Leið blaðamanns og ljósmyndara lá á Álftanes einn fallegan föstudag og þar sem við vorum að bera ljósmyndagræjurnar úr bílskottinu stálu nokkur hross sem virtust vera í bakgarði hússins athygli okkar og einnig dásamlegt útsýni sem náði eins langt og augað eygði. Þetta lofaði góðu; nýmóðins hús í sveitaumhverfi. Við hringdum bjöllunni og Margrét Stefánsdóttir mætti léttfætt til dyra og bauð okkur í bæinn.
Þegar einar dyr lokast opnast aðrar
Margrét bauð okkur kaffi en hún er kunnuglegt andlit úr mörgum áttum, hún var til að -mynda fréttakona á Stöð 2 um árið, svo var hún upplýsingafulltrúi hjá Símanum og nú síðast markaðsstjóri hjá Bláa lóninu til loka árs 2016. Margrét segir okkur að nú sé nýtt tímabil runnið upp, síðustu misserin hafi hún verið að end-ur-meta hvað hún vilji gera.
,,Mér finnst hafa verið kærkomið að taka tíma í að sinna fjölskyldunni og áhugamálum og bara aðeins að anda og -hugsa mig um,“ segir Margrét. Svo virðist það alltaf vera þannig að þegar einar dyr lokast gal-opnast aðrar og Margrét er farin inn um þær því hún hefur nú stofnað fyrirtæki. MyName My-Story heitir það og gengur út á að gleðja fólk hvar sem er í heiminum með persónulegum verkum en undirstaða þeirra verka er nafn og mikilvægt skjal; fæðingarvottorð, -sónarmynd, giftingar-vottorð, samningur eða annað. Hugmyndin hjá -Marg-réti er að með þessum persónulegu verkum sem hún hannar sé þessum merkilegu pappírum, sem oft eru geymdir í lokuðum skúffum eða í kössum í geymslunni, haldið í heiðri. Hugmyndin er falleg og Margrét sækir sýnishorn; verk sem hún er búin að vera að vinna, það er sónarmynd með bókstöfum barnsins sem raðað grafískt á myndina með fínlegu letri. Hún sýnir okkur líka fæðingarvott-orð tveggja dætra sinna sem eru komin á glæra ramma í herbergjum þeirra.
Stríðinn bróðir upphafið
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig það kom til að Margrét fór út í þetta? ,,Sem krakki skrifaði ég oft nafnið mitt svona; með því að skrifa hvern staf ofan á næsta. Svo á ég bróður sem fannst ekkert leiðinlegt að stríða mér og ef ég var skotin í einhverjum strák skrifaði ég nafnið hans sakleysislega með þessum hætti því þá gat enginn lesið það. Mörgum árum seinna fór ég svo á nokkur myndlistarnámskeið og var þá að leika mér bæði með olíu- og akrýlliti og þessa hugmynd og það er eiginlega upphafið að þessu. Þá vann ég með mismunandi liti fyrir hvern bókstaf og útkoman var skemmtileg. Ég málaði á striga eða pappír og hver litur þurfti alltaf að þorna á milli en svo kom þessi hugmynd að nota hvítan, hreinan bakgrunn, svart letur og hafa verkin meira grafísk. Mig langaði líka að hafa þessa dýrmætu pappíra eins og fæðingarvottorð dætranna uppi við og fannst of hefðbundið að setja þau bara beint í ramma.“
Fluttu inn í draumahúsið í hruninu
Og þá að húsinu og þessu notalega heimili. Margrét segir að þau hjónin hafi keypt húsið árið 2008 og flutt inn þetta eftirminnilega haust þegar þjóðin varð fyrir efnahagshruni. ,,Við bjuggum áður í Kópavogi og okkur langaði í eign á einni hæð með útsýni, það var draum-urinn. Við vorum heillengi að skoða í kringum okkur og vorum ekki endilega á leiðinni á Álftanes en við eigum vini sem búa hérna og þau hvöttu okkur eindregið að flytja hingað sem varð úr og við sjáum ekki eftir því,“ svarar hún sæl í ,,sveitinni“ sinni. Hún segist samt ekki endilega vilja búa þarna þegar dæturnar verða farnar að heiman, hvenær svo sem það verður: ,,Þá flytjum við örugglega bara í miðbæinn,“ segir hún brosandi.
Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, oftast kenndur við Brim, er sá einstaklingur sem er með mest undir, þegar kemur að skuldum við íslensku ríkisbankana, Landsbankann og Íslandsbanka.
Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur hafi verið rússíbanareið hjá Guðmundi en hann stýrir nú stórveldi í íslenskum sjávarútvegi. Titringur hefur þó verið innanhúss hjá HB Granda síðan hann tók við stjórnartaumunum og deilur við meðhluthafa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum viðvarandi. Frekari vöxtur og hagræðing er í kortunum hjá HB Granda.
Viðskiptaveldi Guðmundar er eitt þeirra sem stóð höllum fæti eftir hrunið, svo ekki sé meira sagt. Skuldir voru langt umfram eignir.
Óhætt er að segja tiltektin á fjárhag þeirra félaga hafa dregið dilk á eftir sér, þar sem hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti 25. júní síðastliðinn að leggja fram rannsóknarbeiðni á næsta hluthafafundi Landsbankans, sem beinist að því hvernig á því stendur að Guðmundur og félög hans hafi fengið milljarða afskrifaða hjá bankanum – og fengið að kaupa útgerðarfélagið Brim á 205 milljónir króna út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu.
Á sama tíma hafa lánveitingar til hans aukist um tugi milljarða og umsvifin sömuleiðis. Guðmundur stendur nú eftir með fulla vasa fjár – og miklar skuldir – og við stýrið hjá HB Granda eftir að hafa keypt stóran hlut í félaginu fyrir háar upphæðir fyrr á þessu ári, en í tilkynningu til kauphallar hefur verið boðaður frekari vöxtur félagsins.
Rúmlega tvö hundruð íslenskar konur unnu hópmálssókn á hendur þýsku fyrirtæki í PIP-brjóstapúðamálinu í fyrra. Aðeins hluti skaðabóta hefur skilað sér. Lögmaður kvennanna segir allt að tvö ár í málalyktir.
Um 200 íslenskar konur sem höfðu betur í skaðabótamáli fyrir frönskum dómsstólum gegn þýska eftirlitsfyrirtækinu TÜV Rheinland í PIP-sílikonpúðamálinu svokallaða bíða enn eftir að fá megnið af þeim bótum sem þeim voru dæmdar í fyrra. Hluti bótanna var greiddur í fyrrahaust. Lögmaður TÜV Rheinland áfrýjaði málinu og er útlit fyrir að endanleg niðurstaða í málinu geti dregist í eitt til tvö ár til viðbótar við þau ár sem málið hefur tekið.
„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár. Ef endanleg niðurstaða kemur fyrr, er það auðvitað frábært en aðalatriðið er að hún verði íslenskum konum í hag,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.
Aðeins fengið brot af bótum
Talið er að um 300.000 konur í 65 lönd¬um um allan heim hafi fengið gallaða brjósta¬púða frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prosthése (PIP). Þar á meðal voru um 400 íslenskar konur sem fengu púðana á árunum 2000 til 2010. Sextán þúsund konur létu fjarlægja púðana eftir að upp komst að iðnaðarsílikon var notað við gerð þeirra og hafði þá þegar valdið hluta þeirra heilsutjóni.
Um mitt ár 2015 hófst aðalmeðferð í máli um 9.000 kvenna og 204 frá Íslandi gegn TÜV Rhein¬land en fyrirtækið veitti PIP vottun um að púðarnir stæðust evrópskar kröfur. Í dómi gegn fyrirtækinu kom fram að fyrirtækið hafi vanrækt skyldur sínar um eftirlit og árverkni. Þetta er stærsta dómsmál í franskri réttarsögu og er því hvergi nærri lokið.
Meðalbætur sem hver kona átti að fá nam um tveimur milljónum króna. Konurnar fengu einungis brot af dæmdum bótum í fyrra eða um 3.000 evrur, jafnvirði 386 þúsund íslenskra króna. Frá innborguninni voru dregnar 500 evrur í málskostnað og stærsti hluti íslenskra kvenna lét að auki draga 500 evrur í matskostnað. Fengu konurnar því til sín milli 2.000 og 2.500 evrur eða 250.000 – 313.000 krónur hver.
„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár.“
Biðin orsakast af umfangi málsins
Saga segir biðina skýrast af umfangi málsins en vekur athygli á því hversu frábrugðnir franskir dómstólar eru þeim íslensku. „Réttarkerfið í Frakklandi er mjög ólíkt því sem maður þekkir hér og maður verður að aðlaga sig að því. En það verður einnig að hafa hugfast að ferlið í þessu máli er án efa frábrugðið hefðbundinni málsmeðferð í Frakklandi vegna umfangs þess. Þetta getur reynt á þolinmæðina hjá íslenskum konum sem eru aðilar að málinu, eðlilega, og auðvitað hjá okkur lögmönnunum,“ segir hún og bætir við að málinu hafi verið frestað mjög oft hjá frönskum dómstólum. Lögfræðingar hafi ítrekað farið í dómshúsið til að vera viðstaddir dómsuppsögu en fengið þær upplýsingar að málinu hafi verið frestað. Alveg þar til dómur var á endanum kveðinn upp.
PIP-brjóstpúðamálið í hnotskurn
2010
Mars: Frönsk stofnun sem hefur eftirlit með lækningatækjum bannar markaðssetningu, dreifingu, útflutning og notkun á sílikonbrjóstapúðum sem franska fyrirtækið Poly Implant Prosthése framleiðir. Ástæðan eru ýmis frávik, svo sem leki úr púðunum.
Apríl: Tilkynnt að framleiðandi brjóstapúðanna hafi notað iðnaðarsílikon, annað en vottað hefur verið við framleiðsluferlið.
2011
Desember: Franska eftirlitsstofnunin segir grun leika á að PIP-púðarnir tengist auknum líkum á krabbameini. Það er dregið til baka nokkrum dögum síðar. Lyfjastofnun á Íslandi greinir frá því að hún fylgist með málinu. Frönsk heilbrigðisyfirvöld gefa út tilmæli um að konur með PIP-brjóstapúða láti fjarlægja þá í forvarnarskyni.
2012
Febrúar: Vísindanefnd Evrópuráðsins segir PIP-púðana innihalda iðnaðarsílikon og vísbendingar um að þeir rofni frekar en brjóstapúðar annarra framleiðenda. Velferðarráðuneyti og Embætti landlæknis mæla með því að öllum konum með PIP-brjóstapúða verði boðið að láta fjarlægja þá, hvort sem þeir væru rofnir eða heilir.
2013
Nóvember: Úrskurðað að TUV Rheinland hafi vanrækt skyldur sínar. Dreifingarfyrirtæki víða um heim fara í mál við TUV og krefjast milljarða í bætur.
Desember: Jean-Claude Mas, stofnandi og eigandi PIP-brjóstabúðaframleiðandans, dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir svik og til greiðslu sektar. Fjórir framkvæmdastjórar PIP eru líka fundnir sekir um svik og hljóta dóma.
2015
Júlí: Aðalmeðferð hefst í undirrétti í Frakklandi í máli um 9.000 kvenna gegn TÜV Rheinland.
2017
Janúar: Undirréttur dæmir konunum bætur.
September: Konurnar fá innborgun bóta upp á 3.000 evrur.
Reykjavík Meat er glænýr og áhugaverður staður á Frakkastíg 8 en þar er, eins og nafnið gefur til kynna, aðaláherslan á góðar og verulega safaríkar steikur.
Rekstraraðilarnir eru þeir sömu og eiga Mathús Garðabæjar en það er Víðir Erlingsson yfirkokkurinn sem heldur um taumana í eldhúsinu. Maturinn er eldaður og grillaður á kolum sem gefur matnum einstaklega gott bragð. Hráefnið er líka fyrsta flokks en megnið af kjötinu er frá Kjöt Company og úrvalið af nautakjöti er gott og svo er boðið upp á lamb.
Einnig er boðið upp á svokallað „sashi”-kjöt eða marmarakjöt sem er sérstaklega innflutt frá Danmörku og Reykjavík Meat er með einkaleyfi á. Þeir sem ekki eru fyrir kjöt geta andað léttar því hægt er að fá góða fisk- og grænmetisrétti sem líka eru eldaðir á kolum og gæla við bragðlaukana.
Um síðustu helgi bauð Reykjavík Meat í smökkunarpartí þar sem boðsgestum var boðið að koma og smakka gómsæta rétti á matseðlinum, lyfta glasi og hlusta á skemmtilega tónlist. Mannlíf var á staðnum og myndaði stemninguna og veislugesti. Við óskum Reykjavík Meat innilega til hamingju með þennan nýja og áhugaverða stað sem óhætt er að segja að sé kærkomin og skemmtileg viðbót við veitingahúsaflóruna á Íslandi.
Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar hafa búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið. Þótt Hjördís sé ánægð með þennan mikilvæga áfanga finnst henni erfitt að fagna, því eftir sitji að svo margir hafi brugðist börnunum hennar. Kerfið og regluverkið standi ekki með börnum og margir glími við svipuð mál og þau máttu þola.
Þegar Hjördís flúði með dætur sínar til Íslands, með leiguflugi í skjóli nætur, hafði danskur dómstóll dæmt að hún og danski maðurinn, sem hún var í forsjárdeilu við, hefðu sameiginlega forsjá yfir dætrunum og búsetu hjá honum. Hjördísi hafði gengið illa að fá umgengni við stúlkurnar þar sem maðurinn hindraði samskipti. Hjördís kærði og fékk að hitta dæturnar í kjölfarið. Fyrir lá að tekið yrði fyrir dönskum dómstólum mál þar sem maðurinn sótti um fullt forræði yfir dætrunum. Þrátt fyrir að hafa undir höndum áverkavottorð um meint ofbeldi gegn dætrunum og tilkynningu frá leikskóla í Danmörku til félagsmálayfirvalda og lögreglu um meint ofbeldi vissi Hjördís að hún ætti litla möguleika í málinu. Hún var þegar orðin sakamaður í augun danskra stjórnvalda þar sem hún hafði tvisvar áður farið með dæturnar án leyfis mannsins til Íslands. Í fyrra skiptið hlýddi hún úrskurði íslenskra dómstóla og fór sjálfviljug með dæturnar til Danmerkur eftir að maðurinn kærði brottnámið. Í seinna skiptið neitaði hún og dæturnar voru teknar af henni með valdi þann 29. júní 2012 þar sem meðal annars víkingasveitin var tilkvödd. Þá var búið að lofa að taka þær ekki ef maðurinn kæmi ekki á staðinn. Maðurinn mætti ekki en stúlkurnar voru samt teknar og vistaðar hjá vandalausum í tvo sólarhringa. Ári síðar viðurkenndi Innanríkisráðuneytið að börnin hefðu verið tekin með ólögmætum hætti.
Hjördís ákvað því að taka örlög dætra sinna í eigin hendur haustið 2013 og flúði með börnin frá Danmörku en flóttanum og málinu öllu voru gerð ítarleg skil í íslenskum fjölmiðlum. Hjördís keyrði í 20 klukkustundir áður en hún kom á stað í Skandinavíu þar sem hún fór huldu höfði í fimm vikur. Hún var ekki með síma, sendi ekki tölvupósta og notaði ekki samfélagmiðla. Með hjálp föður síns og fleiri sem söfnuðu fé til að sækja þær með leiguflugvél komust mæðgurnar til Íslands. Stuttu seinna var manninum dæmt fullt forræði yfir stúlkunum og þær því algerlega í dönsku kerfi auk þess sem hann var með vegabréf þeirra. Maðurinn kærði brottnámið og sótti um að stúlkurnar yrðu tafalaust fluttar aftur til Danmerkur í beinni aðfarargerð. Héraðsdómur dæmdi honum í vil og Hjördís áfrýjaði til Hæstaréttar. Hæstiréttur sneri dómnum hins vegar og börnin urðu því áfram á Íslandi, að því er virðist vegna formgalla á kæru mannsins. Þegar úrskurður Hæstaréttar féll var búið að handtaka Hjördísi og hún sat í dönsku fangelsi. Dæturnar voru í umsjá móður hennar og systkina á Íslandi.
„Þessi dómur Hæstaréttar var mikill léttir en yfir vofði að maðurinn færi í annað mál og krefðist þess að fá börnin afhent,“ segir Hjördís blátt áfram og vílar ekki fyrir sér að rifja málið upp. „Eftir að ég lauk afplánun lét ég lítið fyrir mér fara, naut hvers dags sem við vorum saman og við lifðum eins eðlilegu lífi og unnt var. Þar sem dæturnar voru með lögheimili í Danmörku voru þær ekki með sömu réttindi og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Þær voru ekki tryggðar og þurftu til dæmis að greiða fullt verð fyrir alla læknisþjónustu, þær fengu ekki frístundastyrk og ég fékk engar barnabætur, svo eitthvað sé nefnt. Elsta dóttir mín gat ekki farið með körfuboltaliðinu sínu til útlanda þar sem stúlkurnar voru ekki með vegabréf. Eins og í svo mörgu var verið að brjóta á rétti þeirra með því að leyfa þeim ekki að njóta sömu réttinda, en við gerðum allt til að láta hlutina ganga upp. Þetta voru smámunir í samanburði við það sem á undan hafði gengið og engin ástæða til að rugga bátnum með því að sækja rétt þeirra. Þannig að svona var þetta þangað til að ég fékk forræðið og búsetuna til mín í maí síðastliðnum.“
„Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki.“
Samþykkti að biðja aldrei um peninga
Í byrjun þessa árs voru tæplega fimm ár liðin og lögmaður Hjördísar, Kristín Ólafsdóttir, ráðlagði henni að prófa að sækja um forræði. „Ég fór hefðbundna leið og mætti hjá Sýslumanni í svokallaða sáttameðferð. Maðurinn mætti ekki og sýslumannsembættið gaf þá út sáttavottorð sem gefur mér leyfi til að leita til dómstóla. Lögmaður minn útbjó stefnu þar sem ég sóttist eftir forræðinu og ég þurfti að láta þýða stefnuna yfir á dönsku. Taka átti málið fyrir í byrjun maí en maðurinn svaraði stefnunni með samningi þess efnis að ég fengi forræðið og búseturéttinn og að ég gæti aldrei krafist peninga af hans hálfu ef dæturnar vanhagaði um eitthvað. Ég samþykkti þennan samning. Þetta var auðvitað mjög stór stund í lífi okkar, eitthvað sem við höfðum beðið lengi eftir en á sama tíma voru þetta ljúfsár tíðindi þar sem sömu mistökin eru gerð trekk í trekk og af sama fólki. Það hefur ekkert breyst í barnaverndarmálum, börn eru neydd í umgengni við ofbeldisfulla feður, Danir og fleiri lönd í Evrópu halda áfram að dæma mæður eins og mig í fangelsi fyrir að verja börn sín fyrir ofbeldi,“ segir Hjördís.
