Laugardagur 21. september, 2024
8.2 C
Reykjavik

„Algjört ævintýri“

|||
|||

Sigurður Steinar er á hraðri uppleið í tískuheiminum eftir frábæran árangur í Elite Model Look-fyrirsætukeppninni í Mílanó. Mannlíf tók þennan hressa og efnilega 17 ára Reykvíking tali.

Árlega halda yfir 30 lönd undankeppni fyrir Elite Model Look sem þúsundir keppenda taka þátt í. Af þeim 64 þátttakendum sem komust áfram í ár stóðu uppi 15 sigurvegarar, 10 stúlkur og 5 strákar. Sigurður Steinar var einn fimm sigurvegara í hópi drengja en ekki er raðað sérstaklega í sæti fyrir utan það efsta. Sigurvegararnir fá allir samning við Elite International sem tryggir þeim verkefni í kjölfarið.

Hvernig tilfinning var að ná svona langt í keppninni? „Vá, þegar ég stóð á sviðinu og það var bara eitt sæti eftir og svo heyrist í hljóðkerfinu: „From Iceland, Siggi!“ Það var eitt af skrítnustu augnablikum sem ég hef upplifað! Við höfðum öll fengið fyrirmæli um að halda „kúlinu“ ef við kæmumst áfram, þannig að ég gekk bara fram og tók hring með hinum efstu 15 módelunum en rosalega langaði mig til að fagna!“

Áttirðu von á þessu? „Alls ekki. Það voru svo rosalega margir og flottir krakkar í þessari keppni.“

Var keppnin erfið? „Já, vikuna fyrir keppni þurftum við að vakna klukkan 7 á hverjum morgni, skella í okkur morgunmat og flýta okkur út í rútu sem ók með okkur í risastórt stúdíó þar sem við tóku strangar æfingar. Til dæmis fengum við strákarnir flestir blöðrur á fæturna bara af því að æfa göngulagið í allt of þröngum skóm. Stelpurnar þurftu að ganga í hælaskóm sem var örugglega enn verra. Svo var æft alveg til klukkan 9 öll kvöld. Þannig að þetta var ein af erfiðari en skemmtilegri vikum lífs míns!“

Hvernig kom til að þú tókst þátt? „Þetta byjaði allt hjá Eskimo Models á Íslandi. Fyrir þeirra tilstilli komst ég á samning hjá Elite í París og þar var ákveðið að senda mig beint í stóru lokakeppnina í Mílanó.“

Hafa einhverjar dyr opnast í kjölfarið? „Já, ég er strax kominn á samning hjá Elite Paris og Elite Milano og var að undirrita samning við Elite London. Í janúar tók ég svo þátt í Men’s Fashion Week Winter í París þar sem ég vann fyrir Loewe og ég er líka búinn að fara í prufur hjá Louis Vuitton, Versace, Chanel, Vouge, GQ magazine, Armani, Diesel, Lacoste og fleirum.“

Mynd / Nicholas Efimtcev

Ferðastu þá ekki svolítið í tengslum við starfið? „Jú, ég hef búið í Mílanó og París sem er alveg mögnuð borg. Svo er ég að fara til London til að taka þátt í Men’s fashion.“

Ertu í skóla samhliða módelstörfunum? „Ég kláraði eitt ár í tækniteiknun í Tækniskólanum sem var mjög skemmtilegt en þegar þetta tækifæri bauðst skyndilega ákvað ég, í samráði við foreldra mína og Eskimo, að bíða með námið. Það er nefnilega mjög erfitt að sinna hvorutveggja á sama tíma.“

Hvað finnst skólafélögunum og vinunum um þetta? „Allir í kringum mig eru bara rosalega stoltir af mér og hafa verið duglegir að hvetja mig áfram.“

Stefnirðu að frama í þessu eða langar þig til að vinna við eitthvað annað þegar þú verður eldri? „Ég ætla að einbeita mér að þessu, alla vega eins og er en ég stefni að því að fara í nám í arkitektúr seinna.“

Elite Model Look-keppnin hefur verið haldin árlega frá 1983 og er stór stökkpallur fyrir fyrirsætur en meðal þeirra sem hafa byrjað feril sinn þar eru ofurfyrirsæturnar Cindy Crawford og Gisele Bundchen. Mynd / Cynthia Frebourg

En þessi bransi, er hann í líkingu við það sem þú ímyndaðir þér? „Nei, þegar ég byrjaði vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í. Þetta er mjög gaman en líka algjört puð.  Það tekur á að fara í 16 prufur á einum degi og ekki grunaði mig að ég myndi lenda í topp fimm í stærstu módelkeppni í heimi! Þessi bransi er svolítið þannig; það er erfitt að sjá fyrir hvað gerist næst. Nú er ég til dæmis að fara til London og svo kannski til París. Annað veit ég ekki í bili. Eina sem ég veit er að það er búið að vera algjört ævintýri að fá að ferðast og búa í svona flottum stórborgum bara 17 ára og þurfa að sjá um sig sjálfur.“

Áttu heilræði handa þeim sem vilja feta sig út á þessa braut? „Hafðu trú á þér. Vertu ófeiminn og alls ekki reyna að vera eins og allir hinir. Vertu bara þú sjálfur og komdu alltaf heiðarlega fram.“

Hægt er að fylgjast með Sigurði Steinari á Instragram undir notendanafninu sigurdur_st

Texti / Roald Eyvindsson
[email protected]
Aðalmynd / Stephane Gizard

Ungar konur í atvinnulífinu verða í forgrunni

Félag Ungra athafnakvenna í samstarfi við Alvotech munu standa fyrir ráðstefnu sem haldin verður 10. mars næstkomandi í Hörpu sem tileinkuð er ungum konum í atvinnulífinu og nefnist ráðstefnan UAK dagurinn.

Fram undan er spennandi ráðstefna í Hörpu þar sem félagið leitast við að skapa vettvang fyrir konur til að fræðast og efla hver aðra, fylla þátttakendur eldmóði og fá til liðs við sig áhrifafólk, ráðherra og erlenda gesti. Markmiðið er að gera stjórnendum fyrirtækja, stjórnmálamönnum og ungu fólki í atvinnulífinu á Íslandi grein fyrir kröftum vel menntaðra og reynslumikilla kvenna ásamt mikilvægi þess að hlustað sé á kröfur þessa öfluga hóps hvað varðar atvinnutækifæri.

Sigyn Jónsdóttir er formaður Ungra athafnakvenna (UAK). Sigyn er hugbúnaðar- og rekstrarverkfræðingur frá Columbia University og starfar hjá Men & Mice ásamt því að sitja í stjórn nýsköpunarfyrirtækisins Mure. UAK var stofnað árið 2014 af Lilju Gylfadóttur. Alls eru sex konur í stjórn UAK og eru félagskonur um 250 talsins. Í hverri viku bætast við nýjar félagskonur.

Hver eru helstu áherslur UAK og hafið þið sett ykkur markmið með starfseminni? „Ungar athafnakonur vilja stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Félagið er fyrir konur sem vilja skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og við leitumst við að skapa vettvang fyrir konur til að fræðast og efla hver aðra,“ segir Sigyn.

„UAK dagurinn er ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu. Á ráðstefnunni fáum við tækifæri til að hlusta á íslenska og erlenda leiðtoga ræða málefni sem skipta máli fyrir samfélagið sem við búum í, málefni sem tengjast jafnrétti.“

Hvernig vegnar ungum konum almennt og hver er upplifun þeirra í atvinnulífinu? „Ungar íslenskar konur eru í mikilli forréttindastöðu þegar horft er til annarra heimshorna eða nær okkur, til stöðu kvenna af erlendum uppruna hér á landi. Tækifærin eru ótal mörg og háskólarnir fullir af ungum konum sem eru tilbúnar að takast á við krefjandi stöður í atvinnulífinu. Eftir útskrift tekur svo við blákaldur raunveruleikinn og við okkur blasa staðreyndirnar, rúmlega 90% þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar. Þessu þarf að breyta og við ætlum ekki að sitja rólegar og bíða eftir því að hlutirnir breytist. Þar til konur og karlar standa jöfnum fótum í íslensku samfélagi munu Ungar athafnakonur starfa áfram og vinna að jafnrétti með fræðslu, umræðu og hvatningu,“ segir Sigyn.

Getur þú sagt okkur frekar frá UAK deginum sem fram undan er í Hörpu? „UAK dagurinn er ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu. Á ráðstefnunni fáum við tækifæri til að hlusta á íslenska og erlenda leiðtoga ræða málefni sem skipta máli fyrir samfélagið sem við búum í, málefni sem tengjast jafnrétti,“ segir Sigyn.

Hvert er markmið ykkar með ráðstefnunni? „Við viljum gera stjórnendum fyrirtækja, stjórnmálamönnum og ungu fólki í atvinnulífinu grein fyrir kröftum vel menntaðra og reynslumikilla kvenna ásamt mikilvægi þess að hlustað sé á kröfur þessa öfluga hóps hvað varðar atvinnutækifæri,“ segir Sigyn.

___________________________________________________________

*SÉRSTAKUR GESTUR RÁÐSTEFNUNNAR ER LAURA KORNHAUSER

Sérstakur gestur er Laura Kornahauser.

Laura er forseti og framkvæmdastjóri Stratyfy sem spáir fyrir um og greinir gögn til að efla hina sönnu sérfræðinga fyrirtækja – fólkið sem stýrir þeim til að taka upplýstari ákvarðanir til að bæta fyrirtækið. Hún tók þátt í að stofna Stratyfy árið 2016 ásamt þremur verkfræðingum. Fyrir stofnun Stratyfy var Laura framkvæmdastjóri hjá JPMorgan og vann við að selja flóknar afleiddar vörur til stórra kúnna. Á tólf árum hjá JPMorgan varð Laura sérfræðingur í að sjá um flókin sambönd við kúnna, bera kennsl á vörutækifæri og að þróa ný boð til að koma til móts við aukna eftirspurn kúnna. Hún upplifði þá óhagkvæmni þeirra vara sem notaðar voru, sérstaklega þeirra sem notaðar voru til að fylgja þróun í umhverfi reglugerðar. Eftir að hafa skapað ýmis ferli, tæki og tól til að hjálpa við að bæta árangur viðskipta, vissi hún að það þyrfti að vera til betri lausn og hún ætlaði að finna hana.

___________________________________________________________

Hér má sjá dagskrána sem er hin glæsilegasta og von er á öflugum og fjölbreytum hóp fyrirmynda öðrum til eftirbreytni.
UAK dagurinn 2018 – Ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu

10.00 Afhending ráðstefnugagna
10.30 Sigyn Jónsdóttir, formaður Ungra athafnakvenna
10.40 Eliza Reid forsetafrú setur UAK daginn 2018
11.00 Panel: Störf framtíðarinnar
Umræðum stýrir Fanney Birna Jónsdóttir

Gestir verða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ægir Már Þórisson, Stefanía G. Halldórsdóttir og Ari Kristinn Jónsson.

11.45 Hádegismatur
12.30 Leynigestur
13.00 Laura Kornhauser
13.30 Panel: Umræðan um áhrifamiklar konur
Umræðum stýrir Björg Magnúsdóttir
Gestir verða Rannveig Rist, Salvör Nordal og fleiri.

14.15 Kaffihlé
14.45 Alda Karen Hjaltalín
15.15 Halla Tómasdóttir

Panel: Störf framtíðarinnar

· Hvar og hvernig er AI þróað? Hverjir eru að því? Hvaða fyrirtæki? Hvernig eru teymin samansett, t.d. kynjahlutföll?
· Eru konur í minnihluta í þeim greinum sem verða hvað mest áberandi í fjórðu iðnbyltingunni? Ef já, hvað er hægt að gera? Eru stjórnvöld, menntastofnanir og fyrirtækin í landinu að undirbúa sig fyrir fjórðu iðnbyltinguna? Hvernig?
Gestir verða fulltrúar atvinnulífsins, stjórnvalda og háskólasamfélagsins.

Panel: Umræðan um áhrifamiklar konur

· Fyrirfinnst tvöfalt siðgæði gagnvart konum í almennri umræðu Íslendinga um áhugaverða einstaklinga?
· Gerum við meiri kröfur til útlits, framkomu og vinnubragða kvenna? Er orðræðan um áhrifamiklar konur harkalegri en orðræðan um karla í sambærilegum störfum?
· Fá konur, sem eru áberandi vegna vinnu sinnar, verri útreið í fjölmiðlum og athugasemdakerfum netheima vegna mistaka sinna?
· Finnst konum þær þurfa að vanda sig meira í starfi og með það sem þær tjá sig um opinberlega vegna ótta við að vera dæmdar harkalegar en karlar?
· Ef já, af hverju? Og hvernig breytum við þessu?

Gestir verða konur sem hafa verið áberandi í stjórnmálum eða stjórnendur stórra fyrirtækja sem hafa leitt erfið verkefni eða þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Einnig farið í gegnum krefjandi tímabil á sínum starfsferli, þurft að svara fyrir sína vinnu og mögulega upplifað ósanngjörn viðhorf og athugasemdir í sinn garð.

Stjórn UAK, talið frá vinstri: Helena Rós Sturludóttir samskiptastjóri, Elísabet Erlendsdóttir viðskiptastjóri, Andrea Gunnarsdóttir viðburðastjóri, Sigyn Jónsdóttir formaður og Anna Berglind Jónsdóttir. Á myndina vantar Ásbjörgu Einarsdóttur fjármálastjóra.

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Félag ungra athafnakvenna.
Umsjón / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Aðdáendur telja að Jennifer Aniston og Brad Pitt byrji aftur saman

|
|

Leikkonan Jennifer Aniston og leikarinn Justin Theroux eru skilin en þau giftu sig við leynilega athöfn í ágúst árið 2015. Þau byrjuðu að deita í maí 2011 og tilkynntu trúlofun sína í ágúst árið 2012. Þau sáust síðast saman í fríi í Mexíkó í desember á síðasta ári, en fjölmiðlar hafa haldið því fram að í fríinu hafi þau leitað leiða til að bæta sambandið. Það gekk hins vegar ekki.

„Til að draga úr frekari vangaveltum höfum við ákveðið að tilkynna skilnað okkar,“ segja Jennifer og Justin í sameiginlegri tilkynningu til fjölmiðla um málið.

„Ákvörðunina tókum við í sameiningu í miklu bróðerni í lok seinasta árs. Við erum bestu vinir sem höfum ákveðið að hætta að vera par, en við hlökkum til að rækta vináttu okkar áfram,“ segir einnig í tilkynningunni.

Justin og Jennifer.

Aðdáendur vinalegu leikkonunnar hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum eftir að fréttirnar um skilnaðinn bárust og telja margir að nú sé komið tækifæri fyrir hana og leikarann Brad Pitt að byrja aftur saman. Þau voru gift frá 2000 til 2005, en frægt er orðið þegar Brad byrjaði í kjölfarið með leikkonunni Angelinu Jolie. Þau hættu hins vegar saman í september árið 2016.

„Brad Pitt og Jennifer Aniston eru að fara að byrja aftur saman. Ég sagði það fyrst,“ skrifar einn tístari.

„Óvænt flétta: hún byrjar aftur með Brad Pitt og er stjúpmóðir barna Angelinu Jolie,“ tístir annar.

Hér fyrir neðan má sjá viðbrögð Twitter-samfélagsins við fréttunum um að Jennifer Aniston sé einhleyp á ný:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Áhrifamiklar fæðingarmyndir verðlaunaðar

|||||||||||
|||||||||||

Vefsíðan Birth Becomes Her, sem safnar saman fæðingarmyndum sem teknar eru af faglærðum ljósmyndurum, tilkynnti nýverið úrslit í ljósmyndasamkeppni sinni.

Rúmlega þúsund myndir voru sendar inn í samkeppnina og var það dómnefnd og yfir tuttugu þúsund lesendur síðunnar sem kusu sigurvegara í hinum ýmsu flokkum.

Myndirnar eiga það allt sameiginlegt að fanga stórkostlegar stundir í lífi fólks og eru þær því afar áhrifamiklar.

Fæðing – 1. sæti
Ljósmyndari: Selena Rollason

Brjóstagjöf – 1. sæti
Ljósmyndari: Cory Janiak

Glænýtt / Eftir fæðingu – 1. sæti
Ljósmyndari: Veronika Richardson

Hríðar – 1. sæti
Ljósmyndari: Rebecca Coursey

Móðurhlutverkið – 1. sæti
Ljósmyndari: Jen Conway

Fæðing – 2. sæti
Ljósmyndari: Neely Ker-Fox

Fæðing – 3. sæti
Ljósmyndari: Dominique Lamontagne

Brjóstagjöf – 2. sæti
Ljósmyndari: Veronika Richardson

Brjóstagjöf – 3. sæti
Ljósmyndari: Christina Benton

Móðurhlutverkið – 2. sæti
Ljósmyndari: Melissa Benzel

Aðalsigurvegari keppninnar
Ljósmyndari: Marijke Thoen

Allar myndirnar sem hlutu verðlaun í keppninni má sjá hér.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu að þetta væri ógeðslegt“

|||||
|||||

Síðustu ár hafa margar kannanir verið gerðar í löndunum í kringum okkur um hvort konur skammist sín fyrir að vera á blæðingum. Nýleg könnun í Bretlandi sem framkvæmd var meðal fimmtán hundruð kvenna og fimm hundruð karla leiddi það í ljós að 58% kvenna höfðu skammast sín fyrir að vera á túr. Þá sögðust 73% hafa falið dömubindi eða túrtappa þegar þær fóru á salernið innan um fólk.

Við hjá Mannlífi ákváðum að framkvæma okkar eigin skoðanakönnun um þetta málefni. 608 konur svöruðu könnun okkar um blæðingaskömm og 42,6% þeirra sögðust hafa skammast sín fyrir að vera á blæðingum. Rúmlega 73,5% þeirra sem svöruðu sögðu að þeim fyndist ekki óþægilegt að tala um blæðingar við sína nánustu eða vinnufélaga en 75,66% kvennanna sögðust fela túrtappa, dömubindi eða aðrar hreinlætisvörur þegar þær færu á salernið í mannmergð, til dæmis í skóla eða á vinnustað.

Enn vandræðalegt umræðuefni

Þessar niðurstöður koma Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðingi lítið á óvart en hún heldur meðal annars kynfræðslufyrirlestra fyrir unglinga og foreldra og kennir áfangann Almenn kynfræði í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hún kemur einmitt inn á tíðahring kvenna og egglos.

„Það þarf að ræða þetta miklu, miklu meira. Það er heila málið. Mér finnst fólk búið að ákveða að það sé nóg að ræða þetta í kynfræðslu í sjötta bekk og síðan aldrei meir. Eins og að þessi fyrrnefnda kynfræðsla hafi „koverað“ allt sem tengist blæðingum. Í dag, þegar ég tala um blæðingar við grunnskólanema, framhaldsskólanema og jafnvel nemendur á háskólastigi, finnst konum þetta enn rosalega vandræðalegt umræðuefni. Og margir vita lítið um tíðahring kvenna. Ungar konur eru mjög stressaðar og kvíðnar þegar kemur að því að tala um túr og hafa enn svo margar spurningar, eins og til dæmis: Hvenær byrja ég á túr? Hvernig lítur þetta út? Hvað er ég lengi á túr?“ segir Sigga Dögg.

Sigga Dögg vinnur til dæmis við að kenna kynfræðslu.

Trúarleg orðræða mjög fordæmandi

Ef við skoðum blæðingar í sögulegu samhengi kemur í ljós að þessi blæðingaskömm hefur viðhaldist í ýmsum trúarbrögðum. Í kristinni trú voru konur á blæðingum taldar beinlínis hættulegar. Ef marka má sögur kvenna í prestastétt sem voru opinberaðar fyrir stuttu í #metoo-byltingunni virðist þetta viðhorf enn lifa góðu lífi meðal einhverra.

„Ég minnist mannsins sem sagði að hann hefði farið inn á klósettið í kirkjunni eftir að ég var þar. Hann vildi vita hvernig prestur gæti blesssð söfnuðinn þegar hún væri á túr. Fyrstu mánuðina og árin eftir að þetta gerðist hugsaði ég um þetta í hvert skipti sem mér blæddi. Ég sá andlitið á honum fyrir mér og fannst ég skítug,“ hljóðar ein af sögunum sem birtar voru á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Í íslam má ekki stunda kynlíf með konum á blæðingum og í hindúatrú mega blæðandi konur ekki fara inn í hof og biðja. Þá eru konur á túr taldar óhreinar í gyðingdómi. Það markaði einnig tímamót í Nepal á síðasta ári þegar lög voru samþykkt sem bönnuðu að konur og stelpur væru læstar inni í svokölluðum blæðingakofum, í algjörri einangrun, á þessum tíma mánaðarins, eitthvað sem kom frá fornri hefð úr hindúatrú sem heitir chhaupadi. Var þetta gert því konurnar voru taldar óhreinar. Í ágúst lést unglingsstúlka í einum af þessum kofum eftir að hafa verið bitin af snáki og því var gripið til þess ráðs að banna blæðingakofana. Þeir sem neyða konur inn í þessa kofa framvegis gætu átt yfir höfði sér þriggja mánaða fangelsisdóm og sekt upp á rúmlega þrjú þúsund krónur.

Sigga Dögg telur þessa orðræðu í trúarbrögðum hafa mikið að segja um af hverju konur skammist sín fyrir það að fara á túr.

„Trúin hefur rosalega mikið að segja og hefur að þessu leyti valdið okkur miklum skaða. Orðræðan er mjög fordæmandi, talað um að konan sé skítug og hún sé að gjalda fyrir erfðasyndina og blæðingar séu í raun okkar refsing. Þetta hefur litað alla orðræðu og gerir út um allan heim – konur fá ekki að sitja til borðs með öðrum, mega ekki fara í skólann, mega jafnvel ekki að fara út úr húsi. Það þarf ekki að fara langt til að sjá að konur á blæðingum eru jaðarsettar,“ segir kynfræðingurinn og bætir við að konur á túr séu vissulega niðurlægðar á Íslandi, þótt þjóðin sem slík sé ekki heittrúuð.

„Þetta er talið svo mikið kvennamál sem er ótrúlega áhugavert. Stelpur fá enn að heyra: Ertu pirruð? Ertu á túr? Svona setningar eru notaðar til að niðurlægja og setja konur niður. Eins og maður eigi ekki rétt á þessum tilfinningum, vegna líffræðilegs ferlis sem við ráðum ekkert við. Strákar nota þessar setningar og stelpur þola það ekki. Þetta lifir því miður góðu lífi í dag.“

Skömminni viðhaldið í skólum

Það er sláandi að sjá í könnun Mannlífs hve margar konur hafa átt í erfiðleikum með að tala um fyrstu blæðingarnar við foreldra sína, og jafnvel falið þær fyrir þeim svo árum skiptir. Sigga Dögg telur nauðsynlegt að foreldrar taki það að sér að fræða og undirbúa börnin sín þegar kemur að tíðahringnum, þá bæði drengi og stúlkur.

„Ef þú átt barn með píku fer það barn á blæðingar og umræðan um það þarf að byrja mjög snemma. Ég á tvo drengi og eina stúlku og á mínu heimili var umræðan um túr byrjuð um þriggja ára aldurinn. Ég fer á klósettið með opna hurð og þá er spurt: Hvað er þetta? Af hverju gerist þetta? Mun þetta gerast hjá mér? Þetta er mjög eðlilegur hluti af samræðum,“ segir Sigga Dögg og bætir við að kynfræðslu sé oft ábótavant í grunnskólum landsins.

„Þessi fræðsla er oft kynjaskipt þannig að strákar eru úti á þekju hvað varðar blæðingar. Það hefur stuðað margar stelpur, enda finnst þeim þetta ekki vera þeirra einkamál. Af hverju fá stelpur ekki að vita um stráka og strákar um stelpur? Þannig að þessari skömm er viðhaldið í skólum. Margir strákar vita ekkert um egglos og frjóvgunarlegu hliðina á konum, til dæmis hvenær hún getur orðið ólétt. Fræðslan er líka oft of fræðileg, í staðinn fyrir að útskýra blæðingar á mannamáli, af hverju blóðið er mismunandi á litinn, hvaðan það kemur og hve mikið kemur í einu. Við erum ekki að lesa IKEA-bækling, við erum að tala við fólk.“

Taka skal fram hér að nýverið var það tilkynnt að taka eigi upp kynfræðslu frá 1. og upp í 10. bekk í tveimur skólum í Reykjavík í tilraunaskyni.

Fullnæging getur stillt túrverki

Sigga Dögg segir að það sé ekkert rétt né rangt við samfarir á túr.

Talið berst að kynlífi á blæðingum, en ein af flökkusögunum um samfarir á túr er að kynlífið verði ógeðslegt, það frussist blóð úr leggöngum konunnar og að það gjósi upp vond túrlykt. Sigga Dögg er alvön að svara slíkum sögum.
„Þetta frussast ekki út,“ segir Sigga Dögg og hlær. „Ef þú ert að stunda kynlíf er til dæmis hægt að setja handklæði undir. Svo er líka hægt að stunda kynlíf í baði eða sturtu ef fólk vill hafa þetta hreinlegra.“

Sigga Dögg segir að það sé ekkert rétt né rangt við samfarir á túr, heldur þurfi hver kona að ákveða fyrir sig hvað veiti henni ánægju.

