Miðvikudagur 30. október, 2024
3.8 C
Reykjavik

Höfundur Terminator á leið til landsins

||
||

Kvikmyndaframleiðandinn Gale Anne Hurd verður hátíðargestur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Northern Wave (Norðanáttin) sem fer fram í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ í 11. sinn helgina 26.-28. október. Dögg Mósesdóttir, sem er stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar, segir heiður að fá þessa goðsögn til landsins.

Dögg Mósesdóttir, sem er stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar, segir heiður að fá þessa goðsögn til landsins.

„Gale er algjör goðsögn og frumkvöðull í kvikmyndaheiminum og mikilvæg fyrirmynd fyrir kvikmynda-gerðarfólk sem er að stíga sín fyrstu skref, eins og margir af gestum hátíðarinnar eru að gera. Við höfum aldrei áður fengið svona stóran framleiðanda frá Hollywood til okkar og ef ég á að vera hreinskilin þá erum við að farast úr spenningi,“ segir Dögg, spurð að því hvernig sé að fá þessa kanónu á hátíðina.

Nafngiftin kanóna er svo sannarlega ekki úr lausi lofti gripin því Hurd á að baki langan og glæstan feril í kvikmyndaheiminum. Hún var til dæmis meðhöfundur og framleiðandi kvikmyndarinnar The Terminator og hefur framleitt stórmyndir eins og Aliens, Hulk, Armageddon og The Abyss, en í dag á hún og rekur fyrirtækið Valhalla Entertainment sem framleiðir meðal annars hina vinsælu sjónvarpsþætti The Walking Dead.

Á hátíðinni verður nýjasta heimildamynd Hurd, MANKILLER, sýnd en hún fjallar um fyrsta kvenkyns Cherokee-höfðingjann sem barðist fyrir réttindum frumbyggja í Bandaríkjunum. Þá mun leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir stýra sérstöku meistaraspjalli þar sem framleiðandinn situr fyrir svörum. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem Hurd kemur til landsins og segist Dögg vita til þess að hún hlakki mikið til heimsóknarinnar.

„Við höfum aldrei áður fengið svona stóran framleiðanda frá Hollywood til okkar og ef ég á að vera hreinskilin þá erum við að farast úr spenningi.“

„Reyndar var ég hissa á að Gale samþykkti að koma á litla stuttmyndahátíð í smábæ á Íslandi og ítrekaði fyrir henni um hvað málið snérist en hún sló samt til. Ég held að hún sé spenntust fyrir náttúrunni og líti á þetta sem tækifæri til að komast loksins hingað. Þetta er auðvitað eina stuttmyndahátíðin í heimi sem er haldin í gömlu frystihúsi undir jökli, eftir því sem ég best veit, þannig að eflaust lítur hún á þetta sem ævintýri.“

Dögg segir þátttöku Hurd almennt rýma vel við dagskrá og tilgang Northern Wave. Hátíðin hafi í gegnum tíðina ekki aðeins varpað ljósi á þá hluta kvikmyndagerðar sem eru svolítið á bak við tjöldin, eins og framleiðsla, klipping, hljóðsetning o.fl., heldur líka vakið athygli á framlagi kvenna til kvikmyndagerðar m.a. svo að ungar kvikmyndagerðarkonur geti speglað sig í flottum fyrirmyndum. Hurd sé sannarlega ein slík.

En hvað fleira verður á boðstólum á hátíðinni í ár? „Við ætlum að sýna allt sem stuttmyndaformið hefur upp á að bjóða, allt frá tónlistarmyndböndum til teiknimynda. Svo verða tónleikar og fiskréttakeppni, sem er orðin að einum vinsælasta viðburði hátíðarinnar,“ svarar Dögg hress og hvetur listamenn og tónlistarfólk til að mæta á hátíðina, ekki síst á óformlega hádegisfundi sem séu kjörinn vettvangur til að hitta kvikmyndagerðarfólk og kanna grundvöll fyrir samstarfi. En nánar megi lesa sér til um hátíðina á .

Sú kvikmynd sem kom Hurd endanlega á kortið var Aliens (1985), framhald geimhryllingsmyndarinnar Alien (1979). En sumum aðdáendum þykir Aliens vera hápunktur þessarar vinsælu og langlífu skrímslaseríu.

Frumkvöðull í gerð vísindaskáldsagna
Bandaríski framleiðandinn Gale Anne Hurd (f. 1955) er gjarnan kölluð „The first lady of Sci-Fi“ eða forystukona Sci fi-kvikmynda í heiminum vegna aðkomu sinnar að gerð fjölda kvikmynda í vísindasagnastíl, kvikmynda sem ekki aðeins hafa notið mikilla vinsælda heldur þykja af ýmsum sökum hafa brotið blað í gerð slíkra mynd.

Hurd hóf feril sinn sem aðstoðarkona B-hryllingsmyndakóngsins Roger Corman hjá fyrirtæki hans New World Pictures og þar vann hún sig jafnt og þétt upp metorðastigann þar til hún var farin að taka virkan þátt í framleiðslu á verkefnum fyrirtækisins.

Árið 1982 stofnaði Hurd eigið framleiðslufyrirtæki, Pacific Western Productions, sem framleiddu stórvirki á borð við The Terminator (1984), Aliens (1986) og The Abyss (1989), myndum sem öllum var leikstýrt af þáverandi eiginmanni hennar, James Cameron, og rökuðu myndirnar inn peningum í miðasölu um allan heim.

Síðan þá hefur Hurd notið mikillar velgengi sem framleiðandi í Hollywood. Meðal annarra mynda sem hún hefur framleitt má nefna Terminator 2 (1991) og 3 (2003), Armageddon (1998) og Hulk (2003), en af öðrum verkefnum á ferilskránni má nefna þætti byggða á teiknimyndasögunni Aeon Flux sem eru nú í vinnslu.

Á löngum og glæstum ferli hefur Hurd unnið til fjölda verðlauna fyrir verkefni sín og nýtur virðingar innan bandaríska kvikmyndabransans. Auk þess að eiga og reka eigið framleiðslufyrirtæki er hún háttsett innan samtakanna Producers Guild of America, sem eru samtök framleiðenda í Bandaríkjunum.

Asíureisa í súpuskál

||
||

Fátt er betra en heit og rjúkandi asísk núðlusúpa en slíkur matur er bæði nærandi fyrir líkama og sál, margar asískar súpur eru sérlega hollar og vel samsettar og í raun fullkomin máltíð.

Phó Ga – Víetnam
Phó er víetnömsk núðlusúpa með margslungnu bragði sem oftast inniheldur annaðhvort nautakjöt eða kjúkling. Súpan er vinsæll götumatur (e. street food) þar í landi, iðulega seld af götusölum með færanlegt eldhús og stóran súpupott. Phó varð seinna vinsæl í Vesturheimi þegar stórir hópar Víetnama flúðu land á tímum Víetnamstríðsins.

1 msk. olía
1 laukur, skrældur og skorinn í tvennt þversum
3 hvítlauksgeirar, skrældir og kramdir
4 cm biti ferskt engifer, skrælt og skorið í sneiðar
1½ l kjúklingasoð
½ l vatn
½ tsk. fennelfræ
4 negulnaglar
1 kanilstöng
1 stjörnuanís
½ chili-aldin, sneitt
700 g kjúklingalæri og leggir, með beini og skinnið tekið af
safi úr 1 límónu
1 msk. fiskisósa
200 g hrísgrjónanúðlur
3 vorlaukar, sneiddir
20 g mynta

Hitið olíu á pönnu yfir meðalháum hita. Setjið laukinn ofan í pottinn með sárið niður ásamt hvítlauknum og engiferinu. Steikið þar til hvítlaukurinn gyllist og laukurinn verður nánast brenndur á skurðarsárinu. Hellið kjúklingasoðinu út í pottinn og bætið við fennelfræjum, negul, kanilstöng, stjörnuanís og helmingnum af chili-aldininu. Setjið kjúklinginn út í, lokið pottinum og látið malla við hæga suðu í 40 mín., eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Veiðið kjúklinginn upp úr súpunni og setjið til hliðar og látið kólna. Rífið kjúklingakjötið af beininu og hendið beinunum. Hellið súpunni í gegnum síu og hendið hratinu. Hrærið límónusafa og fiskisósu saman við súpuna og haldið súpunni heitri yfir lágum hita. Sjóðið núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkningu, hellið vatninu frá og skiptið núðlunum á milli skála. Skiptið kjúklingakjötinu á milli skála og hellið súpunni yfir. Skreytið með vorlauk, myntu og afganginum af chili-aldininu.

Mísó ramen – Japan
Ramen hefur undanfarin ár tekið stökk í vinsældum utan heimalandsins, Japan, og margir veitingastaðir hafa opnað í Evrópu og Bandaríkjunum og helga sig súpunni. Í Japan eru ramen-staðir nánast óteljandi og ólíkt annarri þarlendri matargerð fylgir hún ekki ströngum reglum og er til í mörgum útfærslum, bæði eftir héruðum og hugmyndaauðgi kokksins.

1 l kjúklingasoð
½ l vatn
2 hvítlauksgeirar, kramdir
20 g engiferrót, sneidd
7 vorlaukar, sneiddir
15 g þurrkaðir shitake-sveppir eða aðrir þurrkaðir sveppir
4 egg
100 g snjóbaunir
40 g baunaspírur
2 msk. rautt mísómauk (mugi mísó)
2 msk. hvítt mísómauk (shiro mísó)
2 msk. mirin
1 msk. sojasósa
¼ tsk. chili-mauk (t.d. siriracha)
300 g ramen-núðlur
200-300 g tófú, skorið í teninga

Sjóðið nautasoð, vatn, hvítlauk, engifer, 4 vorlauka og þurrkaða sveppi í 20-30 mín. og sigtið síðan allt frá, hendið hráefninu en geymið soðið. Setjið vatn í pott og náið upp suðu, setjið eggin varlega út í vatnið með skeið þegar suðan kemur upp. Sjóðið í 6½ mín. og snöggkælið síðan eggin með því að veiða þau upp úr pottinum og leggja í ísvatn. Takið skurnina af og setjið til hliðar. Snöggsjóðið snjóbaunirnar og baunaspírurnar í 20 sek. og setjið þær síðan í ísvatnið. Hrærið saman mísómauk, mirin, sojasóu og chili-mauk í skál. Takið soðið af hitanum og hrærið mísóblöndunni saman við. Sjóðið núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkningu. Skiptið núðlunum í fjórar skálar, hellið súpunni ofan á og blandið tófúbitunum út í, skerið eggin í tvennt langsum og leggið tvo hluta ofan í hverja skál, setjið snjóbaunirnar, afganginn af sneidda vorlauknum ofan á og berið strax fram með skeið og matarprjónum. Gott er að hafa ristaða sesamolíu og siriracha-sósu á borðinu fyrir þá sem vilja.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Sögufrægt hús á Akureyri glætt nýju lífi

Gamla Apótekið sem stendur við Aðalstræti 4 er eitt glæsilegasta hús Akureyrar og stendur það ofar en flest önnur hús í nágrenninu. Grunnflötur hússins er 135 fermetrar og er það byggt í dönskum timburhúsastíl. Húsið á sér mikla forsögu.

Gamla Apótekið, eitt glæsilegasta hús Akureyrar, var hannað og byggt árið 1859 af Jóni Chr. Stephánssyni, sem hafði varið tíma í Danmörku við að læra listina við byggingu timburhúsa. Eftir Danmerkurdvölina lá leið hans norður á land þar sem apótekarinn á Akureyri fól honum það verk að byggja nýstárlegt hús sem væri ætlað að hýsa apótek bæjarins. Á meðan apótekið var starfrækt bjó lyfjafræðingurinn Jóhann Thorarensen á efri hæð þess ásamt fjölskyldu sinni, en í dag hefur þetta reisulega hús við Aðalstræti verið glætt nýju lífi.

Gamla Apótekið hefur, eins og fjölmörg önnur sögufræg timburhús á Íslandi, gengið í gegnum ýmislegt á síðari hluta 20. aldar og var það til að mynda múrhúðað, sem olli því að það fór smám saman að fúna og síga. Árið 2006 hlaut byggingin friðun frá Minjastofnun, sem í kjölfarið festi kaup á henni og hófst þá gríðarmikil endurbygging. Eftir að endurnýjunin hófst tók hún betri hluta tveggja ára og var húsið meðal annars fært tímabundið á hafnarsvæði Akureyrar meðan nýr grunnur var steyptur. Síðla sumars 2017 lauk framkvæmdum í húsinu og var það tilbúið að gegna nýju hlutverki.

Rík áhersla á lestur og samveru

Í dag starfrækir hönnuðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir og fjölskylda hennar eins konar gistihús í Gamla Apótekinu sem ber nafnið Place to Read eða Staður til lesturs, en fjölskyldan keypti húsið af Minjavernd eftir endurbætur þess. Húsið er hugsað sem griðastaður, fullkominn til afslöppunar í fallegu umhverfi þar sem stutt er í bæði menningu og náttúru. Rík áhersla er á lestur og er afar veglegt og fallegt bókasafn í einu herbergi hússins sem gestir eru hvattir til að nýta sér. „Húsið er sérstaklega innréttað með það í huga að þar sé gott að vera og lesa og höfum við fjölskyldan fyllt bókasafnið með okkar uppáhaldsskáldsögum, gjafabókum, barnabókum og tímaritum.“

Húsið hefur verið hólfað niður í þrjár íbúðir, sú stærsta er á fyrstu hæð og tvær smærri eru á efri hæðinni. Hver íbúð er búin arni og fyrir utan húsið er eimbað, heitur pottur og sturta undir berum himni.

Hvaðan kviknaði hugmyndin að Place to Read? „Hugmyndin hafði blundað í mér lengi. Við Halldór vitum fátt betra en að setjast niður með góða bók og gefa okkur tíma til að lesa og svo höfum við allt of mikinn áhuga á húsum. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókmenntahátíðinni í Frankfurt og á sama tíma jókst ferðamannastraumur til landsins svo um munar. Engin önnur þjóð les jafnmikið eða gefur út jafnmikið af bókum miðað við fólksfjölda og Íslendingar. Bókmenntirnar eru jú okkar helsti menningararfur. Lestur og bókmenntir eru rótgrónar í land og þjóð. Það er svo augljóst að byggja á þessu. Í raun gæti Ísland markaðssett sig sem land til að koma og lesa bækur. Ekkert annað land hefur gert það. Vont veður og rigning er plús. Í öllu áreitinu sem fylgir tæknivæðingunni er það orðinn alger lúxus að setjast niður og lesa bók. Okkur langaði að skapa stað þar sem maður yrði hreinlega feginn þegar veðrið er vont og gæti notið þess að vera inni í dásamlegu húsi og lesið bækur.“

„Í öllu áreitinu sem fylgir tæknivæðingunni er það orðinn alger lúxus að setjast niður og lesa bók.“

Hvert sóttuð þið innblástur þegar kom að því að innrétta og velja húsgögn í húsið?

„Við sóttum innblástur í húsið sjálft. Við reyndum að finna hluti og liti sem áttu heima í húsinu. Sumir hlutirnir fundust í húsinu, eins og gamlar flöskur úr apótekinu sem upprunalega var rekið í húsinu. Gamlar dásamlega fallegar hurðir sem fundust inni í vegg og við notum sem stofuborð. Vinnuborð sem smiðirnir hjá Minjavernd smíðuðu og notuðu við störf sín eru nú eyja í eldhúsinu og vinnuborð í þvottahúsinu. Í húsinu eru verk eftir marga íslenska hönnuði og myndlistarmenn. Rúmin eru íslensk og framleidd af RB rúmum og heiti potturinn er einnig íslensk framleiðsla frá Trefjum og er hvoru tveggja frá Hafnarfirði. Eina sem var snúið var að finna fallega svefnsófa sem pössuðu í húsið en þeir voru að lokum pantaðir frá bandarísku fyrirtæki sem heitir Restoration Hardware. Þetta snerist um að hlusta á húsið. Okkur þótti skemmtilegast að velja bækurnar en hver einasta bók er sérstaklega valin. Þetta eru bækur sem við höfum lesið og höldum upp á og eins bækur sem okkur langar til að lesa. Flestar bækurnar eru á ensku en þó einhverjar á íslensku, þýsku og frönsku.“

Texti / Elín Bríta
Myndir / Auðunn Níelsson og Íris Ann Sigurðardóttir

 

 

300 Íslendingar bera BRCA1-genið án þess að vita af því

|
Kári Stefánsson

Íslensk erfðagreining á dulkóðuð gögn um 300 einstaklinga á Íslandi sem bera stökkbreytingu í BRCA1-erfðavísinum sem stóreykur líkurnar á krabbameini. Lögum samkvæmt er óheimilt að láta þessa einstaklinga vita af stökkbreytingunni. Kári Stefánsson segir það órökrétt að ekki megi láta fólk vita að það sé í bráðri lífshættu.

Íslensk erfðagreining á dulkóðuð gögn um ríflega þúsund Íslendinga sem hafa sjúkdómsvaldandi stökkbreytingu á BRCA2-erfðavísinum. Hún hefur í för með sér mikla áhættu á arfgengu brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum. Líkur á að konur sem greinast með stökkbreytinguna fái illvígt krabbamein eru 86% en heldur minni hjá körlum. Minnka má líkur á að þau fái krabbamein ef þeim er gert viðvart í tæka tíð.

Íslensk erfðagreining á einnig dulkóðuð gögn um 300 einstaklinga á Íslandi sem bera stökkbreytingu í BRCA1. Þær konur hafa ekki getað nálgast upplýsingarnar en það má gera ráð fyrir að allt að 600 einstaklingar beri stökkbreytinguna hér á landi, mun færri en stökkbreytinguna í BRCA2.

„Þetta fólk er í bráðri lífshættu“

„Það eru aðeins mismunandi krabbamein fyrir utan brjóstin sem fylgja stökkbreytingum í þessum tveimur genum en þetta eru hvort tveggja slæmar stökkbreytingar,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við Mannlíf um BRCA1 og BRCA2.

