Laugardagur 21. september, 2024
8.6 C
Reykjavik

Bjóða Íslendingum milligöngu um staðgöngumæðrun

|
|

Ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz Nordic hyggst frá og með hausti bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Forsvarsmaður fyrirtækisins, Mikkel Raahede, er staddur hér á landi til að kynna verkefnið og hann fullyrðir að þessi þjónusta stangist ekki á við íslenska löggjöf.

Mikkel Raahede, forsvarsmaður Tammuz Nordic.

„Staðgöngumæðrun er ólögleg innan Íslands, en það er ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis,“ segir hann. „Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“

Þjónustan stendur bæði gagnkynhneigðum og karlkyns samkynja pörum til boða og sömuleiðis einstæðum körlum. Mikkel segir að samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar flóknara að hjálpa einstæðum konum og lesbíum þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með það inn í landið. „Ef faðirinn er íslenskur, eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör og tvo karlmenn, er það hins vegar ekkert vandamál,“ segir hann.

Tammuz er í samstarfi við læknastöðvar í Bandaríkjunum og Úkraínu þar sem valið á staðgöngumæðrum fylgir mjög ströngum reglum, að sögn Mikkels. „Þetta er mjög strangt mat,“ segir hann. „Við fáum mjög margar umsóknir frá konum sem vilja verða staðgöngumæður, en við höfnum fleirum en við tökum við. Í fyrsta lagi verða konurnar sem vinna fyrir okkur að vera mæður sjálfar, hafa gengið með og fætt barn áður en þær taka þetta að sér. Þær þurfa að undirgangast stranga læknisskoðun, bæði líkamlega og andlega. Þær mega hvorki drekka né reykja og við leggjum mikla áherslu á að þær hafi sterkt stuðningsnet í kringum sig.“

„Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“

Tammuz hefur starfað í tíu ár og börnin sem hafa fæðst fyrir milligöngu fyrirtækisins skipta þúsundum. Mikkel segir engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að fyrirtækið sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Hann leggur áherslu á að í stefnu fyrirtækisins sé áherslan lögð á mannlega þáttinn, það sé stutt vel við bæði staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra, sem að sjálfsögðu fái að fylgjast með meðgöngunni og vera viðstaddir fæðinguna ef er óskað. „Við leggjum mikla áherslu á að styðja við bakið á foreldrunum og hjálpa þeim á allan hátt sem við getum,“ segir hann. „Staðgöngumæðrun hefur sums staðar illt orð á sér fyrir að vera gróðafyrirtæki, eða að ríka fólkið sé að nýta sér neyð fátækra kvenna, sem vissulega er raunin sums staðar, en hjá okkur snýst þetta fyrst og fremst um að hjálpa fólki að verða foreldrar.“

Sjálfur á Mikkel þrjú börn með eiginmanni sínum, sem er af íslenskum ættum, og þau eru öll fædd af staðgöngumóður. „Að vera foreldri er það stórkostlegasta sem nokkur upplifir,“ segir hann. „Ég held að við höfum öll þessa þörf fyrir að eignast eigin afkvæmi og það viljum við hjá Tammuz Nordic hjálpa fólki við.“

En hvernig snúa þeir karlar sem vilja nýta sér þjónustu fyrirtækisins sér í því að útvega eggjagjafa?

„Það er ýmist í gegnum eggjabanka, eins og hjá gagnkynhneigðum pörum þar sem konan er ófrjó, eða að þeir fá konu sem þeir þekkja og treysta til að gefa egg,“ útskýrir Mikkel. „Hvort sem fólk velur erum við til staðar og aðstoðum, við setjum ekki fram neinar kröfur um að eggin komi úr eggjabanka sem við erum í viðskiptum við.“

Mikkel viðurkennir að það sé mjög dýrt að fara í gegnum þetta ferli, en fyrirtækið kappkosti að halda kostnaði eins mikið niðri og kostur sé. „Við erum til dæmis meðal ódýrustu staðgöngumæðrunarfyrirtækja í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Þannig að við erum tiltölulega hagkvæmur kostur ef fólk vill fara þessa leið.“

Mikkel er í stuttu stoppi á Íslandi núna til að kanna hvernig landið liggur, en hann kemur aftur í byrjun október og mun þá halda kynningarfyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að að eignast barn með staðgöngumæðrun. „En ég er alltaf tilbúinn að ræða við þá sem vilja kynna sér málið og hvet fólk til að vera í sambandi við okkur og spyrja spurninga,“ segir hann.

Hvað er hnúðkál?

|
|

Hnúðkál flokkast ekki undir rótargrænmeti heldur undir garðkál. Það er skylt blómkáli, brokkólí og grænkáli. Hnúðurinn sem við borðum, eða kálhausinn er hluti af stilknum en ekki rótinni. Stilkurinn getur verið grænn, hvítur eða fjólublár en kjötið er alltaf hvítt.

Hnúðkálið er hálfsérkennilegt í útliti því topphluti stöngulsins myndar hnúð og standa blöðin upp af hnúðnum. Það er talið af ítölskum uppruna og byrjað var að rækta það á Norðulöndunum á 17. öld. Vinsældir hnúðkálsins hafa farið vaxandi í norrænni matargerð síðustu áratugi.

  • Það má borða blöðin af hnúðkálinu. Best eru þau steikt eða gufusoðin en einnig er hægt að skera þau niður í salat.Það má líka klippa ung blöð af kálinu á meðan það er að vaxa og svipar þeim þá til spínats.
  • Hnúðkál er mikið notað í Austur-Evrópu og Þýskalandi. Það er oftast notað eins og gulrófur og næpur og þykir bragðið vera áþekkt þeim tegundum en heldur fínlegra.
  • Hnúðkál er ríkt af C- og B-vítamínum og af steinefnum. Það er mjög trefjaríkt, inniheldur litla fitu og er mjög kaloríusnautt.
  • Best er að geyma það í kæli. Það þarf ekki að pakka því inn því engin hætta er á vatnstapi. Best er að borða það innan 10 daga frá uppskeru.

Hnúðkálsbollurnar eru hentugur pinnamatur í veislur og smakkast vel hvort sem þær eru heitar eða kaldar og  jógúrtsósan er frábær með.

Djúpsteiktar hnúðkálsbollur
fyrir 4

1 hnúðkálshöfuð, afhýtt                                                             
½ bökunarkartafla
3 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 sítrónugras
4 msk. maísmjöl
2 kúfaðar msk. hnetur að eigin vali, t.d kasjúhnetur eða valhnetur
hnefafylli af ferskri myntu
hnefafylli af ferskri steinselju
1 egg
olía til djúpsteikingar

salt og pipar eftir smekk

Brytjið hnúðkálið, kartöfluna, lauk og hvítlauk í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Bætið afgangnum af hráefninu saman við og látið vélina ganga áfram. Smakkið til með salti og pipar. Maukið á að vera mjög fíngert. Geymið í ísskáp í að minnsta kosti 1 klukkustund. Maukið á að vera nokkuð blautt viðkomu en ef það helst ekki nægilega vel saman má bæta við svolitlu maísmjöli. Búið til litlar kúlur með teskeiðum og djúpsteikið í olíu þar til bollurnar fá gullinbrúnan lit á sig. Notið helst gataspaða til að veiða bollurnar upp úr olíunni og gott er leggja þær á eldhúsþurrkur. Bollurnar eiga að vera um það bil munnbiti að stærð.

 

 

 

Jógúrtsósa:

2 dl grísk jógúrt
1 dl smátt skorin fersk mynta
safi úr einni límónu
½ tsk. salt
nýmalaður pipar

Blandið öllu saman sem á að fara í sósuna. Gott er að láta hana standa örlítið áður en hún er borin fram þá verður hún bragðmeiri.

 

Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

„Innsæið öskrar á mig að taka þetta skref“

Unnur Eggertsdóttir var ekki há í loftinu þegar hún tók þá ákvörðun að verða leik- og söngkona. Frá unglingsaldri hefur hún unnið hörðum höndum að því að uppfylla þann draum, og hefur undanfarin ár verið búsett í landi tækifæranna, Bandaríkjunum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá útskrift úr virtum leiklistarskóla hafa verkefnin verið fjölmörg. Unnur stendur nú á tímamótum eftir að hafa sagt upp hlutverki sínu í stórum söngleik sem settur var upp í Las Vegas.

Leiðin hefur ekki alltaf verið greið síðustu ár í lífi Unnar, þrátt fyrir að á blaði virðist tækifærin hafi hreinlega dottið upp í hendurnar á henni. Sjálf gefur hún lítið fyrir þá hugmynd að hægt sé að meika það á einni nóttu. „Það er einhver rómantík yfir þeirri hugmynd í Hollywood sem fræga fólkið virðist oft vilja halda í,“ segir hún. „Það hljómar kannski betur að hafa orðið frægur á einni nóttu, því fólk vill ekki segja frá svitanum, grátinum og barningnum sem hefur farið í þessa vegferð á kannski tíu árum, meðan enginn vissi hver þau voru. Það er kannski eitt hlutverk sem gerir þau fræg, en öll vinnan fram að þessu hlutverki, það tala fáir um hana. Sjálfri finnst mér skemmtilegra þegar fólk segir hvað búið er að fara í baráttuna, það gefur mér mikinn innblástur. Það er oft talað um að gullna reglan sé tíu ár. Ef þú gefst ekki upp í áratug og vinnur eins mikið og þú getur, þá verðurðu á góðum stað. Þetta er bara eins og í öðrum greinum – ef þú vilt stjórna stóru fyrirtæki eða vinna þig upp sem læknir, þarftu að leggja alveg jafnmörg ár í það eins og ef þú vilt verða virtur leikari. Margir líta á þetta ferli sem spretthlaup, og bara á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ég útskrifaðist úr leiklistarnáminu hef ég sé marga gefast upp. Mér finnst mikilvægast að hafa þolinmæði og yfirvegun, og halda í drifkraftinn.“

Unnur hefur síðustu þrjá mánuði leikið hlutverk Jayne Mansfield í söngleik um líf Marilyn Monroe sem settur var upp í Las Vegas. Hlutverkið er það stærsta sem Unnur hefur leikið hingað til, og hafa síðustu mánuðir verið mikil keyrsla. „Það var mögnuð lífsreynsla að búa og vinna í Vegas. Ég hafði fyrst ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast og fannst ég svolítið rugluð að flytja í þessa djammborg. En þetta voru óendanlega skemmtilegir og lærdómsríkir mánuðir. Þarna var ég að vinna með margföldum Broadway-stjörnum og fagfólki með áratuga reynslu í bransanum. Leikhópurinn varð mjög náinn og allir sem komu að sýningunni voru með óbilandi metnað. Við vorum oft á 12 tíma æfingum marga daga í röð, að læra 18 tónlistaratriði með erfiðum dönsum og röddunum. Svo tóku sýningar við og þá sýndum við sex kvöld í viku, aðeins í fríi á mánudögum. Ég lærði svo mikið um sjálfa mig, rödd mína og líkama, hvað ég þurfti að gera til að halda mér í sem bestu formi til að geta sýnt svona erfiða sýningu næstum daglega. Í því fólst að anda að mér gufu í klukkutíma á dag, taka milljón vítamín og drekka kínverskt hunang, hvíla röddina fyrir hádegi, hita hana vel upp, og kæla hana svo niður eftir sýningu. Svo var ég í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku því það var mikið álag á bakinu í þessum dönsum sem ég var í. Þetta tók allt þvílíkt á, en alveg klárlega það lærdómsríkasta sem ég hef gert.“

Til stóð að sýningar á söngleiknum stæðu yfir í sex mánuði til að byrja með, en fyrir mánuði tóku framleiðendur sýningarinnar ákvörðun um að skipta um leikhús og gera breytingar á rekstrarumhverfinu. „Vegna þessara breytinga var ákveðið að senda leikarana í sumarfrí, sem mér fannst æðislegt. Ég fór í tvær vikur til New York að leika mér og hitta gamla vini, og er svo búin að eiga tvær dásamlegar vikur hér á Íslandi,“ segir Unnur, en vegna alls þessa þarf að endurnýja samninga við leikarana eftir sumarfríið. Hún hefur hins vegar tekið ákvörðun um að endurnýja ekki sinn samning.

„Í stærra samhenginu held ég að það sé betra fyrir mig og minn feril að endurnýja hann ekki, heldur fara aftur til Los Angeles og einbeita mér að því að finna ný verkefni. Nú þegar þetta er komið í ferilskrána og reynslubankann finnst mér það rétta í stöðunni að skoða ný tækifæri og hlutverk, í staðinn fyrir að vera þarna í ár í viðbót, eins ótrúlega gaman og það samt er. Þetta er auðvitað meiri áhætta, en ég finn innra með mér að þetta er rétt ákvörðun. Á svona stundum þarf að hlusta á innsæið – og það öskrar á mig að ég verði að taka þetta skref, eins hrædd og ég er við það.“

Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Unni. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir / Aðstoðarljósmyndarar: Unnur Magna og Jökull Sindrason
/Förðun: Björg Alfreðsdóttir

Var kallaður „Guðni hommi“

Forseti Íslands telur mikilvægt að halda baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks áfram.

„Í einlægni sagt trúi ég og vona að litið verði á Hinsegin daga sem tákn um mikilvægi frelsis, virðingar og fjölbreytileika í samfélaginu almennt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti, um Hinsegin daga sem hófust í vikunni, en venju samkvæmt ætlar forsetinn að halda hátíðlega upp á dagana og verður viðstaddur opnunarhátíðina í Háskólabíó í kvöld.

Þetta kemur fram í viðtali við forsetann á fréttasíðunni GayIceland, en þar segir Guðni jafnframt frá því að sem strákur hafi hann verið kallaður hommi vegna þess að hann bar sama nafn og þáverandi formaður Samtakanna ’78, Guðni Baldursson. Þá hafi hommi verið uppnefni en í dag séu breyttir tímar.

Í viðtalinu kemur forsetinn inn á þátttöku sína í Hinsegin dögum fyrir tveimur árum en þá braut Guðni blað í sögunni þegar hann varð fyrsti forsetinn í heiminum til þess að taka opinberlega þátt í gleðigöngu. „Í mínum huga var það mjög eðlileg og gleðileg ákvörðun að taka þátt í göngunni fyrir tveimur árum. Ég styð mannréttindi, fjölbreytileika, frelsi til að tjá sig, elska og trúa því sem maður vill, eða ekki trúa neinu.“

Hann segist hafa tekið þátt í göngunni áður en hann varð forseti og hafi ekki ætlað að hætta því bara við það eitt að fá nýtt hlutverk. Nú sé hann jafnframt orðinn verndari Samtakanna ’78 og segist taka því hlutverki alvarlega. Hann telur mikilvægt að halda baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks áfram líkt og allri baráttu fyrir mannréttindum. Hann muni tjá sig um þessi málefni erlendis ef hann fær tækifæri til þess.

Viðtalið við Guðna má lesa í heild sinni hér.

Mynd / Håkon Broder Lund

Áreitt nánast alla daga

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson hafa verið beitt ofbeldi fyrir að vera hinsegin.

Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram?

Svarið við því er blákalt nei samkvæmt Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni, sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Sem hinsegin fólk upplifa Sæborg og Úlfar niðrun og áreiti nánast alla daga ársins og bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf. Í viðtalinu segjast þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.

 

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hjarta hússins

Eldhúsið er hjarta hússins líkt og maginn er leiðin að hjarta mannsins. Skoðum hvað ber hæst í eldhústískunni um þessar mundir.

Grófar marmaraflísar
Eitt heitasta trendið í eldhúsum um þessar mundir er á sama tíma klassískt og trendí. Flísar í marmarastíl hafa verið að skjóta upp kollinum víða upp á síðkastið en mynstrið sjálft er gróft, villt og áberandi.

Gullfallegt að nota þær á milli eldhússkápa eða fyrir ofan neðri skápa og leyfa þeim njóta sín sem best eins og sjá má hér að ofan. Hér eru nokkrar guðdómlegar útfærslur.

Harðviðarval selur geggjaðar flísar í marmarastíl frá ítalska framleiðandanum Marazzi. Þær koma í stærðum frá 30×60 yfir í 120×240 cm en fermetraverðið er frá 9.500 kr.

Dökkblár
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með í innanhússhönnun að dökkblár litur tröllríður eldhústískunni. Okkur þykir liturinn Votur frá Slippfélaginu sjúklega flottur.

Engir efriskápar
Nú er hámóðins að sleppa efri skápum í eldhúsunum og opnar hillur frekar notaðar til punts og pjatts.

Falinn vaskur
Það þykir ferlega smart í dag að leyfa vaskinum að falla ofan í borðplötuna og nota sama efniviðinn í hvoru tveggja. Myndirnar tala sínu máli en okkur þykir þessi hönnun einstaklega falleg.

Múrsteinar
Hvítur múrveggur er bæði gamaldags og nútímalegur á sama tíma en efniviðurinn ætti ekki að kosta mikið.

Iðnaðarljós
Iðnaðarljós (e. industrial) hafa vaxið mikið í vinsældum síðustu misserin en við elskum ljósahönnun Foscarini fyrir Diesel. Þau fást hjá Lúmex hér á landi.

Þunnar borðplötur
Þunnar borðplötur eru að koma sterkt inn í innanhússhönnunartískunni sem og að nota ýmiskonar viðartegundir í eldhúsborðplötuna.

Ljúfur lambaborgari á grillið

05. tbl. 2018
|

Að öllum líkindum hafa flest okkar borðað meira af hamborgurum í sumar en við getum talið enda með vinsælli sumarmat á landinu. Þó getur verið gaman að breyta til og prófa sig áfram með annað kjöt á borgarann og þá kemur íslenska lambakjötið sterkt inn.

Lambaborgari
fyrir 4

600 g lambahakk
20 g kryddjurtir, t.d. mynta, basilíka og dill, saxað
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 msk. ólífur, saxaðar
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
1 krukka glóðaðar paprikur
þeyttur fetaostur
4 hamborgarabrauð
½ rauðlaukur, sneiddur
klettasalat

Hitið grillið í meðal-háan hita. Blandið saman lambahakki, kryddjurtum og hvítlauk. Skiptið kjötinu í fjóra parta (u.þ.b. 150 g hver) og mótið borgarana mjúklega í höndunum, passið að þrýsta kjötinu ekki of fast saman. Þrýstið þumlinum niður á miðju borgarans (þetta kemur í veg fyrir að hann lyftist upp í miðjunni þegar hann er grillaður).

Grillið kjötið í 3-5 mín. á hvorri hlið eða þar til það hefur eldast að utan en er þó ennþá bleikt í miðju. Grillið tómatana á meðan kjötið grillast þar til þeir hafa mýkst. Smyrjið þeyttum fetaosti (sjá uppskrift neðar) á hamborgarabrauð og leggið kjötið, tómatana, rauðlaukssneiðarnar og klettasalatið ofan á.

Þeyttur fetaostur

250 g fetaostur
3 msk. ólífuolía

Setjið hráefni í matvinnsluvél eða blandara og látið vinna þar til allt er orðið kekkjalaust og slétt. Hellið meiri ólífuolíu í blandarann ef osturinn er of kekkjóttur.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Heimilið endurspeglar okkur sjálf

Virpi Jokinen er ættuð frá Finnlandi en hefur verið búsett hér á landi í aldarfjórðung. Hún hafði starfað sem skipulagsstjóri Íslensku óperunnar í 11 ár, þar til fyrir rúmu ári þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og stofna fyrirtækið Á réttri hillu. Skipulagsaðstoðin sem Á réttri hillu býður upp á felst í því að koma til aðstoðar hjá einstaklingum og minni fyrirtækjum þegar skipulagsleysi veldur vanda.

Virpi segir verkefnin mjög mismunandi eftir þörfum viðskiptavina og að starf hennar taki breytingum eftir því hvað hvert verkefni kallar á. „Öll verkefnin byrja á klukkustundar viðtali til að ræða stöðuna, sjá heimilið eða fyrirtækið og setja markmið í samstarfi við viðskiptavininn. Eftir það er svo undir viðskiptavininum komið hvort óskað er eftir að fá mig aftur seinna til að vinna að sjálfu verkinu. Á meðan til dæmis er unnið að meiri háttar tiltekt eða undirbúningi flutninga er hlutverk mitt að vera tímavörður, hvetja viðskiptavininn áfram, finna mögulegar lausnir og koma með tillögur. Ég tek aldrei ákvarðanir um neitt eða mynda mér skoðun á því hvað viðskiptavinurinn á eða á ekki að gera. Markmið starfs míns er að viðskiptavinir annaðhvort nái markmiðum sínum eða komist hægt og rólega af stað í átt að markmiðum sínum“, segir hún.