Hún gagnrýnir að konur sem búið hafi við ofbeldi neyðist til að sitja sáttafundi með ofbeldismanninum hjá sýslumanni án þess að mega hafa lögmann eða annan stuðningsaðila viðstaddan. „Það verður að hugsa til þess að konur sem yfirgefa ofbeldi eru oft að niðurlotum komnar andlega og líkamlega, hafa kannski búið við ofbeldi í mörg ár og hafa ekkert sjálfstraust. Ofbeldismenn eiga það til að viðhalda ofbeldinu árum saman þrátt fyrir að konan hafi yfirgefið þá en það geta þeir meðal annars gert í gegnum kerfið. Það krefst mikils styrks að yfirgefa ofbeldismann og ekki sjálfgefið að niðurbrotnar konur hreinlega geti það. Konur sem reyna að verja börn sín fyrir ofbeldi eru dæmdar til að greiða dagsektir. Þeim er alveg sama þótt þær verði gjaldþrota því þegar velferð barna þeirra er í fyrirrúmi skipta peningar engu máli. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki. Þá hefði ég ekki verið úthrópuð í fjölmiðlum og kommentakerfum. Þá hefði ég ekki þurft að heyra fólk segja að þar sem maðurinn er ekki dæmdur hljóti ég að vera að ljúga og þá hefði ég ekki verið kölluð hin alræmda tálmunarmóðir, orð sem einstaklingar nota til að gera lítið úr konum sem tjá sig um ofbeldi. Konur hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveða að fara, réttarkerfið er ekki fyrir þolendann heldur fær gerandinn allt of oft að njóta vafans. Ég veit um börn sem eiga eftir að leita réttar síns þegar þau hafa aldur til og ætla í mál við íslenska ríkið fyrir að neyða þau í samvistir með einhverjum sem beitti þau ofbeldi, þrátt fyrir að til væru gögn sem sönnuðu það.“
Fékk eitt símtal eins og í bíómyndunum
En hverfum aftur að atburðarásinni eftir flóttann 2013, athæfinu sem Hjördís var handtekin fyrir og fangelsuð. „Fljótlega eftir heimkomuna byrjuðu stelpurnar í skóla þar sem þeim var vel tekið af kennurum og nemendum, þær fóru að æfa körfubolta eins og stóri bróðir þeirra og fundu sig vel í þeirri íþrótt. Þó að við reyndum að lifa venjulegu lífi vorum við oft hræddar. Stelpurnar fylltust hræðslu þegar þær sáu lögreglubíl sem er ekki skrítið miðað við aðgerðirnar þegar þær voru teknar með valdi af einkennisklæddum lögregluþjónum. Einu sinni fékk ég símtal frá dóttur minni þar sem hún sagðist hafa séð konuna sem var svo reið þennan dag þegar þær voru teknar, hún var þá að tala um fulltrúa sýslumanns Kópavogs,“ segir Hjördís.
Fljótlega sendu dönsk yfirvöld norræna handtökuskipan á hendur Hjördísi og fóru fram á framsal. Að sögn Hjördísar var lögð mikil harka í að beiðninni yrði framfylgt. „Lögmaður minn varðist mjög vel og náði að fresta afhendingu minni í marga mánuði en ég var alltaf dæmd í farbann. Lögmaður minn sýndi fram á að hægt væri að neita afhendingu vegna mannúðarsjónarmiða en yrði ég send til Danmerkur væru börnin mín foreldralaus,“ segir Hjördís.
Meðan Hjördís var í farbanni þurfti hún að tilkynna sig á lögreglustöðinni alla virka daga og gerði það samviskusamlega. „Einu sinni þegar við fjölskyldan vorum að borða kvöldmat mundi ég að ég hafði gleymt að tilkynna mig. Ég brunaði á lögreglustöðina við Grensásveg en hurðin var læst svo ég bankaði. Sem betur fer sá mig einhver og hleypti mér inn. Ég lagði mig fram við að leyna áhyggjum mínum og kvíða fyrir börnunum. Þeim leið vel og dætur mínar blómstruðu í skóla og íþróttum. Við voru einstaklega heppin með kennarana þeirra sem vissu um málið og héldu sérstaklega vel utan um þær. Ég á líka einstaka fjölskyldu og vini sem gengu með mér í gegnum eld og brennistein sem og frábæra lögmenn þau Kristínu Ólafsdóttur og Hrein Loftsson frá Lögmönnum Höfðabakka og Thomas Michael Berg sem var lögmaður minn í Danmörku. Þessu fólki fæ ég seint fullþakkað. Einnig voru margir sem ég þekkti ekki neitt sem buðu fram hjálp sína, ómetanlegt.“
Í febrúar 2014 var hins vegar ákveðið að verða við óskum danskra yfirvalda og Hjördís var framseld til Danmerkur. „Eftir að barnaverndarstofa fór að skipta sér af málunum breytti ríkissaksóknari ákvörðun sinni á einni nóttu,“ fullyrðir Hjördís. „Haldinn var fundur með lögreglu og barnaverndarstofu, fundur sem lögmenn mínir fengu ekki að vita af. Íslensk yfirvöld hafa sjaldan framselt íslenska ríkisborgara, ég held að ég hafi verið númer þrjú,“ segir Hjördís.
Hún mætti á lögreglustöðina við Grensásveg og var ekið út á Keflavíkurflugvöll af alþjóðadeild lögreglunnar. Þar var hún vistuð í fangaklefa og danskir lögreglumenn fylgdu henni í flugið til Danmerkur. „Þegar við lentum á Kastrup var sagt við mig: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ eða „Hjördís Svan, þú ert handtekin.“ Við tók þriggja klukkustunda akstur til ríkisfangelsisins í Horsens en þar var ég sett í lítinn og ógeðslegan klefa með litlum bedda. Daginn eftir var ég leidd fyrir dómara sem dæmdi mig í farbann og ég ætti að tilkynna mig daglega á lögreglustöðina. Ég var svo heppinn að eiga góða frænku og mann hennar að í Horsens sem ég gat verið hjá. Daginn eftir vaknaði ég frekar kvíðin en ákvað að drífa mig að tilkynna mig á lögreglustöðinni. Afgreiðslumaðurinn svaraði mér ekki þegar ég tilkynnti mig heldur gekk á bak við og kom til baka ásamt tveimur lögreglumönnum sem sögðu aftur: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ en þá hafði ákvörðuninni um farbannið verið áfrýjað. Eins og í bíómyndunum mátti ég fá eitt símtal, ég hringdi í pabba til þess að biðja hann um að hafa samband við danska lögmanninn minn.
Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk. Ég fékk ekki að láta frænku mína og mann hennar vita að ég hefði verið handtekin og fékk ekki að fara heim til þeirra til að sækja fötin mín. Ég var í íslensku lopapeysunni minni og í rauðum gúmmístígvélum, man það vegna þess að meðfangar mínir sögðu mér seinna hvað þeim fannst skrítið þegar ég birtist í þessum klæðnaði, alls ekki með útlit hins hefðbundna fanga,“ rifjar Hjördís upp.
„Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis.“
Lærði að komast af í fangelsinu
„Mér var ekið í ríkisfangelsið í Horsens sem er hámarksöryggisfangelsi. Á leiðinni sendi ég skilaboð til barnanna minna og sagði þeim hve heitt ég elskaði þau og þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér en ég vildi að þau vissu að þau gætu ekki hringt í mig. Það var mér mikils virði að hafa náð að gera þetta áður en síminn var tekinn af mér. Lögreglubílnum var svo ekið inn í bygginguna og hurðinni lokað áður en ég var tekin út úr bílnum. Mér leið eins og ég væri í amerískri bíómynd; teknar voru ljósmyndir af mér frá öllum hliðum, tekin fingraför og allt sem ég var með tekið af mér. Þvínæst þurfti ég að afklæðast. Kvenkynsfangavörður fylgdi mér inn á gang með fimm klefum. Ég vissi seinna að hún var kölluð Angry Bird þar sem hún var alltaf frekar reið og með eldrautt litað hár. Ég þurfti að byrja á því að þrífa klefann þar sem hann var ekki mjög huggulegur. Áður en ég var læst inni heyrði ég hina fangana banka á hurðarnar því þeir heyðu að einhver nýr væri að koma. Þá fyrst áttaði ég mig á því að karlmenn væru líka í þessu fangelsi og seinna kom í ljós að ég var eini kvenmaðurinn. Það eina sem ég fékk var handklæði, lítill tannbursti og tannkrem. Ég fékk ekkert af dótinu mínu né föt fyrstu fjóra dagana því verið var að fara yfir allt, meðal annars með hjálp fíkniefnahunda,“ segir Hjördís.
Þau voru fimm sem bjuggu saman á gangi og voru með sameiginlega eldunaraðstöðu. Fangarnir þurftu að vera innandyra allan daginn fyrir utan eina klukkustund á morgnana og aðra á kvöldin en þá fengu þeir að fara út í garð og ganga í hringi. Hjördís mátti ekki hringja strax því það þurfti að fara vel yfir þá aðila sem hún mátti hringja í. „Ég mátti þó tala við lögmenn mína, bæði íslenska og danska, og það var virkilega gott að heyra frá þeim. Það tók mig nokkra daga að aðlagast, eða réttara sagt að læra að komast af. Það var annaðhvort að liggja öllum stundum inni í klefanum eins og ég gerði fyrstu dagana og hefði í raun geta valið að gera, eða að rífa mig á lappir og takast á við þessa undarlegu og hræðilegu lífsreynslu. Ég ákvað að líta á þetta sem verkefni sem ég þyrfti að leysa. Ég fór að vinna í verksmiðju í fangelsinu en fyrir það fékk ég laun og ég þurfti peninga til að borga fyrir mat. Ég byrjaði einnig í fótbolta, badminton og blaki og viðurkenni að það var sérstakt í byrjun að spila fótbolta við meðlimi glæpagengis. Harkan var ekkert minni þótt ég væri með og ég var stundum ansi marin eftir leikina. Ég skráði mig í skólann og lærði dönsku, stærðfræði og ensku. Ég var virt af samföngum mínum því þeim fannst gott hjá mér að bjarga dætrum mínum frá ofbeldi,“ segir Hjördís en hún er þeim eiginleikum gædd að geta samlagast allskonar fólki og það gerði hún þarna og eignaðist góða vini. „Auðvitað óttaðist ég samt suma en þarna voru alls konar menn með óhugnanlega fortíð en líka strákar sem lífið hafði farið hrjúfum höndum um. Bestu stundirnar voru þegar ég fékk fimm mínútur til þess að hringja í börnin mín, tvisvar í viku.“
Ákvað strax að áfrýja ekki
Hjördís var í gæsluvarðhaldi í ríkisfangelsinu í fimm mánuði og bjó með alls tuttugu og sex karlmönnum á tímabilinu en þarna var mikið rennerí af mönnum sem biðu dóma.
„Þarna beið ég eftir að sakamálið á hendur mér yrði tekið fyrir. Heima á Íslandi var líka í gangi afhendingarmál sem danski maðurinn sótti. Ég man ekki hve lengi ég hafði setið inni þegar ég fékk fréttir þess efnis að Héraðsdómur hefði dæmt honum í hag og að dómarinn hefði sagt að það ætti að hjálpa stelpunum að vera ekki hræddar við pabba sinn vegna þess að þær ættu að vera hjá honum. Heimurinn hrundi og ég gat ekkert gert. Eins og alltaf þegar ég fékk neikvæðar fréttir tók ég nokkra daga í að liggja og gráta en svo reis ég upp aftur með nýja von í brjósti, eins og alltaf. Á svipuðum tíma var réttað yfir mér í Kolding. Ég þurfti að mæta þrisvar vegna þess hve umfangsmikið málið var og mikið af gögnum og var í kjölfarið dæmd í 18 mánaða fangelsi. Danski lögmaðurinn minn vildi strax áfrýja, sagði þetta fáránlegan dóm miðað við gögn. En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Samfangar Hjördísar lásu margir bókina Leyndarmálið, The Secret, sem fjallar um að hægt sé að breyta mörgu með góðum hugsunum, með því að sjá óskirnar fyrir sér. „Ég tileinkaði mér þetta og byrjaði að skrifa niður á blað aftur og aftur „stelpurnar verða óhultar“ og „þetta fer allt vel“ og „ég get allt“. Ég sagði börnunum mínum að gera það sama. Ég reyndi að sjá fyrir mér lögmann minn hringja í mig og segja mér góðar fréttir sem var erfitt þar sem ég var vön að ímynda mér alltaf það versta. Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis. Ég var svo heppin að það var föstudagur en ég hringdi alltaf í börnin á föstudögum. Þau brotnuðu niður og við grétum í símann, léttirinn og gleðin voru mikil,“ segir Hjördís.
Fékk flutning í íslenskt fangelsi
Í júlí 2014 fékk Hjördís að vita að hún mætti ljúka afplánun sinni á Íslandi. „Á sama tíma og það var gott að kveðja fangelsið í Danmörku var líka erfitt að kveðja suma sem mér þótti orðið vænt um. Sérstök vinátta myndast þar sem einstaklingar þurfa að hjálpast að og treysta hver á annan. Þetta er pínulítið samfélag þar sem fara verður eftir reglum sem aðrir búa til og þú ræður engu. Ég gekk út með tárin í augunum, full af gleði og stolti. Núna var ég að fara heim að hitta börnin mín og fjölskyldu,“ segir hún brosandi.
Sömu lögreglumenn og fylgdu henni til Danmerkur fóru með henni heim líka. Hún var sótt út á flugvöll af íslenskum fangelsisyfirvöldum og færð í Kvennafangelsið í Kópavogi. „Það var skrítið að koma þangað, ég gat hringt þegar ég vildi. Mér fannst lífið í kvennafangelsinu ágætt en það svipar mikið til þáttaraðarinnar Fangar sem sýnd var á RÚV. Eftir tvær vikur í Kópavogi tóku við þrír mánuðir á Vernd. Þá þurfti ég að vera í vinnu eða taka að mér sjálfboðavinnu. Ég byrjaði hjá Samhjálp en fékk svo vinnu á skrifstofu sem gerði mikið fyrir mig – ég hitti dásamlega vinnufélaga og það að komast út á meðal fólks var mikils virði. Lögreglan keyrði daglega fram hjá vinnustaðnum til að athuga hvort ég væri ekki örugglega í vinnunni og ég veifaði þeim út um gluggann. Eftir komuna á Vernd hitti ég dætur mínar fyrst en þær máttu ekki heimsækja mig í fangelsið,“ segir Hjördís.
Á Vernd á fólk að mæta milli klukkan 18 og 19 í mat en að sögn Hjördísar er það gert til að fylgst með hvort einhver sé í rugli. Á virkum dögum þarf að koma í hús fyrir klukkan 23 og fyrir 21 um helgar. „Ég var ekki ein í herbergi sem voru auðvitað viðbrigði en ég var heppin með herbergisfélaga þannig að allt gekk vel. Mér fannst reyndar erfitt að vita af því seinna að þarna byggju menn sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum.
Ég var neydd á AA-fund þótt ég tæki skýrt fram að ég hefði aldrei átt við áfengis- eða vímuefnavanda að etja. Allir áttu að fara á þennan fund.
Eftir dvölina á Vernd var ég svo með ökklaband í viku. Þá þurfti ég að vera komin heim á vissum tíma á kvöldin og mátti að sjálfsögðu hvorki neyta áfengis né annara vímuefna, líkt og annarsstaðar í fangelsum. Í fangelsinu í Danmörku birtust fangaverðir reglulega og horfðu á mig pissa í glas til að fullvissa sig um að ég væri ekki að neyta eiturlyfja sem allt var morandi af. Í byrjun nóvember 2014 mátti ég klippa ökklabandið af mér og við fjölskyldan gerðum það við hátíðlega athöfn. Þá var ég búin að afplána níu mánuði eða helming dómsins.“
„En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Myndi gera þetta aftur
Mikið var fjallað um mál Hjördísar í fjölmiðlum, bæði hérlendis og í Danmörku, og almenningur kepptist við að hafa skoðanir á málinu. „Sumir töldu að ég hefði fengið hjálp frá yfirvöldum en mín upplifun var þvert á móti, flest vann gegn mér. Ég var í miklum mæli gagnrýnd á samfélagsmiðlum, í sumum fjölmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Ég hef lítið um það að segja, niðrandi ummæli dæma sig sjálf. Ég er stolt af fangavistinni, hikaði ekki við að brjóta lögin til að bjarga börnunum mínum úr ömurlegum aðstæðum. Ég myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti,“ segir Hjördís ákveðin. „Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið. Þegar ég ákvað að fara úr þessum aðstæðum var ég algjörlega niðurbrotin, þreytt andlega og líkamlega. Mér fannst ég ekki gera neitt rétt, efaðist um allt sem ég gerði. Ég hafði verið í því hlutverki í mörg ár að reyna að gera alla glaða í kringum mig, reyna að hafa allt gott. Á þeim tíma er ég ekki viss um að ég hefði lifað fangelsisvist af, en þar þurfti ég að trúa á sjálfa mig, ég þurfti að lifa af fyrir börnin mín. Ég fór svo oft út fyrir minn litla þægindaramma, eins og til dæmis með því að mæta á fótboltaæfingar með 20 karlföngum, lesa danskt ljóð fyrir framan þá í dönskutíma eða rífa kjaft við fangaverði vegna ósanngjarnar meðferðar á sumum föngunum. Ég var auðvitað mikið ein og þurfti gjörsamlega að breyta hugsunarhætti mínum, reyna að sjá það góða í öllu og vera þakklát. Ég held að það hafi líka létt fangelsisvistina að ég vissi alltaf að ég var að gera rétt, efaðist aldrei um það. Ég var örugglega eini fanginn þarna sem var stolt af glæpnum,“ segir Hjördís.