„Þetta fólk er í bráðri lífshættu og það er ekki hefð í íslensku samfélagi að vita af fólki í bráðri lífshættu og aðhafast ekkert. Við meira að segja göngum svo langt að ef fólk býr á svæðum þar sem er yfirlýst snjóflóðahætta, þá flytjum við það fólk nauðugt ef hætta steðjar að. Það er ósköp skrítið að líta þannig á málið að ef lífshætta steðjar að vegna stökkbreytinga, þá megi ekki láta fólk vita, en annars alltaf. Mér finnst þetta ekki rökrétt,“ segir Kári.

Nýtt frumvarp gæti skipt sköpum

Kári fagnar nýju frumvarpi sem dreift var á þriðjudag á Alþingi og felur í sér breytingar á lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. „Ég held að þetta sé nákvæmlega það sem ég hef verið að kalla eftir; að það yrði búinn til möguleiki til að nálgast þá sem bera þessar stökkbreytingar svo hægt sé að láta viðkomandi vita að þeir séu í lífshættu,“ segir hann.

Samkvæmt frumvarpinu ber að tilkynna upplýsingar um stökkbreytingar sem fela í sér stóraukna áhættu á alvarlegum sjúkdómum til Embættis landlæknis sem á þá að fela heilbrigðisstarfsmanni að afla nauðsynlegra persónuupplýsinga frá ábyrgðarmanni rannsóknar, upplýsa viðkomandi einstakling og veita honum ráðgjöf um möguleg úrræði. En talið er að um tíu þúsund Íslendingar gætu haft verulegan heilsufarslegan ávinning af því að vita um stökkbreytingar sem valda ýmsum alvarlegum sjúkdómum sem hægt væri að bregðast við. Í lögunum er einnig kveðið á um rétt þeirra sem vilja ekki fá slíkar upplýsingar en þeir þurfa að tilkynna það til Embættis landlæknis. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en átta þingkonur úr öllum stjórnmálaflokkum standa að því. „Ég vona að Alþingi beri til þess gæfu að samþykkja frumvarpið og gera það að lögum,“ segir Kári. „Það verður spennandi að sjá hvernig umræður um þetta þróast á þingi.“

„Eins og að vera með tímasprengju inni í mér“

Linda Þráinsdóttir segir ánægjulegt að frétta af frumvarpinu og vonast til að það verði samþykkt. Hún fer í aðgerð á mánudag til að láta fjarlægja bæði brjóst sín en hún er þegar búin að láta taka úr sér eggjastokkana. Linda tók þessa ákvörðun eftir að hún fékk að vita að hún bæri stökkbreytingu í BRCA1-geninu.

Linda Þráinsdóttir ásamt föður sínum.

Faðir Lindu greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli fyrir um ári síðan, bróðir hans fékk sama krabbamein árið 2015. Móðir bræðranna lést úr brjóstakrabba og var einnig með mein í eggjastokkum, önnur systir hennar dó fertug úr krabbameini í eggjastokkum og hin systir hennar fékk brjóstakrabba 37 ára en sigraðist á því. „Mér og systur minni fannst þetta svo mikil saga að við biðluðum til pabba um að láta rannsaka sig. Þá fékk hann staðfest að hann er með stökkbreytingu í BRCA1,“ segir Linda.

Þær systur fóru í kjölfarið í rannsókn og Linda greindist með stökkbreytinguna en systir hennar ekki. „Mér fannst það vera skylda mín sem móður að fá þessa vitneskju af því börnin mín geta erft þetta. Ég ákvað strax að láta taka allt, brjóst og eggjastokka í stað þess að fara í aukið eftirlit,“ útskýrir Linda og bætir við: „Mér leið eins og það væri tímasprengja inni í mér.“

Linda segist ekki kvíða brjóstnáminu en eggjastokkarnir voru teknir í maí. „Ég finn aðallega fyrir þakklæti að fá að vita af þessu, þannig hef val um að gera eitthvað í þessu áður en það er um seinan. Með mína fjölskyldusögu var það engin spurning.“

Börnin mín eiga skilið að eiga mömmu

Fríða Ammendrup fékk nýlega að vita að hún sé með stökkbreytingu í BRCA2-geninu. Upplýsingarnar fékk hún í gegnum vefgátt Íslenskrar erfðagreiningar, arfgerd.is. Um 45 þúsund hafa óskað eftir slíkum upplýsingum þó fæstir í yngsta aldurshópnum 18 til 25 ára, sem er áhyggjuefni því krabbameinið er einkar illvígt hjá ungu fólki.

Fríða segir ótrúlegt að það þurfi að berjast fyrir því að upplýsa fólk um að það beri stökkbreytinguna. „Ég og systkini mín þurftum að ganga í gegnum að missa mömmu okkar úr krabbameini þegar við vorum mjög ung. Það getur enginn sem ekki hefur lent í því skilið hversu sársaukafullt það er, það hefur áhrif alla ævi. Ég á þrjú börn sem eiga skilið að eiga mömmu sína lengur og með því að fá þessar niðurstöður aukast líkurnar til muna,“ segir Fríða og bætir við að hún sé afar þakklát Íslenskri erfðagreiningu.

Á engan hátt einfalt að segja frá

Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi nokkrum sinnum yfir ævina. Hún segir að það hafi aldrei komið til greina að segja strax frá.

„Þetta eru fleiri sögur en ég kæri mig að hugsa um. Það er erfitt að rifa þetta upp. Það á samt við um allar mínar sögur að ekki í eitt einasta skipti kom til greina að ræða þetta við einhvern alveg í blábyrjun. Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað,“ segir Brynhildur sem varð meðal annars fyrir hópnauðgun á Þjóðhátíð í Eyjum þegar hún var tvítug, árið 1997. „Það var bara þungt skammarský yfir mér í langan tíma eftir á. Á meðan ég var að reyna að fóta mig eftir þetta og átta mig á hvað hafði gerst þá var ég engan veginn tilbúin til að fara til lögreglu eða upp á bráðamóttöku. Ég var bara ungur kjáni á þessum tíma og þar var ekkert í umræðunni hvað maður ætti að gera ef svona kæmi fyrir. Þannig að það var bara ekki inni í myndinni.“

„Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað.“

Eftir því sem umræðan um kynferðislegt ofbeldi jókst í samfélaginu með árunum fór Brynhildur að átta sig á hvar hún gæti leitað sér hjálpar. „Ég fór smátt og smátt að sjá hvert ég gæti leitað. En innri tilfinningin breytist ekki. Maður var svo tættur.“

Brynhildur segir sögu sína í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Það tók Brynhildi mörg ár að finna styrk innra með sér til að segja frá því ofbeldi sem hún varð fyrir. „Ég þurfti að vinna mikið í mínum málum áður en ég þorði að segja frá. Ég þurfti fyrst að finna út hverjum ég gæti treyst og hvar ég gæti fengið stuðning. Maður er ekki tilbúinn að segja hverjum sem er frá.“

Brynhildur segir að þungu fargi hafi verið af henni létt þegar hún loksins opnaði sig um kynferðislega ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir. „Það breytti lífi mínu að segja frá. Ég var komin í andlegt þrot og fann að það var eitthvað meiriháttar mikið að trufla mig. Og ég vissi undir niðri að það voru þessi kynferðisbrot sem voru rótin að vandanum. Ég þurfti bara að gera eitthvað eða halda áfram í þessu dapurleg lífi sem ég lifði.“

Brynhildur segir það ekki hafa verið auðvelt að takast á við vandamálið. Hún fór í Stígamót. „Í upphafi treysti ég fólki bara fyrir litlu broti af minni sögu. Það var ekkert auðvelt að fara upp á Stígamót og tala við einhvern sem ég þekkti ekki. En smám saman gat ég sagt meira og meira.“

Mundi ekkert í heila viku

Brynhildur tekur fram að hún hafi verið hrædd við að segja frá ofbeldinu sem hún lenti í en hún kveðst einnig hafa verið í afneitum og náð að loka á vondar minningar. „Í langan tíma barði ég sjálfa mig niður fyrir að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi og oftar en einu sinni. Ég spurði sjálfa mig af hverju ég gæti nú ekki komið mér út þessum aðstæðum, af hverju ég fraus alltaf. Mér leið eins og ég væri aumingi sem ekki gæti staðið sem sjálfri mér. Ég ýtti þessu frá mér og fannst ég mislukkuð,“ útskýrir Brynhildur.

„Í langan tíma barði ég sjálfa mig niður fyrir að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi og oftar en einu sinni.“

Hún bætir við að hún hafi upplifað hversu öflugur mannsheilinn geti verið þegar mikið bjátar á. „Eftir eitt áfallið þá mundi ég ekkert hvað gerðist í heila viku eftir á. Ég rankaði hreinlega við mér viku síðar og man ekkert hvað gerðist í millitíðinni, frá því að árásin átti sér stað og þar til ég rankaði við mér nokkrum dögum síðar, undir stýri í umferðinni.“ Hún líkir því ástandi við autopilot-stillingu á farartæki. „Í þessu tilfelli þá gat andlega hliðin greinilega ekki tekist á við þetta. Það var bara skellt í lás.“

Ekki hægt að kenna brotaþolum að bregðast rétt við

Brynhildur viðurkennir að hún reiðist þegar hún verður vör við að fólk sé að undra sig á af hverju brotaþolar geti ekki tilkynnt kynferðislegt ofbeldi strax. „Það er bara á engan hátt einfalt að segja frá. Ég verð alveg vör við háværar raddir sem segi að nú þurfi bara að kenna fólki að bregðast við. Það er þessi umræða í samfélaginu þar sem karlmenn eru nú aldeilis búnir að finna lausnina, það þarf bara að kenna ungum stúlkum að láta í sér heyra og standa með sjálfum sér. En þetta virkar ekkert svona. Það er ekki hægt að þjálfa fólk í svona lagað.“

Brynhildur bendir svo á að í langflestum tilfellum er árásin gerð af einhverjum sem brotaþoli þekkir. „Og þá eru fyrstu viðbrögð ekkert að rjúka af stað og segja frá. Maður er bara í mikilli flækju.“

Erfitt en mikilvægt að taka slaginn

Eftir að Brynhildur fór að opna sig um ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir á lífsleiðinni hefur hún reynt að tala opinskátt um reynslu sína í von um að hjálpa öðrum. „Ég er þannig andlega stemmd núna að mér líður eins og ég skuldi sjálfri mér að taka þátt í þessari baráttu, eftir að hafa unnið með þessi áföll í fjöldamörg ár. Ef ég get hjálpað einhverjum, þó það sé ekki nema ein manneskja, í að finna sinn vilja til að takast á við það sem viðkomandi hefur lent í, þá er ég tilbúin til að taka slaginn. Ég hefði nefnilega vilja hafa svona umræðu í gangi þegar ég var ung. Maður las alveg eitt og eitt viðtal á sínum tíma við fólk sem hafði orðið fyrir nauðgun en það var alltaf undir nafnleynd. Og maður drakk þetta alveg í sig. En það sem vantaði í þær frásagnir voru svörin; hvað gerði viðkomandi og hvernig vann þessi einstaklingur sig út úr áfallinu. Í dag er fókuserað á úrræðin og það er frábær breyting.“

„Ég hefði nefnilega vilja hafa svona umræðu í gangi þegar ég var ung. Maður las alveg eitt og eitt viðtal á sínum tíma við fólk sem hafði orðið fyrir nauðgun en það var alltaf undir nafnleynd. “

Brynhildur viðurkennir að það geti verið krefjandi að tjá sig opinskátt um ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir en að það sé mikilvægt að berjast fyrir málstaðinn. „Þegar efasemdarraddir heyrast, þar sem fólk dregur frásagnir brotaþola í efa og gefur í skyn að það sé ekkert mál að segja frá, þá er mikilvægt að taka slaginn og hjálpast að. Þetta er svolítið eins og boðhlaup, við verðum að hjálpast að. Stundum líður mér eins og ég sé bara að öskra út í vindinn en á sama tíma vill maður ekki að baráttunni sé tapað.“

Hún vonast til að hjálpa öðrum með sínu framlagi til umræðunnar um kynferðislegt ofbeldi og áhrif þess þó að það séu ekki allir tilbúnir að hlusta. „Ég tek alveg eftir að fólk er ekki alltaf tilbúið að heyra mig tala um þetta. Ég hef alveg verið beðin um að hætta að tala um þessa hluti. Fólk er bara mistilbúið. En eitt það versta sem fólk getur gert þegar brotaþoli opnar sig um kynferðislegt ofbeldi er að reyna að eyða umræðunni og snúa samtalinu í aðra átt. Það er auðvitað ekki hægt að stjórna því hvernig fólk bregst við en það er ágætt að hafa þetta í huga.“

Að lokum segist Brynhildur vera bjartsýn og ánægð með hvernig umræðan um kynferðislegt ofbeldi hefur þróast á undanförnum árum. „Umræðan er að opnast en við eigum enn þá langt í land. Mér finnst eins og við séum í lyftu á leið á efstu hæð. Nú erum við erum komin á aðra hæð en byggingin er tólf hæðir. Við erum komin af stað en það er hellingur eftir.“

Mynd / Hákon Davíð

Upp og niður

Það að koma húsi yfir höfuðið er einn af grundvallarþáttum mannlífsins. Að því leytinu til er fasteignamarkaðurinn viðfangsefni sem á sér marga snerti- og umræðufleti. Þróun hans varðar alltaf almannahag.

Undanfarin ár hefur fasteignamarkaðurinn á Íslandi bólgnað verulega út þegar horft er til verðmætis. Fasteignamat húsnæðis hefur hækkað úr tæplega 5 þúsund milljörðum árið 2015 í tæplega 7.300 milljarða árið 2018, svo dæmi sé tekið. Hækkunin milli áranna 2017 og 2018 var 13,8 prósent, en fasteignamatið er reiknað upp úr þinglýstum kaupsamningum húsnæðis.

Sem dæmi þá hefur íbúð sem keypt var árið 2015 á um 20 milljónir hækkað upp í meira en 30 á tæplega þremur árum.

Enginn staður í heiminum hefur upplifað viðlíka hækkanir á fasteignum og Ísland, á undanförnum árum, eins og ótrúlegt og það kann að hljóma fyrir einhverjum.

En nú er verulega farið að hægja á hækkun fasteignaverðs. Blikur eru á lofti á markaðnum en miklar hækkanir á undanförnum árum eiga sér rökréttar skýringar.

Ítarleg fréttaskýring um þróun fasteignamarkaðarins birtist í Mannlífi sem kom út í dag. Einnig er hægt að lesa hana í heild sinni á vef Kjarnans.

 

Brexit gæti dregist á langinn

Svo gæti farið að aðlögunartíminn vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verði framlengdur vegna óvissu um landamæri Norður-Írlands og Írlands. Bretland gengur formlega úr sambandinu í mars á næsta ári en svokallaður aðlögunartími stendur til 31. desember 2020. Þessi tími er ætlaður til þess að undirbúa endanlega útgöngu og á meðan honum stendur verður samband Bretlands og ESB nokkurn veginn það sama og er í dag.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundaði með leiðtogum ESB-ríkja í Brussel í gær. Lítið sem ekkert þokast í samkomulagsátt um á hvaða forsendum viðskilnaðurinn verður. Eitt mesta þrætueplið eru landamæri Írlands og Norður-Írlands og á fundinum opnaði May á þann möguleika að lengja aðlögunartímabilið um nokkra mánuði til að tryggja ásættanlega niðurstöðu fyrir alla aðila. Þetta útspil May vakti litla lukku meðal harðlínumanna í Íhaldsflokknum sem vilja slíta tengslin við ESB sem allra fyrst, burtséð frá því hvort samningur næst eða ekki.

Kom aldrei til greina að segja strax frá

|
Sigrún Bragadóttir. Mynd/Hákon Davíð Björnsson|

Eftir að núverandi Bandaríkjaforseti spurði hvers vegna Christine Blasey Ford hefði ekki kært kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh á háskólaárunum stigu fjölmargir fram henni til stuðnings undir myllumerkinu #whyididntreport og útskýrðu hvers vegna þau sögðu ekki frá né kærðu ekki. Sigrún Bragadóttir deilir hér sínum ástæðum.

Sigrún Bragadóttir er ein þeirra sem veit hversu erfitt getur verið að segja frá. Hún lenti í kynferðisofbeldi fyrst þegar hún var barn þegar maður sem tengdist henni í gegnum fjölskylduna misnotaði hana. Sigrún varð einnig fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns, henni var byrlað ólyfjan í menntaskóla og hún áreitt kynferðislega á skólaballi þegar hún var í 8. bekk. Aldrei fannst henni hún geta sagt frá.

Spurð út í af hverju hún sagði ekki frá ofbeldinu strax segir Sigrún: „Fyrir það fyrsta, vegna þess að ég var bara krakki þegar maður í fjölskyldunni byrjar svokallað „grooming“-ferli. Hann byrjaði að undirbúa hinn fullkomna glæp. Hann hegðaði sé alltaf á ofboðslega óviðeigandi hátt og meðvirknin með þessum manni var mikil í fjölskyldunni. Afsökunin var sú að hann átti svo bágt þegar hann var lítill, að uppvöxtur hans hafi verið erfiður. Með þessum manni lærði ég meðvirkni. En það voru alltaf tvær manneskjur, afi minn og frænka, sem var illa við hann. Og að sjá það hjálpaði mér við að falla ekki í alveg blinda meðvirkni með honum,“ segir Sigrún. Hún lýsir því hvernig manninum hafi tekist að gera hana varnarlausa þannig að henni fannst hún ekki geta tilkynnt um að eitthvað óeðlilegt væri að eiga sér stað.

„Hann hegðaði sé alltaf á ofboðslega óviðeigandi hátt og meðvirknin með þessum manni var mikil í fjölskyldunni.“

Sigrún tekur líka fram að það séu algeng viðbrögð hjá börnum að segja ekki frá kynferðislegu ofbeldi vegna þess að þau vilja hlífa fólki í kringum sig. „Börn eru svo klár, þau vilja oft spara sínum nánustu áföllin. Krakkar sem eru með þessa reynslu þróa með sér ofurnæmni, meðal annars á tilfinningar. Þau læra að lesa í umhverfið sitt og sjá hvernig aðrir bregðast við áföllum og vilja því hlífa fólki. Svo þarf líka að taka til greina að fólk sem beitir ofbeldi, það hótar líka oft.“

Minningarnar koma smátt og smátt upp á yfirborðið

Sigrún var orðin fertug þegar hún viðurkenndi þetta. „Ég viðurkenni fyrir sjálfri mér að það sem kom fyrir mig var ekki eðlilegt. Þessi maður dó þegar ég var tvítug þannig að frá því að ég man eftir mér og þangað til ég var orðin tvítug misnotaði hann mig. Og það ágerðist bara með tímanum,“ útskýrir Sigrún.

