Miðvikudagur 30. október, 2024
2.1 C
Reykjavik

Fyllir Ásmundarsal af líffærum

Sigga Heimis hönnuður stendur í stórræðum þessa dagana. Auk þess að þeytast milli landa í vinnu sinni með ungum hönnuðum fyrir IKEA og vera einstæð móðir með þrjú börn, sem hún viðurkennir að útheimti gríðarlega skipulagningu, vinnur hún með fleiri fyrirtækjum og er ofan á allt saman að undirbúa sýningu á líffærum úr gleri sem hún mun halda í samstarfi við stærsta glerframleiðanda í heimi.

Hönnuðurinn Sigga Heimis hefur í nógu að snúast þessa dagana. Mynd / Unnur Magna

„Já, ert þetta þú?“ segir Sigga sem er stödd á Íslandi þegar hún svarar í símann klukkan 10.30. „Síminn hefur hringt stanslaust síðan hálffjögur í nótt og ég var bara alls ekki viss um hver gæti nú verið að hringja. Það er eitt af því sem fylgir því að þrjóskast við að búa á Íslandi þótt ég sé að vinna út um allar trissur að fólk áttar sig ekki alltaf á tímamismuninum og hringir á öllum tímum sólarhringsins. En það er allt í góðu, svona er þetta bara.“

Eitt af þeim verkefnum sem Sigga fæst við erlendis er að skipuleggja og vinna með hönnunarskólum og -stofnunum og vinna með ungum hönnuðum fyrir IKEA. Um hvað snýst það?

„Ég þekki þá tilfinningu mjög vel að koma úr námi og þurfa að byrja á algjörum núllpunkti,“ útskýrir hún. „Ég þekki það sjálf að þekkja engan í þessum geira og þurfa sjálf að finna mér atvinnutækifæri og ég fæ alveg jafnmikið út úr því og þau að hjálpa þeim að komast inn í þetta svo að þegar þáverandi yfirmaður minn hjá IKEA spurði hvernig mér litist á að sjá um samstarf fyrirtækisins við hönnunarskóla var ég fljót að segja já. Síðan eru liðin mörg ár og umhverfið hefur breyst mikið. Á þeim tíma var aðallega verið að teikna einhverjar ákveðnar vörur sem IKEA var að bæta við hjá sér en nú höfum við víkkað þetta miklu meira. Nú vinnum við í rauninni bara með nýjar hugmyndir og væntingar nýrra kynslóða til sterkra vörumerkja. Heimurinn er að breytast svo hratt og maður verður að vera miklu meira á tánum. Fyrir tíu til fimmtán árum gat IKEA mælt miklu betur hvað markaðurinn vildi en það er ekki hægt lengur. Unga fólkið í dag hefur allt aðrar væntingar og vill ekkert endilega eiga fullt af hlutum. Það eru mörg stór fyrirtæki að takast á við þetta, hvort sem það eru bílaframleiðendur, byggingafyrirtæki eða húsgagnafyrirtæki. Þannig að nú er ég með það verkefni að skipuleggja og sjá um samvinnu IKEA við hönnunarskóla um allan heim.“

„Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig heldur börnin mín líka.“

Mikið púsluspil að samræma vinnu og heimili
Eins og gefur að skilja krefst starfið mikilla ferðalaga og verandi einstæð móðir með þrjú börn þar sem eitt er verulega þroskaskert og þarf mikla umönnun, segist Sigga vera orðin algjör sérfræðingur í því að þrýsta ferðunum niður í mjög stutta pakka.

„Ég er mjög skipulögð þegar ég fer út,“ segir hún. „Samkvæmt reglunni er ég alltaf eina viku í mánuði í Svíþjóð og þar legg ég fram mitt plan um hvernig ég ætla að gera þetta. Það er alls ekki nauðsynlegt að hver ferð taki marga daga. Til dæmis er ég að vinna með skóla í Berlín og flýg þá oft fram og til baka samdægurs. Þetta er allt orðið mun einfaldara en það var, en vissulega er þetta mikið púsluspil og ég þarf að láta ýmislegt ganga upp til þess að þetta smelli saman. Það er bara svo ofboðslega spennandi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt að ég finn leiðir til að láta þetta ganga.“

Sigga er búin að setja húsið sitt á sölu og planið var að eiga annað heimili í Svíþjóð með alla fjölskylduna, en hún segir það ekki eins einfalt og það hljómi.
„Ég ætla aðeins að bíða með að flytja,“ segir hún. „Ég veit alveg hvernig það er þegar fólk er að flytja með börn sem þurfa sértæka ummönun á milli landa, maður hleypur ekkert inn í kerfið þar bara si svona. Það eru endalausir biðlistar alls staðar og ég er ekki alveg tilbúin í það. Það hefur alveg gengið hingað til að vera búsett á Íslandi þótt ég sé í þessari vinnu og ég ætla aðeins að sjá til með þetta.“

Önnur ástæða þess að Sigga er ekki tilbúin að fara af landinu í bili er að hún er komin í stefnumótunarvinnu fyrir Rammagerðina, þar sem hún er í bullandi vinnu og segir frábært að vinna með íslenska handverks- og hönnunararfinn okkar. Fleiri verkefni eru í vinnslu, til dæmis stór verkefni fyrir stórt fyrirtæki í Kóreu.
„Ég hef verið svo ofboðslega heppin – og nú lem ég í allan við sem er hér nálægt mér – að ég hef alltaf haft nóg að gera,“ segir hún. „Ég hef aldrei verið spennt fyrir því að stofna stórt og mikið fyrirtæki og vera með stóran vinnustað. Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig, heldur börnin mín líka.“

Sigga undirbýr nú sýningu í Ásmundarsal með líffærum sem hún hefur hannað.

Vill opna umræðuna um líffæragjafir
Ofan á öll þessi verkefni og stóran heimilisrekstur er Sigga nú að undirbúa sýningu í Ásmundarsal eftir áramótin þar sem hún mun sýna líffæri úr gleri sem hún hefur hannað, í tilefni af breytingunni á lögunum um líffæragjafir. Hvernig kom sú hugmynd upp?

„Það að eiga barn með sérþarfir opnar nýjar víddir fyrir manni og ég hef með árunum velt því sífellt meira fyrir mér hvernig hönnuðir geti axlað samfélagslega ábyrgð. Ég lenti svo fyrir tilviljun í samstarfi við stærsta glerlistasafn í heimi sem er í New York-ríki og var stofnað af stærsta glerfyrirtæki heims í kringum 1950. Þau ákváðu fyrir nokkrum árum að prófa að vinna með hönnuðum. Þau höfðu alltaf unnið með listamönnum en vildu breyta til og buðu mér og fleiri hönnuðum til samstarfs. Þegar ég var komin í þriggja daga vinnustofu hjá þeim þar sem átti að vinna með munnblásið gler stóð ég og klóraði mér í höfðinu og af einhverri ástæðu datt ég niður á þá hugmynd að búa til líffæri úr glerinu. Eftir það lagðist ég í rannsóknir á því hvar við værum eiginlega stödd í sambandi við líffæragjafir. Þá opnaðist fyrir mér alveg nýr og dálítið óhugnanlegur heimur.

Það er mikill skortur á líffærum í heiminum og fátækt fólk hefur gripið til þess ráðs að selja úr sér líffæri til að komast af og það eru ótal siðferðisspurningar í kringum þetta. Ég ákvað þá að búa til þetta verkefni til að vekja athygli á stöðunni og vekja fólk til umhugsunar um líffæragjafir. Ég hef farið með líffæri á nokkrar sýningar en það sem varð kveikjan að þessari sýningu í Ásmundarsal var þegar þau undur og stórmerki gerðust að Alþingi Íslendinga var einróma sammála þegar það samþykkti ný lög um áætlað samþykki til líffæragjafa sem taka gildi núna 1. janúar. Þetta er mikilvæg breyting sem snertir okkur öll og þarna sá ég tækifæri til að setja upp sýningu sem myndi hvetja fólk til að opna umræðuna um líffæragjafir. Fékk afnot af Ásmundarsal allan janúar og febrúar og þar ætlum við að setja upp undraheim líffæra sem fólk getur gengið inn í og upplifað. Ég er sannfærð um að þetta verður stórkostleg upplifun, en ég segi þér nú nánar frá því öllu síðar. En ég vil samt nefna að Gagarín er samstarfsaðili minn á sýningunni og sömuleiðis Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og nýrnaþegi. Þetta eru lykilaðilar sem munu gera það að verkum að sýningin verður mögnuð!“

Syndsamleg súkkulaðikaka

|
|

Þó svo að gaman sé að bjóða upp á margar tegundir þegar gesti ber að garði er raunveruleikinn sá að sjaldnast er tími til þess að bjóða upp á margar sortir. Ein góð og mikil terta sem dugar fyrir alla gestina er oft besta lausnin og þá er líka minni hætta á að gestgjafinn sitji uppi með mikla afganga, sem hann oftar en ekki freistast til að klára sjálfur dagana á eftir, við þekkjum þetta öll, er það ekki?

Mynd / Heiða Helgadóttir

SÚKKULAÐIKAKA
fyrir 10-12

2 1/2 dl rjómi
1 msk. borðedik
4 dl hveiti
4 1/2 dl sykur
2 dl kakó
1 1/2 tsk. lyftiduft
2 tsk. vanilludropar
1 tsk. salt
3 egg
120 g smjör, brætt
2 1/2 dl sterkt kaffi

Setjið rjóma og edik saman í skál og látið standa í 5-10 mín. (eins má nota 2 1/2 dl af súrmjólk í stað rjóma og ediks). Setjið hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, vanillusykur og salt saman í skál. Bætið rjómanum, eggjum og smjöri út í og hrærið saman. Setjið kaffi út í og blandið vel. Athugið að deigið er þunnt. Setjið bökunarpappír í botninn á tveimur formum sem eru 24 cm í þvermál. Smyrjið formin vel og skiptið deiginu á milli þeirra. Athugið að ef notuð eru form með lausum botni getur verið nauðsynlegt að setja álpappír utan um þau til þess að koma í veg fyrir að deig leki í ofninn. Bakið í u.þ.b. 25 mín. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á kökuna.

KREM
350 g 70% súkkulaði
230 g smjör, við stofuhita
3 msk. kakó
8 msk. flórsykur
1 tsk. vanillusykur
salt á hnífsoddi
4 msk. rjómi

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna. Hrærið smjör, kakó, flórsykur, vanilludropa og salt vel saman þar til blandan er mjúk og kremkennd. Bætið þá rjóma saman við og hrærið áfram. Bætið súkkulaðinu saman við og hrærið áfram af krafti í 3-4 mín. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Heiða Helgadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Þurfum meiri stöðugleika á íbúðamarkaði

|
|

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur þörf á meiri stöðugleika á íbúðamarkaði.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Mynd / Unnur Magna

„Þegar íbúðamarkaðurinn fór að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu árið 2011 hafði myndast mikil umframspurn eftir húsnæði enda framboðið talsvert á eftir vaxandi þörf vegna fólksfjölgunar, vaxtar í ferðaþjónustu og lýðfræðilegra þátta. Ójafnvægið náði hámarki á síðasta ári þegar 6 íbúar í landinu bitust um hverja nýja íbúð. Afleiðing þessa varð m.a. til þess að íbúðaverð hækkaði þónokkuð umfram laun í landinu og því varð æ erfiðara fyrir nýja íbúðakaupendur að koma inn á markaðinn. Þar varð unga kynslóðin hvað harðast úti,“ segir Ingólfur.

Hann segir Samtök iðnaðarins hafa barist ötullega fyrir auknu framboði á lóðum til íbúðabygginga enda felist vandinn að miklu leyti í lóðaskorti. „Sveitarfélög hafa brugðist hægt við þessum vanda. Hluti ástæðunnar er að sveitarfélög bera hvert fyrir sig ábyrgð á landskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Engin yfirsýn er yfir heildina á landsvísu né samkvæm áætlanagerð. Sveitarfélög huga því ekki að því að jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði. SI hafa viljað bæta úr þessu með því að stofna öflugt innviðaráðuneyti sem hefur forræði á málaflokknum í heild sinni og getur tekið af skarið til þess að tryggja að svona ójafnvægi, líkt og verið hefur hér á landi síðustu ár, skapist ekki. Til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni kerfisins þarf einnig að einfalda byggingareftirlit og draga úr íþyngjandi kröfum í regluverki, stytta skipulagsferli og auka framboð byggingarsvæða. Loks þarf að tryggja að til staðar séu virk stjórnsýsluúrræði innan málaflokksins.“

Í byggingu eru nú 5.799 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það er um 19% aukning frá því í talningu SI í mars, að sögn Ingólfs. „Í ljósi þessarar talningar spá SI því að í ár verði fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða umtalsverðan vöxt frá því í fyrra en þá voru nýjar íbúðir aðeins 1.337. Á sama tíma er að draga úr fólksfjölgun á svæðinu. Betra jafnvægi virðist því vera á íbúðamarkaðinum í ár en hefur verið á síðustu árum og sést það í verðþróuninni en hægt hefur umtalsvert á verðhækkun húsnæðis.“

Hann segir að til að hindra svona ástand þurfi langtímahugsun. „Áætlað er að það þurfi 45 þúsund nýjar íbúðir á landinu öllu fram til ársins 2040 og 33 þúsund af þeim þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Til að unnt sé að leysa þetta verkefni vel þurfum við framsýni af hálfu ríkis og sveitarfélaga, meiri stöðugleika, aukna hagkvæmni og meiri skilvirkni í byggingu íbúðarhúsnæðis en verið hefur,“ segir Ingólfur að lokum.

Ganga flóttafólks verður að pólitísku hitamáli

|
|

Á bilinu fimm til sjö þúsund flóttamenn frá Mið-Ameríkuríkjunum Gvatemala, Hondúras og El Salvador stefna í átt að suðurhluta landamæra Bandaríkjanna þar sem þeir freista þess að hefja nýtt og betra líf. Fólkið sem ferðast ýmist fótgangandi eða í rútum er að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu en flestir flóttamannanna koma frá Hondúras þar sem morðtíðni er sú hæsta í heimi.

Hópgöngur sem þessar eru tíðar en þetta er sú fjölmennasta til þessa og sú sem vakið hefur langmesta athygli fjölmiðla vestanhafs. Þar spilar tímasetningin lykilhlutverk því innan við tvær vikur eru til þingkosninga í Bandaríkjunum og ferðalag flóttafólksins er orðið eitt helsta hitamálið í kosningabaráttunni. Þar hefur forsetinn Donald Trump farið fremstur í flokki. Hann hefur hótað því að koma hernum fyrir á landamærunum við Mexíkó sem og að skera á efnahagsaðstoð við Mið-Ameríkuríkin þrjú.

sdfklsda

Leggja á sig 4.000 kílómetra ferðalag
Göngurnar nefnast á ensku „caravan“ og eiga uppruna sinn í því að grasrótarsamtök hvöttu flóttamenn sem leita til Bandaríkjanna til að ferðast í hópum enda leiðin löng og hættur á hverju strái. 160 flóttamenn lögðu af stað frá San Pedro Sula, næststærstu borg Hondúras, þann 13. október en fljótlega bættist í hópinn sem taldi 5000 manns þegar komið var að Tecún Umán í Gvatemala, stór hluti þeirra konur og börn. Þaðan freistuðu flóttamennirnir þess að komast yfir landamærin til Mexíkó og kom til átaka á landamærunum en stjórnvöld í Mexíkó gátu þó ekki komið í veg fyrir að þúsundir manna kæmust yfir landamærin þar sem þau söfnuðust saman í borginni Tapachula. Þaðan var haldið norður á bóginn á mánudaginn.

Beita ríki Mið-Ameríku þvingunum
Bandaríkjastjórn hefur gert hvað hún getur til að hefta för fólksins. Þeim skilaboðum var komið áleiðis að ef ríkisstjórnir landanna þriggja stöðvuðu ekki fólkið yrði því svarað af hörku. Þegar hópurinn var kominn til Mexíkó lýsti Trump því yfir að efnahagsaðstoð til landanna þriggja yrði skorin niður en Bandaríkin veittu samtals yfir hálfum milljarði króna í efnahagsaðstoð til þeirra í fyrra. Þá hafa Bandaríkin beitt Mexíkó miklum þrýstingi vegna málsins en tilraunir til að stemma stigu við straumnum hafa litlu skilað.

Vatn á myllu Trumps?
Donald Trump hefur notað málið til að kveikja í stuðningsmönnum sínum fyrir þingkosningarnar þann 6. nóvember. Hann segir fólkið ógn við þjóðaröryggi og hefur sagst ætla að senda herinn að landamærunum að Mexíkó þótt hann þurfi til þess stuðning þingsins. Sömuleiðis segir hann þetta sýna mikilvægi þess að repúblíkanar verði áfram við stjórn í báðum deildum þingsins og fjölmargir frambjóðendur Repúblíkanaflokksins hafa tekið undir þennan málflutning Trumps.

Hverfandi líkur á hæli
Óvíst er hversu margir muni ná að bandarísku landamærunum en ljóst er að fæstir munu fá draum sinn uppfylltan. Í síðustu göngu af þessu tagi sem farin var í mars héldu 700 flóttamenn af stað frá Hondúras og taldi gangan 1.200 manns þegar mest var en ekki nema um 228 komust svo langt að sækja um hæli. Ellefu voru handteknir fyrir að reyna að komast ólöglega yfir landamærin. Lögum samkvæmt ber bandarískum stjórnvöldum að veita fólkinu málsmeðferð en tölfræðin sýnir að í langflestum tilvikum er umsókn þess hafnað.

Fleyg ummæli
„Gvatemala, Hondúras og El Salvador gátu ekki komið í veg fyrir að fólk yfirgæfi landið þeirra og kæmi ólöglega inn í Bandaríkin. Við munum nú byrja að stöðva, eða skera verulega niður, þá miklu efnahagsaðstoð sem við höfum veitt þeim.“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna

Blómstra á nýjum vettvangi

||||||||
||||||||

Þjóðþekktir Íslendingar sem hafa tekið U-beygju á starfsferlinum.

Eyjólfur Kristjánsson.

Úr tónlist í tannhvíttun
Eyjólfur Kristjánsson, betur þekktur sem Eyvi, er að heita má kanóna í íslensku tónlistarlífi því eftir hann liggja meira en 200 lög. Þ.á m. Eurovision-slagarinn Nína sem er fyrir löngu búinn að skipa sér sess með helstu dægurlagaperlum þjóðarinnar. Marga rak því í rogastans þegar meistarinn upplýsti í viðtali fyrr á árinu að hann hefði söðlað um og væri farinn að vinna við … tannhvíttun. Já, Eyvi hefur svissað úr söngnum yfir í snyrtibransann og ku þetta vera í fyrsta sinn í 30 ár sem kappinn er í fastri vinnu.

 

Friðrik Dór. Mynd / Kristinn Magnússon.

Snýr sér að innanhússhönnun
Söngvarinn Friðrik Dór hélt fyrir skömmu tónleika í Kaplakrika sem hann tilkynnti að yrðu síðustu tónleikar hans í bili. Hann ætlar nefnilega að söðla alveg um, láta gamlan draum rætast og flytja til Ítalíu með fjölskylduna. Ástæðan fyrir búferlaflutningunum er sú að Friðrik hyggst nema innanhússhönnun á Ítalíu enda segist hann hafa haft áhuga á hönnun frá níu ára aldri þegar hann fékk að mála herbergið sitt dökkblátt og eiturgrænt. Áhuginn jókst svo enn frekar við áhorf á Innlit-útlit og lestur Bo bedre frá tólf ára aldri. Það má sem sagt í rauninni kenna Völu Matt um hvarf söngvarans ástsæla af tónlistarsenunni. Mikil er ábyrgð hennar.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Dagfinnur dýralæknir
Alþingi hefur stundum verið líkt við dýragarð og því kannski við hæfi að þar skuli sitja menntaður dýralæknir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er með embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og starfaði lengi sem dýralæknir áður en leiðin lá í pólitíkina. Segja mætti að sú reynsla hafa nýst Sigurði Inga vel á þingi því gagnstætt forvera sínum í Framsókn, sem hafði einstakt lag á að strjúka köttum öfugt, þá þykir Sigurður Ingi yfirleitt nálgast pólitíska mótherja sína af mikilli yfirvegun og nærgætni. Þar kemur reynsla dýralæknisins af styggum skepnum eflaust að góðum notum.

 

Ellý Ármanns. Mynd / Kristinn Magnússon

Náttúrutalent og núdisti
Ellý Ármanns sigraði hjörtu þjóðarinnar sem sjónvarpsþula á RÚV fyrir margt löngu og starfaði síðan árum saman sem blaðamaður á Vísi þar sem segja má að hún hafi rutt brautina fyrir vinsældir krassandi slúðurfrétta af fræga fólkinu. Nú er Ellý sjálf orðin viðfangsefni slúðurfréttanna, en vefmiðlar halda vart vatni yfir nýjustu framleiðslu hennar, nektarmyndum af erótískara taginu þar sem hún sjálf og unnusti hennar, Hlynur Jakobsson, eru talin vera fyrirmyndirnar. Ellý er þó leyndardómsfull þegar spurt er út í þá hlið málsins, en eitt er víst að hún er hvergi nærri hætt að kitla slúðurtaugar landans. Við bíðum spennt eftir næsta útspili frá henni.

 

Bergþór Pálsson. Mynd / Kristinn Magnússon

Óperusöngvari gerist áhrifavaldur
Óperusöngvarinn og sjarmatröllið Bergþór Pálsson sýndi að honum er meira til lista lagt en að þenja raddböndin þegar hann birtist landsmönnum í þættinum Allir geta dansað, vel greiddur og tanaður. Þátttökunni fylgdu miklir rykkir og hnykkir og kílóin fuku af Bergþóri. Síðan þá hefur söngvarinn síhressi farið hamförum á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur lyft lóðum, farið í fallhlífarstökk, rifið sig úr að ofan og mært hreinsiefni (sem hlaut viðurnefnið „Bergþórssápan“) en rithöfundurinn Jónína Leósdóttir var ein þeirra sem ákvað að prófa ofurefnið og sagði á Facebook að það hefði verið hápunktur helgarinnar. Bergþór er því ekki lengur bara söngvari heldur áhrifavaldur og vinsæl samfélagsmiðlastjarna.

 

Vigdís Grímsdóttir. Mynd / Stefán Karlsson

Aftur til upphafsins
Vigdís Grímsdóttir var löngu orðin einn dáðasti og virtasti rithöfundur þjóðarinnar þegar hún söðlaði alveg um fyrir nokkrum árum og réði sig sem kennara við Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi á Ströndum. Mörgum kom þessi kúvending í opna skjöldu en Vigdís er lærður kennari og starfaði sem slíkur þegar fyrstu bækur hennar slógu í gegn. Það má því segja að hún hafi snúið aftur til róta sinna í fámenninu í Árneshreppi þar sem hún er engu minna elskuð og dáð af nemendum sínum en hún er elskuð og dáð af lesendum sínum um allt land. Til allrar hamingju fyrir okkur hefur hún þó haldið áfram að skrifa með fram kennslunni og ekki alveg snúið baki við rithöfundarferlinum.

 

Sölvi Blöndal. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Rapparinn sem varð hagfræðingur ársins
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins 2017 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Sölvi var áður einn af röppurunum í hljómsveitinni Quarashi sem naut gríðarlegra vinsælda fyrir áratug eða svo. Fáir hafa sennilega séð það fyrir sér að nokkrum árum síðar yrði honum hampað sem besta hagfræðingi þjóðarinnar. Enda sagði hann við móttöku verðlaunanna að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins þar sem öll þau verðlaun sem hann hefði tekið við fram að því hefðu verið vegna tónlistarinnar. Plötur Quarashi seldust í bílförmum, bæði á Íslandi og í Japan, og ekki ólíklegt að hagfræðiheili Sölva hafi verið driffjöðrin á bak við velheppnaða markaðsetningu platnanna.

 

Helga Vala Helgadóttir.

Nýtur sín á hinu pólitíska sviði
Helga Vala Helgadóttir lærði meðal annars leiklist áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna og er óhætt að segja að þar fái leikrænir hæfileikar hennar að njóta sín til fulls. Þannig tóku flestir eftir þegar Helga Vala skundaði burt, full vandlætingar, af Þingvöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og „fordómaseggur“, hélt hátíðarræðu á fullveldisafmælinu. Eða þegar Helga Vala húðskammaði Eyþór Arnalds fyrir að „hamast af öllu afli“ á Degi B. Eggerts í braggamálinu og spurði hvort ekkert væri „heilagt í pólitísku stríði?“ Pólitískir andstæðingar Helgu Völu hafa sakað hana um sýndarmennsku en þarna sannast einfaldlega sú fornkveðna vísa að stjórnmál eru leiksvið og þingkonan skelegga kann að nýta sér það.

Gamli Vesturbærinn heillar

Þau Helga Gvuðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason taka vel á móti okkur á lifandi heimili sínu í gamla Vesturbænum. Saman reka þau skartgripaverkstæðið og verslunina Orrifinn skartgripir í sjarmerandi húsnæði við Skólavörðustíg 17a.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tignarlegt 90 ára gamalt húsið stendur við kyrrlátan göngustíg sem þau segja kunnuga kalla Borgarstíginn. Íbúðin er tæplega 150 fm að stærð og búa þau á fyrstu hæð og í kjallara hússins. „Við höfum búið hér í rúm tvö ár og það er mjög friðsæl og barnvæn fjölskyldustemning hérna, en við fluttum nánast úr næsta húsi svo ísskápurinn fór bara yfir á hjólabretti!“ segir Orri og hlær. „Við elskum að vera hérna, staðsetningin er náttúrulega æðisleg og þetta er svo nálægt miðbænum.“
Aðspurð um hvort þau hafi farið í einhverjar endurbætur segjast þau ekki miklu hafa breytt öðru en farið í smávægilegar breytingar á eldhúsinu, pússað og lakkað parketið og málað. „Fyrri eigandi sagði okkur að parketið á gólfinu væri íslenskt og kæmi frá Húsavík. Skemmtilegt er að segja frá því að í einni fjölinni sem liggur við stigann er föst byssukúla eða hagl, en hún hefur líklega verið í trénu sem var notað í gólfið.“

Málverkið við píanóið er eftir Orra sjálfan, en hann málar í frítíma sínum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

KAÓTÍSKUR OG LITRÍKUR STÍLL
Greinilegt er að heimilisfólk er ekki hrætt við að nota sterka liti og segist Helga hafa rosalega sterkar skoðanir á þeim. „Ég var alveg með á heilanum að vera með eggaldinfjólubláan einhvers staðar, en fjólublái liturinn hefur verið partur af lífi mínu síðan ég var barn og ég tók einhverju ástfóstri við hann. Við höfum ferðast mikið um Suður-Ameríku og urðum mjög heilluð af litanotkuninni þar og hverju þau þora! Í eldhúsinu reyndum við að ná fram Karíbahafsstemningu með þessum bláa lit, sem minnir okkur á þegar flogið er yfir eyju og maður sér grynningar í sjónum. Þessi skandinavíski grái stíll er alls ekki okkar.“
Hvaðan koma hlutirnir ykkar? „Við kaupum rosalega sjaldan húsgögn, en höfum fengið margt gefins frá vinum og fjölskyldu – við erum mjög hrifin af því að nýta. Svo söfnum líka við uppstoppuðum fuglum, en það er áhugamál sem fæstir skilja.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Veggina prýða fjölmörg eftirtektarverð listaverk. „Við erum með töluvert af verkum eftir Gabríelu Friðriks, systur mína, og að auki er Ragna Róberts móðursystir hans Orra en við erum mjög heppin að hafa tvo svona æðislega listamenn í fjölskyldunni,“ segir Helga.
Hvaða listamenn eða hönnuðir eru í uppáhaldi, aðrir en systir og móðursystir? „Við erum mjög hrifin af húsgögnum eftir Daníel Magnússon, en þau eru ótrúlega vel gerð og endast!“ Þau bæta við að uppáhaldslistamaður Helgu sé Frida Khalo og Orra sé austurríski málarinn Egon Schiele. Aðspurð um uppáhaldsverslunina nefna þau The Evolution Store í New York, en þar má kaupa skeljar, steingervinga, uppstoppuð dýr, skinn, beinagrindur og fleira í þeim dúr en Helga segir þau Orra hafa smekk fyrir þjóðlegum munum víðsvegar að úr heiminum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Við göngum niður litríkan stigann og rekum strax augun í einkar skemmtilegt gólfið. „Þetta eru steinar úr Djúpalónssandi, en fyrri eigendur dúlluðu við þetta ásamt baðherberginu.“ Baðherbergið minnir svolítið á að vera inni í helli, en loft og veggir liggja saman sem heild og hornin eru öll rúnuð, á veggnum við baðið er svo vönduð mósaík af haföldum. Það er allt öðruvísi stemning í þessu baðherbergi.
Okkur lék forvitni á að vita hvernig starfsferill í skartgripasmíði varð fyrir valinu. „Ég starfaði á gullsmíðaverkstæði í New York og lærði demantsísetningar þegar ég var búsettur þar, en ég lauk svo náminu hér heima árið 2000,“ segir Orri. „Systir mín bjó úti og ég ætlaði í heimsókn yfir jólin 1995 og svo bara ílengdist ég, seinna sótti ég um græna kortið og í framhaldi af því var ég í fimm ár úti og er nú bandarískur ríkisborgari.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Höfum enn ekki fundið skjól eftir hrunið

|
|

Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir Íslendinga ekki vera betur varða fyrir efnahagslegum áföllum nú en fyrir tíu árum þegar hrunið átti sér stað. Hann telur að stjórnmálamönnum hafi mistekist að tryggja landsmönnum efnahagslegt skjól.

