Miðvikudagur 30. október, 2024
4.5 C
Reykjavik

„Ungar stelpur í dag eru svo fáránlega mikið með þetta“

||
||

Hildur Knútsdóttir rithöfundur sendi nýlega frá sér bókina Ljónið sem er sú fyrsta nýjum þríleik. Bókin er unglingabók en Hildur vonar að fullorðnir tengi við hana líka.

Hildur Knútsdóttir sækir efnivið bókarinnar Ljónið meðal annars í eigin menntaskólaár. Mynd / Aðsend.

„Í stuttu máli fjallar bókin um hina sextán ára gömlu Kríu sem er nýflutt til Reykjavíkur og byrjuð í MR. Hún kynnist Elísabetu og þær verða vinkonur. Saman komast þær að dularfullu hvarfi ömmusystur Elísabetar árið 1938 og ákveða að reyna að komast til botns í ráðgátunni um hvað kom fyrir hana. En svo fjallar bókin líka um menntaskólalífið og hvernig það er að vera unglingsstúlka – með öllu því góða og slæma sem því fylgir,“ segir Hildur og játar þegar hún er spurð hvort bókin sé femínísk. „Ég veit ekki hvernig það væri hægt að skrifa bók um unglingsstúlkur í Reykjavík árið 2018 sem væri ekki feminísk. Ungar stelpur í dag eru svo fáránlega mikið með þetta og svo flottir femínistar að stundum tárast ég bara yfir því. Og stelpurnar í Ljóninu eru allavega meðvitaðar um feðraveldið, nauðgunarmenningu og drusluskömmun, og að hlutskipti þeirra sé annað en stráka. Þær eru til dæmis að stíga fyrstu skrefin í skemmtanalífinu og velta fyrir sér hvort það sé óhætt að labba einar heim að kvöldlagi. Því það er alltaf þessi ógn sem vakir yfir: Það gæti einhver nauðgað þér. Allar unglingsstelpur sem ég þekki og hef þekkt eru mjög meðvitaðar um það. Enda rignir yfir þær skilaboðunum um hvernig þær eiga og eiga ekki að haga sér til að minnka hættuna á því að verða nauðgað. Og það skerðir frelsi þeirra.“

Ljónið er fyrsta bókin í nýjum þríleik eftir Hildi Knútsdóttur.

Útgáfa á tékknesku og sjónvarpsþáttaskrif
Hildur er nýlent eftir útgáfulæti í Prag, þar sem Vetrarfrí og Vetrarhörkur voru að koma út á tékknesku. Hún safnar nú kröftum til að halda áfram að endurskrifa sjónvarpsþætti upp úr bókunum fyrir framleiðslufyrirtækið RVK Studios. Að auki er hún á leiðinni til Frakklands á bókmenntahátíð og undirbýr sig fyrir jólabókaflóðið. „Og svo ætla ég að halda áfram að skrifa framhaldið af Ljóninu. Ég er um það bil hálfnuð með fyrsta uppkastið og er að vona að ég nái að klára hana fyrir næstu jól.“

 

Ljúf og lokkandi formkaka

formkaka með trönu og kokteilberjum
Mynd/Aldís Pálsdóttir

Formkökur geymast vel og eru frekar einfaldar í gerð sem kannski útskýrir vinsældir þeirra hér áður fyrr. Hið glæsilega kökublað Gestgjafans sem margir hafa beðið eftir er nú komið í verslanir og því deilir Gestgjafinn hér með okkur ljúffengri og sparilegri köku.

Ljúf og lokkandi formkaka

300 g sykur

120 g smjör, við stofuhita

3 egg

180 g hveiti

2 tsk. lyftiduft

2 ½ dl mascarpone-ostur

2 ½ dl rjómi

¼ tsk. salt

1 tsk. vanilludropar

1 dós kokteilber

2 dl þurrkuð trönuber

140 g hvítt súkkulaði, saxað

Ofan á

Hnefafylli þurrkuð trönuber

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið sykur og smjör vel saman. Bætið eggjunum út í og hrærið áfram. Blandið hveiti og lyftidufti saman og hellið út í blönduna, bætið svo osti, rjóma, salti og vanilludropum saman við. Blandið að síðustu berjum og súkkulaði út í með sleif. Hellið deiginu í vel smurt 26 cm formkökuform. Bakið í 40-45 mín. eða þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur hreinn út. Þekjið kökuna með kreminu og skreytið með þurrkuðum trönuberjum.

Krem

100 g smjör við stofuhita

100 g rjómaostur

300 flórsykur

1 tsk. vanilludropar

Blandið öllum innihaldsefnum saman og hrærið þar til kremið verður létt og ljóst og allt hefur samlagast. Þekjið kökuna með kreminu.

Þúsund bílum fargað í hverjum mánuði

Sífellt fleiri bílaeigendur kjósa að farga bifreiðum sínum. Færst hefur í vöxt að fólk skilji númeralausa bíla eftir á fyrirtækjalóðum, á bílastæðum og víðavangi.

Æ fleiri bílaeigendur kjósa að farga bílum sínum frekar en að gera við þá sjálfir eða fara út í viðgerðir og viðhald. Samkvæmt upplýsingum Úrvinnslusjóðs hafa tæplega 9.000 bílar verið afskráðir á árinu. Það er um 25% aukning frá sama tíma í fyrra. Rúmlega helmingur þeirra bíla sem eru afskráðir á Íslandi fara í endurvinnslu hjá fyrirtækinu Hringrás.

Daði Jóhannesson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir talsvert fleiri bílum fargað nú en á síðasta ári. Það sé álíka mikil aukning og var á milli áranna 2016-2017. „Mér sýnist sama aukning vera að endurtaka sig nú á þessu ári,“ segir Daði, en flestir bílar sem koma til Hringrásar eru frá Vöku eða á bilinu 300-400 á mánuði. Bílapartasölur koma með það sem út af stendur auk þess sem fólk kemur með eigin bíla til förgunar. „Bílarnir eru tæmdir af spilliefnum, öllum vökva tappað af þeim og dekk og rafgeymar fjarlægðir. Bílarnir eru pressaðir í böggla og eru síðan sendir í endurvinnslustöðvar í Hollandi. Þar eru bílarnir settir í stóra kvörn, allir málmar aðgreindir og endurunnir. Óendurvinnanlegt plastefni úr bílunum er síðan notað sem eldsneyti til húshitunar eða raforkuframleiðslu í Hollandi. Hjólbarðar sem Hringrás tekur á móti eru tættir niður og fluttir erlendis þar sem gúmmíið er endurnotað.“

Skilja eftir númeralausa bíla

Valdimar Haraldsson annast flutninga á ökutækjum hjá Vöku og segist hafa yfirleitt nóg að gera við að ná í bíla út um allar koppagrundir. Hann fari oftar en áður að fjölbýlishúsum til að ná í númeralausa bíla. Formenn húsfélaga séu þeir einu sem geta sent inn beiðni til Vöku um að láta fjarlægja bílana af sameign húsa og sífellt algengara sé að þeir grípi til slíka úrræða.

Þá segir Valdimar líka hafa aukist að starfsmenn hjá hreinsunardeildum bæjarfélaga hafi samband til að láta fjarlægja númeralausa bíla af götum, víðavangi og á lóðum fyrirtækja. Hann fari jafnvel austur á Selfoss til að ná í bíla. „Það er alveg óhætt að segja að við tökum fleiri bíla en áður.“ Hann kveðst ekki hafa tölulegar upplýsingar um aukninguna en segir tilvikin mun fleiri en áður.

Leggja ekki í viðgerðir

Spurður hvernig bílar þetta séu segir Valdimar þetta vera bíla frá um 1990 eða yngri, allt frá rusli og upp í bíla í ágætis ásigkomulagi með fulla skoðun. „Í þeim tilvikum er fólk búið að kaupa sér nýjan bíl en hefur ekki tíma til að setja hinn í sölu eða því finnst það ekki borga sig að ráðast í kostnaðarsamar viðgerðir í ljósi þess hversu lágt verð er á notuðum bílum í dag. Þótt eigendur bíla komi akandi á bílunum til okkar og þeir líti sumir ágætlega út þá er ekki þar með sagt að þeir séu í stakasta lagi. Eigandinn hefur kannski verið búinn að borga 200 þúsund krónur í viðgerðir en þarf að leggja út 300 þúsund til viðbótar til að koma honum í ökuhæft ástand síðar. Í þeim tilvikum kaupir fólk frekar annan bíl,“ segir Valdimar og getur þess að þegar komið er með bíl til afskráningar og förgunar fær bíleigandi númeraplötur bílsins og greitt skilagjald sem er 20.000 krónur.

Allt undir í mikilvægustu þingkosningum síðari ára

Mynd/Pixabay

Kosið verður til Bandaríkjaþings á þriðjudaginn. Niðurstöðurnar munu ráða miklu um hvernig Donald Trump reiðir af á síðari hluta kjörtímabilsins og hafa mikil áhrif á forsetakosningarnar 2020. Kosið er um öll þingsætin 435 í fulltrúadeild þingsins, 35 sæti í öldungadeildinni og 36 af 50 ríkisstjórum. Trump hefur notið þess að Repúblíkanaflokkurinn hefur haft meirihluta í báðum deildum þingsins fyrstu tvö ár sín í embætti en demókratar gætu gert honum lífið leitt nái þeir meirihluta í annarri eða báðum deildum, rétt eins og repúblíkönum tókst að gera síðustu sex árin í forsetatíð Baracks Obama. Bandarísk stjórnmál eru gríðarlega eldfim um þessar mundir og sjaldan eða aldrei hefur gjáin á milli íhaldssamra og frjálslyndra verið breiðari. Til marks um hversu mikið er undir þá munu framboðin, hvort um sig, hafa eytt vel yfir 5 milljörðum dollara í kosningabaráttu sína þegar kjördagur rennur upp. Aldrei áður hefur jafnmiklu fé verið varið í miðkjörtímabilskosningum. Einnig er búist við sögulegri kosningaþátttöku, einkum á meðal ungs fólks en samkvæmt könnun Harvard Institute of Politics munu 49% fólks á aldrinum 18-29 ára mæta á kjörstað. Í þingkosningunum 2014 var hlutfallið 19,9%.

Baráttan um fulltrúadeildina

Keppt er um öll 435 sætin í fulltrúadeildinni en 218 þingsæti þarf til að ná meirihluta. Til þess þurfa demókratar að hirða 23 þingsæti af Repúblíkanaflokknum og nýjustu kannanir benda til þess að 85% líkur eru á að svo fari. Repúblíkanar hafa þó verið að sækja í sig veðrið undanfarnar vikur. Helsti vígvöllurinn eru úthverfin þar sem íbúar eru almennt betur stæðir og með meiri menntun en annars staðar. Þá munu atkvæði kvenna hafa lykiláhrif en samkvæmt könnunum aðhyllast þær Demókrataflokkinn í mun meiri mæli en karlar. Þannig sýna sömu kannanir að demókratar fengju 275 þingsæti ef eingöngu konur væru á kjörskrá.

Baráttan um öldungadeildina

Það er á brattann að sækja fyrir demókrata í öldungadeildinni þótt repúblíkanar séu nú aðeins með 51-49 meirihluta. Það er vegna þess að einungis er kosið um 35 þingsæti í þessari umferð og af þeim eru 26 í höndum demókrata. Mörg þessara þingsæta eru í dreifðari byggðum Bandaríkjanna sem er klárlega repúblíkönum í hag. Nýjustu kannanir benda til þess að 82,7% líkur séu á því að repúblíkanar haldi meirihluta sínum í öldungadeildinni og bæti jafnvel við sig sætum.

Stefnir í klofið þing

Ef að líkum lætur munu demókratar stjórna fulltrúadeildinni og repúblíkanar öldungadeildinni. Slíkt er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og í rauninni reglan fremur en undantekningin. Meirihluti í annarri hvorri deildinni tryggir demókrötum vald til að hindra lagafrumvörp úr röðum repúblíkana sem og frumkvæðið til að hrinda af stað rannsóknum á hvers kyns málum. Niðurstaðan yrði annaðhvort aukin samvinna milli flokka eða enn harðari deilur en áður þar sem eingöngu allra mikilvægustu mál ná í gegn. Með meirihluta í öldungadeildinni munu repúblíkanar eftir sem áður geta tryggt tilnefningum Trumps í hin ýmsu embætti framgang. Þá má búast við að Trump notist í auknum mæli við forsetatilskipanir, rétt eins og Barack Obama gerði eftir að repúblíkanar náðu meirihluta í báðum deildum.

Innflytjendur og hatursorðræða stóru málin

Að venju koma upp stór mál í aðdraganda kosninga sem talin eru hafa mikið um það að segja um niðurstöðuna. Donald Trump hefur gert fólksflutningalestina frá Mið-Ameríku að sínu helsta kosningamáli og spilað á ótta fólks með þeirri orðræðu að demókratar vilji opin landamæri á meðan repúblíkanar standi vörð um öryggi almennings. Þá hefur hann viðrað hugmyndir um að skrifa undir forsetatilskipun um að fella úr gildi lög sem veita börnum ólöglegra innflytjenda sjálfkrafa ríkisborgararétt. Að sama skapi hafa demókratar kennt forsetanum um að kynda undir hatursglæpum og hatursfullri orðræðu í garð fjölmiðla og minnihlutahópa, samanber sprengjusendingar til aðila tengdum Demókrataflokknum og skotárás á bænahús gyðinga í Pennsylvaníu um liðna helgi.

Eiga konur að vera betri stjórnmálamenn?

Kvennafrídagurinn 24. október síðastliðinn markaði fjörutíu og þriggja ára afmæli þess er 90 prósent íslenskra kvenna lögðu niður vinnu og fjölmenntu á Lækjartorg til að mótmæla kynbundnum launamun og öðru misrétti sem konur urðu fyrir í samfélaginu. Sýndu og sönnuðu að vinnuframlag kvenna skiptir sköpum fyrir hin margfrægu „hjól atvinnulífsins“ og að samtakamáttur kvenna er frumforsenda þess að framfarir náist. Síðan þá hefur Ísland skipað sér í fremstu röð hvað varðar jafnrétti og er ár eftir ár í efsta sæti lista yfir lönd sem standa sig best við að tryggja réttindi kvenna. Það var því til einhvers barist þótt enn sé því miður langt í land með að fullt jafnrétti náist.

Á þessu fjörutíu og þriggja ára afmæli voru enn og aftur haldnir útifundir víða um land, skrifaðar greinar í fjölmiðla og rykið dustað af gömlum baráttusöng Rauðsokkanna sem voru hvatakonur að kvennaverkfallinu 1975. Allt hið ágætasta mál en féll nokkuð í skuggann af pistli sem eigandi Kvennablaðsins, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, skrifaði á vefsíðu blaðsins þar sem hún, að margra mati, réðist gegn þeim konum sem hæst ber í þjóðfélaginu í dag. Það varð uppsláttur á flestum vefmiðlum að Steinunn Ólína hefði sagt forsætisráðherra landsins, Katrínu Jakobsdóttur, vera eins og tusku í höndum Bjarna Benediktssonar. Og 90 prósent þeirra sem tjáðu sig um skrifin voru hin lukkulegustu með þessa einkunn sem konunni í forsætisráðherrastólnum var gefin. Þannig er nú kvennasamstaðan fjörutíu og þremur árum síðar.

Það virðist reyndar vera að verða nokkurs konar þjóðaríþrótt að hrauna yfir Katrínu Jakobsdóttur og kenna henni um allt sem aflaga fer í höndum núverandi ríkisstjórnar og fer ekki hjá því að maður velti því fyrir sér hvort hún fengi aðra eins útreið ef hún væri karlmaður. Ekki var Sigmundur Davíð kallaður tuska í höndum Bjarna Ben þegar þeir voru saman í ríkisstjórn, svo dæmi sé tekið, og reyndar hefur enginn karlkynsforsætisráðherra fengið yfir sig aðra eins lítillækkun og ásakanir um þjónkun eins og Katrín. Það fer því ekki hjá því að maður spyrji sig hvort það þyki góð og gild latína í jafnréttisparadísinni Íslandi að tala niður til kvenna í áhrifastöðum og gera því skóna að þær séu viljalaus verkfæri í höndum karlanna sem þær vinna með. Séu tuskur og strengjabrúður.

Undirliggjandi tónn í þessum niðrunum sem beint er að forsætisráðherranum er að vegna þess að hún er kona eigi að gera meiri kröfur til hennar um gott siðferði og „kvenleg“ sjónarmið í pólitík. Konur eiga sem sagt enn og aftur að standa sig betur en karlarnir, vera „betri“ í því sem þær gera og sanna að það skipti máli að hafa konur í áhrifastöðum. Þær eru enn þá fyrst og fremst metnar út frá kynferði sínu og eiga að vera „fyrirmyndir“ ungra stúlkna. Aldrei er minnst á það að karlar í stjórnmálum eigi að vera fyrirmyndir ungra drengja í sínum störfum. Er ekki einhver tímaskekkja í þessari hugsun?

Óður til mannslíkamans

Steindór Grétar Jónsson, blaðamaður á Stundinni, hlustar aðallega á teknó en segist þó vera með frekar breiðan smekk þegar kemur að tónlist. En hverju skyldi hann Steindór mæla með á fóninn um helgina?

„Á föstudagseftirmiðdegi er tilvalið að hressa sig við eftir erfiða vinnuviku og hlusta á Sister Sledge – We  Are Family. Allir helstu diskóslagarar systrasveitarinnar voru samdir fyrir þessa plötu undir dyggri handleiðslu Nile Rodgers og Bernard Edwards. Svo er varla þess virði að hlusta á titillagið nema það sé plötuútgáfan í allri sinni átta mínútna dýrð.

Á laugardegi þarf svo að hækka orkustigið aðeins og skella Kraftwerk – Tour de France Soundtracks á fóninn. Nýjasta (eða síðasta?) plata þýsku frumkvöðlanna tók hljóðheim þeirra inn í 21. öldina til að marka 100 ára afmæli frönsku hjólreiðakeppninnar. Hún er óður til mannslíkamans og getu hans til að hjóla í gegnum mótlæti.

Á sunnudegi er svo orkan uppurin og þörf á að hugsa sinn gang og taka stöðuna á tilverunni. Þá passar engin plata betur en Talk Talk – Spirit of Eden. Um að gera að taka sér kaffibolla í hönd og stara út um gluggann eða á hvítan vegg og leyfa ljúfri rödd Mark Hollis að friða sálartetrið.“

Ef þú sérð eitthvað – gerðu eitthvað

Í tilefni þess að Blátt áfram að var ýta úr vör nýrri vitundarvakningu, Ef þú sérð eitthvað – gerðu eitthvað, hittum við Þórleifu Guðjónsdóttur, verkefnastjóra hjá samtökunum, og fengum kynningu á vitundarvakningunni og frekari innsýn í starfsemi samtakana.

Getur þú sagt okkur nánar frá vitundarvakningunni og markmiðum hennar? „Vitundarvakningin snýst um að fullorðnir geti verndað börn og komið í veg fyrir áreitni og ofbeldi gegn þeim. Við munum standa fyrir auglýsingaherferð, fræðslu og  undirskriftarlista í tengslum við hana.  Með undirskriftarlistanum viljum við þrýsta á stjórnvöld að setja þekkingu um áfallamiðaða þjónustu í háskólum landsins og með því að skrifa undir eru fullorðnir að stíga eitt skref í að gera eitthvað og hafa áhrif í lífi barna,“ segir Þórleif.

Eru margir samstarfsaðilar sem koma að vitundarvakningunni? „Já, þetta er mín fyrsta herferð og ég hefði aldrei trúað því hvað þetta er mikil vinna og hvað það eru margir sem vinna á bak við eina vitundarvakningu sem stendur í viku. Málefnið er gott svo það eru margir tilbúnir að leggja hönd á plóg og langar okkur að koma þökkum til Írisar Bjargar og Dóru Haralds sem eru okkar konur á bak við tjöldin í kvikmyndateymi okkar, þá sérstaklega Ástu Jónínu Arnardóttur og Signýar Rósar Ólafsdóttur og til allra sem léku í myndbandinu. Svo eru mörg fyrirtæki á bak við okkur og viljum við þá helst nefna Alvotech, Gangverk og The Engine.“

Málefnið er gott svo það eru margir tilbúnir að leggja hönd á plóg.

