Fasteignamarkaðurinn er síbreytilegur og brýnt að fylgjast vel með og leita til ráðgjafa ef á þarf að halda. Við hittum Lindu Guðmundsdóttur Lyngmo, vörustjóra einstaklingslána hjá Íslandsbanka, sem hefur ýmis góð ráð fyrir fasteignakaupendur.
„Fólk sem er með lán á húsnæðinu sínu á alltaf að vera meðvitað um stöðu lánanna og helst að vita hversu hátt hlutfall þau eru af fasteignamati eignarinnar á hverjum tíma. Þetta getur skipt máli þegar kemur að lækkun kostnaðar, t.d. þegar heildarfjármögnun eignar fer undir 70% af fasteignamati, er hægt að óska eftir lækkun vaxta á viðbótarláni, sé það til staðar.
Einnig mælum við með að fólk yfirfari reglulega vexti og afborganir lána því markaðsaðstæður breytast, vextir geta breyst og það getur komið sá tímapunktur að það borgi sig fyrir fólk að endurfjármagna lánin sín, sem leiðir til lægri kostnaðar. Mörg lán eru með uppgreiðslugjaldi en vegna þess hvað vextir á húsnæðislánum hafa lækkað mikið undanfarin ár getur samt borgað sig að endurfjármagna. Mjög fljótlegt er að fara yfir þá möguleika með ráðgjafa bankans í húsnæðisþjónustu,“ segir Linda.
„Síðast en ekki síst er sá möguleiki til staðar að greiða aukalega inn á lánin, það er í raun ekkert annað en langtímasparnaður. Við hvetjum alla til að kynna sér úrræði ríkisins um notkun á séreignarsparnaði hvað þetta varðar og athuga hvort það sé eitthvað sem henti þeim, hafi þeir ekki nýtt sér þetta úrræði nú þegar. Ef fólk er í einhverjum vafa um sín mál,hvetjum við það eindregið til þess að hafa samband við ráðgjafa í húsnæðisþjónustu bankanna og fá frekari aðstoð og útskýringar.“
Linda segir jafnframt að varðandi íbúðaverð séu greinendur sammála um að hækkunartaktur undanfarinna mánaða sé að ná ákveðnu jafnvægi. Verð á sérbýlum hækkar meira en verð á eignum í fjölbýli og verð á eignum úti á landi hækkar meira en verð á höfuðborgarsvæðinu. Hvernig þessi þróun komi til með að verða er erfitt að spá fyrir um. Það verði tíminn að leiða í ljós.
Kjör við kaup á fyrstu eign
Er hagstætt að kaupa fyrstu eign í dag? „Síðastliðin þrjú ár hefur verið mikill uppgangur á íslenskum húsnæðismarkaði,“ segir Linda. „Eftirspurn eftir húsnæði hefur verið mikil sem hefur orðið til þess að verð hefur hækkað umtalsvert á eignum um allt land. Samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands og Þjóðskrá Íslands hefur aðeins dregið úr þessum hækkunum, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu. Það er erfitt að svara þessari spurningu með fullri vissu þar sem ómögulegt er að spá fyrir um hvernig markaðurinn muni þróast á komandi mánuðum eða árum.
Samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs um húsnæðismarkaðinn kemur fram að fyrstu kaup hafa ekki verið fleiri innan ársfjórðungs síðan 2008, eða svo langt aftur sem tölur Þjóðskrár Íslands ná. Fyrstu íbúðakaupum hefur almennt fjölgað meira en annars konar íbúðakaupum síðan árið 2010. Mögulega á vaxtaumhverfið stóran þátt í þessari þróun en vextir á íbúðalánum hafa haldist lágir undanfarin ár í sögulegu samhengi. Verð á íbúðum hefur ekki hækkað jafnmikið í ár og í fyrra sem gæti haft sitt að segja. Einnig bjóða bankarnir, sem og hið opinbera, upp á sérstök úrræði fyrir fyrstu kaupendur.
Þegar þetta er allt tekið saman þá verður það vonandi til þess að fyrstu kaupendur eigi greiðari aðgang inn á fasteignamarkaðinn heldur en ella.“
Hvernig eru horfurnar í dag fyrir fasteignaeigendur varðanda kaup og kjör? „Líkt og fram hefur komið hafa vextir verið frekar lágir í sögulegu samhengi, fasteignamat hefur hækkað umtalsvert undanfarin ár og hefur kostnaður við endurfjármögnun lækkað umtalsvert miðað við það sem áður þekktist. Þessi atriði, ásamt öðrum, gera það að verkum að það er tiltölulega hagstætt fyrir fólk að hreyfa við lánunum sínum, endurfjármagna, lækka vexti á lánunum sínum og svo framvegis.“
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir