein fárra á Íslandi sem hafa á síðustu árum fengið tækifæri til að gerast atvinnudansari hjá klassískum ballettdansflokki,“ segir Kristín Marja glöð í bragði.

Fyrsta verkefni Kristínar Marju með ballettflokknum verður uppsetning hans á dansverkinu Sandman eftir Andreas Heise í október. „Verkið byggir á hinni frægu sögu „Der Sandmann“ eftir ETA Hoffmann og er neó-klassískt. En neó-klassík er form sem mér finnst vera mjög heillandi af því að það er mitt á milli þess að vera klassík og nútímadans og ég æfði klassík lengi og langaði prófa eitthvað nýtt án þess þó að vilja víkja alveg frá henni,“ útskýrir hún.

Hefur gengið vel erlendis
Kristín Marja er einungis tvítug að aldri en á engu að síður „langan“ feril að baki sem dansari. Fjögurra ára byrjaði hún að æfa ballett í Ballettskóla Eddu Scheving og fimm árum síðar lá leiðin í Listdansskóla Íslands þaðan sem hún útskrifaðist átján ára af klassískri framhaldsbraut. Meðan á náminu í skólanum stóð keppti hún í þrígang fyrir Íslands hönd í ballettkeppni í Svíþjóð og sótti námskeið hjá Konunglega danska ballettinum og í Palluca-dansháskólanum í Dresden í Þýskalandi. Þá var hún í fámennum hópi sem komst inn í Konuglega sænska ballettskólann og hefur eftir nám meðal annars dansað í Óperudraugnum, Rauðu myllunni og á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu.

„Það verður gaman að fá að dansa í þessu sögufræga húsi þar sem margir af fremstu dönsurum hafa stigið sín fyrstu skref.“

Spurð hvað sé ólíkt með dansheiminum hér heima og erlendis segir hún að stærðin sé án efa einn helsti munurinn. „Dansheimurinn er miklu minni á Íslandi. Við erum með einn dansflokk sem leggur áherslu á nútímadans en úti eru alls konar flokkar með ólíkar áherslur. Það sorglega er að danslistin gæti verið miklu stærri á Íslandi ef við settum bara meira fjármagn í hana, því við eigum góða kennara og efnilega dansara sem myndu gjarnan vilja dansa á Íslandi ef aðstæður væru ekki þannig þeir þyrftu að fara út. Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona því Íslendingar hafa greinilega áhuga á danslist eins og sést bara af því hvað selst vel á sýningar erlendra dansflokka á Íslandi.“

Harður heimur
En dansheimurinn úti, er hann ekki harður líka? „Jú, rosalega,“ játar hún. „Til dæmis vorum við rúmlega 100 krakkar sem sóttum um að komast í ballettflokkinn við Óperuhúsið í Graz og dansprufan tók tæpa átta tíma. Þegar upp var staðið vorum við ellefu. Þannig að kröfurnar eru strangar og samkeppnin mikil. Maður er alltaf að berjast um besta hlutverkið og stöðuna. Til dæmis veit ég ekkert hvernig hópurinn í Óperuhúsinu í Graz verður, hvort hann verður samheldinn eða ekki. Ég kynntist nokkrum krökkum í prufunni og þau virtust öll vera indæl, en annars á bara eftir að koma í ljós hvernig mórallinn verður. Auðvitað vonar maður samt að hann verði góður.“

Þú virðist ekkert stressuð. „Nei, alls ekki. Það þýðir ekki neitt. Þá skemmir maður bara fyrir sjálfum sér. Ég er búin að fara í svo margar prufur að ég veit núna að eina sem virkar er að reyna að hafa gaman og það ætla ég að reyna að gera eftir fremsta megni í Austurríki og er með góðan stuðning frá vinum og vandamönnum. Svo minni ég mig líka á hvað mig hefur lengi dreymt um að komast inn í dansflokk af þessu tagi og fá að prófa mörg og ólík verk og vonandi dansa út um allan heim. Þannig að núna ég er bara spennt fyrir þessu og að byrja þennan feril,“ segir hún glöð.