Framtíðin er björt hjá Hjördísi og fjölskyldu hennar. Dætur hennar hlakka til að komast aftur í körfuboltann en þær mæðgur verja öllum frítíma sínum í íþróttahúsum á veturna. „Svo höldum við áfram að rækta sál og líkama, njóta þess að vera saman. Ég held áfram að berjast með konum sem eru í svipaðri stöðu og ég var. Ég hætti ekki fyrr en kerfinu verður breytt og ýmsir aðilar stíga til hliðar. Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís að lokum.
Netflixmynd um fjöldamorðin í Útey frumsýnd í Feneyjum.
Kvikmynd Pauls Greengrass 22. júlí, sem fjallar um fjöldamorð Anders Behring Breivik í Útey, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum og hlaut afar jákvæðar móttökur. Íslenski búningahönnuðurinn Margrét Einarsdóttir var búningahönnuður myndarinnar og hún segir vinnuna við myndina hafa haft djúp áhrif á sig.
„Þetta er rosalega áhrifarík mynd og ég get ekki hætt að hugsa um hana,“ segir Margrét sem stödd er í Feneyjum til að vera viðstödd frumsýninguna á kvikmyndahátíðinni. „Myndin var unnin í nánu samstarfi við aðstandendur fórnarlamba fjöldamorðanna í Útey 22. júlí 2011 og það tók töluvert á að fara í gegnum þennan hrylling með þeim. En þótt þetta sé erfitt viðfangsefni og stutt síðan þetta gerðist þá er mikilvægt að fjalla um þetta og mér finnst þessi mynd gera það mjög vel.“
Paul Greengrass er einn virtasti leikstjóri samtímans og hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn, fyrir Green Zone árið 2010 og Captain Phillips árið 2013. Hvernig kom það til að Margrét fór að vinna með honum, hafði hún unnið með honum áður?
„Þetta var svolítið mikið. En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“
„Nei, ég hafði aldrei unnið með honum áður,“ segir hún. „En ég hafði unnið með einum framleiðanda myndarinnar og þannig kom það til að ég var beðin um að taka þetta að mér.“
Verkefnið var risavaxið þar sem níutíu leikarar fara með hlutverk í myndinni auk 3.500 statista og Margrét þurfti að hanna búninga á allan skarann. „Þetta var svolítið mikið,“ viðurkennir hún. „En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“
22. júlí er ekki eina kvikmyndin um hryllinginn í Útey sem verið er að sýna þessa dagana önnur mynd um sama efni, Útey, er nú í sýningum í Bíó Paradís. Margrét segir myndirnar nálgast atburðina á mjög ólíkan hátt en svo skemmtilega vill til að hún var líka beðin um að hanna búningana fyrir Útey en valdi 22. júlí frekar. Hún segir handritið hafa hrifið sig mikið og hin nána samvinna við fjölskyldur fórnarlambanna geri hana einstaka. Myndin byggir á bók Åsne Seierstad, Einn af okkur sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2016, og Greengrass skrifaði handritið í samstarfi við hana.
Myndin keppir í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum um Gullna ljónið og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Til að mynda gaf kvikmyndagagnrýnandi The Guardian henni 5 stjörnur í dómi sem birtist 5. september.
Íslenskt áhugafólk um förðun ætti að kannast vel við Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur og Söru Dögg Johansen, en þær hafa skipað sér í raðir okkar fremstu förðunarfræðinga. Ungar að árum stofnuðu þær fyrirtækið sitt Reykjavík Makeup School sem nýtur mikilla vinsælda, en á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun skólans hafa tæplega 600 nemendur útskrifast þaðan. Velgengni þeirra má þakka metnaði og óbilandi áhuga á því sem þær gera, en þær leggja mikla áherslu á að auka sífellt þekkingu sína og færni í faginu.
Leiðir vinkvennanna lágu upphaflega saman árið 2010 þegar þær kynntust í Airbrush & Makeupschool. Á þessum tíma var Sara nýútskrifuð úr listnámi en hún segir hönnun og list alltaf hafa heillað sig. „Ég tók grunn í arkitektúr áður en ég lærði förðun, en draumur minn frá því að ég man eftir mér var að verða arkitekt,“ segir hún, en eftir útskrift úr förðunarnáminu var ekki aftur snúið. „Upphaflega ætlaði ég aðeins að læra förðun fyrir sjálfa mig, en eftir námið bauðst mér starf í förðunarverslun og sem förðunarkennari, síðan þá hefur þessi heimur átt hug minn allan.“
Silla starfaði í Íslandsbanka og ætlaði sér, líkt og Sara, eingöngu að læra förðun fyrir sjálfa sig. Hún fann fljótt að þetta lægi vel fyrir sér, en hélt áfram að vinna í bankanum næstu tvö árin. „Einn daginn fékk ég svo símtal þar sem mér bauðst að gerast kennari við skólann þar sem ég lærði, og mér fannst það mjög spennandi. Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fór ég samt sem áður að hugsa, „af hverju geri ég þetta ekki bara sjálf, af hverju ekki að opna nýjan skóla?“ og þar með kviknaði hugmyndin. Ég ræddi þetta fram og til baka við manninn minn sem leist vel á hugmyndina og hvatti mig áfram, en mig vantaði viðskiptafélaga, einhvern sem var tilbúinn til að gera þetta með mér. Ég þekkti Söru ekki mikið á þessum tíma en fann einhvern veginn á mér að hún væri rétta manneskjan í þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég bað hana þess vegna að koma með mér í hádegismat á Hamborgarafabrikkunni einn daginn, og spurði hana hvernig henni litist á að stofna eitt stykki skóla með mér. Ótrúlegt en satt, hún var búin að vera hugsa nákvæmlega það sama, og allar hugmyndirnar sem hún hafði voru svipaðar því sem ég var með í huga. Ég þurfti því ekkert að hafa fyrir því að sannfæra hana, og við ákváðum þarna að bara kýla á þetta.“
Eftir að hugmyndin var komin í loftið var ekki aftur snúið og hlutirnir gerðust hratt. Aðeins mánuði eftir fundinn á Hamborgarafabrikkunni var komin kennitala fyrir fyrirtækið, nafn og leit hafin að rétta húsnæðinu. Hvorug þeirra var í vafa um að þetta væri rétt skref. „Auðvitað var þetta einhver áhætta, að stofna fyrirtæki og henda okkur í djúpu laugina, sérstaklega þar sem við þekktumst varla. En við vorum bara svo vissar frá upphafi að þetta myndi ganga,“ segir Sara, og Silla tekur undir. „Það er líka kannski það sem hefur komið sér svona vel, að vera ekkert að ofhugsa hlutina. Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis. Ég er alveg viss um að ef við hefðum fengið þessa hugmynd og ætlað að hugsa um þetta í einhvern tíma, mánuði eða ár, hefði bara einhver annar verið á undan.“
Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis
Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Sillu og Söru. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.
Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt. Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“
Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“
Elsti þátttakandinn 74 ára
Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“
Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“
Tónlist ávallt skipað stóran sess
Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“
Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt, má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“
Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.
Haustið er komið. Það þýðir ekkert að horfa framhjá því. Jafnvel þótt við fáum ennþá einn og einn sólardag eru kvöldin orðin dimm og köld og þá jafnast fátt á við að hreiðra um sig í sófanum og láta sig dreyma um endalaust sumar með aðstoð góðra kvikmynda.
Bandaríska tímaritið Vogue tók saman lista yfir kvikmyndir sem hrífa áhorfandann með sér í sólríka sumarstemningu á fjarlægum slóðum og við getum ekki annað en verið sammála þeim um valið. Þetta eru svo sannarlega sumarmyndir sem standa undir nafni og ekki spillir fyrir að ljúfsár nostalgía fylgir áhorfi á þær flestar. Verði ykkur að góðu.
Hin rómaða kvikmynd Luca Guadagnino frá 2017 bauð upp á dásamlegt sýnishorn af tísku fyrri hluta níunda áratugarins, seiðandi sviðsmynd og óviðjafnleg hughrif frá ítölsku sumri. Gerist ekki mikið betra.
Ah, Sandy og Danny. Hefur eitthvert par hrifið okkur jafn mikið? Sögur af sumarást í upphafi skólaárs á líka vel við á þessum árstíma og ekki spillir dásamleg tónlistin fyrir. Leyfið ykkur bara að verða unglingar aftur. Það kemst enginn að því.
Fáar borgir jafnast á við Róm og hún hefur sjaldan notið sín betur í kvikmynd en í þessari fyrstu stórmynd sem Audrey Hepburn lék í. Söguþráðurinn er kannski óttalegt bull en sjarmi Rómar, Audrey og Gregory Peck fær mann fljótt til að gleyma því. Sakbitin sæla eins og þær gerast bestar.
Er þetta ekki ein vinsælasta myndin til að horfa á í náttfatapartíum ungpía á öllum aldri? Allavega fátt sem toppar þessa mynd í að koma manni í dansstuð. Og hver segir að það sé bannað að dansa einn heima í stofu? Látið það bara eftir ykkur. Við skulum engum segja.
Jude Law án pjötlu á kroppnum, meðan hann var enn fagur eins og guð, ítalskt landslag eins og það gerist best, óhugnanlegur undirtónn, góð saga og snilldarleikur Matt Damon og Pilips Seymour Hoffman. Það er nú varla hægt að biðja um meira í einni og sömu myndinni. Eini gallinn er að maður verður svo heillaður af ítalska sumrinu að mann langar helst aldrei að koma til Íslands aftur. En það eru til verri hlutir en það. Hjálpar allavega til við að gleyma myrkrinu og rigningunni um stund. Við eigum það skilið.
Flugfélagið Wow air lætur ekki deigan síga og tilkynnti í vikunni nýjan áfangastað í vetur. Áætlunarlug til Orlando hefst í desember og verður flogið þangað þrisvar í viku í allan vetur til 30. apríl.
Lent verður á flugvellinum Orlando International og tekur flugið rúmar átta klukkustundir. Lægsta verð á flugfari á þessari leið er tæpar 20.000 krónur aðra leið.
Í fréttatilkynningu frá Wow air er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow air að Orlando sé skemmtilegur staður sem lengi hafi notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum. „Með því að bjóða upp á flug á hagstæðum kjörum gerum við fleirum kleift að ferðast og njóta lífsins í sólinni,“ segir Skúli.
Sala á flugferðum til Orlando hófst í gær á heimasíðu Wow air.
Flugvallarstarfsmenn á Heathrow sýna ótrúleg tilþrif.
Söngvarinn dáði Freddie Mercury hefði orðið 72 ára í gær ef hann hefði lifað. Af því tilefni tóku starfsmenn í farangurshleðslu á Heathrow flugvelli sig saman og æfðu dans við eitt af þekktustu lögum söngvarans I want to break free. Afraksturinn má sjá í meðfylgjandi myndbandi og það verður að segjast að starfsmennirnir leggja líf og sál í performansinn, farþegum á flugvellinum til ómældrar gleði.
Ástæðan fyrir þessu uppátæki starfsmannanna er sú að áður en frægðin barði á dyr hjá Freddy í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar vann hann um tíma við að hlaða farangri í flugvélar á Heathrow. Starfsmennirnir vildu minnast þess tímabils í lífi hans og lögðu hart að sér við að undirbúa uppákomuna, fengu meðal annars dansara úr bresku sjónvarpsþáttunum Strictly come dancing til að kenna sér sporin.
Starfsmennirnir í farangurshleðslunni eru ekki þeir einu sem heiðra minningu söngavans á Heathrow því þar hljóma eingöngu lög með Queen úr hátalarakerfinu auk þess sem flugfélagið British Airways býður öllum sem heita Freddie, Frederick eða Farrokh, sem var raunverulegt nafn söngvarans, að dvelja í biðsal fyrsta farrýmisfarþega án endurgjalds. Auk þess er á flugvellinum seldur ýmis varningur sem tengist Mercury.
Og fyrir þá sem aldrei fá nóg af Freddie Mercury má nefna að kvikmyndin Bohemian Rhapsody, sem byggir á ævi hans verður frumsýnd í kvikmyndahúsum þann 24. október. Við getum ekki beðið en það má stytta sér biðina með því að horfa á þetta bráðskemmtilega myndband og dást að tilþrifum núverandi starfsmanna Heathrow.
Nicki Minjaj skóf ekkert af yfirlýsingunum í spjallþætti Ellenar, einu karlmenn sem hún lítur við eru þeir sem geta stundað kynlíf þrisvar á nóttu.
Rapparinn Nicki Minjaj var gestur Ellener í fyrsta þætti haustsins sem sýndur var 4. september, og hélt ekki aftur af sér í lýsingum á því hvernig kynlíf hún vildi. „Ef maður hittir einhvern einu sinni eða tvisvar í viku, þá er það þrisvar á nóttu,“ lýsti hún yfir. „Og ef þú getur það ekki, bless. Ég sóa ekki tíma mínum.“
Kröfur dívunnar eru fleiri þegar kemur að kynlífinu. „Það má ekki líða meira en hálftími á milli skipta,“ sagði hún Ellen. „Ég þoli ekki knús eftir samfarir. Þegar ég er búin að fá mitt, ef mér líður virkilega, virkilega vel, láttu mig þá í friði. Farðu. Farðu og eldaðu eitthvað handa mér eða smyrðu samloku eða eitthvað.“
Spurð hvort hún vildi ekki hafa aðdraganda að kynlífinu var Minaj snögg að svara: „Mér finnst mjög gott að kyssa, en það er bara svona la la, drífðu þig í þetta,“ útskýrði hún. „Sýndu forleikstaktana þína, gerðu það sem þú þarft að gera og flýttu þér. Ég hef ekki tíma fyrir það allt saman.“
Hið sögufræga hótel Café Royal í London mun opna nýjan bar til heiðurs David Bowie seinna í þessum mánuði. Barinn ber hið viðeigandi nafn Ziggy’s í höfuðið á einu frægasta alteregói Bowies, Ziggy Stardust.
Það var árið 1973 sem David Bowie hélt síðustu tónleika sína sem Ziggy Stardust og staðurinn sem hann valdi til þess var einmitt Hotel Café Royal. Nú ætlar hótelið að opna bar í minningu rokkstjörnurnar og þar verða framreiddir drykkir sem bera nöfn úr textum Bowies á plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars sem kom út árið 1972. Á kokteilaseðlinum verður meðal annars að finna kokteilana Myrkur og Smán en þau heiti eru sótt í texta lagsins Lady Stardust af fyrrnefndri plötu.
Lokatónleikar Ziggy Stardust eru goðsögn í rokksögunni og ekki minni stjörnur en Lou Reed og Mick Jagger tóku þátt í þeim. Tónleikarnir báru hið háleita nafn Síðasta kvöldmáltíðin, enda Bowie ekki þekktur fyrir lítilæti á þeim árum.
Barinn verður skreyttur með sjaldséðum myndum Micks Rock af goðinu, en hann var hirðljósmyndari Bowies árið 1973. Þar verður einnig að finna djúkbox með tónlist rokkstjörnurnar.
Stefnt er að formlegri opnun barsins þann 20. september og geta aðdáendur rokkgoðsins frá og með þeim tíma heiðrað minningu hans með því að súpa á Smán, skoða myndir og hlusta á tónlist hans. Leggið staðinn á minnið fyrir næstu ferð til London.
Hér fá bláberin að njóta sín í bland við kardimommur og hnausþykka gríska jógúrt. Kardimommubragðið kemur virkilega á óvart og á vel við berin. Þessi eftirréttur getur líka verið sparilegur morgunmatur.
Bláberjasæla með grískri jógúrt og múslí
fyrir 4
300 g bláber
2 msk. hrásykur
1 msk. sítrónusafi
3 heilar kardimommur, steyttar, fræ notuð
1 tsk. sítrónubörkur
400 g grísk jógúrt
2 dl múslíblanda að eigin vali
Setjið bláber og hrásykur í pott ásamt sítrónusafa og fræjunum úr kardimommunum. Sjóðið við vægan hita í nokkrar mínútur. Látið berjablönduna kólna alveg. Blandið sítrónuberki saman við grísku jógúrtina. Setjið síðan berjablöndu, múslí og gríska jógúrt til skiptist í há glös og endið á því að skreyta með sítrónuberki. Gott er að kæla réttinn aðeins áður en hann er borinn fram.
Tæpt ár er nú liðið frá því að Guðríður Gunnlaugsdóttir fluttist heim frá Danmörku, þar sem hún hafði búið undanfarin ár ásamt fjölskyldu sinni. Guðríður hefur ekki setið auðum höndum eftir heimkomuna en í maí síðastliðnum opnaði hún Barnaloppuna, markað þar sem fólk getur komið með notaðar barnavörur og látið selja þær fyrir sig. Guðríður heillaðist af „loppu“-menningu Dana en hún vonast til að Barnaloppan verði skref í átt að breyttri kauphegðun Íslendinga og umhverfisverndar.
