Í morgun frumsýndi Warner Bros lokagerð kynningarstiklunnar fyrir kvikmyndina Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald, sem frumsýnd verður 16. nóvember. Myndin er, eins og allir vita framhald myndarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them sem byggir á sögu J.K. Rowling um Dumbledore prófessor á yngri árum. Allir stórleikararnir úr fyrri myndinni eru hér mættir til leiks, Eddie Redmayne í hlutverki Newt Scamander, Jude Law sem Dumbledore og Johnny Depp leikur illmennið Gellert Grindelwald sem fyrr. Ekkert óvænt þar.
Það kom aðdáendum bókanna og fyrri kvikmyndarinnar hins vegar mjög á óvart að í stiklunni sést Claudia Kim í hlutverki Nagini, sem eins og innvígðir vita er snákur Voldemorts. Umræðuþræðir hafa logað í morgun vegna þessarar óvæntu uppljóstrunar og óhætt að segja að hörðustu aðdáendur Harry Potter bókanna eru yfir sig spenntir fyrir nýju myndinni.
Leikstjóri fyrri myndarinnar David Yates er enn við stjórnvölinn og höfundur bókanna, J.K. Rowling, aðstoðaði við skrif handritsins. Það er því von á góðu í nóvember og enn meiru á næstu árum, því Rowling hefur upplýst að myndirnar um Fantastic Beasts verði alls fimm.
En sjón er sögu ríkari og þið getið séð þessa umræddu kynningarstiklu hér fyrir neðan.
Eiginmaður Áslaugar Thelmu sendir nýjum forstjóra OR tóninn.
„Í dag erum við á sextánda degi frá því að Áslaug Thelma var rekin frá ON. Ennþá hefur hún ekki fengið skýringar á því af hverjum henni var sagt upp. Framkvæmdastjóranum sem sagði henni upp hefur verið sagt upp, forstjóranum sem reyndi að hylma yfir með honum hefur verið boðið að sitja í fríi tvo mánuði allavega til að byrja með. Framtíð og framfærsla lítillar fjölskyldu sett í fullkomið óvissu á engum réttlætanlegum forsendum,“ segir Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, í nýjum pistli á Facebook-síðu sinni. Áslaug Thelma var eins og kunnugt er rekin vegna kvartana um óviðeigandi framkomu forstjóra ON, Bjarna Más Júlíussonar. Honum hefur verið vikið frá störfum og forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hefur stigið tímabundið til hliðar vegna málsins. Helga Jónsdóttir, sem tók við forstjórastólnum hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hún ætli að ræða við Áslaugu um hennar mál, en ekki hefur enn orðið af því, að sögn Einars og hann furðar sig á því.
„Okkur sem þykir vænt um Áslaugu og stöndum með henni í gegnum þetta fíaskó finnst það allavega hafa dottið eitthvað neðar á forgangslistann hjá nýja forstjóranum að heyra frá Áslaugu. En svo því sé haldið til haga þá hefur engin frá ON/OR talað við hana ennþá eftir að þessi atburðarás komst upp á yfirborðið og ON og OR neyddust til að fara að vinna eftir gildum sínum og loforðum,“ segir hann í pistlinum og bendir á að Áslaug Thelma hafi ekki fengið að halda starfskjörum sínum út samningsbundinn uppsagnarfrest. Þykir honum það heldur súr húmor hjá nýja forstjóranum eða þá að hún hafi bara ekki kynnt sér málið:
„Það er kannski einhverskonar svartur húmor hins nýja forstjóra eða kannski hefur hún bara í raun EKKERT kynnt sér mál Áslaugar … EN EINMITT um helgina LOKAR OR/ON símanum hennar Áslaugar þannig að nú verður spennandi sjá hvort þeim tekst að ná í hana fyrir þann tíma,“ segir Einar.
Kvikmyndin Lof mér að falla eftir Baldvin Z er áfram í efsta sæti aðsóknarlista kvikmyndahúsanna eftir þriðju sýningarhelgi og hafa um 34 þúsund manns séð hana hingað til.
Til samanburðar má geta þess að þetta er mun meiri aðsókn en var á aðra kvikmynd Baldvins Z, Vonarstræti, sem hafði fengið um 28 þúsund gesti eftir þriðju sýningarhelgi árið 2014.
Alls sáu 10,476 gestir Lof mér að falla í vikunni, en heildarfjöldi gesta er 33,979 manns.
En það eru ekki bara Íslendingar sem hafa hrifist af Lof mér að falla. Stephen Dalton gagnrýnandi The Hollywwod Reporter, sá hana á kvikmyndahátíðinni í Toronto og var mjög hrifinn. Hann segir í dómi sem birtist í The Hollywood Reporter á dögunum að myndin sé grípandi og hjartnæm frásögn um kunnuglegt efni, sem geri bæði angist og alsælu vímuefnamisnotkunar góð skil, þökk sé góðum leikarahópi, flottri myndatöku og handriti.
Af aðsókn á aðrar íslenskar myndir sem nú eru í bíó er það að frétta að 197 manns sáu Kona fer í stríð í vikunni. Alls hafa 17,873 séð myndina eftir 18. sýningarhelgi, en hún var valin framlag Íslands til Óskarsverðlauna á dögunum.
Athafnakonan Dóra Dúna Sighvatsdóttir vinnur að ljósmyndasýningu um fráskilin pör.
„Mér hefur alltaf fundist sorglegt að fólki skuli elska einhvern, annaðhvort til lengri eða skemmri tíma og svo deyi sú ást og gleymist einhvern veginn bara. Þess vegna er ég að þessu. Til að heiðra ástina sem var,“ segir athafnakonan Dóra Dúna Sighvatsdóttir, þegar hún er spurð út í hugmyndina á bak við umrætt verkefni.
Dóra segist hafa rennt algörlega blint í sjóinn þegar hún fór þess á leit við fólk að taka þátt í því, en hún hafi bæði sett sig beint í samband við nokkur fyrrverandi pör sem hún vissi að hefðu skilið í góðu og síðan auglýst eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum. „Ég hafði ekki hugmynd hvernig þessu yrði tekið, “ viðurkennir hún. „Bjóst allt eins við að verða gagnrýnd og þess vegna kom mér satt best að segja skemmtilega á óvart hvað viðtökurnar hafa verið góðar. Ég hef reyndar fengið nokkur afdráttarlaus nei. Sumir sem ég hafði samband við treystu sér ekki út í þetta, skiljanlega þar sem það eru auðvitað alls konar tilfinningar með í spilinu eftir að fólk hættir saman. En í heildina hefur fólk verið mjög jákvætt.“
„Auðvitað getur andrúmsloftið stundum verið svolítið rafmagnað þar sem sumir hafa kannski ekki hist eða talast við í mörg ár þegar þeir mæta í myndatöku.“
Rafmagnað andrúmsloft
Til marks um góðar viðtökur segist Dóra hafa myndað fimmtán fyrrverandi pör, alls konar pör, fólk með langa sögu að baki, fólk með stutta sögu, yngri pör og eldri, þekkt pör og óþekkt. Ólík pör sem eigi þó öll sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið ástfangin upp fyrir haus. „Það hefur verið mjög gaman hingað til. Auðvitað getur andrúmsloftið stundum verið svolítið rafmagnað þar sem sumir hafa kannski ekki hist eða talast við í mörg ár þegar þeir mæta í myndatöku. En það eru mómentin sem ég vil mynda, þessar fyrstu mínútur sem fólk hittist. Áður en því gefst tími til að stilla sér upp. Á meðan allar varnir liggja niðri. Það er svo mikil einlægni í þeim augnablikum,“ segir hún og segir fallegt þegar fólk sem t.d. á börn saman biður um eintök handa ungviðinu eða þegar fólk sem er svolítið stressað í upphafi faðmast í lokin.
Dóra hefur hingað til helst verið þekkt sem athafnakona. Hún stóð til dæmis á bak við vinsæla bari eins og Jolene og The Log Lady í Kaupmannahöfn. Þýðir þetta þá að hún sé að skipta um starfsvettvang? „Ég var orðin svolítið leið á barbransanum,“ svarar hún hreinskilin. „Hef hins vegar alltaf haft áhuga á ljósmyndun og ákvað því að byrja í Ljósmyndaskólanum, er þar á fyrsta ári og þetta er fyrsta verkefnið mitt. Nú hlakka ég til að halda áfram í þessum frábæra skóla, því mér finnst ég vera algjörlega á réttri hillu.“
Auglýsingin sem Dóra setti á samfélagsmiðla: „REMEMBER WHEN YOU LOVED ME“ Ég er að leita að fyrrverandi kærustupörum, hjónum eða elskendum á ÖLLUM aldri til þess að taka þátt í ljósmyndaverkefni sem ég er að vinna að. Einu skilyrðin eru þau að þið verðið að hafa eitt sinn verið ástfangin. Hvernig sem ykkar samband er í dag. Fallegt, erfitt, skrítið eða lítið þá væri ég til í að heyra í ykkur!
Aðalmynd: Dóra Takefusa og Örn Tönsberg hafa líka mætt á sett. Alls er Dóra búin að mynda 15 pör en stefnan er að ná 100 pörum á mynd.
Söng- og leikkonan Selena Gomez greindi frá því á Instagram í gær að hún ætlar að taka sér pásu frá samfélagsmiðlum. Hún gaf til kynna að neikvæðar og dónalegar athugasemdir frá fylgjendum hennar væri hluti ástæðunnar.
Gomez deildi sjálfsmynd af sér og skrifaði meðal annars við myndina: „Ætla að taka mér pásu frá samfélagsmiðlum. Aftur. Athugið að neikvæðar athugasemdir geta sært hvern sem er. Augljóslega.“
Undanfarna daga hefur Gomez verið nokkuð virk á Instagram en virðist nú ætla að einbeita sér að öðru næstu daga.
Þess má geta að Gomez er með 143 milljónir fylgjenda á Instagram. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gomez tekur sér frí frá samfélagsmiðlum og því áreiti sem getur fylgt því að vera á samfélagsmiðlum.
Þau okkar sem sáu heimildarmyndina Amy sem Asif Kapadia sendi frá sér árið 2015 erum kannski enn að jafna okkur eftir það áhorf. En heimurinn fær ekki nóg af Amy og nú hefur verið tilkynnt að kvikmyndafyrirtækið Eagle Vision muni frumsýna nýja heimildarmynd um söngkonuna þann 2. nóvember. Kominn tími til að kaupa nýjan vasaklút.
Myndin ber nafnið Amy Winehouse – Back to Black og þar er, eins og nafnið gefur til kynna, fylgst með söngkonunni hljóðrita plötuna Back to Black. Plötuna sem gerði hana fræga og átti kannski sinn þátt í því að hún missti tökin á lífi sínu.
„Ég gaf út plötu sem ég er mjög stolt af þar sem ég fjalla um slæmar aðstæður sem ég kom mér út úr,“ segir Amy í viðtali í kynningarstiklu myndarinnar. Platan kom út 2006 og varð til þess að Amy, líf hennar, ofneysla eiturlyfja og alkóhóls og síðast en ekki síst eitrað samband hennar við Blake Fielder Civil varð á allra vörum. Sú harmsaga endaði með því að hún lést úr áfengiseitrun 23. júlí 2011.
Í nýju myndinni verður mikið af áður ósýndu efni frá ferli hennar, viðtöl við tónlistarmenn sem unnu með henni og upptaka frá einkatónleikum sem hún hélt í Riverside Studios í London fyrir örfáa áhorfendur.
Myndin verður, eins og áður sagði, frumsýnd 2. nóvember en þeir sem geta ekki beðið svo lengi geta kíkt á kynningarstikluna hér fyrir neðan.
Whiskey in a Teacup, eða viskí í tebolla, er ný lífsstílsbók eftir Óskarsverðlaunaleikkonuna Reese Witherspoon sem kom út 18. september. Í bókinni skiptast á mataruppskriftir, margar þeirra frá ömmu leikkonunnar, og ráðleggingar um allt milli himins og jarðar allt frá því hvernig halda á hlöðupartí á miðnætti til þess hvernig setja á rúllur í hárið til að útkoman verði sem glæsilegust.
Reese fæddist í New Orleans og hefur oft og lengi talað um hversu sterk áhrif það hafi haft á sjálfsmynd hennar og lífsskoðanir að eiga rætur í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Bókin er eins konar óður til þessara róta og margar af uppskriftunum sem leikkonan deilir þar eru frá ömmu hennar, Dorotheu, sem á meira að segja heiðurinn af nafni bókarinnar, en hún á að hafa sagt að konur frá Suðurríkjunum væru eins og viskí í tebolla; skrautlegar og fínlegar á ytra borðinu en eldsterkar innra með sér.
Það er bókaútgáfan Simon & Schuster sem gefur bókina út og hún hefur þegar hlotið mjög jákvæðar umsagnir á Amazon. Þeir sem eru forvitnir um innihaldið geta skoðað myndbandið sem útgáfan gaf út til að markaðssetja bókina, en þar er undirtitill hennar sagður vera: það sem uppeldi í Suðurríkjunum kenndi mér um ástina, lífið og kexbakstur.
Í þriðja sinn sem íslenskir listamenn eru tilnefndir til verðlaunanna.
Hljómsveitin Reykjavíkurdætur hefur verið tilnefnd til tónlistarverðlaunanna Music Moves Europe Forward, sem veitt eru af Evrópusambandinu. Reykjavíkurdætur eru tilnefndar ásamt þremur öðrum flytjendum í flokknum rapp/hip hop, en tveir flytjendur í hverjum flokki hljóta verðlaunin sem verða afhent á Eurosonic-tónlistarhátíðinni í Hollandi 19. janúar 2019. Alls eru 24 listamenn tilnefndir og verðlaunin verða veitt í sex flokkum.
Þetta er í þriðja sinn sem íslenskt tónlistarfólk er tilnefnt til verðlaunanna. Of Monsters and Men hlutu þau 2013 og Ásgeir Trausti 2014. Listinn yfir verðlaunahafa er mikilfenglegur en meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin síðastliðin ár eru Adele, Lykke Li, Disclosure, Mumford & Sons, Damien Rice, Katie Melua, Todd Terje, MØ og Hozier.
Verðlaunin koma í stað EBBA-verðlaunanna sem síðan 2003 hafa árlega verið veitt efnilegasta tónlistarfólki álfunnar. Í yfirlýsingu frá dómnefnd kemur fram að tilgangur verðlaunanna sé að veita upprennandi tónlistarfólki, sem fangi hljóm Evrópu dagsins í dag og morgundagsins, viðurkenningu. Verðlaunin eigi ennfremur að örva dreifingu tónlistar þvert á landamæri og vekja athygli á fjölbreytninni sem blómstri í evrópskri tónlistarmenningu.
Margt ber að hafa í huga þegar eldhús er innréttað, hvort sem það er verið er að gera upp gamalt eldhús eða innrétta í fyrsta skipti í nýju húsnæði. Við viljum nýta rýmið sem best og um leið hafa það fallegt fyrir augað og gera það að okkar. Við fórum á stúfana og fengum góð ráð hjá Berglindi Berndsen innanhússarkitekt en hún býr á Seltjarnarnesi og rekur sína eigin stofu á Fiskislóð 31 í Reykjavík.
Hvað hefur þú í huga varðandi nýtingu þegar þú innréttar eldhús?
„Eitt af hlutverkum okkar arkitekta og innanhússarkitekta er að þarfagreina og aðstoða viðskiptavini okkar við að byggja upp draumaheimili sitt. Markmið mitt er ávallt að skapa fallega umgjörð og að örva upplifun fólks á hönnun rýmisins og innviðum þess. Það sem mikilvægast er að hugsa um er samband á milli skipulags og innra fyrirkomulags í sjálfu rýminu. Fólk hugar oft ekki nógu vel að grunnskipulaginu sjálfu. Það þarf að úthugsa rýmið svo besta nýting náist. Huga þarf að einföldu og góðu vinnufyrirkomulagi og miklu skápaplássi. Ef pláss er fyrir hendi reyni ég alltaf að hanna góðar eldhússeyjur eða extra djúpar innréttingar til að ná þessum eyjufíling. Svo eru búr og tækjaskápar eitt best falda leyndarmál eldhúsa. Góð vinnulýsing skiptir einnig gríðarmiklu máli upp á heildarsamhengið og hefur mikil áhrif á líðan fólk.“
Lumarðu á góðum ráðum fyrir eldhús, til að gera það aðgengilegra?
„Mikilvægt finnst mér að skapa rúmgott eldhús fyrir fólk, með miklu skápaplássi, góðu vinnufyrirkomulagi og góðu flæði. Ég reyni einnig alltaf eftir fremsta megni að hanna stórar eyjur með góðri vinnuaðstöðu í eldhús og mynda þannig eina samræmda heild.“
Skiptir máli að hugsa eldhúsið sem vinnurými fyrst og fremst?
„Nei, alls ekki. Þar sem allir fjölskyldumeðlimir eru farnir að taka virkan þátt í eldhússtörfum, finnst mér í góðu lagi að hafa eldhúsið til dæmis sem hluta af borðstofu og stofu, það einfaldlega stækkar rýmið og flæði verður betra á milli rýma. Eldhús og borðstofa verða því oftast hjarta heimilisins.“
Hvernig hugsar þú efnisval í eldhúsi ? „Ég leitast alltaf við að hafa efnisal í eldhúsum í samræmi við heildarhönnun hússins. Ég heillast mikið af náttúrulegum efnivið á móti mjúkum, til dæmis er ég ofboðslega hrifin af marmara og dökkbæsuðum innréttingum. Ég elti ekki mikið tískustrauma. Einfaldleiki og tímaleysi er hinn fullkomni grunnur fyrir mér sem auðvelt er að vinna með og breyta um liti og stemningu hverju sinni og án mikillar fyrirhafnar.“
Ertu með ákveðinn gátlista sem vert væri að fólk færi yfir, þegar það ákveður að endurnýja eldhúsið eða hannar/skipuleggur nýtt eldhús?
„Það sem mér finnst mikilvægast fyrir fólk að hugsa þegar það ræðst í umfangsmiklar breytingar er að þær standist tímans tönn. Svo þarf að huga vel að vinnufyrirkomulagi og notagildi rýmissins, góðu skápaplássi og góðri vinnulýsingu. Þar sem það ríkir meiri skilningur í dag á arkitektúr, skipulagi og vönduðum vinnubrögðum er ég á því að við arkitektar getum sparað fólki mikinn tíma og mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu. Einlægni, traust og gott samband við verkkaupa er mjög mikilvægur þáttur upp á jákvæða upplifun í lok verks.“
Ýr Þrastardóttir fatahönnuður hefur frá útskrift hannað undir eigin merki, stofnað fataverslun, unnið í leikhúsi og við kvikmyndir ásamt því að stílisera tónlistarmyndbönd en nú einblínir hún aðallega á sérsaumaðan fatnað undir fatamerkinu Another Creation.
