Linsubaunir hafa ávallt verið ódýr matur og héldu lífi í bændum og fátækari stéttum fólks í Evrópu. Þær eru einstaklega næringargóðar, orkuríkar og góð uppspretta trefja, fólats og járns. Ólíkt þurrkuðum baunum þarf ekki að láta linsubaunirnar liggja í bleyti. Gott er samt að skola þær fyrst og róta í gegnum þær ef það skyldu leynast smásteinar í pokanum.
Græn linsubaunaídýfa
200 g rauðar linsubaunir
1 bakki kóríander, lauf og stilkar
20 g pístasíukjarnar
3 msk. ólífuolía
3 msk. límónusafi
salt og pipar eftir smekk
Sjóðið linsubaunirnar upp úr 1,5 lítra af vatni þar til þær hafa eldast í gegn og eru orðnar mjúkar, u.þ.b. 20-30 mín. Hellið vatninu frá og maukið í matvinnsluvél ásamt kóríander, pístasíuhnetum og kummin. Þegar allt er orðið að grófu mauki, hellið þá ólífuolíunni og límónusafanum í mjórri bunu saman við. Maukið í vélinni þar til allt er orðið kekkjalaust. Bragðbætið með salti og pipar, bætið við meiri límónusafa ef þarf.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
534 milljón króna aukning á framlögum til fjölmiðla fer öll til RÚV og ekki er gert ráð fyrir framlögum til að styrkja rekstur einkarekinna fjölmiðla.
Í nýbirtu fjármálafrumvarpi fyrir árið 2019 kemur fram að framlag ríkissjóðs til fjölmiðlunar muni hækka um 534 milljónir króna á milli ára, eða um 12,8 prósent. Breytinguna má rekja til 175 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og 360 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV „í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.“
Í frétt Kjarnans um málið kemur fram að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráð-herra, hafi unnið að tillögum um aðgerðir í fjölmiðlamálum sem í eigi að felast að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og að hún hafi síðastliðinn föstudag kynnt tillögurnar á ríkisstjórnarfundi. Þær hafa þó ekki verið gerðar opinberar og ekki er sjáanlegt að gert sé ráð fyrir sérstökum útgjöldum vegna þeirra í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun.
Umræðan um staðnaða kvenímynd í Hollywood-myndum er ekki ný.
Í kjölfar #metoo og #time’sup byltinganna hefur umræða um staðlaða kvenímynd í Hollywood-kvikmynd blossað upp og margar leikkonur hafa gagnrýnt stefnu kvikmyndafyrirtækjanna í handritaskrifum og tjáð sig um það takmarkaða val sem þær hafa þegar kemur að því að velja sér hlutverk. Umræðan byrjaði þó alls ekki með þessum byltingum, fastmótuð kvenhlutverk hafa lengi verið leikkonum og krítíkerum til ama og margoft hefur verið reynt að fá stóru kvikmyndaverin til að bjóða upp á aðra sýn á konur í myndum sínum. Með slökum árangri.
BBC Newsnight póstaði nýlega myndbandi frá 2016 þar sem Kim Newman, reynslubolti í kvikmyndakrítík í Bretlandi, valdi lista með fimm algengustu kvenmyndaklisjunum úr hryllingsmyndum í gegnum tíðinni og árangurinn er bæði hrollvekjandi og bráðfyndinn.
The role of women in Hollywood was being discussed long before the #metoo movement. In this Newsnight film from 2016, veteran film critic Kim Newman picks his top five clichés about women in horror films… Watch them here:
Posted by BBC Newsnight on Mánudagur, 10. september 2018
6-0 tap gegn Sviss minnkar ekki vonir íslensks fótboltaáhugafólks.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Belgum, bronsliðinu af HM í sumar, á Laugardalsvelli í kvöld í þjóðakeppni UEFA. Fyrsti leikur liðsins í keppninni, þegar þeir töpuðu 6-0 fyrir Sviss um helgina, gaf ekki ástæðu til bjartsýni um gengi liðsins í þjóðakepnninni. Sparkspekingar hafa keppst við að úthúða liðinu fyrir lélega frammistöðu og eru ekki vongóðir um góða niðurstöðu í leiknum í kvöld. En hvað finnst hinum almenna stuðningsmanni liðsins um frammistöðu þess og hvaða væntingar hefur fólk til leiksins í kvöld? Mannlíf sló á þráðinn til nokkurra eldheitra aðdáenda liðsins og forvitnaðist um hvaða væntingar það fólk hefði til frammistöðu þess í kvöld.
Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Þetta snýst allt um væntingastjórnun og eftir laugardaginn hef ég stillt þeim algerlega í hóf. En fyrir mér snýst fótbolti um að styðja í blíðu og stríðu þó 6-0 tap sé erfitt að kyngja. Ég hef trú á því að strákarnir gíri sig í gang.“
Heldurðu að þeir eigi möguleika á sigri?
„Það er alltaf möguleiki – eigum við ekki að segja það bara? Það getur vel verið að Belgarnir hafi horft á síðasta leik Íslands og talið sér trú um að þetta verði léttur leikur í kvöld – og strákarnir geta þá strítt þeim og sýnt úr hverju þeir eru gerðir. Er ekki ágætt að vona það bara?“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, það gerir það ekki. Auðvitað er skemmtilegra að halda með liði sem vinnur og það er meiri stemning. En ég persónulega þoli ekki stuðningsmenn sem sitja bara og tuða í stúkunni. Stuðningur er ekki stuðningur nema hann sé í blíðu og stríðu.“
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Ég lít svo á að við eigum sæmilega möguleika á að halda jöfnu. En þá þarf allt að ganga upp og það væri mikill sigur.“
Setti frammistaðan í Sviss ekkert strik í reikninginn í trú þinni á liðið?
„Fallið í Sviss var kannski óhjákvæmilegt og hlaut að koma, þótt það væri meira og hærra en maður reiknaði með. En hafa ber í huga að þetta er ein erfiðasta prófraun sem hægt er að hugsa sér, að mæta einu albesta landsliði heims strax eftir þetta feiknarlega tap.“
En þú hefur trú á að strákarnir rífi sig upp og nái jafntefli við bronsliðið af HM í sumar?
„Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn og kalt mat segir mér að Belgarnir vinni öruggan sigur. En ég vonast auðvitað eftir betri frammistöðu en í Sviss og við megum ekki gleyma því að það er engin skömm að tapa fyrir Belgum, síður en svo.“
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Þetta verður erfitt, en Íslenska liðið er öflugt og hefur oft sýnt það að það getur vel keppt við öflugustu fótboltalið í heimi. Það kannski bara veltur mest á því hvernig liggur á þeim. Spurning um að trúa á sigurinn.“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, fjandakornið, þetta er okkar lið og þarf einmitt mest á stuðningi og tiltrú að halda þegar illa gengur. Það er auðvelt að halda með liði þegar allt gengur eins og í draumi. Ef við stöndum ekki með þeim þegar illa gengur, getum við þá einu sinni sagt að við séum alvöru stuðningsfólk?“
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Ég er, til að orða það pent, hæfilega bjartsýn. Belgar eru með svakalegt lið – ég spáði þeim sigri á HM í sumar. En svo er það nú oft þannig að íslenska liðið stendur sig best á móti sterkum andstæðingum. Og þeir ættu náttúrulega að koma snarvitlausir í þennan leik eftir síðustu úrslit.“
Heldurðu að þeir eigi möguleika á sigri?
„Já, það er alltaf möguleiki á sigri í fótboltaleik!“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
Sycamore Tree sendir frá sér lag til minningar um Loft Gunnarsson.
Loftur Gunnarsson svaf á götunni þegar ekki var pláss í Gistiskýlinu. Hann lést 32 ára gamall. Á afmælisdegi hans, 11. september, hefur hljómsveitin Sycamore Tree gefið út lagið The Street, sem fjallar um Loft Gunnarsson og síðustu andartök í lífi hans.
„Það á enginn að deyja á kaldri götunni. Aðstæður utangarðsfólks á Íslandi eru að mörgu leyti hörmulegar og brot á réttindum þeirra. Það fæðast allir jafnir og við sem samfélag eigum að aðstoða þá sem eru í neyð,“ segja meðlimir hljómsveitarinnar, þau Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir. „Við sömdum og fluttum lagið The Street í minningu Lofts Gunnarssonar og helgum það baráttunni fyrir bættum aðbúnaði utangarðsfólks í Reykjavík.“
Loftur var mágur Gunna og lagið er gefið út til styrktar Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar. „Það er auðvelt að líta framhjá þessum hópi samfélagsins, afskrifa hann og gleyma,“ segja þau Gunni og Ágústa Eva um ástæðu þess að þau sömdu lagið og gáfu það út. „Hann lætur aldrei í sér heyra, röltir þögull um bæinn og lætur lítið fyrir sér fara, biður ekki um neitt og á sér ekki málsvara sem öskrar hátt og getur þrýst á kerfið. Hann nýtur ekki virðingar og verður fyrir fordómum og skilningsleysi. Það er okkur mikil ánægja að veita Minningarsjóðnum og þessu mikilvæga málefni lið.“
Þórunn María leikmynda- og búningahöfundur lærði í Frakklandi og Belgíu á síðustu öld og hefur því starfað við iðn sína um langa hríð. Hún segist ekki tengjast fötum tilfinningalegum böndum en sterkar og sjálfstæðar konur veiti sér innblástur á hverjum degi.
Fyrr í sumar starfaði Þórunn María við Listhátíðarverkefnið R1918. Áður vann hún leikmynd og búninga fyrir sviðsverkið Ahhh … sem leikhópurinn RaTaTam sýndi í Tjarnarbíói ásamt búningahönnun fyrir sýningarnar Hafið og Föðurinn sem báðar voru settar upp í Þjóðleikhúsinu.
Þrátt fyrir að sinna ýmsum verkefnum og fá fjölbreytta útrás fyrir sköpunargáfuna lýsir Þórunn María sínum persónulega stíl sem einföldum en þó með örlitlu tvisti. „Ég er frekar praktísk og jarðtengd. Ég er ekki mikið fyrir mikla neyslu á textílvörum en ég hugsaði samt um daginn að nú þyrfti ég að fara að prjóna mér stóra og kósí ullarpeysu til að vefja mig inn í á íslenskum sumarkvöldum. Að mínu mati þurfa allar konur að eiga færri en vandaðri flíkur í fataskápnum sínum og vera óhræddar við að klæðast sömu flíkinni oftar en einu sinni. Sjálf tengist ég fötum ekki tilfinningalegum böndum og kaupi mest á nytjamörkuðum. Búðin í hverfinu mínu er Hertex sem dæmi. Búðin þar við hliðina er Space Concept, verslun Anitu Hirlekar og Magneu sem eru tveir íslenskir, frábærir fatahönnuðir. Nytjamarkaðir og hönnun finnst mér fín blanda.“
Aðspurð hvaða konur veiti sér innblástur svarar Þórunn María að þær séu þrjár. „Tilda Swinton, Rei Kawakubo og Björk en allt eru þetta sterkar og sjálfstæðar konur sem stefna ákveðið í sinni sköpun, hver á sínu sviði.“
MÓTSÖGNIN Þjóðkirkja Íslands hefur sætt harðri gagnrýni eftir að upp komst að prestur, sem viðurkenndi á fundi sem haldinn var hjá Biskupi Íslands fyrir þremur árum, að hafa brotið gegn konu þegar hún var á barnsaldri, hefur síðan þá tekið þátt í athöfnum kirkjunnar.
Umræddur prestur settist í helgan stein árið 2001 en predikaði t.d. í Breiðholtskirkju í maí á þessu ári. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heit umræða skapast vegna kynferðisbrota presta Þjóðkirkjunnar og hefur málfutningur Biskups Íslands vegna þeirra oftar en ekki vakið athygli.
1 Þannig sagði biskup í viðtali við DV á dögunum: „Þetta verður þannig að við erum að glíma við siðferðislegar spurningar alla daga og gerum það alltaf frá þeim grunni sem við höfum, sem er kærleiksboðskapur Jesús Krists. Fyrir mína parta þá líð ég ekki neitt illt í kirkjunni og reyni að vinna með það ef það kemur upp, og tek það mjög nærri mér.“
2 Í sama viðtali spyr blaðamaður biskup hvort það sé ekki svolítið furðulegt að prestur, sem hefur viðurkennt brot gegn konu þegar hún var barn, skuli halda messu í Breiðholtskirkju og mæti í vígslu Skálholtsbiskups hjá biskupi. „Ég veit ekki hvort það sé neitt óeðlilegt við það í sjálfu sér,“ svarar hún þá.
3 Árið 2017 var annar prestur sendur í leyfi vegna meintrar áreitni. Biskup Íslands var ómyrk í máli vegna þessa í viðtali við Fréttablaðið þegar málið kom upp. „Ég sendi sr. Ólaf [Jóhannsson] í leyfi í sumar því ég líð ekki svona mál á minni vakt. Ég beitti þeim úrræðum sem lög og reglur segja til um, og eitt af því var að senda hann í leyfi. Ég veitti honum tiltal og sendi hann í meðferð hjá sálfræðingi.“
Athygli vekur hversu ólíka meðferð slík mál hafa fengið innan kirkjunnar. Þegar enn annar prestur, Helgi Hróbjartsson, viðurkenndi árið 2010 fyrir fagráði um kynferðisbrotamál innan kirkjunnar að hafa framið kynferðisbrot gegn þremur drengjum var hann útilokaður frá starfsemi kirkjunnur. Málsmeðferðin í máli prestins, sem er rætt um hér í upphafi, hefur hins vegar tekið mörg ár.
Faber gefur út textasafn frá 40 ára ferli tónlistarkonunnar.
How to be Invisible, eða Hvernig á að vera ósýnileg, er nafn bókar með úrvali af textum tónlistarkonunnar Kate Bush sem hið virta forlag Faber gefur út 6. desember næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem textar hennar verða gefnir út á bók og ekki hefur verið gefið upp hvaða textar munu birtast í bókinni en það er úr nógu að velja eftir 40 ára glæstan feril.
Rithöfundurinn David Mitchell, sem meðal annars er höfundur bókarinnar Cloud Atlas, mun rita inngang að bókinni, en hann hefur margsinnis látið hafa eftir sér að Kate Bush sé einn helsti áhrifavaldur hans í skriftunum. „Fyrir milljónir fólks um allan heim er Kate miklu meira en eitt söngvaskáldið enn; hún er skapari tónlistar sem fylgir þér alla ævi,“ sagði Mitchell árið 2014 þegar hann tók þátt í fyrstu tónleikum tónlistarkonunnar eftir 35 ára hlé frá tónleikahaldi.
