Miðvikudagur 30. október, 2024
2.1 C
Reykjavik

Samþykki ekki leikreglur auðstéttarinnar

||
||

Sólveig Anna Jónsdóttir flosnaði fljótt upp úr námi, varð móðir ung að aldri, dvaldi átta ár í Bandaríkjunum þar sem hún sannfærðist endanlega um skaðsemi kapítalismans, sneri aftur beint í hrunið þar sem hún lék stórt hlutverk í búsáhaldabyltingunni og var láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í tíu ár áður en hún skyndilega stóð uppi með svo há laun að hún sá sig knúna til að lækka þau um 300 þúsund krónur.

„Ef við erum orðin svo klikkuð og svo langt leidd af firringu mannfjandsamlegrar hugmyndafræði að það er allt í einu orðið byltingarkennt að fólk geti lifað af dagvinnulaununum sínum og að skattkerfið verði mótað af þörfum þeirra sem raunverulega vinna vinnuna, þá hlýt ég að vera stolt af því að segjast vera byltingarmanneskja,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem í vor var kjörin formaður stéttarfélagsins Eflingar.  Hún er í fararbroddi nýrrar kynslóðar verkalýðsforingja sem þykja mun róttækari en þeir sem fyrir voru og þeir hafa hafa mikinn átakavetur á markaði verði ekki gengið að kröfum þeirra.

Brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum

Sólveig Anna segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fara úr því að hafa unnið láglaunastörf í áratug og vera skyndilega farin að stýra einu stærsta stéttarfélagi landsins. Bara það að vinna á skrifstofu hafi verið nýtt fyrir henni og fyrst um sinn hafi hún verið þjáð af svokölluðu svikaraheilkenni (e. impostor syndrome). „Ég er sem betur fer ekki þar lengur en ég vissi allan tímann að þetta yrði mjög erfitt og þess vegna var ég mjög hikandi við að láta slag standa. Allt sem ég gerði var ég að gera í fyrsta skipti. Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega. Á engum tímapunkti ímyndaði ég mér að þetta yrði auðvelt eða þægileg innivinna. Það er kannski vegna þess að ég dembi mér út í þetta af hugsjón frekar en hefðbundnari framadraumum og við slíkar kringumstæður er meira í húfi.“

„Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega.“

Formennskan er þó ekki óumdeild og nýverið greindi Morgunblaðið frá miklum átökum innan félagsins. Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson voru sökuð um að „stjórna með ofríki og hótunum“ og tveir starfsmenn sagðir hafa farið í veikindaleyfi vegna samskiptaörðugleika. Var jafnframt talað um óvinveitta yfirtöku á Eflingu. „Hann var mjög brjálæðislegur sá fréttaflutningur,“ svarar Sólveig Anna aðspurð og bætir við að í málum sem þessum sé erfitt að grípa til varna enda sé hún sem formaður bundin trúnaði við starfsfólk. Hún geti þó sagt að umfjöllunin gefi ekki rétta mynd af veruleikanum. „Það var pínku sjokkerandi. Þetta símtal sem ég átti við Agnesi Bragadóttur [blaðamann Morgunblaðsins], ég vissi alveg þegar því lauk að þetta yrði einhver hasar og partur af mér fór að hlæja því þetta var svo fáránlegt.“

Hún fellst þó á að það hafa komið upp ákveðnir samstarfsörðugleikar. „Þetta hefur ekki bara verið dans á rósum. Það hafa komið upp samstarfsörðugleikar ef ég á að orða það þannig.“

Mættirðu andstöðu starfsfólks þegar þú tókst við?

„Ég vissi að það yrði ekki bara erfitt fyrir mig að koma þarna inn heldur líka fyrir fólkið sem ég starfa með. Ég hafði verið mjög gagnrýnin þó auðvitað hafi ég verið að gagnrýna forystu félagsins og þá stefnu sem var í gildi, ekki bara þar heldur yfir hreyfinguna í heild sinni sem mér þótti mjög röng og þykir enn. En þá var ég ekki að ráðast að starfsfólkinu en ég skildi þá og skil enn að fólk hafi tekið mér með vissri varúð. En engu að síður, yfir heildina var tekið vel á móti mér. Ég mætti samstarfsvilja og kurteisi og í mörgum tilfellum vináttu sem ég er ótrúlega þakklát fyrir.“

En stjórnið þið með ofríki og hótunum?

„Ég kannast svo sannarlega ekki við það. Það get ég sagt af algjörum heiðarleika að það er brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það eru þarna leikendur sem hafa ólíkar fyrirætlanir þannig að annars vegar er þetta sett fram í þeim tilgangi að grafa undan og eyðileggja þá baráttu sem auðvitað er þegar hafin, og mun verða meiri og rosalegri í vetur, og svo hins vegar er þetta sett fram af fólki sem getur ekki sætt sig við niðurstöður þessara kosninga og hver úrslitin þar urðu.“

Fólk leyfir sér sturlaðan málflutning

Kjarasamningar renna út nú um áramótin og kynntu stéttarfélögin kröfugerðir sínar fyrir stjórnvöldum og atvinnurekendum. Um þær kröfur verður tekist á í komandi kjaraviðræðum, en þar er meðal annars farið fram á að lágmarkslaun verði 425 þúsund krónur að loknum samningstíma, að lágmarkslaun verði skattlaus, að skatta- og bótakerfið verði endurskoðað og að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum.

Tillögurnar þykja vissulega róttækar en eru þær raunhæfar? „Ef ég bara horfi á þetta út frá sjálfri mér sem starfaði sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í 10 ár og þurfti lengi að vera í tveimur vinnum til að geta átt einhvers konar líf sem snerist ekki bara um blankheit og stress, þá finnst mér þetta eins eðlilegt og sanngjarnt og hægt er að hugsa sér. Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta. Svo er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að fólk sem fer fram með svona harkalegum viðbrögðum hefur aldrei kynnst því hvað það er að lifa og starfa sem ófaglærð verkamanneskja á íslenskum vinnumarkaði og hversu streitufullt líf það er. Á sama tíma og mér svíður þetta og vissulega móðgast við þessi hörðu viðbrögð þá hugsa ég líka að þessu fólki sé svolítil vorkunn af því að það bara greinilega getur ekki sett sig í spor þeirra stétta sem það sjálft tiheyrir ekki. Það virðist ekki fært um að líta á aðstæður verka- og láglaunafólks, sýna því einhverja samhygð eða samkennd sem er afleiðing þeirrar brútal nýfrjálshyggju sem við höfum verið látin lifa undir.“

„Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta.“

Ein þessara „ofsafengnu“ viðbragða mátti finna í leiðara Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu, en þar var kröfum stéttarfélaganna lýst sem „sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“ og forystumenn þeirra sagðir mesta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra fólks. Sólveig Anna segir að gagnrýni Harðar hafi farið yfir öll velsæmismörk. „Þessi grein er bókstaflega mjög harðsvíruð árás á algjörlega eðlilegar og sanngjarnar óskir fólks um að þegar sest verður að samningaborðinu, bæði gagnvart Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum, að þá verði fólki mætt með sanngirni og það viðurkennt að skipting gæðanna sé með engu móti réttlát. Þetta er bara ótrúlegt, í alvöru talað. Auðvitað verð ég að leggja við eyrun og átta mig á því að í herbúðum þessa fólks sem með málflutningi sínum sýnir og sannar að það er hinir raunverulegu óvinir vinnandi fólks á Íslandi. Ég upplifi þetta sem ógnandi hegðun og mér finnst mjög merkilegt til þess að hugsa að þetta er sama fólk sem heyrir minnst á orðið verkfall og brjálast, talar þar um ógnanir og þess háttar en leyfir sér sjálft að fara fram með málflutningi sem er bókstaflega sturlaður og ekki í takti við neinn raunveruleika eða hófstillingu.“

Ætla ekki að samþykkja þessar leikreglur

Undanfarnar vikur hafa þó borist fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja, meðal annars í ferðaþjónustu þar sem launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn, og hafa atvinnurekendur gefið í skyn að ekki verði hægt að mæta auknum launakostnaði öðruvísi en með uppsögnum. Sólveig Anna segir að sé það raunin, sé eitthvað mikið að kerfinu. „Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum. En þá, sem betur fer, bar íslenskt samfélag gæfu til að hafna þeim áróðri og sameinast að miklu leyti um að það væri fáránlegt að biðja um minna.“

Sólveig Anna gefur sömuleiðis lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum. „Ég hef alltaf sagt að við búum í efnahagskerfi sem er sérhannað til þess að láta það alltaf gerast, hvort sem það er uppsveifla, niðurdýfa eða vægur samdráttur, þá eru taparanir alltaf vinnuaflið sem þó knýr áfram hagvöxtinn og hjól atvinnulífsins. Ég ætla bara ekkert að samþykkja þessar leikreglur, að þetta séu einu leikreglurnar sem við megum spila eftir.“

En er hægt að horfa fram hjá þessum hagtölum, til dæmis þeim sem sýna að kaupmáttur hafi aldrei í sögunni aukist jafnmikið og undanfarin ár?

„Ég bara veit hvernig kaupmáttur þeirra sem hafa minnst á milli handanna er. Með húsnæðismarkaðinn eins og hann er og hvað það er dýrt að lifa í þessu landi, þá er það eins og einhver sadískur brandari að vera alltaf að sveifla þessu framan í fólk. Vissulega hefur orðið kaupmáttaraukning hjá sumum hópum. Hér búa stórir hópar við æðisgengna velsæld og við besta mögulega lífsstíl sem völ er á. Það breytir því ekki að þetta er ekki raunveruleiki allra. Af hverju í ósköpunum ætti ég að fókusera á þá hópa sem hafa það best í stað þess að horfa á þá hópa sem hafa það verst í íslensku samfélagi?“

Gat ekki hætt að horfa á heimabankann

Fréttir af umtalsverðum launahækkunum til handa þingmönnum og forstjórum ríkisstofnana, fyrir tilstilli kjararáðs og síðar stjórna opinberra fyrirtækja, hleyptu illu blóði í verkalýðshreyfinguna og segir Sólveig Anna að þessar ákvarðanir, ásamt ríflegum launahækkunum forstjóra stærstu fyrirtækja landsins, hafi spilað hlutverk í kröfugerðinni. Þessar launahækkanir hafi verið ögrun gagnvart vinnandi fólki. Sjálf tók hún þá ákvörðun að lækka laun sín um 300 þúsund krónur á mánuði. „Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér. Ég, sem láglaunakona, þurfti að horfast í augu við það – og það eru mjög grimm örlög og sárt fyrir fullorðna manneskju að gera það – að geta ekki staðið á eigin fótum efnahagslega. Fyrir mig, sem sósíalískan femínista, var það mjög sorglegt að til þess að geta boðið börnunum mínum upp á eitthvað sem er hægt að flokka sem eðlilegt líf myndi ég ávallt þurfa að eiga sambýlismann til að hjálpa. Hvað erum við að tala um þegar við segjum að Ísland sé rosalega mikil jafnréttisparadís, hversu fölsk er sú mynd sem er dregin þar upp? Að mínu mati er hún mjög fölsk.“

„Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér,“ segir Sólveig um þá staðreynd að hún lækkaði laun sín um 300 þúsund krónur.

Sólveig Anna rifjar upp fyrstu launagreiðsluna sem hún fékk frá Eflingu. „Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa. En þetta fyllti mig engri æðislegri gleði eða þetta var ekki svona: „Jess, loksins á ég pening“ heldur hugsaði ég meira hvaða brjálsemi þetta væri. Hvernig gat ég verið að vinna og vinna eins og brjálæðingur öll þessi ár og aldrei nokkurn tíma séð upphæð inni á heimabankanum mínum sem komst einu sinni nálægt þessu.“

„Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa.“

Var þetta ekki bara kapítalismi að verki, að þeir sem leggja mikið á sig munu uppskera eins og þeir sá?

„Kapítalisminn segir náttúrlega alltaf eitthvað kreisí. Hann er alltaf með einhverjar ódýrar útskýringar á sínum snærum en lögmál hans geta náttúrlega ekki ráðið för inni í verkalýðshreyfingunni. Henni ber skylda að taka til hjá sér líka þegar kemur að þessum málum, að setja reglur um hvað sé eðlilegur launamunur þar.“

Hjólaði í vinnu til að losna við Bónusferðir

En það eru ekki bara launin sem verða á samingaborðinu heldur einnig lífskjörin í landinu. Þar vega húsnæðismálin þungt enda ófremdarástand á húsnæðismarkaði. Þær kröfur snúa að stjórnvöldum enda liggur sökin þar. „Ég er ekki mjög gömul kona, ég er 43 ára, en þegar ég var að hefja minn búskap þótti það enn normal að ungt fólk gæti eignast sína eigin íbúð og staðið undir afborgunum með hóflegum tekjum. Það er ekki raunin lengur og þetta er afleiðing af ömurlegum efnahagsákvörðunum þeirra sem hér fara með völd. Það varð alkul í uppbyggingu húsnæðis og til að keyra efnahagslífið af stað var blásið til ferðamannagóðæris og það var tekin markviss ákvörðun um það á æðstu stöðum í íslensku samfélagi og settir gríðarlegir fjármunir í það. Til að keyra þá uppsveiflu var fluttur inn gríðarlega stór hópur af erlendu verkafólki. Allt þetta var gert án þess að því grundvallaratriði væri svarað um hvar þetta fólk ætti að búa.“

Húsnæðisliðurinn er ekki eitthvað sem verkalýðshreyfingin mun slaka á til að ná fram öðrum kröfum því ekki sé hægt að reka samfélag þar sem vinnuaflinu er ekki tryggt þak yfir höfuðið. „Slík samfélög eru viðbjóðsleg og dæmd til að enda í katastrófu. Þú þarft að tryggja vinnuaflinu mat, hvíld og húsnæði. Ef þú getur ekki mætt þessum lágmarksþörfum áttu að skammast þín svo ótrúlega mikið að þú átt að draga þig í hlé með skottið á milli lappanna.“

Varðandi hátt matvælaverð segir Sólveig Anna það viðsemjenda þeirra að koma með svör og lausnir að borðinu. „Það er líka á þeirra ábyrgð að mæta okkur með hugvitsamlegum lausnum sem sýna að þeim sé alvara í því að bæta kjör fólks og tryggja að launin séu ekki bara strax étin upp með fyrstu Bónusferðunum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus. Þegar þú ert með ótrúlega léleg laun og þarft að borga rosalega mikinn pening við kassann í Bónus fyrir eitthvað smotterí, þá olli það mér svo miklu hugarangri. Það dró svo úr lífsgæðum mínum að ég vildi frekar hjóla í og úr vinnunni og dömpa þeirri ábyrgð á manninn minn alfarið. Sem var kannski svolítið leiðinlegt fyrir hann.“

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus.“

Að verða ung móðir það besta sem gat gerst

Talið berst að sósíalismanum, róttækninni og því hvað reki Sólveigu Önnu áfram í baráttunni gegn fjármálaöflunum. Segja má að hún hafi fengið þessa eiginleika í vöggugjöf. „Ég var alin upp á mjög róttæku heimili þannig að strax frá því ég var lítil stelpa var alltaf verið að tala um alþjóðamál og mál í stóru samhengi,“ segir Sólveig Anna, en hún er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Jón Múli var mjög virkur í Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu og hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðunum á Austurvelli 1949 en var síðar náðaður. Sólveig Anna átti eftir að feta í fótspor hans, eins og nánar verður komið að síðar.

„Báðir foreldrar mínir höfðu mjög mikil áhrif á mig. Ég fékk afar frjálst uppeldi og kannski fullfrjálst, ég er langyngst af mínum systkinum og ég held að þau hafi bæði verið komin á einhvern stað að þau leyfðu mér að gera nokkurn veginn það sem ég vildi. Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu. Ég var þess vegna mjög útsmogin að koma mér undan allri ábyrgð með því að lesa mjög mikið.“ Skólagangan var nokkuð mörkuð af þessu, segir Sólveig Anna sem lýsir sér sem „mismenntaðri“. Hún hafði hæfileika sem sneru að hinu ritaða máli en raungreinarnar voru ekki hennar sterkasta hlið. Skólakerfið var þannig að það refsaði henni fyrir það sem hún kunni ekki í stað þess að umbuna fyrir það sem hún kunni og þegar grunnskólagöngunni var lokið var hún orðin uppgefin á því. „Ég gerði nokkur áhlaup á það að vera í menntaskóla en mér leið bara ekkert vel inni í skóla, ég upplifði skólastofnanir sem óvinveitt umhverfi. Þannig að ég er mjög mikill talsmaður þess að börnum og unglingum sé mætt þar sem þau eru og að við horfum ávallt á það sem fólk getur og reynum að gera minna úr því sem við getum ekki.“

„Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu.“

Sólveig Anna fór þess vegna ung út á vinnumarkaðinn. „Ég varð ung móðir sem var líklega það besta sem gat komið fyrir mig. Mig vantaði mikið einhvern stöðugleika, eitthvað akkeri, og var einmitt svo heppin að foreldrar mínir studdu mig mjög vel þar og voru mér mikið innan handar.“

Sólveig Anna á tvö börn með eiginmanni sínum, Magnúsi Sveini Helgasyni, en þau eru nú 18 og 21 árs. „Við vorum svona unglingakærustupar, hættum saman og byrjuðum saman.“

Árið 2000 fluttu þau saman út til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem Magnús Sveinn lærði hagsögu og bandarísk stjórnmál. Þar bjuggu þau í átta ár og segir Sólveig Anna að veran í Bandaríkjunum hafi sannfært hana endanlega um skelfilegar afleiðingar kapítalismans.

