Fimmtudagur 19. september, 2024
9 C
Reykjavik

Hafa safnað 40 millljónum

Forsvarsmenn Lýðháskólans á Flateyri hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans segir að lýðskólar auki breidd í námi og dragi úr brottfalli úr því.

„Við erum búin að tryggja fyrsta starfsár Lýðháskólans á Flateyri. En svo hníga öll rök til þess að nám við lýðháskóla verði fjármagnað eins og annað nám á Íslandi, með mótframlagi frá ríkinu,“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri.

Forsvarsmenn skólans hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Stór hluti af fénu kemur frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík en svo leggja stéttarfélög í púkkið. Margir íbúar á Flateyri styrkja hann líka mánaðarlega. Skólinn er nýstofnaður og tekur til starfa í haust.

Runólfur var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Lög um lýðháskóla hafa aldrei verið fest hér á landi en stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpi um það fyrir þinglok.

Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans, var með erindi á ráðstefnunni. Hún sagði mikilvægt að hafa lýðháskóla hér. Það muni auka mjög breidd í námi og draga úr brottfalli úr því. En ímynd skólanna verði að breytast hér. Á Íslandi sé litið á lýðháskóla sem kost fyrir námsfólk sem eigi erfitt með að fóta sig. Öðru máli gegni í Danmörku. Þar sendi forstjórar stórfyrirtækja og efnameira fólk börn sín í miklum mæli í lýðháskóla því víðsýni þeirra aukist til muna.

Mynd: Runólfur Ágústsson var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Hann segir mikilvægt að ríkið styðji við bakið við lýðháskólum hér með sama hætti og gert er í Danmörku.

Æskuvinkonur ætla að gera Ísland kvartlaust

|
|

Þuríður Hrund Hjartardóttir og Sólveig Guðmundsdóttir taka sér bandarískan prest til fyrirmyndar og reyna að hætta að kvarta og kveina í 21 dag samfleytt. Þær hafa fallið margoft á leið sinni til kvartleysis en finna mikla breytingu á sinni innri líðan.

„Það er skemmst frá því að segja að þessi áskorun hefur breytt lífi okkar beggja til hins betra, og allra sem standa okkur nærri. Að uppgötva það hversu mikið maður í raun kvartar og að hafa einfalt og gott tæki til að vinna með það er ólýsanlega frábært í alla staði,“ segir Þuríður Hrund Hjartardóttir, alþjóðamarkaðsfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Icepharma.

Þuríður fór, ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur, iðnhönnuði og eiganda Culiacan Mexican Grill, nýverið af stað með verkefnið Kvartlaus. Markmið verkefnsins er einfalt – að hætta að kvarta, en fyrirmynd þess er verkefnið A Complaint Free World, áskorun sem kemur úr smiðju Bandaríkjamannsins Will Bowen.

„Í byrjun febrúar sagði Sólveig mér frá snilldaráskorun sem prestur í Kansas fór af stað með fyrir nokkrum árum en það snýst um það að kvarta ekki í 21 dag samfleytt. Þessi áskorun hefur náð til yfir ellefu milljón manna. Okkur fannst þetta svo frábær hugmynd að við ákváðum að skora hvor á aðra og skuldbinda okkur að komast í gegnum 21 dag,“ segir Þuríður en þær Sólveig hafa verið vinkonur síðan í níu ára bekk og þekkjast því mæta vel.

Fall er óumflýjanlegt

Will Bowen byggir hugmyndafræði sína á því að vísindamenn hafi sannað að ef maður nær að halda sömu hegðun eða mynstri í 21 dag samfleytt verði það að vana. Will þessi lét hanna sérstök kvartlaus armbönd og gengur átakið út á það að færa armbandið frá öðrum úlnliðnum á hinn um leið og maður kvartar. Ef maður fellur, byrjar maður aftur á degi eitt í kvartleysi. Sólveig og Þuríður selja nú þessi armbönd á vefsíðu sinni kvartlaus.is, en Þuríður bætir við að skilgreiningin á kvarti sé mjög niðurnjörvuð í þessari hugmyndafræði.

„Það er sem sagt bannað að kvarta og bannað að tala illa um aðra. Will segir að þegar að maður slúðrar sé maður í raun að segja að maður sé betri en viðkomandi og það er flokkað sem kvart,“ segir Þuríður. Hún bætir við að þetta sé alls ekki eins einfalt og það hljómi. „Það skal tekið fram að þetta er ekki einfalt og við höfum fallið ótal oft á leiðinni, ég síðast í gær,“ segir Þuríður og hlær. „En það er hluti af þessu. Það er ekki séns að komast í gegnum þetta án þess að falla á leiðinni.“

Betri samskipti og meiri ró

Bandaríski guðfaðir kvartleysis segir það taka að meðaltali fjóra til sex mánuði fyrir fólk að hætta að kvarta í 21 dag samfleytt. Það liggur því beinast við að spyrja Þuríði hvert markmið þessara íslensku lærisveina sé?

„Við viljum gera Ísland kvartlaust fyrir árslok. Verðum við ekki að hugsa stórt? Þó að við myndum ekki ná nema tíu prósentum af þjóðinni yrði allt svo miklu betra,“ segir hún og bætir við að kvartleysið hafi haft góð áhrif á einkalífið, þrátt fyrir bakslögin.

„Við höfum verið að þessu síðan í febrúar og finnum báðar að það er allt önnur stemning inni á heimilum okkar. Það eru allir glaðari, meiri ró yfir heimilisfólkinu og á heildina litið erum við betri í samskiptum, þó að sjálfsögðu sjóði stundum upp úr. Það gerist samt sjaldnar en áður og það er það sem skiptir máli. Þegar maður eyðir minni tíma í að kvarta, hefur maður meiri tíma til að vera glaður.“

Armböndin sem eiga að hjálpa til við að hætta að kvarta.

Kvart og kvein

* Meðalmaðurinn kvartar 15 til 20 sinnum á dag.
* Rannsóknir hafa sýnt að fólk getur orðið reiðara ef það kvartar mikið.
* Rannsóknir hafa einnig sýnt að það að pústa við vin getur valdið mikilli streitu bæði hjá þeim sem pústar og þeim sem hlustar.
* Kvart og nöldur er oft ofarlega á blaði þegar kannað er hver helstu vandamál innan sambanda séu.

Það sem býr á bak við brosið

||||||
||||||

„Ég er ekki hræddur. Ég er samt ekki óhræddur. Ég er mjög spenntur og með mikinn fiðring í maganum yfir þessari ferð. Þessi spennutilfinning er sambland af gleði og óvissu því þessi keppni er óútreiknanleg. Það eina sem ég get gert er að gera mitt besta,“ segir söngvarinn Ari Ólafsson.

Það ætti að vera flestum Íslendingum kunnugt að Ari er fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni í ár. Ari kom, sá og sigraði með laginu Heim, sem síðar varð Our Choice á ensku, og flytur það á stóra sviðinu í Lissabon í Portúgal á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 8. maí næstkomandi. Ef allt gengur að óskum fær Ari að flytja það í annað sinn í úrslitunum sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.

Hrakfallabálkur sem barn

Ari er Reykvíkingur í húð og hár, en ólst einnig að hluta til upp í Orlando á Flórída hjá afa sínum.

„Ég ólst í raun upp á þremur stöðum. Ég átti heima niðri í bæ, á Laufásveginum, þar til ég var sex ára. Ég eyddi líka mjög miklum tíma úti í Bandaríkjunum hjá afa mínum og síðan fluttum við fjölskyldan á Kvisthaga þegar ég byrjaði í grunnskóla svo ég gæti gengið í Melaskóla. Og líka svo ég gæti gerst KR-ingur,“ segir Ari og hlær. „Pabbi minn er mikill KR-ingur og ég æfði fótbolta frá sex ára aldri. Ætli ég verði ekki KR-ingur fram í rauðan dauðann. Ég kemst ekki upp með neitt annað,“ bætir hann við.

Ari á einn yngri bróður og býr með honum og foreldrum sínum í grennd við JL-húsið í Reykjavík. Hann segir það fljótt hafa komið í ljós að hann væri með ADHD þar sem hann var oft frekar utan við sig sem krakki.

Brosið hans Ara hefur heillað fólk út um alla Evrópu.

„Ég var mjög glaður krakki. Ég var alltaf hlæjandi og brosandi,“ segir Ari, en þetta skæra og einlæga bros hans vann ekki aðeins hug og hjörtu Íslendinga heldur hefur það vakið athygli út fyrir landsteinana í aðdraganda Eurovision. „Það var rosalétt að vera með mig. Það var hægt að setja mig niður fyrir framan hvað sem er og ég bjó til eitthvað úr engu. En ég var alltaf að slasa mig. Ég er frekar óheppinn þegar kemur að meiðslum. Ég hef brotið handlegginn á mér um það bil sex til sjö sinnum,“ segir Ari og byrjar að telja upp öll brotin, sem hafa verið allt frá knjúkum og upp að öxl. „Þetta er líka alltaf sama höndin. Alltaf vinstri,“ segir Ari og brosir. „Líklegast tengist þetta eitthvað því hvað ég var utan við mig sem barn. Ég var ekki alveg að fylgjast með umhverfinu alltaf. Ég klifraði mikið og prílaði og gerði ýmislegt sem önnur börn myndu kannski ekki gera.“

Kallaður illum nöfnum í grunnskóla

Þótt Ari sé aðeins nítján ára gamall hefur hann talsverða reynslu af því að koma fram. Hann lék Oliver Twist í samnefndum söngleik í Þjóðleikhúsinu þegar hann var ellefu ára gamall og tveimur árum síðar spreytti hann sig í verkinu Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu. Nokkru síðar söng hann með norsku stórstjörnunni Sissel Kyrkjebø á tónleikum í Eldborg á 60 ára afmælistónleikum söngkennarans síns, Bergþórs Pálssonar. Ara segist líða best á sviði, en hins vegar fékk hann að líða fyrir þessa velgengni í grunnskóla.

„Ég var rosaóöruggur með mig þegar ég var yngri en það tengist því að ég lenti í einelti í skóla út af því að ég var í söngleikjum. Ég veit ekki hvort fólk öfundaði mig en það kallaði mig illum nöfnum og ég skar mig alltaf úr,“ segir Ari. Hann segir það líka miður að skólakerfið hafi ekki verðlaunað hann fyrir að standa sig vel í listrænum greinum og telur að íslensk menntayfirvöld megi gera betur í þeim efnum.

Ari lenti í einelti í grunnskóla.

„Ef krakkar hafa markmið sem þeir eru verðlaunaðir fyrir að ná, hvort sem það er í bóklegum fögum, listgreinum eða íþróttum, þá munu þeir sjálfkrafa standa sig betur og blómstra í því sem þeir eru góðir.“

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem Ari fékk útrás fyrir sína listrænu hæfileika.

„Ég fann mig rosalega mikið í tónlistinni þá. Ég held að þessi seinustu ár hafi verið þau bestu fyrir mig. Ég hef alltaf haft sjálfstraust en þegar ég hugsa til baka þá hefur ekki alltaf verið mikið innistæða fyrir þessu sjálfstrausti. Nú, hins vegar, er ég farinn að taka meira eftir því hvað ég er lánsamur og heppinn í lífinu og ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Ég vil vinna við tónlist og það að stíga upp á svið gerir mig ekki kvíðinn heldur spenntan. Þetta er akkúrat það sem ég vil gera. Ég vil vera uppi á þessu sviði. Það er um að gera að nýta hverja einustu sekúndu því þetta er búið áður en maður veit af,“ segir Ari

Nauðsynlegt að sýna tilfinningar

Ara hefur verið spáð í alls konar sæti í Eurovision, allt frá því fyrsta niður í það neðsta. Þá tvístraðist þjóðin yfir framlaginu þegar hann bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni og hlaut lagið slæma dóma í sjónvarpsþættinum Alla leið á RÚV fyrir stuttu. Ari segir vissulega erfitt að finna fyrir mótlæti en hefur tileinkað sér að nýta jákvæðni sem vopn gegn neikvæðni.

„Ég held að það sé mestallt mömmu og pabba að þakka. Mamma er sálfræðingur og pabbi er giftur sálfræðingi,“ segir Ari og hlær. „Ég fékk frekar flott uppeldi en auðvitað er alltaf erfitt að finna fyrir mótlæti. Í söng og leiklist er ég að tjá tilfinningar mínar. Ég er berskjaldaður. Ég er veikastur en einnig glaðastur og mitt besta sjálf þegar ég er uppi á sviðinu. Þegar fólk bregst illa við þá er það alltaf erfitt, en það er skemmtilegt að það jákvæða vegur alltaf meira en það neikvæða. Hins vegar virðist fólk alltaf einblína meira á það neikvæða, sem er algjörlega ekki það sem maður á að pæla í,“ segir Ari og við rifjum upp þá umræðu sem skapaðist þegar Ari grét af gleði í beinni útsendingu vegna velgengni í Söngvakeppninni.

„Þá komu neikvæðar raddir upp á yfirborðið en þær jákvæðu voru svo margar að þær þögguðu niður í leiðindaskapnum. Það er það sem skiptir máli, að fólk standi saman og líti á það jákvæða. Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því að það jákvæða í lífinu skiptir meira máli en það neikvæða. En ég er ánægður með að þessi umræða spratt upp og ég vil tala um þetta. Fólk á ekki að vera hrætt við að sýna tilfinningar og vera það sjálft. Maður á að hlæja þegar mann langar til að hlæja og vera leiður þegar mann langar að vera leiður. Sumt fólk er svo hrætt við að vera leitt að það er alltaf glatt, en það er ekkert á bak við gleðina. Það er hollt að finna fyrir reiði, pirringi og leiða en ekki leyfa þessum tilfinningum að stjórna sér. Maður þarf að finna fyrir þeim, átta sig á þeim og stjórna þeim. Þetta er það sem móðir mín hefur kennt mér allt mitt líf út af öllu sem ég hef gengið í gegnum. Maður getur nefnilega ekki stjórnað öðru fólki, maður getur bara stjórnað sjálfum sér,“ segir Ari, en þessi neikvæðni um tárin sem láku niður kinnar hans virtist vera beintengd við gamaldags hugmyndir um karlmennsku, úrelt gildi sem enn lifa góðu lífi.

„Fyrir mér er ekkert til sem heitir karlmennska eða kvenmennska. Þetta eru bara einhver hugtök, einhverjar ranghugmyndir sem fólk er með. Snýst lífið ekki frekar um hvernig manneskjur við viljum vera? Viljum við vera umburðarlynd, hjálpa öðrum og taka á móti lífinu af jákvæðni, eða viljum við vera sjálfselsk og leiðinleg? Á endanum verður hver að velja fyrir sig og ég ætla að velja rétt.“

Spenntur að hitta Rybak

Síðan Ari fór með sigur af hólmi í Söngvakeppninni hefur hann haft í nægu að snúast. Þegar hann lítur til baka og rifjar upp augnablikið þegar sigurvegarinn var tilkynntur kemur fallegt blik í augu söngvarans.

Ari heillaði þjóðina í Söngvakeppninni. Mynd / RÚV

„Það var ólýsanleg tilfinning sem skaust inn í hjartað mitt. Ég fékk svona sigurtilfinningu, eins og ég hefði sigrast á heiminum. Eins og ég hefði sigrast á sjálfum mér. Því mig langaði sjúklega mikið til að vinna og fara út með þennan boðskap og þetta lag. Þegar ég fattaði að ég væri búinn að vinna þá gerði ég mér grein fyrir því hvað ég er lánsamur og hvað þetta yrði gaman. Ég gat ekki beðið eftir að byrja undirbúninginn þannig að við byrjuðum strax daginn eftir. Ég er ekki búinn að fá einn frídag og ég nýt þess í botn. En vissulega kom sú hugsun yfir mig daginn eftir hve mikil ábyrgð hvílir á herðum mínum að vera fulltrúi Íslands í þessari keppni en ég er bara svo glaður að þetta sé að gerast.“

Ari er næstyngstur í Eurovision í ár, en hin spænska Amaia Romero er nokkrum mánuðum yngri en okkar maður. Hann segir aldurinn bæði geta verið ógnandi fyrir aðra en líka geta skapað efa í hans eigin brjósti.

„Ég held samt að það skipti minna máli en meira hvað ég er gamall,“ segir Ari. Eins og áður segir er hann spenntur fyrir keppninni og tilbúinn til að stíga á svið. Það er líka önnur ástæða fyrir því að Ari er fullur tilhlökkunar. Það er nefnilega út af því að eitt af átrúnaðargoðunum hans úr Eurovision-keppninni, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er meðal keppanda í ár en hann sigraði eftirminnilega með laginu Fairytale í Moskvu árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún vermdi annað sætið með Is it True?

„Ég er ofboðslega spenntur að hitta hann. Það er eiginlega skrýtið hvað ég er rosalega mikill aðdáandi og ég trúi því ekki að ég fái að hitta hann og tjilla með honum,“ segir Ari sem er það spenntur að hann er búinn að ákveða hvað hann ætlar að segja við þetta fiðluspilandi sjarmabúnt. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að þessu, en ég verð að segja honum að ég var ellefu ára þegar ég sá hann keppa og vinna og síðan þá hefur hann verið átrúnaðargoðið mitt. Ég vil samt koma þessu frá mér án þess að honum líði eins og hann sé fjörgamall,“ segir Ari og hlær sínum smitandi hlátri. Þá rifjast einmitt upp eitt handleggsbrotið sem gerðist akkúrat þegar Jóhanna Guðrún og Alexander Rybak kepptust um að komast upp úr undanúrslitariðlinum í Rússlandi um árið.

„Ég var í miðri stúdentsveislu hjá frænda mínum og við ákváðum nokkur að fara út að leika. Við vorum ofan á neti á marki sem slitnaði og markið hrundi. Ég datt ofan á markið og frændi minn datt hinum megin við höndina á mér. Það var járnplata á milli og ég heyrði handlegginn brotna. Þannig að ég missti af undanúrslitunum en ég horfði síðan á úrslitin í sumarbústað í fatla.“

Bankar á dyr hjá Universal Studios

Ari er klassískt menntaður söngvari og fékk að vita það stuttu fyrir Söngvakeppnina að hann væri kominn inn í fimm ára söngnám í hinum virta skóla The Royal Academy of Music í London. Hann flytur utan í haust, úr foreldrahúsum og inn á leigumarkaðinn með tveimur æskuvinum sínum. Saman skipa þeir hljómsveit og sér Ari dvölina í London með rómantískum blæ þar sem þeir vinirnir ætla að einbeita sér 150% að því að búa til tónlist.

„Við eigum fullt af lögum og erum með stúdíó hér heima sem við bjuggum til sjálfir en við höfum aldrei gefið neitt út. Það má segja að við spilum tónlist í ætt við Ed Sheeran og Coldplay, en við notum líka röddina sem hljóðfæri og sumt sem við semjum er í anda Sigur Rósar. Ég held allavega að það séu fáir að flytja svipaða tónlist og við. Við ætlum að búa saman þrír í London og það er eiginlega það sem ég hlakka mest til. Að sofa allir þrír saman í einu herbergi og breyta restinni af íbúðinni í stúdíó,“ segir Ari og bætir við að með þátttöku hans í Eurovision hafi opnast ýmsar dyr fyrir tríóið.

„Ég er að skapa mjög góðan vettvang fyrir okkur núna. Um daginn komst ég til dæmis í samband við yfirmann hjá útgáfufyrirtækinu Universal Studios og var beðinn um að senda efnið okkar á hann. Ef allt gengur að óskum þá gætum við hugsanlega komist á samning, þannig að það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. Ég finn allavega að Eurovision opnar ýmsar dyr og þetta snýst um að grípa þau tækifæri sem gefast.“

En er ekki litið niður á Eurovision í hinum klassíska söngheimi?

