Við kíktum á fallega hannað eldhús hjá Kristínu Traustadóttur og fjölskyldu á Selfossi, en þau fengu innanhússarkitektinn Sæbjörgu Guðjónsdóttur til liðs við sig fyrr á þessu ári.
Hvernig eldhús vildi kúnninn fá og hver var hugmyndin með hönnuninni?
Þau voru með ýmsar hugmyndir en ekki alveg ákveðin. Mikilvægt var þó að huga að aðgengi þar sem dóttir þeirra notast við hjólastól og því var ákveðið að hafa eldhúsið í „U“ með möguleika á léttu og færanlegu stálborði við endann sem myndar smáeyju. Eldri parturinn af húsinu er síðan um 1960, með fallegum tekkstiga. Viðbyggingin er nýleg og þar var notast við eik í innréttingum. Mér fannst því mikilvægt að flækja efnisvalið ekki meira og því var niðurstaðan skógareik með smálit í svo hún gulni síður eins og eikin á til að gera. Veggir voru svo málaðir í Stilltum frá Slippfélaginu og til að fá gamla lúkkið í takt við húsið voru gólfefni lögð í fiskibeinamynstur.
Mér fannst því mikilvægt að flækja efnisvalið ekki meira og því var niðurstaðan skógareik með smálit í svo hún gulni síður eins og eikin á til að gera.
Var skipulaginu mikið breytt þegar farið var í framkvæmdir?
Skipulaginu var ekki breytt en áður fyrr hafði verið herbergi þar sem borðstofuborðið er og því voru stærðir á gluggum ekki eins. Það var því ákveðið að breyta þeim. Eins var dyrum inn í þvottahúsi lokað og færðar annað. Loftið var svo tekið niður fyrir innfellda lýsingu.
Hvað er það besta við eldhúsið?
„Aðgengið er mjög þægilegt og það er þannig hannað að ekkert drasl safnast á eldhúsbekknum. Svo er mikill kostur hvað eldhúsið ber marga gesti, en við erum líka sex í heimili svo hér er mikill umgangur enda er eldhúsið hjarta heimilisins,“ segir Kristín.
Margrét Ríkharðsdóttir, matreiðslumeistari og yfirkokkur á Bryggjunni Brugghúsi, segir osta vera undir hatti þeirra veitinga sem ómissandi séu í saumaklúbbinn.
„Flestir ostar eiga það sameiginlegt að vera einfaldir og fljótlegir að tilreiða, því henta þeir ákaflega vel í daglegu lífi þar sem tíminn getur oft verið takmarkaður. Mér finnst gott að bjóða fram eitthvað sem inniheldur kannski ögn meira af mat, til dæmis taco með hægelduðu kjöti sem hægt er að elda yfir nótt og undirbúa kvöldinu áður en ostarnir eru engu að síður ómissandi.
Bakaður Ísbúi með hunangi og pekanhnetum
ísbúi-ostur skorinn í bita
hunang eftir smekk
100 g pekanhnetur ristaðar
2-3 greinar af fersku timjan
súrdeigsbrauð
Ísbúi skorinn í teninga og settur í eldfast mót og timjani dreift yfir. Bakað við 160 gráður á blæstri í um tíu til fimmtán mínútur þar til osturinn er bráðinn. Hunangi hellt yfir og muldum pekanhnetum dreift yfir. Súrdeigsbrauðið er svo nýtt til þess að dýfa í mjúkan ostinn en rétturinn er bæði einfaldur, ofur fljótlegur og gríðarlega bragðgóður.
Bakaður geitaostur í parmaskinku á brauði með hunangi eða fíkjusultu
geitaostarúlla
1 pakki parmaskinka
hunang
fikjusulta
snittubrauð eða súrdeigsbrauð
klettasalat
Geitaostur er skorinn í bita og vafinn inn í parmaskinku. Bitarnir eru svo bakaðir á blásturstillingu við 160 gráður í um tíu mínútur. Brauð ristað á meðan klettasalat er sett ofan á brauðið og osturinn þar ofan á. Toppað með ögn af fíkjusultu og hunangi.
Taco með hægelduðum rifnum bjórgrís, BBQ-sósu og mangósalsa
Þessi réttur er bæði einfaldur og þægilegur og auðvelt að undirbúa með góðum fyrirvara áður en gesti ber að garði.
300 g svínahnakki
litlar hveiti-tortillur skornar til helminga
1 l bjór, mæli með pale ale eða pilsner frá Bryggjunni Brugghúsi en þeir fást í ÁTVR
þurrkað krydd eftir smekk t.d einiber, anís, rósapipar
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
BBQ-sósa
klettasalat
1 mangó
1/2 rauð paprika
1/2 rauðlaukur
1 pakki af ferskum kóríander
2 límónur
Best er að notast við eldfast mót eða pott sem má fara inn í ofn. Svínahnakkinn er settur ofan í og bjórnum hellt yfir ásamt lauk og hvítlauk. Þurrkaða kryddinu sömuleiðis bætt saman við og látið malla yfir nóttina í um tíu til tólf tíma á 70 gráðu hita. Slökkt er á ofninum og kjötið látið hvíla eða rifið strax niður.
Mangósalsa
mangó
paprika
rauðlaukur
kóríander
límóna, safinn
Kóríander smátt skorinn og safi úr límónu kreistur yfir. Hrærið vel saman og saltið og piprið. Kjötið er svo hitað upp og BBQ-sósa er hrærð saman við. Gott er að bæta við nokkrum chili-flögum og bragðbæta með salti og pipar.
Tortillur hitaðar á pönnu, svo er byrjað á klettasalati þá er kjötið sett út á og svo toppað með mangósalsa. Einnig er hægt að skipta út svínakjöti fyrir nautakjöt eða kjúkling en einnig er gott að fylla taco með oumph.
Fyrirsætan Alexa Chung gefur góð ráð í ástralska Vogue.
Tískufyrirmyndin og módelið Alexa Chung gaf góð ráð í viðtali við ástralska Vogue á dögunum. Hún þykir með eindæmum smekkleg og flott.
Chung segir alla þurfa að eiga nokkrar klassískar flíkur sem hægt er að nota við hin ýmsu tilefni. Hún líkir þessum klassísku flíkum við grunn sem hægt er að byggja ofan á.
Það sem allir þurfa að eiga í fataskápnum að mati Chung er góðar flíkur úr gallaefni, blazer-jakka, þægileg peysa, hvítur stuttermabolur og góða strigaskó. Þessar flíkur er svo hægt að nota með öðrum áberandi flíkum að sögn Chung. „Þetta er eitthvað til að vega á móti skringilegheitum.“
Þá tekur hún fram að hún forðist reyndar að gefa tískuráð því hún vill heldur hvetja fólk til að finna sinn eigin stíl. „Mér finnst að fólk eigi að finna sína eigin leið, fagna sjálfum sér,“ sagði hún meðal annars. „Hoppaðu í sturtuna og hugsaðu um hvernig þig langar að líða þann daginn, klæddu þig svo eftir því.“
Prófessor við læknadeild í Imperial College í London segir getu læknanema til að vinna í höndunum hafa farið hrakandi með árunum. „Nú snýst allt um að strjúka flatan skjá,“ segir hann.
Roger Kneebone, prófessor við Imperial College í London, segir ungt fólk verja svo miklum tíma fyrir framan tölvur og snjallsíma að það er farið að missa hæfileikann til að vinna í höndunum. Þetta kemur sér illa fyrir læknanema sem þurfa á fínhreyfingum að halda í læknastarfinu, t.d. til að skera upp og sauma sjúklinga.
„Þetta er aðkallandi mál,“ segir Kneebone í viðtali við BBC. Hann segir marga nemendur sína standa sig vel í bóklegum þáttum læknanámsins en illa í því verklega sökum þess að það vantar mikið upp á fínhreyfingar hjá yngri kynslóðum.
Hann segir sig og kollega sína hafa miklar áhyggjur af þessari þróun. „Hér áður fyrr gerði maður ráð fyrir að nemendur hefðu lært þessa praktísku hluti í skóla; klippa út og búa til hluti í höndunum. En ekki lengur,“ segir Kneebone. „Nú snýst allt um að strjúka flatan skjá.“
Hann segir mikilvægt að nú bregðist skólakerfið við og sjái til þess að ungt fólk fái aukna menntun í verklegum greinum þar sem það lærir að nota hendurnar.
Keppandi Gettu betur, Auður Aþena Einarsdóttir, hefur birt opið bréf til Björns Braga Arnarsonar. Hún vill að hann láti af störfum sem spyrill spurningakeppninnar Gettu betur.
Auður Aþena Einarsdóttir, keppandi Gettu betur fyrir hönd Tækniskólans 2018, hefur birt opið bréf til Björns Braga Arnarssonar, spyrils spurningakeppninnar Gettu betur sem sýnd er á RÚV.
Bréfið skrifar hún og birtir á Facebook eftir að hafa séð umfjöllun um myndskeið sem fór í dreifinu á samfélgsmiðlum í gær. Á myndbandinu, sem tekið var um helgina, sést Björn káfa á 17 ára gamalli stúlku.
Auður segir hegðun sem þessa „ólíðandi“ og segir augljóst að Björn ætti að láta af störfum sem spyrill Gettu betur vegna málsins. „Ég vil ekki vera í kringum kynferðisafbrotamann,“ skrifar Auður sem hyggst keppa í Gettu betur á næsta ári.
Um helgina birtist færsla á Facebook-síðu Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi verkefnis á vegum Rauða Krossins, þar sem óskað er meðal annars eftir hlýjum fötum, teppum og tjöldum fyrir heimilislausa.
„Eins og þið vitið þá eru margir af þeim einstaklingum sem leita til okkar heimilislausir. Nú hefur veturinn skollið á og því orðið ansi kalt í veðri. Okkur í Frú Ragnheiði langar að athuga hvort einhver af ykkur hefði tök á að gefa hlýjan fatnað eins og úlpur, lopa- eða flíspeysur eða kuldabuxur. Einnig vantar okkur hlýja svefnpoka, teppi og tjöld,“ segir meðal annars í færslu Frú Ragnheiðar.
Svala Jóhannesdóttir, verkefnisstýra Frú Ragnheiðar, segir viðbrögðin við færslunni hafa verið góð og fólk hefur verið duglegt að koma með fatnað á skrifstofu Rauða krossins í Reykjavík.
„Söfnunin hefur gengið mjög vel og margir hafa komið til okkar með poka og kassa af fötum og öðru. Nú er kominn vetur og eftirspurnin eftir hlýjum fötum er orðin mikil hjá okkur. Margir sem leita til okkar eru heimilislausir og sumir þeirra þurfa að sofa úti, gista í bílum eða geymslum, í tjöldum eða vera í hústökum þar sem stundum er enginn hiti. Aðrir gista stundum í neyðarathvörfum eins og í Gistiskýlinu eða í Konukoti en á daginn þurfa þeir einstaklingar að verja miklum tíma úti. Þetta er ofsalega erfið staða að vera í og það er mikilvægt fyrir einstaklinga í þessari stöðu að hafa aðgengi að góðum fatnað og búnaði, til í raun að lifa þessar aðstæður af,“ útskýrir Svala.
„Margir sem leita til okkar eru heimilislausir og sumir þeirra þurfa að sofa úti, gista í bílum eða geymslum, í tjöldum eða vera í hústökum.“
Hún bendir á að á síðustu fimm árum hefur orðið 95% aukning á fjölda heimilislausra í Reykjavík. „Það er ekki val neins að verða heimilislaus. Þetta gerist vegna erfiðra aðstæðna í lífi fólks og stjórnvöld eru ekki að grípa inni til að reyna að fyrirbyggja það að fólk verði heimilislaust. Einnig gengur ansi hægt að ná fólki úr heimilisleysinu, það eru allt of fáar félagslegar leiguíbúðir og einnig vantar önnur stuðningsúrræði fyrir hópinn.“
Þess má geta að skrifstofa Rauða krossins í Reykjavík er í Efstaleiti 9, 103 Rvk. Þeir sem vilja leggja verkefninu lið geta komið með vörur þanngað á skrifstofutíma. „Við erum komin með marga poka og kassa af fatnaði og við getum enn þá tekið við mun meiru,“ segir Svala að lokum.
Svart, gult og risastór diskókúla mætir okkur á Black Box og þar tekur Jón Gunnar Geirdal vel á móti okkur með girnilegum flatbökum. Við spurðum kappann út í pítsuævintýrið.
Hvenær opnaði Black Box Pizza?
22. janúar 2018 í Borgartúni 26.
Hver hannaði staðinn?
Við hönnuðum staðinn sjálfir enda vorum við með ákveðnar hugmyndir hvernig útlit, andrúmsloft og upplifun við vildum skapa.
Hver er yfirpítsubakari?
Pítsusnillingur Blackbox er Viggó Vigfússon – bakari og conditori, eigandi Skúbb, bestu ísbúðar landsins, og einn af stofnendum OmNom-súkkulaðis. Hann var í kokkalandsliðinu í 12 ár og mögnuð reynsla hans og hæfileikar kristallast í geggjuðum pítsum.
Hvaða hugmynd var lagt upp með við hönnun staðarins?
Við vildum fyrst og fremst hafa staðinn hlýlegan en líka töff og svolítið öðruvísi. Við vildum hafa litapallettuna einfalda og völdum svartan og gulan sem koma vel út saman. Svo er það svarta diskókúlan sem einkennir Blackbox. Nonna Dead-andarnir vaka yfir staðnum en Jón Sæmundur málaði þá beint á vegginn, svo er hér 100 ára gamall drumbur í loftinu og alls konar svolítið skrýtnir gulir hlutir út um allt. Staðurinn er skemmtilega öðruvísi fyrir vikið.
Hvernig stemningu vilduð þið ná fram á staðnum?
Við vildum skapa skemmtilega New York/London-barstemningu utan um skyndibitann pítsuna. Blackbox á að vera öðruvísi, eitthvað nýtt og ögrandi en á sama tíma bara geggjuð pítsa og líklega sú besta hér á landi. Pítsa er nefnilega ekki bara pítsa eins og við segjum, stemningin á staðnum er ótrúlega skemmtileg. Það á nefnilega að vera skemmtilegt að borða pítsu.
Hver er ykkar sérstaða?
Sérstaða okkar eru sjúklega góðar pítsur á hrikalega góðum súrdeigsbotni með heimagerðri ítalskri tómatsósu, toppuð með fjölbreyttu fersku og öðruvísi hráefni.
Hvað heillaði ykkur við staðsetninguna og húsnæðið?
Við höfðum verið með þessa staðsetningu lengi í huga fyrir svona stað. Borgartúnið vex hratt, er lifandi hverfi sem rúllar hratt í gegnum daginn og okkur fannst tilvalið að mæta með pítsupönkarann Blackbox og gefa fólki loksins tækifæri til að fá eldsnögga og eldbakaða pítsu í hádegismat, eða eftir vinnu.
Elska Íslendingar flatbökur?
Miklu meira en það; Íslendingar eru með ástríðu fyrir pítsum. Það eru forréttindi að bjóða svöngum, pítsusjúkum Íslendingum upp á uppáhaldsskyndibitann þeirra, hlutverk sem við tökum mjög alvarlega með bros á vör.
Hvaða álegg er vinsælast?
Það er erfitt að nefna ekki pepperoni en Parma Rucola-pítsan er vinsælasta pítsan okkar og svo kemur trufflumarineraða andalærið vel á óvart enda brjálæðislega gott.
Vinur minn byrjaði nýlega að stunda eitthvað sem heitir útipúl. Ég hélt fyrst að hann væri að grínast þegar hann útskýrði þetta fyrir mér: hann borgar ókunnugri manneskju tugi þúsunda fyrir að skipa sér að hreyfa sig úti í frosti og slyddu. Líkamsrækt fyrir fólk haldið óvenju miklum masókisma.
Hann spurði hvort ég vildi ekki kíkja með honum, því ég væri farinn að mýkjast eftir öll árin á Spáni, þar sem ég bý, og hitti naglann á höfuðið. Ég myndi raunar ganga svo langt að kalla útipúl versta orð íslenskrar tungu, eins konar fullkomna andstæðu orðsins ljósmóðir sem var valið það fallegasta. Orðinu útipúl tekst einhvern veginn að sauma saman tvö mjög óaðlaðandi orð – úti og púl.
Eða kannski hef ég bara fjarlægst ræturnar. Kannski er það tékkneski helmingurinn í mér (mamma er þaðan) sem lætur mig klóra mér í höfðinu yfir öllum þessum Íslendingum sem pynta sig í sjósundi eða cyclothoni Wow eða ganga upp á Esjuna einungis til að ganga aftur niður, eða hlaupa maraþon, hálfmaraþon eða svokallað „skemmtiskokk“ (annað áhugavert orð). Þegar ég sé allt þetta þjáða fólk, eldrautt í framan og sveitt, minnir það næstum á fanga á einhverri súrrealískri fanganýlendu sem neyðist til að taka út refsinguna sína svona.
En líklega hafa Íslendingar þó alltaf verið útipúlarar. Ingólfur Arnarson var fyrsti útipúlarinn, þar sem hann púlaði einsamall við að reyna að gera þetta undarlega land byggilegt. En nei, ekki ég. Ég kýs að nota frítímann minn í eitthvað annað, í eitthvað uppbyggilegt, í nokkuð sem ég kalla innikósí. Innikósi gæti raunar gert tilkall til fegursta orðs íslenskrar tungu, að mínu mati, enda ávísun á hlýjan sófa og nammi og góða mynd, afkvæmi tveggja yndislegustu orða okkar ástkæra, ylhýra – inni og kósí. En það er kannski ágætt að það hugsi ekki allir eins og ég, því þá hefði Ísland líklega aldrei fundist.
„Vorið 2009 fórum við af stað með það verkefni að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja upp í að minnsta kosti 40%. Við héldum að með því myndi konum í stjórnunarstörfum þar með fjölga sjálfkrafa. Hvorugt gerðist. Ekki einu sinni lagasetning dugði til að fjölga konum upp í þetta hlutfall. Ekkert hefur breyst með hlutdeild í stjórnunarstörfum,“ segir Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA).