Ekki alltaf auðvelt að óska eftir aðstoð

„Ég hafði sinnt margvíslegum verkefnum hjá Óperunni og var alltaf með marga bolta á lofti,“ segir Virpi þegar hún útskýrir hvernig hugmyndin að fyrirtækinu hafi komið til. „Í framhaldinu kviknaði þessi hugmynd, að fara af stað með eigin rekstur og að loknu frábæru Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands ákvað ég láta slag standa og stofnaði Á réttri hillu í ársbyrjun 2018. Nafnið á fyrirtækinu kom til mín í spjalli við vinkonu á veitingastað þar sem ég var enn eina ferðina að útskýra þessa hugmynd og að ég hefði svo mikla trú á þessu, mér fyndist ég bara vera svo á réttri hillu með þetta. Hún segir að svipurinn á mér hafi verið kostulegur þegar við áttuðum okkur á að þarna væri rétta heitið loksins fundið. Þá var ekki aftur snúið og daginn eftir tók ég frá lénið www.arettrihillu.is.“

Virpi segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og hún fagnar því hversu margir hafa sett sig í samband við sig. „Það er ekki alltaf auðvelt að óska eftir svona persónulegri þjónustu, hvað þá að fá einhvern gjörókunnugan heim til sín. Ég hugsa að mér sé óhætt að fullyrða að flestum ef ekki öllum viðskiptavinum mínum hingað til hafi þótt þjónustan koma sér vel og að möguleg feimni þeirra við að velja þessa þjónustu hafi snúist í ánægju yfir að hafa áttað sig á þessum möguleika og stigið það erfiða skref að hafa samband. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru breiður hópur fólks, einstaklingar til jafns við fjölskyldur, fólk með eigin rekstur, yngra og eldra fólk. Það sem einna helst einkennir viðskiptavinina er að þeir eru oft á tíðum með mjög skýrar hugmyndir um lokamarkmiðið eða í það minnsta með mjög sterka tilfinningu fyrir þörf á ákveðinni breytingu á nákvæmlega þessum tímapunkti. Út frá því er þjónustan einnig hugsuð. Á réttri hillu er til aðstoðar á þeim tímapunkti í lífinu, verkefninu eða ferlinu þegar hennar er þörf. Að mínu mati er engin skömm að því að óska eftir aðstoð en það er aftur á móti dapurt að neita sér um það ef brýn þörf er fyrir hendi.“

Meginatriði að gefa sér góðan tíma

Hingað til hafa öll verkefni sem Virpi hefur tekið að sér snúist um hluti í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Hún aðstoðar við að finna leiðir til að fækka þeim og koma því sem eftir verður betur fyrir. Í samstarfi við viðskiptavini hefur hún meðal annars létt á ýmiss konar hlutum á heimilum, fækkað pappírum, tekið til í bílskúrum, geymslum og háaloftum, undirbúið flutninga og útbúið vinnuherbergi.

Aðspurð um ráð fyrir þá sem vilja taka heimilið sitt í gegn telur Virpi meginatriði að gefa sér góðan tíma. „Að ætla heilt ár í að létta á venjulegu heimili er ekki langur tími, í mörgum tilfellum örugglega bara alveg mátulegur. Í upphafi er nauðsynlegt að sjá lokamarkmiðið fyrir sér og gefa sér góðan tíma til að móta það, jafnvel skrifa það niður. Ef um fjölskyldu er að ræða er mikilvægt að fá sjónarmið allra um það hvað hver og einn telur mikilvægt til að tryggja að útkoman þjóni öllum á heimilinu sem best. Ég tel að það sé lítið gagn að lista sem á stendur allt sem er að, en allt öðru máli gegnir um lista þar sem kemur fram hvernig maður vill hafa ákveðna hluti. Ég á við að í stað þess að hugsa eða skrifa hjá sér „bílskúrinn er fullur af dóti“ væri betra að skrifa „ég vil geta keyrt bílinn inn í bílskúr“ eða „ég vil geta gengið að verkfærunum vísum á sínum stað og í lagi“. Þarna eru komin skýr markmið sem hægt er að fara að vinna að.

Ítarlegra viðtal við Virpi og fleiri góð ráð frá henni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Unnur Magna

Fyrsti íslenski spjallþátturinn á ensku

Grínistinn Jonathan Duffy er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.

Ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem vakti athygli fyrir uppistand sitt I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í Tjarnarbíói í síðasta mánuði, er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.

An evening with Jono Duffy kallast herligheitin en um er að ræða spjallþátt með gamansömu ívafi þar sem Jonathan, eða Jono eins og hann er gjarnan kallaður, fær til sín þjóðþekkta íslendinga og aðra gesti og tekur viðtöl og gerir þess á milli óspart grín að öllu milli himins og jarðar, alveg frá „sumrinu“ í ár yfir í ferðaþjónustuna á Íslandi. En eins og þeir vita sem til þekkja er grínstinn ófeiminn við að tækla alls konar mál eins og kynlíf og önnur málefni sem margir veigra sér við að fjalla um.

Jono hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár og á m.a. að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy, auk fyrrnefndar I Wouldn’t Date Me Either. An evening with Jono Duffy er fyrsti íslenski spjallþátturinn sem er framleiddur á ensku og er óhætt að segja að byrjunin lofi góðu.

„Tók á móti barni í miðju matarboði“

||
||

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, hefur tekið á móti tæplega 1600 börnum og hefur í gegnum tíðina gefið foreldrum ráð við öllu sem tengist komu nýs einstaklings í heiminn. Nú hefur hún látið gamlan draum rætast þar sem þessi ráð eru nú saman komin í fallegri bók.

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.

„Þessi bók hefur verið í huga mínum í mörg ár. Ég fann fyrir hvað mikil þörf var á að foreldrar, ömmur og afar gætu leitað svara við spurningum sínum. Þar sem öll svör væru til í einni bók. Ég var endalaust að gefa ráð, svara spurningum og fann svo vel fyrir þakklætinu þegar ráðin dugðu. Oftar en ekki sögðu foreldrarnir, „mikið væri nú gott að geta bara flett upp í einni Önnu ljósu í bók“,“ segir Anna. Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifaði bókina sem ber heitið Fyrstu mánuðirnir – ráðin hennar Önnu ljósu. Esther Viktoría Ragnarsdóttir og Ari Arnaldsson teikna myndirnar sem prýða bókina og Bókafélagið gefur hana út.

„Bókin fjallar um öll þau ráð sem ég hef gefið í heimaþjónustu. Þar er talað um undirbúninginn undir fæðinguna, eldri systkini, fyrstu dagana heima, barnið þegar það kemur í heiminn, líðan móður eftir fæðingu, næringu barnsins brjóstagjöf og pelagjöf, meltingu, grát fyrstu dagana, umhirðu barnsins, veikindi barnsins, hitt foreldrið, andvana fæðingu, endurlífgun og margt margt fleira.“

„Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka.“

Bókin fjallar um öll þau ráð sem Anna hefur gefið í heimaþjónustu.

Fæðing í miðju matarboði
Á þessum tíma sem Anna hefur verið ljósmóðir hefur ýmislegt komið upp á. Annar júní 2009 er henni til dæmis minnisstæður. „Ég var með smávegis matarboð heima hjá mér og þegar við vorum að klára að borða hringdi síminn. Þá er það nágrannakona sem býr ská á móti mér. Ég var búin að vera með hana í mæðravernd og hún sagðist vera með einhverja „murnings“ verki, hvort ég gæti skoðað hana því hún nennti ekki niður eftir ef ekkert væri að gerast. Ég skottaðist yfir með töskuna mína í rauðum sumarkjól og rauðum lakkskóm. Eftir skoðun segi ég henni að ef hún ætli ekki að fæða í bílnum þá skuli hún drífa sig á fæðingardeildina því hún sé komin með átta í útvíkkun. Ég sný mér frá henni og fer úr hanskanum. Hún fer að skellihlæja, vatnið fer og kollurinn fæðist. Pabbinn spurði hvort hann ætti að hringja á sjúkrabíl en ég sagði honum að setjast bara hjá konunni sinni og sýna henni stuðning. Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka. Eldri bræður hennar þrír höfðu verið sendir í ísbúð með ömmu sinni meðan ég skoðaði mömmu þeirra og það var dásamlegt að upplifa þegar þeir komu til baka og sáu á hverju mamma þeirra hélt þegar þeir komu inn í herbergið. Þegar ég kom aftur heim voru allir í rólegheitum að fá sér kaffi. Ég sagðist aðeins hafa skroppið yfir í næsta hús að taka á móti barni, sagði svo: „Viljið þið meira kaffi“.“

Ljósuhjartað stundum brostið

Og kjarabarátta ljósmæðra hefur ekki farið fram hjá Önnu frekar en öðrum. „Kjarabarátta okkar ljósmæðra er barátta fyrir allar konur. Það var alveg kominn tími til að leiðrétta laun ljósmæðra þannig að nýúrskrifuð ljósmóðir lækki ekki í launum fyrir það eitt að bæta við sig tveimur námsárum eftir fjögurra ára hjúkrunarnám. Þetta er búið að vera erfitt og ljósuhjartað mitt hefur nokkrum sinnum brostið í þessari baráttu. Ég hef aldrei upplifað eins mikla og góða samstöðu okkar ljósmæðra og meðbyrinn í þjóðfélaginu gríðarlegur. Þetta hefur verið erfitt fyrir alla; ljósmæður, samstarfsfólk og verðandi foreldra.“

Myndir af Önnu / Hákon Davíð Björnsson

Sýnir ófreskjur í Sotheby‘s

|
|

Listamaðurinn Arngrímur Sigurðsson vinnur að höggmyndum sem verða sýndar í uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York. Höggmyndirnar eru af ófreskjum sem eiga rætur að rekja til íslenskra þjóðsagna.

Arngrímur Sigurðsson sem hefur vakið athygli fyrir málverk af verum úr íslenskum þjóðsögum, vinnur nú að höggmyndum úr marmara sem verða sýndar í Sotheby‘s. Hér er hann með eitt sköpunarverkana sinna sem hann sýndi í New York.

„Ég fór að ímynda mér möguleika erfðafræðinnar og svokallaðrar svartrar líffræði og hvernig það kynni að líta út ef okkur tækist að búa til samblöndu af mannskepnunni og verkfærum mannsins, sérstaklega hvernig stökkbreyttar útgáfur af mönnum og vopnum gætu litið út. Eftir svolitla hugmyndavinnu varð þetta útkoman,“ segir myndlistamaðurinn Arngrímur Sigurðsson um höggmyndir sem hann er að vinna að um þessar mundir á vinnustofu í bænum Carrara á Ítalíu, en þær verða sýndar í apríl á næsta ári í einu elsta og virtasta uppboðshúsi heims, Sotheby‘s í New York.

Höggmyndirnar eru af skrímslum sem Arngrímur byrjaði að þróa meðan hann var við meistaranám í myndlist við New York Academy of Arts og eru hluti af lokaverkefni hans við skólann síðastliðið vor. „Þar bjó ég til samskonar skrímsli úr sílikoni, hreindýrafeldi og hrosshári en erfðafræðilegar tilraunir og allar þessar framfarir sem eru að verða í erfðavísindum urðu kveikjan að þeim,“ útskýrir hann. „Hvernig hægt er að forrita erfðaefni mannsins nánast upp á nýtt. Til dæmis skeyta saman ólíku erfðaefni til að búa til næstum hvað sem er.“

„Að sýna á vegum ABC Stone og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Arngrímur segir að skrímslin séu ákveðið framhald af olíumyndum sem hann málaði fyrir nokkrum árum af íslenskum þjóðsagnaverum út frá lýsingum á fyrirbærum og duldýrum úr þjóðsögum og öðrum fornritum. Myndir af verkunum rötuðu í bók, Duldýrasafnið, sem kom út fyrir fjórum árum og vakti athygli, ekki síst ný og endurbætt útgáfa hennar á ensku sem ferðamenn hafa keypt í bílförmum.

Spurður hvað það sé eiginlega við skrímsli sem heilli hugsar hann sig um og segir: „Mér finnst bara svo áhugavert hvernig þau endurspegla til dæmis alls konar náttúrufyrirbrigði eða samfélagslegar hræringar og hvað þau geta verið skemmtilega margræð.“ Hann segir það vera með ólíkindum að íslenskir listamenn skuli ekki hafa sótt meira í þennan menningararf því hann sé ótrúlega spennandi.

En Sotheby´s, er ekki viss upphefð að sýna í þessu gamla og virta uppboðshúsi? „Algjörlega,“ svarar hann og flýtir sér að bæta við að skúlptúrarnir verði þó ekki eingöngu sýndir þar. Þeir verði líka til sýnis í ABC Stone í Williamsburg. „ABC Stone er fyrirtæki sem er leiðandi í innflutningi og vinnslu á ítölskum marmara í Bandaríkjunum. Ég er einmitt hérna á Ítalíu í boði þess, en þeir bjóða tveimur nemendum frá New York Academy of Art til að nema steinhögg í Carrara á hverju ári. Þannig að sýna bæði á vegum þess og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Of gróft fyrir Facebook

|
|

Facebook vill ekki birta auglýsingar með Magna og Gretu

Söngkonan Greta Salóme.

Salóme.

„Það er ekki eins og einhver hafi meiðst við gerð þessara auglýsinga, þótt þær séu kannski svolítið óhugnanlegar. Þetta var nú bara allt gert í góðu gamni. Samt vill Facebook ekki leyfa okkur að  vekja athygli á þeim,“ segir söngkonan Greta Salóme, um auglýsingar vegna væntanlegrar Halloween-sýningar sem hún og stórskotalið íslenskra tónlistarmanna standa fyrir í október og nóvember, en bandaríski samskiptamiðilinn heimilar ekki að þær séu auglýstar.

Greta segist ekki vita nákvæmlega á hverju málið strandar. „Reyndar erum við með mynd af Magna Ágeirssyni söngvara í rafmagnsstól og mig svona grunar helst að hún hafi sett Facebook á hliðina.“
Umrædd Halloween-sýning var fyrst sett upp í fyrra og vegna góðra viðtaka var ákveðið að endurtaka leikinn, fyrst í Háskólabíói dagana 26.-27. október og svo í Hofi þann 3. nóvember. Að sögn Gretu verður sýningin í ár þó með örlítið breyttu móti. „Til dæmis verður lagavalið ekki það sama þar sem við verðum með það besta frá því í fyrra og bætum við nýjum bombum. Lögin eiga það þó öll sameiginlegt að tengjast hrekkjavöku með einhverjum hætti og verða í drungalegum og rokkuðum útsetningum.“

„Það er ekki eins og einhver hafi meiðst við gerð þessara auglýsinga, þótt þær séu kannski svolítið óhugnanlegar.“

Hún segir að sýningin í fyrra hafi verið mögnuð. Miðað við hvernig æfingar gangi munu listamennirnir þó eflaust toppa hana nú, en á meðal þeirra sem koma fram eru Birgitta Haukdal, Dagur Sigurðsson, Stefán Jakobsson, Ólafur Egilsson, hljómsveitin Todmobile, karlakór og dansarar, auk Magna og Gretu sjálfrar. Þess má geta að sérstök fjölskyldusýning verði í Háskólabíói 28. október.

Misbrestur á eftirliti leiktækja á Íslandi

|
|

Ástandsskoðun leiktækja á leikvöllum er ábótavant. Herdís Storgaard sem um árabil hefur unnið að slysavörnum barna segir að stjórnvöld hafi ekki áhuga á málaflokknum.

Herdís L. Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna.

„Þetta er misjafnt eftir sveitarfélögum. Eftir árlega skoðun á að gera úttekt og laga það sem út af stendur. Þótt slys verði, málið skoðað og niðurstaðan sú að hlutum sé ábótavant þá er oft lítið gert,“ segir Herdís L. Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna.

Ástandsskoðun leiktækja á að gera einu sinni á ári. Rekstraraðilar tækjanna, leikskólar og skólastjórnendur, eiga að sinna eftirlitinu. Löggildingarstofa hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi en heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglna um notkun leikvallatækja og öryggi leiksvæða. Misbrestur er á þessu að sögn Herdísar. Hún segir jafnframt reglugerð um leiktæki og leiksvæði úrelda.

„Dæmi um þetta eru slysin sem urðu vegna lausra fótboltamarka og voru algeng á árum áður. Slysin gátu orðið mjög ljót. Börnin fóru á spítala, lögregla kom á staðinn og skoðaði aðstæður. En ekkert gerðist í kjölfarið.“

„Vandamálið á Íslandi er að stjórnvöld hafa ekki tekið upp og skilgreint slys. Slys er þegar einhver slasar sig. Þá fer ákveðið ferli í gang, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Dæmi um þetta eru slysin sem urðu vegna lausra fótboltamarka og voru algeng á árum áður. Slysin gátu orðið mjög ljót. Börnin fóru á spítala, lögregla kom á staðinn og skoðaði aðstæður. En ekkert gerðist í kjölfarið,“ segir Herdís og leggur áherslu á að öðru máli gegni um umferðarslys en þar eru viðurlög. Herdís segir engan mun eiga að gera á slysum vegna leiktækja og slysa í umferðinni.

„Slys er slys og það er alltaf einhver sem er ábyrgur. En vegna þess að slys eru ekki skilgreind þá geta foreldrar ekkert gert þegar börn þegar slasast á leiktækjum.“

Stjórnvöld áhugalaus

Ástæðuna fyrir þessum slugsahætti segir Herdís vera þá að stjórnvöld og fleiri hafi engan áhuga á öryggismálum barna. „Ég vann á slysadeild og sá afleiðingarnar af slysum sem börn lentu í. Það voru slys sem áttu ekki að gerast ef hlutirnir væru í lagi. Drukknun barna var til dæmis algengasta dánarorsök þeirra þegar ég byrjaði fyrir næstum 30 árum en þá drukknuðu 3 til 6 börn á hverju ári, flest í sundlaugum. Ég lagði líf og sál í verkefnið. Öryggismál í sundlaugum voru í molum. Við náðum gífurlegum árangri. Með bættu öryggi í sundlaugum er nú fátítt að börn drukkni. En nú óttast ég að sé tekið að fjara undan mörgum verkefnunum. Stjórnvöld hafa ekki áhuga á öryggismálum barna og enginn vinnur í málaflokknum nema ég. Það geri ég án styrkja frá hinu opinbera. Aðeins Sjóvá og IKEA styrkja mig,“ segir Herdís.

______________________________________________________________

    1. KAFLI 14. GR Í REGLUGERÐ UM UM ÖRYGGI LEIKVALLATÆKJA OG LEIKSVÆÐA OG EFTIRLIT MEÐ ÞEIM Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Brutu fánalög

|
|

Borið hefur á því að íslenskir fánar í lélegu ásigkomulagi hafi verið notaðir við ýmis tækifæri.

Einn slíkur var á Viðeyjarferjunni sem sigldi á dögunum frá Skarfabakka til Viðeyjar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var fáninn trosnaður og rifinn á endunum. Slíkt er óleyfilegt en fána sem svo er ástatt um skal taka niður og brenna samkvæmt fánalögum. Forsvarsmenn Eldingar sem sér um ferjusiglingar út í Viðey, könnuðust hins vegar ekki við málið þegar eftir því var leitað og sögðu enga illa farna fána á bátum fyrirtækisins.

Viðeyjarferjan sem sigldi á dögunum frá Skarfabakka til Viðeyjar, notaði fána í lélegu ásigkomulagi. Mynd / Jón Aðalsteinn

Betra að koma seint en aldrei á áfangastað

|
|

Verslunarmannahelgi er sú helgi ársins sem einna flestir leggja land undir fót og ferðast um þjóðvegi landsins. Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, segir að um þessa annasömu helgi sé sérstök ástæða fyrir ökumenn að fara varlega og gefa sér góðan tíma til ferðarinnar. Betra sé að koma seint en aldrei á áfangastað.

Síðast en ekki síst segir Þórhildur mikilvægt að láta allt áfengi fara úr blóðinu áður en sest er undir stýri.

