Sante Feaster er með háskólagráður í bæði alþjóðafræðum og mannfræði frá SUNY Cortland-háskóla í New York en á Íslandi stendur hún vaktina í ísbúð við Rauðarárstíg. Ekki beint það sem hún hafði í huga þegar hún ákvað að fara í háskólanám þrátt fyrir þröngan fjárhag en ástin spyr ekki um áður gerð plön og eftir að hafa kynnst íslenskum manni sem hún varð ástfangin af tók Sante sig upp, flutti til Íslands, giftist ástinni sinni og reynir að gera það besta úr stöðunni í atvinnuleitinni, sem hefur verið henni vægast sagt torsótt.
„Ég flutti hingað fyrir einu og hálfu ári til að búa með manninum mínum,“ segir Sante og brosir allan hringinn. „Við giftum okkur í maí í fyrra og síðan hef ég verið að reyna að komast inn á íslenska vinnumarkaðinn. Það er ekki beint auðvelt og ég hef fengið alveg ótrúlega dónalegt viðmót í sumum atvinnuviðtölunum sem ég hef farið í. Ég hef náttúrlega þrennt á móti mér; ég er svört, ég er kona og ég er Ameríkani, það virðist ekki vera vinsælt hér,“ bætir hún við og hlær aftur.
Störfin eingöngu fyrir Íslendinga
Beðin að útskýra menntun sína og hvað það er sem hún sækist eftir að vinna við útskýrir Sante að hún sé svo sem opin fyrir alls konar störfum en hún myndi gjarnan vilja að menntun hennar væri metin hér.
„Ég var í háskóla í fjögur ár og hef tvær háskólagráður, í mannfræði og alþjóðafræðum þar sem ég lagði áherslu á málefni latnesku Ameríku. Ég hef reynt að fá vinnu hér á mínu sérsviði en það virðist vera mjög takmarkað framboð af störfum sem tengjast því. Og þau störf sem eru í boði eru eingöngu ætluð Íslendingum.“
„Ég hef reynt að fá vinnu hér á mínu sérsviði en það virðist vera mjög takmarkað framboð af störfum sem tengjast því.“
Sante hefur þó fundið leið til að nýta menntun sína með því að vinna með kvennahópi sem skoðar rasisma og kynjahyggju á Íslandi og hún segir engan vafa á því að hvort tveggja sé talsvert útbreitt hér. Hvort það eigi þátt í því hversu erfitt henni reynist að fá vinnu við sitt hæfi þori hún þó ekki að fullyrða.
„Ég kenndi um tíma ensku í tungumálaskóla en það var bara hlutastarf og ég þurfti að fá fulla vinnu svo ég hætti því. Ég hef unnið á tveimur veitingahúsum, bæði í Reykjavík og Kópavogi, og nú vinn ég í ísbúð. Það er ekkert hræðilegt en ekki beint það sem mig langar til að vinna við.“
Sante hefur ekki lagt stund á skipulegt nám í íslensku en hún segist þó geta talað dálítið og hún skilji mun meira en fólk geri ráð fyrir sem sé stundum vandræðalegt þegar fólk sé að tala um hana að henni viðstaddri og gangi út frá því að hún skilji ekki neitt. Það sé oft óþægilegt bæði fyrir hana og þá sem eru að baktala hana.
Tala eins og svart fólk í bíómynd
Spurð hvað hún hafi hugsað sér að gera til að komast í starf sem hæfi henni og hennar menntun, segist Sante ekki vita almennilega hvað sé hægt að gera.
„Ég þarf bara að byrja á botninum og vinna mig upp,“ segir hún. „Það er eina leiðin fyrir innflytjendur og ég mun halda því áfram þangað til ég fæ einhverja vinnu sem ég hef áhuga á. Það er ótrúlega erfitt að fá góða vinnu hérna og ég skil ekki alveg hvers vegna. Ég hef víðtæka starfsreynslu á mörgum sviðum, auk menntunarinnar, ég vann bæði með menntaskólanáminu og háskólanáminu til þess að hafa efni á því að mennta mig og ég skil ekki hvaða þröskuldar það eru sem íslenskir vinnuveitendur vilja ekki hleypa mér yfir.“
„Það er ótrúlega erfitt að fá góða vinnu hérna og ég skil ekki alveg hvers vegna.“
Sante segir húðlit sinn kannski eiga þátt í því hversu erfitt henni reynist að fá góða vinnu. Stundum hafi hún á tilfinningunni að þeir vinnuveitendur sem kalli hana í viðtal hafi aldrei talað við svarta manneskju fyrr.
„Það er ekki beint opinskár rasismi í gangi hér en það eru alls konar smáatriði sem ég sé í framkomu fólks sem eru hreinn og klár rasismi. Fólk fer allt í einu að tala eins og svart fólk gerir í amerískum bíómyndum og ég kem alveg af fjöllum, hví í ósköpunum talar fólk öðruvísi við mig en aðra enskumælandi umsækjendur í atvinnuviðtali? Sumir hafa sagt fáránlega hluti um húðina á mér og einn vinnuveitandinn sagði hreint út að ég væri of feit, hvort ég væri viss um að ég gæti unnið starfið sem ég var að sækja um. Ég varð svo hissa að ég gat varla svarað. Mér hafði aldrei dottið í hug að þyngd mín yrði gerð að umræðuefni í atvinnuviðtali, enda hefur hún aldrei komið í veg fyrir að ég gerði það sem ég ætlaði mér. Ég passaði mig samt að sýna ekki hvað ég varð reið því ég vil ekki staðfesta steríótýpuna af reiðu svörtu konunni í hugum fólks. Ég er mjög meðvituð um það að í augum sumra er ég fulltrúi allra svarta kvenna, svo ég passa mig alltaf á hvað ég segi.“
„Sumir hafa sagt fáránlega hluti um húðina á mér og einn vinnuveitandinn sagði hreint út að ég væri of feit, hvort ég væri viss um að ég gæti unnið starfið sem ég var að sækja um. Ég varð svo hissa að ég gat varla svarað.“
Sante er bjartsýn á að henni takist með tímanum að fá vinnu í sínu fagi en þangað til ætlar hún að halda áfram að reyna að klifra upp stigann, eins og hún kallar það. Hún segir þó mikilvægt að innflytjendur láti ekki bjóða sér hvað sem er á vinnumarkaðnum og hvetur fólk til að tala við sitt stéttarfélag og kynna sér réttindi sín, það sé allt of algengt að reynt sé að borga erlendu fólki minna en samningar kveða á um og láta það ekki fá lögbundinn frítíma.
„Við verðum að standa með sjálfum okkur og láta ekki svindla á okkur,“ segir hún ákveðin. „Það er óásættanlegt að erlendir launþegar njóti ekki sömu réttinda og þeir íslensku og við verðum að stoppa það sjálf. Það gerir það enginn fyrir okkur.“
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir