Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
9.5 C
Reykjavik

Faðir Katrínar Leu var skotinn til bana

Katrín Lea Elenudóttir hlaut nýverið titilinn Miss Universe Iceland en keppnin var haldin fyrr í mánuðinum.

Tíu ár eru síðan Katrín Lea fluttist hingað til lands en hún fæddist í Síberíu. Hún segir úrslitin síður en svo hafa komið sér á óvart en hún hafi stefnt að þátttöku síðastliðin tvö ár og loks öðlast þátttökurétt í ár en hún er yngsti keppandinn sem borið hefur sigur úr bítum.

Eftir flutningana frá Rússlandi tóku við miklar áskoranir þar sem Katrín Lea talaði enga íslensku og litla ensku. Hún hélt þó fast í móðurmálið og mætti í tungumálatíma hvern laugardag þar sem innflytjendabörn bæði frá Rússlandi og Lettlandi hittust og báru saman bækur sínar. „Þetta reyndist mér mjög erfitt því í Rússlandi átti ég marga vini en hér á Íslandi vildi enginn vera með mér en ég vildi bara fylgja mömmu minni hingað til lands.“

„Mér leið á köflum eins og ég væri eitthvað fötluð því börnin höguðu sér stundum þannig, eins og það væri eitthvað að mér af því ég kunni ekki tungumálið.“

„Þau vildu ekki tala við mig og um tíma þurfti ég að byggja öll samskipti á handahreyfingum. Ég vissi samt strax að hér væri betra líf þrátt fyrir að enginn hafi beinlínis sagt mér það. Einhvern veginn fékk ég það á tilfinninguna.“

Þremur árum eftir komuna til Íslands sáu Katrín Lea og móðir hennar fréttir í rússneska sjónvarpinu þar sem greint var frá andláti föður hennar. Hann hafði verið skotinn til bana.

„Ég þekkti pabba minn aldrei neitt en mamma sagði skilið við hann fljótlega eftir að ég kom í heiminn. Hann reyndi aldrei að hafa samband en hann var um tíma tengdur inn í rússnesku mafíuna sem við teljum að sé ástæða þess að honum var síðar ráðinn bani.“

„Fjölskylda hans hafði aldrei neitt samband við mig heldur en það voru miklir átakatímar í Rússlandi á þessum tímum, eftir fall Sovétríkjanna.”

Ástæða þess að Katrín ákvað að taka þátt er vegna þess að hún vissi hversu stór vettvangur fegurðarsamkeppni gæti verið fyrir stelpur til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Mig langar að stofna samtök hér á landi fyrir innflytjendabörn og hjálpa þeim enda stendur málefnið mér nærri.“

„Ég myndi jafnframt vilja að íslensk börn gætu tekið þátt því aðstoð þeirra er svo mikilvæg í tungumálakunnáttunni. Sjálf eyddi ég óteljandi laugardögum í einkakennslu til þess að viðhalda rússneskunni minni enda tala ættingjar mínir í Síberíu bara rússnesku. Ég hefði aldrei viljað gleyma rússneskunni en þrír klukkutímar í viku utan skólatíma er langur tími fyrir barn. Ég myndi vilja sjá þeim tíma eytt innan hefðbundinnar skólakennslu.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Sara Dögg Johansen.

Gerði mynd í miðri #metoo byltingu

Kvikmyndin Lof mér að falla eftir þá Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson verður frumsýnd innan skamms en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum.

Baldvin segir gerð myndarinnar hafa verið fróðlega en um leið erfiða, enda umfjöllunarefnið vandmeðfarið. Eðli málsins samkvæmt reyndust hlutverkin bæði líkamlega og andlega krefjandi og viðurkennir Baldvin að mörk þess að vera leikstjóri og sálfræðingur hafi á köflum verið óljós.

„Það komu alveg dagar þar sem ég var eitthvað allt annað en leikstjóri og það komu líka dagar þar sem þetta reyndist stelpunum of erfitt.“

„En maður verður að velja krakka sem maður treystir og ég vissi að þær hefðu bæði þroskann og kunnáttuna. Ég bað þær frá fyrsta degi að segja mér ef ég væri að keyra þær út og þær voru því alltaf meðvitaðar um að þær hefðu stjórnina. Mestu máli skiptir að hafa opið og gott samband svo allir geti sagt það sem þeir vilja segja.“
Myndin er tekin upp í miðri #metoo-sprengju og segir Baldvin byltinguna hafa varpað nýju ljósi á alla hans vinnu. „Ég hef unnið svo margar erfiðar senur og velti því alvarlega fyrir mér hvort ég hefði á einhverjum tímapunkti farið fram úr eða skaðað einhvern.“

„Eftir myndina hringdi ég í alla kven- og karlleikara sem hafa tekið þátt í svona senum og spurði hvort ég hefði ofboðið þeim, en sem betur fer voru viðbrögðin bara jákvæð.“

„Það var engu að síður gott að taka öll þess símtöl og taka út hvernig maður er, því þegar ég gerði Óróa, sem dæmi, var ég ekki meðvitaður um þetta. Ég held að í eðli mínu hafi ég alltaf reynt að gera rétt án þess að ofbjóða neinum en þetta er vandmeðfarið starf.“

„Það er, sem dæmi, sena í Vonarstræti þar sem ég gekk hrikalega langt og leikkonan endaði á sjúkrahúsi. Við vorum öll miður okkar, en ég stoppaði ekki tökuna. Það er það sem ég sé mest eftir núna, en við erum bestu vinir í dag.“

Í kjölfarið hélt Baldvin tvær prufusýningar á myndinni Lof mér að falla, annars vegar fyrir konur sem höfðu staðið framarlega í baráttunni og hins vegar fyrir karla. „Þetta er vandmeðfarið, kvikmynd um gróft ofbeldi gegn konum, skrifuð og leikstýrt af karlmönnum.“

„Við Biggi erum báðir femínistar og teljum okkur meðvitaða um hvað við erum að gera en ég vildi fá tilfinningu fyrir því hvaða punkta ég fengi frá konum og hvaða punkta frá körlum.“

„Viðbrögðin voru rosalega sterk og góð en punktarnir voru svo áhugaverðir því konurnar virtust ná því betur sem við vorum að reyna að segja meðan karlarnir horfðu öðruvísi á myndina.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

|||||
|||||
Björgólfur Jóhannsson.

Björgólfur Jóhannsson tilkynnti það í vikunni að hann væri hættur sem forstjóri Icelandair. Kom tilkynningin í kjölfar nýrrar afkomuspár félagsins, en hún lækkaði frá því sem áður var. Í tilkynningunni sagði Björgólfur að ákvarðanir sem hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni hafi verið teknar á hans vakt, þar með talið breytingar á leiðarkerfi Icelandair. Því hafi hann tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu.

Mikið hefur verið fjallað um erfiðleika íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, síðustu vikur, en gengi bréfa í Icelandair Group hríðféllu eftir að ný afkomuspá var birt og Björgólfur tilkynnti uppsögn sína.

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Bogi Nils Bogason.

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, hefur tekið við forstjórastarfinu tímabundið, en miklar vangaveltur eru innan viðskiptalífsins og ferðaþjónustunnar, hver taki við af Björgólfi og reyni að snúa gengi fyrirtækisins við. Álitsgjafar Mannlífs telja ólíklegt að Bogi verði ráðinn forstjóri til langstíma, enda hefur hver svört afkomuviðvörunin á fætur annarri verið birt á vakt hans sem fjármálastjóra. Þó reynslumikill sé telja álitsgjafar hann mögulega skorta djúpa þekkingu á rekstrinum til að taka við af Björgólfi.

Sagði upp í byrjun ágúst

Jón Karl Ólafsson.

Eitt nafn sem kemur upp sí og æ hjá álitsgjöfum Mannlífs er Jón Karl Ólafsson, sem varð forstjóri Icelandair árið 2004 og síðan forstjóri Icelandair Group á árunum 2005 til ársloka 2007. Ku hann vera ansi líklegur í starfið, sérstaklega í ljósi þess að fyrir stuttu var sagt frá uppsögn hans sem framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia. Sú tilkynning barst í byrjun ágúst, en ljóst er að það hafi verið aðdragandi að uppsögn Björgólfs hjá Icelandair. Jón Karl er mikill reynslubolti, en hann var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands á árunum 1999 til 2004 og tók við sem forstjóri JetX/Primera Air árið 2008. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðal annars Útflutningsráðs Íslands og Samtaka ativnnulífsins.

Helgi Már Björgvinsson.

Reynslumikill og vel menntaður

Helgi Már Björgvinsson hefur einnig verið nefndur í sömu andrá og forstjórastóllinn, en hann er í stjórnandastöðu hjá Icelandair Group og sinnir meðal annars verkefnum sem koma að stefnumótun hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið lengi hjá Icelandair, allt frá árinu 1999, og hefur unnið út um allan heim fyrir fyrirtækið, til dæmis sem sölu- og markaðsstjóri og svæðisstjóri. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að ef ákveðið verði að ráða innanbúðarmann í forstjórastarfið sé Helgi Már einn vænsti kosturinn. Mjög reynslumikill og vel mentnaður, með BS í markaðs- og stjórnunarfræði frá háskólanum í Suður-Karólínu og meistarapróf í viðskiptafræði frá SCP-EAP European School of Management í París.

Erfitt að finna forstjóra úr ferðaþjónustunni

Halldór Benjamín Þorbergsson.

Álitsgjafar vefsins telja Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, einnig góðan kost en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group. Halldór er menntaður hagfræðingur og reyndur stjórnandi, en sumir álitsgjafar Mannlífs efast þó um að hann verði fyrir valinu sökum lítillar reynslu í ferðaþjónustu.

Í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, var síðan sagt frá því að nafn Jóns Björnssonar, forstjóra smásölukeðjunnar Festar, væri ofarlega á blaði þar sem hann hefði töluverða reynslu af því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að Jón sé sterkur kandídat í starfið.

Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að erfitt verði fyrir Icelandair Group að finna íslenskan forstjóra með mikla reynslu úr ferðaþjónustu og því gæti farið svo að leitað verði út fyrir landsteinana, þó álitsgjöfum finnist það ólíklegt. Einhverjir sem Mannlíf ræddi við telja líklegt að næsti forstjóri verði einhvers konar frontur fyrir fyrirtækið, sem myndi þá þýða að styrkja þyrfti framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Frikki Dór og Lísa orðin hjón

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson gekk að eiga sína heittelskuðu, Lísu Hafliðadóttur, við fallega athöfn í Toskana-héraðinu á Ítalíu í dag.

Fjölmargir vinir og vandamenn voru viðstaddir brúðkaupið, og hafa raunar notið veðurblíðunnar á Ítalíu síðustu daga. Meðal gesta eru að sjálfsögðu bróðir Friðriks, tónlistarmaðurinn Jón Jónsson, tónlistargúrúinn Ásgeir Orri, leikkonan Júlíana Sara Gunnarsdóttir og tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason.

Gestir hafa verið duglegir að birta myndir úr ævintýrinu á Instagram undir myllumerkinu #friðlísing, og má sjá nokkrar þeirra hér fyrir neðan.

Mannlíf óskar brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn.

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

A post shared by Rósa María (@rosamariaa) on

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

„Þessi stund var töfrum líkust“

„Ég gleymi því aldrei þegar ég horfði á prufuna hans,“ segir Simon Duric, handritshöfundur Netflix-seríunnar The Innocents sem hóf streymisgöngu sína fyrir stuttu, í viðtali við Den of Geek!. Einn af leikurum seríunnar er Jóhannes Haukur Jóhannesson, en þættirnir fjalla um ungt kærustupar sem flýr að heiman og kemst svo að því að stúlkan er formbreytir. Raunar eru margir í heiminum formbreytar – eitthvað sem parið gerði sér enga grein fyrir.

Eins og fram kemur í greininni var Jóhannes Haukur beðinn um að senda inn áheyrnarprufu sem hann tók upp sjálfur þar sem lék senu þar sem persónan hans er tekin yfir af formbreyti á unglingsaldri. Bæði Simon, og höfundurinn Hania Elkington, eru sammála um að þessi prufa hafi sannfært þau um að serían gæti orðið að raunveruleika, en þau voru ávallt staðráðin í því að túlka formbreyta með eins litlum tæknibrellum og hægt væri.

„Þetta var átakanlegt, gjörsamlega átakanlegt. Og þetta er stór og sterkur náungi. Við hugsuðum…já! Þetta getur virkað. Þetta getur virkað,“ segir Simon um stundina þegar hann horfði á áheyrnarprufu Jóhannesar.

„Þetta var stundin þegar við hugsuðum að þessi brjálaða hugmynd gæti verið útfærð í sjónvarpi,“ bætir Hania Elkington við.

„Hann gerði svolítið sem ég hef aðeins séð ungar stúlkur gera. Þær toga bolinn sinn niður til að reyna að fela sig sjálfar. Bara þessi eina hreyfing sagði heilanum mínum að þetta væri ung stúlka. Þessi stund var töfrum líkust,“ bætir hún við.

The Innocents hafa fengið mjög góða dóma, sem gerir það að verkum að líklegra er að gerð verði önnur þáttaröð fljótlega. Á meðan situr Jóhannes Haukur þó ekki auðum höndum. Nýjasta mynd hans, Alpha, var frumsýnd í vikunni og hann er nú við tökur á kvikmyndinni Bloodshot, þar sem hann leikur rússneskan skúrk á móti stórstjörnunni Vin Diesel.

„Forréttindi að starfa við mitt stærsta áhugamál“

 Förðunarsnillingurinn Natalie Hamzehpour starfar sem þjálfari og almannatengill á snyrtivörusviði Nathan & Olsen. Natalie er 24 ára en hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í fremstu röð förðunarfræðinga á Íslandi. Við fengum hana til að segja aðeins frá sjálfri sér, starfinu og förðunartrendunum fyrir haustið.

Natalie er fædd og uppalin í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin 11 ár. Hún hóf feril sinn sem sminka í Borgarleikhúsinu og hefur síðan þá unnið fjölmörg störf í faginu. Aðspurð segir hún áhugann á förðun hafa kviknað sem barn. „Mamma mín er hárgreiðslukona og pabbi minn var módel og ég fékk oft að fylgjast með á bak við tjöldin þegar mamma var með stórar sýningar fyrir Paul Mitchel. Ég hef alltaf heillast af förðun og fannst skemmtilegast að fylgjast með förðunarfræðingunum vinna sína vinnu. Mamma var með NoName á stofunni hjá sér á þessum tíma og ég var svo heppin að fá að eiga prufurnar og fékk meira að segja að hafa standinn inni í herberginu hjá mér þegar hún fékk nýja. Svo fékk ég vinkonur heim til mín eftir skóla til að vera módel hjá mér, mér fannst hreinlega ekkert skemmtilegra en að farða,“ segir hún.

Þessi brennandi áhugi á förðun hefur síst farið minnkandi með árunum en Natalie starfar, sem fyrr segir, sem þjálfari og almannatengill á snyrtivörusviði Nathan & Olsen. „Starf mitt felst í því að halda námskeið fyrir sölufólkið okkar og þjálfa vöruþekkingu þess. Ég sé einnig um allt sem tengist pressu og áhrifavöldum. Í haust mun ég samhliða því kenna förðun í Makeup stúdíói Hörpu Kára og er ótrúlega spennt. Ég lít á það sem forréttindi að geta starfað við mitt stærsta áhugamál og vera umkringd skemmtilegu fólki á hverjum degi. Starfið er líka svo fjölbreytt að ég fæ aldrei leiða á því.“

Á haustin má oft sjá nýjar áherslur og stefnur í förðun, og Natalie er með allt á hreinu hvað það varðar. „Mér finnst gaman að sjá hvernig förðunartrendin í haust eru ekki jafnfullkomin og „Instagram-leg“ og þau hafa verið undanfarið. Förðunin er raunverulegri og eins og búið sé að ganga hana aðeins til. Hlýir brúnir tónar sem ramma inn augun eru áberandi og þessi „grunge“-stemning sem ég hrífst mjög af er að koma aftur. Húðin fær að njóta sín og best er að þekja hana ekki of mikið. Sterkur varalitur er alltaf málið á haustin, ég heillast mjög af ýmis konar ólíkum rauðum tónum. Litir eru líka áberandi. Þá er ég ekki að tala um mjög litríka förðun heldur aðeins „pop“ af lit. Kannski gulur augnskuggi í innri krók eða appelsínugulur í vatnslínuna.“

Þegar Natalie er spurð um ráðleggingar fyrir heilbrigða húð nefnir hún klassísku ráðin að drekka vatn, sofa ekki með farða og nota sólarvörn. „Svo mæli ég með að kynna sér glýkól- og salisýlsýrur. Ég fullvissa þig um að þær munu gjörbreyta lífi þínu (og húðinni),“ segir hún að lokum.

 

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Natalie, en viðtalið í heild sinni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Unnur Magna

Erum að verða of sein að bjarga jörðinni

Valgerður Árnadóttir kom með látum inn á pólitíska sviðið þegar hún bauð sig fram fyrir hönd Pírata í borgarstjórnarkosningunum í vor. Vala, eins og hún er oftast kölluð, er vegan og mikil baráttukona fyrir réttindum dýra en hún er framkvæmdastjóri Samtaka grænmetisæta. Kvenréttindabaráttan er henni einnig hugleikin en nýverið stofnaði hún viðburðafyrirtækið Puzzy Patrol sem berst fyrir því að konur fái sömu tækifæri og karlar í tónlistarheiminum.

Valgerður Árnadóttir prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar.

Vala var ekki há í loftinu þegar hún tók ákvörðun um að gerast grænmetisæta. Hún varði nótt á tjaldstæði við hlið sláturhúss og vaknaði við veinið í grísunum áður en þeim var slátrað. Næstu tuttugu og fimm árin var hún fiskæta en það var frásögn vinkonu hennar sem opnaði augu hennar fyrir grimmd mjólkuriðnaðarins. „Vinkona mín fæddi veikt barn sem var ekki hugað líf. Á meðan drengurinn hennar barðist fyrir lífi sínu þurfti hún að mjólka sig og einnig eftir að hann dó vegna þess að mjólkin fór ekki strax. Þá sorg sem hún upplifði við að þurfa að mjólka sig þrátt fyrir að barnið hennar væri dáið tengdi hún við upplifun kúnna. Þær ganga einnig með afkvæmin sín í níu mánuði sem er svo tekið af þeim við fæðingu svo hægt sé að mjólka þær fyrir mannfólkið, sem í raun þarf ekki á mjólkinni að halda. Ég missti algerlega lystina og ég sem hafði sagt að ég „elskaði ost“ gat ekki hugsað mér að stuðla að þessarri þjáningu.“

Vala tók þátt í Veganúar í janúarbyrjun fyrir tveimur árum síðan og eftir það var ekki aftur snúið. Hún segir breytingarnar á heilsu og almennri líðan virkilega jákvæðar. „Áður en ég varð vegan var ég með krónískt mígreni og þrálátar ennis- og kinnholusýkingar. En við það að taka út mjólkurvörur hurfu nánast mígreniköstin og ég hef bara einu sinni fengið kvef á þessum tæpu þremur árum. Ég missti líka nokkur kíló af „mjólkurskvapi“, húðin varð betri og ég hressari og orkumeiri. Ég fór meira að segja að æfa crossfit og ganga á fjöll, eitthvað varð ég að gera við alla þessa aukaorku,“ segir Vala og hlær dillandi hlátrinum sem einkennir hana. „Mér líður miklu betur bæði andlega og líkamlega og mér finnst ég loksins lifa lífinu eftir eigin sannfæringu og gildum en ekki þeim sem samfélagið hefur sagt mér að gera frá fæðingu,“ segir hún og meinar hvert einasta orð.

Aðspurð hvort hún hafi fengið mikla gagnrýni fyrir lífsstíl sinn segir hún ótrúlegt hvað veganismi getur vakið harkaleg viðbrögð hjá fólki. „Fólk á það til að finnast það knúið til að réttlæta eigin kjötneyslu fyrir mér eða segja mér að ég sé öfgafull og nota þaðan af verri viðurnefni.

