Föstudagur 20. september, 2024
3.8 C
Reykjavik

Léttar leiðir til að bæta heilsuna

|
|

Nokkrar hraðar mínútur
Öll hreyfing skiptir máli en rannsóknir hafa sýnt að ef fólk stendur upp af og til yfir daginn og tekur einnar til tveggja mínútu hraða æfingu eykst þolið hratt og brennsla líkamans eykst til muna. Meðal æfinga sem gott er að gera eru sprellikarlahopp, hlaup upp stiga, hlaupið á staðnum eða sippa. Svokölluð froskahopp, burpees og fleiri góðar æfingar geta einnig nýst vilji menn prófa þessa leið.

Teygðu úr þér

Gott er að taka sér tíma til að teygja úr sér nokkrum sinnum yfir daginn.

Teygjur viðhalda liðleika vöðva og koma í veg fyrir að þeir styttist. Að teygja eftir líkamsrækt og æfingar dregur úr líkum á að menn fái harðsperrur en það ætti og er auðvelt að teygja mun oftar. Þeir sem eiga gæludýr hafa væntanlega tekið eftir að dýrin byrja ævinlega á að teygja sig í hvert sinn sem þau standa upp og eftir hvern blund yfir daginn. Byrjaðu daginn á að teygja vel á þér. Teygðu hendurnar upp í loft og stattu á tánum. Lyftu handleggjunum yfir höfuð og hallaðu þér vel til beggja hliða til að teygja á mittinu og síðuvöðvunum. Settu annan fótinn upp í rúmið og hallaðu þér fram og teygðu á lærvöðvunum. Taktu einnig tíma til að teygja á framanverðum lærunum og kálfunum. Snúðu þér svo að morgunverkunum.

Borðaðu prótín
Prótín er helsta byggingarefni vöðva og næringarfræðingar segja að flestir nútímamenn borði of lítið prótín. Fylli sig með kolvetnum en skeri niður prótíngjafana í máltíðinni. Fullorðin manneskja þarf 170-200 g af prótíni þrisvar sinnum yfir daginn. Gott viðmið er að ein kjúklingabringa, 200 g fiskbiti eða hálfur bolli af baunum gefa þann skammt sem þú þarft í hverri máltíð. Skoðaðu hvernig þú setur saman diskinn þinn og vittu hvort þú þurfir að bæta við prótínið. Eitt egg á morgnana getur einnig gert kraftaverk.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Meiri umferð en minni bílasala í mars

Það sem af er ári hefur umferðarþungi aukist um höfuðborgarsvæðið sem nemur 3,3 prósentum. Bílasala hefur hins vegar dregist saman. Ferðalög erlendis geta haft áhrif.

Gríðarlegur fjöldi Íslendinga dvaldi erlendis hluta úr marsmánuði sem getur verið ein af útskýringum þess að dregið hefur úr bæði bílasölu og aukningu í umferðinni.

Sé rýnt í nýútgefnar tölur frá Vegagerðinni má sjá að umferð um höfuðborgarsvæðið jókst um 2,9 prósent í mars milli ára. Þetta er mun minni aukning en í fyrra en þá nam hún 15 prósentum í sama mánuði.

Séu fyrstu þrír mánuðir ársins teknir saman nemur aukningin 3,3 prósentum sem er sömuleiðis heldur minni aukning en í fyrra.

Þessi aukning er hins vegar í takt við það sem gerst hefur í mars síðustu tólf ár, þar sem aukningin hefur að jafnaði verið í kringum þessi þrjú prósent.

Síðustu fimm ár skera sig hins vegar úr. Aukningin hefur verið helmingi meiri, eða heil sex prósent. Það virðist því vera að við séum komin yfir mestu sprengjuna í aukningu á umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu.

Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt.

Umferðin er mest á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudögum en minnst á sunnudögum. Hún hefur hins vegar aukist milli ára á sunnudögum en dregist mest saman á föstudögum. Enda nennir enginn að vera fastur í umferð á föstudagseftirmiðdegi.

Sömu fréttir er að segja af bílasölu í nýafstöðnum marsmánuði en samdráttur varð upp á tæp 12 prósent miðað við mars 2017. Sé litið til fyrsta ársfjórðungs ársins er salan hins vegar nær sú sama og í fyrra, rúmlega 4.600 bílar.

Af þessum tölum má ráða að jafnvægi sé að færast yfir bílamarkaðinn. Þetta er í takt við það sem er að gerast á húsnæðismarkaðnum eftir mikla uppsveiflu síðustu ár. Hins vegar á eftir að taka inn einn veigamikinn þátt þegar tölurnar eru skoðaðar. Öll bílastæði við Keflavíkurflugvöll voru yfirfull um páskana. Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt. Vaknar þá spurningin hvort markaðurinn taki óvæntan kipp nú þegar vélarnar eru lentar aftur heima og bílastæðin tóm.

Aðalmynd: Fjörutíu prósent nýskráðra bíla á fyrstu fjórum mánuðum ársins eru bílar seldir til bílaleiga. Það eru um 1.800 nýir bílaleigubílar sem flestir leysa eldri bíla af hólmi.

Leiktækið L-200

|||
|||

L-200 er einkar skemmtilegur pallbíll. Hann er einhvern veginn hæfilegur að flestu leyti. Góð blanda krafts, eyðslu og notagildis. Svo er hann líka fallegasti pallbíllinn á markaðnum í dag.

L-200 kallar á að maður fari út að leika sér. Finni fólk sem þarf aðstoð við að flytja eitthvað, eða finni síðasta skaflinn á suðvesturhorninu að festa sig í.

Áður en lengra er haldið verð ég að koma hreint fram. Ég elska pallbíla. Ekki amerísku drekana sem taka fjögur bílastæði í miðbænum og eyða á við meðalskuttogara, heldur nettari útgáfurnar sem flestar er runnar undan rifjum asískra bílaframleiðanda. Ég var því einkar ánægður með kostinn þegar ég keyrði yfir Hellisheiðina á móti rísandi sól á Mitsubishi L-200.

Kraftur og praktík
L-200 er heiðarlegur bíll. Þegar inn í hann er komið er innréttingin látlaus enda er hann laus við flestallt prjál. Auðvitað er hægt að fá endalausa aukapakka og auka þannig lúxusinn, en það er eitthvað við bílinn sem kallar á mann að sleppa því. Láta bakkmyndavélina og bluetooth-kerfið nægja og flýta sér bara út úr bænum og í eitthvað drullumall.
Það var nákvæmlega það sem ég gerði. Ferðinni var heitið austur fyrir fjall, sem fyrr segir, og í bústað.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var. Er ég renndi fram hjá Hveragerði var meðaleyðslan langt fyrir neðan 7L/100 km, sem er uppgefin eyðsla í blönduðum akstri. Vel hefur tekist til að kreista sem mest afl úr einungis 2,4 L-vél bílsins og er veskið afar þakklátt fyrir það.

Ég verð samt að taka fram að það er sama með L-200 og flesta pallbíla í hans flokki. Hann er örlítið hastur og fjaðrirnar að aftan hjálpa ekki.

Bakkmyndavélin, auk bluetooth-útvarps og stillihnappa þess í stýrinu, er um það bil eini lúxusinn sem er að finna í L-200. En það þarf ekki meira.

Kostir þess að vera á pallbíl
Á Selfossi komu fjaðarirnar og stífu dempararnir sér hinsvegar afar vel. Það er ekki hægt að vera á pallbíl án þess að nýta pallinn. Gera fólki greiða og flytja allskonar furðulegt dót.
Í þetta skiptið var bónin að flytja um það bil 300 kg af sandi og slatta af gegnvörðum við í sandkassa, bara rétt síðasta spölinn í Grímsnesið. Auðvitað sagði ég já og það er í svona tilvikum sem pallbílar eins og L-200 skína.

Ég var reyndar ekki viss um hvað umboðið sem lánaði mér bílinn til reynsluaksturs myndi segja, en fölskvalaus gleði yngsta sumarbústaðareigandans yfir nýja sandkassanum fyllti mig vissu um að ég hefði tekið rétta ákvörðun.

Leiktækið L-200
Helgin leið og eftir góðan rúnt um sveitina með skyldustoppinu í Friðheimum hélt ég aftur á heiðina heim á leið. Ég ákvað að leggja eina lokalykkju á leið mína upp á reginheiðinni. Ég fann mér vegslóða að fylgja en þar sem leysingar síðustu daga höfðu gert veginn gljúpan og skaflana að krapahindrunum ákvað ég að snúa við eftir fyrsta skaflinn, enda einbíla.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var.

En auðvitað þurfti ég aðeins að spólast í krapaskaflinum til að sjá hvort ég næði ekki góðum myndum af bílnum í alltumlykjandi þokunni. Að sjálfsögðu festi ég mig auðvitað í asnaskapnum, þurfti að hlaupa upp á veg og veifa næsta bíl. Þar voru á ferð heiðurshjón á besta aldri sem skemmtu sér konunglega yfir því að losa kokhrausta bílablaðamanninn á nýja bílnum í miðjum reynsluakstri. Höfðu þau á orði að það þyrfti fólk á eftirlaunum á bíl á eftirlaunum til að bjarga mér.
En þannig er að vera á pallbíl. Maður lendir í alls konar ævintýrum og kynnist alls konar skemmtilegu fólki. Það er eitthvað frelsi fólgið í því og einhver undarleg framkvæmdagleði sem fylgir því.
Ef á annað borð er verið að velta fyrir sér að festa kaup á pallbíl er L-200 á lista þeirra bíla sem þú ættir ef til vill að skoða fyrst.

 

Flakið frumsýnd á næsta ári

Tökur standa nú yfir á íslensku kvikmyndinni Flakið og eru leikarar og aðstandendur myndarinnar duglegir að birta myndir úr ferlinu undir kassamerkinu #flakidthemovie á samfélagsmiðlum.

Myndin fjallar um stúlku sem vill komast að leyndarmáli ömmu sinnar, sem legið hefur í þagnargildi í sextíu ár. Flakkað er á milli fortíðar og nútímans í myndinni, en nútímaparturinn er að mestu á ensku og að miklu leyti tekinn upp á Hesteyri.

Tökur eru langt komnar og stefnt er að því frumsýna myndina á næsta ári. Fyrsta stiklan úr Flakinu er væntanleg á næstunni, en meðal leikara í myndinni eru Anna Hafþórsdóttir, Víking Kristjánsson og Vignir Rafn Valþórsson. Leikstjóri myndarinnar er læknirinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Lýður Árnason.

Aðalmynd: Hér frá vinstri eru Anna Hafþórsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Víkingur Kristjánsson, Hákon Jóhannesson og Vignir Rafn Valþórsson.

Kynfræðslan í Þjóðleikhúsinu

Leikritið Kynfræðslan, sem kemur úr smiðju hinna ærslafullu Pörupilta, verður ekki á fjölum Borgarleikhússins á næsta leikári, eins og það hefur verið síðustu fjögur ár. Vildi Borgarleikhúsið rýma fyrir öðrum verkum. Pörupiltar voru þó ekki lengi heimilislausir þar sem þeir hafa nú samið við Þjóðleikhúsið, þar sem Kynfræðslan verður sett upp á komandi leikári, á sama stað og Pörupiltar settu upp sína fyrstu sýningu.

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir, sem skipar Pörupilta ásamt leikkonunum Maríu Pálsdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur, segir piltana vera hæstánægða með þessar breytingar.

„Við erum alsælar að vera komnar aftur í Þjóðleikhúsið þar sem við byrjuðum með fyrstu sýninguna okkar fyrir mörgum árum og líka að fá að halda áfram að fræða og skemmta unglingum,“ segir Alexía, en Pörupiltarnir eru búnir að bralla ýmislegt saman í um tíu ár.

Kynfræðslan er í uppistandsformi og er ætluð fyrir unglinga, til að fræða og styrkja krakka, efla og afhelga umræðu um kynlíf. Verkefnið hefur verið styrkt af Reykjavíkurborg síðan það fæddist fyrir fimm árum, en Alexía segir þá Pörupilta þurfa að fylgjast vel með til að uppfæra efni sýningarinnar í takt við tíðarandann.

„Já, við erum alltaf að uppfæra sýninguna á hverju ári enda alltaf eitthvað nýtt í umræðunni þegar kemur að kynlífi og kynfræðslu.“

KK beðinn um eiginhandaáritanir í Frakklandi

KK var við tökur á lokahluta seríunnar Sense8 í París.

Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, var nýverið við tökur á hinni geysivinsælu Netflix-seríu Sense8 í París. Æsispenntir aðdáendur fylgdust spenntir með öllu sem fór fram. „Þættirnir eru greinilega mjög vinsælir þarna, mjög stórir, því þarna var aðdáendahópur fyrir utan hótelið okkar allan sólarhringinn að reyna að sjá glitta í stjörnurnar,“ segir KK, sem fór sjálfur ekki varhluta af allri athyglinni og ekki í fyrsta sinn.

„Ég lenti nú bara í því þegar ég var í fríi í París í haust að vera stoppaður úti á götu af ungu fólki sem hrópaði: „Guð minn góður ert þetta þú! Má ég fá eiginhandaráritun!“ Og spurði svo hvort ég væri til í að sitja fyrir með þeim á sjálfu. Í Bandaríkjunum lenti ég í svipuðu dæmi. Þetta er svolítið skrítið, maður hefur aldrei upplifað það að vera „heimsfrægur“,“ segir hann kíminn.

„… vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki … og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum.“

Í París var verið að taka upp lokahluta Sense8 en KK leikur föður einnar aðalpersónunnar, hinnar íslensku Riley. Með í för voru Eyþór Gunnarsson og Lilja Þórisdóttir sem bæði fara með hlutverk í þáttunum. Stemningin var góð og segir KK að miklir fagnaðarfundir hafi orðið þegar leikararnir hittust, enda búnir að vinna áður saman að tveimur seríum og einni Sense8-mynd. Hann viðurkennir að það hafi hins vegar verið svolítið undarleg tilfinning að skjóta í nístandi kulda um hámiðja nótt í nánast mannlausum Eiffel-turni, þar sem lokatökurnar fóru fram.

En er ekkert skrítið að kveðja þessa persónu, píanóleikarann Gunnar, sem þú ert búinn að leika í ein fjögur ár? „Nei, í raun og veru ekki,“ svarar hann blátt áfram. „En vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki, leikurunum og ekki síst leikstjórunum Lönu og Lily Wachowsky með sína einstöku sýn á hlutina og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum. Auðvitað var þetta langt út fyrir minn þægindaramma, en ég hafði gott fólk í kringum mig, fékk stuðning frá Andreu Brabin, leiklistarkennslu hjá Kára Þórssyni og píanókennslu hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni sem kenndi mér að spila á píanó í þykjustunni, svo ég yrði nú trúanlegur sem heimsklassa píanókonsert leikari,“ segir hann og brosir.

Hefurðu hugsað þér að leika eitthvað meira? „Nei, ég hef ekkert verið að sækjast eftir því. Er ekki einu sinni með umboðsmann,“ svarar hann hógvær. „Þetta var bara skemmtileg reynsla.“

Aðalmynd: Í Sense8 fer KK með hlutverk píanókonsert leikararns Gunnars, sem er vinsæl persóna meðal aðdáenda þáttanna.

Alvöru Cruise Control

Cadillac býður nú upp á sjálfsýringu sem leyfir þér að halla þér aftur, slaka á og fá þér blund. Eða svo gott sem.

Hver man ekki eftir flökkusögunni um Ameríkanann sem setti húsbílinn sinn á cruise control á hraðbrautinni, fór svo aftur í bílinn að slaka á og var alveg steinhissa þegar bíllinn endaði á brúarstólpa.
Þessi snillingur getur nú gert nákvæmlega þetta og ekki haft neinar áhyggjur.

Í 2018 módelum af Cadillac er hægt að fá svokallað Super Cruise Control. Þá stjórnar bíllinn ekki bara hraðanum sjálfur heldur líka stefnunni og heldur þér innan þinna akreinar.

Búnaðinn er reyndar aðeins hægt að nota á hraðbrautum sem uppfylla ákveðna staðla og er að sjálfsögðu vita gagnslaus hér á landi á okkar mjóu vegum og einbreiðu brúm. Búnaðurinn er hins vegar enn eitt skrefið í átt að sjálfkeyrandi einkabílum.