„Nei, alls ekki. Það gleymist oft að Eurovision snýst mikið um fallegar og einlægar ballöður, sem oft týnast í poppinu því það er fyrirferðarmeira. En við sáum hvað gerðist í fyrra. Salvador Sobral steig á svið með afar fallega ballöðu og náði að tengjast öllum heiminum í gegnum tónlistina. Það er þessi tenging sem er svo falleg og hún skiptir ofboðslega miklu máli.“

Hér eru þau Ari og Þórunn í Eurovision-fyrirpartíi í Ísrael fyrir stuttu. Mynd / Stijn Smulders

Eurovision-gallinn á eftir að vekja athygli

Ari hefur ferðast um Evrópu síðustu daga, ásamt lagahöfundinum Þórunni Ernu Clausen, til að kynna sig og lagið áður en kemur að stóru stundinni í Portúgal.

„Við Þórunn erum búin að fara um allt og skemmta í svokölluðum fyrirpartíum fyrir Eurovision. Ég var úti í tólf daga samfleytt, fór fyrst til London, síðan til Ísrael, svo til Portúgal að taka upp póstkortið fyrir keppnina og endaði í Amsterdam. Þá fór ég heim í tvo daga og hélt síðan út til Madríd. Ég er nýkominn heim og á morgun flýg ég til London að syngja á tónleikum með finnsku Eurovision-stjörnunni Söru Aalto,“ segir Ari, en þegar þetta viðtal er tekið er þriðjudagur. Ari stoppar síðan örstutt á Íslandi þegar hann kemur heim frá London því á laugardaginn flýgur hann rakleiðis til Portúgal þar sem stífar æfingar hefjast.

„Auðvitað er ég þreyttur en þetta er góð þreyta. Ég er sáttur yfir því að hafa svona mikið að gera þannig að þetta er mjög þægileg þreyta. Það er mjög mikilvægt að fara í þessi partí því þegar ég svo kem út til Lissabon þá vita margir blaðamenn hver ég er, sem og hörðustu aðdáendur keppninnar. Þetta skiptir máli upp á það að gera að fólk skrifi um mig og ég komist í viðtöl,“ segir Ari.

Ari nýtur hverrar mínútu í Eurovision-ævintýrinu.

En hverju megum við búast við af atriði Ara úti í Portúgal?

„Atriðið verður ekki alveg eins og það hefur verið, við erum búin að gera nokkrar breytingar. En ég get sagt að ég verð mjög vel klæddur. Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga á rauða dreglinum,“ segir Ari sposkur á svipinn. „Við skulum segja að klæðnaður minn verði í anda íslensku þjóðarinnar og ég held að hann eigi eftir að vekja mikla athygli.“

Hugsar um ástvini á sviðinu

Óskabarnið okkar stígur annað á svið í fyrri undanúrslitunum þann 8. maí og er það mál Eurovision-spekinga að riðillinn okkar sé ansi strembinn, svokallaður dauðariðill.

„Já, við erum í dauðasta dauðariðli sem hefur sést í Eurovision. Allir bloggarar eru með þvílíkt skiptar skoðanir um hvernig þessi riðill eigi eftir að fara og margir eru á því að lögin sem endi í tíu efstu sætunum í aðalkeppninni séu í þessum riðli. Ég veit ekkert hvernig þetta mun fara, bara engan veginn,“ segir Ari, sem stefnir að sjálfsögðu að sigri.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

„Markmiðið er að vinna. Það hefur alltaf verið markmiðið. Hins vegar er aðalmarkmiðið að ná til fólksins með laginu og að fólkið heima í sófa finni fyrir tengingu við lagið. Ef ég næ bara til einnar manneskju þá hef ég staðið mig vel,“ segir Ari. Það örlar ekki á efa í huga söngvarans þar sem hann trúir á lagið Our Choice alla leið.

„Ég tengi svo mikið við þetta lag og það getur átt við svo margt. Það getur átt við að við séum ekki að tjá tilfinningar okkar og að við séum ekki að leyfa fólki að vera eins og það er. Það tengist femínisma, ofbeldi, einelti og öllu sem við getum bætt í heiminum. Þetta snýst um þetta val að vera partur af lausninni en ekki vandamálinu. Við vitum aldrei hvað næsta manneskja er búin að ganga í gegnum og það er mikilvægt að búa til traust, gagnkvæma virðingu og jákvæðni á milli okkar,“ segir Ari. Hann getur að sjálfsögðu ekki tekið allan heiminn með sér upp á svið þannig að mér leikur forvitni á að vita um hvað hann hugsi þegar hann flytji lagið.

„Ég hugsa um fólkið sem mér þykir vænt um. Ég hugsa um mínar ákvarðanir í lífinu. Sumar hafa ekki verið réttar en sumar hafa verið góðar. Ég hugsa líka um manneskjuna sem ég er að reyna að sannfæra. Ég er að reyna að fá hana til að ganga áfram og inn í ljósið en ekki bælast inni í svartnættinu. Þessi eina manneskja táknar auðvitað allt samfélagið.“

Heldur einkalífinu fyrir sig

Talið berst að ástvinum Ara en hann er mjög náinn fjölskyldu sinni og hefur átt sömu tvo bestu vinina síðan í fyrsta bekk. Hann segist umkringdur góðu fólki og eins og staðan er núna eru sautján fjölskyldumeðlimir og vinir á leiðinni til Portúgal með Ara og sá hópur gæti stækkað á næstu dögum.

„Ég og bróðir minn og foreldrar erum mjög náin og við náum að halda góðum tengslum við aðra í fjölskyldunni. Það er mjög mikilvægt. Þau koma með mér út en einnig kærasta mín og fleiri fjölskyldumeðlimir. Svo koma Bergþór og Albert líka með út, það er ekkert annað í boði,“ segir Ari og vísar í Bergþór Pálsson, söngkennara sinn, og Albert Eiríksson, eiginmann hans. „Bergþór og Albert eru eins og hin hjónin sem eiga mig. Það er rosanæs.“

Ég staldra við og spyr Ara um kærustuna, en söngvarinn hefur lítið tjáð sig um sitt einkalíf í fjölmiðlum.

„Við erum búin að vera saman í rúmlega ár og það er bara æðislegt. Ég tala ekki mikið um það í viðtölum því fólk þarf ekkert að vita um mitt einkalíf. Við viljum bara halda því fyrir okkur.“

Ari lætur ekki mótlætið buga sig.

Gefst aldrei upp

Stuttu eftir að Ari snýr aftur heim frá Portúgal kemur að öðrum stórum áfanga í lífi hans. Hann verður nefnilega tvítugur þann 21. maí næstkomandi.

„Þá verður partí. Ég ætla að halda tvítugsafmælið mitt uppi í bústað með vel völdu fólki og bara hafa gaman,“ segir Ari. Á slíkum tímamótum grípur fólk oft sú löngun að líta yfir farinn veg og Ari er þar engin undantekning.

„Það sem stendur upp úr og það sem ég er stoltastur af er að hafa tekist á við tilfinningar mínar og leyft mér að þora að fara í þetta ævintýri. Ég er ánægðastur með að hafa verið jákvæður og leyft mér að stefna hátt og að vera nógu duglegur til að ná mínum markmiðum. Það er ekki til í mér að gefast upp. Þó að mótlætið sé mikið gefst ég aldrei upp.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Semur leikrit um kynferðislega áreitni: „Mennirnir hér eru töluvert grófari“

||||||
||||||

Karen Erludóttir flutti til Los Angeles í september 2016 til að læra kvikmyndaleiklist í skólanum New York Film Academy. Hún vinnur nú að lokaverkefni sínu þar sem hún safnar saman sögum kvenna af kynferðislegri áreitni. Hún segir Los Angeles vera sitt annað heimili, þó að borgin hafi vissulega sína galla eins og aðrir staðir í heiminum.

Auðvitað er Karen búin að heimsækja Central Perk, enda mikill Friends-aðdáandi.

„Ég er mikið fiðrildi að eðlisfari og hef búið á hinum og þessum stöðum í heiminum og fannst því þessir flutningar ekkert nema spennandi. Það er auðvitað alltaf erfitt að skilja eftir fólkið sem maður elskar, en maður verður að elta draumana sína meðan maður getur. Veðrið hér hjálpar líka heilmikið. Það er erfitt að fá heimþrá þegar maður liggur við sundlaugarbakkann að sleikja sólina,“ segir Karen og hlær.

Heilsteyptari og hamingjusamari

Karen útskrifast í vor með AFA-gráðu í leiklist frá New York Film Academy í Los Angeles. Þó að áherslan í náminu sé á leiklist, lærir Karen flest sem tengist kvikmyndagerð, svo sem leikstjórn, lýsingu, klippivinnu og fleira.

„Það að fara í þetta nám er án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Karen sem blómstrar á þessari braut þótt námið taki oft á. „Námið er gífurlega krefjandi, erfitt og ég hef aldrei þurft að gefa jafnmikið af mér, en það er allt þess virði. Í sannleika sagt finnst mér mjög leiðinlegt að ég sé alveg að fara að útskrifast sem er alveg glæný tilfinning, en ég held að það segi allt sem segja þarf,“ segir Karen. Hún bætir við að námið hafi í raun þvingað hana til að fara í mikla og djúpa sjálfskoðun.

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessu námi er hvað ég hef kynnst sjálfri mér mikið, eins fáránlegt og það kannski hljómar. Ég hef töluvert meira sjálfstraust en ég hef nokkurn tíma haft og er miklu öruggari í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég kem ekki bara út úr náminu sem reyndari leikkona heldur líka sem miklu heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingur. Sem er algjörlega ómetanlegt.“

Karlmenn í Los Angeles talsvert grófari

Karen vinnur nú í lokaverkefni sínu, sem felst í því að hún skrifar sitt eigið leikrit og setur það síðan á svið í lok annar. Hún ákvað að sækja innblástur úr tíðarandanum í samfélaginu og #metoo-byltingunni.

„Ég hef ekki mikla reynslu í að semja en ákvað að fyrst þetta er eitthvað sem ég á að gera þá ætla ég að gera það almennilega. Ég vildi því skrifa sögu sem skiptir máli, nýta tækifærið til hins ýtrasta og vonandi hafa einhver áhrif. Ég ákvað því að skrifa um kynferðislega áreitni gagnvart konum þar sem það er eitthvað sem við lendum allar í, á einn hátt eða annan, og það virðist bara vera normið sem það á svo sannarlega ekki að vera,“ segir Karen. Til að fá vissa breidd í verkið ákvað hún að auglýsa eftir sögum kvenna sem lýstu þessari áreitni. Þar kom hún ekki að tómum kofanum.

„Mér fannst ég ekki getað skrifað aðeins út frá minni reynslu og mínu sjónarhorni, svo ég auglýsti eftir sögum frá öðrum konum, því þetta er ekki bara mín saga, þetta er sagan okkar allra. Ég fékk gífurlegt magn af sögum sem ég er rosalega þakklát fyrir, en á sama tíma gera þær mig svakalega reiða. Það sýndi mér bara enn þá frekar hvað það er mikilvægt að tala um þetta, opna augu fólks,“ segir þessi dugnaðarforkur og bætir við að ekki sé of seint að senda henni sögu.

Karen fékk smjörþefinn af bransanum þegar hún fór á Óskarsverðlaunahátíðina fyrr á árinu.

„Ég er enn að taka á móti sögum og hver saga hjálpar. Ég sjálf hef heilt haf af sögum að segja og þá sérstaklega eftir að ég flutti hingað til Los Angeles, þar sem mennirnir hér eru töluvert grófari og það var aðalkveikjan að þessari hugmynd. Viðhorfið þarf að breytast og ég ætla ekki bara að sitja á rassinum og vona að það gerist, svo ég er að reyna að leggja mitt af mörkum. Eins og staðan er núna er þetta bara skólaverkefni, en það er aldrei að vita nema ég fari með þetta eitthvað lengra.“

Lenti næstum í árekstri við Courteney Cox

Los Angeles hefur oft verið kölluð borg draumanna, enda margir sem leggja leið sína þangað eingöngu með drauma um frægð og frama í farteskinu. Því verð ég að spyrja hvort Karen vilji festa rætur í borginni?

„Eins og ég nefndi áðan þá er ég mjög mikið fiðrildi og er því ekki aðdáandi þess að plana langt fram í tímann. Ég vil frekar bara bíða og sjá hvert lífið tekur mig. En eftir útskrift er stefnan tekin heim til Íslands og í sumar verð ég að kenna börnum og unglingum leiklist. Hvar ég verð í haust eða vetur er hins vegar ekki ákveðið. Ég er mjög heimakær þrátt fyrir að vera fiðrildi og mig langar rosalega að geta unnið sem leikkona heima á Íslandi. Ég er þó ekki tilbúin til að kveðja Los Angeles alveg, svo ég kem hingað fljótt aftur,“ segir Karen sem er mjög hugfangin af borg englanna. „Borgin hefur að sjálfsögðu sína galla, eins og hver annar staður, en hér líður mér vel. Los Angeles verður án efa alltaf mitt annað heimili.“

Talandi um borg draumanna, þá hafa sumir þá ímynd af Los Angeles að þar séu stjörnur á hverju horni. Er það rétt?

„Ég myndi kannski ekki segja á hverju horni, en skólinn minn er við hliðina á Warner Brothers Studios og ég bý þar mjög nálægt svo ég hef séð töluvert margar stjörnur. Sem brjálaður Friends-aðdáandi mun það alltaf standa upp úr þegar Courteney Cox/Monica Geller keyrði næstum á mig. Hún varð alveg miður sín, en ég var ekki lengi að fyrirgefa henni þetta. Annars hef ég líka séð Matt LeBlanc, Ellen, Önnu Faris, Celine Dion, Wilson Bethel, Leu Thompson, Margot Robbie, Chris Pratt, Apl.de.ap, Redfoo og marga fleiri,“ segir Karen.

Á góðri stundu með Apl.de.ap úr ofurgrúbbunni Black Eyed Peas.

Sýnd klámmynd í Uber-bíl

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur upplifað í Los Angeles?

„Ég er hreinlega ekki viss um hvort það sé Uber-bílstjórinn sem sýndi mér klámmyndina sem hann lék í, á meðan hann var að keyra, alveg óumbeðinn. Eða komast að því að strákurinn sem bjó í íbúðinni fyrir ofan mig var Íslendingur. Ég meina, við erum nú ekki mörg og Los Angeles er mjög stór borg. Eða þegar ég fann tvífara minn hér og lenti með henni í bekk. Við erum ekki bara mjög líkar útlitslega heldur með nánast sama persónuleika og sama smekk á öllu. Það eru einhver stórundarleg tengsl okkar á milli og við vitum nánast hvað hin er að hugsa öllum stundum,“ segir Karen.

En það skemmtilegasta?

„Úff, það er afar erfitt að velja bara eitt. Eitt af því sem ég mun aldrei gleyma er þegar ég fór á Óskarinn og þegar ég horfði á tökur á Mom-þáttunum í Warner Brothers Studios og var dregin upp á svið. Þeim fannst svo áhugavert að ég væri íslensk, en Ameríkanar gjörsamlega elska okkur, svo þau spurðu mig spjörunum úr um Ísland og báðu mig svo að lokum að syngja fyrir þau á íslensku,“ segir Karen, sem fékk ekki að sleppa við það, enda Óskarsverðlaunaleikkona í leikaraliðinu.

Karen með tónlistarmanninum Redfoo sem er hvað þekktastur úr sveitinni LMFAO.

„Ég syng ekki fyrir framan fólk og neitaði því. Þau tóku hinsvegar ekki neitun sem svari og þegar sjálf Allison Janney var farin að hvetja mig áfram gat ég eiginlega ekki sagt nei. Ég meina, konan var tilnefnd, og vann síðan Óskarinn. Svo ég söng eina íslenska lagið sem mér datt í hug í augnablikinu, Rómeó og Júlíu, án undirspils og í míkrafón fyrir framan sirka þrjú hundruð manns og töluverður hluti þeirra var mikilvægt fólk í bransanum. Það þagnaði hver einasta sála í öllu stúdíóinu og starði á mig. Ég þakka enn fyrir það að hafa ekki liðið út af. En þvílíkt adrenalínkikk sem þetta var,“ segir Karen og brosir þegar hún hugsar um þetta stórkostlega augnablik.

Matvöruverslanir eins og félagsmiðstöðvar

Í náminu sem Karen er í er aðaláhersla lögð á leiklist.

Ísland togar í okkar konu og það er ýmislegt sem hún saknar frá heimalandinu.

„Fyrir utan fjölskyldu mína og vini sakna ég klárlega íslenska vatnsins. Nói Siríus kemst að vísu ansi nálægt vatninu, en samviskan segir að velja vatnið frekar,“ segir Karen og hlær. „Ég sakna líka íslensku menningarinnar mjög mikið. Menningin hér er töluvert ólík, sem kom mér mikið á óvart. Hér verð ég rosalega mikið vör við kynþáttahatur, gömul viðhorf gagnvart konum og bara almennt er mun meira misrétti en á Íslandi. En aftur á móti er fólk mun opnara hér og þú lendir miklu oftar í því að spjalla við bláókunnugt fólk tímunum saman. Það að skreppa inn í matvöruverslun hér getur oft verið eins og að ganga inn í félagsmiðstöð, á meðan þú labbar inn í Bónus heima og segir ekki orð allan tímann. Tækifærin í Los Angeles eru líka endalaus og töluvert meira úrval en heima á Íslandi. Ég gæti, held ég, þulið endalaust upp en Los Angeles og Ísland eru bara afar ólíkir staðir að öllu leyti, það er í það minnsta ekki margt sem þessir staðir eiga sameiginlegt.“

Ævistarfið er leiklistin

Talið berst að framtíðardraumunum og þó að Karen sé mikill flakkari og plani ekki langt fram í tímann er ljóst að leiklistin á eftir að spila stórt hlutverk í lífi hennar.

„Mig hefur alltaf langað að vera leikkona, alveg síðan ég man eftir mér. Aumingja mamma þurfti að horfa á ófá leikritin heima í stofu þegar ég var krakki. Svo þegar hún var hætt að nenna, tók ég þau bara upp á myndavél og horfði svo sjálf. Ég fékk síðan loksins kjarkinn til að sækja um að komast í skólann og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég sé mig ekki gera neitt annað í lífinu.“

Í Los Angeles er alltaf sól og blíða.

Myndir / Úr einkasafni

Dökkir litir ráða ríkjum hjá smart flugfreyju

Blaðamaður Húsa og híbýla kíkti í innlit til Hörpu Guðjónsdóttur flugfreyju og fagurkera sem hefur búið sér og sonum sínum einstaklega glæsilegt heimili. Dökkir litir ráða ríkjum hjá henni og þá sérstaklega svarti liturinn.

Harpa hefur unun af því að fegra heimilið sitt og hún hefur einstaklega næmt auga. Fjölskyldan flutti inn í þetta fallega hús í smáíbúðahverfinu í desember síðastliðnum og síðan þá er Harpa búin að gera töluverðar breytingar á húsinu.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar komið er inn í húsið er flott, svart eldhús en í rýminu er einnig mjög töff, svartur flauels sófi sem skapar skemmtilegan karakter í þessu opna rými. Punkurinn yfir i-ið eru Voal-gardínurnar sem hleypa birtunni inn.

Það er kúnst að raða saman húsgögnum og hlutum en það finnst Hörpu sérlega gaman að gera og hún er dugleg að færa til hluti og nostra við heimilið. Hún ferðast mikið vegna vinnu sinnar og nýtir tækifærið reglulega til að versla fallega hluti fyrir heimilið.

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur,“ segir Harpa.

Fékkstu innanhússarkitekt til liðs við þig?

