Þriðjudagur 12. nóvember, 2024
7.2 C
Reykjavik

Vandar Trump ekki kveðjurnar í nýrri bók

|
|

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú, er ekki aðdáandi núverandi forseta Bandaríkjanna. Hún er óhrædd við að viðurkenna það.

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, vandar Donald Trump Bandaríkjaforseta, ekki kveðjurnar í nýrri bók sinni, Becoming. Í bókinni lýsir hún því meðal annars hvernig hún „hætti að reyna að brosa“ í kringum Trump á opinberum viðburðum á einhverjum tímapunkti, svo illa líkar henni við hann.

Bók Michelle Obama hefur vakið mikla athygli.

Í bókinni segir hún einnig frá því að hún hafi aldrei fyrirgefið Trump vegna ummæla sem hann lét falla árið 2011, þegar Obama var forseti. Þá greindi Trump frá því í viðtali við þáttinn Fox and Friends, að hann efaðist um að Obama væri fæddur í Bandaríkjunum og ætti því ekki að vera forseti. Þá sagðist hann vera undrandi á því að Obama gæti ekki sannað að hann væri fæddur í Bandaríkjunum með því að sýna fram á það með fæðingarskírteini.

Michella segist aldrei ætla að fyrirgefa Trump þessi ummæli. Frá þessu er greint á vef Business Insider.

Þess má geta að sjónvarpskonan og lestrarhesturinn Oprah Winfrey er búin að lesa bók Michelle tvisvar og gefur henni hæstu einkunn.

Snertilausar greiðslur með símanum

Í dag auglýsir Íslandsbanki nýja leið til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Um snertilausar greiðslur í gegnum snjallsíma er að ræða. Á vef Íslandsbanka segir meðal annars: „Með kortaappi Íslandsbanka getur þú greitt með kreditkortinu þínu (frá Íslandsbanka og Kreditkortum) í gegnum símann um allan heim í þeim posum sem bjóða snertilausa virkni. Úttektarheimildir og öll önnur virkni appsins er sú sama og þegar greitt er með greiðslukorti.“

Lausnin er aðeins í boði fyrir þá sem eru með Android-síma. En á vef bankans kemur fram að tækniteymi sé að vinna að því að koma lausninni í gagnið fyrir þá sem eru með iPhone.

Á vef bankans kemur þá fram að mikilvægt sé að gera varúðarráðstafanir áður en viðskiptavinir byrja að nota þessa nýju greiðslulausn. „Þegar þú velur að borga með símanum þarftu að auðkenna þig fyrir símtækinu með PIN-númeri, fingrafari eða andlitsskanna. Ef upp kemur einhver grunur um svik á snertilausum greiðslum í gegnum símann þinn skaltu tilkynna Íslandsbanka það strax til að stofna endurkröfu um viðskiptin,“ segir á vef bankans.

Til gamans má geta að hljómsveitin Bjartar sveiflur er í aðalhlutverki í auglýsingum fyrir þessa nýju lausn.

Mynd / skjáskot af vef Íslandsbanka

Íslenskar mæðgur í hugljúfri bandarískri auglýsingu

Bandaríska föndurbúðin Hobby Lobby auglýsir 50% afslátt í hugljúfri auglýsingu sem tekin er upp á Íslandi.

Leikkonan Álfrún Helga Örnólfsdóttir og dóttir hennar fara með aðalhlutverk í nýlegri auglýsingu bandarísku föndurbúðarinnar Hobby Lobby. Í auglýsingunni er verið að auglýsa 50% jólaafslátt á afar hugljúfan hátt.

Leikarinn Friðrik Friðriksson, eiginmaður Álfrúnar, vekur athygli á auglýsingunni á Facebook-síðu sinni og Twitter.

Auglýsingin, sem er hér fyrir neðan, hefur fengið rúmlega 970.000 áhorf á YouTube.

Undanrenna með klökum í uppáhaldi

Söngkonan Elísabet Ormslev hefur undanfarið komið fram með sönghópnum GRL PWR með lögum sem Kryddpíurnar gerðu vinsæl fyrir allnokkru. Einnig er hún með EF-plötu í smíðum sem kemur út snemma næsta ár. Við spurðum Elísabetu út í uppáhaldshlutina hennar.

Uppáhalds …

-kaffihús: Stofan.

-skyndibiti: Dominos. Engin keppni þar.

-drykkur: Undanrenna með klökum. Ekki öskra á mig.

-líkamsrækt: Fótbolti eða spinning-tímar.

-afþreying: Allt sem tengist tónlist og vinum mínum.

-sjónvarpsþáttur: Handmaid’s Tale, Game of Thrones, The Walking Dead, Dexter og Friends.

-farartæki: Draumafarartækið er allavega Jeep Wrangler sem ég er ekki enn búin að eignast.

-heimilisverk: Að vaska upp. Fyrirlít allt annað. Sorrí, mamma.

-fjall: Herðubreið.

-staður á Íslandi: Stykkishólmur. Líður alltaf ógurlega vel þar.

-tónlistarmaður: Allt of margir til að velja bara einn en sú tónlistarkona sem ég hlusta mikið á og fíla hvað mest hvað varðar „production“ og ytri ímynd þessa dagana er Ariana Grande.

-sælgæti: Lakkrís. Allt með lakkrís.

-flík: Leðurjakkinn minn

-árstíð: Haust

Mynd / Heiða Helgadóttir

Topp fimm Hörpu Kára

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Förðunarfræðingurinn Harpa Káradóttir segir lesendum frá þeim snyrtivörum sem eru í uppáhaldi hjá henni þessa stundina.

Stök gerviaugnhár: Ég mála mig dagsdaglega frekar lítið en ég er eiginlega orðin háð því að notast við 2-3 stök gerviaugnhár á sitthvort augað.

Þessa stundina hefur Harpa verið að nota vörur frá Origins.

Næturmaski. Ég nota næturmaska um tvisvar sinnum í viku. Þannig finnst mér ég ná að viðhalda ljómandi húð. Þessa stundina hef ég mikið notast við vörur frá Origins.

Carmen-rúllurnar mínar. Annan hvern dag nota ég carmen-rúllur í hárið á mér. Ég sé ekki sólina fyrir þeim og er búin að nota tvö sett síðustu sautján ár.

Ilmvatnið mitt er Tom Ford-Black Orchid. Ég er búin að nota það í mörg ár. Það er því miður ekki selt á Íslandi og oft erfitt að fá það þannig að ég reyni að eiga lager af því heima.

Black Orchid frá Tom Ford er Hörpu ómissandi.

Stone-varablýantur frá MAC. Ég nota hann daglega. Blýanturinn er í köldum brúnum tón og passar mjög vel við alla ljósa varaliti.

Uppáhaldsförðunar-trendið? „Ég er mjög hrifin af þessu af þessu ljósbrúna og nude matta trendi sem að er búið að vera í gangi. Það passar mjög vel við mig og að mínu mati klæðir flestalla.“

Sjá nánar: Bak við góðan árangur liggja miklar fórnir

Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Sópum mölbrotnum konum undir teppið“

Gulldrengirnir og heiðursmennirnir, kláru karlarnir og góðu strákarnir, sem eru svo mikil góðmenni og myndu aldrei gera flugu mein. En voru ásakaðir um kynferðisbrot.

Hvað gerist þá? Ímyndin af brosandi gulldreng sem skemmtir svo mörgum, eða heiðursmanni í fínum jakkafötum með flotta háskólagráðu, hún passar ekki inn í steríótýpuna af kynferðisbrotamanni – sem er skítugur, eflaust fullur, helst þekktur fyrir að vera skíthæll. Gulldrengirnir passa ekki inn í þetta fyrirframgefna samfélagsmót, hafa ekki þessa hentugu ímynd sem gerir fólki kleift að hata þá. Því kynferðisbrotamenn hljóta að vera skrímsli.

Í stað þess að leyfa brotaþola njóta vafans fer fólk að leita að ástæðum til að kenna henni um. Þau höfðu heyrt að hún væri svo klikkuð. Alltaf að ljúga. Hann hefur aldrei gert svona við mig. Hvað var hún annars að gera þarna svona seint um kvöld? Var hún ekki að reyna við hann? Hún er nú ekkert smábarn, óþarfi að gera læti úr smákáfi. Svona klædd, hún augljóslega vildi athygli. Saklaus uns sekt er sönnuð!

En kynferðisbrotamenn eru ekki skrímsli. Þetta er staðreynd sem fólk á erfitt með að átta sig á. Nýjasta herferð Stígamóta, #allirkrakkar, spyr: vilt þú vera foreldri þolanda, eða geranda? Á fólk auðveldara með að horfast í augu við að einhver náin þeim hafi verið beitt ofbeldi, heldur en að einhver náinn þeim sé gerandinn? Þetta köllum við skrímslavæðingu. Þegar við getum ekki hugsað okkur að einhver sem okkur þykir vænt um gæti gert eitthvað ófyrirgefanlegt.

Tilhneigingin er þá að ráðast á brotaþola. Við erum vön því að sópa mölbrotnum konum undir teppið og skipa þeim að þegja því þessir heiðursmenn eru með „mannorð“ sem má aldrei „myrða“, eða að við megum ekki ganga „of langt“ í gagnrýninni, því þeir eru eftir allt saman engin skrímsli. En skrímslin eru ekki til. Bara menn.

Síðast en ekki síst / eftir Elísabetu Ýri Atladóttur 

Himinninn fallegasti liturinn

Heimsþekkti tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds gaf út sína fjórðu breiðskífu nú á dögunum og ber hún nafnið, re:member. Þeir sem þekkja Ólaf vita að hann er afar nægjusamur maður sem er alltaf á ferð og flugi, en við fengum þó að forvitnast um hvað væri efst á óskalistanum hans um þessar mundir.

Mynd af Ólafi Arnalds / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Jielde-lampar.

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? Original rauðleiti Mah Jong-sófinn frá Roche Bobois.

Er eitthvert ljós eða lampi á óskalistanum þínum? Alltaf fleiri Jielde-lampar.

Hver er draumaferðin þín? Ég elska að skoða staði sem fólki dettur ekki í hug að fara til. Ég er heillaður af Miðausturlöndum og langar að skoða fleiri svæði þar. Norðurhluti Pakistan er hátt á listanum en ég hef bara komið til Lahore.

Ólafur væri sáttur með vespu.

Hvaða bíll er á óskalistanum og hvers vegna? Eitthvað sem mengar sem minnst. Mig langaði í Teslu þangað til Elon Musk tók of mikið af sýru og fór á egótripp. Nei, mig langar reyndar enn þá í Teslu. En væri alveg jafnsáttur með vespu.

Finnbogi Pétursson er í uppáhaldi hjá Ólafi.

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? Finnbogi Pétursson er líklega uppáhalds íslenski listamaðurinn minn. En ég veit ekki hvernig ég kæmi verkunum hans heim til mín eða hvort ég myndi vilja búa með þeim.

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? Ostaskera.

Fallegasta bygging á Íslandi? Ráðhús Reykjavíkur. Fallegasti grái steypuklumpur sem ég hef séð og hvernig húsið liggur ofan í tjörninni er alveg frábært.

Áhrifaríkasta bók eða bíómynd? Ég er ekki alveg hlutlaus en Lof mér að falla er með áhrifaríkari myndum sem ég hef séð. Fyrir nokkrum árum las ég svo bók um Flow State eftir Mihály Csíkszentmihályi sem breytti lífi mínu og sköpunarferli algjörlega.

Besta kaffihúsið? Micro Roast í Aðalstræti er minn staður.

Flottasti veitingastaðurinn? ÓX, minnsti veitingastaður á Íslandi og besti matur sem ég hef borðað.

Fallegasti liturinn? Himinninn.

„Landsfeðurnir hreinsa ávallt sig og sína“

|
|

Linda Vilhjálmsdóttir skáld sendi nýlega frá sér sína sjöundu ljóðabók, Smáa letrið. Hún einkennist af femínískum byltingarljóðum um formæður og fjallkonur, dömur og druslur – konur fyrr og nú, „dæmdar í óskráða ánauð / allar sem ein“.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Smáa letrið er um konur af minni kynslóð og þær sem á undan og eftir mér komu,“ segir Linda. „Hún er um það hvernig við reynum í sífellu að laga okkur að heimi sem tekur lítið eða ekki tillit til okkar þarfa og vilja – og gerir okkur erfitt eða ókleift að nota og rækta hæfileika okkar til að búa í haginn fyrir okkur sjálfar, fjölskyldur okkar og vini. Hún er um það hvernig feðraveldið hefur gert samfélag okkar ómanneskjulegt og hvernig landsfeðurnir hreinsa ávallt sig og sína þegar spillingin kemur í ljós og rísa svo upp á ný tvíefldir, falskari og grimmari en fyrr.“

„Hún er um það hvernig feðraveldið hefur gert samfélag okkar ómanneskjulegt og hvernig landsfeðurnir hreinsa ávallt sig og sína þegar spillingin kemur í ljós og rísa svo upp á ný tvíefldir, falskari og grimmari en fyrr.“

Hugmyndin að ljóðunum kom til Lindu þegar hún fann loksins sína eigin leið að femínismanum. „Þegar ég fylgdist með kvennamarsinum mikla í Bandaríkjunum í beinni útsendingu daginn sem núverandi forseti var settur inn í embætti þar vestra.“

Smáa letrið.

Rökrétt framhald
Síðasta bók Lindu, ljóðabókin Frelsi sem út kom 2015, hlaut einróma lof gagnrýnenda og einstakar viðtökur lesenda. Hún var verðlaunuð bæði heima og erlendis og meðal annars tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Einnig hlaut Linda verðlaun fyrir pólska þýðingu Frelsis á bókmenntahátíðinni „Evrópsk frelsisskáld“ vorið 2018. „Mér finnst hver bók vera í rökréttu framhaldi af þeirri sem á undan kom. Alveg frá því ég byrjaði að skrifa ljóð hefur það verið takmark mitt að gera þau þannig úr garði að engum sem byrjar að fletta í gegnum þau finnist þau óskiljanleg eða hátimbruð. Að einfalda þau eins mikið og hægt er þannig að merkingin komist vel til skila án þess að það bitni á ljóðrænni og listrænni framsetningu.“

Örlítið brot af fámennri þjóð

||
||
Svava Jónsdóttir blaðamaður fékk hugmyndina að bókinni þegar fjallað var um samkeppni um hugmyndir að verkefnum tengdum aldarafmæli fullveldisis.

Ýmislegt er gert vegna aldarafmælis fullveldisins og þar á meðal er bók sem er hugmynd Svövu Jónsdóttur blaðamanns. Í bókinni Aldarspegill: Íslendingar 1918-2018. Myndir af þjóð eru myndir af Íslendingum sem fæddust 1918-2018, einn fyrir hvert ár, auk þess sem landslagsmyndir eru í bókinni. Friðþjófur Helgason tók myndirnar.

„Hugmyndin kviknaði bókstaflega á sekúndubroti eða rúmlega það,“ segir Svava þegar hún er spurð um tilurð bókarinnar. „Ég sat í fyrrahaust fyrir framan sjónvarpið þar sem fjallað var um væntanlega samkeppni þar sem fólk gat sent inn hugmyndir að verkefnum tengdum aldarafmæli fullveldisis og þessi ártöl komu upp í hugann: 1918-2018 og ljósmyndir af fólki fætt á þessu tímabili – einn fyrir hvert ár. Ég efast um að fimm sekúndur hafi liðið þar til hugmyndin var næstum fullmótuð. Kannski tíu.“

Svava hafði samstundis samband við útgáfufélagið Tind og boltinn fór að rúlla. „Útgefandinn fékk Friðþjóf Helgason til liðs við okkur en hann er frábær ljósmyndari og einstaklega elskulegur maður. Ég vildi hafa landslagsmyndir að auki og Friðþjófur á stórkostlegt safn af slíkum myndum og er lítið brotabrot af þeim í bókinni okkar. Gaman er að sjá flottu myndirnar hans á prenti.“

Almennt jákvæð sýn á landið
Svava lagði áherslu á að hluti þátttakenda væri fólk sem hefði verið áberandi á tímabilinu sem um ræðir, eins og stjórnmálamenn, fólk í viðskiptalífínu, íþróttamenn og listamenn. Á meðal þátttakenda eru Ólafur Ragnar Grímsson, Katrín Jakobsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Hermann Hreiðarsson, Jóhanna Guðrún, Ari Eldjárn, Ólafur Stefánsson, Gísli Marteinn Baldursson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Svava Johansen, Hilmar Örn Hilmarsson og Bjarni Felixson. Fyrirsæturnar á bókarkápunni eru elsti og yngsti þátttakandinn. Hún fæddist árið 1918 og hann árið 2018.

