Á síðustu árum hafa skilin milli stétta á Íslandi orðið skýrari. Það er tilfinnanlegur munur á þeim efnahagslega veruleika sem fólk á Íslandi býr í og bilið hefur breikkað eftir því að sem hagkerfið hefur styrkst.
Stétt fjármagnseigenda hefur aukið auð sinn hratt og örugglega og styrkt stöðu sína jafnt og þétt með tilheyrandi hraðri aukningu á umsvifum eigna þeirra.
Á sama tíma hefur staða lágtekjuhópa versnað umtalsvert sökum þess að dregið hefur úr bótagreiðslum til þeirra, skattbyrði þeirra aukist og húsnæðiskostnaður hefur hækkað hraðar en kaupmáttur launa þeirra hefur aukist. Þá þykir húsnæðisöryggi hinna verst settu ekki viðunandi og aðgengi þeirra að viðeigandi húsnæði hefur dregist saman.
Þessar tvær stéttir eru á sitt hvorum endanum á lífsgæðastiganum á Íslandi. Þar á milli er síðan stór millistétt sem hefur líka verið klofin í tvennt; í þá sem á fasteignir og og þá sem hefur ekki haft tök á því að eignast slíkar.
Niðurstaðan er togstreita milli stétta sem á sér fá fordæmi hérlendis, og birtist meðal annars í því sem nýir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar kalla stéttastríð.
Icelandair keypti WOW air í upphafi viku. Kaupverðið er langt frá því verði sem til stóð að fá fyrir helmingshlut í WOW air fyrir tæpum tveimur mánuðum. Um björgunaraðgerð var að ræða sem átti sér skamman aðdraganda.
Nú er beðið niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og Samkeppniseftirlitsins til að hægt sé að klára kaup Icelandair á WOW air. Ekki er ljóst hvenær sú niðurstaða mun liggja fyrir.
Ljóst er þó að samkeppnisyfirvöldum verður gerð grein fyrir því að engin önnur staða hafi verið í kortunum til að halda starfsemi WOW air áfram. Aðrir kaupendur hafi ekki verið í myndinni og eina sem blasað hefði við að óbreyttu væri gjaldþrot.
Viðmælendur Kjarnans segja að það séu töluverð samlegðaráhrif sem skapist við kaupin á WOW air. Markaðsstarf síðarnefnda félagsins á netinu sé til að mynda mjög gott og bókunarkerfi þess hagkvæmt. En það býst enginn sem við er rætt við öðru en að seglin verði dregin verulega saman, vélum sem eru á leigu verði skilað og starfsfólki fækkað. Óhjákvæmilegt sé að flugmiðaverð fari í kjölfarið hækkandi.
Þá megi búast við því að uppstokkun verði á skipulagi innan Icelandair Group þegar og ef yfirtakan á WOW air gengur í gegn.
Hljómsveitin Lights on the highway kemur saman eftir nokkurra ára hlé og heldur tvenna tónleika milli jóla og nýjárs. Við heyrðum í Kristófer Jenssyni, söngvara bandsins, og hann sagði okkur meðal annars frá uppruna bandsins.
„Bandið varð til síðsumars 2003 þegar ég og Agnar Eldberg gítarleikari hittumst á Menningarnótt en við höfðum þekkst frá unglingsaldri. Ég hafði lánað honum Nirvana-vínylplötu mörgum árum áður, Come as you are-smáskífuna minnir mig, og það bar meðal annars á góma þetta kvöld,“ segir Kristófer. „Við vorum báðir á þeim tímapunkti í tónlistinni að við vorum að leita eftir nýjum verkefnum. Á þeim tíma hafði ég afnot af stúdíói hjá Skara og Junior, vinum mínum í Hafnarfirði, og stakk upp á að við mundum hittast og taka upp nokkur lög þar sem þeir voru að spila í útlöndum og plássið laust til afnota.“
Fundu trommara á Hróarskeldu
Agnar og Kristófer tóku upp fimm lög á tveimur kvöldum, þar á meðal þrjú ný lög sem urðu nánast til að staðnum. Þessi lög rötuðu svo öll á fyrstu plötu hljómsveitarinnar. Skömmu síðar gekk svo Karl Daði Lúðvíksson bassaleikari til liðs við þá og þeir byrjuðu að taka upp og spila sem acoustic-tríó undir nafninu Lights on the highway. „Hljómsveitin starfaði í talsverðan tíma þannig, ég og Aggi báðir á gítar og í söng og Kalli á bassann; alltaf órafmagnað. Við spiluðum á pínulitlum kaffihúsum út um alla Reykjavík og þá hafði myndast skemmtilegur hópur af tónlistarfólki sem var á svipaðri línu og spilaði oft saman á þessum tíma, Tenderfoot, Indigo, Pétur Ben, Moody Company og fleiri. Við vorum alltaf með í bakhöndinni að finna okkur trommara og hann fannst fyrir tilviljun á Hróaskelduhátíðinni í Danmörku 2004 þar sem ég og Halli lentum saman í tjaldbúðum,“ segir Kristófer og er hér að tala um Þórhall Reyni Stefánsson. „Eftir að heim var komið var stungið í samband og Halli kominn á bak við trommusettið í bandinu. Rúmu hálfu ári síðar vorum við komnir í Stúdíó Grjótnámuna fyrir tilstilli Eiríks Rósberg Eiríkssonar stórvinar okkar en þar var fyrsta platan okkar tekin upp á mjög skömmum tíma. Við upptökur á plötunni bættist síðan Gunnlaugur Lárusson í hópinn en við fengum hann „að láni“ frá vinum okkar í Brain Police. Gulli skilaði sér reyndar ekki aftur til þeirra fyrr en einhverjum árum síðar.“
Ást, togstreita, fíflaskapur
Stefán Gunnlaugsson hljómborðsleikari bættist svo í hljómsveitina en einnig hafa gítarleikararnir Konráð Bartch og Bjarni Þór Jensson komið að bandinu á einhverjum tímapunkti. Kristófer segir að erfitt sé að skilgreina tegund tónlistarinnar sem þeir spila en hipparokk komist kannski næst því. Þeir hafa sent frá sér tvær plötur, Lights on the Highway (2005) og Amanita Muscaria (2009) auk nokkurra útvarpssmáskífa, þar á meðal lagið Leiðin Heim sem er sennilega þekktasta lagið þeirra og það eina á íslensku. „Við höfum spilað út um allar trissur, allt frá pöbbum í Breiðholti til London Astoria og The Marquee á Englandi. Við spiluðum mikið á Dillon, Gauknum, Grand Rock og þessum helstu tónleikastöðum á sínum tíma þar sem nándin og hávaðinn var allsráðandi. Við vorum einnig þess heiðurs aðnjótandi að fá að spila í Silfurbergi á Opnunarhátíð Hörpu ásamt fleiri frábærum íslenskum hljómsveitum. Árið 2012 ákváðum við að setja hljómsveitina til hliðar þar sem Aggi var að flytja til Bandaríkjanna, og héldum þá tónleika undir nafninu „Afsakið Hlé“. Hljómsveitin hefur þó aldrei hætt, enda stór partur af okkur öllum.“
„Við höfum spilað út um allar trissur, allt frá pöbbum í Breiðholti til London Astoria og The Marquee á England.“
Hvað er minnisstæðast? Ást, vinátta, togstreita, sköpunargleði, rifrildi, ferðalög og fíflaskapur. Það heitir víst að vera í hljómsveit. Líklega er þetta eins og að eiga margar kærustur í einu sem eiga allar sama afmælisdaginn. Að hafa skapað eitthvað saman sem við getum verið stoltir af stendur þó alltaf upp úr, það er bara þannig.“
Furðuleg sjálfhverfa
Hljómsveitin kom síðast saman 2015 og þá tóku þeir eins konar míni-tour og spiluðu meðal annars á Quest, Dillon, KEX, Húrra, Græna hattinum og Eistnaflugi. „Það er í raun Stefáni Magnússyni að þakka að við höfum látið verða af þessu bæði þá og núna en við ætlum að halda tvenna tónleika á Hard Rock 29. og 30. desember næstkomandi. Miðasalan er í fullum gangi á tix.is og gengur vonum framar, við erum reyndar alveg orðlausir yfir viðbrögðunum sem við höfum fengið. Við hlökkum allir mikið til að hittast og fá að spila saman aftur þessi tvö skipti opinberlega. Vonandi fáum við að smita sem flesta á þeim stutta tíma af þessari furðulegu sjálfhverfu sem hljómsveitin er.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var í veikindaleyfi á sama tíma og hart var sótt að honum vegna braggamálsins. Hann segir vondan brag á umræðunni um störf borgarinnar en er staðráðinn í að sitja út kjörtímabilið sem að hans sögn mun einkennast að mikilli uppbyggingu.
Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á fyrstu mánuði nýs meirihluta sem kynntur var í júní. Gustað hefur um Orkuveitu Reykjavíkur eftir að framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar var sakaður um óæskilega hegðun gagnvart undirmönnum og einni þeirra sem kvartaði undan hegðun hans var sagt upp. Þá kom í ljós að tveir aðrir starfsmenn höfðu orðið uppvísir af sambærilegri hegðun, innan og utan veggja fyrirtækisins. Á haustmánuðum var svo ljóstrað upp um yfirgengilega framúrkeyrslu við enduruppbyggingu bragga í Nauthólsvík. Ofan á allt saman hefur Dagur glímt við erfið veikindi en hann greindi frá því í júlí að hann glímdi við svokallaða fylgigigt í kjölfar sýkingar. Um miðjan október fór hann í veikindaleyfi vegna þessa. „Gigtin var greind fljótt og vel og ég er á ansi mikilli ónæmisbælandi meðferð til að halda henni niðri og fannst það hafa gengið býsna vel. En hin hliðin á því að vera ónæmisbældur er að maður er útsettari fyrir sýkingum og ég hafði verið varaður við því. En maður býst samt kannski aldrei við því að fá þær og fyrir nokkrum vikum tók sig upp sambærileg sýking og ég fékk síðasta vetur. Hún var hins vegar greind fljótt og vel og ég fékk viðeigandi meðferð en þurfti að taka tíma til að jafna mig. Þannig að þetta er ákveðinn línudans en ég bý að því að eiga frábæra fjölskyldu og frábært samstarfsfólk sem steig bara inn í þau verkefni sem voru í gangi og leysti það mjög vel af hendi. Nú er ég kominn aftur á ról, kannski tek því aðeins rólegar,“ segir Dagur sem hefur notast við staf á ferðum sínum. „Ég er að reyna að losa mig við stafinn, nota hann á lengri gönguferðum en hvorki í vinnu né heima og vonast til að losna við hann fljótlega.“
Upphlaup út af stóru og smáu
Veikindi Dags urðu að pólitísku deilumáli eftir að oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði óþægilegt að hann gæti ekki tekið þátt í umræðum um braggamálið og fékk hann miklar skammir í hattinn frá samherjum Dags. Sjálfur kaus Dagur að svara ekki fyrir málið. „Ég óskaði eftir ákveðinni tillitssemi í sumar og það sem mér finnst standa upp úr er að ég mæti hvarvetna hlýju og stuðningi og nánast undantekningarlaust í pólitíkinni. Þær undantekningar sem þar eru finnst mér dæma sig sjálfar og ég ætla ekkert að bregðast við því.“
Þegar ljóst var hvernig borgarstjórn var skipuð sagðist Dagur vonast til þess að þeir ósiðir sem tíðkuðust á Alþingi bærust ekki inn í ráðhúsið. Aðspurður hvernig til hafi tekist á þessum fyrstu mánuðum kjörtímabilsins svarar Dagur því til að núverandi minnihluti sé óvægnari en sá sem áður var: „Mér finnst vondur bragur á upphlaupum út af stóru og smáu. Það er nánast sama hvað er, það eru notuð alveg gríðarlega stór orð. Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti með því að birta myndir því á Facebook og gera það að athlægi.“ Eitt slíkt tilfelli var þegar Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti á Facebook-síðu sinni mynd af starfsmönnum borgarinnar að vökva blóm í rigningu. „Mér finnst þetta í raun vera að fara yfir einhver mörk sem við eigum ekki að venjast hér í borginni. Fólk sem er kjörnir fulltrúar og er komið í valdastöðu verður einfaldlega að sjá sóma sinn í því að umgangast það vald af hófsemi og virðingu fyrir öðru fólki.“
„Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti með því að birta myndir því á Facebook og gera það að athlægi.“
Senda skýr skilaboð um borgarlínu
„Ég myndi segja að þessi vetur gæti orðið vetur hinna stóru verkefna,“ segir Dagur þegar hann er spurður út í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2019 sem hann kynnti í vikunni. Er gert ráð fyrir að afgangur á rekstri borgarinnar nemi 3,6 milljörðum króna. Á sama tíma var fjármáláætlun næstu ára lögð fram. „Þar er af mörgu að taka og í mínum huga erum við að sigla inn í kjörtímabil sem mun einkennast af miklum fjárfestingum fyrir fólk og lífsgæðin í borginni, fyrir hverfin og þjónustu við börn og unglinga. Rekstur borgarinnar gengur mjög vel og tölurnar eru mjög sterkar.“ Fyrst nefnir Dagur fimm milljarða króna fjárfestingu í leikskólamálum á næstu árum þar sem markmiðið er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. „Við erum að fjölga leikskóladeildum, fjölga ungbarnadeildum sérstaklega og byggja nýja leikskóla. Á rekstrarhliðinni sjáum við fram á að geta tekið inn yngri börn í skrefum. Þarna erum við að klára leikskólabyltinguna sem var sett af stað í borginni fyrir 20 árum.“ Þá nefnir Dagur stór verkefni í efri byggðum borgarinnar – boltahús við Egilshöll í Grafarvogi, byggingu Dalsskóla í Úlfarsárdal ásamt menningarmiðstöð og sundlaug og knatthús og íþróttahús í Mjódd.