Yfirfarið allan búnað
„Góð regla er að yfirfara bílinn áður en lagt er af stað,“ bendir hún á. „Athuga hvort hjólbarðar séu í lagi, þ.e. slit og loftþrýstingur. Sömuleiðis ljós og önnur öryggisatriði. Eins hvort tengivagninn sé í standi, þar á meðal festingar. Þá þarf að ganga þannig frá farangri að ekki sé hætta á að hann kastist til við árekstur eða bílveltu. Það er nefnilega ótrúlegt hvað þungi lausamuna eykst við árekstur svo jafnvel sakleysisleg kókflaska getur valdið viðbótarskaða. Fyrir utan það þurfa svo allir farþegar að sjálfsögðu að vera spenntir í belti og börnin í réttum öryggisbúnaði í aftursæti. Ef þessi atriði eru í lagi áður en ekið er af stað er mun líklegra að ferðalagið verði öruggt og ánægjulegt.“

Hvíld skiptir máli
Þórhildur segir líka mikilvægt að ökumenn séu vel hvíldir meðan á akstri stendur. „Gullna reglan er að gera hlé á akstri og stoppa á klukkutíma til tveggja tíma fresti bara til að taka smávegis hvíld, jafnvel blunda í fáeinar mínútur og ekki gera það í vegakanti heldur velja útskot, bensínstöðvar eða önnur örugg svæði þar sem hvorki okkur né öðrum stafar hætta af því. Þá er gott að hafa ekki of heitt í bílnum því mikill hiti eykur líkur á þreytu og syfju og gæta þess að nærast og drekka vatn eða aðra hollustu svo ekki sæki óþarfa þreyta á okkur á langferðum. Vel vakandi, úthvíldur og yfirvegaður ökumaður er líklegri til að geta brugðist við ef eitthvað fer úrskeiðis – hjá honum eða öðrum.“

Forðist framúrakstur
Þá er að hennar sögn mikilvægt að aka samkvæmt aðstæðum og fara ekki hraðar en leyfður hámarkshraði segir til um. „Haldið jöfnum hraða og forðist framúrakstur. Þeir sem ætla að aka fram úr mega ekki undir neinum kringumstæðum gera það þar sem heil óbrotin lína er á milli akstursstefna eða takmörkuð sýn fram á veginn. Ef ökumenn þurfa hins vegar að aka hægar þá skulu þeir haga akstri sínum þannig að auðvelt og öruggt sé að fara fram úr,“ segir hún og minnir á að ef fólk ekur með eftirvagn, eins og tjaldvagn, hjólhýsi o.fl. þá sé leyfður hámarkshraði aldrei meiri en 80 km/klst. „Ef fólk mætir stórum bíl þá getur eftirvagninn verið töluvert breiður.“

Takið tillit til aðstæðna
Ef fólk er að hjóla saman í hóp á vegi þá segir Þórhildur gott að hafa hugfast að ekki má hjóla hlið við hlið ef það veldur hættu eða töfum á umferð. „Ekki stöðva bílinn heldur á veginum til að skoða einhver náttúruundur eða taka myndir. Gætið fyllsta öryggis og akið ekki, nema það sé alveg nauðsynlegt, inni á tjaldsvæðum.“

Ekki aka undir áhrifum
Síðast en ekki síst segir Þórhildur mikilvægt að láta allt áfengi fara úr blóðinu áður en sest er undir stýri. „Ef fólk neytir áfengis verður það að gefa sér góðan tíma til að jafna sig og það tekur mun meiri tíma en við höldum að endurnýja hæfni okkar til að keyra eða allt upp í 18 klukkustundir. Verið allsgáð undir stýri, það er grundvallarregla.“

Bryggjan Brugghús

Einstök upplifun, ljúffengt sjávarfang og bjórinn bruggaður á staðnum.

Á Grandagarði er að finna staðinn, Bryggjan Brugghús sem er á besta stað við höfnina, þar sem einnig er hægt að sitja við bryggjuna með fjallasýn og gömlu höfnina baksýn. Staðurinn er afar rúmgóður og skemmtilega innréttaður þar sem viðurinn og dökkir litir eru í forgrunni. Við hittum Elvar Ingimarsson, einn eigenda staðarins og rekstarstjóra, og fengum innsýn í hvað er í boði og fyrir hvað staðurinn er rómaður.

Staðsetning staðarins er einstök, getur þú aðeins sagt okkur frá henni?
„Grandinn er að verða mjög vinsæll staður til að fara út að borða í hádeginu eða á kvöldin. Íslendingar eru í miklum meirihluta viðskiptavina okkar eða um áttatíu og fimm prósent. Og þannig viljum við hafa það áfram. Þróunin er að mínu viti svipuð og þegar kjöthverfið í Kaupmannahöfn opnaði fyrir veitingastöðum og Daninn færði sig þangað og lét ferðamönnum eftir miðbæinn og gömlu höfnina. Við erum í gamla BÚR húsnæðinu en hérna var Bæjarútgerð Reykjavíkur og við erum eiginlega í gamla frystiklefanum.“

„Við viljum fanga bistro, brugg, klið og líflega stemningu.“

Hverjar eru helstu áherslur veitingastaðarins Bryggjan Brugghús?
„Við viljum fanga bistro, brugg, klið og líflega stemningu. Og þegar staðurinn er þéttsetinn flest kvöld vikunnar þá er mikið fjör. Góður matur og betri bjór er það sem við stöndum við.“

Hvers konar mat bjóðið þið upp á?
„Sjávarfang er stór hluti af seðlinum hjá okkur en þar er að finna líka steikur, hamborgara og ýmislegt annað.“

Þið bruggið ykkar eigin bjór sjálf, getur þú sagt okkur aðeins frá því og ferlinu?
„Við bruggum okkar eigin bjór hérna á Bryggjunni og höfum gert það frá byrjun eða síðan um haustið 2015. Bjórinn hefur fengið frábærar viðtökur og ein af ástæðunum eru ískaldir tankarnir sem við dælum beint af sem halda humluðu bjórunum mjög ferskum en sami bjór úr gleri eða kút er allt önnur vara.“

Fyrir hvað er Bryggjan Brugghús helst rómuð?
„Samkvæmt viðbrögðum viðskiptavina okkar langflestra er upplifunin og stemningin svolítið eins og að vera staddur erlendis. Maturinn og bjórinn þykja vel yfir meðallagi og eitthvað erum við að gera rétt miðað við fjöldann sem fer í gegnum húsið í hverri viku. Annað sem erlendir ferðamenn tala um er sanngjarnt verð og þar með talinn hópmatseðillinn sem við notum þegar hóparnir eru tuttugu manna eða fleiri, það skiptir máli að fólk hafi gott verðval þegar stórir hópar koma saman.“

Þið standið gjarnan fyrir skemmtilegum og líflegum viðburðum, meðal annars tónleikum. Er eitthvað spennandi á döfinni?
„Við verðum með stóra brugghátíð hérna á Bryggjunni yfir daginn á Menningarnótt sem fram undan er laugardaginn 18. ágúst næstkomandi, en þar koma saman frábær íslensk brugghús með bjóra og viskí þar sem fólki gefst tækifæri til að smakka.“

________________________________________________________________
Bryggjan Brugghús
Sjálfstætt brugg og bistro

Grandagarði 8
101 Reykjavík
Sími: 456-4040

www.bryggjanbrugghus.is

www.facebook.com/bryggjanbrugghus

„Bjórinn hefur fengið frábærar viðtökur og ein af ástæðunum eru ískaldir tankarnir sem við dælum beint af halda humluðu bjórunum mjög ferskum, en sami bjór úr gleri eða kút er allt önnur vara.“

 

Myndir / Unnur Magna
Bryggjan Brugghús í samstarfi við Stúdíó Birtíng.

 

Met í bogfimi

Allt stefnir í að met verði slegið þegar keppt verður í bogfimi á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer í Þorlákshöfn um helgina.

Til keppni eru skráðir rúmlega 80 keppendur á milli 11 og 18 ára og hafa aldrei jafnmörg börn og ungmenni komið saman í bogfimi á sama tíma á Íslandi. „Fjöldinn er langt yfir væntingum,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, en búist var við um 30 keppendum í bogfimi.

Auður bendir á að meirihluti keppenda í bogfimi eigi ekki boga og fá hann að láni í keppninni. „Í bogfiminni sjá þátttakendur tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt og þeir nýta sér það,“ segir hún. „Þetta er Unglingalandsmótið í hnotskurn.“

Ekkja plastbarkaþegans rýfur þögnina

||||
||||

Merhawit Baryamikael Tesfaslase segir frá því hvernig líf fjölskyldu hennar umturnaðist eftir að maður hennar var sendur í tilraunaaðgerðina örlagaríku.

Plastbarkamálið svokallaða er eitt af helstu hneykslismálum í læknavísindum síðustu áratugi og snertir okkur Íslendinga. Margir þekkja sögu og örlög Andemariams Beyene sem var fyrsti maðurinn til að undirgangast ígræðslu gervibarka 9. júní 2011 en fáir þekkja sögu eiginkonu hans, Merhawit Baryamikael Tesfaslase. Hún stóð ein uppi, réttindalaus, með þrjú börn og það yngsta aðeins aðeins 6 vikna gamalt þegar eiginmaður hennar lést eftir erfið veikindi. Í viðtali við Mannlíf rekur hún sögu sína eftir að hún giftist Andemariam og segir frá því hvernig líf þeirra umturnaðist eftir að hann var sendur í tilraunaaðgerðina örlagaríku.

Merhawit Baryamikael Tesfaslase.

„Andemariam var sérstakur maður sem þótti mjög vel gefinn, lífsglaður og mikill fjölskyldumaður. Hann var hugulsamur, vinsæll og mjög vel liðinn alls staðar,“ segir Merhawit með söknuði um mann sinn.

Merhawit fæddist í Erítreu árið 1984 og stundaði nám í hagfræði við háskólann í Asmara þegar hún kynntist ungum, glæsilegum og hæfileikaríkum Erítreumanni, Andemariam Taeklesebet Beyene. Þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband í Erítreu 12. janúar 2008 en venjan þar í landi er að konur verði húsmæður og hugsi um börn og bú þegar þær giftast og þannig var það í tilfelli Merhawit. Eiginmaður hennar fór til Íslands ári eftir brúðkaupið til að  stunda meistaranám í jarðvísindum við Háskóla Íslands og vann með náminu hjá Ísor við orkurannsóknir. Til stóð að fara aftur heim til Erítreu vel nestaður að námi loknu og koma með þekkingu sem myndi nýtast í heimalandinu. Andemariam langaði að hjálpa þjóðinni til að nýta jarðhita en innflutt olía er orkugjafi í Erítreu. Það fékk fjölskyldan hins vegar aldrei að upplifa.

Andemariam var sagður hafa astma og hafði fengið lyfjameðferð við honum eftir komuna hingað árið 2009 en þegar hann fékk aukin einkenni frá öndunarfærum leitaði hann til læknis. Hann var sendur í sneiðmyndatöku og þá uppgötvaðist að það var ekki af völdum astmans sem hann var með öndunarerfiðleika heldur var stórt æxli í barkanum sem þrengdi að öndunarveginum. Hann var sendur í skyndi á Landspítalann þegar niðurstöður úr myndatöku lágu fyrir, að sögn Merhawit. Hún vissi þá ekki af versnandi ástandi mannsins síns. ,,Við töluðum saman á Skype á hverju kvöldi og ef eitthvað brá út af létum við hvort annað vita, við sendum skilaboð eða hringdum. En ég heyrði ekkert frá Andemariam í tvo daga,“ segir hún. „Ég varð því mjög hrædd um hann og hélt að hann hefði lent í bílslysi. Með hjálp mágs míns komumst við í samband við Háskóla Íslands og þar var okkur sagt að æxli hefði fundist í barka Andemariams og að hann lægi meðvitundarlaus á Landspítalanum. Hann hafði þá farið í aðgerð þar sem reynt var að fjarlægja æxlið og taka sýni úr því en það fór ekki betur en svo að honum blæddi næstum út. Ég vissi ekkert og allt í einu voru aðstæðurnar svona. Andemariam lá meðvitundarlaus á spítalanum í sex daga. Enginn vissi hvort hann hefði orðið fyrir heilaskaða en sem betur fer var það ekki.“

„Aðgerðin hafði aldrei verið gerð á lifandi manni og þess vegna var hann hræddur og vildi ekki fara í aðgerðina í fyrstu, en það var þrýst á hann.“

Merawith segist hafa saknað eiginmanns síns, einkum eftir aðgerðina og dvölina á Landspítalanum þar sem hann lá alvarlega veikur, en það hafi reynst henni mjög þungbært og því hafi hún viljað sjá hann. ,,Hann kom í mánaðarheimsókn til Erítreu sumarið 2010. Þar gerði hann allt sem venjulegur maður gerir, bæði hljóp um og ærslaðist við elsta son okkar. Enginn hefði getað sagt að þarna færi veikur maður. Hann hefði þurft að fara úr skyrtunni til að það sæist að hann væri með ör á brjóstkassanum eftir skurðaðgerð,“ segir hún en að heimsókn lokinni sneri Andemariam aftur til Íslands þar sem hann vann áfram hjá Ísor og stundaði nám sitt.

„Læknarnir þrýstu á Andemariam að fara í aðgerðina“
Merhawit segir að æxlið í barka Andemariams hafi verið mjög hægvaxandi. Hluti þess hafi verið fjarlægður í aðgerðinni á Íslandi 2009, sem Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlæknir tók þátt í, og við tók geislameðferð til að halda sjúkdómnum í skefjum en Andemariam voru gefin 2-3 ár með sjúkdóminn. Tómas hafði samband við lækna á Massachusetts General-spítalanum í Boston þar sem helsta þekking og reynsla í meðferð krabbameins í barka var til staðar og komu ráðleggingar þaðan um að beita leysimeðferð á æxlið. Þar sem Andemariam var ungur maður í blóma lífsins var hafist handa við að leita ráða um önnur úrræði.

Tómas, sem hafði tekið yfir meðferð Andemariams, leitaði til ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini sem var tekinn til starfa við Karolinska-háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi, en Jan-Erik Juto, yfirlæknir háls-, nef- og eyrnalækninga á sama spítala, hafði vísað Hlyni N. Grímssyni krabbameinslækni, sem hafði upphaflega leitað ráða hjá kollegum sínum á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, á Macchiarini. Í viðtali við Kastljós í desember 2011 sagði Tómas að hann hefði lesið fræga vísindagrein um aðgerð sem Macchiarini framkvæmdi árið 2008 þar sem hann tók barka úr látnum einstaklingi, klæddi hann með stofnfrumum og græddi hann síðan í sjúkling. Það hafði orðið til þess að hann hafði samband við Macchiarini.

Merhawit Baryamikael Tesfaslase ásamt sonum þeirra Andemariams. Líf fjölskyldunnar umturnaðist eftir að Andemariam var sendur í tilraunaaðgerðina örlagaríku.

Ítalski skurðlæknirinn reyndist áhugasamur um sjúklinginn frá Íslandi. Hins vegar gat reynst erfitt að fá barka úr látnum einstaklingi og í tilviki Andemariams var talið að það mundi taka of langan tíma að finna barka sem passaði. Það var aldrei reynt, samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Svíþjóð. Andemariam var sendur á Karolinska-háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi til skoðunar og þar var mjög snemma tekin ákvörðun að græða í hann gervibarka, en Macchiarini sagðist hafa gert tilraunir með ígræðslu plastbarka í svín.

Merhawit, ekkja Andemariam, heldur því fram eiginmaður hennar hafi verið ágætlega haldinn á þessum tíma. Til marks um það hafi hann farið með lest til að heimsækja ættingja og vini í Svíþjóð áður en hann fór á Karolinska-háskólasjúkrahúsið.

„Aðgerðin hafði aldrei verið gerð á lifandi manni og þess vegna var hann hræddur og vildi ekki fara í aðgerðina í fyrstu, en það var þrýst á hann,“ segir Merhawit. „Læknarnir sögðu að ef hann færi í aðgerðina myndi hann lifa með gervibarkann í 8-10 ár. ,,Það er öruggt,“ sögðu þeir og ef hann vildi lifa og sjá börnin sín yrði hann að fara í þessa aðgerð. Þeir minntust aldrei á aðra möguleika við hann,“ segir hún, nokkuð sem er staðfest í íslensku Rannsóknarskýrslunni um málið sem gerð var á vegum Háskóla Íslands og Landspítalans. Þar segir: ,,Honum voru ekki kynntir aðrir meðferðarmöguleikar eins og læknum ber að gera eða leiðbeint um fyrirhugaða meðferð skv. 5. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.“

„Læknarnir sögðu að ef hann færi í aðgerðina myndi hann lifa með gervibarkann í 8-10 ár. ,,Það er öruggt,“ sögðu þeir og ef hann vildi lifa og sjá börnin sín yrði hann að fara í þessa aðgerð. Þeir minntust aldrei á aðra möguleika við hann.“

Í Rannsóknarskýrslunni kemur jafnframt fram að tilvísuninni hér á landi hafi verið breytt þannig að aðgerðin var sögð lífsbjargandi. Síðar kom í ljós að engin forsenda hafi verið fyrir tilraunaaðgerðinni og ekkert sem lá fyrir um að hún gæti heppnast, eins og kemur fram í fréttaskýringu um úrskurð Karolinska-stofnunarinnar í Kjarnanum 3. júlí síðastliðinn.

Merhawit bendir á að eiginmaður hennar hafi ekki getað snúið aftur til Erítreu í því skyni að fá læknishjálp því að þar var nauðsynlega sérfræðiþjónustu ekki að fá. Möguleikar hans voru því engir þar og því varð hann að treysta læknum hér og í Svíþjóð. ,,Andemariam bar þá von í brjósti að fá bata og vildi gera allt sem í hans valdi stóð til þess og fór að ráðum lækna sinna,“ segir Merhawit.

Í tilraunaðgerðinni sem gerð var á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu 9. júní 2011 var gervibarki græddur í Andemariam eftir undirbúning sem fólst í að baða barkann í stofnfrumum úr beinmerg hans. Aðgerðin var löng og flókin og um mánuði eftir hana kom Andemariam til Íslands á ný þar sem við tók frekari meðferð í umsjá íslenskra lækna.

Lifði í stöðugum ótta um eiginmann sinn eftir aðgerðina
Á þeim tíma sem aðgerðin var gerð var Merhawit enn í Erítríu og starfaði sem ritari en hún kom með tvo syni þeirra, Brook og Nahom, til Íslands í nóvember 2011, fimm mánuðum eftir aðgerðina örlagaríku, og sá þá Andemariam yngri son þeirra í fyrsta sinn. Á Íslandi bættist svo þriðji drengurinn, Simon, í hópinn og bjó fjölskyldan í lítilli leiguíbúð í Kópavogi. „Eftir að ég kom til Íslands breyttist allt,“ segir Merhawit alvarleg. ,,Mér fannst ég ekki geta tjáð mig nægilega vel og veturinn var harður, ég hafði aldrei kynnst öðru eins. Ég var mikið ein svo ég leitaði til Rauða krossins og hreinlega sagði að ég þyrfti einhvern til að tala við.“ Það gekk eftir. Merhawit getur þess að prestur sem starfaði í Hjallakirkju, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, hafi líka aðstoðað sig við ýmislegt í daglegu amstri eftir að hún kom hingað og að það hafi hjálpað sér mikið.

„Hann barðist eins og hann gat og bar sig alltaf vel, en hann sá eftir að hafa farið í aðgerðina og var ekki sáttur við læknana sem gáfu honum vonir um betra og lengra líf,“ segir Merhawit.

Þá segir Merhawit að fyrstu 6 mánuðina eftir plastbarkaígræðsluna hafi farið að bera á ýmsum kvillum tengdri heilsu Andemariam. Eða eins og hún orðar það sjálf þá var heilsan „upp og niður“. ,,Andemariam var mjög langt kominn með meistararitgerðina sína og náði að ljúka henni á þessum tíma, en hann var harðduglegur og vinnusamur og vann að ritgerðinni þó að hann væri rúmliggjandi,“ segir hún. „Eftir það lá leiðin niður á við, því gervibarkinn virkaði ekki sem skyldi. Hún tekur fram að eiginmaður sinn hafi þó haft vonir um að honum myndi batna og hann hafi ætíð borið sig vel, sama á hverju gekk, en hann hafi verið hræddur. Það fóru að koma upp ýmis vandamál og Andemariam leið illa. Stundum hélt hann að matur sem hann hafði borðað færi illa í sig eða að hann þyldi hann ekki en það var ekkert betra þótt hann borðaði eitthvað annað. Hann fór endurtekið á spítalann til að láta sjúga upp slím og ég var alltaf að hringja í Andemariam á daginn vegna þess að ég var stöðugt hrædd um hann. Ég var hrædd um hann daga og nætur. Hann fór til dæmis í sturtu og það leið yfir hann og hann var allur útataður í blóði. En Tómas læknir var til staðar fyrir okkur og var mjög hjálplegur,“ segir hún en í Rannsóknarskýrslunni kemur fram að vel hafi verið staðið að eftirmeðferð Andemariams á Landspítalanum.

Síðasta árið, 2013, var mjög erfitt að sögn Merhawit því þá fór verulega að halla undan fæti hjá Andemariam. „Hann var illa haldinn því barkinn aðlagaðist ekki og hann var með stoðnet til að halda barkanum opnum. Eftir fyrri aðgerðina gat hann losað sig sjálfur við slím en eftir plastbarkaaðgerðina var hann háður spítalanum. Hann var meira og minna þar. Hann kom kannski heim í 2-3 daga og svo var hann aftur farinn á spítalann,“ lýsir hún og segir að þegar þarna var komið sögu hafi Andemariam verið orðinn ósáttur. „Hann barðist eins og hann gat og bar sig alltaf vel, en hann sá eftir að hafa farið í aðgerðina og var ekki sáttur við læknana sem gáfu honum vonir um betra og lengra líf.“

„Enginn talaði við mig eftir að Andemariam lést“
Andemariam Beyene lést á á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð 30. janúar 2014. „Hann hafði farið reglulega í eftirlit á Karolinska-háskólasjúkrahúsið og einn daginn hringdi Tómas læknir og sagði að Andemariam væri að deyja,“ segir Merhawit og augun fyllast af tárum. Hún fór í hendingskasti út til Svíþjóðar ásamt Steinunni Arnþrúði presti og var þar við hlið eiginmanns síns þegar hann lést. Merhawit beygir af þegar hún rifjar þetta upp, minningarnar taka augljóslega á.

Andemariam lést því um 30 mánuðum eftir tilraunaaðgerðina. Minningarathöfn var haldin um hann í Hjallakirkju og samstarfsfólk hans hjá Ísor hjálpaði Merhawit við undirbúning hennar ásamt starfsfólki Háskóla Íslands. Andemariam var jarðsunginn í Erítreu og var haft á orði hve óvenjumargir komu til að votta honum hinstu kveðju. „Andemariam elskaði landið sitt og hlakkaði til að koma aftur heim,“ lýsir Merhawit og það er augljóst að minningarnar vekja hjá henni sterkar tilfinningarnar. Óhætt er að segja að heimkoman hafi verið með öðrum hætti en hann ætlaði.