„Konur þurfa að spyrja sig, sem blæðandi verur: Finnst þér þetta ógeðslegt? Ef svarið er já og þér finnst erfitt að slaka á í kynlífi með annarri manneskju þá ættirðu frekar að sleppa því. Ég vil samt benda á að það er ein tilgáta um það að fullnæging sé verkjastillandi og geti því stillt túrverki. Þá getur fullnæging einnig stytt blæðingatímann því legið fær krampa við fullnægingu sem veldur því að það losar líkamann hraðar við túrblóðið. Margar konur upplifa sig einnig mjög kvenlegar á blæðingum og það er eitthvað til að fagna,“ segir Sigga Dögg.

Oft er skömmin í hausnum á okkur

En hvað geta konur gert til að skila blæðingaskömminni?

„Við þurfum að byrja á því að fræða opinskátt og eðlilega um blæðingar og ræða þær í nærumhverfinu sínu ef maður hefur þörf fyrir það. Við þurfum að leyfa okkur að taka upp dömubindi og túrtappa úr töskunni á almannafæri og ekki deyja yfir því. Samfélagið er hægt og rólega að breytast. Oft er þessi skömm í hausnum á okkur og fólk í kringum okkur er almennt ekkert að pæla í okkar klósettferðum.“

Unaður sem fylgir kynfærum

Ein af athugasemdunum sem sló undirritaða hvað mest í könnun Mannlífs lýsti því hvernig nafnlaus kona sagðist finna allt sem tengdist kynfærum sínum óþægilegt. Sigga Dögg segir að við eigum langt í land með að aflétta kynfæraskömm almennt.

„Það er rosalega feimni í kringum það að tala um kynfærin, skoða þau, upplifa þau, kanna þau og hafa gaman að þeim. Það er rosalega mikið tabú. Auðvitað sjáum við að umræðan þarf að byrja miklu fyrr, það er það sem er alltaf verið að impra á. Orðræðan um píkur er enn svo gildishlaðin. Hver er að tala um píkur fyrir framan börn? Einhver fullorðinn. Notkun þessa einstaklings á orðinu píka hefur áhrif. Það tekur margar kynslóðir að vinda ofan af þessu og breyta,“ segir Sigga Dögg, sem veit fátt betra en þegar opinskátt tal hennar um kynfæri, kynlíf og allt sem því fylgir ber árangur.

„Þess vegna er ég að gera það sem ég er að gera. Það er ótrúlega gefandi að stelpa komi upp að mér og segi mér frá því að hún hafi prófað að skoða píkuna á sér. En það er alltaf í hálfum hljóðum og aldrei yfir bekkinn. Við verðum að hætta að taka þetta svona alvarlega. Við kynfræðingar sem sinnum kynfræðslu erum á því að leiðin til að gera umræðuna opnari og létta skömm sé að fara í gegnum unaðinn sem fylgir kynfærum. Fara yfir jákvæðnina, hvernig við getum notið líkamans og upplifa að hann geti verið skemmtilegur og frábær. Það eru margar rannsóknir sem styðja þessa leið til sjálfseflingar og -styrkingar.“

Rétta orðið er píka

Tilfinning Siggu Daggar er samt sem áður sú að það sé orðið eðlilegra fyrir marga að nota orðið píka yfir kynfæri kvenna en það var fyrir nokkrum árum.

„Samtalið um píkuna fór af stað inni á mörgum leikskólum og í dag eru mjög margir leikskólakennarar og yngri foreldrar sem nota orðið píka. Mér finnst gott að brýna það fyrir börnunum mínum að rétta orðið sé píka, þó að við getum að sjálfsögðu notað einhver gælunöfn yfir hana. Hvernig við lítum á orðið kemur oft heiman frá okkur. Þeir sem hika við að nota orðið gera það því það þykir ljótt heima hjá þeim. Ég hitti enn stelpur, jafnvel í framhaldsskóla, sem geta ekki sagt orðið píka. Við notum þetta orð líka enn til að tala illa um aðrar konur, samanber „helvítis píkan“. Það þarf að breyta tungumálinu og það þarf að fara að fagna píkunni.“

Sigga Dögg vill opna umræðu um hvernig hægt sé að nota líkamann til unaðar og ánægju.

Ekki samasemmerki milli ummáls og heilsufars

Talið berst að líkamsvitund kvenna, en það er alþekkt að bæði konur sjálfar og samfélagið setja miklar kröfur um að þær eigi að líta út á ákveðinn hátt. Oft hefur orðinu útlitsdýrkun verið fleygt í þessu samhengi. Sigga Dögg fagnar samtökum og hreyfingum eins og Samtökum um líkamsvirðingu og segir verk sem þar er unnið skipta sköpum.

„Orðræðan hefur breyst. Ég tók til dæmis ekki eftir því að auglýsingar bentu mér á að ég þyrfti að komast í kjólinn fyrir jólin í aðdraganda síðustu jóla. En þessi orðræða er svo djúp. Hún smeygir sér inn í merginn inni í beininu. Ég til dæmis reyni að stoppa mig af áður en ég lendi í vítahring líkamsskammar en þetta er svo inngróið. Rannsóknir hafa sýnt að allt niður í þriggja ára börn sniðganga frekar feita krakka því þau vita hvað það er ljótt og hættulegt að vera feitur. Það er jú talað um fitufaraldurinn eins og hann sé einhver djöfull sem sé hér kominn til að éta þau. En það skiptir svo ótrúlega miklu máli að við áttum okkur á því að það er ekkert samasemmerki á milli líkamsummáls og heilsufars,“ segir Sigga Dögg og heldur áfram.

„Samfélagið er að segja okkur að við getum verið eitthvað sem við eigum ekki að reyna að vera. Ég kem til dæmis úr kvenfjölskyldu þar sem við erum með granna fótleggi en mjúkan maga. Ég hef alltaf þráð sléttan maga en það er bara ekki í minni genabyggingu. Ég myndi þyrfa að svelta mig í einhvern tíma ásamt því að æfa brjálæðislega mikið til að fá sléttan maga í korter. Líkaminn veit hvernig hann vill vera en við bara hlustum ekki. Við setjum okkur einhver markmið í ræktinni sem oftar en ekki eru sentímetra- eða kílóatengd og það er svo fráleitt. Þetta á ekki að vera svona.“

„Ef þú værir aðeins grennri værirðu aðeins betri“

Sigga Dögg telur að það sé ekki aðeins fjölskylda okkar og hvernig foreldrar tala við börnin sín sem skiptir máli þegar kemur að því að bæta líkamsvitund kvenna. Það þurfi meira til.

„Þetta er allt í kringum okkur – í fjölmiðlum, auglýsingum, bíómyndum, hvernig við tölum hvor við aðra. Þótt maður sé gagnrýninn er maður samt ekki ónæmur fyrir þessari umræðu. Ég sveiflast til dæmis í fitusöfnun og um leið og ég næ aðeins af mér heyri ég mikið af hrósi um hvað ég líti vel út. Þá líður mér eins og fólk sé oft að hugsa: Ef þú værir aðeins grennri værirðu aðeins betri. Þú værir meira fyrir augað,“ segir Sigga Dögg sem segir einnig stigsmun á hvernig talað er við konur og karla þegar kemur að útlitinu.

„Hópur karlmanna á miðjum aldri spurði mig um daginn hvort þeir mættu ekki hrósa konum í vinnunni lengur. Hvort það væri ljótt að hrósa. Sumir vilja hrós en flestar okkar nennum því ekki að karlmenn hafi skoðun á okkur. Okkur langar bara að fá að vera í vinnunni og vinna vinnuna okkar. Það er rosalega þreytandi að þurfa sífellt að taka ákvörðun um útlit sitt. Ef að ég er mygluð og mæti í víðum gallabuxum og hettupeysu í vinnuna er það einhvers konar yfirlýsing, en ósköp venjulegt ef karlmaður gerir það. Auðvitað tengja karlmenn ekki við þetta því þetta er ekki þeirra reynsluheimur. En konur fá svo mikið af athugasemdum frá samfélaginu og fólkinu í kringum sig um hvernig þær líta út. Okkur langar bara að vera,“ segir Sigga Dögg og rifjar í kjölfarið upp atvik þegar henni var neitað um fjölmiðlaviðtal því hún væri ekki máluð.

„Ég sagðist bara ætla að vera svona, en það var stungið upp á því að viðtalinu yrði frestað þar til ég væri „betur stemmd“. Eins og fólk yrði ofboðslega vandræðalegt fyrir mína hönd og færi að hafa áhyggjur af því að ég væri ekki undirbúin því ég væri ekki máluð. Fólk ákveður hvernig okkur konur líður út frá útlitinu. Það les í klæðaburðinn okkar, í staðinn fyrir að kafa dýpra í skelina. Bæði konur og karlar eru með mjög skerta sjálfsmynd og það hjálpar ekki að utanaðkomandi aðilar hafi sífellt skoðanir á því hvernig þú lítur út. Verum bara eins og við viljum. Hættum að troða hugmyndum upp á alla aðra um hvernig þeir eigi að vera. Hafðu bara skoðun á þínum eigin, fokkíng líkama.“

Berum virðingu fyrir fjölbreytileikanum

Það sem byrjaði sem spjall um blæðingar hefur farið á flug, enda af nægu að taka af öllu sem varðar skömm sem tengist líkama kvenna. Sigga Dögg segir þær herferðir og grasrótarsamtök sem hafa starfað á Íslandi hafa haft mikil og góð áhrif, og ber þar til dæmis að nefna Völvuna og Druslugönguna. Hún segir samfélagið í heild sinni einnig á góðri leið, þótt við tökum stundum tvö skref áfram og þrjú aftur á bak.

„Sem samfélag erum við alltaf að læra. Við erum alltaf að batna og sýnum hvert öðru meiri virðingu og skilning. Mér finnst einlægur vilji hjá mörgum að reyna að skilja aðrar manneskjur og bera virðingu fyrir því hvað við erum ólík. Bakslagið kemur helst frá gömlum röddum sem rifja upp gamla tíma og spyrja að því hvort ekkert megi í dag. En af hverju megum við ekki bara hlusta á fólk og virða það sem það hefur að segja? Ég er ekki eins og þú og það er hvorki hættulegt fyrir mig né þig.“

„Finnst allt óþægilegt sem tengist kynfærum mínum“

Eins og áður segir, ákváðum við hjá Mannlífi að framkvæma okkar eigin skoðanakönnun um blæðingaskömm. Við spurðum einnig af hverju konur skömmuðust sín fyrir að vera á túr. Meðal svara sem við fengum voru:

„Dömubindi þykja ekki smart, maður vill ekki láta fólk sjá að maður fari á klósettið með dömubindi í hendinni.“

„Finnst ég óhrein.“

„Það hefur blætt í gegn, til dæmis þegar ég hitti tengdaforeldrana í fyrsta sinn, mér fannst það vandræðalegt.“

„Ég var 14 ára og það kom í gegnum fötin mín þegar ég var með pabba og nýrri kærustu hans í Kringlunni. Það kom blettur í stólinn á Stjörnutorgi. Þá skammaðist ég mín. Enda 14 ára og ný í bransanum. En kærastinn minn er með óþolandi blæðingafóbíu og kemur helst ekki nálægt mér meðan á því stendur. Þorir varla inn á bað af ótta við að sjá einhver ummerki á eða í kringum klósettið. Og hann gæti aldrei tæmt ruslið inni á baði, þó að ekkert blæðingatengt væri í því. Ég skammast mín þó ekki þegar hann lætur illa, ég segi honum bara að hann sé fífl og ætti að þakka fyrir, ég væri allavega ekki ólétt.“

„Skammast mín fyrir að kvarta yfir verkjum.“

„Veit ekki alveg af hverju, einhver skömm sem hefur verið innbyggð.“

„Fundist vandræðalegt að vera með stór dömubindi, held að það sjáist/heyrist kannski, fyrir að geta ekki stundað kynlíf, fyrir að vilja kannski ekki fara í sund.“

„Það kemur oft mikil lykt og mikið blóð.“

„Finnst allt óþægilegt sem tengist kynfærum mínum.“

„Byrjaði 10 ára á túr og sagði engum frá í þrjú ár.“

Álfabikarinn er ein af þeim vörum sem konur geta notað á túr.

Flest svörin eiga það þó sameiginlegt að konurnar sem tóku þátt í könnun okkar finnst samfélagið dæma þær fyrir að vera á blæðingum og að það hafi skort fræðslu frá foreldrum þegar blæðingar byrjuðu, en algengast er að stúlkur byrji á blæðingum frá 10 ára aldri og upp í 15 ára.

„Samfélagið hefur kennt manni að það sé ógeðslegt og óhreint,“ skrifar ein kvennanna og önnur er sammála: „Því ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu að þetta væri ógeðslegt.“

„Var alin upp þannig að þetta væri eitthvað sem enginn talar um, svo unglingurinn ég með ekkert sjálfstraust/sjálfsálit tók það svo nærri mér að ég fór alltaf að skammast mín þegar ég var á túr þangað til ég lærði að þetta á alls ekki að vera feimnismál og allar konur fara í gegnum þetta!“ skrifar önnur og margar hafa svipaða sögu að segja:

„Bara ógeðslegt og mikið talað neikvætt um þetta af fjölskyldunni minni.“

„Skammaðist mín sem unglingur þar sem þetta var aldrei umræðuefnið milli mín og mömmu, þar af leiðandi fannst mér þetta ekki eðlilegt „ástand“.“

„Ég byrjaði 11 ára og enginn hafði rætt það við mig svo ég faldi þetta og notaði klósettpappír og þvoði nærbuxurnar mínar sjálf í höndunum í klósettvaskinum.“

„Þegar ég byrjaði á blæðingum 13 ára gömul þorði ég ekki að segja nokkrum manni frá því. Sérstaklega ekki mömmu, ég var alveg viss um að hún yrði reið. Kona sem er aldrei reið, hehe!“

„Mamma var ekkert að kenna mér hvað blæðingar voru og lét mér eiginlega líða bara illa með það.“

Enn aðrar segja skömmina hafa komið vegna þess að þær byrjuðu ungar á blæðingum, jafnvel fyrstar af sínum vinkonum eða skólasystrum. „Fyrst þegar ég byrjaði var þetta rosaskömm að vera komin á blæðingar í grunnskóla,“ skrifar ein og önnur segist hafa falið blæðingar fyrir öllum í þrjú ár. „Byrjaði 10 ára og sagði engum frá fyrr en 13 ára.“

Þá eru nokkrar konur sem segjast hafa hætt við að fara í sund, líkamsrækt eða á mannamót vegna blæðinga, einhverjar sem telja að samfélagið líti á blæðingar sem veikleika og sumar konurnar telja að komið sé fram við þær öðruvísi, til dæmis af vinnuveitenda, þegar þær eru á túr. Þá hafði ein kona lent í vandræðum hjá vinnuveitenda fyrir að tala um blæðingar sínar:

„Fékk einu sinni skammir frá vinnuveitanda fyrir að útskýra að mér liði illa vegna þess að ég væri með túrverki. Var sagt að svona lagað ættu ungar stúlkur ekki að nefna upphátt.“

Hvernig væri heimurinn ef karlmenn færu á túr?

Anna Tara. Mynd / Kristín Péturs

Konur um allan heim eru farnar að opna umræðuna um blæðingar til að útrýma blæðingaskömm. Ein af þeim er tónlistarkonan og Reykjavíkurdóttirin Anna Tara Andrésdóttir. Hún olli miklu fjaðrafoki á samfélagsmiðlum í fyrra þegar hún frumsýndi myndbandið við lagið Pussypics. Píkan og blæðingar eru í aðalhlutverki í myndabandinu og þótti myndbandið of gróft til að vera sýnt á myndbandaveitum á borð við YouTube. Einnig var myndbandinu hent út af þekktum klámsíðum. Anna Tara mátti þola mikinn fúkyrðaflaum út af fyrrnefndu myndbandi en hún telur mjög mikilvægt að opna umræðuna um blæðingar.

„Við getum útrýmt þessari skömm með því að tala mjög mikið um blæðingar og sýna þær með margvíslegum hætti, hvort sem það er í daglegu lífi eða í listum, þangað til að þær „normalíserast“. Kiran Gandhi hljóp til dæmis London-maraþonið án þess að nota túrtappa eða dömubindi og lét sér blæða frjálst, sem vinnur þá bæði gegn því að þetta sé feimnismál og að þetta sé veikleikamerki,“ segir Anna Tara.

En af hverju telur hún að sumar konur skammist sín fyrir að vera á blæðingum?

„Stórt er spurt. Það eru svo ótrúlega margþætt en líklegast mjög mörg mismunandi skilaboð um að það sé ógeðslegt eða veikleikamerki,“ segir tónlistarkonan sem hefur velt blæðingum mikið fyrir sér.

„Eftir að ég byrjaði að velta túr mun meira fyrir mér og fylgifiskum hans, fór ég að taka eftir því hvað ég er hrifnæm á túr og reyni að gefa sjálfri mér rými til að slaka á og vera í tilfinningaúrvinnslu og þá hlakkar hluti af mér til þess. En mér finnst þreytandi að vera með túrverki, finnast ég útblásin og þurfa að pæla í túrtöppum og slíku. Sumir eru viðkvæmir fyrir því að það sé talað um túr en svo birtist skömmin kannski í mörgum öðrum hlutum, eins og ef þú ert með túrblett aftan á rassinum sem þú vissir ekki af. Ég hef heyrt stelpur vera miður sín yfir því að hafa gist hjá strák og það hafi óvart farið blóð í lakið. Svo næst blóðið illa úr lakinu í þvotti. Einn þurfti að fara með lakið í hreinsun. Ef karlmenn færu á túr, ætli það væru þá til þvottavélar sem næðu túrblóði úr lökum? Eða hvernig væri heimurinn ef karlmenn færu á túr?“ spyr Anna Tara.

Fyrrnefnt myndband Önnu Töru við lagið Pussy Pics má horfa á með því að smella hér. Við vörum viðkvæma við innihaldi myndbandsins.

Fleiri konur sem hafa opnað umræðuna

Norska tónlistarkonan Jenny Hval vakti athygli þegar hún gaf út plötuna Blood Bitch árið 2016 en eitt lagið á plötunni, Untamed Region, fjallar einmitt um þá skömm sem umlykur blæðingar kvenna.

Kanadíska listakonan Rupi Kaur komst í heimspressuna í mars árið 2015 þegar hún birti mynd úr myndaseríu sinni Period (Tíðir) á Intagram. Á myndinni sést kona liggjandi í rúmi og snýr baki í myndavélina. Blóðblettir eru á buxum hennar og í lakinu. Forsvarsmenn Instagram eyddu myndinni nánast samstundis út af samfélagsmiðlinum þannig að Rupi skrifaði um það á bæði Facebook og Tumblr. Málið vakti svo mikla athygli að Instagram leyfði myndina, en hana má sjá hér:

thank you @instagram for providing me with the exact response my work was created to critique. you deleted a photo of a woman who is fully covered and menstruating stating that it goes against community guidelines when your guidelines outline that it is nothing but acceptable. the girl is fully clothed. the photo is mine. it is not attacking a certain group. nor is it spam. and because it does not break those guidelines i will repost it again. i will not apologize for not feeding the ego and pride of misogynist society that will have my body in an underwear but not be okay with a small leak. when your pages are filled with countless photos/accounts where women (so many who are underage) are objectified. pornified. and treated less than human. thank you. ⠀⠀⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀ ⠀ this image is a part of my photoseries project for my visual rhetoric course. you can view the full series at rupikaur.com the photos were shot by myself and @prabhkaur1 (and no. the blood. is not real.) ⠀⠀⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀ i bleed each month to help make humankind a possibility. my womb is home to the divine. a source of life for our species. whether i choose to create or not. but very few times it is seen that way. in older civilizations this blood was considered holy. in some it still is. but a majority of people. societies. and communities shun this natural process. some are more comfortable with the pornification of women. the sexualization of women. the violence and degradation of women than this. they cannot be bothered to express their disgust about all that. but will be angered and bothered by this. we menstruate and they see it as dirty. attention seeking. sick. a burden. as if this process is less natural than breathing. as if it is not a bridge between this universe and the last. as if this process is not love. labour. life. selfless and strikingly beautiful.

A post shared by rupi kaur (@rupikaur_) on

Svo er líka vert að nefna tónlistarkonuna og aðgerðarsinnann Kiran Gandhi sem hljóp London-maraþonið í ágúst árið 2015 á blæðingum. Hún notaði hvorki bindi né túrtappa og leyfði blóðinu að flæða frjálst úr sköpum sínum.

Fyrstu heimildir um blæðingaskömm

„Yfirbragð hennar mun deyfa birtu spegla, gera stálbrún bitlausa og afmá gljáa fílabeins. Býflugnahjörð myndi deyja samstundis ef hún myndi svo mikið sem líta á hana.“ Svona lýsir rómverski fræðimaðurinn Plinius eldri þeim áhrifum sem blæðingar kvenna hafa á aðra í ritinu Náttúrusaga (Naturalis Historia) í kringum árið 77 til 79.

Þetta eru fyrstu heimildir um það sem má kalla blæðingaskömm, sem á ensku heitir period shame eða menstrual taboo. Síðan þá hafa blæðingar verið lastaðar í gegnum tíðina og orðræða í kringum þetta náttúrulega og eðlilega fyrirbæri verið konum til minnkunar.

Kúgast yfir túrbletti

Það eru ekki aðeins trúarbrögð sem viðhalda þessari svokölluðu blæðingaskömm, heldur einnig ýmislegt í menningu okkar, til dæmis hvernig talað er um tíðir í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þar má meðal annars nefna kvikmyndina Superbad þegar Seth, sem leikinn er af Jonah Hill, uppgötvar að hann er með túrblett á buxunum eftir heitan dans með fyrrverandi kærustu. Hann kúgast samstundis. Þegar leikarinn Seth Rogen, einn af handritshöfundum myndarinnar, rifjaði þetta atriði upp á Twitter í fyrra, til að fagna tíu ára afmæli myndarinnar, stóðu viðbrögðin ekki á sér og fjölmargir tístarar tjáðu sig um hve ógeðslegt þetta atriði hefði verið.

Í kvikmyndinni Blue Lagoon frá 1980 skammast Emmeline, túlkuð af Brooke Shields, sín niður í tær þegar hún byrjar á túr þegar hún er að baða sig í litlu lóni. Fyrst áttar hún sig ekki á því hvað er að gerast og kallar á frænda sinn að hjálpa sér. Þegar það síðan rennur upp fyrir henni að um blæðingar sé að ræða öskrar hún á hann að hypja sig, svo mikil er skömmin.

Einnig er vert að minnast á kvikmyndina Carrie frá árinu 1976 í þessu samhengi, þar sem aðalsöguhetjan Carrie White, leikin af Sissy Spacek, byrjar á blæðingum í skólanum. Trúuð móðir hennar sýndi henni engan stuðning og útskýrði tíðir ekki fyrir Carrie og verður hún fyrir miklu aðkasti frá skólafélögum sínum.

Þá vöktu ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í garð fréttakonunnar Megyn Kelly heimsathygli í ágúst árið 2015. Megyn gekk hart að núverandi Bandaríkjaforseta í fyrstu kappræðum tilvonandi forsetaefna Repúblíkanaflokksins og yfirheyrði hann um niðrandi ummæli hans í garð kvenna. Eftir kappræðurnar ýjaði valdamesti maður heims að hún hefði verið svona ágeng því hún hafi verið á blæðingum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Aldís Pálsdóttir / Kristín Pétursdóttir / Úr safni

„Ég hef verið kölluð ógeðsleg, óábyrg og sagt að ég fari illa með dýr“

|||
|||

„Ég fór út í hundaræktun með góðu hugarfari. Mig langaði að gera gott, styrkja tegundina og alfarið mig sjálfa. En nú er bara verið að reyna að eyðileggja orðsporið mitt og það sem ég hef unnið hörðum höndum að í eitt og hálft ár,“ segir hundaræktandinn Erna Christiansen.

Erna fékk ræktunarnafnið sitt samþykkt þann 13. janúar á síðasta ári hjá Hundaræktunarfélagi Íslands og ræktar hún hunda af tegundinni Russian Toy. Í byrjun febrúar flutti hún inn sinn fyrsta hund og fann strax fyrir miklum mótbyr frá aðilum innan hundasamfélagsins, bæði einstaklingum og öðrum hundaræktendum.

„Ég hélt að þetta væri tímabundið en það var það í rauninni ekki. Nú glími ég við daglegt einelti eða andlegt áreiti,“ segir Erna. Þetta einelti og áreiti sem hún talar um lýsir sér í því að aðrir ræktendur hafa talað illa um hana, reynt að sannfæra kaupendur um að kaupa ekki hvolpa af henni, ásakað hana um að svindla á kaupendum, skrifað misfögur orð um hana í opnum Facebook-hópum og hún sökuð um að fara illa með hundana sína, að eigin sögn.

Enginn er vinur þinn í hundaheiminum

Erna lítur á hundana sem börnin sín.

Erna hefur leyft fylgjendum sínum á Snapchat að fylgjast með hundunum sínum en hefur lent í því að þau óhöpp sem hún lendir í séu notuð gegn henni, eins og til dæmis þegar einn rakkinn hennar fótbrotnaði.

„Ég hef verið mjög óheppin og hef lent í nokkrum áföllum með hundana og það er verið að nota þau gegn mér. Þetta eru bara slys sem hefðu getað gerst á hvaða heimili sem er. Slys gerast og það ætti ekki að nota þau gegn manni. Ég hef verið kölluð ógeðsleg, óábyrg og sagt að ég fari illa með dýr. Enginn er vinur þinn í þessum hundaheimi og það er mikil samkeppni í honum,“ segir Erna, mikið niður fyrir.