„Ég flutti út þegar George W. Bush var kosinn forseti og það var innrásin í Afganistan, Írak og allur viðbjóðurinn sem fylgdi því, Guantanamo, Abu Grahib, fellibylurinn Katrina. Þetta var rosaleg röð af bylmingshöggum þar sem algjörlega tryllt auðstétt, undirseld blóðugri heimsvaldahugmyndafræði lét bara hvert höggið dynja á saklausu fólki. Það var ótrúlegt að verða vitni að því.“

Í Bandaríkjunum lifði Sólveig Anna í tveimur heimum. Annars vegar sem láglaunakona þar sem hún starfaði í kjörbúð og hins vegar sem millistéttarkona sem sinnti sjálfboðaliðastörfum í skóla barnanna. Í kjörbúðinni starfaði hún með fólki sem tilheyrði stétt hinna vinnandi fátæku, fólki sem vann sleitulaust alla sína ævi en átti ekki möguleika á að brjótast út úr fátækt. „Svo fékk ég líka að prófa þetta millistéttarlíf hvítra kvenna sem snýst um þetta barnalíf, í þessum heimi kvenna sem eiga menn sem þéna það vel að þær fara bara af vinnumarkaði. Þar upplifði ég að mér voru afhent einhver furðuleg forréttindi bara út á það að vera hvít og norræn, að kunna einhverjar reglur sem samfélagið hefur ákveðið að séu mikils virði, einhvern evrópskan hegðunarmáta sem ég uppskar blessun samfélagsins út á. Það var mjög sjokkerandi að upplifa það því ég hafði í prinsippinu alltaf verið and-rasísk en að sjá það með eigin augum hvað rasisminn og kynþáttahyggjan er viðurstyggilega sjúkt fyrirbæri opnaði mjög augu mín.“

Beint heim í byltinguna

Fjölskyldan flutti heim sumarið 2008, nánast beint ofan í íslenska efnahagshrunið. Sólveig Anna segir að þessi tími hafi verið fjölskyldunni erfiður, þau glímdu við atvinnuleysi og fjárhagurinn var þröngur. En Sólveig Anna kom heim frá Bandaríkjunum full baráttuanda og hún var tilbúin til að láta að sér kveða í búsáhaldabyltingunni. Það gerði hún eftirminnilega því hún var í hópi níumenninganna sem voru ákærðir fyrir árás á Alþingi í desember 2008. Um þá reynslu segir Sólveig Anna: „Hún var mjög áhugaverð en mjög erfið. Það var skrítin tilviljun að ég var í þeim hópi. Afleiðingarnar af því að fara inn í alþingishúsið til að mótmæla, hversu erfiðar þær voru og hversu mikla andlega orku og tíma þær tóku frá mér. Ekki bara mér heldur líka manninum mínum. Það var mjög erfitt. Og ég viðurkenni alveg að undir það síðasta í því máli þegar dómsmálið var komið af stað og við vorum ákærð … það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

„Það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

Sólveig Anna segir að þessi reynsla hafi setið lengi í henni þótt hún geri það ekki lengur. „Ég hugsaði oft mikið um þetta og ég upplifði mig mjög valdalausa meðan á þessu stóð og fannst það mjög óþægilegt. Þetta var á sama tíma og ég var virkilega að kynnast því hvernig væri að vera láglaunakona á Íslandi og ég er virkilega að horfast í augu við þau örlög sem var líka erfitt. Afleiðingar hrunsins lögðust mjög þungt á okkur, mig og manninn minn, með atvinnuleysi og fjárhagskröggum þannig að þetta var mjög „intense“ og erfiður tími. Svo lærði ég hversu tjúlluð borgarastéttin getur leyft sér að verða þegar hún upplifir að sér sé ógnað. Það var mjög hressilegur lærdómur.“

Sérðu eftir þessu?

„Nei, ég sé ekkert eftir þessu. Á endanum áskotnaðist mér margt, eins og að kynnast snjöllu og sniðugu fólki sem var ekki búið að láta samfélagið móta sig alveg og lifði á eigin forsendum. Það var mjög hressandi.“

Sólveig Anna var einnig lykilþátttakandi í öðru máli sem skók þjóðina á árunum eftir hrun, lekamálinu svokallaða. Hún var í hópi aðgerðasinna sem boðað höfðu mótmæli í dómsmálaráðuneytinu þegar vísa átti hælisleitandanum Tony Omos úr landi. Sama morgun og mótmælin fóru fram birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins sem unnin var upp úr minnisblaði sem hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Málið endaði með afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og dómi yfir aðstoðarmanni hennar. „Það var ótrúlegt og það var enn eitt dæmið um hversu tjúlluð borgarastéttin verður þegar hún upplifir einhverja ógn. Viðbrögð þeirra sem fara svona með völd eru svoleiðis að á endanum eru þau sínir eigin verstu óvinir. Það var eitt æðisgengnasta dæmi sögunnar um þetta dramb sem getur sýkt fólk sem kemst í of mikil völd.“

Lífsstíll efri stéttanna ekki mögulegur án vinnuaflsins

Það er mikið talað um að fram undan sé átakavetur með hörðum deilum á vinnumarkaði. Sólveig Anna telur ekki að svo þurfi að vera. „Það eina sem þarf er að viðsemjendur okkar mæti okkur af sanngirni, að þeir viðurkenni réttmæti krafnanna og komi að samningaborðinu með það hugarfar að við ætlum saman í það verkefni að sannarlega bæta lífskjör verka- og láglaunafólks á Íslandi. Ég ætla enn þá að leyfa mér að halda í þá von að svo verði. Ég held að pólitíska andrúmsloftið í samfélaginu sé með þeim hætti að þau geti raunverulega ekki komið sér hjá því að takast á við þetta.“

Megum við eiga von á því að hér logi allt í verkföllum?

„Ég, sem áhugamanneskja um verkalýðsbaráttu, tala ekki af léttúð um verkföll og hef aldrei gert. En ég veit að verkföll eru eitt það mikilvægasta og merkilegasta sem vinnuaflið hefur, því það sýnir hversu stórkostlegt vægi það hefur. Án vinnuaflsins er allt tal um hagvöxt innantómt og lífsstíl efri stéttanna ekki mögulegur. Ef það er á endanum eina leiðin sem er fær, er það bara svoleiðis. En þá verður sannarlega ekki við okkur að sakast.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegar förðurnarfræðingur YSL á Íslandi

 

Neysla eykst við lögleiðingu

Lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Að venju sýnist sitt hverjum, þeir sem eru andvígir halda á lofti hættunni sem kannabisneysla veldur ungu fólki og þeir sem eru meðmæltir telja bann við neyslu kannabisefna skerðingu á einstaklingsfrelsi, enda sé um tiltölulega hættulítið efni að ræða.

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að leggja sín lóð á vogarskálarnar og rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki. Guðrún Björg Ágústsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, er ein þeirra. Hún er með yfir 30 ára starfsreynslu, síðustu sjö ár sem ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi. Hún telur að neysla muni aukast við lögleiðingu.

Sjá einnig: Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Hvaða rök mæla gegn lögleiðingu kannabis? „Með lögleiðingu er verið að segja unga fólkinu okkar að kannabis sé ekki svo hættulegt efni, enda hvernig gæti það verið það, ef það væri löglegt? Eins og við flest vitum eru það unglingar sem eru stærsti hópurinn sem notar vímuefni en það er einmitt sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir áhrifum vímuefnanna.“

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu?„Það hefur nú þegar sýnt sig í Colorado að 85 prósent fleiri ungmenni nota kannabis þar miðað við hin ríkin í Bandaríkjunum. Eins hefur bílslysum sem rakin eru til kannabisneyslu fjölgað um 151 prósent. Einnig blómstrar svarti markaðurinn, andstætt því sem almennt er talið.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Mín skoðun er sú að það myndi breyta mörgu í þjóðfélaginu ef kannabis yrði lögleitt. Það eru mörg gróðatækifæri í framleiðslu og sölu á kannabis. Kannabis er hægt að setja í sælgæti, mat, drykk, rafrettur og fleira. Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar. Þá varpa ég fram spurningunni: Hvaða áhrif mun það hafa á umferðina og slys af völdum áhrifa undir stýri? Með aukinni neyslu þarf að auka meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast efninu. Svo virðist sem reynsla þeirra sem hafa lögleitt kannabis sé sú að neysla aukist. Það er nú þegar aukning á neyslu kannabis hjá unglingum hér á landi og það er vitað að því yngri sem unglingar byrja neyslu því meiri skaði verður við notkun og meiri líkur á að unglingurinn ánetjist efninu. Með lögleiðingu yrði þá líka að stórauka meðferðarúrræði.“

Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar.

Hvers vegna ert þú persónulega andvíg lögleiðingu kannabis? „Ég hef séð hvernig kannabisneysla hefur haft áhrif á fólk, sérstaklega ungt fólk. Ein helstu rök unglinga sem eru að eyðileggja líf sitt vegna neyslu kannabis eru: Þetta er ekkert hættulegt, það er verið að lögleiða þetta. Unglingar horfa ekki á að það sé aldurstakmark fyrir kaupum á kannabis þar sem það er löglegt. Þau eru ung og þau gera það sem við fullorðna fólkið höfum fyrir þeim. Ef við lögleiðum kannabis verður það líka fyrir 14 ára börn.“

Myndir / Hallur Karlsson

Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki þar sem lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Örvar Geir Geirsson, listamaður, stofnandi Reykjavik homegrown og áhugamaður um menningu og málefni sem varða kannabis er einn þeirra sem vill að neysla kannabis verði lögleg á Íslandi.

Sjá einnig: Neysla eykst við lögleiðingu

Hvaða rök mæla með lögleiðingu kannabis? „Refsistefnan skilar engu og virkar ekki. Reynslan hefur sýnt að hún dregur hvorki úr notkun né framboði. Það er betra að regluvæða hægt og rólega framleiðslu og sölu og hafa aldurstakmark. Ekki vera með þessar forræðishyggjurefsingar. Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs. Ólöglegi kannabismarkaðurinn á Íslandi veltir stórum fjárhæðum, innan hans er fjöldi manns af öllum stéttum og hann er kominn til að vera. Það er löngu kominn tími á nýja nálgun, ekki bara afglæpavæðingu heldur regluvæddan iðnað og lögleg störf.“

Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs.

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu? „Ef litið er til reynslu annarra Evrópuþjóða og ríkja innan Bandaríkjanna hefur lögleiðing, hvort sem er notkun til lækninga eða til afþreyingar fyrir fullorðið fólk, getið af sér samfélagslegan ávinning með töluverðri minnkun glæpatíðni í ýmsum geirum afbrota. Þar á meðal er heimilisofbeldi, og dauðsföllum vegna misnotkunar lyfja hefur einnig fækkað, auk þess hefur dregið úr notkun ávanabindandi verkjastillandi lyfja og ólöglegra efna, eins og reynsla Portúgala og ríkja í Bandaríkjunum hefur sýnt. Notkun á CBD-olíu hefur reynst flogaveikum erlendis vel og eins ýmsum sem eiga við taugasjúkdóma að stríða. Slík olía hefur engin hugbreytandi vímuáhrif og virðist samkvæmt öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið, heilsubætandi. Töluvert stór hópur Íslendinga hefur orðið sér úti um CBD-olíu vegna ýmissa kvilla og notið góðs af.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Aðgengi ungs fólks yrði minna með aldurstakmarki. Það yrðu greiddir skattar af framleiðslunni og haft eftirlit með sölu, framleiðslu, gæðum og styrkleika vörunnar. Þetta skapar iðnað sem býr til ótal mörg sérfræði- og þekkingarstörf sem verður að teljast ávinningur fyrir samfélagið. Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu og leggja aukið fjármagn í meðferðarúrræði og geðhjálp.“

Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu.

Hvers vegna ert þú persónulega hlynntur lögleiðingu kannabis? „Fyrir mér er þetta bara spurning um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, hvort sem er vegna heilsu eða sér til afslöppunar. Svo finnst mér bara óþarfi að eyða tíma lögreglu í að eltast við fólk vegna notkunar kannabis, einkaræktunar eða fyrir að hafa smávegis kannabis á sér, til dæmis á tónleikum. Flest fólk sem notar kannabis er heiðarlegt og gott fólk, samkvæmt minni reynslu, þetta fólk veldur ekki öðrum neinum skaða, hættu eða tjóni með því að fá sér eina jónu. Þetta svokallaða stríð gegn fíkniefnum er bara stríð gegn fólki sem veldur samfélagi og fólki skaða og það aðallega ungu fólki, okkar fólki.“

Mynd / Hallur Karlsson

Fósturmissirinn alls ekki erfið lífsreynsla

Tilvera Báru Ragnhildardóttur tók óvænta stefnu í október á síðasta ári. Þegar hún og maðurinn hennar, Richard, fengu „jákvætt“ á óléttuprófi grunaði þau ekki hvað næsta hálfa ár myndi bera í skauti sér. Fram undan voru erfiðir mánuðir þar sem Bára var mjög veik, en þessi reynsla fékk þau bæði til að endurmeta líf sitt og það sem raunverulega skiptir máli.

Mynd: Unnur Magna

Á fyrstu vikum meðgöngunnar var allt eðlilegt, Báru leið vel og það eina sem hún fann fyrir var aukin þreyta. Það kom henni á óvart að á fimmtu viku var farið að sjá á henni. „Ég trúði því eiginlega ekki fyrst, en þegar vinkona mín sem vissi að ég var búin að fá „jákvætt“ kommentaði á kúluna fór ég að fela hana. Þegar kom að snemmsónar á sjöundu viku veðjuðum við Richard smávegis í gríni í bílnum á leiðinni um hvort það væru eitt eða tvö börn á leiðinni,“ segir Bára, en daginn eftir voru þau á leið í ferðalag til útlanda til að heimsækja foreldra Richards og ætluðu að færa þeim gleðifréttirnar.

Þegar í sónarinn var komið sá læknirinn hins vegar strax að ekki væri allt með felldu. Hann nefndi mögulegan litningagalla, og ljóst var að fóstrið var ekki lífvænlegt. „Tal um eitt eða tvö væntanleg börn breyttist því skyndilega í ekkert barn. Læknirinn gaf okkur þrjá möguleika í stöðunni. Ég gat tekið töflu til að losa fóstrið út, farið í útsköfun eða beðið og séð hvort líkaminn skilaði þessu sjálfur,“ segir Bára.

„Tal um eitt eða tvö væntanleg börn breyttist því skyndilega í ekkert barn.“

 

Þar sem þau voru á leið utan morguninn eftir og Bára ekki fastandi í tímanum, kom enginn annar valkostur til greina en að bíða og sjá hvort líkaminn myndi losa sig við fóstrið sjálfur. Bára segir ótrúlegt að hugsa til þess með hversu miklu æðruleysi hún hafi tekið þessum fréttum. „Ég var döpur í eitt augnablik, en áður en við gengum út af læknastofunni fylltist ég þakklæti. Þakklæti fyrir að líkaminn losi sig við það sem á ekki að verða að heilbrigðum einstaklingi og þakklæti fyrir litlu heilbrigðu stelpuna sem ég á og gat sótt í leikskólann og notið tímans með henni. Ég held líka að reynsla vinkvenna minna af fósturmissi og hversu opinskátt þær hafa talað um það innan vinahópsins hafi hjálpað óendanlega mikið í þessum sporum. Ég hef sagt það allan tímann að mér fannst fósturmissirinn alls ekki erfið lífsreynsla. En þetta verkefni endaði því miður ekki þarna og var í rauninni bara rétt að byrja.“

Framundan hjá Báru og fjölskyldu voru erfiðir tímar sem fólu meðal annars í sér krabbameinsmeðferð. Lestu ítarlegt viðtal við Báru í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna

 

 

 

Löndin sem mælt er með að heimsækja á næsta ári

|
|

Ert þú að spá hvert gaman væri að ferðast á næsta ári? Þá er þessi listi frá sérfræðingum Lonely Planet eitthvað fyrir þig.

Sérfræðingarnir hjá Lonely Planet hafa nú birt lista yfir þau tíu lönd sem þeir mæla með að ferðaþyrstir íhugi að heimsækja á næsta ári. Í fyrsta sæti er Sri Lanka, í öðru sæti er Þýskaland og í því þriðja er Zimbabwe.