Kate Bush sem varð sextug í júlí er af mörgum talin einn besti textasmiður poppsögunnar og árið 2002 hlaut hún Ivor Novello verðlaunin fyrir framúrskarandi framlag til tónlistar. Textar hennar þykja allt í senn bókmenntalegir, munúðarfullir um leið og þeir eru fullir af kvenorku og barnslegu sakleysi.
Faber hefur áður gefið út textasöfn ýmissa breskra tónlistarmanna, meðal annarra Jarvis Cocker og Van Morrison, en Kate verður fyrsta tónlistarkonan sem kemst í þann hóp
Keppendur frá fjórum heimsálfum í Hengill Ultra Trail.
Metþátttaka var í utanvegahlaupinu Hengill Ultra Trail sem haldið var í sjöunda skiptið í Hveragerði um helgina, en keppendur voru 372 talsins. Fyrir utan metfjölda þátttakenda þá voru keppendur frá 17 þjóðlöndum skráðir til leiks. Þeir komu frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi, Danmörku, Kólumbíu, Póllandi, Frakklandi, Spáni, Sviss, Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Austurríki, Katalóníu, Tékklandi, Færeyjum og auðvitað Íslandi. Eins og sjá má þá komu þeir frá fjórum heimsálfum.
Hlaupnar voru tvær vegalengdir, 100 kílómetrar og 50 kílómetrar, og hófst keppnin klukkan 22 á föstudagskvöldið. Benoit Branger frá Frakklandi varð hlutskarpastur í 100 kílómetra hlaupinu en hann hljóp vegalengdina á 14 klukkutímum, 20 mínútum og 24 sekúndum sem er brautarmet. Það var Bretinn Matt O’Keefe sem var annar í mark og Birgir Már Vigfússon frá Íslandi varð í þriðja sæti.
Ingvar Hjartarsson átti besta tímann í 50 kílómetra hlaupinu, Daníel Reynisson varð í öðru sæti og Kanadamaðurinn Jason Wright í þriðja sæti.
Sumir sérfræðingar spá því að flugbílar komi til með að draga úr vandamálum eins og umferðarhnútum og mengun.
Stjórnvöld í Japan hafa fengið til liðs við sig 21 fyrirtæki, innlend fyrirtæki og eins stór, alþjóðleg fyrirtæki á borð við Boeing, Airbus til að þróa hugmyndir að flugbílum og hefur hópurinn gefið út að hann komi til með að leggja fram tillögur sínar nú í vikunni.
Talið er að flugbílar, auk sjálfkeyrandi bíla, eigi eftir að valda straumhvörfum í tækni, en sumir sérfræðingar eru á því að þeir muni draga úr óteljandi vandamálum, þar með talið umferðarhnútum og mengun. Undanfarin ár hafa ýmis einkarekin fyriræki sett fram hugmyndir að slíkum bílum, þar á meðal Rolls-Royce og Alphabet sem er með tvær gerðir flugbíla á teikniborðinu. Með aðkomu japanskra stjórnvalda eru yfirvöld hins vegar í fyrsta sinn að blanda sér með beinum hætti í málið, en talið er að afskipti þeirra geti flýtt töluvert fyrir framgangi flugbíla þar sem reglugerðir hafa hingað til verið ein helsta hindrunin fyrir því að þeir verði að veruleika.
Mynd / Uber vill prófa fljúgandi leigubíla í Japan.
Margt ber að hafa í huga þegar baðherbergi er innréttað, hvort sem verið er að gera upp gamalt baðherbergi eða innrétta í nýju húsnæði. Við viljum nýta rýmið sem best og um leið hafa það fallegt fyrir augað og gera að okkar. Við fórum á stúfana og fengum góð ráð hjá Berglindi Berndsen innanhússarkitekt en hún býr á Seltjarnarnesi og rekur sína eigin stofu á Fiskislóð 31 í Reykjavík.
Hvað hefur þú í huga þegar þú innréttar baðherbergi með nýtingu í huga?
„Rétt og gott skipulag á baðherbergi skiptir gríðarlega miklu máli upp á nýtingu rýmisins. Opnar sturtur eða svokallaðar ,,walk in“ sturtur geta látið minnstu baðherbergi líta stærri út en raun ber vitni. Innréttingar með góðu og miklu skúffuplássi búa einnig til mikla nýtingu og innfelldir speglaskápar geta látið rýmið virka stærra en það raunverulega er.“
Skiptir máli að hugsa um notagildið fyrst og fremst eða er það útlitið?
„Mikilvægt er að leggja áherslu á þægindi og notagildi svo rýmið njóti sín til hins ýtrasta en þetta helst allt í hendur. Það er ekkert gaman að hanna fallegt baðherbergi ef notagildið er ekki til staðar og öfugt.“
Hvernig hugsar þú efnisval fyrir baðherbergi?
„Ég leitast yfirleitt við að hafa samræmi í lita- og efnisvali við það sem fyrir er í húsinu svo fallegt flæði skapist á milli rýma og sérstaklega ef ég sé um heildarhönnun heimilis. Ég huga alltaf að því hanna tímalaus og einföld baðherbergi þar sem að mjúk og náttúrleg paletta er ráðandi til að skapa notalega og hlýlega stemningu.“
Ertu með ákveðinn gátlista sem vert væri fyrir fólk að fara yfir þegar það ákveður að endurnýja baðherbergi eða er að hanna/skipuleggja nýtt?
„Aðallega þarf að huga vel að þægindum og notagildi rýmisins. Stærð sturtu spilar þar stórt hlutverk, skápapláss og góð vinnu- og stemningslýsing. Hafa ber einnig í huga að þessar framkvæmdir taka mikinn tíma, yfirleitt mun meiri en áætlað er í upphafi og þetta er dýr framkvæmd. Það þarf því að undirbúa svona verk vel. Ég er á því að við arkitektar getum sparað fólki mikinn tíma og mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu.“
Berglind nefnir einnig að vinnu- og stemninglýsing skipti máli
„Góð vinnu- og stemningslýsing skiptir einnig gríðarlega miklu máli við hönnun baðherbergja til að skapa réttu stemninguna. Einnig skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við verkkaupa og alla þá sem að verkinu koma og að algjört traust ríki á milli allra aðila svo lokaniðurstaðan verði sem jákvæðust.“
Karitas Möller arkitekt og Kristinn Már Reynisson lögfræðingur fluttu á sérhæð við Lækinn í Hafnarfirði fyrir tæpum tveimur árum og hafa gert hana upp á einstaklega fallegan og sjarmerandi hátt.
Þegar Hús og híbýli kíkti í heimsókn var Karitas ein heima og búin að vera á haus að gera fínt. „Ég er búin að gera jólahreingerninguna í júlí,“ sagði hún og hló smitandi hlátri. Karitas segist hafa einstaklega mikla unun af því að dekra við sitt nærumhverfi og íbúðin ber þess merki því hver einasti fermetri er fallegur á heimilinu.
Upprunalega eldhúsið gullfallegt eftir yfirhalningu
,,Þetta eldhús er til að mynda upprunalegt og er um 70 ára gamalt en það kom aldrei til greina að taka það niður heldur bara að gera það eins fallegt og hægt væri. Við héldum innréttingunni en breyttum aðeins uppröðuninni á því; færðum til skápa og smíðuðum nýja skápa í sama stíl og innréttingin er í. Við settum svo marmaraplötu á eldhúsbekkina sem breytti miklu fyrir útlitið. Höldurnar eru líka upprunalegar en þær voru illa farnar og ég lét pólýhúða þær sem
bjargaði þeim, þetta lítur vel út og kostaði alls ekki mikið. Við settum svo hvítar veggflísar og völdum svört blöndunartæki á móti gamla stálvaskinum sem hefur staðið vaktina í öll þessi ár, mér finnst hann sjarmerandi,“ segir hún brosandi. Koparljós hanga yfir gamla vaskinum en þau keypti Karitas í Kaupmannahöfn þegar hún var þar í arkitektanámi.
Meiri samkeppni í Danmörku
„Ég bjó úti í örugglega 12 ár, lærði í Kaupmannahöfn og flutti svo til Svíþjóðar og síðar Árósa með kærastanum þar sem hann var í námi. Ég vann á arkitektastofum úti í Danmörku sem var mjög lærdómsríkt og krefjandi, en ég finn að það er á einhvern hátt þægilegra að vinna
hér heima, þar sem maður er meira á heimavelli. Það er líka töluvert meiri samkeppni í þessu umhverfi í Danmörku og erfiðara að komast að kannski vegna þess líka að Danir eru þekktir fyrir góða hönnun og margt hæfileikafólk kemur úr öllum áttum. En þetta var mjög lærdómsríkur og æðislegur tími.“
Karitas á mikið af fallegum hlutum og less is more á sannarlega ekki við um þetta persónulega og hlýja heimili í Hafnarfirði.
Meira af sérhæðinni við Lækinn í septemberblaði Húsa og híbýla sem er fáanlegt á sölustöðum til 20. september þegar nýtt blað kemur út.
Nissan hefur hafið framleiðslu og sölu á bifreiðum með breytingum frá Arctic Trucks í öllum löndum Evrópu. Þetta er fyrsta sinn sem bílaframleiðandi tekur inn í framleiðsluferli sitt breytingar frá íslensku fyrirtæki fyrir jafnstóran markað.
„Hingað til höfum við verið í samstarfi við erlenda bílaframleiðendur um breytingar á bifreiðum í einstaka löndum en þetta í fyrsta sinn sem bílaframleiðandi notar okkar merki og lausnir og selur í heilli heimsálfu. Það að jafn virtur aðili skuli vilja okkar merki á sína vöru til að auka sölugildi hennar og styrkja sína ímynd eru stór tíðindi og sýnir einfaldlega í hvaða stöðu við erum,“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks (sjá mynd að ofan), en einn risanna í bílaiðnaðinum, japanski bílaframleiðandinn Nissan, ætlar að hefja sölu á Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu í öllum löndum Evrópu.
Að sögn Emils fela umræddar breytingar í sér öflugri, lengri og stífari fjöðrun, nýja brettakanta og nýjar felgur og stærri dekk, sem gera Nissan Navara meðal annars sportlegri útlits og bæta eiginleika bílsins til að keyra í torfæru og erfiða vegi. Þá verður hægt að velja um sérstaka aukahluti eins og læsingar, „snorkel“ og fleira, sem gerir Nissan Navara enn hæfari til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann segir að þessi útgáfa bílsins, sem kallast Off-Roader AT32 (Arctic Trucks 32 tommu dekk), verði í boði hjá söluumboðum Nissan um alla Evrópu, með sömu ábyrgðarskilmálum og þjónustu sem fylgja Nissan Navara almennt. En innan bæði Arctic Trucks og Nissan ríki mikil eftirvænting vegna verkefnisins. „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og Nissan er það auðheyrilega líka,“ segir hann.
„… þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“
Spurður hvernig samstarfið hafi komið til segir Emil að þar hafi ýmislegt haft áhrif, svo sem góð samvinna við Nissan á Íslandi, merki Arctic Trucks og þekking og reynsla stjórnunarteymis Arctic Trucks í Bretlandi af umsjón viðamikilla verkefna. Það séu helstu ástæður þess að samningar hafi náðst.
En nákvæmlega hvaða þýðingu hefur samstarfið fyrir Arctic Trucks? „Þetta sýnir bara að stórir framleiðendur eru í auknum mæli farnir að leita til okkar eftir lausnum. Og ekki bara það heldur eru þeir að leitast eftir því að fá okkar merki á sína vöru þar sem Arctic Trucks hefur skapað sér trúverðugleika á alþjóðavísu,“ svarar hann. „Nissan í enn stærri heimsálfum, Asíu og í Mið-Austurlöndum, eru til dæmis í þessum töluðum orðum að skoða þann möguleika að taka til sölu þessa útgáfu af Nissan Navara sem við gerðum fyrir Nissan í Evrópu og fleiri framleiðendur hafa áhuga á samstarfi. Þannig að þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“
Það er fátt notalegra um haustlegar helgar en að bjóða upp á gott íslenskt lambakjöt ásamt krydduðum kartöflum. Lambið má fylla og binda deginum áður og geyma í kæli. Látið kjötið ná stofuhita áður en því er stungið inn í ofn.
Fyllt lambalæri með hvítlauk, furuhnetum, ólífum og kryddjurtum fyrir 4-6
2 kg úrbeinað lambalæri
1 msk. salt
1 msk. pipar
7 hvítlauksgeirar, 3 afhýddir og 4 með hýðinu á
50 g furuhnetur
60 g svartar steinlausar ólífur
fínt rifinn börkur af 1 sítrónu
100 g rifinn parmesanostur
20 g steinselja, söxuð
20 g óreganólauf
1 dl ólífuolía
50 g panko eða brauðmylsna
2 rósmaríngreinar
Hitið ofninn í 220°C. Saltið lambalærið og krydið með pipar. Setjið 3 afhýdda hvítlauksgeira, furuhnetur, ólífur, sítrönubörk, parmesanost og kryddjurtir í matvinnsluvél og saxið. Hafið vélina í gangi og hellið 1 dl af ólífuolíu saman við þar til allt hefur blandast vel saman. Bragðbætið fyllinguna með salti og pipar ef þarf. Dreifið fyllingunni yfir lambalærið og rúllið því síðan upp. Bindið lærið saman með matargarni með 3 cm millibili þversum og svo einu sinni langsum. Setjið lærið í eldfast mót og setjið 4 hvítlauksgeira og rósmaríngreinar í botninn. Eldið í 30 mín. eða þar til kjötið fer að brúnast, lækkið þá ofnhitann niður í 160°C og eldið þar til kjarnhitinn mælist 60°C, u.þ.b. 30-40 mín. til viðbótar. Passið að stinga ofnhitamælinum ekki í fyllinguna. Takið kjötið úr ofninum, setjið á bretti og hyljið með álpappír. Látið standa í 15-20 mín. áður en kjötið er skorið niður í sneiðar. Búið til sósu úr soðinu í mótinu.
Sósa
2 msk. hveiti
1 dl marsala-vín eða rauðvín
500 ml lamba- eða kjúklingasoð
20 g smjör
Fleytið mestu fitunni ofan af safanum sem myndast hefur í eldfasta mótinu. Þrýstið hvítlauknum úr hýðinu og hendið hýðinu. Hitið eldfasta mótið yfir lágum hita (eining má flytja soðið úr mótinu yfir í pott en þá þarf að passa vel að skrapa botninn á mótinu til að ná öllu góðgætinu í pottinn). Notið písk og hrærið hveitið kröftulega saman við. Hellið víninu út í og náið upp suðu og eldið í 2-3 mínútur. Hellið lambasoðinu saman við og náið aftur upp suðu og skrapið botninn með flötu áhaldi. Lækkið hitann og látið malla í 10-15 mín. eða þar til sósan er orðin þykk. Bætið smjörinu saman við og hrærið í á meðan smjörið bráðnar. Smakkið soðið og athugið hvort bæta þurfi við salti eða pipar. Hellið sósunni í gegnum síu, hendið hratinu og berið fram með lambakjötinu.