Sigrún Bragadóttir, Brynhildur Yrsa og Hrönn Ólöf segja sögur sínar í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Spurð út í hvernig það kom til að hún áttaði sig á hvað hafði í raun og veru komið fyrir hana segir Sigrún: „Þetta gerist þannig að ég var á fyrirlestri hjá konu sem heitir Gail Dines. Hún var að útskýra hvernig barnaníðingar vinna og hvernig þeir geta tekið mörg ár í að fullkomna verknaðinn. Þá fékk ég svakalegt „flash back“. Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Ég missti andann og tárin byrjuðu að bara að gusast niður kinnarnar. Ég stóð upp og grét inni á klósetti. Þá pantaði ég mér tíma hjá Stígamótum.“

Sigrún taldi sér í upphafi trú um að kannski væri ekki um alvarlegt mál að ræða. Að kannski hefði þetta ekki verið neitt. En hún áttaði sig fljótt á að hún hefði svo sannarlega orðið fyrir alvarlegu ofbeldi í æsku. Sigrún sagði frá ofbeldinu í janúar árið 2013 í viðtali hjá Stígamótum. Síðan þá hefur hún kafað dýpra og fleiri minningar hafa komið til hennar. „Þegar það gerist er oft talað um að brotaþolinn sé bara að búa eitthvað til, að ímynda sér. En maður getur bara unnið úr ákveðið miklum tilfinningum í einu og þess vegna eru margir sem þurfa að vinna í þessum málum út ævina.“

„Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Ég missti andann og tárin byrjuðu að bara að gusast niður kinnarnar.“

Hún tekur fram að í dag sé hún farin að skilja viðbrögð sín við ofbeldinu út frá líffræðinni, minningunum var ýtt til hliðar. „Heilinn er svo magnaður. Hann tekur við og býr til einhvern annan raunveruleika. Maður gleymir þessu, grefur þetta djúpt niður í undirmeðvitundina og þannig kemst maður af. En svo kemur alltaf að skuldadögum.“

Spurð út í hvernig henni hafi liðið eftir að hafa sagt frá segir Sigrún: „Það var misjafnt. Þetta var mikill léttir en líka mikil sorg. Sorg meðal annars vegna þess að viðbrögð fólks hafa verið alls konar. Sumir hafa sýnt alveg fullkomin viðbrögð og sagt: „Mér þykir ofboðslega leitt að þetta hafi komið fyrir þig“. En svo eru aðrir sem reyna að draga úr hlutunum en það eru bara varnarviðbrögð fólks því það er erfitt að heyra svona lagað.“

Erfitt að sætta sig við að svona geti gerst

Sigrún kveðst skilja upp að vissu marki af hverju fólk dregur frásagnir af kynferðislegu ofbeldi í efa og spyr af hverju brotaþoli hafi þá ekki tilkynnt strax. „Þetta geta verið ósjálfráð viðbrögð frá fólki, bæði fólki sem hefur aldrei lent í kynferðislegu ofbeldi og líka fólki sem hefur sjálft lent í einhverju en er ekki tilbúið til að takast á við það. Þeirra bjargarráð, þótt það sé í raun óhjálplegt bjargarráð, er að trúa ekki vegna þess að þegar fólk viðurkennir að svona geti gerst þá getur heimurinn þeirra hrunið. Hver sem er getur nefnilega lent í kynferðislegu ofbeldi því það snýst um vald en ekki kynlíf. Þannig að þegar fólk viðurkennir fyrir sjálfu sér að svona hlutir geti gerst þá er það ósjálfrátt að viðurkenna að þetta gæti komið fyrir það, þess nánasta fólk og fjölskyldumeðlimi. Þannig að það er kannski auðveldara að afneita þessu í staðinn fyrir að líta á þetta sem ógn sem hver sem er getur lent í,“ útskýrir Sigrún. „Algengt er að brotaþolar fái ekki stuðning frá sínum nánustu sem er mjög alvarlegt. En þetta eru varnarviðbrögð því fólk vill ekki hugsa til þess að heimurinn geti verið svona ógeðslegur.“

Fólk reynir að finna skýringu á ofbeldinu

Sigrún segir vissulega erfitt að sjá fólk í forréttindastöðu dæma þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún tekur Donald Trump Bandaríkjaforseta sem dæmi en hann dró frásögn Dr. Christine Blasey Ford í efa, þegar hún greindi frá ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh. Trump efaðist um frásögn Ford og hæddist að henni, meðal annars vegna þess að hún sagði ekki frá á sínum tíma. „Menn eins og Trump, menn sem búa við svo mikil forréttindi í lífinu, munu aldrei trúa öðrum sannleika en sínum eigin.

Og það fólk sem aldrei hefur upplifað þessa tegund af ofbeldi getur aldrei sett sig í þessi spor. Það er algengt að það trúi ekki eða reyni að koma með skýringar á af hverju þetta gerðist. Við þekkjum þetta, fólk spyr hvernig brotaþolinn hafi verið klæddur, hvort að viðkomandi hafi verið að drekka, af hverju brotaþoli hafi ekki kært strax og svo framvegis. Fólk reynir að útskýra ofbeldið og dæma brotaþola fyrir að gera ekki neitt, t.d. flýja undan ofbeldismanninum. Svo þegar fólk fer að dæma mann fyrir að bregðast ekki „rétt“ við þá hellist yfir mann skömm og maður spyr sig af hverju maður gerði ekki neitt. En varðandi það af hverju fólk gerir ekki neitt, af hverju sá sem verður fyrir ofbeldinu bregst ekki „rétt“ við, er í raun og veru mjög einfalt. Það er líffræðileg ástæða fyrir því að fólk frýs hreinlega. Þegar við lendum í hættu eða verðum fyrir áfalli þá bregst líkaminn með því að annaðhvort berjast, flýja eða frjósa sem lýsir sér einnig sem einskonar lömunarástand. Heilinn tekur bara við stjórninni svo að við fáum ekki taugaáfall samstundis, förum ekki yfir um. Sjokkið getur verið svo mikið að við myndum ekki ráða við það,“ segir Sigrún sem mælir með að áhugasamir kynni sér rannsóknir dr. Nina Burrowes. „Hún er sálfræðingur og lærði að teikna teiknimyndir til m.a. að útskýra áhrif áfalla af völdum kynferðisofbeldis í æsku á heilann.“

„Fólk reynir að útskýra ofbeldið og dæma brotaþola fyrir að gera ekki neitt, t.d. flýja undan ofbeldismanninum. Svo þegar fólk fer að dæma mann fyrir að bregðast ekki „rétt“ við þá hellist yfir mann skömm.“

Að lokum minnir Sigrún á að það geta legið margar ástæður að baki þess að brotaþoli er ekki tilbúinn að segja frá kynferðislegu ofbeldi sem hann verður fyrir. Hún tekur skömm og afneitun sem dæmi. „Þegar mér var byrlað ólyfjan þá datt mér ekki í hug að tilkynna það. Mér fannst þetta vera mér að kenna vegna þess að ég hafði drukkið. Skömmin var mikil og áhrifin þau að ég taldi mér trú um að þetta hefði verið mér að kenna.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sömdu plötu á nokkrum tímum og laumuðu henni út í skjóli nætur

JóiPé og Króli gáfu út nýtt lag og nýja plötu

Tvær af stærstu stjörnum íslenskrar rappsenu, JóiPé og Króli, komu aðdáendum sínum í opna skjöldu í vikunni er þeir sendu frá sér nýja plötu í skjóli nætur.

Platan birtist á streymisveitunni Spotify aðfaranótt fimmtudags og ber hún nafnið 22:40-08:16. Tvíeykið hafði ekkert gefið í skyn að ný plata væri væntanleg né heldur birtist nokkur tilkynning eftir að platan var komin út. Aðspurður um titil plötunnar svarar Króli því til að þetta sé sá tími sem platan varð til á, það er að upptökur hófust að kvöldi til klukkan 22:40 og þeim lauk 08:16 að morgni næsta dags. Það sama á við um tónsmíðarnar sjálfar, lögin vísa til þess klukkan hvað þau voru tilbúin.

Platan varð til á staðnum

Króli segir að í raun hafi platan orðið til af sjálfu sér. Í raun búi ekkert meira að baki en að þá hafi langað að búa til tónlist. Það varð til þess að þeir vörðu heilli nótt í stúdíói og þetta varð niðurstaðan. „Við áttum nokkur bít en að öðru leyti varð platan til á staðnum.“ Þá hafi markmiðið aldrei verið að gera neitt meira með plötuna en einfaldlega að gefa hana út.

„Við áttum nokkur bít en að öðru leyti varð platan til á staðnum.“

22:40-08:16 er fjórða plata þeirra JóaPé og Króla en þeir urðu landsfrægir nánast á einni nóttu er platan Gerviglingur kom út sumarið 2017 og er óhætt að fullyrða að lagið B.O.B.A. sé eitt vinsælasta íslenska lag allra tíma. Þeim vinsældum var fylgt eftir með plötunni Afsakið hlé sem kom út snemma á þessu ári. Báðar plöturnar nutu mikilla vinsælda og fengu gríðarlega hlustun á Spotify þar sem hlusturnartölurnar hlaupa á milljónum. Piltarnir eru sömuleiðis virkir utan tónlistarinnar, þannig hefur JóiPé æft handbolta með FH og verið viðloðandi unglingalandsliðin á meðan Króli var valinn ræðumaður Íslands í Morfís þar sem hann keppti fyrir hönd Flensborgar.

Fínt ef fólk vill hlusta

Með tilkomu streymisveitna á borð við Spotify hefur plötuútgáfa tekið stakkaskiptum undanfarin ár og það hefur færst í vöxt að stórir listamenn laumi út plötum án nokkurs fyrirvara. Hefðbundin plötusala hefur dregist verulega saman og því þurfa listamenn að finna nýjar leiðir til að koma efninu á framfæri og fylgja því svo eftir með öflugri markaðssetningu og tónleikahaldi. Dæmi um listamenn sem hafa gert þetta eru Beyoncé, Eminem, U2, The Weekend og Drake. JóiPé og Króli fara hins vegar aðra leið því ekki var að heyra á Króla að þeir ætli að fylgja plötunni á eftir með einhverjum hætti. „Ef fólk vill hlusta þá er það bara fínt.“

Meðvirkni og skömm

Í kjölfar uppljóstrunar Christine Blasey Ford um að Brett Kavanaugh hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi á unglingsárum hefur skapast heit umræða um ástæður þess að konur segja ekki frá þegar þær verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ford hefur verið hædd og smánuð fyrir að stíga ekki fram fyrr, meðal annars af valdamesta manni heims, Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem dró framburð hennar mjög í efa vegna þess hversu langt leið frá árásinni og til þess tíma að hún sagði frá henni. Þau viðbrögð eru á engan hátt undantekning. Mjög oft upplifa konur þessa vantrú og lítilsvirðingu þegar þær loks stíga fram og segja frá erfiðri reynslu sem átti sér stað fyrir löngu síðan.

Í Mannlífi í dag greina þrjár konur frá ástæðum þess að þær þögðu um kynferðislegt ofbeldi árum saman, jafnvel áratugum, og ástæður þeirra ber allar að sama brunni: þær skömmuðust sín fyrir að hafa orðið fyrir ofbeldinu, kenndu sjálfum sér um eða vildu ekki setja fjölskyldur sínar í erfiða stöðu þar sem sá sem ofbeldinu beitti var tengdur inn í fjölskylduna. Meðvirknin með ofbeldismanninum er líka gegnumgangandi. Einn viðmælandinn segist meira að segja hafa verið full efasemda um hvort rétt væri að fara í viðtal og segja frá reynslu sinni þrjátíu árum síðar þar sem það gæti komið ofbeldismanninum í erfiða stöðu.

Það er nefnilega ekkert einfalt að segja frá kynferðislegu ofbeldi, hvorki strax né löngu síðar, og þær konur sem það gera þurfa að brynja sig fyrir viðbrögðum þeirra sem draga frásagnir þeirra í efa, sérstaklega ef þær sögðu ekki frá strax, þetta geti nú varla hafa verið svo alvarlegt fyrst þær þögðu. En eins og fram kemur í viðtölunum við konurnar þrjár er einmitt ákveðið samhengi milli þess hversu alvarlegt ofbeldið er og þagnarinnar um það. Þögnin er þáttur í því að lifa ofbeldið af. Grafa það í undirmeðvitundina og láta eins og ekkert hafi gerst. Hrista þetta af sér og vera ekki með vesen.

Gegnumgangandi þráður í frásögnum kvennanna þriggja er skömmin. Þær skömmuðust sín fyrir að hafa ekki getað komið í veg fyrir ofbeldið, spurðu sjálfar sig hvort þær hefðu „boðið upp á þetta“ með framkomu sinni eða klæðnaði eða með því að hafa dirfst að vera undir áhrifum áfengis. Þau viðbrögð eru því miður nánast algild hjá konum sem beittar eru kynferðislegu ofbeldi, enda erum við allar aldar upp við eilífa drusluskömm og samfélagið tekur undantekningalítið afstöðu með ofbeldismanninum ef fórnarlambið hefur ekki haldið sig innan marka „kvenlegra dyggða“. Það er þessi skömm og meðvirknin með ofbeldismönnunum sem veldur þögninni í flestum tilfellum. Og þrátt fyrir alla umræðuna, druslugöngur og #metoo-umræðu gengur illa að vinna bug á henni. Þá innrætingu verður að uppræta. Munum að allir geta orðið fyrir kynferðisofbeldi og skömmin er aldrei fórnarlambsins. Látum aldrei telja okkur trú um annað.

Allt í kringum ferlið svo sárt

Raquelita Rós Aguilar tók tíunda bekkinn aftur, tuttugu og fimm ára að aldri. Eftir útskrift úr háskóla leið ekki á löngu þar til hún var ráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækis á hraðri uppleið. Raquelita hefur farið nokkrar torfærur í gegnum lífið en hún vill gjarnan veita konum innblástur til að sækjast eftir því sem þær dreymir um.

Raquelita er gift Birnu Guðmundsdóttur sem er rannsóknarlögreglumaður hjá kynferðisafbrotadeild lögreglunnar en saman eiga þær þrjá drengi. Raquelita segir frá því hvernig þær kynntust.

„Hún elti mig,“ segir hún og skellir upp úr. „Hún vissi af mér en ég ekki af henni en við bjuggum báðar á þeim tíma í Keflavík, þar sem Birna er alin upp. Hún þekkti því flesta í bænum og náði að redda sér símanúmerinu mínu eftir að hafa séð mig og heyrt af mér. Svo sendi hún mér bara skilaboð og við ákváðum að hittast. Við höfum verið saman síðan,“ segir hún.

„Ég fann mjög snemma, og áður en ég elskaði hana, að ég myndi elska hana. Við komum úr gjörólíkum heimum en erum líkar á marga vegu,“ segir hún og útskýrir mál sitt. „Ég ólst ekki upp við neinn hvata eða metnað til að vegna vel í lífinu. Það þurfti að gera allt á hörkunni og vinna tvær vinnur myrkranna á milli. Launin voru léleg og stritið mikið. Hjá Birnu var allt annað upp á teningnum. Í hennar fjölskyldu eru allir vel menntaðir og mikill metnaður fyrir því að ganga vel í lífinu og hafa hlutina á hreinu. Ég heillaðist mjög mikið af þessum eiginleikum í hennar fari og hvað hún var stabíl. Hún lærði sálfræði í Bandaríkjunum og kláraði svo réttarsálfræði í York í Bretlandi en þegar við kynntumst var hún í Lögregluskólanum. Mér fannst svo geggjað að hún væri búin að afreka þetta allt en svo skemmdi auðvitað ekki fyrir hvað hún er sæt,“ segir hún og brosir.

Raquelita og Birna létu gefa sig saman í lítilli og persónulegri athöfn í Garðakirkju með aðeins nánustu vini og fjölskyldu viðstadda.

„Brúðkaupið var akkúrat eins og við vildum hafa það, einfalt og látlaust. Og það var engin óþarfa rómantík í kringum trúlofunina heldur settum við hringana upp úti í bíl fyrir utan Jón og Óskar.“

Elsta barnið þeirra er Natan, þrettán ára, en stuttu eftir brúðkaupið fóru þær að tala um að stækka við fjölskylduna og Raquelita varð fljótlega ófrísk. Þær misstu fóstrið en reyndu fljótt aftur og varð hún ólétt í annað sinn og þær mjög spenntar eins og ætla má. Drengurinn, sem fékk nafnið Nói, fæddist andvana eftir fimm mánaða meðgöngu. Eftir andlát Nóa og einn fósturmissi var Raquelita ákveðin að ganga aldrei aftur með barn.

„Sú lífsreynsla að fæða andvana barn er alveg hræðileg. Það er ekkert sem undirbýr mann fyrir það að skilja barnið sitt eftir og fara bara heim af fæðingardeildinni án þess. Eftir fæðingu fer líka af stað mikið hormónaflæði, brjóstin fyllast af mjólk og er stöðug áminning um það sem gerðist. Allt í kringum þetta ferli er svo sárt,“ segir Raquelita einlæg.

„Sú lífsreynsla að fæða andvana barn er alveg hræðileg. Það er ekkert sem undirbýr mann fyrir það að skilja barnið sitt eftir og fara bara heim af fæðingardeildinni án þess.“

Þær ákváðu að reyna aftur stuttu seinna en að Birna myndi ganga með barnið. „Eftir reynslu okkar ákvað hún að gera það og varð strax ófrísk að Alex sem fæddist árið 2016. Ferlið virkaði þannig að við keyptum okkur aðgang að Evrópska sæðisbankanum en þar er hægt að skoða sæðisgjafana í þaula. Við eigum sjúkrasögu okkar sæðisgjafa, barnamynd af honum og upptöku þar sem hann segir frá sjálfum sér og hvað starfsfólkinu fannst um hann. Við ákváðum þó að nota ekki sama gjafa og þegar ég gekk með Nóa. Við létum sæðisbanka úti í Bandaríkjunum og Danmörku vita af stöðunni og lýstum útliti okkar. Þeir bentu báðir á sama sæðisgjafann og út kom Alex, sem er skemmtilega líkur okkur báðum.“

Raquelíta getur ekki stillt sig um að sýna blaðamanni mynd af sonum þeirra Birnu og mömmustoltið leynir sér ekki.