Eins er fullkomlega viðurkennt að gera grín að veganisma við hin ýmsu tækifæri, það er ekki komið á bannlista eins og rasismi og kvenfyrirlitning.

Ég verð að vonum oft þreytt á óumbeðnum réttlætingum annarra og hef þurft að biðja fólk vinsamlegast um að hætta að predika yfir mér. Stundum hef ég líka hvæst á móti þegar fólk lætur mig ekki í friði í fjölskylduboðum og öðrum mannamótum, ég er bara mannleg,“ segir Vala einlæg.

ÁREITI SEM FYLGIR ÞVÍ AÐ VERA KVENKYNSPLÖTUSNÚÐUR

Vala er gallharður femínisti og málefni kvenna eru henni afar hugleikin. Hún ákvað að stofna viðburðafyrirtækið Puzzy Patrol en það sérhæfir sig í að skipuleggja viðburði með listakonum og feminískum talskonum til að styðja við konur í listum. Hún segir hugmyndina hafa kviknað kvöldið sem Donald Trump var settur í embætti forseta Bandaríkjanna. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og þetta tiltekna kvöld var ég að þeyta skífum á Kaffi Vinyl og hafði í tilefni dagsins hannað og prentað á boli fyrir mig og vinkonur mínar með slagorðinu „Pussy grabs back“. Ég spilaði einungis tónlist með konum eða samda af konum, hipphopp og R&B. Þetta framtak vakti þvílíka lukku og bandarískar konur sem voru á staðnum þökkuðu fyrir stuðninginn með tárin í augunum. Þær höfðu lagt í ferðalag til Íslands til að vera sem lengst frá Bandaríkjunum þennan dag, sem þær kölluðu sorgardag fyrir konur. Ég stofnaði stuttu seinna Puzzy Patrol með Ingibjörgu Björnsdóttur vinkonu minni sem er menntuð í viðburðarstjórnun. Það er mikill uppgangur í hipphoppi og margar flottar tónlistarkonur í þeim geira sem fá ekki sömu tækifæri og strákarnir og þess vegna einbeittum við okkur að þessari tónlistarstefnu til að byrja með. Við vorum með okkar eigið kvöld á Airwaves og héldum svo málþing og stórtónleika með öllum helstu tónlistarkonum landsins í Gamla bíói í janúar. Ingibjörg er að flytja til Danmerkur og við erum að skoða það að fara í norrænt samstarf. Flytja tónlistarkonur út og erlendar konur kæmu hingað að spila,“ segir Vala sem þeytir skífum undir dj-nafninu Pussy Valore.

Áreiti frá hinu kyninu segir hún óneitanlega fylgifisk þess að vera kvenkynsplötusnúður. „Eins og það er gaman að þeyta skífum og skemmta fólki þá getur áreitið orðið erfitt, sérstaklega þegar þú ert kona. Ég á nokkrar vinkonur sem eru plötusnúðar og er oft þeim til samlætis og stuðnings þegar þær spila. Nýlega var ég Dj de la Rosa til samlætis og stóð hjá henni við dj-búrið, aðallega til að hindra að menn færu ekki inn fyrir það til að fikta í græjunum eða skipta um lag, enda halda menn að konur geti það ekki þótt þær vinni sem plötusnúðar. En þetta tiltekna kvöld var rosahress steggjahópur á staðnum sem margoft komu og báðu um óskalög og reyndu að draga mig á dansgólfið sem ég neitaði alltaf kurteisislega. Ég lét skýrt í ljós að ég hefði ekki áhuga en svo þurfti ég að fara á klósettið og til þess þurfti ég að fara yfir dansgólfið. Ég var ekki fyrr búin að taka nokkur skref þegar ég var gripin og mér lyft upp í loftið eins og bikar á fótboltamóti.  Sigri hrósandi karl sneri mér í hringi eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það fauk í mig og ég bað hann að setja mig niður en hann sleppti mér ekki fyrr en dyravörðurinn kom aðvífandi og hótaði að henda honum út ef hann léti mig ekki niður.

Steggjunum fannst öllum við dyravörðurinn vera voða fýlupúkar, auðvitað eiga menn að fá að grípa konu sem þeim líst vel á og sveifla henni upp í loft eins og bavíanar með bananaklasa.

Mér fannst þetta mjög niðurlægjandi og ég hugsaði með sjálfri mér að það er ekki eins og ég sé tvítug smástelpa. En svo rann upp fyrir mér að einmitt á þeim aldri lét ég mig bara hafa svona hegðun. Þetta var bara partur af því að vera ung og sæt og álitin vera einhver hlutur sem mátti káfa á, lyfta upp og grípa í án þess að fá leyfi og því miður viðgengst það enn. En mér finnast eldri menn vera verri en þessi yngri, ég vona að yngri kynslóðin sé að læra betri siði, bæði hvað varðar drykkju og hvað varðar virðingu gagnvart konum.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

 

Texti: Helga Kristjáns

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Eddie Murphy á von á barni – í tíunda sinn

LOS ANGELES

Grínarinn Eddie Murphy á von á barni með kærustu sinni Paige Butcher. Þetta verður annað barnið sem Eddie og Paige eiga saman en það tíunda sem grínistinn eignast. Talsmaður parsins segir að Paige eigi von á sér í desember í yfirlýsingu sem send var tímaritinu People.

Eddie, sem er 57 ára, og Paige, sem er 39 ára, eiga fyrir dótturina Izzy Oona, sem er tveggja ára. Eddie á svo Eric, 29 ára, með Paulette McNeely, Bella Zahra, 16 ára, Zola Ivy, 18 ára, Shayne Audra, 23 ára, Miles Mitchell, 25 ára og Briu, 28 ára, með fyrrverandi eiginkonu sinni Nicole Mitchell. Þá á hann Christian, 27 ára, með Tamöru Hood og Angel Iris, 11 ára, með söngkonunni Mel B.

Hér er falleg fjölskyldumynd sem var tekin af Murphy-klaninu rétt eftir að Izzy Oona fæddist:

? Merry Christmas!!! #MurphyFamily Photo by : @justwilliet

A post shared by Bria (@bria_murphy) on

Eddie sagði í viðtali við Entertainment Tonight árið 2016 að hann væri mikill fjölskyldumaður.

„Bjartasti parturinn af lífinu mínu eru börnin mín,“ sagði hann þá og bætti við:

„Samband mitt við þau og heimurinn minn snýst um þau – jafnvel þessi gömlu, sköllóttu.“

Féll í yfirlið á miðri æfingu: „Þetta var vítahringur“

Heilsumarkþjálfinn Brittany Loeser segir sögu sína á vefsíðu tímaritsins Women’s Health. Brittany var upprennandi knapi á yngri árum og segist lítið hafa hreyft sig annað. Þá segist hún hafa borðað nákvæmlega það sem henni datt í hug og í miðskóla byrjaði hún að finna fyrir því að hún gæti kannski ekki borðað hvað sem er og samt ekki bætt á sig.

„Ég kom aftur heim úr fríi þar sem ég borðaði þyngd mína í mat og mér leið illa. Ég var ekki með neitt sjálfstraust og mér leið eins og fötin væru að springa utan af mér. Ég var þreytt og sljó. Ég hataði það,“ segir Brittany. Hún bætir við að á þessum tímapunkti hafi hún ákveðið að breyta um lífsstíl, en þá hélt hún að heilbrigður lífsstíll fælist í því að borða „eins og kanína og gera fullt af brennsluæfingum.“ Það fór ekki eins og hún bjóst við.

„Eftir nokkrar vikur var ég vissulega búin að léttast. En í staðinn fyrir að líða eins og ég væri sterk og sjálfsörugg var ég veikluleg. Og mér leið illa. Endalausar brennsluæfingar og takmörkun á kaloríum var ekki lífsstíll sem ég gæti haldið til streitu og það var að éta upp sjálfsöryggið mitt og hamingju,“ segir Brittany.

Ofát einu sinni í viku

Stuttu síðar kynnti vinur hennar hana fyrir lyftingum. Hún féll fyrir því og fannst eins og þetta væri nákvæmlega það sem hún hafði leitað að. Ekki skemmdi fyrir að hún sá breytingar á líkama sínum ári eftir að hún byrjaði að lyfta.

„Ég var sterkari en líka stæltari. En á þessum tíma borðaði ég aðeins um 1400 kaloríur á dag því ég hélt að ég þyrfti að halda aftur af mér til að fá draumalíkamann. Af því að ég borðaði svona fáar kaloríur þá ofát ég einu sinni í viku. Þetta var vítahringur,“ segir hún. Í framhaldinu ákvað Brittany að taka þátt í bikiníkeppni og tók undirbúninginn alla leið.

„Það varð brátt óheilbrigt,“ segir heilsumarkþjálfinn og rifjar upp örlagaríkt atvik í ræktinni.

„Síðan var ég að klára æfingu einn daginn á stigavélinni og það leið yfir mig. Foreldrar mínir höfðu séð hvaða toll undirbúnignurinn var að taka og eftir þetta atvik kröfðust þau þess að ég færi til læknis.“

Neyddi sig til að æfa

Þá kom í ljós blóðsykur Brittany var mjög lágur af því að hún hafði farið illa með sig. Hún ákvað samt sem áður að halda áfram undirbúningi fyrir bikiníkeppnina.

„Auðvitað urðu foreldrar mínir áhyggjufullir um heilsufar mitt. Þau vildu að ég hætti í undirbúningnum. En ég hélt að svona bakslag væri bara hluti af ferlinu og þjálfarinn minn bað mig ekki um að hætta að æfa. Foreldrar mínir treystu mér þannig að ég ákvað að halda áfram. En í raun og veru var þetta bara toppurinn á ísjakanum þegar kom að merkjum um að æfingarrútínan mín væri að skapa vandamál í lífi mínu. Ég var blind fyrir því hve mikinn toll matartakmarkanir og ofát var að taka á líkama minn. Og þegar kom að bikiníkeppninni naut ég hennar ekki einu sinni,“ segir Brittany. Í kjölfar keppninnar hrundi hún líkamlega og andlega.

„Ég gat ekki viðhaldið þessar ímynd um að ég væri fullkomin og við stjórnvölin.

Ég var bara átján ára en mér leið hörmulega. Ég neyddi mig til að æfa þegar mig langaði ekki til þess og naut ekki matar sem mig langaði í því ég var of hrædd við að þyngjast. Ég var með brenglaða sjálfsmynd eftir keppnina. Ég var afar nett og grönn en mér leið eins og ég væri feit því ég var ekki með keppnislíkama. Ég var orðin svo vön að taka til matinn minn og borða allt á disknum að ég hafði ekki hugmynd um hvað eðlileg skammtastærð var eða hvernig ég ætti að finna fyrir því að ég væri svöng. Ég ældi oft af því að ég borðaði of mikið.“

Vigtin hætti að stjórna

Brittany ákvað þá að snúa blaðinu við og einbeita sér frekar að því hvernig líkama hennar leið. Hún slakaði á í mataræðinu og ræktinni og einbeitti sér að því að borða eðlilega og leyfa sér sætar syndir í hófi. Hún segir það hafa verið erfitt að breyta hugsunarhættinum en eftir nokkurn tímann sá hún að meiri næring hafði ýmislegt jákvætt í för með sér.

„Ég gat ögrað mér meira og orðið sterkari,“ segir hún og heldur áfram. „Æfingar urðu skemmtilegar aftur. Ég varð ekkert stressuð þó ég kæmist ekki í ræktina fimm sinnum í viku. Ég var ekki eins stælt en ég var loksins hamingjusöm. Og það sem mestu máli skiptir er að vigtin hætti að stjórna mér. Ég þyngdist um rúm níu kíló og mér hefur aldrei liðið betur.“

80/20 reglan

Nú eru liðin rúm þrjú ár síðan Brittany ákvað að breyta um lífsstíl. Nú fer hún í ræktina fjórum sinnum í viku en elskar líka að hreyfa sig í náttúrunni. Hún borðar rúmlega 2000 kaloríur í dag og fylgir 80/20 reglunni svokölluðu – 80% af mataræðinu er hollt og næringarríkt og 20% er allt hitt sem freistar. Í dag er Brittany einkaþjálfari og hjálpar öðrum í leit að hamingju og betri lífsstíl. En hvað lærði hún af þessari vegferð sinni?

„Ef þú elskar þig ekki núna þá áttu ekki eftir að elska þig þegar þú léttist um fimm kíló.“

Endurskoðandi sem elti drauminn

Gunnar Freyr er íslenskur Dani eins og hann orðar það, fæddur og uppalinn í Danmörku. Hann lauk masters-gráðu í viðskiptafræði og endurskoðun og starfaði sem endurskoðandi og ráðgjafi hjá Price Waterhouse Cooper í Danmörku og vann mikið þar til hann var orðinn leiður á skrifstofuvinnunni.

„Þetta voru bara jakkaföt og bindi allan daginn“ segir Gunnar en hann segist alltaf hafa verið góður drengur sem taldi sig vera að gera það rétta í lífinu þar til hann uppgötvaði að hann vantaði lífsfyllingu.

Árið 2014 ákváð hann ásamt sambýliskonu sinni, Kasiu, að þau myndu segja upp störfum sínum í Danmörku til þess að elta drauma sína. Kasia vann skrifstofuvinnu líkt og Gunnar en hún er menntaður heimspekingur og almannatengill. Þau seldu allar eigur sínar og keyptu sér flugmiða til Suðaustur Asíu þar sem þau ferðuðust um þriggja mánaða skeið. Gunnar hefur verið áhugasamur um ljósmyndum frá 2007 en í ferðinni til Asíu ákvað hann að fara alfarið út á þá braut. Eftir dvölina í Asíu keyptu þau flugmiða til Íslands en eingungis aðra leið en Gunnari hafði alltaf langað til þess að prófa að búa á Íslandi þar sem ræturnar lágu.

Eftir komuna til Íslands var ekki aftur snúið. Hann stofnaði Instagram reikning undir heitinu „icelandic_explorer“ en á þeim tíma voru fáir Íslendingar virkir notendur. Fylgjendahópurinn stækkaði ört og beiðnir um verkefni fylgdu í kjölfarið. Í dag er Gunnar svokallaður sendiherra Canon á Norðurslóðum og eru fylgjendur hans á instagram orðnir 261 þúsund talsins og fer stækkandi.

Gunnar er með mörg járn í eldinum en sem stendur er hann í ævintýraferð um Grænland með hópi af áhugaljósmyndurum í átta daga leiðangri um Scoresbysund á tveggja mastra seglskipi frá Norðursiglingu. Ekkert netsamband er á svæðinu en áhugasamir geta fylgst með Gunnari á instagram því myndir frá Grænlandi munu birtast þar að ferð lokinni.

Nýtt Hús og híbýli er komið í verslanir.

Mögnuð ljósmynd eftir Gunnar Frey fylgir með septemberblaði Húsa og híbýla og ber myndin heitið Markarfljótsgljúfur. Um myndina segir Gunnar:

„Gljúfrið er með stærstu og lengstu gljúfrum á Íslandi en það er allt að 200 metra djúpt. Ég kom þangað fyrst árið 2016 og svo aftur núna í sumar. Ég hafði beðið lengi eftir að geta farið þangað aftur og þá með dróna en þegar ég kom þangað í sumar var mikið rok, skýjað og rigning. Alls ekki bestu aðstæðurnar til þess að fljúga dróna. Ég ákvað hins vegar að taka slaginn og fljúga drónanum þrátt fyrir veðrið og niðurstaðan varð þessi mynd. Þetta er staður sem margir Íslendingar hafa aldrei séð þótt að flest okkar fari yfir Markarfljót á leið um Suðurlandið“.

Myndin sem fylgir nýjasta hefti blaðsins Hús og híbýli.

Ekki missa af septemberblaði Húsa og híbýla og þessari flottu ljósmynd eftir Gunnar Frey. Smelltu hér til að gerast áskrifandi að Húsum og híbýlum.

Myndir / Unnur Magna

Svona lítur líkaminn út eftir 55 klukkustunda langa sundferð

||||||||
||||||||

Hinn hollenski Maarten van der Weijden varð ungur afreksmaður í sundi og átti framtíðina fyrir sér í íþróttinni. En þegar hann var nítján ára greindist hann með krabbamein, nánar tiltekið hvítblæði, og gáfu læknar honum litlar lífslíkur.

Maarten var nítján ára þegar hann greindist með hvítblæði.

Maarten barðist hins vegar með kjafti og klóm og náði að sigrast á krabbameininu. Auk þess sneri hann aftur í sundið af fullum krafti tveimur árum eftir greininguna. Ef það var ekki nóg, þá náði hann svo góðum bata að hann nældi sér í gullverðlaun í sundi á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Þessi sundgarpur lætur fátt stoppa sig.

Maarten reyndi nýlega við að synda tæplega tvö hundruð kílómetra langt sund, betur þekkt sem Elfstedentocht í Hollandi. Vanalega er keppt í skautum þessa leið einu sinni á ári þegar vatnið frýs, en skautað er í hring frá bænum Leeuwarden, í gegnum bæi eins og Stavoren, Workum, Harlingen og Franeker og endað aftur í Leeuwarden. Fyrir þá sem eru kunnugir í Hollandi er endapunkturinn nálægt frægu vindmyllunni De Bullemolen.

Synt af kappi.

Maarten ákvað að synda þessa leið til að safna peningum fyrir krabbameinsrannsóknir, og málstaðurinn því afar nærri hjarta hans. Áætlað var að sundferðin tæki þrjá daga með stuttum hvíldarlúrum. Þegar liðið var á sundið varð Maarten hins vegar veikur og vatnið talið of mengað þannig að hann þurfti að hætta sundinu eftir að hafa synt 163 kílómetra á 55 klukkustundum. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig líkami hans leit út eftir svo langt sund.

Þó að Maarten hafi ekki náð að synda alla leið náði hann samt að safna rúmlega fjórum milljónum dollara, tæplega 430 milljónum króna.

Maarten safnaði tæplega 430 milljónum króna á sundinu.

Anna Svava og Gylfi létu pússa sig saman

Turtildúfurnar Anna Svava Knútsdóttir og Gylfi Þór Valdimarsson gengu í það heilaga um helgina, en það var fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir, sem auk þess er athafnastjóri hjá Siðmennt, sem gaf þau saman.

Önnu Svövu þarf vart að kynna, en hún er leikkona að mennt og hefur einnig farið á kostum í handritaskrifum, til dæmis fyrir nokkur Áramótaskaup og þættina Ligeglad, þar sem hún átti auk þess stórleik. Anna Svava rekur ísbúðina Valdísi með eiginmanni sínum Gylfa, en um velgengni ísbúðarinnar þarf vart að fjölyrða.

Anna Svava og Gylfi hafa verið saman um árabil og eiga tvö börn saman, og eins og þeirra er von og vísa var mikið stuð í brúðkaupinu, eins og sjá má á meðfylgjandi Instagram-færslum:

Hættið að bjóða mér í brúðkaup! #gylfan

A post shared by Björn Bragi (@bjornbragi) on

♥️ #gylfan

A post shared by Sunna Petursdottir (@sungun83) on

Ást ❤ #gylfan

A post shared by gunna65 (@gtorfadottir) on

#gylfan

A post shared by gunna65 (@gtorfadottir) on

Nennir ekki að safna óvinum

|
|

Rauð síld er nýr hlaðvarpsþáttur þar sem þáttastjórnandinn, Heiðar Sumarliðason, fær til sín gesti og spjallar við þá um nýjar kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Heiðar Sumarliðason, fær til sín gesti og spjallar við þá um nýjar kvikmyndir og sjónvarpsþætti j hlaðvarpsþættinum Rauð síld.