Kartöflur með rósmaríni fyrir 4-6
Kartöflurnar má setja inn með kjötinu þegar hitinn er lækkaður niður í 160°C. Þegar kjötið er tekið út þá er ofnhitinn hækkaður í 190°C og kartöflurnar eldaðar þar til þær verða gylltar og stökkar.
2 kg litlar kartöflur, skrældar
3 msk. ólífuolía
2 msk. saxað ferskt rósmarín
2 tsk. salt
1 tsk. pipar
Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í vatni í 10 mín., hellið þeim síðan í sigti og látið standa svo þær þorni í gufunni. Blandið saman ólífuolíu, rósmaríni, salti og pipar í eldföstu móti. Hristið kartöflurnar í sigtinu til að ýfa ytra yfirborð þeirra. Veltið þeim upp úr olíunni og kryddinu og eldið í miðjum ofni í u.þ.b. 1 klst. eða þar til þær eru orðnar gylltar og stökkar.
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Helgi Björnsson, sjálfur Holy B, er orðinn sextugur og hefur verið í sviðsljósinu, bæði sem söngvari og leikari, í 45 ár. Hann segist hafa ákveðið það strax í æsku að verða annaðhvort poppstjarna eða atvinnumaður í fótbolta og valið hafi verið auðvelt eftir að hann sá hvað stelpurnar hrifust miklu meira af gítarleik hans og söng heldur en sprikli á fótboltavellinum.
Þegar ég hringi í Helga og falast eftir að fá að hitta hann á kaffihúsi og spjalla segist hann helst ekki vilja að viðtalið fari fram á kaffihúsi, þar verði hann fyrir of miklu áreiti. Er erfitt að vera frægur á Íslandi?
„Ég meinti nú ekki áreiti í neikvæðum skilningi,“ flýtir Helgi sér að útskýra. „En, jú, jú, það eru alltaf margir sem maður þarf að heilsa og spjalla aðeins við. Reykjavík er náttúrlega bara lítið þorp þar sem allir þekkjast og fólk vill vita hvað er að frétta af mömmu og hvað ég ætli að fara að gera og svo framvegis. Maður fær ekkert áreiti eins og maður sér hjá heimsfrægum stjörnum úti í heimi en það er forvitni og það er verið að fylgjast með manni. Ég er reyndar löngu hættur að pæla í því en þetta er samt alltaf þrýstingur. Þótt þú reynir að slökkva á þessu og taka ekki eftir því þá er það til staðar og það hefur áhrif á mann.“
Fermingardrengir miðað við bankamenn
Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.
„Ég man eftir því að þegar ég var sirka tíu ára gamall var ég alveg ákveðinn í því að annaðhvort ætlaði ég að verða atvinnumaður í fótbolta eða poppstjarna. Ég spilaði með yngri flokkunum á Ísafirði en þegar þeir fóru að hlaupa úti í snjónum alla daga en ég gat setið inni í æfingahúsnæði með gítarinn og stelpurnar hópuðust fyrir utan til að hlusta en litu ekki við þeim, var alveg ljóst hvað ég vildi frekar leggja fyrir mig.“
Var það sem sagt aðdáun stelpnanna sem leiddi þig út í tónlistarferilinn? „Að sjálfsögðu!“ segir Helgi og skellihlær. „Á þessum aldri, 13 til 16 ára, þá var það engin spurning, það var aðdáunin sem maður sóttist eftir.“
Talandi um það leiðist talið að því orðspori um sukklíferni sem fer af poppbransanum, hefur það tekið sinn toll í lífi Helga? „Nei, það held ég nú ekki,“ segir hann. „Það er glaumur og gleði oft og tíðum, en ég hef sem betur fer borið gæfu til þess að sigla fram hjá stærstu skerjunum og stranda ekki í þeim ólgusjó. Svo er þetta líka orðum aukið. Ég held til dæmis að það sé meiri glaumur og gleði hjá bankamönnum í dag heldur en nokkurn tímann hjá poppurum. Við erum algjörir fermingardrengir í samanburði við þá.“
Sér ekki eftir neinu
Spurður hvort poppstjörnulífið hafi verið eins skemmtilegt og hann ímyndaði sér sem unglingur þegir Helgi um stund og hugsar málið. „Að hafa fengið tækifæri til að fást við tónlist er náttúrlega algjör gjöf,“ segir hann svo. „Það er engin spurning. Tónlistin er frumafl og tengist auðvitað frumöskrinu og þessi tjáning í gegnum tóna, röddina og síðan hljóðfærin, gefur þér alltaf eitthvað. Ekkert skrýtið að tónlistin sé notuð bæði á sorglegustu og gleðilegustu stundum lífsins. Að hafa fengið tækifæri bæði til að tjá sig í tónlist og vera í kringum tónlistarmenn er bara alveg yndislegt. Þannig að ég þakka fyrir það.“
Og sérð ekki eftir neinu?„Nei, ég get ekki sagt það. Auðvitað vill maður alltaf gera eitthvað betur, en það felst þá meira í einhverjum smáatriðum og ég sé ekki eftir neinu í stóru dráttunum. Alls ekki.“
Hvað er eftirminnilegast, hverju ertu stoltastur af?„Ég bara veit það ekki,“ segir Helgi hugsi. „Ég reyni að horfa meira fram á við heldur en að gleyma mér í fyrri verkum. Ég er mjög stoltur af sólóplötunum mínum tveimur, þar sem ég flyt frumsamið efni. Það er nær manni og maður er kannski á einlægari nótum á þeim.“
Fór út fyrir þægindarammann
Tónlistarferill Helga er ansi víðfeðmur og spannar alls konar tónlistargreinar, var ekkert erfitt fyrir rokkgoðið og kyntáknið Helga Björns að skella sér í hvítan dinner-jakka og fara að syngja lög Hauks Morthens, til dæmis? „Nei, nei, alls ekki. Maður er náttúrlega líka leikari og getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Og þegar maður er farinn að þykkna aðeins um miðjuna færist aðeins meiri ró og æðruleysi yfir mann og maður er ekki eins hégómagjarn og þegar maður var ungur. Ég hafði sungið frumsamin lög í tíu, tuttugu ár þegar ég fór að gera „cover“ af lögum annarra og þá fannst mér ástæða til að leyfa söngvaranum að takast á við smááskoranir. Þar fór ég út fyrir minn þægindaramma og fór að gera alls konar hluti sem síðan reyndust bara rosalega skemmtilegir.“
Skiptir poppstjörnuhlutverkið þá ekki öllu máli þegar upp er staðið? „Sko,“ segir Helgi og dregur djúpt andann. „Ef maður er í þessu starfi á annað borð, vill maður auðvitað að fólk hlusti á mann og hafi áhuga á því sem maður er að gera. En ég gengst ekki upp í því að vera eitthvað ædol. Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni. Ég held að allir listamenn þekki það.“
„Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni.“
Áttu ekki að verða eldri en þrítugir
Hvort sem Helga líkar það betur eða verr þá er hann ædol í rokkbransanum, finnst honum ekkert erfitt að eldast í bransanum? „Ég veit ekki hvort ég er eitthvert ædol,“ segir Helgi, hálfpirraður á þessari spurningu. „Mér finnst enn gaman að koma fram og gera nýja rokktónlist en auðvitað er erfitt að eldast í þessum bransa. Það er engin spurning. Þessi listgrein verður upphaflega til hjá ungu fólki og á fyrstu árum rokksins átti helst enginn að verða eldri en þrítugur, helst ekki eldri en 27. Þá áttu menn bara að stimpla sig út. Þannig að það er ekkert endilega gert ráð fyrir að menn eldist í þessu. Hins vegar eru Stones og fleiri búnir að gefa okkur alls konar dæmi um það að þetta er alveg hægt. Það sem er skrýtið hér í okkar litla samfélagi er að fámennið gerir það að verkum að ef einhver hefur verið fyrir augunum á þér í þrjátíu ár ertu eiginlega búinn að fá alveg nóg af honum, sem er ósköp eðlilegt. Það er alltaf þessi krafa um að fá nýtt fólk inn, nýjar persónur og leikendur til að fylgjast með í fjölmiðlunum. Á móti kemur að þegar þú verður eldri öðlastu meiri virðingu fyrir lífsstarfið, eða þannig er það erlendis, en hér eru allir bara einhvern veginn búnir að fá nóg af þér; kemur hann einu sinni enn … Þetta er stundum svolítið pirrandi en maður skilur forsendurnar á bak við þetta og tekur það ekki nærri sér.“
Það eru greinilega ekki allir búnir að fá nóg af Helga Björns, eins og miðasala á tónleikana á laugardaginn sýnir best. Datt honum í hug þegar hann var 16 ára með poppstjörnudrauma að hann myndi fylla Laugardalshöllina á sextugsafmælinu? „Nei, maður var nú ekkert að spá í það,“ segir Helgi og glottir. „Ég var meira að hugsa um Wembley á þeim tíma. Þannig að ég hef kannski ekki alveg náð takmarkinu.“
Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Þar sýna þau einstaklingsatriði sem spanna allt frá erótík yfir í tragík, fjalla um stafsetningu, latínu, daður og líffræði og einnig verður tæpt á kynfræðslu og undrum mannslíkamans. Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn. Er þetta einhver bölvaður dónaskapur? „Stutta svarið er já,“ segir Ísabella Leifsdóttir, ein úr hópnum, og skellir upp úr. „Þetta er alveg klárlega fullorðinssýning. Aðallega er þetta samt bara ótrúlega hresst og skemmtilegt. Sumt er fyndið, annað rómantískt eða erótískt og jafnvel tragískt. Þetta spannar allan skalann.“
„Við hittumst fyrst á sex vikna burlesque-námskeiði hjá Margréti Maack,“ segir Ísabella. „Eftir það ákváðum við að stofna sýningagrúbbu og fórum að halda sýningar sem í vetur verða einu sinni í mánuði á mismunandi stöðum í borginni svo fólk verður bara að fylgja okkur á Facebook og Instagram ef það vill hafa dag- og staðsetningar á hreinu.“
Að þessu sinni verða eingöngu einstaklingsatriði á sýningunni og Ísabella segir atriðin mjög ólík, auk þess sem þær sem koma fram séu á öllum aldri og hafi mjög misjafna sviðsreynslu. Sumar séu reynsluboltar en aðrar hafi aldrei komið fram opinberlega áður. Sjálf er hún óperusöngkona að mennt, er hún að hugsa að skipta um listform?
„Ég lærði auðvitað leiklist í náminu sem óperusöngkona,“ segir Ísabella. „Burlesqueið er bara svona partur af því að koma fram og hafa gaman, en aðallega er þetta nú áhugamál. Ég held varla að þetta sé framtíðarstarfsgrein hjá mér. Þetta er svo skemmtilegur hópur og við erum ekki að sýna í einhverjum gróðatilgangi heldur að safna okkur fyrir burlesque-ferð til New York til þess að skemmta okkur saman.“
Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn.
Auk hópsins koma fram þau Gógó Starr dragdrottning og Margrét Maack burlesque-drottning Íslands, og svo koma tveir erlendir listamenn við sögu, þær Gal Friday og Cheekie Lane. „Og svo kemur einn leynigestur frá Berlín,“ segir Ísabella leyndardómsfull en neitar að gefa nánari upplýsingar um gestinn. „Gógó er með boy burlesque, mjög flott,“ segir Ísabella. „Og Magga er svona mamman okkar, heldur utan um hópinn og leiðir okkur áfram.“
Sýningin á Hard Rock Café hefst klukkan 21 og miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.
Kvikmyndin Utoya 22. juli, sem byggir á frásögnum eftirlifenda voðaverkanna í Útey, verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Aðalleikkonan vonar að myndin verði til þess að atburðirnir gleymist aldrei.
Í ár eru sjö ár liðin frá voðaverkunum í Ósló og Útey þegar 77 manns féllu fyrir hendi fjöldamorðingjans og hægri öfgamannsins Anders Breivik, átta í sprengjuárás í stjórnarráðs-hverfinu í Ósló og 69 í skotárás í Útey, þar sem aðalskotmark Breiviks voru sumarbúðir ungra jafnaðarmanna. Í kvikmyndinni Utoya 22. juli eru þessir skelfilegu atburðir rifjaðir upp með augum unglingsstúlkunnar Kaju sem berst fyrir lífi sínu á eynni um leið og hún reynir að bjarga yngri systur sinni. Mannlíf spjallaði við Andreu Berntzen sem fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld.