Eftir útskrift úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2011 fluttist Guðríður til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni. Við tók áframhaldandi nám og varð meistaranám í þjónustustjórnun fyrir valinu. „Ég var mjög ánægð með það nám, enda hef ég unnið í allskyns þjónustustörfum í gegnum tíðina og haft mikinn áhuga á hvernig fyrirtæki geta byggt upp sterk tengsl við viðskipavini sína og aukið gæði þjónustunnar,“ segir Guðríður. „Ég hef alltaf haft sterk tengsl við Danmörku því ég fæddist þar og bjó þar fyrstu árin í mínu lífi með foreldrum mínum sem voru í námi og á því marga góða að þar.“
Á þeim árum sem Guðríður bjó í Danmörku var hún að eigin sögn dyggur aðdáandi dönsku Loppumarkaðanna, eða flóamarkaðanna á réttri íslensku, en slíka markaði er að finna víðsvegar um borgina allan ársins hring. „Danir eru meira að segja með sérstakt loppudagatal, þar sem hægt er að sjá hvar og hvenær loppumarkaðirnir fara fram. Ég gerði oft frábær kaup á þessum mörkuðum og eftir nokkur ár í Kaupmannahöfn var þetta bara orðið þannig að ég keypti nánast ekkert nýtt. Ég keypti fatnað, húsgögn, skrautvöru og fleira notað, hvort sem það var á mörkuðum eða á Netinu. Mér fannst frábært að gera góð kaup á fallegum vörum, hvort sem það voru merkjavörur eða ekki,“ segir hún.
Meðan á náminu stóð velti Guðríður því mikið fyrir sér hvað hana langaði að gera eftir útskrift, og var alltaf með þá hugmynd í höfðinu að opna einhverskonar „second hand“ verslun, hvort sem það væri hérna heima eða úti. Hún segist fljótt hafa áttað sig á að hana langaði að gera eitthvað tengt börnum, þar sem henni hafi alltaf þótt langskemmtilegast þegar hún sjálf fann eitthvað fallegt á mörkuðum fyrir stelpurnar sínar tvær. „Ég elskaði ekkert meira en að kaupa fallegar vörur sem voru vel með farnar fyrir lítinn pening. En það er einmitt málið með barnavörurnar, þær eru margar hverjar notaðar svo rosalega stutt og því tilvalið að gefa þeim nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu. Þó svo að það sjáist að varan hafi verið notuð þá finnst mér það satt að segja bara sjarmerandi og gott að vita til þess að varan eigi sér framhaldslíf. Ég er engan veginn snobbuð á svona hluti, heldur finnst mér frábært að það sé hægt að endurnýta hlutina og nota þá aftur og aftur. Gott fyrir umhverfið sem og budduna! Jörðin okkar er að fyllast af drasli og það er lífsnauðsynlegt að íhuga afleiðingarnar af því. Við þurfum ekki alltaf að vera að kaupa allt nýtt, við eigum að nota og nýta það sem til er. Það skiptir akkúrat engu máli þó svo að það sé ein saumspretta í úlpunni sem þú kaupir eða þó svo að það sé ein rispa á String-hillunni þinni. Svo las ég líka einhvers staðar að magnið af vatni og eiturefnum sem fer í að búa til eitt par af bláum gallabuxum sé gríðarlegt og að það þurfi nú alveg nokkra þvotta til þess að ná öllum þeim efnum úr flíkunum sem við kaupum.“
Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Guðríði. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Sjötta Die Hard myndin er bæði forleikur og framhald fyrri myndanna.
Enginn endir virðist ætla að verða á framleiðslu Die Hard kvikmyndanna um John McClane, sem Bruce Willis leikur af snilld. Staðfest hefur verið að sjötta myndin er þegar í undirbúningi og í einkaviðtali við Empire Magazine staðfestir framleiðandinn Lorenzo di Bonaventura að hún muni bera nafn söguhetjunnar og kallast stutt og laggott McClane.
Samkvæmt di Bonaventura er myndin bæði forleikur og framhald fyrri myndanna og mun sjónarhornið flakka á milli McClane í nútímann og á unga aldri þar sem málið sem hann er að fást við í myndinni á upptök sín í fyrndinni þegar hann var nýliði í lögreglunni.
Leikstjórinn Len Wiseman, sem leikstýrði Live Free or Die Hard, hefur verið ráðinn sem leikstjóri nýju myndarinnar og Bruce Willis mun sem fyrr túlka hinn harðsnúna John McClane, en ekki hefur enn verið ráðið í hlutverk hans á unga aldri.
Di Bonaventura fullyrðir þó að Willis muni fá að minnsta kosti jafn mikið pláss í myndinni og sá sem leikur yngri útgáfu hans. „Ég veit ekki hvernig hægt væri að gera Die Hard mynd án Bruce,“ sagði framleiðandinn í fyrrnefndu samtali við Empire og bætti við að öllu skipti að vel tækist til við val leikara til að túlka McClane ungan. „Það eru mjög stórir skór sem berir fætur þess leikara þurfa að fylla út í.“
Fyrsta Die Hard myndin fagnaði 30 ára afmæli í ár, en ekkert bendir til þess að aðdáendur McClane séu búnir að fá nándar nærri nóg af hetjunni sinni og geta þeir farið að hlakka til að kynnast honum ungum.
Tónleikaröð Jóns Ólafssonar Af fingrum fram verður á dagskrá í Salnum í Kópavogi í vetur tíunda árið í röð. Þar fær Jón til sín þekkta íslenska tónlistarmenn, spjallar við þá um feril þeirra og þeir flytja nokkur lög. Í vetur verða þrjár söngdívur í sviðsljósinu auk sjö karla, en Jón segist alltaf hafa reynt að hafa kynjahlutföllin í lagi, þótt eðli rokkbransans geri honum erfitt um vik með það.
„Rokkbransinn er svo karllægur,“ segir hann afsakandi. „Eða var það sérstaklega á árum áður og þar sem tónleikarnir ganga í flestum tilfellum út það að rifja upp langan feril í bransanum er valið enn þrengra. Ég hef reynt í gegnum árin að hafa hlutföllin sem jöfnust og stundum hafa konurnar verið fjórar til fimm af tíu viðmælendum. Það er ekki alveg svo gott hlutfall í ár en þessar þrjár dívur, Selma Björns, Ragga Gísla og Emiliana Torrini, hafa ekki verið hjá mér í Salnum áður þannig að ég er mjög ánægður að hafa náð í þær allar.“
Eins og allir vita byrjaði prógrammið Af fingrum fram sem sjónvarpsþáttur á RÚV en síðan 2008 hefur það verið í formi tónleika í Salnum. Jón segir það form gefa miklu meira svigrúm, bæði meiri tíma og meira frelsi til að kafa dýpra í sögu viðmælenda. Í flestum tilfellum standi prógrammið yfir í tvo tíma, en lendi hann á flugi með viðmælandanum geti teygst úr því.
„Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum“
„Þetta getur farið upp í allt að þriggja tíma prógramm með góðum viðmælanda,“ útskýrir hann. „Þegar Magnús Þór Sigmundsson var hjá mér vorum við að frá hálf níu til nærri tólf um kvöldið, það var bara svo margt sem þurfti að taka fyrir. Svo það eru ekki ströng tímamörk á þessu öfugt við í sjónvarpinu þar sem allt þarf að vera niðurnjörvað, klippt og skorið. Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum.“
Meðal viðmælenda í vetur eru kanónur eins og Magnús Eiríksson, KK, Páll Óskar og Stefán Hilmarsson en það er Þórhallur Sigurðsson, sjálfur Laddi, sem ríður á vaðið og verður viðmælandi Jóns á fyrstu tónleikunum þann 13. september.
„Laddi er ekki þekktastur fyrir tónlistina sína,“ segir Jón. „En hann hefur samið ótrúlega mikið af lögum og textum og það eru þau sem verða í kastljósinu hjá okkur þann 13. Áherslan verður á tónlistarmanninn Þórhall Sigurðsson, ekki skemmtikraftinn Ladda, þótt auðvitað komi við sögu sumir karakterarnir hans eins og Eiríkur Fjalar til dæmis sem mun flytja einhver lög.“
Dagskrá tónleikaraðarinnar má kynna sér á salurinn.is og þar er einnig hægt að kaupa miða.
Fimm ára drengur í Kópavogi fann á mánudag poka með hvítu dufti á lóð leikskólans Fögrubrekku og setti hluta af því upp í sig. Farið var með drenginn á Barnaspítala Hringsins þar sem hann var skoðaður og efni pokans greint. Efnið í pokanum reyndist vera amfetamín.
„Það var hringt í okkur frá leikskólanum um hálf fjögur leytið á mánudag og okkur sagt að sonur okkur hefði fundið poka með hvítu dufti á leikskólalóðinni og sett eitthvað af því upp í sig,“ segir Kristinn Ólafur Smárason, faðir drengsins. „Það uppgötvaðist þegar hann kom með pokann til kennarans og bað um vatnsglas því honum fannst innihaldið svo bragðvont. Starfsfólk leikskólans hringdi í lögregluna og síðan í okkur foreldrana í kjölfarið. Þau ítrekuðu að það væri allt í lagi með drenginn en engu að síður brá mér og ég hljóp út á leikskóla, en ég bý mjög stutt frá.“
Kristinn segist strax hafa séð að það virtist ekkert ama að drengnum en hann hafi samt hringt í Eiturefnamiðstöð Landspítalans til að leita upplýsinga um hvað hann ætti að gera. Þar fékk hann þær upplýsingar að hann skyldi fara með barnið á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og taka pokann með sér svo hægt væri að greina innihald hans. Á bráðamóttökunni var drengurinn grandskoðaður en allar niðurstöður prófa sýndu að engin eituráhrif væru í líkama hans. „Sem betur fer hafði svo lítið farið upp í hann að það hafði engin mælanleg áhrif,“ segir Kristinn.
„Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla. En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“
Tvær lögreglukonur mættu á bráðamóttökuna og tóku pokann með sér til greiningar innihaldsins. Klukkutíma síðar lá sú niðurstaða fyrir að í pokanum væri amfetamín.
Kristinn segir að lóð leikskólans sé vinsæll samkomustaður unglinga á kvöldin, en honum hafi aldrei dottið í hug að amast við því þótt hann búi við hlið leikskólans. „Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla,“ segir hann. „En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“
Kristinn segist ekki vita hvert framhald málsins verður en hann muni allavega í framtíðinni láta lögregluna vita sjái hann unglinga á lóðinni. „Ég geri það í samráði við leikskólastjórann sem að sjálfsögðu harmar atvikið mikið. En ég tek fram að ég sakast ekkert við leikskólann út af þessu máli. Ég veit að þau leggja sig fram um að hindra svona uppákomur og fara yfir lóðina á hverjum á morgni, en það er auðvitað erfitt að fylgjast með öllu.“
Í framhaldinu hefur fengist leyfi hjá byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til að porti á lóð leikskólans verði framvegis lokað á kvöldin, en Kristinn segist ekki búast við að aðrir eftirmálar verði af málinu.
Óhætt er að segja að kvikmyndinni Svanurinn hafi verið vel tekið vestanhafs.
Á vefsíðunni Rotten Tomatoes, sem tekur saman kvikmyndagagnrýni frá viðurkenndum gagnrýnendum auk viðbragða almennra áhorfenda, fær myndin jákvæðar umsagnir frá stórum miðlum á borð RogerEbert.com og Hollywood Reporter og er hún í þessum rituðu orðum komin með 87 prósent í einkunn.
Aðalleikkonan, hin unga Gríma Valsdóttir, fær lofsamlega dóma og er leikstjóranum og handritshöfundinum Ásu Helgu Hjörleifsdóttur meðal annars hrósað af gagnrýnanda Los Angeles Times fyrir að takast að feta hina fínu línu á milli draumkennds veruleika og raunsæis í myndinni.
Svanurinn er byggð á samnefndri skáldsöguGuðbergs Bergssonar sem kom út árið 1991. Hún segir af níu ára stúlku sem er send í sveit til að bæta fyrir brot sín og verður þar lykilþátttakandi í atburðum sem hún á erfitt með að skilja.
Re:member, nýjasta plata tónlistarmannsins Ólafs Arnalds, fær fína dóma í hinu virta tímariti Rolling Stone.
Í umsögn gagnrýnandans, sem gefur plötunni þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum, segir að á henni megi greina mildari útfærslur af aðalsmerki Ólafs, hina fallega melankólíu sem hafi bæði hljómað á plötu hans For Now I Am Winter frá 2013 og í tónlistinni við bresku verðlaunaþættina Broadchurch. Við indie-takta, póst-minimalískar endurtekningar og kvikmyndalega tónlist, sem Ólafursé þekktur fyrir, bætist við skemmtileg sjálfspilandi píanó. Platan sjálf sé allt í senn, sterk, sorgleg og sefjandi.
Leið blaðamanns og ljósmyndara lá á Álftanes einn fallegan föstudag og þar sem við vorum að bera ljósmyndagræjurnar úr bílskottinu stálu nokkur hross sem virtust vera í bakgarði hússins athygli okkar og einnig dásamlegt útsýni sem náði eins langt og augað eygði. Þetta lofaði góðu; nýmóðins hús í sveitaumhverfi. Við hringdum bjöllunni og Margrét Stefánsdóttir mætti léttfætt til dyra og bauð okkur í bæinn.
Þegar einar dyr lokast opnast aðrar
Margrét bauð okkur kaffi en hún er kunnuglegt andlit úr mörgum áttum, hún var til að -mynda fréttakona á Stöð 2 um árið, svo var hún upplýsingafulltrúi hjá Símanum og nú síðast markaðsstjóri hjá Bláa lóninu til loka árs 2016. Margrét segir okkur að nú sé nýtt tímabil runnið upp, síðustu misserin hafi hún verið að end-ur-meta hvað hún vilji gera.
,,Mér finnst hafa verið kærkomið að taka tíma í að sinna fjölskyldunni og áhugamálum og bara aðeins að anda og -hugsa mig um,“ segir Margrét. Svo virðist það alltaf vera þannig að þegar einar dyr lokast gal-opnast aðrar og Margrét er farin inn um þær því hún hefur nú stofnað fyrirtæki. MyName My-Story heitir það og gengur út á að gleðja fólk hvar sem er í heiminum með persónulegum verkum en undirstaða þeirra verka er nafn og mikilvægt skjal; fæðingarvottorð, -sónarmynd, giftingar-vottorð, samningur eða annað. Hugmyndin hjá -Marg-réti er að með þessum persónulegu verkum sem hún hannar sé þessum merkilegu pappírum, sem oft eru geymdir í lokuðum skúffum eða í kössum í geymslunni, haldið í heiðri. Hugmyndin er falleg og Margrét sækir sýnishorn; verk sem hún er búin að vera að vinna, það er sónarmynd með bókstöfum barnsins sem raðað grafískt á myndina með fínlegu letri. Hún sýnir okkur líka fæðingarvott-orð tveggja dætra sinna sem eru komin á glæra ramma í herbergjum þeirra.
Stríðinn bróðir upphafið
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig það kom til að Margrét fór út í þetta? ,,Sem krakki skrifaði ég oft nafnið mitt svona; með því að skrifa hvern staf ofan á næsta. Svo á ég bróður sem fannst ekkert leiðinlegt að stríða mér og ef ég var skotin í einhverjum strák skrifaði ég nafnið hans sakleysislega með þessum hætti því þá gat enginn lesið það. Mörgum árum seinna fór ég svo á nokkur myndlistarnámskeið og var þá að leika mér bæði með olíu- og akrýlliti og þessa hugmynd og það er eiginlega upphafið að þessu. Þá vann ég með mismunandi liti fyrir hvern bókstaf og útkoman var skemmtileg. Ég málaði á striga eða pappír og hver litur þurfti alltaf að þorna á milli en svo kom þessi hugmynd að nota hvítan, hreinan bakgrunn, svart letur og hafa verkin meira grafísk. Mig langaði líka að hafa þessa dýrmætu pappíra eins og fæðingarvottorð dætranna uppi við og fannst of hefðbundið að setja þau bara beint í ramma.“
Fluttu inn í draumahúsið í hruninu
Og þá að húsinu og þessu notalega heimili. Margrét segir að þau hjónin hafi keypt húsið árið 2008 og flutt inn þetta eftirminnilega haust þegar þjóðin varð fyrir efnahagshruni. ,,Við bjuggum áður í Kópavogi og okkur langaði í eign á einni hæð með útsýni, það var draum-urinn. Við vorum heillengi að skoða í kringum okkur og vorum ekki endilega á leiðinni á Álftanes en við eigum vini sem búa hérna og þau hvöttu okkur eindregið að flytja hingað sem varð úr og við sjáum ekki eftir því,“ svarar hún sæl í ,,sveitinni“ sinni. Hún segist samt ekki endilega vilja búa þarna þegar dæturnar verða farnar að heiman, hvenær svo sem það verður: ,,Þá flytjum við örugglega bara í miðbæinn,“ segir hún brosandi.
Útgerðarmaðurinn Guðmundur Kristjánsson, oftast kenndur við Brim, er sá einstaklingur sem er með mest undir, þegar kemur að skuldum við íslensku ríkisbankana, Landsbankann og Íslandsbanka.
Óhætt er að segja að undanfarinn áratugur hafi verið rússíbanareið hjá Guðmundi en hann stýrir nú stórveldi í íslenskum sjávarútvegi. Titringur hefur þó verið innanhúss hjá HB Granda síðan hann tók við stjórnartaumunum og deilur við meðhluthafa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum viðvarandi. Frekari vöxtur og hagræðing er í kortunum hjá HB Granda.
Viðskiptaveldi Guðmundar er eitt þeirra sem stóð höllum fæti eftir hrunið, svo ekki sé meira sagt. Skuldir voru langt umfram eignir.
Óhætt er að segja tiltektin á fjárhag þeirra félaga hafa dregið dilk á eftir sér, þar sem hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti 25. júní síðastliðinn að leggja fram rannsóknarbeiðni á næsta hluthafafundi Landsbankans, sem beinist að því hvernig á því stendur að Guðmundur og félög hans hafi fengið milljarða afskrifaða hjá bankanum – og fengið að kaupa útgerðarfélagið Brim á 205 milljónir króna út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu.