Hægt er að fylgjast með ævintýrun Kristínar á Instagram, hún er með notendanafnið kristinmarja

Spennandi efni í nýjum Gestgjafa

Ágústblað Gestgjafans er nú að finna í helstu verslunum landsins og er sneisafullt af skemmtilegu og safaríku efni.

Uppskeran er farin að láta á sér kræla og við bjóðum upp á ýmsa kræsilega rétti úr henni, finna má uppskriftir að grænmetisréttum, safaríkum salötum, sultum, sveitabökum og hvernig best má nýta nýtínd bláber. Einnig má finna nýstárlegra efni en við ræddum við Vilmund Hansen garðyrkjufræðing sem fræðir lesendur um ætar plöntur og blóm og Guðríður Ragnarsdóttir segir frá reynslu sinni við að tína og nota íslenskar jurtir í matargerð.

Vínsíður Dominique eru á sínum stað þar sem hún segir lesendum frá helstu fréttum úr vínheiminum og mælir með spennandi vínum. Hrefna Sætran bauð í japanska matarveislu og deilir uppskriftum með lesendum og barþjónninn Daníel Michaelsson spjallaði við okkur um kokteila og barmenningu á Íslandi. Þetta og margt margt fleira í nýjasta eintaki Gestgjafans!

Mynd á forsíðu / Aldís Pálsdóttir
Mynd af smákökum / Hallur Karlsson

 

Aukin eftirspurn eftir vönduðu handverki og tímalausri hönnun

Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson kyntust í Danmörku þar sem þau stofnuðu fyrirtæki sitt AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

AGUSTAV sem sérhæfir sig í framleiðslu húsgagna með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

Frá Danmörku fluttu þau til Ítalíu þar sem fyrirtækið blómstraði en þegar börnunum fór að fjölga fluttu þau heim til Íslands, héldu áfram að þróa framleiðslu sína og stefna nú ótrauð að Bandaríkjamarkaði.

„Við stofnuðum fyrirtækið 2011 í Danmörku, fluttum það svo milli landa og komum heim 2014,“ útskýrir Ágústa. „Gústav er húsgagnasmiður og saman hönnum við öll húsgögn AGUSTAV.
Ég vinn svo að markaðshliðinni á meðan Gústav sér um verkstæðið.“

Húsgögn AGUSTAV hafa töluverða sérstöðu einkum hvað varðar áhersluna á umhverfisvæna framleiðslu, um hvað snýst það?

„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist,“ segir Ágústa. „Við eigum svolítið erfitt með þá þróun að húsgögn séu að miklu leyti til orðin einnota og að þeim sé skipt út þegar næsti bæklingur kemur út, þannig að við reynum að framleiða húsgögn sem endast og hafa hátt endursölugildi, vilji maður losa sig við þau. Þar að auki nýtum við allan efnivið sem við fáum inn á verkstæðið alveg í þaula og erum komin með línu sem er bara byggð á afgöngum sem falla til á verkstæðinu. Svo gróðursetjum við tré fyrir hverja vöru sem við seljum, ýmist í regnskógum Brasilíu eða hér á Íslandi.“

„Það skiptir okkur miklu máli að framleiða vöru með það að leiðarljósi að hún endist.“

„Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar.“

Ágústa og Gústav sérsmíða líka húsgögn eftir óskum viðskiptavina, ýmist í samstarfi við innanhússarkitekta og arkitekta, eða í beinu samstarfi við viðskiptavinina, en þau einskorða sig þó ekki við það.