„Ég fókusera mest á sérsaumaðan fatnað fyrir viðskiptavini samhliða því að koma fötum sem hafa verið framleidd, í sölu hér heima og erlendis. Fatamerkið mitt heitir Another Creation og er fókusinn á fjölnota fatnað sem hægt er að breyta með lítilli fyrirhöfn.“
Sjálf segist Ýr mest klæðast samfestingum og síðkjólum þegar hún er á leið eitthvað fínt en svartur litur er mest áberandi í fataskápnum. „Ég á endalaust af yfirhöfnum því það hefur verið aðalfókusinn hjá mér sem fatahönnuður. Yfirleitt geng ég á hælum en í sumar hafa íþróttaskórnir tekið aðeins yfir á daginn þar sem þeir eru þægilegir og í tísku. Stíllinn minn
er frekar klassískur en samt alltaf mjög ólíkur öllu öðru sem er í gangi því ég geng aðallega í eigin hönnun. Að mínu mati verða allar konur að eiga góðar yfirhafnir í fataskápnum sínum því það er nánast aldrei veður til að fara jakkalaus út á Íslandi. Þá er mikilvægt að eiga nokkrar fallegar yfirhafnir til skiptanna, alla vega einn leðurjakka, góða kápu, blazer og pels.“
Sjarmerandi og auðveldar dagsferðir á fallega áfangastaði rétt fyrir utan Dublin.
Dublin hefur lengi verið vinsæll áfangastaður íslenskra ferðalanga og margir heimsækja hana oftar en einu sinni. Enda ekki furða þar sem borgin er falleg og býður upp á ýmsa skemmtilega afþreyingu, lifandi tónlist og áhugaverð söfn. Írar eru þekktir fyrir gestrisni sína og vinalega framkomu. Auðvelt er að ferðast um borgina og nýta má almenningssamgöngur til að ferðast til þorpa og bæja sem liggja rétt fyrir utan Dublin og það er vel þess virði að stökkva upp í lest, njóta útsýnisins og sjá meira en bara miðborgina.
Í Dublin eru tvö lestarkerfi, annars vegar léttlestin LUAS sem nýlega hefur verið lengd og má taka víðsvegar um borgina. Hinsvegar er það gamla DART-lestin sem tengir úthverfi og þorp sem finna má við strandlengju borgarinnar. DART-lestin býður upp á fallegt útsýni, er notaleg leið til að ferðast á milli staða og er ekki mjög dýr fararkostur.
HOWTH
Howth (sjá mynd) var eitt sinn lítið sjávarþorp þar sem íbúar byggðu afkomu sína á fiskveiðum og að takmörkuðu leyti á landbúnaði. Í dag er Howth ríkmannlegt úthverfi Dublin-borgar og laðar að sér gesti sem koma þangað í gönguferðir eða til að spóka sig á hafnarsvæðinu. Finna má fallegar gönguleiðir á nesinu og ég mæli sérstaklega með að ganga með fram klettabelti Howth en þar má stundum sjá hugaða unga Íra stinga sér í sjóinn frá klettunum. Howth er þekkt fyrir fisk og franskar (fish and chips) og þar eru Beshoff Bros frægastir en einnig má finna veitingastaði við höfnina þar sem setjast má niður og fá sér drykk og góða sjávarrétti. Vinsælt er að fá sér eitt glas af Guinness og ferskar ostrur.
MALAHIDE
Norðan við miðborg Dublin er Malahide sem er fallegt gamalt þorp en er nú hluti af borginni sjálfri. Svæðið á sér langa sögu og vitað er að víkingar áttu aðsetur þar á 8. öld. Líkt og í Howth var mikil hafnarstarfsemi á staðnum og um tíma var framleitt salt í Malahide. Síðar meir varð þorpið vinsælt meðal auðugra Dublinarbúa sem byggðu sér glæsileg hús sem setja mikinn svip á hverfið. Eitt aðalaðdráttarafl Malahide er kastalinn og nánasta umhverfi hans. Hægt er að skoða kastalann með leiðsögumanni gegn gjaldi. Hjá kastalanum er lítill en snotur grasagarður sem gaman er að heimsækja og þar rétt hjá er risastór og flottur leikvöllur sem ætti að slá í gegn hjá þeim sem ferðast með börn. Innan lóðamarka kastalans má finna sælkerabúðina Avoca þar sem kaupa má hressingu, kaffi og vistir fyrir lautarferð í garðinum.
GRAYSTONES OG BRAY
Sunnan Dublin liggja bæirnir Graystones og Bray. Lestarleiðinni þangað er oft lýst sem einni fallegustu samgönguleið á Írlandi og býður upp á mikilfenglegt útsýni út á sjó og með fram klettabeltum strandlengjunnar. Graystones liggur við enda DART-lestarlínunnar og þaðan má ganga vel þekkta gönguleið yfir í bæinn Bray, eða öfugt. Báðir bæirnir bjóða upp á ýmsa góða veitingastaði þar sem svala má þorsta og hungri eftir gönguferð dagsins.
WOW air flýgur til Dublin allt árið um kring. Verð frá 6.499 kr. aðra leið með sköttum.
Bresk stjórnvöld birtu í liðinni viku myndir af tveimur rússneskum mönnum sem grunaðir eru um að hafa byrlað feðginunum Sergei og Yuliu Skripal taugaeitur. Þeir eru sagðir á mála hjá GRU, leyniþjónustu rússneska hersins. Sem fyrr neita rússnesk stjórnvöld allri aðild en þau sönnunargögn sem Bretar hafa lagt fram, sem og afar ósannfærandi frammistaða hinna grunuðu í viðtali við rússnesku RT-fréttastofuna, renna stoðum undir ásakanir Breta. Bendir flest til þess að um hafi verið að ræða hefndaraðgerð gegn Sergei Skripal sem gerðist gagnnjósnari fyrir Bretland eftir að Sovétríkin leystust upp. Tilræðið misheppnaðist því bæði Sergei og Yulia náðu bata eftir að hafa legið á spítala í lífshættulegu ástandi um nokkurra vikna skeið. Hins vegar lést 44 ára kona, Dawn Sturgess, eftir að hafa komist í í snertingu við taugaeitur af sömu tegund, það er taugaeitrið novichok sem þróað var í Sovétríkjunum á árunum 1971 til 1993.
Málið í hnotskurn:
Heimtuðu sönnunargögn
Um leið og málið komst upp, þann 4. mars á þessu ári, beindu bresk stjórnvöld spjótum sínum að Rússlandi, enda taugaeitrið sem notað var til verknaðarins upprunnið þaðan. Bretland, ásamt 28 öðrum ríkjum, beitti Rússland refsiaðgerðum en Rússar neituðu öllu og kölluðu eftir því að Bretar legðu fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings.
Sönnunargögnin hrannast upp
Bresk stjórnvöld birtu í síðustu viku mynd af tveimur mönnum sem grunaðir eru um verknaðinn, þeim Alexander Petrov og Ruslan Boshirov. Þeir eru taldir tengjast leyniþjónustu rússneska hersins. Þeir komu með flugi Aeroflot til Moskvu 2. mars og sneru til baka tveimur dögum síðar. Þeir gistu í London en ferðuðust til Salisbury, þar sem Skripal bjó, bæði þann 3. og 4. mars, áður en þeir héldu aftur til Moskvu.
Ósannfærandi skýringar
Í viðtali við RT-sjónvarpsstöðina, sem styður dyggilega við stjórnvöld í Kreml, fullyrtu þeir Petrov og Boshirov að þeir hafi eingöngu heimsótt Salisbury sem ferðamenn. Vinir þeirra hafi mælt sterklega með þessum áður óþekkta smábæ og þeir hafi verið ólmir í að skoða kirkjuna í bænum. Þessi skýring, sem og aðrar sem þeir gáfu í viðtalinu, hefur fyrst og fremst verið fóður fyrir grínista á Netinu og þykir viðtalið hafa styrkt málflutning Breta heldur en hitt. Þá hafa rannsóknarblaðamenn sýnt fram á að vegabréf þeirra sýni tengsl við varnarmálaráðuneyti Rússlands.
Gefa út handtökutilskipun
Lögregla og saksóknarar telja að þau sönnunargögn sem liggja fyrir í málinu dugi til sakfellingar. Ekki verður farið fram á að þeir verði framseldir til Bretlands enda framselja rússnesk stjórnvöld ekki eigin ríkisborgara til annarra landa. Hins vegar hefur verið gefin út evrópsk handtökutilskipun á hendur þeim. Ólíklegt er að þeir verði nokkurn tíma látnir svara til saka á breskri grundu. 28 ríki beittu rússnesk stjórnvöld refsiaðgerðum vegna málsins, meðal annars með því að reka rússneska erindreka úr landi. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði Rússum verða mætt af fullri hörku vegna málsins.
10 árum eftir að Landsbankinn féll hefur skiptum á eignarhaldsfélaginu Samson, aðaleiganda bankans, verið lokið. Samson var fjárfestingafélag í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og eignaðist ráðandi hlut í Landsbankanum við umdeilda einkavæðingu hans árið 2002. Björgólfur Thorog tengdir aðilir voru um langt skeið stærstu lántakar bankans.
Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að lýstar kröfur í búið námu 77,4 milljörðum kóna, en ekki fengust nema 6,5 milljarðar upp í þær, eða sem nemur 8,6%. Samson var lýst gjaldþrota þann 12. nóvember 2008.
Að því er Stundin greinir frá eru það fyrst og fremst fjármálastofnanir sem tapa á gjaldþroti Samson. Þannig tapaði hinn suður-afríski Standard Bank 12,8 milljörðum króna og hinn þýski Commerzbank 23,8 milljörðum. Þá voru kröfur Glitnis 9 milljarðar króna og gamla Landsbankans 5 milljarðar.
Segja má að skiptalok á Samson séu einn síðasti anginn í uppgjöri Björgólfs Thors við fjármálahrunið 2008. Björgólfsfeðgar voru fyrir hrun meðal helstu burðarása í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun og áttu stóra hluti í félögum og Eimskip, Straumi-Burðarási, Gretti fjárfestingafélagi svo og Landsbankanum.
Öll þessi félög urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu miklum fjárhæðum og hluthafar Landsbankans og Straums Fjárfestingabanka töpuðu öllu sínu hlutafé en tugir þúsunda Íslendinga voru hluthafar í umræddum félögum Björgólfur eldri lýsti sig gjaldþrota árið 2009 og var það eitt stærsta persónlega gjaldþrot Evrópu á sínum tíma. Alls var lýst kröfum upp á 85 milljarða króna í bú Björgólfs eldri, en kröfuhafar fengu aðeins 35 milljónir greiddar upp í lýstar kröfur eða 0.04%. Staða Björgólfs Thors var öllu flóknari og tók nokkur ár að vinna úr skuldum hans. Sjálfur lýsti hann því að persónulegt tjón hans vegna hruns bankakerfisins hafi numið nærri 100 milljörðum króna. Ætla má að fjárhagslegt tap annarra hluthafa og kröfuhafa í skráðum félögum í hans eigu, þ.m.t. Landsbanki Íslands, Eimskipafélag Íslands og Straumi Fjárfestingabanka hafi numið hundruðum milljarða króna. Skuldir félaga honum tengdum voru margfalt hærri en nú, 10 árum síðar, er Björgólfur Thor aftur kominn í hóp ríkustu manna heims og hafa tugi milljarða afskriftir félaga í hans eigu ekki bein áhrif á hann.
Hátt fall og upprisa
Árið 2007 ákveður Björgólfur Thor að kaupa út alla hluthafa lyfjafyrirtækisins Actavis og fékk til þess 4 milljarða evra lán frá Deutsche Bank. Lánið stóð í 5,8 milljörðum kóna árið 2009 en fall íslenska fjármálakerfisins þýddi að Björgólfur Thor var kominn í afar þrönga stöðu. Við tók afar flókin skuldaúrlausn því ekki eingöngu var fjárhagsleg framtíð Björgólfs Thors í húfi, heldur hefði þýski bankinn tapað milljörðum evra ef Actavis hefði orðið ógjaldfært. Niðurstaðan varð sú að Deutsche Bank tók Actavis yfir samhliða því sem unnið var að skuldauppgjöri við þýska bankann. Í apríl 2012 var svo tilkynnt að lyfjafyrirtækið Watson hefði eignast Actavis og átti það stóran þátt í skuldauppgjöri Björgólfs við Deutsche Bank.
„Allar skuldir greiddar“
Það er svo í ágúst 2014 sem Björgólfur Thor sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnir að skuldauppgjöri hans og Novators, fjárfestingafélags hans, sé að fullu lokið. Alls hafi hann greitt 1.200 milljarða króna til lánardrottna, þar af 100 milljarða til íslenskra banka og dótturfélaga þeirra. Í þessu ferli hafi nánast allt verið sett að veði, svo sem húseignir hans í Reykjavík og á Þingvöllum hans, einkaþotan og snekkjan.
„Ég var alla tíð ákveðinn í að ganga frá uppgjörinu með sóma,“ sagði Björgólfur Thor í yfirlýsingu sem gefin var út á þeim tíma. „Til að svo mætti verða þurfti mikla og þrotlausa vinnu til að hámarka virði þeirra eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Þegar tilkynnt var um uppgjör mitt í júlí 2010 kom fram að skuldir myndu verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Við það hef ég staðið.“ Fjárhagslegar afskriftir félaga í hans eigu virðast haldið utan við þetta „heildaruppgjör“ Björgólfs Thors líkt og 70 milljarða króna afskrift kröfuhafa Samson sýnir.
Óhætt er að segja að síðan þá hafi hagur Bjögólfs Thors vænkast. Hann hefur hagnast á hlutum sínum í lyfjageiranum, virði pólska fjarskiptafyrirtækisins Play hefur aukist mjög og á dögunum var tilkynnt að Novator muni hagnast um allt að 20 milljarða króna við sölu á tölvuleikjaframleiðandanum CCP til suður-kóreska fyritækisins Pearl Abbys.
Umsvif Björgólfs Thors á Íslandi eru jafnframt þónokkur. Þannig er hann eða félög honum tengd með eignarhluti í gagnaveri Verne Global og verktakafyrirtækinu Arnarhvoli ehf. Þá hefur auðmaðurinn verið orðaður við Grósku hugmyndahús, Ásbrú ehf., flugfélagið Wow air ehf. og lánveitingar til Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgefanda DV, svo fáein dæmi sé nefnd.
Björgólfur Thor er aftur kominn á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Tímaritið metur eignir hans á 1,8 milljarða dollara og segir þar að hann sé eini milljarðamæringur Íslands (í dollurum talið). Björgólfur Thor er skráður með lögheimili sitt í Bretlandi.
Á Laugaveginum er að finna einstaklega frumlega og skemmtilega hársnyrtistofu sem hefur vakið athygli fyrir að vera svo miklu meira en hársnyrtistofa. Stíllinn á stofunni minnir óneitanlega á villta vestrið og aðkoman heillar.
Okkur lék forvitni að vita nánar hvers konar hársnyrtistofa Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon er og hvað hún hefur upp á að bjóða. Við hittum eigendur hársnyrtistofunnar margbrotnu, hjónin Jón A. Sveinsson, meistara í hársnyrtiiðn, og er ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrúnu Elísabetu Ómarsdóttur heildsala, en hún er kölluð Beta, og fræddust við frekar um tilurð fyrirtækisins og hugmyndafræðina bak við stofuna.
Nonni er fæddur og uppalinn í faginu og fór að læra háriðn árið 1993 og opnaði Quest í apríl 1999. Beta var að vinna í snyrtivörugeiranum þar til þau tóku við stofu foreldra Nonna árið 2007. Hjónin eru að eigin sögn bæði miklir sælkerar og njóta þess að ferðast, hlusta, skoða, neyta og njóta saman.
Segið okkur aðeins frá hugmyndinni bak við Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon og tilurð? „Hugmyndin varð bara til og er í raun enn að verða til. Við erum alltaf saman og eiginlega alltaf í vinnunni og stofan í raun sameiginlegt áhugamál okkar. Okkur datt í hug að gera bara allt sem okkur finnst skemmtilegt og setja það undir sama þakið.“
Hvernig mynduð þið lýsa hársnyrtistofunni í einni málsgrein? „Góð tónlist, ljúffengir drykkir, skemmtilegt fólk og þægilegt andrúmsloft.“
Á hársnyrtistofan sér fyrirmynd úti í heimi? „Nei, í rauninni ekki. Það var engin ein stofa sem við höfðum í huga. Þetta bara gerðist mjög lífrænt. Gamlar bækur og bíómyndir um sögu rakarans eru okkar helstu fyrirmyndir.“
Hársnyrting og viskíbar er skemmtileg samsetning og minnir á villta vestrið. Stofan hlýtur að vera vinsæl meðal viðskiptavina og laða þá að. Eru ekki margir fastakúnnar sem njóta þess að láta dekra við sig og fá smávegis viskídreitil? „Jú, svo sannarlega. Þetta smellpassar saman. Fólk kemur og nærir sig að innan og utan. Seinnipartstímar dagsins eru orðnir ansi fljótir að fyllast og menn eru yfirleitt með tímana sína fastbókaða langt fram í tímann og reyna oft að koma með vinum sínum og halda fundi,“ segir Nonni og brosir.
Við höfum heyrt að þið bjóðið einnig upp á smakkanir sem hafa notið mikilla vinsælla. Frumleikinn er við völd og þið hafið verið með ýmsar samsetningar. Okkur langar að heyra aðeins meira af því. „Við erum sérlegt áhugafólk um lífsins lystisemdir, til að mynda mat og vín. Við höfum sankað að okkur yndislega ljúffengu og spennandi úrvali af viskíi sem okkur fannst við verða að deila með öðrum. Þannig að við settum saman nokkrar smakkferðir þar sem við höfum tekið saman, til dæmis nokkur viskí sem okkur finnst lýsa vel þeirri miklu flóru sem bragðheimur viskís hefur upp á að bjóða. Einnig höfum við verið að para saman viskí og bjór og það kemur ótrúlega skemmtilega á óvart. Við höfum stúderað aðeins sögu kokteilsins og hvernig hugsanlega fyrstu viskíkokteilarnir hafi smakkast.“
Þið hafið boðið upp á fjölmarga viðburði af ýmsu tagi, getur þú sagt okkur aðeins frá því konsepti? „Við höfum haldið listsýningar, verið með ljóðaupplestur, einkapartí og mikið af tónleikum. Við erum til dæmis búin að vera Off-Venue á Airwaves þrjú ár í röð og svo fengum við að hýsa tónleikaröð Sofar Sound í eitt skipti sem var frábært. Okkur finnst alveg nauðsynlegt að brjóta upp daglegu rútínuna svona endrum og sinnum.“
Hvar getur fólk fylgst með því sem er í boði hjá ykkur að hverju sinni? „Við reynum að vera dugleg á samfélagsmiðlum, t.d. er www.questsaloon.is síðan okkar á Facebook og þar er hægt að fylgjast með og senda okkur fyrirspurnir. Svo erum við á Instagram, VK og Twitter sem #questsaloon eða #nonniquest.“
Einnig er hægt að kaupa ýmsan varning hjá ykkur, ýmis konar hársnyrtivörur og fylgihluti, ekki satt? „Við erum líka með heildsölu á hárlitum og hárefnum frá Goldwell, DENMAN og KMS California sem við seljum á aðrar stofur og einnig til viðskiptavina okkar. Á barnum/afgreiðslunni er skemmtilega fjölbreytt flóra af hárefnum, skeggvörum, burstum, bjór, viskíi og ýmsu öðru skemmtilegu.“
Lífið væri talsvert auðveldara ef hið rétta væri alltaf augljóst og aldrei án togstreitu milli ýmissa þátta. Þannig myndi Facebook eflaust loga mun sjaldnar, stjórnmál fengju minni athygli og margir fræðimenn myndu missa vinnuna svo fátt eitt sé nefnt. Við gætum sett tærnar upp í loftið og leyft litlausu lífinu að líða áfram.