„Nú sem aldrei fyrr er nóg í boði fyrir alla; fjölskyldur, adrenalínfíkla, náttúruunnendur, þá sem vilja ná slökun og sælkera,“ segir meðal annar um fyrsta sætið, Sri Lanka. Hvað varðar Þýskaland þá er mælt sérstaklega með borgunum Weimar og Berlín og bænum Dessau.

Svona lítur svo listinn í heild sinni út:

  1. Sri Lanka
  2. Þýskaland
  3. Zimbabwe
  4. Panama
  5. Kyrgyzstan
  6. Jórdanía
  7. Indónesía
  8. Belarus
  9. São Tomé & Príncipe
  10. Belize

Myndband af aðgerðum lögreglu í New York

Grunsamlegur pakki var sendur á veitingahús sem er í eigu Roberts de Niro í morgun. Lögreglan var fengin í að fjarlægja pakkann og rannsaka hann. Meðfylgjandi er myndband af aðgerðum lögreglu.

Lögreglan í New York hefur grunsamlegan pakka til rannsóknar. Pakkinn var sendur á veitingahúsið Tribeca Grill í New York sem er í eigu leikarans Roberts de Niro. Óttast er að pakkinn innihaldi sprengju en undanfarið hafa sprengjuefni verið send nokkrum gagnrýnendum Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Robert de Niro hefur verið óhræddur við að gagnrýna forsetann opinberlega.

Þess má geta að pakkinn var sendur á veitingastaðinn snemma í morgun og var staðurinn þá mannlaus.

Meðfylgjandi er myndband sem sýnir sérfræðinga á vegum lögreglunnar í New York keyra með pakkann grunsamlega í gegnum borgina. Myndbandið er birt á YouTube-síðu The Guardian.

Sjá nánar: Swift bætist í fjölmennn hóp þeirra sem Trump hefur móðgað

Jim Parsons launahæstur með 3,2 milljarða

Forbes birti lista yfir tíu launahæstu sjónvarpsþáttaleikarana fyrr í dag. Leikarinn Jim Parsons er í efsta sætinu.

Viðskiptatímaritið Forbes birti í dag á vef sínum lista yfir tíu launahæstu sjónvarpsþáttaleikara heims þessa árs. Það er leikarinn Jim Parsons sem trónir á toppi listans með 26,5 milljónir Bandaríkjadala í árslaun, þ.e. fyrr skatt. Það gerir tæpa 3,2 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Parsons er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Big Bang Theory. Þetta er fjórða árið í röð sem Parsons tryggir sér efsta sæti listans.

Tekið skal fram að listinn byggir á tekjum sem þénaðar voru frá júní 2017 til júní 2018. Um tekjur fyrir skatt og önnur launatengd gjöld er að ræða.

Hér fyrir neðan er svo listinn yfir tekjuhæstu sjónvarpsþáttaleikara þessa árs í heild sinni. Eins og sjá má taka leikarar Big Bang Theory fjögur efstu sætin.

  1. Jim Parsons (Big Bang Theory) með 3,2 milljarða króna
  2. Johnny Galecki (Big Bang Theory) með 3 milljarða króna
  3. Simon Helberg (Big Bang Theory) með 2,8 milljarða króna
  4. Kunal Nayyar (Big Bang Theory) með 2,8 milljarða króna
  5. Mark Harmon (NCIS) með 2,3 milljarða króna
  6. Ed 0‘Neill (Modern Family) 1,7 milljarða króna
  7. Eric Stonestreet (Modern Family) 1,6 milljarða króna
  8. Jesse Tyler Ferguson (Modern Family) 1,6 milljarður króna
  9. Ty Burrell (Modern Family) 1,4 milljarður króna
  10. Andrew Lincoln (The Walking Dead) 1,3 milljarður króna

Búist við línu af nýjum Apple tölvum í næstu viku

Tæknirisinn Apple hefur boðað til kynningar í New York á þriðjudaginn þar sem nýjar vörur verða kynntar. Von er á allt að þremur tegundum af nýjum Mac tölvum ef marka má tæknisíður vestanhafs.

Að venju ríkir mikil eftirvænting meðal aðdáenda Apple fyrir kynninguna sem er sú fjórða á þessu ári. Búist er við að nýr iPad Pro verði kynntur til sögunnar sem og uppfærslur af Mac tölvum. Mesta eftirvæntingin virðist þó vera eftir nýrri línu af Mac tölvum.

Tæknisíðan Digital Trends bendir á að Apple hafi sótt um leyfi fyrir skráningu á þremur nýjum tölvum hjá framkvæmdastjórn Evrasíubandalagsins. Tækninördar hafa áður sótt í þann gagnagrunn til að komast á snóðir um nýjar vörur frá Apple.

BGR tæknisíðan telur að von se á nýjum Mac Mini og iMac borðtölvum sem og einhvers konar nýrri útgáfu af MacBook. Þá má einnig eiga von á nýjum AirPods heyrnartólum og uppfærðri AirPower hleðslustöð.

„Þetta er hálfgert jóla-ween hérna hjá mér“

Sigga Kling er mikið jólabarn. Hún er byrjuð að skreyta heima hjá sér en þessa stundina er heimilið prýtt bæði jólaskrauti og hrekkjavökukrauti.

Skemmtikrafturinn Sigga Klink er mikið jólabarn og elskar að skreyta í kringum sig og fagna jólahátíðinni. Hún er byrjuð að skreyta en þessa stundina er heimili hennar prýtt jólaskrauti í bland við hrekkjavökuskraut. „Ég elska jólin! Ég hlusta meira að segja á jólalög á sumrin, þegar ég er í einhverju óstuði. Vegna þess að hver getur verið í vondu skapi þegar Snæfinnur snjókarl hljómar?“

Ég hlusta meira að segja á jólalög á sumrin.

Jólatréð er fyrir löngu komið upp hjá Siggu sem vakið hefur athygli. „Veistu, það voru 15-20 krakkar að syngja jólalög fyrir utan hjá mér um daginn. Ég skildi fyrst ekkert í þessu en svo var það auðvitað af því að ég er búin að setja upp risa jólatré í gluggann, glitrandi fínt með ljósum. Ég bauð þeim bara inn,“ segir hún og skellir upp úr. „En svo þurfti kennarinn að koma og sækja þau, þau áttu ekkert að fara af skólalóðinni,“ segir Sigga hlæjandi.

Sigga er líka aðdáandi Halloween, hrekkjavökunnar eins og það kallast á íslensku, og er búin að skreyta heimilið sitt með hrekkjavökuskrauti. „Þetta er hálfgert jóla-ween hérna hjá mér, jólavín!“ segir hún og skellir upp úr.

Skrifar bækur um jólasveinana

Þessa stundina er Sigga að skrifa bækur um jólasveinana. „Þetta er skrifað í svipuðum stíl og Kötturinn með höttinn. Jólasveinarnir eru voða jákvæðir hjá mér og að gera alls konar sniðugt. Skyrgámur er til dæmis búinn að opna skyrgerð. En ég er í smá vandræðum með Gluggagægi, ætli ég láti hann ekki bara vinna í glersmiðju,“ segir Sigga sem elskar jólahefðir.

„Ég er náttúrulega krakki í hjartanu þannig að ég elska jólasveina, jólahefðir og svo framvegis.“ Hún er þó ekki mikill aðdáandi jólaboði. „Nei, takk!“ segir hún hlæjandi. „Mér finnst óþolandi að fara um alla bæi í jólaboð. Ég tala bara frá hjartanu.“

Spurð út í hvort hún sé farin að hugsa um jólamatinn segir hún: „Ég er minna í reykta kjötinu núna. Fólk verður alveg útblásið af þessu salta kjöti. En ég er hrifin af smjörsprautuðum kalkún. Það klikkar ekki.“

Mynd / Hákon Davíð

 

 

Áróðursmaskína fer af stað þegar vinnuaflið setur fram kröfur

|

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, gefur lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum og ætlar ekki að samþykkja leikreglurnar sem vinnuveitendur setja.

„Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum.

Ítarlegt viðtal er við Sólveigu Önnu í 30. tölublaði Mannlífs þar sem hún talar um kjarabaráttuna, ákæruna fyrir árásina á Alþingi og átökin innan Eflingar.

Mynd / Hallur Karlsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Frá píkum yfir í brjóst

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, fjáröflunar og árvekniátaki Krabbameinsfélags Íslands. Listakonurnar Erla Gísladóttir og Linda Jóhannsdóttir leggja málefninu lið með ilmkertinu Brjóstbirtu en ágóði sölunnar rennur til samtakanna Göngum saman.

Í ár tóku þær Erla Gísladóttir, eigandi URÐ, og Linda Jóhannsdóttir, hönnuður og eigandi Pastelpaper, höndum saman og framleiddu ilmkertið Brjóstbirtu. Kertið er hannað fyrir samtökin Göngum saman en þau standa að því markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini sem eru undirstaða þess að lækning finnist í framtíðinni. „Ilmurinn sem Erla hannaði er alveg einstakur að mínu mati,“ segir Linda og heldur áfram. „Ferskur, hreinn, kvenlegur, upplífgandi og veitir innblástur. „Nafnið Brjóstbirta varð fyrir valinu því okkur finnst það svo fallegt og minnir á tilgang félagsins Göngum saman. Félagið safnar fé til rannsókna sem auka skilning okkar á uppruna og eðli krabbameins í brjóstum. Tilgangurinn er göfugur og bjartur. Toppnótur Brjóstbirtu samanstanda af plómum og greipávexti. Hjartað af sedrusviði og hvítum blómum en grunnurinn af sandalvið, vanillu og moskus.“

Vatnslituð brjóstmynd eftir Lindu prýðir hvert glas en brjóstamyndirnar hennar eru hluti af nýrri línu sem heitir einfaldlega Brjóst og rennur ágóði af sölu þeirra til Göngum saman.

Myndirnar eru unnar með blandaðri tækni þar sem meðal annars er unnið með vatnsliti, artliner og pastel.

Linda gaf út sína fyrstu línu árið 2013. Línan hét Bird Portraits og hlaut sú lína mikilla vinsælda og er enn þá í sölu í öllum helstu hönnunarbúðum og listasöfnum. Linda hefur hannað ýmis verk en hún setti meðal annars upp sýninguna Píka, fyrsta sýning var haldin í miðbæ Reykjavíkur í nóvember 2017 og fékk mjög góðar viðtökur. Næsta sýning var haldin í mars 2018 í Háskóla Íslands.

„Markmið mitt með sýningunni PÍKA var að sýna myndskreyttar píkur í allri sinni fegurð, dulúð og fjölbreytileika, vekja þannig bæði píkuna sjálfa og heiti hennar til virðingar í samfélaginu.“

„Um leið og píkan er vakin meira til virðingar eykst sjálfsást kvenna og með því drögum við úr áhrifum klámvæðingar. Gefum Píkunni pláss í veröldinni – og rödd út í samfélagið og berjumst áfram fyrir því að kynin eigi að vera jöfn.“ Sýningin Brjóst er unnin í sömu tækni og sýningin Píka og koma verkin í eins römmum sem Linda hannaði fyrir píkuverkin.

Opnunarteitið verður haldið þann 24. október frá kl 16 til 19 á Fiskislóð 75 í verslun Hlínar Reykdal. Myndirnar og kertin sem eru í takmörkuðu upplagi verða í sölu þar í tvær vikur eða á meðan birgðir endast.

Myndir / Björn Snorri Roshdahl og Aldís Pálsdóttir

Jamie Lee Curtis opnar sig um fíknina

Bandaríska leikkonan Jamie Lee Curtis var háð lyfseðilsskyldum verkjalyfjum í 10 ár.

Leikkonan Jamie Lee Curtis opnar sig um fíkn sína í ópíðum, eða lyfseðilsskyld verkjalyf, í nýjasta tölublaði PEOPLE. Í viðtalinu segist hún vera þakklát fyrir að hafa lifað þetta tímabil af, þessi 10 ár sem hún var háð lyfseðilsskyldum verkjalyfjum. „Enginn vissi neitt. Enginn,“ segir hún í viðtalinu.

Jamie Lee segist hafa fengið lyfseðilsskyld verkjalyf fyrst árið 1989. Lyfin fékk hún frá lýtalækni eftir að hafa gengist undir fegrunaraðgerð. Hún varð strax háð lyfjunum og næsti áratugurinn einkenndist að því að reyna að komast yfir meira. Hún viðurkennir að hafa stolið ýmsum töflum frá vinum og fjölskyldumeðlimum.

Það var ekki fyrr en árið 1999 sem hún leitaði sér hjálpar í baráttunni við fíknina. Á sama tíma sagði hún eiginmanni sínum leyndarmál sitt. Leikkonan hefur í dag verið edrú í 20 ár og segir það vera sitt stærsta afrek.

Þess má geta að eiturlyfjafíkn hefur tekið sinn toll á fjölskyldu Jamie Lee en faðir hennar, Tony Curtis, var alkóhólisti og einnig háður kókaíni og heróíni. Þá lést hálfbróðir hennar, Nicholas Curtis, af völdum of stórs skammts af heróíni árið 1994.

„Nú er ég komin með nýjan karl“

Það kom Andreu Önnu Guðjónsdóttur skemmtilega á óvart að frétta að hún hefði unnið afnot af glænýjum Opal Karl í heilt ár.

Andrea Anna Guðjónsdóttir datt í lukkupottinn þegar hún var dregin sem vinningshafinn í reynsluaksturs-leik Opel. Það kom henni skemmtilega á óvart þegar Snapchat-stjarnan Binni Löve læddist óvænt upp að henni í Perlunni og tilkynnti henni að hún hefði unnið afnot af glænýjum Opal Karl í heilt ár.

„Nú er ég komin með nýan karl,“ grínaðist Andrea. „Glænýjan! Og ég fæ að hafa hann í heilt ár?“ bætti hún við undrandi.

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá viðbrögð Andreu þegar henni var tilkynnt að hún hefði verið dregin út í leik Opel.

„Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur“

|
|

„Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur,“ segir Grétar Sigurðarson, einn þriggja manna sem hlaut dóm í líkfundarmálinu, í viðtali við Austurgluggann.

Kvikmyndin Undir Halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússin var nýlega frumsýnd. Myndin fjallar um líkfundarmálið svokallaða þegar lík af karlmanni fannst fyrir tilviljun í höfninni í Neskaupsstað.

Níu dögum eftir að líkið fannst voru þrír karlmenn handteknir vegna málsins. Einn af þeim er Grétar Sigurðarson. „Ég hef oft hugsað um hvernig það hefði verið hefði þetta aldrei komist upp. Hvernig mér liði í dag ef ég hefði þurft að þaga yfir þessu alla ævi, aldrei getað talað um þetta við neinn og þá ekki unnið úr þessu,“ segir Grétar í viðtali við Austurgluggann, fréttablað Austurlands, fjórtán árum eftir að málið kom upp. „Ég er búinn að vinna mikið í mínum málum og reyna að sættast við þetta, ég breyti engu héðan af hvort sem er.“

Í viðtalinu segir Grétar frá hvernig líf hans hefur þróast síðan hann hlaut dóm. „Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur. Ég er edrú en hef alveg fallið annað slagið, en það eru aldrei langir túrar og mér hefur borið gæfa til að standa aftur á lappir. Ef ég hins vegar missi stjórn á lífi mínu og dett í neyslu hef ég ekki hugmynd um hvað ég geri,“ segir hann í viðtalinu. Hluta af því er að finna á austurfrett.is.

Kafarinn Þorgeir Jónsson.

Skömmu áður en Undir halastjörnu var frumsýnd tók Mannlíf kafarann Þorgeir Jónsson tali. Það var hann sem fann líkið á sínum tíma. „Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna. Ég kafaði síðan niður aftur til að taka myndir og kom með þær upp um svipað leyti og lögreglan mætti á svæðið. Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“ sagði Þorgeir þegar hann rifjaði þennan atburð upp í viðtali við Mannlíf. Viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Mynd / Stilla úr sýnishorni myndarinnar Undir Halastjörnu

„Það mættu miklu fleiri en 7.000“

Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018, er í skýjunum eftir baráttufundinn á Arnarhóli í dag.

Baráttufundir til að mótmæla kjaramisrétti, ofbeldi og áreitni á vinnustað voru haldnir víða um land í dag. Margt fólk hætti í vinnu klukkan 14:55 og lagði leið sína á baráttufundina en sá stærsti var haldinn á Arnarhóli.

Dagskrá fundarins á Arnarhóli var fjölbreytt en Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar voru meðal þeirra sem ávörpuðu viðstadda. Einnig var boðið upp á fjölbreytt tónlistaratriði. Ilmur Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir voru fundarstýrur.

„Þetta gekk bara framar öllum vonum – eftir mikinn undirbúning síðustu vikna erum við í skýjunum með fundinn, mætingu og allt,“ segir Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018.