„Við ræðum það sem er í gangi á vitrænan og lifandi máta. Greinum það sem fyrir augu ber með okkar nefi, en ég er sjálfur handritshöfundur og leikskáld og tek því mikið hlutina fyrir frá því sjónarhorni,“ segir Heiðar, spurður út í þáttinn. „Síðan fer það svolítið eftir umfjöllunarefninu hver stemning þáttarins er hverju sinni þótt ég reyni eftir fremsta megni að hafa hann léttan og skemmtilegan. Til dæmis fjallaði ég um nýju Mission Impossible-myndina ásamt Hrafnkeli Stefánssyni sem er meðal annars höfundur Borgríkis 1 og 2 og við hlógum eiginlega svo mikið að það var hálfvandræðalegt.“

Hingað til hafa fjórir þættir litið dagsins ljós. Þrír helgaðir nýjum kvikmyndum, The Meg, Hereditary og fyrrnefndri Mission Impossible-mynd og einn tengdur sjónvarpi, þar sem Heiðar og kvikmyndagerðarmaðurinn Kristján Kristjánsson tóku fyrir Sharp Objects og Who is America. „Í byrjun september verður í fyrsta skipti viðtal en þá ætla ég að tala við Jóhannes Hauk Jóhannesson leikara um öll þessi verkefni hans sem hafa hrúgast inn núna á haustmánuðum; Alpha, The Innocents og The Sister Brothers,“ segir hann. „Í næstu viku fæ ég síðan til mín Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur sviðslistakonu. Við ætlum að ræða Netflix-þáttinn Insatiable sem gerði PC-fólkið alveg vitlaust þó að það hafi ekki einu sinni verið búið að sýna þættina. Við ætlum fjalla um hvort allt þetta havarí eigi rétt á sér.“

Spurður að því hvað hafi orðið til þess að hann reið á vaðið með Rauða síld segir Heiðar að til sé fjöldi erlendra hlaðvarpsþátta um kvikmyndir og sjónvarp en fátt jafnist á við að fá umfjöllunarefnið á sínu ylhýra og eftir því sem hann veit best, er Rauð síld eini þátturinn sinnar tegundar á íslensku sem er í gangi akkúrat núna. „RÚV sinnir svona umfjöllun auðvitað að einhverju leyti og gerir það vel en svo stórt batterí er hins vegar því marki brennt að það er ekki hægt að nálgast umfjöllunina á marga vegu. Þáttur eins og Rauð síld gæti til dæmis aldrei verið þar á dagskrá, hann er allt of óformlegur og léttur.“

Þá segir hann áhugann á því að fara af stað með þáttinn hafi líka kviknað eftir að hann fjallaði reglulega um menningu í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu og var með sérstakan hlaðvarpsþátt um íslenska leiklist. „Ég var hins vegar orðinn svo hræddur um að sá þáttur myndi ekki skila mér neinu nema óvinum að ég ákvað á endanum að hætta með hann,“ segir hann og hlær. „Kosturinn við Rauða síld er aftur á móti sá að nánast enginn sem fjallað er um í þættinum mun hlusta á hann. Þannig að ég get kannski eytt korteri í að gera grín að Tom Cruise án þess þó að það kippi sér einhver upp við það. Í mesta lagi er það markaðsstjóri einhvers kvikmyndahúss sem fer í fýlu.“

Mannlíf spurði Heiðar nokkurra laufléttra spurninga í lokin:

Ógleymanlegasta atriði kvikmyndasögunnar?
„Sennilega þegar geimveran brýtur sér leið út úr maga Johns Hurt í Alien. Ég var allt of ungur þegar ég sá hana.“

Hvaða kvikmynd hefur komið mest á óvart?
„Sennilega Star Wars: The Last Jedi, vegna ótrúlega lélegs húmors.“

Vanmetinn leikur?
„Ég veit að hún fer í taugarnar á mörgum, en ég held svolítið upp á frammistöðu Shelley Duvall í The Shining.“

Mynd byggð á skáldsögu sem skákar frumgerðinni?
„Klárlega The Meg. Djók.“

Ofmetnasta mynd allra tíma?
„Allt þetta ofurhetjumynda-dæmi. Get það engan veginn. Kannski bara orðinn of gamall.“

Borgin iðar af jazzi

Miðborgin mun iða af jazztónum dagana 5.-9. september þegar fram fer Jazzhátíð Reykjavíkur 2018.

Sunna Gunnlaugsdóttir skipuleggur hátíðina ásamt Leifi Gunnarssyni.

Íslenskt jazzlíf hefur aldrei staðið styrkari fótum en nákvæmlega núna og á hátíðinni gefst færi til að hlýða á framvarðarsveitir í faginu en ekki síður er spennandi samstarf íslenskra flytjenda og erlendra sem er fyrirferðamikið að þessu sinni. Sunna Gunnlaugsdóttir skipuleggur Jazzhátíðina ásamt Leifi Gunnarssyni en þau hafa gert það frá árinu 2015 og eru bæði jazzleikarar og tónlistarkennarar. Við hittum Sunnu á dögunum og forvitnuðumst um dagskrá hátíðarinnar.

Geturðu aðeins sagt okkur frá tilurð Jazzhátíðar Reykjavíkur og hversu oft hún hefur verið haldin? „Jazzhátíð var fyrst haldin árið1990 sem framlag RÚV til norrænna útvarpsdaga. Hún heppnaðist svo vel að ákveðið var að halda árlega hátíð á vegum RÚV og Reykjavíkurborgar og var kölluð RÚREK. Á einhverjum tímapunktu drógu þessir aðilar sig út og FÍH tók að sér umsjón Jazzhátíðar Reykjavíkur og er hún, að ég held, elsta tónlistarhátíð landsins.“

Segðu okkur aðeins frá Jazzgöngunni og setningu hátíðarinnar? „Jazzgangan hefur verið fastur liður í nokkur ár og er einstaklega skemmtileg. Hljóðfæraleikarar og aðrir áhugamenn safnast saman við Lucky Records og stilla saman strengi og svo er marserað niður Laugaveg að Borgarbókasafni við fjöruga tóna hópsins.“

Eigum við von á athyglisverðum böndum og einstaklingum í ár? „Jazzhátíð leggur metnað sinn í að fá framúrskarandi listamenn erlendis frá. Í ár fáum við að upplifa bandaríska gítarsnillinginn Ralph Towner á einleikstónleikum með klassískan gítar, tríó spánska kontrabassaleikarans Giulia Valle sem hefur verið á hraðri uppleið, tíu kvenna norræna sveit Marilyn Mazur, dúóið Skeltr frá Bretlandi og síðast en ekki síst frá Póllandi, Marcin Wasilewski Trio sem hefur verið ein af skrautfjöðrum ECM-útgáfunnar í yfir áratug. Svo koma frábærir einstaklingar í samstarfsverkefnum við Íslendinga, eins og Lage Lund, Lars Jansson, Verneri Pohjola, Pierre Perchaud, Nico Moreaux, Richard Anderson, Miro Herak og Bárður Reinert Poulsen.“

Verður einhver nýbreytni frá fyrri árum hátíðarinnar? „Hátíðin hefur fært sig úr Hörpu þar sem við höfum verið síðustu ár og verður nú í ár í Tjarnarbíói, Iðnó, Hannesarholti, Grand Hótel, Borgarbókasafni og Gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsholti sem nú hafa verið uppfærðar í prýðilegan vettvang fyrir tónlistarflutning. Það gefur okkur kost á að selja inn á staka viðburði í stað passans sem var. Það nýjasta hjá okkur er að bjóða upp á svona late night-viðburð á laugardagskvöldið í Gömlu kartöflugeymslunum. Þar verður partístemning með Skeltr og Una Stef Band frá 23 til 01 og fyrr um daginn eru Andrés Þór & Miro Herak og svo DOH trio með útgáfutónleika.“

Gítarleikarinn Ralph Towner verður með einleikstónleika á Jazzhátíð Reykjavíkur 2018.

Hver er helstu númerin á Íslandi, okkar frægustu jazzarar og jazzbönd? „Jazzsenan okkar er ótrúlega fjölbreytt og því getum við teflt fram mjög fjölbreyttri dagskrá frá ári til árs. Á Jazzhátíð reynum við að tefla fram bæði gömlu kempunum og þeim ungu og fersku. Í Hannesarholti verða kempurnar Agnar Már annars vegar ásamt Lage Lund og hins vegar Sigurður Flosason með Lars Jansson. Óskar Guðjónsson og Matthías Hemstock fagna nýjum diski með Richard Andersson í Iðnó, Scott McLemore með Hilmar Jensson innanborðs er með útgáfutónleika í Tjarnarbíói, og tríó mitt ásamt Verneri Pohjola fagnar einnig nýrri útgáfu á sama stað. Svo eru þessi ungu og fersku, eins og Ingi Bjarni Trio og Sigmar Matthíasson, báðir með útgáfufögnuð í Tjarnarbíó og Þórdís Gerður sextett í Iðnó auk fyrrnefndra atriða í Gömlu kartöflugeymslunum.“

Hver verður hátindur hátíðarinnar, að þínu mati? „Það er ómögulegt að velja eitthvert eitt atriði fram yfir annað en það hlýtur að teljast sérstakt að fá hingað tíu kvenna sveit slagverksleikarans Marilyn Mazur. Hún er eina konan sem átti sæti í sveit Miles Davis, frægasta jazzara fyrr og síðar: Ég sá þessa sveit á sviði fyrir rúmu ári og það voru sannkallaðir töfrar sem umluktu þá tónleika. Sama kvöld leikur svo tríó Marcin Wasilewski sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og á hádegistónleikunum þann daginn syngur Katrín Halldóra sem var svo frábær í hlutverki Ellýjar Vilhjálms ásamt sveit Hauks Gröndal.“

Wasilewski Trio frá Póllandi. Mynd: Bartek Barczyk

Verða margir útgáfutónleikar í tilefni þessa? „Í ár eru sjö útgáfutónleikar sem ber vitni um mikla grósku í íslensku jazzlífi. Fimm af þessum sjö eru með erlenda samstarfsmenn innanborðs og því er augljóst að jazzfólkið okkar stefnir út fyrir landsteinana með verkefnin sín og þar er Jazzhátíð mikilvægur hlekkur í að skapa tækifæri og greiða leið þessa metnaðarfulla fólks.“

Hvert er markmið ykkar með hátíðinni? „Hátíðin er vettvangur alls þess helsta sem er að gerast á sviði innlendrar jazztónlistar og er í raun hápunktur jazzlífsins á Íslandi og árleg uppskeruhátíð innlendra jazztónlistarmanna. Auk þess stendur hátíðin að komu fjölmargra erlendra tónlistarmanna á ári hverju, bæði evrópskra og bandarískra. Hátíðin leitar einnig tækifæra til að koma íslenskum jazzi á framfæri erlendis í gegnum samstarfsvettvang evrópskra jazzhátíða Europe Jazz Network,“ segir Sunna og er mjög spennt fyrir því sem koma skal.

Vert er að geta þess að þeir sem ætla að sækja marga tónleika á Jazzhátíðinni geta nálgast afsláttarpakka, á ferna, sex og átta tónleika. Mikilvægt er að skoða dagskrána vandlega til tryggja að ekkert fari fram hjá manni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.reykjavikjazz.is og www.tix.is.

 

Á eftir sumri kemur sjónvarpsveisla

Hefðbundnu hausti fylgja mikil gleðitíðindi og frábær afsökun til að vera inni – glænýir sjónvarpsþættir og gamlir vinir sem heilsa að nýju. Hér eru nokkrir þættir sem beðið hefur verið eftir með ákveðinni tilhlökkun þannig að leggið þessar dagsetn-ingar á minnið, byrgið ykkur upp af snarli og sætum syndum og kveikið á sjónvarpinu.

Animals (HBO)

Frumsýnd: 3. ágúst

Hér er á ferð þriðja serían af Animals og ef þið hafið ekki kíkt á þessa þætti nú þegar þá mælum við með því að þið takið frá nokkra daga í maraþon hámgláp. Af hverju? Jú, þessir þættir eru eitt það ferskasta í sjónvarpsflórunni í dag. Við erum að tala um framtíðarsýn þar sem New York-borg er laus við mannfólk eftir heimsendi. Eins og nafnið gefur til kynna eru dýr í aðalhlutverki en persónurnar eru margar hverjar afar skrautlegar og þó að serían sé kannski ekki fyrir alla, þá er hún gjörsamlega einstök.

Disenchantment (Netflix)

Frumsýnd: 17. ágúst

Við rennum algjörlega blint í sjóinn með þessa þætti en það er viss gæðastimpill að höfundur The Simpsons og Futurama er maðurinn á bak við Disenchantment. Það kemur ykkur þá líklegast ekki á óvart að serían er teiknuð en henni hefur verið lýst sem afkvæmi The Simpsons og Game of Thrones. Þetta er algjörlega sería fyrir fullorðna og fjallar um ævintýri drykkfelldu prinsessunnar Bean, álfavin hennar Elfo og djöfulinn Luci í veröld sem heitir Dreamland. Að sögn Matts snýst serían um líf og dauða, ást og kynlíf og hvernig á að halda áfram að hlæja í veröld sem er full af þjáningu og hálfvitum.

https://www.youtube.com/watch?v=Gp_RnJcb8Ig

The Innocents (Netflix)

Frumsýnd: 24. ágúst

Þessi nýja Netflix-sería minnir um margt á nútímalega Rómeó og Júlíu, nema hvað Júlía hefur þann eiginleika að bregða sér í hlutverk annarra vera, svokallaður formbreytir. Serían fjallar um kærustuparið June og Harry sem hlaupast á brott saman til að hefja nýtt líf. Þegar þau komast að því að June er formbreytir setur það örlítið strik í reikninginn, sérstaklega þegar þau fá þær fregnir að hún er langt frá því að vera eini formbreytirinn í heiminum. Ó, já svo er líka Íslendingur í veigamiklu hlutverki. Nefnilega hann Jóhannes Haukur Jóhannesson. Þjóðarstoltið, sko!

Ozark (Netflix)

Frumsýnd: 31. ágúst

Sería eitt af Ozark, sem frumsýnd var í fyrra, var einn af óvæntustu smellum síðasta árs og hélt áhorfendum límdum við skjáinn hverja einustu mínútu. Nú er önnur þáttaröð væntanleg og í henni þarf Marty, sem leikinn er af Arrested Development-undrinu Jason Bateman, og fjölskylda hans að þvo miklu meira af peningum og spreyta sig í að reka spilavíti. Jason hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að serían verði enn spennuþrungnari en fyrr og að fjölskyldan lendi í enn fleiri flækjum en í fyrri seríunni. Er það bara hægt?

https://www.youtube.com/watch?v=0vHziRrCYqA

Kidding (Showtime)

Frumsýnd: 9. september

Nú þurfið þið sko rækilega að merkja dagsetninguna því sjálfur Jim Carrey snýr aftur í sjónvarpið sem Jeff, einnig þekktur sem Mr. Pickles. Lífið leikur við Mr. Pickels sem er goðsögn í barnasjónvarpi vestanhafs og moldríkur í þokkabót. En það kemur aldeilis babb í bátinn þegar fjölskyldan hans splundrast og hann reynir sitt besta til að koma henni aftur saman á mjög ljúfsáran og kómískan hátt. Ef þið eruð ekki sannfærð þá er ráð að henda því inn í jöfnuna að Jim Carrey vinnur hér á nýjan leik með leikstjóranum Michel Gondry, en þeir unnu saman í Óskarsverðlaunamyndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Rétt’upp hönd sem er spenntur.

Shameless (Showtime)

Frumsýnd: 9. september

Frábærar fréttir fyrir aðdáendur bandarísku Shameless-þáttanna: Sería 9 er alveg að fara að byrja. Slæmu fréttirnar fyrir þá sem hafa aldrei komið sér í það að horfa á Shameless: Sería 9 er alveg að fara að byrja. Og nei, það er ekki hægt að hoppa rakleiðis inn í níundu þáttaröð af þessum epísku þáttum. Nú þarf fólk að girða sig í brók, taka sér viku frí frá vinnu og hámglápa eða eyða öllum frístundum í að kynnast hinni dæmalausu Gallagher-fjölskyldu. Fyrir okkur hin sem höfum samviskusamlega grátið og hlegið með fjölskyldunni – gleðilegt Shameless.

https://www.youtube.com/watch?v=Xyus5REdmLI

Maniac (Netflix)

Frumsýnd: 21. september

Cary Fukunaga, maðurinn á bak við fyrstu seríuna af True Detective og nýja þáttinn á TNT, The Alienist, leikstýrir hér Jonah Hill og Emmu Stone í tíu þátta seríu sem byggð er á samnefndri norskri þáttaröð sem sló í gegn árið 2014. Jonah og Emma leika tvo geðsjúklinga á hæli sem hafa búið sér til mjög litríkan ævintýraheim sem er eins konar athvarf fyrir þau. Fátt annað er vitað um seríuna, en aukaleikararnir eru ekkert slor heldur – til dæmis Justin Theroux og Sally Field.

This Is Us (NBC)

Frumsýnd: 25. september

Jæja, takið fram vasaklútana, jafnvel nokkur handklæði, því þriðja sería af þættinum sem spilar á allan tilfinningaskalann snýr aftur. Við fáum meira að vita um uppvöxt Jack og hvernig hann varð að þeim manni sem hann var þegar hann fullorðnaðist, skyggnumst betur inn í samband hans og Rebeccu, fáum svör við ýmsum spurningum um fjölskyldu Toby og hágrenjum yfir einni harmsögu eða tveimur. Svo margar spurningar brenna á vörum okkar eftir lokaþáttinn í seríu tvö að við getum bara ekki beðið.

House of Cards (Netflix)

Frumsýnd: 2. nóvember

Jæja, þá er komið að því. Síðasta serían af House of Cards. Og enginn Kevin Spacey þar sem hann var rekinn með skottið á milli lappanna eftir að fjölmargir menn sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Nú er það leikkonan Robin Wright, sem leikið hefur eiginkonu Kevins í þáttunum, hana Claire, sem sest í forsetastólinn og hafa framleiðendur þáttanna notað kassamerkið #myturn, eða #komiðaðmér, til að kynna seríuna. En það er margt fleira sem gæti líka komið á óvart í þáttunum. Verður Doug Stamper loksins hent í steininn og nær Tom Hammerschmidt á endanum að komast að sannleikanum um morðið á Zoe Barnes?

Leikurinn er undirstaða alls

||
||

Handboltakappinn Ólafur Stefánsson sendi nýlega frá sér bókina Gleymna óskin sem hann segir vera fyrir alla sem eru eða voru einu sinni börn.

Ólafur Stefánsson handboltakappi og rithöfundur.

„Gleymna óskin hét upphaflega Gleymna hjartað. Hún er saga glaðrar hreinnar óskar sem breytir sér í eins konar hrekkjalóm til að leysa eigin ráðgátu – töfrar fram eins konar alvarleik. Jafnvel hátíðleik,“ segir Ólafur um bókina.
Sagan er afleiðing ofurtrúar Ólafs á leikinn sem undirstöðu alls. Hún varð til úr reynslu hans af tónlist, íþróttum, spuna, heimspekinámi og fallegum hugleiðslu- og dansseremóníum. „Hún leitar í smiðju shamanisma, goðafræði okkar og annarra landa, núvitund og austræna heimspeki. Hún leitar í Blíðfinn, Freyju, Ásgarð, völundarhús, afann og ömmuna, töfralampa, hella, lykla, kastala og prinsessur, móðurina og pabbann, náttúruna, þulur, tímaleysi, ólógík og margt fleira,“ útskýrir Ólafur.

Bók Ólafs Stefánssonar fjallar um hreina ósk sem breytir sér í hrekkjalóm til að leysa eigin ráðgátu.

„Mér tókst með hjálp KeyWe, pælingabókarinnar minnar, að halda utan um allar hugmyndirnar og að lokum að gera textann eins stuttan og einfaldan og hægt var. Við hverja litla hugmynd teiknaði ég litla mynd. Svo komst ég að því að myndirnar mínar voru Gleymnu óskinni ekki samboðnar og því fékk ég með mér í lið einn þann besta og þægilegasta teiknara sem til er á landinu, Kára Gunnarsson. Við gengum í fóstbræðralag og fórum upp í sumarhús mömmu og úr varð dans mynda og orða.“ Útgefandi er Sögur útgáfa.

LC2-stóllinn einna flottastur

Snorri Björn Sturluson er löggiltur fasteignasali hjá Domusnova fasteignasölu og starfar einnig sem sjálfstæður lögmaður. Hann er 37 ára gamall, barnlaus og býr í Salahverfinu í Kópavogi.