Frá málþinginu. Mynd / Kristinn Ingvarsson

„Við erum ekkert betur varin fyrir efnahagslegum áföllum en fyrir tíu árum þegar hrunið skall á okkur. Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur segir aðgerðir stjórnvalda meðal annars felast í aðildarumsókn að Evrópusambandinu, fríverslunarsamningi við Kína og nánari tengslum við ríki sem sýni málefnum Norðurskautsins áhuga. „Nú tala ráðamenn um að okkur myndi farnast best með því að fylgja Bretum, eftir að þeir ganga úr Evrópusambandinu, og gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.“

Baldur kynnti í vikunni bókina „Small States and the Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs“ sem fjallar um pólitísk, efnahagslega og félagslega snertifleti Íslands við helstu ríki, efnahagssvæði og alþjóðastofnanir. Þetta er rannsókn unnin undir forystu hans og rannsóknateymis við Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands. Ætla má að þetta sé ein víðtækasta rannsókn sem unnin hefur verið á alþjóðasamvinnu Íslendinga.

Baldur segir bókina snúast um tvennt. Annars vegar er þar sett fram kenning um skjól. Samkvæmt henni glíma smáríki við innbyggða veikleika á borð við lítinn og sveiflukenndan heimamarkað, takmarkaða varnargetu og litla stjórnsýslu. „Lítil ríki eru eðlilega vanmáttugri en þau stóru. Þau þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana innanlands og erlendis til að vega upp á móti þessum veikleikum. Að mínu mati er það grundvallaratriði fyrir stjórnmálamenn í litlum ríkjum að sætta sig við þessa innbyggðu veikleika. Ef þeir horfast ekki í augu við þá, munu þeir ekki grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr þeim,“ segir Baldur.

Skjólkenningin sem Baldur nefnir kveður á um að smáríki þurfi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól til að koma í veg fyrir áföll eins og efnahagshrun og netárásir. Ef smáríki verði hins vegar fyrir efnahagsáfalli eða netárás, þurfi það að geta leitað aðstoðar þegar í stað. Í þriðja lagi þurfi smáríkið líka að geta fengið aðstoð við uppbyggingu eftir slíkt áfall.

„Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist.“

Höfðum við þetta fyrir síðasta hrun?
„Nei, við höfðum það ekki og við höfum það ekki heldur í dag,“ segir Baldur og nefnir sem dæmi möguleikana ef nýtt efnahagslegt áfall ríður yfir með gjaldþroti annars stóra íslenska flugfélagsins eða mögulega beggja með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahag landsins og lífskjör fólks. Utanaðkomandi stuðningur gæti dempað þau áhrif. „Við höfum engan til að leita eftir aðstoð hjá, frekar en fyrir áratug, nema þá aftur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ segir hann.

Í bók Baldurs eru í samræmi við þetta skoðuð tengsl Íslands við Bandaríkin, Norðurlöndin, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, aðildina að EFTA, EES og Schengen. Jafnframt er skoðað hvar hugsanlegt sé að finna skjól fyrir Ísland í framtíðinni og rýnt í efnahagslega, pólitíska og félagslega þætti.

Baldur segir Bandaríkin hafa um árabil veitt Íslandi skjól, jafnt í efnahagsþrengingum sem milliríkjadeilum. Íslendingar hefðu líklega ekki unnið þorskastríðin nema vegna diplómatísks stuðnings Bandaríkjanna. Með brotthvarfi Varnarliðsins árið 2006 var ljóst að skjólið var ekki vestra lengur. Það kom líka í ljós í efnahagshruninu.

Félagslegt skjól hefur verið að finna á hinum Norðurlöndunum og leita Íslendingar enn þar eftir fyrirmyndum og samstarfi við helstu stofnanir. „Aðildinni að EES fylgir líka umtalsvert félagslegt skjól og er það verulega vanmetið, að okkar mati. Íslenskt vísindasamfélag væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki aðgang að samstarfsneti erlendra fræðimanna og styrkfénu sem fæst með Evrópusamvinnunni. Aðgangur að menntastofnunum í Evrópu er lykillinn að framþróun íslensks samfélags,” segir Baldur.

Að mati Baldurs felst umtalsvert efnahagslegt skjól í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. „Þar erum við hluti af stærri markaði. Við erum með löggjöf sem hefur stóraukið samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, aukið hagvöxt, auðveldað útflutning og bætt lífskjör í landinu. Til viðbótar skipti sameiginlegur vinnumarkaður á EES-svæðinu öllu máli. Flæði vinnuafls til og frá landinu dempar áhrif þeirra efnahagssveifla sem lítil hagkerfi lenda í,“ segir hann en bætir við að á sama tíma veiti EES-samningurinn okkur falskt öryggi. Ísland sé ekki meðlimur í klúbbnum, ekki innan ESB.
„Aðild að EES veitir ekki efnahagslega aðstoð til að fyrirbyggja hrun, stuðning þegar hrun dynur yfir og hjálp við uppbyggingu. Það sást best í hruninu fyrir tíu árum,“ segir Baldur.

Kjarabætur – allra hagur

Höfundur: Kolbeinn Óttarsson Proppé

Félög launafólks hafa nú mörg hver birt kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga. Af þeim má ljóst vera að ærið verkefni bíður samningsaðila; verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ljóst er að metnaður forystufólks verkalýðsfélaga er mikill fyrir hönd umbjóðenda sinna og fyrir það ber að hrósa, sem og þann mikla baráttuanda sem ríkir innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að við höfum öll færi á að lifa mannsæmandi lífi á laununum okkar.

Hafandi fylgst með þjóðmálum ansi lengi þykist ég greina annan tón í forsvarsmönnum atvinnurekenda. Mér finnst þeir opnari fyrir ýmsu sem áður hefur verið talið útilokað og vonast til þess að þetta gefi góðan tón fyrir samningana. Oftar en ekki hefur ferlið í kjarasamningum verið þannig að verkalýðshreyfingin setur fram kröfur sínar, atvinnurekendur loka á þær allar og síðan sest fólk að samningaborði.

Ríkisstjórnin tók strax aðra stefnu hvað vinnumarkaðinn varðar en lengi hafði verið við lýði. Fundað var með aðilum í stjórnarmyndunarviðræðum og eftir stofnun ríkisstjórnar hafa verið haldnir tíu fundir. Nokkrum verkefnum er lokið, hækkun atvinnuleysistrygginga, hækkun hámarksgreiðslna Ábyrgðarsjóðs launa og niðurlagning kjararáðs, en fjölmörg eru enn í skoðun. Þar má nefna hagsveifluleiðrétt atvinnuleysistryggingagjald, úttekt á Fræðslusjóði, starfshóp um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga, tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar og ýmislegt fleira.

Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt að unnið sé að ýmsum málum sem eiga eftir að koma launafólki – og raunar samfélaginu öllu – vel. Til dæmis breytingar í skattkerfinu, lækkun á tryggingagjaldi og það hvernig skattbyrði verður best létt af tekjulæsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þá er ljóst að taka verður rækilega til hendinni í húsnæðismálum.

Kjarasamningar eru hins vegar á milli launafólks og atvinnurekenda. Ríkið kemur að sumum þeirra sem launagreiðandi, en slíku er ekki að heilsa á almenna markaðnum. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er fyrst og fremst að semja um kaup og kjör félagsmanna. Það er ekki í hennar höndum að taka ákvarðanir sem er okkar alþingismanna að taka sem handhafa löggjafavaldsins. Að sjálfsögðu er eðlilegt og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin komi skoðunum sínum á umbótum á framfæri, en þær geta aldrei orðið krafa á stjórnvöld.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að greiða fyrir málum og hún hefur þegar sýnt það í öllum sínum gjörðum að svo er, bæði með samráði og þeim verkefnum sem hér hafa verið talin upp. Fyrstu skref í skattkerfisbreytingum sem birtust í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár eru í anda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að þær gagnist best tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þar er verið að hækka barnabætur svo um munar, hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu og samræma viðmiðunarfjárhæðir í skattkerfinu þannig að neðri og efri mörk þróist með sambærilegum hætti.

Það verður áhugavert að sjá hvernig aðilum kjaraviðræðna tekst að nálgast hver annan. Íslenskt samfélag er ríkt að verðmætum og við ættum öll að geta haft það býsna gott. Það er von mín að kjarasamningar skili raunverulegum kjarabótum og bæti líf og kjör þeirra sem svo sannarlega þurfa á því að halda. Það á að vera metnaðarmál okkar allra að fólk fái vel greitt fyrir störf sín og að lífskjör batni.

Segja „stórundarlegt költ“ stjórna hamingjuísbúð

|
|

Tveir fyrrum starfsmenn kaffihúsins og ísbúðarinnar Joylato við Njálsgötu 1, báðir erlendir ríkisborgarar, segja farir sínar ekki sléttar í samtali við blaðamann Mannlífs. Þeir segjast ekki hafa fengið laun samkvæmt kjarasamningum og annar þeirra fékk aðeins stöku vasapeninga úr sjóðsvél verslunarinnar. Þá hafi rekstraraðilar þrýst á starfsmennina um að stunda hugleiðslu og skírlífi.

Verslunin tengist Sri Chinmoy-hreyfingunni á Íslandi en hún var stofnuð í janúar 1974 og byggir á heimspeki andlega leiðtogans Sri Chinmoy. Hann setti m.a. á fót heimseiningarfriðarhlaupið árið 1987. Á vegum miðstöðvarinnar er stunduð hugleiðsla og starfrækt Sri Chinmoy-maraþonið sem árlega stendur fyrir 5 km hlaupi. Myndir / Unnur Magna

Starfsmennirnir segja jafnframt að flest starfsfólk fyrirtækisins komi víðs vegar að úr heiminum og tilheyri alþjóðahreyfingu Sri Chinmoy og fái aðeins greidda vasapeninga. „Þetta er eins og eitthvað stórundarlegt költ, og fólkið kallar sig lærisveina Sri Chinmoy,“ segir annar tveggja viðmælenda Mannlífs, kona á þrítugsaldri.

Konan sem starfaði hjá fyrirtækinu árið 2016 segist hafa fengið vinnuna fyrir tilviljun. Hún var ekki með íslenska kennitölu og þar af leiðandi ekki bankareikning heldur. Hún segir yfirmann sinn hafa lofað að aðstoða hana við að leysa úr því „Ég fékk starfsþjálfun hjá einum lærisveininum en eftir aðeins tvær vikur í starfi þurfti eigandinn að fara til útlanda og fól mér að bera ábyrgð á rekstrinum á meðan. Ég sá um að panta vörur, sjá um uppgjör og mannaráðningar. Eigandinn var nánast aldrei við,“ segir hún.

Konan segist hafa samið um 1500 kr. í tímakaup en það hafi síðan hækkað upp í 1750 kr. þegar ábyrgð hennar jókst. Hún hafi hins vegar lítið fengið af þessum launum, og aldrei launaseðla. „Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“

Segja skírlífi skilyrði
Þegar þarna var komið sögu var konan á hrakhólum með húsnæði og hafði ekki efni á húsaleigu. Hún var þá nýbúin að ráða landa sinn og kunningja, karlmann á þrítugsaldri. Hann leigði litla íbúð og skaut skjólshúsi yfir konuna. Maðurinn hefur svipaða sögu að segja. „Lærisveinarnir þurftu að vakna fyrir klukkan sex, hlaupa daglega, hugleiða í hugleiðslustöðinni og einu sinni á dag þurfti fólkið að biðja eða hugleiða við mynd af Sri Chinmoy. Kynlíf og náin sambönd voru bönnuð og ég mátti t.d. ekki vera einn í eldhúsinu með konu,“ segir hann og bætir við að þau hafi heldur ekki mátt hlusta á aðra tónlist en frá Sri Chinmoy.

„Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“

„Skattinum hafði aldrei verið skilað“
Starfsmennirnir fyrrverandi segjast hafa fundið fyrir miklum þrýstingi að ganga til liðs við hreyfinguna. „Kona úr költinu talaði yfir hausamótunum á okkur í tvo tíma á dag um hversu frábært lífið væri innan hreyfingarinnar og eilíf hamingja. Hún hélt því meira að segja fram að alnæmi væri ekki til,“ útskýrir maðurinn, sem er samkynhneigður og segist hafa orðið fyrir stöðugu aðkasti vegna þess. Hann segist einnig eiga inni laun hjá fyrirtækinu. „Ég fékk seint og illa borgað, engin yfirvinna var greidd þrátt fyrir að hafa unnið allt að 12-14 tíma á dag. Það mesta sem ég fékk greitt fyrir einn mánuð voru 176 þúsund. Ég gerði ráð fyrir því að afgangurinn færi í skatt en þegar ég fyllti út skattaskýrsluna mína tók ég eftir því að skattinum hafði aldrei verið skilað.“

Fólkið leitaði á skrifstofu Eflingar stéttarfélags ásamt þriðja aðila á sínum tíma en þá var ekkert hægt að gera fyrir þau þar sem þau voru hvorki með launaseðla né ráðningasamninga.
Mannlíf skoðaði ársreikninga þriggja félaga sem tengjast rekstri eiganda ísbúðarinnar, Rúnari Páli Gígja, en fjórða félagið var stofnað í ágúst á þessu ári og því liggja fjárhagsupplýsingar þess ekki fyrir. Félagið Segðu minna gerðu meira ehf., sem annar viðmælandi segist hafa fengið greidd laun frá, skilaði tekjum upp á 20 milljónir króna árið 2016 og var hagnaður þess ein og hálf milljón. Launagjöld þess námu 4,5 milljónum króna sem samsvara árslaunum eins starfsmanns. Það félag sem ber sama nafn og ísbúðin, Joylato ehf., tapaði 12 milljónum króna árið 2016 og var eigið fé þess neikvætt um 15 milljónir. Þar kemur fram að útgjöld vegna launa námu 3 milljónum. Þriðja félagið heitir svo Fasteignafélag MVB, áður Mamma veit best, en samkvæmt ársreikningi fer engin starfsemi þar fram.

Ekki náðist í Rúnar Pál við vinnslu fréttarinnar en Tara Jensdóttir, framkvæmdastjóri Mamma veit best, vísar ásökunum starfsmannanna fyrrverandi á bug. Sagði hún að allir starfsmenn væru á launaskrá og að svo hefði alltaf verið. Aðspurð út í ofangreinda ársreikninga þar sem launakostnaður er hverfandi sagði hún að um allt annan rekstur væri að ræða en í dag og að þessi félög væru hætt rekstri.

Efling mætti á staðinn
María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur ASÍ í vinnustaðaeftirliti, staðfestir í samtali við Mannlíf að ábendingar hafi borist varðandi ísbúðina Joylato og heilsuvöruverslunina Mamma veit best og að farið hafi verið í eftirlit í fyrirtækin.

„Ábendingarnar snúast aðallega um að þarna sé reglulega ráðið inn fólk erlendis frá, fólk sem ætti í raun að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi en það komi á ferðamannapassa og í einu tilfelli kom starfsmaður á námsmannapassa. Málið er til skoðunar hjá Eflingu,“ útskýrir María Lóa.

Hjá Eflingu fengust þau svör að fulltrúar á þeirra vegum hafi farið í eftirlit í umrædd fyrirtæki fyrir um mánuði síðan. „Ég var með í fyrsta eftirlitinu sem þarna fór fram og það var sláandi að starfsfólkið virtist ekkert meðvitað um sín réttindi,“ segir María Lóa og bætir við að stéttarfélögin séu háð því að fólk leiti til þeirra eftir leiðréttingu. „Stéttarfélagið hefur ekki heimild til að fara af stað með slík mál að eigin frumkvæði.“

Starfsfólk fékk uppfræðslu og bæklinga um sín réttindi og kjör þegar eftirlitsaðilar létu sjá sig og var fólkið hvatt til þess að leita til stéttarfélagsins til að fá leiðréttingu ef það teldi á sér brotið.
María Lóa nefnir sérstaklega eitt atriði sem henni þykir alvarlegt: „Við fengum ábendingu um a.m.k. eina manneskju sem kom til landsins til að vinna hjá þessum aðilum, væntanlega á ferðamannapassa; vann í ákveðinn tíma og fór svo aftur til baka. Hún ætti vitanlega að fá íslenska kennitölu og borga skatta og gjöld hér á landi,“ segir hún og bætir við að það sé orðin vinnuregla í svona tilvikum að skattayfirvöldum og Vinnumálastofnun sé gert viðvart.

„Hér birtist fólki nýr heimur“

||||||
||||||

Verslunin Nexus hefur starfað í einni eða annarri mynd síðan árið 1992 og hefur til sölu myndasögur, spil, bækur, leikföng, DVD-myndir, veggspjöld og fleira sem tengja má við nördisma. Verslunin flutti nýlega starfsemina í kjallarann í Glæsibæ, þar sem Útilíf var um árabil, og jók umfang sitt um helming auk þess sem gríðarstór spilasalur verður á staðnum. Við hittum fjóra starfsmenn Nexus til að fá innsýn í starfið og áhugasvið þeirra.

Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir hefur starfað í Nexus í bráðum ár og sérhæfir sig í spilum, kvikmyndum, bókum og gjafavöru. Mynd / Unnur Magna
Jubilee úr X-mönnum.

Safnar Harry Potter-bókum á mismunandi tungumálum
Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir hefur starfað í Nexus í bráðum ár og sérhæfir sig í borðspilum, bókum, kvikmyndum og gjafavöru. „Mitt fyrsta áhugamál innan nördismans voru Harry Potter og aðrar fantasíubækur. Síðan hafa spilin komið inn með árunum því það er svo gaman að geta hitt annað fullorðið fólk og leikið sér,“ segir Bryndís. „Ég safna bæði borðspilum og Harry Potter-bókum sem hafa verið gefnar út um heim allan á ýmsum tungumálum. Þær hafa allar sinn sjarma, eru með mismunandi forsíðum og stundum er ólíkum skreytingum bætt við inn í bækurnar. Sem áhugakonu um Harry Potter og þýðanda finnst mér þetta mjög áhugavert, ekki síst menningarlega séð.“
Eigandi Nexus er Gísli Einarsson og verslunin hefur sérstöðu á heimsvísu þegar litið er til úrvals. „Oft eru svona verslanir á erlendri grundu minni og sérhæfðari en hér er lagt upp úr miklu og fjölbreyttu úrvali,“ heldur Bryndís áfram. „Það er líka ákveðin upplifun að koma í Nexus, handleika vöruna og fá persónulega þjónustu frá fólki sem gjörþekkir efniviðinn. Hér er alltaf kósí stemning og mér finnst mest spennandi að fylgjast með unglingunum, sérstaklega þeim sem búa úti á landi. Hér birtist þeim nýr heimur.“

Aðspurð segir hún að nördismi sé sannarlega kominn í tísku. „Krakkar eru farnir að uppgötva að þeir þurfi ekki að spila handbolta, að þau geta átt allskyns önnur áhugamál. Það er mikil aukning í hlutverkaspilum, alltaf nýtt fólk að detta inn í Dungeons and Dragons. Borðspil eru góð til að halda vinahópum saman, ekki síst þegar fólk er búið að eignast krakka. Þá er hægt að bjóða fólki heim og eiga góða kvöldstund yfir spili – þarf ekki að vera á einhverju fylleríi.“

Hlín Hrannarsdóttir safnar teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og D&D-teningum. Mynd / Unnur Magna

Á leið á tölvuleikjaráðstefnu
Hlín Hrannarsdóttir er sérfræðingur í teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og almennum poppkúltúr og hefur unnið í Nexus í bráðum tvö ár. Hún safnar teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og D&D-teningum. „Þessir teningar eru notaðir í hlutverkaspilum eins og Dungeons and Dragons þar sem teningunum er kastað og í kortaspilum eins og Magic: The Gathering en þá er engum teningum kastað en tuttugu-hliðateningurinn notaður fyrir líf. Byrjar í 20 lífum og svo skiptir þú honum á lægri tölu þegar þú missir líf. Hinir teningarnir eru þá notaðir sem karakterar úti á vellinum.“
Hlín var með bás á Midgard, fyrstu alhliða nördaráðstefnunni sem haldin hefur verið á Íslandi, í september síðastliðnum. „Hún var vel heppnuð og náði að flytja anda Nexus út til fólksins. Svo hef ég farið á keppnina NCC, Nordic Cosplay Championship í Svíþjóð sem er haldin árlega. Þar keppa Norðurlöndin sín á milli um bestu búningana sem fólk býr til út frá karakterum úr tölvuleikjum, teiknimyndum og þáttum. Þessi keppni er sýnd í ríkissjónvarpi Svíþjóðar auk Noregs og Danmerkur. Hún er ekki sýnd hér á landi enda hefur Ísland sjaldan tekið þátt. Eftir nokkra daga fer ég svo á Blizzcon-tölvuleikjaráðstefnu í LA,“ segir Hlín.

Óskar Árnason segir að með komu Facebook hafi nördinn fengið uppreista æru þar sem myndast hafi aðgengilegur vettvangur fyrir þennan hóp til að tala saman. Mynd / Unnur Magna

Elur upp efnilega nörda
Óskar Árnason er húsgagnasmiður að mennt og starfar sem vélamaður á fræsara hjá Fást efh. sem sér um hönnun, sölu og framleiðslu á plexígleri og vélaplasti. Aðra hverja helgi starfar Óskar hins vegar í Nexus og er sérfræðingur í borðspilum. „Uppáhaldsspilið mitt þessa dagana er Brass sem er hagfræðispil –taktískt kortadrifið iðnaðar- og uppbyggingarspil. Það fangar ákveðið tímabil í sögu Bretlands og snýst meðal annars um hvort menn ætli að lifa á vöxtum eða taka lán,“ segir Óskar og hans uppáhaldsviðskiptavinir eru fólk sem búið er að spila einföldu spilin og er að detta í aðeins flóknari borðspil. „Það er gaman að útskýra og kynna spilin fyrir þeim sem eru tilbúnir að læra eitthvað djúsí.“
Óskar segir að með komu Facebook hafi nördinn fengið virðingu en þar hafi myndast aðgengilegur vettvangur fyrir þennan hóp til að tala saman í stað þess að fólk væri hvert í sínu lagi. Eftir að hann stofnaði Borðspilaspjallið hafa 1000 manns bæst í hópinn. Óskar á tvo syni, fjögurra og sjö ára, og hann segir að þeir séu efnilegir nördar. „Eldri var að horfa á Lord of the Rings í fyrsta sinn, er búinn með Hobbita-myndirnar og svo er legið yfir Star Wars. Við fjölskyldan söfnum svo öll Pop-fígúrum, strákarnir safna Star Wars, konan mín safnar Harry Potter og ég gríp einn og einn inn á milli úr myndasögum og bókum,“ segir Óskar sem er á leiðinni á Essen Spiel-spilaráðstefnu í Þýskalandi ásamt þremur öðrum starfsmönnum úr Nexus. „Ég fór líka í fyrra og ráðstefnan er stærst sinnar tegundar í heiminum. Þarna er bara fjallað um spil, af hundruðum útgefenda og spilin um 1200 talsins.“

Lords of Waterdeep er spilið sem kveikti áhuga Magnúsar Gunnlaugssonar á borðspilum og hann er búinn að kenna það tugum einstaklinga. Mynd / Unnur Magna

Fylgist með tölvuleikjakeppnum
Magnús Gunnlaugsson hóf að selja borðspil hjá Nexus fyrir ári en ástríða hans á borðspilum byrjaði fyrir sjö árum. „Þá komst ég á fleygiferð í þetta eftir að hafa spilað klassíkina Catan eins og svo margir aðrir. Svo datt ég niður á þætti á YouTube sem heita TableTop með Wil Wheaton, sem margir þekkja kannski úr Star Trek-þáttunum, en hann er erkinörd og í gegnum þessa þætti kynntist ég fleiri borðspilum. Ég er gæinn í vinahópnum sem á öll spilin og undirbý spilakvöldin sem haldin eru tvisvar til þrisvar í viku. Spilin sem hafa hvað mest lent á borðinu að undanförnu eru Pandemic Legacy, Arkam Horror Card Game, T.I.M.E Stories og Star Wars Destiny. Uppáhaldsspilið mitt er hins vegar Lords of Waterdeep en það er spilið sem kveikti áhuga minn á þessu áhugamáli og ég er búinn að kenna það tugum einstaklinga,“ segir Magnús.

Jon Snow úr Game of Thrones.

Hann safnar Overwatch pop-fígúrunum en það er sá tölvuleikur sem hann spilar hvað mest í dag. „Persónurnar í leiknum eru fjölbreyttar og leikurinn er hraður og skemmtilegur. Ég er ekki mikill safnari í mér en finnst þessar fígúrur flottar og á þær allar nema eina sem er orðin ófáanleg, Soldier 76. Þetta geta orðið verðmætar safnvörur þegar fram líða stundir. Minn uppáhalds heitir Zenyatta, vélmennamunkurinn sem gætur bæði læknað samherja og deilt út skaða á andstæðinga.“
Fylgist þú með heimsmeistarakeppninni í tölvuleiknum Overwatch? „Já, ég fylgist bæði með Overwatch World Cup og Overwatch Legue þar sem ég held með liðinu Houston Outlaws. Þetta eru spennandi keppnir og ég fylgist með í beinni útsendingu gegnum Netið á síðu sem heitir Twitch,“ segir Magnús.

Þróar sjóræningjaseríu í Hollywood

|
|

Hollywood-framleiðandi vill gera sjónvarpsþætti byggða á handriti eftir fjölmiðlakonuna Kristínu Evu Þórhallsdóttur. Handritið fjallar um herskáan sjóræningja sem á í útistöðum við franska aðalinn á 14. öld.

„Þetta er viss staðfesting á því að hugmyndin sé góð og náttúrlega hvatnig til að halda áfram,“ segir Kristín Eva glöð þegar hún er spurð að því hvernig tilfinning það sé að stórframleiðandinn Anders Tangen sem á meðal annars að baki hina vinsælu þætti Lillehammer og Norsemenn, hafi í hyggju að gera sjónvarpsseríu eftir handritinu The Lioness sem Kristín Eva skrifar í samvinnu við Margrethe Stang Lund.

Handritið fjallar um kvenkynssjóræningja sem á í útistöðum við franska aðalinn á 14. öld og er innblásið af raunverulegum atburðum sem Kristín Eva las sér til um þegar hún var að gera þátt um sjóræningja fyrir Leynifélagið á Rás 1. „Ég rakst á sögu kvenkynssjóræningja að nafni Jeanne de Clisson sem sigldi með eigin skipaflota um Ermarsundið í Hundrað ára stríðinu undir merkjum Ljónynjunnar af Bretaníu og réðst grimmilega á skip Filippusar VI. Frakklandskonungs til að hefna eiginmanns síns, Olivers, háttsetts manns í Bretaníu sem konungurinn hafði látið drepa í pólitískum tilgangi. Ég varð strax heilluð af þessari sögu þegar ég las hana og langaði að gera eitthvað við hana, en það var svo ekki fyrr en ég flutti með fjölskyldunni til Los Angeles fyrir nokkrum árum og kynntist þar Margarethe að hjólin fóru að snúast.“

„Ég varð strax heilluð af þessari sögu þegar ég las hana og langaði að gera eitthvað við hana, en það var svo ekki fyrr en ég flutti með fjölskyldunni til Los Angeles fyrir nokkrum árum og kynntist þar Margarethe að hjólin fóru að snúast.“

Ljónynjan af Bretaníu var sjóræningi sem sigldi um Ermarsundið í Hundrað ára stríðinu og réðst þar á skip franska aðalsins.

