Miðvikudagur 13. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Guli kjóllinn kominn í sölu og rýkur út

|
|

Guli kjóllinn sem Amal Clooney klæddist í konunglega brúðkaupinu hefur verið settur í sölu. Hann selst eins og heitar lummur.

Kjóllinn kostar um 160.000 krónur.

Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney er mikil tískufyrirmynd og vakti athygli í brúðkaupi Harry Bretaprins og Meghan Markle í sumar fyrir klæðaburð. Hún klæddist skærgulum kjól úr smiðju Stellu McCartney og var með hatt í stíl. Á vef Marie Caire er kjóllinn sagður hafa verið sérsaumaður á Amal og var því ekki fáanlegur í verslunum, þar til núna.

Snið kjólsins er í gamaldags anda og klæddi Amal afar vel. Kjóllinn er nú kominn í sölu og er fáanlegur á vefversluninni MatchesFashion.com fyrir upphæð sem nemur 160.000 krónum. Hatturinn er þó ekki til sölu.

Kjóllinn rýkur nú út úr vefversluninni og er uppseldur í flestum stærðum.

Þess má geta að Amal er mikill aðdáandi hönnunar Stellu McCartney og hefur í gegnum tíðina klæðst kjólum, kápum, drögtum og öðru úr smiðju Stellu McCartney.

 

Prófessor við HÍ: „Get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað“

Prófessorinn Sigrún Helga Lund hefur sagt upp starfi sínu sem prófessor í líftölfræði við HÍ vegna framkomu yfirmanna og skólastjórnenda.

Í færslu sem Sigrún Helga Lund, prófessor við Háskóla Íslands, birtir á Facebook í dag segir hún að hún geti ekki hugsað sér að halda áfram að vinna á sama vinnustað vegna viðbragða skólastjórnenda við kvörtun hennar yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi yfirmanns hennar.

„Sumarið 2016 lýsti ég áhyggjum yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi af völdum yfirmanns míns í starfsmannaviðtali. Engin viðbrögð fylgdu þeirri kvörtun, ástandið versnaði ört og þegar það var loks orðið óbærilegt svaraði ég fyrir mig og löðrungaði yfirmanninn. Þá fyrst brást Háskólinn við en á allt annan máta en mig óraði fyrir,“ skrifar hún meðal annars í færslu sína.

Sigrún kveðst hafa útvegað sönnunargögn um alvarlegt ofbeldi og einelti en að ekki hafi verið gerð tilraun til að rannsaka málið. Henni var þá skipað að fara í veikindaleyfi.

Þegar ég neitaði að hlýða var mér hótað áminningu sem HÍ neyddist þó til að láta niður falla enda málið allt á sandi byggt.

Sigrún segir þá frá því að hún hafi kært málið til siðanefndar háskólans og unnið málið. „Nú var málið komið í hendur rektors og í fyrsta sinn bærðist með mér von um réttlæti. Ég fékk fregnir af því að siðanefnd hefði fundað með rektor og beið spennt eftir að heyra nánar frá honum. Fjórir mánuðir liðu og á morgunfundi um jafnréttismál í hátíðarsal HÍ sagði hann: „Hér í Háskóla Íslands höfum við lagt áherslu á að hlusta á sögur kvenna, draga af þeim lærdóm og bregðast fljótt og fumlaust við.” En aldrei heyrðist neitt. Nú er nær hálft ár liðið síðan dómur féll, ekki stakt orð borist frá rektor og allt ástand óbreytt – ef ekki verra. Nú er svo komið að ég get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað.“

Færslu Sigrúnar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Mynd / Háskóli Íslands

„Eyðum ekki jólunum á klósettinu“

Matvælastofnun hefur birt góð ráð varðandi matreiðslu í kringum jólin undir yfirskriftinni „eyðum ekki jólunum á klósettinu“.

Í grein MAST kemur fram að ráðin eru gefin í tilefni þess að nú nálgast jólin og mikið álag er á eldhúsum landsmanna yfir hátíðirnar. Því er fólk hvatt til að tileinka sér hreinlæti og rétta meðhöndlun matvæla. „Hreinlæti, kæling og rétt hitun matvæla er afar mikilvæg svo koma megi í veg fyrir að gestir og heimilisfólk fái matarborna sjúkdóma með tilheyrandi óþægindum,“ segir meðal annars.

Þá kemur fram að nóróveirur geti dreift sér hratt. „Reglulegur handþvottur minnkar líkur á smiti milli aðila eða frá menguðum matvælum.“

Þá er mælt með að forðast að geyma viðkvæm matvæli við stofuhita í langan tíma. „Við 37°C getur ein baktería fjölgað sér í 1000 á 3 tímum og í 1 milljón á 6 tímum. Það er því mikilvægt að geyma og meðhöndla matvæli við það hitastig að komið verði í veg fyrir hraða fjölgun baktería með því að takmarka þann tíma sem viðkvæm matvæli, s.s. reyktur og grafinn fiskur og álegg er á borðum við stofuhita.“

Meðfylgjandi eru svo ráðin frá MAST:

  • Hrátt kjöt og safi úr því skal ekki komast í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum ávexti og grænmeti til að varna því að bakteríur af því berist í matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum hendur áður en hafist er handa við matreiðslu og eftir snertingu við hrátt kjöt og óþvegið grænmeti
  • Þrífum skurðarbretti og áhöld strax eftir notkun eða notum sérstök skurðarbretti fyrir kjöt, grænmeti og tilbúin matvæli
  • Skipuleggjum ísskápinn vel og höldum honum hreinum til að varna því að krossmengun verði þar
  • Skiptum reglulega um borðtuskur, viskastykki og handþurrkur.

Alltaf forðast textaskrif en gefur nú út ævintýrabók

||
||

Karólína Pétursdóttir er lesblind og hefur í gegnum tíðina forðast það að skrifa texta. En nú hefur hún skrifað bók sem er sérhönnuð fyrir lesblinda. Hún kom sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

Hrauney er fyrsta bók Karólínu Pétursdóttur. Bókin er ævintýrabók skrifuð fyrir ungmenni og fjallar um 17 ára stelpu sem kemst yfir í álfaheim. „Þegar hún kemst í álfaheiminn er ekkert auðvelt að komast til baka. Bókin gerist á Íslandi en í annarri vídd,“ segir Karólína um bókina en passar sig að ljóstra engu upp.

Það sem gerir bókina einstaka er að hún er sérhönnuð fyrir lesblinda. Sjálf er Karólína lesblind og hefur oft átt erfitt með að komast í gegnum bækur vegna þess hvernig þær eru uppsettar.

„Ég er lesblind og fólkið sem hefur unnið með mér að Hrauney er meira og minna allt lesblint líka,“ segir Karólína og hlær. „Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp á að lesa. Þannig að mér fannst tilvalið að hanna mína bók með lesblinda í huga,“ útskýrir Karólína.

Letur bókarinnar er hannað fyrir lesblinda og línu- og orðabil er meira en gengur og gerist. Blaðsíður bókarinnar eru einnig gulleitar sem hjálpar lesblindum að sögn Karólínu.

Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp.

Letur bókarinnar er sérhannað fyrir lesablinda.

„Þetta hjálpar svakalega við lesturinn. Þetta letur kostaði aðeins meira en venjulegt letur og bókin varð aðeins lengri heldur en hún hefði þurft að vera. Þannig að allt ferlið varð aðeins dýrara en við gerðum ráð fyrir,“ segir Karólína hlæjandi.

„En það er algjörlega þess virði. Það fólk sem við höfum fengið til að prufulesa bókina fyrir okkur talar um að það haldist betur við lesturinn.“

Kom sjálfri sér á óvart

Bókin er skrifuð fyrir unglinga en Karólína segir söguna vera skemmtilega fyrir alla sem hafa áhuga á ævintýrum.

Karólína segir að fyrir nokkrum árum hefði það aldrei hvarflað að henni að hún myndi skrifa bók. Hún viðurkennir að hún hafi alltaf forðast það eins og heitan eldinn að skrifa texta. Hún kom því sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi skrifa bók. Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar. Ég skrifa ekki einu sinni færslur á Facebook. En þegar Elsa Egilsdóttir vinkona mín stakk upp á að við myndum gefa út unglingabók um álfa og huldufólk þá leist mér vel á það. Ég ætlaði bara að skrifa niður nokkra punkta til að byrja með og fá einhvern annan til að skrifa sjálfa bókina. En áður enn ég vissi af var ég búin að skrifa alla bókina,“ útskýrir Karólína.

Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar.

Karólína var að dreifa bókinni í búðir þegar blaðamaður náði tali af henni. „Tilfinningin við að klára bókina og vera á lokametrunum er rosalega góð. Þetta er búin að vera mikil vinna og það að gefa út bók er ekki beint það auðveldasta sem ég hef gert,“ segir hún og skellir upp úr.

Þess má geta að Karólína teiknaði meirihluta myndanna í bókinni sjálf og Elsa Egilsdóttir var henni innan handar í öllu ferlinu. Elsa hannaði forsíðu bókarinnar.

Rifjar upp skopleg atvik undir myllumerkinu #ársins

Undanfarin þrjú ár hefur Guðmundur Haukur Guðmundsson tekið saman nokkra hápunkta ársins á Twitter undir myllumerkinu #ársins.

Guðmundur Haukur Guðmundsson hefur vakið lukku á Twitter undanfarin ár þegar hann gerir upp árið með myllumerkinu #ársins og rifjar upp skopleg atvik sem vöktu athygli í fjölmiðlum á árinu. Þessa stundina er hann í óðaönn að birta upprifjun fyrir árið 2018 á Twitter.

Spurður út í hvernig þetta verkefni hófst segir Guðmundur: „Ég er með spurningakeppni fyrir félaga mína á hverju ári þar sem spurt er út í árið sem er að líða. Þetta hefur síðan sprungið aðeins út og hefur spurningakeppnin farið víða. Í kjölfarið fór ég að setja þessi kómísku atriði, sem munu ekki skila sér í hina hefðubundnu annála fyrir árið, á Twitter.“

Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því.

Aðspurður hvort þetta sé ekki mikil vinna, að rifja árið svona upp þegar áramótin nálgast segir hann: „Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því. Síðan vinn ég úr því í nóvember fyrir spurningakeppnina og í kjölfarið byrjar þessi yfirferð undir hashtagginu #ársins á Twitter.“

Fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.

Guðmundur hefur alltaf fengið góð viðbrögð við upprifjun sinni á Twitter: „Viðbrögðin í ár hafa verið mun meiri en síðustu ár og almennt bara mjög fín. Sérstaklega vegna þess að fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.“

Meðfylgjandi eru nokkur skopleg atriði sem Guðmundur hefur rifjað upp á Twitter undanfarið undir myllumerkinu #ársins.

Verstu mistökin að missa matinn í gólfið

Sjónvarpsstjarnan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er flestum landsmönnum vel kunn en hún gaf nýverið út bókina Hvað er í matinn. Þar er hægt að finna einfaldar uppskriftir gómsætra rétta fyrir öll kvöld vikunnar.

Hvað er í matinn er þriðja matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar en fyrri bækur hennar, Í matinn er þetta helst og Seinni réttir, komu út fyrir rúmum áratug. Tildrög þess að Jóhanna Vigdís settist aftur við skrifin var matreiðslunámskeið sem hún sótti í Flórens en margir réttanna eru undir ítölskum áhrifum.

„Mig langar líka að hvetja sem flesta áfram í baráttunni gegn matarsóun,“ segir Jóhanna Vigdís aðspurð um hvatann að baki bókinni.

Þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina.

„Ég var með matreiðsluþátt á RÚV árið 2009 eftir að ég gaf út matreiðslubækurnar. Það var svo merkilegt að þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina. Á einhvern hátt er eins og umræðan um mat og matreiðslu sé á hlutlausu svæði. Þegar ég byrjaði að hugsa um þessa bók var fyrsta hugsun mín: Hvað sameinar? Hver er algengasta spurningin á hverju heimili? Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessari ákvörðun, að hafa eitthvað í matinn sem freistar, kætir og sameinar. Þannig varð bókin til.“

Af pönnunni og niður á gólf

Aðspurð um ráð fyrir nýgræðinga innan eldhússins ítrekar Jóhanna Vigdís svo að mikla ekki hlutina fyrir sér.

„Þeir sem eru að halda sín fyrstu jól sjálfir eiga að setja einfaldleikann á oddinn. Hafa til dæmis bara einn rétt eða bara eitthvað sem menn kunna að búa til. Ekki að búa til flækjustig ef það er óþarfi. Jólin snúast fyrst og fremst um samveru og að njóta, og einfaldleikinn er alltaf bestur. Auðvitað gera allir mistök og að mínu mati hafa mín verstu mistök verið að missa matinn í gólfið eins og gerðist hérna um árið hjá mér þegar við Guðmundur vorum nýbyrjuð að búa og systir mín var í mat. Allt fór af pönnunni hægt og rólega niður á gólf, beint á teppið. Við bjuggum til þessar fínu samlokur á eftir.

Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri.

Annars höfum við alltaf kalkún með öllu tilheyrandi á aðfanagadagskvöld. Fylling, heimatilbúið rauðkál, brúnaðar kartöflur og steiktar og sósur við allra hæfi. Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri, sem minn yndislegi tilvonandi tengdasonur á allan heiðurinn af. Heimtailbúinn ís í eftirrétt með möndlu er svo alltaf á sínum stað. Hann er alltaf sá alvinsælasti á mínu heimili, alla daga ársins.“

Meðfylgjandi er uppskrift frá Jóhönnu að risotto, fullkominn forréttur.

Hátíðlegt Saffran-risotto

Risotto er til í ótal myndum, þetta er ein þeirra og hún er virkilega góð. Ef þið notið humar í skel skuluð þið alls ekki henda skeljunum því þær eru frábærar til að sjóða í súpu næsta dag og fá þannig góðan kraft. Ef þið eigið ekki saffran má alltaf bjarga sér með túrmeriki.

Jóhanna borðar risotto með humri í forrétt á jólunum.

humar / risarækja, magn eftir smekk
1 laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
2 msk. smjör
250 g risotto-hrísgrjón
1,2 l grænmetissoð
saffranþræðir
100 g parmesan-ostur

Ef þið eruð með frosinn humar eða risasækju þarf að láta skelfiskinn þiðna. Ef þið eruð með humar í skel, takið þá fiskinn úr skelinni. Skerið lauk og hvítlauk smátt. Hitið olíu og 1 msk. af smjöri í potti og steikið laukana í blöndunni þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Blandið nú ósoðnum hrísgrjónum saman við í smáum skömmtum og setjið grænmetissoð á milli þar til það gufar upp. Það er galdurinn við risotto, að hræra stöðugt en þetta tekur um 20 mínútur. Blandið saffrani saman við svo risottoið fái fallegan lit. rífið parmesan-ostinn yfir og blandið saman við.

Bræðið 1 msk. af smjöri á pönnu og setjið svolítið saffran saman við. Steikið skelfiskinn á öllum hliðum upp úr saffransmjörinu í stutta stund. Blandið öllu saman og berið fram með brauði og parmesan-osti.

Myndir / Magnús Hjörleifsson

Átti í sambandi við Woody Allen 16 ára gömul

Babi Christina Engelhardt kveðst hafa átt í löngu ástarsambandi við leikstjórann Woody Allen. Sambandið hófts þegar hún var 16 ára.

Kona að nafni Babi Christina Engelhardt hefur nú stigið fram og greint frá því að hún og Woody Allen áttu í ástarsambandi í um átta ára skeið. Sambandið hófst árið 1976, þegar hún var 16 ára og Allen 41 árs.

The Hollywood Reporter birti í gær ítarlegt viðtal við Babi. Þar kemur fram að ástarsamband þeirra Babi og Allen hafi hafist í október árið 1976 eftir að þau kynntust á veitingastað í New York. Á þessum tíma starfaði Babi sem fyrirsæta.

Babi kveðst hafa haft frumkvæði að samtalinu þegar hún skrifaði símanúmer sitt á servéttu og afhenti Allen. Eftir það hittust þau reglulega á heimili hans í New York og stunduðu kynlíf. Í viðtalinu segir Babi að hún hafi einnig komið með vinkonur sínar heim til Allen og að þau hafi stundað hópkynlíf.

Hún tekur fram að hún sé ekki að stíga fram og greina frá ástarsambandi sínu við Allen til að koma óorði á leikstjórann. „Ég er að tala um ástarsögu mína. Þetta mótaði mig. Ég sé ekki eftir neinu“.

Þess má geta að Woody Allen var í opinberu sambandi með leikkonunni Miu Farrow frá árinu 1980 til ársins 1992, þegar upp komst að Allen og ættleidd dóttir Farrow, Soon-Yi Previn, áttu í ástarsambandi.

Fyrirtæki Victoriu Beckham rekið með gríðarlegu tapi

Tískufyrirtæki Victoriu Beckham hefur verið rekið með tapi undanfarin ár. Tapið á seinasta ári var upp á 10,2 milljónir punda.

Tískufyrirtæki fatahönnuðarins Victoriu Beckham, sem ber einfaldlega heitið Victoria Beckham, var rekið með miklu tapi á síðasta ári. Þessu er greint frá í frétt á vef BBC.

Þrátt fyrir að sala fyrirtækisins hafi aukist um 17% árið 2017 ef miðað er við sölutölur ársins 2016 var fyrirtækið rekið með 10,2 milljóna punda tapi árið 2017. Það gerir um 1,6 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Árið 2016 var fyrirtækið rekið með tveggja milljóna punda tapi og fjárfestar settu þá aukið fjármagn í reksturinn eða um 30 milljónir punda. Það hefur ekki dugað til að rétta reksturinn af.

Tap fyrirtækisins hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2013 en fyrirtækið var stofnað árið 2008.

Í fréttum af taprekstri tískufyrirtækisins er vísað í ársskýrslu þess. Þar kemur fram að hluthafar ætli nú að leggja aukna áherslu á að draga út tapi og endurskoða reksturinn.

Þess má geta að Victoria Beckham-merkið er selt í flaggskipsverslun Victoria Beckham í Mayfair í London, í vefverslun fyrirtækisins og í um 400 verslunum víða um heim.

Innbrotum fjölgað: 997 innbrot tilkynnt það sem af er ári

Tilkynningum um innbrot hefur fjölgað töluvert undanfarið en 997 innbrot hafa verið tilkynnt það sem af er ári 2018.

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvembermánuð 2018 hefur verið birt. Skýrsluna má sjá á vef lögreglunnar. Í henni er að finna upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu á síðustu 13 mánuður. Tölur skýrslunnar eru þá bornar saman við tölur síðustu þriggja ára.

Í skýrslunni má sjá að tilkynningum um innbrot hefur fjölgað töluvert undanfarið en 997 innbrot hafa verið tilkynnt til lögreglu það sem af er ári 2018. Árið 2017 voru 816 innbrot tilkynnt og árið 2016 voru tilkynnt innbrot 792 samkvæmt skýrslunni.

Í nóvember bárust 142 tilkynningar um innbrot til lögreglu sem er óvenjumikið. Til samanburðar var tilkynnt um 101 innbrot í október. Tölurnar taka mið af innbrotum í fyrirtæki og stofnanir, heimahús, ökutæki og það sem er kallað „annað“ í skýrslunni. Hlutfallslega fjölgaði innbrotum í heimahús mest.

„Fjölgunin skýrist að einhverju leiti af fleiri tilkynningum um innbrotum í geymslur og bílskúra,“ segir á vef lögreglu.

Þess má geta að í byrjun desember varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við því að mögulega væri erlendur brotahópur kominn hingað til lands gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn. „Af þessu tilefni biður lögreglan íbúa á höfuðborgarsvæðinu um að vera vel á verði, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112,“ segir á vefnum.

BBC fjallar um álfatrú Íslendinga

Í grein á BBC er fjallað um álfatrú Íslendinga og greint frá því að stórt hlutfall landsmanna trúi á álfa ef marka á könnun frá árinu 2007.

Í ferðagrein sem birtist á vef BBC í dag er fjallað um álfatrú Íslendinga. Greinin er byggð að hluta til á könnun frá árinu 2007 sem framkvæmd var af þjóðfræðinemum við Háskóla Íslands. Í umfjöllun BBC segir að niðurstaða könnunarinnar hafi leitt í ljós að um 62% Íslendinga telja að álfar séu til.

Þá er rætt við íslensku tónlistarkonuna Jófríði Ákadóttur og hennar álfatrú.

Jófríður segir blaðamanni frá stórum stein sem stóð á lóð í íbúðarhverfi í Reykjavík. Hún og vinir hennar trúðu að steinninn væri álfasteinn þegar þau voru krakkar. „Við vorum viss um að þetta væri álfasteinn og að við ættum ekki að trufla álfana. Hann var tvistar sinnum stærri en ég,“ sagði Jófríður sem einn daginn klifraði upp á steininn með herkjum.

Þegar ég lenti þá beit ég í vörina á mér og blóðið fossaði.

„Vinir mínir vöruðu mig við og sögðu þetta slæma hugmynd. Ég hoppaði niður og þegar ég lenti þá beit ég í vörina á mér og blóðið fossaði úr munni mínum. Ég hljóp heim grátandi og snerti þennan stein aldrei aftur.“

Blaðamaður BBC segir sögu Jófríðar alls ekki einstaka og að margir Íslendingar hafi svipaðar sögur að segja.

Þá er vísað í álfasögur Magnúsar Skarphéðinssonar og Sigtryggs Baldurssonar.

Greinina má lesa hér.

Oft löng og hlykkjótt leið og miklar tilfinningar

Nýjasta lína Farmers Market leit nýverið dagsins ljós. Bergþóra Guðnadóttir, yfirhönnuður Farmers Market, segir línuna vera ívið rómantískari heldur en eldri línur merkisins.

Aðspurð hvaðan innblásturinn kom segir Bergþóra: „Eins og ég hef gert hingað til held ég áfram að leika mér að arfinum og gera tilraunir með efni, form og mynstur. Litirnir eru sóttir í náttúruna, sem fyrr, en að þessu sinni er ég mjög upptekin af sterkum litum sem finnast á jarðhitasvæðum eins og í Landmannalaugum. Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í þessari línu.“

Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í nýjustu línu Farmers Market.

Blómamynstur er áberandi í nýju línunni. „Ég er mikið fyrir blóm en hef ekki unnið með þau sem mynstur fyrr en núna. Þannig að nýja línan mín sem ber nafnið Blómsturvellir er í dálitlu uppáhaldi. Þar hef ég látið búa til blómamynstur í jarðhita-litatónunum mínum og prenta á silki og viskós. Þar að auki erum við með nýja spari ullarsokka sem einnig eru blómum prýddir,“ útskýrir Bergþóra.

Nýja línan er ívið rómantískari en eldri línur merkisins.

Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í þessari línu.

„Ég hef verið að vinna að þessari línu í eitt og hálft ár og núna seint í haust var hún loks öll tilbúin og komin í verslanir. Það er oft löng og hlykkjótt leið og miklar tilfinningar frá hugmynd að tilbúinni vöru,“ segir Bergþóra.

Taka ekki óþarfa áhættu

Fyrsta lína Farmers Market kom út árið 2005. Síðan þá hefur merkið fest sig í sessi og flestir fagurkerar landsins ættu að kannast við fötin frá Farmers Market.

Flestir fagurkerar landsins ættu að kannast við fötin frá Farmers Market.

Spurð út í hver sé galdurinn að þessum farsæla rekstri segir Bergþóra: „Við höfum alltaf passað okkur á að sníða okkur stakk eftir vexti. Við erum bara tveir eigendur og það vill þannig til að við erum líka hjón svo að það er mikið í húfi fyrir okkur að taka ekki óþarfa áhættu. Þar að auki erum við bæði listamenntuð svo að viðskiptaeðlið er okkur ekki í blóð borið og við höfum orðið að tileinka okkur með tímanum.“

Við höfum alltaf passað okkur á að sníða okkur stakk eftir vexti.

Á þessum 13 árum hefur fyrirtækið vaxið hægt og rólega. „Fyrir utan hönnunarstúdíóið mitt rekum við tvær verslanir og vefverslun þannig að gott starfsfólk er lykilatriði og þar höfum við verið afar lánsöm bæði hvað varðar starfsfólk hér heima og samstarfsfólk erlendis,“ útskýrir Bergþóra. Hún bætir við að á þessu 13 ára tímabili hafi margt breyst í bransanum.

Myndir af nýju línunni tók Ari Magg.

„Það er margt sem hefur breyst frá því að við byrjuðum tveimur árum fyrir hrun. Það hafa orðið til mörg spennandi fyrirtæki og stórir draumar. Sum hafa lifað en önnur ekki svona eins og gengur og gerist. Það jákvæða að mínu mati er að íslenska hönnunarsenan virðist vera að slíta barnsskónum og ég held að hún geti orðið okkur mikilvægari en við gerum okkur grein fyrir núna. Mér finnst alltaf gaman að bera hönnunarsenuna saman við íslensku tónlistarsenuna sem er svona 20 árum á undan og hefur verið okkur afar dýrmæt.“

Myndir af nýjustu línu Farmers Market / Ari Magg

Tíu góð ráð fyrir barnaafmælið

|
|

Matarbloggarinn María Gomez deilir góðum ráðum sem koma sér vel fyrir þá sem eru að halda barnaafmæli.

María Gomez er snillingur í að halda veislur og er gestrisin með eindæmum. Á dögunum hélt hún glæsilegt afmæli fyrir dóttur sína sem varð þriggja ára. Veislan heppnaðist afar vel og fengum við því Maríu til að gefa lesendum góð ráð sem ættu að koma sér vel fyrir þá sem eru að fara að halda barnaafmæli.