Snorri Björn Sturluson segist fyrir þó nokkru hafa tekið ákvörðun um að vinna ekki um helgar en hafi því miður ekki getað staðið við hana.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Fjölbreytileikinn og frelsið er klárlega það sem heillar mest við starfið og hefur gert alla tíð síðan ég byrjaði að selja fasteignir árið 2005. Ég er alltaf að fást við ný verkefni, nýjar áskoranir, hitta nýtt fólk og vinna með nýjar fasteignir sem kemur í veg fyrir að ég staðni í starfi eða hreinlega leiðist. Þetta er lifandi starf sem getur verið erfitt á köflum en á móti mjög gefandi.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Vinnudagurinn byrjar oftast á milli kl. 8 og 9 morgnana og endar á milli kl. 18 og 19. Hluta dagsins eyði ég á skrifstofunni en svo er ég mikið á ferðinni að hitta fólk og skoða og sýna fasteignir. Þá er algengt að ég verji tíma á kvöldin í að svara tölvupóstum og klára ýmis verkefni. Fyrir þó nokkru tók ég ákvörðun um að vinna ekki um helgar en hef því miður ekki getað staðið við hana. Þá er yfirleitt ró og næði á skrifstofunni og ég kem miklu í verk.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólkið sem býr þar og þeirra persónulegu munir. Það er til dæmis gaman að sjá mikið af myndum af fjölskyldumeðlimum eða ættingjum, falleg málverk eða húsgögn sem segja einhverja sögu. Ekki bara allt svart og hvítt eða úr IKEA þó að það sé auðvitað frábær verslun sem ég fer oft í. Ég þarf aðeins að taka mig á hvað varðar þetta atriði og gera meira kósí heima hjá mér.“

Getur þú líst þínum stíl? „Hann er klárlega mínimalískur, það er að segja að ég vil ekki hafa mikið drasl eða óþarfa dót í kringum mig. Það þvælist bara fyrir og safnar ryki. Ég vil hafa reglu á hlutunum og gæði umfram magn. Ég hef verið hrifinn af skandinavískri hönnun, ljósum og léttum tónum en hef undanfarið hrifist meira af dekkri og hlýlegri litum.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? ,,Ég get ekki sagt það og er það aðallega vegna þess að ég hef ekki kynnt mér arkitekta eða arkitektúr nægilega mikið. Ég er þó mjög hrifinn af húsinu að Bakkaflöt 1 í Garðabæ (húsið í myndinni Eiðurinn eftir Baltasars Kormák) en það teiknaði Högna Sigurðardóttir arkitekt. Þá er ég hrifinn af því sem Hanna Stína og Rut Kára hafa verið að gera í innanhússarkitektúr.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Það húsgagn sem mér finnst einna flottast er LC2-stóllinn frá árinu 1928 frá ítalska hönnunarhúsinu Cassina en stólinn hönnuðu Le Corbusier, Pierre Jeanneret og Charlotte Perriand. Ég væri til í svoleiðis stóla og sófa í betri stofuna. Í svörtu að sjálfsögðu.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Stórt er spurt. Ég var voðalega mikill bílakall þegar ég var yngri og alltaf hrifinn af Range Rover. Ég væri til í nýjan svoleiðis.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Svartur.“

Hvar líður þér best? „Mér líður yfirleitt best innan um góða vini og fjölskyldu. Ég tel mig vera heppinn með fólkið í kringum mig og hef gaman að verja tíma með því. Þá er heldur ekki slæmt að liggja á sólarströnd í 30 gráðu hita með einn kaldan í hendi eða spila golf á fallegum golfvelli í góðum félagsskap.“

Er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn? „Mig langar í sólpall í garðinn og ég ætlaði að láta byggja eitt stykki fyrir mig í sumar. Síðan kom sumarið ekkert og ég eyddi öllum peningunum í utanlandsferðir svo pallurinn verður að bíða þangað til á næsta ári.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Það eru margir flottir og góðir veitingastaðir á Íslandi en í fljótu bragði dettur mér enginn staður í hug sem mér finnst afgerandi svalur. Það hafa verið opnaðir margir spennandi staðir undanfarin ár sem mig langar að prófa en á eftir að láta verða af því. Ég hef hins vegar alltaf gaman af því að fara á Sushi Social, þar er gott andrúmsloft og góður matur. Þá er Black Box töff pizzastaður og Lebowski Bar með frábært þema og góða borgara.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? „Ég er hrifinn af funkisstíl, það er að segja einföldum byggingarstíl, og húsum með mikilli lofthæð og stórum gluggum. Þá er ég einnig hrifinn af fallegum gömlum og virðulegum byggingum en því miður er ekki mikið af þeim hér á landi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … láta draumana sína rætast.

 

Tilnefnd til virtra verðlauna í Noregi

|
|

Agnes Árnadóttir er framkvæmdastjóri og einn af stofnendum ferðaþjónustufyrirtækisins Green  Wave Holding AS. Félagið sem var stofnað í byrjun þessa árs hefur látið hanna nýstárlegt rafknúið skip sem mun umbylta farþegasiglingum í fjörðum Noregs.

Skipið verður gert út til skoðunarferða og skemmtisiglinga um innfirði Norður-Noregs árið um kring.

Skipið sem þegar hefur fengið nafnið Brim I er í smíðum í Álasundi og verður 25 metra löng tvíbytna með rými fyrir 140 farþega. Skipið verður gert út til skoðunarferða og skemmtisiglinga um innfirði Norður-Noregs árið um kring. Áætlað er að nýsmíðin verði tilbúin til afhendingar næsta sumar og stefnt er á fyrstu ferð frá Lófóten í ágúst 2019. Heimahöfn verður í Tromsø og þaðan verður boðið upp á ferðir yfir vetrarmánuðina en vetrarferðamennska hefur vaxið mikið í Norður-Noregi.

Agnes sem er fædd og uppalin á Íslandi er reynslubolti á sviði ferðaþjónustu á sjó en hún starfaði um árabil fyrir íslenska ferðaþjónustufyrirtækið Norðursiglingu. Hún stýrði m.a. samstarfsverkefni Norðursiglingar og Hurtigruten í Noregi um þróun umhverfisvænna siglinga, áður en hún söðlaði um og stofnaði eigið fyrirtæk  ásamt félaga sínum Espen Larsen-Hakkebo með aðkomu fjárfesta.

„Okkur hefur dreymt um það lengi að byggja og þróa nýtt, nútímalegt og umhverfisvænt skip fyrir ferðaþjónustu. Noregur með alla sína strandlengju, spennandi firði og vaxandi túrisma þarf að geta boðið upp á eitthvað sem er í takt við framtíðina,“ segir Agnes en að hennar sögn eru Norðmenn komnir langt á sviði rafvæðingar farartækja, sérstaklega hvað bílaflotann varðar og hafa mikla trú á lausnamiðaðri tæknivæðingu.

„Við erum að þróa skip sem stenst kröfur framtíðarinnar og ryðjum þannig brautina að umhverfisvænni ferðaþjónustu um allan heim.“

Agnes bendir á að hávær umræða hafi verið í Noregi undanfarin ár um umferð stórra skemmtiferðaskipa í djúpum fjörðum og þá mengun sem þau valda. „Líklega verður þessum stóru skipum bannað að sigla alla leið inn í umrædda firði og hugmyndir eru uppi um að hafa ákveðin svæði  útblásturslaus, til að draga úr mengun. „Í ljósi þess fannst okkur skynsamlegt að fara í þessa fjárfestingu núna. Við erum að þróa skip sem stenst kröfur framtíðarinnar og ryðjum þannig brautina að umhverfisvænni ferðaþjónustu um allan heim,“ útskýrir Agnes og tekur fram að augljóslega sé takmarkið að minnka kolefnisfótspor ferðaþjónustunnar en það sé ekki síður mikilvægur kostur að skipið er fullkomlega hljóðlátt.

Kerfishönnun skipsins er frekar einföld með það í huga að ekki þurfi stóran hraðhleðslubúnað sem eykur álag á raforkukerfi í landi. „Við getum í raun hlaðið hvar sem er en erum þá með hæghleðslu og  þurfum ekki sérstakan búnað annan en innstungu,“ segir hún en fullhlaðnar rafhlöður skipsins gefa 800 kílówattstundir af raforku sem endist í um 10 klst. á siglingu miðað við 10 hnúta hraða. Agnes segir að verkefnið hafi fengið mikla og jákvæða athygli fjölmiðla ytra; sérstaklega eftir að það var tilnefnt til virtra umhverfisverðlauna sem Orku- og loftslagsstofnun Noregs veitir frumkvöðlafyrirtækjum innan grænnar tækni árlega. Verðlaunin sem ganga undir nafninu „Spir“ eru hugsuð sem hvatning til að flýta fyrir því ferli að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti og skipta yfir í sjálfbæra orku í Noregi. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Björgvin 4. september nk.

 

Við munum þig Stefán Karl

Þær fregnir bárust um miðbik vikunnar að einn ástsælasti leikari landsins, Stefán Karl Stefánsson, væri látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein.

Það má með sanni segja að Stefán Karl hafi barist hetjulega við meinið, með eiginkonu sína, stórleikkonuna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, sér við hlið. Hann greindist með krabbamein í brishöfði haustið 2016 og fór í kjölfarið í nokkrar aðgerðir og krabbameinsmeðferð. Ári síðar leit út fyrir að Stefán Karl væri laus við meinið. Fyrr á þessu ári var það síðan reiðarslag fyrir fjölskyldu leikarahjónanna þegar ný meinvörp greindust í Stefáni Karli, meinvörp sem ekki væri hægt að fjarlægja með skurðaðgerðum.

Íslendingar, sem og aðdáendur Stefáns Karls um heim allan, hafa fylgst agndofa með baráttu leikarans, enda hafa þau hjónin ávallt barist með jákvæðni og bjartsýni að vopni. Steinunn Ólína raunar kom þessum baráttuvilja hvað best í orð í pistli sem hún skrifaði á vef sinn kvennabladid.is fyrr á árinu:

„Ég mun aldrei bjóða þér að búa hjá mér því það er nákvæmlega ekkert varið í þig, Dauði. Vægðarleysi og grimmd þín er fyrirlitleg. Fokkaðu þér, Dauði.“

Að ósk Stefáns Karls verður engin jarðarför, en ösku hans verður dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Auk eiginkonu lætur Stefán Karl eftir sig fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

„Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist“

Stefán Karl var innfæddur Hafnfirðingur og hóf leiklistarferilinn með leikfélagi Hafnarfjarðar þegar hann var þrettán ára. Þá steig hann einnig reglulega á svið í Öldutúnsskóla þegar hann stundaði þar nám. Þjóðin tók fyrst eftir Stefáni Karli í Áramótaskaupi Sjónvarpsins árið 1994 þar sem hann lék fréttamann, á móti óheiðarlegri sendiráðsfrú sem leikin var af gamanleikkonunni Eddu Björgvinsdóttur.

Fimm árum síðar útskrifaðist Stefán Karl úr Leiklistarskóla Íslands. Sama ár landaði hann því hlutverki sem hann er hvað þekktastur fyrir – hins óborganlega, uppátækjasama og seinheppna Glanna glæps í Latabæ. Um framhaldið þarf varla að fjölyrða en Latibær náði heimsathygli þegar þættirnir hófu göngu sína á bandarísku stöðinni Nickelodeon árið 2004. Í framhaldinu flutti Stefán Karl ásamt fjölskyldu til Kaliforníu.

https://www.youtube.com/watch?v=4BIpDIelf8s

Í kjölfar vinsælda Latabæjar landaði Stefán Karl hlutverki Trölla í samnefndum söngleik byggðum á bók Dr. Seuss um hvernig Trölli stal jólunum. Hann lék Trölla í fjölmörgum borgum í Bandaríkunum og Kanada, alls sex hundruð sinnum fyrir um tvær milljónir aðdáenda. Til marks um vinsældir leikarans hafa fjölmargir erlendir miðlar minnst hans, meðal annars BBC, CNN og Daily Mail. Hann var samt ekki aðeins fjölhæfur leikari, heldur ötull baráttumaður gegn einelti og rak góðgerðasamtökin Regnbogabörn um árabil. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Þótt Stefán Karl hafi heillað íslenska aðdáendur í ýmsum verkum á stóra sviðinu er þó eitt verk sem stendur upp úr – Með fulla vasa af grjóti. Það verk var fyrst sett upp árið 2000 og sló rækilega í gegn. Það fór aftur á fjalirnar árið 2012 og í þriðja sinn í fyrra. Þá hafði Stefán Karl nýlega lokið sterkri geislameðferð. Við skulum leyfa leikaranum sjálfum að eiga lokaorðin úr viðtali Morgunblaðsins við hann eftir síðustu sýningu Með fulla vasa af grjóti – tilvitnun sem einkenndi lífsspeki leikarans:

„Já, núna er þessum kafla lokið. Eins og Dr. Seuss sagði: „Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist.““

Minning um mann

Fjölmargir hafa minnst Stefáns Karls á samfélagsmiðlum síðustu daga. Leyfum minningunum um merkan mann að tala sínu máli.

„Þetta er gargandi þögn“

Sérfræðingur segir íslenskar eftirlitsstofnanir hafa brugðist í plastbarkamálinu.

Ástríður Stefánsdóttir, læknir og heimspekingur, telur að ekki hafi farið fram nægileg umræða um plastbarkamálið svokallaða hér á landi af hendi eftirlitsstofnana og eins Landlæknisembættisins og heilbrigðismálaráðuneytis en einnig Læknafélags Íslands.

,,Þetta snýr að Landlæknisembættinu, Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu,“ segir hún. „Læknafélag Íslands hefur heldur ekki lýst yfir neinni skoðun á þessu máli sem mér finnst skrýtið vegna eðli málsins, umfangs þess og af þeirri ástæðu að sjúklingur í íslensku heilbrigðiskerfi er þolandi í þessu máli. Allar þessar stofnanir og Læknafélagið virðist ekki hafa nokkurn fókus á sjúklinginn í þessu máli heldur eingöngu sínar eigin stofnanir og starfsmenn þeirra. Þetta er gargandi þögn.“

Var ekki í lífshættu
Umrætt plastbarkamál, sem var til umfjöllunar í Mannlífi 3. ágúst, lýtur að tilraunaaðgerð sem gerð var á Andemariam Beyene árið 2011 en hann lést um tveimur og hálfi ári eftir að hafa fyrstur manna undirgengist ígræðslu plastbarka á Karólínska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð.

Árið 2016 skipuðu Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, óháða rannsóknarnefnd undir forystu Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, til að rannsaka málið og aðkomu þessara stofnana og viðkomandi starfsmanna þeirra í málinu.

,,Allar þessar stofnanir og Læknafélagið virðist ekki hafa nokkurn fókus á sjúklinginn í þessu máli heldur eingöngu sínar eigin stofnanir og starfsmenn þeirra. Þetta er gargandi þögn.“

Í Rannsóknarskýrslu nefndarinnar kemur meðal annars fram að tilvísun hafi verið breytt hér á landi til að réttlæta aðgerðina á Andemariam sem var með hægvaxandi æxli í barka. Ekki hafi verið leyfi fyrir aðgerðinni, hvorki frá vísindasiðanefnd né til að nota gervibarkann og síðar hafi líka komið í ljós að aðgerðir af þessu tagi höfðu aldrei verið prófaðar á tilraunadýrum eins og Paolo Macchiarini, ítalskur prófessor sem leiddi skurðlæknateymið í aðgerðinni, hélt fram.

Þá segir í Rannsóknarskýrslunni að almennu ástandi Andemariam hafi hrakað eftir aðgerðina og að krufning hafi leitt í ljós að ígræddi barkinn hafði losnað. „Að auki fannst krónísk sýking í brjóstkassanum og tappi í hægri lungnaslagæð. Hins vegar fannst ekki krabbamein í líkama hans.“

Um andlát Andemariam og tveggja annarra sjúklinga, sem gengust undir plastbarkaígræðslu í Karólínska háskólasjúkrahúsinu, segir enn fremur: ,,Sjúklingarnir voru ekki dauðvona. Enginn ígræðslusjúklinganna þriggja var í yfirvofandi lífshættu þegar aðgerðirnar voru gerðar.“

Enginn talað við ekkjuna
Í tilkynningu um skýrsluna sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendu síðar frá sér segir meðal annars að í skýrslunni komi fram að tilteknir starfsmenn við Háskóla Íslands og Landspítala hafi dregist inn í málið á árinu 2011 þegar sjúklingur við Landspítala hafi farið til rannsóknar í Svíþjóð vegna krabbameins í barka. Þar hafi hann gefið sænkum lækni samþykki til að gangast undir aðgerð þar sem græddur var í hann gervibarki. ,,Sú aðgerð leiddi ekki til bata sjúklingsins og lést hann á KS í janúar 2014.“ Enn fremur segir að talið sé að að á þeim tíma sem aðgerðin var framkvæmd hafi ekki legið fyrir vísindalegur grundvöllur fyrir gervibarkaígræðslum í fólk. Hugmynd um það hafi ekki aðeins stangast á við vísindi og reynslu heldur hafi jafnframt verið of snemmt að gera tilraunir með slíkt á mönnum.

Ein af niðurstöðum í Rannsóknarskýrslunni var að Landspítalinn tæki til athugunar að ekkju Andemariams, Merhawit Baryamikael Tesfaslase, yrði útveguð fjárhagsleg aðstoð til að hún gæti ráðið sér lögfræðing til að leita réttar síns gangvart Karólínska háskólasjúkrahúsinu. Í fyrrnefndu viðtali við Mannlíf 3. ágúst upplýsti Merhawit hins vegar að hvorki hefði verið haft sambandi við hana frá Karólínska háskólasjúkrahúsinu né Landspítala.

Enn hafa engin svör borist frá Embætti landlæknis um hvers vegna stofnunin hafi ekki stigið inn í þetta mál, en þess má geta að forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins var Birgir Jakobsson, sem síðar varð landlæknir hér á landi og gegndi því embætti árið 2016 þegar rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala skipuðu óháðu nefndina til að rannsaka plastbarkamálið.

Undrast afskiptaleysi Embættis landlæknis
Ástríður er undrandi á því að Embætti landlæknis hafi ekki haft afskipti að svo alvarlegu máli þar sem Andemariam var í umsjá íslenskrar heilbrigðisstofnunar og segir að það sé í raun fyrir röð tilviljana að málið hafi farið aftur í umræðuna árið 2016.

Hún gagnrýnir enn fremur fjölmiðla fyrir að hafa ekki sinnt skyldu sinni í að upplýsa almenning um málið, eins og hafi komið í ljós þegar Rannsóknarskýrslan var kynnt í Norræna húsinu með blaðamannafundi í nóvember 2017. Fjölmiðlar hafi ekki gert grein fyrir þeim atriðum sem skiptu máli og dregið upp yfirborðskennda og villandi mynd af því sem gerðist í málinu.

„Segjum að þetta hefði verið íslenskur sjúklingur og Ragnar Aðalsteinsson hefði verið lögfræðingur þolanda, þá hefði hann farið í Kastljós,“ segir hún. „Umfjöllunin hefði orðið allt önnur og mun sterkari mynd hefði verið dregin upp af stöðu sjúklingsins ef þetta hefði ekki verið Erítremaður með konu sem hefur ekki landvistarleyfi hér og er ekki með rödd. Það er enginn lögfræðingur sem túlkar þessa hlið.“

Ástríður kallar eftir opinberri umræðu um málið. „Opinber umræða þarf að fara fram,“ segir hún og tekur fram að hún telji enn vera opna enda í málinu og það verði svo þar til málinu verði lokið erlendis. Málið muni að öllum líkindum rata í kennslubækur og þar verði það gert upp.

Faðir Katrínar Leu var skotinn til bana

Katrín Lea Elenudóttir hlaut nýverið titilinn Miss Universe Iceland en keppnin var haldin fyrr í mánuðinum.

Tíu ár eru síðan Katrín Lea fluttist hingað til lands en hún fæddist í Síberíu. Hún segir úrslitin síður en svo hafa komið sér á óvart en hún hafi stefnt að þátttöku síðastliðin tvö ár og loks öðlast þátttökurétt í ár en hún er yngsti keppandinn sem borið hefur sigur úr bítum.