„Minnist ég sérstaklega eldri manns sem ég tók viðtal við en ég heimsótti hann stuttu síðar til að lesa viðtalið fyrir hann. Hann lést þá um kvöldið.“

Textinn í bókinni er á íslensku og ensku. Hver þátttakandi, nema yngstu börnin, svarar einni spurningu: Hvað er Ísland í huga þínum? „Munurinn á svörum þátttakenda er í raun ekki mikill að því leyti hvað þeir hafa almennt jákvæða sýn á landið sitt. Það vakti athygli hvað Íslendingar eru stoltir af landinu sínu. Þá er gaman að svörum krakkanna sem mörg hver eru krúttleg en yngsti þátttakandinn sem svarar spurningunni fæddist árið 2012. Það vakti athygli mína að sum börnin taka fram að hér á landi sé ekkert stríð, fyrir utan að hér eru engar hættulegar flugur eða tígrisdýr. Svo var til dæmis gaman að taka viðtöl við elstu þátttakendurna sem eru elskulegt fólk upp til hópa og minnist ég sérstaklega eldri manns sem ég tók viðtal við en ég heimsótti hann stuttu síðar til að lesa viðtalið fyrir hann. Hann lést þá um kvöldið. Ég vildi að hann yrði samt sem áður í bókinni en vildi ekkert gera í því að fyrra bragði en svo fékk ég skilaboð um að fjölskylda hans óskaði eftir því og þykir mér vænt um það. Ekki var búið að taka mynd af honum þegar hann kvaddi þetta líf og er því í bókinni mynd af ljósmyndum af honum.“

Myndatexti: Í bókinni Aldarspegill: Íslendingar 1918-2018. Myndir af þjóð eru myndir af Íslendingum sem fæddust 1918-2018, einn fyrir hvert ár.

Bókin er fallegur minjagripur í tengslum við fullveldisafmælið og að sögn Svövu sýnir hún örlítið brot af fámennri þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi. „Ég vildi hafa textann líka á ensku og geta þá útlendingar sem skilja það ágæta tungumál lesið svör Íslendinganna um landið sitt og jafnvel kynnst því hvað Íslendingar eru samheldin þjóð en það vitum við jú að svo er þegar á reynir.“

Myndir úr bók / Friðþjófur Helgason
Mynd af Svövu / Geir Ólafsson

Skonsur sem gleðja

Umsjón: Kristín Dröfn Einarsdóttir Stílisti: Ólöf Jakobína Ernudóttir|
|

Breskar skonsur (scones) er fljótlegt að útbúa og gaman að baka. Það er eitthvað svo notalegt við nýbakaðar skonsur og tekur innan við 20 mínútur að skella í einföldustu gerð. Hægt er að leika sér endalaust með uppskriftirnar og bæta við því sem hugurinn girnist, t.d. súkkulaði, ávöxtum og hnetum.

 

Til þess að skonsurnar verði léttar í sér er mikilvægt að hræra og hnoða deigið eins lítið og kostur er. Gott viðmið er að hræra þurrefnin og vökvann létt saman með skeið eða sleif 5-10 sinnum og hnoða síðan 5-10 sinnum á hveitustráðu borði. „Less is more“ eins og maðurinn sagði.

HESLIHNETUSKONSUR MEÐ FÍKJUM OG DÖÐLUM
12 stk.

2 ½ dl hveiti
2 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. kardimommuduft
½ tsk. kanill
60 g kalt smjör, skorið í litla bita
u.þ.b. 100 g þurrkaðar döðlur og fíkjur, skornar í litla bita
30 g heslihnetur, gróft skornar
börkur af ½ appelsínu
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 dl mjólk
1 tsk. eplaedik

Hitið ofn í 180°C. Sigtið þurrefnin saman í skál og bætið smjörbitum út í og myljið saman við með fingrunum þar til blandan líkist grófri brauðmylsnu. Eins er hægt að nota matvinnsluvél eða hrærivél. Bætið döðlum, fíkjum og hnetum saman við ásamt appelsínuberki.

Blandið saman hunangi/agave-sírópi, mjólk og eplaediki í lítilli skál og bætið út í þurrefnablönduna. Hrærið létt saman eða þar til deigið fer að hanga saman. Fletjið út u.þ.b. 3 cm þykkt og skerið í hæfilega bita.

Penslið með eggi og bakið í u.þ.b. 20 mín. eða þar til skonsurnar hafa tekið fallegan lit.

Penslið skonsurnar með eggi til þess að fá fallega gylltan lit á þær við bakstur.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Ósk Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Steldu stílnum: Kate Moss

Kate Moss er þekkt fyrir áreynslulausa og rokkaða förðun og útlitið er fyrir löngu orðið að klassík. Blaðamaður Vikunnar mælir hér með réttu vörunum til þess að stela stílnum frá goðsögninni.

Kate Moss er ekki þekkt fyrir að vera með sjáanlegan farða á húðinni, heldur leyfir hún freknunum að njóta sín en meira rokk og róli að vera með smokey-förðun þegar farða er haldið í lágmarki. Við mælum með Face and Body frá MAC til að fá áreynslulaus útlit, ljóma og jafnari húðlit. Farðinn helst vel á og smitast ekki í föt ef hann er notaður á líkamann.

„Un“cover-up-hyljarinn.

„Un“cover-up-hyljarinn hefur átt miklum vinsældum að fagna enda einstaklega náttúruleg áferðin á honum, í anda Kate Moss-stílsins. RMS-vörurnar eru til sölu á Mstore.is.

Long-wear cream shadow stick.

Kate er þekkt fyrir svolítið sjúskaða Smokey-förðun. Við mælum með augnskuggapenna eins og Long-wear cream shadow stick frá Bobbi Brown yfir allt augnlokið og allt í kringum augun. Svo er gott að nota eyrnapinna með örlitlu af vaselíni til þess að blanda línurnar aðeins.

Slide On-augnblýantinn.

Smokey er ekki fullkomnað nema með kolsvörtum eyeliner. Við elskum Slide On-augnblýantinn frá Nyx. Nuddaðu honum inn á milli augnháranna og settu helling á vatnslínu augnanna. Það gerist ekki miklu kynþokkafyllra.

Sólarpúður frá Chanel.

Gefðu húðinni náttúrulega sólkysst útlit með blauta sólarpúðrinu frá Chanel. Notaðu stóran farðabursta með gervihárum og nuddaðu því vel inn í húðina, í kringum andlitið og yfir nefið.

Notaðu náttúrulegan highlighter í anda Shimmering Skin Perfector frá Becca. Niður nefið, á kinnbein, fyrir ofan efri vör og aðeins á viðbeinin og axlirnar, ef þú ert í stuði.

Lasting Finish-varalitur.

Dúmpaðu Lasting Finish-varalitnum frá Rimmel úr Kate Moss-línunni í litnum Boho Nude yfir varirnar og nuddaðu vel inn. Smokey-förðun og nude-varir eru besta tvennan.

Grandiôse Extrême-maskarinn.

Kate er óhrædd við að nota mikinn maskara. Grandiôse Extrême-maskarinn frá Lancôme er í algeru uppáhaldi hjá okkur til þess að þykkja augnhárin margfalt. Ekki hafa áhyggjur af því ef hann klessist, það er bara betra.

„Fíla allt sem er nógu ljótt til þess að vera flott“

„Ég keypti þennan appelsínugula bol í London um daginn og nota hann mjög mikið. Þessir litir eru svo glaðir! Svo var hann líka mjög ódýr, sem gerir góð kaup enn betri!“ Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Katrín Helga Andrésdóttir, myndlistar- og tónlistarkona, spilar með hljómsveitunum Reykjavíkurdætrum og Sóleyju en um þessar mundir leggur hún aðaláherslu á sólóverkefnið Special-K. Þar sameinar hún myndlist og tónlist til að skapa sem heildstæðastan heim. Það nýjasta er sjónræn EP-plata frá Special-K sem heitir I Thought I’d Be More Famous by Now.

„Ég keypti þennan appelsínugula bol í London um daginn og nota hann mjög mikið. Þessir litir eru svo glaðir! Svo var hann líka mjög ódýr, sem gerir góð kaup enn betri!“

Þegar talið berst að fatastíl segir Katrín smekkleysu í bland við pastel einkenna sig. „Ég fíla allt sem er nógu ljótt til að vera flott. Þessa stundina vinn ég mikið með einhvers konar alien, weird, kitch og sakleysislegan en samt kinkí karakter. Ég geri yfirleitt bestu kaupin í vintage-búðum í útlöndum.“
Katrín Helga segist fyrst og fremst sækja innblástur í leikgleði. „Franska tónlistarkonan Soko veitir mér innblástur bæði í tónlistarsköpun og fatastíl. Hún er ótrúlega svöl í bland við að vera barnslega frjáls. Hún klæðist gjarnan litríkum og tilraunaglöðum fötum, er bæði persónuleg og chic.“
Efst á óskalista Katrínar er flugmiði til LA, en annars langar hana líka í kúrekastígvél. Þegar hún er spurð að því hvað allar konur á Íslandi ættu að eiga í fataskápnum sínum svarar hún: „Föðurland, það er kalt á Íslandi.”

„Ég elska þessa skó sem ég keypti í Tókýó fyrir hálfu ári síðan.“ Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Reykjavík árið 2038

Hvernig viljum við sjá Reykjavík árið 2038? Það ár verða þeir sem eru að byrja í grunnskóla í vetur u.þ.b. að ljúka háskólanámi eða farnir út á vinnumarkaðinn. Heimurinn verður talsvert breyttur og við getum núna lagt grunninn að þeirri framtíð sem við viljum. Tölvutæknin er að breyta starfsháttum okkar mikið. Almennt er fólk sammála um að í þeim breytta heimi sé best að undirbúa börnin okkar með frekari áherslu á sköpun, sjálfstæði í hugsun og á listir. Að geta unnið með öðru fólki, tjáð sig og leyst ný viðfangsefni.

Sú skólastefna sem nú er í mótun hjá Reykjavíkurborg er í þessum anda. Það eru því ákveðin vonbrigði að sjá samdrátt í þessum geira í nýrri fjárhagsáætlun. Til að við getum náð árangri er nauðsynlegt að fjármagnið fylgi þeirri stefnu sem stefnt er að. Það er ekki nóg að hafa stefnu ef ekki er siglt í rétta átt. Við erum ríkt samfélag og eigum að hætta að vera fimm árum á eftir þeim sem við berum okkur saman við. Miklu nær er að nýta smæð samfélagsins og sterka innviði þannig við séum leiðandi. Það á svo sannarlega við um framsækna skóla þar sem lögð er áhersla á sjálfstæði einstaklingsins og þroska hans til að vinna með öðrum.

Framtíðin liggur í því að vernda náttúruna og umhverfið

Annað atriði sem við gerum sífellt ríkari kröfur til er umhverfið. Með nýrri tækni getum við minnkað mengun og sóun gríðarlega. Hér getur Reykjavík gert betur. Ekki bara með flokkun og endurvinnslu. Heldur ekki síður með því að auðvelda til muna rafbílavæðingu og auðvelda sjálfkeyrandi bílum að komast innan borgarinnar. Þetta er eitt af því sem getur orðið til þess að Reykjavík verði öruggari og hreinni. Líkt og þegar Nokia laut í lægra haldi fyrir iPhone eru sjálfkeyrandi rafmagnsbílar líklegir til að taka við af bensínbílum og dísilstrætó.

Þá er rétt að horfa til þeirra borga sem hafa hvað mesta aðdráttaraflið eins og New York og London þegar kemur að grænum svæðum. Eftirsóttustu íbúðirnar á Manhattan eru ekki við Wall Street, heldur við Central Park. Græn svæði eru æ verðmætari fyrir borgarlífið. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til friðlýsingu Elliðaárdalsins en þar er nú áformuð atvinnustarfsemi með hundruðum nýrra bílastæða. Við höfum lagt til að horfið verði frá blokkum í Laugardalnum sem nú eru á aðalskipulagi.

Þegar við leggjum grunninn að Reykjavík eftir tuttugu ár eru þetta allt atriði sem skipta sköpum. Framtíðin liggur ekki í bröggum eða þungu og dýru stjórnkerfi. Framtíðin liggur í því að vernda náttúruna og umhverfið. Undirbúa börnin okkar undir breyttan heim. Og nýta tæknina til að borgin okkar sé samkeppnishæf við þær borgir sem við teljum bestar. Þannig eigum við að undirbúa Reykjavík fyrir árið 2038.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Mikilvægt að sleppa aldrei kröfum um gæði“

Kristján Örn er einn af fjórum stofnendum og eigendum arkitektastofunnar KRADS.

Kristján Örn er einn af fjórum stofnendum og eigendum arkitektastofunnar KRADS ásamt þeim Kristjáni Eggertssyni, Mads Bay Møller og Kristoffer Juhl Beilman. KRADS stofnuðu þeir félagar árið 2006 í Danmörku og á Íslandi. Við fengum Kristján til þess að veita okkur innsýn í arkitektúr á Íslandi í dag.

Hvaða straumar og stefnur eru mest áberandi í arkitektúr í dag? „Þegar ég var í námi í Danmörku var bæði ákveðin tegund mínimalsma áberandi og svo hollenski skólinn og sú stefna sem stundum er nefnd súpermódernismi. Konseptið skipti þar mestu máli en minni áhersla var til dæmis lögð á að draga fram staðbundinn karakter, sögu, handverk og annað slíkt í arkitektúrnum – sem er farið að bera meira á aftur, að minnsta kosti hér á Norðurlöndunum. Eins virðist áhuginn á hinum svokölluðu „stjörnuarkitektum“ fara minnkandi og umræðan frekar farin að snúast um mikilvæg gildi eins og vistvæn gildi og samfélagslegt ábyrgðarhlutverk þeirra sem móta hið manngerða umhverfi. Þetta sést til dæmis glögglega á þema tveggja síðustu Feneyjartvíæringanna. Sjálfur hef ég skilgreint mig sem brútal mínimalista eða mínimal brútalista, í ákveðinni blöndu af öllu ofangreindu.“

Hvaða arkitekt/hönnuður hefur veitt þér mestan innblástur í störfum þínum? „Þar gæti ég nefnt marga meistara, eins og t.d. Arne Jacobsen frá Danmörku, Kenzo Tange frá Japan eða Oscar Niemeyer frá Brasilíu. Ég held að ég verði þó að segja að svissnesku arkitektarnir Herzog & de Meuron hafi haft hvað mest áhrif á mig bæði í náminu og í fagumhverfinu. Þeir hafa alltaf nálgast hvert verkefni á ólíkan hátt, haft auga fyrir smáatriðum og efniskennd og geta unnið með smá, miðlungsstór og risastór verkefni af sömu næmni. Verk þeirra eru jafnólík og staðirnir sem þeir hafa unnið með.“

Einbýlishús í Randers, Danmörku, hannað af KRADS arkitektum og hlaut Arkitektaverðlaun Randers árið 2013. Myndir: Runólfur Geir Guðbjörnsson.

Hvar standa Íslendingar á heimsvísu hvað varðar arkitektúr og samkeppnishæfni? „Það eru margar góðar arkitektastofur á Íslandi. Margar þeirra eru litlar og ungar stofur sem mættu gjarnan fá fleiri tækifæri til að spreyta sig við stærri verkefni – það myndi sannarlega bæta stöðu okkar hvað varðar arkitektúr og samkeppnishæfni. Ég vil nota tækifærið og gagnrýna ákveðna fljótfærni og íhaldssemi í byggingargeiranum, sérstaklega þegar kemur að uppbyggingu fjölbýla og umhverfis þeirra á Íslandi. Þar virðist þemað oftast vera; hratt, auðvelt og ódýrt. Góð uppbygging þarf ekki að vera kostnaðarsöm og hún þarf ekki endilega að vera erfið. En hún er sjaldan hröð. Það þarf að gefa sér tíma að hugsa, og hanna, hlutina til enda áður en farið er af stað. Góð hönnun getur sparað í uppbyggingu, gert byggingar hagkvæmari í rekstri og skapað margvísleg aukin verðmæti. Langtímahugsun virðist oft gleymast hér á landi og við mættum horfa til nágrannalanda okkar í ríkari mæli hvað gæði snertir. Hér á landi er einblínt um of á kostnað pr. fermetra, fáir vandaðir og dýrari fermetrar geta verið hagkvæmari en margir ódýrir af litlum gæðum.“

Sumarhús í Kiðjabergi eftir KRADS arkitekta. Myndir: Marino Thorlacius.