Utoya 22. juli er fyrsta kvikmyndin sem þú leikur í, hvernig var að taka að sér svona krefjandi fyrsta verkefni? „Sko, þetta er svolítið flókin spurning, því þar sem þetta er einmitt fyrsta myndin sem ég leik í þá fannst mér það spennandi. En út af umfjöllunarefninu var þetta mjög erfitt líka og óhugnanlegt að átta sig á því að ég er núna á svipuðum aldri og krakkarnir voru sem urðu fyrir árásinni. Ég var auðvitað svo ung þegar atburðurnir áttu sér stað, bara 12 eða 13 ára.“
„Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk.“
Manstu vel eftir þeim? „Já, við fjölskyldan vorum að keyra heim úr sumarhúsinu okkar þegar greint var frá sprengjuárásinni í útvarpsfréttum. Ég lagði vel við hlustir þar sem ég kannaðist við staðinn þar sem sprengingin varð. Næsta dag kom í ljós að sami maður bar ábyrgð á morðunum í Útey. Ég var mjög hrædd lengi vel eftir þetta, til dæmis við að vera ein á ferli. Samt er skrítið að segja frá því að þótt ég væri nógu gömul til að átta mig á hvað hafði gerst var það eiginlega ekki fyrr en ég lék í myndinni sem ég virkilega skildi hvað þessir atburðir eru skelfilegir. Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk. Við erum enn í sárum.“
Var tvístígandi við að leika í myndinni
Kvikmyndin byggir á frásögnum eftirlifenda í Útey og Andrea viðurkennir að vegna umfjöllunarefnisins hafi hún verið tvístígandi gagnvart því að taka að sér hlutverkið. Meðal annars af ótta við hvernig unnið yrði úr því og hvaða áhrif það hefði á eftirlifendur og aðstandendur. „Þegar ég fór í áheyrnarprufur vissi ég reyndar ekki um hvað verkefnið snerist. Það var ekki fyrr en í þriðju prufunni sem ég fékk að vita það og þá varð ég smeyk; verulega efins um að ég vildi leika í mynd sem snerist um voðaverkin í Útey. En þegar leikstjórinn sendi mér skilaboð þar sem hann útskýrði að hún kæmi til með að einblína á fórnarlömbin en ekki ódæðismanninn þá snerist mér hugur. Mér fannst sú nálgun einhvern veginn vera rétt til að segja þessa sögu.“
Myndin var að mestu leyti tekin í einni töku og að sögn Andreu voru flestir leikararnir tiltölulega óreyndir. Við komum því aftur að spurningunni í byrjun, það er að segja hvort verkefnið hafi ekki reynt á? „Jú, við vorum heila tvo mánuði að æfa og þar sem ég er ekki menntuð leikkona gat ég til dæmis ekki beitt þeirri tækni sem lærður leikari býr yfir og hefði getað nýtt sér til að nálgast hlutverk Kaju. Þess í stað reyndi ég að setja mig í hennar spor og ímynda mér hvernig ég brygðist við ef alvöruárás yrði gerð. Sumt í tökunum var reyndar óhugnanlega raunverulegt, þótt það sé auðvitað ekkert í líkingu við það sem gerðist í alvörunni.“
Andrea segist einmitt vona að myndin eigi eftir að fá áhorfendur til að skilja betur hvaða helvíti raunverulegu fórnarlömbin upplifðu á Útey og sýni þeim í kjölfarið meiri skilning og samúð en hefur verið gert síðustu ár. „Það eru fórnarlömb sem eru enn að díla við áfallastreituröskun eftir þetta. Krakkar sem er verið að segja við að þau verði að fara að herða sig og lifa eðlilegu lífi, sem er ótrúlega grimmdarlegt að segja. Ég vona að myndin breyti því. Að hún opni augu fólks og verði komandi kynslóðum áminning um það sem gerðist, rétt eins og seinniheimstyrjaldarmyndir veita okkur innsýn í hroðalega hluti. Atburðirnir í Útey mega alls ekki gleymast.“
Starfsfólkið í versluninni Hjá Hrafnhildi leggur metnað sinn í því að veita viðskiptavinum sínum toppþjónustu og fjölbreytt úrval af vandaðri hágæða vöru á sanngjörnu verði. Við heimsóttum verslunina á dögunum og spjölluðum við Ásu Björk Antoníusdóttur, eiganda verslunarinna, um nýjar vörur í tilefni þess að haustið er mætt í fullum skrúða.
Hvaða vörur eru meðal þeirra vinsælustu þessa dagana hjá ykkur? „Dönsku vörurnar hafa verið sérlega vinsælar undanfarið ekki síst MOS MOSH, PBO og svo BITTE KAI RAND en verslunin Hjá Hrafnhildi hóf að bjóða upp á vörur frá Bitte Kai Rand fyrir tveimur árum við mjög góðar undirtektir og þær vekja mikla hrifningu viðskiptavina okkar.“
Getur þú sagt okkur hver er hönnuður þessa vörumerkis og tilurðina? „BITTE KAI RAND er danskur hönnuður og hefur fatnaður hennar sterka skírskotun í skandinavíska hönnun. Hún stofnaði fyrirtækið 1982 og eru vörur hennar nú seldar í yfir 400 verslunum víðsvegar um heiminn. BITTE KAI RAND byrjaði upphaflega sem prjónafyrirtæki og eru peysur hennar aðalsmerki, úr efnum á borð við merino- eða kasmírull og silki. Síðan þá hefur fyrirtækið þróast og nú samanstendur línan af öllu því helsta sem nútímakonan þarf.“
Hvers konar fatnaður er þetta helst? ,,Hér er frá undirkjólum til yfirhafna. Hönnunin er þekkt fyrir að vera afslöppuð og elegant. Sniðin eru einföld en oft með smátvisti og ávallt úr vönduðum efnum. Einnig má finna skemmtilega aukahluti; slæður, belti, hanska og hatta sem hjálpa til við að ná þessari skemmtilegu stemningu sem BITTE er þekkt fyrir. BITTE-konur, eins og við köllum þær, eru konur með stíl og sterkan karakter. Þeim líður vel í eigin skinni og eru óhræddar við að klæðast því sem hugurinn girnist. Þær vita hvað þær vilja og velja oft að kaupa sér færri en vandaðri flíkur sem eldast vel. BITTE KAI RAND er með sex fatalínur á ári sem samanstanda alltaf af vönduðum, tímalausum grunnflíkum og einhverju spennandi sem fangar augað. Það geta verið skemmtilegir litir, framúrstefnuleg snið eða áhugaverð og skemmtileg mynstur á flíkunum. Öll mynstur eru sköpuð innanhúss og því engar líkur á að finna sambærilegar flíkur frá öðrum framleiðendum.“
Haustlínan er að detta í hús hjá ykkur, getur þú sagt okkur aðeins frá henni? „Haustlínan frá BITTE KAI RAND er undir áhrifum frá jörðinni sjálfri og litadýrð náttúrunnar. Haustlínan er blanda af mjúkum og skörpum línum og blandast saman stífar skyrtur og stílhreinir jakkar, jafnvel í sterkum litum við létta og rómantíska kjóla og blússur úr silki og mjúkum litum. Það er gaman að segja frá því að ein af haustlínunum þeirra heitir Iceland og er Ísland notað sem innblástur í þeirri línu. Litaþemað er blanda af mjallahvítu, gráu og skærbláu sem eru einmitt litir sem íslenskar konur hafa jafnan hrifist af. Glitrið í peysunum tákna snjótoppana á annars nöktum fjallstindum.“
Verslunin Hjá Hrafnhildi var öll endurnýjuð fyrir rúmlega ári og stækkuð um helming. „Það er því sérstaklega gaman núna að stilla út nýja fatnaðinum því hann er algjört augnakonfekt,“ segir Ása Björk og er alsæl með útkomuna.“
Valþór Sverrisson sem meðal annars rekur verslunina 24iceland við Laugaveg 51 ætlar að bjóða upp á nýjung í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical, ferðir til Búdapest sem ekki hafa áður sést á markaðinum hér heima. Búdapest er afar sjarmerandi borg sem iðar af lífi auk þess sem menningarlífið er með fjörugasta móti. Hún hefur gjarnan verið nefnd matarkista Evrópu og stendur á himneskum stað. Einnig er borgin þekkt fyrir að vera mjög spennandi verslunarborg og verðið mjög hagstætt. En það er fleira sem borgin hefur upp á að bjóða. Viðfórum því á stúfana og hittum Valþór og spurðum hann spjörunum úr.
Segðu okkur aðeins frá ferðunum sem fram undan eru til Búdapest? „Í undirbúningi er að bjóða upp á hópferðir til tannlæknis í Búdapest. Um er að ræða vikuferðir þar sem gist verður á fjögurra stjörnu hóteli í hjarta borgarinnar. Þetta er gert í samvinnu við tannlæknastofu í Búdapest sem býður upp á fyrsta flokks þjónustu. Stofan hefur margra ára reynslu og þar er mikið fagfólk að störfum. Væntanlegir viðskiptavinir munu byrja á því að fara í skoðun og í framhaldi fær það áætlun frá tannlækni sem inniheldur tímaplan viðgerða og kostnað.“ Valþór vill endilega að viðskiptavinir nýti ferðina í menningarlegum tilgangi og fái tækifæri til að upplifa hvað borgin hefur upp á að bjóða. „Búdapest er stórkostleg borg og mikið að sjá og gera. Hún er stundum kölluð París austursins. Á milli þess sem fólk er í tannlæknastólnum, ætlum við að bjóða upp á skoðunarferðir, þar sem fólk getur kynnt sér hina magnþrungnu sögu borgarinnar. Við heimsækjum einhver af hinum heimsfrægu baðhúsum borgarinnar. Svo er auðvitað ungversk matar- og víngerð kapítuli út af fyrir sig. Þetta verður því nokkurs konar blanda af fallegu brosi og skemmtilegri upplifun. Þess má líka geta að í fyrstu tveimur ferðunum verður hinn rómaði jólamarkaður opinn og þá er tilvalið að klára jólagjafainnkaup ársins þar sem allt er töluvert ódýrara þar en heima.
Hvernig verður fyrirkomulagið og ferðatilhögun á ferðunum?„Innifalið er beint flug, gisting á fjögurra stjörnu hóteli og rúta á milli flugvallar og hótels. Auk þess verður Petra Dögg Þórðardóttir, fararstjóri hjá Tripical, til halds og trausts. Hún mun ásamt ungverskum tengilið sjá um skoðunarferðir og utanumhald. Fyrsta ferðin verður farinn 24. nóvember til 1. desember og önnur ferðin er fyrirhuguð 4. desember til 11. desember. Þá gefst fólki tækifæri á að lengja ferðina, ef áætlun frá tannlækni er til dæmis tíu dagar. Miðvikudaginn 12. september næstkomandi verður haldinn kynningarfundur í Tripical í Borgartúni klukkan 20. Þá munu starfsmenn Tripical fara yfir ferðina og ég mun segja frá minni upplifun af ferðinni minni þangað. Einnig er hægt að fara inn á Tripical.is og bóka ferð. Færri komast að en vilja.“
Gríðarleg uppbygging hefur verið í Dalskóla í Úlfarsárdal og umhverfi hans. Skólinn blómstrar þessa dagana og nemendur vaxa og dafna þar sem fjölbreyttir starfshættir eru hafðir að leiðarljósi. Við hittum á dögunum Hildi Jóhannesdóttur skólastjóra og fengum innsýn í skólastarfið og umhverfi hans í þessu einstaka umhverfi Úlfarársdals.
Segðu okkur örlítið frá skólastarfinu í Dalskóla. „Dalskóli leggur áherslu á að öllum líði þar vel, að börnin okkar fái að dafna, nema og blómstra. Skólinn er samrekinn leik-, grunn og frístundaskóli sem byggir á fjölbreyttum starfsháttum í hverri stoð hans. Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Lögð er áhersla á þemabundna smiðjuvinnu þar sem samþætting námsgreina og námssviða á sér stað innan árganga og á milli árganga í hluta starfsins. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði. List er kennd listarinnar vegna og aðferðum listgreina er beitt í smiðjustarfi samofið bóknámsgreinum. Skólinn ræktar lærdómsmenningu meðal starfsmanna og við erum að innleiða leiðsagnarnám í kennslustundum í grunnskólahluta skólans. Í leikskólahluta skólans er börnum gefið tækifæri til þess að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi og er leikurinn og uppgötvunarnámið það sem gengið er út frá. Í frístundahluta skólans er barnalýðræði gert hátt undir höfði ásamt samtakamætti og gleði.“
„Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði.“
Nú er mikil uppbygging í kringum skólann, getur þú aðeins sagt okkur frá uppbyggingunni sem fram undan er? „Það er mikið starf í gangi til þess að búa hverfinu góðan kjarna. Í þessum kjarna fyrir botni dalsins rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir. Aðstaða fyrir tónlistarnám verður góð og hátíðarsalur verður staðsettur miðja vegu í húsinu. Samtengt kjarnanum austan megin mun rísa íþróttahús en Fram er hverfisfélagið okkar og verður aðstaðan þar til mikillar fyrirmyndar. Nú þegar eru komnir góðir sparkvellir sem eru vel nýttir alla daga. Haustið 2010 tókum við í notkun fyrsta áfangann í þessari miklu uppbyggingu en það er mjög vel heppnað leikskólahúsnæði, þar starfa í dag 100 börn á aldrinum tveggja til fimm ára.“
Haustið 2016 var tekinn í notkun fyrsti áfangi nýja skólahúsnæðisins og á næstu dögum verður næsti áfangi þess húsnæðis afhentur. „Þennan veturinn munu nemendur í 4. bekk og upp úr starfa í Móanum okkar en nýja húsnæðið fékk það gælunafn á sínum tíma. Í Hlíðinni, sem er gælunafn fyrir lausu kennslustofurnar okkar, verða nemendur í 1.-3. bekk í vetur, auk list- og verkgreina. Næsta haust mun langþráður draumur rætast þegar skólahúsnæðið verður afhent og skólinn kemst undir eitt þak, undir eitt fallegt þak þar sem birta mun flæða niður í húsnæðið okkar og bláber vaxa á þökum.“
Hvað laðar fjölskyldufólk að Úlfarsárdal? „Þetta eru síðustu hlíðarnar innan borgarmarkanna sem snúa í suður, ef Esjuhlíðar eru frátaldar. Maður sér fyrir sér afskaplega hlýlegt og fallegt hverfi þegar gróðurinn nær að potast upp. Þessar hlíðar eru í útjaðri borgarinnar, stutt í náttúruna, stutt í góða þjónustukjarna. Á Höfðanum og hér í kring eru mjög mikilvæg þjónustufyrirtæki og fólk þarf ekki að fara niður í bæ nema til hátíðarbrigða. Það er líka jákvætt að það er mjög stutt að fara út úr bænum, en hér í dalnum okkar er margar útivistar-, sumarbústaða- og fjallgöngufjölskyldur. Það að taka þátt í að byggja upp nýtt hverfi er forréttindaverkefni fyrir alla sem í dalnum búa. Fólkið á hverfið og fólkið hér stendur mjög vel saman. Vinarþel ríkir á milli manna og ég held að leitun sé að jafngóðu stuðningsliði við skólastarf eins og hér. Við höfum verið án húsnæðis í mörg ár og hvernig foreldrar hafa með ráðum og dáð verið okkar bakhjarlar er ómetanlegt,“ segir Hildur og er full tilhlökkunar.
Eru samgönguleiðir góðar og öruggar? „Skólinn er í botni dalsins og má segja að allar ár renni til skólans. Úlfarsbrautin sem liggur hér samsíða skólanum er hugsanlega hættulegasta braut dalsins að því leyti að til hennar liggja allar götur og allir stígar. Yfir hana liggja gangbrautir og dalbúar fara hér ofur varlega en brautin er hægakstursbraut. Það er ljóst að umferð mun vaxa við hana í framtíðinni þegar allt er fullbyggt og Fram verður komið með sína íþróttaaðstöðu í gagnið. Auðvitað munum við, í samvinnu við borgina, halda áfram að gera þetta hverfi öruggt og tryggt hvað öll ferlimál snertir. Þannig er það hannað.“
Linsubaunir hafa ávallt verið ódýr matur og héldu lífi í bændum og fátækari stéttum fólks í Evrópu. Þær eru einstaklega næringargóðar, orkuríkar og góð uppspretta trefja, fólats og járns. Ólíkt þurrkuðum baunum þarf ekki að láta linsubaunirnar liggja í bleyti. Gott er samt að skola þær fyrst og róta í gegnum þær ef það skyldu leynast smásteinar í pokanum.