„Það er ekki hægt að treysta neinum í þessum hundaheimi. Einn daginn eru aðrir ræktendur vinir þínir, hinn daginn er farið að dreifa lygasögum um mann. Fólk sem ég hélt að ég gæti treyst og hefur sjálft lent illa í því í hundaheiminum reyndist ekkert skárra en fólkið sem baktalaði það,“ segir Erna.

Ung stelpa með stóra drauma

Hún hefur oft lent í því að talað sé óbeint illa um sig í hópnum Hundasamfélagið á Facebook og finnst henni það miður.

„Í gegnum Facebook hefur verið skotið mikið á mig óbeint, talað illa um mig, ráðist á mig persónulega og sett út á það sem ég er að gera. Aðrir ræktendur hafa reynt að eyðileggja fyrir mér og senda skilaboð á alla ræktendur mína sem eru erlendis. Í þeim skilaboð hefur verið logið uppá mig alls kyns óhróðri.“

Erna viðurkennir að hafa svarað fyrir sig, en eingöngu til að vernda sinn starfsheiður og hundana sína, sem hún lítur á sem börnin sín.

„Ég er ung stelpa með stóra drauma sem eru loksins að verða að veruleika. Ég er mjög stolt af því sem ég er búin að gera og vil halda áfram án þess að verið sé að dreifa lygasögum um mig og ýkja allt sem ég segi. Ég viðurkenni að ég hef sagt mörg ljót orð og logið að aðilanum sem byrjaði þessar árásir. En ég hafði góða ástæðu til, auðvitað verður maður reiður og sár þegar einhver talar illa um börnin sín. Ég er reið og sár og búin að byrgja það inni í langan tíma. Auðvitað hélt ég að ég gæti talað við þetta fólk sem er að ráðast á mig en ég hef lært það af biturri reynslu að þessi heimur snýst ekki um annað en slúður og óheiðarleika.“

Sökuð um að vera í neyslu

Eitt af því sem hefur verið sett út á varðandi hundaræktun Ernu eru samningar sem hún hefur gert þegar hún selur hvolpa.

„Ég hef eytt rosalega miklum tíma í að vinna í hundunum mínum og öllu í sambandi við þá. Kaup- og fóðursamning hef ég gert sjálf með hjálp frá nokkrum ræktendum og hundafélögum og þeir eru ekkert óvenjulegir. Allir ræktendur eru með mismunandi kaupsamninga. Auðvitað vill manni líða vel með hvert hundarnir fara og ef eitthvað kemur uppá vill maður geta treyst á kaupsamninginn. Það kemur bara engum við hvað hver og einn ræktandi hefur í sínum samningum.“

Ernu þykir líka miður að sögusagnir um hana snúa ekki aðeins að hundaræktun og hundum, heldur einnig að henni sjálfri persónulega.

Hér má sjá samskipti á milli eins ræktanda og vinkonu Ernu.

„Það hefur verið sett út á klæðnað minn á hundasýningum, sagt að það sé eitthvað mikið að mér og ég ætti að vera lögð inn og ég sökuð um að vera í neyslu. Það er sagt að ég vilji bara græða á þessu og ekkert annað, að ég geymi hundana mína í búrum og ég berji þá. Og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Erna hnuggin.

„Sannleikurinn er sá að hundarnir mínir, sem eru fimm talsins, sofa uppí rúmi allar nætur og eru lausir á daginn. Þetta er ástríða mín og mér finnst þetta ótrúlega gaman. Ég geri allt fyrir hundana mína og hef eytt öllum mínum pening og sparnaði í hundaræktun svo ég geti gert þetta vel. Ég flyt inn rándýra hunda en þótt þetta séu ræktunarhundar eru þetta samt börnin mín og verða það alltaf. Eftir að ég byrjaði í ræktun opnaði ég Snapchat-ið mitt svo fólk gæti virkilega séð hvernig ég hugsa um hundana. Ég hef það að markmiði að reyna að þóknast öllum en því miður er ekki hægt að þóknast sumu fólki. Getur fólk ekki bara hugsað um sjálft sig og hvað það er að gera og hætt að niðurlægja aðra?“

Hundinum stolið

Erna hefur einnig lent í því að þessar sögur og baktal hafi borist alla leið til ræktenda sinna í Rússlandi, sem hefur orðið til þess að hún hefur misst hunda sem henni voru lofaðir.

„Ég var búin að greiða fyrir hund úti í Rússlandi og bað annan ræktanda um hjálp með rússneskuna, þar sem ræktandinn skildi litla ensku. Það endar á því að rússneski ræktandinn hættir að tala við mig og fékk ég loks að vita að hann væri hættur við að láta mig fá hundinn. Síðan kemur í ljós að ræktandinn sem ég bað um hjálp frá hafði í raun stolið af mér hundinum og flutti hann inn sjálfur.“

Lokar sig inni

Ástandið er orðið svo slæmt að Erna fer stundum ekki út svo vikum skiptir, enda sögur um hana farnar að breiðast út á hundasvæðum borgarinnar að eigin sögn.

„Stundum langar mig að hætta öllu og fara. Það hafa komið tímabil þar sem ég hef ekki farið út úr húsi þar sem ég er ekki nógu andlega hraust til að takast á við fólk. Ég er hrædd um að standa með sjálfri mér því ég gæti eyðilagt eitthvað. Og stundum er ég stútfull af reiði og tárum yfir því hversu ógeðfellt fólk getur verið,“ segir Erna, en þessi lífsreynsla hefur einnig ýft upp gömul sár.

„Ég hef verið lögð í einelti síðan ég man eftir mér. Ég skar mig alltaf úr. En með hundunum mínum finnst mér ég vera frjáls og tilheyra hópi. Hundarnir hafa komið mér upp úr alvarlegu þunglyndi, kvíða og halda ADHD niðri. Ég tek ekki lengur lyf og þarf ekki á þeim að halda. Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra og þeir hafa hjálpað mér meira en sálfræðingar og læknar. Ég lenti í ýmsu þegar ég var yngri og auðvitað stendur það í manni þegar einelti heldur áfram þegar maður er orðinn fullorðinn.“

Skrif á netinu geta eyðilagt fólk

Hún hvetur þá sem eru í þeim hugleiðingum að fá sér hund að skoða bakgrunn ræktandans vel.

„Skoðið vel bakgrunn fólksins og fræðist um ræktendur. Leyfið ræktandanum að spyrja ykkur spjörunum úr og bjóða ykkur í heimsókn. Fylgist með hvort ræktandinn talar illa um aðra. Passið að fá alla söguna í kringum hundana og spyrja einmitt um slys og annað. Ræktendur geta verið mjög sannfærandi áður en kaup eiga sér stað en láta sig hverfa þegar búið er að borga. Ég vona svo innilega að fleiri lendi ekki í svona ómannúðlegri aðför eins og ég. Fólk verður að átta sig á því að það er hægt að eyðileggja líf fólk bara með því að tala um það eða skrifa um það á netinu.“

Vildi enda líf sitt

Falleg stund.

En hvernig áhrif hefur þessi reynsla á Ernu?

„Ég viðurkenni alveg að ég er ekki fullkominn ræktandi, enda er það enginn í byrjun. Það er mjög sárt fyrir mig sem nýjan ræktanda að fá svona viðbrögð frá fólk sem ætti að vera að hjálpa mér og leiða mig áfram, í stað þess að rakka mig niður. Ég hef upplifað mikla vanlíðan og kvíða af því að setja inn myndir og upplýsingar um hundana mína á samfélagsmiðla vegna þess hvernig er komið fram við mig af öðrum ræktendum. Mér sárnar það mikið hvað er sett út á samningana mína. Ég hef uppskorið mikið baktal fyrir það að leita hjálpar frá öðrum ræktendum í þeim efnum en samt er ég máluð sem ósanngjörn og óþverri. Ég vil bara fá séns og stuðning, þar sem ég er ný í bransanum. Ég er ekki að biðja um vorkunn heldur gagnkvæma virðingu innan þessa heims. Ég er ekki að reyna að gera neinn að vondri manneskju en þessa umræðu þarf að opna,“ segir Erna. Hún vonar líka að hennar saga opni almenna umræðu um einelti.

„Ég vil ekki sjá einelti í okkar samfélagi,“ segir Erna, sem lenti á botninum eftir þessar árásir fyrir stuttu.

„Ég fór til Spánar í lok september á þessu ári. Eftir allt sem ég hafði gengið í gegnum drakk ég ofan í þær tilfinningar og það rann ekki af mér fyrr en á fjórða degi. Seinasta kvöldið lá ég bara grátandi uppí rúmi og vildi enda þetta blessaða líf mitt. Ég gat ekki meir. Þá rann loksins upp fyrir mér að maður hleypur ekki frá vandamálunum. Þarna féll ég á botninn, ekki út af einhverju sem ég sjálf hafði gert heldur út af einhverju sem aðrir höfðu gert mér. Ég var farin að trúa því sem aðrir sögðu að ég væri. Ég tók þetta inná mig. Ég ákvað að nenna ekki þessu bulli og vitleysu. Ég hef fundið frið í mínu lífi eftir alla þessa erfiðleika og vona að ég haldi mínu striki. Ég er sterkari sem aldrei fyrr, þó enn sé langt í land,“ segir Erna, og vill brýna fyrir lesendum að þessu sé ekki beint að öllum.

„Þessu er alls ekki beint að öllum ræktendum, alls ekki. En þið takið þetta til ykkar sem hafið tekið þátt í einhvers konar baktali, slúðri og að niðurlægja aðra. Það eru heldur ekki bara ræktendur sem skrifa illa um mig á netinu. Nú held ég minni leið áfram og vil biðjast fyrirgefningar ef ég hef sært þig eða einhvern sem þú þekkir. Ekki dæma mig fyrir mína fortíð. Ég dæmi þig ekki fyrir þína og það eiga allir sína slæmu daga. Ég nenni ekki að spá meira í fortíðinni. Maður skapar sína eigin framtíð,“ segir Erna og bætir við hvatningarorðum til þeirra sem hafa einhvern tímann staðið í sömu sporum og hún.

„Haltu þínu áfram og þú kemst langt. Settu þér markmið og stattu við þau. Ekki láta einhvern segja þér hvernig þú átt að lifa þínu lífi.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Eydís ljósmyndun / Úr einkasafni

„Aldrei of seint fyrir ást“

|
|

Feður yfir fimmtugu.

Hallgrímur með dóttur sína sem fæddist rétt fyrir síðustu jól.

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, var nýlega orðinn afi þegar hann eignaðist yngsta barnið sitt í desember síðastliðnum. Þar með varð hann félagi í hinum gamansama óformlega félagsskap Félag eldri ferða, FEF, en til að hljóta inngöngu verða menn að hafa náð 50 ára aldri þegar barnið fæðist. Í nýjasta tölublaði Mannlífs eru viðtöl við fjóra menn úr þessu merka félagi.

„Ég var 58 ára þegar yngsta dóttirin fæddist og það var auðvitað öðruvísi en þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn 34 árum áður. Þótt þetta væri mitt fjórða barn var þetta fyrsta barn Öglu, konunnar minnar, og þegar fólk er komið þetta langt út á lífshafið er ekki alltaf sjálfgefið að börnin komi eftir pöntun. Við vorum búin að reyna nokkuð lengi og þegar það lukkast svo verður gleðin skiljanlega stærri. Maður upplifir þetta svolítið sem kraftaverk,“ segir Hallgrímur en maki hans er Þorgerður Agla Magnúsdóttir bókaútgefandi. Börnin hans heita Hallgerður, 34 ára; Kári Daníel, 14 ára; Margrét María, 12 ára og það yngsta sem er nokkurra vikna gömul stúlka og hefur ekki enn fengið nafn.

„Þegar fyrsta barnið fæddist var ég 25 ára gamall og í fyrstu fannst manni þetta nú bara vesen. Það var ekki á planinu að eignast barn og ég man að mér leist ekkert á það á meðgönginni. Ungur maður var óþolinmóður og gerði allt til að forðast barneignir, eða næstum því allt … Fyrir honum voru barneignir bara hraðahindrun á ferlinum. Og svona hugsaði maður sem sagt á þessum árum þegar feður voru almennt ekki að taka börnin aðra hverja viku og það hræðilega hugtak helgarpabbi var rétt að verða til. Allt tal um hraðahindrun var því bara djók. Þetta lenti allt á mömmunum. Um leið og dóttir mín fæddist sá ég hversu vitlaus maður hafði verið. Þetta var auðvitað það besta sem gat komið fyrir mann. En lífið er víst þarna til að kenna manni og með tímanum sá maður hvað þetta var þroskandi og gefandi og svo bara hreinlega djúp-djöfilli-skemmtilegt. Það er nú bara þannig: Þegar maður eignast barn þá fattar maður fyrst hvað lífið gengur út á.“

Finnur fyrir þreytu
Hallgrímur hefur fengið góð viðbrögð við því að eignast barn á þessum aldri. „Ég hef nú bara fundið fyrir gleði og heyrt hlátur. En hvað býr í þeim hlátri veit maður ekki alveg, sumum finnst þetta kannski fáránlegt. En við Íslendingar erum ekki nógu duglegir að eignast börn, það er nú bara þannig, og því er nýjum einstaklingi auðvitað fagnað hér um slóðir.

Þegar maður er að nálgast sextugt er tilfinningin óneitanlega sú að nú sé farið að síga á seinni hlutann, nú sé maður að fara að lenda þessu, nú sé farið að kvölda. Þegar svo birtist lítið barn er það eins og skyndileg sólarupprás síðla kvölds, það birtir yfir öllu og maður trúir ekki sínum eigin augum. Manni finnst maður yngjast um tuttugu ár, eða tuttugu ár hafi bæst aftan við líf manns, ég veit ekki alveg hvort það er. Ég var líka nýorðinn afi, nánast orðin að fortíð, en fæ svo allt í einu framtíðina í fangið. Viva la vida! Og þá er ég ekki að vísa í Coldplay lagið.“

Hann er sannfærður um að það sé betra fyrir börn á fyrsta aldursskeiði að eiga foreldra sem fara aldrei út að skemmta sér. „Af því að skemmtunin er jú þau sjálf, en svo kemur sjálfsagt að því að þau súpi hveljur þegar pabbi kemur á göngugrindinni í foreldraviðtalið í gaggó og öskursnýtir sér í gamlan tóbaksklút frammi á skólaganginum fyrir allra augum.

Ég neita því ekki að finna fyrir þreytu. Þegar nýja dóttirin vakti mig í fyrstu pelavaktina klukkan fjögur um nótt leið mér eins og einhver væri að biðja mig að fara niður á Kaffibar og kaupa mér einn stóran. Ég ætlaði nú bara varla að hafa mig upp. En svo fór þetta að venjast og sá gamli vaknar auðvitað alltaf miklu fyrr en ungi maðurinn. Annars mæða fyrstu mánuðirnir auðvitað mest á móðurinni og það er ekki enn farið að reyna verulega á mann.“

Allt annað er aukaatriði
Föðurhlutverkið hefur alla tíð gefið Hallgrími mikið. „Sanna gleði. Og stolt. Ég hef verið mjög heppin með börn. Það er ekkert sem gleður meira en að elda fyrir svanga munna og sjá þá taka vel til matar síns, sjá þau síðan fara og skora mörk, fá góð ummæli frá kennurum eða halda sýningar. Maður hefur líka svo gott af því að setja sjálfan sig til hliðar og standa á hliðarlínunni. Bara muna að vera ekki að hrópa mikið á dómarann. Ég mæli líka með því að eignast börn á mínum aldri. Það er aldrei of seint fyrir ást.“

Hallgrímur segir afahlutverkið að mörgu leyti ólíkt föðurhlutverkinu. „Það var hlutverk sem var nýtt fyrir mér og maður er enn að læra á, hversu mikið á maður að vera með í því og svo framvegis. Því miður er barnabarnið erlendis í vetur þannig að ég hef aðeins misst niður þráðinn, en þær hittust þó um daginn, 14 mánaða barnabarn og 4 vikna barn, og var það mikið fagnaðarundur,“ segir Hallgrímur.

Framundan er svo að hugsa vel um þá yngstu, koma henni út í kerru og vonandi á lappir fyrir jól. „Allt hitt er nú bara aukaatriði. Að lokum vil bara þakka ÍVF klíníkinni í Glæsibæ (sem nú heitir Livio) fyrir frábært og vaxandi starf. Þau telja sig sjálfsagt hafa hugmynd um að vinna þeirra sé mikils metin en ég vil þó nota tækifærið til að segja þeim að nei, þið munuð aldrei getað ímyndað ykkur hve stórar hamingjur þið hafið tendrað út um bæ og land.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Nándin við föður ekki síður mikilvæg“

|
|

Feður yfir fimmtugu.

Björn með börnunum sínum Birtu, 18 ára, Loga, 13 ára, Birnu, 7 ára, og Ástu, 4 ára.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar og Dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, er 58 ára og á fjögur börn á aldrinum 4-18 ára. Hann er einstæður faðir en segist svo heppinn að eiga tvær góðar barnsmæður. Björn er einn af fjórum mönnum úr Félagi eldri feðra sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs.

„Ég var mjög seinn að læra það hvernig maður býr til börn og var fertugur þegar fyrsta barnið fæddist. Það varð gríðarleg gleði að eignast loksins barn. Sýnin á tilgang lífsins breyttist í einu vetfangi og þróaðist síðan áfram í rétta átt. Ég var 54 ára þegar yngsta dóttirin fæddist og það var ekki síður yndislegt en þegar sú fyrsta fæddist. Ég hef alltaf verið „eldri faðir“ og forgangsröðun föðurhlutverksins og umhyggju fyrir börnum eykst bara með aldrinum,“ segir Björn sem á börnin Birtu, 18 ára, Loga, 13 ára, Birnu, 7 ára, og Ástu, 4 ára.

„Ég tók fæðingarorlof vegna fyrstu þriggja barnanna. Þegar fjórða barnið fæddist þá hafði fæðingarorlofsstyrkur verði skorinn mjög mikið niður, eftir efnahagshrunið, svo að ég tók í staðinn út allt sumarleyfi sem ég átti inni til tveggja ára, og fékk þannig tæplega þriggja mánaða fæðingarorlof án mikillar tekjuskerðingar.“

Hann segir að forgangsröðunin breytist í lífinu með hækkandi aldri. „Rúmlega fertugur flutti ég heim til Íslands eftir meira en tveggja áratuga búsetu erlendis, búinn að klára doktorspróf, sinna alþjóðlegum vísindastörfum og búinn að skrifa þær helstu bækur sem ég vildi skrifa. Þá þegar var manni orðið ljóst að foreldrahlutverkið er mikilvægara en starfsframinn. Ég tel að að mörgu leyti betra að vera kominn á þenna aldur með ung börn. Einna helst vegna þess að þegar menn eru yngri freistast þeir ef til vill til að forgangsraða öllu hinu sem menn vilja gera, og þá sérstaklega starfsframa eða þess að afla fjármuna fyrir fjölskylduna, sem er að vísu mjög skiljanlegt.“

Samfélagslegir fordómar
Björn segist finna sérstaklega fyrir miklum stuðningi og hvatningu meðbræðra sinna og nánustu fjölskyldu við því að vera faðir á þessum aldri. „Yndislegt fólk. Móðirin hefur auðvitað alveg einstakt og náið samband við ungbarnið fyrstu 1-2 árin, hún hefur jú gengið með barnið og gefur því brjóst, hlutverk sem við karlmennirnir tökum seint að okkur. En varðandi umönnun barna sem eru orðin eldri en þetta þá er nándin við föðurinn ekkert síður mikilvæg. Ég hef fundið fyrir fordómum í þá átt að karlmenn almennt séu ekki jafn mikilvægir foreldrar og konur. Að heimili föðurins sé nokkurskonar helgar-heimili, að hann sé helgar-pabbi og föður fjölskyldan helgar-fjölskylda, en að móðirin sé aðalforeldrið, með aðalheimilið og aðalfjölskylduna. Margir í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og bara almennt í þjóðfélaginu virðast hafa óskaplega gamaldags sýn á föðurhlutverkið. Báðar barnsmæður mínar eru sem betur fer vel upplýstar hvað þetta varðar, við hugsum fyrst og fremst um vellíðan barnanna þegar tökum ákvarðanir um umgengni og slíkar ákvarðanir geta tekið breytingum eftir aðstæðum.“

Björn segist alltaf hafa sofið frekar lítíð og hafi í gegnum tíðina oft fundið fyrir þreytu, inn á milli. „Þetta hefur lítið breyst síðastliðna áratugi. Það er auðvitað mjög krefjandi að vera foreldri smábarna og smábarnaforeldrar eru almennt oft þreyttir, skiljanlega svo. En þetta er kærleiksvinna, maður sér ekki eftir einni sekúndu. Ég mæli eindregið með að menn eignist börn, almennt. Og ekki verra að gera það þegar menn hafa tekið út starfsframa og hafa forgangsraðað tíma sínum betur. Föðurhlutverkið gefur mér möguleikann á að gefa kærleika og umhyggju. Óborganlegt,“ segir Björn og bætir hlægjandi við að lokum: „Svo máttu taka það fram að fyrirspurnir um hjúskaparstöðu og aðra einkahagi eru velkomnar á samfélagsmiðlinum Facebook.“

Viðtalið við Hallgrím Helgason.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Mátaði einungis einn kjól fyrir brúðkaupið

Allt mjög afslappað og þægilegt

Hafdís Huld Þrastardóttir Wright flutti heim frá Englandi fyrir átta árum en hún býr nú í litlu bleiku húsi í Mosfellsdalnum ásamt eiginmanni sínum og dóttur. Hún segir tækifærin fleiri í bresku samfélagi en Ísland sé barnvænna og henti því fjölskyldunni betur. „Þegar við ræddum fyrst saman um að flytja hingað heim var eina krafa Alisdair að geta haft fjöll í augnsýn. Þegar við römbuðum svo á litla bleika húsið var ekki aftur snúið því bæði er það eins og lítið breskt tehús en héðan er líka hægt að horfa til fjalla út um alla glugga.”

Hafdís lýsir eiginmanni sínum sem ekta breskum herramanni en hún fær reglulega spurningar hvort hann geti tekið að sér að fínpússa íslenska víkinga. „Það var eitt af því fyrsta sem ég heillaðist af við hann, þessi þægilega nærvera og tillitssemi sem hann býr yfir. Það er ákaflega gott að ala upp barn með manni sem býr yfir þessum eiginleikum.”

Örfáum dögum eftir að dóttir hjónanna kom í heiminn bar Aldisdair upp bónorðið. „Hann færði mér tebolla og lítinn kassa sem í var trúlofunarhringur sem langafi hans hafði gefið langömmunni í Glasgow fyrir tæpum 100 árum síðan. Þetta er ótrúlega fallegur hringur og enn í upprunalega boxinu. Bónorðið var einlægt og látlaust, alveg í okkar anda. Þegar kom að brúðarkjólnum langaði mig að vera í látlausum gamaldags kjól og fann hann nokkrum mánuðum fyrir brúðkaupið. Þetta er ekki hefðbundinn brúðarkjól en ég heillaðist strax af honum og var þetta því eini kjólinn sem ég mátaði.”

Brúðkaupið var haldið í gróðurhúsi foreldra Hafdísar og lýsir hún deginum sem ævintýralegum.„Mamma sá um allar skreytingarnar ásamt því að baka brúðartertuna og pabbi smíðaði bæði bar og dansgólf í gróðurhúsið þar sem við tókum svo á móti gestunum með jólaglöggi og lifandi tónlist. Þetta var yndislegur dagur í alla staði.”

 

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir.

Mynd / Aldís Pálsdóttir.

Þú þarft bara tvo áfenga drykki til að missa alla stjórn

Rannsakendur við háskólann í New South Wales í Ástralíu hafa rannsakað áhrif áfengis á heilann og hafa komist að þeirri niðurstöðu að fólk þurfi bara að innbyrða tvo áfenga drykki til að geta mögulega misst alla stjórn á sér og skapi sínu.

Þeir rannsökuðu tenginguna á milli áfengisneyslu og árásargirni og notuðu til þess segulómun til að mæla breytingar á blóðflæði í mannsheilann þegar manneskjur voru búnar að innbyrða áfengi. Kom í ljós að það gæti þurft aðeins tvo áfenga drykki til að takmarka virkni heilabörksins, sem hefur áhrif á ákvarðanatöku og félagslega hæfni.

Við framkvæmd rannsóknarinnar gáfu rannsakendur fimmtíu heilbrigðum karlmönnum annað hvort tvo vodkadrykki eða lyfleysu. Síðan þurftu mennirnir að ljúka verkefni á móti tölvu sem var hönnuð til að leggja mat á árásargirni þeirra, til dæmis með því að skaprauna mönnunum.

Segulómun á heila þeirra sem höfðu drukkið vodkadrykkinn sýndi fram á minni virkni í heilaberkinum á meðan engin breyting var á virkninni hjá þeim sem fengu lyfleysuna.

Í niðurstöðum sínum tóku rannsakendur fram að áfengisneysla spilaði stóra rullu í helmingi allra ofbeldisfullra glæpa. Því væru niðurstöður og rannsóknir sem þessar mikilvægar til að skilja af hverju ölvað fólk verður stundum ofbeldisfullt.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Þær hötuðu hvor aðra“

Eins og við sögðum frá fyrir stuttu andar köldu á milli Sex and the City-leikkvennanna Kim Cattrall og Söruh Jessicu Parker. Í grein á vef tímaritsins Us Magazine, segja heimildarmenn tímaritsins að þeim hafi ekki komið vel saman við tökur á þáttunum og bíómyndunum.