Kristín Eva sagði Margarethe frá sögunni og þær ákváðu að skrifa saman handrit upp úr henni, átta þátta seríu sem Kristín Eva segir hafa tekið tíma að vinna vegna þess hversu mikil heimildavinna liggi að baki verkinu. „Í heilt ár gerðum við Margarehe lítið annað en að liggja í sagnfræðibókum svo að við hefðum góða hugmynd um hvernig Frakkland og England hefðu verið á 14. öld. Við vildum ekki byrja að skrifa fyrr en við þekktum vel sögusviðið og helstu leikendur og þurftum að kynna okkur allt frá stórum sögulegum atburðum til minnstu smáatriða í hversdagslífi fólks til að draga upp raunsæja mynd af þessum tíma.“

Hún segir að það hafi ekki síður verið áskorun að skrifa sögu aðalsöguhetjunnar, Jeanne de Clisson, vegna þess hversu lítið er raunverulega vitað um hana. „Það eru litlar sem engar heimildir til um Jeanne en þó nægar til að við Margarethe gætum fyllt í eyðurnar. Það má segja að það hafi gefið okkur visst listrænt frelsi.“

Framleiðandanum Tangen leist svo vel á handritið að ekki er nóg með að hann langi til að gera þáttaseríu eftir því heldur hefur hann lofað það í hástert í erlendum fjölmiðlum, meðal annars fyrir hinn pólitíska þátt sögunnar sem hann segir vera skírskotun til samtímans og sterka persónusköpun sem hann þykist viss um að muni laða þekkta leikarara að verkefninu. En hvenær reiknar Kristín Eva eiginlega með að þættirnir fari í framleiðslu? „Það er enn langt í það,“ segir hún róleg. „Það getur tekið nokkur ár að koma svona stórverkefni á koppinn,“ bætir hún við til útskýringar. „Þannig að þetta er enn allt á byrjunarstigi.“

Ábyrgur gerða sinna

Ein af grunnstoðum lýðræðis er að menn séu ábyrgir gerða sinna. Þeir sameinist um að setja lög og fara eftir þeim. Í nýjum frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra er vegið að einum stólpa þessa óskrifaða samkomulags. Þar er nefnilega gert ráð fyrir að dómar og úrskurðir héraðsdómstóla sem varða viðkvæm persónuleg málefni verði ekki birtir. Menn sem gerast sekir um kynferðisbrot, ofbeldi gagnvart sínum nánustu, kaup á vændi, fá á sig nálgunarbann og fleira verða því hvergi nefndir á nafn.

Tilgangur dómsmálaráðherra er, að sögn, að tryggja persónuvernd í viðkvæmustu málum og ekki bara forðast að nefna nöfn heldur líka að búa svo um hnúta að ekki verði hægt að þekkja menn af atvikalýsingum eða öðrum atriðum. Ráðherra vill því birta útdrátt úr niðurstöðum dómara á æðri dómstigum. Hingað til hafa Landsréttur og Hæstiréttur birt dóma sína að fullu og nöfn sakaraðila verið tilgreind í þeim. Í umræðunni hefur komið fram að verið sé að vernda þolendur og aðra er málunum tengjast með þessu móti, t.d. að unglingar eða börn sem brotið hafi verið á eigi ekki að þurfa að þola að um aldur og ævi sé hægt að fletta upp nöfnum þeirra og sjá hvað ofbeldismaðurinn gerði og þar fylgi umsagnir um andlega heilsu og jafnvel líkamstjón. Sömuleiðis að birtar séu viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um fatlaða brotaþola. Þessi sjónarmið eru skiljanleg en eiga þau að eiga við um brotamanninn?

Þess vegna er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að verið sé að ganga of langt. Á almenningur ekki rétt á verja sig? Obeldismenn, einkum þeir sem beita kynbundnu ofbeldi, skilja iðulega eftir sig slóð þolenda. Til dæmis er velþekkt að barnaníðingar sækist eftir störfum þar sem þeir vinna með eða í samneyti við börn. Mögulegt er að nýja frumvarpið geri vinnuveitendum erfiðara fyrir að grennslast fyrir um hvort umsækjendum í störf á því sviði sé treystandi. Í skjóli nafnleyndar geta ofbeldismenn einnig falið slóð sína jafnvel þótt á þeim hvíli nálgunarbann. Sömuleiðis eru veigalítil rök fyrir að hafa nafnleynd í vændiskaupamálum af tilliti við aðstandendur, þar eru bara gerðir hins brotlega honum til vansa og aðrir bera ekki ábyrgð eða álitshnekki þess vegna. Við megum ekki gleyma að gerendur í kynferðisbrotamálum bera ábyrgðina og skömmina.

Þessi mikla hömlun á upplýsingagjöf frá dómstólum gerir fjölmiðlamönnum einnig erfiðara fyrir að fjalla um mál. Það er erfitt að flytja fréttir af sakamáli þegar atvikalýsingar vantar. Á Íslandi hafa fjölmiðlar farið mjög varlega í nafnbirtingum í sakamálum og hér er mun minna gert af því en úti í heimi. Flestir birta eingöngu nöfn eftir að dómur fellur og í alvarlegum málum þegar ætla má að það varði öryggi almennings. Útdráttur verndar því fyrst og fremst brotamanninn og gerir honum kleift að komast undan því að bera fulla ábyrgð á gerðum sínum. Er það vilji löggjafans?

Dekkri litir, stórar flísar og svört blöndunartæki heitast í dag

Flísaverslunin VÍDD hefur stækkað og bætt sýningarsali sína í Bæjarlind í Kópavogi og á Akureyri og fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri. Við heimsóttum Hafstein Árnason, sölu- og markaðstjóra VÍDDAR, og Jóhann Leplat Ágústsson sölumann og kynntum okkur það helsta sem í boði er í dag.

Hver eru helstu markmið ykkar og áherslur sem þjónustufyrirtækis? „Okkar markmið er að vera í fyrsta sæti hjá neytendum þegar þeir hugsa um flísar. Við leggjum áherslu á að bjóða mjög fjölbreytt úrval af flísum, af öllum stærðum og gerðum. Við reynum gjarnan að bjóða upp á vörur sem eru frábrugðnar þeim sem samkeppnisaðilar bjóða, til þess að skapa okkur ákveðna sérstöðu. Flestir starfsmenn fyrirtækisins hafa mikla reynslu af flísum og flísalögnum, þannig að við getum leiðbeint fólki af mikilli þekkingu.“

Risaflísarnar móðins í dag

Á undanförnum árum hafa stærðir 30×60 og 60×60 sentimetrar verið hvað algengastar í flísum. Í hverri vörulínu eru yfirleitt um fimm til sex mismunandi stærðir. „Núna sjáum við fram á að 45×90 og 75×75 sentimetra stærðirnar verði hagkvæmari kostur fyrir viðskiptavini, þar sem verð á þeim hefur farið lækkandi hjá birgjum. Okkar birgjar hafa einnig verið duglegir að kynna risastærðir inn á undanförnum árum, eins og 120×120 sentimetra og 120×240 sentimetra, bæði fyrir gólf og veggi, en frá og með árinu 2019 munum við kynna stærðina 120×278 sentimetra, í 6 millimetra þykktum fyrir veggi. Ástæðan fyrir lengdinni á þessum flísum er að reglugerðir fyrir lofthæð í íbúðum eru mismunandi eftir löndum, en hjá okkur á Íslandi eru það 250 sentimetrar en til dæmis 270 sentimetrar í öðrum löndum. Það þýðir að við getum útvegað flísar sem þekja veggina frá gólfi og alveg upp í loft,“ segja þeir Hafsteinn og Jóhann.

Undanfarið hafa stórar flísar verið vinsælar.

Flísahellur hafa notið vinsælda að undanförnu, hvar nýtast þær best? „Flísahellur eru í raun flísar í 2 cm. þykkt. Þær eru hugsaðar fyrir útilagnir, yfirleitt í garða, verandir eða á svalir. Það er hægt að líma þær niður eins og flísar, eða leggja beint í jarðveg eins og hellur, eða hafa þær á sérstökum stoðum fyrir svalir eða aðra steypta fleti. Þetta er ákveðin lausn sem gerir okkur kleift að vera með fallegt gólfefni á þessum svæðum, en um leið vera laus við vorverk sem tengjast illgresi og mosagróðri. Ef flísahellurnar eru settar á stoðirnar, þá loftar undir, ólíkt venjulegum hellum eða þessum algenga timburpanel, sem viðheldur bleytunni með tilheyrandi óþægindum. Þessi lausn hefur verið mjög vaxandi í Evrópu á undanförnum tíu árum, en er tiltölulega nýleg á Íslandi. Við höfum komið að ýmsum verkefnum og viðskiptavinir okkar eru gríðarlega ánægðir með útkomuna.“

Hver er vinsælasta varan ykkar í dag? „Vinsælustu vörurnar í dag eru ljósleitar, sementsútlítandi flísar fyrir baðherbergi, sem er yfirleitt það fyrsta sem fólki dettur í hug, þegar kemur að því að taka slík verkefni. Hinsvegar höfum við orðið vör við að trendin séu pínulítið að breytast. Fólk er óhræddara núna við að velja dekkri liti fyrir baðherbergi, til dæmis milligráa. Innréttingarnar eru einnig að breytast og það er kominn meiri karakter í þetta. Svört blöndunartæki eru til dæmis eitthvað sem við sjáum víða, hvort sem það er í efni hjá okkar birgjum, en einnig það sem er að gerast í nágrannalöndunum í kringum okkur. Marmaraflísar hafa líka verið í stöðugri sókn. Það hefur einnig endurspeglast í fjölda útlitstegunda sem við höfum verið að bæta við hjá okkur.“

Í samstarfi við VÍDD

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

 

Mikilvægt að auka hlut kvenna í atvinnulífinu

Félag kvenna í atvinnulífinu ásamt samstarfsaðilum standa að ráðstefnu þann 31. október næstkomandi sem ber heitið Rétt upp hönd og er ráðstefna Jafnvægisvogarinnar. Mannlíf heimsótti Björk Baldvinsdóttur, sviðstjóra sölu- og viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu Dagar, í tilefni þess og spurði hana spjörunum úr um hennar áherslur og fyrirtækisins. En fyrirtækið Dagar hefur svo sannarlega lagt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að jafnlaunavottun.

Björk Baldvinsdóttir hefur starfað hjá Dögum síðan árið 2000, lengst af sem sölu- og markaðsstjóri en síðastliðin fimm ár sem sviðsstjóri sölu- og viðskiptaþróunar. Hún er í stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Segðu okkur aðeins frá fyrirtækinu Dagar og helstu markmiðum fyrirtækisins? „Markmið Daga er að vera fremsta þjónustufyrirtæki á landinum en fyrirtækið er leiðandi í fasteignaumsjón og býður upp á fjölbreytta þjónustu til fyrirtækja, samanber ræstingar, veitingaþjónustu og fasteignaumsjón,“ segir Björk og er stolt af sínu fyrirtæki. „Okkar markmið er að velja ávallt hæfasta fólkið í öll störf en að hafa að leiðarljósi að árangur fyrirtækisins byggist á fjölbreytileika í stjórnun.“

Eitt þriggja fyrstu fyrirtækjanna til að hljóta jafnlaunavottun VR

Þið eruð þegar komin með jafnlaunavottun VR, er það ekki rétt? „Við vorum eitt þriggja fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun VR og er fyrirtækið með jafnlaunastaðalinn IST 85:2012,“ segir Björk. Hjá Dögum starfa 800 manns og eru 75% konur. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn er 33%,  í framkvæmdaráði  37% en sem millistjórnendur eru konur í meirihluta, eða 88%.

Erlendu millistjórnendurnir góðar fyrirmyndir

Hafa stjórnendur hjá ykkur viljað taka raunveruleg skref til að auka jafnrétti í atvinnulífinu? „Já, stjórnendur Daga hafa ávallt lagt áherslu á að gefa starfsfólki tækifæri á að þróast innan fyrirtækisins og að taka að sér ábyrgðarmeiri störf. Stór hluti af okkar stjórnendum er starfsfólk sem hefur þróast innan fyrirtækisins og eru til dæmis millistjórnendur að langstærstum hluta konur, margar þeirra, bæði íslenskar og erlendar, hafa unnið sig upp. Þær erlendu hafa náð góðum tökum á íslenskunni og  standa sig virkilega vel í starfi. Erlendu millistjórnendurnir eru góðar fyrirmyndir fyrir sína samlanda. Við erum ákaflega stolt af okkar starfsfólki, sama hvaðan það kemur.“

Aðeins 11% kvenna eru forstjórar

Finnst þér þörf á því að auka hlut kvenna í framkvæmdastjórn fyrirtækja á Íslandi? „Já, mikilvægt er að auka hlut kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Það þarf fjölbreytta liðsheild til að stýra fyrirtækjum. Það er áhyggjuefni þegar horft er til þess að 67% útskrifaðra háskólanema séu konur að aðeins 11% kvenna séu forstjórar. Þrátt fyrir að árangur hafi náðst í þessari vegferð er mikið verk fram undan. Markmiðið er ávallt að efla íslenskt atvinnulíf og er Jafnvægisvogin átak í því.“

Af hverju þarf fjölbreytta liðsheild til að stýra fyrirtækjum, er munur á því að vera með karl- og kvenstjórnendur? „Það fer alltaf eftir einstaklingnum en mikilvægt er að gildi og viðhorf beggja kynja komi fram í stjórnun fyrirtækja.  Ásamt því skiptir líka miklu máli samsetning hvað varðar aldur, þekkingu og hæfni.“

Gullna brosið

Hjá ykkur eru í boði fjölbreytt störf og mikilvægi þeirra ekki oft á allra vörum. Hvernig er hægt að breyta því og koma skilaboðum til samfélagsins um mikilvægið og laða fólk að í þessi mikilvægu störf? „Í umræðunni fer oft lítið fyrir hvað þessi störf eru mikilvæg, samanber ræsting. Þessi störf ættu að vera meira metin en almennt er. Til að mynda má benda á að ef stofnanir, eins og heilbrigðisstofnanir, leikskólar og skólar eru ekki ræst í einhverja daga þá er þeim lokað með öllum þeim óþægindum fyrir samfélagið sem því fylgir. Ræstingarstarfið er mikilvægt og við reynum að benda okkar starfsfólki á að það beri mikla ábyrgð og það sé mikilvægur hlekkur í keðjunni.

Í hverjum mánuði veitum við viðurkenningu fyrir vel unnin störf, Gullna brosið, sem er þakklæti til starfsmanns fyrir framúrskarandi störf. Við gerum þetta í samstarfi við viðskiptavini okkar og fáum þannig skemmtilegt tækifæri til að koma hrósi til þeirra starfsmanna. Viðskiptavinir okkar benda á góð verk og tilnefna starfsmenn. Við vitum að jákvæð endurgjöf eykur traust og sjálfstæði í starfi sem leiðir aftur til aukinnar starfsgleði og góðra samskipta.“

Í samstarfi við Daga
Myndir/ Úr safni Daga

 

Brautryðjendur í að öðlast jafnlaunavottun

Í tilefni þess að fram undan er ráðstefnan Rétt upp hönd, sem Félag kvenna í atvinnulífinu ásamt samstarfsaðilum standa fyrir 31. október næstkomandi heimsóttum við Auði Þórhallsdóttur, sviðsstjóra mannauðsmála hjá VIRK. Okkur lék forvitni á að vita meira um starfsemina og drifkraftinn innan fyrirtækisins sem nú þegar hefur öðlast jafnlaunavottun.

Segðu okkur aðeins frá aðdraganda og framkvæmdinni, leiðinni að því að fá jafnlaunavottunina. „Samkvæmt lögunum þarf starfsemi eins og VIRK, með 25 til 89 starfsmenn, ekki að ljúka jafnlaunavottunar fyrr en í árslok 2021. Við settum okkur strax það markmið að fá jafnlaunavottun ÍST 85:2012 eins fljótt og auðið væri eftir að lögin voru samþykkt, enda viljum við vera til fyrirmyndar í þessu sem og öðru.“ Auður segir að handtökin hafi verið hröð og verkefninu hafi strax verið hrundið úr vör. „Við vorum klók og pöntuðum úttekardag í mars 2018 um leið og við hófum vinnuna í nóvember 2017. Það setti á okkur ákveðna pressu og ekkert annað í boði en að „spýta í lófana“ og keyra þetta áfram. Í sannleika sagt hélt ég að þetta yrði ekki skemmtilegt verkefni en annað kom á daginn. Þegar vinnan var komin af stað var þetta bara þrælskemmtilegt og nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að fara í gegnum þetta mikla lærdómsferli.“

Í sannleika sagt hélt ég að þetta yrði ekki skemmtilegt verkefni en annað kom á daginn.

Kynbundinn launamunur 1,1% konum í hag

„Lokaúttekt var svo gerð af BSI á Íslandi þann 6. apríl síðastliðinn þar sem engin frábrigði fundust og útskýrður kynbundinn launamunur hjá VIRK var 1,1% konum í hag.  Fyrirtæki fá ekki vottun frá BSI nema kynbundinn launamunur sé undir 5%. Við erum verulega stolt af því að vera brautryðjendur í að öðlast jafnlaunavottun fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu,“ segir Auður og er stolt af sínu fólki.

Metoo – byltingin hafði áhrif á gerð jafnréttisættisáætlunar

Það má með sanni segja að þið séuð komin með ágætis reynslu á því hvað jafnlaunavottun gerir fyrir mannauðsstjórnun í fyrirtækjum, þar sem þið eruð fyrsta fyrirtækið í þessum stærðarflokki sem fékk þessa vottun. Hverju skilar það ykkur í starfseminni? „Segja má að þar sem við vorum með ISO 9001-vottun fyrir þegar vinnan hófst, stóðum við betur að vígi en þau sem ekki eru með neina gæðavottun. Það þurfti að ráðast í að útbúa margar nýjar stefnur og endurnýja aðrar eldri. Einnig þurfti að endurnýja allar starfslýsingar, flokka störfin sem hér eru unnin og semja svo viðmið, ásamt undir- og yfirviðmiðum. Síðan þurfti að setja prósentur og stig á starfaviðmiðin og segja má að þessi þáttur sé sá flóknasti í vottunarferlinu en jafnramt afar mikilvægur. Það er einnig gott að í ferlinu þarf að útbúa jafnréttisáætlun sem Jafnréttisstofa samþykkir sérstaklega. Inni í þeirri áætlun er mjög margt sem til dæmis tengist Metoo-byltingunni og skiptir fyrirtæki miklu máli. Þar má nefna kortlagningu á því hvernig tekið er á málum þegar upp kemur áreiti eða annað slíkt . Ég myndi segja að fyrirtæki standi mjög vel eftir að fara í gegnum þetta ferli og ég hvet fleiri til að drífa í þessari vinnu.“

Ímynd og orðspor VIRK skiptir máli

„Okkur finnst mjög mikilvægt fyrir orðspor og ímynd VIRK að vera með jafnlaunavottun. Meginmarkmiðið er auðvitað að vinna gegn kynbundnum launamun, ég vil líka segja fjölmenningarlegum, og hver vill ekki vera þar? Það ætti að auka vellíðan starfsfólks að vita að faglegt og skýrt ferli sé á bak við ákvörðun launa hjá fyrirtækjum og þar séu gerðar úttekir reglulega af hálfu óháðs aðila, það er að segja vottunarstofu. Það gerir okkur vonandi líka að enn eftirsóknarverðari vinnustað. Vinnustaðamenning og líðan starfsfólks hjá VIRK skiptir okkur öllu máli og þar erum við stjórnendur mjög samstiga sem er svo frábært. Við mannauðsmælum einnig hjá okkur átta þætti annan hvern mánuð og þegar niðurstöður ligga fyrir leggjumst við stjórnendur yfir þær, allir sem einn!  Við greinum og leggjum okkur fram við að finna út hvað við getum gert betur. Við förum svo yfir þessar mælingar með starfsfólki og eigum samtal og fáum hugmyndir frá því hvað betur megi fara. Í heildina höfum við komið mjög vel út allt þetta ár, sem mikil ánægja er með.“

Meginmarkmiðið er auðvitað að vinna gegn kynbundnum launamun, ég vil líka segja fjölmenningarlegum, og hver vill ekki vera þar?

VIRK hástökkvari á milli ára

VIRK er eitt fimmtán fyrirtækja sem teljast til „Fyrirmyndarfyrirtækja“ í flokki meðalstórra fyrirtækja árið 2018, samkvæmt niðurstöðum könnunar VR en markmið hennar er að leita upplýsinga um viðhorf starfsfólks til vinnustaðar síns. Þar var VIRK hástökkvari milli ára í könnun VR og vænti Auður þess að einn þáttur í því sé að þau höfðu lokið jafnlaunavottuninni með glans. Telur þú að það skili árangri að veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið fyrirtæki sem hafa ná markmiðum Jafnvægisvogarinnar? „Já, ég tel mjög jákvætt og hvetjandi að veita fyrirtækjum viðurkenningar fyrir metnaðarfulla og faglega starfsemi. Við erum mjög „keppnis“ hjá VIRK og fögnum því þegar við náum góðum viðurkenningum og settum markmiðum.“

Vilja fleiri karla til starfa

Getur þú aðeins sagt okkur frá starfsmannasamsetningunni hjá ykkur? Eru margar konur í stjórnunarstöðum? „Framkvæmdastjórinn okkar er kona og allir sviðsstjórar eru konur. Hjá VIRK eru fimmtíu starfsmenn og þar af eru aðeins fjórir karlar og við erum alls ekki sátt við þennan mikla kynjahalla. Það hefur gengið afskaplega treglega að fá karlmenn til að sækja um, eins og hér er frábært að starfa. Við höfum reynt að útbúa starfsauglýsingu með þeim hætti að karlar væru sérstaklega hvattir til að sækja um, sem skilaði því miður ekki árangri.  Sem dæmi get ég líka nefnt að nýverið auglýstum við eftir ráðgjafa og í fimmtíu manna umsóknarhópi var ekki einn einasti karlmaður. En við erum virkilega að berjast í því að fá karla til starfa hjá okkur sem uppfylla menntunar- og hæfnikröfur þeirra starfa sem auglýst eru.“

Mynd/ Aldís Pálsdóttir 

 

 

Elskar hús með gamla sál

Hrafnhildur Björk Baldursdóttir, stjórnmálafræðingur og löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali hjá 101 Reykjavík fasteignasölu, er mikill bókaormur og hannyrðakona sem hefur óbilandi áhuga á að reyna skilja hvers vegna við erum eins og við erum. Aðaláhugamál hennar síðustu ár hefur verið að afla sér þekkingar og reynslu um sálfræði, starfsemi heilans, taugalíffræði, lífefnafræði, næringu, núvitund og alls kyns hreyfingu.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Það er hversu fjölbreytt og lifandi það er. Það er frábær tilfinning að geta aðstoðað fólk við að skipta um húsnæði. Eins stressandi og margir sem standa í því ferli upplifa það, og við eins ólíkar aðstæður fólks sem við fasteignasalar eigum við, þá er ljúft að sjá þegar allir eru komnir á nýja staðinn, glaðir, ánægðir og þakklátir. Það heillar mig einnig hversu starfið er sveigjanlegt hvað varðar tíma og hvaðan maður vinnur, þau þrjú tól sem eru ómissandi eru síminn, tölvan og bíllinn. Og hversu mörgu góðu fólki maður kynnist og á samskipti við. Ég segi oft að um 90% af starfinu felist í mannlegum samskiptum.“

Það heillar mig einnig hversu starfið er sveigjanlegt hvað varðar tíma og hvaðan maður vinnur, þau þrjú tól sem eru ómissandi eru síminn, tölvan og bíllinn.

Getur lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Ég byrja daginn almennt á að lesa yfir tölvupóstinn, svara pósti og senda þau erindi sem ég þarf að senda frá mér. Svo er gott að nota fyrrihluta dags í gagnaöflun, ýmsa eftirfylgni og að skrá eignir. Seinnihlutinn getur svo verið alls konar, skoða eignir og veita seljendum ráðleggingar um söluferlið, vinna með tilboðsmál, alls konar símtöl, svara fyrirspurnum, benda fólki á eignir, sýna eignir og vera með opin hús. Ég vinn oft til sirka sjö á kvöldin og oft á sunnudögum en er nú markvisst að reyna að þjálfa mig í að svara ekki vinnutengdum símtölum eftir klukkan sjö á kvöldin en fólk getur treyst því að ég hringi til baka svari ég ekki símtalinu. Í þessu starfi er nauðsynlegt að reyna að skilja að vinnutímann og tímann sem maður sinnir einkalífinu þó svo að það hafi oft reynst mér nokkuð erfitt.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólk gerir heimili að heimili, í því felst fjölbreytileikinn.“

Geturðu lýst þínum stíl? „Hlýlegur. Ég hef losað mig við mikið af óþarfadóti á síðustu árum og er nú bara með hluti í kringum mig sem mér þykir á einhvern hátt vænt um, þykja fallegir og mér líður vel með að hafa í kringum mig.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Ég á engan uppáhaldsarkitekt.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Ég á engan uppáhaldshönnuð.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Eins og ég nefndi áðan hef ég meira verið í að reyna að losa mig við hluti en að fá mér nýja en mig hefur þó um tíma langað í málverk eftir Guðmundu Kristinsdóttur, í bláum tónum, og ullarflosteppi sem setu á kringlóttan koll, og einnig gólfmottu, eftir Þóru Björk Schram, líka í bláum tónum, og svo langar mig í húsamynd úr gamla bænum í Reykjavík, eftir Sigurð Sævar Magnúsarson.“

Ég hef losað mig við mikið af óþarfadóti á síðustu árum.

Uppáhaldsliturinn þinn? „Hvítur og alls konar bláir tónar og út í sægrænan í stofunni. Hvítt, ljósbleikt og dökkbleikt í eldhúsinu. Einhvern veginn hef ég laðast mikið að þessum litum en ég get ekki málað veggina í dökkum litum, það á ekki við mig. Hvað fatnað varðar þá er það aðallega svart, grátt, beige, blátt og aðeins út í græna tóna.“

Hvar líður þér best? „Mér líður best heima hjá mér. Heimilið er minn griðastaður.“

Hvað heillar þig mest við haustið? „Litirnir á gróðrinum. Litasamsetningarnar geta gjörsamlega töfrað mig upp úr skónum. Svo heillar myrkrið mig og það að geta kveikt á kertum.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Mér finnst Grandi mathöll svalur, þar hef ég fengið mjög góðan mat og finnst gaman að horfa út á höfnina. Ég vona að „mathallardæmið“ sé komið til að vera hér í borg.

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar? „Gömul hús fá hjarta mitt oft til að slá hraðar, ég elska hús með gamla sál. Mér finnst til dæmis mörg húsin í Þingholtunum, á svæðinu á milli Njarðargötu og Barónstígs upp að Eiríksgötu, auk Fjólu-, Sóleyjar- og Tjarnargötu vera dásamlega tignarleg og sjarmerandi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „njóta stundarinnar hér og nú.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

 

 

 

Eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fær falleinkunn

Alþjóðlegur framkvæmdahópur hefur gert margháttaðar athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti hérlendis og krafist úrbóta.

 

Í peningaþvætti felst að koma ólögmætum fjármunum í umferð með löglegum. Ýmsir þurfa að stunda slíka háttsemi, t.d. skipulagðir glæpahópar sem meðal annars selja fíkniefni eða stunda mansal á svörtum markaði. Þeir þurfa að þvætta rekstrarhagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raunheimum.

Skattsvikarar, þeir sem hafa framið auðgunarbrot og fólk sem hefur komið fjármunum undan réttmætum kröfuhöfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera peninganna sína sem eru illa fengnir, eða í raun eign annarra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur til að kaupa sér eignir.

Árum saman starfaði einn maður á peningaþvættisskrifstofu Íslands. Lítið sem ekkert frumkvæði var í að rannsaka mögulegt peningaþvætti á fjármagnshaftarárunum, sem stóðu yfir frá 2008 til vorsins 2017.

Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegur framkvæmdahópur sem hefur það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skilaði skýrslu um Ísland í apríl síðastliðnum. Þar fær peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. FATF hefur nú sett Íslandi úrslitakosti. Úrbætur þurfa að vera gerðar fyrir mitt næsta ár.

Ítarlega er fjallað er um peningaþvættiseftirlit Íslendinga í nýjasta Mannlífi. Fréttaskýringuna er hægt að lesa í heild sinn á vef Kjarnans.

Samþykki ekki leikreglur auðstéttarinnar

||
||

Sólveig Anna Jónsdóttir flosnaði fljótt upp úr námi, varð móðir ung að aldri, dvaldi átta ár í Bandaríkjunum þar sem hún sannfærðist endanlega um skaðsemi kapítalismans, sneri aftur beint í hrunið þar sem hún lék stórt hlutverk í búsáhaldabyltingunni og var láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í tíu ár áður en hún skyndilega stóð uppi með svo há laun að hún sá sig knúna til að lækka þau um 300 þúsund krónur.

„Ef við erum orðin svo klikkuð og svo langt leidd af firringu mannfjandsamlegrar hugmyndafræði að það er allt í einu orðið byltingarkennt að fólk geti lifað af dagvinnulaununum sínum og að skattkerfið verði mótað af þörfum þeirra sem raunverulega vinna vinnuna, þá hlýt ég að vera stolt af því að segjast vera byltingarmanneskja,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem í vor var kjörin formaður stéttarfélagsins Eflingar.  Hún er í fararbroddi nýrrar kynslóðar verkalýðsforingja sem þykja mun róttækari en þeir sem fyrir voru og þeir hafa hafa mikinn átakavetur á markaði verði ekki gengið að kröfum þeirra.

Brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum

Sólveig Anna segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fara úr því að hafa unnið láglaunastörf í áratug og vera skyndilega farin að stýra einu stærsta stéttarfélagi landsins. Bara það að vinna á skrifstofu hafi verið nýtt fyrir henni og fyrst um sinn hafi hún verið þjáð af svokölluðu svikaraheilkenni (e. impostor syndrome). „Ég er sem betur fer ekki þar lengur en ég vissi allan tímann að þetta yrði mjög erfitt og þess vegna var ég mjög hikandi við að láta slag standa. Allt sem ég gerði var ég að gera í fyrsta skipti. Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega. Á engum tímapunkti ímyndaði ég mér að þetta yrði auðvelt eða þægileg innivinna. Það er kannski vegna þess að ég dembi mér út í þetta af hugsjón frekar en hefðbundnari framadraumum og við slíkar kringumstæður er meira í húfi.“

„Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega.“

Formennskan er þó ekki óumdeild og nýverið greindi Morgunblaðið frá miklum átökum innan félagsins. Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson voru sökuð um að „stjórna með ofríki og hótunum“ og tveir starfsmenn sagðir hafa farið í veikindaleyfi vegna samskiptaörðugleika. Var jafnframt talað um óvinveitta yfirtöku á Eflingu. „Hann var mjög brjálæðislegur sá fréttaflutningur,“ svarar Sólveig Anna aðspurð og bætir við að í málum sem þessum sé erfitt að grípa til varna enda sé hún sem formaður bundin trúnaði við starfsfólk. Hún geti þó sagt að umfjöllunin gefi ekki rétta mynd af veruleikanum. „Það var pínku sjokkerandi. Þetta símtal sem ég átti við Agnesi Bragadóttur [blaðamann Morgunblaðsins], ég vissi alveg þegar því lauk að þetta yrði einhver hasar og partur af mér fór að hlæja því þetta var svo fáránlegt.“

Hún fellst þó á að það hafa komið upp ákveðnir samstarfsörðugleikar. „Þetta hefur ekki bara verið dans á rósum. Það hafa komið upp samstarfsörðugleikar ef ég á að orða það þannig.“

Mættirðu andstöðu starfsfólks þegar þú tókst við?

„Ég vissi að það yrði ekki bara erfitt fyrir mig að koma þarna inn heldur líka fyrir fólkið sem ég starfa með. Ég hafði verið mjög gagnrýnin þó auðvitað hafi ég verið að gagnrýna forystu félagsins og þá stefnu sem var í gildi, ekki bara þar heldur yfir hreyfinguna í heild sinni sem mér þótti mjög röng og þykir enn. En þá var ég ekki að ráðast að starfsfólkinu en ég skildi þá og skil enn að fólk hafi tekið mér með vissri varúð. En engu að síður, yfir heildina var tekið vel á móti mér. Ég mætti samstarfsvilja og kurteisi og í mörgum tilfellum vináttu sem ég er ótrúlega þakklát fyrir.“

En stjórnið þið með ofríki og hótunum?

„Ég kannast svo sannarlega ekki við það. Það get ég sagt af algjörum heiðarleika að það er brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það eru þarna leikendur sem hafa ólíkar fyrirætlanir þannig að annars vegar er þetta sett fram í þeim tilgangi að grafa undan og eyðileggja þá baráttu sem auðvitað er þegar hafin, og mun verða meiri og rosalegri í vetur, og svo hins vegar er þetta sett fram af fólki sem getur ekki sætt sig við niðurstöður þessara kosninga og hver úrslitin þar urðu.“

Fólk leyfir sér sturlaðan málflutning

Kjarasamningar renna út nú um áramótin og kynntu stéttarfélögin kröfugerðir sínar fyrir stjórnvöldum og atvinnurekendum. Um þær kröfur verður tekist á í komandi kjaraviðræðum, en þar er meðal annars farið fram á að lágmarkslaun verði 425 þúsund krónur að loknum samningstíma, að lágmarkslaun verði skattlaus, að skatta- og bótakerfið verði endurskoðað og að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum.

Tillögurnar þykja vissulega róttækar en eru þær raunhæfar? „Ef ég bara horfi á þetta út frá sjálfri mér sem starfaði sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í 10 ár og þurfti lengi að vera í tveimur vinnum til að geta átt einhvers konar líf sem snerist ekki bara um blankheit og stress, þá finnst mér þetta eins eðlilegt og sanngjarnt og hægt er að hugsa sér. Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta. Svo er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að fólk sem fer fram með svona harkalegum viðbrögðum hefur aldrei kynnst því hvað það er að lifa og starfa sem ófaglærð verkamanneskja á íslenskum vinnumarkaði og hversu streitufullt líf það er. Á sama tíma og mér svíður þetta og vissulega móðgast við þessi hörðu viðbrögð þá hugsa ég líka að þessu fólki sé svolítil vorkunn af því að það bara greinilega getur ekki sett sig í spor þeirra stétta sem það sjálft tiheyrir ekki. Það virðist ekki fært um að líta á aðstæður verka- og láglaunafólks, sýna því einhverja samhygð eða samkennd sem er afleiðing þeirrar brútal nýfrjálshyggju sem við höfum verið látin lifa undir.“

„Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta.“

Ein þessara „ofsafengnu“ viðbragða mátti finna í leiðara Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu, en þar var kröfum stéttarfélaganna lýst sem „sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“ og forystumenn þeirra sagðir mesta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra fólks. Sólveig Anna segir að gagnrýni Harðar hafi farið yfir öll velsæmismörk. „Þessi grein er bókstaflega mjög harðsvíruð árás á algjörlega eðlilegar og sanngjarnar óskir fólks um að þegar sest verður að samningaborðinu, bæði gagnvart Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum, að þá verði fólki mætt með sanngirni og það viðurkennt að skipting gæðanna sé með engu móti réttlát. Þetta er bara ótrúlegt, í alvöru talað. Auðvitað verð ég að leggja við eyrun og átta mig á því að í herbúðum þessa fólks sem með málflutningi sínum sýnir og sannar að það er hinir raunverulegu óvinir vinnandi fólks á Íslandi. Ég upplifi þetta sem ógnandi hegðun og mér finnst mjög merkilegt til þess að hugsa að þetta er sama fólk sem heyrir minnst á orðið verkfall og brjálast, talar þar um ógnanir og þess háttar en leyfir sér sjálft að fara fram með málflutningi sem er bókstaflega sturlaður og ekki í takti við neinn raunveruleika eða hófstillingu.“

Ætla ekki að samþykkja þessar leikreglur

Undanfarnar vikur hafa þó borist fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja, meðal annars í ferðaþjónustu þar sem launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn, og hafa atvinnurekendur gefið í skyn að ekki verði hægt að mæta auknum launakostnaði öðruvísi en með uppsögnum. Sólveig Anna segir að sé það raunin, sé eitthvað mikið að kerfinu. „Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum. En þá, sem betur fer, bar íslenskt samfélag gæfu til að hafna þeim áróðri og sameinast að miklu leyti um að það væri fáránlegt að biðja um minna.“

Sólveig Anna gefur sömuleiðis lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum. „Ég hef alltaf sagt að við búum í efnahagskerfi sem er sérhannað til þess að láta það alltaf gerast, hvort sem það er uppsveifla, niðurdýfa eða vægur samdráttur, þá eru taparanir alltaf vinnuaflið sem þó knýr áfram hagvöxtinn og hjól atvinnulífsins. Ég ætla bara ekkert að samþykkja þessar leikreglur, að þetta séu einu leikreglurnar sem við megum spila eftir.“

En er hægt að horfa fram hjá þessum hagtölum, til dæmis þeim sem sýna að kaupmáttur hafi aldrei í sögunni aukist jafnmikið og undanfarin ár?

„Ég bara veit hvernig kaupmáttur þeirra sem hafa minnst á milli handanna er. Með húsnæðismarkaðinn eins og hann er og hvað það er dýrt að lifa í þessu landi, þá er það eins og einhver sadískur brandari að vera alltaf að sveifla þessu framan í fólk. Vissulega hefur orðið kaupmáttaraukning hjá sumum hópum. Hér búa stórir hópar við æðisgengna velsæld og við besta mögulega lífsstíl sem völ er á. Það breytir því ekki að þetta er ekki raunveruleiki allra. Af hverju í ósköpunum ætti ég að fókusera á þá hópa sem hafa það best í stað þess að horfa á þá hópa sem hafa það verst í íslensku samfélagi?“

Gat ekki hætt að horfa á heimabankann

Fréttir af umtalsverðum launahækkunum til handa þingmönnum og forstjórum ríkisstofnana, fyrir tilstilli kjararáðs og síðar stjórna opinberra fyrirtækja, hleyptu illu blóði í verkalýðshreyfinguna og segir Sólveig Anna að þessar ákvarðanir, ásamt ríflegum launahækkunum forstjóra stærstu fyrirtækja landsins, hafi spilað hlutverk í kröfugerðinni. Þessar launahækkanir hafi verið ögrun gagnvart vinnandi fólki. Sjálf tók hún þá ákvörðun að lækka laun sín um 300 þúsund krónur á mánuði. „Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér. Ég, sem láglaunakona, þurfti að horfast í augu við það – og það eru mjög grimm örlög og sárt fyrir fullorðna manneskju að gera það – að geta ekki staðið á eigin fótum efnahagslega. Fyrir mig, sem sósíalískan femínista, var það mjög sorglegt að til þess að geta boðið börnunum mínum upp á eitthvað sem er hægt að flokka sem eðlilegt líf myndi ég ávallt þurfa að eiga sambýlismann til að hjálpa. Hvað erum við að tala um þegar við segjum að Ísland sé rosalega mikil jafnréttisparadís, hversu fölsk er sú mynd sem er dregin þar upp? Að mínu mati er hún mjög fölsk.“

„Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér,“ segir Sólveig um þá staðreynd að hún lækkaði laun sín um 300 þúsund krónur.

Sólveig Anna rifjar upp fyrstu launagreiðsluna sem hún fékk frá Eflingu. „Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa. En þetta fyllti mig engri æðislegri gleði eða þetta var ekki svona: „Jess, loksins á ég pening“ heldur hugsaði ég meira hvaða brjálsemi þetta væri. Hvernig gat ég verið að vinna og vinna eins og brjálæðingur öll þessi ár og aldrei nokkurn tíma séð upphæð inni á heimabankanum mínum sem komst einu sinni nálægt þessu.“

„Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa.“

Var þetta ekki bara kapítalismi að verki, að þeir sem leggja mikið á sig munu uppskera eins og þeir sá?

„Kapítalisminn segir náttúrlega alltaf eitthvað kreisí. Hann er alltaf með einhverjar ódýrar útskýringar á sínum snærum en lögmál hans geta náttúrlega ekki ráðið för inni í verkalýðshreyfingunni. Henni ber skylda að taka til hjá sér líka þegar kemur að þessum málum, að setja reglur um hvað sé eðlilegur launamunur þar.“

Hjólaði í vinnu til að losna við Bónusferðir

En það eru ekki bara launin sem verða á samingaborðinu heldur einnig lífskjörin í landinu. Þar vega húsnæðismálin þungt enda ófremdarástand á húsnæðismarkaði. Þær kröfur snúa að stjórnvöldum enda liggur sökin þar. „Ég er ekki mjög gömul kona, ég er 43 ára, en þegar ég var að hefja minn búskap þótti það enn normal að ungt fólk gæti eignast sína eigin íbúð og staðið undir afborgunum með hóflegum tekjum. Það er ekki raunin lengur og þetta er afleiðing af ömurlegum efnahagsákvörðunum þeirra sem hér fara með völd. Það varð alkul í uppbyggingu húsnæðis og til að keyra efnahagslífið af stað var blásið til ferðamannagóðæris og það var tekin markviss ákvörðun um það á æðstu stöðum í íslensku samfélagi og settir gríðarlegir fjármunir í það. Til að keyra þá uppsveiflu var fluttur inn gríðarlega stór hópur af erlendu verkafólki. Allt þetta var gert án þess að því grundvallaratriði væri svarað um hvar þetta fólk ætti að búa.“

Húsnæðisliðurinn er ekki eitthvað sem verkalýðshreyfingin mun slaka á til að ná fram öðrum kröfum því ekki sé hægt að reka samfélag þar sem vinnuaflinu er ekki tryggt þak yfir höfuðið. „Slík samfélög eru viðbjóðsleg og dæmd til að enda í katastrófu. Þú þarft að tryggja vinnuaflinu mat, hvíld og húsnæði. Ef þú getur ekki mætt þessum lágmarksþörfum áttu að skammast þín svo ótrúlega mikið að þú átt að draga þig í hlé með skottið á milli lappanna.“

Varðandi hátt matvælaverð segir Sólveig Anna það viðsemjenda þeirra að koma með svör og lausnir að borðinu. „Það er líka á þeirra ábyrgð að mæta okkur með hugvitsamlegum lausnum sem sýna að þeim sé alvara í því að bæta kjör fólks og tryggja að launin séu ekki bara strax étin upp með fyrstu Bónusferðunum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus. Þegar þú ert með ótrúlega léleg laun og þarft að borga rosalega mikinn pening við kassann í Bónus fyrir eitthvað smotterí, þá olli það mér svo miklu hugarangri. Það dró svo úr lífsgæðum mínum að ég vildi frekar hjóla í og úr vinnunni og dömpa þeirri ábyrgð á manninn minn alfarið. Sem var kannski svolítið leiðinlegt fyrir hann.“

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus.“

Að verða ung móðir það besta sem gat gerst

Talið berst að sósíalismanum, róttækninni og því hvað reki Sólveigu Önnu áfram í baráttunni gegn fjármálaöflunum. Segja má að hún hafi fengið þessa eiginleika í vöggugjöf. „Ég var alin upp á mjög róttæku heimili þannig að strax frá því ég var lítil stelpa var alltaf verið að tala um alþjóðamál og mál í stóru samhengi,“ segir Sólveig Anna, en hún er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Jón Múli var mjög virkur í Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu og hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðunum á Austurvelli 1949 en var síðar náðaður. Sólveig Anna átti eftir að feta í fótspor hans, eins og nánar verður komið að síðar.

„Báðir foreldrar mínir höfðu mjög mikil áhrif á mig. Ég fékk afar frjálst uppeldi og kannski fullfrjálst, ég er langyngst af mínum systkinum og ég held að þau hafi bæði verið komin á einhvern stað að þau leyfðu mér að gera nokkurn veginn það sem ég vildi. Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu. Ég var þess vegna mjög útsmogin að koma mér undan allri ábyrgð með því að lesa mjög mikið.“ Skólagangan var nokkuð mörkuð af þessu, segir Sólveig Anna sem lýsir sér sem „mismenntaðri“. Hún hafði hæfileika sem sneru að hinu ritaða máli en raungreinarnar voru ekki hennar sterkasta hlið. Skólakerfið var þannig að það refsaði henni fyrir það sem hún kunni ekki í stað þess að umbuna fyrir það sem hún kunni og þegar grunnskólagöngunni var lokið var hún orðin uppgefin á því. „Ég gerði nokkur áhlaup á það að vera í menntaskóla en mér leið bara ekkert vel inni í skóla, ég upplifði skólastofnanir sem óvinveitt umhverfi. Þannig að ég er mjög mikill talsmaður þess að börnum og unglingum sé mætt þar sem þau eru og að við horfum ávallt á það sem fólk getur og reynum að gera minna úr því sem við getum ekki.“

„Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu.“

Sólveig Anna fór þess vegna ung út á vinnumarkaðinn. „Ég varð ung móðir sem var líklega það besta sem gat komið fyrir mig. Mig vantaði mikið einhvern stöðugleika, eitthvað akkeri, og var einmitt svo heppin að foreldrar mínir studdu mig mjög vel þar og voru mér mikið innan handar.“

Sólveig Anna á tvö börn með eiginmanni sínum, Magnúsi Sveini Helgasyni, en þau eru nú 18 og 21 árs. „Við vorum svona unglingakærustupar, hættum saman og byrjuðum saman.“

Árið 2000 fluttu þau saman út til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem Magnús Sveinn lærði hagsögu og bandarísk stjórnmál. Þar bjuggu þau í átta ár og segir Sólveig Anna að veran í Bandaríkjunum hafi sannfært hana endanlega um skelfilegar afleiðingar kapítalismans.

„Ég flutti út þegar George W. Bush var kosinn forseti og það var innrásin í Afganistan, Írak og allur viðbjóðurinn sem fylgdi því, Guantanamo, Abu Grahib, fellibylurinn Katrina. Þetta var rosaleg röð af bylmingshöggum þar sem algjörlega tryllt auðstétt, undirseld blóðugri heimsvaldahugmyndafræði lét bara hvert höggið dynja á saklausu fólki. Það var ótrúlegt að verða vitni að því.“

Í Bandaríkjunum lifði Sólveig Anna í tveimur heimum. Annars vegar sem láglaunakona þar sem hún starfaði í kjörbúð og hins vegar sem millistéttarkona sem sinnti sjálfboðaliðastörfum í skóla barnanna. Í kjörbúðinni starfaði hún með fólki sem tilheyrði stétt hinna vinnandi fátæku, fólki sem vann sleitulaust alla sína ævi en átti ekki möguleika á að brjótast út úr fátækt. „Svo fékk ég líka að prófa þetta millistéttarlíf hvítra kvenna sem snýst um þetta barnalíf, í þessum heimi kvenna sem eiga menn sem þéna það vel að þær fara bara af vinnumarkaði. Þar upplifði ég að mér voru afhent einhver furðuleg forréttindi bara út á það að vera hvít og norræn, að kunna einhverjar reglur sem samfélagið hefur ákveðið að séu mikils virði, einhvern evrópskan hegðunarmáta sem ég uppskar blessun samfélagsins út á. Það var mjög sjokkerandi að upplifa það því ég hafði í prinsippinu alltaf verið and-rasísk en að sjá það með eigin augum hvað rasisminn og kynþáttahyggjan er viðurstyggilega sjúkt fyrirbæri opnaði mjög augu mín.“

Beint heim í byltinguna

Fjölskyldan flutti heim sumarið 2008, nánast beint ofan í íslenska efnahagshrunið. Sólveig Anna segir að þessi tími hafi verið fjölskyldunni erfiður, þau glímdu við atvinnuleysi og fjárhagurinn var þröngur. En Sólveig Anna kom heim frá Bandaríkjunum full baráttuanda og hún var tilbúin til að láta að sér kveða í búsáhaldabyltingunni. Það gerði hún eftirminnilega því hún var í hópi níumenninganna sem voru ákærðir fyrir árás á Alþingi í desember 2008. Um þá reynslu segir Sólveig Anna: „Hún var mjög áhugaverð en mjög erfið. Það var skrítin tilviljun að ég var í þeim hópi. Afleiðingarnar af því að fara inn í alþingishúsið til að mótmæla, hversu erfiðar þær voru og hversu mikla andlega orku og tíma þær tóku frá mér. Ekki bara mér heldur líka manninum mínum. Það var mjög erfitt. Og ég viðurkenni alveg að undir það síðasta í því máli þegar dómsmálið var komið af stað og við vorum ákærð … það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

„Það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

Sólveig Anna segir að þessi reynsla hafi setið lengi í henni þótt hún geri það ekki lengur. „Ég hugsaði oft mikið um þetta og ég upplifði mig mjög valdalausa meðan á þessu stóð og fannst það mjög óþægilegt. Þetta var á sama tíma og ég var virkilega að kynnast því hvernig væri að vera láglaunakona á Íslandi og ég er virkilega að horfast í augu við þau örlög sem var líka erfitt. Afleiðingar hrunsins lögðust mjög þungt á okkur, mig og manninn minn, með atvinnuleysi og fjárhagskröggum þannig að þetta var mjög „intense“ og erfiður tími. Svo lærði ég hversu tjúlluð borgarastéttin getur leyft sér að verða þegar hún upplifir að sér sé ógnað. Það var mjög hressilegur lærdómur.“

Sérðu eftir þessu?

„Nei, ég sé ekkert eftir þessu. Á endanum áskotnaðist mér margt, eins og að kynnast snjöllu og sniðugu fólki sem var ekki búið að láta samfélagið móta sig alveg og lifði á eigin forsendum. Það var mjög hressandi.“

Sólveig Anna var einnig lykilþátttakandi í öðru máli sem skók þjóðina á árunum eftir hrun, lekamálinu svokallaða. Hún var í hópi aðgerðasinna sem boðað höfðu mótmæli í dómsmálaráðuneytinu þegar vísa átti hælisleitandanum Tony Omos úr landi. Sama morgun og mótmælin fóru fram birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins sem unnin var upp úr minnisblaði sem hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Málið endaði með afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og dómi yfir aðstoðarmanni hennar. „Það var ótrúlegt og það var enn eitt dæmið um hversu tjúlluð borgarastéttin verður þegar hún upplifir einhverja ógn. Viðbrögð þeirra sem fara svona með völd eru svoleiðis að á endanum eru þau sínir eigin verstu óvinir. Það var eitt æðisgengnasta dæmi sögunnar um þetta dramb sem getur sýkt fólk sem kemst í of mikil völd.“

Lífsstíll efri stéttanna ekki mögulegur án vinnuaflsins

Það er mikið talað um að fram undan sé átakavetur með hörðum deilum á vinnumarkaði. Sólveig Anna telur ekki að svo þurfi að vera. „Það eina sem þarf er að viðsemjendur okkar mæti okkur af sanngirni, að þeir viðurkenni réttmæti krafnanna og komi að samningaborðinu með það hugarfar að við ætlum saman í það verkefni að sannarlega bæta lífskjör verka- og láglaunafólks á Íslandi. Ég ætla enn þá að leyfa mér að halda í þá von að svo verði. Ég held að pólitíska andrúmsloftið í samfélaginu sé með þeim hætti að þau geti raunverulega ekki komið sér hjá því að takast á við þetta.“

Megum við eiga von á því að hér logi allt í verkföllum?

„Ég, sem áhugamanneskja um verkalýðsbaráttu, tala ekki af léttúð um verkföll og hef aldrei gert. En ég veit að verkföll eru eitt það mikilvægasta og merkilegasta sem vinnuaflið hefur, því það sýnir hversu stórkostlegt vægi það hefur. Án vinnuaflsins er allt tal um hagvöxt innantómt og lífsstíl efri stéttanna ekki mögulegur. Ef það er á endanum eina leiðin sem er fær, er það bara svoleiðis. En þá verður sannarlega ekki við okkur að sakast.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegar förðurnarfræðingur YSL á Íslandi

 

Neysla eykst við lögleiðingu

Lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Að venju sýnist sitt hverjum, þeir sem eru andvígir halda á lofti hættunni sem kannabisneysla veldur ungu fólki og þeir sem eru meðmæltir telja bann við neyslu kannabisefna skerðingu á einstaklingsfrelsi, enda sé um tiltölulega hættulítið efni að ræða.

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að leggja sín lóð á vogarskálarnar og rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki. Guðrún Björg Ágústsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, er ein þeirra. Hún er með yfir 30 ára starfsreynslu, síðustu sjö ár sem ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi. Hún telur að neysla muni aukast við lögleiðingu.

Sjá einnig: Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Hvaða rök mæla gegn lögleiðingu kannabis? „Með lögleiðingu er verið að segja unga fólkinu okkar að kannabis sé ekki svo hættulegt efni, enda hvernig gæti það verið það, ef það væri löglegt? Eins og við flest vitum eru það unglingar sem eru stærsti hópurinn sem notar vímuefni en það er einmitt sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir áhrifum vímuefnanna.“

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu?„Það hefur nú þegar sýnt sig í Colorado að 85 prósent fleiri ungmenni nota kannabis þar miðað við hin ríkin í Bandaríkjunum. Eins hefur bílslysum sem rakin eru til kannabisneyslu fjölgað um 151 prósent. Einnig blómstrar svarti markaðurinn, andstætt því sem almennt er talið.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Mín skoðun er sú að það myndi breyta mörgu í þjóðfélaginu ef kannabis yrði lögleitt. Það eru mörg gróðatækifæri í framleiðslu og sölu á kannabis. Kannabis er hægt að setja í sælgæti, mat, drykk, rafrettur og fleira. Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar. Þá varpa ég fram spurningunni: Hvaða áhrif mun það hafa á umferðina og slys af völdum áhrifa undir stýri? Með aukinni neyslu þarf að auka meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast efninu. Svo virðist sem reynsla þeirra sem hafa lögleitt kannabis sé sú að neysla aukist. Það er nú þegar aukning á neyslu kannabis hjá unglingum hér á landi og það er vitað að því yngri sem unglingar byrja neyslu því meiri skaði verður við notkun og meiri líkur á að unglingurinn ánetjist efninu. Með lögleiðingu yrði þá líka að stórauka meðferðarúrræði.“

Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar.

Hvers vegna ert þú persónulega andvíg lögleiðingu kannabis? „Ég hef séð hvernig kannabisneysla hefur haft áhrif á fólk, sérstaklega ungt fólk. Ein helstu rök unglinga sem eru að eyðileggja líf sitt vegna neyslu kannabis eru: Þetta er ekkert hættulegt, það er verið að lögleiða þetta. Unglingar horfa ekki á að það sé aldurstakmark fyrir kaupum á kannabis þar sem það er löglegt. Þau eru ung og þau gera það sem við fullorðna fólkið höfum fyrir þeim. Ef við lögleiðum kannabis verður það líka fyrir 14 ára börn.“

Myndir / Hallur Karlsson

Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki þar sem lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Örvar Geir Geirsson, listamaður, stofnandi Reykjavik homegrown og áhugamaður um menningu og málefni sem varða kannabis er einn þeirra sem vill að neysla kannabis verði lögleg á Íslandi.

Sjá einnig: Neysla eykst við lögleiðingu

Hvaða rök mæla með lögleiðingu kannabis? „Refsistefnan skilar engu og virkar ekki. Reynslan hefur sýnt að hún dregur hvorki úr notkun né framboði. Það er betra að regluvæða hægt og rólega framleiðslu og sölu og hafa aldurstakmark. Ekki vera með þessar forræðishyggjurefsingar. Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs. Ólöglegi kannabismarkaðurinn á Íslandi veltir stórum fjárhæðum, innan hans er fjöldi manns af öllum stéttum og hann er kominn til að vera. Það er löngu kominn tími á nýja nálgun, ekki bara afglæpavæðingu heldur regluvæddan iðnað og lögleg störf.“

Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs.

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu? „Ef litið er til reynslu annarra Evrópuþjóða og ríkja innan Bandaríkjanna hefur lögleiðing, hvort sem er notkun til lækninga eða til afþreyingar fyrir fullorðið fólk, getið af sér samfélagslegan ávinning með töluverðri minnkun glæpatíðni í ýmsum geirum afbrota. Þar á meðal er heimilisofbeldi, og dauðsföllum vegna misnotkunar lyfja hefur einnig fækkað, auk þess hefur dregið úr notkun ávanabindandi verkjastillandi lyfja og ólöglegra efna, eins og reynsla Portúgala og ríkja í Bandaríkjunum hefur sýnt. Notkun á CBD-olíu hefur reynst flogaveikum erlendis vel og eins ýmsum sem eiga við taugasjúkdóma að stríða. Slík olía hefur engin hugbreytandi vímuáhrif og virðist samkvæmt öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið, heilsubætandi. Töluvert stór hópur Íslendinga hefur orðið sér úti um CBD-olíu vegna ýmissa kvilla og notið góðs af.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Aðgengi ungs fólks yrði minna með aldurstakmarki. Það yrðu greiddir skattar af framleiðslunni og haft eftirlit með sölu, framleiðslu, gæðum og styrkleika vörunnar. Þetta skapar iðnað sem býr til ótal mörg sérfræði- og þekkingarstörf sem verður að teljast ávinningur fyrir samfélagið. Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu og leggja aukið fjármagn í meðferðarúrræði og geðhjálp.“

Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu.

Hvers vegna ert þú persónulega hlynntur lögleiðingu kannabis? „Fyrir mér er þetta bara spurning um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, hvort sem er vegna heilsu eða sér til afslöppunar. Svo finnst mér bara óþarfi að eyða tíma lögreglu í að eltast við fólk vegna notkunar kannabis, einkaræktunar eða fyrir að hafa smávegis kannabis á sér, til dæmis á tónleikum. Flest fólk sem notar kannabis er heiðarlegt og gott fólk, samkvæmt minni reynslu, þetta fólk veldur ekki öðrum neinum skaða, hættu eða tjóni með því að fá sér eina jónu. Þetta svokallaða stríð gegn fíkniefnum er bara stríð gegn fólki sem veldur samfélagi og fólki skaða og það aðallega ungu fólki, okkar fólki.“

Mynd / Hallur Karlsson

Fyllir Ásmundarsal af líffærum

Sigga Heimis hönnuður stendur í stórræðum þessa dagana. Auk þess að þeytast milli landa í vinnu sinni með ungum hönnuðum fyrir IKEA og vera einstæð móðir með þrjú börn, sem hún viðurkennir að útheimti gríðarlega skipulagningu, vinnur hún með fleiri fyrirtækjum og er ofan á allt saman að undirbúa sýningu á líffærum úr gleri sem hún mun halda í samstarfi við stærsta glerframleiðanda í heimi.