Eftir flutningana frá Rússlandi tóku við miklar áskoranir þar sem Katrín Lea talaði enga íslensku og litla ensku. Hún hélt þó fast í móðurmálið og mætti í tungumálatíma hvern laugardag þar sem innflytjendabörn bæði frá Rússlandi og Lettlandi hittust og báru saman bækur sínar. „Þetta reyndist mér mjög erfitt því í Rússlandi átti ég marga vini en hér á Íslandi vildi enginn vera með mér en ég vildi bara fylgja mömmu minni hingað til lands.“

„Mér leið á köflum eins og ég væri eitthvað fötluð því börnin höguðu sér stundum þannig, eins og það væri eitthvað að mér af því ég kunni ekki tungumálið.“

„Þau vildu ekki tala við mig og um tíma þurfti ég að byggja öll samskipti á handahreyfingum. Ég vissi samt strax að hér væri betra líf þrátt fyrir að enginn hafi beinlínis sagt mér það. Einhvern veginn fékk ég það á tilfinninguna.“

Þremur árum eftir komuna til Íslands sáu Katrín Lea og móðir hennar fréttir í rússneska sjónvarpinu þar sem greint var frá andláti föður hennar. Hann hafði verið skotinn til bana.

„Ég þekkti pabba minn aldrei neitt en mamma sagði skilið við hann fljótlega eftir að ég kom í heiminn. Hann reyndi aldrei að hafa samband en hann var um tíma tengdur inn í rússnesku mafíuna sem við teljum að sé ástæða þess að honum var síðar ráðinn bani.“

„Fjölskylda hans hafði aldrei neitt samband við mig heldur en það voru miklir átakatímar í Rússlandi á þessum tímum, eftir fall Sovétríkjanna.”

Ástæða þess að Katrín ákvað að taka þátt er vegna þess að hún vissi hversu stór vettvangur fegurðarsamkeppni gæti verið fyrir stelpur til þess að koma hugmyndum sínum á framfæri.

„Mig langar að stofna samtök hér á landi fyrir innflytjendabörn og hjálpa þeim enda stendur málefnið mér nærri.“

„Ég myndi jafnframt vilja að íslensk börn gætu tekið þátt því aðstoð þeirra er svo mikilvæg í tungumálakunnáttunni. Sjálf eyddi ég óteljandi laugardögum í einkakennslu til þess að viðhalda rússneskunni minni enda tala ættingjar mínir í Síberíu bara rússnesku. Ég hefði aldrei viljað gleyma rússneskunni en þrír klukkutímar í viku utan skólatíma er langur tími fyrir barn. Ég myndi vilja sjá þeim tíma eytt innan hefðbundinnar skólakennslu.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Hallur Karlsson.
Förðun / Sara Dögg Johansen.

Gerði mynd í miðri #metoo byltingu

Kvikmyndin Lof mér að falla eftir þá Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson verður frumsýnd innan skamms en myndin er byggð á sannsögulegum atburðum.

Baldvin segir gerð myndarinnar hafa verið fróðlega en um leið erfiða, enda umfjöllunarefnið vandmeðfarið. Eðli málsins samkvæmt reyndust hlutverkin bæði líkamlega og andlega krefjandi og viðurkennir Baldvin að mörk þess að vera leikstjóri og sálfræðingur hafi á köflum verið óljós.

„Það komu alveg dagar þar sem ég var eitthvað allt annað en leikstjóri og það komu líka dagar þar sem þetta reyndist stelpunum of erfitt.“

„En maður verður að velja krakka sem maður treystir og ég vissi að þær hefðu bæði þroskann og kunnáttuna. Ég bað þær frá fyrsta degi að segja mér ef ég væri að keyra þær út og þær voru því alltaf meðvitaðar um að þær hefðu stjórnina. Mestu máli skiptir að hafa opið og gott samband svo allir geti sagt það sem þeir vilja segja.“
Myndin er tekin upp í miðri #metoo-sprengju og segir Baldvin byltinguna hafa varpað nýju ljósi á alla hans vinnu. „Ég hef unnið svo margar erfiðar senur og velti því alvarlega fyrir mér hvort ég hefði á einhverjum tímapunkti farið fram úr eða skaðað einhvern.“

„Eftir myndina hringdi ég í alla kven- og karlleikara sem hafa tekið þátt í svona senum og spurði hvort ég hefði ofboðið þeim, en sem betur fer voru viðbrögðin bara jákvæð.“

„Það var engu að síður gott að taka öll þess símtöl og taka út hvernig maður er, því þegar ég gerði Óróa, sem dæmi, var ég ekki meðvitaður um þetta. Ég held að í eðli mínu hafi ég alltaf reynt að gera rétt án þess að ofbjóða neinum en þetta er vandmeðfarið starf.“

„Það er, sem dæmi, sena í Vonarstræti þar sem ég gekk hrikalega langt og leikkonan endaði á sjúkrahúsi. Við vorum öll miður okkar, en ég stoppaði ekki tökuna. Það er það sem ég sé mest eftir núna, en við erum bestu vinir í dag.“

Í kjölfarið hélt Baldvin tvær prufusýningar á myndinni Lof mér að falla, annars vegar fyrir konur sem höfðu staðið framarlega í baráttunni og hins vegar fyrir karla. „Þetta er vandmeðfarið, kvikmynd um gróft ofbeldi gegn konum, skrifuð og leikstýrt af karlmönnum.“

„Við Biggi erum báðir femínistar og teljum okkur meðvitaða um hvað við erum að gera en ég vildi fá tilfinningu fyrir því hvaða punkta ég fengi frá konum og hvaða punkta frá körlum.“

„Viðbrögðin voru rosalega sterk og góð en punktarnir voru svo áhugaverðir því konurnar virtust ná því betur sem við vorum að reyna að segja meðan karlarnir horfðu öðruvísi á myndina.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Texti / Íris Hauksdóttir.
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir.

Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

|||||
|||||
Björgólfur Jóhannsson.

Björgólfur Jóhannsson tilkynnti það í vikunni að hann væri hættur sem forstjóri Icelandair. Kom tilkynningin í kjölfar nýrrar afkomuspár félagsins, en hún lækkaði frá því sem áður var. Í tilkynningunni sagði Björgólfur að ákvarðanir sem hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni hafi verið teknar á hans vakt, þar með talið breytingar á leiðarkerfi Icelandair. Því hafi hann tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu.

Mikið hefur verið fjallað um erfiðleika íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, síðustu vikur, en gengi bréfa í Icelandair Group hríðféllu eftir að ný afkomuspá var birt og Björgólfur tilkynnti uppsögn sína.

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Bogi Nils Bogason.

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, hefur tekið við forstjórastarfinu tímabundið, en miklar vangaveltur eru innan viðskiptalífsins og ferðaþjónustunnar, hver taki við af Björgólfi og reyni að snúa gengi fyrirtækisins við. Álitsgjafar Mannlífs telja ólíklegt að Bogi verði ráðinn forstjóri til langstíma, enda hefur hver svört afkomuviðvörunin á fætur annarri verið birt á vakt hans sem fjármálastjóra. Þó reynslumikill sé telja álitsgjafar hann mögulega skorta djúpa þekkingu á rekstrinum til að taka við af Björgólfi.

Sagði upp í byrjun ágúst

Jón Karl Ólafsson.

Eitt nafn sem kemur upp sí og æ hjá álitsgjöfum Mannlífs er Jón Karl Ólafsson, sem varð forstjóri Icelandair árið 2004 og síðan forstjóri Icelandair Group á árunum 2005 til ársloka 2007. Ku hann vera ansi líklegur í starfið, sérstaklega í ljósi þess að fyrir stuttu var sagt frá uppsögn hans sem framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia. Sú tilkynning barst í byrjun ágúst, en ljóst er að það hafi verið aðdragandi að uppsögn Björgólfs hjá Icelandair. Jón Karl er mikill reynslubolti, en hann var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands á árunum 1999 til 2004 og tók við sem forstjóri JetX/Primera Air árið 2008. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðal annars Útflutningsráðs Íslands og Samtaka ativnnulífsins.

Helgi Már Björgvinsson.

Reynslumikill og vel menntaður

Helgi Már Björgvinsson hefur einnig verið nefndur í sömu andrá og forstjórastóllinn, en hann er í stjórnandastöðu hjá Icelandair Group og sinnir meðal annars verkefnum sem koma að stefnumótun hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið lengi hjá Icelandair, allt frá árinu 1999, og hefur unnið út um allan heim fyrir fyrirtækið, til dæmis sem sölu- og markaðsstjóri og svæðisstjóri. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að ef ákveðið verði að ráða innanbúðarmann í forstjórastarfið sé Helgi Már einn vænsti kosturinn. Mjög reynslumikill og vel mentnaður, með BS í markaðs- og stjórnunarfræði frá háskólanum í Suður-Karólínu og meistarapróf í viðskiptafræði frá SCP-EAP European School of Management í París.

Erfitt að finna forstjóra úr ferðaþjónustunni

Halldór Benjamín Þorbergsson.

Álitsgjafar vefsins telja Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, einnig góðan kost en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group. Halldór er menntaður hagfræðingur og reyndur stjórnandi, en sumir álitsgjafar Mannlífs efast þó um að hann verði fyrir valinu sökum lítillar reynslu í ferðaþjónustu.

Í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, var síðan sagt frá því að nafn Jóns Björnssonar, forstjóra smásölukeðjunnar Festar, væri ofarlega á blaði þar sem hann hefði töluverða reynslu af því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að Jón sé sterkur kandídat í starfið.

Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að erfitt verði fyrir Icelandair Group að finna íslenskan forstjóra með mikla reynslu úr ferðaþjónustu og því gæti farið svo að leitað verði út fyrir landsteinana, þó álitsgjöfum finnist það ólíklegt. Einhverjir sem Mannlíf ræddi við telja líklegt að næsti forstjóri verði einhvers konar frontur fyrir fyrirtækið, sem myndi þá þýða að styrkja þyrfti framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Frikki Dór og Lísa orðin hjón

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór Jónsson gekk að eiga sína heittelskuðu, Lísu Hafliðadóttur, við fallega athöfn í Toskana-héraðinu á Ítalíu í dag.

Fjölmargir vinir og vandamenn voru viðstaddir brúðkaupið, og hafa raunar notið veðurblíðunnar á Ítalíu síðustu daga. Meðal gesta eru að sjálfsögðu bróðir Friðriks, tónlistarmaðurinn Jón Jónsson, tónlistargúrúinn Ásgeir Orri, leikkonan Júlíana Sara Gunnarsdóttir og tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason.

Gestir hafa verið duglegir að birta myndir úr ævintýrinu á Instagram undir myllumerkinu #friðlísing, og má sjá nokkrar þeirra hér fyrir neðan.

Mannlíf óskar brúðhjónunum innilega til hamingju með daginn.

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

A post shared by Rósa María (@rosamariaa) on

A post shared by Thelma Smára (@thelmasmara) on

„Þessi stund var töfrum líkust“

„Ég gleymi því aldrei þegar ég horfði á prufuna hans,“ segir Simon Duric, handritshöfundur Netflix-seríunnar The Innocents sem hóf streymisgöngu sína fyrir stuttu, í viðtali við Den of Geek!. Einn af leikurum seríunnar er Jóhannes Haukur Jóhannesson, en þættirnir fjalla um ungt kærustupar sem flýr að heiman og kemst svo að því að stúlkan er formbreytir. Raunar eru margir í heiminum formbreytar – eitthvað sem parið gerði sér enga grein fyrir.

Eins og fram kemur í greininni var Jóhannes Haukur beðinn um að senda inn áheyrnarprufu sem hann tók upp sjálfur þar sem lék senu þar sem persónan hans er tekin yfir af formbreyti á unglingsaldri. Bæði Simon, og höfundurinn Hania Elkington, eru sammála um að þessi prufa hafi sannfært þau um að serían gæti orðið að raunveruleika, en þau voru ávallt staðráðin í því að túlka formbreyta með eins litlum tæknibrellum og hægt væri.

„Þetta var átakanlegt, gjörsamlega átakanlegt. Og þetta er stór og sterkur náungi. Við hugsuðum…já! Þetta getur virkað. Þetta getur virkað,“ segir Simon um stundina þegar hann horfði á áheyrnarprufu Jóhannesar.

„Þetta var stundin þegar við hugsuðum að þessi brjálaða hugmynd gæti verið útfærð í sjónvarpi,“ bætir Hania Elkington við.

„Hann gerði svolítið sem ég hef aðeins séð ungar stúlkur gera. Þær toga bolinn sinn niður til að reyna að fela sig sjálfar. Bara þessi eina hreyfing sagði heilanum mínum að þetta væri ung stúlka. Þessi stund var töfrum líkust,“ bætir hún við.

The Innocents hafa fengið mjög góða dóma, sem gerir það að verkum að líklegra er að gerð verði önnur þáttaröð fljótlega. Á meðan situr Jóhannes Haukur þó ekki auðum höndum. Nýjasta mynd hans, Alpha, var frumsýnd í vikunni og hann er nú við tökur á kvikmyndinni Bloodshot, þar sem hann leikur rússneskan skúrk á móti stórstjörnunni Vin Diesel.

„Forréttindi að starfa við mitt stærsta áhugamál“

 Förðunarsnillingurinn Natalie Hamzehpour starfar sem þjálfari og almannatengill á snyrtivörusviði Nathan & Olsen. Natalie er 24 ára en hefur þrátt fyrir ungan aldur skipað sér í fremstu röð förðunarfræðinga á Íslandi. Við fengum hana til að segja aðeins frá sjálfri sér, starfinu og förðunartrendunum fyrir haustið.

Natalie er fædd og uppalin í Þýskalandi en hefur búið á Íslandi síðastliðin 11 ár. Hún hóf feril sinn sem sminka í Borgarleikhúsinu og hefur síðan þá unnið fjölmörg störf í faginu. Aðspurð segir hún áhugann á förðun hafa kviknað sem barn. „Mamma mín er hárgreiðslukona og pabbi minn var módel og ég fékk oft að fylgjast með á bak við tjöldin þegar mamma var með stórar sýningar fyrir Paul Mitchel. Ég hef alltaf heillast af förðun og fannst skemmtilegast að fylgjast með förðunarfræðingunum vinna sína vinnu. Mamma var með NoName á stofunni hjá sér á þessum tíma og ég var svo heppin að fá að eiga prufurnar og fékk meira að segja að hafa standinn inni í herberginu hjá mér þegar hún fékk nýja. Svo fékk ég vinkonur heim til mín eftir skóla til að vera módel hjá mér, mér fannst hreinlega ekkert skemmtilegra en að farða,“ segir hún.

Þessi brennandi áhugi á förðun hefur síst farið minnkandi með árunum en Natalie starfar, sem fyrr segir, sem þjálfari og almannatengill á snyrtivörusviði Nathan & Olsen. „Starf mitt felst í því að halda námskeið fyrir sölufólkið okkar og þjálfa vöruþekkingu þess. Ég sé einnig um allt sem tengist pressu og áhrifavöldum. Í haust mun ég samhliða því kenna förðun í Makeup stúdíói Hörpu Kára og er ótrúlega spennt. Ég lít á það sem forréttindi að geta starfað við mitt stærsta áhugamál og vera umkringd skemmtilegu fólki á hverjum degi. Starfið er líka svo fjölbreytt að ég fæ aldrei leiða á því.“

Á haustin má oft sjá nýjar áherslur og stefnur í förðun, og Natalie er með allt á hreinu hvað það varðar. „Mér finnst gaman að sjá hvernig förðunartrendin í haust eru ekki jafnfullkomin og „Instagram-leg“ og þau hafa verið undanfarið. Förðunin er raunverulegri og eins og búið sé að ganga hana aðeins til. Hlýir brúnir tónar sem ramma inn augun eru áberandi og þessi „grunge“-stemning sem ég hrífst mjög af er að koma aftur. Húðin fær að njóta sín og best er að þekja hana ekki of mikið. Sterkur varalitur er alltaf málið á haustin, ég heillast mjög af ýmis konar ólíkum rauðum tónum. Litir eru líka áberandi. Þá er ég ekki að tala um mjög litríka förðun heldur aðeins „pop“ af lit. Kannski gulur augnskuggi í innri krók eða appelsínugulur í vatnslínuna.“

Þegar Natalie er spurð um ráðleggingar fyrir heilbrigða húð nefnir hún klassísku ráðin að drekka vatn, sofa ekki með farða og nota sólarvörn. „Svo mæli ég með að kynna sér glýkól- og salisýlsýrur. Ég fullvissa þig um að þær munu gjörbreyta lífi þínu (og húðinni),“ segir hún að lokum.

 

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Natalie, en viðtalið í heild sinni má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Unnur Magna

Erum að verða of sein að bjarga jörðinni

Valgerður Árnadóttir kom með látum inn á pólitíska sviðið þegar hún bauð sig fram fyrir hönd Pírata í borgarstjórnarkosningunum í vor. Vala, eins og hún er oftast kölluð, er vegan og mikil baráttukona fyrir réttindum dýra en hún er framkvæmdastjóri Samtaka grænmetisæta. Kvenréttindabaráttan er henni einnig hugleikin en nýverið stofnaði hún viðburðafyrirtækið Puzzy Patrol sem berst fyrir því að konur fái sömu tækifæri og karlar í tónlistarheiminum.

Valgerður Árnadóttir prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar.

Vala var ekki há í loftinu þegar hún tók ákvörðun um að gerast grænmetisæta. Hún varði nótt á tjaldstæði við hlið sláturhúss og vaknaði við veinið í grísunum áður en þeim var slátrað. Næstu tuttugu og fimm árin var hún fiskæta en það var frásögn vinkonu hennar sem opnaði augu hennar fyrir grimmd mjólkuriðnaðarins. „Vinkona mín fæddi veikt barn sem var ekki hugað líf. Á meðan drengurinn hennar barðist fyrir lífi sínu þurfti hún að mjólka sig og einnig eftir að hann dó vegna þess að mjólkin fór ekki strax. Þá sorg sem hún upplifði við að þurfa að mjólka sig þrátt fyrir að barnið hennar væri dáið tengdi hún við upplifun kúnna. Þær ganga einnig með afkvæmin sín í níu mánuði sem er svo tekið af þeim við fæðingu svo hægt sé að mjólka þær fyrir mannfólkið, sem í raun þarf ekki á mjólkinni að halda. Ég missti algerlega lystina og ég sem hafði sagt að ég „elskaði ost“ gat ekki hugsað mér að stuðla að þessarri þjáningu.“

Vala tók þátt í Veganúar í janúarbyrjun fyrir tveimur árum síðan og eftir það var ekki aftur snúið. Hún segir breytingarnar á heilsu og almennri líðan virkilega jákvæðar. „Áður en ég varð vegan var ég með krónískt mígreni og þrálátar ennis- og kinnholusýkingar. En við það að taka út mjólkurvörur hurfu nánast mígreniköstin og ég hef bara einu sinni fengið kvef á þessum tæpu þremur árum. Ég missti líka nokkur kíló af „mjólkurskvapi“, húðin varð betri og ég hressari og orkumeiri. Ég fór meira að segja að æfa crossfit og ganga á fjöll, eitthvað varð ég að gera við alla þessa aukaorku,“ segir Vala og hlær dillandi hlátrinum sem einkennir hana. „Mér líður miklu betur bæði andlega og líkamlega og mér finnst ég loksins lifa lífinu eftir eigin sannfæringu og gildum en ekki þeim sem samfélagið hefur sagt mér að gera frá fæðingu,“ segir hún og meinar hvert einasta orð.

Aðspurð hvort hún hafi fengið mikla gagnrýni fyrir lífsstíl sinn segir hún ótrúlegt hvað veganismi getur vakið harkaleg viðbrögð hjá fólki. „Fólk á það til að finnast það knúið til að réttlæta eigin kjötneyslu fyrir mér eða segja mér að ég sé öfgafull og nota þaðan af verri viðurnefni.

Eins er fullkomlega viðurkennt að gera grín að veganisma við hin ýmsu tækifæri, það er ekki komið á bannlista eins og rasismi og kvenfyrirlitning.