Græn linsubaunaídýfa
200 g rauðar linsubaunir
1 bakki kóríander, lauf og stilkar
20 g pístasíukjarnar
3 msk. ólífuolía
3 msk. límónusafi
salt og pipar eftir smekk
Sjóðið linsubaunirnar upp úr 1,5 lítra af vatni þar til þær hafa eldast í gegn og eru orðnar mjúkar, u.þ.b. 20-30 mín. Hellið vatninu frá og maukið í matvinnsluvél ásamt kóríander, pístasíuhnetum og kummin. Þegar allt er orðið að grófu mauki, hellið þá ólífuolíunni og límónusafanum í mjórri bunu saman við. Maukið í vélinni þar til allt er orðið kekkjalaust. Bragðbætið með salti og pipar, bætið við meiri límónusafa ef þarf.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
534 milljón króna aukning á framlögum til fjölmiðla fer öll til RÚV og ekki er gert ráð fyrir framlögum til að styrkja rekstur einkarekinna fjölmiðla.
Í nýbirtu fjármálafrumvarpi fyrir árið 2019 kemur fram að framlag ríkissjóðs til fjölmiðlunar muni hækka um 534 milljónir króna á milli ára, eða um 12,8 prósent. Breytinguna má rekja til 175 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og 360 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV „í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.“
Í frétt Kjarnans um málið kemur fram að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráð-herra, hafi unnið að tillögum um aðgerðir í fjölmiðlamálum sem í eigi að felast að styrkja rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla og að hún hafi síðastliðinn föstudag kynnt tillögurnar á ríkisstjórnarfundi. Þær hafa þó ekki verið gerðar opinberar og ekki er sjáanlegt að gert sé ráð fyrir sérstökum útgjöldum vegna þeirra í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun.
Umræðan um staðnaða kvenímynd í Hollywood-myndum er ekki ný.
Í kjölfar #metoo og #time’sup byltinganna hefur umræða um staðlaða kvenímynd í Hollywood-kvikmynd blossað upp og margar leikkonur hafa gagnrýnt stefnu kvikmyndafyrirtækjanna í handritaskrifum og tjáð sig um það takmarkaða val sem þær hafa þegar kemur að því að velja sér hlutverk. Umræðan byrjaði þó alls ekki með þessum byltingum, fastmótuð kvenhlutverk hafa lengi verið leikkonum og krítíkerum til ama og margoft hefur verið reynt að fá stóru kvikmyndaverin til að bjóða upp á aðra sýn á konur í myndum sínum. Með slökum árangri.
BBC Newsnight póstaði nýlega myndbandi frá 2016 þar sem Kim Newman, reynslubolti í kvikmyndakrítík í Bretlandi, valdi lista með fimm algengustu kvenmyndaklisjunum úr hryllingsmyndum í gegnum tíðinni og árangurinn er bæði hrollvekjandi og bráðfyndinn.
The role of women in Hollywood was being discussed long before the #metoo movement. In this Newsnight film from 2016, veteran film critic Kim Newman picks his top five clichés about women in horror films… Watch them here:
Posted by BBC Newsnight on Mánudagur, 10. september 2018
6-0 tap gegn Sviss minnkar ekki vonir íslensks fótboltaáhugafólks.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Belgum, bronsliðinu af HM í sumar, á Laugardalsvelli í kvöld í þjóðakeppni UEFA. Fyrsti leikur liðsins í keppninni, þegar þeir töpuðu 6-0 fyrir Sviss um helgina, gaf ekki ástæðu til bjartsýni um gengi liðsins í þjóðakepnninni. Sparkspekingar hafa keppst við að úthúða liðinu fyrir lélega frammistöðu og eru ekki vongóðir um góða niðurstöðu í leiknum í kvöld. En hvað finnst hinum almenna stuðningsmanni liðsins um frammistöðu þess og hvaða væntingar hefur fólk til leiksins í kvöld? Mannlíf sló á þráðinn til nokkurra eldheitra aðdáenda liðsins og forvitnaðist um hvaða væntingar það fólk hefði til frammistöðu þess í kvöld.
Álfrún Pálsdóttir, ritstjóri Glamour
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Þetta snýst allt um væntingastjórnun og eftir laugardaginn hef ég stillt þeim algerlega í hóf. En fyrir mér snýst fótbolti um að styðja í blíðu og stríðu þó 6-0 tap sé erfitt að kyngja. Ég hef trú á því að strákarnir gíri sig í gang.“
Heldurðu að þeir eigi möguleika á sigri?
„Það er alltaf möguleiki – eigum við ekki að segja það bara? Það getur vel verið að Belgarnir hafi horft á síðasta leik Íslands og talið sér trú um að þetta verði léttur leikur í kvöld – og strákarnir geta þá strítt þeim og sýnt úr hverju þeir eru gerðir. Er ekki ágætt að vona það bara?“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, það gerir það ekki. Auðvitað er skemmtilegra að halda með liði sem vinnur og það er meiri stemning. En ég persónulega þoli ekki stuðningsmenn sem sitja bara og tuða í stúkunni. Stuðningur er ekki stuðningur nema hann sé í blíðu og stríðu.“
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Ég lít svo á að við eigum sæmilega möguleika á að halda jöfnu. En þá þarf allt að ganga upp og það væri mikill sigur.“
Setti frammistaðan í Sviss ekkert strik í reikninginn í trú þinni á liðið?
„Fallið í Sviss var kannski óhjákvæmilegt og hlaut að koma, þótt það væri meira og hærra en maður reiknaði með. En hafa ber í huga að þetta er ein erfiðasta prófraun sem hægt er að hugsa sér, að mæta einu albesta landsliði heims strax eftir þetta feiknarlega tap.“
En þú hefur trú á að strákarnir rífi sig upp og nái jafntefli við bronsliðið af HM í sumar?
„Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnn og kalt mat segir mér að Belgarnir vinni öruggan sigur. En ég vonast auðvitað eftir betri frammistöðu en í Sviss og við megum ekki gleyma því að það er engin skömm að tapa fyrir Belgum, síður en svo.“
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Þetta verður erfitt, en Íslenska liðið er öflugt og hefur oft sýnt það að það getur vel keppt við öflugustu fótboltalið í heimi. Það kannski bara veltur mest á því hvernig liggur á þeim. Spurning um að trúa á sigurinn.“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
„Nei, fjandakornið, þetta er okkar lið og þarf einmitt mest á stuðningi og tiltrú að halda þegar illa gengur. Það er auðvelt að halda með liði þegar allt gengur eins og í draumi. Ef við stöndum ekki með þeim þegar illa gengur, getum við þá einu sinni sagt að við séum alvöru stuðningsfólk?“
Hvernig líst þér á möguleika íslenska liðsins í kvöld?
„Ég er, til að orða það pent, hæfilega bjartsýn. Belgar eru með svakalegt lið – ég spáði þeim sigri á HM í sumar. En svo er það nú oft þannig að íslenska liðið stendur sig best á móti sterkum andstæðingum. Og þeir ættu náttúrulega að koma snarvitlausir í þennan leik eftir síðustu úrslit.“
Heldurðu að þeir eigi möguleika á sigri?
„Já, það er alltaf möguleiki á sigri í fótboltaleik!“
En ef þeir tapa stórt aftur hefur það áhrif á stuðning þinn við liðið?
Sycamore Tree sendir frá sér lag til minningar um Loft Gunnarsson.
Loftur Gunnarsson svaf á götunni þegar ekki var pláss í Gistiskýlinu. Hann lést 32 ára gamall. Á afmælisdegi hans, 11. september, hefur hljómsveitin Sycamore Tree gefið út lagið The Street, sem fjallar um Loft Gunnarsson og síðustu andartök í lífi hans.
„Það á enginn að deyja á kaldri götunni. Aðstæður utangarðsfólks á Íslandi eru að mörgu leyti hörmulegar og brot á réttindum þeirra. Það fæðast allir jafnir og við sem samfélag eigum að aðstoða þá sem eru í neyð,“ segja meðlimir hljómsveitarinnar, þau Gunni Hilmarsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir. „Við sömdum og fluttum lagið The Street í minningu Lofts Gunnarssonar og helgum það baráttunni fyrir bættum aðbúnaði utangarðsfólks í Reykjavík.“
Loftur var mágur Gunna og lagið er gefið út til styrktar Minningarsjóði Lofts Gunnarssonar. „Það er auðvelt að líta framhjá þessum hópi samfélagsins, afskrifa hann og gleyma,“ segja þau Gunni og Ágústa Eva um ástæðu þess að þau sömdu lagið og gáfu það út. „Hann lætur aldrei í sér heyra, röltir þögull um bæinn og lætur lítið fyrir sér fara, biður ekki um neitt og á sér ekki málsvara sem öskrar hátt og getur þrýst á kerfið. Hann nýtur ekki virðingar og verður fyrir fordómum og skilningsleysi. Það er okkur mikil ánægja að veita Minningarsjóðnum og þessu mikilvæga málefni lið.“
Þórunn María leikmynda- og búningahöfundur lærði í Frakklandi og Belgíu á síðustu öld og hefur því starfað við iðn sína um langa hríð. Hún segist ekki tengjast fötum tilfinningalegum böndum en sterkar og sjálfstæðar konur veiti sér innblástur á hverjum degi.
Fyrr í sumar starfaði Þórunn María við Listhátíðarverkefnið R1918. Áður vann hún leikmynd og búninga fyrir sviðsverkið Ahhh … sem leikhópurinn RaTaTam sýndi í Tjarnarbíói ásamt búningahönnun fyrir sýningarnar Hafið og Föðurinn sem báðar voru settar upp í Þjóðleikhúsinu.
Þrátt fyrir að sinna ýmsum verkefnum og fá fjölbreytta útrás fyrir sköpunargáfuna lýsir Þórunn María sínum persónulega stíl sem einföldum en þó með örlitlu tvisti. „Ég er frekar praktísk og jarðtengd. Ég er ekki mikið fyrir mikla neyslu á textílvörum en ég hugsaði samt um daginn að nú þyrfti ég að fara að prjóna mér stóra og kósí ullarpeysu til að vefja mig inn í á íslenskum sumarkvöldum. Að mínu mati þurfa allar konur að eiga færri en vandaðri flíkur í fataskápnum sínum og vera óhræddar við að klæðast sömu flíkinni oftar en einu sinni. Sjálf tengist ég fötum ekki tilfinningalegum böndum og kaupi mest á nytjamörkuðum. Búðin í hverfinu mínu er Hertex sem dæmi. Búðin þar við hliðina er Space Concept, verslun Anitu Hirlekar og Magneu sem eru tveir íslenskir, frábærir fatahönnuðir. Nytjamarkaðir og hönnun finnst mér fín blanda.“
Aðspurð hvaða konur veiti sér innblástur svarar Þórunn María að þær séu þrjár. „Tilda Swinton, Rei Kawakubo og Björk en allt eru þetta sterkar og sjálfstæðar konur sem stefna ákveðið í sinni sköpun, hver á sínu sviði.“
MÓTSÖGNIN Þjóðkirkja Íslands hefur sætt harðri gagnrýni eftir að upp komst að prestur, sem viðurkenndi á fundi sem haldinn var hjá Biskupi Íslands fyrir þremur árum, að hafa brotið gegn konu þegar hún var á barnsaldri, hefur síðan þá tekið þátt í athöfnum kirkjunnar.
Umræddur prestur settist í helgan stein árið 2001 en predikaði t.d. í Breiðholtskirkju í maí á þessu ári. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem heit umræða skapast vegna kynferðisbrota presta Þjóðkirkjunnar og hefur málfutningur Biskups Íslands vegna þeirra oftar en ekki vakið athygli.
1 Þannig sagði biskup í viðtali við DV á dögunum: „Þetta verður þannig að við erum að glíma við siðferðislegar spurningar alla daga og gerum það alltaf frá þeim grunni sem við höfum, sem er kærleiksboðskapur Jesús Krists. Fyrir mína parta þá líð ég ekki neitt illt í kirkjunni og reyni að vinna með það ef það kemur upp, og tek það mjög nærri mér.“
2 Í sama viðtali spyr blaðamaður biskup hvort það sé ekki svolítið furðulegt að prestur, sem hefur viðurkennt brot gegn konu þegar hún var barn, skuli halda messu í Breiðholtskirkju og mæti í vígslu Skálholtsbiskups hjá biskupi. „Ég veit ekki hvort það sé neitt óeðlilegt við það í sjálfu sér,“ svarar hún þá.
3 Árið 2017 var annar prestur sendur í leyfi vegna meintrar áreitni. Biskup Íslands var ómyrk í máli vegna þessa í viðtali við Fréttablaðið þegar málið kom upp. „Ég sendi sr. Ólaf [Jóhannsson] í leyfi í sumar því ég líð ekki svona mál á minni vakt. Ég beitti þeim úrræðum sem lög og reglur segja til um, og eitt af því var að senda hann í leyfi. Ég veitti honum tiltal og sendi hann í meðferð hjá sálfræðingi.“
Athygli vekur hversu ólíka meðferð slík mál hafa fengið innan kirkjunnar. Þegar enn annar prestur, Helgi Hróbjartsson, viðurkenndi árið 2010 fyrir fagráði um kynferðisbrotamál innan kirkjunnar að hafa framið kynferðisbrot gegn þremur drengjum var hann útilokaður frá starfsemi kirkjunnur. Málsmeðferðin í máli prestins, sem er rætt um hér í upphafi, hefur hins vegar tekið mörg ár.
Faber gefur út textasafn frá 40 ára ferli tónlistarkonunnar.
How to be Invisible, eða Hvernig á að vera ósýnileg, er nafn bókar með úrvali af textum tónlistarkonunnar Kate Bush sem hið virta forlag Faber gefur út 6. desember næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem textar hennar verða gefnir út á bók og ekki hefur verið gefið upp hvaða textar munu birtast í bókinni en það er úr nógu að velja eftir 40 ára glæstan feril.
Rithöfundurinn David Mitchell, sem meðal annars er höfundur bókarinnar Cloud Atlas, mun rita inngang að bókinni, en hann hefur margsinnis látið hafa eftir sér að Kate Bush sé einn helsti áhrifavaldur hans í skriftunum. „Fyrir milljónir fólks um allan heim er Kate miklu meira en eitt söngvaskáldið enn; hún er skapari tónlistar sem fylgir þér alla ævi,“ sagði Mitchell árið 2014 þegar hann tók þátt í fyrstu tónleikum tónlistarkonunnar eftir 35 ára hlé frá tónleikahaldi.
Kate Bush sem varð sextug í júlí er af mörgum talin einn besti textasmiður poppsögunnar og árið 2002 hlaut hún Ivor Novello verðlaunin fyrir framúrskarandi framlag til tónlistar. Textar hennar þykja allt í senn bókmenntalegir, munúðarfullir um leið og þeir eru fullir af kvenorku og barnslegu sakleysi.