Skipti út kvíða fyrir gleði

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason og dansarinn Ástrós Traustadóttir duttu úr leik í sjónvarpsþættinum Allir geta dansað síðustu helgi, en þátturinn hefur verið í sýningum í nokkrar vikur.

Sölvi tjáir sig á einlægan hátt um brotthvarf sitt úr þættinum í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann gengur sáttur frá borði.

„Einhvern tíma varð þessu dansævintýri að ljúka,“

skrifar Sölvi og segir að þátttaka hans í þættinum hafi verið stórsigur, þrátt fyrir tapið. „Það hljómar kannski furðulega þar sem ég hef unnið í sjónvarpi í fleiri ár, en fyrir mig er það að hafa stigið fjórum sinnum á svið fyrir framan mörg hundruð manns og í beinni útsendingu að dansa algjör stórsigur.“

Sölvi segist allajafna finna fyrir miklum kvíða, en að í dansinum hafi hann fundið gleði.

„Ég er í grunninn algjör kvíðabolti, en í stað kvíða hef ég ekkert fundið nema gleði og ánægju og náð að njóta þess í botn að koma fram. Allt þetta ferli í kringum dansþættina á Stöð 2 hefur verið algjör fyrsta flokks lífsreynsla. Ef einhver þarna úti fær símtal fyrir næstu seríu og er í vafa um það hvort hann eigi að taka þátt er svarið afdráttarlaust Já!!“

Hér fyrir neðan má sjá síðasta dansinn sem Sölvi og Ástrós dönsuðu í allir geta dansað:

Og hér er viðtal við þau eftir að kom í ljós að þau dönsuðu ekki meira saman:

Hlauparar jákvætt fólk

|
|

„Dásamleg náttúra í „bakgarðinum“ sem ég vissi ekkert um.“

Anna Sigríður Arnardóttir hafði aldrei hlaupið á ævinni þegar hún fór á nýliðanámskeið hjá Hlaupahópi FH en hún hafði tekið mataræðið í gegn nokkrum árum áður og var að leita að hentugri hreyfingu. Þrátt fyrir að komast vart milli ljósastaura til að byrja með féll hún fyrir hlaupunum og hefur með eljusemi og vinnu náð gríðarlegum framförum. Hún hefur nú meðal annars hlaupið tvö maraþon og Laugaveginn.

Anna Sigríður Arnardóttir féll fyrir náttúruhlaupum.

„Haustið 2011 var nýliðanámskeið í Hlaupahópi FH og vinkona mín spurði mig hvort ég kæmi ekki með henni á námskeiðið. Ég þurfti að hugsa mig mjög vel um, var spennt fyrir þessu en þorði ekki, enda hafði ég aldrei hlaupið á ævinni, ekki einu sinni þegar við áttum að hlaupa í íþróttum í grunnskólanum. Þegar námskeiðið var hálfnað fékk ég loksins kjark til að mæta á æfingu. Þann 20. nóvember 2011 mætti ég í kulda og snjó á mína fyrstu æfingu í þykkri úlpu og passaði því alls ekki inn í hópinn. Úlpan var fljót að fjúka þegar ég fór af stað en ég hafði enga þekkingu á því hvernig ætti að klæða mig á hlaupum,“ segir Anna Sigríður sem er viðskiptafræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkissins og nemandi í Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Nokkrum árum áður hafði hún lést um 30 kíló eftir að hún breytti mataræði sínu. „Á þeim tíma hreyfði ég mig ekkert og borðaði bara það sem mér fannst gott og eitthvað sem einfalt var að elda. Við maðurinn minn áttum djúpsteikingarpott og við notuðum hann mjög reglulega. Við átum sælgæti í miklu óhófi og drukkum gosdrykki í öll mál. Ég var búin að reyna marga matarkúra sem féllu alltaf um sjálfa sig eftir nokkrar vikur.“

Hlaupin hjálpa mér til að halda góðri andlegri heilsu
Það sem Önnu finnst svo heillandi við hlaupin er útiveran og félagsskapurinn. Hún segir að mikilvægt sé að gera styrktaræfingar líka til að koma í veg fyrir meiðsli og hefur hún meðal annars stundað stöðvaþjálfun í Hress til að styrkja sig. Náttúruhlaupin hafa svo verið að koma sterk inn að undanförnu. „Áhuginn á að hlaupa í náttúrinni byrjaði vorið 2014 þegar ég fór á námskeið hjá Náttúruhlaupahópnum sem byggist á að haupa á ýmsum stöðum í náttúrunni í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég féll alveg fyrir þessum hlaupastíl; þarna upplifði ég allt í senn, hlaupin, útiveruna, félagsskapinn og síðast en ekki síst, þessa yndislegu náttúru sem við erum með í „bakgarðinum“ okkar og ég vissi ekki af. Ég bara elska að hlaupa á stígum, innan um trén, blómin, fjöllin og jafnvel fram hjá lækjum og fossum. Þetta var ég búin að fara á mis við öll þessi ár. Það er eitthvað ólýsanlegt við hlaupin, bæði vellíðanin eftir æfingar, endorfínið á fullu og allt fólkið sem ég er búin að kynnast. Ég hef bara ekki enn þá hitt leiðinlegan hlaupara, það eru allir svo jákvæðir og með gott viðhorf til lífsins. Stundum hef ég verið að glíma við erfiðar aðstæður í lífinu, bæði álag heima og í starfi. Þá hafa hlaupin hjálpað mér til að halda góðri andlegri heilsu, enda segi ég að hreyfing sé allra meina bót,“ segir Anna Sigríður.

Texti / Ragnhildur Aðalsteindóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Góð skemmtun og fyrirtaks líkamsrækt

|
|

Sumarið er á næsta leiti með tilheyrandi útveru og margir að draga fram reiðhjólin sem legið hafa í geymslum yfir veturinn eða að kaupa sér ný.

Stærðir og stillingar

Viðurkenndur hjálmur af réttri stærð er auðvitað ómissandi.

Þegar nýtt hjól er valið þarf að huga að stærð hjólsins. Þumalputtareglan við hjól með slá er að þegar notandinn stendur yfir þverslánni eiga að vera um það bil þrjár tommur eða tæplega átta sentimetrar upp í klof. Einnig er mikilvægt að hnakkurinn sé í réttri hæð. Hnakkurinn er rétt stilltur þegar hjólreiðamaðurinn situr á hnakknum, lætur annað fótstigið í neðstu stöðu, stígur á það með hælnum og getur þá rétt alveg úr fætinum. Rétt stilling hnakksins er afar mikilvæg, sérstaklega í lengri hjólreiðaferðum, til að álag á fæturna verði rétt. Þriðja mikilvæga atriðið er að stærð sjálfs hjólastellsins sé rétt. Ef hnakkurinn er rétt stilltur á stýrið að vera um fimm sentimetrum lægra en hnakkurinn og á stýrið að skyggja á framöxul hjólsins þegar hjólreiðamaðurinn hefur báðar hendur á því.

Viðhaldið er mikilvægt
Gott viðhald hjóla skiptir miklu máli bæði fyrir endingu þeirra og öryggi. Ráðlegt er að smyrja keðju hjólanna vikulega með sérstakri teflonolíu og sérstaklega ef hjólið hefur staðið úti í rigningu. Einnig er mikilvægt að hugsa vel um bremsuborða hjólsins, kanna slit reglulega og gæta að því að þeir séu rétt stilltir. Rétt stilltir borðar eiga hvorki að rekast í dekkin né í gjörð og ekki á að heyrast ískur þegar bremsað er. Auk þess að fylgjast með keðju og bremsum er mikilvægt að fylgjast með gírum hjólsins. Gírvírar teygjast yfirleitt nokkuð með tímanum og mynda því eins konar hlaup í gírunum. Gott er að strekkja á vírunum um það bil mánuði eftir að hjólið er keypt. Þá er gírastrekkjaranum á hjólinu snúið rangsælis þar til strekkist á vírunum. Með tímanum má einnig gera ráð fyrir slaka í legum hjólsins. Skemmdar legur eru fljótar að skemma út frá sér en með því að skipta þeim út eða herða þær upp í tæka tíða má spara mikið í viðhaldskostnað.

Sprungið dekk
Dekkjaskipti og -viðgerðir á hjóli eru lítið mál. Fyrst á að taka bremsur úr sambandi við gjörð. Þá er farið með keðjuna niður á minnsta tannhjólið að aftan og að framan til að slaka á keðjunni og öxulrær losaðar. Þá er dekkið laust og hægt að ná slöngunni úr því með hjálp dekkjaþvingu. Þegar gatið hefur verið fundið er gúmmíið í kringum það pússað, bótalím borið á slönguna og bótin sett á gatið. Síðan er slangan sett aftur inn í dekkið og lofti pumpað í áður en haldið er af stað.

Öryggið í fyrirrúmi
Rétt er að minna á nokkur öryggisatriði sem vert er að hafa í huga þegar þeyst er um á stálfáknum úti í góða veðrinu. Glitaugu eiga að vera bæði framan og aftan á reiðhjólum. Reiðhjólabjöllur eru einnig nauðsynlegur öryggisbúnaður og þær ber að nota til að gera öðrum viðvart, t.d. við framúrakstur á gangstéttum. Að sjálfsögðu er viðurkenndur hjálmur af réttri stærð algjörlega ómissandi. Hjólreiðafólki er heimilt að hjóla á gangstéttum jafnt sem á götum. Að sjálfsögðu eiga hjólreiðamenn að fylgja umferðarreglum eins og aðrir vegfarendur og hafa í huga að gangandi vegfarendur eiga réttinn á gangstéttunum.

Texti / Vikan
Mynd / Ernir Eyjólfsson

Spennandi að sjá viðbrögð Tyrkja

|
|

Kvikmyndin Andið eðlilega keppir á virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands.

Úr myndinni Andið eðlilega.

Íslenka kvikmyndin Andið eðlilega keppir á Istanbul International Film Festival, í flokki sem nefnist „Human Rights in Cinema“. Mannlíf náði tali af leikstjóranum og handritshöfundinum Ísold Uggadóttur sem var að vonum ánægð enda um að ræða elstu og virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands. „Það er auðvitað heilmikill heiður að fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði,“ segir hún glöð og kveðst vera spennt fyrir því að fara til Istanbul og sjá hvernig tyrkneskir áhorfendur koma til með að taka kvikmynd sem fjallar meðal annars um konu á flótta.

Istanbul International Film Festival er fjórða kvikmyndahátíðin sem Andið eðlilega er sýnd á, en eins og kunnugt er hlaut kvikmyndin alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í febrúar auk þess sem Ísold var valin besti alþjóðlegi leikstjórinn á lokahátíð Sundance-kvikmyndahátíðarinnar í janúar, fyrst íslenskra leikstjóra. Myndin hefur almennt verið lofuð í hástert af gagnrýnendum og var nýlega lýst sem drama af bestu gerð af sjálfu fagtímatímaritinu Cinema Scandinavia.

„Það er auðvitað heilmikill heiður á fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði.“

Ísold segist vera afar þakklát þeim sem hafa látið fögur orð falla um myndina, bæði kvikmyndagagnrýnendum hér heima og erlendis og svo ekki síst sjálfum áhorfendum. Henni þykir vænt um þau sterku viðbrögð sem myndin vekur hjá fólki og finnst gaman að skynja þann gríðarlega áhuga sem er fyrir myndinni, ekki síst erlendis frá, en sem dæmi um hann hefur myndin þegar verið keypt af dreifingaraðila í Tyrklandi og fer að öllum líkindum í almennar sýningar þar í landi síðar á árinu. „Leikstjórnarverðlaunin á Sundance hafa sannarlega haft þau áhrif að kvikmyndabransinn er meðvitaður um myndina og sýnir verkinu og höfundi meiri áhuga en hann hefði gert ella,“ segir hún sposk.

En hvað er annað á döfinni? „Fram undan er að undirbúa næstu mynd,“ svarar hún. „ Við verðum að sjá hversu langan tíma tekur að koma næsta verki á koppinn, en ég er bæði að þróa eigið verk og vega og meta þau verkefni sem mér hafa boðist að undanförnu. Svo mun ég auðvitað fylgja Andið eðlilega áfram eftir og kynna hana sem víðast,“ segir hún og getur þess að hún og umboðsmenn myndarinnar eigi nú einmitt í viðræðum við fleiri erlenda dreifingaraðila um kaup á myndinni. Á þessu stigi málsins sé hins vegar of snemmt að tjá sig frekar um þær „Þetta verður bara allt saman að koma í ljós,“ segir hún leyndardómsfull.

Aðalmynd: Ísold Uggadóttir er hæstánægð með að mynd hennar Andið eðlilega skuli hafa komist á Istanbul International Film Festival. Mynd / Þórdís Claessen

 

Erlendar bílaleigur svindla á Íslendingum

|
|

Þúsundir Íslendinga eru að undirbúa ferðalögin í útlöndum um þessar mundir. Margir leigja bíla en þá er mikilvægt að hafa varan á því dæmi eru um að erlendar bílaleigur hlunnfari Íslendinga.

Mörg dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið.

„Ég fann góðan díl fyrir fjölskyldubíl í gegnum vefsíðu flugfélagsins. Allt gekk samkvæmt venju. Á skrifstofunni var tekið afrit af kreditkortinu til tryggingar tjóni, ég fékk bíllyklana og bílinn. Þegar ég skilaði honum til baka tæpum hálfum mánuði síðar byrjuðu vandræðin,“ segir Birkir Marteinsson, sem fór með fjölskyldu sinni til Malpensa á Ítalíu í fyrra en þangað fljúga öll helstu flugfélögin. Birkir segir að þegar hann hafi skilað bílnum á bílaleiguna, sem er fyrir utan flugvöllinn, hafi starfsmaður gert athugasemd við á bílnum aftanverðum.

„Þetta var álíka stórt og títuprjónshaus hjá skottinu, venjulegt slit á bíl,“ segir Birkir. Hann segir starfsmanninn hafa skrifað tjónalýsingu á ítölsku inni á skrifstofunni þar sem hann lýsti því yfir að Birkir væri valdur að skemmdinni. Meta yrði tjónið og ætlaðist starfsmaðurinn til að Birkir skrifaði undir. Því neitaði hann. Á endanum skrifaði starfsmaðurinn lýsinguna á ensku og sagði Birki heppinn að vera ekki rukkaður fyrir annað tjón á bílnum. Birkir segir að hann hafi ekki getað sannað að skemmdin hafi verið á bílnum þegar hann leigði hann en maðkur hafi greinilega verið í mysunni því á sama tíma og þetta átti sér stað leigði annar viðskiptavinur bílinn og ók á brott.

„Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna.“

Þegar hann skoðaði á Netinu ummæli um bílaleiguna sá hann að aðrir viðskiptavinir höfðu greitt þúsundir króna vegna tjóns sem þeir voru sannfærðir um að hafa ekki valdið. Hann hafði því strax samband við kortafyrirtæki sitt á Íslandi. Bílaleigan var þar með úttektarheimild upp á 1.000 evrur, jafnvirði rúmlega 120.000 íslenskra króna. „Nokkru eftir að ég kom heim kom færsla frá þeim upp á 52.000 krónur. Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna,“ segir Birkir og kveðst hafa fengið sér annað kort.

Kröfðust 360.000 króna tryggingu

Mörg önnur dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið. Dæmi er um að fólk hafi leigt bíl á Spáni hjá leigu sem bauð góð tilboð en viðkomandi þekkti lítið til. Þegar á hólminn var komið gerði starfsmaður bílaleigunnar kröfu um að taka út 3.000 evrur (jafnvirði um 360.000 króna) af kreditkorti leigutaka sem tryggingu og endurgreiða hana 30 dögum eftir að bílnum væri skilað. Það var til viðbótar 400 evru leigu á bílnum. Þetta sætti viðskiptavinurinn sig ekki við og sleit viðskiptunum. Hann fékk hins vegar ekki evrurnar 400 endurgreiddar frá bílaleigunni og varð að snúa sér til kortafyrirtækisins. Endurgreiðslan skilaði sér fjórum mánuðum síðar.

Til að koma í veg fyrir svikastarfsemi sem þessa mælir Birkir Marteinsson með að fólk lesi ummæli viðskiptavina bílaleiga á Netinu áður en það leigir sér bíl, en þær má m.a. finna á https://uk.trustpilot.com/. „Ég mæli líka með því að velja stóru, viðurkenndu bílaleigurnar í stað þeirra sem maður þekkir ekki mikið eins og í mínu tilviki,“ segir hann og leggur áherslu á að fólk taki jafnframt myndir af bílum sem það leigir þegar það fær hann og við skil.

