Kári Valtýsson er ungur lögfræðingur sem í gær sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Hefnd. Umfjöllunarefnið er nýjung í íslenskri skáldsagnaflóru því sagan fjallar um Íslending sem gerist byssubófi í villta vestrinu á árunum eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum.
„Þetta er saga sem byrjar 1866 í Reykjavík og segir frá ungum manni sem kemur sér í vandræði og þarf að flýja til Ameríku,“ segir Kári spurður um söguefnið. „Þar fær hann vinnu við að leggja járnbrautarteina í villta vestrinu og smám saman leiðist hann út í að verða byssubófi.“
Kári segist hafa skrifað lengi og fengið alls konar hugmyndir sem hafi komið og farið en svo var það árið 2015 sem hugmynd festist í hausnum á honum og neitaði að hverfa.
„Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvað hefði verið svo hræðilegt á Íslandi á þessum tíma að fjöldi fólks hafi flúið til Ameríku,“ segir hann. „Ég lagðist í að skoða heimildir og lesa gömul tímarit eins og Þjóðólf, leitaði á söfnum og fann ritgerð eftir Þórberg Þórðarson þar sem hann tók viðtöl við fólk sem var uppi á þessum tíma. Mér fannst þetta svo ótrúlega forvitnilegt að ég fór lengra með þetta og fór að spá í hvað hefði verið að gerast í Bandaríkjunum á þessum tíma. Það var ekkert lítið spennandi, þrælastríðinu nýlokið og verið að reyna að tjasla samfélaginu saman á meðan frægir útlagar og byssubófar óðu uppi. Þetta kveikti í mér og mér datt í hug að búa til sögu um gaur sem þarf að láta sig hverfa af landi brott og flytjast vestur um haf þar sem hann endar á að verða byssubrandur.“
Hollywood-legur hasar og íslenskur veruleiki
Kári segist hafa séð þarna raunhæfa leið til að skrifa óraunhæfa sögu enda hafi hann lengi verið aðdáandi vestra, bæði í kvikmyndum og bókmenntum.
„Maður var ekkert kúreki á öskudaginn þegar maður var lítill að ástæðulausu,“ segir hann og hlær. „Það hefur alltaf blundað í mér áhugi fyrir þessu tímabili og hann hefur bara aukist með árunum. Ég hef lesið mikið af bókum Elmores Leonard, sem fyrir utan að skrifa vestra skrifaði handritin að Jackie Brown og Get Shorty, og svo eru tvær síðustu myndir Quentins Tarantino vestrar sem enn juku áhugann.“
Spurður hvort hann hafi kannski legið í Morgan Kane sem strákur neitar Kári því en segir Hollywood kannski eiga stærstan þátt í því að viðhalda þessum vestraáhuga. En er Hefnd skrifuð í Hollywood-stíl?
„Já og nei,“ segir Kári hugsi. „Hún er náttúrlega full af hasar, sem er kannski innblástur frá Hollywood. Það eru vondir kallar og góðir kallar og margt í mjög hefðbundnum anda vestranna en hins vegar held ég ekki að neinn hafi látið sér detta í hug að láta það ganga upp að setja Íslending í þessar aðstæður. Það sem er ekki Hollywood-legt við söguna eru kaflarnir um Ísland, sem eru stór hluti bókarinnar. Þar er ekki mikil vestrastemning en mér fannst það mjög skemmtilegt og forvitnilegt að skoða það.“
Er söguhetjan þá að rifja upp hvernig lífið var heima á milli þess sem hann er að skjóta fólk?
„Nei, þetta er línuleg frásögn,“ segir Kári. „Bókin byrjar reyndar með skotbardaga á sléttunum í Bandaríkjunum en svo fáum við að vita hvernig söguhetjan komst þangað, hverfum til baka og lærum hvernig lífið hefur leikið hann þangað til hann kemst á þennan stað. Svo heldur sagan af honum í villta vestrinu áfram.“
Skrifar í staðinn fyrir sjónvarpsgláp
Kári er þrjátíu og þriggja ára lögfræðingur í fullu starfi. Ólst upp á Akureyri en býr nú í Vesturbænum í Reykjavík með eiginkonu og tveimur ungum börnum. Hvenær hefur hann tíma til að setjast niður og skrifa í þeim aðstæðum?
„Þetta er spurning sem ég fæ mjög oft frá vinum mínum,“ segir hann hlæjandi. „Mjög góð spurning, í rauninni. Ég nota kvöldin í að skrifa. Sest við skriftir í staðinn fyrir að horfa á bíómyndir eða þætti eða hanga á Facebook. Maður tekur bara kvöldin í þetta þegar maður er í stuði. Ég les alltaf á kvöldin áður en ég fer að sofa og síðustu ár hefur sá lestur verið á heimildum sem tengjast þessum tíma.“
Ungir höfundar kvarta oft yfir að erfitt sé að koma sér á framfæri með fyrstu bók, var það ekkert vandamál fyrir Kára?
„Það var strax áhugi á söguefninu hjá fleiri en einum útgefanda,“ segir hann. „En maður er náttúrlega nýr höfundur og það fylgir því áhætta að gefa út bækur eftir alls óþekkta höfunda, tala nú ekki um einhvern sem er nógu klikkaður til að skrifa íslenskan vestra. En Tómas útgefandi hjá Sögum útgáfu stökk strax á þetta og fannst þetta bara helvíti flott, þannig að áður en ég vissi af var ég búinn að skrifa undir útgáfusamning og setja allt á fullt. Það er bara frábært, enda gamall draumur minn að rætast.“
Ekki gott að verða tæklaður
Bókin kom í búðir í gær, hvernig líður Kára með það að vita til þess að nú fari fólk að lesa hana og leggja á hana mat? Kvíðir hann fyrir?
„Þetta leggst ágætlega í mig,“ segir hann kokhraustur. „Það er auðvitað kvíðablandið að hugsa til þess að einhver sé að lesa bókina mína, en líka ánægjulegt og forvitnilegt þannig að ég er í rauninni bara fullur þakklætis. Ef einhverjum mislíkar bókin þá er það bara partur af ferlinu, það eru aldrei allir sáttir. Ég er mjög glaður með bókina, stend með henni alla leið og vona bara að þetta leggist vel í fólk.“
Og þú munt ekkert fara á taugum þótt gagnrýnendur tæti bókina í sig?
„Það verður ekkert góður dagur ef maður verður tæklaður, ef ég má orða það þannig,“ segir Kári sposkur. „En maður þarf bara að arka í gegnum það eins og annað í lífinu. Það er auðvitað ekki draumur rithöfundar að fá dóm þar sem bókin er tætt niður, það væri miklu meira gaman að fá góða rýni, en við vonum það besta bara.“