Viðtalið í heild má lesa í nýrri Viku.

Mynd / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL

Notalegast í baði með nóg af kertum

Innanhússhönnuðurinn Karítas Sveinsdóttur þekkja flestir sem annan helming einnar flottustu hönnunarstofu landsins HAF STUDIO en hana rekur hún ásamt eiginmanni sínum, vöruhönnuðinum Hafsteini Júlíussyni. Þau hjónin reka líka verslunina HAF STORE sem staðsett verður á Geirsgötu 7. Hús & Híbýli kíkti í heimsókn og Karítas sagði frá nokkrum uppáhaldshlutum.

„Borðstofuborðið teiknuðum við Hafsteinn og gerðum sjálf en það er úr eldhúðuðu stáli og dökkgráu gleri sem er hálfgagnsætt. Svo er Vertigo-ljósið frá Petit Friture sem við seljum í HAF STORE í miklu uppáhaldi, ég var búin að reyna að fá aðila hér heima til að flytja ljósið inn því mig langaði svo í það! Við enduðum á því að kaupa það í Danmörku og erum nú sjálf að selja það en allt sem við seljum í versluninni eru hlutir sem okkur langar sjálf í og viljum hafa í kringum okkur en höfum ekki fundið hér heima,“ segir Karítas.

Baðkarið í miklu uppáhaldi

„Við fjölskyldan byrjum alla morgna á því að fara í bað og við endum eiginlega alla daga á því líka – það er svo ótrúlega notalegt að vera hér með kveikt á kertaljósi. Við gerðum baðherbergið upp þegar við fluttum inn í húsið og er herbergið eitt votrými sem er ótrúlega sniðugt en dóttir mín getur verið í baði og ég í sturtu á sama tíma.“

„Það er svo ótrúlega notalegt að vera hér með kveikt á kertaljósi.“

Baðkarið er í uppáhaldi hjá Karítas og fjölskyldu.
„Hér inni á baði geymi ég líka öll ilmvötnin og uppáhaldsnaglalakkið mitt frá Essie sem ég er nánast alltaf með en þessi appelsínuguli litur er svo flottur og sumarlegur,“ segir Karítas.

Texti / Elín Bríta
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Einstakt hús eftir Gunnar Hansson arkitekt í nýjasta Hús og híbýli

Á friðsælli sjávarlóð á Álftanesi stendur fallegt hús sem teiknað var af Gunnari Hanssyni arkitekt. Núverandi eigendur féllu fyrir byggingarstílnum og þeirri hugsun sem lögð var í smáatriðin. Einnig þótti þeim sérstakt að finna fallega hannað hús með miklu náttúruútsýni innan borgarmarka. Gróðurhúsið hafði líka sitt að segja, enda eru eigendurnir mikið áhugafólk um garðyrkju.

Húsið er hannað í anda módernisma eftirstríðsáranna, eins og flest verk arkitektsins, Gunnars Hanssonar. Á útveggjum fær borðamynstur steypumótanna að njóta sín í ópússaðri steypunni og lóðréttir listar hafa verið felldir í steypumótin sem gefur húsinu létt og fágað yfirbragð. Lóðrétta mynstrið er endurtekið í háum ílöngum gluggum og röðum af svartmáluðum gluggapóstum sem má sjá víða um húsið.

Suðræn stemning í gróðurhúsinu allan ársins hring

Stórt gróðurhús með mikilli lofthæð var síðar byggt við húsið af fyrri eigendum. Þar má meðal annars finna eplatré, klifurjurtir og aðrar plöntur sem ræktaðar hafa verið af alúð síðustu áratugi. Þessu áhugamáli sinna núverandi eigendur áfram og nostra við af áhuga, enda er gróðurhúsið í miklu eftirlæti hjá fjölskyldunni. Þar njóta fjölskyldumeðlimir þess að hlusta á tónlist og dást að sjávarútsýninu, umvafnir undursamlegum ilmandi gróðri. Í skálanum skapast suðræn stemning allan ársins hring. Í framtíðinni mun þó einn dagur á ári breyta þessari upplifun, því eigendum áskotnaðist forláta grátpálmi, eða grædepalme eins og það útleggst á dönsku.

Heillast af klassískri danskri hönnun 

Húsmunir bera þess merki að eigendur eru mikið áhugafólk um klassíska hönnun tímabilsins 1950-1975 og eru fundvísir á gersemar á mörkuðum, sölu- og uppboðssíðum, bæði hér á landi og erlendis. Húsgögn hafa þó miskunnarlaust verið seld í gegnum tíðina ef annað álitlegra hefur rekið á fjörurnar. Eftir því sem tíminn líður hafa þau þó eitt af öðru fengið lengri og lengri vist á heimilinu.

Í glænýju Hús og híbýli má sjá fullt af fallegum myndum af þessu einstaka heimili í þessu einstaka húsi en myndirnar sem birtast hér eru þær sem ekki var pláss fyrir í blaðinu.

Tryggið ykkur eintak!

Texti: Berglind Gunnarsdóttir
Myndir: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Klassísk hönnun tímabilsins 1950-1975 einkennir heimilið.
Útsýnið úr húsinu er vægast sagt tilkomumikið.

Annar eggjastokkurinn fjarlægður

Annar eggjastokkur Lenu Dunham var fjarlægður með skurðaðgerð á þriðjudaginn. Fyrr á árinu var legið fjarlægt vegna legslímuflakks.

Leikkonan Lena Dunham, sem er einna þekktust sem höfundur og aðalleikkona þáttanna Girls, gekkst undir skurðaðgerð í þriðjudaginn til að láta fjarlægja annan eggjastokkinn.

Dunham greindi frá þessu á Instagram og sagði að eggjastokkurinn sem var fjarlægður hefði valdið henni miklum óþægindum og sársauka undanfarið vegna meðal annars bólgu.

„Í gær gekkst ég undir tveggja tíma aðgerð til að láta fjarlægja vinstri eggjastokkinn,“ skrifaði Dunham meðal annars. Hún sagði einnig frá því að undanfarna mánuði hafi hún átt erfitt með að bæði ganga og pissa.

Þess má geta að Dunhm fór í aðgerð fyrr á árinu og lét fjarlægja legið vegna legslímuflakks. Hún greindi frá því í viðtali við Vogue að hún hafi reynt allt til að vinna bug á sjúkdómnum en að lokum hafi hún tekið ákvörðun um að láta fjarlægja legið.

View this post on Instagram

Yesterday I had a two hour surgery to remove my left ovary, which was encased in scar tissue & fibrosis, attached to my bowel and pressing on nerves that made it kinda hard to walk/pee/vamp. Over the last month it got worse and worse until I was simply a burrito posing as a human. *** My mother took this picture after I spent 9 hours in the post op recovery area with v low blood pressure that the nurses were diligently monitoring. I was so out of it that I thought I looked sensually moody a la Charlotte Rampling (turns out it was more of a constipation vibe.) *** A lot of people commented on my last post about being too sick to finish promoting my show by saying my hysterectomy should have fixed it (I mean *should* is a weird one). That I should get acupuncture and take supplements (I do). That I should see a therapist because it’s clearly psychological (year 25 of therapy, y’all. These are the fruits!) But a big lesson I’ve learned in all of this is that health, like most stuff, isn’t linear- things improve and things falter and you start living off only cranberry juice from a sippy cup/sleeping on a glorified heating pad but you’re also happier than you’ve been in years. I feel blessed creatively and tickled by my new and improved bellybutton and so so so lucky to have health insurance as well as money for care that is off of my plan. But I’m simultaneously shocked by what my body is and isn’t doing for me and red with rage that access to medical care is a privilege and not a right in this country and that women have to work extra hard just to prove what we already know about our own bodies and beg for what we need to be well. It’s humiliating. *** My health not being a given has paid spiritual dividends I could never have predicted and it’s opened me up in wild ways and it’s given me a mission: to advocate for those of us who live at the cross section of physical and physic pain, to remind women that our stories don’t have to look one way, our pain is our gain and oh shit scars and mesh “panties” are the fucking jam. Join me, won’t you? *** 📷 @lauriesimmons

A post shared by Lena Dunham (@lenadunham) on

Brynja Nordquist hættir sem flugfreyja

Brynja Nordquist á farsælan feril að baki sem flugfreyja. Hún fer í seinasta flugið sem flugfreyja á föstudaginn.

Flugfreyjan og fyrrverandi fyrirsætan Brynja Nordquist hélt út í síðustu ferðina sína sem flugfreyja Icelandair í gær. Síðasta vinnuferðin er til New York og flýgur hún til baka á morgun, föstudag. Það var eiginmaður Brynju, fjölmiðlamaðurinn Þórhallur Gunnarsson, sem greindi frá þessu á Facebook.

„Þessi fallega kona er að leggja upp í sína allra síðustu ferð sem flugfreyja hjá Icelandair… erum á leið til New York… þetta verður skemmtileg ferð,“ skrifaði hann á Facebook.

Brynja, sem er 65 ára, hefur átt langan og farsælan feril sem flugfreyja. Góðum kveðjum hefur rignt yfir hana á Facebook í tilefni starfslokanna, sérstaklega frá samstarfsfólki hennar sem lýsir henni sem frábærum starfskrafti og vinnufélaga.

Mynd / Gunnar Gunnarsson

Ásta Hrafnhildur auglýsir eftir geitahirði

Ásta Hrafnhildur stingur upp á því að aðdáendur IKEA-geitarinnar vakti hana þar sem um lukkudýr Garðbæinga sér að ræða.

IKEA-geitin góða er komin á sinn stað fyrir utan verslun IKEA í Garðabæ. Geitin er úr strái en undanfarin ár hefur hún orðið brennuvörgum að bráð. Fjölmiðlakonan Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir stingur því upp á að geitin verði vöktuð. Hún birti færslu á Facebook í gær og óskaði eftir viðbrögðum frá áhugasömum.

„Brunavarnarnefnd Gæludýrafélags Ikeavina auglýsir laust starf geitahirðis. Áhugasamir eru beðnir um að senda umsóknir á netfangið [email protected],“ skrifaði Ásta.

Spurð út í hvort hún sé mikill aðdáandi IKEA-geitarinnar segir Ásta: „geitin góða er kærkomið lukkudýr Garðbæinga…við eigum ekkert annað. Reykvíkingar eiga Húsdýragarð, Hafnfirðingar áttu Sædýrasafn, Kópavogur er kenndur við dýr…“ segir Ásta sem er Garðbæingur í húð og hár. Hún bætir við: „en í Garðabæ er stærsta kaupfélag landsins, vinsælasti veitingastaðurinn, heitasta húsdýrið og Guðni forseti. Stjörnum prýtt sveitarfélag.“

Mynd af geit / Af Facebook-síðu IKEA

Líður best í faðmi fjölskyldunnar

Óskar Þór Hilmarsson, viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali hjá Fjárfestingu fasteignasölu, fílar einföld og nútímleg húsögn og segist vera veikur fyrir funkisstíl þótt hann sé ekki alltaf praktískur.

„Mér finnst afskaplega gaman að hitta og kynnast fólki og eiga samskipti við ólíkt fólk. Flestum finnst gaman og spennandi að kaupa fasteign og ég hef ánægju að því að taka þátt í því ferli með fólki. Svo eru það mikil forréttindi að hafa fengið að starfa með föður mínum, Hilmari, í fimmtán ár,“ segir Óskar Þór Hilmarsson, fasteignasali hjá Fjárfestingu fasteignasölu, spurður að því hvað heilli hann við starfið.

Beðinn um að lýsa hefðbundnum vinnudegi segist Óskar vera mættur á skrifstofuna rétt um níuleytið. „Yfirleitt er byrjað á verkefnum og skipulögð verkefni sem snúa að rekstri stofunnar og eins eru skipulagðar sýningar og opin hús og þvíumlíkt. Svo eru verðmatsfundir yfirleitt haldnir á morgnana,“ segir hann og getur þess að dagurinn endi svo oft á sýningum á eignum eða skoðunum.

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar og áttu uppáhaldsarkitekt eða -hönnuð? „Kjartan Sveinsson skildi eftir sig ansi mörg falleg hús sem og Sigvaldi Thordarson. Af þeim sem eru starfandi í dag, er ég svo heppinn að hafa selt mikið af húsum sem Guðmundur Gunnlaugsson hefur teiknað, en mér þykir hann vera mjög fær og með notagildi að leiðarljósi. Hönnuður? Til að segja eitthvað myndi ég segja Aalvar Alto. Varðandi stíl þá finnst mér nýi funkisstíllinn afskaplega fallegur þótt hann sé ekki alltaf praktískur. Varðandi húsögn er ég með einfaldan og nútímalegan stíl.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Stórt einbýlishús með nóg af plássi fyrir öll leikföng fjölskyldunnar.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólkið sjálft innan heimilisins og falleg húsgögn.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Blár, en appelsínugulur þegar stelpurnar mínar eru að spila með Fylki í fótboltanum.“

Hvar líður þér best? „Heima umvafinn fjölskyldu og vinum. Svo líður mér einstaklega vel úti á golfvelli í góðu veðri.“

Hvað heillar þig mest við haustið? „Mér finnst haustið ekkert sérstaklega heillandi með sínum haustlægðum. Maður bætir allavega ekki við trampólíni eða uppblásinni sundlaug á haustin. En þegar maður horfir á það jákvæða er allavega stutt í jólin.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Ítalía hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá okkur hjónunum.“

Að lifa lífinu lifandi er að … gera það sem manni finnst skemmtilegt með fjölskyldu og vinum.

Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Gefur ókunnugu fólki brjóstamjólk

Bresk kona segir frá því hvernig það kom til að hún fór að frysta brjóstamjólk og gefa ókunnugu fólki sem þurftu á henni að halda.

Bresk kona að nafni Ruby Abbiss segir frá því í grein sem birtist á vef The Guardian hvernig það kom til að hún fór að gefa brjóstamjólk sína til ókunnugra fjölskyldna. Undir yfirskriftinni „hvers vegna ég deili brjóstamjólk minni með öðrum mæðrum“ segir hún frá því hvernig dóttir hennar gat ekki verið á brjósti vegna fötlunar og því hafi hún tekið upp á því að mjólka sig og frysta mjólkina. Brjóstamjólkina gaf hún svo dóttur sinni í pela. En áður en hún vissi af var hún búin að fylla frystinn af brjóstamjólk.

Í gegnum Facebook-hóp fór hún svo að tala við mæður sem vantaði brjóstamjólk fyrir nýbura sína, af ýmsum ástæðum. Í dag hefur hún hjálpað fjölda fólks með því að gefa næringarríka brjóstamjólk sína til nýbura.

„Þegar ég horfi á eftir konum sem koma í heimsókn til mín ganga í burtu með fulla tösku af brjóstamjólk, þá fylltist ég stolti,“ skrifar Abbiss meðal annars í grein sína.

Hún segir það vissulega hafa verið erfitt að uppgötva að brjóstagjöfin myndi ekki ganga sem skildi með dóttur hennar en að það hafi verið huggandi að geta hjálpað fjölskyldum í neyð í ferlinu.

Grein Abbiss má lesa í heild sinni á vef The Guardian.

Reyna að spá fyrir um útlit barnsins

|
Harry og Meghan

Sérfræðingar reyna að spá fyrir um hvernig barn Meghan og Harrys muni líta út.

Fyrr í vikunni kom tilkynning frá Kensington-höll þess efnis að Meghan Markle og Harry Bretaprins eiga von á sínu fyrsta barni. Barnið á að fæðast næsta vor en sérfræðingar eru strax farnir að velta vöngum yfir hvernig barnið muni líta út.

Dr. D’Lynn Waldron er ein þeirra en hún er sérfræðingur í greiningu og teikningu andlita. Hún hefur sett saman myndir með hjálp réttu forritanna þar sem hún reynir að áætla hvernig barnið muni líta út miðað við útlit foreldranna og fjölskyldumeðlima. Waldron hefur viðamikla reynslu og hefur unnið meðal annars fyrir FBI.

Hún gerði nokkrar ólíkar útgáfur af portrettmyndum þar sem hún giskar á hvernig barnið mun koma til með að líta út. Myndirnar má sjá á vef E!news.

Kanada annað landið til að lögleiða neyslu kannabisefna

Mynd/pixabay

Kanada varð í nótt annað þjóðríkið, á eftir Úrúgvæ, til að lögleiða neyslu kannabisefna á landsvísu. Frá og með deginum í dag mega allir 18 og eldri bera á sér allt að 30 grömm af löglega keyptu maríjúana á almannafæri og eiga allt að fjórar kannabisplöntur á heimilum sínum.

Víða um land var þessum áfanga fagnað á götum úti, en kanadíska þingið samþykkti frumvarp um lögleiðinguna í júní. Einhver tími mun þó líða þar til kannabisvörur ná fullri útbreiðslu. Samkvæmt lögunum skulu efnin seld í sértækum verslunum og er salan háð vottunum og leyfum. Misjafnt er eftir fylkjum hvenær salan hefst. Til að mynda eru fyrstu verslanirnar teknar til starfa í Nova Scotia en í Ontario, þar sem Toronto er, hefst sala væntanlega með vorinu.

Allir fangar sem dæmdir höfðu verið fyrir vörslu kannabisefna undir 30 grömmum voru náðaðir í dag en eftir sem áður verður það refsivert að selja ungmennum kannabisefni. Enn verður ólöglegt að flytja kannabisefni til og frá landinu.

Úrúgvæ varð fyrsta þjóðríkið til að lögleiða sölu kannabisefna til neyslu árið 2013. Síðan þá hafa níu ríki Bandaríkjanna, auk District of Columbia, farið sömu leið. Löglegi kannabisiðnaðurinn í Bandaríkjunum velti 9 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra og vænta stjórnvöld í Kanada til þess að kannabissalan skili dágóðum tekjum í ríkissjóð.

Höfundur Terminator á leið til landsins

||
||

Kvikmyndaframleiðandinn Gale Anne Hurd verður hátíðargestur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Northern Wave (Norðanáttin) sem fer fram í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ í 11. sinn helgina 26.-28. október. Dögg Mósesdóttir, sem er stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar, segir heiður að fá þessa goðsögn til landsins.