„Ég veit ekki af hverju Kim þurfti að taka þetta niður á þetta plan,“ segir einn heimildarmaður tímaritsins sem er náinn Söruh Jessicu. Annar nafnlaus heimildarmaður bætir við að þær Kim og Sarah Jessica hafi verið óvinkonur síðan tökur hófust á annarri seríu af Beðmálum í borginni.

„Þær hötuðu hvor aðra.“

Enn annar heimildarmaður, sem náinn er Kim, segir sambandið á milli þeirra hafi versnað mikið.

„Meðleikarar þeirra skilja ekki af hverju Kim hellti sér yfir hana. Þetta var ekki svona slæmt á meðan á tökum stóð.“

Kim sendi kalda kveðju til Söruh Jessicu rétt eftir að sú fyrrnefnda missti bróður sinn og sakaði hana um að nota andlát hans til að bæta ímynd sína.

„Það er engin ást þarna, en Sarah Jessica var bara að vera kurteis. Þetta er sorglegt,“ segir vinur leikkonunnar.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Hún spurði af hverju gaurinn barðist ekki fyrir henni og fékk frábært svar

|||||||
|||||||

„Gaur bauð mér út á stefnumót í dag og ég sagði nei, en mig langaði að hann myndi reyna meira. Af hverju reyndi hann ekki aftur?“ Svona hljómar spurning sem kona nokkur setti inn á síðuna Quora, þar sem fólk getur spurt hinna ýmissa spurninga og fengið svör við þeim.

Maður að nafni Ron Rule ákvað að svara konunni og má með sanni segja að svarið hans hafi slegið í gegn.

„Stelpa spurði mig hvað mig langaði í í hádegismat og ég sagði pítsu, en mig langaði í raun og veru í steik. Af hverju færði hún mér pítsu,“ skrifar Ron og heldur áfram.

„Sérðu hversu heimskulega þessi spurning hljómar? Svona hljómar spurningin þín.“

Notendum Quora var greinilega skemmt og ákváðu margir hverjir að svara spurningunni líka á mjög spaugilegan hátt, eins og má sjá hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þurfti að vera með álímdan þveng í kynlífssenunum

||
||

Þriðja og seinasta myndin í Fifty Shades-þríleiknum, Fifty Shades Freed, var fumsýnd fyrir stuttu og opnar aðalleikkonan Dakota Johnson sig um þær fjölmörgu kynlífssenur sem hún hefur leikið í í myndunum í viðtali við Marie Claire.

Hún segir að upptökur á handjárnaatriðinu í rauða herberginu hafi tekið mikið á.

„Langerfiðasta atriðið, af öllum þremur myndunum, var kynlífsatriðið í þriðju myndinni þar sem ég var járnuð á höndum og fótum. Og ég var með bundið fyrir augun. Og það var pínulítið áfall því ég gerði mér ekki grein fyrir því að þó að ég væri vel undirbúin og æfð að skilningarvitin hrífa mann með sér og maður getur ekki stjórnað því hvernig taugakerfið bregst við. Þannig að það var mjög erfitt að leika þá senu,“ segir Dakota og bætir við að stundum hafi þurft smá áfengi til að stappa í sig stálinu fyrir kynlífssenurnar.

Margar senur tóku á við tökur á Fifty Shades-þríleiknum.

„Bróðurpartur undirbúningsins fór í að átta sig á því hvernig nákvæmlega við ætluðum að klára senuna þannig að við þurftum mikið að bíða þegar við vorum bæði mjög berskjölduð. En ef eitthvað er mjög, mjög erfitt þá er stundum nauðsynlegt að fá sér staup af einhverju mjög sterku fyrst.“

Kynlífssenur aldrei auðveldar

En er einhvern tímann auðvelt að leika í kynlífssenu?

„Nei, það er aldrei auðvelt. Það er ekki afslappað og skemmtilegt. Það er aldrei auðvelt,“ segir Dakota, sem þurfti að vera í sérstökum klæðnaði við tökur til að gæta velsæmis. Þá þurfti mótleikari hennar, Jamie Dornan, að vera með lítinn poka á kynfærum sínum.

„Það er ekkert rosalega þokkafullt – það er rosalega ósexí. Hann var með pokann og ég var í bandalausum þveng sem þurfti að líma á mig. Þetta er ekki lím, en þetta efni er klístrað,“ segir Dakota og bætir við að stundum hafi þvengurinn losnað.

Dakota og Jamie í hlutverkum sínum.

„Þá var þvengurinn límdur við líkama minn þannig að hann myndi ekki detta af mér. Og ég var í tveimur stykkjum. Það var ekki sársaukafullt þar sem þetta er varla nokkurt efni. En ég held að manni finnist maður vera hulinn að einhverju leiti. Þetta er mjög skrýtið.“

Kynlífsráðgjafar á setti

Í viðtalinu segir hún einnig að sérstakir ráðgjafir hafi unnið við tökur myndarinnar, sérfræðingar í hinum ýmsu kynlífsathöfnum og -tólum.

„Við vorum með fólk sem sérhæfir sig í að vita hvernig hlutir virka, eins og hvernig á að nota viss tól og tæki. Það er ákveðin aðferðarfræði. Þetta er vandmeðfarið og smáatriðin eru mjög mikilvæg. Reglurnar eru líka mjög mikilvægar. Við vildum ekki gera mynd um eitthvað sem við rannsökuðum ekki til hlítar.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Horfði á aðdáendur syngja lögin sín

Katy Perry

Söngkonan Katy Perry, sem er hvað þekktust fyrir lög eins og Firework, Roar og I Kissed a Girl, er skemmtileg í nýjum þætti af You Sang My Song á myndbandarás tímaritsins Glamour.

Eins og nafnið gefur til kynna, horfir Katy á aðdáendur sína syngja lögin sín á YouTube og er gaman að fylgjast með viðbrögðum stjörnunnar.

Meðal laga sem hún horfir á eru Unconditionally, Last Friday Night (T.G.I.F), Dark Horse, I’m Still Breathing, Chained to the Rhythm, The One That Got Away og fyrrnefnd Roar, I Kissed a Girl og Firework.

Það er ekki aðeins hressandi að fylgjast með hvernig Katy bregst við að sjá aðra syngja lögin hennar, heldur einnig yndislegt að sjá viðbrögð aðdáenda þegar þeir fá að heyra að söngkonan sjálf eigi eftir að hlýða á flutning þeirra.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þessi franska skautadrottning skautaði við Beyoncé og vann hjörtu heimsins

Franska skautadrottningin Maé-Bérénice Méité sýndi listir sínar á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang fyrir stuttu. Maé-Bérénice sigraði ekki keppnina, en hún vann hins vegar hug og hjörtu heimsbyggðarinnar með atriði sínu.

Þessi 23ja ára skautadrottning var í fyrsta lagi ekki í hefðbundnum búning. Hún klæddist svörtum leggings í atriði sínu, en algengara er að sjá konur sem keppa í þessari íþrótt í pilsum. Í öðru lagi skautaði hún við Beyoncé-lögin Halo og Run the World (Girls), en ekki er mikil hefð fyrir því að skautað sé við þekkt popplög.

Tístarar létu ekki á sér standa og tístu í gríð og erg um hve mögnuð Maé-Bérénice væri.

„Maé-Bérénice Méité frá Frakklandi skautaði Í BUXUM og endaði Beyoncé-syrpuna sína á Run the World (Girls). Stelpa, þú ert Ólympíuhetja,“ skrifaði einn Twitter-notandi.

„Mér er sama hvernig henni gengur, en að Maé-Bérénice Méité sé í buxum og að skauta við Beyoncé er kraftmikið,“ skrifaði annar.

Maé-Bérénice Méité heillaði ekki dómarana og fékk 46.62 stig sem setti hana beint í níunda sætið.

Hér fyrir neðan má sjá sum viðbragðanna við atriði hennar á Twitter:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Náði oft ekki að sofna út af kynferðislegu áreiti

„Eftir hinu kröftugu og mögnuðu #metoo herferðina, sem ég leyfi mér að segja að við erum flest alveg ótrúlega þakklát fyrir. Þá hef ég þessa löngun til að varpa ljósi á nýja hlið á #metoo, og ég vona að hún sé viðeigandi,“ skrifar ljósmyndarinn Helgi Ómarsson í áhrifamiklum pistli á Facebook-síðu sinni.

Helgi er samkynhneigður og vill með pistlinum varpa ljósi á þann veruleika sem hann hefur lifað við sem maður sem hrífst af öðrum mönnum. Helgi gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi að birta pistilinn.

Gripið í klof og rass

„Sem samkynhneigður karlmaður, þá hef ég ekki alveg fundið minn sess í þessari #metoo umræðu, nema bara allan minn hjartans stuðning gagnvart kvenna. Ég er karlmaður sem heillast af karlmönnum. Ég hef lent í ýmsu í gegnum síðustu tæplega tíu ár sem ég hef verið útúr skápnum og samþykkt að ég heillast að sama kyni. Mín fyrstu ár útúr skápnum var mér smá misskilningur innra með mér, þar sem ég hélt að ég þyrfti að sætta mig við það sem gerðist innan queer kultúr landsins ef svo má orða,“ skrifar Helgi og bætir við að hann hafi sætt sig við ýmislegt sem hann gerir sér grein fyrir í dag að hafa ekki verið í lagi.

„Nú var ég hommi, og það þýddi að ég þurfti að veita vinkonum ráð, sætta mig við að hinir hommarnir á skemmtistöðunum voru ágengir, gripið í klof, rass, áreittur, af bæði karlmönnum og kvenmönnum einnig. Allt útaf því að ég var nú hommi, þetta er greinilega það sem við eigum bara að sætta okkur við. Mjög kynvæð menning en þar hef ég aldrei fundið mig. Ég veit ekki hversu oft í gegnum tíðina, ég hef komið heim af lífinu og ekki geta sofnað vegna áreiti sem ég varð fyrir. Farið inná buxurnar mínar, haldinn niður því ég átti að kyssa þessa eldri konu eða þennan sterka mann. Ég var nokkuð vissum að þetta var bara eitthvað sem var partur af þessu, og ég þyrfti bara að kyngja því og halda áfram og reyna setja mínar grensur, rétt eins og kannski konum líður.“

Finnur enn fyrir ógleðinni

Hann segir þessi ár hafa haft mikil áhrif á sig.

„Margt af því sem hefur gerst fyrir mig liggur enn í mér, og ef þetta poppar upp í hausnum á mér, þá finn ég fyrir ógleðinni sem ég man eftir.“

Helgi flutti til Kaupmannahafnar fyrir tæpum sex árum síðan og hefur haldið sig frá skemmtanalífinu.

Eftir að ég flutti til Kaupmannahafnar, fyrir tæpum sex árum hef ég farið inná Gay stað, kannski sex sinnum. Því þar er þetta örugglega tíu sinnum grófara, og ég finn ekki minn sess. Þetta er bara ekki ég. Ég hef síðan ég flutti haldið mér frá skemmtanalífinu hér, því ég hreinlega fæ mig ekki til þess,“ skrifar hann og heldur áfram.

„Með þessum skrifum, vil ég varpa ljósi á skuggahliðar gay kúltúrsins og kannski reyna ná til þeirra sem hafa svipaðar upplifanir, hommar, lessur, gagnkynhneigðir og allt þar á milli og hversu hrikalega grófur hann getur verið hvað varðar kynferlislegt áreiti. Við megum líka stíga fram og segja frá. Gay kúltúr á ekki að taka neitt af okkur, því við eigum okkur líka sjálf. Við þurfum ekki að sætta okkur við kynferislegt áreiti heldur.

Ef þið spyrjið mig, þá eiga ekki bara gagnkynhneigðir karlmenn að hugsa sig tvisvar um og læra um #metoo og taka herferðina til sín.

Þetta hefur blundað í mér í marga mánuði, og hér er það sem mig langaði að segja.

Áfram #metoo, áfram konur, karlar, samkynhneigðir, gagnkynhneigðir og allir þarna á milli. Breytum til hins betra.“

Hér fyrir neðan má sjá pistilinn í heild sinni:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið

||
Harry og Meghan trúlofuðu sig árið 2017. Þessar myndir voru teknar af þeim í tilefni af trúlofuninni.||

Harry Bretaprins og leikkonan Meghan Markle tilkynntu trúlofun sína þann 27. nóvember síðastliðinn. Parið kynntist í London í júlí árið 2016 og í nóvember það sama ár var sambandið staðfest.

Síðan þau trúlofuðu sig hafa meiri og meiri upplýsingar borist um stóra daginn þannig að það er vert að kíkja á það sem við vitum nú þegar um herlegheitin.

Dúllurnar Meghan og Harry.

Maíbrúðkaup

Harry og Meghan munu ganga í það heilaga þann 19. maí á þessu ári. Þetta staðfesti talsmaður Kensington-hallar á Twitter þann 15. desember.

Sérstök kapella

Parið mun játast hvort öðru í kapellu heilags Georgs í Windsor-kastala á Englandi. Kapellan hefur mikla þýðingu fyrir Harry sem var skírður þar árið 1984. Konungsfjölskyldan mun borga fyrir brúðkaupið samkvæmt tilkynningu frá Kensington-höll í lok nóvember á síðasta ári.

Vilhjálmur verður svaramaður

Í desember var það staðfest að Harry hefði beðið bróður sinn, Vilhjálm Bretaprins, að vera svaramaður sinn. Þá hefur því verið haldið fram að börn Vilhjálms og Kate Middleton, Georg prins og Charlotte prinsessa, muni gegna hlutverki í brúðkaupi frænda síns. Meghan hefur ekki tilkynnt hver aðalbrúðarmey hennar verður, en líklegt er að það verði vinkona hennar og stílistinn Jessica Mulroney.

Brúðkaup í beinni

Staðfest var í lok nóvember á seinasta ári að sýnt verður beint frá brúðkaupi Harry og Meghan, aðdáendum konungsfjölskyldunnar til mikillar ánægju.

Þetta er gestalistinn

Pippa og James Middleton, systkini Kate Middleton, verða í brúðkaupinu. Einnig er talið að fjölmargir leikarar og meðlimir tökuliðs þáttanna Suits, sem Meghan leikur í, verði viðstaddir, til að mynda Patrick J. Adams, Sarah Rafferty, Rick Hoffman og Íslandsvinurinn Gabriel Macht. Þá er einnig talið líklegt að Meghan sé búin að bjóða nánum vinum sínum, svo sem tennisstjörnunni Serena Williams, matreiðslumanninum Tom Sellers og forsætisráðherra Kanada og hans frú, Justin og Sophie Trudeau. Að sama skapi er talið að Harry muni bjóða vinum sínum, tónlistarfólkinu James Blunt, Ellie Goulding og Joss Stone. Tónlistarmaðurinn Elton John æsti síðan upp sögusagnir þess efnis að hann ætlaði að skemmta í brúðkaupinu þegar hann frestaði tvennum tónleikum í Las Vegas helgina sem brúðkaupið fer fram.

Parið er yfir sig ástfangið.

Heiðrar móður sína

Harry var aðeins tólf ára gamall þegar móðir hans, Díana prinsessa, lést í bílslysi í ágúst árið 1997. Harry bað Meghan með hring sem var búið að skreyta með demanti úr nælu sem móðir hans átti. Einnig er talið að Meghan muni bera kórónu prinsessunnar heitnu á brúðkaupsdaginn.

Titlarnir

Talið er að Meghan og Harry hljóti titlana hertogi og hertogynjan af Sussex eftir giftinguna.

Mæðgnastund við altarið

Talað hefur verið um að Meghan vilji að móðir hennar, Doria Ragland, gangi með henni upp að altarinu, en ekki faðir hennar, Thomas Markle, eins og hefðin segir til um.

Leyfa bæjarbúum að taka þátt

Búið er að staðfesta að Harry og Markle muni keyra um bæinn Windsor eftir athöfnina og snúa síðan aftur til Windsor-kastala. Samkvæmt tilkynningu frá Kensington-höll vilja brúðhjónin að sem flestir fái að taka þátt í þessum stóra degi í þeirra lífi.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Losaði sig við 27 meðgöngukíló á fjórtán mánuðum

Leikkonan Blake Lively eignaðist sitt annað barn með leikaranum Ryan Reynolds, hnátuna Inez, í september árið 2016. Fyrir áttu þau dótturina James, þriggja ára.

Hún birti mynd á Instagram í gær af sér og einkaþjálfara sínum, Don Saladino, greinilega stolt af því að vera búin að losa sig við meðgöngukílóin, sem voru alls rúmlega 27 talsins.

„Viti menn, maður losnar ekki við 27 kílóin sem maður bætir á sig á meðgöngunni með því að skrolla í gegnum Instagram og velta fyrir sér af hverju maður lítur ekki út eins og bikinífyrirsæta,“ skrifar Blake við myndina og bætir við:

„Takk @donsaladino fyrir að koma mér í form. Það tók tíu mánuði að bæta þessu á mig, fjórtán mánuði að losna við þetta. Ég er mjög stolt.“

Leikkonan komst nýverið í fréttir eftir að hún slasaðist á hendi á meðan hún lék í áhættuatriði í nýjustu kvikmynd sinni, The Rhythm Section, en hún lætur meiðslin greinilega ekki stöðva sig.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þessar konur buðu á stefnumót – sjáið viðbrögðin

|||||||||||||||
|||||||||||||||

Valentínusardagurinn er á næsta leiti, nánar tiltekið þann 14. febrúar næstkomandi. Breski bloggarinn Oloni ákvað að að hvetja konur til að bjóða þeim sem þær væru skotnar í út á stefnumót á þessum degi, eins og hún reyndar gerði líka í fyrra.

„Mér datt þetta í hug þegar ég var að hugsa um leiðir til að hvetja konur til að vera sjálfsöruggari,“ segir Oloni í viðtali við Bored Panda.

„Áskorunin var æfing fyrir konur til að æfa sig í að taka af skarið,“ bætir Oloni við en hér fyrir neðan má sjá viðbrögðin sem sumar af konunum fengu.

Númer 1

Númer 2

Númer 3

Númer 4

Númer 5

Númer 6

Númer 7

Númer 8

Númer 9

Númer 10

Númer 11

Númer 12

Númer 13

Númer 14

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Sextíu kílóum léttari: Lagður í einelti og glímdi við sjálfsvígshugsanir

||
||

„Ég hef verið of þungur frá því ég man eftir mér en líklega byrja ég að þyngjast fyrir alvöru í byrjun grunnskólans,“ segir Mikael Þorsteinsson, 32ja ára gamall yfirkokkur á veitingastað í Reykjavík. Fyrir tveimur árum ákvað hann að breyta um lífsstíl og hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma.

Mikael er uppalinn hjá móður sinni á Húsavík og var lagður í einelti í grunnskóla.

Mikael glímdi við þunglyndi.

„Ég varð strax auðvelt skotmark fyrir aðra krakka í skólanum og var lagður í einelti alla grunnskólagönguna sem hefur áhrif á mig enn þá í dag. Ég var uppnefndur daglega og var eltur heim oft á tíðum með orðum sem særðu mikið. Ég var aldrei góður í íþróttum og kveið ég mikið fyrir að fara í íþróttatíma innan skólans. Bæði vegna þess að ég þurfti að klæða mig í íþróttafötin fyrir framan aðra stráka sem gerðu þá óspart grín að manni og jafnvel íþróttakennarar sögðu við mig að ég yrði að standa mig betur og gera þetta eins og hinir krakkarnir. Sérstaklega kveið ég fyrir því að fara í sturtu eftir tímana, þar sem kom fyrir að maður var sleginn með blautum handklæðum. Andlega ofbeldið var samt mikið algengara. Ég átti samt alltaf ákveðinn vinahóp sem hjálpaði til við að gera lífið bærilegt líklega,“ segir Mikael.
Hann þróaði með sér þunglyndi á unglingsárunum og eftir tvítugt var andlega heilsan orðin mjög slæm. Þá reyndi hann að deyfa sársaukann.

Kom fram við sig eins og ruslatunnu

„Líklega reyndi ég að deyfa ákveðinn andlegan sársauka með áfengi. Það voru ekki margar helgarnar sem ég tók án þess að hafa áfengi við höndina í vinahópi,“ segir Mikael og heldur áfram.

„Í kringum þrítugsafmælið mitt var ég kominn eins langt niður og hægt var. Vakti heilu næturnar og svaf á daginn og borðaði ógrynni af óhollu fæði og kom fram við mig eins og ruslatunnu. Á þeim tíma var ég orðinn 147 kíló. Á ákveðnum stundum var ég farinn að íhuga að líklega væri betra fyrir alla að ég væri ekki til og það hræddi mig virkilega að hafa þær hugsanir. Þá ákvað ég að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum til að endurheimta einhverja lífshamingju.“

Tæp sextíu kíló farin á tveimur árum

Mikael hefur búið í Reykjavík síðustu níu árin en það var í byrjun árið 2016 sem hann fékk sér líkamsræktarkort í Reebok Fitness, staðráðinn í að breyta um lífsstíl.

„Áður fyrr fannst mér alltaf leiðinlegt að fara í ræktina. Ég þoli ekki hlaupabretti og lyftingatæki þannig ég tók þá ákvörðun að fara í hóptíma. Ég skráði mig í Body Pump hjá Magnúsi, þjálfara hjá Reebok, sem eru lyftingatímar með stangir og lóð þar sem unnið er með nokkuð létt lóð en margar endurtekningar. Ég fann mig strax í þessum tímum þótt að úthaldið hafi verið skelfilegt til að byrja með. Þegar úthaldið fór að aukast og ég fór að sjá árangur fór ég að fikra mig áfram í aðra krefjandi hóptíma. Hreyfing er orðin algjör fíkn og erfitt að velja úr tímum til að fara í þar sem þeir eru allir frábærir. Mataræðið fylgdi einig með. Ég fór að minnka sykur og hveiti í fæðinu og gosdrykkir fóru á bannlista,“ segir Mikael. Hann fagnaði 32ja ára afmæli sínu fyrir stuttu og fékk ómetanlega gjöf.

„Á 32ja ára afmælinu skellti ég mér á vigtina og las 89 kíló, sem eru þá rétt tæp 60 kíló sem eru farin á þessum tveimur árum.“

Aukinn áhugi frá kvenfólki

Í dag brosir lífið við kokkinum.

Mikael segist finna mikinn mun á sér í dag, bæði andlega og líkamlega.

„Munurinn er sláandi og þá sérstaklega andlega. Ég er léttari á líkama og sál. Ég hef fundið ánægju yfir hlutum aftur og hreyfing er mín sálfræðiaðstoð. Að sjálfsögðu sé ég ótrúlegan mun á mér líkamlega og á úthaldi, styrk og þoli. Svefninn er mikið betri og ég er yfir höfuð mjög ánægður með mitt líf í dag,“ segir Mikael og bætir við að þessi breyting hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig.

„Ég hef fallið í nammið og gosið svo um munar og dottið niður andlega hér og þar. En erfiðleikarnir eru mestir í upphafi. Það að koma sér af stað og taka ákvörðunina um að taka sjálfan sig í gegn. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár en hefur verið algjörlega þess virði og ég myndi ekki vilja breyta neinu á minni leið til betri heilsu. Líf mitt hefur breyst töluvert. Ég er farinn að halda í við íþróttafólk í ræktinni, hljóp 10 kílómetra hlaup á gamlársdag, farinn að íhuga að ganga á fjöll og hef hugsað með mér að fara jafnvel í einkaþjálfarann. Þetta eru betri hugsanir en að vera milli svefns og vöku allan daginn vegna andlegra og líkamlegra erfiðleika. Einnig hef ég tekið eftir auknum áhuga kvenfólks á mér. Sem er nú bara jákvætt,“ segir Mikael og brosir.

Þú átt alltaf rétt á hamingju í lífinu

Mikael lítur sáttur yfir farinn veg og hefur þann draum að geta hjálpað fólki að breyta um lífsstíl.

„Mig langar að hjálpa fólki sem hefur verið að glíma við sömu erfiðleika og ég og sýna þeim að þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég veit að það er klisja að segja þetta en hún er 100% sönn. Ef þú leggur til vinnuna munt þú sjá árangur. Það er ekkert flóknara. Það skiptir engu máli hversu gamall þú ert, hvað þú hefur gert af þér í lífinu, hvaða erfiðleika þú hefur átt við að stríða. Þú átt alltaf rétt á hamingju í lífinu og að vera sáttur í eigin skinni,“ segir Mikael og vill skila þakklæti til þeirra sem studdu hann í sinni vegferð, sem heldur áfram um ókominn tíma.

„Ég vil enda á að þakka fólki sem hefur staðið þétt við bakið á mér. Fjölskylda og vinir hafa verið eins og klettur. Svo vil ég skila sérstöku þakklæti til Magnúsar, þjálfara hjá Reebok og allra þeirra sem æfa með mér í hóptímunum. Þetta fólk skiptir miklu máli og hvetur mig áfram. Ég hef séð fólk ná frábærum árangri í tímunum með mér. Ef fólk vill koma og prófa hóptímana, þá taka allir vel á móti þér.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

„Algjört ævintýri“

|||
|||

Sigurður Steinar er á hraðri uppleið í tískuheiminum eftir frábæran árangur í Elite Model Look-fyrirsætukeppninni í Mílanó. Mannlíf tók þennan hressa og efnilega 17 ára Reykvíking tali.