Ég verð að vonum oft þreytt á óumbeðnum réttlætingum annarra og hef þurft að biðja fólk vinsamlegast um að hætta að predika yfir mér. Stundum hef ég líka hvæst á móti þegar fólk lætur mig ekki í friði í fjölskylduboðum og öðrum mannamótum, ég er bara mannleg,“ segir Vala einlæg.

ÁREITI SEM FYLGIR ÞVÍ AÐ VERA KVENKYNSPLÖTUSNÚÐUR

Vala er gallharður femínisti og málefni kvenna eru henni afar hugleikin. Hún ákvað að stofna viðburðafyrirtækið Puzzy Patrol en það sérhæfir sig í að skipuleggja viðburði með listakonum og feminískum talskonum til að styðja við konur í listum. Hún segir hugmyndina hafa kviknað kvöldið sem Donald Trump var settur í embætti forseta Bandaríkjanna. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og þetta tiltekna kvöld var ég að þeyta skífum á Kaffi Vinyl og hafði í tilefni dagsins hannað og prentað á boli fyrir mig og vinkonur mínar með slagorðinu „Pussy grabs back“. Ég spilaði einungis tónlist með konum eða samda af konum, hipphopp og R&B. Þetta framtak vakti þvílíka lukku og bandarískar konur sem voru á staðnum þökkuðu fyrir stuðninginn með tárin í augunum. Þær höfðu lagt í ferðalag til Íslands til að vera sem lengst frá Bandaríkjunum þennan dag, sem þær kölluðu sorgardag fyrir konur. Ég stofnaði stuttu seinna Puzzy Patrol með Ingibjörgu Björnsdóttur vinkonu minni sem er menntuð í viðburðarstjórnun. Það er mikill uppgangur í hipphoppi og margar flottar tónlistarkonur í þeim geira sem fá ekki sömu tækifæri og strákarnir og þess vegna einbeittum við okkur að þessari tónlistarstefnu til að byrja með. Við vorum með okkar eigið kvöld á Airwaves og héldum svo málþing og stórtónleika með öllum helstu tónlistarkonum landsins í Gamla bíói í janúar. Ingibjörg er að flytja til Danmerkur og við erum að skoða það að fara í norrænt samstarf. Flytja tónlistarkonur út og erlendar konur kæmu hingað að spila,“ segir Vala sem þeytir skífum undir dj-nafninu Pussy Valore.

Áreiti frá hinu kyninu segir hún óneitanlega fylgifisk þess að vera kvenkynsplötusnúður. „Eins og það er gaman að þeyta skífum og skemmta fólki þá getur áreitið orðið erfitt, sérstaklega þegar þú ert kona. Ég á nokkrar vinkonur sem eru plötusnúðar og er oft þeim til samlætis og stuðnings þegar þær spila. Nýlega var ég Dj de la Rosa til samlætis og stóð hjá henni við dj-búrið, aðallega til að hindra að menn færu ekki inn fyrir það til að fikta í græjunum eða skipta um lag, enda halda menn að konur geti það ekki þótt þær vinni sem plötusnúðar. En þetta tiltekna kvöld var rosahress steggjahópur á staðnum sem margoft komu og báðu um óskalög og reyndu að draga mig á dansgólfið sem ég neitaði alltaf kurteisislega. Ég lét skýrt í ljós að ég hefði ekki áhuga en svo þurfti ég að fara á klósettið og til þess þurfti ég að fara yfir dansgólfið. Ég var ekki fyrr búin að taka nokkur skref þegar ég var gripin og mér lyft upp í loftið eins og bikar á fótboltamóti.  Sigri hrósandi karl sneri mér í hringi eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það fauk í mig og ég bað hann að setja mig niður en hann sleppti mér ekki fyrr en dyravörðurinn kom aðvífandi og hótaði að henda honum út ef hann léti mig ekki niður.

Steggjunum fannst öllum við dyravörðurinn vera voða fýlupúkar, auðvitað eiga menn að fá að grípa konu sem þeim líst vel á og sveifla henni upp í loft eins og bavíanar með bananaklasa.

Mér fannst þetta mjög niðurlægjandi og ég hugsaði með sjálfri mér að það er ekki eins og ég sé tvítug smástelpa. En svo rann upp fyrir mér að einmitt á þeim aldri lét ég mig bara hafa svona hegðun. Þetta var bara partur af því að vera ung og sæt og álitin vera einhver hlutur sem mátti káfa á, lyfta upp og grípa í án þess að fá leyfi og því miður viðgengst það enn. En mér finnast eldri menn vera verri en þessi yngri, ég vona að yngri kynslóðin sé að læra betri siði, bæði hvað varðar drykkju og hvað varðar virðingu gagnvart konum.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

 

Texti: Helga Kristjáns

Myndir: Aldís Pálsdóttir

Eddie Murphy á von á barni – í tíunda sinn

LOS ANGELES

Grínarinn Eddie Murphy á von á barni með kærustu sinni Paige Butcher. Þetta verður annað barnið sem Eddie og Paige eiga saman en það tíunda sem grínistinn eignast. Talsmaður parsins segir að Paige eigi von á sér í desember í yfirlýsingu sem send var tímaritinu People.

Eddie, sem er 57 ára, og Paige, sem er 39 ára, eiga fyrir dótturina Izzy Oona, sem er tveggja ára. Eddie á svo Eric, 29 ára, með Paulette McNeely, Bella Zahra, 16 ára, Zola Ivy, 18 ára, Shayne Audra, 23 ára, Miles Mitchell, 25 ára og Briu, 28 ára, með fyrrverandi eiginkonu sinni Nicole Mitchell. Þá á hann Christian, 27 ára, með Tamöru Hood og Angel Iris, 11 ára, með söngkonunni Mel B.

Hér er falleg fjölskyldumynd sem var tekin af Murphy-klaninu rétt eftir að Izzy Oona fæddist:

? Merry Christmas!!! #MurphyFamily Photo by : @justwilliet

A post shared by Bria (@bria_murphy) on

Eddie sagði í viðtali við Entertainment Tonight árið 2016 að hann væri mikill fjölskyldumaður.

„Bjartasti parturinn af lífinu mínu eru börnin mín,“ sagði hann þá og bætti við:

„Samband mitt við þau og heimurinn minn snýst um þau – jafnvel þessi gömlu, sköllóttu.“

Féll í yfirlið á miðri æfingu: „Þetta var vítahringur“

Heilsumarkþjálfinn Brittany Loeser segir sögu sína á vefsíðu tímaritsins Women’s Health. Brittany var upprennandi knapi á yngri árum og segist lítið hafa hreyft sig annað. Þá segist hún hafa borðað nákvæmlega það sem henni datt í hug og í miðskóla byrjaði hún að finna fyrir því að hún gæti kannski ekki borðað hvað sem er og samt ekki bætt á sig.

„Ég kom aftur heim úr fríi þar sem ég borðaði þyngd mína í mat og mér leið illa. Ég var ekki með neitt sjálfstraust og mér leið eins og fötin væru að springa utan af mér. Ég var þreytt og sljó. Ég hataði það,“ segir Brittany. Hún bætir við að á þessum tímapunkti hafi hún ákveðið að breyta um lífsstíl, en þá hélt hún að heilbrigður lífsstíll fælist í því að borða „eins og kanína og gera fullt af brennsluæfingum.“ Það fór ekki eins og hún bjóst við.

„Eftir nokkrar vikur var ég vissulega búin að léttast. En í staðinn fyrir að líða eins og ég væri sterk og sjálfsörugg var ég veikluleg. Og mér leið illa. Endalausar brennsluæfingar og takmörkun á kaloríum var ekki lífsstíll sem ég gæti haldið til streitu og það var að éta upp sjálfsöryggið mitt og hamingju,“ segir Brittany.

Ofát einu sinni í viku

Stuttu síðar kynnti vinur hennar hana fyrir lyftingum. Hún féll fyrir því og fannst eins og þetta væri nákvæmlega það sem hún hafði leitað að. Ekki skemmdi fyrir að hún sá breytingar á líkama sínum ári eftir að hún byrjaði að lyfta.

„Ég var sterkari en líka stæltari. En á þessum tíma borðaði ég aðeins um 1400 kaloríur á dag því ég hélt að ég þyrfti að halda aftur af mér til að fá draumalíkamann. Af því að ég borðaði svona fáar kaloríur þá ofát ég einu sinni í viku. Þetta var vítahringur,“ segir hún. Í framhaldinu ákvað Brittany að taka þátt í bikiníkeppni og tók undirbúninginn alla leið.

„Það varð brátt óheilbrigt,“ segir heilsumarkþjálfinn og rifjar upp örlagaríkt atvik í ræktinni.

„Síðan var ég að klára æfingu einn daginn á stigavélinni og það leið yfir mig. Foreldrar mínir höfðu séð hvaða toll undirbúnignurinn var að taka og eftir þetta atvik kröfðust þau þess að ég færi til læknis.“

Neyddi sig til að æfa

Þá kom í ljós blóðsykur Brittany var mjög lágur af því að hún hafði farið illa með sig. Hún ákvað samt sem áður að halda áfram undirbúningi fyrir bikiníkeppnina.

„Auðvitað urðu foreldrar mínir áhyggjufullir um heilsufar mitt. Þau vildu að ég hætti í undirbúningnum. En ég hélt að svona bakslag væri bara hluti af ferlinu og þjálfarinn minn bað mig ekki um að hætta að æfa. Foreldrar mínir treystu mér þannig að ég ákvað að halda áfram. En í raun og veru var þetta bara toppurinn á ísjakanum þegar kom að merkjum um að æfingarrútínan mín væri að skapa vandamál í lífi mínu. Ég var blind fyrir því hve mikinn toll matartakmarkanir og ofát var að taka á líkama minn. Og þegar kom að bikiníkeppninni naut ég hennar ekki einu sinni,“ segir Brittany. Í kjölfar keppninnar hrundi hún líkamlega og andlega.

„Ég gat ekki viðhaldið þessar ímynd um að ég væri fullkomin og við stjórnvölin.

Ég var bara átján ára en mér leið hörmulega. Ég neyddi mig til að æfa þegar mig langaði ekki til þess og naut ekki matar sem mig langaði í því ég var of hrædd við að þyngjast. Ég var með brenglaða sjálfsmynd eftir keppnina. Ég var afar nett og grönn en mér leið eins og ég væri feit því ég var ekki með keppnislíkama. Ég var orðin svo vön að taka til matinn minn og borða allt á disknum að ég hafði ekki hugmynd um hvað eðlileg skammtastærð var eða hvernig ég ætti að finna fyrir því að ég væri svöng. Ég ældi oft af því að ég borðaði of mikið.“

Vigtin hætti að stjórna

Brittany ákvað þá að snúa blaðinu við og einbeita sér frekar að því hvernig líkama hennar leið. Hún slakaði á í mataræðinu og ræktinni og einbeitti sér að því að borða eðlilega og leyfa sér sætar syndir í hófi. Hún segir það hafa verið erfitt að breyta hugsunarhættinum en eftir nokkurn tímann sá hún að meiri næring hafði ýmislegt jákvætt í för með sér.

„Ég gat ögrað mér meira og orðið sterkari,“ segir hún og heldur áfram. „Æfingar urðu skemmtilegar aftur. Ég varð ekkert stressuð þó ég kæmist ekki í ræktina fimm sinnum í viku. Ég var ekki eins stælt en ég var loksins hamingjusöm. Og það sem mestu máli skiptir er að vigtin hætti að stjórna mér. Ég þyngdist um rúm níu kíló og mér hefur aldrei liðið betur.“

80/20 reglan

Nú eru liðin rúm þrjú ár síðan Brittany ákvað að breyta um lífsstíl. Nú fer hún í ræktina fjórum sinnum í viku en elskar líka að hreyfa sig í náttúrunni. Hún borðar rúmlega 2000 kaloríur í dag og fylgir 80/20 reglunni svokölluðu – 80% af mataræðinu er hollt og næringarríkt og 20% er allt hitt sem freistar. Í dag er Brittany einkaþjálfari og hjálpar öðrum í leit að hamingju og betri lífsstíl. En hvað lærði hún af þessari vegferð sinni?

„Ef þú elskar þig ekki núna þá áttu ekki eftir að elska þig þegar þú léttist um fimm kíló.“

Endurskoðandi sem elti drauminn

Gunnar Freyr er íslenskur Dani eins og hann orðar það, fæddur og uppalinn í Danmörku. Hann lauk masters-gráðu í viðskiptafræði og endurskoðun og starfaði sem endurskoðandi og ráðgjafi hjá Price Waterhouse Cooper í Danmörku og vann mikið þar til hann var orðinn leiður á skrifstofuvinnunni.

„Þetta voru bara jakkaföt og bindi allan daginn“ segir Gunnar en hann segist alltaf hafa verið góður drengur sem taldi sig vera að gera það rétta í lífinu þar til hann uppgötvaði að hann vantaði lífsfyllingu.

Árið 2014 ákváð hann ásamt sambýliskonu sinni, Kasiu, að þau myndu segja upp störfum sínum í Danmörku til þess að elta drauma sína. Kasia vann skrifstofuvinnu líkt og Gunnar en hún er menntaður heimspekingur og almannatengill. Þau seldu allar eigur sínar og keyptu sér flugmiða til Suðaustur Asíu þar sem þau ferðuðust um þriggja mánaða skeið. Gunnar hefur verið áhugasamur um ljósmyndum frá 2007 en í ferðinni til Asíu ákvað hann að fara alfarið út á þá braut. Eftir dvölina í Asíu keyptu þau flugmiða til Íslands en eingungis aðra leið en Gunnari hafði alltaf langað til þess að prófa að búa á Íslandi þar sem ræturnar lágu.

Eftir komuna til Íslands var ekki aftur snúið. Hann stofnaði Instagram reikning undir heitinu „icelandic_explorer“ en á þeim tíma voru fáir Íslendingar virkir notendur. Fylgjendahópurinn stækkaði ört og beiðnir um verkefni fylgdu í kjölfarið. Í dag er Gunnar svokallaður sendiherra Canon á Norðurslóðum og eru fylgjendur hans á instagram orðnir 261 þúsund talsins og fer stækkandi.

Gunnar er með mörg járn í eldinum en sem stendur er hann í ævintýraferð um Grænland með hópi af áhugaljósmyndurum í átta daga leiðangri um Scoresbysund á tveggja mastra seglskipi frá Norðursiglingu. Ekkert netsamband er á svæðinu en áhugasamir geta fylgst með Gunnari á instagram því myndir frá Grænlandi munu birtast þar að ferð lokinni.

Nýtt Hús og híbýli er komið í verslanir.

Mögnuð ljósmynd eftir Gunnar Frey fylgir með septemberblaði Húsa og híbýla og ber myndin heitið Markarfljótsgljúfur. Um myndina segir Gunnar:

„Gljúfrið er með stærstu og lengstu gljúfrum á Íslandi en það er allt að 200 metra djúpt. Ég kom þangað fyrst árið 2016 og svo aftur núna í sumar. Ég hafði beðið lengi eftir að geta farið þangað aftur og þá með dróna en þegar ég kom þangað í sumar var mikið rok, skýjað og rigning. Alls ekki bestu aðstæðurnar til þess að fljúga dróna. Ég ákvað hins vegar að taka slaginn og fljúga drónanum þrátt fyrir veðrið og niðurstaðan varð þessi mynd. Þetta er staður sem margir Íslendingar hafa aldrei séð þótt að flest okkar fari yfir Markarfljót á leið um Suðurlandið“.

Myndin sem fylgir nýjasta hefti blaðsins Hús og híbýli.

Ekki missa af septemberblaði Húsa og híbýla og þessari flottu ljósmynd eftir Gunnar Frey. Smelltu hér til að gerast áskrifandi að Húsum og híbýlum.

Myndir / Unnur Magna

Svona lítur líkaminn út eftir 55 klukkustunda langa sundferð

||||||||
||||||||

Hinn hollenski Maarten van der Weijden varð ungur afreksmaður í sundi og átti framtíðina fyrir sér í íþróttinni. En þegar hann var nítján ára greindist hann með krabbamein, nánar tiltekið hvítblæði, og gáfu læknar honum litlar lífslíkur.

Maarten var nítján ára þegar hann greindist með hvítblæði.

Maarten barðist hins vegar með kjafti og klóm og náði að sigrast á krabbameininu. Auk þess sneri hann aftur í sundið af fullum krafti tveimur árum eftir greininguna. Ef það var ekki nóg, þá náði hann svo góðum bata að hann nældi sér í gullverðlaun í sundi á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Þessi sundgarpur lætur fátt stoppa sig.

Maarten reyndi nýlega við að synda tæplega tvö hundruð kílómetra langt sund, betur þekkt sem Elfstedentocht í Hollandi. Vanalega er keppt í skautum þessa leið einu sinni á ári þegar vatnið frýs, en skautað er í hring frá bænum Leeuwarden, í gegnum bæi eins og Stavoren, Workum, Harlingen og Franeker og endað aftur í Leeuwarden. Fyrir þá sem eru kunnugir í Hollandi er endapunkturinn nálægt frægu vindmyllunni De Bullemolen.

Synt af kappi.

Maarten ákvað að synda þessa leið til að safna peningum fyrir krabbameinsrannsóknir, og málstaðurinn því afar nærri hjarta hans. Áætlað var að sundferðin tæki þrjá daga með stuttum hvíldarlúrum. Þegar liðið var á sundið varð Maarten hins vegar veikur og vatnið talið of mengað þannig að hann þurfti að hætta sundinu eftir að hafa synt 163 kílómetra á 55 klukkustundum. Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig líkami hans leit út eftir svo langt sund.

Þó að Maarten hafi ekki náð að synda alla leið náði hann samt að safna rúmlega fjórum milljónum dollara, tæplega 430 milljónum króna.

Maarten safnaði tæplega 430 milljónum króna á sundinu.

Anna Svava og Gylfi létu pússa sig saman

Turtildúfurnar Anna Svava Knútsdóttir og Gylfi Þór Valdimarsson gengu í það heilaga um helgina, en það var fjölmiðlakonan Björg Magnúsdóttir, sem auk þess er athafnastjóri hjá Siðmennt, sem gaf þau saman.

Önnu Svövu þarf vart að kynna, en hún er leikkona að mennt og hefur einnig farið á kostum í handritaskrifum, til dæmis fyrir nokkur Áramótaskaup og þættina Ligeglad, þar sem hún átti auk þess stórleik. Anna Svava rekur ísbúðina Valdísi með eiginmanni sínum Gylfa, en um velgengni ísbúðarinnar þarf vart að fjölyrða.

Anna Svava og Gylfi hafa verið saman um árabil og eiga tvö börn saman, og eins og þeirra er von og vísa var mikið stuð í brúðkaupinu, eins og sjá má á meðfylgjandi Instagram-færslum:

Hættið að bjóða mér í brúðkaup! #gylfan

A post shared by Björn Bragi (@bjornbragi) on

♥️ #gylfan

A post shared by Sunna Petursdottir (@sungun83) on

Ást ❤ #gylfan

A post shared by gunna65 (@gtorfadottir) on

#gylfan

A post shared by gunna65 (@gtorfadottir) on

Nennir ekki að safna óvinum

|
|

Rauð síld er nýr hlaðvarpsþáttur þar sem þáttastjórnandinn, Heiðar Sumarliðason, fær til sín gesti og spjallar við þá um nýjar kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Heiðar Sumarliðason, fær til sín gesti og spjallar við þá um nýjar kvikmyndir og sjónvarpsþætti j hlaðvarpsþættinum Rauð síld.