„Rekstur borgarinnar gengur mjög vel og tölurnar eru mjög sterkar.“
Stóra málið er þó vafalaust hin umdeilda borgarlína en í fyrsta skipti eru fjármunir eyrnamerktir því verkefni í fjárfestingaáætlun, fimm milljarðar nánar tiltekið. Það er þó ekki fugl í hendi því enn á eftir að semja við ríkið um fjármögnun verkefnisins. „Þó að þetta séu ekki endanlegar tölur þá vildum við sýna að borgin hefur afl til þess að standa fyrir sínum hluta á þessu stóra verkefni sem skiptir rosalegu máli ef að tafatíminn í umferðinni á ekki að aukast enn meira. Ríkið þarf auðvitað að standa við sinn hlut en við höfum sagt að við séum tilbúin til þess að leggja út fyrir borgarlínunni í einhver ár gegn öruggum samningi um að ríkisframlagið komi í réttu hlutfalli á móti vegna þess að ef maður horfir á morgunumferðina og síðdegisumferðina í borginni þá er augljóst að það þarf að grípa til fjárfestinga og róttækra aðgerða.“ Þótt borgarlínu sé ekki að finna í drögum að fimm ára samgönguáætlun ríkisins segist Dagur bjartsýnn á að verkefnið fái framgang, enda liggi fyrir viljayfirlýsing milli ríkisins og þeirra sveitarfélaga sem koma að verkefninu. „Nýframkomin loftlagsáætlun stjórnvalda ætti að styrkja í raun þennan málstað og þetta verkefni. Það er algjörlega ljóst að Ísland getur ekki náð þeim markmiðum sem sett eru varðandi samgöngur ef ekki koma til breyttar ferðavenjur, þar með talið borgarlína. Það er margt sem helst í hendur um að það ætti að vera hægt að ná breiðri pólitískri samstöðu og breiðri samstöðu milli ríkis og sveitarfélaga.“
Aðra stóra samgönguframkvæmd er þó að finna í samgönguáætlun og er það stokkur á Miklubraut. Dagur segir það mikið fagnaðarefni þótt sú framkvæmd sé einungis fjármögnuð að hluta. „Hún er sett í stokk á öðru tímabili samgönguáætlunar. Mér finndist mjög spennandi að skoða leiðir til þess að flýta því í tengslum við borgarlínuframkvæmdina en það er auðvitað praktískt úrlausnarefni. Þetta er líka flókin framkvæmd, það þarf að fara í umhverfismat og útfæra hvernig við ætlum að haga umferðinni á framkvæmdatímanum. En aðalatriðið er að Miklabraut fari í stokk. Stóra myndin í samgöngumálunum er sú að við þurfum að gera það að betri og í raun framúrskarandi kosti fyrir alla sem vilja fara til og frá vinnu eða skóla með almenningssamgöngum, að geta gert það fljótt og vel. Að borgarlínan fái forgang í umferðinni, að þú vitir að þetta skili þér hratt og örugglega, að tíðnin sé meiri, að stöðvarnar séu vistlegri og þetta sé bara framúrskarandi upplifun í alla staði.“
Til að takast á við miklar umferðarteppur á álagstímum segir Dagur að hægt sé að ráðast í tilteknar aðgerðir. „Það eru ákveðnir hlutir sem hægt er að gera í ljósastýringu og það á að gera það strax. Það eru líka ákveðnir hlutir sem hægt er að gera varðandi tiltekna flöskuhálsa sem hægt er að gera strax“. Um mislæg gatnamót segir Dagur að gefinn sé upp bolti með það í útjaðri borgarinnar í tengslum við áform um tvöföldun veganna út úr borginni. „En það er alveg ljóst að inni í miðri byggð þar sem eru íbúðahverfi, þar á hraðbrautaskipulag ekkert heima.“
Ekki meiri peningur í braggann
Dagur segir fjárhagsáætlunina bera þess merki að fjárhagsleg staða borgarinnar sé sterk en stærsta mál kjörtímabilsins hefur þó snúið að óábyrgri fjármálastjórn í kringum braggamálið. Þótt málið hafi á tíðum verið farsakennt, samanber 750 þúsund króna reikning fyrir dönsk strá sem líta út eins og íslenskt melgresi, þá er 250 milljóna króna framúrkeyrsla lítið gamanmál. Framkvæmdum er ólokið en Dagur segir að af hálfu Reykjavíkurborgar verði ekki meiri peningar settir í braggann. „Braggafjárfestingunni er lokið og nú verður Háskólinn í Reykjavík leigusali og annast starfsemina þar. Við þurfum auðvitað að ljúka frágangi málsins við Háskólann í Reykjavík en hugsunin var sú að leigugreiðslur háskólans myndu standa undir þessari framkvæmd. Það er alveg ljóst og var ljóst síðastliðið sumar að af því að framkvæmdin fór fram úr áætlun þá mun hluti þess lenda á Reykjavíkurborg og hluti þess á Háskólanum í Reykjavík. Þessari framkvæmd á að vera lokið.“
„Braggafjárfestingunni er lokið og nú verður Háskólinn í Reykjavík leigusali og annast starfsemina þar.“
Dagur segir að þessi mikla framúrkeyrsla hafi orðið honum ljós þegar viðauki við fjárfestingaáætlun hafi verið lagður fram í sumar. Hann hafi þá vakið athygli borgarráðs á málinu og kallað eftir skýringum. „Allur meirihlutinn hefur verið alveg skýr í því að það þurfi að fara yfir þetta mál og komast til botns í því og við höfum kallað eftir tillögum frá innri endurskoðun um það sem þarf að bæta úr. Við þurfum að tryggja að ferlarnir hjá okkur og leikreglurnar séu þannig að það dragi úr áhættu eins og hægt er í fjárfestingu og framkvæmdum. Við vitum það að opinberar framkvæmdir og framkvæmdir á vegum einkaaðila hafa tilhneigingu til að fara fram úr og það er áhætta í því öllu og umgjörðin hjá okkur þarf að vera þannig að það sé dregið úr þeirri áhættu eins og nokkur kostur er.“ Bendir Dagur í því samhengi á að bæði Perlan og Ráðhús Reykjavíkur hafi farið langt fram úr áætlunum. „Í samtímaheimildum sagði að Perlan hefði dugað til þess að byggja 27 leikskóla. Ráðhúsið eitt og sér voru 33 braggar í framúrkeyrslu.“
Dagur sagðist á dögunum ekki munu segja af sér vegna málsins en aðspurður um hvernig pólitísk ábyrgð á málinu komi til með að líta út svarar hann: „Við ákváðum að setja þetta mál til skoðunar, meðal annars vegna þess að það hafði verið spurt ýmissa spurninga varðandi það. Ég held að innri endurskoðun sé réttur aðili til að fara yfir það mál og fella dóma um það og ég ætla ekki að kveða upp dóma um það fyrr en þeirri skoðun er lokið.“
Erum að uppskera í húsnæðismálunum
Gríðarlegar hækkanir á húsnæðismarkaði hafa sett marga í erfiða stöðu, ekki síst leigjendur, fyrstu kaupendur og þá sem hafa minna á milli handanna. Fyrir þessa hópa er ástandið afleitt og húsnæðismálin verða eitt helsta málið í komandi kjarasamningum. Dagur segir að nú sé verið að sigla inn í tímabil uppskeru í húsnæðismálum. „Það sem við erum að sjá núna að á hverju ári koma inn á markaðinn hundruð íbúða sem eru í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna félaga sem eru ætlaðar fólki með lægri laun, stúdentum, eldri borgurum og þeim sem vilja búseturétt. Þetta mun hafa veruleg og vaxandi áhrif inn á húsnæðismarkaðinn til þess að tempra hækkanir á leigu og stuðla að miklu heilbrigðari húsnæðismarkaði og þeirri fjölbreytni sem þarf.“ Á sama tíma séu að byggjast upp ný svæði með íbúðum á sölumarkaði – Vogabyggð, Hlíðarendi, Gufunes, Kirkjusandur, stækkun Bryggjuhverfis svo og nýtt hverfi í Skerjafirði þar sem 700 íbúðir fara af stað í fyrsta áfanga. „Þannig að við munum sjá miklar og jákvæðar breytingar á húsnæðismarkaði, bæði aukið framboð fyrir þá sem vilja kaupa en líka örugga langtímaleigu á viðráðanlegu verði fyrir þá sem hafa minna á milli handanna eða eru stúdentar.“
En koma þessar framkvæmdir ekki of seint í ljósi þess ástands sem ríkir á markaðinum?
„Við töldum, kannski með röngu vegna margs konar yfirlýsinga um alls konar lausnir í einingahúsum, nýjar lausnir í byggingaaðferðum og svo framvegis, að það kæmu í gegnum hinn almenna húsnæðismarkað lausnir sem myndu mæta ungu fólki og nýjum kaupendum. Að mínu mati og það var okkar niðurstaða í fyrra að þessar lausnir höfðu bara látið á sér standa þrátt fyrir alla umræðuna. Markaðurinn var ekki að mæta ungu fólki og þess vegna steig borgin fram.“ Þar vísar Dagur í verkefni sem kynnt var á dögunum og fólst í hugmyndasamkeppni þar sem öllum gafst kostur á að koma með hugmyndir að uppbyggingu ódýrs húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Borgin leggur til lóðir á völdum stöðum í borginni sem valdir samstarfsaðilar munu þróa og byggja upp að gefnum ákveðnum skilyrðum. „Þarna er borgin að einhverju leyti að fara út fyrir hlutverk sitt en við lítum þannig á að borg þarf að hafa heilbrigðan og fjölbreyttan húsnæðismarkað og við viljum beita okkur fyrir nýsköpun og tempra þessar rosalegu verðhækkanir sem hafa orðið.“
Eitt af þeim félögum sem valin voru til verksins var Heimavellir. Það vakti litla lukku meðal formanns VR sem sagði Heimavelli gróðafyrirtæki sem beri ekki hag leigjenda fyrir brjósti. Dagur bendir á móti á að Reykjavíkurborg hafi verið leiðandi í samstarfi við óhagnaðardrifin félög. „Það hefur enginn og ekkert sveitarfélag á Íslandi unnið nánar í samvinnu við verkalýðshreyfinguna en Reykjavíkurborg. Við vorum í liðinni viku að úthluta lóð fyrir 99 íbúðir uppi í Árbæ við Bæjarhálsinn til Bjargs. Þar með eru úthlutanir til Bjargs orðnar um 700. Við höfum síðan átt í mjög jákvæðum samskiptum við formann VR sem vill til viðbótar við þessar íbúðir á vegum Bjargs, sem eru fyrir lægst launaða hópinn, fara í verkefni þar sem VR byggir leiguíbúðir sem verði fyrir alla félagsmenn VR, ótekjutengt. Við erum mjög jákvæð fyrir því.“
Reykjavík axlar byrðar nágrannanna
Dagur segist finna fyrir því að ríkari kröfur eru gerðar til Reykjavíkurborgar en annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður hvort hann upplifi það þannig að borgin sé að taka á sig byrðar nágrannasveitarfélaganna svarar hann: „Að hluta til. Ég hef kallað eftir því í mörg ár að önnur sveitarfélög geri meira í húsnæðismálunum. Mér finnst ekkert eðlilegt við það að Reykjavíkurborg sé að vinna að uppbyggingu þúsund íbúða í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og sum stór og öflug sveitarfélög hafa ekki lagt fram lóð fyrir eina einustu íbúð í sama verkefni. Það er nákvæmlega það sama þegar kemur að stúdentaíbúðum og að mörgu leyti þegar kemur að íbúðum fyrir aldraða og búseturéttaríbúðir. Við erum með yfir þrjú þúsund íbúðir í byggingu í samráði við óhagnaðardrifin félög þá eru verkefni annarra sveitarfélaga bara í mýflugumynd.“ Dagur segir þetta varhugaverða þróun með tilliti til þróunar samfélagsgerðarinnar. Hætta sé á að ríkt fólk verði aðgreint frá hinum tekjulægri. „Við verðum að vera með eitt samfélag, með félagslega blöndun alls staðar. Það er heldur ekki gott fyrir fólk með meira á milli handanna að það verði til einhver einsleit hverfi fyrir ríkt fólk. Því að dæmin erlendis þar sem svona þróun hefur fengið að vera óáreitt eru ömurleg. Þetta er verri niðurstaða fyrir alla.“
„Ég hef kallað eftir því í mörg ár að önnur sveitarfélög geri meira í húsnæðismálunum.“
Dagur segir að þetta eigi að einhverju leyti við um aðra þjónustu þar sem borgin njóti ekki alltaf sannmælis. Það skýri meðal annars hvers vegna Reykjavíkurborg fái lakari einkunn í þjónustukönnunum en nágrannasveitarfélögin. „Fólk klórar sér svolítið í hausnum yfir því að menningarmál fái miklu hærri einkunn en Reykjavík í sveitarfélögum þar sem öllum ber saman um að menningu er alls ekki sinnt. Jafnvel í sumum góðum nágrannasveitarfélögum þar sem að fólk bara fer í Hörpu og Borgarleikhúsið til að sinna sinni menningarneyslu. Þetta hefur eitthvað með það að gera að eftir því sem borgin verður stærri, þá upplifir það fjarlægðina við stjórnendur meiri og þú gefur þínu nærumhverfi aðra einkunn.“ Þessar kannanir sýni til dæmis að skólarnir fái verstu einkunnina hjá þeim sem eru ekki að nota þá. „En ef þú ert með börn í skólanum þá eykst ánægjan og svo þegar þú ert spurður um þinn skóla þá er ánægjan komin um eða yfir 90% og 95% í leikskólanum. Þannig að þetta er líka spurningin á hvað áttu að horfa. Áttu að horfa á þjónustukönnun þar sem er verið að spyrja foreldra út í skólann sem börnin þeirra eru í og ánægjan mælist jafnvel 95% sem er gríðarlega hátt, eða áttu að leggja aðaláherslu á kannanir sem eru í rauninni einhvers konar ímyndarkannanir þar sem er verið að stórum hluta verið að spyrja fólk sem er ekki að nota viðkomandi þjónustu?“
Hafnartorg fengið ósanngjarna gagnrýni
Um þessar mundir stendur yfir mikil uppbygging í miðborginni. Hótel er að rísa við Hörpu og Hafnartorgið langt komið. Dagur segir loksins komið að því að miðborgin snúi vörn í sókn. „Miðborgin hefur átt undir högg að sækja eiginlega alveg frá því Kringlan var byggð. Borgarstjórnarkosningar eftir borgarstjórnarkosningar var linnulaus umræða um það að annað hvert bil við Laugaveginn væri autt. Núna er slegist um plássin í hliðargötunum.“ Uppbygging miðborgarinnar er þó ekki óumdeild og segir Dagur það eðlilegt enda þyki öllum vænt um miðborgina. En uppbygging Hljómalindar- og Hjartatorgsreitanna, Hafnarstrætis, Exeter-hótelsins og Fiskhallarinnar í Tryggvagötu sýni svo ekki verður um villst að miðborgin sé að þróast í rétta átt. „Það sem hefur verið hvað umdeildast er Hafnartorgið og það má alveg deila um arkitektúr en ég er sannfærður um að þær verslanir, veitingastaðir, íbúðir, skrifstofur og mannlíf sem þarna kemur mun verða alveg ótrúleg vítamínsprauta. Við fáum magnaðar göngugötur, bæði frá Austurvelli og út að Hörpu en líka í framhaldi af Hverfisgötu að Kolaportinu og þeirri starfsemi. Síðan þegar við sjáum húsin klárast norðan við Geirsgötuna erum við allt í einu komin með íbúðir og veitingastaði út að höfninni eins og við þekkjum frá Nyhavn í Kaupmannahöfn og Akerbrygge í Ósló. Ég er ótrúlega stoltur af þessum breytingum á borginni og ég held að að fólk sem hefur lýst áhyggjum af þessu eigi að halda aðeins í sér þangað til þetta verður komið í endanlega mynd.“
Þú nefndir byggingarnar á Hafnartorgi, finnst þér þær persónulega vel heppnaðar?