Eftir andlát Andemariam stóð Merhawit uppi ein í nær ókunnu landi með þrjá unga drengi, þann yngsta aðeins 6 vikna gamlan.

„Ég stóð eftir ein með þrjú ung börn, mállaus í landi þar sem ég var ekki í kerfinu og hafði engin réttindi. Ég fékk peninga hjá fólki frá Eþíópíu og Erítreu sem dvaldi hér, til að kaupa smávegis mat, svona 2000-5000 krónur. Mig langaði til að skipta um húsnæði því þar minnti mig allt stöðugt á Andemariam.“

Hún segir að tíminn sem fór í hönd eftir andlát mannsins síns hafi verið mjög erfiður og álagið mikið. „Ég átti til dæmis mjög erfitt með svefn lengi vel. Ég fékk heimsókn frá presti, henni Steinunni. Nágrannakona mín, Árný, reyndist mér líka vel og gætti drengjanna oft og konur á barnaheimilinu Álfaheiði komu og sóttu drengina og fóru með þá á barnaheimilið eftir að Andemariam lést. En enginn frá Landspítalanum hafði samband eftir að Andemariam lést, enginn. Ég fékk enga hjálp eða aðstoð og Tómas læknir hafði aldrei samband,“ segir Merhawit, en fram kemur í DV, 2. júní 2018, að Tómas hafi reynt að hafa upp á ekkjunni í apríl síðastliðnum til að aðstoða hana fjárhagslega til að bæta fyrir þau mistök sín að hafa treyst Macchiarini.

Eftir útförina ákvað Merhawit að flytja sig um set. Hún vildi ekki vera í Erítreu vegna þess hversu fótum troðin mannréttindi eru í landinu, fátækt mikil og ástandið almennt skelfilegt. Hún flutti því til Svíþjóðar þar sem hún vinnur nú fullan vinnudag í skóla til að geta séð fyrir sér og drengjunum sínum.

„Mig langar til að ljúka við námið í hagfræði en eins og er hef ég ekki tíma. Ég vinn fullan vinnudag í grunnskóla, þar sem ég aðstoða börn við reikning og fleira og ég þarf að sinna drengjunum, fara með þeim út að hjóla og svo framvegis.“

Hún segir að þeir séu vel gerðir og klárir drengir sem elski að vera í fótbolta. Eldri synirnir tveir muni eftir pabba sínum og tali um hann daglega. „Þeir muna hversu ástríkur pabbi þeirra var, faðmlögin hans og þegar hann hélt á þeim og lék við þá. Sá elsti talar sérstaklega mikið um pabba sinn og vill feta í fótspor hans og læra jarðvísindi en sá í miðið er skapandi, alltaf að teikna og er mikið í fótbolta. Sá yngsti er enn óskrifað blað,“ lýsir hún og brosir.

Hún segir að eldri strákarnir sakni pabba síns mikið. „Það kemur oft fyrir þegar þeir sjá hávaxinn mann að þeir segja: „Þessi maður er eins og pabbi var.“ Yngsti strákurinn man eðlilega ekki eftir honum og þegar ég segi að hann sjái hann þegar hann deyr, svarar hann: „Ég vil deyja, því þá get ég séð pabba“.“

Merhawit segir að það ætti ekki að vera erfitt að hafa uppi á henni, enda njóti hún ákveðinna réttinda þar sem hún býr, hún sé í starfi og eigi börn á skólaskyldualdri.

Er ekki í felum
Aðspurð segir Merhawit að enn hafi ekki verið haft samband við hana frá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu um mögulegra bótaskyldu vegna mistaka sem gerð voru í máli Andemariams og eru rakin í ýmsum sænskum rannsóknarskýrslum. Vekur það furðu íslensku rannsóknarnefndarinnar eins og kemur fram í íslensku Rannsóknarskýrslunni.

Samkvæmt svari frá Landspítala við spurningu blaðamanns Mannlífs, þá hefur ekki tekist að hafa uppi á Merhawit til að bregðast við ábendingu sem kemur fram í Rannsóknarskýrslunni um að veita henni fjárhagsaðstoð til að verða sér úti um lögfræðing svo hún geti leitað réttar síns, en leitinni muni þó vera haldið áfram. Um þessa aðstoð segir í Rannsóknarskýrslunni: „Ástæðan er ekki síst sú að mál þetta á sér vart neina hliðstæðu á Íslandi og því er ástæða til að Landspítali sýni sérstakt frumkvæði við að leysa úr málinu á sanngjarnan og farsælan hátt fyrir eiginkonu og þrjá syni Andemariams.“

Sjálf segist Merhawit ekki vera í felum og að það ætti ekki að vera erfitt að hafa uppi á henni, enda njóti hún ákveðinna réttinda þar sem hún býr, hún sé í starfi og eigi börn á skólaskyldualdri. Prestur og lögfræðingur, sem fóru að beiðni Íslensku rannsóknarnefndarinnar til Merhawit með gögn, þar á meðal Rannsóknarskýrsluna í enskri útgáfu, gátu að minnsta kosti haft upp á henni, en lögfræðingurinn kom ekki á heimili hennar.

„Yngsti strákurinn man eðlilega ekki eftir honum og þegar ég segi að hann sjái hann þegar hann deyr, svarar hann: „Ég vil deyja, því þá get ég séð pabba“.“

Eftir því sem hún lýsir myndi það létta henni og sonum hennar lífið að fá bætur vegna andláts Andemariams. En plastbarkmálið hefur enn sem komið er lítið snúist um missinn sem fjölskylda hans varð fyrir eða mannréttindi Andemariams, ungs manns sem var sendur í tilraunaaðgerð sem engin forsenda var fyrir, eins og fram kemur í úrskurði rektors Karolinska-stofnunarinnar. Eða eins og Merhawit orðar það: „Það snerist allt um að vernda læknana en enginn talaði við mig.“

Plastbarkamálið: Paolo Macchiarini, snillingur sem sveifst einskis

Saga hins umdeilda skurðlæknis Paolo Macchiarini rakin.

Karolinska-stofnunin í Stokkhólmi hefur löngum verið með virtari læknaskólum en hefur um skeið átt undir högg að sækja í harðnandi baráttu og samkeppni í læknavísindum. Eftir aldamótin síðustu varð uppgangur stofnfrumlækninga í heiminum, þar sem ýmsir höfðu tröllatrú á mikilvægi þeirra í læknisfræði framtíðarinnar. Ráðning ítalska brjóstholsskurðlæknisins Paolo Macchiarinis var liður í að efla og styrkja á ný stoðir og ímynd Karolinska-stofnunarinnar en sérsvið hans var barkaskurðlækningar og vísindastörf á sviði stofnfrumulækninga. Maccharini þótti einstaklega fær skurðlæknir og var upprennandi „stjarna“ í heimi læknavísindanna.

Karolinska-stofnunin réði hann þótt slóð hans væri vörðuð ýmsum miður heppilegum atvikum sem sýndu að snilli læknisins og persónuleiki fóru ekki saman. Hann hefur á bakinu kærur og hefur blekkt háskólastofnanir, lækna og vísindasiðanefndir, og blekkingameistarinn hefur einnig blekkt sína nánustu í einkalífinu. Hann skipulagði brúðkaup með blaðakonu sem hann var í tygjum við þar sem hann hugðist bjóða páfanum, forseta Bandaríkjanna og fleiri fyrirmennum á sama tíma og hann var harðgiftur maður. Hún lét blekkjast. Það gerði hins vegar ekki sænski fréttamaðurinn Bosse Lindquist þegar hann hóf að gera heimildarmynd um Macchiarini sem átti að varpa ljósi á þennan stjörnulækni og framlag hans til læknavísindanna. Þegar á leið fóru að renna á fréttamanninn tvær grímur og hann sá í gegnum blekkinguna. Honum fannst nefnilega margt athugavert við störf og framgöngu Macchiarini. Bosse Lindquist hefur verið verðlaunaður fyrir sjónvarpsþætti sína, Experimenten, og ef hans hefði ekki notið við er eins víst að svik og vísindamisferli Macchiarini og plastbarkamálið, sem við við þekkjum, hefði seint eða jafnvel aldrei komist upp.

Tímalína:
Paolo Macchiarini fæddist í Basel í Sviss 1958. Lærði læknisfræði og í kjölfarið skurðlækningar í Pisa og hefur starfað víða, m.a. í London, Barcelona, Flórens, Hannover og á fleiri stöðum.

2008 Vekur heimsathygli fyrir að græða stofnfrumumeðhöndlaðan barka úr látnum einstaklingi í konu, Claudiu Castillo.

2009-2010 Starfaði á Háskólasjúkrahúsinu í Flórens og græddi barka úr látnum einstaklingum, þakta stofnfrumum, í menn. Hann gerði nokkrar slíkar ígræðslur í Flórens en hrökklaðist þaðan og á yfir höfði sér kærur af hendi háskólasjúkrahússins vegna fjársvika.

2010 Ráðinn af Karolinska-stofnuninni sem gestaprófessor til að stunda grunnrannsóknir á sviði vefjamyndunarlæknisfræði og stofnfrumufræða. Samtímis gegnir hann starfi sem skurðlæknir við Karolinska-háskólasjúkrahúsið (lausráðinn).

2011 Þann 9. júní framkvæmir Macchiarini fyrstu gervibarkaígræðsluna í lifandi einstakling, Andemariam Teklesebet Beyene, sjúkling í umsjá íslenskra heilbrigðisyfirvalda. Þessi brautryðjandi aðgerð var réttlætt þar sem hún var tilraun til að bjarga lífi sjúklingsins. Íslenskur skurðlæknir og prófessor, Tómas Guðbjartsson, tók þátt í aðgerðinni. Sama ár í nóvember kom út vísindagrein (proof-of-concept) í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet þar sem þessari fyrstu gervibarkaígræðslu í manneskju er lýst. Læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson eru meðhöfundar.

2012 Annar sjúklingurinn af þremur sem Machiarini gerði á gervibarkaígræðsluaðgerð á Karolinska-háskólasjúkrasjúkrahúsinu deyr.

Málþing er haldið í Háskóla Íslands 9. júní í tilefni að því að eitt ár er liðið frá fyrstu gervibarkaígræðslunni. Paolo Macchiarini, Tómas Guðbjartsson og Andemariam Beyene töluðu á málþinginu. Málþingið hefur verið gagnrýnt.

2013 Karolinska-háskólasjúkrahúsið stöðvar frekari gervibarkaaðgerðir. Ákveðið er að framlengja ekki ráðningarsamning Paolo Macchiarini. Hann heldur þó áfram að framkvæma slíkar aðgerðir í Rússlandi.

2014 Andemariam Beyene, fyrsti sjúklingurinn sem fékk ígræddan gervibarka á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, deyr í janúar, tæpum þremur árum eftir aðgerðina en honum hafði verið gefin von um að lifa mun lengur.

Í júní sama ár kemur fram gagnrýni á störf Paolo Macchiarinis af belgíska brjóstholsskurðlækninum Pierre Delare fyrir Karolinska-stofnunina. Delare kemst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli. Ýmsar áleitnar spurningar vakna í kjölfarið um störf Macchiarini.

Eftir dauða Beyene komu fjórir læknar, svokallaðir uppljóstrarar (whistleblowers) hjá Karolinska-stofnuninni, fram með efasemdir um gervibarkaígræðslurnar og Macchiarini sjálfan. Í hópnum voru Karl-Henrik Grinnemo, sem hafði aðstoðað Macchiarini við barkaígræðsluaðgerð Beyene árið 2011, og Thomas Fux, sem tók þátt í eftirmeðferð á sjúklingum Macchiarini á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu. Þeir sögðu að Macchiarini hafi farið rangt með árangur sinn af aðgerðunum auk þess að sleppa mikilvægum upplýsingum og oftúlka önnur atriði í vísindagreinunum. Dr. Anders Hamsten, rektor Karolinska-stofnunarinnar, kallaði á utanaðkomandi sérfræðing, dr. Bengt Gerdin, prófessor emerítus við Uppsala-háskóla, til að leiða rannsókn á störfum Macchiarinis.

2015 í maí kemst Bengt Gerdin að þeirri niðurstöðu að Macchiarini sé sekur um vísindalegt misferli í vísindagreinum, m.a. í Lancet-greininni þar sem aðgerð og árangri Andemariam Beyene er lýst.

Ágúst. Hamsten og stjórn Karolinska-stofnunarinnar hafna skýrslu Gerdins og hreinsa Macchiarini af ásökunum um vísindalegt misferli. Segja niðurstöðu sína byggða á ótvíræðum sönnunargögnum sem Gerdin hafði ekki séð og viðbótarupplýsingum. Jafnframt viðurkennir Karolinska-stofnunin að Macchiarini hafi ekki staðist væntingar og kröfur þeirra í vísindum. Samningur við Macchiarini er ekki framlengdur.

2016 í janúar, Experimenten – þættir sænska fréttamannsins Bosse Lindquist eru sýndir í sænska sjónvarpinu (SVT) sem verður til þess að málið er tekið upp aftur. Í febrúar segir Andreas Hamstein af sér sem rektor Karolinska-stofnunarinnar. Yfirstjórn Karolinska segir nokkru síðar af sér vegna málsins og Karolinska-stofnunin er sökuð um að reyna að þagga málið niður og að illa hafi verið staðið að ráðningu Macchiarini, ekki gætt að ferli hans.

Í febrúar, Kjell Asplund, fyrrverandi landlæknir í Svíþjóð og prófessor emerítus við Umeå-háskóla og formaður Sænska ráðsins um læknisfræðilega siðfræði (Swedish National Council on Medical Ethics), gerir rannsókn að beiðni Karolinska-háskólasjúkrahússins á gervibarkaaðgerðum Macchiarinis þar og sendir frá sér skýrslu undir heitinu Fallet Macchiarini. Í skýrslunni kemur fram að vísindaleg forsenda aðgerðanna var á veikum grunni.

Í mars sama ár er Macchiarini rekinn frá Karolinska-stofnuninni.

Rektor Háskóla  Íslands og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, setja á stofn óháða rannsóknarnefnd um þátt stofnananna og og starfsmanna þeirra sem Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, fer fyrir.

2017, þann 30. okt.Hópur sér­fræð­inga á sviði vís­inda­mis­ferlis innan sænsku siða­nefnd­ar­innar (Centrala etik­prövn­ings­nämnden) lauk rann­sókn á vís­inda­mis­ferli ítalska skurð­lækn­is­ins Paolo Macchi­ar­inis og sendi frá sér yfir­lýs­ingu þess efnis að Macchi­ar­ini og sam­starfs­menn hafi gerst sekir um vísindalegt mis­ferli í tengslum við birt­ingu vísindagreina um plast­barka­að­gerðir sín­ar. Veiga­mesta greinin birt­ist í hinu virta lækn­is­fræði­tíma­riti Lancet og eru tveir íslenskir læknar með­höf­undar að henni. Rann­sóknin var fram­kvæmd að beiðni Karol­inska-­stofn­un­ar­inn­ar.

2017, nóvember. Íslenska rannsóknarskýrslan kemur út og haldinn er blaðamannafundur af því tilefni. Í henni er að finna margar ávirðingar. Í kjölfarið er Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir og prófessor, er sendur í leyfi frá Landspítala og Háskóla Íslands en snýr aftur til starfa um áramótin 2017/2018. Óskar Einarsson lungnalæknir er einnig sendur í leyf en snýr aftur til starfa á undan Tómasi.

2018 í júní kemur úrskurður rektors Karolinska-stofnunarinnar um „vísindalegt misferli“ í vísindagreinum byggðum á gervibarkaígræðslum. Tómas Guðbjartsson er einn af sjö meðhöfundum sem sagður er ábyrgur fyrir „vísindalegu misferli“ í Lancet-vísindagrein og fyrir að hafa breytt tilvísun sem lá til grundvallar tilraunaaðgerðinni. Báðir íslensku læknarnir eru m.a. sagðir hafa „vanrækt skyldu“ sína til að gera athugasemdir við rangfærslur greinarinnar. Háskóli Íslands og Landspítali munu fara yfir skýrsluna og önnur gögn sem komið hafa fram í málinu og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekur upp málið að nýju.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Ærandi afskiptaleysi heilbrigðisyfirvalda

Forsíðuviðtal Mannlífs í dag segir átakanlega sögu. Sögu sem við þekkjum öll frá annarri hlið. Hlið lækna og sérfræðinga í meðferð á manni frá fjarlægu landi. Manni sem ekki þekkti rétt sinn og var ekki fræddur um hvaða aðrir möguleikar stæðu til boða í hans veikindum. Plastbarkamálið svokallaða er skammarblettur á íslensku og sænsku heilbrigðiskerfi og sú hlið sem birtist í viðtalinu við Merhawit Baryamikael Tesfaslase, eiginkonu plastbarkaþegans Andemariams Beyene sem lést af völdum heilbrigðiskerfisins árið 2014, bætir enn svertu í þann skammarblett.

Merhawit upplýsir í viðtalinu að síðan Andemariam lést hafi enginn frá heilbrigðiskerfinu haft samband við hana. Henni hefur ekki verið boðin hjálp af neinu tagi, hún hefur ekki verið upplýst um rétt sinn til bóta vegna dauða Andemariams og hvorki íslensk né sænsk heilbrigðisyfirvöld virðast hafa grennslast af alvöru fyrir um örlög hennar og sona hennar þriggja eftir dauða eiginmanns og föður.

Í skýrslum um málið kemur skýrt fram að Merhawit eigi mögulega rétt á bótum en viðbára heilbrigðisstarfsmanna hefur verið sú að ekki hafi tekist að hafa upp á henni. Það hljómar ekki sérlega sannferðugt því eins og fram kemur í viðtalinu býr hún í Svíþjóð og vinnur þar fulla vinnu þannig að það ætti að vera hægðarleikur að hafa upp á heimilisfangi hennar og símanúmeri með lítilli fyrirhöfn. Það reyndist blaðamanni Mannlífs að minnsta kosti auðvelt að finna þessa „týndu“ konu með lágmarks eftirgrennslan og ansi erfitt að trúa því að starfsfólk Landspítalans hafi lagt sig mikið fram um að hafa upp á henni.

„Er enn verið að reyna að þagga þetta mál niður og gera sem minnst úr því? Láta eins og þessi skelfilegu mistök og fúsk hafi aldrei átt sér stað?“

En hvað ætli valdi þá þessu afskiptaleysi? Gæti hluti af skýringunni verið sá að bæði Merhawit og eiginmaður hennar eru frá Erítríu og að mestu ókunnug vestrænu réttarkerfi og réttinum til bóta? Er áhugi heilbrigðiskerfisins á því að uppfylla þann skýlausa rétt ekkjunnar að fá bætur vegna hrapalegra mistaka lækna í Svíþjóð og einnig á Íslandi ekki meiri en svo að starfsmenn þess láta það dragast von úr viti að hafa samband við hana, skýra henni frá þeim rétti og aðstoða hana við að ná honum fram? Er enn verið að reyna að þagga þetta mál niður og gera sem minnst úr því? Láta eins og þessi skelfilegu mistök og fúsk hafi aldrei átt sér stað?

Við skulum vona að það sé ekki skýringin. En hafi íslensk heilbrigðisyfirvöld minnsta áhuga á því að uppfylla skyldur sínar við fjölskyldu fórnarlambs mistakanna ættu þau að sjá sóma sinn í því að ganga í það mál með hraði. Skömm þeirra er nógu djúpstæð fyrir.

Mynd / Árni Torfason

Bjóða Íslendingum milligöngu um staðgöngumæðrun

|
|

Ísraelska staðgöngumæðrunarfyrirtækið Tammuz Nordic hyggst frá og með hausti bjóða Íslendingum upp á milligöngu um staðgöngumæðrun. Forsvarsmaður fyrirtækisins, Mikkel Raahede, er staddur hér á landi til að kynna verkefnið og hann fullyrðir að þessi þjónusta stangist ekki á við íslenska löggjöf.

Mikkel Raahede, forsvarsmaður Tammuz Nordic.

„Staðgöngumæðrun er ólögleg innan Íslands, en það er ekki ólöglegt fyrir Íslendinga að fá staðgöngumæðrun erlendis,“ segir hann. „Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“

Þjónustan stendur bæði gagnkynhneigðum og karlkyns samkynja pörum til boða og sömuleiðis einstæðum körlum. Mikkel segir að samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar flóknara að hjálpa einstæðum konum og lesbíum þar sem barnið yrði skráð barn staðgöngumóðurinnar og því gæti kona lent í vandræðum með að fá að koma með það inn í landið. „Ef faðirinn er íslenskur, eins og þegar um er að ræða gagnkynhneigð pör og tvo karlmenn, er það hins vegar ekkert vandamál,“ segir hann.