„Í vor opnuðum við sýningarrými á Funahöfða 3 í Reykjavík þannig að nú er loksins hægt að koma til okkar og skoða húsgögn, fá að prófa þau eða fá lánuð heim til að sjá hvernig þau passa inn í rýmið á heimilinu. Það er innangengt úr sýningarrýminu inn á verkstæðið svo fólk getur líka kynnt sér hvernig varan er búin til og hvaðan efniviðurinn kemur.“

Sérsmíðuðu allt í fyrstu íbúðina
Ágústa og Gústav kynntust þegar þau bjuggu bæði í Danmörku og eiga nú tvö börn, þriggja og sex ára, og það þriðja er á leiðinni. Ágústa segir að augljóslega séu þau of ung til að taka þátt í vinnunni enn sem komið er, en það standi vonandi til bóta. En hvaðan kom hugmyndin að fyrirtækinu?

„Strax og við kynntumst byrjuðum við að innrétta heimilið okkar og þar sem íbúðin sem við bjuggum í á þeim tíma var dálítið undarlega löguð enduðum við á því að sérsmíða allt inn í hana,“ segir Ágústa og hlær. „Bókasnagi sem við smíðuðum þá var fyrsta varan sem við komum út með og viðtökurnar voru vonum framar þannig að þetta vatt mjög hratt upp á sig og varð að þessu fyrirtæki sem það er í dag.“

Ísland opnaði ný tækifæri

Hjónin Ágústa Magnúsdóttir og Gústav Jóhannsson

Árið 2013 ákváðu þau Gústav og Ágústa að hætta að vinna annars staðar, flytja til Ítalíu og beina öllum sínum kröftum að uppbyggingu fyrirtækisins. Það var kominn tími til að víkka sjóndeildarhringinn og Ítalía hentaði vel því sem þau voru að gera á þeim tíma, að sögn Ágústu, og þau leigðu sér hús uppi í fjöllum á Norður-Ítalíu þar sem pláss var fyrir verkstæðið í kjallaranum og fyrirtækið hélt áfram að blómstra. Þar komust þau líka í beina tenginu við viðinn og komust nær uppruna efniviðarins sem þau nota. En hvernig datt þeim í hug að flytja aftur heim til Íslands?

„Það kom til af því að ég átti von á barni númer tvö og á Ítalíu, alla vega þarna sem við vorum, var litla aðstoð að fá við barnapössun,“ útskýrir Ágústa. „Elsta barnið var þá tveggja og hálfs og við höfðum engin önnur úrræði en að hafa hana með okkur við vinnuna. Ég sá fyrir mér að hafa lítinn tíma til að sinna vinnunni þegar komið væri annað barn og við ákváðum að koma heim þar sem tengslanetið okkar er, ömmur og afar og ættingjar, dagheimilispláss og svo framvegis. Það var algjört lán í óláni að við skyldum enda hér aftur því hér hafa opnast mörg tækifæri sem voru okkur lokuð áður.“

Eru einhverjar nýjungar fram undan hjá fyrirtækinu?

„Það er alltaf eitthvað,“ segir Ágústa leyndardómsfull. „Við erum alltaf með einhverjar nýjar vörur í kollinum sem líta dagsins ljós þegar þeirra tími kemur. Svo fórum við núna í maí á sýningu í New York þar sem við sýndum vörurnar okkar og það gekk alveg rosalega vel. Við hlutum svo styrk úr Hönnunarsjóði til markaðssetningar í Bandaríkjunum sem hjálpar virkilega til við að halda fókus á þann markað það sem eftir er árs. Við fengum mjög góð viðbrögð og mikinn áhuga og erum núna að vinna í því að greiða okkur leið inn á þann markað. Við erum bara mjög spennt fyrir því og höldum ótrauð áfram okkar stefnu.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir og úr safni AGUSTAV

 

Viltu taka þátt í Mannlífinu?

Mannlíf leitar að öflugum blaðamanni til að taka þátt í mótun og frekari uppbyggingu vikublaðs sem kemur frítt inn á 80.000 heimili í hverri viku.