Efnahagslegur ójöfnuður og túlkun á þróun, umfangi og áhrifum hans kemur upp í hugann í þessu samhengi. Það vill væntanlega enginn að allir þénuðu og ættu jafnmikið. Til hvers að taka áhættu og leggja sig almennt fram ef svo er í pottinn búið? Líklega yrði lítið eftir til skiptanna. Það vill heldur enginn að fáir fái notið alls þess sem líf í auðugu landi hefur upp á að bjóða. Sannleikurinn liggur einhvers staðar á milli og til að finna hann er fyrsta spurningin: Vitum við hvernig ójöfnuður þróast?
Svarið fer eftir því hvern þú spyrð. Mjög oft heyrist að ójöfnuður fari vaxandi. Sé því mótmælt, t.d. ef tekjur þeirra tekjulægstu hækka um fleiri prósentustig en annarra, heyrist að enginn lifi á prósentum eða að krónutöluhækkanir tekna séu meiri hjá þeim tekjuhærri, svo að ójöfnuður sé að aukast.
Játning: Ég lifi á prósentum
Þó að enginn lifi tæknilega séð á prósentum, þá er það engu að síður þannig að ef kaupmáttur einhvers eykst um 10% getur viðkomandi keypt 10% meira af öllu því sem hann eða hún keypti áður. Krónutöluhækkanir eru vissulega meiri hjá þeim sem eiga meira eða hafa meiri tekjur og slíkur samanburður getur verið gagnlegur. En ólíkt því sem oft er haldið fram er rangt að ójöfnuður aukist við það eitt að þeir tekjuhæstu fái meiri hækkun í krónum talið.
Tökum dæmi: Jón er með 300 þús. kr. á mánuði og Gunna er með 900 þús. kr. Segjum að Jón hækki um 10% í tekjum á ári en Gunna um 5%. Gunna hækkar fyrst meira í krónum talið en á endanum þurrkast bilið út og eftir 24 ár er Jón kominn með hærri tekjur en Gunna og ójöfnuðurinn nær horfinn. Hægt er að gera ótal útfærslur af þessu dæmi en niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er því stærðfræðileg staðreynd að jöfnuður eykst, ef hlutur þeirra í lægstu þrepunum vex hlutfallslega hraðar en þeirra í efri þrepunum. Um þetta er ekki hægt að deila.
Hvað með ójöfnuð á Íslandi?
Tekjujöfnuður á Íslandi mældist árið 2016 sá mesti í Evrópu (miðað við GINI-stuðulinn). Fyrir utan fjármálakreppuna og aðdraganda hennar hefur jöfnuður haldist stöðugur og var árið 2016 sá nákvæmlega sami og 2004. Nýjustu tölur um tekjur einstaklinga árið 2017 benda svo eindregið til þess að tekjujöfnuður hafi aukist, einmitt þar sem lægstu tekjuhóparnir hækkuðu áberandi mest.
Eignaójöfnuð er erfiðara að fullyrða um einkum þar sem gögn úr skattframtölum taka ekki tillit til lífeyrisréttinda (sýna meiri ójöfnuð) og verðbréf eru eignfærð á nafnvirði (sýna minni ójöfnuð). Þrátt fyrir þessa annmarka heyrist oft margt fullyrt um eignaójöfnuð, þar með talið að eignaójöfnuður fari vaxandi. Ekki einu sinni þau gögn sem liggja fyrir styðja þá fullyrðingu. Hlutdeild efstu 5%, 1% og 0,1% í eigin fé landsmanna hefur í öllum tilvikum lækkað hvert einasta ár frá 2010 til 2016. Það þýðir að virði hreinna eigna þeirra hefur vaxið hægar en annarra, sem bendir til þess að eignajöfnuður fari vaxandi.
Röng sjúkdómsgreining – rangar lausnir
Vaxandi ójöfnuði er stundum kennt um ýmislegt sem aflaga fer í samfélaginu. Það er þó eilítið eins og að setja plástur á sár sem er gróið að ráðast í aðgerðir gegn ójöfnuði þegar hann er einmitt að minnka frekar en aukast. Það sem jafnvel er verra er að slíkar aðgerðir geta gert alla landsmenn jafnari gagnvart heiminum, eða með öðrum orðum, fátækari.
Í umræðu um átröskun hefur athyglin fyrst og fremst beinst að konum en í umfjöllun í nýjasta hefti Læknablaðsins er rætt við Guðlaugu Þorsteinsdóttur geðlækni sem segist telja að átröskun sé algengari meðal karla en tölur segja til um þar sem þeir leiti sér síður aðstoðar en konur. María Þóra Þorgeirsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri í átröskunarteymi Landspítalans, tekur undir þessi orð Guðlaugar. „Það er sú tilfinning sem við höfum að átröskun sem lýsir sér í togstreitu gagnvart mat og eigin líkama, sé vangreindur vandi hjá karlmönnum. Það er ákveðið stigma hjá körlum því fólk tengir átröskunarvanda fyrst og fremst við konur og það skilar sér í því að karlar þora ekki eða átta sig ekki á því að þeir eigi mögulega við átröskunarvanda að stríða,“ segir María.
Getur birst í vöðvafíkn
Hjá körlum getur átröskun tengst svokallaðri líkamsskynjunarröskun, en í slíkum tilfellum upplifir fólk líkama sinn ekki eins og hann er. Þetta getur meðal annars birst í vöðvafíkn. „Þá átta menn sig ekki á því hvað þeir eru í raun og veru orðnir stórir, og geta ekki hætt að lyfta lóðum og stjórna mataræði á óheilbrigðan hátt til að breyta líkama sínum. Svo er það hinn hópurinn sem er ekki að reyna að auka við vöðva en flakkar talsvert í þyngd og á í mikilli tilfinningalegri togstreitu gagnvart mat.“
Rétt eins og hjá konunum segir María Þóra að karlar verði fyrir áhrifum frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Þar birtist ákveðnar glansmyndir af því hvernig karlar eiga að líta út og engin ástæða sé til þess að þessar glansmyndir hafa minni áhrif á karla en konur.
Íþróttafólk í áhættuhópi
Einnig hefur verið sýnt fram á samspil íþrótta og átröskunar en nýleg íslensk rannsókn leiddi í ljós að íþróttafólk er í sérstökum áhættuhópi við að fá átröskunarsjúkdóma. Þannig höfðu 25% kvenna neikvæða líkamsímynd og átröskunareinkenni og 14% karla. Gunnhildur Gunnarsdóttir, sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild, kannast við tilfelli þar sem ofþjálfun og átröskun haldast í hendur. „Við vitum að unglingar sem stunda mikla líkamsrækt fá stundum misgáfuleg ráð frá þjálfurum.“
Í ofangreindu viðtali við Guðlaugu er sérstaklega komið inn á neyslu orkudrykkja og fæðubótarefna og hún leggur mikla áherslu á að neysla slíkra efna geti aldrei komið í stað matar. Þetta eigi sérstaklega við um börn. „Orkudrykkir og fæðubótarefni eru of einhæf orkuinntaka og geta haft slæm áhrif á þroska barna og unglinga. Fyrir fullorðna einstaklinga er mikilvægt að átta sig á því að orkudrykkir og fæðubótarefni geta aldrei komið í staðinn fyrir mat. Það er ekki hægt að lifa á slíku.“
Eftir alla umræðuna í kjölfar #metoo-byltingarinnar á síðasta ári kemur mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON eins og kjaftshögg. Hefur þá ekkert breyst? Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Margrét Erla Maack skemmtikraftur segja málið dæmigert. Þess séu jafnvel dæmi að karlar hafi tvíeflst í áreitninni eftir #metoo-byltinguna.
„Nei, því miður, það kemur ekkert á óvart í þessu máli,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON. „Mín reynsla af þessum málum, í gegnum einstaklinga sem hafa leitað til okkar hjá BSRB, er að mjög algengt er að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti. Rannsóknir sýna að það eru margir sem ákveða að stíga ekki fram vegna þess að þeir hafa ekki trú á því að það verði brugðist við með viðeigandi hætti.“
Spurð hversu algengt þetta vandamál sé, hvernig mál BSRB fái til dæmis til umfjöllunar, segir Sonja að þau séu ekkert mjög mörg, hvorki hjá BSRB né öðrum samtökum á vinnumarkaði, og ástæðan sé meðal annars sú að fólk hafi ekki vitneskju um hvert það geti leitað eftir aðstoð.
„Þannig að áhersla #metoo-samstarfsnefndar 16 samtaka og stofnana, sem stofnuð var af BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélagi Íslands og FKA, er meðal annars á að gera upplýsingar aðgengilegrium hvert sé hægt að sækja sér aðstoð og stuðning. Til dæmis með opnun vefsíðu þar sem allar upplýsingar um ferlið koma fram.“
Fjórir gerendur, engin viðbrögð
Beðin um að nefna dæmi um mál sem hafa komið á hennar borð er Sonja skjót til svars. „Það leitaði til mín kona sem hafði birt frásögn sína hjá #metoo-yfirlýsingu kvenna í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði síðastliðinn vetur, þar sem hún lýsti kynferðislegri áreitni sem hún hafði orðið fyrir á vinnustað sínum. Það sem var óvanalegt við þetta mál var að gerendurnir voru samtals fjórir og yfirmaðurinn brást ekki við kvörtunum hennar. Eftir að hún birti sögu sína fór ferli í gang á vinnustaðnum þar sem átti að bregðast við, að því er hún hélt. Það var sett af stað fræðsla um kynferðislega áreitni og hún fékk þær upplýsingar að viðkomandi gerendur hefðu verið áminntir, en vinnuaðstæður hennar breyttust samt ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða til þess að auðvelda henni að koma til baka. Eftir að hún leitaði til okkar tók við margra mánaða tímabil þar sem við reyndum að ná fram einhverjum breytingum hjá fyrirtækinu, en ekkert gerðist. Í kjölfarið samdi fyrirtækið við hana um starfslok, sem er því miður meginlína í svona málum. Svona mál enda oftar en ekki með því að þolandinn hættir á vinnustaðnum. Eins og kom mjög skýrt fram í #metoo-frásögnunum eru staðhæfingar um að meintir gerendur séu svo ómissandi á vinnustaðnum að það sé ekki hægt að láta þá fara, mjög algeng viðbrögð við kvörtunum um kynferðislega áreitni.“
Sonja segir þetta eitt af verstu málum sem hún hafi fengið til umfjöllunar, einkum vegna fjölda gerendanna, en það séu vissulega alls konar mál sem komi fram. „Allt frá nauðgun á vinnustaðstengdum viðburði yfir í kynbundnu áreitnina sem er þá meira svona karlremba þar sem karlmenn viðhalda valdastöðu sinni á vinnustaðnum með því að grafa undan konunum.“
Dæmi um að karlar hafi tvíeflst eftir #metoo
Hefur ástandið þá ekkert lagast eftir #metoo-umræðuna? „Það voru vissulega okkar væntingar,“ segir Sonja. „En ég upplifi það ekki af þeim málum sem hafa verið að koma til umfjöllunar undanfarið. Upplifunin er sú að stjórnendur vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við, þekkja ekki reglurnar nægilega vel og svo er þetta að vissu leyti þverfaglegt ferli. Það þarf líka að skilja sálfræðilegu og andlegu afleiðingarnar á þolandann til að réttum aðferðum sé beitt. Það kemur til dæmis fram í reglugerðum sem eiga að gilda um þetta að alltaf eigi að ræða við einn aðila í einu, en það eru fjölmörg dæmi um það að atvinnurekendur taki það feilspor að kalla bæði þolandann og gerandann saman á fund og ætla að fara að ræða málið. Það virkar eðlilega ekki.“
Sumir hafa haft á orði að ástandið hafi að mörgu leyti versnað eftir #metoo-byltinguna. Nú fóðri menn áreitnina með því að það sé fyndið að áreita „kellingarnar“ fyrir þetta „#metoo-kjaftæði“. Sonja segir að dæmi séu um það.„Það er auðvitað mjög mismunandi menning á vinnustöðum,“ segir hún. „En eins og í dæmi Orkuveitunnar þá erum við að tala um fyrirtæki sem hefur lagt mikla vinnu í jafnréttismálin og er jafnvel fyrirmynd annarra fyrirtækja í þeim efnum, en það skilar sér greinilega ekki. Á öðrum vinnustöðum eru dæmi um að karlarnir sem þar vinna hefi tvíeflst og nýtt #metoo-umræðuna til þess að gera meira grín og meira lítið úr konunum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana.“
Beðin um dæmi um slíkan vinnustað segir Sonja að þau séu fjölmörg, en hún muni sérstaklega eftir einu tilviki. „Það sem við þurfum virkilega að taka inn í þessa vitundarvakningu er staða kvenna af erlendum uppruna,“ segir hún. „Eitt dæmi um vinnustað þar sem menn hafa tvíeflst er staður þar sem kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en flestar konurnar eru af erlendum uppruna. Þar varð áreitnin meiri eftir #metoo-byltinguna og allt gert til að grafa undan konunum og brjóta þær markvisst niður.“
Helmingur fyrirtækja hefur ekki jafnlaunastefnu
Hvað telur Sonja að sé hægt að gera til að raunveruleg breyting eigi sér stað?
„Þessar reglur sem ég var að vísa í áðan segja að atvinnurekendur eigi annars vegar að gera áhættumat, meta hættuna á því að fólk verði fyrir kynferðislegu ofbeldi í vinnunni, og gera í framhaldi af því áætlun um forvarnir og viðbrögð. Í rannsókn sem var gerð í vor á hundrað stærstu vinnustöðum landsins til að kanna hvort #metoo-umræðan hefði haft áhrif á vinnustaðamenningu þeirra, sýndu niðurstöðurnar að rúmlega fjórðungur af þessum stærstu vinnustöðum höfðu ekki framkvæmt áhættumat og tólf prósent höfðu ekki unnið áætlun um forvarnir eins og þeim er skylt að gera. Helmingur fyrirtækjanna hafði enga jafnlaunastefnu og tólf prósent ekki jafnréttisstefnu, sem lög segja fyrir um að verði að vera á öllum vinnustöðum þar sem starfa 25 manns eða fleiri. Það eru sem sagt alls ekki allir vinnustaðir sem hafa tekið umræðuna til sín. Fyrsta skrefið er auðvitað að taka umræðuna um hvernig hegðun fólk vill hafa á vinnustaðnum og hvað er ásættanlegt og hvað ekki. Það þarf að senda skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið og um leið skilaboð um hvert fólk getur leitað. Það þarf að búa til þannig andrúmsloft á vinnustaðnum að fólk treysti sér til þess að stíga fram. Þegar koma upp svona mál eins og hjá Orkuveitunni og starfsfólkið upplifir það að þolandinn er látinn fara þýðir það auðvitað að fólk óttast að segja frá, fólk vill passa upp á sitt eigið starf. Þannig að þessi viðbrögð eru í raun þöggunartækni.“
Ég spyr Sonju hvort hún hafi sjálf lent í áreitni á vinnustað og viðbrögðin eru dæmigerð. „Nei,“ segir hún strax en bætir svo við eftir stutta umhugsun. „Jú, jú, ég hef lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað, bullið í mér. Það hafa allir lent í þessu en fólk grefur það bara og heldur áfram í staðinn fyrir að það sé nokkuð gert í því. Á einum vinnustaðnum sagði ég upp út af þessu, enda hafði ég ekki hugmynd um að það væri hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu í svona málum.“
Spurð hvort hún hafi það á tilfinningunni að afgreiðsla þessara mála sé eitthvað að þokast í rétta átt dregur Sonja við sig svarið.
„Það er meira mín tilfinning að núna sé samstaðan meiri og fólk upplifi að það er ekki eitt í þessu. Krafturinn í þessari byltingu hjálpar fólki að hætta að gera lítið úr þeim atvikum sem það lendir í. Og það sem ég er líka að vona, og hef fundið fyrir, er að fólk hjálpast meira að. Samkenndin í þessum málum hefur aukist og það er stuðningur inni á vinnustaðnum fyrir þá sem hafa lent í einhverju og fólk er duglegra við að benda strax á ef eitthvað fer úrskeiðis þótt það verði ekki fyrir áreitninni sjálft. Og það á við bæði um karla og konur. Þannig að já, þetta er eitthvað að þokast. En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“
„Var hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair“
Margrét Erla Maack, er sama sinnis og Sonja, hún segir að málið komið ofboðslega lítið á óvart, þegar hún er spurð um álit á viðbrögðum ON við kvörtunum Áslaugar Thelmu Einarsdóttur um kynferðislega áreitni framkvæmdastjórans Bjarna Más Júlíussonar. „Það er hún sem er vandamálið. Hún á að halda kjafti. Það er ekkert nýtt í þessu,“ segir hún.Margrét Erla viðurkennir þó að hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig þetta mál var höndlað.
„Maður heldur alltaf að þetta sé búið,“ andvarpar hún. „Sérstaklega í ljósi þeirra byltinga sem hafa orðið undanfarin ár. Maður heldur alltaf þegar svona fréttir koma upp að þetta hljóti að vera síðasta konan sem lendir í þessu.“
Margrét Erla hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. „Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“
Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.