Hvernig gekk að fá einstaklinga til leggja ykkur lið í vitundarvakningunni, koma fram í myndbandinu?„Það gekk frábærlega – forvarnir gegn kynferðisofbeldi er þannig málefni að það vilja allir taka þátt í að stöðva ofbeldi gegn börnum í  samfélaginu.“

Hefur fjöldi tilkynninga um kynferðisofbeldi gegn börnum aukist á síðastliðinum árum? „Samkvæmt skýrslu Barnaverndarstofu hefur tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um 2,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 miðað við sama tímabil árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 14,9% ef miðað er við fyrstu þrjá mánuði ársins 2016. Fjöldi tilkynninga á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 var 2.511 en 2.567 á sama tímabili árið á undan.“

Hefur kynferðisofbeldi gegn börnum aukist eða hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu sem gerir það að verkum að tilkynningar eru fleiri í dag en áður? „Rannsóknir styðja að almennt er tilkynningum að fjölga hjá starfstéttum sem starfa með börnum í leik- og grunnskólum, sérstaklega hjá þeim sem fá viðbótar þjálfun í að þekkja merkin og vita hvernig best er að grípa til aðgerða og tilkynna grun. Við teljum að það sé mikilvægt að tilkynna um vanlíðan hjá barni til Barnaverndar og þannig fái þau hjálp fyrr á lífsleiðinni.“

Hvernig bregðist þið við ef þið fáið tilkynningar inn á borð til ykkar, hvert er ferlið? „Við hlustum og leyfum fólki að segja frá, flestir eru óttaslegnir við að hringja og tilkynna grun. En við hvetjum fólk til að taka næstu skref, hafa samband við Barnahús fá fleiri ráðleggingar þar og hafa samband við Barnavernd í sínu bæjarfélagi.“

„Með þessari vitundarvakningu erum við með undirskriftarlista þar sem við skorum á stjórnvöld að í háskólum landsins verði þekking um áfallamiðaða þjónustu.“

Getið þið mælt hvort vitundarvakningar sem þessar skili árangri? „Með þessari vitundarvakningu erum við með undirskriftarlista þar sem við skorum á stjórnvöld að í háskólum landsins verði þekking um áfallamiðaða þjónustu.  Svo erum við með annað flóknara kerfi sem telur  svokölluð „klikk“  á auglýsingum, heimsóknir á heimasíðuna okkar og áhorf á myndbandið sem fylgir vitundarvakningunni,“ segir Þórleif og er bjartsýn.

Forvarnir skila árangri og mikilvægt að stuðla að forvörnum – við berum öll ábyrgð

„Við fögnum því að fleiri taka nú þátt í að ræða og fræða fullorðna um forvarnir gegn ofbeldi á börnum. Við höfum frætt nú um 15% þjóðarinnar og eigum enn langt í land.  Vitundarvakningin í ár, Ef þú sérð eitthvað, gerðu eitthvað, er beint að samfélaginu öllu. Öll berum við saman ábyrgð á velferð barna í kringum okkur, ekki bara okkar eigin. Að breyta hegðun sinni og kjósa að líta ekki fram hjá ofbeldi lengur þýðir hugarfarsbreyting. Það gerist ekki sjálfkrafa, heldur þarf hver og einn að ákveða að hætta að vera áhorfandi, heldur stíga skref til verndar aðilum ef þörf krefur. Þín viðbrögð gætu forðað einhverjum frá því að það verða fyrir kynferðisofbeldi.“

  1. Veittu því athygli að eitthvað er að gerast
  2. Túlkaðu alvarleika atburðarins
  3. Taktu ábyrgð og veittu hjálp
  4. Ákveddu hvernig hjálp

Nánari leiðbeiningar er að finna inn á vef www.blattafram.is

Í samstarfi við Blátt áfram
Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

 

Náttúruauðlindir við Mývatn – himneskt að njóta

Jarðböðin við Mývatn eru einstök náttúruauðlind sem laða að og útsýnið er stórfenglegt. Jarðböðin eru staðsett í Jarðbaðshólum, um fjóra kílómetra frá Reykjahlíð. Þar hafa verið stunduð heit jarðböð til heilsubótar allt frá landnámsöld og æ fleiri sækja í þessa náttúruparadís. Við hjá Mannlífi fórum og heimsóttum Jarðböðin og hittum Heiðu Halldórsdóttur markaðstjóra og svöluðum forvitni okkar um það sem í boði er.

Heiða Halldórsdóttir.

Getur þú sagt okkur aðeins frá upphafi Jarðbaðanna og hvert markmið ykkar er með þeim? „Jarðböðin voru formlega opnuð 30. júní 2004 og eru opin allt árið. Útsýnið úr böðunum er einstakt og við leggjum mikla áherslu á að gestir okkar upplifi slökun og vellíðan þegar þeir koma til okkar í Jarðböðin. Við leggjum einnig mikla áherslu á gufuböðin okkar en þau eru byggð ofan á sprungu þar sem náttúruleg gufa stígur upp úr jörðinni. Hvergi annars staðar á Íslandi stígur hrein vatnsgufa, laus við brennistein og aðra mengun, upp úr jörðinni. Við stjórnum því ekki hitanum í gufubaðinu, náttúran sér alfarið um það.“

Hefur reksturinn tekið miklum breytingum á síðustu árum? „Jarðböðin hafa tekið miklum breytingum. Við höfum verið að stækka við okkur hægt og rólega þar sem gestum hefur fjölgað talsvert á síðustu árum. Við höfum einnig bætt veitingaaðstöðu okkar og stækkað salinn í takt við aukningu gesta.“

Aðstaðan hjá ykkur er hin glæsilegasta og margt í boði. Geturðu sagt okkur aðeins frá aðstöðunni og því sem í boði er? „Gestir okkar hafa aðgang að öllu baðsvæðinu en það samanstendur af heitu lóni, heitum potti og gufuböðum. Vatnið í lóninu og pottinum er jarðvarmavatn sem inniheldur mikið magn jarðefna, er basískt og hentar því vel til böðunar. Gufuböðin eru tvö og þar geta fjörutíu gestir verið í einu. Gestum er frjálst að dvelja eins lengi og þeir vilja hjá okkur og margir nýta sér það að fá sér léttar veitingar í Kaffi Kviku á milli þess sem það fer í bað eða gufu.“

Eru Íslendingar, jafnt og erlendir ferðamenn, duglegir að koma? „Við fáum bæði til okkar Íslendinga og erlenda ferðamenn en þeir erlendu eru í miklum meirihluta. Við fáum einnig margt heimafólk sem er okkur mjög mikilvægt og til dæmis eiga margir hér í sveitinni og nágrenni árskort í Jarðböðin.“

Lónið er einstaklega fagurt og dásamlegt að njóta þar. Er boðið upp á veitingar þar? „Við erum með lítið kaffihús hjá okkur sem heitir Kaffi Kvika. Þar er hægt að njóta léttra veitinga í fallegu umhverfi. Við bjóðum upp á súpu og salat, samlokur, boost og fleira. Við seljum einnig léttvín og bjór og er vinsælt að taka með sér drykk ofan í böðin.“

Bjóðið þið hópum, stórum sem smáum, að koma og njóta bæði í dekur og veitingar? „Það eru allir velkomnir til okkar og hafa hópar verið duglegir að koma jafnt sumar sem vetur. Næg gisting er í boði á svæðinu og það er vinsælt hjá starfsmannahópum að koma í sveitina og njóta Jarðbaðanna og alls þess sem þetta fallega svæði hefur upp á að bjóða.“

Einnig er boðið upp á vinsæla viðburði í Jarðböðunum.  „Við höfum verið dugleg að bjóða upp á viðburði sem gestir geta notið á meðan þeir baða sig, en Emmsjé Gauti hefur komið tvisvar sinnum og spilað hjá okkur. Daði Freyr kom í sumar og fleiri listamenn hafa haldið tónleika hér í Jarðböðunum. Næsti viðburður er Jólasveinabaðið sem verður þann 8. desember en þá koma jólasveinarnir úr Dimmuborgum í heimsókn og fara í sitt árlega bað. Við hvetjum alla til að koma og sjá þá bræður fara á kostum í jólabaðinu,“ segir Heiða og brosir.

„Við höfum verið dugleg að bjóða upp á viðburði sem gestir geta notið á meðan þeir baða sig.“

Besti tíminn til að fara í Jarðböðin? „Á sumrin er magnað að upplifa miðnætursólina í böðunum en minn uppáhaldstími er á veturna. Það er einstakt að vera hér yfir hávetur þegar það er mikið frost, snjór allt um kring og sjá norðurljósin og stjörnurnar dansandi á himninum.“

Í samstarfi við Jarðböðin við Mývatn
Myndir / Úr safni Jarðbaðanna við Mývatn

 

 

Þjónusta, gæði og ábyrgð – það er Tengi

Á dögunum heimsóttum við sérverslunina Tengi sem sérhæfir sig í vörum fyrir bað og eldhús og er þekkt fyrir að bjóða upp á góða þjónustu. Okkur lék forvitni á að vita um helstu áherslur Tengis og vöruúrvalið. Við hittum þar Arnar Árnason, sölu- og markaðsstjóra, og spurðum hann spjörunum úr.

Segðu okkur aðeins frá sérvöruversluninni Tengi og helstu áherslum ykkar? „Tengi sérhæfir sig í sölu á hreinlætis- og blöndunartækjum fyrir bað og eldhús ásamt því að vera fagverslun með pípulagnaefni. Við leggjum mikla áherslu á gæðavöru og hátt þjónustustig.“

Þið leggið mikla áherslu á að vera með góða þjónustu, hvaða þjónusta er það sem þið bjóðið helst? „Fyrst og fremst persónulega og faglega þjónustu þar sem við leitum allra leiða til að finna réttu lausnina á þörfum okkar viðskiptavina. Þegar þú endurnýjar allt á baðinu hjá þér eða byggir nýtt þá skiptir máli að velja vandaða vöru sem endist, þess vegna er gott að koma í Tengi.“

Fyrir hvað eruð þið þekktust? „Tengi hefur alla tíð lagt áherslu á langtímasamband við sína birgja þar sem traust og áreiðanleiki er haft að leiðarljósi. Það færist yfir til okkar viðskiptavina þar sem þeir geta treyst á þær vörur sem þeir kaupa hjá okkur og með því byggist upp langtímasamband við viðskiptavini okkar,“ segir Arnar.

Þið bjóðið upp á fjölbreytt úrval af vörum fyrir baðherbergi, hvaða vörur eru það helst? „Það má segja að við bjóðum upp á allt frá A-Ö sem tengist hreinlætis- og blöndunartækjum fyrir baðið. Handlaugar, blöndunartæki, allt fyrir sturtuna, salerni, innréttingar og margt fleira.“

Tímalaus tæki hönnuð af Arne Jacobsen

Hvaða blöndunartæki eru vinsælust í dag? „Sænsku tækin frá Mora og þýsku tækin frá Hansa er ávallt mjög vinsæl. Einnig eru dönsku tækin frá Vola afar vinsæl um þessar mundir þar sem viðskiptavinir hafa mikið val um útfærslu og liti. Þessi tímalausu tæki hannaði Arne Jacobsen og fagnar Vola 50 ára afmæli á þessu ári.“

„Það má segja að við bjóðum upp á allt frá A-Ö sem tengist hreinlætis- og blöndunartækjum fyrir baðið.“

Einnig eru þið með vörur fyrir eldhús í háum gæðaflokki, er einhver tegund vinsælli en önnur í hreinlætis- og blöndunartækjum í dag? „Við bjóðum upp á breitt úrval af tækjum frá mismunandi framleiðendum en þeir sem vilja flotta hönnun velja mest Vola, svissnesku tækin frá KWC og Dornbracht sem er þýskt gæðamerki. Einnig erum við með eldhúsvaska í öllum útfærslum.“

Eru ákveðnir litir og form sem fara meira en annað í dag? „Svart virðist vera mjög vinsælt um þessar mundir, bæði sem matt svart og svo sem burstað svart króm. Einnig eru kopar, brass og burstað stál vinsælir litir. Annars fer alltaf mest af hinu klassíska krómi.“

Heyrst hefur að frístandandi baðkör séu móðins í dag og allra vinsælust, er það rétt? „Frístandandi baðkör eru afar vinsæl um þessar mundir og setja svo sannarlega punktinn yfir i-ið þegar verið er að hanna nýtísku baðherbergi.“

Í samstarfi við Tengi
Mynd /Hákon Davíð Björnsson

 

 

Ísland í viðkvæmri stöðu

Alþjóðamál koma öllum við með einum eða öðrum hætti. Ísland er þar ekki eyland, þrátt fyrir eingangraða landfræðilega eyríkisstöðu í Atlantshafinu.

Það hefur stundum verið sagt um alþjóðavæðinguna að hennar helsta ógn sé hún sjálf og afleiðingar hennar. Bandaríkin má segja að endurspegli alþjóðavæddan heim betur en nokkur annar staður í veröldinni.

Þar eru kraftar úr öllum áttum og flest af stærstu og áhrifamestu alþjóðavæddu fyrirtækjum heimsins. En á stórum svæðum, ekki síst í hinum svonefndu miðríkjum, hefur efnahagsvandi verið viðvarandi á stórum svæðum, sem rekja má til þess að störf hafa færst frá þeim svæðum til annarra landa. Þetta á ekki síst við um verksmiðju- og framleiðslustörf.

Á mörgum svæðum hefur undanfarinn áratugur verið sérstaklega erfiður bæði félags- og efnahagslega. Þrátt fyrir hátt atvinnustig, þá hefur engu að síður verið erfitt fyrir stóra hópa að ná endum saman og lifa með reisn. Fjármálakreppan fyrir áratug hafði mikil áhrif á lífskjör í miðríkjunum og hafa undanfarin tíu ár verið eyðimerkurganga fyrir marga. Hvaða áhrif hefur breytt heimsmynd á Ísland og íslenska hagsmuni? Hvaða áhrif hefur tollastríð Bandaríkjanna og Kína á Ísland?

Fjallað er ítarlega um þetta í Mannlífi í dag og á vef Kjarnans.

Sykur heldur uppi stuðinu á Bryggjunni brugghúsi

Dans- og rafpoppsveitin Sykur ætlar að halda uppi stuðinu á Bryggjunni brugghúsi annað kvöld, laugardaginn 3. nóvember. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og er frítt inn.

Í gegnum tíðina hefur Sykur ítrekað sannað sig sem ein hressasta hljómsveit landsins og staðið fyrir rafmögnuðum partýtónleikum sem skilja ekki þurran blett eftir á dansgólfinu. Þau lofa góðri stemmningu annað kvöld.

Bryggjan brugghús hvetur fólk til að mæta snemma og nærast, hvort sem það er í föstu eða fljótandi formi. Eldhúsið er opið frá 17:00 til 22:30 og barinn til 01:00. Borðapantanir í síma 456-4040.

Flugfarþegar þurfa í sérstök viðtöl til að komast til Bandaríkjanna

Bandarísk flugmálayfirvöld herða öryggiskröfur enn frekar.

Að kröfu bandarískra flugyfirvalda (TSA) eru öll flugfélög skyldug til þess að framkvæma öryggisskimun á farþegum sem fljúga til Bandaríkjanna áður en þeir fara um borð sem felst í stuttum viðtölum þar sem farþegar eru meðal annars spurðir út í ferðatilhögun þeirra.

Þessi skimun hófst í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík í október sl. og er enn unnið að innleiðingu hennar. Þetta eru kröfur sem TSA setur á öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna. Þetta fyrirkomulag hefur verið til staðar fyrir önnur svæði í heiminum í nokkurn tíma og hefur nú verið innleitt fyrir öll félög.

„Þetta er krafa á flugfélögin en ekki flugvöllinn og það eina sem við gerum er að útvega pláss og aðstöðu til handa þeim sem framkvæma viðtölin. Ef þörf er á aðstoðum við flugfélögin með flæðið á farþegunum,” segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, í samtali við Mannlíf.

Talsmenn íslensku flugfélaganna WOW air og Icelandair staðfestu í samtali við Mannlíf að skimun væri hafin á farþegum sem fljúga beint frá Íslandi og að unnið væri að því að innleiða slík viðtöl fyrir tengiflugsfarþega þar sem það ætti við.

Segja engum gögnum safnað um farþega

„WOW air hefur falið svissnesku öryggisfyrirtæki, sem hefur áratugareynslu af flugöryggismálum, yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins bæði hér heima og á erlendum flugvöllum,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs WOW air. Hún útskýrði jafnframt að í viðtölunum sé beitt spurningaaðferð sem samþykkt hefur verið af bandarískum yfirvöldum og tók fram að engum gögnum sé safnað um flugfarþega félagsins.

„WOW air hefur falið svissnesku öryggisfyrirtæki, sem hefur áratugareynslu af flugöryggismálum, yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins bæði hér heima og á erlendum flugvöllum.“

Icelandair hefur einnig byrjað slíka viðtalsskimun á farþegum sem hefja ferð sína í Keflavík. „Í nóvember mun Icelandair einnig láta taka viðtöl við farþega sem hefja ferð sína í Evrópu eða Bretlandi og skipta síðan um vél í Keflavík áfram til Norður- Ameríku. Viðtöl við þessa tengifarþega munu að mestu vera framkvæmd í Evrópu og Bretlandi en þar sem það er ekki hægt verða viðtölin framkvæmd í Keflavík. Viðtöl við farþega sem hefja ferð sína í Keflavík fara fram í innritunarsal fyrir þá sem eru með innritunarfarangur en við öryggisleit fyrir þá sem ekki eru með innritunarfarangur. Viðtöl við tengifarþega í Keflavík munu annaðhvort fara fram fyrir aftan landamæri eða við hlið,“ segir Lea Gestsdóttir Gayet, almannatengill hjá Icelandair, og bætir við að félagið kaupi þá þjónustu sem felist í að þessar öryggiskröfur séu uppfylltar. Þessi viðbót hafi því ekki áhrif á starfsmannaveltu félagsins.

Unnið að því að fyrirbyggja tafir

TSA krefst sérstakrar þjálfunar starfsfólks sem framkvæmir viðtölin svo þau geti náð markmiðum þessara öryggiskrafna. Að sögn Leu hefur slík þjálfun þegar farið fram hjá þeim sem sinna þessum störfum fyrir hönd Icelandair.

„Ákveðinn kostnaður fylgir hverju verkefni en öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna verða að fylgja þessu eftir,“ segir Lea og bætir við: „Þessi viðtöl tryggja enn frekar öryggi farþega um borð.“

Þá leggur Lea áherslu á að í samstarfi ISAVIA hafi flugfélagið unnið að því að koma í veg fyrir að farþegar til annarra svæða en Bandaríkjanna verði ekki fyrir töfum vegna viðtalanna og almennar tafir á brottförum. Jafnframt sé reynt að tryggja að flæði innan vallarins sé ekki truflað.

Þegar flugfélög í Evrópu og Asíu innleiddu þessar sömu breytingar beindu þau þeim tilmælum til farþega að mæta tímanlega á flugvöllinn til að fyrirbyggja tafir, allt frá 90 mínútum upp í þrjár klukkustundir fyrir brottför. Nú þegar er mikill erill á álagstímum í Leifsstöð og á næstu vikum mun koma í ljós hvort og þá hvaða áhrif þessar nýju reglur hafa á brottfarartíma frá Keflavík.

„Við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð, en við erum það ekki“

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu Íslands, hefur marga fjöruna sopið í nýsköpunarmálum og hefur nú starfað fyrir tæknirisann Google í fjögur ár. Þar hefur hann meðal annars komið því á koppinn að íslenska er eitt þeirra tungumála sem Google Assistant styður.

„Ég hef reyndar verið þess heiðurs aðnjótandi að starfa tvisvar hjá Google. Fyrst fór ég þangað eftir að ég útskrifaðist úr MBA-náminu hjá MIT árið 2005 og í seinna skiptið keypti Google fyrirtækið mitt, Emu, árið 2014 og hef ég starfað þar síðan þá,“ segir Guðmundur sem í millitíðinni var yfir vöruþróun hjá Siri, sem var keypt af Apple, og stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki, sem eins og áður var sagt, var keypt af Google.

„Ég hef verið yfir vöruþróun alla mína tíð og það starf felst í ýmsu en þó helst að móta stefnu vöruþróunar sem þýðir að reyna að átta sig á hvaða vandamál fólk stendur frammi fyrir, hvernig tæknilausn getur tekist á við það vandamál, og svo sannfæra hópa af fólki að það sé raunin.

Þegar ég kom fyrst til Google var ég yfir vöruþróun á Google Maps fyrir farsíma, kom því á markað og endaði með því að semja við Apple um að það væri á fyrsta iPhone-símanum. Þar næst var ég yfir þróuninni á „voice search“, þ.e. að gera fólki kleift að tala við Google-leitina, kom því einnig á markað og í hendur á fólki með hvers kyns farsíma. Núna nýlega hef ég verið yfir vöruþróuninni á Google Assistant, og sama sagan þar að ég setti saman upprunalegu sýnina og fylgdi því á markað og áfram.“

Mikilvægt að tækin skilji íslensku

Guðmundur verður með fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag þar sem hann mun tala um nýsköpun almennt. „Hvers vegna hún er mikilvæg í heiminum og hvernig við getum beitt henni til að bæta okkar þjóðfélag og mögulega haft áhrif víðar en það,“ segir Guðmundur. Hann segir að ýmislegt sé gert hér á landi í nýsköpun en einnig sé margt sem megi bæta.

