Föstudagur 20. september, 2024
9.9 C
Reykjavik

Ólöglegt að deyja í þessum afskekkta bæ

|
|

Í norska bænum Longyearbyen búa um tvö þúsund manns, en íbúar bæjarins þurfa að fylgja mjög sérstökum lögum: þeir mega alls ekki deyja í bænum.

Longyearbyen er á Svalbarða, en þar er svo kalt að það hefur verið ólöglegt að deyja þar síðan árið 1950 þegar íbúar uppgötvuðu að lík væru ekki að rotna í kirkjugarðinum vegna kalds loftslags. Árið 1998 grófu nokkrir vísindamenn upp lík sem dóu þegar spænska veikin herjaði á heiminn árið 1918. Vísindamennirnir gátu þá enn tekið lifandi sýni af þessari stórhættulegu veiru.

Þvílíkur kuldi á Svalbarða.

Það er leyfilegt að grafa duftker í kirkjugarðinum, en fáir vilja nýta þann kost. Í staðinn ferðast þeir sem eru lífshættulega veikir til meginlands Noregs og eyða þar síðustu dögunum.

„Ef svo virðist sem þú munir deyja í nánustu framtíð þá er allt gert til að senda þig á meginlandið,“ segir Jan Christian Meyer hjá norska vísinda- og tækniháskólanum í samtali við The Sun.

Einnig er lítið um fæðingar í bænum þar sem óléttar konur eru hvattar til að ferðast til meginlandsins fyrir settan dag, þó lítill spítali sé á Svalbarða.

Aðalmynd / Hilgeriak

Breytti fataskáp í ævintýraveröld fyrir dótturina

|||||
|||||

Það er eitthvað svo spennandi við það þegar maður er lítill að eiga sitt eigið leyniathvarf, þar sem maður getur falið sig fyrir heiminum. Flestir láta sér nægja að börnin sín eigi sinn leynistað í hefðbundnum fataskápum en það var ekki nóg fyrir innanhússarkitektinn Lauru Medicus.

Teikning af verkefninu.

Laura vildi búa til eitthvað í anda Narníu fyrir ellefu ára dóttur sína, Sylviu. Þannig að hún ákvað að breyta venjulegum fataskáp í undraveröld með því að taka bakhliðina úr skápnum og búa til lítið herbergi fyrir aftan hann.

Venjulegur fataskápur.

Laura fer yfir verkefnið skref fyrir skref á bloggsíðu sinni, The Colorado Nest. Það tók hana þrjár vikur að ljúka við verkið, en hún segir að það sé ofureinfalt, þó hún hafi vissulega forskot verandi innanhússarkitekt.

Sylvia læðist inn.

Þá tekur Laura einnig fram að verkefnið kosti alls ekki mikið, en dóttir hennar hefur varla fengist til að fara úr leyniherberginu síðan það var afhjúpað.

Fullkominn staður til að slaka á.
Og nóg pláss fyrir fötin.

Myndir / Laura Medicus

„Þessi stelpa er ekki feit“

Victoria’s Secret-fyrirsætan Bridget Malcom, sem hefur einnig setið fyrir í V Magazine og unnið fyrir Ralph Lauren, birti gamla mynd af sér í bikiníi á Instagram fyrir stuttu. Við myndina opnaði hún sig um líkamsímynd.

„Þessi stelpa er ekki feit. Ég man þegar þessi mynd var tekin. Mér hafði verið sagt að ég þyrfti að grennast. Ekki í fyrsta sinn og ekki í það síðasta,“ skrifar Bridget við myndina og bætir við:

„Alltaf gaman að þykjast vera örugg og hamingjusöm í sundfötum þegar maður er í stríði við líkama sinn.“

Bridget hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð við myndinni, svo góð að hún skrifaði meira á Instagram nokkrum dögum síðar og þakkaði fyrir stuðninginn.

„Þakkir til allra sem hafa stutt ákvörðun mína að vera hreinskilin um baráttu mína við líkama minn,“ skrifar Bridget. Hún skrifar jafnframt að hún muni halda áfram að tjá sig um líkamsímynd í nánustu framtíð.

„Ég hef fengið nóg. Takið ákvörðun í dag að elska líkamann sem þið hafið og takið styrk ykkar til baka því þið eruð alltaf nóg. Þessi mynd var tekin eftir að ég var í átta löndum á þremur vikum (tvær ferðir til Ástralíu frá Evrópu meðtaldar). Ferðalögin urðu til þess að ég bætti á mig og ég var svo áhyggjufull yfir því. Myndatakan var sem betur fer auðveld, full af ást og skemmtileg – en ég grét mig í svefn þetta kvöld. Ég var svo hrædd við að fara „feit“ aftur til New York og þurfa að horfast í augu við kúnna mína og umboðsskrifstofu. Fáránlegt.“

To everyone who has supported me in my decision to be honest about my body struggles, thank you. I am completely overwhelmed by all your love – and I try to respond to all your messages. I will be writing about my experiences in this arena on my blog regularly – stay tuned ❤️ I’ve had enough. Today make the choice to love the body you inhabit, and take back your strength, because you are always enough. This photo was taken at the end of being in 8 different countries in three weeks (two trips to aus from Europe included) All that travel had me gaining weight and I was so anxious about it. Luckily the shoot was easy, loving and fun – but I cried myself to sleep that night, I was so terrified at going back to NYC “fat” and having to face my clients and agency. Ridiculous. #IDictateMyRoad

A post shared by Bridget Malcolm (@bridgetmalcolm) on

Þessar kisumyndir eru hugsanlega það sætasta sem þú sérð í dag

||||||||
||||||||

Japanski Twitter-notandinn Mttkmsan ákvað í sakleysi sínu um daginn að birta mynd af ketti nágranna síns er hann var að teygja sig í svefni.

Þessi mynd Mttkmsan fór heldur betur eins og eldur um sinu í japanska Twitter-samfélaginu og er það nú orðið gríðarlega vinsælt þar í landi að birta myndir af kisum að teygja sig á samfélagsmiðlinum.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af þessum ofurkrúttlegu myndum, en vefsíðan Bored Panda tók saman fleiri myndir sem hægt er að skoða hér.

10 mínútna æfing sem gerir rassinn stinnan

Þjálfarinn Nicole Steen er búin að setja saman tíu mínútna æfingarrútínu sem er ætluð til að gera rassinn stinnari, ef æfingin er gerð reglulega.

Hér þarf engin tól eða tæki, bara eigin líkamsþyngd, en gott er að vera með mottu eða teppi fyrir hnén. Þessi æfing er vægast sagt algjör snilld.

Barnaárið byrjar vel

Blessað barnalánið hefur ekki látið á sér standa það sem af er ári, en margir þekktir Íslendingar hafa verið duglegir að fjölga mannkyninu á fyrrihluta árs 2018.

Samfélagsmiðlastjarnan Aron Már Ólafsson, eða Aron Mola eins og hann er oftast kallaður, ákvað að stela þrumu ritstjórans Davíðs Oddssonar með því að eignast barn á afmælisdegi hans, þann 17. janúar. Það kom ekki á óvart að Aron tilkynnti um fæðingu barnsins á samfélagsmiðlum, en hann deildi fallegri mynd af sér, kærustu sinni Hildi Skúladóttur, og litla syninum.

Til hamingju með daginn Davíð Oddsson. Minn dagur var samt aðeins betri

A post shared by Aronmola (@aronmola) on

Þá eignuðust hjónin Bergur Ebbi og Rán Ingvarsdóttir son í byrjun febrúar. Bergur Ebbi greindi frá fæðingu barnsins á Facebook-síðu sinni en eitthvað hefur sonurinn verið að flýta sér í heiminn því aðeins liðu fjörutíu mínútur frá því að hjónin mættu uppá fæðingardeild og þar til sonurinn mætti í öllu sínu veldi.

Spéfuglinn Saga Garðarsdóttir og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason eignuðust stúlku á síðasta degi febrúarmánaðar, en Snorri tilkynnti það á mjög einlægan hátt á Facebook.

„Fal­leg­asta mann­vera sem nokkru sinni hef­ur verið til. Við erum mjög ham­ingju­söm lít­il fjöl­skylda.“

Vika

A post shared by Saga Garðarsdóttir (@harmsaga) on

Nóg af börnum á leiðinni

Svo eru það öll börnin sem eiga eftir að koma í þennan heim á árinu, en mikið af sónarmyndum hefur fengið að fljóta um samfélagsmiðla að undanförnu.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, sem nýverið hlaut Edduverðlaun sem sjónvarpsmaður ársins, á von á dreng með kærustu sinni, Ágústu Sveinsdóttur, í ágúst. Þá eiga Arnar Gunnlaugsson og María Builien Jónsdóttir einnig von á barni á árinu, sem og listamaðurinn Ragnar Kjartansson og myndlistarkonan Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson og unnusta hans, Védís Kjartansdóttir, geta einnig glaðst, en þau eiga von á erfingja í ágúst.

Ein af krúttlegustu óléttutilkynningum það sem af er árinu er án efa mynd sem fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir og fótboltamaðurinn Aron Einar Gunnarsson settu inn á Instagram. Þar sést sonur þeirra Óliver í bol sem á stendur: „Ég er að verða stóribróðir.“

Svo má ekki gleyma Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur og Víði Guðmundssyni sem eiga von á tvíburum á árinu og ákváðu að búa til heilt lag til að opinbera það, ekki bara á íslensku heldur á ensku líka. Þetta kallar maður metnað!

Tók sjálf á móti barninu í miðjum keisaraskurði

|||||
Jiminn

Ljósmóðirin Emily Dial gerði nokkuð frekar magnað um helgina; hún tók sjálf á móti barni sínu í miðjum keisaraskurði.

Emily vissi strax að hún vildi taka virkan þátt í fæðingu barnsins, dóttur sem hefur hlotið Emma Kaye. Fyrsta barn Emily, Grayson, kom í heiminn með keisaraskurði en lést tíu dögum seinna út af því að lungu hans uxu ekki. Þegar Emily eignaðist sitt annað barn, dótturina Ellu sem nú er fjögurra ára, var ljósmóðirin of veik til að taka þátt.

Mögnuð mynd.

Þannig að, þegar Emily fékk að vita að hún ætti von á sínu þriðja barni sagðist hún vilja hjálpa samstarfsmönnum sínum við Frankfort Regional-sjúkrahúsið að taka á móti barninu.

Áður en skurðaðgerðin hófst þvoði Emily hendur sínar, setti á sig hanska og bað ljósmyndarann Söruh Hill að vera reiðubúna að mynda herlegheitin. Það sem gerir þessa stund enn stórkostlegri er að Emily tók á móti barni ljósmyndarans fyrir tveimur árum síðan.

Hér sést Emily ná taki á dóttur sinni áður en hún dró hana úr kviði sínum.

Sjá einnig: Fæddi barn á ganginum og ljósmyndarinn náði stórkostlegum myndum af því.

Þegar kom að því að taka á móti barninu var Emily frekar hissa að þetta væri stúlkubarn.

Jiminn, hvað þetta er fallegt.

„Ég var í sjokki og dáðist að henni. Ég var ekkert að hugsa um að kviðurinn á mér væri galopinn. Ég hugsaði bara: Guð minn góður. Þetta er í alvörunni stúlka,“ segir Emily í viðtali við tímaritið People.

Emily kyssti ekki dóttur sína þegar hún kom í heiminn því hún vildi að allt væri sótthreinsað og að Emma væri heilbrigð.

„Ég bar hana upp að andliti mínu, horfði á hana og sagði: Mig langar svo mikið að halda á þér.“

Gott að vera komin til mömmu.

Sjá einnig: Áhrifamiklar fæðingarmyndir verðlaunaðar.

Emily vonar að saga hennar hjálpi öðrum konum sem þurfa að fæða börn með keisaraskurði.

„Þó þú takir ekki sjálf á móti barninu þá geturðu samt tekið virkan þátt í fæðingunni og átt frábæra lífsreynslu.“

Falleg stund.

Myndir / Sarah Hill

Konur af erlendum uppruna opnuðu Milljarð rís

|||||
04. tbl. 2018

Samtakamátturinn var allsráðandi í hádeginu í gær í Hörpu og víða um land. Fullt var úr dyrum í Norðurljósasalnum; konur, karlmenn og börn mættu á Milljarð rís um allt land og dönsuðu gegn ofbeldi gegn konum og stelpum. Í ár tileinkaði UN Women á Íslandi dansinn konum af erlendum uppruna sem þurft hafa að þola margþætta mismunun, kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi.

„Stemningin hér í dag var algjörlega mögnuð og opnunaratriði kvenna af erlendum uppruna hreyfði svo sannarlega við fólki, það var ekki annað hægt að tárast yfir frásögnum kvennanna. Það er ekki á hverjum degi sem við upplifum samstöðuna líkt og hún birtist okkur í dag því hér í dag gafst almenningi tækifæri til að mótmæla ofbeldinu með gleði og dansinn að vopni,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Stemningin í Hörpu var ólýsanleg.

Er þetta í sjötta sinn sem UN Women í samstarfi við Sónar Reykjavík efnir til dansbyltingarinnar Milljarður rís. Dansað var víða um land í Hörpu, Akureyri, Seyðisfirði, Suðurnesjum, Neskaupstað, Hvammstanga, Borgarnesi, Egilsstöðum og á Höfn í Hornafirði.

Nichole Leigh Mosty steig á stokk.

Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi ávarpaði viðstadda dansara í upphafi og minnti almenning einnig á sms-neyðarsöfnun UN Women Íslandi í þágu Róhingjakvenna en enn er hægt að leggja átakinu lið og senda sms-ið KONUR í 1900.

Eftirfarandi konur stigu á stokk: Nichole Leigh Mosty, Claudia Ashornie Wilson, Tatjana Latinovic, Eliza Reid, Laura Cervera og Elisabeth Lay.

Agndofa gestir.

Óvæntar stjörnur stigu á stokk í ár en Sísí Ey tók lagið auk þess sem Barakan Drum and Dance trommaði og tryllti dansara Hörpu í dag og sá svo sannarlega til þess að gestir fóru dansandi inn í helgina.

Hátíð í Hörpu.
Þvílíkur kraftur!

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fegurð, glæsileiki og sérstaða

|||||
|||||

Þeir eru hannaðir til að fanga athygli okkar út frá fegurð, glæsileika og sérstöðu. Þeir eru bílarnir sem við fáum aldrei að aka, einfaldlega vegna þess að suma þeira er ekki hægt að setja í gang.

Bílasýningin í Genf er einn stærsti viðburðurinn í bíladagatali Evrópu. Þar koma saman nær allir bílaframleiðendur heims og kynna bæði ný módel og nýja bíla, en einnig nýjar hugmyndir sem gefa vísbendingar um í hvaða átt bílaiðnaðurinn er að þróast.

Flesta þessa bíla eigum við eftir að sjá á götunum eftir nokkur ár og jafnvel keyra þá sjálf. En svo eru það hinir bílarnir. Þessir sem framleiðendur nota til að skapa sér sérstöðu og fanga athygli gesta og blaðamanna með útliti og nýjungagirni, sem og alveg fáránlega kraftmiklum vélum og  enn fáránlegri verðmiðum.
Þetta eru frumgerðir og hugmyndabílar, framleiddir í örfáum eintökum eða jafnvel stakir. Flestir þeirra komast aldrei á framleiðslustig. Sumir þeirra hafa ekki einu sinni vélar.

En þeir vekja engu að síður ávallt mestu athyglina og fá okkur til að dreyma. Hér eru smá úrval af þeim sem voru frumsýndir í Genf í liðinni viku.

Zenovo TSR-S.

Zenovo TSR-S. Danir eru þekktari fyrir falleg húsgögn og góðan bjór en ofurbíla. Danski framleiðandinn Zenovo er að breyta þessu og kynnti hann til sögunnar TSR-S götu-útgáfa af kappakstursbílnum TSR. Ef þú ert hógvær þá geturðu fengið hann í 700 hestafla útgáfu, en annars er hann 1.177 hestöfl úr kassanum. Það þýðir að samkvæmt tölum frá Vísindavef háskóla Íslands er einungis hægt að búa til 60 svona bíla með öllum hestum Íslands.

Ástæðan þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Hann kemst ekki yfir hraðahindranir og þar af leiðandi ekki upp í hesthús.

Renault EZ-GO.

Renault EZ-GO. Þessi sjálfkeyrandi rafmagnsbíll frá Renault er meðal framúrstefnulegustu bíla sýningarinnar í ár. Þeim er ætlað að vera leigubílar framtíðarinnar, eða alla veganna gefa hugmynd um hvernig þeir gætu litið út. Hljóðlátir, frábært útsýni og hagkæmni er meðal kosta bílsins.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Að öllum líkindum munum við nota svona bíla, eða eitthvað í átt við þá, í nálægri framtíð. Ef til vill sem hluta af fyrirhugaðri borgarlínu. En þú munt ekki keyra hann. Internetið mun keyra hann fyrir þig.

Sin R1 550 hybrid.

Sin R1 550 hybrid. Af hverju að hafa eina vél þegar þú getur haft tvær? Sin er glænýr og afar sérhæfður bílaframleiðandi, en fyrirtækið var stofnað árið 2012. R1  er í raun þeirra eini bíll, og hér er hægt að fá hann í nýrri tvinnvéla útgáfu. 120 hestafla rafvél sér um framdekkin og 450 hestafla vél um afturdekkin.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Þú hefur því ekki efni á honum.

E’mobile Microlino.

E’mobile Microlino. Þessi bíll er fullkominn fyrir höfuðborgarsvæðið. Þú finnur alltaf stæði, hann er einkar sparneytinn, gengur fyrir rafmagni, ofboðslega sætur og ekki dýr! Þetta er algjör sigurvegari. Nema það er bara pláss fyrir einn og hann lítur ekki út fyrir að vera góður í rokinu á Kjalarnesi eða í snjónum í efra-Breiðholtinu.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Það er snjór og rok allstaðar á Íslandi.

Aston Martin Lagonda.

Aston Martin Lagonda. Þessi útgáfa af Lagonda er ekki nýr bíll heldur ný útgáfa, en er án efa einn fallegast bíllinn sem til sýnis er á bílasýningunni í Genf. Hann lítur út fyrir að vera beint úr Blade Runner nema hvað tekist hefur að bjarga jörðinni svo hún er orðin græn aftur og vélmennin eru vinir okkar. Hér mætast framtíð og fortíð á fullkominn hátt bæði hvað varðar tækni og útlit.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Hann verður aldrei framleiddur. Hann er algjörlega út úr kú er kemur að hagkvæmni í framleiðslu og ber frekar að líta á hann sem listaverk en bíl.

UN Women á Íslandi hefur neyðarsöfnun fyrir Róhingjakonur

Lýstu upp myrkrið – þú getur hjálpað.

Í sjötta sinn er ætlunin að sameinast í yfir tvö hundruð löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu. UN Women á Íslandi í samstarfi við Sónar Reykjavík hvetja alla til að mæta í Hörpu 16. mars kl. 12-13 og dansa gegn kynbundnu ofbeldi.

Stella Samúelsdóttir er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og hefur yfirumsjón með verkefnum og daglegum rekstri UN Women á Íslandi ásamt því að vera talskona samtakanna.

Stella Samúelsdóttir er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og hefur yfirumsjón með verkefnum og daglegum rekstri UN Women á Íslandi ásamt því að vera talskona samtakanna. Stella hefur meira og minna verið búsett erlendis síðustu 15 árin. Fyrst á Ítalíu, svo í Malaví og loks í Bandaríkjunum. Hún hefur víðtæka starfsreynslu á sviði þróunarsamvinnu, reksturs og viðskipta.

Getur þú sagt okkur frá helstu viðburðum í tengslum við neyðarsöfnunina?
„Vð hjá UN Women á Íslandi, í samstarfi við Sónar Reykjavík, skemmtilegasta viðburð ársins – dansbyltinguna Milljarður rís, föstudaginn 16. mars kl. 12-13 í Hörpu. Í sjötta sinn ætlum við að sameinast í yfir tvö hundruð löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu með gleði að vopni. Í ár tileinkum við dansinn öllum þeim konum af erlendum uppruna hér á landi sem þurft hafa að þola kynferðislegt, líkamlegt og kerfisbundið ofbeldi. Raddir kvenna af erlendum uppruna verða að fá heyrast.”

Segðu okkur aðeins frá tilurð og framkvæmd söfnunarinnar?
„Við hjá UN Women á Íslandi efnum til neyðarsöfnunar fyrir Róhingjakonur í Bangladess sem hafa þurft að þola gróft ofbeldi og búa við grimman veruleika.UN Women starfrækir neyðarathvarf fyrir konur í flóttamannabúðum í Cox´s Bazar í Bangladess þar sem Róhingjakonur hljóta áfallahjálp, atvinnutækifæri og öryggi gegn ofbeldi. UN Women dreifir einnig sæmdarsettum til kvennanna sem inniheldur helstu hreinlætisvörur, teppi, vasaljós og vistvæn kol til matseldar og upphitunar.“

Stella segir að neyðin sé gríðarleg og mikilvægt að bregðast við hið fyrsta. ,,UN Women vantar sárlega fjármagn til að veita konum kvenmiðaða neyðaraðstoð með tilliti til þarfa kvenna og barna þeirra. Tryggja þarf áframhaldandi rekstur neyðarathvarfsins, ef ekkert verður að gert lokar neyðarat-hvarfið nú í apríl. Við hvetjum alla til að senda SMS-ið KONUR í 1900 (1900 kr.) og styrkja áframhaldandi starfsemi neyðarathvarfs fyrir konurnar í flóttamannabúðunum.“

,,Við hvetjum alla til að leggja Róhingjakonum lið. Með því að senda SMS-ið KON-UR í 1900 styrkir þú neyðarathvarf UN Women fyrir konur í flóttamanna-búðunum þar sem konur hljóta áfallahjálp, fá sæmdarsett, atvinnutækifæri og öryggi gegn ofbeldi.“

Er vitundarvakning á Íslandi þegar kemur að neyðarkalli sem þessu?
„Miðað við þann stuðningu sem við hjá UN Women á Íslandi höfum fundið undanfarin ár eru landsmenn svo sannarlega meðvitaðir um að styðja við og valdefla systur okkar um allan heim. Við erum einnig stolt af því að við hjá landsnefnd UN-Women á Íslandi sendum hæsta fjárframlag til verkefna allra landsnefnda sem eru alls fimmtán talsins. Sú staðreynd er sönnun þess hve almenningur hér á landi er meðvitaður um bága stöðu kvenna og stúlkna víða um heim og mikilvægi þess að valdefla konur og stúlkur sem búa við grimman veruleika.“

Neyðin er brýn og það er ákall um hjálp, hefur þú fundið á eigin skinni hversu brýn þörfin er og að eitthvað sé að gert?
„Þörf Róhingjakvenna í Bangladess fyrir aðstoð og stuðning er þeim lífsnauðsynleg líkt og við höfum séð í heimsfréttum að undanförnu. Um 400 þúsund konur dvelja um þessar mundir í flóttamannabúðunum og þora ekki að vera úti við af ótta við ofbeldi. UN Women hefur eins og er bolmagn til að fjármagna eitt neyðarathvarf sem mögulega lokar í apríl ef ekki tekst að fjármagna áframhaldandi starfsemi athvarfsins. Konur í búðunum búa við grimman veruleika, eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi og í bráðri hættu á að vera hnepptar í mansal eða kynlífsþrælkun en konur í neyð sem þessari eru berskjaldaðar fyrir slíku ofbeldi. Okkar hlutverk er að valdefla konur í aðstæðum sem þessum og útvega þeim réttu verkfærin til að vinna sig úr þessum erfiðu aðstæðum.“

24 þúsund Róhingjakonur í búðunum eru ýmist barnshafandi eða með barn á brjósti

Hver er staðan hjá Róhingjakonum í dag? Hversu alvarleg er staðan og getur þú lýst þeirri grimmd sem þær búa við?
„Róhingjakonur eru rúmlega helmingur þeirra sem dvelja í flóttamannabúðum í Cox´s Bazar, Bangladess. Þær eru hvergi sjáanlegar en konur í búðunum dvelja að meðaltali inni í 21-24 klst. á sólarhring vegna stöðugs ótta við ofbeldi. Í neyð sem þessari eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi. Stöðug hætta á ofbeldi, kynferðislegri misnotkun eða mansali vofir yfir konum og stúlkum í búðunum en nauðganir á konum og stúlkum hafa verið notaðar sem markvisst stríðsvopn í þessum blóðugu átökum. Nánast allar konur og stúlkur í búðunum hafa orðið vitni að eða verið beittar grófu kynferðislegu ofbeldi á borð við nauðgun, hópnauðgun. Í mörgum tilfellum voru konur og stúlkur látnar horfa á þegar hermenn myrtu börn þeirra eða foreldra áður en þeir hófu að nauðga þeim. Konur og stúlkur þurfa einnig að deila salernisaðstöðu/sturtuaðstöðu með körlum sem gerir einnig að verkum að konur fara nánast ekki út fyrir heimilið af ótta við ofbeldi.“

UN Women á Íslandi er í góðu samstarfi við samstarfsaðila um heim allan. „Við eigum í góðu samstarfi við svæðisskrifstofur UN Women um allan heim, höfuðstöðvar UN Women í New York og vinnum ýmis verkefni samhliða öðrum landsnefndum UN Women sem starfa í þágu UN Women líkt og við gerum hjá íslensku landsnefndinni.“

Nú hefur þú lagt málum sem þessum lið í áranna rás með ýmsum hætti, brennur þú fyrir því að láta gott af þér leiða til kvenna í neyð? Er þetta ástríða þín í starfi og leik?
„Já, það má segja að jafnréttismál séu eitthvað sem ég brenn fyrir og hef gert allt frá unga aldri og þau eru í raun rauði þráðurinn í öllum mínum störfum. Eftir að hafa starfað í fimm ár í Malaví, einu fátækasta ríki heims, sem og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hef ég styrkst enn frekar í þeirri ástríðu að starfa að jafnréttismálum. Þetta er svo mikilvægt fyrir okkur öll, hvar sem við erum í heiminum. Það er staðreynd að þeim löndum sem búa við mesta jafnréttið vegnar betur á öllum sviðum. Það er alveg nauðsynlegt að kvenmiða neyðaraðstoð, því þarfir kynjanna eru ólíkar. Hingað til hafa raddir kvenna ekki heyrst og þar af leiðandi ekki verið tekið tillit til þeirra þarfa. Þessu þarf að breyta og það gerir UN Women.“

Stella hvetur alla þá sem geta lagt lið með einhverjum hætti að taka þátt og minnir á að margt smátt gerir eitt stórt. ,,Hver króna skiptir máli og við þökkum öllum velunnurum UN Women á Íslandi kærlega fyrir stuðninginn. Hann er ómetanlegur. Við hlökkum til að sjá sem flesta á dansbyltingunni Milljarður rís og dansa þar saman gegn kynbundnu ofbeldi.“

Milljarður rís í Hörpu

Í sjötta sinn er ætlunin að sameinast í yfir tvö hundruð löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu. UN Women á Íslandi í samstarfi við Sónar Reykjavík hvetja alla til að mæta í Hörpu 16. mars kl. 12-13 og dansa gegn kynbundnu ofbeldi. Í fyrra komu saman um fjögur þúsund manns á öllum aldri um allt land í tilefni af Milljarður rís. Í ár verður dansað um allt land, í Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Hvammstanga og Borgarnesi. Samtakamátturinn verður allsráðandi.