„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist.“
#metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni
Margrét Erla segir þessa reynslu fyrir tólf árum langt frá því einsdæmi, það sé nánast undantekningalaust einhver dónakall á þeim skemmtunum þar sem hún kemur fram sem líti á það sem sjálfsagt mál að áreita hana kynferðislega. „Síðasta stóra uppákoman sem ég lenti í var á árshátíð hjá stóru opinberu fyrirtæki í orkugeiranum þar sem einn maður lét mig bara ekki vera. Ég benti honum á að ég væri að vinna vinnuna mína og hann ætti að láta mig í friði en það þýddi ekkert. Hann spurði hvort hann mætti klípa mig í rassinn og lét sér ekki segjast þótt ég neitaði. Þannig að ég talaði við skemmtinefndina og vinkonu mína sem er háttsett innan fyrirtækisins sem talaði við manninn og hann kom voða lúpulegur og baðst afsökunar, en hélt því fram að þetta væri ekkert alvarlegt af því að hann hefði spurt um leyfi og að honum hefði bara fundist þetta fyndið út af „þessu #metoo“. Þá gekk hann alveg fram af mér. Honum, og mörgum fleirum, finnst sem sagt #metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni og kalla það brandara.“
Strax daginn eftir hafði Margrét Erla samband við mannauðsstjóra fyrirtækisins og fékk standard svar um að þetta færi í ferli og síðan yrði heyrt í henni frekar. Síðan gerðist ekkert fleira og mánuði síðar skrifaði hún pistil um uppákomuna í Kjarnann og þá loks fékk hún viðbrögð frá fyrirtækinu. Var kölluð í viðtal og fór síðan í gegnum stefnumótun með forsvarsmönnum fyrirtækisins um að setja skýrar reglur um svona framkomu. „Það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að þótt áreitnin fari ekki fram á vinnustað á vinnutíma þá gilda sömu reglur um framkomu við samstarfsfólk á samkomum á vegum fyrirtækisins eins og innan veggja vinnustaðarins.“
Margrét segir fyrirtækið sem um ræðir að mörgu leyti sambærilegt við OR og að þar hafi ráðið ríkjum jakkafataklæddir menn alveg fram á síðustu ár, það sé tiltölulega nýskeð að konur komist til áhrifa innan þessara fyrirtækja og karlarnir reyni með öllum ráðum að verja sitt yfirráðasvæði.
„Þetta eru litlir kallar sem er ógnað og eru að reyna að púffa sig upp og sýna hvers þeir eru megnugir,“ segir hún. „Í starfi mínu sem plötusnúður finn ég vel fyrir þessari áráttu karlmanna sem hafa verið einráðir á sínu sviði allt of lengi til að gera lítið úr konum sem koma inn á sviðið. Þeir byrja alltaf á að benda á að það séu nú ekki margar konur í þessari stöðu og halda svo áfram að reyna að draga mann niður svo þeim líði betur.“
„Æ, já, hann er alltaf svona“
Það sem Margréti Erlu finnst einna ógnvænlegast er að það virðist sem allir viti af þessari framkomu ákveðinna manna, en það sé bara horft fram hjá því.
„Í hvert einasta skipti sem ég hef kvartað hef ég fengið svarið: „Æ, já, hann er alltaf svona.“ Samt er þessari týpu alltaf boðið í öll samkvæmi á vegum fyrirtækisins. Ég hef meira að segja verið í veislu hjá háttsettu fólki í þjóðfélaginu, þar sem maður var látinn skrifa undir trúnaðarsamning um að segja ekki frá, þar sem eiginmaður einnar konunnar sem vann þarna var þekktur fyrir að vera ógeðslegur og það voru vaktir hjá konunum í veislunni við að passa hver aðra fyrir honum. Þannig að í staðinn fyrir að bjóða honum ekki voru allir á fullu að kóa með þessari framkomu. Það var svakaleg upplifun.“
Margrét Erla segir þessa þöggun og meðvirkni vera stærsta hjallann sem þurfi að yfirstíga til að einhver breyting verði á meðhöndlun slíkra mála.
„Það þarf að vera skýrt verklag innan fyrirtækja um það hvernig eigi að taka á slíkum brotum,“ segir hún. „Það er allt of algengt að konur þori ekki að kvarta yfir áreitninni af ótta við að missa vinnuna og vera álitnar „sú týpa“. Það þýðir ekkert að skrifa í jafnréttisáætlun að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin ef það fylgir engin útlistun á því hvernig eigi að bregðast við þegar hún kemur upp. Hvað þýðir það að einhver framkoma sé ekki liðin? Á bara að skamma fólk og láta svo eins og ekkert hafi gerst? Það verða að vera skýrt markaðar afleiðingar af svona brotum. Pabbi minn hefur unnið mikið við meðferð fíknisjúklinga og hann hefur bent mér á að það sem margir karlmenn byggi sjálfsvirðingu sína á sé vinnan. Þótt konan fari frá þeim og börnin hætti að tala við þá gera þeir ekkert í sínum málum, en ef þeir missa vinnuna fara þeir að taka á vandanum. Þannig að ég held að eina leiðin til þess að menn fari að taka þetta alvarlega sé að það sé í alvörunni ekki liðið á vinnustaðnum.“
Spurð hvort henni finnist ástandið ekkert hafa skánað við #metoo-byltinguna segir Margrét Erla að það séu tvær hliðar á því máli. „#metoo hefur auðvitað gefið fólki rödd,“ segir hún hugsi. „Núna er fólk tilbúið að tala um þetta vandamál. En mér finnst viðhorfið dálítið vera það að fólki sé hrósað fyrir að stíga fram og segja frá, en svo sé ekki farið neitt lengra með málið. Það sé litið svo á að með því að hvetja fólk til að tala sé málinu lokið.“
Skikka þarf gerendur í sálfræðitíma
Í máli Áslaugar Thelmu gagnvart OR hefur þó komist hreyfing á málin og hver framkvæmdastjórinn af öðrum fallið. Hjálpar það ekkert?
„Mig langar að trúa því,“ segir Margrét Erla og andvarpar. „En það ömurlega er að þegar svona gerist þá fer allt ferlið að verða loðnara. Það fara að koma fram meiri hótanir þannig að málin verða umdeildari, sem fyllir mann vonleysi. Ég þurfti til dæmis að leita lengi á fjölmiðlunum til að finna nafnið á framkvæmdastjóranum sem áreitti Áslaugu Thelmu. Áherslan í fréttaflutningnum var öll á henni og manninum hennar. Við erum einhvern veginn miklu meira tilbúin að nafngreina þolandann en gerandann. Hún er alltaf bara „þessi týpa“ sem er með vesen, í staðinn fyrir að áherslan sé á að benda á að gerandinn sé ógeðskall.“
Hvað heldurðu að sé hægt að gera til að viðhorfið breytist?
„Ef ég væri dónakall gæti ég svarað því,“ segir Margrét Erla og hlær kalt. „Þá gæti ég sagt þér hvað ég væri hrædd við ef það kæmist upp um mig í svona máli. En það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að viðurkenna að þetta er alvöruvandamál, viðurkenna að rótin að þessari framkomu er að körlum finnst þeim ógnað og að þeir eru litlir í sér. Þannig að ég segi að fyrsta mál á dagskrá þegar svona kemur upp sé að skikka gerandann í sálfræðitíma eða áfengismeðferð. Skikka hann til að horfa inn á við. Það er nefnilega svo algengt viðhorf hjá karlmönnum að það sé skortur á karlmennsku að leita sér hjálpar. Og ef það dugar ekki til að menn taki sig á séu þeir bara reknir. Það verður að vera algjörlega kristalsskýr aðgerðaáætlun til að taka á svona málum innan fyrirtækja. Við verðum að hætta þessari meðvirkni. Núna!”
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Video – upptaka og leikstjórn / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Thomas Brorsen Smidt bregður sér í hlutverk dragdrottningarinnar Jackie Moon í tilefni af háskólaútskrift.
„Við höfum engar áhyggjur af því að vanalegu gestunum okkar verði á einhvern hátt misboðið, þeir munu pottþétt skemmta sér. Ég er miklu stressaðri yfir því hvað foreldrum mínum, tengdaforeldrum og öllum fræðimönnunum á eftir að finnast. Vonandi fá þau ekki algjört sjokk,“ segir Thomas Brorsen Smidt, um sýninguna Jackie Moon’s Graduation Show, sem hann stendur fyrir á Gauknum í kvöld klukkan níu.
Viðburðurinn er svolítið óvenjulegur því hér er á ferð drag-sýning sem er haldin í tilefni af doktorsvörn Thomasar í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hvernig kom það eiginlega til? „Sko, í stuttu máli snýst ritgerðin mín um hversu erfitt er að innleiða jafnréttisreglur innan veggja akademíunnar, tiltölulega þurrt viðfangsefni sem á ekkert skylt við drag. Bara ekki neitt. En, hins vegar lærir maður í kynjafræði að kyn og kyngervi eru félagslega mótað en ekki fastmótað, einskonar leikur og hvað er drag annað en einmitt leikur með kyngervi og kyn? Þar sem hlutirnir er ýktir upp úr öllu valdi, sem fær fólk ekki aðeins til að hlæja heldur til að átta sig á hversu fáránlegt þetta tvennt getur verið. Að því leytinu til má alveg ætla að drag sé í raun ekkert síður pólitískt en kynjafræðin. Þess vegna fannst mér tilvalið að fagna útskriftinni með dragi.“
„Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“
Fjöldi litríkra skemmtikrafta treður upp á Gauknum í kvöld, þeirra á meðal Hans, Deff Starr, Lola Von Heart, James the Creature og dragdrottningin Ms. Ronya, sem kemur alla leið frá Skotlandi og svo Thomas sjálfur, sem mun bregða sér í hlutverk gestgjafans og drottningarinnar Jackie Moon. En Thomas er einn fárra gagnkynhneigðra karla á landinu sem starfa sem dragdrottning og hann segir marga verða vægast sagt hissa þegar þeir komast að því. „Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“
Hann segir að hvað sem fólki finnist um það þá geti það alla vega stólað á eitt í kvöld: Að það muni skemmta sér konunglega. „Hafi það ekki komið á sýningu hjá mér áður þá á það sko gott í vændum.“
Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað til móts við ylströndina í Nauthólsvík, í fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna.
Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar. Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar afar vandaðar. Umhverfið laðar að fólk á öllum aldri og býður upp á fjölbreyttar leiðir til útivistariðkunar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina sem er iðandi af lífi yfir sumarmánuðina. Stutt er í allar áttir og þjónustu. Jafnframt er stutt í leik- og grunnskóla og afþreyingu fyrir fjölskyldur. Í Bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir að verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.
Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 26 eru hinar glæsilegustu. Þær eru frá tveggja til fjögurra herbergja í þriggja hæða fjölbýlishúsi með lyftu. Stæði fylgir öllum íbúðum í lokaðri bílgeymslu sem eru mikil lífsgæði. Allar íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar verða afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar verður áhersla lögð á stílhreint yfirbragð. Ljósgrái liturinn verður í forgrunni í eldhúsinu, vandaðar innréttingar frá Brúnás gefa rýminu sterkan svip og svartur steinn í borðplötunni. Vönduð eldhústæki og -tól fylgja íbúðinni. Umfram allt er hugsað fyrir því að rýmið nýtist sem best.
Á baðherbergjum verða gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Baðherbergin verða búin vönduðum innréttingum frá Brúnás, þar sem ljósgrái liturinn verður í forgrunni. Borðplöturnar verða úr steini sem gefur rýminu fallega áferð og nýting á rýminu verður í hávegum höfð.
Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir íbúum kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengið að fullu og í sameign verður vönduð lyfta í stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.
Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum.
Fjárfesting fasteignasalan er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin mikil, enda um að ræða vandaðar eignir og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgarsvæðinu. Sjón er sögu ríkari.
Nánari upplýsingar veita Óskar Þór Hilmarsson, löggiltur fasteignasali, í síma 822-8750, Guðjón Sigurjónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 846-1511, Smári Jónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 864-1362 og Edda Svavarsdóttir, löggiltur fasteignasali, í síma 845-0425. Einnig er hægt að hafa samband við Fjárfestingu fasteignasöluna í síma: 562-4250.
Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Fjárfesting fasteignasalan.
Bárður Hreinn Tryggvason er sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu og er tveggja barna faðir. Hann á þau Silju Rún sem er tvítug og er að ljúka stúdentsprófi um áramótin og Tryggva Snæ, fimmtán ára nemanda við Sjálandsskóla. Kærasta Bárðar er Lilja Hildur Hannesdóttir hjúkrunarfræðingur og er verkefnisstjóri á menntasviði Landspítalans. Hún er einnig með meistarapróf í mannauðsstjórnun. Hildur á þrjú börn, á aldrinum átta ára, sextán ára og tuttugu og fimm ára, og eitt barnabarn. Bárður og Hildur búa hvort í sínu lagi eins og er, bæði í Kópavogi.
Hvað heillar þig mest við starfið? „Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa vinnu eru samskipti við fólkið sem stendur í fasteignaviðskiptum á hverjum tíma. Í flestum tilvikum er um að ræða stærstu samninga þess á lífsleiðinni. Mestu skuldbindingarnar sem eru lánin sem það tekur og þá er í flestum tilvikum um að ræða lánagjörning í fjörutíu ár sem er um það bil hálf mannsævi, það segir allt sem segja þarf um hversu stór þessi ákvörðun er að að taka lán og kaupa íbúð. Það er svo gefandi þegar vel tekst til og allt gengur upp og allir ganga ánægðir og sáttir frá borði. Ég hef alla tíð tekið starfið mikið inn á mig, ef svo má að orði komast. Síðan eru það vinnufélagarnir og umhverfið, að geta nýtt keppnisskapið sem er mikið hjá mér, að ég ætla og veit að ég hef, þó að ég segi sjálfur frá. En mesta ánægjan eru ánægðir viðskiptavinir.“
Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hefðbundinn vinnudagur hjá mér er frá klukkan 9.00 – 17.00 á daginn og oft lengur, en fyrstu tuttugu og fimm árin gæti ég trúað að þetta hafi verið ekki undir 60-70 tímum á viku. Í dag er þetta öðruvísi, ég fer þrisvar í viku í fótbolta í hádeginu í 1,5 klst, en það hef ég gert síðustu tíu árin og eru ómissandi fyrir mig, því að þetta útheimtir oft mikið álag.“
Hvað finnst þér gera heimili að heimili? „Fallega samsett húsgögn og hlutir sem passa saman og umfram allt eru þægileg. Svo ekki sé minnst á fallega myndlist á veggjum. Ég hef safnað að mér fallegri myndlist undanfarin ár og hef komið inn á glæsileg heimili en það er eitthvað sem vantar og það er eitthvað fallegt á veggina. En það er bara mín skoðun.“
Geturðu lýst þínum stíl? „Minn stíll er einfaldleikinn, ekki vera með of mikið af húsgögnum/hlutum og láta hlutina passa saman og mynda fallegt og notalegt heimili.“
Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Pálmar Kristmundsson er minn uppáhalds, hann hefur teiknað falleg hús og byggingar sem ég hef hrifist af í gegnum tíðina.“
Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Gæti nefnt Alvar Aalto hinn finnska sem var bæði húsgagnahönnuður og arkitekt, svo ég nefni nú einhvern.“
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Það er lítill fiskibátur með stórri vél og kemst hratt, en það er draumurinn einhvern tímann. Ég er frá Hellissandi og uppalinn þar við sjóinn. Var á skaki þrjú sumur með mági mínum. En það sem skýrir það er að þegar að þú ert kominn út á sjó í góðu veðri, þá hverfur allt sem að heitir stress. Þú ferð að slaka á og gleymir þér.“
Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn er brúnn.“
Hvar líður þér best? „Ég held að ég geti sagt að mér líði best með fjölskyldunni og að atast með henni í einhverju. Síðan að fara vestur á Snæfellsnes á æskuslóðirnar í fallegu veðri. Fara í fótbolta með stákunum en ég spila með Luns United í hádeginu og Svíkingum vinum mínum á mánudögum. Það er svo margt sem að ég gæti talið upp.“
Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Fallegur dagur að hausti, kaldur og sólin á lofti á sér engan sinn líka, síðan haustlitirnir þegar að þeir birtast í sínu fegursta formi. Vantar heita pottinn.“
Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Veit ekki, en gæti nefnt Bautann á Akureyri, alltaf sérstök stemning að borða þar. Var á Akureyri í menntaskóla í fjóra vetur.“
Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Já, það eru lítil falleg einbýlishús í grónum hverfum eins og hægt er að sjá til dæmis fyrir norðan á Akureyri. Hvaða stíll það er, veit ég ekki.“
Að lifa lífinu lifandi er að … „vera meðvitaður um stað og stund og láta ekkert fara í taugarnar á sér, lífið er svo stutt. Halda síðan vel utan um fjölskylduna og vinina, ekkert gefur lífinu meira gildi en það að hafa gott fólk í kringum sig.“
Í morgun frumsýndi Warner Bros lokagerð kynningarstiklunnar fyrir kvikmyndina Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald, sem frumsýnd verður 16. nóvember. Myndin er, eins og allir vita framhald myndarinnar Fantastic Beasts and Where to Find Them sem byggir á sögu J.K. Rowling um Dumbledore prófessor á yngri árum. Allir stórleikararnir úr fyrri myndinni eru hér mættir til leiks, Eddie Redmayne í hlutverki Newt Scamander, Jude Law sem Dumbledore og Johnny Depp leikur illmennið Gellert Grindelwald sem fyrr. Ekkert óvænt þar.
Það kom aðdáendum bókanna og fyrri kvikmyndarinnar hins vegar mjög á óvart að í stiklunni sést Claudia Kim í hlutverki Nagini, sem eins og innvígðir vita er snákur Voldemorts. Umræðuþræðir hafa logað í morgun vegna þessarar óvæntu uppljóstrunar og óhætt að segja að hörðustu aðdáendur Harry Potter bókanna eru yfir sig spenntir fyrir nýju myndinni.
Leikstjóri fyrri myndarinnar David Yates er enn við stjórnvölinn og höfundur bókanna, J.K. Rowling, aðstoðaði við skrif handritsins. Það er því von á góðu í nóvember og enn meiru á næstu árum, því Rowling hefur upplýst að myndirnar um Fantastic Beasts verði alls fimm.
En sjón er sögu ríkari og þið getið séð þessa umræddu kynningarstiklu hér fyrir neðan.
Eiginmaður Áslaugar Thelmu sendir nýjum forstjóra OR tóninn.
„Í dag erum við á sextánda degi frá því að Áslaug Thelma var rekin frá ON. Ennþá hefur hún ekki fengið skýringar á því af hverjum henni var sagt upp. Framkvæmdastjóranum sem sagði henni upp hefur verið sagt upp, forstjóranum sem reyndi að hylma yfir með honum hefur verið boðið að sitja í fríi tvo mánuði allavega til að byrja með. Framtíð og framfærsla lítillar fjölskyldu sett í fullkomið óvissu á engum réttlætanlegum forsendum,“ segir Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, í nýjum pistli á Facebook-síðu sinni. Áslaug Thelma var eins og kunnugt er rekin vegna kvartana um óviðeigandi framkomu forstjóra ON, Bjarna Más Júlíussonar. Honum hefur verið vikið frá störfum og forstjóri OR, Bjarni Bjarnason, hefur stigið tímabundið til hliðar vegna málsins. Helga Jónsdóttir, sem tók við forstjórastólnum hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hún ætli að ræða við Áslaugu um hennar mál, en ekki hefur enn orðið af því, að sögn Einars og hann furðar sig á því.
