Kristín Eva Gunnarsdóttir stundar nám í University of the Pacific í Kaliforníu auk þess að spila þar fótbola. Hún stefnir að því að starfa innan heibrigðisgeirans að námi loknu en undanfarin sjö ár hefur hún starfað sem fyrirsæta.
„Ég kem úr Garðabænum og útskrifaðist fyrir ári síðan úr Verzlunarskóla Íslands. Ég flutti til Kaliforníu beint eftir útskrift og stunda nú nám í líffræði en fótbolti er sömuleiðis mitt líf og yndi. Ég æfði með Þrótti en hér úti spila ég með skólaliðinu. Ég stefni að því að útskrifast eftir þrjú ár og mig dreymir um að vinna við eitthvað tengt spítölum í framtíðinni, hvort sem það verður innan læknageirans eða bak við tjöldin á rannsóknarstofum.
Ég hef samhliða námi og boltanum setið fyrir og verið á skrá hjá Eskimo frá því ég var fjórtán ára en ef ég mætti velja myndi ég helst alltaf klæða mig í svört föt, víðar íþróttapeysur og kápu yfir. Efst á óskalistanum er einmitt upprunalega hönnunin á Supreme-hettupeysunni eða lítið svart Gucci-belti.“
Aðspurð í hvaða búðum Kristín Eva versli mest segist hún panta óhikað af netverslunum.
„All Saints er uppáhaldsbúðin mín en ég versla einnig mikið í Urban Outfitters og Bloomingdales. Síðan panta ég mikið af Asos og Missguided. Að mínu mati ættu allar konur að eiga minnst eina svarta kápu með einföldu sniði enda er hægt að fara í allt undir hana. Sú kona sem veitir mér hvað mestan innblástur er Zendaya enda er hún með klikkaðan fatastíl.“
Skapti Hallgrímsson, blaðamaður og ljósmyndari, sendi á dögunum frá sér bókina Ævintýri í Austurvegi – Strákarnir okkar á HM í Rússlandi. Bókin er í dagbókarformi og lýsir upplifun Skapta á ævintýrinu sem þátttaka Íslands var á mótinu.
„Strax og Ísland tryggði sér sæti á HM hugsaði ég með sjálfum mér að ég yrði að vera viðstaddur ævintýrið. Ég var íþróttafréttamaður í fjöldamörg ár og íþróttafréttastjóri á Morgunblaðinu og þó svo að blaðamennska mín hafi um árabil snúist um annað en íþróttir að mestu leyti hafa þær aldrei verið langt undan og fótbolti er eitt af mínum helstu áhugamálum,“ segir Skapti sem hefur meðfram störfum sínum á Morgunblaðinu skrifað um fótbolta í mörg ár fyrir erlenda fjölmiðla, fyrst og fremst Kicker í Þýskalandi en líka tímaritið World Soccer í Englandi og svolítið í frönsk blöð.
„Ég var á EM í Frakkklandi og gat ekki sleppt því að fara til Rússlands. Ég var strax staðráðinn í því að skrifa bók um HM því mér fannst að ítarleg umfjöllun um þátttöku Íslands yrði að vera til þegar fram liðu stundir. Var með ýmsar hugmyndir en bókaútgáfan Tindur leitaði svo til mín og ég sló til; hafði nokkuð frjálsar hendur og fannst dagbókarformið heppilegast til að ná fram stemningunni sem ég vildi koma til skila. Ég sótti um og fékk aðgang sem ljósmyndari á mótinu, eins og stundum áður síðustu ár, vildi frekar vera niðri við völlinn þar sem nærveran við leikmennina og aksjónið er eðlilega meiri en úr blaðamannastúkunni. Ég vildi líka taka sem flestar myndir í bókina sjálfur, því ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“
Bókin er upplifun Skapta á þátttöku Íslands á mótinu í víðu samhengi. „Ég skrifa um fótboltahliðina og alls kyns mannlífsefni í bland. Um leikina þrjá fjalla ég svo sérstaklega og ítarlega, á „íþróttasíðulegan“ hátt; segi frá helstu atvikum, birti margvíslega tölfræði og ummæli leikmanna, þjálfara og fleiri að leik loknum. Í bókinni eru um 200 ljósmyndir, þar af um 170 sem ég tók sjálfur, en nokkrar eru frá vinum mínum í hópi íslensku ljósmyndaranna sem voru á HM, mest Eggerti Jóhannessyni á Mogganum sem á til dæmis myndina á bókarkápunni, og Þorgrími Þráinssyni, starfsmanni landsliðsins, sem á nokkrar myndir sem hann tók á bak við tjöldin.“
„Nú þarf alltaf að bíða lengi eftir því að leikmenn komi í viðtal eftir leiki, eftir að þeir hafa farið í sturtu og sjænað sig, einmitt þegar blaðamenn eru í mikilli tímaþröng að kvöldi.“
Samskiptin við leikmenn breytt
Stemningunni á ferðalaginu eru gerð skil á skemmtilegan og lifandi hátt í bókinni og hún er dýrmæt heimild um ævintýrið. „Fjölmiðlamenn hitta leikmennina reyndar mjög lítið, við gátum fylgst með hluta æfinga liðsins á hverjum degi, alla daga voru nokkrir leikmenn sendir til að spjalla við fjölmiðla í stutta stund áður en æfing hófst og svo var hægt að ræða stuttlega við þá eftir leiki á sérstöku svæði. Önnur voru samskiptin ekki. Margt hefur því breyst að þessu leyti, væntanlega til batnaðar fyrir leikmenn því þeir verða fyrir mjög litlu áreiti, en starfsumhverfi fjölmiðla er verra að sama skapi. Nú þarf alltaf að bíða lengi eftir því að leikmenn komi í viðtal eftir leiki, eftir að þeir hafa farið í sturtu og sjænað sig, einmitt þegar blaðamenn eru í mikilli tímaþröng að kvöldi. Í gamla daga var nánast hægt að ræða við leikmenn hvenær sem var fyrir leiki og eftir leiki gekk maður galvaskur inn í búningsklefa strax eftir landsleik og spurði menn spjörunum úr, í orðsins fyllstu merkingu. Gekk jafnvel á eftir mönnum með blað og blýant inn í sturtuklefann ef með þurfti.“
Skapti segir að viðmótið í Rússlandi hafi alls staðar verið gott. „Rússar gerðu hvað þeir gátu til að allt yrði eins og best væri á kosið og tókst það sannarlega. Svo hafði ég líka gaman af því að leiða hugann að öðru en fótbolta, til dæmis í Volgograd, áður Stalíngrad, þar sem sagan umlykur mann hvar sem komið er, enda orrustan um borgina í seinni heimsstyrjöldinni einn mesti hildarleikur seinni tíma. Ekki er hægt að segja að gaman hafi verið að skoða hið magnaða minnismerki, Móðurlandið kallar, styttuna risavöxnu sem gnæfir yfir borgina, en það var ótrúlega magnþrungið að koma á staðinn. Ég hef víða komið en minningargarðurinn í Volgograd er einhver magnaðasti staður sem ég hef heimsótt.“
Uppsögnin kom í opna skjöldu
Mitt í gleðinni sem fylgir útkomu bókarinnar hefur Skapti fengið sinn skerf af mótlæti en honum var nýlega sagt upp starfi sínu á Morgunblaðinu til 40 ára. „Ég var fastráðinn í 36 ár en byrjaði að skrifa fyrir blaðið fyrir nákvæmlea 40 árum, þegar ég var í fyrsta bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Við réðum okkur, tveir 16 ára vinir, til að skrifa um íþróttir í blaðið að norðan. Ég var á íþróttadeildinni frá 1982 til 1998, þar af sem fréttastjóri rúmlega síðasta áratuginn. Síðan hef ég fjallað um allt milli himins og jarðar, tilheyrði lengst af ritstjórn Sunnudagsblaðsins,“ segir Skapti og aðspurður segir hann að uppsögnin hafi komið honum í opna skjöldu. „Tilfinningin var óneitanlega vond. Ég hef verið blaðamaður á Morgunblaðinu alla mína starfsævi og uppsögnin var því mikið áfall. Ekki bætti úr skák að tveimur dögum áður var ég að dytta að húsinu mínu en féll úr stiga, eina þrjá metra niður á malbik, og mölbraut á mér olnbogann. Hugsaði strax að þetta væri ekki heppilegustu meiðsli blaðamanns.“ Skapti hætti strax, vinnur ekki uppsagnarfrest. Hann er búsettur á Akureyri og sér fyrir sér að starfa þar áfram sem blaðamaður og ljósmyndari. „Ég flutti aftur heim fyrir nærri tveimur áratugum og get sinnt margvíslegum verkefnum þaðan. Er til dæmis með tvær bækur á teikniborðinu nú þegar,“ segir hann brattur.
Nýja bókin hefur þegar fengið góð viðbrögð og þeir sem hafa séð gripinn eru hrifnir, að sögn Skapta. „Það gleður mig vissulega, enda mikið lagt í verkið og ég er mjög ánægður með hvernig til tókst. Ég er viss um að þeir sem voru á HM endurupplifi ævintýrið með því að glugga í bókina og þeir sem ekki fóru muni upplifa það sem fram fór.“
Nokkrir aðilar eiga og nytja eyjaklasann Hvallátur á Breiðafirði og koma saman á hverju vori ásamt fjölskyldum sínum, njóta náttúrudýrðar svæðisins og fara í dúnleitir. Við slógumst í för með dúnbændum í sumar.
Þarna sameinast kynslóðirnar í leik og starfi í faðmi náttúrunnar og fyrir marga er þetta besti tími ársins. Börnin kynnast náttúrunni á eigin forsendum, læra að bera ábyrgð og njóta þess að þarna gilda ekki strangar reglur. Dúntekjurnar nýtast til að reka húsnæði, vélar og bátakost sem notaður er í eyjunum.
Í Hvallátrum eru dúnleitir jafnan fyrripartinn í júní, leitað er í 200 eyjum, hólmum og skerjum sem tilheyra svæðinu og samtals eru hreiðrin milli þrjú og fjögur þúsund talsins. Í fyrri leitum kemur megnið af dúninum í hús en í seinni leitum er tekinn dúnn úr hreiðrum sem leitarfólki kann að hafa yfirsést og hjá kollum sem verpa seint. Þegar dúnninn er tekinn er sett hey í staðinn sem er ekki síðra fyrir útungunina en dúnninn, sérstaklega í rigningartíð.
Á Heimaeynni er stórt íbúðarhús og aðstöðuhús fyrir dúnþurrkun, unga í fóstri, geymslur og fleira. Niðri við höfnina er einnig gömul skipasmíðastöð sem starfrækt var í Hvallátrum um árabil. Þar inni er báturinn Egill sem smíðaður var í Hvallátrum árið 1904 af Ólafi Bergsveinssyni, bónda og skipasmið í Hvallátrum. Sonarsonur hans, Aðalsteinn Eyjólfur Aðalsteinsson, gerði bátinn upp í lok síðustu aldar.
Frí frá stressi og streitu
Veðrið þarf að vera gott til að hægt sé að halda í dúnleitir. Vindur má ekki vera mikill til að fært sé til sjós á gúmmíbátum og rigning er óæskileg. Eftir dag í leitum er komið með dúninn í Heimaeynna. Ef vel viðrar er blautum dúni gjarnan dreift á túnið til þurrkunar fyrir framan dúnhúsið áður en hann er hristur og settur á grindurnar. Eftir að dúnninn hefur verið þurrkaður á grindunum er hann hitaður í þar til gerðum potti en hitinn gerir gras og annað í dúninum stökkt. Dúnninn er svo settur í krafsarann þar sem þetta stökka er mulið úr. Þá er dúnninn sendur í hreinsistöð í Stykkishólmi.
Fólkið sem stendur að dúnnytjunum er ekki að því í hagnaðarskyni heldur til að eiga sér griðastað í þessu einstaka umhverfi. Það er jafnan glatt á hjalla þegar hópurinn hittist eftir veturinn, tilbúinn til að hverfa um stund frá streitunni sem gjarnan fylgir hversdeginum.
Þessi fallega eplabaka sómir sér vel á hvaða kökuborði sem er og er skemmtileg afþreying þegar tíminn er nægur og hægt að dunda sér við helgarbaksturinn.
Eplabaka með möndlukremi
6-8 sneiðar
Skel
200 g hveiti
60 g flórsykur
½ tsk. salt
140 g ósaltað smjör, kalt og skorið í teninga
1 eggjarauða
50 g dökkt súkkulaði (sett ofan á skelina eftir bakstur)
Hitið ofninn í 180°C. Setjið hveiti, flórsykur, salt og smjör í matvinnsluvél og vinnið saman í stuttum slögum, 10-15 sinnum, eða þar til blandan tekur á sig kornótta áferð. Setjið eggjarauðuna út í og vinnið saman í stuttum slögum þar til hún hefur blandast saman við. Deigið verður líkt og sandur á þessu stigi en mun loða saman þegar því er þrýst ofan í botninn á forminu.
Hvolfið deiginu ofan í bökuform (25 cm) með lausum botni og þrýstið deiginu vel ofan í og meðfram hliðunum. Gætið samt að hafa hliðarnar ekki of þykkar. Setjið í frysti og geymið í eina klukkustund.
Leggið svo bökunarpappír ofan á skelina og hellið því næst þurrkuðum baunum eða öðru fargi ofan á. Bakið í 20 mínútur. Fjarlægið þá pappírinn og fargið og setjið aftur inn í ofn og bakið í 10 mínútur. Takið úr ofni og lækkið hitann niður í 150°C.
Frangipane (möndlukrem)
100 g ósaltað smjör, við stofuhita
100 g sykur
100 g möndlumjöl, fínmalað
20 g hveiti
1 egg, hrært
Þeytið saman smjör, sykur, möndlumjöl og hveiti þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið egginu saman við og þeytið á lægstu stillingu á hrærivélinni. Látið möndlukremið hvílast í a.m.k. 15 mínútur. Smyrjið möndlukreminu jafnt yfir bökuskelina.
Epli
2-3 epli, óflysjuð og skorin í þunna báta
2 msk. apríkósusulta
Raðið eplunum ofan á skelina. Gott er að raða eplasneiðunum þétt þar sem þær eiga eftir að skreppa saman í ofninum. Setjið bökuna inn í ofninn og bakið í 30-35 mínútur. Hitið apríkósusultuna þar til hún verður seigfljótandi og penslið síðan yfir eplin eftir að bakan kemur úr ofninum. Látið bökuna kólna áður en hún er fjarlægð úr forminu.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Rauðrófur hafa verið vinsælar hér á landi síðustu ár enda eru þær bragðgóðar, fallegar á litinn og mjög hollar. Þær innihalda sterkt rautt litarefni sem gerir matinn sem þær blandast við bara fallegri.
Þegar rauðrófa er skorin niður er betra að nota plastbretti eða matardisk undir hana frekar en trébretti því tréð drekkur frekar í sig rauða litinn úr rófunni. Samt sem áður er auðvelt að ná rauða litnum af flestum eldhúsáhöldum með heitu vatni. Gott er að vera í gúmmíhönskum til að sleppa við að fá litinn á hendurnar.
Soðnar rauðrófur í vakúmpökkum fást nú víða, þær er oftast að finna í grænmetisborði verslana. Þetta gerir öllum kleift að bjóða upp á rétti úr rauðrófum án fyrirvara.
Á miðöldum voru rauðrófur notaðar í lækningaskyni. Kemur fram í hinum ýmsu heimildum að þær hafi þótt góðar við meltingarvandamálum og ýmsum kvillum í tengslum við blóðið. Þær eru nánast fitulausar en með frekar háan sykurstuðul. Rauðrófur eru ríkar af járni, A-, B6- og C-vítamíni, fólínsýru, magnesíum og kalíum og eru mjög trefjaríkar.
Rauðrófur eru ekkert skyldar gulrófunum sem flestir þekkja. Þær eru af sömu ætt og spínat, eða af skrauthalaætt, en gulrófur tilheyra krossblómaætt og eru náskyldar káltegundum og fleiri góðum nytjaplöntum.
Rauðrófu-risotto fyrir 2-3
250 g eldaðar rauðrófur
1 laukur
2 hvítlauksrif
1 msk. smjör
160 g Arborio-hrísgrjón, henta vel til að búta til risotto
1 ½ grænmetisteningur, t.d. frá Rapunzel
500 ml heitt vatn
60 ml þurrt hvítvín
1 blað lárviðarlauf
¼ tsk. cayenne-pipar
100 g fetaostur
smakkið til með salti og pipar
2 msk. fersk basilíka
Skerið rauðrófurnar í teninga og setjið til hliðar. Saxið lauk og hvítlauk og steikið við vægan hita upp úr smjörinu. Bætið hrísgrjónunum saman við og látið malla aðeins með lauknum. Búið til soð úr sjóðandi vatni og grænmetisteningi og hellið í nokkrum skömmtum út í hrísgrjónin og látið sjóða niður. Það sama er gert með hvítvínið. Hrærið alltaf í á meðan. Setið lárviðarlaufið út í og cayenne-piparinn. Það tekur um það bil 20 mínútur að fullelda hrísgrjónin. Þegar 10 mínútur eru liðnar af eldunartímanum eru rauðrófurnar settar út í pottinn. Smakkið til með salti og svörtum pipar. Takið lárviðarlaufið upp úr og skreytið réttinn með fetaosti og ferskri basilíku.
Grunnaðferð við soðnar og bakaðar rauðrófur
Best er að sjóða eða baka rauðrófur heilar með hýðinu. Þannig haldast næringarefni, bragð og vökvi betur í þeim við eldun.
Bakaðar: Hitið ofninn í 180°C. Pakkið hverri rófu þétt í álpappír og bakið í u.þ.b. 45 mínútur, tíminn fer þó eftir stærð rófunnar. Gott er að stinga prjóni í rófurnar til að athuga hvort þær eru eldaðar í gegn.
Soðnar: Setjið rófurnar beint ofan í sjóðandi vatn án þess að nokkuð sé búið að eiga við þær og sjóðið í u.þ.b. 45 mínútur. Alls ekki að skera rótarendann í burtu og ef stilkurinn er langur er best að skilja nokkra sentimetra eftir af honum. Ef þetta er gert þá lekur minni safi úr rófunni við eldun, þetta á í raun bæði við um bakaðar og soðnar rófur. Suðu- eða bökunartíminn fer eftir stærð en meðalrófa þarf 40-60 mínútna eldunartíma. Kælið rófuna áður en tekið er utan af henni.
Þegar líkamsræktarstöðvar eru ekki til staðar, fólk langar að breyta til eða finnst innileikfimi almennt leiðinleg er tilvalið að hreyfa sig úti, ekki síst þegar farið er í ferðalög. Víða í umhverfinu má finna staði sem henta vel til hreyfingar og líkamsræktar.
Krefjandi kirkjutröppur
Ef þú ert á Akureyri þá er beinlínis skylda að taka æfingu í kirkjutröppunum fyrir framan Akureyrarkirkju. Sem upphitun má taka hring í bænum annaðhvort gangandi eða hlaupandi og fara svo nokkrar ferðir upp og niður tröppurnar. Eftir á er svo nauðsynlegt að taka rólegt niðurskokk eða ganga til að koma jafnvægi á líkamann.