„Ég hafði mjög svo fastmótaðar hugmyndir um hvernig heildarútlitið skyldi vera. Ég hef mjög gaman að hönnun og að fá að skapa og naut mín í botn þegar ég var að hanna útlitið, ég var á heimavelli.

Ég fékk vin minn, Andrés James, sem er innanhússarkitekt, til þess að hjálpa mér með skipulagið á eldhúsinu, það var mikil hjálp í honum. Ég var hinsvegar með efnisvalið á hreinu sjálf og vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu?

„Ég hef algjöra unun af því að nostra við heimilið og myndi segja að ég sé dugleg að blanda saman fínu og grófu, rómantísku og rústik, það finnst mér vera góð blanda. Ég vil hafa heimilið mitt hlýlegt og notalegt, það verður að vera nóg af kertum og blómum, það er eitthvað við blómin sem gerir allt betra.“

Hörpu finnst sérlega gaman að breyta, færa til hluti og nostra við heimilið.

Hvað er mikilvægt í þínum huga þegar kemur að því að innrétta heimilið?

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur. Skipulag verður að vera gott og að það sé samhljómur í því sem maður er að gera, s.s að rýmin tali saman.“

Mynd / Rut Sigurðardóttir

Ertu alltaf að breyta til á heimilinu?

„Eins og ég segi þá hef ég unun af því að skapa og þar kemur sterkt inn að breyta og bæta. Mér finnst mjög skemmtilegt að færa hluti til og nostra við litlu hlutina, raða hlutum saman á fallegan hátt o.s.frv. Þetta finnst mér einfaldlega svo skemmtilegt.“

Dökkir litir ráða ríkjum á heimilinu.

Hvað gerir hús að heimili?

„Mér finnst lykilatriði að mála í litum og að vera með fallegar gardínur; þær eru í raun eins og falleg mubla og setja punktinn yfir i-ið. Eins finnst mér hlýlegt og fallegt að vera með fallegar mottur og myndir á veggjunum. Lýsing er einnig mikilvæg og þá er óbeina lýsingin fallegust. Heimilið á að vera griðastaður þar sem okkur líður vel og hlöðum batteríin í amstri dagsins.“

Harpa fékk vin sinn, Andrés James, til þess að hjálpa sér með skipulagið á eldhúsinu.

Myndir / Rut Sigurðardóttir

Golfkúlur, innkaupakerrur og stigar bannaðir á Eurovision

|
|

Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Á opinberri vefsíðu keppninnar hefur verið birtur listi yfir það sem gestir mega ekki taka með sér inn í höllina. Á listanum eru að sjálfsögðu hlutir eins og sprengiefni, vopn og fíkniefni, sem hlýtur að geta talist eðlilegt.

Hér er listinn í heild sinni.

Hins vegar eru líka nokkrir óvenjulegir hlutir á listanum eins og golfkúlur, innkaupakerrur, reipi, stigar, stólar og límband. Regnhlífar, hleðslubankar fyrir síma, fartölvur og framlengingarsnúrur eru einnig stranglega bannaðar.

Netverjar hafa skemmt sér konunlega yfir þessum lista, eins og sjá má hér fyrir neðan:

43 þjóðir keppa í Eurovision að þessu sinni, en í ár er keppnin haldin í 63. sinn. 26 þjóðir komast í úrslitin 12. maí en fulltrúi Íslands er Ari Ólafsson með lagið Our Choice.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

Sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs konunglega brúðkaupinu

|||
|||

Leikkonan Meghan Markle gengur að eiga Harry Bretaprins þann 19. maí næstkomandi og er mikill spenningur fyrir þessu konunglega brúðkaupi í Bretlandi.

Nú þegar er búið að fylla hillur í breskum minjagripabúðum af ýmsum varningi tengdum brúðkaupinu, svo sem viskastykkjum, borðbúnaði, sætabrauði og púðum.

Verslunin Lovehoney, sem sérhæfir sig í hjálpartækjum ástarlífsins, fer hins vegar í allt aðra átt í þessum málum. Verslunin hefur nefnilega sett á markað sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs Meghan og Harry.

Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið

Markle Sparkle.

Viðskiptavinir Lovehoney geta fest kaup á titrandi hring sem heitir Markle Sparkle, sem hannaður er til að líta út eins og trúlofunarhringur Meghan. Hægt er að setja hringinn á fingur sér og njóta titringsins sjálfur, eða leika við elskhuga sinn með honum.

Ástarhringurinn.

Svo er það ástarhringur konunglega brúðkaupsins, sem er örlítið stærri enda hugsaður sem hringur sem fer á getnaðarlim. Um er að ræða hring úr sílíkoni sem titrar einnig, en á honum eru sérstakir hnúðar sem hannaðir eru til að örva snípinn í samförum.

Umbúðir tólanna eru líka sprenghlægilegar, eins og sést hér fyrir neðan:

Fyndnar umbúðir.

Verður tvítug tveggja barna móðir í sumar: „Rosalega mikið sjokk“

|||
|||

„Mér hefur oft fundist ég hafa misst af einhverju sem aðrir á mínum aldri eru að gera en ég hef allt lífið framundan og nægan tíma til þess að gera allskonar hluti,“ segir Karen Eva Þórarinsdóttir.

Karen var aðeins átján ára þegar hún eignaðist son sinn, Elmar Þór Róbertsson, með kærasta sínum Róbert Smára Haraldssyni. Í dag er Karen tvítug og Róbert 23ja ára og þau eiga von á sínu öðru barni þann 11. júní næstkomandi. Karen segir það hafa verið ákveðið áfall að komast að því að hún gengi með annað barn svo ung.

Karen og Elmar í kósíheitum.

„Þetta var rosalega mikið sjokk fyrst þar sem ég er svona ung og ég taldi mig engan veginn tilbúin í það að eignast annað barn, enda algjörlega að læra á lífið og allt um uppeldi á eldri stráknum mínum. Mamma mín, sem er mín stoð og stytta, studdi mig í gegnum sjokkið eins og hún gerði á fyrri meðgöngunni og er ég endalaust þakklát fyrir hana. Viðhorfið mitt var mjög fljótt að breytast enda er strákurinn minn það allra besta í lífinu mínu og ég er umvafin yndislegu fólki sem vill allt fyrir okkur gera,“ segir Karen.

Krefjandi að vera ung móðir

Elmar sonur hennar verður aðeins nítján mánaða gamall þegar að nýja barnið kemur í heiminn, en Karen segir það vissulega reyna á að verða móðir svona ung.

„Það er mjög krefjandi að vera ung móðir og ég held að margir átti sig ekki á því hversu mikið maður þarf að þroskast á stuttum tíma til þess að takast á við foreldrahlutverkið, nýskriðin í fullorðinsaldur. Þetta tekur mikið á oft á tímum og maður fær að kynnast hvað þreyta er,“ segir Karen og hlær. „En á sama tíma er þetta svo rosalega gefandi, að fá að elska sitt eigið barn, að lítill einstaklingur þarfnist manns.“

Karen segist ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð fyrir að byrja barneignir á þessum aldri.

„Ég hef ekki fundið mikið fyrir fordómum, nema kannski þegar ég fæ svip frá fólki hér og þar. Sumir verða mjög hissa að ég af öllum skuli vera ung móðir þar sem ég var vandræðagemsinn í 10. bekk. Sumir hafa gert létt grín að þessu en alls ekkert á fordómafullan hátt. Ég fékk oft að heyra hvernig ég ætti að hafa hlutina og fékk uppeldisráð sem mér fannst persónulega úrelt og ákvað sjálf að taka ekki til mín,“ segir Karen.

Gerólíkar meðgöngur

Elmar virðir fyrir sér litla systkinið.

Karen er búin að vera óvinnufær síðan í febrúar vegna meðgöngukvilla, en hún segir þessar tvær meðgöngur gerólíkar eins og oft vill verða.

„Fyrri meðgangan mín var algjör draumur og gekk frábærlega, engir fylgikvillar og allt gekk eins og í sögu. Það sama átti við um fæðinguna. Ég þurfti ekkert verkjastillandi nema baðið og glaðloft. Seinni meðgangan er hinsvegar allt önnur. Morgunógleðin byrjaði snemma og ég var með hana í þrjá mánuði. Þá tók við grindargliðnun, sem er orðin mjög slæm núna og fer versnandi með tímanum. Í kringum 20. vikuna byrjaði ég síðan að fá samdrætti með miklum verkjum sem að hræddi mig rosalega þar sem ég fékk aldrei neina fyrirvaraverki á fyrri meðgöngu. Ég er búin að vera í góðu eftirliti hjá yndislegu ljósmæðrunum mínum og það er passað vel uppá mig þar,“ segir Karen sem hefur líka þurft að passa uppá andlegu hliðina á þessari meðgöngu.

„Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn. En ég held í vonina að fæðingin verði góð í þetta skiptið líka.“

Draumurinn að vinna við förðun

Karen og Róbert búa saman á Selfossi, þar sem Karen hefur búið meira og minna alla sína tíð. Hún útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Mask Academy í desember í fyrra og stefnir á frekari frama í þeim bransa.

„Draumurinn er að vinna við eitthvað förðunartengt, mögulega opna mitt eigið fyrirtæki eða eitthvað skemmtilegt. Mig langar rosalega að klára framhaldsskóla og mun ég sennilega vinna í því hægt og rólega,“ segir Karen, sem snappar um líf sitt og tilveru undir nafninu kareneva98.

Snappar um allt milli himins og jarðar.

„Ég snappa um allt sem mér dettur í hug; barnið mitt, meðgönguna, förðun, andlega heilsu, hvað ég geri á daginn og ýmislegt,“ segir Karen og bætir við að Snapchat hafi verið hennar leið til að vinna bug á feimni. „Ég ákvað að koma mér út úr þægindarammanum og feimninni sem ég glími við og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera á daginn. Ég byrjaði á opnu snappi með öðrum frábærum mömmum, madres101, og er ég þar inni reglulega. Ég snappa líka á mínu eigin snappi á hverjum degi.“

Áður en ég kveð Karen verð ég að spyrja hvort hún hyggi á að fjölga enn frekar í barnahópnum í nánustu framtíð.

„Nei, allavega ekki næstu árin. Okkur langar að koma undir okkur fótum og kaupa húsnæði. Mig langar að finna mér góða atvinnu áður en við hugum að öðru barni á eftir þessu kríli.“

Myndir / Fyrirmyndir og úr einkasafni

Sarah Jessica Parker hannar brúðarkjóla

|||||||||||
|||||||||||

Sex and the City-stjarnan Sarah Jessica Parker er búin að frumsýna brúðarlínu í samstarfi við tískurisann Gilt.

Brúðarkjólarnir í línunni eru afskaplega fallegir og vandaðir og kosta allt frá rúmlega þrjátíu þúsund krónum og upp í þrjú hundruð þúsund krónur. Í línunni er einnig klæðnaður fyrir brúðarmeyjar, sem og skór fyrir stóra daginn.

Öll línan er unnin í New York, en Sarah ferðaðist víða um Evrópu til að velja slitsterk og vönduð efni fyrir línuna. Þá eru þægindi höfð að leiðarljósi í öllum sniðum.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af brúðarkjólunum:

Hér má svo sjá fatnað sem ætlaður er brúðarmeyjum:

Og hér eru nokkur skópör:

Alla línuna má sjá hér.

Nýr stefnumótaþáttur úr smiðju höfundar The Bachelor

Mike Fleiss, höfundur raunveruleikaþáttarins The Bachelor, tilkynnti í vikunni að nýr stefnumótaþáttur úr hans smiðju færi í loftið í sumar á sjónvarpsstöðinni ABC.

Þátturinn heitir The Proposal, eða Bónorðið, og fellur það í hlut fyrrum NFL-leikmannsins Jesse Palmer að vera kynnir. Þeir sem hafa fylgst vel með fyrrnefndum Bachelor-þáttum kannast kannski við Jesse, en hann keppti í seríu 5.

The Proposal telur alls tíu þætti og snúast þeir um tíu vonbiðla sem keppa um hylli einnar manneskju, líkt og í The Bachelor, The Bachelorette og fleiri þátta í svipuðum dúr. Bónorðið sker sig úr með þeim þætti að vonbiðlarnir fá ekki að sjá, eða vita nokkurn skapaðan hlut um manneskju sem þeir eru að reyna að heilla.

Líkt og í öðrum stefnumótaþáttum verða ýmsar áskoranir sem vonbiðlarnir þurfa að takast á við, til dæmis svara ýmsum nærgönglum spurningum og reyna að heilla fjölskyldumeðlimi óþekktu manneskjunnar.

Eftir hverja áskorun er einn keppandi sendur heim þar til aðeins tveir standa eftir. Þeir tveir fá þá loksins að hitta huldumanneskjuna og geta þá borið upp rómantískt bónorð að eigin vali, samkvæmt tilkynningu frá ABC.

Lesa má á milli línanna að bónorðið sé valfrjálst, en að það geti einnig aðeins falið í sér boð á stefnumót.

Frægir foreldrar sem eiga tvíbura

Það er mikil blessun að eignast börn, hvað þá þegar um fjölbura er að ræða.

Nokkur pör af tvíburum hafa gert það gott í skemmtanaiðnaðinum og ber þar helst að nefna Mary-Kate og Ashley Olsen. Fræg pör hafa einnig verið dugleg að eignast tvíbura og ákváðum við að líta aðeins yfir nokkur stjörnubörn sem hugsanlega eiga eftir að feta í fótspor foreldra sinna í framtíðinni.

Enrique Iglesias og Anna Kournikova

Söngvarinn og tennisstjarnan buðu tvíburasystkinin Nicholas og Lucy velkomin í heiminn þann 16. desember í fyrra.

Cristiano Ronaldo og Georgina Rodriguez

Fótboltastjarnan tilkynnti í júní í fyrra að hann væri búinn að eignast tvíbura með kærustu sinni. Systkinin hafa fengið nöfnin Mateo og Eva.

Beyoncé og Jay Z

Beyoncé tilkynnti það á Instagram í febrúar í fyrra að hún ætti von á tvíburum og internetið sprakk næstum því. Tvíburarnir, sem heita Rumi og Sir Carter, komu síðan í heiminn þann 13. júní í Kaliforníu.

A post shared by Beyoncé (@beyonce) on

George og Amal Clooney

Leikarinn og lögfræðingurinn hafa reynt að halda einkalífi sínu utan sviðsljóssins en það var vinur þeirra, leikarinn Matt Damon, sem staðfesti fréttir þess efnis að þau ættu von á barni í fjölmiðlum. Í júní í fyrra komu tvíburar í heiminn, dóttirin Ella og sonurinn Alexander.

Ricky Martin

Söngvarinn eignaðist synina Matteo og Valentino í ágúst árið 2008 með hjálp staðgöngumóður.

A post shared by Ricky (@ricky_martin) on

Sarah Jessica Parker og Matthew Broderick

Leikarahjónin nýttu sér hjálp staðgöngumóður í júní árið 2009 þegar þeim fæddust dæturnar Marion Loretta Elwell og Tabitha Hodge.

A post shared by SJP (@sarahjessicaparker) on

Rebecca Romijn og Jerry O’Connell

Það voru gleðileg jólin árið 2008 hjá leikarahjónunum. Þau eignuðust tvíburasysturnar Dolly Rebecca-Rose og Charlie Tamara-Tulip þann 28. desember það ár.

Neil Patrick Harris og David Burtka

Leikararnir tilkynntu það þann 14. ágúst árið 2010 að þeir ættu von á tvíburum með hjálp staðgöngumóður. Sonur þeirra Gideon Scott og dóttir þeirra Harper Grace komu í heiminn í október sama ár.

A post shared by Neil Patrick Harris (@nph) on

Mariah Carey og Nick Cannon

Söngkonan og spéfuglinn eignuðust tvíburana Moroccan og Monroe þann 30. apríl árið 2011, en Mariah og Nick skildu þremur árum síðar.

A post shared by Mariah Carey (@mariahcarey) on

Angelina Jolie og Brad Pitt

Leikkonan staðfesti það á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí árið 2008 að hún ætti von á tvíburum. Það var svo þann 12. júlí það ár að sonurinn Knox Léon og dóttirin Vivienne Marcheline komu í heiminn. Bættust tvíburarnir í stóran barnahóp, en foreldrarnir skildu árið 2016.

Jennifer Lopez og Marc Anthony

Tónlistarhjónin eignuðust soninn Maximilian David og dótturina Emme Maribel í New York þann 22. febrúar árið 2008. Jennifer og Marc skildu þremur árum síðar.

A post shared by Jennifer Lopez (@jlo) on

Eurovision-stjarna gefur út sumarsmell

Eurovision-stjarnan María Ólafs er búin að gefa út nýtt lag sem heitir Hækka í botn. María er líklegast þekktust fyrir að vera fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2015, en hún flutti lagið Unbroken í Vín og komst ekki upp úr undanúrslitum.

Lagið er heldur betur hressandi stuðlag, svokallaður sumarsmellur, en lítið hefur farið fyrir Maríu síðustu misseri.

Það eru sannkallaðar Eurovision-kanónur sem standa á bak við lagið Hækka í botn, en höfundar þess eru Sveinn Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon, oft þekktur sem Valli Pipar, en þeir tveir sömdu lagið Golddigger fyrir Söngvakeppnina í ár sem Aron Hannes flutti. Hann laut hins vegar í lægra haldi fyrir laginu Heim, eða Our Choice, sem flutt var af Ara Ólafssyni en um trommuleik í því atriði sá Gunnar Leó Pálsson, kærasti fyrrnefndar Maríu Ólafs.

Hér fyrir neðan má hlusta á þennan nýja smell frá Maríu:

Mynd / Jónatan Grétarsson

Veruleiki barna annar en áður

Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur hjá Sálstofunni, veit meira um kvíða barna og ungmenna en flestir landsmenn.