„Mér finnst þær hafa legið undir mjög ósanngjarnri gagnrýni. Þær hafa auðvitað mjög ákveðinn stíl. Mér hefur alltaf þótt það mjög eftirminnilegt þegar Pétur Ármannsson arkitekt var spurður út í hvort honum fyndist Harpan falleg daginn sem hún var opnuð. Hann sagði eitthvað á þá leið: „Spurðu mig eftir fimm ár“. Fimm árum eftir opnun Hörpu held ég að allir séu sammála um að hún sé ótrúlega vel heppnuð bygging. Þannig að ég held að ég svari því eins og Pétur, spurðu mig eftir fimm ár eftir að starfsemin hefur verið í gangi og þessi hús hafa fengið að sanna sig, ekki bara sem hús með vinnupöllum heldur hús með starfsemi og hús sem smita af lífi og þrótti út í borgarlífið.“
Stór hluti borgarlínuverkefnisins tengist uppbyggingu samgöngumiðstöðvar á BSÍ-reitnum. Þar sér Dagur fyrir sér að auk borgarlínunnar þjónusti hún alla helstu samgönguþjónustu, svo sem strætisvagna utan af landi og rútur með ferðamenn. „Þarna ertu í návígi við alla stærstu vinnustaði landsins; Landspítalann, háskólana báða og þetta er í raun flatlendi þannig að ef þú kemur með borgarlínu, strætó eða rútu og skiptir yfir á hjól, þá ertu í raun bara staddur í Danmörku með það flatlendi sem Vatnsmýrin og Kvosin er. Það er meira að segja hægt að sjá fyrir sér að við verðum með litlar rafskutlur sem myndu fara á milli þessara vinnustaða frá þessu samgönguhjarta.“
Ætlar að klára kjörtímabilið
Þrátt fyrir að hafa setið samfleytt í borgarstjórn síðan 2002 og ítrekað verðið orðaður við formennsku í Samfylkingunni er ekkert fararsnið á Degi úr borginni. Þvert á móti virðist hann vera að fjarlægjast landsmálin. Hann segist staðráðinn í að sitja út kjörtímabilið enda af nógu að taka. „Ég er borgarstjóri í Reykjavík og hef beitt kröftum mínum í borginni vegna þess að mér finnst borgin skipta gríðarlegu máli fyrir framtíð þessa lands. Borgarhagkerfið ásamt ferðaþjónustunni dró vagninn í hagvexti, auknum lífskjörum, fjárfestingu og svo framvegis á árunum eftir hrun og borgin mun líka gegna algjöru lykilhlutverki við að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn og byggja upp atvinnulíf framtíðar. Þar er einfaldlega hjartað mitt, borgarmálin finnst mér langmest spennandi vettvangurinn í íslenskri pólitík og ótrúlega vanmetin varðandi mikilvægi.“
„Ég er borgarstjóri í Reykjavík og hef beitt kröftum mínum í borginni vegna þess að mér finnst borgin skipta gríðarlegu máli fyrir framtíð þessa lands.“
Verður borgarstjóraembættið þitt síðasta trúnaðarhlutverk fyrir Samfylkinguna?
„Ég held að maður eigi bara að spara stór orð um einhverja fjarlæga framtíð. Þetta kjörtímabil er að byrja, við erum í nýjum kraftmiklum meirihluta sem hefur ákveðið að takast á við mjög stór verkefni og á meðan svo er held ég að kröftum mínum sé hvergi varið betur en hér. Síðan er líka bara hitt, að þótt maður hafi gefið sig að stjórnmálum í einhvern tíma og ákveður að segja það gott á þeim vettvangi, þá er ekki sjálfgefið að maður haldi áfram í stjórnmálum á einhverjum öðrum vettvangi. Ég gæti þess vegna snúið mér að læknisfræði eða hverju öðru sem að höndum bæri.“
Birna Pétursdóttir fer með stórt hlutverk í söngleiknum Kabarett sem sýndur er um þessar mundir hjá Leikfélagi Akureyrar. Hún segir hlutverkið eiga vel við sig þó leiðin hafi í upphafi aldrei legið norður á land.
Birna leikur sem fyrr segir í söngleiknum Kabarett en hún segir æfingarferlið hafa verið bæði gefandi og nærandi í senn. „Ég mætti í prufur til Mörtu Nordal leikstjóra sýningarinnar og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar tónlistarstjóra fyrr á vordögum og fékk í kjölfarið hlutverk bæði í Kabarett og Gallsteinum afa Gissa sem verður frumsýnt í febrúar.“
„Því miður eru allt of sjaldnan haldnar opnar auglýstar prufur á Íslandi eins og tíðkast annars staðar í heiminum og erfitt fyrir unga og upprennandi listamenn að koma sér á framfæri.“
„Í mínu tilfelli er sannkallaður draumur að rætast en æfingarferlið hefur verið glettilega skemmtilegt en á sama tíma stíft enda ljóst að allir meðlimir hópsins ætla sér stóra hluti. Ég hef verið spennt að mæta í vinnuna á hverjum degi en Marta leikstjóri hefur einstaka nærveru svo ekki sé minnst á hæfileika hennar, hlýju og húmor sem kveikti bókstaflega bál í sköpunargleði og ástríðu hvers króks og kima í gamla Samkomuhúsi Akureyrar sem í dag er augljóslega skemmtilegasti vinnustaður í heimi. Þorvaldur og Sinfoníuhljómsveit Norðurlands eru jafnframt einhvers konar náttúruöfl og ekkert nema magnað að læra af þeim, syngja með og dansa svo við dansverk Lee Proud sem gaf ekkert eftir á stífum dansæfingum.“
„Kennslan skilar sér í það minnsta á sviðinu, svo mikið er víst.“
„Ég fer með hlutverk hinnar stoltu og óforskömmuðu konu næturinnar, Fraulein Kost sem sér tækifæri við hvert fótmál og fer sínar eigin leiðir til að ná takmarki sínu. Þetta er kona sem hefur átt erfitt líf en rígheldur í vonina um að farmiðinn hennar til betra lífs sé mögulega hjá næsta kúnna. Hún veðjar svo á það lið sem ber sigur úr býtum hverju sinni, óháð því hvaða manneskjur tilheyra því liði. Þessi týpa er mjög hrá, gróf og hávær en undir niðri kraumar heill tilfinningagrautur. Það er óhætt að segja hana ólíka mér á allan hátt þó ég tengi auðvitað við það hvernig í henni takast á tilfinningar sem allar manneskjur þekkja, stoltið, vonin og örvæntingin.”
Þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega þrítug hefur Arna Pálsdóttir upplifað meira en margir gera á heilli ævi. Hún ólst upp við mjög óhefðbundið fjölskyldumynstur og þurfti snemma að standa á eigin fótum. Á dögunum birti Arna pistil á Vísir.is sem ber heitið „Að vilja deyja eða geta ekki lifað“ en þar opnaði hún sig um sjálfsvíg föður síns og sína upplifun af því að vera aðstandandi. Pistillinn kveikti áhuga hjá okkur á að kynnast þessari heilsteyptu konu betur og heyra sögu hennar.
Arna var tveggja ára þegar foreldrar hennar skildu og á því engar minningar af þeim sem hjónum. Skilnaðurinn var þungur og erfiður og fór það svo að Arna flutti af heimilinu með pabba sínum en Lilja systir hennar sem er fimm árum eldri varð eftir hjá móður þeirra. Arna segir þessa ákvörðun hafa kostað móður hennar sálarstríð allar götur síðan. „Ég held að það hafi ekki legið nein sérstök hugsun að baki í upphafi en þegar mikið gengur á í tilfinningalífi fólks eru ákvarðanir sjaldan teknar af yfirvegun og skynsemi.“
Mamma veit að hún hefur minn skilning og ég veit að einn daginn mun hún sættast við þennan kafla í lífi okkar.
Áfallið sem breytti öllu
Arna segir þessar aðstæður og erfið samskipti milli foreldra sinna vissulega hafa mótað æsku sína. Heimili hennar hafi verið mjög ástríkt en á sama tíma meðvirkt. Faðir hennar stjórnaði samskiptum og umgengni Örnu við mömmu hennar og hafði einnig mikil völd í sambandi hennar við stjúpmóður sína. Var það meðal annars alveg skýrt af hans hálfu að ef leiðir myndu skilja, myndu leiðir þeirra mæðgna gera það líka. Vanmáttur þeirra gagnvart honum var mikill.
„Pabbi minn var dásamlegur maður, örlátur, innilegur og hjartahlýr,“ segir Arna þegar hún lýsir föður sínum. „En hann átti sínar skuggahliðar og það var ekki auðveldlega farið gegn því sem hann hafði ákveðið. Þótt hann hafi verið góður maður tók hann ekki alltaf góðar ákvarðanir. Hann var ofboðslega stór persóna sem hafði mikla útgeislun og nærveru, var hrókur alls fagnaðar. Við bjuggum við fjárhagslegt öryggi og hann var alltaf að, hvort sem það var að smíða pall, stækka húsið eða gera upp gamlan Benz í bílskúrnum, enda einstaklega handlaginn. Hann elskaði að ferðast og við fjölskyldan ferðuðumst mikið.“
„Pabbi minn var dásamlegur maður, örlátur, innilegur og hjartahlýr.“
En sagt er að hver hafi sinn djöful að draga. Þunglyndi og alkóhólismi sóttu hart að heimilisföðurnum, og þótt Arna hafi verið náin pabba sínum og elskað hann mikið, viðurkennir hún að hafa líka verið hrædd við hann. „Við vorum það öll. Í fjölskyldum þar sem geðsjúkdómar eru til staðar litar það líf allra sem í þeim eru. Ég á óteljandi góðar minningar um pabba minn en líka aðrar ekki eins góðar,“ segir hún.
Eftir því sem árin liðu fóru djöflar föður Örnu að stækka og gekk á ýmsu á heimilinu. Það var svo árið 2001, þegar Arna var 16 ára, að hann framdi sjálfsvíg. Þrátt fyrir það sem á undan var gengið var þetta henni og fjölskyldunni allri gríðarlegt áfall. „Maður á aldrei von á svona fréttum,“ segir Arna. „Ég var ein heima þetta kvöld með nokkra vini í heimsókn þegar lögreglumaður og prestur bönkuðu upp á. Maður þarf ekki að vera mjög gamall til að vita að það boðar ekki gott þegar slíkt tvíeyki stendur fyrir framan þig. Þeir spurðu bara um mömmu og þá vissi ég að eitthvað hefði komið fyrir pabba. Þegar þeir sögðu mér að hann væri dáinn vissi ég strax hvað hefði gerst. Ég get ekki lýst því betur og ég get ekki útskýrt hvernig en ég vissi um leið að hann hefði framið sjálfsvíg.“
Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Örnu. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.
JK Rowling segir fyrrverandi aðstoðakonu sína hafa stolið af henni upphæð sem nemur um 3,8 milljónum króna þegar hún starfaði fyrir hana.
Breski rithöfundurinn JK Rowling hefur höfðað mál gegn Amöndu Donaldson, fyrrverandi aðstoðarkonu sinni, og krefur hana um upphæð sem nemur um 3,8 milljónum króna. Rowling vill meina að Donaldson hafi stolið þeirri upphæð af sér þegar hún starfaði fyrir hana og hafði aðgang að kreditkorti fyrirtækis Rowling.
Rowling segir að Donaldson hafi farið í fjölmargar verslunarferðir með kreditkort fyrirtækisins og eytt þúsundum punda í snyrtivörur, mat og annað. Hún mun til að mynda hafa eytt um 220.000 krónum í ilmvatns- og kertabúðinni Jo Malone. Til viðbótar sakar Rowling fyrrverandi aðstoðarkonu sína um að hafa stolið ýmsum Harry Potter-varningi sem hún hafði aðganga að. Þetta kemur fram á vef Independent.
Donaldson var rekin í fyrra vegna meints misferlis í starfi en hún hefur alltaf neitað ásökunum Rowling. Þess má geta að Donaldson starfaði sem aðstoðarkona Rowling frá febrúar 2014 til þar til í apríl í fyrra.
Talsmaður Rowling staðfesti að hún hefði höfðað mál gegn Donaldson og málið yrði tekið fyrir í dómssal seinna á þessu ári.
Rapparinn Stormzy segir stjórnendur Oxford-háskólans hafa hafnað samstarfi við hann.
Breski rapparinn Stormzy segir skólastjórn Oxford-háskólans hafa hafnað tilboði hans um að veita tveimur þeldökkum breskum nemendum sem koma úr fátækt skólastyrk.
Stormzy greindi frá þessu á fjölmiðlafundi sem haldin var á Barbican-safninu í London vegna útgáfu nýrrar bókar hans. „Við reyndum við Oxford en þeir vildu ekki taka þátt,“ sagði rapparinn um verkefnið.
Hann útskýrði þá verkefnið fyrir viðstöddum og kvaðst vilja aðstoða framúrskarandi nemendur sem hafa alist upp við fátækt við að mennta sig í virtum skólum. „Ég hef alltaf verið heillaður af snillingum, fólki sem er gáfaðra en ég. Og núna er ég í þeirri stöðu að ég get lagt mitt af mörkum.“
Síðan stjórnendur Oxford-háskóla höfnuðu tilboði Stormzy hafa stjórnendur Cambridge-háskólans tekið tilboðinu og ætla í samstarf við rapparann.
Styrkur Stormzy felst í því hann mun borga skólagjöld fyrir tvo þeldökka nemendur Cambridge-háskólans í þrjú ár til viðbótar við að veita þeim peningastyrk fyrir uppihaldi.
Þessu er greint frá á vef The Guardian. Þar kemur fram að forsvarsmenn Oxford-háskólans hafa ekki viljað svara fyrirspurnum en skólinn hefur fengið mikla gagnrýni vegna málsins.
Kjörtímabilið getur orðið Degi B. Eggertssyni það erfiðasta til þessa. Auk þess að glíma við heilsubrest er nýr minnihluti óvægnari í gagnrýni sinni en áður. Hann segist munu sitja til loka kjörtímabilsins þótt sótt sé að honum vegna braggamálsins. Framundan er vetur hinna stórru verkefna, segir Dagur.
Rætt er ítarlega við Dag í Mannlífi sem kemur út á morgun.
Mats Wibe Lund heillaðist ungur af Íslandi og hefur í gegnum tíðina tekið ótal ljósmyndir af íslensku mannlífi og náttúru.
Þessa stundina stendur yfir ljósmyndasýning í Norræna húsinu eftir norska ljósmyndarann Mats Wibe Lund. Á sýningunni er 53 ljósmyndir sem Mats hefur tekið á yfir 60 ára ferli sínum sem ljósmyndari.
Ísland hefur lengi verið Mats hugleikið og á hann nú stórt safn mynda sem teknar eru hér á landi, jafnt af þéttbýlisstöðum sem og af flestum sveitabýlum og eyðibýlum á Íslandi.