Árlega halda yfir 30 lönd undankeppni fyrir Elite Model Look sem þúsundir keppenda taka þátt í. Af þeim 64 þátttakendum sem komust áfram í ár stóðu uppi 15 sigurvegarar, 10 stúlkur og 5 strákar. Sigurður Steinar var einn fimm sigurvegara í hópi drengja en ekki er raðað sérstaklega í sæti fyrir utan það efsta. Sigurvegararnir fá allir samning við Elite International sem tryggir þeim verkefni í kjölfarið.

Hvernig tilfinning var að ná svona langt í keppninni? „Vá, þegar ég stóð á sviðinu og það var bara eitt sæti eftir og svo heyrist í hljóðkerfinu: „From Iceland, Siggi!“ Það var eitt af skrítnustu augnablikum sem ég hef upplifað! Við höfðum öll fengið fyrirmæli um að halda „kúlinu“ ef við kæmumst áfram, þannig að ég gekk bara fram og tók hring með hinum efstu 15 módelunum en rosalega langaði mig til að fagna!“

Áttirðu von á þessu? „Alls ekki. Það voru svo rosalega margir og flottir krakkar í þessari keppni.“

Var keppnin erfið? „Já, vikuna fyrir keppni þurftum við að vakna klukkan 7 á hverjum morgni, skella í okkur morgunmat og flýta okkur út í rútu sem ók með okkur í risastórt stúdíó þar sem við tóku strangar æfingar. Til dæmis fengum við strákarnir flestir blöðrur á fæturna bara af því að æfa göngulagið í allt of þröngum skóm. Stelpurnar þurftu að ganga í hælaskóm sem var örugglega enn verra. Svo var æft alveg til klukkan 9 öll kvöld. Þannig að þetta var ein af erfiðari en skemmtilegri vikum lífs míns!“

Hvernig kom til að þú tókst þátt? „Þetta byjaði allt hjá Eskimo Models á Íslandi. Fyrir þeirra tilstilli komst ég á samning hjá Elite í París og þar var ákveðið að senda mig beint í stóru lokakeppnina í Mílanó.“

Hafa einhverjar dyr opnast í kjölfarið? „Já, ég er strax kominn á samning hjá Elite Paris og Elite Milano og var að undirrita samning við Elite London. Í janúar tók ég svo þátt í Men’s Fashion Week Winter í París þar sem ég vann fyrir Loewe og ég er líka búinn að fara í prufur hjá Louis Vuitton, Versace, Chanel, Vouge, GQ magazine, Armani, Diesel, Lacoste og fleirum.“

Mynd / Nicholas Efimtcev

Ferðastu þá ekki svolítið í tengslum við starfið? „Jú, ég hef búið í Mílanó og París sem er alveg mögnuð borg. Svo er ég að fara til London til að taka þátt í Men’s fashion.“

Ertu í skóla samhliða módelstörfunum? „Ég kláraði eitt ár í tækniteiknun í Tækniskólanum sem var mjög skemmtilegt en þegar þetta tækifæri bauðst skyndilega ákvað ég, í samráði við foreldra mína og Eskimo, að bíða með námið. Það er nefnilega mjög erfitt að sinna hvorutveggja á sama tíma.“

Hvað finnst skólafélögunum og vinunum um þetta? „Allir í kringum mig eru bara rosalega stoltir af mér og hafa verið duglegir að hvetja mig áfram.“

Stefnirðu að frama í þessu eða langar þig til að vinna við eitthvað annað þegar þú verður eldri? „Ég ætla að einbeita mér að þessu, alla vega eins og er en ég stefni að því að fara í nám í arkitektúr seinna.“

Elite Model Look-keppnin hefur verið haldin árlega frá 1983 og er stór stökkpallur fyrir fyrirsætur en meðal þeirra sem hafa byrjað feril sinn þar eru ofurfyrirsæturnar Cindy Crawford og Gisele Bundchen. Mynd / Cynthia Frebourg

En þessi bransi, er hann í líkingu við það sem þú ímyndaðir þér? „Nei, þegar ég byrjaði vissi ég ekki alveg hvað ég var að fara út í. Þetta er mjög gaman en líka algjört puð.  Það tekur á að fara í 16 prufur á einum degi og ekki grunaði mig að ég myndi lenda í topp fimm í stærstu módelkeppni í heimi! Þessi bransi er svolítið þannig; það er erfitt að sjá fyrir hvað gerist næst. Nú er ég til dæmis að fara til London og svo kannski til París. Annað veit ég ekki í bili. Eina sem ég veit er að það er búið að vera algjört ævintýri að fá að ferðast og búa í svona flottum stórborgum bara 17 ára og þurfa að sjá um sig sjálfur.“

Áttu heilræði handa þeim sem vilja feta sig út á þessa braut? „Hafðu trú á þér. Vertu ófeiminn og alls ekki reyna að vera eins og allir hinir. Vertu bara þú sjálfur og komdu alltaf heiðarlega fram.“

Hægt er að fylgjast með Sigurði Steinari á Instragram undir notendanafninu sigurdur_st

Texti / Roald Eyvindsson
[email protected]
Aðalmynd / Stephane Gizard

Ungar konur í atvinnulífinu verða í forgrunni

Félag Ungra athafnakvenna í samstarfi við Alvotech munu standa fyrir ráðstefnu sem haldin verður 10. mars næstkomandi í Hörpu sem tileinkuð er ungum konum í atvinnulífinu og nefnist ráðstefnan UAK dagurinn.

Fram undan er spennandi ráðstefna í Hörpu þar sem félagið leitast við að skapa vettvang fyrir konur til að fræðast og efla hver aðra, fylla þátttakendur eldmóði og fá til liðs við sig áhrifafólk, ráðherra og erlenda gesti. Markmiðið er að gera stjórnendum fyrirtækja, stjórnmálamönnum og ungu fólki í atvinnulífinu á Íslandi grein fyrir kröftum vel menntaðra og reynslumikilla kvenna ásamt mikilvægi þess að hlustað sé á kröfur þessa öfluga hóps hvað varðar atvinnutækifæri.

Sigyn Jónsdóttir er formaður Ungra athafnakvenna (UAK). Sigyn er hugbúnaðar- og rekstrarverkfræðingur frá Columbia University og starfar hjá Men & Mice ásamt því að sitja í stjórn nýsköpunarfyrirtækisins Mure. UAK var stofnað árið 2014 af Lilju Gylfadóttur. Alls eru sex konur í stjórn UAK og eru félagskonur um 250 talsins. Í hverri viku bætast við nýjar félagskonur.

Hver eru helstu áherslur UAK og hafið þið sett ykkur markmið með starfseminni? „Ungar athafnakonur vilja stuðla að jafnrétti, hugarfarsbreytingu og framþróun í samfélaginu. Félagið er fyrir konur sem vilja skara fram úr á hinum ýmsu sviðum atvinnulífsins og við leitumst við að skapa vettvang fyrir konur til að fræðast og efla hver aðra,“ segir Sigyn.

„UAK dagurinn er ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu. Á ráðstefnunni fáum við tækifæri til að hlusta á íslenska og erlenda leiðtoga ræða málefni sem skipta máli fyrir samfélagið sem við búum í, málefni sem tengjast jafnrétti.“

Hvernig vegnar ungum konum almennt og hver er upplifun þeirra í atvinnulífinu? „Ungar íslenskar konur eru í mikilli forréttindastöðu þegar horft er til annarra heimshorna eða nær okkur, til stöðu kvenna af erlendum uppruna hér á landi. Tækifærin eru ótal mörg og háskólarnir fullir af ungum konum sem eru tilbúnar að takast á við krefjandi stöður í atvinnulífinu. Eftir útskrift tekur svo við blákaldur raunveruleikinn og við okkur blasa staðreyndirnar, rúmlega 90% þeirra sem stýra peningum á Íslandi eru karlar. Þessu þarf að breyta og við ætlum ekki að sitja rólegar og bíða eftir því að hlutirnir breytist. Þar til konur og karlar standa jöfnum fótum í íslensku samfélagi munu Ungar athafnakonur starfa áfram og vinna að jafnrétti með fræðslu, umræðu og hvatningu,“ segir Sigyn.

Getur þú sagt okkur frekar frá UAK deginum sem fram undan er í Hörpu? „UAK dagurinn er ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu. Á ráðstefnunni fáum við tækifæri til að hlusta á íslenska og erlenda leiðtoga ræða málefni sem skipta máli fyrir samfélagið sem við búum í, málefni sem tengjast jafnrétti,“ segir Sigyn.

Hvert er markmið ykkar með ráðstefnunni? „Við viljum gera stjórnendum fyrirtækja, stjórnmálamönnum og ungu fólki í atvinnulífinu grein fyrir kröftum vel menntaðra og reynslumikilla kvenna ásamt mikilvægi þess að hlustað sé á kröfur þessa öfluga hóps hvað varðar atvinnutækifæri,“ segir Sigyn.

___________________________________________________________

*SÉRSTAKUR GESTUR RÁÐSTEFNUNNAR ER LAURA KORNHAUSER

Sérstakur gestur er Laura Kornahauser.

Laura er forseti og framkvæmdastjóri Stratyfy sem spáir fyrir um og greinir gögn til að efla hina sönnu sérfræðinga fyrirtækja – fólkið sem stýrir þeim til að taka upplýstari ákvarðanir til að bæta fyrirtækið. Hún tók þátt í að stofna Stratyfy árið 2016 ásamt þremur verkfræðingum. Fyrir stofnun Stratyfy var Laura framkvæmdastjóri hjá JPMorgan og vann við að selja flóknar afleiddar vörur til stórra kúnna. Á tólf árum hjá JPMorgan varð Laura sérfræðingur í að sjá um flókin sambönd við kúnna, bera kennsl á vörutækifæri og að þróa ný boð til að koma til móts við aukna eftirspurn kúnna. Hún upplifði þá óhagkvæmni þeirra vara sem notaðar voru, sérstaklega þeirra sem notaðar voru til að fylgja þróun í umhverfi reglugerðar. Eftir að hafa skapað ýmis ferli, tæki og tól til að hjálpa við að bæta árangur viðskipta, vissi hún að það þyrfti að vera til betri lausn og hún ætlaði að finna hana.

___________________________________________________________

Hér má sjá dagskrána sem er hin glæsilegasta og von er á öflugum og fjölbreytum hóp fyrirmynda öðrum til eftirbreytni.
UAK dagurinn 2018 – Ráðstefna tileinkuð ungum konum í atvinnulífinu

10.00 Afhending ráðstefnugagna
10.30 Sigyn Jónsdóttir, formaður Ungra athafnakvenna
10.40 Eliza Reid forsetafrú setur UAK daginn 2018
11.00 Panel: Störf framtíðarinnar
Umræðum stýrir Fanney Birna Jónsdóttir

Gestir verða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Ægir Már Þórisson, Stefanía G. Halldórsdóttir og Ari Kristinn Jónsson.

11.45 Hádegismatur
12.30 Leynigestur
13.00 Laura Kornhauser
13.30 Panel: Umræðan um áhrifamiklar konur
Umræðum stýrir Björg Magnúsdóttir
Gestir verða Rannveig Rist, Salvör Nordal og fleiri.

14.15 Kaffihlé
14.45 Alda Karen Hjaltalín
15.15 Halla Tómasdóttir

Panel: Störf framtíðarinnar

· Hvar og hvernig er AI þróað? Hverjir eru að því? Hvaða fyrirtæki? Hvernig eru teymin samansett, t.d. kynjahlutföll?
· Eru konur í minnihluta í þeim greinum sem verða hvað mest áberandi í fjórðu iðnbyltingunni? Ef já, hvað er hægt að gera? Eru stjórnvöld, menntastofnanir og fyrirtækin í landinu að undirbúa sig fyrir fjórðu iðnbyltinguna? Hvernig?
Gestir verða fulltrúar atvinnulífsins, stjórnvalda og háskólasamfélagsins.

Panel: Umræðan um áhrifamiklar konur

· Fyrirfinnst tvöfalt siðgæði gagnvart konum í almennri umræðu Íslendinga um áhugaverða einstaklinga?
· Gerum við meiri kröfur til útlits, framkomu og vinnubragða kvenna? Er orðræðan um áhrifamiklar konur harkalegri en orðræðan um karla í sambærilegum störfum?
· Fá konur, sem eru áberandi vegna vinnu sinnar, verri útreið í fjölmiðlum og athugasemdakerfum netheima vegna mistaka sinna?
· Finnst konum þær þurfa að vanda sig meira í starfi og með það sem þær tjá sig um opinberlega vegna ótta við að vera dæmdar harkalegar en karlar?
· Ef já, af hverju? Og hvernig breytum við þessu?

Gestir verða konur sem hafa verið áberandi í stjórnmálum eða stjórnendur stórra fyrirtækja sem hafa leitt erfið verkefni eða þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Einnig farið í gegnum krefjandi tímabil á sínum starfsferli, þurft að svara fyrir sína vinnu og mögulega upplifað ósanngjörn viðhorf og athugasemdir í sinn garð.

Stjórn UAK, talið frá vinstri: Helena Rós Sturludóttir samskiptastjóri, Elísabet Erlendsdóttir viðskiptastjóri, Andrea Gunnarsdóttir viðburðastjóri, Sigyn Jónsdóttir formaður og Anna Berglind Jónsdóttir. Á myndina vantar Ásbjörgu Einarsdóttur fjármálastjóra.

Stúdíó Birtingur í samstarfi við Félag ungra athafnakvenna.
Umsjón / Sjöfn Þórðardóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

 

Aðdáendur telja að Jennifer Aniston og Brad Pitt byrji aftur saman

|
|

Leikkonan Jennifer Aniston og leikarinn Justin Theroux eru skilin en þau giftu sig við leynilega athöfn í ágúst árið 2015. Þau byrjuðu að deita í maí 2011 og tilkynntu trúlofun sína í ágúst árið 2012. Þau sáust síðast saman í fríi í Mexíkó í desember á síðasta ári, en fjölmiðlar hafa haldið því fram að í fríinu hafi þau leitað leiða til að bæta sambandið. Það gekk hins vegar ekki.

„Til að draga úr frekari vangaveltum höfum við ákveðið að tilkynna skilnað okkar,“ segja Jennifer og Justin í sameiginlegri tilkynningu til fjölmiðla um málið.

„Ákvörðunina tókum við í sameiningu í miklu bróðerni í lok seinasta árs. Við erum bestu vinir sem höfum ákveðið að hætta að vera par, en við hlökkum til að rækta vináttu okkar áfram,“ segir einnig í tilkynningunni.

Justin og Jennifer.

Aðdáendur vinalegu leikkonunnar hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum eftir að fréttirnar um skilnaðinn bárust og telja margir að nú sé komið tækifæri fyrir hana og leikarann Brad Pitt að byrja aftur saman. Þau voru gift frá 2000 til 2005, en frægt er orðið þegar Brad byrjaði í kjölfarið með leikkonunni Angelinu Jolie. Þau hættu hins vegar saman í september árið 2016.

„Brad Pitt og Jennifer Aniston eru að fara að byrja aftur saman. Ég sagði það fyrst,“ skrifar einn tístari.

„Óvænt flétta: hún byrjar aftur með Brad Pitt og er stjúpmóðir barna Angelinu Jolie,“ tístir annar.

Hér fyrir neðan má sjá viðbrögð Twitter-samfélagsins við fréttunum um að Jennifer Aniston sé einhleyp á ný:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Áhrifamiklar fæðingarmyndir verðlaunaðar

|||||||||||
|||||||||||

Vefsíðan Birth Becomes Her, sem safnar saman fæðingarmyndum sem teknar eru af faglærðum ljósmyndurum, tilkynnti nýverið úrslit í ljósmyndasamkeppni sinni.

Rúmlega þúsund myndir voru sendar inn í samkeppnina og var það dómnefnd og yfir tuttugu þúsund lesendur síðunnar sem kusu sigurvegara í hinum ýmsu flokkum.

Myndirnar eiga það allt sameiginlegt að fanga stórkostlegar stundir í lífi fólks og eru þær því afar áhrifamiklar.

Fæðing – 1. sæti
Ljósmyndari: Selena Rollason

Brjóstagjöf – 1. sæti
Ljósmyndari: Cory Janiak

Glænýtt / Eftir fæðingu – 1. sæti
Ljósmyndari: Veronika Richardson

Hríðar – 1. sæti
Ljósmyndari: Rebecca Coursey

Móðurhlutverkið – 1. sæti
Ljósmyndari: Jen Conway

Fæðing – 2. sæti
Ljósmyndari: Neely Ker-Fox

Fæðing – 3. sæti
Ljósmyndari: Dominique Lamontagne

Brjóstagjöf – 2. sæti
Ljósmyndari: Veronika Richardson

Brjóstagjöf – 3. sæti
Ljósmyndari: Christina Benton

Móðurhlutverkið – 2. sæti
Ljósmyndari: Melissa Benzel

Aðalsigurvegari keppninnar
Ljósmyndari: Marijke Thoen

Allar myndirnar sem hlutu verðlaun í keppninni má sjá hér.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu að þetta væri ógeðslegt“

|||||
|||||

Síðustu ár hafa margar kannanir verið gerðar í löndunum í kringum okkur um hvort konur skammist sín fyrir að vera á blæðingum. Nýleg könnun í Bretlandi sem framkvæmd var meðal fimmtán hundruð kvenna og fimm hundruð karla leiddi það í ljós að 58% kvenna höfðu skammast sín fyrir að vera á túr. Þá sögðust 73% hafa falið dömubindi eða túrtappa þegar þær fóru á salernið innan um fólk.

Við hjá Mannlífi ákváðum að framkvæma okkar eigin skoðanakönnun um þetta málefni. 608 konur svöruðu könnun okkar um blæðingaskömm og 42,6% þeirra sögðust hafa skammast sín fyrir að vera á blæðingum. Rúmlega 73,5% þeirra sem svöruðu sögðu að þeim fyndist ekki óþægilegt að tala um blæðingar við sína nánustu eða vinnufélaga en 75,66% kvennanna sögðust fela túrtappa, dömubindi eða aðrar hreinlætisvörur þegar þær færu á salernið í mannmergð, til dæmis í skóla eða á vinnustað.

Enn vandræðalegt umræðuefni

Þessar niðurstöður koma Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðingi lítið á óvart en hún heldur meðal annars kynfræðslufyrirlestra fyrir unglinga og foreldra og kennir áfangann Almenn kynfræði í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hún kemur einmitt inn á tíðahring kvenna og egglos.

„Það þarf að ræða þetta miklu, miklu meira. Það er heila málið. Mér finnst fólk búið að ákveða að það sé nóg að ræða þetta í kynfræðslu í sjötta bekk og síðan aldrei meir. Eins og að þessi fyrrnefnda kynfræðsla hafi „koverað“ allt sem tengist blæðingum. Í dag, þegar ég tala um blæðingar við grunnskólanema, framhaldsskólanema og jafnvel nemendur á háskólastigi, finnst konum þetta enn rosalega vandræðalegt umræðuefni. Og margir vita lítið um tíðahring kvenna. Ungar konur eru mjög stressaðar og kvíðnar þegar kemur að því að tala um túr og hafa enn svo margar spurningar, eins og til dæmis: Hvenær byrja ég á túr? Hvernig lítur þetta út? Hvað er ég lengi á túr?“ segir Sigga Dögg.

Sigga Dögg vinnur til dæmis við að kenna kynfræðslu.

Trúarleg orðræða mjög fordæmandi

Ef við skoðum blæðingar í sögulegu samhengi kemur í ljós að þessi blæðingaskömm hefur viðhaldist í ýmsum trúarbrögðum. Í kristinni trú voru konur á blæðingum taldar beinlínis hættulegar. Ef marka má sögur kvenna í prestastétt sem voru opinberaðar fyrir stuttu í #metoo-byltingunni virðist þetta viðhorf enn lifa góðu lífi meðal einhverra.

„Ég minnist mannsins sem sagði að hann hefði farið inn á klósettið í kirkjunni eftir að ég var þar. Hann vildi vita hvernig prestur gæti blesssð söfnuðinn þegar hún væri á túr. Fyrstu mánuðina og árin eftir að þetta gerðist hugsaði ég um þetta í hvert skipti sem mér blæddi. Ég sá andlitið á honum fyrir mér og fannst ég skítug,“ hljóðar ein af sögunum sem birtar voru á heimasíðu Þjóðkirkjunnar.

Í íslam má ekki stunda kynlíf með konum á blæðingum og í hindúatrú mega blæðandi konur ekki fara inn í hof og biðja. Þá eru konur á túr taldar óhreinar í gyðingdómi. Það markaði einnig tímamót í Nepal á síðasta ári þegar lög voru samþykkt sem bönnuðu að konur og stelpur væru læstar inni í svokölluðum blæðingakofum, í algjörri einangrun, á þessum tíma mánaðarins, eitthvað sem kom frá fornri hefð úr hindúatrú sem heitir chhaupadi. Var þetta gert því konurnar voru taldar óhreinar. Í ágúst lést unglingsstúlka í einum af þessum kofum eftir að hafa verið bitin af snáki og því var gripið til þess ráðs að banna blæðingakofana. Þeir sem neyða konur inn í þessa kofa framvegis gætu átt yfir höfði sér þriggja mánaða fangelsisdóm og sekt upp á rúmlega þrjú þúsund krónur.

Sigga Dögg telur þessa orðræðu í trúarbrögðum hafa mikið að segja um af hverju konur skammist sín fyrir það að fara á túr.

„Trúin hefur rosalega mikið að segja og hefur að þessu leyti valdið okkur miklum skaða. Orðræðan er mjög fordæmandi, talað um að konan sé skítug og hún sé að gjalda fyrir erfðasyndina og blæðingar séu í raun okkar refsing. Þetta hefur litað alla orðræðu og gerir út um allan heim – konur fá ekki að sitja til borðs með öðrum, mega ekki fara í skólann, mega jafnvel ekki að fara út úr húsi. Það þarf ekki að fara langt til að sjá að konur á blæðingum eru jaðarsettar,“ segir kynfræðingurinn og bætir við að konur á túr séu vissulega niðurlægðar á Íslandi, þótt þjóðin sem slík sé ekki heittrúuð.

„Þetta er talið svo mikið kvennamál sem er ótrúlega áhugavert. Stelpur fá enn að heyra: Ertu pirruð? Ertu á túr? Svona setningar eru notaðar til að niðurlægja og setja konur niður. Eins og maður eigi ekki rétt á þessum tilfinningum, vegna líffræðilegs ferlis sem við ráðum ekkert við. Strákar nota þessar setningar og stelpur þola það ekki. Þetta lifir því miður góðu lífi í dag.“

Skömminni viðhaldið í skólum

Það er sláandi að sjá í könnun Mannlífs hve margar konur hafa átt í erfiðleikum með að tala um fyrstu blæðingarnar við foreldra sína, og jafnvel falið þær fyrir þeim svo árum skiptir. Sigga Dögg telur nauðsynlegt að foreldrar taki það að sér að fræða og undirbúa börnin sín þegar kemur að tíðahringnum, þá bæði drengi og stúlkur.

„Ef þú átt barn með píku fer það barn á blæðingar og umræðan um það þarf að byrja mjög snemma. Ég á tvo drengi og eina stúlku og á mínu heimili var umræðan um túr byrjuð um þriggja ára aldurinn. Ég fer á klósettið með opna hurð og þá er spurt: Hvað er þetta? Af hverju gerist þetta? Mun þetta gerast hjá mér? Þetta er mjög eðlilegur hluti af samræðum,“ segir Sigga Dögg og bætir við að kynfræðslu sé oft ábótavant í grunnskólum landsins.

„Þessi fræðsla er oft kynjaskipt þannig að strákar eru úti á þekju hvað varðar blæðingar. Það hefur stuðað margar stelpur, enda finnst þeim þetta ekki vera þeirra einkamál. Af hverju fá stelpur ekki að vita um stráka og strákar um stelpur? Þannig að þessari skömm er viðhaldið í skólum. Margir strákar vita ekkert um egglos og frjóvgunarlegu hliðina á konum, til dæmis hvenær hún getur orðið ólétt. Fræðslan er líka oft of fræðileg, í staðinn fyrir að útskýra blæðingar á mannamáli, af hverju blóðið er mismunandi á litinn, hvaðan það kemur og hve mikið kemur í einu. Við erum ekki að lesa IKEA-bækling, við erum að tala við fólk.“

Taka skal fram hér að nýverið var það tilkynnt að taka eigi upp kynfræðslu frá 1. og upp í 10. bekk í tveimur skólum í Reykjavík í tilraunaskyni.

Fullnæging getur stillt túrverki

Sigga Dögg segir að það sé ekkert rétt né rangt við samfarir á túr.

Talið berst að kynlífi á blæðingum, en ein af flökkusögunum um samfarir á túr er að kynlífið verði ógeðslegt, það frussist blóð úr leggöngum konunnar og að það gjósi upp vond túrlykt. Sigga Dögg er alvön að svara slíkum sögum.
„Þetta frussast ekki út,“ segir Sigga Dögg og hlær. „Ef þú ert að stunda kynlíf er til dæmis hægt að setja handklæði undir. Svo er líka hægt að stunda kynlíf í baði eða sturtu ef fólk vill hafa þetta hreinlegra.“

Sigga Dögg segir að það sé ekkert rétt né rangt við samfarir á túr, heldur þurfi hver kona að ákveða fyrir sig hvað veiti henni ánægju.