Starf Berglindar felst fyrst og fremst í greiningu og meðferð á fjölbreyttum vanda og frávikum í hegðun og líðan barna en einnig í ráðgjöf til foreldra og fagaðila. Hún segir meirihluta vinnu sinnar snúast um kvíða í einhverri mynd, þar sem kvíði barna fari vaxandi og snerti flest mál með einhverjum hætti. Berglind hefur áralanga reynslu af ráðgjöf og hefur haldið fjölmörg vel sótt námskeið og fyrirlestra tengda málefnum barna og unglinga. Hún segir námskeiðin og kvíðavinnuna almennt fyrst og fremst ganga út á fræðslu. „Að vita hvað maður er að glíma við og af hverju, er jafnmikilvægt og að vita hvernig er svo hægt að takast á við vandann. Þá er líka mikilvægt fyrir foreldra og börn að vita hvað þarf að forðast að gera og hvað ekki.Ég held að flestir sálfræðingar sem hafa haldið námskeið eða fyrirlestur um kvíða séu með fullt út úr dyrum.  Maður á alltaf von á að koma að hálftómu húsi einhvern tíma og að fólk sé búið að heyra nóg um kvíða barna en það virðist að minnsta kosti ekki vera komið að því ennþá.“

Kvíði er eðlileg tilfinning 

Berglind segir kvíða hafa margar og ólíkar birtingarmyndir. „Helstu einkenni hans eru ýmis konar áhyggjur, feimni gagnvart fólki og /eða aðstæðum, hræðsla gagnvart ýmiss konar aðstæðum og þrálátar hugsanir. Kvíða fylgja gjarnan ýmis líkamleg einkenni, s.s. hraður hjartsláttur, magaverkur eða hröð öndun. Kvíðin börn og ungmenni forðast gjarnan aðstæður sem valda þeim kvíða og ef þau þurfa að fara í slíkar aðstæður reyna þau yfirleitt að komast úr þeim eins fljótt og þau geta og líður þá oft eins og þau hafi rétt sloppið við eitthvað sem er upplifað mjög hættulegt. Þannig getur myndast vítahringur sem vindur oft upp á sig ef ekkert er að gert.“

Kvíði er í grunninn eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir einhvern tíma og er okkur nauðsynlegur. Hann verður hins vegar að vanda þegar hann er farinn að birtast of oft, við aðstæður sem eru ekki hættulegar og er farinn að trufla barn/ungmenni í sínu daglega lífi og farinn að koma í veg fyrir að það taki þátt og/eða njóti þess sem það tekur sér fyrir hendur.“

Veruleiki barna annar en áður

Kvíði er nokkuð algengur að sögn Berglindar, en hún segir mörg börn glíma við einhver einkenni kvíða í lengri eða styttri tíma. „Eins og ég segi, þá kemur einhvers konar kvíði inn í meirihluta mála sem við veitum meðferð við á stofu. Stundum erum við fljót að laga það sem truflar, stundum tekur það lengri tíma. Veruleiki barna og unglinga er annar en hann var og felur í sér aðrar áskoranir og verkefni en þegar við vorum ung. Umræða um tilfinningar og líðan er án nokkurs vafa opnari en hún var og algengara að fólk ræði almennt þau mál við börnin sín. Á hinn bóginn er auðvelt að falla í þá gryfju að vilja að börnunum okkar líði aldrei illa, sem er auðvitað óraunhæf krafa og getur leitt til þess að venjuleg líðan og viðbrögð eru orðin að vanda í huga foreldra.“

Mikilvægast að afla sér upplýsinga

Aðspurð um ráð fyrir foreldra sem grunar að barnið sitt gæti þjáðst af kvíða, segir Berglind mikilvægast að afla sér upplýsinga og fræðslu. „Algengustu hindranir foreldra sem ég rekst á eru tvenns konar; að átta sig ekki á hvar/hvenær kvíði er farinn að trufla og leyfa barni að „sleppa“ við aðstæður sem geta undið upp á sig. Hins vegar að ætla alls ekki að leyfa kvíða að stjórna og krefjast því of mikils af barninu sem getur líka viðhaldið vandanum og gert hlutina verri. Það er því mikilvægt að afla sér upplýsinga um eðli kvíða og fá ráð hjá fagfólki ef einföld inngrip duga ekki til“ segir Berglind að lokum.

Lesið umfjöllunina í heild sinni í 15.tölublaði Vikunnar.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda“

Stórleikarinn Dwayne “The Rock” Johnson eignaðist sitt annað barn með kærustu sinni Lauren Hashian í gær. Dwayne tilkynnti þetta á Instagram og deildi um leið yndislegri mynd af nýfæddri stúlkunni, sem fengið hefur nafnið Tiana Gia Johnson.

Með myndinni birtir Dwayne hjartnæm skilaboð.

„Hamingjusamur og stoltur að færa heiminum aðra sterka stúlku. Tiana Gia Johnson kom í heiminn eins og náttúruafl og móðirin fæddi hana eins og rokkstjarna,“ skrifar Dwayne. Hann bætir við að hann beri ómælda virðingu fyrir konum um heim allan.

A post shared by therock (@therock) on

„Ég var alinn upp og umkringdur sterkum, ástríkum konum allt mitt líf, en eftir að hafa tekið þátt í fæðingu Tiu er erfitt fyrir mig að lýsa þeirri ást, virðingu og aðdáun sem ég ber til Lauren Hashian og allra mæðra og kvenna þarna úti.“

Þá gefur leikarinn verðandi feðrum mikilvæg ráð.

„Það er mikilvægt að ná sambandi við konu sína þegar hún er að fæða, að styðja hana eins mikið og hægt er, haldast í hendur, halda í fótleggi, gera hvað sem þú getur. En ef þú vilt virkilega skilja kraftmiklustu og frumstæðustu stundu sem lífið hefur upp á að bjóða – horfðu á barnið þitt fæðast. Það breytir lífinu og sú virðing og aðdáun sem þú berð til konu verður takmarkalaus.“

Þetta er þriðja dóttir Dwayne en fyrir átti hann hina tveggja ára Jasmine Lia með Lauren og hina sextán ára gömlu Simone Alexandra úr fyrra hjónabandi. Hann segir að Tiana litla fái nákvæmlega sömu meðferð og hinar tvær stúlkurnar – nóg af ást og stuðningi.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda, leiðbeina þér og láta þig hlæja restina af lífinu mínu. Brjálaði pabbi þinn ber ábyrgð á mörgu og ber ýmsa hatta í þessum stóra heimi, en að vera faðir þinn verður alltaf sá hattur sem ég er stoltastur af því að bera.“

Sláandi lík Díönu prinsessu í rauðum kjól

Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, og Vilhjálmur prins eignuðust sitt þriðja barn, lítinn snáða, á St Mary’s-sjúkrahúsinu í London í gærmorgun.

Kate og Vilhjálmur yfirgáfu sjúkrahúsið síðdegis í gær og frumsýndu um leið nýjustu viðbótina við konunglegu fjölskylduna.

Kate ljómaði er hún heilsaði blaðamönnum, ljósmyndurum og aðdáendum fyrir utan sjúkrahúsið og klæddist eldrauðum kjól frá Jenny Packham með hvítum blúndukraga. Við hann var hún í ljósum skóm frá Gianvito Rossi. Hár og förðun hennar var óaðfinnanleg, þökk sé stílista hennar Natasha Archer sem var að sjálfsögðu á staðnum.

Margir hafa bent á að Kate hafi verið sláandi lík Díönu prinsessu í fatavali, en prinsessan heitin klæddist rauðri dragt þegar hún gekk út af fæðingardeildinni með Harry prins árið 1984.

Þess má geta að Kate klæddist líka kjól úr smiðju Jenny Packham þegar hún frumsýndi hin tvö börnin sín; Georg prins árið 2013 og Charlotte prinsessu árið 2015. Þeir voru hins vegar báðir ljósir, en í þetta sinn ákvað hún að kynna heiminn fyrir nýjasta prinsinum í sterkum lit sem tekið er eftir.

Þetta velja Íslendingar helst á pítsu

||
||

Við sögðum frá því í gær að Bandaríkjamenn velja helst pepperoni á pítsur, samkvæmt gögnum frá heimsendingarþjónustunni Caviar. Í öðru sæti á listanum voru pylsur og í því þriðja hvítlaukur.

Við ákváðum því að spyrja Önnu Fríðu Gísladóttur, markaðsstjóra Dominos á Íslandi, hver eftirlætisálegg Íslendinga væru þegar þeir panta sér pítsu. Ótrúlegt en satt, þá trónir pepperoni líka á toppi þess lista. Í frétt úr gögnum Caviar furðuðum við okkur á því að skinka næði ekki á blað, en hún er í öðru sæti á listanum frá Dominos. Það er svo rjómaosturinn sem vermir þriðja sætið.

Hér eru tíu vinsælustu áleggin á pítsur Íslendinga samkvæmt gögnum frá Dominos:

1. Pepperoni
2. Skinka
3. Rjómaostur
4. Piparostur
5. Beikon kurl
6. Sveppir
7. Nautahakk
8. Laukur
9. Ananas
10. Jalapeno

Heimurinn elskar pepperoni á pítsur.

Við settum einnig fram mjög óvísindalega könnun í hópnum Matartips! á Facebook og spurðum einfaldlega hvert eftirlætis álegg tipsara væri. Við fengum fjöldan allan af svörum og niðurstaðan er að meðlimir hópsins eru sammála fjöldanum og setja pepperoni í efsta sæti. Í öðru sæti er ananas, sem ætti að gleðja forseta vor eða hitt þó heldur, og fast á hæla ananas eru sveppir.

Hér kemur listi Matartips-ara yfir eftirlætisálegg:

1. Pepperoni
2. Ananas
3. Sveppir
4. Skinka
5. Beikon
6. Rjómaostur
7. Bananar
8. Laukur
9. Jalapeno
10. Piparostur

Annað sem var nefnt gott á pítsur voru til að mynda döðlur, kjúklingur, rækjur, gráðostur, svartur pipar, ólívur, paprika, svart Doritos-snakk, parmesan-ostur og hráskinka.

Smekkur manna er misjafnur þegar kemur að áleggi á pítsu.

Fyllti eldhúsið af keramík

Áskorun að fara út fyrir þægindarammann.

Hera Guðmundsdóttir hönnuður tók þátt í HönnunarMars 2018 með sýningunni Souvenir/Minning í Geysi Heima. Hún starfar bæði hérlendis og í Frakklandi og nafn hönnunar hennar, Atelier Dottir, tengir þessa tvo menningarheima.

Hera Guðmundsdóttir er konan á bakvið hönnunina Atelier Dottir og starfar bæði í París og á Íslandi.

„Sýningin mín á HönnunarMars 2018 er hluti af rannsóknarvinnu sem ég byrjaði á fyrir næstum ári síðan. Verkefnið er enn í mótun en mér fannst áhugavert að sýna verk sem er enn þá á útfærslustigi,“ úrskýrir Hera. „Rannsóknin snýr að sambandinu á milli lyktar og minnis eða hvernig við tengjum ákveðna lykt við stað og stund. Ég notast við ilmkjarnaolíur sem ég hef blandað til að draga fram ákveðnar minningar, mínar eigin og annarra, en ég dreypi svo þessum olíum yfir litla skúlptúra úr steinleir sem dregur ilminn í sig og gefur jafnframt frá sér. Verkefnið er mun nær mér en það sem ég hef gert hingað til en í því er einmitt mikil áskorun, að fara út fyrir þægindarammann og sjá hvað gerist.“

Flakkar milli miðla
Hera lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist 2012 en hefur á síðustu árum færst yfir í önnur listform. Hún er líklega þekktust fyrir veggspjöldin sem hafa verið í sölu og nú síðast bættist keramíkið við.

„Ætli það sem ég geri sé ekki á mörkum hönnunar og listar. Mér finnst mjög áhugavert allt sem að sameinar notagildi og fagurfræði; hlutirnir sem við umkringjum okkur með og fegra umhverfi okkar. Ég flakka á milli miðla en hingað til hef ég mest unnið með collage og ljósmyndir sem verða svo að veggspjöldunum sem Atelier Dottir er þekkt fyrir. Nýjasti miðillinn er hins vegar keramík sem ég byrjaði að vinna með síðasta haust. Mér finnst engin ástæða til að einskorða sig við einn miðil eða eina ákveðna tækni, það sem vekur áhuga hverju sinni er alltaf vert að skoða.

Það var ekki endilega meðvituð ákvörðun að hverfa frá fatahönnun. Mig langaði að breyta til og lét eina spurningu ráða ferðinni: „Hvað langar þig að gera alla daga, alltaf?“ Það sem ég komst að er að ég þrífst best þegar ég vinn að ólíkum verkefnum, þegar engir tveir dagar eru eins. Ég er ekki viss um að ég hafi sagt skilið við fatahönnun fyrir fullt og allt en í augnablikinu finn ég mig betur innan listarinnar og annarra sviða hönnunar. Allt sem ég nýti mér í dag við rannsóknar- og hugmyndavinnu lærði ég í náminu. Ég sé það alltaf betur og betur hversu margar og ólíkar dyr hönnunarnám getur opnað. Námið er í raun upphafspunktur rannsóknar sem svo teygir sig inn á önnur og ólík svið.“

Í nýjustu hönnun sinni dreypir Herar ilmkjarnaolíum yfir litla skúlptúra úr steinleir með það að markmiði að draga fram minningar.

Kynntist ástinni í París
List hefur alltaf skipt Heru miklu máli og hún hefur alla tíð verið umkringd list bæði heima hjá sér og hjá afa sínum og ömmu. „Ég veit ekki hvernig áhuginn kviknaði fyrir alvöru, ætli hann hafi ekki bara alltaf verið þarna en ég held að ég hafi lært snemma að list væri sjálfsögð og nauðsynleg. Ég er fædd í Reykjavík og alin upp við Skólavörðuholtið. Foreldrar mínir fluttu í Garðabæ þegar ég var unglingur og búa þar enn en mér hefur alltaf fundist ég vera miklu meiri Reykvíkingur en nokkuð annað. Ég kynntist manninum mínum í París en við erum búin að vera saman í tæp fimm ár. Hann er einstaklega skilningsríkur og þarf oft að sýna mikla þolinmæði þegar ég er í miðju verkefni. Ég lagði til dæmis undir mig eldhúsið í desember fyrir keramíkið og það var varla hægt að sjóða vatn þar fyrir vösum og klumpum af steinleir. Foreldrar mínir og afi og amma hafa líka sýnt mér mikinn stuðning, alveg síðan í náminu, voru alltaf í klappliðinu og alltaf til í skutl og reddingar á síðustu stundu.“

„Það hefur milka þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum.“

Hera flutti til Frakklands haustið 2012 til að vera í starfsnámi í þrjá mánuði. Síðan eru liðin sex ár. „Frakkland og þá sérstaklega París er og verður draumastaður fyrir alla sem tengjast list eða hönnun, sagan og söfnin eru næg ástæða til að setjast þar að. Síðan er maðurinn minn auðvitað er franskur. Nafnið sem ég hanna undir, Atelier Dottir, tengir saman löndin mín tvö og vísar í þetta flakk á milli Parísar og Reykjavíkur. Svo spilaði líka inn í að „h“ er ekki borið fram í frönsku og ég hef enn þá ekki hitt þann Frakka sem getur borið rétt fram föðurnafnið mitt.“

Hera hélt sýningu í Geysi heima á HönnunarMars.

Sækir orku til Íslands
Hera hefur haldið nokkrar sýningar. Í Reykjavík hefur hún sýnt hjá Norr11, The Coocoo’s nest og Geysi Heima. „Allt mjög ólíkar sýningar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið unnar í samstarfi við frábært fólk og haldnar í fallegum rýmum svo það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra. Í desember síðastliðnum tók ég í fyrsta skipti þátt í samsýningu hönnuða í París en út frá þeirri sýningu hófst nýtt samstarf sem verður kynnt með vorinu. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum. Það skiptir mig miklu máli að halda í þessa tengingu.“

Næsta verkefni Heru er lína af handgerðum keramíkvösum sem hún gerir fyrir blómasalann Louis-Géraud Castor sem sér meðal annars um blómaskreytingar fyrir búðir A.P.C. og Lemaire og Picasso-safnið í París. „Við byrjuðum á hugmyndavinnunni í desember og ætlum okkur að kynna vasana í apríl en fyrsta frumgerðin var hluti af sýningunni minni á HönnunarMars,“ segir Hera að lokum. Hera er á Facebook og Instagram undir notandanafninu Atelier Dottir. Veggspjöldin og gjafakortin fást í Geysi Heima og Akkúrat.

Viðtalið birtist í 12. tbl. Vikunnar 2018. 

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Svolítill hippi í mér“

Eyrún Birna brúðarkjólahönnuður.

Hver kjóll er einstakur.

Tilviljun réði því að Eyrún Birna Jónsdóttir sneri sér að gerð brúðarkjóla en hún sérhæfir sig í bóhemískum, flæðandi, þægilegum og lágstemdum kjólum.

„Þið fáið engar „rjómatertur“ hjá mér,“ svarar Eyrún Birna hlæjandi þegar hún er spurð út í sérstöðu brúðarkjólanna sinna. „Ég hef alltaf heillast af hvers kyns blúndum og hekli, ætli ég sé ekki svolítill hippi í mér. Við hönnunina hef ég í huga að kjólarnir séu áhugaverðir, úr fallegum efnum og að sniðin séu klæðileg. Ég legg líka áherslu á að kjólarnir séu þægilegir því mér finnst mikilvægt að konum líði sem best á brúðkaupsdaginn. Innblástur fæ ég alls staðar að, er alltaf með augun opin fyrir fallegum sniðum og efnum. Ég sérsauma kjólana á hverja og eina brúði. Kjóllinn þarf að passa fullkomlega og draga fram það besta hjá hverri konu. Hver kjóll er því einstakur og þannig á það auðvitað að vera þegar brúðarkjóll er annars vegar. Ég er því ekki með neina kjóla á lager en er þó með nokkra kjóla til sýnis sem hægt er að fá að skoða og máta.“

Eyrún Birna hannar brúðarkjóla í bóhemískum, flæðandi og þægilegum stíl.

Lengra viðtal og fleiri myndir af brúðarkjólum má finna í brúðarblaði Vikunnar, sem verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir af brúðarkjólum: Ruth Ásgeirsdóttir/Ljósmyndir og list
Fyrirsæta: Gabríela Ósk Vignisdóttir
Mynd af Eyrúnu Birnu: Aldís Pálsdóttir

Brúðarblað Vikunnar verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Vilja efla áhuga á matarmenningu

Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn efna til samkeppni meðal almennings um þjóðarrétti í því skyni að heiðra og fagna margbreytilegri matarmenningu Íslendinga.

Tilgangurinn er að fá hugmyndir um fjölbreytta rétti úr íslensku hráefni sem hægt er að njóta vítt og breitt um landið og efla áhuga almennings á matarmenningu, auka þekkingu á íslensku hráefni og mikilvægi nærsamfélagsneyslu. Réttina má útfæra sem létta máltíð eða aðalmáltíð og geta þeir verið bæði úr jurta- eða dýraríkinu.

Valdir verða 15 réttir úr innsendum uppskriftum sem nemendur og kennarar við Hótel- og matvælaskólann útfæra og elda fyrir dómnefnd, en veitt verða verðlaun fyrir fimm rétti. Dómnefndin verður skipuð bæði fagfólki og skemmtilegu áhugafólki og almenningur getur ennfremur kosið uppáhaldsréttinn sinn á Netinu, sem hefur áhrif á úrslitin. Sigurréttunum verður fylgt eftir til ákveðinna veitingastaða um land allt  þar sem þeir verða í boði.

Öllum er frjálst að senda inn uppskriftir en skilafrestur er til 5. maí.

Nánar á https://mataraudur.is/thjodlegir-rettir

Hægt er að fylgjast með verkefninu á instagram undir #þjóðlegirréttir

Fjallað verður ítarlegar um samkeppnina í 6. tölublaði Gestgjafans.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Margir kveðja bensínið

Líklegast er að íslenskir bílakaupendur fái sér tengitvinnbíl eða hreinan rafbíl næst þegar þeir kaupa sér bíl. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í norrænni könnun um áform fólks í bílakaupum og Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið saman um stöðu rafbílamála á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að rétt rúmlega 20% kaupenda er í þessum hugleiðingum. Fleiri eða tæp 25% þátttakenda í könnuninni voru í þessum hugleiðingum í Noregi. Talsvert færri eru að velta því fyrir sér annars staðar á Norðurlöndunum.

Þegar þátttakendur voru spurðir að því af hverju þeir ætli ekki að kaupa rafbíl svöruðu 43% á Íslandi að þá skorti drægni. Flestir sögðu líka það sama í Noregi. Á hinum Norðurlöndunum var helsta skýringin sú að þeir þykja of dýrir.

Hafa safnað 40 millljónum

Forsvarsmenn Lýðháskólans á Flateyri hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans segir að lýðskólar auki breidd í námi og dragi úr brottfalli úr því.

„Við erum búin að tryggja fyrsta starfsár Lýðháskólans á Flateyri. En svo hníga öll rök til þess að nám við lýðháskóla verði fjármagnað eins og annað nám á Íslandi, með mótframlagi frá ríkinu,“ segir Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Lýðháskólans á Flateyri.

Forsvarsmenn skólans hafa safnað um fjörutíu milljónum sem dugar til að reka skólann í eitt ár. Stór hluti af fénu kemur frá sveitarfélögum á Vestfjörðum, Ísafjarðarbæ, Bolungarvík og Súðavík en svo leggja stéttarfélög í púkkið. Margir íbúar á Flateyri styrkja hann líka mánaðarlega. Skólinn er nýstofnaður og tekur til starfa í haust.