Faber hefur áður gefið út textasöfn ýmissa breskra tónlistarmanna, meðal annarra Jarvis Cocker og Van Morrison, en Kate verður fyrsta tónlistarkonan sem kemst í þann hóp
Keppendur frá fjórum heimsálfum í Hengill Ultra Trail.
Metþátttaka var í utanvegahlaupinu Hengill Ultra Trail sem haldið var í sjöunda skiptið í Hveragerði um helgina, en keppendur voru 372 talsins. Fyrir utan metfjölda þátttakenda þá voru keppendur frá 17 þjóðlöndum skráðir til leiks. Þeir komu frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja-Sjálandi, Danmörku, Kólumbíu, Póllandi, Frakklandi, Spáni, Sviss, Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð, Austurríki, Katalóníu, Tékklandi, Færeyjum og auðvitað Íslandi. Eins og sjá má þá komu þeir frá fjórum heimsálfum.
Hlaupnar voru tvær vegalengdir, 100 kílómetrar og 50 kílómetrar, og hófst keppnin klukkan 22 á föstudagskvöldið. Benoit Branger frá Frakklandi varð hlutskarpastur í 100 kílómetra hlaupinu en hann hljóp vegalengdina á 14 klukkutímum, 20 mínútum og 24 sekúndum sem er brautarmet. Það var Bretinn Matt O’Keefe sem var annar í mark og Birgir Már Vigfússon frá Íslandi varð í þriðja sæti.
Ingvar Hjartarsson átti besta tímann í 50 kílómetra hlaupinu, Daníel Reynisson varð í öðru sæti og Kanadamaðurinn Jason Wright í þriðja sæti.
Sumir sérfræðingar spá því að flugbílar komi til með að draga úr vandamálum eins og umferðarhnútum og mengun.
Stjórnvöld í Japan hafa fengið til liðs við sig 21 fyrirtæki, innlend fyrirtæki og eins stór, alþjóðleg fyrirtæki á borð við Boeing, Airbus til að þróa hugmyndir að flugbílum og hefur hópurinn gefið út að hann komi til með að leggja fram tillögur sínar nú í vikunni.
Talið er að flugbílar, auk sjálfkeyrandi bíla, eigi eftir að valda straumhvörfum í tækni, en sumir sérfræðingar eru á því að þeir muni draga úr óteljandi vandamálum, þar með talið umferðarhnútum og mengun. Undanfarin ár hafa ýmis einkarekin fyriræki sett fram hugmyndir að slíkum bílum, þar á meðal Rolls-Royce og Alphabet sem er með tvær gerðir flugbíla á teikniborðinu. Með aðkomu japanskra stjórnvalda eru yfirvöld hins vegar í fyrsta sinn að blanda sér með beinum hætti í málið, en talið er að afskipti þeirra geti flýtt töluvert fyrir framgangi flugbíla þar sem reglugerðir hafa hingað til verið ein helsta hindrunin fyrir því að þeir verði að veruleika.
Mynd / Uber vill prófa fljúgandi leigubíla í Japan.
Margt ber að hafa í huga þegar baðherbergi er innréttað, hvort sem verið er að gera upp gamalt baðherbergi eða innrétta í nýju húsnæði. Við viljum nýta rýmið sem best og um leið hafa það fallegt fyrir augað og gera að okkar. Við fórum á stúfana og fengum góð ráð hjá Berglindi Berndsen innanhússarkitekt en hún býr á Seltjarnarnesi og rekur sína eigin stofu á Fiskislóð 31 í Reykjavík.
Hvað hefur þú í huga þegar þú innréttar baðherbergi með nýtingu í huga?
„Rétt og gott skipulag á baðherbergi skiptir gríðarlega miklu máli upp á nýtingu rýmisins. Opnar sturtur eða svokallaðar ,,walk in“ sturtur geta látið minnstu baðherbergi líta stærri út en raun ber vitni. Innréttingar með góðu og miklu skúffuplássi búa einnig til mikla nýtingu og innfelldir speglaskápar geta látið rýmið virka stærra en það raunverulega er.“
Skiptir máli að hugsa um notagildið fyrst og fremst eða er það útlitið?
„Mikilvægt er að leggja áherslu á þægindi og notagildi svo rýmið njóti sín til hins ýtrasta en þetta helst allt í hendur. Það er ekkert gaman að hanna fallegt baðherbergi ef notagildið er ekki til staðar og öfugt.“
Hvernig hugsar þú efnisval fyrir baðherbergi?
„Ég leitast yfirleitt við að hafa samræmi í lita- og efnisvali við það sem fyrir er í húsinu svo fallegt flæði skapist á milli rýma og sérstaklega ef ég sé um heildarhönnun heimilis. Ég huga alltaf að því hanna tímalaus og einföld baðherbergi þar sem að mjúk og náttúrleg paletta er ráðandi til að skapa notalega og hlýlega stemningu.“
Ertu með ákveðinn gátlista sem vert væri fyrir fólk að fara yfir þegar það ákveður að endurnýja baðherbergi eða er að hanna/skipuleggja nýtt?
„Aðallega þarf að huga vel að þægindum og notagildi rýmisins. Stærð sturtu spilar þar stórt hlutverk, skápapláss og góð vinnu- og stemningslýsing. Hafa ber einnig í huga að þessar framkvæmdir taka mikinn tíma, yfirleitt mun meiri en áætlað er í upphafi og þetta er dýr framkvæmd. Það þarf því að undirbúa svona verk vel. Ég er á því að við arkitektar getum sparað fólki mikinn tíma og mikla fjármuni með betri hönnun og nýtingu.“
Berglind nefnir einnig að vinnu- og stemninglýsing skipti máli
„Góð vinnu- og stemningslýsing skiptir einnig gríðarlega miklu máli við hönnun baðherbergja til að skapa réttu stemninguna. Einnig skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við verkkaupa og alla þá sem að verkinu koma og að algjört traust ríki á milli allra aðila svo lokaniðurstaðan verði sem jákvæðust.“
Karitas Möller arkitekt og Kristinn Már Reynisson lögfræðingur fluttu á sérhæð við Lækinn í Hafnarfirði fyrir tæpum tveimur árum og hafa gert hana upp á einstaklega fallegan og sjarmerandi hátt.
Þegar Hús og híbýli kíkti í heimsókn var Karitas ein heima og búin að vera á haus að gera fínt. „Ég er búin að gera jólahreingerninguna í júlí,“ sagði hún og hló smitandi hlátri. Karitas segist hafa einstaklega mikla unun af því að dekra við sitt nærumhverfi og íbúðin ber þess merki því hver einasti fermetri er fallegur á heimilinu.
Upprunalega eldhúsið gullfallegt eftir yfirhalningu
,,Þetta eldhús er til að mynda upprunalegt og er um 70 ára gamalt en það kom aldrei til greina að taka það niður heldur bara að gera það eins fallegt og hægt væri. Við héldum innréttingunni en breyttum aðeins uppröðuninni á því; færðum til skápa og smíðuðum nýja skápa í sama stíl og innréttingin er í. Við settum svo marmaraplötu á eldhúsbekkina sem breytti miklu fyrir útlitið. Höldurnar eru líka upprunalegar en þær voru illa farnar og ég lét pólýhúða þær sem
bjargaði þeim, þetta lítur vel út og kostaði alls ekki mikið. Við settum svo hvítar veggflísar og völdum svört blöndunartæki á móti gamla stálvaskinum sem hefur staðið vaktina í öll þessi ár, mér finnst hann sjarmerandi,“ segir hún brosandi. Koparljós hanga yfir gamla vaskinum en þau keypti Karitas í Kaupmannahöfn þegar hún var þar í arkitektanámi.
Meiri samkeppni í Danmörku
„Ég bjó úti í örugglega 12 ár, lærði í Kaupmannahöfn og flutti svo til Svíþjóðar og síðar Árósa með kærastanum þar sem hann var í námi. Ég vann á arkitektastofum úti í Danmörku sem var mjög lærdómsríkt og krefjandi, en ég finn að það er á einhvern hátt þægilegra að vinna
hér heima, þar sem maður er meira á heimavelli. Það er líka töluvert meiri samkeppni í þessu umhverfi í Danmörku og erfiðara að komast að kannski vegna þess líka að Danir eru þekktir fyrir góða hönnun og margt hæfileikafólk kemur úr öllum áttum. En þetta var mjög lærdómsríkur og æðislegur tími.“
Karitas á mikið af fallegum hlutum og less is more á sannarlega ekki við um þetta persónulega og hlýja heimili í Hafnarfirði.
Meira af sérhæðinni við Lækinn í septemberblaði Húsa og híbýla sem er fáanlegt á sölustöðum til 20. september þegar nýtt blað kemur út.
Nissan hefur hafið framleiðslu og sölu á bifreiðum með breytingum frá Arctic Trucks í öllum löndum Evrópu. Þetta er fyrsta sinn sem bílaframleiðandi tekur inn í framleiðsluferli sitt breytingar frá íslensku fyrirtæki fyrir jafnstóran markað.
„Hingað til höfum við verið í samstarfi við erlenda bílaframleiðendur um breytingar á bifreiðum í einstaka löndum en þetta í fyrsta sinn sem bílaframleiðandi notar okkar merki og lausnir og selur í heilli heimsálfu. Það að jafn virtur aðili skuli vilja okkar merki á sína vöru til að auka sölugildi hennar og styrkja sína ímynd eru stór tíðindi og sýnir einfaldlega í hvaða stöðu við erum,“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks (sjá mynd að ofan), en einn risanna í bílaiðnaðinum, japanski bílaframleiðandinn Nissan, ætlar að hefja sölu á Nissan Navara með breytingum frá íslenska fyrirtækinu í öllum löndum Evrópu.
Að sögn Emils fela umræddar breytingar í sér öflugri, lengri og stífari fjöðrun, nýja brettakanta og nýjar felgur og stærri dekk, sem gera Nissan Navara meðal annars sportlegri útlits og bæta eiginleika bílsins til að keyra í torfæru og erfiða vegi. Þá verður hægt að velja um sérstaka aukahluti eins og læsingar, „snorkel“ og fleira, sem gerir Nissan Navara enn hæfari til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann segir að þessi útgáfa bílsins, sem kallast Off-Roader AT32 (Arctic Trucks 32 tommu dekk), verði í boði hjá söluumboðum Nissan um alla Evrópu, með sömu ábyrgðarskilmálum og þjónustu sem fylgja Nissan Navara almennt. En innan bæði Arctic Trucks og Nissan ríki mikil eftirvænting vegna verkefnisins. „Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og Nissan er það auðheyrilega líka,“ segir hann.
„… þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“
Spurður hvernig samstarfið hafi komið til segir Emil að þar hafi ýmislegt haft áhrif, svo sem góð samvinna við Nissan á Íslandi, merki Arctic Trucks og þekking og reynsla stjórnunarteymis Arctic Trucks í Bretlandi af umsjón viðamikilla verkefna. Það séu helstu ástæður þess að samningar hafi náðst.
En nákvæmlega hvaða þýðingu hefur samstarfið fyrir Arctic Trucks? „Þetta sýnir bara að stórir framleiðendur eru í auknum mæli farnir að leita til okkar eftir lausnum. Og ekki bara það heldur eru þeir að leitast eftir því að fá okkar merki á sína vöru þar sem Arctic Trucks hefur skapað sér trúverðugleika á alþjóðavísu,“ svarar hann. „Nissan í enn stærri heimsálfum, Asíu og í Mið-Austurlöndum, eru til dæmis í þessum töluðum orðum að skoða þann möguleika að taka til sölu þessa útgáfu af Nissan Navara sem við gerðum fyrir Nissan í Evrópu og fleiri framleiðendur hafa áhuga á samstarfi. Þannig að þessi samningur á eftir að opna enn fleiri dyr þegar fram líða stundir.“
Það er fátt notalegra um haustlegar helgar en að bjóða upp á gott íslenskt lambakjöt ásamt krydduðum kartöflum. Lambið má fylla og binda deginum áður og geyma í kæli. Látið kjötið ná stofuhita áður en því er stungið inn í ofn.
Fyllt lambalæri með hvítlauk, furuhnetum, ólífum og kryddjurtum fyrir 4-6
2 kg úrbeinað lambalæri
1 msk. salt
1 msk. pipar
7 hvítlauksgeirar, 3 afhýddir og 4 með hýðinu á
50 g furuhnetur
60 g svartar steinlausar ólífur
fínt rifinn börkur af 1 sítrónu
100 g rifinn parmesanostur
20 g steinselja, söxuð
20 g óreganólauf
1 dl ólífuolía
50 g panko eða brauðmylsna
2 rósmaríngreinar
Hitið ofninn í 220°C. Saltið lambalærið og krydið með pipar. Setjið 3 afhýdda hvítlauksgeira, furuhnetur, ólífur, sítrönubörk, parmesanost og kryddjurtir í matvinnsluvél og saxið. Hafið vélina í gangi og hellið 1 dl af ólífuolíu saman við þar til allt hefur blandast vel saman. Bragðbætið fyllinguna með salti og pipar ef þarf. Dreifið fyllingunni yfir lambalærið og rúllið því síðan upp. Bindið lærið saman með matargarni með 3 cm millibili þversum og svo einu sinni langsum. Setjið lærið í eldfast mót og setjið 4 hvítlauksgeira og rósmaríngreinar í botninn. Eldið í 30 mín. eða þar til kjötið fer að brúnast, lækkið þá ofnhitann niður í 160°C og eldið þar til kjarnhitinn mælist 60°C, u.þ.b. 30-40 mín. til viðbótar. Passið að stinga ofnhitamælinum ekki í fyllinguna. Takið kjötið úr ofninum, setjið á bretti og hyljið með álpappír. Látið standa í 15-20 mín. áður en kjötið er skorið niður í sneiðar. Búið til sósu úr soðinu í mótinu.
Sósa
2 msk. hveiti
1 dl marsala-vín eða rauðvín
500 ml lamba- eða kjúklingasoð
20 g smjör
Fleytið mestu fitunni ofan af safanum sem myndast hefur í eldfasta mótinu. Þrýstið hvítlauknum úr hýðinu og hendið hýðinu. Hitið eldfasta mótið yfir lágum hita (eining má flytja soðið úr mótinu yfir í pott en þá þarf að passa vel að skrapa botninn á mótinu til að ná öllu góðgætinu í pottinn). Notið písk og hrærið hveitið kröftulega saman við. Hellið víninu út í og náið upp suðu og eldið í 2-3 mínútur. Hellið lambasoðinu saman við og náið aftur upp suðu og skrapið botninn með flötu áhaldi. Lækkið hitann og látið malla í 10-15 mín. eða þar til sósan er orðin þykk. Bætið smjörinu saman við og hrærið í á meðan smjörið bráðnar. Smakkið soðið og athugið hvort bæta þurfi við salti eða pipar. Hellið sósunni í gegnum síu, hendið hratinu og berið fram með lambakjötinu.