„Heimagert gúmmelaði og þema í takt við áhugasvið barnsins er eitthvað sem ég legg ríka áherslu á þegar ég held barnaafmæli,“ segir María.

„Ég spyr kakkana mína alltaf hvernig köku þau vilja hafa og fæ oft mjög skýr svör,“ útskýrir María sem sníðir gjarnan afmælisþema í kringum afmæliskökuna sem börnin hennar biðja um. „Það dugir oft að hafa bara köku og servíettur í saman þema og þá er þetta komið.“

María tekur fram að það sé óþarfi að flækja hlutina. „Mér finnst að fólk eigi að njóta ferlisins og fara sínar leiðir í þessum málum. Ekki láta ýktar veislur, sem sjást oft á samfélagsmiðlum, hafa áhrif á það hvernig þeirra barnaafmæli á að vera.“

Mér finnst að fólk eigi að njóta ferlisins og fara sínar leiðir í þessum málum.

Meðfylgjandi eru tíu góð ráð fyrir barnaafmælið:

1 – Byrjið undirbúninginn snemma, um það bil tveimur vikum fyrr. Þá er gott að vera búin að ákveða hvernig afmælisköku þið ætlið að hafa og svo er tilvalið að kaupa diska, skraut og servíettur í kringum kökuna.

2 – Byrjið að baka kökubotna og annað sem hægt er að frysta snemma. Ég t.d. gerði litlar kjötbollur í viku fyrir afmælið. Þær frysti ég hráar og tók út daginn áður og eldaði á afmælisdaginn í ofni. Takið svo út kökubotnana daginn áður og skreytið kvöldið fyrir veisluna. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta léttir lífið að gera þetta svona.

3 – Ekki vera hrædd við að nota tilbúið kökumix á borð við Betty Crocker. Það er til gott úrval af slíku kökumixi sem bragðast afskaplega vel.

4 – Ef þið eruð ekki góð í að skreyta kökur má kaupa allskyns sniðugar sykurmassamyndir sem sett er ofan á kökuna. Svo er líka hægt að láta prenta mynd á sykurmassa til að setja á kökuna. Þá er líka hægt að kaupa tilbúin smjörkrem. Og ekki örvænta þó að kakan líti ekki út eins og hún sé keypt úti í bakaríi því það er langfallegast að sjá heimagerðar kökur foreldra sem gerðu sitt besta til að búa til fína köku handa barninu sínu.

Ekki örvænta þó að kakan líti ekki út eins og hún sé keypt úti í bakaríi.

5 – Ef þið treystið ykkur ekki í kökubaksturinn sjálf er ekkert að því að kaupa tilbúna köku og annað hvort skreyta sjálf eða kaupa hana tilbúna út í búð.

6 – Hafið meira af heitum réttum en kökum því þeir eru alltaf vinsælastir.

7 – Gerið heitu réttina daginn áður ef það er möguleiki. Ég mæli samt ekki með að gera rúllutertubrauðréttina fyrr en samdægurs.

8 – Dekkið borðið og skreytið ekki seinna en deginum fyrir afmælið.

9 – Leyfið afmælisbarninu að taka sem mestan þátt í undirbúningi og ferlinu því það gerir ofboðslega mikið fyrir barnið. Það skapar fallegar og góðar minningar.

10 – Að lokum reynið að njóta undirbúningsins. Ef þið gerið þetta allt tímanlega þá verður allt ferlið svo miklu skemmtilegra og maður nær að njóta afmælisins betur.

María deilir hér uppskrift að bragðsterkum brauðrétt sem hún segir fullkominn í barnaafmæli.

Bragðsterkur brauðréttur

Þessi réttur hentar vel í barnaafmæli.
  • 1 piparostur
  • 1 mexico-ostur
  • ca 100 gr rjómaostur
  • 4-5 dl matreiðslurjómi
  • 1 box af sveppir (250 gr)
  • 100 gr pepperoni
  • 1 beikonbréf
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1/2 fransbrauð, tætt niður
  • Ananasdós
  • Rifinn ostur

Aðferð:

  1. Ostarnir og rjóminn eru settir í pott og bræddir, sýrða rjómanum síðan hrært saman við.
  2. Rífið brauðið niður og setjið í eldfast mót.
  3. Sveppir og beikon steikt á pönnu og raðað ofan á brauðið.
  4. Ananas skorin smátt og stráð yfir allt saman
  5. Pepperoni stráð þar ofan á og ostablöndunni hellt yfir.
  6. Að lokum er rifnum osti stráð yfir allt og gott er að setja ögn af papríkudufti yfir
  7. Bakað í ofni við 200°c í u.þ.b. 20-30 mínútur eða þar til allt er orðið gyllinbrúnt

Mynd af Maríu / Unnur Magna
Mynd af brauðrétt / María Gomez

Sjá einnig: Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

„Bara rosalega þakklát og stolt líka“

|
|

Ásta Hafþórsdóttir leikgervahönnuður hefur verið að gera það gott í Noregi síðustu ár og unnið þar að hverju stórverkefninu á fætur öðru. Fram undan eru ýmis spennandi verkefni.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er stórframleiðandinn HBO Nordic um þessar mundir að vinna að nýrri spennuþáttaröð með Ágústu Evu Erlendsdóttur og Jóhannesi Hauki Jóhannssyni, sem kallast Beforeigners (Fremvandrerne). Þetta er ein umfangsmesta sjónvarpsframleiðsla sem Norðmenn hafa ráðist í en þau Ágústa Eva og Jóhannes Haukur eru ekki einu Íslendingarnir sem koma að verkinu því Ásta Hafþórsdóttir leikgervahönnuður vinnur að þáttunum og í samtali við Mannlíf segir hún að hún hafi verið hvort tveggja í senn skapandi og krefjandi ferli.

„Þetta eru náttúrlega 120 leikarar og 2000 aukaleikarar, þannig að getur rétt ímyndað þér það,“ segir hún og hlær. „Fyrir utan það þá koma persónur þáttanna frá mismunandi tímabilum, alveg frá steinöld til dagsins í dag og þ.a.l. liggur heilmikil heimildavinna á bakvið útlit hverrar persónu,“ bætir hún við en í þáttunum leika Jóhannes Haukur og Ágústa Eva víkinga sem skjóta skyndilega upp kollinum í Noregi nútímans og í kjölfarið kemur í ljós að þau eru tímaflakkarar.

Þetta eru náttúrlega 120 leikarar og 2000 aukaleikarar, þannig að getur rétt ímyndað þér það

„Í framrás þáttana aðlagast þau, og fleiri persónur sem koma úr fortíðinni, samfélagi nútímans og einn hluti af minni vinnu var að sýna myndrænt hvernig það gerist, með breytingum á útliti,“ útskýrir Ásta.

Orðuð við Óskarinn

Beforeigners er ekki fyrsta stórverkefnið sem Ásta kemur nálægt því hún á að baki langan og farsælan feril í kvikmyndabransanum, bæði hér á Íslandi og í Noregi þar sem hún hefur verið búsett frá árinu 2010. Hún segir að á þeim tíma séu verkefnin í Noregi mörg hver búin að vera skemmtileg og auk þess mjög ólík, allt frá ævintýramyndum fyrir börn upp í stórslysamyndir (Bølgen/The Wave og Skjelvet). Eiginlega sé erfitt að gera upp á milli þeirra en ef hún eigi að nefna tiltekin verkefni sem standi upp úr þá séu það einna helst tvö.

Annars vegar Netflix-víkinga-þættirnir Norsemen, vegna þess hversu mikla vinna þurfti að leggja í útlit persónanna þrátt fyrir lítið fjármagn, sem hafi verið gríðarleg áskorun. Hins vegar seinni heimsstyrjaldar kvikmyndin The 12th Man (Den 12. Mann) þar sem aðalpersónan, maður á flótta undan nasistum, missir m.a. fingur og tær og léttist um heil 20 kíló sem þurfti allt að leysast með sminki.

Stilla út Netflix-þáttunum Norsemen.

„Ætli The 12th Man sé ekki skemmtilegasta og mest krefjandi verkefni sem ég hef nokkurn tímann tekið mér fyrir hendur,“ segir hún en þess má geta að myndin hefur hlotið góða dóma víða erlendis og hefur Ásta verið orðuð við tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir sinn hlut. Hvort sem af verður eða ekki segir hún það vera mikinn heiður, eiginlega alveg magnað bara það eitt að hún skuli koma til greina. „Ég er bara rosalega þakklát fyrir það og stolt líka.“

Saknar vina og vandamanna á Íslandi

Aðspurð hvað hafi orðið til þess að hún flutti til Noregs á sínum tíma svarar Ásta að rétt eftir hrun hafi sér boðist vinna þar við sjónvarpsþætti sem til stóð að taka í fimm mánuði og hún hafi ákveðið að láta slag standa. Upp úr því sé hún búin að hafa nóg að gera enda þyki hún fær á sínu sviði og svo hafi hún einfaldlega verið „á réttum stað á réttum tíma“ þegar góð tækifæri buðust sem hafi opnað enn fleiri dyr í bransanum.

Síðustu ár sé búið að vera brjálað að gera og nú sé tími til kominn að slaka aðeins á og njóta árangursins, velja verkefnin vel og gefa sér meiri tíma í þau. Nokkur spennandi verk séu fram undan, m.a. vinna við forleik (prequel) Norsemen og endurgerð hinnar rómuðu myndar The Emmigrants (Utvandrarna, 1971). Þess utan segist Ásta ætla að finna stund milli stríða til að sinna betur uppbyggingu eigin fyrirtækis, Makeup design studio (www.makeupdesignstudio.no) sem hún á og rekur ásamt hægri hönd sinni Dimitru Drakopoulo.

En saknar hún þess aldrei að búa og starfa á Íslandi? „Jú, ég sakna vina minna og fjölskyldu mikið, þ.m.t. „bíó-fjölskyldunnar“, sem ég vann með í fimmtán ár og fyrstu árin var ég alltaf á leiðinni heim. En svo eignaðist ég tvíbura og gat ekki hugsað mér að vera einstæð móðir í bransanum heima. Vinnuumhverfið hér úti er bara hentugra, ég þarf t.d. ekki að vera verktaki heldur get ég verið launþegi sem felur í sér mikið öryggi, vinnudagarnir eru styttri og launin betri,“ segir hún en tekur fram Íslendingar séu hins vegar meiri atvinnumenn en Norðmenn á sumum sviðum, m.a. þegar kemur að aðbúnaði starfsmanna.

Í augnablikinu er fremur ólíklegt að ég snúi heim.

„Ég þurfti t.d. að setja það sem skilyrði fyrir þessu verkefni sem ég er í núna að ég fengi smink-rútu,“ segir hún. „Svoleiðis er ekki til í Noregi.“

Ertu þá alveg búin að skjóta rótum þarna úti? „Ja maður veit náttúrlega aldrei hvað gerist en í augnablikinu er fremur ólíklegt að ég snúi heim. Mér sýnist ástandið vera erfitt fyrir marga á Íslandi,“ segir hún en kveðst svo allt eins til í að prófa að búa á einhverjum heitari stað. „Ég er alltaf að skoða þá möguleika.“

Punkturinn yfir i-ið er glimmer og glans

Lily Depp skartaði glæsilegri förðun á rauða dreglinum í Cannes.

Það má með sanni segja að Lily Depp hafi dottið í genalukkupottinn en mamma hennar er Vanessa Paradis og pabbinn Johnny Depp.

Við kolféllum fyrir förðun hennar á rauða dreglinum í Cannes en hversu viðeigandi er gylltur augnskuggi og kattar-eyeliner við nude varir á þessum árstíma? Punkturinn yfir i-ið er svo glimmer og glans á réttum stöðum.

Hér eru þær snyrtivörur sem förðunarfræðingur Vikunnar mælir með til að framkalla þessa kynþokkafullu förðun.

Liturinn Spanish Pink frá Tom Ford er hinn fullkomni nude-varalitur.
Liturinn Moonstone frá Becca er í uppáhaldi hjá mörgum og er hinn fullkomni highlighter litur.
Við elskum Pillow Talk-varablýantinn frá Charlotte Tilbury til að ramma varirnar inn og þær virka stærri.
Fyrsta Naked-augnskuggapallettan frá Urban Decay hættir í framleiðslu. Nú fer hver að verða síðastur að næla sér í þetta klassíska eintak. Litirnir í henni henta fullkomlega í þetta útlit.
Face and Body frá MAC er léttur og náttúrulegur farði
Lash Paradise er einn mest seldi maskari í heiminum í dag. Augnhárin sýnast þykkari til muna.
Blautur kinnalitur býr til einstaklega frísklegt útlit. Pot Rouge frá Bobbi Brown má nota á varir og kinnar.
Slide On – augnblýanturinn frá Nyx er tilvalinn í vatnslúíu augnanna.
La Base Pro Hydra Glow frá Lancôme er ljómandi farðagrunnur sem nærir húðina.

Játaði að hafa myrt fyrrverandi konu sína og tengdamóður

Maður að nafni Janbaz Tarin hefur játað að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína og tengdamóður.