Runólfur var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Lög um lýðháskóla hafa aldrei verið fest hér á landi en stefnt er að því að mæla fyrir frumvarpi um það fyrir þinglok.

Lisbeth Trinskjær, formaður samtaka lýðháskóla í Danmörku og skólastjóri Ubberup-lýðháskólans, var með erindi á ráðstefnunni. Hún sagði mikilvægt að hafa lýðháskóla hér. Það muni auka mjög breidd í námi og draga úr brottfalli úr því. En ímynd skólanna verði að breytast hér. Á Íslandi sé litið á lýðháskóla sem kost fyrir námsfólk sem eigi erfitt með að fóta sig. Öðru máli gegni í Danmörku. Þar sendi forstjórar stórfyrirtækja og efnameira fólk börn sín í miklum mæli í lýðháskóla því víðsýni þeirra aukist til muna.

Mynd: Runólfur Ágústsson var á meðal mælenda á ráðstefnu LungA-skólans á Seyðisfirði, Lýðháskólans á Flateyri og UMFÍ um lýðháskóla á Íslandi í vikunni. Hann segir mikilvægt að ríkið styðji við bakið við lýðháskólum hér með sama hætti og gert er í Danmörku.

Æskuvinkonur ætla að gera Ísland kvartlaust

|
|

Þuríður Hrund Hjartardóttir og Sólveig Guðmundsdóttir taka sér bandarískan prest til fyrirmyndar og reyna að hætta að kvarta og kveina í 21 dag samfleytt. Þær hafa fallið margoft á leið sinni til kvartleysis en finna mikla breytingu á sinni innri líðan.

„Það er skemmst frá því að segja að þessi áskorun hefur breytt lífi okkar beggja til hins betra, og allra sem standa okkur nærri. Að uppgötva það hversu mikið maður í raun kvartar og að hafa einfalt og gott tæki til að vinna með það er ólýsanlega frábært í alla staði,“ segir Þuríður Hrund Hjartardóttir, alþjóðamarkaðsfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Icepharma.

Þuríður fór, ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur, iðnhönnuði og eiganda Culiacan Mexican Grill, nýverið af stað með verkefnið Kvartlaus. Markmið verkefnsins er einfalt – að hætta að kvarta, en fyrirmynd þess er verkefnið A Complaint Free World, áskorun sem kemur úr smiðju Bandaríkjamannsins Will Bowen.

„Í byrjun febrúar sagði Sólveig mér frá snilldaráskorun sem prestur í Kansas fór af stað með fyrir nokkrum árum en það snýst um það að kvarta ekki í 21 dag samfleytt. Þessi áskorun hefur náð til yfir ellefu milljón manna. Okkur fannst þetta svo frábær hugmynd að við ákváðum að skora hvor á aðra og skuldbinda okkur að komast í gegnum 21 dag,“ segir Þuríður en þær Sólveig hafa verið vinkonur síðan í níu ára bekk og þekkjast því mæta vel.

Fall er óumflýjanlegt

Will Bowen byggir hugmyndafræði sína á því að vísindamenn hafi sannað að ef maður nær að halda sömu hegðun eða mynstri í 21 dag samfleytt verði það að vana. Will þessi lét hanna sérstök kvartlaus armbönd og gengur átakið út á það að færa armbandið frá öðrum úlnliðnum á hinn um leið og maður kvartar. Ef maður fellur, byrjar maður aftur á degi eitt í kvartleysi. Sólveig og Þuríður selja nú þessi armbönd á vefsíðu sinni kvartlaus.is, en Þuríður bætir við að skilgreiningin á kvarti sé mjög niðurnjörvuð í þessari hugmyndafræði.

„Það er sem sagt bannað að kvarta og bannað að tala illa um aðra. Will segir að þegar að maður slúðrar sé maður í raun að segja að maður sé betri en viðkomandi og það er flokkað sem kvart,“ segir Þuríður. Hún bætir við að þetta sé alls ekki eins einfalt og það hljómi. „Það skal tekið fram að þetta er ekki einfalt og við höfum fallið ótal oft á leiðinni, ég síðast í gær,“ segir Þuríður og hlær. „En það er hluti af þessu. Það er ekki séns að komast í gegnum þetta án þess að falla á leiðinni.“

Betri samskipti og meiri ró

Bandaríski guðfaðir kvartleysis segir það taka að meðaltali fjóra til sex mánuði fyrir fólk að hætta að kvarta í 21 dag samfleytt. Það liggur því beinast við að spyrja Þuríði hvert markmið þessara íslensku lærisveina sé?

„Við viljum gera Ísland kvartlaust fyrir árslok. Verðum við ekki að hugsa stórt? Þó að við myndum ekki ná nema tíu prósentum af þjóðinni yrði allt svo miklu betra,“ segir hún og bætir við að kvartleysið hafi haft góð áhrif á einkalífið, þrátt fyrir bakslögin.

„Við höfum verið að þessu síðan í febrúar og finnum báðar að það er allt önnur stemning inni á heimilum okkar. Það eru allir glaðari, meiri ró yfir heimilisfólkinu og á heildina litið erum við betri í samskiptum, þó að sjálfsögðu sjóði stundum upp úr. Það gerist samt sjaldnar en áður og það er það sem skiptir máli. Þegar maður eyðir minni tíma í að kvarta, hefur maður meiri tíma til að vera glaður.“

Armböndin sem eiga að hjálpa til við að hætta að kvarta.

Kvart og kvein

* Meðalmaðurinn kvartar 15 til 20 sinnum á dag.
* Rannsóknir hafa sýnt að fólk getur orðið reiðara ef það kvartar mikið.
* Rannsóknir hafa einnig sýnt að það að pústa við vin getur valdið mikilli streitu bæði hjá þeim sem pústar og þeim sem hlustar.
* Kvart og nöldur er oft ofarlega á blaði þegar kannað er hver helstu vandamál innan sambanda séu.

Það sem býr á bak við brosið

||||||
||||||

„Ég er ekki hræddur. Ég er samt ekki óhræddur. Ég er mjög spenntur og með mikinn fiðring í maganum yfir þessari ferð. Þessi spennutilfinning er sambland af gleði og óvissu því þessi keppni er óútreiknanleg. Það eina sem ég get gert er að gera mitt besta,“ segir söngvarinn Ari Ólafsson.

Það ætti að vera flestum Íslendingum kunnugt að Ari er fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni í ár. Ari kom, sá og sigraði með laginu Heim, sem síðar varð Our Choice á ensku, og flytur það á stóra sviðinu í Lissabon í Portúgal á fyrra undanúrslitakvöldinu þann 8. maí næstkomandi. Ef allt gengur að óskum fær Ari að flytja það í annað sinn í úrslitunum sem fara fram laugardagskvöldið 12. maí.

Hrakfallabálkur sem barn

Ari er Reykvíkingur í húð og hár, en ólst einnig að hluta til upp í Orlando á Flórída hjá afa sínum.

„Ég ólst í raun upp á þremur stöðum. Ég átti heima niðri í bæ, á Laufásveginum, þar til ég var sex ára. Ég eyddi líka mjög miklum tíma úti í Bandaríkjunum hjá afa mínum og síðan fluttum við fjölskyldan á Kvisthaga þegar ég byrjaði í grunnskóla svo ég gæti gengið í Melaskóla. Og líka svo ég gæti gerst KR-ingur,“ segir Ari og hlær. „Pabbi minn er mikill KR-ingur og ég æfði fótbolta frá sex ára aldri. Ætli ég verði ekki KR-ingur fram í rauðan dauðann. Ég kemst ekki upp með neitt annað,“ bætir hann við.

Ari á einn yngri bróður og býr með honum og foreldrum sínum í grennd við JL-húsið í Reykjavík. Hann segir það fljótt hafa komið í ljós að hann væri með ADHD þar sem hann var oft frekar utan við sig sem krakki.

Brosið hans Ara hefur heillað fólk út um alla Evrópu.

„Ég var mjög glaður krakki. Ég var alltaf hlæjandi og brosandi,“ segir Ari, en þetta skæra og einlæga bros hans vann ekki aðeins hug og hjörtu Íslendinga heldur hefur það vakið athygli út fyrir landsteinana í aðdraganda Eurovision. „Það var rosalétt að vera með mig. Það var hægt að setja mig niður fyrir framan hvað sem er og ég bjó til eitthvað úr engu. En ég var alltaf að slasa mig. Ég er frekar óheppinn þegar kemur að meiðslum. Ég hef brotið handlegginn á mér um það bil sex til sjö sinnum,“ segir Ari og byrjar að telja upp öll brotin, sem hafa verið allt frá knjúkum og upp að öxl. „Þetta er líka alltaf sama höndin. Alltaf vinstri,“ segir Ari og brosir. „Líklegast tengist þetta eitthvað því hvað ég var utan við mig sem barn. Ég var ekki alveg að fylgjast með umhverfinu alltaf. Ég klifraði mikið og prílaði og gerði ýmislegt sem önnur börn myndu kannski ekki gera.“

Kallaður illum nöfnum í grunnskóla

Þótt Ari sé aðeins nítján ára gamall hefur hann talsverða reynslu af því að koma fram. Hann lék Oliver Twist í samnefndum söngleik í Þjóðleikhúsinu þegar hann var ellefu ára gamall og tveimur árum síðar spreytti hann sig í verkinu Galdrakarlinum í Oz í Borgarleikhúsinu. Nokkru síðar söng hann með norsku stórstjörnunni Sissel Kyrkjebø á tónleikum í Eldborg á 60 ára afmælistónleikum söngkennarans síns, Bergþórs Pálssonar. Ara segist líða best á sviði, en hins vegar fékk hann að líða fyrir þessa velgengni í grunnskóla.

„Ég var rosaóöruggur með mig þegar ég var yngri en það tengist því að ég lenti í einelti í skóla út af því að ég var í söngleikjum. Ég veit ekki hvort fólk öfundaði mig en það kallaði mig illum nöfnum og ég skar mig alltaf úr,“ segir Ari. Hann segir það líka miður að skólakerfið hafi ekki verðlaunað hann fyrir að standa sig vel í listrænum greinum og telur að íslensk menntayfirvöld megi gera betur í þeim efnum.

Ari lenti í einelti í grunnskóla.

„Ef krakkar hafa markmið sem þeir eru verðlaunaðir fyrir að ná, hvort sem það er í bóklegum fögum, listgreinum eða íþróttum, þá munu þeir sjálfkrafa standa sig betur og blómstra í því sem þeir eru góðir.“

Eftir grunnskóla lá leiðin í Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem Ari fékk útrás fyrir sína listrænu hæfileika.

„Ég fann mig rosalega mikið í tónlistinni þá. Ég held að þessi seinustu ár hafi verið þau bestu fyrir mig. Ég hef alltaf haft sjálfstraust en þegar ég hugsa til baka þá hefur ekki alltaf verið mikið innistæða fyrir þessu sjálfstrausti. Nú, hins vegar, er ég farinn að taka meira eftir því hvað ég er lánsamur og heppinn í lífinu og ég tek engu sem sjálfsögðum hlut. Ég vil vinna við tónlist og það að stíga upp á svið gerir mig ekki kvíðinn heldur spenntan. Þetta er akkúrat það sem ég vil gera. Ég vil vera uppi á þessu sviði. Það er um að gera að nýta hverja einustu sekúndu því þetta er búið áður en maður veit af,“ segir Ari

Nauðsynlegt að sýna tilfinningar

Ara hefur verið spáð í alls konar sæti í Eurovision, allt frá því fyrsta niður í það neðsta. Þá tvístraðist þjóðin yfir framlaginu þegar hann bar sigur úr býtum í Söngvakeppninni og hlaut lagið slæma dóma í sjónvarpsþættinum Alla leið á RÚV fyrir stuttu. Ari segir vissulega erfitt að finna fyrir mótlæti en hefur tileinkað sér að nýta jákvæðni sem vopn gegn neikvæðni.

„Ég held að það sé mestallt mömmu og pabba að þakka. Mamma er sálfræðingur og pabbi er giftur sálfræðingi,“ segir Ari og hlær. „Ég fékk frekar flott uppeldi en auðvitað er alltaf erfitt að finna fyrir mótlæti. Í söng og leiklist er ég að tjá tilfinningar mínar. Ég er berskjaldaður. Ég er veikastur en einnig glaðastur og mitt besta sjálf þegar ég er uppi á sviðinu. Þegar fólk bregst illa við þá er það alltaf erfitt, en það er skemmtilegt að það jákvæða vegur alltaf meira en það neikvæða. Hins vegar virðist fólk alltaf einblína meira á það neikvæða, sem er algjörlega ekki það sem maður á að pæla í,“ segir Ari og við rifjum upp þá umræðu sem skapaðist þegar Ari grét af gleði í beinni útsendingu vegna velgengni í Söngvakeppninni.

„Þá komu neikvæðar raddir upp á yfirborðið en þær jákvæðu voru svo margar að þær þögguðu niður í leiðindaskapnum. Það er það sem skiptir máli, að fólk standi saman og líti á það jákvæða. Ég er alltaf að átta mig meira og meira á því að það jákvæða í lífinu skiptir meira máli en það neikvæða. En ég er ánægður með að þessi umræða spratt upp og ég vil tala um þetta. Fólk á ekki að vera hrætt við að sýna tilfinningar og vera það sjálft. Maður á að hlæja þegar mann langar til að hlæja og vera leiður þegar mann langar að vera leiður. Sumt fólk er svo hrætt við að vera leitt að það er alltaf glatt, en það er ekkert á bak við gleðina. Það er hollt að finna fyrir reiði, pirringi og leiða en ekki leyfa þessum tilfinningum að stjórna sér. Maður þarf að finna fyrir þeim, átta sig á þeim og stjórna þeim. Þetta er það sem móðir mín hefur kennt mér allt mitt líf út af öllu sem ég hef gengið í gegnum. Maður getur nefnilega ekki stjórnað öðru fólki, maður getur bara stjórnað sjálfum sér,“ segir Ari, en þessi neikvæðni um tárin sem láku niður kinnar hans virtist vera beintengd við gamaldags hugmyndir um karlmennsku, úrelt gildi sem enn lifa góðu lífi.

„Fyrir mér er ekkert til sem heitir karlmennska eða kvenmennska. Þetta eru bara einhver hugtök, einhverjar ranghugmyndir sem fólk er með. Snýst lífið ekki frekar um hvernig manneskjur við viljum vera? Viljum við vera umburðarlynd, hjálpa öðrum og taka á móti lífinu af jákvæðni, eða viljum við vera sjálfselsk og leiðinleg? Á endanum verður hver að velja fyrir sig og ég ætla að velja rétt.“

Spenntur að hitta Rybak

Síðan Ari fór með sigur af hólmi í Söngvakeppninni hefur hann haft í nægu að snúast. Þegar hann lítur til baka og rifjar upp augnablikið þegar sigurvegarinn var tilkynntur kemur fallegt blik í augu söngvarans.

Ari heillaði þjóðina í Söngvakeppninni. Mynd / RÚV

„Það var ólýsanleg tilfinning sem skaust inn í hjartað mitt. Ég fékk svona sigurtilfinningu, eins og ég hefði sigrast á heiminum. Eins og ég hefði sigrast á sjálfum mér. Því mig langaði sjúklega mikið til að vinna og fara út með þennan boðskap og þetta lag. Þegar ég fattaði að ég væri búinn að vinna þá gerði ég mér grein fyrir því hvað ég er lánsamur og hvað þetta yrði gaman. Ég gat ekki beðið eftir að byrja undirbúninginn þannig að við byrjuðum strax daginn eftir. Ég er ekki búinn að fá einn frídag og ég nýt þess í botn. En vissulega kom sú hugsun yfir mig daginn eftir hve mikil ábyrgð hvílir á herðum mínum að vera fulltrúi Íslands í þessari keppni en ég er bara svo glaður að þetta sé að gerast.“

Ari er næstyngstur í Eurovision í ár, en hin spænska Amaia Romero er nokkrum mánuðum yngri en okkar maður. Hann segir aldurinn bæði geta verið ógnandi fyrir aðra en líka geta skapað efa í hans eigin brjósti.

„Ég held samt að það skipti minna máli en meira hvað ég er gamall,“ segir Ari. Eins og áður segir er hann spenntur fyrir keppninni og tilbúinn til að stíga á svið. Það er líka önnur ástæða fyrir því að Ari er fullur tilhlökkunar. Það er nefnilega út af því að eitt af átrúnaðargoðunum hans úr Eurovision-keppninni, Norðmaðurinn Alexander Rybak, er meðal keppanda í ár en hann sigraði eftirminnilega með laginu Fairytale í Moskvu árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún vermdi annað sætið með Is it True?

„Ég er ofboðslega spenntur að hitta hann. Það er eiginlega skrýtið hvað ég er rosalega mikill aðdáandi og ég trúi því ekki að ég fái að hitta hann og tjilla með honum,“ segir Ari sem er það spenntur að hann er búinn að ákveða hvað hann ætlar að segja við þetta fiðluspilandi sjarmabúnt. „Ég veit ekki alveg hvernig ég á að koma orðum að þessu, en ég verð að segja honum að ég var ellefu ára þegar ég sá hann keppa og vinna og síðan þá hefur hann verið átrúnaðargoðið mitt. Ég vil samt koma þessu frá mér án þess að honum líði eins og hann sé fjörgamall,“ segir Ari og hlær sínum smitandi hlátri. Þá rifjast einmitt upp eitt handleggsbrotið sem gerðist akkúrat þegar Jóhanna Guðrún og Alexander Rybak kepptust um að komast upp úr undanúrslitariðlinum í Rússlandi um árið.

„Ég var í miðri stúdentsveislu hjá frænda mínum og við ákváðum nokkur að fara út að leika. Við vorum ofan á neti á marki sem slitnaði og markið hrundi. Ég datt ofan á markið og frændi minn datt hinum megin við höndina á mér. Það var járnplata á milli og ég heyrði handlegginn brotna. Þannig að ég missti af undanúrslitunum en ég horfði síðan á úrslitin í sumarbústað í fatla.“

Bankar á dyr hjá Universal Studios

Ari er klassískt menntaður söngvari og fékk að vita það stuttu fyrir Söngvakeppnina að hann væri kominn inn í fimm ára söngnám í hinum virta skóla The Royal Academy of Music í London. Hann flytur utan í haust, úr foreldrahúsum og inn á leigumarkaðinn með tveimur æskuvinum sínum. Saman skipa þeir hljómsveit og sér Ari dvölina í London með rómantískum blæ þar sem þeir vinirnir ætla að einbeita sér 150% að því að búa til tónlist.

„Við eigum fullt af lögum og erum með stúdíó hér heima sem við bjuggum til sjálfir en við höfum aldrei gefið neitt út. Það má segja að við spilum tónlist í ætt við Ed Sheeran og Coldplay, en við notum líka röddina sem hljóðfæri og sumt sem við semjum er í anda Sigur Rósar. Ég held allavega að það séu fáir að flytja svipaða tónlist og við. Við ætlum að búa saman þrír í London og það er eiginlega það sem ég hlakka mest til. Að sofa allir þrír saman í einu herbergi og breyta restinni af íbúðinni í stúdíó,“ segir Ari og bætir við að með þátttöku hans í Eurovision hafi opnast ýmsar dyr fyrir tríóið.

„Ég er að skapa mjög góðan vettvang fyrir okkur núna. Um daginn komst ég til dæmis í samband við yfirmann hjá útgáfufyrirtækinu Universal Studios og var beðinn um að senda efnið okkar á hann. Ef allt gengur að óskum þá gætum við hugsanlega komist á samning, þannig að það er aldrei að vita hvað kemur út úr því. Ég finn allavega að Eurovision opnar ýmsar dyr og þetta snýst um að grípa þau tækifæri sem gefast.“

En er ekki litið niður á Eurovision í hinum klassíska söngheimi?