Aðspurð hvort hún sé með tölur yfir þann fjölda sem lagði leið sína á Arnarhól í dag segir Maríanna: „Við erum ekki með neinar tölur enn þá. Við vitum þó að það mættu miklu fleiri en 7.000 en það var tala sem annar fundarstjórinn hafi kastað fram í gríni!“

„Í mjög langan tíma skammaðist ég mín fyrir að stama“

|
|

Hönnuðurinn Sveinn Snær Kristjánsson hefur undanfarið unnið að verkefni um stam. Verkefnið samanstendur af grafískum myndum sem eru hluti af lokaverkefni hans í Arts University Bournemouth. „Kveikjan að myndunum er stam og upplifun mín af stami. Ég hef stamað í yfir tuttugu ár,“ segir Sveinn.

„Hugmyndin er sem sagt að bæði fræða fólk um stam og minnka misskilning fólks á stami, auk þess að sýna öðrum sem stama (og sjálfum mér) að stam er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. Stam ætti ekki að halda aftur af þér því þetta snýst allt um þolinmæði hlustandans.“

Sveinn segir fólk almennt ekki vita mikið um stam. „Það er alveg skiljanlegt að fólk viti ekki mikið um stam en það sem er verra er að það virðist ríkja viss hræðsla við að spyrja. Svo eru ýmsar mýtur um stam áberandi. Stærsta og helsta mýtan er sú að fólk sem stamar er hlédrægt, stressað eða jafnvel rosalega kvíðið. Sannleikurinn er sá að kvíði eykur á stam en stamið sjálft er einhverskonar „glitch“ í málstöðvum heilans, þetta er auðvitað afar einfölduð útskýring.“

„Stærsta og helsta mýtan er sú að fólk sem stamar er hlédrægt, stressað eða jafnvel rosalega kvíðið.“

Stam er hvorki geðsjúkdómur né smitandi

Sveinn segir sumt fólk líka halda að um kæk sé að ræða, kæk sem fólk getur losað sig við. „Þessi mýta veldur vissum fordómum gagnvart fólki sem stamar. Annar misskilningur er að stam sé geðsjúkdómur, smitandi eða komi vegna áfalls í æsku. Ég vil hvetja fólk til þess að spyrja frekar en að trúa einhverri vitleysu.“

Sveinn vonar að með grafísku verkum sínum geti hann frætt fólk og hjálpað þeim sem stama. Sjálfur hefur Sveinn fundið fyrir ákveðinni skömm fyrir að stama. „Í mjög langan tíma skammaðist ég mín fyrir að stama og í sannleika sagt er ég enn að berjast við vissa skömm yfir því að stama. Að alast upp við að stama og vita í raun ekki af hverju og geta ekkert að því gert var afskaplega erfitt.“

„Í sannleika sagt er ég enn að berjast við vissa skömm yfir því að stama.“

Með verkefninu vill hann vekja fólk til umhugsunar. Hann bendir á að flest fólk sem stamar vill ekki láta klára setningarnar sínar fyrir sig. „Ég vil fá að klára setningarnar mínar eins og hver annar. Stundum segir fólk mér að anda, hægja á mér eða eitthvað álíka. Ég verð að viðurkenna að það fer í taugarnar á mér þó að ég viti að það sé að reyna að hjálpa. Það besta sem fólk getur gert þegar ég er að stama er bara að bíða þangað til að ég klára setninguna, það tekst alltaf á endanum.“

Að lokum bendir Sveinn áhugasömum á Instagram-síðuna sína, @sven_illustration. Þar getur fólk fylgst með þróun verkefnisins.

Bleikt og rokkað hjá ungu pari í Vogunum

Parið Stella Björt Bergmann Gunnarsdóttir og Alexander Fannar Kristjánsson búa í skemmtilegri íbúð í Vogahverfinu. Bleiki liturinn er áberandi á heimilinu.

Þau Stella Björt Bergmann Gunnarsdóttir og Alexander Fannar Kristjánsson búa í Vogahverfinu í fallegu húsi byggðu árið 1950 ásamt tæplega sex mánaða syni sínum, honum Vésteini Flóka. Einungis eru um sjö mánuðir síðan parið flutti og er ekki annað hægt að segja en að þau séu búin að koma sér vel fyrir, en þau ákváðu að koma sér af leigumarkaðnum þegar þau vissu að fjölskyldan myndi stækka. Stella Björt starfar sem verslunarstjóri hjá Spútnik í Kringlunni og Alexander Fannar er tónlistarmaður, betur þekktur undir nafninu Black Pox.

Skipulag hússins og hverfið heillaði

Íbúðin er á tveimur hæðum og á þeirri efri eru tvær bjartar stofur, ásamt eldhúsi og vinnuaðstöðu Alexanders og neðri hæðin geymir svefnherbergi, bað og þvottahús.

Hvernig líkar ykkur hér í Vogahverfinu? „Þetta er mjög næs hverfi en ég ólst upp hérna og bjó í tuttugu ár, hér er rosalega rólegt en á sama tíma er þetta hverfi mjög miðsvæðis,“ svarar Stella.

Hvað heillaði við þetta hús? „Við erum mjög hrifin af hverfinu og þessum smáatriðum í íbúðinni, skrautlistunum og rósettunum. Svo er rosalega þægilegt að vera á tveimur hæðum og hafa svefnherbergin og baðherbergið niðri, en hann Vésteinn er svolítið svefnstyggur svo það er snilld að geta verið uppi á kvöldin og þurfa ekki að hvísla.“

Bleikur í uppáhaldi

Hvernig stíl eruð þið með? „Við Alex erum rosalega ólík þegar kemur að stíl heimilisins, þetta er búið að vera mjög langt ferli að ná góðum millivegi hvað varðar stílinn hér heima. Axel vill hafa allt frekar einfalt og meira út í industrial- stíl, meðan ég er alveg í hina áttina.“ Stella segir bleika velúrsófann úr ILVU vera í miklu uppáhaldi en þau festu kaup á honum nýlega. „Mig hefur langað í bleikan sófa alveg síðan ég var 10 ára og loksins hefur sá draumur ræst!“ Þau segjast afar lítið snobbuð hvað varðar val á húsgögnum og kaupa bara hluti inn á heimilið sem þeim þykir fallegir og er nokkurn veginn sama hvaðan þeir koma.

„Mig hefur langað í bleikan sófa alveg síðan ég var 10 ára og loksins hefur sá draumur ræst!“

Aðspurð um hvaða hönnuður sé í uppáhaldi nefnir Stella fatahönnuðinn Hildi Yeoman en hún segist þó duglegust að kaupa vintage-föt og sé mjög hrifin af endurnýtingu.

Safnið þið einhverju? „Já, bleikum hlutum,“ segir Stella og hlær, „annars söfnum við minjagripum úr ferðalögum og stillum þeim upp á hillu hér niðri, en við elskum að ferðast.“ Við kveðjum unga parið í Vogunum að sinni og þökkum þeim fyrir kaffið og heimboðið.

Texti / Elín Bríta
Myndir / Hallur Karlsson

Funkisstíllinn alltaf heillandi

Nadia Katrín Banine, löggiltur fasteignasali hjá Landmark fasteignasölu og flugfreyja, er með retróstíl, stílhreinan og hlýlegan og er heilluð af funkisstílnum. Uppáhaldshönnuður hennar er Hans J. Wegner, henni finnst handverk hans vera ævintýralegt.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Ég hef alltaf haft gaman af heimilum og hönnun og fór fyrir nokkrum árum á hönnunarbraut við Iðnskólann í Hafnarfirði. Ég hef líka unnið mikið við sölumennsku og stílfæringu svo þetta var einhvern veginn upplögð leið til að flétta saman þessa tvo þætti. Ég legg mikið upp úr því að aðstoða fólk við það að fá sem mest út úr eigninni sinni, með því að gera hana sem söluvænlegasta. Fermetrar og birta er oftast það sem flestir eru að leita eftir og oft þarf að snúa aðeins við einhverjum hlutum í rýminu, fækka þeim og opna rýmið þannig að það fái að njóta sín sem best.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Það er svo misjafnt. Fer mikið eftir því hvernig húsnæðið er, en mér finnst alltaf fallegt að blanda saman nýju og gömlu og vera ekki með of einsleita hönnun. Ljósmyndir, kerti, plöntur og textíll er eitthvað sem mér finnst gegnumgangandi gera heimili hlýleg og persónuleg. Stundum eru heimili, að mínu mati, of stílfærð og ópersónuleg.“

„Ég hef gaman af því að gefa gömlum hlutum líf og leyfa þeim að njóta sín í bland við tímalausa hönnun. Mér finnst líka gaman að eiga fallega list eftir fólk sem ég þekki.“

Getur þú lýst þínum stíl? „Minn stíll er svolítið retró, myndi ég segja. Hann er stílhreinn en líka hlýlegur. Ég hef gaman af því að gefa gömlum hlutum líf og leyfa þeim að njóta sín í bland við tímalausa hönnun. Mér finnst líka gaman að eiga fallega list eftir fólk sem ég þekki.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Já, því er auðsvarað, Zaha Hadid.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Ég er svona laumusmiður í mér og elska fallega smíði. Ég verð að segja Hans J. Wegner. Handverk hans er ævintýralegt.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Ætli það sé ekki Bamsestolen eftir Wegner.“

Málverkið fyrir aftan Nadiu er eftir fjölskylduvin, Sigtrygg Bjarna Baldursson.

Uppáhaldsliturinn þinn? „Hef verið ótrúlega svört síðustu ár, en núna finnst mér fallegur blár og flöskugrænn einstaklega fallegur. Ég er nýbúin að kaupa mér í sjónvarpsstofuna fallega grænan bólstraðan bekk sem ég er svakalega ánægð með.“

Hvar líður þér best? „Heima hjá mér verð ég að segja í svefnherberginu. Það er samt ekki alveg tilbúið, en er ótrúlega skemmtilegt rými. En svona almennt, þá á hestbaki eða á fallegri strönd.“

Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða í inn á heimilið þegar haustar? „Já, ég er að spá í að verða aðeins grænni heima hjá mér og kaupa meira af fallegum plöntum. Ég var alltaf með heilmikið af plöntum en það hefur eitthvað dalað síðustu árin. Svo má alltaf bæta við fallegum kertum. Ætla að ná mér í einhver kerti hjá henni Írisi vinkonu minni í Veru Design og svo elska ég líka Völuspárkertin.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Svo margir fallegir og flottir staðir að það er erfitt að gera upp á milli. Fer svona meira eftir því hvaða stemningu maður sækist eftir. Það er alltaf líf og fjör á Snaps en svo finnst mér Sæta svínið líka mjög skemmtilegur staður. Staðirnir hennar Hrefnu Sætran eru allir mjög smart og maturinn frábær.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Mér finnst funkisstíllinn alltaf svolítið heillandi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … vera í núinu, minnka símanotkun, elska fólkið sitt, hlæja, dansa og láta eftir sér það sem mann langar þegar maður hefur tækifæri til þess. Heft of sagt í gamni að ég lifi eftir slagorði Nike og L´oreal; Just do it og Because you´re Worth It.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Svona getur þú sigrast á stressinu

Hér koma sjö skotheld ráð fyrir þá sem þurfa að núllstilla sig og sigrast á stressinu. Ráðin, sem birtust á vef The Guardian, ættu að koma sér vel fyrir marga.

Finndu rót vandans

Ef þú ert með stöðuga vöðvabólgu, höfuðverk og mígreni þá eru miklar líkur á að stress sé sökudólgurinn. En hvað veldur stressinu? Vandamálum er hægt að skipta í þrjá flokka; þau sem hægt er að leysa, þau sem lagast með tímanum og þau sem þú hefur enga stjórn á. Lærðu að einblína á þau sem þú getur leyst, slepptu takinu á hinum.

Hreyfðu þig

Hreyfing útrýmir kannski ekki stressinu alveg en hún getur hjálpað við að minnka það.

Ræddu málið

Ef þú ert til í að opna þig og óska eftir ráðum frá vinum þá skaltu gera það. Leitaðu stuðnings hjá vinum og fáðu þannig nýja sýn á vandamál þín.

Minnkaði símanotkunn

Það er ekki nóg að setja símann á hljóðlausa stillingu. Settu hann líka ofan í skúffu, klukkutíma áður en þú ferð í háttinn. Farðu í bað, horfðu á kvikmynd eða lestu bók. Hundsaðu símann og andaðu inn og út.

Tæmdu hugann

Rannsóknir hafa sýnt að öndunaræfingar og hugleiðsla geta hjálpað til í baráttunni gegn stressi. Lærðu að tækla stressið um leið og það gerir vart við sig. Headspace er smáforrit sem kennir byrjendum að hugleiða, íhugaðu að skoða það.

Gerðu lista

Ef það er mikið að gera hjá þér þá er tilvalið að búa til lista til að hafa meiri yfirsýn. Settu mikilvægustu atriðin efst á listann og litlu hlutina neðst.

Borðaðu hollt og drekktu vatn

Það sem þú lætur ofan í þig hefur áhrif á andlega líðan. Þess vegna skaltu forðast fituríkan mat, koffín og sykur þegar stressið gerir vart við sig.

Sagði í skýrslutöku að Donald Trump þætti þetta í lagi

Maður sem káfaði tvisvar sinnum á brjóstum konu í flugvél Southwest Airlines sagði síðar í skýrslutöku að Donald Trump segði slíka hegðun í lagi. Samkvæmt frétt The Independent heitir maðurinn Bruce Alexander og er 49 ára að aldri. Hann var handtekinn eftir flug frá Texas til Nýju-Mexíkó fyrir að hafa kynferðislega áreitt konu sem sat fyrir framan hann í fluginu.

Konan sagði í skýrslutöku að hún hefði í fyrstu talið að maðurinn hefði káfað óvart á sér. En þegar maðurinn teygði sig fram og snerti hana í annað sinn óskaði hún eftir aðstoð flugþjóna. Konan fékk nýtt sæti í fluginu og maðurinn var handtekinn þegar flugvélin lenti í Albuquerque í Nýju-Mexíkó.

Bruce Alexander reyndi í skýrslutöku að nota hegðun Bandaríkjaforseta sér til varnar. Hann mun hafa sagt að Donald Trump segði hegðun sem þessa í góðu lagi, þess vegna hefði honum sjálfum þótt þetta í lagi. Hann vísaði þá í upptöku sem náðist af Donald Trump árið 2005 þar sem ræddi við sjónvarpsmann NBC News, Billy Bush. Á upptökunni má heyra Trump tala um að hann kæmist um með hvað sem er vegna frægðarinnar, meðal annars að grípa í klof kvenna. Umrætt myndband má sjá fyrir neðan.

Konan sem varð fyrir kynferðislegri áreitni mannsins hefur höfðað mál gegn honum er fram kemur í frétt The Independent.

Samþykki ekki leikreglur auðstéttarinnar

||
||

Sólveig Anna Jónsdóttir flosnaði fljótt upp úr námi, varð móðir ung að aldri, dvaldi átta ár í Bandaríkjunum þar sem hún sannfærðist endanlega um skaðsemi kapítalismans, sneri aftur beint í hrunið þar sem hún lék stórt hlutverk í búsáhaldabyltingunni og var láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í tíu ár áður en hún skyndilega stóð uppi með svo há laun að hún sá sig knúna til að lækka þau um 300 þúsund krónur.

„Ef við erum orðin svo klikkuð og svo langt leidd af firringu mannfjandsamlegrar hugmyndafræði að það er allt í einu orðið byltingarkennt að fólk geti lifað af dagvinnulaununum sínum og að skattkerfið verði mótað af þörfum þeirra sem raunverulega vinna vinnuna, þá hlýt ég að vera stolt af því að segjast vera byltingarmanneskja,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, sem í vor var kjörin formaður stéttarfélagsins Eflingar.  Hún er í fararbroddi nýrrar kynslóðar verkalýðsforingja sem þykja mun róttækari en þeir sem fyrir voru og þeir hafa hafa mikinn átakavetur á markaði verði ekki gengið að kröfum þeirra.

Brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum

Sólveig Anna segir að það hafi verið mikil viðbrigði að fara úr því að hafa unnið láglaunastörf í áratug og vera skyndilega farin að stýra einu stærsta stéttarfélagi landsins. Bara það að vinna á skrifstofu hafi verið nýtt fyrir henni og fyrst um sinn hafi hún verið þjáð af svokölluðu svikaraheilkenni (e. impostor syndrome). „Ég er sem betur fer ekki þar lengur en ég vissi allan tímann að þetta yrði mjög erfitt og þess vegna var ég mjög hikandi við að láta slag standa. Allt sem ég gerði var ég að gera í fyrsta skipti. Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega. Á engum tímapunkti ímyndaði ég mér að þetta yrði auðvelt eða þægileg innivinna. Það er kannski vegna þess að ég dembi mér út í þetta af hugsjón frekar en hefðbundnari framadraumum og við slíkar kringumstæður er meira í húfi.“

„Ég hef alltaf verið með sjálfa mig í viðstöðulausu prófi og þar sem ég er minn harðasti dómari er ég alltaf tilbúin að gefa sjálfri mér falleinkunn en ég held að þetta hafi gengið ágætlega.“

Formennskan er þó ekki óumdeild og nýverið greindi Morgunblaðið frá miklum átökum innan félagsins. Sólveig Anna og framkvæmdastjórinn Viðar Þorsteinsson voru sökuð um að „stjórna með ofríki og hótunum“ og tveir starfsmenn sagðir hafa farið í veikindaleyfi vegna samskiptaörðugleika. Var jafnframt talað um óvinveitta yfirtöku á Eflingu. „Hann var mjög brjálæðislegur sá fréttaflutningur,“ svarar Sólveig Anna aðspurð og bætir við að í málum sem þessum sé erfitt að grípa til varna enda sé hún sem formaður bundin trúnaði við starfsfólk. Hún geti þó sagt að umfjöllunin gefi ekki rétta mynd af veruleikanum. „Það var pínku sjokkerandi. Þetta símtal sem ég átti við Agnesi Bragadóttur [blaðamann Morgunblaðsins], ég vissi alveg þegar því lauk að þetta yrði einhver hasar og partur af mér fór að hlæja því þetta var svo fáránlegt.“

Hún fellst þó á að það hafa komið upp ákveðnir samstarfsörðugleikar. „Þetta hefur ekki bara verið dans á rósum. Það hafa komið upp samstarfsörðugleikar ef ég á að orða það þannig.“

Mættirðu andstöðu starfsfólks þegar þú tókst við?

„Ég vissi að það yrði ekki bara erfitt fyrir mig að koma þarna inn heldur líka fyrir fólkið sem ég starfa með. Ég hafði verið mjög gagnrýnin þó auðvitað hafi ég verið að gagnrýna forystu félagsins og þá stefnu sem var í gildi, ekki bara þar heldur yfir hreyfinguna í heild sinni sem mér þótti mjög röng og þykir enn. En þá var ég ekki að ráðast að starfsfólkinu en ég skildi þá og skil enn að fólk hafi tekið mér með vissri varúð. En engu að síður, yfir heildina var tekið vel á móti mér. Ég mætti samstarfsvilja og kurteisi og í mörgum tilfellum vináttu sem ég er ótrúlega þakklát fyrir.“

En stjórnið þið með ofríki og hótunum?

„Ég kannast svo sannarlega ekki við það. Það get ég sagt af algjörum heiðarleika að það er brjáluð lýsing sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Það eru þarna leikendur sem hafa ólíkar fyrirætlanir þannig að annars vegar er þetta sett fram í þeim tilgangi að grafa undan og eyðileggja þá baráttu sem auðvitað er þegar hafin, og mun verða meiri og rosalegri í vetur, og svo hins vegar er þetta sett fram af fólki sem getur ekki sætt sig við niðurstöður þessara kosninga og hver úrslitin þar urðu.“

Fólk leyfir sér sturlaðan málflutning

Kjarasamningar renna út nú um áramótin og kynntu stéttarfélögin kröfugerðir sínar fyrir stjórnvöldum og atvinnurekendum. Um þær kröfur verður tekist á í komandi kjaraviðræðum, en þar er meðal annars farið fram á að lágmarkslaun verði 425 þúsund krónur að loknum samningstíma, að lágmarkslaun verði skattlaus, að skatta- og bótakerfið verði endurskoðað og að ráðist verði í þjóðarátak í húsnæðismálum.

Tillögurnar þykja vissulega róttækar en eru þær raunhæfar? „Ef ég bara horfi á þetta út frá sjálfri mér sem starfaði sem láglaunakona á íslenskum vinnumarkaði í 10 ár og þurfti lengi að vera í tveimur vinnum til að geta átt einhvers konar líf sem snerist ekki bara um blankheit og stress, þá finnst mér þetta eins eðlilegt og sanngjarnt og hægt er að hugsa sér. Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta. Svo er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að fólk sem fer fram með svona harkalegum viðbrögðum hefur aldrei kynnst því hvað það er að lifa og starfa sem ófaglærð verkamanneskja á íslenskum vinnumarkaði og hversu streitufullt líf það er. Á sama tíma og mér svíður þetta og vissulega móðgast við þessi hörðu viðbrögð þá hugsa ég líka að þessu fólki sé svolítil vorkunn af því að það bara greinilega getur ekki sett sig í spor þeirra stétta sem það sjálft tiheyrir ekki. Það virðist ekki fært um að líta á aðstæður verka- og láglaunafólks, sýna því einhverja samhygð eða samkennd sem er afleiðing þeirrar brútal nýfrjálshyggju sem við höfum verið látin lifa undir.“

„Sum viðbrögðin við þessum kröfum hafa verið ofsafengin, að vissu leyti vegna þess að þetta er fólk sem aðhyllist þá hugmyndafræði að það eigi alltaf að verðleggja vinnu fólks á sem minnsta mögulega máta.“

Ein þessara „ofsafengnu“ viðbragða mátti finna í leiðara Harðar Ægissonar í Fréttablaðinu, en þar var kröfum stéttarfélaganna lýst sem „sturluðum og í engum takti við efnahagslegan veruleika“ og forystumenn þeirra sagðir mesta ógnin gagnvart lífskjörum meginþorra fólks. Sólveig Anna segir að gagnrýni Harðar hafi farið yfir öll velsæmismörk. „Þessi grein er bókstaflega mjög harðsvíruð árás á algjörlega eðlilegar og sanngjarnar óskir fólks um að þegar sest verður að samningaborðinu, bæði gagnvart Samtökum atvinnulífsins og stjórnvöldum, að þá verði fólki mætt með sanngirni og það viðurkennt að skipting gæðanna sé með engu móti réttlát. Þetta er bara ótrúlegt, í alvöru talað. Auðvitað verð ég að leggja við eyrun og átta mig á því að í herbúðum þessa fólks sem með málflutningi sínum sýnir og sannar að það er hinir raunverulegu óvinir vinnandi fólks á Íslandi. Ég upplifi þetta sem ógnandi hegðun og mér finnst mjög merkilegt til þess að hugsa að þetta er sama fólk sem heyrir minnst á orðið verkfall og brjálast, talar þar um ógnanir og þess háttar en leyfir sér sjálft að fara fram með málflutningi sem er bókstaflega sturlaður og ekki í takti við neinn raunveruleika eða hófstillingu.“

Ætla ekki að samþykkja þessar leikreglur

Undanfarnar vikur hafa þó borist fréttir af versnandi afkomu fyrirtækja, meðal annars í ferðaþjónustu þar sem launakostnaður er stærsti útgjaldaliðurinn, og hafa atvinnurekendur gefið í skyn að ekki verði hægt að mæta auknum launakostnaði öðruvísi en með uppsögnum. Sólveig Anna segir að sé það raunin, sé eitthvað mikið að kerfinu. „Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum. En þá, sem betur fer, bar íslenskt samfélag gæfu til að hafna þeim áróðri og sameinast að miklu leyti um að það væri fáránlegt að biðja um minna.“

Sólveig Anna gefur sömuleiðis lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum. „Ég hef alltaf sagt að við búum í efnahagskerfi sem er sérhannað til þess að láta það alltaf gerast, hvort sem það er uppsveifla, niðurdýfa eða vægur samdráttur, þá eru taparanir alltaf vinnuaflið sem þó knýr áfram hagvöxtinn og hjól atvinnulífsins. Ég ætla bara ekkert að samþykkja þessar leikreglur, að þetta séu einu leikreglurnar sem við megum spila eftir.“

En er hægt að horfa fram hjá þessum hagtölum, til dæmis þeim sem sýna að kaupmáttur hafi aldrei í sögunni aukist jafnmikið og undanfarin ár?

„Ég bara veit hvernig kaupmáttur þeirra sem hafa minnst á milli handanna er. Með húsnæðismarkaðinn eins og hann er og hvað það er dýrt að lifa í þessu landi, þá er það eins og einhver sadískur brandari að vera alltaf að sveifla þessu framan í fólk. Vissulega hefur orðið kaupmáttaraukning hjá sumum hópum. Hér búa stórir hópar við æðisgengna velsæld og við besta mögulega lífsstíl sem völ er á. Það breytir því ekki að þetta er ekki raunveruleiki allra. Af hverju í ósköpunum ætti ég að fókusera á þá hópa sem hafa það best í stað þess að horfa á þá hópa sem hafa það verst í íslensku samfélagi?“

Gat ekki hætt að horfa á heimabankann

Fréttir af umtalsverðum launahækkunum til handa þingmönnum og forstjórum ríkisstofnana, fyrir tilstilli kjararáðs og síðar stjórna opinberra fyrirtækja, hleyptu illu blóði í verkalýðshreyfinguna og segir Sólveig Anna að þessar ákvarðanir, ásamt ríflegum launahækkunum forstjóra stærstu fyrirtækja landsins, hafi spilað hlutverk í kröfugerðinni. Þessar launahækkanir hafi verið ögrun gagnvart vinnandi fólki. Sjálf tók hún þá ákvörðun að lækka laun sín um 300 þúsund krónur á mánuði. „Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér. Ég, sem láglaunakona, þurfti að horfast í augu við það – og það eru mjög grimm örlög og sárt fyrir fullorðna manneskju að gera það – að geta ekki staðið á eigin fótum efnahagslega. Fyrir mig, sem sósíalískan femínista, var það mjög sorglegt að til þess að geta boðið börnunum mínum upp á eitthvað sem er hægt að flokka sem eðlilegt líf myndi ég ávallt þurfa að eiga sambýlismann til að hjálpa. Hvað erum við að tala um þegar við segjum að Ísland sé rosalega mikil jafnréttisparadís, hversu fölsk er sú mynd sem er dregin þar upp? Að mínu mati er hún mjög fölsk.“

„Mér fannst ég einhvern veginn verða að gera það, það var einhver knýjandi þörf inni í mér,“ segir Sólveig um þá staðreynd að hún lækkaði laun sín um 300 þúsund krónur.

Sólveig Anna rifjar upp fyrstu launagreiðsluna sem hún fékk frá Eflingu. „Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa. En þetta fyllti mig engri æðislegri gleði eða þetta var ekki svona: „Jess, loksins á ég pening“ heldur hugsaði ég meira hvaða brjálsemi þetta væri. Hvernig gat ég verið að vinna og vinna eins og brjálæðingur öll þessi ár og aldrei nokkurn tíma séð upphæð inni á heimabankanum mínum sem komst einu sinni nálægt þessu.“

„Ég lá uppi í rúmi og kíkti inn í heimabankann minn og ég gat ekki hætt að horfa.“

Var þetta ekki bara kapítalismi að verki, að þeir sem leggja mikið á sig munu uppskera eins og þeir sá?

„Kapítalisminn segir náttúrlega alltaf eitthvað kreisí. Hann er alltaf með einhverjar ódýrar útskýringar á sínum snærum en lögmál hans geta náttúrlega ekki ráðið för inni í verkalýðshreyfingunni. Henni ber skylda að taka til hjá sér líka þegar kemur að þessum málum, að setja reglur um hvað sé eðlilegur launamunur þar.“

Hjólaði í vinnu til að losna við Bónusferðir

En það eru ekki bara launin sem verða á samingaborðinu heldur einnig lífskjörin í landinu. Þar vega húsnæðismálin þungt enda ófremdarástand á húsnæðismarkaði. Þær kröfur snúa að stjórnvöldum enda liggur sökin þar. „Ég er ekki mjög gömul kona, ég er 43 ára, en þegar ég var að hefja minn búskap þótti það enn normal að ungt fólk gæti eignast sína eigin íbúð og staðið undir afborgunum með hóflegum tekjum. Það er ekki raunin lengur og þetta er afleiðing af ömurlegum efnahagsákvörðunum þeirra sem hér fara með völd. Það varð alkul í uppbyggingu húsnæðis og til að keyra efnahagslífið af stað var blásið til ferðamannagóðæris og það var tekin markviss ákvörðun um það á æðstu stöðum í íslensku samfélagi og settir gríðarlegir fjármunir í það. Til að keyra þá uppsveiflu var fluttur inn gríðarlega stór hópur af erlendu verkafólki. Allt þetta var gert án þess að því grundvallaratriði væri svarað um hvar þetta fólk ætti að búa.“

Húsnæðisliðurinn er ekki eitthvað sem verkalýðshreyfingin mun slaka á til að ná fram öðrum kröfum því ekki sé hægt að reka samfélag þar sem vinnuaflinu er ekki tryggt þak yfir höfuðið. „Slík samfélög eru viðbjóðsleg og dæmd til að enda í katastrófu. Þú þarft að tryggja vinnuaflinu mat, hvíld og húsnæði. Ef þú getur ekki mætt þessum lágmarksþörfum áttu að skammast þín svo ótrúlega mikið að þú átt að draga þig í hlé með skottið á milli lappanna.“

Varðandi hátt matvælaverð segir Sólveig Anna það viðsemjenda þeirra að koma með svör og lausnir að borðinu. „Það er líka á þeirra ábyrgð að mæta okkur með hugvitsamlegum lausnum sem sýna að þeim sé alvara í því að bæta kjör fólks og tryggja að launin séu ekki bara strax étin upp með fyrstu Bónusferðunum. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus. Þegar þú ert með ótrúlega léleg laun og þarft að borga rosalega mikinn pening við kassann í Bónus fyrir eitthvað smotterí, þá olli það mér svo miklu hugarangri. Það dró svo úr lífsgæðum mínum að ég vildi frekar hjóla í og úr vinnunni og dömpa þeirri ábyrgð á manninn minn alfarið. Sem var kannski svolítið leiðinlegt fyrir hann.“

„Ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla í og úr vinnu var sú að ég hataði að vera á bílnum því þá þurfti ég að fara í Bónus.“

Að verða ung móðir það besta sem gat gerst

Talið berst að sósíalismanum, róttækninni og því hvað reki Sólveigu Önnu áfram í baráttunni gegn fjármálaöflunum. Segja má að hún hafi fengið þessa eiginleika í vöggugjöf. „Ég var alin upp á mjög róttæku heimili þannig að strax frá því ég var lítil stelpa var alltaf verið að tala um alþjóðamál og mál í stóru samhengi,“ segir Sólveig Anna, en hún er dóttir útvarpsþulanna Jóns Múla Árnasonar og Ragnheiðar Ástu Pétursdóttur. Jón Múli var mjög virkur í Sósíalistaflokknum og síðar Alþýðubandalaginu og hlaut fangelsisdóm fyrir þátttöku sína í óeirðunum á Austurvelli 1949 en var síðar náðaður. Sólveig Anna átti eftir að feta í fótspor hans, eins og nánar verður komið að síðar.

„Báðir foreldrar mínir höfðu mjög mikil áhrif á mig. Ég fékk afar frjálst uppeldi og kannski fullfrjálst, ég er langyngst af mínum systkinum og ég held að þau hafi bæði verið komin á einhvern stað að þau leyfðu mér að gera nokkurn veginn það sem ég vildi. Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu. Ég var þess vegna mjög útsmogin að koma mér undan allri ábyrgð með því að lesa mjög mikið.“ Skólagangan var nokkuð mörkuð af þessu, segir Sólveig Anna sem lýsir sér sem „mismenntaðri“. Hún hafði hæfileika sem sneru að hinu ritaða máli en raungreinarnar voru ekki hennar sterkasta hlið. Skólakerfið var þannig að það refsaði henni fyrir það sem hún kunni ekki í stað þess að umbuna fyrir það sem hún kunni og þegar grunnskólagöngunni var lokið var hún orðin uppgefin á því. „Ég gerði nokkur áhlaup á það að vera í menntaskóla en mér leið bara ekkert vel inni í skóla, ég upplifði skólastofnanir sem óvinveitt umhverfi. Þannig að ég er mjög mikill talsmaður þess að börnum og unglingum sé mætt þar sem þau eru og að við horfum ávallt á það sem fólk getur og reynum að gera minna úr því sem við getum ekki.“

„Ég var alls ekki erfið en ég var svolítið sérlunduð. Þegar ég var búin að læra að lesa notaði ég það mjög markvisst að vera alltaf með bók og ég lærði það mjög snemma að barn með bók er alltaf látið í friði af fólki sem sér lestur sem lykilinn að öllu.“

Sólveig Anna fór þess vegna ung út á vinnumarkaðinn. „Ég varð ung móðir sem var líklega það besta sem gat komið fyrir mig. Mig vantaði mikið einhvern stöðugleika, eitthvað akkeri, og var einmitt svo heppin að foreldrar mínir studdu mig mjög vel þar og voru mér mikið innan handar.“

Sólveig Anna á tvö börn með eiginmanni sínum, Magnúsi Sveini Helgasyni, en þau eru nú 18 og 21 árs. „Við vorum svona unglingakærustupar, hættum saman og byrjuðum saman.“

Árið 2000 fluttu þau saman út til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem Magnús Sveinn lærði hagsögu og bandarísk stjórnmál. Þar bjuggu þau í átta ár og segir Sólveig Anna að veran í Bandaríkjunum hafi sannfært hana endanlega um skelfilegar afleiðingar kapítalismans.