Hönnuðurinn Sigga Heimis hefur í nógu að snúast þessa dagana. Mynd / Unnur Magna

„Já, ert þetta þú?“ segir Sigga sem er stödd á Íslandi þegar hún svarar í símann klukkan 10.30. „Síminn hefur hringt stanslaust síðan hálffjögur í nótt og ég var bara alls ekki viss um hver gæti nú verið að hringja. Það er eitt af því sem fylgir því að þrjóskast við að búa á Íslandi þótt ég sé að vinna út um allar trissur að fólk áttar sig ekki alltaf á tímamismuninum og hringir á öllum tímum sólarhringsins. En það er allt í góðu, svona er þetta bara.“

Eitt af þeim verkefnum sem Sigga fæst við erlendis er að skipuleggja og vinna með hönnunarskólum og -stofnunum og vinna með ungum hönnuðum fyrir IKEA. Um hvað snýst það?

„Ég þekki þá tilfinningu mjög vel að koma úr námi og þurfa að byrja á algjörum núllpunkti,“ útskýrir hún. „Ég þekki það sjálf að þekkja engan í þessum geira og þurfa sjálf að finna mér atvinnutækifæri og ég fæ alveg jafnmikið út úr því og þau að hjálpa þeim að komast inn í þetta svo að þegar þáverandi yfirmaður minn hjá IKEA spurði hvernig mér litist á að sjá um samstarf fyrirtækisins við hönnunarskóla var ég fljót að segja já. Síðan eru liðin mörg ár og umhverfið hefur breyst mikið. Á þeim tíma var aðallega verið að teikna einhverjar ákveðnar vörur sem IKEA var að bæta við hjá sér en nú höfum við víkkað þetta miklu meira. Nú vinnum við í rauninni bara með nýjar hugmyndir og væntingar nýrra kynslóða til sterkra vörumerkja. Heimurinn er að breytast svo hratt og maður verður að vera miklu meira á tánum. Fyrir tíu til fimmtán árum gat IKEA mælt miklu betur hvað markaðurinn vildi en það er ekki hægt lengur. Unga fólkið í dag hefur allt aðrar væntingar og vill ekkert endilega eiga fullt af hlutum. Það eru mörg stór fyrirtæki að takast á við þetta, hvort sem það eru bílaframleiðendur, byggingafyrirtæki eða húsgagnafyrirtæki. Þannig að nú er ég með það verkefni að skipuleggja og sjá um samvinnu IKEA við hönnunarskóla um allan heim.“

„Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig heldur börnin mín líka.“

Mikið púsluspil að samræma vinnu og heimili
Eins og gefur að skilja krefst starfið mikilla ferðalaga og verandi einstæð móðir með þrjú börn þar sem eitt er verulega þroskaskert og þarf mikla umönnun, segist Sigga vera orðin algjör sérfræðingur í því að þrýsta ferðunum niður í mjög stutta pakka.

„Ég er mjög skipulögð þegar ég fer út,“ segir hún. „Samkvæmt reglunni er ég alltaf eina viku í mánuði í Svíþjóð og þar legg ég fram mitt plan um hvernig ég ætla að gera þetta. Það er alls ekki nauðsynlegt að hver ferð taki marga daga. Til dæmis er ég að vinna með skóla í Berlín og flýg þá oft fram og til baka samdægurs. Þetta er allt orðið mun einfaldara en það var, en vissulega er þetta mikið púsluspil og ég þarf að láta ýmislegt ganga upp til þess að þetta smelli saman. Það er bara svo ofboðslega spennandi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt að ég finn leiðir til að láta þetta ganga.“

Sigga er búin að setja húsið sitt á sölu og planið var að eiga annað heimili í Svíþjóð með alla fjölskylduna, en hún segir það ekki eins einfalt og það hljómi.
„Ég ætla aðeins að bíða með að flytja,“ segir hún. „Ég veit alveg hvernig það er þegar fólk er að flytja með börn sem þurfa sértæka ummönun á milli landa, maður hleypur ekkert inn í kerfið þar bara si svona. Það eru endalausir biðlistar alls staðar og ég er ekki alveg tilbúin í það. Það hefur alveg gengið hingað til að vera búsett á Íslandi þótt ég sé í þessari vinnu og ég ætla aðeins að sjá til með þetta.“

Önnur ástæða þess að Sigga er ekki tilbúin að fara af landinu í bili er að hún er komin í stefnumótunarvinnu fyrir Rammagerðina, þar sem hún er í bullandi vinnu og segir frábært að vinna með íslenska handverks- og hönnunararfinn okkar. Fleiri verkefni eru í vinnslu, til dæmis stór verkefni fyrir stórt fyrirtæki í Kóreu.
„Ég hef verið svo ofboðslega heppin – og nú lem ég í allan við sem er hér nálægt mér – að ég hef alltaf haft nóg að gera,“ segir hún. „Ég hef aldrei verið spennt fyrir því að stofna stórt og mikið fyrirtæki og vera með stóran vinnustað. Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig, heldur börnin mín líka.“

Sigga undirbýr nú sýningu í Ásmundarsal með líffærum sem hún hefur hannað.

Vill opna umræðuna um líffæragjafir
Ofan á öll þessi verkefni og stóran heimilisrekstur er Sigga nú að undirbúa sýningu í Ásmundarsal eftir áramótin þar sem hún mun sýna líffæri úr gleri sem hún hefur hannað, í tilefni af breytingunni á lögunum um líffæragjafir. Hvernig kom sú hugmynd upp?

„Það að eiga barn með sérþarfir opnar nýjar víddir fyrir manni og ég hef með árunum velt því sífellt meira fyrir mér hvernig hönnuðir geti axlað samfélagslega ábyrgð. Ég lenti svo fyrir tilviljun í samstarfi við stærsta glerlistasafn í heimi sem er í New York-ríki og var stofnað af stærsta glerfyrirtæki heims í kringum 1950. Þau ákváðu fyrir nokkrum árum að prófa að vinna með hönnuðum. Þau höfðu alltaf unnið með listamönnum en vildu breyta til og buðu mér og fleiri hönnuðum til samstarfs. Þegar ég var komin í þriggja daga vinnustofu hjá þeim þar sem átti að vinna með munnblásið gler stóð ég og klóraði mér í höfðinu og af einhverri ástæðu datt ég niður á þá hugmynd að búa til líffæri úr glerinu. Eftir það lagðist ég í rannsóknir á því hvar við værum eiginlega stödd í sambandi við líffæragjafir. Þá opnaðist fyrir mér alveg nýr og dálítið óhugnanlegur heimur.

Það er mikill skortur á líffærum í heiminum og fátækt fólk hefur gripið til þess ráðs að selja úr sér líffæri til að komast af og það eru ótal siðferðisspurningar í kringum þetta. Ég ákvað þá að búa til þetta verkefni til að vekja athygli á stöðunni og vekja fólk til umhugsunar um líffæragjafir. Ég hef farið með líffæri á nokkrar sýningar en það sem varð kveikjan að þessari sýningu í Ásmundarsal var þegar þau undur og stórmerki gerðust að Alþingi Íslendinga var einróma sammála þegar það samþykkti ný lög um áætlað samþykki til líffæragjafa sem taka gildi núna 1. janúar. Þetta er mikilvæg breyting sem snertir okkur öll og þarna sá ég tækifæri til að setja upp sýningu sem myndi hvetja fólk til að opna umræðuna um líffæragjafir. Fékk afnot af Ásmundarsal allan janúar og febrúar og þar ætlum við að setja upp undraheim líffæra sem fólk getur gengið inn í og upplifað. Ég er sannfærð um að þetta verður stórkostleg upplifun, en ég segi þér nú nánar frá því öllu síðar. En ég vil samt nefna að Gagarín er samstarfsaðili minn á sýningunni og sömuleiðis Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og nýrnaþegi. Þetta eru lykilaðilar sem munu gera það að verkum að sýningin verður mögnuð!“

Syndsamleg súkkulaðikaka

|
|

Þó svo að gaman sé að bjóða upp á margar tegundir þegar gesti ber að garði er raunveruleikinn sá að sjaldnast er tími til þess að bjóða upp á margar sortir. Ein góð og mikil terta sem dugar fyrir alla gestina er oft besta lausnin og þá er líka minni hætta á að gestgjafinn sitji uppi með mikla afganga, sem hann oftar en ekki freistast til að klára sjálfur dagana á eftir, við þekkjum þetta öll, er það ekki?

Mynd / Heiða Helgadóttir

SÚKKULAÐIKAKA
fyrir 10-12

2 1/2 dl rjómi
1 msk. borðedik
4 dl hveiti
4 1/2 dl sykur
2 dl kakó
1 1/2 tsk. lyftiduft
2 tsk. vanilludropar
1 tsk. salt
3 egg
120 g smjör, brætt
2 1/2 dl sterkt kaffi

Setjið rjóma og edik saman í skál og látið standa í 5-10 mín. (eins má nota 2 1/2 dl af súrmjólk í stað rjóma og ediks). Setjið hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, vanillusykur og salt saman í skál. Bætið rjómanum, eggjum og smjöri út í og hrærið saman. Setjið kaffi út í og blandið vel. Athugið að deigið er þunnt. Setjið bökunarpappír í botninn á tveimur formum sem eru 24 cm í þvermál. Smyrjið formin vel og skiptið deiginu á milli þeirra. Athugið að ef notuð eru form með lausum botni getur verið nauðsynlegt að setja álpappír utan um þau til þess að koma í veg fyrir að deig leki í ofninn. Bakið í u.þ.b. 25 mín. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á kökuna.

KREM
350 g 70% súkkulaði
230 g smjör, við stofuhita
3 msk. kakó
8 msk. flórsykur
1 tsk. vanillusykur
salt á hnífsoddi
4 msk. rjómi

Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna. Hrærið smjör, kakó, flórsykur, vanilludropa og salt vel saman þar til blandan er mjúk og kremkennd. Bætið þá rjóma saman við og hrærið áfram. Bætið súkkulaðinu saman við og hrærið áfram af krafti í 3-4 mín. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Heiða Helgadóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Þurfum meiri stöðugleika á íbúðamarkaði

|
|

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur þörf á meiri stöðugleika á íbúðamarkaði.

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Mynd / Unnur Magna

„Þegar íbúðamarkaðurinn fór að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu árið 2011 hafði myndast mikil umframspurn eftir húsnæði enda framboðið talsvert á eftir vaxandi þörf vegna fólksfjölgunar, vaxtar í ferðaþjónustu og lýðfræðilegra þátta. Ójafnvægið náði hámarki á síðasta ári þegar 6 íbúar í landinu bitust um hverja nýja íbúð. Afleiðing þessa varð m.a. til þess að íbúðaverð hækkaði þónokkuð umfram laun í landinu og því varð æ erfiðara fyrir nýja íbúðakaupendur að koma inn á markaðinn. Þar varð unga kynslóðin hvað harðast úti,“ segir Ingólfur.

Hann segir Samtök iðnaðarins hafa barist ötullega fyrir auknu framboði á lóðum til íbúðabygginga enda felist vandinn að miklu leyti í lóðaskorti. „Sveitarfélög hafa brugðist hægt við þessum vanda. Hluti ástæðunnar er að sveitarfélög bera hvert fyrir sig ábyrgð á landskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Engin yfirsýn er yfir heildina á landsvísu né samkvæm áætlanagerð. Sveitarfélög huga því ekki að því að jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði. SI hafa viljað bæta úr þessu með því að stofna öflugt innviðaráðuneyti sem hefur forræði á málaflokknum í heild sinni og getur tekið af skarið til þess að tryggja að svona ójafnvægi, líkt og verið hefur hér á landi síðustu ár, skapist ekki. Til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni kerfisins þarf einnig að einfalda byggingareftirlit og draga úr íþyngjandi kröfum í regluverki, stytta skipulagsferli og auka framboð byggingarsvæða. Loks þarf að tryggja að til staðar séu virk stjórnsýsluúrræði innan málaflokksins.“

Í byggingu eru nú 5.799 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það er um 19% aukning frá því í talningu SI í mars, að sögn Ingólfs. „Í ljósi þessarar talningar spá SI því að í ár verði fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða umtalsverðan vöxt frá því í fyrra en þá voru nýjar íbúðir aðeins 1.337. Á sama tíma er að draga úr fólksfjölgun á svæðinu. Betra jafnvægi virðist því vera á íbúðamarkaðinum í ár en hefur verið á síðustu árum og sést það í verðþróuninni en hægt hefur umtalsvert á verðhækkun húsnæðis.“

Hann segir að til að hindra svona ástand þurfi langtímahugsun. „Áætlað er að það þurfi 45 þúsund nýjar íbúðir á landinu öllu fram til ársins 2040 og 33 þúsund af þeim þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Til að unnt sé að leysa þetta verkefni vel þurfum við framsýni af hálfu ríkis og sveitarfélaga, meiri stöðugleika, aukna hagkvæmni og meiri skilvirkni í byggingu íbúðarhúsnæðis en verið hefur,“ segir Ingólfur að lokum.

Ganga flóttafólks verður að pólitísku hitamáli

|
|

Á bilinu fimm til sjö þúsund flóttamenn frá Mið-Ameríkuríkjunum Gvatemala, Hondúras og El Salvador stefna í átt að suðurhluta landamæra Bandaríkjanna þar sem þeir freista þess að hefja nýtt og betra líf. Fólkið sem ferðast ýmist fótgangandi eða í rútum er að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu en flestir flóttamannanna koma frá Hondúras þar sem morðtíðni er sú hæsta í heimi.

Hópgöngur sem þessar eru tíðar en þetta er sú fjölmennasta til þessa og sú sem vakið hefur langmesta athygli fjölmiðla vestanhafs. Þar spilar tímasetningin lykilhlutverk því innan við tvær vikur eru til þingkosninga í Bandaríkjunum og ferðalag flóttafólksins er orðið eitt helsta hitamálið í kosningabaráttunni. Þar hefur forsetinn Donald Trump farið fremstur í flokki. Hann hefur hótað því að koma hernum fyrir á landamærunum við Mexíkó sem og að skera á efnahagsaðstoð við Mið-Ameríkuríkin þrjú.

sdfklsda

Leggja á sig 4.000 kílómetra ferðalag
Göngurnar nefnast á ensku „caravan“ og eiga uppruna sinn í því að grasrótarsamtök hvöttu flóttamenn sem leita til Bandaríkjanna til að ferðast í hópum enda leiðin löng og hættur á hverju strái. 160 flóttamenn lögðu af stað frá San Pedro Sula, næststærstu borg Hondúras, þann 13. október en fljótlega bættist í hópinn sem taldi 5000 manns þegar komið var að Tecún Umán í Gvatemala, stór hluti þeirra konur og börn. Þaðan freistuðu flóttamennirnir þess að komast yfir landamærin til Mexíkó og kom til átaka á landamærunum en stjórnvöld í Mexíkó gátu þó ekki komið í veg fyrir að þúsundir manna kæmust yfir landamærin þar sem þau söfnuðust saman í borginni Tapachula. Þaðan var haldið norður á bóginn á mánudaginn.

Beita ríki Mið-Ameríku þvingunum
Bandaríkjastjórn hefur gert hvað hún getur til að hefta för fólksins. Þeim skilaboðum var komið áleiðis að ef ríkisstjórnir landanna þriggja stöðvuðu ekki fólkið yrði því svarað af hörku. Þegar hópurinn var kominn til Mexíkó lýsti Trump því yfir að efnahagsaðstoð til landanna þriggja yrði skorin niður en Bandaríkin veittu samtals yfir hálfum milljarði króna í efnahagsaðstoð til þeirra í fyrra. Þá hafa Bandaríkin beitt Mexíkó miklum þrýstingi vegna málsins en tilraunir til að stemma stigu við straumnum hafa litlu skilað.

Vatn á myllu Trumps?
Donald Trump hefur notað málið til að kveikja í stuðningsmönnum sínum fyrir þingkosningarnar þann 6. nóvember. Hann segir fólkið ógn við þjóðaröryggi og hefur sagst ætla að senda herinn að landamærunum að Mexíkó þótt hann þurfi til þess stuðning þingsins. Sömuleiðis segir hann þetta sýna mikilvægi þess að repúblíkanar verði áfram við stjórn í báðum deildum þingsins og fjölmargir frambjóðendur Repúblíkanaflokksins hafa tekið undir þennan málflutning Trumps.

Hverfandi líkur á hæli
Óvíst er hversu margir muni ná að bandarísku landamærunum en ljóst er að fæstir munu fá draum sinn uppfylltan. Í síðustu göngu af þessu tagi sem farin var í mars héldu 700 flóttamenn af stað frá Hondúras og taldi gangan 1.200 manns þegar mest var en ekki nema um 228 komust svo langt að sækja um hæli. Ellefu voru handteknir fyrir að reyna að komast ólöglega yfir landamærin. Lögum samkvæmt ber bandarískum stjórnvöldum að veita fólkinu málsmeðferð en tölfræðin sýnir að í langflestum tilvikum er umsókn þess hafnað.

Fleyg ummæli
„Gvatemala, Hondúras og El Salvador gátu ekki komið í veg fyrir að fólk yfirgæfi landið þeirra og kæmi ólöglega inn í Bandaríkin. Við munum nú byrja að stöðva, eða skera verulega niður, þá miklu efnahagsaðstoð sem við höfum veitt þeim.“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna

Blómstra á nýjum vettvangi

||||||||
||||||||

Þjóðþekktir Íslendingar sem hafa tekið U-beygju á starfsferlinum.

Eyjólfur Kristjánsson.

Úr tónlist í tannhvíttun
Eyjólfur Kristjánsson, betur þekktur sem Eyvi, er að heita má kanóna í íslensku tónlistarlífi því eftir hann liggja meira en 200 lög. Þ.á m. Eurovision-slagarinn Nína sem er fyrir löngu búinn að skipa sér sess með helstu dægurlagaperlum þjóðarinnar. Marga rak því í rogastans þegar meistarinn upplýsti í viðtali fyrr á árinu að hann hefði söðlað um og væri farinn að vinna við … tannhvíttun. Já, Eyvi hefur svissað úr söngnum yfir í snyrtibransann og ku þetta vera í fyrsta sinn í 30 ár sem kappinn er í fastri vinnu.

 

Friðrik Dór. Mynd / Kristinn Magnússon.

Snýr sér að innanhússhönnun
Söngvarinn Friðrik Dór hélt fyrir skömmu tónleika í Kaplakrika sem hann tilkynnti að yrðu síðustu tónleikar hans í bili. Hann ætlar nefnilega að söðla alveg um, láta gamlan draum rætast og flytja til Ítalíu með fjölskylduna. Ástæðan fyrir búferlaflutningunum er sú að Friðrik hyggst nema innanhússhönnun á Ítalíu enda segist hann hafa haft áhuga á hönnun frá níu ára aldri þegar hann fékk að mála herbergið sitt dökkblátt og eiturgrænt. Áhuginn jókst svo enn frekar við áhorf á Innlit-útlit og lestur Bo bedre frá tólf ára aldri. Það má sem sagt í rauninni kenna Völu Matt um hvarf söngvarans ástsæla af tónlistarsenunni. Mikil er ábyrgð hennar.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Dagfinnur dýralæknir
Alþingi hefur stundum verið líkt við dýragarð og því kannski við hæfi að þar skuli sitja menntaður dýralæknir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er með embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og starfaði lengi sem dýralæknir áður en leiðin lá í pólitíkina. Segja mætti að sú reynsla hafa nýst Sigurði Inga vel á þingi því gagnstætt forvera sínum í Framsókn, sem hafði einstakt lag á að strjúka köttum öfugt, þá þykir Sigurður Ingi yfirleitt nálgast pólitíska mótherja sína af mikilli yfirvegun og nærgætni. Þar kemur reynsla dýralæknisins af styggum skepnum eflaust að góðum notum.

 

Ellý Ármanns. Mynd / Kristinn Magnússon

Náttúrutalent og núdisti
Ellý Ármanns sigraði hjörtu þjóðarinnar sem sjónvarpsþula á RÚV fyrir margt löngu og starfaði síðan árum saman sem blaðamaður á Vísi þar sem segja má að hún hafi rutt brautina fyrir vinsældir krassandi slúðurfrétta af fræga fólkinu. Nú er Ellý sjálf orðin viðfangsefni slúðurfréttanna, en vefmiðlar halda vart vatni yfir nýjustu framleiðslu hennar, nektarmyndum af erótískara taginu þar sem hún sjálf og unnusti hennar, Hlynur Jakobsson, eru talin vera fyrirmyndirnar. Ellý er þó leyndardómsfull þegar spurt er út í þá hlið málsins, en eitt er víst að hún er hvergi nærri hætt að kitla slúðurtaugar landans. Við bíðum spennt eftir næsta útspili frá henni.

 

Bergþór Pálsson. Mynd / Kristinn Magnússon

Óperusöngvari gerist áhrifavaldur
Óperusöngvarinn og sjarmatröllið Bergþór Pálsson sýndi að honum er meira til lista lagt en að þenja raddböndin þegar hann birtist landsmönnum í þættinum Allir geta dansað, vel greiddur og tanaður. Þátttökunni fylgdu miklir rykkir og hnykkir og kílóin fuku af Bergþóri. Síðan þá hefur söngvarinn síhressi farið hamförum á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur lyft lóðum, farið í fallhlífarstökk, rifið sig úr að ofan og mært hreinsiefni (sem hlaut viðurnefnið „Bergþórssápan“) en rithöfundurinn Jónína Leósdóttir var ein þeirra sem ákvað að prófa ofurefnið og sagði á Facebook að það hefði verið hápunktur helgarinnar. Bergþór er því ekki lengur bara söngvari heldur áhrifavaldur og vinsæl samfélagsmiðlastjarna.

 

Vigdís Grímsdóttir. Mynd / Stefán Karlsson

Aftur til upphafsins
Vigdís Grímsdóttir var löngu orðin einn dáðasti og virtasti rithöfundur þjóðarinnar þegar hún söðlaði alveg um fyrir nokkrum árum og réði sig sem kennara við Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi á Ströndum. Mörgum kom þessi kúvending í opna skjöldu en Vigdís er lærður kennari og starfaði sem slíkur þegar fyrstu bækur hennar slógu í gegn. Það má því segja að hún hafi snúið aftur til róta sinna í fámenninu í Árneshreppi þar sem hún er engu minna elskuð og dáð af nemendum sínum en hún er elskuð og dáð af lesendum sínum um allt land. Til allrar hamingju fyrir okkur hefur hún þó haldið áfram að skrifa með fram kennslunni og ekki alveg snúið baki við rithöfundarferlinum.

 

Sölvi Blöndal. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Rapparinn sem varð hagfræðingur ársins
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins 2017 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Sölvi var áður einn af röppurunum í hljómsveitinni Quarashi sem naut gríðarlegra vinsælda fyrir áratug eða svo. Fáir hafa sennilega séð það fyrir sér að nokkrum árum síðar yrði honum hampað sem besta hagfræðingi þjóðarinnar. Enda sagði hann við móttöku verðlaunanna að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins þar sem öll þau verðlaun sem hann hefði tekið við fram að því hefðu verið vegna tónlistarinnar. Plötur Quarashi seldust í bílförmum, bæði á Íslandi og í Japan, og ekki ólíklegt að hagfræðiheili Sölva hafi verið driffjöðrin á bak við velheppnaða markaðsetningu platnanna.

 

Helga Vala Helgadóttir.

Nýtur sín á hinu pólitíska sviði
Helga Vala Helgadóttir lærði meðal annars leiklist áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna og er óhætt að segja að þar fái leikrænir hæfileikar hennar að njóta sín til fulls. Þannig tóku flestir eftir þegar Helga Vala skundaði burt, full vandlætingar, af Þingvöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og „fordómaseggur“, hélt hátíðarræðu á fullveldisafmælinu. Eða þegar Helga Vala húðskammaði Eyþór Arnalds fyrir að „hamast af öllu afli“ á Degi B. Eggerts í braggamálinu og spurði hvort ekkert væri „heilagt í pólitísku stríði?“ Pólitískir andstæðingar Helgu Völu hafa sakað hana um sýndarmennsku en þarna sannast einfaldlega sú fornkveðna vísa að stjórnmál eru leiksvið og þingkonan skelegga kann að nýta sér það.

Gamli Vesturbærinn heillar

Þau Helga Gvuðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason taka vel á móti okkur á lifandi heimili sínu í gamla Vesturbænum. Saman reka þau skartgripaverkstæðið og verslunina Orrifinn skartgripir í sjarmerandi húsnæði við Skólavörðustíg 17a.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Tignarlegt 90 ára gamalt húsið stendur við kyrrlátan göngustíg sem þau segja kunnuga kalla Borgarstíginn. Íbúðin er tæplega 150 fm að stærð og búa þau á fyrstu hæð og í kjallara hússins. „Við höfum búið hér í rúm tvö ár og það er mjög friðsæl og barnvæn fjölskyldustemning hérna, en við fluttum nánast úr næsta húsi svo ísskápurinn fór bara yfir á hjólabretti!“ segir Orri og hlær. „Við elskum að vera hérna, staðsetningin er náttúrulega æðisleg og þetta er svo nálægt miðbænum.“
Aðspurð um hvort þau hafi farið í einhverjar endurbætur segjast þau ekki miklu hafa breytt öðru en farið í smávægilegar breytingar á eldhúsinu, pússað og lakkað parketið og málað. „Fyrri eigandi sagði okkur að parketið á gólfinu væri íslenskt og kæmi frá Húsavík. Skemmtilegt er að segja frá því að í einni fjölinni sem liggur við stigann er föst byssukúla eða hagl, en hún hefur líklega verið í trénu sem var notað í gólfið.“

Málverkið við píanóið er eftir Orra sjálfan, en hann málar í frítíma sínum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

KAÓTÍSKUR OG LITRÍKUR STÍLL
Greinilegt er að heimilisfólk er ekki hrætt við að nota sterka liti og segist Helga hafa rosalega sterkar skoðanir á þeim. „Ég var alveg með á heilanum að vera með eggaldinfjólubláan einhvers staðar, en fjólublái liturinn hefur verið partur af lífi mínu síðan ég var barn og ég tók einhverju ástfóstri við hann. Við höfum ferðast mikið um Suður-Ameríku og urðum mjög heilluð af litanotkuninni þar og hverju þau þora! Í eldhúsinu reyndum við að ná fram Karíbahafsstemningu með þessum bláa lit, sem minnir okkur á þegar flogið er yfir eyju og maður sér grynningar í sjónum. Þessi skandinavíski grái stíll er alls ekki okkar.“
Hvaðan koma hlutirnir ykkar? „Við kaupum rosalega sjaldan húsgögn, en höfum fengið margt gefins frá vinum og fjölskyldu – við erum mjög hrifin af því að nýta. Svo söfnum líka við uppstoppuðum fuglum, en það er áhugamál sem fæstir skilja.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Veggina prýða fjölmörg eftirtektarverð listaverk. „Við erum með töluvert af verkum eftir Gabríelu Friðriks, systur mína, og að auki er Ragna Róberts móðursystir hans Orra en við erum mjög heppin að hafa tvo svona æðislega listamenn í fjölskyldunni,“ segir Helga.
Hvaða listamenn eða hönnuðir eru í uppáhaldi, aðrir en systir og móðursystir? „Við erum mjög hrifin af húsgögnum eftir Daníel Magnússon, en þau eru ótrúlega vel gerð og endast!“ Þau bæta við að uppáhaldslistamaður Helgu sé Frida Khalo og Orra sé austurríski málarinn Egon Schiele. Aðspurð um uppáhaldsverslunina nefna þau The Evolution Store í New York, en þar má kaupa skeljar, steingervinga, uppstoppuð dýr, skinn, beinagrindur og fleira í þeim dúr en Helga segir þau Orra hafa smekk fyrir þjóðlegum munum víðsvegar að úr heiminum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Við göngum niður litríkan stigann og rekum strax augun í einkar skemmtilegt gólfið. „Þetta eru steinar úr Djúpalónssandi, en fyrri eigendur dúlluðu við þetta ásamt baðherberginu.“ Baðherbergið minnir svolítið á að vera inni í helli, en loft og veggir liggja saman sem heild og hornin eru öll rúnuð, á veggnum við baðið er svo vönduð mósaík af haföldum. Það er allt öðruvísi stemning í þessu baðherbergi.
Okkur lék forvitni á að vita hvernig starfsferill í skartgripasmíði varð fyrir valinu. „Ég starfaði á gullsmíðaverkstæði í New York og lærði demantsísetningar þegar ég var búsettur þar, en ég lauk svo náminu hér heima árið 2000,“ segir Orri. „Systir mín bjó úti og ég ætlaði í heimsókn yfir jólin 1995 og svo bara ílengdist ég, seinna sótti ég um græna kortið og í framhaldi af því var ég í fimm ár úti og er nú bandarískur ríkisborgari.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Höfum enn ekki fundið skjól eftir hrunið

|
|

Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir Íslendinga ekki vera betur varða fyrir efnahagslegum áföllum nú en fyrir tíu árum þegar hrunið átti sér stað. Hann telur að stjórnmálamönnum hafi mistekist að tryggja landsmönnum efnahagslegt skjól.