Kartöflur með rósmaríni fyrir 4-6
Kartöflurnar má setja inn með kjötinu þegar hitinn er lækkaður niður í 160°C. Þegar kjötið er tekið út þá er ofnhitinn hækkaður í 190°C og kartöflurnar eldaðar þar til þær verða gylltar og stökkar.
2 kg litlar kartöflur, skrældar
3 msk. ólífuolía
2 msk. saxað ferskt rósmarín
2 tsk. salt
1 tsk. pipar
Hitið ofninn í 180°C. Sjóðið kartöflurnar í vatni í 10 mín., hellið þeim síðan í sigti og látið standa svo þær þorni í gufunni. Blandið saman ólífuolíu, rósmaríni, salti og pipar í eldföstu móti. Hristið kartöflurnar í sigtinu til að ýfa ytra yfirborð þeirra. Veltið þeim upp úr olíunni og kryddinu og eldið í miðjum ofni í u.þ.b. 1 klst. eða þar til þær eru orðnar gylltar og stökkar.
Myndir / Aldís Pálsdóttir
Stílisti / Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir
Helgi Björnsson, sjálfur Holy B, er orðinn sextugur og hefur verið í sviðsljósinu, bæði sem söngvari og leikari, í 45 ár. Hann segist hafa ákveðið það strax í æsku að verða annaðhvort poppstjarna eða atvinnumaður í fótbolta og valið hafi verið auðvelt eftir að hann sá hvað stelpurnar hrifust miklu meira af gítarleik hans og söng heldur en sprikli á fótboltavellinum.
Þegar ég hringi í Helga og falast eftir að fá að hitta hann á kaffihúsi og spjalla segist hann helst ekki vilja að viðtalið fari fram á kaffihúsi, þar verði hann fyrir of miklu áreiti. Er erfitt að vera frægur á Íslandi?
„Ég meinti nú ekki áreiti í neikvæðum skilningi,“ flýtir Helgi sér að útskýra. „En, jú, jú, það eru alltaf margir sem maður þarf að heilsa og spjalla aðeins við. Reykjavík er náttúrlega bara lítið þorp þar sem allir þekkjast og fólk vill vita hvað er að frétta af mömmu og hvað ég ætli að fara að gera og svo framvegis. Maður fær ekkert áreiti eins og maður sér hjá heimsfrægum stjörnum úti í heimi en það er forvitni og það er verið að fylgjast með manni. Ég er reyndar löngu hættur að pæla í því en þetta er samt alltaf þrýstingur. Þótt þú reynir að slökkva á þessu og taka ekki eftir því þá er það til staðar og það hefur áhrif á mann.“
Fermingardrengir miðað við bankamenn
Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.
„Ég man eftir því að þegar ég var sirka tíu ára gamall var ég alveg ákveðinn í því að annaðhvort ætlaði ég að verða atvinnumaður í fótbolta eða poppstjarna. Ég spilaði með yngri flokkunum á Ísafirði en þegar þeir fóru að hlaupa úti í snjónum alla daga en ég gat setið inni í æfingahúsnæði með gítarinn og stelpurnar hópuðust fyrir utan til að hlusta en litu ekki við þeim, var alveg ljóst hvað ég vildi frekar leggja fyrir mig.“
Var það sem sagt aðdáun stelpnanna sem leiddi þig út í tónlistarferilinn? „Að sjálfsögðu!“ segir Helgi og skellihlær. „Á þessum aldri, 13 til 16 ára, þá var það engin spurning, það var aðdáunin sem maður sóttist eftir.“
Talandi um það leiðist talið að því orðspori um sukklíferni sem fer af poppbransanum, hefur það tekið sinn toll í lífi Helga? „Nei, það held ég nú ekki,“ segir hann. „Það er glaumur og gleði oft og tíðum, en ég hef sem betur fer borið gæfu til þess að sigla fram hjá stærstu skerjunum og stranda ekki í þeim ólgusjó. Svo er þetta líka orðum aukið. Ég held til dæmis að það sé meiri glaumur og gleði hjá bankamönnum í dag heldur en nokkurn tímann hjá poppurum. Við erum algjörir fermingardrengir í samanburði við þá.“
Sér ekki eftir neinu
Spurður hvort poppstjörnulífið hafi verið eins skemmtilegt og hann ímyndaði sér sem unglingur þegir Helgi um stund og hugsar málið. „Að hafa fengið tækifæri til að fást við tónlist er náttúrlega algjör gjöf,“ segir hann svo. „Það er engin spurning. Tónlistin er frumafl og tengist auðvitað frumöskrinu og þessi tjáning í gegnum tóna, röddina og síðan hljóðfærin, gefur þér alltaf eitthvað. Ekkert skrýtið að tónlistin sé notuð bæði á sorglegustu og gleðilegustu stundum lífsins. Að hafa fengið tækifæri bæði til að tjá sig í tónlist og vera í kringum tónlistarmenn er bara alveg yndislegt. Þannig að ég þakka fyrir það.“
Og sérð ekki eftir neinu?„Nei, ég get ekki sagt það. Auðvitað vill maður alltaf gera eitthvað betur, en það felst þá meira í einhverjum smáatriðum og ég sé ekki eftir neinu í stóru dráttunum. Alls ekki.“
Hvað er eftirminnilegast, hverju ertu stoltastur af?„Ég bara veit það ekki,“ segir Helgi hugsi. „Ég reyni að horfa meira fram á við heldur en að gleyma mér í fyrri verkum. Ég er mjög stoltur af sólóplötunum mínum tveimur, þar sem ég flyt frumsamið efni. Það er nær manni og maður er kannski á einlægari nótum á þeim.“
Fór út fyrir þægindarammann
Tónlistarferill Helga er ansi víðfeðmur og spannar alls konar tónlistargreinar, var ekkert erfitt fyrir rokkgoðið og kyntáknið Helga Björns að skella sér í hvítan dinner-jakka og fara að syngja lög Hauks Morthens, til dæmis? „Nei, nei, alls ekki. Maður er náttúrlega líka leikari og getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Og þegar maður er farinn að þykkna aðeins um miðjuna færist aðeins meiri ró og æðruleysi yfir mann og maður er ekki eins hégómagjarn og þegar maður var ungur. Ég hafði sungið frumsamin lög í tíu, tuttugu ár þegar ég fór að gera „cover“ af lögum annarra og þá fannst mér ástæða til að leyfa söngvaranum að takast á við smááskoranir. Þar fór ég út fyrir minn þægindaramma og fór að gera alls konar hluti sem síðan reyndust bara rosalega skemmtilegir.“
Skiptir poppstjörnuhlutverkið þá ekki öllu máli þegar upp er staðið? „Sko,“ segir Helgi og dregur djúpt andann. „Ef maður er í þessu starfi á annað borð, vill maður auðvitað að fólk hlusti á mann og hafi áhuga á því sem maður er að gera. En ég gengst ekki upp í því að vera eitthvað ædol. Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni. Ég held að allir listamenn þekki það.“
„Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni.“
Áttu ekki að verða eldri en þrítugir
Hvort sem Helga líkar það betur eða verr þá er hann ædol í rokkbransanum, finnst honum ekkert erfitt að eldast í bransanum? „Ég veit ekki hvort ég er eitthvert ædol,“ segir Helgi, hálfpirraður á þessari spurningu. „Mér finnst enn gaman að koma fram og gera nýja rokktónlist en auðvitað er erfitt að eldast í þessum bransa. Það er engin spurning. Þessi listgrein verður upphaflega til hjá ungu fólki og á fyrstu árum rokksins átti helst enginn að verða eldri en þrítugur, helst ekki eldri en 27. Þá áttu menn bara að stimpla sig út. Þannig að það er ekkert endilega gert ráð fyrir að menn eldist í þessu. Hins vegar eru Stones og fleiri búnir að gefa okkur alls konar dæmi um það að þetta er alveg hægt. Það sem er skrýtið hér í okkar litla samfélagi er að fámennið gerir það að verkum að ef einhver hefur verið fyrir augunum á þér í þrjátíu ár ertu eiginlega búinn að fá alveg nóg af honum, sem er ósköp eðlilegt. Það er alltaf þessi krafa um að fá nýtt fólk inn, nýjar persónur og leikendur til að fylgjast með í fjölmiðlunum. Á móti kemur að þegar þú verður eldri öðlastu meiri virðingu fyrir lífsstarfið, eða þannig er það erlendis, en hér eru allir bara einhvern veginn búnir að fá nóg af þér; kemur hann einu sinni enn … Þetta er stundum svolítið pirrandi en maður skilur forsendurnar á bak við þetta og tekur það ekki nærri sér.“
Það eru greinilega ekki allir búnir að fá nóg af Helga Björns, eins og miðasala á tónleikana á laugardaginn sýnir best. Datt honum í hug þegar hann var 16 ára með poppstjörnudrauma að hann myndi fylla Laugardalshöllina á sextugsafmælinu? „Nei, maður var nú ekkert að spá í það,“ segir Helgi og glottir. „Ég var meira að hugsa um Wembley á þeim tíma. Þannig að ég hef kannski ekki alveg náð takmarkinu.“
Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Þar sýna þau einstaklingsatriði sem spanna allt frá erótík yfir í tragík, fjalla um stafsetningu, latínu, daður og líffræði og einnig verður tæpt á kynfræðslu og undrum mannslíkamans. Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn. Er þetta einhver bölvaður dónaskapur? „Stutta svarið er já,“ segir Ísabella Leifsdóttir, ein úr hópnum, og skellir upp úr. „Þetta er alveg klárlega fullorðinssýning. Aðallega er þetta samt bara ótrúlega hresst og skemmtilegt. Sumt er fyndið, annað rómantískt eða erótískt og jafnvel tragískt. Þetta spannar allan skalann.“
„Við hittumst fyrst á sex vikna burlesque-námskeiði hjá Margréti Maack,“ segir Ísabella. „Eftir það ákváðum við að stofna sýningagrúbbu og fórum að halda sýningar sem í vetur verða einu sinni í mánuði á mismunandi stöðum í borginni svo fólk verður bara að fylgja okkur á Facebook og Instagram ef það vill hafa dag- og staðsetningar á hreinu.“
Að þessu sinni verða eingöngu einstaklingsatriði á sýningunni og Ísabella segir atriðin mjög ólík, auk þess sem þær sem koma fram séu á öllum aldri og hafi mjög misjafna sviðsreynslu. Sumar séu reynsluboltar en aðrar hafi aldrei komið fram opinberlega áður. Sjálf er hún óperusöngkona að mennt, er hún að hugsa að skipta um listform?
„Ég lærði auðvitað leiklist í náminu sem óperusöngkona,“ segir Ísabella. „Burlesqueið er bara svona partur af því að koma fram og hafa gaman, en aðallega er þetta nú áhugamál. Ég held varla að þetta sé framtíðarstarfsgrein hjá mér. Þetta er svo skemmtilegur hópur og við erum ekki að sýna í einhverjum gróðatilgangi heldur að safna okkur fyrir burlesque-ferð til New York til þess að skemmta okkur saman.“
Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn.
Auk hópsins koma fram þau Gógó Starr dragdrottning og Margrét Maack burlesque-drottning Íslands, og svo koma tveir erlendir listamenn við sögu, þær Gal Friday og Cheekie Lane. „Og svo kemur einn leynigestur frá Berlín,“ segir Ísabella leyndardómsfull en neitar að gefa nánari upplýsingar um gestinn. „Gógó er með boy burlesque, mjög flott,“ segir Ísabella. „Og Magga er svona mamman okkar, heldur utan um hópinn og leiðir okkur áfram.“
Sýningin á Hard Rock Café hefst klukkan 21 og miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.
Kvikmyndin Utoya 22. juli, sem byggir á frásögnum eftirlifenda voðaverkanna í Útey, verður frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld. Aðalleikkonan vonar að myndin verði til þess að atburðirnir gleymist aldrei.
Í ár eru sjö ár liðin frá voðaverkunum í Ósló og Útey þegar 77 manns féllu fyrir hendi fjöldamorðingjans og hægri öfgamannsins Anders Breivik, átta í sprengjuárás í stjórnarráðs-hverfinu í Ósló og 69 í skotárás í Útey, þar sem aðalskotmark Breiviks voru sumarbúðir ungra jafnaðarmanna. Í kvikmyndinni Utoya 22. juli eru þessir skelfilegu atburðir rifjaðir upp með augum unglingsstúlkunnar Kaju sem berst fyrir lífi sínu á eynni um leið og hún reynir að bjarga yngri systur sinni. Mannlíf spjallaði við Andreu Berntzen sem fer með hlutverk Kaju í myndinni en hún verður viðstödd frumsýninguna í kvöld.