Í inngangsorðum í bók hans segir meðal annars: „Ég tók ungur ástfóstri við Ísland og fluttist aðkominn hingað 1966. Hér hef ég átt ævintýralegt líf sem mig hefur lengi langað til að rifja upp og festa á blað.“
Mats kom fyrst til Íslands sumarið 1954. Hann rifjar upp þessa fyrstu heimsókn í bók sinni. „Það var mjög áhrifamikil stund þegar ég sá Öræfajökul rísa úr sæ í kvöldsólinni. Ég býst við að ég hafi þá þegar orðinn bergnuminn af landinu sem síðar átti eftir að verð heimili mitt í meira en hálfa öld.“
Á sýningunni kynnir Mats einnig nýútgefna bók sína Frjáls eins og fuglinn þar sem ljósmyndaferill hans er rakinn í myndum og máli.
Þess má geta að ljósmyndasýning Mats í Norræna húsinu lýkur á sunnudaginn. Safnið er opið virka daga frá 14.00-18.00 og um helgar frá klukkan 10.00 til 17.00. Aðgangur á sýninguna er ókeypis.
Rauði varaliturinn fer aldrei úr tísku. Hann á sér merkilega langa sögu en Forn-Súmerar eru taldir hafa skartað litnum 5000 árum fyrir Krist.
Náttúruleg fegurð 5000 árum f.Kr.
Forn-Súmerar eru taldir hafa verið þeir fyrstu til að hanna og bera varaliti og nota brotna eðalsteina til þess að skreyta varir sínar. Rómverjar til forna notuðu líka heimatilbúna varaliti. Egyptar fylgdu á eftir og þar á meðal Kleópatra VII sem maukaði maura og blandaði í býflugnavax til þess að farða sínar varir fagurrauðar.
Aftur í tísku upp úr 1550
Vinsældir varalitarins dóu smám saman út á meðal efri stétta þar sem fólki fannst varaliturinn eingöngu hæfa vændiskonum og konum í neðstu stéttum samfélagsins. Hins vegar kom Elizabeth I. Englandsdrottning rauða varalitnum aftur í tísku en hann bar hún með stolti við náhvíta húð.
Nornaveiðar, 1770
Rauðar varir urðu aftur umdeildar þegar breska þingið kom á lögum þar sem haldið var fram að farðaðar konur væru nornir sem reyndu að tæla menn í hjónaband.
Á hvíta tjaldinu á nítjándu öld
Seint á nítjándu öld bauð Sears Roebuck-vörulistinn konum að kaupa vara- og kinnalit. Leikkonur voru einna helst áhugasamar um rauða varalitinn þar sem þær þurftu að dekkja varirnar svo að þær væru meira áberandi í svarthvítu kvikmyndunum.
It-stúlkan talskona rauða varalitarins
Leikkonan Elizabeth Taylor var þekkt fyrir skærrauðar varir á fimmta áratugnum og tilvitnunina: „Helltu þér í glas, settu á þig varalit og taktu þig saman í andlitinu.“
Hollywood sjötta áratugarins
Á sjötta áratug síðustu aldar var rauði varaliturinn fylgihlutur hverrar konu. Stjörnur, eins og Marilyn Monroe, Rita Hayworth og Ava Gardner, hjálpuðu til við að gera útlitið ódauðlegt.
1980-1990
Söng- og leikkonan Madonna kom rauða varalitnum aftur á kortið á níunda áratugnum.
2018
Rauði varaliturinn er fyrir löngu orðinn klassískur og snyrtivöruframleiðendur keppast við að koma nýjum og spennandi formúlum á markað.
Ný aðferð til að krulla hárið með plastflösku hefur vakið mikla athygli.
Ný aðferð sem krullar hárið á fljótlegan hátt hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum. Aðferðin felst í því að klippa plastflösku til á ákveðinn hátt, setja hárlokk í flöskuna og blása hárið með heitum blæstri í gegnum gat á flöskunni. Blásturinn frá hárþurrkunni veldur því að það krullast upp á hárið innan í flöskunni og útkoman er liðaðir lokkar. Athygli er vakin á að mikilvægt sé að vera með stút framan á hárþurrkunni þegar aðferðin er notuð.
Blaðakona PopSugar prófaði aðferðina í tilraunarskyni en gefur henni ekki beint toppeinkunn. Hún segir útkomuna ekki hafa verið eins og hún hafði vonað. „Að mínu mati er betra að eyða nokkrum auka mínútum í að krulla hárið með krullujárni,“ skrifar hún. Hún bætir við að þetta sé þó skemmtileg aðferð sem vert er að prófa.
Áhugasamir geta skoðað myndbönd sem sýna fólk prófa flöskuaðferðina undir myllumerkinu #blowthebottlechallange á samfélagsmiðlum.
Brad Pitt vill leysa forræðisdeilurnar án þess að fara fyrir dóm og þannig hlífa börnunum.
Leikarinn Brad Pitt er sagður afar áhyggjufullur yfir því að forræðismál hans og leikkonunnar Angelinu Jolie fer fyrir dómstól í byrjun desember. Talið er að málið geti tekið tvær til þrjár vikur.
Pitt mun vera hræddur um að dómsmálið og ferlið í kringum það geti haft skaðleg áhrif á börnin þeirra sex og vill þess vegna að þau Jolie leysi málið sjálf. Heimildarmaður The Blast greindi frá því að Pitt segir Jolie vera „óábyrga“ fyrir að vilja fara með málið fyrir dóm. Hann mun einnig hafa áhyggjur af því að nú séu börn þeirra komin á þann aldur að þau geta lesið fréttir og slúður um forræðisdeilurnar.
Þess má geta að Jolie er sögð fara fram á fullt forræði yfir börnunum en Pitt mun vilja sameiginlegt forræði.
Jolie og Pitt hættu saman í september árið 2016 eftir að Jolie sakaði Pitt um ofbeldisfulla hegðun gagnvart syni þeirra, Maddox.
Konan sem olli dauða fjögurra ára dóttur bandarísku leikkonunnar Ruthie Ann Miles fannst látin í gær. Talið er að hún hafi framið sjálfsvíg.
Dorothy Bruns, konan sem olli dauða fjögurra ára dóttur leikkonunnar Ruthie Ann Miles, fannst látin í gær.
Slysið varð í mars á þessu ári þegar Bruns missti stjórn á bílnum sínum með þeim afleiðingum að bíllinn lenti á Ruthie Ann Miles og fjögurra ára dóttur hennar þar sem þær voru að labba yfir götu í Brooklyn ásamt öðrum. Dóttir leikkonunnar lést í slysinu. Þá var Miles komin sjö mánuði á leið þegar slysið átti sér stað og missti hún fóstrið. Eins árs drengur lést einnig í slysinu.
Við rannsókn málsins kom í ljós að Bruns hafði fengið flogakast rétt áður en hún keyrði á gangandi vegfarendur. Samkvæmt læknisráði átti hún ekki að keyra vegna ýmissa heilsufarsvandamála. Saksóknarar í málinu vöktu athygli á að Bruns hafi ekki farið eftir fyrirmælum lækna og fóru fram á 15 ára fangelsisdóm fyrir manndráp af gáleysi.
Söngkonan Taylor Swift sést í auglýsingum fyrir Hafnartorg.
Margt fólk hefur undanfarið undrað sig á auglýsingaskiltum fyrir Hafnartorg, svæðið sem er að smella saman við höfnina í Reykjavík.
Auglýsingaskiltin sýna hvernig svæðið mun koma til að líta út þegar allt er tilbúið. En það sem vakið hefur athygli er að bandaríska söngkonan Taylor Swift prýðir eitt auglýsingaskiltið sem notað er í kynningu á svæðinu.
Á myndinni má sjá Swift á röltinu um Hafnartorgið í rauðri kápu og horfa inn um búðarglugga. Bent hefur verið á að á upprunalegu myndinni af Swift, sem notuð var í auglýsingaskiltið, er Swift í grænni kápu.
Vakin er athygli á þessu meðal annars á Twitter og í Facebook-hópnum Markaðsnördar. Þar er spurningunni varpað fram hvort einhver trúi því að þetta sé gert með samþykki Taylor Swift.
Það verður mikið um að vera á Bryggjunni Brugghúsi á næstu dögum í tilefni af Iceland Airwaves.
„Síðastliðin þrjú ár hefur verið glæsileg ‘off-venue’ dagskrá á Bryggjunni en í ár verður kvöld-dagskráin í Bruggsalnum formlegur partur af Iceland Airwaves og Bryggjan því svo kallað ‘official venue’ í fyrsta sinn,“ segir í tilkynningu frá Bryggjunni Brugghúsi.
„Eldhús Bryggjunnar verður opið samkvæmt venju á meðan Airwaves stendur og er hægt að panta borð á veitingahúshluta staðarins. Við minnum einnig á brunch-seðilinn okkar sem er í gildi á á laugar- og sunnudögum frá klukkan 11.30 til 15.00.“
Hér fyrir neðan má sjá fjölbreytta dagskrá tónlistarhátíðarinnar Airwaves í Bruggsalnum á Bryggjunni Brugghúsi.
Miðvikudagur – 7. nóvember
00:20 Helgi 23:20 Teitur Magnússon 22:30 Bodypaint 21:40 Árni Vil 20:50 Ingibjörg Turchi 20:00 Madonna + Child
Edda Sif Pálsdóttir flytur frá Furugrund yfir á Fálkagötuna.
Fjölmiðlakonan Edda Sif Pálsdóttir er að flytja úr Kópavogi í Vesturbæ en íbúðin sem hún býr í ásamt kærasta sínum, Vilhjálmi Siggeirssyni, er komin á sölu.
Íbúðin, sem er 56 fermetrar, er í Furugrund í Kópavogi og ásett verð er 32,9 milljónir króna. Íbúðina má skoða á vef fasteignasölunnar en Miklaborg sér um söluna. Þar er íbúðinni lýst sem góðri fyrstu eign í rólegu og grónu hverfi í Kópavogi.
„Þá er þessi dúllubína komin á sölu. Hér er sko gott að vera, gaman að horfa út og geggjað að drekka aperol á svölunum. Svo mælir Fróði með Fossvoginum til göngutúra,“ segir Edda Sif á Facebook.
Í september fjárfestu Edda Sif og Vilhjálmur þá í íbúð á Fálkagötunni í Vesturbæ.
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefst í dag og stendur til 10. nóvember. Hér koma nokkur góð ráð fyrir þá sem ætla á hátíðina.
Settu símann til hliðar – Margt fólk er orðið upptekið af því að ná öllu sem á vegi þess verður á mynd eða myndband og birta á samfélagsmiðlum. Prófaðu að setja símann ofan í vasa eða tösku og reyndu að drekka í þig stemninguna án þess að upplifa tónleikana í gegnum skjáinn. Það nennir hvort sem er enginn að horfa á myndbönd í lélegum gæðum af tónleikum.
Góðir skór – Þetta segir sig sjálft. Það borgar sig að geyma óþægilegu spariskóna heima og klæðast heldur þægilegum skóm á hátíðinni enda þurfa tónleikagestir að ganga á milli tónleikastaða og standa mikið … og örugglega stíga nokkur dansspor.
Kynntu þér dagskrána – Ef þú vilt alls ekki missa af einhverjum tónleikum, borgar sig að skoða dagskrána og undirbúa sig vel. Skipuleggjendur Airwaves leggja áherslu á að tónleikar hátíðarinnar hefjist á réttum tíma og þá er mikilvægt fyrir gesti að mæta tímanlega. Þess má geta að hægt er að sækja smáforrit Airwaves og skipuleggja sig með því.
Skoðaðu veðurspána – Tónleikar hátíðarinnar eru haldnir á um 20 tónleikastöðum víða um bæinn. Það margborgar sig fyrir þá sem ætla að rölta á milli tónleikastaða að vita hvað veðurguðirnir munu bjóða upp á.
Eitt orð hefur verið mér sérstaklega hugfangið undanfarið. Það er orðið „samdauna“. Fáránlegustu hlutir verða hægt og bítandi hversdagslegir ef ekki beinlínis venjulegir.
Hver er ekki farinn að venjast því að Donald Trump sé leiðtogi hins frjálsa heims? Að loftslagsbreytingar séu komnar á fullt og bílar keyri sjálfir?
Orðstofninn er að vísu frekar neikvæður og mætti halda að maður verði bara samdauna því sem leggur daun eða fýlu af. En þetta er miklu víðtækara.
Ég til dæmis er svo sannarlega orðinn samdauna versnandi heyrn á öðru eyra, man aldrei hvoru. Ég er samdauna lélegri sjón og sístækkandi skalla. En ég er líka orðin fullkomlega samdauna þægilegu millistéttarlífi í friðsamlegu landi sem virðir að mestu mannréttindi mín og a.m.k. flestra annarra. Ég er orðinn svo samdauna lífi mínu að mér finnst það dagsdaglega ekkert í frásögur færandi. Svo leyfi ég mér að vorkenna sjálfum mér voða mikið ef bíllin verður bensínlaus eða ég rek tánna í. Ég var einu sinni staddur í eyðimörk í Bandaríkjunum og sá á hitamæli að það var rúmlega 50 gráðu hiti í sólinni sem ég stóð einmitt í. Það var líka óbærilega heitt. Um leið og ég komst í skugga gat ég látið 42 gráðu þurrt loft leika um mig og varð samdauna 42 gráðum eins og ég hefði aldrei upplifað neitt eins svalandi.
Staðreyndin er að við erum snillingar í aðlögun. Við venjumst og aðlögumst stríðum jafnt sem góðærum, ömurlegri tónlist og „sítt að aftan“ tískunni. Ef maður er nógu lengi innan um eitthvað eru allar líkur á að maður verði samdauna og mestar líkur á að maður taki ekki einu sinni eftir því.
Þess vegna er svo mikilvægt að staldra við, pæla í hlutum, velta þeim fyrir sér og mynda sér skoðun á því hvort maður gangi til góðs. Eða sé bara samdauna.
Neytendastofa minnir á að rafretturvörur sem verða á markaði eftir 1. mars 2019, og eru ekki á lista Neytendastofu, verða ólöglegar í sölu.
Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, sem fjallar um hertar reglur um rafrettur var samþykkt á Alþingi í júní. Nýju lögin taka gildi 1. mars 2019 og minnir Neytendastofa á það í færslu sem var birt í dag. Í færslunni er minnt á að ótilkynntar rafrettur verða ólöglegar frá og með 1. mars á næsta ári. Þar kemur fram að allir sem ætli að flytja inn og selja rafrettur og áfyllingar með nikótíni, eftir 1. mars. 2019, verði að tilkynna vörurnar til Neytendastofu.
„Fylla þarf út excel form sem finna má á heimasíðunni, vista það og senda á netfangið [email protected]. Leiðbeiningar um útfyllingu eyðublaðsins er að finna í flipa í excel skjalinu. Neytendastofa metur fjölda gjaldskyldra tilkynninga og sendir upplýsingar um upphæð, reikningsnúmer og bankakostnað á tengilið viðkomandi aðila,“ segir meðal annars.
Á síðustu árum hafa skilin milli stétta á Íslandi orðið skýrari. Það er tilfinnanlegur munur á þeim efnahagslega veruleika sem fólk á Íslandi býr í og bilið hefur breikkað eftir því að sem hagkerfið hefur styrkst.