21 árs maður að nafni Janbaz Tarin hefur játað að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína, Raneem Oudeh, og tengdamóður sína, Khaola Saleem, í ágúst. Konurnar stakk hann fyrir utan heimili Saleem, í enska bænum Solihull, með þeim afleiðingum að þær létust.

Tarin og Oudeh voru gift en Oudeh sótti um skilnað þegar hún komst að því að eiginmaður hennar átti aðra konu og fjölskyldu í Afganistan. Tarin er sagður hafa verið ofbeldisfullur gagnvart Oudeh á meðan þau voru saman og eftir að Oudeh sleit sambandinu hélt hann áfram að áreita hana. Hún sótti um nálgunarbann á hann. Þess má geta að þau Tarin og Oudeh giftu sig að íslömskum sið en hjónabandið var ekki löggilt í Englandi.

Í frétt BBC segir að Tarin hafi eytt deginum sem morðið átti sér stað í að hafa uppi á mæðgunum. Þær höfðu hringt í lögregluna og óskað eftir aðstoð rétt áður en Tarin réðst á þær. Þegar lögregla kom á vettvang voru mæðgurnar látnar. Oudeh skilur eftir sig tveggja ára son.

Málið er til rannsóknar er Tarin hefur játað verknaðinn.

Mynd / af vef BBC

Segja auglýsinguna vera „alvarlega árás á atvinnurekendur“

Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Samtaka verslunar og þjónustu eru ekki hrifin af nýjustu auglýsingu VR.

Ný auglýsing frá stéttarfélaginu VR fer fyrir brjóstið á Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu og Margréti Sanders stjórnarformanns SVÞ. Að þeirra mati er auglýsingin ekki í takt við raunveruleikann.

Í auglýsingunni má sjá Georg Bjarnfreðarson, karakter sem birtist fyrst í  Næturvaktinni, sem verslunareiganda sem fer heldur illa með starfsmann sinn. Í auglýsingunni er fólk minnt á að kynna sér réttindi sín í desember. Þau Andrés og Margrét segja skilaboð auglýsingarinnar vera „alvarlega árás á atvinnurekendur“. Þetta segja þau í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt,“ segir meðal annars í pistlinum.

Pistil Andrésar og Margrétar má lesa í heild sinni á vef SVÞ.

Ekki allir sem halda gleðileg jól

Bloggararnir á Pigment.is standa þessa stundina fyrir jólahappdrætti til styrktar sjálfsvígsforvarnasamtökunum Píeta. Með happdrættinu er vakin athygli á að margir eiga um sárt að binda í kringum jólahátíðina.

„Okkur finnst rosalega gaman að gleðja lesendur en langaði að ganga skrefinu lengra og láta gott af okkur leiða þetta árið,“ segir Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir, stofnandi og eigandi Pigment.is, um jóladagahappadrætti sem bloggarar á Pigment.is standa fyrir.

Um jólahappdrætti til styrktar sjálfsvígsforvarnasamtökunum Píeta er að ræða. Samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi.

„Jólin er tími gjafaleikja og verslanir og áhrifavaldar eru að stofna til margra slíkra. Við höfum alltaf staðið fyrir vinsælu jóladagatali sem þúsundir hafi tekið þátt í en þetta árið langaði okkur að bjóða upp á tilgangsmeiri leik,“ útskýrir Gunnhildur.

Jólin ekki gleðileg hjá öllum

Gunnhildur bendir á að ekki séu allir sem halda gleðileg jól og það má ekki gleymast. „Við höfum það flest blessunarlega gott um jólin en það eru þó margir þarna úti sem finnast þeir vera einir og hafa engan til að tala við. Skammdegið hefur líka slæm áhrif á margt fólk. Við viljum hvetja þá sem þurfa á því að halda að leita sér hjálpar,“ segir hún.

Við viljum hvetja þá sem þurfa á því að halda að leita sér hjálpar.

Sjálf missti Gunnhildur vin árið 2014. Hann svipti sig lífi og þess vegna langaði Gunnhildi að styrkja Píeta samtökin. „Mig langaði að styrkja Píeta, sérstaklega í ljósi þess að þessi vinur minn lagði mikið upp úr því að hjálpa öðrum og vildi vera til staðar fyrir fólk sem leið illa, sérstaklega um jólin. Hann hélt til dæmis tvisvar sinnum jól fyrir fólk sem hafði engan stað til að vera á,“ segir Gunnhildur.

Gunnhildur hvetur fólk til að taka þátt í jólahappdrætti Pigment.is enda sé til mikils að vinna, til dæmis eru úlpur og snyrtivörur meðal vinninga. „Samstarfsaðilar okkar hafa útvegað glæsilega vinninga. En við minnum auðvitað á að þó svo að allir hreppi ekki vinning þá er fólk að styrkja rosalega gott málefni með því að taka þátt,“ segir Gunnhildur glöð í bragði.

Áhugasamir geta lesið leikreglurnar á vef Pigment.is.

Átta milljarðar fram úr áætlun

Aðsend mynd

Vaðlaheiðargöngin verða formlega opnuð 12. janúar nk. en umferð verður hleypt fyrr í gegn. Verklok voru áætluð tveimur árum fyrr en gangagerðin hófst sumarið 2013 og hefur því tekið rúmlega fimm ár. Óvænt fossaði bæði heitt og kalt vatn úr berginu í miðjum framkvæmdum sem stöðvuðust í meira en eitt samfellt ár á tímabilinu.

Kostnaður var metinn 9 milljarðar en nú er búist við að framkvæmdin hafi kostað um 17 milljarða að mati stjórnarformanns Vaðlaheiðarganga hf., Hilmars Gunnlaussonar. Fyrirtækið er að megni til í eigu Akureyrarkaupstaðar og KEA á móti rúmum 40 prósentahlut ríkisins.

Árið 2012 lánaði ríkið til framkvæmdarinnar 8,7 milljarða og síðar aftur 4,7 milljarða. Hilmar sagði í viðtali í 21 að langtímafjármögnun þyrfti og leitað yrði til ýmissa sem hafi trú á verkefninu þegar göngin verða komin í fulla umferð.

Göngin sem eru 7,2 km milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km. Gjald verður 1500 krónur fyrir fólksbíl en frá 700 upp í 1250 séu fleiri ferðir keyptar í einu.

Hvaða menn eru þetta?

LEIÐARI Árið 2009 var gerð breyting á íslenskum hegningarlögum og kaup á vændi gerð ólögleg. Fram að því hafði seljendum verið refsað en þarna varð sú tímamótabreyting á að í stað þess að líta á fólk í vændi sem glæpamenn var hinu ámælisverða snúið upp á þann sem gat hugsað sér að nýta sér neyð þeirra. Þessi leið löggjafans var umdeild og er enn. Þær raddir heyrast enn að vændi sé elsta atvinnugreinin, að fólk eigi að vera frjálst að því að selja líkama sinn, sýnist því svo og mun verra væri fyrir konur að þræla sér út fyrir skítalaun í ömurlegu starfi. Allt ofangreint er hins vegar frámunalega heimskulegt. Í fyrsta lagi eru engar haldbærar sannanir fyrir því að fólk hafi selt aðgang að líkama sínum frá ómunatíð og til eru mörg frumstæð samfélög þar sem vændi er ekki til. Svo er líka undarlegt að telja að vegna þess að eitthvað hafi viðgengist lengi sé það í lagi. Fólki er frjálst að fara með líkama sinn að vild en eftir því sem þekking manna á högum þeirra er stunda vændi eykst því augljósara er að fæstir kjósa þetta. Einhvers konar nauðung er nánast alltaf grundvallarástæða. Sár fátækt býr að baki í mörgum tilfellum, vændi er einnig algeng leið til að fjármagna fíkn og sumir eru gerðir út af samviskulausu fólki sem hirðir stóran hluta ágóðans.

„Fólki er frjálst að fara með líkama sinn að vild en eftir því sem þekking manna á högum þeirra er stunda vændi eykst því augljósara er að fæstir kjósa þetta.“

En hvaða manneskjur eru það sem fara út og geta hugsað sér að kaupa kynlífsþjónustu af niðurbrotnu fólki og horuðum unglingskrökkum með sprautuförin í olnbogabótinni og sársauka í augunum? Ef marka má nýlegar sænskar og bandarískar rannsóknir eru það Jói í næsta húsi sem var svo elskulegar að keyra stelpuna þína á fótboltaæfingu, geðþekki maðurinn í fimmtugsafmæli bestu vinkonu þinnar og hann Nonni sem er alltaf svo hress í vinnunni eða kennari sonar þíns. Einstaklingar sem eiga fjölskyldur, sinna börnunum sínum af kostgæfni, vinna sjálfboðastörf hjá góðgerðafélögum og eru virtir fagmenn. En sjá ekkert athugavert við að draga upp veskið og borga nokkra skitna þúsundkalla fyrir að fá að þröngva sér inn í líkama annarrar manneskju og sumir hverjir telja sig eiga inni að fá að misþyrma þeim í ofanálag.

Líkt og þrælahaldarar fyrri tíma sjá þeir ekkert athugavert við að notfæra sér annað fólk á allan þann máta er hentar þeim. Peningar hafa skipt um hendur og þeim sem lét þá af hendi er þar með veitt frítt spil til að krefjast alls, eira engu og ganga eins langt og honum sýnist. Er eitthvað undarlegt að sjálfsmorð séu algengari meðal kvenna í vændi en nokkurs annars hóps? Er skrýtið að fólk í vændi deyfi sig með vímuefnum? Margar manneskjur ná sér aldrei, hvorki andlega né líkamlega, eftir viðskipti sín við vændiskaupendur. Sama hvað þær reyna þá þeir sitja í tauga- og vöðvaminni líkamans og í sálinni. Þess vegna eru vændiskaup ólögleg á Íslandi, við viljum ekki samfélag þar sem svona ofbeldi líðst.

 

Steik fyrir sælkera

|
|

Jólin eru sá tími sem fólk er hvað vanafastast með sinn mat en alltaf er gaman að reyna að koma á óvart með einhverjum litlum nýjungum, þarf ekki að vera mikið; ný sósa, nýr kryddhjúpur á kjötið eða nýjar kartöflur. Um að gera er að festast ekki alltaf í því sama. Hér er jólasteikin færð í nýjan búning.

Fátt jafnast á við góða lambasteik.

INNBAKAÐ LAMB MEÐ SVEPPUM OG BEIKONI
fyrir 4
Hérna er á ferðinni réttur sem er í líkingu við Wellington-naut sem er vel þekktur nautaréttur en í stað nautsins nota ég lamb og í stað hráskinkunnar nota ég beikon. Þessi réttur er mjög hátíðlegur og fullkominn fyrir fólk sem vill ekki naut eða vill hreinlega breyta aðeins til.

800 g lambainnralæri, í 200 g steikum
1 askja sveppir, saxaðir
200 g þykkar beikonsneiðar, skornar í litla bita
10 g brauðraspur
15 g steinselja
4 blöð smjördeig
1 egg
olía
salt og pipar

Hitið ofn í 200°C. Steikið sveppina og beikonið þar til það verður vel stökkt, bætið brauðraspinum og steinseljunni saman við og kælið þetta síðan. Brúnið lambakjötið vel á heitri pönnunni á öllum hliðum í 3 mín. Takið af og leyfið að rjúka aðeins úr því. Skerið smjördeigið í tvo hluta, þannig að þið fáið 8 bita, og fletjið það örlítið út með kefli. Komið fyllingunni fyrir á smjördeigsbita, leggið steikina ofan á og setjið meiri fyllingu ofan á kjötið. Setjið annan bita af smjördeigi yfir og þéttið vel með endunum allan hringinn. Endurtakið þar til þið hafið fengið nógu margar steikur. Penslið með eggi, setjið á plötu og bakið í 20 mín. Takið út og leyfið að hvíla í 8 mín. áður en skorið.

Umsjón / Hinrik Carl Ellertsson
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Guli kjóllinn kominn í sölu og rýkur út

|
|

Guli kjóllinn sem Amal Clooney klæddist í konunglega brúðkaupinu hefur verið settur í sölu. Hann selst eins og heitar lummur.

Kjóllinn kostar um 160.000 krónur.

Mannréttindalögfræðingurinn Amal Clooney er mikil tískufyrirmynd og vakti athygli í brúðkaupi Harry Bretaprins og Meghan Markle í sumar fyrir klæðaburð. Hún klæddist skærgulum kjól úr smiðju Stellu McCartney og var með hatt í stíl. Á vef Marie Caire er kjóllinn sagður hafa verið sérsaumaður á Amal og var því ekki fáanlegur í verslunum, þar til núna.

Snið kjólsins er í gamaldags anda og klæddi Amal afar vel. Kjóllinn er nú kominn í sölu og er fáanlegur á vefversluninni MatchesFashion.com fyrir upphæð sem nemur 160.000 krónum. Hatturinn er þó ekki til sölu.

