Fimmtudagur 19. september, 2024
5.3 C
Reykjavik

Margir kveðja bensínið

Líklegast er að íslenskir bílakaupendur fái sér tengitvinnbíl eða hreinan rafbíl næst þegar þeir kaupa sér bíl. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í norrænni könnun um áform fólks í bílakaupum og Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið saman um stöðu rafbílamála á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að rétt rúmlega 20% kaupenda er í þessum hugleiðingum. Fleiri eða tæp 25% þátttakenda í könnuninni voru í þessum hugleiðingum í Noregi. Talsvert færri eru að velta því fyrir sér annars staðar á Norðurlöndunum.

Þegar þátttakendur voru spurðir að því af hverju þeir ætli ekki að kaupa rafbíl svöruðu 43% á Íslandi að þá skorti drægni. Flestir sögðu líka það sama í Noregi. Á hinum Norðurlöndunum var helsta skýringin sú að þeir þykja of dýrir.

Opnar sig um móðurhlutverkið: „Stundum missi ég vitið“

Charlize Theron stars as Marlo in Jason Reitman's TULLY

Leikkonan Charlize Theron er einstæð móðir sonarins Jackson, sex ára, og dótturinnar August, tveggja ára. Hún opnaði sig um móðurhlutverkið í samtali við Us Weekly þegar nýjasta mynd hennar, Tully, var frumsýnd í síðustu viku.

„Það er enginn dýrðarljómi í barnauppeldi. Þar er mikil þrautseigja fólgin í því,“ sagði Charlize á rauða dreglinum og bætti við að hún treysti mikið á ráð frá móður sinni, Gerdu Maritz.

„Ég held að öll ráð frá móður minni hafi verið mjög góð. Hún segir stundum: Veistu, á morgun er nýr dagur. Þetta eru ekki endalok heimsins,“ sagði Charlize og hélt áfram:

„Stundum missi ég vitið, sérstaklega í bílnum þegar við erum í langferð eða eitthvað. Þá horfir hún á mig og hlær og segir: Þetta er bara augnablik. Það líður hjá. Þetta líður hjá.“

Þráði að vera móðir

Bæði börn Charlize eru ættleidd og hefur hún talað mjög opinskátt um það síðan hún ættleiddi Jackson árið 2012.

„Ég þráði að vera móðir og ég lagði allt mitt í það. Það er ekki auðvelt að ættleiða, jafnvel þegar maður er stjarna,“ sagði leikkonan í viðtali við tímaritið Elle Canada árið 2016. Þá sagðist hún einnig ekki velta sér upp úr því að vera einstæð móðir, þó það hafi ekki verið draumurinn.

„Engan dreymir um að vera einstætt foreldri, en ég lærði fyrir löngu síðan að það er ekki hægt að stjórna öllu í lífinu. Ég aðlagaðist aðstæðunum því ég er jarðbundin manneskja.“

Þetta eru vinsælustu áleggin á pítsu

|
|

Fyrirtækið Caviar, sem sérhæfir sig í heimsendingu á mat sem pantaður er á netinu, er búið að taka saman gögn frá rúmlega tuttugu borgum í Bandaríkjunum og greina hvaða álegg á pítsu eru vinsælust.

Ostur og tómatur trónir á toppi listans, en við ætlum að sleppa þeim áleggjum af topplistanum þar sem ekki er um aukaost að ræða né tómat sem grænmeti, heldur tómatsósuna sem er á flestum pítsum víða um heim.

Hér eru því átta vinsælustu áleggin samkvæmt gögnum frá Caviar:

1. Pepperoni
2. Pylsa
3. Hvítlaukur
4. Ólífur
5. Sveppir
6. Laukur
7. Kjúklingur
8. Oregano

Pítsur eru jafnmismunandi og þær eru margar.

Athygli vekur að skinku er hvergi að finna, en líklegt er að það álegg myndi skora nokkuð hátt ef samskonar könnun yrði gerð hér á landi. Áhugavert er að bera þennan lista frá Caviar saman við könnun sem Foodler gerði árið 2013, en þá voru niðurstöðurnar eilítið öðruvísi, þó pepperoni hafi samt sem áður borið sigur úr býtum.

1. Pepperoni
2. Sveppir
3. Laukur
4. Pylsa
5. Beikon
6. Aukaostur
7. Svartar ólífur
8. Græn paprika
9. Ananas
10. Spínat

Kristín fór úr 127 kílóum í 88: „Byrjaðu í dag, ekki á morgun“

|||||
|||||

Kristín María Stefánsdóttir er þrítug, tveggja barna móðir sem býr á Akureyri. Kristín hefur átt við bakvandamál að stríða síðan hún fór í fyrstu myndatökuna á baki þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún eignaðist son árið 2006 og eftir meðgönguna hríðversnaði hún í bakinu og átti erfitt með að hreyfa sig, eins og hún var vön að gera.

„Hægt og rólega komu kílóin á mig. Með árunum og miklu brasi alltaf með bakið á mér, án þess að fá svör um hvað amaði að, versnaði það og einnig andlega heilsan,“ segir Kristín í samtali við Mannlíf. Eftir langa þrautagöngu ákvað Kristín að snúa vörn í sókn árið 2015.

Kristín var ekki aðeins þjökuð af verkjum heldur einnig illa stödd andlega.

„Ég hafði tekið þá stóru ákvörðun að taka mér frí frá vinnu og fara í það verkefni að finna út hvað væri að gerast í líkamanum mínum, enda löngu komin yfir hundrað kíló og gat á tímum ekki gengið fyrir verkjum,“ segir Kristín. Hennar fyrsta verk var að leggjast inn á bakdeildina á spítalanum á Stykkishólmi þar sem hún dvaldi í þrjár vikur. Þar fékk hún sprautur í bakið sem gerðu ekki mikið til að lina sársauka hennar.

„Þannig að ég fór heim eftir þennan tíma eins og ég var áður en ég fór, en auðvitað búin að læra margt. Eftir að ég kom heim var ég í sjúkraþjálfun og beið eftir svari að komast inn hjá Virk og byrja í endurhæfingu, þar sem ég þurfti virkilega á þvi að halda. Ég fékk síðan svar í maí um að ég gæti byrjað hjá þeim í ágúst,“ segir Kristín. Í millitíðinni fékk hún símtal frá Kristnesi, endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, um að hún væri komin inní svokallaðan O-hóp fyrir of þungt fólk.

„Ég auðvitað stökk á það tækifæri. Ég hugsaði ekkert út í það hvort ég væri í raun tilbúin fyrir þetta ferli þegar ég labbaði inn á Kristnes í júní og var þar í 4 vikur á virkum dögum. En ég mætti og kynntist yndilslegu fólki, lærði helling en nýtti mér það ekki. Þegar ég hugsa til baka núna, þá gerði ég ekki annað en að kvarta og leið bara alls ekkert vel, ég var bara ekkert tilbúin. Á meðan á öllu þessu stóð, hélt ég áfram að versna í líkamanum.“

Fóstrið blómstraði ekki í kviðnum

Kristín fékk óvæntar fréttir í júlí sama ár um að hún væri með barni. Fréttir sem glöddu hana mjög.

„Þegar ég var komin 12 vikur, fékk ég að vita að það sæist ekki það sem ætti að sjást á tólftu viku og að öllum líkindum væri ekkert búið að gerast lengra en áttundu vika. Ég tók þetta mjög nærri mér,“ segir Kristín og bætir við að hún hafi strax vitað af hverju fóstrið blómstraði ekki í kvið hennar.

„Líkaminn minn var einfaldlega orðinn of veikur til þess að halda því á lífi. Eftir þetta versnaði allt mjög mikið líkamlega. Ég var flutt með sjúkrabíl frá sjúkraþjálfaranum mínum þar sem taugaverkir og annað var orðið það slæmt að ég gat bara ekkert staðið upp af bekknum,“ segir Kristín sem var orðin langþreytt á að fá ekki að vita nákvæmlega hvað amaði að bakinu.

„Kannski það leiðinlegasta við þetta er líka að svörin við bakverkjunum var alltaf það að ég væri orðin of þung og núna þyfti ég bara að fara heim og gera eitthvað í mínum málum. Ég veit ekki hvað ég var búin að fara oft niður á sjúkrahús og bara send heim með lyf og þá setningu að ég þyrfti að leggja af. Sem er ekki rétt leið að hjarta og hug manneskju sem er vel í ofþyngd. Sú manneskja veit það vel og ef það væri svo auðvelt að fara bara heim og leggja af, hugsa ég að það væru ekki margir í ofþyngd.“

Þrjátíu ára og 127 kíló

Kristín var þyngst 127 kíló.

Í kjölfarið þurfti Kristín að ganga við hækjur í tvo mánuði vegna verkja og fresta endurhæfingu hjá Virk þar sem hún var ekki fær um að sinna henni. Í staðinn byrjaði hún í sundleikfimi með eldri borgurum í Akureyrarlaug og fór að hitta sálfræðing hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands reglulega. Það var þá sem Kristín gerði sér grein fyrir að hún þyrfti ekki síður að taka sig í gegn andlega.

„Ég áttaði mig heldur betur á því að ég þurfti ekki bara að fara í endurhæfingu með líkamann á mér heldur hausinn á mér líka. Þarna var ég orðin 127 kíló, ekki orðin þrítug. Það var ekkert bara bakið. Það kannski byrjaði þar, en það besta sem ég gerði í þessu ferli var að byrja hjá sálfræðingi og fara að hugsa um mín mál. Þarna voru gömul og ný mál sem ég þurfti, og átti bara eftir, að vinna úr og á þessum þremur árum sem ég hef verið að vinna í mínum andlegu málum hefur heldur betur margt breyst,“ segir Kristín, sem hélt áfram að sækja sálfræðitíma og sundleikfimi og er þakklát fyrir þá hjálp sem hún hefur fengið.

„Fólkið hjá Kristnesi og Starfsendurhæfingu Norðurlands er allt yndislegt fólk og ég á þeim margt að þakka. Þarna hitti ég fólk sem loksins hlustaði og gerði ekki lítið úr mínum vandamálum.“

Versnaði í bakinu eftir aðra meðgöngu

Kristín gat ekki hreyft sig mikið fyrir utan sundtímana, en ákvað í janúar árið 2016 að taka mataræði sitt í gegn.

„Ég tók þrjá mánuði sykur-, hveiti- og aukaefnalausa,“ segir Kristín og sá strax mikinn mun. „Ég missti 13 kíló á þessum þremur mánuðum. Ég losnaði endanlega við hækjurnar og var farin að labba niður í sundlaug og bæði fara í sundleikfimi og gera sjálf æfingar í lauginni. Markmiðið mitt daglega var að labba tvö til þrjú þúsund skref. Hægt og rólega urðu þessi skref fleiri og fleiri. Í lokin á þessum þremur mánuðum var mikil breyting á mér,“ segir hún og bætir við að eftir þetta tímabil hafi hún hætt á þessu mataræði.

„Ég gat það bara ekki lengur, en sá heldur betur að með réttu mataræði getur svo mikið gerst.“

Kristín var búin að losa sig við sautján kíló í apríl sama ár, stundaði enn sundleikfimi og gekk um sex þúsund skref á dag. Hún byrjaði í prógrammi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og sá alltaf meiri árangur andlega og líkamlega. Þá varð hún ólétt af sínu öðru barni.

„Ég var mjög hrædd um bakið á mér en ég gat bara ekki annað en fagnað þessu litla heilbrigða lífi. Meðgangan gekk bara ágætlega likamlega og ég hætti ekkert að hugsa um mataræðið þrátt fyrir mikla ógleði og annað fyrst til að byrja með. Ég fór í göngutúra og var í meðgöngusundi,“ segir Kristín.

Það var svo í janúar í fyrra sem Kristín fékk litla stúlku í hendurnar og þá kom smá bakslag í lífsstílinn sem hún hafði tileinkað sér.

„Ég versna meira í bakinu, en fann þó að ég jafnaði mig fyrr eftir bakslagið, þar sem líkaminn var orðinn sterkari en áður. En ég missti tökin pínulítið í mataræðinu, og vá hvað það var heldur betur fljótt að gerast. Ég áttaði mig fljótt á því hvað var að gerast hjá mér, enda komin með mikil andleg tæki og tól eftir sálfræðitímana og sneri þessu við. Þess vegna segi ég, andlegi þátturinn er risastór í öllu þessu.“

Ekkert sem heitir skyndilausnir

Kristín gjörbreytti um lífsstíl og blómstrar í dag.

Kirstín stundaði meðgöngusund í átta mánuði eftir að hún átti stúlkuna, gekk um allt með barnavagninn í hvaða veðri sem er og fór í sjúkraþjálfun. Hún segir að þarna hafi hún loks verið 100% tilbúin til að fara aldrei aftur í sama farið.

„Ég þurfti að minna mig á það á hverjum degi af hverju ég væri að þessu. Hausinn á manni á það til að vera það erfiðasta sem maður dílar við í svona ferli og þetta kostar blóð, svita og mörg tár. Það er ekkert sem kallast skyndilausnir í þessum málum. Það komu margir dagar þar sem bakið gafst upp og ég var rúmliggjandi, en þarna var ég búin að ákveða að þetta bak væri ekkert að fara verða það sem myndi láta mig gefast upp,“ segir Kristín, sem tók mataræðið heljartaki á þessu tímabili.

„Ég þurfti að endurskoða allt sem ég keypti, allt sem ég eldaði. Ég fann leiðir til að gera rétti hollari sem ég eldaði áður og eyddi miklum tíma í eldhúsinu bara til að finna út hvað mér fannst gott. Ég prófaði alltaf eitthvað nýtt. Ég las og tók næringarfræði í menntaskólanum á meðan ég var í endurhæfingu. Ég lærði að borða grænmeti. Já, lærði,“ segir Kristín og hlær. „Ég borðaði ekki mikið af því en í dag borða ég allt grænmeti. Það er svo ótrúlega mikið sem ég er búin að læra sem ég bara áttaði mig aldrei á.“

„Þetta er eilífðarverkefni“

Í kjölfarið fékk Kristín loksins svör um hvað amaði að bakinu.

„Það er komið mikið slit í neðstu tvo hryggjaliði og útbunganir á þremur stöðum. Ég reyndi aftur að fara í sprautur, en þær gerðu litið gagn eins og í fyrra skipti. Aðgerð hjá mér er möguleiki en ekki möguleiki inni á mínu heimili þar sem ég er með fimmtán mánaða gamalt barn, og bataferli eftir aðgerðina langt. Ég tók því ávörðun með mínum lækni að halda áfram mínu ferli og sjá hvert það kemur mér varðandi bakið. Ég get kannski ekki lagað þetta vandamál, en ég gat og get gert allt annað í líkamanum betra til þess að hjálpa mér við að díla við þetta ákveðna vandamál.“

Í dag er Kristín komin niður í 88 kíló, úr 127 kíló. Hún segir að þolinmæði og þrautsegja hafi verið lykillinn að velgengni hennar í þessari lífsstílsbreytingu.

Lífsgleðin skín úr þessari þrítugu konu.

„Ég fór loksins að nota það sem mér var kennt á öllum þessum stöðum sem ég hef verið á, nýta hverja mínútu sem ég hafði með öllum þessum fagaðilum sem voru þarna til þess að hjálpa mér. Markmiðið í upphafi var að léttast og fá svör við bakverkjunum, enda þurfti ég þess. En maður þarf að taka hausinn á sér með svo að maður sé tilbúinn fyrir þetta. Þetta er eilífðarverkefni ef maður ætlar að viðhalda sér. Þetta er erfitt, en ég er að gera þetta og ef ég get það, þá geta svo sannarlega aðrir það.“

Ekki bera þig saman við næsta mann

Hana dreymir um að hjálpa öðrum að lifa betra og heilsusamlegra lífi.

„Ég er búin að stunda bóklegt nám í gegnum þetta allt. Ég var búin að ákveða að læra læknaritarann og hef verið að stefna að því, en það er vinna sem bakið á mér kannski höndlar. En á þessum þremur árum hef ég fengið mikla trú á sjálfri mér og í dag langar mig að mennta mig í þá átt að geta hjálpað öðrum sem eru að ganga í gegnum þetta. Að kynnast fólki sem skilur mann, getur aukið mikinn skilning hjá manni,“ segir Kristín. En hvað vill hún segja við fólk sem er í sömu stöðu og hún var fyrir þremur árum síðan?

„Ekki gefast upp þó að ekkert gerist á vigtinni í einhvern tíma eða þú borðaðir óhollt og heldur að allt sé ónýtt. Það kemur alltaf dagur á eftir þessum degi og þá reynum við að gera betur. Þér þarf að líða vel og skilja að líkaminn er að ganga í gegnum miklar breytingar og styrkjast. Ef þú átt erfitt með hreyfingu, þá get ég sagt þér að á þessum tíma bjargaði sundleikfimi öllu hjá mér. Settu þér lítil markmið til að byrja með, gerðu girnilegu, hollu uppskriftina sem þú ert búin að ætla að gera lengi, labbaðu x mörg skref á dag og sigraðu sjálfan þig með því að bæta þig. Maður þarf alltaf að byrja á litlu hlutunum. Það ert þú sem þarft að gera þetta, taka þessar ákvarðanir fyrir þig, en nýttu þér hjálp frá fólkinu í kringum þig.

Ekki horfa á það sem næsta manneskja er að gera og bera þig saman við hana. Gerðu þitt eigið. Byrjaðu í dag, ekki á morgun.“

Þvílík breyting á þremur árum.

Myndir / Úr einkasafni

„Alltaf að móðga einhvern“

|
|

Finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni.

Dagur einhverfu var í upphafi mánaðarins og þetta árið er athyglinni beint að konum og stúlkum á einhverfurófi. Hélène Magnússon greindist með Asperger á fullorðinsaldri og átti fyrst erfitt með að viðurkenna það fyrir samferðafólki sínu. Greiningin umbreytti hins vegar lífi hennar og þegar hún horfir til baka sér hún æskuna í nýju ljósi.