Frá málþinginu. Mynd / Kristinn Ingvarsson

„Við erum ekkert betur varin fyrir efnahagslegum áföllum en fyrir tíu árum þegar hrunið skall á okkur. Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur segir aðgerðir stjórnvalda meðal annars felast í aðildarumsókn að Evrópusambandinu, fríverslunarsamningi við Kína og nánari tengslum við ríki sem sýni málefnum Norðurskautsins áhuga. „Nú tala ráðamenn um að okkur myndi farnast best með því að fylgja Bretum, eftir að þeir ganga úr Evrópusambandinu, og gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.“

Baldur kynnti í vikunni bókina „Small States and the Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs“ sem fjallar um pólitísk, efnahagslega og félagslega snertifleti Íslands við helstu ríki, efnahagssvæði og alþjóðastofnanir. Þetta er rannsókn unnin undir forystu hans og rannsóknateymis við Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands. Ætla má að þetta sé ein víðtækasta rannsókn sem unnin hefur verið á alþjóðasamvinnu Íslendinga.

Baldur segir bókina snúast um tvennt. Annars vegar er þar sett fram kenning um skjól. Samkvæmt henni glíma smáríki við innbyggða veikleika á borð við lítinn og sveiflukenndan heimamarkað, takmarkaða varnargetu og litla stjórnsýslu. „Lítil ríki eru eðlilega vanmáttugri en þau stóru. Þau þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana innanlands og erlendis til að vega upp á móti þessum veikleikum. Að mínu mati er það grundvallaratriði fyrir stjórnmálamenn í litlum ríkjum að sætta sig við þessa innbyggðu veikleika. Ef þeir horfast ekki í augu við þá, munu þeir ekki grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr þeim,“ segir Baldur.

Skjólkenningin sem Baldur nefnir kveður á um að smáríki þurfi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól til að koma í veg fyrir áföll eins og efnahagshrun og netárásir. Ef smáríki verði hins vegar fyrir efnahagsáfalli eða netárás, þurfi það að geta leitað aðstoðar þegar í stað. Í þriðja lagi þurfi smáríkið líka að geta fengið aðstoð við uppbyggingu eftir slíkt áfall.

„Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist.“

Höfðum við þetta fyrir síðasta hrun?
„Nei, við höfðum það ekki og við höfum það ekki heldur í dag,“ segir Baldur og nefnir sem dæmi möguleikana ef nýtt efnahagslegt áfall ríður yfir með gjaldþroti annars stóra íslenska flugfélagsins eða mögulega beggja með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahag landsins og lífskjör fólks. Utanaðkomandi stuðningur gæti dempað þau áhrif. „Við höfum engan til að leita eftir aðstoð hjá, frekar en fyrir áratug, nema þá aftur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ segir hann.

Í bók Baldurs eru í samræmi við þetta skoðuð tengsl Íslands við Bandaríkin, Norðurlöndin, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, aðildina að EFTA, EES og Schengen. Jafnframt er skoðað hvar hugsanlegt sé að finna skjól fyrir Ísland í framtíðinni og rýnt í efnahagslega, pólitíska og félagslega þætti.

Baldur segir Bandaríkin hafa um árabil veitt Íslandi skjól, jafnt í efnahagsþrengingum sem milliríkjadeilum. Íslendingar hefðu líklega ekki unnið þorskastríðin nema vegna diplómatísks stuðnings Bandaríkjanna. Með brotthvarfi Varnarliðsins árið 2006 var ljóst að skjólið var ekki vestra lengur. Það kom líka í ljós í efnahagshruninu.

Félagslegt skjól hefur verið að finna á hinum Norðurlöndunum og leita Íslendingar enn þar eftir fyrirmyndum og samstarfi við helstu stofnanir. „Aðildinni að EES fylgir líka umtalsvert félagslegt skjól og er það verulega vanmetið, að okkar mati. Íslenskt vísindasamfélag væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki aðgang að samstarfsneti erlendra fræðimanna og styrkfénu sem fæst með Evrópusamvinnunni. Aðgangur að menntastofnunum í Evrópu er lykillinn að framþróun íslensks samfélags,” segir Baldur.

Að mati Baldurs felst umtalsvert efnahagslegt skjól í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. „Þar erum við hluti af stærri markaði. Við erum með löggjöf sem hefur stóraukið samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, aukið hagvöxt, auðveldað útflutning og bætt lífskjör í landinu. Til viðbótar skipti sameiginlegur vinnumarkaður á EES-svæðinu öllu máli. Flæði vinnuafls til og frá landinu dempar áhrif þeirra efnahagssveifla sem lítil hagkerfi lenda í,“ segir hann en bætir við að á sama tíma veiti EES-samningurinn okkur falskt öryggi. Ísland sé ekki meðlimur í klúbbnum, ekki innan ESB.
„Aðild að EES veitir ekki efnahagslega aðstoð til að fyrirbyggja hrun, stuðning þegar hrun dynur yfir og hjálp við uppbyggingu. Það sást best í hruninu fyrir tíu árum,“ segir Baldur.

Kjarabætur – allra hagur

Höfundur: Kolbeinn Óttarsson Proppé

Félög launafólks hafa nú mörg hver birt kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga. Af þeim má ljóst vera að ærið verkefni bíður samningsaðila; verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ljóst er að metnaður forystufólks verkalýðsfélaga er mikill fyrir hönd umbjóðenda sinna og fyrir það ber að hrósa, sem og þann mikla baráttuanda sem ríkir innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að við höfum öll færi á að lifa mannsæmandi lífi á laununum okkar.

Hafandi fylgst með þjóðmálum ansi lengi þykist ég greina annan tón í forsvarsmönnum atvinnurekenda. Mér finnst þeir opnari fyrir ýmsu sem áður hefur verið talið útilokað og vonast til þess að þetta gefi góðan tón fyrir samningana. Oftar en ekki hefur ferlið í kjarasamningum verið þannig að verkalýðshreyfingin setur fram kröfur sínar, atvinnurekendur loka á þær allar og síðan sest fólk að samningaborði.

Ríkisstjórnin tók strax aðra stefnu hvað vinnumarkaðinn varðar en lengi hafði verið við lýði. Fundað var með aðilum í stjórnarmyndunarviðræðum og eftir stofnun ríkisstjórnar hafa verið haldnir tíu fundir. Nokkrum verkefnum er lokið, hækkun atvinnuleysistrygginga, hækkun hámarksgreiðslna Ábyrgðarsjóðs launa og niðurlagning kjararáðs, en fjölmörg eru enn í skoðun. Þar má nefna hagsveifluleiðrétt atvinnuleysistryggingagjald, úttekt á Fræðslusjóði, starfshóp um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga, tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar og ýmislegt fleira.

Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt að unnið sé að ýmsum málum sem eiga eftir að koma launafólki – og raunar samfélaginu öllu – vel. Til dæmis breytingar í skattkerfinu, lækkun á tryggingagjaldi og það hvernig skattbyrði verður best létt af tekjulæsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þá er ljóst að taka verður rækilega til hendinni í húsnæðismálum.

Kjarasamningar eru hins vegar á milli launafólks og atvinnurekenda. Ríkið kemur að sumum þeirra sem launagreiðandi, en slíku er ekki að heilsa á almenna markaðnum. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er fyrst og fremst að semja um kaup og kjör félagsmanna. Það er ekki í hennar höndum að taka ákvarðanir sem er okkar alþingismanna að taka sem handhafa löggjafavaldsins. Að sjálfsögðu er eðlilegt og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin komi skoðunum sínum á umbótum á framfæri, en þær geta aldrei orðið krafa á stjórnvöld.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að greiða fyrir málum og hún hefur þegar sýnt það í öllum sínum gjörðum að svo er, bæði með samráði og þeim verkefnum sem hér hafa verið talin upp. Fyrstu skref í skattkerfisbreytingum sem birtust í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár eru í anda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að þær gagnist best tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þar er verið að hækka barnabætur svo um munar, hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu og samræma viðmiðunarfjárhæðir í skattkerfinu þannig að neðri og efri mörk þróist með sambærilegum hætti.

Það verður áhugavert að sjá hvernig aðilum kjaraviðræðna tekst að nálgast hver annan. Íslenskt samfélag er ríkt að verðmætum og við ættum öll að geta haft það býsna gott. Það er von mín að kjarasamningar skili raunverulegum kjarabótum og bæti líf og kjör þeirra sem svo sannarlega þurfa á því að halda. Það á að vera metnaðarmál okkar allra að fólk fái vel greitt fyrir störf sín og að lífskjör batni.

Segja „stórundarlegt költ“ stjórna hamingjuísbúð

|
|

Tveir fyrrum starfsmenn kaffihúsins og ísbúðarinnar Joylato við Njálsgötu 1, báðir erlendir ríkisborgarar, segja farir sínar ekki sléttar í samtali við blaðamann Mannlífs. Þeir segjast ekki hafa fengið laun samkvæmt kjarasamningum og annar þeirra fékk aðeins stöku vasapeninga úr sjóðsvél verslunarinnar. Þá hafi rekstraraðilar þrýst á starfsmennina um að stunda hugleiðslu og skírlífi.

Verslunin tengist Sri Chinmoy-hreyfingunni á Íslandi en hún var stofnuð í janúar 1974 og byggir á heimspeki andlega leiðtogans Sri Chinmoy. Hann setti m.a. á fót heimseiningarfriðarhlaupið árið 1987. Á vegum miðstöðvarinnar er stunduð hugleiðsla og starfrækt Sri Chinmoy-maraþonið sem árlega stendur fyrir 5 km hlaupi. Myndir / Unnur Magna

Starfsmennirnir segja jafnframt að flest starfsfólk fyrirtækisins komi víðs vegar að úr heiminum og tilheyri alþjóðahreyfingu Sri Chinmoy og fái aðeins greidda vasapeninga. „Þetta er eins og eitthvað stórundarlegt költ, og fólkið kallar sig lærisveina Sri Chinmoy,“ segir annar tveggja viðmælenda Mannlífs, kona á þrítugsaldri.

Konan sem starfaði hjá fyrirtækinu árið 2016 segist hafa fengið vinnuna fyrir tilviljun. Hún var ekki með íslenska kennitölu og þar af leiðandi ekki bankareikning heldur. Hún segir yfirmann sinn hafa lofað að aðstoða hana við að leysa úr því „Ég fékk starfsþjálfun hjá einum lærisveininum en eftir aðeins tvær vikur í starfi þurfti eigandinn að fara til útlanda og fól mér að bera ábyrgð á rekstrinum á meðan. Ég sá um að panta vörur, sjá um uppgjör og mannaráðningar. Eigandinn var nánast aldrei við,“ segir hún.

Konan segist hafa samið um 1500 kr. í tímakaup en það hafi síðan hækkað upp í 1750 kr. þegar ábyrgð hennar jókst. Hún hafi hins vegar lítið fengið af þessum launum, og aldrei launaseðla. „Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“

Segja skírlífi skilyrði
Þegar þarna var komið sögu var konan á hrakhólum með húsnæði og hafði ekki efni á húsaleigu. Hún var þá nýbúin að ráða landa sinn og kunningja, karlmann á þrítugsaldri. Hann leigði litla íbúð og skaut skjólshúsi yfir konuna. Maðurinn hefur svipaða sögu að segja. „Lærisveinarnir þurftu að vakna fyrir klukkan sex, hlaupa daglega, hugleiða í hugleiðslustöðinni og einu sinni á dag þurfti fólkið að biðja eða hugleiða við mynd af Sri Chinmoy. Kynlíf og náin sambönd voru bönnuð og ég mátti t.d. ekki vera einn í eldhúsinu með konu,“ segir hann og bætir við að þau hafi heldur ekki mátt hlusta á aðra tónlist en frá Sri Chinmoy.

„Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“

„Skattinum hafði aldrei verið skilað“
Starfsmennirnir fyrrverandi segjast hafa fundið fyrir miklum þrýstingi að ganga til liðs við hreyfinguna. „Kona úr költinu talaði yfir hausamótunum á okkur í tvo tíma á dag um hversu frábært lífið væri innan hreyfingarinnar og eilíf hamingja. Hún hélt því meira að segja fram að alnæmi væri ekki til,“ útskýrir maðurinn, sem er samkynhneigður og segist hafa orðið fyrir stöðugu aðkasti vegna þess. Hann segist einnig eiga inni laun hjá fyrirtækinu. „Ég fékk seint og illa borgað, engin yfirvinna var greidd þrátt fyrir að hafa unnið allt að 12-14 tíma á dag. Það mesta sem ég fékk greitt fyrir einn mánuð voru 176 þúsund. Ég gerði ráð fyrir því að afgangurinn færi í skatt en þegar ég fyllti út skattaskýrsluna mína tók ég eftir því að skattinum hafði aldrei verið skilað.“

Fólkið leitaði á skrifstofu Eflingar stéttarfélags ásamt þriðja aðila á sínum tíma en þá var ekkert hægt að gera fyrir þau þar sem þau voru hvorki með launaseðla né ráðningasamninga.
Mannlíf skoðaði ársreikninga þriggja félaga sem tengjast rekstri eiganda ísbúðarinnar, Rúnari Páli Gígja, en fjórða félagið var stofnað í ágúst á þessu ári og því liggja fjárhagsupplýsingar þess ekki fyrir. Félagið Segðu minna gerðu meira ehf., sem annar viðmælandi segist hafa fengið greidd laun frá, skilaði tekjum upp á 20 milljónir króna árið 2016 og var hagnaður þess ein og hálf milljón. Launagjöld þess námu 4,5 milljónum króna sem samsvara árslaunum eins starfsmanns. Það félag sem ber sama nafn og ísbúðin, Joylato ehf., tapaði 12 milljónum króna árið 2016 og var eigið fé þess neikvætt um 15 milljónir. Þar kemur fram að útgjöld vegna launa námu 3 milljónum. Þriðja félagið heitir svo Fasteignafélag MVB, áður Mamma veit best, en samkvæmt ársreikningi fer engin starfsemi þar fram.

Ekki náðist í Rúnar Pál við vinnslu fréttarinnar en Tara Jensdóttir, framkvæmdastjóri Mamma veit best, vísar ásökunum starfsmannanna fyrrverandi á bug. Sagði hún að allir starfsmenn væru á launaskrá og að svo hefði alltaf verið. Aðspurð út í ofangreinda ársreikninga þar sem launakostnaður er hverfandi sagði hún að um allt annan rekstur væri að ræða en í dag og að þessi félög væru hætt rekstri.

Efling mætti á staðinn
María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur ASÍ í vinnustaðaeftirliti, staðfestir í samtali við Mannlíf að ábendingar hafi borist varðandi ísbúðina Joylato og heilsuvöruverslunina Mamma veit best og að farið hafi verið í eftirlit í fyrirtækin.

„Ábendingarnar snúast aðallega um að þarna sé reglulega ráðið inn fólk erlendis frá, fólk sem ætti í raun að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi en það komi á ferðamannapassa og í einu tilfelli kom starfsmaður á námsmannapassa. Málið er til skoðunar hjá Eflingu,“ útskýrir María Lóa.

Hjá Eflingu fengust þau svör að fulltrúar á þeirra vegum hafi farið í eftirlit í umrædd fyrirtæki fyrir um mánuði síðan. „Ég var með í fyrsta eftirlitinu sem þarna fór fram og það var sláandi að starfsfólkið virtist ekkert meðvitað um sín réttindi,“ segir María Lóa og bætir við að stéttarfélögin séu háð því að fólk leiti til þeirra eftir leiðréttingu. „Stéttarfélagið hefur ekki heimild til að fara af stað með slík mál að eigin frumkvæði.“

Starfsfólk fékk uppfræðslu og bæklinga um sín réttindi og kjör þegar eftirlitsaðilar létu sjá sig og var fólkið hvatt til þess að leita til stéttarfélagsins til að fá leiðréttingu ef það teldi á sér brotið.
María Lóa nefnir sérstaklega eitt atriði sem henni þykir alvarlegt: „Við fengum ábendingu um a.m.k. eina manneskju sem kom til landsins til að vinna hjá þessum aðilum, væntanlega á ferðamannapassa; vann í ákveðinn tíma og fór svo aftur til baka. Hún ætti vitanlega að fá íslenska kennitölu og borga skatta og gjöld hér á landi,“ segir hún og bætir við að það sé orðin vinnuregla í svona tilvikum að skattayfirvöldum og Vinnumálastofnun sé gert viðvart.

„Hér birtist fólki nýr heimur“

||||||
||||||

Verslunin Nexus hefur starfað í einni eða annarri mynd síðan árið 1992 og hefur til sölu myndasögur, spil, bækur, leikföng, DVD-myndir, veggspjöld og fleira sem tengja má við nördisma. Verslunin flutti nýlega starfsemina í kjallarann í Glæsibæ, þar sem Útilíf var um árabil, og jók umfang sitt um helming auk þess sem gríðarstór spilasalur verður á staðnum. Við hittum fjóra starfsmenn Nexus til að fá innsýn í starfið og áhugasvið þeirra.

Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir hefur starfað í Nexus í bráðum ár og sérhæfir sig í spilum, kvikmyndum, bókum og gjafavöru. Mynd / Unnur Magna
Jubilee úr X-mönnum.

Safnar Harry Potter-bókum á mismunandi tungumálum
Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir hefur starfað í Nexus í bráðum ár og sérhæfir sig í borðspilum, bókum, kvikmyndum og gjafavöru. „Mitt fyrsta áhugamál innan nördismans voru Harry Potter og aðrar fantasíubækur. Síðan hafa spilin komið inn með árunum því það er svo gaman að geta hitt annað fullorðið fólk og leikið sér,“ segir Bryndís. „Ég safna bæði borðspilum og Harry Potter-bókum sem hafa verið gefnar út um heim allan á ýmsum tungumálum. Þær hafa allar sinn sjarma, eru með mismunandi forsíðum og stundum er ólíkum skreytingum bætt við inn í bækurnar. Sem áhugakonu um Harry Potter og þýðanda finnst mér þetta mjög áhugavert, ekki síst menningarlega séð.“
Eigandi Nexus er Gísli Einarsson og verslunin hefur sérstöðu á heimsvísu þegar litið er til úrvals. „Oft eru svona verslanir á erlendri grundu minni og sérhæfðari en hér er lagt upp úr miklu og fjölbreyttu úrvali,“ heldur Bryndís áfram. „Það er líka ákveðin upplifun að koma í Nexus, handleika vöruna og fá persónulega þjónustu frá fólki sem gjörþekkir efniviðinn. Hér er alltaf kósí stemning og mér finnst mest spennandi að fylgjast með unglingunum, sérstaklega þeim sem búa úti á landi. Hér birtist þeim nýr heimur.“

Aðspurð segir hún að nördismi sé sannarlega kominn í tísku. „Krakkar eru farnir að uppgötva að þeir þurfi ekki að spila handbolta, að þau geta átt allskyns önnur áhugamál. Það er mikil aukning í hlutverkaspilum, alltaf nýtt fólk að detta inn í Dungeons and Dragons. Borðspil eru góð til að halda vinahópum saman, ekki síst þegar fólk er búið að eignast krakka. Þá er hægt að bjóða fólki heim og eiga góða kvöldstund yfir spili – þarf ekki að vera á einhverju fylleríi.“

Hlín Hrannarsdóttir safnar teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og D&D-teningum. Mynd / Unnur Magna

Á leið á tölvuleikjaráðstefnu
Hlín Hrannarsdóttir er sérfræðingur í teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og almennum poppkúltúr og hefur unnið í Nexus í bráðum tvö ár. Hún safnar teiknimyndasögum, hlutverkaspilum og D&D-teningum. „Þessir teningar eru notaðir í hlutverkaspilum eins og Dungeons and Dragons þar sem teningunum er kastað og í kortaspilum eins og Magic: The Gathering en þá er engum teningum kastað en tuttugu-hliðateningurinn notaður fyrir líf. Byrjar í 20 lífum og svo skiptir þú honum á lægri tölu þegar þú missir líf. Hinir teningarnir eru þá notaðir sem karakterar úti á vellinum.“
Hlín var með bás á Midgard, fyrstu alhliða nördaráðstefnunni sem haldin hefur verið á Íslandi, í september síðastliðnum. „Hún var vel heppnuð og náði að flytja anda Nexus út til fólksins. Svo hef ég farið á keppnina NCC, Nordic Cosplay Championship í Svíþjóð sem er haldin árlega. Þar keppa Norðurlöndin sín á milli um bestu búningana sem fólk býr til út frá karakterum úr tölvuleikjum, teiknimyndum og þáttum. Þessi keppni er sýnd í ríkissjónvarpi Svíþjóðar auk Noregs og Danmerkur. Hún er ekki sýnd hér á landi enda hefur Ísland sjaldan tekið þátt. Eftir nokkra daga fer ég svo á Blizzcon-tölvuleikjaráðstefnu í LA,“ segir Hlín.

Óskar Árnason segir að með komu Facebook hafi nördinn fengið uppreista æru þar sem myndast hafi aðgengilegur vettvangur fyrir þennan hóp til að tala saman. Mynd / Unnur Magna

Elur upp efnilega nörda
Óskar Árnason er húsgagnasmiður að mennt og starfar sem vélamaður á fræsara hjá Fást efh. sem sér um hönnun, sölu og framleiðslu á plexígleri og vélaplasti. Aðra hverja helgi starfar Óskar hins vegar í Nexus og er sérfræðingur í borðspilum. „Uppáhaldsspilið mitt þessa dagana er Brass sem er hagfræðispil –taktískt kortadrifið iðnaðar- og uppbyggingarspil. Það fangar ákveðið tímabil í sögu Bretlands og snýst meðal annars um hvort menn ætli að lifa á vöxtum eða taka lán,“ segir Óskar og hans uppáhaldsviðskiptavinir eru fólk sem búið er að spila einföldu spilin og er að detta í aðeins flóknari borðspil. „Það er gaman að útskýra og kynna spilin fyrir þeim sem eru tilbúnir að læra eitthvað djúsí.“
Óskar segir að með komu Facebook hafi nördinn fengið virðingu en þar hafi myndast aðgengilegur vettvangur fyrir þennan hóp til að tala saman í stað þess að fólk væri hvert í sínu lagi. Eftir að hann stofnaði Borðspilaspjallið hafa 1000 manns bæst í hópinn. Óskar á tvo syni, fjögurra og sjö ára, og hann segir að þeir séu efnilegir nördar. „Eldri var að horfa á Lord of the Rings í fyrsta sinn, er búinn með Hobbita-myndirnar og svo er legið yfir Star Wars. Við fjölskyldan söfnum svo öll Pop-fígúrum, strákarnir safna Star Wars, konan mín safnar Harry Potter og ég gríp einn og einn inn á milli úr myndasögum og bókum,“ segir Óskar sem er á leiðinni á Essen Spiel-spilaráðstefnu í Þýskalandi ásamt þremur öðrum starfsmönnum úr Nexus. „Ég fór líka í fyrra og ráðstefnan er stærst sinnar tegundar í heiminum. Þarna er bara fjallað um spil, af hundruðum útgefenda og spilin um 1200 talsins.“

Lords of Waterdeep er spilið sem kveikti áhuga Magnúsar Gunnlaugssonar á borðspilum og hann er búinn að kenna það tugum einstaklinga. Mynd / Unnur Magna

Fylgist með tölvuleikjakeppnum
Magnús Gunnlaugsson hóf að selja borðspil hjá Nexus fyrir ári en ástríða hans á borðspilum byrjaði fyrir sjö árum. „Þá komst ég á fleygiferð í þetta eftir að hafa spilað klassíkina Catan eins og svo margir aðrir. Svo datt ég niður á þætti á YouTube sem heita TableTop með Wil Wheaton, sem margir þekkja kannski úr Star Trek-þáttunum, en hann er erkinörd og í gegnum þessa þætti kynntist ég fleiri borðspilum. Ég er gæinn í vinahópnum sem á öll spilin og undirbý spilakvöldin sem haldin eru tvisvar til þrisvar í viku. Spilin sem hafa hvað mest lent á borðinu að undanförnu eru Pandemic Legacy, Arkam Horror Card Game, T.I.M.E Stories og Star Wars Destiny. Uppáhaldsspilið mitt er hins vegar Lords of Waterdeep en það er spilið sem kveikti áhuga minn á þessu áhugamáli og ég er búinn að kenna það tugum einstaklinga,“ segir Magnús.

Jon Snow úr Game of Thrones.

Hann safnar Overwatch pop-fígúrunum en það er sá tölvuleikur sem hann spilar hvað mest í dag. „Persónurnar í leiknum eru fjölbreyttar og leikurinn er hraður og skemmtilegur. Ég er ekki mikill safnari í mér en finnst þessar fígúrur flottar og á þær allar nema eina sem er orðin ófáanleg, Soldier 76. Þetta geta orðið verðmætar safnvörur þegar fram líða stundir. Minn uppáhalds heitir Zenyatta, vélmennamunkurinn sem gætur bæði læknað samherja og deilt út skaða á andstæðinga.“
Fylgist þú með heimsmeistarakeppninni í tölvuleiknum Overwatch? „Já, ég fylgist bæði með Overwatch World Cup og Overwatch Legue þar sem ég held með liðinu Houston Outlaws. Þetta eru spennandi keppnir og ég fylgist með í beinni útsendingu gegnum Netið á síðu sem heitir Twitch,“ segir Magnús.

Þróar sjóræningjaseríu í Hollywood

|
|

Hollywood-framleiðandi vill gera sjónvarpsþætti byggða á handriti eftir fjölmiðlakonuna Kristínu Evu Þórhallsdóttur. Handritið fjallar um herskáan sjóræningja sem á í útistöðum við franska aðalinn á 14. öld.

„Þetta er viss staðfesting á því að hugmyndin sé góð og náttúrlega hvatnig til að halda áfram,“ segir Kristín Eva glöð þegar hún er spurð að því hvernig tilfinning það sé að stórframleiðandinn Anders Tangen sem á meðal annars að baki hina vinsælu þætti Lillehammer og Norsemenn, hafi í hyggju að gera sjónvarpsseríu eftir handritinu The Lioness sem Kristín Eva skrifar í samvinnu við Margrethe Stang Lund.

Handritið fjallar um kvenkynssjóræningja sem á í útistöðum við franska aðalinn á 14. öld og er innblásið af raunverulegum atburðum sem Kristín Eva las sér til um þegar hún var að gera þátt um sjóræningja fyrir Leynifélagið á Rás 1. „Ég rakst á sögu kvenkynssjóræningja að nafni Jeanne de Clisson sem sigldi með eigin skipaflota um Ermarsundið í Hundrað ára stríðinu undir merkjum Ljónynjunnar af Bretaníu og réðst grimmilega á skip Filippusar VI. Frakklandskonungs til að hefna eiginmanns síns, Olivers, háttsetts manns í Bretaníu sem konungurinn hafði látið drepa í pólitískum tilgangi. Ég varð strax heilluð af þessari sögu þegar ég las hana og langaði að gera eitthvað við hana, en það var svo ekki fyrr en ég flutti með fjölskyldunni til Los Angeles fyrir nokkrum árum og kynntist þar Margarethe að hjólin fóru að snúast.“

„Ég varð strax heilluð af þessari sögu þegar ég las hana og langaði að gera eitthvað við hana, en það var svo ekki fyrr en ég flutti með fjölskyldunni til Los Angeles fyrir nokkrum árum og kynntist þar Margarethe að hjólin fóru að snúast.“

Ljónynjan af Bretaníu var sjóræningi sem sigldi um Ermarsundið í Hundrað ára stríðinu og réðst þar á skip franska aðalsins.