Stétt fjármagnseigenda hefur aukið auð sinn hratt og örugglega og styrkt stöðu sína jafnt og þétt með tilheyrandi hraðri aukningu á umsvifum eigna þeirra.
Á sama tíma hefur staða lágtekjuhópa versnað umtalsvert sökum þess að dregið hefur úr bótagreiðslum til þeirra, skattbyrði þeirra aukist og húsnæðiskostnaður hefur hækkað hraðar en kaupmáttur launa þeirra hefur aukist. Þá þykir húsnæðisöryggi hinna verst settu ekki viðunandi og aðgengi þeirra að viðeigandi húsnæði hefur dregist saman.
Þessar tvær stéttir eru á sitt hvorum endanum á lífsgæðastiganum á Íslandi. Þar á milli er síðan stór millistétt sem hefur líka verið klofin í tvennt; í þá sem á fasteignir og og þá sem hefur ekki haft tök á því að eignast slíkar.
Niðurstaðan er togstreita milli stétta sem á sér fá fordæmi hérlendis, og birtist meðal annars í því sem nýir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar kalla stéttastríð.
Icelandair keypti WOW air í upphafi viku. Kaupverðið er langt frá því verði sem til stóð að fá fyrir helmingshlut í WOW air fyrir tæpum tveimur mánuðum. Um björgunaraðgerð var að ræða sem átti sér skamman aðdraganda.
Nú er beðið niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og Samkeppniseftirlitsins til að hægt sé að klára kaup Icelandair á WOW air. Ekki er ljóst hvenær sú niðurstaða mun liggja fyrir.
Ljóst er þó að samkeppnisyfirvöldum verður gerð grein fyrir því að engin önnur staða hafi verið í kortunum til að halda starfsemi WOW air áfram. Aðrir kaupendur hafi ekki verið í myndinni og eina sem blasað hefði við að óbreyttu væri gjaldþrot.
Viðmælendur Kjarnans segja að það séu töluverð samlegðaráhrif sem skapist við kaupin á WOW air. Markaðsstarf síðarnefnda félagsins á netinu sé til að mynda mjög gott og bókunarkerfi þess hagkvæmt. En það býst enginn sem við er rætt við öðru en að seglin verði dregin verulega saman, vélum sem eru á leigu verði skilað og starfsfólki fækkað. Óhjákvæmilegt sé að flugmiðaverð fari í kjölfarið hækkandi.
Þá megi búast við því að uppstokkun verði á skipulagi innan Icelandair Group þegar og ef yfirtakan á WOW air gengur í gegn.
Hljómsveitin Lights on the highway kemur saman eftir nokkurra ára hlé og heldur tvenna tónleika milli jóla og nýjárs. Við heyrðum í Kristófer Jenssyni, söngvara bandsins, og hann sagði okkur meðal annars frá uppruna bandsins.
„Bandið varð til síðsumars 2003 þegar ég og Agnar Eldberg gítarleikari hittumst á Menningarnótt en við höfðum þekkst frá unglingsaldri. Ég hafði lánað honum Nirvana-vínylplötu mörgum árum áður, Come as you are-smáskífuna minnir mig, og það bar meðal annars á góma þetta kvöld,“ segir Kristófer. „Við vorum báðir á þeim tímapunkti í tónlistinni að við vorum að leita eftir nýjum verkefnum. Á þeim tíma hafði ég afnot af stúdíói hjá Skara og Junior, vinum mínum í Hafnarfirði, og stakk upp á að við mundum hittast og taka upp nokkur lög þar sem þeir voru að spila í útlöndum og plássið laust til afnota.“
Fundu trommara á Hróarskeldu
Agnar og Kristófer tóku upp fimm lög á tveimur kvöldum, þar á meðal þrjú ný lög sem urðu nánast til að staðnum. Þessi lög rötuðu svo öll á fyrstu plötu hljómsveitarinnar. Skömmu síðar gekk svo Karl Daði Lúðvíksson bassaleikari til liðs við þá og þeir byrjuðu að taka upp og spila sem acoustic-tríó undir nafninu Lights on the highway. „Hljómsveitin starfaði í talsverðan tíma þannig, ég og Aggi báðir á gítar og í söng og Kalli á bassann; alltaf órafmagnað. Við spiluðum á pínulitlum kaffihúsum út um alla Reykjavík og þá hafði myndast skemmtilegur hópur af tónlistarfólki sem var á svipaðri línu og spilaði oft saman á þessum tíma, Tenderfoot, Indigo, Pétur Ben, Moody Company og fleiri. Við vorum alltaf með í bakhöndinni að finna okkur trommara og hann fannst fyrir tilviljun á Hróaskelduhátíðinni í Danmörku 2004 þar sem ég og Halli lentum saman í tjaldbúðum,“ segir Kristófer og er hér að tala um Þórhall Reyni Stefánsson. „Eftir að heim var komið var stungið í samband og Halli kominn á bak við trommusettið í bandinu. Rúmu hálfu ári síðar vorum við komnir í Stúdíó Grjótnámuna fyrir tilstilli Eiríks Rósberg Eiríkssonar stórvinar okkar en þar var fyrsta platan okkar tekin upp á mjög skömmum tíma. Við upptökur á plötunni bættist síðan Gunnlaugur Lárusson í hópinn en við fengum hann „að láni“ frá vinum okkar í Brain Police. Gulli skilaði sér reyndar ekki aftur til þeirra fyrr en einhverjum árum síðar.“
Ást, togstreita, fíflaskapur
Stefán Gunnlaugsson hljómborðsleikari bættist svo í hljómsveitina en einnig hafa gítarleikararnir Konráð Bartch og Bjarni Þór Jensson komið að bandinu á einhverjum tímapunkti. Kristófer segir að erfitt sé að skilgreina tegund tónlistarinnar sem þeir spila en hipparokk komist kannski næst því. Þeir hafa sent frá sér tvær plötur, Lights on the Highway (2005) og Amanita Muscaria (2009) auk nokkurra útvarpssmáskífa, þar á meðal lagið Leiðin Heim sem er sennilega þekktasta lagið þeirra og það eina á íslensku. „Við höfum spilað út um allar trissur, allt frá pöbbum í Breiðholti til London Astoria og The Marquee á Englandi. Við spiluðum mikið á Dillon, Gauknum, Grand Rock og þessum helstu tónleikastöðum á sínum tíma þar sem nándin og hávaðinn var allsráðandi. Við vorum einnig þess heiðurs aðnjótandi að fá að spila í Silfurbergi á Opnunarhátíð Hörpu ásamt fleiri frábærum íslenskum hljómsveitum. Árið 2012 ákváðum við að setja hljómsveitina til hliðar þar sem Aggi var að flytja til Bandaríkjanna, og héldum þá tónleika undir nafninu „Afsakið Hlé“. Hljómsveitin hefur þó aldrei hætt, enda stór partur af okkur öllum.“
„Við höfum spilað út um allar trissur, allt frá pöbbum í Breiðholti til London Astoria og The Marquee á England.“
Hvað er minnisstæðast? Ást, vinátta, togstreita, sköpunargleði, rifrildi, ferðalög og fíflaskapur. Það heitir víst að vera í hljómsveit. Líklega er þetta eins og að eiga margar kærustur í einu sem eiga allar sama afmælisdaginn. Að hafa skapað eitthvað saman sem við getum verið stoltir af stendur þó alltaf upp úr, það er bara þannig.“
Furðuleg sjálfhverfa
Hljómsveitin kom síðast saman 2015 og þá tóku þeir eins konar míni-tour og spiluðu meðal annars á Quest, Dillon, KEX, Húrra, Græna hattinum og Eistnaflugi. „Það er í raun Stefáni Magnússyni að þakka að við höfum látið verða af þessu bæði þá og núna en við ætlum að halda tvenna tónleika á Hard Rock 29. og 30. desember næstkomandi. Miðasalan er í fullum gangi á tix.is og gengur vonum framar, við erum reyndar alveg orðlausir yfir viðbrögðunum sem við höfum fengið. Við hlökkum allir mikið til að hittast og fá að spila saman aftur þessi tvö skipti opinberlega. Vonandi fáum við að smita sem flesta á þeim stutta tíma af þessari furðulegu sjálfhverfu sem hljómsveitin er.“
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var í veikindaleyfi á sama tíma og hart var sótt að honum vegna braggamálsins. Hann segir vondan brag á umræðunni um störf borgarinnar en er staðráðinn í að sitja út kjörtímabilið sem að hans sögn mun einkennast að mikilli uppbyggingu.
Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á fyrstu mánuði nýs meirihluta sem kynntur var í júní. Gustað hefur um Orkuveitu Reykjavíkur eftir að framkvæmdastjóri Orku Náttúrunnar var sakaður um óæskilega hegðun gagnvart undirmönnum og einni þeirra sem kvartaði undan hegðun hans var sagt upp. Þá kom í ljós að tveir aðrir starfsmenn höfðu orðið uppvísir af sambærilegri hegðun, innan og utan veggja fyrirtækisins. Á haustmánuðum var svo ljóstrað upp um yfirgengilega framúrkeyrslu við enduruppbyggingu bragga í Nauthólsvík. Ofan á allt saman hefur Dagur glímt við erfið veikindi en hann greindi frá því í júlí að hann glímdi við svokallaða fylgigigt í kjölfar sýkingar. Um miðjan október fór hann í veikindaleyfi vegna þessa. „Gigtin var greind fljótt og vel og ég er á ansi mikilli ónæmisbælandi meðferð til að halda henni niðri og fannst það hafa gengið býsna vel. En hin hliðin á því að vera ónæmisbældur er að maður er útsettari fyrir sýkingum og ég hafði verið varaður við því. En maður býst samt kannski aldrei við því að fá þær og fyrir nokkrum vikum tók sig upp sambærileg sýking og ég fékk síðasta vetur. Hún var hins vegar greind fljótt og vel og ég fékk viðeigandi meðferð en þurfti að taka tíma til að jafna mig. Þannig að þetta er ákveðinn línudans en ég bý að því að eiga frábæra fjölskyldu og frábært samstarfsfólk sem steig bara inn í þau verkefni sem voru í gangi og leysti það mjög vel af hendi. Nú er ég kominn aftur á ról, kannski tek því aðeins rólegar,“ segir Dagur sem hefur notast við staf á ferðum sínum. „Ég er að reyna að losa mig við stafinn, nota hann á lengri gönguferðum en hvorki í vinnu né heima og vonast til að losna við hann fljótlega.“
Upphlaup út af stóru og smáu
Veikindi Dags urðu að pólitísku deilumáli eftir að oddviti Sjálfstæðisflokksins sagði óþægilegt að hann gæti ekki tekið þátt í umræðum um braggamálið og fékk hann miklar skammir í hattinn frá samherjum Dags. Sjálfur kaus Dagur að svara ekki fyrir málið. „Ég óskaði eftir ákveðinni tillitssemi í sumar og það sem mér finnst standa upp úr er að ég mæti hvarvetna hlýju og stuðningi og nánast undantekningarlaust í pólitíkinni. Þær undantekningar sem þar eru finnst mér dæma sig sjálfar og ég ætla ekkert að bregðast við því.“
Þegar ljóst var hvernig borgarstjórn var skipuð sagðist Dagur vonast til þess að þeir ósiðir sem tíðkuðust á Alþingi bærust ekki inn í ráðhúsið. Aðspurður hvernig til hafi tekist á þessum fyrstu mánuðum kjörtímabilsins svarar Dagur því til að núverandi minnihluti sé óvægnari en sá sem áður var: „Mér finnst vondur bragur á upphlaupum út af stóru og smáu. Það er nánast sama hvað er, það eru notuð alveg gríðarlega stór orð. Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti með því að birta myndir því á Facebook og gera það að athlægi.“ Eitt slíkt tilfelli var þegar Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, birti á Facebook-síðu sinni mynd af starfsmönnum borgarinnar að vökva blóm í rigningu. „Mér finnst þetta í raun vera að fara yfir einhver mörk sem við eigum ekki að venjast hér í borginni. Fólk sem er kjörnir fulltrúar og er komið í valdastöðu verður einfaldlega að sjá sóma sinn í því að umgangast það vald af hófsemi og virðingu fyrir öðru fólki.“
„Ég kveinka mér ekki undan því þegar þeim er beint að mér en mér finnst miklu verra þegar það er verið að hafa almennt verkafólk sem er að vinna hjá borginni að háði og spotti með því að birta myndir því á Facebook og gera það að athlægi.“
Senda skýr skilaboð um borgarlínu
„Ég myndi segja að þessi vetur gæti orðið vetur hinna stóru verkefna,“ segir Dagur þegar hann er spurður út í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2019 sem hann kynnti í vikunni. Er gert ráð fyrir að afgangur á rekstri borgarinnar nemi 3,6 milljörðum króna. Á sama tíma var fjármáláætlun næstu ára lögð fram. „Þar er af mörgu að taka og í mínum huga erum við að sigla inn í kjörtímabil sem mun einkennast af miklum fjárfestingum fyrir fólk og lífsgæðin í borginni, fyrir hverfin og þjónustu við börn og unglinga. Rekstur borgarinnar gengur mjög vel og tölurnar eru mjög sterkar.“ Fyrst nefnir Dagur fimm milljarða króna fjárfestingu í leikskólamálum á næstu árum þar sem markmiðið er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. „Við erum að fjölga leikskóladeildum, fjölga ungbarnadeildum sérstaklega og byggja nýja leikskóla. Á rekstrarhliðinni sjáum við fram á að geta tekið inn yngri börn í skrefum. Þarna erum við að klára leikskólabyltinguna sem var sett af stað í borginni fyrir 20 árum.“ Þá nefnir Dagur stór verkefni í efri byggðum borgarinnar – boltahús við Egilshöll í Grafarvogi, byggingu Dalsskóla í Úlfarsárdal ásamt menningarmiðstöð og sundlaug og knatthús og íþróttahús í Mjódd.