Mannlíf hefur á skömmum tíma skipað sér í hóp mest lesnu helgarblaða landsins, með vönduðum viðtölum, greinaskrifum og fréttaskýringum. Í nýlegri könnun mældist blaðið með 23,5% lestur sem sýnir að lesendur kunna að meta þessa nýlegu viðbót við íslenska fjölmiðlaflóru.

Blaðamaður Mannlífs verður hluti af öflugu ritstjórnarteymi Birtíngs og í lykilhlutverki við áframhaldandi uppbyggingu blaðsins. Viðkomandi þarf að hafa frumkvæði og vera sjálfstæður í sínu starfi, vera með góða þekkingu á samfélagsmiðlum og viðtæka reynslu af blaðamennsku. Vandvirkni, geta til að vinna undir tímapressu og góð samskiptahæfni eru einnig mikilvægir eiginleikar.

Við tökum líka við umsóknum frá lausapennum sem hafa brennandi áhuga á Mannlífinu.

Endilega hafðu samband ef þig langar til að bætast í hópinn.

Umsóknir og ferilskrá sendist á framkvæmdastjóra Birtíngs, Sigríði Dagnýju Sigurbjörnsdóttur,[email protected]

Umsóknarfrestur er til 24. ágúst.

Áreitt og lamin

|||
|||

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson segja enn langt í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir á Íslandi þótt staðan hafi batnað síðustu ár. Sjálf upplifa þau áreiti nánast alla daga ársins og hafa lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera hinsegin.

Sæborg segir transfóbíu grasserandi í samfélaginu og að svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými transfólks.

Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram? Svarið við því er blákalt nei samkvæmt viðmælendum Mannlífs, Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni. Sem hinsegin fólk upplifa þau niðrun og áreiti nánast alla daga ársins, bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf og þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.

Persónuhelgi fólks sem er „öðruvísi“ ekki virt
Sæborg Ninja Guðmundsdóttir kom út sem trans kona fyrir einu og hálfu ári og hefur síðan upplifað hótanir um ofbeldi, ágengar spurningar frá fólki sem hún þekkir ekki neitt, óumbeðnar athugasemdir um útlit sitt, óviðeigandi snertingar og það hefur verið hrópað á eftir henni út á götu. Hún segir trans fóbíu grasserandi í samfélaginu og svo virðist sem fólk almennt virði ekki persónurými trans fólks. Ofbeldið hófst um leið og hún fór að tala um það við þáverandi vin sinn að henni fyndist henni ekki hafa verið úthlutað réttum líkama.
„Þetta byrjaði fyrir nokkrum árum í samræðum við mann sem er ekki lengur vinur minn,“ útskýrir Sæborg. „Við vorum í svona transhúmanískum pælingum og ég lét í ljós þá ósk að fá nýjan líkama sem mér fyndist passa mér. Hann spurði þá strax hvað ég myndi gera ef hann gæfi mér þennan nýja líkama og myndi síðan binda mig niðri í kjallara og nauðga mér? Ég reyndi að komast út úr þessum samræðum, fannst þetta ógeðslegt, en hann hélt áfram að suða og spyrja hvað ég myndi gera í því? Ég var mjög sjokkeruð en þegar ég sleit þessum vinskap og sagði örfáum öðrum vinum frá þessu þá trúðu þeir mér ekki. Þetta varð til þess að ég dró það í ár að koma út úr skápnum.“
Sæborg segist lengi hafa vitað að hún væri ekki í réttu hlutverki en það hafi tekið hana langan tíma að fá leyfi hjá sjálfri sér til að sættast við það og koma út. Það gerði hún loks þegar hún var þrítug og viðbrögð umhverfisins voru ekki jákvæð.

„Ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér.“

„Foreldrar mínir hættu eiginlega bara að tala við mig,“ segir hún. „Ég hef ekki farið í heimsókn til þeirra í meira en ár og ekkert heyrt í mömmu en pabbi lætur í sér heyra af og til. Yngri systir mín var hins vegar alveg sátt við þetta og sömuleiðis sonur minn sem er fjórtán ára. Ég var mest stressuð að tala um þetta við hann en hann kippti sér ekkert upp við það, spurði bara hvort við ættum ekki að fara að horfa á DVD.“

Hrædd við að fara út
Sæborg er ekki á því að umræðan um það hvað allt sé æðislegt í málefnum hinsegin fólks á Íslandi eigi við rök að styðjast. Stuttu eftir að hún kom út varð hún til dæmis fyrir tilraun til niðurkeyrslu skammt frá heimili sínu í Breiðholtinu.
„Ég var að ganga heim að kvöldlagi þegar strákar á vespu keyrðu alveg upp að mér og reyndu að sparka mig niður. Sem betur fer hittu þeir ekki almennilega en ég átti mjög erfitt með að fara út á kvöldin lengi eftir þetta. Það er svo erfitt að eiga von á svona árásum frá tilfallandi fólki í nánasta umhverfi manns.“
Sæborg segist líka löngu vera hætt að fara niður í bæ á kvöldin, hvað þá á djammið.
„Meira að segja á skemmtistöðum sem gefa sig út fyrir að vera vinsamlegir hinsegin fólki verður maður fyrir alls kyns óviðeigandi framkomu. Fólk sem kemur upp að manni á barnum og tilkynnir manni að maður sé fáránlegur, eða eitthvað þaðan af verra, upp úr þurru. En það er ekki bara bundið við skemmtistaðina, ég hef jafnvel lent í því á daginn þegar ég er að ganga niðri í bæ að ókunnugt fólk kemur upp að mér og fer að káfa á mér. Það virðir ekki persónuhelgina þegar transfólk á í hlut. Ég var alltaf opin og til í að spjalla við fólk þótt ég þekkti það ekki en núna fer ég ekki út án þess að vera með sólgleraugu og heyrnartól og gefa rækilega til kynna að ég vilji engin samskipti.“

„Fólk vill bara tala um kynfærin á mér“
Stuðningsnetið í kringum Samtökin ’78 hefur reynst Sæborgu vel og hún segist ekki vita hvar hún væri stödd andlega án þess. En vantar ekki meiri fræðslu um málefni trans fólks úti í samfélaginu?
„Ég held að fræðsla eins og í kynjafræði í grunnskólum sé svakalega gott fyrsta skref,“ segir Sæborg. „En því miður finnst mér miðað við mín samskipti við fólk að það bara vilji ekki læra. Það myndi skemma þá afmennskandi umræðu sem er í gangi að kynna sér málið. Það er til dæmis endalaust ergjandi að fyrir stóran hóp fólks virðist það að vera trans eingöngu snúast um kynfæri. Ég veit ekki hversu oft ég hef fengið spurninguna hvað ég ætli að gera við typpið, eins og það sé það eina sem skiptir máli. Fólk spyr mig ekki hvernig mér líði, hvernig hafi gengið, hverju það að koma út hafi breytt fyrir mig, það vill bara tala um kynfærin á mér. Það er svakalega ergjandi og ótrúlega mikil tilfinningaleg orka fer í það eitt að reyna að útskýra hvers vegna þetta er óviðeigandi spurning. Fólk fer í vörn og segist bara vera forvitið, en leiðir ekki hugann að því að það myndi aldrei spyrja sískynja ókunnuga manneskju um kynfærin á henni [innskot blaðamanns: sís er lýsingarorð og forskeyti sem er notað um fólk sem upplifir sig á þann hátt að það tilheyri því kyni sem því var úthlutað við fæðingu, heimild www.otila.is]. Af því að ég er „öðruvísi“ virðast almennar umgengnisvenjur ekki gilda um mig.“