„Nýsköpunarumhverfið hefur þróast mjög hratt og það má segja að innviðirnir hafi ekki endilega haldið í eins og þyrfti en það er eitthvað sem við erum að skoða. Annað sem mér finnst áhugavert er að við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð en við erum það ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur að sjá okkur eins og við erum, lítil nútímaþjóð sem getur látið hlutina gerast hratt, og finna hvernig við getum nýtt okkur það sem styrkleika. Sífellt koma fleiri tæki á markað sem hægt að að tala við og mikilvægt að íslenska verði eitt af tungumálunum sem þau munu skilja.“

„Annað sem mér finnst áhugavert er að við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð en við erum það ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur að sjá okkur eins og við erum, lítil nútímaþjóð sem getur látið hlutina gerast hratt.“

Mörg skemmtileg tækniundur eru pípunum og Guðmundur er spenntur fyrir þeim mörgum. „Til dæmis sjálfkeyrandi bílar og ýmis spennandi verkefni varðandi nútímavæðingu samfélags á öllum sviðum en það er alveg vonlaust að vita hvert heimurinn er að fara með einhverri vissu. Það er reyndar eitt af því sem er að gerast í dag, að heimurinn er að breytast hraðar en nokkru sinni fyrr en tæknin sem við erum að þróa er orðin ofsalega öflug sem gerir framtíðina, að mínu mati, meira spennandi en nokkru sinni fyrr. En þá er líka eins gott að við séum að taka markvisst þátt í þeirri þróun svo við verðum ekki skilin eftir.“

Mynd / Aðsend

 

 

 

 

 

 

„Ég missti öll tengsl við raunveruleikann“

Sigursteinn Másson

Snemma árs 1996 bankaði ókunnur maður að dyrum hjá Sigursteini Mássyni sem þá var ungur fréttamaður á Stöð 2. Hann kynnti sig sem Sævar Ciesielski og hafði undir höndum gögn um umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálið, og fór fram á að hann skoðaði það ofan í kjölinn. Sigursteinn var tregur í fyrstu en ákvað að sökkva sér ofan í málið. Það reyndist afdrifarík ákvörðun. Ekki bara áttu sjónvarpsþættir Sigursteins stóran þátt í því að opna augu þjóðarinnar fyrir því réttarfarshneyksli sem málið var heldur átti líf Sigursteins eftir að taka stakkaskiptum og marka upphafið að baráttu hans við geðhvörf.

Sögulegar málalyktir urðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á dögunum þegar Hæstiréttur sýknaði þá Kristján Viðar Júlí­us­son, Sæv­ar Marinó Ciesi­elski, Tryggva Rún­ar Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son af því að hafa orðið þeim Guðmundi og Geirfinni að bana, eftir að endurupptökunefnd féllst á að taka málið upp að hluta. Má segja að dómurinn ljúki því ferli sem Sigursteinn hóf fyrir 22 árum þegar vinna við sjónvarpsþættina Aðför að lögum hófst. Þeir þættir opnuðu augu almennings fyrir því hversu meingölluð rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum var og gjörbreyttu almenningsálitinu sem fram að því hafði ekki verið hliðhollt sakborningunum. Sigursteinn lítur hins vegar ekki svo á að málinu sé lokið enda hafi nafn sakborninga í málinu ekki verið hreinsað að fullu. Eftir stendur að þau eru enn sek fyrir rangar sakargiftir. „Þetta er í rauninni hálfleikur. Þessi niðurstaða Hæstaréttar og í raun með hvaða hætti endurupptökunefndin og saksóknarinn settu þetta upp er hneisa, að mínu mati. Þau höfðu tækifæri til að laga málið allt saman og hreinsa allt málið en þau fóru bara hálfa leið. Að halda eftir röngum sakargiftum er fullkomlega út í hött, algjörlega ábyrgðarlaust, óskammfeilið og virðist gert til þess að vernda kerfið, að vernda þá aðila sem raunverulega bera ábyrgð á því hvernig þetta fór allt saman. Þetta er einfaldlega gert til að koma í veg fyrir að kerfið standi allt saman berháttað í málinu eins og það í raun ætti að vera.“

Sáum strax að málið var meingallað

Sigursteinn var barn að aldri þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið stóð sem hæst og hafði hann aðeins óljósa minningu um málið þegar Sævar Ciesielski bókstaflega færði það upp í hendurnar á honum. „Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Ég bjó á Kaplaskjólsveginum á annarri hæð í lítilli tveggja herbergja íbúð. Eitt kvöldið, frekar seint, var bankað að dyrum hjá mér og á ganginum stóð þessi lágvaxni granni maður með tvö þykk hefti í höndunum og hann kom sér beint að efninu sem var hans stíll: „Sæll, Sigursteinn. Ég heiti Sævar Ciesielski. Mér var sagt að tala við þig og ég vil spyrja þig hvort þú sért tilbúinn til að skoða Guðmundar- og Geirfinnsmálin“.“

Þá voru liðin 16 ár frá því Sævar var dæmdur í 17 ára fangelsi í Hæstarétti. Sigursteinn, þá 29 ára og þegar orðinn einn af þekktari fréttamönnum landsins, tók við gögnunum en tjáði Sævari um leið að hann væri ekki viss hvort hann gæti nokkuð gert við þau. Fyrst og fremst spáði Sigursteinn í það hvernig Sævar hefði komist inn í stigaganginn án þess að hringja dyrasímanum í anddyrinu. Nokkrum dögum síðar bankaði Sævar aftur upp á, og aftur án þess að hringja dyrasímanum, og afhenti Sigursteini öll gögnin sem lágu fyrir í málinu.

Eftir stutta yfirferð varð honum ljóst að eitthvað verulega hafði farið úrskeiðis við rannsókn málsins. „Þarna um sumarið 1996 opinberaðist fyrir mér ljótleiki málsins og ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri meingallað mál.“ Sigursteinn ákvað fljótlega að gera heimildamynd í tveimur þáttum um málið og fékk til liðs við sig þá Einar Magnús Magnússon og Kristján Guy Burgess. „Þá hófst þessi vinna fyrir alvöru og maður sá strax að það vantaði rosalega mikið í gögnin. Til að mynda ótal margar yfirheyrslur sem voru ekki til staðar. Þetta sást til að mynda glögglega þegar við komumst í dagbækur Síðumálafangelsis sem var ævintýralegt. Þá sáum við að það höfðu farið fram yfirheyrslur sem tóku marga klukkutíma en ekkert var til um.“

„Þarna um sumarið 1996 opinberaðist fyrir mér ljótleiki málsins og ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri meingallað mál.“

Gagnaöflun gekk þokkalega þótt þeir hafi víða mætt tregðu í kerfinu við að veita upplýsingar. „Við létum ekkert vita af þessari vinnu okkar opinberlega fyrr en í september þegar hún hafði staðið yfir í einhverja níu mánuði. Þá, einhvern veginn, fór ýmislegt að breytast.“

Sigursteinn nefnir að þeir hafi verið í samstarfi við þýskan blaðamann sem hafði það verkefni að hafa uppi á Karli Schütz, þýskum rannsóknarforingja á eftirlaunum sem fenginn var til að aðstoða við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Margt var á huldu um Schütz, bæði hvað varðar fortíð hans sem og hvers vegna hann var fenginn til að koma að rannsókn mannshvarfsmáls á Íslandi. „Þetta var ekki venjulegur lögreglumaður. Þetta var maður sem hafði verið innsti koppur í búri varðandi pólitíska þróun Vestur-Þýskalands eftir stríð. Við komumst að því að hann var foringi í SS-sveitum nasista en ekki nákvæmlega hvar hann var og hvað hann gerði. Þessi blaðamaður hafði samband við okkur eftir að við gerðum þetta opinbert og sagði að skyndilega hafi allt lokast honum. Hann tilkynnti okkur að hann gæti ekki haldið áfram að vinna fyrir okkur því allar dyr höfðu lokast í Þýskalandi.“

Missti öll raunveruleikatengsl

Um sama leyti fór Sigursteinn að fá á tilfinninguna að honum væri veitt eftirför. „Ég hafði tekið eftir bíl, brúnum Ford, sem dúkkaði alltaf upp og fylgdi mér þegar ég var að fara til Kristjáns Guy sem bjó í Þingholtunum eða Einars Magnúsar sem bjó á Ránargötunni.“ Sigursteinn rifjar upp atvik þar sem umræddur bíll ók á eftir bíl hans upp Melhaga eitt kvöldið. „Ég stoppaði bílinn og þeir komu alveg aftan að mér, það nálægt mínum bíl að ég sá ekki númeraplötuna á bílnum þeirra. Ég horfði í baksýnisspegilinn til að reyna að átta mig á hverjir þetta væru en þeir sátu báðir með hendurnar fyrir andlitinu og ég sá að þeir voru að ræða sín á milli. Ég hef oft hugsað um það eftir á hvað hefði gerst ef ég hefði farið út úr bílnum og gengið á þá þarna á staðnum. En ég mat það á þessum örfáu sekúndum, þótt þetta hafi liðið eins og heil eilífð fyrir mér, að það væri best að bruna í burtu. Ég spændi því upp Melhagann á Renault-bílnum mínum. Þeir urðu eftir og færðu sig ekki.“

„Ég var algjörlega sannfærður um að skruðningarnir sem ég heyrði í heimasímanum dagana á undan væru merki um að það væri verið að hlera mig“

Það var á þessum tíma sem Sigursteinn byrjaði að „missa fótanna“ og upplifa fyrstu einkenni geðhvarfa. Dagana á eftir fór hann í felur, úr einu húsi í annað. „Ég gisti hjá vinum mínum, í sumarbústað úti á landi og svo framvegis. Ég var algjörlega sannfærður um að skruðningarnir sem ég heyrði í heimasímanum dagana á undan væru merki um að það væri verið að hlera mig. Ég var orðinn svo ofsóknaróður að þetta endaði á því að ég gat hvorki sofið né borðað. Ég varð að vera fullviss um hvaðan maturinn væri og ég vantreysti öllum. Ég var sannfærður um að það væri setið um mig og það að væri markmið ákveðinna afla, valdamikilla aðila, að koma í veg fyrir dagskrárgerðina. Ég missti öll raunveruleikatengsl.“

Gerði Davíð Oddssyni tilboð

Úr varð að Sigursteinn var nauðungarvistaður á geðdeild Landspítalans í fyrsta skipti. „Ég fór og hitti lækni inni á geðdeild ásamt móður minni. Þar í rauninni lagði ég árar í bát. Þá voru hugsanir mínar orðnar mjög óskýrar, mjög fantasíukenndar. Þarna hélt ég til dæmis að ég væri að fara að hitta ríkisstjórnina. Áður hafði ég farið til Davíðs Oddssonar og sagt við hann: „Ég skal hætta þessari dagskrárgerð ef þú bara borgar fyrir mig far úr landi og uppihald.““

Hvernig brást Davíð við?

„Hann spurði hvort ég hefði talað við lækni.“

Sigursteinn telur þó að eftir á að hyggja hafi falist ákveðin blessun í því að hafa veikst á þessum tímapunkti. „Af því að ég held að þá hafi ég verið afskrifaður af mörgum. Þar með fengum við kannski tækifæri til að klára þetta í meiri friði en annars hefði verið. Mín geðhvörf urðu til þarna við þessar aðstæður og spurning hvort ég hefði yfirhöfuð fengið geðhvörf ef ég hefði ekki tekið að mér þetta verkefni. Ég sé hins vegar ekkert eftir því.“

Á þessum tíma var Sigursteinn rekinn frá Stöð 2. Skýringin sem forsvarsmenn Íslenska útvarpsfélagsins sem þá rak Stöð 2 var sú að Sigursteinn gæti ekki sinnt starfinu samhliða þáttagerðinni. Sigursteinn segir málið hins vegar hafa snúist um söluna á sýningarrétti á þáttunum. Bæði RÚV og Íslenska útvarpsfélagið vildu kaupa þættina og var það síðarnefnda tilbúið að borga meira fyrir þá. „En þeir voru ekki tilbúnir til að tryggja sýningu þáttanna á Stöð 2. Þeir ætluðu að sýna þá á Sýn sem á þeim tíma hafði bara takmarkaða útbreiðslu á höfuðborgarsvæðinu, þættirnir hefðu ekki einu sinni sést í Keflavík. Ég gat ekki sætt mig við það. Ég upplifði þetta þannig að það ætti að kaupa þættina, jafnvel dýru verði, en sópa þeim undir teppið. Það var partur af því sem klárlega veikti mig á þeim tíma, hvernig viðskilnaðurinn við Stöð 2 var. Það var ekki til að bæta stöðuna og ekki til að minnka samsæriskenningar mínar í þessu öllu saman.“

Eftir sex vikur á geðdeild Landspítalans og tvær vikur í endurhæfingu í Hveragerði flaug Sigursteinn til Texas í Bandaríkjunum þar sem þáverandi sambýlismaður hans starfaði og notaði hann tímann til að safna orku áður en hann sneri til baka til að ljúka gerð þáttanna. Óhætt er að segja að þættirnir hafi vakið upp sterk viðbrögð og skömmu eftir að þættirnir voru sýndir var gerð skoðanakönnun í Mannlífi sem sýndi að 90 prósent landsmanna taldi að dómarnir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafi verið rangir. En í raun gerðist ekkert í málinu sjálfu og haustið 1997 var beiðni Sævars um endurupptöku í málinu hafnað.

„Ég man alltaf eftir samtali sem ég átti við Guðjón Skarphéðinsson [einn sakborninga í málinu, innsk. blaðam.] sem var þá orðinn prestur á Snæfellsnesi. Hann sagði: „Sigursteinn, þú ert að gera þetta 20 árum of snemma. Þú verður að bíða í 20 ár, það eru allir á sínum stað.“ Það þurfti að bíða eftir því að þessir menn létu af störfum. En það var ákveðið áfall fyrir marga að fara í gegnum þessa þætti því núna, 21 ári síðar, hefur ekki eitt einasta atriði í þeim verið hrakið.“

Hélt þau myndu stúta mér í Kaupmannahöfn

Þótt þessum hluta Guðmundar- og Geirfinnsmálsins væri lokið var baráttan við geðröskunina rétt að hefjast. Næsta orrusta fór fram í Kaupmannahöfn vorið 1998. Sigursteinn var þá nýkominn frá Balkanskaga þar sem hann vann að heimildamynd um flóttafólk í Serbíu. „Við heyrðum þegar við vorum í Belgrad að það væru hafnar þjóðernishreinsanir í Kosovo og við vorum með fyrstu tökuliðum á staðinn. Það hafði mjög mikil áhrif á mig og ég var á þessum tíma orðinn mjög ör. Á leiðinni heim stoppaði ég í Kaupmannahöfn og lenti þá í því að Serbar voru með útifund á Ráðhústorginu til stuðnings Slobodan Milosevic. Ég var ekki alveg í stuði fyrir þetta og var í raun og veru heppinn að lenda ekki í meiriháttar vandræðum því ég ætlaði að fara upp á svið og halda ræðu. Eitt leiddi af öðru þar, ég var svefnlaus og upptekinn af því að það væru leyniþjónustur á eftir mér, að hótelið væri njósnagreni og svo framvegis. Ég var kominn vel yfir strikið, búinn að gera allt vitlaust á hótelinu og það var ekkert annað að í stöðunni en að hringja á lögregluna og hún, ásamt móður minni, fylgdu mér á sjúkrahúsið í Hvidovre. Það var ekki um annað að ræða því ég vildi alls ekki fara til Íslands. Það var tengt Geirfinnsmálinu.“

„Eitt leiddi af öðru þar, ég var svefnlaus og upptekinn af því að það væru leyniþjónustur á eftir mér, að hótelið væri njósnagreni og svo framvegis. Ég var kominn vel yfir strikið, búinn að gera allt vitlaust á hótelinu og það var ekkert annað að í stöðunni en að hringja á lögregluna.“

Þótt Kaupmannahöfn sé ekki framandi staður í augum Íslendinga, segir Sigursteinn að það séu mjög framandi aðstæður að vera vistaður á geðsjúkrahúsi í Danmörku. Aðferðirnar þar séu töluvert frábrugðnar því sem gerist á Íslandi. Þar tíðkast til að mynda enn að óla niður þá sjúklinga sem eru órólegir. „Það að vera bundinn svoleiðis niður og vakna svo múlbundinn, þvingunin og ofbeldið, að vera mataður, fá ekki að fara á klósett, öll þessi niðurlæging sem fylgir þessu, þetta er rosalega vond tilfinning. Ég var alveg sannfærður um það fyrstu dagana í Kaupmannahöfn að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hvenær og hvernig þau myndu stúta mér. Þetta var ekki auðveldur tími en hann var mjög áhugaverður.“

Taldi mig kominn á lygnan sjó

Eftir þetta kom Sigursteinn heim og sneri sér aftur að þáttagerð. Hann gerði úttekt á vændi og fíkniefnaneyslu í Reykjavík svo og eftirminnilega seríu, Sönn íslensk sakamál. Sjúkdómurinn hélt þó áfram að láta á sér kræla. „Árið 1999 fór ég í væga maníu en samt nægilega hressilega að talin væri ástæða til að vista mig. Eftir það hélt ég að ég væri alveg kominn á lygnan sjó. Það liðu 11 ár og ég var allt í einu kominn í dýraverndunarmál og var að vinna með þá stöðu sem kom upp í Eyjafjallajökulsgosinu. Ég var þar dag eftir dag að vinna undir Eyjafjöllum, með mér var Bandaríkjamaður sem mjög erfitt var að eiga við. Í þessum aðstæðum veiktist ég aftur.“

Þar sem geðröskunin hefur fylgt Sigursteini undanfarið 21 ár er hann farinn að þekkja vel inn á einkenni sjúkdómsins. „Það sem gerist í öllum þessum tilvikum sem ég hef veikst er að ég er í streituumhverfi, ég missi svefn og hætti að borða. Það er ákveðin rútína sem ég þarf að hafa og ef hún er í lagi, get ég farið í gegnum alls konar álag án þess að veikjast. Þá hef ég fulla stjórn á geðhvörfunum. En þegar þetta fer úrskeðis er voðinn vís.“

Í öll þau skipti sem Sigursteinn hefur veikst hefur hann verið fljótur að jafna sig og snúið aftur til vinnu enda sé nauðsynlegt að hafa eitthvað fyrir stafni þegar bataferlið hefst. „Eitt af því versta sem gerist hjá fólki þegar það veikist og er tekið úr leik úr samfélaginu, að það sé mánuðum eða árum saman án verkefna – án hlutverks og tilgangs. Það er alveg glatað.“

„Það er ákveðin rútína sem ég þarf að hafa og ef hún er í lagi, get ég farið í gegnum alls konar álag án þess að veikjast. Þá hef ég fulla stjórn á geðhvörfunum. En þegar þetta fer úrskeðis er voðinn vís.“

Guðs lifandi feginn geðhvörfunum

Sigursteinn hefur nýlokið við að skrifa bók um geðhvörfin sem hann lýsir sem persónulegu uppgjöri við sjálfan sig. Segir hann að bókin sem ber titilinn Geðveikt með köflum, hafi upphaflega verið skrifuð sem sjálfshjálparbók fyrir hann sjálfan. Þegar líða tók á verkefnið hafi hann kynnt hugmyndina fyrir Páli Valssyni útgefanda sem ákvað að slá til og gefa bókina út. „Ég sveiflaðist til og frá með þetta því ég efaðist um að svona persónulegar sögur ættu erindi við almenning. En þegar ég fór að skoða þetta fannst mér mjög áhugavert að sjá í hvaða umhverfi ég var þegar ég veikist, hvers konar aðdragandi var að veikindunum, hvernig þau lýstu sér og hvernig ég vann eða vann ekki úr þeim á mismunandi tímum. Að hafa geðröskun er ekki veikleiki, þetta er styrkleiki. Þetta er veikleiki ef þú ert á valdi geðsjúkdómsins. Ef þú ert með geðsjúkdóm sem þú hefur tök á, er þetta styrkleiki þinn. Þar með er ég ekki að óska fólki þess að fá geðsjúkdóma en ef það er þannig, þá gefur þetta þér innsæi – þetta gefur þér reynslu sem er ekki hægt að fá með öðrum hætti. Þannig að ég er guðs lifandi feginn geðhvörfunum og vildi ekki án þeirra vera.“

„Að hafa geðröskun er ekki veikleiki, þetta er styrkleiki. Þetta er veikleiki ef þú ert á valdi geðsjúkdómsins.“

Sigursteinn segist oft vera spurður að því hvort hann muni eftir þeim tíma þegar hann hefur verið hvað veikastur. „Ég man þetta mjög vel. Ég man mjög vel ótrúlega ruglingslega kafla í lífi mínu, inni á geðdeildum, í einhverjum aðstæðum sem eru að hluta súrrealískar. Ég man þetta allt saman og ég lýsi því í bókinni. En það er eins og sumir telji að minni okkar og reynslu sem höfum gengið í gegnum þetta, sé ekki treystandi. En þetta eru auðvitað jafnmikil sannindi og staðreyndir eins og upplifanir annarra af okkur.“

Er gott að muna þetta?

„Það hefði stundum verið gagnlegt að gleyma meiru. En núna, þegar ég er í þessu uppgjöri, er mjög gott að muna. En það er ofsalega gott líka að skrifa sig frá þessum erfiðu köflum.“

Sævar hefði aldrei sætt sig við niðurstöðuna

Einn af þessum erfiðu köflum er vinnan að þáttunum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem Sigursteinn segir að hafi tekið mikinn toll. Við gerð þáttanna kynnist Sigursteinn Sævari Ciesielski vel og segir hann að Sævar heitinn hefði aldrei sætt sig við þessi málalok. „Af því að hann er saklaus af því að hafa orðið manni að bana en hann er áfram sekur um að hafa verið að búa til sögur. Ef það var eitthvað sem hann lfiði fyrir var það að nafn hans yrði hreinsað algerlega af þessu. Ekki bara að afsanna eða lýsa yfir sýknu varðandi þessi mannshvörf heldur að sannleikurinn kæmi í ljós. Ég held að það muni gerast. Ég býst við að þetta muni taka eitt eða tvö ár í viðbót en vonandi ekki svo lengi. Þegar málið verður skoðað getur þetta ekki staðið eftir.“

Mynd / Hallur Karlsson

Trúir ekki á neitt yfirnáttúrulegt

Malene Sölvsten sló í gegn í Danmörku með fyrstu bók sinni um Hvísl hrafnanna og nú er þriðja bókin komin. Hún segist ekki trúa á neitt yfirnáttúrlegt þótt slíkt leiki stórt hlutverk í sögum hennar.