Í Kjarnaskógi rétt fyrir innan Akureyri er einnig frábær aðstaða til útivistar. Þar er hægt að ganga, hlaupa eða hjóla eftir flottum stígum og gera svo nokkrar æfingar í lokin. Ef fólk vill gera eitthvað aðeins meira krefjandi er hægt að ganga á Súlur (1213 m) suðvestan við Akureyri. Algengasta leiðin er frá öskuhaugunum en hún er um það bil 5 km og hækkunin um það bil 880 m. Leiðin er stikuð og greiðfær en svolítið brött efst. Útsýnið frá Yrti-Súlu er frábært til norðurs og austurs og þegar færi er gott er upplagt að ganga á Syðri-Súlu þar sem útsýnið opnast til suðurs.
Göngur öflug líkamsrækt
Gönguhópar spretta nú alls staðar upp eins og gorkúlur og áhuginn á göngum hefur aukist mikið á undanförnum árum. Þeir sem hafa sjaldan fundið sig í nokkurri líkamsrækt hafa fallið fyrir göngunum og klífa nú hvert fjallið á fætur öðru eftir því sem þolið eykst og formið verður betra. Göngur eru öflug líkamsrækt og með því að fara í gönguhóp fást einnig góðar leiðbeiningar og frábær félagsskapur. Hvar sem þið eruð, heima eða í fríi, getið þið alltaf tekið líkamsræktaræfingu í formi göngu, hvort sem það er á fjall í nágrenninu eða hring í borginni sem þið eruð stödd í.
Aflraunasteinar
Víða um land er að finna aflraunasteina sem gaman er að spreyta sig á þegar ferðast er um landið. Á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi eru steinarnir Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði. Við tóft gangnamannakofans í Ausubólshólum vestan við Þakgil í Mýrdal eru þrír aflraunasteinar sem nefndir eru Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur. Við eyðibýlið England í Lundareykjadal er heit laug og þar liggja fjórir aflraunasteinar sem heita Fullsterkur, Hálfsterkur, Amlóði og Örvasi. Í Húsafelli í Borgarfirði er Kvíahellan og þar eru líka Gráisteinn og Steðjasteinn. Í Þórðarteigi í Hvítársíðu eru þrír steinar sem nefndir eru Engjasteinar og greindir eru Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. Þrír aflraunasteinar eru undir Kirkjufelli í landi Villingadals í Haukadal. Þeir heita Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. Á Hvallátrum eru fjögur steinatök og á Látranesi í Hvallátrum er steinninn Klofi. Þrjú steinatök eru á bökkunum fyrir ofan vörina Miðþröng í Arnarstapavík í Tálknafirði. Þau heita Fullsterkur, Miðlungur og Aumingi. Eiginlega aflraunasteina má finna víðar um landið en svo má líka alltaf taka hvaða steina sem er og nota til líkamsræktar. (Heimildir: arnastofnun.is)
Salka Sól Eyfeld verður í aðalhlutverki á laugardaginn þegar Þjóðleikhúsið frumsýnir hið geysivinsæla leikrit Ronju ræningjadóttur, sem byggt er á bók Astrid Lindgren. Hún segir Ronju mikilvæga fyrirmynd fyrir ungar stelpur, en sjálfa hafi hana skort slíkar fyrirmyndir í æsku.
Ekki nóg með það að Ronja sé fyrsta aðalhlutverkið sem Salka Sól leikur, þetta er í fyrsta sinn sem hún er í hlutverki leikara í atvinnuleikhúsi. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég tekst á við það,“ segir Salka Sól og hlær. „En einhvern tímann er allt fyrst. Þetta leggst rosavel í mig, er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef tekið að mér og það eru algjör forréttindi að fá að hlakka til að mæta í vinnuna alla daga.“
Þegar tilkynnt var um val Sölku Sólar í hlutverk Ronju lét hún hafa eftir sér að þetta væri draumahlutverkið sitt, hvað meinti hún með því?
„Ég horfði mjög oft á sænsku myndina um Ronju þegar ég var lítil og ég man að ég sagði eitt sinn við mömmu að ef ég fengi einhvern tímann að leika aðalhlutverk í leikriti vildi ég leika Ronju eða Línu Langsokk, þá yrði ég sko sátt. Ronja var stór hluti af æsku minni og mér þykir mjög vænt um að fá að túlka hana og kynna hana fyrir yngra fólkinu. Ég held líka að þetta hlutverk henti mér vel því það er mjög stutt í barnið í mér. Ég myndi segja að það væri hæfileiki að leyfa sér að fara í það hlutverk og rækta barnið í sér.“
„Ég held það sé ótrúlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að það sé einhver kvenkarakter sjáanlegur í þjóðfélaginu. Það veit ég af eigin reynslu.“
Hatur er eitthvað sem okkur er kennt
Spurð hvort hún og Ronja séu líkar er Salka Sól snögg til svars.
„Já, við erum mjög líkar. Það er dálítið stórt skap í okkur báðum, en mikil réttlætiskennd og það sem er fallegast við Ronju er að hún er svo ótrúlega óhrædd við að taka sjálfstæðar ákvarðanir, hún eltir ekki það sem henni hefur verið kennt. Ég kannast við það hjá sjálfri mér. Ég hef aldrei verið hrædd við að taka eigin ákvarðanir og þora að vera bara nákvæmlega eins og ég er.“
Salka Sól segir að boðskapur sögunnar um Ronju skipti hana miklu máli og henni finnist þurfa að kynna hana fyrir öllum börnum.
„Þótt Ronju sé kennt að hata óvininn, og geri það kannski í fyrstu, þá ákveður hún að láta það ekki stjórna sér heldur kynnast óvininum. Við fæðumst nefnilega alveg ómenguð og ef það er hatur í fólki er það eitthvað sem því hefur verið kennt. Við verðum að þora að fara út fyrir þann ramma og skoða heiminn með okkar eigin augum.“
Mikilvægt að hafa sterkar fyrirmyndir
Fyrir utan að leika Ronju er Salka Sól þátttakandi í tónlistarhópnum Girl PWR, er Ronja ekki últra fyrirmynd þegar kemur að valdeflingu stelpna?
„Júhú,“ segir Salka Sól með sannfæringu. „Hún er það sko. Bæði hún og Lína Langsokkur. Kvenkarakterarnir sem Astrid Lindgren skrifar eru alveg magnaðir og stórkostlegt að hafa svona karaktera í aðalhlutverki í barnabókum.“
En um hvað snýst verkefnið Girl PWR?
„Ennþá er það bara hljómsveit en vonandi verður það hreyfing í framhaldinu. Þetta er valdeflandi batterí fyrir allar konur og akkúrat núna vill svo til að það eru Spice Girls sem eru í kastljósinu hjá okkur.“
Talið berst að fyrirmyndum stelpna og hvað þarf til að þær treysti sér til að standa með sjálfum sér og fylgja draumum sínum eftir. Er það eitt af markmiðum Sölku Sólar að verða slík fyrirmynd fyrir ungar stelpur?
„Já, ég held það,“ segir hún. „Ég vona það allavega. Ég held það sé ótrúlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að það sé einhver kvenkarakter sjáanlegur í þjóðfélaginu. Það veit ég af eigin reynslu. Ég held til dæmis að ég hefði farið miklu fyrr að rappa ef ég hefði haft fleiri kvenfyrirmyndir í rappinu. Ég hefði örugglega byrjað á því tíu ára eins og flestir strákarnir sem eru að rappa í dag, en ekki tuttugu og fimm ára eins og ég gerði.“
Hverjar voru þínar fyrirmyndir þegar þú varst að alast upp?
„Ég leit rosalega mikið upp til tónlistarkvenna, eins og Emiliönu Torrini til dæmis. Hún var í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo fór ég mjög mikið í leikhús og fannst alltaf Margrét Vilhjálms og Ólafía Hrönn ógeðslega skemmtilegar leikkonur og dáðist að þeim. Ég held að á okkar tímum sé það mikilvægara en nokkurn tíma áður að hafa þessar fyrirmyndir. Ég er auðvitað þekktust fyrir það sem ég er að gera í tónlistarheiminum, en ég er líka þekkt fyrir aktívisma og að benda á það sem betur mætti fara. Ég styð femíníska baráttu og held að það skipti miklu máli að hún sé líka sjáanleg í samfélaginu.“
Ætlaði að rjúka upp á svið
Faðir Sölku Sólar er leikarinn Hjálmar Hjálmarsson, ólst hún að einhverju leyti upp í leikhúsinu?
„Já, já, já, já,“ segir hún og hlær. „Ég var allar helgar uppi á svölum að horfa á Kardimommubæinn eða Dýrin í Hálsaskógi eða eitthvað. Ég meira að segja fór á Ronju 1992, þegar Sigrún Edda lék hana, og það er til fræg saga af mér þar sem ég ætlaði að hlaupa upp á svið þegar það var partí í sýningunni. Ræningjarnir ákveða að slá upp veislu og ég varð svo spennt, fjögurra ára gömul, að ég ætlaði bara að hlaupa upp á sviðið og pabbi rétt náði að grípa í kjólinn minn og stoppa mig áður en ég var bara mætt upp á svið til að taka þátt í gleðinni. Núna, tuttugu og sex árum síðar, var mér svo bara boðið í partíið.
Viðtalið fer fram fáeinum dögum fyrir frumsýningu, hvernig ætlar Salka Sól að nota þá til að undirbúa sig fyrir stóru stundina?
„Ég bara reyni að sofa vel og passa upp á röddina, nýta mér allar þær æfingar og tækni sem ég hef lært. Ég held að aðalatriðið sé að hvílast nóg og setja sigg inn í þennan heim sem við erum að skapa á sviðinu. Heim Ronju ræningjadóttur.“
Þannig að þessa vikuna verður þú bara Ronja utan sviðs og innan?
„Já. Ég sagði við manninn minn að hann skyldi ekki láta sér begða þótt ég svaraði honum undarlega og segði eitthvað skrýtið. Það væri ekki ég, heldur Ronja.“
Úrval Útsýn býður einstaka ferð til hinnar litríku eyju Kúbu sem ávallt heillar gesti upp úr skónum! Við spjölluðum við Kristínu Gunnarsdóttur hjá Úrval Útsýn og fengum nánari upplýsingar um ferðina sem fram undan er.
„Í ferðinni fáum við að kynnast báðum hliðum Kúbu, förum um helstu ferðamannaslóðir en kíkjum líka á það sem liggur baka til. Flestir kjósa að kynnast hinni sígildu og seiðandi Havana og strandarparadísinni Varadero þar sem munaður er í hávegum hafður. Fararstjórinn okkar, Kristín Tryggvadóttir, þekkir vel til Kúbu og við njótum þekkingar hennar og innsýnar í þessari einstöku ferð sem verður 10.-17. nóvember.“
Nú bjóðið þið þessa mögnuðu sérferð til Kúbu sem er meðal annars fræg fyrir að hafa haldið í menningararfleifð sína og náttúrufegurð, hvítar og tærar strendur og lifandi tónlist sem ómar um strætin. Getur þú sagt okkur nánar frá þessari mögnuðu ferð? „Já, við erum með dásamlega íslenska fararstjóra á staðnum sem þekkja vel til staðhátta og hafa áður verið fararstjórar í ferðum okkar á Kúbu. Sem áður segir verður okkar ástsæla Kristín Tryggvadóttir, fararstjóri Úrval Útsýn til margra ára á Kanaríeyjum og Costa Blanca, með farþegum okkar í Kúbuferðinni. Einnig verður Gréta Guðjónsdóttir, ljósmyndari og fararstjóri, með mjög áhugaverða sérferð um eyjuna þar sem meðal annars UNESCO-borgin Trinidad verður heimsótt og farþegar fá tækifæri til gista á heimilum heimafólks.“
Er mikill munur á menningunni og lífsháttum íbúana í Havana og Varadero?
„Já, það er mikill munur. Havana er gömul suðræn borg og alveg sér á báti á heimsvísu. Þar ægir saman gömlum tilkomumiklum byggingum, amerískum köggum frá 6. áratugnum, sjarmerandi djassbúllum og spilandi og dansandi fólki á götum úti, er þá fátt eitt nefnt. Varadero er einfaldlega flottur sólarstaður með mjög góð hótel og fyrsta flokks aðstöðu fyrir sólþyrsta gesti. Báðir staðir njóta sama stöðuga loftslagsins, 28 gráðu hita allt árið.“
Helsta aðdráttarafl Havana er …
„Það er eins og að ferðast aftur í tímann … gömlu litríku byggingarnar, bílarnir og byltingin í bakgrunni. Salsa-tónlist og dans, djass, vindlar og romm. Sjálfsagt er að upplifa hina nýju Havana þar sem yngri kynslóðin er nýjasta kryddið í mannlífinu og að ýmsu leyti á annarri línu en þeir sem eldri eru.“
Helsta aðdráttarafl Varadero er …
„Hvíti sandurinn, langa strandlengjan og djúpblár tær sjórinn. Í Varadero er hægt að slappa af við ströndina eða sundlaugarbakkann, fara í golf, skútusiglingu, jeppasafarí eða jafnvel synda með höfrungum.“
Bjóðið þið upp á fjölbreytta möguleika á gistingu í ferðinni?
„Við bjóðum upp á mikið úrval af gistingu, allt frá fimm stjörnu hótelgistingu, yfir í gistingu hjá heimamönnum. Mögulegt er að dvelja eingöngu í Havana eða allan tímann í Varadero – eða skipta ferðinni upp og gista á báðum stöðum. Í Varadero bjóðum við til dæmis upp á dvöl í fjölskylduherbergi fyrir þriggja eða fjögurra manna fjölskyldu á fínu fimm stjörnu hóteli með öllu inniföldu á 243.900 kr. á mann.“
Ferðatilhögun til Kúbu í stórum dráttum er morgunflug í beinu flugi með Icelandair þann 10. nóvember og einnig morgunflug heim, þann 17. nóvember. Farþegar munu njóta fyrsta flokks þjónustu Icelandair með þráðlausu netsambandi (gegn gjaldi) og flottu afþreyingarkerfi. Í báðum flugferðum er boðið upp að kaupa betri sæti um borð. Flugvöllurinn er í nágrenni Varadero og akstur til Havana tekur um tvær klukkustundir. Íslenskir fararstjórar eru farþegum Úrvals Útsýnar innan handar allan tímann.
Áhugaverðir punktar
Havana er stærsta borgin í Karíbahafinu, með tvær milljónir íbúa og 500 ára gamla sögu. Kúba er stærsta eyja Karíbahafs og liggur á mótum þess og Atlantshafsins og íbúar er um 11 milljónir. Enda þótt landið sé stærra að flatarmáli en Ísland (111.000 ferkílómetrar) er eyjan öll á lengdina en um 1.250 km skilja að austasta og vestasta odda hennar. Landslag Kúbu einkennist af flötum ekrum, hæðum og fellum en eiginleg fjöll eru á suð-austurhlutanum: Sierra Maestra með hæsta topp landsins, Pico Turquino, í öndvegi (1.974 m yfir sjávarmáli).
Verður að upplifa á Kúbu“ (Must do)
* Dansa salsa úti á götu
* Aka um í gömlum fornbíl er upplifun
* Skoða Hotel National de Cuba
* Heimsækja Trinidad og fara á Disco-Ayala
* Taka eftir kröbbunum sem fara yfir göturnar
* Fara í snorkl og/eða köfun
* Læra að rúlla vindil
* Synda í Vegas Grande-fossunum
* Fara á Playa Jibacoa-ströndina milli Havana og Varadero
Heimili er þar sem allir sitja saman við matarborðið.
Páll Þórólfsson er löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Mikluborg. Hann er giftur Katrínu Rós Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn saman, Aron Dag tuttugu og eins árs, Gunnar Hrafn, sextán ára og Sóleyju Lind, sjö ára.
Hvað heillar þig mest við starfið?
„Það sem heillar mig mest er hversu fjölbreytt það er, ég hef alltaf haft mjög gaman af fólki og í þessari vinnu er maður alltaf að hitta nýtt fólk með nýjar áskoranir. Starfið bíður upp á talsverðan sveigjanleika og frjálsræði en á móti kemur þá er þetta ekki hefðbundin 9-5 vinna og yfirleitt hægt að ná í mann á öllum tímum dagsins. Fasteignaviðskipti eru yfirleitt stærstu viðskipti sem „venjulegt“ fólk á um ævina og það er alltaf mjög gaman og gefandi þegar maður getur hjálpað fólki að láta hlutina ganga upp.“
Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Ég reyni að byrja daginn á að fara í ræktina um þrisvar sinnum viku, annars er alltaf svolítið fjör á mínu heimili á morgnana, koma öllum af stað, viðra hundinn, gera nesti og svo framvegis. En ég byrja alltaf á einum góðum kaffibolla þegar ég mæti í vinnuna. Dagarnir eru ansi fjölbreyttir þegar í vinnuna er komið. Eðli málsins samkvæmt þá snýst starf fasteigasalans um samskipti við kaupendur og seljendur og lengd vinnudagsins tekur mið af verkefnastöðunni hverju sinni.“
Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Heimili er í mínu huga allir þessir venjulegu hlutir eins og til dæmis þegar við Katrín, náum öllum börnunum og jafnvel nokkrum vinum í góðan kvöldmat þar sem allir sitja saman við matarborðið eins og hjá stórri ítalskri fjölskyldu. Mér finnst líka mjög kósí og heimilislegt þegar við strákarnir á heimilinu liggjum uppi í sófa og horfum á eitthvað spennandi íþróttatengt í sjónvarpinu.“
„Mér finnst líka mjög kósí og heimilislegt þegar við strákarnir á heimilinu liggjum uppi í sófa og horfum á eitthvað spennandi íþróttatengt í sjónvarpinu.“
Geturðu líst þínum stíl? „Eiginlega ekki. Ætli ég sé ekki bara ósköp „venjulegur“, hef gaman af því að hafa fallega hluti í kringum mig en get ekki sagt að ég hafi einhvern sérstakan stíl.“
Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Hef satt að segja ekki hugsað mikið út í það en Páll Gunnlaugsson hjá ASK arkitektar er toppmaður í alla staði.“
Áttu þinn uppáhaldshönnuð?
„Verð að viðurkenna að ég þekki nú ekki nöfnin á þessum snillingum en mér finnst mjög gaman að koma inn í Epal-búðina hjá Eyjólfi og Kjartani frændum mínum og svo skilst mér á konunni minni að ég sé mjög hrifinn af Iittala-vörum og Georg Jensen kertastjökum.“
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Börn sem eru betri en ég í íþróttum,“ segir Páll og hlær.
Uppáhaldsliturinn þinn?
„Liverpool-rauður.“
Hvar líður þér best?