Hvað er mikilvægast þegar kemur að góðri hönnun og hvað ber að varast? „Mikilvægast þykir mér að gefa sér góðan tíma og vanda til hvers þess verks sem maður tekur sér fyrir hendur. Við hönnun er nauðsynlegt að skoða og prófa margar mismunandi útfærslur sem koma til greina svo hægt sé að finna þá bestu, þetta tekur tíma. Einnig er gríðarlega mikilvægt, að mínu mati, að velja góð efni, efni sem fá að eldast og veðrast fallega, þannig gerum við byggingar og rými sem bæði endast og eldast vel. Það sem ber að varast, að mínu mati, er þessi dýrkun á viðhaldsfríum lausnum í hinu og þessu. Ég tel það hreinlega nauðsynlegt að byggingar hafi viðhald upp að vissu marki. Við þurfum að sýna okkar nánasta umhverfi umhyggju og virðingu, megum ekki enda í plastísku ofneyslusamfélagi þar sem einnotalausnir eru allsráðandi. Við getum lært mikið af okkur eldri kynslóðum sem keyptu sér eina vandaða hrærivél, hún var dýru verði keypt en dugði þeim alla þeirra ævi og situr jafnvel á eldhúsborði okkar kynslóðar í dag.“

 

Siðblind, sturluð og illa innrætt

Húsnæðismálin verða stór lykill að komandi kjaraviðræðum og hluti af lausninni. Þetta sagði forseti ASÍ í fréttum eftir að hafa fundað með öðrum fulltrúum launþega, atvinnurekenda, sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í vikunni og undir þau orð tóku fleiri á fundinum. Tekjugrunnur samfélagsins var líka ræddur að sögn viðstaddra og sitthvað fleira.

Mikið var nú gott að fá þarna yfirvegaða skýringu á stöðunni því eftir að stærstu stéttarfélögin lögðu fram kröfugerðir sínar á dögunum hefur umræðan verið svo heiftúðug að það hefur verið svolítið erfitt að átta sig á því um hvað málið raunverulega snýst. Dylgjur og ásakanir um óheiðarleika og illan ásetning hafa gengið á víxl. Fólk hefur verið sakað um að vera gráðugt, siðblint, þjófótt, sturlað, viðbjóðslegt, illa innrætt og þaðan af verra. Á einum stað var manneskja nánast vænd um að vera undirrót alls ills af því að hún skaut föstum skotum á leiðtoga stéttarfélags í pistli.

Umræðan hefur verið svo dramatísk á köflum að hún hefur frekar minnt á upphlaup í unglingapartíi en skoðanaskipti fullorðins fólks. Samlíking sem væri kannski í aðra rönd skondin ef þessi umræða hefði ekki verið svona rætin og ljót og ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að hér eiga hlut að máli aðilar sem hafa meðal annars valist í þau ábyrgðarfullu störf að sitja við samningaborðið í viðræðum sem munu hafa gríðarleg áhrif á allt og alla í samfélaginu.

Auðvitað er skiljanlegt að fólki, til dæmis forystufólki stéttarfélaganna, verði heitt í hamsi og það láti í sér heyra. Að það skuli berjast fyrir því að störf launafólks í landinu séu metin að verðleikum og hlutur hinna verstu settu í þjóðfélaginu sé réttur af. Það er ekkert athugavert við að vilja bæta samfélagið. Og það er heldur ekki óeðlilegt að „hin hliðin“ skuli tjá sig um málið. Að einhverjir segist hafa áhyggjur af því að ekki verði í öllum tilfellum hægt að standa undir launakostnaði nái kröfurnar fram að ganga. Og að einhverjir hafi áhyggjur af því að miklar launahækkanir kunni að leiða til aukinnar verðbólgu í þjóðfélaginu. Vitanlega hafa menn fullt frelsi til að tjá skoðanir sínar og gera það eins og þeim sýnist. En halda þeir virkilega að það muni hjálpa til að hlaupa upp til handa og fóta í hvert sinn sem einhver á öndverðri skoðun við þá sjálfa stingur niður penna eða opnar á sér munninn, „tjúllast“ svo gripið sé til vel þekkts orðs í umræðunni og hrauna yfir viðkomandi. Að það muni einhvern veginn liðka fyrir viðræðunum að vera með skítkast og leiðindi.

Fram undan eru strembnar kjaraviðræður. Vonandi ber viðsemjendum gæfa til að einblína á aðalatriðin. Halda sig við það sem máli skiptir og láta ómerkilegar dylgjur og ásakanir sér sem vind um eyru þjóta. Það er mikið í húfi og smásmugulegt þref hjálpar ekki til.

Ekkja plastbarkaþegans fær ekki greiddar bætur

Karolinska-háskólasjúkrahúsið hefur sent lögfræðingi ekkju Andemariams Beyene í Svíþjóð bréf um að hún muni ekki fá bætur greiddar frá sjúkrahúsinu. Kemur þetta verulega á óvart þar sem talsmaður sjúkrahússins hafði áður lýst yfir að hún fengi bætur.

MM Samkvæmt Merhawit Baryamikael Tesfalase, ekkju Andemariams Beyene, fyrsta plastbarkaþegans, mun hún ekki fá bætur frá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var framkvæmd en hún segir að því hafi áður verið lýst yfir af talsmanni sjúkrahússins í viðtali í fjölmiðlum að fjölskylda Andemariams Beyene fengi bætur.

„Þetta er mér næstum ofviða ofan á allt sem hefur gengið á. Ef Andemariam hefði farist í bílslysi, hefði allt verið mun auðveldara. Þá hefðu hlutirnir legið fyrir, en þetta mál hefur elt mig í fimm ár og ætlar engan enda að taka. Ég get ekki lýst því hvað ég er vonsvikin,“ segir Merhavit Baryamikael Tesfalase um efni bréfsins.

Fékk eingöngu afsökunarbeiðni

Merhawit segir að talsmaður Karolinska-háskólasjúkrahússins hafi sagt í viðtali að sjúkrahúsið myndi greiða sér bætur vegna þess mikla missis sem fjölskyldan varð fyrir þegar eiginmaður hennar, Andemariam Beyene, lést í kjölfar þess að hann fór í tilraunaaðgerð þar sem plastbarki var græddur í hann. En nú hefur Karolinska-háskólasjúkrahúsið snúið við blaðinu og ákveðið að ekkjan fái engar bætur. Bréf þess efnis hefur borist Merhawit og var það undirritað af Melvin Samsom, forstjóra Karolinska-háskólasjúkrahússins, og sent til lögfræðings Merhawit en í því segir forstjórinn að ekki hafi tekist að ná sambandi við Merhawit.

Í bréfinu er Merhawit eingöngu beðin einlæglegrar afsökunar á þeim sársauka sem sjúkrahúsið olli henni og fjölskyldu hennar með þeirri meðferð sem Andemariam Beyene hlaut. Þar segir að ábyrgðin sé hjá Paolo Macchiarini og er vísað í skýrslu Kjell Asplund, fyrrverandi landlæknis í Svíþjóð, þess efnis og að sjúkrahúsið muni ekki þess efnis og að sjúkrahúsið muni ekki greiða henni bætur, það sé alfarið á hendi Sjúkratryggingafélagsins í Svíþjóð.

Samsom segir þó í bréfinu að Karolinska-háskólasjúkrahúsið hafi ekki fylgt viðurkenndum verkferlum og að kerfi stofnunarinnar hafi brostið og því ekki tryggt öryggi Andemariam Beyene.

Í lok bréfsins segir að hún geti sótt um miskabætur hjá sjúktatryggingakerfinu líkt og aðrir sjúklingar í Svíþjóð sem telja sig hafa orðið fyrir skaða af völdum læknismeðferðar og að Karolinska-háskólasjúkrahúsið muni veita henni aðstoð við það, óski hún þess. Þær bætur eru þó mjög lágar miðað við alvarleika þessa máls en mál Merhawit hefur verið hjá lögfræðingi í tvö ár. Hún hefur eingöngu fengið smávægilegar bætur vegna jarðarfararkostnaðar Andemariams Beyene og hefur Merhawit ekki ákveðið enn hvort hún muni sækja um bætur úr sjúkratryggingakerfinu. Ekki hafa fengist svör frá lögfræðingi Merhawit í Svíþjóð um þetta og hvert sé næsta skref.

Saksóknari gæti ákært Macchiarini

Saksóknari í Svíþjóð mun á næstu dögum eða vikum ákveða hvort opinber rannsókn verði gerð á máli Paolo Macchiarini, en þá gæti farið svo að hann yrði ákærður fyrir lögbrot í starfi. Saksóknari ákvað á síðasta ári að ákæra ekki Macchiarini en sú ákvörðun var gagnrýnd mjög í Svíþjóð. Samkvæmt heimildum Mannlífs er Macchiarini enn við störf á Spáni, Ítalíu og í Tyrklandi.

Íslensk lögfræðistofa hefur haft samband við Landspítala

Anna Sigrún Baldursdóttur, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir í samtali við Mannlíf að í Rannsóknarskýrslunni íslensku sé það tillaga nefndarinnar að Landspítali veiti ekkjunni fjárhagsaðstoð til að verða sér úti um lögfræðiaðstoð til að leita réttar síns. Landspítalinn hafi verið í sambandi við lögfræðing ekkjunnar í Svíþjóð og nú einnig lögfræðinga hennar hér á landi. „Málið er í höndum lögfræðistofu ekkjunnar hér á landi sem hefur sett sig í samband við spítalann fyrir hennar hönd og er málið þar statt,“ segir Anna Sigrún.

Þegar Mannlíf hafði samband við lögfræðing ekkjunnar hér á landi, Gest Gunnarsson, sagði hann að lítið væri að frétta af máli Merhawit er snerti Landspítala. Það væri í vinnslu.

Tilraunaaðgerðir á fólki

Plastbarkaaðgerðirnar voru taldar tilraunir á mönnum og ráðning Macchiarini til Karolinska-stofnunarinnar og Karolinska-háskólasjúkrahússins var í samræmi við stefnu um að byggja þar upp miðstöð fyrir háþróaðar öndunarvegsskurðlækningar. Umfangsmikið alþjóðlegt tengslanet Macchiarini átti að tryggja að miðstöðin yrði leiðandi á heimsvísu. Um var að ræða tilraunaaðgerð á Andemariam Beyene sem tilskilin leyfi voru ekki fyrir. Samkvæmt því sem kemur fram í nýútkominni bók blaðamannsins Bosse Lindquist, sem gerði Experimenten-þættina um málið, mun teymi lækna á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu hafa komið að ákvörðun um framkvæmd aðgerðarinnar örlagaríku á fundi á spítalanum daginn fyrir hana, þ.á m. læknar sem síðar voru meðhöfundar að Lancet-vísindagreininni sem hefur verið afturkölluð vegna vísindalegs misferlis. Þessi niðurstaða á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu kemur því þeim mjög á óvart sem fylgst hafa náið með þessu máli eða unnið að því í Svíþjóð.

Svo miklu meira en bara þingsæti

Mynd/Pixabay

Þingkosningarnar í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag voru um margt sögulegar og munu hafa víðtæk áhrif á þróun mála í landinu næstu árin. Í raun stendur hvorugur flokkur uppi sem sigurvegari. Demókratar hirtu meirihlutann af repúblíkönum í fulltrúadeildinni á meðan þeir síðarnefndu juku við meirihlutann í öldungadeildinni. Þetta var allt saman í kortunum fyrir kosningar. Donald Trump getur bent á að þeir þingmenn sem fylgja hans stefnu hafi notið velgengni á meðan demókratar fá fjölmörg tækifæri til að gera forsetanum lífið leitt næstu tvö ár, þótt niðurstaðan sé nokkuð undir væntingum þeirra. En það var fleira undir en bara þingsæti, líkt og rakið er hér að neðan. Kosið var um breytingar sem eflaust munu hafa meiri og varanlegri áhrif til framtíðar litið heldur en þingmannaskipan þetta tiltekna kjörtímabil.

 

Fullt af alls konar

Þetta voru kosningar kvenna. Fjöldi kvenna í framboði hefur aldrei verið meiri og aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar til áhrifa, bæði í Washington og ríkisþingunum. Hin 29 ára Alexandria Ocasio-Cortez sigraði í kjöri til fulltrúadeildar í New York og varð þar með yngsta konan í sögunni til að gegna þingmennsku. Konur voru sömuleiðis sagðar áhrifamesti kjósendahópurinn í aðdraganda kosninga. Jared Polis, demókrati frá Colorado, varð fyrsti samkynhneigði (opinberlega) ríkisstjórinn í sögu Bandaríkjanna, fyrstu múslimakonurnar náðu kjöri sem og fyrstu konurnar af ætt frumbyggja.

 

Klofnari en nokkru sinni fyrr

Niðurstaðan sýnir að Bandaríkin eru klofnari en nokkru sinni fyrr. Grasrót flokkanna og hugmyndafræði er eins ólík og hugsast getur og endurspeglaðist þetta í kosningabaráttunni. Demókratar herjuðu á konur, minnihlutahópa og yngstu kynslóðina í borgum og úthverfum á meðan repúblíkanar töluðu til hvítra karlmanna og íbúa í dreifbýli. Í öllum þessum hópum var metkosningaþátttaka. Þetta er bara upptakturinn að því sem koma skal fyrir forsetakosningarnar 2020 þar sem Trump mun sækjast eftir endurkjöri. Strax eftir kosningar sendi hann tilvonandi frambjóðendum þau skilaboð að ef þeir spila með honum muni þeim farnast vel.

 

Baráttan fyrir 2020 er hafin

Kosningarnar voru prófraun fyrir þá demókrata sem freista þess að bjóða sig fram gegn Donald Trump að tveimur árum liðnum. Eftir úrslit þriðjudagsins er staldrað við nafn tveggja kvenna sem unnu góða sigra. Annars vegar Amy Klobuchar sem vann stórsigur í Minnesota og Kirsten Giliband frá New York en báðar eiga þær digra sjóði úr kosningabaráttunni. Sherrod Brown kom sterkur út úr Ohio og er þegar farinn að gæla við framboð en þrjár vonarstjörnur flokksins urðu fyrir tjóni, Andrew Gillum, Stacey Abrams og Beto O´Rourke. Af þessum er O´Rourke líklegastur en hann fór nærri því að fella Ted Cruz í Texas.

 

Marijúana-byltingin heldur áfram

Samhliða þingkosningum er kosið um fjölda annarra málefna. Þannig var marijúana lögleitt í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Í Michigan var sala á efninu til einkanota gefin frjáls á meðan Missouri og Utah lögleiddu marijúna í lækningaskyni. Orkufyrirtæki unnu einnig stóra sigra. Í Colorado tókst þeim að koma í veg fyrir bann gegn olíuborun á stórum svæðum í ríkinu, kjósendur í Washington komu í veg fyrir kolefnisgjöld á stórnotendur og í Arizona var felld tillaga um hlutfall sjálfbærrar orku. Orkufyrirtækin eyddu tugum milljóna dollara í þessa kosningabaráttu. Þá munu yfir milljón manns í Flórída bætast á kjörskrá eftir að íbúar þar samþykktu að veita fólki á sakaskrá kosningarétt að nýju. 9% kosningabærra manna í Flórída eru á sakaskrá, að stórum hluta eru þeir úr minnihlutahópum.

Birtist fyrst í Mannlífi 9. nóvember.

Íslenskur byssubófi í villta vestrinu

Kári Valtýsson gefur út bókina Hefnd.

Kári Valtýsson er ungur lögfræðingur sem í gær sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Hefnd. Umfjöllunarefnið er nýjung í íslenskri skáldsagnaflóru því sagan fjallar um Íslending sem gerist byssubófi í villta vestrinu á árunum eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum.

„Þetta er saga sem byrjar 1866 í Reykjavík og segir frá ungum manni sem kemur sér í vandræði og þarf að flýja til Ameríku,“ segir Kári spurður um söguefnið. „Þar fær hann vinnu við að leggja járnbrautarteina í villta vestrinu og smám saman leiðist hann út í að verða byssubófi.“

Kári segist hafa skrifað lengi og fengið alls konar hugmyndir sem hafi komið og farið en svo var það árið 2015 sem hugmynd festist í hausnum á honum og neitaði að hverfa.

„Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvað hefði verið svo hræðilegt á Íslandi á þessum tíma að fjöldi fólks hafi flúið til Ameríku,“ segir hann. „Ég lagðist í að skoða heimildir og lesa gömul tímarit eins og Þjóðólf, leitaði á söfnum og fann ritgerð eftir Þórberg Þórðarson þar sem hann tók viðtöl við fólk sem var uppi á þessum tíma. Mér fannst þetta svo ótrúlega forvitnilegt að ég fór lengra með þetta og fór að spá í hvað hefði verið að gerast í Bandaríkjunum á þessum tíma. Það var ekkert lítið spennandi, þrælastríðinu nýlokið og verið að reyna að tjasla samfélaginu saman á meðan frægir útlagar og byssubófar óðu uppi. Þetta kveikti í mér og mér datt í hug að búa til sögu um gaur sem þarf að láta sig hverfa af landi brott og flytjast vestur um haf þar sem hann endar á að verða byssubrandur.“

Hollywood-legur hasar og íslenskur veruleiki

Kári segist hafa séð þarna raunhæfa leið til að skrifa óraunhæfa sögu enda hafi hann lengi verið aðdáandi vestra, bæði í kvikmyndum og bókmenntum.

„Maður var ekkert kúreki á öskudaginn þegar maður var lítill að ástæðulausu,“ segir hann og hlær. „Það hefur alltaf blundað í mér áhugi fyrir þessu tímabili og hann hefur bara aukist með árunum. Ég hef lesið mikið af bókum Elmores Leonard, sem fyrir utan að skrifa vestra skrifaði handritin að Jackie Brown og Get Shorty, og svo eru tvær síðustu myndir Quentins Tarantino vestrar sem enn juku áhugann.“

Spurður hvort hann hafi kannski legið í Morgan Kane sem strákur neitar Kári því en segir Hollywood kannski eiga stærstan þátt í því að viðhalda þessum vestraáhuga. En er Hefnd skrifuð í Hollywood-stíl?

„Já og nei,“ segir Kári hugsi. „Hún er náttúrlega full af hasar, sem er kannski innblástur frá Hollywood. Það eru vondir kallar og góðir kallar og margt í mjög hefðbundnum anda vestranna en hins vegar held ég ekki að neinn hafi látið sér detta í hug að láta það ganga upp að setja Íslending í þessar aðstæður. Það sem er ekki Hollywood-legt við söguna eru kaflarnir um Ísland, sem eru stór hluti bókarinnar. Þar er ekki mikil vestrastemning en mér fannst það mjög skemmtilegt og forvitnilegt að skoða það.“

Er söguhetjan þá að rifja upp hvernig lífið var heima á milli þess sem hann er að skjóta fólk?

„Nei, þetta er línuleg frásögn,“ segir Kári. „Bókin byrjar reyndar með skotbardaga á sléttunum í Bandaríkjunum en svo fáum við að vita hvernig söguhetjan komst þangað, hverfum til baka og lærum hvernig lífið hefur leikið hann þangað til hann kemst á þennan stað. Svo heldur sagan af honum í villta vestrinu áfram.“

Skrifar í staðinn fyrir sjónvarpsgláp

Kári er þrjátíu og þriggja ára lögfræðingur í fullu starfi. Ólst upp á Akureyri en býr nú í Vesturbænum í Reykjavík með eiginkonu og tveimur ungum börnum. Hvenær hefur hann tíma til að setjast niður og skrifa í þeim aðstæðum?

„Þetta er spurning sem ég fæ mjög oft frá vinum mínum,“ segir hann hlæjandi. „Mjög góð spurning, í rauninni. Ég nota kvöldin í að skrifa. Sest við skriftir í staðinn fyrir að horfa á bíómyndir eða þætti eða hanga á Facebook. Maður tekur bara kvöldin í þetta þegar maður er í stuði. Ég les alltaf á kvöldin áður en ég fer að sofa og síðustu ár hefur sá lestur verið á heimildum sem tengjast þessum tíma.“

Ungir höfundar kvarta oft yfir að erfitt sé að koma sér á framfæri með fyrstu bók, var það ekkert vandamál fyrir Kára?

„Það var strax áhugi á söguefninu hjá fleiri en einum útgefanda,“ segir hann. „En maður er náttúrlega nýr höfundur og það fylgir því áhætta að gefa út bækur eftir alls óþekkta höfunda, tala nú ekki um einhvern sem er nógu klikkaður til að skrifa íslenskan vestra. En Tómas útgefandi hjá Sögum útgáfu stökk strax á þetta og fannst þetta bara helvíti flott, þannig að áður en ég vissi af var ég búinn að skrifa undir útgáfusamning og setja allt á fullt. Það er bara frábært, enda gamall  draumur minn að rætast.“

Ekki gott að verða tæklaður

Bókin kom í búðir í gær, hvernig líður Kára með það að vita til þess að nú fari fólk að lesa hana og leggja á hana mat? Kvíðir hann fyrir?

„Þetta leggst ágætlega í mig,“ segir hann kokhraustur. „Það er auðvitað kvíðablandið að hugsa til þess að einhver sé að lesa bókina mína, en líka ánægjulegt og forvitnilegt þannig að ég er í rauninni bara fullur þakklætis. Ef einhverjum mislíkar bókin þá er það bara partur af ferlinu, það eru aldrei allir sáttir. Ég er mjög glaður með bókina, stend með henni alla leið og vona bara að þetta leggist vel í fólk.“

Og þú munt ekkert fara á taugum þótt gagnrýnendur tæti bókina í sig?

„Það verður ekkert góður dagur ef maður verður tæklaður, ef ég má orða það þannig,“ segir Kári sposkur. „En maður þarf bara að arka í gegnum það eins og annað í lífinu. Það er auðvitað ekki draumur rithöfundar að fá dóm þar sem bókin er tætt niður, það væri miklu meira gaman að fá góða rýni, en við vonum það besta bara.“

Draumur allra leikara

Leikkonan Auður Finnbogadóttir sem gengur undir listamannsnafninu Audi Finn erlendis hefur náð góðum árangri í Hollywood undanfarið ár og var nýlega valin besta leikkonan á bandarísku kvikmyndahátíðinni Festigious Film Festival í Los Angeles.

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég átti nú einhvern veginn ekki von á þessu því þarna voru margir frábærir leikarar tilnefndir. En þetta er klárlega mikill heiður og það að svona virtir gagnrýnendur og dómarar skuli á endanum hafa valið mig er kannski ákveðin staðfesting á því að maður sé á réttri hillu í lífinu,“ segir Auður Finnbogadóttir í samtali við Mannlíf en hún var nýverið valin besta leikkonan á bandarísku kvikmyndahátíðinni Festigious Film Festival í Los Angeles.

Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi leik aðalleikkonu í sjálfstæðri („indie“) kvikmynd og komu þau í hlut Auðar fyrir leik hennar í No Surprises, dramatískri stuttmynd sem fjallar um gifta konu sem verður barnshafandi eftir fyrrverandi elskhuga sinn og ákveður að eiga barnið.

„Þetta er klárlega mikill heiður og það að svona virtir gagnrýnendur og dómarar skuli á endanum hafa valið mig er kannski ákveðin staðfesting á því að maður sé á réttri hillu í lífinu.“

Auður segir hlutverkið hafa verið krefjandi og töluvert frábrugðið því sem hún hefur fengist við fram til þessa, en síðastliðið ár hefur hún verið að leika í þáttum, stuttmyndum og kvikmyndum í Bandaríkjunum og því aldrei að vita nema einhverjir íslenskir áhorfendur kunni að hafa barið leikkonuna ungu augum án þess að gera sér grein fyrir að þar væri Íslendingur á ferð.

„Hérna heima hef ég mest verið að leika á sviði og talsetja teiknimyndir eins og Barbie og Monster High en úti hef ég aðallega verið að leika í fantasíum og kómedíum í þáttum og er oft „tæpköstuð“ í hlutverk fyndnu ljóskunnar eða einhverra ævintýrapersóna. Er t.a.m. að leika um þessar mundir í annarri seríu af vinsælum ævintýraþáttum á YouTube, WitchHaven, þar sem ég fer með aðalhlutverkið,“ nefnir hún sem dæmi.

„Þannig að það var spennandi að fá að spreyta sig á einhverju allt öðru en maður hefur verið að gera hingað til, á hlutverki sem krafðist þess að ég sýndi á mér nýjar hliðar.“

Fékk hlutverkið upp í hendurnar

Auður segir hlutverkið í No Surprises jafnframt það fyrsta sem hafi boðist sem var skrifað sérstaklega með hana í huga. Hún hafi ekki einu sinni þurft að mæta í leikprufur heldur fengið handritið í hendurnar, nokkuð sem sé draumur allra leikara og alls ekki sjálfsagður hlutur.

„Hérna úti þurfa leikarar oft að hafa mikið fyrir því að landa hlutverki sem þeim líst vel á. Senda framleiðendum myndbönd með sjálfum sér eða sækja um að komast í leikprufur,“ útskýrir hún og segir að það sé nokkuð sem hún þekki vel af eigin raun þar sem hún hafi þurft að leggja mikið á sig til að komast á þann stað sem hún er í dag. Það sé eiginlega ótrúlegt að eftir aðeins eitt ár í bandaríska kvikmyndabransanum skuli framleiðendur vera farnir að hafa samband að fyrra bragði og boða hana í prufur.

Spurð hvernig það sé eiginlega fyrir unga leikkonu frá Íslandi að fóta sig í Hollywood segir Auður að þetta sé stór bransi þarna úti, miklu stærri en á Íslandi og uppfullur af tækifærum en hann sé harður líka. „T.d. er mjög erfitt að vera fjarri fjölskyldunni á Íslandi þótt maður heimsæki hana annað slagið og eigi í reglulegum samskiptum við hana á Netinu. Þetta er náttúrlega bara allt öðruvísi lífsstíll en flestir þekkja, þessi bransi hérna úti. Sjálf nýt ég þess að mæta í prufur og á alls konar kvikmyndatengda viðburði en það er einmitt mikilvægt að reyna að hafa gaman af hlutunum og gleðjast t.d. eins og þegar maður landar hlutverki eða þegar maður vinnur óvænt til verðlauna á hátíð eins og Festigious Film Festival. Það skiptir svo miklu að halda í jákvæðnina ef maður ætlar að endast í þessum bransa.“

„Þetta er náttúrlega bara allt öðruvísi lífsstíll en flestir þekkja, þessi bransi hérna úti.“

Spennandi verkefni fram undan

En telur hún að umrædd verðlaun muni opna fleiri dyr í Hollywood? „Ég get alla vega ekki geta kvartað undan verkefnaskorti,“ segir hún og hlær. „Fram undan eru t.d. áframhaldandi tökur á WitchHaven og tökur á annarri seríu af The Let Down, „hermannaþáttum“ þar sem ég fer með stórt hlutverk og sem hafa verið sýndir við miklar vinsældir á straumsveitunni VETTv. Þá er ég líka að fara að leika í myndinni Serpentine upp úr áramótum á móti leikaranum Daniel Gregory Feuerriegel, sem lék m.a. í myndinni Pacific Rim og þáttunum Spartacus. Þannig að það er alveg nóg að gera hjá mér.“

Það er nú ekki beint að heyra að þér leiðist erillinn og vinnuálagið í Hollywood? „Nei, síður en svo,“ segir hún glöð. „Ég er í heildina mjög sátt.“

 

Væri til í að eiga lítið, fallegt hús í Montenegro

Elías Haraldsson, löggiltur fasteignasali hjá 450 Fasteignasölu, er hrifinn af ferska loftinu, rökkrinu, kertaljósunum og rómantíkinni sem fylgir vetrinum. Uppáhaldsinnanhússarkitektinn hans er Berglind Berndsen.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Ég held að það sé þessi fjölbreytileiki og samskipti við fólk á öllum aldri. Að hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna getur verið mjög skemmtilegt, sérstaklega þegar allt gengur upp og kaupendur og seljendur eru ánægðir. En það getur líka verið mjög krefjandi að leysa úr málum þegar allt gengur ekki alveg upp, eins og til dæmis gallamál og fleira og þá er mjög gott að hafa góða og langa starfsreynslu.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Hann er nú mjög breytilegur í þessum bransa. Þú ert í raun og veru alltaf í vinnunni eftir að farsíminn varð svona ofboðslega sterkur og mikilvægur. En auðvitað reynir maður að stjórna sínum tíma eins og allt venjulegt fólk. Sérstaklega þegar maður hefur unnið við þetta í þrjátíu ár. En ég reyni að byrja snemma, fer í ræktina í hádeginu, nema á miðvikudögum, þá hitti ég gamla félaga mína úr Val í hádegisverð. Svo er það misjafnt hvað ég er lengi að, það fer allt eftir því hvað er mikið að gera til dæmis opin hús, skoða, sýna og fleira.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Þegar ég finn persónulega strauma þegar ég geng inn á heimili, eins og fjölskyldumyndir uppi á veggjum, hlýlega liti, persónulega muni og notaleg húsgögn.“

Geturðu lýst þínum stíl?

„Ég veit ekki hvort ég hafi einhvern sérstakan stíl. Mér finnst gaman að eiga falleg og vönduð húsgögn í bland við eitthvað einfalt og ódýrt, eins og IKEA-vörunar sem alltaf er hægt að skipta reglulega út fyrir eitthvað annað. Svo finnast mér myndir á veggjum skipta máli.“

Áttu uppáhaldsarkitekt?

„Engan alveg uppáhalds enda margir mjög góðir og alltaf spurning um hvaða tímabil ræðir, en Guðjón Samúelsson teiknaði margar mjög fallegar byggingar. En hvað varðar innanhússarkitekt held ég að það sé Berglind Berndsen.“

Áttu uppáhaldshönnuð?

„Ég veit það ekki, það eru svo margir góðir og erfitt að draga einhvern einn út. En ætli það sé ekki bara konan mín heitin, hún var ótrúlega sniðug og klár að raða saman fallegum hlutum gömlum og nýjum í bland með skemmtilegum og hlýlegum litum.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Ég væri alveg til í að eiga lítið, fallegt hús í Montenegro (Svartfjallalandi). Þar er mikið af fallegum fjöllum til að stunda skíðamennsku og góðar gönguleiðir svo ég tali nú ekki um frábærar fallegar strendur og sólin er þar oft á lofti.“

Uppáhaldsliturinn?

„Ég á engan uppáhaldslit, það skiptir svo miklu máli hvernig litum er raðað saman. Kannski er einhver litur ekkert sérstaklega fallegur þegar maður horfir á hann en þegar hann er í réttri litasamsetningu er hann mjög flottur. Þetta á bæði við fatnað og húsnæði.“

Hvar líður þér best?

„Ég held bara heima hjá mér og innan um fjölskyldu og vini. Mér líður líka ótrúlega vel  í sumarfríi að slappa af á einhverri sólarströnd á góðu hóteli.“

Hvað heillar þig mest við veturinn?

„Ferska loftið, rökkrið, kertaljósin og rómantíkin. Það kemur líka annar bragur yfir allt. Sumarfríin búin, haustið hverfur á braut, skólarnir komnir í fastar skorður, margir með ný markmið í ræktinni og matarræði.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég hef farið mjög lítið út að borða upp á síðkastið en það eru margir mjög góðir veitingastaðir til um allt land en ég fór síðast á Skelfiskmarkaðinn og hann var mjög góður.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? 

„Já, örugglega, ég veit bara ekki hvað hann heitir. Ég hef séð mörg falleg hús í mismunandi byggingarstíl, en mér finnast ávallt vel teiknuð og vel skipulögð funkis-hús falleg. Svo skiptir lóðin alltaf mjög miklu máli og hvernig hús og byggingarstíll njóta sín.“

Að lifa lífinu lifandi er að … lifa núna og njóta þess. Vera þakklátur fyrir að hafa góða heilsu og geta gert allt sem maður vill. Það er það mikilvægasta í lífinu. Það er hægt að kaupa ýmislegt fyrir peninga í lífinu en ekki heilsuna. Þekki það af eigin raun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Vandar Trump ekki kveðjurnar í nýrri bók

|
|

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú, er ekki aðdáandi núverandi forseta Bandaríkjanna. Hún er óhrædd við að viðurkenna það.

Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, vandar Donald Trump Bandaríkjaforseta, ekki kveðjurnar í nýrri bók sinni, Becoming. Í bókinni lýsir hún því meðal annars hvernig hún „hætti að reyna að brosa“ í kringum Trump á opinberum viðburðum á einhverjum tímapunkti, svo illa líkar henni við hann.

Bók Michelle Obama hefur vakið mikla athygli.

Í bókinni segir hún einnig frá því að hún hafi aldrei fyrirgefið Trump vegna ummæla sem hann lét falla árið 2011, þegar Obama var forseti. Þá greindi Trump frá því í viðtali við þáttinn Fox and Friends, að hann efaðist um að Obama væri fæddur í Bandaríkjunum og ætti því ekki að vera forseti. Þá sagðist hann vera undrandi á því að Obama gæti ekki sannað að hann væri fæddur í Bandaríkjunum með því að sýna fram á það með fæðingarskírteini.

Michella segist aldrei ætla að fyrirgefa Trump þessi ummæli. Frá þessu er greint á vef Business Insider.

Þess má geta að sjónvarpskonan og lestrarhesturinn Oprah Winfrey er búin að lesa bók Michelle tvisvar og gefur henni hæstu einkunn.

Snertilausar greiðslur með símanum

Í dag auglýsir Íslandsbanki nýja leið til að greiða fyrir vörur og þjónustu. Um snertilausar greiðslur í gegnum snjallsíma er að ræða. Á vef Íslandsbanka segir meðal annars: „Með kortaappi Íslandsbanka getur þú greitt með kreditkortinu þínu (frá Íslandsbanka og Kreditkortum) í gegnum símann um allan heim í þeim posum sem bjóða snertilausa virkni. Úttektarheimildir og öll önnur virkni appsins er sú sama og þegar greitt er með greiðslukorti.“

Lausnin er aðeins í boði fyrir þá sem eru með Android-síma. En á vef bankans kemur fram að tækniteymi sé að vinna að því að koma lausninni í gagnið fyrir þá sem eru með iPhone.

Á vef bankans kemur þá fram að mikilvægt sé að gera varúðarráðstafanir áður en viðskiptavinir byrja að nota þessa nýju greiðslulausn. „Þegar þú velur að borga með símanum þarftu að auðkenna þig fyrir símtækinu með PIN-númeri, fingrafari eða andlitsskanna. Ef upp kemur einhver grunur um svik á snertilausum greiðslum í gegnum símann þinn skaltu tilkynna Íslandsbanka það strax til að stofna endurkröfu um viðskiptin,“ segir á vef bankans.

Til gamans má geta að hljómsveitin Bjartar sveiflur er í aðalhlutverki í auglýsingum fyrir þessa nýju lausn.

Mynd / skjáskot af vef Íslandsbanka

Íslenskar mæðgur í hugljúfri bandarískri auglýsingu

Bandaríska föndurbúðin Hobby Lobby auglýsir 50% afslátt í hugljúfri auglýsingu sem tekin er upp á Íslandi.

Leikkonan Álfrún Helga Örnólfsdóttir og dóttir hennar fara með aðalhlutverk í nýlegri auglýsingu bandarísku föndurbúðarinnar Hobby Lobby. Í auglýsingunni er verið að auglýsa 50% jólaafslátt á afar hugljúfan hátt.

Leikarinn Friðrik Friðriksson, eiginmaður Álfrúnar, vekur athygli á auglýsingunni á Facebook-síðu sinni og Twitter.

Auglýsingin, sem er hér fyrir neðan, hefur fengið rúmlega 970.000 áhorf á YouTube.

Undanrenna með klökum í uppáhaldi

Söngkonan Elísabet Ormslev hefur undanfarið komið fram með sönghópnum GRL PWR með lögum sem Kryddpíurnar gerðu vinsæl fyrir allnokkru. Einnig er hún með EF-plötu í smíðum sem kemur út snemma næsta ár. Við spurðum Elísabetu út í uppáhaldshlutina hennar.

Uppáhalds …

-kaffihús: Stofan.

-skyndibiti: Dominos. Engin keppni þar.

-drykkur: Undanrenna með klökum. Ekki öskra á mig.

-líkamsrækt: Fótbolti eða spinning-tímar.

-afþreying: Allt sem tengist tónlist og vinum mínum.

-sjónvarpsþáttur: Handmaid’s Tale, Game of Thrones, The Walking Dead, Dexter og Friends.

-farartæki: Draumafarartækið er allavega Jeep Wrangler sem ég er ekki enn búin að eignast.

-heimilisverk: Að vaska upp. Fyrirlít allt annað. Sorrí, mamma.

-fjall: Herðubreið.

-staður á Íslandi: Stykkishólmur. Líður alltaf ógurlega vel þar.

-tónlistarmaður: Allt of margir til að velja bara einn en sú tónlistarkona sem ég hlusta mikið á og fíla hvað mest hvað varðar „production“ og ytri ímynd þessa dagana er Ariana Grande.

-sælgæti: Lakkrís. Allt með lakkrís.

-flík: Leðurjakkinn minn

-árstíð: Haust

Mynd / Heiða Helgadóttir

Topp fimm Hörpu Kára

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Förðunarfræðingurinn Harpa Káradóttir segir lesendum frá þeim snyrtivörum sem eru í uppáhaldi hjá henni þessa stundina.

Stök gerviaugnhár: Ég mála mig dagsdaglega frekar lítið en ég er eiginlega orðin háð því að notast við 2-3 stök gerviaugnhár á sitthvort augað.

Þessa stundina hefur Harpa verið að nota vörur frá Origins.

Næturmaski. Ég nota næturmaska um tvisvar sinnum í viku. Þannig finnst mér ég ná að viðhalda ljómandi húð. Þessa stundina hef ég mikið notast við vörur frá Origins.

Carmen-rúllurnar mínar. Annan hvern dag nota ég carmen-rúllur í hárið á mér. Ég sé ekki sólina fyrir þeim og er búin að nota tvö sett síðustu sautján ár.

Ilmvatnið mitt er Tom Ford-Black Orchid. Ég er búin að nota það í mörg ár. Það er því miður ekki selt á Íslandi og oft erfitt að fá það þannig að ég reyni að eiga lager af því heima.

Black Orchid frá Tom Ford er Hörpu ómissandi.

Stone-varablýantur frá MAC. Ég nota hann daglega. Blýanturinn er í köldum brúnum tón og passar mjög vel við alla ljósa varaliti.

Uppáhaldsförðunar-trendið? „Ég er mjög hrifin af þessu af þessu ljósbrúna og nude matta trendi sem að er búið að vera í gangi. Það passar mjög vel við mig og að mínu mati klæðir flestalla.“

Sjá nánar: Bak við góðan árangur liggja miklar fórnir

Mynd / Aldís Pálsdóttir

„Sópum mölbrotnum konum undir teppið“

Gulldrengirnir og heiðursmennirnir, kláru karlarnir og góðu strákarnir, sem eru svo mikil góðmenni og myndu aldrei gera flugu mein. En voru ásakaðir um kynferðisbrot.

Hvað gerist þá? Ímyndin af brosandi gulldreng sem skemmtir svo mörgum, eða heiðursmanni í fínum jakkafötum með flotta háskólagráðu, hún passar ekki inn í steríótýpuna af kynferðisbrotamanni – sem er skítugur, eflaust fullur, helst þekktur fyrir að vera skíthæll. Gulldrengirnir passa ekki inn í þetta fyrirframgefna samfélagsmót, hafa ekki þessa hentugu ímynd sem gerir fólki kleift að hata þá. Því kynferðisbrotamenn hljóta að vera skrímsli.

Í stað þess að leyfa brotaþola njóta vafans fer fólk að leita að ástæðum til að kenna henni um. Þau höfðu heyrt að hún væri svo klikkuð. Alltaf að ljúga. Hann hefur aldrei gert svona við mig. Hvað var hún annars að gera þarna svona seint um kvöld? Var hún ekki að reyna við hann? Hún er nú ekkert smábarn, óþarfi að gera læti úr smákáfi. Svona klædd, hún augljóslega vildi athygli. Saklaus uns sekt er sönnuð!

En kynferðisbrotamenn eru ekki skrímsli. Þetta er staðreynd sem fólk á erfitt með að átta sig á. Nýjasta herferð Stígamóta, #allirkrakkar, spyr: vilt þú vera foreldri þolanda, eða geranda? Á fólk auðveldara með að horfast í augu við að einhver náin þeim hafi verið beitt ofbeldi, heldur en að einhver náinn þeim sé gerandinn? Þetta köllum við skrímslavæðingu. Þegar við getum ekki hugsað okkur að einhver sem okkur þykir vænt um gæti gert eitthvað ófyrirgefanlegt.

Tilhneigingin er þá að ráðast á brotaþola. Við erum vön því að sópa mölbrotnum konum undir teppið og skipa þeim að þegja því þessir heiðursmenn eru með „mannorð“ sem má aldrei „myrða“, eða að við megum ekki ganga „of langt“ í gagnrýninni, því þeir eru eftir allt saman engin skrímsli. En skrímslin eru ekki til. Bara menn.

Síðast en ekki síst / eftir Elísabetu Ýri Atladóttur 

Himinninn fallegasti liturinn

Heimsþekkti tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds gaf út sína fjórðu breiðskífu nú á dögunum og ber hún nafnið, re:member. Þeir sem þekkja Ólaf vita að hann er afar nægjusamur maður sem er alltaf á ferð og flugi, en við fengum þó að forvitnast um hvað væri efst á óskalistanum hans um þessar mundir.

Mynd af Ólafi Arnalds / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Jielde-lampar.

Hvaða stóll væri draumastóllinn þinn? Original rauðleiti Mah Jong-sófinn frá Roche Bobois.

Er eitthvert ljós eða lampi á óskalistanum þínum? Alltaf fleiri Jielde-lampar.

Hver er draumaferðin þín? Ég elska að skoða staði sem fólki dettur ekki í hug að fara til. Ég er heillaður af Miðausturlöndum og langar að skoða fleiri svæði þar. Norðurhluti Pakistan er hátt á listanum en ég hef bara komið til Lahore.

Ólafur væri sáttur með vespu.

Hvaða bíll er á óskalistanum og hvers vegna? Eitthvað sem mengar sem minnst. Mig langaði í Teslu þangað til Elon Musk tók of mikið af sýru og fór á egótripp. Nei, mig langar reyndar enn þá í Teslu. En væri alveg jafnsáttur með vespu.

Finnbogi Pétursson er í uppáhaldi hjá Ólafi.

Málverk eftir hvaða listamann væri á þínum óskalista? Finnbogi Pétursson er líklega uppáhalds íslenski listamaðurinn minn. En ég veit ekki hvernig ég kæmi verkunum hans heim til mín eða hvort ég myndi vilja búa með þeim.

Óskar þú þér einhvers í eldhúsið? Ostaskera.

Fallegasta bygging á Íslandi? Ráðhús Reykjavíkur. Fallegasti grái steypuklumpur sem ég hef séð og hvernig húsið liggur ofan í tjörninni er alveg frábært.

Áhrifaríkasta bók eða bíómynd? Ég er ekki alveg hlutlaus en Lof mér að falla er með áhrifaríkari myndum sem ég hef séð. Fyrir nokkrum árum las ég svo bók um Flow State eftir Mihály Csíkszentmihályi sem breytti lífi mínu og sköpunarferli algjörlega.

Besta kaffihúsið? Micro Roast í Aðalstræti er minn staður.

Flottasti veitingastaðurinn? ÓX, minnsti veitingastaður á Íslandi og besti matur sem ég hef borðað.

Fallegasti liturinn? Himinninn.

„Landsfeðurnir hreinsa ávallt sig og sína“

|
|

Linda Vilhjálmsdóttir skáld sendi nýlega frá sér sína sjöundu ljóðabók, Smáa letrið. Hún einkennist af femínískum byltingarljóðum um formæður og fjallkonur, dömur og druslur – konur fyrr og nú, „dæmdar í óskráða ánauð / allar sem ein“.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Smáa letrið er um konur af minni kynslóð og þær sem á undan og eftir mér komu,“ segir Linda. „Hún er um það hvernig við reynum í sífellu að laga okkur að heimi sem tekur lítið eða ekki tillit til okkar þarfa og vilja – og gerir okkur erfitt eða ókleift að nota og rækta hæfileika okkar til að búa í haginn fyrir okkur sjálfar, fjölskyldur okkar og vini. Hún er um það hvernig feðraveldið hefur gert samfélag okkar ómanneskjulegt og hvernig landsfeðurnir hreinsa ávallt sig og sína þegar spillingin kemur í ljós og rísa svo upp á ný tvíefldir, falskari og grimmari en fyrr.“

„Hún er um það hvernig feðraveldið hefur gert samfélag okkar ómanneskjulegt og hvernig landsfeðurnir hreinsa ávallt sig og sína þegar spillingin kemur í ljós og rísa svo upp á ný tvíefldir, falskari og grimmari en fyrr.“

Hugmyndin að ljóðunum kom til Lindu þegar hún fann loksins sína eigin leið að femínismanum. „Þegar ég fylgdist með kvennamarsinum mikla í Bandaríkjunum í beinni útsendingu daginn sem núverandi forseti var settur inn í embætti þar vestra.“

Smáa letrið.

Rökrétt framhald
Síðasta bók Lindu, ljóðabókin Frelsi sem út kom 2015, hlaut einróma lof gagnrýnenda og einstakar viðtökur lesenda. Hún var verðlaunuð bæði heima og erlendis og meðal annars tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Einnig hlaut Linda verðlaun fyrir pólska þýðingu Frelsis á bókmenntahátíðinni „Evrópsk frelsisskáld“ vorið 2018. „Mér finnst hver bók vera í rökréttu framhaldi af þeirri sem á undan kom. Alveg frá því ég byrjaði að skrifa ljóð hefur það verið takmark mitt að gera þau þannig úr garði að engum sem byrjar að fletta í gegnum þau finnist þau óskiljanleg eða hátimbruð. Að einfalda þau eins mikið og hægt er þannig að merkingin komist vel til skila án þess að það bitni á ljóðrænni og listrænni framsetningu.“

Örlítið brot af fámennri þjóð

||
||
Svava Jónsdóttir blaðamaður fékk hugmyndina að bókinni þegar fjallað var um samkeppni um hugmyndir að verkefnum tengdum aldarafmæli fullveldisis.

Ýmislegt er gert vegna aldarafmælis fullveldisins og þar á meðal er bók sem er hugmynd Svövu Jónsdóttur blaðamanns. Í bókinni Aldarspegill: Íslendingar 1918-2018. Myndir af þjóð eru myndir af Íslendingum sem fæddust 1918-2018, einn fyrir hvert ár, auk þess sem landslagsmyndir eru í bókinni. Friðþjófur Helgason tók myndirnar.

„Hugmyndin kviknaði bókstaflega á sekúndubroti eða rúmlega það,“ segir Svava þegar hún er spurð um tilurð bókarinnar. „Ég sat í fyrrahaust fyrir framan sjónvarpið þar sem fjallað var um væntanlega samkeppni þar sem fólk gat sent inn hugmyndir að verkefnum tengdum aldarafmæli fullveldisis og þessi ártöl komu upp í hugann: 1918-2018 og ljósmyndir af fólki fætt á þessu tímabili – einn fyrir hvert ár. Ég efast um að fimm sekúndur hafi liðið þar til hugmyndin var næstum fullmótuð. Kannski tíu.“

Svava hafði samstundis samband við útgáfufélagið Tind og boltinn fór að rúlla. „Útgefandinn fékk Friðþjóf Helgason til liðs við okkur en hann er frábær ljósmyndari og einstaklega elskulegur maður. Ég vildi hafa landslagsmyndir að auki og Friðþjófur á stórkostlegt safn af slíkum myndum og er lítið brotabrot af þeim í bókinni okkar. Gaman er að sjá flottu myndirnar hans á prenti.“

Almennt jákvæð sýn á landið
Svava lagði áherslu á að hluti þátttakenda væri fólk sem hefði verið áberandi á tímabilinu sem um ræðir, eins og stjórnmálamenn, fólk í viðskiptalífínu, íþróttamenn og listamenn. Á meðal þátttakenda eru Ólafur Ragnar Grímsson, Katrín Jakobsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Hermann Hreiðarsson, Jóhanna Guðrún, Ari Eldjárn, Ólafur Stefánsson, Gísli Marteinn Baldursson, Sigrún Eðvaldsdóttir, Svava Johansen, Hilmar Örn Hilmarsson og Bjarni Felixson. Fyrirsæturnar á bókarkápunni eru elsti og yngsti þátttakandinn. Hún fæddist árið 1918 og hann árið 2018.