„Okkur sem þykir vænt um Áslaugu og stöndum með henni í gegnum þetta fíaskó finnst það allavega hafa dottið eitthvað neðar á forgangslistann hjá nýja forstjóranum að heyra frá Áslaugu. En svo því sé haldið til haga þá hefur engin frá ON/OR talað við hana ennþá eftir að þessi atburðarás komst upp á yfirborðið og ON og OR neyddust til að fara að vinna eftir gildum sínum og loforðum,“ segir hann í pistlinum og bendir á að Áslaug Thelma hafi ekki fengið að halda starfskjörum sínum út samningsbundinn uppsagnarfrest. Þykir honum það heldur súr húmor hjá nýja forstjóranum eða þá að hún hafi bara ekki kynnt sér málið:
„Það er kannski einhverskonar svartur húmor hins nýja forstjóra eða kannski hefur hún bara í raun EKKERT kynnt sér mál Áslaugar … EN EINMITT um helgina LOKAR OR/ON símanum hennar Áslaugar þannig að nú verður spennandi sjá hvort þeim tekst að ná í hana fyrir þann tíma,“ segir Einar.
Kvikmyndin Lof mér að falla eftir Baldvin Z er áfram í efsta sæti aðsóknarlista kvikmyndahúsanna eftir þriðju sýningarhelgi og hafa um 34 þúsund manns séð hana hingað til.
Til samanburðar má geta þess að þetta er mun meiri aðsókn en var á aðra kvikmynd Baldvins Z, Vonarstræti, sem hafði fengið um 28 þúsund gesti eftir þriðju sýningarhelgi árið 2014.
Alls sáu 10,476 gestir Lof mér að falla í vikunni, en heildarfjöldi gesta er 33,979 manns.
En það eru ekki bara Íslendingar sem hafa hrifist af Lof mér að falla. Stephen Dalton gagnrýnandi The Hollywwod Reporter, sá hana á kvikmyndahátíðinni í Toronto og var mjög hrifinn. Hann segir í dómi sem birtist í The Hollywood Reporter á dögunum að myndin sé grípandi og hjartnæm frásögn um kunnuglegt efni, sem geri bæði angist og alsælu vímuefnamisnotkunar góð skil, þökk sé góðum leikarahópi, flottri myndatöku og handriti.
Af aðsókn á aðrar íslenskar myndir sem nú eru í bíó er það að frétta að 197 manns sáu Kona fer í stríð í vikunni. Alls hafa 17,873 séð myndina eftir 18. sýningarhelgi, en hún var valin framlag Íslands til Óskarsverðlauna á dögunum.
Athafnakonan Dóra Dúna Sighvatsdóttir vinnur að ljósmyndasýningu um fráskilin pör.
„Mér hefur alltaf fundist sorglegt að fólki skuli elska einhvern, annaðhvort til lengri eða skemmri tíma og svo deyi sú ást og gleymist einhvern veginn bara. Þess vegna er ég að þessu. Til að heiðra ástina sem var,“ segir athafnakonan Dóra Dúna Sighvatsdóttir, þegar hún er spurð út í hugmyndina á bak við umrætt verkefni.
Dóra segist hafa rennt algörlega blint í sjóinn þegar hún fór þess á leit við fólk að taka þátt í því, en hún hafi bæði sett sig beint í samband við nokkur fyrrverandi pör sem hún vissi að hefðu skilið í góðu og síðan auglýst eftir þátttakendum á samfélagsmiðlum. „Ég hafði ekki hugmynd hvernig þessu yrði tekið, “ viðurkennir hún. „Bjóst allt eins við að verða gagnrýnd og þess vegna kom mér satt best að segja skemmtilega á óvart hvað viðtökurnar hafa verið góðar. Ég hef reyndar fengið nokkur afdráttarlaus nei. Sumir sem ég hafði samband við treystu sér ekki út í þetta, skiljanlega þar sem það eru auðvitað alls konar tilfinningar með í spilinu eftir að fólk hættir saman. En í heildina hefur fólk verið mjög jákvætt.“
„Auðvitað getur andrúmsloftið stundum verið svolítið rafmagnað þar sem sumir hafa kannski ekki hist eða talast við í mörg ár þegar þeir mæta í myndatöku.“
Rafmagnað andrúmsloft
Til marks um góðar viðtökur segist Dóra hafa myndað fimmtán fyrrverandi pör, alls konar pör, fólk með langa sögu að baki, fólk með stutta sögu, yngri pör og eldri, þekkt pör og óþekkt. Ólík pör sem eigi þó öll sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið ástfangin upp fyrir haus. „Það hefur verið mjög gaman hingað til. Auðvitað getur andrúmsloftið stundum verið svolítið rafmagnað þar sem sumir hafa kannski ekki hist eða talast við í mörg ár þegar þeir mæta í myndatöku. En það eru mómentin sem ég vil mynda, þessar fyrstu mínútur sem fólk hittist. Áður en því gefst tími til að stilla sér upp. Á meðan allar varnir liggja niðri. Það er svo mikil einlægni í þeim augnablikum,“ segir hún og segir fallegt þegar fólk sem t.d. á börn saman biður um eintök handa ungviðinu eða þegar fólk sem er svolítið stressað í upphafi faðmast í lokin.
Dóra hefur hingað til helst verið þekkt sem athafnakona. Hún stóð til dæmis á bak við vinsæla bari eins og Jolene og The Log Lady í Kaupmannahöfn. Þýðir þetta þá að hún sé að skipta um starfsvettvang? „Ég var orðin svolítið leið á barbransanum,“ svarar hún hreinskilin. „Hef hins vegar alltaf haft áhuga á ljósmyndun og ákvað því að byrja í Ljósmyndaskólanum, er þar á fyrsta ári og þetta er fyrsta verkefnið mitt. Nú hlakka ég til að halda áfram í þessum frábæra skóla, því mér finnst ég vera algjörlega á réttri hillu.“
Auglýsingin sem Dóra setti á samfélagsmiðla: „REMEMBER WHEN YOU LOVED ME“ Ég er að leita að fyrrverandi kærustupörum, hjónum eða elskendum á ÖLLUM aldri til þess að taka þátt í ljósmyndaverkefni sem ég er að vinna að. Einu skilyrðin eru þau að þið verðið að hafa eitt sinn verið ástfangin. Hvernig sem ykkar samband er í dag. Fallegt, erfitt, skrítið eða lítið þá væri ég til í að heyra í ykkur!
Aðalmynd: Dóra Takefusa og Örn Tönsberg hafa líka mætt á sett. Alls er Dóra búin að mynda 15 pör en stefnan er að ná 100 pörum á mynd.
Söng- og leikkonan Selena Gomez greindi frá því á Instagram í gær að hún ætlar að taka sér pásu frá samfélagsmiðlum. Hún gaf til kynna að neikvæðar og dónalegar athugasemdir frá fylgjendum hennar væri hluti ástæðunnar.
Gomez deildi sjálfsmynd af sér og skrifaði meðal annars við myndina: „Ætla að taka mér pásu frá samfélagsmiðlum. Aftur. Athugið að neikvæðar athugasemdir geta sært hvern sem er. Augljóslega.“
Undanfarna daga hefur Gomez verið nokkuð virk á Instagram en virðist nú ætla að einbeita sér að öðru næstu daga.
Þess má geta að Gomez er með 143 milljónir fylgjenda á Instagram. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gomez tekur sér frí frá samfélagsmiðlum og því áreiti sem getur fylgt því að vera á samfélagsmiðlum.
Þau okkar sem sáu heimildarmyndina Amy sem Asif Kapadia sendi frá sér árið 2015 erum kannski enn að jafna okkur eftir það áhorf. En heimurinn fær ekki nóg af Amy og nú hefur verið tilkynnt að kvikmyndafyrirtækið Eagle Vision muni frumsýna nýja heimildarmynd um söngkonuna þann 2. nóvember. Kominn tími til að kaupa nýjan vasaklút.
Myndin ber nafnið Amy Winehouse – Back to Black og þar er, eins og nafnið gefur til kynna, fylgst með söngkonunni hljóðrita plötuna Back to Black. Plötuna sem gerði hana fræga og átti kannski sinn þátt í því að hún missti tökin á lífi sínu.
„Ég gaf út plötu sem ég er mjög stolt af þar sem ég fjalla um slæmar aðstæður sem ég kom mér út úr,“ segir Amy í viðtali í kynningarstiklu myndarinnar. Platan kom út 2006 og varð til þess að Amy, líf hennar, ofneysla eiturlyfja og alkóhóls og síðast en ekki síst eitrað samband hennar við Blake Fielder Civil varð á allra vörum. Sú harmsaga endaði með því að hún lést úr áfengiseitrun 23. júlí 2011.
Í nýju myndinni verður mikið af áður ósýndu efni frá ferli hennar, viðtöl við tónlistarmenn sem unnu með henni og upptaka frá einkatónleikum sem hún hélt í Riverside Studios í London fyrir örfáa áhorfendur.
Myndin verður, eins og áður sagði, frumsýnd 2. nóvember en þeir sem geta ekki beðið svo lengi geta kíkt á kynningarstikluna hér fyrir neðan.
Whiskey in a Teacup, eða viskí í tebolla, er ný lífsstílsbók eftir Óskarsverðlaunaleikkonuna Reese Witherspoon sem kom út 18. september. Í bókinni skiptast á mataruppskriftir, margar þeirra frá ömmu leikkonunnar, og ráðleggingar um allt milli himins og jarðar allt frá því hvernig halda á hlöðupartí á miðnætti til þess hvernig setja á rúllur í hárið til að útkoman verði sem glæsilegust.
Reese fæddist í New Orleans og hefur oft og lengi talað um hversu sterk áhrif það hafi haft á sjálfsmynd hennar og lífsskoðanir að eiga rætur í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Bókin er eins konar óður til þessara róta og margar af uppskriftunum sem leikkonan deilir þar eru frá ömmu hennar, Dorotheu, sem á meira að segja heiðurinn af nafni bókarinnar, en hún á að hafa sagt að konur frá Suðurríkjunum væru eins og viskí í tebolla; skrautlegar og fínlegar á ytra borðinu en eldsterkar innra með sér.
Það er bókaútgáfan Simon & Schuster sem gefur bókina út og hún hefur þegar hlotið mjög jákvæðar umsagnir á Amazon. Þeir sem eru forvitnir um innihaldið geta skoðað myndbandið sem útgáfan gaf út til að markaðssetja bókina, en þar er undirtitill hennar sagður vera: það sem uppeldi í Suðurríkjunum kenndi mér um ástina, lífið og kexbakstur.
Í þriðja sinn sem íslenskir listamenn eru tilnefndir til verðlaunanna.
Hljómsveitin Reykjavíkurdætur hefur verið tilnefnd til tónlistarverðlaunanna Music Moves Europe Forward, sem veitt eru af Evrópusambandinu. Reykjavíkurdætur eru tilnefndar ásamt þremur öðrum flytjendum í flokknum rapp/hip hop, en tveir flytjendur í hverjum flokki hljóta verðlaunin sem verða afhent á Eurosonic-tónlistarhátíðinni í Hollandi 19. janúar 2019. Alls eru 24 listamenn tilnefndir og verðlaunin verða veitt í sex flokkum.
Þetta er í þriðja sinn sem íslenskt tónlistarfólk er tilnefnt til verðlaunanna. Of Monsters and Men hlutu þau 2013 og Ásgeir Trausti 2014. Listinn yfir verðlaunahafa er mikilfenglegur en meðal þeirra sem hlotið hafa verðlaunin síðastliðin ár eru Adele, Lykke Li, Disclosure, Mumford & Sons, Damien Rice, Katie Melua, Todd Terje, MØ og Hozier.
Verðlaunin koma í stað EBBA-verðlaunanna sem síðan 2003 hafa árlega verið veitt efnilegasta tónlistarfólki álfunnar. Í yfirlýsingu frá dómnefnd kemur fram að tilgangur verðlaunanna sé að veita upprennandi tónlistarfólki, sem fangi hljóm Evrópu dagsins í dag og morgundagsins, viðurkenningu. Verðlaunin eigi ennfremur að örva dreifingu tónlistar þvert á landamæri og vekja athygli á fjölbreytninni sem blómstri í evrópskri tónlistarmenningu.
Margt ber að hafa í huga þegar eldhús er innréttað, hvort sem það er verið er að gera upp gamalt eldhús eða innrétta í fyrsta skipti í nýju húsnæði. Við viljum nýta rýmið sem best og um leið hafa það fallegt fyrir augað og gera það að okkar. Við fórum á stúfana og fengum góð ráð hjá Berglindi Berndsen innanhússarkitekt en hún býr á Seltjarnarnesi og rekur sína eigin stofu á Fiskislóð 31 í Reykjavík.
Hvað hefur þú í huga varðandi nýtingu þegar þú innréttar eldhús?
„Eitt af hlutverkum okkar arkitekta og innanhússarkitekta er að þarfagreina og aðstoða viðskiptavini okkar við að byggja upp draumaheimili sitt. Markmið mitt er ávallt að skapa fallega umgjörð og að örva upplifun fólks á hönnun rýmisins og innviðum þess. Það sem mikilvægast er að hugsa um er samband á milli skipulags og innra fyrirkomulags í sjálfu rýminu. Fólk hugar oft ekki nógu vel að grunnskipulaginu sjálfu. Það þarf að úthugsa rýmið svo besta nýting náist. Huga þarf að einföldu og góðu vinnufyrirkomulagi og miklu skápaplássi. Ef pláss er fyrir hendi reyni ég alltaf að hanna góðar eldhússeyjur eða extra djúpar innréttingar til að ná þessum eyjufíling. Svo eru búr og tækjaskápar eitt best falda leyndarmál eldhúsa. Góð vinnulýsing skiptir einnig gríðarmiklu máli upp á heildarsamhengið og hefur mikil áhrif á líðan fólk.“
Lumarðu á góðum ráðum fyrir eldhús, til að gera það aðgengilegra?
„Mikilvægt finnst mér að skapa rúmgott eldhús fyrir fólk, með miklu skápaplássi, góðu vinnufyrirkomulagi og góðu flæði. Ég reyni einnig alltaf eftir fremsta megni að hanna stórar eyjur með góðri vinnuaðstöðu í eldhús og mynda þannig eina samræmda heild.“
Skiptir máli að hugsa eldhúsið sem vinnurými fyrst og fremst?
„Nei, alls ekki. Þar sem allir fjölskyldumeðlimir eru farnir að taka virkan þátt í eldhússtörfum, finnst mér í góðu lagi að hafa eldhúsið til dæmis sem hluta af borðstofu og stofu, það einfaldlega stækkar rýmið og flæði verður betra á milli rýma. Eldhús og borðstofa verða því oftast hjarta heimilisins.“
Hvernig hugsar þú efnisval í eldhúsi ? „Ég leitast alltaf við að hafa efnisal í eldhúsum í samræmi við heildarhönnun hússins. Ég heillast mikið af náttúrulegum efnivið á móti mjúkum, til dæmis er ég ofboðslega hrifin af marmara og dökkbæsuðum innréttingum. Ég elti ekki mikið tískustrauma. Einfaldleiki og tímaleysi er hinn fullkomni grunnur fyrir mér sem auðvelt er að vinna með og breyta um liti og stemningu hverju sinni og án mikillar fyrirhafnar.“
Ertu með ákveðinn gátlista sem vert væri að fólk færi yfir, þegar það ákveður að endurnýja eldhúsið eða hannar/skipuleggur nýtt eldhús?
„Það sem mér finnst mikilvægast fyrir fólk að hugsa þegar það ræðst í umfangsmiklar breytingar er að þær standist tímans tönn. Svo þarf að huga vel að vinnufyrirkomulagi og notagildi rýmissins, góðu skápaplássi og góðri vinnulýsingu. Þar sem það ríkir meiri skilningur í dag á arkitektúr, skipulagi og vönduðum vinnubrögðum er ég á því að við arkitektar getum sparað fólki mikinn tíma og mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu. Einlægni, traust og gott samband við verkkaupa er mjög mikilvægur þáttur upp á jákvæða upplifun í lok verks.“
Ýr Þrastardóttir fatahönnuður hefur frá útskrift hannað undir eigin merki, stofnað fataverslun, unnið í leikhúsi og við kvikmyndir ásamt því að stílisera tónlistarmyndbönd en nú einblínir hún aðallega á sérsaumaðan fatnað undir fatamerkinu Another Creation.
„Ég fókusera mest á sérsaumaðan fatnað fyrir viðskiptavini samhliða því að koma fötum sem hafa verið framleidd, í sölu hér heima og erlendis. Fatamerkið mitt heitir Another Creation og er fókusinn á fjölnota fatnað sem hægt er að breyta með lítilli fyrirhöfn.“
Sjálf segist Ýr mest klæðast samfestingum og síðkjólum þegar hún er á leið eitthvað fínt en svartur litur er mest áberandi í fataskápnum. „Ég á endalaust af yfirhöfnum því það hefur verið aðalfókusinn hjá mér sem fatahönnuður. Yfirleitt geng ég á hælum en í sumar hafa íþróttaskórnir tekið aðeins yfir á daginn þar sem þeir eru þægilegir og í tísku. Stíllinn minn
er frekar klassískur en samt alltaf mjög ólíkur öllu öðru sem er í gangi því ég geng aðallega í eigin hönnun. Að mínu mati verða allar konur að eiga góðar yfirhafnir í fataskápnum sínum því það er nánast aldrei veður til að fara jakkalaus út á Íslandi. Þá er mikilvægt að eiga nokkrar fallegar yfirhafnir til skiptanna, alla vega einn leðurjakka, góða kápu, blazer og pels.“
Sjarmerandi og auðveldar dagsferðir á fallega áfangastaði rétt fyrir utan Dublin.
Dublin hefur lengi verið vinsæll áfangastaður íslenskra ferðalanga og margir heimsækja hana oftar en einu sinni. Enda ekki furða þar sem borgin er falleg og býður upp á ýmsa skemmtilega afþreyingu, lifandi tónlist og áhugaverð söfn. Írar eru þekktir fyrir gestrisni sína og vinalega framkomu. Auðvelt er að ferðast um borgina og nýta má almenningssamgöngur til að ferðast til þorpa og bæja sem liggja rétt fyrir utan Dublin og það er vel þess virði að stökkva upp í lest, njóta útsýnisins og sjá meira en bara miðborgina.
Í Dublin eru tvö lestarkerfi, annars vegar léttlestin LUAS sem nýlega hefur verið lengd og má taka víðsvegar um borgina. Hinsvegar er það gamla DART-lestin sem tengir úthverfi og þorp sem finna má við strandlengju borgarinnar. DART-lestin býður upp á fallegt útsýni, er notaleg leið til að ferðast á milli staða og er ekki mjög dýr fararkostur.