FKA verður með ráðstefnu miðvikudaginn 31. október þar sem hulunni verður svipt af Jafnréttisvoginni, mælaborði með tölfræðiupplýsingum um jafnrétti bæði í fyrirtækjarekstri og í opinberum störfum. Hún verður líka birt á vef FKA.
Rakel segir marga sammála um að jafnréttismálin skipti máli. Samt sé meirihluti stjórna fyrirtækja landsins enn samansett af körlum. Konur séu þrátt fyrir allt enn um þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum.
„Þetta markmið hjá mörgum karlkynsstjórnendum að fjölga konunum er meira í orði en á borði. Mjög margir tala um að vera hlynntir jafnrétti en það eru í raun miklu færri sem fylgja því eftir innanhúss,“ segir Rakel og viðurkennir að hún sé afar döpur yfir árangrinum. „Á sínum tíma var okkur bent á að í mörg ár hefðum við hitt og talað við aðrar konur. Þær mættu á fundina. Þess vegna fórum við í átak, tengdumst frábærum samstarfsaðilum sem hugsa eins og við og buðum körlum að koma á ráðstefnur okkar svo þeir heyri umræðurnar. Ef körlum er alvara og vilja jafnrétti, eiga þeir að koma á ráðstefnuna,“ segir hún.
Á myndinni eru þær Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (t.v.) og Vigdís Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri PiparTBWA sem er einn af samstarfsaðilum FKA í verkefninu.
Texti / Jón Aðalsteinn Bergsveinsson
Mynd / PiparTBWA.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, greindi frá í viðtali í Morgunkaffinu á Rás 2 í morgun að Dorrit Moussaieff hafi látið taka sýni úr hundi sínum Sámi í þeim tilgangi að láta klóna hann síðar meir. Hér koma nokkrar staðreyndir um hundinn Sám sem er Dorrit ómissandi.
Sámur er 11 ára gamall.
Sámur er blanda af íslenskum og þýskum hundi.
Sámur kemur frá Smáratúni í Fljótshlíð.
Sámur kemur undan tík sem Dorrit sá í heimsókn í Fljótshlíð árið 2008. Hún heillaðist af tíkinni og Ólafur fór þá í að útvega Dorrit hvolp undan tíkinni.
Ólafur gaf Dorrit Sám um sumarið 2008.
Sámur var nefndur eftir Bessastaðar-Sám sem Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands, átti á meðan hann bjó á Bessastöðum.
Það er Dorrit sem á Sám en Ólafur hefur tekið þátt í þjálfun hundsins. Ólafur keypti til dæmis nokkrar bækur um hundahald þegar Sámur kom inn í fjölskylduna.
Sámi hefur verið lýst sem afar hlýðnum og húsbóndahollum.
Dorrit reynir að taka Sám með sér hvert sem hún fer.
Sámur hefur borið merki Björgunarhundasveitar Íslands frá árinu 2014. Hann er þó ekki ekki sérstaklega þjálfaður björgunarhundur.
Dorrit leyfði Sámi að synda í fyrsta sinn árið 2010 á Stokkseyri.
Sýni hafa verið tekin úr Sámi og send til Bandaríkjanna svo hægt verði að klóna hann eftir að hann drepst.
Rithöfundurinn Sólveig Jónsdóttir sendi nýlega frá sér bókina Heiður sem fjallar um fjölskyldu í Reykjavík sem sundrast þegar hinn norður-írski faðir yfirgefur eiginkonu og dóttur og tekur soninn með. Bókin er meðal annars byggð á raunverulegum atburðum úr lífi vina Sólveigar frá Írlandi.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Írlandi, alveg frá því að ég var barn,“ segir Sólveig.
„Ég lærði stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og fór seinna í meistaranám í þjóðernishyggju og þjóðernisátökum í Edinborgarháskóla. Írlandsáhuginn minn blandaðist þá auðvitað inn í námið og ég sökkti mér vel ofan í átakasögu og sjálfstæðisbaráttu Norður-Íra og Íra. Ég fór líka að vinna á veitingastað á kvöldin með náminu og einhvern veginn hittist það þannig á að allir sem unnu þar með mér voru írskir. Við fórum að ræða þessi mál og ég komst að því að þessi átök höfðu á einn eða annan hátt haft áhrif á fjölskyldur þeirra allra. Ég kynntist svo fjölskyldum vina minna vel og bókin er að stórum hluta byggð á sönnum atburðum úr lífi þeirra frá þessum tíma. Það skipti mig þess vegna máli að koma þessum frásögnum áleiðis svo fólk viti að þó svo að búið sé að koma á friði glíma margir enn við eftirköst þessara átaka og ófriðar á einn eða annan hátt. Sjálfsmorðstíðni á Norður-Írlandi er til dæmis mjög há, og sérstaklega hjá þeim aldurshópi sem voru börn og unglingar á meðan átökin voru sem verst.“
„Langflestir voru tilbúnir að ræða þetta opinskátt en aðrir ekki. Sumum fannst það einfaldlega ekki vera eitthvað sem ætti að vera að ræða, nú þegar friður væri kominn á, en fyrir aðra var þetta einfaldlega of sársaukafullt umræðuefni til þess að vera að rifja upp.“
Hitti fólk sem upplifði átökin
Bókin heitir Heiður sem er annars vegar nafnið á aðalsöguhetjunni og hins vegar eitt af umfjöllunarefnum sögunnar. „Hún fjallar um fjölskyldu í Reykjavík í byrjun 9. áratugarins. Faðirinn er norður-írskur en mamman er íslensk. Saman eiga þau son og dóttur, Dylan og Heiði. Einn daginn stingur pabbinn af til Norður-Írlands og tekur drenginn með. Eftir sitja mæðgurnar og það er ekki fyrr en 28 árum síðar sem Dylan hefur samband við Heiði og biður hana um hjálp. Í kjölfarið fer af stað atburðarás þar sem hún reynir meðal annars að komast að því hvað varð til þess að faðir hennar sundraði fjölskyldunni og hvað það var sem honum þótti mikilvægara í átökunum á Norður-Írlandi en friðsælt fjölskyldulífið á Íslandi,“ segir Sólveig.
Mikil rannsóknarvinna liggur að baki bókinni, Sólveig las sér heilmikið til í náminu í Edinborg á sínum tíma og hefur fylgst vel með gangi mála á Norður-Írlandi síðan. „Svo horfði ég á fullt af heimildamyndum, las bæði fræðibækur og dagbækur liðsmanna Írska lýðveldishersins og endurminningar venjulegs fólks frá þessum tíma. Mest lagði ég þó upp úr að fá að heyra sögur frá fólkinu í kringum mig á Norður-Írlandi, fá þetta beint í æð frá þeim sem upplifðu þetta á eigin skinni. Langflestir voru tilbúnir að ræða þetta opinskátt en aðrir ekki. Sumum fannst það einfaldlega ekki vera eitthvað sem ætti að vera að ræða, nú þegar friður væri kominn á, en fyrir aðra var þetta einfaldlega of sársaukafullt umræðuefni til þess að vera að rifja upp. Það kom mér svo sem ekki á óvart að fólk ætti líka erfitt með að tala um þetta. Margt af því sem gerðist á þessum tíma hefur aldrei verið gert upp, fólk ekki fengið réttlæti fyrir sig og sína.“
Bakstur prýðileg hugleiðsla
Heiður er önnur bók Sólveigar og afskaplega ólík fyrstu bókinni hennar, Korteri.
„Það er eiginlega mjög fátt sem þessar sögur eiga sameiginlegt, fyrir utan það að í báðum þeirra eru konur aðalsöguhetjurnar. Og ef til vill líka að ég leyfi mér að flakka svolítið fram og aftur í tíma í þeim báðum. En Heiður fjallar um talsvert þyngri málefni, þó svo að stærðargráða vandamála hvers og eins skapist auðvitað út frá aðstæðum þeirra hverju sinni. Ég var byrjuð að skrifa þessa bók þegar fyrsta bókin mín kom út svo hún var lengi í smíðum. Það var mjög gaman að skrifa þær báðar en mun erfiðara og meiri áskorun að skrifa Heiður,“ segir Sólveig sem nú á eftir nokkra daga í fæðingarorlofi og fer þá að starfa sem textasmiður á auglýsingastofu með fram ritstörfum.
Að auki fæst hún við matargerð og bakstur, til dæmis fyrir tímaritið Gestgjafann. „Mér þykir verulega gaman að elda og baka og hugsa almennt mjög mikið um mat og matargerð. Fyrir mér eru matargerð og uppskriftaskrif annars konar sköpunarvinna en í ritstörfunum en inn í þetta blandast líka ákveðin slökun fyrir mig. Ef ég á til dæmis eitthvað erfitt með að sofna skelli ég stundum í eins og eina köku. Það er líka alveg prýðileg hugleiðsla að horfa á eitthvað bakast í ofninum. Ég mæli með því.“
Og Sólveig er með margar hugmyndir í kollinum og langar að skrifa fleiri bækur. „Ég er byrjuð á tveimur og vonandi næ ég að ljúka annarri eða báðum áður en langt um líður. Ég hef líka verið leiðsögumaður fyrir ferðamenn á Norður-Írlandi og í Skotlandi og langar mikið til að gera meira af því. Annars þarf ég bara svolítið að fara að gíra mig upp í að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir ár í fæðingarorlofi, sem hefur verið alveg dásamlegur tími.“
Sigga Heimis hönnuður stendur í stórræðum þessa dagana. Auk þess að þeytast milli landa í vinnu sinni með ungum hönnuðum fyrir IKEA og vera einstæð móðir með þrjú börn, sem hún viðurkennir að útheimti gríðarlega skipulagningu, vinnur hún með fleiri fyrirtækjum og er ofan á allt saman að undirbúa sýningu á líffærum úr gleri sem hún mun halda í samstarfi við stærsta glerframleiðanda í heimi.
„Já, ert þetta þú?“ segir Sigga sem er stödd á Íslandi þegar hún svarar í símann klukkan 10.30. „Síminn hefur hringt stanslaust síðan hálffjögur í nótt og ég var bara alls ekki viss um hver gæti nú verið að hringja. Það er eitt af því sem fylgir því að þrjóskast við að búa á Íslandi þótt ég sé að vinna út um allar trissur að fólk áttar sig ekki alltaf á tímamismuninum og hringir á öllum tímum sólarhringsins. En það er allt í góðu, svona er þetta bara.“
Eitt af þeim verkefnum sem Sigga fæst við erlendis er að skipuleggja og vinna með hönnunarskólum og -stofnunum og vinna með ungum hönnuðum fyrir IKEA. Um hvað snýst það?
„Ég þekki þá tilfinningu mjög vel að koma úr námi og þurfa að byrja á algjörum núllpunkti,“ útskýrir hún. „Ég þekki það sjálf að þekkja engan í þessum geira og þurfa sjálf að finna mér atvinnutækifæri og ég fæ alveg jafnmikið út úr því og þau að hjálpa þeim að komast inn í þetta svo að þegar þáverandi yfirmaður minn hjá IKEA spurði hvernig mér litist á að sjá um samstarf fyrirtækisins við hönnunarskóla var ég fljót að segja já. Síðan eru liðin mörg ár og umhverfið hefur breyst mikið. Á þeim tíma var aðallega verið að teikna einhverjar ákveðnar vörur sem IKEA var að bæta við hjá sér en nú höfum við víkkað þetta miklu meira. Nú vinnum við í rauninni bara með nýjar hugmyndir og væntingar nýrra kynslóða til sterkra vörumerkja. Heimurinn er að breytast svo hratt og maður verður að vera miklu meira á tánum. Fyrir tíu til fimmtán árum gat IKEA mælt miklu betur hvað markaðurinn vildi en það er ekki hægt lengur. Unga fólkið í dag hefur allt aðrar væntingar og vill ekkert endilega eiga fullt af hlutum. Það eru mörg stór fyrirtæki að takast á við þetta, hvort sem það eru bílaframleiðendur, byggingafyrirtæki eða húsgagnafyrirtæki. Þannig að nú er ég með það verkefni að skipuleggja og sjá um samvinnu IKEA við hönnunarskóla um allan heim.“
„Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig heldur börnin mín líka.“
Mikið púsluspil að samræma vinnu og heimili
Eins og gefur að skilja krefst starfið mikilla ferðalaga og verandi einstæð móðir með þrjú börn þar sem eitt er verulega þroskaskert og þarf mikla umönnun, segist Sigga vera orðin algjör sérfræðingur í því að þrýsta ferðunum niður í mjög stutta pakka.
„Ég er mjög skipulögð þegar ég fer út,“ segir hún. „Samkvæmt reglunni er ég alltaf eina viku í mánuði í Svíþjóð og þar legg ég fram mitt plan um hvernig ég ætla að gera þetta. Það er alls ekki nauðsynlegt að hver ferð taki marga daga. Til dæmis er ég að vinna með skóla í Berlín og flýg þá oft fram og til baka samdægurs. Þetta er allt orðið mun einfaldara en það var, en vissulega er þetta mikið púsluspil og ég þarf að láta ýmislegt ganga upp til þess að þetta smelli saman. Það er bara svo ofboðslega spennandi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt að ég finn leiðir til að láta þetta ganga.“
Sigga er búin að setja húsið sitt á sölu og planið var að eiga annað heimili í Svíþjóð með alla fjölskylduna, en hún segir það ekki eins einfalt og það hljómi.
„Ég ætla aðeins að bíða með að flytja,“ segir hún. „Ég veit alveg hvernig það er þegar fólk er að flytja með börn sem þurfa sértæka ummönun á milli landa, maður hleypur ekkert inn í kerfið þar bara si svona. Það eru endalausir biðlistar alls staðar og ég er ekki alveg tilbúin í það. Það hefur alveg gengið hingað til að vera búsett á Íslandi þótt ég sé í þessari vinnu og ég ætla aðeins að sjá til með þetta.“
Önnur ástæða þess að Sigga er ekki tilbúin að fara af landinu í bili er að hún er komin í stefnumótunarvinnu fyrir Rammagerðina, þar sem hún er í bullandi vinnu og segir frábært að vinna með íslenska handverks- og hönnunararfinn okkar. Fleiri verkefni eru í vinnslu, til dæmis stór verkefni fyrir stórt fyrirtæki í Kóreu.
„Ég hef verið svo ofboðslega heppin – og nú lem ég í allan við sem er hér nálægt mér – að ég hef alltaf haft nóg að gera,“ segir hún. „Ég hef aldrei verið spennt fyrir því að stofna stórt og mikið fyrirtæki og vera með stóran vinnustað. Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig, heldur börnin mín líka.“
Vill opna umræðuna um líffæragjafir
Ofan á öll þessi verkefni og stóran heimilisrekstur er Sigga nú að undirbúa sýningu í Ásmundarsal eftir áramótin þar sem hún mun sýna líffæri úr gleri sem hún hefur hannað, í tilefni af breytingunni á lögunum um líffæragjafir. Hvernig kom sú hugmynd upp?
„Það að eiga barn með sérþarfir opnar nýjar víddir fyrir manni og ég hef með árunum velt því sífellt meira fyrir mér hvernig hönnuðir geti axlað samfélagslega ábyrgð. Ég lenti svo fyrir tilviljun í samstarfi við stærsta glerlistasafn í heimi sem er í New York-ríki og var stofnað af stærsta glerfyrirtæki heims í kringum 1950. Þau ákváðu fyrir nokkrum árum að prófa að vinna með hönnuðum. Þau höfðu alltaf unnið með listamönnum en vildu breyta til og buðu mér og fleiri hönnuðum til samstarfs. Þegar ég var komin í þriggja daga vinnustofu hjá þeim þar sem átti að vinna með munnblásið gler stóð ég og klóraði mér í höfðinu og af einhverri ástæðu datt ég niður á þá hugmynd að búa til líffæri úr glerinu. Eftir það lagðist ég í rannsóknir á því hvar við værum eiginlega stödd í sambandi við líffæragjafir. Þá opnaðist fyrir mér alveg nýr og dálítið óhugnanlegur heimur.
Það er mikill skortur á líffærum í heiminum og fátækt fólk hefur gripið til þess ráðs að selja úr sér líffæri til að komast af og það eru ótal siðferðisspurningar í kringum þetta. Ég ákvað þá að búa til þetta verkefni til að vekja athygli á stöðunni og vekja fólk til umhugsunar um líffæragjafir. Ég hef farið með líffæri á nokkrar sýningar en það sem varð kveikjan að þessari sýningu í Ásmundarsal var þegar þau undur og stórmerki gerðust að Alþingi Íslendinga var einróma sammála þegar það samþykkti ný lög um áætlað samþykki til líffæragjafa sem taka gildi núna 1. janúar. Þetta er mikilvæg breyting sem snertir okkur öll og þarna sá ég tækifæri til að setja upp sýningu sem myndi hvetja fólk til að opna umræðuna um líffæragjafir. Fékk afnot af Ásmundarsal allan janúar og febrúar og þar ætlum við að setja upp undraheim líffæra sem fólk getur gengið inn í og upplifað. Ég er sannfærð um að þetta verður stórkostleg upplifun, en ég segi þér nú nánar frá því öllu síðar. En ég vil samt nefna að Gagarín er samstarfsaðili minn á sýningunni og sömuleiðis Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og nýrnaþegi. Þetta eru lykilaðilar sem munu gera það að verkum að sýningin verður mögnuð!“
Þó svo að gaman sé að bjóða upp á margar tegundir þegar gesti ber að garði er raunveruleikinn sá að sjaldnast er tími til þess að bjóða upp á margar sortir. Ein góð og mikil terta sem dugar fyrir alla gestina er oft besta lausnin og þá er líka minni hætta á að gestgjafinn sitji uppi með mikla afganga, sem hann oftar en ekki freistast til að klára sjálfur dagana á eftir, við þekkjum þetta öll, er það ekki?