„Konur þurfa að spyrja sig, sem blæðandi verur: Finnst þér þetta ógeðslegt? Ef svarið er já og þér finnst erfitt að slaka á í kynlífi með annarri manneskju þá ættirðu frekar að sleppa því. Ég vil samt benda á að það er ein tilgáta um það að fullnæging sé verkjastillandi og geti því stillt túrverki. Þá getur fullnæging einnig stytt blæðingatímann því legið fær krampa við fullnægingu sem veldur því að það losar líkamann hraðar við túrblóðið. Margar konur upplifa sig einnig mjög kvenlegar á blæðingum og það er eitthvað til að fagna,“ segir Sigga Dögg.

Oft er skömmin í hausnum á okkur

En hvað geta konur gert til að skila blæðingaskömminni?

„Við þurfum að byrja á því að fræða opinskátt og eðlilega um blæðingar og ræða þær í nærumhverfinu sínu ef maður hefur þörf fyrir það. Við þurfum að leyfa okkur að taka upp dömubindi og túrtappa úr töskunni á almannafæri og ekki deyja yfir því. Samfélagið er hægt og rólega að breytast. Oft er þessi skömm í hausnum á okkur og fólk í kringum okkur er almennt ekkert að pæla í okkar klósettferðum.“

Unaður sem fylgir kynfærum

Ein af athugasemdunum sem sló undirritaða hvað mest í könnun Mannlífs lýsti því hvernig nafnlaus kona sagðist finna allt sem tengdist kynfærum sínum óþægilegt. Sigga Dögg segir að við eigum langt í land með að aflétta kynfæraskömm almennt.

„Það er rosalega feimni í kringum það að tala um kynfærin, skoða þau, upplifa þau, kanna þau og hafa gaman að þeim. Það er rosalega mikið tabú. Auðvitað sjáum við að umræðan þarf að byrja miklu fyrr, það er það sem er alltaf verið að impra á. Orðræðan um píkur er enn svo gildishlaðin. Hver er að tala um píkur fyrir framan börn? Einhver fullorðinn. Notkun þessa einstaklings á orðinu píka hefur áhrif. Það tekur margar kynslóðir að vinda ofan af þessu og breyta,“ segir Sigga Dögg, sem veit fátt betra en þegar opinskátt tal hennar um kynfæri, kynlíf og allt sem því fylgir ber árangur.

„Þess vegna er ég að gera það sem ég er að gera. Það er ótrúlega gefandi að stelpa komi upp að mér og segi mér frá því að hún hafi prófað að skoða píkuna á sér. En það er alltaf í hálfum hljóðum og aldrei yfir bekkinn. Við verðum að hætta að taka þetta svona alvarlega. Við kynfræðingar sem sinnum kynfræðslu erum á því að leiðin til að gera umræðuna opnari og létta skömm sé að fara í gegnum unaðinn sem fylgir kynfærum. Fara yfir jákvæðnina, hvernig við getum notið líkamans og upplifa að hann geti verið skemmtilegur og frábær. Það eru margar rannsóknir sem styðja þessa leið til sjálfseflingar og -styrkingar.“

Rétta orðið er píka

Tilfinning Siggu Daggar er samt sem áður sú að það sé orðið eðlilegra fyrir marga að nota orðið píka yfir kynfæri kvenna en það var fyrir nokkrum árum.

„Samtalið um píkuna fór af stað inni á mörgum leikskólum og í dag eru mjög margir leikskólakennarar og yngri foreldrar sem nota orðið píka. Mér finnst gott að brýna það fyrir börnunum mínum að rétta orðið sé píka, þó að við getum að sjálfsögðu notað einhver gælunöfn yfir hana. Hvernig við lítum á orðið kemur oft heiman frá okkur. Þeir sem hika við að nota orðið gera það því það þykir ljótt heima hjá þeim. Ég hitti enn stelpur, jafnvel í framhaldsskóla, sem geta ekki sagt orðið píka. Við notum þetta orð líka enn til að tala illa um aðrar konur, samanber „helvítis píkan“. Það þarf að breyta tungumálinu og það þarf að fara að fagna píkunni.“

Sigga Dögg vill opna umræðu um hvernig hægt sé að nota líkamann til unaðar og ánægju.

Ekki samasemmerki milli ummáls og heilsufars

Talið berst að líkamsvitund kvenna, en það er alþekkt að bæði konur sjálfar og samfélagið setja miklar kröfur um að þær eigi að líta út á ákveðinn hátt. Oft hefur orðinu útlitsdýrkun verið fleygt í þessu samhengi. Sigga Dögg fagnar samtökum og hreyfingum eins og Samtökum um líkamsvirðingu og segir verk sem þar er unnið skipta sköpum.

„Orðræðan hefur breyst. Ég tók til dæmis ekki eftir því að auglýsingar bentu mér á að ég þyrfti að komast í kjólinn fyrir jólin í aðdraganda síðustu jóla. En þessi orðræða er svo djúp. Hún smeygir sér inn í merginn inni í beininu. Ég til dæmis reyni að stoppa mig af áður en ég lendi í vítahring líkamsskammar en þetta er svo inngróið. Rannsóknir hafa sýnt að allt niður í þriggja ára börn sniðganga frekar feita krakka því þau vita hvað það er ljótt og hættulegt að vera feitur. Það er jú talað um fitufaraldurinn eins og hann sé einhver djöfull sem sé hér kominn til að éta þau. En það skiptir svo ótrúlega miklu máli að við áttum okkur á því að það er ekkert samasemmerki á milli líkamsummáls og heilsufars,“ segir Sigga Dögg og heldur áfram.

„Samfélagið er að segja okkur að við getum verið eitthvað sem við eigum ekki að reyna að vera. Ég kem til dæmis úr kvenfjölskyldu þar sem við erum með granna fótleggi en mjúkan maga. Ég hef alltaf þráð sléttan maga en það er bara ekki í minni genabyggingu. Ég myndi þyrfa að svelta mig í einhvern tíma ásamt því að æfa brjálæðislega mikið til að fá sléttan maga í korter. Líkaminn veit hvernig hann vill vera en við bara hlustum ekki. Við setjum okkur einhver markmið í ræktinni sem oftar en ekki eru sentímetra- eða kílóatengd og það er svo fráleitt. Þetta á ekki að vera svona.“

„Ef þú værir aðeins grennri værirðu aðeins betri“

Sigga Dögg telur að það sé ekki aðeins fjölskylda okkar og hvernig foreldrar tala við börnin sín sem skiptir máli þegar kemur að því að bæta líkamsvitund kvenna. Það þurfi meira til.

„Þetta er allt í kringum okkur – í fjölmiðlum, auglýsingum, bíómyndum, hvernig við tölum hvor við aðra. Þótt maður sé gagnrýninn er maður samt ekki ónæmur fyrir þessari umræðu. Ég sveiflast til dæmis í fitusöfnun og um leið og ég næ aðeins af mér heyri ég mikið af hrósi um hvað ég líti vel út. Þá líður mér eins og fólk sé oft að hugsa: Ef þú værir aðeins grennri værirðu aðeins betri. Þú værir meira fyrir augað,“ segir Sigga Dögg sem segir einnig stigsmun á hvernig talað er við konur og karla þegar kemur að útlitinu.

„Hópur karlmanna á miðjum aldri spurði mig um daginn hvort þeir mættu ekki hrósa konum í vinnunni lengur. Hvort það væri ljótt að hrósa. Sumir vilja hrós en flestar okkar nennum því ekki að karlmenn hafi skoðun á okkur. Okkur langar bara að fá að vera í vinnunni og vinna vinnuna okkar. Það er rosalega þreytandi að þurfa sífellt að taka ákvörðun um útlit sitt. Ef að ég er mygluð og mæti í víðum gallabuxum og hettupeysu í vinnuna er það einhvers konar yfirlýsing, en ósköp venjulegt ef karlmaður gerir það. Auðvitað tengja karlmenn ekki við þetta því þetta er ekki þeirra reynsluheimur. En konur fá svo mikið af athugasemdum frá samfélaginu og fólkinu í kringum sig um hvernig þær líta út. Okkur langar bara að vera,“ segir Sigga Dögg og rifjar í kjölfarið upp atvik þegar henni var neitað um fjölmiðlaviðtal því hún væri ekki máluð.

„Ég sagðist bara ætla að vera svona, en það var stungið upp á því að viðtalinu yrði frestað þar til ég væri „betur stemmd“. Eins og fólk yrði ofboðslega vandræðalegt fyrir mína hönd og færi að hafa áhyggjur af því að ég væri ekki undirbúin því ég væri ekki máluð. Fólk ákveður hvernig okkur konur líður út frá útlitinu. Það les í klæðaburðinn okkar, í staðinn fyrir að kafa dýpra í skelina. Bæði konur og karlar eru með mjög skerta sjálfsmynd og það hjálpar ekki að utanaðkomandi aðilar hafi sífellt skoðanir á því hvernig þú lítur út. Verum bara eins og við viljum. Hættum að troða hugmyndum upp á alla aðra um hvernig þeir eigi að vera. Hafðu bara skoðun á þínum eigin, fokkíng líkama.“

Berum virðingu fyrir fjölbreytileikanum

Það sem byrjaði sem spjall um blæðingar hefur farið á flug, enda af nægu að taka af öllu sem varðar skömm sem tengist líkama kvenna. Sigga Dögg segir þær herferðir og grasrótarsamtök sem hafa starfað á Íslandi hafa haft mikil og góð áhrif, og ber þar til dæmis að nefna Völvuna og Druslugönguna. Hún segir samfélagið í heild sinni einnig á góðri leið, þótt við tökum stundum tvö skref áfram og þrjú aftur á bak.

„Sem samfélag erum við alltaf að læra. Við erum alltaf að batna og sýnum hvert öðru meiri virðingu og skilning. Mér finnst einlægur vilji hjá mörgum að reyna að skilja aðrar manneskjur og bera virðingu fyrir því hvað við erum ólík. Bakslagið kemur helst frá gömlum röddum sem rifja upp gamla tíma og spyrja að því hvort ekkert megi í dag. En af hverju megum við ekki bara hlusta á fólk og virða það sem það hefur að segja? Ég er ekki eins og þú og það er hvorki hættulegt fyrir mig né þig.“

„Finnst allt óþægilegt sem tengist kynfærum mínum“

Eins og áður segir, ákváðum við hjá Mannlífi að framkvæma okkar eigin skoðanakönnun um blæðingaskömm. Við spurðum einnig af hverju konur skömmuðust sín fyrir að vera á túr. Meðal svara sem við fengum voru:

„Dömubindi þykja ekki smart, maður vill ekki láta fólk sjá að maður fari á klósettið með dömubindi í hendinni.“

„Finnst ég óhrein.“

„Það hefur blætt í gegn, til dæmis þegar ég hitti tengdaforeldrana í fyrsta sinn, mér fannst það vandræðalegt.“

„Ég var 14 ára og það kom í gegnum fötin mín þegar ég var með pabba og nýrri kærustu hans í Kringlunni. Það kom blettur í stólinn á Stjörnutorgi. Þá skammaðist ég mín. Enda 14 ára og ný í bransanum. En kærastinn minn er með óþolandi blæðingafóbíu og kemur helst ekki nálægt mér meðan á því stendur. Þorir varla inn á bað af ótta við að sjá einhver ummerki á eða í kringum klósettið. Og hann gæti aldrei tæmt ruslið inni á baði, þó að ekkert blæðingatengt væri í því. Ég skammast mín þó ekki þegar hann lætur illa, ég segi honum bara að hann sé fífl og ætti að þakka fyrir, ég væri allavega ekki ólétt.“

„Skammast mín fyrir að kvarta yfir verkjum.“

„Veit ekki alveg af hverju, einhver skömm sem hefur verið innbyggð.“

„Fundist vandræðalegt að vera með stór dömubindi, held að það sjáist/heyrist kannski, fyrir að geta ekki stundað kynlíf, fyrir að vilja kannski ekki fara í sund.“

„Það kemur oft mikil lykt og mikið blóð.“

„Finnst allt óþægilegt sem tengist kynfærum mínum.“

„Byrjaði 10 ára á túr og sagði engum frá í þrjú ár.“

Álfabikarinn er ein af þeim vörum sem konur geta notað á túr.

Flest svörin eiga það þó sameiginlegt að konurnar sem tóku þátt í könnun okkar finnst samfélagið dæma þær fyrir að vera á blæðingum og að það hafi skort fræðslu frá foreldrum þegar blæðingar byrjuðu, en algengast er að stúlkur byrji á blæðingum frá 10 ára aldri og upp í 15 ára.

„Samfélagið hefur kennt manni að það sé ógeðslegt og óhreint,“ skrifar ein kvennanna og önnur er sammála: „Því ég fékk þau skilaboð frá umhverfinu að þetta væri ógeðslegt.“

„Var alin upp þannig að þetta væri eitthvað sem enginn talar um, svo unglingurinn ég með ekkert sjálfstraust/sjálfsálit tók það svo nærri mér að ég fór alltaf að skammast mín þegar ég var á túr þangað til ég lærði að þetta á alls ekki að vera feimnismál og allar konur fara í gegnum þetta!“ skrifar önnur og margar hafa svipaða sögu að segja:

„Bara ógeðslegt og mikið talað neikvætt um þetta af fjölskyldunni minni.“

„Skammaðist mín sem unglingur þar sem þetta var aldrei umræðuefnið milli mín og mömmu, þar af leiðandi fannst mér þetta ekki eðlilegt „ástand“.“

„Ég byrjaði 11 ára og enginn hafði rætt það við mig svo ég faldi þetta og notaði klósettpappír og þvoði nærbuxurnar mínar sjálf í höndunum í klósettvaskinum.“

„Þegar ég byrjaði á blæðingum 13 ára gömul þorði ég ekki að segja nokkrum manni frá því. Sérstaklega ekki mömmu, ég var alveg viss um að hún yrði reið. Kona sem er aldrei reið, hehe!“

„Mamma var ekkert að kenna mér hvað blæðingar voru og lét mér eiginlega líða bara illa með það.“

Enn aðrar segja skömmina hafa komið vegna þess að þær byrjuðu ungar á blæðingum, jafnvel fyrstar af sínum vinkonum eða skólasystrum. „Fyrst þegar ég byrjaði var þetta rosaskömm að vera komin á blæðingar í grunnskóla,“ skrifar ein og önnur segist hafa falið blæðingar fyrir öllum í þrjú ár. „Byrjaði 10 ára og sagði engum frá fyrr en 13 ára.“

Þá eru nokkrar konur sem segjast hafa hætt við að fara í sund, líkamsrækt eða á mannamót vegna blæðinga, einhverjar sem telja að samfélagið líti á blæðingar sem veikleika og sumar konurnar telja að komið sé fram við þær öðruvísi, til dæmis af vinnuveitenda, þegar þær eru á túr. Þá hafði ein kona lent í vandræðum hjá vinnuveitenda fyrir að tala um blæðingar sínar:

„Fékk einu sinni skammir frá vinnuveitanda fyrir að útskýra að mér liði illa vegna þess að ég væri með túrverki. Var sagt að svona lagað ættu ungar stúlkur ekki að nefna upphátt.“

Hvernig væri heimurinn ef karlmenn færu á túr?

Anna Tara. Mynd / Kristín Péturs

Konur um allan heim eru farnar að opna umræðuna um blæðingar til að útrýma blæðingaskömm. Ein af þeim er tónlistarkonan og Reykjavíkurdóttirin Anna Tara Andrésdóttir. Hún olli miklu fjaðrafoki á samfélagsmiðlum í fyrra þegar hún frumsýndi myndbandið við lagið Pussypics. Píkan og blæðingar eru í aðalhlutverki í myndabandinu og þótti myndbandið of gróft til að vera sýnt á myndbandaveitum á borð við YouTube. Einnig var myndbandinu hent út af þekktum klámsíðum. Anna Tara mátti þola mikinn fúkyrðaflaum út af fyrrnefndu myndbandi en hún telur mjög mikilvægt að opna umræðuna um blæðingar.

„Við getum útrýmt þessari skömm með því að tala mjög mikið um blæðingar og sýna þær með margvíslegum hætti, hvort sem það er í daglegu lífi eða í listum, þangað til að þær „normalíserast“. Kiran Gandhi hljóp til dæmis London-maraþonið án þess að nota túrtappa eða dömubindi og lét sér blæða frjálst, sem vinnur þá bæði gegn því að þetta sé feimnismál og að þetta sé veikleikamerki,“ segir Anna Tara.

En af hverju telur hún að sumar konur skammist sín fyrir að vera á blæðingum?

„Stórt er spurt. Það eru svo ótrúlega margþætt en líklegast mjög mörg mismunandi skilaboð um að það sé ógeðslegt eða veikleikamerki,“ segir tónlistarkonan sem hefur velt blæðingum mikið fyrir sér.

„Eftir að ég byrjaði að velta túr mun meira fyrir mér og fylgifiskum hans, fór ég að taka eftir því hvað ég er hrifnæm á túr og reyni að gefa sjálfri mér rými til að slaka á og vera í tilfinningaúrvinnslu og þá hlakkar hluti af mér til þess. En mér finnst þreytandi að vera með túrverki, finnast ég útblásin og þurfa að pæla í túrtöppum og slíku. Sumir eru viðkvæmir fyrir því að það sé talað um túr en svo birtist skömmin kannski í mörgum öðrum hlutum, eins og ef þú ert með túrblett aftan á rassinum sem þú vissir ekki af. Ég hef heyrt stelpur vera miður sín yfir því að hafa gist hjá strák og það hafi óvart farið blóð í lakið. Svo næst blóðið illa úr lakinu í þvotti. Einn þurfti að fara með lakið í hreinsun. Ef karlmenn færu á túr, ætli það væru þá til þvottavélar sem næðu túrblóði úr lökum? Eða hvernig væri heimurinn ef karlmenn færu á túr?“ spyr Anna Tara.

Fyrrnefnt myndband Önnu Töru við lagið Pussy Pics má horfa á með því að smella hér. Við vörum viðkvæma við innihaldi myndbandsins.

Fleiri konur sem hafa opnað umræðuna

Norska tónlistarkonan Jenny Hval vakti athygli þegar hún gaf út plötuna Blood Bitch árið 2016 en eitt lagið á plötunni, Untamed Region, fjallar einmitt um þá skömm sem umlykur blæðingar kvenna.

Kanadíska listakonan Rupi Kaur komst í heimspressuna í mars árið 2015 þegar hún birti mynd úr myndaseríu sinni Period (Tíðir) á Intagram. Á myndinni sést kona liggjandi í rúmi og snýr baki í myndavélina. Blóðblettir eru á buxum hennar og í lakinu. Forsvarsmenn Instagram eyddu myndinni nánast samstundis út af samfélagsmiðlinum þannig að Rupi skrifaði um það á bæði Facebook og Tumblr. Málið vakti svo mikla athygli að Instagram leyfði myndina, en hana má sjá hér:

thank you @instagram for providing me with the exact response my work was created to critique. you deleted a photo of a woman who is fully covered and menstruating stating that it goes against community guidelines when your guidelines outline that it is nothing but acceptable. the girl is fully clothed. the photo is mine. it is not attacking a certain group. nor is it spam. and because it does not break those guidelines i will repost it again. i will not apologize for not feeding the ego and pride of misogynist society that will have my body in an underwear but not be okay with a small leak. when your pages are filled with countless photos/accounts where women (so many who are underage) are objectified. pornified. and treated less than human. thank you. ⠀⠀⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀ ⠀ this image is a part of my photoseries project for my visual rhetoric course. you can view the full series at rupikaur.com the photos were shot by myself and @prabhkaur1 (and no. the blood. is not real.) ⠀⠀⠀⠀⠀⠀ ⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀⠀⠀⠀ ⠀ i bleed each month to help make humankind a possibility. my womb is home to the divine. a source of life for our species. whether i choose to create or not. but very few times it is seen that way. in older civilizations this blood was considered holy. in some it still is. but a majority of people. societies. and communities shun this natural process. some are more comfortable with the pornification of women. the sexualization of women. the violence and degradation of women than this. they cannot be bothered to express their disgust about all that. but will be angered and bothered by this. we menstruate and they see it as dirty. attention seeking. sick. a burden. as if this process is less natural than breathing. as if it is not a bridge between this universe and the last. as if this process is not love. labour. life. selfless and strikingly beautiful.

A post shared by rupi kaur (@rupikaur_) on

Svo er líka vert að nefna tónlistarkonuna og aðgerðarsinnann Kiran Gandhi sem hljóp London-maraþonið í ágúst árið 2015 á blæðingum. Hún notaði hvorki bindi né túrtappa og leyfði blóðinu að flæða frjálst úr sköpum sínum.

Fyrstu heimildir um blæðingaskömm

„Yfirbragð hennar mun deyfa birtu spegla, gera stálbrún bitlausa og afmá gljáa fílabeins. Býflugnahjörð myndi deyja samstundis ef hún myndi svo mikið sem líta á hana.“ Svona lýsir rómverski fræðimaðurinn Plinius eldri þeim áhrifum sem blæðingar kvenna hafa á aðra í ritinu Náttúrusaga (Naturalis Historia) í kringum árið 77 til 79.

Þetta eru fyrstu heimildir um það sem má kalla blæðingaskömm, sem á ensku heitir period shame eða menstrual taboo. Síðan þá hafa blæðingar verið lastaðar í gegnum tíðina og orðræða í kringum þetta náttúrulega og eðlilega fyrirbæri verið konum til minnkunar.

Kúgast yfir túrbletti

Það eru ekki aðeins trúarbrögð sem viðhalda þessari svokölluðu blæðingaskömm, heldur einnig ýmislegt í menningu okkar, til dæmis hvernig talað er um tíðir í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þar má meðal annars nefna kvikmyndina Superbad þegar Seth, sem leikinn er af Jonah Hill, uppgötvar að hann er með túrblett á buxunum eftir heitan dans með fyrrverandi kærustu. Hann kúgast samstundis. Þegar leikarinn Seth Rogen, einn af handritshöfundum myndarinnar, rifjaði þetta atriði upp á Twitter í fyrra, til að fagna tíu ára afmæli myndarinnar, stóðu viðbrögðin ekki á sér og fjölmargir tístarar tjáðu sig um hve ógeðslegt þetta atriði hefði verið.

Í kvikmyndinni Blue Lagoon frá 1980 skammast Emmeline, túlkuð af Brooke Shields, sín niður í tær þegar hún byrjar á túr þegar hún er að baða sig í litlu lóni. Fyrst áttar hún sig ekki á því hvað er að gerast og kallar á frænda sinn að hjálpa sér. Þegar það síðan rennur upp fyrir henni að um blæðingar sé að ræða öskrar hún á hann að hypja sig, svo mikil er skömmin.

Einnig er vert að minnast á kvikmyndina Carrie frá árinu 1976 í þessu samhengi, þar sem aðalsöguhetjan Carrie White, leikin af Sissy Spacek, byrjar á blæðingum í skólanum. Trúuð móðir hennar sýndi henni engan stuðning og útskýrði tíðir ekki fyrir Carrie og verður hún fyrir miklu aðkasti frá skólafélögum sínum.

Þá vöktu ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í garð fréttakonunnar Megyn Kelly heimsathygli í ágúst árið 2015. Megyn gekk hart að núverandi Bandaríkjaforseta í fyrstu kappræðum tilvonandi forsetaefna Repúblíkanaflokksins og yfirheyrði hann um niðrandi ummæli hans í garð kvenna. Eftir kappræðurnar ýjaði valdamesti maður heims að hún hefði verið svona ágeng því hún hafi verið á blæðingum.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Aldís Pálsdóttir / Kristín Pétursdóttir / Úr safni

„Ég hef verið kölluð ógeðsleg, óábyrg og sagt að ég fari illa með dýr“

|||
|||

„Ég fór út í hundaræktun með góðu hugarfari. Mig langaði að gera gott, styrkja tegundina og alfarið mig sjálfa. En nú er bara verið að reyna að eyðileggja orðsporið mitt og það sem ég hef unnið hörðum höndum að í eitt og hálft ár,“ segir hundaræktandinn Erna Christiansen.

Erna fékk ræktunarnafnið sitt samþykkt þann 13. janúar á síðasta ári hjá Hundaræktunarfélagi Íslands og ræktar hún hunda af tegundinni Russian Toy. Í byrjun febrúar flutti hún inn sinn fyrsta hund og fann strax fyrir miklum mótbyr frá aðilum innan hundasamfélagsins, bæði einstaklingum og öðrum hundaræktendum.

„Ég hélt að þetta væri tímabundið en það var það í rauninni ekki. Nú glími ég við daglegt einelti eða andlegt áreiti,“ segir Erna. Þetta einelti og áreiti sem hún talar um lýsir sér í því að aðrir ræktendur hafa talað illa um hana, reynt að sannfæra kaupendur um að kaupa ekki hvolpa af henni, ásakað hana um að svindla á kaupendum, skrifað misfögur orð um hana í opnum Facebook-hópum og hún sökuð um að fara illa með hundana sína, að eigin sögn.

Enginn er vinur þinn í hundaheiminum

Erna lítur á hundana sem börnin sín.

Erna hefur leyft fylgjendum sínum á Snapchat að fylgjast með hundunum sínum en hefur lent í því að þau óhöpp sem hún lendir í séu notuð gegn henni, eins og til dæmis þegar einn rakkinn hennar fótbrotnaði.

„Ég hef verið mjög óheppin og hef lent í nokkrum áföllum með hundana og það er verið að nota þau gegn mér. Þetta eru bara slys sem hefðu getað gerst á hvaða heimili sem er. Slys gerast og það ætti ekki að nota þau gegn manni. Ég hef verið kölluð ógeðsleg, óábyrg og sagt að ég fari illa með dýr. Enginn er vinur þinn í þessum hundaheimi og það er mikil samkeppni í honum,“ segir Erna, mikið niður fyrir.