„Nei, alls ekki. Það gleymist oft að Eurovision snýst mikið um fallegar og einlægar ballöður, sem oft týnast í poppinu því það er fyrirferðarmeira. En við sáum hvað gerðist í fyrra. Salvador Sobral steig á svið með afar fallega ballöðu og náði að tengjast öllum heiminum í gegnum tónlistina. Það er þessi tenging sem er svo falleg og hún skiptir ofboðslega miklu máli.“

Hér eru þau Ari og Þórunn í Eurovision-fyrirpartíi í Ísrael fyrir stuttu. Mynd / Stijn Smulders

Eurovision-gallinn á eftir að vekja athygli

Ari hefur ferðast um Evrópu síðustu daga, ásamt lagahöfundinum Þórunni Ernu Clausen, til að kynna sig og lagið áður en kemur að stóru stundinni í Portúgal.

„Við Þórunn erum búin að fara um allt og skemmta í svokölluðum fyrirpartíum fyrir Eurovision. Ég var úti í tólf daga samfleytt, fór fyrst til London, síðan til Ísrael, svo til Portúgal að taka upp póstkortið fyrir keppnina og endaði í Amsterdam. Þá fór ég heim í tvo daga og hélt síðan út til Madríd. Ég er nýkominn heim og á morgun flýg ég til London að syngja á tónleikum með finnsku Eurovision-stjörnunni Söru Aalto,“ segir Ari, en þegar þetta viðtal er tekið er þriðjudagur. Ari stoppar síðan örstutt á Íslandi þegar hann kemur heim frá London því á laugardaginn flýgur hann rakleiðis til Portúgal þar sem stífar æfingar hefjast.

„Auðvitað er ég þreyttur en þetta er góð þreyta. Ég er sáttur yfir því að hafa svona mikið að gera þannig að þetta er mjög þægileg þreyta. Það er mjög mikilvægt að fara í þessi partí því þegar ég svo kem út til Lissabon þá vita margir blaðamenn hver ég er, sem og hörðustu aðdáendur keppninnar. Þetta skiptir máli upp á það að gera að fólk skrifi um mig og ég komist í viðtöl,“ segir Ari.

Ari nýtur hverrar mínútu í Eurovision-ævintýrinu.

En hverju megum við búast við af atriði Ara úti í Portúgal?

„Atriðið verður ekki alveg eins og það hefur verið, við erum búin að gera nokkrar breytingar. En ég get sagt að ég verð mjög vel klæddur. Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga á rauða dreglinum,“ segir Ari sposkur á svipinn. „Við skulum segja að klæðnaður minn verði í anda íslensku þjóðarinnar og ég held að hann eigi eftir að vekja mikla athygli.“

Hugsar um ástvini á sviðinu

Óskabarnið okkar stígur annað á svið í fyrri undanúrslitunum þann 8. maí og er það mál Eurovision-spekinga að riðillinn okkar sé ansi strembinn, svokallaður dauðariðill.

„Já, við erum í dauðasta dauðariðli sem hefur sést í Eurovision. Allir bloggarar eru með þvílíkt skiptar skoðanir um hvernig þessi riðill eigi eftir að fara og margir eru á því að lögin sem endi í tíu efstu sætunum í aðalkeppninni séu í þessum riðli. Ég veit ekkert hvernig þetta mun fara, bara engan veginn,“ segir Ari, sem stefnir að sjálfsögðu að sigri.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

„Markmiðið er að vinna. Það hefur alltaf verið markmiðið. Hins vegar er aðalmarkmiðið að ná til fólksins með laginu og að fólkið heima í sófa finni fyrir tengingu við lagið. Ef ég næ bara til einnar manneskju þá hef ég staðið mig vel,“ segir Ari. Það örlar ekki á efa í huga söngvarans þar sem hann trúir á lagið Our Choice alla leið.

„Ég tengi svo mikið við þetta lag og það getur átt við svo margt. Það getur átt við að við séum ekki að tjá tilfinningar okkar og að við séum ekki að leyfa fólki að vera eins og það er. Það tengist femínisma, ofbeldi, einelti og öllu sem við getum bætt í heiminum. Þetta snýst um þetta val að vera partur af lausninni en ekki vandamálinu. Við vitum aldrei hvað næsta manneskja er búin að ganga í gegnum og það er mikilvægt að búa til traust, gagnkvæma virðingu og jákvæðni á milli okkar,“ segir Ari. Hann getur að sjálfsögðu ekki tekið allan heiminn með sér upp á svið þannig að mér leikur forvitni á að vita um hvað hann hugsi þegar hann flytji lagið.

„Ég hugsa um fólkið sem mér þykir vænt um. Ég hugsa um mínar ákvarðanir í lífinu. Sumar hafa ekki verið réttar en sumar hafa verið góðar. Ég hugsa líka um manneskjuna sem ég er að reyna að sannfæra. Ég er að reyna að fá hana til að ganga áfram og inn í ljósið en ekki bælast inni í svartnættinu. Þessi eina manneskja táknar auðvitað allt samfélagið.“

Heldur einkalífinu fyrir sig

Talið berst að ástvinum Ara en hann er mjög náinn fjölskyldu sinni og hefur átt sömu tvo bestu vinina síðan í fyrsta bekk. Hann segist umkringdur góðu fólki og eins og staðan er núna eru sautján fjölskyldumeðlimir og vinir á leiðinni til Portúgal með Ara og sá hópur gæti stækkað á næstu dögum.

„Ég og bróðir minn og foreldrar erum mjög náin og við náum að halda góðum tengslum við aðra í fjölskyldunni. Það er mjög mikilvægt. Þau koma með mér út en einnig kærasta mín og fleiri fjölskyldumeðlimir. Svo koma Bergþór og Albert líka með út, það er ekkert annað í boði,“ segir Ari og vísar í Bergþór Pálsson, söngkennara sinn, og Albert Eiríksson, eiginmann hans. „Bergþór og Albert eru eins og hin hjónin sem eiga mig. Það er rosanæs.“

Ég staldra við og spyr Ara um kærustuna, en söngvarinn hefur lítið tjáð sig um sitt einkalíf í fjölmiðlum.

„Við erum búin að vera saman í rúmlega ár og það er bara æðislegt. Ég tala ekki mikið um það í viðtölum því fólk þarf ekkert að vita um mitt einkalíf. Við viljum bara halda því fyrir okkur.“

Ari lætur ekki mótlætið buga sig.

Gefst aldrei upp

Stuttu eftir að Ari snýr aftur heim frá Portúgal kemur að öðrum stórum áfanga í lífi hans. Hann verður nefnilega tvítugur þann 21. maí næstkomandi.

„Þá verður partí. Ég ætla að halda tvítugsafmælið mitt uppi í bústað með vel völdu fólki og bara hafa gaman,“ segir Ari. Á slíkum tímamótum grípur fólk oft sú löngun að líta yfir farinn veg og Ari er þar engin undantekning.

„Það sem stendur upp úr og það sem ég er stoltastur af er að hafa tekist á við tilfinningar mínar og leyft mér að þora að fara í þetta ævintýri. Ég er ánægðastur með að hafa verið jákvæður og leyft mér að stefna hátt og að vera nógu duglegur til að ná mínum markmiðum. Það er ekki til í mér að gefast upp. Þó að mótlætið sé mikið gefst ég aldrei upp.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Semur leikrit um kynferðislega áreitni: „Mennirnir hér eru töluvert grófari“

||||||
||||||

Karen Erludóttir flutti til Los Angeles í september 2016 til að læra kvikmyndaleiklist í skólanum New York Film Academy. Hún vinnur nú að lokaverkefni sínu þar sem hún safnar saman sögum kvenna af kynferðislegri áreitni. Hún segir Los Angeles vera sitt annað heimili, þó að borgin hafi vissulega sína galla eins og aðrir staðir í heiminum.

Auðvitað er Karen búin að heimsækja Central Perk, enda mikill Friends-aðdáandi.

„Ég er mikið fiðrildi að eðlisfari og hef búið á hinum og þessum stöðum í heiminum og fannst því þessir flutningar ekkert nema spennandi. Það er auðvitað alltaf erfitt að skilja eftir fólkið sem maður elskar, en maður verður að elta draumana sína meðan maður getur. Veðrið hér hjálpar líka heilmikið. Það er erfitt að fá heimþrá þegar maður liggur við sundlaugarbakkann að sleikja sólina,“ segir Karen og hlær.

Heilsteyptari og hamingjusamari

Karen útskrifast í vor með AFA-gráðu í leiklist frá New York Film Academy í Los Angeles. Þó að áherslan í náminu sé á leiklist, lærir Karen flest sem tengist kvikmyndagerð, svo sem leikstjórn, lýsingu, klippivinnu og fleira.

„Það að fara í þetta nám er án efa besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Karen sem blómstrar á þessari braut þótt námið taki oft á. „Námið er gífurlega krefjandi, erfitt og ég hef aldrei þurft að gefa jafnmikið af mér, en það er allt þess virði. Í sannleika sagt finnst mér mjög leiðinlegt að ég sé alveg að fara að útskrifast sem er alveg glæný tilfinning, en ég held að það segi allt sem segja þarf,“ segir Karen. Hún bætir við að námið hafi í raun þvingað hana til að fara í mikla og djúpa sjálfskoðun.

„Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessu námi er hvað ég hef kynnst sjálfri mér mikið, eins fáránlegt og það kannski hljómar. Ég hef töluvert meira sjálfstraust en ég hef nokkurn tíma haft og er miklu öruggari í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég kem ekki bara út úr náminu sem reyndari leikkona heldur líka sem miklu heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingur. Sem er algjörlega ómetanlegt.“

Karlmenn í Los Angeles talsvert grófari

Karen vinnur nú í lokaverkefni sínu, sem felst í því að hún skrifar sitt eigið leikrit og setur það síðan á svið í lok annar. Hún ákvað að sækja innblástur úr tíðarandanum í samfélaginu og #metoo-byltingunni.

„Ég hef ekki mikla reynslu í að semja en ákvað að fyrst þetta er eitthvað sem ég á að gera þá ætla ég að gera það almennilega. Ég vildi því skrifa sögu sem skiptir máli, nýta tækifærið til hins ýtrasta og vonandi hafa einhver áhrif. Ég ákvað því að skrifa um kynferðislega áreitni gagnvart konum þar sem það er eitthvað sem við lendum allar í, á einn hátt eða annan, og það virðist bara vera normið sem það á svo sannarlega ekki að vera,“ segir Karen. Til að fá vissa breidd í verkið ákvað hún að auglýsa eftir sögum kvenna sem lýstu þessari áreitni. Þar kom hún ekki að tómum kofanum.

„Mér fannst ég ekki getað skrifað aðeins út frá minni reynslu og mínu sjónarhorni, svo ég auglýsti eftir sögum frá öðrum konum, því þetta er ekki bara mín saga, þetta er sagan okkar allra. Ég fékk gífurlegt magn af sögum sem ég er rosalega þakklát fyrir, en á sama tíma gera þær mig svakalega reiða. Það sýndi mér bara enn þá frekar hvað það er mikilvægt að tala um þetta, opna augu fólks,“ segir þessi dugnaðarforkur og bætir við að ekki sé of seint að senda henni sögu.

Karen fékk smjörþefinn af bransanum þegar hún fór á Óskarsverðlaunahátíðina fyrr á árinu.

„Ég er enn að taka á móti sögum og hver saga hjálpar. Ég sjálf hef heilt haf af sögum að segja og þá sérstaklega eftir að ég flutti hingað til Los Angeles, þar sem mennirnir hér eru töluvert grófari og það var aðalkveikjan að þessari hugmynd. Viðhorfið þarf að breytast og ég ætla ekki bara að sitja á rassinum og vona að það gerist, svo ég er að reyna að leggja mitt af mörkum. Eins og staðan er núna er þetta bara skólaverkefni, en það er aldrei að vita nema ég fari með þetta eitthvað lengra.“

Lenti næstum í árekstri við Courteney Cox

Los Angeles hefur oft verið kölluð borg draumanna, enda margir sem leggja leið sína þangað eingöngu með drauma um frægð og frama í farteskinu. Því verð ég að spyrja hvort Karen vilji festa rætur í borginni?

„Eins og ég nefndi áðan þá er ég mjög mikið fiðrildi og er því ekki aðdáandi þess að plana langt fram í tímann. Ég vil frekar bara bíða og sjá hvert lífið tekur mig. En eftir útskrift er stefnan tekin heim til Íslands og í sumar verð ég að kenna börnum og unglingum leiklist. Hvar ég verð í haust eða vetur er hins vegar ekki ákveðið. Ég er mjög heimakær þrátt fyrir að vera fiðrildi og mig langar rosalega að geta unnið sem leikkona heima á Íslandi. Ég er þó ekki tilbúin til að kveðja Los Angeles alveg, svo ég kem hingað fljótt aftur,“ segir Karen sem er mjög hugfangin af borg englanna. „Borgin hefur að sjálfsögðu sína galla, eins og hver annar staður, en hér líður mér vel. Los Angeles verður án efa alltaf mitt annað heimili.“

Talandi um borg draumanna, þá hafa sumir þá ímynd af Los Angeles að þar séu stjörnur á hverju horni. Er það rétt?

„Ég myndi kannski ekki segja á hverju horni, en skólinn minn er við hliðina á Warner Brothers Studios og ég bý þar mjög nálægt svo ég hef séð töluvert margar stjörnur. Sem brjálaður Friends-aðdáandi mun það alltaf standa upp úr þegar Courteney Cox/Monica Geller keyrði næstum á mig. Hún varð alveg miður sín, en ég var ekki lengi að fyrirgefa henni þetta. Annars hef ég líka séð Matt LeBlanc, Ellen, Önnu Faris, Celine Dion, Wilson Bethel, Leu Thompson, Margot Robbie, Chris Pratt, Apl.de.ap, Redfoo og marga fleiri,“ segir Karen.

Á góðri stundu með Apl.de.ap úr ofurgrúbbunni Black Eyed Peas.

Sýnd klámmynd í Uber-bíl

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur upplifað í Los Angeles?

„Ég er hreinlega ekki viss um hvort það sé Uber-bílstjórinn sem sýndi mér klámmyndina sem hann lék í, á meðan hann var að keyra, alveg óumbeðinn. Eða komast að því að strákurinn sem bjó í íbúðinni fyrir ofan mig var Íslendingur. Ég meina, við erum nú ekki mörg og Los Angeles er mjög stór borg. Eða þegar ég fann tvífara minn hér og lenti með henni í bekk. Við erum ekki bara mjög líkar útlitslega heldur með nánast sama persónuleika og sama smekk á öllu. Það eru einhver stórundarleg tengsl okkar á milli og við vitum nánast hvað hin er að hugsa öllum stundum,“ segir Karen.

En það skemmtilegasta?

„Úff, það er afar erfitt að velja bara eitt. Eitt af því sem ég mun aldrei gleyma er þegar ég fór á Óskarinn og þegar ég horfði á tökur á Mom-þáttunum í Warner Brothers Studios og var dregin upp á svið. Þeim fannst svo áhugavert að ég væri íslensk, en Ameríkanar gjörsamlega elska okkur, svo þau spurðu mig spjörunum úr um Ísland og báðu mig svo að lokum að syngja fyrir þau á íslensku,“ segir Karen, sem fékk ekki að sleppa við það, enda Óskarsverðlaunaleikkona í leikaraliðinu.

Karen með tónlistarmanninum Redfoo sem er hvað þekktastur úr sveitinni LMFAO.

„Ég syng ekki fyrir framan fólk og neitaði því. Þau tóku hinsvegar ekki neitun sem svari og þegar sjálf Allison Janney var farin að hvetja mig áfram gat ég eiginlega ekki sagt nei. Ég meina, konan var tilnefnd, og vann síðan Óskarinn. Svo ég söng eina íslenska lagið sem mér datt í hug í augnablikinu, Rómeó og Júlíu, án undirspils og í míkrafón fyrir framan sirka þrjú hundruð manns og töluverður hluti þeirra var mikilvægt fólk í bransanum. Það þagnaði hver einasta sála í öllu stúdíóinu og starði á mig. Ég þakka enn fyrir það að hafa ekki liðið út af. En þvílíkt adrenalínkikk sem þetta var,“ segir Karen og brosir þegar hún hugsar um þetta stórkostlega augnablik.

Matvöruverslanir eins og félagsmiðstöðvar

Í náminu sem Karen er í er aðaláhersla lögð á leiklist.

Ísland togar í okkar konu og það er ýmislegt sem hún saknar frá heimalandinu.

„Fyrir utan fjölskyldu mína og vini sakna ég klárlega íslenska vatnsins. Nói Siríus kemst að vísu ansi nálægt vatninu, en samviskan segir að velja vatnið frekar,“ segir Karen og hlær. „Ég sakna líka íslensku menningarinnar mjög mikið. Menningin hér er töluvert ólík, sem kom mér mikið á óvart. Hér verð ég rosalega mikið vör við kynþáttahatur, gömul viðhorf gagnvart konum og bara almennt er mun meira misrétti en á Íslandi. En aftur á móti er fólk mun opnara hér og þú lendir miklu oftar í því að spjalla við bláókunnugt fólk tímunum saman. Það að skreppa inn í matvöruverslun hér getur oft verið eins og að ganga inn í félagsmiðstöð, á meðan þú labbar inn í Bónus heima og segir ekki orð allan tímann. Tækifærin í Los Angeles eru líka endalaus og töluvert meira úrval en heima á Íslandi. Ég gæti, held ég, þulið endalaust upp en Los Angeles og Ísland eru bara afar ólíkir staðir að öllu leyti, það er í það minnsta ekki margt sem þessir staðir eiga sameiginlegt.“

Ævistarfið er leiklistin

Talið berst að framtíðardraumunum og þó að Karen sé mikill flakkari og plani ekki langt fram í tímann er ljóst að leiklistin á eftir að spila stórt hlutverk í lífi hennar.

„Mig hefur alltaf langað að vera leikkona, alveg síðan ég man eftir mér. Aumingja mamma þurfti að horfa á ófá leikritin heima í stofu þegar ég var krakki. Svo þegar hún var hætt að nenna, tók ég þau bara upp á myndavél og horfði svo sjálf. Ég fékk síðan loksins kjarkinn til að sækja um að komast í skólann og sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég sé mig ekki gera neitt annað í lífinu.“

Í Los Angeles er alltaf sól og blíða.

Myndir / Úr einkasafni

Dökkir litir ráða ríkjum hjá smart flugfreyju

Blaðamaður Húsa og híbýla kíkti í innlit til Hörpu Guðjónsdóttur flugfreyju og fagurkera sem hefur búið sér og sonum sínum einstaklega glæsilegt heimili. Dökkir litir ráða ríkjum hjá henni og þá sérstaklega svarti liturinn.

Harpa hefur unun af því að fegra heimilið sitt og hún hefur einstaklega næmt auga. Fjölskyldan flutti inn í þetta fallega hús í smáíbúðahverfinu í desember síðastliðnum og síðan þá er Harpa búin að gera töluverðar breytingar á húsinu.

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar komið er inn í húsið er flott, svart eldhús en í rýminu er einnig mjög töff, svartur flauels sófi sem skapar skemmtilegan karakter í þessu opna rými. Punkurinn yfir i-ið eru Voal-gardínurnar sem hleypa birtunni inn.

Það er kúnst að raða saman húsgögnum og hlutum en það finnst Hörpu sérlega gaman að gera og hún er dugleg að færa til hluti og nostra við heimilið. Hún ferðast mikið vegna vinnu sinnar og nýtir tækifærið reglulega til að versla fallega hluti fyrir heimilið.

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur,“ segir Harpa.

Fékkstu innanhússarkitekt til liðs við þig?