„Rekstur borgarinnar gengur mjög vel og tölurnar eru mjög sterkar.“
Stóra málið er þó vafalaust hin umdeilda borgarlína en í fyrsta skipti eru fjármunir eyrnamerktir því verkefni í fjárfestingaáætlun, fimm milljarðar nánar tiltekið. Það er þó ekki fugl í hendi því enn á eftir að semja við ríkið um fjármögnun verkefnisins. „Þó að þetta séu ekki endanlegar tölur þá vildum við sýna að borgin hefur afl til þess að standa fyrir sínum hluta á þessu stóra verkefni sem skiptir rosalegu máli ef að tafatíminn í umferðinni á ekki að aukast enn meira. Ríkið þarf auðvitað að standa við sinn hlut en við höfum sagt að við séum tilbúin til þess að leggja út fyrir borgarlínunni í einhver ár gegn öruggum samningi um að ríkisframlagið komi í réttu hlutfalli á móti vegna þess að ef maður horfir á morgunumferðina og síðdegisumferðina í borginni þá er augljóst að það þarf að grípa til fjárfestinga og róttækra aðgerða.“ Þótt borgarlínu sé ekki að finna í drögum að fimm ára samgönguáætlun ríkisins segist Dagur bjartsýnn á að verkefnið fái framgang, enda liggi fyrir viljayfirlýsing milli ríkisins og þeirra sveitarfélaga sem koma að verkefninu. „Nýframkomin loftlagsáætlun stjórnvalda ætti að styrkja í raun þennan málstað og þetta verkefni. Það er algjörlega ljóst að Ísland getur ekki náð þeim markmiðum sem sett eru varðandi samgöngur ef ekki koma til breyttar ferðavenjur, þar með talið borgarlína. Það er margt sem helst í hendur um að það ætti að vera hægt að ná breiðri pólitískri samstöðu og breiðri samstöðu milli ríkis og sveitarfélaga.“
Aðra stóra samgönguframkvæmd er þó að finna í samgönguáætlun og er það stokkur á Miklubraut. Dagur segir það mikið fagnaðarefni þótt sú framkvæmd sé einungis fjármögnuð að hluta. „Hún er sett í stokk á öðru tímabili samgönguáætlunar. Mér finndist mjög spennandi að skoða leiðir til þess að flýta því í tengslum við borgarlínuframkvæmdina en það er auðvitað praktískt úrlausnarefni. Þetta er líka flókin framkvæmd, það þarf að fara í umhverfismat og útfæra hvernig við ætlum að haga umferðinni á framkvæmdatímanum. En aðalatriðið er að Miklabraut fari í stokk. Stóra myndin í samgöngumálunum er sú að við þurfum að gera það að betri og í raun framúrskarandi kosti fyrir alla sem vilja fara til og frá vinnu eða skóla með almenningssamgöngum, að geta gert það fljótt og vel. Að borgarlínan fái forgang í umferðinni, að þú vitir að þetta skili þér hratt og örugglega, að tíðnin sé meiri, að stöðvarnar séu vistlegri og þetta sé bara framúrskarandi upplifun í alla staði.“
Til að takast á við miklar umferðarteppur á álagstímum segir Dagur að hægt sé að ráðast í tilteknar aðgerðir. „Það eru ákveðnir hlutir sem hægt er að gera í ljósastýringu og það á að gera það strax. Það eru líka ákveðnir hlutir sem hægt er að gera varðandi tiltekna flöskuhálsa sem hægt er að gera strax“. Um mislæg gatnamót segir Dagur að gefinn sé upp bolti með það í útjaðri borgarinnar í tengslum við áform um tvöföldun veganna út úr borginni. „En það er alveg ljóst að inni í miðri byggð þar sem eru íbúðahverfi, þar á hraðbrautaskipulag ekkert heima.“
Ekki meiri peningur í braggann
Dagur segir fjárhagsáætlunina bera þess merki að fjárhagsleg staða borgarinnar sé sterk en stærsta mál kjörtímabilsins hefur þó snúið að óábyrgri fjármálastjórn í kringum braggamálið. Þótt málið hafi á tíðum verið farsakennt, samanber 750 þúsund króna reikning fyrir dönsk strá sem líta út eins og íslenskt melgresi, þá er 250 milljóna króna framúrkeyrsla lítið gamanmál. Framkvæmdum er ólokið en Dagur segir að af hálfu Reykjavíkurborgar verði ekki meiri peningar settir í braggann. „Braggafjárfestingunni er lokið og nú verður Háskólinn í Reykjavík leigusali og annast starfsemina þar. Við þurfum auðvitað að ljúka frágangi málsins við Háskólann í Reykjavík en hugsunin var sú að leigugreiðslur háskólans myndu standa undir þessari framkvæmd. Það er alveg ljóst og var ljóst síðastliðið sumar að af því að framkvæmdin fór fram úr áætlun þá mun hluti þess lenda á Reykjavíkurborg og hluti þess á Háskólanum í Reykjavík. Þessari framkvæmd á að vera lokið.“
„Braggafjárfestingunni er lokið og nú verður Háskólinn í Reykjavík leigusali og annast starfsemina þar.“
Dagur segir að þessi mikla framúrkeyrsla hafi orðið honum ljós þegar viðauki við fjárfestingaáætlun hafi verið lagður fram í sumar. Hann hafi þá vakið athygli borgarráðs á málinu og kallað eftir skýringum. „Allur meirihlutinn hefur verið alveg skýr í því að það þurfi að fara yfir þetta mál og komast til botns í því og við höfum kallað eftir tillögum frá innri endurskoðun um það sem þarf að bæta úr. Við þurfum að tryggja að ferlarnir hjá okkur og leikreglurnar séu þannig að það dragi úr áhættu eins og hægt er í fjárfestingu og framkvæmdum. Við vitum það að opinberar framkvæmdir og framkvæmdir á vegum einkaaðila hafa tilhneigingu til að fara fram úr og það er áhætta í því öllu og umgjörðin hjá okkur þarf að vera þannig að það sé dregið úr þeirri áhættu eins og nokkur kostur er.“ Bendir Dagur í því samhengi á að bæði Perlan og Ráðhús Reykjavíkur hafi farið langt fram úr áætlunum. „Í samtímaheimildum sagði að Perlan hefði dugað til þess að byggja 27 leikskóla. Ráðhúsið eitt og sér voru 33 braggar í framúrkeyrslu.“
Dagur sagðist á dögunum ekki munu segja af sér vegna málsins en aðspurður um hvernig pólitísk ábyrgð á málinu komi til með að líta út svarar hann: „Við ákváðum að setja þetta mál til skoðunar, meðal annars vegna þess að það hafði verið spurt ýmissa spurninga varðandi það. Ég held að innri endurskoðun sé réttur aðili til að fara yfir það mál og fella dóma um það og ég ætla ekki að kveða upp dóma um það fyrr en þeirri skoðun er lokið.“
Erum að uppskera í húsnæðismálunum
Gríðarlegar hækkanir á húsnæðismarkaði hafa sett marga í erfiða stöðu, ekki síst leigjendur, fyrstu kaupendur og þá sem hafa minna á milli handanna. Fyrir þessa hópa er ástandið afleitt og húsnæðismálin verða eitt helsta málið í komandi kjarasamningum. Dagur segir að nú sé verið að sigla inn í tímabil uppskeru í húsnæðismálum. „Það sem við erum að sjá núna að á hverju ári koma inn á markaðinn hundruð íbúða sem eru í byggingu á vegum óhagnaðardrifinna félaga sem eru ætlaðar fólki með lægri laun, stúdentum, eldri borgurum og þeim sem vilja búseturétt. Þetta mun hafa veruleg og vaxandi áhrif inn á húsnæðismarkaðinn til þess að tempra hækkanir á leigu og stuðla að miklu heilbrigðari húsnæðismarkaði og þeirri fjölbreytni sem þarf.“ Á sama tíma séu að byggjast upp ný svæði með íbúðum á sölumarkaði – Vogabyggð, Hlíðarendi, Gufunes, Kirkjusandur, stækkun Bryggjuhverfis svo og nýtt hverfi í Skerjafirði þar sem 700 íbúðir fara af stað í fyrsta áfanga. „Þannig að við munum sjá miklar og jákvæðar breytingar á húsnæðismarkaði, bæði aukið framboð fyrir þá sem vilja kaupa en líka örugga langtímaleigu á viðráðanlegu verði fyrir þá sem hafa minna á milli handanna eða eru stúdentar.“
En koma þessar framkvæmdir ekki of seint í ljósi þess ástands sem ríkir á markaðinum?
„Við töldum, kannski með röngu vegna margs konar yfirlýsinga um alls konar lausnir í einingahúsum, nýjar lausnir í byggingaaðferðum og svo framvegis, að það kæmu í gegnum hinn almenna húsnæðismarkað lausnir sem myndu mæta ungu fólki og nýjum kaupendum. Að mínu mati og það var okkar niðurstaða í fyrra að þessar lausnir höfðu bara látið á sér standa þrátt fyrir alla umræðuna. Markaðurinn var ekki að mæta ungu fólki og þess vegna steig borgin fram.“ Þar vísar Dagur í verkefni sem kynnt var á dögunum og fólst í hugmyndasamkeppni þar sem öllum gafst kostur á að koma með hugmyndir að uppbyggingu ódýrs húsnæðis fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Borgin leggur til lóðir á völdum stöðum í borginni sem valdir samstarfsaðilar munu þróa og byggja upp að gefnum ákveðnum skilyrðum. „Þarna er borgin að einhverju leyti að fara út fyrir hlutverk sitt en við lítum þannig á að borg þarf að hafa heilbrigðan og fjölbreyttan húsnæðismarkað og við viljum beita okkur fyrir nýsköpun og tempra þessar rosalegu verðhækkanir sem hafa orðið.“
Eitt af þeim félögum sem valin voru til verksins var Heimavellir. Það vakti litla lukku meðal formanns VR sem sagði Heimavelli gróðafyrirtæki sem beri ekki hag leigjenda fyrir brjósti. Dagur bendir á móti á að Reykjavíkurborg hafi verið leiðandi í samstarfi við óhagnaðardrifin félög. „Það hefur enginn og ekkert sveitarfélag á Íslandi unnið nánar í samvinnu við verkalýðshreyfinguna en Reykjavíkurborg. Við vorum í liðinni viku að úthluta lóð fyrir 99 íbúðir uppi í Árbæ við Bæjarhálsinn til Bjargs. Þar með eru úthlutanir til Bjargs orðnar um 700. Við höfum síðan átt í mjög jákvæðum samskiptum við formann VR sem vill til viðbótar við þessar íbúðir á vegum Bjargs, sem eru fyrir lægst launaða hópinn, fara í verkefni þar sem VR byggir leiguíbúðir sem verði fyrir alla félagsmenn VR, ótekjutengt. Við erum mjög jákvæð fyrir því.“
Reykjavík axlar byrðar nágrannanna
Dagur segist finna fyrir því að ríkari kröfur eru gerðar til Reykjavíkurborgar en annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Aðspurður hvort hann upplifi það þannig að borgin sé að taka á sig byrðar nágrannasveitarfélaganna svarar hann: „Að hluta til. Ég hef kallað eftir því í mörg ár að önnur sveitarfélög geri meira í húsnæðismálunum. Mér finnst ekkert eðlilegt við það að Reykjavíkurborg sé að vinna að uppbyggingu þúsund íbúða í samvinnu við verkalýðshreyfinguna og sum stór og öflug sveitarfélög hafa ekki lagt fram lóð fyrir eina einustu íbúð í sama verkefni. Það er nákvæmlega það sama þegar kemur að stúdentaíbúðum og að mörgu leyti þegar kemur að íbúðum fyrir aldraða og búseturéttaríbúðir. Við erum með yfir þrjú þúsund íbúðir í byggingu í samráði við óhagnaðardrifin félög þá eru verkefni annarra sveitarfélaga bara í mýflugumynd.“ Dagur segir þetta varhugaverða þróun með tilliti til þróunar samfélagsgerðarinnar. Hætta sé á að ríkt fólk verði aðgreint frá hinum tekjulægri. „Við verðum að vera með eitt samfélag, með félagslega blöndun alls staðar. Það er heldur ekki gott fyrir fólk með meira á milli handanna að það verði til einhver einsleit hverfi fyrir ríkt fólk. Því að dæmin erlendis þar sem svona þróun hefur fengið að vera óáreitt eru ömurleg. Þetta er verri niðurstaða fyrir alla.“
„Ég hef kallað eftir því í mörg ár að önnur sveitarfélög geri meira í húsnæðismálunum.“
Dagur segir að þetta eigi að einhverju leyti við um aðra þjónustu þar sem borgin njóti ekki alltaf sannmælis. Það skýri meðal annars hvers vegna Reykjavíkurborg fái lakari einkunn í þjónustukönnunum en nágrannasveitarfélögin. „Fólk klórar sér svolítið í hausnum yfir því að menningarmál fái miklu hærri einkunn en Reykjavík í sveitarfélögum þar sem öllum ber saman um að menningu er alls ekki sinnt. Jafnvel í sumum góðum nágrannasveitarfélögum þar sem að fólk bara fer í Hörpu og Borgarleikhúsið til að sinna sinni menningarneyslu. Þetta hefur eitthvað með það að gera að eftir því sem borgin verður stærri, þá upplifir það fjarlægðina við stjórnendur meiri og þú gefur þínu nærumhverfi aðra einkunn.“ Þessar kannanir sýni til dæmis að skólarnir fái verstu einkunnina hjá þeim sem eru ekki að nota þá. „En ef þú ert með börn í skólanum þá eykst ánægjan og svo þegar þú ert spurður um þinn skóla þá er ánægjan komin um eða yfir 90% og 95% í leikskólanum. Þannig að þetta er líka spurningin á hvað áttu að horfa. Áttu að horfa á þjónustukönnun þar sem er verið að spyrja foreldra út í skólann sem börnin þeirra eru í og ánægjan mælist jafnvel 95% sem er gríðarlega hátt, eða áttu að leggja aðaláherslu á kannanir sem eru í rauninni einhvers konar ímyndarkannanir þar sem er verið að stórum hluta verið að spyrja fólk sem er ekki að nota viðkomandi þjónustu?“
Hafnartorg fengið ósanngjarna gagnrýni
Um þessar mundir stendur yfir mikil uppbygging í miðborginni. Hótel er að rísa við Hörpu og Hafnartorgið langt komið. Dagur segir loksins komið að því að miðborgin snúi vörn í sókn. „Miðborgin hefur átt undir högg að sækja eiginlega alveg frá því Kringlan var byggð. Borgarstjórnarkosningar eftir borgarstjórnarkosningar var linnulaus umræða um það að annað hvert bil við Laugaveginn væri autt. Núna er slegist um plássin í hliðargötunum.“ Uppbygging miðborgarinnar er þó ekki óumdeild og segir Dagur það eðlilegt enda þyki öllum vænt um miðborgina. En uppbygging Hljómalindar- og Hjartatorgsreitanna, Hafnarstrætis, Exeter-hótelsins og Fiskhallarinnar í Tryggvagötu sýni svo ekki verður um villst að miðborgin sé að þróast í rétta átt. „Það sem hefur verið hvað umdeildast er Hafnartorgið og það má alveg deila um arkitektúr en ég er sannfærður um að þær verslanir, veitingastaðir, íbúðir, skrifstofur og mannlíf sem þarna kemur mun verða alveg ótrúleg vítamínsprauta. Við fáum magnaðar göngugötur, bæði frá Austurvelli og út að Hörpu en líka í framhaldi af Hverfisgötu að Kolaportinu og þeirri starfsemi. Síðan þegar við sjáum húsin klárast norðan við Geirsgötuna erum við allt í einu komin með íbúðir og veitingastaði út að höfninni eins og við þekkjum frá Nyhavn í Kaupmannahöfn og Akerbrygge í Ósló. Ég er ótrúlega stoltur af þessum breytingum á borginni og ég held að að fólk sem hefur lýst áhyggjum af þessu eigi að halda aðeins í sér þangað til þetta verður komið í endanlega mynd.“
Þú nefndir byggingarnar á Hafnartorgi, finnst þér þær persónulega vel heppnaðar?