„Það er ekki hægt að treysta neinum í þessum hundaheimi. Einn daginn eru aðrir ræktendur vinir þínir, hinn daginn er farið að dreifa lygasögum um mann. Fólk sem ég hélt að ég gæti treyst og hefur sjálft lent illa í því í hundaheiminum reyndist ekkert skárra en fólkið sem baktalaði það,“ segir Erna.

Ung stelpa með stóra drauma

Hún hefur oft lent í því að talað sé óbeint illa um sig í hópnum Hundasamfélagið á Facebook og finnst henni það miður.

„Í gegnum Facebook hefur verið skotið mikið á mig óbeint, talað illa um mig, ráðist á mig persónulega og sett út á það sem ég er að gera. Aðrir ræktendur hafa reynt að eyðileggja fyrir mér og senda skilaboð á alla ræktendur mína sem eru erlendis. Í þeim skilaboð hefur verið logið uppá mig alls kyns óhróðri.“

Erna viðurkennir að hafa svarað fyrir sig, en eingöngu til að vernda sinn starfsheiður og hundana sína, sem hún lítur á sem börnin sín.

„Ég er ung stelpa með stóra drauma sem eru loksins að verða að veruleika. Ég er mjög stolt af því sem ég er búin að gera og vil halda áfram án þess að verið sé að dreifa lygasögum um mig og ýkja allt sem ég segi. Ég viðurkenni að ég hef sagt mörg ljót orð og logið að aðilanum sem byrjaði þessar árásir. En ég hafði góða ástæðu til, auðvitað verður maður reiður og sár þegar einhver talar illa um börnin sín. Ég er reið og sár og búin að byrgja það inni í langan tíma. Auðvitað hélt ég að ég gæti talað við þetta fólk sem er að ráðast á mig en ég hef lært það af biturri reynslu að þessi heimur snýst ekki um annað en slúður og óheiðarleika.“

Sökuð um að vera í neyslu

Eitt af því sem hefur verið sett út á varðandi hundaræktun Ernu eru samningar sem hún hefur gert þegar hún selur hvolpa.

„Ég hef eytt rosalega miklum tíma í að vinna í hundunum mínum og öllu í sambandi við þá. Kaup- og fóðursamning hef ég gert sjálf með hjálp frá nokkrum ræktendum og hundafélögum og þeir eru ekkert óvenjulegir. Allir ræktendur eru með mismunandi kaupsamninga. Auðvitað vill manni líða vel með hvert hundarnir fara og ef eitthvað kemur uppá vill maður geta treyst á kaupsamninginn. Það kemur bara engum við hvað hver og einn ræktandi hefur í sínum samningum.“

Ernu þykir líka miður að sögusagnir um hana snúa ekki aðeins að hundaræktun og hundum, heldur einnig að henni sjálfri persónulega.

Hér má sjá samskipti á milli eins ræktanda og vinkonu Ernu.

„Það hefur verið sett út á klæðnað minn á hundasýningum, sagt að það sé eitthvað mikið að mér og ég ætti að vera lögð inn og ég sökuð um að vera í neyslu. Það er sagt að ég vilji bara græða á þessu og ekkert annað, að ég geymi hundana mína í búrum og ég berji þá. Og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Erna hnuggin.

„Sannleikurinn er sá að hundarnir mínir, sem eru fimm talsins, sofa uppí rúmi allar nætur og eru lausir á daginn. Þetta er ástríða mín og mér finnst þetta ótrúlega gaman. Ég geri allt fyrir hundana mína og hef eytt öllum mínum pening og sparnaði í hundaræktun svo ég geti gert þetta vel. Ég flyt inn rándýra hunda en þótt þetta séu ræktunarhundar eru þetta samt börnin mín og verða það alltaf. Eftir að ég byrjaði í ræktun opnaði ég Snapchat-ið mitt svo fólk gæti virkilega séð hvernig ég hugsa um hundana. Ég hef það að markmiði að reyna að þóknast öllum en því miður er ekki hægt að þóknast sumu fólki. Getur fólk ekki bara hugsað um sjálft sig og hvað það er að gera og hætt að niðurlægja aðra?“

Hundinum stolið

Erna hefur einnig lent í því að þessar sögur og baktal hafi borist alla leið til ræktenda sinna í Rússlandi, sem hefur orðið til þess að hún hefur misst hunda sem henni voru lofaðir.

„Ég var búin að greiða fyrir hund úti í Rússlandi og bað annan ræktanda um hjálp með rússneskuna, þar sem ræktandinn skildi litla ensku. Það endar á því að rússneski ræktandinn hættir að tala við mig og fékk ég loks að vita að hann væri hættur við að láta mig fá hundinn. Síðan kemur í ljós að ræktandinn sem ég bað um hjálp frá hafði í raun stolið af mér hundinum og flutti hann inn sjálfur.“

Lokar sig inni

Ástandið er orðið svo slæmt að Erna fer stundum ekki út svo vikum skiptir, enda sögur um hana farnar að breiðast út á hundasvæðum borgarinnar að eigin sögn.

„Stundum langar mig að hætta öllu og fara. Það hafa komið tímabil þar sem ég hef ekki farið út úr húsi þar sem ég er ekki nógu andlega hraust til að takast á við fólk. Ég er hrædd um að standa með sjálfri mér því ég gæti eyðilagt eitthvað. Og stundum er ég stútfull af reiði og tárum yfir því hversu ógeðfellt fólk getur verið,“ segir Erna, en þessi lífsreynsla hefur einnig ýft upp gömul sár.

„Ég hef verið lögð í einelti síðan ég man eftir mér. Ég skar mig alltaf úr. En með hundunum mínum finnst mér ég vera frjáls og tilheyra hópi. Hundarnir hafa komið mér upp úr alvarlegu þunglyndi, kvíða og halda ADHD niðri. Ég tek ekki lengur lyf og þarf ekki á þeim að halda. Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra og þeir hafa hjálpað mér meira en sálfræðingar og læknar. Ég lenti í ýmsu þegar ég var yngri og auðvitað stendur það í manni þegar einelti heldur áfram þegar maður er orðinn fullorðinn.“

Skrif á netinu geta eyðilagt fólk

Hún hvetur þá sem eru í þeim hugleiðingum að fá sér hund að skoða bakgrunn ræktandans vel.

„Skoðið vel bakgrunn fólksins og fræðist um ræktendur. Leyfið ræktandanum að spyrja ykkur spjörunum úr og bjóða ykkur í heimsókn. Fylgist með hvort ræktandinn talar illa um aðra. Passið að fá alla söguna í kringum hundana og spyrja einmitt um slys og annað. Ræktendur geta verið mjög sannfærandi áður en kaup eiga sér stað en láta sig hverfa þegar búið er að borga. Ég vona svo innilega að fleiri lendi ekki í svona ómannúðlegri aðför eins og ég. Fólk verður að átta sig á því að það er hægt að eyðileggja líf fólk bara með því að tala um það eða skrifa um það á netinu.“

Vildi enda líf sitt

Falleg stund.

En hvernig áhrif hefur þessi reynsla á Ernu?

„Ég viðurkenni alveg að ég er ekki fullkominn ræktandi, enda er það enginn í byrjun. Það er mjög sárt fyrir mig sem nýjan ræktanda að fá svona viðbrögð frá fólk sem ætti að vera að hjálpa mér og leiða mig áfram, í stað þess að rakka mig niður. Ég hef upplifað mikla vanlíðan og kvíða af því að setja inn myndir og upplýsingar um hundana mína á samfélagsmiðla vegna þess hvernig er komið fram við mig af öðrum ræktendum. Mér sárnar það mikið hvað er sett út á samningana mína. Ég hef uppskorið mikið baktal fyrir það að leita hjálpar frá öðrum ræktendum í þeim efnum en samt er ég máluð sem ósanngjörn og óþverri. Ég vil bara fá séns og stuðning, þar sem ég er ný í bransanum. Ég er ekki að biðja um vorkunn heldur gagnkvæma virðingu innan þessa heims. Ég er ekki að reyna að gera neinn að vondri manneskju en þessa umræðu þarf að opna,“ segir Erna. Hún vonar líka að hennar saga opni almenna umræðu um einelti.

„Ég vil ekki sjá einelti í okkar samfélagi,“ segir Erna, sem lenti á botninum eftir þessar árásir fyrir stuttu.

„Ég fór til Spánar í lok september á þessu ári. Eftir allt sem ég hafði gengið í gegnum drakk ég ofan í þær tilfinningar og það rann ekki af mér fyrr en á fjórða degi. Seinasta kvöldið lá ég bara grátandi uppí rúmi og vildi enda þetta blessaða líf mitt. Ég gat ekki meir. Þá rann loksins upp fyrir mér að maður hleypur ekki frá vandamálunum. Þarna féll ég á botninn, ekki út af einhverju sem ég sjálf hafði gert heldur út af einhverju sem aðrir höfðu gert mér. Ég var farin að trúa því sem aðrir sögðu að ég væri. Ég tók þetta inná mig. Ég ákvað að nenna ekki þessu bulli og vitleysu. Ég hef fundið frið í mínu lífi eftir alla þessa erfiðleika og vona að ég haldi mínu striki. Ég er sterkari sem aldrei fyrr, þó enn sé langt í land,“ segir Erna, og vill brýna fyrir lesendum að þessu sé ekki beint að öllum.

„Þessu er alls ekki beint að öllum ræktendum, alls ekki. En þið takið þetta til ykkar sem hafið tekið þátt í einhvers konar baktali, slúðri og að niðurlægja aðra. Það eru heldur ekki bara ræktendur sem skrifa illa um mig á netinu. Nú held ég minni leið áfram og vil biðjast fyrirgefningar ef ég hef sært þig eða einhvern sem þú þekkir. Ekki dæma mig fyrir mína fortíð. Ég dæmi þig ekki fyrir þína og það eiga allir sína slæmu daga. Ég nenni ekki að spá meira í fortíðinni. Maður skapar sína eigin framtíð,“ segir Erna og bætir við hvatningarorðum til þeirra sem hafa einhvern tímann staðið í sömu sporum og hún.

„Haltu þínu áfram og þú kemst langt. Settu þér markmið og stattu við þau. Ekki láta einhvern segja þér hvernig þú átt að lifa þínu lífi.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Eydís ljósmyndun / Úr einkasafni

„Aldrei of seint fyrir ást“

|
|

Feður yfir fimmtugu.

Hallgrímur með dóttur sína sem fæddist rétt fyrir síðustu jól.

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og myndlistarmaður, var nýlega orðinn afi þegar hann eignaðist yngsta barnið sitt í desember síðastliðnum. Þar með varð hann félagi í hinum gamansama óformlega félagsskap Félag eldri ferða, FEF, en til að hljóta inngöngu verða menn að hafa náð 50 ára aldri þegar barnið fæðist. Í nýjasta tölublaði Mannlífs eru viðtöl við fjóra menn úr þessu merka félagi.

„Ég var 58 ára þegar yngsta dóttirin fæddist og það var auðvitað öðruvísi en þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn 34 árum áður. Þótt þetta væri mitt fjórða barn var þetta fyrsta barn Öglu, konunnar minnar, og þegar fólk er komið þetta langt út á lífshafið er ekki alltaf sjálfgefið að börnin komi eftir pöntun. Við vorum búin að reyna nokkuð lengi og þegar það lukkast svo verður gleðin skiljanlega stærri. Maður upplifir þetta svolítið sem kraftaverk,“ segir Hallgrímur en maki hans er Þorgerður Agla Magnúsdóttir bókaútgefandi. Börnin hans heita Hallgerður, 34 ára; Kári Daníel, 14 ára; Margrét María, 12 ára og það yngsta sem er nokkurra vikna gömul stúlka og hefur ekki enn fengið nafn.

„Þegar fyrsta barnið fæddist var ég 25 ára gamall og í fyrstu fannst manni þetta nú bara vesen. Það var ekki á planinu að eignast barn og ég man að mér leist ekkert á það á meðgönginni. Ungur maður var óþolinmóður og gerði allt til að forðast barneignir, eða næstum því allt … Fyrir honum voru barneignir bara hraðahindrun á ferlinum. Og svona hugsaði maður sem sagt á þessum árum þegar feður voru almennt ekki að taka börnin aðra hverja viku og það hræðilega hugtak helgarpabbi var rétt að verða til. Allt tal um hraðahindrun var því bara djók. Þetta lenti allt á mömmunum. Um leið og dóttir mín fæddist sá ég hversu vitlaus maður hafði verið. Þetta var auðvitað það besta sem gat komið fyrir mann. En lífið er víst þarna til að kenna manni og með tímanum sá maður hvað þetta var þroskandi og gefandi og svo bara hreinlega djúp-djöfilli-skemmtilegt. Það er nú bara þannig: Þegar maður eignast barn þá fattar maður fyrst hvað lífið gengur út á.“

Finnur fyrir þreytu
Hallgrímur hefur fengið góð viðbrögð við því að eignast barn á þessum aldri. „Ég hef nú bara fundið fyrir gleði og heyrt hlátur. En hvað býr í þeim hlátri veit maður ekki alveg, sumum finnst þetta kannski fáránlegt. En við Íslendingar erum ekki nógu duglegir að eignast börn, það er nú bara þannig, og því er nýjum einstaklingi auðvitað fagnað hér um slóðir.

Þegar maður er að nálgast sextugt er tilfinningin óneitanlega sú að nú sé farið að síga á seinni hlutann, nú sé maður að fara að lenda þessu, nú sé farið að kvölda. Þegar svo birtist lítið barn er það eins og skyndileg sólarupprás síðla kvölds, það birtir yfir öllu og maður trúir ekki sínum eigin augum. Manni finnst maður yngjast um tuttugu ár, eða tuttugu ár hafi bæst aftan við líf manns, ég veit ekki alveg hvort það er. Ég var líka nýorðinn afi, nánast orðin að fortíð, en fæ svo allt í einu framtíðina í fangið. Viva la vida! Og þá er ég ekki að vísa í Coldplay lagið.“

Hann er sannfærður um að það sé betra fyrir börn á fyrsta aldursskeiði að eiga foreldra sem fara aldrei út að skemmta sér. „Af því að skemmtunin er jú þau sjálf, en svo kemur sjálfsagt að því að þau súpi hveljur þegar pabbi kemur á göngugrindinni í foreldraviðtalið í gaggó og öskursnýtir sér í gamlan tóbaksklút frammi á skólaganginum fyrir allra augum.

Ég neita því ekki að finna fyrir þreytu. Þegar nýja dóttirin vakti mig í fyrstu pelavaktina klukkan fjögur um nótt leið mér eins og einhver væri að biðja mig að fara niður á Kaffibar og kaupa mér einn stóran. Ég ætlaði nú bara varla að hafa mig upp. En svo fór þetta að venjast og sá gamli vaknar auðvitað alltaf miklu fyrr en ungi maðurinn. Annars mæða fyrstu mánuðirnir auðvitað mest á móðurinni og það er ekki enn farið að reyna verulega á mann.“

Allt annað er aukaatriði
Föðurhlutverkið hefur alla tíð gefið Hallgrími mikið. „Sanna gleði. Og stolt. Ég hef verið mjög heppin með börn. Það er ekkert sem gleður meira en að elda fyrir svanga munna og sjá þá taka vel til matar síns, sjá þau síðan fara og skora mörk, fá góð ummæli frá kennurum eða halda sýningar. Maður hefur líka svo gott af því að setja sjálfan sig til hliðar og standa á hliðarlínunni. Bara muna að vera ekki að hrópa mikið á dómarann. Ég mæli líka með því að eignast börn á mínum aldri. Það er aldrei of seint fyrir ást.“

Hallgrímur segir afahlutverkið að mörgu leyti ólíkt föðurhlutverkinu. „Það var hlutverk sem var nýtt fyrir mér og maður er enn að læra á, hversu mikið á maður að vera með í því og svo framvegis. Því miður er barnabarnið erlendis í vetur þannig að ég hef aðeins misst niður þráðinn, en þær hittust þó um daginn, 14 mánaða barnabarn og 4 vikna barn, og var það mikið fagnaðarundur,“ segir Hallgrímur.

Framundan er svo að hugsa vel um þá yngstu, koma henni út í kerru og vonandi á lappir fyrir jól. „Allt hitt er nú bara aukaatriði. Að lokum vil bara þakka ÍVF klíníkinni í Glæsibæ (sem nú heitir Livio) fyrir frábært og vaxandi starf. Þau telja sig sjálfsagt hafa hugmynd um að vinna þeirra sé mikils metin en ég vil þó nota tækifærið til að segja þeim að nei, þið munuð aldrei getað ímyndað ykkur hve stórar hamingjur þið hafið tendrað út um bæ og land.“

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Nándin við föður ekki síður mikilvæg“

|
|

Feður yfir fimmtugu.

Björn með börnunum sínum Birtu, 18 ára, Loga, 13 ára, Birnu, 7 ára, og Ástu, 4 ára.

Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar og Dósent við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, er 58 ára og á fjögur börn á aldrinum 4-18 ára. Hann er einstæður faðir en segist svo heppinn að eiga tvær góðar barnsmæður. Björn er einn af fjórum mönnum úr Félagi eldri feðra sem eru í viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs.

„Ég var mjög seinn að læra það hvernig maður býr til börn og var fertugur þegar fyrsta barnið fæddist. Það varð gríðarleg gleði að eignast loksins barn. Sýnin á tilgang lífsins breyttist í einu vetfangi og þróaðist síðan áfram í rétta átt. Ég var 54 ára þegar yngsta dóttirin fæddist og það var ekki síður yndislegt en þegar sú fyrsta fæddist. Ég hef alltaf verið „eldri faðir“ og forgangsröðun föðurhlutverksins og umhyggju fyrir börnum eykst bara með aldrinum,“ segir Björn sem á börnin Birtu, 18 ára, Loga, 13 ára, Birnu, 7 ára, og Ástu, 4 ára.

„Ég tók fæðingarorlof vegna fyrstu þriggja barnanna. Þegar fjórða barnið fæddist þá hafði fæðingarorlofsstyrkur verði skorinn mjög mikið niður, eftir efnahagshrunið, svo að ég tók í staðinn út allt sumarleyfi sem ég átti inni til tveggja ára, og fékk þannig tæplega þriggja mánaða fæðingarorlof án mikillar tekjuskerðingar.“

Hann segir að forgangsröðunin breytist í lífinu með hækkandi aldri. „Rúmlega fertugur flutti ég heim til Íslands eftir meira en tveggja áratuga búsetu erlendis, búinn að klára doktorspróf, sinna alþjóðlegum vísindastörfum og búinn að skrifa þær helstu bækur sem ég vildi skrifa. Þá þegar var manni orðið ljóst að foreldrahlutverkið er mikilvægara en starfsframinn. Ég tel að að mörgu leyti betra að vera kominn á þenna aldur með ung börn. Einna helst vegna þess að þegar menn eru yngri freistast þeir ef til vill til að forgangsraða öllu hinu sem menn vilja gera, og þá sérstaklega starfsframa eða þess að afla fjármuna fyrir fjölskylduna, sem er að vísu mjög skiljanlegt.“

Samfélagslegir fordómar
Björn segist finna sérstaklega fyrir miklum stuðningi og hvatningu meðbræðra sinna og nánustu fjölskyldu við því að vera faðir á þessum aldri. „Yndislegt fólk. Móðirin hefur auðvitað alveg einstakt og náið samband við ungbarnið fyrstu 1-2 árin, hún hefur jú gengið með barnið og gefur því brjóst, hlutverk sem við karlmennirnir tökum seint að okkur. En varðandi umönnun barna sem eru orðin eldri en þetta þá er nándin við föðurinn ekkert síður mikilvæg. Ég hef fundið fyrir fordómum í þá átt að karlmenn almennt séu ekki jafn mikilvægir foreldrar og konur. Að heimili föðurins sé nokkurskonar helgar-heimili, að hann sé helgar-pabbi og föður fjölskyldan helgar-fjölskylda, en að móðirin sé aðalforeldrið, með aðalheimilið og aðalfjölskylduna. Margir í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og bara almennt í þjóðfélaginu virðast hafa óskaplega gamaldags sýn á föðurhlutverkið. Báðar barnsmæður mínar eru sem betur fer vel upplýstar hvað þetta varðar, við hugsum fyrst og fremst um vellíðan barnanna þegar tökum ákvarðanir um umgengni og slíkar ákvarðanir geta tekið breytingum eftir aðstæðum.“

Björn segist alltaf hafa sofið frekar lítíð og hafi í gegnum tíðina oft fundið fyrir þreytu, inn á milli. „Þetta hefur lítið breyst síðastliðna áratugi. Það er auðvitað mjög krefjandi að vera foreldri smábarna og smábarnaforeldrar eru almennt oft þreyttir, skiljanlega svo. En þetta er kærleiksvinna, maður sér ekki eftir einni sekúndu. Ég mæli eindregið með að menn eignist börn, almennt. Og ekki verra að gera það þegar menn hafa tekið út starfsframa og hafa forgangsraðað tíma sínum betur. Föðurhlutverkið gefur mér möguleikann á að gefa kærleika og umhyggju. Óborganlegt,“ segir Björn og bætir hlægjandi við að lokum: „Svo máttu taka það fram að fyrirspurnir um hjúskaparstöðu og aðra einkahagi eru velkomnar á samfélagsmiðlinum Facebook.“

Viðtalið við Hallgrím Helgason.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Mátaði einungis einn kjól fyrir brúðkaupið

Allt mjög afslappað og þægilegt

Hafdís Huld Þrastardóttir Wright flutti heim frá Englandi fyrir átta árum en hún býr nú í litlu bleiku húsi í Mosfellsdalnum ásamt eiginmanni sínum og dóttur. Hún segir tækifærin fleiri í bresku samfélagi en Ísland sé barnvænna og henti því fjölskyldunni betur. „Þegar við ræddum fyrst saman um að flytja hingað heim var eina krafa Alisdair að geta haft fjöll í augnsýn. Þegar við römbuðum svo á litla bleika húsið var ekki aftur snúið því bæði er það eins og lítið breskt tehús en héðan er líka hægt að horfa til fjalla út um alla glugga.”

Hafdís lýsir eiginmanni sínum sem ekta breskum herramanni en hún fær reglulega spurningar hvort hann geti tekið að sér að fínpússa íslenska víkinga. „Það var eitt af því fyrsta sem ég heillaðist af við hann, þessi þægilega nærvera og tillitssemi sem hann býr yfir. Það er ákaflega gott að ala upp barn með manni sem býr yfir þessum eiginleikum.”

Örfáum dögum eftir að dóttir hjónanna kom í heiminn bar Aldisdair upp bónorðið. „Hann færði mér tebolla og lítinn kassa sem í var trúlofunarhringur sem langafi hans hafði gefið langömmunni í Glasgow fyrir tæpum 100 árum síðan. Þetta er ótrúlega fallegur hringur og enn í upprunalega boxinu. Bónorðið var einlægt og látlaust, alveg í okkar anda. Þegar kom að brúðarkjólnum langaði mig að vera í látlausum gamaldags kjól og fann hann nokkrum mánuðum fyrir brúðkaupið. Þetta er ekki hefðbundinn brúðarkjól en ég heillaðist strax af honum og var þetta því eini kjólinn sem ég mátaði.”

Brúðkaupið var haldið í gróðurhúsi foreldra Hafdísar og lýsir hún deginum sem ævintýralegum.„Mamma sá um allar skreytingarnar ásamt því að baka brúðartertuna og pabbi smíðaði bæði bar og dansgólf í gróðurhúsið þar sem við tókum svo á móti gestunum með jólaglöggi og lifandi tónlist. Þetta var yndislegur dagur í alla staði.”

 

Viðtalið í heild má lesa í nýjustu Vikunni.

Texti / Íris Hauksdóttir.

Mynd / Aldís Pálsdóttir.

Þú þarft bara tvo áfenga drykki til að missa alla stjórn

Rannsakendur við háskólann í New South Wales í Ástralíu hafa rannsakað áhrif áfengis á heilann og hafa komist að þeirri niðurstöðu að fólk þurfi bara að innbyrða tvo áfenga drykki til að geta mögulega misst alla stjórn á sér og skapi sínu.

Þeir rannsökuðu tenginguna á milli áfengisneyslu og árásargirni og notuðu til þess segulómun til að mæla breytingar á blóðflæði í mannsheilann þegar manneskjur voru búnar að innbyrða áfengi. Kom í ljós að það gæti þurft aðeins tvo áfenga drykki til að takmarka virkni heilabörksins, sem hefur áhrif á ákvarðanatöku og félagslega hæfni.

Við framkvæmd rannsóknarinnar gáfu rannsakendur fimmtíu heilbrigðum karlmönnum annað hvort tvo vodkadrykki eða lyfleysu. Síðan þurftu mennirnir að ljúka verkefni á móti tölvu sem var hönnuð til að leggja mat á árásargirni þeirra, til dæmis með því að skaprauna mönnunum.

Segulómun á heila þeirra sem höfðu drukkið vodkadrykkinn sýndi fram á minni virkni í heilaberkinum á meðan engin breyting var á virkninni hjá þeim sem fengu lyfleysuna.

Í niðurstöðum sínum tóku rannsakendur fram að áfengisneysla spilaði stóra rullu í helmingi allra ofbeldisfullra glæpa. Því væru niðurstöður og rannsóknir sem þessar mikilvægar til að skilja af hverju ölvað fólk verður stundum ofbeldisfullt.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

„Þær hötuðu hvor aðra“

Eins og við sögðum frá fyrir stuttu andar köldu á milli Sex and the City-leikkvennanna Kim Cattrall og Söruh Jessicu Parker. Í grein á vef tímaritsins Us Magazine, segja heimildarmenn tímaritsins að þeim hafi ekki komið vel saman við tökur á þáttunum og bíómyndunum.