Í ár tileinkar UN Women á Íslandi Milljarð rís konum af erlendum uppruna sem þurft hafa að þola margþætta mismunun og ofbeldi. Þær munu eiga sviðið í ár.

DJ Margeir heldur uppi stuðinu líkt og undanfarin ár og lofa UN Women óvæntum viðburðum og ógleymanlegri upplifun.

Allir eru hvattir til að mæta og láta jörðina hristast með samtakamættinum.

Milljarður rís er haldinn víða um land; í Hörpu Reykjavík, Hofi Akureyri, Hljómahöll Reykjanesbæ, Þrykkjunni vöruhúsi, Félagsheimilinu Herðubreið Seyðisfirði, Íþróttahúsinu Neskaupstað, Íþróttahúsinu Egilsstöðum og Félagsheimilinu Hvamms-tanga.

Vissir þú að?
– 96% kvenna í búðunum segjast ekki hafa fengið ráðið eigin
ráðahag.
– Um 45% Róhingjakvenna hafa verið giftar á barnsaldri.
– 24 þúsund Róhingjakonur í búðunum eru ýmist barnshafandi eða með barn á brjósti.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við UN Women á Íslandi.
Texti / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Úr einkasafni UN Women

 

Grátlega nálægt því að hafa ekki efni á að vera með krabbamein

|||
|||

Lára Guðrún Jóhönnudóttir og Kristleifur Daðason voru búin að vera saman í tvö ár þegar Lára greindist með brjóstakrabbamein, sama sjúkdóm og dró móður hennar til dauða þegar Lára var unglingur.

Lára fór í eggheimtu svo þau gætu fryst fósturvísa, ef ske kynni að krabbameinið gerði hana ófrjóa. Þeim blöskrar að þeim finnist þau vera í forréttindastöðu því þau hafa efni á að Lára sé með krabbamein. Lára heitir því að berjast fyrir því að sjúklingar þurfi ekki að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu.

„Við getum ekki sagt að það sé jöfnuður í samfélaginu á sama tíma og fólk þarf að selja bílinn sinn áður en það getur farið í frjósemismeðferð til að reyna að eignast barn. Það ættu ekki að vera forréttindi,“ segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir.

Verkefnisstjóri yfir brjóstinu sínu

Saga Láru er um margt merkileg. Lára var aðeins sautján ára, elst þriggja systkina, þegar hún missti móður sína úr brjóstakrabbameini eftir eins og hálfs árs baráttu við sjúkdóminn. Lára gekk systkinum sínum í móðurstað í skugga hræðilegs sjúkdóm og þurfti ung að bera mikla ábyrgð og áhyggjur á sínum herðum. Það var svo fyrir rúmu ári síðan að hún sjálf greindist með brjóstakrabbamein. Lára og kærasti hennar, Kristleifur Daðason, voru aðeins búin að vera saman í tvö ár þegar Lára greindist, en voru þó farin að huga að barneignum. Þegar áfallið dundi yfir ákváðu þau strax að Lára færi í eggheimtu þannig að þau gætu fryst fósturvísa, ef ske kynni að krabbameinið hefði áhrif á frjósemi Láru, sem miklar líkur voru á.

„Það er rosalega mikið áfall eitt og sér að greinast með krabbamein, alveg sama hvaða meðferð tekur við. Maður hefur ekki stjórn á neinu,“ segir Lára.

„Fyrir rétt rúmu ári vissi ég í fyrsta skipti nákvæmlega hvert ég stefndi í lífinu og hvað mig langaði til að læra. Allt var að smella. Þá kom krabbameinið eins og þruma úr heiðskíru lofti. En það má segja að ég hafi náð að þróa með mér mikla aðlögunarhæfni síðan ég var krakki. Ég bjó við erfiðar heimilisaðstæður og þurfti að taka mikla ábyrgð mjög ung. Ég leit á krabbameinið sem verkefni. Þetta var bara vinnan mín og ég tók það mjög skipulega fyrir. Ég segi stundum að ég sé verkefnisstjóri yfir brjóstinu mínu,“ segir Lára og hlær sínum smitandi hlátri.

„One tit wonder er líka eitthvað sem ég er að vinna með. Einbrystingur. Og hann er einhyrningurinn minn,“ segir Lára og gjóir augunum á sinn heittelskaða. Þeim Kristleifi er tíðrætt um hvað þau séu heppin, mitt í allri óheppninni. Að þau séu í raun heppnasta óheppnasta fólkið í heimi. Þau nota húmorinn til að takast á við erfiðu tímana en þrátt fyrir allt segir Kristleifur að síðasta ár einkennist af mikilli fegurð, þó móðukennt sé.

„Þegar hún greindist með krabbamein fannst mér þetta fyrst og fremst ótrúlega ósanngjarnt fyrir hana. Þetta var eiginlega fáránlegt tímabil. Ég var búinn að vera í vinnubasli í sprotafyrirtækjum, sem er mjög gaman og gefandi en fjárhagslega erfitt. Svo gerðist allt á fjórum vikum: ég var plataður í vinnuviðtal hjá flottu fyrirtæki, fékk óvænt vinnu með fín laun og Lára greindist. Þetta var alveg fáránlegt og eins og allt í einu væri kominn grundvöllur fyrir þetta allt saman. Mamma mín og pabbi hafa hjálpað okkur fáránlega mikið og við erum svo ótrúlega heppin með allt, fyrir utan hvað þetta er ósanngjarnt og vont,“ segir Kristleifur og Lára tekur undir þetta.

Lára og Kristleifur standa þétt saman.

„Á þessum tíma fundum við hvað samband okkar var rétt. Það eina sem vantaði á þessu tímabili voru flutningar og náttúruhamfarir til að tikka í öll box yfir mest streituvaldandi atburði sem manneskja getur farið í gegnum á einum mánuði. Þetta voru eiginlega persónulegar náttúruhamfarir. En allt í einu meikaði allt sens.“

Fann ekki afsökun til að sleppa stefnumótinu

Í framhaldinu rifjar parið upp hvernig þau kynntust. Eins og svo mörg nútímapör kynntust þau á Netinu, en þó ekki í gegnum „hefðbundnar“ leiðir eins og stefnumótaforrit.

„Sameiginleg vinkona okkar var að auglýsa eftir skrifborðsstólum og ég, verandi hávaxin og vinkona mín fíngerð og nett, að bjóða fram líkama minn sem stól, eða eitthvað í þá áttina,“ segir Lára og hlær. Athugasemdin við þessa saklausu færslu vakti áhuga Kristleifs, sem í kjölfarið bauð henni í kaffi.

„Honum fannst ég eitthvað fyndin á Netinu og spurði hvort við ættum að hittast í kaffi 3. mars. Ég sagðist ekki vera laus fyrr en 14. mars, sem var líka alveg satt því ég var í sleitulausri vinnutörn, þannig að ég hafði ellefu daga til að finna afsökun til að fara ekki. En ég fann enga afsökun. Þetta var bara rétt,“ segir Lára.

„Þetta var alveg fáránlegt. Við bara smullum saman strax. Þetta hefur verið ágætis rússíbani síðan þá,“ segir Kristleifur.

Ekki pláss fyrir meðvirkni

Það sést langar leiðir að þau Kristleifur og Lára standa þétt saman, eru hugfangin af hvort öðru og líður vel saman. Lára segir að lykillinn að þeirra sterka sambandi séu heiðarleg samskipti.

„Það er ekki pláss fyrir meðvirkni þegar maður er að berjast við krabbamein. Ef hún er til staðar er hún fljót að þvælast fyrir og þá þarf að henda henni út. Við höfum þurft að kynnast á hraðferð en við vissum bæði hvað við vildum þegar við byrjuðum að vera saman. Það hefur aldrei verið neinn efi í okkar sambandi og við eigum mjög auðvelt með að vera í heiðarlegum samskiptum. Ég er líka svo örugg með honum. Ég get farið í gegnum allar tilfinningasveiflur. Ég get öskrað, grenjað, hlegið, stappað niður fótum og hagað mér eins og krakki en hann tekur mér alltaf eins og ég er.“

Sonurinn stoltur af mömmu

Lára og Kristleifur búa saman með syni Láru úr fyrra sambandi, Þorvaldi Herði, sem er alveg að verða tíu ára. Lára var að fara að hætta á getnaðarvarnarpillunni þegar hún greindist með krabbamein, enda barneignir á framtíðarplaninu hjá parinu.

„Við vorum búin að setja upp plan fyrir árið. Næsta skref var að hætta á pillunni. Það hefði verið harmleikur ef ég hefði verið ólétt þegar ég greindist þannig að við sluppum með skrekkinn þar, ef svo má segja. Eins og ég segi, ég er heppnasta óheppnasta kona í heimi,“ segir Lára og brosir. Hún segir Þorvald hafa staðið sig ofboðslega vel í gegnum veikindi móður sinnar, en þau Lára og Kristleifur ákváðu strax að segja honum alltaf satt og ekki leyna hann neinu.

„Hann er ótrúlega stoltur af mömmu sinni. Um leið og við fengum stóra K-ið staðfest þá sögðum við honum frá því. Hann er búinn að vera mjög opinn og á auðvelt með að tala um þetta. Hann hefur þurft að læra ótrúlega mikið á mjög stuttum tíma. Hann er gömul sál og rosalega næmur, sem getur verið galli því hann skynjar allt. En af því að hann er svona næmur þá erum við enn meira á tánum að segja honum frá öllu til að búa ekki til óþarfa kvíða hjá honum. Af fenginni reynslu finnst mér mjög mikilvægt að hafa börnin með í þessu ferli því þau vita miklu meira en fullorðnir gera sér grein fyrir. Þegar móðir mín var veik var ýmsu haldið leyndu fyrir systkinum mínum sem gerði áfallið þegar hún dó enn meira fyrir þau,“ segir Lára og bætir við að það hafi verið skrýtin upplifun að segja syni sínum frá meininu.

„Ég þurfti að segja yngri systkinum mínum að mamma væri látin úr brjóstakrabbameini, þannig að það var skrýtið að segja barninu mínu að ég væri með sama sjúkdóm. Það var mjög súrrealísk upplifun.“

Lára segir einnig að móðurmissirinn hafi að vissu leyti undirbúið hana fyrir þessa baráttu og að það að greinast með krabbamein hafi ýtt henni í að vinna meira í sér sjálfri.

„Ég held að innst inni hafi ég undirbúið mig fyrir þetta alla ævi. Ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi og vildi ekki, var fljót að taka ákvarðanir og varð strax verkefnastýra yfir þessum sjúkdómi. Mér fannst það að mamma hafði dáið úr sama sjúkdómi bara styrkja mig ef eitthvað er. Ég tók þessu líka sem opnum glugga til að taka mig í gegn. Taka til í sálartetrinu og fara í gegnum gömul áföll. Vera dugleg að fara til sálfræðings og endurforrita mig. Ég var svo ung og tók mikla ábyrgð snemma að ég fékk aldrei að vera ég, fékk aldrei að vera unglingur. Og út af þessari sjálfsvinnu þá er ég í raun að syrgja foreldrið sem ég missti fyrst núna.“

Krabbamein frípassi til að tala um frjósemi

Lára slapp við lyfjameðferð eftir brjóstnám.

Þegar Lára greindist var meðferðarplanið brjóstnám, eggheimta, lyfjameðferð og andhormónameðferð. Eftir brjóstnámið, þar sem annað brjóstið var tekið af henni, kom í ljós að hún þyrfti ekki að fara í lyfjameðferð, sem þýðir að minni líkur eru á að hún verði varanlega ófrjó vegna krabbameinsins. Vegna óvissu í kringum sjúkdóm Láru fór hún í þrjár eggheimtur til að frysta fósturvísa svo plön þeirra Kristleifs um fjölskyldu í framtíðinni gætu mögulega ræst.

„Þegar maður er að spila með framtíðina, fjölskylduna og lífsgæðin þá tekur maður enga sénsa. Það er ekkert sjálfgefið að það náist fósturvísar úr hverri eggheimtu og margir fara oft án þess að fá neitt,“ segir Lára, en vegna fyrrnefndar óvissu voru þessar eggheimtur framkvæmdar á styttri tíma en vanalega.

„Þegar hún fór í eggheimtu var ekki komið í ljós hvað við værum heppin með meinið. Því var farið hraðar í þessa meðferð og hún var mjög stutt og snörp,“ segir Kristleifur. Þau Lára eru sammála um að þessi fyrirbyggjandi frjósemismeðferð hafi verið mun erfiðari en þau bjuggust við.

„Af öllu sem gekk á kom mér mest á óvart að þetta var það sem tók mest á. Ég þurfti að sprauta mig daglega og eggjastokkarnir urðu á stærð við vínberjaklasa. En Kristleifur var með mér allan tímann, í hvert einasta skipti sem ég sprautaði mig. Það var frekar notalegt. Við gerðum þetta allt saman. En þetta er rosalega mikið álag og mikið hormónarúss. Mér finnst magnað hve margir sem fara í gegnum þetta bera harm sinn í hljóði því þetta er svo mikið feimnismál. Fyrir mig var krabbameinið eins og frípassi til að mega tala um þetta. Það var gott að geta talað um þetta og vera opin með þetta,“ segir Lára. Brjóstnámið reyndist henni að mörgu leyti auðveldara, ef svo má að orði komast.

„Ég var ótrúlega fljót að aðlagast því að vera bara með eitt brjóst. Það er persónuleg ákvörðun hverrar og einnar konu hvort hún vilji fara í uppbyggingu eftir að brjóstið er tekið, en ég var mjög ákveðin að fara ekki í uppbyggingu. Ég ákvað að klára aðgerðina og sjá svo til seinna. Ég hef aldrei verið með stór brjóst þannig að þetta er ekki mikil breyting, útlitslega séð. Þetta háir mér ekki og það er ótrúlega magnað hvað ég var fljót að venjast þessu. Mér finnst þetta bara meira kúl en eitthvað annað. Það hefur líka hjálpað að ég er með heilbrigða líkamsímynd og líður ágætlega í eigin skinni.“

Svefntruflanir og hitakóf

Ef allt gengur að óskum geta Lára og Kristleifur byrjað að reyna að eignast börn eftir tvö ár í fyrirbyggjandi krabbameinsmeðferð, sem Lára er búin að vera í samtals í fimm mánuði. Sú meðferð tekur einnig á.

„Þetta eru svokölluð klínísk tíðahvörf þannig að ég fer kannski tvisvar á breytingaskeiðið. Heppin!“ segir Lára og hlær. „Þessi meðferð fer misvel í fólk og ég finn alveg fyrir þessu. Ég er orðin stirð, fæ hitakóf, nætursvita, svefntruflanir og er haldin einbeitingarskorti. Það sem hefur bjargað miklu í þessu ferli er að ég fer í heitt jóga og svo í Mjölni tvisvar í viku í einkaþjálfun. Það er búið að bjarga geðheilsunni og líkamanum og hvernig ég tekst á við framtíðina. Mér líður eins og ég sé að blása köngulóarvefnum burt úr heilanum.“

Hélt að allt yrði niðurgreitt

Lára og Kristleifur eru sammála um að starfsfólk Landspítalans hafi haldið vel utan um þau og hugsað vel um litlu fjölskylduna á þessum erfiða tíma. Þeim blöskrar hins vegar þau miklu fjárútlát sem sjúklingar þurfa að fara út í aðeins við það að veikjast.

„Af mannúðarástæðum ættum við að niðurgreiða krabbameinsmeðferð fyrir fólk að fullu og allt sem henni fylgir. Ef maður hreinsar allar tilfinningar og náungakærleika út úr dæminu, sem við ættum auðvitað ekki að þurfa að gera, þá er þetta bara spurning um skilvirkni. Það er ekki skilvirkt að láta krabbameinsveikt fólk steypa sér í skuldir. Svo er þetta líka spurning um samkeppnisforskot Íslands. Þegar ungt fólk fréttir að það sé í slæmum málum ef eitthvað kemur fyrir það, þá bara flytur það til útlanda,“ segir Kristleifur.

„Ég þekki það að eiga ekki neitt og eiga engan að því ég á ekki foreldra sjálf og er með mjög takmarkað bakland. Ég verð svo reið þegar ég finn að ég er í forréttindastöðu því ég var svo grátlega nálægt því að hafa ekki efni á að vera með krabbamein, sem hefði verið raunin ef þetta hefði fundist fyrir fjórum árum. Ég finn réttláta reiði rísa innra með mér og þetta er slagur sem ég get ekki beðist undan. Þetta má ekki halda svona áfram og ef ég hef orku til að taka þennan slag þá ætla ég að gera það. Við búum í samfélagi sem stærir sig af því að vera með svo mikinn samfélagslegan jöfnuð, en samt upplifi ég það sem forréttindi að fá bestu heilbrigðisþjónustuna og geta stofnað fjölskyldu í framtíðinni. Þá er eitthvað mikið að. Fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort það hafi efni á næstu máltíð eða næstu blóðprufu. Ég sá það mjög fljótt eftir að ég greindist að ef ég hefði verið einstæð hefði lífið farið mjög hratt niður á við,“ segir Lára og bætir við að þegar kom að því að fara í frjósemismeðferðina hefði hún tekið því sem sjálfsögðum hlut að sú meðferð væri að öllu leyti greidd af íslenska ríkinu.

„Ég var svo barnaleg að ég hélt að þetta yrði allt niðurgreitt. Mér fannst fullkomlega absúrd að fólk væri látið greiða fyrir fyrirbyggjandi frjósemismeðferð, því auðvitað er hún hluti af því að greinast með krabbamein. Síðan fórum við í viðtal og leituðum okkur upplýsinga og þá kom í ljós að við þyrftum að leggja út 455 þúsund krónur fyrir fyrstu meðferð, plús geymslugjald sem er 23 þúsund á ári og síðan greiddum við um það bil 50 þúsund krónur í lyf. Þetta var allt saman útlagður kostnaður. Síðan fengum við 65% endurgreiðslu, fyrir meðferðinni sjálfri en ekki lyfjunum, frá Sjúkratryggingum Íslands út af því að ég var í krabbameinsmeðferð og ég fékk hluta endurgreiddan frá stéttarfélaginu mínu. En maður þarf samt að eiga hálfa milljón til að fá eitthvað til baka. Ef við tölum um fólk sem er ekki að berjast við krabbamein þá finnst mér fáránlegt að niðurgreiða aðra til fjórðu meðferð en ekki þá fyrstu, fyrir utan það að líta okkur ekki nær og niðurgreiða meðferðina að fullu eins og tíðkast í nágrannalöndunum.“

Láru og Kristleifi blöskrar að sjúklingar þurfi að steypa sér í skuldir vegna veikindanna.

Ungt fólk með krabbamein lifir af

Þó að Lára taki öllu því sem lífið hendir í hana með brosi á vör og brandara á reiðum höndum, er heimur langveikra einstaklinga og fólks sem greinist með alvarlega sjúkdóma henni hjartans mál. Henni finnst stjórnvöld ekki vera í nokkrum tengslum við samfélagið og ætlar að berjast eins lengi og hún getur fyrir því að rétta það ranglæti sem ríkir í heilbrigðiskerfinu að hennar mati.

„Fólk sem greinist ungt með krabbamein lifir það í alvörunni af. Við getum verið fullnýtir samfélagsþegnar ef við fáum tækifæri til þess. Þó að það verði mitt síðasta þá skal ég ná því í gegn að sjúklingar þurfi ekki að greiða og hafa áhyggjur. Þetta er ekki í boði og skiptir okkur öll ótrúlega miklu máli.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Eiga von á frumburðinum í skugga ólæknandi krabbameins

||||
||||

Bjarki Már Sigvaldason hefur barist við krabbamein í rúm fimm ár. Strax í fyrstu lyfjameðferð fékk hann og eiginkona hans, Ástrós Rut Sigurðardóttir, að vita að Bjarki gæti orðið ófrjór eftir meðferðina. Þau ákváðu því að láta frysta sæðisfrumur og eiga von á sínu fyrsta barni saman í ágúst.

„Þetta var klárlega ást við fyrstu sýn og er hann bæði æskuástin mín og eina ástin sem ég hef upplifað í lífinu,“ segir Ástrós Rut Sigurðardóttir. Ástrós kynntist eiginmanni sínum, Bjarka Má Sigvaldasyni, á sínu fyrsta ári í menntaskóla þegar hún var sextán ára og hann sautján. Þegar Ástrós var nítján ára skildu leiðir í þrjú ár en þremur árum síðar blésu þau lífi í neistann sem áður var og þá var ekki aftur snúið.

„Við höfðum gott af því að þroskast aðeins í hvort í sínu lagi en það var alveg klárt mál að við vorum sálufélagar og framtíðin beið okkar saman. Við byrjuðum strax að búa saman og gaf ég Bjarka yndislega viðbót í fjölskylduna í jólagjöf, hana Ronju okkar sem er Labrador. Aldrei hafði ég vitað hversu mikilvægt það er fyrir sálina að eiga hund sem elskar mann skilyrðislaust, er alltaf tilbúinn að fyrirgefa og sleikja sárin. Ronja kom inn í líf okkar á hárréttum tíma, ári áður en Bjarki greindist með 4. stigs illkynja krabbamein. Hún var hinn fullkomni félagsskapur fyrir okkur Bjarka þegar dagarnir voru frekar svartir og náði alltaf að koma okkur út í göngutúr og fá súrefni í lungun,“ segir Ástrós.

Eins og kafteinn í ólgusjó krabbameinsins

Bjarki greindist með krabbamein í ristli í lok árs 2012 en meinið hafði dreift sér í lungu. Greiningin var mikið áfall fyrir parið.

Bjarki og Ástrós standa saman í gegnum þykkt og þunnt.

„Fyrirvarinn var enginn og einkenni lítil sem engin. Æxlið hafði að öllum líkindum byrjað að vaxa tíu árum áður og hafði því góðan tíma til að dreifa úr sér. Ristilkrabbamein eru oft mjög einkennalítil og því er mikilvægt að fara í ristilspeglun og einnig að þekkja sinn líkama. Ef það eru einhver einkenni, láttu tékka á því. Það er betra að að fá að vita að allt sé í standi heldur en að sitja á einkennum og vera svo of seinn.“

Bjarki er búinn að berjast við krabbamein í rúm fimm ár og hefur staðið sig eins og hetja, að sögn Ástrósar. Hún segir eiginmann sinn, sem hún gekk að eiga í fyrrasumar, búinn ótrúlegum lífsvilja en baráttu hans við krabbamein er ekki lokið.

„Krabbameinið er því miður búið að dreifa sér í lungu og heila og við tökum því með rósemi og æðruleysi. Hann hefur farið í margar aðgerðir, svo margar að ég hef ekki tölu á þeim, en alltaf stendur hann upp og tilbúinn í daginn. Hann siglir í gegnum þennan ólgusjó eins og þvílíkur kafteinn og lætur ekkert stöðva sig. Hann er með svakalegan baráttuvilja, þolinmæði og einstaklega gott skap. Þetta eru þrír kostir sem eru virkilega góðir í eiginmanni og föður, enda ekki skrýtið að ég sé búin að negla hring á fingurinn hans. Bjarki er besta mannsefni sem ég þekki og veit ég að margir sem þekkja hann eru mér hjartanlega sammála.“

„Flestir vilja fjölga sér og eignast arfleifð“

Ástrós og Bjarki voru búin að velta barneignum fyrir sér þegar hann greindist óvænt með krabbamein. Þau fengu strax að vita að krabbameinslyfin gætu gert hann ófrjóan og því ákváðu þau að láta frysta sæðisfrumur til að eiga þann kost að eignast einhvern tíma börn saman.