HOWTH
Howth (sjá mynd) var eitt sinn lítið sjávarþorp þar sem íbúar byggðu afkomu sína á fiskveiðum og að takmörkuðu leyti á landbúnaði. Í dag er Howth ríkmannlegt úthverfi Dublin-borgar og laðar að sér gesti sem koma þangað í gönguferðir eða til að spóka sig á hafnarsvæðinu. Finna má fallegar gönguleiðir á nesinu og ég mæli sérstaklega með að ganga með fram klettabelti Howth en þar má stundum sjá hugaða unga Íra stinga sér í sjóinn frá klettunum. Howth er þekkt fyrir fisk og franskar (fish and chips) og þar eru Beshoff Bros frægastir en einnig má finna veitingastaði við höfnina þar sem setjast má niður og fá sér drykk og góða sjávarrétti. Vinsælt er að fá sér eitt glas af Guinness og ferskar ostrur.
MALAHIDE
Norðan við miðborg Dublin er Malahide sem er fallegt gamalt þorp en er nú hluti af borginni sjálfri. Svæðið á sér langa sögu og vitað er að víkingar áttu aðsetur þar á 8. öld. Líkt og í Howth var mikil hafnarstarfsemi á staðnum og um tíma var framleitt salt í Malahide. Síðar meir varð þorpið vinsælt meðal auðugra Dublinarbúa sem byggðu sér glæsileg hús sem setja mikinn svip á hverfið. Eitt aðalaðdráttarafl Malahide er kastalinn og nánasta umhverfi hans. Hægt er að skoða kastalann með leiðsögumanni gegn gjaldi. Hjá kastalanum er lítill en snotur grasagarður sem gaman er að heimsækja og þar rétt hjá er risastór og flottur leikvöllur sem ætti að slá í gegn hjá þeim sem ferðast með börn. Innan lóðamarka kastalans má finna sælkerabúðina Avoca þar sem kaupa má hressingu, kaffi og vistir fyrir lautarferð í garðinum.
GRAYSTONES OG BRAY
Sunnan Dublin liggja bæirnir Graystones og Bray. Lestarleiðinni þangað er oft lýst sem einni fallegustu samgönguleið á Írlandi og býður upp á mikilfenglegt útsýni út á sjó og með fram klettabeltum strandlengjunnar. Graystones liggur við enda DART-lestarlínunnar og þaðan má ganga vel þekkta gönguleið yfir í bæinn Bray, eða öfugt. Báðir bæirnir bjóða upp á ýmsa góða veitingastaði þar sem svala má þorsta og hungri eftir gönguferð dagsins.
WOW air flýgur til Dublin allt árið um kring. Verð frá 6.499 kr. aðra leið með sköttum.
Bresk stjórnvöld birtu í liðinni viku myndir af tveimur rússneskum mönnum sem grunaðir eru um að hafa byrlað feðginunum Sergei og Yuliu Skripal taugaeitur. Þeir eru sagðir á mála hjá GRU, leyniþjónustu rússneska hersins. Sem fyrr neita rússnesk stjórnvöld allri aðild en þau sönnunargögn sem Bretar hafa lagt fram, sem og afar ósannfærandi frammistaða hinna grunuðu í viðtali við rússnesku RT-fréttastofuna, renna stoðum undir ásakanir Breta. Bendir flest til þess að um hafi verið að ræða hefndaraðgerð gegn Sergei Skripal sem gerðist gagnnjósnari fyrir Bretland eftir að Sovétríkin leystust upp. Tilræðið misheppnaðist því bæði Sergei og Yulia náðu bata eftir að hafa legið á spítala í lífshættulegu ástandi um nokkurra vikna skeið. Hins vegar lést 44 ára kona, Dawn Sturgess, eftir að hafa komist í í snertingu við taugaeitur af sömu tegund, það er taugaeitrið novichok sem þróað var í Sovétríkjunum á árunum 1971 til 1993.
Málið í hnotskurn:
Heimtuðu sönnunargögn
Um leið og málið komst upp, þann 4. mars á þessu ári, beindu bresk stjórnvöld spjótum sínum að Rússlandi, enda taugaeitrið sem notað var til verknaðarins upprunnið þaðan. Bretland, ásamt 28 öðrum ríkjum, beitti Rússland refsiaðgerðum en Rússar neituðu öllu og kölluðu eftir því að Bretar legðu fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings.
Sönnunargögnin hrannast upp
Bresk stjórnvöld birtu í síðustu viku mynd af tveimur mönnum sem grunaðir eru um verknaðinn, þeim Alexander Petrov og Ruslan Boshirov. Þeir eru taldir tengjast leyniþjónustu rússneska hersins. Þeir komu með flugi Aeroflot til Moskvu 2. mars og sneru til baka tveimur dögum síðar. Þeir gistu í London en ferðuðust til Salisbury, þar sem Skripal bjó, bæði þann 3. og 4. mars, áður en þeir héldu aftur til Moskvu.
Ósannfærandi skýringar
Í viðtali við RT-sjónvarpsstöðina, sem styður dyggilega við stjórnvöld í Kreml, fullyrtu þeir Petrov og Boshirov að þeir hafi eingöngu heimsótt Salisbury sem ferðamenn. Vinir þeirra hafi mælt sterklega með þessum áður óþekkta smábæ og þeir hafi verið ólmir í að skoða kirkjuna í bænum. Þessi skýring, sem og aðrar sem þeir gáfu í viðtalinu, hefur fyrst og fremst verið fóður fyrir grínista á Netinu og þykir viðtalið hafa styrkt málflutning Breta heldur en hitt. Þá hafa rannsóknarblaðamenn sýnt fram á að vegabréf þeirra sýni tengsl við varnarmálaráðuneyti Rússlands.
Gefa út handtökutilskipun
Lögregla og saksóknarar telja að þau sönnunargögn sem liggja fyrir í málinu dugi til sakfellingar. Ekki verður farið fram á að þeir verði framseldir til Bretlands enda framselja rússnesk stjórnvöld ekki eigin ríkisborgara til annarra landa. Hins vegar hefur verið gefin út evrópsk handtökutilskipun á hendur þeim. Ólíklegt er að þeir verði nokkurn tíma látnir svara til saka á breskri grundu. 28 ríki beittu rússnesk stjórnvöld refsiaðgerðum vegna málsins, meðal annars með því að reka rússneska erindreka úr landi. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sagði Rússum verða mætt af fullri hörku vegna málsins.
10 árum eftir að Landsbankinn féll hefur skiptum á eignarhaldsfélaginu Samson, aðaleiganda bankans, verið lokið. Samson var fjárfestingafélag í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar og eignaðist ráðandi hlut í Landsbankanum við umdeilda einkavæðingu hans árið 2002. Björgólfur Thorog tengdir aðilir voru um langt skeið stærstu lántakar bankans.
Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að lýstar kröfur í búið námu 77,4 milljörðum kóna, en ekki fengust nema 6,5 milljarðar upp í þær, eða sem nemur 8,6%. Samson var lýst gjaldþrota þann 12. nóvember 2008.
Að því er Stundin greinir frá eru það fyrst og fremst fjármálastofnanir sem tapa á gjaldþroti Samson. Þannig tapaði hinn suður-afríski Standard Bank 12,8 milljörðum króna og hinn þýski Commerzbank 23,8 milljörðum. Þá voru kröfur Glitnis 9 milljarðar króna og gamla Landsbankans 5 milljarðar.
Segja má að skiptalok á Samson séu einn síðasti anginn í uppgjöri Björgólfs Thors við fjármálahrunið 2008. Björgólfsfeðgar voru fyrir hrun meðal helstu burðarása í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun og áttu stóra hluti í félögum og Eimskip, Straumi-Burðarási, Gretti fjárfestingafélagi svo og Landsbankanum.
Öll þessi félög urðu gjaldþrota og kröfuhafar töpuðu miklum fjárhæðum og hluthafar Landsbankans og Straums Fjárfestingabanka töpuðu öllu sínu hlutafé en tugir þúsunda Íslendinga voru hluthafar í umræddum félögum Björgólfur eldri lýsti sig gjaldþrota árið 2009 og var það eitt stærsta persónlega gjaldþrot Evrópu á sínum tíma. Alls var lýst kröfum upp á 85 milljarða króna í bú Björgólfs eldri, en kröfuhafar fengu aðeins 35 milljónir greiddar upp í lýstar kröfur eða 0.04%. Staða Björgólfs Thors var öllu flóknari og tók nokkur ár að vinna úr skuldum hans. Sjálfur lýsti hann því að persónulegt tjón hans vegna hruns bankakerfisins hafi numið nærri 100 milljörðum króna. Ætla má að fjárhagslegt tap annarra hluthafa og kröfuhafa í skráðum félögum í hans eigu, þ.m.t. Landsbanki Íslands, Eimskipafélag Íslands og Straumi Fjárfestingabanka hafi numið hundruðum milljarða króna. Skuldir félaga honum tengdum voru margfalt hærri en nú, 10 árum síðar, er Björgólfur Thor aftur kominn í hóp ríkustu manna heims og hafa tugi milljarða afskriftir félaga í hans eigu ekki bein áhrif á hann.
Hátt fall og upprisa
Árið 2007 ákveður Björgólfur Thor að kaupa út alla hluthafa lyfjafyrirtækisins Actavis og fékk til þess 4 milljarða evra lán frá Deutsche Bank. Lánið stóð í 5,8 milljörðum kóna árið 2009 en fall íslenska fjármálakerfisins þýddi að Björgólfur Thor var kominn í afar þrönga stöðu. Við tók afar flókin skuldaúrlausn því ekki eingöngu var fjárhagsleg framtíð Björgólfs Thors í húfi, heldur hefði þýski bankinn tapað milljörðum evra ef Actavis hefði orðið ógjaldfært. Niðurstaðan varð sú að Deutsche Bank tók Actavis yfir samhliða því sem unnið var að skuldauppgjöri við þýska bankann. Í apríl 2012 var svo tilkynnt að lyfjafyrirtækið Watson hefði eignast Actavis og átti það stóran þátt í skuldauppgjöri Björgólfs við Deutsche Bank.
„Allar skuldir greiddar“
Það er svo í ágúst 2014 sem Björgólfur Thor sendir frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnir að skuldauppgjöri hans og Novators, fjárfestingafélags hans, sé að fullu lokið. Alls hafi hann greitt 1.200 milljarða króna til lánardrottna, þar af 100 milljarða til íslenskra banka og dótturfélaga þeirra. Í þessu ferli hafi nánast allt verið sett að veði, svo sem húseignir hans í Reykjavík og á Þingvöllum hans, einkaþotan og snekkjan.
„Ég var alla tíð ákveðinn í að ganga frá uppgjörinu með sóma,“ sagði Björgólfur Thor í yfirlýsingu sem gefin var út á þeim tíma. „Til að svo mætti verða þurfti mikla og þrotlausa vinnu til að hámarka virði þeirra eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Þegar tilkynnt var um uppgjör mitt í júlí 2010 kom fram að skuldir myndu verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Við það hef ég staðið.“ Fjárhagslegar afskriftir félaga í hans eigu virðast haldið utan við þetta „heildaruppgjör“ Björgólfs Thors líkt og 70 milljarða króna afskrift kröfuhafa Samson sýnir.
Óhætt er að segja að síðan þá hafi hagur Bjögólfs Thors vænkast. Hann hefur hagnast á hlutum sínum í lyfjageiranum, virði pólska fjarskiptafyrirtækisins Play hefur aukist mjög og á dögunum var tilkynnt að Novator muni hagnast um allt að 20 milljarða króna við sölu á tölvuleikjaframleiðandanum CCP til suður-kóreska fyritækisins Pearl Abbys.
Umsvif Björgólfs Thors á Íslandi eru jafnframt þónokkur. Þannig er hann eða félög honum tengd með eignarhluti í gagnaveri Verne Global og verktakafyrirtækinu Arnarhvoli ehf. Þá hefur auðmaðurinn verið orðaður við Grósku hugmyndahús, Ásbrú ehf., flugfélagið Wow air ehf. og lánveitingar til Frjálsrar fjölmiðlunar ehf., útgefanda DV, svo fáein dæmi sé nefnd.
Björgólfur Thor er aftur kominn á lista Forbes yfir ríkustu menn heims. Tímaritið metur eignir hans á 1,8 milljarða dollara og segir þar að hann sé eini milljarðamæringur Íslands (í dollurum talið). Björgólfur Thor er skráður með lögheimili sitt í Bretlandi.
Á Laugaveginum er að finna einstaklega frumlega og skemmtilega hársnyrtistofu sem hefur vakið athygli fyrir að vera svo miklu meira en hársnyrtistofa. Stíllinn á stofunni minnir óneitanlega á villta vestrið og aðkoman heillar.
Okkur lék forvitni að vita nánar hvers konar hársnyrtistofa Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon er og hvað hún hefur upp á að bjóða. Við hittum eigendur hársnyrtistofunnar margbrotnu, hjónin Jón A. Sveinsson, meistara í hársnyrtiiðn, og er ávallt kallaður Nonni Quest, og Guðrúnu Elísabetu Ómarsdóttur heildsala, en hún er kölluð Beta, og fræddust við frekar um tilurð fyrirtækisins og hugmyndafræðina bak við stofuna.
Nonni er fæddur og uppalinn í faginu og fór að læra háriðn árið 1993 og opnaði Quest í apríl 1999. Beta var að vinna í snyrtivörugeiranum þar til þau tóku við stofu foreldra Nonna árið 2007. Hjónin eru að eigin sögn bæði miklir sælkerar og njóta þess að ferðast, hlusta, skoða, neyta og njóta saman.
Segið okkur aðeins frá hugmyndinni bak við Quest – Hair, Beer & Whisky Saloon og tilurð? „Hugmyndin varð bara til og er í raun enn að verða til. Við erum alltaf saman og eiginlega alltaf í vinnunni og stofan í raun sameiginlegt áhugamál okkar. Okkur datt í hug að gera bara allt sem okkur finnst skemmtilegt og setja það undir sama þakið.“
Hvernig mynduð þið lýsa hársnyrtistofunni í einni málsgrein? „Góð tónlist, ljúffengir drykkir, skemmtilegt fólk og þægilegt andrúmsloft.“
Á hársnyrtistofan sér fyrirmynd úti í heimi? „Nei, í rauninni ekki. Það var engin ein stofa sem við höfðum í huga. Þetta bara gerðist mjög lífrænt. Gamlar bækur og bíómyndir um sögu rakarans eru okkar helstu fyrirmyndir.“
Hársnyrting og viskíbar er skemmtileg samsetning og minnir á villta vestrið. Stofan hlýtur að vera vinsæl meðal viðskiptavina og laða þá að. Eru ekki margir fastakúnnar sem njóta þess að láta dekra við sig og fá smávegis viskídreitil? „Jú, svo sannarlega. Þetta smellpassar saman. Fólk kemur og nærir sig að innan og utan. Seinnipartstímar dagsins eru orðnir ansi fljótir að fyllast og menn eru yfirleitt með tímana sína fastbókaða langt fram í tímann og reyna oft að koma með vinum sínum og halda fundi,“ segir Nonni og brosir.
Við höfum heyrt að þið bjóðið einnig upp á smakkanir sem hafa notið mikilla vinsælla. Frumleikinn er við völd og þið hafið verið með ýmsar samsetningar. Okkur langar að heyra aðeins meira af því. „Við erum sérlegt áhugafólk um lífsins lystisemdir, til að mynda mat og vín. Við höfum sankað að okkur yndislega ljúffengu og spennandi úrvali af viskíi sem okkur fannst við verða að deila með öðrum. Þannig að við settum saman nokkrar smakkferðir þar sem við höfum tekið saman, til dæmis nokkur viskí sem okkur finnst lýsa vel þeirri miklu flóru sem bragðheimur viskís hefur upp á að bjóða. Einnig höfum við verið að para saman viskí og bjór og það kemur ótrúlega skemmtilega á óvart. Við höfum stúderað aðeins sögu kokteilsins og hvernig hugsanlega fyrstu viskíkokteilarnir hafi smakkast.“
Þið hafið boðið upp á fjölmarga viðburði af ýmsu tagi, getur þú sagt okkur aðeins frá því konsepti? „Við höfum haldið listsýningar, verið með ljóðaupplestur, einkapartí og mikið af tónleikum. Við erum til dæmis búin að vera Off-Venue á Airwaves þrjú ár í röð og svo fengum við að hýsa tónleikaröð Sofar Sound í eitt skipti sem var frábært. Okkur finnst alveg nauðsynlegt að brjóta upp daglegu rútínuna svona endrum og sinnum.“
Hvar getur fólk fylgst með því sem er í boði hjá ykkur að hverju sinni? „Við reynum að vera dugleg á samfélagsmiðlum, t.d. er www.questsaloon.is síðan okkar á Facebook og þar er hægt að fylgjast með og senda okkur fyrirspurnir. Svo erum við á Instagram, VK og Twitter sem #questsaloon eða #nonniquest.“
Einnig er hægt að kaupa ýmsan varning hjá ykkur, ýmis konar hársnyrtivörur og fylgihluti, ekki satt? „Við erum líka með heildsölu á hárlitum og hárefnum frá Goldwell, DENMAN og KMS California sem við seljum á aðrar stofur og einnig til viðskiptavina okkar. Á barnum/afgreiðslunni er skemmtilega fjölbreytt flóra af hárefnum, skeggvörum, burstum, bjór, viskíi og ýmsu öðru skemmtilegu.“
Lífið væri talsvert auðveldara ef hið rétta væri alltaf augljóst og aldrei án togstreitu milli ýmissa þátta. Þannig myndi Facebook eflaust loga mun sjaldnar, stjórnmál fengju minni athygli og margir fræðimenn myndu missa vinnuna svo fátt eitt sé nefnt. Við gætum sett tærnar upp í loftið og leyft litlausu lífinu að líða áfram.
Efnahagslegur ójöfnuður og túlkun á þróun, umfangi og áhrifum hans kemur upp í hugann í þessu samhengi. Það vill væntanlega enginn að allir þénuðu og ættu jafnmikið. Til hvers að taka áhættu og leggja sig almennt fram ef svo er í pottinn búið? Líklega yrði lítið eftir til skiptanna. Það vill heldur enginn að fáir fái notið alls þess sem líf í auðugu landi hefur upp á að bjóða. Sannleikurinn liggur einhvers staðar á milli og til að finna hann er fyrsta spurningin: Vitum við hvernig ójöfnuður þróast?
Svarið fer eftir því hvern þú spyrð. Mjög oft heyrist að ójöfnuður fari vaxandi. Sé því mótmælt, t.d. ef tekjur þeirra tekjulægstu hækka um fleiri prósentustig en annarra, heyrist að enginn lifi á prósentum eða að krónutöluhækkanir tekna séu meiri hjá þeim tekjuhærri, svo að ójöfnuður sé að aukast.