Hvísl hrafnanna sló í gegn.

Nú er þriðja bókin um Önnu og félaga hennar í Ravnsted komin út í Danmörku og önnur bókin í bókaflokknum nýkomin út á íslensku. Malene var einn gesta á bókmenntahátíðinni Mýrinni á dögunum. Hún er yfir sig hrifin af Íslandi sem hún hefur fram að þessu aðallega kynnst í gegnum Snorra Eddu sem, eins og lesendur hennar vita, er stór hluti af innblæstri hennar til að skapa þann heim sem Hvísl hrafnanna skilar til okkar. Malene hefur skrifað frá því að hún man eftir sér en hún segist aldrei hafa stefnt að því að verða rithöfundur í fullu starfi. Skrifin hafi bara verið fyrir hana sjálfa og seinni árin sem hvíld frá ábyrgðarfullu og krefjandi starfi í danska fjármálaráðuneytinu. Hún var sem sé starfandi hagfræðingur þar á meðan hún skrifaði fyrstu bókina.

Hvísl hrafnanna, 2. bók.

„Ég ætlaði að verða myndlistarmaður,“ segir hún og hlær. „Ég var alltaf teiknandi, málandi og skrifandi sem barn og sá fyrir mér að vinna fyrir mér með myndlistinni þegar ég yrði fullorðin. Ég sótti þrisvar um í myndlistarskóla sem unglingur en fékk alltaf höfnun og það endaði með því að ég fór í ljósmæðranám. Eftir að hafa stundað það í eitt ár, meðal annars verið í starfsnámi á stórum spítala í Kaupmannahöfn og tekið á móti barni eftir að hafa vakað í 48 tíma sá ég að þetta starf var allt of mikið álag fyrir mig, hætti í náminu og fór í hagfræði. Ég lagði áherslu á efnahagsmál þróunarlandanna í náminu og ætlaði að vinna fyrir þau, láta gott af mér leiða, skilurðu, en þegar ég útskrifaðist var efnahagskreppan skollin á og slík störf ekki í boði þannig að þegar mér bauðst starf í fjármálaráðuneytinu þáði ég það auðvitað. Þar vann ég í tvö og hálft ár í samskiptadeildinni, stjórnaði alls konar herferðum fyrir ríkisstjórnina og lærði alveg óskaplega mikið.“

„Ég var alltaf teiknandi, málandi og skrifandi sem barn og sá fyrir mér að vinna fyrir mér með myndlistinni þegar ég yrði fullorðin.“

Hún vann að fyrstu bókinni í leynum í tvö ár áður en henni var nánast þröngvað til að senda handritið til útgefanda eftir að móðir hennar hafði komist að leyndarmálinu fyrir slysni.

„Ég sendi handritið til Gyldendal eftir að mamma suðaði í mér,“ segir hún og grettir sig. „Ég átti svo sem ekki von á að það yrði gefið út en ég viðurkenni að þegar liðnir voru fjórir mánuðir án þess að ég fengi nokkurt svar var ég orðin dálítið pirruð. Þeir gætu nú að minnsta kosti sent höfnunarbréf. Það væru nú lágmarksmannasiðir.“

Það kom henni því algjörlega í opna skjöldu þegar svarbréfið barst loksins og þar bauð Gyldendal henni ekki bara útgáfusamning um fyrstu bókina heldur þriggja bóka samning.

Ýtarlegra viðtal við Malene má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Ég var algjörlega sannfærð um að þetta væru mistök,“ segir hún einlæg. „Þeir hlytu að hafa ruglað mér saman við einhvern annan höfund. Ég var skjálfandi á beinunum þegar ég fór í fyrsta viðtalið hjá ritstjóranum mínum, hrædd um að hún uppgötvaði mistökin og fleygði mér á dyr. Það var ekki fyrr en hún nefndi nafnið á einum karakternum í bókinni sem ég fór að anda léttar. Bókin varð síðan metsölubók, sem ég held ekki að neinn hafi búist við, og nú er ég rithöfundur í fullu starfi.“

Malene veit ekki hvað hún ætlar að skrifa næst en hún er með þrjú verkefni í vinnslu.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Hnausþykkt kökublað Gestgjafans er komið út

Loksins, loksins…biðin er á enda! KÖKUBLAÐ Gestgjafans er komið út!

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, bakaði þessa flottu köku. Uppskrift að henni er að finna í kökublaðinu.

Kökublaðið er algert tryllitæki fyrir sælkera og bakara landsins. Í því má finna sjúklegar súkkulaðikræsingar sem slá í gegn, dásamlegar smákökur fyrir börn og fullorðna, skúffukökur með skemmtilegu tvisti og eftirréttaostakökur sem enginn getur staðist.

Einnig eru syndsamlegar kokteilakökur, pistasíukökur og kökur sem valinkunnir bæjarstjórar baka ásamt fleiri spennandi uppskriftum.

Dásamleg möndlukaka með hindberjakremi, skreytt með makkarónum og ferskum blómum.

Frumsýningarveisla Kabarett á Akureyri og sælkeraferðagrein um Kaupmannahöfn er að finna í blaðinu. Einnig fræðir Vala Stefánsdóttir okkur um kaffi og kaffikokteila. Líflegt og skemmtilegt innliti í Efstadal er meðal efnis ásamt fjöldanum öllum af fróðleik um kökur, krem og bakstur. Vínsíður Dominique eru á sínum stað og margt, margt fleira.

Þess má geta að blaðið er einstaklega veglegt enda heilar 164 blaðsíður.

 

Bak við góðan árangur liggja miklar fórnir

Harpa Káradóttir hefur um árabil verið meðal færustu sminkum landsins. Með gríðarmikla reynslu í farteskinu opnaði hún nýverið eigin förðunarskóla en hún segir að líf einstæðrar móður í eigin rekstri ekki alltaf vera dans á rósum.

Nú er Harpa góð fyrirmynd fyrir konur og áminning um að draumar geta ræst með mikilli vinnu. Á hún góð ráð fyrir konur í svipuðum hugleiðingum og hún?

„Ég á kannski ekki auðvelt með að ráðleggja öðrum konum hvað þær eiga að gera því aðstæður geta verið svo ólíkar. En ég ráðlegg öllum samt að fylgja draumum sínum og finna sér starf sem að þær hafa ánægju af. Vinnan er svo stór partur af lífinu og lífið verður svo miklu meira gefandi og skemmtilegra ef að maður fylgir hjartanu. Það þarf ekkert að vera að allt gangi upp en þannig er líka bara lífið. Maður lærir af allri lífsreynslu og sú reynsla mótar mann og fer með mann eitthvert annað.“

Talið berst af förðunar-trendum dagsins í dag og hvaða útlit er í uppáhaldi hjá Hörpu.

„Förðunar-trendin eru allskonar í dag. Ef að ég á að vera hreinskilin að þá er ég orðin mjög þreytt á ofmáluðum stúlkum þar sem að þeirra náttúrulega fegurð nánast hverfur. Ég kýs að nota förðunarvörur til þess að draga fram fegurð hvers og eins en ekki til þess að móta alla í sama formið,“ segir hún en viðurkennir að vera algjör snyrtivörufíkill en sækir mest í vörur sem láta henni líða vel og líta sem best út.

„Persónulega mála ég mig ekkert sérstaklega áberandi en notast engu að síður við allavega trix við mína daglegu förðun. Eftir því sem að ég fullorðnast þá mála ég mig aðeins minna en áður. Förðun gerir mjög mikið fyrir mig persónulega, sérstaklega þar sem fólk dæmir mig mögulega og mína vinnu svolítið eftir því hvernig ég kem til dyranna.“

„Förðun gerir mjög mikið fyrir mig persónulega, sérstaklega þar sem fólk dæmir mig mögulega og mína vinnu svolítið eftir því hvernig ég kem til dyranna.“

Harpa segist sjá mikinn mun á ungum konum í dag og þeim sem ólust upp á níunda áratuginum.
„Vissulega eru allavega öfgar í gangi en þannig er bara lífið. Það er eins með útlitið og annað að best er að gæta hófs. Varðandi fyllingarefni og annað slíkt þá á ég erfitt með að svara hvað sé rétt og hvað sé rangt. En ég myndi segja að fólk þurfi að vera búið að ná ákveðnum þroska til þess að taka ákvörðun um frekara inngrip líkt og að stækka varir og annað slíkt. Mér finnst mjög furðulegt að sjá ungar stúlkur augljóslega vera búnar að breyta andlitinu sínu. Ég hef svo allt aðra skoðun á því þegar að konur viðhalda útliti sínu þegar þær eldast.“

„Mér finnst mjög furðulegt að sjá ungar stúlkur augljóslega vera búnar að breyta andlitinu sínu. Ég hef svo allt aðra skoðun á því þegar að konur viðhalda útliti sínu þegar þær eldast.“

Hún segir ungar konur í dag, upp til hópa, vera mun klárari í förðun en þegar hún var unglingur. „Förðun er orðin að mun meira áhugamáli í dag heldur en var. Tímarnir breytast hratt, til dæmis þegar að ég var tvítug og fór í förðunarnám þá voru mjög margir sem að skildu ekkert hvað ég var að spá og hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera úr því. Í dag vinn ég myrkranna á milli og hef skapað mér ótrúlega skemmtilegan starfsferil. Það er algjör klisja að segja þetta en ég er í draumastarfinu mínu og myndi ekki vilja hafa neitt öðruvísi. Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa haft sterka trú á því að þetta gæti verið atvinnan mín í framtíðinni því að meirihluti fólks ranghvolfdi augunum og horfði á mig eins og ég væri hálfgerður hálfviti þegar að ég sagði frá því hvað ég væri að fara að gera.“

„Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa haft sterka trú á því að þetta gæti verið atvinnan mín í framtíðinni því að meirihluti fólks ranghvolfdi augunum og horfði á mig eins og ég væri hálfgerður hálfviti þegar að ég sagði frá því hvað ég væri að fara að gera.“

Útlitsdýrkun fylgir vissulega förðunarbransanum en hvað segir Harpa um það málefni?
„Útlitsdýrkun fylgir líklega öllum kynslóðum en ég viðurkenni það að ég er nokkuð sátt með að hafa alist upp án allra þessara samfélagsmiðla. Ég geri ráð fyrir að þeir setji töluverða pressu og gefi ungu fólki ranghugmyndir um það hvernig lífið er.“

Bak við góðan árangur liggja margar fórnir

Harpa á fjögurra ára dóttur en það að að vera einstæð móðir í eigin rekstri er ekki alltaf dans á rósum.
„Ég er oft með nagandi samviskubit yfir því að vera stundum í burtu á kvöldin og um helgar en ég reyni að minna mig á að njóta þeirra stunda sem að við eigum saman og ég veit alltaf af henni í góðum höndum annars staðar þegar hún er ekki hjá mér. Ég eyði ekki miklum tíma í að spá í þetta, svona standa bara málin og við lifum kannski óvenjulegu lífi en engu að síður hamingjusömu lífi. Ég er með gott fólk og fjölskyldu í kringum mig sem hjálpar mér með stelpuna mína.“

„Ég er oft með nagandi samviskubit yfir því að vera stundum í burtu á kvöldin og um helgar…“

Hún segir mikilvægt að vera dóttur sinni góð fyrirmynd. „Ég vil sýna Kötlu dóttur minni að flest er hægt ef að viljinn er fyrir hendi og kenna henni að með því að vinna hörðum höndum að einhverju skili það sér á endanum. Til þess að ná góðum árangri þarftu yfirleitt að fórna meiru en næsti maður og maður þarf að læra að gera það með bros á vör til þess að komast þangað sem að maður ætlar sér. Bak við allan góðan árangur liggja miklar fórnir, það er bara þannig,“ segir Harpa að lokum og meinar hvert einasta orð.

„Til þess að ná góðum árangri þarftu yfirleitt að fórna meiru en næsti maður og maður þarf að læra að gera það með bros á vör til þess að komast þangað sem að maður ætlar sér. Bak við allan góðan árangur liggja margar fórnir.“

Viðtalið birtist fyrst í Vikunni.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Margt sem situr eftir ósvarað

Sigrún Ásta Jörgensen hafði nánast kvatt drauminn um að verða móðir en bíður nú fæðingar tvíbura sem væntanlegir eru í heiminn á hverri stundu.

Hún segist sannfærð um að stress og kvíði hafi mikið haft að segja en röð áfalla setti andlega heilsu hennar úr skorðum, einkum og sér í lagi sjálfsvíg bróðurins sem var hennar besti vinur. „Bróðir minn dó í maí árið 2015, rétt eftir 27 ára afmælisdaginn sinn. Það var rosalega erfitt en hann hafði glímt við eiturlyfjafíkn lengi auk þess að vera þunglyndur og félagsfælinn.“

„Í dag skil ég hvers vegna hann fór þessa leið og hef lært að virða hans ákvörðun, en það tók mig langan tíma. Um langt skeið var ég bæði reið og sár út í hann fyrir að hafa farið frá okkur öllum á þennan hátt. Það var svo margt ósagt á milli okkar og mikið sem situr eftir.“

„Hann framdi sjálfsvíg heima hjá ömmu okkar og afa en ég gisti líka hjá þeim þessa nótt. Við höfðum öll miklar áhyggjur af honum enda hafði hann ítrekað látið í ljós vanlíðan sína. Klukkutíma eftir að við lögðum af stað í vinnuna um morguninn var hann dáinn. Þegar hann svaraði ekki símanum hringdi amma í lögregluna því hún fann strax á sér að eitthvað væri að. Lögregluþjónarnir mættu fyrstir á svæðið en við amma komum skömmu síðar. Þegar annar lögregluþjónninn gerði sig líklegan til að faðma mig við útidyrahurðina ýtti ég honum harkalega í burtu og hljóp upp. Þeir höfðu komið Bent fyrir í rúminu þar sem hann lá í friðsælli stellingu.“

„Ég sá hann dáinn heima en ekki í þeim aðstæðum sem hann dó í, það hefði sennilega eyðilagt mig að eilífu.“

Sigrún Ásta leitaði allra lausna til þess að skilja hvers vegna bróðir hennar hafði ákveðið að fara þessa leið en hún skoðaði meðal annars fartölvu hans og þær síður sem hann hafði síðast skoðað. „Ég sá fljótt að hann hafði gert ítarlega leit að upplýsingum um hvernig hægt væri að blanda of stóran skammt, dauðaskammt. Hann vildi klára þetta og alls ekki eiga á hættu að mistakast. Eftir að hafa lesið dánarskýrsluna nokkrum mánuðum síðar fékk ég það svo staðfest. Það að missa nákomna manneskju sem fremur sjálfsvíg er að mínu mati ekki sambærilegt við það að missa manneskju með öðrum hætti. Sorgin sem tekur við er öðruvísi en sú sem við þekkjum flest. Stuttu síðar lést afi minn, sem bróðir minn var skírður í höfuðið á, en afi var okkur systkinunum mikil föðurímynd. Hann hafði þó náð 86 ára aldri og lifað góðu lífi. Þó að það hafi auðvitað verið erfitt var það ekki sambærilegt á nokkurn hátt.“

„Bent bróðir var besti vinur minn og fyrirmynd mín í lífinu. Ég hafði gengið í gegnum allt með honum. Það sem hann kenndi mér er fyrst og fremst þakklæti fyrir það sem ég hef. En ég hef líka lært að skilja fólk sem er á þessum stað.“

„Það kljást margir við erfið geðvandamál og svo mörgu er ábótavant í geðheilbrigðismálum á Íslandi.“
Mæðgurnar reyndu nokkrum sinnum að fá innlögn fyrir Bent en Sigrún Ásta lýsir viðmótinu sem þær mættu sem því versta sem þær hefðu báðar upplifað. „Upplifun manns er sú að öllum standi hreinlega á sama. Við urðum fyrir svo miklum vonbrigðum því á þessum tíma hafði Bent talað mikið um það hversu illa honum leið og margoft sagt að hann ætlaði að klára þetta.“

„Eftir að hafa beðið á biðstofunni tímunum saman kom loksins röðin að honum en eftir örstutt spjall við lækninn var hann sendur út með þeim skilaboðum að ekkert væri hægt að gera.“

„Ég óskaði í kjölfarið eftir samtali við yfirlækni á staðnum og benti henni á þá bláköldu staðreynd að bróðir minn væri í mikilli sjálfsvígshættu. Hún ítrekaði sitt fyrra svar, að það væri ekkert hægt að gera. Mér leið eins og hún hreinlega nennti ekki að tala við mig. Mánuði seinna var Bent dáinn. Kannski hefði verið hægt að hjálpa, við vitum það ekki fyrir víst, en þeirri spurningu er engu að síður enn ósvarað.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Sara Dögg Johansen.
Hár / Katrín Sif Jónsdóttir.

Mikill áhugi á margnota röri sem hægt er að tyggja á

|
|

Þrír frumkvöðlar hafa hannað margnota drykkjarrör sem hægt er að tyggja á. Áhugi fólks á rörinu leynir sér ekki og hafa þremenningarnir safnað tveimur milljónum króna á nokkrum dögum.

Plastmengun í náttúrunni hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og margt fólk er farið að gera hvað sem það getur til að draga úr plastnotkun, svo sem nota fjölnota innkaupapoka í staðin fyrir plastpoka og sleppa því að nota plaströr.

Sumum þykir þó ómissandi að nota drykkjarör og þá koma margnota rör sér vel. Þrír hönnuðir og frumkvöðlar frá Singapore hafa lagt sitt af mörkum í stríðinu gegn plasti og hannað margnota drykkjarrör sem auðvelt er í notkun.

Þeir Lim Jing Jie, Tommy Cheong og Kevin Yeo hafa hannað plaströr sem þeir segja vera handhægara og þægilegra í notkun heldur er öll önnur margnota rör sem eru á markaði þessa stundina.

Það sem gerir þeirra rör einstakt að þeirra mati er sílíkonendinn sem er á rörinu. Þann enda er hægt að tyggja á. Í viðtali við Business Insider segja hönnuðirnir að ástæðan fyrir sílíkonendanum sé sú að margt fólk tyggur á drykkjarörinu sínu ómeðvitað.

Lim segir að þegar þeir þremenningar hafi kynnt hugmyndina að rörinu, sem þeir kalla Chew Inc., fyrst fyrir vinum sínum hafi fólk orðið mjög spennt. „Og þá vissum við að við hefðum hitt í mark,“ sagði Lim.

En það er ekki bara rörið sem er einstakt að mati hönnuðanna heldur eru umbúðirnar það líka. Rörinu á að vera afar einfalt að pakka saman í umbúðirnar og það loftar vel um þannig að rörið þornar hratt og örugglega.

Lock it in place with a *click*

Þremenningarnir settu sér það markmið að safna upphæð sem nemur um 1,7 milljónum íslenskra króna fyrir framleiðslukostnaði á Kickstarter. Þeir náðu markmiðinu á innan við viku. Núna hafa þeir safnað upphæð sem nemur um rúmum tveimur milljónum króna og enn eru 21 dagur eftir af söfnuninni. Það er því ljóst að áhuginn á rörinu er mikill.

Myndir / Söfnunarsíða Chew Inc.

Missti fótanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

„Þetta er í rauninni hálfleikur. Þessi niðurstaða Hæstaréttar og í raun með hvaða hætti endurupptökunefndin og saksóknarinn settu þetta upp er hneisa, að mínu mati. Þau höfðu tækifæri til að laga málið allt saman og hreinsa allt málið en þau fóru bara hálfa leið,“ segir Sigursteinn Másson um niðurstöðuna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hann telur, þrátt fyrir að fimmenningarnir hafi verið sýknaðir í Hæstarétti, að málinu sé enn ólokið.

Árið 1996 hóf Sigursteinn gerð heimildamynda um málið eftir að einn sakborninganna, Sævar Ciesielski, bankaði óvænt upp hjá honum eitt kvöldið. Þessi heimsókn átti eftir að vera afdrifarík, bæði hvað málið varðar og hann sjálfan. Við gerð þáttanna gerði geðröskun í fyrsta skipti vart við sig og markaði sjúkdómurinn djúp spor í lífi hans næstu árin á eftir.

Sigursteinn gerir upp Guðmundar- og Geirfinnsmálið og baráttu sína við geðhvörf í ítarlegu viðtali við Mannlíf sem kemur út í fyrramálið.

„Ungar stelpur í dag eru svo fáránlega mikið með þetta“

||
||

Hildur Knútsdóttir rithöfundur sendi nýlega frá sér bókina Ljónið sem er sú fyrsta nýjum þríleik. Bókin er unglingabók en Hildur vonar að fullorðnir tengi við hana líka.