Aðalmynd: Birkir Marteinsson hvetur fólk til að eiga viðskipti við stórar, viðurkenndar bílaleigur.

Danir sólgnir í íslenskar agúrkur

|
|

Sölufélag garðyrkjumanna sendi á dögunum bretti með um 4.000 agúrkum til Danmerkur. Þær seldust upp. Önnur sending fór utan í vikunni og hefur meira verið pantað.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins, segir gott verð fást fyrir agúrkurnar, ívið hærra en hér á landi.

Hann segir að sölufélagið hafi byrjað fyrir um einu og hálfu ári að skoða útflutning á grænmeti til Danmerkur. Um nýbreytni sé að ræða því íslenskt grænmeti hafi nær eingöngu verið flutt út til Færeyja og Grænlands.

„Við fengum fyrirspurn um það af hverju ekki væri hægt að kaupa íslenskt grænmeti í Danmörku. Við skoðuðum málið úti og ræddum við danska kaupmenn. Viðtökurnar voru býsna góðar. Sérstaklega þóttu íslensku gúrkurnar góðar þar sem þær eru hreinni og af betri gæðum en þær dönsku,“ segir hann og bendir á að gerðar hafi verið prófanir á þeim áður en til útflutnings kom.

„Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint.“

Íslenskar agúrkur eru stærri en Danir eiga að venjast, alla jafna um 350 grömm en þær dönsku hundrað grömmum léttari og því þurfti að rækta afbrigði. „Það kemur annar keimur í bragðið á þeim litlu,“ segir Gunlaugur. „En þær eru mjög bragðgóðar.“

Agúrkurnar eru seldar í dönsku netversluninni nemlig.com, en Gunnlaugur segir í kortunum að fleiri danskar verslanir selji íslenskar agúrkur og grænmeti. Þar á meðal Irma. „Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint. Danirnir vildu tómata en við áttum ekki nóg til að senda út. En svo má selja þarna fisk og kjöt,“ segir hann. „Þarna eru tækifæri.“

„Þetta er gæðastund með stráknum mínum“

||
||

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens fékk sér húðflúr með syni sínum, Brynjari á dögunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem feðgarnir láta flúra sig saman en Bubbi segir þetta góða gæðastund sem þeir feðgar deila.

Aðalmynd: Össur, annar eigandi Reykjavík Ink, Bubbi og boxarinn og snapparinn Davíð.

„Hann langaði í tattú og ég ætlaði hvort sem er að fá mér tattú þannig að við gerðum þetta saman. Við höfum gert þetta áður, farið saman og fengið okkur tattú. Við erum bara vinir,“ segir Bubbi og bætir við að flúrun sé þeirra leið til að yrkja sitt samband.

„Þetta er gæðastund með stráknum mínum. Það er ekki allir foreldrar endilega sammála því en þetta er góð stund. Þetta er bara stemmari.“

Fékk fyrsta flúrið árið 1974

Flugan hans Bubba.

Bubbi og Brynjar fóru saman í flúr á húðflúrstofunni Reykjavík Ink á dögunum og lét Bubbi flúra á sig veiðiflugu en Brynjar fékk sér rýting. Er þetta fjórða flugan sem Bubbi lætur húðflúra á líkama sinn.

„Flugan er ákveðið tákn. Ég er ekki viss um að ég setji fleiri flugur á mig, en þetta eru flugur sem ég hef notað í veiði,“ segir Bubbi, sem er mikill veiðimaður eins og margir Íslendingar vita.

Bubbi hefur ekki aðeins skreytt líkama sinn með flugum, og státar af myndarlegu húðflúrsafni á sínum kropp. Það stendur ekki á svörunum þegar hann er spurður út í fyrsta húðflúrið.

„Ég fékk mér fyrsta tattúið árið 1974. Það var rós. Snemma beygist krókurinn,“ segir Bubbi og hlær. „Ég rækta rósir og hef gaman að rósum. Ég lét tattúvera yfir það og ég sé dálítið eftir því í dag. Það var frægur maður sem flúraði mig og það hefði verið gaman að vera með sýnilegt tattú eftir hann. Hann flúraði mig í Nýhöfninni.

Hann var kallaður Tattú Sven.

Næstu tattú á eftir fékk ég mér síðan í Rotterdam með Utangarðsmönnum,“ segir Bubbi. Hann segir að margt hafi breyst í húðflúrheiminum á þessum 44 árum.

Rýtingurinn sem Brynjar, sonur Bubba fékk sér.

„Þegar ég var að byrja í rokktónlistinni og rokkbransanum voru fáir, jafnvel engir með tattú. Það voru aðallega sjómenn og glæpamenn sem voru flúraðir. En það er mikið breytt. Þetta er orðið norm í dag og hefur orðið gríðarleg þróun í nálum, litum og tækni. Þær verða alltaf fallegri og fallegri myndirnar.“

Gott í bili

Í dag lætur Bubbi flúra sig á stofunni Reykjavík Ink, þar sem hann og einn eigandi stofunnar, Össur, eru góðir vinir.

„Ég fer þangað til að hitta Össur og kjafta og hafa gaman,“ segir Bubbi brosandi. Fyrrnefndur Össur er vel flúraður um allan líkamann, en Bubbi segir það ekki vera markmið sitt þegar kemur að flúri.

„Ég vil hafa ákveðna hluti hreina. Handleggirnir geta þolað að vera með slatta af flúrum en ég ætla sennilega að láta fætur, brjóst og maga vera.“

En er tónlistarmaðurinn byrjaður að skipuleggja næsta flúr?

„Nei, þetta er fínt í bili.“

Bað börnin að hjálpa sér að deyja

|||
|||

Fyrsta kvikmynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur í fjórtán ár, Adam, er fjölskylduverkefni sem fjallar um glímu sonar við spurninguna um hvort hann eigi að hjálpa heilabilaðri móður sinni að deyja, spurningu sem María þekkir úr eigin lífi.

María Sólrún kvikmyndaleikstjóri hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni að fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum.

María Sólrún Sigurðardóttir er kannski ekki nafn sem almenningur þekkir en hún hefur engu að síður haft meiri áhrif á líf okkar en okkur grunar. María Sólrún hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum, en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni í fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum. Hún er hins vegar líka kvikmyndaleikstjóri og er nú mætt er til landsins með fyrstu mynd í fullri lengd sem hún hefur leikstýrt í fjórtán ár og þar sem sonur hennar, Magnús, leikur aðalhlutverkið og dóttir hennar og tengdasonur sjá um tónlistina. Myndin, sem heitir Adam, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu þar sem hún fékk mikla athygli og umfjöllun og opnaði nýjar dyr fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Það hefur komið fram að viðfangsefni myndarinnar er glíma sonar við eigin samvisku eftir að móðir hans greinist með heilabilun. Hann hafði nefnilega lofað henni því að hjálpa henni að deyja ef til þess kæmi. Efnið er Maríu Sólrúnu hugleikið og stendur henni nærri, þar sem hennar eigin móðir glímdi við heilabilun í fjórtán ár og Maríu var sagt að það væru fimmtíu prósent líkur á því að hún sjálf ætti eftir að lenda í því sama.

„Við hefðum svo gjarna viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta.“

Þótt tilefni samtals okkar Maríu Sólrúnar sé að sjálfsögðu Adam og ástæður þess að fjórtán ár liðu á milli mynda hjá henni, byrjum við spjallið á hefðbundinn íslenskan hátt með því að ég spyr Maríu Sólrúnu hvaðan hún sé og hverra manna. Það þykir henni fyndið og gefur þær upplýsingar einar að hún sé fædd í Reykjavík og alin upp í Bústaðahverfinu. Við því er lítið að segja og talið berst snarlega að Berlínardvölinni en þangað fór hún árið 1985 og hóf nám við Freie Universität Berlin.

„Ég fór þar í kvikmyndafræði, listasögu og stjórnmálafræði en svo þegar ég var í miðju magister-verkefni söðlaði ég um og fór í kvikmyndaskólann í Berlín,“ segir María Sólrún.
Spurð hvað hafi valdið því að hún skipti um vettvang segir hún skýringuna á því vera einfalda.
„Ég hafði gert nokkrar stuttmyndir og þegar ég varð einstæð móðir ákvað ég að drífa mig bara í kvikmyndagerðina.“

Hefur horft upp á misrétti í bransanum

Á þeim tíma voru börn Maríu Sólrúnar, Liina og Magnús sem bæði leika í Adam, fimm og þriggja ára en eru í dag 27 og 24 ára. María dregur enga dul á það að staða hennar sem einstæðrar móður hafi haft mest að segja um það að hún valdi handritaskrif og ráðgjöf fram yfir leikstjórnina. „En það er svo merkilegt að það er ekki fyrr en á síðustu árum sem ég hef þorað að segja það. Og ég skal segja þér út af hverju. Þannig var að einhvern tíma kynnti framleiðandi kvikmyndar leikstjóra hennar fyrir mér og útskýrði að ástæðan fyrir því að það hefðu liðið tíu ár á milli kvikmynda frá þeim ágæta manni væri að hann væri einstæður faðir. Og allir í kring sögðu bara „æ, en sætt, oh hvað hann er góður maður.“ Ég notaði það aldrei sem afsökun fyrir neinu að ég væri einstæð móðir, tók aldrei frí út á það að börnin væru veik eða neitt slíkt, þorði ekki einu sinni að minnast á það.“

Þetta leiðir talið að umræðunni um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum, hver er reynsla Maríu Sólrúnar af henni?
„Þegar ég var barn var ég handviss um að þetta myndi allt breytast þegar ég væri orðin fullorðin, þá yrði sko komið jafnrétti milli kynjanna,“ segir hún og andvarpar. „Sérstaklega eftir að mæður okkar voru búnar að fara niður á Austurvöll 1975. En ég hef svo sannarlega horft upp á misrétti milli kynjanna í bransanum. Það er ekkert endilega bara körlunum að kenna, kerfið er svo rótgróið. Ég get auðvitað bara talað út frá sjálfri mér: Ég átti börnin mín og hefði ekki viljað missa af því en það fer vissulega mikill tími og kraftur í það, hvað þá að vera einstæð móðir. Og manni fannst maður kannski vera að missa af lestinni þegar strákarnir fóru að taka fram úr manni. Ég var búin að gera eina mynd en svo komu þeir með næstu mynd og næstu og næstu og þá gefst maður pínulítið upp, finnst ekki taka því að keppa við þá. Maður fær líka að heyra það að bransinn segi við einhvern framleiðanda sem ætlar að fara að vinna með þér „Bíddu, hún hefur nú ekkert gert í tíu ár. Getur hún þetta nokkuð lengur?“ Við konur þurfum bara að skapa okkur okkar eigin vettvang og hunsa þetta viðhorf. Þetta var mitt val og ég get alveg komið aftur. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið fjarverandi í bransanum þennan tíma, ég var alltaf að skrifa handrit að stórum sjónvarpskvikmyndum. Starf leikstjórans er auðvitað meira dóminerað af karlmönnum en við ættum frekar að ýta á það að kerfið taki okkur inn á okkar forsendum. Kvikmyndasjóður hérna heima hefur til dæmis staðið sig mjög vel í því. Hér hafa konur fengið styrki til að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd eftir fimmtugt, sem er algjörlega frábært.“

María Sólrún segir tiltektir vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur.

Leikstýrði syninum án orða

María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“

Magnús sonur Maríu leikur titilhlutverkið, Adam, hvernig gekk að fara úr hlutverki móðurinnar yfir í hlutverk leikstjórans gagnvart honum?
„Hann er svo prófessjónal, drengurinn, að það var ekkert mál. Kannski líka vegna þess að stuttmyndirnar sem ég gerði í gamla daga voru allar án samtala og í þessari mynd er aðalkarakterinn heyrnarlaus, þannig að það er ekki mikið um samtöl og þá getur maður meira stýrt án orða. Þannig að þetta samstarf gekk bara mjög vel.“

Hefði viljað leyfa móður sinni að deyja

Í kynningum og umfjöllunum um Adam hefur komið fram að umfjöllunarefnið, hvað sé best fyrir móður með heilabilun, stendur Maríu mjög nærri þar sem móðir hennar glímdi við heilabilun í fjórtán ár.
„Já,“ segir hún. „Við systkinin og vinir mömmu stóðum frammi fyrir þessari spurningu þegar verið var að ræða hennar aðstæður; fjórtán ár í hjólastól með bleiu. Fyrst var því haldið fram að við systkinin værum jafnvel með eitthvað svipað, að það væru fimmtíu prósent líkur á því að við yrðum svona. Við hefðum svo gjarnan viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta. Svo velti maður því auðvitað fyrir sér hvað maður sjálfur myndi vilja ef maður lenti í þessum aðstæðum. Það er svo óhugnanleg tilhugsun að enda svona. Og það versta er að þá er maður ekki lengur með rænu til þess að taka neinar ákvarðanir.“

Það er augljóst að þetta málefni er Maríu Sólrúnu hugleikið, ekki síst sú spurning hvort leggja eigi það á aðstandendur að taka ákvörðun um það hvort líknardráp væri kannski mannúðlegasta lausnin. Hún segist þó ekki geta, eða vilja, taka ákveðna afstöðu í því máli.

„Myndin gengur út á það að móðirin hafði einhvern tíma beðið son sinn að hjálpa sér að deyja ef hún skyldi einhvern tíma lenda í því að fá heilabilun eins og mamma hennar hafði fengið. Ég var reyndar búin að gleyma því, en Magnús minnti mig á það þegar við vorum að vinna myndina að ég hefði gefið börnunum mínum þessi skilaboð; í guðanna bænum ekki láta mig enda eins og ömmu. Þetta er það sem drengurinn Adam stendur frammi fyrir. Honum finnst hann skulda henni það að hjálpa henni að deyja.“
Líknardráp, sem sumir kjósa að kalla dánaraðstoð, eru bönnuð með lögum í Þýskalandi þannig að ef Adam myndi hjálpa móður sinni væri það glæpur, sem gerir baráttu hans við sjálfan sig enn erfiðari. „Skiljanlega,“ segir María Sólrún.
„Eitt er að ætlast til einhvers svona af börnunum sínum,“ segir hún. „Þar fyrir utan er það ólöglegt og jafnvel þótt það væri löglegt þá hefur manneskjan sem bað um aðstoð ekki tekið þá ákvörðun meðvitað að leggja slíka byrði á fólk. Ég sé samt alveg einhverja virðingu í því að fólk fái að deyja þegar það er orðið ósjálfbjarga. En ég á voðalega erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á þessu. Það er svo margt sem mælir bæði með og á móti.“

Tók upp atriði í eigin rúmi

Adam var frumsýnd á Berlínarkvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári og hlaut afar góðar móttökur og umsagnir. María Sólrún viðurkennir að það hafi komið henni á óvart, hafi eiginlega verið súrrealísk reynsla.
„Þetta var mynd sem ég tók heima hjá mér, karakterinn var í rúminu sem ég svaf svo í um nóttina, ég skipti ekki einu sinni um rúmföt. Þetta var allt svo rosalega persónulegt. Samstarfsfólkið var vinir mínir og börnin mín, allt prófessjónal leikarar samt, og öll vinnan var svo náin. Svo erum við allt í einu komin í einhvern þúsund manna sal fullan af fólki þar sem tekið er svona vel á móti á okkur. Myndin er komin upp á risastórt tjald, lítur vel út og greinilega snertir fólk. Fólk grætur allt í kringum mann í salnum. Það var vissulega súrrealískt.“

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu og börn hennar, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Þetta opnaði nýjar brautir fyrir okkur öll,“ segir hún stolt. „Við lítum á okkur sem fjölskyldu-listakollektív. Við Magnús erum að skrifa og þróa annað handrit með stóru fyrirtæki í Þýskalandi þar sem hann mun líka leika aðalhlutverkið. Það kom algjörlega til út af Adam. Hann er líka kominn með umboðsmann í Los Angeles eftir þetta. Við Liina erum svo að þróa sjónvarpsseríu fyrir annað stórt þýskt fyrirtæki og ég „sel“ alltaf tónlistarhugmyndir með í öll þessi verkefni og það eru Liina og Haraldur Þrastarson, kærasti hennar, sem vinna tónlistina. Þannig að vissulega hefur þessi mynd breytt öllu fyrir okkur.“

Konur þurfa að forma bransann upp á nýtt

Sjónvarpsserían umrædda leggur áherslu á kvenlega sýn og kvenlega reynslu, samt alls ekki eitthverja Sex and the City/Girls-hugmynd undirstrikar María. Þetta eru spennuþættir sem beina sjónum að konum og þeirra samskiptum. Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“

Ég heyri á Maríu Sólrúnu að henni finnst þessi umræða út í hött en ég þrjóskast við og spyr hvort hún sem kona sem gjörþekkir kvikmyndabransann trúi því í alvöru að hlutföll kynjanna jafnist út. Það sljákkar aðeins í henni.