Játning: Ég lifi á prósentum
Þó að enginn lifi tæknilega séð á prósentum, þá er það engu að síður þannig að ef kaupmáttur einhvers eykst um 10% getur viðkomandi keypt 10% meira af öllu því sem hann eða hún keypti áður. Krónutöluhækkanir eru vissulega meiri hjá þeim sem eiga meira eða hafa meiri tekjur og slíkur samanburður getur verið gagnlegur. En ólíkt því sem oft er haldið fram er rangt að ójöfnuður aukist við það eitt að þeir tekjuhæstu fái meiri hækkun í krónum talið.
Tökum dæmi: Jón er með 300 þús. kr. á mánuði og Gunna er með 900 þús. kr. Segjum að Jón hækki um 10% í tekjum á ári en Gunna um 5%. Gunna hækkar fyrst meira í krónum talið en á endanum þurrkast bilið út og eftir 24 ár er Jón kominn með hærri tekjur en Gunna og ójöfnuðurinn nær horfinn. Hægt er að gera ótal útfærslur af þessu dæmi en niðurstaðan er alltaf sú sama. Það er því stærðfræðileg staðreynd að jöfnuður eykst, ef hlutur þeirra í lægstu þrepunum vex hlutfallslega hraðar en þeirra í efri þrepunum. Um þetta er ekki hægt að deila.
Hvað með ójöfnuð á Íslandi?
Tekjujöfnuður á Íslandi mældist árið 2016 sá mesti í Evrópu (miðað við GINI-stuðulinn). Fyrir utan fjármálakreppuna og aðdraganda hennar hefur jöfnuður haldist stöðugur og var árið 2016 sá nákvæmlega sami og 2004. Nýjustu tölur um tekjur einstaklinga árið 2017 benda svo eindregið til þess að tekjujöfnuður hafi aukist, einmitt þar sem lægstu tekjuhóparnir hækkuðu áberandi mest.
Eignaójöfnuð er erfiðara að fullyrða um einkum þar sem gögn úr skattframtölum taka ekki tillit til lífeyrisréttinda (sýna meiri ójöfnuð) og verðbréf eru eignfærð á nafnvirði (sýna minni ójöfnuð). Þrátt fyrir þessa annmarka heyrist oft margt fullyrt um eignaójöfnuð, þar með talið að eignaójöfnuður fari vaxandi. Ekki einu sinni þau gögn sem liggja fyrir styðja þá fullyrðingu. Hlutdeild efstu 5%, 1% og 0,1% í eigin fé landsmanna hefur í öllum tilvikum lækkað hvert einasta ár frá 2010 til 2016. Það þýðir að virði hreinna eigna þeirra hefur vaxið hægar en annarra, sem bendir til þess að eignajöfnuður fari vaxandi.
Röng sjúkdómsgreining – rangar lausnir
Vaxandi ójöfnuði er stundum kennt um ýmislegt sem aflaga fer í samfélaginu. Það er þó eilítið eins og að setja plástur á sár sem er gróið að ráðast í aðgerðir gegn ójöfnuði þegar hann er einmitt að minnka frekar en aukast. Það sem jafnvel er verra er að slíkar aðgerðir geta gert alla landsmenn jafnari gagnvart heiminum, eða með öðrum orðum, fátækari.
Í umræðu um átröskun hefur athyglin fyrst og fremst beinst að konum en í umfjöllun í nýjasta hefti Læknablaðsins er rætt við Guðlaugu Þorsteinsdóttur geðlækni sem segist telja að átröskun sé algengari meðal karla en tölur segja til um þar sem þeir leiti sér síður aðstoðar en konur. María Þóra Þorgeirsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri í átröskunarteymi Landspítalans, tekur undir þessi orð Guðlaugar. „Það er sú tilfinning sem við höfum að átröskun sem lýsir sér í togstreitu gagnvart mat og eigin líkama, sé vangreindur vandi hjá karlmönnum. Það er ákveðið stigma hjá körlum því fólk tengir átröskunarvanda fyrst og fremst við konur og það skilar sér í því að karlar þora ekki eða átta sig ekki á því að þeir eigi mögulega við átröskunarvanda að stríða,“ segir María.
Getur birst í vöðvafíkn
Hjá körlum getur átröskun tengst svokallaðri líkamsskynjunarröskun, en í slíkum tilfellum upplifir fólk líkama sinn ekki eins og hann er. Þetta getur meðal annars birst í vöðvafíkn. „Þá átta menn sig ekki á því hvað þeir eru í raun og veru orðnir stórir, og geta ekki hætt að lyfta lóðum og stjórna mataræði á óheilbrigðan hátt til að breyta líkama sínum. Svo er það hinn hópurinn sem er ekki að reyna að auka við vöðva en flakkar talsvert í þyngd og á í mikilli tilfinningalegri togstreitu gagnvart mat.“
Rétt eins og hjá konunum segir María Þóra að karlar verði fyrir áhrifum frá fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Þar birtist ákveðnar glansmyndir af því hvernig karlar eiga að líta út og engin ástæða sé til þess að þessar glansmyndir hafa minni áhrif á karla en konur.
Íþróttafólk í áhættuhópi
Einnig hefur verið sýnt fram á samspil íþrótta og átröskunar en nýleg íslensk rannsókn leiddi í ljós að íþróttafólk er í sérstökum áhættuhópi við að fá átröskunarsjúkdóma. Þannig höfðu 25% kvenna neikvæða líkamsímynd og átröskunareinkenni og 14% karla. Gunnhildur Gunnarsdóttir, sálfræðingur á Barna- og unglingageðdeild, kannast við tilfelli þar sem ofþjálfun og átröskun haldast í hendur. „Við vitum að unglingar sem stunda mikla líkamsrækt fá stundum misgáfuleg ráð frá þjálfurum.“
Í ofangreindu viðtali við Guðlaugu er sérstaklega komið inn á neyslu orkudrykkja og fæðubótarefna og hún leggur mikla áherslu á að neysla slíkra efna geti aldrei komið í stað matar. Þetta eigi sérstaklega við um börn. „Orkudrykkir og fæðubótarefni eru of einhæf orkuinntaka og geta haft slæm áhrif á þroska barna og unglinga. Fyrir fullorðna einstaklinga er mikilvægt að átta sig á því að orkudrykkir og fæðubótarefni geta aldrei komið í staðinn fyrir mat. Það er ekki hægt að lifa á slíku.“
Eftir alla umræðuna í kjölfar #metoo-byltingarinnar á síðasta ári kemur mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON eins og kjaftshögg. Hefur þá ekkert breyst? Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Margrét Erla Maack skemmtikraftur segja málið dæmigert. Þess séu jafnvel dæmi að karlar hafi tvíeflst í áreitninni eftir #metoo-byltinguna.
„Nei, því miður, það kemur ekkert á óvart í þessu máli,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í máli Áslaugar Thelmu Einarsdóttur gegn ON. „Mín reynsla af þessum málum, í gegnum einstaklinga sem hafa leitað til okkar hjá BSRB, er að mjög algengt er að ekki sé brugðist við kvörtunum um kynferðislega áreitni innan vinnustaða, eða að það sé brugðist við með röngum hætti. Rannsóknir sýna að það eru margir sem ákveða að stíga ekki fram vegna þess að þeir hafa ekki trú á því að það verði brugðist við með viðeigandi hætti.“
Spurð hversu algengt þetta vandamál sé, hvernig mál BSRB fái til dæmis til umfjöllunar, segir Sonja að þau séu ekkert mjög mörg, hvorki hjá BSRB né öðrum samtökum á vinnumarkaði, og ástæðan sé meðal annars sú að fólk hafi ekki vitneskju um hvert það geti leitað eftir aðstoð.
„Þannig að áhersla #metoo-samstarfsnefndar 16 samtaka og stofnana, sem stofnuð var af BSRB, ASÍ, Kvenréttindafélagi Íslands og FKA, er meðal annars á að gera upplýsingar aðgengilegrium hvert sé hægt að sækja sér aðstoð og stuðning. Til dæmis með opnun vefsíðu þar sem allar upplýsingar um ferlið koma fram.“
Fjórir gerendur, engin viðbrögð
Beðin um að nefna dæmi um mál sem hafa komið á hennar borð er Sonja skjót til svars. „Það leitaði til mín kona sem hafði birt frásögn sína hjá #metoo-yfirlýsingu kvenna í tækni-, upplýsinga- og hugbúnaðariðnaði síðastliðinn vetur, þar sem hún lýsti kynferðislegri áreitni sem hún hafði orðið fyrir á vinnustað sínum. Það sem var óvanalegt við þetta mál var að gerendurnir voru samtals fjórir og yfirmaðurinn brást ekki við kvörtunum hennar. Eftir að hún birti sögu sína fór ferli í gang á vinnustaðnum þar sem átti að bregðast við, að því er hún hélt. Það var sett af stað fræðsla um kynferðislega áreitni og hún fékk þær upplýsingar að viðkomandi gerendur hefðu verið áminntir, en vinnuaðstæður hennar breyttust samt ekki neitt. Það var ekki gripið til neinna aðgerða til þess að auðvelda henni að koma til baka. Eftir að hún leitaði til okkar tók við margra mánaða tímabil þar sem við reyndum að ná fram einhverjum breytingum hjá fyrirtækinu, en ekkert gerðist. Í kjölfarið samdi fyrirtækið við hana um starfslok, sem er því miður meginlína í svona málum. Svona mál enda oftar en ekki með því að þolandinn hættir á vinnustaðnum. Eins og kom mjög skýrt fram í #metoo-frásögnunum eru staðhæfingar um að meintir gerendur séu svo ómissandi á vinnustaðnum að það sé ekki hægt að láta þá fara, mjög algeng viðbrögð við kvörtunum um kynferðislega áreitni.“
Sonja segir þetta eitt af verstu málum sem hún hafi fengið til umfjöllunar, einkum vegna fjölda gerendanna, en það séu vissulega alls konar mál sem komi fram. „Allt frá nauðgun á vinnustaðstengdum viðburði yfir í kynbundnu áreitnina sem er þá meira svona karlremba þar sem karlmenn viðhalda valdastöðu sinni á vinnustaðnum með því að grafa undan konunum.“
Dæmi um að karlar hafi tvíeflst eftir #metoo
Hefur ástandið þá ekkert lagast eftir #metoo-umræðuna? „Það voru vissulega okkar væntingar,“ segir Sonja. „En ég upplifi það ekki af þeim málum sem hafa verið að koma til umfjöllunar undanfarið. Upplifunin er sú að stjórnendur vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við, þekkja ekki reglurnar nægilega vel og svo er þetta að vissu leyti þverfaglegt ferli. Það þarf líka að skilja sálfræðilegu og andlegu afleiðingarnar á þolandann til að réttum aðferðum sé beitt. Það kemur til dæmis fram í reglugerðum sem eiga að gilda um þetta að alltaf eigi að ræða við einn aðila í einu, en það eru fjölmörg dæmi um það að atvinnurekendur taki það feilspor að kalla bæði þolandann og gerandann saman á fund og ætla að fara að ræða málið. Það virkar eðlilega ekki.“
Sumir hafa haft á orði að ástandið hafi að mörgu leyti versnað eftir #metoo-byltinguna. Nú fóðri menn áreitnina með því að það sé fyndið að áreita „kellingarnar“ fyrir þetta „#metoo-kjaftæði“. Sonja segir að dæmi séu um það.„Það er auðvitað mjög mismunandi menning á vinnustöðum,“ segir hún. „En eins og í dæmi Orkuveitunnar þá erum við að tala um fyrirtæki sem hefur lagt mikla vinnu í jafnréttismálin og er jafnvel fyrirmynd annarra fyrirtækja í þeim efnum, en það skilar sér greinilega ekki. Á öðrum vinnustöðum eru dæmi um að karlarnir sem þar vinna hefi tvíeflst og nýtt #metoo-umræðuna til þess að gera meira grín og meira lítið úr konunum með niðrandi athugasemdum og hegðun til þess að ná aftur sinni valdastöðu og tryggja hana.“
Beðin um dæmi um slíkan vinnustað segir Sonja að þau séu fjölmörg, en hún muni sérstaklega eftir einu tilviki. „Það sem við þurfum virkilega að taka inn í þessa vitundarvakningu er staða kvenna af erlendum uppruna,“ segir hún. „Eitt dæmi um vinnustað þar sem menn hafa tvíeflst er staður þar sem kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn en flestar konurnar eru af erlendum uppruna. Þar varð áreitnin meiri eftir #metoo-byltinguna og allt gert til að grafa undan konunum og brjóta þær markvisst niður.“
Helmingur fyrirtækja hefur ekki jafnlaunastefnu
Hvað telur Sonja að sé hægt að gera til að raunveruleg breyting eigi sér stað?
„Þessar reglur sem ég var að vísa í áðan segja að atvinnurekendur eigi annars vegar að gera áhættumat, meta hættuna á því að fólk verði fyrir kynferðislegu ofbeldi í vinnunni, og gera í framhaldi af því áætlun um forvarnir og viðbrögð. Í rannsókn sem var gerð í vor á hundrað stærstu vinnustöðum landsins til að kanna hvort #metoo-umræðan hefði haft áhrif á vinnustaðamenningu þeirra, sýndu niðurstöðurnar að rúmlega fjórðungur af þessum stærstu vinnustöðum höfðu ekki framkvæmt áhættumat og tólf prósent höfðu ekki unnið áætlun um forvarnir eins og þeim er skylt að gera. Helmingur fyrirtækjanna hafði enga jafnlaunastefnu og tólf prósent ekki jafnréttisstefnu, sem lög segja fyrir um að verði að vera á öllum vinnustöðum þar sem starfa 25 manns eða fleiri. Það eru sem sagt alls ekki allir vinnustaðir sem hafa tekið umræðuna til sín. Fyrsta skrefið er auðvitað að taka umræðuna um hvernig hegðun fólk vill hafa á vinnustaðnum og hvað er ásættanlegt og hvað ekki. Það þarf að senda skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið og um leið skilaboð um hvert fólk getur leitað. Það þarf að búa til þannig andrúmsloft á vinnustaðnum að fólk treysti sér til þess að stíga fram. Þegar koma upp svona mál eins og hjá Orkuveitunni og starfsfólkið upplifir það að þolandinn er látinn fara þýðir það auðvitað að fólk óttast að segja frá, fólk vill passa upp á sitt eigið starf. Þannig að þessi viðbrögð eru í raun þöggunartækni.“
Ég spyr Sonju hvort hún hafi sjálf lent í áreitni á vinnustað og viðbrögðin eru dæmigerð. „Nei,“ segir hún strax en bætir svo við eftir stutta umhugsun. „Jú, jú, ég hef lent í kynferðislegri áreitni á vinnustað, bullið í mér. Það hafa allir lent í þessu en fólk grefur það bara og heldur áfram í staðinn fyrir að það sé nokkuð gert í því. Á einum vinnustaðnum sagði ég upp út af þessu, enda hafði ég ekki hugmynd um að það væri hægt að komast að einhverri annarri niðurstöðu í svona málum.“
Spurð hvort hún hafi það á tilfinningunni að afgreiðsla þessara mála sé eitthvað að þokast í rétta átt dregur Sonja við sig svarið.
„Það er meira mín tilfinning að núna sé samstaðan meiri og fólk upplifi að það er ekki eitt í þessu. Krafturinn í þessari byltingu hjálpar fólki að hætta að gera lítið úr þeim atvikum sem það lendir í. Og það sem ég er líka að vona, og hef fundið fyrir, er að fólk hjálpast meira að. Samkenndin í þessum málum hefur aukist og það er stuðningur inni á vinnustaðnum fyrir þá sem hafa lent í einhverju og fólk er duglegra við að benda strax á ef eitthvað fer úrskeiðis þótt það verði ekki fyrir áreitninni sjálft. Og það á við bæði um karla og konur. Þannig að já, þetta er eitthvað að þokast. En það er mjög langt í land ennþá og við megum ekki slaka á í vinnunni gegn því að þetta þrífist áfram.“
„Var hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair“
Margrét Erla Maack, er sama sinnis og Sonja, hún segir að málið komið ofboðslega lítið á óvart, þegar hún er spurð um álit á viðbrögðum ON við kvörtunum Áslaugar Thelmu Einarsdóttur um kynferðislega áreitni framkvæmdastjórans Bjarna Más Júlíussonar. „Það er hún sem er vandamálið. Hún á að halda kjafti. Það er ekkert nýtt í þessu,“ segir hún.Margrét Erla viðurkennir þó að hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig þetta mál var höndlað.
„Maður heldur alltaf að þetta sé búið,“ andvarpar hún. „Sérstaklega í ljósi þeirra byltinga sem hafa orðið undanfarin ár. Maður heldur alltaf þegar svona fréttir koma upp að þetta hljóti að vera síðasta konan sem lendir í þessu.“
Margrét Erla hefur starfað sem plötusnúður og skemmtikraftur árum saman og hefur ekki farið varhluta af þeirri kynferðislegu áreitni sem viðgengst í þeim bransa. „Það sem ég hef upplifað í mínu starfi sem skemmtikraftur og plötusnúður hefur kennt mér að vera næm fyrir því á hvaða vinnustöðum kúltúrinn er eitraður. Fyrir sirka tólf árum síðan, í einu af mínum fyrstu giggum sem var á árshátíð hjá Icelandair, skrifaði ég um upplifun mína á bloggið mitt og benti á að þótt það hefði verið gaman væri samt leiðinlegt að það skuli alltaf vera einn dónakall sem skemmir fyrir öllum hinum. Ég fékk strax viðbrögð frá fyrirtækinu sem fór fram á að ég tæki bloggfærsluna út og hótaði að borga mér ekki fyrir giggið. Engin afsökunarbeiðni eða neitt.“
Á þessum tíma var Margrét Erla ný í bransanum, 22ja ára gömul, og segist auðvitað hafa orðið við þessum tilmælum og tekið bloggfærsluna út.