Setjið rjóma og edik saman í skál og látið standa í 5-10 mín. (eins má nota 2 1/2 dl af súrmjólk í stað rjóma og ediks). Setjið hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, vanillusykur og salt saman í skál. Bætið rjómanum, eggjum og smjöri út í og hrærið saman. Setjið kaffi út í og blandið vel. Athugið að deigið er þunnt. Setjið bökunarpappír í botninn á tveimur formum sem eru 24 cm í þvermál. Smyrjið formin vel og skiptið deiginu á milli þeirra. Athugið að ef notuð eru form með lausum botni getur verið nauðsynlegt að setja álpappír utan um þau til þess að koma í veg fyrir að deig leki í ofninn. Bakið í u.þ.b. 25 mín. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á kökuna.
KREM
350 g 70% súkkulaði
230 g smjör, við stofuhita
3 msk. kakó
8 msk. flórsykur
1 tsk. vanillusykur
salt á hnífsoddi
4 msk. rjómi
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna. Hrærið smjör, kakó, flórsykur, vanilludropa og salt vel saman þar til blandan er mjúk og kremkennd. Bætið þá rjóma saman við og hrærið áfram. Bætið súkkulaðinu saman við og hrærið áfram af krafti í 3-4 mín. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur þörf á meiri stöðugleika á íbúðamarkaði.
„Þegar íbúðamarkaðurinn fór að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu árið 2011 hafði myndast mikil umframspurn eftir húsnæði enda framboðið talsvert á eftir vaxandi þörf vegna fólksfjölgunar, vaxtar í ferðaþjónustu og lýðfræðilegra þátta. Ójafnvægið náði hámarki á síðasta ári þegar 6 íbúar í landinu bitust um hverja nýja íbúð. Afleiðing þessa varð m.a. til þess að íbúðaverð hækkaði þónokkuð umfram laun í landinu og því varð æ erfiðara fyrir nýja íbúðakaupendur að koma inn á markaðinn. Þar varð unga kynslóðin hvað harðast úti,“ segir Ingólfur.
Hann segir Samtök iðnaðarins hafa barist ötullega fyrir auknu framboði á lóðum til íbúðabygginga enda felist vandinn að miklu leyti í lóðaskorti. „Sveitarfélög hafa brugðist hægt við þessum vanda. Hluti ástæðunnar er að sveitarfélög bera hvert fyrir sig ábyrgð á landskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Engin yfirsýn er yfir heildina á landsvísu né samkvæm áætlanagerð. Sveitarfélög huga því ekki að því að jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði. SI hafa viljað bæta úr þessu með því að stofna öflugt innviðaráðuneyti sem hefur forræði á málaflokknum í heild sinni og getur tekið af skarið til þess að tryggja að svona ójafnvægi, líkt og verið hefur hér á landi síðustu ár, skapist ekki. Til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni kerfisins þarf einnig að einfalda byggingareftirlit og draga úr íþyngjandi kröfum í regluverki, stytta skipulagsferli og auka framboð byggingarsvæða. Loks þarf að tryggja að til staðar séu virk stjórnsýsluúrræði innan málaflokksins.“
Í byggingu eru nú 5.799 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það er um 19% aukning frá því í talningu SI í mars, að sögn Ingólfs. „Í ljósi þessarar talningar spá SI því að í ár verði fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða umtalsverðan vöxt frá því í fyrra en þá voru nýjar íbúðir aðeins 1.337. Á sama tíma er að draga úr fólksfjölgun á svæðinu. Betra jafnvægi virðist því vera á íbúðamarkaðinum í ár en hefur verið á síðustu árum og sést það í verðþróuninni en hægt hefur umtalsvert á verðhækkun húsnæðis.“
Hann segir að til að hindra svona ástand þurfi langtímahugsun. „Áætlað er að það þurfi 45 þúsund nýjar íbúðir á landinu öllu fram til ársins 2040 og 33 þúsund af þeim þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Til að unnt sé að leysa þetta verkefni vel þurfum við framsýni af hálfu ríkis og sveitarfélaga, meiri stöðugleika, aukna hagkvæmni og meiri skilvirkni í byggingu íbúðarhúsnæðis en verið hefur,“ segir Ingólfur að lokum.
Á bilinu fimm til sjö þúsund flóttamenn frá Mið-Ameríkuríkjunum Gvatemala, Hondúras og El Salvador stefna í átt að suðurhluta landamæra Bandaríkjanna þar sem þeir freista þess að hefja nýtt og betra líf. Fólkið sem ferðast ýmist fótgangandi eða í rútum er að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu en flestir flóttamannanna koma frá Hondúras þar sem morðtíðni er sú hæsta í heimi.
Hópgöngur sem þessar eru tíðar en þetta er sú fjölmennasta til þessa og sú sem vakið hefur langmesta athygli fjölmiðla vestanhafs. Þar spilar tímasetningin lykilhlutverk því innan við tvær vikur eru til þingkosninga í Bandaríkjunum og ferðalag flóttafólksins er orðið eitt helsta hitamálið í kosningabaráttunni. Þar hefur forsetinn Donald Trump farið fremstur í flokki. Hann hefur hótað því að koma hernum fyrir á landamærunum við Mexíkó sem og að skera á efnahagsaðstoð við Mið-Ameríkuríkin þrjú.
Leggja á sig 4.000 kílómetra ferðalag
Göngurnar nefnast á ensku „caravan“ og eiga uppruna sinn í því að grasrótarsamtök hvöttu flóttamenn sem leita til Bandaríkjanna til að ferðast í hópum enda leiðin löng og hættur á hverju strái. 160 flóttamenn lögðu af stað frá San Pedro Sula, næststærstu borg Hondúras, þann 13. október en fljótlega bættist í hópinn sem taldi 5000 manns þegar komið var að Tecún Umán í Gvatemala, stór hluti þeirra konur og börn. Þaðan freistuðu flóttamennirnir þess að komast yfir landamærin til Mexíkó og kom til átaka á landamærunum en stjórnvöld í Mexíkó gátu þó ekki komið í veg fyrir að þúsundir manna kæmust yfir landamærin þar sem þau söfnuðust saman í borginni Tapachula. Þaðan var haldið norður á bóginn á mánudaginn.
Beita ríki Mið-Ameríku þvingunum
Bandaríkjastjórn hefur gert hvað hún getur til að hefta för fólksins. Þeim skilaboðum var komið áleiðis að ef ríkisstjórnir landanna þriggja stöðvuðu ekki fólkið yrði því svarað af hörku. Þegar hópurinn var kominn til Mexíkó lýsti Trump því yfir að efnahagsaðstoð til landanna þriggja yrði skorin niður en Bandaríkin veittu samtals yfir hálfum milljarði króna í efnahagsaðstoð til þeirra í fyrra. Þá hafa Bandaríkin beitt Mexíkó miklum þrýstingi vegna málsins en tilraunir til að stemma stigu við straumnum hafa litlu skilað.
Vatn á myllu Trumps?
Donald Trump hefur notað málið til að kveikja í stuðningsmönnum sínum fyrir þingkosningarnar þann 6. nóvember. Hann segir fólkið ógn við þjóðaröryggi og hefur sagst ætla að senda herinn að landamærunum að Mexíkó þótt hann þurfi til þess stuðning þingsins. Sömuleiðis segir hann þetta sýna mikilvægi þess að repúblíkanar verði áfram við stjórn í báðum deildum þingsins og fjölmargir frambjóðendur Repúblíkanaflokksins hafa tekið undir þennan málflutning Trumps.
Hverfandi líkur á hæli
Óvíst er hversu margir muni ná að bandarísku landamærunum en ljóst er að fæstir munu fá draum sinn uppfylltan. Í síðustu göngu af þessu tagi sem farin var í mars héldu 700 flóttamenn af stað frá Hondúras og taldi gangan 1.200 manns þegar mest var en ekki nema um 228 komust svo langt að sækja um hæli. Ellefu voru handteknir fyrir að reyna að komast ólöglega yfir landamærin. Lögum samkvæmt ber bandarískum stjórnvöldum að veita fólkinu málsmeðferð en tölfræðin sýnir að í langflestum tilvikum er umsókn þess hafnað.
Fleyg ummæli
„Gvatemala, Hondúras og El Salvador gátu ekki komið í veg fyrir að fólk yfirgæfi landið þeirra og kæmi ólöglega inn í Bandaríkin. Við munum nú byrja að stöðva, eða skera verulega niður, þá miklu efnahagsaðstoð sem við höfum veitt þeim.“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna
Þjóðþekktir Íslendingar sem hafa tekið U-beygju á starfsferlinum.
Úr tónlist í tannhvíttun
Eyjólfur Kristjánsson, betur þekktur sem Eyvi, er að heita má kanóna í íslensku tónlistarlífi því eftir hann liggja meira en 200 lög. Þ.á m. Eurovision-slagarinn Nína sem er fyrir löngu búinn að skipa sér sess með helstu dægurlagaperlum þjóðarinnar. Marga rak því í rogastans þegar meistarinn upplýsti í viðtali fyrr á árinu að hann hefði söðlað um og væri farinn að vinna við … tannhvíttun. Já, Eyvi hefur svissað úr söngnum yfir í snyrtibransann og ku þetta vera í fyrsta sinn í 30 ár sem kappinn er í fastri vinnu.
Snýr sér að innanhússhönnun
Söngvarinn Friðrik Dór hélt fyrir skömmu tónleika í Kaplakrika sem hann tilkynnti að yrðu síðustu tónleikar hans í bili. Hann ætlar nefnilega að söðla alveg um, láta gamlan draum rætast og flytja til Ítalíu með fjölskylduna. Ástæðan fyrir búferlaflutningunum er sú að Friðrik hyggst nema innanhússhönnun á Ítalíu enda segist hann hafa haft áhuga á hönnun frá níu ára aldri þegar hann fékk að mála herbergið sitt dökkblátt og eiturgrænt. Áhuginn jókst svo enn frekar við áhorf á Innlit-útlit og lestur Bo bedre frá tólf ára aldri. Það má sem sagt í rauninni kenna Völu Matt um hvarf söngvarans ástsæla af tónlistarsenunni. Mikil er ábyrgð hennar.
Dagfinnur dýralæknir
Alþingi hefur stundum verið líkt við dýragarð og því kannski við hæfi að þar skuli sitja menntaður dýralæknir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er með embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og starfaði lengi sem dýralæknir áður en leiðin lá í pólitíkina. Segja mætti að sú reynsla hafa nýst Sigurði Inga vel á þingi því gagnstætt forvera sínum í Framsókn, sem hafði einstakt lag á að strjúka köttum öfugt, þá þykir Sigurður Ingi yfirleitt nálgast pólitíska mótherja sína af mikilli yfirvegun og nærgætni. Þar kemur reynsla dýralæknisins af styggum skepnum eflaust að góðum notum.
Náttúrutalent og núdisti
Ellý Ármanns sigraði hjörtu þjóðarinnar sem sjónvarpsþula á RÚV fyrir margt löngu og starfaði síðan árum saman sem blaðamaður á Vísi þar sem segja má að hún hafi rutt brautina fyrir vinsældir krassandi slúðurfrétta af fræga fólkinu. Nú er Ellý sjálf orðin viðfangsefni slúðurfréttanna, en vefmiðlar halda vart vatni yfir nýjustu framleiðslu hennar, nektarmyndum af erótískara taginu þar sem hún sjálf og unnusti hennar, Hlynur Jakobsson, eru talin vera fyrirmyndirnar. Ellý er þó leyndardómsfull þegar spurt er út í þá hlið málsins, en eitt er víst að hún er hvergi nærri hætt að kitla slúðurtaugar landans. Við bíðum spennt eftir næsta útspili frá henni.
Óperusöngvari gerist áhrifavaldur
Óperusöngvarinn og sjarmatröllið Bergþór Pálsson sýndi að honum er meira til lista lagt en að þenja raddböndin þegar hann birtist landsmönnum í þættinum Allir geta dansað, vel greiddur og tanaður. Þátttökunni fylgdu miklir rykkir og hnykkir og kílóin fuku af Bergþóri. Síðan þá hefur söngvarinn síhressi farið hamförum á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur lyft lóðum, farið í fallhlífarstökk, rifið sig úr að ofan og mært hreinsiefni (sem hlaut viðurnefnið „Bergþórssápan“) en rithöfundurinn Jónína Leósdóttir var ein þeirra sem ákvað að prófa ofurefnið og sagði á Facebook að það hefði verið hápunktur helgarinnar. Bergþór er því ekki lengur bara söngvari heldur áhrifavaldur og vinsæl samfélagsmiðlastjarna.
Aftur til upphafsins
Vigdís Grímsdóttir var löngu orðin einn dáðasti og virtasti rithöfundur þjóðarinnar þegar hún söðlaði alveg um fyrir nokkrum árum og réði sig sem kennara við Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi á Ströndum. Mörgum kom þessi kúvending í opna skjöldu en Vigdís er lærður kennari og starfaði sem slíkur þegar fyrstu bækur hennar slógu í gegn. Það má því segja að hún hafi snúið aftur til róta sinna í fámenninu í Árneshreppi þar sem hún er engu minna elskuð og dáð af nemendum sínum en hún er elskuð og dáð af lesendum sínum um allt land. Til allrar hamingju fyrir okkur hefur hún þó haldið áfram að skrifa með fram kennslunni og ekki alveg snúið baki við rithöfundarferlinum.
Rapparinn sem varð hagfræðingur ársins
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins 2017 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Sölvi var áður einn af röppurunum í hljómsveitinni Quarashi sem naut gríðarlegra vinsælda fyrir áratug eða svo. Fáir hafa sennilega séð það fyrir sér að nokkrum árum síðar yrði honum hampað sem besta hagfræðingi þjóðarinnar. Enda sagði hann við móttöku verðlaunanna að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins þar sem öll þau verðlaun sem hann hefði tekið við fram að því hefðu verið vegna tónlistarinnar. Plötur Quarashi seldust í bílförmum, bæði á Íslandi og í Japan, og ekki ólíklegt að hagfræðiheili Sölva hafi verið driffjöðrin á bak við velheppnaða markaðsetningu platnanna.
Nýtur sín á hinu pólitíska sviði
Helga Vala Helgadóttir lærði meðal annars leiklist áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna og er óhætt að segja að þar fái leikrænir hæfileikar hennar að njóta sín til fulls. Þannig tóku flestir eftir þegar Helga Vala skundaði burt, full vandlætingar, af Þingvöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og „fordómaseggur“, hélt hátíðarræðu á fullveldisafmælinu. Eða þegar Helga Vala húðskammaði Eyþór Arnalds fyrir að „hamast af öllu afli“ á Degi B. Eggerts í braggamálinu og spurði hvort ekkert væri „heilagt í pólitísku stríði?“ Pólitískir andstæðingar Helgu Völu hafa sakað hana um sýndarmennsku en þarna sannast einfaldlega sú fornkveðna vísa að stjórnmál eru leiksvið og þingkonan skelegga kann að nýta sér það.
Þau Helga Gvuðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason taka vel á móti okkur á lifandi heimili sínu í gamla Vesturbænum. Saman reka þau skartgripaverkstæðið og verslunina Orrifinn skartgripir í sjarmerandi húsnæði við Skólavörðustíg 17a.
Tignarlegt 90 ára gamalt húsið stendur við kyrrlátan göngustíg sem þau segja kunnuga kalla Borgarstíginn. Íbúðin er tæplega 150 fm að stærð og búa þau á fyrstu hæð og í kjallara hússins. „Við höfum búið hér í rúm tvö ár og það er mjög friðsæl og barnvæn fjölskyldustemning hérna, en við fluttum nánast úr næsta húsi svo ísskápurinn fór bara yfir á hjólabretti!“ segir Orri og hlær. „Við elskum að vera hérna, staðsetningin er náttúrulega æðisleg og þetta er svo nálægt miðbænum.“
Aðspurð um hvort þau hafi farið í einhverjar endurbætur segjast þau ekki miklu hafa breytt öðru en farið í smávægilegar breytingar á eldhúsinu, pússað og lakkað parketið og málað. „Fyrri eigandi sagði okkur að parketið á gólfinu væri íslenskt og kæmi frá Húsavík. Skemmtilegt er að segja frá því að í einni fjölinni sem liggur við stigann er föst byssukúla eða hagl, en hún hefur líklega verið í trénu sem var notað í gólfið.“
KAÓTÍSKUR OG LITRÍKUR STÍLL
Greinilegt er að heimilisfólk er ekki hrætt við að nota sterka liti og segist Helga hafa rosalega sterkar skoðanir á þeim. „Ég var alveg með á heilanum að vera með eggaldinfjólubláan einhvers staðar, en fjólublái liturinn hefur verið partur af lífi mínu síðan ég var barn og ég tók einhverju ástfóstri við hann. Við höfum ferðast mikið um Suður-Ameríku og urðum mjög heilluð af litanotkuninni þar og hverju þau þora! Í eldhúsinu reyndum við að ná fram Karíbahafsstemningu með þessum bláa lit, sem minnir okkur á þegar flogið er yfir eyju og maður sér grynningar í sjónum. Þessi skandinavíski grái stíll er alls ekki okkar.“
Hvaðan koma hlutirnir ykkar? „Við kaupum rosalega sjaldan húsgögn, en höfum fengið margt gefins frá vinum og fjölskyldu – við erum mjög hrifin af því að nýta. Svo söfnum líka við uppstoppuðum fuglum, en það er áhugamál sem fæstir skilja.“
Veggina prýða fjölmörg eftirtektarverð listaverk. „Við erum með töluvert af verkum eftir Gabríelu Friðriks, systur mína, og að auki er Ragna Róberts móðursystir hans Orra en við erum mjög heppin að hafa tvo svona æðislega listamenn í fjölskyldunni,“ segir Helga.
Hvaða listamenn eða hönnuðir eru í uppáhaldi, aðrir en systir og móðursystir? „Við erum mjög hrifin af húsgögnum eftir Daníel Magnússon, en þau eru ótrúlega vel gerð og endast!“ Þau bæta við að uppáhaldslistamaður Helgu sé Frida Khalo og Orra sé austurríski málarinn Egon Schiele. Aðspurð um uppáhaldsverslunina nefna þau The Evolution Store í New York, en þar má kaupa skeljar, steingervinga, uppstoppuð dýr, skinn, beinagrindur og fleira í þeim dúr en Helga segir þau Orra hafa smekk fyrir þjóðlegum munum víðsvegar að úr heiminum.