„Barneignir hafa alltaf verið ofarlega í okkar huga. Ef Bjarki hefði verið heilsuhraustur værum við örugglega komin með nokkur stykki. Við erum bæði miklar barnagælur og mig hefur alltaf dreymt um stóra fjölskyldu. Ég þurfti því að breyta draumnum mínum frekar snemma því við fengum strax að vita í fyrstu lyfjameðferð Bjarka að hann gæti orðið ófrjór. Við létum því frysta sæðisfrumur til að eiga fyrir framtíðina. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að sætta mig við það að ég myndi kannski ekki ná heilu fótboltaliði af börnum er sú að smásjárfrjóvgun er dýr og erfið meðferð. Einnig er það mjög mikið álag að eiga börn og annar makinn er alvarlega veikur. Ég má ekki tapa geðheilsunni og þarf að passa upp á sjálfa mig í öllu þessu ferli. Þegar makinn veikist alvarlega þá hugsa ég að það sé algengt að framtíðin sé rædd og spurningar um barneignir komi fram. Flestir vilja fjölga sér og eignast arfleifð og það er akkúrat það sem við Bjarki ræddum í byrjun. Við tókum þó ákvörðun um að komast í gegnum veikindin fyrst og hugsa svo um að eignast börn, álagið var nógu mikið fyrir og við vorum ekkert að flýta okkur, enda ekki nema 24 og 25 ára,“ segir Ástrós.

Hvarflaði að henni að hún væri slæm móðir

Þegar hún og Bjarki fengu þær fréttir þremur árum síðar að krabbameinið væri ólæknandi þurftu þau að hugsa hlutina upp á nýtt.

Ástrós segir það hafa verið ást við fyrstu sýn þegar þau Bjarki hittust fyrst.

„Þarna voru spilin komin dálítið í mínar hendur, enda yrði það ég sem myndi ganga í gegnum meðferð, verða ólétt og töluvert meiri ábyrgð yrði mín megin þar sem Bjarki er reglulega í lyfjameðferðum og aðgerðum og er ekki eins hraustur og ég. Þetta var líka stór ákvörðun fyrir mig, mun stærri en í upphafi, því á þessum tímapunkti var ég að átta mig á því að við Bjarki yrðum líklega ekki gömul saman. Þetta voru svo stórar og fullorðinslegar hugsanir sem áttu hugann minn, að koma með barn inn í þetta líf þar sem pabbinn er lífshættulega veikur og mikið álag á báðum foreldrum. Að pabbinn myndi kannski ekki ná að sjá barnið sitt alast upp og eignast sín börn og gifta sig. Þetta var mér virkilega erfitt. Mér fannst líka erfitt að hugsa til þess hvað ég væri að gera barninu ef Bjarki fellur frá á næstu árum. Að sjá það alast upp föðurlaust fannst mér óhugsandi og það hvarflaði alveg að mér að ég væri slæm móðir fyrir að koma því í heiminn og í þessar aðstæður,“ segir hún og heldur áfram.

„Svo fór ég að hugsa rökrétt. Ég er að gefa barninu frábært líf. Það fær alla þá ást sem það þarf, við Bjarki eigum frábæra fjölskyldu og gott stuðningsnet og við getum gefið því allt sem það þarfnast. Við erum með fast heimili, fastar tekjur og svo óendanlega mikla ást sem við viljum gefa litla barninu okkar. Ég veit að við verðum frábærir foreldrar og það er ekkert sem ætti að stoppa okkur í þeirri ákvörðun. Ég hóf því hormónameðferð í lok árs 2016 í von um að láta drauminn okkar rætast.“

Besta tilfinning í heimi

Þau Ástrós og Bjarki fengu svo sannarlega draum sinn uppfylltan, en Ástrós er nú komin sextán vikur á leið með þeirra fyrsta barn. Hún á von á sér í lok ágúst, en hjónakornin ætla að fá að vita kyn barnsins í lok mars.

Fallegur hjónakoss.

„Það tók okkur rúmlega ár frá fyrsta viðtali hjá Livio að ná okkar markmiði, að ég yrði ólétt. Fréttirnar komu þó á hárréttum tíma, rétt fyrir jól og Bjarki á leið í heilaskurðaðgerð. Jólin í fyrra voru því alveg einstaklega dásamleg, aðgerðin hjá Bjarka gekk vel og draumurinn okkar loksins að verða að veruleika. Þetta er klárlega besta tilfinning í heimi, að finna fyrir litlu kraftaverki vaxa og dafna innan í sér. Ég get ekki beðið eftir að fá barnið í hendurnar og ég hlakka svo innilega til að fá að upplifa Bjarka að verða pabba,“ segir Ástrós.

Ferlið búið að kosta níu hundruð þúsund krónur

Ástrós vakti talsverða athygli í mars í fyrra þegar hún birti einlægt myndband á Facebook-síðu sinni þar sem hún fór yfir þau gríðarlegu fjárútlát sem þau hjónin höfðu farið í vegna veikinda Bjarka. Í viðtali við mbl.is þá sagði hún það vera fátækragildru að veikjast alvarlega og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að láta sjúklinga taka upp veskið við hverja læknisheimsókn eða ferð í apótekið. Hún segir frjósemismeðferðina hafa kostað sitt og að íslensk stjórnvöld ættu að grípa inn í.

„Allt ferlið að reyna að verða barnshafandi hefur kostað okkur um níu hundruð þúsund krónur. Mér finnst klárlega að þeir sem geta ekki eignast börn á náttúrulegan hátt vegna hvers kyns sjúkdóma eigi að fá niðurgreitt strax við fyrstu tilraun. Það á ekki að þurfa félagasamtök eins og Tilveru eða Kraft til að styrkja fólk í að eignast börn, ríkið á að grípa inn í hér. Ég veit þó til þess að hægt er að skila nótunum með í skattframtalinu en það er þó aðeins hluti sem maður gæti mögulega fengið til baka, ef maður fær það í gegn,“ segir Ástrós.

Langar að barnið eignist systkini

Þrátt fyrir miklar fjárhagslegar, líkamlegar og andlegar áhyggjur sem lagðar hafa verið á þetta par í blóma lífsins, standa þau sterk saman.

Ástrós og Bjarki ætla ekki að gefast upp fyrir meininu.

„Þegar annar aðilinn í sambandi veikist alvarlega þá hefur það að sjálfsögðu áhrif á samlífið. Ef makinn er veikur tímabundið ímynda ég mér að eðlilegir hlutir eins og kynlíf, keila og að fara í bíó detti aðeins út úr myndinni en svo er það verkefni þeirra hjóna að koma samlífinu aftur í fyrra horf eftir að makinn hefur náð sér. Ef maður er pínulítið týndur er gott að leita sér faglegrar hjálpar og fá réttu skrefin til að koma hlutunum aftur í gang. Við Bjarki þekkjum þetta vel, enda er hann langveikur og verður það að öllum líkindum áfram. Við þurftum því aðeins að breyta okkar forgangsröðun og sætta okkur við það að sambandið okkar er aðeins öðruvísi en það var áður. Við nýtum þó tímann vel og þegar hann er hress gerum við alltaf eitthvað skemmtilegt saman og njótum samverunnar þar á milli. Samband er vinna, stanslaus vinna en ofboðslega skemmtileg og gefandi. Stundum þarf maður aðeins að rasskella tómatsósuflöskuna til að ná sósunni úr,“ segir Ástrós og hlær, og bætir við að þau Bjarki hyggja á frekari barneignir í framtíðinni.

„Mig langar að barnið fái systkini og því mun ég fara aftur í smásjárfrjóvgun þegar við höfum náð að safna fyrir því. Ég tel það mikilvægt að börnin séu allavega tvö því það er einfaldlega betra fyrir þau að vera saman í lífinu ef Bjarki mun ekki ná að sjá þau alast upp og verða að yndislegum, fullorðnum einstaklingum. Þau hafa mig og svo hvort annað til að stóla á og tala við. Þó að ég reyni ekki að hugsa um þessa hluti þá verð ég að vera raunsæ. Við Bjarki munum þó aldrei gefast upp í leit okkar að lækningu.“

Myndir / Úr einkasafni

Vantar fleiri eggjagjafa og ættleiðing ekki alltaf kostur

|||
|||

Mannlíf kynnti sér þá möguleika sem í boði eru fyrir þá sem greinast með krabbamein en vilja samt eignast börn eftir að meðferð lýkur, í tengslum við viðtöl við parið Láru og Kristleif annars vegar og hjónin Ástrósu og Bjarka hins vegar.

Meiri áhersla lögð á að fyrirbyggja ófrjósemi en fyrir 20 árum

Ásgerður Sverrisdóttir, krabbameinslæknir á Landspítalanum, segir að það sé afar mismunandi hvaða áhrif krabbameinsmeðferð hefur á frjósemi þeirra sem greinast og að þar spili margir þættir inn í.

„Það er mjög mismunandi eftir því hvaða lyf eru notuð og í hvaða skömmtum og einnig tímalengd meðferðarinnar. Þetta eru allt óháðir áhættuþættir. Eftir því sem að þú færð lengri meðferð, því meiri er áhættan. Svo eru sum krabbameinslyf sem eru meira eiturvirk fyrir kynkirtlana, það er eistu og eggjastokka. Samsetning krabbameinslyfjanna hefur líka áhrif og þeir sem fara til dæmis í það sem er kallað háskammtameðferð eru í mikilli áhættu á langtímaófrjósemi. Aldur spilar einnig inn í og til dæmis ef konur sem komnar eru yfir fertugt fara í gegnum lyfjameðferð eru meiri líkur en minni á að þær fari inn í tíðahvörf í framhaldinu,“ segir hún og bætir við:

„Ef við nefnum einhverjar tölur þá er áhættan á ófrjósemi eftir algengustu krabbameinslyfjameðferðirnar á bilinu 30 til 70%.“

Oft ekki tími í erfiðustu tilvikunum

Hún segir að þessi áhætta á ófrjósemi sé mjög vel kortlögð af læknum og því gerðar viðeigandi fyrirbyggjandi ráðstafanir þegar kostur er. Upplýsingar um frjósemismál til sjúklinga og maka eru mikilvægar og þurfa að koma snemma í ferlinu.

„Í dag er farið að leggja miklu meiri áherslu á að fyrirbyggja ófrjósemi eða gera frjósemisverndandi meðferðir, eða hvoru tveggja, til að þetta komi ekki óvænt upp á hjá þeim sem greinast með krabbamein. Við reynum að leggja áherslu á að ungt fólk með óskir um barneignir, sem greinast með krabbamein, fari í frjósemimeðferð eða að minnsta kosti í ráðgjöf eins snemma í ferlinu og hægt er. Það er mismikill hraði frá því fólk greinist og þar til meðferð hefst og í erfiðustu tilvikunum eins og bráðahvítblæði eða hraðvaxandi eitilfrumukrabbameini, þarf að byrja meðhöndlun innan fárra sólarhringa. Þá er oft ekki tími til að undirbúa neitt á þennan máta. En í langflestum tilvikum höfum við yfirleitt tíma til að undirbúa fólk á þennan hátt. Það er inni í okkar verklagi að koma þessum málum í farveg við fyrsta tækifæri,“ segir Ásgerður. Hún segir að það sé ekki í sjónmáli að krabbameinslyf hafi minni skaðleg áhrif á ófrjósemi.

Meiri áhersla er lögð á að fyrirbyggja ófrjósemi nú, en fyrir tuttugu árum.

„Meðferðarárángur er mjög tengdur þessum frumudrepandi lyfjum og þau eru enn þann dag í dag uppistaðan í krabbameinsmeðferðum. Þó að mildari meðferðir bætist við sem drepa ekki fríska vefi, þá eru þessi lyf enn uppistaðan. Það er ekki fyrirsjáanlegt að það verði einhver bylting í þeim efnum, en hins vegar hafa rannsóknir sýnt fram á að það að gefa hormónameðferð sem slekkur tímabundið á eggjastokkum hjá konum með brjóstakrabbamein á meðan verið er að gefa frumudrepandi lyf, auki líkur á að eggjastokkarnir taki við sér aftur þegar að meðferðinni lýkur,“ segir Ásgerður. Hún segir að meiri áhersla sé lögð á að fyrirbyggja aukaverkanir krabbameinsmeðferða nú en til dæmis fyrir tuttugu árum síðan.

„Fyrr á árum var fókusinn í raun á allt öðrum stað. Fókusinn var á að lækna krabbameinið og uppræta það með öllum kröftugustu úrræðunum sem til voru. Þá var ekki litið á langtímaaukaverkanir sem meginvandamálið. En í dag, með stöðugt bættum árangri meðferða, viljum við líka að fólk eigi gott líf þegar það er búið í meðferðinni og sé ekki að kljást við langtíma- og viðvarandi afleiðingar meðferðarinnar. Fókusinn hefur færst meira á það að minnka skaðann sem þessi læknandi meðferð hefur. Tilhneigingin síðustu áratugina hefur verið að seinka barneignum og því eru fleiri barnlausir sem greinast með krabbamein nú miðað við áður. Það þykir í dag ekkert tiltökumál að eignast börn vel yfir fertugt og við sem vinnum í heilbrigðiskerfinu verðum að taka tillit til þessara óska. Það er ekki lengur talið óráðlegt að forðast frekari barneignir eftir greiningu brjóstakrabbameins, svo eittthvað sé nefnt, og það kemur meira að segja til greina fyrir konur á hormónameðferð að gera hlé á meðferðinni til að eignast fleiri börn.“

Vantar alltaf fleiri eggjagjafa

Ingunn Jónsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, starfar hjá Livio Reykjavík þar sem meðferðir við ófrjósemi eru framkvæmdar. Hún segir nokkra möguleika í boði fyrir þá sem vilja eignast börn en hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.

„Það er mikilvægt að huga að þessum þáttum áður en meðferðin hefst ef mögulegt er. Það er þá hægt að frysta sæði, egg og/eða fósturvísa. Ef meðferð er lokið og ljóst er að skaði hefur orðið á eggjastokkum eða sæðisframleiðslu eru möguleikarnir takmarkaðri. Þá getur eini kosturinn í stöðunni hvað varðar meðferðir verið að nota gjafakynfrumur. Annar kostur er að ættleiða,“ segir Ingunn.

Ingunn Jónsdóttir.

Eggjafrysting kostur um síðustu áramót

Frysting eggja varð fyrst kostur á Íslandi frá síðustu áramótum. Ingunn segir að langflestar konur yngri en 38 ára ættu að eiga möguleika á frystingu eggja, en að með aldrinum fækki eggjum og gæði þeirra minnki. Hins vegar sé ekki komin endanlega niðurstaða um hvort eggjafrysting verði að einhverju leyti niðurgreidd af íslenska ríkinu, enda ný af nálinni.

Ingunn segir að sum krabbameinslyf geti haft þau áhrif á konur að eggbúskapurinn skaðist og eggjastokkarnir fari í það ástand sem verður annars við tíðahvörf, það er að egglos á sér ekki lengur stað og því ekki frjóvgun eggja.

„Þótt konan sé í raun komin í tíðahvörf eða hefur ekki eðlilega starfandi eggjastokka er vel hægt að gera gjafaeggjameðferðir. Það eru í raun þessar konur sem þurfa á gjafaeggjum að halda. Við gerum hins vegar ekki meðferðir eftir að konur eru orðnar 49 ára gamlar,“ segir Ingunn en bætir við að vöntun sé á gjafaeggjum.

Stöndum Norðurlandaþjóðunum langt að baki

„Árangur úr frjósemismeðferðum er alltaf að aukast. Það verður vonandi aukið aðgengi að gjafaeggjum og með tilkomu eggfrystinga væri hægt að byggja upp eggjabanka. Vandamálið nú er fyrst og fremst að það vantar alltaf fleiri eggjagjafa. Mikilvægast í augnablikinu er að vekja athygli á þessum málum og vonandi sjá fleiri konur sér fært að gefa egg. Flestar konur undir 35 ára geta gefið egg og ferlið er auðveldara en flestar gera sér grein fyrir.  Ég hvet allar konur sem geta hugsað sér þetta að hafa samband og fá frekari upplýsingar,“ segir Ingunn, en meðferð vegna eggagjafar tekur fjórar vikur.

Aðspurð hvort íslensk heilbrigðisyfirvöld gætu staðið sig betur í að niðurgreiða frjósemismeðferðir er það mat Ingunnar að svo sé. „Við stöndum Norðurlandaþjóðunum langt að baki í þessum efnum.“

Ættleiðing ekki alltaf kostur fyrir þá sem greinast með krabbamein

Í reglugerð um ættleiðingar á Íslandi kemur meðal annars fram að krabbamein sé einn af þeim sjúkdómum sem geti leitt til synjunar á umsókn um ættleiðingu. Hrefna Friðriksdóttir, formaður ættleiðingarnefndar, segir hins vegar það að hafa einhvern tíma fengið krabbamein útiloki ekki umsækjendur.

Hrefna Friðriksdóttir.

„Grunnkrafan er sú að heilsufar umsækjanda sé fullnægjandi þegar hann sækir um. Heilsufarssaga umsækjanda er alltaf skoðuð og hann spurður hvað hafi bjátað á til að leggja mat á hvort hann sé læknaður, hvort hann sé enn í meðferð eða hver staða hans sé þegar hann sækir um. Mat á þessu er algjörlega háð um hvers konar mein ræðir og hvers konar sjúkdóm viðkomandi hefur greinst með,“ segir Hrefna. Enn fremur segir hún að það þurfi alltaf að meta áhrif þess krabbameins sem einstaklingur hefur greinst með.

„Því er hægt að segja að krabbamein útiloki mann ekki sjálfkrafa til að ættleiða en það að hafa fengið krabbamein geti útilokað mann í einhverjum tilvikum. Lykilatriði er að skoða hvers konar krabbamein viðkomandi hefur greinst með, hvers konar meðferðir viðkomandi sé búinn að undirgangast, hve langur tími sé liðinn frá greiningu, hvort meðferð sé lokið, hverjar niðurstöðurnar voru og hvort viðkomandi sé laus við krabbameinið. Ef viðkomandi er læknaður af þessu krabbameini og engin merki þess sjást, þá hefur það almennt ekki talið hafa nein sérstök áhrif á umsókn til ættleiðingar. Það á að ganga út frá því að þú fáir ekki leyfi til að ættleiða barn á meðan þú ert í krabbameinsmeðferð. Ef viðkomandi hefur ekki læknast og meðferð er hætt eru líkur á að hann fái ekki leyfi til að ættleiða barn.“

Áfallasaga umsækjenda skoðuð

Hrefna segir að ættleiðingarnefnd fái alltaf læknisfræðilegt mat á umsækjendum og að ekki sé miðað við ákveðinn lágmarkstíma eftir að viðkomandi hefur lokið krabbameinsmeðferð. Hvað varðar varanlega fötlun vegna krabbameins, til dæmis það að missa útlim vegna meinsins, segir Hrefna að það geti haft áhrif á umsókn til ættleiðingar.

„Í ættleiðingarmálum getur allt haft áhrif. Það að þú búir við einhvers konar fötlun, en við getum sagt að varanlegar afleiðingar séu hugsanlega fötlun, getur skert möguleika þína á einhverjum sviðum miðað við aðra. Þá þurfum við að spyrja okkur: Hefur sú fötlun áhrif á mögulega foreldrahæfni? Við reynum að vega og meta hvers konar ástand þetta er og hvernig viðkomandi gengur að lifa með því. Við þurfum líka að horfa á þetta í heildarsamhengi, til dæmis hvernig áhrif þessi fötlun hefur haft á daglegt líf og meta hæfni einstaklingsins til að yfirstíga ákveðna erfiðleika. Að sjálfsögðu er tekið tillit til þess,“ segir Hrefna og bætir við að áfallasaga umsækjenda sé skoðuð í hverju tilviki fyrir sig.

„Við erum alltaf að læra betur og betur um hvað áföll geta haft víðtækar og oft varanlegar afleiðingar á fólk. Eitt af áföllum er að greinast með alvarlegan sjúkdóm eða glíma við varanlegar afleiðingar af honum. Þá er skoðað hvernig viðkomandi hefur gengið að vinna með það og hver staða hans og styrkleikar eru í dag.“

Mikil ábyrgð að finna barni heimili

Þegar par sækir um ættleiðingu þurfa báðir einstaklingarnir að uppfylla kröfur ættleiðingarnefndar, en Hrefna segir að kröfur nefndarinnar séu ekki að ástæðulausu.

„Það er engum blöðum um það að fletta að það eru gerðar strangar kröfur. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að finna barni, sem hefur oft verið í erfiðum aðstæðum, stað. Það er ekki nóg að bara annar aðili í sambandi uppfylli þessar kröfur og það er ekki endilega gert til að tryggja barninu einhvers konar umönnun þó að annar falli frá heldur einnig til að forðast þau óumflýjanlegu áhrif sem það að missa maka og foreldri hefur. Allt það neikvæða sem getur komið fyrir annan aðilann er í sjálfu sér áfall fyrir hinn aðilann og klárlega áfall fyrir barn sem er komið á heimilið. Við viljum ekki kalla það yfir neinn.“

Oft lenda einstæðingar aftast í bunkanum

Hrefna segir að hvert og eitt ríki móti ættleiðingarlög og -reglur eftir sínu höfði. Ísland er hluti af alþjóðsamningi um ættleiðingar þar sem farið er fram á að metin séu grunnatriði, svo sem aldur, heilsufar og aðstæður. Hún segir enn fremur að þegar reglugerð um ættleiðingar var sett, þar sem listaðar eru upp tegundir sjúkdóma sem geti haft áhrif á umsókn, hafi verið tekið mið af reynslu norrænnu þjóðanna. En þó að einstaklingar eða pör uppfylli viss skilyrði til ættleiðingar hér á landi þarf það ekki að þýða að þeir hinir sömu uppfylli skilyrði í því landi sem ættleiða á barn. Því getur það oft þýtt að einstæðingar lendi aftast í bunkanum.

„Það land getur gert meiri kröfur og strangari. Vandinn er sá að við erum í samstarfi við tiltekin lönd þar sem eru færri og færri börn til ættleiðinga. Þessi lönd hafa úr fleiri og fleiri umsækjendum að velja og sum lönd segja blákalt að þau velji alltaf fyrst par á besta aldri sem búa við bestu aðstæður. Mörg lönd setja einstæðinga aftast á listann og síðan eru mörg lönd sem leyfa einstæðingum ekki að ættleiða. Svipað er uppi á teningnum með samkynhneigða. Við veitum samkynja pörum leyfi til að ættleiða en það eru afskaplega fá önnur lönd sem gera það.“

Úr 9. grein reglugerðar um ættleiðingar:

Heilsufar.
Umsækjendur skulu vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustir að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að ættleiðing verði barni fyrir bestu. Því mega umsækjendur ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að það dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður sjálfráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn.

Eftirtaldir sjúkdómar eða líkamsástand, sem ekki er hér tæmandi talið, geta leitt til synjunar á umsókn um ættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni:

a. Alnæmi og aðrir alvarlegir smitsjúkdómar.
b. Fötlun eða hreyfihömlun.
c. Geðsjúkdómar, geðraskanir eða þroskahömlun.
d. Hjarta- og æðasjúkdómar.
e. Innkirtlasjúkdómar.
f. Krabbameinssjúkdómar.
g. Líffæraþegar.
h. Lungnasjúkdómar.
i. Meltingafærasjúkdómar.
j. Nýrnasjúkdómar.
k. Offita.
l. Sjálfsofnæmissjúkdómar.
m. Sykursýki og taugakerfissjúkdómar.

Raunkostnaður hærri en verðskrá SÍ kveður á um

|
|

Þingsályktunartillaga um að endurskoða ætti greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar var samþykkt árið 2016 og átti endurskoðun að ljúka fyrir árslok þess árs. Henni er ekki enn lokið.

Í þessari tillögu var meðal annars lagt til að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar hjá fólki óháð því hvort það eigi barn fyrir, en í dag nær þessi þátttaka aðeins frá annarri til fjórðu meðferðar hjá pörum og einstaklingum sem eiga ekki barn fyrir. Hins vegar er tekið þátt í fyrstu meðferð para og einhleypra kvenna ef um er að ræða yfirvofandi ófrjósemisvandamál konunnar vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Þá endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 65% útlagðs kostnaðar vegna ástungu á eista og frystingu sáðfruma þegar um er að ræða karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Í þeim tilfellum er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að greiða 90% útlagðs kostnaðar vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum/sáðfrumum, þó að hámarki í tíu ár.

Þá fer greiðsluþátttaka eftir verðskrá Sjúkratrygginga Íslands, en sú verðskrá hefur ekki verið uppfærð síðan árið 2011 og er ekki í samræmi við verðskrá þeirra stofnana sem framkvæma frjósemismeðferðir. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er því raunkostnaður við frjósemismeðferðir umtalsvert hærri en verðskrá Sjúkratryggina Íslands kveður á um. Að mati flutningsmanna tillögunnar er Ísland nokkur eftirbátur nágrannalanda okkar og þeirra landa sem við viljum almennt bera okkur saman við á þessu sviði. Tekin eru dæmi um að í Danmörku og Svíþjóð nái greiðsluþátttaka ríkisins yfirleitt til fyrstu og þriðju meðferðar.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni standa þjóðirnar sem við viljum bera okkur saman við okkur fremur í greiðsluþátttöku vegna frjósemismeðferða.