Á sama tíma hafa lánveitingar til hans aukist um tugi milljarða og umsvifin sömuleiðis. Guðmundur stendur nú eftir með fulla vasa fjár – og miklar skuldir – og við stýrið hjá HB Granda eftir að hafa keypt stóran hlut í félaginu fyrir háar upphæðir fyrr á þessu ári, en í tilkynningu til kauphallar hefur verið boðaður frekari vöxtur félagsins.
Rúmlega tvö hundruð íslenskar konur unnu hópmálssókn á hendur þýsku fyrirtæki í PIP-brjóstapúðamálinu í fyrra. Aðeins hluti skaðabóta hefur skilað sér. Lögmaður kvennanna segir allt að tvö ár í málalyktir.
Um 200 íslenskar konur sem höfðu betur í skaðabótamáli fyrir frönskum dómsstólum gegn þýska eftirlitsfyrirtækinu TÜV Rheinland í PIP-sílikonpúðamálinu svokallaða bíða enn eftir að fá megnið af þeim bótum sem þeim voru dæmdar í fyrra. Hluti bótanna var greiddur í fyrrahaust. Lögmaður TÜV Rheinland áfrýjaði málinu og er útlit fyrir að endanleg niðurstaða í málinu geti dregist í eitt til tvö ár til viðbótar við þau ár sem málið hefur tekið.
„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár. Ef endanleg niðurstaða kemur fyrr, er það auðvitað frábært en aðalatriðið er að hún verði íslenskum konum í hag,“ segir Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna.
Aðeins fengið brot af bótum
Talið er að um 300.000 konur í 65 lönd¬um um allan heim hafi fengið gallaða brjósta¬púða frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prosthése (PIP). Þar á meðal voru um 400 íslenskar konur sem fengu púðana á árunum 2000 til 2010. Sextán þúsund konur létu fjarlægja púðana eftir að upp komst að iðnaðarsílikon var notað við gerð þeirra og hafði þá þegar valdið hluta þeirra heilsutjóni.
Um mitt ár 2015 hófst aðalmeðferð í máli um 9.000 kvenna og 204 frá Íslandi gegn TÜV Rhein¬land en fyrirtækið veitti PIP vottun um að púðarnir stæðust evrópskar kröfur. Í dómi gegn fyrirtækinu kom fram að fyrirtækið hafi vanrækt skyldur sínar um eftirlit og árverkni. Þetta er stærsta dómsmál í franskri réttarsögu og er því hvergi nærri lokið.
Meðalbætur sem hver kona átti að fá nam um tveimur milljónum króna. Konurnar fengu einungis brot af dæmdum bótum í fyrra eða um 3.000 evrur, jafnvirði 386 þúsund íslenskra króna. Frá innborguninni voru dregnar 500 evrur í málskostnað og stærsti hluti íslenskra kvenna lét að auki draga 500 evrur í matskostnað. Fengu konurnar því til sín milli 2.000 og 2.500 evrur eða 250.000 – 313.000 krónur hver.
„Eins og staðan er í dag, miðað við það sem á undan er gengið, geri ég ekki ráð fyrir endanlegri niðurstöðu fyrr en eftir um tvö ár.“
Biðin orsakast af umfangi málsins
Saga segir biðina skýrast af umfangi málsins en vekur athygli á því hversu frábrugðnir franskir dómstólar eru þeim íslensku. „Réttarkerfið í Frakklandi er mjög ólíkt því sem maður þekkir hér og maður verður að aðlaga sig að því. En það verður einnig að hafa hugfast að ferlið í þessu máli er án efa frábrugðið hefðbundinni málsmeðferð í Frakklandi vegna umfangs þess. Þetta getur reynt á þolinmæðina hjá íslenskum konum sem eru aðilar að málinu, eðlilega, og auðvitað hjá okkur lögmönnunum,“ segir hún og bætir við að málinu hafi verið frestað mjög oft hjá frönskum dómstólum. Lögfræðingar hafi ítrekað farið í dómshúsið til að vera viðstaddir dómsuppsögu en fengið þær upplýsingar að málinu hafi verið frestað. Alveg þar til dómur var á endanum kveðinn upp.
PIP-brjóstpúðamálið í hnotskurn
2010
Mars: Frönsk stofnun sem hefur eftirlit með lækningatækjum bannar markaðssetningu, dreifingu, útflutning og notkun á sílikonbrjóstapúðum sem franska fyrirtækið Poly Implant Prosthése framleiðir. Ástæðan eru ýmis frávik, svo sem leki úr púðunum.
Apríl: Tilkynnt að framleiðandi brjóstapúðanna hafi notað iðnaðarsílikon, annað en vottað hefur verið við framleiðsluferlið.
2011
Desember: Franska eftirlitsstofnunin segir grun leika á að PIP-púðarnir tengist auknum líkum á krabbameini. Það er dregið til baka nokkrum dögum síðar. Lyfjastofnun á Íslandi greinir frá því að hún fylgist með málinu. Frönsk heilbrigðisyfirvöld gefa út tilmæli um að konur með PIP-brjóstapúða láti fjarlægja þá í forvarnarskyni.
2012
Febrúar: Vísindanefnd Evrópuráðsins segir PIP-púðana innihalda iðnaðarsílikon og vísbendingar um að þeir rofni frekar en brjóstapúðar annarra framleiðenda. Velferðarráðuneyti og Embætti landlæknis mæla með því að öllum konum með PIP-brjóstapúða verði boðið að láta fjarlægja þá, hvort sem þeir væru rofnir eða heilir.
2013
Nóvember: Úrskurðað að TUV Rheinland hafi vanrækt skyldur sínar. Dreifingarfyrirtæki víða um heim fara í mál við TUV og krefjast milljarða í bætur.
Desember: Jean-Claude Mas, stofnandi og eigandi PIP-brjóstabúðaframleiðandans, dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir svik og til greiðslu sektar. Fjórir framkvæmdastjórar PIP eru líka fundnir sekir um svik og hljóta dóma.
2015
Júlí: Aðalmeðferð hefst í undirrétti í Frakklandi í máli um 9.000 kvenna gegn TÜV Rheinland.
2017
Janúar: Undirréttur dæmir konunum bætur.
September: Konurnar fá innborgun bóta upp á 3.000 evrur.
Reykjavík Meat er glænýr og áhugaverður staður á Frakkastíg 8 en þar er, eins og nafnið gefur til kynna, aðaláherslan á góðar og verulega safaríkar steikur.
Rekstraraðilarnir eru þeir sömu og eiga Mathús Garðabæjar en það er Víðir Erlingsson yfirkokkurinn sem heldur um taumana í eldhúsinu. Maturinn er eldaður og grillaður á kolum sem gefur matnum einstaklega gott bragð. Hráefnið er líka fyrsta flokks en megnið af kjötinu er frá Kjöt Company og úrvalið af nautakjöti er gott og svo er boðið upp á lamb.
Einnig er boðið upp á svokallað „sashi”-kjöt eða marmarakjöt sem er sérstaklega innflutt frá Danmörku og Reykjavík Meat er með einkaleyfi á. Þeir sem ekki eru fyrir kjöt geta andað léttar því hægt er að fá góða fisk- og grænmetisrétti sem líka eru eldaðir á kolum og gæla við bragðlaukana.
Um síðustu helgi bauð Reykjavík Meat í smökkunarpartí þar sem boðsgestum var boðið að koma og smakka gómsæta rétti á matseðlinum, lyfta glasi og hlusta á skemmtilega tónlist. Mannlíf var á staðnum og myndaði stemninguna og veislugesti. Við óskum Reykjavík Meat innilega til hamingju með þennan nýja og áhugaverða stað sem óhætt er að segja að sé kærkomin og skemmtileg viðbót við veitingahúsaflóruna á Íslandi.
Í vor fékk Hjördís Svan Aðalheiðardóttir fullt forræði yfir dætrum sínum þremur eftir átta ára baráttu. Dæturnar hafa búið hér á landi utan kerfis og án vegabréfa síðan Hjördís sótti þær ólöglega til Danmerkur árið 2013 en hún var í kjölfarið handtekin og dæmd í 18 mánaða fangelsi fyrir brottnámið. Þótt Hjördís sé ánægð með þennan mikilvæga áfanga finnst henni erfitt að fagna, því eftir sitji að svo margir hafi brugðist börnunum hennar. Kerfið og regluverkið standi ekki með börnum og margir glími við svipuð mál og þau máttu þola.
Þegar Hjördís flúði með dætur sínar til Íslands, með leiguflugi í skjóli nætur, hafði danskur dómstóll dæmt að hún og danski maðurinn, sem hún var í forsjárdeilu við, hefðu sameiginlega forsjá yfir dætrunum og búsetu hjá honum. Hjördísi hafði gengið illa að fá umgengni við stúlkurnar þar sem maðurinn hindraði samskipti. Hjördís kærði og fékk að hitta dæturnar í kjölfarið. Fyrir lá að tekið yrði fyrir dönskum dómstólum mál þar sem maðurinn sótti um fullt forræði yfir dætrunum. Þrátt fyrir að hafa undir höndum áverkavottorð um meint ofbeldi gegn dætrunum og tilkynningu frá leikskóla í Danmörku til félagsmálayfirvalda og lögreglu um meint ofbeldi vissi Hjördís að hún ætti litla möguleika í málinu. Hún var þegar orðin sakamaður í augun danskra stjórnvalda þar sem hún hafði tvisvar áður farið með dæturnar án leyfis mannsins til Íslands. Í fyrra skiptið hlýddi hún úrskurði íslenskra dómstóla og fór sjálfviljug með dæturnar til Danmerkur eftir að maðurinn kærði brottnámið. Í seinna skiptið neitaði hún og dæturnar voru teknar af henni með valdi þann 29. júní 2012 þar sem meðal annars víkingasveitin var tilkvödd. Þá var búið að lofa að taka þær ekki ef maðurinn kæmi ekki á staðinn. Maðurinn mætti ekki en stúlkurnar voru samt teknar og vistaðar hjá vandalausum í tvo sólarhringa. Ári síðar viðurkenndi Innanríkisráðuneytið að börnin hefðu verið tekin með ólögmætum hætti.
Hjördís ákvað því að taka örlög dætra sinna í eigin hendur haustið 2013 og flúði með börnin frá Danmörku en flóttanum og málinu öllu voru gerð ítarleg skil í íslenskum fjölmiðlum. Hjördís keyrði í 20 klukkustundir áður en hún kom á stað í Skandinavíu þar sem hún fór huldu höfði í fimm vikur. Hún var ekki með síma, sendi ekki tölvupósta og notaði ekki samfélagmiðla. Með hjálp föður síns og fleiri sem söfnuðu fé til að sækja þær með leiguflugvél komust mæðgurnar til Íslands. Stuttu seinna var manninum dæmt fullt forræði yfir stúlkunum og þær því algerlega í dönsku kerfi auk þess sem hann var með vegabréf þeirra. Maðurinn kærði brottnámið og sótti um að stúlkurnar yrðu tafalaust fluttar aftur til Danmerkur í beinni aðfarargerð. Héraðsdómur dæmdi honum í vil og Hjördís áfrýjaði til Hæstaréttar. Hæstiréttur sneri dómnum hins vegar og börnin urðu því áfram á Íslandi, að því er virðist vegna formgalla á kæru mannsins. Þegar úrskurður Hæstaréttar féll var búið að handtaka Hjördísi og hún sat í dönsku fangelsi. Dæturnar voru í umsjá móður hennar og systkina á Íslandi.
„Þessi dómur Hæstaréttar var mikill léttir en yfir vofði að maðurinn færi í annað mál og krefðist þess að fá börnin afhent,“ segir Hjördís blátt áfram og vílar ekki fyrir sér að rifja málið upp. „Eftir að ég lauk afplánun lét ég lítið fyrir mér fara, naut hvers dags sem við vorum saman og við lifðum eins eðlilegu lífi og unnt var. Þar sem dæturnar voru með lögheimili í Danmörku voru þær ekki með sömu réttindi og aðrir íslenskir ríkisborgarar. Þær voru ekki tryggðar og þurftu til dæmis að greiða fullt verð fyrir alla læknisþjónustu, þær fengu ekki frístundastyrk og ég fékk engar barnabætur, svo eitthvað sé nefnt. Elsta dóttir mín gat ekki farið með körfuboltaliðinu sínu til útlanda þar sem stúlkurnar voru ekki með vegabréf. Eins og í svo mörgu var verið að brjóta á rétti þeirra með því að leyfa þeim ekki að njóta sömu réttinda, en við gerðum allt til að láta hlutina ganga upp. Þetta voru smámunir í samanburði við það sem á undan hafði gengið og engin ástæða til að rugga bátnum með því að sækja rétt þeirra. Þannig að svona var þetta þangað til að ég fékk forræðið og búsetuna til mín í maí síðastliðnum.“
„Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki.“
Samþykkti að biðja aldrei um peninga
Í byrjun þessa árs voru tæplega fimm ár liðin og lögmaður Hjördísar, Kristín Ólafsdóttir, ráðlagði henni að prófa að sækja um forræði. „Ég fór hefðbundna leið og mætti hjá Sýslumanni í svokallaða sáttameðferð. Maðurinn mætti ekki og sýslumannsembættið gaf þá út sáttavottorð sem gefur mér leyfi til að leita til dómstóla. Lögmaður minn útbjó stefnu þar sem ég sóttist eftir forræðinu og ég þurfti að láta þýða stefnuna yfir á dönsku. Taka átti málið fyrir í byrjun maí en maðurinn svaraði stefnunni með samningi þess efnis að ég fengi forræðið og búseturéttinn og að ég gæti aldrei krafist peninga af hans hálfu ef dæturnar vanhagaði um eitthvað. Ég samþykkti þennan samning. Þetta var auðvitað mjög stór stund í lífi okkar, eitthvað sem við höfðum beðið lengi eftir en á sama tíma voru þetta ljúfsár tíðindi þar sem sömu mistökin eru gerð trekk í trekk og af sama fólki. Það hefur ekkert breyst í barnaverndarmálum, börn eru neydd í umgengni við ofbeldisfulla feður, Danir og fleiri lönd í Evrópu halda áfram að dæma mæður eins og mig í fangelsi fyrir að verja börn sín fyrir ofbeldi,“ segir Hjördís.
Hún gagnrýnir að konur sem búið hafi við ofbeldi neyðist til að sitja sáttafundi með ofbeldismanninum hjá sýslumanni án þess að mega hafa lögmann eða annan stuðningsaðila viðstaddan. „Það verður að hugsa til þess að konur sem yfirgefa ofbeldi eru oft að niðurlotum komnar andlega og líkamlega, hafa kannski búið við ofbeldi í mörg ár og hafa ekkert sjálfstraust. Ofbeldismenn eiga það til að viðhalda ofbeldinu árum saman þrátt fyrir að konan hafi yfirgefið þá en það geta þeir meðal annars gert í gegnum kerfið. Það krefst mikils styrks að yfirgefa ofbeldismann og ekki sjálfgefið að niðurbrotnar konur hreinlega geti það. Konur sem reyna að verja börn sín fyrir ofbeldi eru dæmdar til að greiða dagsektir. Þeim er alveg sama þótt þær verði gjaldþrota því þegar velferð barna þeirra er í fyrirrúmi skipta peningar engu máli. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hvort ég hefði átt að vera áfram í sambandinu því þannig hefði ég getað varið börnin mín betur. Þá hefði ég ekki þurft að berjast við kerfi í tveimur löndum þar sem margir trúðu mér ekki. Þá hefði ég ekki verið úthrópuð í fjölmiðlum og kommentakerfum. Þá hefði ég ekki þurft að heyra fólk segja að þar sem maðurinn er ekki dæmdur hljóti ég að vera að ljúga og þá hefði ég ekki verið kölluð hin alræmda tálmunarmóðir, orð sem einstaklingar nota til að gera lítið úr konum sem tjá sig um ofbeldi. Konur hugsa sig tvisvar um áður en þær ákveða að fara, réttarkerfið er ekki fyrir þolendann heldur fær gerandinn allt of oft að njóta vafans. Ég veit um börn sem eiga eftir að leita réttar síns þegar þau hafa aldur til og ætla í mál við íslenska ríkið fyrir að neyða þau í samvistir með einhverjum sem beitti þau ofbeldi, þrátt fyrir að til væru gögn sem sönnuðu það.“
Fékk eitt símtal eins og í bíómyndunum
En hverfum aftur að atburðarásinni eftir flóttann 2013, athæfinu sem Hjördís var handtekin fyrir og fangelsuð. „Fljótlega eftir heimkomuna byrjuðu stelpurnar í skóla þar sem þeim var vel tekið af kennurum og nemendum, þær fóru að æfa körfubolta eins og stóri bróðir þeirra og fundu sig vel í þeirri íþrótt. Þó að við reyndum að lifa venjulegu lífi vorum við oft hræddar. Stelpurnar fylltust hræðslu þegar þær sáu lögreglubíl sem er ekki skrítið miðað við aðgerðirnar þegar þær voru teknar með valdi af einkennisklæddum lögregluþjónum. Einu sinni fékk ég símtal frá dóttur minni þar sem hún sagðist hafa séð konuna sem var svo reið þennan dag þegar þær voru teknar, hún var þá að tala um fulltrúa sýslumanns Kópavogs,“ segir Hjördís.
Fljótlega sendu dönsk yfirvöld norræna handtökuskipan á hendur Hjördísi og fóru fram á framsal. Að sögn Hjördísar var lögð mikil harka í að beiðninni yrði framfylgt. „Lögmaður minn varðist mjög vel og náði að fresta afhendingu minni í marga mánuði en ég var alltaf dæmd í farbann. Lögmaður minn sýndi fram á að hægt væri að neita afhendingu vegna mannúðarsjónarmiða en yrði ég send til Danmerkur væru börnin mín foreldralaus,“ segir Hjördís.