„Minnist ég sérstaklega eldri manns sem ég tók viðtal við en ég heimsótti hann stuttu síðar til að lesa viðtalið fyrir hann. Hann lést þá um kvöldið.“

Textinn í bókinni er á íslensku og ensku. Hver þátttakandi, nema yngstu börnin, svarar einni spurningu: Hvað er Ísland í huga þínum? „Munurinn á svörum þátttakenda er í raun ekki mikill að því leyti hvað þeir hafa almennt jákvæða sýn á landið sitt. Það vakti athygli hvað Íslendingar eru stoltir af landinu sínu. Þá er gaman að svörum krakkanna sem mörg hver eru krúttleg en yngsti þátttakandinn sem svarar spurningunni fæddist árið 2012. Það vakti athygli mína að sum börnin taka fram að hér á landi sé ekkert stríð, fyrir utan að hér eru engar hættulegar flugur eða tígrisdýr. Svo var til dæmis gaman að taka viðtöl við elstu þátttakendurna sem eru elskulegt fólk upp til hópa og minnist ég sérstaklega eldri manns sem ég tók viðtal við en ég heimsótti hann stuttu síðar til að lesa viðtalið fyrir hann. Hann lést þá um kvöldið. Ég vildi að hann yrði samt sem áður í bókinni en vildi ekkert gera í því að fyrra bragði en svo fékk ég skilaboð um að fjölskylda hans óskaði eftir því og þykir mér vænt um það. Ekki var búið að taka mynd af honum þegar hann kvaddi þetta líf og er því í bókinni mynd af ljósmyndum af honum.“

Myndatexti: Í bókinni Aldarspegill: Íslendingar 1918-2018. Myndir af þjóð eru myndir af Íslendingum sem fæddust 1918-2018, einn fyrir hvert ár.

Bókin er fallegur minjagripur í tengslum við fullveldisafmælið og að sögn Svövu sýnir hún örlítið brot af fámennri þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi. „Ég vildi hafa textann líka á ensku og geta þá útlendingar sem skilja það ágæta tungumál lesið svör Íslendinganna um landið sitt og jafnvel kynnst því hvað Íslendingar eru samheldin þjóð en það vitum við jú að svo er þegar á reynir.“

Myndir úr bók / Friðþjófur Helgason
Mynd af Svövu / Geir Ólafsson

Skonsur sem gleðja

Umsjón: Kristín Dröfn Einarsdóttir Stílisti: Ólöf Jakobína Ernudóttir|
|

Breskar skonsur (scones) er fljótlegt að útbúa og gaman að baka. Það er eitthvað svo notalegt við nýbakaðar skonsur og tekur innan við 20 mínútur að skella í einföldustu gerð. Hægt er að leika sér endalaust með uppskriftirnar og bæta við því sem hugurinn girnist, t.d. súkkulaði, ávöxtum og hnetum.

 

Til þess að skonsurnar verði léttar í sér er mikilvægt að hræra og hnoða deigið eins lítið og kostur er. Gott viðmið er að hræra þurrefnin og vökvann létt saman með skeið eða sleif 5-10 sinnum og hnoða síðan 5-10 sinnum á hveitustráðu borði. „Less is more“ eins og maðurinn sagði.

HESLIHNETUSKONSUR MEÐ FÍKJUM OG DÖÐLUM
12 stk.

2 ½ dl hveiti
2 tsk. lyftiduft
¼ tsk. salt
1 tsk. kardimommuduft
½ tsk. kanill
60 g kalt smjör, skorið í litla bita
u.þ.b. 100 g þurrkaðar döðlur og fíkjur, skornar í litla bita
30 g heslihnetur, gróft skornar
börkur af ½ appelsínu
2 msk. hunang eða agave-síróp
1 dl mjólk
1 tsk. eplaedik

Hitið ofn í 180°C. Sigtið þurrefnin saman í skál og bætið smjörbitum út í og myljið saman við með fingrunum þar til blandan líkist grófri brauðmylsnu. Eins er hægt að nota matvinnsluvél eða hrærivél. Bætið döðlum, fíkjum og hnetum saman við ásamt appelsínuberki.

Blandið saman hunangi/agave-sírópi, mjólk og eplaediki í lítilli skál og bætið út í þurrefnablönduna. Hrærið létt saman eða þar til deigið fer að hanga saman. Fletjið út u.þ.b. 3 cm þykkt og skerið í hæfilega bita.

Penslið með eggi og bakið í u.þ.b. 20 mín. eða þar til skonsurnar hafa tekið fallegan lit.

Penslið skonsurnar með eggi til þess að fá fallega gylltan lit á þær við bakstur.

Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Myndir / Rakel Ósk Sigurðardóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir

Steldu stílnum: Kate Moss

Kate Moss er þekkt fyrir áreynslulausa og rokkaða förðun og útlitið er fyrir löngu orðið að klassík. Blaðamaður Vikunnar mælir hér með réttu vörunum til þess að stela stílnum frá goðsögninni.

Kate Moss er ekki þekkt fyrir að vera með sjáanlegan farða á húðinni, heldur leyfir hún freknunum að njóta sín en meira rokk og róli að vera með smokey-förðun þegar farða er haldið í lágmarki. Við mælum með Face and Body frá MAC til að fá áreynslulaus útlit, ljóma og jafnari húðlit. Farðinn helst vel á og smitast ekki í föt ef hann er notaður á líkamann.

„Un“cover-up-hyljarinn.

„Un“cover-up-hyljarinn hefur átt miklum vinsældum að fagna enda einstaklega náttúruleg áferðin á honum, í anda Kate Moss-stílsins. RMS-vörurnar eru til sölu á Mstore.is.

Long-wear cream shadow stick.

Kate er þekkt fyrir svolítið sjúskaða Smokey-förðun. Við mælum með augnskuggapenna eins og Long-wear cream shadow stick frá Bobbi Brown yfir allt augnlokið og allt í kringum augun. Svo er gott að nota eyrnapinna með örlitlu af vaselíni til þess að blanda línurnar aðeins.

Slide On-augnblýantinn.

Smokey er ekki fullkomnað nema með kolsvörtum eyeliner. Við elskum Slide On-augnblýantinn frá Nyx. Nuddaðu honum inn á milli augnháranna og settu helling á vatnslínu augnanna. Það gerist ekki miklu kynþokkafyllra.

Sólarpúður frá Chanel.

Gefðu húðinni náttúrulega sólkysst útlit með blauta sólarpúðrinu frá Chanel. Notaðu stóran farðabursta með gervihárum og nuddaðu því vel inn í húðina, í kringum andlitið og yfir nefið.

Notaðu náttúrulegan highlighter í anda Shimmering Skin Perfector frá Becca. Niður nefið, á kinnbein, fyrir ofan efri vör og aðeins á viðbeinin og axlirnar, ef þú ert í stuði.

Lasting Finish-varalitur.

Dúmpaðu Lasting Finish-varalitnum frá Rimmel úr Kate Moss-línunni í litnum Boho Nude yfir varirnar og nuddaðu vel inn. Smokey-förðun og nude-varir eru besta tvennan.

Grandiôse Extrême-maskarinn.

Kate er óhrædd við að nota mikinn maskara. Grandiôse Extrême-maskarinn frá Lancôme er í algeru uppáhaldi hjá okkur til þess að þykkja augnhárin margfalt. Ekki hafa áhyggjur af því ef hann klessist, það er bara betra.

„Fíla allt sem er nógu ljótt til þess að vera flott“

„Ég keypti þennan appelsínugula bol í London um daginn og nota hann mjög mikið. Þessir litir eru svo glaðir! Svo var hann líka mjög ódýr, sem gerir góð kaup enn betri!“ Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Katrín Helga Andrésdóttir, myndlistar- og tónlistarkona, spilar með hljómsveitunum Reykjavíkurdætrum og Sóleyju en um þessar mundir leggur hún aðaláherslu á sólóverkefnið Special-K. Þar sameinar hún myndlist og tónlist til að skapa sem heildstæðastan heim. Það nýjasta er sjónræn EP-plata frá Special-K sem heitir I Thought I’d Be More Famous by Now.

„Ég keypti þennan appelsínugula bol í London um daginn og nota hann mjög mikið. Þessir litir eru svo glaðir! Svo var hann líka mjög ódýr, sem gerir góð kaup enn betri!“

Þegar talið berst að fatastíl segir Katrín smekkleysu í bland við pastel einkenna sig. „Ég fíla allt sem er nógu ljótt til að vera flott. Þessa stundina vinn ég mikið með einhvers konar alien, weird, kitch og sakleysislegan en samt kinkí karakter. Ég geri yfirleitt bestu kaupin í vintage-búðum í útlöndum.“
Katrín Helga segist fyrst og fremst sækja innblástur í leikgleði. „Franska tónlistarkonan Soko veitir mér innblástur bæði í tónlistarsköpun og fatastíl. Hún er ótrúlega svöl í bland við að vera barnslega frjáls. Hún klæðist gjarnan litríkum og tilraunaglöðum fötum, er bæði persónuleg og chic.“
Efst á óskalista Katrínar er flugmiði til LA, en annars langar hana líka í kúrekastígvél. Þegar hún er spurð að því hvað allar konur á Íslandi ættu að eiga í fataskápnum sínum svarar hún: „Föðurland, það er kalt á Íslandi.”

„Ég elska þessa skó sem ég keypti í Tókýó fyrir hálfu ári síðan.“ Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Reykjavík árið 2038

Hvernig viljum við sjá Reykjavík árið 2038? Það ár verða þeir sem eru að byrja í grunnskóla í vetur u.þ.b. að ljúka háskólanámi eða farnir út á vinnumarkaðinn. Heimurinn verður talsvert breyttur og við getum núna lagt grunninn að þeirri framtíð sem við viljum. Tölvutæknin er að breyta starfsháttum okkar mikið. Almennt er fólk sammála um að í þeim breytta heimi sé best að undirbúa börnin okkar með frekari áherslu á sköpun, sjálfstæði í hugsun og á listir. Að geta unnið með öðru fólki, tjáð sig og leyst ný viðfangsefni.

Sú skólastefna sem nú er í mótun hjá Reykjavíkurborg er í þessum anda. Það eru því ákveðin vonbrigði að sjá samdrátt í þessum geira í nýrri fjárhagsáætlun. Til að við getum náð árangri er nauðsynlegt að fjármagnið fylgi þeirri stefnu sem stefnt er að. Það er ekki nóg að hafa stefnu ef ekki er siglt í rétta átt. Við erum ríkt samfélag og eigum að hætta að vera fimm árum á eftir þeim sem við berum okkur saman við. Miklu nær er að nýta smæð samfélagsins og sterka innviði þannig við séum leiðandi. Það á svo sannarlega við um framsækna skóla þar sem lögð er áhersla á sjálfstæði einstaklingsins og þroska hans til að vinna með öðrum.

Framtíðin liggur í því að vernda náttúruna og umhverfið

Annað atriði sem við gerum sífellt ríkari kröfur til er umhverfið. Með nýrri tækni getum við minnkað mengun og sóun gríðarlega. Hér getur Reykjavík gert betur. Ekki bara með flokkun og endurvinnslu. Heldur ekki síður með því að auðvelda til muna rafbílavæðingu og auðvelda sjálfkeyrandi bílum að komast innan borgarinnar. Þetta er eitt af því sem getur orðið til þess að Reykjavík verði öruggari og hreinni. Líkt og þegar Nokia laut í lægra haldi fyrir iPhone eru sjálfkeyrandi rafmagnsbílar líklegir til að taka við af bensínbílum og dísilstrætó.

Þá er rétt að horfa til þeirra borga sem hafa hvað mesta aðdráttaraflið eins og New York og London þegar kemur að grænum svæðum. Eftirsóttustu íbúðirnar á Manhattan eru ekki við Wall Street, heldur við Central Park. Græn svæði eru æ verðmætari fyrir borgarlífið. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til friðlýsingu Elliðaárdalsins en þar er nú áformuð atvinnustarfsemi með hundruðum nýrra bílastæða. Við höfum lagt til að horfið verði frá blokkum í Laugardalnum sem nú eru á aðalskipulagi.

Þegar við leggjum grunninn að Reykjavík eftir tuttugu ár eru þetta allt atriði sem skipta sköpum. Framtíðin liggur ekki í bröggum eða þungu og dýru stjórnkerfi. Framtíðin liggur í því að vernda náttúruna og umhverfið. Undirbúa börnin okkar undir breyttan heim. Og nýta tæknina til að borgin okkar sé samkeppnishæf við þær borgir sem við teljum bestar. Þannig eigum við að undirbúa Reykjavík fyrir árið 2038.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Mikilvægt að sleppa aldrei kröfum um gæði“

Kristján Örn er einn af fjórum stofnendum og eigendum arkitektastofunnar KRADS.

Kristján Örn er einn af fjórum stofnendum og eigendum arkitektastofunnar KRADS ásamt þeim Kristjáni Eggertssyni, Mads Bay Møller og Kristoffer Juhl Beilman. KRADS stofnuðu þeir félagar árið 2006 í Danmörku og á Íslandi. Við fengum Kristján til þess að veita okkur innsýn í arkitektúr á Íslandi í dag.

Hvaða straumar og stefnur eru mest áberandi í arkitektúr í dag? „Þegar ég var í námi í Danmörku var bæði ákveðin tegund mínimalsma áberandi og svo hollenski skólinn og sú stefna sem stundum er nefnd súpermódernismi. Konseptið skipti þar mestu máli en minni áhersla var til dæmis lögð á að draga fram staðbundinn karakter, sögu, handverk og annað slíkt í arkitektúrnum – sem er farið að bera meira á aftur, að minnsta kosti hér á Norðurlöndunum. Eins virðist áhuginn á hinum svokölluðu „stjörnuarkitektum“ fara minnkandi og umræðan frekar farin að snúast um mikilvæg gildi eins og vistvæn gildi og samfélagslegt ábyrgðarhlutverk þeirra sem móta hið manngerða umhverfi. Þetta sést til dæmis glögglega á þema tveggja síðustu Feneyjartvíæringanna. Sjálfur hef ég skilgreint mig sem brútal mínimalista eða mínimal brútalista, í ákveðinni blöndu af öllu ofangreindu.“

Hvaða arkitekt/hönnuður hefur veitt þér mestan innblástur í störfum þínum? „Þar gæti ég nefnt marga meistara, eins og t.d. Arne Jacobsen frá Danmörku, Kenzo Tange frá Japan eða Oscar Niemeyer frá Brasilíu. Ég held að ég verði þó að segja að svissnesku arkitektarnir Herzog & de Meuron hafi haft hvað mest áhrif á mig bæði í náminu og í fagumhverfinu. Þeir hafa alltaf nálgast hvert verkefni á ólíkan hátt, haft auga fyrir smáatriðum og efniskennd og geta unnið með smá, miðlungsstór og risastór verkefni af sömu næmni. Verk þeirra eru jafnólík og staðirnir sem þeir hafa unnið með.“

Einbýlishús í Randers, Danmörku, hannað af KRADS arkitektum og hlaut Arkitektaverðlaun Randers árið 2013. Myndir: Runólfur Geir Guðbjörnsson.

Hvar standa Íslendingar á heimsvísu hvað varðar arkitektúr og samkeppnishæfni? „Það eru margar góðar arkitektastofur á Íslandi. Margar þeirra eru litlar og ungar stofur sem mættu gjarnan fá fleiri tækifæri til að spreyta sig við stærri verkefni – það myndi sannarlega bæta stöðu okkar hvað varðar arkitektúr og samkeppnishæfni. Ég vil nota tækifærið og gagnrýna ákveðna fljótfærni og íhaldssemi í byggingargeiranum, sérstaklega þegar kemur að uppbyggingu fjölbýla og umhverfis þeirra á Íslandi. Þar virðist þemað oftast vera; hratt, auðvelt og ódýrt. Góð uppbygging þarf ekki að vera kostnaðarsöm og hún þarf ekki endilega að vera erfið. En hún er sjaldan hröð. Það þarf að gefa sér tíma að hugsa, og hanna, hlutina til enda áður en farið er af stað. Góð hönnun getur sparað í uppbyggingu, gert byggingar hagkvæmari í rekstri og skapað margvísleg aukin verðmæti. Langtímahugsun virðist oft gleymast hér á landi og við mættum horfa til nágrannalanda okkar í ríkari mæli hvað gæði snertir. Hér á landi er einblínt um of á kostnað pr. fermetra, fáir vandaðir og dýrari fermetrar geta verið hagkvæmari en margir ódýrir af litlum gæðum.“

Sumarhús í Kiðjabergi eftir KRADS arkitekta. Myndir: Marino Thorlacius.