„Mér finnst þær hafa legið undir mjög ósanngjarnri gagnrýni. Þær hafa auðvitað mjög ákveðinn stíl. Mér hefur alltaf þótt það mjög eftirminnilegt þegar Pétur Ármannsson arkitekt var spurður út í hvort honum fyndist Harpan falleg daginn sem hún var opnuð. Hann sagði eitthvað á þá leið: „Spurðu mig eftir fimm ár“. Fimm árum eftir opnun Hörpu held ég að allir séu sammála um að hún sé ótrúlega vel heppnuð bygging. Þannig að ég held að ég svari því eins og Pétur, spurðu mig eftir fimm ár eftir að starfsemin hefur verið í gangi og þessi hús hafa fengið að sanna sig, ekki bara sem hús með vinnupöllum heldur hús með starfsemi og hús sem smita af lífi og þrótti út í borgarlífið.“
Stór hluti borgarlínuverkefnisins tengist uppbyggingu samgöngumiðstöðvar á BSÍ-reitnum. Þar sér Dagur fyrir sér að auk borgarlínunnar þjónusti hún alla helstu samgönguþjónustu, svo sem strætisvagna utan af landi og rútur með ferðamenn. „Þarna ertu í návígi við alla stærstu vinnustaði landsins; Landspítalann, háskólana báða og þetta er í raun flatlendi þannig að ef þú kemur með borgarlínu, strætó eða rútu og skiptir yfir á hjól, þá ertu í raun bara staddur í Danmörku með það flatlendi sem Vatnsmýrin og Kvosin er. Það er meira að segja hægt að sjá fyrir sér að við verðum með litlar rafskutlur sem myndu fara á milli þessara vinnustaða frá þessu samgönguhjarta.“
Ætlar að klára kjörtímabilið
Þrátt fyrir að hafa setið samfleytt í borgarstjórn síðan 2002 og ítrekað verðið orðaður við formennsku í Samfylkingunni er ekkert fararsnið á Degi úr borginni. Þvert á móti virðist hann vera að fjarlægjast landsmálin. Hann segist staðráðinn í að sitja út kjörtímabilið enda af nógu að taka. „Ég er borgarstjóri í Reykjavík og hef beitt kröftum mínum í borginni vegna þess að mér finnst borgin skipta gríðarlegu máli fyrir framtíð þessa lands. Borgarhagkerfið ásamt ferðaþjónustunni dró vagninn í hagvexti, auknum lífskjörum, fjárfestingu og svo framvegis á árunum eftir hrun og borgin mun líka gegna algjöru lykilhlutverki við að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn og byggja upp atvinnulíf framtíðar. Þar er einfaldlega hjartað mitt, borgarmálin finnst mér langmest spennandi vettvangurinn í íslenskri pólitík og ótrúlega vanmetin varðandi mikilvægi.“
„Ég er borgarstjóri í Reykjavík og hef beitt kröftum mínum í borginni vegna þess að mér finnst borgin skipta gríðarlegu máli fyrir framtíð þessa lands.“
Verður borgarstjóraembættið þitt síðasta trúnaðarhlutverk fyrir Samfylkinguna?
„Ég held að maður eigi bara að spara stór orð um einhverja fjarlæga framtíð. Þetta kjörtímabil er að byrja, við erum í nýjum kraftmiklum meirihluta sem hefur ákveðið að takast á við mjög stór verkefni og á meðan svo er held ég að kröftum mínum sé hvergi varið betur en hér. Síðan er líka bara hitt, að þótt maður hafi gefið sig að stjórnmálum í einhvern tíma og ákveður að segja það gott á þeim vettvangi, þá er ekki sjálfgefið að maður haldi áfram í stjórnmálum á einhverjum öðrum vettvangi. Ég gæti þess vegna snúið mér að læknisfræði eða hverju öðru sem að höndum bæri.“
Birna Pétursdóttir fer með stórt hlutverk í söngleiknum Kabarett sem sýndur er um þessar mundir hjá Leikfélagi Akureyrar. Hún segir hlutverkið eiga vel við sig þó leiðin hafi í upphafi aldrei legið norður á land.
Birna leikur sem fyrr segir í söngleiknum Kabarett en hún segir æfingarferlið hafa verið bæði gefandi og nærandi í senn. „Ég mætti í prufur til Mörtu Nordal leikstjóra sýningarinnar og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar tónlistarstjóra fyrr á vordögum og fékk í kjölfarið hlutverk bæði í Kabarett og Gallsteinum afa Gissa sem verður frumsýnt í febrúar.“
„Því miður eru allt of sjaldnan haldnar opnar auglýstar prufur á Íslandi eins og tíðkast annars staðar í heiminum og erfitt fyrir unga og upprennandi listamenn að koma sér á framfæri.“
„Í mínu tilfelli er sannkallaður draumur að rætast en æfingarferlið hefur verið glettilega skemmtilegt en á sama tíma stíft enda ljóst að allir meðlimir hópsins ætla sér stóra hluti. Ég hef verið spennt að mæta í vinnuna á hverjum degi en Marta leikstjóri hefur einstaka nærveru svo ekki sé minnst á hæfileika hennar, hlýju og húmor sem kveikti bókstaflega bál í sköpunargleði og ástríðu hvers króks og kima í gamla Samkomuhúsi Akureyrar sem í dag er augljóslega skemmtilegasti vinnustaður í heimi. Þorvaldur og Sinfoníuhljómsveit Norðurlands eru jafnframt einhvers konar náttúruöfl og ekkert nema magnað að læra af þeim, syngja með og dansa svo við dansverk Lee Proud sem gaf ekkert eftir á stífum dansæfingum.“
„Kennslan skilar sér í það minnsta á sviðinu, svo mikið er víst.“
„Ég fer með hlutverk hinnar stoltu og óforskömmuðu konu næturinnar, Fraulein Kost sem sér tækifæri við hvert fótmál og fer sínar eigin leiðir til að ná takmarki sínu. Þetta er kona sem hefur átt erfitt líf en rígheldur í vonina um að farmiðinn hennar til betra lífs sé mögulega hjá næsta kúnna. Hún veðjar svo á það lið sem ber sigur úr býtum hverju sinni, óháð því hvaða manneskjur tilheyra því liði. Þessi týpa er mjög hrá, gróf og hávær en undir niðri kraumar heill tilfinningagrautur. Það er óhætt að segja hana ólíka mér á allan hátt þó ég tengi auðvitað við það hvernig í henni takast á tilfinningar sem allar manneskjur þekkja, stoltið, vonin og örvæntingin.”
Þrátt fyrir að vera aðeins rúmlega þrítug hefur Arna Pálsdóttir upplifað meira en margir gera á heilli ævi. Hún ólst upp við mjög óhefðbundið fjölskyldumynstur og þurfti snemma að standa á eigin fótum. Á dögunum birti Arna pistil á Vísir.is sem ber heitið „Að vilja deyja eða geta ekki lifað“ en þar opnaði hún sig um sjálfsvíg föður síns og sína upplifun af því að vera aðstandandi. Pistillinn kveikti áhuga hjá okkur á að kynnast þessari heilsteyptu konu betur og heyra sögu hennar.
Arna var tveggja ára þegar foreldrar hennar skildu og á því engar minningar af þeim sem hjónum. Skilnaðurinn var þungur og erfiður og fór það svo að Arna flutti af heimilinu með pabba sínum en Lilja systir hennar sem er fimm árum eldri varð eftir hjá móður þeirra. Arna segir þessa ákvörðun hafa kostað móður hennar sálarstríð allar götur síðan. „Ég held að það hafi ekki legið nein sérstök hugsun að baki í upphafi en þegar mikið gengur á í tilfinningalífi fólks eru ákvarðanir sjaldan teknar af yfirvegun og skynsemi.“
Mamma veit að hún hefur minn skilning og ég veit að einn daginn mun hún sættast við þennan kafla í lífi okkar.
Áfallið sem breytti öllu
Arna segir þessar aðstæður og erfið samskipti milli foreldra sinna vissulega hafa mótað æsku sína. Heimili hennar hafi verið mjög ástríkt en á sama tíma meðvirkt. Faðir hennar stjórnaði samskiptum og umgengni Örnu við mömmu hennar og hafði einnig mikil völd í sambandi hennar við stjúpmóður sína. Var það meðal annars alveg skýrt af hans hálfu að ef leiðir myndu skilja, myndu leiðir þeirra mæðgna gera það líka. Vanmáttur þeirra gagnvart honum var mikill.
„Pabbi minn var dásamlegur maður, örlátur, innilegur og hjartahlýr,“ segir Arna þegar hún lýsir föður sínum. „En hann átti sínar skuggahliðar og það var ekki auðveldlega farið gegn því sem hann hafði ákveðið. Þótt hann hafi verið góður maður tók hann ekki alltaf góðar ákvarðanir. Hann var ofboðslega stór persóna sem hafði mikla útgeislun og nærveru, var hrókur alls fagnaðar. Við bjuggum við fjárhagslegt öryggi og hann var alltaf að, hvort sem það var að smíða pall, stækka húsið eða gera upp gamlan Benz í bílskúrnum, enda einstaklega handlaginn. Hann elskaði að ferðast og við fjölskyldan ferðuðumst mikið.“
„Pabbi minn var dásamlegur maður, örlátur, innilegur og hjartahlýr.“
En sagt er að hver hafi sinn djöful að draga. Þunglyndi og alkóhólismi sóttu hart að heimilisföðurnum, og þótt Arna hafi verið náin pabba sínum og elskað hann mikið, viðurkennir hún að hafa líka verið hrædd við hann. „Við vorum það öll. Í fjölskyldum þar sem geðsjúkdómar eru til staðar litar það líf allra sem í þeim eru. Ég á óteljandi góðar minningar um pabba minn en líka aðrar ekki eins góðar,“ segir hún.
Eftir því sem árin liðu fóru djöflar föður Örnu að stækka og gekk á ýmsu á heimilinu. Það var svo árið 2001, þegar Arna var 16 ára, að hann framdi sjálfsvíg. Þrátt fyrir það sem á undan var gengið var þetta henni og fjölskyldunni allri gríðarlegt áfall. „Maður á aldrei von á svona fréttum,“ segir Arna. „Ég var ein heima þetta kvöld með nokkra vini í heimsókn þegar lögreglumaður og prestur bönkuðu upp á. Maður þarf ekki að vera mjög gamall til að vita að það boðar ekki gott þegar slíkt tvíeyki stendur fyrir framan þig. Þeir spurðu bara um mömmu og þá vissi ég að eitthvað hefði komið fyrir pabba. Þegar þeir sögðu mér að hann væri dáinn vissi ég strax hvað hefði gerst. Ég get ekki lýst því betur og ég get ekki útskýrt hvernig en ég vissi um leið að hann hefði framið sjálfsvíg.“
Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Örnu. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.
JK Rowling segir fyrrverandi aðstoðakonu sína hafa stolið af henni upphæð sem nemur um 3,8 milljónum króna þegar hún starfaði fyrir hana.
Breski rithöfundurinn JK Rowling hefur höfðað mál gegn Amöndu Donaldson, fyrrverandi aðstoðarkonu sinni, og krefur hana um upphæð sem nemur um 3,8 milljónum króna. Rowling vill meina að Donaldson hafi stolið þeirri upphæð af sér þegar hún starfaði fyrir hana og hafði aðgang að kreditkorti fyrirtækis Rowling.
Rowling segir að Donaldson hafi farið í fjölmargar verslunarferðir með kreditkort fyrirtækisins og eytt þúsundum punda í snyrtivörur, mat og annað. Hún mun til að mynda hafa eytt um 220.000 krónum í ilmvatns- og kertabúðinni Jo Malone. Til viðbótar sakar Rowling fyrrverandi aðstoðarkonu sína um að hafa stolið ýmsum Harry Potter-varningi sem hún hafði aðganga að. Þetta kemur fram á vef Independent.
Donaldson var rekin í fyrra vegna meints misferlis í starfi en hún hefur alltaf neitað ásökunum Rowling. Þess má geta að Donaldson starfaði sem aðstoðarkona Rowling frá febrúar 2014 til þar til í apríl í fyrra.
Talsmaður Rowling staðfesti að hún hefði höfðað mál gegn Donaldson og málið yrði tekið fyrir í dómssal seinna á þessu ári.
Rapparinn Stormzy segir stjórnendur Oxford-háskólans hafa hafnað samstarfi við hann.
Breski rapparinn Stormzy segir skólastjórn Oxford-háskólans hafa hafnað tilboði hans um að veita tveimur þeldökkum breskum nemendum sem koma úr fátækt skólastyrk.
Stormzy greindi frá þessu á fjölmiðlafundi sem haldin var á Barbican-safninu í London vegna útgáfu nýrrar bókar hans. „Við reyndum við Oxford en þeir vildu ekki taka þátt,“ sagði rapparinn um verkefnið.
Hann útskýrði þá verkefnið fyrir viðstöddum og kvaðst vilja aðstoða framúrskarandi nemendur sem hafa alist upp við fátækt við að mennta sig í virtum skólum. „Ég hef alltaf verið heillaður af snillingum, fólki sem er gáfaðra en ég. Og núna er ég í þeirri stöðu að ég get lagt mitt af mörkum.“
Síðan stjórnendur Oxford-háskóla höfnuðu tilboði Stormzy hafa stjórnendur Cambridge-háskólans tekið tilboðinu og ætla í samstarf við rapparann.
Styrkur Stormzy felst í því hann mun borga skólagjöld fyrir tvo þeldökka nemendur Cambridge-háskólans í þrjú ár til viðbótar við að veita þeim peningastyrk fyrir uppihaldi.
Þessu er greint frá á vef The Guardian. Þar kemur fram að forsvarsmenn Oxford-háskólans hafa ekki viljað svara fyrirspurnum en skólinn hefur fengið mikla gagnrýni vegna málsins.
Kjörtímabilið getur orðið Degi B. Eggertssyni það erfiðasta til þessa. Auk þess að glíma við heilsubrest er nýr minnihluti óvægnari í gagnrýni sinni en áður. Hann segist munu sitja til loka kjörtímabilsins þótt sótt sé að honum vegna braggamálsins. Framundan er vetur hinna stórru verkefna, segir Dagur.
Rætt er ítarlega við Dag í Mannlífi sem kemur út á morgun.
Mats Wibe Lund heillaðist ungur af Íslandi og hefur í gegnum tíðina tekið ótal ljósmyndir af íslensku mannlífi og náttúru.
Þessa stundina stendur yfir ljósmyndasýning í Norræna húsinu eftir norska ljósmyndarann Mats Wibe Lund. Á sýningunni er 53 ljósmyndir sem Mats hefur tekið á yfir 60 ára ferli sínum sem ljósmyndari.
Ísland hefur lengi verið Mats hugleikið og á hann nú stórt safn mynda sem teknar eru hér á landi, jafnt af þéttbýlisstöðum sem og af flestum sveitabýlum og eyðibýlum á Íslandi.