Kjóllinn rýkur nú út úr vefversluninni og er uppseldur í flestum stærðum.

Þess má geta að Amal er mikill aðdáandi hönnunar Stellu McCartney og hefur í gegnum tíðina klæðst kjólum, kápum, drögtum og öðru úr smiðju Stellu McCartney.

 

Prófessor við HÍ: „Get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað“

Prófessorinn Sigrún Helga Lund hefur sagt upp starfi sínu sem prófessor í líftölfræði við HÍ vegna framkomu yfirmanna og skólastjórnenda.

Í færslu sem Sigrún Helga Lund, prófessor við Háskóla Íslands, birtir á Facebook í dag segir hún að hún geti ekki hugsað sér að halda áfram að vinna á sama vinnustað vegna viðbragða skólastjórnenda við kvörtun hennar yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi yfirmanns hennar.

„Sumarið 2016 lýsti ég áhyggjum yfir erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi af völdum yfirmanns míns í starfsmannaviðtali. Engin viðbrögð fylgdu þeirri kvörtun, ástandið versnaði ört og þegar það var loks orðið óbærilegt svaraði ég fyrir mig og löðrungaði yfirmanninn. Þá fyrst brást Háskólinn við en á allt annan máta en mig óraði fyrir,“ skrifar hún meðal annars í færslu sína.

Sigrún kveðst hafa útvegað sönnunargögn um alvarlegt ofbeldi og einelti en að ekki hafi verið gerð tilraun til að rannsaka málið. Henni var þá skipað að fara í veikindaleyfi.

Þegar ég neitaði að hlýða var mér hótað áminningu sem HÍ neyddist þó til að láta niður falla enda málið allt á sandi byggt.

Sigrún segir þá frá því að hún hafi kært málið til siðanefndar háskólans og unnið málið. „Nú var málið komið í hendur rektors og í fyrsta sinn bærðist með mér von um réttlæti. Ég fékk fregnir af því að siðanefnd hefði fundað með rektor og beið spennt eftir að heyra nánar frá honum. Fjórir mánuðir liðu og á morgunfundi um jafnréttismál í hátíðarsal HÍ sagði hann: „Hér í Háskóla Íslands höfum við lagt áherslu á að hlusta á sögur kvenna, draga af þeim lærdóm og bregðast fljótt og fumlaust við.” En aldrei heyrðist neitt. Nú er nær hálft ár liðið síðan dómur féll, ekki stakt orð borist frá rektor og allt ástand óbreytt – ef ekki verra. Nú er svo komið að ég get ekki hugsað mér að hefja enn annað starfsár á sama vinnustað.“

Færslu Sigrúnar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Mynd / Háskóli Íslands

„Eyðum ekki jólunum á klósettinu“

Matvælastofnun hefur birt góð ráð varðandi matreiðslu í kringum jólin undir yfirskriftinni „eyðum ekki jólunum á klósettinu“.

Í grein MAST kemur fram að ráðin eru gefin í tilefni þess að nú nálgast jólin og mikið álag er á eldhúsum landsmanna yfir hátíðirnar. Því er fólk hvatt til að tileinka sér hreinlæti og rétta meðhöndlun matvæla. „Hreinlæti, kæling og rétt hitun matvæla er afar mikilvæg svo koma megi í veg fyrir að gestir og heimilisfólk fái matarborna sjúkdóma með tilheyrandi óþægindum,“ segir meðal annars.

Þá kemur fram að nóróveirur geti dreift sér hratt. „Reglulegur handþvottur minnkar líkur á smiti milli aðila eða frá menguðum matvælum.“

Þá er mælt með að forðast að geyma viðkvæm matvæli við stofuhita í langan tíma. „Við 37°C getur ein baktería fjölgað sér í 1000 á 3 tímum og í 1 milljón á 6 tímum. Það er því mikilvægt að geyma og meðhöndla matvæli við það hitastig að komið verði í veg fyrir hraða fjölgun baktería með því að takmarka þann tíma sem viðkvæm matvæli, s.s. reyktur og grafinn fiskur og álegg er á borðum við stofuhita.“

Meðfylgjandi eru svo ráðin frá MAST:

  • Hrátt kjöt og safi úr því skal ekki komast í snertingu við matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum ávexti og grænmeti til að varna því að bakteríur af því berist í matvæli sem eru tilbúin til neyslu.
  • Þvoum hendur áður en hafist er handa við matreiðslu og eftir snertingu við hrátt kjöt og óþvegið grænmeti
  • Þrífum skurðarbretti og áhöld strax eftir notkun eða notum sérstök skurðarbretti fyrir kjöt, grænmeti og tilbúin matvæli
  • Skipuleggjum ísskápinn vel og höldum honum hreinum til að varna því að krossmengun verði þar
  • Skiptum reglulega um borðtuskur, viskastykki og handþurrkur.

Alltaf forðast textaskrif en gefur nú út ævintýrabók

||
||

Karólína Pétursdóttir er lesblind og hefur í gegnum tíðina forðast það að skrifa texta. En nú hefur hún skrifað bók sem er sérhönnuð fyrir lesblinda. Hún kom sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

Hrauney er fyrsta bók Karólínu Pétursdóttur. Bókin er ævintýrabók skrifuð fyrir ungmenni og fjallar um 17 ára stelpu sem kemst yfir í álfaheim. „Þegar hún kemst í álfaheiminn er ekkert auðvelt að komast til baka. Bókin gerist á Íslandi en í annarri vídd,“ segir Karólína um bókina en passar sig að ljóstra engu upp.

Það sem gerir bókina einstaka er að hún er sérhönnuð fyrir lesblinda. Sjálf er Karólína lesblind og hefur oft átt erfitt með að komast í gegnum bækur vegna þess hvernig þær eru uppsettar.

„Ég er lesblind og fólkið sem hefur unnið með mér að Hrauney er meira og minna allt lesblint líka,“ segir Karólína og hlær. „Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp á að lesa. Þannig að mér fannst tilvalið að hanna mína bók með lesblinda í huga,“ útskýrir Karólína.

Letur bókarinnar er hannað fyrir lesblinda og línu- og orðabil er meira en gengur og gerist. Blaðsíður bókarinnar eru einnig gulleitar sem hjálpar lesblindum að sögn Karólínu.

Sjálf get ég ekki lesið hvaða bækur sem er og gefst oft upp.

Letur bókarinnar er sérhannað fyrir lesablinda.

„Þetta hjálpar svakalega við lesturinn. Þetta letur kostaði aðeins meira en venjulegt letur og bókin varð aðeins lengri heldur en hún hefði þurft að vera. Þannig að allt ferlið varð aðeins dýrara en við gerðum ráð fyrir,“ segir Karólína hlæjandi.

„En það er algjörlega þess virði. Það fólk sem við höfum fengið til að prufulesa bókina fyrir okkur talar um að það haldist betur við lesturinn.“

Kom sjálfri sér á óvart

Bókin er skrifuð fyrir unglinga en Karólína segir söguna vera skemmtilega fyrir alla sem hafa áhuga á ævintýrum.

Karólína segir að fyrir nokkrum árum hefði það aldrei hvarflað að henni að hún myndi skrifa bók. Hún viðurkennir að hún hafi alltaf forðast það eins og heitan eldinn að skrifa texta. Hún kom því sjálfri sér á óvart þegar hún byrjaði að skrifa.

„Mér hefði aldrei dottið í hug að ég myndi skrifa bók. Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar. Ég skrifa ekki einu sinni færslur á Facebook. En þegar Elsa Egilsdóttir vinkona mín stakk upp á að við myndum gefa út unglingabók um álfa og huldufólk þá leist mér vel á það. Ég ætlaði bara að skrifa niður nokkra punkta til að byrja með og fá einhvern annan til að skrifa sjálfa bókina. En áður enn ég vissi af var ég búin að skrifa alla bókina,“ útskýrir Karólína.

Ég hef alltaf verið með minnimáttarkennd yfir þeim texta sem ég skrifa, vegna lesblindunnar.

Karólína var að dreifa bókinni í búðir þegar blaðamaður náði tali af henni. „Tilfinningin við að klára bókina og vera á lokametrunum er rosalega góð. Þetta er búin að vera mikil vinna og það að gefa út bók er ekki beint það auðveldasta sem ég hef gert,“ segir hún og skellir upp úr.

Þess má geta að Karólína teiknaði meirihluta myndanna í bókinni sjálf og Elsa Egilsdóttir var henni innan handar í öllu ferlinu. Elsa hannaði forsíðu bókarinnar.

Rifjar upp skopleg atvik undir myllumerkinu #ársins

Undanfarin þrjú ár hefur Guðmundur Haukur Guðmundsson tekið saman nokkra hápunkta ársins á Twitter undir myllumerkinu #ársins.

Guðmundur Haukur Guðmundsson hefur vakið lukku á Twitter undanfarin ár þegar hann gerir upp árið með myllumerkinu #ársins og rifjar upp skopleg atvik sem vöktu athygli í fjölmiðlum á árinu. Þessa stundina er hann í óðaönn að birta upprifjun fyrir árið 2018 á Twitter.

Spurður út í hvernig þetta verkefni hófst segir Guðmundur: „Ég er með spurningakeppni fyrir félaga mína á hverju ári þar sem spurt er út í árið sem er að líða. Þetta hefur síðan sprungið aðeins út og hefur spurningakeppnin farið víða. Í kjölfarið fór ég að setja þessi kómísku atriði, sem munu ekki skila sér í hina hefðubundnu annála fyrir árið, á Twitter.“

Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því.

Aðspurður hvort þetta sé ekki mikil vinna, að rifja árið svona upp þegar áramótin nálgast segir hann: „Yfir árið tek ég niður hjá mér það kómíska sem gerist í fréttum eða tek skjáskot af því. Síðan vinn ég úr því í nóvember fyrir spurningakeppnina og í kjölfarið byrjar þessi yfirferð undir hashtagginu #ársins á Twitter.“

Fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.

Guðmundur hefur alltaf fengið góð viðbrögð við upprifjun sinni á Twitter: „Viðbrögðin í ár hafa verið mun meiri en síðustu ár og almennt bara mjög fín. Sérstaklega vegna þess að fólk er svo fljótt að gleyma því sem gerðist á fyrstu mánuðunum.“

Meðfylgjandi eru nokkur skopleg atriði sem Guðmundur hefur rifjað upp á Twitter undanfarið undir myllumerkinu #ársins.

Verstu mistökin að missa matinn í gólfið

Sjónvarpsstjarnan Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er flestum landsmönnum vel kunn en hún gaf nýverið út bókina Hvað er í matinn. Þar er hægt að finna einfaldar uppskriftir gómsætra rétta fyrir öll kvöld vikunnar.

Hvað er í matinn er þriðja matreiðslubók Jóhönnu Vigdísar en fyrri bækur hennar, Í matinn er þetta helst og Seinni réttir, komu út fyrir rúmum áratug. Tildrög þess að Jóhanna Vigdís settist aftur við skrifin var matreiðslunámskeið sem hún sótti í Flórens en margir réttanna eru undir ítölskum áhrifum.

„Mig langar líka að hvetja sem flesta áfram í baráttunni gegn matarsóun,“ segir Jóhanna Vigdís aðspurð um hvatann að baki bókinni.

Þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina.

„Ég var með matreiðsluþátt á RÚV árið 2009 eftir að ég gaf út matreiðslubækurnar. Það var svo merkilegt að þrátt fyrir að hafa flutt fréttir í áratugi var það matargerðin sem dró að sér mestu athyglina. Á einhvern hátt er eins og umræðan um mat og matreiðslu sé á hlutlausu svæði. Þegar ég byrjaði að hugsa um þessa bók var fyrsta hugsun mín: Hvað sameinar? Hver er algengasta spurningin á hverju heimili? Á hverjum degi stöndum við frammi fyrir þessari ákvörðun, að hafa eitthvað í matinn sem freistar, kætir og sameinar. Þannig varð bókin til.“

Af pönnunni og niður á gólf

Aðspurð um ráð fyrir nýgræðinga innan eldhússins ítrekar Jóhanna Vigdís svo að mikla ekki hlutina fyrir sér.

„Þeir sem eru að halda sín fyrstu jól sjálfir eiga að setja einfaldleikann á oddinn. Hafa til dæmis bara einn rétt eða bara eitthvað sem menn kunna að búa til. Ekki að búa til flækjustig ef það er óþarfi. Jólin snúast fyrst og fremst um samveru og að njóta, og einfaldleikinn er alltaf bestur. Auðvitað gera allir mistök og að mínu mati hafa mín verstu mistök verið að missa matinn í gólfið eins og gerðist hérna um árið hjá mér þegar við Guðmundur vorum nýbyrjuð að búa og systir mín var í mat. Allt fór af pönnunni hægt og rólega niður á gólf, beint á teppið. Við bjuggum til þessar fínu samlokur á eftir.

Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri.