Hélène segir að einhverfan hafi oft reynst henni styrkur, til dæmis í nýjasta afreki hennar – að koma eigin garni á markað.

Hélène er fædd og uppalin í Frakklandi og flutti talsvert á milli staða vegna vinnu föður síns, sem var fyrsta ástæðan sem hún fann fyrir því að hún eignaðist ekki vini. Árið 1995 hitti hún nokkra Íslendinga í partíi í París og fór í kjölfarið í frí til Íslands. „Mér leið strax eins og ég ætti heima hérna þannig að ég fór aftur til Frakklands til þess eins að segja upp vinnunni sem ég var ekki ánægð í og undirbúa flutninga til Íslands,“ segir Hélène sem vann sem lögmaður í Frakklandi á þessum tíma. Þremur mánuðum seinna var hún flutt til landsins og býr hér ásamt eiginmanni sínum og þremur dætrum. Hún var komin vel á fullorðinsár þegar hún var greind á einhverfurófinu með Asperger. „Maðurinn mínn heyrði í útvarpsþætti á BBC um konur í atvinnurekstri sem voru með Asperger og fannst þær svolítið líkar mér. Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Í kjölfarið fór hún í greiningarferli og fékk formlega greiningu. Hún segir að það hafi bæði verið mikill léttir og frelsun en hún hafi einnig verið skelfingu lostin. „Líf mitt umbreyttist gjörsamlega, ég vissi ekki lengur hver ég var, á hvaða stað ég var í lífinu, hvað mér líkaði vel við og hvað ekki. Á sama tíma fékk ég ákveðna hugljómun og sá líf mitt í alveg nýju ljósi, ekki síst þegar ég horfði til baka.“

„Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Hélène var hlédrægt barn, talaði lítið og mjög lágt. Hún var fyrirmyndarnemandi, átti aldrei í erfiðleikum með nám og efst í öllum greinum, þar með talið íþróttum. En hún átti fáar vinkonur, oftast eina í einu sem hún missti svo eftir ákveðinn tíma. „Ég slóst töluvert við strákana og stóð á mínu og þegar ég kom á unglingsárin átti ég alltaf kærasta þannig að ég upplifði mig ekki einmana eða utangarðs. Ég lærði að treysta eingöngu sjálfri mér og bera mig vel en flestir tóku því þannig að ég væri merkileg með mig og fyrirliti aðra. Ef einhver hefði spurt mig áður en ég fékk greininguna hvort ég hefði orðið fyrir einelti sem barn hefði svarið verið nei. Núna, eftir að ég greindist, er svarið hins vegar klárlega já sem birtist í útilokun. Fólki fannst ég svolítið skrítin og forðaðist samskipti við mig. Mér var til dæmis ekki boðið í afmæli og sá sjálf ekki ástæðu til að halda upp á afmælið mitt.“

Kemur út úr skápnum
Hélène segir að margt í hegðun hennar hér áður megi rekja til einhverfunnar og hún uppgötvi nýja hluti í þeim efnum daglega. „Ég var til dæmis alltaf að lenda í að móðga einhverja og geri það svo sem enn þá. Það hefði örugglega breytt ýmsu fyrir mig að greinast fyrr en þá væri ég allt önnur manneskja í dag. Ferðalagið mótar manneskjuna og ég vildi ekkert endilega breyta því.“

Hélène fannst erfitt fyrst að viðurkenna fyrir samferðafólki sínu að hún væri á einhverfurófi. „Til að byrja með sagði ég eingöngu mínum allra nánustu frá þessu og fólkinu sem ég vann með. Ég sagði síðan einni og einni manneskju sem ég kynntist frá greiningunni og fór smám saman að opna mig meira. Í dag lifi ég í sátt við sjálfa mig og hef verið að fá löngun til að verða sýnilegri, sem er meðal annars ástæðan fyrir því að ég samþykkti strax að koma í þetta viðtal. Í rauninni er ég að koma út úr skápnum og samsama mig vinum mínum í hinsegin samfélaginu og það hefur verið mjög hjálplegt að eiga samtöl við þá um þetta ferli. Ég hef alltaf verið opin með einhverfuna gagnvart dætrum mínum og miklar umræður skapast á milli okkar um þetta. Stundum er ég til dæmis ekki rétta manneskjan til að hjálpa þeim að vinna í málum sem koma upp á milli þeirra og vinkvennanna. En við erum frekar nánar og samband okkar er gott. Gagnvart maka hefur sambandið gengið upp og niður í gegnum tíðina eins og hjá öðrum en við höfum náð að finna gott jafnvægi og er sambandið okkar mun heilbrigðara núna.“

Ómögulegt að fylgja öllum félagslegum stöðlum
Hélène er í stuðningshópi með fullorðnum einhverfum konum hjá Einhverfusamtökunum og segir að það hjálpi sér mikið og minnki stress. Útivera og hreyfing gerir henni líka gott. „Aðalmálið hefur hins vegar verið að leyfa sjálfri mér að vera eins og ég er, án þess að líða illa yfir því. Ég hef orðið meira umburðarlyndi fyrir sjálfri mér, passa mig að yfirkeyra mig ekki og gefa mér meiri séns. Það getur verið yfirþyrmandi og þreytandi að reyna hvað eftir annað að vera „eðlilegur“ og veldur oft mestu streitunni. Þarna þarf að finna jafnvægi. Eftir samskipti við fólk þarf ég í kjölfarið að vera ein til að jafna mig. Áður leið mér illa, varð stressuð og uppgefin þegar ég var búin að vera innan um fólk í svolítinn tíma án þess að vita hvað olli. Í dag fer ég bara afsíðis í smástund þegar þetta gerist og tek þannig tillit til minna eigin þarfa. Ég skipulegg mig líka öðruvísi og reyni að vera ekki lengi í svoleiðis aðstæðum. Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti. Einnig get ég ekki falið skoðanir mínar og segi fólki yfirleitt það sem mér finnst í raun og veru. Mér finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni og margir þannig félagslegir staðlar sem ég harðneita að sætta mig við. Annars hefur það líka hjálpað að hafa flutt til annars lands því það hefur oft gefið fólki skýringu á því að ég sé „skrítin“. Ef ég hef ekki skilið eitthvað eða brugðist við með óhefðbundnum hætti hefur fólk bara hugsað með sér að það sé vegna þess að ég sé útlendingur.“

„Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti.“

Skapaði sér vinnu sem hentaði
Hélène er prjónahönnuður og rekur fyrirtækið Prjónakerling ehf. Hún hefur prjónað síðan hún var barn og það hjálpar henni að slaka á og ná tengingu við sjálfa sig. „Prjónaskapur er aðaláhugamál mitt og þó að ég hafi gert hann að atvinnu þá slaka ég á með prjónana mína. Ég vinn í fullu starfi sem hönnuður, rek mitt eigið fyrirtæki og er með tvo starfsmenn auk þess að vera í allskonar samvinnu. Ég sel prjónauppskriftir á vefsíðunni minni prjonakerling.is, hef skrifað bækur um íslenskt prjón og skipulagt göngu- og prjónaferðir á Íslandi í samvinnu við Íslenska fjallaleiðsögumenn síðan 2010. Einnig stend ég fyrir framleiðslu af mínu eigin garni: Love Story einbandi og Gilitrutt tvíbandi, afar fíngerðu og mjúkum prjónaböndum út hreinni íslenski lambsull. Það var mikið átak að koma þessu á markað alveg frá grunni, krafðist mikillar einbeitingar, ástríðu, þrjósku og elju. Ég er sannfærð um að einhverfan hefur verið mér styrkur í þessu ferli.

Í dag á ég virkilega gott líf, skapaði vinnuuhverfi sem hentar mér og á góða vini sem taka mér eins og ég er. Ég er meira að segja komin inn í vinkonuhóp, eða saumaklúbb, sem er öruggt skjól fyrir okkur allar.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ólafur Darri gerir það gott í Hollywood

Íslenski leikarinn verður áberandi á hvíta tjaldinu í ár.

Stiklur úr nýjustu kvikmynd leikarans Ólafs Darra Ólafssonar, The Meg, litu dagsins ljós nýverið og hafa á skömmum tíma fengið hvorki meira né minna en samtals nokkur milljón áhorf á Youtube. Ef marka má stikluna virðist hér vera á ferð æsispennandi skrímslamynd í ætt við Jaws þar sem hópur fólks hefur leit að ofvöxnum hákarli. Myndinni er leikstýrt af Jon Turtletaub, leikstjóra National Treasure-myndanna, og skartar stórstjörnunni Jasan Statham í aðalhlutverki. Ólafur Darri fer með hlutverk eins leitarmannanna í myndinni.

Fyrir utan The Meg eru fjórar nýjar Hollywood-myndir væntanlegar með íslenska leikaranum á árinu, þar á meðal framhald stórmyndarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them úr smiðju J.K. Rowling, höfundi bókanna um galdrastrákinn Harry Potter, og svo ný þáttasería með bresku leikkonunni Kate Beckinsale í aðalhlutverki. Því er óhætt að segja að Ólafur Darri hafi í nógu að snúast um þessar mundir.

Æskudýrkun, hégómi og klappstýrufjör

Margrét Erla Maack, fjöllistadís, kabarettmær og mamma Reykjavík Kabarett, sem er að undirbúa sumarsýningar, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.

Death Becomes Her (1992)

Meryl Streep, Goldie Hawn og Bruce Willis í tiltölulega barnvænni hryllingsmynd um æskudýrkun og hégóma. Ég sá plakatið á vídeóleigu þar sem Goldie er með gat í maganum … og var ekki lítið spennt yfir því að sjá hana í fyrsta sinn. Og hún var stórkostleg. Ég horfði á hana aftur um daginn og ég held að það verði fastur liður núna. Hún eldist mjög vel og er orðin költ-mynd. Og það á víst að gera söngleik upp úr henni. Ekki leiðinlegt.

Bring it on (2000)

Ég var búin að gleyma þessari mynd en fékk fyrirspurn um daginn um að kenna klappstýrufjör í gæsapartíi, svo auðvitað varð ég að sökkva mér á kaf í hana, vinnunnar vegna. Hún eldist svona sæmilega en það er fjandi mikið stuð og kóreógrafía er geggjuð.

Working Girl (1988)

Undirfötin í sexí senunum fá mig til að veltast um í hláturs- og aulakasti. Annars er þetta bara virkilega góð og „empowering“ mynd sem ég fæ ekki nóg af.

Blossi/810551 (1997)

Við verðum bara að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi. Þessi mynd var víst framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 1998.

The Cockettes (2002)

Þessi mynd er allt of góð til að vera á svona lista, en samt. Ég get horft endalaust á þessa heimildamynd um dragkabarettkommúnu í San Francisco á sjöunda áratugnum. Það verður fyndnara og fyndara með hverju áhorfi að engum ber saman um neinar tímasetningar eða „neimdropp“ því allir voru á svo miklum eiturlyfjum á sögutímanum. Frábær frásagnarstíll og „inspírerandi“ fólk.

Aðalmynd / Auðunn Níelsson

Drungaleg dulúð í Langholtskirkju

Söngsveitin Ægisif flytur kórverkið Bjöllurnar ásamt nokkrum vel völdum perlum úr Náttsöngvunum eftir Sergej Rachmaninov í Langholtskirkju Laugardaginn 21. apríl. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.

„Þessi tegund tónlistar er okkur Íslendingum í raun ekki svo framandi,“ segir Hreiðar Ingi Þorsteinsson, kórstjóri, tónskáld og stofnandi Söngsveitarinnar Ægisif, um tónlistina á fyrirhuguðum tónleikum. „Dökki liturinn sem einkennir mjög rússneskan tónheim á mikið sameiginlegt með gömlu íslensku þjóðlögunum.“

Kórsinfóníuna Bjöllurnar op. 35 samdi Rachmaninov árið 1913 við texta Edgars Allan Poe, The bells. Verkið er í fjórum köflum sem hver um sig túlkar ákveðið æviskeið mannsins, frá fæðingu til greftrunar. Litróf stemningarinnar er afar breitt og sveiflast frá drungalegri dulúð í síðrómantískan hátíðleika. Upphaflega er verkið samið fyrir stóra sinfóníuhljómsveit auk kórs og einsöngvara en fyrir utan sönginn verður það flutt hér í nýrri undirleiksumritun fyrir píanó. Þess má geta að þetta er frumflutningur verksins á Íslandi.

Náttsöngvar Rachmaninovs op. 37 voru fyrst fluttir í mars 1915 en vegna rússnesku byltingarinnar og opinberrar liststefnu í kjölfar hennar voru þeir ekki endurfluttir fyrr en hálfri öld síðar.

Einsöngvarar á tónleikunum verða Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hrafnhildur Árnadóttir og Fjölnir Ólafsson. Píanóleikari er Anna Guðný Guðmundsdóttir.

Mynd: Hrafnhildur Árnadóttir verður meðal einsöngvara á tónleikum Söngsveitarinnar Ægisif.

„Skrítið að vera tilnefndur til stærstu sjónvarpsverðlauna í heimi“

||
||

Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir tökur á bandaríska ferðaþættinum Ocean Treks.

Í þáttunum Ocean Treks er þáttastjórnandanum Jeff Corwin fylgt eftir á ferðalagi hans um heimsins höf þar sem hann kynnir viðkomustaði sína fyrir áhorfendum.

„Þótt ég sé nú mikill vinnuþjarkur og hugsa yfirleitt stórt þá skal ég viðurkenna að ég sá þetta bara alls ekki fyrir, þetta kom rosalega á óvart,“ segir Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, en hann hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna (Emmy Daytime Awards) fyrir tökur (outstanding cinematography) á bandaríska ferðaþættinum Ocean Treks.

Tilnefningunni deilir Vilius með þremur úr erlendu tökuliði sem kom hingað til lands í fyrrasumar til að taka þáttinn upp en þetta mun vera í fyrsta sinn sem íslenskur tökumaður kemur til álita í þessum flokki.

Vilius, sem hefur starfað við leikstjórn, tökur, eftirvinnslu og fleira á Íslandi frá því hann útskrifaðist úr kvikmyndaskóla árið 2010, kveðst jafnframt hafa orðið hrærður þegar hann fékk fréttirnar. „Það er auðvitað skrítið að vera tilnefndur til stærstu sjónvarpsverðlauna í heimi fyrir eitthvað sem maður fæst við dagsdaglega. Að vinnan mín sé metin af svona virtri stofnun eins og The National Academy of Television Arts and Sciences í Bandaríkjunum, það er alveg magnað, svakalegur heiður,“ segir hann glaður. „Ég hef áður fengið verðlaun á minni kvikmyndahátíðum, en ekkert í líkingu við þetta!“

„Ég hef áður fengið verðlaun á minni kvikmyndahátíðum, en ekkert í líkingu við þetta!“

Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, hefur haft í nógu að snúast undanfarið. Nýverið leikstýrði hann til dæmis myndbandi fyrir svissneska popptvíeykið Sinplus sem hefur vakið athygli, auk þess að taka það upp og annast efitrvinnslu.

Þættirnir Ocean Treks eru framleiddir af bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC og njóta vinsælda vestanhafs en í þeim er hinum þekkta þáttastjórnanda Jeff Corwin fylgt eftir á ferðalagi hans með úrvals skemmtiferðaskipum um heimsins höf þar sem hann kynnir viðkomustaði sína fyrir áhorfendum.

Tveir þættir voru teknir upp á Íslandi, annar í Reykjavík og hinn í grennd við Akureyri og hafði Vilius, fyrir hönd Hero Productions, alfarið umsjón með svokölluðum drónatökum eða loftmyndum við gerð þáttanna. Þátturinn sem var tekinn upp í Reykjavík er sá sem Vilius og hinir þrír eru tilnefndir fyrir.

Spurður hvort tilnefningin komi ekki til með að opna einhverjar dyr í bransanum, brosir Vilius og segir að það eigi bara eftir að koma í ljós.
„Ég er nú bara aðallega að reyna að hugsa ekki of mikið um þetta og einbeita mér frekar að vinnunni. En auðvitað er þetta manni viss hvatning, það er alveg á hreinu.“

En ætlar hann að vera viðstaddur sjálfa verðlaunahátíðina sem fer fram í New York þann 29. apríl.

„Ég veit það ekki enn þá, það er svo mikið að gera hjá Hero Productions um þessar mundir, nokkur stór verkefni sem eru fram undan. En það væri alveg yndislegt að geta það,“ viðurkennir hann og brosir.

Aðalmynd: Mynd tók Alvin Zogu

 

 

Flott sumarhús við Laugarvatn

Á grónum stað við Laugarvatn stendur einstaklega fallegt, lítið og krúttlegt hvítt timburhús. Þau Sunna Rán Wonder og Birgir Magnús Björnsson eignuðust þetta sumarhús fyrir tæpu ári síðan og þarna er griðastaður fjölskyldunnar.

Húsið var byggt árið 1986, Sunna og Birgir fóru út í miklar framkvæmdir á húsinu sem er um 60 fermetrar að stærð og gerðu nánast allt sjálf, með aðstoð fjölskyldu og vina. Húsið er fallegt og bjart og lýsingin í því gerir mikið fyrir upplifunina í rýminu. Ljósgrár, hlýlegur litur er á veggjum sem passar sérlega vel við húsgögnin sem eru flest hvít og allt puntið þar inni. Sunna segist vera dugleg við að endurnýta hluti og húsgögn og fær mjög oft góð ráð frá móður sinni hvað það varðar. Staðsetningin við Laugarvatn er frábær og það er  stutt fyrir þau að fara eftir vinnu og njóta kyrrðarinnar en Sunna og Birgir segjast fara nánast allar helgar í bústaðinn sinn.