Við göngum niður litríkan stigann og rekum strax augun í einkar skemmtilegt gólfið. „Þetta eru steinar úr Djúpalónssandi, en fyrri eigendur dúlluðu við þetta ásamt baðherberginu.“ Baðherbergið minnir svolítið á að vera inni í helli, en loft og veggir liggja saman sem heild og hornin eru öll rúnuð, á veggnum við baðið er svo vönduð mósaík af haföldum. Það er allt öðruvísi stemning í þessu baðherbergi.
Okkur lék forvitni á að vita hvernig starfsferill í skartgripasmíði varð fyrir valinu. „Ég starfaði á gullsmíðaverkstæði í New York og lærði demantsísetningar þegar ég var búsettur þar, en ég lauk svo náminu hér heima árið 2000,“ segir Orri. „Systir mín bjó úti og ég ætlaði í heimsókn yfir jólin 1995 og svo bara ílengdist ég, seinna sótti ég um græna kortið og í framhaldi af því var ég í fimm ár úti og er nú bandarískur ríkisborgari.“
Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir Íslendinga ekki vera betur varða fyrir efnahagslegum áföllum nú en fyrir tíu árum þegar hrunið átti sér stað. Hann telur að stjórnmálamönnum hafi mistekist að tryggja landsmönnum efnahagslegt skjól.
„Við erum ekkert betur varin fyrir efnahagslegum áföllum en fyrir tíu árum þegar hrunið skall á okkur. Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur segir aðgerðir stjórnvalda meðal annars felast í aðildarumsókn að Evrópusambandinu, fríverslunarsamningi við Kína og nánari tengslum við ríki sem sýni málefnum Norðurskautsins áhuga. „Nú tala ráðamenn um að okkur myndi farnast best með því að fylgja Bretum, eftir að þeir ganga úr Evrópusambandinu, og gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.“
Baldur kynnti í vikunni bókina „Small States and the Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs“ sem fjallar um pólitísk, efnahagslega og félagslega snertifleti Íslands við helstu ríki, efnahagssvæði og alþjóðastofnanir. Þetta er rannsókn unnin undir forystu hans og rannsóknateymis við Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands. Ætla má að þetta sé ein víðtækasta rannsókn sem unnin hefur verið á alþjóðasamvinnu Íslendinga.
Baldur segir bókina snúast um tvennt. Annars vegar er þar sett fram kenning um skjól. Samkvæmt henni glíma smáríki við innbyggða veikleika á borð við lítinn og sveiflukenndan heimamarkað, takmarkaða varnargetu og litla stjórnsýslu. „Lítil ríki eru eðlilega vanmáttugri en þau stóru. Þau þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana innanlands og erlendis til að vega upp á móti þessum veikleikum. Að mínu mati er það grundvallaratriði fyrir stjórnmálamenn í litlum ríkjum að sætta sig við þessa innbyggðu veikleika. Ef þeir horfast ekki í augu við þá, munu þeir ekki grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr þeim,“ segir Baldur.
Skjólkenningin sem Baldur nefnir kveður á um að smáríki þurfi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól til að koma í veg fyrir áföll eins og efnahagshrun og netárásir. Ef smáríki verði hins vegar fyrir efnahagsáfalli eða netárás, þurfi það að geta leitað aðstoðar þegar í stað. Í þriðja lagi þurfi smáríkið líka að geta fengið aðstoð við uppbyggingu eftir slíkt áfall.
„Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist.“
Höfðum við þetta fyrir síðasta hrun?
„Nei, við höfðum það ekki og við höfum það ekki heldur í dag,“ segir Baldur og nefnir sem dæmi möguleikana ef nýtt efnahagslegt áfall ríður yfir með gjaldþroti annars stóra íslenska flugfélagsins eða mögulega beggja með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahag landsins og lífskjör fólks. Utanaðkomandi stuðningur gæti dempað þau áhrif. „Við höfum engan til að leita eftir aðstoð hjá, frekar en fyrir áratug, nema þá aftur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ segir hann.
Í bók Baldurs eru í samræmi við þetta skoðuð tengsl Íslands við Bandaríkin, Norðurlöndin, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, aðildina að EFTA, EES og Schengen. Jafnframt er skoðað hvar hugsanlegt sé að finna skjól fyrir Ísland í framtíðinni og rýnt í efnahagslega, pólitíska og félagslega þætti.
Baldur segir Bandaríkin hafa um árabil veitt Íslandi skjól, jafnt í efnahagsþrengingum sem milliríkjadeilum. Íslendingar hefðu líklega ekki unnið þorskastríðin nema vegna diplómatísks stuðnings Bandaríkjanna. Með brotthvarfi Varnarliðsins árið 2006 var ljóst að skjólið var ekki vestra lengur. Það kom líka í ljós í efnahagshruninu.
Félagslegt skjól hefur verið að finna á hinum Norðurlöndunum og leita Íslendingar enn þar eftir fyrirmyndum og samstarfi við helstu stofnanir. „Aðildinni að EES fylgir líka umtalsvert félagslegt skjól og er það verulega vanmetið, að okkar mati. Íslenskt vísindasamfélag væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki aðgang að samstarfsneti erlendra fræðimanna og styrkfénu sem fæst með Evrópusamvinnunni. Aðgangur að menntastofnunum í Evrópu er lykillinn að framþróun íslensks samfélags,” segir Baldur.
Að mati Baldurs felst umtalsvert efnahagslegt skjól í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. „Þar erum við hluti af stærri markaði. Við erum með löggjöf sem hefur stóraukið samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, aukið hagvöxt, auðveldað útflutning og bætt lífskjör í landinu. Til viðbótar skipti sameiginlegur vinnumarkaður á EES-svæðinu öllu máli. Flæði vinnuafls til og frá landinu dempar áhrif þeirra efnahagssveifla sem lítil hagkerfi lenda í,“ segir hann en bætir við að á sama tíma veiti EES-samningurinn okkur falskt öryggi. Ísland sé ekki meðlimur í klúbbnum, ekki innan ESB.
„Aðild að EES veitir ekki efnahagslega aðstoð til að fyrirbyggja hrun, stuðning þegar hrun dynur yfir og hjálp við uppbyggingu. Það sást best í hruninu fyrir tíu árum,“ segir Baldur.
Félög launafólks hafa nú mörg hver birt kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga. Af þeim má ljóst vera að ærið verkefni bíður samningsaðila; verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ljóst er að metnaður forystufólks verkalýðsfélaga er mikill fyrir hönd umbjóðenda sinna og fyrir það ber að hrósa, sem og þann mikla baráttuanda sem ríkir innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að við höfum öll færi á að lifa mannsæmandi lífi á laununum okkar.
Hafandi fylgst með þjóðmálum ansi lengi þykist ég greina annan tón í forsvarsmönnum atvinnurekenda. Mér finnst þeir opnari fyrir ýmsu sem áður hefur verið talið útilokað og vonast til þess að þetta gefi góðan tón fyrir samningana. Oftar en ekki hefur ferlið í kjarasamningum verið þannig að verkalýðshreyfingin setur fram kröfur sínar, atvinnurekendur loka á þær allar og síðan sest fólk að samningaborði.
Ríkisstjórnin tók strax aðra stefnu hvað vinnumarkaðinn varðar en lengi hafði verið við lýði. Fundað var með aðilum í stjórnarmyndunarviðræðum og eftir stofnun ríkisstjórnar hafa verið haldnir tíu fundir. Nokkrum verkefnum er lokið, hækkun atvinnuleysistrygginga, hækkun hámarksgreiðslna Ábyrgðarsjóðs launa og niðurlagning kjararáðs, en fjölmörg eru enn í skoðun. Þar má nefna hagsveifluleiðrétt atvinnuleysistryggingagjald, úttekt á Fræðslusjóði, starfshóp um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga, tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar og ýmislegt fleira.
Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt að unnið sé að ýmsum málum sem eiga eftir að koma launafólki – og raunar samfélaginu öllu – vel. Til dæmis breytingar í skattkerfinu, lækkun á tryggingagjaldi og það hvernig skattbyrði verður best létt af tekjulæsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þá er ljóst að taka verður rækilega til hendinni í húsnæðismálum.
Kjarasamningar eru hins vegar á milli launafólks og atvinnurekenda. Ríkið kemur að sumum þeirra sem launagreiðandi, en slíku er ekki að heilsa á almenna markaðnum. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er fyrst og fremst að semja um kaup og kjör félagsmanna. Það er ekki í hennar höndum að taka ákvarðanir sem er okkar alþingismanna að taka sem handhafa löggjafavaldsins. Að sjálfsögðu er eðlilegt og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin komi skoðunum sínum á umbótum á framfæri, en þær geta aldrei orðið krafa á stjórnvöld.
Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að greiða fyrir málum og hún hefur þegar sýnt það í öllum sínum gjörðum að svo er, bæði með samráði og þeim verkefnum sem hér hafa verið talin upp. Fyrstu skref í skattkerfisbreytingum sem birtust í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár eru í anda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að þær gagnist best tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þar er verið að hækka barnabætur svo um munar, hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu og samræma viðmiðunarfjárhæðir í skattkerfinu þannig að neðri og efri mörk þróist með sambærilegum hætti.
Það verður áhugavert að sjá hvernig aðilum kjaraviðræðna tekst að nálgast hver annan. Íslenskt samfélag er ríkt að verðmætum og við ættum öll að geta haft það býsna gott. Það er von mín að kjarasamningar skili raunverulegum kjarabótum og bæti líf og kjör þeirra sem svo sannarlega þurfa á því að halda. Það á að vera metnaðarmál okkar allra að fólk fái vel greitt fyrir störf sín og að lífskjör batni.
Tveir fyrrum starfsmenn kaffihúsins og ísbúðarinnar Joylato við Njálsgötu 1, báðir erlendir ríkisborgarar, segja farir sínar ekki sléttar í samtali við blaðamann Mannlífs. Þeir segjast ekki hafa fengið laun samkvæmt kjarasamningum og annar þeirra fékk aðeins stöku vasapeninga úr sjóðsvél verslunarinnar. Þá hafi rekstraraðilar þrýst á starfsmennina um að stunda hugleiðslu og skírlífi.
Starfsmennirnir segja jafnframt að flest starfsfólk fyrirtækisins komi víðs vegar að úr heiminum og tilheyri alþjóðahreyfingu Sri Chinmoy og fái aðeins greidda vasapeninga. „Þetta er eins og eitthvað stórundarlegt költ, og fólkið kallar sig lærisveina Sri Chinmoy,“ segir annar tveggja viðmælenda Mannlífs, kona á þrítugsaldri.
Konan sem starfaði hjá fyrirtækinu árið 2016 segist hafa fengið vinnuna fyrir tilviljun. Hún var ekki með íslenska kennitölu og þar af leiðandi ekki bankareikning heldur. Hún segir yfirmann sinn hafa lofað að aðstoða hana við að leysa úr því „Ég fékk starfsþjálfun hjá einum lærisveininum en eftir aðeins tvær vikur í starfi þurfti eigandinn að fara til útlanda og fól mér að bera ábyrgð á rekstrinum á meðan. Ég sá um að panta vörur, sjá um uppgjör og mannaráðningar. Eigandinn var nánast aldrei við,“ segir hún.
Konan segist hafa samið um 1500 kr. í tímakaup en það hafi síðan hækkað upp í 1750 kr. þegar ábyrgð hennar jókst. Hún hafi hins vegar lítið fengið af þessum launum, og aldrei launaseðla. „Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“
Segja skírlífi skilyrði
Þegar þarna var komið sögu var konan á hrakhólum með húsnæði og hafði ekki efni á húsaleigu. Hún var þá nýbúin að ráða landa sinn og kunningja, karlmann á þrítugsaldri. Hann leigði litla íbúð og skaut skjólshúsi yfir konuna. Maðurinn hefur svipaða sögu að segja. „Lærisveinarnir þurftu að vakna fyrir klukkan sex, hlaupa daglega, hugleiða í hugleiðslustöðinni og einu sinni á dag þurfti fólkið að biðja eða hugleiða við mynd af Sri Chinmoy. Kynlíf og náin sambönd voru bönnuð og ég mátti t.d. ekki vera einn í eldhúsinu með konu,“ segir hann og bætir við að þau hafi heldur ekki mátt hlusta á aðra tónlist en frá Sri Chinmoy.
„Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“
„Skattinum hafði aldrei verið skilað“
Starfsmennirnir fyrrverandi segjast hafa fundið fyrir miklum þrýstingi að ganga til liðs við hreyfinguna. „Kona úr költinu talaði yfir hausamótunum á okkur í tvo tíma á dag um hversu frábært lífið væri innan hreyfingarinnar og eilíf hamingja. Hún hélt því meira að segja fram að alnæmi væri ekki til,“ útskýrir maðurinn, sem er samkynhneigður og segist hafa orðið fyrir stöðugu aðkasti vegna þess. Hann segist einnig eiga inni laun hjá fyrirtækinu. „Ég fékk seint og illa borgað, engin yfirvinna var greidd þrátt fyrir að hafa unnið allt að 12-14 tíma á dag. Það mesta sem ég fékk greitt fyrir einn mánuð voru 176 þúsund. Ég gerði ráð fyrir því að afgangurinn færi í skatt en þegar ég fyllti út skattaskýrsluna mína tók ég eftir því að skattinum hafði aldrei verið skilað.“
Fólkið leitaði á skrifstofu Eflingar stéttarfélags ásamt þriðja aðila á sínum tíma en þá var ekkert hægt að gera fyrir þau þar sem þau voru hvorki með launaseðla né ráðningasamninga.
Mannlíf skoðaði ársreikninga þriggja félaga sem tengjast rekstri eiganda ísbúðarinnar, Rúnari Páli Gígja, en fjórða félagið var stofnað í ágúst á þessu ári og því liggja fjárhagsupplýsingar þess ekki fyrir. Félagið Segðu minna gerðu meira ehf., sem annar viðmælandi segist hafa fengið greidd laun frá, skilaði tekjum upp á 20 milljónir króna árið 2016 og var hagnaður þess ein og hálf milljón. Launagjöld þess námu 4,5 milljónum króna sem samsvara árslaunum eins starfsmanns. Það félag sem ber sama nafn og ísbúðin, Joylato ehf., tapaði 12 milljónum króna árið 2016 og var eigið fé þess neikvætt um 15 milljónir. Þar kemur fram að útgjöld vegna launa námu 3 milljónum. Þriðja félagið heitir svo Fasteignafélag MVB, áður Mamma veit best, en samkvæmt ársreikningi fer engin starfsemi þar fram.
Ekki náðist í Rúnar Pál við vinnslu fréttarinnar en Tara Jensdóttir, framkvæmdastjóri Mamma veit best, vísar ásökunum starfsmannanna fyrrverandi á bug. Sagði hún að allir starfsmenn væru á launaskrá og að svo hefði alltaf verið. Aðspurð út í ofangreinda ársreikninga þar sem launakostnaður er hverfandi sagði hún að um allt annan rekstur væri að ræða en í dag og að þessi félög væru hætt rekstri.
Efling mætti á staðinn
María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur ASÍ í vinnustaðaeftirliti, staðfestir í samtali við Mannlíf að ábendingar hafi borist varðandi ísbúðina Joylato og heilsuvöruverslunina Mamma veit best og að farið hafi verið í eftirlit í fyrirtækin.
„Ábendingarnar snúast aðallega um að þarna sé reglulega ráðið inn fólk erlendis frá, fólk sem ætti í raun að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi en það komi á ferðamannapassa og í einu tilfelli kom starfsmaður á námsmannapassa. Málið er til skoðunar hjá Eflingu,“ útskýrir María Lóa.
Hjá Eflingu fengust þau svör að fulltrúar á þeirra vegum hafi farið í eftirlit í umrædd fyrirtæki fyrir um mánuði síðan. „Ég var með í fyrsta eftirlitinu sem þarna fór fram og það var sláandi að starfsfólkið virtist ekkert meðvitað um sín réttindi,“ segir María Lóa og bætir við að stéttarfélögin séu háð því að fólk leiti til þeirra eftir leiðréttingu. „Stéttarfélagið hefur ekki heimild til að fara af stað með slík mál að eigin frumkvæði.“
Starfsfólk fékk uppfræðslu og bæklinga um sín réttindi og kjör þegar eftirlitsaðilar létu sjá sig og var fólkið hvatt til þess að leita til stéttarfélagsins til að fá leiðréttingu ef það teldi á sér brotið.
María Lóa nefnir sérstaklega eitt atriði sem henni þykir alvarlegt: „Við fengum ábendingu um a.m.k. eina manneskju sem kom til landsins til að vinna hjá þessum aðilum, væntanlega á ferðamannapassa; vann í ákveðinn tíma og fór svo aftur til baka. Hún ætti vitanlega að fá íslenska kennitölu og borga skatta og gjöld hér á landi,“ segir hún og bætir við að það sé orðin vinnuregla í svona tilvikum að skattayfirvöldum og Vinnumálastofnun sé gert viðvart.
Við kíktum á fallega hannað eldhús hjá Kristínu Traustadóttur og fjölskyldu á Selfossi, en þau fengu innanhússarkitektinn Sæbjörgu Guðjónsdóttur til liðs við sig fyrr á þessu ári.
Hvernig eldhús vildi kúnninn fá og hver var hugmyndin með hönnuninni?
Þau voru með ýmsar hugmyndir en ekki alveg ákveðin. Mikilvægt var þó að huga að aðgengi þar sem dóttir þeirra notast við hjólastól og því var ákveðið að hafa eldhúsið í „U“ með möguleika á léttu og færanlegu stálborði við endann sem myndar smáeyju. Eldri parturinn af húsinu er síðan um 1960, með fallegum tekkstiga. Viðbyggingin er nýleg og þar var notast við eik í innréttingum. Mér fannst því mikilvægt að flækja efnisvalið ekki meira og því var niðurstaðan skógareik með smálit í svo hún gulni síður eins og eikin á til að gera. Veggir voru svo málaðir í Stilltum frá Slippfélaginu og til að fá gamla lúkkið í takt við húsið voru gólfefni lögð í fiskibeinamynstur.