Annars höfum við alltaf kalkún með öllu tilheyrandi á aðfanagadagskvöld. Fylling, heimatilbúið rauðkál, brúnaðar kartöflur og steiktar og sósur við allra hæfi. Síðustu ár höfum við haft forrétt, risotto með humri, sem minn yndislegi tilvonandi tengdasonur á allan heiðurinn af. Heimtailbúinn ís í eftirrétt með möndlu er svo alltaf á sínum stað. Hann er alltaf sá alvinsælasti á mínu heimili, alla daga ársins.“

Meðfylgjandi er uppskrift frá Jóhönnu að risotto, fullkominn forréttur.

Hátíðlegt Saffran-risotto

Risotto er til í ótal myndum, þetta er ein þeirra og hún er virkilega góð. Ef þið notið humar í skel skuluð þið alls ekki henda skeljunum því þær eru frábærar til að sjóða í súpu næsta dag og fá þannig góðan kraft. Ef þið eigið ekki saffran má alltaf bjarga sér með túrmeriki.

Jóhanna borðar risotto með humri í forrétt á jólunum.

humar / risarækja, magn eftir smekk
1 laukur
2 hvítlauksrif
olía til steikingar
2 msk. smjör
250 g risotto-hrísgrjón
1,2 l grænmetissoð
saffranþræðir
100 g parmesan-ostur

Ef þið eruð með frosinn humar eða risasækju þarf að láta skelfiskinn þiðna. Ef þið eruð með humar í skel, takið þá fiskinn úr skelinni. Skerið lauk og hvítlauk smátt. Hitið olíu og 1 msk. af smjöri í potti og steikið laukana í blöndunni þar til þeir eru orðnir mjúkir.

Blandið nú ósoðnum hrísgrjónum saman við í smáum skömmtum og setjið grænmetissoð á milli þar til það gufar upp. Það er galdurinn við risotto, að hræra stöðugt en þetta tekur um 20 mínútur. Blandið saffrani saman við svo risottoið fái fallegan lit. rífið parmesan-ostinn yfir og blandið saman við.

Bræðið 1 msk. af smjöri á pönnu og setjið svolítið saffran saman við. Steikið skelfiskinn á öllum hliðum upp úr saffransmjörinu í stutta stund. Blandið öllu saman og berið fram með brauði og parmesan-osti.

Myndir / Magnús Hjörleifsson

Átti í sambandi við Woody Allen 16 ára gömul

Babi Christina Engelhardt kveðst hafa átt í löngu ástarsambandi við leikstjórann Woody Allen. Sambandið hófts þegar hún var 16 ára.

Kona að nafni Babi Christina Engelhardt hefur nú stigið fram og greint frá því að hún og Woody Allen áttu í ástarsambandi í um átta ára skeið. Sambandið hófst árið 1976, þegar hún var 16 ára og Allen 41 árs.

The Hollywood Reporter birti í gær ítarlegt viðtal við Babi. Þar kemur fram að ástarsamband þeirra Babi og Allen hafi hafist í október árið 1976 eftir að þau kynntust á veitingastað í New York. Á þessum tíma starfaði Babi sem fyrirsæta.

Babi kveðst hafa haft frumkvæði að samtalinu þegar hún skrifaði símanúmer sitt á servéttu og afhenti Allen. Eftir það hittust þau reglulega á heimili hans í New York og stunduðu kynlíf. Í viðtalinu segir Babi að hún hafi einnig komið með vinkonur sínar heim til Allen og að þau hafi stundað hópkynlíf.

Hún tekur fram að hún sé ekki að stíga fram og greina frá ástarsambandi sínu við Allen til að koma óorði á leikstjórann. „Ég er að tala um ástarsögu mína. Þetta mótaði mig. Ég sé ekki eftir neinu“.

Þess má geta að Woody Allen var í opinberu sambandi með leikkonunni Miu Farrow frá árinu 1980 til ársins 1992, þegar upp komst að Allen og ættleidd dóttir Farrow, Soon-Yi Previn, áttu í ástarsambandi.

Fyrirtæki Victoriu Beckham rekið með gríðarlegu tapi

Tískufyrirtæki Victoriu Beckham hefur verið rekið með tapi undanfarin ár. Tapið á seinasta ári var upp á 10,2 milljónir punda.

Tískufyrirtæki fatahönnuðarins Victoriu Beckham, sem ber einfaldlega heitið Victoria Beckham, var rekið með miklu tapi á síðasta ári. Þessu er greint frá í frétt á vef BBC.

Þrátt fyrir að sala fyrirtækisins hafi aukist um 17% árið 2017 ef miðað er við sölutölur ársins 2016 var fyrirtækið rekið með 10,2 milljóna punda tapi árið 2017. Það gerir um 1,6 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Árið 2016 var fyrirtækið rekið með tveggja milljóna punda tapi og fjárfestar settu þá aukið fjármagn í reksturinn eða um 30 milljónir punda. Það hefur ekki dugað til að rétta reksturinn af.

Tap fyrirtækisins hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2013 en fyrirtækið var stofnað árið 2008.

Í fréttum af taprekstri tískufyrirtækisins er vísað í ársskýrslu þess. Þar kemur fram að hluthafar ætli nú að leggja aukna áherslu á að draga út tapi og endurskoða reksturinn.

Þess má geta að Victoria Beckham-merkið er selt í flaggskipsverslun Victoria Beckham í Mayfair í London, í vefverslun fyrirtækisins og í um 400 verslunum víða um heim.

Innbrotum fjölgað: 997 innbrot tilkynnt það sem af er ári

Tilkynningum um innbrot hefur fjölgað töluvert undanfarið en 997 innbrot hafa verið tilkynnt það sem af er ári 2018.

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir nóvembermánuð 2018 hefur verið birt. Skýrsluna má sjá á vef lögreglunnar. Í henni er að finna upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu á síðustu 13 mánuður. Tölur skýrslunnar eru þá bornar saman við tölur síðustu þriggja ára.

Í skýrslunni má sjá að tilkynningum um innbrot hefur fjölgað töluvert undanfarið en 997 innbrot hafa verið tilkynnt til lögreglu það sem af er ári 2018. Árið 2017 voru 816 innbrot tilkynnt og árið 2016 voru tilkynnt innbrot 792 samkvæmt skýrslunni.

Í nóvember bárust 142 tilkynningar um innbrot til lögreglu sem er óvenjumikið. Til samanburðar var tilkynnt um 101 innbrot í október. Tölurnar taka mið af innbrotum í fyrirtæki og stofnanir, heimahús, ökutæki og það sem er kallað „annað“ í skýrslunni. Hlutfallslega fjölgaði innbrotum í heimahús mest.

„Fjölgunin skýrist að einhverju leiti af fleiri tilkynningum um innbrotum í geymslur og bílskúra,“ segir á vef lögreglu.

Þess má geta að í byrjun desember varaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við því að mögulega væri erlendur brotahópur kominn hingað til lands gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn. „Af þessu tilefni biður lögreglan íbúa á höfuðborgarsvæðinu um að vera vel á verði, gæta að verðmætum, læsa vel húsum sínum og láta vita um grunsamlegar mannaferðir í síma 112,“ segir á vefnum.

BBC fjallar um álfatrú Íslendinga

Í grein á BBC er fjallað um álfatrú Íslendinga og greint frá því að stórt hlutfall landsmanna trúi á álfa ef marka á könnun frá árinu 2007.

Í ferðagrein sem birtist á vef BBC í dag er fjallað um álfatrú Íslendinga. Greinin er byggð að hluta til á könnun frá árinu 2007 sem framkvæmd var af þjóðfræðinemum við Háskóla Íslands. Í umfjöllun BBC segir að niðurstaða könnunarinnar hafi leitt í ljós að um 62% Íslendinga telja að álfar séu til.

Þá er rætt við íslensku tónlistarkonuna Jófríði Ákadóttur og hennar álfatrú.

Jófríður segir blaðamanni frá stórum stein sem stóð á lóð í íbúðarhverfi í Reykjavík. Hún og vinir hennar trúðu að steinninn væri álfasteinn þegar þau voru krakkar. „Við vorum viss um að þetta væri álfasteinn og að við ættum ekki að trufla álfana. Hann var tvistar sinnum stærri en ég,“ sagði Jófríður sem einn daginn klifraði upp á steininn með herkjum.

Þegar ég lenti þá beit ég í vörina á mér og blóðið fossaði.

„Vinir mínir vöruðu mig við og sögðu þetta slæma hugmynd. Ég hoppaði niður og þegar ég lenti þá beit ég í vörina á mér og blóðið fossaði úr munni mínum. Ég hljóp heim grátandi og snerti þennan stein aldrei aftur.“

Blaðamaður BBC segir sögu Jófríðar alls ekki einstaka og að margir Íslendingar hafi svipaðar sögur að segja.

Þá er vísað í álfasögur Magnúsar Skarphéðinssonar og Sigtryggs Baldurssonar.

Greinina má lesa hér.

Oft löng og hlykkjótt leið og miklar tilfinningar

Nýjasta lína Farmers Market leit nýverið dagsins ljós. Bergþóra Guðnadóttir, yfirhönnuður Farmers Market, segir línuna vera ívið rómantískari heldur en eldri línur merkisins.

Aðspurð hvaðan innblásturinn kom segir Bergþóra: „Eins og ég hef gert hingað til held ég áfram að leika mér að arfinum og gera tilraunir með efni, form og mynstur. Litirnir eru sóttir í náttúruna, sem fyrr, en að þessu sinni er ég mjög upptekin af sterkum litum sem finnast á jarðhitasvæðum eins og í Landmannalaugum. Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í þessari línu.“

Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í nýjustu línu Farmers Market.

Blómamynstur er áberandi í nýju línunni. „Ég er mikið fyrir blóm en hef ekki unnið með þau sem mynstur fyrr en núna. Þannig að nýja línan mín sem ber nafnið Blómsturvellir er í dálitlu uppáhaldi. Þar hef ég látið búa til blómamynstur í jarðhita-litatónunum mínum og prenta á silki og viskós. Þar að auki erum við með nýja spari ullarsokka sem einnig eru blómum prýddir,“ útskýrir Bergþóra.

Nýja línan er ívið rómantískari en eldri línur merkisins.

Dökkgrænbláir, ryðrauðir og gulbrúnir tónar eru í aðalhlutverki í þessari línu.

„Ég hef verið að vinna að þessari línu í eitt og hálft ár og núna seint í haust var hún loks öll tilbúin og komin í verslanir. Það er oft löng og hlykkjótt leið og miklar tilfinningar frá hugmynd að tilbúinni vöru,“ segir Bergþóra.

Taka ekki óþarfa áhættu

Fyrsta lína Farmers Market kom út árið 2005. Síðan þá hefur merkið fest sig í sessi og flestir fagurkerar landsins ættu að kannast við fötin frá Farmers Market.

Flestir fagurkerar landsins ættu að kannast við fötin frá Farmers Market.

Spurð út í hver sé galdurinn að þessum farsæla rekstri segir Bergþóra: „Við höfum alltaf passað okkur á að sníða okkur stakk eftir vexti. Við erum bara tveir eigendur og það vill þannig til að við erum líka hjón svo að það er mikið í húfi fyrir okkur að taka ekki óþarfa áhættu. Þar að auki erum við bæði listamenntuð svo að viðskiptaeðlið er okkur ekki í blóð borið og við höfum orðið að tileinka okkur með tímanum.“

Við höfum alltaf passað okkur á að sníða okkur stakk eftir vexti.

Á þessum 13 árum hefur fyrirtækið vaxið hægt og rólega. „Fyrir utan hönnunarstúdíóið mitt rekum við tvær verslanir og vefverslun þannig að gott starfsfólk er lykilatriði og þar höfum við verið afar lánsöm bæði hvað varðar starfsfólk hér heima og samstarfsfólk erlendis,“ útskýrir Bergþóra. Hún bætir við að á þessu 13 ára tímabili hafi margt breyst í bransanum.

Myndir af nýju línunni tók Ari Magg.

„Það er margt sem hefur breyst frá því að við byrjuðum tveimur árum fyrir hrun. Það hafa orðið til mörg spennandi fyrirtæki og stórir draumar. Sum hafa lifað en önnur ekki svona eins og gengur og gerist. Það jákvæða að mínu mati er að íslenska hönnunarsenan virðist vera að slíta barnsskónum og ég held að hún geti orðið okkur mikilvægari en við gerum okkur grein fyrir núna. Mér finnst alltaf gaman að bera hönnunarsenuna saman við íslensku tónlistarsenuna sem er svona 20 árum á undan og hefur verið okkur afar dýrmæt.“

Myndir af nýjustu línu Farmers Market / Ari Magg

Tíu góð ráð fyrir barnaafmælið

|
|

Matarbloggarinn María Gomez deilir góðum ráðum sem koma sér vel fyrir þá sem eru að halda barnaafmæli.

María Gomez er snillingur í að halda veislur og er gestrisin með eindæmum. Á dögunum hélt hún glæsilegt afmæli fyrir dóttur sína sem varð þriggja ára. Veislan heppnaðist afar vel og fengum við því Maríu til að gefa lesendum góð ráð sem ættu að koma sér vel fyrir þá sem eru að fara að halda barnaafmæli.