„Stíllinn á húsinu er að mörgu leyti frábrugðinn þessum týpísku íslensku sumarhúsum.“

„Húsið hefur lengi verið draumaeign fjölskyldunnar og kom óvænt upp í hendurnar á okkur fyrir rúmu ári. Við vorum ekki lengi að grípa gæsina og eignuðumst húsið nokkrum dögum seinna,“ segir Sunna.
„Þegar upp var staðið keyptum við í rauninni bara lóðina og skelina á húsinu því við tókum allt í gegn en það var vel þess virði.“
„Stíllinn á húsinu er að mörgu leyti frábrugðinn þessum týpísku íslensku sumarhúsum,“ segir Sunna. „Hann er mjög ljós sem stækkar rýmið töluvert, svo myndi ég segja að stíllinn væri frekar minimalískur og kósí. Smávegis bóhemstíll í bland við nýstárlegan.“
Að sögn Sunnu var staðsetning hússins fyrst og fremst það sem heillaði hana og Birgi. „Húsið er á næstu lóð við hús sem foreldrar mínir eiga og við sáum fram á að geta átt góðar stundir saman með vinum og fjölskyldu ….“

Myndir / Aldís Pálsdóttir.

Kynlegar kastalaverur

Uppsetning Borgarleikhússins á söngleiknum Rocky Horror show hefur varla farið fram hjá neinum. Uppselt er á nær allar sýningar út leikárið svo óhætt er að fullyrða að Frank-N-Furter og fjölskylda muni öðlast framhaldslíf á fjölunum næsta leikár.

Fyrir þá sem ekki þekkja til greinir sagan frá turtildúfunum Brad og Janet sem villast af leið og enda fyrir tilviljun í dularfullum kastala. Atburðarásin vindur fljótt upp á sig og áhorfendur verða strax sólgnir í að komast í kynni við kynjaverur kastalans.

Þýðing Braga Valdimars Skúlasonar var eins og við var að búast bæði hnyttin og vel ígrunduð þó að vissulega sé erfitt að gleyma gömlu þýðingu Veturliða Guðnasonar.

Búningar Filippíu Elísdóttur voru framúrskarandi og þá sérstaklega klæði Kólumbíu og geimgallar systkinanna Riff Raff og Magnetu. Flestir dansaranna fengu sömuleiðis að glitra í glæsilegum glimmerklæðum.

Dansatriðin voru heldur færri en í fyrri stórsýningum Borgarleikhússins en danshöfundinum Lee Proud tókst að galdra fram stórskemmtileg atriði eins og honum einum er lagið.

Óhætt að segja að leikur Björns Stefánssonar, í hlutverki Riff Raff, hafi verið framúrskarandi. Vala Kristín Eiríksdóttir var jafnframt nístandi og sannfærandi sem Kólumbía.

Brynhildur Guðjónsdóttir var lágstemmd í hlutverki Magnetu en hún opnaði og lokaði þessu „sjabbí“ sjóvi á karnivalískan máta.

Arnar Dan Kristjánsson smellpassaði í hlutverk vöðvatröllsins Rocky, sköpunarverks Frank-N-Furters, bæði í söng og líkamlegum styrkleika.

Haraldur Ari Stefánsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttur blésu lífi í lykilpersónurnar tvær sem glata sakleysi sínu innan kastalaveggjanna. Haraldur Ari var einkar sannfærandi sem Brad en Þórunn Arna hefði mátt vera djarfari Janet.

Valdimar Guðmundsson á stutta en eftirminnilega innkomu þegar hinn meingallaði Eddi mætti örlögum sínum. Sú lausn að rúlla honum inn á börum í stað þess að láta hann þeysast um sviðið á mótorhjóli dró verulega úr þeim ótta sem átti að stafa af persónunni sem Frank-N-Furter hafði mistekst að skapa.

Það leikur enginn vafi á því hvers vegna áhorfendur flykkjast á sýninguna, þeir eru komnir til að berja stjörnuna augum. Páll Óskar er elskaðasta óskabarn þjóðarinnar og skín hér eins og perlan sem hann er.

Boðskapur verksins er að blása von í hjörtu fólks sem hefur upplifað sig utangarðs eða útskúfað og sýna því að allir hafa tilgang. Heimurinn er stærri en við höldum og það er nóg pláss fyrir alla, Lifðu – ekki leynast.

Fáir hafa haldið kyndli þessarar baráttu hærra á lofti en Páll Óskar sem virðist klæðskerasniðinn í hlutverk Frank-N-Furter. Á köflum er eins og kynsnillingurinn vakni til lífs á sviðinu en öðrum stundum er eins og hann skipti um ham og breytist í Grinch með trúðslegu yfirbragði.

Leikstjóri sýningarinnar, Marta Nordal, hefði mátt draga úr þessum töktum.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur var hönnuð að miklu leyti í kringum hugarheim Páls og var hreint út sagt stórkostleg, rétt eins og tónlistin í höndum Jóns Ólafssonar svo óhætt að fullyrða að enginn verði svikinn af því að sjá Rocky Horror Show.

 

Umfjöllunina er að finna í 15.tbl Vikunnar.

Þetta er minn eigin fjársjóður

|
|

Benedikt Máni Möller hefur náð ótrúlegum árangri í tréúrskurði sem hann segir það skemmtilegasta sem hann geri. Benedikt er einhverfur en verkin hans voru sýnd í fimm vikur á bókasafni Reykjanesbæjar nú fyrr á árinu.

Benedikt segist skera helst út menn með skegg, húfur og víkingahjálma en hann geri einnig hnífa, fugla og hunda. „Svo er ég nýbyrjaður að skera út skartgripi,” bætir hann við og heldur áfram. „Það er mjög misjafnt hvað hlutirnir mínir taka langan tíma í vinnslu en ég má varla vera í neinu öðru því ég fer beint á smíðastofuna mína þegar ég kem heim úr skólanum.”

„Ég hlakka alltaf mikið til að komast heim og byrja að tálga og fá um leið fleiri hugmyndir. Stundum fæ hugmyndir þegar ég sé ókunnugt fólk og velti fyrir mér útliti þess. Um þessar mundir er ég til að mynda mikið að spá í nefinu á fólki.”

Óhætt er að segja að verk Benedikts hafi notið umtalsverðrar athygli en fyrr á þessu ári var haldin fimm vikna sýning á bókasafni Reykjanesbæjar þar sem tréútskurður hans fékk sérstakt pláss. Hann segist einnig hafa haldið sýningu fyrir bekkinn sinn í skólanum sem og kennarana. „Ég sé ekki fyrir mér neitt annað en að halda að sjálfsögðu áfram á þessari braut og þegar ég útskrifast úr skólanum langar mig að læra húsamiði og geta jafnvel byggt mitt eigið timburhús. Eftir það væri gaman að læra málmsmíði svo ég gæti smíðað málmhnífa. Í það minnsta vona ég að ég muni aldrei hætta að tálga.”

Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Fallegt þegar fagfólk þarf að upplifa að vera amatörar“

|||
|||

Björk hvetjandi og sýnir algjört traust.

Sviðshreyfingar í komandi tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur eru í höndum Margrétar Bjarnadóttur, danshöfundar og myndlistamanns. Þær kynntust fyrir 15 árum þegar Margrét var barnfóstra Bjarkar.

Margrét Bjarnadóttir segir að lög Bjarkar séu aðaláttavitinn í sköpun sviðshreyfinganna.

Í lok maí mun Björk hefja tónleikaferð sína um heiminn og hélt nokkurs konar generalprufu af tónleikunum í Háskólabíói fyrir skömmu. Tónleikarnir eru liður í útgáfu Útópíu sem er tíunda sólóplata Bjarkar en hún kom út í lok síðasta árs. Hún kemur fram með sjö flautuleikurum, hörpuleikara, slagverksleikara og raftónlistarmanni. Hópurinn hefur verið við æfingar á Íslandi síðastliðnar vikur. Leikmynd tónleikaferðarinnar var frumsýnd í Háskólabíói en hún er hönnuð af Heimi Sverrissyni og smíðuð í Irma studios. Við spurðum Margréti út í verkið og samstarfið við Björk.

„Við höfum þekkst í mörg ár þar sem ég var barnfóstra dóttur hennar í eitt ár fyrir 15 árum. Það var sko yndislegt samstarf. Svo, fyrr í vetur, bað hún mig um að semja hreyfingar fyrir tónlistarmyndbandið við lagið Útópía þar sem flautuleikararnir voru í stóru hlutverki. Það var mjög skemmtilegt og var eins og byrjunin á einhverju sem væri hægt að þróa áfram. Upp úr því spurði hún hvort ég hefði áhuga á að sjá um hreyfingar flautuleikaranna fyrir tónleikaferðalagið,“ segir Margrét.

„Svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi.“

Við vinnsluna á verkinu vildi Margrét finna leið til þess að hreyfingar flautuleikaranna gætu orðið eðlilegur hluti af flutningi þeirra eða framlenging á honum. „Flautuleikararnir, allt konur, eru rosalega færar og ég vildi ekki að hreyfingarnar ynnu á móti tónlistarflutningnum. Það gerði það vissulega fyrst þegar þær voru að læra hreyfingarnar og ná tökum á þeim en svo kom þetta smám saman. Kannski hefði ég ekki haft svona mikla trú á því ef ég hefði ekki verið búin að gera No Tomorrow á síðasta ári, gítarballett okkar Ragnars Kjartanssonar með Íslenska dansflokknum, þar sem dansararnir lærðu að spila á gítar og dansa um leið. Mér finnst svo fallegt tímabil í æfingaferlinu þegar þessar miklu fagmanneskjur þurfa að sætta sig við að verða amatörar í smátíma á meðan þær eru að tileinka sér eitthvað alveg nýtt. Þær eru að gera svo margt sem þær hafa aldrei gert áður og kannski eitthvað sem fáir ef einhverjir flautuleikarar hafa gert – að læra öll þessi lög utanbókar sem sum hver eru í flóknum útsetningum og dansa samhæfðar hreyfingar um leið. Þetta er mjög mikil áskorun. En svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi. Sum lög vildu bara kyrrð og þá hlustaði ég á það. Svo eru margir þættir sem spila inn í og hafa áhrif á það sem maður getur gert, eins og til dæmis leikmyndin og skiptingar á flautum á milli laga, sem eru mjög tíðar, þannig að það er að mörgu að huga. En svo er þetta líka eitthvað sem verður áfram í þróun. Það var svo gott að fá tækifæri til þess að vera með æfingatónleika í Háskólabíói og nú höfum við tíma til að breyta og bæta og nostra við smáatriði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst í London.“

Frábært að vinna með Björk
Björk skapar sína heima á einstakan hátt en Margrét heldur að hún hafi aldrei áður skapað jafnsjónrænan heim fyrir tónleikaferðalag, sérstaklega á svona tónlistarhátíðum utandyra eins og fram undan eru í sumar. „Það þarf að vera hægt að skella leikmyndinni sem Heimir Sverrisson hannaði upp á hálftíma og skyndilega ertu komin með eitt stykki útópískan heim. Það er svo mikil alúð í öllu, alveg út í minnstu smáatriði, eins og til dæmis grímurnar sem James Merry hannar og býr til fyrir Björk, flautuleikara og hörpuleikara. Hver gríma er einstök og skreytt með pínulitlum perlum sem sjást kannski ekki úr kílómetra fjarlægð á útifestivali en skipta samt mjög miklu máli fyrir stemninguna í heiminum sem hefur verið skapaður.“

Mikið var um dýrðir þegar Björk frumflutti tónleikana í Háskólabíói á dögunum. Mynd / Santiago Felipe

Margrét mun vera með á æfingum í London áður en tónleikaferðalagið hefst og ætlar svo að minnsta kosti að kíkja á hópinn í Róm og sjá hvernig hlutirnir standa. Hún segir að samstarfið við Björk hafi verið frábært. „Hún er hvetjandi og sýnir manni mikið traust en þannig upplifir maður algjört frelsi til að prófa sig áfram. Við ræddum nálgunina en svo var hún aðallega bara mjög hvetjandi. Það hjálpar líka að hafa þekkst í mörg ár og það er svona gagnkvæmur skilningur sem gerir allt auðveldara.

„Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið.“

Lögin eru náttúrlega aðaláttavitinn minn í þessari vinnu. Það er alltaf svo skýr tilfinning í lögunum hennar og þegar ég tengi inn á tilfinninguna í viðkomandi lagi koma hreyfingarnar frekar ósjálfrátt og óþvingað. En hreyfingarnar sem komu hjá mér hentuðu svo ekki alltaf flautuleiknum og þá þurfti ég að aðlaga þær að honum og flautuleikurunum. Ég skil þetta hljóðfæri mun betur núna og það er áhugavert að semja hreyfingar fyrir blásturshljóðfæraleikara þar sem öndunin skiptir miklu máli. Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið þó að þær fari nú reyndar alveg fram á ystu nöf í sumum lögum. En mér finnst mjög gaman að vinna með takmarkanir, þær fara alltaf með mann á einhverjar ófyrirséðar brautir.“

Myndlist og skrif
Margrét kláraði danshöfundanám í listháskóla í Hollandi árið 2006 og hefur unnið sjálfstætt síðan þá. Svo fór hún að vinna meira að myndlist og starfar nú jöfnum höndum sem danshöfundur og myndlistarmaður. „En skrif hafa líka fylgt mér lengi og textar alltaf spilað stórt hlutverk í bæði sviðs- og myndlistarverkunum mínum. Ég hef verið í mastersnámi í ritlist við Háskóla Íslands og næst á dagskrá er einmitt að klára MA-lokaverkefnið mitt þar. Það hefur verið að safnast saman í langan tíma og ég hlakka til að veita því athygli núna.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og Santiago Felipe

Íslendingar flykkjast til tannlækna í útlöndum

|
|

Fleiri en áður fara í frí til útlanda og fara til tannlæknis í leiðinni. Tannlæknaþjónusta er 50-70% ódýrari í Austur-Evrópu en hér á landi.

Rósa Kristín Benediktsdóttir er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

„Við byrjuðum í mars og ég ætlaði að gera þetta að aukavinnu. En það hefur verið mikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest,“ segir Rósa Kristín Benediktsdóttir, sem er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

Mikil ásókn hefur verið upp á síðkastið hjá fólki á miðjum aldri, örorkuþegum og lífeyrisþegum að fara í tannviðgerðir í Austur-Evrópu. Pólland og Ungverjaland eru vinsælustu löndin um þessari mundir. Ásóknin skýrist af því að tannlæknastofur frá löndunum eru með tengiliði hér á landi. Þá hjálpar til að beint flug er til landanna og endurgreiða Sjúkratryggingar tannlæknakostnað fyrir lífeyrisþega, þ.e. örorku- og ellilífeyrisþega.

Oftast er um að ræða dýrari tannviðgerðir á borð tannplönt, það er þegar ný tönn er skrúfuð ofan í rótarstæði, en einnig krónur og brýr og margt fleira. Yngra fólk leitar eftir tannfegrun. Ætla má að tannlæknakostnaðurinn í Ungverjalandi sé 50-70% lægri en hér á landi.

Rósa fór sjálf til tannlæknis í Búdapest árið 2014 og aftur í fyrra. Í kjölfarið ræddi hún við eiganda tannlæknastofunnar Madenta og varð úr að hún gerðist tengiliður hennar hér á landi. Þau réðust í að búa til heimasíðu fyrir tannlæknastofuna á íslensku og auglýsa á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar hafa verið framar vonum,“ segir Rósa, sem er með aðstoðarmanneskju sem talar við fólk yfir daginn.

„ … það hefur veriðmikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest.“

Þjónustan sem boðið er upp á ytra er nokkuð önnur en fólk á að venjast hér. Algengast er að fólk sendi Rósu röntgenmynd frá tannlækni. Í kjölfarið gerir tannlæknastofan tilboð og útlistar kostnað við tannviðgerðina. Boðið er upp á staðgreiðsluafslætti og ýmislegt fleira, að hennar sögn.

Rósa bætir við að hún hafi fengið misjafnar undirtektir hjá íslenskum tannlæknum.

„Það hlýtur að vera svolítill samkeppnistitringur. Okkar viðskiptavinir hafa margir rætt þetta við sína tannlækna, haft þá með í ráðum og þeir gera sér grein fyrir því að það er ódýrara að fara út og að þjónustan er góð.“

Tannlæknar gefa vinnu sína
Mannlíf leitaði viðbragða Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara, vegna málsins. „Við vitum af því að tannlæknar hafa þurft að gefa vinnu sína því eldra fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Fólk fer í minni aðgerðir en sleppir þeim stærri sem kosta frá hálfri milljón og upp úr,“ segir hún og bætir við að íslenski stjórnvöld hafi skilið eldri borgara eftir hvað snertir niðurgreiðslu vegna tannlækninga. Niðurgreiðslan hafi ekki hækkað síðan árið 2004.

„ … margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.

Hún bendir á að starfshópur hafi nýverið lokið störfum um málið og skilað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það hefur skilað því að 1. júlí verða 500 milljónir króna lagðar til niðurgreiðslu vegna tannlækninga á þessu ári og einn milljarður framvegis frá næsta ári.

„VIð gerum ráð fyrir því að þetta verði með þessum hætti í nokkur ár,“ segir Þórunn. „En þessi biðtími hefur valdið því að mjög margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.“

31 fengið endurgreiðslu það sem af er ári
Í júní árið 2016 var gefin út reglugerð um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri en samkvæmt henni eiga sjúklingar rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja á EES-svæðinu og fá endurgreiddan útlagðan kostnað.

Árið 2016 fór enginn héðan til útlanda vegna tannlækninga og því kom ekki til að Sjúkratryggingar þyrftu að greiða fyrir slíkt. Ári síðar fóru 28 utan þar af 20 til Ungverjalands. Endurgreiðsla til þessara 20 einstaklinga nam rúmum 2,2 milljónum króna.