Hildur Knútsdóttir sækir efnivið bókarinnar Ljónið meðal annars í eigin menntaskólaár. Mynd / Aðsend.

„Í stuttu máli fjallar bókin um hina sextán ára gömlu Kríu sem er nýflutt til Reykjavíkur og byrjuð í MR. Hún kynnist Elísabetu og þær verða vinkonur. Saman komast þær að dularfullu hvarfi ömmusystur Elísabetar árið 1938 og ákveða að reyna að komast til botns í ráðgátunni um hvað kom fyrir hana. En svo fjallar bókin líka um menntaskólalífið og hvernig það er að vera unglingsstúlka – með öllu því góða og slæma sem því fylgir,“ segir Hildur og játar þegar hún er spurð hvort bókin sé femínísk. „Ég veit ekki hvernig það væri hægt að skrifa bók um unglingsstúlkur í Reykjavík árið 2018 sem væri ekki feminísk. Ungar stelpur í dag eru svo fáránlega mikið með þetta og svo flottir femínistar að stundum tárast ég bara yfir því. Og stelpurnar í Ljóninu eru allavega meðvitaðar um feðraveldið, nauðgunarmenningu og drusluskömmun, og að hlutskipti þeirra sé annað en stráka. Þær eru til dæmis að stíga fyrstu skrefin í skemmtanalífinu og velta fyrir sér hvort það sé óhætt að labba einar heim að kvöldlagi. Því það er alltaf þessi ógn sem vakir yfir: Það gæti einhver nauðgað þér. Allar unglingsstelpur sem ég þekki og hef þekkt eru mjög meðvitaðar um það. Enda rignir yfir þær skilaboðunum um hvernig þær eiga og eiga ekki að haga sér til að minnka hættuna á því að verða nauðgað. Og það skerðir frelsi þeirra.“

Ljónið er fyrsta bókin í nýjum þríleik eftir Hildi Knútsdóttur.

Útgáfa á tékknesku og sjónvarpsþáttaskrif
Hildur er nýlent eftir útgáfulæti í Prag, þar sem Vetrarfrí og Vetrarhörkur voru að koma út á tékknesku. Hún safnar nú kröftum til að halda áfram að endurskrifa sjónvarpsþætti upp úr bókunum fyrir framleiðslufyrirtækið RVK Studios. Að auki er hún á leiðinni til Frakklands á bókmenntahátíð og undirbýr sig fyrir jólabókaflóðið. „Og svo ætla ég að halda áfram að skrifa framhaldið af Ljóninu. Ég er um það bil hálfnuð með fyrsta uppkastið og er að vona að ég nái að klára hana fyrir næstu jól.“

 

Ljúf og lokkandi formkaka

formkaka með trönu og kokteilberjum
Mynd/Aldís Pálsdóttir

Formkökur geymast vel og eru frekar einfaldar í gerð sem kannski útskýrir vinsældir þeirra hér áður fyrr. Hið glæsilega kökublað Gestgjafans sem margir hafa beðið eftir er nú komið í verslanir og því deilir Gestgjafinn hér með okkur ljúffengri og sparilegri köku.

Ljúf og lokkandi formkaka

300 g sykur

120 g smjör, við stofuhita

3 egg

180 g hveiti

2 tsk. lyftiduft

2 ½ dl mascarpone-ostur

2 ½ dl rjómi

¼ tsk. salt

1 tsk. vanilludropar

1 dós kokteilber

2 dl þurrkuð trönuber

140 g hvítt súkkulaði, saxað

Ofan á

Hnefafylli þurrkuð trönuber

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið sykur og smjör vel saman. Bætið eggjunum út í og hrærið áfram. Blandið hveiti og lyftidufti saman og hellið út í blönduna, bætið svo osti, rjóma, salti og vanilludropum saman við. Blandið að síðustu berjum og súkkulaði út í með sleif. Hellið deiginu í vel smurt 26 cm formkökuform. Bakið í 40-45 mín. eða þar til prjónn sem stungið er í miðju kökunnar kemur hreinn út. Þekjið kökuna með kreminu og skreytið með þurrkuðum trönuberjum.

Krem

100 g smjör við stofuhita

100 g rjómaostur

300 flórsykur

1 tsk. vanilludropar

Blandið öllum innihaldsefnum saman og hrærið þar til kremið verður létt og ljóst og allt hefur samlagast. Þekjið kökuna með kreminu.

Þúsund bílum fargað í hverjum mánuði

Sífellt fleiri bílaeigendur kjósa að farga bifreiðum sínum. Færst hefur í vöxt að fólk skilji númeralausa bíla eftir á fyrirtækjalóðum, á bílastæðum og víðavangi.

Æ fleiri bílaeigendur kjósa að farga bílum sínum frekar en að gera við þá sjálfir eða fara út í viðgerðir og viðhald. Samkvæmt upplýsingum Úrvinnslusjóðs hafa tæplega 9.000 bílar verið afskráðir á árinu. Það er um 25% aukning frá sama tíma í fyrra. Rúmlega helmingur þeirra bíla sem eru afskráðir á Íslandi fara í endurvinnslu hjá fyrirtækinu Hringrás.

Daði Jóhannesson, framkvæmdastjóri Hringrásar, segir talsvert fleiri bílum fargað nú en á síðasta ári. Það sé álíka mikil aukning og var á milli áranna 2016-2017. „Mér sýnist sama aukning vera að endurtaka sig nú á þessu ári,“ segir Daði, en flestir bílar sem koma til Hringrásar eru frá Vöku eða á bilinu 300-400 á mánuði. Bílapartasölur koma með það sem út af stendur auk þess sem fólk kemur með eigin bíla til förgunar. „Bílarnir eru tæmdir af spilliefnum, öllum vökva tappað af þeim og dekk og rafgeymar fjarlægðir. Bílarnir eru pressaðir í böggla og eru síðan sendir í endurvinnslustöðvar í Hollandi. Þar eru bílarnir settir í stóra kvörn, allir málmar aðgreindir og endurunnir. Óendurvinnanlegt plastefni úr bílunum er síðan notað sem eldsneyti til húshitunar eða raforkuframleiðslu í Hollandi. Hjólbarðar sem Hringrás tekur á móti eru tættir niður og fluttir erlendis þar sem gúmmíið er endurnotað.“

Skilja eftir númeralausa bíla

Valdimar Haraldsson annast flutninga á ökutækjum hjá Vöku og segist hafa yfirleitt nóg að gera við að ná í bíla út um allar koppagrundir. Hann fari oftar en áður að fjölbýlishúsum til að ná í númeralausa bíla. Formenn húsfélaga séu þeir einu sem geta sent inn beiðni til Vöku um að láta fjarlægja bílana af sameign húsa og sífellt algengara sé að þeir grípi til slíka úrræða.

Þá segir Valdimar líka hafa aukist að starfsmenn hjá hreinsunardeildum bæjarfélaga hafi samband til að láta fjarlægja númeralausa bíla af götum, víðavangi og á lóðum fyrirtækja. Hann fari jafnvel austur á Selfoss til að ná í bíla. „Það er alveg óhætt að segja að við tökum fleiri bíla en áður.“ Hann kveðst ekki hafa tölulegar upplýsingar um aukninguna en segir tilvikin mun fleiri en áður.

Leggja ekki í viðgerðir

Spurður hvernig bílar þetta séu segir Valdimar þetta vera bíla frá um 1990 eða yngri, allt frá rusli og upp í bíla í ágætis ásigkomulagi með fulla skoðun. „Í þeim tilvikum er fólk búið að kaupa sér nýjan bíl en hefur ekki tíma til að setja hinn í sölu eða því finnst það ekki borga sig að ráðast í kostnaðarsamar viðgerðir í ljósi þess hversu lágt verð er á notuðum bílum í dag. Þótt eigendur bíla komi akandi á bílunum til okkar og þeir líti sumir ágætlega út þá er ekki þar með sagt að þeir séu í stakasta lagi. Eigandinn hefur kannski verið búinn að borga 200 þúsund krónur í viðgerðir en þarf að leggja út 300 þúsund til viðbótar til að koma honum í ökuhæft ástand síðar. Í þeim tilvikum kaupir fólk frekar annan bíl,“ segir Valdimar og getur þess að þegar komið er með bíl til afskráningar og förgunar fær bíleigandi númeraplötur bílsins og greitt skilagjald sem er 20.000 krónur.

Allt undir í mikilvægustu þingkosningum síðari ára

Mynd/Pixabay

Kosið verður til Bandaríkjaþings á þriðjudaginn. Niðurstöðurnar munu ráða miklu um hvernig Donald Trump reiðir af á síðari hluta kjörtímabilsins og hafa mikil áhrif á forsetakosningarnar 2020. Kosið er um öll þingsætin 435 í fulltrúadeild þingsins, 35 sæti í öldungadeildinni og 36 af 50 ríkisstjórum. Trump hefur notið þess að Repúblíkanaflokkurinn hefur haft meirihluta í báðum deildum þingsins fyrstu tvö ár sín í embætti en demókratar gætu gert honum lífið leitt nái þeir meirihluta í annarri eða báðum deildum, rétt eins og repúblíkönum tókst að gera síðustu sex árin í forsetatíð Baracks Obama. Bandarísk stjórnmál eru gríðarlega eldfim um þessar mundir og sjaldan eða aldrei hefur gjáin á milli íhaldssamra og frjálslyndra verið breiðari. Til marks um hversu mikið er undir þá munu framboðin, hvort um sig, hafa eytt vel yfir 5 milljörðum dollara í kosningabaráttu sína þegar kjördagur rennur upp. Aldrei áður hefur jafnmiklu fé verið varið í miðkjörtímabilskosningum. Einnig er búist við sögulegri kosningaþátttöku, einkum á meðal ungs fólks en samkvæmt könnun Harvard Institute of Politics munu 49% fólks á aldrinum 18-29 ára mæta á kjörstað. Í þingkosningunum 2014 var hlutfallið 19,9%.

Baráttan um fulltrúadeildina

Keppt er um öll 435 sætin í fulltrúadeildinni en 218 þingsæti þarf til að ná meirihluta. Til þess þurfa demókratar að hirða 23 þingsæti af Repúblíkanaflokknum og nýjustu kannanir benda til þess að 85% líkur eru á að svo fari. Repúblíkanar hafa þó verið að sækja í sig veðrið undanfarnar vikur. Helsti vígvöllurinn eru úthverfin þar sem íbúar eru almennt betur stæðir og með meiri menntun en annars staðar. Þá munu atkvæði kvenna hafa lykiláhrif en samkvæmt könnunum aðhyllast þær Demókrataflokkinn í mun meiri mæli en karlar. Þannig sýna sömu kannanir að demókratar fengju 275 þingsæti ef eingöngu konur væru á kjörskrá.

Baráttan um öldungadeildina

Það er á brattann að sækja fyrir demókrata í öldungadeildinni þótt repúblíkanar séu nú aðeins með 51-49 meirihluta. Það er vegna þess að einungis er kosið um 35 þingsæti í þessari umferð og af þeim eru 26 í höndum demókrata. Mörg þessara þingsæta eru í dreifðari byggðum Bandaríkjanna sem er klárlega repúblíkönum í hag. Nýjustu kannanir benda til þess að 82,7% líkur séu á því að repúblíkanar haldi meirihluta sínum í öldungadeildinni og bæti jafnvel við sig sætum.

Stefnir í klofið þing

Ef að líkum lætur munu demókratar stjórna fulltrúadeildinni og repúblíkanar öldungadeildinni. Slíkt er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og í rauninni reglan fremur en undantekningin. Meirihluti í annarri hvorri deildinni tryggir demókrötum vald til að hindra lagafrumvörp úr röðum repúblíkana sem og frumkvæðið til að hrinda af stað rannsóknum á hvers kyns málum. Niðurstaðan yrði annaðhvort aukin samvinna milli flokka eða enn harðari deilur en áður þar sem eingöngu allra mikilvægustu mál ná í gegn. Með meirihluta í öldungadeildinni munu repúblíkanar eftir sem áður geta tryggt tilnefningum Trumps í hin ýmsu embætti framgang. Þá má búast við að Trump notist í auknum mæli við forsetatilskipanir, rétt eins og Barack Obama gerði eftir að repúblíkanar náðu meirihluta í báðum deildum.

Innflytjendur og hatursorðræða stóru málin

Að venju koma upp stór mál í aðdraganda kosninga sem talin eru hafa mikið um það að segja um niðurstöðuna. Donald Trump hefur gert fólksflutningalestina frá Mið-Ameríku að sínu helsta kosningamáli og spilað á ótta fólks með þeirri orðræðu að demókratar vilji opin landamæri á meðan repúblíkanar standi vörð um öryggi almennings. Þá hefur hann viðrað hugmyndir um að skrifa undir forsetatilskipun um að fella úr gildi lög sem veita börnum ólöglegra innflytjenda sjálfkrafa ríkisborgararétt. Að sama skapi hafa demókratar kennt forsetanum um að kynda undir hatursglæpum og hatursfullri orðræðu í garð fjölmiðla og minnihlutahópa, samanber sprengjusendingar til aðila tengdum Demókrataflokknum og skotárás á bænahús gyðinga í Pennsylvaníu um liðna helgi.

Eiga konur að vera betri stjórnmálamenn?

Kvennafrídagurinn 24. október síðastliðinn markaði fjörutíu og þriggja ára afmæli þess er 90 prósent íslenskra kvenna lögðu niður vinnu og fjölmenntu á Lækjartorg til að mótmæla kynbundnum launamun og öðru misrétti sem konur urðu fyrir í samfélaginu. Sýndu og sönnuðu að vinnuframlag kvenna skiptir sköpum fyrir hin margfrægu „hjól atvinnulífsins“ og að samtakamáttur kvenna er frumforsenda þess að framfarir náist. Síðan þá hefur Ísland skipað sér í fremstu röð hvað varðar jafnrétti og er ár eftir ár í efsta sæti lista yfir lönd sem standa sig best við að tryggja réttindi kvenna. Það var því til einhvers barist þótt enn sé því miður langt í land með að fullt jafnrétti náist.

Á þessu fjörutíu og þriggja ára afmæli voru enn og aftur haldnir útifundir víða um land, skrifaðar greinar í fjölmiðla og rykið dustað af gömlum baráttusöng Rauðsokkanna sem voru hvatakonur að kvennaverkfallinu 1975. Allt hið ágætasta mál en féll nokkuð í skuggann af pistli sem eigandi Kvennablaðsins, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, skrifaði á vefsíðu blaðsins þar sem hún, að margra mati, réðist gegn þeim konum sem hæst ber í þjóðfélaginu í dag. Það varð uppsláttur á flestum vefmiðlum að Steinunn Ólína hefði sagt forsætisráðherra landsins, Katrínu Jakobsdóttur, vera eins og tusku í höndum Bjarna Benediktssonar. Og 90 prósent þeirra sem tjáðu sig um skrifin voru hin lukkulegustu með þessa einkunn sem konunni í forsætisráðherrastólnum var gefin. Þannig er nú kvennasamstaðan fjörutíu og þremur árum síðar.

Það virðist reyndar vera að verða nokkurs konar þjóðaríþrótt að hrauna yfir Katrínu Jakobsdóttur og kenna henni um allt sem aflaga fer í höndum núverandi ríkisstjórnar og fer ekki hjá því að maður velti því fyrir sér hvort hún fengi aðra eins útreið ef hún væri karlmaður. Ekki var Sigmundur Davíð kallaður tuska í höndum Bjarna Ben þegar þeir voru saman í ríkisstjórn, svo dæmi sé tekið, og reyndar hefur enginn karlkynsforsætisráðherra fengið yfir sig aðra eins lítillækkun og ásakanir um þjónkun eins og Katrín. Það fer því ekki hjá því að maður spyrji sig hvort það þyki góð og gild latína í jafnréttisparadísinni Íslandi að tala niður til kvenna í áhrifastöðum og gera því skóna að þær séu viljalaus verkfæri í höndum karlanna sem þær vinna með. Séu tuskur og strengjabrúður.

Undirliggjandi tónn í þessum niðrunum sem beint er að forsætisráðherranum er að vegna þess að hún er kona eigi að gera meiri kröfur til hennar um gott siðferði og „kvenleg“ sjónarmið í pólitík. Konur eiga sem sagt enn og aftur að standa sig betur en karlarnir, vera „betri“ í því sem þær gera og sanna að það skipti máli að hafa konur í áhrifastöðum. Þær eru enn þá fyrst og fremst metnar út frá kynferði sínu og eiga að vera „fyrirmyndir“ ungra stúlkna. Aldrei er minnst á það að karlar í stjórnmálum eigi að vera fyrirmyndir ungra drengja í sínum störfum. Er ekki einhver tímaskekkja í þessari hugsun?

Óður til mannslíkamans

Steindór Grétar Jónsson, blaðamaður á Stundinni, hlustar aðallega á teknó en segist þó vera með frekar breiðan smekk þegar kemur að tónlist. En hverju skyldi hann Steindór mæla með á fóninn um helgina?

„Á föstudagseftirmiðdegi er tilvalið að hressa sig við eftir erfiða vinnuviku og hlusta á Sister Sledge – We  Are Family. Allir helstu diskóslagarar systrasveitarinnar voru samdir fyrir þessa plötu undir dyggri handleiðslu Nile Rodgers og Bernard Edwards. Svo er varla þess virði að hlusta á titillagið nema það sé plötuútgáfan í allri sinni átta mínútna dýrð.

Á laugardegi þarf svo að hækka orkustigið aðeins og skella Kraftwerk – Tour de France Soundtracks á fóninn. Nýjasta (eða síðasta?) plata þýsku frumkvöðlanna tók hljóðheim þeirra inn í 21. öldina til að marka 100 ára afmæli frönsku hjólreiðakeppninnar. Hún er óður til mannslíkamans og getu hans til að hjóla í gegnum mótlæti.

Á sunnudegi er svo orkan uppurin og þörf á að hugsa sinn gang og taka stöðuna á tilverunni. Þá passar engin plata betur en Talk Talk – Spirit of Eden. Um að gera að taka sér kaffibolla í hönd og stara út um gluggann eða á hvítan vegg og leyfa ljúfri rödd Mark Hollis að friða sálartetrið.“

Ef þú sérð eitthvað – gerðu eitthvað

Í tilefni þess að Blátt áfram að var ýta úr vör nýrri vitundarvakningu, Ef þú sérð eitthvað – gerðu eitthvað, hittum við Þórleifu Guðjónsdóttur, verkefnastjóra hjá samtökunum, og fengum kynningu á vitundarvakningunni og frekari innsýn í starfsemi samtakana.

Getur þú sagt okkur nánar frá vitundarvakningunni og markmiðum hennar? „Vitundarvakningin snýst um að fullorðnir geti verndað börn og komið í veg fyrir áreitni og ofbeldi gegn þeim. Við munum standa fyrir auglýsingaherferð, fræðslu og  undirskriftarlista í tengslum við hana.  Með undirskriftarlistanum viljum við þrýsta á stjórnvöld að setja þekkingu um áfallamiðaða þjónustu í háskólum landsins og með því að skrifa undir eru fullorðnir að stíga eitt skref í að gera eitthvað og hafa áhrif í lífi barna,“ segir Þórleif.

Eru margir samstarfsaðilar sem koma að vitundarvakningunni? „Já, þetta er mín fyrsta herferð og ég hefði aldrei trúað því hvað þetta er mikil vinna og hvað það eru margir sem vinna á bak við eina vitundarvakningu sem stendur í viku. Málefnið er gott svo það eru margir tilbúnir að leggja hönd á plóg og langar okkur að koma þökkum til Írisar Bjargar og Dóru Haralds sem eru okkar konur á bak við tjöldin í kvikmyndateymi okkar, þá sérstaklega Ástu Jónínu Arnardóttur og Signýar Rósar Ólafsdóttur og til allra sem léku í myndbandinu. Svo eru mörg fyrirtæki á bak við okkur og viljum við þá helst nefna Alvotech, Gangverk og The Engine.“

Málefnið er gott svo það eru margir tilbúnir að leggja hönd á plóg.

Hvernig gekk að fá einstaklinga til leggja ykkur lið í vitundarvakningunni, koma fram í myndbandinu?„Það gekk frábærlega – forvarnir gegn kynferðisofbeldi er þannig málefni að það vilja allir taka þátt í að stöðva ofbeldi gegn börnum í  samfélaginu.“

Hefur fjöldi tilkynninga um kynferðisofbeldi gegn börnum aukist á síðastliðinum árum? „Samkvæmt skýrslu Barnaverndarstofu hefur tilkynningum til barnaverndarnefnda fækkaði um 2,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 miðað við sama tímabil árið á undan. Hins vegar fjölgar tilkynningum um 14,9% ef miðað er við fyrstu þrjá mánuði ársins 2016. Fjöldi tilkynninga á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 var 2.511 en 2.567 á sama tímabili árið á undan.“

Hefur kynferðisofbeldi gegn börnum aukist eða hefur orðið vitundarvakning í samfélaginu sem gerir það að verkum að tilkynningar eru fleiri í dag en áður? „Rannsóknir styðja að almennt er tilkynningum að fjölga hjá starfstéttum sem starfa með börnum í leik- og grunnskólum, sérstaklega hjá þeim sem fá viðbótar þjálfun í að þekkja merkin og vita hvernig best er að grípa til aðgerða og tilkynna grun. Við teljum að það sé mikilvægt að tilkynna um vanlíðan hjá barni til Barnaverndar og þannig fái þau hjálp fyrr á lífsleiðinni.“

Hvernig bregðist þið við ef þið fáið tilkynningar inn á borð til ykkar, hvert er ferlið? „Við hlustum og leyfum fólki að segja frá, flestir eru óttaslegnir við að hringja og tilkynna grun. En við hvetjum fólk til að taka næstu skref, hafa samband við Barnahús fá fleiri ráðleggingar þar og hafa samband við Barnavernd í sínu bæjarfélagi.“

„Með þessari vitundarvakningu erum við með undirskriftarlista þar sem við skorum á stjórnvöld að í háskólum landsins verði þekking um áfallamiðaða þjónustu.“

Getið þið mælt hvort vitundarvakningar sem þessar skili árangri? „Með þessari vitundarvakningu erum við með undirskriftarlista þar sem við skorum á stjórnvöld að í háskólum landsins verði þekking um áfallamiðaða þjónustu.  Svo erum við með annað flóknara kerfi sem telur  svokölluð „klikk“  á auglýsingum, heimsóknir á heimasíðuna okkar og áhorf á myndbandið sem fylgir vitundarvakningunni,“ segir Þórleif og er bjartsýn.