Kristín Eva sagði Margarethe frá sögunni og þær ákváðu að skrifa saman handrit upp úr henni, átta þátta seríu sem Kristín Eva segir hafa tekið tíma að vinna vegna þess hversu mikil heimildavinna liggi að baki verkinu. „Í heilt ár gerðum við Margarehe lítið annað en að liggja í sagnfræðibókum svo að við hefðum góða hugmynd um hvernig Frakkland og England hefðu verið á 14. öld. Við vildum ekki byrja að skrifa fyrr en við þekktum vel sögusviðið og helstu leikendur og þurftum að kynna okkur allt frá stórum sögulegum atburðum til minnstu smáatriða í hversdagslífi fólks til að draga upp raunsæja mynd af þessum tíma.“

Hún segir að það hafi ekki síður verið áskorun að skrifa sögu aðalsöguhetjunnar, Jeanne de Clisson, vegna þess hversu lítið er raunverulega vitað um hana. „Það eru litlar sem engar heimildir til um Jeanne en þó nægar til að við Margarethe gætum fyllt í eyðurnar. Það má segja að það hafi gefið okkur visst listrænt frelsi.“

Framleiðandanum Tangen leist svo vel á handritið að ekki er nóg með að hann langi til að gera þáttaseríu eftir því heldur hefur hann lofað það í hástert í erlendum fjölmiðlum, meðal annars fyrir hinn pólitíska þátt sögunnar sem hann segir vera skírskotun til samtímans og sterka persónusköpun sem hann þykist viss um að muni laða þekkta leikarara að verkefninu. En hvenær reiknar Kristín Eva eiginlega með að þættirnir fari í framleiðslu? „Það er enn langt í það,“ segir hún róleg. „Það getur tekið nokkur ár að koma svona stórverkefni á koppinn,“ bætir hún við til útskýringar. „Þannig að þetta er enn allt á byrjunarstigi.“

Ábyrgur gerða sinna

Ein af grunnstoðum lýðræðis er að menn séu ábyrgir gerða sinna. Þeir sameinist um að setja lög og fara eftir þeim. Í nýjum frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra er vegið að einum stólpa þessa óskrifaða samkomulags. Þar er nefnilega gert ráð fyrir að dómar og úrskurðir héraðsdómstóla sem varða viðkvæm persónuleg málefni verði ekki birtir. Menn sem gerast sekir um kynferðisbrot, ofbeldi gagnvart sínum nánustu, kaup á vændi, fá á sig nálgunarbann og fleira verða því hvergi nefndir á nafn.

Tilgangur dómsmálaráðherra er, að sögn, að tryggja persónuvernd í viðkvæmustu málum og ekki bara forðast að nefna nöfn heldur líka að búa svo um hnúta að ekki verði hægt að þekkja menn af atvikalýsingum eða öðrum atriðum. Ráðherra vill því birta útdrátt úr niðurstöðum dómara á æðri dómstigum. Hingað til hafa Landsréttur og Hæstiréttur birt dóma sína að fullu og nöfn sakaraðila verið tilgreind í þeim. Í umræðunni hefur komið fram að verið sé að vernda þolendur og aðra er málunum tengjast með þessu móti, t.d. að unglingar eða börn sem brotið hafi verið á eigi ekki að þurfa að þola að um aldur og ævi sé hægt að fletta upp nöfnum þeirra og sjá hvað ofbeldismaðurinn gerði og þar fylgi umsagnir um andlega heilsu og jafnvel líkamstjón. Sömuleiðis að birtar séu viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um fatlaða brotaþola. Þessi sjónarmið eru skiljanleg en eiga þau að eiga við um brotamanninn?

Þess vegna er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að verið sé að ganga of langt. Á almenningur ekki rétt á verja sig? Obeldismenn, einkum þeir sem beita kynbundnu ofbeldi, skilja iðulega eftir sig slóð þolenda. Til dæmis er velþekkt að barnaníðingar sækist eftir störfum þar sem þeir vinna með eða í samneyti við börn. Mögulegt er að nýja frumvarpið geri vinnuveitendum erfiðara fyrir að grennslast fyrir um hvort umsækjendum í störf á því sviði sé treystandi. Í skjóli nafnleyndar geta ofbeldismenn einnig falið slóð sína jafnvel þótt á þeim hvíli nálgunarbann. Sömuleiðis eru veigalítil rök fyrir að hafa nafnleynd í vændiskaupamálum af tilliti við aðstandendur, þar eru bara gerðir hins brotlega honum til vansa og aðrir bera ekki ábyrgð eða álitshnekki þess vegna. Við megum ekki gleyma að gerendur í kynferðisbrotamálum bera ábyrgðina og skömmina.

Þessi mikla hömlun á upplýsingagjöf frá dómstólum gerir fjölmiðlamönnum einnig erfiðara fyrir að fjalla um mál. Það er erfitt að flytja fréttir af sakamáli þegar atvikalýsingar vantar. Á Íslandi hafa fjölmiðlar farið mjög varlega í nafnbirtingum í sakamálum og hér er mun minna gert af því en úti í heimi. Flestir birta eingöngu nöfn eftir að dómur fellur og í alvarlegum málum þegar ætla má að það varði öryggi almennings. Útdráttur verndar því fyrst og fremst brotamanninn og gerir honum kleift að komast undan því að bera fulla ábyrgð á gerðum sínum. Er það vilji löggjafans?

Dekkri litir, stórar flísar og svört blöndunartæki heitast í dag

Flísaverslunin VÍDD hefur stækkað og bætt sýningarsali sína í Bæjarlind í Kópavogi og á Akureyri og fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri. Við heimsóttum Hafstein Árnason, sölu- og markaðstjóra VÍDDAR, og Jóhann Leplat Ágústsson sölumann og kynntum okkur það helsta sem í boði er í dag.

Hver eru helstu markmið ykkar og áherslur sem þjónustufyrirtækis? „Okkar markmið er að vera í fyrsta sæti hjá neytendum þegar þeir hugsa um flísar. Við leggjum áherslu á að bjóða mjög fjölbreytt úrval af flísum, af öllum stærðum og gerðum. Við reynum gjarnan að bjóða upp á vörur sem eru frábrugðnar þeim sem samkeppnisaðilar bjóða, til þess að skapa okkur ákveðna sérstöðu. Flestir starfsmenn fyrirtækisins hafa mikla reynslu af flísum og flísalögnum, þannig að við getum leiðbeint fólki af mikilli þekkingu.“

Risaflísarnar móðins í dag

Á undanförnum árum hafa stærðir 30×60 og 60×60 sentimetrar verið hvað algengastar í flísum. Í hverri vörulínu eru yfirleitt um fimm til sex mismunandi stærðir. „Núna sjáum við fram á að 45×90 og 75×75 sentimetra stærðirnar verði hagkvæmari kostur fyrir viðskiptavini, þar sem verð á þeim hefur farið lækkandi hjá birgjum. Okkar birgjar hafa einnig verið duglegir að kynna risastærðir inn á undanförnum árum, eins og 120×120 sentimetra og 120×240 sentimetra, bæði fyrir gólf og veggi, en frá og með árinu 2019 munum við kynna stærðina 120×278 sentimetra, í 6 millimetra þykktum fyrir veggi. Ástæðan fyrir lengdinni á þessum flísum er að reglugerðir fyrir lofthæð í íbúðum eru mismunandi eftir löndum, en hjá okkur á Íslandi eru það 250 sentimetrar en til dæmis 270 sentimetrar í öðrum löndum. Það þýðir að við getum útvegað flísar sem þekja veggina frá gólfi og alveg upp í loft,“ segja þeir Hafsteinn og Jóhann.

Undanfarið hafa stórar flísar verið vinsælar.

Flísahellur hafa notið vinsælda að undanförnu, hvar nýtast þær best? „Flísahellur eru í raun flísar í 2 cm. þykkt. Þær eru hugsaðar fyrir útilagnir, yfirleitt í garða, verandir eða á svalir. Það er hægt að líma þær niður eins og flísar, eða leggja beint í jarðveg eins og hellur, eða hafa þær á sérstökum stoðum fyrir svalir eða aðra steypta fleti. Þetta er ákveðin lausn sem gerir okkur kleift að vera með fallegt gólfefni á þessum svæðum, en um leið vera laus við vorverk sem tengjast illgresi og mosagróðri. Ef flísahellurnar eru settar á stoðirnar, þá loftar undir, ólíkt venjulegum hellum eða þessum algenga timburpanel, sem viðheldur bleytunni með tilheyrandi óþægindum. Þessi lausn hefur verið mjög vaxandi í Evrópu á undanförnum tíu árum, en er tiltölulega nýleg á Íslandi. Við höfum komið að ýmsum verkefnum og viðskiptavinir okkar eru gríðarlega ánægðir með útkomuna.“

Hver er vinsælasta varan ykkar í dag? „Vinsælustu vörurnar í dag eru ljósleitar, sementsútlítandi flísar fyrir baðherbergi, sem er yfirleitt það fyrsta sem fólki dettur í hug, þegar kemur að því að taka slík verkefni. Hinsvegar höfum við orðið vör við að trendin séu pínulítið að breytast. Fólk er óhræddara núna við að velja dekkri liti fyrir baðherbergi, til dæmis milligráa. Innréttingarnar eru einnig að breytast og það er kominn meiri karakter í þetta. Svört blöndunartæki eru til dæmis eitthvað sem við sjáum víða, hvort sem það er í efni hjá okkar birgjum, en einnig það sem er að gerast í nágrannalöndunum í kringum okkur. Marmaraflísar hafa líka verið í stöðugri sókn. Það hefur einnig endurspeglast í fjölda útlitstegunda sem við höfum verið að bæta við hjá okkur.“

Í samstarfi við VÍDD

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

 

 

 

Mikilvægt að auka hlut kvenna í atvinnulífinu

Félag kvenna í atvinnulífinu ásamt samstarfsaðilum standa að ráðstefnu þann 31. október næstkomandi sem ber heitið Rétt upp hönd og er ráðstefna Jafnvægisvogarinnar. Mannlíf heimsótti Björk Baldvinsdóttur, sviðstjóra sölu- og viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu Dagar, í tilefni þess og spurði hana spjörunum úr um hennar áherslur og fyrirtækisins. En fyrirtækið Dagar hefur svo sannarlega lagt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að jafnlaunavottun.

Björk Baldvinsdóttir hefur starfað hjá Dögum síðan árið 2000, lengst af sem sölu- og markaðsstjóri en síðastliðin fimm ár sem sviðsstjóri sölu- og viðskiptaþróunar. Hún er í stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Segðu okkur aðeins frá fyrirtækinu Dagar og helstu markmiðum fyrirtækisins? „Markmið Daga er að vera fremsta þjónustufyrirtæki á landinum en fyrirtækið er leiðandi í fasteignaumsjón og býður upp á fjölbreytta þjónustu til fyrirtækja, samanber ræstingar, veitingaþjónustu og fasteignaumsjón,“ segir Björk og er stolt af sínu fyrirtæki. „Okkar markmið er að velja ávallt hæfasta fólkið í öll störf en að hafa að leiðarljósi að árangur fyrirtækisins byggist á fjölbreytileika í stjórnun.“

Eitt þriggja fyrstu fyrirtækjanna til að hljóta jafnlaunavottun VR

Þið eruð þegar komin með jafnlaunavottun VR, er það ekki rétt? „Við vorum eitt þriggja fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun VR og er fyrirtækið með jafnlaunastaðalinn IST 85:2012,“ segir Björk. Hjá Dögum starfa 800 manns og eru 75% konur. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn er 33%,  í framkvæmdaráði  37% en sem millistjórnendur eru konur í meirihluta, eða 88%.

Erlendu millistjórnendurnir góðar fyrirmyndir

Hafa stjórnendur hjá ykkur viljað taka raunveruleg skref til að auka jafnrétti í atvinnulífinu? „Já, stjórnendur Daga hafa ávallt lagt áherslu á að gefa starfsfólki tækifæri á að þróast innan fyrirtækisins og að taka að sér ábyrgðarmeiri störf. Stór hluti af okkar stjórnendum er starfsfólk sem hefur þróast innan fyrirtækisins og eru til dæmis millistjórnendur að langstærstum hluta konur, margar þeirra, bæði íslenskar og erlendar, hafa unnið sig upp. Þær erlendu hafa náð góðum tökum á íslenskunni og  standa sig virkilega vel í starfi. Erlendu millistjórnendurnir eru góðar fyrirmyndir fyrir sína samlanda. Við erum ákaflega stolt af okkar starfsfólki, sama hvaðan það kemur.“

Aðeins 11% kvenna eru forstjórar

Finnst þér þörf á því að auka hlut kvenna í framkvæmdastjórn fyrirtækja á Íslandi? „Já, mikilvægt er að auka hlut kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Það þarf fjölbreytta liðsheild til að stýra fyrirtækjum. Það er áhyggjuefni þegar horft er til þess að 67% útskrifaðra háskólanema séu konur að aðeins 11% kvenna séu forstjórar. Þrátt fyrir að árangur hafi náðst í þessari vegferð er mikið verk fram undan. Markmiðið er ávallt að efla íslenskt atvinnulíf og er Jafnvægisvogin átak í því.“

Af hverju þarf fjölbreytta liðsheild til að stýra fyrirtækjum, er munur á því að vera með karl- og kvenstjórnendur? „Það fer alltaf eftir einstaklingnum en mikilvægt er að gildi og viðhorf beggja kynja komi fram í stjórnun fyrirtækja.  Ásamt því skiptir líka miklu máli samsetning hvað varðar aldur, þekkingu og hæfni.“

Gullna brosið

Hjá ykkur eru í boði fjölbreytt störf og mikilvægi þeirra ekki oft á allra vörum. Hvernig er hægt að breyta því og koma skilaboðum til samfélagsins um mikilvægið og laða fólk að í þessi mikilvægu störf? „Í umræðunni fer oft lítið fyrir hvað þessi störf eru mikilvæg, samanber ræsting. Þessi störf ættu að vera meira metin en almennt er. Til að mynda má benda á að ef stofnanir, eins og heilbrigðisstofnanir, leikskólar og skólar eru ekki ræst í einhverja daga þá er þeim lokað með öllum þeim óþægindum fyrir samfélagið sem því fylgir. Ræstingarstarfið er mikilvægt og við reynum að benda okkar starfsfólki á að það beri mikla ábyrgð og það sé mikilvægur hlekkur í keðjunni.

Í hverjum mánuði veitum við viðurkenningu fyrir vel unnin störf, Gullna brosið, sem er þakklæti til starfsmanns fyrir framúrskarandi störf. Við gerum þetta í samstarfi við viðskiptavini okkar og fáum þannig skemmtilegt tækifæri til að koma hrósi til þeirra starfsmanna. Viðskiptavinir okkar benda á góð verk og tilnefna starfsmenn. Við vitum að jákvæð endurgjöf eykur traust og sjálfstæði í starfi sem leiðir aftur til aukinnar starfsgleði og góðra samskipta.“

Í samstarfi við Daga
Myndir/ Úr safni Daga

 

Brautryðjendur í að öðlast jafnlaunavottun

Í tilefni þess að fram undan er ráðstefnan Rétt upp hönd, sem Félag kvenna í atvinnulífinu ásamt samstarfsaðilum standa fyrir 31. október næstkomandi heimsóttum við Auði Þórhallsdóttur, sviðsstjóra mannauðsmála hjá VIRK. Okkur lék forvitni á að vita meira um starfsemina og drifkraftinn innan fyrirtækisins sem nú þegar hefur öðlast jafnlaunavottun.

Segðu okkur aðeins frá aðdraganda og framkvæmdinni, leiðinni að því að fá jafnlaunavottunina. „Samkvæmt lögunum þarf starfsemi eins og VIRK, með 25 til 89 starfsmenn, ekki að ljúka jafnlaunavottunar fyrr en í árslok 2021. Við settum okkur strax það markmið að fá jafnlaunavottun ÍST 85:2012 eins fljótt og auðið væri eftir að lögin voru samþykkt, enda viljum við vera til fyrirmyndar í þessu sem og öðru.“ Auður segir að handtökin hafi verið hröð og verkefninu hafi strax verið hrundið úr vör. „Við vorum klók og pöntuðum úttekardag í mars 2018 um leið og við hófum vinnuna í nóvember 2017. Það setti á okkur ákveðna pressu og ekkert annað í boði en að „spýta í lófana“ og keyra þetta áfram. Í sannleika sagt hélt ég að þetta yrði ekki skemmtilegt verkefni en annað kom á daginn. Þegar vinnan var komin af stað var þetta bara þrælskemmtilegt og nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að fara í gegnum þetta mikla lærdómsferli.“

Í sannleika sagt hélt ég að þetta yrði ekki skemmtilegt verkefni en annað kom á daginn.

Kynbundinn launamunur 1,1% konum í hag

„Lokaúttekt var svo gerð af BSI á Íslandi þann 6. apríl síðastliðinn þar sem engin frábrigði fundust og útskýrður kynbundinn launamunur hjá VIRK var 1,1% konum í hag.  Fyrirtæki fá ekki vottun frá BSI nema kynbundinn launamunur sé undir 5%. Við erum verulega stolt af því að vera brautryðjendur í að öðlast jafnlaunavottun fyrir fyrirtæki af þessari stærðargráðu,“ segir Auður og er stolt af sínu fólki.

Metoo – byltingin hafði áhrif á gerð jafnréttisættisáætlunar

Það má með sanni segja að þið séuð komin með ágætis reynslu á því hvað jafnlaunavottun gerir fyrir mannauðsstjórnun í fyrirtækjum, þar sem þið eruð fyrsta fyrirtækið í þessum stærðarflokki sem fékk þessa vottun. Hverju skilar það ykkur í starfseminni? „Segja má að þar sem við vorum með ISO 9001-vottun fyrir þegar vinnan hófst, stóðum við betur að vígi en þau sem ekki eru með neina gæðavottun. Það þurfti að ráðast í að útbúa margar nýjar stefnur og endurnýja aðrar eldri. Einnig þurfti að endurnýja allar starfslýsingar, flokka störfin sem hér eru unnin og semja svo viðmið, ásamt undir- og yfirviðmiðum. Síðan þurfti að setja prósentur og stig á starfaviðmiðin og segja má að þessi þáttur sé sá flóknasti í vottunarferlinu en jafnramt afar mikilvægur. Það er einnig gott að í ferlinu þarf að útbúa jafnréttisáætlun sem Jafnréttisstofa samþykkir sérstaklega. Inni í þeirri áætlun er mjög margt sem til dæmis tengist Metoo-byltingunni og skiptir fyrirtæki miklu máli. Þar má nefna kortlagningu á því hvernig tekið er á málum þegar upp kemur áreiti eða annað slíkt . Ég myndi segja að fyrirtæki standi mjög vel eftir að fara í gegnum þetta ferli og ég hvet fleiri til að drífa í þessari vinnu.“

Ímynd og orðspor VIRK skiptir máli

„Okkur finnst mjög mikilvægt fyrir orðspor og ímynd VIRK að vera með jafnlaunavottun. Meginmarkmiðið er auðvitað að vinna gegn kynbundnum launamun, ég vil líka segja fjölmenningarlegum, og hver vill ekki vera þar? Það ætti að auka vellíðan starfsfólks að vita að faglegt og skýrt ferli sé á bak við ákvörðun launa hjá fyrirtækjum og þar séu gerðar úttekir reglulega af hálfu óháðs aðila, það er að segja vottunarstofu. Það gerir okkur vonandi líka að enn eftirsóknarverðari vinnustað. Vinnustaðamenning og líðan starfsfólks hjá VIRK skiptir okkur öllu máli og þar erum við stjórnendur mjög samstiga sem er svo frábært. Við mannauðsmælum einnig hjá okkur átta þætti annan hvern mánuð og þegar niðurstöður ligga fyrir leggjumst við stjórnendur yfir þær, allir sem einn!  Við greinum og leggjum okkur fram við að finna út hvað við getum gert betur. Við förum svo yfir þessar mælingar með starfsfólki og eigum samtal og fáum hugmyndir frá því hvað betur megi fara. Í heildina höfum við komið mjög vel út allt þetta ár, sem mikil ánægja er með.“

Meginmarkmiðið er auðvitað að vinna gegn kynbundnum launamun, ég vil líka segja fjölmenningarlegum, og hver vill ekki vera þar?

VIRK hástökkvari á milli ára

VIRK er eitt fimmtán fyrirtækja sem teljast til „Fyrirmyndarfyrirtækja“ í flokki meðalstórra fyrirtækja árið 2018, samkvæmt niðurstöðum könnunar VR en markmið hennar er að leita upplýsinga um viðhorf starfsfólks til vinnustaðar síns. Þar var VIRK hástökkvari milli ára í könnun VR og vænti Auður þess að einn þáttur í því sé að þau höfðu lokið jafnlaunavottuninni með glans. Telur þú að það skili árangri að veita viðurkenningar og draga fram í sviðsljósið fyrirtæki sem hafa ná markmiðum Jafnvægisvogarinnar? „Já, ég tel mjög jákvætt og hvetjandi að veita fyrirtækjum viðurkenningar fyrir metnaðarfulla og faglega starfsemi. Við erum mjög „keppnis“ hjá VIRK og fögnum því þegar við náum góðum viðurkenningum og settum markmiðum.“

Vilja fleiri karla til starfa

Getur þú aðeins sagt okkur frá starfsmannasamsetningunni hjá ykkur? Eru margar konur í stjórnunarstöðum? „Framkvæmdastjórinn okkar er kona og allir sviðsstjórar eru konur. Hjá VIRK eru fimmtíu starfsmenn og þar af eru aðeins fjórir karlar og við erum alls ekki sátt við þennan mikla kynjahalla. Það hefur gengið afskaplega treglega að fá karlmenn til að sækja um, eins og hér er frábært að starfa. Við höfum reynt að útbúa starfsauglýsingu með þeim hætti að karlar væru sérstaklega hvattir til að sækja um, sem skilaði því miður ekki árangri.  Sem dæmi get ég líka nefnt að nýverið auglýstum við eftir ráðgjafa og í fimmtíu manna umsóknarhópi var ekki einn einasti karlmaður. En við erum virkilega að berjast í því að fá karla til starfa hjá okkur sem uppfylla menntunar- og hæfnikröfur þeirra starfa sem auglýst eru.“

Mynd/ Aldís Pálsdóttir 

 

 

Elskar hús með gamla sál

Hrafnhildur Björk Baldursdóttir, stjórnmálafræðingur og löggiltur fasteigna-, fyrirtækja- og skipasali hjá 101 Reykjavík fasteignasölu, er mikill bókaormur og hannyrðakona sem hefur óbilandi áhuga á að reyna skilja hvers vegna við erum eins og við erum. Aðaláhugamál hennar síðustu ár hefur verið að afla sér þekkingar og reynslu um sálfræði, starfsemi heilans, taugalíffræði, lífefnafræði, næringu, núvitund og alls kyns hreyfingu.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Það er hversu fjölbreytt og lifandi það er. Það er frábær tilfinning að geta aðstoðað fólk við að skipta um húsnæði. Eins stressandi og margir sem standa í því ferli upplifa það, og við eins ólíkar aðstæður fólks sem við fasteignasalar eigum við, þá er ljúft að sjá þegar allir eru komnir á nýja staðinn, glaðir, ánægðir og þakklátir. Það heillar mig einnig hversu starfið er sveigjanlegt hvað varðar tíma og hvaðan maður vinnur, þau þrjú tól sem eru ómissandi eru síminn, tölvan og bíllinn. Og hversu mörgu góðu fólki maður kynnist og á samskipti við. Ég segi oft að um 90% af starfinu felist í mannlegum samskiptum.“

Það heillar mig einnig hversu starfið er sveigjanlegt hvað varðar tíma og hvaðan maður vinnur, þau þrjú tól sem eru ómissandi eru síminn, tölvan og bíllinn.

Getur lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Ég byrja daginn almennt á að lesa yfir tölvupóstinn, svara pósti og senda þau erindi sem ég þarf að senda frá mér. Svo er gott að nota fyrrihluta dags í gagnaöflun, ýmsa eftirfylgni og að skrá eignir. Seinnihlutinn getur svo verið alls konar, skoða eignir og veita seljendum ráðleggingar um söluferlið, vinna með tilboðsmál, alls konar símtöl, svara fyrirspurnum, benda fólki á eignir, sýna eignir og vera með opin hús. Ég vinn oft til sirka sjö á kvöldin og oft á sunnudögum en er nú markvisst að reyna að þjálfa mig í að svara ekki vinnutengdum símtölum eftir klukkan sjö á kvöldin en fólk getur treyst því að ég hringi til baka svari ég ekki símtalinu. Í þessu starfi er nauðsynlegt að reyna að skilja að vinnutímann og tímann sem maður sinnir einkalífinu þó svo að það hafi oft reynst mér nokkuð erfitt.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólk gerir heimili að heimili, í því felst fjölbreytileikinn.“

Geturðu lýst þínum stíl? „Hlýlegur. Ég hef losað mig við mikið af óþarfadóti á síðustu árum og er nú bara með hluti í kringum mig sem mér þykir á einhvern hátt vænt um, þykja fallegir og mér líður vel með að hafa í kringum mig.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Ég á engan uppáhaldsarkitekt.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Ég á engan uppáhaldshönnuð.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Eins og ég nefndi áðan hef ég meira verið í að reyna að losa mig við hluti en að fá mér nýja en mig hefur þó um tíma langað í málverk eftir Guðmundu Kristinsdóttur, í bláum tónum, og ullarflosteppi sem setu á kringlóttan koll, og einnig gólfmottu, eftir Þóru Björk Schram, líka í bláum tónum, og svo langar mig í húsamynd úr gamla bænum í Reykjavík, eftir Sigurð Sævar Magnúsarson.“

Ég hef losað mig við mikið af óþarfadóti á síðustu árum.

Uppáhaldsliturinn þinn? „Hvítur og alls konar bláir tónar og út í sægrænan í stofunni. Hvítt, ljósbleikt og dökkbleikt í eldhúsinu. Einhvern veginn hef ég laðast mikið að þessum litum en ég get ekki málað veggina í dökkum litum, það á ekki við mig. Hvað fatnað varðar þá er það aðallega svart, grátt, beige, blátt og aðeins út í græna tóna.“

Hvar líður þér best? „Mér líður best heima hjá mér. Heimilið er minn griðastaður.“

Hvað heillar þig mest við haustið? „Litirnir á gróðrinum. Litasamsetningarnar geta gjörsamlega töfrað mig upp úr skónum. Svo heillar myrkrið mig og það að geta kveikt á kertum.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Mér finnst Grandi mathöll svalur, þar hef ég fengið mjög góðan mat og finnst gaman að horfa út á höfnina. Ég vona að „mathallardæmið“ sé komið til að vera hér í borg.

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar? „Gömul hús fá hjarta mitt oft til að slá hraðar, ég elska hús með gamla sál. Mér finnst til dæmis mörg húsin í Þingholtunum, á svæðinu á milli Njarðargötu og Barónstígs upp að Eiríksgötu, auk Fjólu-, Sóleyjar- og Tjarnargötu vera dásamlega tignarleg og sjarmerandi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … „njóta stundarinnar hér og nú.“

Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

 

 

 

Eftirlit Íslendinga með peningaþvætti fær falleinkunn

Alþjóðlegur framkvæmdahópur hefur gert margháttaðar athugasemdir við eftirlit með peningaþvætti hérlendis og krafist úrbóta.

 

Í peningaþvætti felst að koma ólögmætum fjármunum í umferð með löglegum. Ýmsir þurfa að stunda slíka háttsemi, t.d. skipulagðir glæpahópar sem meðal annars selja fíkniefni eða stunda mansal á svörtum markaði. Þeir þurfa að þvætta rekstrarhagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raunheimum.

Skattsvikarar, þeir sem hafa framið auðgunarbrot og fólk sem hefur komið fjármunum undan réttmætum kröfuhöfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera peninganna sína sem eru illa fengnir, eða í raun eign annarra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur til að kaupa sér eignir.

Árum saman starfaði einn maður á peningaþvættisskrifstofu Íslands. Lítið sem ekkert frumkvæði var í að rannsaka mögulegt peningaþvætti á fjármagnshaftarárunum, sem stóðu yfir frá 2008 til vorsins 2017.

Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegur framkvæmdahópur sem hefur það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð, skilaði skýrslu um Ísland í apríl síðastliðnum. Þar fær peningaþvættiseftirlit Íslendinga falleinkunn. FATF hefur nú sett Íslandi úrslitakosti. Úrbætur þurfa að vera gerðar fyrir mitt næsta ár.

Ítarlega er fjallað er um peningaþvættiseftirlit Íslendinga í nýjasta Mannlífi. Fréttaskýringuna er hægt að lesa í heild sinn á vef Kjarnans.

Samþykki ekki leikreglur auðstéttarinnar

||
||

Sólveig Anna Jónsdóttir flosnaði fljótt upp úr námi, varð móðir ung að aldri, dvaldi átta ár í Bandaríkjunum þar sem hún sannfærðist endanlega um skaðsemi kapítalismans, sneri aftur beint í hrunið þar sem hún lék stórt hlutverk í búsáhaldabyltingunni og var láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í tíu ár áður en hún skyndilega stóð uppi með svo há laun að hún sá sig knúna til að lækka þau um 300 þúsund krónur.

„Ef við erum orðin svo klikkuð og svo langt leidd af firringu mannfjandsamlegrar hugmyndafræði að það er allt í einu orðið byltingarkennt að fólk geti lifað af dagvinnulaununum sínum og að skattkerfið verði mótað af þörfum þeirra sem raunverulega vinna vinnuna, þá hlýt ég að vera stolt af því að segjast vera byltingarmanneskja,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem í vor var kjörin formaður stéttarfélagsins Eflingar.  Hún er í fararbroddi nýrrar kynslóðar verkalýðsforingja sem þykja mun róttækari en þeir sem fyrir voru og þeir hafa hafa mikinn átakavetur á markaði verði ekki gengið að kröfum þeirra.

Brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum

Sólveig Anna segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fara úr því að hafa unnið láglaunastörf í áratug og vera skyndilega farin að stýra einu stærsta stéttarfélagi landsins. Bara það að vinna á skrifstofu hafi verið nýtt fyrir henni og fyrst um sinn hafi hún verið þjáð af svokölluðu svikaraheilkenni (e. impostor syndrome). „Ég er sem betur fer ekki þar lengur en ég vissi allan tímann að þetta yrði mjög erfitt og þess vegna var ég mjög hikandi við að láta slag standa. Allt sem ég gerði var ég að gera í fyrsta skipti. Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega. Á engum tímapunkti ímyndaði ég mér að þetta yrði auðvelt eða þægileg innivinna. Það er kannski vegna þess að ég dembi mér út í þetta af hugsjón frekar en hefðbundnari framadraumum og við slíkar kringumstæður er meira í húfi.“

„Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega.“

Formennskan er þó ekki óumdeild og nýverið greindi Morgunblaðið frá miklum átökum innan félagsins. Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson voru sökuð um að „stjórna með ofríki og hótunum“ og tveir starfsmenn sagðir hafa farið í veikindaleyfi vegna samskiptaörðugleika. Var jafnframt talað um óvinveitta yfirtöku á Eflingu. „Hann var mjög brjálæðislegur sá fréttaflutningur,“ svarar Sólveig Anna aðspurð og bætir við að í málum sem þessum sé erfitt að grípa til varna enda sé hún sem formaður bundin trúnaði við starfsfólk. Hún geti þó sagt að umfjöllunin gefi ekki rétta mynd af veruleikanum. „Það var pínku sjokkerandi. Þetta símtal sem ég átti við Agnesi Bragadóttur [blaðamann Morgunblaðsins], ég vissi alveg þegar því lauk að þetta yrði einhver hasar og partur af mér fór að hlæja því þetta var svo fáránlegt.“

Hún fellst þó á að það hafa komið upp ákveðnir samstarfsörðugleikar. „Þetta hefur ekki bara verið dans á rósum. Það hafa komið upp samstarfsörðugleikar ef ég á að orða það þannig.“

Mættirðu andstöðu starfsfólks þegar þú tókst við?

„Ég vissi að það yrði ekki bara erfitt fyrir mig að koma þarna inn heldur líka fyrir fólkið sem ég starfa með. Ég hafði verið mjög gagnrýnin þó auðvitað hafi ég verið að gagnrýna forystu félagsins og þá stefnu sem var í gildi, ekki bara þar heldur yfir hreyfinguna í heild sinni sem mér þótti mjög röng og þykir enn. En þá var ég ekki að ráðast að starfsfólkinu en ég skildi þá og skil enn að fólk hafi tekið mér með vissri varúð. En engu að síður, yfir heildina var tekið vel á móti mér. Ég mætti samstarfsvilja og kurteisi og í mörgum tilfellum vináttu sem ég er ótrúlega þakklát fyrir.“

En stjórnið þið með ofríki og hótunum?

„Ég kannast svo sannarlega ekki við það. Það get ég sagt af algjörum heiðarleika að það er brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það eru þarna leikendur sem hafa ólíkar fyrirætlanir þannig að annars vegar er þetta sett fram í þeim tilgangi að grafa undan og eyðileggja þá baráttu sem auðvitað er þegar hafin, og mun verða meiri og rosalegri í vetur, og svo hins vegar er þetta sett fram af fólki sem getur ekki sætt sig við niðurstöður þessara kosninga og hver úrslitin þar urðu.“

Fólk leyfir sér sturlaðan málflutning

Kjarasamningar renna út nú um áramótin og kynntu stéttarfélögin kröfugerðir sínar fyrir stjórnvöldum og atvinnurekendum. Um þær kröfur verður tekist á í komandi kjaraviðræðum, en þar er meðal annars farið fram á að lágmarkslaun verði 425 þúsund krónur að loknum samningstíma, að lágmarkslaun verði skattlaus, að skatta- og bótakerfið verði endurskoðað og að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum.

Tillögurnar þykja vissulega róttækar en eru þær raunhæfar? „Ef ég bara horfi á þetta út frá sjálfri mér sem starfaði sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í 10 ár og þurfti lengi að vera í tveimur vinnum til að geta átt einhvers konar líf sem snerist ekki bara um blankheit og stress, þá finnst mér þetta eins eðlilegt og sanngjarnt og hægt er að hugsa sér. Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta. Svo er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að fólk sem fer fram með svona harkalegum viðbrögðum hefur aldrei kynnst því hvað það er að lifa og starfa sem ófaglærð verkamanneskja á íslenskum vinnumarkaði og hversu streitufullt líf það er. Á sama tíma og mér svíður þetta og vissulega móðgast við þessi hörðu viðbrögð þá hugsa ég líka að þessu fólki sé svolítil vorkunn af því að það bara greinilega getur ekki sett sig í spor þeirra stétta sem það sjálft tiheyrir ekki. Það virðist ekki fært um að líta á aðstæður verka- og láglaunafólks, sýna því einhverja samhygð eða samkennd sem er afleiðing þeirrar brútal nýfrjálshyggju sem við höfum verið látin lifa undir.“

„Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta.“

Ein þessara „ofsafengnu“ viðbragða mátti finna í leiðara Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu, en þar var kröfum stéttarfélaganna lýst sem „sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“ og forystumenn þeirra sagðir mesta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra fólks. Sólveig Anna segir að gagnrýni Harðar hafi farið yfir öll velsæmismörk. „Þessi grein er bókstaflega mjög harðsvíruð árás á algjörlega eðlilegar og sanngjarnar óskir fólks um að þegar sest verður að samningaborðinu, bæði gagnvart Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum, að þá verði fólki mætt með sanngirni og það viðurkennt að skipting gæðanna sé með engu móti réttlát. Þetta er bara ótrúlegt, í alvöru talað. Auðvitað verð ég að leggja við eyrun og átta mig á því að í herbúðum þessa fólks sem með málflutningi sínum sýnir og sannar að það er hinir raunverulegu óvinir vinnandi fólks á Íslandi. Ég upplifi þetta sem ógnandi hegðun og mér finnst mjög merkilegt til þess að hugsa að þetta er sama fólk sem heyrir minnst á orðið verkfall og brjálast, talar þar um ógnanir og þess háttar en leyfir sér sjálft að fara fram með málflutningi sem er bókstaflega sturlaður og ekki í takti við neinn raunveruleika eða hófstillingu.“

Ætla ekki að samþykkja þessar leikreglur

Undanfarnar vikur hafa þó borist fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja, meðal annars í ferðaþjónustu þar sem launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn, og hafa atvinnurekendur gefið í skyn að ekki verði hægt að mæta auknum launakostnaði öðruvísi en með uppsögnum. Sólveig Anna segir að sé það raunin, sé eitthvað mikið að kerfinu. „Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum. En þá, sem betur fer, bar íslenskt samfélag gæfu til að hafna þeim áróðri og sameinast að miklu leyti um að það væri fáránlegt að biðja um minna.“

Sólveig Anna gefur sömuleiðis lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum. „Ég hef alltaf sagt að við búum í efnahagskerfi sem er sérhannað til þess að láta það alltaf gerast, hvort sem það er uppsveifla, niðurdýfa eða vægur samdráttur, þá eru taparanir alltaf vinnuaflið sem þó knýr áfram hagvöxtinn og hjól atvinnulífsins. Ég ætla bara ekkert að samþykkja þessar leikreglur, að þetta séu einu leikreglurnar sem við megum spila eftir.“

En er hægt að horfa fram hjá þessum hagtölum, til dæmis þeim sem sýna að kaupmáttur hafi aldrei í sögunni aukist jafnmikið og undanfarin ár?

„Ég bara veit hvernig kaupmáttur þeirra sem hafa minnst á milli handanna er. Með húsnæðismarkaðinn eins og hann er og hvað það er dýrt að lifa í þessu landi, þá er það eins og einhver sadískur brandari að vera alltaf að sveifla þessu framan í fólk. Vissulega hefur orðið kaupmáttaraukning hjá sumum hópum. Hér búa stórir hópar við æðisgengna velsæld og við besta mögulega lífsstíl sem völ er á. Það breytir því ekki að þetta er ekki raunveruleiki allra. Af hverju í ósköpunum ætti ég að fókusera á þá hópa sem hafa það best í stað þess að horfa á þá hópa sem hafa það verst í íslensku samfélagi?“

Gat ekki hætt að horfa á heimabankann

Fréttir af umtalsverðum launahækkunum til handa þingmönnum og forstjórum ríkisstofnana, fyrir tilstilli kjararáðs og síðar stjórna opinberra fyrirtækja, hleyptu illu blóði í verkalýðshreyfinguna og segir Sólveig Anna að þessar ákvarðanir, ásamt ríflegum launahækkunum forstjóra stærstu fyrirtækja landsins, hafi spilað hlutverk í kröfugerðinni. Þessar launahækkanir hafi verið ögrun gagnvart vinnandi fólki. Sjálf tók hún þá ákvörðun að lækka laun sín um 300 þúsund krónur á mánuði. „Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér. Ég, sem láglaunakona, þurfti að horfast í augu við það – og það eru mjög grimm örlög og sárt fyrir fullorðna manneskju að gera það – að geta ekki staðið á eigin fótum efnahagslega. Fyrir mig, sem sósíalískan femínista, var það mjög sorglegt að til þess að geta boðið börnunum mínum upp á eitthvað sem er hægt að flokka sem eðlilegt líf myndi ég ávallt þurfa að eiga sambýlismann til að hjálpa. Hvað erum við að tala um þegar við segjum að Ísland sé rosalega mikil jafnréttisparadís, hversu fölsk er sú mynd sem er dregin þar upp? Að mínu mati er hún mjög fölsk.“

„Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér,“ segir Sólveig um þá staðreynd að hún lækkaði laun sín um 300 þúsund krónur.

Sólveig Anna rifjar upp fyrstu launagreiðsluna sem hún fékk frá Eflingu. „Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa. En þetta fyllti mig engri æðislegri gleði eða þetta var ekki svona: „Jess, loksins á ég pening“ heldur hugsaði ég meira hvaða brjálsemi þetta væri. Hvernig gat ég verið að vinna og vinna eins og brjálæðingur öll þessi ár og aldrei nokkurn tíma séð upphæð inni á heimabankanum mínum sem komst einu sinni nálægt þessu.“

„Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa.“

Var þetta ekki bara kapítalismi að verki, að þeir sem leggja mikið á sig munu uppskera eins og þeir sá?

„Kapítalisminn segir náttúrlega alltaf eitthvað kreisí. Hann er alltaf með einhverjar ódýrar útskýringar á sínum snærum en lögmál hans geta náttúrlega ekki ráðið för inni í verkalýðshreyfingunni. Henni ber skylda að taka til hjá sér líka þegar kemur að þessum málum, að setja reglur um hvað sé eðlilegur launamunur þar.“

Hjólaði í vinnu til að losna við Bónusferðir

En það eru ekki bara launin sem verða á samingaborðinu heldur einnig lífskjörin í landinu. Þar vega húsnæðismálin þungt enda ófremdarástand á húsnæðismarkaði. Þær kröfur snúa að stjórnvöldum enda liggur sökin þar. „Ég er ekki mjög gömul kona, ég er 43 ára, en þegar ég var að hefja minn búskap þótti það enn normal að ungt fólk gæti eignast sína eigin íbúð og staðið undir afborgunum með hóflegum tekjum. Það er ekki raunin lengur og þetta er afleiðing af ömurlegum efnahagsákvörðunum þeirra sem hér fara með völd. Það varð alkul í uppbyggingu húsnæðis og til að keyra efnahagslífið af stað var blásið til ferðamannagóðæris og það var tekin markviss ákvörðun um það á æðstu stöðum í íslensku samfélagi og settir gríðarlegir fjármunir í það. Til að keyra þá uppsveiflu var fluttur inn gríðarlega stór hópur af erlendu verkafólki. Allt þetta var gert án þess að því grundvallaratriði væri svarað um hvar þetta fólk ætti að búa.“

Húsnæðisliðurinn er ekki eitthvað sem verkalýðshreyfingin mun slaka á til að ná fram öðrum kröfum því ekki sé hægt að reka samfélag þar sem vinnuaflinu er ekki tryggt þak yfir höfuðið. „Slík samfélög eru viðbjóðsleg og dæmd til að enda í katastrófu. Þú þarft að tryggja vinnuaflinu mat, hvíld og húsnæði. Ef þú getur ekki mætt þessum lágmarksþörfum áttu að skammast þín svo ótrúlega mikið að þú átt að draga þig í hlé með skottið á milli lappanna.“

Varðandi hátt matvælaverð segir Sólveig Anna það viðsemjenda þeirra að koma með svör og lausnir að borðinu. „Það er líka á þeirra ábyrgð að mæta okkur með hugvitsamlegum lausnum sem sýna að þeim sé alvara í því að bæta kjör fólks og tryggja að launin séu ekki bara strax étin upp með fyrstu Bónusferðunum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus. Þegar þú ert með ótrúlega léleg laun og þarft að borga rosalega mikinn pening við kassann í Bónus fyrir eitthvað smotterí, þá olli það mér svo miklu hugarangri. Það dró svo úr lífsgæðum mínum að ég vildi frekar hjóla í og úr vinnunni og dömpa þeirri ábyrgð á manninn minn alfarið. Sem var kannski svolítið leiðinlegt fyrir hann.“

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus.“

Að verða ung móðir það besta sem gat gerst

Talið berst að sósíalismanum, róttækninni og því hvað reki Sólveigu Önnu áfram í baráttunni gegn fjármálaöflunum. Segja má að hún hafi fengið þessa eiginleika í vöggugjöf. „Ég var alin upp á mjög róttæku heimili þannig að strax frá því ég var lítil stelpa var alltaf verið að tala um alþjóðamál og mál í stóru samhengi,“ segir Sólveig Anna, en hún er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Jón Múli var mjög virkur í Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu og hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðunum á Austurvelli 1949 en var síðar náðaður. Sólveig Anna átti eftir að feta í fótspor hans, eins og nánar verður komið að síðar.

„Báðir foreldrar mínir höfðu mjög mikil áhrif á mig. Ég fékk afar frjálst uppeldi og kannski fullfrjálst, ég er langyngst af mínum systkinum og ég held að þau hafi bæði verið komin á einhvern stað að þau leyfðu mér að gera nokkurn veginn það sem ég vildi. Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu. Ég var þess vegna mjög útsmogin að koma mér undan allri ábyrgð með því að lesa mjög mikið.“ Skólagangan var nokkuð mörkuð af þessu, segir Sólveig Anna sem lýsir sér sem „mismenntaðri“. Hún hafði hæfileika sem sneru að hinu ritaða máli en raungreinarnar voru ekki hennar sterkasta hlið. Skólakerfið var þannig að það refsaði henni fyrir það sem hún kunni ekki í stað þess að umbuna fyrir það sem hún kunni og þegar grunnskólagöngunni var lokið var hún orðin uppgefin á því. „Ég gerði nokkur áhlaup á það að vera í menntaskóla en mér leið bara ekkert vel inni í skóla, ég upplifði skólastofnanir sem óvinveitt umhverfi. Þannig að ég er mjög mikill talsmaður þess að börnum og unglingum sé mætt þar sem þau eru og að við horfum ávallt á það sem fólk getur og reynum að gera minna úr því sem við getum ekki.“

„Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu.“

Sólveig Anna fór þess vegna ung út á vinnumarkaðinn. „Ég varð ung móðir sem var líklega það besta sem gat komið fyrir mig. Mig vantaði mikið einhvern stöðugleika, eitthvað akkeri, og var einmitt svo heppin að foreldrar mínir studdu mig mjög vel þar og voru mér mikið innan handar.“

Sólveig Anna á tvö börn með eiginmanni sínum, Magnúsi Sveini Helgasyni, en þau eru nú 18 og 21 árs. „Við vorum svona unglingakærustupar, hættum saman og byrjuðum saman.“

Árið 2000 fluttu þau saman út til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem Magnús Sveinn lærði hagsögu og bandarísk stjórnmál. Þar bjuggu þau í átta ár og segir Sólveig Anna að veran í Bandaríkjunum hafi sannfært hana endanlega um skelfilegar afleiðingar kapítalismans.

„Ég flutti út þegar George W. Bush var kosinn forseti og það var innrásin í Afganistan, Írak og allur viðbjóðurinn sem fylgdi því, Guantanamo, Abu Grahib, fellibylurinn Katrina. Þetta var rosaleg röð af bylmingshöggum þar sem algjörlega tryllt auðstétt, undirseld blóðugri heimsvaldahugmyndafræði lét bara hvert höggið dynja á saklausu fólki. Það var ótrúlegt að verða vitni að því.“

Í Bandaríkjunum lifði Sólveig Anna í tveimur heimum. Annars vegar sem láglaunakona þar sem hún starfaði í kjörbúð og hins vegar sem millistéttarkona sem sinnti sjálfboðaliðastörfum í skóla barnanna. Í kjörbúðinni starfaði hún með fólki sem tilheyrði stétt hinna vinnandi fátæku, fólki sem vann sleitulaust alla sína ævi en átti ekki möguleika á að brjótast út úr fátækt. „Svo fékk ég líka að prófa þetta millistéttarlíf hvítra kvenna sem snýst um þetta barnalíf, í þessum heimi kvenna sem eiga menn sem þéna það vel að þær fara bara af vinnumarkaði. Þar upplifði ég að mér voru afhent einhver furðuleg forréttindi bara út á það að vera hvít og norræn, að kunna einhverjar reglur sem samfélagið hefur ákveðið að séu mikils virði, einhvern evrópskan hegðunarmáta sem ég uppskar blessun samfélagsins út á. Það var mjög sjokkerandi að upplifa það því ég hafði í prinsippinu alltaf verið and-rasísk en að sjá það með eigin augum hvað rasisminn og kynþáttahyggjan er viðurstyggilega sjúkt fyrirbæri opnaði mjög augu mín.“

Beint heim í byltinguna

Fjölskyldan flutti heim sumarið 2008, nánast beint ofan í íslenska efnahagshrunið. Sólveig Anna segir að þessi tími hafi verið fjölskyldunni erfiður, þau glímdu við atvinnuleysi og fjárhagurinn var þröngur. En Sólveig Anna kom heim frá Bandaríkjunum full baráttuanda og hún var tilbúin til að láta að sér kveða í búsáhaldabyltingunni. Það gerði hún eftirminnilega því hún var í hópi níumenninganna sem voru ákærðir fyrir árás á Alþingi í desember 2008. Um þá reynslu segir Sólveig Anna: „Hún var mjög áhugaverð en mjög erfið. Það var skrítin tilviljun að ég var í þeim hópi. Afleiðingarnar af því að fara inn í alþingishúsið til að mótmæla, hversu erfiðar þær voru og hversu mikla andlega orku og tíma þær tóku frá mér. Ekki bara mér heldur líka manninum mínum. Það var mjög erfitt. Og ég viðurkenni alveg að undir það síðasta í því máli þegar dómsmálið var komið af stað og við vorum ákærð … það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

„Það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

Sólveig Anna segir að þessi reynsla hafi setið lengi í henni þótt hún geri það ekki lengur. „Ég hugsaði oft mikið um þetta og ég upplifði mig mjög valdalausa meðan á þessu stóð og fannst það mjög óþægilegt. Þetta var á sama tíma og ég var virkilega að kynnast því hvernig væri að vera láglaunakona á Íslandi og ég er virkilega að horfast í augu við þau örlög sem var líka erfitt. Afleiðingar hrunsins lögðust mjög þungt á okkur, mig og manninn minn, með atvinnuleysi og fjárhagskröggum þannig að þetta var mjög „intense“ og erfiður tími. Svo lærði ég hversu tjúlluð borgarastéttin getur leyft sér að verða þegar hún upplifir að sér sé ógnað. Það var mjög hressilegur lærdómur.“

Sérðu eftir þessu?

„Nei, ég sé ekkert eftir þessu. Á endanum áskotnaðist mér margt, eins og að kynnast snjöllu og sniðugu fólki sem var ekki búið að láta samfélagið móta sig alveg og lifði á eigin forsendum. Það var mjög hressandi.“

Sólveig Anna var einnig lykilþátttakandi í öðru máli sem skók þjóðina á árunum eftir hrun, lekamálinu svokallaða. Hún var í hópi aðgerðasinna sem boðað höfðu mótmæli í dómsmálaráðuneytinu þegar vísa átti hælisleitandanum Tony Omos úr landi. Sama morgun og mótmælin fóru fram birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins sem unnin var upp úr minnisblaði sem hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Málið endaði með afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og dómi yfir aðstoðarmanni hennar. „Það var ótrúlegt og það var enn eitt dæmið um hversu tjúlluð borgarastéttin verður þegar hún upplifir einhverja ógn. Viðbrögð þeirra sem fara svona með völd eru svoleiðis að á endanum eru þau sínir eigin verstu óvinir. Það var eitt æðisgengnasta dæmi sögunnar um þetta dramb sem getur sýkt fólk sem kemst í of mikil völd.“

Lífsstíll efri stéttanna ekki mögulegur án vinnuaflsins

Það er mikið talað um að fram undan sé átakavetur með hörðum deilum á vinnumarkaði. Sólveig Anna telur ekki að svo þurfi að vera. „Það eina sem þarf er að viðsemjendur okkar mæti okkur af sanngirni, að þeir viðurkenni réttmæti krafnanna og komi að samningaborðinu með það hugarfar að við ætlum saman í það verkefni að sannarlega bæta lífskjör verka- og láglaunafólks á Íslandi. Ég ætla enn þá að leyfa mér að halda í þá von að svo verði. Ég held að pólitíska andrúmsloftið í samfélaginu sé með þeim hætti að þau geti raunverulega ekki komið sér hjá því að takast á við þetta.“

Megum við eiga von á því að hér logi allt í verkföllum?

„Ég, sem áhugamanneskja um verkalýðsbaráttu, tala ekki af léttúð um verkföll og hef aldrei gert. En ég veit að verkföll eru eitt það mikilvægasta og merkilegasta sem vinnuaflið hefur, því það sýnir hversu stórkostlegt vægi það hefur. Án vinnuaflsins er allt tal um hagvöxt innantómt og lífsstíl efri stéttanna ekki mögulegur. Ef það er á endanum eina leiðin sem er fær, er það bara svoleiðis. En þá verður sannarlega ekki við okkur að sakast.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegar förðurnarfræðingur YSL á Íslandi

 

Neysla eykst við lögleiðingu

Lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Að venju sýnist sitt hverjum, þeir sem eru andvígir halda á lofti hættunni sem kannabisneysla veldur ungu fólki og þeir sem eru meðmæltir telja bann við neyslu kannabisefna skerðingu á einstaklingsfrelsi, enda sé um tiltölulega hættulítið efni að ræða.

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að leggja sín lóð á vogarskálarnar og rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki. Guðrún Björg Ágústsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, er ein þeirra. Hún er með yfir 30 ára starfsreynslu, síðustu sjö ár sem ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi. Hún telur að neysla muni aukast við lögleiðingu.

Sjá einnig: Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Hvaða rök mæla gegn lögleiðingu kannabis? „Með lögleiðingu er verið að segja unga fólkinu okkar að kannabis sé ekki svo hættulegt efni, enda hvernig gæti það verið það, ef það væri löglegt? Eins og við flest vitum eru það unglingar sem eru stærsti hópurinn sem notar vímuefni en það er einmitt sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir áhrifum vímuefnanna.“

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu?„Það hefur nú þegar sýnt sig í Colorado að 85 prósent fleiri ungmenni nota kannabis þar miðað við hin ríkin í Bandaríkjunum. Eins hefur bílslysum sem rakin eru til kannabisneyslu fjölgað um 151 prósent. Einnig blómstrar svarti markaðurinn, andstætt því sem almennt er talið.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Mín skoðun er sú að það myndi breyta mörgu í þjóðfélaginu ef kannabis yrði lögleitt. Það eru mörg gróðatækifæri í framleiðslu og sölu á kannabis. Kannabis er hægt að setja í sælgæti, mat, drykk, rafrettur og fleira. Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar. Þá varpa ég fram spurningunni: Hvaða áhrif mun það hafa á umferðina og slys af völdum áhrifa undir stýri? Með aukinni neyslu þarf að auka meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast efninu. Svo virðist sem reynsla þeirra sem hafa lögleitt kannabis sé sú að neysla aukist. Það er nú þegar aukning á neyslu kannabis hjá unglingum hér á landi og það er vitað að því yngri sem unglingar byrja neyslu því meiri skaði verður við notkun og meiri líkur á að unglingurinn ánetjist efninu. Með lögleiðingu yrði þá líka að stórauka meðferðarúrræði.“

Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar.

Hvers vegna ert þú persónulega andvíg lögleiðingu kannabis? „Ég hef séð hvernig kannabisneysla hefur haft áhrif á fólk, sérstaklega ungt fólk. Ein helstu rök unglinga sem eru að eyðileggja líf sitt vegna neyslu kannabis eru: Þetta er ekkert hættulegt, það er verið að lögleiða þetta. Unglingar horfa ekki á að það sé aldurstakmark fyrir kaupum á kannabis þar sem það er löglegt. Þau eru ung og þau gera það sem við fullorðna fólkið höfum fyrir þeim. Ef við lögleiðum kannabis verður það líka fyrir 14 ára börn.“

Myndir / Hallur Karlsson

Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki þar sem lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Örvar Geir Geirsson, listamaður, stofnandi Reykjavik homegrown og áhugamaður um menningu og málefni sem varða kannabis er einn þeirra sem vill að neysla kannabis verði lögleg á Íslandi.

Sjá einnig: Neysla eykst við lögleiðingu

Hvaða rök mæla með lögleiðingu kannabis? „Refsistefnan skilar engu og virkar ekki. Reynslan hefur sýnt að hún dregur hvorki úr notkun né framboði. Það er betra að regluvæða hægt og rólega framleiðslu og sölu og hafa aldurstakmark. Ekki vera með þessar forræðishyggjurefsingar. Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs. Ólöglegi kannabismarkaðurinn á Íslandi veltir stórum fjárhæðum, innan hans er fjöldi manns af öllum stéttum og hann er kominn til að vera. Það er löngu kominn tími á nýja nálgun, ekki bara afglæpavæðingu heldur regluvæddan iðnað og lögleg störf.“

Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs.

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu? „Ef litið er til reynslu annarra Evrópuþjóða og ríkja innan Bandaríkjanna hefur lögleiðing, hvort sem er notkun til lækninga eða til afþreyingar fyrir fullorðið fólk, getið af sér samfélagslegan ávinning með töluverðri minnkun glæpatíðni í ýmsum geirum afbrota. Þar á meðal er heimilisofbeldi, og dauðsföllum vegna misnotkunar lyfja hefur einnig fækkað, auk þess hefur dregið úr notkun ávanabindandi verkjastillandi lyfja og ólöglegra efna, eins og reynsla Portúgala og ríkja í Bandaríkjunum hefur sýnt. Notkun á CBD-olíu hefur reynst flogaveikum erlendis vel og eins ýmsum sem eiga við taugasjúkdóma að stríða. Slík olía hefur engin hugbreytandi vímuáhrif og virðist samkvæmt öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið, heilsubætandi. Töluvert stór hópur Íslendinga hefur orðið sér úti um CBD-olíu vegna ýmissa kvilla og notið góðs af.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Aðgengi ungs fólks yrði minna með aldurstakmarki. Það yrðu greiddir skattar af framleiðslunni og haft eftirlit með sölu, framleiðslu, gæðum og styrkleika vörunnar. Þetta skapar iðnað sem býr til ótal mörg sérfræði- og þekkingarstörf sem verður að teljast ávinningur fyrir samfélagið. Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu og leggja aukið fjármagn í meðferðarúrræði og geðhjálp.“

Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu.

Hvers vegna ert þú persónulega hlynntur lögleiðingu kannabis? „Fyrir mér er þetta bara spurning um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, hvort sem er vegna heilsu eða sér til afslöppunar. Svo finnst mér bara óþarfi að eyða tíma lögreglu í að eltast við fólk vegna notkunar kannabis, einkaræktunar eða fyrir að hafa smávegis kannabis á sér, til dæmis á tónleikum. Flest fólk sem notar kannabis er heiðarlegt og gott fólk, samkvæmt minni reynslu, þetta fólk veldur ekki öðrum neinum skaða, hættu eða tjóni með því að fá sér eina jónu. Þetta svokallaða stríð gegn fíkniefnum er bara stríð gegn fólki sem veldur samfélagi og fólki skaða og það aðallega ungu fólki, okkar fólki.“

Mynd / Hallur Karlsson

Raddir