„Til dæmis á sundlaugarbakka einhvers staðar í heitari löndum, með krakkana hoppandi í laugina í kringum mig en ég sjálfur er með heyrnatól í eyrunum og hlusta á eitthvað gott podcast. Svo er fjári góð tilfinning að vera staddur úti á golfvelli í góðu veðri og í góðum félagsskap.“
Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Mér finnst alltaf góð tilfinning þegar rútína haustsins tekur við eftir að hafa verið búinn að njóta sumarsins með öllu því sem að því fylgir. Svo verður maður eitthvað svo barnalega þakklátur ef sólin skín og hitastigið fer í 10 gráður á þessum árstíma á meðan maður blótar jafnvel slíku veðri yfir hásumarið. Ekkert hausttengt svo sem en það stendur til að að gera herbergið hjá Sóleyju Lind dóttur minni stelpulegra með tilheyrandi litavali og innréttingum.“
Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?
„Í augnablikinu hef ég mjög gaman af nýju Mathöllinni úti á Granda, gaman að geta gengið eða hjólað á góðan stað og fengið mér snarl.“
Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?
„Vel heppnað Funkis-hús heillar alltaf.“
Að lifa lífinu lifandi er að … er að minna sig á daglega að LÍFIÐ er núna!
Fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vegna ársins 2019 voru kynnt í vikunni. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Þótt fjárlögin virðast fráhrindandi tölusúpa þá er í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í.
Í Mannlífi vikunnar er farið yfir hversu mikið einstaklingar borga beint til að standa undir útgjöldum ríkissjóðs, hversu mikið legst á fyrirtæki landsins og það sem ríka fólkið þarf að borga í fjármagnstekjuskatt.
Þar er líka farið yfir hvað hækkun á persónuafslætti þýðir fyrir meðalmanninn, aukningu sem fyrirhuguð er í vaxta- og barnabótakerfum og sölu á fiðlu fyrir handstóra.
Þá er stiklað á stóru um stöðu ríkissjóðs, sem hefur sjaldan eða aldrei verið betri.
Á yfirborðinu virðist hinn 24 ára gamli Ríkharður Þór Guðfinnsson hafa allt sem ungan mann gæti dreymt um. Hann er í góðri vinnu, á fallegt heimili og tvö heilbrigð börn. Í frístundum finnst honum fátt skemmtilegra en að spila golf og stunda veiði. Líklega myndu fáir giska á að aðeins eru rúmar tvær vikur frá því að Ríkharður, eða Rikki eins og hann er alltaf kallaður, útskrifaðist af geðdeild.
Rikki dvaldi á geðdeild í kjölfar fíknimeðferðar á Vogi, eftir að hafa fallið fyrir freistingum Bakkusar, ekki í fyrsta, annað eða þriðja sinn. Reyndar er sannleikurinn sá að meðferðirnar eru orðnar of margar til að hann hafi tölu á þeim. Rikki er einn af fjölmörgum ungmennum sem glímt hafa við fíknivanda um árabil, en hann gagnrýnir réttilega skort á úrræðum og þá baráttu við kerfið sem fólk sem kallar á hjálp þarf að heyja. Þegar hann komst á botninn í sumar og leitaði sér hjálpar á geðdeild, endaði hann í fangageymslum lögreglunnar.
Rikki lýsir neyslunni sem skyndilausn við hverskyns vandamálum. „Neyslan er leið til að flýja veruleikann. Ef maður er að takast á við einhverja erfiðleika getur maður frestað þeim með því að taka nokkrar töflur. Ég var einn af þeim sem fannst ég aldrei eiga við neitt vandamál að stríða, ég stundaði mína vinnu og var bara í góðum gír, að mínu mati, þrátt fyrir að fá mér öðru hvoru. En smátt og smátt fór fíknin að taka yfir allt. Hún yfirgnæfði allar tilfinningar þar til allt fór að snúast um að redda sér næsta skammti. Nú síðast var ég farinn að taka hvað sem ég komst í, en mest af lyfseðilskyldum lyfjum. Það er lygilegt hversu auðvelt er að verða sér úti um efni í dag, það þarf bara eitt símtal og því er reddað.“
Missti tökin í sumar
Í sumar tók að halla hratt undan fæti og Rikki fór að missa tökin á neyslunni. Skuldir voru farnar að hlaðast upp og hann missti meðal annars umgengni við son sinn. Fjölskyldu og vini Rikka fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar hann fór að mæta illa í vinnu og sýna breytta framkomu. „Ég var mjög ör og reiður, var snöggur upp og þoldi ekki að fólk væri að skipta sér af mér. Mér fannst ég ekki þurfa á neinni hjálp að halda og ætlaði bara að díla við þetta sjálfur. Það sýnir sig hversu veruleikafirrtur ég var orðinn þegar amma mín lést í sumar, og í kistulagningunni og jarðarförinni var ég útúrkókaður. Ég var með stæla við fólk og þegar systir mín sagði mér að haga mér hótaði ég að berja hana. Þarna áttuðu allir sig á hvað var í gangi og lágu í mér að leita mér hjálpar, fara í meðferð. En ég sá ekkert vandamál. Helgina eftir fór ég svo á djammið upp á Skaga þar sem mamma mín býr, það endaði með því að ég lagði allt í rúst heima hjá henni og lenti í slagsmálum.“
Það sýnir sig hversu veruleikafirrtur ég var orðinn þegar amma mín lést í sumar, og í kistulagningunni og jarðarförinni var ég útúrkókaður.
Endaði í fangageymslu eftir kall á hjálp
Á þessum tímapunkti var fjölskyldan orðin örvæntingarfull og ráðalaus. Engin úrræði voru í boði þar sem Rikki var ekki tilbúinn að gangast við vandamálinu. Umræður voru hafnar um að svipta hann sjálfræði, en eftir helgina á Akranesi segist Rikki sjálfur hafa fengið nóg. „Ég var kominn á botninn, og vissi að ef ég fengi ekki hjálp væri þetta hreinlega bara búið. Ég gat ekki meira. Bróðir minn hringdi nokkur símtöl og reyndi koma mér inn einhvers staðar, en það var hvergi pláss. Það er alltaf erfitt að komast inn, en sérstaklega á sumrin vegna sumarleyfa starfsfólks. Honum var sagt að ég gæti komið í viðtal á Vog tveimur vikum seinna, en það var ekki möguleiki að ég gæti beðið svo lengi. Pabbi og konan hans ákváðu því að keyra mig niður á geðdeild og reyna sitt besta til að útskýra fyrir þeim ástandið.“
Þar komu þau að lokuðum dyrum. Rikki var undir áhrifum en slíkt er undir engum kringumstæðum leyfilegt á geðdeildinni. Honum var vísað út, en var allt annað en sáttur. „Ég reiddist við þessa lækna sem ætluðu að henda mér út, með engin önnur úrræði fyrir mig. Ég sagði við þá að ef ég kæmist ekki þarna inn myndi ég fara beinustu leið upp í Heiðmörk, setja pústið inn í bílinn og enda þetta allt.“
Atburðarásinni eftir það mætti helst líkja við atriði úr bíómynd. Tveir lögreglubílar renndu í hlað, Rikki var handjárnaður og leiddur út í bíl. Eftir stóðu pabbi hans og stjúpmóðir, sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Útskýringarnar sem þau fengu voru að ástandið hefði verið metið sem svo að Rikki væri of hættulegur sjálfum sér, en þetta væri eina úrræðið í boði, að vista hann í fangageymslu. „Mér var hent inn í klefa, í einangrun á Hverfisgötunni. Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum,“ segir Rikki þegar hann er beðinn um að lýsa aðstæðum. „Ég var ekki undir neinu eftirliti, fjölskyldan fékk ekki að hafa samband við mig og enginn vissi hvað væri í gangi. Þetta var mjög slæm og niðurlægjandi upplifun.“ Lögum samkvæmt má ekki halda einstaklingum í fangageymslu lengur en í sólarhring án úrskurðar dómara, og þessi sólarhringur var nýttur til hins ýtrasta í tilfelli Rikka. Eftir 24 klukkustundir í einangrun var hann handjárnaður á ný og fluttur í lögreglufylgd aftur niður á geðdeild. Hann segist ekki hafa fengið neinar skýringar á þessum atburðum eða hvort þetta teljist eðlilegir verkferlar, en telur þetta lýsandi fyrir ástandið í geðheilbrigðismálum á Íslandi. „Það vantar klárlega einhver úrræði, það á ekki að líðast að fólki á svona viðkvæmum stað sé vísað frá þegar það leitar sér aðstoðar. Hvað þá að vera skellt í handjárn og hent í fangelsi. Ég skil ekki að þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað síðustu mánuði virðist ástandið aðeins fara versnandi. Til dæmis var verið að loka geðheilsudeildinni innan Hugarafls sem ég veit að hefur reynst mörgum af mínum félögum vel. Það er ljóst að miklar breytingar verða að eiga sér stað í þessu ónýta kerfi.“
Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum.
Byrjaði að drekka í 8. bekk
Rikki er fæddur árið 1994. Hann ólst upp í Grindavík og er yngstur í hópi fjögurra systkina. Skólagangan gekk vel framan af, hann æfði fótbolta frá unga aldri og var talinn einn efnilegasti leikmaður bæjarins. Þegar hann var 12 ára varð fjölskyldan fyrir miklu áfalli þegar mamma hans, stoð og stytta fjölskyldunnar, fékk heilablóðfall og var vart hugað líf. Í kjölfarið tók við erfitt tímabil og breyttar heimilisaðstæður sem reyndu mikið á alla fjölskyldumeðlimi. „Við systkinin höfum öll upplifað okkar skerf af erfiðleikum og þegar ég hugsa til baka eru veikindi mömmu upphafið að mörgum þeirra. Hún var sú sem sá alltaf um allt og hélt öllu gangandi, svo skyndilega var fótunum bókstaflega kippt undan henni, og þar með okkur öllum í fjölskyldunni. Þarna hefði klárlega þurft að vera eitthvað utanumhald, eitthvert teymi eða ráðgjöf sem okkur hefði átt að standa til boða. En það var ekkert svoleiðis. Fljótlega eftir þetta skildu mamma og pabbi, ég hætti í fótboltanum og fór að sækja í verri félagsskap,“ rifjar Rikki upp.
Ekki leið á löngu þar til allt fór úr böndunum. „Það var í 8. bekk, rétt eftir að mamma veiktist, sem fyrst var komið með mig heim í lögreglufylgd eftir skólaball. Ég byrjaði að drekka áfengi á þessum tíma og fljótlega fór vinahópurinn að fikta við eiturlyf. Um leið og ég prófaði í fyrsta sinn var ekki aftur snúið.“
Mætti á 12 spora-fundi í bullandi neyslu
Sumarið eftir útskrift úr grunnskólanum fór Rikki í sína fyrstu meðferð. „Ég fór ekki þangað inn af fullum hug, var í raun að bíða eftir því að komast út til að geta fengið mér aftur. Mér fannst ég ekki eiga við neitt vandamál að stríða og hafa fulla stjórn á þessu,“ segir hann.
Næstu árin var Rikki inn og út úr meðferðum, bæði í styttri og lengri tíma, en tókst inn á milli að halda sér edrú. Á síðustu árum hefur hann eignast tvö börn, stundað sína vinnu af krafti og fjölskyldan stóð í þeirri trú að allt væri í góðu lagi. En reyndin var ekki sú, og að eigin sögn var feluleikurinn það sem átti eftir að reynast honum verst.
„Mér tókst að að fela þetta fyrir fólkinu í kringum mig, sem stóð í þeirri trú að ég væri fullkomlega edrú. Ég mætti jafnvel á 12 spora-fundi en var samt í bullandi neyslu. Í byrjun sumars tók ég inn of mikið magn af róandi lyfjum, fékk flog og lenti næstum í hjartastoppi. Ég fór á spítala og þegar fjölskylda mín frétti af þessu var þeirra fyrsta hugsun auðvitað að þetta væri tengt neyslu, en mér tókst að sannfæra þau um að þetta væri eitthvað allt annað, flensa eða álíka. Svo hélt ég bara áfram að éta pillur þegar ég var útskrifaður. Feluleikurinn er nefnilega svo hættulegur. Það er ekki fyrr en allt var í tómu tjóni, ég kominn í skuldir og mjög harða neyslu að ég var fyrst tilbúinn að viðurkenna vandann og þiggja hjálp. En þá er það oft hægara sagt en gert.“
Færibandavinna á Vogi
Af tveimur slæmum kostum segist Rikki að vissu leyti hafa verið heppinn að málin þróuðust á þennan veg. „Ég komst að minnsta kosti inn á geðdeild að lokum og fékk hjálp, ólíkt mörgum sem vísað er frá. Það átti að loka á mig og segja „sorrí, vinur“.
Ég hef ekkert út á þá starfsemi að setja sem þar fer fram. Þar er unnið svo mikið með andlegu hliðina og farið miklu dýpra. Vogur er meiri færibandavinna, þar koma sjúklingar inn og eru allir meðhöndlaðir eins, þetta er í raun afeitrunarstöð. Ég myndi vilja sjá miklu meira aukið fjármagn í fíknigeðdeildir landsins og finnst sorglegt að sjá ástandið í þessum málaflokki eins og staðan er í dag.“
Rikki var inn á geðdeildinni í um tvær vikur áður en hann var sendur heim í nokkra daga, þar til hann komst inn á Vog. „Ég var þarna innan um virkilega veika einstaklinga. Einn af sjúklingunum talaði sífellt um Díönu prinsessu og var sannfærður um að hún sæti á rúminu hjá sér á kvöldin og að hann hefði verið með í bílnum kvöldið sem hún dó. Þetta var ekki sérstök fíknigeðdeild heldur almenn geðdeild, og dvölin þar var mér erfið þar sem fráhvörfin voru svo rosaleg. Þrátt fyrir það var ég þakklátur fyrir að hafa fengið þessa hjálp og var og er harðákveðinn að standa mig. Ég veit að nú þarf ég að leggja öll spil á borðið því þetta er mitt síðasta tækifæri. Neyslan og ruglið var orðið svo mikið, að ef ég hætti ekki núna er þetta búið.“
Tilbúinn að takast á við þetta fyrir lífstíð
Eins og áður hefur komið fram á Rikki fjölmargar meðferðir að baki, vel á annan tug. Í þetta sinn segir hann hugarfarið breytt því sem áður hafi verið. „Áður fyrr leit ég alltaf á edrúmennskuna sem eitthvað sem yrði aðeins til styttri tíma en ekki langtímaverkefni. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er tilbúinn að takast á við þetta fyrir lífstíð. Áður var ég alltaf með þá hugsun bak við eyrað að ég þyrfti bara að vera edrú í kannski 10 ár, þá yrðu krakkarnir orðnir eldri og þá væri í lagi að fá sér smávegis aftur. Þessi hugsunarháttur varð mér að falli aftur og aftur, en núna er ég í þessu á breyttum forsendum. Ég ætla að taka þetta alla leið núna og fylgja prógramminu, leggja allt í hendurnar á æðri mætti. Nú tekur við vinna hjá mér við að koma lífinu í eðlilegt horf, byggja upp samband við börnin mín og vera góður pabbi, mæta í vinnu og standa mína plikt. Það er satt sem sagt er, að þessi sjúkdómur leiði ekki til neins nema geðveiki eða dauða. Ég hef fengið annað tækifæri og ætla mér að nýta það vel,“ segir Rikki að lokum.
Við vinnslu fréttarinnar hafði Mannlíf samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að fá viðbrögð við frásögn Ríkharðs.
„Engin nýlunda að einstaklingar séu vistaðir í fangageymslu þegar betur færi á að aðrar leiðir væru mögulegar“
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir málefni fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda vera Lögreglunni vel kunnug og að embættið hafi áður bent á skort á úrræðum. „Það er heldur engin nýlunda að einstaklingar séu vistaðir í fangageymslu þegar betur færi á að aðrar leiðir væru mögulegar. Lögreglan getur ekki tjáð sig um umrætt mál, sem er tilefni umfjöllunarinnar, en getur staðfest að sambærileg atvik hafa komið upp. Þá er inngrip lögreglu oft eina úrræðið, en vistun í fangageymslu við þær aðstæður snýr að öryggi viðkomandi, sem kann að vera hættulegur sjálfum sér og/eða öðrum,“ segir hann. Varðandi álag á geðdeildum og skort á langtímaúrræðum í búsetumálum fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda telur Ásgeir nægja að benda á orð þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu og að undir þau megi taka. „Svo virðist sem margir lendi utan kerfis, en við það má ekki una og brýnt er að úr því verði bætt.“
Aðdáendur þungarokkshljómsveitarinnar Skálmaldar bíða nú í ofvæni eftir fimmtu hljóðversplötu sveitarinnar „Sorgir“ sem kemur út 12. október næstkomandi. Fyrsta smáskífa plötunnar, „Sverðið“ er nú komin í spilun á helstu tónlistarveitum og hefur hlotið góðar viðtökur.
Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textahöfundur hljómsveitarinnar, segir draugaþema einkenna nýju plötuna sem verði talsvert frábrugðin síðustu plötu sem kom út árið 2016. „Hún var mjúk og þægileg, vögguvísur og allt í blóma. Nú kveður við annan tón. Allt kalt, dimmt og sorglegt; dauði og djöflar við hvert fótmál. Það var svolítið viljandi að fara alveg í hina áttina núna,“ útskýrir Snæbjörn.
Vinsældir Skálmaldar hafa farið sívaxandi frá því að Snæbjörn og Björgvin Sigurðsson, söngvari og gítarleikari, smöluðu saman nokkrum vinum sínum úr rokkbransanum árið 2009. Markmiðið var fyrst og fremst að hafa gaman af og gefa máski út eina þungarokksplötu, til að geta sýnt börnum sínum í framtíðinni hvað pabbar þeirra voru einu sinni svalir. Nú níu árum og bráðum fimm hljóðversplötum síðar eru það ekki aðeins börn Skálmaldarmanna sem líta upp til þeirra með aðdáun í augum, tugþúsundir aðdáenda um gjörvalla Evrópu og líklega víðar, fylgjast bergnumdir með hljómsveitinni. Og nú fyrir skemmstu fyllti Skálmöld Eldborgarsal Hörpu fjögur kvöld í röð ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og þremur kórum en þetta var í annað sinn sem þessar stórhljómsveitir leiða saman hesta sína.
Snæbjörn segir að það sé ekki alltaf áreynslulaust að vera í hljómsveit sem stundi reglulega sambúð í litlum rútum svo vikum skipti á tónleikaferðalögum um Evrópu, þá sé vináttan sterk og spilagleðin hafi aldrei verið meiri, enda skili það sér í hljóðverinu. „Við héngum mikið saman í stúdíóinu og unnum hratt. Það hefur alltaf verið gaman að vera í Skálmöld en ekki svona ógeðslega gaman síðan við vorum að gera fyrstu plötuna. Við einhvern veginn endurfæddumst þarna, svona stemningarlega séð allavega.“
Sjávarútvegsfyrirtækið Blámar ehf. flytur út fiskafurðir á neytendamarkað í Asíu. Fjórar verslunarkeðjur í Hong Kong bjóða upp á vörurnar og markaðshlutdeild í Kína fer vaxandi, en Blámar er fyrsta íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem í samstarfi við íslenska frumkvöðlafyrirtækið EFNI ehf. býður upp á rekjanleikamerkingar á vörum á neytendamarkaði í Asíu.