„Heimagert gúmmelaði og þema í takt við áhugasvið barnsins er eitthvað sem ég legg ríka áherslu á þegar ég held barnaafmæli,“ segir María.

„Ég spyr kakkana mína alltaf hvernig köku þau vilja hafa og fæ oft mjög skýr svör,“ útskýrir María sem sníðir gjarnan afmælisþema í kringum afmæliskökuna sem börnin hennar biðja um. „Það dugir oft að hafa bara köku og servíettur í saman þema og þá er þetta komið.“

María tekur fram að það sé óþarfi að flækja hlutina. „Mér finnst að fólk eigi að njóta ferlisins og fara sínar leiðir í þessum málum. Ekki láta ýktar veislur, sem sjást oft á samfélagsmiðlum, hafa áhrif á það hvernig þeirra barnaafmæli á að vera.“

Mér finnst að fólk eigi að njóta ferlisins og fara sínar leiðir í þessum málum.

Meðfylgjandi eru tíu góð ráð fyrir barnaafmælið:

1 – Byrjið undirbúninginn snemma, um það bil tveimur vikum fyrr. Þá er gott að vera búin að ákveða hvernig afmælisköku þið ætlið að hafa og svo er tilvalið að kaupa diska, skraut og servíettur í kringum kökuna.

2 – Byrjið að baka kökubotna og annað sem hægt er að frysta snemma. Ég t.d. gerði litlar kjötbollur í viku fyrir afmælið. Þær frysti ég hráar og tók út daginn áður og eldaði á afmælisdaginn í ofni. Takið svo út kökubotnana daginn áður og skreytið kvöldið fyrir veisluna. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta léttir lífið að gera þetta svona.

3 – Ekki vera hrædd við að nota tilbúið kökumix á borð við Betty Crocker. Það er til gott úrval af slíku kökumixi sem bragðast afskaplega vel.

4 – Ef þið eruð ekki góð í að skreyta kökur má kaupa allskyns sniðugar sykurmassamyndir sem sett er ofan á kökuna. Svo er líka hægt að láta prenta mynd á sykurmassa til að setja á kökuna. Þá er líka hægt að kaupa tilbúin smjörkrem. Og ekki örvænta þó að kakan líti ekki út eins og hún sé keypt úti í bakaríi því það er langfallegast að sjá heimagerðar kökur foreldra sem gerðu sitt besta til að búa til fína köku handa barninu sínu.

Ekki örvænta þó að kakan líti ekki út eins og hún sé keypt úti í bakaríi.

5 – Ef þið treystið ykkur ekki í kökubaksturinn sjálf er ekkert að því að kaupa tilbúna köku og annað hvort skreyta sjálf eða kaupa hana tilbúna út í búð.

6 – Hafið meira af heitum réttum en kökum því þeir eru alltaf vinsælastir.

7 – Gerið heitu réttina daginn áður ef það er möguleiki. Ég mæli samt ekki með að gera rúllutertubrauðréttina fyrr en samdægurs.

8 – Dekkið borðið og skreytið ekki seinna en deginum fyrir afmælið.

9 – Leyfið afmælisbarninu að taka sem mestan þátt í undirbúningi og ferlinu því það gerir ofboðslega mikið fyrir barnið. Það skapar fallegar og góðar minningar.

10 – Að lokum reynið að njóta undirbúningsins. Ef þið gerið þetta allt tímanlega þá verður allt ferlið svo miklu skemmtilegra og maður nær að njóta afmælisins betur.

María deilir hér uppskrift að bragðsterkum brauðrétt sem hún segir fullkominn í barnaafmæli.

Bragðsterkur brauðréttur

Þessi réttur hentar vel í barnaafmæli.
  • 1 piparostur
  • 1 mexico-ostur
  • ca 100 gr rjómaostur
  • 4-5 dl matreiðslurjómi
  • 1 box af sveppir (250 gr)
  • 100 gr pepperoni
  • 1 beikonbréf
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1/2 fransbrauð, tætt niður
  • Ananasdós
  • Rifinn ostur

Aðferð:

  1. Ostarnir og rjóminn eru settir í pott og bræddir, sýrða rjómanum síðan hrært saman við.
  2. Rífið brauðið niður og setjið í eldfast mót.
  3. Sveppir og beikon steikt á pönnu og raðað ofan á brauðið.
  4. Ananas skorin smátt og stráð yfir allt saman
  5. Pepperoni stráð þar ofan á og ostablöndunni hellt yfir.
  6. Að lokum er rifnum osti stráð yfir allt og gott er að setja ögn af papríkudufti yfir
  7. Bakað í ofni við 200°c í u.þ.b. 20-30 mínútur eða þar til allt er orðið gyllinbrúnt

Mynd af Maríu / Unnur Magna
Mynd af brauðrétt / María Gomez

Sjá einnig: Kom í jólafrí til Íslands en snéri ekki til baka

„Bara rosalega þakklát og stolt líka“

|
|

Ásta Hafþórsdóttir leikgervahönnuður hefur verið að gera það gott í Noregi síðustu ár og unnið þar að hverju stórverkefninu á fætur öðru. Fram undan eru ýmis spennandi verkefni.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er stórframleiðandinn HBO Nordic um þessar mundir að vinna að nýrri spennuþáttaröð með Ágústu Evu Erlendsdóttur og Jóhannesi Hauki Jóhannssyni, sem kallast Beforeigners (Fremvandrerne). Þetta er ein umfangsmesta sjónvarpsframleiðsla sem Norðmenn hafa ráðist í en þau Ágústa Eva og Jóhannes Haukur eru ekki einu Íslendingarnir sem koma að verkinu því Ásta Hafþórsdóttir leikgervahönnuður vinnur að þáttunum og í samtali við Mannlíf segir hún að hún hafi verið hvort tveggja í senn skapandi og krefjandi ferli.

„Þetta eru náttúrlega 120 leikarar og 2000 aukaleikarar, þannig að getur rétt ímyndað þér það,“ segir hún og hlær. „Fyrir utan það þá koma persónur þáttanna frá mismunandi tímabilum, alveg frá steinöld til dagsins í dag og þ.a.l. liggur heilmikil heimildavinna á bakvið útlit hverrar persónu,“ bætir hún við en í þáttunum leika Jóhannes Haukur og Ágústa Eva víkinga sem skjóta skyndilega upp kollinum í Noregi nútímans og í kjölfarið kemur í ljós að þau eru tímaflakkarar.

Þetta eru náttúrlega 120 leikarar og 2000 aukaleikarar, þannig að getur rétt ímyndað þér það

„Í framrás þáttana aðlagast þau, og fleiri persónur sem koma úr fortíðinni, samfélagi nútímans og einn hluti af minni vinnu var að sýna myndrænt hvernig það gerist, með breytingum á útliti,“ útskýrir Ásta.

Orðuð við Óskarinn

Beforeigners er ekki fyrsta stórverkefnið sem Ásta kemur nálægt því hún á að baki langan og farsælan feril í kvikmyndabransanum, bæði hér á Íslandi og í Noregi þar sem hún hefur verið búsett frá árinu 2010. Hún segir að á þeim tíma séu verkefnin í Noregi mörg hver búin að vera skemmtileg og auk þess mjög ólík, allt frá ævintýramyndum fyrir börn upp í stórslysamyndir (Bølgen/The Wave og Skjelvet). Eiginlega sé erfitt að gera upp á milli þeirra en ef hún eigi að nefna tiltekin verkefni sem standi upp úr þá séu það einna helst tvö.

Annars vegar Netflix-víkinga-þættirnir Norsemen, vegna þess hversu mikla vinna þurfti að leggja í útlit persónanna þrátt fyrir lítið fjármagn, sem hafi verið gríðarleg áskorun. Hins vegar seinni heimsstyrjaldar kvikmyndin The 12th Man (Den 12. Mann) þar sem aðalpersónan, maður á flótta undan nasistum, missir m.a. fingur og tær og léttist um heil 20 kíló sem þurfti allt að leysast með sminki.

Stilla út Netflix-þáttunum Norsemen.

„Ætli The 12th Man sé ekki skemmtilegasta og mest krefjandi verkefni sem ég hef nokkurn tímann tekið mér fyrir hendur,“ segir hún en þess má geta að myndin hefur hlotið góða dóma víða erlendis og hefur Ásta verið orðuð við tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir sinn hlut. Hvort sem af verður eða ekki segir hún það vera mikinn heiður, eiginlega alveg magnað bara það eitt að hún skuli koma til greina. „Ég er bara rosalega þakklát fyrir það og stolt líka.“

Saknar vina og vandamanna á Íslandi

Aðspurð hvað hafi orðið til þess að hún flutti til Noregs á sínum tíma svarar Ásta að rétt eftir hrun hafi sér boðist vinna þar við sjónvarpsþætti sem til stóð að taka í fimm mánuði og hún hafi ákveðið að láta slag standa. Upp úr því sé hún búin að hafa nóg að gera enda þyki hún fær á sínu sviði og svo hafi hún einfaldlega verið „á réttum stað á réttum tíma“ þegar góð tækifæri buðust sem hafi opnað enn fleiri dyr í bransanum.

Síðustu ár sé búið að vera brjálað að gera og nú sé tími til kominn að slaka aðeins á og njóta árangursins, velja verkefnin vel og gefa sér meiri tíma í þau. Nokkur spennandi verk séu fram undan, m.a. vinna við forleik (prequel) Norsemen og endurgerð hinnar rómuðu myndar The Emmigrants (Utvandrarna, 1971). Þess utan segist Ásta ætla að finna stund milli stríða til að sinna betur uppbyggingu eigin fyrirtækis, Makeup design studio (www.makeupdesignstudio.no) sem hún á og rekur ásamt hægri hönd sinni Dimitru Drakopoulo.

En saknar hún þess aldrei að búa og starfa á Íslandi? „Jú, ég sakna vina minna og fjölskyldu mikið, þ.m.t. „bíó-fjölskyldunnar“, sem ég vann með í fimmtán ár og fyrstu árin var ég alltaf á leiðinni heim. En svo eignaðist ég tvíbura og gat ekki hugsað mér að vera einstæð móðir í bransanum heima. Vinnuumhverfið hér úti er bara hentugra, ég þarf t.d. ekki að vera verktaki heldur get ég verið launþegi sem felur í sér mikið öryggi, vinnudagarnir eru styttri og launin betri,“ segir hún en tekur fram Íslendingar séu hins vegar meiri atvinnumenn en Norðmenn á sumum sviðum, m.a. þegar kemur að aðbúnaði starfsmanna.

Í augnablikinu er fremur ólíklegt að ég snúi heim.

„Ég þurfti t.d. að setja það sem skilyrði fyrir þessu verkefni sem ég er í núna að ég fengi smink-rútu,“ segir hún. „Svoleiðis er ekki til í Noregi.“

Ertu þá alveg búin að skjóta rótum þarna úti? „Ja maður veit náttúrlega aldrei hvað gerist en í augnablikinu er fremur ólíklegt að ég snúi heim. Mér sýnist ástandið vera erfitt fyrir marga á Íslandi,“ segir hún en kveðst svo allt eins til í að prófa að búa á einhverjum heitari stað. „Ég er alltaf að skoða þá möguleika.“

Punkturinn yfir i-ið er glimmer og glans

Lily Depp skartaði glæsilegri förðun á rauða dreglinum í Cannes.

Það má með sanni segja að Lily Depp hafi dottið í genalukkupottinn en mamma hennar er Vanessa Paradis og pabbinn Johnny Depp.

Við kolféllum fyrir förðun hennar á rauða dreglinum í Cannes en hversu viðeigandi er gylltur augnskuggi og kattar-eyeliner við nude varir á þessum árstíma? Punkturinn yfir i-ið er svo glimmer og glans á réttum stöðum.

Hér eru þær snyrtivörur sem förðunarfræðingur Vikunnar mælir með til að framkalla þessa kynþokkafullu förðun.

Liturinn Spanish Pink frá Tom Ford er hinn fullkomni nude-varalitur.
Liturinn Moonstone frá Becca er í uppáhaldi hjá mörgum og er hinn fullkomni highlighter litur.
Við elskum Pillow Talk-varablýantinn frá Charlotte Tilbury til að ramma varirnar inn og þær virka stærri.
Fyrsta Naked-augnskuggapallettan frá Urban Decay hættir í framleiðslu. Nú fer hver að verða síðastur að næla sér í þetta klassíska eintak. Litirnir í henni henta fullkomlega í þetta útlit.
Face and Body frá MAC er léttur og náttúrulegur farði
Lash Paradise er einn mest seldi maskari í heiminum í dag. Augnhárin sýnast þykkari til muna.
Blautur kinnalitur býr til einstaklega frísklegt útlit. Pot Rouge frá Bobbi Brown má nota á varir og kinnar.
Slide On – augnblýanturinn frá Nyx er tilvalinn í vatnslúíu augnanna.
La Base Pro Hydra Glow frá Lancôme er ljómandi farðagrunnur sem nærir húðina.