Tammuz er í samstarfi við læknastöðvar í Bandaríkjunum og Úkraínu þar sem valið á staðgöngumæðrum fylgir mjög ströngum reglum, að sögn Mikkels. „Þetta er mjög strangt mat,“ segir hann. „Við fáum mjög margar umsóknir frá konum sem vilja verða staðgöngumæður, en við höfnum fleirum en við tökum við. Í fyrsta lagi verða konurnar sem vinna fyrir okkur að vera mæður sjálfar, hafa gengið með og fætt barn áður en þær taka þetta að sér. Þær þurfa að undirgangast stranga læknisskoðun, bæði líkamlega og andlega. Þær mega hvorki drekka né reykja og við leggjum mikla áherslu á að þær hafi sterkt stuðningsnet í kringum sig.“

„Ég hef verið í sambandi við íslenska lögfræðinga og þeir fullvissa mig um að þetta sé löglegt.“

Tammuz hefur starfað í tíu ár og börnin sem hafa fæðst fyrir milligöngu fyrirtækisins skipta þúsundum. Mikkel segir engin vandamál hafa komið upp hjá fyrirtækinu, engar lögsóknir og að fyrirtækið sé eitt hið virtasta í heimi á sínu sviði. Hann leggur áherslu á að í stefnu fyrirtækisins sé áherslan lögð á mannlega þáttinn, það sé stutt vel við bæði staðgöngumæðurnar og væntanlega foreldra, sem að sjálfsögðu fái að fylgjast með meðgöngunni og vera viðstaddir fæðinguna ef er óskað. „Við leggjum mikla áherslu á að styðja við bakið á foreldrunum og hjálpa þeim á allan hátt sem við getum,“ segir hann. „Staðgöngumæðrun hefur sums staðar illt orð á sér fyrir að vera gróðafyrirtæki, eða að ríka fólkið sé að nýta sér neyð fátækra kvenna, sem vissulega er raunin sums staðar, en hjá okkur snýst þetta fyrst og fremst um að hjálpa fólki að verða foreldrar.“

Sjálfur á Mikkel þrjú börn með eiginmanni sínum, sem er af íslenskum ættum, og þau eru öll fædd af staðgöngumóður. „Að vera foreldri er það stórkostlegasta sem nokkur upplifir,“ segir hann. „Ég held að við höfum öll þessa þörf fyrir að eignast eigin afkvæmi og það viljum við hjá Tammuz Nordic hjálpa fólki við.“

En hvernig snúa þeir karlar sem vilja nýta sér þjónustu fyrirtækisins sér í því að útvega eggjagjafa?

„Það er ýmist í gegnum eggjabanka, eins og hjá gagnkynhneigðum pörum þar sem konan er ófrjó, eða að þeir fá konu sem þeir þekkja og treysta til að gefa egg,“ útskýrir Mikkel. „Hvort sem fólk velur erum við til staðar og aðstoðum, við setjum ekki fram neinar kröfur um að eggin komi úr eggjabanka sem við erum í viðskiptum við.“

Mikkel viðurkennir að það sé mjög dýrt að fara í gegnum þetta ferli, en fyrirtækið kappkosti að halda kostnaði eins mikið niðri og kostur sé. „Við erum til dæmis meðal ódýrustu staðgöngumæðrunarfyrirtækja í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Þannig að við erum tiltölulega hagkvæmur kostur ef fólk vill fara þessa leið.“

Mikkel er í stuttu stoppi á Íslandi núna til að kanna hvernig landið liggur, en hann kemur aftur í byrjun október og mun þá halda kynningarfyrirlestur fyrir áhugasama um starfsemi fyrirtækisins og þann kost að að eignast barn með staðgöngumæðrun. „En ég er alltaf tilbúinn að ræða við þá sem vilja kynna sér málið og hvet fólk til að vera í sambandi við okkur og spyrja spurninga,“ segir hann.

Hvað er hnúðkál?

|
|

Hnúðkál flokkast ekki undir rótargrænmeti heldur undir garðkál. Það er skylt blómkáli, brokkólí og grænkáli. Hnúðurinn sem við borðum, eða kálhausinn er hluti af stilknum en ekki rótinni. Stilkurinn getur verið grænn, hvítur eða fjólublár en kjötið er alltaf hvítt.

Hnúðkálið er hálfsérkennilegt í útliti því topphluti stöngulsins myndar hnúð og standa blöðin upp af hnúðnum. Það er talið af ítölskum uppruna og byrjað var að rækta það á Norðulöndunum á 17. öld. Vinsældir hnúðkálsins hafa farið vaxandi í norrænni matargerð síðustu áratugi.

  • Það má borða blöðin af hnúðkálinu. Best eru þau steikt eða gufusoðin en einnig er hægt að skera þau niður í salat.Það má líka klippa ung blöð af kálinu á meðan það er að vaxa og svipar þeim þá til spínats.
  • Hnúðkál er mikið notað í Austur-Evrópu og Þýskalandi. Það er oftast notað eins og gulrófur og næpur og þykir bragðið vera áþekkt þeim tegundum en heldur fínlegra.
  • Hnúðkál er ríkt af C- og B-vítamínum og af steinefnum. Það er mjög trefjaríkt, inniheldur litla fitu og er mjög kaloríusnautt.
  • Best er að geyma það í kæli. Það þarf ekki að pakka því inn því engin hætta er á vatnstapi. Best er að borða það innan 10 daga frá uppskeru.

Hnúðkálsbollurnar eru hentugur pinnamatur í veislur og smakkast vel hvort sem þær eru heitar eða kaldar og  jógúrtsósan er frábær með.

Djúpsteiktar hnúðkálsbollur
fyrir 4

1 hnúðkálshöfuð, afhýtt                                                             
½ bökunarkartafla
3 hvítlauksgeirar
1 laukur
1 sítrónugras
4 msk. maísmjöl
2 kúfaðar msk. hnetur að eigin vali, t.d kasjúhnetur eða valhnetur
hnefafylli af ferskri myntu
hnefafylli af ferskri steinselju
1 egg
olía til djúpsteikingar

salt og pipar eftir smekk

Brytjið hnúðkálið, kartöfluna, lauk og hvítlauk í grófa bita og setjið í matvinnsluvél. Bætið afgangnum af hráefninu saman við og látið vélina ganga áfram. Smakkið til með salti og pipar. Maukið á að vera mjög fíngert. Geymið í ísskáp í að minnsta kosti 1 klukkustund. Maukið á að vera nokkuð blautt viðkomu en ef það helst ekki nægilega vel saman má bæta við svolitlu maísmjöli. Búið til litlar kúlur með teskeiðum og djúpsteikið í olíu þar til bollurnar fá gullinbrúnan lit á sig. Notið helst gataspaða til að veiða bollurnar upp úr olíunni og gott er leggja þær á eldhúsþurrkur. Bollurnar eiga að vera um það bil munnbiti að stærð.

 

 

 

Jógúrtsósa:

2 dl grísk jógúrt
1 dl smátt skorin fersk mynta
safi úr einni límónu
½ tsk. salt
nýmalaður pipar

Blandið öllu saman sem á að fara í sósuna. Gott er að láta hana standa örlítið áður en hún er borin fram þá verður hún bragðmeiri.

 

Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

Stílisti/ Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

„Innsæið öskrar á mig að taka þetta skref“

Unnur Eggertsdóttir var ekki há í loftinu þegar hún tók þá ákvörðun að verða leik- og söngkona. Frá unglingsaldri hefur hún unnið hörðum höndum að því að uppfylla þann draum, og hefur undanfarin ár verið búsett í landi tækifæranna, Bandaríkjunum. Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá útskrift úr virtum leiklistarskóla hafa verkefnin verið fjölmörg. Unnur stendur nú á tímamótum eftir að hafa sagt upp hlutverki sínu í stórum söngleik sem settur var upp í Las Vegas.

Leiðin hefur ekki alltaf verið greið síðustu ár í lífi Unnar, þrátt fyrir að á blaði virðist tækifærin hafi hreinlega dottið upp í hendurnar á henni. Sjálf gefur hún lítið fyrir þá hugmynd að hægt sé að meika það á einni nóttu. „Það er einhver rómantík yfir þeirri hugmynd í Hollywood sem fræga fólkið virðist oft vilja halda í,“ segir hún. „Það hljómar kannski betur að hafa orðið frægur á einni nóttu, því fólk vill ekki segja frá svitanum, grátinum og barningnum sem hefur farið í þessa vegferð á kannski tíu árum, meðan enginn vissi hver þau voru. Það er kannski eitt hlutverk sem gerir þau fræg, en öll vinnan fram að þessu hlutverki, það tala fáir um hana. Sjálfri finnst mér skemmtilegra þegar fólk segir hvað búið er að fara í baráttuna, það gefur mér mikinn innblástur. Það er oft talað um að gullna reglan sé tíu ár. Ef þú gefst ekki upp í áratug og vinnur eins mikið og þú getur, þá verðurðu á góðum stað. Þetta er bara eins og í öðrum greinum – ef þú vilt stjórna stóru fyrirtæki eða vinna þig upp sem læknir, þarftu að leggja alveg jafnmörg ár í það eins og ef þú vilt verða virtur leikari. Margir líta á þetta ferli sem spretthlaup, og bara á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að ég útskrifaðist úr leiklistarnáminu hef ég sé marga gefast upp. Mér finnst mikilvægast að hafa þolinmæði og yfirvegun, og halda í drifkraftinn.“

Unnur hefur síðustu þrjá mánuði leikið hlutverk Jayne Mansfield í söngleik um líf Marilyn Monroe sem settur var upp í Las Vegas. Hlutverkið er það stærsta sem Unnur hefur leikið hingað til, og hafa síðustu mánuðir verið mikil keyrsla. „Það var mögnuð lífsreynsla að búa og vinna í Vegas. Ég hafði fyrst ekki hugmynd um við hverju ég ætti að búast og fannst ég svolítið rugluð að flytja í þessa djammborg. En þetta voru óendanlega skemmtilegir og lærdómsríkir mánuðir. Þarna var ég að vinna með margföldum Broadway-stjörnum og fagfólki með áratuga reynslu í bransanum. Leikhópurinn varð mjög náinn og allir sem komu að sýningunni voru með óbilandi metnað. Við vorum oft á 12 tíma æfingum marga daga í röð, að læra 18 tónlistaratriði með erfiðum dönsum og röddunum. Svo tóku sýningar við og þá sýndum við sex kvöld í viku, aðeins í fríi á mánudögum. Ég lærði svo mikið um sjálfa mig, rödd mína og líkama, hvað ég þurfti að gera til að halda mér í sem bestu formi til að geta sýnt svona erfiða sýningu næstum daglega. Í því fólst að anda að mér gufu í klukkutíma á dag, taka milljón vítamín og drekka kínverskt hunang, hvíla röddina fyrir hádegi, hita hana vel upp, og kæla hana svo niður eftir sýningu. Svo var ég í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku því það var mikið álag á bakinu í þessum dönsum sem ég var í. Þetta tók allt þvílíkt á, en alveg klárlega það lærdómsríkasta sem ég hef gert.“

Til stóð að sýningar á söngleiknum stæðu yfir í sex mánuði til að byrja með, en fyrir mánuði tóku framleiðendur sýningarinnar ákvörðun um að skipta um leikhús og gera breytingar á rekstrarumhverfinu. „Vegna þessara breytinga var ákveðið að senda leikarana í sumarfrí, sem mér fannst æðislegt. Ég fór í tvær vikur til New York að leika mér og hitta gamla vini, og er svo búin að eiga tvær dásamlegar vikur hér á Íslandi,“ segir Unnur, en vegna alls þessa þarf að endurnýja samninga við leikarana eftir sumarfríið. Hún hefur hins vegar tekið ákvörðun um að endurnýja ekki sinn samning.

„Í stærra samhenginu held ég að það sé betra fyrir mig og minn feril að endurnýja hann ekki, heldur fara aftur til Los Angeles og einbeita mér að því að finna ný verkefni. Nú þegar þetta er komið í ferilskrána og reynslubankann finnst mér það rétta í stöðunni að skoða ný tækifæri og hlutverk, í staðinn fyrir að vera þarna í ár í viðbót, eins ótrúlega gaman og það samt er. Þetta er auðvitað meiri áhætta, en ég finn innra með mér að þetta er rétt ákvörðun. Á svona stundum þarf að hlusta á innsæið – og það öskrar á mig að ég verði að taka þetta skref, eins hrædd og ég er við það.“

Þetta er aðeins brot út ítarlegu viðtali við Unni. Viðtalið í heild má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Myndir: Aldís Pálsdóttir / Aðstoðarljósmyndarar: Unnur Magna og Jökull Sindrason
/Förðun: Björg Alfreðsdóttir

Var kallaður „Guðni hommi“

Forseti Íslands telur mikilvægt að halda baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks áfram.

„Í einlægni sagt trúi ég og vona að litið verði á Hinsegin daga sem tákn um mikilvægi frelsis, virðingar og fjölbreytileika í samfélaginu almennt,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti, um Hinsegin daga sem hófust í vikunni, en venju samkvæmt ætlar forsetinn að halda hátíðlega upp á dagana og verður viðstaddur opnunarhátíðina í Háskólabíó í kvöld.

Þetta kemur fram í viðtali við forsetann á fréttasíðunni GayIceland, en þar segir Guðni jafnframt frá því að sem strákur hafi hann verið kallaður hommi vegna þess að hann bar sama nafn og þáverandi formaður Samtakanna ’78, Guðni Baldursson. Þá hafi hommi verið uppnefni en í dag séu breyttir tímar.

Í viðtalinu kemur forsetinn inn á þátttöku sína í Hinsegin dögum fyrir tveimur árum en þá braut Guðni blað í sögunni þegar hann varð fyrsti forsetinn í heiminum til þess að taka opinberlega þátt í gleðigöngu. „Í mínum huga var það mjög eðlileg og gleðileg ákvörðun að taka þátt í göngunni fyrir tveimur árum. Ég styð mannréttindi, fjölbreytileika, frelsi til að tjá sig, elska og trúa því sem maður vill, eða ekki trúa neinu.“

Hann segist hafa tekið þátt í göngunni áður en hann varð forseti og hafi ekki ætlað að hætta því bara við það eitt að fá nýtt hlutverk. Nú sé hann jafnframt orðinn verndari Samtakanna ’78 og segist taka því hlutverki alvarlega. Hann telur mikilvægt að halda baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks áfram líkt og allri baráttu fyrir mannréttindum. Hann muni tjá sig um þessi málefni erlendis ef hann fær tækifæri til þess.

Viðtalið við Guðna má lesa í heild sinni hér.

Mynd / Håkon Broder Lund

Áreitt nánast alla daga

Sæborg Ninja Guðmundsdóttir og Úlfar Viktor Björnsson hafa verið beitt ofbeldi fyrir að vera hinsegin.

Hinsegin dagar eru í fullum gangi, bærinn iðar af lífi og litum og allir brosa út að eyrum. Á morgun munu, ef að líkum lætur, þúsundir fólks safnast saman í miðbænum til að fylgjast með Gleðigöngunni árlegu sem orðin er í huga margra að hápunkti sumarsins. En erum við komin eins langt í réttindum hinsegin fólks og gjarna er haldið fram?

Svarið við því er blákalt nei samkvæmt Sæborgu Ninju Guðmundsdóttur og Úlfari Viktori Björnssyni, sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs sem kemur út á morgun.

Sem hinsegin fólk upplifa Sæborg og Úlfar niðrun og áreiti nánast alla daga ársins og bæði hafa þau lent í líkamsárásum vegna þess eins að vera þau sjálf. Í viðtalinu segjast þau vilja leggja áherslu á að gangan sé ekki einungis til að fagna áunnum réttindum heldur ekki síður til þess að minna á hve langt er í land að hinsegin einstaklingar njóti sömu mannréttinda og aðrir.

 

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hjarta hússins

Eldhúsið er hjarta hússins líkt og maginn er leiðin að hjarta mannsins. Skoðum hvað ber hæst í eldhústískunni um þessar mundir.

Grófar marmaraflísar
Eitt heitasta trendið í eldhúsum um þessar mundir er á sama tíma klassískt og trendí. Flísar í marmarastíl hafa verið að skjóta upp kollinum víða upp á síðkastið en mynstrið sjálft er gróft, villt og áberandi.

Gullfallegt að nota þær á milli eldhússkápa eða fyrir ofan neðri skápa og leyfa þeim njóta sín sem best eins og sjá má hér að ofan. Hér eru nokkrar guðdómlegar útfærslur.

Harðviðarval selur geggjaðar flísar í marmarastíl frá ítalska framleiðandanum Marazzi. Þær koma í stærðum frá 30×60 yfir í 120×240 cm en fermetraverðið er frá 9.500 kr.

Dökkblár
Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með í innanhússhönnun að dökkblár litur tröllríður eldhústískunni. Okkur þykir liturinn Votur frá Slippfélaginu sjúklega flottur.

Engir efriskápar
Nú er hámóðins að sleppa efri skápum í eldhúsunum og opnar hillur frekar notaðar til punts og pjatts.

Falinn vaskur
Það þykir ferlega smart í dag að leyfa vaskinum að falla ofan í borðplötuna og nota sama efniviðinn í hvoru tveggja. Myndirnar tala sínu máli en okkur þykir þessi hönnun einstaklega falleg.

Múrsteinar
Hvítur múrveggur er bæði gamaldags og nútímalegur á sama tíma en efniviðurinn ætti ekki að kosta mikið.

Iðnaðarljós
Iðnaðarljós (e. industrial) hafa vaxið mikið í vinsældum síðustu misserin en við elskum ljósahönnun Foscarini fyrir Diesel. Þau fást hjá Lúmex hér á landi.

Þunnar borðplötur
Þunnar borðplötur eru að koma sterkt inn í innanhússhönnunartískunni sem og að nota ýmiskonar viðartegundir í eldhúsborðplötuna.

Ljúfur lambaborgari á grillið

05. tbl. 2018
|

Að öllum líkindum hafa flest okkar borðað meira af hamborgurum í sumar en við getum talið enda með vinsælli sumarmat á landinu. Þó getur verið gaman að breyta til og prófa sig áfram með annað kjöt á borgarann og þá kemur íslenska lambakjötið sterkt inn.

Lambaborgari
fyrir 4

600 g lambahakk
20 g kryddjurtir, t.d. mynta, basilíka og dill, saxað
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
2 msk. ólífur, saxaðar
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
1 krukka glóðaðar paprikur
þeyttur fetaostur
4 hamborgarabrauð
½ rauðlaukur, sneiddur
klettasalat

Hitið grillið í meðal-háan hita. Blandið saman lambahakki, kryddjurtum og hvítlauk. Skiptið kjötinu í fjóra parta (u.þ.b. 150 g hver) og mótið borgarana mjúklega í höndunum, passið að þrýsta kjötinu ekki of fast saman. Þrýstið þumlinum niður á miðju borgarans (þetta kemur í veg fyrir að hann lyftist upp í miðjunni þegar hann er grillaður).

Grillið kjötið í 3-5 mín. á hvorri hlið eða þar til það hefur eldast að utan en er þó ennþá bleikt í miðju. Grillið tómatana á meðan kjötið grillast þar til þeir hafa mýkst. Smyrjið þeyttum fetaosti (sjá uppskrift neðar) á hamborgarabrauð og leggið kjötið, tómatana, rauðlaukssneiðarnar og klettasalatið ofan á.

Þeyttur fetaostur

250 g fetaostur
3 msk. ólífuolía

Setjið hráefni í matvinnsluvél eða blandara og látið vinna þar til allt er orðið kekkjalaust og slétt. Hellið meiri ólífuolíu í blandarann ef osturinn er of kekkjóttur.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Heimilið endurspeglar okkur sjálf

Virpi Jokinen er ættuð frá Finnlandi en hefur verið búsett hér á landi í aldarfjórðung. Hún hafði starfað sem skipulagsstjóri Íslensku óperunnar í 11 ár, þar til fyrir rúmu ári þegar hún ákvað að venda kvæði sínu í kross og stofna fyrirtækið Á réttri hillu. Skipulagsaðstoðin sem Á réttri hillu býður upp á felst í því að koma til aðstoðar hjá einstaklingum og minni fyrirtækjum þegar skipulagsleysi veldur vanda.

Virpi segir verkefnin mjög mismunandi eftir þörfum viðskiptavina og að starf hennar taki breytingum eftir því hvað hvert verkefni kallar á. „Öll verkefnin byrja á klukkustundar viðtali til að ræða stöðuna, sjá heimilið eða fyrirtækið og setja markmið í samstarfi við viðskiptavininn. Eftir það er svo undir viðskiptavininum komið hvort óskað er eftir að fá mig aftur seinna til að vinna að sjálfu verkinu. Á meðan til dæmis er unnið að meiri háttar tiltekt eða undirbúningi flutninga er hlutverk mitt að vera tímavörður, hvetja viðskiptavininn áfram, finna mögulegar lausnir og koma með tillögur. Ég tek aldrei ákvarðanir um neitt eða mynda mér skoðun á því hvað viðskiptavinurinn á eða á ekki að gera. Markmið starfs míns er að viðskiptavinir annaðhvort nái markmiðum sínum eða komist hægt og rólega af stað í átt að markmiðum sínum“, segir hún.