Forvarnir skila árangri og mikilvægt að stuðla að forvörnum – við berum öll ábyrgð

„Við fögnum því að fleiri taka nú þátt í að ræða og fræða fullorðna um forvarnir gegn ofbeldi á börnum. Við höfum frætt nú um 15% þjóðarinnar og eigum enn langt í land.  Vitundarvakningin í ár, Ef þú sérð eitthvað, gerðu eitthvað, er beint að samfélaginu öllu. Öll berum við saman ábyrgð á velferð barna í kringum okkur, ekki bara okkar eigin. Að breyta hegðun sinni og kjósa að líta ekki fram hjá ofbeldi lengur þýðir hugarfarsbreyting. Það gerist ekki sjálfkrafa, heldur þarf hver og einn að ákveða að hætta að vera áhorfandi, heldur stíga skref til verndar aðilum ef þörf krefur. Þín viðbrögð gætu forðað einhverjum frá því að það verða fyrir kynferðisofbeldi.“

  1. Veittu því athygli að eitthvað er að gerast
  2. Túlkaðu alvarleika atburðarins
  3. Taktu ábyrgð og veittu hjálp
  4. Ákveddu hvernig hjálp

Nánari leiðbeiningar er að finna inn á vef www.blattafram.is

Í samstarfi við Blátt áfram
Myndir/ Hákon Davíð Björnsson

 

Náttúruauðlindir við Mývatn – himneskt að njóta

Jarðböðin við Mývatn eru einstök náttúruauðlind sem laða að og útsýnið er stórfenglegt. Jarðböðin eru staðsett í Jarðbaðshólum, um fjóra kílómetra frá Reykjahlíð. Þar hafa verið stunduð heit jarðböð til heilsubótar allt frá landnámsöld og æ fleiri sækja í þessa náttúruparadís. Við hjá Mannlífi fórum og heimsóttum Jarðböðin og hittum Heiðu Halldórsdóttur markaðstjóra og svöluðum forvitni okkar um það sem í boði er.

Heiða Halldórsdóttir.

Getur þú sagt okkur aðeins frá upphafi Jarðbaðanna og hvert markmið ykkar er með þeim? „Jarðböðin voru formlega opnuð 30. júní 2004 og eru opin allt árið. Útsýnið úr böðunum er einstakt og við leggjum mikla áherslu á að gestir okkar upplifi slökun og vellíðan þegar þeir koma til okkar í Jarðböðin. Við leggjum einnig mikla áherslu á gufuböðin okkar en þau eru byggð ofan á sprungu þar sem náttúruleg gufa stígur upp úr jörðinni. Hvergi annars staðar á Íslandi stígur hrein vatnsgufa, laus við brennistein og aðra mengun, upp úr jörðinni. Við stjórnum því ekki hitanum í gufubaðinu, náttúran sér alfarið um það.“

Hefur reksturinn tekið miklum breytingum á síðustu árum? „Jarðböðin hafa tekið miklum breytingum. Við höfum verið að stækka við okkur hægt og rólega þar sem gestum hefur fjölgað talsvert á síðustu árum. Við höfum einnig bætt veitingaaðstöðu okkar og stækkað salinn í takt við aukningu gesta.“

Aðstaðan hjá ykkur er hin glæsilegasta og margt í boði. Geturðu sagt okkur aðeins frá aðstöðunni og því sem í boði er? „Gestir okkar hafa aðgang að öllu baðsvæðinu en það samanstendur af heitu lóni, heitum potti og gufuböðum. Vatnið í lóninu og pottinum er jarðvarmavatn sem inniheldur mikið magn jarðefna, er basískt og hentar því vel til böðunar. Gufuböðin eru tvö og þar geta fjörutíu gestir verið í einu. Gestum er frjálst að dvelja eins lengi og þeir vilja hjá okkur og margir nýta sér það að fá sér léttar veitingar í Kaffi Kviku á milli þess sem það fer í bað eða gufu.“

Eru Íslendingar, jafnt og erlendir ferðamenn, duglegir að koma? „Við fáum bæði til okkar Íslendinga og erlenda ferðamenn en þeir erlendu eru í miklum meirihluta. Við fáum einnig margt heimafólk sem er okkur mjög mikilvægt og til dæmis eiga margir hér í sveitinni og nágrenni árskort í Jarðböðin.“

Lónið er einstaklega fagurt og dásamlegt að njóta þar. Er boðið upp á veitingar þar? „Við erum með lítið kaffihús hjá okkur sem heitir Kaffi Kvika. Þar er hægt að njóta léttra veitinga í fallegu umhverfi. Við bjóðum upp á súpu og salat, samlokur, boost og fleira. Við seljum einnig léttvín og bjór og er vinsælt að taka með sér drykk ofan í böðin.“

Bjóðið þið hópum, stórum sem smáum, að koma og njóta bæði í dekur og veitingar? „Það eru allir velkomnir til okkar og hafa hópar verið duglegir að koma jafnt sumar sem vetur. Næg gisting er í boði á svæðinu og það er vinsælt hjá starfsmannahópum að koma í sveitina og njóta Jarðbaðanna og alls þess sem þetta fallega svæði hefur upp á að bjóða.“

Einnig er boðið upp á vinsæla viðburði í Jarðböðunum.  „Við höfum verið dugleg að bjóða upp á viðburði sem gestir geta notið á meðan þeir baða sig, en Emmsjé Gauti hefur komið tvisvar sinnum og spilað hjá okkur. Daði Freyr kom í sumar og fleiri listamenn hafa haldið tónleika hér í Jarðböðunum. Næsti viðburður er Jólasveinabaðið sem verður þann 8. desember en þá koma jólasveinarnir úr Dimmuborgum í heimsókn og fara í sitt árlega bað. Við hvetjum alla til að koma og sjá þá bræður fara á kostum í jólabaðinu,“ segir Heiða og brosir.

„Við höfum verið dugleg að bjóða upp á viðburði sem gestir geta notið á meðan þeir baða sig.“

Besti tíminn til að fara í Jarðböðin? „Á sumrin er magnað að upplifa miðnætursólina í böðunum en minn uppáhaldstími er á veturna. Það er einstakt að vera hér yfir hávetur þegar það er mikið frost, snjór allt um kring og sjá norðurljósin og stjörnurnar dansandi á himninum.“

Í samstarfi við Jarðböðin við Mývatn
Myndir / Úr safni Jarðbaðanna við Mývatn

 

 

Þjónusta, gæði og ábyrgð – það er Tengi

Á dögunum heimsóttum við sérverslunina Tengi sem sérhæfir sig í vörum fyrir bað og eldhús og er þekkt fyrir að bjóða upp á góða þjónustu. Okkur lék forvitni á að vita um helstu áherslur Tengis og vöruúrvalið. Við hittum þar Arnar Árnason, sölu- og markaðsstjóra, og spurðum hann spjörunum úr.

Segðu okkur aðeins frá sérvöruversluninni Tengi og helstu áherslum ykkar? „Tengi sérhæfir sig í sölu á hreinlætis- og blöndunartækjum fyrir bað og eldhús ásamt því að vera fagverslun með pípulagnaefni. Við leggjum mikla áherslu á gæðavöru og hátt þjónustustig.“

Þið leggið mikla áherslu á að vera með góða þjónustu, hvaða þjónusta er það sem þið bjóðið helst? „Fyrst og fremst persónulega og faglega þjónustu þar sem við leitum allra leiða til að finna réttu lausnina á þörfum okkar viðskiptavina. Þegar þú endurnýjar allt á baðinu hjá þér eða byggir nýtt þá skiptir máli að velja vandaða vöru sem endist, þess vegna er gott að koma í Tengi.“

Fyrir hvað eruð þið þekktust? „Tengi hefur alla tíð lagt áherslu á langtímasamband við sína birgja þar sem traust og áreiðanleiki er haft að leiðarljósi. Það færist yfir til okkar viðskiptavina þar sem þeir geta treyst á þær vörur sem þeir kaupa hjá okkur og með því byggist upp langtímasamband við viðskiptavini okkar,“ segir Arnar.

Þið bjóðið upp á fjölbreytt úrval af vörum fyrir baðherbergi, hvaða vörur eru það helst? „Það má segja að við bjóðum upp á allt frá A-Ö sem tengist hreinlætis- og blöndunartækjum fyrir baðið. Handlaugar, blöndunartæki, allt fyrir sturtuna, salerni, innréttingar og margt fleira.“

Tímalaus tæki hönnuð af Arne Jacobsen

Hvaða blöndunartæki eru vinsælust í dag? „Sænsku tækin frá Mora og þýsku tækin frá Hansa er ávallt mjög vinsæl. Einnig eru dönsku tækin frá Vola afar vinsæl um þessar mundir þar sem viðskiptavinir hafa mikið val um útfærslu og liti. Þessi tímalausu tæki hannaði Arne Jacobsen og fagnar Vola 50 ára afmæli á þessu ári.“

„Það má segja að við bjóðum upp á allt frá A-Ö sem tengist hreinlætis- og blöndunartækjum fyrir baðið.“

Einnig eru þið með vörur fyrir eldhús í háum gæðaflokki, er einhver tegund vinsælli en önnur í hreinlætis- og blöndunartækjum í dag? „Við bjóðum upp á breitt úrval af tækjum frá mismunandi framleiðendum en þeir sem vilja flotta hönnun velja mest Vola, svissnesku tækin frá KWC og Dornbracht sem er þýskt gæðamerki. Einnig erum við með eldhúsvaska í öllum útfærslum.“

Eru ákveðnir litir og form sem fara meira en annað í dag? „Svart virðist vera mjög vinsælt um þessar mundir, bæði sem matt svart og svo sem burstað svart króm. Einnig eru kopar, brass og burstað stál vinsælir litir. Annars fer alltaf mest af hinu klassíska krómi.“

Heyrst hefur að frístandandi baðkör séu móðins í dag og allra vinsælust, er það rétt? „Frístandandi baðkör eru afar vinsæl um þessar mundir og setja svo sannarlega punktinn yfir i-ið þegar verið er að hanna nýtísku baðherbergi.“

Í samstarfi við Tengi
Mynd /Hákon Davíð Björnsson

 

 

Ísland í viðkvæmri stöðu

Alþjóðamál koma öllum við með einum eða öðrum hætti. Ísland er þar ekki eyland, þrátt fyrir eingangraða landfræðilega eyríkisstöðu í Atlantshafinu.

Það hefur stundum verið sagt um alþjóðavæðinguna að hennar helsta ógn sé hún sjálf og afleiðingar hennar. Bandaríkin má segja að endurspegli alþjóðavæddan heim betur en nokkur annar staður í veröldinni.

Þar eru kraftar úr öllum áttum og flest af stærstu og áhrifamestu alþjóðavæddu fyrirtækjum heimsins. En á stórum svæðum, ekki síst í hinum svonefndu miðríkjum, hefur efnahagsvandi verið viðvarandi á stórum svæðum, sem rekja má til þess að störf hafa færst frá þeim svæðum til annarra landa. Þetta á ekki síst við um verksmiðju- og framleiðslustörf.

Á mörgum svæðum hefur undanfarinn áratugur verið sérstaklega erfiður bæði félags- og efnahagslega. Þrátt fyrir hátt atvinnustig, þá hefur engu að síður verið erfitt fyrir stóra hópa að ná endum saman og lifa með reisn. Fjármálakreppan fyrir áratug hafði mikil áhrif á lífskjör í miðríkjunum og hafa undanfarin tíu ár verið eyðimerkurganga fyrir marga. Hvaða áhrif hefur breytt heimsmynd á Ísland og íslenska hagsmuni? Hvaða áhrif hefur tollastríð Bandaríkjanna og Kína á Ísland?

Fjallað er ítarlega um þetta í Mannlífi í dag og á vef Kjarnans.

Sykur heldur uppi stuðinu á Bryggjunni brugghúsi

Dans- og rafpoppsveitin Sykur ætlar að halda uppi stuðinu á Bryggjunni brugghúsi annað kvöld, laugardaginn 3. nóvember. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og er frítt inn.

Í gegnum tíðina hefur Sykur ítrekað sannað sig sem ein hressasta hljómsveit landsins og staðið fyrir rafmögnuðum partýtónleikum sem skilja ekki þurran blett eftir á dansgólfinu. Þau lofa góðri stemmningu annað kvöld.

Bryggjan brugghús hvetur fólk til að mæta snemma og nærast, hvort sem það er í föstu eða fljótandi formi. Eldhúsið er opið frá 17:00 til 22:30 og barinn til 01:00. Borðapantanir í síma 456-4040.

Flugfarþegar þurfa í sérstök viðtöl til að komast til Bandaríkjanna

Bandarísk flugmálayfirvöld herða öryggiskröfur enn frekar.

Að kröfu bandarískra flugyfirvalda (TSA) eru öll flugfélög skyldug til þess að framkvæma öryggisskimun á farþegum sem fljúga til Bandaríkjanna áður en þeir fara um borð sem felst í stuttum viðtölum þar sem farþegar eru meðal annars spurðir út í ferðatilhögun þeirra.

Þessi skimun hófst í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík í október sl. og er enn unnið að innleiðingu hennar. Þetta eru kröfur sem TSA setur á öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna. Þetta fyrirkomulag hefur verið til staðar fyrir önnur svæði í heiminum í nokkurn tíma og hefur nú verið innleitt fyrir öll félög.

„Þetta er krafa á flugfélögin en ekki flugvöllinn og það eina sem við gerum er að útvega pláss og aðstöðu til handa þeim sem framkvæma viðtölin. Ef þörf er á aðstoðum við flugfélögin með flæðið á farþegunum,” segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi ISAVIA, í samtali við Mannlíf.

Talsmenn íslensku flugfélaganna WOW air og Icelandair staðfestu í samtali við Mannlíf að skimun væri hafin á farþegum sem fljúga beint frá Íslandi og að unnið væri að því að innleiða slík viðtöl fyrir tengiflugsfarþega þar sem það ætti við.

Segja engum gögnum safnað um farþega

„WOW air hefur falið svissnesku öryggisfyrirtæki, sem hefur áratugareynslu af flugöryggismálum, yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins bæði hér heima og á erlendum flugvöllum,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri samskiptasviðs WOW air. Hún útskýrði jafnframt að í viðtölunum sé beitt spurningaaðferð sem samþykkt hefur verið af bandarískum yfirvöldum og tók fram að engum gögnum sé safnað um flugfarþega félagsins.

„WOW air hefur falið svissnesku öryggisfyrirtæki, sem hefur áratugareynslu af flugöryggismálum, yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins bæði hér heima og á erlendum flugvöllum.“

Icelandair hefur einnig byrjað slíka viðtalsskimun á farþegum sem hefja ferð sína í Keflavík. „Í nóvember mun Icelandair einnig láta taka viðtöl við farþega sem hefja ferð sína í Evrópu eða Bretlandi og skipta síðan um vél í Keflavík áfram til Norður- Ameríku. Viðtöl við þessa tengifarþega munu að mestu vera framkvæmd í Evrópu og Bretlandi en þar sem það er ekki hægt verða viðtölin framkvæmd í Keflavík. Viðtöl við farþega sem hefja ferð sína í Keflavík fara fram í innritunarsal fyrir þá sem eru með innritunarfarangur en við öryggisleit fyrir þá sem ekki eru með innritunarfarangur. Viðtöl við tengifarþega í Keflavík munu annaðhvort fara fram fyrir aftan landamæri eða við hlið,“ segir Lea Gestsdóttir Gayet, almannatengill hjá Icelandair, og bætir við að félagið kaupi þá þjónustu sem felist í að þessar öryggiskröfur séu uppfylltar. Þessi viðbót hafi því ekki áhrif á starfsmannaveltu félagsins.

Unnið að því að fyrirbyggja tafir

TSA krefst sérstakrar þjálfunar starfsfólks sem framkvæmir viðtölin svo þau geti náð markmiðum þessara öryggiskrafna. Að sögn Leu hefur slík þjálfun þegar farið fram hjá þeim sem sinna þessum störfum fyrir hönd Icelandair.

„Ákveðinn kostnaður fylgir hverju verkefni en öll flugfélög sem fljúga til Bandaríkjanna verða að fylgja þessu eftir,“ segir Lea og bætir við: „Þessi viðtöl tryggja enn frekar öryggi farþega um borð.“

Þá leggur Lea áherslu á að í samstarfi ISAVIA hafi flugfélagið unnið að því að koma í veg fyrir að farþegar til annarra svæða en Bandaríkjanna verði ekki fyrir töfum vegna viðtalanna og almennar tafir á brottförum. Jafnframt sé reynt að tryggja að flæði innan vallarins sé ekki truflað.

Þegar flugfélög í Evrópu og Asíu innleiddu þessar sömu breytingar beindu þau þeim tilmælum til farþega að mæta tímanlega á flugvöllinn til að fyrirbyggja tafir, allt frá 90 mínútum upp í þrjár klukkustundir fyrir brottför. Nú þegar er mikill erill á álagstímum í Leifsstöð og á næstu vikum mun koma í ljós hvort og þá hvaða áhrif þessar nýju reglur hafa á brottfarartíma frá Keflavík.

„Við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð, en við erum það ekki“

Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu Íslands, hefur marga fjöruna sopið í nýsköpunarmálum og hefur nú starfað fyrir tæknirisann Google í fjögur ár. Þar hefur hann meðal annars komið því á koppinn að íslenska er eitt þeirra tungumála sem Google Assistant styður.

„Ég hef reyndar verið þess heiðurs aðnjótandi að starfa tvisvar hjá Google. Fyrst fór ég þangað eftir að ég útskrifaðist úr MBA-náminu hjá MIT árið 2005 og í seinna skiptið keypti Google fyrirtækið mitt, Emu, árið 2014 og hef ég starfað þar síðan þá,“ segir Guðmundur sem í millitíðinni var yfir vöruþróun hjá Siri, sem var keypt af Apple, og stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki, sem eins og áður var sagt, var keypt af Google.

„Ég hef verið yfir vöruþróun alla mína tíð og það starf felst í ýmsu en þó helst að móta stefnu vöruþróunar sem þýðir að reyna að átta sig á hvaða vandamál fólk stendur frammi fyrir, hvernig tæknilausn getur tekist á við það vandamál, og svo sannfæra hópa af fólki að það sé raunin.

Þegar ég kom fyrst til Google var ég yfir vöruþróun á Google Maps fyrir farsíma, kom því á markað og endaði með því að semja við Apple um að það væri á fyrsta iPhone-símanum. Þar næst var ég yfir þróuninni á „voice search“, þ.e. að gera fólki kleift að tala við Google-leitina, kom því einnig á markað og í hendur á fólki með hvers kyns farsíma. Núna nýlega hef ég verið yfir vöruþróuninni á Google Assistant, og sama sagan þar að ég setti saman upprunalegu sýnina og fylgdi því á markað og áfram.“

Mikilvægt að tækin skilji íslensku

Guðmundur verður með fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag þar sem hann mun tala um nýsköpun almennt. „Hvers vegna hún er mikilvæg í heiminum og hvernig við getum beitt henni til að bæta okkar þjóðfélag og mögulega haft áhrif víðar en það,“ segir Guðmundur. Hann segir að ýmislegt sé gert hér á landi í nýsköpun en einnig sé margt sem megi bæta.