Það sem af er ári, þ.e. frá ársbyrjun og þar til snemma í mars, hefur 31 einstaklingur fengið endurgreiðslu Sjúkratrygginga vegna tannlækninga. Þar af er eitt barn undir 18 ára aldri. Þar af hafa 12 fengið lækningu á Spáni en 10 í Ungverjalandi. Endurgreiðslan á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur rúmum 2,5 milljónum króna.

Úrval af vönduðum og fallegum borðstofuhúsgögnum í Vogue fyrir heimilið

Mynd/Pixabay

Má bjóða þér rómantískan sveitastíl eða stílhreinan módernstíl.

Við hjá Vogue fyrir heimilið erum með úrval af borðstofuhúsgögnum. Við erum meðal annars með vörur frá merkjum eins og Richmond, Karel Mintejens og fleirum. Þetta eru hollensk og belgísk vörumerki. Þetta eru fallegar gæðavörur sem hægt er að sérpanta upp úr bæklingum en að sjálfsögðu erum við með hluta af vörunni í sýningarsal okkar í Síðumúlanum.

Einnig er hægt að fá gjafavöru frá Richmond sem mjög vönduð og falleg lína sem passar vel við húsgögnin. Sú lína er í rómantískum sveitastíl, mikið er um hráan gegnheilan við. Hægt er að velja marga liti af skápum og skenkum sem eru lakkaðir. Þá er hægt að velja höldur, lista og fleira sem gefur aukna möguleika fyrir viðskiptavini að velja eftir sínum smekk.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að endurskipuleggja vöruframboð sitt.

Aftur á móti er línan frá Karel Mintjens stílhreinni og meiri módernlína.
Þar er að finna stækkanleg borðstofuborð, sjónvarpskenki, hillur og margt fleira
fallegt.

Við bjóðum líka upp á vörulínu frá Skandinavian Design og Zilstra þar sem er að finna falleg borðstofuhúsgögn og margt fleira.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að
endurskipuleggja vöruframboð sitt. Nú er einmitt verið að standsetja borðstofudeildina en það er alltaf verið að breyta og bæta.

Karel Mintjent er belgískt fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í gegnheilli eik og hefur sinnt íslenskum heimilum yfir 50 ár. Vörulína þeirra er allt frá klassískri eik yfir í stílhreinan módernstíl.
Vogue selur bæði af lager og sérpantanir. Þetta eru einstaklega fallegar og vandaðar vörur í gæðaflokki.

Sjáið úrvalið á heimasíðu okkar www.vogue.is

Vogue fyrir heimilið
Síðmúla 30
108 Reykjavík
Sími: 533-3500
Opnunartímar:
Virkir dagar: 10.00 – 18.00
Laugardaga: 11.00 – 16.00

Vogue fyrir heimilið
Hofsbót 4
600 Akureyri
Sími: 462-3504
Opnunartímar:
Virkir dagar: 09.00 – 18.00
Laugardaga: 10.00 – 14.00

Mannlíf í samstarfi við Stúdíó – Birtíng
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Syngjandi sveifla í sirkustjaldi

Söngleikurinn Slá í gegn er sýndur um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu en verkið byggir á lögum eftir hljómsveitina Stuðmenn.

Það er óhætt að segja að öllu sé tjaldað til á Stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem söngleikurinn Slá í gegn fylgir titli sínum.

Þrátt fyrir þunnan og fyrirsjáanlegan söguþráð nær hugvitsamleg leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar að draga fram það besta í öllum listamönnum sýningarinnar á réttum augnablikum.

Verkið segir frá þeim Binna og Helgu sem reka farandssirkus við litla ánægju einkadótturinnar Hörpu Sjafnar sem neyðist til að ferðast með þeim um landið í veikri von um að uppfylla æskudraum föður henar um sirkusstjórn. Þegar hér er komið sögu á sirkusinn leið um fáfarið bæjarfélag þar sem þorpsbúa dreymir jafnframt stóra drauma. Litla áhugaleikhúsið þar í bæ er um það bil að leggja lokahönd á uppfærslu sína á Gullna hliðinu en æfingarnar ganga vægast sagt illa. Þar fer sjálfskipaður leikstjóri hópsins, Sigurjón digri, fremstur í flokki en sjálfur vill hann helst leika öll hlutverkin. Í gagnkvæmu vonleysi ákveða fylkingarnar tvær, það er að segja leikfélagið og listamenn sirkussins að leiða saman hesta sína í þeirri einlægu von um að setja eitthvað stórfenglegt á svið og frumflytja fjöllistagjörning. Þegar sjálfur forsetinn boðar komu sína setur hópurinn svo allt í botn og þrátt fyrir heldur vonleysislega byrjun fer sagan að sjálfsögðu vel.

Leikmynd Finns Arnars Arnarssonar er hreint út sagt meiriháttar og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur hver öðrum fallegri. Eflaust eru það sirkusáhrifin sem slá ryki í augun en hér voru allar erkitýpurnar mættar til leiks með skeggjuðu konuna og tattúveraða manninn í broddi fylkingar.

Sú nýbreytni undanfarin ár að fá á svið listamenn úr öðrum listgreinum tekst einstaklega vel upp í sýningu sem þessari þar sem fjöllistafólkið fær notið sín eðli söguþráðarins samkvæmt.

Það er jafnframt mikill fengur í danshöfundinum Chantelle Carey sem stýrir nú, meðal annarra nokkrum af þeim hæfileikaríkju drengjum sem blésu eftirminnilegu lífi í ballettdrenginn Billy hér um árið í öðru leikhúsi. Það verður spennandi að sjá þessa stráka stækka á sviðinu á komandi árum.

Lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar, sjóngervingar Inga Bekk sem og aðrar leikhúslausnir eru listilega leystar og þá sérstaklega töfrabragðið í lok sýningarinnar. Töfrar og leikhús eru svo sannarlega bannvæn blanda.

Tónlistin heldur sýningunni svo uppi með tónlistarstjórann Vigni Snæ Vigfússon fremstan í flokki en allir listamennirnir skila þessum sígildu slögurum með stakri prýði.

Það felst ákveðin spenna í sýningum sem þessum þegar handritið er óþekkt og eftirvæntingin hvort uppáhaldslagið muni koma, nær áþreifanleg eftir því sem líður á kvöldið. Hápunktarnir voru margir þó að lokasenan standi lagsamlega upp úr.

 

Umfjöllunin kom fram í 14.tbl Vikunnar.

Mynd / Hörður Sveinsson.

Góður mórall og mikil eftirvænting

Söngleikurinn Moulin Rouge verður frumsýndur í Hörpu annað kvöld.

Greta Salome Stefánsdóttir fer með aðalhlutverk sýningarinnar en hún er einnig framkvæmdarstýra viðburðarins sem einnig verður settur upp í Hofi á Akureyri. „Ég elskaði myndina þegar hún kom út á sínum tíma og þetta er bara svo kjörin tónleikasýning. Lögin bjóða upp á svo risastór söng og dansatriði og það er óhætt að segja að við séum að ganga mjög langt í því.

„Æfingarferlið hefur verið einstaklega skemmtilegt, sérstaklega hjá dönsurunum. Þetta er risastórt verkefni með um hundrað manns og því flækjustigið hátt en möguleiki á mikilli gæsahúð.

En þessi hópur er bara svo frábær og allir svo tilbúnir að ganga langt í að gera þetta sem flottast og það á algjörlega eftir að skila sér í sýningunni. Það er mjög góður mórall í hópnum og mikil eftirvænting.”

Greta segir sýninguna fyrst og fremst einblína á söng og dans en þó bregði fyrir leiknum senum inn á milli. „Við erum að fara hálfgerða millileið sem er mjög skemmtileg. Fólk fær söguna algjörlega í æð en um leið risastór tónlistaratriði. Við erum að taka lögin úr myndinni og færa þau í lifandi búning með hljómsveit, tíu söngvurum, sjö bakröddum, sjötíu manna kór og tólf dönsurum þannig að það er óhætt að segja að gjörsamlega allt sé lagt á borðið.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta blaði Vikunnar.

Mynd / Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Flytja meira inn frá Póllandi

Samskip hefur opnað nýja siglingaleið frá Póllandi.

„Það er verið að byggja gríðarlega mikið og byggingastigið hér mun haldast óbreytt til 2020. Helsta aukning í innflutningi er einmitt byggingarefni frá Póllandi, stálgrindur og fleira. En svo er pólskt samfélag á Íslandi sem þarf að þjónusta,“ segir Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningasviðs Samskipa.

Samskip voru að opna nýja siglingaleið með erlendum samstarfsaðila frá Póllandi, í gegnum Eystrasaltið, Ósló í Noregi og Árósa í Danmörku. Birgir segir að kallað hafi verið eftir bættum tengingum við þetta svæði og sé Samskip nú að svara því.

Verðmæti innflutnings frá Eystrasaltsríkjunum hefur aukist nokkuð á síðastliðnum átta árum. Mesti vöxturinn er á innflutningi frá Póllandi. Verðmætið nam tæpum 5,9 milljörðum króna árið 2010 en var kominn upp í 20,1 milljarð í fyrra. Mesti vöxturinn var frá 2016 til 2017 eða upp á 42% á milli ára.

Halda brúðkaupið á vínekru á Ítalíu

|

Söngvarinn Friðrik Dór Jónsson og unnusta hans, Lísa Hafliðadóttir, ganga í það heilaga í sumar. Í viðtali við brúðkaupsblað Glamour segjast þau ætla að innsigla ástina á Ítalíu.

„Brúðkaupið verður haldið á vínekru í Toskanahéraðinu á Ítalíu. Við vorum byrjuð að skipuleggja brúðkaup hérna heima og komin ágætlega á veg með það. En síðan, eiginlega upp úr þurru, kom sú hugmynd að gera þetta einhvers staðar erlendis,“ segir í viðtalinu, og bætir parið við að þau séu ekkert tengd landinu en finnist ákveðin rómantík umlykja það. Því hafi þau ákveðið að taka af skarið.

„Í framhaldinu ákváðum við að henda okkur í djúpu laugina og kýla á þetta. Við sjáum vonandi ekki eftir því.“

Tæplega hundrað manns eru á gestalistanum, en sökum góðs skipulags segja þau Friðrik og Lísa að lítið verði um forföll.

„Við bókuðum húsið á vínekrunni í byrjun ágúst í fyrra og strax í framhaldinu byrjuðum við að skipuleggja allt,“ segir í viðtalinu. „Það eru lítil sem engin forföll af gestalistanum og ég held að góður fyrirvari leiki þar stórt hlutverk.“

Það er fallegt í Toskana.

Þó að parið ætli að gifta sig erlendis verður samt íslenskur bragur á þessum stóra degi.

„Athöfnin og veislan verða eftir íslensku uppskriftinni. Athöfnin verður hins vegar táknræn svo við verðum ekki með neinn prest en í veislunni ætlum við að hafa veislustjóra og ræðuhöld og enda þetta svo á góðu partíi.“

Tónlistarmaðurinn fær eflaust dygga aðstoð frá bróður sínum, tónlistarmanninum Jóni Jónssyni, og mágkonu sinni, Hafdísi Björk Jónsdóttur, þar sem þau létu pússa sig saman síðasta sumar, reynslunni ríkari.

Aðalmynd / Rut Sigurðardóttir

Loksins litið á brennó sem alvöruíþrótt

||
||

Keppt verður í brennibolta í fyrsta sinn á landsmóti Ungmennafélags Íslands á Sauðárkróki í sumar. Sólveig Sigurðardóttir, talskona brennóiðkenda á höfuðborgarsvæðinu, segir mikla spennu ríkja meðal hópsins fyrir mótinu. Hún vonar að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta skipulega undir handleiðslu þjálfara.

„UMFÍ langar að bjóða upp á hreyfingu sem höfðar til sem flestra. Þeir höfðu heyrt af allskonar hópum um allt land sem voru að spila brennibolta og langaði að höfða til breiðs hóps. Brennibolti er íþrótt sem allir þekkja úr barnæsku og allir geta rifjað upp, tekið þátt og haft gaman af,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, talskona Brennóbomba, hóps kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem æfir brennibolta.

Í fyrsta sinn í ár verður keppt í brennibolta á landsmóti UMFÍ, Ungmennafélags Íslands. Landsmótið fer fram þann 12. til 15. júlí á Sauðárkróki, en Sólveig segir að Brennóbomburnar hafi verið himinlifandi þegar kom í ljós að brennibolti yrði meðal keppnisgreina.

„Ég gjörsamlega fríkaði út af spenningi þegar ég fékk þessar fregnir og ég held að hinar bomburnar hafi ekki verið síður spenntar.

Það er líka svo gaman að fólk sé loksins farið á líta á brennibolta sem íþrótt og uppgötva hvað þetta er ótrúlega góð og mikil hreyfing. Mér finnst líka mjög jákvætt að það sé verið að breikka rammann þegar það kemur að keppnisíþróttum. Ég vona að þessi áhugi haldi áfram og að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta á öllum aldri undir handleiðslu þjálfara. Það væri frábært.“

Karlmenn keppa líka

Sólveig er spennt fyrir sumrinu.

Virkir brennóhópar, sem hittast reglulega, eru staðsettir í Kópavogi, Hafnarfirði, Grindavík, á Blönduósi og Sauðárkróki. Sólveig er ekki viss hve mörg lið hafa skráð sig til leiks á landsmótinu, en hún útilokar ekki að aðrir en þeir sem eru virkir brennóðikendur slái til og keppi í sumar.

„Ég er alveg viss um að það séu einhverjir hressir vinahópar eða æfingafélagar sem ákveða að slá til og taka smátrylling í brennó á Landsmóti,“ segir Sólveig.

Sólveig tilheyrir, eins og áður segir, hópnum Brennóbombur sem hittist reglulega allt árið um kring á höfuðborgarsvæðinu og spilar brennó. Sá félagsskapur er eingöngu fyrir konur en á landsmótinu mega karlmenn einnig keppa í sportinu. Hvernig leggst það í Sólveigu?

„Það leggst órúlega vel í mig og ég er mjög spennt að sjá hvernig þátttakan verður. Brennóbomburnar æfa tvisvar sinnum í viku í Kórnum í Kópavogi yfir vetrartímann en eru með eina opna æfingu í mánuði fyrir bæði kynin. Hingað til hefur það vakið mikla lukku. Mér sýnist strákarnir vera alveg jafnspenntir fyrir íþróttinni þegar þeir mæta á völlinn og eru enn spenntari að æfingu lokinni, þegar þeir eru búnir að uppgötva hvað þetta er ótrrúlega skemmtileg og mikil hreyfing,“ segir Sólveig.

Keppt er í brennibolta laugardaginn 14. júlí á landsmótinu og fer fjöldi leikja eftir fjölda þátttakenda. Sólveig segir Brennóbomburnar mjög spenntar fyrir því að keppa í íþróttinni á stærri vettvangi, en þær hafa haldið opinber Íslandsmeistaramót í brennó um áraskeið. „Stemninginn er ótrúlega góð og allar hlakkar til að koma saman á Króknum og hafa ótrúlega gaman af.“

Ólétt og getur ekki keppt

Sólveig hefur æft brennó um árabil og því liggur beinast við að spyrja hvort hún ætli ekki sjálf að keppa í sumar. „Úff, ég ætla ekki að segja þér hvað það er erfitt að svara þessari spurningu neitandi en ég get því miður ekki verið með sem keppandi í ár. Ég er barnshafandi og verð líklega með aðeins of stóran bolta framan á mér í sumar,“ segir Sólveig brosandi.

En þarf maður að vera einhverjum sérstökum hæfileikum gæddur til að spila brennibolta?
„Nei, alls ekki. Þetta er svo fjölbreytt íþrótt að það virðast allir finna sig í einhverju inni á vellinum, hvort sem það er að hlaupa, kasta, grípa eða að forðast boltann. Það sem mestu máli skiptir er að halda í gleðina sem fylgir þessari íþrótt og hafa húmor fyrir sjálfum sér og öðrum. Svo er voða gaman þegar það fær að skína í smávegis keppnisskap svona inn á milli,“ segir Sólveig kankvís og bætir við að það sé lítið mál að slást í hópinn með Brennóbombum á höfuðborgarsvæðinu.

Brennó er góð skemmtun.

„Við æfum í íþróttahúsinu Kórnum í Kópavogi á mánudögum og miðvikudögum klukkan 21.00 yfir vetrartímann en á sumrin er æft úti þegar verður leyfir. Allar konur átján ára og eldri eru velkomnar til okkar. Fyrsti tíminn er alltaf ókeypis og því er um að gera að taka af skarið, kíkja á okkur og prófa. Ég lofa taumlausri gleði og brjálaðri brennslu í sjúklega skemmtilegum félagskap. Það er líka hægt að finna okkur á Facebook undir nafninu Innibrennó. Eins eru hinir brennóhóparnir á Facebook líka.“

Margir kveðja bensínið

Líklegast er að íslenskir bílakaupendur fái sér tengitvinnbíl eða hreinan rafbíl næst þegar þeir kaupa sér bíl. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í norrænni könnun um áform fólks í bílakaupum og Orka náttúrunnar (ON) hefur tekið saman um stöðu rafbílamála á Íslandi.

Í könnuninni kemur fram að rétt rúmlega 20% kaupenda er í þessum hugleiðingum. Fleiri eða tæp 25% þátttakenda í könnuninni voru í þessum hugleiðingum í Noregi. Talsvert færri eru að velta því fyrir sér annars staðar á Norðurlöndunum.

Þegar þátttakendur voru spurðir að því af hverju þeir ætli ekki að kaupa rafbíl svöruðu 43% á Íslandi að þá skorti drægni. Flestir sögðu líka það sama í Noregi. Á hinum Norðurlöndunum var helsta skýringin sú að þeir þykja of dýrir.