„Ég hafði mjög svo fastmótaðar hugmyndir um hvernig heildarútlitið skyldi vera. Ég hef mjög gaman að hönnun og að fá að skapa og naut mín í botn þegar ég var að hanna útlitið, ég var á heimavelli.

Ég fékk vin minn, Andrés James, sem er innanhússarkitekt, til þess að hjálpa mér með skipulagið á eldhúsinu, það var mikil hjálp í honum. Ég var hinsvegar með efnisvalið á hreinu sjálf og vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“

Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu?

„Ég hef algjöra unun af því að nostra við heimilið og myndi segja að ég sé dugleg að blanda saman fínu og grófu, rómantísku og rústik, það finnst mér vera góð blanda. Ég vil hafa heimilið mitt hlýlegt og notalegt, það verður að vera nóg af kertum og blómum, það er eitthvað við blómin sem gerir allt betra.“

Hörpu finnst sérlega gaman að breyta, færa til hluti og nostra við heimilið.

Hvað er mikilvægt í þínum huga þegar kemur að því að innrétta heimilið?

„Mér finnst skipta mestu máli skipta að skapa sinn eigin stíl og elta ekki tískubylgjur. Skipulag verður að vera gott og að það sé samhljómur í því sem maður er að gera, s.s að rýmin tali saman.“

Mynd / Rut Sigurðardóttir

Ertu alltaf að breyta til á heimilinu?

„Eins og ég segi þá hef ég unun af því að skapa og þar kemur sterkt inn að breyta og bæta. Mér finnst mjög skemmtilegt að færa hluti til og nostra við litlu hlutina, raða hlutum saman á fallegan hátt o.s.frv. Þetta finnst mér einfaldlega svo skemmtilegt.“

Dökkir litir ráða ríkjum á heimilinu.

Hvað gerir hús að heimili?

„Mér finnst lykilatriði að mála í litum og að vera með fallegar gardínur; þær eru í raun eins og falleg mubla og setja punktinn yfir i-ið. Eins finnst mér hlýlegt og fallegt að vera með fallegar mottur og myndir á veggjunum. Lýsing er einnig mikilvæg og þá er óbeina lýsingin fallegust. Heimilið á að vera griðastaður þar sem okkur líður vel og hlöðum batteríin í amstri dagsins.“

Harpa fékk vin sinn, Andrés James, til þess að hjálpa sér með skipulagið á eldhúsinu.

Myndir / Rut Sigurðardóttir

Golfkúlur, innkaupakerrur og stigar bannaðir á Eurovision

|
|

Eurovision-keppnin fer fram dagana 8., 10. og 12. maí næstkomandi í Altice Arena-höllinni í Lissabon í Portúgal.

Á opinberri vefsíðu keppninnar hefur verið birtur listi yfir það sem gestir mega ekki taka með sér inn í höllina. Á listanum eru að sjálfsögðu hlutir eins og sprengiefni, vopn og fíkniefni, sem hlýtur að geta talist eðlilegt.

Hér er listinn í heild sinni.

Hins vegar eru líka nokkrir óvenjulegir hlutir á listanum eins og golfkúlur, innkaupakerrur, reipi, stigar, stólar og límband. Regnhlífar, hleðslubankar fyrir síma, fartölvur og framlengingarsnúrur eru einnig stranglega bannaðar.

Netverjar hafa skemmt sér konunlega yfir þessum lista, eins og sjá má hér fyrir neðan:

43 þjóðir keppa í Eurovision að þessu sinni, en í ár er keppnin haldin í 63. sinn. 26 þjóðir komast í úrslitin 12. maí en fulltrúi Íslands er Ari Ólafsson með lagið Our Choice.

Sjá einnig: Þetta eru lögin sem Ari keppir við í Lissabon

Sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs konunglega brúðkaupinu

|||
|||

Leikkonan Meghan Markle gengur að eiga Harry Bretaprins þann 19. maí næstkomandi og er mikill spenningur fyrir þessu konunglega brúðkaupi í Bretlandi.

Nú þegar er búið að fylla hillur í breskum minjagripabúðum af ýmsum varningi tengdum brúðkaupinu, svo sem viskastykkjum, borðbúnaði, sætabrauði og púðum.

Verslunin Lovehoney, sem sérhæfir sig í hjálpartækjum ástarlífsins, fer hins vegar í allt aðra átt í þessum málum. Verslunin hefur nefnilega sett á markað sprenghlægileg kynlífstæki til heiðurs Meghan og Harry.

Sjá einnig: Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið

Markle Sparkle.

Viðskiptavinir Lovehoney geta fest kaup á titrandi hring sem heitir Markle Sparkle, sem hannaður er til að líta út eins og trúlofunarhringur Meghan. Hægt er að setja hringinn á fingur sér og njóta titringsins sjálfur, eða leika við elskhuga sinn með honum.

Ástarhringurinn.

Svo er það ástarhringur konunglega brúðkaupsins, sem er örlítið stærri enda hugsaður sem hringur sem fer á getnaðarlim. Um er að ræða hring úr sílíkoni sem titrar einnig, en á honum eru sérstakir hnúðar sem hannaðir eru til að örva snípinn í samförum.

Umbúðir tólanna eru líka sprenghlægilegar, eins og sést hér fyrir neðan:

Fyndnar umbúðir.

Verður tvítug tveggja barna móðir í sumar: „Rosalega mikið sjokk“

|||
|||

„Mér hefur oft fundist ég hafa misst af einhverju sem aðrir á mínum aldri eru að gera en ég hef allt lífið framundan og nægan tíma til þess að gera allskonar hluti,“ segir Karen Eva Þórarinsdóttir.

Karen var aðeins átján ára þegar hún eignaðist son sinn, Elmar Þór Róbertsson, með kærasta sínum Róbert Smára Haraldssyni. Í dag er Karen tvítug og Róbert 23ja ára og þau eiga von á sínu öðru barni þann 11. júní næstkomandi. Karen segir það hafa verið ákveðið áfall að komast að því að hún gengi með annað barn svo ung.

Karen og Elmar í kósíheitum.

„Þetta var rosalega mikið sjokk fyrst þar sem ég er svona ung og ég taldi mig engan veginn tilbúin í það að eignast annað barn, enda algjörlega að læra á lífið og allt um uppeldi á eldri stráknum mínum. Mamma mín, sem er mín stoð og stytta, studdi mig í gegnum sjokkið eins og hún gerði á fyrri meðgöngunni og er ég endalaust þakklát fyrir hana. Viðhorfið mitt var mjög fljótt að breytast enda er strákurinn minn það allra besta í lífinu mínu og ég er umvafin yndislegu fólki sem vill allt fyrir okkur gera,“ segir Karen.

Krefjandi að vera ung móðir

Elmar sonur hennar verður aðeins nítján mánaða gamall þegar að nýja barnið kemur í heiminn, en Karen segir það vissulega reyna á að verða móðir svona ung.

„Það er mjög krefjandi að vera ung móðir og ég held að margir átti sig ekki á því hversu mikið maður þarf að þroskast á stuttum tíma til þess að takast á við foreldrahlutverkið, nýskriðin í fullorðinsaldur. Þetta tekur mikið á oft á tímum og maður fær að kynnast hvað þreyta er,“ segir Karen og hlær. „En á sama tíma er þetta svo rosalega gefandi, að fá að elska sitt eigið barn, að lítill einstaklingur þarfnist manns.“

Karen segist ekki hafa fundið fyrir fordómum í sinn garð fyrir að byrja barneignir á þessum aldri.

„Ég hef ekki fundið mikið fyrir fordómum, nema kannski þegar ég fæ svip frá fólki hér og þar. Sumir verða mjög hissa að ég af öllum skuli vera ung móðir þar sem ég var vandræðagemsinn í 10. bekk. Sumir hafa gert létt grín að þessu en alls ekkert á fordómafullan hátt. Ég fékk oft að heyra hvernig ég ætti að hafa hlutina og fékk uppeldisráð sem mér fannst persónulega úrelt og ákvað sjálf að taka ekki til mín,“ segir Karen.

Gerólíkar meðgöngur

Elmar virðir fyrir sér litla systkinið.

Karen er búin að vera óvinnufær síðan í febrúar vegna meðgöngukvilla, en hún segir þessar tvær meðgöngur gerólíkar eins og oft vill verða.

„Fyrri meðgangan mín var algjör draumur og gekk frábærlega, engir fylgikvillar og allt gekk eins og í sögu. Það sama átti við um fæðinguna. Ég þurfti ekkert verkjastillandi nema baðið og glaðloft. Seinni meðgangan er hinsvegar allt önnur. Morgunógleðin byrjaði snemma og ég var með hana í þrjá mánuði. Þá tók við grindargliðnun, sem er orðin mjög slæm núna og fer versnandi með tímanum. Í kringum 20. vikuna byrjaði ég síðan að fá samdrætti með miklum verkjum sem að hræddi mig rosalega þar sem ég fékk aldrei neina fyrirvaraverki á fyrri meðgöngu. Ég er búin að vera í góðu eftirliti hjá yndislegu ljósmæðrunum mínum og það er passað vel uppá mig þar,“ segir Karen sem hefur líka þurft að passa uppá andlegu hliðina á þessari meðgöngu.

„Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn. En ég held í vonina að fæðingin verði góð í þetta skiptið líka.“

Draumurinn að vinna við förðun

Karen og Róbert búa saman á Selfossi, þar sem Karen hefur búið meira og minna alla sína tíð. Hún útskrifaðist sem förðunarfræðingur frá Mask Academy í desember í fyrra og stefnir á frekari frama í þeim bransa.

„Draumurinn er að vinna við eitthvað förðunartengt, mögulega opna mitt eigið fyrirtæki eða eitthvað skemmtilegt. Mig langar rosalega að klára framhaldsskóla og mun ég sennilega vinna í því hægt og rólega,“ segir Karen, sem snappar um líf sitt og tilveru undir nafninu kareneva98.

Snappar um allt milli himins og jarðar.

„Ég snappa um allt sem mér dettur í hug; barnið mitt, meðgönguna, förðun, andlega heilsu, hvað ég geri á daginn og ýmislegt,“ segir Karen og bætir við að Snapchat hafi verið hennar leið til að vinna bug á feimni. „Ég ákvað að koma mér út úr þægindarammanum og feimninni sem ég glími við og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera á daginn. Ég byrjaði á opnu snappi með öðrum frábærum mömmum, madres101, og er ég þar inni reglulega. Ég snappa líka á mínu eigin snappi á hverjum degi.“

Áður en ég kveð Karen verð ég að spyrja hvort hún hyggi á að fjölga enn frekar í barnahópnum í nánustu framtíð.

„Nei, allavega ekki næstu árin. Okkur langar að koma undir okkur fótum og kaupa húsnæði. Mig langar að finna mér góða atvinnu áður en við hugum að öðru barni á eftir þessu kríli.“

Myndir / Fyrirmyndir og úr einkasafni

Sarah Jessica Parker hannar brúðarkjóla

|||||||||||
|||||||||||

Sex and the City-stjarnan Sarah Jessica Parker er búin að frumsýna brúðarlínu í samstarfi við tískurisann Gilt.

Brúðarkjólarnir í línunni eru afskaplega fallegir og vandaðir og kosta allt frá rúmlega þrjátíu þúsund krónum og upp í þrjú hundruð þúsund krónur. Í línunni er einnig klæðnaður fyrir brúðarmeyjar, sem og skór fyrir stóra daginn.

Öll línan er unnin í New York, en Sarah ferðaðist víða um Evrópu til að velja slitsterk og vönduð efni fyrir línuna. Þá eru þægindi höfð að leiðarljósi í öllum sniðum.

Hér fyrir neðan má sjá nokkra af brúðarkjólunum:

Hér má svo sjá fatnað sem ætlaður er brúðarmeyjum:

Og hér eru nokkur skópör:

Alla línuna má sjá hér.

Nýr stefnumótaþáttur úr smiðju höfundar The Bachelor

Mike Fleiss, höfundur raunveruleikaþáttarins The Bachelor, tilkynnti í vikunni að nýr stefnumótaþáttur úr hans smiðju færi í loftið í sumar á sjónvarpsstöðinni ABC.

Þátturinn heitir The Proposal, eða Bónorðið, og fellur það í hlut fyrrum NFL-leikmannsins Jesse Palmer að vera kynnir. Þeir sem hafa fylgst vel með fyrrnefndum Bachelor-þáttum kannast kannski við Jesse, en hann keppti í seríu 5.

The Proposal telur alls tíu þætti og snúast þeir um tíu vonbiðla sem keppa um hylli einnar manneskju, líkt og í The Bachelor, The Bachelorette og fleiri þátta í svipuðum dúr. Bónorðið sker sig úr með þeim þætti að vonbiðlarnir fá ekki að sjá, eða vita nokkurn skapaðan hlut um manneskju sem þeir eru að reyna að heilla.

Líkt og í öðrum stefnumótaþáttum verða ýmsar áskoranir sem vonbiðlarnir þurfa að takast á við, til dæmis svara ýmsum nærgönglum spurningum og reyna að heilla fjölskyldumeðlimi óþekktu manneskjunnar.

Eftir hverja áskorun er einn keppandi sendur heim þar til aðeins tveir standa eftir. Þeir tveir fá þá loksins að hitta huldumanneskjuna og geta þá borið upp rómantískt bónorð að eigin vali, samkvæmt tilkynningu frá ABC.

Lesa má á milli línanna að bónorðið sé valfrjálst, en að það geti einnig aðeins falið í sér boð á stefnumót.

Frægir foreldrar sem eiga tvíbura

Það er mikil blessun að eignast börn, hvað þá þegar um fjölbura er að ræða.

Nokkur pör af tvíburum hafa gert það gott í skemmtanaiðnaðinum og ber þar helst að nefna Mary-Kate og Ashley Olsen. Fræg pör hafa einnig verið dugleg að eignast tvíbura og ákváðum við að líta aðeins yfir nokkur stjörnubörn sem hugsanlega eiga eftir að feta í fótspor foreldra sinna í framtíðinni.

Enrique Iglesias og Anna Kournikova

Söngvarinn og tennisstjarnan buðu tvíburasystkinin Nicholas og Lucy velkomin í heiminn þann 16. desember í fyrra.

Cristiano Ronaldo og Georgina Rodriguez

Fótboltastjarnan tilkynnti í júní í fyrra að hann væri búinn að eignast tvíbura með kærustu sinni. Systkinin hafa fengið nöfnin Mateo og Eva.

Beyoncé og Jay Z

Beyoncé tilkynnti það á Instagram í febrúar í fyrra að hún ætti von á tvíburum og internetið sprakk næstum því. Tvíburarnir, sem heita Rumi og Sir Carter, komu síðan í heiminn þann 13. júní í Kaliforníu.

A post shared by Beyoncé (@beyonce) on

George og Amal Clooney

Leikarinn og lögfræðingurinn hafa reynt að halda einkalífi sínu utan sviðsljóssins en það var vinur þeirra, leikarinn Matt Damon, sem staðfesti fréttir þess efnis að þau ættu von á barni í fjölmiðlum. Í júní í fyrra komu tvíburar í heiminn, dóttirin Ella og sonurinn Alexander.

Ricky Martin

Söngvarinn eignaðist synina Matteo og Valentino í ágúst árið 2008 með hjálp staðgöngumóður.

A post shared by Ricky (@ricky_martin) on

Sarah Jessica Parker og Matthew Broderick

Leikarahjónin nýttu sér hjálp staðgöngumóður í júní árið 2009 þegar þeim fæddust dæturnar Marion Loretta Elwell og Tabitha Hodge.

A post shared by SJP (@sarahjessicaparker) on

Rebecca Romijn og Jerry O’Connell

Það voru gleðileg jólin árið 2008 hjá leikarahjónunum. Þau eignuðust tvíburasysturnar Dolly Rebecca-Rose og Charlie Tamara-Tulip þann 28. desember það ár.

Neil Patrick Harris og David Burtka

Leikararnir tilkynntu það þann 14. ágúst árið 2010 að þeir ættu von á tvíburum með hjálp staðgöngumóður. Sonur þeirra Gideon Scott og dóttir þeirra Harper Grace komu í heiminn í október sama ár.

A post shared by Neil Patrick Harris (@nph) on

Mariah Carey og Nick Cannon

Söngkonan og spéfuglinn eignuðust tvíburana Moroccan og Monroe þann 30. apríl árið 2011, en Mariah og Nick skildu þremur árum síðar.

A post shared by Mariah Carey (@mariahcarey) on

Angelina Jolie og Brad Pitt

Leikkonan staðfesti það á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí árið 2008 að hún ætti von á tvíburum. Það var svo þann 12. júlí það ár að sonurinn Knox Léon og dóttirin Vivienne Marcheline komu í heiminn. Bættust tvíburarnir í stóran barnahóp, en foreldrarnir skildu árið 2016.

Jennifer Lopez og Marc Anthony

Tónlistarhjónin eignuðust soninn Maximilian David og dótturina Emme Maribel í New York þann 22. febrúar árið 2008. Jennifer og Marc skildu þremur árum síðar.

A post shared by Jennifer Lopez (@jlo) on

Eurovision-stjarna gefur út sumarsmell

Eurovision-stjarnan María Ólafs er búin að gefa út nýtt lag sem heitir Hækka í botn. María er líklegast þekktust fyrir að vera fulltrúi Íslands í Eurovision árið 2015, en hún flutti lagið Unbroken í Vín og komst ekki upp úr undanúrslitum.

Lagið er heldur betur hressandi stuðlag, svokallaður sumarsmellur, en lítið hefur farið fyrir Maríu síðustu misseri.

Það eru sannkallaðar Eurovision-kanónur sem standa á bak við lagið Hækka í botn, en höfundar þess eru Sveinn Rúnar Sigurðsson og Valgeir Magnússon, oft þekktur sem Valli Pipar, en þeir tveir sömdu lagið Golddigger fyrir Söngvakeppnina í ár sem Aron Hannes flutti. Hann laut hins vegar í lægra haldi fyrir laginu Heim, eða Our Choice, sem flutt var af Ara Ólafssyni en um trommuleik í því atriði sá Gunnar Leó Pálsson, kærasti fyrrnefndar Maríu Ólafs.

Hér fyrir neðan má hlusta á þennan nýja smell frá Maríu:

Mynd / Jónatan Grétarsson

Veruleiki barna annar en áður

Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur hjá Sálstofunni, veit meira um kvíða barna og ungmenna en flestir landsmenn.