Meðan Hjördís var í farbanni þurfti hún að tilkynna sig á lögreglustöðinni alla virka daga og gerði það samviskusamlega. „Einu sinni þegar við fjölskyldan vorum að borða kvöldmat mundi ég að ég hafði gleymt að tilkynna mig. Ég brunaði á lögreglustöðina við Grensásveg en hurðin var læst svo ég bankaði. Sem betur fer sá mig einhver og hleypti mér inn. Ég lagði mig fram við að leyna áhyggjum mínum og kvíða fyrir börnunum. Þeim leið vel og dætur mínar blómstruðu í skóla og íþróttum. Við voru einstaklega heppin með kennarana þeirra sem vissu um málið og héldu sérstaklega vel utan um þær. Ég á líka einstaka fjölskyldu og vini sem gengu með mér í gegnum eld og brennistein sem og frábæra lögmenn þau Kristínu Ólafsdóttur og Hrein Loftsson frá Lögmönnum Höfðabakka og Thomas Michael Berg sem var lögmaður minn í Danmörku. Þessu fólki fæ ég seint fullþakkað. Einnig voru margir sem ég þekkti ekki neitt sem buðu fram hjálp sína, ómetanlegt.“
Í febrúar 2014 var hins vegar ákveðið að verða við óskum danskra yfirvalda og Hjördís var framseld til Danmerkur. „Eftir að barnaverndarstofa fór að skipta sér af málunum breytti ríkissaksóknari ákvörðun sinni á einni nóttu,“ fullyrðir Hjördís. „Haldinn var fundur með lögreglu og barnaverndarstofu, fundur sem lögmenn mínir fengu ekki að vita af. Íslensk yfirvöld hafa sjaldan framselt íslenska ríkisborgara, ég held að ég hafi verið númer þrjú,“ segir Hjördís.
Hún mætti á lögreglustöðina við Grensásveg og var ekið út á Keflavíkurflugvöll af alþjóðadeild lögreglunnar. Þar var hún vistuð í fangaklefa og danskir lögreglumenn fylgdu henni í flugið til Danmerkur. „Þegar við lentum á Kastrup var sagt við mig: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ eða „Hjördís Svan, þú ert handtekin.“ Við tók þriggja klukkustunda akstur til ríkisfangelsisins í Horsens en þar var ég sett í lítinn og ógeðslegan klefa með litlum bedda. Daginn eftir var ég leidd fyrir dómara sem dæmdi mig í farbann og ég ætti að tilkynna mig daglega á lögreglustöðina. Ég var svo heppinn að eiga góða frænku og mann hennar að í Horsens sem ég gat verið hjá. Daginn eftir vaknaði ég frekar kvíðin en ákvað að drífa mig að tilkynna mig á lögreglustöðinni. Afgreiðslumaðurinn svaraði mér ekki þegar ég tilkynnti mig heldur gekk á bak við og kom til baka ásamt tveimur lögreglumönnum sem sögðu aftur: „Hjördís Svan, du er andholdt,“ en þá hafði ákvörðuninni um farbannið verið áfrýjað. Eins og í bíómyndunum mátti ég fá eitt símtal, ég hringdi í pabba til þess að biðja hann um að hafa samband við danska lögmanninn minn.
Ég var sett í viðbjóðslegan fangaklefa þarna á lögreglustöðinni í nokkurn tíma. Þar var kalt, alveg dimmt og ég gat setið á steinbekk. Ég fékk ekki að láta frænku mína og mann hennar vita að ég hefði verið handtekin og fékk ekki að fara heim til þeirra til að sækja fötin mín. Ég var í íslensku lopapeysunni minni og í rauðum gúmmístígvélum, man það vegna þess að meðfangar mínir sögðu mér seinna hvað þeim fannst skrítið þegar ég birtist í þessum klæðnaði, alls ekki með útlit hins hefðbundna fanga,“ rifjar Hjördís upp.
„Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis.“
Lærði að komast af í fangelsinu
„Mér var ekið í ríkisfangelsið í Horsens sem er hámarksöryggisfangelsi. Á leiðinni sendi ég skilaboð til barnanna minna og sagði þeim hve heitt ég elskaði þau og þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af mér en ég vildi að þau vissu að þau gætu ekki hringt í mig. Það var mér mikils virði að hafa náð að gera þetta áður en síminn var tekinn af mér. Lögreglubílnum var svo ekið inn í bygginguna og hurðinni lokað áður en ég var tekin út úr bílnum. Mér leið eins og ég væri í amerískri bíómynd; teknar voru ljósmyndir af mér frá öllum hliðum, tekin fingraför og allt sem ég var með tekið af mér. Þvínæst þurfti ég að afklæðast. Kvenkynsfangavörður fylgdi mér inn á gang með fimm klefum. Ég vissi seinna að hún var kölluð Angry Bird þar sem hún var alltaf frekar reið og með eldrautt litað hár. Ég þurfti að byrja á því að þrífa klefann þar sem hann var ekki mjög huggulegur. Áður en ég var læst inni heyrði ég hina fangana banka á hurðarnar því þeir heyðu að einhver nýr væri að koma. Þá fyrst áttaði ég mig á því að karlmenn væru líka í þessu fangelsi og seinna kom í ljós að ég var eini kvenmaðurinn. Það eina sem ég fékk var handklæði, lítill tannbursti og tannkrem. Ég fékk ekkert af dótinu mínu né föt fyrstu fjóra dagana því verið var að fara yfir allt, meðal annars með hjálp fíkniefnahunda,“ segir Hjördís.
Þau voru fimm sem bjuggu saman á gangi og voru með sameiginlega eldunaraðstöðu. Fangarnir þurftu að vera innandyra allan daginn fyrir utan eina klukkustund á morgnana og aðra á kvöldin en þá fengu þeir að fara út í garð og ganga í hringi. Hjördís mátti ekki hringja strax því það þurfti að fara vel yfir þá aðila sem hún mátti hringja í. „Ég mátti þó tala við lögmenn mína, bæði íslenska og danska, og það var virkilega gott að heyra frá þeim. Það tók mig nokkra daga að aðlagast, eða réttara sagt að læra að komast af. Það var annaðhvort að liggja öllum stundum inni í klefanum eins og ég gerði fyrstu dagana og hefði í raun geta valið að gera, eða að rífa mig á lappir og takast á við þessa undarlegu og hræðilegu lífsreynslu. Ég ákvað að líta á þetta sem verkefni sem ég þyrfti að leysa. Ég fór að vinna í verksmiðju í fangelsinu en fyrir það fékk ég laun og ég þurfti peninga til að borga fyrir mat. Ég byrjaði einnig í fótbolta, badminton og blaki og viðurkenni að það var sérstakt í byrjun að spila fótbolta við meðlimi glæpagengis. Harkan var ekkert minni þótt ég væri með og ég var stundum ansi marin eftir leikina. Ég skráði mig í skólann og lærði dönsku, stærðfræði og ensku. Ég var virt af samföngum mínum því þeim fannst gott hjá mér að bjarga dætrum mínum frá ofbeldi,“ segir Hjördís en hún er þeim eiginleikum gædd að geta samlagast allskonar fólki og það gerði hún þarna og eignaðist góða vini. „Auðvitað óttaðist ég samt suma en þarna voru alls konar menn með óhugnanlega fortíð en líka strákar sem lífið hafði farið hrjúfum höndum um. Bestu stundirnar voru þegar ég fékk fimm mínútur til þess að hringja í börnin mín, tvisvar í viku.“
Ákvað strax að áfrýja ekki
Hjördís var í gæsluvarðhaldi í ríkisfangelsinu í fimm mánuði og bjó með alls tuttugu og sex karlmönnum á tímabilinu en þarna var mikið rennerí af mönnum sem biðu dóma.
„Þarna beið ég eftir að sakamálið á hendur mér yrði tekið fyrir. Heima á Íslandi var líka í gangi afhendingarmál sem danski maðurinn sótti. Ég man ekki hve lengi ég hafði setið inni þegar ég fékk fréttir þess efnis að Héraðsdómur hefði dæmt honum í hag og að dómarinn hefði sagt að það ætti að hjálpa stelpunum að vera ekki hræddar við pabba sinn vegna þess að þær ættu að vera hjá honum. Heimurinn hrundi og ég gat ekkert gert. Eins og alltaf þegar ég fékk neikvæðar fréttir tók ég nokkra daga í að liggja og gráta en svo reis ég upp aftur með nýja von í brjósti, eins og alltaf. Á svipuðum tíma var réttað yfir mér í Kolding. Ég þurfti að mæta þrisvar vegna þess hve umfangsmikið málið var og mikið af gögnum og var í kjölfarið dæmd í 18 mánaða fangelsi. Danski lögmaðurinn minn vildi strax áfrýja, sagði þetta fáránlegan dóm miðað við gögn. En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Samfangar Hjördísar lásu margir bókina Leyndarmálið, The Secret, sem fjallar um að hægt sé að breyta mörgu með góðum hugsunum, með því að sjá óskirnar fyrir sér. „Ég tileinkaði mér þetta og byrjaði að skrifa niður á blað aftur og aftur „stelpurnar verða óhultar“ og „þetta fer allt vel“ og „ég get allt“. Ég sagði börnunum mínum að gera það sama. Ég reyndi að sjá fyrir mér lögmann minn hringja í mig og segja mér góðar fréttir sem var erfitt þar sem ég var vön að ímynda mér alltaf það versta. Dag einn hafði lögmaður minn samband og sagði mér að Hæstiréttur hefði snúið dómi Héraðsdóms við og að stelpurnar ættu ekki að fara til Danmerkur. Ég gekk rólega inn í klefann minn, lokaði á eftir mér og læsti. Ég skalf, grét og hló til skiptis. Ég var svo heppin að það var föstudagur en ég hringdi alltaf í börnin á föstudögum. Þau brotnuðu niður og við grétum í símann, léttirinn og gleðin voru mikil,“ segir Hjördís.
Fékk flutning í íslenskt fangelsi
Í júlí 2014 fékk Hjördís að vita að hún mætti ljúka afplánun sinni á Íslandi. „Á sama tíma og það var gott að kveðja fangelsið í Danmörku var líka erfitt að kveðja suma sem mér þótti orðið vænt um. Sérstök vinátta myndast þar sem einstaklingar þurfa að hjálpast að og treysta hver á annan. Þetta er pínulítið samfélag þar sem fara verður eftir reglum sem aðrir búa til og þú ræður engu. Ég gekk út með tárin í augunum, full af gleði og stolti. Núna var ég að fara heim að hitta börnin mín og fjölskyldu,“ segir hún brosandi.
Sömu lögreglumenn og fylgdu henni til Danmerkur fóru með henni heim líka. Hún var sótt út á flugvöll af íslenskum fangelsisyfirvöldum og færð í Kvennafangelsið í Kópavogi. „Það var skrítið að koma þangað, ég gat hringt þegar ég vildi. Mér fannst lífið í kvennafangelsinu ágætt en það svipar mikið til þáttaraðarinnar Fangar sem sýnd var á RÚV. Eftir tvær vikur í Kópavogi tóku við þrír mánuðir á Vernd. Þá þurfti ég að vera í vinnu eða taka að mér sjálfboðavinnu. Ég byrjaði hjá Samhjálp en fékk svo vinnu á skrifstofu sem gerði mikið fyrir mig – ég hitti dásamlega vinnufélaga og það að komast út á meðal fólks var mikils virði. Lögreglan keyrði daglega fram hjá vinnustaðnum til að athuga hvort ég væri ekki örugglega í vinnunni og ég veifaði þeim út um gluggann. Eftir komuna á Vernd hitti ég dætur mínar fyrst en þær máttu ekki heimsækja mig í fangelsið,“ segir Hjördís.
Á Vernd á fólk að mæta milli klukkan 18 og 19 í mat en að sögn Hjördísar er það gert til að fylgst með hvort einhver sé í rugli. Á virkum dögum þarf að koma í hús fyrir klukkan 23 og fyrir 21 um helgar. „Ég var ekki ein í herbergi sem voru auðvitað viðbrigði en ég var heppin með herbergisfélaga þannig að allt gekk vel. Mér fannst reyndar erfitt að vita af því seinna að þarna byggju menn sem dæmdir voru fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum.
Ég var neydd á AA-fund þótt ég tæki skýrt fram að ég hefði aldrei átt við áfengis- eða vímuefnavanda að etja. Allir áttu að fara á þennan fund.
Eftir dvölina á Vernd var ég svo með ökklaband í viku. Þá þurfti ég að vera komin heim á vissum tíma á kvöldin og mátti að sjálfsögðu hvorki neyta áfengis né annara vímuefna, líkt og annarsstaðar í fangelsum. Í fangelsinu í Danmörku birtust fangaverðir reglulega og horfðu á mig pissa í glas til að fullvissa sig um að ég væri ekki að neyta eiturlyfja sem allt var morandi af. Í byrjun nóvember 2014 mátti ég klippa ökklabandið af mér og við fjölskyldan gerðum það við hátíðlega athöfn. Þá var ég búin að afplána níu mánuði eða helming dómsins.“
„En ég ákvað strax að áfrýja ekki, í fangelsinu þekkti ég nefnilega marga sem biðu í allt að ár frá áfrýjun þangað til að mál þeirra var tekið fyrir. Ég vildi biðja um flutning og fara heim til barnanna.“
Myndi gera þetta aftur
Mikið var fjallað um mál Hjördísar í fjölmiðlum, bæði hérlendis og í Danmörku, og almenningur kepptist við að hafa skoðanir á málinu. „Sumir töldu að ég hefði fengið hjálp frá yfirvöldum en mín upplifun var þvert á móti, flest vann gegn mér. Ég var í miklum mæli gagnrýnd á samfélagsmiðlum, í sumum fjölmiðlum og í athugasemdakerfum fjölmiðla. Ég hef lítið um það að segja, niðrandi ummæli dæma sig sjálf. Ég er stolt af fangavistinni, hikaði ekki við að brjóta lögin til að bjarga börnunum mínum úr ömurlegum aðstæðum. Ég myndi gera það aftur og sitja aðra níu mánuði í fangelsi ef með þyrfti,“ segir Hjördís ákveðin. „Ég vona að í framtíðinni geti ég bjargað fleiri börnum með því að berjast fyrir bættu kerfi. Þetta mál hefur breytt mér gífurlega mikið. Þegar ég ákvað að fara úr þessum aðstæðum var ég algjörlega niðurbrotin, þreytt andlega og líkamlega. Mér fannst ég ekki gera neitt rétt, efaðist um allt sem ég gerði. Ég hafði verið í því hlutverki í mörg ár að reyna að gera alla glaða í kringum mig, reyna að hafa allt gott. Á þeim tíma er ég ekki viss um að ég hefði lifað fangelsisvist af, en þar þurfti ég að trúa á sjálfa mig, ég þurfti að lifa af fyrir börnin mín. Ég fór svo oft út fyrir minn litla þægindaramma, eins og til dæmis með því að mæta á fótboltaæfingar með 20 karlföngum, lesa danskt ljóð fyrir framan þá í dönskutíma eða rífa kjaft við fangaverði vegna ósanngjarnar meðferðar á sumum föngunum. Ég var auðvitað mikið ein og þurfti gjörsamlega að breyta hugsunarhætti mínum, reyna að sjá það góða í öllu og vera þakklát. Ég held að það hafi líka létt fangelsisvistina að ég vissi alltaf að ég var að gera rétt, efaðist aldrei um það. Ég var örugglega eini fanginn þarna sem var stolt af glæpnum,“ segir Hjördís.
Framtíðin er björt hjá Hjördísi og fjölskyldu hennar. Dætur hennar hlakka til að komast aftur í körfuboltann en þær mæðgur verja öllum frítíma sínum í íþróttahúsum á veturna. „Svo höldum við áfram að rækta sál og líkama, njóta þess að vera saman. Ég held áfram að berjast með konum sem eru í svipaðri stöðu og ég var. Ég hætti ekki fyrr en kerfinu verður breytt og ýmsir aðilar stíga til hliðar. Svo ég vitni í Sidsel Jensdatter Lyster, sem á svipaða sögu að baki og ég: Við segjum að fólk sem búi í ofbeldissamböndum eigi að koma sér í burtu til að vernda börnin. Við gleymum hins vegar að segja þessum illa leiknu foreldrum að þeir geti ekki verndað börnin sín eftir að þeir fara,“ segir Hjördís að lokum.
Netflixmynd um fjöldamorðin í Útey frumsýnd í Feneyjum.
Kvikmynd Pauls Greengrass 22. júlí, sem fjallar um fjöldamorð Anders Behring Breivik í Útey, var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum og hlaut afar jákvæðar móttökur. Íslenski búningahönnuðurinn Margrét Einarsdóttir var búningahönnuður myndarinnar og hún segir vinnuna við myndina hafa haft djúp áhrif á sig.
„Þetta er rosalega áhrifarík mynd og ég get ekki hætt að hugsa um hana,“ segir Margrét sem stödd er í Feneyjum til að vera viðstödd frumsýninguna á kvikmyndahátíðinni. „Myndin var unnin í nánu samstarfi við aðstandendur fórnarlamba fjöldamorðanna í Útey 22. júlí 2011 og það tók töluvert á að fara í gegnum þennan hrylling með þeim. En þótt þetta sé erfitt viðfangsefni og stutt síðan þetta gerðist þá er mikilvægt að fjalla um þetta og mér finnst þessi mynd gera það mjög vel.“
Paul Greengrass er einn virtasti leikstjóri samtímans og hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikstjórinn, fyrir Green Zone árið 2010 og Captain Phillips árið 2013. Hvernig kom það til að Margrét fór að vinna með honum, hafði hún unnið með honum áður?
„Þetta var svolítið mikið. En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“
„Nei, ég hafði aldrei unnið með honum áður,“ segir hún. „En ég hafði unnið með einum framleiðanda myndarinnar og þannig kom það til að ég var beðin um að taka þetta að mér.“
Verkefnið var risavaxið þar sem níutíu leikarar fara með hlutverk í myndinni auk 3.500 statista og Margrét þurfti að hanna búninga á allan skarann. „Þetta var svolítið mikið,“ viðurkennir hún. „En verðugt viðfangsefni og skemmtilegt.“
22. júlí er ekki eina kvikmyndin um hryllinginn í Útey sem verið er að sýna þessa dagana önnur mynd um sama efni, Útey, er nú í sýningum í Bíó Paradís. Margrét segir myndirnar nálgast atburðina á mjög ólíkan hátt en svo skemmtilega vill til að hún var líka beðin um að hanna búningana fyrir Útey en valdi 22. júlí frekar. Hún segir handritið hafa hrifið sig mikið og hin nána samvinna við fjölskyldur fórnarlambanna geri hana einstaka. Myndin byggir á bók Åsne Seierstad, Einn af okkur sem kom út í íslenskri þýðingu árið 2016, og Greengrass skrifaði handritið í samstarfi við hana.