Ekki unnt að uppfæra gjaldskrá vegna fjárskorts

Mannlíf sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um þetta greiðsluþátttökukerfi og hvar endurskoðun þess stæði. Eftirfarandi svör bárust frá ráðuneytinu:

Í reglugerð um greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgana stendur að endurgreiðsla miðist við gjaldskrá SÍ. Sú verðskrá hefur ekki verið uppfærð síðan 2011 og tekur því ekki mið af verðlagsbreytingum. Af hverju hefur sú verðskrá ekki verið uppfærð?

Svar: Verðskráin hefur tekið mið af þeim fjármunum sem hafa verið til ráðstöfunar og framlög hafa ekki verið aukin þannig að unnt væri að uppfæra gjaldskrána.

Verðskrá SÍ og verðskrá stofnana sem sjá um frjósemismeðferðir eru tvær ólíkar verðskrár. Stendur til að samræma þessar verðskrá að einhverju eða öllu leyti?

Svar: Ekki eru áform um að samræma gjaldskrá SÍ og einkarekinna fyrirtækja sem sinna þessari þjónustu, þar sem ekki hafa tekist samningar milli SÍ og viðkomandi aðila. Sem fyrr segir hefur þetta einnig með fjárframlög að gera.

Enginn samningur er á milli íslenska ríkisins og stofnana sem sjá um frjósemismeðferðir. Stendur til að koma á slíkum samningi? Ef já, hvar er það statt í ferlinu? Ef nei, af hverju ekki?

Svar. Já, það er stefnt að því að semja um þessa þjónustu.

Varðandi orðalag í reglugerð um greiðsluþátttöku vegna tæknifrjógvunar þá er talað um að endurgreiða einhleypum konum með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna meðferðar. Hins vegar stendur að karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál fái endurgreitt fyrir ástungu á eista eða frystingu á sæðisfrumum. Má þá skilja það þannig að ekki sé tekið þátt í frjósemismeðferðum einhleypra karla að öðru leyti?

Svar: Það er rétt skilið.

Í gjaldskrá SÍ er ekki talað um frystingu á fósturvísum og eggjum, heldur eingöngu sáðfrumum. Er ekki tekið þátt í kostnaði vegna frystingar á fósturvísum og eggjum, eða er það talið hluti af frjósemismeðferð?

Svar: Rétt er að benda á að frá árinu 2012 hefur verið 90% greiðsluþátttaka ríkisins vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum (sbr. rg. um 2. breytingu á rg. nr. 917/2011). Greiðsluþátttaka í frystingu á eggfrumum hefur ekki verið í gjaldskránni til þessa vegna þess að meðferðin hefur verið óframkvæmanleg hér á landi. Nú hefur orðið breyting á því og þar með er áformað við endurskoðun þessara mála að ríkið taki þátt í kostnaði vegna frystingar á eggfrumum.

Nú hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að endurskoða reglur greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar. Hvar er sú vinna stödd? Í þingsályktun stendur að þáverandi heilbrigðisráðherra ætti að endurskoða reglur fyrir árslok 2016. Af hverju hefur þessi vinna tafist?

Svar: Endurskoðun á reglunum stendur yfir í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands.

Stendur til að hækka fjárframlag til þessarar endurgreiðslu?

Svar: Stefnt er að því að setja nýja reglugerð um þessa þjónustu innan fárra vikna. Með henni verður breytt fyrirkomulagi varðandi greiðsluþátttökuna. Aftur á móti liggur fyrir fjármagn til þessarar þjónustu í fjárlögum og því ekki svigrúm til þess að auka útgjöldin á þessu ári.

Brenglað þegar fólk getur breytt sér í símanum

||||||
||||||

Íslendingar eru farnir að leita til lýtalækna með síaðar, eða filteraðar, sjálfur (selfie) og vilja líta út eins og sín síaða sjálfa. Íslenskur lýtalæknir segir þessa þróun skapa vanda.

„Það er til í dæminu að fólk komi með mynd af sér sjálfu sem búið er að ýkja eða breyta en það er mjög sjaldgæft enn þá, sem betur fer. En ég held að þessum tilvikum eigi eftir að fjölga,“ segir Ágúst Birgisson lýtalæknir.

Ágúst Birgisson.

Fréttasíðan Huffington Post fjallaði nýverið um þá staðreynd að fólk vestanhafs, helst konur, væri farið að leita til lýtalækna með síaðar, eða filteraðar, sjálfur og vill líta út eins og síaða sjálfan. Í greininni var þetta fyrirbæri kallað Snapchat Dysmorphia sem mætti þýða sem Snapchat-lýtaröskun.

Ágúst segir þessa þróun skapa vanda, þar sem síur á samfélagsmiðlum gefa ekki rétta mynd af því sem hægt er að gera þegar lagst er undir hnífinn. „Þetta skapar vanda því þegar þú ert að breyta myndum á samfélagsmiðlum eða öðrum forritum, þá ertu ekki að gera raunverulega áætlun. Þannig að í raun er verið að vekja væntingar umfram það sem hægt er að gera, og það er kannski mitt vandamál. Það er erfitt þegar einstaklingur er með ímynd af því hvernig hann vill vera en þessi ímynd verður ekki að raunveruleika því ekki er hægt að framkvæma breytingarnar. Það er helsta vandamálið. Við lýtalæknar styðjumst við forrit þar sem við getum breytt fólki til að sýna því hvernig það lítur út fyrir og eftir aðgerð en þau forrit eru sérstaklega gerð fyrir lýtalækna. Þegar fólk getur breytt sér sjálft í símanum er þetta orðið mjög brenglað,“ segir hann.

Sýna myndir af þekktum Snapchat-konum

Ágúst vill ítreka að það sé afar sjaldgæft að fólk mæti til hans með síaðar sjálfsmyndir af samfélagsmiðlum en algengara er að fólk komi með myndir af frægu fólki til að sýna hvernig það vilji líta út.

„Það er mjög algengt, til dæmis í sambandi við brjóstastækkun eða eitthvað svoleiðis. Þá eru konur með ákveðna hugmynd um hvernig þær vilja líta út og hvaða stærð þær vilja fara upp í. Þær koma með mynd af einhverri stjörnu og vilja fá eitthvað svipað, sem getur verið hjálplegt til að finna út hverju fólk er að leita eftir. Mynd segir oft mörg orð. En auðvitað er pínulítið öðruvísi að sjá þetta á öðrum en á sjálfum sér og fólk er meðvitað um það. Það gerir sér grein fyrir að þetta er annar líkami en sinn eigin og því verður þetta ekki eins. Þar liggur helst munurinn á því að sýna mynd af öðrum en ekki mynd af sjálfum sér.“

Kim Kardashian síaði sjálfu með barni sínu fyrir stuttu.

Annar lýtalæknir, Guðmundur M. Stefánsson, segir sífellt meira bera á þessu meðal ungra kvenna. „Það hefur borið á því síðustu ár, einkum meðal ungra kvenna, að sumar þeirra leita álits okkar á breytingum sem þær óska eftir og sýna myndir af þekktum Snapchat-konum sem þær vilja líkjast. Þetta er ekki algengt, en þó ber meira og meira á þessu.“

Líkamslýtaröskun ótrúlega sjaldgæf

Eftir tilkomu snjallsíma hefur því verið haldið fram að notkun samfélagsmiðla gæti leitt til líkamslýtaröskunar, eða body dysmorphic disorder. Einstaklingar sem þjást af þessari röskun eru mjög uppteknir af ákveðnum líkamshlutum og þrá oft á tíðum að láta laga þá á einhvern hátt. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á að 1,7% til 2,4% þjóðarinnar séu haldin þessari röskun.

Ágústi finnst ótrúlegt að líkamslýtaröskun sé ekki algengari samfara aukinni snjallsímanotkun. „Body dysmorphic disorder er ótrúlega sjaldgæft miðað við alla þá umfjöllun og þá miðla sem við höfum. Þessi röskun var til löngu áður en snjallsímar komu til sögunnar en mér finnst ekki mikil aukning á þessum sjúkdómi með snjallsímavæðingu, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt.“

Hann segir að þó að mikið sé talað um að fólk sem leiti til lýtalæknis þrái að líta út eins og einhver allt annar, þá séu flestir sem leiti til lýtalækna að gera það vegna dýpri ástæðna. „Fólk kemur til lýtalækna út af mjög mismunandi þörfum og leitar að allt öðru en að líkjast einhverjum fyrirmyndum úti í heimi. Það getur verið að augnlok séu of þung og þurfi að laga það, að brjóst hafi horfið við meðgöngu eða brjóstagjöf eða að konur séu með slappan maga eftir fjórar meðgöngur eða mikið þyngdartap. Þessar ýkjur sem talað er um eru sem betur mjög sjaldgæfar.“

Virkjar sinn innri mótorhjólatöffara

Söngvarinn vinsæli Valdimar Guðmundsson fetar ótroðnar slóðir þessa dagana en í kvöld stígur hann á Stóra svið Borgarleikhússins í hlutverki Eddies í söngleiknum Rocky Horror.

Þetta er fyrsta hlutverk Valdimars á leiksviði en hann segist ekki kvíðinn fyrir frumsýningunni, hann þurfi fyrst og fremst að muna að virkja mótorhjólatöffarann innra með sér, jafnvel þótt hann hafi aldrei keyrt mótorhjól.

Í kvikmyndinni frægu frá 1975 er það sjálfur Meatloaf sem fer með hlutverk Eddies og ég byrja á að spyrja Valdimar hvort Meatloaf sé í uppáhaldi hjá honum sem söngvari.

„Ég get nú ekki sagt það, nei,“ segir Valdimar, sem er nýkominn af strangri æfingu og pínulítið andstuttur eftir hamaganginn á sviðinu. „Mér finnst hann alveg fínn söngvari en tónlistin hans er ekki í þeim flokki tónlistar sem höfðar mest til mín. Ekki minn tebolli.“

Spurður hvernig það hafi komið til að hann var fenginn til leika hlutverk Eddies, segist Valdimar hafa grun um að Jón Ólafsson, tónlistarstjóri sýningarinnar, hafi mælt með honum í hlutverkið.

„Við Jón höfðum unnið saman í öðru verkefni og ég held að hann hafi ýtt á það að fá mig til að leika Eddie. Honum fannst ég passa vel í hlutverkið og svo er ég svolítið þykkur sem hentar vel í þetta hlutverk.“

Talandi um það, fyrir tveimur árum fylgdist öll þjóðin með líkamsræktarátaki Valdimars þegar hann steig fram og viðurkenndi að líkamsástand hans væri farið að valda sér heilsutjóni. Ári seinna hafði hann misst 40 kíló og var enn þá á fullu í ræktinni. Hver er staðan í því máli núna?

„Ég er enn þá í ræktinni, var síðast í ræktinni í morgun, en ég tek þetta ekki með neinu offorsi, reyni að finna skynsamlegan meðalveg og passa bara upp á að lenda ekki á sama stað og ég var fyrir tveimur árum. Þá var ástandið orðið alvarlegt.“

„Ég er enn þá í ræktinni, var síðast í ræktinni í morgun, en ég tek þetta ekki með neinu offorsi, reyni að finna skynsamlegan meðalveg og passa bara upp á að lenda ekki á sama stað og ég var fyrir tveimur árum. Þá var ástandið orðið alvarlegt. Ég ætla ekki þangað aftur. Maður þarf samt að passa sig að fara ekki út í neinar öfgar. Þetta snýst allt um að láta skynsemina ráða og finna hinn gullna meðalveg.“

En er ekki mikil líkamleg áreynsla að leika í söngleik? Vera þjótandi um sviðið syngjandi með hamagangi og danssporum?
„Þetta er nú ekki langur tími sem ég þarf að vera inni á sviðinu,“ segir Valdimar sallarólegur. „Þetta tekur auðvitað á en það er ekkert sem ég ræð ekki við.“

Lifir ekki slúðurvænu lífi

Auk þess að leika í Rocky Horror er Valdimar að undirbúa útgáfu nýrrar plötu með hljómsveit sinni Valdimar. Fyrsta lagið af plötunni sem meiningin er að komi út í haust, „Of seint“, fór í spilun í síðustu viku og Valdimar lýsir því sem „rokk/diskó, popp rokk eitthvað“. Maður hnýtur um orðið diskó og spyr eins og auli hvort Valdimar sé ekki allt of ungur til að muna eftir diskóæðinu.

„Jú, ég er fæddur 1985 svo diskótímabilið var löngu liðið þegar ég man fyrst eftir mér,“ segir hann hneykslaður á fáfræði blaðamannsins. „En diskóið er farið að skjóta upp kollinum í rappinu og víðar svo við erum nú ekkert að gera einhverja byltingu. Ég veit ekki einu sinni hvort það er rétt að nota orðið diskó í þessu samhengi. Ég heyri diskóhljóm í þessu lagi, en það er ekkert víst að aðrir heyri það.“

Þjóðin elskar Valdimar sem ballöðusöngvara en sjálfur segist hann kannski frekar líta á sig sem rokksöngvara. „Ég hef gaman bæði af rokki og rólegheitum og alls konar stílum,“ segir hann ákveðinn. „Ég vil ekki festa mig við eitthvað eitt en ég hallast þó aðeins að rokkinu.“

Ég reyni að pumpa Valdimar um einkalíf hans en hann er ekkert á þeim buxunum að gefa mikið upp um það. Hann segist hvorki vera í sambúð né föstu sambandi og lifi almennt ekki slúðurvænu lífi. Það er tónlist, tónlist og aftur tónlist sem líf hans snýst um. En er ekki mikil skuldbinding fyrir eftirsóttan tónlistarmann að festa sig í einu verkefni í leikhúsinu? Hvað ef sýningin gengur árum saman, flækist hún þá ekki fyrir ferli hans sem tónlistarmanns?

„Ég er nú ekkert farinn að hugsa svo langt enn þá,“ segir Valdimar og hlær. „Það getur vel verið að það verði einhverjir árekstrar verkefna en það er nú yfirleitt hægt að leysa það þegar slíkt kemur upp. Og ég er þá alla vega á föstum launum á meðan sýningin gengur, það er ágætis tilbreyting.“

Er erfitt að sjá fyrir sér með því að vera alfarið í tónlistarbransanum?
„Alla vega ekki eftir að maður er orðinn eftirsóttur,“ segir hann ákveðinn. „Það er auðvitað hark fyrst en síðustu sex árin hef ég alfarið lifað af tónlistinni og það gengur ágætlega. Ég hef auðvitað ekki orðið ríkur af þessu, á til dæmis engan Range Rover, en ég get alveg lifað af þessu.“

Væri það ekki líka hræðilegt stílbrot fyrir rokkara að keyra um á Range Rover?
„Jú, algjörlega! Ég tók hann nú bara sem dæmi um birtingarmynd ríkidæmis, ég myndi alls ekki vilja eiga Range Rover,“ segir Valdimar glottandi. „Það væri ekki ég.“

Ótrúlegt ferðalag að leika í Rocky Horror

Aftur að Rocky Horror. Á Facebook-síðu Valdimars birtist nýlega mynd af honum í hælaháum skóm, þýðir það að hann sé í dragi í sýningunni?
„Nei, ég er ekki í dragi. Ég er í leðurgalla mótorhjólatöffara, með svarta hárkollu og barta sem ég er búinn að safna. Skórnir voru bara smágrín sem kannski verður notað í uppklappinu. Eða ekki, það kemur í ljós,“ bætir hann við leyndardómsfullur.

Þetta er fyrsta leikhlutverk Valdimars, þótt hann hafi reyndar áður verið á leiksviði í hlutverki básúnuleikara í bæjarhljómsveitinni í sýningu Borgarleikhússins á Milljarðamærin snýr aftur eftir Dürrenmatt fyrir sléttum níu árum. Hvernig gengur honum að leika, er hann góður leikari?

„Ég er nú kannski ekki rétti maðurinn til að svara því,“ segir hann, hógværðin uppmáluð. „En ég held þetta gangi ágætlega. Þegar ég er kominn í gallann, með hárkolluna og sminkið verð ég bara Eddie. Það eina sem ég þarf að muna er að virkja minn innri mótorhjólatöffara og þá smellur þetta allt saman.“

„Ég held ég geti alveg lofað því að fólk á eftir að skemmta sér vel í Borgarleikhúsinu á næstunni. Eða, já, ég held það ekkert, ég get lofað því! Þetta er frábær skemmtun.“

Mótorhjólatöffara? Hefurðu verið mótorhjólatöffari?
„Nei, nei. Ég hef ekki einu sinni keyrt mótorhjól,“ svarar Valdimar glaðbeittur. „En það býr mótorhjólatöffari innra með mér og hann fær að njóta sín í þessari sýningu.“

Talið berst að sýningunni og því hvort Valdimar kvíði ekkert fyrir því að koma í fyrsta sinn fyrir augu þjóðarinnar sem leikari. Hann segist ekki kvíðinn enda sé hann í hópi stórkostlegra listamanna og það hafi verið mikil og dýrmæt reynsla að fá að taka þátt í þessari uppsetningu.
„Þetta er búið að vera alveg ótrúlegt ferðalag,“ segir hann andaktugur. „Það er svo frábært fólk sem vinnur að þessari sýningu á öllum sviðum. Tónlistarmenn, leikarar, leikstjóri, leikmyndahönnuðir, dansarar, danshöfundur, búningahönnuðir og förðunarfólk, þetta er allt toppfólk á sínu sviði og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þessum heimi og taka þátt í að búa þessa sýningu til. Það er enginn kvíði í mér fyrir frumsýningunni, bara tilhlökkun og gleði. Ég held ég geti alveg lofað því að fólk á eftir að skemmta sér vel í Borgarleikhúsinu á næstunni. Eða, já, ég held það ekkert, ég get lofað því! Þetta er frábær skemmtun.“

Texti / Friðrika Benónýsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Vil vera dæmd af verkum mínum

Sækir kraftinn í hvíld.

Þórdís Kolbrún er í forsíðuviðtali nýjustu Vikunnar.

Segja má að leið Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í heim stjórnmálanna hafi alltaf legið fyrir en hún starfar nú sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Þrátt fyrir ungan aldur fullyrðir Þórdís að skoðanir hennar njóti sama hljómgrunns og annarra þingmanna en þó sé mikilvægt að láta neikvæðar skoðanir og niðurrif ekki hafa áhrif á sig.

„Ég er hreint út sagt of upptekin til að vera velta því fyrir mér hvort tekið sé mark á mér. Ég veit að það ætti að taka mark á mér, það er nóg.“

„Eflaust hafa einhverjir skoðun á því sem ég segi eða geri út frá aldri mínum eða kyni en ég geng einfaldlega hreint til verks, veit hver ég er og reyni að koma vel fram við fólk. Ég trúi því að það skili sér í samskiptum og hvernig fólk kemur fram við mann. Ég vil vera dæmd af verkum mínum í stjórnmálum. Ekki öðru.”

Þórdís afsalar sér alfarið ofurkonutitilinum en kraftinn sækir hún í hvíld og jarðtenginguna sem hún finnur í börnunum sínum. „Ég reyni almennt að ná góðum nætursvefni því hann er mér lífsnauðsynlegur. Í gegnum svefninn sæki ég kraftinn og þaðan get ég svo fengist við krefjandi verkefni og spennandi áskoranir sem starfið býður upp á. En það að vera foreldri er líklega það merkilegasta af öllu, ég á sterkt bakland og börnin mín eru hamingjusöm. Ég á góðar stundir með þeim og ég reyni að forgangsraða tíma mínum gæfulega. Það þýðir ekkert að láta samviskubit naga sig. Og ég hef bara upplifað það sjálf að pabbar eru nákvæmlega jafn mikilvægir og mömmur.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir

Tyra Banks vill ekki að sonur hennar verði fyrirsæta

|
|

Ofurfyrirsætan Tyra Banks, sem er hvað þekktust fyrir að stýra þáttunum America’s Next Top Model, mætti á rauða dregilinn fyrir upptöku á þáttunum America’s Got Talent nýverið, enda kynnir þáttanna.

Blaðamaður Us Magazine náði tali af fyrirsætunni á rauða dreglinum. Í viðtalinu sagði hún meðal annars að hún vildi ekki að sonur sinn yrði fyrirsæta, en hún á hinn tveggja ára gamla York með fyrrverandi kærasta sínum, Erik Asla.

„Ég vil ekki að hann verði fyrirsæta en ég segi ekki við hann: Ekki gera það, því þá myndi hann vilja það enn meira. Ég ætla að styðja hann í því sem hann vill gera en ég vona bara að það verði ekki fyrirsætustörf. En ef hann velur þá braut kenni ég honum að brosa með augunum,“ sagði Tyra á dreglinum, en henni er tíðrætt um að brosa með augunum, eða smize, í þáttunum þar sem hún leitar að næstu ofurfyrirsætu Bandaríkjanna.

Tyra veit hvað hún syngur.

Tyra segir að lítil virðing sé borin fyrir karlfyrirsætum í tískubransanum.

„Ég held að karlfyrirsætur séu ekki í sömu stöðu og kvenfyrirsætur. Kvenfyrirsætur grínast stundum og kalla karlfyrirsætur fylgihlutina sína. Ég er með eyrnalokka og í skóm og með karlfyrirsætu í tökunum. Svona grínast stelpurnar með þá,“ sagði Tyra.

Þá ræddi hún einnig um hve klár York er, og sagði hann langt á undan sínum jafnöldrum.

„Hann hefur kunnað að telja uppá tuttugu síðan hann var átján mánaða. Hann er rosalega, rosalega gáfaður. Hann talar spænsku, norsku og ensku. Hann er klár. En hann er samt brjálaður og veltir sér um gólfið og hlustar oftast ekkert á mig.“

Léttist um 45 kíló á níu mánuðum

Lauren Dugas segist alltaf hafa verið í þyngri kantinum á fullorðinsárum, en að þyngdin hafi aldrei angrað hana mikið. Hún fór reglulega í megranir og léttist um nokkur kíló, en bætti þeim alltaf á sig aftur og meira til. Einn morguninn steig hún á vigtina og sá að hún var orðin rúmlega 125 kíló. Þá ákvað hún að gera eitthvað í sínum málum.

„Ég var miður mín. Ég trúði því ekki að ég væri svona þung. Ég vissi að ég þyrfti að gera eitthvað. Ég var aðeins 32ja ára en líf mitt valt á því að léttast. Ég þurfti að temja mér betri matarvenjur og byrja að hreyfa mig til að vera betri fyrirmynd fyrir krakkana mína,“ skrifar Lauren í pistli á vefsíðu Women’s Health.

Lauren fékk sér kort í líkamsrækt og sótti sérstaka tíma þar sem hún fékk bæði æfingar- og matarplan. Hún byrjaði að æfa þann 29. maí í fyrra og segir það hafa tekið mikið á.

„Þá var einblínt á fótaæfingar. Ég gat ekki gengið í viku eftir á. Ég grét á hverjum degi til að byrja með. Sársaukinn sem ég fann var ólýsanlegur,“ skrifar Lauren.

Aldrei verið jafn sterk

Hún fór þó fljótt að sjá árangur.

„Ég missti tvö kíló í fyrstu vikunni og á innan við mánuði var ég búin að léttast um sjö kíló og var búin að grennast um 21 sentímetra. Ég sá móta fyrir vöðvum. Buxurnar mínar urðu víðari. Eftir tvo mánuði var ég búin að léttast um rúm ellefu kíló og eftir fimm og hálfan mánuð var ég 27 kílóum léttari en þegar ég byrjaði,“ skrifar Lauren.

Í dag er hún búin að léttast um 45 kíló en vantar aðeins nokkur kíló uppá að komast í draumaþyngd sína, 77 kíló.

„Ég er 32ja ára og hef aldrei verið svona sterk. Mér finnst handleggsvöðvarnir mínir ótrúlegir. Ég horfi allt öðruvísi á mat núna og nú borða ég til að fá orku. En stoltust er ég af því að kenna börnunum mínum um holla lífshætti. Vonandi þurfa þau ekki að kljást við þyngdina þegar þau verða fullorðin.“

Hættið að búa til afsakanir

Lauren vaknar enn tæplega fimm á morgnana til að fara í ræktina þrisvar í viku. Þá heldur hún sig við mataræðið sem henni var kennt á í upphafi, en í því eru allar mjólkurvörur og salt bannað.

En hvað vill hún segja við aðra í sömu stöðu og hún var fyrir tæpu ári síðan?

„Hættið að búa til afsakanir. Þið getið allt sem þið viljið.“

Hressandi æfingarrútína sem blandar saman dansi og styrktarþjálfun

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hálftímalanga æfingarrútínu sem búin var til af þjálfaranum Megan Roup.

Rútínan er mjög skemmtileg og blandar saman dansi og styrktarþjálfun, sem gerir hana ansi hressandi. Í myndbandinu má sjá konurnar nota lóð og sérstakar mottur, en auðvelt er að sleppa lóðunum eða fylla hálfslítra flöskur af vatni til að nota sem lóð. Þá er hægt að nota handklæði í staðinn fyrir motturnar sem konurnar nota.

Svo er bara að koma sér í gírinn heima í stofu og skemmta sér konunglega á meðan maður dillar sér fram og til baka.

Ólöglegt að deyja í þessum afskekkta bæ

|
|

Í norska bænum Longyearbyen búa um tvö þúsund manns, en íbúar bæjarins þurfa að fylgja mjög sérstökum lögum: þeir mega alls ekki deyja í bænum.