Mér fannst því mikilvægt að flækja efnisvalið ekki meira og því var niðurstaðan skógareik með smálit í svo hún gulni síður eins og eikin á til að gera.
Var skipulaginu mikið breytt þegar farið var í framkvæmdir?
Skipulaginu var ekki breytt en áður fyrr hafði verið herbergi þar sem borðstofuborðið er og því voru stærðir á gluggum ekki eins. Það var því ákveðið að breyta þeim. Eins var dyrum inn í þvottahúsi lokað og færðar annað. Loftið var svo tekið niður fyrir innfellda lýsingu.
Hvað er það besta við eldhúsið?
„Aðgengið er mjög þægilegt og það er þannig hannað að ekkert drasl safnast á eldhúsbekknum. Svo er mikill kostur hvað eldhúsið ber marga gesti, en við erum líka sex í heimili svo hér er mikill umgangur enda er eldhúsið hjarta heimilisins,“ segir Kristín.
Margrét Ríkharðsdóttir, matreiðslumeistari og yfirkokkur á Bryggjunni Brugghúsi, segir osta vera undir hatti þeirra veitinga sem ómissandi séu í saumaklúbbinn.
„Flestir ostar eiga það sameiginlegt að vera einfaldir og fljótlegir að tilreiða, því henta þeir ákaflega vel í daglegu lífi þar sem tíminn getur oft verið takmarkaður. Mér finnst gott að bjóða fram eitthvað sem inniheldur kannski ögn meira af mat, til dæmis taco með hægelduðu kjöti sem hægt er að elda yfir nótt og undirbúa kvöldinu áður en ostarnir eru engu að síður ómissandi.
Bakaður Ísbúi með hunangi og pekanhnetum
ísbúi-ostur skorinn í bita
hunang eftir smekk
100 g pekanhnetur ristaðar
2-3 greinar af fersku timjan
súrdeigsbrauð
Ísbúi skorinn í teninga og settur í eldfast mót og timjani dreift yfir. Bakað við 160 gráður á blæstri í um tíu til fimmtán mínútur þar til osturinn er bráðinn. Hunangi hellt yfir og muldum pekanhnetum dreift yfir. Súrdeigsbrauðið er svo nýtt til þess að dýfa í mjúkan ostinn en rétturinn er bæði einfaldur, ofur fljótlegur og gríðarlega bragðgóður.
Bakaður geitaostur í parmaskinku á brauði með hunangi eða fíkjusultu
geitaostarúlla
1 pakki parmaskinka
hunang
fikjusulta
snittubrauð eða súrdeigsbrauð
klettasalat
Geitaostur er skorinn í bita og vafinn inn í parmaskinku. Bitarnir eru svo bakaðir á blásturstillingu við 160 gráður í um tíu mínútur. Brauð ristað á meðan klettasalat er sett ofan á brauðið og osturinn þar ofan á. Toppað með ögn af fíkjusultu og hunangi.
Taco með hægelduðum rifnum bjórgrís, BBQ-sósu og mangósalsa
Þessi réttur er bæði einfaldur og þægilegur og auðvelt að undirbúa með góðum fyrirvara áður en gesti ber að garði.
300 g svínahnakki
litlar hveiti-tortillur skornar til helminga
1 l bjór, mæli með pale ale eða pilsner frá Bryggjunni Brugghúsi en þeir fást í ÁTVR
þurrkað krydd eftir smekk t.d einiber, anís, rósapipar
1 laukur
2 hvítlauksgeirar
BBQ-sósa
klettasalat
1 mangó
1/2 rauð paprika
1/2 rauðlaukur
1 pakki af ferskum kóríander
2 límónur
Best er að notast við eldfast mót eða pott sem má fara inn í ofn. Svínahnakkinn er settur ofan í og bjórnum hellt yfir ásamt lauk og hvítlauk. Þurrkaða kryddinu sömuleiðis bætt saman við og látið malla yfir nóttina í um tíu til tólf tíma á 70 gráðu hita. Slökkt er á ofninum og kjötið látið hvíla eða rifið strax niður.
Mangósalsa
mangó
paprika
rauðlaukur
kóríander
límóna, safinn
Kóríander smátt skorinn og safi úr límónu kreistur yfir. Hrærið vel saman og saltið og piprið. Kjötið er svo hitað upp og BBQ-sósa er hrærð saman við. Gott er að bæta við nokkrum chili-flögum og bragðbæta með salti og pipar.
Tortillur hitaðar á pönnu, svo er byrjað á klettasalati þá er kjötið sett út á og svo toppað með mangósalsa. Einnig er hægt að skipta út svínakjöti fyrir nautakjöt eða kjúkling en einnig er gott að fylla taco með oumph.
Fyrirsætan Alexa Chung gefur góð ráð í ástralska Vogue.
Tískufyrirmyndin og módelið Alexa Chung gaf góð ráð í viðtali við ástralska Vogue á dögunum. Hún þykir með eindæmum smekkleg og flott.
Chung segir alla þurfa að eiga nokkrar klassískar flíkur sem hægt er að nota við hin ýmsu tilefni. Hún líkir þessum klassísku flíkum við grunn sem hægt er að byggja ofan á.
Það sem allir þurfa að eiga í fataskápnum að mati Chung er góðar flíkur úr gallaefni, blazer-jakka, þægileg peysa, hvítur stuttermabolur og góða strigaskó. Þessar flíkur er svo hægt að nota með öðrum áberandi flíkum að sögn Chung. „Þetta er eitthvað til að vega á móti skringilegheitum.“
Þá tekur hún fram að hún forðist reyndar að gefa tískuráð því hún vill heldur hvetja fólk til að finna sinn eigin stíl. „Mér finnst að fólk eigi að finna sína eigin leið, fagna sjálfum sér,“ sagði hún meðal annars. „Hoppaðu í sturtuna og hugsaðu um hvernig þig langar að líða þann daginn, klæddu þig svo eftir því.“
Prófessor við læknadeild í Imperial College í London segir getu læknanema til að vinna í höndunum hafa farið hrakandi með árunum. „Nú snýst allt um að strjúka flatan skjá,“ segir hann.
Roger Kneebone, prófessor við Imperial College í London, segir ungt fólk verja svo miklum tíma fyrir framan tölvur og snjallsíma að það er farið að missa hæfileikann til að vinna í höndunum. Þetta kemur sér illa fyrir læknanema sem þurfa á fínhreyfingum að halda í læknastarfinu, t.d. til að skera upp og sauma sjúklinga.
„Þetta er aðkallandi mál,“ segir Kneebone í viðtali við BBC. Hann segir marga nemendur sína standa sig vel í bóklegum þáttum læknanámsins en illa í því verklega sökum þess að það vantar mikið upp á fínhreyfingar hjá yngri kynslóðum.
Hann segir sig og kollega sína hafa miklar áhyggjur af þessari þróun. „Hér áður fyrr gerði maður ráð fyrir að nemendur hefðu lært þessa praktísku hluti í skóla; klippa út og búa til hluti í höndunum. En ekki lengur,“ segir Kneebone. „Nú snýst allt um að strjúka flatan skjá.“
Hann segir mikilvægt að nú bregðist skólakerfið við og sjái til þess að ungt fólk fái aukna menntun í verklegum greinum þar sem það lærir að nota hendurnar.
Keppandi Gettu betur, Auður Aþena Einarsdóttir, hefur birt opið bréf til Björns Braga Arnarsonar. Hún vill að hann láti af störfum sem spyrill spurningakeppninnar Gettu betur.
Auður Aþena Einarsdóttir, keppandi Gettu betur fyrir hönd Tækniskólans 2018, hefur birt opið bréf til Björns Braga Arnarssonar, spyrils spurningakeppninnar Gettu betur sem sýnd er á RÚV.
Bréfið skrifar hún og birtir á Facebook eftir að hafa séð umfjöllun um myndskeið sem fór í dreifinu á samfélgsmiðlum í gær. Á myndbandinu, sem tekið var um helgina, sést Björn káfa á 17 ára gamalli stúlku.
Auður segir hegðun sem þessa „ólíðandi“ og segir augljóst að Björn ætti að láta af störfum sem spyrill Gettu betur vegna málsins. „Ég vil ekki vera í kringum kynferðisafbrotamann,“ skrifar Auður sem hyggst keppa í Gettu betur á næsta ári.
Um helgina birtist færsla á Facebook-síðu Frú Ragnheiðar, skaðaminnkandi verkefnis á vegum Rauða Krossins, þar sem óskað er meðal annars eftir hlýjum fötum, teppum og tjöldum fyrir heimilislausa.
„Eins og þið vitið þá eru margir af þeim einstaklingum sem leita til okkar heimilislausir. Nú hefur veturinn skollið á og því orðið ansi kalt í veðri. Okkur í Frú Ragnheiði langar að athuga hvort einhver af ykkur hefði tök á að gefa hlýjan fatnað eins og úlpur, lopa- eða flíspeysur eða kuldabuxur. Einnig vantar okkur hlýja svefnpoka, teppi og tjöld,“ segir meðal annars í færslu Frú Ragnheiðar.
Svala Jóhannesdóttir, verkefnisstýra Frú Ragnheiðar, segir viðbrögðin við færslunni hafa verið góð og fólk hefur verið duglegt að koma með fatnað á skrifstofu Rauða krossins í Reykjavík.
„Söfnunin hefur gengið mjög vel og margir hafa komið til okkar með poka og kassa af fötum og öðru. Nú er kominn vetur og eftirspurnin eftir hlýjum fötum er orðin mikil hjá okkur. Margir sem leita til okkar eru heimilislausir og sumir þeirra þurfa að sofa úti, gista í bílum eða geymslum, í tjöldum eða vera í hústökum þar sem stundum er enginn hiti. Aðrir gista stundum í neyðarathvörfum eins og í Gistiskýlinu eða í Konukoti en á daginn þurfa þeir einstaklingar að verja miklum tíma úti. Þetta er ofsalega erfið staða að vera í og það er mikilvægt fyrir einstaklinga í þessari stöðu að hafa aðgengi að góðum fatnað og búnaði, til í raun að lifa þessar aðstæður af,“ útskýrir Svala.
„Margir sem leita til okkar eru heimilislausir og sumir þeirra þurfa að sofa úti, gista í bílum eða geymslum, í tjöldum eða vera í hústökum.“
Hún bendir á að á síðustu fimm árum hefur orðið 95% aukning á fjölda heimilislausra í Reykjavík. „Það er ekki val neins að verða heimilislaus. Þetta gerist vegna erfiðra aðstæðna í lífi fólks og stjórnvöld eru ekki að grípa inni til að reyna að fyrirbyggja það að fólk verði heimilislaust. Einnig gengur ansi hægt að ná fólki úr heimilisleysinu, það eru allt of fáar félagslegar leiguíbúðir og einnig vantar önnur stuðningsúrræði fyrir hópinn.“
Þess má geta að skrifstofa Rauða krossins í Reykjavík er í Efstaleiti 9, 103 Rvk. Þeir sem vilja leggja verkefninu lið geta komið með vörur þanngað á skrifstofutíma. „Við erum komin með marga poka og kassa af fatnaði og við getum enn þá tekið við mun meiru,“ segir Svala að lokum.
Svart, gult og risastór diskókúla mætir okkur á Black Box og þar tekur Jón Gunnar Geirdal vel á móti okkur með girnilegum flatbökum. Við spurðum kappann út í pítsuævintýrið.
Hvenær opnaði Black Box Pizza?
22. janúar 2018 í Borgartúni 26.
Hver hannaði staðinn?
Við hönnuðum staðinn sjálfir enda vorum við með ákveðnar hugmyndir hvernig útlit, andrúmsloft og upplifun við vildum skapa.
Hver er yfirpítsubakari?
Pítsusnillingur Blackbox er Viggó Vigfússon – bakari og conditori, eigandi Skúbb, bestu ísbúðar landsins, og einn af stofnendum OmNom-súkkulaðis. Hann var í kokkalandsliðinu í 12 ár og mögnuð reynsla hans og hæfileikar kristallast í geggjuðum pítsum.
Hvaða hugmynd var lagt upp með við hönnun staðarins?
Við vildum fyrst og fremst hafa staðinn hlýlegan en líka töff og svolítið öðruvísi. Við vildum hafa litapallettuna einfalda og völdum svartan og gulan sem koma vel út saman. Svo er það svarta diskókúlan sem einkennir Blackbox. Nonna Dead-andarnir vaka yfir staðnum en Jón Sæmundur málaði þá beint á vegginn, svo er hér 100 ára gamall drumbur í loftinu og alls konar svolítið skrýtnir gulir hlutir út um allt. Staðurinn er skemmtilega öðruvísi fyrir vikið.
Hvernig stemningu vilduð þið ná fram á staðnum?
Við vildum skapa skemmtilega New York/London-barstemningu utan um skyndibitann pítsuna. Blackbox á að vera öðruvísi, eitthvað nýtt og ögrandi en á sama tíma bara geggjuð pítsa og líklega sú besta hér á landi. Pítsa er nefnilega ekki bara pítsa eins og við segjum, stemningin á staðnum er ótrúlega skemmtileg. Það á nefnilega að vera skemmtilegt að borða pítsu.
Hver er ykkar sérstaða?
Sérstaða okkar eru sjúklega góðar pítsur á hrikalega góðum súrdeigsbotni með heimagerðri ítalskri tómatsósu, toppuð með fjölbreyttu fersku og öðruvísi hráefni.
Hvað heillaði ykkur við staðsetninguna og húsnæðið?
Við höfðum verið með þessa staðsetningu lengi í huga fyrir svona stað. Borgartúnið vex hratt, er lifandi hverfi sem rúllar hratt í gegnum daginn og okkur fannst tilvalið að mæta með pítsupönkarann Blackbox og gefa fólki loksins tækifæri til að fá eldsnögga og eldbakaða pítsu í hádegismat, eða eftir vinnu.
Elska Íslendingar flatbökur?
Miklu meira en það; Íslendingar eru með ástríðu fyrir pítsum. Það eru forréttindi að bjóða svöngum, pítsusjúkum Íslendingum upp á uppáhaldsskyndibitann þeirra, hlutverk sem við tökum mjög alvarlega með bros á vör.
Hvaða álegg er vinsælast?
Það er erfitt að nefna ekki pepperoni en Parma Rucola-pítsan er vinsælasta pítsan okkar og svo kemur trufflumarineraða andalærið vel á óvart enda brjálæðislega gott.
Vinur minn byrjaði nýlega að stunda eitthvað sem heitir útipúl. Ég hélt fyrst að hann væri að grínast þegar hann útskýrði þetta fyrir mér: hann borgar ókunnugri manneskju tugi þúsunda fyrir að skipa sér að hreyfa sig úti í frosti og slyddu. Líkamsrækt fyrir fólk haldið óvenju miklum masókisma.
Hann spurði hvort ég vildi ekki kíkja með honum, því ég væri farinn að mýkjast eftir öll árin á Spáni, þar sem ég bý, og hitti naglann á höfuðið. Ég myndi raunar ganga svo langt að kalla útipúl versta orð íslenskrar tungu, eins konar fullkomna andstæðu orðsins ljósmóðir sem var valið það fallegasta. Orðinu útipúl tekst einhvern veginn að sauma saman tvö mjög óaðlaðandi orð – úti og púl.
Eða kannski hef ég bara fjarlægst ræturnar. Kannski er það tékkneski helmingurinn í mér (mamma er þaðan) sem lætur mig klóra mér í höfðinu yfir öllum þessum Íslendingum sem pynta sig í sjósundi eða cyclothoni Wow eða ganga upp á Esjuna einungis til að ganga aftur niður, eða hlaupa maraþon, hálfmaraþon eða svokallað „skemmtiskokk“ (annað áhugavert orð). Þegar ég sé allt þetta þjáða fólk, eldrautt í framan og sveitt, minnir það næstum á fanga á einhverri súrrealískri fanganýlendu sem neyðist til að taka út refsinguna sína svona.
En líklega hafa Íslendingar þó alltaf verið útipúlarar. Ingólfur Arnarson var fyrsti útipúlarinn, þar sem hann púlaði einsamall við að reyna að gera þetta undarlega land byggilegt. En nei, ekki ég. Ég kýs að nota frítímann minn í eitthvað annað, í eitthvað uppbyggilegt, í nokkuð sem ég kalla innikósí. Innikósi gæti raunar gert tilkall til fegursta orðs íslenskrar tungu, að mínu mati, enda ávísun á hlýjan sófa og nammi og góða mynd, afkvæmi tveggja yndislegustu orða okkar ástkæra, ylhýra – inni og kósí. En það er kannski ágætt að það hugsi ekki allir eins og ég, því þá hefði Ísland líklega aldrei fundist.
„Vorið 2009 fórum við af stað með það verkefni að fjölga konum í stjórnum fyrirtækja upp í að minnsta kosti 40%. Við héldum að með því myndi konum í stjórnunarstörfum þar með fjölga sjálfkrafa. Hvorugt gerðist. Ekki einu sinni lagasetning dugði til að fjölga konum upp í þetta hlutfall. Ekkert hefur breyst með hlutdeild í stjórnunarstörfum,“ segir Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA).
FKA verður með ráðstefnu miðvikudaginn 31. október þar sem hulunni verður svipt af Jafnréttisvoginni, mælaborði með tölfræðiupplýsingum um jafnrétti bæði í fyrirtækjarekstri og í opinberum störfum. Hún verður líka birt á vef FKA.
Rakel segir marga sammála um að jafnréttismálin skipti máli. Samt sé meirihluti stjórna fyrirtækja landsins enn samansett af körlum. Konur séu þrátt fyrir allt enn um þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum.