Margir gefast hreinlega upp
Spurð hvernig henni finnist heilbrigðiskerfið standa sig gagnvart transfólki dregur Sæborg við sig svarið.
„Fólkið í trans teymi Landspítalans gerir sitt besta og þar er margt gott fólk, en löggjöfin er enn þá fáránleg. Það er náttúrlega ótrúlegt að það skuli enn þá þurfa að fara í geðmat hjá geðlækni áður en okkur er leyft að hefja meðferð. Það er löngu búið að fjarlægja það úr öllum viðurkenndum læknatímaritum að það að vera trans sé geðsjúkdómur, en það er enn stefnan hérlendis. Það væri mikill munur ef þeim lögum væri breytt. Ég hitti yfirlækninn í trans teyminu tvisvar og spurningarnar sem ég fékk snerust aðallega um nærfötin mín og kynlíf mitt, á meðan hann strauk á sér lærin. Það er engan veginn efst í mínum huga en ég held að þetta sé einhver arfur frá transsexúalismanum sem er auðvitað löngu úrelt viðmið. Ég get auðvitað ekki talað út frá reynslu annars fólks en ég hef heyrt svipaðar sögur frá öðrum. Og til þess að gera þetta enn erfiðara þá þarf þessi sami geðlæknir að gefa sitt samþykki fyrir öllu sem ég fer í gegnum í meðferðinni. Hann er enn hliðvörður kerfisins og getur neitað fólki um meðferð eftir því sem honum sýnist. Það er ógnvekjandi og ég held að þeir sem eru ekki nógu duglegir að berjast fyrir því að fá að halda áfram í ferlinu lendi oft í því að gefast hreinlega upp. Ég hef til dæmis þurft að hringja mörgum sinnum til að ítreka beiðnir um næstu skref í meðferðinni, ef ég hefði ekki gert það væri ég enn á byrjunarreit.“

„Ég ætla ekki að móðga þig en …“
Úlfar Viktor Björnsson hefur, líkt og Sæborg, verið beittur ofbeldi en hann komst í fréttirnar í vetur þegar alls ókunnugur maður barði hann úti á götu fyrir það eitt að vera hommi. Hann var á gangi yfir gangbrautina í Lækjargötu þegar maður sem hann hafði aldrei séð vatt sér að honum og spurði hvort hann væri hommi. Þegar Úlfar svaraði játandi gerði maðurinn sér lítið fyrir og kýldi hann með krepptum hnefa í andliti. Úlfar ákvað að kæra ekki, þessi maður ætti greinilega bágt, en hvernig hefur honum liðið síðan og hver voru viðbrögð umhverfisins við umfjölluninni um ofbeldið? Hafði atburðurinn einhver langvarandi áhrif?

„Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018,“ segir Úlfar.

„Nei, ég get ekki sagt það,“ svarar Úlfar, en hugsar sig svo um. „Í svona tvo mánuði eftir á var ég dálítið á varðbergi þegar ég var einn úti að ganga í miðbænum, en það er búið. Ég fékk aðallega góð viðbrögð við umfjölluninni, þótt auðvitað væru alltaf einhverjir inn á milli sem spurðu hvers vegna ég hefði ekki bara mannað mig upp og kýlt hann til baka og að ég væri bara að væla í fjölmiðlum sem væri engin ástæða til af því við værum komin svo langt í réttindamálum hinsegin fólks.“
Úlfar segir ástæðu þess að hann sagði frá þessu í fjömiðlum vera þá að hann hafi langað til að fólk gæti dregið lærdóm af atvikinu.
„Ég hélt sjálfur að svona gerðist ekki í dag og var alls ekki viðbúinn því að lenda í einhverju svona,“ segir hann. „Ég ákvað að kæra manninn ekki, þar sem hann er greinilega á vondum stað í lífinu en ég vildi vekja athygli á því að þetta er veruleiki sem samkynhneigðir á Íslandi búa við enn í dag.“

Alltaf orðið fyrir skítkasti
Úlfar segir atvikið hafa verið það fyrsta þar sem hann var beittur líkamlegu ofbeldi, en andlegt ofbeldi og áreiti hafi alltaf verið nánast daglegt brauð.
„Maður er alltaf að fá eitthvað skítkast frá fólki sem samþykkir mann ekki eins og maður er,“ útskýrir hann rólegur. „Það hefur alltaf verið þannig. Í grunnskóla þurfti maður alltaf að vera með brynju, þótt ég væri ekki kominn út á þeim tíma var engin miskunn gefin. Þar er maður kallaður öllum illum nöfnum fyrir að vera „stelpustrákur“.
Úlfar kom ekki út úr skápnum fyrr en hann var nítján ára, en ástæða þess var meðal annars sú að hann var sem skiptinemi í kaþólskum drengjaskóla í Argentínu og þar var ekkert svigrúm gefið fyrir samkynhneigða.
„Það hefði ekki verið tekið vel í það í því umhverfi,“ segir hann og hlær. „Þannig að ég kom ekki út fyrr en eftir að ég kom aftur heim árið 2012.“

Fékk þau komment að hann ætti ekki skilið að vera til
Spurður hvað honum finnist um frasann vinsæla að Ísland sé komið svo langt í réttindamálum hinsegin fólks að engin ástæða sé fyrir það að kvarta, hristir Úlfar höfuðið.
„Við erum svo föst í því að við séum komin svo langt miðað við aðrar þjóðir að fólk sem er ekki mikið að pæla í þessu sér ekki fordómana sem eru til staðar. Þeir eru svo lúmskir og birtast á stöðum sem almenningur sér ekki. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum akkúrat núna og ég held að það sé meðal annars vegna þess að við erum svo gjörn á að leiða hluti hjá okkur. Það eru meira að segja fordómar innan hommasamfélagsins sjálfs. Þegar maður fær þessi endalausu komment um það hvað maður er lítils virði fer maður að trúa því sjálfur og efast um sjálfan sig. Ég get nefnt þér nýlegt dæmi. Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum og er alveg opinn með það en fékk endalaust af niðrandi kommentum og skilaboðum. Hann kannski póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig, hann ætti ekki skilið að vera til og svo framvegis. Hann sagði við mig að þegar hann fór lengst niður hafi hann verið farinn að trúa því sjálfur að þetta væri satt og hann ætti ekkert erindi í þessum heimi. Hann er þrettán ára gamall og þú getur ímyndað þér hvernig svona komment fara með hann. Þetta er það sem almenningur sér ekki. Við erum vissulega komin langt miðað við hvar við vorum fyrir tíu til tuttugu árum en það eru bara komnir aðrir tímar og fordómarnir birtast á öðrum stöðum en þá. Það er hægt að fela þá í gegnum tölvuna og fólk virðist halda að það geti sagt hvað sem er á meðan tölvuskjárinn skýlir því. Þetta er alls ekkert einsdæmi, þetta er að gerast alls staðar í kringum okkur í dag. Því miður.“

Af hverju er móðgun að vera ég?
Sjálfur segist Úlfar enn verða fyrir niðrandi athugasemdum við öll möguleg tækifæri og allir sem hann þekki í hinsegin samfélaginu hafi sömu sögu að segja.
„Jafnvel velviljaðasta fólk opinberar fordóma sína þegar það setur fyrirvara á spurninguna um það hvort maður sé samkynhneigður. „Ég ætla ekki að móðga þig, en ertu hommi?“ Af hverju ætti þessi spurning að vera móðgandi? Af hverju er það móðgun að vera það sem ég er? Það er þessi fyrirvari sem er móðgandi. Ég fékk þessa spurningu oft áður en ég kom út, en neitaði alltaf, og kannski var þetta viðhorf partur af því hvað ég dró það lengi að koma út úr skápnum. Ég var hræddur við þessa fordæmingu umhverfisins.“