Longyearbyen er á Svalbarða, en þar er svo kalt að það hefur verið ólöglegt að deyja þar síðan árið 1950 þegar íbúar uppgötvuðu að lík væru ekki að rotna í kirkjugarðinum vegna kalds loftslags. Árið 1998 grófu nokkrir vísindamenn upp lík sem dóu þegar spænska veikin herjaði á heiminn árið 1918. Vísindamennirnir gátu þá enn tekið lifandi sýni af þessari stórhættulegu veiru.

Þvílíkur kuldi á Svalbarða.

Það er leyfilegt að grafa duftker í kirkjugarðinum, en fáir vilja nýta þann kost. Í staðinn ferðast þeir sem eru lífshættulega veikir til meginlands Noregs og eyða þar síðustu dögunum.

„Ef svo virðist sem þú munir deyja í nánustu framtíð þá er allt gert til að senda þig á meginlandið,“ segir Jan Christian Meyer hjá norska vísinda- og tækniháskólanum í samtali við The Sun.

Einnig er lítið um fæðingar í bænum þar sem óléttar konur eru hvattar til að ferðast til meginlandsins fyrir settan dag, þó lítill spítali sé á Svalbarða.

Aðalmynd / Hilgeriak

Breytti fataskáp í ævintýraveröld fyrir dótturina

|||||
|||||

Það er eitthvað svo spennandi við það þegar maður er lítill að eiga sitt eigið leyniathvarf, þar sem maður getur falið sig fyrir heiminum. Flestir láta sér nægja að börnin sín eigi sinn leynistað í hefðbundnum fataskápum en það var ekki nóg fyrir innanhússarkitektinn Lauru Medicus.

Teikning af verkefninu.

Laura vildi búa til eitthvað í anda Narníu fyrir ellefu ára dóttur sína, Sylviu. Þannig að hún ákvað að breyta venjulegum fataskáp í undraveröld með því að taka bakhliðina úr skápnum og búa til lítið herbergi fyrir aftan hann.

Venjulegur fataskápur.

Laura fer yfir verkefnið skref fyrir skref á bloggsíðu sinni, The Colorado Nest. Það tók hana þrjár vikur að ljúka við verkið, en hún segir að það sé ofureinfalt, þó hún hafi vissulega forskot verandi innanhússarkitekt.

Sylvia læðist inn.

Þá tekur Laura einnig fram að verkefnið kosti alls ekki mikið, en dóttir hennar hefur varla fengist til að fara úr leyniherberginu síðan það var afhjúpað.

Fullkominn staður til að slaka á.
Og nóg pláss fyrir fötin.

Myndir / Laura Medicus

„Þessi stelpa er ekki feit“

Victoria’s Secret-fyrirsætan Bridget Malcom, sem hefur einnig setið fyrir í V Magazine og unnið fyrir Ralph Lauren, birti gamla mynd af sér í bikiníi á Instagram fyrir stuttu. Við myndina opnaði hún sig um líkamsímynd.

„Þessi stelpa er ekki feit. Ég man þegar þessi mynd var tekin. Mér hafði verið sagt að ég þyrfti að grennast. Ekki í fyrsta sinn og ekki í það síðasta,“ skrifar Bridget við myndina og bætir við:

„Alltaf gaman að þykjast vera örugg og hamingjusöm í sundfötum þegar maður er í stríði við líkama sinn.“

Bridget hefur fengið gríðarlega góð viðbrögð við myndinni, svo góð að hún skrifaði meira á Instagram nokkrum dögum síðar og þakkaði fyrir stuðninginn.

„Þakkir til allra sem hafa stutt ákvörðun mína að vera hreinskilin um baráttu mína við líkama minn,“ skrifar Bridget. Hún skrifar jafnframt að hún muni halda áfram að tjá sig um líkamsímynd í nánustu framtíð.

„Ég hef fengið nóg. Takið ákvörðun í dag að elska líkamann sem þið hafið og takið styrk ykkar til baka því þið eruð alltaf nóg. Þessi mynd var tekin eftir að ég var í átta löndum á þremur vikum (tvær ferðir til Ástralíu frá Evrópu meðtaldar). Ferðalögin urðu til þess að ég bætti á mig og ég var svo áhyggjufull yfir því. Myndatakan var sem betur fer auðveld, full af ást og skemmtileg – en ég grét mig í svefn þetta kvöld. Ég var svo hrædd við að fara „feit“ aftur til New York og þurfa að horfast í augu við kúnna mína og umboðsskrifstofu. Fáránlegt.“

To everyone who has supported me in my decision to be honest about my body struggles, thank you. I am completely overwhelmed by all your love – and I try to respond to all your messages. I will be writing about my experiences in this arena on my blog regularly – stay tuned ❤️ I’ve had enough. Today make the choice to love the body you inhabit, and take back your strength, because you are always enough. This photo was taken at the end of being in 8 different countries in three weeks (two trips to aus from Europe included) All that travel had me gaining weight and I was so anxious about it. Luckily the shoot was easy, loving and fun – but I cried myself to sleep that night, I was so terrified at going back to NYC “fat” and having to face my clients and agency. Ridiculous. #IDictateMyRoad

A post shared by Bridget Malcolm (@bridgetmalcolm) on

Þessar kisumyndir eru hugsanlega það sætasta sem þú sérð í dag

||||||||
||||||||

Japanski Twitter-notandinn Mttkmsan ákvað í sakleysi sínu um daginn að birta mynd af ketti nágranna síns er hann var að teygja sig í svefni.

Þessi mynd Mttkmsan fór heldur betur eins og eldur um sinu í japanska Twitter-samfélaginu og er það nú orðið gríðarlega vinsælt þar í landi að birta myndir af kisum að teygja sig á samfélagsmiðlinum.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af þessum ofurkrúttlegu myndum, en vefsíðan Bored Panda tók saman fleiri myndir sem hægt er að skoða hér.

10 mínútna æfing sem gerir rassinn stinnan

Þjálfarinn Nicole Steen er búin að setja saman tíu mínútna æfingarrútínu sem er ætluð til að gera rassinn stinnari, ef æfingin er gerð reglulega.

Hér þarf engin tól eða tæki, bara eigin líkamsþyngd, en gott er að vera með mottu eða teppi fyrir hnén. Þessi æfing er vægast sagt algjör snilld.

Barnaárið byrjar vel

Blessað barnalánið hefur ekki látið á sér standa það sem af er ári, en margir þekktir Íslendingar hafa verið duglegir að fjölga mannkyninu á fyrrihluta árs 2018.

Samfélagsmiðlastjarnan Aron Már Ólafsson, eða Aron Mola eins og hann er oftast kallaður, ákvað að stela þrumu ritstjórans Davíðs Oddssonar með því að eignast barn á afmælisdegi hans, þann 17. janúar. Það kom ekki á óvart að Aron tilkynnti um fæðingu barnsins á samfélagsmiðlum, en hann deildi fallegri mynd af sér, kærustu sinni Hildi Skúladóttur, og litla syninum.

Til hamingju með daginn Davíð Oddsson. Minn dagur var samt aðeins betri

A post shared by Aronmola (@aronmola) on

Þá eignuðust hjónin Bergur Ebbi og Rán Ingvarsdóttir son í byrjun febrúar. Bergur Ebbi greindi frá fæðingu barnsins á Facebook-síðu sinni en eitthvað hefur sonurinn verið að flýta sér í heiminn því aðeins liðu fjörutíu mínútur frá því að hjónin mættu uppá fæðingardeild og þar til sonurinn mætti í öllu sínu veldi.

Spéfuglinn Saga Garðarsdóttir og tónlistarmaðurinn Snorri Helgason eignuðust stúlku á síðasta degi febrúarmánaðar, en Snorri tilkynnti það á mjög einlægan hátt á Facebook.

„Fal­leg­asta mann­vera sem nokkru sinni hef­ur verið til. Við erum mjög ham­ingju­söm lít­il fjöl­skylda.“

Vika

A post shared by Saga Garðarsdóttir (@harmsaga) on

Nóg af börnum á leiðinni

Svo eru það öll börnin sem eiga eftir að koma í þennan heim á árinu, en mikið af sónarmyndum hefur fengið að fljóta um samfélagsmiðla að undanförnu.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, sem nýverið hlaut Edduverðlaun sem sjónvarpsmaður ársins, á von á dreng með kærustu sinni, Ágústu Sveinsdóttur, í ágúst. Þá eiga Arnar Gunnlaugsson og María Builien Jónsdóttir einnig von á barni á árinu, sem og listamaðurinn Ragnar Kjartansson og myndlistarkonan Ingibjörg Sigurjónsdóttir. Rithöfundurinn og leikarinn Ævar Þór Benediktsson og unnusta hans, Védís Kjartansdóttir, geta einnig glaðst, en þau eiga von á erfingja í ágúst.

Ein af krúttlegustu óléttutilkynningum það sem af er árinu er án efa mynd sem fitness-drottningin Kristbjörg Jónasdóttir og fótboltamaðurinn Aron Einar Gunnarsson settu inn á Instagram. Þar sést sonur þeirra Óliver í bol sem á stendur: „Ég er að verða stóribróðir.“

Svo má ekki gleyma Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur og Víði Guðmundssyni sem eiga von á tvíburum á árinu og ákváðu að búa til heilt lag til að opinbera það, ekki bara á íslensku heldur á ensku líka. Þetta kallar maður metnað!

Tók sjálf á móti barninu í miðjum keisaraskurði

|||||
Jiminn

Ljósmóðirin Emily Dial gerði nokkuð frekar magnað um helgina; hún tók sjálf á móti barni sínu í miðjum keisaraskurði.

Emily vissi strax að hún vildi taka virkan þátt í fæðingu barnsins, dóttur sem hefur hlotið Emma Kaye. Fyrsta barn Emily, Grayson, kom í heiminn með keisaraskurði en lést tíu dögum seinna út af því að lungu hans uxu ekki. Þegar Emily eignaðist sitt annað barn, dótturina Ellu sem nú er fjögurra ára, var ljósmóðirin of veik til að taka þátt.

Mögnuð mynd.

Þannig að, þegar Emily fékk að vita að hún ætti von á sínu þriðja barni sagðist hún vilja hjálpa samstarfsmönnum sínum við Frankfort Regional-sjúkrahúsið að taka á móti barninu.

Áður en skurðaðgerðin hófst þvoði Emily hendur sínar, setti á sig hanska og bað ljósmyndarann Söruh Hill að vera reiðubúna að mynda herlegheitin. Það sem gerir þessa stund enn stórkostlegri er að Emily tók á móti barni ljósmyndarans fyrir tveimur árum síðan.

Hér sést Emily ná taki á dóttur sinni áður en hún dró hana úr kviði sínum.

Sjá einnig: Fæddi barn á ganginum og ljósmyndarinn náði stórkostlegum myndum af því.

Þegar kom að því að taka á móti barninu var Emily frekar hissa að þetta væri stúlkubarn.

Jiminn, hvað þetta er fallegt.

„Ég var í sjokki og dáðist að henni. Ég var ekkert að hugsa um að kviðurinn á mér væri galopinn. Ég hugsaði bara: Guð minn góður. Þetta er í alvörunni stúlka,“ segir Emily í viðtali við tímaritið People.

Emily kyssti ekki dóttur sína þegar hún kom í heiminn því hún vildi að allt væri sótthreinsað og að Emma væri heilbrigð.

„Ég bar hana upp að andliti mínu, horfði á hana og sagði: Mig langar svo mikið að halda á þér.“

Gott að vera komin til mömmu.

Sjá einnig: Áhrifamiklar fæðingarmyndir verðlaunaðar.

Emily vonar að saga hennar hjálpi öðrum konum sem þurfa að fæða börn með keisaraskurði.

„Þó þú takir ekki sjálf á móti barninu þá geturðu samt tekið virkan þátt í fæðingunni og átt frábæra lífsreynslu.“

Falleg stund.

Myndir / Sarah Hill

Konur af erlendum uppruna opnuðu Milljarð rís

|||||
04. tbl. 2018

Samtakamátturinn var allsráðandi í hádeginu í gær í Hörpu og víða um land. Fullt var úr dyrum í Norðurljósasalnum; konur, karlmenn og börn mættu á Milljarð rís um allt land og dönsuðu gegn ofbeldi gegn konum og stelpum. Í ár tileinkaði UN Women á Íslandi dansinn konum af erlendum uppruna sem þurft hafa að þola margþætta mismunun, kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi.

„Stemningin hér í dag var algjörlega mögnuð og opnunaratriði kvenna af erlendum uppruna hreyfði svo sannarlega við fólki, það var ekki annað hægt að tárast yfir frásögnum kvennanna. Það er ekki á hverjum degi sem við upplifum samstöðuna líkt og hún birtist okkur í dag því hér í dag gafst almenningi tækifæri til að mótmæla ofbeldinu með gleði og dansinn að vopni,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Stemningin í Hörpu var ólýsanleg.

Er þetta í sjötta sinn sem UN Women í samstarfi við Sónar Reykjavík efnir til dansbyltingarinnar Milljarður rís. Dansað var víða um land í Hörpu, Akureyri, Seyðisfirði, Suðurnesjum, Neskaupstað, Hvammstanga, Borgarnesi, Egilsstöðum og á Höfn í Hornafirði.

Nichole Leigh Mosty steig á stokk.

Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi ávarpaði viðstadda dansara í upphafi og minnti almenning einnig á sms-neyðarsöfnun UN Women Íslandi í þágu Róhingjakvenna en enn er hægt að leggja átakinu lið og senda sms-ið KONUR í 1900.

Eftirfarandi konur stigu á stokk: Nichole Leigh Mosty, Claudia Ashornie Wilson, Tatjana Latinovic, Eliza Reid, Laura Cervera og Elisabeth Lay.

Agndofa gestir.

Óvæntar stjörnur stigu á stokk í ár en Sísí Ey tók lagið auk þess sem Barakan Drum and Dance trommaði og tryllti dansara Hörpu í dag og sá svo sannarlega til þess að gestir fóru dansandi inn í helgina.

Hátíð í Hörpu.
Þvílíkur kraftur!

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Fegurð, glæsileiki og sérstaða

|||||
|||||

Þeir eru hannaðir til að fanga athygli okkar út frá fegurð, glæsileika og sérstöðu. Þeir eru bílarnir sem við fáum aldrei að aka, einfaldlega vegna þess að suma þeira er ekki hægt að setja í gang.

Bílasýningin í Genf er einn stærsti viðburðurinn í bíladagatali Evrópu. Þar koma saman nær allir bílaframleiðendur heims og kynna bæði ný módel og nýja bíla, en einnig nýjar hugmyndir sem gefa vísbendingar um í hvaða átt bílaiðnaðurinn er að þróast.

Flesta þessa bíla eigum við eftir að sjá á götunum eftir nokkur ár og jafnvel keyra þá sjálf. En svo eru það hinir bílarnir. Þessir sem framleiðendur nota til að skapa sér sérstöðu og fanga athygli gesta og blaðamanna með útliti og nýjungagirni, sem og alveg fáránlega kraftmiklum vélum og  enn fáránlegri verðmiðum.
Þetta eru frumgerðir og hugmyndabílar, framleiddir í örfáum eintökum eða jafnvel stakir. Flestir þeirra komast aldrei á framleiðslustig. Sumir þeirra hafa ekki einu sinni vélar.

En þeir vekja engu að síður ávallt mestu athyglina og fá okkur til að dreyma. Hér eru smá úrval af þeim sem voru frumsýndir í Genf í liðinni viku.

Zenovo TSR-S.

Zenovo TSR-S. Danir eru þekktari fyrir falleg húsgögn og góðan bjór en ofurbíla. Danski framleiðandinn Zenovo er að breyta þessu og kynnti hann til sögunnar TSR-S götu-útgáfa af kappakstursbílnum TSR. Ef þú ert hógvær þá geturðu fengið hann í 700 hestafla útgáfu, en annars er hann 1.177 hestöfl úr kassanum. Það þýðir að samkvæmt tölum frá Vísindavef háskóla Íslands er einungis hægt að búa til 60 svona bíla með öllum hestum Íslands.

Ástæðan þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Hann kemst ekki yfir hraðahindranir og þar af leiðandi ekki upp í hesthús.

Renault EZ-GO.

Renault EZ-GO. Þessi sjálfkeyrandi rafmagnsbíll frá Renault er meðal framúrstefnulegustu bíla sýningarinnar í ár. Þeim er ætlað að vera leigubílar framtíðarinnar, eða alla veganna gefa hugmynd um hvernig þeir gætu litið út. Hljóðlátir, frábært útsýni og hagkæmni er meðal kosta bílsins.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Að öllum líkindum munum við nota svona bíla, eða eitthvað í átt við þá, í nálægri framtíð. Ef til vill sem hluta af fyrirhugaðri borgarlínu. En þú munt ekki keyra hann. Internetið mun keyra hann fyrir þig.

Sin R1 550 hybrid.

Sin R1 550 hybrid. Af hverju að hafa eina vél þegar þú getur haft tvær? Sin er glænýr og afar sérhæfður bílaframleiðandi, en fyrirtækið var stofnað árið 2012. R1  er í raun þeirra eini bíll, og hér er hægt að fá hann í nýrri tvinnvéla útgáfu. 120 hestafla rafvél sér um framdekkin og 450 hestafla vél um afturdekkin.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Þú hefur því ekki efni á honum.

E’mobile Microlino.

E’mobile Microlino. Þessi bíll er fullkominn fyrir höfuðborgarsvæðið. Þú finnur alltaf stæði, hann er einkar sparneytinn, gengur fyrir rafmagni, ofboðslega sætur og ekki dýr! Þetta er algjör sigurvegari. Nema það er bara pláss fyrir einn og hann lítur ekki út fyrir að vera góður í rokinu á Kjalarnesi eða í snjónum í efra-Breiðholtinu.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Það er snjór og rok allstaðar á Íslandi.

Aston Martin Lagonda.

Aston Martin Lagonda. Þessi útgáfa af Lagonda er ekki nýr bíll heldur ný útgáfa, en er án efa einn fallegast bíllinn sem til sýnis er á bílasýningunni í Genf. Hann lítur út fyrir að vera beint úr Blade Runner nema hvað tekist hefur að bjarga jörðinni svo hún er orðin græn aftur og vélmennin eru vinir okkar. Hér mætast framtíð og fortíð á fullkominn hátt bæði hvað varðar tækni og útlit.

Ástæða þess að þú munt aldrei keyra þennan bíl: Hann verður aldrei framleiddur. Hann er algjörlega út úr kú er kemur að hagkvæmni í framleiðslu og ber frekar að líta á hann sem listaverk en bíl.

UN Women á Íslandi hefur neyðarsöfnun fyrir Róhingjakonur

Lýstu upp myrkrið – þú getur hjálpað.

Í sjötta sinn er ætlunin að sameinast í yfir tvö hundruð löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu. UN Women á Íslandi í samstarfi við Sónar Reykjavík hvetja alla til að mæta í Hörpu 16. mars kl. 12-13 og dansa gegn kynbundnu ofbeldi.

Stella Samúelsdóttir er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og hefur yfirumsjón með verkefnum og daglegum rekstri UN Women á Íslandi ásamt því að vera talskona samtakanna.

Stella Samúelsdóttir er framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og hefur yfirumsjón með verkefnum og daglegum rekstri UN Women á Íslandi ásamt því að vera talskona samtakanna. Stella hefur meira og minna verið búsett erlendis síðustu 15 árin. Fyrst á Ítalíu, svo í Malaví og loks í Bandaríkjunum. Hún hefur víðtæka starfsreynslu á sviði þróunarsamvinnu, reksturs og viðskipta.

Getur þú sagt okkur frá helstu viðburðum í tengslum við neyðarsöfnunina?
„Vð hjá UN Women á Íslandi, í samstarfi við Sónar Reykjavík, skemmtilegasta viðburð ársins – dansbyltinguna Milljarður rís, föstudaginn 16. mars kl. 12-13 í Hörpu. Í sjötta sinn ætlum við að sameinast í yfir tvö hundruð löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu með gleði að vopni. Í ár tileinkum við dansinn öllum þeim konum af erlendum uppruna hér á landi sem þurft hafa að þola kynferðislegt, líkamlegt og kerfisbundið ofbeldi. Raddir kvenna af erlendum uppruna verða að fá heyrast.”

Segðu okkur aðeins frá tilurð og framkvæmd söfnunarinnar?
„Við hjá UN Women á Íslandi efnum til neyðarsöfnunar fyrir Róhingjakonur í Bangladess sem hafa þurft að þola gróft ofbeldi og búa við grimman veruleika.UN Women starfrækir neyðarathvarf fyrir konur í flóttamannabúðum í Cox´s Bazar í Bangladess þar sem Róhingjakonur hljóta áfallahjálp, atvinnutækifæri og öryggi gegn ofbeldi. UN Women dreifir einnig sæmdarsettum til kvennanna sem inniheldur helstu hreinlætisvörur, teppi, vasaljós og vistvæn kol til matseldar og upphitunar.“

Stella segir að neyðin sé gríðarleg og mikilvægt að bregðast við hið fyrsta. ,,UN Women vantar sárlega fjármagn til að veita konum kvenmiðaða neyðaraðstoð með tilliti til þarfa kvenna og barna þeirra. Tryggja þarf áframhaldandi rekstur neyðarathvarfsins, ef ekkert verður að gert lokar neyðarat-hvarfið nú í apríl. Við hvetjum alla til að senda SMS-ið KONUR í 1900 (1900 kr.) og styrkja áframhaldandi starfsemi neyðarathvarfs fyrir konurnar í flóttamannabúðunum.“

,,Við hvetjum alla til að leggja Róhingjakonum lið. Með því að senda SMS-ið KON-UR í 1900 styrkir þú neyðarathvarf UN Women fyrir konur í flóttamanna-búðunum þar sem konur hljóta áfallahjálp, fá sæmdarsett, atvinnutækifæri og öryggi gegn ofbeldi.“

Er vitundarvakning á Íslandi þegar kemur að neyðarkalli sem þessu?
„Miðað við þann stuðningu sem við hjá UN Women á Íslandi höfum fundið undanfarin ár eru landsmenn svo sannarlega meðvitaðir um að styðja við og valdefla systur okkar um allan heim. Við erum einnig stolt af því að við hjá landsnefnd UN-Women á Íslandi sendum hæsta fjárframlag til verkefna allra landsnefnda sem eru alls fimmtán talsins. Sú staðreynd er sönnun þess hve almenningur hér á landi er meðvitaður um bága stöðu kvenna og stúlkna víða um heim og mikilvægi þess að valdefla konur og stúlkur sem búa við grimman veruleika.“

Neyðin er brýn og það er ákall um hjálp, hefur þú fundið á eigin skinni hversu brýn þörfin er og að eitthvað sé að gert?
„Þörf Róhingjakvenna í Bangladess fyrir aðstoð og stuðning er þeim lífsnauðsynleg líkt og við höfum séð í heimsfréttum að undanförnu. Um 400 þúsund konur dvelja um þessar mundir í flóttamannabúðunum og þora ekki að vera úti við af ótta við ofbeldi. UN Women hefur eins og er bolmagn til að fjármagna eitt neyðarathvarf sem mögulega lokar í apríl ef ekki tekst að fjármagna áframhaldandi starfsemi athvarfsins. Konur í búðunum búa við grimman veruleika, eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi og í bráðri hættu á að vera hnepptar í mansal eða kynlífsþrælkun en konur í neyð sem þessari eru berskjaldaðar fyrir slíku ofbeldi. Okkar hlutverk er að valdefla konur í aðstæðum sem þessum og útvega þeim réttu verkfærin til að vinna sig úr þessum erfiðu aðstæðum.“

24 þúsund Róhingjakonur í búðunum eru ýmist barnshafandi eða með barn á brjósti

Hver er staðan hjá Róhingjakonum í dag? Hversu alvarleg er staðan og getur þú lýst þeirri grimmd sem þær búa við?
„Róhingjakonur eru rúmlega helmingur þeirra sem dvelja í flóttamannabúðum í Cox´s Bazar, Bangladess. Þær eru hvergi sjáanlegar en konur í búðunum dvelja að meðaltali inni í 21-24 klst. á sólarhring vegna stöðugs ótta við ofbeldi. Í neyð sem þessari eru konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi. Stöðug hætta á ofbeldi, kynferðislegri misnotkun eða mansali vofir yfir konum og stúlkum í búðunum en nauðganir á konum og stúlkum hafa verið notaðar sem markvisst stríðsvopn í þessum blóðugu átökum. Nánast allar konur og stúlkur í búðunum hafa orðið vitni að eða verið beittar grófu kynferðislegu ofbeldi á borð við nauðgun, hópnauðgun. Í mörgum tilfellum voru konur og stúlkur látnar horfa á þegar hermenn myrtu börn þeirra eða foreldra áður en þeir hófu að nauðga þeim. Konur og stúlkur þurfa einnig að deila salernisaðstöðu/sturtuaðstöðu með körlum sem gerir einnig að verkum að konur fara nánast ekki út fyrir heimilið af ótta við ofbeldi.“

UN Women á Íslandi er í góðu samstarfi við samstarfsaðila um heim allan. „Við eigum í góðu samstarfi við svæðisskrifstofur UN Women um allan heim, höfuðstöðvar UN Women í New York og vinnum ýmis verkefni samhliða öðrum landsnefndum UN Women sem starfa í þágu UN Women líkt og við gerum hjá íslensku landsnefndinni.“

Nú hefur þú lagt málum sem þessum lið í áranna rás með ýmsum hætti, brennur þú fyrir því að láta gott af þér leiða til kvenna í neyð? Er þetta ástríða þín í starfi og leik?
„Já, það má segja að jafnréttismál séu eitthvað sem ég brenn fyrir og hef gert allt frá unga aldri og þau eru í raun rauði þráðurinn í öllum mínum störfum. Eftir að hafa starfað í fimm ár í Malaví, einu fátækasta ríki heims, sem og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hef ég styrkst enn frekar í þeirri ástríðu að starfa að jafnréttismálum. Þetta er svo mikilvægt fyrir okkur öll, hvar sem við erum í heiminum. Það er staðreynd að þeim löndum sem búa við mesta jafnréttið vegnar betur á öllum sviðum. Það er alveg nauðsynlegt að kvenmiða neyðaraðstoð, því þarfir kynjanna eru ólíkar. Hingað til hafa raddir kvenna ekki heyrst og þar af leiðandi ekki verið tekið tillit til þeirra þarfa. Þessu þarf að breyta og það gerir UN Women.“

Stella hvetur alla þá sem geta lagt lið með einhverjum hætti að taka þátt og minnir á að margt smátt gerir eitt stórt. ,,Hver króna skiptir máli og við þökkum öllum velunnurum UN Women á Íslandi kærlega fyrir stuðninginn. Hann er ómetanlegur. Við hlökkum til að sjá sem flesta á dansbyltingunni Milljarður rís og dansa þar saman gegn kynbundnu ofbeldi.“

Milljarður rís í Hörpu

Í sjötta sinn er ætlunin að sameinast í yfir tvö hundruð löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu. UN Women á Íslandi í samstarfi við Sónar Reykjavík hvetja alla til að mæta í Hörpu 16. mars kl. 12-13 og dansa gegn kynbundnu ofbeldi. Í fyrra komu saman um fjögur þúsund manns á öllum aldri um allt land í tilefni af Milljarður rís. Í ár verður dansað um allt land, í Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Hvammstanga og Borgarnesi. Samtakamátturinn verður allsráðandi.