„Þetta markmið hjá mörgum karlkynsstjórnendum að fjölga konunum er meira í orði en á borði. Mjög margir tala um að vera hlynntir jafnrétti en það eru í raun miklu færri sem fylgja því eftir innanhúss,“ segir Rakel og viðurkennir að hún sé afar döpur yfir árangrinum. „Á sínum tíma var okkur bent á að í mörg ár hefðum við hitt og talað við aðrar konur. Þær mættu á fundina. Þess vegna fórum við í átak, tengdumst frábærum samstarfsaðilum sem hugsa eins og við og buðum körlum að koma á ráðstefnur okkar svo þeir heyri umræðurnar. Ef körlum er alvara og vilja jafnrétti, eiga þeir að koma á ráðstefnuna,“ segir hún.
Á myndinni eru þær Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (t.v.) og Vigdís Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri PiparTBWA sem er einn af samstarfsaðilum FKA í verkefninu.
Texti / Jón Aðalsteinn Bergsveinsson
Mynd / PiparTBWA.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, greindi frá í viðtali í Morgunkaffinu á Rás 2 í morgun að Dorrit Moussaieff hafi látið taka sýni úr hundi sínum Sámi í þeim tilgangi að láta klóna hann síðar meir. Hér koma nokkrar staðreyndir um hundinn Sám sem er Dorrit ómissandi.
Sámur er 11 ára gamall.
Sámur er blanda af íslenskum og þýskum hundi.
Sámur kemur frá Smáratúni í Fljótshlíð.
Sámur kemur undan tík sem Dorrit sá í heimsókn í Fljótshlíð árið 2008. Hún heillaðist af tíkinni og Ólafur fór þá í að útvega Dorrit hvolp undan tíkinni.
Ólafur gaf Dorrit Sám um sumarið 2008.
Sámur var nefndur eftir Bessastaðar-Sám sem Kristján Eldjárn, fyrrverandi forseti Íslands, átti á meðan hann bjó á Bessastöðum.
Það er Dorrit sem á Sám en Ólafur hefur tekið þátt í þjálfun hundsins. Ólafur keypti til dæmis nokkrar bækur um hundahald þegar Sámur kom inn í fjölskylduna.
Sámi hefur verið lýst sem afar hlýðnum og húsbóndahollum.
Dorrit reynir að taka Sám með sér hvert sem hún fer.
Sámur hefur borið merki Björgunarhundasveitar Íslands frá árinu 2014. Hann er þó ekki ekki sérstaklega þjálfaður björgunarhundur.
Dorrit leyfði Sámi að synda í fyrsta sinn árið 2010 á Stokkseyri.
Sýni hafa verið tekin úr Sámi og send til Bandaríkjanna svo hægt verði að klóna hann eftir að hann drepst.
Rithöfundurinn Sólveig Jónsdóttir sendi nýlega frá sér bókina Heiður sem fjallar um fjölskyldu í Reykjavík sem sundrast þegar hinn norður-írski faðir yfirgefur eiginkonu og dóttur og tekur soninn með. Bókin er meðal annars byggð á raunverulegum atburðum úr lífi vina Sólveigar frá Írlandi.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á Írlandi, alveg frá því að ég var barn,“ segir Sólveig.
„Ég lærði stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og fór seinna í meistaranám í þjóðernishyggju og þjóðernisátökum í Edinborgarháskóla. Írlandsáhuginn minn blandaðist þá auðvitað inn í námið og ég sökkti mér vel ofan í átakasögu og sjálfstæðisbaráttu Norður-Íra og Íra. Ég fór líka að vinna á veitingastað á kvöldin með náminu og einhvern veginn hittist það þannig á að allir sem unnu þar með mér voru írskir. Við fórum að ræða þessi mál og ég komst að því að þessi átök höfðu á einn eða annan hátt haft áhrif á fjölskyldur þeirra allra. Ég kynntist svo fjölskyldum vina minna vel og bókin er að stórum hluta byggð á sönnum atburðum úr lífi þeirra frá þessum tíma. Það skipti mig þess vegna máli að koma þessum frásögnum áleiðis svo fólk viti að þó svo að búið sé að koma á friði glíma margir enn við eftirköst þessara átaka og ófriðar á einn eða annan hátt. Sjálfsmorðstíðni á Norður-Írlandi er til dæmis mjög há, og sérstaklega hjá þeim aldurshópi sem voru börn og unglingar á meðan átökin voru sem verst.“
„Langflestir voru tilbúnir að ræða þetta opinskátt en aðrir ekki. Sumum fannst það einfaldlega ekki vera eitthvað sem ætti að vera að ræða, nú þegar friður væri kominn á, en fyrir aðra var þetta einfaldlega of sársaukafullt umræðuefni til þess að vera að rifja upp.“
Hitti fólk sem upplifði átökin
Bókin heitir Heiður sem er annars vegar nafnið á aðalsöguhetjunni og hins vegar eitt af umfjöllunarefnum sögunnar. „Hún fjallar um fjölskyldu í Reykjavík í byrjun 9. áratugarins. Faðirinn er norður-írskur en mamman er íslensk. Saman eiga þau son og dóttur, Dylan og Heiði. Einn daginn stingur pabbinn af til Norður-Írlands og tekur drenginn með. Eftir sitja mæðgurnar og það er ekki fyrr en 28 árum síðar sem Dylan hefur samband við Heiði og biður hana um hjálp. Í kjölfarið fer af stað atburðarás þar sem hún reynir meðal annars að komast að því hvað varð til þess að faðir hennar sundraði fjölskyldunni og hvað það var sem honum þótti mikilvægara í átökunum á Norður-Írlandi en friðsælt fjölskyldulífið á Íslandi,“ segir Sólveig.
Mikil rannsóknarvinna liggur að baki bókinni, Sólveig las sér heilmikið til í náminu í Edinborg á sínum tíma og hefur fylgst vel með gangi mála á Norður-Írlandi síðan. „Svo horfði ég á fullt af heimildamyndum, las bæði fræðibækur og dagbækur liðsmanna Írska lýðveldishersins og endurminningar venjulegs fólks frá þessum tíma. Mest lagði ég þó upp úr að fá að heyra sögur frá fólkinu í kringum mig á Norður-Írlandi, fá þetta beint í æð frá þeim sem upplifðu þetta á eigin skinni. Langflestir voru tilbúnir að ræða þetta opinskátt en aðrir ekki. Sumum fannst það einfaldlega ekki vera eitthvað sem ætti að vera að ræða, nú þegar friður væri kominn á, en fyrir aðra var þetta einfaldlega of sársaukafullt umræðuefni til þess að vera að rifja upp. Það kom mér svo sem ekki á óvart að fólk ætti líka erfitt með að tala um þetta. Margt af því sem gerðist á þessum tíma hefur aldrei verið gert upp, fólk ekki fengið réttlæti fyrir sig og sína.“
Bakstur prýðileg hugleiðsla
Heiður er önnur bók Sólveigar og afskaplega ólík fyrstu bókinni hennar, Korteri.
„Það er eiginlega mjög fátt sem þessar sögur eiga sameiginlegt, fyrir utan það að í báðum þeirra eru konur aðalsöguhetjurnar. Og ef til vill líka að ég leyfi mér að flakka svolítið fram og aftur í tíma í þeim báðum. En Heiður fjallar um talsvert þyngri málefni, þó svo að stærðargráða vandamála hvers og eins skapist auðvitað út frá aðstæðum þeirra hverju sinni. Ég var byrjuð að skrifa þessa bók þegar fyrsta bókin mín kom út svo hún var lengi í smíðum. Það var mjög gaman að skrifa þær báðar en mun erfiðara og meiri áskorun að skrifa Heiður,“ segir Sólveig sem nú á eftir nokkra daga í fæðingarorlofi og fer þá að starfa sem textasmiður á auglýsingastofu með fram ritstörfum.
Að auki fæst hún við matargerð og bakstur, til dæmis fyrir tímaritið Gestgjafann. „Mér þykir verulega gaman að elda og baka og hugsa almennt mjög mikið um mat og matargerð. Fyrir mér eru matargerð og uppskriftaskrif annars konar sköpunarvinna en í ritstörfunum en inn í þetta blandast líka ákveðin slökun fyrir mig. Ef ég á til dæmis eitthvað erfitt með að sofna skelli ég stundum í eins og eina köku. Það er líka alveg prýðileg hugleiðsla að horfa á eitthvað bakast í ofninum. Ég mæli með því.“
Og Sólveig er með margar hugmyndir í kollinum og langar að skrifa fleiri bækur. „Ég er byrjuð á tveimur og vonandi næ ég að ljúka annarri eða báðum áður en langt um líður. Ég hef líka verið leiðsögumaður fyrir ferðamenn á Norður-Írlandi og í Skotlandi og langar mikið til að gera meira af því. Annars þarf ég bara svolítið að fara að gíra mig upp í að fara aftur út á vinnumarkaðinn eftir ár í fæðingarorlofi, sem hefur verið alveg dásamlegur tími.“
Sigga Heimis hönnuður stendur í stórræðum þessa dagana. Auk þess að þeytast milli landa í vinnu sinni með ungum hönnuðum fyrir IKEA og vera einstæð móðir með þrjú börn, sem hún viðurkennir að útheimti gríðarlega skipulagningu, vinnur hún með fleiri fyrirtækjum og er ofan á allt saman að undirbúa sýningu á líffærum úr gleri sem hún mun halda í samstarfi við stærsta glerframleiðanda í heimi.
„Já, ert þetta þú?“ segir Sigga sem er stödd á Íslandi þegar hún svarar í símann klukkan 10.30. „Síminn hefur hringt stanslaust síðan hálffjögur í nótt og ég var bara alls ekki viss um hver gæti nú verið að hringja. Það er eitt af því sem fylgir því að þrjóskast við að búa á Íslandi þótt ég sé að vinna út um allar trissur að fólk áttar sig ekki alltaf á tímamismuninum og hringir á öllum tímum sólarhringsins. En það er allt í góðu, svona er þetta bara.“
Eitt af þeim verkefnum sem Sigga fæst við erlendis er að skipuleggja og vinna með hönnunarskólum og -stofnunum og vinna með ungum hönnuðum fyrir IKEA. Um hvað snýst það?
„Ég þekki þá tilfinningu mjög vel að koma úr námi og þurfa að byrja á algjörum núllpunkti,“ útskýrir hún. „Ég þekki það sjálf að þekkja engan í þessum geira og þurfa sjálf að finna mér atvinnutækifæri og ég fæ alveg jafnmikið út úr því og þau að hjálpa þeim að komast inn í þetta svo að þegar þáverandi yfirmaður minn hjá IKEA spurði hvernig mér litist á að sjá um samstarf fyrirtækisins við hönnunarskóla var ég fljót að segja já. Síðan eru liðin mörg ár og umhverfið hefur breyst mikið. Á þeim tíma var aðallega verið að teikna einhverjar ákveðnar vörur sem IKEA var að bæta við hjá sér en nú höfum við víkkað þetta miklu meira. Nú vinnum við í rauninni bara með nýjar hugmyndir og væntingar nýrra kynslóða til sterkra vörumerkja. Heimurinn er að breytast svo hratt og maður verður að vera miklu meira á tánum. Fyrir tíu til fimmtán árum gat IKEA mælt miklu betur hvað markaðurinn vildi en það er ekki hægt lengur. Unga fólkið í dag hefur allt aðrar væntingar og vill ekkert endilega eiga fullt af hlutum. Það eru mörg stór fyrirtæki að takast á við þetta, hvort sem það eru bílaframleiðendur, byggingafyrirtæki eða húsgagnafyrirtæki. Þannig að nú er ég með það verkefni að skipuleggja og sjá um samvinnu IKEA við hönnunarskóla um allan heim.“
„Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig heldur börnin mín líka.“
Mikið púsluspil að samræma vinnu og heimili
Eins og gefur að skilja krefst starfið mikilla ferðalaga og verandi einstæð móðir með þrjú börn þar sem eitt er verulega þroskaskert og þarf mikla umönnun, segist Sigga vera orðin algjör sérfræðingur í því að þrýsta ferðunum niður í mjög stutta pakka.
„Ég er mjög skipulögð þegar ég fer út,“ segir hún. „Samkvæmt reglunni er ég alltaf eina viku í mánuði í Svíþjóð og þar legg ég fram mitt plan um hvernig ég ætla að gera þetta. Það er alls ekki nauðsynlegt að hver ferð taki marga daga. Til dæmis er ég að vinna með skóla í Berlín og flýg þá oft fram og til baka samdægurs. Þetta er allt orðið mun einfaldara en það var, en vissulega er þetta mikið púsluspil og ég þarf að láta ýmislegt ganga upp til þess að þetta smelli saman. Það er bara svo ofboðslega spennandi að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt að ég finn leiðir til að láta þetta ganga.“
Sigga er búin að setja húsið sitt á sölu og planið var að eiga annað heimili í Svíþjóð með alla fjölskylduna, en hún segir það ekki eins einfalt og það hljómi.
„Ég ætla aðeins að bíða með að flytja,“ segir hún. „Ég veit alveg hvernig það er þegar fólk er að flytja með börn sem þurfa sértæka ummönun á milli landa, maður hleypur ekkert inn í kerfið þar bara si svona. Það eru endalausir biðlistar alls staðar og ég er ekki alveg tilbúin í það. Það hefur alveg gengið hingað til að vera búsett á Íslandi þótt ég sé í þessari vinnu og ég ætla aðeins að sjá til með þetta.“
Önnur ástæða þess að Sigga er ekki tilbúin að fara af landinu í bili er að hún er komin í stefnumótunarvinnu fyrir Rammagerðina, þar sem hún er í bullandi vinnu og segir frábært að vinna með íslenska handverks- og hönnunararfinn okkar. Fleiri verkefni eru í vinnslu, til dæmis stór verkefni fyrir stórt fyrirtæki í Kóreu.
„Ég hef verið svo ofboðslega heppin – og nú lem ég í allan við sem er hér nálægt mér – að ég hef alltaf haft nóg að gera,“ segir hún. „Ég hef aldrei verið spennt fyrir því að stofna stórt og mikið fyrirtæki og vera með stóran vinnustað. Mér finnst gaman að geta flakkað á milli verkefna og prófað nýja hluti en ég þarf að hafa í huga að þetta snýst ekki bara um mig, heldur börnin mín líka.“
Vill opna umræðuna um líffæragjafir
Ofan á öll þessi verkefni og stóran heimilisrekstur er Sigga nú að undirbúa sýningu í Ásmundarsal eftir áramótin þar sem hún mun sýna líffæri úr gleri sem hún hefur hannað, í tilefni af breytingunni á lögunum um líffæragjafir. Hvernig kom sú hugmynd upp?
„Það að eiga barn með sérþarfir opnar nýjar víddir fyrir manni og ég hef með árunum velt því sífellt meira fyrir mér hvernig hönnuðir geti axlað samfélagslega ábyrgð. Ég lenti svo fyrir tilviljun í samstarfi við stærsta glerlistasafn í heimi sem er í New York-ríki og var stofnað af stærsta glerfyrirtæki heims í kringum 1950. Þau ákváðu fyrir nokkrum árum að prófa að vinna með hönnuðum. Þau höfðu alltaf unnið með listamönnum en vildu breyta til og buðu mér og fleiri hönnuðum til samstarfs. Þegar ég var komin í þriggja daga vinnustofu hjá þeim þar sem átti að vinna með munnblásið gler stóð ég og klóraði mér í höfðinu og af einhverri ástæðu datt ég niður á þá hugmynd að búa til líffæri úr glerinu. Eftir það lagðist ég í rannsóknir á því hvar við værum eiginlega stödd í sambandi við líffæragjafir. Þá opnaðist fyrir mér alveg nýr og dálítið óhugnanlegur heimur.
Það er mikill skortur á líffærum í heiminum og fátækt fólk hefur gripið til þess ráðs að selja úr sér líffæri til að komast af og það eru ótal siðferðisspurningar í kringum þetta. Ég ákvað þá að búa til þetta verkefni til að vekja athygli á stöðunni og vekja fólk til umhugsunar um líffæragjafir. Ég hef farið með líffæri á nokkrar sýningar en það sem varð kveikjan að þessari sýningu í Ásmundarsal var þegar þau undur og stórmerki gerðust að Alþingi Íslendinga var einróma sammála þegar það samþykkti ný lög um áætlað samþykki til líffæragjafa sem taka gildi núna 1. janúar. Þetta er mikilvæg breyting sem snertir okkur öll og þarna sá ég tækifæri til að setja upp sýningu sem myndi hvetja fólk til að opna umræðuna um líffæragjafir. Fékk afnot af Ásmundarsal allan janúar og febrúar og þar ætlum við að setja upp undraheim líffæra sem fólk getur gengið inn í og upplifað. Ég er sannfærð um að þetta verður stórkostleg upplifun, en ég segi þér nú nánar frá því öllu síðar. En ég vil samt nefna að Gagarín er samstarfsaðili minn á sýningunni og sömuleiðis Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og nýrnaþegi. Þetta eru lykilaðilar sem munu gera það að verkum að sýningin verður mögnuð!“
Þó svo að gaman sé að bjóða upp á margar tegundir þegar gesti ber að garði er raunveruleikinn sá að sjaldnast er tími til þess að bjóða upp á margar sortir. Ein góð og mikil terta sem dugar fyrir alla gestina er oft besta lausnin og þá er líka minni hætta á að gestgjafinn sitji uppi með mikla afganga, sem hann oftar en ekki freistast til að klára sjálfur dagana á eftir, við þekkjum þetta öll, er það ekki?
Setjið rjóma og edik saman í skál og látið standa í 5-10 mín. (eins má nota 2 1/2 dl af súrmjólk í stað rjóma og ediks). Setjið hveiti, sykur, kakó, lyftiduft, vanillusykur og salt saman í skál. Bætið rjómanum, eggjum og smjöri út í og hrærið saman. Setjið kaffi út í og blandið vel. Athugið að deigið er þunnt. Setjið bökunarpappír í botninn á tveimur formum sem eru 24 cm í þvermál. Smyrjið formin vel og skiptið deiginu á milli þeirra. Athugið að ef notuð eru form með lausum botni getur verið nauðsynlegt að setja álpappír utan um þau til þess að koma í veg fyrir að deig leki í ofninn. Bakið í u.þ.b. 25 mín. Látið botnana kólna alveg áður en kremið er sett á kökuna.