Myndin keppir í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum um Gullna ljónið og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Til að mynda gaf kvikmyndagagnrýnandi The Guardian henni 5 stjörnur í dómi sem birtist 5. september.
Íslenskt áhugafólk um förðun ætti að kannast vel við Sigurlaugu Dröfn Bjarnadóttur og Söru Dögg Johansen, en þær hafa skipað sér í raðir okkar fremstu förðunarfræðinga. Ungar að árum stofnuðu þær fyrirtækið sitt Reykjavík Makeup School sem nýtur mikilla vinsælda, en á þeim fimm árum sem liðin eru frá stofnun skólans hafa tæplega 600 nemendur útskrifast þaðan. Velgengni þeirra má þakka metnaði og óbilandi áhuga á því sem þær gera, en þær leggja mikla áherslu á að auka sífellt þekkingu sína og færni í faginu.
Leiðir vinkvennanna lágu upphaflega saman árið 2010 þegar þær kynntust í Airbrush & Makeupschool. Á þessum tíma var Sara nýútskrifuð úr listnámi en hún segir hönnun og list alltaf hafa heillað sig. „Ég tók grunn í arkitektúr áður en ég lærði förðun, en draumur minn frá því að ég man eftir mér var að verða arkitekt,“ segir hún, en eftir útskrift úr förðunarnáminu var ekki aftur snúið. „Upphaflega ætlaði ég aðeins að læra förðun fyrir sjálfa mig, en eftir námið bauðst mér starf í förðunarverslun og sem förðunarkennari, síðan þá hefur þessi heimur átt hug minn allan.“
Silla starfaði í Íslandsbanka og ætlaði sér, líkt og Sara, eingöngu að læra förðun fyrir sjálfa sig. Hún fann fljótt að þetta lægi vel fyrir sér, en hélt áfram að vinna í bankanum næstu tvö árin. „Einn daginn fékk ég svo símtal þar sem mér bauðst að gerast kennari við skólann þar sem ég lærði, og mér fannst það mjög spennandi. Þegar ég fór að velta þessu fyrir mér fór ég samt sem áður að hugsa, „af hverju geri ég þetta ekki bara sjálf, af hverju ekki að opna nýjan skóla?“ og þar með kviknaði hugmyndin. Ég ræddi þetta fram og til baka við manninn minn sem leist vel á hugmyndina og hvatti mig áfram, en mig vantaði viðskiptafélaga, einhvern sem var tilbúinn til að gera þetta með mér. Ég þekkti Söru ekki mikið á þessum tíma en fann einhvern veginn á mér að hún væri rétta manneskjan í þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég bað hana þess vegna að koma með mér í hádegismat á Hamborgarafabrikkunni einn daginn, og spurði hana hvernig henni litist á að stofna eitt stykki skóla með mér. Ótrúlegt en satt, hún var búin að vera hugsa nákvæmlega það sama, og allar hugmyndirnar sem hún hafði voru svipaðar því sem ég var með í huga. Ég þurfti því ekkert að hafa fyrir því að sannfæra hana, og við ákváðum þarna að bara kýla á þetta.“
Eftir að hugmyndin var komin í loftið var ekki aftur snúið og hlutirnir gerðust hratt. Aðeins mánuði eftir fundinn á Hamborgarafabrikkunni var komin kennitala fyrir fyrirtækið, nafn og leit hafin að rétta húsnæðinu. Hvorug þeirra var í vafa um að þetta væri rétt skref. „Auðvitað var þetta einhver áhætta, að stofna fyrirtæki og henda okkur í djúpu laugina, sérstaklega þar sem við þekktumst varla. En við vorum bara svo vissar frá upphafi að þetta myndi ganga,“ segir Sara, og Silla tekur undir. „Það er líka kannski það sem hefur komið sér svona vel, að vera ekkert að ofhugsa hlutina. Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis. Ég er alveg viss um að ef við hefðum fengið þessa hugmynd og ætlað að hugsa um þetta í einhvern tíma, mánuði eða ár, hefði bara einhver annar verið á undan.“
Við erum svolítið þannig að ef við fáum góðar hugmyndir sem við trúum á, förum við frekar í það að finna leiðir til að láta þær ganga upp heldur en að hugsa út í allt sem gæti farið úrskeiðis
Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Sillu og Söru. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Steinar Fjeldsted hefur í nægu að snúast þessa dagana en hann á og rekur þrjú fyrirtæki. Steinar er mikill áhugamaður um hjólabretti en fyrir ári stofnaði hann Hjólabrettaskóla Reykjavíkur sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Þar að auki á hann og rekur fataverslun sem og veftímarit sem fjallar um íslenska tónlist. Fljótt á litið virðast þetta vera fyrirtæki með ólíkar áherslur en Steinar segir þetta allt tengjast og mynda hina heilögu þrenningu.
Steinar hefur verið á hjólabretti frá því að hann var um átta ára gamall, eða í 34 ár, sem verður að teljast ansi gott. „Ég hef verið viðloðandi senuna frá því snemma á tíunda áratugnum en árið 1996 stofnaði ég til dæmis BFR (Brettafélag Reykjavíkur) svo afar fátt sé nefnt. Ég var beðinn um að vera með námskeið hjá BFH (Brettafélagi Hafnarfjarðar) árið 2015 og það gekk gríðarlega vel. Það var svo fyrir um ári sem ég stofnaði Hjólabrettaskólann og hlutirnir hafa gerst hratt síðan þá. Nú erum við með skólann í innanhússaðstöðunni hjá Jaðar íþróttafélaginu sem er staðsett í Dugguvogi 8 í Reykjavík. Nýlega lönduðum við styrk hjá prótíndrykknum Hámark og Kókómjólk svo það eru afar spennandi tímar fram undan.“
Steinar er afar ánægður með þær viðtökur sem skólinn hefur fengið og segir þær hafa farið fram úr hans björtustu vonum. „Það er greinilegt að þjóðin hefur gaman af hjólabrettum en mikill fjöldi fólks sækir hvert námskeið. Á þessum þremur árum sem ég hef starfrækt námskeið hef ég búið til það sem ég vill kalla hið fullkomna prógramm. Á námskeiðinu er aldrei dauður tími og hver þátttakandi fær heilmikið út úr því. Sumir koma aftur og aftur og það er virkilega gaman að sjá framfarir. Hjólabretti er svo miklu meira en bara spýta á hjólum en þessi íþrótt ýtir mjög mikið undir sjálfstæði, kennir viðkomandi að treysta á sjálfan sig og eigin getu. Svo er þetta alveg eins og í lífinu, maður dettur milljón sinnum bara á því að reyna eitt trikk, en ef maður stendur ekki upp aftur og reynir þá nær maður því aldrei. Einu sinni kom faðir með strákinn sinn á námskeið en strákurinn var með staurfót og búinn að prófa allar íþróttir sem til eru en ekkert gekk upp. Hjólabretti var síðasta úrræðið. Eftir um þrjú námskeið var drengurinn farinn að renna sér eins og vindurinn með mjög gott jafnvægi sem ekki hafði sést áður. Faðirinn og drengurinn voru í skýjunum sem og ég.“
Elsti þátttakandinn 74 ára
Nýlega hófust fullorðinsnámskeið í Hjólabrettaskólanum sem hafa ekki síður hlotið góðar viðtökur. Steinar fullyrðir að það sé aldrei of seint að byrja og að hjá þeim séu engin aldurstakmörk. „Hjólabretti er fyrir alla og alla aldurshópa. Það er ekkert betra en að renna sér og hafa gaman. Hjólabretti ýtir undir lífshamingju og það má segja að maður verði nett háður þessu, það er eins og þegar lappirnar snerta gripinn gleymist öll heimsins vandamál og hrein skemmtun taki völdin. Það er ótrúlegt hvað eldri kynslóðin hefur gaman af þessu en það er allskonar fólk á öllum aldri sem sækir námskeiðin. Sumir koma aftur og aftur líkt og á krakkanámskeiðunum. Hjólabretti er nefnilega virkilega góð hreyfing þar sem notast er við alla vöðva líkamans, jafnvel vöðva sem maður vissi ekki að væru til. Svo þetta er ekki aðeins hrikalega skemmtilegt heldur líka krefjandi. Elsti þátttakandi sem hefur komið til okkar var 74 ára maður sem kom á námskeið hjá okkur um daginn. Hann hafði lengi dreymt um að prófa, var virkilega flottur og sannaði það að aldur er enginn fyrirstaða.“
Steinar hefur búið víða um heim, þar af nánast hálfa ævina í Bandaríkjunum. Aðstöðuna til hjólabrettaiðkunar á Íslandi segir hann ekkert í líkingu við það sem finna megi í nágrannalöndum okkar og í Bandaríkjunum en þrátt fyrir það séu íslenskir skeitarar á heimsmælikvarða. „Hjólabrettasenan á Íslandi er virkilega góð og við eigum mjög efnilega iðkendur. Sumir hafa verið að fara erlendis að keppa og náð mjög góðum árangri. Það er ekki hægt renna sér í rigningu eða slæmu veðri, þess vegna segir það sig sjálft að innanhússaðstaða er nauðsynleg fyrir okkur sem búum á Íslandi. Ég vona innilega að Reykjavíkurborg fari að taka til dæmis Malmö og Danmörku til fyrirmyndar og leggja alvörufjárhæðir í góða aðstöðu. Hjólabretti hafa oft verið litin hornauga hér á landi en það viðhorf virðist vera að breytast. Árið 2020 verður í fyrsta sinn keppt í hjólabrettum á Ólympíuleikunum og við höfum alla burði til að senda fulltrúa frá Íslandi.“
Tónlist ávallt skipað stóran sess
Margir muna eftir Steinari úr rapphljómsveitinni Quarashi, en hann var einn af stofnendum sveitarinnar og meðlimur hennar til starfsloka. Tónlist er honum afar hugleikin og hefur ávallt skipað stóran sess í lífi hans. Það var svo eitt kvöldið sem hann sat og ræddi við konuna sína um íslenska tónlist og þá litlu umfjöllum sem hún fengi, miðað við þá grósku sem væri að eiga sér stað. Það var þá sem hugmyndin að Albumm.is kviknaði. „Okkur datt í hug að búa til tónlistarblað í anda Undirtóna (90´s íslenskt tónlistarblað) sem þróaðist svo yfir í online music magazine,“ útskýrir hann. „Albumm.is fór í loftið 23. október 2014 og síðan þá höfum við kappkostað við að fjalla um íslenska tónlist og grasrótarmenningu á Íslandi. Albumm er stærsti einkarekni miðill landsins sem telst helvíti gott og við erum afar stolt af honum. Fyrir um tveimur árum hófum við samstarf við Visir.is sem hefur gengið gríðarlega vel. Hugmyndin er í rauninni að vekja athygli á Íslenskri tónlist og skiptir engu hvort um ræðir nýgræðinga, underground eða stórstjörnur, en af nægu er að taka. Við leggjum mikinn metnað í þessa vinnu og viljum vera með puttan á púlsinum, margar fréttir rata inn á vefinn á hverjum degi.“
Aðspurður hvort þessi áhugamál, tónlist og hjólabretti fari vel saman segir Steinar það svo sannarlega vera. „Margt tónlistarfólk er einnig á hjólabretti og öfugt, má þar til dæmis nefna nefna Krumma Björgvins, Sindra, oft kenndur við Sin Fang og Teit Magnússon. Sjálfur kynntist ég mikið af tónlist í gegnum hjólabrettamyndir en segja má að tónlist, tíska og hjólabretti sé hin heilaga þrenning.“
Þrátt fyrir að hafa mörg járn í eldinum tók Steinar að sér enn eitt verkefnið fyrir stuttu, þegar hann opnaði hjólabrettabúðina Skuggi Reykjavík. Verslunin selur hátískufatnað fyrir hjólabrettaunnendur og fleiri, og því má segja að hin heilaga þrenning sé fullkomnuð. „Það er óhætt að segja að það sé margt spennandi fram undan hjá mér. Við hjá Albumm.is erum að undurbúa netta sprengju í haust sem verður gaman að geta sagt frá, ekki alveg strax þó. Svo erum við að vinna að því að stækka Hjólabrettaskólann og alla starfsemina á bak við hann. Komandi vetur verður fullur af ýmiskonar námskeiðum og miklu stuði,“ segir Steinar Fjeldsted að lokum.
Haustið er komið. Það þýðir ekkert að horfa framhjá því. Jafnvel þótt við fáum ennþá einn og einn sólardag eru kvöldin orðin dimm og köld og þá jafnast fátt á við að hreiðra um sig í sófanum og láta sig dreyma um endalaust sumar með aðstoð góðra kvikmynda.
Bandaríska tímaritið Vogue tók saman lista yfir kvikmyndir sem hrífa áhorfandann með sér í sólríka sumarstemningu á fjarlægum slóðum og við getum ekki annað en verið sammála þeim um valið. Þetta eru svo sannarlega sumarmyndir sem standa undir nafni og ekki spillir fyrir að ljúfsár nostalgía fylgir áhorfi á þær flestar. Verði ykkur að góðu.
Hin rómaða kvikmynd Luca Guadagnino frá 2017 bauð upp á dásamlegt sýnishorn af tísku fyrri hluta níunda áratugarins, seiðandi sviðsmynd og óviðjafnleg hughrif frá ítölsku sumri. Gerist ekki mikið betra.
Ah, Sandy og Danny. Hefur eitthvert par hrifið okkur jafn mikið? Sögur af sumarást í upphafi skólaárs á líka vel við á þessum árstíma og ekki spillir dásamleg tónlistin fyrir. Leyfið ykkur bara að verða unglingar aftur. Það kemst enginn að því.
Fáar borgir jafnast á við Róm og hún hefur sjaldan notið sín betur í kvikmynd en í þessari fyrstu stórmynd sem Audrey Hepburn lék í. Söguþráðurinn er kannski óttalegt bull en sjarmi Rómar, Audrey og Gregory Peck fær mann fljótt til að gleyma því. Sakbitin sæla eins og þær gerast bestar.
Er þetta ekki ein vinsælasta myndin til að horfa á í náttfatapartíum ungpía á öllum aldri? Allavega fátt sem toppar þessa mynd í að koma manni í dansstuð. Og hver segir að það sé bannað að dansa einn heima í stofu? Látið það bara eftir ykkur. Við skulum engum segja.
Jude Law án pjötlu á kroppnum, meðan hann var enn fagur eins og guð, ítalskt landslag eins og það gerist best, óhugnanlegur undirtónn, góð saga og snilldarleikur Matt Damon og Pilips Seymour Hoffman. Það er nú varla hægt að biðja um meira í einni og sömu myndinni. Eini gallinn er að maður verður svo heillaður af ítalska sumrinu að mann langar helst aldrei að koma til Íslands aftur. En það eru til verri hlutir en það. Hjálpar allavega til við að gleyma myrkrinu og rigningunni um stund. Við eigum það skilið.
Flugfélagið Wow air lætur ekki deigan síga og tilkynnti í vikunni nýjan áfangastað í vetur. Áætlunarlug til Orlando hefst í desember og verður flogið þangað þrisvar í viku í allan vetur til 30. apríl.
Lent verður á flugvellinum Orlando International og tekur flugið rúmar átta klukkustundir. Lægsta verð á flugfari á þessari leið er tæpar 20.000 krónur aðra leið.
Í fréttatilkynningu frá Wow air er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow air að Orlando sé skemmtilegur staður sem lengi hafi notið mikilla vinsælda hjá Íslendingum. „Með því að bjóða upp á flug á hagstæðum kjörum gerum við fleirum kleift að ferðast og njóta lífsins í sólinni,“ segir Skúli.
Sala á flugferðum til Orlando hófst í gær á heimasíðu Wow air.
Flugvallarstarfsmenn á Heathrow sýna ótrúleg tilþrif.
Söngvarinn dáði Freddie Mercury hefði orðið 72 ára í gær ef hann hefði lifað. Af því tilefni tóku starfsmenn í farangurshleðslu á Heathrow flugvelli sig saman og æfðu dans við eitt af þekktustu lögum söngvarans I want to break free. Afraksturinn má sjá í meðfylgjandi myndbandi og það verður að segjast að starfsmennirnir leggja líf og sál í performansinn, farþegum á flugvellinum til ómældrar gleði.
Ástæðan fyrir þessu uppátæki starfsmannanna er sú að áður en frægðin barði á dyr hjá Freddy í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar vann hann um tíma við að hlaða farangri í flugvélar á Heathrow. Starfsmennirnir vildu minnast þess tímabils í lífi hans og lögðu hart að sér við að undirbúa uppákomuna, fengu meðal annars dansara úr bresku sjónvarpsþáttunum Strictly come dancing til að kenna sér sporin.
Starfsmennirnir í farangurshleðslunni eru ekki þeir einu sem heiðra minningu söngavans á Heathrow því þar hljóma eingöngu lög með Queen úr hátalarakerfinu auk þess sem flugfélagið British Airways býður öllum sem heita Freddie, Frederick eða Farrokh, sem var raunverulegt nafn söngvarans, að dvelja í biðsal fyrsta farrýmisfarþega án endurgjalds. Auk þess er á flugvellinum seldur ýmis varningur sem tengist Mercury.
Og fyrir þá sem aldrei fá nóg af Freddie Mercury má nefna að kvikmyndin Bohemian Rhapsody, sem byggir á ævi hans verður frumsýnd í kvikmyndahúsum þann 24. október. Við getum ekki beðið en það má stytta sér biðina með því að horfa á þetta bráðskemmtilega myndband og dást að tilþrifum núverandi starfsmanna Heathrow.