„Mig vantaði þennan pening svo ég bakkaði, baðst afsökunar og eyddi færslunni. Þá var maður svo blautur á bak við eyrun að maður trúði því að maður væri eina týpan sem lenti í svona. Löngu seinna frétti ég svo að þessi maður væri alræmdur og hefði skemmt partí hjá fyrirtækinu í mörg ár og fólk hefði meira að segja hætt hjá fyrirtækinu út af honum af því enginn hefði gert neitt með kvartanirnar. Ég kvartaði og mér var þá hótað að ég fengi aldrei aftur að vinna fyrir Icelandair og það hefur staðist.“
#metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni
Margrét Erla segir þessa reynslu fyrir tólf árum langt frá því einsdæmi, það sé nánast undantekningalaust einhver dónakall á þeim skemmtunum þar sem hún kemur fram sem líti á það sem sjálfsagt mál að áreita hana kynferðislega. „Síðasta stóra uppákoman sem ég lenti í var á árshátíð hjá stóru opinberu fyrirtæki í orkugeiranum þar sem einn maður lét mig bara ekki vera. Ég benti honum á að ég væri að vinna vinnuna mína og hann ætti að láta mig í friði en það þýddi ekkert. Hann spurði hvort hann mætti klípa mig í rassinn og lét sér ekki segjast þótt ég neitaði. Þannig að ég talaði við skemmtinefndina og vinkonu mína sem er háttsett innan fyrirtækisins sem talaði við manninn og hann kom voða lúpulegur og baðst afsökunar, en hélt því fram að þetta væri ekkert alvarlegt af því að hann hefði spurt um leyfi og að honum hefði bara fundist þetta fyndið út af „þessu #metoo“. Þá gekk hann alveg fram af mér. Honum, og mörgum fleirum, finnst sem sagt #metoo bara enn ein ástæðan til að vera með kynferðislega áreitni og kalla það brandara.“
Strax daginn eftir hafði Margrét Erla samband við mannauðsstjóra fyrirtækisins og fékk standard svar um að þetta færi í ferli og síðan yrði heyrt í henni frekar. Síðan gerðist ekkert fleira og mánuði síðar skrifaði hún pistil um uppákomuna í Kjarnann og þá loks fékk hún viðbrögð frá fyrirtækinu. Var kölluð í viðtal og fór síðan í gegnum stefnumótun með forsvarsmönnum fyrirtækisins um að setja skýrar reglur um svona framkomu. „Það sem fólk kannski gerir sér ekki grein fyrir er að þótt áreitnin fari ekki fram á vinnustað á vinnutíma þá gilda sömu reglur um framkomu við samstarfsfólk á samkomum á vegum fyrirtækisins eins og innan veggja vinnustaðarins.“
Margrét segir fyrirtækið sem um ræðir að mörgu leyti sambærilegt við OR og að þar hafi ráðið ríkjum jakkafataklæddir menn alveg fram á síðustu ár, það sé tiltölulega nýskeð að konur komist til áhrifa innan þessara fyrirtækja og karlarnir reyni með öllum ráðum að verja sitt yfirráðasvæði.
„Þetta eru litlir kallar sem er ógnað og eru að reyna að púffa sig upp og sýna hvers þeir eru megnugir,“ segir hún. „Í starfi mínu sem plötusnúður finn ég vel fyrir þessari áráttu karlmanna sem hafa verið einráðir á sínu sviði allt of lengi til að gera lítið úr konum sem koma inn á sviðið. Þeir byrja alltaf á að benda á að það séu nú ekki margar konur í þessari stöðu og halda svo áfram að reyna að draga mann niður svo þeim líði betur.“
„Æ, já, hann er alltaf svona“
Það sem Margréti Erlu finnst einna ógnvænlegast er að það virðist sem allir viti af þessari framkomu ákveðinna manna, en það sé bara horft fram hjá því.
„Í hvert einasta skipti sem ég hef kvartað hef ég fengið svarið: „Æ, já, hann er alltaf svona.“ Samt er þessari týpu alltaf boðið í öll samkvæmi á vegum fyrirtækisins. Ég hef meira að segja verið í veislu hjá háttsettu fólki í þjóðfélaginu, þar sem maður var látinn skrifa undir trúnaðarsamning um að segja ekki frá, þar sem eiginmaður einnar konunnar sem vann þarna var þekktur fyrir að vera ógeðslegur og það voru vaktir hjá konunum í veislunni við að passa hver aðra fyrir honum. Þannig að í staðinn fyrir að bjóða honum ekki voru allir á fullu að kóa með þessari framkomu. Það var svakaleg upplifun.“
Margrét Erla segir þessa þöggun og meðvirkni vera stærsta hjallann sem þurfi að yfirstíga til að einhver breyting verði á meðhöndlun slíkra mála.
„Það þarf að vera skýrt verklag innan fyrirtækja um það hvernig eigi að taka á slíkum brotum,“ segir hún. „Það er allt of algengt að konur þori ekki að kvarta yfir áreitninni af ótta við að missa vinnuna og vera álitnar „sú týpa“. Það þýðir ekkert að skrifa í jafnréttisáætlun að kynferðisleg áreitni sé ekki liðin ef það fylgir engin útlistun á því hvernig eigi að bregðast við þegar hún kemur upp. Hvað þýðir það að einhver framkoma sé ekki liðin? Á bara að skamma fólk og láta svo eins og ekkert hafi gerst? Það verða að vera skýrt markaðar afleiðingar af svona brotum. Pabbi minn hefur unnið mikið við meðferð fíknisjúklinga og hann hefur bent mér á að það sem margir karlmenn byggi sjálfsvirðingu sína á sé vinnan. Þótt konan fari frá þeim og börnin hætti að tala við þá gera þeir ekkert í sínum málum, en ef þeir missa vinnuna fara þeir að taka á vandanum. Þannig að ég held að eina leiðin til þess að menn fari að taka þetta alvarlega sé að það sé í alvörunni ekki liðið á vinnustaðnum.“
Spurð hvort henni finnist ástandið ekkert hafa skánað við #metoo-byltinguna segir Margrét Erla að það séu tvær hliðar á því máli. „#metoo hefur auðvitað gefið fólki rödd,“ segir hún hugsi. „Núna er fólk tilbúið að tala um þetta vandamál. En mér finnst viðhorfið dálítið vera það að fólki sé hrósað fyrir að stíga fram og segja frá, en svo sé ekki farið neitt lengra með málið. Það sé litið svo á að með því að hvetja fólk til að tala sé málinu lokið.“
Skikka þarf gerendur í sálfræðitíma
Í máli Áslaugar Thelmu gagnvart OR hefur þó komist hreyfing á málin og hver framkvæmdastjórinn af öðrum fallið. Hjálpar það ekkert?
„Mig langar að trúa því,“ segir Margrét Erla og andvarpar. „En það ömurlega er að þegar svona gerist þá fer allt ferlið að verða loðnara. Það fara að koma fram meiri hótanir þannig að málin verða umdeildari, sem fyllir mann vonleysi. Ég þurfti til dæmis að leita lengi á fjölmiðlunum til að finna nafnið á framkvæmdastjóranum sem áreitti Áslaugu Thelmu. Áherslan í fréttaflutningnum var öll á henni og manninum hennar. Við erum einhvern veginn miklu meira tilbúin að nafngreina þolandann en gerandann. Hún er alltaf bara „þessi týpa“ sem er með vesen, í staðinn fyrir að áherslan sé á að benda á að gerandinn sé ógeðskall.“
Hvað heldurðu að sé hægt að gera til að viðhorfið breytist?
„Ef ég væri dónakall gæti ég svarað því,“ segir Margrét Erla og hlær kalt. „Þá gæti ég sagt þér hvað ég væri hrædd við ef það kæmist upp um mig í svona máli. En það sem þarf að gera er í fyrsta lagi að viðurkenna að þetta er alvöruvandamál, viðurkenna að rótin að þessari framkomu er að körlum finnst þeim ógnað og að þeir eru litlir í sér. Þannig að ég segi að fyrsta mál á dagskrá þegar svona kemur upp sé að skikka gerandann í sálfræðitíma eða áfengismeðferð. Skikka hann til að horfa inn á við. Það er nefnilega svo algengt viðhorf hjá karlmönnum að það sé skortur á karlmennsku að leita sér hjálpar. Og ef það dugar ekki til að menn taki sig á séu þeir bara reknir. Það verður að vera algjörlega kristalsskýr aðgerðaáætlun til að taka á svona málum innan fyrirtækja. Við verðum að hætta þessari meðvirkni. Núna!”
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Video – upptaka og leikstjórn / Óskar Páll Sveinsson og Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Thomas Brorsen Smidt bregður sér í hlutverk dragdrottningarinnar Jackie Moon í tilefni af háskólaútskrift.
„Við höfum engar áhyggjur af því að vanalegu gestunum okkar verði á einhvern hátt misboðið, þeir munu pottþétt skemmta sér. Ég er miklu stressaðri yfir því hvað foreldrum mínum, tengdaforeldrum og öllum fræðimönnunum á eftir að finnast. Vonandi fá þau ekki algjört sjokk,“ segir Thomas Brorsen Smidt, um sýninguna Jackie Moon’s Graduation Show, sem hann stendur fyrir á Gauknum í kvöld klukkan níu.
Viðburðurinn er svolítið óvenjulegur því hér er á ferð drag-sýning sem er haldin í tilefni af doktorsvörn Thomasar í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hvernig kom það eiginlega til? „Sko, í stuttu máli snýst ritgerðin mín um hversu erfitt er að innleiða jafnréttisreglur innan veggja akademíunnar, tiltölulega þurrt viðfangsefni sem á ekkert skylt við drag. Bara ekki neitt. En, hins vegar lærir maður í kynjafræði að kyn og kyngervi eru félagslega mótað en ekki fastmótað, einskonar leikur og hvað er drag annað en einmitt leikur með kyngervi og kyn? Þar sem hlutirnir er ýktir upp úr öllu valdi, sem fær fólk ekki aðeins til að hlæja heldur til að átta sig á hversu fáránlegt þetta tvennt getur verið. Að því leytinu til má alveg ætla að drag sé í raun ekkert síður pólitískt en kynjafræðin. Þess vegna fannst mér tilvalið að fagna útskriftinni með dragi.“
„Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“
Fjöldi litríkra skemmtikrafta treður upp á Gauknum í kvöld, þeirra á meðal Hans, Deff Starr, Lola Von Heart, James the Creature og dragdrottningin Ms. Ronya, sem kemur alla leið frá Skotlandi og svo Thomas sjálfur, sem mun bregða sér í hlutverk gestgjafans og drottningarinnar Jackie Moon. En Thomas er einn fárra gagnkynhneigðra karla á landinu sem starfa sem dragdrottning og hann segir marga verða vægast sagt hissa þegar þeir komast að því. „Sumum finnst ég vera að þröngva mér inn á svið homma en flestum finnst þetta frábært. Það hjálpi bara að afbyggja steríótýpur að gagnkynhneigður karlmaður skuli koma fram í dragi.“
Hann segir að hvað sem fólki finnist um það þá geti það alla vega stólað á eitt í kvöld: Að það muni skemmta sér konunglega. „Hafi það ekki komið á sýningu hjá mér áður þá á það sko gott í vændum.“
Bryggjuhverfið á Kársnesi í Kópavogi er staðsett á fallegum stað til móts við ylströndina í Nauthólsvík, í fjölskylduvænu og fallegu umhverfi við sjávarsíðuna.
Útsýnið er einstaklega fallegt í allar áttir og fögur er sjónin þegar horft er yfir í Öskjuhlíðina og víðar. Þessar glæsilegu íbúðir eru til sölu í Naustavör og eru eignirnar afar vandaðar. Umhverfið laðar að fólk á öllum aldri og býður upp á fjölbreyttar leiðir til útivistariðkunar fyrir fjölskyldur sem og einstaklinga. Meðal annars má nefna að Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu við smábátahöfnina sem er iðandi af lífi yfir sumarmánuðina. Stutt er í allar áttir og þjónustu. Jafnframt er stutt í leik- og grunnskóla og afþreyingu fyrir fjölskyldur. Í Bryggjuhverfinu á Kársnesinu er gert ráð fyrir að verði um 400 íbúðir. Flutt var í fyrstu íbúðir hverfisins á vormánuðum 2015. Framtíðin er því björt í Bryggjuhverfinu í Kópavogi.
Íbúðirnar sem eru komnar í sölu við Naustavör 26 eru hinar glæsilegustu. Þær eru frá tveggja til fjögurra herbergja í þriggja hæða fjölbýlishúsi með lyftu. Stæði fylgir öllum íbúðum í lokaðri bílgeymslu sem eru mikil lífsgæði. Allar íbúðirnar eru innréttaðar með vönduðum íslenskum innréttingum og fataskápum frá Brúnás sem eru hágæða hönnun. Íbúðirnar verða afhentar án gólfefna, nema á baðherbergi og þvottahúsi verða flísar, þar verður áhersla lögð á stílhreint yfirbragð. Ljósgrái liturinn verður í forgrunni í eldhúsinu, vandaðar innréttingar frá Brúnás gefa rýminu sterkan svip og svartur steinn í borðplötunni. Vönduð eldhústæki og -tól fylgja íbúðinni. Umfram allt er hugsað fyrir því að rýmið nýtist sem best.
Á baðherbergjum verða gólf flísalögð og veggir flísalagðir upp í loft. Baðherbergin verða búin vönduðum innréttingum frá Brúnás, þar sem ljósgrái liturinn verður í forgrunni. Borðplöturnar verða úr steini sem gefur rýminu fallega áferð og nýting á rýminu verður í hávegum höfð.
Íbúðirnar eru ýmist með góðum svölum eða stórum timburveröndum sem gerir íbúum kleift að njóta þess sem umhverfið hefur upp á að bjóða. Stæði í sameign verður frágengið að fullu og í sameign verður vönduð lyfta í stigahúsi. Anddyrin verða flísalögð en stigar og stigapallar teppalagðir. Gangstéttar við húsið verða með snjóbræðslukerfi sem er mikill kostur.
Byggingaraðili er Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. Arkitektar íbúðanna eru þeir Guðmundur Gunnlaugsson og Gunnar Páll Kristinsson frá Rýma arkitektum.
Fjárfesting fasteignasalan er með þessar glæsilegu íbúðir á sölu og er eftirspurnin mikil, enda um að ræða vandaðar eignir og staðsetningin ein sú besta sem völ er á, á höfuðborgarsvæðinu. Sjón er sögu ríkari.
Nánari upplýsingar veita Óskar Þór Hilmarsson, löggiltur fasteignasali, í síma 822-8750, Guðjón Sigurjónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 846-1511, Smári Jónsson, löggiltur fasteignasali, í síma 864-1362 og Edda Svavarsdóttir, löggiltur fasteignasali, í síma 845-0425. Einnig er hægt að hafa samband við Fjárfestingu fasteignasöluna í síma: 562-4250.
Stúdíó Birtíngur í samstarfi við Fjárfesting fasteignasalan.
Bárður Hreinn Tryggvason er sölustjóri hjá Gimli fasteignasölu og er tveggja barna faðir. Hann á þau Silju Rún sem er tvítug og er að ljúka stúdentsprófi um áramótin og Tryggva Snæ, fimmtán ára nemanda við Sjálandsskóla. Kærasta Bárðar er Lilja Hildur Hannesdóttir hjúkrunarfræðingur og er verkefnisstjóri á menntasviði Landspítalans. Hún er einnig með meistarapróf í mannauðsstjórnun. Hildur á þrjú börn, á aldrinum átta ára, sextán ára og tuttugu og fimm ára, og eitt barnabarn. Bárður og Hildur búa hvort í sínu lagi eins og er, bæði í Kópavogi.
Hvað heillar þig mest við starfið? „Það sem mér finnst skemmtilegast við þessa vinnu eru samskipti við fólkið sem stendur í fasteignaviðskiptum á hverjum tíma. Í flestum tilvikum er um að ræða stærstu samninga þess á lífsleiðinni. Mestu skuldbindingarnar sem eru lánin sem það tekur og þá er í flestum tilvikum um að ræða lánagjörning í fjörutíu ár sem er um það bil hálf mannsævi, það segir allt sem segja þarf um hversu stór þessi ákvörðun er að að taka lán og kaupa íbúð. Það er svo gefandi þegar vel tekst til og allt gengur upp og allir ganga ánægðir og sáttir frá borði. Ég hef alla tíð tekið starfið mikið inn á mig, ef svo má að orði komast. Síðan eru það vinnufélagarnir og umhverfið, að geta nýtt keppnisskapið sem er mikið hjá mér, að ég ætla og veit að ég hef, þó að ég segi sjálfur frá. En mesta ánægjan eru ánægðir viðskiptavinir.“
Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hefðbundinn vinnudagur hjá mér er frá klukkan 9.00 – 17.00 á daginn og oft lengur, en fyrstu tuttugu og fimm árin gæti ég trúað að þetta hafi verið ekki undir 60-70 tímum á viku. Í dag er þetta öðruvísi, ég fer þrisvar í viku í fótbolta í hádeginu í 1,5 klst, en það hef ég gert síðustu tíu árin og eru ómissandi fyrir mig, því að þetta útheimtir oft mikið álag.“
Hvað finnst þér gera heimili að heimili? „Fallega samsett húsgögn og hlutir sem passa saman og umfram allt eru þægileg. Svo ekki sé minnst á fallega myndlist á veggjum. Ég hef safnað að mér fallegri myndlist undanfarin ár og hef komið inn á glæsileg heimili en það er eitthvað sem vantar og það er eitthvað fallegt á veggina. En það er bara mín skoðun.“
Geturðu lýst þínum stíl? „Minn stíll er einfaldleikinn, ekki vera með of mikið af húsgögnum/hlutum og láta hlutina passa saman og mynda fallegt og notalegt heimili.“
Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Pálmar Kristmundsson er minn uppáhalds, hann hefur teiknað falleg hús og byggingar sem ég hef hrifist af í gegnum tíðina.“
Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Gæti nefnt Alvar Aalto hinn finnska sem var bæði húsgagnahönnuður og arkitekt, svo ég nefni nú einhvern.“
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Það er lítill fiskibátur með stórri vél og kemst hratt, en það er draumurinn einhvern tímann. Ég er frá Hellissandi og uppalinn þar við sjóinn. Var á skaki þrjú sumur með mági mínum. En það sem skýrir það er að þegar að þú ert kominn út á sjó í góðu veðri, þá hverfur allt sem að heitir stress. Þú ferð að slaka á og gleymir þér.“
Uppáhaldsliturinn þinn? „Uppáhaldsliturinn minn er brúnn.“
Hvar líður þér best? „Ég held að ég geti sagt að mér líði best með fjölskyldunni og að atast með henni í einhverju. Síðan að fara vestur á Snæfellsnes á æskuslóðirnar í fallegu veðri. Fara í fótbolta með stákunum en ég spila með Luns United í hádeginu og Svíkingum vinum mínum á mánudögum. Það er svo margt sem að ég gæti talið upp.“
Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við í garðinn eða inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Fallegur dagur að hausti, kaldur og sólin á lofti á sér engan sinn líka, síðan haustlitirnir þegar að þeir birtast í sínu fegursta formi. Vantar heita pottinn.“
Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Veit ekki, en gæti nefnt Bautann á Akureyri, alltaf sérstök stemning að borða þar. Var á Akureyri í menntaskóla í fjóra vetur.“
Heillar einhver byggingarstíll þig meira en annar? „Já, það eru lítil falleg einbýlishús í grónum hverfum eins og hægt er að sjá til dæmis fyrir norðan á Akureyri. Hvaða stíll það er, veit ég ekki.“
Að lifa lífinu lifandi er að … „vera meðvitaður um stað og stund og láta ekkert fara í taugarnar á sér, lífið er svo stutt. Halda síðan vel utan um fjölskylduna og vinina, ekkert gefur lífinu meira gildi en það að hafa gott fólk í kringum sig.“