„Ég veit ekki af hverju Kim þurfti að taka þetta niður á þetta plan,“ segir einn heimildarmaður tímaritsins sem er náinn Söruh Jessicu. Annar nafnlaus heimildarmaður bætir við að þær Kim og Sarah Jessica hafi verið óvinkonur síðan tökur hófust á annarri seríu af Beðmálum í borginni.

„Þær hötuðu hvor aðra.“

Enn annar heimildarmaður, sem náinn er Kim, segir sambandið á milli þeirra hafi versnað mikið.

„Meðleikarar þeirra skilja ekki af hverju Kim hellti sér yfir hana. Þetta var ekki svona slæmt á meðan á tökum stóð.“

Kim sendi kalda kveðju til Söruh Jessicu rétt eftir að sú fyrrnefnda missti bróður sinn og sakaði hana um að nota andlát hans til að bæta ímynd sína.

„Það er engin ást þarna, en Sarah Jessica var bara að vera kurteis. Þetta er sorglegt,“ segir vinur leikkonunnar.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Hún spurði af hverju gaurinn barðist ekki fyrir henni og fékk frábært svar

|||||||
|||||||

„Gaur bauð mér út á stefnumót í dag og ég sagði nei, en mig langaði að hann myndi reyna meira. Af hverju reyndi hann ekki aftur?“ Svona hljómar spurning sem kona nokkur setti inn á síðuna Quora, þar sem fólk getur spurt hinna ýmissa spurninga og fengið svör við þeim.

Maður að nafni Ron Rule ákvað að svara konunni og má með sanni segja að svarið hans hafi slegið í gegn.

„Stelpa spurði mig hvað mig langaði í í hádegismat og ég sagði pítsu, en mig langaði í raun og veru í steik. Af hverju færði hún mér pítsu,“ skrifar Ron og heldur áfram.

„Sérðu hversu heimskulega þessi spurning hljómar? Svona hljómar spurningin þín.“

Notendum Quora var greinilega skemmt og ákváðu margir hverjir að svara spurningunni líka á mjög spaugilegan hátt, eins og má sjá hér fyrir neðan:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þurfti að vera með álímdan þveng í kynlífssenunum

||
||

Þriðja og seinasta myndin í Fifty Shades-þríleiknum, Fifty Shades Freed, var fumsýnd fyrir stuttu og opnar aðalleikkonan Dakota Johnson sig um þær fjölmörgu kynlífssenur sem hún hefur leikið í í myndunum í viðtali við Marie Claire.

Hún segir að upptökur á handjárnaatriðinu í rauða herberginu hafi tekið mikið á.

„Langerfiðasta atriðið, af öllum þremur myndunum, var kynlífsatriðið í þriðju myndinni þar sem ég var járnuð á höndum og fótum. Og ég var með bundið fyrir augun. Og það var pínulítið áfall því ég gerði mér ekki grein fyrir því að þó að ég væri vel undirbúin og æfð að skilningarvitin hrífa mann með sér og maður getur ekki stjórnað því hvernig taugakerfið bregst við. Þannig að það var mjög erfitt að leika þá senu,“ segir Dakota og bætir við að stundum hafi þurft smá áfengi til að stappa í sig stálinu fyrir kynlífssenurnar.

Margar senur tóku á við tökur á Fifty Shades-þríleiknum.

„Bróðurpartur undirbúningsins fór í að átta sig á því hvernig nákvæmlega við ætluðum að klára senuna þannig að við þurftum mikið að bíða þegar við vorum bæði mjög berskjölduð. En ef eitthvað er mjög, mjög erfitt þá er stundum nauðsynlegt að fá sér staup af einhverju mjög sterku fyrst.“

Kynlífssenur aldrei auðveldar

En er einhvern tímann auðvelt að leika í kynlífssenu?

„Nei, það er aldrei auðvelt. Það er ekki afslappað og skemmtilegt. Það er aldrei auðvelt,“ segir Dakota, sem þurfti að vera í sérstökum klæðnaði við tökur til að gæta velsæmis. Þá þurfti mótleikari hennar, Jamie Dornan, að vera með lítinn poka á kynfærum sínum.

„Það er ekkert rosalega þokkafullt – það er rosalega ósexí. Hann var með pokann og ég var í bandalausum þveng sem þurfti að líma á mig. Þetta er ekki lím, en þetta efni er klístrað,“ segir Dakota og bætir við að stundum hafi þvengurinn losnað.

Dakota og Jamie í hlutverkum sínum.

„Þá var þvengurinn límdur við líkama minn þannig að hann myndi ekki detta af mér. Og ég var í tveimur stykkjum. Það var ekki sársaukafullt þar sem þetta er varla nokkurt efni. En ég held að manni finnist maður vera hulinn að einhverju leiti. Þetta er mjög skrýtið.“

Kynlífsráðgjafar á setti

Í viðtalinu segir hún einnig að sérstakir ráðgjafir hafi unnið við tökur myndarinnar, sérfræðingar í hinum ýmsu kynlífsathöfnum og -tólum.

„Við vorum með fólk sem sérhæfir sig í að vita hvernig hlutir virka, eins og hvernig á að nota viss tól og tæki. Það er ákveðin aðferðarfræði. Þetta er vandmeðfarið og smáatriðin eru mjög mikilvæg. Reglurnar eru líka mjög mikilvægar. Við vildum ekki gera mynd um eitthvað sem við rannsökuðum ekki til hlítar.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Horfði á aðdáendur syngja lögin sín

Katy Perry

Söngkonan Katy Perry, sem er hvað þekktust fyrir lög eins og Firework, Roar og I Kissed a Girl, er skemmtileg í nýjum þætti af You Sang My Song á myndbandarás tímaritsins Glamour.

Eins og nafnið gefur til kynna, horfir Katy á aðdáendur sína syngja lögin sín á YouTube og er gaman að fylgjast með viðbrögðum stjörnunnar.

Meðal laga sem hún horfir á eru Unconditionally, Last Friday Night (T.G.I.F), Dark Horse, I’m Still Breathing, Chained to the Rhythm, The One That Got Away og fyrrnefnd Roar, I Kissed a Girl og Firework.

Það er ekki aðeins hressandi að fylgjast með hvernig Katy bregst við að sjá aðra syngja lögin hennar, heldur einnig yndislegt að sjá viðbrögð aðdáenda þegar þeir fá að heyra að söngkonan sjálf eigi eftir að hlýða á flutning þeirra.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þessi franska skautadrottning skautaði við Beyoncé og vann hjörtu heimsins

Franska skautadrottningin Maé-Bérénice Méité sýndi listir sínar á Vetrarólympíuleikunum í PyeongChang fyrir stuttu. Maé-Bérénice sigraði ekki keppnina, en hún vann hins vegar hug og hjörtu heimsbyggðarinnar með atriði sínu.

Þessi 23ja ára skautadrottning var í fyrsta lagi ekki í hefðbundnum búning. Hún klæddist svörtum leggings í atriði sínu, en algengara er að sjá konur sem keppa í þessari íþrótt í pilsum. Í öðru lagi skautaði hún við Beyoncé-lögin Halo og Run the World (Girls), en ekki er mikil hefð fyrir því að skautað sé við þekkt popplög.

Tístarar létu ekki á sér standa og tístu í gríð og erg um hve mögnuð Maé-Bérénice væri.

„Maé-Bérénice Méité frá Frakklandi skautaði Í BUXUM og endaði Beyoncé-syrpuna sína á Run the World (Girls). Stelpa, þú ert Ólympíuhetja,“ skrifaði einn Twitter-notandi.

„Mér er sama hvernig henni gengur, en að Maé-Bérénice Méité sé í buxum og að skauta við Beyoncé er kraftmikið,“ skrifaði annar.

Maé-Bérénice Méité heillaði ekki dómarana og fékk 46.62 stig sem setti hana beint í níunda sætið.

Hér fyrir neðan má sjá sum viðbragðanna við atriði hennar á Twitter:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Náði oft ekki að sofna út af kynferðislegu áreiti

„Eftir hinu kröftugu og mögnuðu #metoo herferðina, sem ég leyfi mér að segja að við erum flest alveg ótrúlega þakklát fyrir. Þá hef ég þessa löngun til að varpa ljósi á nýja hlið á #metoo, og ég vona að hún sé viðeigandi,“ skrifar ljósmyndarinn Helgi Ómarsson í áhrifamiklum pistli á Facebook-síðu sinni.

Helgi er samkynhneigður og vill með pistlinum varpa ljósi á þann veruleika sem hann hefur lifað við sem maður sem hrífst af öðrum mönnum. Helgi gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi að birta pistilinn.

Gripið í klof og rass

„Sem samkynhneigður karlmaður, þá hef ég ekki alveg fundið minn sess í þessari #metoo umræðu, nema bara allan minn hjartans stuðning gagnvart kvenna. Ég er karlmaður sem heillast af karlmönnum. Ég hef lent í ýmsu í gegnum síðustu tæplega tíu ár sem ég hef verið útúr skápnum og samþykkt að ég heillast að sama kyni. Mín fyrstu ár útúr skápnum var mér smá misskilningur innra með mér, þar sem ég hélt að ég þyrfti að sætta mig við það sem gerðist innan queer kultúr landsins ef svo má orða,“ skrifar Helgi og bætir við að hann hafi sætt sig við ýmislegt sem hann gerir sér grein fyrir í dag að hafa ekki verið í lagi.

„Nú var ég hommi, og það þýddi að ég þurfti að veita vinkonum ráð, sætta mig við að hinir hommarnir á skemmtistöðunum voru ágengir, gripið í klof, rass, áreittur, af bæði karlmönnum og kvenmönnum einnig. Allt útaf því að ég var nú hommi, þetta er greinilega það sem við eigum bara að sætta okkur við. Mjög kynvæð menning en þar hef ég aldrei fundið mig. Ég veit ekki hversu oft í gegnum tíðina, ég hef komið heim af lífinu og ekki geta sofnað vegna áreiti sem ég varð fyrir. Farið inná buxurnar mínar, haldinn niður því ég átti að kyssa þessa eldri konu eða þennan sterka mann. Ég var nokkuð vissum að þetta var bara eitthvað sem var partur af þessu, og ég þyrfti bara að kyngja því og halda áfram og reyna setja mínar grensur, rétt eins og kannski konum líður.“

Finnur enn fyrir ógleðinni

Hann segir þessi ár hafa haft mikil áhrif á sig.

„Margt af því sem hefur gerst fyrir mig liggur enn í mér, og ef þetta poppar upp í hausnum á mér, þá finn ég fyrir ógleðinni sem ég man eftir.“

Helgi flutti til Kaupmannahafnar fyrir tæpum sex árum síðan og hefur haldið sig frá skemmtanalífinu.

Eftir að ég flutti til Kaupmannahafnar, fyrir tæpum sex árum hef ég farið inná Gay stað, kannski sex sinnum. Því þar er þetta örugglega tíu sinnum grófara, og ég finn ekki minn sess. Þetta er bara ekki ég. Ég hef síðan ég flutti haldið mér frá skemmtanalífinu hér, því ég hreinlega fæ mig ekki til þess,“ skrifar hann og heldur áfram.

„Með þessum skrifum, vil ég varpa ljósi á skuggahliðar gay kúltúrsins og kannski reyna ná til þeirra sem hafa svipaðar upplifanir, hommar, lessur, gagnkynhneigðir og allt þar á milli og hversu hrikalega grófur hann getur verið hvað varðar kynferlislegt áreiti. Við megum líka stíga fram og segja frá. Gay kúltúr á ekki að taka neitt af okkur, því við eigum okkur líka sjálf. Við þurfum ekki að sætta okkur við kynferislegt áreiti heldur.

Ef þið spyrjið mig, þá eiga ekki bara gagnkynhneigðir karlmenn að hugsa sig tvisvar um og læra um #metoo og taka herferðina til sín.

Þetta hefur blundað í mér í marga mánuði, og hér er það sem mig langaði að segja.

Áfram #metoo, áfram konur, karlar, samkynhneigðir, gagnkynhneigðir og allir þarna á milli. Breytum til hins betra.“

Hér fyrir neðan má sjá pistilinn í heild sinni:

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Allt sem við vitum um konunglega brúðkaupið

||
Harry og Meghan trúlofuðu sig árið 2017. Þessar myndir voru teknar af þeim í tilefni af trúlofuninni.||

Harry Bretaprins og leikkonan Meghan Markle tilkynntu trúlofun sína þann 27. nóvember síðastliðinn. Parið kynntist í London í júlí árið 2016 og í nóvember það sama ár var sambandið staðfest.

Síðan þau trúlofuðu sig hafa meiri og meiri upplýsingar borist um stóra daginn þannig að það er vert að kíkja á það sem við vitum nú þegar um herlegheitin.

Dúllurnar Meghan og Harry.

Maíbrúðkaup

Harry og Meghan munu ganga í það heilaga þann 19. maí á þessu ári. Þetta staðfesti talsmaður Kensington-hallar á Twitter þann 15. desember.

Sérstök kapella

Parið mun játast hvort öðru í kapellu heilags Georgs í Windsor-kastala á Englandi. Kapellan hefur mikla þýðingu fyrir Harry sem var skírður þar árið 1984. Konungsfjölskyldan mun borga fyrir brúðkaupið samkvæmt tilkynningu frá Kensington-höll í lok nóvember á síðasta ári.

Vilhjálmur verður svaramaður

Í desember var það staðfest að Harry hefði beðið bróður sinn, Vilhjálm Bretaprins, að vera svaramaður sinn. Þá hefur því verið haldið fram að börn Vilhjálms og Kate Middleton, Georg prins og Charlotte prinsessa, muni gegna hlutverki í brúðkaupi frænda síns. Meghan hefur ekki tilkynnt hver aðalbrúðarmey hennar verður, en líklegt er að það verði vinkona hennar og stílistinn Jessica Mulroney.

Brúðkaup í beinni

Staðfest var í lok nóvember á seinasta ári að sýnt verður beint frá brúðkaupi Harry og Meghan, aðdáendum konungsfjölskyldunnar til mikillar ánægju.

Þetta er gestalistinn

Pippa og James Middleton, systkini Kate Middleton, verða í brúðkaupinu. Einnig er talið að fjölmargir leikarar og meðlimir tökuliðs þáttanna Suits, sem Meghan leikur í, verði viðstaddir, til að mynda Patrick J. Adams, Sarah Rafferty, Rick Hoffman og Íslandsvinurinn Gabriel Macht. Þá er einnig talið líklegt að Meghan sé búin að bjóða nánum vinum sínum, svo sem tennisstjörnunni Serena Williams, matreiðslumanninum Tom Sellers og forsætisráðherra Kanada og hans frú, Justin og Sophie Trudeau. Að sama skapi er talið að Harry muni bjóða vinum sínum, tónlistarfólkinu James Blunt, Ellie Goulding og Joss Stone. Tónlistarmaðurinn Elton John æsti síðan upp sögusagnir þess efnis að hann ætlaði að skemmta í brúðkaupinu þegar hann frestaði tvennum tónleikum í Las Vegas helgina sem brúðkaupið fer fram.

Parið er yfir sig ástfangið.

Heiðrar móður sína

Harry var aðeins tólf ára gamall þegar móðir hans, Díana prinsessa, lést í bílslysi í ágúst árið 1997. Harry bað Meghan með hring sem var búið að skreyta með demanti úr nælu sem móðir hans átti. Einnig er talið að Meghan muni bera kórónu prinsessunnar heitnu á brúðkaupsdaginn.

Titlarnir

Talið er að Meghan og Harry hljóti titlana hertogi og hertogynjan af Sussex eftir giftinguna.

Mæðgnastund við altarið

Talað hefur verið um að Meghan vilji að móðir hennar, Doria Ragland, gangi með henni upp að altarinu, en ekki faðir hennar, Thomas Markle, eins og hefðin segir til um.

Leyfa bæjarbúum að taka þátt

Búið er að staðfesta að Harry og Markle muni keyra um bæinn Windsor eftir athöfnina og snúa síðan aftur til Windsor-kastala. Samkvæmt tilkynningu frá Kensington-höll vilja brúðhjónin að sem flestir fái að taka þátt í þessum stóra degi í þeirra lífi.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Losaði sig við 27 meðgöngukíló á fjórtán mánuðum

Leikkonan Blake Lively eignaðist sitt annað barn með leikaranum Ryan Reynolds, hnátuna Inez, í september árið 2016. Fyrir áttu þau dótturina James, þriggja ára.

Hún birti mynd á Instagram í gær af sér og einkaþjálfara sínum, Don Saladino, greinilega stolt af því að vera búin að losa sig við meðgöngukílóin, sem voru alls rúmlega 27 talsins.

„Viti menn, maður losnar ekki við 27 kílóin sem maður bætir á sig á meðgöngunni með því að skrolla í gegnum Instagram og velta fyrir sér af hverju maður lítur ekki út eins og bikinífyrirsæta,“ skrifar Blake við myndina og bætir við:

„Takk @donsaladino fyrir að koma mér í form. Það tók tíu mánuði að bæta þessu á mig, fjórtán mánuði að losna við þetta. Ég er mjög stolt.“

Leikkonan komst nýverið í fréttir eftir að hún slasaðist á hendi á meðan hún lék í áhættuatriði í nýjustu kvikmynd sinni, The Rhythm Section, en hún lætur meiðslin greinilega ekki stöðva sig.

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Þessar konur buðu á stefnumót – sjáið viðbrögðin

|||||||||||||||
|||||||||||||||

Valentínusardagurinn er á næsta leiti, nánar tiltekið þann 14. febrúar næstkomandi. Breski bloggarinn Oloni ákvað að að hvetja konur til að bjóða þeim sem þær væru skotnar í út á stefnumót á þessum degi, eins og hún reyndar gerði líka í fyrra.

„Mér datt þetta í hug þegar ég var að hugsa um leiðir til að hvetja konur til að vera sjálfsöruggari,“ segir Oloni í viðtali við Bored Panda.

„Áskorunin var æfing fyrir konur til að æfa sig í að taka af skarið,“ bætir Oloni við en hér fyrir neðan má sjá viðbrögðin sem sumar af konunum fengu.

Númer 1

Númer 2

Númer 3

Númer 4

Númer 5

Númer 6

Númer 7

Númer 8

Númer 9

Númer 10

Númer 11

Númer 12

Númer 13

Númer 14

Texti / Lilja Katrín
[email protected]

Sextíu kílóum léttari: Lagður í einelti og glímdi við sjálfsvígshugsanir

||
||

„Ég hef verið of þungur frá því ég man eftir mér en líklega byrja ég að þyngjast fyrir alvöru í byrjun grunnskólans,“ segir Mikael Þorsteinsson, 32ja ára gamall yfirkokkur á veitingastað í Reykjavík. Fyrir tveimur árum ákvað hann að breyta um lífsstíl og hefur náð frábærum árangri á stuttum tíma.

Mikael er uppalinn hjá móður sinni á Húsavík og var lagður í einelti í grunnskóla.

Mikael glímdi við þunglyndi.

„Ég varð strax auðvelt skotmark fyrir aðra krakka í skólanum og var lagður í einelti alla grunnskólagönguna sem hefur áhrif á mig enn þá í dag. Ég var uppnefndur daglega og var eltur heim oft á tíðum með orðum sem særðu mikið. Ég var aldrei góður í íþróttum og kveið ég mikið fyrir að fara í íþróttatíma innan skólans. Bæði vegna þess að ég þurfti að klæða mig í íþróttafötin fyrir framan aðra stráka sem gerðu þá óspart grín að manni og jafnvel íþróttakennarar sögðu við mig að ég yrði að standa mig betur og gera þetta eins og hinir krakkarnir. Sérstaklega kveið ég fyrir því að fara í sturtu eftir tímana, þar sem kom fyrir að maður var sleginn með blautum handklæðum. Andlega ofbeldið var samt mikið algengara. Ég átti samt alltaf ákveðinn vinahóp sem hjálpaði til við að gera lífið bærilegt líklega,“ segir Mikael.
Hann þróaði með sér þunglyndi á unglingsárunum og eftir tvítugt var andlega heilsan orðin mjög slæm. Þá reyndi hann að deyfa sársaukann.

Kom fram við sig eins og ruslatunnu

„Líklega reyndi ég að deyfa ákveðinn andlegan sársauka með áfengi. Það voru ekki margar helgarnar sem ég tók án þess að hafa áfengi við höndina í vinahópi,“ segir Mikael og heldur áfram.

„Í kringum þrítugsafmælið mitt var ég kominn eins langt niður og hægt var. Vakti heilu næturnar og svaf á daginn og borðaði ógrynni af óhollu fæði og kom fram við mig eins og ruslatunnu. Á þeim tíma var ég orðinn 147 kíló. Á ákveðnum stundum var ég farinn að íhuga að líklega væri betra fyrir alla að ég væri ekki til og það hræddi mig virkilega að hafa þær hugsanir. Þá ákvað ég að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum til að endurheimta einhverja lífshamingju.“

Tæp sextíu kíló farin á tveimur árum

Mikael hefur búið í Reykjavík síðustu níu árin en það var í byrjun árið 2016 sem hann fékk sér líkamsræktarkort í Reebok Fitness, staðráðinn í að breyta um lífsstíl.

„Áður fyrr fannst mér alltaf leiðinlegt að fara í ræktina. Ég þoli ekki hlaupabretti og lyftingatæki þannig ég tók þá ákvörðun að fara í hóptíma. Ég skráði mig í Body Pump hjá Magnúsi, þjálfara hjá Reebok, sem eru lyftingatímar með stangir og lóð þar sem unnið er með nokkuð létt lóð en margar endurtekningar. Ég fann mig strax í þessum tímum þótt að úthaldið hafi verið skelfilegt til að byrja með. Þegar úthaldið fór að aukast og ég fór að sjá árangur fór ég að fikra mig áfram í aðra krefjandi hóptíma. Hreyfing er orðin algjör fíkn og erfitt að velja úr tímum til að fara í þar sem þeir eru allir frábærir. Mataræðið fylgdi einig með. Ég fór að minnka sykur og hveiti í fæðinu og gosdrykkir fóru á bannlista,“ segir Mikael. Hann fagnaði 32ja ára afmæli sínu fyrir stuttu og fékk ómetanlega gjöf.

„Á 32ja ára afmælinu skellti ég mér á vigtina og las 89 kíló, sem eru þá rétt tæp 60 kíló sem eru farin á þessum tveimur árum.“

Aukinn áhugi frá kvenfólki

Í dag brosir lífið við kokkinum.

Mikael segist finna mikinn mun á sér í dag, bæði andlega og líkamlega.

„Munurinn er sláandi og þá sérstaklega andlega. Ég er léttari á líkama og sál. Ég hef fundið ánægju yfir hlutum aftur og hreyfing er mín sálfræðiaðstoð. Að sjálfsögðu sé ég ótrúlegan mun á mér líkamlega og á úthaldi, styrk og þoli. Svefninn er mikið betri og ég er yfir höfuð mjög ánægður með mitt líf í dag,“ segir Mikael og bætir við að þessi breyting hafi ekki gengið áfallalaust fyrir sig.

„Ég hef fallið í nammið og gosið svo um munar og dottið niður andlega hér og þar. En erfiðleikarnir eru mestir í upphafi. Það að koma sér af stað og taka ákvörðunina um að taka sjálfan sig í gegn. Þetta hefur kostað blóð, svita og tár en hefur verið algjörlega þess virði og ég myndi ekki vilja breyta neinu á minni leið til betri heilsu. Líf mitt hefur breyst töluvert. Ég er farinn að halda í við íþróttafólk í ræktinni, hljóp 10 kílómetra hlaup á gamlársdag, farinn að íhuga að ganga á fjöll og hef hugsað með mér að fara jafnvel í einkaþjálfarann. Þetta eru betri hugsanir en að vera milli svefns og vöku allan daginn vegna andlegra og líkamlegra erfiðleika. Einnig hef ég tekið eftir auknum áhuga kvenfólks á mér. Sem er nú bara jákvætt,“ segir Mikael og brosir.

Þú átt alltaf rétt á hamingju í lífinu

Mikael lítur sáttur yfir farinn veg og hefur þann draum að geta hjálpað fólki að breyta um lífsstíl.

„Mig langar að hjálpa fólki sem hefur verið að glíma við sömu erfiðleika og ég og sýna þeim að þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég veit að það er klisja að segja þetta en hún er 100% sönn. Ef þú leggur til vinnuna munt þú sjá árangur. Það er ekkert flóknara. Það skiptir engu máli hversu gamall þú ert, hvað þú hefur gert af þér í lífinu, hvaða erfiðleika þú hefur átt við að stríða. Þú átt alltaf rétt á hamingju í lífinu og að vera sáttur í eigin skinni,“ segir Mikael og vill skila þakklæti til þeirra sem studdu hann í sinni vegferð, sem heldur áfram um ókominn tíma.

„Ég vil enda á að þakka fólki sem hefur staðið þétt við bakið á mér. Fjölskylda og vinir hafa verið eins og klettur. Svo vil ég skila sérstöku þakklæti til Magnúsar, þjálfara hjá Reebok og allra þeirra sem æfa með mér í hóptímunum. Þetta fólk skiptir miklu máli og hvetur mig áfram. Ég hef séð fólk ná frábærum árangri í tímunum með mér. Ef fólk vill koma og prófa hóptímana, þá taka allir vel á móti þér.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Úr einkasafni

Raddir