Í ár tileinkar UN Women á Íslandi Milljarð rís konum af erlendum uppruna sem þurft hafa að þola margþætta mismunun og ofbeldi. Þær munu eiga sviðið í ár.

DJ Margeir heldur uppi stuðinu líkt og undanfarin ár og lofa UN Women óvæntum viðburðum og ógleymanlegri upplifun.

Allir eru hvattir til að mæta og láta jörðina hristast með samtakamættinum.

Milljarður rís er haldinn víða um land; í Hörpu Reykjavík, Hofi Akureyri, Hljómahöll Reykjanesbæ, Þrykkjunni vöruhúsi, Félagsheimilinu Herðubreið Seyðisfirði, Íþróttahúsinu Neskaupstað, Íþróttahúsinu Egilsstöðum og Félagsheimilinu Hvamms-tanga.

Vissir þú að?
– 96% kvenna í búðunum segjast ekki hafa fengið ráðið eigin
ráðahag.
– Um 45% Róhingjakvenna hafa verið giftar á barnsaldri.
– 24 þúsund Róhingjakonur í búðunum eru ýmist barnshafandi eða með barn á brjósti.

Stúdíó Birtíngur í samstarfi við UN Women á Íslandi.
Texti / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Úr einkasafni UN Women

 

Grátlega nálægt því að hafa ekki efni á að vera með krabbamein

|||
|||

Lára Guðrún Jóhönnudóttir og Kristleifur Daðason voru búin að vera saman í tvö ár þegar Lára greindist með brjóstakrabbamein, sama sjúkdóm og dró móður hennar til dauða þegar Lára var unglingur.

Lára fór í eggheimtu svo þau gætu fryst fósturvísa, ef ske kynni að krabbameinið gerði hana ófrjóa. Þeim blöskrar að þeim finnist þau vera í forréttindastöðu því þau hafa efni á að Lára sé með krabbamein. Lára heitir því að berjast fyrir því að sjúklingar þurfi ekki að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu.

„Við getum ekki sagt að það sé jöfnuður í samfélaginu á sama tíma og fólk þarf að selja bílinn sinn áður en það getur farið í frjósemismeðferð til að reyna að eignast barn. Það ættu ekki að vera forréttindi,“ segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir.

Verkefnisstjóri yfir brjóstinu sínu

Saga Láru er um margt merkileg. Lára var aðeins sautján ára, elst þriggja systkina, þegar hún missti móður sína úr brjóstakrabbameini eftir eins og hálfs árs baráttu við sjúkdóminn. Lára gekk systkinum sínum í móðurstað í skugga hræðilegs sjúkdóm og þurfti ung að bera mikla ábyrgð og áhyggjur á sínum herðum. Það var svo fyrir rúmu ári síðan að hún sjálf greindist með brjóstakrabbamein. Lára og kærasti hennar, Kristleifur Daðason, voru aðeins búin að vera saman í tvö ár þegar Lára greindist, en voru þó farin að huga að barneignum. Þegar áfallið dundi yfir ákváðu þau strax að Lára færi í eggheimtu þannig að þau gætu fryst fósturvísa, ef ske kynni að krabbameinið hefði áhrif á frjósemi Láru, sem miklar líkur voru á.

„Það er rosalega mikið áfall eitt og sér að greinast með krabbamein, alveg sama hvaða meðferð tekur við. Maður hefur ekki stjórn á neinu,“ segir Lára.

„Fyrir rétt rúmu ári vissi ég í fyrsta skipti nákvæmlega hvert ég stefndi í lífinu og hvað mig langaði til að læra. Allt var að smella. Þá kom krabbameinið eins og þruma úr heiðskíru lofti. En það má segja að ég hafi náð að þróa með mér mikla aðlögunarhæfni síðan ég var krakki. Ég bjó við erfiðar heimilisaðstæður og þurfti að taka mikla ábyrgð mjög ung. Ég leit á krabbameinið sem verkefni. Þetta var bara vinnan mín og ég tók það mjög skipulega fyrir. Ég segi stundum að ég sé verkefnisstjóri yfir brjóstinu mínu,“ segir Lára og hlær sínum smitandi hlátri.

„One tit wonder er líka eitthvað sem ég er að vinna með. Einbrystingur. Og hann er einhyrningurinn minn,“ segir Lára og gjóir augunum á sinn heittelskaða. Þeim Kristleifi er tíðrætt um hvað þau séu heppin, mitt í allri óheppninni. Að þau séu í raun heppnasta óheppnasta fólkið í heimi. Þau nota húmorinn til að takast á við erfiðu tímana en þrátt fyrir allt segir Kristleifur að síðasta ár einkennist af mikilli fegurð, þó móðukennt sé.

„Þegar hún greindist með krabbamein fannst mér þetta fyrst og fremst ótrúlega ósanngjarnt fyrir hana. Þetta var eiginlega fáránlegt tímabil. Ég var búinn að vera í vinnubasli í sprotafyrirtækjum, sem er mjög gaman og gefandi en fjárhagslega erfitt. Svo gerðist allt á fjórum vikum: ég var plataður í vinnuviðtal hjá flottu fyrirtæki, fékk óvænt vinnu með fín laun og Lára greindist. Þetta var alveg fáránlegt og eins og allt í einu væri kominn grundvöllur fyrir þetta allt saman. Mamma mín og pabbi hafa hjálpað okkur fáránlega mikið og við erum svo ótrúlega heppin með allt, fyrir utan hvað þetta er ósanngjarnt og vont,“ segir Kristleifur og Lára tekur undir þetta.

Lára og Kristleifur standa þétt saman.

„Á þessum tíma fundum við hvað samband okkar var rétt. Það eina sem vantaði á þessu tímabili voru flutningar og náttúruhamfarir til að tikka í öll box yfir mest streituvaldandi atburði sem manneskja getur farið í gegnum á einum mánuði. Þetta voru eiginlega persónulegar náttúruhamfarir. En allt í einu meikaði allt sens.“

Fann ekki afsökun til að sleppa stefnumótinu

Í framhaldinu rifjar parið upp hvernig þau kynntust. Eins og svo mörg nútímapör kynntust þau á Netinu, en þó ekki í gegnum „hefðbundnar“ leiðir eins og stefnumótaforrit.

„Sameiginleg vinkona okkar var að auglýsa eftir skrifborðsstólum og ég, verandi hávaxin og vinkona mín fíngerð og nett, að bjóða fram líkama minn sem stól, eða eitthvað í þá áttina,“ segir Lára og hlær. Athugasemdin við þessa saklausu færslu vakti áhuga Kristleifs, sem í kjölfarið bauð henni í kaffi.

„Honum fannst ég eitthvað fyndin á Netinu og spurði hvort við ættum að hittast í kaffi 3. mars. Ég sagðist ekki vera laus fyrr en 14. mars, sem var líka alveg satt því ég var í sleitulausri vinnutörn, þannig að ég hafði ellefu daga til að finna afsökun til að fara ekki. En ég fann enga afsökun. Þetta var bara rétt,“ segir Lára.

„Þetta var alveg fáránlegt. Við bara smullum saman strax. Þetta hefur verið ágætis rússíbani síðan þá,“ segir Kristleifur.

Ekki pláss fyrir meðvirkni

Það sést langar leiðir að þau Kristleifur og Lára standa þétt saman, eru hugfangin af hvort öðru og líður vel saman. Lára segir að lykillinn að þeirra sterka sambandi séu heiðarleg samskipti.

„Það er ekki pláss fyrir meðvirkni þegar maður er að berjast við krabbamein. Ef hún er til staðar er hún fljót að þvælast fyrir og þá þarf að henda henni út. Við höfum þurft að kynnast á hraðferð en við vissum bæði hvað við vildum þegar við byrjuðum að vera saman. Það hefur aldrei verið neinn efi í okkar sambandi og við eigum mjög auðvelt með að vera í heiðarlegum samskiptum. Ég er líka svo örugg með honum. Ég get farið í gegnum allar tilfinningasveiflur. Ég get öskrað, grenjað, hlegið, stappað niður fótum og hagað mér eins og krakki en hann tekur mér alltaf eins og ég er.“

Sonurinn stoltur af mömmu

Lára og Kristleifur búa saman með syni Láru úr fyrra sambandi, Þorvaldi Herði, sem er alveg að verða tíu ára. Lára var að fara að hætta á getnaðarvarnarpillunni þegar hún greindist með krabbamein, enda barneignir á framtíðarplaninu hjá parinu.

„Við vorum búin að setja upp plan fyrir árið. Næsta skref var að hætta á pillunni. Það hefði verið harmleikur ef ég hefði verið ólétt þegar ég greindist þannig að við sluppum með skrekkinn þar, ef svo má segja. Eins og ég segi, ég er heppnasta óheppnasta kona í heimi,“ segir Lára og brosir. Hún segir Þorvald hafa staðið sig ofboðslega vel í gegnum veikindi móður sinnar, en þau Lára og Kristleifur ákváðu strax að segja honum alltaf satt og ekki leyna hann neinu.

„Hann er ótrúlega stoltur af mömmu sinni. Um leið og við fengum stóra K-ið staðfest þá sögðum við honum frá því. Hann er búinn að vera mjög opinn og á auðvelt með að tala um þetta. Hann hefur þurft að læra ótrúlega mikið á mjög stuttum tíma. Hann er gömul sál og rosalega næmur, sem getur verið galli því hann skynjar allt. En af því að hann er svona næmur þá erum við enn meira á tánum að segja honum frá öllu til að búa ekki til óþarfa kvíða hjá honum. Af fenginni reynslu finnst mér mjög mikilvægt að hafa börnin með í þessu ferli því þau vita miklu meira en fullorðnir gera sér grein fyrir. Þegar móðir mín var veik var ýmsu haldið leyndu fyrir systkinum mínum sem gerði áfallið þegar hún dó enn meira fyrir þau,“ segir Lára og bætir við að það hafi verið skrýtin upplifun að segja syni sínum frá meininu.

„Ég þurfti að segja yngri systkinum mínum að mamma væri látin úr brjóstakrabbameini, þannig að það var skrýtið að segja barninu mínu að ég væri með sama sjúkdóm. Það var mjög súrrealísk upplifun.“

Lára segir einnig að móðurmissirinn hafi að vissu leyti undirbúið hana fyrir þessa baráttu og að það að greinast með krabbamein hafi ýtt henni í að vinna meira í sér sjálfri.

„Ég held að innst inni hafi ég undirbúið mig fyrir þetta alla ævi. Ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi og vildi ekki, var fljót að taka ákvarðanir og varð strax verkefnastýra yfir þessum sjúkdómi. Mér fannst það að mamma hafði dáið úr sama sjúkdómi bara styrkja mig ef eitthvað er. Ég tók þessu líka sem opnum glugga til að taka mig í gegn. Taka til í sálartetrinu og fara í gegnum gömul áföll. Vera dugleg að fara til sálfræðings og endurforrita mig. Ég var svo ung og tók mikla ábyrgð snemma að ég fékk aldrei að vera ég, fékk aldrei að vera unglingur. Og út af þessari sjálfsvinnu þá er ég í raun að syrgja foreldrið sem ég missti fyrst núna.“

Krabbamein frípassi til að tala um frjósemi

Lára slapp við lyfjameðferð eftir brjóstnám.

Þegar Lára greindist var meðferðarplanið brjóstnám, eggheimta, lyfjameðferð og andhormónameðferð. Eftir brjóstnámið, þar sem annað brjóstið var tekið af henni, kom í ljós að hún þyrfti ekki að fara í lyfjameðferð, sem þýðir að minni líkur eru á að hún verði varanlega ófrjó vegna krabbameinsins. Vegna óvissu í kringum sjúkdóm Láru fór hún í þrjár eggheimtur til að frysta fósturvísa svo plön þeirra Kristleifs um fjölskyldu í framtíðinni gætu mögulega ræst.

„Þegar maður er að spila með framtíðina, fjölskylduna og lífsgæðin þá tekur maður enga sénsa. Það er ekkert sjálfgefið að það náist fósturvísar úr hverri eggheimtu og margir fara oft án þess að fá neitt,“ segir Lára, en vegna fyrrnefndar óvissu voru þessar eggheimtur framkvæmdar á styttri tíma en vanalega.

„Þegar hún fór í eggheimtu var ekki komið í ljós hvað við værum heppin með meinið. Því var farið hraðar í þessa meðferð og hún var mjög stutt og snörp,“ segir Kristleifur. Þau Lára eru sammála um að þessi fyrirbyggjandi frjósemismeðferð hafi verið mun erfiðari en þau bjuggust við.

„Af öllu sem gekk á kom mér mest á óvart að þetta var það sem tók mest á. Ég þurfti að sprauta mig daglega og eggjastokkarnir urðu á stærð við vínberjaklasa. En Kristleifur var með mér allan tímann, í hvert einasta skipti sem ég sprautaði mig. Það var frekar notalegt. Við gerðum þetta allt saman. En þetta er rosalega mikið álag og mikið hormónarúss. Mér finnst magnað hve margir sem fara í gegnum þetta bera harm sinn í hljóði því þetta er svo mikið feimnismál. Fyrir mig var krabbameinið eins og frípassi til að mega tala um þetta. Það var gott að geta talað um þetta og vera opin með þetta,“ segir Lára. Brjóstnámið reyndist henni að mörgu leyti auðveldara, ef svo má að orði komast.

„Ég var ótrúlega fljót að aðlagast því að vera bara með eitt brjóst. Það er persónuleg ákvörðun hverrar og einnar konu hvort hún vilji fara í uppbyggingu eftir að brjóstið er tekið, en ég var mjög ákveðin að fara ekki í uppbyggingu. Ég ákvað að klára aðgerðina og sjá svo til seinna. Ég hef aldrei verið með stór brjóst þannig að þetta er ekki mikil breyting, útlitslega séð. Þetta háir mér ekki og það er ótrúlega magnað hvað ég var fljót að venjast þessu. Mér finnst þetta bara meira kúl en eitthvað annað. Það hefur líka hjálpað að ég er með heilbrigða líkamsímynd og líður ágætlega í eigin skinni.“

Svefntruflanir og hitakóf

Ef allt gengur að óskum geta Lára og Kristleifur byrjað að reyna að eignast börn eftir tvö ár í fyrirbyggjandi krabbameinsmeðferð, sem Lára er búin að vera í samtals í fimm mánuði. Sú meðferð tekur einnig á.

„Þetta eru svokölluð klínísk tíðahvörf þannig að ég fer kannski tvisvar á breytingaskeiðið. Heppin!“ segir Lára og hlær. „Þessi meðferð fer misvel í fólk og ég finn alveg fyrir þessu. Ég er orðin stirð, fæ hitakóf, nætursvita, svefntruflanir og er haldin einbeitingarskorti. Það sem hefur bjargað miklu í þessu ferli er að ég fer í heitt jóga og svo í Mjölni tvisvar í viku í einkaþjálfun. Það er búið að bjarga geðheilsunni og líkamanum og hvernig ég tekst á við framtíðina. Mér líður eins og ég sé að blása köngulóarvefnum burt úr heilanum.“

Hélt að allt yrði niðurgreitt

Lára og Kristleifur eru sammála um að starfsfólk Landspítalans hafi haldið vel utan um þau og hugsað vel um litlu fjölskylduna á þessum erfiða tíma. Þeim blöskrar hins vegar þau miklu fjárútlát sem sjúklingar þurfa að fara út í aðeins við það að veikjast.

„Af mannúðarástæðum ættum við að niðurgreiða krabbameinsmeðferð fyrir fólk að fullu og allt sem henni fylgir. Ef maður hreinsar allar tilfinningar og náungakærleika út úr dæminu, sem við ættum auðvitað ekki að þurfa að gera, þá er þetta bara spurning um skilvirkni. Það er ekki skilvirkt að láta krabbameinsveikt fólk steypa sér í skuldir. Svo er þetta líka spurning um samkeppnisforskot Íslands. Þegar ungt fólk fréttir að það sé í slæmum málum ef eitthvað kemur fyrir það, þá bara flytur það til útlanda,“ segir Kristleifur.

„Ég þekki það að eiga ekki neitt og eiga engan að því ég á ekki foreldra sjálf og er með mjög takmarkað bakland. Ég verð svo reið þegar ég finn að ég er í forréttindastöðu því ég var svo grátlega nálægt því að hafa ekki efni á að vera með krabbamein, sem hefði verið raunin ef þetta hefði fundist fyrir fjórum árum. Ég finn réttláta reiði rísa innra með mér og þetta er slagur sem ég get ekki beðist undan. Þetta má ekki halda svona áfram og ef ég hef orku til að taka þennan slag þá ætla ég að gera það. Við búum í samfélagi sem stærir sig af því að vera með svo mikinn samfélagslegan jöfnuð, en samt upplifi ég það sem forréttindi að fá bestu heilbrigðisþjónustuna og geta stofnað fjölskyldu í framtíðinni. Þá er eitthvað mikið að. Fólk á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort það hafi efni á næstu máltíð eða næstu blóðprufu. Ég sá það mjög fljótt eftir að ég greindist að ef ég hefði verið einstæð hefði lífið farið mjög hratt niður á við,“ segir Lára og bætir við að þegar kom að því að fara í frjósemismeðferðina hefði hún tekið því sem sjálfsögðum hlut að sú meðferð væri að öllu leyti greidd af íslenska ríkinu.

„Ég var svo barnaleg að ég hélt að þetta yrði allt niðurgreitt. Mér fannst fullkomlega absúrd að fólk væri látið greiða fyrir fyrirbyggjandi frjósemismeðferð, því auðvitað er hún hluti af því að greinast með krabbamein. Síðan fórum við í viðtal og leituðum okkur upplýsinga og þá kom í ljós að við þyrftum að leggja út 455 þúsund krónur fyrir fyrstu meðferð, plús geymslugjald sem er 23 þúsund á ári og síðan greiddum við um það bil 50 þúsund krónur í lyf. Þetta var allt saman útlagður kostnaður. Síðan fengum við 65% endurgreiðslu, fyrir meðferðinni sjálfri en ekki lyfjunum, frá Sjúkratryggingum Íslands út af því að ég var í krabbameinsmeðferð og ég fékk hluta endurgreiddan frá stéttarfélaginu mínu. En maður þarf samt að eiga hálfa milljón til að fá eitthvað til baka. Ef við tölum um fólk sem er ekki að berjast við krabbamein þá finnst mér fáránlegt að niðurgreiða aðra til fjórðu meðferð en ekki þá fyrstu, fyrir utan það að líta okkur ekki nær og niðurgreiða meðferðina að fullu eins og tíðkast í nágrannalöndunum.“

Láru og Kristleifi blöskrar að sjúklingar þurfi að steypa sér í skuldir vegna veikindanna.

Ungt fólk með krabbamein lifir af

Þó að Lára taki öllu því sem lífið hendir í hana með brosi á vör og brandara á reiðum höndum, er heimur langveikra einstaklinga og fólks sem greinist með alvarlega sjúkdóma henni hjartans mál. Henni finnst stjórnvöld ekki vera í nokkrum tengslum við samfélagið og ætlar að berjast eins lengi og hún getur fyrir því að rétta það ranglæti sem ríkir í heilbrigðiskerfinu að hennar mati.

„Fólk sem greinist ungt með krabbamein lifir það í alvörunni af. Við getum verið fullnýtir samfélagsþegnar ef við fáum tækifæri til þess. Þó að það verði mitt síðasta þá skal ég ná því í gegn að sjúklingar þurfi ekki að greiða og hafa áhyggjur. Þetta er ekki í boði og skiptir okkur öll ótrúlega miklu máli.“

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, National make up artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Eiga von á frumburðinum í skugga ólæknandi krabbameins

||||
||||

Bjarki Már Sigvaldason hefur barist við krabbamein í rúm fimm ár. Strax í fyrstu lyfjameðferð fékk hann og eiginkona hans, Ástrós Rut Sigurðardóttir, að vita að Bjarki gæti orðið ófrjór eftir meðferðina. Þau ákváðu því að láta frysta sæðisfrumur og eiga von á sínu fyrsta barni saman í ágúst.

„Þetta var klárlega ást við fyrstu sýn og er hann bæði æskuástin mín og eina ástin sem ég hef upplifað í lífinu,“ segir Ástrós Rut Sigurðardóttir. Ástrós kynntist eiginmanni sínum, Bjarka Má Sigvaldasyni, á sínu fyrsta ári í menntaskóla þegar hún var sextán ára og hann sautján. Þegar Ástrós var nítján ára skildu leiðir í þrjú ár en þremur árum síðar blésu þau lífi í neistann sem áður var og þá var ekki aftur snúið.

„Við höfðum gott af því að þroskast aðeins í hvort í sínu lagi en það var alveg klárt mál að við vorum sálufélagar og framtíðin beið okkar saman. Við byrjuðum strax að búa saman og gaf ég Bjarka yndislega viðbót í fjölskylduna í jólagjöf, hana Ronju okkar sem er Labrador. Aldrei hafði ég vitað hversu mikilvægt það er fyrir sálina að eiga hund sem elskar mann skilyrðislaust, er alltaf tilbúinn að fyrirgefa og sleikja sárin. Ronja kom inn í líf okkar á hárréttum tíma, ári áður en Bjarki greindist með 4. stigs illkynja krabbamein. Hún var hinn fullkomni félagsskapur fyrir okkur Bjarka þegar dagarnir voru frekar svartir og náði alltaf að koma okkur út í göngutúr og fá súrefni í lungun,“ segir Ástrós.

Eins og kafteinn í ólgusjó krabbameinsins

Bjarki greindist með krabbamein í ristli í lok árs 2012 en meinið hafði dreift sér í lungu. Greiningin var mikið áfall fyrir parið.

Bjarki og Ástrós standa saman í gegnum þykkt og þunnt.

„Fyrirvarinn var enginn og einkenni lítil sem engin. Æxlið hafði að öllum líkindum byrjað að vaxa tíu árum áður og hafði því góðan tíma til að dreifa úr sér. Ristilkrabbamein eru oft mjög einkennalítil og því er mikilvægt að fara í ristilspeglun og einnig að þekkja sinn líkama. Ef það eru einhver einkenni, láttu tékka á því. Það er betra að að fá að vita að allt sé í standi heldur en að sitja á einkennum og vera svo of seinn.“

Bjarki er búinn að berjast við krabbamein í rúm fimm ár og hefur staðið sig eins og hetja, að sögn Ástrósar. Hún segir eiginmann sinn, sem hún gekk að eiga í fyrrasumar, búinn ótrúlegum lífsvilja en baráttu hans við krabbamein er ekki lokið.

„Krabbameinið er því miður búið að dreifa sér í lungu og heila og við tökum því með rósemi og æðruleysi. Hann hefur farið í margar aðgerðir, svo margar að ég hef ekki tölu á þeim, en alltaf stendur hann upp og tilbúinn í daginn. Hann siglir í gegnum þennan ólgusjó eins og þvílíkur kafteinn og lætur ekkert stöðva sig. Hann er með svakalegan baráttuvilja, þolinmæði og einstaklega gott skap. Þetta eru þrír kostir sem eru virkilega góðir í eiginmanni og föður, enda ekki skrýtið að ég sé búin að negla hring á fingurinn hans. Bjarki er besta mannsefni sem ég þekki og veit ég að margir sem þekkja hann eru mér hjartanlega sammála.“

„Flestir vilja fjölga sér og eignast arfleifð“

Ástrós og Bjarki voru búin að velta barneignum fyrir sér þegar hann greindist óvænt með krabbamein. Þau fengu strax að vita að krabbameinslyfin gætu gert hann ófrjóan og því ákváðu þau að láta frysta sæðisfrumur til að eiga þann kost að eignast einhvern tíma börn saman.