Ísland er alltaf að komast betur inn á kortið í Asíu en gæði og hreinleiki er eitthvað sem Asíubúar tengja gjarna við Ísland. Þess vegna liggja mikil verðmæti í því að geta sannað íslenskan uppruna á vörum okkar,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Blámars.
Að hennar sögn er Blámar líklega fyrsta íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem selur afurðir sínar milliliðalaust á neytendamarkað í Asíu. „Kína hefur verið að berjast gegn röngum merkingum á matvælum með tilliti til uppruna og fleiri hluta. Upp–runi vöru er orðinn gríðarlega mikilvægur,“ segir hún og bendir á að vantraust neytenda gagnvart upprunamerkingum sé orðið útbreitt vandamál meðal almennings í Kína. „Kínverjar eru einfaldlega hættir að trúa á uppruna á þeim vörum sem eru í boði. Þeir upplifa svo mikið af fölsunum og rangmerkingum,“ útskýrir Valdís en Blámar hefur um nokkurt skeið leitað leiða til að sanna uppruna á sínum vörum á einfaldan og grípandi hátt.
Fann lausnina hjá íslensku frumkvöðlafyrirtæki
Valdís fann það sem hún leitaði að þegar hún sá kynningu Heiðu Kristínar Helgadóttur, framkvæmdastjóra EFNI ehf. á rekjanleikatækni sem fyrirtækið hefur hannað fyrir vörumerki sitt Niceland Seafood. Það varð til þess að Blámar og EFNI leiddu saman hesta sína í tilraunaverkefni þar sem rekjanleikahugbúnaðurinn er notaður til að tengja neytendur betur við uppruna fiskafurða Blámars á markaði í Kína; í gegnum hughrif og upplifun.
Tekur neytendur inn í nýjan heim
Efni hefur hannað forrit sem ekki aðeins gerir neytandanum kleift að rekja uppruna vörunnar nákvæmlega, allt frá því fiskurinn er veiddur í íslenskri landhelgi og þar til hann er kominn í verslanir, heldur er einnig boðið upp á sjónræna upplifun. „Vörurnar eru merktar með sérstökum QR-kóðum sem neytandinn getur skannað með snjallsíma sínum í versluninni. Þar fær hann ekki aðeins staðfestingu á uppruna heldur einnig einstakt ferðalag með myndum af Íslandi, hreinni íslenskri náttúru, brjáluðum sjó og hreinu lofti. Þetta tekur neytandann inn í annan heim sem er orðinn svo stór hluti af matarinnkaupum,“ segir Valdís og bætir við að einnig sé hægt að finna hlekki inn á fjölbreyttar uppskriftir enda sé íslenskur fiskur, s.s. ýsa, karfi og Atlantshafsþorskur, mörgum í Asíu framandi. Heiða bætir við að QR kóða tækni sé notuð í miklu meira mæli í Asíu en til að mynda í Evrópu og Bandaríkjunum og þess vegna séu flestir snjallsímar nú búnir þannig að ekki þurfi sérstakt app, heldur er hægt að skanna QR kóða með því einu að beina myndavélinni að þeim. „Þetta hefur gjörbreytt möguleikum okkar á að nýta þessa tækni og vera fyrst á markað með hagnýta lausn sem styður við vörumerkið sem við erum að byggja upp í Bandaríkjunum.“
Vilja aðeins það besta
Blámar er fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á neytendamarkaði í Asíu með slíkar rekjanleikamerkingar. „Það ætti að gefa okkur samkeppnisforskot. Millistéttin í Kína er það vel stæð að fólk velur aðeins það besta fyrir börnin sín, fæðuöryggi og hollusta skiptir þetta fólk mun meira máli en hvað varan kostar. Það er því algjört lykilatriði að við getum sannað hvaðan vörurnar okkar koma,“ segir Valdís en tekur fram að enn sé verið að fullþróa kerfið. „Fyrsti gámurinn með þessum QR-merktu vörum verður sendur út í september og ég er að verða mjög spennt yfir því að sjá hvernig viðtökurnar og viðbrögðin verða.“
Ríkið ætlar að verja allt að 400 milljónum króna til að styðja við einkarekna fjölmiðla, gangi tillögur Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eftir.
Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur lengi verið erfitt og ítrekað hefur verið kallað eftir aðgerðum til að styrkja stöðu þeirra. Fyrirmyndin er sótt til Norðurlanda þar sem löng hefð hefur verið fyrir því að hið opinbera styrki fjölmiðla á frjálsum markaði.
Lilja telur að aðgerðirnar „valdi straumhvörfum“ á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en í þeim felst meðal annars að ritstjórnarkostnaður rit- og ljósvakamiðla verði endurgreiddur að hluta. Munu 350 milljónir króna renna í svokallaðan ritstjórnarsjóð og munu fjölmiðlar geta sótt þangað endurgreiðslu fyrir rekstrarárið 2019. Þá verða umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði minnkuð um 560 milljónir og virðisaukaskattur á rafrænum áskriftum færðar úr efra skattþrepi niður í það neðra. „Það er tímabært að stíga þessi sögulegu skref og hrinda í framkvæmd loforði sem tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég trúi því að aðgerðirnar muni hafa tilætluð áhrif,“ segir Lilja.
Íris Stefanía Skúladóttir hóf nýverið MFA nám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands eftir tæplega tveggja ára langt bataferli vegna kulnunar í starfi.
Hún rannsakar nú í náminu kynhegðun fólks með fókus á sjálfsfróun kvenna en hugmyndina hafði hún gengið með lengi. „Mig langar að rannsaka allar hliðar kynhegðunar með fókuspunkt á sjálfsfróun kvenna. Ég skoða allt frá forn Grikkjum til klámmenningar samtímans,” segir Íris en viðurkennir að umfjöllunarefnið sé vandmeðfarið. „Ég er þegar byrjuð að safna sögum frá konum um upplifun þeirra af sjálfsfróun. Allar konur geta skilað inn órekjanlegum nafnlausum sögum á síðunni: Þegar ég fróa mér, á Survey Monkey.”
https://www.surveymonkey.com/r/3ZSRN3Z
Hugmyndina hafði Íris gengið með allt frá unglingsaldri. „Ég var 14 ára þegar ég sá könnun um að 20% stúlkna á mínum aldri fróuðu sér en 80% stráka. Mér fannst þessi tölfræði skrítin þar sem við Ugla Egilsdóttir, vinkona mín höfðum á þessum tíma talað töluvert um eigin sjálfsfróun. Við gerðum okkar eigin litlu rannsókn í bekknum og spurðum stelpurnar hvort þær fróuðu sér. Engin svaraði beint játandi en eftir að hafa spjallað svolítið viðurkenndu þær flestar, ef ekki bara allar, að þær hefðu prófað að fróa sér eða gerðu það reglulega. Við ræddum líka við strákana og viðruðum þá hugmynd að gera okkar eigin könnun í bekknum. Bekkurinn var til og því sóttum við um að gera þetta verkefni með því markmiði að opna á umræðuna og sérstaklega þennan mun á kynjunum.“
„Það var talið eðlilegt að strákar fróuðu sér en algjör leyndardómur hvort stelpurnar gerðu það, sem er fyndið í ljósi þess hversu fjölbreyttar fullnægingar konur geta fengið.“
„Á þessum tíma vorum við með unga og yndislega kennslukonu en hún var fljót að kalla okkur upp að kennaraborðinu. Við máttum ekki gera þessa könnun. Eftir að hafa mótmælt þessu kallaði hún hvasst yfir bekkinn; “Hver hér inni vill taka þátt í svona könnun?” Það þorði auðvitað enginn að rétta upp hönd og þar með var hugmyndin skotin niður. Skilaboðin sem sátu eftir voru að ekki mætti tala um kynhegðun kvenna. Síðan þá hefur þetta efni verið mér hugleikið. Ég held að með opinni umræðu geti konur orðið öruggari með eigið kynlíf, notið þess betur og stundað betra kynlíf. Þetta hefur því einungis jákvæðar afleiðingar í för með sér.”
Og Íris segist sjá mikinn mun þegar kemur að kynjunum. „Ég útskýri það oft sem svo að sáðlát karla sé svolítið eins og blæðingar kvenna í kynþroskaferlinu. Við vitum að konur muni byrja á blæðingum og við vitum að strákar fái sáðlát. Vissulega er þetta óvísindalegt hjá mér en ef við göngum út frá því að stelpur verði kynþroska fyrr en strákar þá eru þessar fullnægingar sem konur tala um að hafa fengið um tíu ára aldur í takt við ferlið. Strákar fá kannski fyrsta sáðlátið um tólf ára og þá er ekkert skrítið að stelpur fái sína fyrstu fullnægingu tíu ára. En þar sem stelpur fá aldrei neitt sáðlát er ekki talað formlega um neitt sérstakt upphaf hjá stelpum meðan sáðlát stráka er stundum eins og ákveðin innganga í karlmennskuna. Stelpur verða konur, við það að fá blæðingar – því þá eru þær orðnar frjóar. Það sem eftir situr er þessi dulúð um fullnægingu kvenna, fróa stelpur sér? Fá konur fullnæginu yfir höfuð? Ef ekki njóta þær þá þess að stunda kynlífs? Svona spurningar koma aldrei hjá strákunum því þar er til staðar vökvi sem sannar að hér hafi átt sér stað fullnæging.
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson.
Krabbameinsfélagið hefur hleypt af stokkunum nýrri auglýsingaherferð sem ætlað er að hvetja konur til að nýta sér tækifæri til skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Þátttaka kvenna í leit hefur farið minnkandi á undanförnum árum.
Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands segir í viðtali við vef Krabbameinsfélagsins, krabb.is, að það sé afar mikilvægt að snúa þessari þróun við: „Sérstaklega er mikilvægt að fá ungu konurnar til að mæta og taka þátt í skimun fyrir krabbameinum. Þetta er sem betur fer staða sem við getum breytt en við þurfum að auka meðvitund kvenna um hve mikilvæg skimunin er og í nútímasamfélagi þurfa skilaboðin að vera áhrifarík. Herferðin endurspeglar það.“
Skilaboðin í auglýsingunum eru unnin úr niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir félagið árið 2014 þar sem fram komu ástæður þess að konur mættu ekki í skimun. Meðal þeirra „afsakana“ sem konurnar notuðu voru:
Erfiðleikar með að komast frá vinnu
Hræðsla við sársauka
Kostnaður við skimunina
Frestunarárátta
Framtaksleysi
Þess má geta að mörg stéttarfélög og sum fyrirtæki taka þátt í kostnaði vegna skimunar fyrir krabbameinum. Og nú geta konur skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum rafrænt á mínum síðum Ísland.is. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands.
Ríkharður Þór Guðfinnsson endaði í fangageymslu eftir kall á hjálp.
„Mér var hent inn í klefa, í einangrun á Hverfisgötunni. Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum. Ég var ekki undir neinu eftirliti, fjölskyldan fékk ekki að hafa samband við mig og enginn vissi hvað væri í gangi. Þetta var mjög slæm og niðurlægjandi upplifun.“
Þannig lýsir Ríkarður Þór Guðfinnsson því þegar hann leitað sér hjálpar á geðdeild en endaði í fangageymslum lögreglunnar, þar sem hann var settur í einangrun, eftirlitslaus og í miklum fráhvörfum. Í nýjasta tölublaði Mannlífs, sem kemur út á morgun, segir Ríkarður frá hroðalegum veruleika sem tók við þegar hann missti tökin á lífi sínu í sumar. Lestu meira um málið í blaðinu á morgun og á man.is
Samkvæmt nýlegri könnun, sem kynlífshjálpartækjafyrirtækið Lovehoney gerði meðal 3.500 viðskiptavina sinna, er það fólk sem fætt er í Vatnsberamerkinu sem stundar mest kynlíf. Ekki nóg með það að þeir stundi kynlíf oftar en fólk í öðrum stjörnumerkjum heldur eru Vatnsberarnir líka ánægðastir með kynlíf sitt.
Ef þú ert í Vatnsberamerkinu ætti kynlíf þitt því að vera rjúkandi heitt. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru Vatnsberar spennandi og óútreiknanlegir bólfélagar auk þess sem þeir eru allra stjörnumerkja líklegastir til að eiga svipu. Það þýðir þó ekki að þeir séu lauslátir því samkvæmt könnuninni eru þeir líka allra stjörnumerkja tryggastir.
Þau fimm stjörnumerki sem eru efst á listanum yfir þá sem stunda mest kynlíf, samkvæmt þessari hávísindalegu könnun, eru:
Vatnsberar
Naut
Fiskar
Meyjur
Ljón
Það sem kemur kannski mest á óvart í niðurstöðum könnunarinnar er að nærri helmingur þeirra sem tóku þátt trúa því sem stjörnumerkjafræðin segir um einkenni hvers merkis fyrir sig og einn af hverjum fimm trúir því að það skipti máli í hvaða stjörnumerki makinn er til þess að sambandið geti gengið upp.
Aðrar forvitnilegar niðurstöður úr könnuninni eru til dæmis þær að Fiskar eru líklegastir til að vilja vera í búningum í svefnherberginu og Hrútar toppa listann yfir þá sem hafa prófað bindingaleiki í rúminu. Þar fyrir utan segir könnunin að Krabbar séu blíðir og munúðarfullir elskhugar og að Vogum finnist gott að láta flengja sig.
Tilkynnt var í morgun að Ísland yrði meðal þátttökuþjóða í Eurovision sem haldin verður í Tel Aviv næsta vor. Á vef RÚV er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV, að sú ákvörðun grundvallist á því að ekki sé um pólitískan viðburð að ræða heldur þvert á móti samkomu ólíkra þjóða sem allt frá stofnum hafi haft að megintilgangi og leiðarljósi að breiða út boðskap sameiningar- og friðarkrafts sem felst í dægurtónlist og menningu almennt.
Skorað hafði verið á RÚV að sniðganga keppnina vegna ástandsins á Gaza og framferðis stjórnvalda í Ísrael í garð Palestínumanna og Skarphéðinn fullyrðir að þær áskoranir hafi verið teknar alvarlega, en eftir mikla yfirlegu hafi verið tekin ákvörðun um að senda fulltrúa frá Íslandi í keppnina. Þar hafi vegið þungt að keppnin verði haldin í Tel Aviv en ekki Jerúsalem og einnig að allar Norðurlandaþjóðirnar ætli að taka þátt í keppninni. „Enn hefur ekki heyrst af þjóðum sem hyggjast sniðganga keppnina í Ísrael af pólitískum ástæðum. Almannaþjónustumiðlarnir á Norðurlöndunum hafa jafnan verið samstíga í slíkum efnum og hafa þeir allir nú þegar staðfest þátttöku sína,“ segir Skarphéðinn.
Ekki er langt síðan hópur listamanna birti opið bréf í breska blaðinu Guardian þar sem skorað var á Evrópulönd að sniðganga Eurovision í Ísrael. „Við getum ekki hugsað okkur að taka þátt í Eurovisiongleðinni með góðri samvisku á meðan Ísraelsríki og her þess beita Palestínumenn hrottalegu ofbeldi í næsta nágrenni,“ segir í bréfinu sem tveir íslenskir listamenn skrifuðu undir, þau Daði Freyr og Hildur Kristín Stefánsdóttir.
Jóhanna Kristín Gustavsdóttir er með BA í atvinnulífsfélagsfræði, er löggiltur fasteignasali og starfar hjá Landmark fasteignasölu.
Hún er gift og á tvær dætur, sú eldri er tvítug og yngri er tólf ára. Fjölskyldan á líka hundinn Kötu sem er af Papillion-tegundinni. Þau búa í fallegu parhúsi á Kársnesinu í Kópavogi.
Hvað heillar þig mest við starfið? „Það er hversu fjölbreytt það er og að fá að hafa samskipti við þverskurð af okkar samfélagi. Flestir eru að gera sín stærstu viðskipti á ævinni enda eru heimili fólks oftast það sem stendur því næst, fyrir utan fjölskylduna sjálfa. Það er því afar ánægulegt að að fá að aðstoða fólk við að selja sín heimili og finna því nýjan stað og upplifa þakklætið sem því fylgir.“
Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hann byrjar á góðum kaffibolla og að fara út með hundinn. Síðan ræðst dagurinn af því hvað fyrir liggur en það getur til dæmis verið tilboðsgerð eða gagnaöflun um eign ef ég er að taka nýja eign í sölu eða þá að tala við kaupendur og seljendur ef eign hefur verið sýnd daginn áður. Vera viðstödd myndatöku á eign með ljósmyndaranum. Seinnihluti dagsins fer oft í að sýna eignir og vera með opin hús. Það sem gerir alla daga skemmtilega í starfinu er samstarfsfólkið mitt hjá Landmark sem er einstaklega flottur og samstiga hópur fagfólks.“
„Það er afar ánægulegt að að fá að aðstoða fólk við að selja sín heimili og finna því nýjan stað og upplifa þakklætið sem því fylgir.“
Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Að heimilið sé notalegt og öllum líði vel og finnist gott að koma heim eftir vinnu- eða skóladaginn og geta slakað á.
Geturðu lýst þínum stíl? „Hann er hlýlegur, klassískur og í skandinavískum og ítölskum stíl.“
Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Högna Sigurðardóttir, hún var tímalaus í sinni hönnun og tók mikið mið af umhverfinu og náttúrunni. Þá er ég hrifin af hönnun Sigurðar Hallgrímssonar og Guðbjargar Magnúsdóttur en sem samtímahönnuðir skapa þau einstaklega heildstæð og falleg heimili.“
Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Nei, ekki beint en ég er mjög hrifin af skandinavískum og ítölskum hönnuðum.“
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? ,,Nirvana, en ég væri samt til í mynd eftir Eggert Pétursson listmálara.“
Uppáhaldsliturinn þinn? „Fjólublár og margir jarðlitir.“
Hvar líður þér best? „Heima hjá mér í faðmi fjölskyldunnar og vina. Það sakar ekki að vera að elda góðan mat.“
Hvað heillar þig mest við haustið? „Það eru haustlitirnir í náttúrunni og lyktin af haustinu. Þegar fer að rökkva bæti ég við fleiri kertastjökum og kveiki oftar á kertum.“
Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Erfitt að segja, það eru svo margir svalir og flottir veitingastaðir á Íslandi í dag en ætli ég verði ekki að segja Sumac á Laugaveginum sem er með miðausturlenska- og norður-afríska matreiðslu. Frábær staður.“
Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? „Fúnkisstíll heillar mig mest.“
Að lifa lífinu lifandi er að … „að njóta samverustunda með vinum og fjölskyldu og gera skemmtilega hluti saman. Þá má ekki gera lítið úr því að vera í gefandi starfi.
Kristín Eva Gunnarsdóttir stundar nám í University of the Pacific í Kaliforníu auk þess að spila þar fótbola. Hún stefnir að því að starfa innan heibrigðisgeirans að námi loknu en undanfarin sjö ár hefur hún starfað sem fyrirsæta.