Ekki alltaf auðvelt að óska eftir aðstoð

„Ég hafði sinnt margvíslegum verkefnum hjá Óperunni og var alltaf með marga bolta á lofti,“ segir Virpi þegar hún útskýrir hvernig hugmyndin að fyrirtækinu hafi komið til. „Í framhaldinu kviknaði þessi hugmynd, að fara af stað með eigin rekstur og að loknu frábæru Brautargengisnámskeiði hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands ákvað ég láta slag standa og stofnaði Á réttri hillu í ársbyrjun 2018. Nafnið á fyrirtækinu kom til mín í spjalli við vinkonu á veitingastað þar sem ég var enn eina ferðina að útskýra þessa hugmynd og að ég hefði svo mikla trú á þessu, mér fyndist ég bara vera svo á réttri hillu með þetta. Hún segir að svipurinn á mér hafi verið kostulegur þegar við áttuðum okkur á að þarna væri rétta heitið loksins fundið. Þá var ekki aftur snúið og daginn eftir tók ég frá lénið www.arettrihillu.is.“

Virpi segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og hún fagnar því hversu margir hafa sett sig í samband við sig. „Það er ekki alltaf auðvelt að óska eftir svona persónulegri þjónustu, hvað þá að fá einhvern gjörókunnugan heim til sín. Ég hugsa að mér sé óhætt að fullyrða að flestum ef ekki öllum viðskiptavinum mínum hingað til hafi þótt þjónustan koma sér vel og að möguleg feimni þeirra við að velja þessa þjónustu hafi snúist í ánægju yfir að hafa áttað sig á þessum möguleika og stigið það erfiða skref að hafa samband. Viðskiptavinir fyrirtækisins eru breiður hópur fólks, einstaklingar til jafns við fjölskyldur, fólk með eigin rekstur, yngra og eldra fólk. Það sem einna helst einkennir viðskiptavinina er að þeir eru oft á tíðum með mjög skýrar hugmyndir um lokamarkmiðið eða í það minnsta með mjög sterka tilfinningu fyrir þörf á ákveðinni breytingu á nákvæmlega þessum tímapunkti. Út frá því er þjónustan einnig hugsuð. Á réttri hillu er til aðstoðar á þeim tímapunkti í lífinu, verkefninu eða ferlinu þegar hennar er þörf. Að mínu mati er engin skömm að því að óska eftir aðstoð en það er aftur á móti dapurt að neita sér um það ef brýn þörf er fyrir hendi.“

Meginatriði að gefa sér góðan tíma

Hingað til hafa öll verkefni sem Virpi hefur tekið að sér snúist um hluti í eigu einstaklinga og fyrirtækja. Hún aðstoðar við að finna leiðir til að fækka þeim og koma því sem eftir verður betur fyrir. Í samstarfi við viðskiptavini hefur hún meðal annars létt á ýmiss konar hlutum á heimilum, fækkað pappírum, tekið til í bílskúrum, geymslum og háaloftum, undirbúið flutninga og útbúið vinnuherbergi.

Aðspurð um ráð fyrir þá sem vilja taka heimilið sitt í gegn telur Virpi meginatriði að gefa sér góðan tíma. „Að ætla heilt ár í að létta á venjulegu heimili er ekki langur tími, í mörgum tilfellum örugglega bara alveg mátulegur. Í upphafi er nauðsynlegt að sjá lokamarkmiðið fyrir sér og gefa sér góðan tíma til að móta það, jafnvel skrifa það niður. Ef um fjölskyldu er að ræða er mikilvægt að fá sjónarmið allra um það hvað hver og einn telur mikilvægt til að tryggja að útkoman þjóni öllum á heimilinu sem best. Ég tel að það sé lítið gagn að lista sem á stendur allt sem er að, en allt öðru máli gegnir um lista þar sem kemur fram hvernig maður vill hafa ákveðna hluti. Ég á við að í stað þess að hugsa eða skrifa hjá sér „bílskúrinn er fullur af dóti“ væri betra að skrifa „ég vil geta keyrt bílinn inn í bílskúr“ eða „ég vil geta gengið að verkfærunum vísum á sínum stað og í lagi“. Þarna eru komin skýr markmið sem hægt er að fara að vinna að.

Ítarlegra viðtal við Virpi og fleiri góð ráð frá henni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
Myndir: Unnur Magna

Fyrsti íslenski spjallþátturinn á ensku

Grínistinn Jonathan Duffy er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.

Ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem vakti athygli fyrir uppistand sitt I Wouldn’t Date Me Either á hátíðinni Reykjavík Fringe Festival í Tjarnarbíói í síðasta mánuði, er farinn af stað með nýjan þátt á Netinu.

An evening with Jono Duffy kallast herligheitin en um er að ræða spjallþátt með gamansömu ívafi þar sem Jonathan, eða Jono eins og hann er gjarnan kallaður, fær til sín þjóðþekkta íslendinga og aðra gesti og tekur viðtöl og gerir þess á milli óspart grín að öllu milli himins og jarðar, alveg frá „sumrinu“ í ár yfir í ferðaþjónustuna á Íslandi. En eins og þeir vita sem til þekkja er grínstinn ófeiminn við að tækla alls konar mál eins og kynlíf og önnur málefni sem margir veigra sér við að fjalla um.

Jono hefur verið búsettur á Íslandi í nokkur ár og á m.a. að baki sýningarnar Australiana og An Evening With Jono Duffy, auk fyrrnefndar I Wouldn’t Date Me Either. An evening with Jono Duffy er fyrsti íslenski spjallþátturinn sem er framleiddur á ensku og er óhætt að segja að byrjunin lofi góðu.

„Tók á móti barni í miðju matarboði“

||
||

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur, hefur tekið á móti tæplega 1600 börnum og hefur í gegnum tíðina gefið foreldrum ráð við öllu sem tengist komu nýs einstaklings í heiminn. Nú hefur hún látið gamlan draum rætast þar sem þessi ráð eru nú saman komin í fallegri bók.

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.

„Þessi bók hefur verið í huga mínum í mörg ár. Ég fann fyrir hvað mikil þörf var á að foreldrar, ömmur og afar gætu leitað svara við spurningum sínum. Þar sem öll svör væru til í einni bók. Ég var endalaust að gefa ráð, svara spurningum og fann svo vel fyrir þakklætinu þegar ráðin dugðu. Oftar en ekki sögðu foreldrarnir, „mikið væri nú gott að geta bara flett upp í einni Önnu ljósu í bók“,“ segir Anna. Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifaði bókina sem ber heitið Fyrstu mánuðirnir – ráðin hennar Önnu ljósu. Esther Viktoría Ragnarsdóttir og Ari Arnaldsson teikna myndirnar sem prýða bókina og Bókafélagið gefur hana út.

„Bókin fjallar um öll þau ráð sem ég hef gefið í heimaþjónustu. Þar er talað um undirbúninginn undir fæðinguna, eldri systkini, fyrstu dagana heima, barnið þegar það kemur í heiminn, líðan móður eftir fæðingu, næringu barnsins brjóstagjöf og pelagjöf, meltingu, grát fyrstu dagana, umhirðu barnsins, veikindi barnsins, hitt foreldrið, andvana fæðingu, endurlífgun og margt margt fleira.“

„Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka.“

Bókin fjallar um öll þau ráð sem Anna hefur gefið í heimaþjónustu.

Fæðing í miðju matarboði
Á þessum tíma sem Anna hefur verið ljósmóðir hefur ýmislegt komið upp á. Annar júní 2009 er henni til dæmis minnisstæður. „Ég var með smávegis matarboð heima hjá mér og þegar við vorum að klára að borða hringdi síminn. Þá er það nágrannakona sem býr ská á móti mér. Ég var búin að vera með hana í mæðravernd og hún sagðist vera með einhverja „murnings“ verki, hvort ég gæti skoðað hana því hún nennti ekki niður eftir ef ekkert væri að gerast. Ég skottaðist yfir með töskuna mína í rauðum sumarkjól og rauðum lakkskóm. Eftir skoðun segi ég henni að ef hún ætli ekki að fæða í bílnum þá skuli hún drífa sig á fæðingardeildina því hún sé komin með átta í útvíkkun. Ég sný mér frá henni og fer úr hanskanum. Hún fer að skellihlæja, vatnið fer og kollurinn fæðist. Pabbinn spurði hvort hann ætti að hringja á sjúkrabíl en ég sagði honum að setjast bara hjá konunni sinni og sýna henni stuðning. Sjúkralið gæti ekkert gert á þessu augnabliki sem ég gæti ekki gert. Skelli mér aftur í hanska, laga rauða kjólinn minn og í næstu hríð fæddist spræk og yndisleg stúlka. Eldri bræður hennar þrír höfðu verið sendir í ísbúð með ömmu sinni meðan ég skoðaði mömmu þeirra og það var dásamlegt að upplifa þegar þeir komu til baka og sáu á hverju mamma þeirra hélt þegar þeir komu inn í herbergið. Þegar ég kom aftur heim voru allir í rólegheitum að fá sér kaffi. Ég sagðist aðeins hafa skroppið yfir í næsta hús að taka á móti barni, sagði svo: „Viljið þið meira kaffi“.“

Ljósuhjartað stundum brostið

Og kjarabarátta ljósmæðra hefur ekki farið fram hjá Önnu frekar en öðrum. „Kjarabarátta okkar ljósmæðra er barátta fyrir allar konur. Það var alveg kominn tími til að leiðrétta laun ljósmæðra þannig að nýúrskrifuð ljósmóðir lækki ekki í launum fyrir það eitt að bæta við sig tveimur námsárum eftir fjögurra ára hjúkrunarnám. Þetta er búið að vera erfitt og ljósuhjartað mitt hefur nokkrum sinnum brostið í þessari baráttu. Ég hef aldrei upplifað eins mikla og góða samstöðu okkar ljósmæðra og meðbyrinn í þjóðfélaginu gríðarlegur. Þetta hefur verið erfitt fyrir alla; ljósmæður, samstarfsfólk og verðandi foreldra.“

Myndir af Önnu / Hákon Davíð Björnsson

Sýnir ófreskjur í Sotheby‘s

|
|

Listamaðurinn Arngrímur Sigurðsson vinnur að höggmyndum sem verða sýndar í uppboðshúsinu Sotheby‘s í New York. Höggmyndirnar eru af ófreskjum sem eiga rætur að rekja til íslenskra þjóðsagna.

Arngrímur Sigurðsson sem hefur vakið athygli fyrir málverk af verum úr íslenskum þjóðsögum, vinnur nú að höggmyndum úr marmara sem verða sýndar í Sotheby‘s. Hér er hann með eitt sköpunarverkana sinna sem hann sýndi í New York.

„Ég fór að ímynda mér möguleika erfðafræðinnar og svokallaðrar svartrar líffræði og hvernig það kynni að líta út ef okkur tækist að búa til samblöndu af mannskepnunni og verkfærum mannsins, sérstaklega hvernig stökkbreyttar útgáfur af mönnum og vopnum gætu litið út. Eftir svolitla hugmyndavinnu varð þetta útkoman,“ segir myndlistamaðurinn Arngrímur Sigurðsson um höggmyndir sem hann er að vinna að um þessar mundir á vinnustofu í bænum Carrara á Ítalíu, en þær verða sýndar í apríl á næsta ári í einu elsta og virtasta uppboðshúsi heims, Sotheby‘s í New York.

Höggmyndirnar eru af skrímslum sem Arngrímur byrjaði að þróa meðan hann var við meistaranám í myndlist við New York Academy of Arts og eru hluti af lokaverkefni hans við skólann síðastliðið vor. „Þar bjó ég til samskonar skrímsli úr sílikoni, hreindýrafeldi og hrosshári en erfðafræðilegar tilraunir og allar þessar framfarir sem eru að verða í erfðavísindum urðu kveikjan að þeim,“ útskýrir hann. „Hvernig hægt er að forrita erfðaefni mannsins nánast upp á nýtt. Til dæmis skeyta saman ólíku erfðaefni til að búa til næstum hvað sem er.“

„Að sýna á vegum ABC Stone og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Arngrímur segir að skrímslin séu ákveðið framhald af olíumyndum sem hann málaði fyrir nokkrum árum af íslenskum þjóðsagnaverum út frá lýsingum á fyrirbærum og duldýrum úr þjóðsögum og öðrum fornritum. Myndir af verkunum rötuðu í bók, Duldýrasafnið, sem kom út fyrir fjórum árum og vakti athygli, ekki síst ný og endurbætt útgáfa hennar á ensku sem ferðamenn hafa keypt í bílförmum.

Spurður hvað það sé eiginlega við skrímsli sem heilli hugsar hann sig um og segir: „Mér finnst bara svo áhugavert hvernig þau endurspegla til dæmis alls konar náttúrufyrirbrigði eða samfélagslegar hræringar og hvað þau geta verið skemmtilega margræð.“ Hann segir það vera með ólíkindum að íslenskir listamenn skuli ekki hafa sótt meira í þennan menningararf því hann sé ótrúlega spennandi.

En Sotheby´s, er ekki viss upphefð að sýna í þessu gamla og virta uppboðshúsi? „Algjörlega,“ svarar hann og flýtir sér að bæta við að skúlptúrarnir verði þó ekki eingöngu sýndir þar. Þeir verði líka til sýnis í ABC Stone í Williamsburg. „ABC Stone er fyrirtæki sem er leiðandi í innflutningi og vinnslu á ítölskum marmara í Bandaríkjunum. Ég er einmitt hérna á Ítalíu í boði þess, en þeir bjóða tveimur nemendum frá New York Academy of Art til að nema steinhögg í Carrara á hverju ári. Þannig að sýna bæði á vegum þess og í Sotheby‘s á svipuðum tíma, það á eftir að verða mjög skemmtilegt.“

Of gróft fyrir Facebook

|
|

Facebook vill ekki birta auglýsingar með Magna og Gretu

Söngkonan Greta Salóme.

Salóme.

„Það er ekki eins og einhver hafi meiðst við gerð þessara auglýsinga, þótt þær séu kannski svolítið óhugnanlegar. Þetta var nú bara allt gert í góðu gamni. Samt vill Facebook ekki leyfa okkur að  vekja athygli á þeim,“ segir söngkonan Greta Salóme, um auglýsingar vegna væntanlegrar Halloween-sýningar sem hún og stórskotalið íslenskra tónlistarmanna standa fyrir í október og nóvember, en bandaríski samskiptamiðilinn heimilar ekki að þær séu auglýstar.

Greta segist ekki vita nákvæmlega á hverju málið strandar. „Reyndar erum við með mynd af Magna Ágeirssyni söngvara í rafmagnsstól og mig svona grunar helst að hún hafi sett Facebook á hliðina.“
Umrædd Halloween-sýning var fyrst sett upp í fyrra og vegna góðra viðtaka var ákveðið að endurtaka leikinn, fyrst í Háskólabíói dagana 26.-27. október og svo í Hofi þann 3. nóvember. Að sögn Gretu verður sýningin í ár þó með örlítið breyttu móti. „Til dæmis verður lagavalið ekki það sama þar sem við verðum með það besta frá því í fyrra og bætum við nýjum bombum. Lögin eiga það þó öll sameiginlegt að tengjast hrekkjavöku með einhverjum hætti og verða í drungalegum og rokkuðum útsetningum.“

„Það er ekki eins og einhver hafi meiðst við gerð þessara auglýsinga, þótt þær séu kannski svolítið óhugnanlegar.“

Hún segir að sýningin í fyrra hafi verið mögnuð. Miðað við hvernig æfingar gangi munu listamennirnir þó eflaust toppa hana nú, en á meðal þeirra sem koma fram eru Birgitta Haukdal, Dagur Sigurðsson, Stefán Jakobsson, Ólafur Egilsson, hljómsveitin Todmobile, karlakór og dansarar, auk Magna og Gretu sjálfrar. Þess má geta að sérstök fjölskyldusýning verði í Háskólabíói 28. október.

Misbrestur á eftirliti leiktækja á Íslandi

|
|

Ástandsskoðun leiktækja á leikvöllum er ábótavant. Herdís Storgaard sem um árabil hefur unnið að slysavörnum barna segir að stjórnvöld hafi ekki áhuga á málaflokknum.

Herdís L. Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna.

„Þetta er misjafnt eftir sveitarfélögum. Eftir árlega skoðun á að gera úttekt og laga það sem út af stendur. Þótt slys verði, málið skoðað og niðurstaðan sú að hlutum sé ábótavant þá er oft lítið gert,“ segir Herdís L. Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna.

Ástandsskoðun leiktækja á að gera einu sinni á ári. Rekstraraðilar tækjanna, leikskólar og skólastjórnendur, eiga að sinna eftirlitinu. Löggildingarstofa hefur eftirlit með því að leikvallatæki á markaði uppfylli settar reglur um öryggi en heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglna um notkun leikvallatækja og öryggi leiksvæða. Misbrestur er á þessu að sögn Herdísar. Hún segir jafnframt reglugerð um leiktæki og leiksvæði úrelda.

„Dæmi um þetta eru slysin sem urðu vegna lausra fótboltamarka og voru algeng á árum áður. Slysin gátu orðið mjög ljót. Börnin fóru á spítala, lögregla kom á staðinn og skoðaði aðstæður. En ekkert gerðist í kjölfarið.“

„Vandamálið á Íslandi er að stjórnvöld hafa ekki tekið upp og skilgreint slys. Slys er þegar einhver slasar sig. Þá fer ákveðið ferli í gang, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Dæmi um þetta eru slysin sem urðu vegna lausra fótboltamarka og voru algeng á árum áður. Slysin gátu orðið mjög ljót. Börnin fóru á spítala, lögregla kom á staðinn og skoðaði aðstæður. En ekkert gerðist í kjölfarið,“ segir Herdís og leggur áherslu á að öðru máli gegni um umferðarslys en þar eru viðurlög. Herdís segir engan mun eiga að gera á slysum vegna leiktækja og slysa í umferðinni.

„Slys er slys og það er alltaf einhver sem er ábyrgur. En vegna þess að slys eru ekki skilgreind þá geta foreldrar ekkert gert þegar börn þegar slasast á leiktækjum.“

Stjórnvöld áhugalaus

Ástæðuna fyrir þessum slugsahætti segir Herdís vera þá að stjórnvöld og fleiri hafi engan áhuga á öryggismálum barna. „Ég vann á slysadeild og sá afleiðingarnar af slysum sem börn lentu í. Það voru slys sem áttu ekki að gerast ef hlutirnir væru í lagi. Drukknun barna var til dæmis algengasta dánarorsök þeirra þegar ég byrjaði fyrir næstum 30 árum en þá drukknuðu 3 til 6 börn á hverju ári, flest í sundlaugum. Ég lagði líf og sál í verkefnið. Öryggismál í sundlaugum voru í molum. Við náðum gífurlegum árangri. Með bættu öryggi í sundlaugum er nú fátítt að börn drukkni. En nú óttast ég að sé tekið að fjara undan mörgum verkefnunum. Stjórnvöld hafa ekki áhuga á öryggismálum barna og enginn vinnur í málaflokknum nema ég. Það geri ég án styrkja frá hinu opinbera. Aðeins Sjóvá og IKEA styrkja mig,“ segir Herdís.

______________________________________________________________

    1. KAFLI 14. GR Í REGLUGERÐ UM UM ÖRYGGI LEIKVALLATÆKJA OG LEIKSVÆÐA OG EFTIRLIT MEÐ ÞEIM Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Brutu fánalög

|
|

Borið hefur á því að íslenskir fánar í lélegu ásigkomulagi hafi verið notaðir við ýmis tækifæri.

Einn slíkur var á Viðeyjarferjunni sem sigldi á dögunum frá Skarfabakka til Viðeyjar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var fáninn trosnaður og rifinn á endunum. Slíkt er óleyfilegt en fána sem svo er ástatt um skal taka niður og brenna samkvæmt fánalögum. Forsvarsmenn Eldingar sem sér um ferjusiglingar út í Viðey, könnuðust hins vegar ekki við málið þegar eftir því var leitað og sögðu enga illa farna fána á bátum fyrirtækisins.

Viðeyjarferjan sem sigldi á dögunum frá Skarfabakka til Viðeyjar, notaði fána í lélegu ásigkomulagi. Mynd / Jón Aðalsteinn

Betra að koma seint en aldrei á áfangastað

|
|

Verslunarmannahelgi er sú helgi ársins sem einna flestir leggja land undir fót og ferðast um þjóðvegi landsins. Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri hjá Samgöngustofu, segir að um þessa annasömu helgi sé sérstök ástæða fyrir ökumenn að fara varlega og gefa sér góðan tíma til ferðarinnar. Betra sé að koma seint en aldrei á áfangastað.

Síðast en ekki síst segir Þórhildur mikilvægt að láta allt áfengi fara úr blóðinu áður en sest er undir stýri.