Opnar sig um móðurhlutverkið: „Stundum missi ég vitið“

Charlize Theron stars as Marlo in Jason Reitman's TULLY

Leikkonan Charlize Theron er einstæð móðir sonarins Jackson, sex ára, og dótturinnar August, tveggja ára. Hún opnaði sig um móðurhlutverkið í samtali við Us Weekly þegar nýjasta mynd hennar, Tully, var frumsýnd í síðustu viku.

„Það er enginn dýrðarljómi í barnauppeldi. Þar er mikil þrautseigja fólgin í því,“ sagði Charlize á rauða dreglinum og bætti við að hún treysti mikið á ráð frá móður sinni, Gerdu Maritz.

„Ég held að öll ráð frá móður minni hafi verið mjög góð. Hún segir stundum: Veistu, á morgun er nýr dagur. Þetta eru ekki endalok heimsins,“ sagði Charlize og hélt áfram:

„Stundum missi ég vitið, sérstaklega í bílnum þegar við erum í langferð eða eitthvað. Þá horfir hún á mig og hlær og segir: Þetta er bara augnablik. Það líður hjá. Þetta líður hjá.“

Þráði að vera móðir

Bæði börn Charlize eru ættleidd og hefur hún talað mjög opinskátt um það síðan hún ættleiddi Jackson árið 2012.

„Ég þráði að vera móðir og ég lagði allt mitt í það. Það er ekki auðvelt að ættleiða, jafnvel þegar maður er stjarna,“ sagði leikkonan í viðtali við tímaritið Elle Canada árið 2016. Þá sagðist hún einnig ekki velta sér upp úr því að vera einstæð móðir, þó það hafi ekki verið draumurinn.

„Engan dreymir um að vera einstætt foreldri, en ég lærði fyrir löngu síðan að það er ekki hægt að stjórna öllu í lífinu. Ég aðlagaðist aðstæðunum því ég er jarðbundin manneskja.“

Þetta eru vinsælustu áleggin á pítsu

|
|

Fyrirtækið Caviar, sem sérhæfir sig í heimsendingu á mat sem pantaður er á netinu, er búið að taka saman gögn frá rúmlega tuttugu borgum í Bandaríkjunum og greina hvaða álegg á pítsu eru vinsælust.

Ostur og tómatur trónir á toppi listans, en við ætlum að sleppa þeim áleggjum af topplistanum þar sem ekki er um aukaost að ræða né tómat sem grænmeti, heldur tómatsósuna sem er á flestum pítsum víða um heim.

Hér eru því átta vinsælustu áleggin samkvæmt gögnum frá Caviar:

1. Pepperoni
2. Pylsa
3. Hvítlaukur
4. Ólífur
5. Sveppir
6. Laukur
7. Kjúklingur
8. Oregano

Pítsur eru jafnmismunandi og þær eru margar.

Athygli vekur að skinku er hvergi að finna, en líklegt er að það álegg myndi skora nokkuð hátt ef samskonar könnun yrði gerð hér á landi. Áhugavert er að bera þennan lista frá Caviar saman við könnun sem Foodler gerði árið 2013, en þá voru niðurstöðurnar eilítið öðruvísi, þó pepperoni hafi samt sem áður borið sigur úr býtum.

1. Pepperoni
2. Sveppir
3. Laukur
4. Pylsa
5. Beikon
6. Aukaostur
7. Svartar ólífur
8. Græn paprika
9. Ananas
10. Spínat

Kristín fór úr 127 kílóum í 88: „Byrjaðu í dag, ekki á morgun“

|||||
|||||

Kristín María Stefánsdóttir er þrítug, tveggja barna móðir sem býr á Akureyri. Kristín hefur átt við bakvandamál að stríða síðan hún fór í fyrstu myndatökuna á baki þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún eignaðist son árið 2006 og eftir meðgönguna hríðversnaði hún í bakinu og átti erfitt með að hreyfa sig, eins og hún var vön að gera.

„Hægt og rólega komu kílóin á mig. Með árunum og miklu brasi alltaf með bakið á mér, án þess að fá svör um hvað amaði að, versnaði það og einnig andlega heilsan,“ segir Kristín í samtali við Mannlíf. Eftir langa þrautagöngu ákvað Kristín að snúa vörn í sókn árið 2015.

Kristín var ekki aðeins þjökuð af verkjum heldur einnig illa stödd andlega.

„Ég hafði tekið þá stóru ákvörðun að taka mér frí frá vinnu og fara í það verkefni að finna út hvað væri að gerast í líkamanum mínum, enda löngu komin yfir hundrað kíló og gat á tímum ekki gengið fyrir verkjum,“ segir Kristín. Hennar fyrsta verk var að leggjast inn á bakdeildina á spítalanum á Stykkishólmi þar sem hún dvaldi í þrjár vikur. Þar fékk hún sprautur í bakið sem gerðu ekki mikið til að lina sársauka hennar.

„Þannig að ég fór heim eftir þennan tíma eins og ég var áður en ég fór, en auðvitað búin að læra margt. Eftir að ég kom heim var ég í sjúkraþjálfun og beið eftir svari að komast inn hjá Virk og byrja í endurhæfingu, þar sem ég þurfti virkilega á þvi að halda. Ég fékk síðan svar í maí um að ég gæti byrjað hjá þeim í ágúst,“ segir Kristín. Í millitíðinni fékk hún símtal frá Kristnesi, endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, um að hún væri komin inní svokallaðan O-hóp fyrir of þungt fólk.

„Ég auðvitað stökk á það tækifæri. Ég hugsaði ekkert út í það hvort ég væri í raun tilbúin fyrir þetta ferli þegar ég labbaði inn á Kristnes í júní og var þar í 4 vikur á virkum dögum. En ég mætti og kynntist yndilslegu fólki, lærði helling en nýtti mér það ekki. Þegar ég hugsa til baka núna, þá gerði ég ekki annað en að kvarta og leið bara alls ekkert vel, ég var bara ekkert tilbúin. Á meðan á öllu þessu stóð, hélt ég áfram að versna í líkamanum.“

Fóstrið blómstraði ekki í kviðnum

Kristín fékk óvæntar fréttir í júlí sama ár um að hún væri með barni. Fréttir sem glöddu hana mjög.

„Þegar ég var komin 12 vikur, fékk ég að vita að það sæist ekki það sem ætti að sjást á tólftu viku og að öllum líkindum væri ekkert búið að gerast lengra en áttundu vika. Ég tók þetta mjög nærri mér,“ segir Kristín og bætir við að hún hafi strax vitað af hverju fóstrið blómstraði ekki í kvið hennar.

„Líkaminn minn var einfaldlega orðinn of veikur til þess að halda því á lífi. Eftir þetta versnaði allt mjög mikið líkamlega. Ég var flutt með sjúkrabíl frá sjúkraþjálfaranum mínum þar sem taugaverkir og annað var orðið það slæmt að ég gat bara ekkert staðið upp af bekknum,“ segir Kristín sem var orðin langþreytt á að fá ekki að vita nákvæmlega hvað amaði að bakinu.

„Kannski það leiðinlegasta við þetta er líka að svörin við bakverkjunum var alltaf það að ég væri orðin of þung og núna þyfti ég bara að fara heim og gera eitthvað í mínum málum. Ég veit ekki hvað ég var búin að fara oft niður á sjúkrahús og bara send heim með lyf og þá setningu að ég þyrfti að leggja af. Sem er ekki rétt leið að hjarta og hug manneskju sem er vel í ofþyngd. Sú manneskja veit það vel og ef það væri svo auðvelt að fara bara heim og leggja af, hugsa ég að það væru ekki margir í ofþyngd.“

Þrjátíu ára og 127 kíló

Kristín var þyngst 127 kíló.

Í kjölfarið þurfti Kristín að ganga við hækjur í tvo mánuði vegna verkja og fresta endurhæfingu hjá Virk þar sem hún var ekki fær um að sinna henni. Í staðinn byrjaði hún í sundleikfimi með eldri borgurum í Akureyrarlaug og fór að hitta sálfræðing hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands reglulega. Það var þá sem Kristín gerði sér grein fyrir að hún þyrfti ekki síður að taka sig í gegn andlega.

„Ég áttaði mig heldur betur á því að ég þurfti ekki bara að fara í endurhæfingu með líkamann á mér heldur hausinn á mér líka. Þarna var ég orðin 127 kíló, ekki orðin þrítug. Það var ekkert bara bakið. Það kannski byrjaði þar, en það besta sem ég gerði í þessu ferli var að byrja hjá sálfræðingi og fara að hugsa um mín mál. Þarna voru gömul og ný mál sem ég þurfti, og átti bara eftir, að vinna úr og á þessum þremur árum sem ég hef verið að vinna í mínum andlegu málum hefur heldur betur margt breyst,“ segir Kristín, sem hélt áfram að sækja sálfræðitíma og sundleikfimi og er þakklát fyrir þá hjálp sem hún hefur fengið.

„Fólkið hjá Kristnesi og Starfsendurhæfingu Norðurlands er allt yndislegt fólk og ég á þeim margt að þakka. Þarna hitti ég fólk sem loksins hlustaði og gerði ekki lítið úr mínum vandamálum.“

Versnaði í bakinu eftir aðra meðgöngu

Kristín gat ekki hreyft sig mikið fyrir utan sundtímana, en ákvað í janúar árið 2016 að taka mataræði sitt í gegn.

„Ég tók þrjá mánuði sykur-, hveiti- og aukaefnalausa,“ segir Kristín og sá strax mikinn mun. „Ég missti 13 kíló á þessum þremur mánuðum. Ég losnaði endanlega við hækjurnar og var farin að labba niður í sundlaug og bæði fara í sundleikfimi og gera sjálf æfingar í lauginni. Markmiðið mitt daglega var að labba tvö til þrjú þúsund skref. Hægt og rólega urðu þessi skref fleiri og fleiri. Í lokin á þessum þremur mánuðum var mikil breyting á mér,“ segir hún og bætir við að eftir þetta tímabil hafi hún hætt á þessu mataræði.

„Ég gat það bara ekki lengur, en sá heldur betur að með réttu mataræði getur svo mikið gerst.“

Kristín var búin að losa sig við sautján kíló í apríl sama ár, stundaði enn sundleikfimi og gekk um sex þúsund skref á dag. Hún byrjaði í prógrammi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og sá alltaf meiri árangur andlega og líkamlega. Þá varð hún ólétt af sínu öðru barni.

„Ég var mjög hrædd um bakið á mér en ég gat bara ekki annað en fagnað þessu litla heilbrigða lífi. Meðgangan gekk bara ágætlega likamlega og ég hætti ekkert að hugsa um mataræðið þrátt fyrir mikla ógleði og annað fyrst til að byrja með. Ég fór í göngutúra og var í meðgöngusundi,“ segir Kristín.

Það var svo í janúar í fyrra sem Kristín fékk litla stúlku í hendurnar og þá kom smá bakslag í lífsstílinn sem hún hafði tileinkað sér.

„Ég versna meira í bakinu, en fann þó að ég jafnaði mig fyrr eftir bakslagið, þar sem líkaminn var orðinn sterkari en áður. En ég missti tökin pínulítið í mataræðinu, og vá hvað það var heldur betur fljótt að gerast. Ég áttaði mig fljótt á því hvað var að gerast hjá mér, enda komin með mikil andleg tæki og tól eftir sálfræðitímana og sneri þessu við. Þess vegna segi ég, andlegi þátturinn er risastór í öllu þessu.“

Ekkert sem heitir skyndilausnir

Kristín gjörbreytti um lífsstíl og blómstrar í dag.

Kirstín stundaði meðgöngusund í átta mánuði eftir að hún átti stúlkuna, gekk um allt með barnavagninn í hvaða veðri sem er og fór í sjúkraþjálfun. Hún segir að þarna hafi hún loks verið 100% tilbúin til að fara aldrei aftur í sama farið.

„Ég þurfti að minna mig á það á hverjum degi af hverju ég væri að þessu. Hausinn á manni á það til að vera það erfiðasta sem maður dílar við í svona ferli og þetta kostar blóð, svita og mörg tár. Það er ekkert sem kallast skyndilausnir í þessum málum. Það komu margir dagar þar sem bakið gafst upp og ég var rúmliggjandi, en þarna var ég búin að ákveða að þetta bak væri ekkert að fara verða það sem myndi láta mig gefast upp,“ segir Kristín, sem tók mataræðið heljartaki á þessu tímabili.

„Ég þurfti að endurskoða allt sem ég keypti, allt sem ég eldaði. Ég fann leiðir til að gera rétti hollari sem ég eldaði áður og eyddi miklum tíma í eldhúsinu bara til að finna út hvað mér fannst gott. Ég prófaði alltaf eitthvað nýtt. Ég las og tók næringarfræði í menntaskólanum á meðan ég var í endurhæfingu. Ég lærði að borða grænmeti. Já, lærði,“ segir Kristín og hlær. „Ég borðaði ekki mikið af því en í dag borða ég allt grænmeti. Það er svo ótrúlega mikið sem ég er búin að læra sem ég bara áttaði mig aldrei á.“

„Þetta er eilífðarverkefni“

Í kjölfarið fékk Kristín loksins svör um hvað amaði að bakinu.

„Það er komið mikið slit í neðstu tvo hryggjaliði og útbunganir á þremur stöðum. Ég reyndi aftur að fara í sprautur, en þær gerðu litið gagn eins og í fyrra skipti. Aðgerð hjá mér er möguleiki en ekki möguleiki inni á mínu heimili þar sem ég er með fimmtán mánaða gamalt barn, og bataferli eftir aðgerðina langt. Ég tók því ávörðun með mínum lækni að halda áfram mínu ferli og sjá hvert það kemur mér varðandi bakið. Ég get kannski ekki lagað þetta vandamál, en ég gat og get gert allt annað í líkamanum betra til þess að hjálpa mér við að díla við þetta ákveðna vandamál.“

Í dag er Kristín komin niður í 88 kíló, úr 127 kíló. Hún segir að þolinmæði og þrautsegja hafi verið lykillinn að velgengni hennar í þessari lífsstílsbreytingu.

Lífsgleðin skín úr þessari þrítugu konu.

„Ég fór loksins að nota það sem mér var kennt á öllum þessum stöðum sem ég hef verið á, nýta hverja mínútu sem ég hafði með öllum þessum fagaðilum sem voru þarna til þess að hjálpa mér. Markmiðið í upphafi var að léttast og fá svör við bakverkjunum, enda þurfti ég þess. En maður þarf að taka hausinn á sér með svo að maður sé tilbúinn fyrir þetta. Þetta er eilífðarverkefni ef maður ætlar að viðhalda sér. Þetta er erfitt, en ég er að gera þetta og ef ég get það, þá geta svo sannarlega aðrir það.“

Ekki bera þig saman við næsta mann

Hana dreymir um að hjálpa öðrum að lifa betra og heilsusamlegra lífi.

„Ég er búin að stunda bóklegt nám í gegnum þetta allt. Ég var búin að ákveða að læra læknaritarann og hef verið að stefna að því, en það er vinna sem bakið á mér kannski höndlar. En á þessum þremur árum hef ég fengið mikla trú á sjálfri mér og í dag langar mig að mennta mig í þá átt að geta hjálpað öðrum sem eru að ganga í gegnum þetta. Að kynnast fólki sem skilur mann, getur aukið mikinn skilning hjá manni,“ segir Kristín. En hvað vill hún segja við fólk sem er í sömu stöðu og hún var fyrir þremur árum síðan?

„Ekki gefast upp þó að ekkert gerist á vigtinni í einhvern tíma eða þú borðaðir óhollt og heldur að allt sé ónýtt. Það kemur alltaf dagur á eftir þessum degi og þá reynum við að gera betur. Þér þarf að líða vel og skilja að líkaminn er að ganga í gegnum miklar breytingar og styrkjast. Ef þú átt erfitt með hreyfingu, þá get ég sagt þér að á þessum tíma bjargaði sundleikfimi öllu hjá mér. Settu þér lítil markmið til að byrja með, gerðu girnilegu, hollu uppskriftina sem þú ert búin að ætla að gera lengi, labbaðu x mörg skref á dag og sigraðu sjálfan þig með því að bæta þig. Maður þarf alltaf að byrja á litlu hlutunum. Það ert þú sem þarft að gera þetta, taka þessar ákvarðanir fyrir þig, en nýttu þér hjálp frá fólkinu í kringum þig.

Ekki horfa á það sem næsta manneskja er að gera og bera þig saman við hana. Gerðu þitt eigið. Byrjaðu í dag, ekki á morgun.“

Þvílík breyting á þremur árum.

Myndir / Úr einkasafni

„Alltaf að móðga einhvern“

|
|

Finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni.

Dagur einhverfu var í upphafi mánaðarins og þetta árið er athyglinni beint að konum og stúlkum á einhverfurófi. Hélène Magnússon greindist með Asperger á fullorðinsaldri og átti fyrst erfitt með að viðurkenna það fyrir samferðafólki sínu. Greiningin umbreytti hins vegar lífi hennar og þegar hún horfir til baka sér hún æskuna í nýju ljósi.

Hélène segir að einhverfan hafi oft reynst henni styrkur, til dæmis í nýjasta afreki hennar – að koma eigin garni á markað.