„Ég kem úr Garðabænum og útskrifaðist fyrir ári síðan úr Verzlunarskóla Íslands. Ég flutti til Kaliforníu beint eftir útskrift og stunda nú nám í líffræði en fótbolti er sömuleiðis mitt líf og yndi. Ég æfði með Þrótti en hér úti spila ég með skólaliðinu. Ég stefni að því að útskrifast eftir þrjú ár og mig dreymir um að vinna við eitthvað tengt spítölum í framtíðinni, hvort sem það verður innan læknageirans eða bak við tjöldin á rannsóknarstofum.
Ég hef samhliða námi og boltanum setið fyrir og verið á skrá hjá Eskimo frá því ég var fjórtán ára en ef ég mætti velja myndi ég helst alltaf klæða mig í svört föt, víðar íþróttapeysur og kápu yfir. Efst á óskalistanum er einmitt upprunalega hönnunin á Supreme-hettupeysunni eða lítið svart Gucci-belti.“
Aðspurð í hvaða búðum Kristín Eva versli mest segist hún panta óhikað af netverslunum.
„All Saints er uppáhaldsbúðin mín en ég versla einnig mikið í Urban Outfitters og Bloomingdales. Síðan panta ég mikið af Asos og Missguided. Að mínu mati ættu allar konur að eiga minnst eina svarta kápu með einföldu sniði enda er hægt að fara í allt undir hana. Sú kona sem veitir mér hvað mestan innblástur er Zendaya enda er hún með klikkaðan fatastíl.“
Skapti Hallgrímsson, blaðamaður og ljósmyndari, sendi á dögunum frá sér bókina Ævintýri í Austurvegi – Strákarnir okkar á HM í Rússlandi. Bókin er í dagbókarformi og lýsir upplifun Skapta á ævintýrinu sem þátttaka Íslands var á mótinu.
„Strax og Ísland tryggði sér sæti á HM hugsaði ég með sjálfum mér að ég yrði að vera viðstaddur ævintýrið. Ég var íþróttafréttamaður í fjöldamörg ár og íþróttafréttastjóri á Morgunblaðinu og þó svo að blaðamennska mín hafi um árabil snúist um annað en íþróttir að mestu leyti hafa þær aldrei verið langt undan og fótbolti er eitt af mínum helstu áhugamálum,“ segir Skapti sem hefur meðfram störfum sínum á Morgunblaðinu skrifað um fótbolta í mörg ár fyrir erlenda fjölmiðla, fyrst og fremst Kicker í Þýskalandi en líka tímaritið World Soccer í Englandi og svolítið í frönsk blöð.
„Ég var á EM í Frakkklandi og gat ekki sleppt því að fara til Rússlands. Ég var strax staðráðinn í því að skrifa bók um HM því mér fannst að ítarleg umfjöllun um þátttöku Íslands yrði að vera til þegar fram liðu stundir. Var með ýmsar hugmyndir en bókaútgáfan Tindur leitaði svo til mín og ég sló til; hafði nokkuð frjálsar hendur og fannst dagbókarformið heppilegast til að ná fram stemningunni sem ég vildi koma til skila. Ég sótti um og fékk aðgang sem ljósmyndari á mótinu, eins og stundum áður síðustu ár, vildi frekar vera niðri við völlinn þar sem nærveran við leikmennina og aksjónið er eðlilega meiri en úr blaðamannastúkunni. Ég vildi líka taka sem flestar myndir í bókina sjálfur, því ég vissi nákvæmlega hvað ég vildi.“
Bókin er upplifun Skapta á þátttöku Íslands á mótinu í víðu samhengi. „Ég skrifa um fótboltahliðina og alls kyns mannlífsefni í bland. Um leikina þrjá fjalla ég svo sérstaklega og ítarlega, á „íþróttasíðulegan“ hátt; segi frá helstu atvikum, birti margvíslega tölfræði og ummæli leikmanna, þjálfara og fleiri að leik loknum. Í bókinni eru um 200 ljósmyndir, þar af um 170 sem ég tók sjálfur, en nokkrar eru frá vinum mínum í hópi íslensku ljósmyndaranna sem voru á HM, mest Eggerti Jóhannessyni á Mogganum sem á til dæmis myndina á bókarkápunni, og Þorgrími Þráinssyni, starfsmanni landsliðsins, sem á nokkrar myndir sem hann tók á bak við tjöldin.“
„Nú þarf alltaf að bíða lengi eftir því að leikmenn komi í viðtal eftir leiki, eftir að þeir hafa farið í sturtu og sjænað sig, einmitt þegar blaðamenn eru í mikilli tímaþröng að kvöldi.“
Samskiptin við leikmenn breytt
Stemningunni á ferðalaginu eru gerð skil á skemmtilegan og lifandi hátt í bókinni og hún er dýrmæt heimild um ævintýrið. „Fjölmiðlamenn hitta leikmennina reyndar mjög lítið, við gátum fylgst með hluta æfinga liðsins á hverjum degi, alla daga voru nokkrir leikmenn sendir til að spjalla við fjölmiðla í stutta stund áður en æfing hófst og svo var hægt að ræða stuttlega við þá eftir leiki á sérstöku svæði. Önnur voru samskiptin ekki. Margt hefur því breyst að þessu leyti, væntanlega til batnaðar fyrir leikmenn því þeir verða fyrir mjög litlu áreiti, en starfsumhverfi fjölmiðla er verra að sama skapi. Nú þarf alltaf að bíða lengi eftir því að leikmenn komi í viðtal eftir leiki, eftir að þeir hafa farið í sturtu og sjænað sig, einmitt þegar blaðamenn eru í mikilli tímaþröng að kvöldi. Í gamla daga var nánast hægt að ræða við leikmenn hvenær sem var fyrir leiki og eftir leiki gekk maður galvaskur inn í búningsklefa strax eftir landsleik og spurði menn spjörunum úr, í orðsins fyllstu merkingu. Gekk jafnvel á eftir mönnum með blað og blýant inn í sturtuklefann ef með þurfti.“
Skapti segir að viðmótið í Rússlandi hafi alls staðar verið gott. „Rússar gerðu hvað þeir gátu til að allt yrði eins og best væri á kosið og tókst það sannarlega. Svo hafði ég líka gaman af því að leiða hugann að öðru en fótbolta, til dæmis í Volgograd, áður Stalíngrad, þar sem sagan umlykur mann hvar sem komið er, enda orrustan um borgina í seinni heimsstyrjöldinni einn mesti hildarleikur seinni tíma. Ekki er hægt að segja að gaman hafi verið að skoða hið magnaða minnismerki, Móðurlandið kallar, styttuna risavöxnu sem gnæfir yfir borgina, en það var ótrúlega magnþrungið að koma á staðinn. Ég hef víða komið en minningargarðurinn í Volgograd er einhver magnaðasti staður sem ég hef heimsótt.“
Uppsögnin kom í opna skjöldu
Mitt í gleðinni sem fylgir útkomu bókarinnar hefur Skapti fengið sinn skerf af mótlæti en honum var nýlega sagt upp starfi sínu á Morgunblaðinu til 40 ára. „Ég var fastráðinn í 36 ár en byrjaði að skrifa fyrir blaðið fyrir nákvæmlea 40 árum, þegar ég var í fyrsta bekk í Menntaskólanum á Akureyri. Við réðum okkur, tveir 16 ára vinir, til að skrifa um íþróttir í blaðið að norðan. Ég var á íþróttadeildinni frá 1982 til 1998, þar af sem fréttastjóri rúmlega síðasta áratuginn. Síðan hef ég fjallað um allt milli himins og jarðar, tilheyrði lengst af ritstjórn Sunnudagsblaðsins,“ segir Skapti og aðspurður segir hann að uppsögnin hafi komið honum í opna skjöldu. „Tilfinningin var óneitanlega vond. Ég hef verið blaðamaður á Morgunblaðinu alla mína starfsævi og uppsögnin var því mikið áfall. Ekki bætti úr skák að tveimur dögum áður var ég að dytta að húsinu mínu en féll úr stiga, eina þrjá metra niður á malbik, og mölbraut á mér olnbogann. Hugsaði strax að þetta væri ekki heppilegustu meiðsli blaðamanns.“ Skapti hætti strax, vinnur ekki uppsagnarfrest. Hann er búsettur á Akureyri og sér fyrir sér að starfa þar áfram sem blaðamaður og ljósmyndari. „Ég flutti aftur heim fyrir nærri tveimur áratugum og get sinnt margvíslegum verkefnum þaðan. Er til dæmis með tvær bækur á teikniborðinu nú þegar,“ segir hann brattur.
Nýja bókin hefur þegar fengið góð viðbrögð og þeir sem hafa séð gripinn eru hrifnir, að sögn Skapta. „Það gleður mig vissulega, enda mikið lagt í verkið og ég er mjög ánægður með hvernig til tókst. Ég er viss um að þeir sem voru á HM endurupplifi ævintýrið með því að glugga í bókina og þeir sem ekki fóru muni upplifa það sem fram fór.“
Nokkrir aðilar eiga og nytja eyjaklasann Hvallátur á Breiðafirði og koma saman á hverju vori ásamt fjölskyldum sínum, njóta náttúrudýrðar svæðisins og fara í dúnleitir. Við slógumst í för með dúnbændum í sumar.
Þarna sameinast kynslóðirnar í leik og starfi í faðmi náttúrunnar og fyrir marga er þetta besti tími ársins. Börnin kynnast náttúrunni á eigin forsendum, læra að bera ábyrgð og njóta þess að þarna gilda ekki strangar reglur. Dúntekjurnar nýtast til að reka húsnæði, vélar og bátakost sem notaður er í eyjunum.
Í Hvallátrum eru dúnleitir jafnan fyrripartinn í júní, leitað er í 200 eyjum, hólmum og skerjum sem tilheyra svæðinu og samtals eru hreiðrin milli þrjú og fjögur þúsund talsins. Í fyrri leitum kemur megnið af dúninum í hús en í seinni leitum er tekinn dúnn úr hreiðrum sem leitarfólki kann að hafa yfirsést og hjá kollum sem verpa seint. Þegar dúnninn er tekinn er sett hey í staðinn sem er ekki síðra fyrir útungunina en dúnninn, sérstaklega í rigningartíð.
Á Heimaeynni er stórt íbúðarhús og aðstöðuhús fyrir dúnþurrkun, unga í fóstri, geymslur og fleira. Niðri við höfnina er einnig gömul skipasmíðastöð sem starfrækt var í Hvallátrum um árabil. Þar inni er báturinn Egill sem smíðaður var í Hvallátrum árið 1904 af Ólafi Bergsveinssyni, bónda og skipasmið í Hvallátrum. Sonarsonur hans, Aðalsteinn Eyjólfur Aðalsteinsson, gerði bátinn upp í lok síðustu aldar.
Frí frá stressi og streitu
Veðrið þarf að vera gott til að hægt sé að halda í dúnleitir. Vindur má ekki vera mikill til að fært sé til sjós á gúmmíbátum og rigning er óæskileg. Eftir dag í leitum er komið með dúninn í Heimaeynna. Ef vel viðrar er blautum dúni gjarnan dreift á túnið til þurrkunar fyrir framan dúnhúsið áður en hann er hristur og settur á grindurnar. Eftir að dúnninn hefur verið þurrkaður á grindunum er hann hitaður í þar til gerðum potti en hitinn gerir gras og annað í dúninum stökkt. Dúnninn er svo settur í krafsarann þar sem þetta stökka er mulið úr. Þá er dúnninn sendur í hreinsistöð í Stykkishólmi.
Fólkið sem stendur að dúnnytjunum er ekki að því í hagnaðarskyni heldur til að eiga sér griðastað í þessu einstaka umhverfi. Það er jafnan glatt á hjalla þegar hópurinn hittist eftir veturinn, tilbúinn til að hverfa um stund frá streitunni sem gjarnan fylgir hversdeginum.
Þessi fallega eplabaka sómir sér vel á hvaða kökuborði sem er og er skemmtileg afþreying þegar tíminn er nægur og hægt að dunda sér við helgarbaksturinn.
Eplabaka með möndlukremi
6-8 sneiðar
Skel
200 g hveiti
60 g flórsykur
½ tsk. salt
140 g ósaltað smjör, kalt og skorið í teninga
1 eggjarauða
50 g dökkt súkkulaði (sett ofan á skelina eftir bakstur)
Hitið ofninn í 180°C. Setjið hveiti, flórsykur, salt og smjör í matvinnsluvél og vinnið saman í stuttum slögum, 10-15 sinnum, eða þar til blandan tekur á sig kornótta áferð. Setjið eggjarauðuna út í og vinnið saman í stuttum slögum þar til hún hefur blandast saman við. Deigið verður líkt og sandur á þessu stigi en mun loða saman þegar því er þrýst ofan í botninn á forminu.
Hvolfið deiginu ofan í bökuform (25 cm) með lausum botni og þrýstið deiginu vel ofan í og meðfram hliðunum. Gætið samt að hafa hliðarnar ekki of þykkar. Setjið í frysti og geymið í eina klukkustund.
Leggið svo bökunarpappír ofan á skelina og hellið því næst þurrkuðum baunum eða öðru fargi ofan á. Bakið í 20 mínútur. Fjarlægið þá pappírinn og fargið og setjið aftur inn í ofn og bakið í 10 mínútur. Takið úr ofni og lækkið hitann niður í 150°C.
Frangipane (möndlukrem)
100 g ósaltað smjör, við stofuhita
100 g sykur
100 g möndlumjöl, fínmalað
20 g hveiti
1 egg, hrært
Þeytið saman smjör, sykur, möndlumjöl og hveiti þar til allt hefur blandast vel saman. Bætið egginu saman við og þeytið á lægstu stillingu á hrærivélinni. Látið möndlukremið hvílast í a.m.k. 15 mínútur. Smyrjið möndlukreminu jafnt yfir bökuskelina.
Epli
2-3 epli, óflysjuð og skorin í þunna báta
2 msk. apríkósusulta
Raðið eplunum ofan á skelina. Gott er að raða eplasneiðunum þétt þar sem þær eiga eftir að skreppa saman í ofninum. Setjið bökuna inn í ofninn og bakið í 30-35 mínútur. Hitið apríkósusultuna þar til hún verður seigfljótandi og penslið síðan yfir eplin eftir að bakan kemur úr ofninum. Látið bökuna kólna áður en hún er fjarlægð úr forminu.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Rauðrófur hafa verið vinsælar hér á landi síðustu ár enda eru þær bragðgóðar, fallegar á litinn og mjög hollar. Þær innihalda sterkt rautt litarefni sem gerir matinn sem þær blandast við bara fallegri.
Þegar rauðrófa er skorin niður er betra að nota plastbretti eða matardisk undir hana frekar en trébretti því tréð drekkur frekar í sig rauða litinn úr rófunni. Samt sem áður er auðvelt að ná rauða litnum af flestum eldhúsáhöldum með heitu vatni. Gott er að vera í gúmmíhönskum til að sleppa við að fá litinn á hendurnar.
Soðnar rauðrófur í vakúmpökkum fást nú víða, þær er oftast að finna í grænmetisborði verslana. Þetta gerir öllum kleift að bjóða upp á rétti úr rauðrófum án fyrirvara.
Á miðöldum voru rauðrófur notaðar í lækningaskyni. Kemur fram í hinum ýmsu heimildum að þær hafi þótt góðar við meltingarvandamálum og ýmsum kvillum í tengslum við blóðið. Þær eru nánast fitulausar en með frekar háan sykurstuðul. Rauðrófur eru ríkar af járni, A-, B6- og C-vítamíni, fólínsýru, magnesíum og kalíum og eru mjög trefjaríkar.
Rauðrófur eru ekkert skyldar gulrófunum sem flestir þekkja. Þær eru af sömu ætt og spínat, eða af skrauthalaætt, en gulrófur tilheyra krossblómaætt og eru náskyldar káltegundum og fleiri góðum nytjaplöntum.
Rauðrófu-risotto fyrir 2-3
250 g eldaðar rauðrófur
1 laukur
2 hvítlauksrif
1 msk. smjör
160 g Arborio-hrísgrjón, henta vel til að búta til risotto
1 ½ grænmetisteningur, t.d. frá Rapunzel
500 ml heitt vatn
60 ml þurrt hvítvín
1 blað lárviðarlauf
¼ tsk. cayenne-pipar
100 g fetaostur
smakkið til með salti og pipar
2 msk. fersk basilíka
Skerið rauðrófurnar í teninga og setjið til hliðar. Saxið lauk og hvítlauk og steikið við vægan hita upp úr smjörinu. Bætið hrísgrjónunum saman við og látið malla aðeins með lauknum. Búið til soð úr sjóðandi vatni og grænmetisteningi og hellið í nokkrum skömmtum út í hrísgrjónin og látið sjóða niður. Það sama er gert með hvítvínið. Hrærið alltaf í á meðan. Setið lárviðarlaufið út í og cayenne-piparinn. Það tekur um það bil 20 mínútur að fullelda hrísgrjónin. Þegar 10 mínútur eru liðnar af eldunartímanum eru rauðrófurnar settar út í pottinn. Smakkið til með salti og svörtum pipar. Takið lárviðarlaufið upp úr og skreytið réttinn með fetaosti og ferskri basilíku.
Grunnaðferð við soðnar og bakaðar rauðrófur
Best er að sjóða eða baka rauðrófur heilar með hýðinu. Þannig haldast næringarefni, bragð og vökvi betur í þeim við eldun.
Bakaðar: Hitið ofninn í 180°C. Pakkið hverri rófu þétt í álpappír og bakið í u.þ.b. 45 mínútur, tíminn fer þó eftir stærð rófunnar. Gott er að stinga prjóni í rófurnar til að athuga hvort þær eru eldaðar í gegn.
Soðnar: Setjið rófurnar beint ofan í sjóðandi vatn án þess að nokkuð sé búið að eiga við þær og sjóðið í u.þ.b. 45 mínútur. Alls ekki að skera rótarendann í burtu og ef stilkurinn er langur er best að skilja nokkra sentimetra eftir af honum. Ef þetta er gert þá lekur minni safi úr rófunni við eldun, þetta á í raun bæði við um bakaðar og soðnar rófur. Suðu- eða bökunartíminn fer eftir stærð en meðalrófa þarf 40-60 mínútna eldunartíma. Kælið rófuna áður en tekið er utan af henni.
Þegar líkamsræktarstöðvar eru ekki til staðar, fólk langar að breyta til eða finnst innileikfimi almennt leiðinleg er tilvalið að hreyfa sig úti, ekki síst þegar farið er í ferðalög. Víða í umhverfinu má finna staði sem henta vel til hreyfingar og líkamsræktar.
Krefjandi kirkjutröppur
Ef þú ert á Akureyri þá er beinlínis skylda að taka æfingu í kirkjutröppunum fyrir framan Akureyrarkirkju. Sem upphitun má taka hring í bænum annaðhvort gangandi eða hlaupandi og fara svo nokkrar ferðir upp og niður tröppurnar. Eftir á er svo nauðsynlegt að taka rólegt niðurskokk eða ganga til að koma jafnvægi á líkamann.