Hvað er mikilvægast þegar kemur að góðri hönnun og hvað ber að varast? „Mikilvægast þykir mér að gefa sér góðan tíma og vanda til hvers þess verks sem maður tekur sér fyrir hendur. Við hönnun er nauðsynlegt að skoða og prófa margar mismunandi útfærslur sem koma til greina svo hægt sé að finna þá bestu, þetta tekur tíma. Einnig er gríðarlega mikilvægt, að mínu mati, að velja góð efni, efni sem fá að eldast og veðrast fallega, þannig gerum við byggingar og rými sem bæði endast og eldast vel. Það sem ber að varast, að mínu mati, er þessi dýrkun á viðhaldsfríum lausnum í hinu og þessu. Ég tel það hreinlega nauðsynlegt að byggingar hafi viðhald upp að vissu marki. Við þurfum að sýna okkar nánasta umhverfi umhyggju og virðingu, megum ekki enda í plastísku ofneyslusamfélagi þar sem einnotalausnir eru allsráðandi. Við getum lært mikið af okkur eldri kynslóðum sem keyptu sér eina vandaða hrærivél, hún var dýru verði keypt en dugði þeim alla þeirra ævi og situr jafnvel á eldhúsborði okkar kynslóðar í dag.“

 

Siðblind, sturluð og illa innrætt

Húsnæðismálin verða stór lykill að komandi kjaraviðræðum og hluti af lausninni. Þetta sagði forseti ASÍ í fréttum eftir að hafa fundað með öðrum fulltrúum launþega, atvinnurekenda, sveitarfélaga og ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í vikunni og undir þau orð tóku fleiri á fundinum. Tekjugrunnur samfélagsins var líka ræddur að sögn viðstaddra og sitthvað fleira.

Mikið var nú gott að fá þarna yfirvegaða skýringu á stöðunni því eftir að stærstu stéttarfélögin lögðu fram kröfugerðir sínar á dögunum hefur umræðan verið svo heiftúðug að það hefur verið svolítið erfitt að átta sig á því um hvað málið raunverulega snýst. Dylgjur og ásakanir um óheiðarleika og illan ásetning hafa gengið á víxl. Fólk hefur verið sakað um að vera gráðugt, siðblint, þjófótt, sturlað, viðbjóðslegt, illa innrætt og þaðan af verra. Á einum stað var manneskja nánast vænd um að vera undirrót alls ills af því að hún skaut föstum skotum á leiðtoga stéttarfélags í pistli.

Umræðan hefur verið svo dramatísk á köflum að hún hefur frekar minnt á upphlaup í unglingapartíi en skoðanaskipti fullorðins fólks. Samlíking sem væri kannski í aðra rönd skondin ef þessi umræða hefði ekki verið svona rætin og ljót og ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að hér eiga hlut að máli aðilar sem hafa meðal annars valist í þau ábyrgðarfullu störf að sitja við samningaborðið í viðræðum sem munu hafa gríðarleg áhrif á allt og alla í samfélaginu.

Auðvitað er skiljanlegt að fólki, til dæmis forystufólki stéttarfélaganna, verði heitt í hamsi og það láti í sér heyra. Að það skuli berjast fyrir því að störf launafólks í landinu séu metin að verðleikum og hlutur hinna verstu settu í þjóðfélaginu sé réttur af. Það er ekkert athugavert við að vilja bæta samfélagið. Og það er heldur ekki óeðlilegt að „hin hliðin“ skuli tjá sig um málið. Að einhverjir segist hafa áhyggjur af því að ekki verði í öllum tilfellum hægt að standa undir launakostnaði nái kröfurnar fram að ganga. Og að einhverjir hafi áhyggjur af því að miklar launahækkanir kunni að leiða til aukinnar verðbólgu í þjóðfélaginu. Vitanlega hafa menn fullt frelsi til að tjá skoðanir sínar og gera það eins og þeim sýnist. En halda þeir virkilega að það muni hjálpa til að hlaupa upp til handa og fóta í hvert sinn sem einhver á öndverðri skoðun við þá sjálfa stingur niður penna eða opnar á sér munninn, „tjúllast“ svo gripið sé til vel þekkts orðs í umræðunni og hrauna yfir viðkomandi. Að það muni einhvern veginn liðka fyrir viðræðunum að vera með skítkast og leiðindi.

Fram undan eru strembnar kjaraviðræður. Vonandi ber viðsemjendum gæfa til að einblína á aðalatriðin. Halda sig við það sem máli skiptir og láta ómerkilegar dylgjur og ásakanir sér sem vind um eyru þjóta. Það er mikið í húfi og smásmugulegt þref hjálpar ekki til.

Ekkja plastbarkaþegans fær ekki greiddar bætur

Karolinska-háskólasjúkrahúsið hefur sent lögfræðingi ekkju Andemariams Beyene í Svíþjóð bréf um að hún muni ekki fá bætur greiddar frá sjúkrahúsinu. Kemur þetta verulega á óvart þar sem talsmaður sjúkrahússins hafði áður lýst yfir að hún fengi bætur.

MM Samkvæmt Merhawit Baryamikael Tesfalase, ekkju Andemariams Beyene, fyrsta plastbarkaþegans, mun hún ekki fá bætur frá Karolinska-háskólasjúkrahúsinu þar sem aðgerðin var framkvæmd en hún segir að því hafi áður verið lýst yfir af talsmanni sjúkrahússins í viðtali í fjölmiðlum að fjölskylda Andemariams Beyene fengi bætur.

„Þetta er mér næstum ofviða ofan á allt sem hefur gengið á. Ef Andemariam hefði farist í bílslysi, hefði allt verið mun auðveldara. Þá hefðu hlutirnir legið fyrir, en þetta mál hefur elt mig í fimm ár og ætlar engan enda að taka. Ég get ekki lýst því hvað ég er vonsvikin,“ segir Merhavit Baryamikael Tesfalase um efni bréfsins.

Fékk eingöngu afsökunarbeiðni

Merhawit segir að talsmaður Karolinska-háskólasjúkrahússins hafi sagt í viðtali að sjúkrahúsið myndi greiða sér bætur vegna þess mikla missis sem fjölskyldan varð fyrir þegar eiginmaður hennar, Andemariam Beyene, lést í kjölfar þess að hann fór í tilraunaaðgerð þar sem plastbarki var græddur í hann. En nú hefur Karolinska-háskólasjúkrahúsið snúið við blaðinu og ákveðið að ekkjan fái engar bætur. Bréf þess efnis hefur borist Merhawit og var það undirritað af Melvin Samsom, forstjóra Karolinska-háskólasjúkrahússins, og sent til lögfræðings Merhawit en í því segir forstjórinn að ekki hafi tekist að ná sambandi við Merhawit.

Í bréfinu er Merhawit eingöngu beðin einlæglegrar afsökunar á þeim sársauka sem sjúkrahúsið olli henni og fjölskyldu hennar með þeirri meðferð sem Andemariam Beyene hlaut. Þar segir að ábyrgðin sé hjá Paolo Macchiarini og er vísað í skýrslu Kjell Asplund, fyrrverandi landlæknis í Svíþjóð, þess efnis og að sjúkrahúsið muni ekki þess efnis og að sjúkrahúsið muni ekki greiða henni bætur, það sé alfarið á hendi Sjúkratryggingafélagsins í Svíþjóð.

Samsom segir þó í bréfinu að Karolinska-háskólasjúkrahúsið hafi ekki fylgt viðurkenndum verkferlum og að kerfi stofnunarinnar hafi brostið og því ekki tryggt öryggi Andemariam Beyene.

Í lok bréfsins segir að hún geti sótt um miskabætur hjá sjúktatryggingakerfinu líkt og aðrir sjúklingar í Svíþjóð sem telja sig hafa orðið fyrir skaða af völdum læknismeðferðar og að Karolinska-háskólasjúkrahúsið muni veita henni aðstoð við það, óski hún þess. Þær bætur eru þó mjög lágar miðað við alvarleika þessa máls en mál Merhawit hefur verið hjá lögfræðingi í tvö ár. Hún hefur eingöngu fengið smávægilegar bætur vegna jarðarfararkostnaðar Andemariams Beyene og hefur Merhawit ekki ákveðið enn hvort hún muni sækja um bætur úr sjúkratryggingakerfinu. Ekki hafa fengist svör frá lögfræðingi Merhawit í Svíþjóð um þetta og hvert sé næsta skref.

Saksóknari gæti ákært Macchiarini

Saksóknari í Svíþjóð mun á næstu dögum eða vikum ákveða hvort opinber rannsókn verði gerð á máli Paolo Macchiarini, en þá gæti farið svo að hann yrði ákærður fyrir lögbrot í starfi. Saksóknari ákvað á síðasta ári að ákæra ekki Macchiarini en sú ákvörðun var gagnrýnd mjög í Svíþjóð. Samkvæmt heimildum Mannlífs er Macchiarini enn við störf á Spáni, Ítalíu og í Tyrklandi.

Íslensk lögfræðistofa hefur haft samband við Landspítala

Anna Sigrún Baldursdóttur, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir í samtali við Mannlíf að í Rannsóknarskýrslunni íslensku sé það tillaga nefndarinnar að Landspítali veiti ekkjunni fjárhagsaðstoð til að verða sér úti um lögfræðiaðstoð til að leita réttar síns. Landspítalinn hafi verið í sambandi við lögfræðing ekkjunnar í Svíþjóð og nú einnig lögfræðinga hennar hér á landi. „Málið er í höndum lögfræðistofu ekkjunnar hér á landi sem hefur sett sig í samband við spítalann fyrir hennar hönd og er málið þar statt,“ segir Anna Sigrún.

Þegar Mannlíf hafði samband við lögfræðing ekkjunnar hér á landi, Gest Gunnarsson, sagði hann að lítið væri að frétta af máli Merhawit er snerti Landspítala. Það væri í vinnslu.

Tilraunaaðgerðir á fólki

Plastbarkaaðgerðirnar voru taldar tilraunir á mönnum og ráðning Macchiarini til Karolinska-stofnunarinnar og Karolinska-háskólasjúkrahússins var í samræmi við stefnu um að byggja þar upp miðstöð fyrir háþróaðar öndunarvegsskurðlækningar. Umfangsmikið alþjóðlegt tengslanet Macchiarini átti að tryggja að miðstöðin yrði leiðandi á heimsvísu. Um var að ræða tilraunaaðgerð á Andemariam Beyene sem tilskilin leyfi voru ekki fyrir. Samkvæmt því sem kemur fram í nýútkominni bók blaðamannsins Bosse Lindquist, sem gerði Experimenten-þættina um málið, mun teymi lækna á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu hafa komið að ákvörðun um framkvæmd aðgerðarinnar örlagaríku á fundi á spítalanum daginn fyrir hana, þ.á m. læknar sem síðar voru meðhöfundar að Lancet-vísindagreininni sem hefur verið afturkölluð vegna vísindalegs misferlis. Þessi niðurstaða á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu kemur því þeim mjög á óvart sem fylgst hafa náið með þessu máli eða unnið að því í Svíþjóð.

Svo miklu meira en bara þingsæti

Mynd/Pixabay

Þingkosningarnar í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag voru um margt sögulegar og munu hafa víðtæk áhrif á þróun mála í landinu næstu árin. Í raun stendur hvorugur flokkur uppi sem sigurvegari. Demókratar hirtu meirihlutann af repúblíkönum í fulltrúadeildinni á meðan þeir síðarnefndu juku við meirihlutann í öldungadeildinni. Þetta var allt saman í kortunum fyrir kosningar. Donald Trump getur bent á að þeir þingmenn sem fylgja hans stefnu hafi notið velgengni á meðan demókratar fá fjölmörg tækifæri til að gera forsetanum lífið leitt næstu tvö ár, þótt niðurstaðan sé nokkuð undir væntingum þeirra. En það var fleira undir en bara þingsæti, líkt og rakið er hér að neðan. Kosið var um breytingar sem eflaust munu hafa meiri og varanlegri áhrif til framtíðar litið heldur en þingmannaskipan þetta tiltekna kjörtímabil.

 

Fullt af alls konar

Þetta voru kosningar kvenna. Fjöldi kvenna í framboði hefur aldrei verið meiri og aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar til áhrifa, bæði í Washington og ríkisþingunum. Hin 29 ára Alexandria Ocasio-Cortez sigraði í kjöri til fulltrúadeildar í New York og varð þar með yngsta konan í sögunni til að gegna þingmennsku. Konur voru sömuleiðis sagðar áhrifamesti kjósendahópurinn í aðdraganda kosninga. Jared Polis, demókrati frá Colorado, varð fyrsti samkynhneigði (opinberlega) ríkisstjórinn í sögu Bandaríkjanna, fyrstu múslimakonurnar náðu kjöri sem og fyrstu konurnar af ætt frumbyggja.

 

Klofnari en nokkru sinni fyrr

Niðurstaðan sýnir að Bandaríkin eru klofnari en nokkru sinni fyrr. Grasrót flokkanna og hugmyndafræði er eins ólík og hugsast getur og endurspeglaðist þetta í kosningabaráttunni. Demókratar herjuðu á konur, minnihlutahópa og yngstu kynslóðina í borgum og úthverfum á meðan repúblíkanar töluðu til hvítra karlmanna og íbúa í dreifbýli. Í öllum þessum hópum var metkosningaþátttaka. Þetta er bara upptakturinn að því sem koma skal fyrir forsetakosningarnar 2020 þar sem Trump mun sækjast eftir endurkjöri. Strax eftir kosningar sendi hann tilvonandi frambjóðendum þau skilaboð að ef þeir spila með honum muni þeim farnast vel.

 

Baráttan fyrir 2020 er hafin

Kosningarnar voru prófraun fyrir þá demókrata sem freista þess að bjóða sig fram gegn Donald Trump að tveimur árum liðnum. Eftir úrslit þriðjudagsins er staldrað við nafn tveggja kvenna sem unnu góða sigra. Annars vegar Amy Klobuchar sem vann stórsigur í Minnesota og Kirsten Giliband frá New York en báðar eiga þær digra sjóði úr kosningabaráttunni. Sherrod Brown kom sterkur út úr Ohio og er þegar farinn að gæla við framboð en þrjár vonarstjörnur flokksins urðu fyrir tjóni, Andrew Gillum, Stacey Abrams og Beto O´Rourke. Af þessum er O´Rourke líklegastur en hann fór nærri því að fella Ted Cruz í Texas.

 

Marijúana-byltingin heldur áfram

Samhliða þingkosningum er kosið um fjölda annarra málefna. Þannig var marijúana lögleitt í þremur ríkjum Bandaríkjanna. Í Michigan var sala á efninu til einkanota gefin frjáls á meðan Missouri og Utah lögleiddu marijúna í lækningaskyni. Orkufyrirtæki unnu einnig stóra sigra. Í Colorado tókst þeim að koma í veg fyrir bann gegn olíuborun á stórum svæðum í ríkinu, kjósendur í Washington komu í veg fyrir kolefnisgjöld á stórnotendur og í Arizona var felld tillaga um hlutfall sjálfbærrar orku. Orkufyrirtækin eyddu tugum milljóna dollara í þessa kosningabaráttu. Þá munu yfir milljón manns í Flórída bætast á kjörskrá eftir að íbúar þar samþykktu að veita fólki á sakaskrá kosningarétt að nýju. 9% kosningabærra manna í Flórída eru á sakaskrá, að stórum hluta eru þeir úr minnihlutahópum.

Birtist fyrst í Mannlífi 9. nóvember.

Íslenskur byssubófi í villta vestrinu

Kári Valtýsson gefur út bókina Hefnd.

Kári Valtýsson er ungur lögfræðingur sem í gær sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Hefnd. Umfjöllunarefnið er nýjung í íslenskri skáldsagnaflóru því sagan fjallar um Íslending sem gerist byssubófi í villta vestrinu á árunum eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum.

„Þetta er saga sem byrjar 1866 í Reykjavík og segir frá ungum manni sem kemur sér í vandræði og þarf að flýja til Ameríku,“ segir Kári spurður um söguefnið. „Þar fær hann vinnu við að leggja járnbrautarteina í villta vestrinu og smám saman leiðist hann út í að verða byssubófi.“

Kári segist hafa skrifað lengi og fengið alls konar hugmyndir sem hafi komið og farið en svo var það árið 2015 sem hugmynd festist í hausnum á honum og neitaði að hverfa.

„Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvað hefði verið svo hræðilegt á Íslandi á þessum tíma að fjöldi fólks hafi flúið til Ameríku,“ segir hann. „Ég lagðist í að skoða heimildir og lesa gömul tímarit eins og Þjóðólf, leitaði á söfnum og fann ritgerð eftir Þórberg Þórðarson þar sem hann tók viðtöl við fólk sem var uppi á þessum tíma. Mér fannst þetta svo ótrúlega forvitnilegt að ég fór lengra með þetta og fór að spá í hvað hefði verið að gerast í Bandaríkjunum á þessum tíma. Það var ekkert lítið spennandi, þrælastríðinu nýlokið og verið að reyna að tjasla samfélaginu saman á meðan frægir útlagar og byssubófar óðu uppi. Þetta kveikti í mér og mér datt í hug að búa til sögu um gaur sem þarf að láta sig hverfa af landi brott og flytjast vestur um haf þar sem hann endar á að verða byssubrandur.“

Hollywood-legur hasar og íslenskur veruleiki

Kári segist hafa séð þarna raunhæfa leið til að skrifa óraunhæfa sögu enda hafi hann lengi verið aðdáandi vestra, bæði í kvikmyndum og bókmenntum.

„Maður var ekkert kúreki á öskudaginn þegar maður var lítill að ástæðulausu,“ segir hann og hlær. „Það hefur alltaf blundað í mér áhugi fyrir þessu tímabili og hann hefur bara aukist með árunum. Ég hef lesið mikið af bókum Elmores Leonard, sem fyrir utan að skrifa vestra skrifaði handritin að Jackie Brown og Get Shorty, og svo eru tvær síðustu myndir Quentins Tarantino vestrar sem enn juku áhugann.“

Spurður hvort hann hafi kannski legið í Morgan Kane sem strákur neitar Kári því en segir Hollywood kannski eiga stærstan þátt í því að viðhalda þessum vestraáhuga. En er Hefnd skrifuð í Hollywood-stíl?

„Já og nei,“ segir Kári hugsi. „Hún er náttúrlega full af hasar, sem er kannski innblástur frá Hollywood. Það eru vondir kallar og góðir kallar og margt í mjög hefðbundnum anda vestranna en hins vegar held ég ekki að neinn hafi látið sér detta í hug að láta það ganga upp að setja Íslending í þessar aðstæður. Það sem er ekki Hollywood-legt við söguna eru kaflarnir um Ísland, sem eru stór hluti bókarinnar. Þar er ekki mikil vestrastemning en mér fannst það mjög skemmtilegt og forvitnilegt að skoða það.“

Er söguhetjan þá að rifja upp hvernig lífið var heima á milli þess sem hann er að skjóta fólk?

„Nei, þetta er línuleg frásögn,“ segir Kári. „Bókin byrjar reyndar með skotbardaga á sléttunum í Bandaríkjunum en svo fáum við að vita hvernig söguhetjan komst þangað, hverfum til baka og lærum hvernig lífið hefur leikið hann þangað til hann kemst á þennan stað. Svo heldur sagan af honum í villta vestrinu áfram.“

Skrifar í staðinn fyrir sjónvarpsgláp

Kári er þrjátíu og þriggja ára lögfræðingur í fullu starfi. Ólst upp á Akureyri en býr nú í Vesturbænum í Reykjavík með eiginkonu og tveimur ungum börnum. Hvenær hefur hann tíma til að setjast niður og skrifa í þeim aðstæðum?

„Þetta er spurning sem ég fæ mjög oft frá vinum mínum,“ segir hann hlæjandi. „Mjög góð spurning, í rauninni. Ég nota kvöldin í að skrifa. Sest við skriftir í staðinn fyrir að horfa á bíómyndir eða þætti eða hanga á Facebook. Maður tekur bara kvöldin í þetta þegar maður er í stuði. Ég les alltaf á kvöldin áður en ég fer að sofa og síðustu ár hefur sá lestur verið á heimildum sem tengjast þessum tíma.“

Ungir höfundar kvarta oft yfir að erfitt sé að koma sér á framfæri með fyrstu bók, var það ekkert vandamál fyrir Kára?

„Það var strax áhugi á söguefninu hjá fleiri en einum útgefanda,“ segir hann. „En maður er náttúrlega nýr höfundur og það fylgir því áhætta að gefa út bækur eftir alls óþekkta höfunda, tala nú ekki um einhvern sem er nógu klikkaður til að skrifa íslenskan vestra. En Tómas útgefandi hjá Sögum útgáfu stökk strax á þetta og fannst þetta bara helvíti flott, þannig að áður en ég vissi af var ég búinn að skrifa undir útgáfusamning og setja allt á fullt. Það er bara frábært, enda gamall  draumur minn að rætast.“

Ekki gott að verða tæklaður

Bókin kom í búðir í gær, hvernig líður Kára með það að vita til þess að nú fari fólk að lesa hana og leggja á hana mat? Kvíðir hann fyrir?

„Þetta leggst ágætlega í mig,“ segir hann kokhraustur. „Það er auðvitað kvíðablandið að hugsa til þess að einhver sé að lesa bókina mína, en líka ánægjulegt og forvitnilegt þannig að ég er í rauninni bara fullur þakklætis. Ef einhverjum mislíkar bókin þá er það bara partur af ferlinu, það eru aldrei allir sáttir. Ég er mjög glaður með bókina, stend með henni alla leið og vona bara að þetta leggist vel í fólk.“

Og þú munt ekkert fara á taugum þótt gagnrýnendur tæti bókina í sig?

„Það verður ekkert góður dagur ef maður verður tæklaður, ef ég má orða það þannig,“ segir Kári sposkur. „En maður þarf bara að arka í gegnum það eins og annað í lífinu. Það er auðvitað ekki draumur rithöfundar að fá dóm þar sem bókin er tætt niður, það væri miklu meira gaman að fá góða rýni, en við vonum það besta bara.“

Draumur allra leikara

Leikkonan Auður Finnbogadóttir sem gengur undir listamannsnafninu Audi Finn erlendis hefur náð góðum árangri í Hollywood undanfarið ár og var nýlega valin besta leikkonan á bandarísku kvikmyndahátíðinni Festigious Film Festival í Los Angeles.

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég átti nú einhvern veginn ekki von á þessu því þarna voru margir frábærir leikarar tilnefndir. En þetta er klárlega mikill heiður og það að svona virtir gagnrýnendur og dómarar skuli á endanum hafa valið mig er kannski ákveðin staðfesting á því að maður sé á réttri hillu í lífinu,“ segir Auður Finnbogadóttir í samtali við Mannlíf en hún var nýverið valin besta leikkonan á bandarísku kvikmyndahátíðinni Festigious Film Festival í Los Angeles.

Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi leik aðalleikkonu í sjálfstæðri („indie“) kvikmynd og komu þau í hlut Auðar fyrir leik hennar í No Surprises, dramatískri stuttmynd sem fjallar um gifta konu sem verður barnshafandi eftir fyrrverandi elskhuga sinn og ákveður að eiga barnið.

„Þetta er klárlega mikill heiður og það að svona virtir gagnrýnendur og dómarar skuli á endanum hafa valið mig er kannski ákveðin staðfesting á því að maður sé á réttri hillu í lífinu.“

Auður segir hlutverkið hafa verið krefjandi og töluvert frábrugðið því sem hún hefur fengist við fram til þessa, en síðastliðið ár hefur hún verið að leika í þáttum, stuttmyndum og kvikmyndum í Bandaríkjunum og því aldrei að vita nema einhverjir íslenskir áhorfendur kunni að hafa barið leikkonuna ungu augum án þess að gera sér grein fyrir að þar væri Íslendingur á ferð.

„Hérna heima hef ég mest verið að leika á sviði og talsetja teiknimyndir eins og Barbie og Monster High en úti hef ég aðallega verið að leika í fantasíum og kómedíum í þáttum og er oft „tæpköstuð“ í hlutverk fyndnu ljóskunnar eða einhverra ævintýrapersóna. Er t.a.m. að leika um þessar mundir í annarri seríu af vinsælum ævintýraþáttum á YouTube, WitchHaven, þar sem ég fer með aðalhlutverkið,“ nefnir hún sem dæmi.

„Þannig að það var spennandi að fá að spreyta sig á einhverju allt öðru en maður hefur verið að gera hingað til, á hlutverki sem krafðist þess að ég sýndi á mér nýjar hliðar.“

Fékk hlutverkið upp í hendurnar

Auður segir hlutverkið í No Surprises jafnframt það fyrsta sem hafi boðist sem var skrifað sérstaklega með hana í huga. Hún hafi ekki einu sinni þurft að mæta í leikprufur heldur fengið handritið í hendurnar, nokkuð sem sé draumur allra leikara og alls ekki sjálfsagður hlutur.

„Hérna úti þurfa leikarar oft að hafa mikið fyrir því að landa hlutverki sem þeim líst vel á. Senda framleiðendum myndbönd með sjálfum sér eða sækja um að komast í leikprufur,“ útskýrir hún og segir að það sé nokkuð sem hún þekki vel af eigin raun þar sem hún hafi þurft að leggja mikið á sig til að komast á þann stað sem hún er í dag. Það sé eiginlega ótrúlegt að eftir aðeins eitt ár í bandaríska kvikmyndabransanum skuli framleiðendur vera farnir að hafa samband að fyrra bragði og boða hana í prufur.

Spurð hvernig það sé eiginlega fyrir unga leikkonu frá Íslandi að fóta sig í Hollywood segir Auður að þetta sé stór bransi þarna úti, miklu stærri en á Íslandi og uppfullur af tækifærum en hann sé harður líka. „T.d. er mjög erfitt að vera fjarri fjölskyldunni á Íslandi þótt maður heimsæki hana annað slagið og eigi í reglulegum samskiptum við hana á Netinu. Þetta er náttúrlega bara allt öðruvísi lífsstíll en flestir þekkja, þessi bransi hérna úti. Sjálf nýt ég þess að mæta í prufur og á alls konar kvikmyndatengda viðburði en það er einmitt mikilvægt að reyna að hafa gaman af hlutunum og gleðjast t.d. eins og þegar maður landar hlutverki eða þegar maður vinnur óvænt til verðlauna á hátíð eins og Festigious Film Festival. Það skiptir svo miklu að halda í jákvæðnina ef maður ætlar að endast í þessum bransa.“

„Þetta er náttúrlega bara allt öðruvísi lífsstíll en flestir þekkja, þessi bransi hérna úti.“

Spennandi verkefni fram undan

En telur hún að umrædd verðlaun muni opna fleiri dyr í Hollywood? „Ég get alla vega ekki geta kvartað undan verkefnaskorti,“ segir hún og hlær. „Fram undan eru t.d. áframhaldandi tökur á WitchHaven og tökur á annarri seríu af The Let Down, „hermannaþáttum“ þar sem ég fer með stórt hlutverk og sem hafa verið sýndir við miklar vinsældir á straumsveitunni VETTv. Þá er ég líka að fara að leika í myndinni Serpentine upp úr áramótum á móti leikaranum Daniel Gregory Feuerriegel, sem lék m.a. í myndinni Pacific Rim og þáttunum Spartacus. Þannig að það er alveg nóg að gera hjá mér.“

Það er nú ekki beint að heyra að þér leiðist erillinn og vinnuálagið í Hollywood? „Nei, síður en svo,“ segir hún glöð. „Ég er í heildina mjög sátt.“

 

Væri til í að eiga lítið, fallegt hús í Montenegro

Elías Haraldsson, löggiltur fasteignasali hjá 450 Fasteignasölu, er hrifinn af ferska loftinu, rökkrinu, kertaljósunum og rómantíkinni sem fylgir vetrinum. Uppáhaldsinnanhússarkitektinn hans er Berglind Berndsen.

Hvað heillar þig mest við starfið?

„Ég held að það sé þessi fjölbreytileiki og samskipti við fólk á öllum aldri. Að hafa milligöngu um kaup og sölu fasteigna getur verið mjög skemmtilegt, sérstaklega þegar allt gengur upp og kaupendur og seljendur eru ánægðir. En það getur líka verið mjög krefjandi að leysa úr málum þegar allt gengur ekki alveg upp, eins og til dæmis gallamál og fleira og þá er mjög gott að hafa góða og langa starfsreynslu.“

Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?

„Hann er nú mjög breytilegur í þessum bransa. Þú ert í raun og veru alltaf í vinnunni eftir að farsíminn varð svona ofboðslega sterkur og mikilvægur. En auðvitað reynir maður að stjórna sínum tíma eins og allt venjulegt fólk. Sérstaklega þegar maður hefur unnið við þetta í þrjátíu ár. En ég reyni að byrja snemma, fer í ræktina í hádeginu, nema á miðvikudögum, þá hitti ég gamla félaga mína úr Val í hádegisverð. Svo er það misjafnt hvað ég er lengi að, það fer allt eftir því hvað er mikið að gera til dæmis opin hús, skoða, sýna og fleira.“

Hvað finnst þér gera heimili að heimili?

„Þegar ég finn persónulega strauma þegar ég geng inn á heimili, eins og fjölskyldumyndir uppi á veggjum, hlýlega liti, persónulega muni og notaleg húsgögn.“

Geturðu lýst þínum stíl?

„Ég veit ekki hvort ég hafi einhvern sérstakan stíl. Mér finnst gaman að eiga falleg og vönduð húsgögn í bland við eitthvað einfalt og ódýrt, eins og IKEA-vörunar sem alltaf er hægt að skipta reglulega út fyrir eitthvað annað. Svo finnast mér myndir á veggjum skipta máli.“

Áttu uppáhaldsarkitekt?

„Engan alveg uppáhalds enda margir mjög góðir og alltaf spurning um hvaða tímabil ræðir, en Guðjón Samúelsson teiknaði margar mjög fallegar byggingar. En hvað varðar innanhússarkitekt held ég að það sé Berglind Berndsen.“

Áttu uppáhaldshönnuð?

„Ég veit það ekki, það eru svo margir góðir og erfitt að draga einhvern einn út. En ætli það sé ekki bara konan mín heitin, hún var ótrúlega sniðug og klár að raða saman fallegum hlutum gömlum og nýjum í bland með skemmtilegum og hlýlegum litum.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?

„Ég væri alveg til í að eiga lítið, fallegt hús í Montenegro (Svartfjallalandi). Þar er mikið af fallegum fjöllum til að stunda skíðamennsku og góðar gönguleiðir svo ég tali nú ekki um frábærar fallegar strendur og sólin er þar oft á lofti.“

Uppáhaldsliturinn?

„Ég á engan uppáhaldslit, það skiptir svo miklu máli hvernig litum er raðað saman. Kannski er einhver litur ekkert sérstaklega fallegur þegar maður horfir á hann en þegar hann er í réttri litasamsetningu er hann mjög flottur. Þetta á bæði við fatnað og húsnæði.“

Hvar líður þér best?

„Ég held bara heima hjá mér og innan um fjölskyldu og vini. Mér líður líka ótrúlega vel  í sumarfríi að slappa af á einhverri sólarströnd á góðu hóteli.“

Hvað heillar þig mest við veturinn?

„Ferska loftið, rökkrið, kertaljósin og rómantíkin. Það kemur líka annar bragur yfir allt. Sumarfríin búin, haustið hverfur á braut, skólarnir komnir í fastar skorður, margir með ný markmið í ræktinni og matarræði.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?

„Ég hef farið mjög lítið út að borða upp á síðkastið en það eru margir mjög góðir veitingastaðir til um allt land en ég fór síðast á Skelfiskmarkaðinn og hann var mjög góður.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? 

„Já, örugglega, ég veit bara ekki hvað hann heitir. Ég hef séð mörg falleg hús í mismunandi byggingarstíl, en mér finnast ávallt vel teiknuð og vel skipulögð funkis-hús falleg. Svo skiptir lóðin alltaf mjög miklu máli og hvernig hús og byggingarstíll njóta sín.“

Að lifa lífinu lifandi er að … lifa núna og njóta þess. Vera þakklátur fyrir að hafa góða heilsu og geta gert allt sem maður vill. Það er það mikilvægasta í lífinu. Það er hægt að kaupa ýmislegt fyrir peninga í lífinu en ekki heilsuna. Þekki það af eigin raun.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

 

Raddir