„Við ræðum það sem er í gangi á vitrænan og lifandi máta. Greinum það sem fyrir augu ber með okkar nefi, en ég er sjálfur handritshöfundur og leikskáld og tek því mikið hlutina fyrir frá því sjónarhorni,“ segir Heiðar, spurður út í þáttinn. „Síðan fer það svolítið eftir umfjöllunarefninu hver stemning þáttarins er hverju sinni þótt ég reyni eftir fremsta megni að hafa hann léttan og skemmtilegan. Til dæmis fjallaði ég um nýju Mission Impossible-myndina ásamt Hrafnkeli Stefánssyni sem er meðal annars höfundur Borgríkis 1 og 2 og við hlógum eiginlega svo mikið að það var hálfvandræðalegt.“

Hingað til hafa fjórir þættir litið dagsins ljós. Þrír helgaðir nýjum kvikmyndum, The Meg, Hereditary og fyrrnefndri Mission Impossible-mynd og einn tengdur sjónvarpi, þar sem Heiðar og kvikmyndagerðarmaðurinn Kristján Kristjánsson tóku fyrir Sharp Objects og Who is America. „Í byrjun september verður í fyrsta skipti viðtal en þá ætla ég að tala við Jóhannes Hauk Jóhannesson leikara um öll þessi verkefni hans sem hafa hrúgast inn núna á haustmánuðum; Alpha, The Innocents og The Sister Brothers,“ segir hann. „Í næstu viku fæ ég síðan til mín Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur sviðslistakonu. Við ætlum að ræða Netflix-þáttinn Insatiable sem gerði PC-fólkið alveg vitlaust þó að það hafi ekki einu sinni verið búið að sýna þættina. Við ætlum fjalla um hvort allt þetta havarí eigi rétt á sér.“

Spurður að því hvað hafi orðið til þess að hann reið á vaðið með Rauða síld segir Heiðar að til sé fjöldi erlendra hlaðvarpsþátta um kvikmyndir og sjónvarp en fátt jafnist á við að fá umfjöllunarefnið á sínu ylhýra og eftir því sem hann veit best, er Rauð síld eini þátturinn sinnar tegundar á íslensku sem er í gangi akkúrat núna. „RÚV sinnir svona umfjöllun auðvitað að einhverju leyti og gerir það vel en svo stórt batterí er hins vegar því marki brennt að það er ekki hægt að nálgast umfjöllunina á marga vegu. Þáttur eins og Rauð síld gæti til dæmis aldrei verið þar á dagskrá, hann er allt of óformlegur og léttur.“

Þá segir hann áhugann á því að fara af stað með þáttinn hafi líka kviknað eftir að hann fjallaði reglulega um menningu í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu og var með sérstakan hlaðvarpsþátt um íslenska leiklist. „Ég var hins vegar orðinn svo hræddur um að sá þáttur myndi ekki skila mér neinu nema óvinum að ég ákvað á endanum að hætta með hann,“ segir hann og hlær. „Kosturinn við Rauða síld er aftur á móti sá að nánast enginn sem fjallað er um í þættinum mun hlusta á hann. Þannig að ég get kannski eytt korteri í að gera grín að Tom Cruise án þess þó að það kippi sér einhver upp við það. Í mesta lagi er það markaðsstjóri einhvers kvikmyndahúss sem fer í fýlu.“

Mannlíf spurði Heiðar nokkurra laufléttra spurninga í lokin:

Ógleymanlegasta atriði kvikmyndasögunnar?
„Sennilega þegar geimveran brýtur sér leið út úr maga Johns Hurt í Alien. Ég var allt of ungur þegar ég sá hana.“

Hvaða kvikmynd hefur komið mest á óvart?
„Sennilega Star Wars: The Last Jedi, vegna ótrúlega lélegs húmors.“

Vanmetinn leikur?
„Ég veit að hún fer í taugarnar á mörgum, en ég held svolítið upp á frammistöðu Shelley Duvall í The Shining.“

Mynd byggð á skáldsögu sem skákar frumgerðinni?
„Klárlega The Meg. Djók.“

Ofmetnasta mynd allra tíma?
„Allt þetta ofurhetjumynda-dæmi. Get það engan veginn. Kannski bara orðinn of gamall.“

Borgin iðar af jazzi

Miðborgin mun iða af jazztónum dagana 5.-9. september þegar fram fer Jazzhátíð Reykjavíkur 2018.

Sunna Gunnlaugsdóttir skipuleggur hátíðina ásamt Leifi Gunnarssyni.

Íslenskt jazzlíf hefur aldrei staðið styrkari fótum en nákvæmlega núna og á hátíðinni gefst færi til að hlýða á framvarðarsveitir í faginu en ekki síður er spennandi samstarf íslenskra flytjenda og erlendra sem er fyrirferðamikið að þessu sinni. Sunna Gunnlaugsdóttir skipuleggur Jazzhátíðina ásamt Leifi Gunnarssyni en þau hafa gert það frá árinu 2015 og eru bæði jazzleikarar og tónlistarkennarar. Við hittum Sunnu á dögunum og forvitnuðumst um dagskrá hátíðarinnar.

Geturðu aðeins sagt okkur frá tilurð Jazzhátíðar Reykjavíkur og hversu oft hún hefur verið haldin? „Jazzhátíð var fyrst haldin árið1990 sem framlag RÚV til norrænna útvarpsdaga. Hún heppnaðist svo vel að ákveðið var að halda árlega hátíð á vegum RÚV og Reykjavíkurborgar og var kölluð RÚREK. Á einhverjum tímapunktu drógu þessir aðilar sig út og FÍH tók að sér umsjón Jazzhátíðar Reykjavíkur og er hún, að ég held, elsta tónlistarhátíð landsins.“

Segðu okkur aðeins frá Jazzgöngunni og setningu hátíðarinnar? „Jazzgangan hefur verið fastur liður í nokkur ár og er einstaklega skemmtileg. Hljóðfæraleikarar og aðrir áhugamenn safnast saman við Lucky Records og stilla saman strengi og svo er marserað niður Laugaveg að Borgarbókasafni við fjöruga tóna hópsins.“

Eigum við von á athyglisverðum böndum og einstaklingum í ár? „Jazzhátíð leggur metnað sinn í að fá framúrskarandi listamenn erlendis frá. Í ár fáum við að upplifa bandaríska gítarsnillinginn Ralph Towner á einleikstónleikum með klassískan gítar, tríó spánska kontrabassaleikarans Giulia Valle sem hefur verið á hraðri uppleið, tíu kvenna norræna sveit Marilyn Mazur, dúóið Skeltr frá Bretlandi og síðast en ekki síst frá Póllandi, Marcin Wasilewski Trio sem hefur verið ein af skrautfjöðrum ECM-útgáfunnar í yfir áratug. Svo koma frábærir einstaklingar í samstarfsverkefnum við Íslendinga, eins og Lage Lund, Lars Jansson, Verneri Pohjola, Pierre Perchaud, Nico Moreaux, Richard Anderson, Miro Herak og Bárður Reinert Poulsen.“

Verður einhver nýbreytni frá fyrri árum hátíðarinnar? „Hátíðin hefur fært sig úr Hörpu þar sem við höfum verið síðustu ár og verður nú í ár í Tjarnarbíói, Iðnó, Hannesarholti, Grand Hótel, Borgarbókasafni og Gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsholti sem nú hafa verið uppfærðar í prýðilegan vettvang fyrir tónlistarflutning. Það gefur okkur kost á að selja inn á staka viðburði í stað passans sem var. Það nýjasta hjá okkur er að bjóða upp á svona late night-viðburð á laugardagskvöldið í Gömlu kartöflugeymslunum. Þar verður partístemning með Skeltr og Una Stef Band frá 23 til 01 og fyrr um daginn eru Andrés Þór & Miro Herak og svo DOH trio með útgáfutónleika.“

Gítarleikarinn Ralph Towner verður með einleikstónleika á Jazzhátíð Reykjavíkur 2018.

Hver er helstu númerin á Íslandi, okkar frægustu jazzarar og jazzbönd? „Jazzsenan okkar er ótrúlega fjölbreytt og því getum við teflt fram mjög fjölbreyttri dagskrá frá ári til árs. Á Jazzhátíð reynum við að tefla fram bæði gömlu kempunum og þeim ungu og fersku. Í Hannesarholti verða kempurnar Agnar Már annars vegar ásamt Lage Lund og hins vegar Sigurður Flosason með Lars Jansson. Óskar Guðjónsson og Matthías Hemstock fagna nýjum diski með Richard Andersson í Iðnó, Scott McLemore með Hilmar Jensson innanborðs er með útgáfutónleika í Tjarnarbíói, og tríó mitt ásamt Verneri Pohjola fagnar einnig nýrri útgáfu á sama stað. Svo eru þessi ungu og fersku, eins og Ingi Bjarni Trio og Sigmar Matthíasson, báðir með útgáfufögnuð í Tjarnarbíó og Þórdís Gerður sextett í Iðnó auk fyrrnefndra atriða í Gömlu kartöflugeymslunum.“

Hver verður hátindur hátíðarinnar, að þínu mati? „Það er ómögulegt að velja eitthvert eitt atriði fram yfir annað en það hlýtur að teljast sérstakt að fá hingað tíu kvenna sveit slagverksleikarans Marilyn Mazur. Hún er eina konan sem átti sæti í sveit Miles Davis, frægasta jazzara fyrr og síðar: Ég sá þessa sveit á sviði fyrir rúmu ári og það voru sannkallaðir töfrar sem umluktu þá tónleika. Sama kvöld leikur svo tríó Marcin Wasilewski sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og á hádegistónleikunum þann daginn syngur Katrín Halldóra sem var svo frábær í hlutverki Ellýjar Vilhjálms ásamt sveit Hauks Gröndal.“

Wasilewski Trio frá Póllandi. Mynd: Bartek Barczyk

Verða margir útgáfutónleikar í tilefni þessa? „Í ár eru sjö útgáfutónleikar sem ber vitni um mikla grósku í íslensku jazzlífi. Fimm af þessum sjö eru með erlenda samstarfsmenn innanborðs og því er augljóst að jazzfólkið okkar stefnir út fyrir landsteinana með verkefnin sín og þar er Jazzhátíð mikilvægur hlekkur í að skapa tækifæri og greiða leið þessa metnaðarfulla fólks.“

Hvert er markmið ykkar með hátíðinni? „Hátíðin er vettvangur alls þess helsta sem er að gerast á sviði innlendrar jazztónlistar og er í raun hápunktur jazzlífsins á Íslandi og árleg uppskeruhátíð innlendra jazztónlistarmanna. Auk þess stendur hátíðin að komu fjölmargra erlendra tónlistarmanna á ári hverju, bæði evrópskra og bandarískra. Hátíðin leitar einnig tækifæra til að koma íslenskum jazzi á framfæri erlendis í gegnum samstarfsvettvang evrópskra jazzhátíða Europe Jazz Network,“ segir Sunna og er mjög spennt fyrir því sem koma skal.

Vert er að geta þess að þeir sem ætla að sækja marga tónleika á Jazzhátíðinni geta nálgast afsláttarpakka, á ferna, sex og átta tónleika. Mikilvægt er að skoða dagskrána vandlega til tryggja að ekkert fari fram hjá manni. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.reykjavikjazz.is og www.tix.is.

 

Á eftir sumri kemur sjónvarpsveisla

Hefðbundnu hausti fylgja mikil gleðitíðindi og frábær afsökun til að vera inni – glænýir sjónvarpsþættir og gamlir vinir sem heilsa að nýju. Hér eru nokkrir þættir sem beðið hefur verið eftir með ákveðinni tilhlökkun þannig að leggið þessar dagsetn-ingar á minnið, byrgið ykkur upp af snarli og sætum syndum og kveikið á sjónvarpinu.

Animals (HBO)

Frumsýnd: 3. ágúst

Hér er á ferð þriðja serían af Animals og ef þið hafið ekki kíkt á þessa þætti nú þegar þá mælum við með því að þið takið frá nokkra daga í maraþon hámgláp. Af hverju? Jú, þessir þættir eru eitt það ferskasta í sjónvarpsflórunni í dag. Við erum að tala um framtíðarsýn þar sem New York-borg er laus við mannfólk eftir heimsendi. Eins og nafnið gefur til kynna eru dýr í aðalhlutverki en persónurnar eru margar hverjar afar skrautlegar og þó að serían sé kannski ekki fyrir alla, þá er hún gjörsamlega einstök.

Disenchantment (Netflix)

Frumsýnd: 17. ágúst

Við rennum algjörlega blint í sjóinn með þessa þætti en það er viss gæðastimpill að höfundur The Simpsons og Futurama er maðurinn á bak við Disenchantment. Það kemur ykkur þá líklegast ekki á óvart að serían er teiknuð en henni hefur verið lýst sem afkvæmi The Simpsons og Game of Thrones. Þetta er algjörlega sería fyrir fullorðna og fjallar um ævintýri drykkfelldu prinsessunnar Bean, álfavin hennar Elfo og djöfulinn Luci í veröld sem heitir Dreamland. Að sögn Matts snýst serían um líf og dauða, ást og kynlíf og hvernig á að halda áfram að hlæja í veröld sem er full af þjáningu og hálfvitum.

https://www.youtube.com/watch?v=Gp_RnJcb8Ig

The Innocents (Netflix)

Frumsýnd: 24. ágúst

Þessi nýja Netflix-sería minnir um margt á nútímalega Rómeó og Júlíu, nema hvað Júlía hefur þann eiginleika að bregða sér í hlutverk annarra vera, svokallaður formbreytir. Serían fjallar um kærustuparið June og Harry sem hlaupast á brott saman til að hefja nýtt líf. Þegar þau komast að því að June er formbreytir setur það örlítið strik í reikninginn, sérstaklega þegar þau fá þær fregnir að hún er langt frá því að vera eini formbreytirinn í heiminum. Ó, já svo er líka Íslendingur í veigamiklu hlutverki. Nefnilega hann Jóhannes Haukur Jóhannesson. Þjóðarstoltið, sko!

Ozark (Netflix)

Frumsýnd: 31. ágúst

Sería eitt af Ozark, sem frumsýnd var í fyrra, var einn af óvæntustu smellum síðasta árs og hélt áhorfendum límdum við skjáinn hverja einustu mínútu. Nú er önnur þáttaröð væntanleg og í henni þarf Marty, sem leikinn er af Arrested Development-undrinu Jason Bateman, og fjölskylda hans að þvo miklu meira af peningum og spreyta sig í að reka spilavíti. Jason hefur látið hafa eftir sér í viðtölum að serían verði enn spennuþrungnari en fyrr og að fjölskyldan lendi í enn fleiri flækjum en í fyrri seríunni. Er það bara hægt?

https://www.youtube.com/watch?v=0vHziRrCYqA

Kidding (Showtime)

Frumsýnd: 9. september

Nú þurfið þið sko rækilega að merkja dagsetninguna því sjálfur Jim Carrey snýr aftur í sjónvarpið sem Jeff, einnig þekktur sem Mr. Pickles. Lífið leikur við Mr. Pickels sem er goðsögn í barnasjónvarpi vestanhafs og moldríkur í þokkabót. En það kemur aldeilis babb í bátinn þegar fjölskyldan hans splundrast og hann reynir sitt besta til að koma henni aftur saman á mjög ljúfsáran og kómískan hátt. Ef þið eruð ekki sannfærð þá er ráð að henda því inn í jöfnuna að Jim Carrey vinnur hér á nýjan leik með leikstjóranum Michel Gondry, en þeir unnu saman í Óskarsverðlaunamyndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind. Rétt’upp hönd sem er spenntur.

Shameless (Showtime)

Frumsýnd: 9. september

Frábærar fréttir fyrir aðdáendur bandarísku Shameless-þáttanna: Sería 9 er alveg að fara að byrja. Slæmu fréttirnar fyrir þá sem hafa aldrei komið sér í það að horfa á Shameless: Sería 9 er alveg að fara að byrja. Og nei, það er ekki hægt að hoppa rakleiðis inn í níundu þáttaröð af þessum epísku þáttum. Nú þarf fólk að girða sig í brók, taka sér viku frí frá vinnu og hámglápa eða eyða öllum frístundum í að kynnast hinni dæmalausu Gallagher-fjölskyldu. Fyrir okkur hin sem höfum samviskusamlega grátið og hlegið með fjölskyldunni – gleðilegt Shameless.

https://www.youtube.com/watch?v=Xyus5REdmLI

Maniac (Netflix)

Frumsýnd: 21. september

Cary Fukunaga, maðurinn á bak við fyrstu seríuna af True Detective og nýja þáttinn á TNT, The Alienist, leikstýrir hér Jonah Hill og Emmu Stone í tíu þátta seríu sem byggð er á samnefndri norskri þáttaröð sem sló í gegn árið 2014. Jonah og Emma leika tvo geðsjúklinga á hæli sem hafa búið sér til mjög litríkan ævintýraheim sem er eins konar athvarf fyrir þau. Fátt annað er vitað um seríuna, en aukaleikararnir eru ekkert slor heldur – til dæmis Justin Theroux og Sally Field.

This Is Us (NBC)

Frumsýnd: 25. september

Jæja, takið fram vasaklútana, jafnvel nokkur handklæði, því þriðja sería af þættinum sem spilar á allan tilfinningaskalann snýr aftur. Við fáum meira að vita um uppvöxt Jack og hvernig hann varð að þeim manni sem hann var þegar hann fullorðnaðist, skyggnumst betur inn í samband hans og Rebeccu, fáum svör við ýmsum spurningum um fjölskyldu Toby og hágrenjum yfir einni harmsögu eða tveimur. Svo margar spurningar brenna á vörum okkar eftir lokaþáttinn í seríu tvö að við getum bara ekki beðið.

House of Cards (Netflix)

Frumsýnd: 2. nóvember

Jæja, þá er komið að því. Síðasta serían af House of Cards. Og enginn Kevin Spacey þar sem hann var rekinn með skottið á milli lappanna eftir að fjölmargir menn sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Nú er það leikkonan Robin Wright, sem leikið hefur eiginkonu Kevins í þáttunum, hana Claire, sem sest í forsetastólinn og hafa framleiðendur þáttanna notað kassamerkið #myturn, eða #komiðaðmér, til að kynna seríuna. En það er margt fleira sem gæti líka komið á óvart í þáttunum. Verður Doug Stamper loksins hent í steininn og nær Tom Hammerschmidt á endanum að komast að sannleikanum um morðið á Zoe Barnes?

Leikurinn er undirstaða alls

||
||

Handboltakappinn Ólafur Stefánsson sendi nýlega frá sér bókina Gleymna óskin sem hann segir vera fyrir alla sem eru eða voru einu sinni börn.

Ólafur Stefánsson handboltakappi og rithöfundur.

„Gleymna óskin hét upphaflega Gleymna hjartað. Hún er saga glaðrar hreinnar óskar sem breytir sér í eins konar hrekkjalóm til að leysa eigin ráðgátu – töfrar fram eins konar alvarleik. Jafnvel hátíðleik,“ segir Ólafur um bókina.
Sagan er afleiðing ofurtrúar Ólafs á leikinn sem undirstöðu alls. Hún varð til úr reynslu hans af tónlist, íþróttum, spuna, heimspekinámi og fallegum hugleiðslu- og dansseremóníum. „Hún leitar í smiðju shamanisma, goðafræði okkar og annarra landa, núvitund og austræna heimspeki. Hún leitar í Blíðfinn, Freyju, Ásgarð, völundarhús, afann og ömmuna, töfralampa, hella, lykla, kastala og prinsessur, móðurina og pabbann, náttúruna, þulur, tímaleysi, ólógík og margt fleira,“ útskýrir Ólafur.

Bók Ólafs Stefánssonar fjallar um hreina ósk sem breytir sér í hrekkjalóm til að leysa eigin ráðgátu.

„Mér tókst með hjálp KeyWe, pælingabókarinnar minnar, að halda utan um allar hugmyndirnar og að lokum að gera textann eins stuttan og einfaldan og hægt var. Við hverja litla hugmynd teiknaði ég litla mynd. Svo komst ég að því að myndirnar mínar voru Gleymnu óskinni ekki samboðnar og því fékk ég með mér í lið einn þann besta og þægilegasta teiknara sem til er á landinu, Kára Gunnarsson. Við gengum í fóstbræðralag og fórum upp í sumarhús mömmu og úr varð dans mynda og orða.“ Útgefandi er Sögur útgáfa.

LC2-stóllinn einna flottastur

Snorri Björn Sturluson er löggiltur fasteignasali hjá Domusnova fasteignasölu og starfar einnig sem sjálfstæður lögmaður. Hann er 37 ára gamall, barnlaus og býr í Salahverfinu í Kópavogi.

Snorri Björn Sturluson segist fyrir þó nokkru hafa tekið ákvörðun um að vinna ekki um helgar en hafi því miður ekki getað staðið við hana.