Í Kjarnaskógi rétt fyrir innan Akureyri er einnig frábær aðstaða til útivistar. Þar er hægt að ganga, hlaupa eða hjóla eftir flottum stígum og gera svo nokkrar æfingar í lokin. Ef fólk vill gera eitthvað aðeins meira krefjandi er hægt að ganga á Súlur (1213 m) suðvestan við Akureyri. Algengasta leiðin er frá öskuhaugunum en hún er um það bil 5 km og hækkunin um það bil 880 m. Leiðin er stikuð og greiðfær en svolítið brött efst. Útsýnið frá Yrti-Súlu er frábært til norðurs og austurs og þegar færi er gott er upplagt að ganga á Syðri-Súlu þar sem útsýnið opnast til suðurs.
Göngur öflug líkamsrækt
Gönguhópar spretta nú alls staðar upp eins og gorkúlur og áhuginn á göngum hefur aukist mikið á undanförnum árum. Þeir sem hafa sjaldan fundið sig í nokkurri líkamsrækt hafa fallið fyrir göngunum og klífa nú hvert fjallið á fætur öðru eftir því sem þolið eykst og formið verður betra. Göngur eru öflug líkamsrækt og með því að fara í gönguhóp fást einnig góðar leiðbeiningar og frábær félagsskapur. Hvar sem þið eruð, heima eða í fríi, getið þið alltaf tekið líkamsræktaræfingu í formi göngu, hvort sem það er á fjall í nágrenninu eða hring í borginni sem þið eruð stödd í.
Aflraunasteinar
Víða um land er að finna aflraunasteina sem gaman er að spreyta sig á þegar ferðast er um landið. Á Djúpalónssandi á Snæfellsnesi eru steinarnir Fullsterkur, Hálfsterkur, Hálfdrættingur og Amlóði. Við tóft gangnamannakofans í Ausubólshólum vestan við Þakgil í Mýrdal eru þrír aflraunasteinar sem nefndir eru Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur. Við eyðibýlið England í Lundareykjadal er heit laug og þar liggja fjórir aflraunasteinar sem heita Fullsterkur, Hálfsterkur, Amlóði og Örvasi. Í Húsafelli í Borgarfirði er Kvíahellan og þar eru líka Gráisteinn og Steðjasteinn. Í Þórðarteigi í Hvítársíðu eru þrír steinar sem nefndir eru Engjasteinar og greindir eru Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. Þrír aflraunasteinar eru undir Kirkjufelli í landi Villingadals í Haukadal. Þeir heita Fullsterkur, Hálfsterkur og Amlóði. Á Hvallátrum eru fjögur steinatök og á Látranesi í Hvallátrum er steinninn Klofi. Þrjú steinatök eru á bökkunum fyrir ofan vörina Miðþröng í Arnarstapavík í Tálknafirði. Þau heita Fullsterkur, Miðlungur og Aumingi. Eiginlega aflraunasteina má finna víðar um landið en svo má líka alltaf taka hvaða steina sem er og nota til líkamsræktar. (Heimildir: arnastofnun.is)
Salka Sól Eyfeld verður í aðalhlutverki á laugardaginn þegar Þjóðleikhúsið frumsýnir hið geysivinsæla leikrit Ronju ræningjadóttur, sem byggt er á bók Astrid Lindgren. Hún segir Ronju mikilvæga fyrirmynd fyrir ungar stelpur, en sjálfa hafi hana skort slíkar fyrirmyndir í æsku.
Ekki nóg með það að Ronja sé fyrsta aðalhlutverkið sem Salka Sól leikur, þetta er í fyrsta sinn sem hún er í hlutverki leikara í atvinnuleikhúsi. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég tekst á við það,“ segir Salka Sól og hlær. „En einhvern tímann er allt fyrst. Þetta leggst rosavel í mig, er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef tekið að mér og það eru algjör forréttindi að fá að hlakka til að mæta í vinnuna alla daga.“
Þegar tilkynnt var um val Sölku Sólar í hlutverk Ronju lét hún hafa eftir sér að þetta væri draumahlutverkið sitt, hvað meinti hún með því?
„Ég horfði mjög oft á sænsku myndina um Ronju þegar ég var lítil og ég man að ég sagði eitt sinn við mömmu að ef ég fengi einhvern tímann að leika aðalhlutverk í leikriti vildi ég leika Ronju eða Línu Langsokk, þá yrði ég sko sátt. Ronja var stór hluti af æsku minni og mér þykir mjög vænt um að fá að túlka hana og kynna hana fyrir yngra fólkinu. Ég held líka að þetta hlutverk henti mér vel því það er mjög stutt í barnið í mér. Ég myndi segja að það væri hæfileiki að leyfa sér að fara í það hlutverk og rækta barnið í sér.“
„Ég held það sé ótrúlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að það sé einhver kvenkarakter sjáanlegur í þjóðfélaginu. Það veit ég af eigin reynslu.“
Hatur er eitthvað sem okkur er kennt
Spurð hvort hún og Ronja séu líkar er Salka Sól snögg til svars.
„Já, við erum mjög líkar. Það er dálítið stórt skap í okkur báðum, en mikil réttlætiskennd og það sem er fallegast við Ronju er að hún er svo ótrúlega óhrædd við að taka sjálfstæðar ákvarðanir, hún eltir ekki það sem henni hefur verið kennt. Ég kannast við það hjá sjálfri mér. Ég hef aldrei verið hrædd við að taka eigin ákvarðanir og þora að vera bara nákvæmlega eins og ég er.“
Salka Sól segir að boðskapur sögunnar um Ronju skipti hana miklu máli og henni finnist þurfa að kynna hana fyrir öllum börnum.
„Þótt Ronju sé kennt að hata óvininn, og geri það kannski í fyrstu, þá ákveður hún að láta það ekki stjórna sér heldur kynnast óvininum. Við fæðumst nefnilega alveg ómenguð og ef það er hatur í fólki er það eitthvað sem því hefur verið kennt. Við verðum að þora að fara út fyrir þann ramma og skoða heiminn með okkar eigin augum.“
Mikilvægt að hafa sterkar fyrirmyndir
Fyrir utan að leika Ronju er Salka Sól þátttakandi í tónlistarhópnum Girl PWR, er Ronja ekki últra fyrirmynd þegar kemur að valdeflingu stelpna?
„Júhú,“ segir Salka Sól með sannfæringu. „Hún er það sko. Bæði hún og Lína Langsokkur. Kvenkarakterarnir sem Astrid Lindgren skrifar eru alveg magnaðir og stórkostlegt að hafa svona karaktera í aðalhlutverki í barnabókum.“
En um hvað snýst verkefnið Girl PWR?
„Ennþá er það bara hljómsveit en vonandi verður það hreyfing í framhaldinu. Þetta er valdeflandi batterí fyrir allar konur og akkúrat núna vill svo til að það eru Spice Girls sem eru í kastljósinu hjá okkur.“
Talið berst að fyrirmyndum stelpna og hvað þarf til að þær treysti sér til að standa með sjálfum sér og fylgja draumum sínum eftir. Er það eitt af markmiðum Sölku Sólar að verða slík fyrirmynd fyrir ungar stelpur?
„Já, ég held það,“ segir hún. „Ég vona það allavega. Ég held það sé ótrúlega mikilvægt fyrir ungar stelpur að það sé einhver kvenkarakter sjáanlegur í þjóðfélaginu. Það veit ég af eigin reynslu. Ég held til dæmis að ég hefði farið miklu fyrr að rappa ef ég hefði haft fleiri kvenfyrirmyndir í rappinu. Ég hefði örugglega byrjað á því tíu ára eins og flestir strákarnir sem eru að rappa í dag, en ekki tuttugu og fimm ára eins og ég gerði.“
Hverjar voru þínar fyrirmyndir þegar þú varst að alast upp?
„Ég leit rosalega mikið upp til tónlistarkvenna, eins og Emiliönu Torrini til dæmis. Hún var í miklu uppáhaldi hjá mér. Svo fór ég mjög mikið í leikhús og fannst alltaf Margrét Vilhjálms og Ólafía Hrönn ógeðslega skemmtilegar leikkonur og dáðist að þeim. Ég held að á okkar tímum sé það mikilvægara en nokkurn tíma áður að hafa þessar fyrirmyndir. Ég er auðvitað þekktust fyrir það sem ég er að gera í tónlistarheiminum, en ég er líka þekkt fyrir aktívisma og að benda á það sem betur mætti fara. Ég styð femíníska baráttu og held að það skipti miklu máli að hún sé líka sjáanleg í samfélaginu.“
Ætlaði að rjúka upp á svið
Faðir Sölku Sólar er leikarinn Hjálmar Hjálmarsson, ólst hún að einhverju leyti upp í leikhúsinu?
„Já, já, já, já,“ segir hún og hlær. „Ég var allar helgar uppi á svölum að horfa á Kardimommubæinn eða Dýrin í Hálsaskógi eða eitthvað. Ég meira að segja fór á Ronju 1992, þegar Sigrún Edda lék hana, og það er til fræg saga af mér þar sem ég ætlaði að hlaupa upp á svið þegar það var partí í sýningunni. Ræningjarnir ákveða að slá upp veislu og ég varð svo spennt, fjögurra ára gömul, að ég ætlaði bara að hlaupa upp á sviðið og pabbi rétt náði að grípa í kjólinn minn og stoppa mig áður en ég var bara mætt upp á svið til að taka þátt í gleðinni. Núna, tuttugu og sex árum síðar, var mér svo bara boðið í partíið.
Viðtalið fer fram fáeinum dögum fyrir frumsýningu, hvernig ætlar Salka Sól að nota þá til að undirbúa sig fyrir stóru stundina?
„Ég bara reyni að sofa vel og passa upp á röddina, nýta mér allar þær æfingar og tækni sem ég hef lært. Ég held að aðalatriðið sé að hvílast nóg og setja sigg inn í þennan heim sem við erum að skapa á sviðinu. Heim Ronju ræningjadóttur.“
Þannig að þessa vikuna verður þú bara Ronja utan sviðs og innan?
„Já. Ég sagði við manninn minn að hann skyldi ekki láta sér begða þótt ég svaraði honum undarlega og segði eitthvað skrýtið. Það væri ekki ég, heldur Ronja.“
Úrval Útsýn býður einstaka ferð til hinnar litríku eyju Kúbu sem ávallt heillar gesti upp úr skónum! Við spjölluðum við Kristínu Gunnarsdóttur hjá Úrval Útsýn og fengum nánari upplýsingar um ferðina sem fram undan er.
„Í ferðinni fáum við að kynnast báðum hliðum Kúbu, förum um helstu ferðamannaslóðir en kíkjum líka á það sem liggur baka til. Flestir kjósa að kynnast hinni sígildu og seiðandi Havana og strandarparadísinni Varadero þar sem munaður er í hávegum hafður. Fararstjórinn okkar, Kristín Tryggvadóttir, þekkir vel til Kúbu og við njótum þekkingar hennar og innsýnar í þessari einstöku ferð sem verður 10.-17. nóvember.“
Nú bjóðið þið þessa mögnuðu sérferð til Kúbu sem er meðal annars fræg fyrir að hafa haldið í menningararfleifð sína og náttúrufegurð, hvítar og tærar strendur og lifandi tónlist sem ómar um strætin. Getur þú sagt okkur nánar frá þessari mögnuðu ferð? „Já, við erum með dásamlega íslenska fararstjóra á staðnum sem þekkja vel til staðhátta og hafa áður verið fararstjórar í ferðum okkar á Kúbu. Sem áður segir verður okkar ástsæla Kristín Tryggvadóttir, fararstjóri Úrval Útsýn til margra ára á Kanaríeyjum og Costa Blanca, með farþegum okkar í Kúbuferðinni. Einnig verður Gréta Guðjónsdóttir, ljósmyndari og fararstjóri, með mjög áhugaverða sérferð um eyjuna þar sem meðal annars UNESCO-borgin Trinidad verður heimsótt og farþegar fá tækifæri til gista á heimilum heimafólks.“
Er mikill munur á menningunni og lífsháttum íbúana í Havana og Varadero?
„Já, það er mikill munur. Havana er gömul suðræn borg og alveg sér á báti á heimsvísu. Þar ægir saman gömlum tilkomumiklum byggingum, amerískum köggum frá 6. áratugnum, sjarmerandi djassbúllum og spilandi og dansandi fólki á götum úti, er þá fátt eitt nefnt. Varadero er einfaldlega flottur sólarstaður með mjög góð hótel og fyrsta flokks aðstöðu fyrir sólþyrsta gesti. Báðir staðir njóta sama stöðuga loftslagsins, 28 gráðu hita allt árið.“
Helsta aðdráttarafl Havana er …
„Það er eins og að ferðast aftur í tímann … gömlu litríku byggingarnar, bílarnir og byltingin í bakgrunni. Salsa-tónlist og dans, djass, vindlar og romm. Sjálfsagt er að upplifa hina nýju Havana þar sem yngri kynslóðin er nýjasta kryddið í mannlífinu og að ýmsu leyti á annarri línu en þeir sem eldri eru.“
Helsta aðdráttarafl Varadero er …
„Hvíti sandurinn, langa strandlengjan og djúpblár tær sjórinn. Í Varadero er hægt að slappa af við ströndina eða sundlaugarbakkann, fara í golf, skútusiglingu, jeppasafarí eða jafnvel synda með höfrungum.“
Bjóðið þið upp á fjölbreytta möguleika á gistingu í ferðinni?
„Við bjóðum upp á mikið úrval af gistingu, allt frá fimm stjörnu hótelgistingu, yfir í gistingu hjá heimamönnum. Mögulegt er að dvelja eingöngu í Havana eða allan tímann í Varadero – eða skipta ferðinni upp og gista á báðum stöðum. Í Varadero bjóðum við til dæmis upp á dvöl í fjölskylduherbergi fyrir þriggja eða fjögurra manna fjölskyldu á fínu fimm stjörnu hóteli með öllu inniföldu á 243.900 kr. á mann.“
Ferðatilhögun til Kúbu í stórum dráttum er morgunflug í beinu flugi með Icelandair þann 10. nóvember og einnig morgunflug heim, þann 17. nóvember. Farþegar munu njóta fyrsta flokks þjónustu Icelandair með þráðlausu netsambandi (gegn gjaldi) og flottu afþreyingarkerfi. Í báðum flugferðum er boðið upp að kaupa betri sæti um borð. Flugvöllurinn er í nágrenni Varadero og akstur til Havana tekur um tvær klukkustundir. Íslenskir fararstjórar eru farþegum Úrvals Útsýnar innan handar allan tímann.
Áhugaverðir punktar
Havana er stærsta borgin í Karíbahafinu, með tvær milljónir íbúa og 500 ára gamla sögu. Kúba er stærsta eyja Karíbahafs og liggur á mótum þess og Atlantshafsins og íbúar er um 11 milljónir. Enda þótt landið sé stærra að flatarmáli en Ísland (111.000 ferkílómetrar) er eyjan öll á lengdina en um 1.250 km skilja að austasta og vestasta odda hennar. Landslag Kúbu einkennist af flötum ekrum, hæðum og fellum en eiginleg fjöll eru á suð-austurhlutanum: Sierra Maestra með hæsta topp landsins, Pico Turquino, í öndvegi (1.974 m yfir sjávarmáli).
Verður að upplifa á Kúbu“ (Must do)
* Dansa salsa úti á götu
* Aka um í gömlum fornbíl er upplifun
* Skoða Hotel National de Cuba
* Heimsækja Trinidad og fara á Disco-Ayala
* Taka eftir kröbbunum sem fara yfir göturnar
* Fara í snorkl og/eða köfun
* Læra að rúlla vindil
* Synda í Vegas Grande-fossunum
* Fara á Playa Jibacoa-ströndina milli Havana og Varadero
Heimili er þar sem allir sitja saman við matarborðið.
Páll Þórólfsson er löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Mikluborg. Hann er giftur Katrínu Rós Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn saman, Aron Dag tuttugu og eins árs, Gunnar Hrafn, sextán ára og Sóleyju Lind, sjö ára.
Hvað heillar þig mest við starfið?
„Það sem heillar mig mest er hversu fjölbreytt það er, ég hef alltaf haft mjög gaman af fólki og í þessari vinnu er maður alltaf að hitta nýtt fólk með nýjar áskoranir. Starfið bíður upp á talsverðan sveigjanleika og frjálsræði en á móti kemur þá er þetta ekki hefðbundin 9-5 vinna og yfirleitt hægt að ná í mann á öllum tímum dagsins. Fasteignaviðskipti eru yfirleitt stærstu viðskipti sem „venjulegt“ fólk á um ævina og það er alltaf mjög gaman og gefandi þegar maður getur hjálpað fólki að láta hlutina ganga upp.“
Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér?
„Ég reyni að byrja daginn á að fara í ræktina um þrisvar sinnum viku, annars er alltaf svolítið fjör á mínu heimili á morgnana, koma öllum af stað, viðra hundinn, gera nesti og svo framvegis. En ég byrja alltaf á einum góðum kaffibolla þegar ég mæti í vinnuna. Dagarnir eru ansi fjölbreyttir þegar í vinnuna er komið. Eðli málsins samkvæmt þá snýst starf fasteigasalans um samskipti við kaupendur og seljendur og lengd vinnudagsins tekur mið af verkefnastöðunni hverju sinni.“
Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili?
„Heimili er í mínu huga allir þessir venjulegu hlutir eins og til dæmis þegar við Katrín, náum öllum börnunum og jafnvel nokkrum vinum í góðan kvöldmat þar sem allir sitja saman við matarborðið eins og hjá stórri ítalskri fjölskyldu. Mér finnst líka mjög kósí og heimilislegt þegar við strákarnir á heimilinu liggjum uppi í sófa og horfum á eitthvað spennandi íþróttatengt í sjónvarpinu.“
„Mér finnst líka mjög kósí og heimilislegt þegar við strákarnir á heimilinu liggjum uppi í sófa og horfum á eitthvað spennandi íþróttatengt í sjónvarpinu.“
Geturðu líst þínum stíl? „Eiginlega ekki. Ætli ég sé ekki bara ósköp „venjulegur“, hef gaman af því að hafa fallega hluti í kringum mig en get ekki sagt að ég hafi einhvern sérstakan stíl.“
Áttu þinn uppáhaldsarkitekt?
„Hef satt að segja ekki hugsað mikið út í það en Páll Gunnlaugsson hjá ASK arkitektar er toppmaður í alla staði.“
Áttu þinn uppáhaldshönnuð?
„Verð að viðurkenna að ég þekki nú ekki nöfnin á þessum snillingum en mér finnst mjög gaman að koma inn í Epal-búðina hjá Eyjólfi og Kjartani frændum mínum og svo skilst mér á konunni minni að ég sé mjög hrifinn af Iittala-vörum og Georg Jensen kertastjökum.“
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til?
„Börn sem eru betri en ég í íþróttum,“ segir Páll og hlær.
Uppáhaldsliturinn þinn?
„Liverpool-rauður.“
Hvar líður þér best?
„Til dæmis á sundlaugarbakka einhvers staðar í heitari löndum, með krakkana hoppandi í laugina í kringum mig en ég sjálfur er með heyrnatól í eyrunum og hlusta á eitthvað gott podcast. Svo er fjári góð tilfinning að vera staddur úti á golfvelli í góðu veðri og í góðum félagsskap.“
Hvað heillar þig mest við haustið? Er eitthvað sem þú vilt bæta við inn á heimilið þegar haustið gengur í garð?
