Sérfræðingur segir íslenskar eftirlitsstofnanir hafa brugðist í plastbarkamálinu.
Ástríður Stefánsdóttir, læknir og heimspekingur, telur að ekki hafi farið fram nægileg umræða um plastbarkamálið svokallaða hér á landi af hendi eftirlitsstofnana og eins Landlæknisembættisins og heilbrigðismálaráðuneytis en einnig Læknafélags Íslands.
,,Þetta snýr að Landlæknisembættinu, Sjúkratryggingum Íslands og heilbrigðisráðuneytinu,“ segir hún. „Læknafélag Íslands hefur heldur ekki lýst yfir neinni skoðun á þessu máli sem mér finnst skrýtið vegna eðli málsins, umfangs þess og af þeirri ástæðu að sjúklingur í íslensku heilbrigðiskerfi er þolandi í þessu máli. Allar þessar stofnanir og Læknafélagið virðist ekki hafa nokkurn fókus á sjúklinginn í þessu máli heldur eingöngu sínar eigin stofnanir og starfsmenn þeirra. Þetta er gargandi þögn.“
Var ekki í lífshættu
Umrætt plastbarkamál, sem var til umfjöllunar í Mannlífi 3. ágúst, lýtur að tilraunaaðgerð sem gerð var á Andemariam Beyene árið 2011 en hann lést um tveimur og hálfi ári eftir að hafa fyrstur manna undirgengist ígræðslu plastbarka á Karólínska háskólasjúkrahúsinu í Svíþjóð.
Árið 2016 skipuðu Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, óháða rannsóknarnefnd undir forystu Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómstólsins, til að rannsaka málið og aðkomu þessara stofnana og viðkomandi starfsmanna þeirra í málinu.
,,Allar þessar stofnanir og Læknafélagið virðist ekki hafa nokkurn fókus á sjúklinginn í þessu máli heldur eingöngu sínar eigin stofnanir og starfsmenn þeirra. Þetta er gargandi þögn.“
Í Rannsóknarskýrslu nefndarinnar kemur meðal annars fram að tilvísun hafi verið breytt hér á landi til að réttlæta aðgerðina á Andemariam sem var með hægvaxandi æxli í barka. Ekki hafi verið leyfi fyrir aðgerðinni, hvorki frá vísindasiðanefnd né til að nota gervibarkann og síðar hafi líka komið í ljós að aðgerðir af þessu tagi höfðu aldrei verið prófaðar á tilraunadýrum eins og Paolo Macchiarini, ítalskur prófessor sem leiddi skurðlæknateymið í aðgerðinni, hélt fram.
Þá segir í Rannsóknarskýrslunni að almennu ástandi Andemariam hafi hrakað eftir aðgerðina og að krufning hafi leitt í ljós að ígræddi barkinn hafði losnað. „Að auki fannst krónísk sýking í brjóstkassanum og tappi í hægri lungnaslagæð. Hins vegar fannst ekki krabbamein í líkama hans.“
Um andlát Andemariam og tveggja annarra sjúklinga, sem gengust undir plastbarkaígræðslu í Karólínska háskólasjúkrahúsinu, segir enn fremur: ,,Sjúklingarnir voru ekki dauðvona. Enginn ígræðslusjúklinganna þriggja var í yfirvofandi lífshættu þegar aðgerðirnar voru gerðar.“
Enginn talað við ekkjuna
Í tilkynningu um skýrsluna sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendu síðar frá sér segir meðal annars að í skýrslunni komi fram að tilteknir starfsmenn við Háskóla Íslands og Landspítala hafi dregist inn í málið á árinu 2011 þegar sjúklingur við Landspítala hafi farið til rannsóknar í Svíþjóð vegna krabbameins í barka. Þar hafi hann gefið sænkum lækni samþykki til að gangast undir aðgerð þar sem græddur var í hann gervibarki. ,,Sú aðgerð leiddi ekki til bata sjúklingsins og lést hann á KS í janúar 2014.“ Enn fremur segir að talið sé að að á þeim tíma sem aðgerðin var framkvæmd hafi ekki legið fyrir vísindalegur grundvöllur fyrir gervibarkaígræðslum í fólk. Hugmynd um það hafi ekki aðeins stangast á við vísindi og reynslu heldur hafi jafnframt verið of snemmt að gera tilraunir með slíkt á mönnum.
Ein af niðurstöðum í Rannsóknarskýrslunni var að Landspítalinn tæki til athugunar að ekkju Andemariams, Merhawit Baryamikael Tesfaslase, yrði útveguð fjárhagsleg aðstoð til að hún gæti ráðið sér lögfræðing til að leita réttar síns gangvart Karólínska háskólasjúkrahúsinu. Í fyrrnefndu viðtali við Mannlíf 3. ágúst upplýsti Merhawit hins vegar að hvorki hefði verið haft sambandi við hana frá Karólínska háskólasjúkrahúsinu né Landspítala.
Enn hafa engin svör borist frá Embætti landlæknis um hvers vegna stofnunin hafi ekki stigið inn í þetta mál, en þess má geta að forstjóri Karólínska háskólasjúkrahússins var Birgir Jakobsson, sem síðar varð landlæknir hér á landi og gegndi því embætti árið 2016 þegar rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala skipuðu óháðu nefndina til að rannsaka plastbarkamálið.
Undrast afskiptaleysi Embættis landlæknis
Ástríður er undrandi á því að Embætti landlæknis hafi ekki haft afskipti að svo alvarlegu máli þar sem Andemariam var í umsjá íslenskrar heilbrigðisstofnunar og segir að það sé í raun fyrir röð tilviljana að málið hafi farið aftur í umræðuna árið 2016.
Hún gagnrýnir enn fremur fjölmiðla fyrir að hafa ekki sinnt skyldu sinni í að upplýsa almenning um málið, eins og hafi komið í ljós þegar Rannsóknarskýrslan var kynnt í Norræna húsinu með blaðamannafundi í nóvember 2017. Fjölmiðlar hafi ekki gert grein fyrir þeim atriðum sem skiptu máli og dregið upp yfirborðskennda og villandi mynd af því sem gerðist í málinu.
„Segjum að þetta hefði verið íslenskur sjúklingur og Ragnar Aðalsteinsson hefði verið lögfræðingur þolanda, þá hefði hann farið í Kastljós,“ segir hún. „Umfjöllunin hefði orðið allt önnur og mun sterkari mynd hefði verið dregin upp af stöðu sjúklingsins ef þetta hefði ekki verið Erítremaður með konu sem hefur ekki landvistarleyfi hér og er ekki með rödd. Það er enginn lögfræðingur sem túlkar þessa hlið.“
Ástríður kallar eftir opinberri umræðu um málið. „Opinber umræða þarf að fara fram,“ segir hún og tekur fram að hún telji enn vera opna enda í málinu og það verði svo þar til málinu verði lokið erlendis. Málið muni að öllum líkindum rata í kennslubækur og þar verði það gert upp.