„Barneignir hafa alltaf verið ofarlega í okkar huga. Ef Bjarki hefði verið heilsuhraustur værum við örugglega komin með nokkur stykki. Við erum bæði miklar barnagælur og mig hefur alltaf dreymt um stóra fjölskyldu. Ég þurfti því að breyta draumnum mínum frekar snemma því við fengum strax að vita í fyrstu lyfjameðferð Bjarka að hann gæti orðið ófrjór. Við létum því frysta sæðisfrumur til að eiga fyrir framtíðina. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að sætta mig við það að ég myndi kannski ekki ná heilu fótboltaliði af börnum er sú að smásjárfrjóvgun er dýr og erfið meðferð. Einnig er það mjög mikið álag að eiga börn og annar makinn er alvarlega veikur. Ég má ekki tapa geðheilsunni og þarf að passa upp á sjálfa mig í öllu þessu ferli. Þegar makinn veikist alvarlega þá hugsa ég að það sé algengt að framtíðin sé rædd og spurningar um barneignir komi fram. Flestir vilja fjölga sér og eignast arfleifð og það er akkúrat það sem við Bjarki ræddum í byrjun. Við tókum þó ákvörðun um að komast í gegnum veikindin fyrst og hugsa svo um að eignast börn, álagið var nógu mikið fyrir og við vorum ekkert að flýta okkur, enda ekki nema 24 og 25 ára,“ segir Ástrós.

Hvarflaði að henni að hún væri slæm móðir

Þegar hún og Bjarki fengu þær fréttir þremur árum síðar að krabbameinið væri ólæknandi þurftu þau að hugsa hlutina upp á nýtt.

Ástrós segir það hafa verið ást við fyrstu sýn þegar þau Bjarki hittust fyrst.

„Þarna voru spilin komin dálítið í mínar hendur, enda yrði það ég sem myndi ganga í gegnum meðferð, verða ólétt og töluvert meiri ábyrgð yrði mín megin þar sem Bjarki er reglulega í lyfjameðferðum og aðgerðum og er ekki eins hraustur og ég. Þetta var líka stór ákvörðun fyrir mig, mun stærri en í upphafi, því á þessum tímapunkti var ég að átta mig á því að við Bjarki yrðum líklega ekki gömul saman. Þetta voru svo stórar og fullorðinslegar hugsanir sem áttu hugann minn, að koma með barn inn í þetta líf þar sem pabbinn er lífshættulega veikur og mikið álag á báðum foreldrum. Að pabbinn myndi kannski ekki ná að sjá barnið sitt alast upp og eignast sín börn og gifta sig. Þetta var mér virkilega erfitt. Mér fannst líka erfitt að hugsa til þess hvað ég væri að gera barninu ef Bjarki fellur frá á næstu árum. Að sjá það alast upp föðurlaust fannst mér óhugsandi og það hvarflaði alveg að mér að ég væri slæm móðir fyrir að koma því í heiminn og í þessar aðstæður,“ segir hún og heldur áfram.

„Svo fór ég að hugsa rökrétt. Ég er að gefa barninu frábært líf. Það fær alla þá ást sem það þarf, við Bjarki eigum frábæra fjölskyldu og gott stuðningsnet og við getum gefið því allt sem það þarfnast. Við erum með fast heimili, fastar tekjur og svo óendanlega mikla ást sem við viljum gefa litla barninu okkar. Ég veit að við verðum frábærir foreldrar og það er ekkert sem ætti að stoppa okkur í þeirri ákvörðun. Ég hóf því hormónameðferð í lok árs 2016 í von um að láta drauminn okkar rætast.“

Besta tilfinning í heimi

Þau Ástrós og Bjarki fengu svo sannarlega draum sinn uppfylltan, en Ástrós er nú komin sextán vikur á leið með þeirra fyrsta barn. Hún á von á sér í lok ágúst, en hjónakornin ætla að fá að vita kyn barnsins í lok mars.

Fallegur hjónakoss.

„Það tók okkur rúmlega ár frá fyrsta viðtali hjá Livio að ná okkar markmiði, að ég yrði ólétt. Fréttirnar komu þó á hárréttum tíma, rétt fyrir jól og Bjarki á leið í heilaskurðaðgerð. Jólin í fyrra voru því alveg einstaklega dásamleg, aðgerðin hjá Bjarka gekk vel og draumurinn okkar loksins að verða að veruleika. Þetta er klárlega besta tilfinning í heimi, að finna fyrir litlu kraftaverki vaxa og dafna innan í sér. Ég get ekki beðið eftir að fá barnið í hendurnar og ég hlakka svo innilega til að fá að upplifa Bjarka að verða pabba,“ segir Ástrós.

Ferlið búið að kosta níu hundruð þúsund krónur

Ástrós vakti talsverða athygli í mars í fyrra þegar hún birti einlægt myndband á Facebook-síðu sinni þar sem hún fór yfir þau gríðarlegu fjárútlát sem þau hjónin höfðu farið í vegna veikinda Bjarka. Í viðtali við mbl.is þá sagði hún það vera fátækragildru að veikjast alvarlega og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að láta sjúklinga taka upp veskið við hverja læknisheimsókn eða ferð í apótekið. Hún segir frjósemismeðferðina hafa kostað sitt og að íslensk stjórnvöld ættu að grípa inn í.

„Allt ferlið að reyna að verða barnshafandi hefur kostað okkur um níu hundruð þúsund krónur. Mér finnst klárlega að þeir sem geta ekki eignast börn á náttúrulegan hátt vegna hvers kyns sjúkdóma eigi að fá niðurgreitt strax við fyrstu tilraun. Það á ekki að þurfa félagasamtök eins og Tilveru eða Kraft til að styrkja fólk í að eignast börn, ríkið á að grípa inn í hér. Ég veit þó til þess að hægt er að skila nótunum með í skattframtalinu en það er þó aðeins hluti sem maður gæti mögulega fengið til baka, ef maður fær það í gegn,“ segir Ástrós.

Langar að barnið eignist systkini

Þrátt fyrir miklar fjárhagslegar, líkamlegar og andlegar áhyggjur sem lagðar hafa verið á þetta par í blóma lífsins, standa þau sterk saman.

Ástrós og Bjarki ætla ekki að gefast upp fyrir meininu.

„Þegar annar aðilinn í sambandi veikist alvarlega þá hefur það að sjálfsögðu áhrif á samlífið. Ef makinn er veikur tímabundið ímynda ég mér að eðlilegir hlutir eins og kynlíf, keila og að fara í bíó detti aðeins út úr myndinni en svo er það verkefni þeirra hjóna að koma samlífinu aftur í fyrra horf eftir að makinn hefur náð sér. Ef maður er pínulítið týndur er gott að leita sér faglegrar hjálpar og fá réttu skrefin til að koma hlutunum aftur í gang. Við Bjarki þekkjum þetta vel, enda er hann langveikur og verður það að öllum líkindum áfram. Við þurftum því aðeins að breyta okkar forgangsröðun og sætta okkur við það að sambandið okkar er aðeins öðruvísi en það var áður. Við nýtum þó tímann vel og þegar hann er hress gerum við alltaf eitthvað skemmtilegt saman og njótum samverunnar þar á milli. Samband er vinna, stanslaus vinna en ofboðslega skemmtileg og gefandi. Stundum þarf maður aðeins að rasskella tómatsósuflöskuna til að ná sósunni úr,“ segir Ástrós og hlær, og bætir við að þau Bjarki hyggja á frekari barneignir í framtíðinni.

„Mig langar að barnið fái systkini og því mun ég fara aftur í smásjárfrjóvgun þegar við höfum náð að safna fyrir því. Ég tel það mikilvægt að börnin séu allavega tvö því það er einfaldlega betra fyrir þau að vera saman í lífinu ef Bjarki mun ekki ná að sjá þau alast upp og verða að yndislegum, fullorðnum einstaklingum. Þau hafa mig og svo hvort annað til að stóla á og tala við. Þó að ég reyni ekki að hugsa um þessa hluti þá verð ég að vera raunsæ. Við Bjarki munum þó aldrei gefast upp í leit okkar að lækningu.“

Myndir / Úr einkasafni

Vantar fleiri eggjagjafa og ættleiðing ekki alltaf kostur

|||
|||

Mannlíf kynnti sér þá möguleika sem í boði eru fyrir þá sem greinast með krabbamein en vilja samt eignast börn eftir að meðferð lýkur, í tengslum við viðtöl við parið Láru og Kristleif annars vegar og hjónin Ástrósu og Bjarka hins vegar.

Meiri áhersla lögð á að fyrirbyggja ófrjósemi en fyrir 20 árum

Ásgerður Sverrisdóttir, krabbameinslæknir á Landspítalanum, segir að það sé afar mismunandi hvaða áhrif krabbameinsmeðferð hefur á frjósemi þeirra sem greinast og að þar spili margir þættir inn í.

„Það er mjög mismunandi eftir því hvaða lyf eru notuð og í hvaða skömmtum og einnig tímalengd meðferðarinnar. Þetta eru allt óháðir áhættuþættir. Eftir því sem að þú færð lengri meðferð, því meiri er áhættan. Svo eru sum krabbameinslyf sem eru meira eiturvirk fyrir kynkirtlana, það er eistu og eggjastokka. Samsetning krabbameinslyfjanna hefur líka áhrif og þeir sem fara til dæmis í það sem er kallað háskammtameðferð eru í mikilli áhættu á langtímaófrjósemi. Aldur spilar einnig inn í og til dæmis ef konur sem komnar eru yfir fertugt fara í gegnum lyfjameðferð eru meiri líkur en minni á að þær fari inn í tíðahvörf í framhaldinu,“ segir hún og bætir við:

„Ef við nefnum einhverjar tölur þá er áhættan á ófrjósemi eftir algengustu krabbameinslyfjameðferðirnar á bilinu 30 til 70%.“

Oft ekki tími í erfiðustu tilvikunum

Hún segir að þessi áhætta á ófrjósemi sé mjög vel kortlögð af læknum og því gerðar viðeigandi fyrirbyggjandi ráðstafanir þegar kostur er. Upplýsingar um frjósemismál til sjúklinga og maka eru mikilvægar og þurfa að koma snemma í ferlinu.

„Í dag er farið að leggja miklu meiri áherslu á að fyrirbyggja ófrjósemi eða gera frjósemisverndandi meðferðir, eða hvoru tveggja, til að þetta komi ekki óvænt upp á hjá þeim sem greinast með krabbamein. Við reynum að leggja áherslu á að ungt fólk með óskir um barneignir, sem greinast með krabbamein, fari í frjósemimeðferð eða að minnsta kosti í ráðgjöf eins snemma í ferlinu og hægt er. Það er mismikill hraði frá því fólk greinist og þar til meðferð hefst og í erfiðustu tilvikunum eins og bráðahvítblæði eða hraðvaxandi eitilfrumukrabbameini, þarf að byrja meðhöndlun innan fárra sólarhringa. Þá er oft ekki tími til að undirbúa neitt á þennan máta. En í langflestum tilvikum höfum við yfirleitt tíma til að undirbúa fólk á þennan hátt. Það er inni í okkar verklagi að koma þessum málum í farveg við fyrsta tækifæri,“ segir Ásgerður. Hún segir að það sé ekki í sjónmáli að krabbameinslyf hafi minni skaðleg áhrif á ófrjósemi.

Meiri áhersla er lögð á að fyrirbyggja ófrjósemi nú, en fyrir tuttugu árum.

„Meðferðarárángur er mjög tengdur þessum frumudrepandi lyfjum og þau eru enn þann dag í dag uppistaðan í krabbameinsmeðferðum. Þó að mildari meðferðir bætist við sem drepa ekki fríska vefi, þá eru þessi lyf enn uppistaðan. Það er ekki fyrirsjáanlegt að það verði einhver bylting í þeim efnum, en hins vegar hafa rannsóknir sýnt fram á að það að gefa hormónameðferð sem slekkur tímabundið á eggjastokkum hjá konum með brjóstakrabbamein á meðan verið er að gefa frumudrepandi lyf, auki líkur á að eggjastokkarnir taki við sér aftur þegar að meðferðinni lýkur,“ segir Ásgerður. Hún segir að meiri áhersla sé lögð á að fyrirbyggja aukaverkanir krabbameinsmeðferða nú en til dæmis fyrir tuttugu árum síðan.

„Fyrr á árum var fókusinn í raun á allt öðrum stað. Fókusinn var á að lækna krabbameinið og uppræta það með öllum kröftugustu úrræðunum sem til voru. Þá var ekki litið á langtímaaukaverkanir sem meginvandamálið. En í dag, með stöðugt bættum árangri meðferða, viljum við líka að fólk eigi gott líf þegar það er búið í meðferðinni og sé ekki að kljást við langtíma- og viðvarandi afleiðingar meðferðarinnar. Fókusinn hefur færst meira á það að minnka skaðann sem þessi læknandi meðferð hefur. Tilhneigingin síðustu áratugina hefur verið að seinka barneignum og því eru fleiri barnlausir sem greinast með krabbamein nú miðað við áður. Það þykir í dag ekkert tiltökumál að eignast börn vel yfir fertugt og við sem vinnum í heilbrigðiskerfinu verðum að taka tillit til þessara óska. Það er ekki lengur talið óráðlegt að forðast frekari barneignir eftir greiningu brjóstakrabbameins, svo eittthvað sé nefnt, og það kemur meira að segja til greina fyrir konur á hormónameðferð að gera hlé á meðferðinni til að eignast fleiri börn.“

Vantar alltaf fleiri eggjagjafa

Ingunn Jónsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, starfar hjá Livio Reykjavík þar sem meðferðir við ófrjósemi eru framkvæmdar. Hún segir nokkra möguleika í boði fyrir þá sem vilja eignast börn en hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð.

„Það er mikilvægt að huga að þessum þáttum áður en meðferðin hefst ef mögulegt er. Það er þá hægt að frysta sæði, egg og/eða fósturvísa. Ef meðferð er lokið og ljóst er að skaði hefur orðið á eggjastokkum eða sæðisframleiðslu eru möguleikarnir takmarkaðri. Þá getur eini kosturinn í stöðunni hvað varðar meðferðir verið að nota gjafakynfrumur. Annar kostur er að ættleiða,“ segir Ingunn.

Ingunn Jónsdóttir.

Eggjafrysting kostur um síðustu áramót

Frysting eggja varð fyrst kostur á Íslandi frá síðustu áramótum. Ingunn segir að langflestar konur yngri en 38 ára ættu að eiga möguleika á frystingu eggja, en að með aldrinum fækki eggjum og gæði þeirra minnki. Hins vegar sé ekki komin endanlega niðurstaða um hvort eggjafrysting verði að einhverju leyti niðurgreidd af íslenska ríkinu, enda ný af nálinni.

Ingunn segir að sum krabbameinslyf geti haft þau áhrif á konur að eggbúskapurinn skaðist og eggjastokkarnir fari í það ástand sem verður annars við tíðahvörf, það er að egglos á sér ekki lengur stað og því ekki frjóvgun eggja.

„Þótt konan sé í raun komin í tíðahvörf eða hefur ekki eðlilega starfandi eggjastokka er vel hægt að gera gjafaeggjameðferðir. Það eru í raun þessar konur sem þurfa á gjafaeggjum að halda. Við gerum hins vegar ekki meðferðir eftir að konur eru orðnar 49 ára gamlar,“ segir Ingunn en bætir við að vöntun sé á gjafaeggjum.

Stöndum Norðurlandaþjóðunum langt að baki

„Árangur úr frjósemismeðferðum er alltaf að aukast. Það verður vonandi aukið aðgengi að gjafaeggjum og með tilkomu eggfrystinga væri hægt að byggja upp eggjabanka. Vandamálið nú er fyrst og fremst að það vantar alltaf fleiri eggjagjafa. Mikilvægast í augnablikinu er að vekja athygli á þessum málum og vonandi sjá fleiri konur sér fært að gefa egg. Flestar konur undir 35 ára geta gefið egg og ferlið er auðveldara en flestar gera sér grein fyrir.  Ég hvet allar konur sem geta hugsað sér þetta að hafa samband og fá frekari upplýsingar,“ segir Ingunn, en meðferð vegna eggagjafar tekur fjórar vikur.

Aðspurð hvort íslensk heilbrigðisyfirvöld gætu staðið sig betur í að niðurgreiða frjósemismeðferðir er það mat Ingunnar að svo sé. „Við stöndum Norðurlandaþjóðunum langt að baki í þessum efnum.“

Ættleiðing ekki alltaf kostur fyrir þá sem greinast með krabbamein

Í reglugerð um ættleiðingar á Íslandi kemur meðal annars fram að krabbamein sé einn af þeim sjúkdómum sem geti leitt til synjunar á umsókn um ættleiðingu. Hrefna Friðriksdóttir, formaður ættleiðingarnefndar, segir hins vegar það að hafa einhvern tíma fengið krabbamein útiloki ekki umsækjendur.

Hrefna Friðriksdóttir.

„Grunnkrafan er sú að heilsufar umsækjanda sé fullnægjandi þegar hann sækir um. Heilsufarssaga umsækjanda er alltaf skoðuð og hann spurður hvað hafi bjátað á til að leggja mat á hvort hann sé læknaður, hvort hann sé enn í meðferð eða hver staða hans sé þegar hann sækir um. Mat á þessu er algjörlega háð um hvers konar mein ræðir og hvers konar sjúkdóm viðkomandi hefur greinst með,“ segir Hrefna. Enn fremur segir hún að það þurfi alltaf að meta áhrif þess krabbameins sem einstaklingur hefur greinst með.

„Því er hægt að segja að krabbamein útiloki mann ekki sjálfkrafa til að ættleiða en það að hafa fengið krabbamein geti útilokað mann í einhverjum tilvikum. Lykilatriði er að skoða hvers konar krabbamein viðkomandi hefur greinst með, hvers konar meðferðir viðkomandi sé búinn að undirgangast, hve langur tími sé liðinn frá greiningu, hvort meðferð sé lokið, hverjar niðurstöðurnar voru og hvort viðkomandi sé laus við krabbameinið. Ef viðkomandi er læknaður af þessu krabbameini og engin merki þess sjást, þá hefur það almennt ekki talið hafa nein sérstök áhrif á umsókn til ættleiðingar. Það á að ganga út frá því að þú fáir ekki leyfi til að ættleiða barn á meðan þú ert í krabbameinsmeðferð. Ef viðkomandi hefur ekki læknast og meðferð er hætt eru líkur á að hann fái ekki leyfi til að ættleiða barn.“

Áfallasaga umsækjenda skoðuð

Hrefna segir að ættleiðingarnefnd fái alltaf læknisfræðilegt mat á umsækjendum og að ekki sé miðað við ákveðinn lágmarkstíma eftir að viðkomandi hefur lokið krabbameinsmeðferð. Hvað varðar varanlega fötlun vegna krabbameins, til dæmis það að missa útlim vegna meinsins, segir Hrefna að það geti haft áhrif á umsókn til ættleiðingar.

„Í ættleiðingarmálum getur allt haft áhrif. Það að þú búir við einhvers konar fötlun, en við getum sagt að varanlegar afleiðingar séu hugsanlega fötlun, getur skert möguleika þína á einhverjum sviðum miðað við aðra. Þá þurfum við að spyrja okkur: Hefur sú fötlun áhrif á mögulega foreldrahæfni? Við reynum að vega og meta hvers konar ástand þetta er og hvernig viðkomandi gengur að lifa með því. Við þurfum líka að horfa á þetta í heildarsamhengi, til dæmis hvernig áhrif þessi fötlun hefur haft á daglegt líf og meta hæfni einstaklingsins til að yfirstíga ákveðna erfiðleika. Að sjálfsögðu er tekið tillit til þess,“ segir Hrefna og bætir við að áfallasaga umsækjenda sé skoðuð í hverju tilviki fyrir sig.

„Við erum alltaf að læra betur og betur um hvað áföll geta haft víðtækar og oft varanlegar afleiðingar á fólk. Eitt af áföllum er að greinast með alvarlegan sjúkdóm eða glíma við varanlegar afleiðingar af honum. Þá er skoðað hvernig viðkomandi hefur gengið að vinna með það og hver staða hans og styrkleikar eru í dag.“

Mikil ábyrgð að finna barni heimili

Þegar par sækir um ættleiðingu þurfa báðir einstaklingarnir að uppfylla kröfur ættleiðingarnefndar, en Hrefna segir að kröfur nefndarinnar séu ekki að ástæðulausu.

„Það er engum blöðum um það að fletta að það eru gerðar strangar kröfur. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að finna barni, sem hefur oft verið í erfiðum aðstæðum, stað. Það er ekki nóg að bara annar aðili í sambandi uppfylli þessar kröfur og það er ekki endilega gert til að tryggja barninu einhvers konar umönnun þó að annar falli frá heldur einnig til að forðast þau óumflýjanlegu áhrif sem það að missa maka og foreldri hefur. Allt það neikvæða sem getur komið fyrir annan aðilann er í sjálfu sér áfall fyrir hinn aðilann og klárlega áfall fyrir barn sem er komið á heimilið. Við viljum ekki kalla það yfir neinn.“

Oft lenda einstæðingar aftast í bunkanum

Hrefna segir að hvert og eitt ríki móti ættleiðingarlög og -reglur eftir sínu höfði. Ísland er hluti af alþjóðsamningi um ættleiðingar þar sem farið er fram á að metin séu grunnatriði, svo sem aldur, heilsufar og aðstæður. Hún segir enn fremur að þegar reglugerð um ættleiðingar var sett, þar sem listaðar eru upp tegundir sjúkdóma sem geti haft áhrif á umsókn, hafi verið tekið mið af reynslu norrænnu þjóðanna. En þó að einstaklingar eða pör uppfylli viss skilyrði til ættleiðingar hér á landi þarf það ekki að þýða að þeir hinir sömu uppfylli skilyrði í því landi sem ættleiða á barn. Því getur það oft þýtt að einstæðingar lendi aftast í bunkanum.

„Það land getur gert meiri kröfur og strangari. Vandinn er sá að við erum í samstarfi við tiltekin lönd þar sem eru færri og færri börn til ættleiðinga. Þessi lönd hafa úr fleiri og fleiri umsækjendum að velja og sum lönd segja blákalt að þau velji alltaf fyrst par á besta aldri sem búa við bestu aðstæður. Mörg lönd setja einstæðinga aftast á listann og síðan eru mörg lönd sem leyfa einstæðingum ekki að ættleiða. Svipað er uppi á teningnum með samkynhneigða. Við veitum samkynja pörum leyfi til að ættleiða en það eru afskaplega fá önnur lönd sem gera það.“

Úr 9. grein reglugerðar um ættleiðingar:

Heilsufar.
Umsækjendur skulu vera svo andlega og líkamlega heilsuhraustir að tryggt sé, eftir því sem unnt er, að ættleiðing verði barni fyrir bestu. Því mega umsækjendur ekki vera haldnir sjúkdómi eða þannig á sig komnir að það dragi úr lífslíkum þeirra á þeim tíma þar til barn verður sjálfráða, eða minnki möguleika þeirra til að annast vel um barn.

Eftirtaldir sjúkdómar eða líkamsástand, sem ekki er hér tæmandi talið, geta leitt til synjunar á umsókn um ættleiðingu eða um forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni:

a. Alnæmi og aðrir alvarlegir smitsjúkdómar.
b. Fötlun eða hreyfihömlun.
c. Geðsjúkdómar, geðraskanir eða þroskahömlun.
d. Hjarta- og æðasjúkdómar.
e. Innkirtlasjúkdómar.
f. Krabbameinssjúkdómar.
g. Líffæraþegar.
h. Lungnasjúkdómar.
i. Meltingafærasjúkdómar.
j. Nýrnasjúkdómar.
k. Offita.
l. Sjálfsofnæmissjúkdómar.
m. Sykursýki og taugakerfissjúkdómar.

Raunkostnaður hærri en verðskrá SÍ kveður á um

|
|

Þingsályktunartillaga um að endurskoða ætti greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar var samþykkt árið 2016 og átti endurskoðun að ljúka fyrir árslok þess árs. Henni er ekki enn lokið.

Í þessari tillögu var meðal annars lagt til að greiðsluþátttaka sjúkratrygginga nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar hjá fólki óháð því hvort það eigi barn fyrir, en í dag nær þessi þátttaka aðeins frá annarri til fjórðu meðferðar hjá pörum og einstaklingum sem eiga ekki barn fyrir. Hins vegar er tekið þátt í fyrstu meðferð para og einhleypra kvenna ef um er að ræða yfirvofandi ófrjósemisvandamál konunnar vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Þá endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands 65% útlagðs kostnaðar vegna ástungu á eista og frystingu sáðfruma þegar um er að ræða karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Í þeim tilfellum er Sjúkratryggingum Íslands heimilt að greiða 90% útlagðs kostnaðar vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum/sáðfrumum, þó að hámarki í tíu ár.

Þá fer greiðsluþátttaka eftir verðskrá Sjúkratrygginga Íslands, en sú verðskrá hefur ekki verið uppfærð síðan árið 2011 og er ekki í samræmi við verðskrá þeirra stofnana sem framkvæma frjósemismeðferðir. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni er því raunkostnaður við frjósemismeðferðir umtalsvert hærri en verðskrá Sjúkratryggina Íslands kveður á um. Að mati flutningsmanna tillögunnar er Ísland nokkur eftirbátur nágrannalanda okkar og þeirra landa sem við viljum almennt bera okkur saman við á þessu sviði. Tekin eru dæmi um að í Danmörku og Svíþjóð nái greiðsluþátttaka ríkisins yfirleitt til fyrstu og þriðju meðferðar.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni standa þjóðirnar sem við viljum bera okkur saman við okkur fremur í greiðsluþátttöku vegna frjósemismeðferða.