KREM
350 g 70% súkkulaði
230 g smjör, við stofuhita
3 msk. kakó
8 msk. flórsykur
1 tsk. vanillusykur
salt á hnífsoddi
4 msk. rjómi
Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði og látið kólna. Hrærið smjör, kakó, flórsykur, vanilludropa og salt vel saman þar til blandan er mjúk og kremkennd. Bætið þá rjóma saman við og hrærið áfram. Bætið súkkulaðinu saman við og hrærið áfram af krafti í 3-4 mín. Smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna.
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, telur þörf á meiri stöðugleika á íbúðamarkaði.
„Þegar íbúðamarkaðurinn fór að taka við sér í núverandi efnahagsuppsveiflu árið 2011 hafði myndast mikil umframspurn eftir húsnæði enda framboðið talsvert á eftir vaxandi þörf vegna fólksfjölgunar, vaxtar í ferðaþjónustu og lýðfræðilegra þátta. Ójafnvægið náði hámarki á síðasta ári þegar 6 íbúar í landinu bitust um hverja nýja íbúð. Afleiðing þessa varð m.a. til þess að íbúðaverð hækkaði þónokkuð umfram laun í landinu og því varð æ erfiðara fyrir nýja íbúðakaupendur að koma inn á markaðinn. Þar varð unga kynslóðin hvað harðast úti,“ segir Ingólfur.
Hann segir Samtök iðnaðarins hafa barist ötullega fyrir auknu framboði á lóðum til íbúðabygginga enda felist vandinn að miklu leyti í lóðaskorti. „Sveitarfélög hafa brugðist hægt við þessum vanda. Hluti ástæðunnar er að sveitarfélög bera hvert fyrir sig ábyrgð á landskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Engin yfirsýn er yfir heildina á landsvísu né samkvæm áætlanagerð. Sveitarfélög huga því ekki að því að jafnvægi sé á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði. SI hafa viljað bæta úr þessu með því að stofna öflugt innviðaráðuneyti sem hefur forræði á málaflokknum í heild sinni og getur tekið af skarið til þess að tryggja að svona ójafnvægi, líkt og verið hefur hér á landi síðustu ár, skapist ekki. Til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni kerfisins þarf einnig að einfalda byggingareftirlit og draga úr íþyngjandi kröfum í regluverki, stytta skipulagsferli og auka framboð byggingarsvæða. Loks þarf að tryggja að til staðar séu virk stjórnsýsluúrræði innan málaflokksins.“
Í byggingu eru nú 5.799 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það er um 19% aukning frá því í talningu SI í mars, að sögn Ingólfs. „Í ljósi þessarar talningar spá SI því að í ár verði fullgerðar 2.084 nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða umtalsverðan vöxt frá því í fyrra en þá voru nýjar íbúðir aðeins 1.337. Á sama tíma er að draga úr fólksfjölgun á svæðinu. Betra jafnvægi virðist því vera á íbúðamarkaðinum í ár en hefur verið á síðustu árum og sést það í verðþróuninni en hægt hefur umtalsvert á verðhækkun húsnæðis.“
Hann segir að til að hindra svona ástand þurfi langtímahugsun. „Áætlað er að það þurfi 45 þúsund nýjar íbúðir á landinu öllu fram til ársins 2040 og 33 þúsund af þeim þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Til að unnt sé að leysa þetta verkefni vel þurfum við framsýni af hálfu ríkis og sveitarfélaga, meiri stöðugleika, aukna hagkvæmni og meiri skilvirkni í byggingu íbúðarhúsnæðis en verið hefur,“ segir Ingólfur að lokum.
Á bilinu fimm til sjö þúsund flóttamenn frá Mið-Ameríkuríkjunum Gvatemala, Hondúras og El Salvador stefna í átt að suðurhluta landamæra Bandaríkjanna þar sem þeir freista þess að hefja nýtt og betra líf. Fólkið sem ferðast ýmist fótgangandi eða í rútum er að flýja fátækt og ofbeldi í heimalandinu en flestir flóttamannanna koma frá Hondúras þar sem morðtíðni er sú hæsta í heimi.
Hópgöngur sem þessar eru tíðar en þetta er sú fjölmennasta til þessa og sú sem vakið hefur langmesta athygli fjölmiðla vestanhafs. Þar spilar tímasetningin lykilhlutverk því innan við tvær vikur eru til þingkosninga í Bandaríkjunum og ferðalag flóttafólksins er orðið eitt helsta hitamálið í kosningabaráttunni. Þar hefur forsetinn Donald Trump farið fremstur í flokki. Hann hefur hótað því að koma hernum fyrir á landamærunum við Mexíkó sem og að skera á efnahagsaðstoð við Mið-Ameríkuríkin þrjú.
Leggja á sig 4.000 kílómetra ferðalag
Göngurnar nefnast á ensku „caravan“ og eiga uppruna sinn í því að grasrótarsamtök hvöttu flóttamenn sem leita til Bandaríkjanna til að ferðast í hópum enda leiðin löng og hættur á hverju strái. 160 flóttamenn lögðu af stað frá San Pedro Sula, næststærstu borg Hondúras, þann 13. október en fljótlega bættist í hópinn sem taldi 5000 manns þegar komið var að Tecún Umán í Gvatemala, stór hluti þeirra konur og börn. Þaðan freistuðu flóttamennirnir þess að komast yfir landamærin til Mexíkó og kom til átaka á landamærunum en stjórnvöld í Mexíkó gátu þó ekki komið í veg fyrir að þúsundir manna kæmust yfir landamærin þar sem þau söfnuðust saman í borginni Tapachula. Þaðan var haldið norður á bóginn á mánudaginn.
Beita ríki Mið-Ameríku þvingunum
Bandaríkjastjórn hefur gert hvað hún getur til að hefta för fólksins. Þeim skilaboðum var komið áleiðis að ef ríkisstjórnir landanna þriggja stöðvuðu ekki fólkið yrði því svarað af hörku. Þegar hópurinn var kominn til Mexíkó lýsti Trump því yfir að efnahagsaðstoð til landanna þriggja yrði skorin niður en Bandaríkin veittu samtals yfir hálfum milljarði króna í efnahagsaðstoð til þeirra í fyrra. Þá hafa Bandaríkin beitt Mexíkó miklum þrýstingi vegna málsins en tilraunir til að stemma stigu við straumnum hafa litlu skilað.
Vatn á myllu Trumps?
Donald Trump hefur notað málið til að kveikja í stuðningsmönnum sínum fyrir þingkosningarnar þann 6. nóvember. Hann segir fólkið ógn við þjóðaröryggi og hefur sagst ætla að senda herinn að landamærunum að Mexíkó þótt hann þurfi til þess stuðning þingsins. Sömuleiðis segir hann þetta sýna mikilvægi þess að repúblíkanar verði áfram við stjórn í báðum deildum þingsins og fjölmargir frambjóðendur Repúblíkanaflokksins hafa tekið undir þennan málflutning Trumps.
Hverfandi líkur á hæli
Óvíst er hversu margir muni ná að bandarísku landamærunum en ljóst er að fæstir munu fá draum sinn uppfylltan. Í síðustu göngu af þessu tagi sem farin var í mars héldu 700 flóttamenn af stað frá Hondúras og taldi gangan 1.200 manns þegar mest var en ekki nema um 228 komust svo langt að sækja um hæli. Ellefu voru handteknir fyrir að reyna að komast ólöglega yfir landamærin. Lögum samkvæmt ber bandarískum stjórnvöldum að veita fólkinu málsmeðferð en tölfræðin sýnir að í langflestum tilvikum er umsókn þess hafnað.
Fleyg ummæli
„Gvatemala, Hondúras og El Salvador gátu ekki komið í veg fyrir að fólk yfirgæfi landið þeirra og kæmi ólöglega inn í Bandaríkin. Við munum nú byrja að stöðva, eða skera verulega niður, þá miklu efnahagsaðstoð sem við höfum veitt þeim.“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna
Þjóðþekktir Íslendingar sem hafa tekið U-beygju á starfsferlinum.
Úr tónlist í tannhvíttun
Eyjólfur Kristjánsson, betur þekktur sem Eyvi, er að heita má kanóna í íslensku tónlistarlífi því eftir hann liggja meira en 200 lög. Þ.á m. Eurovision-slagarinn Nína sem er fyrir löngu búinn að skipa sér sess með helstu dægurlagaperlum þjóðarinnar. Marga rak því í rogastans þegar meistarinn upplýsti í viðtali fyrr á árinu að hann hefði söðlað um og væri farinn að vinna við … tannhvíttun. Já, Eyvi hefur svissað úr söngnum yfir í snyrtibransann og ku þetta vera í fyrsta sinn í 30 ár sem kappinn er í fastri vinnu.
Snýr sér að innanhússhönnun
Söngvarinn Friðrik Dór hélt fyrir skömmu tónleika í Kaplakrika sem hann tilkynnti að yrðu síðustu tónleikar hans í bili. Hann ætlar nefnilega að söðla alveg um, láta gamlan draum rætast og flytja til Ítalíu með fjölskylduna. Ástæðan fyrir búferlaflutningunum er sú að Friðrik hyggst nema innanhússhönnun á Ítalíu enda segist hann hafa haft áhuga á hönnun frá níu ára aldri þegar hann fékk að mála herbergið sitt dökkblátt og eiturgrænt. Áhuginn jókst svo enn frekar við áhorf á Innlit-útlit og lestur Bo bedre frá tólf ára aldri. Það má sem sagt í rauninni kenna Völu Matt um hvarf söngvarans ástsæla af tónlistarsenunni. Mikil er ábyrgð hennar.
Dagfinnur dýralæknir
Alþingi hefur stundum verið líkt við dýragarð og því kannski við hæfi að þar skuli sitja menntaður dýralæknir. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, er með embættispróf í dýralækningum frá Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og starfaði lengi sem dýralæknir áður en leiðin lá í pólitíkina. Segja mætti að sú reynsla hafa nýst Sigurði Inga vel á þingi því gagnstætt forvera sínum í Framsókn, sem hafði einstakt lag á að strjúka köttum öfugt, þá þykir Sigurður Ingi yfirleitt nálgast pólitíska mótherja sína af mikilli yfirvegun og nærgætni. Þar kemur reynsla dýralæknisins af styggum skepnum eflaust að góðum notum.
Náttúrutalent og núdisti
Ellý Ármanns sigraði hjörtu þjóðarinnar sem sjónvarpsþula á RÚV fyrir margt löngu og starfaði síðan árum saman sem blaðamaður á Vísi þar sem segja má að hún hafi rutt brautina fyrir vinsældir krassandi slúðurfrétta af fræga fólkinu. Nú er Ellý sjálf orðin viðfangsefni slúðurfréttanna, en vefmiðlar halda vart vatni yfir nýjustu framleiðslu hennar, nektarmyndum af erótískara taginu þar sem hún sjálf og unnusti hennar, Hlynur Jakobsson, eru talin vera fyrirmyndirnar. Ellý er þó leyndardómsfull þegar spurt er út í þá hlið málsins, en eitt er víst að hún er hvergi nærri hætt að kitla slúðurtaugar landans. Við bíðum spennt eftir næsta útspili frá henni.
Óperusöngvari gerist áhrifavaldur
Óperusöngvarinn og sjarmatröllið Bergþór Pálsson sýndi að honum er meira til lista lagt en að þenja raddböndin þegar hann birtist landsmönnum í þættinum Allir geta dansað, vel greiddur og tanaður. Þátttökunni fylgdu miklir rykkir og hnykkir og kílóin fuku af Bergþóri. Síðan þá hefur söngvarinn síhressi farið hamförum á samfélagsmiðlum þar sem hann hefur lyft lóðum, farið í fallhlífarstökk, rifið sig úr að ofan og mært hreinsiefni (sem hlaut viðurnefnið „Bergþórssápan“) en rithöfundurinn Jónína Leósdóttir var ein þeirra sem ákvað að prófa ofurefnið og sagði á Facebook að það hefði verið hápunktur helgarinnar. Bergþór er því ekki lengur bara söngvari heldur áhrifavaldur og vinsæl samfélagsmiðlastjarna.
Aftur til upphafsins
Vigdís Grímsdóttir var löngu orðin einn dáðasti og virtasti rithöfundur þjóðarinnar þegar hún söðlaði alveg um fyrir nokkrum árum og réði sig sem kennara við Finnbogastaðaskóla í Árneshreppi á Ströndum. Mörgum kom þessi kúvending í opna skjöldu en Vigdís er lærður kennari og starfaði sem slíkur þegar fyrstu bækur hennar slógu í gegn. Það má því segja að hún hafi snúið aftur til róta sinna í fámenninu í Árneshreppi þar sem hún er engu minna elskuð og dáð af nemendum sínum en hún er elskuð og dáð af lesendum sínum um allt land. Til allrar hamingju fyrir okkur hefur hún þó haldið áfram að skrifa með fram kennslunni og ekki alveg snúið baki við rithöfundarferlinum.
Rapparinn sem varð hagfræðingur ársins
Sölvi Blöndal, hagfræðingur hjá Gamma, var valinn hagfræðingur ársins 2017 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Sölvi var áður einn af röppurunum í hljómsveitinni Quarashi sem naut gríðarlegra vinsælda fyrir áratug eða svo. Fáir hafa sennilega séð það fyrir sér að nokkrum árum síðar yrði honum hampað sem besta hagfræðingi þjóðarinnar. Enda sagði hann við móttöku verðlaunanna að hann hefði sjálfur aldrei trúað því fyrir 10 árum að hann myndi taka við verðlaunum sem hagfræðingur ársins þar sem öll þau verðlaun sem hann hefði tekið við fram að því hefðu verið vegna tónlistarinnar. Plötur Quarashi seldust í bílförmum, bæði á Íslandi og í Japan, og ekki ólíklegt að hagfræðiheili Sölva hafi verið driffjöðrin á bak við velheppnaða markaðsetningu platnanna.
Nýtur sín á hinu pólitíska sviði
Helga Vala Helgadóttir lærði meðal annars leiklist áður en hún settist á þing fyrir Samfylkinguna og er óhætt að segja að þar fái leikrænir hæfileikar hennar að njóta sín til fulls. Þannig tóku flestir eftir þegar Helga Vala skundaði burt, full vandlætingar, af Þingvöllum þegar Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og „fordómaseggur“, hélt hátíðarræðu á fullveldisafmælinu. Eða þegar Helga Vala húðskammaði Eyþór Arnalds fyrir að „hamast af öllu afli“ á Degi B. Eggerts í braggamálinu og spurði hvort ekkert væri „heilagt í pólitísku stríði?“ Pólitískir andstæðingar Helgu Völu hafa sakað hana um sýndarmennsku en þarna sannast einfaldlega sú fornkveðna vísa að stjórnmál eru leiksvið og þingkonan skelegga kann að nýta sér það.
Þau Helga Gvuðrún Friðriksdóttir og Orri Finnbogason taka vel á móti okkur á lifandi heimili sínu í gamla Vesturbænum. Saman reka þau skartgripaverkstæðið og verslunina Orrifinn skartgripir í sjarmerandi húsnæði við Skólavörðustíg 17a.
Tignarlegt 90 ára gamalt húsið stendur við kyrrlátan göngustíg sem þau segja kunnuga kalla Borgarstíginn. Íbúðin er tæplega 150 fm að stærð og búa þau á fyrstu hæð og í kjallara hússins. „Við höfum búið hér í rúm tvö ár og það er mjög friðsæl og barnvæn fjölskyldustemning hérna, en við fluttum nánast úr næsta húsi svo ísskápurinn fór bara yfir á hjólabretti!“ segir Orri og hlær. „Við elskum að vera hérna, staðsetningin er náttúrulega æðisleg og þetta er svo nálægt miðbænum.“
Aðspurð um hvort þau hafi farið í einhverjar endurbætur segjast þau ekki miklu hafa breytt öðru en farið í smávægilegar breytingar á eldhúsinu, pússað og lakkað parketið og málað. „Fyrri eigandi sagði okkur að parketið á gólfinu væri íslenskt og kæmi frá Húsavík. Skemmtilegt er að segja frá því að í einni fjölinni sem liggur við stigann er föst byssukúla eða hagl, en hún hefur líklega verið í trénu sem var notað í gólfið.“
KAÓTÍSKUR OG LITRÍKUR STÍLL
Greinilegt er að heimilisfólk er ekki hrætt við að nota sterka liti og segist Helga hafa rosalega sterkar skoðanir á þeim. „Ég var alveg með á heilanum að vera með eggaldinfjólubláan einhvers staðar, en fjólublái liturinn hefur verið partur af lífi mínu síðan ég var barn og ég tók einhverju ástfóstri við hann. Við höfum ferðast mikið um Suður-Ameríku og urðum mjög heilluð af litanotkuninni þar og hverju þau þora! Í eldhúsinu reyndum við að ná fram Karíbahafsstemningu með þessum bláa lit, sem minnir okkur á þegar flogið er yfir eyju og maður sér grynningar í sjónum. Þessi skandinavíski grái stíll er alls ekki okkar.“
Hvaðan koma hlutirnir ykkar? „Við kaupum rosalega sjaldan húsgögn, en höfum fengið margt gefins frá vinum og fjölskyldu – við erum mjög hrifin af því að nýta. Svo söfnum líka við uppstoppuðum fuglum, en það er áhugamál sem fæstir skilja.“
Veggina prýða fjölmörg eftirtektarverð listaverk. „Við erum með töluvert af verkum eftir Gabríelu Friðriks, systur mína, og að auki er Ragna Róberts móðursystir hans Orra en við erum mjög heppin að hafa tvo svona æðislega listamenn í fjölskyldunni,“ segir Helga.
Hvaða listamenn eða hönnuðir eru í uppáhaldi, aðrir en systir og móðursystir? „Við erum mjög hrifin af húsgögnum eftir Daníel Magnússon, en þau eru ótrúlega vel gerð og endast!“ Þau bæta við að uppáhaldslistamaður Helgu sé Frida Khalo og Orra sé austurríski málarinn Egon Schiele. Aðspurð um uppáhaldsverslunina nefna þau The Evolution Store í New York, en þar má kaupa skeljar, steingervinga, uppstoppuð dýr, skinn, beinagrindur og fleira í þeim dúr en Helga segir þau Orra hafa smekk fyrir þjóðlegum munum víðsvegar að úr heiminum.