Játaði að hafa myrt fyrrverandi konu sína og tengdamóður

Maður að nafni Janbaz Tarin hefur játað að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína og tengdamóður.

21 árs maður að nafni Janbaz Tarin hefur játað að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína, Raneem Oudeh, og tengdamóður sína, Khaola Saleem, í ágúst. Konurnar stakk hann fyrir utan heimili Saleem, í enska bænum Solihull, með þeim afleiðingum að þær létust.

Tarin og Oudeh voru gift en Oudeh sótti um skilnað þegar hún komst að því að eiginmaður hennar átti aðra konu og fjölskyldu í Afganistan. Tarin er sagður hafa verið ofbeldisfullur gagnvart Oudeh á meðan þau voru saman og eftir að Oudeh sleit sambandinu hélt hann áfram að áreita hana. Hún sótti um nálgunarbann á hann. Þess má geta að þau Tarin og Oudeh giftu sig að íslömskum sið en hjónabandið var ekki löggilt í Englandi.

Í frétt BBC segir að Tarin hafi eytt deginum sem morðið átti sér stað í að hafa uppi á mæðgunum. Þær höfðu hringt í lögregluna og óskað eftir aðstoð rétt áður en Tarin réðst á þær. Þegar lögregla kom á vettvang voru mæðgurnar látnar. Oudeh skilur eftir sig tveggja ára son.

Málið er til rannsóknar er Tarin hefur játað verknaðinn.

Mynd / af vef BBC

Segja auglýsinguna vera „alvarlega árás á atvinnurekendur“

Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Samtaka verslunar og þjónustu eru ekki hrifin af nýjustu auglýsingu VR.

Ný auglýsing frá stéttarfélaginu VR fer fyrir brjóstið á Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu og Margréti Sanders stjórnarformanns SVÞ. Að þeirra mati er auglýsingin ekki í takt við raunveruleikann.

Í auglýsingunni má sjá Georg Bjarnfreðarson, karakter sem birtist fyrst í  Næturvaktinni, sem verslunareiganda sem fer heldur illa með starfsmann sinn. Í auglýsingunni er fólk minnt á að kynna sér réttindi sín í desember. Þau Andrés og Margrét segja skilaboð auglýsingarinnar vera „alvarlega árás á atvinnurekendur“. Þetta segja þau í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

„Þær sjónvarpsauglýsingar frá VR sem birtast þessa dagana eru að mati SVÞ fjarri öllum raunveruleika um það hvernig vinnuveitendur umgangast starfsfólk sitt. Það handrit að mannlegum harmleik sem sett er á svið á kómískan en um leið gildishlaðinn hátt er verulega vandmeðfarið og ekki til þess fallið að gera gaman að. Við þekkjum a.m.k. ekki þann vinnuveitanda sem vill misbjóða starfsfólki sínu á þann veg sem þar er lýst. Þó að mörgum þyki þessar auglýsingar með þeim hætti að þær nái að kitla hláturtaugar hjá fólki er undirtónn þeirra og þau skilaboð sem þær senda mjög alvarleg árás á atvinnurekendur almennt,“ segir meðal annars í pistlinum.

Pistil Andrésar og Margrétar má lesa í heild sinni á vef SVÞ.

Ekki allir sem halda gleðileg jól

Bloggararnir á Pigment.is standa þessa stundina fyrir jólahappdrætti til styrktar sjálfsvígsforvarnasamtökunum Píeta. Með happdrættinu er vakin athygli á að margir eiga um sárt að binda í kringum jólahátíðina.

„Okkur finnst rosalega gaman að gleðja lesendur en langaði að ganga skrefinu lengra og láta gott af okkur leiða þetta árið,“ segir Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir, stofnandi og eigandi Pigment.is, um jóladagahappadrætti sem bloggarar á Pigment.is standa fyrir.

Um jólahappdrætti til styrktar sjálfsvígsforvarnasamtökunum Píeta er að ræða. Samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi.

„Jólin er tími gjafaleikja og verslanir og áhrifavaldar eru að stofna til margra slíkra. Við höfum alltaf staðið fyrir vinsælu jóladagatali sem þúsundir hafi tekið þátt í en þetta árið langaði okkur að bjóða upp á tilgangsmeiri leik,“ útskýrir Gunnhildur.

Jólin ekki gleðileg hjá öllum

Gunnhildur bendir á að ekki séu allir sem halda gleðileg jól og það má ekki gleymast. „Við höfum það flest blessunarlega gott um jólin en það eru þó margir þarna úti sem finnast þeir vera einir og hafa engan til að tala við. Skammdegið hefur líka slæm áhrif á margt fólk. Við viljum hvetja þá sem þurfa á því að halda að leita sér hjálpar,“ segir hún.

Við viljum hvetja þá sem þurfa á því að halda að leita sér hjálpar.

Sjálf missti Gunnhildur vin árið 2014. Hann svipti sig lífi og þess vegna langaði Gunnhildi að styrkja Píeta samtökin. „Mig langaði að styrkja Píeta, sérstaklega í ljósi þess að þessi vinur minn lagði mikið upp úr því að hjálpa öðrum og vildi vera til staðar fyrir fólk sem leið illa, sérstaklega um jólin. Hann hélt til dæmis tvisvar sinnum jól fyrir fólk sem hafði engan stað til að vera á,“ segir Gunnhildur.

Gunnhildur hvetur fólk til að taka þátt í jólahappdrætti Pigment.is enda sé til mikils að vinna, til dæmis eru úlpur og snyrtivörur meðal vinninga. „Samstarfsaðilar okkar hafa útvegað glæsilega vinninga. En við minnum auðvitað á að þó svo að allir hreppi ekki vinning þá er fólk að styrkja rosalega gott málefni með því að taka þátt,“ segir Gunnhildur glöð í bragði.

Áhugasamir geta lesið leikreglurnar á vef Pigment.is.

Átta milljarðar fram úr áætlun

Aðsend mynd

Vaðlaheiðargöngin verða formlega opnuð 12. janúar nk. en umferð verður hleypt fyrr í gegn. Verklok voru áætluð tveimur árum fyrr en gangagerðin hófst sumarið 2013 og hefur því tekið rúmlega fimm ár. Óvænt fossaði bæði heitt og kalt vatn úr berginu í miðjum framkvæmdum sem stöðvuðust í meira en eitt samfellt ár á tímabilinu.

Kostnaður var metinn 9 milljarðar en nú er búist við að framkvæmdin hafi kostað um 17 milljarða að mati stjórnarformanns Vaðlaheiðarganga hf., Hilmars Gunnlaussonar. Fyrirtækið er að megni til í eigu Akureyrarkaupstaðar og KEA á móti rúmum 40 prósentahlut ríkisins.

Árið 2012 lánaði ríkið til framkvæmdarinnar 8,7 milljarða og síðar aftur 4,7 milljarða. Hilmar sagði í viðtali í 21 að langtímafjármögnun þyrfti og leitað yrði til ýmissa sem hafi trú á verkefninu þegar göngin verða komin í fulla umferð.

Göngin sem eru 7,2 km milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals stytta vegalengdina milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km. Gjald verður 1500 krónur fyrir fólksbíl en frá 700 upp í 1250 séu fleiri ferðir keyptar í einu.

Hvaða menn eru þetta?

LEIÐARI Árið 2009 var gerð breyting á íslenskum hegningarlögum og kaup á vændi gerð ólögleg. Fram að því hafði seljendum verið refsað en þarna varð sú tímamótabreyting á að í stað þess að líta á fólk í vændi sem glæpamenn var hinu ámælisverða snúið upp á þann sem gat hugsað sér að nýta sér neyð þeirra. Þessi leið löggjafans var umdeild og er enn. Þær raddir heyrast enn að vændi sé elsta atvinnugreinin, að fólk eigi að vera frjálst að því að selja líkama sinn, sýnist því svo og mun verra væri fyrir konur að þræla sér út fyrir skítalaun í ömurlegu starfi. Allt ofangreint er hins vegar frámunalega heimskulegt. Í fyrsta lagi eru engar haldbærar sannanir fyrir því að fólk hafi selt aðgang að líkama sínum frá ómunatíð og til eru mörg frumstæð samfélög þar sem vændi er ekki til. Svo er líka undarlegt að telja að vegna þess að eitthvað hafi viðgengist lengi sé það í lagi. Fólki er frjálst að fara með líkama sinn að vild en eftir því sem þekking manna á högum þeirra er stunda vændi eykst því augljósara er að fæstir kjósa þetta. Einhvers konar nauðung er nánast alltaf grundvallarástæða. Sár fátækt býr að baki í mörgum tilfellum, vændi er einnig algeng leið til að fjármagna fíkn og sumir eru gerðir út af samviskulausu fólki sem hirðir stóran hluta ágóðans.

„Fólki er frjálst að fara með líkama sinn að vild en eftir því sem þekking manna á högum þeirra er stunda vændi eykst því augljósara er að fæstir kjósa þetta.“

En hvaða manneskjur eru það sem fara út og geta hugsað sér að kaupa kynlífsþjónustu af niðurbrotnu fólki og horuðum unglingskrökkum með sprautuförin í olnbogabótinni og sársauka í augunum? Ef marka má nýlegar sænskar og bandarískar rannsóknir eru það Jói í næsta húsi sem var svo elskulegar að keyra stelpuna þína á fótboltaæfingu, geðþekki maðurinn í fimmtugsafmæli bestu vinkonu þinnar og hann Nonni sem er alltaf svo hress í vinnunni eða kennari sonar þíns. Einstaklingar sem eiga fjölskyldur, sinna börnunum sínum af kostgæfni, vinna sjálfboðastörf hjá góðgerðafélögum og eru virtir fagmenn. En sjá ekkert athugavert við að draga upp veskið og borga nokkra skitna þúsundkalla fyrir að fá að þröngva sér inn í líkama annarrar manneskju og sumir hverjir telja sig eiga inni að fá að misþyrma þeim í ofanálag.

Líkt og þrælahaldarar fyrri tíma sjá þeir ekkert athugavert við að notfæra sér annað fólk á allan þann máta er hentar þeim. Peningar hafa skipt um hendur og þeim sem lét þá af hendi er þar með veitt frítt spil til að krefjast alls, eira engu og ganga eins langt og honum sýnist. Er eitthvað undarlegt að sjálfsmorð séu algengari meðal kvenna í vændi en nokkurs annars hóps? Er skrýtið að fólk í vændi deyfi sig með vímuefnum? Margar manneskjur ná sér aldrei, hvorki andlega né líkamlega, eftir viðskipti sín við vændiskaupendur. Sama hvað þær reyna þá þeir sitja í tauga- og vöðvaminni líkamans og í sálinni. Þess vegna eru vændiskaup ólögleg á Íslandi, við viljum ekki samfélag þar sem svona ofbeldi líðst.

 

Steik fyrir sælkera

|
|

Jólin eru sá tími sem fólk er hvað vanafastast með sinn mat en alltaf er gaman að reyna að koma á óvart með einhverjum litlum nýjungum, þarf ekki að vera mikið; ný sósa, nýr kryddhjúpur á kjötið eða nýjar kartöflur. Um að gera er að festast ekki alltaf í því sama. Hér er jólasteikin færð í nýjan búning.

Fátt jafnast á við góða lambasteik.

INNBAKAÐ LAMB MEÐ SVEPPUM OG BEIKONI
fyrir 4
Hérna er á ferðinni réttur sem er í líkingu við Wellington-naut sem er vel þekktur nautaréttur en í stað nautsins nota ég lamb og í stað hráskinkunnar nota ég beikon. Þessi réttur er mjög hátíðlegur og fullkominn fyrir fólk sem vill ekki naut eða vill hreinlega breyta aðeins til.

800 g lambainnralæri, í 200 g steikum
1 askja sveppir, saxaðir
200 g þykkar beikonsneiðar, skornar í litla bita
10 g brauðraspur
15 g steinselja
4 blöð smjördeig
1 egg
olía
salt og pipar

Hitið ofn í 200°C. Steikið sveppina og beikonið þar til það verður vel stökkt, bætið brauðraspinum og steinseljunni saman við og kælið þetta síðan. Brúnið lambakjötið vel á heitri pönnunni á öllum hliðum í 3 mín. Takið af og leyfið að rjúka aðeins úr því. Skerið smjördeigið í tvo hluta, þannig að þið fáið 8 bita, og fletjið það örlítið út með kefli. Komið fyllingunni fyrir á smjördeigsbita, leggið steikina ofan á og setjið meiri fyllingu ofan á kjötið. Setjið annan bita af smjördeigi yfir og þéttið vel með endunum allan hringinn. Endurtakið þar til þið hafið fengið nógu margar steikur. Penslið með eggi, setjið á plötu og bakið í 20 mín. Takið út og leyfið að hvíla í 8 mín. áður en skorið.

Umsjón / Hinrik Carl Ellertsson
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Raddir