Utoya 22. juli er fyrsta kvikmyndin sem þú leikur í, hvernig var að taka að sér svona krefjandi fyrsta verkefni? „Sko, þetta er svolítið flókin spurning, því þar sem þetta er einmitt fyrsta myndin sem ég leik í þá fannst mér það spennandi. En út af umfjöllunarefninu var þetta mjög erfitt líka og óhugnanlegt að átta sig á því að ég er núna á svipuðum aldri og krakkarnir voru sem urðu fyrir árásinni. Ég var auðvitað svo ung þegar atburðurnir áttu sér stað, bara 12 eða 13 ára.“
„Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk.“
Manstu vel eftir þeim? „Já, við fjölskyldan vorum að keyra heim úr sumarhúsinu okkar þegar greint var frá sprengjuárásinni í útvarpsfréttum. Ég lagði vel við hlustir þar sem ég kannaðist við staðinn þar sem sprengingin varð. Næsta dag kom í ljós að sami maður bar ábyrgð á morðunum í Útey. Ég var mjög hrædd lengi vel eftir þetta, til dæmis við að vera ein á ferli. Samt er skrítið að segja frá því að þótt ég væri nógu gömul til að átta mig á hvað hafði gerst var það eiginlega ekki fyrr en ég lék í myndinni sem ég virkilega skildi hvað þessir atburðir eru skelfilegir. Ef atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar eru undanskildir hefur sjálfsagt ekkert haft jafnhræðileg áhrif á okkur Norðmenn sem þjóð og þessi voðaverk. Við erum enn í sárum.“
Var tvístígandi við að leika í myndinni
Kvikmyndin byggir á frásögnum eftirlifenda í Útey og Andrea viðurkennir að vegna umfjöllunarefnisins hafi hún verið tvístígandi gagnvart því að taka að sér hlutverkið. Meðal annars af ótta við hvernig unnið yrði úr því og hvaða áhrif það hefði á eftirlifendur og aðstandendur. „Þegar ég fór í áheyrnarprufur vissi ég reyndar ekki um hvað verkefnið snerist. Það var ekki fyrr en í þriðju prufunni sem ég fékk að vita það og þá varð ég smeyk; verulega efins um að ég vildi leika í mynd sem snerist um voðaverkin í Útey. En þegar leikstjórinn sendi mér skilaboð þar sem hann útskýrði að hún kæmi til með að einblína á fórnarlömbin en ekki ódæðismanninn þá snerist mér hugur. Mér fannst sú nálgun einhvern veginn vera rétt til að segja þessa sögu.“
Myndin var að mestu leyti tekin í einni töku og að sögn Andreu voru flestir leikararnir tiltölulega óreyndir. Við komum því aftur að spurningunni í byrjun, það er að segja hvort verkefnið hafi ekki reynt á? „Jú, við vorum heila tvo mánuði að æfa og þar sem ég er ekki menntuð leikkona gat ég til dæmis ekki beitt þeirri tækni sem lærður leikari býr yfir og hefði getað nýtt sér til að nálgast hlutverk Kaju. Þess í stað reyndi ég að setja mig í hennar spor og ímynda mér hvernig ég brygðist við ef alvöruárás yrði gerð. Sumt í tökunum var reyndar óhugnanlega raunverulegt, þótt það sé auðvitað ekkert í líkingu við það sem gerðist í alvörunni.“
Andrea segist einmitt vona að myndin eigi eftir að fá áhorfendur til að skilja betur hvaða helvíti raunverulegu fórnarlömbin upplifðu á Útey og sýni þeim í kjölfarið meiri skilning og samúð en hefur verið gert síðustu ár. „Það eru fórnarlömb sem eru enn að díla við áfallastreituröskun eftir þetta. Krakkar sem er verið að segja við að þau verði að fara að herða sig og lifa eðlilegu lífi, sem er ótrúlega grimmdarlegt að segja. Ég vona að myndin breyti því. Að hún opni augu fólks og verði komandi kynslóðum áminning um það sem gerðist, rétt eins og seinniheimstyrjaldarmyndir veita okkur innsýn í hroðalega hluti. Atburðirnir í Útey mega alls ekki gleymast.“
Starfsfólkið í versluninni Hjá Hrafnhildi leggur metnað sinn í því að veita viðskiptavinum sínum toppþjónustu og fjölbreytt úrval af vandaðri hágæða vöru á sanngjörnu verði. Við heimsóttum verslunina á dögunum og spjölluðum við Ásu Björk Antoníusdóttur, eiganda verslunarinna, um nýjar vörur í tilefni þess að haustið er mætt í fullum skrúða.
Hvaða vörur eru meðal þeirra vinsælustu þessa dagana hjá ykkur? „Dönsku vörurnar hafa verið sérlega vinsælar undanfarið ekki síst MOS MOSH, PBO og svo BITTE KAI RAND en verslunin Hjá Hrafnhildi hóf að bjóða upp á vörur frá Bitte Kai Rand fyrir tveimur árum við mjög góðar undirtektir og þær vekja mikla hrifningu viðskiptavina okkar.“
Getur þú sagt okkur hver er hönnuður þessa vörumerkis og tilurðina? „BITTE KAI RAND er danskur hönnuður og hefur fatnaður hennar sterka skírskotun í skandinavíska hönnun. Hún stofnaði fyrirtækið 1982 og eru vörur hennar nú seldar í yfir 400 verslunum víðsvegar um heiminn. BITTE KAI RAND byrjaði upphaflega sem prjónafyrirtæki og eru peysur hennar aðalsmerki, úr efnum á borð við merino- eða kasmírull og silki. Síðan þá hefur fyrirtækið þróast og nú samanstendur línan af öllu því helsta sem nútímakonan þarf.“
Hvers konar fatnaður er þetta helst? ,,Hér er frá undirkjólum til yfirhafna. Hönnunin er þekkt fyrir að vera afslöppuð og elegant. Sniðin eru einföld en oft með smátvisti og ávallt úr vönduðum efnum. Einnig má finna skemmtilega aukahluti; slæður, belti, hanska og hatta sem hjálpa til við að ná þessari skemmtilegu stemningu sem BITTE er þekkt fyrir. BITTE-konur, eins og við köllum þær, eru konur með stíl og sterkan karakter. Þeim líður vel í eigin skinni og eru óhræddar við að klæðast því sem hugurinn girnist. Þær vita hvað þær vilja og velja oft að kaupa sér færri en vandaðri flíkur sem eldast vel. BITTE KAI RAND er með sex fatalínur á ári sem samanstanda alltaf af vönduðum, tímalausum grunnflíkum og einhverju spennandi sem fangar augað. Það geta verið skemmtilegir litir, framúrstefnuleg snið eða áhugaverð og skemmtileg mynstur á flíkunum. Öll mynstur eru sköpuð innanhúss og því engar líkur á að finna sambærilegar flíkur frá öðrum framleiðendum.“
Haustlínan er að detta í hús hjá ykkur, getur þú sagt okkur aðeins frá henni? „Haustlínan frá BITTE KAI RAND er undir áhrifum frá jörðinni sjálfri og litadýrð náttúrunnar. Haustlínan er blanda af mjúkum og skörpum línum og blandast saman stífar skyrtur og stílhreinir jakkar, jafnvel í sterkum litum við létta og rómantíska kjóla og blússur úr silki og mjúkum litum. Það er gaman að segja frá því að ein af haustlínunum þeirra heitir Iceland og er Ísland notað sem innblástur í þeirri línu. Litaþemað er blanda af mjallahvítu, gráu og skærbláu sem eru einmitt litir sem íslenskar konur hafa jafnan hrifist af. Glitrið í peysunum tákna snjótoppana á annars nöktum fjallstindum.“
Verslunin Hjá Hrafnhildi var öll endurnýjuð fyrir rúmlega ári og stækkuð um helming. „Það er því sérstaklega gaman núna að stilla út nýja fatnaðinum því hann er algjört augnakonfekt,“ segir Ása Björk og er alsæl með útkomuna.“
Valþór Sverrisson sem meðal annars rekur verslunina 24iceland við Laugaveg 51 ætlar að bjóða upp á nýjung í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical, ferðir til Búdapest sem ekki hafa áður sést á markaðinum hér heima. Búdapest er afar sjarmerandi borg sem iðar af lífi auk þess sem menningarlífið er með fjörugasta móti. Hún hefur gjarnan verið nefnd matarkista Evrópu og stendur á himneskum stað. Einnig er borgin þekkt fyrir að vera mjög spennandi verslunarborg og verðið mjög hagstætt. En það er fleira sem borgin hefur upp á að bjóða. Viðfórum því á stúfana og hittum Valþór og spurðum hann spjörunum úr.
Segðu okkur aðeins frá ferðunum sem fram undan eru til Búdapest? „Í undirbúningi er að bjóða upp á hópferðir til tannlæknis í Búdapest. Um er að ræða vikuferðir þar sem gist verður á fjögurra stjörnu hóteli í hjarta borgarinnar. Þetta er gert í samvinnu við tannlæknastofu í Búdapest sem býður upp á fyrsta flokks þjónustu. Stofan hefur margra ára reynslu og þar er mikið fagfólk að störfum. Væntanlegir viðskiptavinir munu byrja á því að fara í skoðun og í framhaldi fær það áætlun frá tannlækni sem inniheldur tímaplan viðgerða og kostnað.“ Valþór vill endilega að viðskiptavinir nýti ferðina í menningarlegum tilgangi og fái tækifæri til að upplifa hvað borgin hefur upp á að bjóða. „Búdapest er stórkostleg borg og mikið að sjá og gera. Hún er stundum kölluð París austursins. Á milli þess sem fólk er í tannlæknastólnum, ætlum við að bjóða upp á skoðunarferðir, þar sem fólk getur kynnt sér hina magnþrungnu sögu borgarinnar. Við heimsækjum einhver af hinum heimsfrægu baðhúsum borgarinnar. Svo er auðvitað ungversk matar- og víngerð kapítuli út af fyrir sig. Þetta verður því nokkurs konar blanda af fallegu brosi og skemmtilegri upplifun. Þess má líka geta að í fyrstu tveimur ferðunum verður hinn rómaði jólamarkaður opinn og þá er tilvalið að klára jólagjafainnkaup ársins þar sem allt er töluvert ódýrara þar en heima.
Hvernig verður fyrirkomulagið og ferðatilhögun á ferðunum?„Innifalið er beint flug, gisting á fjögurra stjörnu hóteli og rúta á milli flugvallar og hótels. Auk þess verður Petra Dögg Þórðardóttir, fararstjóri hjá Tripical, til halds og trausts. Hún mun ásamt ungverskum tengilið sjá um skoðunarferðir og utanumhald. Fyrsta ferðin verður farinn 24. nóvember til 1. desember og önnur ferðin er fyrirhuguð 4. desember til 11. desember. Þá gefst fólki tækifæri á að lengja ferðina, ef áætlun frá tannlækni er til dæmis tíu dagar. Miðvikudaginn 12. september næstkomandi verður haldinn kynningarfundur í Tripical í Borgartúni klukkan 20. Þá munu starfsmenn Tripical fara yfir ferðina og ég mun segja frá minni upplifun af ferðinni minni þangað. Einnig er hægt að fara inn á Tripical.is og bóka ferð. Færri komast að en vilja.“
Gríðarleg uppbygging hefur verið í Dalskóla í Úlfarsárdal og umhverfi hans. Skólinn blómstrar þessa dagana og nemendur vaxa og dafna þar sem fjölbreyttir starfshættir eru hafðir að leiðarljósi. Við hittum á dögunum Hildi Jóhannesdóttur skólastjóra og fengum innsýn í skólastarfið og umhverfi hans í þessu einstaka umhverfi Úlfarársdals.
Segðu okkur örlítið frá skólastarfinu í Dalskóla. „Dalskóli leggur áherslu á að öllum líði þar vel, að börnin okkar fái að dafna, nema og blómstra. Skólinn er samrekinn leik-, grunn og frístundaskóli sem byggir á fjölbreyttum starfsháttum í hverri stoð hans. Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Lögð er áhersla á þemabundna smiðjuvinnu þar sem samþætting námsgreina og námssviða á sér stað innan árganga og á milli árganga í hluta starfsins. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði. List er kennd listarinnar vegna og aðferðum listgreina er beitt í smiðjustarfi samofið bóknámsgreinum. Skólinn ræktar lærdómsmenningu meðal starfsmanna og við erum að innleiða leiðsagnarnám í kennslustundum í grunnskólahluta skólans. Í leikskólahluta skólans er börnum gefið tækifæri til þess að byggja ofan á fyrri reynslu og þekkingu í námi og starfi og er leikurinn og uppgötvunarnámið það sem gengið er út frá. Í frístundahluta skólans er barnalýðræði gert hátt undir höfði ásamt samtakamætti og gleði.“
„Við eflum sjálfstæð vinnubrögð í nemendahópum með sveigjanlegum kennslu- og starfsháttum. Skólinn er menningarskóli sem gerir listgreinum hátt undir höfði.“
Nú er mikil uppbygging í kringum skólann, getur þú aðeins sagt okkur frá uppbyggingunni sem fram undan er? „Það er mikið starf í gangi til þess að búa hverfinu góðan kjarna. Í þessum kjarna fyrir botni dalsins rís skólahúsnæði sem hýsa mun nemendur á aldrinum fjögurra til sextán ára auk frístundaheimilis og frístundamiðstöðvar. Í kjarnanum verða almenningsbókasafn, sundlaugar og menningarsalir. Aðstaða fyrir tónlistarnám verður góð og hátíðarsalur verður staðsettur miðja vegu í húsinu. Samtengt kjarnanum austan megin mun rísa íþróttahús en Fram er hverfisfélagið okkar og verður aðstaðan þar til mikillar fyrirmyndar. Nú þegar eru komnir góðir sparkvellir sem eru vel nýttir alla daga. Haustið 2010 tókum við í notkun fyrsta áfangann í þessari miklu uppbyggingu en það er mjög vel heppnað leikskólahúsnæði, þar starfa í dag 100 börn á aldrinum tveggja til fimm ára.“
Haustið 2016 var tekinn í notkun fyrsti áfangi nýja skólahúsnæðisins og á næstu dögum verður næsti áfangi þess húsnæðis afhentur. „Þennan veturinn munu nemendur í 4. bekk og upp úr starfa í Móanum okkar en nýja húsnæðið fékk það gælunafn á sínum tíma. Í Hlíðinni, sem er gælunafn fyrir lausu kennslustofurnar okkar, verða nemendur í 1.-3. bekk í vetur, auk list- og verkgreina. Næsta haust mun langþráður draumur rætast þegar skólahúsnæðið verður afhent og skólinn kemst undir eitt þak, undir eitt fallegt þak þar sem birta mun flæða niður í húsnæðið okkar og bláber vaxa á þökum.“
Hvað laðar fjölskyldufólk að Úlfarsárdal? „Þetta eru síðustu hlíðarnar innan borgarmarkanna sem snúa í suður, ef Esjuhlíðar eru frátaldar. Maður sér fyrir sér afskaplega hlýlegt og fallegt hverfi þegar gróðurinn nær að potast upp. Þessar hlíðar eru í útjaðri borgarinnar, stutt í náttúruna, stutt í góða þjónustukjarna. Á Höfðanum og hér í kring eru mjög mikilvæg þjónustufyrirtæki og fólk þarf ekki að fara niður í bæ nema til hátíðarbrigða. Það er líka jákvætt að það er mjög stutt að fara út úr bænum, en hér í dalnum okkar er margar útivistar-, sumarbústaða- og fjallgöngufjölskyldur. Það að taka þátt í að byggja upp nýtt hverfi er forréttindaverkefni fyrir alla sem í dalnum búa. Fólkið á hverfið og fólkið hér stendur mjög vel saman. Vinarþel ríkir á milli manna og ég held að leitun sé að jafngóðu stuðningsliði við skólastarf eins og hér. Við höfum verið án húsnæðis í mörg ár og hvernig foreldrar hafa með ráðum og dáð verið okkar bakhjarlar er ómetanlegt,“ segir Hildur og er full tilhlökkunar.
Eru samgönguleiðir góðar og öruggar? „Skólinn er í botni dalsins og má segja að allar ár renni til skólans. Úlfarsbrautin sem liggur hér samsíða skólanum er hugsanlega hættulegasta braut dalsins að því leyti að til hennar liggja allar götur og allir stígar. Yfir hana liggja gangbrautir og dalbúar fara hér ofur varlega en brautin er hægakstursbraut. Það er ljóst að umferð mun vaxa við hana í framtíðinni þegar allt er fullbyggt og Fram verður komið með sína íþróttaaðstöðu í gagnið. Auðvitað munum við, í samvinnu við borgina, halda áfram að gera þetta hverfi öruggt og tryggt hvað öll ferlimál snertir. Þannig er það hannað.“