„Sko. Það er alveg öruggt að tilhneigingin er sú að bransinn vill fara að sýna það að hann sinni ákveðnum skyldum. Það er alveg réttlætanlegt að spyrja hversu mikið sé á bak við það. En ef við konur sjálfar erum svolítið duglegar að nota tækifærið í leiðinni til þess að forma bransann pínu hagstæðar fyrir okkur, þannig að þú getir átt fjölskyldu og eignast börn en samt fengið að hafa rödd í þessum bransa, þá helst þetta svona. Ég trúi því. Það þýðir ekki endilega að konur þurfi að fara að gera kvikmyndir svona seint eins og ég, heldur skiptir máli að þú þykir hafa einhverja vikt í greininni þótt þú sért ekki að unga út efni sem leikstjóri eins hratt og einhverjir aðrir. Mér finnst allavega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.“

Konur skila sér síður út á markaðinn

María Sólrún segir sömu tiltektirnar vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur. Og áhrifin sjáist víðar.

„Kvikmyndahátíðin í Berlín tók þetta mjög alvarlega í ár, buðu miklu fleiri kvikmyndum gerðum af konum en áður hefur tíðkast. Þannig að umræðan hefur alveg áhrif. Það hefur lengi verið þannig í kvikmyndaskólum í Þýskalandi að konur eru næstum helmingur nemenda en það hefur ekki skilað sér út á markaðinn. Það er þess vegna sem ég tala svona mikið um að við þurfum að leyfa okkur að gera þetta á eigin forsendum og vera ekki hræddar um að missa af lestinni ef við eignumst börn og fjölskyldu og það dregur úr afköstunum í einhvern tíma. Það er aldrei of seint að snúa aftur.“

„Mér finnst alla vega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað, sem er mjög jákvætt.“

Talandi um endurkomu þá verður Adam frumsýnd á Íslandi sem lokamynd barnakvikmyndahátíðar í Bíó Paradís þann 14. apríl og fer síðan í almennar sýningar þann 16. Auk þess munu María Sólrún og Magnús verða með Master Class í Bíó Paradís 16. og 17. apríl. Hvernig er það hugsað?

„Við verðum með smáspjall eftir sýningu myndarinnar um það hvaða trix er hægt að nota ef maður ætlar að búa til heimakvikmynd sem getur lent á stórri kvikmyndahátíð,“ segir María Sólrún og skellir upp úr. „Við kunnum það.“

Dýrtíðin á Íslandi hrikaleg

Í tilefni af íslensku frumsýningunni er María stödd á landinu en hér hefur hún ekki búið síðan 1985. Dreymir hana, eins og marga brottflutta Íslendinga, um að flytja heim í ellinni og njóta íslenskrar náttúru?

„Nei, ég kem hingað reglulega og nýt náttúrunnar en mér finnst dýrtíðin hér bara svo hrikaleg að ég gæti ekki búið hérna,“ segir hún og það er sjokk í röddinni. „Ég fer bara aftur heim til Berlínar og þar munum við Magnús halda áfram að vinna í handritinu að nýju kvikmyndinni og við Liina að þróa sjónvarpsþáttaröðina. Við fengum líka styrk fyrir enn eitt handritið, svo það er nóg að gera. Ég er rétt að byrja!“

Samtalið fer að styttast í annan endann en að lokum spyr ég Maríu Sólrúnu hvort hún vilji koma einhverju á framfæri við íslenskar kvikmyndagerðarkonur áður en við hættum.

„Ég vil bara endilega nota tækifærið og hvetja konurnar í bransanum til dáða. Ekki bara þessar ungu, sem maður þarf líka að hvetja, heldur bara allar konur á öllum aldri, til að láta til sín taka í kvikmyndaiðnaðinum. Koma sínum sjónarmiðum á framfæri hvað sem það kostar. Jafnvel bara gera þetta innan fjölskyldunnar, eins og við. Það var einmitt einhver kona sem benti mér á að ég hefði unnið þessa mynd eins og bóndi sem þarf að leita allra leiða til að koma uppskerunni í hús, tók bara börnin með út á akurinn þegar á þurfti að halda.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

„Ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig“

|
|

„Ég vildi ekki trúa þessu,“ segir söngkonan Mariah Carey í forsíðuviðtali við tímaritið People, þar sem hún opnar sig um baráttu sína við geðhvarfasýki.

Mariah segist hafa greinst með sjúkdóminn árið 2001 í kjölfarið á því að hún hafi verið lögð inná spítala eftir að hún brotnaði niður andlega og líkamlega.

„Mig langaði ekki að burðast með smánarblettinn sem þessi lífstíðarsjúkdómur hefur, sjúkdóm sem myndi skilgreina mig og hugsanlega eyðileggja feril minn. Ég var dauðhrædd um að missa allt. Ég sannfærði sjálfa mig um að eina leiðin til að kljást við þetta væri að kljást ekki við þetta,“ segir Mariah í þessu einlæga viðtali.

Tekur lyf við sjúkdómnum

„Ég lifði í afneitun og einangrun þar til nýlega og ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig. Þetta var of þung byrði til að bera og ég gat það einfaldlega ekki lengur. Ég leitaði mér meðferðar, ég umkringdi mig jákvæðu fólki og byrjaði aftur að gera það sem ég elska – að skrifa og semja tónlist. Eins erfitt og þetta er þá vissi ég að það væri komið að því að ég myndi loksins deila sögu minni,“ segir þessi hæfileikaríka kona.

Forsíða People.

Söngkonan segist nú vera í meðferð og á lyfjum við geðhvarfasýki II sem lýsir sér í ýmist þunglyndi eða oflæti.

„Ég tek lyf sem virðist ganga vel. Þau gera mig ekki of þreytta eða sljóa eða neitt svoleiðis. Það er mikilvægast að finna jafnvægið,“ segir Mariah og bætir við að hún hafi ákveðið að leita sér meðferðar eftir erfiðustu ár lífs síns.

Mariah á tvíburana Monroe og Moroccan, sex ára, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Nick Cannon. Hún segist vera á góðum stað í lífinu í dag og vill aflétta þeirri skömm sem fylgir geðsjúkdómum.

„Ég er vongóð um að við getum komist á stað þar sem skömminni verður aflétt af fólki sem gengur í gegnum svona nokkuð eitt. Þetta getur verið mjög einangrandi.“

Biggest Loser-þjálfari hittir manninn sem bjargaði lífi hans

Einkaþjálfarinn Bob Harper, sem margir kannast við úr raunveruleikaþáttunum The Biggest Loser, hneig niður á æfingu í febrúar í fyrra og komst að því þegar hann vaknaði á spítalanum tveimur dögum seinna að hann hefði fengið alvarlegt hjartaáfall.

Bob var gestur í The Dr. Oz Show í gær þar sem hann talaði um þessa lífsreynslu og bætti við að hann hefði nýlega frétt af því að það hefði verið manneskja í ræktinni, sem þjálfarinn þekkti ekki neitt, sem hefði veitt honum fyrstu hjálp á staðnum.

Þá útskýrði Dr. Oz að teymið á bak við þáttinn hefði fundið þennan dularfull mann sem bjargaði lífi Bobs og spurði hvort þjálfarinn vildi hitta hann.

„Já!“ svaraði Bob umsvifalaust.

Ungi maðurinn, sem heitir Phillip, gekk þá inn í sjónvarpssalinn. Hafði þetta svo sterk áhrif á Bob, eins og sjá má í meðfylgjandi myndböndum, að hann kom ekki upp orði. Phillip er læknanemi og sagði í þættinum að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hann veitti alvöru manneskju fyrstu hjálp. Fyrir þetta atvik hafði hann aðeins æft sig á dúkkum.

„Ég leitaði að púlsi, sem var veikur, og síðan hætti ég að finna hann. Og síðan, allt í einu – viltu heyra þetta?“ spurði Phillip þjálfarann.

„Já,“ sagði Bob.

„Allt í einu varðstu blár. Rosalega blár. Þannig að þá hóf ég fyrstu hjálp.“

„Mótlætið styrkti baráttuviljann“

„Fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnmálum, skarpa sýn og réttlætiskennd. Okkur lék forvitni á að vita hver bakgrunnur hennar væri og komumst fljótt að því að þarna fer kona sem fékk snemma á lífsleiðinni að kenna á mótlæti á eigin skinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingiskona segir sögu sína í 14. tölublaði Vikunnar.

„Við fluttumst til Mosfellsbæjar þegar ég var í sjöunda bekk og þar skánaði ástandið ekkert. Ég var vinafá og átti erfitt uppdráttar í gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Mér var mikið strítt og sumir léku sér að því að þykjast vera vinir mínir til þess eins að geta niðurlægt mig á einn eða annan hátt. Sumarið fyrir níunda bekk tók ég svo þá glæfralegu ákvörðun að lita á mér hárið svart. Það var engin sérstök hugmyndafræði á bak við þetta hjá mér, Sunna vinkona mín mætti í „goth“-lúkkinu í heimsókn til mín einn daginn og mér fannst þetta bara rosalega töff. En þetta litaval var greinilega kornið sem fyllti mælinn hjá skólafélögum mínum sem virtust sameinast um að fyrirlíta mig og vilja gera mér lífið leitt. Fyrri önnin í níunda bekk fannst mér helvíti á jörðu, mér leið rosalega illa og framkoman við mig skildi eftir sig stór sár á sjálfsmyndinni,“ segir Þórhildur Sunna.

„Ég man eftir að hafa reglulega verið kölluð mansonisti, mansonari, djöfladýrkandi, dópisti og ýmislegt annað verra eins og tussa, hóra og tík. Ég man eftir viðstöðulausu áreiti og tilraunum til þess að plata mig til að segja eða gera eitthvað heimskulegt. Ég man að skólafélagar mínir áttu það til að henda í mig matarafgöngum í matsalnum. Þau voru mörg sem gerðu sér það að leik að reyna að fella mig á göngunum á efri hæðinni og ég man hvað ég var alltaf hrædd að ganga fram hjá þeim. Ég man sérstaklega vel eftir vanmættinum sem ég upplifði á hverjum einasta degi og hvað mér fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig.“

Ítarlegt viðtal er við Þórhildi Sunnu í 14. tölublaði Vikunnar, 2018, þar sem hún ræðir meðal annars um eineltið, áreitið og gamla lögmannahrúta á Alþingi.  

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fæddi barn í anddyrinu heima hjá sér

|
|

Þáttarstjórnandinn Seth Meyers og eiginkona hans, Alexi Ashe, eignuðust sitt annað barn, son sem hlotið hefur nafnið Axel, á sunnudag. Seth var mættur aftur til vinnu kvöldið eftir í þátt sinn Late Night With Seth Meyers, og lýsti þar fæðingunni, sem bar ansi fljótt að.

Í meðfylgjandi myndbandi byrjar Seth á að rifja upp fæðingu fyrsta barn síns, Ashe, sem kom mjög skjótt í heiminn.

„Við höfðum áhyggjur af því að hún ætti eftir að eignast barnið í Uber-bílnum,“ segir Seth en hjónakornin komust á spítalann áður en litla kraftaverkið kom í heiminn. Það sama var ekki upp á teningnum á sunnudaginn þegar Axel fæddist.

Í myndbandinu hér fyrir neðan sýnir hann einnig myndir frá stóra deginum.

Alexi byrjaði að finna fyrir hríðum og stuttu seinna leit tengdamamma Seths á hann og hrópaði: „Við verðum að fara á spítalann núna!“ Þau fóru í flýti niður í anddyri á byggingunni sem þau búa í en þegar Alexi var við það að setjast inn í Uber-bifreiðina sagði hún að barnið væri að koma og að hún gæti ekki sest inn í bílinn. Sem betur fer voru þau hjónin með dúlu með sér, sem sá til þess að fæðingin gekk vel í anddyri byggingarinnar.

Ég mæli með því að þið horfið á alla söguna frá sjónarhorni Seths því hún er bráðskemmtileg:

Gengin sex mánuði og geislar

Victoria’s Secret-fyrirsætan Candice Swanepoel á von á sínu öðru barni með kærasta sínum, Hermann Nicoli.

Candice er komin sex mánuði á leið og fagnaði því með því að birta nektarmynd af sér á Instagram sem er afskaplega falleg.

„Eru konur ekki stórkostlegar?!“ skrifaði Candice meðal annars við myndina og taggaði ljósmyndarann Inge Fonteyne, hárgreiðslumanninn Frankie Foy og förðunarfræðinginn Mariel Barrera.

Candice hefur verið dugleg að deila myndum á Instagram á meðgöngunni, en hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Anacã, í október árið 2016.

The little prince #proudmama ?

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Cosy with my little? ?@ingefonteyne @mariel_barrera @frankiefoye @1hotels

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

? @uxua

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Léttar leiðir til að bæta heilsuna

|
|

Nokkrar hraðar mínútur
Öll hreyfing skiptir máli en rannsóknir hafa sýnt að ef fólk stendur upp af og til yfir daginn og tekur einnar til tveggja mínútu hraða æfingu eykst þolið hratt og brennsla líkamans eykst til muna. Meðal æfinga sem gott er að gera eru sprellikarlahopp, hlaup upp stiga, hlaupið á staðnum eða sippa. Svokölluð froskahopp, burpees og fleiri góðar æfingar geta einnig nýst vilji menn prófa þessa leið.

Teygðu úr þér

Gott er að taka sér tíma til að teygja úr sér nokkrum sinnum yfir daginn.

Teygjur viðhalda liðleika vöðva og koma í veg fyrir að þeir styttist. Að teygja eftir líkamsrækt og æfingar dregur úr líkum á að menn fái harðsperrur en það ætti og er auðvelt að teygja mun oftar. Þeir sem eiga gæludýr hafa væntanlega tekið eftir að dýrin byrja ævinlega á að teygja sig í hvert sinn sem þau standa upp og eftir hvern blund yfir daginn. Byrjaðu daginn á að teygja vel á þér. Teygðu hendurnar upp í loft og stattu á tánum. Lyftu handleggjunum yfir höfuð og hallaðu þér vel til beggja hliða til að teygja á mittinu og síðuvöðvunum. Settu annan fótinn upp í rúmið og hallaðu þér fram og teygðu á lærvöðvunum. Taktu einnig tíma til að teygja á framanverðum lærunum og kálfunum. Snúðu þér svo að morgunverkunum.

Borðaðu prótín
Prótín er helsta byggingarefni vöðva og næringarfræðingar segja að flestir nútímamenn borði of lítið prótín. Fylli sig með kolvetnum en skeri niður prótíngjafana í máltíðinni. Fullorðin manneskja þarf 170-200 g af prótíni þrisvar sinnum yfir daginn. Gott viðmið er að ein kjúklingabringa, 200 g fiskbiti eða hálfur bolli af baunum gefa þann skammt sem þú þarft í hverri máltíð. Skoðaðu hvernig þú setur saman diskinn þinn og vittu hvort þú þurfir að bæta við prótínið. Eitt egg á morgnana getur einnig gert kraftaverk.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

Meiri umferð en minni bílasala í mars

Það sem af er ári hefur umferðarþungi aukist um höfuðborgarsvæðið sem nemur 3,3 prósentum. Bílasala hefur hins vegar dregist saman. Ferðalög erlendis geta haft áhrif.

Gríðarlegur fjöldi Íslendinga dvaldi erlendis hluta úr marsmánuði sem getur verið ein af útskýringum þess að dregið hefur úr bæði bílasölu og aukningu í umferðinni.

Sé rýnt í nýútgefnar tölur frá Vegagerðinni má sjá að umferð um höfuðborgarsvæðið jókst um 2,9 prósent í mars milli ára. Þetta er mun minni aukning en í fyrra en þá nam hún 15 prósentum í sama mánuði.

