Ásgeir Jón Guðbjartsson hjá Epli.is segir frá nýjungum frá Apple.
Í september kynnti Apple nýjustu afurðir sínar, Apple Watch 4, iPhone Xs og iPhone Xs MAX, og iPhone XR, á árlegum viðburði sem fram fór í Steve Jobs Theater við nýju höfuðstöðvar Apple í Kaliforníu. Við hittum Ásgeir Jón Guðbjartsson, markaðsstjóra hjá Epli.is, og skoðuðum nýjustu afurðir Apple sem hafa litið dagsins ljós hjá versluninni og rjúka út eins og heitar lummur.
Áhersla Apple Watch 4 á heilsu og hreyfingu
Hvað hefur nýja útgáfan af Apple Watch 4-úrinu fram yfir eldri gerðina? „Nýja úrið er að miklu leyti endurhannað en er í megindráttum með sama útlit. Skjárinn hefur stækkað um þriðjung og fyllir nú betur út í framhliðina. Úrin sjálf hafa stækkað örlítið, minni útgáfan fer úr 38 millimetrum í 40 millimetra og það stærra úr 42 millimetrum í 44 millimetra. Þetta gefur nýtt pláss fyrir nýjar og flóknari úrskífur með fleiri eiginleikum. Frá því að Apple kynnti fyrsta úrið fyrir þremur árum hefur sýn fyrirtækisins á vöruna þróast mikið. Í stað þess að vera framlenging á símanum og leið til að eiga í samskiptum við vini og vandamenn þá er öll áhersla Apple nú á heilsu og hreyfingu,“ segir Ásgeir.
„Skjárinn hefur stækkað um þriðjung og fyllir nú betur út í framhliðina. Úrin sjálf hafa stækkað örlítið, minni útgáfan fer úr 38 millimetrum í 40 millimetra og það stærra úr 42 millimetrum í 44 millimetra.“
Hver myndir þú segja að væri stærsta breytingin? „Stærsta breytingin í þessa átt er að nú er úrið með innbyggðu hjartalínuriti (ECG) sem er bylting fyrir þá sem þurfa að fylgjast náið með sínum hjartslætti og hefur ekki sést áður í neinu öðru snjallúri. Sá eiginleiki verður í fyrstu eingöngu aðgengilegur í Bandaríkjunum. Nýju úrin nema það ef notandinn dettur og geta hringt sjálfkrafa í Neyðarlínuna ásamt því að senda skilaboð á ICE (In Case of Emergency)-tengiliði ef notandinn hefur verið hreyfingarlaus í mínútu eftir fallið. Jafnframt getur úrið hjálpað til við að finna óreglulegan hjartslátt og aðrar hjartsláttartruflanir.“
Gylltur iPhone Xs og Xs Max
Apple er komið með nýjan arftaka iPhone X sem kom í fyrra. Sá sími kallast iPhone Xs. iPhone Xs er hefðbundin S-uppfærsla. Epli.is er þegar komið með arftakann í sölu og er mikil eftirspurn eftir símanum.
Hverjar eru helstu nýjungarnar í iPhone Xs? „Útlit símans er nánast eins fyrir utan að hann fæst einnig í gylltum lit til viðbótar við svartan og hvítan. Innvolsið er aftur á móti mikið breytt. Nýr A12 Fusion-örgjörvi sem er mun öflugri, ný myndavél með mögnuðum eiginleikum og uppfært Face ID sem aflæsir símann hraðar en áður.“
„Myndavélin tekur margar myndir sem í bakgrunninum púslar þeim saman og gerir eina mynd með ótrúlegri dýpt og magnaðri lýsingu sem kallast Smart HDR. Með þessu nást skýrari og bjartari myndir sem hafa ekki áður náðst á snjallsímum. Í fyrsta sinn er sími frá Apple með stuðningi við tvö SIM-kort, annað hefðbundið og hitt innbyggt í símann eða svokallað eSIM. Sú tækni er þó ekki komin hingað til lands og óvíst hvenær verður. Apple endurtók leikinn frá 2014 þegar fyrirtækið kynnti iPhone 6 í tveimur stærðum. Xs Max er nákvæmlega eins og iPhone Xs, aðeins stærri.“
„Áður hétu stærri símar Apple Plus sem var þá tengt því að stærri síminn hefði eitthvað til viðbótar, til dæmis betri myndavél eða jafnvel tvær í stað einnar. Svo er ekki með Xs Max, hann er bara stærri útgáfa af iPhone Xs. Skjárinn á Xs er 6,5 tommu en ummál símans er svipað og iPhone 8 Plus,“ segir Ásgeir og brosir.
Myndir/ Hákon Davíð Björnsson og úr einkasafni Epli.is