Dögg Mósesdóttir, sem er stofnandi og stjórnandi hátíðarinnar, segir heiður að fá þessa goðsögn til landsins.

„Gale er algjör goðsögn og frumkvöðull í kvikmyndaheiminum og mikilvæg fyrirmynd fyrir kvikmynda-gerðarfólk sem er að stíga sín fyrstu skref, eins og margir af gestum hátíðarinnar eru að gera. Við höfum aldrei áður fengið svona stóran framleiðanda frá Hollywood til okkar og ef ég á að vera hreinskilin þá erum við að farast úr spenningi,“ segir Dögg, spurð að því hvernig sé að fá þessa kanónu á hátíðina.

Nafngiftin kanóna er svo sannarlega ekki úr lausi lofti gripin því Hurd á að baki langan og glæstan feril í kvikmyndaheiminum. Hún var til dæmis meðhöfundur og framleiðandi kvikmyndarinnar The Terminator og hefur framleitt stórmyndir eins og Aliens, Hulk, Armageddon og The Abyss, en í dag á hún og rekur fyrirtækið Valhalla Entertainment sem framleiðir meðal annars hina vinsælu sjónvarpsþætti The Walking Dead.

Á hátíðinni verður nýjasta heimildamynd Hurd, MANKILLER, sýnd en hún fjallar um fyrsta kvenkyns Cherokee-höfðingjann sem barðist fyrir réttindum frumbyggja í Bandaríkjunum. Þá mun leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir stýra sérstöku meistaraspjalli þar sem framleiðandinn situr fyrir svörum. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem Hurd kemur til landsins og segist Dögg vita til þess að hún hlakki mikið til heimsóknarinnar.

„Við höfum aldrei áður fengið svona stóran framleiðanda frá Hollywood til okkar og ef ég á að vera hreinskilin þá erum við að farast úr spenningi.“

„Reyndar var ég hissa á að Gale samþykkti að koma á litla stuttmyndahátíð í smábæ á Íslandi og ítrekaði fyrir henni um hvað málið snérist en hún sló samt til. Ég held að hún sé spenntust fyrir náttúrunni og líti á þetta sem tækifæri til að komast loksins hingað. Þetta er auðvitað eina stuttmyndahátíðin í heimi sem er haldin í gömlu frystihúsi undir jökli, eftir því sem ég best veit, þannig að eflaust lítur hún á þetta sem ævintýri.“

Dögg segir þátttöku Hurd almennt rýma vel við dagskrá og tilgang Northern Wave. Hátíðin hafi í gegnum tíðina ekki aðeins varpað ljósi á þá hluta kvikmyndagerðar sem eru svolítið á bak við tjöldin, eins og framleiðsla, klipping, hljóðsetning o.fl., heldur líka vakið athygli á framlagi kvenna til kvikmyndagerðar m.a. svo að ungar kvikmyndagerðarkonur geti speglað sig í flottum fyrirmyndum. Hurd sé sannarlega ein slík.

En hvað fleira verður á boðstólum á hátíðinni í ár? „Við ætlum að sýna allt sem stuttmyndaformið hefur upp á að bjóða, allt frá tónlistarmyndböndum til teiknimynda. Svo verða tónleikar og fiskréttakeppni, sem er orðin að einum vinsælasta viðburði hátíðarinnar,“ svarar Dögg hress og hvetur listamenn og tónlistarfólk til að mæta á hátíðina, ekki síst á óformlega hádegisfundi sem séu kjörinn vettvangur til að hitta kvikmyndagerðarfólk og kanna grundvöll fyrir samstarfi. En nánar megi lesa sér til um hátíðina á .

Sú kvikmynd sem kom Hurd endanlega á kortið var Aliens (1985), framhald geimhryllingsmyndarinnar Alien (1979). En sumum aðdáendum þykir Aliens vera hápunktur þessarar vinsælu og langlífu skrímslaseríu.

Frumkvöðull í gerð vísindaskáldsagna
Bandaríski framleiðandinn Gale Anne Hurd (f. 1955) er gjarnan kölluð „The first lady of Sci-Fi“ eða forystukona Sci fi-kvikmynda í heiminum vegna aðkomu sinnar að gerð fjölda kvikmynda í vísindasagnastíl, kvikmynda sem ekki aðeins hafa notið mikilla vinsælda heldur þykja af ýmsum sökum hafa brotið blað í gerð slíkra mynd.

Hurd hóf feril sinn sem aðstoðarkona B-hryllingsmyndakóngsins Roger Corman hjá fyrirtæki hans New World Pictures og þar vann hún sig jafnt og þétt upp metorðastigann þar til hún var farin að taka virkan þátt í framleiðslu á verkefnum fyrirtækisins.

Árið 1982 stofnaði Hurd eigið framleiðslufyrirtæki, Pacific Western Productions, sem framleiddu stórvirki á borð við The Terminator (1984), Aliens (1986) og The Abyss (1989), myndum sem öllum var leikstýrt af þáverandi eiginmanni hennar, James Cameron, og rökuðu myndirnar inn peningum í miðasölu um allan heim.

Síðan þá hefur Hurd notið mikillar velgengi sem framleiðandi í Hollywood. Meðal annarra mynda sem hún hefur framleitt má nefna Terminator 2 (1991) og 3 (2003), Armageddon (1998) og Hulk (2003), en af öðrum verkefnum á ferilskránni má nefna þætti byggða á teiknimyndasögunni Aeon Flux sem eru nú í vinnslu.

Á löngum og glæstum ferli hefur Hurd unnið til fjölda verðlauna fyrir verkefni sín og nýtur virðingar innan bandaríska kvikmyndabransans. Auk þess að eiga og reka eigið framleiðslufyrirtæki er hún háttsett innan samtakanna Producers Guild of America, sem eru samtök framleiðenda í Bandaríkjunum.

Asíureisa í súpuskál

||
||

Fátt er betra en heit og rjúkandi asísk núðlusúpa en slíkur matur er bæði nærandi fyrir líkama og sál, margar asískar súpur eru sérlega hollar og vel samsettar og í raun fullkomin máltíð.

Phó Ga – Víetnam
Phó er víetnömsk núðlusúpa með margslungnu bragði sem oftast inniheldur annaðhvort nautakjöt eða kjúkling. Súpan er vinsæll götumatur (e. street food) þar í landi, iðulega seld af götusölum með færanlegt eldhús og stóran súpupott. Phó varð seinna vinsæl í Vesturheimi þegar stórir hópar Víetnama flúðu land á tímum Víetnamstríðsins.

1 msk. olía
1 laukur, skrældur og skorinn í tvennt þversum
3 hvítlauksgeirar, skrældir og kramdir
4 cm biti ferskt engifer, skrælt og skorið í sneiðar
1½ l kjúklingasoð
½ l vatn
½ tsk. fennelfræ
4 negulnaglar
1 kanilstöng
1 stjörnuanís
½ chili-aldin, sneitt
700 g kjúklingalæri og leggir, með beini og skinnið tekið af
safi úr 1 límónu
1 msk. fiskisósa
200 g hrísgrjónanúðlur
3 vorlaukar, sneiddir
20 g mynta

Hitið olíu á pönnu yfir meðalháum hita. Setjið laukinn ofan í pottinn með sárið niður ásamt hvítlauknum og engiferinu. Steikið þar til hvítlaukurinn gyllist og laukurinn verður nánast brenndur á skurðarsárinu. Hellið kjúklingasoðinu út í pottinn og bætið við fennelfræjum, negul, kanilstöng, stjörnuanís og helmingnum af chili-aldininu. Setjið kjúklinginn út í, lokið pottinum og látið malla við hæga suðu í 40 mín., eða þar til kjúklingurinn hefur eldast í gegn. Veiðið kjúklinginn upp úr súpunni og setjið til hliðar og látið kólna. Rífið kjúklingakjötið af beininu og hendið beinunum. Hellið súpunni í gegnum síu og hendið hratinu. Hrærið límónusafa og fiskisósu saman við súpuna og haldið súpunni heitri yfir lágum hita. Sjóðið núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkningu, hellið vatninu frá og skiptið núðlunum á milli skála. Skiptið kjúklingakjötinu á milli skála og hellið súpunni yfir. Skreytið með vorlauk, myntu og afganginum af chili-aldininu.

Mísó ramen – Japan
Ramen hefur undanfarin ár tekið stökk í vinsældum utan heimalandsins, Japan, og margir veitingastaðir hafa opnað í Evrópu og Bandaríkjunum og helga sig súpunni. Í Japan eru ramen-staðir nánast óteljandi og ólíkt annarri þarlendri matargerð fylgir hún ekki ströngum reglum og er til í mörgum útfærslum, bæði eftir héruðum og hugmyndaauðgi kokksins.

1 l kjúklingasoð
½ l vatn
2 hvítlauksgeirar, kramdir
20 g engiferrót, sneidd
7 vorlaukar, sneiddir
15 g þurrkaðir shitake-sveppir eða aðrir þurrkaðir sveppir
4 egg
100 g snjóbaunir
40 g baunaspírur
2 msk. rautt mísómauk (mugi mísó)
2 msk. hvítt mísómauk (shiro mísó)
2 msk. mirin
1 msk. sojasósa
¼ tsk. chili-mauk (t.d. siriracha)
300 g ramen-núðlur
200-300 g tófú, skorið í teninga

Sjóðið nautasoð, vatn, hvítlauk, engifer, 4 vorlauka og þurrkaða sveppi í 20-30 mín. og sigtið síðan allt frá, hendið hráefninu en geymið soðið. Setjið vatn í pott og náið upp suðu, setjið eggin varlega út í vatnið með skeið þegar suðan kemur upp. Sjóðið í 6½ mín. og snöggkælið síðan eggin með því að veiða þau upp úr pottinum og leggja í ísvatn. Takið skurnina af og setjið til hliðar. Snöggsjóðið snjóbaunirnar og baunaspírurnar í 20 sek. og setjið þær síðan í ísvatnið. Hrærið saman mísómauk, mirin, sojasóu og chili-mauk í skál. Takið soðið af hitanum og hrærið mísóblöndunni saman við. Sjóðið núðlurnar skv. leiðbeiningum á pakkningu. Skiptið núðlunum í fjórar skálar, hellið súpunni ofan á og blandið tófúbitunum út í, skerið eggin í tvennt langsum og leggið tvo hluta ofan í hverja skál, setjið snjóbaunirnar, afganginn af sneidda vorlauknum ofan á og berið strax fram með skeið og matarprjónum. Gott er að hafa ristaða sesamolíu og siriracha-sósu á borðinu fyrir þá sem vilja.

Umsjón / Nanna Teitsdóttir Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Sögufrægt hús á Akureyri glætt nýju lífi

Gamla Apótekið sem stendur við Aðalstræti 4 er eitt glæsilegasta hús Akureyrar og stendur það ofar en flest önnur hús í nágrenninu. Grunnflötur hússins er 135 fermetrar og er það byggt í dönskum timburhúsastíl. Húsið á sér mikla forsögu.

Gamla Apótekið, eitt glæsilegasta hús Akureyrar, var hannað og byggt árið 1859 af Jóni Chr. Stephánssyni, sem hafði varið tíma í Danmörku við að læra listina við byggingu timburhúsa. Eftir Danmerkurdvölina lá leið hans norður á land þar sem apótekarinn á Akureyri fól honum það verk að byggja nýstárlegt hús sem væri ætlað að hýsa apótek bæjarins. Á meðan apótekið var starfrækt bjó lyfjafræðingurinn Jóhann Thorarensen á efri hæð þess ásamt fjölskyldu sinni, en í dag hefur þetta reisulega hús við Aðalstræti verið glætt nýju lífi.

Gamla Apótekið hefur, eins og fjölmörg önnur sögufræg timburhús á Íslandi, gengið í gegnum ýmislegt á síðari hluta 20. aldar og var það til að mynda múrhúðað, sem olli því að það fór smám saman að fúna og síga. Árið 2006 hlaut byggingin friðun frá Minjastofnun, sem í kjölfarið festi kaup á henni og hófst þá gríðarmikil endurbygging. Eftir að endurnýjunin hófst tók hún betri hluta tveggja ára og var húsið meðal annars fært tímabundið á hafnarsvæði Akureyrar meðan nýr grunnur var steyptur. Síðla sumars 2017 lauk framkvæmdum í húsinu og var það tilbúið að gegna nýju hlutverki.

Rík áhersla á lestur og samveru

Í dag starfrækir hönnuðurinn Sigríður Sigurjónsdóttir og fjölskylda hennar eins konar gistihús í Gamla Apótekinu sem ber nafnið Place to Read eða Staður til lesturs, en fjölskyldan keypti húsið af Minjavernd eftir endurbætur þess. Húsið er hugsað sem griðastaður, fullkominn til afslöppunar í fallegu umhverfi þar sem stutt er í bæði menningu og náttúru. Rík áhersla er á lestur og er afar veglegt og fallegt bókasafn í einu herbergi hússins sem gestir eru hvattir til að nýta sér. „Húsið er sérstaklega innréttað með það í huga að þar sé gott að vera og lesa og höfum við fjölskyldan fyllt bókasafnið með okkar uppáhaldsskáldsögum, gjafabókum, barnabókum og tímaritum.“

Húsið hefur verið hólfað niður í þrjár íbúðir, sú stærsta er á fyrstu hæð og tvær smærri eru á efri hæðinni. Hver íbúð er búin arni og fyrir utan húsið er eimbað, heitur pottur og sturta undir berum himni.

Hvaðan kviknaði hugmyndin að Place to Read? „Hugmyndin hafði blundað í mér lengi. Við Halldór vitum fátt betra en að setjast niður með góða bók og gefa okkur tíma til að lesa og svo höfum við allt of mikinn áhuga á húsum. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókmenntahátíðinni í Frankfurt og á sama tíma jókst ferðamannastraumur til landsins svo um munar. Engin önnur þjóð les jafnmikið eða gefur út jafnmikið af bókum miðað við fólksfjölda og Íslendingar. Bókmenntirnar eru jú okkar helsti menningararfur. Lestur og bókmenntir eru rótgrónar í land og þjóð. Það er svo augljóst að byggja á þessu. Í raun gæti Ísland markaðssett sig sem land til að koma og lesa bækur. Ekkert annað land hefur gert það. Vont veður og rigning er plús. Í öllu áreitinu sem fylgir tæknivæðingunni er það orðinn alger lúxus að setjast niður og lesa bók. Okkur langaði að skapa stað þar sem maður yrði hreinlega feginn þegar veðrið er vont og gæti notið þess að vera inni í dásamlegu húsi og lesið bækur.“

„Í öllu áreitinu sem fylgir tæknivæðingunni er það orðinn alger lúxus að setjast niður og lesa bók.“

Hvert sóttuð þið innblástur þegar kom að því að innrétta og velja húsgögn í húsið?

„Við sóttum innblástur í húsið sjálft. Við reyndum að finna hluti og liti sem áttu heima í húsinu. Sumir hlutirnir fundust í húsinu, eins og gamlar flöskur úr apótekinu sem upprunalega var rekið í húsinu. Gamlar dásamlega fallegar hurðir sem fundust inni í vegg og við notum sem stofuborð. Vinnuborð sem smiðirnir hjá Minjavernd smíðuðu og notuðu við störf sín eru nú eyja í eldhúsinu og vinnuborð í þvottahúsinu. Í húsinu eru verk eftir marga íslenska hönnuði og myndlistarmenn. Rúmin eru íslensk og framleidd af RB rúmum og heiti potturinn er einnig íslensk framleiðsla frá Trefjum og er hvoru tveggja frá Hafnarfirði. Eina sem var snúið var að finna fallega svefnsófa sem pössuðu í húsið en þeir voru að lokum pantaðir frá bandarísku fyrirtæki sem heitir Restoration Hardware. Þetta snerist um að hlusta á húsið. Okkur þótti skemmtilegast að velja bækurnar en hver einasta bók er sérstaklega valin. Þetta eru bækur sem við höfum lesið og höldum upp á og eins bækur sem okkur langar til að lesa. Flestar bækurnar eru á ensku en þó einhverjar á íslensku, þýsku og frönsku.“

Texti / Elín Bríta
Myndir / Auðunn Níelsson og Íris Ann Sigurðardóttir

 

 

300 Íslendingar bera BRCA1-genið án þess að vita af því

|
Kári Stefánsson

Íslensk erfðagreining á dulkóðuð gögn um 300 einstaklinga á Íslandi sem bera stökkbreytingu í BRCA1-erfðavísinum sem stóreykur líkurnar á krabbameini. Lögum samkvæmt er óheimilt að láta þessa einstaklinga vita af stökkbreytingunni. Kári Stefánsson segir það órökrétt að ekki megi láta fólk vita að það sé í bráðri lífshættu.

Íslensk erfðagreining á dulkóðuð gögn um ríflega þúsund Íslendinga sem hafa sjúkdómsvaldandi stökkbreytingu á BRCA2-erfðavísinum. Hún hefur í för með sér mikla áhættu á arfgengu brjóstakrabbameini og krabbameini í eggjastokkum. Líkur á að konur sem greinast með stökkbreytinguna fái illvígt krabbamein eru 86% en heldur minni hjá körlum. Minnka má líkur á að þau fái krabbamein ef þeim er gert viðvart í tæka tíð.

Íslensk erfðagreining á einnig dulkóðuð gögn um 300 einstaklinga á Íslandi sem bera stökkbreytingu í BRCA1. Þær konur hafa ekki getað nálgast upplýsingarnar en það má gera ráð fyrir að allt að 600 einstaklingar beri stökkbreytinguna hér á landi, mun færri en stökkbreytinguna í BRCA2.

„Þetta fólk er í bráðri lífshættu“

„Það eru aðeins mismunandi krabbamein fyrir utan brjóstin sem fylgja stökkbreytingum í þessum tveimur genum en þetta eru hvort tveggja slæmar stökkbreytingar,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við Mannlíf um BRCA1 og BRCA2.

„Þetta fólk er í bráðri lífshættu og það er ekki hefð í íslensku samfélagi að vita af fólki í bráðri lífshættu og aðhafast ekkert. Við meira að segja göngum svo langt að ef fólk býr á svæðum þar sem er yfirlýst snjóflóðahætta, þá flytjum við það fólk nauðugt ef hætta steðjar að. Það er ósköp skrítið að líta þannig á málið að ef lífshætta steðjar að vegna stökkbreytinga, þá megi ekki láta fólk vita, en annars alltaf. Mér finnst þetta ekki rökrétt,“ segir Kári.

Nýtt frumvarp gæti skipt sköpum

Kári fagnar nýju frumvarpi sem dreift var á þriðjudag á Alþingi og felur í sér breytingar á lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. „Ég held að þetta sé nákvæmlega það sem ég hef verið að kalla eftir; að það yrði búinn til möguleiki til að nálgast þá sem bera þessar stökkbreytingar svo hægt sé að láta viðkomandi vita að þeir séu í lífshættu,“ segir hann.

Samkvæmt frumvarpinu ber að tilkynna upplýsingar um stökkbreytingar sem fela í sér stóraukna áhættu á alvarlegum sjúkdómum til Embættis landlæknis sem á þá að fela heilbrigðisstarfsmanni að afla nauðsynlegra persónuupplýsinga frá ábyrgðarmanni rannsóknar, upplýsa viðkomandi einstakling og veita honum ráðgjöf um möguleg úrræði. En talið er að um tíu þúsund Íslendingar gætu haft verulegan heilsufarslegan ávinning af því að vita um stökkbreytingar sem valda ýmsum alvarlegum sjúkdómum sem hægt væri að bregðast við. Í lögunum er einnig kveðið á um rétt þeirra sem vilja ekki fá slíkar upplýsingar en þeir þurfa að tilkynna það til Embættis landlæknis. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en átta þingkonur úr öllum stjórnmálaflokkum standa að því. „Ég vona að Alþingi beri til þess gæfu að samþykkja frumvarpið og gera það að lögum,“ segir Kári. „Það verður spennandi að sjá hvernig umræður um þetta þróast á þingi.“

„Eins og að vera með tímasprengju inni í mér“

Linda Þráinsdóttir segir ánægjulegt að frétta af frumvarpinu og vonast til að það verði samþykkt. Hún fer í aðgerð á mánudag til að láta fjarlægja bæði brjóst sín en hún er þegar búin að láta taka úr sér eggjastokkana. Linda tók þessa ákvörðun eftir að hún fékk að vita að hún bæri stökkbreytingu í BRCA1-geninu.

Linda Þráinsdóttir ásamt föður sínum.

Faðir Lindu greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli fyrir um ári síðan, bróðir hans fékk sama krabbamein árið 2015. Móðir bræðranna lést úr brjóstakrabba og var einnig með mein í eggjastokkum, önnur systir hennar dó fertug úr krabbameini í eggjastokkum og hin systir hennar fékk brjóstakrabba 37 ára en sigraðist á því. „Mér og systur minni fannst þetta svo mikil saga að við biðluðum til pabba um að láta rannsaka sig. Þá fékk hann staðfest að hann er með stökkbreytingu í BRCA1,“ segir Linda.

Þær systur fóru í kjölfarið í rannsókn og Linda greindist með stökkbreytinguna en systir hennar ekki. „Mér fannst það vera skylda mín sem móður að fá þessa vitneskju af því börnin mín geta erft þetta. Ég ákvað strax að láta taka allt, brjóst og eggjastokka í stað þess að fara í aukið eftirlit,“ útskýrir Linda og bætir við: „Mér leið eins og það væri tímasprengja inni í mér.“

Linda segist ekki kvíða brjóstnáminu en eggjastokkarnir voru teknir í maí. „Ég finn aðallega fyrir þakklæti að fá að vita af þessu, þannig hef val um að gera eitthvað í þessu áður en það er um seinan. Með mína fjölskyldusögu var það engin spurning.“

Börnin mín eiga skilið að eiga mömmu

Fríða Ammendrup fékk nýlega að vita að hún sé með stökkbreytingu í BRCA2-geninu. Upplýsingarnar fékk hún í gegnum vefgátt Íslenskrar erfðagreiningar, arfgerd.is. Um 45 þúsund hafa óskað eftir slíkum upplýsingum þó fæstir í yngsta aldurshópnum 18 til 25 ára, sem er áhyggjuefni því krabbameinið er einkar illvígt hjá ungu fólki.

Fríða segir ótrúlegt að það þurfi að berjast fyrir því að upplýsa fólk um að það beri stökkbreytinguna. „Ég og systkini mín þurftum að ganga í gegnum að missa mömmu okkar úr krabbameini þegar við vorum mjög ung. Það getur enginn sem ekki hefur lent í því skilið hversu sársaukafullt það er, það hefur áhrif alla ævi. Ég á þrjú börn sem eiga skilið að eiga mömmu sína lengur og með því að fá þessar niðurstöður aukast líkurnar til muna,“ segir Fríða og bætir við að hún sé afar þakklát Íslenskri erfðagreiningu.

Á engan hátt einfalt að segja frá

Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir hefur orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi nokkrum sinnum yfir ævina. Hún segir að það hafi aldrei komið til greina að segja strax frá.

„Þetta eru fleiri sögur en ég kæri mig að hugsa um. Það er erfitt að rifa þetta upp. Það á samt við um allar mínar sögur að ekki í eitt einasta skipti kom til greina að ræða þetta við einhvern alveg í blábyrjun. Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað,“ segir Brynhildur sem varð meðal annars fyrir hópnauðgun á Þjóðhátíð í Eyjum þegar hún var tvítug, árið 1997. „Það var bara þungt skammarský yfir mér í langan tíma eftir á. Á meðan ég var að reyna að fóta mig eftir þetta og átta mig á hvað hafði gerst þá var ég engan veginn tilbúin til að fara til lögreglu eða upp á bráðamóttöku. Ég var bara ungur kjáni á þessum tíma og þar var ekkert í umræðunni hvað maður ætti að gera ef svona kæmi fyrir. Þannig að það var bara ekki inni í myndinni.“

„Ég treysti mér ekki til að ræða þetta við mitt nánasta fólk, hvað þá að fara með þetta eitthvað annað.“

Eftir því sem umræðan um kynferðislegt ofbeldi jókst í samfélaginu með árunum fór Brynhildur að átta sig á hvar hún gæti leitað sér hjálpar. „Ég fór smátt og smátt að sjá hvert ég gæti leitað. En innri tilfinningin breytist ekki. Maður var svo tættur.“

Brynhildur segir sögu sína í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Það tók Brynhildi mörg ár að finna styrk innra með sér til að segja frá því ofbeldi sem hún varð fyrir. „Ég þurfti að vinna mikið í mínum málum áður en ég þorði að segja frá. Ég þurfti fyrst að finna út hverjum ég gæti treyst og hvar ég gæti fengið stuðning. Maður er ekki tilbúinn að segja hverjum sem er frá.“

Brynhildur segir að þungu fargi hafi verið af henni létt þegar hún loksins opnaði sig um kynferðislega ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir. „Það breytti lífi mínu að segja frá. Ég var komin í andlegt þrot og fann að það var eitthvað meiriháttar mikið að trufla mig. Og ég vissi undir niðri að það voru þessi kynferðisbrot sem voru rótin að vandanum. Ég þurfti bara að gera eitthvað eða halda áfram í þessu dapurleg lífi sem ég lifði.“

Brynhildur segir það ekki hafa verið auðvelt að takast á við vandamálið. Hún fór í Stígamót. „Í upphafi treysti ég fólki bara fyrir litlu broti af minni sögu. Það var ekkert auðvelt að fara upp á Stígamót og tala við einhvern sem ég þekkti ekki. En smám saman gat ég sagt meira og meira.“

Mundi ekkert í heila viku

Brynhildur tekur fram að hún hafi verið hrædd við að segja frá ofbeldinu sem hún lenti í en hún kveðst einnig hafa verið í afneitum og náð að loka á vondar minningar. „Í langan tíma barði ég sjálfa mig niður fyrir að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi og oftar en einu sinni. Ég spurði sjálfa mig af hverju ég gæti nú ekki komið mér út þessum aðstæðum, af hverju ég fraus alltaf. Mér leið eins og ég væri aumingi sem ekki gæti staðið sem sjálfri mér. Ég ýtti þessu frá mér og fannst ég mislukkuð,“ útskýrir Brynhildur.

„Í langan tíma barði ég sjálfa mig niður fyrir að hafa lent í kynferðislegu ofbeldi og oftar en einu sinni.“

Hún bætir við að hún hafi upplifað hversu öflugur mannsheilinn geti verið þegar mikið bjátar á. „Eftir eitt áfallið þá mundi ég ekkert hvað gerðist í heila viku eftir á. Ég rankaði hreinlega við mér viku síðar og man ekkert hvað gerðist í millitíðinni, frá því að árásin átti sér stað og þar til ég rankaði við mér nokkrum dögum síðar, undir stýri í umferðinni.“ Hún líkir því ástandi við autopilot-stillingu á farartæki. „Í þessu tilfelli þá gat andlega hliðin greinilega ekki tekist á við þetta. Það var bara skellt í lás.“

Ekki hægt að kenna brotaþolum að bregðast rétt við

Brynhildur viðurkennir að hún reiðist þegar hún verður vör við að fólk sé að undra sig á af hverju brotaþolar geti ekki tilkynnt kynferðislegt ofbeldi strax. „Það er bara á engan hátt einfalt að segja frá. Ég verð alveg vör við háværar raddir sem segi að nú þurfi bara að kenna fólki að bregðast við. Það er þessi umræða í samfélaginu þar sem karlmenn eru nú aldeilis búnir að finna lausnina, það þarf bara að kenna ungum stúlkum að láta í sér heyra og standa með sjálfum sér. En þetta virkar ekkert svona. Það er ekki hægt að þjálfa fólk í svona lagað.“

Brynhildur bendir svo á að í langflestum tilfellum er árásin gerð af einhverjum sem brotaþoli þekkir. „Og þá eru fyrstu viðbrögð ekkert að rjúka af stað og segja frá. Maður er bara í mikilli flækju.“

Erfitt en mikilvægt að taka slaginn

Eftir að Brynhildur fór að opna sig um ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir á lífsleiðinni hefur hún reynt að tala opinskátt um reynslu sína í von um að hjálpa öðrum. „Ég er þannig andlega stemmd núna að mér líður eins og ég skuldi sjálfri mér að taka þátt í þessari baráttu, eftir að hafa unnið með þessi áföll í fjöldamörg ár. Ef ég get hjálpað einhverjum, þó það sé ekki nema ein manneskja, í að finna sinn vilja til að takast á við það sem viðkomandi hefur lent í, þá er ég tilbúin til að taka slaginn. Ég hefði nefnilega vilja hafa svona umræðu í gangi þegar ég var ung. Maður las alveg eitt og eitt viðtal á sínum tíma við fólk sem hafði orðið fyrir nauðgun en það var alltaf undir nafnleynd. Og maður drakk þetta alveg í sig. En það sem vantaði í þær frásagnir voru svörin; hvað gerði viðkomandi og hvernig vann þessi einstaklingur sig út úr áfallinu. Í dag er fókuserað á úrræðin og það er frábær breyting.“

„Ég hefði nefnilega vilja hafa svona umræðu í gangi þegar ég var ung. Maður las alveg eitt og eitt viðtal á sínum tíma við fólk sem hafði orðið fyrir nauðgun en það var alltaf undir nafnleynd. “

Brynhildur viðurkennir að það geti verið krefjandi að tjá sig opinskátt um ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir en að það sé mikilvægt að berjast fyrir málstaðinn. „Þegar efasemdarraddir heyrast, þar sem fólk dregur frásagnir brotaþola í efa og gefur í skyn að það sé ekkert mál að segja frá, þá er mikilvægt að taka slaginn og hjálpast að. Þetta er svolítið eins og boðhlaup, við verðum að hjálpast að. Stundum líður mér eins og ég sé bara að öskra út í vindinn en á sama tíma vill maður ekki að baráttunni sé tapað.“

Hún vonast til að hjálpa öðrum með sínu framlagi til umræðunnar um kynferðislegt ofbeldi og áhrif þess þó að það séu ekki allir tilbúnir að hlusta. „Ég tek alveg eftir að fólk er ekki alltaf tilbúið að heyra mig tala um þetta. Ég hef alveg verið beðin um að hætta að tala um þessa hluti. Fólk er bara mistilbúið. En eitt það versta sem fólk getur gert þegar brotaþoli opnar sig um kynferðislegt ofbeldi er að reyna að eyða umræðunni og snúa samtalinu í aðra átt. Það er auðvitað ekki hægt að stjórna því hvernig fólk bregst við en það er ágætt að hafa þetta í huga.“

Að lokum segist Brynhildur vera bjartsýn og ánægð með hvernig umræðan um kynferðislegt ofbeldi hefur þróast á undanförnum árum. „Umræðan er að opnast en við eigum enn þá langt í land. Mér finnst eins og við séum í lyftu á leið á efstu hæð. Nú erum við erum komin á aðra hæð en byggingin er tólf hæðir. Við erum komin af stað en það er hellingur eftir.“

Mynd / Hákon Davíð

Upp og niður

Það að koma húsi yfir höfuðið er einn af grundvallarþáttum mannlífsins. Að því leytinu til er fasteignamarkaðurinn viðfangsefni sem á sér marga snerti- og umræðufleti. Þróun hans varðar alltaf almannahag.

Undanfarin ár hefur fasteignamarkaðurinn á Íslandi bólgnað verulega út þegar horft er til verðmætis. Fasteignamat húsnæðis hefur hækkað úr tæplega 5 þúsund milljörðum árið 2015 í tæplega 7.300 milljarða árið 2018, svo dæmi sé tekið. Hækkunin milli áranna 2017 og 2018 var 13,8 prósent, en fasteignamatið er reiknað upp úr þinglýstum kaupsamningum húsnæðis.

Sem dæmi þá hefur íbúð sem keypt var árið 2015 á um 20 milljónir hækkað upp í meira en 30 á tæplega þremur árum.

Enginn staður í heiminum hefur upplifað viðlíka hækkanir á fasteignum og Ísland, á undanförnum árum, eins og ótrúlegt og það kann að hljóma fyrir einhverjum.

En nú er verulega farið að hægja á hækkun fasteignaverðs. Blikur eru á lofti á markaðnum en miklar hækkanir á undanförnum árum eiga sér rökréttar skýringar.

Ítarleg fréttaskýring um þróun fasteignamarkaðarins birtist í Mannlífi sem kom út í dag. Einnig er hægt að lesa hana í heild sinni á vef Kjarnans.

 

Brexit gæti dregist á langinn

Svo gæti farið að aðlögunartíminn vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verði framlengdur vegna óvissu um landamæri Norður-Írlands og Írlands. Bretland gengur formlega úr sambandinu í mars á næsta ári en svokallaður aðlögunartími stendur til 31. desember 2020. Þessi tími er ætlaður til þess að undirbúa endanlega útgöngu og á meðan honum stendur verður samband Bretlands og ESB nokkurn veginn það sama og er í dag.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundaði með leiðtogum ESB-ríkja í Brussel í gær. Lítið sem ekkert þokast í samkomulagsátt um á hvaða forsendum viðskilnaðurinn verður. Eitt mesta þrætueplið eru landamæri Írlands og Norður-Írlands og á fundinum opnaði May á þann möguleika að lengja aðlögunartímabilið um nokkra mánuði til að tryggja ásættanlega niðurstöðu fyrir alla aðila. Þetta útspil May vakti litla lukku meðal harðlínumanna í Íhaldsflokknum sem vilja slíta tengslin við ESB sem allra fyrst, burtséð frá því hvort samningur næst eða ekki.

Kom aldrei til greina að segja strax frá

|
Sigrún Bragadóttir. Mynd/Hákon Davíð Björnsson|

Eftir að núverandi Bandaríkjaforseti spurði hvers vegna Christine Blasey Ford hefði ekki kært kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh á háskólaárunum stigu fjölmargir fram henni til stuðnings undir myllumerkinu #whyididntreport og útskýrðu hvers vegna þau sögðu ekki frá né kærðu ekki. Sigrún Bragadóttir deilir hér sínum ástæðum.

Sigrún Bragadóttir er ein þeirra sem veit hversu erfitt getur verið að segja frá. Hún lenti í kynferðisofbeldi fyrst þegar hún var barn þegar maður sem tengdist henni í gegnum fjölskylduna misnotaði hana. Sigrún varð einnig fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns, henni var byrlað ólyfjan í menntaskóla og hún áreitt kynferðislega á skólaballi þegar hún var í 8. bekk. Aldrei fannst henni hún geta sagt frá.

Spurð út í af hverju hún sagði ekki frá ofbeldinu strax segir Sigrún: „Fyrir það fyrsta, vegna þess að ég var bara krakki þegar maður í fjölskyldunni byrjar svokallað „grooming“-ferli. Hann byrjaði að undirbúa hinn fullkomna glæp. Hann hegðaði sé alltaf á ofboðslega óviðeigandi hátt og meðvirknin með þessum manni var mikil í fjölskyldunni. Afsökunin var sú að hann átti svo bágt þegar hann var lítill, að uppvöxtur hans hafi verið erfiður. Með þessum manni lærði ég meðvirkni. En það voru alltaf tvær manneskjur, afi minn og frænka, sem var illa við hann. Og að sjá það hjálpaði mér við að falla ekki í alveg blinda meðvirkni með honum,“ segir Sigrún. Hún lýsir því hvernig manninum hafi tekist að gera hana varnarlausa þannig að henni fannst hún ekki geta tilkynnt um að eitthvað óeðlilegt væri að eiga sér stað.

„Hann hegðaði sé alltaf á ofboðslega óviðeigandi hátt og meðvirknin með þessum manni var mikil í fjölskyldunni.“

Sigrún tekur líka fram að það séu algeng viðbrögð hjá börnum að segja ekki frá kynferðislegu ofbeldi vegna þess að þau vilja hlífa fólki í kringum sig. „Börn eru svo klár, þau vilja oft spara sínum nánustu áföllin. Krakkar sem eru með þessa reynslu þróa með sér ofurnæmni, meðal annars á tilfinningar. Þau læra að lesa í umhverfið sitt og sjá hvernig aðrir bregðast við áföllum og vilja því hlífa fólki. Svo þarf líka að taka til greina að fólk sem beitir ofbeldi, það hótar líka oft.“

Minningarnar koma smátt og smátt upp á yfirborðið

Sigrún var orðin fertug þegar hún viðurkenndi þetta. „Ég viðurkenni fyrir sjálfri mér að það sem kom fyrir mig var ekki eðlilegt. Þessi maður dó þegar ég var tvítug þannig að frá því að ég man eftir mér og þangað til ég var orðin tvítug misnotaði hann mig. Og það ágerðist bara með tímanum,“ útskýrir Sigrún.