Starf Berglindar felst fyrst og fremst í greiningu og meðferð á fjölbreyttum vanda og frávikum í hegðun og líðan barna en einnig í ráðgjöf til foreldra og fagaðila. Hún segir meirihluta vinnu sinnar snúast um kvíða í einhverri mynd, þar sem kvíði barna fari vaxandi og snerti flest mál með einhverjum hætti. Berglind hefur áralanga reynslu af ráðgjöf og hefur haldið fjölmörg vel sótt námskeið og fyrirlestra tengda málefnum barna og unglinga. Hún segir námskeiðin og kvíðavinnuna almennt fyrst og fremst ganga út á fræðslu. „Að vita hvað maður er að glíma við og af hverju, er jafnmikilvægt og að vita hvernig er svo hægt að takast á við vandann. Þá er líka mikilvægt fyrir foreldra og börn að vita hvað þarf að forðast að gera og hvað ekki.Ég held að flestir sálfræðingar sem hafa haldið námskeið eða fyrirlestur um kvíða séu með fullt út úr dyrum.  Maður á alltaf von á að koma að hálftómu húsi einhvern tíma og að fólk sé búið að heyra nóg um kvíða barna en það virðist að minnsta kosti ekki vera komið að því ennþá.“

Kvíði er eðlileg tilfinning 

Berglind segir kvíða hafa margar og ólíkar birtingarmyndir. „Helstu einkenni hans eru ýmis konar áhyggjur, feimni gagnvart fólki og /eða aðstæðum, hræðsla gagnvart ýmiss konar aðstæðum og þrálátar hugsanir. Kvíða fylgja gjarnan ýmis líkamleg einkenni, s.s. hraður hjartsláttur, magaverkur eða hröð öndun. Kvíðin börn og ungmenni forðast gjarnan aðstæður sem valda þeim kvíða og ef þau þurfa að fara í slíkar aðstæður reyna þau yfirleitt að komast úr þeim eins fljótt og þau geta og líður þá oft eins og þau hafi rétt sloppið við eitthvað sem er upplifað mjög hættulegt. Þannig getur myndast vítahringur sem vindur oft upp á sig ef ekkert er að gert.“

Kvíði er í grunninn eðlileg tilfinning sem allir finna fyrir einhvern tíma og er okkur nauðsynlegur. Hann verður hins vegar að vanda þegar hann er farinn að birtast of oft, við aðstæður sem eru ekki hættulegar og er farinn að trufla barn/ungmenni í sínu daglega lífi og farinn að koma í veg fyrir að það taki þátt og/eða njóti þess sem það tekur sér fyrir hendur.“

Veruleiki barna annar en áður

Kvíði er nokkuð algengur að sögn Berglindar, en hún segir mörg börn glíma við einhver einkenni kvíða í lengri eða styttri tíma. „Eins og ég segi, þá kemur einhvers konar kvíði inn í meirihluta mála sem við veitum meðferð við á stofu. Stundum erum við fljót að laga það sem truflar, stundum tekur það lengri tíma. Veruleiki barna og unglinga er annar en hann var og felur í sér aðrar áskoranir og verkefni en þegar við vorum ung. Umræða um tilfinningar og líðan er án nokkurs vafa opnari en hún var og algengara að fólk ræði almennt þau mál við börnin sín. Á hinn bóginn er auðvelt að falla í þá gryfju að vilja að börnunum okkar líði aldrei illa, sem er auðvitað óraunhæf krafa og getur leitt til þess að venjuleg líðan og viðbrögð eru orðin að vanda í huga foreldra.“

Mikilvægast að afla sér upplýsinga

Aðspurð um ráð fyrir foreldra sem grunar að barnið sitt gæti þjáðst af kvíða, segir Berglind mikilvægast að afla sér upplýsinga og fræðslu. „Algengustu hindranir foreldra sem ég rekst á eru tvenns konar; að átta sig ekki á hvar/hvenær kvíði er farinn að trufla og leyfa barni að „sleppa“ við aðstæður sem geta undið upp á sig. Hins vegar að ætla alls ekki að leyfa kvíða að stjórna og krefjast því of mikils af barninu sem getur líka viðhaldið vandanum og gert hlutina verri. Það er því mikilvægt að afla sér upplýsinga um eðli kvíða og fá ráð hjá fagfólki ef einföld inngrip duga ekki til“ segir Berglind að lokum.

Lesið umfjöllunina í heild sinni í 15.tölublaði Vikunnar.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda“

Stórleikarinn Dwayne “The Rock” Johnson eignaðist sitt annað barn með kærustu sinni Lauren Hashian í gær. Dwayne tilkynnti þetta á Instagram og deildi um leið yndislegri mynd af nýfæddri stúlkunni, sem fengið hefur nafnið Tiana Gia Johnson.

Með myndinni birtir Dwayne hjartnæm skilaboð.

„Hamingjusamur og stoltur að færa heiminum aðra sterka stúlku. Tiana Gia Johnson kom í heiminn eins og náttúruafl og móðirin fæddi hana eins og rokkstjarna,“ skrifar Dwayne. Hann bætir við að hann beri ómælda virðingu fyrir konum um heim allan.

A post shared by therock (@therock) on

„Ég var alinn upp og umkringdur sterkum, ástríkum konum allt mitt líf, en eftir að hafa tekið þátt í fæðingu Tiu er erfitt fyrir mig að lýsa þeirri ást, virðingu og aðdáun sem ég ber til Lauren Hashian og allra mæðra og kvenna þarna úti.“

Þá gefur leikarinn verðandi feðrum mikilvæg ráð.

„Það er mikilvægt að ná sambandi við konu sína þegar hún er að fæða, að styðja hana eins mikið og hægt er, haldast í hendur, halda í fótleggi, gera hvað sem þú getur. En ef þú vilt virkilega skilja kraftmiklustu og frumstæðustu stundu sem lífið hefur upp á að bjóða – horfðu á barnið þitt fæðast. Það breytir lífinu og sú virðing og aðdáun sem þú berð til konu verður takmarkalaus.“

Þetta er þriðja dóttir Dwayne en fyrir átti hann hina tveggja ára Jasmine Lia með Lauren og hina sextán ára gömlu Simone Alexandra úr fyrra hjónabandi. Hann segir að Tiana litla fái nákvæmlega sömu meðferð og hinar tvær stúlkurnar – nóg af ást og stuðningi.

„Ég lofa þér að ég mun elska þig og vernda, leiðbeina þér og láta þig hlæja restina af lífinu mínu. Brjálaði pabbi þinn ber ábyrgð á mörgu og ber ýmsa hatta í þessum stóra heimi, en að vera faðir þinn verður alltaf sá hattur sem ég er stoltastur af því að bera.“

Sláandi lík Díönu prinsessu í rauðum kjól

Kate Middleton, hertogynjan af Cambridge, og Vilhjálmur prins eignuðust sitt þriðja barn, lítinn snáða, á St Mary’s-sjúkrahúsinu í London í gærmorgun.

Kate og Vilhjálmur yfirgáfu sjúkrahúsið síðdegis í gær og frumsýndu um leið nýjustu viðbótina við konunglegu fjölskylduna.

Kate ljómaði er hún heilsaði blaðamönnum, ljósmyndurum og aðdáendum fyrir utan sjúkrahúsið og klæddist eldrauðum kjól frá Jenny Packham með hvítum blúndukraga. Við hann var hún í ljósum skóm frá Gianvito Rossi. Hár og förðun hennar var óaðfinnanleg, þökk sé stílista hennar Natasha Archer sem var að sjálfsögðu á staðnum.

Margir hafa bent á að Kate hafi verið sláandi lík Díönu prinsessu í fatavali, en prinsessan heitin klæddist rauðri dragt þegar hún gekk út af fæðingardeildinni með Harry prins árið 1984.

Þess má geta að Kate klæddist líka kjól úr smiðju Jenny Packham þegar hún frumsýndi hin tvö börnin sín; Georg prins árið 2013 og Charlotte prinsessu árið 2015. Þeir voru hins vegar báðir ljósir, en í þetta sinn ákvað hún að kynna heiminn fyrir nýjasta prinsinum í sterkum lit sem tekið er eftir.

Þetta velja Íslendingar helst á pítsu

||
||

Við sögðum frá því í gær að Bandaríkjamenn velja helst pepperoni á pítsur, samkvæmt gögnum frá heimsendingarþjónustunni Caviar. Í öðru sæti á listanum voru pylsur og í því þriðja hvítlaukur.

Við ákváðum því að spyrja Önnu Fríðu Gísladóttur, markaðsstjóra Dominos á Íslandi, hver eftirlætisálegg Íslendinga væru þegar þeir panta sér pítsu. Ótrúlegt en satt, þá trónir pepperoni líka á toppi þess lista. Í frétt úr gögnum Caviar furðuðum við okkur á því að skinka næði ekki á blað, en hún er í öðru sæti á listanum frá Dominos. Það er svo rjómaosturinn sem vermir þriðja sætið.

Hér eru tíu vinsælustu áleggin á pítsur Íslendinga samkvæmt gögnum frá Dominos:

1. Pepperoni
2. Skinka
3. Rjómaostur
4. Piparostur
5. Beikon kurl
6. Sveppir
7. Nautahakk
8. Laukur
9. Ananas
10. Jalapeno

Heimurinn elskar pepperoni á pítsur.

Við settum einnig fram mjög óvísindalega könnun í hópnum Matartips! á Facebook og spurðum einfaldlega hvert eftirlætis álegg tipsara væri. Við fengum fjöldan allan af svörum og niðurstaðan er að meðlimir hópsins eru sammála fjöldanum og setja pepperoni í efsta sæti. Í öðru sæti er ananas, sem ætti að gleðja forseta vor eða hitt þó heldur, og fast á hæla ananas eru sveppir.

Hér kemur listi Matartips-ara yfir eftirlætisálegg:

1. Pepperoni
2. Ananas
3. Sveppir
4. Skinka
5. Beikon
6. Rjómaostur
7. Bananar
8. Laukur
9. Jalapeno
10. Piparostur

Annað sem var nefnt gott á pítsur voru til að mynda döðlur, kjúklingur, rækjur, gráðostur, svartur pipar, ólívur, paprika, svart Doritos-snakk, parmesan-ostur og hráskinka.

Smekkur manna er misjafnur þegar kemur að áleggi á pítsu.

Fyllti eldhúsið af keramík

Áskorun að fara út fyrir þægindarammann.

Hera Guðmundsdóttir hönnuður tók þátt í HönnunarMars 2018 með sýningunni Souvenir/Minning í Geysi Heima. Hún starfar bæði hérlendis og í Frakklandi og nafn hönnunar hennar, Atelier Dottir, tengir þessa tvo menningarheima.

Hera Guðmundsdóttir er konan á bakvið hönnunina Atelier Dottir og starfar bæði í París og á Íslandi.

„Sýningin mín á HönnunarMars 2018 er hluti af rannsóknarvinnu sem ég byrjaði á fyrir næstum ári síðan. Verkefnið er enn í mótun en mér fannst áhugavert að sýna verk sem er enn þá á útfærslustigi,“ úrskýrir Hera. „Rannsóknin snýr að sambandinu á milli lyktar og minnis eða hvernig við tengjum ákveðna lykt við stað og stund. Ég notast við ilmkjarnaolíur sem ég hef blandað til að draga fram ákveðnar minningar, mínar eigin og annarra, en ég dreypi svo þessum olíum yfir litla skúlptúra úr steinleir sem dregur ilminn í sig og gefur jafnframt frá sér. Verkefnið er mun nær mér en það sem ég hef gert hingað til en í því er einmitt mikil áskorun, að fara út fyrir þægindarammann og sjá hvað gerist.“

Flakkar milli miðla
Hera lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist 2012 en hefur á síðustu árum færst yfir í önnur listform. Hún er líklega þekktust fyrir veggspjöldin sem hafa verið í sölu og nú síðast bættist keramíkið við.

„Ætli það sem ég geri sé ekki á mörkum hönnunar og listar. Mér finnst mjög áhugavert allt sem að sameinar notagildi og fagurfræði; hlutirnir sem við umkringjum okkur með og fegra umhverfi okkar. Ég flakka á milli miðla en hingað til hef ég mest unnið með collage og ljósmyndir sem verða svo að veggspjöldunum sem Atelier Dottir er þekkt fyrir. Nýjasti miðillinn er hins vegar keramík sem ég byrjaði að vinna með síðasta haust. Mér finnst engin ástæða til að einskorða sig við einn miðil eða eina ákveðna tækni, það sem vekur áhuga hverju sinni er alltaf vert að skoða.

Það var ekki endilega meðvituð ákvörðun að hverfa frá fatahönnun. Mig langaði að breyta til og lét eina spurningu ráða ferðinni: „Hvað langar þig að gera alla daga, alltaf?“ Það sem ég komst að er að ég þrífst best þegar ég vinn að ólíkum verkefnum, þegar engir tveir dagar eru eins. Ég er ekki viss um að ég hafi sagt skilið við fatahönnun fyrir fullt og allt en í augnablikinu finn ég mig betur innan listarinnar og annarra sviða hönnunar. Allt sem ég nýti mér í dag við rannsóknar- og hugmyndavinnu lærði ég í náminu. Ég sé það alltaf betur og betur hversu margar og ólíkar dyr hönnunarnám getur opnað. Námið er í raun upphafspunktur rannsóknar sem svo teygir sig inn á önnur og ólík svið.“

Í nýjustu hönnun sinni dreypir Herar ilmkjarnaolíum yfir litla skúlptúra úr steinleir með það að markmiði að draga fram minningar.

Kynntist ástinni í París
List hefur alltaf skipt Heru miklu máli og hún hefur alla tíð verið umkringd list bæði heima hjá sér og hjá afa sínum og ömmu. „Ég veit ekki hvernig áhuginn kviknaði fyrir alvöru, ætli hann hafi ekki bara alltaf verið þarna en ég held að ég hafi lært snemma að list væri sjálfsögð og nauðsynleg. Ég er fædd í Reykjavík og alin upp við Skólavörðuholtið. Foreldrar mínir fluttu í Garðabæ þegar ég var unglingur og búa þar enn en mér hefur alltaf fundist ég vera miklu meiri Reykvíkingur en nokkuð annað. Ég kynntist manninum mínum í París en við erum búin að vera saman í tæp fimm ár. Hann er einstaklega skilningsríkur og þarf oft að sýna mikla þolinmæði þegar ég er í miðju verkefni. Ég lagði til dæmis undir mig eldhúsið í desember fyrir keramíkið og það var varla hægt að sjóða vatn þar fyrir vösum og klumpum af steinleir. Foreldrar mínir og afi og amma hafa líka sýnt mér mikinn stuðning, alveg síðan í náminu, voru alltaf í klappliðinu og alltaf til í skutl og reddingar á síðustu stundu.“

„Það hefur milka þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum.“

Hera flutti til Frakklands haustið 2012 til að vera í starfsnámi í þrjá mánuði. Síðan eru liðin sex ár. „Frakkland og þá sérstaklega París er og verður draumastaður fyrir alla sem tengjast list eða hönnun, sagan og söfnin eru næg ástæða til að setjast þar að. Síðan er maðurinn minn auðvitað er franskur. Nafnið sem ég hanna undir, Atelier Dottir, tengir saman löndin mín tvö og vísar í þetta flakk á milli Parísar og Reykjavíkur. Svo spilaði líka inn í að „h“ er ekki borið fram í frönsku og ég hef enn þá ekki hitt þann Frakka sem getur borið rétt fram föðurnafnið mitt.“

Hera hélt sýningu í Geysi heima á HönnunarMars.

Sækir orku til Íslands
Hera hefur haldið nokkrar sýningar. Í Reykjavík hefur hún sýnt hjá Norr11, The Coocoo’s nest og Geysi Heima. „Allt mjög ólíkar sýningar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið unnar í samstarfi við frábært fólk og haldnar í fallegum rýmum svo það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra. Í desember síðastliðnum tók ég í fyrsta skipti þátt í samsýningu hönnuða í París en út frá þeirri sýningu hófst nýtt samstarf sem verður kynnt með vorinu. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum. Það skiptir mig miklu máli að halda í þessa tengingu.“

Næsta verkefni Heru er lína af handgerðum keramíkvösum sem hún gerir fyrir blómasalann Louis-Géraud Castor sem sér meðal annars um blómaskreytingar fyrir búðir A.P.C. og Lemaire og Picasso-safnið í París. „Við byrjuðum á hugmyndavinnunni í desember og ætlum okkur að kynna vasana í apríl en fyrsta frumgerðin var hluti af sýningunni minni á HönnunarMars,“ segir Hera að lokum. Hera er á Facebook og Instagram undir notandanafninu Atelier Dottir. Veggspjöldin og gjafakortin fást í Geysi Heima og Akkúrat.

Viðtalið birtist í 12. tbl. Vikunnar 2018. 

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

„Svolítill hippi í mér“

Eyrún Birna brúðarkjólahönnuður.

Hver kjóll er einstakur.

Tilviljun réði því að Eyrún Birna Jónsdóttir sneri sér að gerð brúðarkjóla en hún sérhæfir sig í bóhemískum, flæðandi, þægilegum og lágstemdum kjólum.

„Þið fáið engar „rjómatertur“ hjá mér,“ svarar Eyrún Birna hlæjandi þegar hún er spurð út í sérstöðu brúðarkjólanna sinna. „Ég hef alltaf heillast af hvers kyns blúndum og hekli, ætli ég sé ekki svolítill hippi í mér. Við hönnunina hef ég í huga að kjólarnir séu áhugaverðir, úr fallegum efnum og að sniðin séu klæðileg. Ég legg líka áherslu á að kjólarnir séu þægilegir því mér finnst mikilvægt að konum líði sem best á brúðkaupsdaginn. Innblástur fæ ég alls staðar að, er alltaf með augun opin fyrir fallegum sniðum og efnum. Ég sérsauma kjólana á hverja og eina brúði. Kjóllinn þarf að passa fullkomlega og draga fram það besta hjá hverri konu. Hver kjóll er því einstakur og þannig á það auðvitað að vera þegar brúðarkjóll er annars vegar. Ég er því ekki með neina kjóla á lager en er þó með nokkra kjóla til sýnis sem hægt er að fá að skoða og máta.“

Eyrún Birna hannar brúðarkjóla í bóhemískum, flæðandi og þægilegum stíl.

Lengra viðtal og fleiri myndir af brúðarkjólum má finna í brúðarblaði Vikunnar, sem verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Texti: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir af brúðarkjólum: Ruth Ásgeirsdóttir/Ljósmyndir og list
Fyrirsæta: Gabríela Ósk Vignisdóttir
Mynd af Eyrúnu Birnu: Aldís Pálsdóttir

Brúðarblað Vikunnar verður fáanlegt í verslunum í allt sumar.

Vilja efla áhuga á matarmenningu

Matarauður Íslands og Hótel- og matvælaskólinn efna til samkeppni meðal almennings um þjóðarrétti í því skyni að heiðra og fagna margbreytilegri matarmenningu Íslendinga.

Tilgangurinn er að fá hugmyndir um fjölbreytta rétti úr íslensku hráefni sem hægt er að njóta vítt og breitt um landið og efla áhuga almennings á matarmenningu, auka þekkingu á íslensku hráefni og mikilvægi nærsamfélagsneyslu. Réttina má útfæra sem létta máltíð eða aðalmáltíð og geta þeir verið bæði úr jurta- eða dýraríkinu.

Valdir verða 15 réttir úr innsendum uppskriftum sem nemendur og kennarar við Hótel- og matvælaskólann útfæra og elda fyrir dómnefnd, en veitt verða verðlaun fyrir fimm rétti. Dómnefndin verður skipuð bæði fagfólki og skemmtilegu áhugafólki og almenningur getur ennfremur kosið uppáhaldsréttinn sinn á Netinu, sem hefur áhrif á úrslitin. Sigurréttunum verður fylgt eftir til ákveðinna veitingastaða um land allt  þar sem þeir verða í boði.

Öllum er frjálst að senda inn uppskriftir en skilafrestur er til 5. maí.

Nánar á https://mataraudur.is/thjodlegir-rettir

Hægt er að fylgjast með verkefninu á instagram undir #þjóðlegirréttir

Fjallað verður ítarlegar um samkeppnina í 6. tölublaði Gestgjafans.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Margir kveðja bensínið

Líklegast er að íslenskir bílakaupendur fái sér tengitvinnbíl eða hreinan rafbíl næst þegar þeir kaupa sér bíl. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í norrænni könnun um áform fólks í bílakaupum og Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið saman um stöðu rafbílamála á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að rétt rúmlega 20% kaupenda er í þessum hugleiðingum. Fleiri eða tæp 25% þátttakenda í könnuninni voru í þessum hugleiðingum í Noregi. Talsvert færri eru að velta því fyrir sér annars staðar á Norðurlöndunum.

Þegar þátttakendur voru spurðir að því af hverju þeir ætli ekki að kaupa rafbíl svöruðu 43% á Íslandi að þá skorti drægni. Flestir sögðu líka það sama í Noregi. Á hinum Norðurlöndunum var helsta skýringin sú að þeir þykja of dýrir.

Raddir