„Ég flutti út þegar George W. Bush var kosinn forseti og það var innrásin í Afganistan, Írak og allur viðbjóðurinn sem fylgdi því, Guantanamo, Abu Grahib, fellibylurinn Katrina. Þetta var rosaleg röð af bylmingshöggum þar sem algjörlega tryllt auðstétt, undirseld blóðugri heimsvaldahugmyndafræði lét bara hvert höggið dynja á saklausu fólki. Það var ótrúlegt að verða vitni að því.“

Í Bandaríkjunum lifði Sólveig Anna í tveimur heimum. Annars vegar sem láglaunakona þar sem hún starfaði í kjörbúð og hins vegar sem millistéttarkona sem sinnti sjálfboðaliðastörfum í skóla barnanna. Í kjörbúðinni starfaði hún með fólki sem tilheyrði stétt hinna vinnandi fátæku, fólki sem vann sleitulaust alla sína ævi en átti ekki möguleika á að brjótast út úr fátækt. „Svo fékk ég líka að prófa þetta millistéttarlíf hvítra kvenna sem snýst um þetta barnalíf, í þessum heimi kvenna sem eiga menn sem þéna það vel að þær fara bara af vinnumarkaði. Þar upplifði ég að mér voru afhent einhver furðuleg forréttindi bara út á það að vera hvít og norræn, að kunna einhverjar reglur sem samfélagið hefur ákveðið að séu mikils virði, einhvern evrópskan hegðunarmáta sem ég uppskar blessun samfélagsins út á. Það var mjög sjokkerandi að upplifa það því ég hafði í prinsippinu alltaf verið and-rasísk en að sjá það með eigin augum hvað rasisminn og kynþáttahyggjan er viðurstyggilega sjúkt fyrirbæri opnaði mjög augu mín.“

Beint heim í byltinguna

Fjölskyldan flutti heim sumarið 2008, nánast beint ofan í íslenska efnahagshrunið. Sólveig Anna segir að þessi tími hafi verið fjölskyldunni erfiður, þau glímdu við atvinnuleysi og fjárhagurinn var þröngur. En Sólveig Anna kom heim frá Bandaríkjunum full baráttuanda og hún var tilbúin til að láta að sér kveða í búsáhaldabyltingunni. Það gerði hún eftirminnilega því hún var í hópi níumenninganna sem voru ákærðir fyrir árás á Alþingi í desember 2008. Um þá reynslu segir Sólveig Anna: „Hún var mjög áhugaverð en mjög erfið. Það var skrítin tilviljun að ég var í þeim hópi. Afleiðingarnar af því að fara inn í alþingishúsið til að mótmæla, hversu erfiðar þær voru og hversu mikla andlega orku og tíma þær tóku frá mér. Ekki bara mér heldur líka manninum mínum. Það var mjög erfitt. Og ég viðurkenni alveg að undir það síðasta í því máli þegar dómsmálið var komið af stað og við vorum ákærð … það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

„Það var ekkert smáræði að hafa þessa ofbeldishótun hangandi yfir höfðinu á sér. Ég var alveg orðin stressuð og komin á nett kvíðaröskunarróf þar.“

Sólveig Anna segir að þessi reynsla hafi setið lengi í henni þótt hún geri það ekki lengur. „Ég hugsaði oft mikið um þetta og ég upplifði mig mjög valdalausa meðan á þessu stóð og fannst það mjög óþægilegt. Þetta var á sama tíma og ég var virkilega að kynnast því hvernig væri að vera láglaunakona á Íslandi og ég er virkilega að horfast í augu við þau örlög sem var líka erfitt. Afleiðingar hrunsins lögðust mjög þungt á okkur, mig og manninn minn, með atvinnuleysi og fjárhagskröggum þannig að þetta var mjög „intense“ og erfiður tími. Svo lærði ég hversu tjúlluð borgarastéttin getur leyft sér að verða þegar hún upplifir að sér sé ógnað. Það var mjög hressilegur lærdómur.“

Sérðu eftir þessu?

„Nei, ég sé ekkert eftir þessu. Á endanum áskotnaðist mér margt, eins og að kynnast snjöllu og sniðugu fólki sem var ekki búið að láta samfélagið móta sig alveg og lifði á eigin forsendum. Það var mjög hressandi.“

Sólveig Anna var einnig lykilþátttakandi í öðru máli sem skók þjóðina á árunum eftir hrun, lekamálinu svokallaða. Hún var í hópi aðgerðasinna sem boðað höfðu mótmæli í dómsmálaráðuneytinu þegar vísa átti hælisleitandanum Tony Omos úr landi. Sama morgun og mótmælin fóru fram birtist frétt á forsíðu Fréttablaðsins sem unnin var upp úr minnisblaði sem hafði verið lekið úr ráðuneytinu. Málið endaði með afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og dómi yfir aðstoðarmanni hennar. „Það var ótrúlegt og það var enn eitt dæmið um hversu tjúlluð borgarastéttin verður þegar hún upplifir einhverja ógn. Viðbrögð þeirra sem fara svona með völd eru svoleiðis að á endanum eru þau sínir eigin verstu óvinir. Það var eitt æðisgengnasta dæmi sögunnar um þetta dramb sem getur sýkt fólk sem kemst í of mikil völd.“

Lífsstíll efri stéttanna ekki mögulegur án vinnuaflsins

Það er mikið talað um að fram undan sé átakavetur með hörðum deilum á vinnumarkaði. Sólveig Anna telur ekki að svo þurfi að vera. „Það eina sem þarf er að viðsemjendur okkar mæti okkur af sanngirni, að þeir viðurkenni réttmæti krafnanna og komi að samningaborðinu með það hugarfar að við ætlum saman í það verkefni að sannarlega bæta lífskjör verka- og láglaunafólks á Íslandi. Ég ætla enn þá að leyfa mér að halda í þá von að svo verði. Ég held að pólitíska andrúmsloftið í samfélaginu sé með þeim hætti að þau geti raunverulega ekki komið sér hjá því að takast á við þetta.“

Megum við eiga von á því að hér logi allt í verkföllum?

„Ég, sem áhugamanneskja um verkalýðsbaráttu, tala ekki af léttúð um verkföll og hef aldrei gert. En ég veit að verkföll eru eitt það mikilvægasta og merkilegasta sem vinnuaflið hefur, því það sýnir hversu stórkostlegt vægi það hefur. Án vinnuaflsins er allt tal um hagvöxt innantómt og lífsstíl efri stéttanna ekki mögulegur. Ef það er á endanum eina leiðin sem er fær, er það bara svoleiðis. En þá verður sannarlega ekki við okkur að sakast.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegar förðurnarfræðingur YSL á Íslandi

 

Neysla eykst við lögleiðingu

Lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Að venju sýnist sitt hverjum, þeir sem eru andvígir halda á lofti hættunni sem kannabisneysla veldur ungu fólki og þeir sem eru meðmæltir telja bann við neyslu kannabisefna skerðingu á einstaklingsfrelsi, enda sé um tiltölulega hættulítið efni að ræða.

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að leggja sín lóð á vogarskálarnar og rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki. Guðrún Björg Ágústsdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi, er ein þeirra. Hún er með yfir 30 ára starfsreynslu, síðustu sjö ár sem ráðgjafi hjá Vímulausri æsku – Foreldrahúsi. Hún telur að neysla muni aukast við lögleiðingu.

Sjá einnig: Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Hvaða rök mæla gegn lögleiðingu kannabis? „Með lögleiðingu er verið að segja unga fólkinu okkar að kannabis sé ekki svo hættulegt efni, enda hvernig gæti það verið það, ef það væri löglegt? Eins og við flest vitum eru það unglingar sem eru stærsti hópurinn sem notar vímuefni en það er einmitt sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir áhrifum vímuefnanna.“

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu?„Það hefur nú þegar sýnt sig í Colorado að 85 prósent fleiri ungmenni nota kannabis þar miðað við hin ríkin í Bandaríkjunum. Eins hefur bílslysum sem rakin eru til kannabisneyslu fjölgað um 151 prósent. Einnig blómstrar svarti markaðurinn, andstætt því sem almennt er talið.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Mín skoðun er sú að það myndi breyta mörgu í þjóðfélaginu ef kannabis yrði lögleitt. Það eru mörg gróðatækifæri í framleiðslu og sölu á kannabis. Kannabis er hægt að setja í sælgæti, mat, drykk, rafrettur og fleira. Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar. Þá varpa ég fram spurningunni: Hvaða áhrif mun það hafa á umferðina og slys af völdum áhrifa undir stýri? Með aukinni neyslu þarf að auka meðferðarúrræði fyrir þá sem ánetjast efninu. Svo virðist sem reynsla þeirra sem hafa lögleitt kannabis sé sú að neysla aukist. Það er nú þegar aukning á neyslu kannabis hjá unglingum hér á landi og það er vitað að því yngri sem unglingar byrja neyslu því meiri skaði verður við notkun og meiri líkur á að unglingurinn ánetjist efninu. Með lögleiðingu yrði þá líka að stórauka meðferðarúrræði.“

Áhrif kannabis vara mun lengur en af áfengi. Manneskja sem notar kannabis til dæmis tvisvar í viku mun mælast með THC í þvagi alla daga vikunnar.

Hvers vegna ert þú persónulega andvíg lögleiðingu kannabis? „Ég hef séð hvernig kannabisneysla hefur haft áhrif á fólk, sérstaklega ungt fólk. Ein helstu rök unglinga sem eru að eyðileggja líf sitt vegna neyslu kannabis eru: Þetta er ekkert hættulegt, það er verið að lögleiða þetta. Unglingar horfa ekki á að það sé aldurstakmark fyrir kaupum á kannabis þar sem það er löglegt. Þau eru ung og þau gera það sem við fullorðna fólkið höfum fyrir þeim. Ef við lögleiðum kannabis verður það líka fyrir 14 ára börn.“

Myndir / Hallur Karlsson

Spurning um sjálfsákvörðunarrétt

Mannlíf fékk tvo einstaklinga til að rökstyðja skoðanir sínar á því hvort lögleiða eigi kannabis eða ekki þar sem lögleiðing neyslu kannabisefna í Kanada hefur hleypt nýju lífi í umræðuna um þessi mál hérlendis. Örvar Geir Geirsson, listamaður, stofnandi Reykjavik homegrown og áhugamaður um menningu og málefni sem varða kannabis er einn þeirra sem vill að neysla kannabis verði lögleg á Íslandi.

Sjá einnig: Neysla eykst við lögleiðingu

Hvaða rök mæla með lögleiðingu kannabis? „Refsistefnan skilar engu og virkar ekki. Reynslan hefur sýnt að hún dregur hvorki úr notkun né framboði. Það er betra að regluvæða hægt og rólega framleiðslu og sölu og hafa aldurstakmark. Ekki vera með þessar forræðishyggjurefsingar. Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs. Ólöglegi kannabismarkaðurinn á Íslandi veltir stórum fjárhæðum, innan hans er fjöldi manns af öllum stéttum og hann er kominn til að vera. Það er löngu kominn tími á nýja nálgun, ekki bara afglæpavæðingu heldur regluvæddan iðnað og lögleg störf.“

Skattleggjum þetta frekar og notum skatttekjurnar samfélaginu til góðs.

Hver er reynsla annarra þjóða af lögleiðingu? „Ef litið er til reynslu annarra Evrópuþjóða og ríkja innan Bandaríkjanna hefur lögleiðing, hvort sem er notkun til lækninga eða til afþreyingar fyrir fullorðið fólk, getið af sér samfélagslegan ávinning með töluverðri minnkun glæpatíðni í ýmsum geirum afbrota. Þar á meðal er heimilisofbeldi, og dauðsföllum vegna misnotkunar lyfja hefur einnig fækkað, auk þess hefur dregið úr notkun ávanabindandi verkjastillandi lyfja og ólöglegra efna, eins og reynsla Portúgala og ríkja í Bandaríkjunum hefur sýnt. Notkun á CBD-olíu hefur reynst flogaveikum erlendis vel og eins ýmsum sem eiga við taugasjúkdóma að stríða. Slík olía hefur engin hugbreytandi vímuáhrif og virðist samkvæmt öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið, heilsubætandi. Töluvert stór hópur Íslendinga hefur orðið sér úti um CBD-olíu vegna ýmissa kvilla og notið góðs af.“

Hverju myndi lögleiðing breyta fyrir þjóðfélagið? „Aðgengi ungs fólks yrði minna með aldurstakmarki. Það yrðu greiddir skattar af framleiðslunni og haft eftirlit með sölu, framleiðslu, gæðum og styrkleika vörunnar. Þetta skapar iðnað sem býr til ótal mörg sérfræði- og þekkingarstörf sem verður að teljast ávinningur fyrir samfélagið. Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu og leggja aukið fjármagn í meðferðarúrræði og geðhjálp.“

Svo má nota þá fjármuni sem skattar gefa af sér til að stuðla að öflugum forvörnum og fræðslu.

Hvers vegna ert þú persónulega hlynntur lögleiðingu kannabis? „Fyrir mér er þetta bara spurning um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins, hvort sem er vegna heilsu eða sér til afslöppunar. Svo finnst mér bara óþarfi að eyða tíma lögreglu í að eltast við fólk vegna notkunar kannabis, einkaræktunar eða fyrir að hafa smávegis kannabis á sér, til dæmis á tónleikum. Flest fólk sem notar kannabis er heiðarlegt og gott fólk, samkvæmt minni reynslu, þetta fólk veldur ekki öðrum neinum skaða, hættu eða tjóni með því að fá sér eina jónu. Þetta svokallaða stríð gegn fíkniefnum er bara stríð gegn fólki sem veldur samfélagi og fólki skaða og það aðallega ungu fólki, okkar fólki.“

Mynd / Hallur Karlsson

Fósturmissirinn alls ekki erfið lífsreynsla

Tilvera Báru Ragnhildardóttur tók óvænta stefnu í október á síðasta ári. Þegar hún og maðurinn hennar, Richard, fengu „jákvætt“ á óléttuprófi grunaði þau ekki hvað næsta hálfa ár myndi bera í skauti sér. Fram undan voru erfiðir mánuðir þar sem Bára var mjög veik, en þessi reynsla fékk þau bæði til að endurmeta líf sitt og það sem raunverulega skiptir máli.

Mynd: Unnur Magna

Á fyrstu vikum meðgöngunnar var allt eðlilegt, Báru leið vel og það eina sem hún fann fyrir var aukin þreyta. Það kom henni á óvart að á fimmtu viku var farið að sjá á henni. „Ég trúði því eiginlega ekki fyrst, en þegar vinkona mín sem vissi að ég var búin að fá „jákvætt“ kommentaði á kúluna fór ég að fela hana. Þegar kom að snemmsónar á sjöundu viku veðjuðum við Richard smávegis í gríni í bílnum á leiðinni um hvort það væru eitt eða tvö börn á leiðinni,“ segir Bára, en daginn eftir voru þau á leið í ferðalag til útlanda til að heimsækja foreldra Richards og ætluðu að færa þeim gleðifréttirnar.

Þegar í sónarinn var komið sá læknirinn hins vegar strax að ekki væri allt með felldu. Hann nefndi mögulegan litningagalla, og ljóst var að fóstrið var ekki lífvænlegt. „Tal um eitt eða tvö væntanleg börn breyttist því skyndilega í ekkert barn. Læknirinn gaf okkur þrjá möguleika í stöðunni. Ég gat tekið töflu til að losa fóstrið út, farið í útsköfun eða beðið og séð hvort líkaminn skilaði þessu sjálfur,“ segir Bára.

„Tal um eitt eða tvö væntanleg börn breyttist því skyndilega í ekkert barn.“

 

Þar sem þau voru á leið utan morguninn eftir og Bára ekki fastandi í tímanum, kom enginn annar valkostur til greina en að bíða og sjá hvort líkaminn myndi losa sig við fóstrið sjálfur. Bára segir ótrúlegt að hugsa til þess með hversu miklu æðruleysi hún hafi tekið þessum fréttum. „Ég var döpur í eitt augnablik, en áður en við gengum út af læknastofunni fylltist ég þakklæti. Þakklæti fyrir að líkaminn losi sig við það sem á ekki að verða að heilbrigðum einstaklingi og þakklæti fyrir litlu heilbrigðu stelpuna sem ég á og gat sótt í leikskólann og notið tímans með henni. Ég held líka að reynsla vinkvenna minna af fósturmissi og hversu opinskátt þær hafa talað um það innan vinahópsins hafi hjálpað óendanlega mikið í þessum sporum. Ég hef sagt það allan tímann að mér fannst fósturmissirinn alls ekki erfið lífsreynsla. En þetta verkefni endaði því miður ekki þarna og var í rauninni bara rétt að byrja.“

Framundan hjá Báru og fjölskyldu voru erfiðir tímar sem fólu meðal annars í sér krabbameinsmeðferð. Lestu ítarlegt viðtal við Báru í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Myndir / Unnur Magna

 

 

 

Löndin sem mælt er með að heimsækja á næsta ári

|
|

Ert þú að spá hvert gaman væri að ferðast á næsta ári? Þá er þessi listi frá sérfræðingum Lonely Planet eitthvað fyrir þig.