Við göngum niður litríkan stigann og rekum strax augun í einkar skemmtilegt gólfið. „Þetta eru steinar úr Djúpalónssandi, en fyrri eigendur dúlluðu við þetta ásamt baðherberginu.“ Baðherbergið minnir svolítið á að vera inni í helli, en loft og veggir liggja saman sem heild og hornin eru öll rúnuð, á veggnum við baðið er svo vönduð mósaík af haföldum. Það er allt öðruvísi stemning í þessu baðherbergi.
Okkur lék forvitni á að vita hvernig starfsferill í skartgripasmíði varð fyrir valinu. „Ég starfaði á gullsmíðaverkstæði í New York og lærði demantsísetningar þegar ég var búsettur þar, en ég lauk svo náminu hér heima árið 2000,“ segir Orri. „Systir mín bjó úti og ég ætlaði í heimsókn yfir jólin 1995 og svo bara ílengdist ég, seinna sótti ég um græna kortið og í framhaldi af því var ég í fimm ár úti og er nú bandarískur ríkisborgari.“
Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir Íslendinga ekki vera betur varða fyrir efnahagslegum áföllum nú en fyrir tíu árum þegar hrunið átti sér stað. Hann telur að stjórnmálamönnum hafi mistekist að tryggja landsmönnum efnahagslegt skjól.
„Við erum ekkert betur varin fyrir efnahagslegum áföllum en fyrir tíu árum þegar hrunið skall á okkur. Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist,“ segir Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Baldur segir aðgerðir stjórnvalda meðal annars felast í aðildarumsókn að Evrópusambandinu, fríverslunarsamningi við Kína og nánari tengslum við ríki sem sýni málefnum Norðurskautsins áhuga. „Nú tala ráðamenn um að okkur myndi farnast best með því að fylgja Bretum, eftir að þeir ganga úr Evrópusambandinu, og gera fríverslunarsamninga við önnur ríki.“
Baldur kynnti í vikunni bókina „Small States and the Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs“ sem fjallar um pólitísk, efnahagslega og félagslega snertifleti Íslands við helstu ríki, efnahagssvæði og alþjóðastofnanir. Þetta er rannsókn unnin undir forystu hans og rannsóknateymis við Rannsóknasetur um smáríki við Háskóla Íslands. Ætla má að þetta sé ein víðtækasta rannsókn sem unnin hefur verið á alþjóðasamvinnu Íslendinga.
Baldur segir bókina snúast um tvennt. Annars vegar er þar sett fram kenning um skjól. Samkvæmt henni glíma smáríki við innbyggða veikleika á borð við lítinn og sveiflukenndan heimamarkað, takmarkaða varnargetu og litla stjórnsýslu. „Lítil ríki eru eðlilega vanmáttugri en þau stóru. Þau þurfa að grípa til sérstakra ráðstafana innanlands og erlendis til að vega upp á móti þessum veikleikum. Að mínu mati er það grundvallaratriði fyrir stjórnmálamenn í litlum ríkjum að sætta sig við þessa innbyggðu veikleika. Ef þeir horfast ekki í augu við þá, munu þeir ekki grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að draga úr þeim,“ segir Baldur.
Skjólkenningin sem Baldur nefnir kveður á um að smáríki þurfi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól til að koma í veg fyrir áföll eins og efnahagshrun og netárásir. Ef smáríki verði hins vegar fyrir efnahagsáfalli eða netárás, þurfi það að geta leitað aðstoðar þegar í stað. Í þriðja lagi þurfi smáríkið líka að geta fengið aðstoð við uppbyggingu eftir slíkt áfall.
„Stjórnmálamenn hafa verið að reyna að tryggja okkur efnahagslegt skjól með ýmsum hætti en ekki tekist.“
Höfðum við þetta fyrir síðasta hrun?
„Nei, við höfðum það ekki og við höfum það ekki heldur í dag,“ segir Baldur og nefnir sem dæmi möguleikana ef nýtt efnahagslegt áfall ríður yfir með gjaldþroti annars stóra íslenska flugfélagsins eða mögulega beggja með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahag landsins og lífskjör fólks. Utanaðkomandi stuðningur gæti dempað þau áhrif. „Við höfum engan til að leita eftir aðstoð hjá, frekar en fyrir áratug, nema þá aftur Alþjóðagjaldeyrissjóðinn,“ segir hann.
Í bók Baldurs eru í samræmi við þetta skoðuð tengsl Íslands við Bandaríkin, Norðurlöndin, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, aðildina að EFTA, EES og Schengen. Jafnframt er skoðað hvar hugsanlegt sé að finna skjól fyrir Ísland í framtíðinni og rýnt í efnahagslega, pólitíska og félagslega þætti.
Baldur segir Bandaríkin hafa um árabil veitt Íslandi skjól, jafnt í efnahagsþrengingum sem milliríkjadeilum. Íslendingar hefðu líklega ekki unnið þorskastríðin nema vegna diplómatísks stuðnings Bandaríkjanna. Með brotthvarfi Varnarliðsins árið 2006 var ljóst að skjólið var ekki vestra lengur. Það kom líka í ljós í efnahagshruninu.
Félagslegt skjól hefur verið að finna á hinum Norðurlöndunum og leita Íslendingar enn þar eftir fyrirmyndum og samstarfi við helstu stofnanir. „Aðildinni að EES fylgir líka umtalsvert félagslegt skjól og er það verulega vanmetið, að okkar mati. Íslenskt vísindasamfélag væri ekki svipur hjá sjón ef það hefði ekki aðgang að samstarfsneti erlendra fræðimanna og styrkfénu sem fæst með Evrópusamvinnunni. Aðgangur að menntastofnunum í Evrópu er lykillinn að framþróun íslensks samfélags,” segir Baldur.
Að mati Baldurs felst umtalsvert efnahagslegt skjól í aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. „Þar erum við hluti af stærri markaði. Við erum með löggjöf sem hefur stóraukið samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, aukið hagvöxt, auðveldað útflutning og bætt lífskjör í landinu. Til viðbótar skipti sameiginlegur vinnumarkaður á EES-svæðinu öllu máli. Flæði vinnuafls til og frá landinu dempar áhrif þeirra efnahagssveifla sem lítil hagkerfi lenda í,“ segir hann en bætir við að á sama tíma veiti EES-samningurinn okkur falskt öryggi. Ísland sé ekki meðlimur í klúbbnum, ekki innan ESB.
„Aðild að EES veitir ekki efnahagslega aðstoð til að fyrirbyggja hrun, stuðning þegar hrun dynur yfir og hjálp við uppbyggingu. Það sást best í hruninu fyrir tíu árum,“ segir Baldur.
Félög launafólks hafa nú mörg hver birt kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga. Af þeim má ljóst vera að ærið verkefni bíður samningsaðila; verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Ljóst er að metnaður forystufólks verkalýðsfélaga er mikill fyrir hönd umbjóðenda sinna og fyrir það ber að hrósa, sem og þann mikla baráttuanda sem ríkir innan verkalýðshreyfingarinnar. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að við höfum öll færi á að lifa mannsæmandi lífi á laununum okkar.
Hafandi fylgst með þjóðmálum ansi lengi þykist ég greina annan tón í forsvarsmönnum atvinnurekenda. Mér finnst þeir opnari fyrir ýmsu sem áður hefur verið talið útilokað og vonast til þess að þetta gefi góðan tón fyrir samningana. Oftar en ekki hefur ferlið í kjarasamningum verið þannig að verkalýðshreyfingin setur fram kröfur sínar, atvinnurekendur loka á þær allar og síðan sest fólk að samningaborði.
Ríkisstjórnin tók strax aðra stefnu hvað vinnumarkaðinn varðar en lengi hafði verið við lýði. Fundað var með aðilum í stjórnarmyndunarviðræðum og eftir stofnun ríkisstjórnar hafa verið haldnir tíu fundir. Nokkrum verkefnum er lokið, hækkun atvinnuleysistrygginga, hækkun hámarksgreiðslna Ábyrgðarsjóðs launa og niðurlagning kjararáðs, en fjölmörg eru enn í skoðun. Þar má nefna hagsveifluleiðrétt atvinnuleysistryggingagjald, úttekt á Fræðslusjóði, starfshóp um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga, tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar og ýmislegt fleira.
Þá hefur ríkisstjórnin tilkynnt að unnið sé að ýmsum málum sem eiga eftir að koma launafólki – og raunar samfélaginu öllu – vel. Til dæmis breytingar í skattkerfinu, lækkun á tryggingagjaldi og það hvernig skattbyrði verður best létt af tekjulæsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þá er ljóst að taka verður rækilega til hendinni í húsnæðismálum.
Kjarasamningar eru hins vegar á milli launafólks og atvinnurekenda. Ríkið kemur að sumum þeirra sem launagreiðandi, en slíku er ekki að heilsa á almenna markaðnum. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er fyrst og fremst að semja um kaup og kjör félagsmanna. Það er ekki í hennar höndum að taka ákvarðanir sem er okkar alþingismanna að taka sem handhafa löggjafavaldsins. Að sjálfsögðu er eðlilegt og nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin komi skoðunum sínum á umbótum á framfæri, en þær geta aldrei orðið krafa á stjórnvöld.
Ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst því yfir að hún sé reiðubúin til að greiða fyrir málum og hún hefur þegar sýnt það í öllum sínum gjörðum að svo er, bæði með samráði og þeim verkefnum sem hér hafa verið talin upp. Fyrstu skref í skattkerfisbreytingum sem birtust í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár eru í anda yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að þær gagnist best tekjulægsta fólkinu og lægri millitekjuhópum. Þar er verið að hækka barnabætur svo um munar, hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu og samræma viðmiðunarfjárhæðir í skattkerfinu þannig að neðri og efri mörk þróist með sambærilegum hætti.
Það verður áhugavert að sjá hvernig aðilum kjaraviðræðna tekst að nálgast hver annan. Íslenskt samfélag er ríkt að verðmætum og við ættum öll að geta haft það býsna gott. Það er von mín að kjarasamningar skili raunverulegum kjarabótum og bæti líf og kjör þeirra sem svo sannarlega þurfa á því að halda. Það á að vera metnaðarmál okkar allra að fólk fái vel greitt fyrir störf sín og að lífskjör batni.
Tveir fyrrum starfsmenn kaffihúsins og ísbúðarinnar Joylato við Njálsgötu 1, báðir erlendir ríkisborgarar, segja farir sínar ekki sléttar í samtali við blaðamann Mannlífs. Þeir segjast ekki hafa fengið laun samkvæmt kjarasamningum og annar þeirra fékk aðeins stöku vasapeninga úr sjóðsvél verslunarinnar. Þá hafi rekstraraðilar þrýst á starfsmennina um að stunda hugleiðslu og skírlífi.
Starfsmennirnir segja jafnframt að flest starfsfólk fyrirtækisins komi víðs vegar að úr heiminum og tilheyri alþjóðahreyfingu Sri Chinmoy og fái aðeins greidda vasapeninga. „Þetta er eins og eitthvað stórundarlegt költ, og fólkið kallar sig lærisveina Sri Chinmoy,“ segir annar tveggja viðmælenda Mannlífs, kona á þrítugsaldri.
Konan sem starfaði hjá fyrirtækinu árið 2016 segist hafa fengið vinnuna fyrir tilviljun. Hún var ekki með íslenska kennitölu og þar af leiðandi ekki bankareikning heldur. Hún segir yfirmann sinn hafa lofað að aðstoða hana við að leysa úr því „Ég fékk starfsþjálfun hjá einum lærisveininum en eftir aðeins tvær vikur í starfi þurfti eigandinn að fara til útlanda og fól mér að bera ábyrgð á rekstrinum á meðan. Ég sá um að panta vörur, sjá um uppgjör og mannaráðningar. Eigandinn var nánast aldrei við,“ segir hún.
Konan segist hafa samið um 1500 kr. í tímakaup en það hafi síðan hækkað upp í 1750 kr. þegar ábyrgð hennar jókst. Hún hafi hins vegar lítið fengið af þessum launum, og aldrei launaseðla. „Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“
Segja skírlífi skilyrði
Þegar þarna var komið sögu var konan á hrakhólum með húsnæði og hafði ekki efni á húsaleigu. Hún var þá nýbúin að ráða landa sinn og kunningja, karlmann á þrítugsaldri. Hann leigði litla íbúð og skaut skjólshúsi yfir konuna. Maðurinn hefur svipaða sögu að segja. „Lærisveinarnir þurftu að vakna fyrir klukkan sex, hlaupa daglega, hugleiða í hugleiðslustöðinni og einu sinni á dag þurfti fólkið að biðja eða hugleiða við mynd af Sri Chinmoy. Kynlíf og náin sambönd voru bönnuð og ég mátti t.d. ekki vera einn í eldhúsinu með konu,“ segir hann og bætir við að þau hafi heldur ekki mátt hlusta á aðra tónlist en frá Sri Chinmoy.
„Það stóðst ekkert, ég fékk aldrei kennitölu og það var aldrei gert upp við mig. Ég fékk stöku sinnum vasapeninga úr kassanum, kannski 10 þúsund krónur á viku.“
„Skattinum hafði aldrei verið skilað“
Starfsmennirnir fyrrverandi segjast hafa fundið fyrir miklum þrýstingi að ganga til liðs við hreyfinguna. „Kona úr költinu talaði yfir hausamótunum á okkur í tvo tíma á dag um hversu frábært lífið væri innan hreyfingarinnar og eilíf hamingja. Hún hélt því meira að segja fram að alnæmi væri ekki til,“ útskýrir maðurinn, sem er samkynhneigður og segist hafa orðið fyrir stöðugu aðkasti vegna þess. Hann segist einnig eiga inni laun hjá fyrirtækinu. „Ég fékk seint og illa borgað, engin yfirvinna var greidd þrátt fyrir að hafa unnið allt að 12-14 tíma á dag. Það mesta sem ég fékk greitt fyrir einn mánuð voru 176 þúsund. Ég gerði ráð fyrir því að afgangurinn færi í skatt en þegar ég fyllti út skattaskýrsluna mína tók ég eftir því að skattinum hafði aldrei verið skilað.“
Fólkið leitaði á skrifstofu Eflingar stéttarfélags ásamt þriðja aðila á sínum tíma en þá var ekkert hægt að gera fyrir þau þar sem þau voru hvorki með launaseðla né ráðningasamninga.
Mannlíf skoðaði ársreikninga þriggja félaga sem tengjast rekstri eiganda ísbúðarinnar, Rúnari Páli Gígja, en fjórða félagið var stofnað í ágúst á þessu ári og því liggja fjárhagsupplýsingar þess ekki fyrir. Félagið Segðu minna gerðu meira ehf., sem annar viðmælandi segist hafa fengið greidd laun frá, skilaði tekjum upp á 20 milljónir króna árið 2016 og var hagnaður þess ein og hálf milljón. Launagjöld þess námu 4,5 milljónum króna sem samsvara árslaunum eins starfsmanns. Það félag sem ber sama nafn og ísbúðin, Joylato ehf., tapaði 12 milljónum króna árið 2016 og var eigið fé þess neikvætt um 15 milljónir. Þar kemur fram að útgjöld vegna launa námu 3 milljónum. Þriðja félagið heitir svo Fasteignafélag MVB, áður Mamma veit best, en samkvæmt ársreikningi fer engin starfsemi þar fram.
Ekki náðist í Rúnar Pál við vinnslu fréttarinnar en Tara Jensdóttir, framkvæmdastjóri Mamma veit best, vísar ásökunum starfsmannanna fyrrverandi á bug. Sagði hún að allir starfsmenn væru á launaskrá og að svo hefði alltaf verið. Aðspurð út í ofangreinda ársreikninga þar sem launakostnaður er hverfandi sagði hún að um allt annan rekstur væri að ræða en í dag og að þessi félög væru hætt rekstri.
Efling mætti á staðinn
María Lóa Friðjónsdóttir, sérfræðingur ASÍ í vinnustaðaeftirliti, staðfestir í samtali við Mannlíf að ábendingar hafi borist varðandi ísbúðina Joylato og heilsuvöruverslunina Mamma veit best og að farið hafi verið í eftirlit í fyrirtækin.
„Ábendingarnar snúast aðallega um að þarna sé reglulega ráðið inn fólk erlendis frá, fólk sem ætti í raun að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi en það komi á ferðamannapassa og í einu tilfelli kom starfsmaður á námsmannapassa. Málið er til skoðunar hjá Eflingu,“ útskýrir María Lóa.
Hjá Eflingu fengust þau svör að fulltrúar á þeirra vegum hafi farið í eftirlit í umrædd fyrirtæki fyrir um mánuði síðan. „Ég var með í fyrsta eftirlitinu sem þarna fór fram og það var sláandi að starfsfólkið virtist ekkert meðvitað um sín réttindi,“ segir María Lóa og bætir við að stéttarfélögin séu háð því að fólk leiti til þeirra eftir leiðréttingu. „Stéttarfélagið hefur ekki heimild til að fara af stað með slík mál að eigin frumkvæði.“
Starfsfólk fékk uppfræðslu og bæklinga um sín réttindi og kjör þegar eftirlitsaðilar létu sjá sig og var fólkið hvatt til þess að leita til stéttarfélagsins til að fá leiðréttingu ef það teldi á sér brotið.
María Lóa nefnir sérstaklega eitt atriði sem henni þykir alvarlegt: „Við fengum ábendingu um a.m.k. eina manneskju sem kom til landsins til að vinna hjá þessum aðilum, væntanlega á ferðamannapassa; vann í ákveðinn tíma og fór svo aftur til baka. Hún ætti vitanlega að fá íslenska kennitölu og borga skatta og gjöld hér á landi,“ segir hún og bætir við að það sé orðin vinnuregla í svona tilvikum að skattayfirvöldum og Vinnumálastofnun sé gert viðvart.