Séu fyrstu þrír mánuðir ársins teknir saman nemur aukningin 3,3 prósentum sem er sömuleiðis heldur minni aukning en í fyrra.

Þessi aukning er hins vegar í takt við það sem gerst hefur í mars síðustu tólf ár, þar sem aukningin hefur að jafnaði verið í kringum þessi þrjú prósent.

Síðustu fimm ár skera sig hins vegar úr. Aukningin hefur verið helmingi meiri, eða heil sex prósent. Það virðist því vera að við séum komin yfir mestu sprengjuna í aukningu á umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu.

Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt.

Umferðin er mest á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudögum en minnst á sunnudögum. Hún hefur hins vegar aukist milli ára á sunnudögum en dregist mest saman á föstudögum. Enda nennir enginn að vera fastur í umferð á föstudagseftirmiðdegi.

Sömu fréttir er að segja af bílasölu í nýafstöðnum marsmánuði en samdráttur varð upp á tæp 12 prósent miðað við mars 2017. Sé litið til fyrsta ársfjórðungs ársins er salan hins vegar nær sú sama og í fyrra, rúmlega 4.600 bílar.

Af þessum tölum má ráða að jafnvægi sé að færast yfir bílamarkaðinn. Þetta er í takt við það sem er að gerast á húsnæðismarkaðnum eftir mikla uppsveiflu síðustu ár. Hins vegar á eftir að taka inn einn veigamikinn þátt þegar tölurnar eru skoðaðar. Öll bílastæði við Keflavíkurflugvöll voru yfirfull um páskana. Tugþúsundir Íslendinga voru á faraldsfæti og nutu lífsins á skíðum eða sundlaugarbökkum erlendis. Eðlilegt er að um hægist ef ástandið er slíkt. Vaknar þá spurningin hvort markaðurinn taki óvæntan kipp nú þegar vélarnar eru lentar aftur heima og bílastæðin tóm.

Aðalmynd: Fjörutíu prósent nýskráðra bíla á fyrstu fjórum mánuðum ársins eru bílar seldir til bílaleiga. Það eru um 1.800 nýir bílaleigubílar sem flestir leysa eldri bíla af hólmi.

Leiktækið L-200

|||
|||

L-200 er einkar skemmtilegur pallbíll. Hann er einhvern veginn hæfilegur að flestu leyti. Góð blanda krafts, eyðslu og notagildis. Svo er hann líka fallegasti pallbíllinn á markaðnum í dag.

L-200 kallar á að maður fari út að leika sér. Finni fólk sem þarf aðstoð við að flytja eitthvað, eða finni síðasta skaflinn á suðvesturhorninu að festa sig í.

Áður en lengra er haldið verð ég að koma hreint fram. Ég elska pallbíla. Ekki amerísku drekana sem taka fjögur bílastæði í miðbænum og eyða á við meðalskuttogara, heldur nettari útgáfurnar sem flestar er runnar undan rifjum asískra bílaframleiðanda. Ég var því einkar ánægður með kostinn þegar ég keyrði yfir Hellisheiðina á móti rísandi sól á Mitsubishi L-200.

Kraftur og praktík
L-200 er heiðarlegur bíll. Þegar inn í hann er komið er innréttingin látlaus enda er hann laus við flestallt prjál. Auðvitað er hægt að fá endalausa aukapakka og auka þannig lúxusinn, en það er eitthvað við bílinn sem kallar á mann að sleppa því. Láta bakkmyndavélina og bluetooth-kerfið nægja og flýta sér bara út úr bænum og í eitthvað drullumall.
Það var nákvæmlega það sem ég gerði. Ferðinni var heitið austur fyrir fjall, sem fyrr segir, og í bústað.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var. Er ég renndi fram hjá Hveragerði var meðaleyðslan langt fyrir neðan 7L/100 km, sem er uppgefin eyðsla í blönduðum akstri. Vel hefur tekist til að kreista sem mest afl úr einungis 2,4 L-vél bílsins og er veskið afar þakklátt fyrir það.

Ég verð samt að taka fram að það er sama með L-200 og flesta pallbíla í hans flokki. Hann er örlítið hastur og fjaðrirnar að aftan hjálpa ekki.

Bakkmyndavélin, auk bluetooth-útvarps og stillihnappa þess í stýrinu, er um það bil eini lúxusinn sem er að finna í L-200. En það þarf ekki meira.

Kostir þess að vera á pallbíl
Á Selfossi komu fjaðarirnar og stífu dempararnir sér hinsvegar afar vel. Það er ekki hægt að vera á pallbíl án þess að nýta pallinn. Gera fólki greiða og flytja allskonar furðulegt dót.
Í þetta skiptið var bónin að flytja um það bil 300 kg af sandi og slatta af gegnvörðum við í sandkassa, bara rétt síðasta spölinn í Grímsnesið. Auðvitað sagði ég já og það er í svona tilvikum sem pallbílar eins og L-200 skína.

Ég var reyndar ekki viss um hvað umboðið sem lánaði mér bílinn til reynsluaksturs myndi segja, en fölskvalaus gleði yngsta sumarbústaðareigandans yfir nýja sandkassanum fyllti mig vissu um að ég hefði tekið rétta ákvörðun.

Leiktækið L-200
Helgin leið og eftir góðan rúnt um sveitina með skyldustoppinu í Friðheimum hélt ég aftur á heiðina heim á leið. Ég ákvað að leggja eina lokalykkju á leið mína upp á reginheiðinni. Ég fann mér vegslóða að fylgja en þar sem leysingar síðustu daga höfðu gert veginn gljúpan og skaflana að krapahindrunum ákvað ég að snúa við eftir fyrsta skaflinn, enda einbíla.

L-200 reyndist furðu sprækur á þjóðveginum. 180 hestöflin skiluðu sínu en það kom á óvart hversu sparneytinn hann var.

En auðvitað þurfti ég aðeins að spólast í krapaskaflinum til að sjá hvort ég næði ekki góðum myndum af bílnum í alltumlykjandi þokunni. Að sjálfsögðu festi ég mig auðvitað í asnaskapnum, þurfti að hlaupa upp á veg og veifa næsta bíl. Þar voru á ferð heiðurshjón á besta aldri sem skemmtu sér konunglega yfir því að losa kokhrausta bílablaðamanninn á nýja bílnum í miðjum reynsluakstri. Höfðu þau á orði að það þyrfti fólk á eftirlaunum á bíl á eftirlaunum til að bjarga mér.
En þannig er að vera á pallbíl. Maður lendir í alls konar ævintýrum og kynnist alls konar skemmtilegu fólki. Það er eitthvað frelsi fólgið í því og einhver undarleg framkvæmdagleði sem fylgir því.
Ef á annað borð er verið að velta fyrir sér að festa kaup á pallbíl er L-200 á lista þeirra bíla sem þú ættir ef til vill að skoða fyrst.

 

Flakið frumsýnd á næsta ári

Tökur standa nú yfir á íslensku kvikmyndinni Flakið og eru leikarar og aðstandendur myndarinnar duglegir að birta myndir úr ferlinu undir kassamerkinu #flakidthemovie á samfélagsmiðlum.

Myndin fjallar um stúlku sem vill komast að leyndarmáli ömmu sinnar, sem legið hefur í þagnargildi í sextíu ár. Flakkað er á milli fortíðar og nútímans í myndinni, en nútímaparturinn er að mestu á ensku og að miklu leyti tekinn upp á Hesteyri.

Tökur eru langt komnar og stefnt er að því frumsýna myndina á næsta ári. Fyrsta stiklan úr Flakinu er væntanleg á næstunni, en meðal leikara í myndinni eru Anna Hafþórsdóttir, Víking Kristjánsson og Vignir Rafn Valþórsson. Leikstjóri myndarinnar er læknirinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Lýður Árnason.

Aðalmynd: Hér frá vinstri eru Anna Hafþórsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Víkingur Kristjánsson, Hákon Jóhannesson og Vignir Rafn Valþórsson.

Kynfræðslan í Þjóðleikhúsinu

Leikritið Kynfræðslan, sem kemur úr smiðju hinna ærslafullu Pörupilta, verður ekki á fjölum Borgarleikhússins á næsta leikári, eins og það hefur verið síðustu fjögur ár. Vildi Borgarleikhúsið rýma fyrir öðrum verkum. Pörupiltar voru þó ekki lengi heimilislausir þar sem þeir hafa nú samið við Þjóðleikhúsið, þar sem Kynfræðslan verður sett upp á komandi leikári, á sama stað og Pörupiltar settu upp sína fyrstu sýningu.

Leikkonan Alexía Björg Jóhannesdóttir, sem skipar Pörupilta ásamt leikkonunum Maríu Pálsdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur, segir piltana vera hæstánægða með þessar breytingar.

„Við erum alsælar að vera komnar aftur í Þjóðleikhúsið þar sem við byrjuðum með fyrstu sýninguna okkar fyrir mörgum árum og líka að fá að halda áfram að fræða og skemmta unglingum,“ segir Alexía, en Pörupiltarnir eru búnir að bralla ýmislegt saman í um tíu ár.

Kynfræðslan er í uppistandsformi og er ætluð fyrir unglinga, til að fræða og styrkja krakka, efla og afhelga umræðu um kynlíf. Verkefnið hefur verið styrkt af Reykjavíkurborg síðan það fæddist fyrir fimm árum, en Alexía segir þá Pörupilta þurfa að fylgjast vel með til að uppfæra efni sýningarinnar í takt við tíðarandann.

„Já, við erum alltaf að uppfæra sýninguna á hverju ári enda alltaf eitthvað nýtt í umræðunni þegar kemur að kynlífi og kynfræðslu.“

KK beðinn um eiginhandaáritanir í Frakklandi

KK var við tökur á lokahluta seríunnar Sense8 í París.

Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, betur þekktur sem KK, var nýverið við tökur á hinni geysivinsælu Netflix-seríu Sense8 í París. Æsispenntir aðdáendur fylgdust spenntir með öllu sem fór fram. „Þættirnir eru greinilega mjög vinsælir þarna, mjög stórir, því þarna var aðdáendahópur fyrir utan hótelið okkar allan sólarhringinn að reyna að sjá glitta í stjörnurnar,“ segir KK, sem fór sjálfur ekki varhluta af allri athyglinni og ekki í fyrsta sinn.

„Ég lenti nú bara í því þegar ég var í fríi í París í haust að vera stoppaður úti á götu af ungu fólki sem hrópaði: „Guð minn góður ert þetta þú! Má ég fá eiginhandaráritun!“ Og spurði svo hvort ég væri til í að sitja fyrir með þeim á sjálfu. Í Bandaríkjunum lenti ég í svipuðu dæmi. Þetta er svolítið skrítið, maður hefur aldrei upplifað það að vera „heimsfrægur“,“ segir hann kíminn.

„… vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki … og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum.“

Í París var verið að taka upp lokahluta Sense8 en KK leikur föður einnar aðalpersónunnar, hinnar íslensku Riley. Með í för voru Eyþór Gunnarsson og Lilja Þórisdóttir sem bæði fara með hlutverk í þáttunum. Stemningin var góð og segir KK að miklir fagnaðarfundir hafi orðið þegar leikararnir hittust, enda búnir að vinna áður saman að tveimur seríum og einni Sense8-mynd. Hann viðurkennir að það hafi hins vegar verið svolítið undarleg tilfinning að skjóta í nístandi kulda um hámiðja nótt í nánast mannlausum Eiffel-turni, þar sem lokatökurnar fóru fram.

En er ekkert skrítið að kveðja þessa persónu, píanóleikarann Gunnar, sem þú ert búinn að leika í ein fjögur ár? „Nei, í raun og veru ekki,“ svarar hann blátt áfram. „En vissulega er þetta búið að vera mikið ævintýri fyrir óvanan mann eins og mig, að fá hlutverk sem ég átti aldrei von á að landa og fá að vinna með öllu þessu stórkostlega listafólki, leikurunum og ekki síst leikstjórunum Lönu og Lily Wachowsky með sína einstöku sýn á hlutina og kynnast þessari hlið á kvikmyndabransanum. Auðvitað var þetta langt út fyrir minn þægindaramma, en ég hafði gott fólk í kringum mig, fékk stuðning frá Andreu Brabin, leiklistarkennslu hjá Kára Þórssyni og píanókennslu hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni sem kenndi mér að spila á píanó í þykjustunni, svo ég yrði nú trúanlegur sem heimsklassa píanókonsert leikari,“ segir hann og brosir.

Hefurðu hugsað þér að leika eitthvað meira? „Nei, ég hef ekkert verið að sækjast eftir því. Er ekki einu sinni með umboðsmann,“ svarar hann hógvær. „Þetta var bara skemmtileg reynsla.“

Aðalmynd: Í Sense8 fer KK með hlutverk píanókonsert leikararns Gunnars, sem er vinsæl persóna meðal aðdáenda þáttanna.

Alvöru Cruise Control

Cadillac býður nú upp á sjálfsýringu sem leyfir þér að halla þér aftur, slaka á og fá þér blund. Eða svo gott sem.

Hver man ekki eftir flökkusögunni um Ameríkanann sem setti húsbílinn sinn á cruise control á hraðbrautinni, fór svo aftur í bílinn að slaka á og var alveg steinhissa þegar bíllinn endaði á brúarstólpa.
Þessi snillingur getur nú gert nákvæmlega þetta og ekki haft neinar áhyggjur.

Í 2018 módelum af Cadillac er hægt að fá svokallað Super Cruise Control. Þá stjórnar bíllinn ekki bara hraðanum sjálfur heldur líka stefnunni og heldur þér innan þinna akreinar.

Búnaðinn er reyndar aðeins hægt að nota á hraðbrautum sem uppfylla ákveðna staðla og er að sjálfsögðu vita gagnslaus hér á landi á okkar mjóu vegum og einbreiðu brúm. Búnaðurinn er hins vegar enn eitt skrefið í átt að sjálfkeyrandi einkabílum.

Skipti út kvíða fyrir gleði

Sjónvarpsmaðurinn Sölvi Tryggvason og dansarinn Ástrós Traustadóttir duttu úr leik í sjónvarpsþættinum Allir geta dansað síðustu helgi, en þátturinn hefur verið í sýningum í nokkrar vikur.

Sölvi tjáir sig á einlægan hátt um brotthvarf sitt úr þættinum í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann gengur sáttur frá borði.

„Einhvern tíma varð þessu dansævintýri að ljúka,“

skrifar Sölvi og segir að þátttaka hans í þættinum hafi verið stórsigur, þrátt fyrir tapið. „Það hljómar kannski furðulega þar sem ég hef unnið í sjónvarpi í fleiri ár, en fyrir mig er það að hafa stigið fjórum sinnum á svið fyrir framan mörg hundruð manns og í beinni útsendingu að dansa algjör stórsigur.“

Sölvi segist allajafna finna fyrir miklum kvíða, en að í dansinum hafi hann fundið gleði.

„Ég er í grunninn algjör kvíðabolti, en í stað kvíða hef ég ekkert fundið nema gleði og ánægju og náð að njóta þess í botn að koma fram. Allt þetta ferli í kringum dansþættina á Stöð 2 hefur verið algjör fyrsta flokks lífsreynsla. Ef einhver þarna úti fær símtal fyrir næstu seríu og er í vafa um það hvort hann eigi að taka þátt er svarið afdráttarlaust Já!!“

Hér fyrir neðan má sjá síðasta dansinn sem Sölvi og Ástrós dönsuðu í allir geta dansað:

Og hér er viðtal við þau eftir að kom í ljós að þau dönsuðu ekki meira saman:

Hlauparar jákvætt fólk

|
|

„Dásamleg náttúra í „bakgarðinum“ sem ég vissi ekkert um.“

Anna Sigríður Arnardóttir hafði aldrei hlaupið á ævinni þegar hún fór á nýliðanámskeið hjá Hlaupahópi FH en hún hafði tekið mataræðið í gegn nokkrum árum áður og var að leita að hentugri hreyfingu. Þrátt fyrir að komast vart milli ljósastaura til að byrja með féll hún fyrir hlaupunum og hefur með eljusemi og vinnu náð gríðarlegum framförum. Hún hefur nú meðal annars hlaupið tvö maraþon og Laugaveginn.

Anna Sigríður Arnardóttir féll fyrir náttúruhlaupum.