Ekki unnt að uppfæra gjaldskrá vegna fjárskorts

Mannlíf sendi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um þetta greiðsluþátttökukerfi og hvar endurskoðun þess stæði. Eftirfarandi svör bárust frá ráðuneytinu:

Í reglugerð um greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgana stendur að endurgreiðsla miðist við gjaldskrá SÍ. Sú verðskrá hefur ekki verið uppfærð síðan 2011 og tekur því ekki mið af verðlagsbreytingum. Af hverju hefur sú verðskrá ekki verið uppfærð?

Svar: Verðskráin hefur tekið mið af þeim fjármunum sem hafa verið til ráðstöfunar og framlög hafa ekki verið aukin þannig að unnt væri að uppfæra gjaldskrána.

Verðskrá SÍ og verðskrá stofnana sem sjá um frjósemismeðferðir eru tvær ólíkar verðskrár. Stendur til að samræma þessar verðskrá að einhverju eða öllu leyti?

Svar: Ekki eru áform um að samræma gjaldskrá SÍ og einkarekinna fyrirtækja sem sinna þessari þjónustu, þar sem ekki hafa tekist samningar milli SÍ og viðkomandi aðila. Sem fyrr segir hefur þetta einnig með fjárframlög að gera.

Enginn samningur er á milli íslenska ríkisins og stofnana sem sjá um frjósemismeðferðir. Stendur til að koma á slíkum samningi? Ef já, hvar er það statt í ferlinu? Ef nei, af hverju ekki?

Svar. Já, það er stefnt að því að semja um þessa þjónustu.

Varðandi orðalag í reglugerð um greiðsluþátttöku vegna tæknifrjógvunar þá er talað um að endurgreiða einhleypum konum með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna meðferðar. Hins vegar stendur að karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál fái endurgreitt fyrir ástungu á eista eða frystingu á sæðisfrumum. Má þá skilja það þannig að ekki sé tekið þátt í frjósemismeðferðum einhleypra karla að öðru leyti?

Svar: Það er rétt skilið.

Í gjaldskrá SÍ er ekki talað um frystingu á fósturvísum og eggjum, heldur eingöngu sáðfrumum. Er ekki tekið þátt í kostnaði vegna frystingar á fósturvísum og eggjum, eða er það talið hluti af frjósemismeðferð?

Svar: Rétt er að benda á að frá árinu 2012 hefur verið 90% greiðsluþátttaka ríkisins vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum (sbr. rg. um 2. breytingu á rg. nr. 917/2011). Greiðsluþátttaka í frystingu á eggfrumum hefur ekki verið í gjaldskránni til þessa vegna þess að meðferðin hefur verið óframkvæmanleg hér á landi. Nú hefur orðið breyting á því og þar með er áformað við endurskoðun þessara mála að ríkið taki þátt í kostnaði vegna frystingar á eggfrumum.

Nú hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga þess efnis að endurskoða reglur greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar. Hvar er sú vinna stödd? Í þingsályktun stendur að þáverandi heilbrigðisráðherra ætti að endurskoða reglur fyrir árslok 2016. Af hverju hefur þessi vinna tafist?

Svar: Endurskoðun á reglunum stendur yfir í samvinnu við Sjúkratryggingar Íslands.

Stendur til að hækka fjárframlag til þessarar endurgreiðslu?

Svar: Stefnt er að því að setja nýja reglugerð um þessa þjónustu innan fárra vikna. Með henni verður breytt fyrirkomulagi varðandi greiðsluþátttökuna. Aftur á móti liggur fyrir fjármagn til þessarar þjónustu í fjárlögum og því ekki svigrúm til þess að auka útgjöldin á þessu ári.

Brenglað þegar fólk getur breytt sér í símanum

||||||
||||||

Íslendingar eru farnir að leita til lýtalækna með síaðar, eða filteraðar, sjálfur (selfie) og vilja líta út eins og sín síaða sjálfa. Íslenskur lýtalæknir segir þessa þróun skapa vanda.

„Það er til í dæminu að fólk komi með mynd af sér sjálfu sem búið er að ýkja eða breyta en það er mjög sjaldgæft enn þá, sem betur fer. En ég held að þessum tilvikum eigi eftir að fjölga,“ segir Ágúst Birgisson lýtalæknir.

Ágúst Birgisson.

Fréttasíðan Huffington Post fjallaði nýverið um þá staðreynd að fólk vestanhafs, helst konur, væri farið að leita til lýtalækna með síaðar, eða filteraðar, sjálfur og vill líta út eins og síaða sjálfan. Í greininni var þetta fyrirbæri kallað Snapchat Dysmorphia sem mætti þýða sem Snapchat-lýtaröskun.

Ágúst segir þessa þróun skapa vanda, þar sem síur á samfélagsmiðlum gefa ekki rétta mynd af því sem hægt er að gera þegar lagst er undir hnífinn. „Þetta skapar vanda því þegar þú ert að breyta myndum á samfélagsmiðlum eða öðrum forritum, þá ertu ekki að gera raunverulega áætlun. Þannig að í raun er verið að vekja væntingar umfram það sem hægt er að gera, og það er kannski mitt vandamál. Það er erfitt þegar einstaklingur er með ímynd af því hvernig hann vill vera en þessi ímynd verður ekki að raunveruleika því ekki er hægt að framkvæma breytingarnar. Það er helsta vandamálið. Við lýtalæknar styðjumst við forrit þar sem við getum breytt fólki til að sýna því hvernig það lítur út fyrir og eftir aðgerð en þau forrit eru sérstaklega gerð fyrir lýtalækna. Þegar fólk getur breytt sér sjálft í símanum er þetta orðið mjög brenglað,“ segir hann.

Sýna myndir af þekktum Snapchat-konum

Ágúst vill ítreka að það sé afar sjaldgæft að fólk mæti til hans með síaðar sjálfsmyndir af samfélagsmiðlum en algengara er að fólk komi með myndir af frægu fólki til að sýna hvernig það vilji líta út.

„Það er mjög algengt, til dæmis í sambandi við brjóstastækkun eða eitthvað svoleiðis. Þá eru konur með ákveðna hugmynd um hvernig þær vilja líta út og hvaða stærð þær vilja fara upp í. Þær koma með mynd af einhverri stjörnu og vilja fá eitthvað svipað, sem getur verið hjálplegt til að finna út hverju fólk er að leita eftir. Mynd segir oft mörg orð. En auðvitað er pínulítið öðruvísi að sjá þetta á öðrum en á sjálfum sér og fólk er meðvitað um það. Það gerir sér grein fyrir að þetta er annar líkami en sinn eigin og því verður þetta ekki eins. Þar liggur helst munurinn á því að sýna mynd af öðrum en ekki mynd af sjálfum sér.“

Kim Kardashian síaði sjálfu með barni sínu fyrir stuttu.

Annar lýtalæknir, Guðmundur M. Stefánsson, segir sífellt meira bera á þessu meðal ungra kvenna. „Það hefur borið á því síðustu ár, einkum meðal ungra kvenna, að sumar þeirra leita álits okkar á breytingum sem þær óska eftir og sýna myndir af þekktum Snapchat-konum sem þær vilja líkjast. Þetta er ekki algengt, en þó ber meira og meira á þessu.“

Líkamslýtaröskun ótrúlega sjaldgæf

Eftir tilkomu snjallsíma hefur því verið haldið fram að notkun samfélagsmiðla gæti leitt til líkamslýtaröskunar, eða body dysmorphic disorder. Einstaklingar sem þjást af þessari röskun eru mjög uppteknir af ákveðnum líkamshlutum og þrá oft á tíðum að láta laga þá á einhvern hátt. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á að 1,7% til 2,4% þjóðarinnar séu haldin þessari röskun.

Ágústi finnst ótrúlegt að líkamslýtaröskun sé ekki algengari samfara aukinni snjallsímanotkun. „Body dysmorphic disorder er ótrúlega sjaldgæft miðað við alla þá umfjöllun og þá miðla sem við höfum. Þessi röskun var til löngu áður en snjallsímar komu til sögunnar en mér finnst ekki mikil aukning á þessum sjúkdómi með snjallsímavæðingu, sem er að sjálfsögðu mjög jákvætt.“

Hann segir að þó að mikið sé talað um að fólk sem leiti til lýtalæknis þrái að líta út eins og einhver allt annar, þá séu flestir sem leiti til lýtalækna að gera það vegna dýpri ástæðna. „Fólk kemur til lýtalækna út af mjög mismunandi þörfum og leitar að allt öðru en að líkjast einhverjum fyrirmyndum úti í heimi. Það getur verið að augnlok séu of þung og þurfi að laga það, að brjóst hafi horfið við meðgöngu eða brjóstagjöf eða að konur séu með slappan maga eftir fjórar meðgöngur eða mikið þyngdartap. Þessar ýkjur sem talað er um eru sem betur mjög sjaldgæfar.“

Virkjar sinn innri mótorhjólatöffara

Söngvarinn vinsæli Valdimar Guðmundsson fetar ótroðnar slóðir þessa dagana en í kvöld stígur hann á Stóra svið Borgarleikhússins í hlutverki Eddies í söngleiknum Rocky Horror.

Þetta er fyrsta hlutverk Valdimars á leiksviði en hann segist ekki kvíðinn fyrir frumsýningunni, hann þurfi fyrst og fremst að muna að virkja mótorhjólatöffarann innra með sér, jafnvel þótt hann hafi aldrei keyrt mótorhjól.

Í kvikmyndinni frægu frá 1975 er það sjálfur Meatloaf sem fer með hlutverk Eddies og ég byrja á að spyrja Valdimar hvort Meatloaf sé í uppáhaldi hjá honum sem söngvari.

„Ég get nú ekki sagt það, nei,“ segir Valdimar, sem er nýkominn af strangri æfingu og pínulítið andstuttur eftir hamaganginn á sviðinu. „Mér finnst hann alveg fínn söngvari en tónlistin hans er ekki í þeim flokki tónlistar sem höfðar mest til mín. Ekki minn tebolli.“

Spurður hvernig það hafi komið til að hann var fenginn til leika hlutverk Eddies, segist Valdimar hafa grun um að Jón Ólafsson, tónlistarstjóri sýningarinnar, hafi mælt með honum í hlutverkið.

„Við Jón höfðum unnið saman í öðru verkefni og ég held að hann hafi ýtt á það að fá mig til að leika Eddie. Honum fannst ég passa vel í hlutverkið og svo er ég svolítið þykkur sem hentar vel í þetta hlutverk.“

Talandi um það, fyrir tveimur árum fylgdist öll þjóðin með líkamsræktarátaki Valdimars þegar hann steig fram og viðurkenndi að líkamsástand hans væri farið að valda sér heilsutjóni. Ári seinna hafði hann misst 40 kíló og var enn þá á fullu í ræktinni. Hver er staðan í því máli núna?

„Ég er enn þá í ræktinni, var síðast í ræktinni í morgun, en ég tek þetta ekki með neinu offorsi, reyni að finna skynsamlegan meðalveg og passa bara upp á að lenda ekki á sama stað og ég var fyrir tveimur árum. Þá var ástandið orðið alvarlegt.“

„Ég er enn þá í ræktinni, var síðast í ræktinni í morgun, en ég tek þetta ekki með neinu offorsi, reyni að finna skynsamlegan meðalveg og passa bara upp á að lenda ekki á sama stað og ég var fyrir tveimur árum. Þá var ástandið orðið alvarlegt. Ég ætla ekki þangað aftur. Maður þarf samt að passa sig að fara ekki út í neinar öfgar. Þetta snýst allt um að láta skynsemina ráða og finna hinn gullna meðalveg.“

En er ekki mikil líkamleg áreynsla að leika í söngleik? Vera þjótandi um sviðið syngjandi með hamagangi og danssporum?
„Þetta er nú ekki langur tími sem ég þarf að vera inni á sviðinu,“ segir Valdimar sallarólegur. „Þetta tekur auðvitað á en það er ekkert sem ég ræð ekki við.“

Lifir ekki slúðurvænu lífi

Auk þess að leika í Rocky Horror er Valdimar að undirbúa útgáfu nýrrar plötu með hljómsveit sinni Valdimar. Fyrsta lagið af plötunni sem meiningin er að komi út í haust, „Of seint“, fór í spilun í síðustu viku og Valdimar lýsir því sem „rokk/diskó, popp rokk eitthvað“. Maður hnýtur um orðið diskó og spyr eins og auli hvort Valdimar sé ekki allt of ungur til að muna eftir diskóæðinu.

„Jú, ég er fæddur 1985 svo diskótímabilið var löngu liðið þegar ég man fyrst eftir mér,“ segir hann hneykslaður á fáfræði blaðamannsins. „En diskóið er farið að skjóta upp kollinum í rappinu og víðar svo við erum nú ekkert að gera einhverja byltingu. Ég veit ekki einu sinni hvort það er rétt að nota orðið diskó í þessu samhengi. Ég heyri diskóhljóm í þessu lagi, en það er ekkert víst að aðrir heyri það.“

Þjóðin elskar Valdimar sem ballöðusöngvara en sjálfur segist hann kannski frekar líta á sig sem rokksöngvara. „Ég hef gaman bæði af rokki og rólegheitum og alls konar stílum,“ segir hann ákveðinn. „Ég vil ekki festa mig við eitthvað eitt en ég hallast þó aðeins að rokkinu.“

Ég reyni að pumpa Valdimar um einkalíf hans en hann er ekkert á þeim buxunum að gefa mikið upp um það. Hann segist hvorki vera í sambúð né föstu sambandi og lifi almennt ekki slúðurvænu lífi. Það er tónlist, tónlist og aftur tónlist sem líf hans snýst um. En er ekki mikil skuldbinding fyrir eftirsóttan tónlistarmann að festa sig í einu verkefni í leikhúsinu? Hvað ef sýningin gengur árum saman, flækist hún þá ekki fyrir ferli hans sem tónlistarmanns?

„Ég er nú ekkert farinn að hugsa svo langt enn þá,“ segir Valdimar og hlær. „Það getur vel verið að það verði einhverjir árekstrar verkefna en það er nú yfirleitt hægt að leysa það þegar slíkt kemur upp. Og ég er þá alla vega á föstum launum á meðan sýningin gengur, það er ágætis tilbreyting.“

Er erfitt að sjá fyrir sér með því að vera alfarið í tónlistarbransanum?
„Alla vega ekki eftir að maður er orðinn eftirsóttur,“ segir hann ákveðinn. „Það er auðvitað hark fyrst en síðustu sex árin hef ég alfarið lifað af tónlistinni og það gengur ágætlega. Ég hef auðvitað ekki orðið ríkur af þessu, á til dæmis engan Range Rover, en ég get alveg lifað af þessu.“

Væri það ekki líka hræðilegt stílbrot fyrir rokkara að keyra um á Range Rover?
„Jú, algjörlega! Ég tók hann nú bara sem dæmi um birtingarmynd ríkidæmis, ég myndi alls ekki vilja eiga Range Rover,“ segir Valdimar glottandi. „Það væri ekki ég.“

Ótrúlegt ferðalag að leika í Rocky Horror

Aftur að Rocky Horror. Á Facebook-síðu Valdimars birtist nýlega mynd af honum í hælaháum skóm, þýðir það að hann sé í dragi í sýningunni?
„Nei, ég er ekki í dragi. Ég er í leðurgalla mótorhjólatöffara, með svarta hárkollu og barta sem ég er búinn að safna. Skórnir voru bara smágrín sem kannski verður notað í uppklappinu. Eða ekki, það kemur í ljós,“ bætir hann við leyndardómsfullur.

Þetta er fyrsta leikhlutverk Valdimars, þótt hann hafi reyndar áður verið á leiksviði í hlutverki básúnuleikara í bæjarhljómsveitinni í sýningu Borgarleikhússins á Milljarðamærin snýr aftur eftir Dürrenmatt fyrir sléttum níu árum. Hvernig gengur honum að leika, er hann góður leikari?

„Ég er nú kannski ekki rétti maðurinn til að svara því,“ segir hann, hógværðin uppmáluð. „En ég held þetta gangi ágætlega. Þegar ég er kominn í gallann, með hárkolluna og sminkið verð ég bara Eddie. Það eina sem ég þarf að muna er að virkja minn innri mótorhjólatöffara og þá smellur þetta allt saman.“

„Ég held ég geti alveg lofað því að fólk á eftir að skemmta sér vel í Borgarleikhúsinu á næstunni. Eða, já, ég held það ekkert, ég get lofað því! Þetta er frábær skemmtun.“

Mótorhjólatöffara? Hefurðu verið mótorhjólatöffari?
„Nei, nei. Ég hef ekki einu sinni keyrt mótorhjól,“ svarar Valdimar glaðbeittur. „En það býr mótorhjólatöffari innra með mér og hann fær að njóta sín í þessari sýningu.“

Talið berst að sýningunni og því hvort Valdimar kvíði ekkert fyrir því að koma í fyrsta sinn fyrir augu þjóðarinnar sem leikari. Hann segist ekki kvíðinn enda sé hann í hópi stórkostlegra listamanna og það hafi verið mikil og dýrmæt reynsla að fá að taka þátt í þessari uppsetningu.
„Þetta er búið að vera alveg ótrúlegt ferðalag,“ segir hann andaktugur. „Það er svo frábært fólk sem vinnur að þessari sýningu á öllum sviðum. Tónlistarmenn, leikarar, leikstjóri, leikmyndahönnuðir, dansarar, danshöfundur, búningahönnuðir og förðunarfólk, þetta er allt toppfólk á sínu sviði og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þessum heimi og taka þátt í að búa þessa sýningu til. Það er enginn kvíði í mér fyrir frumsýningunni, bara tilhlökkun og gleði. Ég held ég geti alveg lofað því að fólk á eftir að skemmta sér vel í Borgarleikhúsinu á næstunni. Eða, já, ég held það ekkert, ég get lofað því! Þetta er frábær skemmtun.“

Texti / Friðrika Benónýsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Vil vera dæmd af verkum mínum

Sækir kraftinn í hvíld.

Þórdís Kolbrún er í forsíðuviðtali nýjustu Vikunnar.

Segja má að leið Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur í heim stjórnmálanna hafi alltaf legið fyrir en hún starfar nú sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar. Þrátt fyrir ungan aldur fullyrðir Þórdís að skoðanir hennar njóti sama hljómgrunns og annarra þingmanna en þó sé mikilvægt að láta neikvæðar skoðanir og niðurrif ekki hafa áhrif á sig.

„Ég er hreint út sagt of upptekin til að vera velta því fyrir mér hvort tekið sé mark á mér. Ég veit að það ætti að taka mark á mér, það er nóg.“

„Eflaust hafa einhverjir skoðun á því sem ég segi eða geri út frá aldri mínum eða kyni en ég geng einfaldlega hreint til verks, veit hver ég er og reyni að koma vel fram við fólk. Ég trúi því að það skili sér í samskiptum og hvernig fólk kemur fram við mann. Ég vil vera dæmd af verkum mínum í stjórnmálum. Ekki öðru.”

Þórdís afsalar sér alfarið ofurkonutitilinum en kraftinn sækir hún í hvíld og jarðtenginguna sem hún finnur í börnunum sínum. „Ég reyni almennt að ná góðum nætursvefni því hann er mér lífsnauðsynlegur. Í gegnum svefninn sæki ég kraftinn og þaðan get ég svo fengist við krefjandi verkefni og spennandi áskoranir sem starfið býður upp á. En það að vera foreldri er líklega það merkilegasta af öllu, ég á sterkt bakland og börnin mín eru hamingjusöm. Ég á góðar stundir með þeim og ég reyni að forgangsraða tíma mínum gæfulega. Það þýðir ekkert að láta samviskubit naga sig. Og ég hef bara upplifað það sjálf að pabbar eru nákvæmlega jafn mikilvægir og mömmur.”

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Björg Alfreðsdóttir

Tyra Banks vill ekki að sonur hennar verði fyrirsæta

|
|

Ofurfyrirsætan Tyra Banks, sem er hvað þekktust fyrir að stýra þáttunum America’s Next Top Model, mætti á rauða dregilinn fyrir upptöku á þáttunum America’s Got Talent nýverið, enda kynnir þáttanna.

Blaðamaður Us Magazine náði tali af fyrirsætunni á rauða dreglinum. Í viðtalinu sagði hún meðal annars að hún vildi ekki að sonur sinn yrði fyrirsæta, en hún á hinn tveggja ára gamla York með fyrrverandi kærasta sínum, Erik Asla.

„Ég vil ekki að hann verði fyrirsæta en ég segi ekki við hann: Ekki gera það, því þá myndi hann vilja það enn meira. Ég ætla að styðja hann í því sem hann vill gera en ég vona bara að það verði ekki fyrirsætustörf. En ef hann velur þá braut kenni ég honum að brosa með augunum,“ sagði Tyra á dreglinum, en henni er tíðrætt um að brosa með augunum, eða smize, í þáttunum þar sem hún leitar að næstu ofurfyrirsætu Bandaríkjanna.

Tyra veit hvað hún syngur.

Tyra segir að lítil virðing sé borin fyrir karlfyrirsætum í tískubransanum.

„Ég held að karlfyrirsætur séu ekki í sömu stöðu og kvenfyrirsætur. Kvenfyrirsætur grínast stundum og kalla karlfyrirsætur fylgihlutina sína. Ég er með eyrnalokka og í skóm og með karlfyrirsætu í tökunum. Svona grínast stelpurnar með þá,“ sagði Tyra.

Þá ræddi hún einnig um hve klár York er, og sagði hann langt á undan sínum jafnöldrum.

„Hann hefur kunnað að telja uppá tuttugu síðan hann var átján mánaða. Hann er rosalega, rosalega gáfaður. Hann talar spænsku, norsku og ensku. Hann er klár. En hann er samt brjálaður og veltir sér um gólfið og hlustar oftast ekkert á mig.“

Léttist um 45 kíló á níu mánuðum

Lauren Dugas segist alltaf hafa verið í þyngri kantinum á fullorðinsárum, en að þyngdin hafi aldrei angrað hana mikið. Hún fór reglulega í megranir og léttist um nokkur kíló, en bætti þeim alltaf á sig aftur og meira til. Einn morguninn steig hún á vigtina og sá að hún var orðin rúmlega 125 kíló. Þá ákvað hún að gera eitthvað í sínum málum.

„Ég var miður mín. Ég trúði því ekki að ég væri svona þung. Ég vissi að ég þyrfti að gera eitthvað. Ég var aðeins 32ja ára en líf mitt valt á því að léttast. Ég þurfti að temja mér betri matarvenjur og byrja að hreyfa mig til að vera betri fyrirmynd fyrir krakkana mína,“ skrifar Lauren í pistli á vefsíðu Women’s Health.

Lauren fékk sér kort í líkamsrækt og sótti sérstaka tíma þar sem hún fékk bæði æfingar- og matarplan. Hún byrjaði að æfa þann 29. maí í fyrra og segir það hafa tekið mikið á.

„Þá var einblínt á fótaæfingar. Ég gat ekki gengið í viku eftir á. Ég grét á hverjum degi til að byrja með. Sársaukinn sem ég fann var ólýsanlegur,“ skrifar Lauren.

Aldrei verið jafn sterk

Hún fór þó fljótt að sjá árangur.

„Ég missti tvö kíló í fyrstu vikunni og á innan við mánuði var ég búin að léttast um sjö kíló og var búin að grennast um 21 sentímetra. Ég sá móta fyrir vöðvum. Buxurnar mínar urðu víðari. Eftir tvo mánuði var ég búin að léttast um rúm ellefu kíló og eftir fimm og hálfan mánuð var ég 27 kílóum léttari en þegar ég byrjaði,“ skrifar Lauren.

Í dag er hún búin að léttast um 45 kíló en vantar aðeins nokkur kíló uppá að komast í draumaþyngd sína, 77 kíló.

„Ég er 32ja ára og hef aldrei verið svona sterk. Mér finnst handleggsvöðvarnir mínir ótrúlegir. Ég horfi allt öðruvísi á mat núna og nú borða ég til að fá orku. En stoltust er ég af því að kenna börnunum mínum um holla lífshætti. Vonandi þurfa þau ekki að kljást við þyngdina þegar þau verða fullorðin.“

Hættið að búa til afsakanir

Lauren vaknar enn tæplega fimm á morgnana til að fara í ræktina þrisvar í viku. Þá heldur hún sig við mataræðið sem henni var kennt á í upphafi, en í því eru allar mjólkurvörur og salt bannað.

En hvað vill hún segja við aðra í sömu stöðu og hún var fyrir tæpu ári síðan?

„Hættið að búa til afsakanir. Þið getið allt sem þið viljið.“

Hressandi æfingarrútína sem blandar saman dansi og styrktarþjálfun

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá hálftímalanga æfingarrútínu sem búin var til af þjálfaranum Megan Roup.

Rútínan er mjög skemmtileg og blandar saman dansi og styrktarþjálfun, sem gerir hana ansi hressandi. Í myndbandinu má sjá konurnar nota lóð og sérstakar mottur, en auðvelt er að sleppa lóðunum eða fylla hálfslítra flöskur af vatni til að nota sem lóð. Þá er hægt að nota handklæði í staðinn fyrir motturnar sem konurnar nota.

Svo er bara að koma sér í gírinn heima í stofu og skemmta sér konunglega á meðan maður dillar sér fram og til baka.

Raddir