Hélène er fædd og uppalin í Frakklandi og flutti talsvert á milli staða vegna vinnu föður síns, sem var fyrsta ástæðan sem hún fann fyrir því að hún eignaðist ekki vini. Árið 1995 hitti hún nokkra Íslendinga í partíi í París og fór í kjölfarið í frí til Íslands. „Mér leið strax eins og ég ætti heima hérna þannig að ég fór aftur til Frakklands til þess eins að segja upp vinnunni sem ég var ekki ánægð í og undirbúa flutninga til Íslands,“ segir Hélène sem vann sem lögmaður í Frakklandi á þessum tíma. Þremur mánuðum seinna var hún flutt til landsins og býr hér ásamt eiginmanni sínum og þremur dætrum. Hún var komin vel á fullorðinsár þegar hún var greind á einhverfurófinu með Asperger. „Maðurinn mínn heyrði í útvarpsþætti á BBC um konur í atvinnurekstri sem voru með Asperger og fannst þær svolítið líkar mér. Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Í kjölfarið fór hún í greiningarferli og fékk formlega greiningu. Hún segir að það hafi bæði verið mikill léttir og frelsun en hún hafi einnig verið skelfingu lostin. „Líf mitt umbreyttist gjörsamlega, ég vissi ekki lengur hver ég var, á hvaða stað ég var í lífinu, hvað mér líkaði vel við og hvað ekki. Á sama tíma fékk ég ákveðna hugljómun og sá líf mitt í alveg nýju ljósi, ekki síst þegar ég horfði til baka.“

„Í gamni tók ég einhvers konar einhverfupróf á Netinu og skoraði hátt. Ég vissi lítið sem ekkert um Asperger á þessum tíma, fór að lesa mér til og fann margt sem var afar kunnuglegt.“

Hélène var hlédrægt barn, talaði lítið og mjög lágt. Hún var fyrirmyndarnemandi, átti aldrei í erfiðleikum með nám og efst í öllum greinum, þar með talið íþróttum. En hún átti fáar vinkonur, oftast eina í einu sem hún missti svo eftir ákveðinn tíma. „Ég slóst töluvert við strákana og stóð á mínu og þegar ég kom á unglingsárin átti ég alltaf kærasta þannig að ég upplifði mig ekki einmana eða utangarðs. Ég lærði að treysta eingöngu sjálfri mér og bera mig vel en flestir tóku því þannig að ég væri merkileg með mig og fyrirliti aðra. Ef einhver hefði spurt mig áður en ég fékk greininguna hvort ég hefði orðið fyrir einelti sem barn hefði svarið verið nei. Núna, eftir að ég greindist, er svarið hins vegar klárlega já sem birtist í útilokun. Fólki fannst ég svolítið skrítin og forðaðist samskipti við mig. Mér var til dæmis ekki boðið í afmæli og sá sjálf ekki ástæðu til að halda upp á afmælið mitt.“

Kemur út úr skápnum
Hélène segir að margt í hegðun hennar hér áður megi rekja til einhverfunnar og hún uppgötvi nýja hluti í þeim efnum daglega. „Ég var til dæmis alltaf að lenda í að móðga einhverja og geri það svo sem enn þá. Það hefði örugglega breytt ýmsu fyrir mig að greinast fyrr en þá væri ég allt önnur manneskja í dag. Ferðalagið mótar manneskjuna og ég vildi ekkert endilega breyta því.“

Hélène fannst erfitt fyrst að viðurkenna fyrir samferðafólki sínu að hún væri á einhverfurófi. „Til að byrja með sagði ég eingöngu mínum allra nánustu frá þessu og fólkinu sem ég vann með. Ég sagði síðan einni og einni manneskju sem ég kynntist frá greiningunni og fór smám saman að opna mig meira. Í dag lifi ég í sátt við sjálfa mig og hef verið að fá löngun til að verða sýnilegri, sem er meðal annars ástæðan fyrir því að ég samþykkti strax að koma í þetta viðtal. Í rauninni er ég að koma út úr skápnum og samsama mig vinum mínum í hinsegin samfélaginu og það hefur verið mjög hjálplegt að eiga samtöl við þá um þetta ferli. Ég hef alltaf verið opin með einhverfuna gagnvart dætrum mínum og miklar umræður skapast á milli okkar um þetta. Stundum er ég til dæmis ekki rétta manneskjan til að hjálpa þeim að vinna í málum sem koma upp á milli þeirra og vinkvennanna. En við erum frekar nánar og samband okkar er gott. Gagnvart maka hefur sambandið gengið upp og niður í gegnum tíðina eins og hjá öðrum en við höfum náð að finna gott jafnvægi og er sambandið okkar mun heilbrigðara núna.“

Ómögulegt að fylgja öllum félagslegum stöðlum
Hélène er í stuðningshópi með fullorðnum einhverfum konum hjá Einhverfusamtökunum og segir að það hjálpi sér mikið og minnki stress. Útivera og hreyfing gerir henni líka gott. „Aðalmálið hefur hins vegar verið að leyfa sjálfri mér að vera eins og ég er, án þess að líða illa yfir því. Ég hef orðið meira umburðarlyndi fyrir sjálfri mér, passa mig að yfirkeyra mig ekki og gefa mér meiri séns. Það getur verið yfirþyrmandi og þreytandi að reyna hvað eftir annað að vera „eðlilegur“ og veldur oft mestu streitunni. Þarna þarf að finna jafnvægi. Eftir samskipti við fólk þarf ég í kjölfarið að vera ein til að jafna mig. Áður leið mér illa, varð stressuð og uppgefin þegar ég var búin að vera innan um fólk í svolítinn tíma án þess að vita hvað olli. Í dag fer ég bara afsíðis í smástund þegar þetta gerist og tek þannig tillit til minna eigin þarfa. Ég skipulegg mig líka öðruvísi og reyni að vera ekki lengi í svoleiðis aðstæðum. Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti. Einnig get ég ekki falið skoðanir mínar og segi fólki yfirleitt það sem mér finnst í raun og veru. Mér finnst „eðlileg“ samskipti oft byggja á hræsni og margir þannig félagslegir staðlar sem ég harðneita að sætta mig við. Annars hefur það líka hjálpað að hafa flutt til annars lands því það hefur oft gefið fólki skýringu á því að ég sé „skrítin“. Ef ég hef ekki skilið eitthvað eða brugðist við með óhefðbundnum hætti hefur fólk bara hugsað með sér að það sé vegna þess að ég sé útlendingur.“

„Ég fer milliveginn, reyni að fylgja félagslegum stöðlum, þar sem ég kem því við, en það eru svo margir staðlar, eða blæbrigði, sem ég þekki hreinlega ekki og því er ómögulegt fyrir mig að fylgja þeim að öllu leyti.“

Skapaði sér vinnu sem hentaði
Hélène er prjónahönnuður og rekur fyrirtækið Prjónakerling ehf. Hún hefur prjónað síðan hún var barn og það hjálpar henni að slaka á og ná tengingu við sjálfa sig. „Prjónaskapur er aðaláhugamál mitt og þó að ég hafi gert hann að atvinnu þá slaka ég á með prjónana mína. Ég vinn í fullu starfi sem hönnuður, rek mitt eigið fyrirtæki og er með tvo starfsmenn auk þess að vera í allskonar samvinnu. Ég sel prjónauppskriftir á vefsíðunni minni prjonakerling.is, hef skrifað bækur um íslenskt prjón og skipulagt göngu- og prjónaferðir á Íslandi í samvinnu við Íslenska fjallaleiðsögumenn síðan 2010. Einnig stend ég fyrir framleiðslu af mínu eigin garni: Love Story einbandi og Gilitrutt tvíbandi, afar fíngerðu og mjúkum prjónaböndum út hreinni íslenski lambsull. Það var mikið átak að koma þessu á markað alveg frá grunni, krafðist mikillar einbeitingar, ástríðu, þrjósku og elju. Ég er sannfærð um að einhverfan hefur verið mér styrkur í þessu ferli.

Í dag á ég virkilega gott líf, skapaði vinnuuhverfi sem hentar mér og á góða vini sem taka mér eins og ég er. Ég er meira að segja komin inn í vinkonuhóp, eða saumaklúbb, sem er öruggt skjól fyrir okkur allar.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Ólafur Darri gerir það gott í Hollywood

Íslenski leikarinn verður áberandi á hvíta tjaldinu í ár.

Stiklur úr nýjustu kvikmynd leikarans Ólafs Darra Ólafssonar, The Meg, litu dagsins ljós nýverið og hafa á skömmum tíma fengið hvorki meira né minna en samtals nokkur milljón áhorf á Youtube. Ef marka má stikluna virðist hér vera á ferð æsispennandi skrímslamynd í ætt við Jaws þar sem hópur fólks hefur leit að ofvöxnum hákarli. Myndinni er leikstýrt af Jon Turtletaub, leikstjóra National Treasure-myndanna, og skartar stórstjörnunni Jasan Statham í aðalhlutverki. Ólafur Darri fer með hlutverk eins leitarmannanna í myndinni.

Fyrir utan The Meg eru fjórar nýjar Hollywood-myndir væntanlegar með íslenska leikaranum á árinu, þar á meðal framhald stórmyndarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them úr smiðju J.K. Rowling, höfundi bókanna um galdrastrákinn Harry Potter, og svo ný þáttasería með bresku leikkonunni Kate Beckinsale í aðalhlutverki. Því er óhætt að segja að Ólafur Darri hafi í nógu að snúast um þessar mundir.

Æskudýrkun, hégómi og klappstýrufjör

Margrét Erla Maack, fjöllistadís, kabarettmær og mamma Reykjavík Kabarett, sem er að undirbúa sumarsýningar, deilir með lesendum nokkrum sakbitnum sælum.

Death Becomes Her (1992)

Meryl Streep, Goldie Hawn og Bruce Willis í tiltölulega barnvænni hryllingsmynd um æskudýrkun og hégóma. Ég sá plakatið á vídeóleigu þar sem Goldie er með gat í maganum … og var ekki lítið spennt yfir því að sjá hana í fyrsta sinn. Og hún var stórkostleg. Ég horfði á hana aftur um daginn og ég held að það verði fastur liður núna. Hún eldist mjög vel og er orðin költ-mynd. Og það á víst að gera söngleik upp úr henni. Ekki leiðinlegt.

Bring it on (2000)

Ég var búin að gleyma þessari mynd en fékk fyrirspurn um daginn um að kenna klappstýrufjör í gæsapartíi, svo auðvitað varð ég að sökkva mér á kaf í hana, vinnunnar vegna. Hún eldist svona sæmilega en það er fjandi mikið stuð og kóreógrafía er geggjuð.

Working Girl (1988)

Undirfötin í sexí senunum fá mig til að veltast um í hláturs- og aulakasti. Annars er þetta bara virkilega góð og „empowering“ mynd sem ég fæ ekki nóg af.

Blossi/810551 (1997)

Við verðum bara að finna aðra plánetu til að halda partíinu gangandi. Þessi mynd var víst framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 1998.

The Cockettes (2002)

Þessi mynd er allt of góð til að vera á svona lista, en samt. Ég get horft endalaust á þessa heimildamynd um dragkabarettkommúnu í San Francisco á sjöunda áratugnum. Það verður fyndnara og fyndara með hverju áhorfi að engum ber saman um neinar tímasetningar eða „neimdropp“ því allir voru á svo miklum eiturlyfjum á sögutímanum. Frábær frásagnarstíll og „inspírerandi“ fólk.

Aðalmynd / Auðunn Níelsson

Drungaleg dulúð í Langholtskirkju

Söngsveitin Ægisif flytur kórverkið Bjöllurnar ásamt nokkrum vel völdum perlum úr Náttsöngvunum eftir Sergej Rachmaninov í Langholtskirkju Laugardaginn 21. apríl. Tónleikarnir hefjast klukkan 17.

„Þessi tegund tónlistar er okkur Íslendingum í raun ekki svo framandi,“ segir Hreiðar Ingi Þorsteinsson, kórstjóri, tónskáld og stofnandi Söngsveitarinnar Ægisif, um tónlistina á fyrirhuguðum tónleikum. „Dökki liturinn sem einkennir mjög rússneskan tónheim á mikið sameiginlegt með gömlu íslensku þjóðlögunum.“

Kórsinfóníuna Bjöllurnar op. 35 samdi Rachmaninov árið 1913 við texta Edgars Allan Poe, The bells. Verkið er í fjórum köflum sem hver um sig túlkar ákveðið æviskeið mannsins, frá fæðingu til greftrunar. Litróf stemningarinnar er afar breitt og sveiflast frá drungalegri dulúð í síðrómantískan hátíðleika. Upphaflega er verkið samið fyrir stóra sinfóníuhljómsveit auk kórs og einsöngvara en fyrir utan sönginn verður það flutt hér í nýrri undirleiksumritun fyrir píanó. Þess má geta að þetta er frumflutningur verksins á Íslandi.

Náttsöngvar Rachmaninovs op. 37 voru fyrst fluttir í mars 1915 en vegna rússnesku byltingarinnar og opinberrar liststefnu í kjölfar hennar voru þeir ekki endurfluttir fyrr en hálfri öld síðar.

Einsöngvarar á tónleikunum verða Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Hrafnhildur Árnadóttir og Fjölnir Ólafsson. Píanóleikari er Anna Guðný Guðmundsdóttir.

Mynd: Hrafnhildur Árnadóttir verður meðal einsöngvara á tónleikum Söngsveitarinnar Ægisif.

„Skrítið að vera tilnefndur til stærstu sjónvarpsverðlauna í heimi“

||
||

Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir tökur á bandaríska ferðaþættinum Ocean Treks.

Í þáttunum Ocean Treks er þáttastjórnandanum Jeff Corwin fylgt eftir á ferðalagi hans um heimsins höf þar sem hann kynnir viðkomustaði sína fyrir áhorfendum.

„Þótt ég sé nú mikill vinnuþjarkur og hugsa yfirleitt stórt þá skal ég viðurkenna að ég sá þetta bara alls ekki fyrir, þetta kom rosalega á óvart,“ segir Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, en hann hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna (Emmy Daytime Awards) fyrir tökur (outstanding cinematography) á bandaríska ferðaþættinum Ocean Treks.

Tilnefningunni deilir Vilius með þremur úr erlendu tökuliði sem kom hingað til lands í fyrrasumar til að taka þáttinn upp en þetta mun vera í fyrsta sinn sem íslenskur tökumaður kemur til álita í þessum flokki.

Vilius, sem hefur starfað við leikstjórn, tökur, eftirvinnslu og fleira á Íslandi frá því hann útskrifaðist úr kvikmyndaskóla árið 2010, kveðst jafnframt hafa orðið hrærður þegar hann fékk fréttirnar. „Það er auðvitað skrítið að vera tilnefndur til stærstu sjónvarpsverðlauna í heimi fyrir eitthvað sem maður fæst við dagsdaglega. Að vinnan mín sé metin af svona virtri stofnun eins og The National Academy of Television Arts and Sciences í Bandaríkjunum, það er alveg magnað, svakalegur heiður,“ segir hann glaður. „Ég hef áður fengið verðlaun á minni kvikmyndahátíðum, en ekkert í líkingu við þetta!“

„Ég hef áður fengið verðlaun á minni kvikmyndahátíðum, en ekkert í líkingu við þetta!“

Vilius Petrikas, hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Hero Productions, hefur haft í nógu að snúast undanfarið. Nýverið leikstýrði hann til dæmis myndbandi fyrir svissneska popptvíeykið Sinplus sem hefur vakið athygli, auk þess að taka það upp og annast efitrvinnslu.

Þættirnir Ocean Treks eru framleiddir af bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC og njóta vinsælda vestanhafs en í þeim er hinum þekkta þáttastjórnanda Jeff Corwin fylgt eftir á ferðalagi hans með úrvals skemmtiferðaskipum um heimsins höf þar sem hann kynnir viðkomustaði sína fyrir áhorfendum.

Tveir þættir voru teknir upp á Íslandi, annar í Reykjavík og hinn í grennd við Akureyri og hafði Vilius, fyrir hönd Hero Productions, alfarið umsjón með svokölluðum drónatökum eða loftmyndum við gerð þáttanna. Þátturinn sem var tekinn upp í Reykjavík er sá sem Vilius og hinir þrír eru tilnefndir fyrir.

Spurður hvort tilnefningin komi ekki til með að opna einhverjar dyr í bransanum, brosir Vilius og segir að það eigi bara eftir að koma í ljós.
„Ég er nú bara aðallega að reyna að hugsa ekki of mikið um þetta og einbeita mér frekar að vinnunni. En auðvitað er þetta manni viss hvatning, það er alveg á hreinu.“

En ætlar hann að vera viðstaddur sjálfa verðlaunahátíðina sem fer fram í New York þann 29. apríl.

„Ég veit það ekki enn þá, það er svo mikið að gera hjá Hero Productions um þessar mundir, nokkur stór verkefni sem eru fram undan. En það væri alveg yndislegt að geta það,“ viðurkennir hann og brosir.

Aðalmynd: Mynd tók Alvin Zogu

 

 

Flott sumarhús við Laugarvatn

Á grónum stað við Laugarvatn stendur einstaklega fallegt, lítið og krúttlegt hvítt timburhús. Þau Sunna Rán Wonder og Birgir Magnús Björnsson eignuðust þetta sumarhús fyrir tæpu ári síðan og þarna er griðastaður fjölskyldunnar.

Húsið var byggt árið 1986, Sunna og Birgir fóru út í miklar framkvæmdir á húsinu sem er um 60 fermetrar að stærð og gerðu nánast allt sjálf, með aðstoð fjölskyldu og vina. Húsið er fallegt og bjart og lýsingin í því gerir mikið fyrir upplifunina í rýminu. Ljósgrár, hlýlegur litur er á veggjum sem passar sérlega vel við húsgögnin sem eru flest hvít og allt puntið þar inni. Sunna segist vera dugleg við að endurnýta hluti og húsgögn og fær mjög oft góð ráð frá móður sinni hvað það varðar. Staðsetningin við Laugarvatn er frábær og það er  stutt fyrir þau að fara eftir vinnu og njóta kyrrðarinnar en Sunna og Birgir segjast fara nánast allar helgar í bústaðinn sinn.