„Haustið 2011 var nýliðanámskeið í Hlaupahópi FH og vinkona mín spurði mig hvort ég kæmi ekki með henni á námskeiðið. Ég þurfti að hugsa mig mjög vel um, var spennt fyrir þessu en þorði ekki, enda hafði ég aldrei hlaupið á ævinni, ekki einu sinni þegar við áttum að hlaupa í íþróttum í grunnskólanum. Þegar námskeiðið var hálfnað fékk ég loksins kjark til að mæta á æfingu. Þann 20. nóvember 2011 mætti ég í kulda og snjó á mína fyrstu æfingu í þykkri úlpu og passaði því alls ekki inn í hópinn. Úlpan var fljót að fjúka þegar ég fór af stað en ég hafði enga þekkingu á því hvernig ætti að klæða mig á hlaupum,“ segir Anna Sigríður sem er viðskiptafræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkissins og nemandi í Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Nokkrum árum áður hafði hún lést um 30 kíló eftir að hún breytti mataræði sínu. „Á þeim tíma hreyfði ég mig ekkert og borðaði bara það sem mér fannst gott og eitthvað sem einfalt var að elda. Við maðurinn minn áttum djúpsteikingarpott og við notuðum hann mjög reglulega. Við átum sælgæti í miklu óhófi og drukkum gosdrykki í öll mál. Ég var búin að reyna marga matarkúra sem féllu alltaf um sjálfa sig eftir nokkrar vikur.“

Hlaupin hjálpa mér til að halda góðri andlegri heilsu
Það sem Önnu finnst svo heillandi við hlaupin er útiveran og félagsskapurinn. Hún segir að mikilvægt sé að gera styrktaræfingar líka til að koma í veg fyrir meiðsli og hefur hún meðal annars stundað stöðvaþjálfun í Hress til að styrkja sig. Náttúruhlaupin hafa svo verið að koma sterk inn að undanförnu. „Áhuginn á að hlaupa í náttúrinni byrjaði vorið 2014 þegar ég fór á námskeið hjá Náttúruhlaupahópnum sem byggist á að haupa á ýmsum stöðum í náttúrunni í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég féll alveg fyrir þessum hlaupastíl; þarna upplifði ég allt í senn, hlaupin, útiveruna, félagsskapinn og síðast en ekki síst, þessa yndislegu náttúru sem við erum með í „bakgarðinum“ okkar og ég vissi ekki af. Ég bara elska að hlaupa á stígum, innan um trén, blómin, fjöllin og jafnvel fram hjá lækjum og fossum. Þetta var ég búin að fara á mis við öll þessi ár. Það er eitthvað ólýsanlegt við hlaupin, bæði vellíðanin eftir æfingar, endorfínið á fullu og allt fólkið sem ég er búin að kynnast. Ég hef bara ekki enn þá hitt leiðinlegan hlaupara, það eru allir svo jákvæðir og með gott viðhorf til lífsins. Stundum hef ég verið að glíma við erfiðar aðstæður í lífinu, bæði álag heima og í starfi. Þá hafa hlaupin hjálpað mér til að halda góðri andlegri heilsu, enda segi ég að hreyfing sé allra meina bót,“ segir Anna Sigríður.

Texti / Ragnhildur Aðalsteindóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Góð skemmtun og fyrirtaks líkamsrækt

|
|

Sumarið er á næsta leiti með tilheyrandi útveru og margir að draga fram reiðhjólin sem legið hafa í geymslum yfir veturinn eða að kaupa sér ný.

Stærðir og stillingar

Viðurkenndur hjálmur af réttri stærð er auðvitað ómissandi.

Þegar nýtt hjól er valið þarf að huga að stærð hjólsins. Þumalputtareglan við hjól með slá er að þegar notandinn stendur yfir þverslánni eiga að vera um það bil þrjár tommur eða tæplega átta sentimetrar upp í klof. Einnig er mikilvægt að hnakkurinn sé í réttri hæð. Hnakkurinn er rétt stilltur þegar hjólreiðamaðurinn situr á hnakknum, lætur annað fótstigið í neðstu stöðu, stígur á það með hælnum og getur þá rétt alveg úr fætinum. Rétt stilling hnakksins er afar mikilvæg, sérstaklega í lengri hjólreiðaferðum, til að álag á fæturna verði rétt. Þriðja mikilvæga atriðið er að stærð sjálfs hjólastellsins sé rétt. Ef hnakkurinn er rétt stilltur á stýrið að vera um fimm sentimetrum lægra en hnakkurinn og á stýrið að skyggja á framöxul hjólsins þegar hjólreiðamaðurinn hefur báðar hendur á því.

Viðhaldið er mikilvægt
Gott viðhald hjóla skiptir miklu máli bæði fyrir endingu þeirra og öryggi. Ráðlegt er að smyrja keðju hjólanna vikulega með sérstakri teflonolíu og sérstaklega ef hjólið hefur staðið úti í rigningu. Einnig er mikilvægt að hugsa vel um bremsuborða hjólsins, kanna slit reglulega og gæta að því að þeir séu rétt stilltir. Rétt stilltir borðar eiga hvorki að rekast í dekkin né í gjörð og ekki á að heyrast ískur þegar bremsað er. Auk þess að fylgjast með keðju og bremsum er mikilvægt að fylgjast með gírum hjólsins. Gírvírar teygjast yfirleitt nokkuð með tímanum og mynda því eins konar hlaup í gírunum. Gott er að strekkja á vírunum um það bil mánuði eftir að hjólið er keypt. Þá er gírastrekkjaranum á hjólinu snúið rangsælis þar til strekkist á vírunum. Með tímanum má einnig gera ráð fyrir slaka í legum hjólsins. Skemmdar legur eru fljótar að skemma út frá sér en með því að skipta þeim út eða herða þær upp í tæka tíða má spara mikið í viðhaldskostnað.

Sprungið dekk
Dekkjaskipti og -viðgerðir á hjóli eru lítið mál. Fyrst á að taka bremsur úr sambandi við gjörð. Þá er farið með keðjuna niður á minnsta tannhjólið að aftan og að framan til að slaka á keðjunni og öxulrær losaðar. Þá er dekkið laust og hægt að ná slöngunni úr því með hjálp dekkjaþvingu. Þegar gatið hefur verið fundið er gúmmíið í kringum það pússað, bótalím borið á slönguna og bótin sett á gatið. Síðan er slangan sett aftur inn í dekkið og lofti pumpað í áður en haldið er af stað.

Öryggið í fyrirrúmi
Rétt er að minna á nokkur öryggisatriði sem vert er að hafa í huga þegar þeyst er um á stálfáknum úti í góða veðrinu. Glitaugu eiga að vera bæði framan og aftan á reiðhjólum. Reiðhjólabjöllur eru einnig nauðsynlegur öryggisbúnaður og þær ber að nota til að gera öðrum viðvart, t.d. við framúrakstur á gangstéttum. Að sjálfsögðu er viðurkenndur hjálmur af réttri stærð algjörlega ómissandi. Hjólreiðafólki er heimilt að hjóla á gangstéttum jafnt sem á götum. Að sjálfsögðu eiga hjólreiðamenn að fylgja umferðarreglum eins og aðrir vegfarendur og hafa í huga að gangandi vegfarendur eiga réttinn á gangstéttunum.

Texti / Vikan
Mynd / Ernir Eyjólfsson

Spennandi að sjá viðbrögð Tyrkja

|
|

Kvikmyndin Andið eðlilega keppir á virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands.

Úr myndinni Andið eðlilega.

Íslenka kvikmyndin Andið eðlilega keppir á Istanbul International Film Festival, í flokki sem nefnist „Human Rights in Cinema“. Mannlíf náði tali af leikstjóranum og handritshöfundinum Ísold Uggadóttur sem var að vonum ánægð enda um að ræða elstu og virtustu kvikmyndahátíð Tyrklands. „Það er auðvitað heilmikill heiður að fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði,“ segir hún glöð og kveðst vera spennt fyrir því að fara til Istanbul og sjá hvernig tyrkneskir áhorfendur koma til með að taka kvikmynd sem fjallar meðal annars um konu á flótta.

Istanbul International Film Festival er fjórða kvikmyndahátíðin sem Andið eðlilega er sýnd á, en eins og kunnugt er hlaut kvikmyndin alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í febrúar auk þess sem Ísold var valin besti alþjóðlegi leikstjórinn á lokahátíð Sundance-kvikmyndahátíðarinnar í janúar, fyrst íslenskra leikstjóra. Myndin hefur almennt verið lofuð í hástert af gagnrýnendum og var nýlega lýst sem drama af bestu gerð af sjálfu fagtímatímaritinu Cinema Scandinavia.

„Það er auðvitað heilmikill heiður á fá myndina sýnda á keppni þarna, því þessi hátíð er sterk og mikilvæg á Tyrklandsmarkaði.“

Ísold segist vera afar þakklát þeim sem hafa látið fögur orð falla um myndina, bæði kvikmyndagagnrýnendum hér heima og erlendis og svo ekki síst sjálfum áhorfendum. Henni þykir vænt um þau sterku viðbrögð sem myndin vekur hjá fólki og finnst gaman að skynja þann gríðarlega áhuga sem er fyrir myndinni, ekki síst erlendis frá, en sem dæmi um hann hefur myndin þegar verið keypt af dreifingaraðila í Tyrklandi og fer að öllum líkindum í almennar sýningar þar í landi síðar á árinu. „Leikstjórnarverðlaunin á Sundance hafa sannarlega haft þau áhrif að kvikmyndabransinn er meðvitaður um myndina og sýnir verkinu og höfundi meiri áhuga en hann hefði gert ella,“ segir hún sposk.

En hvað er annað á döfinni? „Fram undan er að undirbúa næstu mynd,“ svarar hún. „ Við verðum að sjá hversu langan tíma tekur að koma næsta verki á koppinn, en ég er bæði að þróa eigið verk og vega og meta þau verkefni sem mér hafa boðist að undanförnu. Svo mun ég auðvitað fylgja Andið eðlilega áfram eftir og kynna hana sem víðast,“ segir hún og getur þess að hún og umboðsmenn myndarinnar eigi nú einmitt í viðræðum við fleiri erlenda dreifingaraðila um kaup á myndinni. Á þessu stigi málsins sé hins vegar of snemmt að tjá sig frekar um þær „Þetta verður bara allt saman að koma í ljós,“ segir hún leyndardómsfull.

Aðalmynd: Ísold Uggadóttir er hæstánægð með að mynd hennar Andið eðlilega skuli hafa komist á Istanbul International Film Festival. Mynd / Þórdís Claessen

 

Erlendar bílaleigur svindla á Íslendingum

|
|

Þúsundir Íslendinga eru að undirbúa ferðalögin í útlöndum um þessar mundir. Margir leigja bíla en þá er mikilvægt að hafa varan á því dæmi eru um að erlendar bílaleigur hlunnfari Íslendinga.

Mörg dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið.

„Ég fann góðan díl fyrir fjölskyldubíl í gegnum vefsíðu flugfélagsins. Allt gekk samkvæmt venju. Á skrifstofunni var tekið afrit af kreditkortinu til tryggingar tjóni, ég fékk bíllyklana og bílinn. Þegar ég skilaði honum til baka tæpum hálfum mánuði síðar byrjuðu vandræðin,“ segir Birkir Marteinsson, sem fór með fjölskyldu sinni til Malpensa á Ítalíu í fyrra en þangað fljúga öll helstu flugfélögin. Birkir segir að þegar hann hafi skilað bílnum á bílaleiguna, sem er fyrir utan flugvöllinn, hafi starfsmaður gert athugasemd við á bílnum aftanverðum.

„Þetta var álíka stórt og títuprjónshaus hjá skottinu, venjulegt slit á bíl,“ segir Birkir. Hann segir starfsmanninn hafa skrifað tjónalýsingu á ítölsku inni á skrifstofunni þar sem hann lýsti því yfir að Birkir væri valdur að skemmdinni. Meta yrði tjónið og ætlaðist starfsmaðurinn til að Birkir skrifaði undir. Því neitaði hann. Á endanum skrifaði starfsmaðurinn lýsinguna á ensku og sagði Birki heppinn að vera ekki rukkaður fyrir annað tjón á bílnum. Birkir segir að hann hafi ekki getað sannað að skemmdin hafi verið á bílnum þegar hann leigði hann en maðkur hafi greinilega verið í mysunni því á sama tíma og þetta átti sér stað leigði annar viðskiptavinur bílinn og ók á brott.

„Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna.“

Þegar hann skoðaði á Netinu ummæli um bílaleiguna sá hann að aðrir viðskiptavinir höfðu greitt þúsundir króna vegna tjóns sem þeir voru sannfærðir um að hafa ekki valdið. Hann hafði því strax samband við kortafyrirtæki sitt á Íslandi. Bílaleigan var þar með úttektarheimild upp á 1.000 evrur, jafnvirði rúmlega 120.000 íslenskra króna. „Nokkru eftir að ég kom heim kom færsla frá þeim upp á 52.000 krónur. Mér til lukku voru tryggingar á kortinu og því endaði ég á að borga 20.000 krónur því tryggingin tók hinn hlutann. Ég passaði mig á að loka kortinu strax svo bílaleigan gæti ekki óskað eftir fleiri úttektum seinna,“ segir Birkir og kveðst hafa fengið sér annað kort.

Kröfðust 360.000 króna tryggingu

Mörg önnur dæmi eru um að íslenskir viðskiptavinir hafi orðið fyrir barðinu á ósvífnum viðskiptaháttum erlendra bílaleiga þegar bílar eru pantaðir í gegnum Netið. Dæmi er um að fólk hafi leigt bíl á Spáni hjá leigu sem bauð góð tilboð en viðkomandi þekkti lítið til. Þegar á hólminn var komið gerði starfsmaður bílaleigunnar kröfu um að taka út 3.000 evrur (jafnvirði um 360.000 króna) af kreditkorti leigutaka sem tryggingu og endurgreiða hana 30 dögum eftir að bílnum væri skilað. Það var til viðbótar 400 evru leigu á bílnum. Þetta sætti viðskiptavinurinn sig ekki við og sleit viðskiptunum. Hann fékk hins vegar ekki evrurnar 400 endurgreiddar frá bílaleigunni og varð að snúa sér til kortafyrirtækisins. Endurgreiðslan skilaði sér fjórum mánuðum síðar.

Til að koma í veg fyrir svikastarfsemi sem þessa mælir Birkir Marteinsson með að fólk lesi ummæli viðskiptavina bílaleiga á Netinu áður en það leigir sér bíl, en þær má m.a. finna á https://uk.trustpilot.com/. „Ég mæli líka með því að velja stóru, viðurkenndu bílaleigurnar í stað þeirra sem maður þekkir ekki mikið eins og í mínu tilviki,“ segir hann og leggur áherslu á að fólk taki jafnframt myndir af bílum sem það leigir þegar það fær hann og við skil.

Aðalmynd: Birkir Marteinsson hvetur fólk til að eiga viðskipti við stórar, viðurkenndar bílaleigur.

Danir sólgnir í íslenskar agúrkur

|
|

Sölufélag garðyrkjumanna sendi á dögunum bretti með um 4.000 agúrkum til Danmerkur. Þær seldust upp. Önnur sending fór utan í vikunni og hefur meira verið pantað.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins.

Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri Sölufélagsins, segir gott verð fást fyrir agúrkurnar, ívið hærra en hér á landi.

Hann segir að sölufélagið hafi byrjað fyrir um einu og hálfu ári að skoða útflutning á grænmeti til Danmerkur. Um nýbreytni sé að ræða því íslenskt grænmeti hafi nær eingöngu verið flutt út til Færeyja og Grænlands.

„Við fengum fyrirspurn um það af hverju ekki væri hægt að kaupa íslenskt grænmeti í Danmörku. Við skoðuðum málið úti og ræddum við danska kaupmenn. Viðtökurnar voru býsna góðar. Sérstaklega þóttu íslensku gúrkurnar góðar þar sem þær eru hreinni og af betri gæðum en þær dönsku,“ segir hann og bendir á að gerðar hafi verið prófanir á þeim áður en til útflutnings kom.

„Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint.“

Íslenskar agúrkur eru stærri en Danir eiga að venjast, alla jafna um 350 grömm en þær dönsku hundrað grömmum léttari og því þurfti að rækta afbrigði. „Það kemur annar keimur í bragðið á þeim litlu,“ segir Gunlaugur. „En þær eru mjög bragðgóðar.“

Agúrkurnar eru seldar í dönsku netversluninni nemlig.com, en Gunnlaugur segir í kortunum að fleiri danskar verslanir selji íslenskar agúrkur og grænmeti. Þar á meðal Irma. „Það er mikill áhugi á íslensku grænmeti því það er svo hreint. Danirnir vildu tómata en við áttum ekki nóg til að senda út. En svo má selja þarna fisk og kjöt,“ segir hann. „Þarna eru tækifæri.“

„Þetta er gæðastund með stráknum mínum“

||
||

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens fékk sér húðflúr með syni sínum, Brynjari á dögunum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem feðgarnir láta flúra sig saman en Bubbi segir þetta góða gæðastund sem þeir feðgar deila.

Aðalmynd: Össur, annar eigandi Reykjavík Ink, Bubbi og boxarinn og snapparinn Davíð.

„Hann langaði í tattú og ég ætlaði hvort sem er að fá mér tattú þannig að við gerðum þetta saman. Við höfum gert þetta áður, farið saman og fengið okkur tattú. Við erum bara vinir,“ segir Bubbi og bætir við að flúrun sé þeirra leið til að yrkja sitt samband.

„Þetta er gæðastund með stráknum mínum. Það er ekki allir foreldrar endilega sammála því en þetta er góð stund. Þetta er bara stemmari.“

Fékk fyrsta flúrið árið 1974

Flugan hans Bubba.

Bubbi og Brynjar fóru saman í flúr á húðflúrstofunni Reykjavík Ink á dögunum og lét Bubbi flúra á sig veiðiflugu en Brynjar fékk sér rýting. Er þetta fjórða flugan sem Bubbi lætur húðflúra á líkama sinn.

„Flugan er ákveðið tákn. Ég er ekki viss um að ég setji fleiri flugur á mig, en þetta eru flugur sem ég hef notað í veiði,“ segir Bubbi, sem er mikill veiðimaður eins og margir Íslendingar vita.

Bubbi hefur ekki aðeins skreytt líkama sinn með flugum, og státar af myndarlegu húðflúrsafni á sínum kropp. Það stendur ekki á svörunum þegar hann er spurður út í fyrsta húðflúrið.

„Ég fékk mér fyrsta tattúið árið 1974. Það var rós. Snemma beygist krókurinn,“ segir Bubbi og hlær. „Ég rækta rósir og hef gaman að rósum. Ég lét tattúvera yfir það og ég sé dálítið eftir því í dag. Það var frægur maður sem flúraði mig og það hefði verið gaman að vera með sýnilegt tattú eftir hann. Hann flúraði mig í Nýhöfninni.

Hann var kallaður Tattú Sven.

Næstu tattú á eftir fékk ég mér síðan í Rotterdam með Utangarðsmönnum,“ segir Bubbi. Hann segir að margt hafi breyst í húðflúrheiminum á þessum 44 árum.

Rýtingurinn sem Brynjar, sonur Bubba fékk sér.

„Þegar ég var að byrja í rokktónlistinni og rokkbransanum voru fáir, jafnvel engir með tattú. Það voru aðallega sjómenn og glæpamenn sem voru flúraðir. En það er mikið breytt. Þetta er orðið norm í dag og hefur orðið gríðarleg þróun í nálum, litum og tækni. Þær verða alltaf fallegri og fallegri myndirnar.“

Gott í bili

Í dag lætur Bubbi flúra sig á stofunni Reykjavík Ink, þar sem hann og einn eigandi stofunnar, Össur, eru góðir vinir.

„Ég fer þangað til að hitta Össur og kjafta og hafa gaman,“ segir Bubbi brosandi. Fyrrnefndur Össur er vel flúraður um allan líkamann, en Bubbi segir það ekki vera markmið sitt þegar kemur að flúri.

„Ég vil hafa ákveðna hluti hreina. Handleggirnir geta þolað að vera með slatta af flúrum en ég ætla sennilega að láta fætur, brjóst og maga vera.“

En er tónlistarmaðurinn byrjaður að skipuleggja næsta flúr?

„Nei, þetta er fínt í bili.“

Bað börnin að hjálpa sér að deyja

|||
|||

Fyrsta kvikmynd Maríu Sólrúnar Sigurðardóttur í fjórtán ár, Adam, er fjölskylduverkefni sem fjallar um glímu sonar við spurninguna um hvort hann eigi að hjálpa heilabilaðri móður sinni að deyja, spurningu sem María þekkir úr eigin lífi.

María Sólrún kvikmyndaleikstjóri hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni að fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum.

María Sólrún Sigurðardóttir er kannski ekki nafn sem almenningur þekkir en hún hefur engu að síður haft meiri áhrif á líf okkar en okkur grunar. María Sólrún hefur búið og starfað í Þýskalandi í rúm þrjátíu ár þar sem hennar aðalstarf hefur verið að skrifa handrit að þýskum sjónvarpskvikmyndum og -seríum, en hún er líka vel þekkt innan íslenska kvikmyndabransans þar sem hún hefur verið ráðgjafi hjá Kvikmyndamiðstöðinni í fjöldamörgum íslenskum myndum, meðal annarra Hrútum og Eiðnum. Hún er hins vegar líka kvikmyndaleikstjóri og er nú mætt er til landsins með fyrstu mynd í fullri lengd sem hún hefur leikstýrt í fjórtán ár og þar sem sonur hennar, Magnús, leikur aðalhlutverkið og dóttir hennar og tengdasonur sjá um tónlistina. Myndin, sem heitir Adam, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín fyrr á árinu þar sem hún fékk mikla athygli og umfjöllun og opnaði nýjar dyr fyrir alla fjölskyldumeðlimi.

Það hefur komið fram að viðfangsefni myndarinnar er glíma sonar við eigin samvisku eftir að móðir hans greinist með heilabilun. Hann hafði nefnilega lofað henni því að hjálpa henni að deyja ef til þess kæmi. Efnið er Maríu Sólrúnu hugleikið og stendur henni nærri, þar sem hennar eigin móðir glímdi við heilabilun í fjórtán ár og Maríu var sagt að það væru fimmtíu prósent líkur á því að hún sjálf ætti eftir að lenda í því sama.

„Við hefðum svo gjarna viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta.“

Þótt tilefni samtals okkar Maríu Sólrúnar sé að sjálfsögðu Adam og ástæður þess að fjórtán ár liðu á milli mynda hjá henni, byrjum við spjallið á hefðbundinn íslenskan hátt með því að ég spyr Maríu Sólrúnu hvaðan hún sé og hverra manna. Það þykir henni fyndið og gefur þær upplýsingar einar að hún sé fædd í Reykjavík og alin upp í Bústaðahverfinu. Við því er lítið að segja og talið berst snarlega að Berlínardvölinni en þangað fór hún árið 1985 og hóf nám við Freie Universität Berlin.

„Ég fór þar í kvikmyndafræði, listasögu og stjórnmálafræði en svo þegar ég var í miðju magister-verkefni söðlaði ég um og fór í kvikmyndaskólann í Berlín,“ segir María Sólrún.
Spurð hvað hafi valdið því að hún skipti um vettvang segir hún skýringuna á því vera einfalda.
„Ég hafði gert nokkrar stuttmyndir og þegar ég varð einstæð móðir ákvað ég að drífa mig bara í kvikmyndagerðina.“

Hefur horft upp á misrétti í bransanum

Á þeim tíma voru börn Maríu Sólrúnar, Liina og Magnús sem bæði leika í Adam, fimm og þriggja ára en eru í dag 27 og 24 ára. María dregur enga dul á það að staða hennar sem einstæðrar móður hafi haft mest að segja um það að hún valdi handritaskrif og ráðgjöf fram yfir leikstjórnina. „En það er svo merkilegt að það er ekki fyrr en á síðustu árum sem ég hef þorað að segja það. Og ég skal segja þér út af hverju. Þannig var að einhvern tíma kynnti framleiðandi kvikmyndar leikstjóra hennar fyrir mér og útskýrði að ástæðan fyrir því að það hefðu liðið tíu ár á milli kvikmynda frá þeim ágæta manni væri að hann væri einstæður faðir. Og allir í kring sögðu bara „æ, en sætt, oh hvað hann er góður maður.“ Ég notaði það aldrei sem afsökun fyrir neinu að ég væri einstæð móðir, tók aldrei frí út á það að börnin væru veik eða neitt slíkt, þorði ekki einu sinni að minnast á það.“

Þetta leiðir talið að umræðunni um stöðu kvenna í kvikmyndabransanum, hver er reynsla Maríu Sólrúnar af henni?
„Þegar ég var barn var ég handviss um að þetta myndi allt breytast þegar ég væri orðin fullorðin, þá yrði sko komið jafnrétti milli kynjanna,“ segir hún og andvarpar. „Sérstaklega eftir að mæður okkar voru búnar að fara niður á Austurvöll 1975. En ég hef svo sannarlega horft upp á misrétti milli kynjanna í bransanum. Það er ekkert endilega bara körlunum að kenna, kerfið er svo rótgróið. Ég get auðvitað bara talað út frá sjálfri mér: Ég átti börnin mín og hefði ekki viljað missa af því en það fer vissulega mikill tími og kraftur í það, hvað þá að vera einstæð móðir. Og manni fannst maður kannski vera að missa af lestinni þegar strákarnir fóru að taka fram úr manni. Ég var búin að gera eina mynd en svo komu þeir með næstu mynd og næstu og næstu og þá gefst maður pínulítið upp, finnst ekki taka því að keppa við þá. Maður fær líka að heyra það að bransinn segi við einhvern framleiðanda sem ætlar að fara að vinna með þér „Bíddu, hún hefur nú ekkert gert í tíu ár. Getur hún þetta nokkuð lengur?“ Við konur þurfum bara að skapa okkur okkar eigin vettvang og hunsa þetta viðhorf. Þetta var mitt val og ég get alveg komið aftur. Það er heldur ekki eins og ég hafi verið fjarverandi í bransanum þennan tíma, ég var alltaf að skrifa handrit að stórum sjónvarpskvikmyndum. Starf leikstjórans er auðvitað meira dóminerað af karlmönnum en við ættum frekar að ýta á það að kerfið taki okkur inn á okkar forsendum. Kvikmyndasjóður hérna heima hefur til dæmis staðið sig mjög vel í því. Hér hafa konur fengið styrki til að gera sínar fyrstu myndir í fullri lengd eftir fimmtugt, sem er algjörlega frábært.“

María Sólrún segir tiltektir vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur.

Leikstýrði syninum án orða

María Sólrún er sjálf rúmlega fimmtug og Adam er hennar fyrsta mynd í fullri lengd síðan 2004, hvað ýtti henni af stað aftur?
„Að börnin voru farin að heiman,“ segir hún og hlær. „Ég var alveg búin að vera með leikstjórnarverkefni í þessi fjórtán ár sem voru komin vel áleiðis og það var komin milljón evra í eitt þeirra þegar það sprakk. Og ég var kannski búin að fá leiða á því að eltast við það að rúlla upp verkefnum eftir þessu munstri. Að vera með handrit sem við erum að þróa og umskrifa og umskrifa aftur og svo koma einhverjir frá sjónvarpsstöðvunum og verða að fá að segja sitt og svona gengur það fram og til baka. Mig langaði að leyfa sköpunargáfunni að fá meiri útrás og gera þetta öðruvísi fyrst ég var að þessu á annað borð. Gera þetta á mínum eigin forsendum og fjármagna það sjálf. Ég sleppti því til dæmis að skrifa handrit, sem sumum þykir skrýtið þar sem ég hef hingað til aðallega unnið við að skrifa handrit. Ég vildi bara gera þetta skemmtilegt, vera með smávegis tilraunastarfsemi. Við byrjuðum með hugmynd og karakter sem var með stórt vandamál sem okkur fannst snerta okkur. Við fórum pínulítið í þetta eins og heimildarmyndagerðarmenn, fylgdumst með karakternum og því sem hann var að takast á við. Svo klipptum við það efni sem við vorum komin með og langaði þá að gera meira, þannig að þetta varð þriggja ára ferli, þar sem við vorum að taka og klippa, taka meira og klippa það. Svoleiðis vinnubrögð getur maður vanalega ekki fjármagnað og leyft sér.“

Magnús sonur Maríu leikur titilhlutverkið, Adam, hvernig gekk að fara úr hlutverki móðurinnar yfir í hlutverk leikstjórans gagnvart honum?
„Hann er svo prófessjónal, drengurinn, að það var ekkert mál. Kannski líka vegna þess að stuttmyndirnar sem ég gerði í gamla daga voru allar án samtala og í þessari mynd er aðalkarakterinn heyrnarlaus, þannig að það er ekki mikið um samtöl og þá getur maður meira stýrt án orða. Þannig að þetta samstarf gekk bara mjög vel.“

Hefði viljað leyfa móður sinni að deyja

Í kynningum og umfjöllunum um Adam hefur komið fram að umfjöllunarefnið, hvað sé best fyrir móður með heilabilun, stendur Maríu mjög nærri þar sem móðir hennar glímdi við heilabilun í fjórtán ár.
„Já,“ segir hún. „Við systkinin og vinir mömmu stóðum frammi fyrir þessari spurningu þegar verið var að ræða hennar aðstæður; fjórtán ár í hjólastól með bleiu. Fyrst var því haldið fram að við systkinin værum jafnvel með eitthvað svipað, að það væru fimmtíu prósent líkur á því að við yrðum svona. Við hefðum svo gjarnan viljað geta tekið hana út af stofnuninni sem hún bjó á, farið með hana upp á jökul, spilað fyrir hana á gítar og gefið henni kakó. Leyft henni að deyja þar. Það var svo erfitt að horfa upp á þetta. Svo velti maður því auðvitað fyrir sér hvað maður sjálfur myndi vilja ef maður lenti í þessum aðstæðum. Það er svo óhugnanleg tilhugsun að enda svona. Og það versta er að þá er maður ekki lengur með rænu til þess að taka neinar ákvarðanir.“

Það er augljóst að þetta málefni er Maríu Sólrúnu hugleikið, ekki síst sú spurning hvort leggja eigi það á aðstandendur að taka ákvörðun um það hvort líknardráp væri kannski mannúðlegasta lausnin. Hún segist þó ekki geta, eða vilja, taka ákveðna afstöðu í því máli.

„Myndin gengur út á það að móðirin hafði einhvern tíma beðið son sinn að hjálpa sér að deyja ef hún skyldi einhvern tíma lenda í því að fá heilabilun eins og mamma hennar hafði fengið. Ég var reyndar búin að gleyma því, en Magnús minnti mig á það þegar við vorum að vinna myndina að ég hefði gefið börnunum mínum þessi skilaboð; í guðanna bænum ekki láta mig enda eins og ömmu. Þetta er það sem drengurinn Adam stendur frammi fyrir. Honum finnst hann skulda henni það að hjálpa henni að deyja.“
Líknardráp, sem sumir kjósa að kalla dánaraðstoð, eru bönnuð með lögum í Þýskalandi þannig að ef Adam myndi hjálpa móður sinni væri það glæpur, sem gerir baráttu hans við sjálfan sig enn erfiðari. „Skiljanlega,“ segir María Sólrún.
„Eitt er að ætlast til einhvers svona af börnunum sínum,“ segir hún. „Þar fyrir utan er það ólöglegt og jafnvel þótt það væri löglegt þá hefur manneskjan sem bað um aðstoð ekki tekið þá ákvörðun meðvitað að leggja slíka byrði á fólk. Ég sé samt alveg einhverja virðingu í því að fólk fái að deyja þegar það er orðið ósjálfbjarga. En ég á voðalega erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á þessu. Það er svo margt sem mælir bæði með og á móti.“

Tók upp atriði í eigin rúmi

Adam var frumsýnd á Berlínarkvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári og hlaut afar góðar móttökur og umsagnir. María Sólrún viðurkennir að það hafi komið henni á óvart, hafi eiginlega verið súrrealísk reynsla.
„Þetta var mynd sem ég tók heima hjá mér, karakterinn var í rúminu sem ég svaf svo í um nóttina, ég skipti ekki einu sinni um rúmföt. Þetta var allt svo rosalega persónulegt. Samstarfsfólkið var vinir mínir og börnin mín, allt prófessjónal leikarar samt, og öll vinnan var svo náin. Svo erum við allt í einu komin í einhvern þúsund manna sal fullan af fólki þar sem tekið er svona vel á móti á okkur. Myndin er komin upp á risastórt tjald, lítur vel út og greinilega snertir fólk. Fólk grætur allt í kringum mann í salnum. Það var vissulega súrrealískt.“

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu og börn hennar, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Þetta opnaði nýjar brautir fyrir okkur öll,“ segir hún stolt. „Við lítum á okkur sem fjölskyldu-listakollektív. Við Magnús erum að skrifa og þróa annað handrit með stóru fyrirtæki í Þýskalandi þar sem hann mun líka leika aðalhlutverkið. Það kom algjörlega til út af Adam. Hann er líka kominn með umboðsmann í Los Angeles eftir þetta. Við Liina erum svo að þróa sjónvarpsseríu fyrir annað stórt þýskt fyrirtæki og ég „sel“ alltaf tónlistarhugmyndir með í öll þessi verkefni og það eru Liina og Haraldur Þrastarson, kærasti hennar, sem vinna tónlistina. Þannig að vissulega hefur þessi mynd breytt öllu fyrir okkur.“

Konur þurfa að forma bransann upp á nýtt

Sjónvarpsserían umrædda leggur áherslu á kvenlega sýn og kvenlega reynslu, samt alls ekki eitthverja Sex and the City/Girls-hugmynd undirstrikar María. Þetta eru spennuþættir sem beina sjónum að konum og þeirra samskiptum. Við tölum um það í sjónvarpsþáttum samtímans að fjalla um konur og ég spyr, eins og auli, hvort María haldi að það sé komið til að vera, eða hvort konur fái bara sviðsljósið núna af því það er búið að þrýsta svo harkalega á kvikmyndafyrirtækin. Það þykir henni fáránleg spurning.