„Nýsköpunarumhverfið hefur þróast mjög hratt og það má segja að innviðirnir hafi ekki endilega haldið í eins og þyrfti en það er eitthvað sem við erum að skoða. Annað sem mér finnst áhugavert er að við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð en við erum það ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur að sjá okkur eins og við erum, lítil nútímaþjóð sem getur látið hlutina gerast hratt, og finna hvernig við getum nýtt okkur það sem styrkleika. Sífellt koma fleiri tæki á markað sem hægt að að tala við og mikilvægt að íslenska verði eitt af tungumálunum sem þau munu skilja.“

„Annað sem mér finnst áhugavert er að við erum alltaf að reyna að vera stórþjóð en við erum það ekki. Ég held að það væri miklu farsælla fyrir okkur að sjá okkur eins og við erum, lítil nútímaþjóð sem getur látið hlutina gerast hratt.“

Mörg skemmtileg tækniundur eru pípunum og Guðmundur er spenntur fyrir þeim mörgum. „Til dæmis sjálfkeyrandi bílar og ýmis spennandi verkefni varðandi nútímavæðingu samfélags á öllum sviðum en það er alveg vonlaust að vita hvert heimurinn er að fara með einhverri vissu. Það er reyndar eitt af því sem er að gerast í dag, að heimurinn er að breytast hraðar en nokkru sinni fyrr en tæknin sem við erum að þróa er orðin ofsalega öflug sem gerir framtíðina, að mínu mati, meira spennandi en nokkru sinni fyrr. En þá er líka eins gott að við séum að taka markvisst þátt í þeirri þróun svo við verðum ekki skilin eftir.“

Mynd / Aðsend

 

 

 

 

 

 

„Ég missti öll tengsl við raunveruleikann“

Sigursteinn Másson

Snemma árs 1996 bankaði ókunnur maður að dyrum hjá Sigursteini Mássyni sem þá var ungur fréttamaður á Stöð 2. Hann kynnti sig sem Sævar Ciesielski og hafði undir höndum gögn um umfangsmesta sakamál Íslandssögunnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálið, og fór fram á að hann skoðaði það ofan í kjölinn. Sigursteinn var tregur í fyrstu en ákvað að sökkva sér ofan í málið. Það reyndist afdrifarík ákvörðun. Ekki bara áttu sjónvarpsþættir Sigursteins stóran þátt í því að opna augu þjóðarinnar fyrir því réttarfarshneyksli sem málið var heldur átti líf Sigursteins eftir að taka stakkaskiptum og marka upphafið að baráttu hans við geðhvörf.

Sögulegar málalyktir urðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á dögunum þegar Hæstiréttur sýknaði þá Kristján Viðar Júlí­us­son, Sæv­ar Marinó Ciesi­elski, Tryggva Rún­ar Leifs­son, Al­bert Kla­hn Skafta­son og Guðjón Skarp­héðins­son af því að hafa orðið þeim Guðmundi og Geirfinni að bana, eftir að endurupptökunefnd féllst á að taka málið upp að hluta. Má segja að dómurinn ljúki því ferli sem Sigursteinn hóf fyrir 22 árum þegar vinna við sjónvarpsþættina Aðför að lögum hófst. Þeir þættir opnuðu augu almennings fyrir því hversu meingölluð rannsókn málsins og meðferð þess fyrir dómstólum var og gjörbreyttu almenningsálitinu sem fram að því hafði ekki verið hliðhollt sakborningunum. Sigursteinn lítur hins vegar ekki svo á að málinu sé lokið enda hafi nafn sakborninga í málinu ekki verið hreinsað að fullu. Eftir stendur að þau eru enn sek fyrir rangar sakargiftir. „Þetta er í rauninni hálfleikur. Þessi niðurstaða Hæstaréttar og í raun með hvaða hætti endurupptökunefndin og saksóknarinn settu þetta upp er hneisa, að mínu mati. Þau höfðu tækifæri til að laga málið allt saman og hreinsa allt málið en þau fóru bara hálfa leið. Að halda eftir röngum sakargiftum er fullkomlega út í hött, algjörlega ábyrgðarlaust, óskammfeilið og virðist gert til þess að vernda kerfið, að vernda þá aðila sem raunverulega bera ábyrgð á því hvernig þetta fór allt saman. Þetta er einfaldlega gert til að koma í veg fyrir að kerfið standi allt saman berháttað í málinu eins og það í raun ætti að vera.“

Sáum strax að málið var meingallað

Sigursteinn var barn að aldri þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið stóð sem hæst og hafði hann aðeins óljósa minningu um málið þegar Sævar Ciesielski bókstaflega færði það upp í hendurnar á honum. „Ég man þetta eins og það hafi gerst í gær. Ég bjó á Kaplaskjólsveginum á annarri hæð í lítilli tveggja herbergja íbúð. Eitt kvöldið, frekar seint, var bankað að dyrum hjá mér og á ganginum stóð þessi lágvaxni granni maður með tvö þykk hefti í höndunum og hann kom sér beint að efninu sem var hans stíll: „Sæll, Sigursteinn. Ég heiti Sævar Ciesielski. Mér var sagt að tala við þig og ég vil spyrja þig hvort þú sért tilbúinn til að skoða Guðmundar- og Geirfinnsmálin“.“

Þá voru liðin 16 ár frá því Sævar var dæmdur í 17 ára fangelsi í Hæstarétti. Sigursteinn, þá 29 ára og þegar orðinn einn af þekktari fréttamönnum landsins, tók við gögnunum en tjáði Sævari um leið að hann væri ekki viss hvort hann gæti nokkuð gert við þau. Fyrst og fremst spáði Sigursteinn í það hvernig Sævar hefði komist inn í stigaganginn án þess að hringja dyrasímanum í anddyrinu. Nokkrum dögum síðar bankaði Sævar aftur upp á, og aftur án þess að hringja dyrasímanum, og afhenti Sigursteini öll gögnin sem lágu fyrir í málinu.

Eftir stutta yfirferð varð honum ljóst að eitthvað verulega hafði farið úrskeiðis við rannsókn málsins. „Þarna um sumarið 1996 opinberaðist fyrir mér ljótleiki málsins og ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri meingallað mál.“ Sigursteinn ákvað fljótlega að gera heimildamynd í tveimur þáttum um málið og fékk til liðs við sig þá Einar Magnús Magnússon og Kristján Guy Burgess. „Þá hófst þessi vinna fyrir alvöru og maður sá strax að það vantaði rosalega mikið í gögnin. Til að mynda ótal margar yfirheyrslur sem voru ekki til staðar. Þetta sást til að mynda glögglega þegar við komumst í dagbækur Síðumálafangelsis sem var ævintýralegt. Þá sáum við að það höfðu farið fram yfirheyrslur sem tóku marga klukkutíma en ekkert var til um.“

„Þarna um sumarið 1996 opinberaðist fyrir mér ljótleiki málsins og ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri meingallað mál.“

Gagnaöflun gekk þokkalega þótt þeir hafi víða mætt tregðu í kerfinu við að veita upplýsingar. „Við létum ekkert vita af þessari vinnu okkar opinberlega fyrr en í september þegar hún hafði staðið yfir í einhverja níu mánuði. Þá, einhvern veginn, fór ýmislegt að breytast.“

Sigursteinn nefnir að þeir hafi verið í samstarfi við þýskan blaðamann sem hafði það verkefni að hafa uppi á Karli Schütz, þýskum rannsóknarforingja á eftirlaunum sem fenginn var til að aðstoða við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Margt var á huldu um Schütz, bæði hvað varðar fortíð hans sem og hvers vegna hann var fenginn til að koma að rannsókn mannshvarfsmáls á Íslandi. „Þetta var ekki venjulegur lögreglumaður. Þetta var maður sem hafði verið innsti koppur í búri varðandi pólitíska þróun Vestur-Þýskalands eftir stríð. Við komumst að því að hann var foringi í SS-sveitum nasista en ekki nákvæmlega hvar hann var og hvað hann gerði. Þessi blaðamaður hafði samband við okkur eftir að við gerðum þetta opinbert og sagði að skyndilega hafi allt lokast honum. Hann tilkynnti okkur að hann gæti ekki haldið áfram að vinna fyrir okkur því allar dyr höfðu lokast í Þýskalandi.“

Missti öll raunveruleikatengsl

Um sama leyti fór Sigursteinn að fá á tilfinninguna að honum væri veitt eftirför. „Ég hafði tekið eftir bíl, brúnum Ford, sem dúkkaði alltaf upp og fylgdi mér þegar ég var að fara til Kristjáns Guy sem bjó í Þingholtunum eða Einars Magnúsar sem bjó á Ránargötunni.“ Sigursteinn rifjar upp atvik þar sem umræddur bíll ók á eftir bíl hans upp Melhaga eitt kvöldið. „Ég stoppaði bílinn og þeir komu alveg aftan að mér, það nálægt mínum bíl að ég sá ekki númeraplötuna á bílnum þeirra. Ég horfði í baksýnisspegilinn til að reyna að átta mig á hverjir þetta væru en þeir sátu báðir með hendurnar fyrir andlitinu og ég sá að þeir voru að ræða sín á milli. Ég hef oft hugsað um það eftir á hvað hefði gerst ef ég hefði farið út úr bílnum og gengið á þá þarna á staðnum. En ég mat það á þessum örfáu sekúndum, þótt þetta hafi liðið eins og heil eilífð fyrir mér, að það væri best að bruna í burtu. Ég spændi því upp Melhagann á Renault-bílnum mínum. Þeir urðu eftir og færðu sig ekki.“

„Ég var algjörlega sannfærður um að skruðningarnir sem ég heyrði í heimasímanum dagana á undan væru merki um að það væri verið að hlera mig“

Það var á þessum tíma sem Sigursteinn byrjaði að „missa fótanna“ og upplifa fyrstu einkenni geðhvarfa. Dagana á eftir fór hann í felur, úr einu húsi í annað. „Ég gisti hjá vinum mínum, í sumarbústað úti á landi og svo framvegis. Ég var algjörlega sannfærður um að skruðningarnir sem ég heyrði í heimasímanum dagana á undan væru merki um að það væri verið að hlera mig. Ég var orðinn svo ofsóknaróður að þetta endaði á því að ég gat hvorki sofið né borðað. Ég varð að vera fullviss um hvaðan maturinn væri og ég vantreysti öllum. Ég var sannfærður um að það væri setið um mig og það að væri markmið ákveðinna afla, valdamikilla aðila, að koma í veg fyrir dagskrárgerðina. Ég missti öll raunveruleikatengsl.“

Gerði Davíð Oddssyni tilboð

Úr varð að Sigursteinn var nauðungarvistaður á geðdeild Landspítalans í fyrsta skipti. „Ég fór og hitti lækni inni á geðdeild ásamt móður minni. Þar í rauninni lagði ég árar í bát. Þá voru hugsanir mínar orðnar mjög óskýrar, mjög fantasíukenndar. Þarna hélt ég til dæmis að ég væri að fara að hitta ríkisstjórnina. Áður hafði ég farið til Davíðs Oddssonar og sagt við hann: „Ég skal hætta þessari dagskrárgerð ef þú bara borgar fyrir mig far úr landi og uppihald.““

Hvernig brást Davíð við?

„Hann spurði hvort ég hefði talað við lækni.“

Sigursteinn telur þó að eftir á að hyggja hafi falist ákveðin blessun í því að hafa veikst á þessum tímapunkti. „Af því að ég held að þá hafi ég verið afskrifaður af mörgum. Þar með fengum við kannski tækifæri til að klára þetta í meiri friði en annars hefði verið. Mín geðhvörf urðu til þarna við þessar aðstæður og spurning hvort ég hefði yfirhöfuð fengið geðhvörf ef ég hefði ekki tekið að mér þetta verkefni. Ég sé hins vegar ekkert eftir því.“

Á þessum tíma var Sigursteinn rekinn frá Stöð 2. Skýringin sem forsvarsmenn Íslenska útvarpsfélagsins sem þá rak Stöð 2 var sú að Sigursteinn gæti ekki sinnt starfinu samhliða þáttagerðinni. Sigursteinn segir málið hins vegar hafa snúist um söluna á sýningarrétti á þáttunum. Bæði RÚV og Íslenska útvarpsfélagið vildu kaupa þættina og var það síðarnefnda tilbúið að borga meira fyrir þá. „En þeir voru ekki tilbúnir til að tryggja sýningu þáttanna á Stöð 2. Þeir ætluðu að sýna þá á Sýn sem á þeim tíma hafði bara takmarkaða útbreiðslu á höfuðborgarsvæðinu, þættirnir hefðu ekki einu sinni sést í Keflavík. Ég gat ekki sætt mig við það. Ég upplifði þetta þannig að það ætti að kaupa þættina, jafnvel dýru verði, en sópa þeim undir teppið. Það var partur af því sem klárlega veikti mig á þeim tíma, hvernig viðskilnaðurinn við Stöð 2 var. Það var ekki til að bæta stöðuna og ekki til að minnka samsæriskenningar mínar í þessu öllu saman.“

Eftir sex vikur á geðdeild Landspítalans og tvær vikur í endurhæfingu í Hveragerði flaug Sigursteinn til Texas í Bandaríkjunum þar sem þáverandi sambýlismaður hans starfaði og notaði hann tímann til að safna orku áður en hann sneri til baka til að ljúka gerð þáttanna. Óhætt er að segja að þættirnir hafi vakið upp sterk viðbrögð og skömmu eftir að þættirnir voru sýndir var gerð skoðanakönnun í Mannlífi sem sýndi að 90 prósent landsmanna taldi að dómarnir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu hafi verið rangir. En í raun gerðist ekkert í málinu sjálfu og haustið 1997 var beiðni Sævars um endurupptöku í málinu hafnað.

„Ég man alltaf eftir samtali sem ég átti við Guðjón Skarphéðinsson [einn sakborninga í málinu, innsk. blaðam.] sem var þá orðinn prestur á Snæfellsnesi. Hann sagði: „Sigursteinn, þú ert að gera þetta 20 árum of snemma. Þú verður að bíða í 20 ár, það eru allir á sínum stað.“ Það þurfti að bíða eftir því að þessir menn létu af störfum. En það var ákveðið áfall fyrir marga að fara í gegnum þessa þætti því núna, 21 ári síðar, hefur ekki eitt einasta atriði í þeim verið hrakið.“

Hélt þau myndu stúta mér í Kaupmannahöfn

Þótt þessum hluta Guðmundar- og Geirfinnsmálsins væri lokið var baráttan við geðröskunina rétt að hefjast. Næsta orrusta fór fram í Kaupmannahöfn vorið 1998. Sigursteinn var þá nýkominn frá Balkanskaga þar sem hann vann að heimildamynd um flóttafólk í Serbíu. „Við heyrðum þegar við vorum í Belgrad að það væru hafnar þjóðernishreinsanir í Kosovo og við vorum með fyrstu tökuliðum á staðinn. Það hafði mjög mikil áhrif á mig og ég var á þessum tíma orðinn mjög ör. Á leiðinni heim stoppaði ég í Kaupmannahöfn og lenti þá í því að Serbar voru með útifund á Ráðhústorginu til stuðnings Slobodan Milosevic. Ég var ekki alveg í stuði fyrir þetta og var í raun og veru heppinn að lenda ekki í meiriháttar vandræðum því ég ætlaði að fara upp á svið og halda ræðu. Eitt leiddi af öðru þar, ég var svefnlaus og upptekinn af því að það væru leyniþjónustur á eftir mér, að hótelið væri njósnagreni og svo framvegis. Ég var kominn vel yfir strikið, búinn að gera allt vitlaust á hótelinu og það var ekkert annað að í stöðunni en að hringja á lögregluna og hún, ásamt móður minni, fylgdu mér á sjúkrahúsið í Hvidovre. Það var ekki um annað að ræða því ég vildi alls ekki fara til Íslands. Það var tengt Geirfinnsmálinu.“

„Eitt leiddi af öðru þar, ég var svefnlaus og upptekinn af því að það væru leyniþjónustur á eftir mér, að hótelið væri njósnagreni og svo framvegis. Ég var kominn vel yfir strikið, búinn að gera allt vitlaust á hótelinu og það var ekkert annað að í stöðunni en að hringja á lögregluna.“

Þótt Kaupmannahöfn sé ekki framandi staður í augum Íslendinga, segir Sigursteinn að það séu mjög framandi aðstæður að vera vistaður á geðsjúkrahúsi í Danmörku. Aðferðirnar þar séu töluvert frábrugðnar því sem gerist á Íslandi. Þar tíðkast til að mynda enn að óla niður þá sjúklinga sem eru órólegir. „Það að vera bundinn svoleiðis niður og vakna svo múlbundinn, þvingunin og ofbeldið, að vera mataður, fá ekki að fara á klósett, öll þessi niðurlæging sem fylgir þessu, þetta er rosalega vond tilfinning. Ég var alveg sannfærður um það fyrstu dagana í Kaupmannahöfn að þetta væri ekki spurning um hvort heldur hvenær og hvernig þau myndu stúta mér. Þetta var ekki auðveldur tími en hann var mjög áhugaverður.“

Taldi mig kominn á lygnan sjó

Eftir þetta kom Sigursteinn heim og sneri sér aftur að þáttagerð. Hann gerði úttekt á vændi og fíkniefnaneyslu í Reykjavík svo og eftirminnilega seríu, Sönn íslensk sakamál. Sjúkdómurinn hélt þó áfram að láta á sér kræla. „Árið 1999 fór ég í væga maníu en samt nægilega hressilega að talin væri ástæða til að vista mig. Eftir það hélt ég að ég væri alveg kominn á lygnan sjó. Það liðu 11 ár og ég var allt í einu kominn í dýraverndunarmál og var að vinna með þá stöðu sem kom upp í Eyjafjallajökulsgosinu. Ég var þar dag eftir dag að vinna undir Eyjafjöllum, með mér var Bandaríkjamaður sem mjög erfitt var að eiga við. Í þessum aðstæðum veiktist ég aftur.“

Þar sem geðröskunin hefur fylgt Sigursteini undanfarið 21 ár er hann farinn að þekkja vel inn á einkenni sjúkdómsins. „Það sem gerist í öllum þessum tilvikum sem ég hef veikst er að ég er í streituumhverfi, ég missi svefn og hætti að borða. Það er ákveðin rútína sem ég þarf að hafa og ef hún er í lagi, get ég farið í gegnum alls konar álag án þess að veikjast. Þá hef ég fulla stjórn á geðhvörfunum. En þegar þetta fer úrskeðis er voðinn vís.“

Í öll þau skipti sem Sigursteinn hefur veikst hefur hann verið fljótur að jafna sig og snúið aftur til vinnu enda sé nauðsynlegt að hafa eitthvað fyrir stafni þegar bataferlið hefst. „Eitt af því versta sem gerist hjá fólki þegar það veikist og er tekið úr leik úr samfélaginu, að það sé mánuðum eða árum saman án verkefna – án hlutverks og tilgangs. Það er alveg glatað.“

„Það er ákveðin rútína sem ég þarf að hafa og ef hún er í lagi, get ég farið í gegnum alls konar álag án þess að veikjast. Þá hef ég fulla stjórn á geðhvörfunum. En þegar þetta fer úrskeðis er voðinn vís.“

Guðs lifandi feginn geðhvörfunum

Sigursteinn hefur nýlokið við að skrifa bók um geðhvörfin sem hann lýsir sem persónulegu uppgjöri við sjálfan sig. Segir hann að bókin sem ber titilinn Geðveikt með köflum, hafi upphaflega verið skrifuð sem sjálfshjálparbók fyrir hann sjálfan. Þegar líða tók á verkefnið hafi hann kynnt hugmyndina fyrir Páli Valssyni útgefanda sem ákvað að slá til og gefa bókina út. „Ég sveiflaðist til og frá með þetta því ég efaðist um að svona persónulegar sögur ættu erindi við almenning. En þegar ég fór að skoða þetta fannst mér mjög áhugavert að sjá í hvaða umhverfi ég var þegar ég veikist, hvers konar aðdragandi var að veikindunum, hvernig þau lýstu sér og hvernig ég vann eða vann ekki úr þeim á mismunandi tímum. Að hafa geðröskun er ekki veikleiki, þetta er styrkleiki. Þetta er veikleiki ef þú ert á valdi geðsjúkdómsins. Ef þú ert með geðsjúkdóm sem þú hefur tök á, er þetta styrkleiki þinn. Þar með er ég ekki að óska fólki þess að fá geðsjúkdóma en ef það er þannig, þá gefur þetta þér innsæi – þetta gefur þér reynslu sem er ekki hægt að fá með öðrum hætti. Þannig að ég er guðs lifandi feginn geðhvörfunum og vildi ekki án þeirra vera.“

„Að hafa geðröskun er ekki veikleiki, þetta er styrkleiki. Þetta er veikleiki ef þú ert á valdi geðsjúkdómsins.“

Sigursteinn segist oft vera spurður að því hvort hann muni eftir þeim tíma þegar hann hefur verið hvað veikastur. „Ég man þetta mjög vel. Ég man mjög vel ótrúlega ruglingslega kafla í lífi mínu, inni á geðdeildum, í einhverjum aðstæðum sem eru að hluta súrrealískar. Ég man þetta allt saman og ég lýsi því í bókinni. En það er eins og sumir telji að minni okkar og reynslu sem höfum gengið í gegnum þetta, sé ekki treystandi. En þetta eru auðvitað jafnmikil sannindi og staðreyndir eins og upplifanir annarra af okkur.“

Er gott að muna þetta?