Nicki Minjaj skóf ekkert af yfirlýsingunum í spjallþætti Ellenar, einu karlmenn sem hún lítur við eru þeir sem geta stundað kynlíf þrisvar á nóttu.
Rapparinn Nicki Minjaj var gestur Ellener í fyrsta þætti haustsins sem sýndur var 4. september, og hélt ekki aftur af sér í lýsingum á því hvernig kynlíf hún vildi. „Ef maður hittir einhvern einu sinni eða tvisvar í viku, þá er það þrisvar á nóttu,“ lýsti hún yfir. „Og ef þú getur það ekki, bless. Ég sóa ekki tíma mínum.“
Kröfur dívunnar eru fleiri þegar kemur að kynlífinu. „Það má ekki líða meira en hálftími á milli skipta,“ sagði hún Ellen. „Ég þoli ekki knús eftir samfarir. Þegar ég er búin að fá mitt, ef mér líður virkilega, virkilega vel, láttu mig þá í friði. Farðu. Farðu og eldaðu eitthvað handa mér eða smyrðu samloku eða eitthvað.“
Spurð hvort hún vildi ekki hafa aðdraganda að kynlífinu var Minaj snögg að svara: „Mér finnst mjög gott að kyssa, en það er bara svona la la, drífðu þig í þetta,“ útskýrði hún. „Sýndu forleikstaktana þína, gerðu það sem þú þarft að gera og flýttu þér. Ég hef ekki tíma fyrir það allt saman.“
Hið sögufræga hótel Café Royal í London mun opna nýjan bar til heiðurs David Bowie seinna í þessum mánuði. Barinn ber hið viðeigandi nafn Ziggy’s í höfuðið á einu frægasta alteregói Bowies, Ziggy Stardust.
Það var árið 1973 sem David Bowie hélt síðustu tónleika sína sem Ziggy Stardust og staðurinn sem hann valdi til þess var einmitt Hotel Café Royal. Nú ætlar hótelið að opna bar í minningu rokkstjörnurnar og þar verða framreiddir drykkir sem bera nöfn úr textum Bowies á plötunni The Rise and fall of Ziggy Stardust and the Spiders From Mars sem kom út árið 1972. Á kokteilaseðlinum verður meðal annars að finna kokteilana Myrkur og Smán en þau heiti eru sótt í texta lagsins Lady Stardust af fyrrnefndri plötu.
Lokatónleikar Ziggy Stardust eru goðsögn í rokksögunni og ekki minni stjörnur en Lou Reed og Mick Jagger tóku þátt í þeim. Tónleikarnir báru hið háleita nafn Síðasta kvöldmáltíðin, enda Bowie ekki þekktur fyrir lítilæti á þeim árum.
Barinn verður skreyttur með sjaldséðum myndum Micks Rock af goðinu, en hann var hirðljósmyndari Bowies árið 1973. Þar verður einnig að finna djúkbox með tónlist rokkstjörnurnar.
Stefnt er að formlegri opnun barsins þann 20. september og geta aðdáendur rokkgoðsins frá og með þeim tíma heiðrað minningu hans með því að súpa á Smán, skoða myndir og hlusta á tónlist hans. Leggið staðinn á minnið fyrir næstu ferð til London.
Hér fá bláberin að njóta sín í bland við kardimommur og hnausþykka gríska jógúrt. Kardimommubragðið kemur virkilega á óvart og á vel við berin. Þessi eftirréttur getur líka verið sparilegur morgunmatur.
Bláberjasæla með grískri jógúrt og múslí
fyrir 4
300 g bláber
2 msk. hrásykur
1 msk. sítrónusafi
3 heilar kardimommur, steyttar, fræ notuð
1 tsk. sítrónubörkur
400 g grísk jógúrt
2 dl múslíblanda að eigin vali
Setjið bláber og hrásykur í pott ásamt sítrónusafa og fræjunum úr kardimommunum. Sjóðið við vægan hita í nokkrar mínútur. Látið berjablönduna kólna alveg. Blandið sítrónuberki saman við grísku jógúrtina. Setjið síðan berjablöndu, múslí og gríska jógúrt til skiptist í há glös og endið á því að skreyta með sítrónuberki. Gott er að kæla réttinn aðeins áður en hann er borinn fram.
Tæpt ár er nú liðið frá því að Guðríður Gunnlaugsdóttir fluttist heim frá Danmörku, þar sem hún hafði búið undanfarin ár ásamt fjölskyldu sinni. Guðríður hefur ekki setið auðum höndum eftir heimkomuna en í maí síðastliðnum opnaði hún Barnaloppuna, markað þar sem fólk getur komið með notaðar barnavörur og látið selja þær fyrir sig. Guðríður heillaðist af „loppu“-menningu Dana en hún vonast til að Barnaloppan verði skref í átt að breyttri kauphegðun Íslendinga og umhverfisverndar.
Eftir útskrift úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2011 fluttist Guðríður til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni. Við tók áframhaldandi nám og varð meistaranám í þjónustustjórnun fyrir valinu. „Ég var mjög ánægð með það nám, enda hef ég unnið í allskyns þjónustustörfum í gegnum tíðina og haft mikinn áhuga á hvernig fyrirtæki geta byggt upp sterk tengsl við viðskipavini sína og aukið gæði þjónustunnar,“ segir Guðríður. „Ég hef alltaf haft sterk tengsl við Danmörku því ég fæddist þar og bjó þar fyrstu árin í mínu lífi með foreldrum mínum sem voru í námi og á því marga góða að þar.“
Á þeim árum sem Guðríður bjó í Danmörku var hún að eigin sögn dyggur aðdáandi dönsku Loppumarkaðanna, eða flóamarkaðanna á réttri íslensku, en slíka markaði er að finna víðsvegar um borgina allan ársins hring. „Danir eru meira að segja með sérstakt loppudagatal, þar sem hægt er að sjá hvar og hvenær loppumarkaðirnir fara fram. Ég gerði oft frábær kaup á þessum mörkuðum og eftir nokkur ár í Kaupmannahöfn var þetta bara orðið þannig að ég keypti nánast ekkert nýtt. Ég keypti fatnað, húsgögn, skrautvöru og fleira notað, hvort sem það var á mörkuðum eða á Netinu. Mér fannst frábært að gera góð kaup á fallegum vörum, hvort sem það voru merkjavörur eða ekki,“ segir hún.
Meðan á náminu stóð velti Guðríður því mikið fyrir sér hvað hana langaði að gera eftir útskrift, og var alltaf með þá hugmynd í höfðinu að opna einhverskonar „second hand“ verslun, hvort sem það væri hérna heima eða úti. Hún segist fljótt hafa áttað sig á að hana langaði að gera eitthvað tengt börnum, þar sem henni hafi alltaf þótt langskemmtilegast þegar hún sjálf fann eitthvað fallegt á mörkuðum fyrir stelpurnar sínar tvær. „Ég elskaði ekkert meira en að kaupa fallegar vörur sem voru vel með farnar fyrir lítinn pening. En það er einmitt málið með barnavörurnar, þær eru margar hverjar notaðar svo rosalega stutt og því tilvalið að gefa þeim nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu. Þó svo að það sjáist að varan hafi verið notuð þá finnst mér það satt að segja bara sjarmerandi og gott að vita til þess að varan eigi sér framhaldslíf. Ég er engan veginn snobbuð á svona hluti, heldur finnst mér frábært að það sé hægt að endurnýta hlutina og nota þá aftur og aftur. Gott fyrir umhverfið sem og budduna! Jörðin okkar er að fyllast af drasli og það er lífsnauðsynlegt að íhuga afleiðingarnar af því. Við þurfum ekki alltaf að vera að kaupa allt nýtt, við eigum að nota og nýta það sem til er. Það skiptir akkúrat engu máli þó svo að það sé ein saumspretta í úlpunni sem þú kaupir eða þó svo að það sé ein rispa á String-hillunni þinni. Svo las ég líka einhvers staðar að magnið af vatni og eiturefnum sem fer í að búa til eitt par af bláum gallabuxum sé gríðarlegt og að það þurfi nú alveg nokkra þvotta til þess að ná öllum þeim efnum úr flíkunum sem við kaupum.“
Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Guðríði. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.
Sjötta Die Hard myndin er bæði forleikur og framhald fyrri myndanna.
Enginn endir virðist ætla að verða á framleiðslu Die Hard kvikmyndanna um John McClane, sem Bruce Willis leikur af snilld. Staðfest hefur verið að sjötta myndin er þegar í undirbúningi og í einkaviðtali við Empire Magazine staðfestir framleiðandinn Lorenzo di Bonaventura að hún muni bera nafn söguhetjunnar og kallast stutt og laggott McClane.
Samkvæmt di Bonaventura er myndin bæði forleikur og framhald fyrri myndanna og mun sjónarhornið flakka á milli McClane í nútímann og á unga aldri þar sem málið sem hann er að fást við í myndinni á upptök sín í fyrndinni þegar hann var nýliði í lögreglunni.
Leikstjórinn Len Wiseman, sem leikstýrði Live Free or Die Hard, hefur verið ráðinn sem leikstjóri nýju myndarinnar og Bruce Willis mun sem fyrr túlka hinn harðsnúna John McClane, en ekki hefur enn verið ráðið í hlutverk hans á unga aldri.
Di Bonaventura fullyrðir þó að Willis muni fá að minnsta kosti jafn mikið pláss í myndinni og sá sem leikur yngri útgáfu hans. „Ég veit ekki hvernig hægt væri að gera Die Hard mynd án Bruce,“ sagði framleiðandinn í fyrrnefndu samtali við Empire og bætti við að öllu skipti að vel tækist til við val leikara til að túlka McClane ungan. „Það eru mjög stórir skór sem berir fætur þess leikara þurfa að fylla út í.“
Fyrsta Die Hard myndin fagnaði 30 ára afmæli í ár, en ekkert bendir til þess að aðdáendur McClane séu búnir að fá nándar nærri nóg af hetjunni sinni og geta þeir farið að hlakka til að kynnast honum ungum.
Tónleikaröð Jóns Ólafssonar Af fingrum fram verður á dagskrá í Salnum í Kópavogi í vetur tíunda árið í röð. Þar fær Jón til sín þekkta íslenska tónlistarmenn, spjallar við þá um feril þeirra og þeir flytja nokkur lög. Í vetur verða þrjár söngdívur í sviðsljósinu auk sjö karla, en Jón segist alltaf hafa reynt að hafa kynjahlutföllin í lagi, þótt eðli rokkbransans geri honum erfitt um vik með það.
„Rokkbransinn er svo karllægur,“ segir hann afsakandi. „Eða var það sérstaklega á árum áður og þar sem tónleikarnir ganga í flestum tilfellum út það að rifja upp langan feril í bransanum er valið enn þrengra. Ég hef reynt í gegnum árin að hafa hlutföllin sem jöfnust og stundum hafa konurnar verið fjórar til fimm af tíu viðmælendum. Það er ekki alveg svo gott hlutfall í ár en þessar þrjár dívur, Selma Björns, Ragga Gísla og Emiliana Torrini, hafa ekki verið hjá mér í Salnum áður þannig að ég er mjög ánægður að hafa náð í þær allar.“
Eins og allir vita byrjaði prógrammið Af fingrum fram sem sjónvarpsþáttur á RÚV en síðan 2008 hefur það verið í formi tónleika í Salnum. Jón segir það form gefa miklu meira svigrúm, bæði meiri tíma og meira frelsi til að kafa dýpra í sögu viðmælenda. Í flestum tilfellum standi prógrammið yfir í tvo tíma, en lendi hann á flugi með viðmælandanum geti teygst úr því.
„Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum“
„Þetta getur farið upp í allt að þriggja tíma prógramm með góðum viðmælanda,“ útskýrir hann. „Þegar Magnús Þór Sigmundsson var hjá mér vorum við að frá hálf níu til nærri tólf um kvöldið, það var bara svo margt sem þurfti að taka fyrir. Svo það eru ekki ströng tímamörk á þessu öfugt við í sjónvarpinu þar sem allt þarf að vera niðurnjörvað, klippt og skorið. Þetta er líka afslappaðra form en í sjónvarpi, engar myndavélar og ekkert stress þannig að ef eitthvað er eru viðmælendurnir enn einlægari en í þáttunum.“
Meðal viðmælenda í vetur eru kanónur eins og Magnús Eiríksson, KK, Páll Óskar og Stefán Hilmarsson en það er Þórhallur Sigurðsson, sjálfur Laddi, sem ríður á vaðið og verður viðmælandi Jóns á fyrstu tónleikunum þann 13. september.
„Laddi er ekki þekktastur fyrir tónlistina sína,“ segir Jón. „En hann hefur samið ótrúlega mikið af lögum og textum og það eru þau sem verða í kastljósinu hjá okkur þann 13. Áherslan verður á tónlistarmanninn Þórhall Sigurðsson, ekki skemmtikraftinn Ladda, þótt auðvitað komi við sögu sumir karakterarnir hans eins og Eiríkur Fjalar til dæmis sem mun flytja einhver lög.“
Dagskrá tónleikaraðarinnar má kynna sér á salurinn.is og þar er einnig hægt að kaupa miða.
Fimm ára drengur í Kópavogi fann á mánudag poka með hvítu dufti á lóð leikskólans Fögrubrekku og setti hluta af því upp í sig. Farið var með drenginn á Barnaspítala Hringsins þar sem hann var skoðaður og efni pokans greint. Efnið í pokanum reyndist vera amfetamín.
„Það var hringt í okkur frá leikskólanum um hálf fjögur leytið á mánudag og okkur sagt að sonur okkur hefði fundið poka með hvítu dufti á leikskólalóðinni og sett eitthvað af því upp í sig,“ segir Kristinn Ólafur Smárason, faðir drengsins. „Það uppgötvaðist þegar hann kom með pokann til kennarans og bað um vatnsglas því honum fannst innihaldið svo bragðvont. Starfsfólk leikskólans hringdi í lögregluna og síðan í okkur foreldrana í kjölfarið. Þau ítrekuðu að það væri allt í lagi með drenginn en engu að síður brá mér og ég hljóp út á leikskóla, en ég bý mjög stutt frá.“
Kristinn segist strax hafa séð að það virtist ekkert ama að drengnum en hann hafi samt hringt í Eiturefnamiðstöð Landspítalans til að leita upplýsinga um hvað hann ætti að gera. Þar fékk hann þær upplýsingar að hann skyldi fara með barnið á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins og taka pokann með sér svo hægt væri að greina innihald hans. Á bráðamóttökunni var drengurinn grandskoðaður en allar niðurstöður prófa sýndu að engin eituráhrif væru í líkama hans. „Sem betur fer hafði svo lítið farið upp í hann að það hafði engin mælanleg áhrif,“ segir Kristinn.
„Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla. En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“
Tvær lögreglukonur mættu á bráðamóttökuna og tóku pokann með sér til greiningar innihaldsins. Klukkutíma síðar lá sú niðurstaða fyrir að í pokanum væri amfetamín.
Kristinn segir að lóð leikskólans sé vinsæll samkomustaður unglinga á kvöldin, en honum hafi aldrei dottið í hug að amast við því þótt hann búi við hlið leikskólans. „Ég hef oft séð krakka á menntaskólaaldri og grunnskólaaldri hanga þarna og reykja og spjalla,“ segir hann. „En mig grunaði aldrei að þau væru að neyta fíkniefna.“
Kristinn segist ekki vita hvert framhald málsins verður en hann muni allavega í framtíðinni láta lögregluna vita sjái hann unglinga á lóðinni. „Ég geri það í samráði við leikskólastjórann sem að sjálfsögðu harmar atvikið mikið. En ég tek fram að ég sakast ekkert við leikskólann út af þessu máli. Ég veit að þau leggja sig fram um að hindra svona uppákomur og fara yfir lóðina á hverjum á morgni, en það er auðvitað erfitt að fylgjast með öllu.“
Í framhaldinu hefur fengist leyfi hjá byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til að porti á lóð leikskólans verði framvegis lokað á kvöldin, en Kristinn segist ekki búast við að aðrir eftirmálar verði af málinu.
Óhætt er að segja að kvikmyndinni Svanurinn hafi verið vel tekið vestanhafs.
Á vefsíðunni Rotten Tomatoes, sem tekur saman kvikmyndagagnrýni frá viðurkenndum gagnrýnendum auk viðbragða almennra áhorfenda, fær myndin jákvæðar umsagnir frá stórum miðlum á borð RogerEbert.com og Hollywood Reporter og er hún í þessum rituðu orðum komin með 87 prósent í einkunn.
Aðalleikkonan, hin unga Gríma Valsdóttir, fær lofsamlega dóma og er leikstjóranum og handritshöfundinum Ásu Helgu Hjörleifsdóttur meðal annars hrósað af gagnrýnanda Los Angeles Times fyrir að takast að feta hina fínu línu á milli draumkennds veruleika og raunsæis í myndinni.
Svanurinn er byggð á samnefndri skáldsöguGuðbergs Bergssonar sem kom út árið 1991. Hún segir af níu ára stúlku sem er send í sveit til að bæta fyrir brot sín og verður þar lykilþátttakandi í atburðum sem hún á erfitt með að skilja.
Re:member, nýjasta plata tónlistarmannsins Ólafs Arnalds, fær fína dóma í hinu virta tímariti Rolling Stone.
Í umsögn gagnrýnandans, sem gefur plötunni þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum, segir að á henni megi greina mildari útfærslur af aðalsmerki Ólafs, hina fallega melankólíu sem hafi bæði hljómað á plötu hans For Now I Am Winter frá 2013 og í tónlistinni við bresku verðlaunaþættina Broadchurch. Við indie-takta, póst-minimalískar endurtekningar og kvikmyndalega tónlist, sem Ólafursé þekktur fyrir, bætist við skemmtileg sjálfspilandi píanó. Platan sjálf sé allt í senn, sterk, sorgleg og sefjandi.