Velgengni Adams opnaði ýmsar dyr fyrir Maríu Sólrúnu, hún er komin með tvö ný verkefni í vinnslu, kvikmynd sem hún vinnur að með syni sínum og sjónvarpsþætti sem hún er að þróa með Liinu, dóttur sinni.

„Ég held að þetta sé komið til að vera,“ segir hún ákveðin. „Þetta er eins og að spyrja svart fólk hvort þessar myndir með áherslu á reynslu svartra séu ekki bara tískufyrirbæri. Kannski eru orðnir margir þættir um konur núna, en í vinnu minni sem ráðgjafa hjá kvikmyndasjóði hef ég ekki orðið vör við það að konur séu að taka kvikmyndagerðina yfir. Það eru enn fleiri karlar sem sækja um, þannig að í augnablikinu er alla vega engin hætta á að þeim verði bolað út.“

Ég heyri á Maríu Sólrúnu að henni finnst þessi umræða út í hött en ég þrjóskast við og spyr hvort hún sem kona sem gjörþekkir kvikmyndabransann trúi því í alvöru að hlutföll kynjanna jafnist út. Það sljákkar aðeins í henni.

„Sko. Það er alveg öruggt að tilhneigingin er sú að bransinn vill fara að sýna það að hann sinni ákveðnum skyldum. Það er alveg réttlætanlegt að spyrja hversu mikið sé á bak við það. En ef við konur sjálfar erum svolítið duglegar að nota tækifærið í leiðinni til þess að forma bransann pínu hagstæðar fyrir okkur, þannig að þú getir átt fjölskyldu og eignast börn en samt fengið að hafa rödd í þessum bransa, þá helst þetta svona. Ég trúi því. Það þýðir ekki endilega að konur þurfi að fara að gera kvikmyndir svona seint eins og ég, heldur skiptir máli að þú þykir hafa einhverja vikt í greininni þótt þú sért ekki að unga út efni sem leikstjóri eins hratt og einhverjir aðrir. Mér finnst allavega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað sem er mjög jákvætt.“

Konur skila sér síður út á markaðinn

María Sólrún segir sömu tiltektirnar vera í gangi í kvikmyndaiðnaðinum í Þýskalandi, þar sé jafnvel talað um að setja kvóta þannig að sum stóru kvikmyndafyrirtækin séu búin að setja sér það markmið að fimmtíu prósent leikstjóra þeirra séu konur. Og áhrifin sjáist víðar.

„Kvikmyndahátíðin í Berlín tók þetta mjög alvarlega í ár, buðu miklu fleiri kvikmyndum gerðum af konum en áður hefur tíðkast. Þannig að umræðan hefur alveg áhrif. Það hefur lengi verið þannig í kvikmyndaskólum í Þýskalandi að konur eru næstum helmingur nemenda en það hefur ekki skilað sér út á markaðinn. Það er þess vegna sem ég tala svona mikið um að við þurfum að leyfa okkur að gera þetta á eigin forsendum og vera ekki hræddar um að missa af lestinni ef við eignumst börn og fjölskyldu og það dregur úr afköstunum í einhvern tíma. Það er aldrei of seint að snúa aftur.“

„Mér finnst alla vega núna vera að koma fram fleiri hugrakkar stelpur með sterka rödd hér á Íslandi. Ég er ekki að meina að þær stelpur sem komu á undan hafi ekki verið hugrakkar með sterka rödd, en þeim hefur fjölgað, sem er mjög jákvætt.“

Talandi um endurkomu þá verður Adam frumsýnd á Íslandi sem lokamynd barnakvikmyndahátíðar í Bíó Paradís þann 14. apríl og fer síðan í almennar sýningar þann 16. Auk þess munu María Sólrún og Magnús verða með Master Class í Bíó Paradís 16. og 17. apríl. Hvernig er það hugsað?

„Við verðum með smáspjall eftir sýningu myndarinnar um það hvaða trix er hægt að nota ef maður ætlar að búa til heimakvikmynd sem getur lent á stórri kvikmyndahátíð,“ segir María Sólrún og skellir upp úr. „Við kunnum það.“

Dýrtíðin á Íslandi hrikaleg

Í tilefni af íslensku frumsýningunni er María stödd á landinu en hér hefur hún ekki búið síðan 1985. Dreymir hana, eins og marga brottflutta Íslendinga, um að flytja heim í ellinni og njóta íslenskrar náttúru?

„Nei, ég kem hingað reglulega og nýt náttúrunnar en mér finnst dýrtíðin hér bara svo hrikaleg að ég gæti ekki búið hérna,“ segir hún og það er sjokk í röddinni. „Ég fer bara aftur heim til Berlínar og þar munum við Magnús halda áfram að vinna í handritinu að nýju kvikmyndinni og við Liina að þróa sjónvarpsþáttaröðina. Við fengum líka styrk fyrir enn eitt handritið, svo það er nóg að gera. Ég er rétt að byrja!“

Samtalið fer að styttast í annan endann en að lokum spyr ég Maríu Sólrúnu hvort hún vilji koma einhverju á framfæri við íslenskar kvikmyndagerðarkonur áður en við hættum.

„Ég vil bara endilega nota tækifærið og hvetja konurnar í bransanum til dáða. Ekki bara þessar ungu, sem maður þarf líka að hvetja, heldur bara allar konur á öllum aldri, til að láta til sín taka í kvikmyndaiðnaðinum. Koma sínum sjónarmiðum á framfæri hvað sem það kostar. Jafnvel bara gera þetta innan fjölskyldunnar, eins og við. Það var einmitt einhver kona sem benti mér á að ég hefði unnið þessa mynd eins og bóndi sem þarf að leita allra leiða til að koma uppskerunni í hús, tók bara börnin með út á akurinn þegar á þurfti að halda.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

„Ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig“

|
|

„Ég vildi ekki trúa þessu,“ segir söngkonan Mariah Carey í forsíðuviðtali við tímaritið People, þar sem hún opnar sig um baráttu sína við geðhvarfasýki.

Mariah segist hafa greinst með sjúkdóminn árið 2001 í kjölfarið á því að hún hafi verið lögð inná spítala eftir að hún brotnaði niður andlega og líkamlega.

„Mig langaði ekki að burðast með smánarblettinn sem þessi lífstíðarsjúkdómur hefur, sjúkdóm sem myndi skilgreina mig og hugsanlega eyðileggja feril minn. Ég var dauðhrædd um að missa allt. Ég sannfærði sjálfa mig um að eina leiðin til að kljást við þetta væri að kljást ekki við þetta,“ segir Mariah í þessu einlæga viðtali.

Tekur lyf við sjúkdómnum

„Ég lifði í afneitun og einangrun þar til nýlega og ég lifði í stöðugum ótta um að einhver myndi afhjúpa mig. Þetta var of þung byrði til að bera og ég gat það einfaldlega ekki lengur. Ég leitaði mér meðferðar, ég umkringdi mig jákvæðu fólki og byrjaði aftur að gera það sem ég elska – að skrifa og semja tónlist. Eins erfitt og þetta er þá vissi ég að það væri komið að því að ég myndi loksins deila sögu minni,“ segir þessi hæfileikaríka kona.

Forsíða People.

Söngkonan segist nú vera í meðferð og á lyfjum við geðhvarfasýki II sem lýsir sér í ýmist þunglyndi eða oflæti.

„Ég tek lyf sem virðist ganga vel. Þau gera mig ekki of þreytta eða sljóa eða neitt svoleiðis. Það er mikilvægast að finna jafnvægið,“ segir Mariah og bætir við að hún hafi ákveðið að leita sér meðferðar eftir erfiðustu ár lífs síns.

Mariah á tvíburana Monroe og Moroccan, sex ára, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Nick Cannon. Hún segist vera á góðum stað í lífinu í dag og vill aflétta þeirri skömm sem fylgir geðsjúkdómum.

„Ég er vongóð um að við getum komist á stað þar sem skömminni verður aflétt af fólki sem gengur í gegnum svona nokkuð eitt. Þetta getur verið mjög einangrandi.“

Biggest Loser-þjálfari hittir manninn sem bjargaði lífi hans

Einkaþjálfarinn Bob Harper, sem margir kannast við úr raunveruleikaþáttunum The Biggest Loser, hneig niður á æfingu í febrúar í fyrra og komst að því þegar hann vaknaði á spítalanum tveimur dögum seinna að hann hefði fengið alvarlegt hjartaáfall.

Bob var gestur í The Dr. Oz Show í gær þar sem hann talaði um þessa lífsreynslu og bætti við að hann hefði nýlega frétt af því að það hefði verið manneskja í ræktinni, sem þjálfarinn þekkti ekki neitt, sem hefði veitt honum fyrstu hjálp á staðnum.

Þá útskýrði Dr. Oz að teymið á bak við þáttinn hefði fundið þennan dularfull mann sem bjargaði lífi Bobs og spurði hvort þjálfarinn vildi hitta hann.

„Já!“ svaraði Bob umsvifalaust.

Ungi maðurinn, sem heitir Phillip, gekk þá inn í sjónvarpssalinn. Hafði þetta svo sterk áhrif á Bob, eins og sjá má í meðfylgjandi myndböndum, að hann kom ekki upp orði. Phillip er læknanemi og sagði í þættinum að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem hann veitti alvöru manneskju fyrstu hjálp. Fyrir þetta atvik hafði hann aðeins æft sig á dúkkum.

„Ég leitaði að púlsi, sem var veikur, og síðan hætti ég að finna hann. Og síðan, allt í einu – viltu heyra þetta?“ spurði Phillip þjálfarann.

„Já,“ sagði Bob.

„Allt í einu varðstu blár. Rosalega blár. Þannig að þá hóf ég fyrstu hjálp.“

„Mótlætið styrkti baráttuviljann“

„Fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnmálum, skarpa sýn og réttlætiskennd. Okkur lék forvitni á að vita hver bakgrunnur hennar væri og komumst fljótt að því að þarna fer kona sem fékk snemma á lífsleiðinni að kenna á mótlæti á eigin skinni.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingiskona segir sögu sína í 14. tölublaði Vikunnar.

„Við fluttumst til Mosfellsbæjar þegar ég var í sjöunda bekk og þar skánaði ástandið ekkert. Ég var vinafá og átti erfitt uppdráttar í gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Mér var mikið strítt og sumir léku sér að því að þykjast vera vinir mínir til þess eins að geta niðurlægt mig á einn eða annan hátt. Sumarið fyrir níunda bekk tók ég svo þá glæfralegu ákvörðun að lita á mér hárið svart. Það var engin sérstök hugmyndafræði á bak við þetta hjá mér, Sunna vinkona mín mætti í „goth“-lúkkinu í heimsókn til mín einn daginn og mér fannst þetta bara rosalega töff. En þetta litaval var greinilega kornið sem fyllti mælinn hjá skólafélögum mínum sem virtust sameinast um að fyrirlíta mig og vilja gera mér lífið leitt. Fyrri önnin í níunda bekk fannst mér helvíti á jörðu, mér leið rosalega illa og framkoman við mig skildi eftir sig stór sár á sjálfsmyndinni,“ segir Þórhildur Sunna.

„Ég man eftir að hafa reglulega verið kölluð mansonisti, mansonari, djöfladýrkandi, dópisti og ýmislegt annað verra eins og tussa, hóra og tík. Ég man eftir viðstöðulausu áreiti og tilraunum til þess að plata mig til að segja eða gera eitthvað heimskulegt. Ég man að skólafélagar mínir áttu það til að henda í mig matarafgöngum í matsalnum. Þau voru mörg sem gerðu sér það að leik að reyna að fella mig á göngunum á efri hæðinni og ég man hvað ég var alltaf hrædd að ganga fram hjá þeim. Ég man sérstaklega vel eftir vanmættinum sem ég upplifði á hverjum einasta degi og hvað mér fannst ég mikill aumingi að svara aldrei fyrir mig.“

Ítarlegt viðtal er við Þórhildi Sunnu í 14. tölublaði Vikunnar, 2018, þar sem hún ræðir meðal annars um eineltið, áreitið og gamla lögmannahrúta á Alþingi.  

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fæddi barn í anddyrinu heima hjá sér

|
|

Þáttarstjórnandinn Seth Meyers og eiginkona hans, Alexi Ashe, eignuðust sitt annað barn, son sem hlotið hefur nafnið Axel, á sunnudag. Seth var mættur aftur til vinnu kvöldið eftir í þátt sinn Late Night With Seth Meyers, og lýsti þar fæðingunni, sem bar ansi fljótt að.

Í meðfylgjandi myndbandi byrjar Seth á að rifja upp fæðingu fyrsta barn síns, Ashe, sem kom mjög skjótt í heiminn.

„Við höfðum áhyggjur af því að hún ætti eftir að eignast barnið í Uber-bílnum,“ segir Seth en hjónakornin komust á spítalann áður en litla kraftaverkið kom í heiminn. Það sama var ekki upp á teningnum á sunnudaginn þegar Axel fæddist.

Í myndbandinu hér fyrir neðan sýnir hann einnig myndir frá stóra deginum.

Alexi byrjaði að finna fyrir hríðum og stuttu seinna leit tengdamamma Seths á hann og hrópaði: „Við verðum að fara á spítalann núna!“ Þau fóru í flýti niður í anddyri á byggingunni sem þau búa í en þegar Alexi var við það að setjast inn í Uber-bifreiðina sagði hún að barnið væri að koma og að hún gæti ekki sest inn í bílinn. Sem betur fer voru þau hjónin með dúlu með sér, sem sá til þess að fæðingin gekk vel í anddyri byggingarinnar.

Ég mæli með því að þið horfið á alla söguna frá sjónarhorni Seths því hún er bráðskemmtileg:

Gengin sex mánuði og geislar

Victoria’s Secret-fyrirsætan Candice Swanepoel á von á sínu öðru barni með kærasta sínum, Hermann Nicoli.

Candice er komin sex mánuði á leið og fagnaði því með því að birta nektarmynd af sér á Instagram sem er afskaplega falleg.

„Eru konur ekki stórkostlegar?!“ skrifaði Candice meðal annars við myndina og taggaði ljósmyndarann Inge Fonteyne, hárgreiðslumanninn Frankie Foy og förðunarfræðinginn Mariel Barrera.

Candice hefur verið dugleg að deila myndum á Instagram á meðgöngunni, en hún eignaðist sitt fyrsta barn, soninn Anacã, í október árið 2016.

The little prince #proudmama ?

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Cosy with my little? ?@ingefonteyne @mariel_barrera @frankiefoye @1hotels

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

? @uxua

A post shared by Candice Swanepoel (@angelcandices) on

Raddir