„Mér finnst alltaf góð tilfinning þegar rútína haustsins tekur við eftir að hafa verið búinn að njóta sumarsins með öllu því sem að því fylgir. Svo verður maður eitthvað svo barnalega þakklátur ef sólin skín og hitastigið fer í 10 gráður á þessum árstíma á meðan maður blótar jafnvel slíku veðri yfir hásumarið. Ekkert hausttengt svo sem en það stendur til að að gera herbergið hjá Sóleyju Lind dóttur minni stelpulegra með tilheyrandi litavali og innréttingum.“
Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag?
„Í augnablikinu hef ég mjög gaman af nýju Mathöllinni úti á Granda, gaman að geta gengið eða hjólað á góðan stað og fengið mér snarl.“
Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar?
„Vel heppnað Funkis-hús heillar alltaf.“
Að lifa lífinu lifandi er að … er að minna sig á daglega að LÍFIÐ er núna!
Fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur vegna ársins 2019 voru kynnt í vikunni. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Þótt fjárlögin virðast fráhrindandi tölusúpa þá er í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í.
Í Mannlífi vikunnar er farið yfir hversu mikið einstaklingar borga beint til að standa undir útgjöldum ríkissjóðs, hversu mikið legst á fyrirtæki landsins og það sem ríka fólkið þarf að borga í fjármagnstekjuskatt.
Þar er líka farið yfir hvað hækkun á persónuafslætti þýðir fyrir meðalmanninn, aukningu sem fyrirhuguð er í vaxta- og barnabótakerfum og sölu á fiðlu fyrir handstóra.
Þá er stiklað á stóru um stöðu ríkissjóðs, sem hefur sjaldan eða aldrei verið betri.
Á yfirborðinu virðist hinn 24 ára gamli Ríkharður Þór Guðfinnsson hafa allt sem ungan mann gæti dreymt um. Hann er í góðri vinnu, á fallegt heimili og tvö heilbrigð börn. Í frístundum finnst honum fátt skemmtilegra en að spila golf og stunda veiði. Líklega myndu fáir giska á að aðeins eru rúmar tvær vikur frá því að Ríkharður, eða Rikki eins og hann er alltaf kallaður, útskrifaðist af geðdeild.
Rikki dvaldi á geðdeild í kjölfar fíknimeðferðar á Vogi, eftir að hafa fallið fyrir freistingum Bakkusar, ekki í fyrsta, annað eða þriðja sinn. Reyndar er sannleikurinn sá að meðferðirnar eru orðnar of margar til að hann hafi tölu á þeim. Rikki er einn af fjölmörgum ungmennum sem glímt hafa við fíknivanda um árabil, en hann gagnrýnir réttilega skort á úrræðum og þá baráttu við kerfið sem fólk sem kallar á hjálp þarf að heyja. Þegar hann komst á botninn í sumar og leitaði sér hjálpar á geðdeild, endaði hann í fangageymslum lögreglunnar.
Rikki lýsir neyslunni sem skyndilausn við hverskyns vandamálum. „Neyslan er leið til að flýja veruleikann. Ef maður er að takast á við einhverja erfiðleika getur maður frestað þeim með því að taka nokkrar töflur. Ég var einn af þeim sem fannst ég aldrei eiga við neitt vandamál að stríða, ég stundaði mína vinnu og var bara í góðum gír, að mínu mati, þrátt fyrir að fá mér öðru hvoru. En smátt og smátt fór fíknin að taka yfir allt. Hún yfirgnæfði allar tilfinningar þar til allt fór að snúast um að redda sér næsta skammti. Nú síðast var ég farinn að taka hvað sem ég komst í, en mest af lyfseðilskyldum lyfjum. Það er lygilegt hversu auðvelt er að verða sér úti um efni í dag, það þarf bara eitt símtal og því er reddað.“
Missti tökin í sumar
Í sumar tók að halla hratt undan fæti og Rikki fór að missa tökin á neyslunni. Skuldir voru farnar að hlaðast upp og hann missti meðal annars umgengni við son sinn. Fjölskyldu og vini Rikka fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar hann fór að mæta illa í vinnu og sýna breytta framkomu. „Ég var mjög ör og reiður, var snöggur upp og þoldi ekki að fólk væri að skipta sér af mér. Mér fannst ég ekki þurfa á neinni hjálp að halda og ætlaði bara að díla við þetta sjálfur. Það sýnir sig hversu veruleikafirrtur ég var orðinn þegar amma mín lést í sumar, og í kistulagningunni og jarðarförinni var ég útúrkókaður. Ég var með stæla við fólk og þegar systir mín sagði mér að haga mér hótaði ég að berja hana. Þarna áttuðu allir sig á hvað var í gangi og lágu í mér að leita mér hjálpar, fara í meðferð. En ég sá ekkert vandamál. Helgina eftir fór ég svo á djammið upp á Skaga þar sem mamma mín býr, það endaði með því að ég lagði allt í rúst heima hjá henni og lenti í slagsmálum.“
Það sýnir sig hversu veruleikafirrtur ég var orðinn þegar amma mín lést í sumar, og í kistulagningunni og jarðarförinni var ég útúrkókaður.
Endaði í fangageymslu eftir kall á hjálp
Á þessum tímapunkti var fjölskyldan orðin örvæntingarfull og ráðalaus. Engin úrræði voru í boði þar sem Rikki var ekki tilbúinn að gangast við vandamálinu. Umræður voru hafnar um að svipta hann sjálfræði, en eftir helgina á Akranesi segist Rikki sjálfur hafa fengið nóg. „Ég var kominn á botninn, og vissi að ef ég fengi ekki hjálp væri þetta hreinlega bara búið. Ég gat ekki meira. Bróðir minn hringdi nokkur símtöl og reyndi koma mér inn einhvers staðar, en það var hvergi pláss. Það er alltaf erfitt að komast inn, en sérstaklega á sumrin vegna sumarleyfa starfsfólks. Honum var sagt að ég gæti komið í viðtal á Vog tveimur vikum seinna, en það var ekki möguleiki að ég gæti beðið svo lengi. Pabbi og konan hans ákváðu því að keyra mig niður á geðdeild og reyna sitt besta til að útskýra fyrir þeim ástandið.“
Þar komu þau að lokuðum dyrum. Rikki var undir áhrifum en slíkt er undir engum kringumstæðum leyfilegt á geðdeildinni. Honum var vísað út, en var allt annað en sáttur. „Ég reiddist við þessa lækna sem ætluðu að henda mér út, með engin önnur úrræði fyrir mig. Ég sagði við þá að ef ég kæmist ekki þarna inn myndi ég fara beinustu leið upp í Heiðmörk, setja pústið inn í bílinn og enda þetta allt.“
Atburðarásinni eftir það mætti helst líkja við atriði úr bíómynd. Tveir lögreglubílar renndu í hlað, Rikki var handjárnaður og leiddur út í bíl. Eftir stóðu pabbi hans og stjúpmóðir, sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Útskýringarnar sem þau fengu voru að ástandið hefði verið metið sem svo að Rikki væri of hættulegur sjálfum sér, en þetta væri eina úrræðið í boði, að vista hann í fangageymslu. „Mér var hent inn í klefa, í einangrun á Hverfisgötunni. Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum,“ segir Rikki þegar hann er beðinn um að lýsa aðstæðum. „Ég var ekki undir neinu eftirliti, fjölskyldan fékk ekki að hafa samband við mig og enginn vissi hvað væri í gangi. Þetta var mjög slæm og niðurlægjandi upplifun.“ Lögum samkvæmt má ekki halda einstaklingum í fangageymslu lengur en í sólarhring án úrskurðar dómara, og þessi sólarhringur var nýttur til hins ýtrasta í tilfelli Rikka. Eftir 24 klukkustundir í einangrun var hann handjárnaður á ný og fluttur í lögreglufylgd aftur niður á geðdeild. Hann segist ekki hafa fengið neinar skýringar á þessum atburðum eða hvort þetta teljist eðlilegir verkferlar, en telur þetta lýsandi fyrir ástandið í geðheilbrigðismálum á Íslandi. „Það vantar klárlega einhver úrræði, það á ekki að líðast að fólki á svona viðkvæmum stað sé vísað frá þegar það leitar sér aðstoðar. Hvað þá að vera skellt í handjárn og hent í fangelsi. Ég skil ekki að þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað síðustu mánuði virðist ástandið aðeins fara versnandi. Til dæmis var verið að loka geðheilsudeildinni innan Hugarafls sem ég veit að hefur reynst mörgum af mínum félögum vel. Það er ljóst að miklar breytingar verða að eiga sér stað í þessu ónýta kerfi.“
Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum.
Byrjaði að drekka í 8. bekk
Rikki er fæddur árið 1994. Hann ólst upp í Grindavík og er yngstur í hópi fjögurra systkina. Skólagangan gekk vel framan af, hann æfði fótbolta frá unga aldri og var talinn einn efnilegasti leikmaður bæjarins. Þegar hann var 12 ára varð fjölskyldan fyrir miklu áfalli þegar mamma hans, stoð og stytta fjölskyldunnar, fékk heilablóðfall og var vart hugað líf. Í kjölfarið tók við erfitt tímabil og breyttar heimilisaðstæður sem reyndu mikið á alla fjölskyldumeðlimi. „Við systkinin höfum öll upplifað okkar skerf af erfiðleikum og þegar ég hugsa til baka eru veikindi mömmu upphafið að mörgum þeirra. Hún var sú sem sá alltaf um allt og hélt öllu gangandi, svo skyndilega var fótunum bókstaflega kippt undan henni, og þar með okkur öllum í fjölskyldunni. Þarna hefði klárlega þurft að vera eitthvað utanumhald, eitthvert teymi eða ráðgjöf sem okkur hefði átt að standa til boða. En það var ekkert svoleiðis. Fljótlega eftir þetta skildu mamma og pabbi, ég hætti í fótboltanum og fór að sækja í verri félagsskap,“ rifjar Rikki upp.
Ekki leið á löngu þar til allt fór úr böndunum. „Það var í 8. bekk, rétt eftir að mamma veiktist, sem fyrst var komið með mig heim í lögreglufylgd eftir skólaball. Ég byrjaði að drekka áfengi á þessum tíma og fljótlega fór vinahópurinn að fikta við eiturlyf. Um leið og ég prófaði í fyrsta sinn var ekki aftur snúið.“
Mætti á 12 spora-fundi í bullandi neyslu
Sumarið eftir útskrift úr grunnskólanum fór Rikki í sína fyrstu meðferð. „Ég fór ekki þangað inn af fullum hug, var í raun að bíða eftir því að komast út til að geta fengið mér aftur. Mér fannst ég ekki eiga við neitt vandamál að stríða og hafa fulla stjórn á þessu,“ segir hann.
Næstu árin var Rikki inn og út úr meðferðum, bæði í styttri og lengri tíma, en tókst inn á milli að halda sér edrú. Á síðustu árum hefur hann eignast tvö börn, stundað sína vinnu af krafti og fjölskyldan stóð í þeirri trú að allt væri í góðu lagi. En reyndin var ekki sú, og að eigin sögn var feluleikurinn það sem átti eftir að reynast honum verst.
„Mér tókst að að fela þetta fyrir fólkinu í kringum mig, sem stóð í þeirri trú að ég væri fullkomlega edrú. Ég mætti jafnvel á 12 spora-fundi en var samt í bullandi neyslu. Í byrjun sumars tók ég inn of mikið magn af róandi lyfjum, fékk flog og lenti næstum í hjartastoppi. Ég fór á spítala og þegar fjölskylda mín frétti af þessu var þeirra fyrsta hugsun auðvitað að þetta væri tengt neyslu, en mér tókst að sannfæra þau um að þetta væri eitthvað allt annað, flensa eða álíka. Svo hélt ég bara áfram að éta pillur þegar ég var útskrifaður. Feluleikurinn er nefnilega svo hættulegur. Það er ekki fyrr en allt var í tómu tjóni, ég kominn í skuldir og mjög harða neyslu að ég var fyrst tilbúinn að viðurkenna vandann og þiggja hjálp. En þá er það oft hægara sagt en gert.“
Færibandavinna á Vogi
Af tveimur slæmum kostum segist Rikki að vissu leyti hafa verið heppinn að málin þróuðust á þennan veg. „Ég komst að minnsta kosti inn á geðdeild að lokum og fékk hjálp, ólíkt mörgum sem vísað er frá. Það átti að loka á mig og segja „sorrí, vinur“.
Ég hef ekkert út á þá starfsemi að setja sem þar fer fram. Þar er unnið svo mikið með andlegu hliðina og farið miklu dýpra. Vogur er meiri færibandavinna, þar koma sjúklingar inn og eru allir meðhöndlaðir eins, þetta er í raun afeitrunarstöð. Ég myndi vilja sjá miklu meira aukið fjármagn í fíknigeðdeildir landsins og finnst sorglegt að sjá ástandið í þessum málaflokki eins og staðan er í dag.“
Rikki var inn á geðdeildinni í um tvær vikur áður en hann var sendur heim í nokkra daga, þar til hann komst inn á Vog. „Ég var þarna innan um virkilega veika einstaklinga. Einn af sjúklingunum talaði sífellt um Díönu prinsessu og var sannfærður um að hún sæti á rúminu hjá sér á kvöldin og að hann hefði verið með í bílnum kvöldið sem hún dó. Þetta var ekki sérstök fíknigeðdeild heldur almenn geðdeild, og dvölin þar var mér erfið þar sem fráhvörfin voru svo rosaleg. Þrátt fyrir það var ég þakklátur fyrir að hafa fengið þessa hjálp og var og er harðákveðinn að standa mig. Ég veit að nú þarf ég að leggja öll spil á borðið því þetta er mitt síðasta tækifæri. Neyslan og ruglið var orðið svo mikið, að ef ég hætti ekki núna er þetta búið.“
Tilbúinn að takast á við þetta fyrir lífstíð
Eins og áður hefur komið fram á Rikki fjölmargar meðferðir að baki, vel á annan tug. Í þetta sinn segir hann hugarfarið breytt því sem áður hafi verið. „Áður fyrr leit ég alltaf á edrúmennskuna sem eitthvað sem yrði aðeins til styttri tíma en ekki langtímaverkefni. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er tilbúinn að takast á við þetta fyrir lífstíð. Áður var ég alltaf með þá hugsun bak við eyrað að ég þyrfti bara að vera edrú í kannski 10 ár, þá yrðu krakkarnir orðnir eldri og þá væri í lagi að fá sér smávegis aftur. Þessi hugsunarháttur varð mér að falli aftur og aftur, en núna er ég í þessu á breyttum forsendum. Ég ætla að taka þetta alla leið núna og fylgja prógramminu, leggja allt í hendurnar á æðri mætti. Nú tekur við vinna hjá mér við að koma lífinu í eðlilegt horf, byggja upp samband við börnin mín og vera góður pabbi, mæta í vinnu og standa mína plikt. Það er satt sem sagt er, að þessi sjúkdómur leiði ekki til neins nema geðveiki eða dauða. Ég hef fengið annað tækifæri og ætla mér að nýta það vel,“ segir Rikki að lokum.
Við vinnslu fréttarinnar hafði Mannlíf samband við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu til að fá viðbrögð við frásögn Ríkharðs.
„Engin nýlunda að einstaklingar séu vistaðir í fangageymslu þegar betur færi á að aðrar leiðir væru mögulegar“
Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir málefni fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda vera Lögreglunni vel kunnug og að embættið hafi áður bent á skort á úrræðum. „Það er heldur engin nýlunda að einstaklingar séu vistaðir í fangageymslu þegar betur færi á að aðrar leiðir væru mögulegar. Lögreglan getur ekki tjáð sig um umrætt mál, sem er tilefni umfjöllunarinnar, en getur staðfest að sambærileg atvik hafa komið upp. Þá er inngrip lögreglu oft eina úrræðið, en vistun í fangageymslu við þær aðstæður snýr að öryggi viðkomandi, sem kann að vera hættulegur sjálfum sér og/eða öðrum,“ segir hann. Varðandi álag á geðdeildum og skort á langtímaúrræðum í búsetumálum fólks með geðrænan eða tvíþættan vanda telur Ásgeir nægja að benda á orð þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu og að undir þau megi taka. „Svo virðist sem margir lendi utan kerfis, en við það má ekki una og brýnt er að úr því verði bætt.“
Aðdáendur þungarokkshljómsveitarinnar Skálmaldar bíða nú í ofvæni eftir fimmtu hljóðversplötu sveitarinnar „Sorgir“ sem kemur út 12. október næstkomandi. Fyrsta smáskífa plötunnar, „Sverðið“ er nú komin í spilun á helstu tónlistarveitum og hefur hlotið góðar viðtökur.
Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textahöfundur hljómsveitarinnar, segir draugaþema einkenna nýju plötuna sem verði talsvert frábrugðin síðustu plötu sem kom út árið 2016. „Hún var mjúk og þægileg, vögguvísur og allt í blóma. Nú kveður við annan tón. Allt kalt, dimmt og sorglegt; dauði og djöflar við hvert fótmál. Það var svolítið viljandi að fara alveg í hina áttina núna,“ útskýrir Snæbjörn.
Vinsældir Skálmaldar hafa farið sívaxandi frá því að Snæbjörn og Björgvin Sigurðsson, söngvari og gítarleikari, smöluðu saman nokkrum vinum sínum úr rokkbransanum árið 2009. Markmiðið var fyrst og fremst að hafa gaman af og gefa máski út eina þungarokksplötu, til að geta sýnt börnum sínum í framtíðinni hvað pabbar þeirra voru einu sinni svalir. Nú níu árum og bráðum fimm hljóðversplötum síðar eru það ekki aðeins börn Skálmaldarmanna sem líta upp til þeirra með aðdáun í augum, tugþúsundir aðdáenda um gjörvalla Evrópu og líklega víðar, fylgjast bergnumdir með hljómsveitinni. Og nú fyrir skemmstu fyllti Skálmöld Eldborgarsal Hörpu fjögur kvöld í röð ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands og þremur kórum en þetta var í annað sinn sem þessar stórhljómsveitir leiða saman hesta sína.
Snæbjörn segir að það sé ekki alltaf áreynslulaust að vera í hljómsveit sem stundi reglulega sambúð í litlum rútum svo vikum skipti á tónleikaferðalögum um Evrópu, þá sé vináttan sterk og spilagleðin hafi aldrei verið meiri, enda skili það sér í hljóðverinu. „Við héngum mikið saman í stúdíóinu og unnum hratt. Það hefur alltaf verið gaman að vera í Skálmöld en ekki svona ógeðslega gaman síðan við vorum að gera fyrstu plötuna. Við einhvern veginn endurfæddumst þarna, svona stemningarlega séð allavega.“
Sjávarútvegsfyrirtækið Blámar ehf. flytur út fiskafurðir á neytendamarkað í Asíu. Fjórar verslunarkeðjur í Hong Kong bjóða upp á vörurnar og markaðshlutdeild í Kína fer vaxandi, en Blámar er fyrsta íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem í samstarfi við íslenska frumkvöðlafyrirtækið EFNI ehf. býður upp á rekjanleikamerkingar á vörum á neytendamarkaði í Asíu.