„Það hefði stundum verið gagnlegt að gleyma meiru. En núna, þegar ég er í þessu uppgjöri, er mjög gott að muna. En það er ofsalega gott líka að skrifa sig frá þessum erfiðu köflum.“

Sævar hefði aldrei sætt sig við niðurstöðuna

Einn af þessum erfiðu köflum er vinnan að þáttunum um Guðmundar- og Geirfinnsmálið sem Sigursteinn segir að hafi tekið mikinn toll. Við gerð þáttanna kynnist Sigursteinn Sævari Ciesielski vel og segir hann að Sævar heitinn hefði aldrei sætt sig við þessi málalok. „Af því að hann er saklaus af því að hafa orðið manni að bana en hann er áfram sekur um að hafa verið að búa til sögur. Ef það var eitthvað sem hann lfiði fyrir var það að nafn hans yrði hreinsað algerlega af þessu. Ekki bara að afsanna eða lýsa yfir sýknu varðandi þessi mannshvörf heldur að sannleikurinn kæmi í ljós. Ég held að það muni gerast. Ég býst við að þetta muni taka eitt eða tvö ár í viðbót en vonandi ekki svo lengi. Þegar málið verður skoðað getur þetta ekki staðið eftir.“

Mynd / Hallur Karlsson

Trúir ekki á neitt yfirnáttúrulegt

Malene Sölvsten sló í gegn í Danmörku með fyrstu bók sinni um Hvísl hrafnanna og nú er þriðja bókin komin. Hún segist ekki trúa á neitt yfirnáttúrlegt þótt slíkt leiki stórt hlutverk í sögum hennar.

Hvísl hrafnanna sló í gegn.

Nú er þriðja bókin um Önnu og félaga hennar í Ravnsted komin út í Danmörku og önnur bókin í bókaflokknum nýkomin út á íslensku. Malene var einn gesta á bókmenntahátíðinni Mýrinni á dögunum. Hún er yfir sig hrifin af Íslandi sem hún hefur fram að þessu aðallega kynnst í gegnum Snorra Eddu sem, eins og lesendur hennar vita, er stór hluti af innblæstri hennar til að skapa þann heim sem Hvísl hrafnanna skilar til okkar. Malene hefur skrifað frá því að hún man eftir sér en hún segist aldrei hafa stefnt að því að verða rithöfundur í fullu starfi. Skrifin hafi bara verið fyrir hana sjálfa og seinni árin sem hvíld frá ábyrgðarfullu og krefjandi starfi í danska fjármálaráðuneytinu. Hún var sem sé starfandi hagfræðingur þar á meðan hún skrifaði fyrstu bókina.

Hvísl hrafnanna, 2. bók.

„Ég ætlaði að verða myndlistarmaður,“ segir hún og hlær. „Ég var alltaf teiknandi, málandi og skrifandi sem barn og sá fyrir mér að vinna fyrir mér með myndlistinni þegar ég yrði fullorðin. Ég sótti þrisvar um í myndlistarskóla sem unglingur en fékk alltaf höfnun og það endaði með því að ég fór í ljósmæðranám. Eftir að hafa stundað það í eitt ár, meðal annars verið í starfsnámi á stórum spítala í Kaupmannahöfn og tekið á móti barni eftir að hafa vakað í 48 tíma sá ég að þetta starf var allt of mikið álag fyrir mig, hætti í náminu og fór í hagfræði. Ég lagði áherslu á efnahagsmál þróunarlandanna í náminu og ætlaði að vinna fyrir þau, láta gott af mér leiða, skilurðu, en þegar ég útskrifaðist var efnahagskreppan skollin á og slík störf ekki í boði þannig að þegar mér bauðst starf í fjármálaráðuneytinu þáði ég það auðvitað. Þar vann ég í tvö og hálft ár í samskiptadeildinni, stjórnaði alls konar herferðum fyrir ríkisstjórnina og lærði alveg óskaplega mikið.“

„Ég var alltaf teiknandi, málandi og skrifandi sem barn og sá fyrir mér að vinna fyrir mér með myndlistinni þegar ég yrði fullorðin.“

Hún vann að fyrstu bókinni í leynum í tvö ár áður en henni var nánast þröngvað til að senda handritið til útgefanda eftir að móðir hennar hafði komist að leyndarmálinu fyrir slysni.

„Ég sendi handritið til Gyldendal eftir að mamma suðaði í mér,“ segir hún og grettir sig. „Ég átti svo sem ekki von á að það yrði gefið út en ég viðurkenni að þegar liðnir voru fjórir mánuðir án þess að ég fengi nokkurt svar var ég orðin dálítið pirruð. Þeir gætu nú að minnsta kosti sent höfnunarbréf. Það væru nú lágmarksmannasiðir.“

Það kom henni því algjörlega í opna skjöldu þegar svarbréfið barst loksins og þar bauð Gyldendal henni ekki bara útgáfusamning um fyrstu bókina heldur þriggja bóka samning.

Ýtarlegra viðtal við Malene má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Ég var algjörlega sannfærð um að þetta væru mistök,“ segir hún einlæg. „Þeir hlytu að hafa ruglað mér saman við einhvern annan höfund. Ég var skjálfandi á beinunum þegar ég fór í fyrsta viðtalið hjá ritstjóranum mínum, hrædd um að hún uppgötvaði mistökin og fleygði mér á dyr. Það var ekki fyrr en hún nefndi nafnið á einum karakternum í bókinni sem ég fór að anda léttar. Bókin varð síðan metsölubók, sem ég held ekki að neinn hafi búist við, og nú er ég rithöfundur í fullu starfi.“

Malene veit ekki hvað hún ætlar að skrifa næst en hún er með þrjú verkefni í vinnslu.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Hnausþykkt kökublað Gestgjafans er komið út

Loksins, loksins…biðin er á enda! KÖKUBLAÐ Gestgjafans er komið út!

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, bakaði þessa flottu köku. Uppskrift að henni er að finna í kökublaðinu.

Kökublaðið er algert tryllitæki fyrir sælkera og bakara landsins. Í því má finna sjúklegar súkkulaðikræsingar sem slá í gegn, dásamlegar smákökur fyrir börn og fullorðna, skúffukökur með skemmtilegu tvisti og eftirréttaostakökur sem enginn getur staðist.

Einnig eru syndsamlegar kokteilakökur, pistasíukökur og kökur sem valinkunnir bæjarstjórar baka ásamt fleiri spennandi uppskriftum.

Dásamleg möndlukaka með hindberjakremi, skreytt með makkarónum og ferskum blómum.

Frumsýningarveisla Kabarett á Akureyri og sælkeraferðagrein um Kaupmannahöfn er að finna í blaðinu. Einnig fræðir Vala Stefánsdóttir okkur um kaffi og kaffikokteila. Líflegt og skemmtilegt innliti í Efstadal er meðal efnis ásamt fjöldanum öllum af fróðleik um kökur, krem og bakstur. Vínsíður Dominique eru á sínum stað og margt, margt fleira.

Þess má geta að blaðið er einstaklega veglegt enda heilar 164 blaðsíður.

 

Bak við góðan árangur liggja miklar fórnir

Harpa Káradóttir hefur um árabil verið meðal færustu sminkum landsins. Með gríðarmikla reynslu í farteskinu opnaði hún nýverið eigin förðunarskóla en hún segir að líf einstæðrar móður í eigin rekstri ekki alltaf vera dans á rósum.

Nú er Harpa góð fyrirmynd fyrir konur og áminning um að draumar geta ræst með mikilli vinnu. Á hún góð ráð fyrir konur í svipuðum hugleiðingum og hún?

„Ég á kannski ekki auðvelt með að ráðleggja öðrum konum hvað þær eiga að gera því aðstæður geta verið svo ólíkar. En ég ráðlegg öllum samt að fylgja draumum sínum og finna sér starf sem að þær hafa ánægju af. Vinnan er svo stór partur af lífinu og lífið verður svo miklu meira gefandi og skemmtilegra ef að maður fylgir hjartanu. Það þarf ekkert að vera að allt gangi upp en þannig er líka bara lífið. Maður lærir af allri lífsreynslu og sú reynsla mótar mann og fer með mann eitthvert annað.“

Talið berst af förðunar-trendum dagsins í dag og hvaða útlit er í uppáhaldi hjá Hörpu.

„Förðunar-trendin eru allskonar í dag. Ef að ég á að vera hreinskilin að þá er ég orðin mjög þreytt á ofmáluðum stúlkum þar sem að þeirra náttúrulega fegurð nánast hverfur. Ég kýs að nota förðunarvörur til þess að draga fram fegurð hvers og eins en ekki til þess að móta alla í sama formið,“ segir hún en viðurkennir að vera algjör snyrtivörufíkill en sækir mest í vörur sem láta henni líða vel og líta sem best út.

„Persónulega mála ég mig ekkert sérstaklega áberandi en notast engu að síður við allavega trix við mína daglegu förðun. Eftir því sem að ég fullorðnast þá mála ég mig aðeins minna en áður. Förðun gerir mjög mikið fyrir mig persónulega, sérstaklega þar sem fólk dæmir mig mögulega og mína vinnu svolítið eftir því hvernig ég kem til dyranna.“

„Förðun gerir mjög mikið fyrir mig persónulega, sérstaklega þar sem fólk dæmir mig mögulega og mína vinnu svolítið eftir því hvernig ég kem til dyranna.“

Harpa segist sjá mikinn mun á ungum konum í dag og þeim sem ólust upp á níunda áratuginum.
„Vissulega eru allavega öfgar í gangi en þannig er bara lífið. Það er eins með útlitið og annað að best er að gæta hófs. Varðandi fyllingarefni og annað slíkt þá á ég erfitt með að svara hvað sé rétt og hvað sé rangt. En ég myndi segja að fólk þurfi að vera búið að ná ákveðnum þroska til þess að taka ákvörðun um frekara inngrip líkt og að stækka varir og annað slíkt. Mér finnst mjög furðulegt að sjá ungar stúlkur augljóslega vera búnar að breyta andlitinu sínu. Ég hef svo allt aðra skoðun á því þegar að konur viðhalda útliti sínu þegar þær eldast.“

„Mér finnst mjög furðulegt að sjá ungar stúlkur augljóslega vera búnar að breyta andlitinu sínu. Ég hef svo allt aðra skoðun á því þegar að konur viðhalda útliti sínu þegar þær eldast.“

Hún segir ungar konur í dag, upp til hópa, vera mun klárari í förðun en þegar hún var unglingur. „Förðun er orðin að mun meira áhugamáli í dag heldur en var. Tímarnir breytast hratt, til dæmis þegar að ég var tvítug og fór í förðunarnám þá voru mjög margir sem að skildu ekkert hvað ég var að spá og hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera úr því. Í dag vinn ég myrkranna á milli og hef skapað mér ótrúlega skemmtilegan starfsferil. Það er algjör klisja að segja þetta en ég er í draumastarfinu mínu og myndi ekki vilja hafa neitt öðruvísi. Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa haft sterka trú á því að þetta gæti verið atvinnan mín í framtíðinni því að meirihluti fólks ranghvolfdi augunum og horfði á mig eins og ég væri hálfgerður hálfviti þegar að ég sagði frá því hvað ég væri að fara að gera.“

„Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa haft sterka trú á því að þetta gæti verið atvinnan mín í framtíðinni því að meirihluti fólks ranghvolfdi augunum og horfði á mig eins og ég væri hálfgerður hálfviti þegar að ég sagði frá því hvað ég væri að fara að gera.“

Útlitsdýrkun fylgir vissulega förðunarbransanum en hvað segir Harpa um það málefni?
„Útlitsdýrkun fylgir líklega öllum kynslóðum en ég viðurkenni það að ég er nokkuð sátt með að hafa alist upp án allra þessara samfélagsmiðla. Ég geri ráð fyrir að þeir setji töluverða pressu og gefi ungu fólki ranghugmyndir um það hvernig lífið er.“

Bak við góðan árangur liggja margar fórnir

Harpa á fjögurra ára dóttur en það að að vera einstæð móðir í eigin rekstri er ekki alltaf dans á rósum.
„Ég er oft með nagandi samviskubit yfir því að vera stundum í burtu á kvöldin og um helgar en ég reyni að minna mig á að njóta þeirra stunda sem að við eigum saman og ég veit alltaf af henni í góðum höndum annars staðar þegar hún er ekki hjá mér. Ég eyði ekki miklum tíma í að spá í þetta, svona standa bara málin og við lifum kannski óvenjulegu lífi en engu að síður hamingjusömu lífi. Ég er með gott fólk og fjölskyldu í kringum mig sem hjálpar mér með stelpuna mína.“

„Ég er oft með nagandi samviskubit yfir því að vera stundum í burtu á kvöldin og um helgar…“

Hún segir mikilvægt að vera dóttur sinni góð fyrirmynd. „Ég vil sýna Kötlu dóttur minni að flest er hægt ef að viljinn er fyrir hendi og kenna henni að með því að vinna hörðum höndum að einhverju skili það sér á endanum. Til þess að ná góðum árangri þarftu yfirleitt að fórna meiru en næsti maður og maður þarf að læra að gera það með bros á vör til þess að komast þangað sem að maður ætlar sér. Bak við allan góðan árangur liggja miklar fórnir, það er bara þannig,“ segir Harpa að lokum og meinar hvert einasta orð.

„Til þess að ná góðum árangri þarftu yfirleitt að fórna meiru en næsti maður og maður þarf að læra að gera það með bros á vör til þess að komast þangað sem að maður ætlar sér. Bak við allan góðan árangur liggja margar fórnir.“

Viðtalið birtist fyrst í Vikunni.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Margt sem situr eftir ósvarað

Sigrún Ásta Jörgensen hafði nánast kvatt drauminn um að verða móðir en bíður nú fæðingar tvíbura sem væntanlegir eru í heiminn á hverri stundu.

Hún segist sannfærð um að stress og kvíði hafi mikið haft að segja en röð áfalla setti andlega heilsu hennar úr skorðum, einkum og sér í lagi sjálfsvíg bróðurins sem var hennar besti vinur. „Bróðir minn dó í maí árið 2015, rétt eftir 27 ára afmælisdaginn sinn. Það var rosalega erfitt en hann hafði glímt við eiturlyfjafíkn lengi auk þess að vera þunglyndur og félagsfælinn.“

„Í dag skil ég hvers vegna hann fór þessa leið og hef lært að virða hans ákvörðun, en það tók mig langan tíma. Um langt skeið var ég bæði reið og sár út í hann fyrir að hafa farið frá okkur öllum á þennan hátt. Það var svo margt ósagt á milli okkar og mikið sem situr eftir.“

„Hann framdi sjálfsvíg heima hjá ömmu okkar og afa en ég gisti líka hjá þeim þessa nótt. Við höfðum öll miklar áhyggjur af honum enda hafði hann ítrekað látið í ljós vanlíðan sína. Klukkutíma eftir að við lögðum af stað í vinnuna um morguninn var hann dáinn. Þegar hann svaraði ekki símanum hringdi amma í lögregluna því hún fann strax á sér að eitthvað væri að. Lögregluþjónarnir mættu fyrstir á svæðið en við amma komum skömmu síðar. Þegar annar lögregluþjónninn gerði sig líklegan til að faðma mig við útidyrahurðina ýtti ég honum harkalega í burtu og hljóp upp. Þeir höfðu komið Bent fyrir í rúminu þar sem hann lá í friðsælli stellingu.“

„Ég sá hann dáinn heima en ekki í þeim aðstæðum sem hann dó í, það hefði sennilega eyðilagt mig að eilífu.“

Sigrún Ásta leitaði allra lausna til þess að skilja hvers vegna bróðir hennar hafði ákveðið að fara þessa leið en hún skoðaði meðal annars fartölvu hans og þær síður sem hann hafði síðast skoðað. „Ég sá fljótt að hann hafði gert ítarlega leit að upplýsingum um hvernig hægt væri að blanda of stóran skammt, dauðaskammt. Hann vildi klára þetta og alls ekki eiga á hættu að mistakast. Eftir að hafa lesið dánarskýrsluna nokkrum mánuðum síðar fékk ég það svo staðfest. Það að missa nákomna manneskju sem fremur sjálfsvíg er að mínu mati ekki sambærilegt við það að missa manneskju með öðrum hætti. Sorgin sem tekur við er öðruvísi en sú sem við þekkjum flest. Stuttu síðar lést afi minn, sem bróðir minn var skírður í höfuðið á, en afi var okkur systkinunum mikil föðurímynd. Hann hafði þó náð 86 ára aldri og lifað góðu lífi. Þó að það hafi auðvitað verið erfitt var það ekki sambærilegt á nokkurn hátt.“

„Bent bróðir var besti vinur minn og fyrirmynd mín í lífinu. Ég hafði gengið í gegnum allt með honum. Það sem hann kenndi mér er fyrst og fremst þakklæti fyrir það sem ég hef. En ég hef líka lært að skilja fólk sem er á þessum stað.“

„Það kljást margir við erfið geðvandamál og svo mörgu er ábótavant í geðheilbrigðismálum á Íslandi.“
Mæðgurnar reyndu nokkrum sinnum að fá innlögn fyrir Bent en Sigrún Ásta lýsir viðmótinu sem þær mættu sem því versta sem þær hefðu báðar upplifað. „Upplifun manns er sú að öllum standi hreinlega á sama. Við urðum fyrir svo miklum vonbrigðum því á þessum tíma hafði Bent talað mikið um það hversu illa honum leið og margoft sagt að hann ætlaði að klára þetta.“

„Eftir að hafa beðið á biðstofunni tímunum saman kom loksins röðin að honum en eftir örstutt spjall við lækninn var hann sendur út með þeim skilaboðum að ekkert væri hægt að gera.“

„Ég óskaði í kjölfarið eftir samtali við yfirlækni á staðnum og benti henni á þá bláköldu staðreynd að bróðir minn væri í mikilli sjálfsvígshættu. Hún ítrekaði sitt fyrra svar, að það væri ekkert hægt að gera. Mér leið eins og hún hreinlega nennti ekki að tala við mig. Mánuði seinna var Bent dáinn. Kannski hefði verið hægt að hjálpa, við vitum það ekki fyrir víst, en þeirri spurningu er engu að síður enn ósvarað.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Mynd / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Sara Dögg Johansen.
Hár / Katrín Sif Jónsdóttir.

Mikill áhugi á margnota röri sem hægt er að tyggja á

|
|

Þrír frumkvöðlar hafa hannað margnota drykkjarrör sem hægt er að tyggja á. Áhugi fólks á rörinu leynir sér ekki og hafa þremenningarnir safnað tveimur milljónum króna á nokkrum dögum.

Plastmengun í náttúrunni hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og margt fólk er farið að gera hvað sem það getur til að draga úr plastnotkun, svo sem nota fjölnota innkaupapoka í staðin fyrir plastpoka og sleppa því að nota plaströr.

Sumum þykir þó ómissandi að nota drykkjarör og þá koma margnota rör sér vel. Þrír hönnuðir og frumkvöðlar frá Singapore hafa lagt sitt af mörkum í stríðinu gegn plasti og hannað margnota drykkjarrör sem auðvelt er í notkun.

Þeir Lim Jing Jie, Tommy Cheong og Kevin Yeo hafa hannað plaströr sem þeir segja vera handhægara og þægilegra í notkun heldur er öll önnur margnota rör sem eru á markaði þessa stundina.

Það sem gerir þeirra rör einstakt að þeirra mati er sílíkonendinn sem er á rörinu. Þann enda er hægt að tyggja á. Í viðtali við Business Insider segja hönnuðirnir að ástæðan fyrir sílíkonendanum sé sú að margt fólk tyggur á drykkjarörinu sínu ómeðvitað.

Lim segir að þegar þeir þremenningar hafi kynnt hugmyndina að rörinu, sem þeir kalla Chew Inc., fyrst fyrir vinum sínum hafi fólk orðið mjög spennt. „Og þá vissum við að við hefðum hitt í mark,“ sagði Lim.

En það er ekki bara rörið sem er einstakt að mati hönnuðanna heldur eru umbúðirnar það líka. Rörinu á að vera afar einfalt að pakka saman í umbúðirnar og það loftar vel um þannig að rörið þornar hratt og örugglega.

Lock it in place with a *click*

Þremenningarnir settu sér það markmið að safna upphæð sem nemur um 1,7 milljónum íslenskra króna fyrir framleiðslukostnaði á Kickstarter. Þeir náðu markmiðinu á innan við viku. Núna hafa þeir safnað upphæð sem nemur um rúmum tveimur milljónum króna og enn eru 21 dagur eftir af söfnuninni. Það er því ljóst að áhuginn á rörinu er mikill.

Myndir / Söfnunarsíða Chew Inc.

Missti fótanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu

„Þetta er í rauninni hálfleikur. Þessi niðurstaða Hæstaréttar og í raun með hvaða hætti endurupptökunefndin og saksóknarinn settu þetta upp er hneisa, að mínu mati. Þau höfðu tækifæri til að laga málið allt saman og hreinsa allt málið en þau fóru bara hálfa leið,“ segir Sigursteinn Másson um niðurstöðuna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hann telur, þrátt fyrir að fimmenningarnir hafi verið sýknaðir í Hæstarétti, að málinu sé enn ólokið.

Árið 1996 hóf Sigursteinn gerð heimildamynda um málið eftir að einn sakborninganna, Sævar Ciesielski, bankaði óvænt upp hjá honum eitt kvöldið. Þessi heimsókn átti eftir að vera afdrifarík, bæði hvað málið varðar og hann sjálfan. Við gerð þáttanna gerði geðröskun í fyrsta skipti vart við sig og markaði sjúkdómurinn djúp spor í lífi hans næstu árin á eftir.

Sigursteinn gerir upp Guðmundar- og Geirfinnsmálið og baráttu sína við geðhvörf í ítarlegu viðtali við Mannlíf sem kemur út í fyrramálið.

Raddir