„Stíllinn á húsinu er að mörgu leyti frábrugðinn þessum týpísku íslensku sumarhúsum.“

„Húsið hefur lengi verið draumaeign fjölskyldunnar og kom óvænt upp í hendurnar á okkur fyrir rúmu ári. Við vorum ekki lengi að grípa gæsina og eignuðumst húsið nokkrum dögum seinna,“ segir Sunna.
„Þegar upp var staðið keyptum við í rauninni bara lóðina og skelina á húsinu því við tókum allt í gegn en það var vel þess virði.“
„Stíllinn á húsinu er að mörgu leyti frábrugðinn þessum týpísku íslensku sumarhúsum,“ segir Sunna. „Hann er mjög ljós sem stækkar rýmið töluvert, svo myndi ég segja að stíllinn væri frekar minimalískur og kósí. Smávegis bóhemstíll í bland við nýstárlegan.“
Að sögn Sunnu var staðsetning hússins fyrst og fremst það sem heillaði hana og Birgi. „Húsið er á næstu lóð við hús sem foreldrar mínir eiga og við sáum fram á að geta átt góðar stundir saman með vinum og fjölskyldu ….“

Myndir / Aldís Pálsdóttir.

Kynlegar kastalaverur

Uppsetning Borgarleikhússins á söngleiknum Rocky Horror show hefur varla farið fram hjá neinum. Uppselt er á nær allar sýningar út leikárið svo óhætt er að fullyrða að Frank-N-Furter og fjölskylda muni öðlast framhaldslíf á fjölunum næsta leikár.

Fyrir þá sem ekki þekkja til greinir sagan frá turtildúfunum Brad og Janet sem villast af leið og enda fyrir tilviljun í dularfullum kastala. Atburðarásin vindur fljótt upp á sig og áhorfendur verða strax sólgnir í að komast í kynni við kynjaverur kastalans.

Þýðing Braga Valdimars Skúlasonar var eins og við var að búast bæði hnyttin og vel ígrunduð þó að vissulega sé erfitt að gleyma gömlu þýðingu Veturliða Guðnasonar.

Búningar Filippíu Elísdóttur voru framúrskarandi og þá sérstaklega klæði Kólumbíu og geimgallar systkinanna Riff Raff og Magnetu. Flestir dansaranna fengu sömuleiðis að glitra í glæsilegum glimmerklæðum.

Dansatriðin voru heldur færri en í fyrri stórsýningum Borgarleikhússins en danshöfundinum Lee Proud tókst að galdra fram stórskemmtileg atriði eins og honum einum er lagið.

Óhætt að segja að leikur Björns Stefánssonar, í hlutverki Riff Raff, hafi verið framúrskarandi. Vala Kristín Eiríksdóttir var jafnframt nístandi og sannfærandi sem Kólumbía.

Brynhildur Guðjónsdóttir var lágstemmd í hlutverki Magnetu en hún opnaði og lokaði þessu „sjabbí“ sjóvi á karnivalískan máta.

Arnar Dan Kristjánsson smellpassaði í hlutverk vöðvatröllsins Rocky, sköpunarverks Frank-N-Furters, bæði í söng og líkamlegum styrkleika.

Haraldur Ari Stefánsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttur blésu lífi í lykilpersónurnar tvær sem glata sakleysi sínu innan kastalaveggjanna. Haraldur Ari var einkar sannfærandi sem Brad en Þórunn Arna hefði mátt vera djarfari Janet.

Valdimar Guðmundsson á stutta en eftirminnilega innkomu þegar hinn meingallaði Eddi mætti örlögum sínum. Sú lausn að rúlla honum inn á börum í stað þess að láta hann þeysast um sviðið á mótorhjóli dró verulega úr þeim ótta sem átti að stafa af persónunni sem Frank-N-Furter hafði mistekst að skapa.

Það leikur enginn vafi á því hvers vegna áhorfendur flykkjast á sýninguna, þeir eru komnir til að berja stjörnuna augum. Páll Óskar er elskaðasta óskabarn þjóðarinnar og skín hér eins og perlan sem hann er.

Boðskapur verksins er að blása von í hjörtu fólks sem hefur upplifað sig utangarðs eða útskúfað og sýna því að allir hafa tilgang. Heimurinn er stærri en við höldum og það er nóg pláss fyrir alla, Lifðu – ekki leynast.

Fáir hafa haldið kyndli þessarar baráttu hærra á lofti en Páll Óskar sem virðist klæðskerasniðinn í hlutverk Frank-N-Furter. Á köflum er eins og kynsnillingurinn vakni til lífs á sviðinu en öðrum stundum er eins og hann skipti um ham og breytist í Grinch með trúðslegu yfirbragði.

Leikstjóri sýningarinnar, Marta Nordal, hefði mátt draga úr þessum töktum.

Leikmynd Ilmar Stefánsdóttur var hönnuð að miklu leyti í kringum hugarheim Páls og var hreint út sagt stórkostleg, rétt eins og tónlistin í höndum Jóns Ólafssonar svo óhætt að fullyrða að enginn verði svikinn af því að sjá Rocky Horror Show.

 

Umfjöllunina er að finna í 15.tbl Vikunnar.

Þetta er minn eigin fjársjóður

|
|

Benedikt Máni Möller hefur náð ótrúlegum árangri í tréúrskurði sem hann segir það skemmtilegasta sem hann geri. Benedikt er einhverfur en verkin hans voru sýnd í fimm vikur á bókasafni Reykjanesbæjar nú fyrr á árinu.

Benedikt segist skera helst út menn með skegg, húfur og víkingahjálma en hann geri einnig hnífa, fugla og hunda. „Svo er ég nýbyrjaður að skera út skartgripi,” bætir hann við og heldur áfram. „Það er mjög misjafnt hvað hlutirnir mínir taka langan tíma í vinnslu en ég má varla vera í neinu öðru því ég fer beint á smíðastofuna mína þegar ég kem heim úr skólanum.”

„Ég hlakka alltaf mikið til að komast heim og byrja að tálga og fá um leið fleiri hugmyndir. Stundum fæ hugmyndir þegar ég sé ókunnugt fólk og velti fyrir mér útliti þess. Um þessar mundir er ég til að mynda mikið að spá í nefinu á fólki.”

Óhætt er að segja að verk Benedikts hafi notið umtalsverðrar athygli en fyrr á þessu ári var haldin fimm vikna sýning á bókasafni Reykjanesbæjar þar sem tréútskurður hans fékk sérstakt pláss. Hann segist einnig hafa haldið sýningu fyrir bekkinn sinn í skólanum sem og kennarana. „Ég sé ekki fyrir mér neitt annað en að halda að sjálfsögðu áfram á þessari braut og þegar ég útskrifast úr skólanum langar mig að læra húsamiði og geta jafnvel byggt mitt eigið timburhús. Eftir það væri gaman að læra málmsmíði svo ég gæti smíðað málmhnífa. Í það minnsta vona ég að ég muni aldrei hætta að tálga.”

Viðtalið má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar.

„Fallegt þegar fagfólk þarf að upplifa að vera amatörar“

|||
|||

Björk hvetjandi og sýnir algjört traust.

Sviðshreyfingar í komandi tónleikaferð Bjarkar Guðmundsdóttur eru í höndum Margrétar Bjarnadóttur, danshöfundar og myndlistamanns. Þær kynntust fyrir 15 árum þegar Margrét var barnfóstra Bjarkar.

Margrét Bjarnadóttir segir að lög Bjarkar séu aðaláttavitinn í sköpun sviðshreyfinganna.

Í lok maí mun Björk hefja tónleikaferð sína um heiminn og hélt nokkurs konar generalprufu af tónleikunum í Háskólabíói fyrir skömmu. Tónleikarnir eru liður í útgáfu Útópíu sem er tíunda sólóplata Bjarkar en hún kom út í lok síðasta árs. Hún kemur fram með sjö flautuleikurum, hörpuleikara, slagverksleikara og raftónlistarmanni. Hópurinn hefur verið við æfingar á Íslandi síðastliðnar vikur. Leikmynd tónleikaferðarinnar var frumsýnd í Háskólabíói en hún er hönnuð af Heimi Sverrissyni og smíðuð í Irma studios. Við spurðum Margréti út í verkið og samstarfið við Björk.

„Við höfum þekkst í mörg ár þar sem ég var barnfóstra dóttur hennar í eitt ár fyrir 15 árum. Það var sko yndislegt samstarf. Svo, fyrr í vetur, bað hún mig um að semja hreyfingar fyrir tónlistarmyndbandið við lagið Útópía þar sem flautuleikararnir voru í stóru hlutverki. Það var mjög skemmtilegt og var eins og byrjunin á einhverju sem væri hægt að þróa áfram. Upp úr því spurði hún hvort ég hefði áhuga á að sjá um hreyfingar flautuleikaranna fyrir tónleikaferðalagið,“ segir Margrét.

„Svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi.“

Við vinnsluna á verkinu vildi Margrét finna leið til þess að hreyfingar flautuleikaranna gætu orðið eðlilegur hluti af flutningi þeirra eða framlenging á honum. „Flautuleikararnir, allt konur, eru rosalega færar og ég vildi ekki að hreyfingarnar ynnu á móti tónlistarflutningnum. Það gerði það vissulega fyrst þegar þær voru að læra hreyfingarnar og ná tökum á þeim en svo kom þetta smám saman. Kannski hefði ég ekki haft svona mikla trú á því ef ég hefði ekki verið búin að gera No Tomorrow á síðasta ári, gítarballett okkar Ragnars Kjartanssonar með Íslenska dansflokknum, þar sem dansararnir lærðu að spila á gítar og dansa um leið. Mér finnst svo fallegt tímabil í æfingaferlinu þegar þessar miklu fagmanneskjur þurfa að sætta sig við að verða amatörar í smátíma á meðan þær eru að tileinka sér eitthvað alveg nýtt. Þær eru að gera svo margt sem þær hafa aldrei gert áður og kannski eitthvað sem fáir ef einhverjir flautuleikarar hafa gert – að læra öll þessi lög utanbókar sem sum hver eru í flóknum útsetningum og dansa samhæfðar hreyfingar um leið. Þetta er mjög mikil áskorun. En svo þurfti ég líka að huga að heildarmyndinni, að kaffæra ekki tónleikana í danssporum heldur finna jafnvægi. Sum lög vildu bara kyrrð og þá hlustaði ég á það. Svo eru margir þættir sem spila inn í og hafa áhrif á það sem maður getur gert, eins og til dæmis leikmyndin og skiptingar á flautum á milli laga, sem eru mjög tíðar, þannig að það er að mörgu að huga. En svo er þetta líka eitthvað sem verður áfram í þróun. Það var svo gott að fá tækifæri til þess að vera með æfingatónleika í Háskólabíói og nú höfum við tíma til að breyta og bæta og nostra við smáatriði fyrir tónleikaferðalagið sem hefst í London.“

Frábært að vinna með Björk
Björk skapar sína heima á einstakan hátt en Margrét heldur að hún hafi aldrei áður skapað jafnsjónrænan heim fyrir tónleikaferðalag, sérstaklega á svona tónlistarhátíðum utandyra eins og fram undan eru í sumar. „Það þarf að vera hægt að skella leikmyndinni sem Heimir Sverrisson hannaði upp á hálftíma og skyndilega ertu komin með eitt stykki útópískan heim. Það er svo mikil alúð í öllu, alveg út í minnstu smáatriði, eins og til dæmis grímurnar sem James Merry hannar og býr til fyrir Björk, flautuleikara og hörpuleikara. Hver gríma er einstök og skreytt með pínulitlum perlum sem sjást kannski ekki úr kílómetra fjarlægð á útifestivali en skipta samt mjög miklu máli fyrir stemninguna í heiminum sem hefur verið skapaður.“

Mikið var um dýrðir þegar Björk frumflutti tónleikana í Háskólabíói á dögunum. Mynd / Santiago Felipe

Margrét mun vera með á æfingum í London áður en tónleikaferðalagið hefst og ætlar svo að minnsta kosti að kíkja á hópinn í Róm og sjá hvernig hlutirnir standa. Hún segir að samstarfið við Björk hafi verið frábært. „Hún er hvetjandi og sýnir manni mikið traust en þannig upplifir maður algjört frelsi til að prófa sig áfram. Við ræddum nálgunina en svo var hún aðallega bara mjög hvetjandi. Það hjálpar líka að hafa þekkst í mörg ár og það er svona gagnkvæmur skilningur sem gerir allt auðveldara.

„Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið.“

Lögin eru náttúrlega aðaláttavitinn minn í þessari vinnu. Það er alltaf svo skýr tilfinning í lögunum hennar og þegar ég tengi inn á tilfinninguna í viðkomandi lagi koma hreyfingarnar frekar ósjálfrátt og óþvingað. En hreyfingarnar sem komu hjá mér hentuðu svo ekki alltaf flautuleiknum og þá þurfti ég að aðlaga þær að honum og flautuleikurunum. Ég skil þetta hljóðfæri mun betur núna og það er áhugavert að semja hreyfingar fyrir blásturshljóðfæraleikara þar sem öndunin skiptir miklu máli. Það þýðir ekki að gera þær lafmóðar í einhverjum dansi þannig að þær geti ekki blásið í hljóðfærið þó að þær fari nú reyndar alveg fram á ystu nöf í sumum lögum. En mér finnst mjög gaman að vinna með takmarkanir, þær fara alltaf með mann á einhverjar ófyrirséðar brautir.“

Myndlist og skrif
Margrét kláraði danshöfundanám í listháskóla í Hollandi árið 2006 og hefur unnið sjálfstætt síðan þá. Svo fór hún að vinna meira að myndlist og starfar nú jöfnum höndum sem danshöfundur og myndlistarmaður. „En skrif hafa líka fylgt mér lengi og textar alltaf spilað stórt hlutverk í bæði sviðs- og myndlistarverkunum mínum. Ég hef verið í mastersnámi í ritlist við Háskóla Íslands og næst á dagskrá er einmitt að klára MA-lokaverkefnið mitt þar. Það hefur verið að safnast saman í langan tíma og ég hlakka til að veita því athygli núna.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson og Santiago Felipe

Íslendingar flykkjast til tannlækna í útlöndum

|
|

Fleiri en áður fara í frí til útlanda og fara til tannlæknis í leiðinni. Tannlæknaþjónusta er 50-70% ódýrari í Austur-Evrópu en hér á landi.

Rósa Kristín Benediktsdóttir er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

„Við byrjuðum í mars og ég ætlaði að gera þetta að aukavinnu. En það hefur verið mikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest,“ segir Rósa Kristín Benediktsdóttir, sem er tengiliður ungversku tannlæknastofunnar Madenta í Búdapest.

Mikil ásókn hefur verið upp á síðkastið hjá fólki á miðjum aldri, örorkuþegum og lífeyrisþegum að fara í tannviðgerðir í Austur-Evrópu. Pólland og Ungverjaland eru vinsælustu löndin um þessari mundir. Ásóknin skýrist af því að tannlæknastofur frá löndunum eru með tengiliði hér á landi. Þá hjálpar til að beint flug er til landanna og endurgreiða Sjúkratryggingar tannlæknakostnað fyrir lífeyrisþega, þ.e. örorku- og ellilífeyrisþega.

Oftast er um að ræða dýrari tannviðgerðir á borð tannplönt, það er þegar ný tönn er skrúfuð ofan í rótarstæði, en einnig krónur og brýr og margt fleira. Yngra fólk leitar eftir tannfegrun. Ætla má að tannlæknakostnaðurinn í Ungverjalandi sé 50-70% lægri en hér á landi.

Rósa fór sjálf til tannlæknis í Búdapest árið 2014 og aftur í fyrra. Í kjölfarið ræddi hún við eiganda tannlæknastofunnar Madenta og varð úr að hún gerðist tengiliður hennar hér á landi. Þau réðust í að búa til heimasíðu fyrir tannlæknastofuna á íslensku og auglýsa á samfélagsmiðlum. Undirtektirnar hafa verið framar vonum,“ segir Rósa, sem er með aðstoðarmanneskju sem talar við fólk yfir daginn.

„ … það hefur veriðmikil eftirspurn. Fimm hafa farið út og ég er með tugi pantana frá fólki sem er að skoða það að fara til tannlæknis í Búdapest.“

Þjónustan sem boðið er upp á ytra er nokkuð önnur en fólk á að venjast hér. Algengast er að fólk sendi Rósu röntgenmynd frá tannlækni. Í kjölfarið gerir tannlæknastofan tilboð og útlistar kostnað við tannviðgerðina. Boðið er upp á staðgreiðsluafslætti og ýmislegt fleira, að hennar sögn.

Rósa bætir við að hún hafi fengið misjafnar undirtektir hjá íslenskum tannlæknum.

„Það hlýtur að vera svolítill samkeppnistitringur. Okkar viðskiptavinir hafa margir rætt þetta við sína tannlækna, haft þá með í ráðum og þeir gera sér grein fyrir því að það er ódýrara að fara út og að þjónustan er góð.“

Tannlæknar gefa vinnu sína
Mannlíf leitaði viðbragða Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara, vegna málsins. „Við vitum af því að tannlæknar hafa þurft að gefa vinnu sína því eldra fólk hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Fólk fer í minni aðgerðir en sleppir þeim stærri sem kosta frá hálfri milljón og upp úr,“ segir hún og bætir við að íslenski stjórnvöld hafi skilið eldri borgara eftir hvað snertir niðurgreiðslu vegna tannlækninga. Niðurgreiðslan hafi ekki hækkað síðan árið 2004.

„ … margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.

Hún bendir á að starfshópur hafi nýverið lokið störfum um málið og skilað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það hefur skilað því að 1. júlí verða 500 milljónir króna lagðar til niðurgreiðslu vegna tannlækninga á þessu ári og einn milljarður framvegis frá næsta ári.

„VIð gerum ráð fyrir því að þetta verði með þessum hætti í nokkur ár,“ segir Þórunn. „En þessi biðtími hefur valdið því að mjög margir eru illa haldnir af tannskemmdum og bíða eftir aðgerðum hins opinbera.“

31 fengið endurgreiðslu það sem af er ári
Í júní árið 2016 var gefin út reglugerð um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri en samkvæmt henni eiga sjúklingar rétt á að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annarra aðildarríkja á EES-svæðinu og fá endurgreiddan útlagðan kostnað.