„Ég var að vinna í félagsmiðstöð þar sem einn af drengjunum kom út úr skápnum … Hann póstaði mynd af sér máluðum á Instagram og fékk þau komment að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig.“

Úlfar vinnur sem þjónn, er í sálfræðinámi í HR, er á leið í nám í förðunarfræðum auk þess að vinna annað slagið á félagsmiðstöðvum fyrir unglinga, bæði í Samtökunum ’78 og annars staðar. Hann segist alltaf vera mjög opinn um samkynhneigð sína og honum finnist eiginlega vanta fleira fólk sem sem vill fræða umheiminum um veröld hinsegin fólks.
„Já, ég held við þurfum miklu meiri fræðslu um þessi mál,“ segir hann ákveðinn. „Ég er alltaf tilbúinn að svara spurningum og deila minni reynslu ef fólk hefur áhuga og ég held við þurfum að vera vakandi fyrir því að umræðan deyi ekki út í þessum draumi um hvað allt sé gott fyrir hinsegin fólk á Íslandi. Það er hættulegast.“

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson.

Vonandi staðnar umræðan ekki

Gleðigangan er í augum margra fyrst og fremst fjölskylduhátíð og fögnuður, sem Úlfar segir vera stórkostlegt, en hann er á því að hún þurfi líka að standa fyrir annað og meira.
„Fólk sem ekki er tengt hinsegin samfélaginu áttar sig kannski ekki á því hversu stutt við erum komin í baráttunni, þannig að Hinsegin dagar og Gleðigangan skipta gríðarlegu máli. Við erum að berjast fyrir mannréttindum okkar, að fá þau virt eins og allir aðrir samfélagsþegnar. Það er ekki þannig í raun. Fólk er enn þá slegið úti á götu og úthúðað fyrir að vera ekki gagnkynhneigt, sem er alveg fáránlegt að viðgangist enn árið 2018. Þess vegna er full ástæða til að halda þessa göngu. Við erum ekki bara að fagna því að vera komin þetta langt, við erum líka að vekja athygli á ástæðunum fyrir því að við þurfum þessa göngu. Ég vona að ég lifi þann dag sem við þurfum ekki á þessari göngu að halda og ég er bjartsýnn á það. Vonandi bara staðnar umræðan ekki það mikið að við drögumst enn meira aftur úr, vonandi höldum við áfram að vinda upp á þessa jákvæðu þróun. Við þurfum svo sannarlega á því að halda.“

Sæborg er virk í baráttumálum transfólks, er gjaldkeri TransÍslands, og hún ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í Gleðigöngunni. En finnst henni þessi ganga enn þá þjóna tilgangi sínum?
„Ég held það, já,“ segir hún hugsi. „Þessar göngur byrjuðu auðvitað sem mótmæli gegn misrétti sem hinsegin fólk er beitt og það er enn í gangi. Mér finnst líka gott að geta fagnað þeim árangri sem hefur náðst, þrátt fyrir allt. Það er mikilvægt vegna þess að það er svo auðvelt að missa dampinn þegar maður einblínir bara á það sem eftir er að sigrast á, en ég held það sé líka mikilvægt að göngurnar haldi áfram að vera mótmæli og hjálpi til við að vekja athygli á því misrétti sem við verðum enn fyrir. Kerfið á Íslandi er transfóbískt í eðli sínu og við þurfum að gera allt sem við getum til að vekja athygli á því og berjast gegn því.“

________________________________________________________________
Raunveruleg staða Íslands í réttindum hinsegin fólks
Goðsögnin um Ísland sem hinsegin útópíu er lífseig en á hún við rök að styðjast? Á regnbogakorti ársins er Ísland í 18. sæti yfir þau lönd sem best standa sig í að þoka réttindamálum hinsegin fólks áfram og hefur ekki haldið í við nágrannalöndin, ekki síst hvað varðar réttindi transfólks og intersex-fólks.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

Raddir