Yfirfarið allan búnað
„Góð regla er að yfirfara bílinn áður en lagt er af stað,“ bendir hún á. „Athuga hvort hjólbarðar séu í lagi, þ.e. slit og loftþrýstingur. Sömuleiðis ljós og önnur öryggisatriði. Eins hvort tengivagninn sé í standi, þar á meðal festingar. Þá þarf að ganga þannig frá farangri að ekki sé hætta á að hann kastist til við árekstur eða bílveltu. Það er nefnilega ótrúlegt hvað þungi lausamuna eykst við árekstur svo jafnvel sakleysisleg kókflaska getur valdið viðbótarskaða. Fyrir utan það þurfa svo allir farþegar að sjálfsögðu að vera spenntir í belti og börnin í réttum öryggisbúnaði í aftursæti. Ef þessi atriði eru í lagi áður en ekið er af stað er mun líklegra að ferðalagið verði öruggt og ánægjulegt.“

Hvíld skiptir máli
Þórhildur segir líka mikilvægt að ökumenn séu vel hvíldir meðan á akstri stendur. „Gullna reglan er að gera hlé á akstri og stoppa á klukkutíma til tveggja tíma fresti bara til að taka smávegis hvíld, jafnvel blunda í fáeinar mínútur og ekki gera það í vegakanti heldur velja útskot, bensínstöðvar eða önnur örugg svæði þar sem hvorki okkur né öðrum stafar hætta af því. Þá er gott að hafa ekki of heitt í bílnum því mikill hiti eykur líkur á þreytu og syfju og gæta þess að nærast og drekka vatn eða aðra hollustu svo ekki sæki óþarfa þreyta á okkur á langferðum. Vel vakandi, úthvíldur og yfirvegaður ökumaður er líklegri til að geta brugðist við ef eitthvað fer úrskeiðis – hjá honum eða öðrum.“

Forðist framúrakstur
Þá er að hennar sögn mikilvægt að aka samkvæmt aðstæðum og fara ekki hraðar en leyfður hámarkshraði segir til um. „Haldið jöfnum hraða og forðist framúrakstur. Þeir sem ætla að aka fram úr mega ekki undir neinum kringumstæðum gera það þar sem heil óbrotin lína er á milli akstursstefna eða takmörkuð sýn fram á veginn. Ef ökumenn þurfa hins vegar að aka hægar þá skulu þeir haga akstri sínum þannig að auðvelt og öruggt sé að fara fram úr,“ segir hún og minnir á að ef fólk ekur með eftirvagn, eins og tjaldvagn, hjólhýsi o.fl. þá sé leyfður hámarkshraði aldrei meiri en 80 km/klst. „Ef fólk mætir stórum bíl þá getur eftirvagninn verið töluvert breiður.“

Takið tillit til aðstæðna
Ef fólk er að hjóla saman í hóp á vegi þá segir Þórhildur gott að hafa hugfast að ekki má hjóla hlið við hlið ef það veldur hættu eða töfum á umferð. „Ekki stöðva bílinn heldur á veginum til að skoða einhver náttúruundur eða taka myndir. Gætið fyllsta öryggis og akið ekki, nema það sé alveg nauðsynlegt, inni á tjaldsvæðum.“

Ekki aka undir áhrifum
Síðast en ekki síst segir Þórhildur mikilvægt að láta allt áfengi fara úr blóðinu áður en sest er undir stýri. „Ef fólk neytir áfengis verður það að gefa sér góðan tíma til að jafna sig og það tekur mun meiri tíma en við höldum að endurnýja hæfni okkar til að keyra eða allt upp í 18 klukkustundir. Verið allsgáð undir stýri, það er grundvallarregla.“

Bryggjan Brugghús

Einstök upplifun, ljúffengt sjávarfang og bjórinn bruggaður á staðnum.

Á Grandagarði er að finna staðinn, Bryggjan Brugghús sem er á besta stað við höfnina, þar sem einnig er hægt að sitja við bryggjuna með fjallasýn og gömlu höfnina baksýn. Staðurinn er afar rúmgóður og skemmtilega innréttaður þar sem viðurinn og dökkir litir eru í forgrunni. Við hittum Elvar Ingimarsson, einn eigenda staðarins og rekstarstjóra, og fengum innsýn í hvað er í boði og fyrir hvað staðurinn er rómaður.

Staðsetning staðarins er einstök, getur þú aðeins sagt okkur frá henni?
„Grandinn er að verða mjög vinsæll staður til að fara út að borða í hádeginu eða á kvöldin. Íslendingar eru í miklum meirihluta viðskiptavina okkar eða um áttatíu og fimm prósent. Og þannig viljum við hafa það áfram. Þróunin er að mínu viti svipuð og þegar kjöthverfið í Kaupmannahöfn opnaði fyrir veitingastöðum og Daninn færði sig þangað og lét ferðamönnum eftir miðbæinn og gömlu höfnina. Við erum í gamla BÚR húsnæðinu en hérna var Bæjarútgerð Reykjavíkur og við erum eiginlega í gamla frystiklefanum.“

„Við viljum fanga bistro, brugg, klið og líflega stemningu.“

Hverjar eru helstu áherslur veitingastaðarins Bryggjan Brugghús?
„Við viljum fanga bistro, brugg, klið og líflega stemningu. Og þegar staðurinn er þéttsetinn flest kvöld vikunnar þá er mikið fjör. Góður matur og betri bjór er það sem við stöndum við.“

Hvers konar mat bjóðið þið upp á?
„Sjávarfang er stór hluti af seðlinum hjá okkur en þar er að finna líka steikur, hamborgara og ýmislegt annað.“

Þið bruggið ykkar eigin bjór sjálf, getur þú sagt okkur aðeins frá því og ferlinu?
„Við bruggum okkar eigin bjór hérna á Bryggjunni og höfum gert það frá byrjun eða síðan um haustið 2015. Bjórinn hefur fengið frábærar viðtökur og ein af ástæðunum eru ískaldir tankarnir sem við dælum beint af sem halda humluðu bjórunum mjög ferskum en sami bjór úr gleri eða kút er allt önnur vara.“

Fyrir hvað er Bryggjan Brugghús helst rómuð?
„Samkvæmt viðbrögðum viðskiptavina okkar langflestra er upplifunin og stemningin svolítið eins og að vera staddur erlendis. Maturinn og bjórinn þykja vel yfir meðallagi og eitthvað erum við að gera rétt miðað við fjöldann sem fer í gegnum húsið í hverri viku. Annað sem erlendir ferðamenn tala um er sanngjarnt verð og þar með talinn hópmatseðillinn sem við notum þegar hóparnir eru tuttugu manna eða fleiri, það skiptir máli að fólk hafi gott verðval þegar stórir hópar koma saman.“

Þið standið gjarnan fyrir skemmtilegum og líflegum viðburðum, meðal annars tónleikum. Er eitthvað spennandi á döfinni?
„Við verðum með stóra brugghátíð hérna á Bryggjunni yfir daginn á Menningarnótt sem fram undan er laugardaginn 18. ágúst næstkomandi, en þar koma saman frábær íslensk brugghús með bjóra og viskí þar sem fólki gefst tækifæri til að smakka.“

________________________________________________________________
Bryggjan Brugghús
Sjálfstætt brugg og bistro

Grandagarði 8
101 Reykjavík
Sími: 456-4040

www.bryggjanbrugghus.is

www.facebook.com/bryggjanbrugghus

„Bjórinn hefur fengið frábærar viðtökur og ein af ástæðunum eru ískaldir tankarnir sem við dælum beint af halda humluðu bjórunum mjög ferskum, en sami bjór úr gleri eða kút er allt önnur vara.“

 

Myndir / Unnur Magna
Bryggjan Brugghús í samstarfi við Stúdíó Birtíng.

 

Met í bogfimi

Allt stefnir í að met verði slegið þegar keppt verður í bogfimi á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer í Þorlákshöfn um helgina.

Til keppni eru skráðir rúmlega 80 keppendur á milli 11 og 18 ára og hafa aldrei jafnmörg börn og ungmenni komið saman í bogfimi á sama tíma á Íslandi. „Fjöldinn er langt yfir væntingum,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, en búist var við um 30 keppendum í bogfimi.

Auður bendir á að meirihluti keppenda í bogfimi eigi ekki boga og fá hann að láni í keppninni. „Í bogfiminni sjá þátttakendur tækifæri til að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt og þeir nýta sér það,“ segir hún. „Þetta er Unglingalandsmótið í hnotskurn.“

Ekkja plastbarkaþegans rýfur þögnina

||||
||||

Merhawit Baryamikael Tesfaslase segir frá því hvernig líf fjölskyldu hennar umturnaðist eftir að maður hennar var sendur í tilraunaaðgerðina örlagaríku.

Plastbarkamálið svokallaða er eitt af helstu hneykslismálum í læknavísindum síðustu áratugi og snertir okkur Íslendinga. Margir þekkja sögu og örlög Andemariams Beyene sem var fyrsti maðurinn til að undirgangast ígræðslu gervibarka 9. júní 2011 en fáir þekkja sögu eiginkonu hans, Merhawit Baryamikael Tesfaslase. Hún stóð ein uppi, réttindalaus, með þrjú börn og það yngsta aðeins aðeins 6 vikna gamalt þegar eiginmaður hennar lést eftir erfið veikindi. Í viðtali við Mannlíf rekur hún sögu sína eftir að hún giftist Andemariam og segir frá því hvernig líf þeirra umturnaðist eftir að hann var sendur í tilraunaaðgerðina örlagaríku.

Merhawit Baryamikael Tesfaslase.

„Andemariam var sérstakur maður sem þótti mjög vel gefinn, lífsglaður og mikill fjölskyldumaður. Hann var hugulsamur, vinsæll og mjög vel liðinn alls staðar,“ segir Merhawit með söknuði um mann sinn.

Merhawit fæddist í Erítreu árið 1984 og stundaði nám í hagfræði við háskólann í Asmara þegar hún kynntist ungum, glæsilegum og hæfileikaríkum Erítreumanni, Andemariam Taeklesebet Beyene. Þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband í Erítreu 12. janúar 2008 en venjan þar í landi er að konur verði húsmæður og hugsi um börn og bú þegar þær giftast og þannig var það í tilfelli Merhawit. Eiginmaður hennar fór til Íslands ári eftir brúðkaupið til að  stunda meistaranám í jarðvísindum við Háskóla Íslands og vann með náminu hjá Ísor við orkurannsóknir. Til stóð að fara aftur heim til Erítreu vel nestaður að námi loknu og koma með þekkingu sem myndi nýtast í heimalandinu. Andemariam langaði að hjálpa þjóðinni til að nýta jarðhita en innflutt olía er orkugjafi í Erítreu. Það fékk fjölskyldan hins vegar aldrei að upplifa.

Andemariam var sagður hafa astma og hafði fengið lyfjameðferð við honum eftir komuna hingað árið 2009 en þegar hann fékk aukin einkenni frá öndunarfærum leitaði hann til læknis. Hann var sendur í sneiðmyndatöku og þá uppgötvaðist að það var ekki af völdum astmans sem hann var með öndunarerfiðleika heldur var stórt æxli í barkanum sem þrengdi að öndunarveginum. Hann var sendur í skyndi á Landspítalann þegar niðurstöður úr myndatöku lágu fyrir, að sögn Merhawit. Hún vissi þá ekki af versnandi ástandi mannsins síns. ,,Við töluðum saman á Skype á hverju kvöldi og ef eitthvað brá út af létum við hvort annað vita, við sendum skilaboð eða hringdum. En ég heyrði ekkert frá Andemariam í tvo daga,“ segir hún. „Ég varð því mjög hrædd um hann og hélt að hann hefði lent í bílslysi. Með hjálp mágs míns komumst við í samband við Háskóla Íslands og þar var okkur sagt að æxli hefði fundist í barka Andemariams og að hann lægi meðvitundarlaus á Landspítalanum. Hann hafði þá farið í aðgerð þar sem reynt var að fjarlægja æxlið og taka sýni úr því en það fór ekki betur en svo að honum blæddi næstum út. Ég vissi ekkert og allt í einu voru aðstæðurnar svona. Andemariam lá meðvitundarlaus á spítalanum í sex daga. Enginn vissi hvort hann hefði orðið fyrir heilaskaða en sem betur fer var það ekki.“

„Aðgerðin hafði aldrei verið gerð á lifandi manni og þess vegna var hann hræddur og vildi ekki fara í aðgerðina í fyrstu, en það var þrýst á hann.“

Merawith segist hafa saknað eiginmanns síns, einkum eftir aðgerðina og dvölina á Landspítalanum þar sem hann lá alvarlega veikur, en það hafi reynst henni mjög þungbært og því hafi hún viljað sjá hann. ,,Hann kom í mánaðarheimsókn til Erítreu sumarið 2010. Þar gerði hann allt sem venjulegur maður gerir, bæði hljóp um og ærslaðist við elsta son okkar. Enginn hefði getað sagt að þarna færi veikur maður. Hann hefði þurft að fara úr skyrtunni til að það sæist að hann væri með ör á brjóstkassanum eftir skurðaðgerð,“ segir hún en að heimsókn lokinni sneri Andemariam aftur til Íslands þar sem hann vann áfram hjá Ísor og stundaði nám sitt.

„Læknarnir þrýstu á Andemariam að fara í aðgerðina“
Merhawit segir að æxlið í barka Andemariams hafi verið mjög hægvaxandi. Hluti þess hafi verið fjarlægður í aðgerðinni á Íslandi 2009, sem Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlæknir tók þátt í, og við tók geislameðferð til að halda sjúkdómnum í skefjum en Andemariam voru gefin 2-3 ár með sjúkdóminn. Tómas hafði samband við lækna á Massachusetts General-spítalanum í Boston þar sem helsta þekking og reynsla í meðferð krabbameins í barka var til staðar og komu ráðleggingar þaðan um að beita leysimeðferð á æxlið. Þar sem Andemariam var ungur maður í blóma lífsins var hafist handa við að leita ráða um önnur úrræði.

Tómas, sem hafði tekið yfir meðferð Andemariams, leitaði til ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini sem var tekinn til starfa við Karolinska-háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi, en Jan-Erik Juto, yfirlæknir háls-, nef- og eyrnalækninga á sama spítala, hafði vísað Hlyni N. Grímssyni krabbameinslækni, sem hafði upphaflega leitað ráða hjá kollegum sínum á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, á Macchiarini. Í viðtali við Kastljós í desember 2011 sagði Tómas að hann hefði lesið fræga vísindagrein um aðgerð sem Macchiarini framkvæmdi árið 2008 þar sem hann tók barka úr látnum einstaklingi, klæddi hann með stofnfrumum og græddi hann síðan í sjúkling. Það hafði orðið til þess að hann hafði samband við Macchiarini.

Merhawit Baryamikael Tesfaslase ásamt sonum þeirra Andemariams. Líf fjölskyldunnar umturnaðist eftir að Andemariam var sendur í tilraunaaðgerðina örlagaríku.

Ítalski skurðlæknirinn reyndist áhugasamur um sjúklinginn frá Íslandi. Hins vegar gat reynst erfitt að fá barka úr látnum einstaklingi og í tilviki Andemariams var talið að það mundi taka of langan tíma að finna barka sem passaði. Það var aldrei reynt, samkvæmt áreiðanlegum upplýsingum frá Svíþjóð. Andemariam var sendur á Karolinska-háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi til skoðunar og þar var mjög snemma tekin ákvörðun að græða í hann gervibarka, en Macchiarini sagðist hafa gert tilraunir með ígræðslu plastbarka í svín.

Merhawit, ekkja Andemariam, heldur því fram eiginmaður hennar hafi verið ágætlega haldinn á þessum tíma. Til marks um það hafi hann farið með lest til að heimsækja ættingja og vini í Svíþjóð áður en hann fór á Karolinska-háskólasjúkrahúsið.

„Aðgerðin hafði aldrei verið gerð á lifandi manni og þess vegna var hann hræddur og vildi ekki fara í aðgerðina í fyrstu, en það var þrýst á hann,“ segir Merhawit. „Læknarnir sögðu að ef hann færi í aðgerðina myndi hann lifa með gervibarkann í 8-10 ár. ,,Það er öruggt,“ sögðu þeir og ef hann vildi lifa og sjá börnin sín yrði hann að fara í þessa aðgerð. Þeir minntust aldrei á aðra möguleika við hann,“ segir hún, nokkuð sem er staðfest í íslensku Rannsóknarskýrslunni um málið sem gerð var á vegum Háskóla Íslands og Landspítalans. Þar segir: ,,Honum voru ekki kynntir aðrir meðferðarmöguleikar eins og læknum ber að gera eða leiðbeint um fyrirhugaða meðferð skv. 5. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.“

„Læknarnir sögðu að ef hann færi í aðgerðina myndi hann lifa með gervibarkann í 8-10 ár. ,,Það er öruggt,“ sögðu þeir og ef hann vildi lifa og sjá börnin sín yrði hann að fara í þessa aðgerð. Þeir minntust aldrei á aðra möguleika við hann.“

Í Rannsóknarskýrslunni kemur jafnframt fram að tilvísuninni hér á landi hafi verið breytt þannig að aðgerðin var sögð lífsbjargandi. Síðar kom í ljós að engin forsenda hafi verið fyrir tilraunaaðgerðinni og ekkert sem lá fyrir um að hún gæti heppnast, eins og kemur fram í fréttaskýringu um úrskurð Karolinska-stofnunarinnar í Kjarnanum 3. júlí síðastliðinn.

Merhawit bendir á að eiginmaður hennar hafi ekki getað snúið aftur til Erítreu í því skyni að fá læknishjálp því að þar var nauðsynlega sérfræðiþjónustu ekki að fá. Möguleikar hans voru því engir þar og því varð hann að treysta læknum hér og í Svíþjóð. ,,Andemariam bar þá von í brjósti að fá bata og vildi gera allt sem í hans valdi stóð til þess og fór að ráðum lækna sinna,“ segir Merhawit.

Í tilraunaðgerðinni sem gerð var á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu 9. júní 2011 var gervibarki græddur í Andemariam eftir undirbúning sem fólst í að baða barkann í stofnfrumum úr beinmerg hans. Aðgerðin var löng og flókin og um mánuði eftir hana kom Andemariam til Íslands á ný þar sem við tók frekari meðferð í umsjá íslenskra lækna.

Lifði í stöðugum ótta um eiginmann sinn eftir aðgerðina
Á þeim tíma sem aðgerðin var gerð var Merhawit enn í Erítríu og starfaði sem ritari en hún kom með tvo syni þeirra, Brook og Nahom, til Íslands í nóvember 2011, fimm mánuðum eftir aðgerðina örlagaríku, og sá þá Andemariam yngri son þeirra í fyrsta sinn. Á Íslandi bættist svo þriðji drengurinn, Simon, í hópinn og bjó fjölskyldan í lítilli leiguíbúð í Kópavogi. „Eftir að ég kom til Íslands breyttist allt,“ segir Merhawit alvarleg. ,,Mér fannst ég ekki geta tjáð mig nægilega vel og veturinn var harður, ég hafði aldrei kynnst öðru eins. Ég var mikið ein svo ég leitaði til Rauða krossins og hreinlega sagði að ég þyrfti einhvern til að tala við.“ Það gekk eftir. Merhawit getur þess að prestur sem starfaði í Hjallakirkju, Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, hafi líka aðstoðað sig við ýmislegt í daglegu amstri eftir að hún kom hingað og að það hafi hjálpað sér mikið.

„Hann barðist eins og hann gat og bar sig alltaf vel, en hann sá eftir að hafa farið í aðgerðina og var ekki sáttur við læknana sem gáfu honum vonir um betra og lengra líf,“ segir Merhawit.

Þá segir Merhawit að fyrstu 6 mánuðina eftir plastbarkaígræðsluna hafi farið að bera á ýmsum kvillum tengdri heilsu Andemariam. Eða eins og hún orðar það sjálf þá var heilsan „upp og niður“. ,,Andemariam var mjög langt kominn með meistararitgerðina sína og náði að ljúka henni á þessum tíma, en hann var harðduglegur og vinnusamur og vann að ritgerðinni þó að hann væri rúmliggjandi,“ segir hún. „Eftir það lá leiðin niður á við, því gervibarkinn virkaði ekki sem skyldi. Hún tekur fram að eiginmaður sinn hafi þó haft vonir um að honum myndi batna og hann hafi ætíð borið sig vel, sama á hverju gekk, en hann hafi verið hræddur. Það fóru að koma upp ýmis vandamál og Andemariam leið illa. Stundum hélt hann að matur sem hann hafði borðað færi illa í sig eða að hann þyldi hann ekki en það var ekkert betra þótt hann borðaði eitthvað annað. Hann fór endurtekið á spítalann til að láta sjúga upp slím og ég var alltaf að hringja í Andemariam á daginn vegna þess að ég var stöðugt hrædd um hann. Ég var hrædd um hann daga og nætur. Hann fór til dæmis í sturtu og það leið yfir hann og hann var allur útataður í blóði. En Tómas læknir var til staðar fyrir okkur og var mjög hjálplegur,“ segir hún en í Rannsóknarskýrslunni kemur fram að vel hafi verið staðið að eftirmeðferð Andemariams á Landspítalanum.