Sérfræðingarnir hjá Lonely Planet hafa nú birt lista yfir þau tíu lönd sem þeir mæla með að ferðaþyrstir íhugi að heimsækja á næsta ári. Í fyrsta sæti er Sri Lanka, í öðru sæti er Þýskaland og í því þriðja er Zimbabwe.

„Nú sem aldrei fyrr er nóg í boði fyrir alla; fjölskyldur, adrenalínfíkla, náttúruunnendur, þá sem vilja ná slökun og sælkera,“ segir meðal annar um fyrsta sætið, Sri Lanka. Hvað varðar Þýskaland þá er mælt sérstaklega með borgunum Weimar og Berlín og bænum Dessau.

Svona lítur svo listinn í heild sinni út:

  1. Sri Lanka
  2. Þýskaland
  3. Zimbabwe
  4. Panama
  5. Kyrgyzstan
  6. Jórdanía
  7. Indónesía
  8. Belarus
  9. São Tomé & Príncipe
  10. Belize

Myndband af aðgerðum lögreglu í New York

Grunsamlegur pakki var sendur á veitingahús sem er í eigu Roberts de Niro í morgun. Lögreglan var fengin í að fjarlægja pakkann og rannsaka hann. Meðfylgjandi er myndband af aðgerðum lögreglu.

Lögreglan í New York hefur grunsamlegan pakka til rannsóknar. Pakkinn var sendur á veitingahúsið Tribeca Grill í New York sem er í eigu leikarans Roberts de Niro. Óttast er að pakkinn innihaldi sprengju en undanfarið hafa sprengjuefni verið send nokkrum gagnrýnendum Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Robert de Niro hefur verið óhræddur við að gagnrýna forsetann opinberlega.

Þess má geta að pakkinn var sendur á veitingastaðinn snemma í morgun og var staðurinn þá mannlaus.

Meðfylgjandi er myndband sem sýnir sérfræðinga á vegum lögreglunnar í New York keyra með pakkann grunsamlega í gegnum borgina. Myndbandið er birt á YouTube-síðu The Guardian.

Sjá nánar: Swift bætist í fjölmennn hóp þeirra sem Trump hefur móðgað

Jim Parsons launahæstur með 3,2 milljarða

Forbes birti lista yfir tíu launahæstu sjónvarpsþáttaleikarana fyrr í dag. Leikarinn Jim Parsons er í efsta sætinu.

Viðskiptatímaritið Forbes birti í dag á vef sínum lista yfir tíu launahæstu sjónvarpsþáttaleikara heims þessa árs. Það er leikarinn Jim Parsons sem trónir á toppi listans með 26,5 milljónir Bandaríkjadala í árslaun, þ.e. fyrr skatt. Það gerir tæpa 3,2 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Parsons er þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Big Bang Theory. Þetta er fjórða árið í röð sem Parsons tryggir sér efsta sæti listans.

Tekið skal fram að listinn byggir á tekjum sem þénaðar voru frá júní 2017 til júní 2018. Um tekjur fyrir skatt og önnur launatengd gjöld er að ræða.

Hér fyrir neðan er svo listinn yfir tekjuhæstu sjónvarpsþáttaleikara þessa árs í heild sinni. Eins og sjá má taka leikarar Big Bang Theory fjögur efstu sætin.

  1. Jim Parsons (Big Bang Theory) með 3,2 milljarða króna
  2. Johnny Galecki (Big Bang Theory) með 3 milljarða króna
  3. Simon Helberg (Big Bang Theory) með 2,8 milljarða króna
  4. Kunal Nayyar (Big Bang Theory) með 2,8 milljarða króna
  5. Mark Harmon (NCIS) með 2,3 milljarða króna
  6. Ed 0‘Neill (Modern Family) 1,7 milljarða króna
  7. Eric Stonestreet (Modern Family) 1,6 milljarða króna
  8. Jesse Tyler Ferguson (Modern Family) 1,6 milljarður króna
  9. Ty Burrell (Modern Family) 1,4 milljarður króna
  10. Andrew Lincoln (The Walking Dead) 1,3 milljarður króna

Búist við línu af nýjum Apple tölvum í næstu viku

Tæknirisinn Apple hefur boðað til kynningar í New York á þriðjudaginn þar sem nýjar vörur verða kynntar. Von er á allt að þremur tegundum af nýjum Mac tölvum ef marka má tæknisíður vestanhafs.

Að venju ríkir mikil eftirvænting meðal aðdáenda Apple fyrir kynninguna sem er sú fjórða á þessu ári. Búist er við að nýr iPad Pro verði kynntur til sögunnar sem og uppfærslur af Mac tölvum. Mesta eftirvæntingin virðist þó vera eftir nýrri línu af Mac tölvum.

Tæknisíðan Digital Trends bendir á að Apple hafi sótt um leyfi fyrir skráningu á þremur nýjum tölvum hjá framkvæmdastjórn Evrasíubandalagsins. Tækninördar hafa áður sótt í þann gagnagrunn til að komast á snóðir um nýjar vörur frá Apple.

BGR tæknisíðan telur að von se á nýjum Mac Mini og iMac borðtölvum sem og einhvers konar nýrri útgáfu af MacBook. Þá má einnig eiga von á nýjum AirPods heyrnartólum og uppfærðri AirPower hleðslustöð.

„Þetta er hálfgert jóla-ween hérna hjá mér“

Sigga Kling er mikið jólabarn. Hún er byrjuð að skreyta heima hjá sér en þessa stundina er heimilið prýtt bæði jólaskrauti og hrekkjavökukrauti.

Skemmtikrafturinn Sigga Klink er mikið jólabarn og elskar að skreyta í kringum sig og fagna jólahátíðinni. Hún er byrjuð að skreyta en þessa stundina er heimili hennar prýtt jólaskrauti í bland við hrekkjavökuskraut. „Ég elska jólin! Ég hlusta meira að segja á jólalög á sumrin, þegar ég er í einhverju óstuði. Vegna þess að hver getur verið í vondu skapi þegar Snæfinnur snjókarl hljómar?“

Ég hlusta meira að segja á jólalög á sumrin.

Jólatréð er fyrir löngu komið upp hjá Siggu sem vakið hefur athygli. „Veistu, það voru 15-20 krakkar að syngja jólalög fyrir utan hjá mér um daginn. Ég skildi fyrst ekkert í þessu en svo var það auðvitað af því að ég er búin að setja upp risa jólatré í gluggann, glitrandi fínt með ljósum. Ég bauð þeim bara inn,“ segir hún og skellir upp úr. „En svo þurfti kennarinn að koma og sækja þau, þau áttu ekkert að fara af skólalóðinni,“ segir Sigga hlæjandi.

Sigga er líka aðdáandi Halloween, hrekkjavökunnar eins og það kallast á íslensku, og er búin að skreyta heimilið sitt með hrekkjavökuskrauti. „Þetta er hálfgert jóla-ween hérna hjá mér, jólavín!“ segir hún og skellir upp úr.

Skrifar bækur um jólasveinana

Þessa stundina er Sigga að skrifa bækur um jólasveinana. „Þetta er skrifað í svipuðum stíl og Kötturinn með höttinn. Jólasveinarnir eru voða jákvæðir hjá mér og að gera alls konar sniðugt. Skyrgámur er til dæmis búinn að opna skyrgerð. En ég er í smá vandræðum með Gluggagægi, ætli ég láti hann ekki bara vinna í glersmiðju,“ segir Sigga sem elskar jólahefðir.

„Ég er náttúrulega krakki í hjartanu þannig að ég elska jólasveina, jólahefðir og svo framvegis.“ Hún er þó ekki mikill aðdáandi jólaboði. „Nei, takk!“ segir hún hlæjandi. „Mér finnst óþolandi að fara um alla bæi í jólaboð. Ég tala bara frá hjartanu.“

Spurð út í hvort hún sé farin að hugsa um jólamatinn segir hún: „Ég er minna í reykta kjötinu núna. Fólk verður alveg útblásið af þessu salta kjöti. En ég er hrifin af smjörsprautuðum kalkún. Það klikkar ekki.“

Mynd / Hákon Davíð

 

 

Áróðursmaskína fer af stað þegar vinnuaflið setur fram kröfur

|

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, gefur lítið fyrir þau rök að efnahagshorfur nú séu svartari en þegar samið var fyrir þremur árum og ætlar ekki að samþykkja leikreglurnar sem vinnuveitendur setja.

„Ef það er eini valkosturinn, að annaðhvort haldi fólk áfram að sætta sig við laun sem duga bókstaflega ekki til að komast af eða að uppsagnir og hörmungar blasi við, þá segir það okkur bókstaflega allt um það ofbeldis- og kúgunarsamband sem vinnuaflið er látið búa við. Ég vil fordæma efnahagskerfi sem virkar svona,“ segir Sólveig Anna og bætir við: „En þetta er áróður, þetta er sú áróðursmaskína sem fer alltaf af stað þegar vinnuaflið og fulltrúar þess setja fram kröfur. Þetta er sami kórinn og söng þegar sett var fram krafa um 300 þúsund króna lágmarkslaun í síðustu samningum.

Ítarlegt viðtal er við Sólveigu Önnu í 30. tölublaði Mannlífs þar sem hún talar um kjarabaráttuna, ákæruna fyrir árásina á Alþingi og átökin innan Eflingar.

Mynd / Hallur Karlsson
Myndband / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Frá píkum yfir í brjóst

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, fjáröflunar og árvekniátaki Krabbameinsfélags Íslands. Listakonurnar Erla Gísladóttir og Linda Jóhannsdóttir leggja málefninu lið með ilmkertinu Brjóstbirtu en ágóði sölunnar rennur til samtakanna Göngum saman.

Í ár tóku þær Erla Gísladóttir, eigandi URÐ, og Linda Jóhannsdóttir, hönnuður og eigandi Pastelpaper, höndum saman og framleiddu ilmkertið Brjóstbirtu. Kertið er hannað fyrir samtökin Göngum saman en þau standa að því markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini sem eru undirstaða þess að lækning finnist í framtíðinni. „Ilmurinn sem Erla hannaði er alveg einstakur að mínu mati,“ segir Linda og heldur áfram. „Ferskur, hreinn, kvenlegur, upplífgandi og veitir innblástur. „Nafnið Brjóstbirta varð fyrir valinu því okkur finnst það svo fallegt og minnir á tilgang félagsins Göngum saman. Félagið safnar fé til rannsókna sem auka skilning okkar á uppruna og eðli krabbameins í brjóstum. Tilgangurinn er göfugur og bjartur. Toppnótur Brjóstbirtu samanstanda af plómum og greipávexti. Hjartað af sedrusviði og hvítum blómum en grunnurinn af sandalvið, vanillu og moskus.“

Vatnslituð brjóstmynd eftir Lindu prýðir hvert glas en brjóstamyndirnar hennar eru hluti af nýrri línu sem heitir einfaldlega Brjóst og rennur ágóði af sölu þeirra til Göngum saman.

Myndirnar eru unnar með blandaðri tækni þar sem meðal annars er unnið með vatnsliti, artliner og pastel.

Linda gaf út sína fyrstu línu árið 2013. Línan hét Bird Portraits og hlaut sú lína mikilla vinsælda og er enn þá í sölu í öllum helstu hönnunarbúðum og listasöfnum. Linda hefur hannað ýmis verk en hún setti meðal annars upp sýninguna Píka, fyrsta sýning var haldin í miðbæ Reykjavíkur í nóvember 2017 og fékk mjög góðar viðtökur. Næsta sýning var haldin í mars 2018 í Háskóla Íslands.

„Markmið mitt með sýningunni PÍKA var að sýna myndskreyttar píkur í allri sinni fegurð, dulúð og fjölbreytileika, vekja þannig bæði píkuna sjálfa og heiti hennar til virðingar í samfélaginu.“

„Um leið og píkan er vakin meira til virðingar eykst sjálfsást kvenna og með því drögum við úr áhrifum klámvæðingar. Gefum Píkunni pláss í veröldinni – og rödd út í samfélagið og berjumst áfram fyrir því að kynin eigi að vera jöfn.“ Sýningin Brjóst er unnin í sömu tækni og sýningin Píka og koma verkin í eins römmum sem Linda hannaði fyrir píkuverkin.

Opnunarteitið verður haldið þann 24. október frá kl 16 til 19 á Fiskislóð 75 í verslun Hlínar Reykdal. Myndirnar og kertin sem eru í takmörkuðu upplagi verða í sölu þar í tvær vikur eða á meðan birgðir endast.

Myndir / Björn Snorri Roshdahl og Aldís Pálsdóttir

Jamie Lee Curtis opnar sig um fíknina

Bandaríska leikkonan Jamie Lee Curtis var háð lyfseðilsskyldum verkjalyfjum í 10 ár.

Leikkonan Jamie Lee Curtis opnar sig um fíkn sína í ópíðum, eða lyfseðilsskyld verkjalyf, í nýjasta tölublaði PEOPLE. Í viðtalinu segist hún vera þakklát fyrir að hafa lifað þetta tímabil af, þessi 10 ár sem hún var háð lyfseðilsskyldum verkjalyfjum. „Enginn vissi neitt. Enginn,“ segir hún í viðtalinu.

Jamie Lee segist hafa fengið lyfseðilsskyld verkjalyf fyrst árið 1989. Lyfin fékk hún frá lýtalækni eftir að hafa gengist undir fegrunaraðgerð. Hún varð strax háð lyfjunum og næsti áratugurinn einkenndist að því að reyna að komast yfir meira. Hún viðurkennir að hafa stolið ýmsum töflum frá vinum og fjölskyldumeðlimum.

Það var ekki fyrr en árið 1999 sem hún leitaði sér hjálpar í baráttunni við fíknina. Á sama tíma sagði hún eiginmanni sínum leyndarmál sitt. Leikkonan hefur í dag verið edrú í 20 ár og segir það vera sitt stærsta afrek.

Þess má geta að eiturlyfjafíkn hefur tekið sinn toll á fjölskyldu Jamie Lee en faðir hennar, Tony Curtis, var alkóhólisti og einnig háður kókaíni og heróíni. Þá lést hálfbróðir hennar, Nicholas Curtis, af völdum of stórs skammts af heróíni árið 1994.

„Nú er ég komin með nýjan karl“

Það kom Andreu Önnu Guðjónsdóttur skemmtilega á óvart að frétta að hún hefði unnið afnot af glænýjum Opal Karl í heilt ár.

Andrea Anna Guðjónsdóttir datt í lukkupottinn þegar hún var dregin sem vinningshafinn í reynsluaksturs-leik Opel. Það kom henni skemmtilega á óvart þegar Snapchat-stjarnan Binni Löve læddist óvænt upp að henni í Perlunni og tilkynnti henni að hún hefði unnið afnot af glænýjum Opal Karl í heilt ár.

„Nú er ég komin með nýan karl,“ grínaðist Andrea. „Glænýjan! Og ég fæ að hafa hann í heilt ár?“ bætti hún við undrandi.

Á meðfylgjandi myndbandi má sjá viðbrögð Andreu þegar henni var tilkynnt að hún hefði verið dregin út í leik Opel.

„Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur“

|
|

„Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur,“ segir Grétar Sigurðarson, einn þriggja manna sem hlaut dóm í líkfundarmálinu, í viðtali við Austurgluggann.

Kvikmyndin Undir Halastjörnu eftir Ara Alexander Ergis Magnússin var nýlega frumsýnd. Myndin fjallar um líkfundarmálið svokallaða þegar lík af karlmanni fannst fyrir tilviljun í höfninni í Neskaupsstað.

Níu dögum eftir að líkið fannst voru þrír karlmenn handteknir vegna málsins. Einn af þeim er Grétar Sigurðarson. „Ég hef oft hugsað um hvernig það hefði verið hefði þetta aldrei komist upp. Hvernig mér liði í dag ef ég hefði þurft að þaga yfir þessu alla ævi, aldrei getað talað um þetta við neinn og þá ekki unnið úr þessu,“ segir Grétar í viðtali við Austurgluggann, fréttablað Austurlands, fjórtán árum eftir að málið kom upp. „Ég er búinn að vinna mikið í mínum málum og reyna að sættast við þetta, ég breyti engu héðan af hvort sem er.“

Í viðtalinu segir Grétar frá hvernig líf hans hefur þróast síðan hann hlaut dóm. „Flesta daga í dag er ég mjög hamingjusamur. Ég er edrú en hef alveg fallið annað slagið, en það eru aldrei langir túrar og mér hefur borið gæfa til að standa aftur á lappir. Ef ég hins vegar missi stjórn á lífi mínu og dett í neyslu hef ég ekki hugmynd um hvað ég geri,“ segir hann í viðtalinu. Hluta af því er að finna á austurfrett.is.