Sigrún Bragadóttir, Brynhildur Yrsa og Hrönn Ólöf segja sögur sínar í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Spurð út í hvernig það kom til að hún áttaði sig á hvað hafði í raun og veru komið fyrir hana segir Sigrún: „Þetta gerist þannig að ég var á fyrirlestri hjá konu sem heitir Gail Dines. Hún var að útskýra hvernig barnaníðingar vinna og hvernig þeir geta tekið mörg ár í að fullkomna verknaðinn. Þá fékk ég svakalegt „flash back“. Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Ég missti andann og tárin byrjuðu að bara að gusast niður kinnarnar. Ég stóð upp og grét inni á klósetti. Þá pantaði ég mér tíma hjá Stígamótum.“

Sigrún taldi sér í upphafi trú um að kannski væri ekki um alvarlegt mál að ræða. Að kannski hefði þetta ekki verið neitt. En hún áttaði sig fljótt á að hún hefði svo sannarlega orðið fyrir alvarlegu ofbeldi í æsku. Sigrún sagði frá ofbeldinu í janúar árið 2013 í viðtali hjá Stígamótum. Síðan þá hefur hún kafað dýpra og fleiri minningar hafa komið til hennar. „Þegar það gerist er oft talað um að brotaþolinn sé bara að búa eitthvað til, að ímynda sér. En maður getur bara unnið úr ákveðið miklum tilfinningum í einu og þess vegna eru margir sem þurfa að vinna í þessum málum út ævina.“

„Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Ég missti andann og tárin byrjuðu að bara að gusast niður kinnarnar.“

Hún tekur fram að í dag sé hún farin að skilja viðbrögð sín við ofbeldinu út frá líffræðinni, minningunum var ýtt til hliðar. „Heilinn er svo magnaður. Hann tekur við og býr til einhvern annan raunveruleika. Maður gleymir þessu, grefur þetta djúpt niður í undirmeðvitundina og þannig kemst maður af. En svo kemur alltaf að skuldadögum.“

Spurð út í hvernig henni hafi liðið eftir að hafa sagt frá segir Sigrún: „Það var misjafnt. Þetta var mikill léttir en líka mikil sorg. Sorg meðal annars vegna þess að viðbrögð fólks hafa verið alls konar. Sumir hafa sýnt alveg fullkomin viðbrögð og sagt: „Mér þykir ofboðslega leitt að þetta hafi komið fyrir þig“. En svo eru aðrir sem reyna að draga úr hlutunum en það eru bara varnarviðbrögð fólks því það er erfitt að heyra svona lagað.“

Erfitt að sætta sig við að svona geti gerst

Sigrún kveðst skilja upp að vissu marki af hverju fólk dregur frásagnir af kynferðislegu ofbeldi í efa og spyr af hverju brotaþoli hafi þá ekki tilkynnt strax. „Þetta geta verið ósjálfráð viðbrögð frá fólki, bæði fólki sem hefur aldrei lent í kynferðislegu ofbeldi og líka fólki sem hefur sjálft lent í einhverju en er ekki tilbúið til að takast á við það. Þeirra bjargarráð, þótt það sé í raun óhjálplegt bjargarráð, er að trúa ekki vegna þess að þegar fólk viðurkennir að svona geti gerst þá getur heimurinn þeirra hrunið. Hver sem er getur nefnilega lent í kynferðislegu ofbeldi því það snýst um vald en ekki kynlíf. Þannig að þegar fólk viðurkennir fyrir sjálfu sér að svona hlutir geti gerst þá er það ósjálfrátt að viðurkenna að þetta gæti komið fyrir það, þess nánasta fólk og fjölskyldumeðlimi. Þannig að það er kannski auðveldara að afneita þessu í staðinn fyrir að líta á þetta sem ógn sem hver sem er getur lent í,“ útskýrir Sigrún. „Algengt er að brotaþolar fái ekki stuðning frá sínum nánustu sem er mjög alvarlegt. En þetta eru varnarviðbrögð því fólk vill ekki hugsa til þess að heimurinn geti verið svona ógeðslegur.“

Fólk reynir að finna skýringu á ofbeldinu

Sigrún segir vissulega erfitt að sjá fólk í forréttindastöðu dæma þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún tekur Donald Trump Bandaríkjaforseta sem dæmi en hann dró frásögn Dr. Christine Blasey Ford í efa, þegar hún greindi frá ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh. Trump efaðist um frásögn Ford og hæddist að henni, meðal annars vegna þess að hún sagði ekki frá á sínum tíma. „Menn eins og Trump, menn sem búa við svo mikil forréttindi í lífinu, munu aldrei trúa öðrum sannleika en sínum eigin.

Og það fólk sem aldrei hefur upplifað þessa tegund af ofbeldi getur aldrei sett sig í þessi spor. Það er algengt að það trúi ekki eða reyni að koma með skýringar á af hverju þetta gerðist. Við þekkjum þetta, fólk spyr hvernig brotaþolinn hafi verið klæddur, hvort að viðkomandi hafi verið að drekka, af hverju brotaþoli hafi ekki kært strax og svo framvegis. Fólk reynir að útskýra ofbeldið og dæma brotaþola fyrir að gera ekki neitt, t.d. flýja undan ofbeldismanninum. Svo þegar fólk fer að dæma mann fyrir að bregðast ekki „rétt“ við þá hellist yfir mann skömm og maður spyr sig af hverju maður gerði ekki neitt. En varðandi það af hverju fólk gerir ekki neitt, af hverju sá sem verður fyrir ofbeldinu bregst ekki „rétt“ við, er í raun og veru mjög einfalt. Það er líffræðileg ástæða fyrir því að fólk frýs hreinlega. Þegar við lendum í hættu eða verðum fyrir áfalli þá bregst líkaminn með því að annaðhvort berjast, flýja eða frjósa sem lýsir sér einnig sem einskonar lömunarástand. Heilinn tekur bara við stjórninni svo að við fáum ekki taugaáfall samstundis, förum ekki yfir um. Sjokkið getur verið svo mikið að við myndum ekki ráða við það,“ segir Sigrún sem mælir með að áhugasamir kynni sér rannsóknir dr. Nina Burrowes. „Hún er sálfræðingur og lærði að teikna teiknimyndir til m.a. að útskýra áhrif áfalla af völdum kynferðisofbeldis í æsku á heilann.“

„Fólk reynir að útskýra ofbeldið og dæma brotaþola fyrir að gera ekki neitt, t.d. flýja undan ofbeldismanninum. Svo þegar fólk fer að dæma mann fyrir að bregðast ekki „rétt“ við þá hellist yfir mann skömm.“

Að lokum minnir Sigrún á að það geta legið margar ástæður að baki þess að brotaþoli er ekki tilbúinn að segja frá kynferðislegu ofbeldi sem hann verður fyrir. Hún tekur skömm og afneitun sem dæmi. „Þegar mér var byrlað ólyfjan þá datt mér ekki í hug að tilkynna það. Mér fannst þetta vera mér að kenna vegna þess að ég hafði drukkið. Skömmin var mikil og áhrifin þau að ég taldi mér trú um að þetta hefði verið mér að kenna.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sömdu plötu á nokkrum tímum og laumuðu henni út í skjóli nætur

JóiPé og Króli gáfu út nýtt lag og nýja plötu

Tvær af stærstu stjörnum íslenskrar rappsenu, JóiPé og Króli, komu aðdáendum sínum í opna skjöldu í vikunni er þeir sendu frá sér nýja plötu í skjóli nætur.

Platan birtist á streymisveitunni Spotify aðfaranótt fimmtudags og ber hún nafnið 22:40-08:16. Tvíeykið hafði ekkert gefið í skyn að ný plata væri væntanleg né heldur birtist nokkur tilkynning eftir að platan var komin út. Aðspurður um titil plötunnar svarar Króli því til að þetta sé sá tími sem platan varð til á, það er að upptökur hófust að kvöldi til klukkan 22:40 og þeim lauk 08:16 að morgni næsta dags. Það sama á við um tónsmíðarnar sjálfar, lögin vísa til þess klukkan hvað þau voru tilbúin.

Platan varð til á staðnum

Króli segir að í raun hafi platan orðið til af sjálfu sér. Í raun búi ekkert meira að baki en að þá hafi langað að búa til tónlist. Það varð til þess að þeir vörðu heilli nótt í stúdíói og þetta varð niðurstaðan. „Við áttum nokkur bít en að öðru leyti varð platan til á staðnum.“ Þá hafi markmiðið aldrei verið að gera neitt meira með plötuna en einfaldlega að gefa hana út.

„Við áttum nokkur bít en að öðru leyti varð platan til á staðnum.“

22:40-08:16 er fjórða plata þeirra JóaPé og Króla en þeir urðu landsfrægir nánast á einni nóttu er platan Gerviglingur kom út sumarið 2017 og er óhætt að fullyrða að lagið B.O.B.A. sé eitt vinsælasta íslenska lag allra tíma. Þeim vinsældum var fylgt eftir með plötunni Afsakið hlé sem kom út snemma á þessu ári. Báðar plöturnar nutu mikilla vinsælda og fengu gríðarlega hlustun á Spotify þar sem hlusturnartölurnar hlaupa á milljónum. Piltarnir eru sömuleiðis virkir utan tónlistarinnar, þannig hefur JóiPé æft handbolta með FH og verið viðloðandi unglingalandsliðin á meðan Króli var valinn ræðumaður Íslands í Morfís þar sem hann keppti fyrir hönd Flensborgar.

Fínt ef fólk vill hlusta

Með tilkomu streymisveitna á borð við Spotify hefur plötuútgáfa tekið stakkaskiptum undanfarin ár og það hefur færst í vöxt að stórir listamenn laumi út plötum án nokkurs fyrirvara. Hefðbundin plötusala hefur dregist verulega saman og því þurfa listamenn að finna nýjar leiðir til að koma efninu á framfæri og fylgja því svo eftir með öflugri markaðssetningu og tónleikahaldi. Dæmi um listamenn sem hafa gert þetta eru Beyoncé, Eminem, U2, The Weekend og Drake. JóiPé og Króli fara hins vegar aðra leið því ekki var að heyra á Króla að þeir ætli að fylgja plötunni á eftir með einhverjum hætti. „Ef fólk vill hlusta þá er það bara fínt.“

Meðvirkni og skömm

Í kjölfar uppljóstrunar Christine Blasey Ford um að Brett Kavanaugh hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi á unglingsárum hefur skapast heit umræða um ástæður þess að konur segja ekki frá þegar þær verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ford hefur verið hædd og smánuð fyrir að stíga ekki fram fyrr, meðal annars af valdamesta manni heims, Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem dró framburð hennar mjög í efa vegna þess hversu langt leið frá árásinni og til þess tíma að hún sagði frá henni. Þau viðbrögð eru á engan hátt undantekning. Mjög oft upplifa konur þessa vantrú og lítilsvirðingu þegar þær loks stíga fram og segja frá erfiðri reynslu sem átti sér stað fyrir löngu síðan.

Í Mannlífi í dag greina þrjár konur frá ástæðum þess að þær þögðu um kynferðislegt ofbeldi árum saman, jafnvel áratugum, og ástæður þeirra ber allar að sama brunni: þær skömmuðust sín fyrir að hafa orðið fyrir ofbeldinu, kenndu sjálfum sér um eða vildu ekki setja fjölskyldur sínar í erfiða stöðu þar sem sá sem ofbeldinu beitti var tengdur inn í fjölskylduna. Meðvirknin með ofbeldismanninum er líka gegnumgangandi. Einn viðmælandinn segist meira að segja hafa verið full efasemda um hvort rétt væri að fara í viðtal og segja frá reynslu sinni þrjátíu árum síðar þar sem það gæti komið ofbeldismanninum í erfiða stöðu.

Það er nefnilega ekkert einfalt að segja frá kynferðislegu ofbeldi, hvorki strax né löngu síðar, og þær konur sem það gera þurfa að brynja sig fyrir viðbrögðum þeirra sem draga frásagnir þeirra í efa, sérstaklega ef þær sögðu ekki frá strax, þetta geti nú varla hafa verið svo alvarlegt fyrst þær þögðu. En eins og fram kemur í viðtölunum við konurnar þrjár er einmitt ákveðið samhengi milli þess hversu alvarlegt ofbeldið er og þagnarinnar um það. Þögnin er þáttur í því að lifa ofbeldið af. Grafa það í undirmeðvitundina og láta eins og ekkert hafi gerst. Hrista þetta af sér og vera ekki með vesen.

Gegnumgangandi þráður í frásögnum kvennanna þriggja er skömmin. Þær skömmuðust sín fyrir að hafa ekki getað komið í veg fyrir ofbeldið, spurðu sjálfar sig hvort þær hefðu „boðið upp á þetta“ með framkomu sinni eða klæðnaði eða með því að hafa dirfst að vera undir áhrifum áfengis. Þau viðbrögð eru því miður nánast algild hjá konum sem beittar eru kynferðislegu ofbeldi, enda erum við allar aldar upp við eilífa drusluskömm og samfélagið tekur undantekningalítið afstöðu með ofbeldismanninum ef fórnarlambið hefur ekki haldið sig innan marka „kvenlegra dyggða“. Það er þessi skömm og meðvirknin með ofbeldismönnunum sem veldur þögninni í flestum tilfellum. Og þrátt fyrir alla umræðuna, druslugöngur og #metoo-umræðu gengur illa að vinna bug á henni. Þá innrætingu verður að uppræta. Munum að allir geta orðið fyrir kynferðisofbeldi og skömmin er aldrei fórnarlambsins. Látum aldrei telja okkur trú um annað.

Allt í kringum ferlið svo sárt

Raquelita Rós Aguilar tók tíunda bekkinn aftur, tuttugu og fimm ára að aldri. Eftir útskrift úr háskóla leið ekki á löngu þar til hún var ráðin framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækis á hraðri uppleið. Raquelita hefur farið nokkrar torfærur í gegnum lífið en hún vill gjarnan veita konum innblástur til að sækjast eftir því sem þær dreymir um.

Raquelita er gift Birnu Guðmundsdóttur sem er rannsóknarlögreglumaður hjá kynferðisafbrotadeild lögreglunnar en saman eiga þær þrjá drengi. Raquelita segir frá því hvernig þær kynntust.

„Hún elti mig,“ segir hún og skellir upp úr. „Hún vissi af mér en ég ekki af henni en við bjuggum báðar á þeim tíma í Keflavík, þar sem Birna er alin upp. Hún þekkti því flesta í bænum og náði að redda sér símanúmerinu mínu eftir að hafa séð mig og heyrt af mér. Svo sendi hún mér bara skilaboð og við ákváðum að hittast. Við höfum verið saman síðan,“ segir hún.

„Ég fann mjög snemma, og áður en ég elskaði hana, að ég myndi elska hana. Við komum úr gjörólíkum heimum en erum líkar á marga vegu,“ segir hún og útskýrir mál sitt. „Ég ólst ekki upp við neinn hvata eða metnað til að vegna vel í lífinu. Það þurfti að gera allt á hörkunni og vinna tvær vinnur myrkranna á milli. Launin voru léleg og stritið mikið. Hjá Birnu var allt annað upp á teningnum. Í hennar fjölskyldu eru allir vel menntaðir og mikill metnaður fyrir því að ganga vel í lífinu og hafa hlutina á hreinu. Ég heillaðist mjög mikið af þessum eiginleikum í hennar fari og hvað hún var stabíl. Hún lærði sálfræði í Bandaríkjunum og kláraði svo réttarsálfræði í York í Bretlandi en þegar við kynntumst var hún í Lögregluskólanum. Mér fannst svo geggjað að hún væri búin að afreka þetta allt en svo skemmdi auðvitað ekki fyrir hvað hún er sæt,“ segir hún og brosir.

Raquelita og Birna létu gefa sig saman í lítilli og persónulegri athöfn í Garðakirkju með aðeins nánustu vini og fjölskyldu viðstadda.

„Brúðkaupið var akkúrat eins og við vildum hafa það, einfalt og látlaust. Og það var engin óþarfa rómantík í kringum trúlofunina heldur settum við hringana upp úti í bíl fyrir utan Jón og Óskar.“

Elsta barnið þeirra er Natan, þrettán ára, en stuttu eftir brúðkaupið fóru þær að tala um að stækka við fjölskylduna og Raquelita varð fljótlega ófrísk. Þær misstu fóstrið en reyndu fljótt aftur og varð hún ólétt í annað sinn og þær mjög spenntar eins og ætla má. Drengurinn, sem fékk nafnið Nói, fæddist andvana eftir fimm mánaða meðgöngu. Eftir andlát Nóa og einn fósturmissi var Raquelita ákveðin að ganga aldrei aftur með barn.

„Sú lífsreynsla að fæða andvana barn er alveg hræðileg. Það er ekkert sem undirbýr mann fyrir það að skilja barnið sitt eftir og fara bara heim af fæðingardeildinni án þess. Eftir fæðingu fer líka af stað mikið hormónaflæði, brjóstin fyllast af mjólk og er stöðug áminning um það sem gerðist. Allt í kringum þetta ferli er svo sárt,“ segir Raquelita einlæg.

„Sú lífsreynsla að fæða andvana barn er alveg hræðileg. Það er ekkert sem undirbýr mann fyrir það að skilja barnið sitt eftir og fara bara heim af fæðingardeildinni án þess.“

Þær ákváðu að reyna aftur stuttu seinna en að Birna myndi ganga með barnið. „Eftir reynslu okkar ákvað hún að gera það og varð strax ófrísk að Alex sem fæddist árið 2016. Ferlið virkaði þannig að við keyptum okkur aðgang að Evrópska sæðisbankanum en þar er hægt að skoða sæðisgjafana í þaula. Við eigum sjúkrasögu okkar sæðisgjafa, barnamynd af honum og upptöku þar sem hann segir frá sjálfum sér og hvað starfsfólkinu fannst um hann. Við ákváðum þó að nota ekki sama gjafa og þegar ég gekk með Nóa. Við létum sæðisbanka úti í Bandaríkjunum og Danmörku vita af stöðunni og lýstum útliti okkar. Þeir bentu báðir á sama sæðisgjafann og út kom Alex, sem er skemmtilega líkur okkur báðum.“

Raquelíta getur ekki stillt sig um að sýna blaðamanni mynd af sonum þeirra Birnu og mömmustoltið leynir sér ekki.