Árið 2016 fór enginn héðan til útlanda vegna tannlækninga og því kom ekki til að Sjúkratryggingar þyrftu að greiða fyrir slíkt. Ári síðar fóru 28 utan þar af 20 til Ungverjalands. Endurgreiðsla til þessara 20 einstaklinga nam rúmum 2,2 milljónum króna.

Það sem af er ári, þ.e. frá ársbyrjun og þar til snemma í mars, hefur 31 einstaklingur fengið endurgreiðslu Sjúkratrygginga vegna tannlækninga. Þar af er eitt barn undir 18 ára aldri. Þar af hafa 12 fengið lækningu á Spáni en 10 í Ungverjalandi. Endurgreiðslan á fyrstu þremur mánuðum ársins nemur rúmum 2,5 milljónum króna.

Úrval af vönduðum og fallegum borðstofuhúsgögnum í Vogue fyrir heimilið

Mynd/Pixabay

Má bjóða þér rómantískan sveitastíl eða stílhreinan módernstíl.

Við hjá Vogue fyrir heimilið erum með úrval af borðstofuhúsgögnum. Við erum meðal annars með vörur frá merkjum eins og Richmond, Karel Mintejens og fleirum. Þetta eru hollensk og belgísk vörumerki. Þetta eru fallegar gæðavörur sem hægt er að sérpanta upp úr bæklingum en að sjálfsögðu erum við með hluta af vörunni í sýningarsal okkar í Síðumúlanum.

Einnig er hægt að fá gjafavöru frá Richmond sem mjög vönduð og falleg lína sem passar vel við húsgögnin. Sú lína er í rómantískum sveitastíl, mikið er um hráan gegnheilan við. Hægt er að velja marga liti af skápum og skenkum sem eru lakkaðir. Þá er hægt að velja höldur, lista og fleira sem gefur aukna möguleika fyrir viðskiptavini að velja eftir sínum smekk.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að endurskipuleggja vöruframboð sitt.

Aftur á móti er línan frá Karel Mintjens stílhreinni og meiri módernlína.
Þar er að finna stækkanleg borðstofuborð, sjónvarpskenki, hillur og margt fleira
fallegt.

Við bjóðum líka upp á vörulínu frá Skandinavian Design og Zilstra þar sem er að finna falleg borðstofuhúsgögn og margt fleira.

Vogue fyrir heimilið er húsgagnaverslun með 67 ára sögu sem er sífellt að
endurskipuleggja vöruframboð sitt. Nú er einmitt verið að standsetja borðstofudeildina en það er alltaf verið að breyta og bæta.

Karel Mintjent er belgískt fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í gegnheilli eik og hefur sinnt íslenskum heimilum yfir 50 ár. Vörulína þeirra er allt frá klassískri eik yfir í stílhreinan módernstíl.
Vogue selur bæði af lager og sérpantanir. Þetta eru einstaklega fallegar og vandaðar vörur í gæðaflokki.

Sjáið úrvalið á heimasíðu okkar www.vogue.is

Vogue fyrir heimilið
Síðmúla 30
108 Reykjavík
Sími: 533-3500
Opnunartímar:
Virkir dagar: 10.00 – 18.00
Laugardaga: 11.00 – 16.00

Vogue fyrir heimilið
Hofsbót 4
600 Akureyri
Sími: 462-3504
Opnunartímar:
Virkir dagar: 09.00 – 18.00
Laugardaga: 10.00 – 14.00

Mannlíf í samstarfi við Stúdíó – Birtíng
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

 

Syngjandi sveifla í sirkustjaldi

Söngleikurinn Slá í gegn er sýndur um þessar mundir í Þjóðleikhúsinu en verkið byggir á lögum eftir hljómsveitina Stuðmenn.

Það er óhætt að segja að öllu sé tjaldað til á Stóra sviði Þjóðleikhússins þar sem söngleikurinn Slá í gegn fylgir titli sínum.

Þrátt fyrir þunnan og fyrirsjáanlegan söguþráð nær hugvitsamleg leikstjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar að draga fram það besta í öllum listamönnum sýningarinnar á réttum augnablikum.

Verkið segir frá þeim Binna og Helgu sem reka farandssirkus við litla ánægju einkadótturinnar Hörpu Sjafnar sem neyðist til að ferðast með þeim um landið í veikri von um að uppfylla æskudraum föður henar um sirkusstjórn. Þegar hér er komið sögu á sirkusinn leið um fáfarið bæjarfélag þar sem þorpsbúa dreymir jafnframt stóra drauma. Litla áhugaleikhúsið þar í bæ er um það bil að leggja lokahönd á uppfærslu sína á Gullna hliðinu en æfingarnar ganga vægast sagt illa. Þar fer sjálfskipaður leikstjóri hópsins, Sigurjón digri, fremstur í flokki en sjálfur vill hann helst leika öll hlutverkin. Í gagnkvæmu vonleysi ákveða fylkingarnar tvær, það er að segja leikfélagið og listamenn sirkussins að leiða saman hesta sína í þeirri einlægu von um að setja eitthvað stórfenglegt á svið og frumflytja fjöllistagjörning. Þegar sjálfur forsetinn boðar komu sína setur hópurinn svo allt í botn og þrátt fyrir heldur vonleysislega byrjun fer sagan að sjálfsögðu vel.

Leikmynd Finns Arnars Arnarssonar er hreint út sagt meiriháttar og búningar Maríu Th. Ólafsdóttur hver öðrum fallegri. Eflaust eru það sirkusáhrifin sem slá ryki í augun en hér voru allar erkitýpurnar mættar til leiks með skeggjuðu konuna og tattúveraða manninn í broddi fylkingar.

Sú nýbreytni undanfarin ár að fá á svið listamenn úr öðrum listgreinum tekst einstaklega vel upp í sýningu sem þessari þar sem fjöllistafólkið fær notið sín eðli söguþráðarins samkvæmt.

Það er jafnframt mikill fengur í danshöfundinum Chantelle Carey sem stýrir nú, meðal annarra nokkrum af þeim hæfileikaríkju drengjum sem blésu eftirminnilegu lífi í ballettdrenginn Billy hér um árið í öðru leikhúsi. Það verður spennandi að sjá þessa stráka stækka á sviðinu á komandi árum.

Lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar, sjóngervingar Inga Bekk sem og aðrar leikhúslausnir eru listilega leystar og þá sérstaklega töfrabragðið í lok sýningarinnar. Töfrar og leikhús eru svo sannarlega bannvæn blanda.

Tónlistin heldur sýningunni svo uppi með tónlistarstjórann Vigni Snæ Vigfússon fremstan í flokki en allir listamennirnir skila þessum sígildu slögurum með stakri prýði.

Það felst ákveðin spenna í sýningum sem þessum þegar handritið er óþekkt og eftirvæntingin hvort uppáhaldslagið muni koma, nær áþreifanleg eftir því sem líður á kvöldið. Hápunktarnir voru margir þó að lokasenan standi lagsamlega upp úr.

 

Umfjöllunin kom fram í 14.tbl Vikunnar.

Mynd / Hörður Sveinsson.

Góður mórall og mikil eftirvænting

Söngleikurinn Moulin Rouge verður frumsýndur í Hörpu annað kvöld.

Greta Salome Stefánsdóttir fer með aðalhlutverk sýningarinnar en hún er einnig framkvæmdarstýra viðburðarins sem einnig verður settur upp í Hofi á Akureyri. „Ég elskaði myndina þegar hún kom út á sínum tíma og þetta er bara svo kjörin tónleikasýning. Lögin bjóða upp á svo risastór söng og dansatriði og það er óhætt að segja að við séum að ganga mjög langt í því.

„Æfingarferlið hefur verið einstaklega skemmtilegt, sérstaklega hjá dönsurunum. Þetta er risastórt verkefni með um hundrað manns og því flækjustigið hátt en möguleiki á mikilli gæsahúð.

En þessi hópur er bara svo frábær og allir svo tilbúnir að ganga langt í að gera þetta sem flottast og það á algjörlega eftir að skila sér í sýningunni. Það er mjög góður mórall í hópnum og mikil eftirvænting.”

Greta segir sýninguna fyrst og fremst einblína á söng og dans en þó bregði fyrir leiknum senum inn á milli. „Við erum að fara hálfgerða millileið sem er mjög skemmtileg. Fólk fær söguna algjörlega í æð en um leið risastór tónlistaratriði. Við erum að taka lögin úr myndinni og færa þau í lifandi búning með hljómsveit, tíu söngvurum, sjö bakröddum, sjötíu manna kór og tólf dönsurum þannig að það er óhætt að segja að gjörsamlega allt sé lagt á borðið.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta blaði Vikunnar.

Mynd / Hafsteinn Snær Þorsteinsson.

Flytja meira inn frá Póllandi

Samskip hefur opnað nýja siglingaleið frá Póllandi.

„Það er verið að byggja gríðarlega mikið og byggingastigið hér mun haldast óbreytt til 2020. Helsta aukning í innflutningi er einmitt byggingarefni frá Póllandi, stálgrindur og fleira. En svo er pólskt samfélag á Íslandi sem þarf að þjónusta,“ segir Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningasviðs Samskipa.

Samskip voru að opna nýja siglingaleið með erlendum samstarfsaðila frá Póllandi, í gegnum Eystrasaltið, Ósló í Noregi og Árósa í Danmörku. Birgir segir að kallað hafi verið eftir bættum tengingum við þetta svæði og sé Samskip nú að svara því.

Verðmæti innflutnings frá Eystrasaltsríkjunum hefur aukist nokkuð á síðastliðnum átta árum. Mesti vöxturinn er á innflutningi frá Póllandi. Verðmætið nam tæpum 5,9 milljörðum króna árið 2010 en var kominn upp í 20,1 milljarð í fyrra. Mesti vöxturinn var frá 2016 til 2017 eða upp á 42% á milli ára.

Halda brúðkaupið á vínekru á Ítalíu

|

Söngvarinn Friðrik Dór Jónsson og unnusta hans, Lísa Hafliðadóttir, ganga í það heilaga í sumar. Í viðtali við brúðkaupsblað Glamour segjast þau ætla að innsigla ástina á Ítalíu.

„Brúðkaupið verður haldið á vínekru í Toskanahéraðinu á Ítalíu. Við vorum byrjuð að skipuleggja brúðkaup hérna heima og komin ágætlega á veg með það. En síðan, eiginlega upp úr þurru, kom sú hugmynd að gera þetta einhvers staðar erlendis,“ segir í viðtalinu, og bætir parið við að þau séu ekkert tengd landinu en finnist ákveðin rómantík umlykja það. Því hafi þau ákveðið að taka af skarið.

„Í framhaldinu ákváðum við að henda okkur í djúpu laugina og kýla á þetta. Við sjáum vonandi ekki eftir því.“

Tæplega hundrað manns eru á gestalistanum, en sökum góðs skipulags segja þau Friðrik og Lísa að lítið verði um forföll.

„Við bókuðum húsið á vínekrunni í byrjun ágúst í fyrra og strax í framhaldinu byrjuðum við að skipuleggja allt,“ segir í viðtalinu. „Það eru lítil sem engin forföll af gestalistanum og ég held að góður fyrirvari leiki þar stórt hlutverk.“

Það er fallegt í Toskana.

Þó að parið ætli að gifta sig erlendis verður samt íslenskur bragur á þessum stóra degi.

„Athöfnin og veislan verða eftir íslensku uppskriftinni. Athöfnin verður hins vegar táknræn svo við verðum ekki með neinn prest en í veislunni ætlum við að hafa veislustjóra og ræðuhöld og enda þetta svo á góðu partíi.“

Tónlistarmaðurinn fær eflaust dygga aðstoð frá bróður sínum, tónlistarmanninum Jóni Jónssyni, og mágkonu sinni, Hafdísi Björk Jónsdóttur, þar sem þau létu pússa sig saman síðasta sumar, reynslunni ríkari.

Aðalmynd / Rut Sigurðardóttir

Loksins litið á brennó sem alvöruíþrótt

||
||

Keppt verður í brennibolta í fyrsta sinn á landsmóti Ungmennafélags Íslands á Sauðárkróki í sumar. Sólveig Sigurðardóttir, talskona brennóiðkenda á höfuðborgarsvæðinu, segir mikla spennu ríkja meðal hópsins fyrir mótinu. Hún vonar að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta skipulega undir handleiðslu þjálfara.

„UMFÍ langar að bjóða upp á hreyfingu sem höfðar til sem flestra. Þeir höfðu heyrt af allskonar hópum um allt land sem voru að spila brennibolta og langaði að höfða til breiðs hóps. Brennibolti er íþrótt sem allir þekkja úr barnæsku og allir geta rifjað upp, tekið þátt og haft gaman af,“ segir Sólveig Sigurðardóttir, talskona Brennóbomba, hóps kvenna á höfuðborgarsvæðinu sem æfir brennibolta.

Í fyrsta sinn í ár verður keppt í brennibolta á landsmóti UMFÍ, Ungmennafélags Íslands. Landsmótið fer fram þann 12. til 15. júlí á Sauðárkróki, en Sólveig segir að Brennóbomburnar hafi verið himinlifandi þegar kom í ljós að brennibolti yrði meðal keppnisgreina.

„Ég gjörsamlega fríkaði út af spenningi þegar ég fékk þessar fregnir og ég held að hinar bomburnar hafi ekki verið síður spenntar.

Það er líka svo gaman að fólk sé loksins farið á líta á brennibolta sem íþrótt og uppgötva hvað þetta er ótrúlega góð og mikil hreyfing. Mér finnst líka mjög jákvætt að það sé verið að breikka rammann þegar það kemur að keppnisíþróttum. Ég vona að þessi áhugi haldi áfram og að í framtíðinni verði hægt að æfa brennibolta á öllum aldri undir handleiðslu þjálfara. Það væri frábært.“

Karlmenn keppa líka

Sólveig er spennt fyrir sumrinu.

Virkir brennóhópar, sem hittast reglulega, eru staðsettir í Kópavogi, Hafnarfirði, Grindavík, á Blönduósi og Sauðárkróki. Sólveig er ekki viss hve mörg lið hafa skráð sig til leiks á landsmótinu, en hún útilokar ekki að aðrir en þeir sem eru virkir brennóðikendur slái til og keppi í sumar.

„Ég er alveg viss um að það séu einhverjir hressir vinahópar eða æfingafélagar sem ákveða að slá til og taka smátrylling í brennó á Landsmóti,“ segir Sólveig.

Sólveig tilheyrir, eins og áður segir, hópnum Brennóbombur sem hittist reglulega allt árið um kring á höfuðborgarsvæðinu og spilar brennó. Sá félagsskapur er eingöngu fyrir konur en á landsmótinu mega karlmenn einnig keppa í sportinu. Hvernig leggst það í Sólveigu?

„Það leggst órúlega vel í mig og ég er mjög spennt að sjá hvernig þátttakan verður. Brennóbomburnar æfa tvisvar sinnum í viku í Kórnum í Kópavogi yfir vetrartímann en eru með eina opna æfingu í mánuði fyrir bæði kynin. Hingað til hefur það vakið mikla lukku. Mér sýnist strákarnir vera alveg jafnspenntir fyrir íþróttinni þegar þeir mæta á völlinn og eru enn spenntari að æfingu lokinni, þegar þeir eru búnir að uppgötva hvað þetta er ótrrúlega skemmtileg og mikil hreyfing,“ segir Sólveig.

Keppt er í brennibolta laugardaginn 14. júlí á landsmótinu og fer fjöldi leikja eftir fjölda þátttakenda. Sólveig segir Brennóbomburnar mjög spenntar fyrir því að keppa í íþróttinni á stærri vettvangi, en þær hafa haldið opinber Íslandsmeistaramót í brennó um áraskeið. „Stemninginn er ótrúlega góð og allar hlakkar til að koma saman á Króknum og hafa ótrúlega gaman af.“

Ólétt og getur ekki keppt

Sólveig hefur æft brennó um árabil og því liggur beinast við að spyrja hvort hún ætli ekki sjálf að keppa í sumar. „Úff, ég ætla ekki að segja þér hvað það er erfitt að svara þessari spurningu neitandi en ég get því miður ekki verið með sem keppandi í ár. Ég er barnshafandi og verð líklega með aðeins of stóran bolta framan á mér í sumar,“ segir Sólveig brosandi.

En þarf maður að vera einhverjum sérstökum hæfileikum gæddur til að spila brennibolta?
„Nei, alls ekki. Þetta er svo fjölbreytt íþrótt að það virðast allir finna sig í einhverju inni á vellinum, hvort sem það er að hlaupa, kasta, grípa eða að forðast boltann. Það sem mestu máli skiptir er að halda í gleðina sem fylgir þessari íþrótt og hafa húmor fyrir sjálfum sér og öðrum. Svo er voða gaman þegar það fær að skína í smávegis keppnisskap svona inn á milli,“ segir Sólveig kankvís og bætir við að það sé lítið mál að slást í hópinn með Brennóbombum á höfuðborgarsvæðinu.

Brennó er góð skemmtun.

„Við æfum í íþróttahúsinu Kórnum í Kópavogi á mánudögum og miðvikudögum klukkan 21.00 yfir vetrartímann en á sumrin er æft úti þegar verður leyfir. Allar konur átján ára og eldri eru velkomnar til okkar. Fyrsti tíminn er alltaf ókeypis og því er um að gera að taka af skarið, kíkja á okkur og prófa. Ég lofa taumlausri gleði og brjálaðri brennslu í sjúklega skemmtilegum félagskap. Það er líka hægt að finna okkur á Facebook undir nafninu Innibrennó. Eins eru hinir brennóhóparnir á Facebook líka.“

Raddir