Kafarinn Þorgeir Jónsson.

Skömmu áður en Undir halastjörnu var frumsýnd tók Mannlíf kafarann Þorgeir Jónsson tali. Það var hann sem fann líkið á sínum tíma. „Það lá á botninum alveg upp við bryggjuna og ég sá strax að þetta var manneskja, vel innpökkuð í plast og þyngd með keðjum. Mér brá virkilega við þessa sýn skoðaði aðstæður lítillega en fór svo upp til að láta vita og biðja um að hringt yrði á lögregluna. Ég kafaði síðan niður aftur til að taka myndir og kom með þær upp um svipað leyti og lögreglan mætti á svæðið. Þetta var mjög óraunverulegt og það lá við að lögreglumennirnir tryðu mér ekki fyrr en ég sýndi þeim myndirnar,“ sagði Þorgeir þegar hann rifjaði þennan atburð upp í viðtali við Mannlíf. Viðtalið má lesa í heild sinni hér.

Mynd / Stilla úr sýnishorni myndarinnar Undir Halastjörnu

„Það mættu miklu fleiri en 7.000“

Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018, er í skýjunum eftir baráttufundinn á Arnarhóli í dag.

Baráttufundir til að mótmæla kjaramisrétti, ofbeldi og áreitni á vinnustað voru haldnir víða um land í dag. Margt fólk hætti í vinnu klukkan 14:55 og lagði leið sína á baráttufundina en sá stærsti var haldinn á Arnarhóli.

Dagskrá fundarins á Arnarhóli var fjölbreytt en Jóhanna Sigurðardóttir fyrrverandi forsætisráðherra og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar voru meðal þeirra sem ávörpuðu viðstadda. Einnig var boðið upp á fjölbreytt tónlistaratriði. Ilmur Kristjánsdóttir og Saga Garðarsdóttir voru fundarstýrur.

„Þetta gekk bara framar öllum vonum – eftir mikinn undirbúning síðustu vikna erum við í skýjunum með fundinn, mætingu og allt,“ segir Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018.

Aðspurð hvort hún sé með tölur yfir þann fjölda sem lagði leið sína á Arnarhól í dag segir Maríanna: „Við erum ekki með neinar tölur enn þá. Við vitum þó að það mættu miklu fleiri en 7.000 en það var tala sem annar fundarstjórinn hafi kastað fram í gríni!“

„Í mjög langan tíma skammaðist ég mín fyrir að stama“

|
|

Hönnuðurinn Sveinn Snær Kristjánsson hefur undanfarið unnið að verkefni um stam. Verkefnið samanstendur af grafískum myndum sem eru hluti af lokaverkefni hans í Arts University Bournemouth. „Kveikjan að myndunum er stam og upplifun mín af stami. Ég hef stamað í yfir tuttugu ár,“ segir Sveinn.

„Hugmyndin er sem sagt að bæði fræða fólk um stam og minnka misskilning fólks á stami, auk þess að sýna öðrum sem stama (og sjálfum mér) að stam er ekki eitthvað til að skammast sín fyrir. Stam ætti ekki að halda aftur af þér því þetta snýst allt um þolinmæði hlustandans.“

Sveinn segir fólk almennt ekki vita mikið um stam. „Það er alveg skiljanlegt að fólk viti ekki mikið um stam en það sem er verra er að það virðist ríkja viss hræðsla við að spyrja. Svo eru ýmsar mýtur um stam áberandi. Stærsta og helsta mýtan er sú að fólk sem stamar er hlédrægt, stressað eða jafnvel rosalega kvíðið. Sannleikurinn er sá að kvíði eykur á stam en stamið sjálft er einhverskonar „glitch“ í málstöðvum heilans, þetta er auðvitað afar einfölduð útskýring.“

„Stærsta og helsta mýtan er sú að fólk sem stamar er hlédrægt, stressað eða jafnvel rosalega kvíðið.“

Stam er hvorki geðsjúkdómur né smitandi

Sveinn segir sumt fólk líka halda að um kæk sé að ræða, kæk sem fólk getur losað sig við. „Þessi mýta veldur vissum fordómum gagnvart fólki sem stamar. Annar misskilningur er að stam sé geðsjúkdómur, smitandi eða komi vegna áfalls í æsku. Ég vil hvetja fólk til þess að spyrja frekar en að trúa einhverri vitleysu.“

Sveinn vonar að með grafísku verkum sínum geti hann frætt fólk og hjálpað þeim sem stama. Sjálfur hefur Sveinn fundið fyrir ákveðinni skömm fyrir að stama. „Í mjög langan tíma skammaðist ég mín fyrir að stama og í sannleika sagt er ég enn að berjast við vissa skömm yfir því að stama. Að alast upp við að stama og vita í raun ekki af hverju og geta ekkert að því gert var afskaplega erfitt.“

„Í sannleika sagt er ég enn að berjast við vissa skömm yfir því að stama.“

Með verkefninu vill hann vekja fólk til umhugsunar. Hann bendir á að flest fólk sem stamar vill ekki láta klára setningarnar sínar fyrir sig. „Ég vil fá að klára setningarnar mínar eins og hver annar. Stundum segir fólk mér að anda, hægja á mér eða eitthvað álíka. Ég verð að viðurkenna að það fer í taugarnar á mér þó að ég viti að það sé að reyna að hjálpa. Það besta sem fólk getur gert þegar ég er að stama er bara að bíða þangað til að ég klára setninguna, það tekst alltaf á endanum.“

Að lokum bendir Sveinn áhugasömum á Instagram-síðuna sína, @sven_illustration. Þar getur fólk fylgst með þróun verkefnisins.

Bleikt og rokkað hjá ungu pari í Vogunum

Parið Stella Björt Bergmann Gunnarsdóttir og Alexander Fannar Kristjánsson búa í skemmtilegri íbúð í Vogahverfinu. Bleiki liturinn er áberandi á heimilinu.

Þau Stella Björt Bergmann Gunnarsdóttir og Alexander Fannar Kristjánsson búa í Vogahverfinu í fallegu húsi byggðu árið 1950 ásamt tæplega sex mánaða syni sínum, honum Vésteini Flóka. Einungis eru um sjö mánuðir síðan parið flutti og er ekki annað hægt að segja en að þau séu búin að koma sér vel fyrir, en þau ákváðu að koma sér af leigumarkaðnum þegar þau vissu að fjölskyldan myndi stækka. Stella Björt starfar sem verslunarstjóri hjá Spútnik í Kringlunni og Alexander Fannar er tónlistarmaður, betur þekktur undir nafninu Black Pox.

Skipulag hússins og hverfið heillaði

Íbúðin er á tveimur hæðum og á þeirri efri eru tvær bjartar stofur, ásamt eldhúsi og vinnuaðstöðu Alexanders og neðri hæðin geymir svefnherbergi, bað og þvottahús.

Hvernig líkar ykkur hér í Vogahverfinu? „Þetta er mjög næs hverfi en ég ólst upp hérna og bjó í tuttugu ár, hér er rosalega rólegt en á sama tíma er þetta hverfi mjög miðsvæðis,“ svarar Stella.

Hvað heillaði við þetta hús? „Við erum mjög hrifin af hverfinu og þessum smáatriðum í íbúðinni, skrautlistunum og rósettunum. Svo er rosalega þægilegt að vera á tveimur hæðum og hafa svefnherbergin og baðherbergið niðri, en hann Vésteinn er svolítið svefnstyggur svo það er snilld að geta verið uppi á kvöldin og þurfa ekki að hvísla.“

Bleikur í uppáhaldi

Hvernig stíl eruð þið með? „Við Alex erum rosalega ólík þegar kemur að stíl heimilisins, þetta er búið að vera mjög langt ferli að ná góðum millivegi hvað varðar stílinn hér heima. Axel vill hafa allt frekar einfalt og meira út í industrial- stíl, meðan ég er alveg í hina áttina.“ Stella segir bleika velúrsófann úr ILVU vera í miklu uppáhaldi en þau festu kaup á honum nýlega. „Mig hefur langað í bleikan sófa alveg síðan ég var 10 ára og loksins hefur sá draumur ræst!“ Þau segjast afar lítið snobbuð hvað varðar val á húsgögnum og kaupa bara hluti inn á heimilið sem þeim þykir fallegir og er nokkurn veginn sama hvaðan þeir koma.

„Mig hefur langað í bleikan sófa alveg síðan ég var 10 ára og loksins hefur sá draumur ræst!“

Aðspurð um hvaða hönnuður sé í uppáhaldi nefnir Stella fatahönnuðinn Hildi Yeoman en hún segist þó duglegust að kaupa vintage-föt og sé mjög hrifin af endurnýtingu.

Safnið þið einhverju? „Já, bleikum hlutum,“ segir Stella og hlær, „annars söfnum við minjagripum úr ferðalögum og stillum þeim upp á hillu hér niðri, en við elskum að ferðast.“ Við kveðjum unga parið í Vogunum að sinni og þökkum þeim fyrir kaffið og heimboðið.

Texti / Elín Bríta
Myndir / Hallur Karlsson

Funkisstíllinn alltaf heillandi

Nadia Katrín Banine, löggiltur fasteignasali hjá Landmark fasteignasölu og flugfreyja, er með retróstíl, stílhreinan og hlýlegan og er heilluð af funkisstílnum. Uppáhaldshönnuður hennar er Hans J. Wegner, henni finnst handverk hans vera ævintýralegt.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Ég hef alltaf haft gaman af heimilum og hönnun og fór fyrir nokkrum árum á hönnunarbraut við Iðnskólann í Hafnarfirði. Ég hef líka unnið mikið við sölumennsku og stílfæringu svo þetta var einhvern veginn upplögð leið til að flétta saman þessa tvo þætti. Ég legg mikið upp úr því að aðstoða fólk við það að fá sem mest út úr eigninni sinni, með því að gera hana sem söluvænlegasta. Fermetrar og birta er oftast það sem flestir eru að leita eftir og oft þarf að snúa aðeins við einhverjum hlutum í rýminu, fækka þeim og opna rýmið þannig að það fái að njóta sín sem best.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Það er svo misjafnt. Fer mikið eftir því hvernig húsnæðið er, en mér finnst alltaf fallegt að blanda saman nýju og gömlu og vera ekki með of einsleita hönnun. Ljósmyndir, kerti, plöntur og textíll er eitthvað sem mér finnst gegnumgangandi gera heimili hlýleg og persónuleg. Stundum eru heimili, að mínu mati, of stílfærð og ópersónuleg.“

„Ég hef gaman af því að gefa gömlum hlutum líf og leyfa þeim að njóta sín í bland við tímalausa hönnun. Mér finnst líka gaman að eiga fallega list eftir fólk sem ég þekki.“

Getur þú lýst þínum stíl? „Minn stíll er svolítið retró, myndi ég segja. Hann er stílhreinn en líka hlýlegur. Ég hef gaman af því að gefa gömlum hlutum líf og leyfa þeim að njóta sín í bland við tímalausa hönnun. Mér finnst líka gaman að eiga fallega list eftir fólk sem ég þekki.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Já, því er auðsvarað, Zaha Hadid.“

Hver er þinn uppáhaldshönnuður? „Ég er svona laumusmiður í mér og elska fallega smíði. Ég verð að segja Hans J. Wegner. Handverk hans er ævintýralegt.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Ætli það sé ekki Bamsestolen eftir Wegner.“

Málverkið fyrir aftan Nadiu er eftir fjölskylduvin, Sigtrygg Bjarna Baldursson.

Uppáhaldsliturinn þinn? „Hef verið ótrúlega svört síðustu ár, en núna finnst mér fallegur blár og flöskugrænn einstaklega fallegur. Ég er nýbúin að kaupa mér í sjónvarpsstofuna fallega grænan bólstraðan bekk sem ég er svakalega ánægð með.“

Hvar líður þér best? „Heima hjá mér verð ég að segja í svefnherberginu. Það er samt ekki alveg tilbúið, en er ótrúlega skemmtilegt rými. En svona almennt, þá á hestbaki eða á fallegri strönd.“

Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða í inn á heimilið þegar haustar? „Já, ég er að spá í að verða aðeins grænni heima hjá mér og kaupa meira af fallegum plöntum. Ég var alltaf með heilmikið af plöntum en það hefur eitthvað dalað síðustu árin. Svo má alltaf bæta við fallegum kertum. Ætla að ná mér í einhver kerti hjá henni Írisi vinkonu minni í Veru Design og svo elska ég líka Völuspárkertin.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Svo margir fallegir og flottir staðir að það er erfitt að gera upp á milli. Fer svona meira eftir því hvaða stemningu maður sækist eftir. Það er alltaf líf og fjör á Snaps en svo finnst mér Sæta svínið líka mjög skemmtilegur staður. Staðirnir hennar Hrefnu Sætran eru allir mjög smart og maturinn frábær.“

Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Mér finnst funkisstíllinn alltaf svolítið heillandi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … vera í núinu, minnka símanotkun, elska fólkið sitt, hlæja, dansa og láta eftir sér það sem mann langar þegar maður hefur tækifæri til þess. Heft of sagt í gamni að ég lifi eftir slagorði Nike og L´oreal; Just do it og Because you´re Worth It.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Svona getur þú sigrast á stressinu

Hér koma sjö skotheld ráð fyrir þá sem þurfa að núllstilla sig og sigrast á stressinu. Ráðin, sem birtust á vef The Guardian, ættu að koma sér vel fyrir marga.

Finndu rót vandans

Ef þú ert með stöðuga vöðvabólgu, höfuðverk og mígreni þá eru miklar líkur á að stress sé sökudólgurinn. En hvað veldur stressinu? Vandamálum er hægt að skipta í þrjá flokka; þau sem hægt er að leysa, þau sem lagast með tímanum og þau sem þú hefur enga stjórn á. Lærðu að einblína á þau sem þú getur leyst, slepptu takinu á hinum.

Hreyfðu þig

Hreyfing útrýmir kannski ekki stressinu alveg en hún getur hjálpað við að minnka það.

Ræddu málið

Ef þú ert til í að opna þig og óska eftir ráðum frá vinum þá skaltu gera það. Leitaðu stuðnings hjá vinum og fáðu þannig nýja sýn á vandamál þín.

Minnkaði símanotkunn

Það er ekki nóg að setja símann á hljóðlausa stillingu. Settu hann líka ofan í skúffu, klukkutíma áður en þú ferð í háttinn. Farðu í bað, horfðu á kvikmynd eða lestu bók. Hundsaðu símann og andaðu inn og út.

Tæmdu hugann

Rannsóknir hafa sýnt að öndunaræfingar og hugleiðsla geta hjálpað til í baráttunni gegn stressi. Lærðu að tækla stressið um leið og það gerir vart við sig. Headspace er smáforrit sem kennir byrjendum að hugleiða, íhugaðu að skoða það.

Gerðu lista

Ef það er mikið að gera hjá þér þá er tilvalið að búa til lista til að hafa meiri yfirsýn. Settu mikilvægustu atriðin efst á listann og litlu hlutina neðst.

Borðaðu hollt og drekktu vatn

Það sem þú lætur ofan í þig hefur áhrif á andlega líðan. Þess vegna skaltu forðast fituríkan mat, koffín og sykur þegar stressið gerir vart við sig.

Sagði í skýrslutöku að Donald Trump þætti þetta í lagi

Maður sem káfaði tvisvar sinnum á brjóstum konu í flugvél Southwest Airlines sagði síðar í skýrslutöku að Donald Trump segði slíka hegðun í lagi. Samkvæmt frétt The Independent heitir maðurinn Bruce Alexander og er 49 ára að aldri. Hann var handtekinn eftir flug frá Texas til Nýju-Mexíkó fyrir að hafa kynferðislega áreitt konu sem sat fyrir framan hann í fluginu.

Konan sagði í skýrslutöku að hún hefði í fyrstu talið að maðurinn hefði káfað óvart á sér. En þegar maðurinn teygði sig fram og snerti hana í annað sinn óskaði hún eftir aðstoð flugþjóna. Konan fékk nýtt sæti í fluginu og maðurinn var handtekinn þegar flugvélin lenti í Albuquerque í Nýju-Mexíkó.

Bruce Alexander reyndi í skýrslutöku að nota hegðun Bandaríkjaforseta sér til varnar. Hann mun hafa sagt að Donald Trump segði hegðun sem þessa í góðu lagi, þess vegna hefði honum sjálfum þótt þetta í lagi. Hann vísaði þá í upptöku sem náðist af Donald Trump árið 2005 þar sem ræddi við sjónvarpsmann NBC News, Billy Bush. Á upptökunni má heyra Trump tala um að hann kæmist um með hvað sem er vegna frægðarinnar, meðal annars að grípa í klof kvenna. Umrætt myndband má sjá fyrir neðan.

Konan sem varð fyrir kynferðislegri áreitni mannsins hefur höfðað mál gegn honum er fram kemur í frétt The Independent.

Raddir