Viðtalið í heild má lesa í nýrri Viku.

Mynd / Hallur Karlsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir með YSL

Notalegast í baði með nóg af kertum

Innanhússhönnuðurinn Karítas Sveinsdóttur þekkja flestir sem annan helming einnar flottustu hönnunarstofu landsins HAF STUDIO en hana rekur hún ásamt eiginmanni sínum, vöruhönnuðinum Hafsteini Júlíussyni. Þau hjónin reka líka verslunina HAF STORE sem staðsett verður á Geirsgötu 7. Hús & Híbýli kíkti í heimsókn og Karítas sagði frá nokkrum uppáhaldshlutum.

„Borðstofuborðið teiknuðum við Hafsteinn og gerðum sjálf en það er úr eldhúðuðu stáli og dökkgráu gleri sem er hálfgagnsætt. Svo er Vertigo-ljósið frá Petit Friture sem við seljum í HAF STORE í miklu uppáhaldi, ég var búin að reyna að fá aðila hér heima til að flytja ljósið inn því mig langaði svo í það! Við enduðum á því að kaupa það í Danmörku og erum nú sjálf að selja það en allt sem við seljum í versluninni eru hlutir sem okkur langar sjálf í og viljum hafa í kringum okkur en höfum ekki fundið hér heima,“ segir Karítas.

Baðkarið í miklu uppáhaldi

„Við fjölskyldan byrjum alla morgna á því að fara í bað og við endum eiginlega alla daga á því líka – það er svo ótrúlega notalegt að vera hér með kveikt á kertaljósi. Við gerðum baðherbergið upp þegar við fluttum inn í húsið og er herbergið eitt votrými sem er ótrúlega sniðugt en dóttir mín getur verið í baði og ég í sturtu á sama tíma.“

„Það er svo ótrúlega notalegt að vera hér með kveikt á kertaljósi.“

Baðkarið er í uppáhaldi hjá Karítas og fjölskyldu.
„Hér inni á baði geymi ég líka öll ilmvötnin og uppáhaldsnaglalakkið mitt frá Essie sem ég er nánast alltaf með en þessi appelsínuguli litur er svo flottur og sumarlegur,“ segir Karítas.

Texti / Elín Bríta
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Einstakt hús eftir Gunnar Hansson arkitekt í nýjasta Hús og híbýli

Á friðsælli sjávarlóð á Álftanesi stendur fallegt hús sem teiknað var af Gunnari Hanssyni arkitekt. Núverandi eigendur féllu fyrir byggingarstílnum og þeirri hugsun sem lögð var í smáatriðin. Einnig þótti þeim sérstakt að finna fallega hannað hús með miklu náttúruútsýni innan borgarmarka. Gróðurhúsið hafði líka sitt að segja, enda eru eigendurnir mikið áhugafólk um garðyrkju.

Húsið er hannað í anda módernisma eftirstríðsáranna, eins og flest verk arkitektsins, Gunnars Hanssonar. Á útveggjum fær borðamynstur steypumótanna að njóta sín í ópússaðri steypunni og lóðréttir listar hafa verið felldir í steypumótin sem gefur húsinu létt og fágað yfirbragð. Lóðrétta mynstrið er endurtekið í háum ílöngum gluggum og röðum af svartmáluðum gluggapóstum sem má sjá víða um húsið.

Suðræn stemning í gróðurhúsinu allan ársins hring

Stórt gróðurhús með mikilli lofthæð var síðar byggt við húsið af fyrri eigendum. Þar má meðal annars finna eplatré, klifurjurtir og aðrar plöntur sem ræktaðar hafa verið af alúð síðustu áratugi. Þessu áhugamáli sinna núverandi eigendur áfram og nostra við af áhuga, enda er gróðurhúsið í miklu eftirlæti hjá fjölskyldunni. Þar njóta fjölskyldumeðlimir þess að hlusta á tónlist og dást að sjávarútsýninu, umvafnir undursamlegum ilmandi gróðri. Í skálanum skapast suðræn stemning allan ársins hring. Í framtíðinni mun þó einn dagur á ári breyta þessari upplifun, því eigendum áskotnaðist forláta grátpálmi, eða grædepalme eins og það útleggst á dönsku.

Heillast af klassískri danskri hönnun 

Húsmunir bera þess merki að eigendur eru mikið áhugafólk um klassíska hönnun tímabilsins 1950-1975 og eru fundvísir á gersemar á mörkuðum, sölu- og uppboðssíðum, bæði hér á landi og erlendis. Húsgögn hafa þó miskunnarlaust verið seld í gegnum tíðina ef annað álitlegra hefur rekið á fjörurnar. Eftir því sem tíminn líður hafa þau þó eitt af öðru fengið lengri og lengri vist á heimilinu.

Í glænýju Hús og híbýli má sjá fullt af fallegum myndum af þessu einstaka heimili í þessu einstaka húsi en myndirnar sem birtast hér eru þær sem ekki var pláss fyrir í blaðinu.

Tryggið ykkur eintak!

Texti: Berglind Gunnarsdóttir
Myndir: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Klassísk hönnun tímabilsins 1950-1975 einkennir heimilið.
Útsýnið úr húsinu er vægast sagt tilkomumikið.

Annar eggjastokkurinn fjarlægður

Annar eggjastokkur Lenu Dunham var fjarlægður með skurðaðgerð á þriðjudaginn. Fyrr á árinu var legið fjarlægt vegna legslímuflakks.

Leikkonan Lena Dunham, sem er einna þekktust sem höfundur og aðalleikkona þáttanna Girls, gekkst undir skurðaðgerð í þriðjudaginn til að láta fjarlægja annan eggjastokkinn.

Dunham greindi frá þessu á Instagram og sagði að eggjastokkurinn sem var fjarlægður hefði valdið henni miklum óþægindum og sársauka undanfarið vegna meðal annars bólgu.

„Í gær gekkst ég undir tveggja tíma aðgerð til að láta fjarlægja vinstri eggjastokkinn,“ skrifaði Dunham meðal annars. Hún sagði einnig frá því að undanfarna mánuði hafi hún átt erfitt með að bæði ganga og pissa.

Þess má geta að Dunhm fór í aðgerð fyrr á árinu og lét fjarlægja legið vegna legslímuflakks. Hún greindi frá því í viðtali við Vogue að hún hafi reynt allt til að vinna bug á sjúkdómnum en að lokum hafi hún tekið ákvörðun um að láta fjarlægja legið.

View this post on Instagram

Yesterday I had a two hour surgery to remove my left ovary, which was encased in scar tissue & fibrosis, attached to my bowel and pressing on nerves that made it kinda hard to walk/pee/vamp. Over the last month it got worse and worse until I was simply a burrito posing as a human. *** My mother took this picture after I spent 9 hours in the post op recovery area with v low blood pressure that the nurses were diligently monitoring. I was so out of it that I thought I looked sensually moody a la Charlotte Rampling (turns out it was more of a constipation vibe.) *** A lot of people commented on my last post about being too sick to finish promoting my show by saying my hysterectomy should have fixed it (I mean *should* is a weird one). That I should get acupuncture and take supplements (I do). That I should see a therapist because it’s clearly psychological (year 25 of therapy, y’all. These are the fruits!) But a big lesson I’ve learned in all of this is that health, like most stuff, isn’t linear- things improve and things falter and you start living off only cranberry juice from a sippy cup/sleeping on a glorified heating pad but you’re also happier than you’ve been in years. I feel blessed creatively and tickled by my new and improved bellybutton and so so so lucky to have health insurance as well as money for care that is off of my plan. But I’m simultaneously shocked by what my body is and isn’t doing for me and red with rage that access to medical care is a privilege and not a right in this country and that women have to work extra hard just to prove what we already know about our own bodies and beg for what we need to be well. It’s humiliating. *** My health not being a given has paid spiritual dividends I could never have predicted and it’s opened me up in wild ways and it’s given me a mission: to advocate for those of us who live at the cross section of physical and physic pain, to remind women that our stories don’t have to look one way, our pain is our gain and oh shit scars and mesh “panties” are the fucking jam. Join me, won’t you? *** 📷 @lauriesimmons

A post shared by Lena Dunham (@lenadunham) on

Brynja Nordquist hættir sem flugfreyja

Brynja Nordquist á farsælan feril að baki sem flugfreyja. Hún fer í seinasta flugið sem flugfreyja á föstudaginn.

Flugfreyjan og fyrrverandi fyrirsætan Brynja Nordquist hélt út í síðustu ferðina sína sem flugfreyja Icelandair í gær. Síðasta vinnuferðin er til New York og flýgur hún til baka á morgun, föstudag. Það var eiginmaður Brynju, fjölmiðlamaðurinn Þórhallur Gunnarsson, sem greindi frá þessu á Facebook.

„Þessi fallega kona er að leggja upp í sína allra síðustu ferð sem flugfreyja hjá Icelandair… erum á leið til New York… þetta verður skemmtileg ferð,“ skrifaði hann á Facebook.

Brynja, sem er 65 ára, hefur átt langan og farsælan feril sem flugfreyja. Góðum kveðjum hefur rignt yfir hana á Facebook í tilefni starfslokanna, sérstaklega frá samstarfsfólki hennar sem lýsir henni sem frábærum starfskrafti og vinnufélaga.

Mynd / Gunnar Gunnarsson

Ásta Hrafnhildur auglýsir eftir geitahirði

Ásta Hrafnhildur stingur upp á því að aðdáendur IKEA-geitarinnar vakti hana þar sem um lukkudýr Garðbæinga sér að ræða.

IKEA-geitin góða er komin á sinn stað fyrir utan verslun IKEA í Garðabæ. Geitin er úr strái en undanfarin ár hefur hún orðið brennuvörgum að bráð. Fjölmiðlakonan Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir stingur því upp á að geitin verði vöktuð. Hún birti færslu á Facebook í gær og óskaði eftir viðbrögðum frá áhugasömum.

„Brunavarnarnefnd Gæludýrafélags Ikeavina auglýsir laust starf geitahirðis. Áhugasamir eru beðnir um að senda umsóknir á netfangið [email protected],“ skrifaði Ásta.

Spurð út í hvort hún sé mikill aðdáandi IKEA-geitarinnar segir Ásta: „geitin góða er kærkomið lukkudýr Garðbæinga…við eigum ekkert annað. Reykvíkingar eiga Húsdýragarð, Hafnfirðingar áttu Sædýrasafn, Kópavogur er kenndur við dýr…“ segir Ásta sem er Garðbæingur í húð og hár. Hún bætir við: „en í Garðabæ er stærsta kaupfélag landsins, vinsælasti veitingastaðurinn, heitasta húsdýrið og Guðni forseti. Stjörnum prýtt sveitarfélag.“

Mynd af geit / Af Facebook-síðu IKEA

Líður best í faðmi fjölskyldunnar

Óskar Þór Hilmarsson, viðskiptafræðingur og löggiltur fasteignasali hjá Fjárfestingu fasteignasölu, fílar einföld og nútímleg húsögn og segist vera veikur fyrir funkisstíl þótt hann sé ekki alltaf praktískur.

„Mér finnst afskaplega gaman að hitta og kynnast fólki og eiga samskipti við ólíkt fólk. Flestum finnst gaman og spennandi að kaupa fasteign og ég hef ánægju að því að taka þátt í því ferli með fólki. Svo eru það mikil forréttindi að hafa fengið að starfa með föður mínum, Hilmari, í fimmtán ár,“ segir Óskar Þór Hilmarsson, fasteignasali hjá Fjárfestingu fasteignasölu, spurður að því hvað heilli hann við starfið.

Beðinn um að lýsa hefðbundnum vinnudegi segist Óskar vera mættur á skrifstofuna rétt um níuleytið. „Yfirleitt er byrjað á verkefnum og skipulögð verkefni sem snúa að rekstri stofunnar og eins eru skipulagðar sýningar og opin hús og þvíumlíkt. Svo eru verðmatsfundir yfirleitt haldnir á morgnana,“ segir hann og getur þess að dagurinn endi svo oft á sýningum á eignum eða skoðunum.

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira en annar og áttu uppáhaldsarkitekt eða -hönnuð? „Kjartan Sveinsson skildi eftir sig ansi mörg falleg hús sem og Sigvaldi Thordarson. Af þeim sem eru starfandi í dag, er ég svo heppinn að hafa selt mikið af húsum sem Guðmundur Gunnlaugsson hefur teiknað, en mér þykir hann vera mjög fær og með notagildi að leiðarljósi. Hönnuður? Til að segja eitthvað myndi ég segja Aalvar Alto. Varðandi stíl þá finnst mér nýi funkisstíllinn afskaplega fallegur þótt hann sé ekki alltaf praktískur. Varðandi húsögn er ég með einfaldan og nútímalegan stíl.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Stórt einbýlishús með nóg af plássi fyrir öll leikföng fjölskyldunnar.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólkið sjálft innan heimilisins og falleg húsgögn.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Blár, en appelsínugulur þegar stelpurnar mínar eru að spila með Fylki í fótboltanum.“

Hvar líður þér best? „Heima umvafinn fjölskyldu og vinum. Svo líður mér einstaklega vel úti á golfvelli í góðu veðri.“

Hvað heillar þig mest við haustið? „Mér finnst haustið ekkert sérstaklega heillandi með sínum haustlægðum. Maður bætir allavega ekki við trampólíni eða uppblásinni sundlaug á haustin. En þegar maður horfir á það jákvæða er allavega stutt í jólin.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Ítalía hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá okkur hjónunum.“

Að lifa lífinu lifandi er að … gera það sem manni finnst skemmtilegt með fjölskyldu og vinum.

Mynd/ Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Gefur ókunnugu fólki brjóstamjólk

Bresk kona segir frá því hvernig það kom til að hún fór að frysta brjóstamjólk og gefa ókunnugu fólki sem þurftu á henni að halda.

Bresk kona að nafni Ruby Abbiss segir frá því í grein sem birtist á vef The Guardian hvernig það kom til að hún fór að gefa brjóstamjólk sína til ókunnugra fjölskyldna. Undir yfirskriftinni „hvers vegna ég deili brjóstamjólk minni með öðrum mæðrum“ segir hún frá því hvernig dóttir hennar gat ekki verið á brjósti vegna fötlunar og því hafi hún tekið upp á því að mjólka sig og frysta mjólkina. Brjóstamjólkina gaf hún svo dóttur sinni í pela. En áður en hún vissi af var hún búin að fylla frystinn af brjóstamjólk.

Í gegnum Facebook-hóp fór hún svo að tala við mæður sem vantaði brjóstamjólk fyrir nýbura sína, af ýmsum ástæðum. Í dag hefur hún hjálpað fjölda fólks með því að gefa næringarríka brjóstamjólk sína til nýbura.

„Þegar ég horfi á eftir konum sem koma í heimsókn til mín ganga í burtu með fulla tösku af brjóstamjólk, þá fylltist ég stolti,“ skrifar Abbiss meðal annars í grein sína.

Hún segir það vissulega hafa verið erfitt að uppgötva að brjóstagjöfin myndi ekki ganga sem skildi með dóttur hennar en að það hafi verið huggandi að geta hjálpað fjölskyldum í neyð í ferlinu.

Grein Abbiss má lesa í heild sinni á vef The Guardian.

Reyna að spá fyrir um útlit barnsins

|
Harry og Meghan

Sérfræðingar reyna að spá fyrir um hvernig barn Meghan og Harrys muni líta út.

Fyrr í vikunni kom tilkynning frá Kensington-höll þess efnis að Meghan Markle og Harry Bretaprins eiga von á sínu fyrsta barni. Barnið á að fæðast næsta vor en sérfræðingar eru strax farnir að velta vöngum yfir hvernig barnið muni líta út.

Dr. D’Lynn Waldron er ein þeirra en hún er sérfræðingur í greiningu og teikningu andlita. Hún hefur sett saman myndir með hjálp réttu forritanna þar sem hún reynir að áætla hvernig barnið muni líta út miðað við útlit foreldranna og fjölskyldumeðlima. Waldron hefur viðamikla reynslu og hefur unnið meðal annars fyrir FBI.

Hún gerði nokkrar ólíkar útgáfur af portrettmyndum þar sem hún giskar á hvernig barnið mun koma til með að líta út. Myndirnar má sjá á vef E!news.

Kanada annað landið til að lögleiða neyslu kannabisefna

Mynd/pixabay

Kanada varð í nótt annað þjóðríkið, á eftir Úrúgvæ, til að lögleiða neyslu kannabisefna á landsvísu. Frá og með deginum í dag mega allir 18 og eldri bera á sér allt að 30 grömm af löglega keyptu maríjúana á almannafæri og eiga allt að fjórar kannabisplöntur á heimilum sínum.

Víða um land var þessum áfanga fagnað á götum úti, en kanadíska þingið samþykkti frumvarp um lögleiðinguna í júní. Einhver tími mun þó líða þar til kannabisvörur ná fullri útbreiðslu. Samkvæmt lögunum skulu efnin seld í sértækum verslunum og er salan háð vottunum og leyfum. Misjafnt er eftir fylkjum hvenær salan hefst. Til að mynda eru fyrstu verslanirnar teknar til starfa í Nova Scotia en í Ontario, þar sem Toronto er, hefst sala væntanlega með vorinu.

Allir fangar sem dæmdir höfðu verið fyrir vörslu kannabisefna undir 30 grömmum voru náðaðir í dag en eftir sem áður verður það refsivert að selja ungmennum kannabisefni. Enn verður ólöglegt að flytja kannabisefni til og frá landinu.

Úrúgvæ varð fyrsta þjóðríkið til að lögleiða sölu kannabisefna til neyslu árið 2013. Síðan þá hafa níu ríki Bandaríkjanna, auk District of Columbia, farið sömu leið. Löglegi kannabisiðnaðurinn í Bandaríkjunum velti 9 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra og vænta stjórnvöld í Kanada til þess að kannabissalan skili dágóðum tekjum í ríkissjóð.

Raddir