Síðasta árið, 2013, var mjög erfitt að sögn Merhawit því þá fór verulega að halla undan fæti hjá Andemariam. „Hann var illa haldinn því barkinn aðlagaðist ekki og hann var með stoðnet til að halda barkanum opnum. Eftir fyrri aðgerðina gat hann losað sig sjálfur við slím en eftir plastbarkaaðgerðina var hann háður spítalanum. Hann var meira og minna þar. Hann kom kannski heim í 2-3 daga og svo var hann aftur farinn á spítalann,“ lýsir hún og segir að þegar þarna var komið sögu hafi Andemariam verið orðinn ósáttur. „Hann barðist eins og hann gat og bar sig alltaf vel, en hann sá eftir að hafa farið í aðgerðina og var ekki sáttur við læknana sem gáfu honum vonir um betra og lengra líf.“

„Enginn talaði við mig eftir að Andemariam lést“
Andemariam Beyene lést á á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð 30. janúar 2014. „Hann hafði farið reglulega í eftirlit á Karolinska-háskólasjúkrahúsið og einn daginn hringdi Tómas læknir og sagði að Andemariam væri að deyja,“ segir Merhawit og augun fyllast af tárum. Hún fór í hendingskasti út til Svíþjóðar ásamt Steinunni Arnþrúði presti og var þar við hlið eiginmanns síns þegar hann lést. Merhawit beygir af þegar hún rifjar þetta upp, minningarnar taka augljóslega á.

Andemariam lést því um 30 mánuðum eftir tilraunaaðgerðina. Minningarathöfn var haldin um hann í Hjallakirkju og samstarfsfólk hans hjá Ísor hjálpaði Merhawit við undirbúning hennar ásamt starfsfólki Háskóla Íslands. Andemariam var jarðsunginn í Erítreu og var haft á orði hve óvenjumargir komu til að votta honum hinstu kveðju. „Andemariam elskaði landið sitt og hlakkaði til að koma aftur heim,“ lýsir Merhawit og það er augljóst að minningarnar vekja hjá henni sterkar tilfinningarnar. Óhætt er að segja að heimkoman hafi verið með öðrum hætti en hann ætlaði.

Eftir andlát Andemariam stóð Merhawit uppi ein í nær ókunnu landi með þrjá unga drengi, þann yngsta aðeins 6 vikna gamlan.

„Ég stóð eftir ein með þrjú ung börn, mállaus í landi þar sem ég var ekki í kerfinu og hafði engin réttindi. Ég fékk peninga hjá fólki frá Eþíópíu og Erítreu sem dvaldi hér, til að kaupa smávegis mat, svona 2000-5000 krónur. Mig langaði til að skipta um húsnæði því þar minnti mig allt stöðugt á Andemariam.“

Hún segir að tíminn sem fór í hönd eftir andlát mannsins síns hafi verið mjög erfiður og álagið mikið. „Ég átti til dæmis mjög erfitt með svefn lengi vel. Ég fékk heimsókn frá presti, henni Steinunni. Nágrannakona mín, Árný, reyndist mér líka vel og gætti drengjanna oft og konur á barnaheimilinu Álfaheiði komu og sóttu drengina og fóru með þá á barnaheimilið eftir að Andemariam lést. En enginn frá Landspítalanum hafði samband eftir að Andemariam lést, enginn. Ég fékk enga hjálp eða aðstoð og Tómas læknir hafði aldrei samband,“ segir Merhawit, en fram kemur í DV, 2. júní 2018, að Tómas hafi reynt að hafa upp á ekkjunni í apríl síðastliðnum til að aðstoða hana fjárhagslega til að bæta fyrir þau mistök sín að hafa treyst Macchiarini.

Eftir útförina ákvað Merhawit að flytja sig um set. Hún vildi ekki vera í Erítreu vegna þess hversu fótum troðin mannréttindi eru í landinu, fátækt mikil og ástandið almennt skelfilegt. Hún flutti því til Svíþjóðar þar sem hún vinnur nú fullan vinnudag í skóla til að geta séð fyrir sér og drengjunum sínum.

„Mig langar til að ljúka við námið í hagfræði en eins og er hef ég ekki tíma. Ég vinn fullan vinnudag í grunnskóla, þar sem ég aðstoða börn við reikning og fleira og ég þarf að sinna drengjunum, fara með þeim út að hjóla og svo framvegis.“

Hún segir að þeir séu vel gerðir og klárir drengir sem elski að vera í fótbolta. Eldri synirnir tveir muni eftir pabba sínum og tali um hann daglega. „Þeir muna hversu ástríkur pabbi þeirra var, faðmlögin hans og þegar hann hélt á þeim og lék við þá. Sá elsti talar sérstaklega mikið um pabba sinn og vill feta í fótspor hans og læra jarðvísindi en sá í miðið er skapandi, alltaf að teikna og er mikið í fótbolta. Sá yngsti er enn óskrifað blað,“ lýsir hún og brosir.

Hún segir að eldri strákarnir sakni pabba síns mikið. „Það kemur oft fyrir þegar þeir sjá hávaxinn mann að þeir segja: „Þessi maður er eins og pabbi var.“ Yngsti strákurinn man eðlilega ekki eftir honum og þegar ég segi að hann sjái hann þegar hann deyr, svarar hann: „Ég vil deyja, því þá get ég séð pabba“.“

Merhawit segir að það ætti ekki að vera erfitt að hafa uppi á henni, enda njóti hún ákveðinna réttinda þar sem hún býr, hún sé í starfi og eigi börn á skólaskyldualdri.

Er ekki í felum
Aðspurð segir Merhawit að enn hafi ekki verið haft samband við hana frá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu um mögulegra bótaskyldu vegna mistaka sem gerð voru í máli Andemariams og eru rakin í ýmsum sænskum rannsóknarskýrslum. Vekur það furðu íslensku rannsóknarnefndarinnar eins og kemur fram í íslensku Rannsóknarskýrslunni.

Samkvæmt svari frá Landspítala við spurningu blaðamanns Mannlífs, þá hefur ekki tekist að hafa uppi á Merhawit til að bregðast við ábendingu sem kemur fram í Rannsóknarskýrslunni um að veita henni fjárhagsaðstoð til að verða sér úti um lögfræðing svo hún geti leitað réttar síns, en leitinni muni þó vera haldið áfram. Um þessa aðstoð segir í Rannsóknarskýrslunni: „Ástæðan er ekki síst sú að mál þetta á sér vart neina hliðstæðu á Íslandi og því er ástæða til að Landspítali sýni sérstakt frumkvæði við að leysa úr málinu á sanngjarnan og farsælan hátt fyrir eiginkonu og þrjá syni Andemariams.“

Sjálf segist Merhawit ekki vera í felum og að það ætti ekki að vera erfitt að hafa uppi á henni, enda njóti hún ákveðinna réttinda þar sem hún býr, hún sé í starfi og eigi börn á skólaskyldualdri. Prestur og lögfræðingur, sem fóru að beiðni Íslensku rannsóknarnefndarinnar til Merhawit með gögn, þar á meðal Rannsóknarskýrsluna í enskri útgáfu, gátu að minnsta kosti haft upp á henni, en lögfræðingurinn kom ekki á heimili hennar.

„Yngsti strákurinn man eðlilega ekki eftir honum og þegar ég segi að hann sjái hann þegar hann deyr, svarar hann: „Ég vil deyja, því þá get ég séð pabba“.“

Eftir því sem hún lýsir myndi það létta henni og sonum hennar lífið að fá bætur vegna andláts Andemariams. En plastbarkmálið hefur enn sem komið er lítið snúist um missinn sem fjölskylda hans varð fyrir eða mannréttindi Andemariams, ungs manns sem var sendur í tilraunaaðgerð sem engin forsenda var fyrir, eins og fram kemur í úrskurði rektors Karolinska-stofnunarinnar. Eða eins og Merhawit orðar það: „Það snerist allt um að vernda læknana en enginn talaði við mig.“

Plastbarkamálið: Paolo Macchiarini, snillingur sem sveifst einskis

Saga hins umdeilda skurðlæknis Paolo Macchiarini rakin.

Karolinska-stofnunin í Stokkhólmi hefur löngum verið með virtari læknaskólum en hefur um skeið átt undir högg að sækja í harðnandi baráttu og samkeppni í læknavísindum. Eftir aldamótin síðustu varð uppgangur stofnfrumlækninga í heiminum, þar sem ýmsir höfðu tröllatrú á mikilvægi þeirra í læknisfræði framtíðarinnar. Ráðning ítalska brjóstholsskurðlæknisins Paolo Macchiarinis var liður í að efla og styrkja á ný stoðir og ímynd Karolinska-stofnunarinnar en sérsvið hans var barkaskurðlækningar og vísindastörf á sviði stofnfrumulækninga. Maccharini þótti einstaklega fær skurðlæknir og var upprennandi „stjarna“ í heimi læknavísindanna.

Karolinska-stofnunin réði hann þótt slóð hans væri vörðuð ýmsum miður heppilegum atvikum sem sýndu að snilli læknisins og persónuleiki fóru ekki saman. Hann hefur á bakinu kærur og hefur blekkt háskólastofnanir, lækna og vísindasiðanefndir, og blekkingameistarinn hefur einnig blekkt sína nánustu í einkalífinu. Hann skipulagði brúðkaup með blaðakonu sem hann var í tygjum við þar sem hann hugðist bjóða páfanum, forseta Bandaríkjanna og fleiri fyrirmennum á sama tíma og hann var harðgiftur maður. Hún lét blekkjast. Það gerði hins vegar ekki sænski fréttamaðurinn Bosse Lindquist þegar hann hóf að gera heimildarmynd um Macchiarini sem átti að varpa ljósi á þennan stjörnulækni og framlag hans til læknavísindanna. Þegar á leið fóru að renna á fréttamanninn tvær grímur og hann sá í gegnum blekkinguna. Honum fannst nefnilega margt athugavert við störf og framgöngu Macchiarini. Bosse Lindquist hefur verið verðlaunaður fyrir sjónvarpsþætti sína, Experimenten, og ef hans hefði ekki notið við er eins víst að svik og vísindamisferli Macchiarini og plastbarkamálið, sem við við þekkjum, hefði seint eða jafnvel aldrei komist upp.

Tímalína:
Paolo Macchiarini fæddist í Basel í Sviss 1958. Lærði læknisfræði og í kjölfarið skurðlækningar í Pisa og hefur starfað víða, m.a. í London, Barcelona, Flórens, Hannover og á fleiri stöðum.

2008 Vekur heimsathygli fyrir að græða stofnfrumumeðhöndlaðan barka úr látnum einstaklingi í konu, Claudiu Castillo.

2009-2010 Starfaði á Háskólasjúkrahúsinu í Flórens og græddi barka úr látnum einstaklingum, þakta stofnfrumum, í menn. Hann gerði nokkrar slíkar ígræðslur í Flórens en hrökklaðist þaðan og á yfir höfði sér kærur af hendi háskólasjúkrahússins vegna fjársvika.

2010 Ráðinn af Karolinska-stofnuninni sem gestaprófessor til að stunda grunnrannsóknir á sviði vefjamyndunarlæknisfræði og stofnfrumufræða. Samtímis gegnir hann starfi sem skurðlæknir við Karolinska-háskólasjúkrahúsið (lausráðinn).

2011 Þann 9. júní framkvæmir Macchiarini fyrstu gervibarkaígræðsluna í lifandi einstakling, Andemariam Teklesebet Beyene, sjúkling í umsjá íslenskra heilbrigðisyfirvalda. Þessi brautryðjandi aðgerð var réttlætt þar sem hún var tilraun til að bjarga lífi sjúklingsins. Íslenskur skurðlæknir og prófessor, Tómas Guðbjartsson, tók þátt í aðgerðinni. Sama ár í nóvember kom út vísindagrein (proof-of-concept) í hinu virta læknisfræðitímariti Lancet þar sem þessari fyrstu gervibarkaígræðslu í manneskju er lýst. Læknarnir Tómas Guðbjartsson og Óskar Einarsson eru meðhöfundar.

2012 Annar sjúklingurinn af þremur sem Machiarini gerði á gervibarkaígræðsluaðgerð á Karolinska-háskólasjúkrasjúkrahúsinu deyr.

Málþing er haldið í Háskóla Íslands 9. júní í tilefni að því að eitt ár er liðið frá fyrstu gervibarkaígræðslunni. Paolo Macchiarini, Tómas Guðbjartsson og Andemariam Beyene töluðu á málþinginu. Málþingið hefur verið gagnrýnt.

2013 Karolinska-háskólasjúkrahúsið stöðvar frekari gervibarkaaðgerðir. Ákveðið er að framlengja ekki ráðningarsamning Paolo Macchiarini. Hann heldur þó áfram að framkvæma slíkar aðgerðir í Rússlandi.

2014 Andemariam Beyene, fyrsti sjúklingurinn sem fékk ígræddan gervibarka á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu, deyr í janúar, tæpum þremur árum eftir aðgerðina en honum hafði verið gefin von um að lifa mun lengur.

Í júní sama ár kemur fram gagnrýni á störf Paolo Macchiarinis af belgíska brjóstholsskurðlækninum Pierre Delare fyrir Karolinska-stofnunina. Delare kemst að þeirri niðurstöðu að Macchiarini hefði gerst sekur um vísindalegt misferli. Ýmsar áleitnar spurningar vakna í kjölfarið um störf Macchiarini.

Eftir dauða Beyene komu fjórir læknar, svokallaðir uppljóstrarar (whistleblowers) hjá Karolinska-stofnuninni, fram með efasemdir um gervibarkaígræðslurnar og Macchiarini sjálfan. Í hópnum voru Karl-Henrik Grinnemo, sem hafði aðstoðað Macchiarini við barkaígræðsluaðgerð Beyene árið 2011, og Thomas Fux, sem tók þátt í eftirmeðferð á sjúklingum Macchiarini á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu. Þeir sögðu að Macchiarini hafi farið rangt með árangur sinn af aðgerðunum auk þess að sleppa mikilvægum upplýsingum og oftúlka önnur atriði í vísindagreinunum. Dr. Anders Hamsten, rektor Karolinska-stofnunarinnar, kallaði á utanaðkomandi sérfræðing, dr. Bengt Gerdin, prófessor emerítus við Uppsala-háskóla, til að leiða rannsókn á störfum Macchiarinis.

2015 í maí kemst Bengt Gerdin að þeirri niðurstöðu að Macchiarini sé sekur um vísindalegt misferli í vísindagreinum, m.a. í Lancet-greininni þar sem aðgerð og árangri Andemariam Beyene er lýst.

Ágúst. Hamsten og stjórn Karolinska-stofnunarinnar hafna skýrslu Gerdins og hreinsa Macchiarini af ásökunum um vísindalegt misferli. Segja niðurstöðu sína byggða á ótvíræðum sönnunargögnum sem Gerdin hafði ekki séð og viðbótarupplýsingum. Jafnframt viðurkennir Karolinska-stofnunin að Macchiarini hafi ekki staðist væntingar og kröfur þeirra í vísindum. Samningur við Macchiarini er ekki framlengdur.

2016 í janúar, Experimenten – þættir sænska fréttamannsins Bosse Lindquist eru sýndir í sænska sjónvarpinu (SVT) sem verður til þess að málið er tekið upp aftur. Í febrúar segir Andreas Hamstein af sér sem rektor Karolinska-stofnunarinnar. Yfirstjórn Karolinska segir nokkru síðar af sér vegna málsins og Karolinska-stofnunin er sökuð um að reyna að þagga málið niður og að illa hafi verið staðið að ráðningu Macchiarini, ekki gætt að ferli hans.

Í febrúar, Kjell Asplund, fyrrverandi landlæknir í Svíþjóð og prófessor emerítus við Umeå-háskóla og formaður Sænska ráðsins um læknisfræðilega siðfræði (Swedish National Council on Medical Ethics), gerir rannsókn að beiðni Karolinska-háskólasjúkrahússins á gervibarkaaðgerðum Macchiarinis þar og sendir frá sér skýrslu undir heitinu Fallet Macchiarini. Í skýrslunni kemur fram að vísindaleg forsenda aðgerðanna var á veikum grunni.

Í mars sama ár er Macchiarini rekinn frá Karolinska-stofnuninni.

Rektor Háskóla  Íslands og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, setja á stofn óháða rannsóknarnefnd um þátt stofnananna og og starfsmanna þeirra sem Páll Hreinsson, forseti EFTA-dómstólsins, fer fyrir.

2017, þann 30. okt.Hópur sér­fræð­inga á sviði vís­inda­mis­ferlis innan sænsku siða­nefnd­ar­innar (Centrala etik­prövn­ings­nämnden) lauk rann­sókn á vís­inda­mis­ferli ítalska skurð­lækn­is­ins Paolo Macchi­ar­inis og sendi frá sér yfir­lýs­ingu þess efnis að Macchi­ar­ini og sam­starfs­menn hafi gerst sekir um vísindalegt mis­ferli í tengslum við birt­ingu vísindagreina um plast­barka­að­gerðir sín­ar. Veiga­mesta greinin birt­ist í hinu virta lækn­is­fræði­tíma­riti Lancet og eru tveir íslenskir læknar með­höf­undar að henni. Rann­sóknin var fram­kvæmd að beiðni Karol­inska-­stofn­un­ar­inn­ar.

2017, nóvember. Íslenska rannsóknarskýrslan kemur út og haldinn er blaðamannafundur af því tilefni. Í henni er að finna margar ávirðingar. Í kjölfarið er Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir og prófessor, er sendur í leyfi frá Landspítala og Háskóla Íslands en snýr aftur til starfa um áramótin 2017/2018. Óskar Einarsson lungnalæknir er einnig sendur í leyf en snýr aftur til starfa á undan Tómasi.

2018 í júní kemur úrskurður rektors Karolinska-stofnunarinnar um „vísindalegt misferli“ í vísindagreinum byggðum á gervibarkaígræðslum. Tómas Guðbjartsson er einn af sjö meðhöfundum sem sagður er ábyrgur fyrir „vísindalegu misferli“ í Lancet-vísindagrein og fyrir að hafa breytt tilvísun sem lá til grundvallar tilraunaaðgerðinni. Báðir íslensku læknarnir eru m.a. sagðir hafa „vanrækt skyldu“ sína til að gera athugasemdir við rangfærslur greinarinnar. Háskóli Íslands og Landspítali munu fara yfir skýrsluna og önnur gögn sem komið hafa fram í málinu og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tekur upp málið að nýju.

Mynd: Skjáskot / RÚV

Ærandi afskiptaleysi heilbrigðisyfirvalda

Forsíðuviðtal Mannlífs í dag segir átakanlega sögu. Sögu sem við þekkjum öll frá annarri hlið. Hlið lækna og sérfræðinga í meðferð á manni frá fjarlægu landi. Manni sem ekki þekkti rétt sinn og var ekki fræddur um hvaða aðrir möguleikar stæðu til boða í hans veikindum. Plastbarkamálið svokallaða er skammarblettur á íslensku og sænsku heilbrigðiskerfi og sú hlið sem birtist í viðtalinu við Merhawit Baryamikael Tesfaslase, eiginkonu plastbarkaþegans Andemariams Beyene sem lést af völdum heilbrigðiskerfisins árið 2014, bætir enn svertu í þann skammarblett.

Merhawit upplýsir í viðtalinu að síðan Andemariam lést hafi enginn frá heilbrigðiskerfinu haft samband við hana. Henni hefur ekki verið boðin hjálp af neinu tagi, hún hefur ekki verið upplýst um rétt sinn til bóta vegna dauða Andemariams og hvorki íslensk né sænsk heilbrigðisyfirvöld virðast hafa grennslast af alvöru fyrir um örlög hennar og sona hennar þriggja eftir dauða eiginmanns og föður.

Í skýrslum um málið kemur skýrt fram að Merhawit eigi mögulega rétt á bótum en viðbára heilbrigðisstarfsmanna hefur verið sú að ekki hafi tekist að hafa upp á henni. Það hljómar ekki sérlega sannferðugt því eins og fram kemur í viðtalinu býr hún í Svíþjóð og vinnur þar fulla vinnu þannig að það ætti að vera hægðarleikur að hafa upp á heimilisfangi hennar og símanúmeri með lítilli fyrirhöfn. Það reyndist blaðamanni Mannlífs að minnsta kosti auðvelt að finna þessa „týndu“ konu með lágmarks eftirgrennslan og ansi erfitt að trúa því að starfsfólk Landspítalans hafi lagt sig mikið fram um að hafa upp á henni.

„Er enn verið að reyna að þagga þetta mál niður og gera sem minnst úr því? Láta eins og þessi skelfilegu mistök og fúsk hafi aldrei átt sér stað?“

En hvað ætli valdi þá þessu afskiptaleysi? Gæti hluti af skýringunni verið sá að bæði Merhawit og eiginmaður hennar eru frá Erítríu og að mestu ókunnug vestrænu réttarkerfi og réttinum til bóta? Er áhugi heilbrigðiskerfisins á því að uppfylla þann skýlausa rétt ekkjunnar að fá bætur vegna hrapalegra mistaka lækna í Svíþjóð og einnig á Íslandi ekki meiri en svo að starfsmenn þess láta það dragast von úr viti að hafa samband við hana, skýra henni frá þeim rétti og aðstoða hana við að ná honum fram? Er enn verið að reyna að þagga þetta mál niður og gera sem minnst úr því? Láta eins og þessi skelfilegu mistök og fúsk hafi aldrei átt sér stað?

Við skulum vona að það sé ekki skýringin. En hafi íslensk heilbrigðisyfirvöld minnsta áhuga á því að uppfylla skyldur sínar við fjölskyldu fórnarlambs mistakanna ættu þau að sjá sóma sinn í því að ganga í það mál með hraði. Skömm þeirra er nógu djúpstæð fyrir.

Mynd / Árni Torfason

Raddir