Í inngangsorðum í bók hans segir meðal annars: „Ég tók ungur ástfóstri við Ísland og fluttist aðkominn hingað 1966. Hér hef ég átt ævintýralegt líf sem mig hefur lengi langað til að rifja upp og festa á blað.“
Mats kom fyrst til Íslands sumarið 1954. Hann rifjar upp þessa fyrstu heimsókn í bók sinni. „Það var mjög áhrifamikil stund þegar ég sá Öræfajökul rísa úr sæ í kvöldsólinni. Ég býst við að ég hafi þá þegar orðinn bergnuminn af landinu sem síðar átti eftir að verð heimili mitt í meira en hálfa öld.“
Á sýningunni kynnir Mats einnig nýútgefna bók sína Frjáls eins og fuglinn þar sem ljósmyndaferill hans er rakinn í myndum og máli.
Þess má geta að ljósmyndasýning Mats í Norræna húsinu lýkur á sunnudaginn. Safnið er opið virka daga frá 14.00-18.00 og um helgar frá klukkan 10.00 til 17.00. Aðgangur á sýninguna er ókeypis.
Rauði varaliturinn fer aldrei úr tísku. Hann á sér merkilega langa sögu en Forn-Súmerar eru taldir hafa skartað litnum 5000 árum fyrir Krist.
Náttúruleg fegurð 5000 árum f.Kr.
Forn-Súmerar eru taldir hafa verið þeir fyrstu til að hanna og bera varaliti og nota brotna eðalsteina til þess að skreyta varir sínar. Rómverjar til forna notuðu líka heimatilbúna varaliti. Egyptar fylgdu á eftir og þar á meðal Kleópatra VII sem maukaði maura og blandaði í býflugnavax til þess að farða sínar varir fagurrauðar.
Aftur í tísku upp úr 1550
Vinsældir varalitarins dóu smám saman út á meðal efri stétta þar sem fólki fannst varaliturinn eingöngu hæfa vændiskonum og konum í neðstu stéttum samfélagsins. Hins vegar kom Elizabeth I. Englandsdrottning rauða varalitnum aftur í tísku en hann bar hún með stolti við náhvíta húð.
Nornaveiðar, 1770
Rauðar varir urðu aftur umdeildar þegar breska þingið kom á lögum þar sem haldið var fram að farðaðar konur væru nornir sem reyndu að tæla menn í hjónaband.
Á hvíta tjaldinu á nítjándu öld
Seint á nítjándu öld bauð Sears Roebuck-vörulistinn konum að kaupa vara- og kinnalit. Leikkonur voru einna helst áhugasamar um rauða varalitinn þar sem þær þurftu að dekkja varirnar svo að þær væru meira áberandi í svarthvítu kvikmyndunum.
It-stúlkan talskona rauða varalitarins
Leikkonan Elizabeth Taylor var þekkt fyrir skærrauðar varir á fimmta áratugnum og tilvitnunina: „Helltu þér í glas, settu á þig varalit og taktu þig saman í andlitinu.“
Hollywood sjötta áratugarins
Á sjötta áratug síðustu aldar var rauði varaliturinn fylgihlutur hverrar konu. Stjörnur, eins og Marilyn Monroe, Rita Hayworth og Ava Gardner, hjálpuðu til við að gera útlitið ódauðlegt.
1980-1990
Söng- og leikkonan Madonna kom rauða varalitnum aftur á kortið á níunda áratugnum.
2018
Rauði varaliturinn er fyrir löngu orðinn klassískur og snyrtivöruframleiðendur keppast við að koma nýjum og spennandi formúlum á markað.
Ný aðferð til að krulla hárið með plastflösku hefur vakið mikla athygli.
Ný aðferð sem krullar hárið á fljótlegan hátt hefur slegið í gegn á samfélagsmiðlum. Aðferðin felst í því að klippa plastflösku til á ákveðinn hátt, setja hárlokk í flöskuna og blása hárið með heitum blæstri í gegnum gat á flöskunni. Blásturinn frá hárþurrkunni veldur því að það krullast upp á hárið innan í flöskunni og útkoman er liðaðir lokkar. Athygli er vakin á að mikilvægt sé að vera með stút framan á hárþurrkunni þegar aðferðin er notuð.
Blaðakona PopSugar prófaði aðferðina í tilraunarskyni en gefur henni ekki beint toppeinkunn. Hún segir útkomuna ekki hafa verið eins og hún hafði vonað. „Að mínu mati er betra að eyða nokkrum auka mínútum í að krulla hárið með krullujárni,“ skrifar hún. Hún bætir við að þetta sé þó skemmtileg aðferð sem vert er að prófa.
Áhugasamir geta skoðað myndbönd sem sýna fólk prófa flöskuaðferðina undir myllumerkinu #blowthebottlechallange á samfélagsmiðlum.
Brad Pitt vill leysa forræðisdeilurnar án þess að fara fyrir dóm og þannig hlífa börnunum.
Leikarinn Brad Pitt er sagður afar áhyggjufullur yfir því að forræðismál hans og leikkonunnar Angelinu Jolie fer fyrir dómstól í byrjun desember. Talið er að málið geti tekið tvær til þrjár vikur.
Pitt mun vera hræddur um að dómsmálið og ferlið í kringum það geti haft skaðleg áhrif á börnin þeirra sex og vill þess vegna að þau Jolie leysi málið sjálf. Heimildarmaður The Blast greindi frá því að Pitt segir Jolie vera „óábyrga“ fyrir að vilja fara með málið fyrir dóm. Hann mun einnig hafa áhyggjur af því að nú séu börn þeirra komin á þann aldur að þau geta lesið fréttir og slúður um forræðisdeilurnar.
Þess má geta að Jolie er sögð fara fram á fullt forræði yfir börnunum en Pitt mun vilja sameiginlegt forræði.
Jolie og Pitt hættu saman í september árið 2016 eftir að Jolie sakaði Pitt um ofbeldisfulla hegðun gagnvart syni þeirra, Maddox.
Konan sem olli dauða fjögurra ára dóttur bandarísku leikkonunnar Ruthie Ann Miles fannst látin í gær. Talið er að hún hafi framið sjálfsvíg.
Dorothy Bruns, konan sem olli dauða fjögurra ára dóttur leikkonunnar Ruthie Ann Miles, fannst látin í gær.
Slysið varð í mars á þessu ári þegar Bruns missti stjórn á bílnum sínum með þeim afleiðingum að bíllinn lenti á Ruthie Ann Miles og fjögurra ára dóttur hennar þar sem þær voru að labba yfir götu í Brooklyn ásamt öðrum. Dóttir leikkonunnar lést í slysinu. Þá var Miles komin sjö mánuði á leið þegar slysið átti sér stað og missti hún fóstrið. Eins árs drengur lést einnig í slysinu.
Við rannsókn málsins kom í ljós að Bruns hafði fengið flogakast rétt áður en hún keyrði á gangandi vegfarendur. Samkvæmt læknisráði átti hún ekki að keyra vegna ýmissa heilsufarsvandamála. Saksóknarar í málinu vöktu athygli á að Bruns hafi ekki farið eftir fyrirmælum lækna og fóru fram á 15 ára fangelsisdóm fyrir manndráp af gáleysi.
Söngkonan Taylor Swift sést í auglýsingum fyrir Hafnartorg.
Margt fólk hefur undanfarið undrað sig á auglýsingaskiltum fyrir Hafnartorg, svæðið sem er að smella saman við höfnina í Reykjavík.
Auglýsingaskiltin sýna hvernig svæðið mun koma til að líta út þegar allt er tilbúið. En það sem vakið hefur athygli er að bandaríska söngkonan Taylor Swift prýðir eitt auglýsingaskiltið sem notað er í kynningu á svæðinu.
Á myndinni má sjá Swift á röltinu um Hafnartorgið í rauðri kápu og horfa inn um búðarglugga. Bent hefur verið á að á upprunalegu myndinni af Swift, sem notuð var í auglýsingaskiltið, er Swift í grænni kápu.
Vakin er athygli á þessu meðal annars á Twitter og í Facebook-hópnum Markaðsnördar. Þar er spurningunni varpað fram hvort einhver trúi því að þetta sé gert með samþykki Taylor Swift.
Það verður mikið um að vera á Bryggjunni Brugghúsi á næstu dögum í tilefni af Iceland Airwaves.
„Síðastliðin þrjú ár hefur verið glæsileg ‘off-venue’ dagskrá á Bryggjunni en í ár verður kvöld-dagskráin í Bruggsalnum formlegur partur af Iceland Airwaves og Bryggjan því svo kallað ‘official venue’ í fyrsta sinn,“ segir í tilkynningu frá Bryggjunni Brugghúsi.
„Eldhús Bryggjunnar verður opið samkvæmt venju á meðan Airwaves stendur og er hægt að panta borð á veitingahúshluta staðarins. Við minnum einnig á brunch-seðilinn okkar sem er í gildi á á laugar- og sunnudögum frá klukkan 11.30 til 15.00.“
Hér fyrir neðan má sjá fjölbreytta dagskrá tónlistarhátíðarinnar Airwaves í Bruggsalnum á Bryggjunni Brugghúsi.
Miðvikudagur – 7. nóvember
00:20 Helgi 23:20 Teitur Magnússon 22:30 Bodypaint 21:40 Árni Vil 20:50 Ingibjörg Turchi 20:00 Madonna + Child
Edda Sif Pálsdóttir flytur frá Furugrund yfir á Fálkagötuna.
Fjölmiðlakonan Edda Sif Pálsdóttir er að flytja úr Kópavogi í Vesturbæ en íbúðin sem hún býr í ásamt kærasta sínum, Vilhjálmi Siggeirssyni, er komin á sölu.
Íbúðin, sem er 56 fermetrar, er í Furugrund í Kópavogi og ásett verð er 32,9 milljónir króna. Íbúðina má skoða á vef fasteignasölunnar en Miklaborg sér um söluna. Þar er íbúðinni lýst sem góðri fyrstu eign í rólegu og grónu hverfi í Kópavogi.
„Þá er þessi dúllubína komin á sölu. Hér er sko gott að vera, gaman að horfa út og geggjað að drekka aperol á svölunum. Svo mælir Fróði með Fossvoginum til göngutúra,“ segir Edda Sif á Facebook.
Í september fjárfestu Edda Sif og Vilhjálmur þá í íbúð á Fálkagötunni í Vesturbæ.
Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves hefst í dag og stendur til 10. nóvember. Hér koma nokkur góð ráð fyrir þá sem ætla á hátíðina.
Settu símann til hliðar – Margt fólk er orðið upptekið af því að ná öllu sem á vegi þess verður á mynd eða myndband og birta á samfélagsmiðlum. Prófaðu að setja símann ofan í vasa eða tösku og reyndu að drekka í þig stemninguna án þess að upplifa tónleikana í gegnum skjáinn. Það nennir hvort sem er enginn að horfa á myndbönd í lélegum gæðum af tónleikum.
Góðir skór – Þetta segir sig sjálft. Það borgar sig að geyma óþægilegu spariskóna heima og klæðast heldur þægilegum skóm á hátíðinni enda þurfa tónleikagestir að ganga á milli tónleikastaða og standa mikið … og örugglega stíga nokkur dansspor.
Kynntu þér dagskrána – Ef þú vilt alls ekki missa af einhverjum tónleikum, borgar sig að skoða dagskrána og undirbúa sig vel. Skipuleggjendur Airwaves leggja áherslu á að tónleikar hátíðarinnar hefjist á réttum tíma og þá er mikilvægt fyrir gesti að mæta tímanlega. Þess má geta að hægt er að sækja smáforrit Airwaves og skipuleggja sig með því.
Skoðaðu veðurspána – Tónleikar hátíðarinnar eru haldnir á um 20 tónleikastöðum víða um bæinn. Það margborgar sig fyrir þá sem ætla að rölta á milli tónleikastaða að vita hvað veðurguðirnir munu bjóða upp á.
Eitt orð hefur verið mér sérstaklega hugfangið undanfarið. Það er orðið „samdauna“. Fáránlegustu hlutir verða hægt og bítandi hversdagslegir ef ekki beinlínis venjulegir.
Hver er ekki farinn að venjast því að Donald Trump sé leiðtogi hins frjálsa heims? Að loftslagsbreytingar séu komnar á fullt og bílar keyri sjálfir?
Orðstofninn er að vísu frekar neikvæður og mætti halda að maður verði bara samdauna því sem leggur daun eða fýlu af. En þetta er miklu víðtækara.
Ég til dæmis er svo sannarlega orðinn samdauna versnandi heyrn á öðru eyra, man aldrei hvoru. Ég er samdauna lélegri sjón og sístækkandi skalla. En ég er líka orðin fullkomlega samdauna þægilegu millistéttarlífi í friðsamlegu landi sem virðir að mestu mannréttindi mín og a.m.k. flestra annarra. Ég er orðinn svo samdauna lífi mínu að mér finnst það dagsdaglega ekkert í frásögur færandi. Svo leyfi ég mér að vorkenna sjálfum mér voða mikið ef bíllin verður bensínlaus eða ég rek tánna í. Ég var einu sinni staddur í eyðimörk í Bandaríkjunum og sá á hitamæli að það var rúmlega 50 gráðu hiti í sólinni sem ég stóð einmitt í. Það var líka óbærilega heitt. Um leið og ég komst í skugga gat ég látið 42 gráðu þurrt loft leika um mig og varð samdauna 42 gráðum eins og ég hefði aldrei upplifað neitt eins svalandi.
Staðreyndin er að við erum snillingar í aðlögun. Við venjumst og aðlögumst stríðum jafnt sem góðærum, ömurlegri tónlist og „sítt að aftan“ tískunni. Ef maður er nógu lengi innan um eitthvað eru allar líkur á að maður verði samdauna og mestar líkur á að maður taki ekki einu sinni eftir því.
Þess vegna er svo mikilvægt að staldra við, pæla í hlutum, velta þeim fyrir sér og mynda sér skoðun á því hvort maður gangi til góðs. Eða sé bara samdauna.
Neytendastofa minnir á að rafretturvörur sem verða á markaði eftir 1. mars 2019, og eru ekki á lista Neytendastofu, verða ólöglegar í sölu.
Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, sem fjallar um hertar reglur um rafrettur var samþykkt á Alþingi í júní. Nýju lögin taka gildi 1. mars 2019 og minnir Neytendastofa á það í færslu sem var birt í dag. Í færslunni er minnt á að ótilkynntar rafrettur verða ólöglegar frá og með 1. mars á næsta ári. Þar kemur fram að allir sem ætli að flytja inn og selja rafrettur og áfyllingar með nikótíni, eftir 1. mars. 2019, verði að tilkynna vörurnar til Neytendastofu.
„Fylla þarf út excel form sem finna má á heimasíðunni, vista það og senda á netfangið [email protected]. Leiðbeiningar um útfyllingu eyðublaðsins er að finna í flipa í excel skjalinu. Neytendastofa metur fjölda gjaldskyldra tilkynninga og sendir upplýsingar um upphæð, reikningsnúmer og bankakostnað á tengilið viðkomandi aðila,“ segir meðal annars.