Hvað heillar þig mest við starfið? „Fjölbreytileikinn og frelsið er klárlega það sem heillar mest við starfið og hefur gert alla tíð síðan ég byrjaði að selja fasteignir árið 2005. Ég er alltaf að fást við ný verkefni, nýjar áskoranir, hitta nýtt fólk og vinna með nýjar fasteignir sem kemur í veg fyrir að ég staðni í starfi eða hreinlega leiðist. Þetta er lifandi starf sem getur verið erfitt á köflum en á móti mjög gefandi.“

Getur þú lýst hefðbundnum vinnudegi hjá þér? „Vinnudagurinn byrjar oftast á milli kl. 8 og 9 morgnana og endar á milli kl. 18 og 19. Hluta dagsins eyði ég á skrifstofunni en svo er ég mikið á ferðinni að hitta fólk og skoða og sýna fasteignir. Þá er algengt að ég verji tíma á kvöldin í að svara tölvupóstum og klára ýmis verkefni. Fyrir þó nokkru tók ég ákvörðun um að vinna ekki um helgar en hef því miður ekki getað staðið við hana. Þá er yfirleitt ró og næði á skrifstofunni og ég kem miklu í verk.“

Hvað er það sem þér finnst gera heimili að heimili? „Fólkið sem býr þar og þeirra persónulegu munir. Það er til dæmis gaman að sjá mikið af myndum af fjölskyldumeðlimum eða ættingjum, falleg málverk eða húsgögn sem segja einhverja sögu. Ekki bara allt svart og hvítt eða úr IKEA þó að það sé auðvitað frábær verslun sem ég fer oft í. Ég þarf aðeins að taka mig á hvað varðar þetta atriði og gera meira kósí heima hjá mér.“

Getur þú líst þínum stíl? „Hann er klárlega mínimalískur, það er að segja að ég vil ekki hafa mikið drasl eða óþarfa dót í kringum mig. Það þvælist bara fyrir og safnar ryki. Ég vil hafa reglu á hlutunum og gæði umfram magn. Ég hef verið hrifinn af skandinavískri hönnun, ljósum og léttum tónum en hef undanfarið hrifist meira af dekkri og hlýlegri litum.“

Áttu þinn uppáhaldsarkitekt? ,,Ég get ekki sagt það og er það aðallega vegna þess að ég hef ekki kynnt mér arkitekta eða arkitektúr nægilega mikið. Ég er þó mjög hrifinn af húsinu að Bakkaflöt 1 í Garðabæ (húsið í myndinni Eiðurinn eftir Baltasars Kormák) en það teiknaði Högna Sigurðardóttir arkitekt. Þá er ég hrifinn af því sem Hanna Stína og Rut Kára hafa verið að gera í innanhússarkitektúr.“

Áttu þinn uppáhaldshönnuð? „Það húsgagn sem mér finnst einna flottast er LC2-stóllinn frá árinu 1928 frá ítalska hönnunarhúsinu Cassina en stólinn hönnuðu Le Corbusier, Pierre Jeanneret og Charlotte Perriand. Ég væri til í svoleiðis stóla og sófa í betri stofuna. Í svörtu að sjálfsögðu.“

Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? „Stórt er spurt. Ég var voðalega mikill bílakall þegar ég var yngri og alltaf hrifinn af Range Rover. Ég væri til í nýjan svoleiðis.“

Uppáhaldsliturinn þinn? „Svartur.“

Hvar líður þér best? „Mér líður yfirleitt best innan um góða vini og fjölskyldu. Ég tel mig vera heppinn með fólkið í kringum mig og hef gaman að verja tíma með því. Þá er heldur ekki slæmt að liggja á sólarströnd í 30 gráðu hita með einn kaldan í hendi eða spila golf á fallegum golfvelli í góðum félagsskap.“

Er eitthvað sem þig langar að eignast í garðinn? „Mig langar í sólpall í garðinn og ég ætlaði að láta byggja eitt stykki fyrir mig í sumar. Síðan kom sumarið ekkert og ég eyddi öllum peningunum í utanlandsferðir svo pallurinn verður að bíða þangað til á næsta ári.“

Svalasti veitingastaðurinn á Íslandi í dag? „Það eru margir flottir og góðir veitingastaðir á Íslandi en í fljótu bragði dettur mér enginn staður í hug sem mér finnst afgerandi svalur. Það hafa verið opnaðir margir spennandi staðir undanfarin ár sem mig langar að prófa en á eftir að láta verða af því. Ég hef hins vegar alltaf gaman af því að fara á Sushi Social, þar er gott andrúmsloft og góður matur. Þá er Black Box töff pizzastaður og Lebowski Bar með frábært þema og góða borgara.“

Er einhver byggingarstíll sem heillar þig meira enn annar? „Ég er hrifinn af funkisstíl, það er að segja einföldum byggingarstíl, og húsum með mikilli lofthæð og stórum gluggum. Þá er ég einnig hrifinn af fallegum gömlum og virðulegum byggingum en því miður er ekki mikið af þeim hér á landi.“

Að lifa lífinu lifandi er að … láta draumana sína rætast.

 

Tilnefnd til virtra verðlauna í Noregi

|
|

Agnes Árnadóttir er framkvæmdastjóri og einn af stofnendum ferðaþjónustufyrirtækisins Green  Wave Holding AS. Félagið sem var stofnað í byrjun þessa árs hefur látið hanna nýstárlegt rafknúið skip sem mun umbylta farþegasiglingum í fjörðum Noregs.

Skipið verður gert út til skoðunarferða og skemmtisiglinga um innfirði Norður-Noregs árið um kring.

Skipið sem þegar hefur fengið nafnið Brim I er í smíðum í Álasundi og verður 25 metra löng tvíbytna með rými fyrir 140 farþega. Skipið verður gert út til skoðunarferða og skemmtisiglinga um innfirði Norður-Noregs árið um kring. Áætlað er að nýsmíðin verði tilbúin til afhendingar næsta sumar og stefnt er á fyrstu ferð frá Lófóten í ágúst 2019. Heimahöfn verður í Tromsø og þaðan verður boðið upp á ferðir yfir vetrarmánuðina en vetrarferðamennska hefur vaxið mikið í Norður-Noregi.

Agnes sem er fædd og uppalin á Íslandi er reynslubolti á sviði ferðaþjónustu á sjó en hún starfaði um árabil fyrir íslenska ferðaþjónustufyrirtækið Norðursiglingu. Hún stýrði m.a. samstarfsverkefni Norðursiglingar og Hurtigruten í Noregi um þróun umhverfisvænna siglinga, áður en hún söðlaði um og stofnaði eigið fyrirtæk  ásamt félaga sínum Espen Larsen-Hakkebo með aðkomu fjárfesta.

„Okkur hefur dreymt um það lengi að byggja og þróa nýtt, nútímalegt og umhverfisvænt skip fyrir ferðaþjónustu. Noregur með alla sína strandlengju, spennandi firði og vaxandi túrisma þarf að geta boðið upp á eitthvað sem er í takt við framtíðina,“ segir Agnes en að hennar sögn eru Norðmenn komnir langt á sviði rafvæðingar farartækja, sérstaklega hvað bílaflotann varðar og hafa mikla trú á lausnamiðaðri tæknivæðingu.

„Við erum að þróa skip sem stenst kröfur framtíðarinnar og ryðjum þannig brautina að umhverfisvænni ferðaþjónustu um allan heim.“

Agnes bendir á að hávær umræða hafi verið í Noregi undanfarin ár um umferð stórra skemmtiferðaskipa í djúpum fjörðum og þá mengun sem þau valda. „Líklega verður þessum stóru skipum bannað að sigla alla leið inn í umrædda firði og hugmyndir eru uppi um að hafa ákveðin svæði  útblásturslaus, til að draga úr mengun. „Í ljósi þess fannst okkur skynsamlegt að fara í þessa fjárfestingu núna. Við erum að þróa skip sem stenst kröfur framtíðarinnar og ryðjum þannig brautina að umhverfisvænni ferðaþjónustu um allan heim,“ útskýrir Agnes og tekur fram að augljóslega sé takmarkið að minnka kolefnisfótspor ferðaþjónustunnar en það sé ekki síður mikilvægur kostur að skipið er fullkomlega hljóðlátt.

Kerfishönnun skipsins er frekar einföld með það í huga að ekki þurfi stóran hraðhleðslubúnað sem eykur álag á raforkukerfi í landi. „Við getum í raun hlaðið hvar sem er en erum þá með hæghleðslu og  þurfum ekki sérstakan búnað annan en innstungu,“ segir hún en fullhlaðnar rafhlöður skipsins gefa 800 kílówattstundir af raforku sem endist í um 10 klst. á siglingu miðað við 10 hnúta hraða. Agnes segir að verkefnið hafi fengið mikla og jákvæða athygli fjölmiðla ytra; sérstaklega eftir að það var tilnefnt til virtra umhverfisverðlauna sem Orku- og loftslagsstofnun Noregs veitir frumkvöðlafyrirtækjum innan grænnar tækni árlega. Verðlaunin sem ganga undir nafninu „Spir“ eru hugsuð sem hvatning til að flýta fyrir því ferli að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti og skipta yfir í sjálfbæra orku í Noregi. Verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn í Björgvin 4. september nk.

 

Við munum þig Stefán Karl

Þær fregnir bárust um miðbik vikunnar að einn ástsælasti leikari landsins, Stefán Karl Stefánsson, væri látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein.

Það má með sanni segja að Stefán Karl hafi barist hetjulega við meinið, með eiginkonu sína, stórleikkonuna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, sér við hlið. Hann greindist með krabbamein í brishöfði haustið 2016 og fór í kjölfarið í nokkrar aðgerðir og krabbameinsmeðferð. Ári síðar leit út fyrir að Stefán Karl væri laus við meinið. Fyrr á þessu ári var það síðan reiðarslag fyrir fjölskyldu leikarahjónanna þegar ný meinvörp greindust í Stefáni Karli, meinvörp sem ekki væri hægt að fjarlægja með skurðaðgerðum.

Íslendingar, sem og aðdáendur Stefáns Karls um heim allan, hafa fylgst agndofa með baráttu leikarans, enda hafa þau hjónin ávallt barist með jákvæðni og bjartsýni að vopni. Steinunn Ólína raunar kom þessum baráttuvilja hvað best í orð í pistli sem hún skrifaði á vef sinn kvennabladid.is fyrr á árinu:

„Ég mun aldrei bjóða þér að búa hjá mér því það er nákvæmlega ekkert varið í þig, Dauði. Vægðarleysi og grimmd þín er fyrirlitleg. Fokkaðu þér, Dauði.“

Að ósk Stefáns Karls verður engin jarðarför, en ösku hans verður dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Auk eiginkonu lætur Stefán Karl eftir sig fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

„Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist“

Stefán Karl var innfæddur Hafnfirðingur og hóf leiklistarferilinn með leikfélagi Hafnarfjarðar þegar hann var þrettán ára. Þá steig hann einnig reglulega á svið í Öldutúnsskóla þegar hann stundaði þar nám. Þjóðin tók fyrst eftir Stefáni Karli í Áramótaskaupi Sjónvarpsins árið 1994 þar sem hann lék fréttamann, á móti óheiðarlegri sendiráðsfrú sem leikin var af gamanleikkonunni Eddu Björgvinsdóttur.

Fimm árum síðar útskrifaðist Stefán Karl úr Leiklistarskóla Íslands. Sama ár landaði hann því hlutverki sem hann er hvað þekktastur fyrir – hins óborganlega, uppátækjasama og seinheppna Glanna glæps í Latabæ. Um framhaldið þarf varla að fjölyrða en Latibær náði heimsathygli þegar þættirnir hófu göngu sína á bandarísku stöðinni Nickelodeon árið 2004. Í framhaldinu flutti Stefán Karl ásamt fjölskyldu til Kaliforníu.

https://www.youtube.com/watch?v=4BIpDIelf8s

Í kjölfar vinsælda Latabæjar landaði Stefán Karl hlutverki Trölla í samnefndum söngleik byggðum á bók Dr. Seuss um hvernig Trölli stal jólunum. Hann lék Trölla í fjölmörgum borgum í Bandaríkunum og Kanada, alls sex hundruð sinnum fyrir um tvær milljónir aðdáenda. Til marks um vinsældir leikarans hafa fjölmargir erlendir miðlar minnst hans, meðal annars BBC, CNN og Daily Mail. Hann var samt ekki aðeins fjölhæfur leikari, heldur ötull baráttumaður gegn einelti og rak góðgerðasamtökin Regnbogabörn um árabil. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Þótt Stefán Karl hafi heillað íslenska aðdáendur í ýmsum verkum á stóra sviðinu er þó eitt verk sem stendur upp úr – Með fulla vasa af grjóti. Það verk var fyrst sett upp árið 2000 og sló rækilega í gegn. Það fór aftur á fjalirnar árið 2012 og í þriðja sinn í fyrra. Þá hafði Stefán Karl nýlega lokið sterkri geislameðferð. Við skulum leyfa leikaranum sjálfum að eiga lokaorðin úr viðtali Morgunblaðsins við hann eftir síðustu sýningu Með fulla vasa af grjóti – tilvitnun sem einkenndi lífsspeki leikarans:

„Já, núna er þessum kafla lokið. Eins og Dr. Seuss sagði: „Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist.““

Minning um mann

Fjölmargir hafa minnst Stefáns Karls á samfélagsmiðlum síðustu daga. Leyfum minningunum um merkan mann að tala sínu máli.

„Þetta er gargandi þögn“

Sérfræðingur segir íslenskar eftirlitsstofnanir hafa brugðist í plastbarkamálinu.

Ástríður Stefánsdóttir, læknir og heimspekingur, telur að ekki hafi farið fram nægileg umræða um plastbarkamálið svokallaða hér á landi af hendi eftirlitsstofnana og eins Landlæknisembættisins og heilbrigðismálaráðuneytis en einnig Læknafélags Íslands.

,,Þetta snýr að Landlæknisembættinu, Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu,“ segir hún. „Læknafélag Íslands hefur heldur ekki lýst yfir neinni skoðun á þessu máli sem mér finnst skrýtið vegna eðli málsins, umfangs þess og af þeirri ástæðu að sjúklingur í íslensku heilbrigðiskerfi er þolandi í þessu máli. Allar þessar stofnanir og Læknafélagið virðist ekki hafa nokkurn fókus á sjúklinginn í þessu máli heldur eingöngu sínar eigin stofnanir og starfsmenn þeirra. Þetta er gargandi þögn.“

Var ekki í lífshættu
Umrætt plastbarkamál, sem var til umfjöllunar í Mannlífi 3. ágúst, lýtur að tilraunaaðgerð sem gerð var á Andemariam Beyene árið 2011 en hann lést um tveimur og hálfi ári eftir að hafa fyrstur manna undirgengist ígræðslu plastbarka á Karólínska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð.

Árið 2016 skipuðu Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, óháða rannsóknarnefnd undir forystu Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, til að rannsaka málið og aðkomu þessara stofnana og viðkomandi starfsmanna þeirra í málinu.

,,Allar þessar stofnanir og Læknafélagið virðist ekki hafa nokkurn fókus á sjúklinginn í þessu máli heldur eingöngu sínar eigin stofnanir og starfsmenn þeirra. Þetta er gargandi þögn.“

Í Rannsóknarskýrslu nefndarinnar kemur meðal annars fram að tilvísun hafi verið breytt hér á landi til að réttlæta aðgerðina á Andemariam sem var með hægvaxandi æxli í barka. Ekki hafi verið leyfi fyrir aðgerðinni, hvorki frá vísindasiðanefnd né til að nota gervibarkann og síðar hafi líka komið í ljós að aðgerðir af þessu tagi höfðu aldrei verið prófaðar á tilraunadýrum eins og Paolo Macchiarini, ítalskur prófessor sem leiddi skurðlæknateymið í aðgerðinni, hélt fram.

Þá segir í Rannsóknarskýrslunni að almennu ástandi Andemariam hafi hrakað eftir aðgerðina og að krufning hafi leitt í ljós að ígræddi barkinn hafði losnað. „Að auki fannst krónísk sýking í brjóstkassanum og tappi í hægri lungnaslagæð. Hins vegar fannst ekki krabbamein í líkama hans.“

Um andlát Andemariam og tveggja annarra sjúklinga, sem gengust undir plastbarkaígræðslu í Karólínska háskólasjúkrahúsinu, segir enn fremur: ,,Sjúklingarnir voru ekki dauðvona. Enginn ígræðslusjúklinganna þriggja var í yfirvofandi lífshættu þegar aðgerðirnar voru gerðar.“

Enginn talað við ekkjuna
Í tilkynningu um skýrsluna sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendu síðar frá sér segir meðal annars að í skýrslunni komi fram að tilteknir starfsmenn við Háskóla Íslands og Landspítala hafi dregist inn í málið á árinu 2011 þegar sjúklingur við Landspítala hafi farið til rannsóknar í Svíþjóð vegna krabbameins í barka. Þar hafi hann gefið sænkum lækni samþykki til að gangast undir aðgerð þar sem græddur var í hann gervibarki. ,,Sú aðgerð leiddi ekki til bata sjúklingsins og lést hann á KS í janúar 2014.“ Enn fremur segir að talið sé að að á þeim tíma sem aðgerðin var framkvæmd hafi ekki legið fyrir vísindalegur grundvöllur fyrir gervibarkaígræðslum í fólk. Hugmynd um það hafi ekki aðeins stangast á við vísindi og reynslu heldur hafi jafnframt verið of snemmt að gera tilraunir með slíkt á mönnum.

Ein af niðurstöðum í Rannsóknarskýrslunni var að Landspítalinn tæki til athugunar að ekkju Andemariams, Merhawit Baryamikael Tesfaslase, yrði útveguð fjárhagsleg aðstoð til að hún gæti ráðið sér lögfræðing til að leita réttar síns gangvart Karólínska háskólasjúkrahúsinu. Í fyrrnefndu viðtali við Mannlíf 3. ágúst upplýsti Merhawit hins vegar að hvorki hefði verið haft sambandi við hana frá Karólínska háskólasjúkrahúsinu né Landspítala.

Enn hafa engin svör borist frá Embætti landlæknis um hvers vegna stofnunin hafi ekki stigið inn í þetta mál, en þess má geta að forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins var Birgir Jakobsson, sem síðar varð landlæknir hér á landi og gegndi því embætti árið 2016 þegar rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala skipuðu óháðu nefndina til að rannsaka plastbarkamálið.

Undrast afskiptaleysi Embættis landlæknis
Ástríður er undrandi á því að Embætti landlæknis hafi ekki haft afskipti að svo alvarlegu máli þar sem Andemariam var í umsjá íslenskrar heilbrigðisstofnunar og segir að það sé í raun fyrir röð tilviljana að málið hafi farið aftur í umræðuna árið 2016.

Hún gagnrýnir enn fremur fjölmiðla fyrir að hafa ekki sinnt skyldu sinni í að upplýsa almenning um málið, eins og hafi komið í ljós þegar Rannsóknarskýrslan var kynnt í Norræna húsinu með blaðamannafundi í nóvember 2017. Fjölmiðlar hafi ekki gert grein fyrir þeim atriðum sem skiptu máli og dregið upp yfirborðskennda og villandi mynd af því sem gerðist í málinu.

„Segjum að þetta hefði verið íslenskur sjúklingur og Ragnar Aðalsteinsson hefði verið lögfræðingur þolanda, þá hefði hann farið í Kastljós,“ segir hún. „Umfjöllunin hefði orðið allt önnur og mun sterkari mynd hefði verið dregin upp af stöðu sjúklingsins ef þetta hefði ekki verið Erítremaður með konu sem hefur ekki landvistarleyfi hér og er ekki með rödd. Það er enginn lögfræðingur sem túlkar þessa hlið.“

Ástríður kallar eftir opinberri umræðu um málið. „Opinber umræða þarf að fara fram,“ segir hún og tekur fram að hún telji enn vera opna enda í málinu og það verði svo þar til málinu verði lokið erlendis. Málið muni að öllum líkindum rata í kennslubækur og þar verði það gert upp.

Raddir