Ísland er alltaf að komast betur inn á kortið í Asíu en gæði og hreinleiki er eitthvað sem Asíubúar tengja gjarna við Ísland. Þess vegna liggja mikil verðmæti í því að geta sannað íslenskan uppruna á vörum okkar,“ segir Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Blámars.
Að hennar sögn er Blámar líklega fyrsta íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem selur afurðir sínar milliliðalaust á neytendamarkað í Asíu. „Kína hefur verið að berjast gegn röngum merkingum á matvælum með tilliti til uppruna og fleiri hluta. Upp–runi vöru er orðinn gríðarlega mikilvægur,“ segir hún og bendir á að vantraust neytenda gagnvart upprunamerkingum sé orðið útbreitt vandamál meðal almennings í Kína. „Kínverjar eru einfaldlega hættir að trúa á uppruna á þeim vörum sem eru í boði. Þeir upplifa svo mikið af fölsunum og rangmerkingum,“ útskýrir Valdís en Blámar hefur um nokkurt skeið leitað leiða til að sanna uppruna á sínum vörum á einfaldan og grípandi hátt.
Fann lausnina hjá íslensku frumkvöðlafyrirtæki
Valdís fann það sem hún leitaði að þegar hún sá kynningu Heiðu Kristínar Helgadóttur, framkvæmdastjóra EFNI ehf. á rekjanleikatækni sem fyrirtækið hefur hannað fyrir vörumerki sitt Niceland Seafood. Það varð til þess að Blámar og EFNI leiddu saman hesta sína í tilraunaverkefni þar sem rekjanleikahugbúnaðurinn er notaður til að tengja neytendur betur við uppruna fiskafurða Blámars á markaði í Kína; í gegnum hughrif og upplifun.
Tekur neytendur inn í nýjan heim
Efni hefur hannað forrit sem ekki aðeins gerir neytandanum kleift að rekja uppruna vörunnar nákvæmlega, allt frá því fiskurinn er veiddur í íslenskri landhelgi og þar til hann er kominn í verslanir, heldur er einnig boðið upp á sjónræna upplifun. „Vörurnar eru merktar með sérstökum QR-kóðum sem neytandinn getur skannað með snjallsíma sínum í versluninni. Þar fær hann ekki aðeins staðfestingu á uppruna heldur einnig einstakt ferðalag með myndum af Íslandi, hreinni íslenskri náttúru, brjáluðum sjó og hreinu lofti. Þetta tekur neytandann inn í annan heim sem er orðinn svo stór hluti af matarinnkaupum,“ segir Valdís og bætir við að einnig sé hægt að finna hlekki inn á fjölbreyttar uppskriftir enda sé íslenskur fiskur, s.s. ýsa, karfi og Atlantshafsþorskur, mörgum í Asíu framandi. Heiða bætir við að QR kóða tækni sé notuð í miklu meira mæli í Asíu en til að mynda í Evrópu og Bandaríkjunum og þess vegna séu flestir snjallsímar nú búnir þannig að ekki þurfi sérstakt app, heldur er hægt að skanna QR kóða með því einu að beina myndavélinni að þeim. „Þetta hefur gjörbreytt möguleikum okkar á að nýta þessa tækni og vera fyrst á markað með hagnýta lausn sem styður við vörumerkið sem við erum að byggja upp í Bandaríkjunum.“
Vilja aðeins það besta
Blámar er fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið á neytendamarkaði í Asíu með slíkar rekjanleikamerkingar. „Það ætti að gefa okkur samkeppnisforskot. Millistéttin í Kína er það vel stæð að fólk velur aðeins það besta fyrir börnin sín, fæðuöryggi og hollusta skiptir þetta fólk mun meira máli en hvað varan kostar. Það er því algjört lykilatriði að við getum sannað hvaðan vörurnar okkar koma,“ segir Valdís en tekur fram að enn sé verið að fullþróa kerfið. „Fyrsti gámurinn með þessum QR-merktu vörum verður sendur út í september og ég er að verða mjög spennt yfir því að sjá hvernig viðtökurnar og viðbrögðin verða.“
Ríkið ætlar að verja allt að 400 milljónum króna til að styðja við einkarekna fjölmiðla, gangi tillögur Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eftir.
Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hefur lengi verið erfitt og ítrekað hefur verið kallað eftir aðgerðum til að styrkja stöðu þeirra. Fyrirmyndin er sótt til Norðurlanda þar sem löng hefð hefur verið fyrir því að hið opinbera styrki fjölmiðla á frjálsum markaði.
Lilja telur að aðgerðirnar „valdi straumhvörfum“ á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en í þeim felst meðal annars að ritstjórnarkostnaður rit- og ljósvakamiðla verði endurgreiddur að hluta. Munu 350 milljónir króna renna í svokallaðan ritstjórnarsjóð og munu fjölmiðlar geta sótt þangað endurgreiðslu fyrir rekstrarárið 2019. Þá verða umsvif Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði minnkuð um 560 milljónir og virðisaukaskattur á rafrænum áskriftum færðar úr efra skattþrepi niður í það neðra. „Það er tímabært að stíga þessi sögulegu skref og hrinda í framkvæmd loforði sem tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég trúi því að aðgerðirnar muni hafa tilætluð áhrif,“ segir Lilja.
Íris Stefanía Skúladóttir hóf nýverið MFA nám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands eftir tæplega tveggja ára langt bataferli vegna kulnunar í starfi.
Hún rannsakar nú í náminu kynhegðun fólks með fókus á sjálfsfróun kvenna en hugmyndina hafði hún gengið með lengi. „Mig langar að rannsaka allar hliðar kynhegðunar með fókuspunkt á sjálfsfróun kvenna. Ég skoða allt frá forn Grikkjum til klámmenningar samtímans,” segir Íris en viðurkennir að umfjöllunarefnið sé vandmeðfarið. „Ég er þegar byrjuð að safna sögum frá konum um upplifun þeirra af sjálfsfróun. Allar konur geta skilað inn órekjanlegum nafnlausum sögum á síðunni: Þegar ég fróa mér, á Survey Monkey.”
https://www.surveymonkey.com/r/3ZSRN3Z
Hugmyndina hafði Íris gengið með allt frá unglingsaldri. „Ég var 14 ára þegar ég sá könnun um að 20% stúlkna á mínum aldri fróuðu sér en 80% stráka. Mér fannst þessi tölfræði skrítin þar sem við Ugla Egilsdóttir, vinkona mín höfðum á þessum tíma talað töluvert um eigin sjálfsfróun. Við gerðum okkar eigin litlu rannsókn í bekknum og spurðum stelpurnar hvort þær fróuðu sér. Engin svaraði beint játandi en eftir að hafa spjallað svolítið viðurkenndu þær flestar, ef ekki bara allar, að þær hefðu prófað að fróa sér eða gerðu það reglulega. Við ræddum líka við strákana og viðruðum þá hugmynd að gera okkar eigin könnun í bekknum. Bekkurinn var til og því sóttum við um að gera þetta verkefni með því markmiði að opna á umræðuna og sérstaklega þennan mun á kynjunum.“
„Það var talið eðlilegt að strákar fróuðu sér en algjör leyndardómur hvort stelpurnar gerðu það, sem er fyndið í ljósi þess hversu fjölbreyttar fullnægingar konur geta fengið.“
„Á þessum tíma vorum við með unga og yndislega kennslukonu en hún var fljót að kalla okkur upp að kennaraborðinu. Við máttum ekki gera þessa könnun. Eftir að hafa mótmælt þessu kallaði hún hvasst yfir bekkinn; “Hver hér inni vill taka þátt í svona könnun?” Það þorði auðvitað enginn að rétta upp hönd og þar með var hugmyndin skotin niður. Skilaboðin sem sátu eftir voru að ekki mætti tala um kynhegðun kvenna. Síðan þá hefur þetta efni verið mér hugleikið. Ég held að með opinni umræðu geti konur orðið öruggari með eigið kynlíf, notið þess betur og stundað betra kynlíf. Þetta hefur því einungis jákvæðar afleiðingar í för með sér.”
Og Íris segist sjá mikinn mun þegar kemur að kynjunum. „Ég útskýri það oft sem svo að sáðlát karla sé svolítið eins og blæðingar kvenna í kynþroskaferlinu. Við vitum að konur muni byrja á blæðingum og við vitum að strákar fái sáðlát. Vissulega er þetta óvísindalegt hjá mér en ef við göngum út frá því að stelpur verði kynþroska fyrr en strákar þá eru þessar fullnægingar sem konur tala um að hafa fengið um tíu ára aldur í takt við ferlið. Strákar fá kannski fyrsta sáðlátið um tólf ára og þá er ekkert skrítið að stelpur fái sína fyrstu fullnægingu tíu ára. En þar sem stelpur fá aldrei neitt sáðlát er ekki talað formlega um neitt sérstakt upphaf hjá stelpum meðan sáðlát stráka er stundum eins og ákveðin innganga í karlmennskuna. Stelpur verða konur, við það að fá blæðingar – því þá eru þær orðnar frjóar. Það sem eftir situr er þessi dulúð um fullnægingu kvenna, fróa stelpur sér? Fá konur fullnæginu yfir höfuð? Ef ekki njóta þær þá þess að stunda kynlífs? Svona spurningar koma aldrei hjá strákunum því þar er til staðar vökvi sem sannar að hér hafi átt sér stað fullnæging.
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Texti / Íris Hauksdóttir.
Myndir / Hákon Davíð Björnsson.
Krabbameinsfélagið hefur hleypt af stokkunum nýrri auglýsingaherferð sem ætlað er að hvetja konur til að nýta sér tækifæri til skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Þátttaka kvenna í leit hefur farið minnkandi á undanförnum árum.
Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands segir í viðtali við vef Krabbameinsfélagsins, krabb.is, að það sé afar mikilvægt að snúa þessari þróun við: „Sérstaklega er mikilvægt að fá ungu konurnar til að mæta og taka þátt í skimun fyrir krabbameinum. Þetta er sem betur fer staða sem við getum breytt en við þurfum að auka meðvitund kvenna um hve mikilvæg skimunin er og í nútímasamfélagi þurfa skilaboðin að vera áhrifarík. Herferðin endurspeglar það.“
Skilaboðin í auglýsingunum eru unnin úr niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir félagið árið 2014 þar sem fram komu ástæður þess að konur mættu ekki í skimun. Meðal þeirra „afsakana“ sem konurnar notuðu voru:
Erfiðleikar með að komast frá vinnu
Hræðsla við sársauka
Kostnaður við skimunina
Frestunarárátta
Framtaksleysi
Þess má geta að mörg stéttarfélög og sum fyrirtæki taka þátt í kostnaði vegna skimunar fyrir krabbameinum. Og nú geta konur skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum rafrænt á mínum síðum Ísland.is. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands.
Ríkharður Þór Guðfinnsson endaði í fangageymslu eftir kall á hjálp.
„Mér var hent inn í klefa, í einangrun á Hverfisgötunni. Ég var algjörlega brjálaður, og heimtaði að þeir hleyptu mér út en fékk engin viðbrögð. Eftir að hafa staðið og öskrað á verðina í marga klukkutíma lognaðist ég út af og sofnaði, en vaknaði fljótlega aftur í svitabaði og brjáluðum fráhvörfum. Ég var ekki undir neinu eftirliti, fjölskyldan fékk ekki að hafa samband við mig og enginn vissi hvað væri í gangi. Þetta var mjög slæm og niðurlægjandi upplifun.“
Þannig lýsir Ríkarður Þór Guðfinnsson því þegar hann leitað sér hjálpar á geðdeild en endaði í fangageymslum lögreglunnar, þar sem hann var settur í einangrun, eftirlitslaus og í miklum fráhvörfum. Í nýjasta tölublaði Mannlífs, sem kemur út á morgun, segir Ríkarður frá hroðalegum veruleika sem tók við þegar hann missti tökin á lífi sínu í sumar. Lestu meira um málið í blaðinu á morgun og á man.is
Samkvæmt nýlegri könnun, sem kynlífshjálpartækjafyrirtækið Lovehoney gerði meðal 3.500 viðskiptavina sinna, er það fólk sem fætt er í Vatnsberamerkinu sem stundar mest kynlíf. Ekki nóg með það að þeir stundi kynlíf oftar en fólk í öðrum stjörnumerkjum heldur eru Vatnsberarnir líka ánægðastir með kynlíf sitt.
Ef þú ert í Vatnsberamerkinu ætti kynlíf þitt því að vera rjúkandi heitt. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru Vatnsberar spennandi og óútreiknanlegir bólfélagar auk þess sem þeir eru allra stjörnumerkja líklegastir til að eiga svipu. Það þýðir þó ekki að þeir séu lauslátir því samkvæmt könnuninni eru þeir líka allra stjörnumerkja tryggastir.
Þau fimm stjörnumerki sem eru efst á listanum yfir þá sem stunda mest kynlíf, samkvæmt þessari hávísindalegu könnun, eru:
Vatnsberar
Naut
Fiskar
Meyjur
Ljón
Það sem kemur kannski mest á óvart í niðurstöðum könnunarinnar er að nærri helmingur þeirra sem tóku þátt trúa því sem stjörnumerkjafræðin segir um einkenni hvers merkis fyrir sig og einn af hverjum fimm trúir því að það skipti máli í hvaða stjörnumerki makinn er til þess að sambandið geti gengið upp.
Aðrar forvitnilegar niðurstöður úr könnuninni eru til dæmis þær að Fiskar eru líklegastir til að vilja vera í búningum í svefnherberginu og Hrútar toppa listann yfir þá sem hafa prófað bindingaleiki í rúminu. Þar fyrir utan segir könnunin að Krabbar séu blíðir og munúðarfullir elskhugar og að Vogum finnist gott að láta flengja sig.
Tilkynnt var í morgun að Ísland yrði meðal þátttökuþjóða í Eurovision sem haldin verður í Tel Aviv næsta vor. Á vef RÚV er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra RÚV, að sú ákvörðun grundvallist á því að ekki sé um pólitískan viðburð að ræða heldur þvert á móti samkomu ólíkra þjóða sem allt frá stofnum hafi haft að megintilgangi og leiðarljósi að breiða út boðskap sameiningar- og friðarkrafts sem felst í dægurtónlist og menningu almennt.
Skorað hafði verið á RÚV að sniðganga keppnina vegna ástandsins á Gaza og framferðis stjórnvalda í Ísrael í garð Palestínumanna og Skarphéðinn fullyrðir að þær áskoranir hafi verið teknar alvarlega, en eftir mikla yfirlegu hafi verið tekin ákvörðun um að senda fulltrúa frá Íslandi í keppnina. Þar hafi vegið þungt að keppnin verði haldin í Tel Aviv en ekki Jerúsalem og einnig að allar Norðurlandaþjóðirnar ætli að taka þátt í keppninni. „Enn hefur ekki heyrst af þjóðum sem hyggjast sniðganga keppnina í Ísrael af pólitískum ástæðum. Almannaþjónustumiðlarnir á Norðurlöndunum hafa jafnan verið samstíga í slíkum efnum og hafa þeir allir nú þegar staðfest þátttöku sína,“ segir Skarphéðinn.
Ekki er langt síðan hópur listamanna birti opið bréf í breska blaðinu Guardian þar sem skorað var á Evrópulönd að sniðganga Eurovision í Ísrael. „Við getum ekki hugsað okkur að taka þátt í Eurovisiongleðinni með góðri samvisku á meðan Ísraelsríki og her þess beita Palestínumenn hrottalegu ofbeldi í næsta nágrenni,“ segir í bréfinu sem tveir íslenskir listamenn skrifuðu undir, þau Daði Freyr og Hildur Kristín Stefánsdóttir.
Jóhanna Kristín Gustavsdóttir er með BA í atvinnulífsfélagsfræði, er löggiltur fasteignasali og starfar hjá Landmark fasteignasölu.
Hún er gift og á tvær dætur, sú eldri er tvítug og yngri er tólf ára. Fjölskyldan á líka hundinn Kötu sem er af Papillion-tegundinni. Þau búa í fallegu parhúsi á Kársnesinu í Kópavogi.
Hvað heillar þig mest við starfið? „Það er hversu fjölbreytt það er og að fá að hafa samskipti við þverskurð af okkar samfélagi. Flestir eru að gera sín stærstu viðskipti á ævinni enda eru heimili fólks oftast það sem stendur því næst, fyrir utan fjölskylduna sjálfa. Það er því afar ánægulegt að að fá að aðstoða fólk við að selja sín heimili og finna því nýjan stað og upplifa þakklætið sem því fylgir.“
Geturðu lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Hann byrjar á góðum kaffibolla og að fara út með hundinn. Síðan ræðst dagurinn af því hvað fyrir liggur en það getur til dæmis verið tilboðsgerð eða gagnaöflun um eign ef ég er að taka nýja eign í sölu eða þá að tala við kaupendur og seljendur ef eign hefur verið sýnd daginn áður. Vera viðstödd myndatöku á eign með ljósmyndaranum. Seinnihluti dagsins fer oft í að sýna eignir og vera með opin hús. Það sem gerir alla daga skemmtilega í starfinu er samstarfsfólkið mitt hjá Landmark sem er einstaklega flottur og samstiga hópur fagfólks.“
„Það er afar ánægulegt að að fá að aðstoða fólk við að selja sín heimili og finna því nýjan stað og upplifa þakklætið sem því fylgir.“
Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Að heimilið sé notalegt og öllum líði vel og finnist gott að koma heim eftir vinnu- eða skóladaginn og geta slakað á.
Geturðu lýst þínum stíl? „Hann er hlýlegur, klassískur og í skandinavískum og ítölskum stíl.“
Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? „Högna Sigurðardóttir, hún var tímalaus í sinni hönnun og tók mikið mið af umhverfinu og náttúrunni. Þá er ég hrifin af hönnun Sigurðar Hallgrímssonar og Guðbjargar Magnúsdóttur en sem samtímahönnuðir skapa þau einstaklega heildstæð og falleg heimili.“
Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Nei, ekki beint en ég er mjög hrifin af skandinavískum og ítölskum hönnuðum.“
Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? ,,Nirvana, en ég væri samt til í mynd eftir Eggert Pétursson listmálara.“
Uppáhaldsliturinn þinn? „Fjólublár og margir jarðlitir.“
Hvar líður þér best? „Heima hjá mér í faðmi fjölskyldunnar og vina. Það sakar ekki að vera að elda góðan mat.“
Hvað heillar þig mest við haustið? „Það eru haustlitirnir í náttúrunni og lyktin af haustinu. Þegar fer að rökkva bæti ég við fleiri kertastjökum og kveiki oftar á kertum.“
Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Erfitt að segja, það eru svo margir svalir og flottir veitingastaðir á Íslandi í dag en ætli ég verði ekki að segja Sumac á Laugaveginum sem er með miðausturlenska- og norður-afríska matreiðslu. Frábær staður.“
Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? „Fúnkisstíll heillar mig mest.“
Að lifa lífinu lifandi er að … „að njóta samverustunda með vinum og fjölskyldu og gera skemmtilega hluti saman. Þá má ekki gera lítið úr því að vera í gefandi starfi.